hesthus skilti

 

Hesthúsið á Hólum er elsta hús á Íslandi sem verið hefur undir þaki og í notkun frá því það var fyrst byggt.  Það var byggt um árið 1650, þegar hjáleigan Hólar reis í landi Láganúps í Kollsvík, og hefur þjónað sem hesthús, fjós, reykkofi og nú síðast sem vinsæll áfangastaður ferðafólks.

Ítarlega greinargerð um Hesthúsið á Hólum; sögu þess og viðhald verður von bráðar sett á vefinn, en hér verður stiklað á stóru:

Sagan

Árið 1650 var margt öðruvísi í atvinnuháttum, mannlífi og húsakosti í Kollsvík en síðar varð.  Rauðasandshreppur var að sönnu þéttbýl og blómleg sveit, en jarðir  voru flestar í eigu höfðingjaveldisins mikla í Saurbæ.  Þær sem hann átti ekki voru í eigu annarra höfðingja.  Bændur voru leiguliðar sem alfarið voru háðir höfðingjaveldinu.  Ekki var nóg með að þeir þyrftu að strita fram í rauðan dauðan til að eiga fyrir landskuld og kúgildum; verra var að á þessum tímum heittrúar og djöflahræðslu var fólk einnig háð þessum höfðingum um sálarheill sína eftir dauðann.  Erfitt er fyrir nútímamann að setja sig í spor þeirra sem þannig voru settir.

Í Kollsvík hafa verið tvær jarðir; líklega frá upphafi landnáms; Kollsvík (Kirkjuból) og Láganúpur.  Líklegt er að þar hafi smærri hjáleigur verið fyrir þennan tíma; líkt og síðar varð, en um þær skortir heimildir.  Víst er þó að í Kollsvík var löngum verulegt útræði.  Þangað sótti fólk til róðra innan úr Breiðafirði og jafnvel lengra að.  

Á 14.öld jókst verulega skreiðarsala frá Íslandi til Evrópu.  Ástæður þess eru ýmsar; m.a. aukin fiskneysla og breytingar sem urðu á skreiðarsölu frá Noregi.  Íslenskir höfðingjar færðu sér í nyt þessa tekjuleið og hófu að byggja upp sjósókn og verstöðvar hver á sínu svæði.  Bæjarveldið hlaut því að leggja áherslu á uppbyggingu verstöðva þar sem góð aðstaða var til útræðis nærri bestu fiskimiðunum, en svo háttar einmitt til í Kollsvík.  Guðmundur ríki Arason á Reykhólum átti Saurbæ og sá sér leik á borði að sölsa undir sig Láganúp á fyrrihluta 15.aldar.  Kollsvíkurjörðinni náði hann ekki.  Það er líklega ástæða þess að verstöðin í Kollsvík byggðist einkum upp í Láganúpslandi, þrátt fyrir að lending sé öruggari norðantil.  Láganúpsverstöð varð fljótt mjög stór verstöð, eins og glöggt má sjá af minjum sem komið hafa í ljós við landbrot.

Árið 1650 var Eggert ríki Björnsson eigandi Saurbæjar og sýslumaður í Barðastrandasýslu; sonarsonur Magnúsar prúða.  Hann var af ætt Skarðverja og stýrði eignasafni sínu frá Skarði á Skarðsströnd.  Eiginkona hans var Valgerður Gísladóttir og meðal barna þeirra var Guðrún Eggertsdóttir.  Hún verður eigandi Bæjareigna þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín gera jarðabók sína 53 árum síðar.  Má víða í bókinni sjá að Árna ofbýður yfirgangur harðstjóranna í Saurbæ.  Kollsvíkurjörðin tilheyrir ekki pall selardaleignasafni Eggerts ríka, en eigandinn er þó ekki óskyldur; séra Páll Björnsson prófastur og galdramannahrellir í Selárdal; bróðir Eggerts ríka í Saurbæ.  Saman ráða þeir bræður því sálum Kollsvíkinga allra; dauðra sem lifandi.

Eggert ríki réðst í nokkrar breytingar á Láganúpi kringum 1650, líklega í því augnmiði að festa sér góða formenn á báta sína og þar með tryggja arðsemi útgerðarinnar.  Annarsvegar lét hann breyta stekk á Grundum í hjáleigu Láganúps og hinsvegar byggði hann nýja hjáleigu á Hólum.  Byggðir voru kotbæir og útihús á þessum stöðum og ráðnir dugandi skipstjórnendur.  Þeir þurftu auðvitað að greiða sína landskuld og kúgildi til eigandans og voru auk þess skyldugir til að stýra bátum hans; ábyrgjast bátana og leggja til segl á þá.  En hlunninda nutu þeir umfram aðra skipverja; þeir máttu sjálfir hirða hausana af aflanum! 

Líklegt er að Hesthúsið á Hólum hafi verið byggt þegar í upphafi byggðar á Hólum árið 1650, enda varði byggð á Hólum ekki nema í rösklega hálfa öld.  Hólar lögðust í eyði í stórubólu árið 1707.  Hólabærinn er uppi í túninu handast (suðvestast) í Kollsvíkinni og ólíklegt er að Láganúpsbændur hefðu valið þar stað sínum útihúsum.  

Árni Magnússon var á ferð í Kollsvík árið 1703 og ritaði þá í Jarðabók sína:

Láganúpur 18 hundruð með hjáleigunum Hólum og Grundum.  Grundir eru uppbyggðar úr stekk fyrir 50 árum eða þar um og voru þá reiknaðar fyrir 3 hundruð.  Hólar eru byggðir í túninu um sama leyti og voru þá 7 ½ hundrað... Á Hólum býr Ólafur Jónsson.  Landskuld hans er 3 vættir.  Betalast á eyri, so mikið sem ske kann.  Leigukúgildi með Hólum 2 (1kýr, 6 ær)... Hjá Ólafi eru lifandi, fyrir utan kvígildin; 3 gemlingar.  Þar fóðrast 1 kýr og ekki meir.  Heimilismenn Ólafs eru 4“. 

Ennfremur segir Árni um Láganúp og Láganúpsverstöð:

"Við til húsbyggingar leggur landeigandi, en ekki nægilega....  Segl brúkast þar .  Á heimaskipi öðru leggur formaður það til“.

Fleiri merk hús voru í byggingu um sama leyti og hinn nýi ábúandi Hóla byggði hesthúsið á þessari nýstofnuðu hjáleigu Láganúps.  Í Skálholti stóð Brynjólfur Sveinsson fyrir byggingu stórrar dómkirkju í stað annarrar minni sem áður hafði brunnið.  Þetta var timburkirkja sem stóðst tímans tönn mun verr en steinhlaðið hús Hólabónda.  Hún var rifin 200 árum síðar; þá orðin mesta hrör.  Betur hefur dugað annar jafnaldri Hólahesthúss, sem er grafhýsið fræga; Taj Mahal á Indlandi.  En miðað við tilkostnað er líklegt að Hesthúsið hafi vinninginn í úthaldi.

Hesthúsið hefur líklega gegnt sama hlutverki frá byggingu sinni fram á miðja 20. öld.  Það var notað sem hesthús að vetri en sem fjós að sumri.  Að vetrinum vildu menn hafa kýrnar nærri bæ til upphitunar og til að styttra væri til gegninga, en að sumri voru kýr á útigangi og einungis brugðið í fjós í verstu veðrum.  Eftir að byggð lagðist af á Hólum hélt Hesthúsið þessu hlutverki, en nú frá Láganúpi.  Ingvar Guðbjartsson var uppalinn á Láganúpi og segir svo frá í örnefnaskrá Láganúps:

Hólar (39):  Tóftir sjást þar enn.  Þar er elsta hús uppistandandi í Kollsvík.  Það er hesthús úr torfi og grjóti; helluárefti og enginn gluggi á.  Það var notað sem sumarfjós og hesthús á vetrum þegar Ingvar var strákur“ (f. 1925). 

Hinsvegar urðu breytingar á notkun Hesthússins eftir að Guðbjartur Guðbjartsson byggði, ásamt sonum sínum, steinsteypta samstæðu fjóss, fjárhúsa, hlöðu, votheysgryfju og haughúss rétt fyrir 1950.  Þá fluttu kýrnar búferlum í hið nýja fjós en Hesthúsið var eftir það notað sem reykkofi í marga áratugi.  Nýr reykkofi var hlaðinn upp úr hrútakofatóft nokkru nær um 1990.  Hesthúsið var þá farið að þarfnast viðhalds, sem það fékk 2010-2016.  Síðan hefur það verið vinsæll áningarstaður ferðafólks sem kemur í Kollsvík.

Viðhald 2010-2016

hesth fyrir 2010Myndin sýnir hesthúsið árið 2010, áður en viðgerðir hófust. 

Búskap var hætt í Kollsvík árið 2003.  Eftir stendur töluverður húsakostur sem þarf sitt viðhald, en fáir eftir til að standa undir því.  Sigríður Guðbjartsdóttir jarðeigandi á Láganúpi, sem nú var orðin ekkja eftir Össur Guðbjartsson, hafði alltaf látið húsafriðun sig miklu varða og vildi stuðla að uppbyggingu í stað niðurrifs gamalla húsa.   Henni er það fyrst og fremst að þakka að enn  má sjá svo margar gamlar tóftir í víkinni sem raun ber vitni, en venja var að nýta efnið þegar notkun húsa lagðist af.  Hesthúsið var mjög farið að lasna eftir að búskapur lagðist af; veggir að ganga; mikil sandsöfnun í gólfi og þak lélegt.  Ljóst var að annaðhvort yrði að rífa það til að ekki skapaði hættu fyrir fénað og fólk, eða grípa strax til viðhaldsaðgerða.  Árið 2009 veitti Húsafriðunarsjóður styrk til undirbúnings endurbyggingar hússins árið 2010.  Ákveðið var að nýta féð til að fá húsið teiknað vandlega upp af góðum arkitekt, og til efnisadrátta.  Til teiknunar hússins var fenginn Kjartan Árnason arkitekt á Ísafirði og hann vann að mælingum og teikningum sumarið 2010 ásamt föður sínum Árna Kjartanssyni hjá Glámu-Kím arkitektastofu.  Feðgarnir skiluðu vönduðum teikningum í september 2010, og má segja að þar komi fram hvert smáatriði.  Var því þessi mesti öldungur húsa í einu vetfangi orðið eina tölvuteiknaða húsið í Kollsvík!  

Aftur veitti húsafriðunarnefnd styrk til verkefnisins árið 2011.  Ljóst var að það myndi ekki hrökkva langt fyrir aðkeyptum hleðslumanni og því ákvað Valdimar Össurarson að ráðast í verkið sjálfur; ekki með öllu óvanur.  Þegar farið var að huga að öflun efnis vildi svo til að allmikið tré rak á fjörur á Láganúpi.  Engu var líkara en Bæjarhöfðingi; þó harðdrægur væri, vildi standa við hina fornu ofangreindu leiguskilmála; "við til hesth vidarvinnslahúsbygginga leggur landeigandi til..."  Nær 9 metra langt tréð var yfirdrifið til að endurnýja þakviði.  Það var sagað og höggvið með öldnum verkfærum.  Veggir voru teknir niður og lagfærðir þar sem þeir voru gengnir, en látnir óhreyfðir þar sem þess var kostur.  Skafið var ofanaf gólflagi það sem safnast hafði á síðustu áratugum en látið ósnert hið eldra. 

hesth brandur jataGaflhlöð (brandar) voru hlaðin upp, líkt og var.  Í manna minnum hefur ávallt verið sperruþak með skammbitum á húsinu, þó það kunni að hafa haft ásaþak í upphafi.  Sperrur voru endurnýjaðar þar sem þurfti; sett negld langbönd gisið, en þétt milli þeirra með keflum og spreki.  Hvalbein hafði verið í þekju, en var ekki tiltækt fyrr en eftir uppbygginguna.  Tekið hafði verið niður bárujárnsklæðning sem um tíma hafði verið undir torfþekjunni og sett helluþak í stað þess, eins og upprunalega var.  Gerður var leiðangur í hið forna hellutak Kollsvíkinga í Helluhnjúk, innarlega á Traðarhæð.  Einnig þurfti að sækja nokkuð af hleðslugrjóti til viðbótar, og var það tekið í Traðarhæð og uppi í svonefndri Jökladalshæð.

hesth thakl gangurVeggirnir eru tvíhlaðnir grjótveggir með fyllingu á milli.  Fylling í veggi var tekin úr gólfi og sendnum jarðvegi kringum húsið.  Stoppað var með torfi í holur á útvegg; svonefndum tór.  Þak er án glugga, líkt og upprunalega var samkvæmt elstu heimildum.  Torf var skorið með stungureku á Láganúpstúni.  Enn veitti hesth torfskurdurHúsafriðunarsjóður nokkra styrki til byggingarinnar.

Lokið var við þetta viðhaldsverkefni Hesthússins á Hólum árið 2015 með því að sett var upp hurð úr plægðri furu.  Hún er enginn forngripur, en dyraumbúnaður er með því lagi sem síðast var vitað þegar húsið var í fullri notkun.  Hurð var sett á hesth eftir framhljárn, þó enginn muni lengur svo langt að þar hafi hurð verið járnuð; einatt var sperrt við lausa hurð.  Sveinn eldsmiður á Svarfhóli í Reykhólasveit sérsmíðaði lamir, ásamt keng í dyrastaf.  

"Síðasti steinn í vegg" var uppsetning fræðsluskilta.  Eitt er hjá hesth innan utHesthúsinu og annað niðri við bílastæði og safn annarra fræðsluskilta neðan Láganúpsbæjar.  Þar er vísað vegar að Hesthúsinu og gestir boðnir velkomnir.

Þar með er þessi öldungur öldunganna formlega farinn að þjóna nýju hlutverki á nýjum tímum; að vera áþreifanlegur fulltrúi fyrri atvinnuhátta og húsagerðar.  Með þessari viðgerð er tryggt að Hesthúsið á Hólum mun enn um sinn setja svip sinn á Kollsvíkina handanverða; líkt og tvíburarnir norðanmegin; Blakkur og Núpur, hafa gert um enn lengri tíma.