Málfar Kollsvíkinga og granna þeirra í Rauðasandshreppi hefur í aldanna rás fengið á sig nokkur sérkenni. Slíkt er eðlileg þróun á fjölmennum landsvæðum sem eru utan verulegrar blöndunar og erlendra áhrifa. Valdimar Össurarson hefur unnið að því í nokkur ár að taka saman safn orða og orðtaka til að lýsa þessum sérkennum. Safnið er núna meðal stærstu orðabóka í íslensku máli og stækkar enn. Það nær til yfir 45000 orða og orðtaka, sem hvert er skýrt með orðflokkum og samheitum; mörg með máldæmum og sumum fylgja allítarlegar skýringar. Af þeim hafa greinst nær 5000 orð sem ekki finnast í rafrænni orðabók HÍ, þó enn sé greiningarvinnu ekki lokið. Þetta er, að því best er vitað, eina stóra orðasafn landsins fyrir svo afmarkað landsvæði. Safnið er hér birt þó það sé enn í vinnslu. Því er fyrirvari um ritvillur. Ábendingar og leiðréttingar eru vel þegnar.