Búsæld jarða fyrr á tíð byggðist að verulegu leyti á þeim hlunnindum sem nýtanleg voru. Til hlunninda teljast öll þau landgæði sem ekki eru bein undirstaða helstu atvinnuþáttanna; búskapar og sjávarútvegs, heldur verðmæti sem drýgja tekjur og bæta daglegt líf. Kollsvíkingar hafa gegnum aldirnar notið margvíslegra hlunninda, sem nýttust vel í sjálfsþurftabúskap fyrri tíma og standa sum hver enn fyrir sínu. Á þessari síðu er ætlunin að lýsa þeim að einhverju marki. Í byrjun verður lítillega fjallað um bjargnytjar, en væntanlegt er efni um reka og fleira.
Athugið að unnt er að komast flýtileið í efniskafla með smelli á heiti þeirra hér:
Fuglaveiðar og eggjatekja. Torfi Össurarson segir hér frá veiðum á fyrri hluta liðinnar aldar.
Undirbjargsferð 1926. Hér segir Torfi frá ævintýralegri eggjatökuferð undir Bjarg.
Undirbjargsferð. Valdimar Össurarson segir frá einni af mörgum ferðum á Bæjarvöll.
Höfundurinn: Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur. Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð. Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur. Samantekt þessa gerði hann að beiðni Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1984.
Í Rauðasandshreppi var mest veitt af svartfugli eða bjargfugli, þe. langvíu, nefskera, álku og lunda, og egg frá þessum fuglum sömuleiðis. Áður fyrr var þessi veiði meira og minna stunduð af öllum hreppsbúum, en þó mest af Látramönnum og frá Breiðavík. Veiðum í Látrabjargi sleppi ég alveg, en vísa á Ásgeir Erlendsson, Hvallátrum og Þórð Jónsson, sem eru (1984) einu núlifandi menn sem ólust upp við þessar veiðar og eru þeir einu búandi enn á Látrum. Fýlaveiðar voru stundaðar í Kollsvík og eggjataka frá þeim er enn stunduð í Blakknesinu, Hnífum og Breiðnum. Fýllinn hefur mjög fært út byggð sína í Rauðasandshreppi; t.d. var enginn orpinn fýll í fjallinu ofan við Rauðasand, en nú er þar mikil byggð fýla og eitthvað tekið af eggjum þar. Nokkrir menn stunduðu að skjóta sjófugl; máva, svartbak o.fl. tegundir vetur og sumar; þó meira að vetrum. Byssur til fuglaveiða voru almennt ein- og tvíhleypur nr. 12. Skotin voru oftast hlaðin með púðri og höglum og tóverk eða lélegt bréf í forhlað. Þá voru patrónurnar notaðar aftur og aftur. Langmest var veitt af bjargfulgi; þá mávum og ritu og ýmsar endur. Veiðarfæri voru aðallega snörur, þannig var allur bjargfugl veiddur í snörur, sem fest var á 6 álna stöng, sem var grennst í þann endann sem snaran var fest á. Í snöruna var notað hrosshár og ævinlega fléttað með 3 þáttum, lengd snörunnar hefur verið ca. 50 cm (ágiskun). Ég og fleiri strákar veiddum nokkuð af ritu í sérstakar snörur sem við bjuggum út sjálfir og litu þannig út (teikn). Við festum 2-lína víra í spýtu sem við festum við aflangan stein, svo þungan að fuglinn gat ekki lyft honum. Í spýtuna festum við sterkt seglgarn, sem var lagt í vírana, og vírarnir héldu henni uppi. Síðan létum við feita þorsklifur áveðra við snöruna því fuglinn flýgur ávalt í vindinn, er hann tekur æti og flýgur um leið upp og festir sig þá í snörunni.
Rjúpur voru lítið skotnar. Einn vetur man ég þegar ég var unglingur var mikið af rjúpu í Kollsvík, þá veiddum við talsvert af rjúpum í tóg, sem mun hafa verið langur vaður spunninn úr tógþræði áður fyrr, en við bræður notuðum netagarn og festum 2 snörur á miðjan vaðinn og héldum svo sinn í hvorn enda og fórum þannig sinn hvoru megin að rjúpnahópum og smeygðum snörunni á höfuð rjúpunnar, sem þá herti sjálf að og var þá föst. Við drápum rjúpuna með því að stinga höfði hennar aðeins upp í okkur og bíta þær til bana sem var fljótlegt og þrifalegt, því þá blæddi ekkert. Annars var annar fugl sem veiddur var snúinn úr hálsliðnum, sem vanir menn voru fljótir að. Flekaveiðar eða net þekktust ekki í Rauðasandshreppi, né háfur eða önglar. Hlutaskipti og sala: Hlutaskipti voru algeng við fuglaveiðar í bjargi og egg einnig. Sigmaður eða fleiri menn fengu hættuhlut, sem sérstaklega þóknun auk hlutar eins og aðrir. Bjarghlut og vaðarhlut heyrði ég talað um, allur var fuglinn reiddur heim á hestum eingöngu í kippum, hvað mikið var látið á hestinn veit ég ekki. Fugl var ekki svo ég vissi notaður í vöruskiptum, en fiðrið var söluvara, einkum bringufiðrið, sem þá var reytt sér. Minnir mig að fiðurpundið væri líkt og smjörið eða 2-3 kr. 1910-20.
Aldrei vissi ég til að fugl væri reyktur. Allur fugl sem ekki var étinn var saltaður í tunnur lagarheldar, síðar afvatnaður og soðinn í súpu og sömuleiðis étinn nýr. Fuglinn var reyttur eða plokkaður með hníf og skafinn svo að ekkert sást af dún á búknum. Hnífurinn þurfti að vera með stuttu blaði og beittur vel. Fiðrið var almennt notað í sængurföt undir og yfir. Ég sá einu sinni hamflettar 2 æðarkollur. Aðgerðin var gerð þannig, að hausinn var tekinn af, síðan var fuglinn krufinn og innyflin fjarlægð, soðinn nýr eða saltaður. Hausarnir voru soðnir nýir og borðaðir og heilinn étinn líka. Það voru aðeins ungar fýlsins sem var nýttur. Það var rétt áður en hann flaug á sjó. Unginn var svo feitur að spik var um hann allan og var það tekið, en ekki étið. Kjötið af ungunum var ljúffengur matur. Slóg fugla var sett í áburðarhauga, vængir voru geymdir af bjargfugli til vetrar og skafið af þeim allt fiður. Var það kallað vængjafiður.
Til þess að sjá hvort eggin væru unguð voru þau skyggnd, sem kallað var. Vanir menn sáu hvort komnar væru æðar eða loft í eggið. Var talað um stropuð egg, komin augu, kominn ungi. Heyrði ég sagt frá manni, sem borðaði unguð egg, en ekki man ég hvað hann var búinn að borða mörg, þegar hann fór að reyta dúninn af ungunum áður en hann borðaði þá með öllu saman. Fuglinn var venjulega soðinn í 1 klst. Egg voru oft borðuð hrá enda þó stropuð væru. Almennt voru egg notuð í eggjakökur og þá steikt á pönnu líkt og pönnukökur, en mikið þykkri. Vafalaust tel ég að kvenfólki hafi verið skammtaður minni skammtur af fugli, en ekki þekkti ég það til hlýtar. Handtökin við að snúa fugl úr hálslið voru þannig, að hægri hönd tók um hausinn,en sú vinstri um háls framan við búkinn, síðan snúið upp á hálsliði, en ekki mátti bumburinn vera teygður, þá rifnaði hann svo blæddi. Veiðihætti þekkti ég ekki nema af afspurn, en bjargfuglinn var spakastur um eða eftir lágnættið. Þá var setið við að snara, en að degi var dregið upp fuglinn eða borinn í kippum á öxlunum og létt undir með handvað einkum, ef klettar voru á leiðinni.
Fýllinn fer að verpa um það bil er 2 vikur eru af sumri og nokkru síðar eru eggin tekin, þar sem það er gert. Tvo eða þrjá menn þurfti til að draga mann upp úr sigi, en stundum vissi ég til að einn maður gæfi öðrum í sigi. Útákast í fuglasúpu var notað kornvara. Aldrei heyrði ég talað um lýsisbragð af sjófugli. Það var þó helst af fýlsunga. Með fuglakjöti var ekkert borðað nema súpan. Frá Látrum fóru bæði karlar og konur á bjarg, en ekki held ég að kvenfólk hafi að ráði sigið niður í bjarg, en það var allt við að draga upp fugl og sigmenn, einnig unglingar. Var venjulega legið við nokkra daga og nætur. Lítið var um tjöld og sofnuðu menn þá á jörðinni og réttu frá sér alla anga.
Þá sögu heyrði ég, að eitt sinn gerði hrekkjalómur sér að leik, þó ljótur væri, að hafa hægðir í lófa þess er svaf og voru þá linar, en það enn ljótara var eftir. Maðurinn sem svaf var alskeggjaður og tók því hrekkjalómurinn puntstrá og kitlaði hann í skegginu, svo maðurinn sem svaf fór að klóra sér í skegginu með þeirri hendinni em hægðirnar vour í lófanum. Fyglingur var sá kallaður sem öruggastur var í bjargi, t.d. var einn slíkur að ganga niðri í bjargi eftir mjóum þræðingi, en varð fótaskoprtur og datt flatur rétt á "hvininu", en stendur fljótlega upp og kallar til þess er var á gæjum, að hann væri nærri búinn að missa húfuna. Til er saga af þessum manni og bróður hans, sem voru á Látrabjargi, en þar þurfti að hnýta saman vaðinn, en það gerði Eggert og sagði: "Ég skal ábyrgjast hnútinn". En bróðir Eggerts ætlaði að síga. Sá hét Jón. Þegar Jón er kominn það langt niður í bjarg að samskeytin fóru niður fyrir brúnina drógst hann sundur og Jón fór að hrapa niður. Þá lítur Eggert fram af brúninni og segir: "Sko hvar hann skoppar. Guð hjálpi þér bróðir minn. Nei, þess þarf ekki hann er stoppaður". Jón slapp lítið meiddur, er hann kom upp sagði Eggert: "Hann hefur orðið hræddur auminginn". Líka heyrði ég sagt frá manni á Látrabjargi sem var að gá fram af brúninni, því hann ætlaði að fara að síga í bjargið, en hann stígur niður í lundaholu og við það steypist hann fram af brúninni, en stöðvast fljótlega í aurflagi og varð ómeiddur og að stundu liðinni fer hann að síga eins og ekkert hafi ískorist.
Undir bjarg var oft farið ekki síst af Rauðsendingum. Var þá farið á bátum en menn settir á land við einhverja klöppina og klifruðu menn þá í bjargið tl að veiða eða eggjatöku. Voru þetta stundum miklar svaðilfarir. T.d. sagði mér gamall bóndi af Rauðasandi, að komið hefði fyrir þegar brimaði undir bjarginu, þá var alls ekki hægt að leggja bátum að hlein og voru þá þeir sem í bjarginu voru teknir á vaðdrætti, sem kallað var, en það var þannig, að bátsmenn köstuðu kaðli í land og menn bundu sig í hann, og voru svo dregnir frá landi út í bátinn gegnum brimið. Sagði sá gamli að oft þurftu þeir að liggja um stund yfir þóftu til þess að láta sjóinn renna upp úr sér.
Höfundur: Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).
Lesendur sem mig þekkja, telja það með undrum að ég segi frá bjargferð úr Kollsvík, þar sem ég var þá ekki lengur verandi þar En það sem ég set á þessi blöð er upphaflega sagt eftir Samúel Torfasyni frá Kollsvík sem var einn af þátttakendum í þessari ferð. Þessir voru auk Samúels: Júlíus Kristjánsson; Guðmundur bróðir Samma, og Ólafur H. Halldórsson seinna bóndi á Látrum.
Þeir fara frá Kollsvík fyrri part dags af stað, á róðrarbát sem hét Heppinn. Þetta var sexróinn bátur, eins og flestir bátar voru þá sem sóttu sjó með lóðum sem veiðarfæri í Kollsvík. Ferðin var gerð suður fyrir Látrabjarg til eggjatöku. Veður var gott; sjólítið og logn. Á ferðinni hittu þeir bát úr Breiðavíkurveri í róðri. Þar voru á bát bræðurnir Haraldur og Guðmundur og e.t.v. einn eða tveir aðrir. Þeir fengu leyfi þeirra bræðra til þess að fara til eggjatöku í Breiðavíkurbjargi.
Síðan var haldið á ákvörðunarstaðinn og lent í vogi undir þeim stað; Lundavelli. Samúel skyldi vera í bátnum, og lagðist hann við dreka. Hinir þrír fóru upp í bjargið. Júlíusfór á undan; klifraði með vað upp á staðinn og dró hina tvo upp á vaðnum. Síðan var unnið að því að safna eggjum í kassa. Á stallinum voru eggin þétt; svo varla var hægt að stíga niður fæti. Og er það að líkum rétt, þar sem ég las blaðagrein, einmitt um langvíuna, þar sem sagt er að 70 egg séu á fermetra í langvíuflesjum. Einnig las ég í þessari blaðagrein að langvíuparið sé ævilangt, og sannað er að hún geti orðið 32 ára gömul. Þetta var innskot af öðru tagi.
Dagur líður að kveldi, og með aðfallinu tók að brima við Bjargið; á vognum þar sem Samúel gætti bátsins. Hann var því nauðbeygður til þess að taka upp legufærið, og færa sig á bátnum fjær landi. En drekinn var fastur í grjóturðinni, svo hann náðist ekki. Varð Samúel að skera legufærið, og var það slæmt. Brimið jókst, og var orðið ómögulegt að leggja bát að hlein. Samúel varð því að halda sér við á bátnum á árum, og vildi svo vel til að lognið hélst alla nóttina.
Þeir uppi í bjarginu tóku eggjakassana og gáfu þeim niður í fjöru, og fóru svo allir niður. Varð biðin löng þar til brimið lægði að morgni. Samúel damlaði á árarnar, og ekki bætti það úr skák að hann var alveg matarlaus. Það hafði alveg gleymst að láta hann hafa mat í bátnum. Það verður varla annað sagt en að þeir allir voru í mikilli lífshættu, ef veður hefði ekki orðið hagstætt. Brimið lægði að morgni.
Þeir höfðu þann hátt á að aðeins stefni bátsins kom að hleininni; á hnýfilkrappanum sat einn maður, og annar rétti eggjakassana til hans þegar stefnið nam við hleinina. Þannig komst allur farangur og menn í bátinn, og þar með hafði allt gengið vonum framar.
En þegar þeir eru búnir að róa nokkur áratog sjá þeir fuglakippurnar sínar, sem sjórinn tók frá þeim um nóttina; og tóku þeir þær. Síðan sjá þeir mótorbát sem liggur framaf Stórurð, og báti lent við urðina. Þeir lenda við urðina einnig, og þar tóku þeir egg í tvær körfur. Að því loknu semja þeir við Patreksfirðingana um að þeir tækju þá í slef norður á Kollsvík, og það gerðu þeir. En Kollsvíkingar láta þá hafa aðra körfuna, sem var full af eggjum. Síðan var lagt af stað heim. Veður var gott, og sjólítið að lenda í Kollsvík.
Ferðinni lauk vel, þó illa liti út um nóttina sem þeir biðu undir Bjarginu. Ólafur Halldórsson frá Grundum taldi það með ólíkindum að menn væru undir Bjarginu þegar var ólendandi í Kollsvík. Við nánari athugun um tímasetningu þessarar bjargferðar, tel ég að hún hafi verið farin vorið 1926. Annars skiptir það ekki mestu máli; heldur hitt að ég reyni að skrásetja merkilegan atburð úr sjálfsbjargarlífi Kollvíkurmanna, sem flest er úr minni liðið nú til dags. Ég hefi reynt að fylgja frásögn Samúels, sem hann sagði mér fyrir 10 eða 12 árum, en hann var gestur hjá mér í Meðalholti 2 hér í borg.
Höfundur: Valdimar Össurarson (f. 04.05.1956) ólst upp á Láganúpi og var í Rauðasandshreppi framyfir þrítugt. Hann stundaði allmikið eggjatökur og bjargferðir á yngri árum, bæði í klettum kringum Kollsvík og í Bæjar- og Látrabjargi. Í Bæjarbjargi var ýmist farið ofanfrá, niður úr svonefndum Stíg; eða á urðir og neðstu stalla af sjó. Engin slys urðu í þessum ferðum, þó stundum lægi nærri eins og hér er frá sagt. Pistillinn birtist fyrst í Velvakanda; blaði Ungmennafélagsins Vöku í Villingaholtshreppi, þar sem höfundur bjó um tíma. Myndin er tekin af Valdimar við snörun fugls á Stígnum, sem er í miðju Bjargi ofan og innan við Bæjarvöll.
Ég ætla að segja frá bjargferð sem ég tók þátt í fyrir nokkru síðan. Það hefur verið mér nokkur árátta síðan ég fór að geta gengið nokkurnveginn óstuddur að fara á hverju vori í kletta til eggja. Það eru jú til meiri mishæðir í landslaginu en í síðari heimkynnum mínum sunnar á landinu, og þannig er í kringum mína heimabyggð; Kollsvík á Vestfjörðum. Beggja megin víkurinnar eru allnokkur björg og þar verpur mikið af fýl, sem ég heimsæki helst árlega. Litlu sunnar er Látrabjarg, 14 km langt og gnæfir hæst í 444 m hæð yfir sjó. Þarna verpa margar tegundir svartfugla, s.s. langvía, nefskeri (stuttnefja) og þar er stærsta álkuvarp heims. Miðhluti bjargsins heitir Bæjarbjarg og þar er ég nokkuð hagvanur. Ýmist er farið til eggja ofan frá, á svonefndan Stíg, sem er brekkufláki í miðju bjarginu, eða af sjó á urðir og skriður við bjargræturnar, en þar er ríki álkunnar.
Umrædd ferð var ein slík undirbjargsferð. Við vorum sjö í þetta sinn sem lögðum upp úr Örlygshöfn á lítilli trillu sem ég átti þá. Við höfðum með okkur slöngubát, vaði og fjöldann allan af plastbrúsum, því nú átti að gera stórt. Stemmingin í hópnum var stórkostleg eins og alltaf í slíkum ferðum og tilfinningin ólýsanleg fyrir þeim sem ekki hafa reynt þetta. Siglingin suður fyrir tekur um 4 tíma á hagstæðu falli og meðbyr, eins og þarna var. Sigla þarf yfir Blakknesröst og Látraröst og geta þær orðið illskeyttar, en þarna lágu þær niðri. Sjólag var gott, sólskin og norðan andvari.
Ferðinni var heitið á svonefndan Bæjarvöll, sem er skriðurunninn klettastallur sem skagar fram úr bjarginu, u.þ.b. 30 m yfir sjó. Bátnum var lagt við stjóra á Sæluhöfninni, sem er djúpur vogur milli hleina, og mannskapurinn ferjaður í land með slöngubátnum. Uppgangan á Völlinn er nánast þverhnípt og illfær án stuðnings af vað. Er það kallað að fara í lás þegar vaður er festur á brún. Vaður sá sem við áttum þarna frá vorinu áður hafði fokið til og var nokkurt bras að koma honum á sinn stað. Allir fóru upp nema einn sem gætti bátsins.
Nú var tekið til við að tína saman álkueggin, sem sums staðar liggja svo þétt að hægt er að fylla fötu án þess að hreyfa sig úr sporum. Sólin og lognið var slíkt að hitinn varð eins og í bökunarofni. Hver brúsinn af öðrum var fylltur og borinn að niðurgjöfinni. Þegar á leið fór að kula úr suðri. Þetta þykir ills viti á þessum slóðum, því vegna aðdýpis við bjargið getur sjólag versnað mjög snögglega. Þar sem tínslu var um það bil að ljúka, var ákveðið að ég færi niður til að taka á móti eggjunum meðan hinir gerðu klárt uppi. Völlurinn er svo haganlega af Guði gerður að inn undir hann gengur langur hellir sem sjór fellur í og yfir honum þverhníptur klettur upp á brún Vallarins. Er eggjunum slakað nánast í lofti niður í slöngubát. Þegar ég reri inn í hellismunnan til að taka við eggjakútunum, var kominn nokkur veltingur. Báturinn skoppaði eins og fis þegar báran æddi inn í hellinn. Síðan heyrðist þungur dynkur og báran kom æðandi út aftur. Vel gekk þó að ná kútunum og koma þeim í bátinn.
Þegar því var lokið var komin háflæði og farið að gefa yfir hleinarnar undir Bjarginu. Við sem í bátnum vorum höfðum samband við hina gegnum talstöð og kom okkur saman um að ekki væri reynandi að ná þeim að svo stöddu, en ákveðið að bíða þar til falla færi út. Héldu vallarmenn síðan upp í smáskúta sem er þar við bergið og huguðu að nesti sínu, áður en þeir reyndu að hreiðra um sig og ná smá svefndúr, enda komið fram á nótt. Við elduðum okkur egg á kabyssunni og skiptumst síðan á að leggja okkur. Báturinn valt nokkuð en dró þó ekki stjórann. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég hafði þurft að skilja við félaga mína í bjargi vegna veðurs og var því nokkuð kvíðinn, enda getur gert langvarandi illviðrakafla á þessum slóðum.
Sunnangjólan óx þó ekki meira og dró jafnvel úr henni eftir því sem frá leið. Að nokkrum tímum liðnum var fallið svo mikið út að mögulegt var talið að ná mönnunum. Þrátt fyrir að þeir væru sumir stirðir í hreyfingum vegna kulda og þreytu gekk þeim slysalaust niður og tóku sér góðan tíma í að strekkja vaðinn niður á klettanef til að hann yrði klár að ári. Enn var töluverður sjógangur og þurfti ég að sæta lagi að renna gúmbátnum upp að hleininni þannig að mennirnir gætu stokkið um borð, einn í einu. Allir komust út í trilluna, þó fæstir væru þurrir. Alltaf er þó gert ráð fyrir slíku volki í undirbjargsferðum og því alltaf þurr fatnaður hafður til taks, auk þess sem allir eru í björgunarvestum og með hjálma. Ekki var til setunnar boðið þó þessi áfangi væri að baki. Heimferðin var framundan og gat verið varasöm við þessar aðstæður. Stjórinn var tekinn upp og siglt af stað. Þegar komið var í Látraröstina var hún frekar úfin og ófrýnileg, en þó ekki talin ófær. Ekki þótti ráðlegt að sigla þétt með landi eins og stundum er gert, en þar er hún fljótförnust. Það er sérstök reynsla að sigla á svona litlu fleyi þegar röstin er í þessum ham. Öldurnar eru eins og fjöll, sem aðra stundina byrgja allt útsýni, en síðan lyfta bátnum hátt í loft upp og kasta honum niður brattan hinumegin. Ekki þarf að sökum að spyrja ef bilun verður í vél eða stýri. Við sluppum þó að mestu við brot, og vorum brátt komnir úr þessum darraðardansi. Það sem eftir var leiðarinnar var lens og tiltölulega gott sjólag.
Bjart var orðið af nýjum degi þegar við stigum á land. Vildu sumir fara strax að leggja sig, en við hinir fengum því framgengt að fyrst væri aflanum skipt. Við skiptingu bjargfengs gilda ævafornar aðferðir, þó að á síðari árum hafi orðið breyting á “dauðu hlutunum”, sem eru t.d. vaðarhlutur, bátshlutur o.þ.h. Skipt er í hrúgur sem mynda hring á skiptavellinum. Hver maður tekur sér eggjaílát í hönd og síðan er gengið í halarófu og egg sett í hverja hrúgu. Þannig er tryggt að egg frá mismunandi stöðum og e.t.v. misjafnlega ný, blandist fullkomlega. Einhver úr hópnum snýr sér síðan undan og nefnir nöfn hinna meðan annar bendir á hrúgurnar, til að ákvarða hver á hvað. Úr þessari ferð komu um 3.000 egg, sem þykir ágætt af Bæjarvelli.
Þessi ferð fékk sem sagt farsælan endi, þótt tvísýnt hafi verið um tíma. Þannig hefur reyndar oftar verið í þessum bjargferðum. Oft hafa menn undrast, og jafnvel hneykslast á þessari áráttu, og kallað þetta bæði tímaeyðslu og óþarfa hættuspil. Ekki neita ég að þessi hugsun hefur jafnvel ásótt mig sjálfan í seinni tíð, og oft hef ég reynt að komast til botns í hvað fær menn til að ganga svona fram á ystu nöf. Eina niðurstaðan sem ég hef enn fengið er þessi: Þetta er svo ótrúlega gaman. Ekki get ég hrósað mér af neinni sérstakri færni í þessu. Ég hef verið með ótrúlega færum mönnum sem gengu um klettana eins og þeir væru fluga á vegg. En þarna gildir það sem víðar að þekkja sín takmörk og umgangast hætturnar af virðingu.