Ýmis fróðleikur hefur enn safnast á Kollsvíkurvefinn, auk þess sem gerðar hafa verið ýmsar breytingar til að hann verði einfaldari í sniðum og aðgengilegri þó efni og umfang hafi aukist.  Nefna má þrjá stóra efniskafla sem bæst hafa við á árinu 2020: 

Vættir og vé.  Fyrst er að nefna samantekt sagna um vætti og helgistaði í Rauðasandshreppi, ásamt umfjöllun um kirkjur fyrr og nú og um ferðir Guðmundar biskups góða.  Handrit liggur fyrir að bók um þessi efni, en hér er ýmislegt úr því birt undir nokkrum flokkum í kaflanum Mannlíf.   Undirkaflar eru þessir:  Álagablettir, lækningalindir og fjársjóðir; huldufólk og álfar; tröll og tröllskessur; draugar, óvættir, skrímsli og slæðingar; helguþúfur og beiðslustaðir; vigslur og staðir Guðmundar góða; útilegumenn og ræningjar; gálgasteinar; örlagastaðir; náttúrufyrirbæri; veðurboðar; vísindi og kerlingabækur.  

Kollsvíkurannáll. Tekinn hefur verið saman „Kollsvíkurannáll“; tímasettar stiklur úr sögu Rauðasandshrepps.  Víða er leitað heimilda; flest hefur áður birst en annað ekki.  Er þetta líklega fyrsta tilraun til þannig alhliða annálsgerðar í hreppnum frá því Björn Halldórsson vann sinn Sauðlauksdalsannál á 18.öld.  Kollsvík er nokkurskonar sjónarhóll annálsins og því er sumsstaðar nánar fjallað um atburði sem henni tengjast en fjarlægari byggðum.  Þó er þarna stiklað á stóru um sögu Rauðasandshrepps; þar með talið Eyra fram að hreppaskiptingunni 1907.  Til viðmiðunar er getið nokkurra viðburða úr Íslandssögunni.  

Kollsvíkurver.  Unnið hefur verið að söfnun heimilda um vermenn í Kollsvíkurveri.  Fundist hafa heimildir um 138 menn (þ.á.m. 2 konur) sem fullvíst er að róið hafi í Kollsvíkurveri; flestir á uppgangstímum saltfiskverkunar 1890-1940, en aðrir fyrr eða síðar.  Er það þó ekki nema lítið brot af heildinni.  Að auki hefur náðst að nafngreina nokkra af vermönnum í Láturdal.  Settur hefur verið upp sérstakur efnisflokkur um Verið innan Kollsvíkursíðunnar, enda er útgerð veigamikill þáttur Kollsvíkursögunnar.  M.a. má þar sjá endurgerð vandaðs uppdráttar sem Gunnar Össurarson og Össur Guðbjartsson gerðu árið 1963. 

Áfram verður væntanlega unnið að betrumbótum á þessari vefsíðu, sem líklega er að verða yfirgripsmesta átthagasíðan hérlendis.  Vænst er a.m.k. tveggja endurbóta á árinu 2021.  Önnur er útdráttur á ensku og e.t.v. fleiri tungumálum.  Hin er uppfærsla á „orðasjóði Kollsvíkinga“.  Stöðugt er unnið að endurbótum og handritið sem nú liggur fyrir er nær tvöfalt umfangsmeira en það sem nú er á síðunni.  Er þetta viðamesta rafræna orðabókin á íslensku, að frátaldri orðabók Árnastofnunar, og líklega einstæð á heimsvísu fyrir svo afmarkað málsvæði.  Allmikið er leitað í orðabókina úr ýmsum áttum, enda kemur hún fljótt upp á leitarsíðum.

Leita