Formáli:

Merkur tignarmaður rís úr moldum

taflmadurHann lætur ekki mikið yfir sér, litli karlinn með hattinn sem kom upp úr kartöflugarði á gamla bæjarhólnum í Kollsvík, líklega árið 1895; klæddur hólkvíðum stuttbuxum; uppslegnum jakkakraga og styðst við skjöld. 

Hann er 3,7 cm á hæð; 2,1 cm á breidd og 1,3 cm á þykkt; skorinn úr rostungstönn.

Taflmaðurinn er þó merkilegur fyrir margra hluta sakir, og gæti jafnvel verið meðal merkilegustu gripa sem á Þjóðminjasafnið hefur komið.  Skulu hér tilfærðar þrjár ástæður fyrir því:

 Í fyrsta lagi er þessi Kollsvíkingur einungis annar tveggja taflmanna í fullu mannslíki sem úr jörðu hafa komið á Íslandi. 

 Í öðru lagi er Kollsvíkingurinn að öllum líkindum eini áþreifanlegi vitnisburðurinn um hefð eða iðnað sem hér hefur að öllum líkindum tíðkast fyrr á öldum; að skera skákmenn í rostungstönn til sölu á erlendum mörkuðum eða innanlands.  Allt frá því að Lewis-taflmennirnir voru hér skornir fyrir árið 1200 fram á tíma Kollsvíkingsins seint á 16. öld.

Í þriðja lagi er líklegt að segja megi til með nokkurri vissu um fyrirmyndina að þessari mannsmynd; jafnvel þó hún hún hafi burtkallast af þessum heimi fyrir meira en 400 árum.  Hér er að öllum líkindum fundið líkneski af Magnúsi prúða Jónssyni, sýslumanni í Saurbæ; einum farsælasta og glæsilegasta höfðingja sem uppi hefur verið frá lokum þjóðveldisaldar.

Á sinn hátt er því fundurinn engu ómerkilegri en hinir víðfrægu Lewis-taflmenn, sem taldir eru í flokki merkustu fornminja Bretlands.  Furðu lítið hefur þó verið um þennan Kollsvíking fjallað, en hér er leitast við að bæta úr því. 

Hér á eftir verður greint lítillega frá fundarstaðnum og öðrum merkum minjum þar.  Fjallað verður um aðra jarðfundna taflmenn sem vitna um umfangsmikinn iðnað af þessu tagi.  Hugað verður að efniviðnum og umfangsmiklum rostungaveiðum sem líklega voru helsti hvati að landnámí á Íslandi.  Og að síðustu verður fjallað nokkuð um hinn mikla og glæsta höfðingja; Magnús prúða Jónsson í Saurbæ, sem var voldugasti, auðugasti og lærðasti Íslendingur sinnar samtíðar, en um leið einn vinsælasti og réttsýnasti stjórnandi sem uppi hefur verið.  Leiddar verða líkur að því hvenær gripurinn var gerður; í hvaða tilgangi og af hverjum.

Vert er að hafa í huga að margt af því sem hér verður sett fram eru tilgátur; studdar þeim rökum sem til eru færð.  Um þau vísindi sem önnur gildir hin gullvæga regla Ara fróða:  Hafa ber það er sannara reynist.

 

Margt leynist í kálgörðum Kollsvíkinga

kort taflmaðurKollsvík er nyrst svonefndra Útvíkna, sem eru milli Bjargtanga og Blakkness; sunnar eru Breiðavík og Látravík.  Þær eru ysti hluti hins forna Rauðasandshrepps, sem náði yfir skagann milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar, auk sunnanverðs Tálkna.  Á síðari tímum hafa sveitarfélagamörk breyst, og þetta svæði er núna hluti af Vesturbyggð.  Fram undir miðja 20.öld var blómlegur landbúnaður í hreppnum og nokkuð þétt byggð.  Í Útvíkum var að auki allmikið útræði, enda gjöful fiskimið á grunnslóð og lending ágæt fyrir árabáta.  Stærsta útver sunnanverðra Vestfjarða var löngum Láganúpsver, sunnantil í Kollsvík.  Það upphófst líklega í byrjun skreiðarverkunar og stóð fram um 1700.  Nær tveimur öldum síðar hófst mikil útgerð í Kollsvíkurveri, norðar í Kollsvík, með saltfiskverkun, sem stóð fram yfir 1930 þegar útgerð í hreppnum fluttist á Eyrar (Patreksfjörð). 

Þegar taflmaðurinn fannst í Kollsvík 1895 var allnokkur útgerð hafin úr Kollsvíkurveri.  Þá var búið á 6 búum í víkinni, en þeim fjölgaði á næstu árum.  Eftir miðja 20. öld fækkaði fljótt í Kollsvík, og um aldamótin lauk þar búskap og heilsársbúsetu, sem staðið hafði samfellt frá því Kolli skolaði á land úr strandi sínu.  Á sömu leið fór mestöll byggð í Rauðasandshreppi. 

Á kortinu hér að ofan eru merktir nokkrir þeir staðir sem koma við sögu hér á eftir, þegar rýnt verður nánar í taflmanninn í Kollsvík.

Í Kollsvík hafa frá öndverðu verið tvær jarðir; Láganúpur sunnanmegin (handantil, eins og þarna er málvenja) og Kollsvík sú norðari (beygingarháttur víknamanna), auk smærri býla um skemmri tíma.  Má ætla að Kollur landnámsmaður hafi sett sér bú norðantil, þar sem skjólsælla er.  Þar nefndist forðum Kirkjuból, enda var þar hálfkirkja fram á siðaskipti, og kirkjugarður.  Sú kirkja kann að hafa staðið frá tíð Kolls, sem að sögn Landnámu kom í trúboðserindum til landsins ásamt fóstbróður sínum Örlygi.  (Sjá „Kirkja Kolls“ á vefnum kollsvik.is).  Gamla bæjarstæðið í Kollsvík (Kirkjubóli) var uppi undir hlíð Núpsins, en kirkjan stuttu sunnar.

sg kollsvik gamlibaerÞessa mynd málaði Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi á steinhellu, samkvæmt bestu lýsingum.  Hér eru aðstæður fyrir aldamótin 1900; á þeim stað og tíma sem gripurinn fannst.  Húsið lengst t.v. er þá nýlega byggt; vandað timburhús Torfa Jónssonar með steinhlöðnum kjallara.  Næst kemur mókofi, sem áður var smiðja; þá skemma; þerrihjallur; Gamlibær; Össursskemma og eldiviðarhús.  Niður undan húsunum er Stórikálgarður, og liggur sjóargatan gegnum hann (sbr. Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Árið 1918 var byggt vandað steinsteypt hús nokkru neðar, og lagðist þá byggð af á þessum forna bæjarhól. 

Segja má að málverkið sé „sviðsmynd“ þeirra aðstæðna sem ríktu þegar gripurinn fannst.  Árið 1895 bjó í Kollsvík Torfi Jónsson ásamt fjölskyldu sinni.  Hann hafði þá nýlega reist þetta myndarlega timburhús á bæjarhólnum.  Manngengur kjallari var undir húsinu og hefur því við þær framkvæmdir orðið meira rof á þessum forna bæjarhól en e.t.v. nokkurntíma áður.  Efnið sem upp kom hefur að öllum líkindum hafnað í kartöflugörðunum; enda næringarríkur jarðvegur, og metnaður í matjurtaræktun á þessum árum.  Það er þó ekki fyrr en við kartöfluupptöku, líklega haustið 1895, að einhver glöggur garðyrkjumaður á bænum tók eftir hnýði í moldinni sem við nánari aðgát reyndist ekki kartafla, en engu ómerkilegra.  Má vera að menn hafi haft augun hjá sér, þar sem ýmsir gripir hafi komið úr hinum forna uppgreftri.

Ætla má að menn hafi mjög velt fyrir sér þessari litlu fígúru; hver hún væri; hver hefði smíðað og hvað hún væri gömul.  Er ekki að orðlengja það frekar, en nokkrum árum síðar tók Hákon Jónsson, bróðir Torfa, gripinn með sér til Reykjavíkur og á Þjóðminjasafnið.  Þar var gerð sú greining sem enn má lesa á vefnum Sarpur.is:

Skáktaflsmaður úr tönn, skorinn í fulla manns líking, með töluvert skegg og hárið stýft um eyrun, kolllágan, barðastóran hatt á höfði, í aðskorinni, einhneptri treyju með breiðum kraga og ákaflega síðum stuttbrókum og skjöld á vinstri hlið og nær sporðurinn niður jafnlangt fótum mannsins. Þetta mun vera konungur úr tafli og eptir því sem ráða má af búninginum, mun hann vera frá síðari hluta 16. aldar.   Taflmaður þessi fannst í kálgarði á bænum Kollsvík við Patreksfjörð.

…. og í sýningartexta gripsins á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins er þessi texti:

Taflmaður úr skáktafli, líklegast konungur, skorinn í búrhvalstönn. Mun frá síðari hluta 16. aldar af búningi mannsins að dæma. Fundinn í Kollsvík við Patreksfjörð.

Talið er núna að gripurinn sé úr rostungstönn en ekki búrhvalstönn.  Þó fundurinn þætti merkilegur í Kollsvík hvarf hann þó í skuggann af þeirri vá sem stefnt var að Kollsvíkurheimilinu er heimilisfaðirinn Torfi Jónsson drukknaði í Kollsvíkurlendingu hinn 5. apríl árið 1904.  Fólki fækkaði í Kollsvík þegar lengre leið á öldina.  Útgerð lagðist af í Verinu og tæknin olli breytingum í búskaparháttum.  Það var ekki fyrr en á síðari árum að heimamenn tóku aftur að leiða hugann að hinum merka og aldna Kollsvíkingi sem dvalið hefur á Þjóðminjasafninu í góðu yfirlæti. 

Fleira góss úr görðum Kollsvíkinga

solarkrossTaflmaðurinn er meðal merkra fornleifa komið hafa úr görðum í Kollsvík, en fleiri gersemar hafa komið upp með kartöflunum.  Líklega hefur það verið árið 1968 eða þar um bil að höfundur þessa pistils var við kartöfluupptekt nærri bæjarhólnum á Láganúpi; handantil í víkinni og upp kom lítið brot af rauðum sandsteini, um 6 cm langt.  Á það eru ristar tvær gerðir af sólarkrossi.  Sólarkross er líklega elsta trúartákn mannkyns, sem m.a. finnst í hellaristum frá fornsteinöld.  Það var tekið inn í ýmis trúarbrögð og hefur fundist nærri Stonehenge, en síðar kom það inn í norræna trú og nefndist þá Óðinskross.  Enn síðar varð það hluti keltneska krossins, sem minnir á að Kollur var keltnesk-kristinn.  Láganúpssteinninn er líklega brot af steypumóti fyrir sólarkross, en hvernig stendur á veru þess þarna og hve gamalt er það?  Um það verður síðar fjallað, en steinninn er varðveittur á Þjóðminjasafninu.

Kartöflugarðurinn í Kollsvík færðist af bæjarhólnum suður á næsta hól, þar sem fyrir siðaskipti stóð hálfkirkja með greftrun.  Í þeim garði komu af og til upp mannabeinabrot, og man höfundur eftir að hafa handfjatlað nokkur slík við upptekt.  Mannabein komu einnig upp þegar grafið var fyrir votheysgryfju um 1950 og voru lögð þar til hliðar við grunninn. 

hesth eftir framhlÞess má að lokum geta, þegar rætt er um fornar minjar í Kollsvík, að syðst í víkinni er elsta útihús landsins sem verið hefur undir þaki frá byggingu.  Þetta er Hesthúsið á Hólum, sem byggt var um árið 1650 á hjáleigu frá Láganúpi sem er núna löngu farin úr byggð.  Það var semsé byggt um svipað leyti og Brynjólfskirkjan mikla í Skálholti og Taj Mahal.  Hesthúsið hefur nýlega fengið gott viðhald og er vinsæll viðkomustaður ferðafólks.

 

Jarðfundnir taflmenn

Lewis taflmennirnir

Varla fer milli mála að hér er um taflmann að ræða.  Til þess bendir stærð gripsins og líkindi hans við aðra slíka.  Þeim sem þekkja til skáksögu og fornra gripa verður það eflaust fyrst fyrir að bera þennan mann saman við frægustu taflmenn heims; Lewis taflmennina.  Því er rétt að fara hér örfáum orðum um þá.

Eyjan Lewis tilheyrir ytri hluta Suðureyja við Skotland, og er þeirra stærst.  Í íslenskum fornheimildum er hún nefnd Ljóðhús.  Þar var um aldir mikil norræn byggð og flest örnefni eru af norrænum uppruna.  Mörg þeirra eiga sér samsvörun í nafngiftum þeirra landnámsmanna sem hér settust að.  T.d. hefur Helgi Þorláksson sagnfræðingur bent á 16 örnefni sem sameiginleg eru þar og á Kjalarnesi.  Fyrir Kollsvíkinga er forvitnilegt að stuttu norðan við bæinn Stornoway (Stjórnarvog) eru víkin Breibhig (Breiðavík) og inn af henni víkin Col Uaragh (Kollskriki eða Kollsvík).  Stuttu þar suðuraf er þorpið Tunga.  Sem leiðir hugann að því að Kollur landnámsmaður kom frá Suðureyjum og nefndi vík sína Kollsvík, en næsta vík er Breiðavík.  Örlygur fóstbróðir hans tók land í Örlygshöfn  og hefur e.t.v. haft vetursetu þar sem síðan heitir Tunga í Örlygshöfn.  En við látum þessar hugrenningar bíða annarrar umfjöllunar og snúum okkur aftur að taflinu. 

Vestantil á Lewis er víkin Camas Uig (Kamarsvík); skjólsæll vogur með skeljasandsfjöru sem um margt svipar til Kollsvíkur.  Sagan segir að bóndi sem þar gekk í fjöru árið 1831 hafi orðið var við muni í sandbarði sem sjórinn hafði nagað óvanalega mikið úr.  Þegar krafsað var meira í bakkann kom í ljós hola eða hellir.

lewis taflmennÞar í voru alls 93 gripir.  Þar af voru 78 taflmenn; flestir skornir í rostungstönn en fáeinir í hvaltönn:  8 kóngar; 8 drottningar; 16 biskupar; 15 riddarar; 12 hrókar og 19 peð.  Hæð peðanna er 3,3-5,8 cm en mannanna 7-10,2 cm.  Talið er að gripirnir hafi tilheyrt a.m.k. fimm skáksettum.  Mennirnir eru útskornir í einstaklega fínlegum dráttum og eru greinilegar eftirmyndir norrænna stríðsmanna og fyrirmanna.  Hér, líkt og í Kollsvík, hafa fornleifar varðveist vel í skeljasandinum.  Þarna eru m.a. hrókar í eftirlíking berserka sem bíta skjaldarrendur; riddarar á hestum; biskupar með mítur og kóngafólk með veldissprota.  Margir eru með sverð eða spjót og hjálma á höfði, en aðrir kápuklæddir með kúluhatt; ekki ósvipaðan þeim sem Kollsvíkurkarlinn ber.

Ekki er unnt að fullyrða neitt um ástæður fyrir veru taflmannanna á þessum stað.  Getum hefur verið leitt í þá veru að þeir hafi verið meðal varnings skips sem farist hafi þarna á víkinni forðum og átt að leyna þeim tímabundið þar til síðar, en óvíst hvað til er í því.  Tímasetning myndskurðarins er af sumum talin vera milli 1150 og 1200, en á þeim tíma voru eyjarnar undir norskum yfirráðum.

Uppruni taflmannanna hefur verið allmikið umræðuefni fræðimanna og hugsuða.  Þó enginn efist um hið norræna yfirbragð og vísanir myndefnisins í víkingamenningu þá er deilt um það hvar í hinum norræna heimi þeir hafi verið gerðir; og þá einkum hvort það hafi verið í Noregi eða á Íslandi.   Sú umræða kann að virðast fáfengileg, en gæti skipt máli varðandi hefðir og verkmenningu, t.d. þegar velt er fyrir sér uppruna umrædds Kollsvíkings.

Fræðimaðurinn og verkfræðingurinn Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, hefur fært all sannfærandi rök fyrir því að Lewis-skákmennirnir séu gerðir á Íslandi, en fyrri fræðimenn höfðu reyndar einnig viðrað þann möguleika.  Árið 2010 gaf Guðmundur út ritið „The enigma of the Lewis chessmen“, þar sem hann lýsir þessari skoðun sinni og rennir öflugum stoðum undir hana.  Ein veigamestu rökin varða notkun biskups í tafli, en sú breyting sést fyrst í þessum taflmönnum.  Íslendingar virðast fyrstir þjóða hafa tekið að nota biskup í tafli, í stað þess sem á ýmsum málum er nefnt „sendiboði“ eða „hlaupari“.  Heitið „biskup kemur fyrir í íslenskum heimildum um árið 1300, en ekki fyrr en síðla á 15. öld í Bretlandi og enn síðar annarsstaðar.  Margar þjóðir nota enn heitið „hlaupari“.  Guðmundur leiðir líkum að því að íslenskur biskup hafi fyrstur staðið fyrir þessum breytingum, þar sem honum þótti hæfa að biskupar stæðu næst kóngi og drottningu í borði.  Sú breyting hafi síðan borist til Bretlands á „ensku öldinni“ (1400-1500), þegar flotar enskra duggara komu til landsins árlega.  Ísland var án kóngs fyrir 1262; æðstu valdsmenn íslenskir voru biskuparnir. 

Páll Jónsson (1155-1211) var biskup í Skálholti frá 1195 til dauðadags.  Hann var af Noregskonungum kominn; sonur höfðingjans Jóns Loftssonar í Odda, og hefur e.t.v. litið á sig sem ígildi konungs hérlendis.  Páll var við nám í Englandi um 1180 og gæti hafa kynnst skáklistinni þar.  Hann var um tíma á Orkneyjum og kann að vera höfundur Orkneyinga sögu.  Á dögum Páls var Skálholt höfuðstaður Íslands; 120 manna þorp, þar sem unnið var að landbúnaði, iðnaði, menntun, stjórnun og kirkjulegum málefnum.  Þangað safnaðist mikill auður, enda voru kaþólskir kirkjunnar menn öðrum duglegri í auðsöfnun á þeim tíma.  Páll hafði vafalítið í sinni þjónustu besta handverksfólk landsins í byggingarlist, trésmíði, steinsmíði, málun, myndskurði og gullsmíði.  Nokkrir þessara listamanna eru nafngreindir í samtímaheimildum; þeirra á meðal Margrét hin haga.  Hún var eiginkona prests á staðnum og sögð mesti meistari landsins í myndskurði á sinni tíð.  Talið er að fagurlega skorinn bagall úr rostungstönn sem kom upp úr biskupsgröf á Grænlandi sé verk Margrétar.  Bagallinn hafi verið gjöf Páls Skálholtsbiskups til Jóns smyrils Grænlandsbiskups er sá síðarnefndi heimsótti Skálholt.  Páls saga biskups greinir frá því að hann hafi sent Þóri erkibiskupi í Niðarósi bagal útskorinn af Margréti hinni högu, og hafi slík gersemi eigi fyrri sést.  Margrét skar út eftir óskum biskups og þegar hann lést vann hún að myndskreytingu altaris.  Líkur eru til að hún hafi skorið út bagalshöfuð sem fannst í steinkistu Páls. 

Íslendingar voru mikil siglinga- og verslunarþjóð á fyrstu öldum eftir landnám, og stunduðu viðskipti á víðfeðmu svæði.  Grávara; skinn og tennur, var flutt frá Grænlandi og Íslandi, og héðan voru fluttar landbúnaðarafurðir, s.s. vaðmál, og síðar skreið.  Verslunarmiðstöðvar og markaðir voru víða á þessu norræna verslunarsvæði; m.a. á Orkneyjum og Suðureyjum.  Prýðishafnir eru á Ljóðhúsaeyju, bæði austantil í Stjórnarvogi (Stornoway) og vestantil í Kamarsvík (Camas Uig; kamar er fornt orð um lukt/skjólsælt rými), þar sem taflmennirnir fundust.  Athyglisvert er að rétt hjá Kamarsvík er jörðin Mangarastaður (Mangurstadh), sem beinlínis vísar til þess að þar hafi verið kaupstaður; verslunarmiðstöð.  Voru ekki gripirnir Margrétar högu og Páls biskups fremur ætlaðir til sölu á þeim markaði en að þeir hafi orðið strandgóss?  E.t.v. hafa þeir verið faldir í holunni, þar til á markaðinn kæmu verðugir kaupendur, svo sem kóngar eða höfðingjar úr nálægum löndum, en eitthvað orðið felandanum að aldurtila.  Ýmsar tilgátur koma til greina, en vert er að halda til haga öllum vísbendingum.

Margt í niðustöðum rannsókna síðustu ára bendir til þess að Íslendingar hafi í öndverðu haft sterkari tengsl við Suðureyjar en áður var talið.  Hér hefur verið nefnd hin mikla mergð samheita í örnefnum en slíkt er ekki í viðlíka mæli annarsstaðar, t.d. í Noregi sem venja er að nefna okkar upprunaland.  Þá hafa erfðafræðirannsóknir sýnt að tvær tegundir litninga finnast einungis í Íslenskum konum og konum á Suðureyjum, og nefnir Guðmundur þetta í riti sínu.  Landnámabók nefnir Suðureyjar 22 sinnum, meðan Orkneyjar eru einungis nefndar 7 sinnum; Færeyjar tvisvar og Hjaltlandseyjar tvisvar.  Þar má sjá að a.m.k. 27% landnámsmanna komu frá Suðureyjum.  Þeirra á meðal voru Kollur og Örlygur, sem hlutu menntun í Kólumbusarklaustrinu mikla á Iona á Suðureyjum, að öllum líkindum hjá  Federac mac Cormaic, sem þar var klausturhaldari milli 865 og 880, og er nefndur Patrekur í Landnámu.

iona krossKross heilags Marteins við Kólumbusarklaustrið á Iona, þar sem Kollur og Örlygur voru til mennta.  Krossinn er talinn vera reistur snemma á 8. Öld, og hefur því staðið á námsárum þeirra fóstbræðra.  Federac mac Cormaic var forstöðumaður þessarar mestu menntastofnunar Evrópu milli 865 og 880, en hann er líklega sá Patrekur sem Landnáma nefnir að hafi búið Koll og Örlyg til fyrsta trúboðs á Íslandi.  Hér sést hvernig sólarkrossinn, sem í grunninn er jafnarma kross inni í hring,  er hluti af hinum keltneska krossi (sjá hér að framan varðandi Láganúpssteininn).

 

Siglunesingurinn

Í júlí árið 2011 fannst taflmaður við fornleifauppgröft á Siglunesi við Siglufjörð.  Þar var forðum helsta miðstöð héraðsins og mikil verstöð.  Á síðari tímum er staðurinn úr vegasambandi og þar eins og víðar hefur sjávarágangur tekið sinn toll af fornminjum.  Einn merkasti forngripurinn sem þar kom úr jörðu er taflmaður; að öllum líkindum riddari.  Þetta er lítið mannslíkneski, skorið í klumbubein af ýsu, af víkingi sem heldur spjóti í hægri hönd en skildi framan við sig með þeirri vinstri; með hjálm á höfði.  Á skildinum má greina máð mynstur.  Allt er líkneskið mun verr varðveitt en Lewis-mennirnir og Kollsvíkingurinn, enda úr forgengilegra efni.  Gripurinn er talinn vera frá 12. eða 13. öld.

Það merkilegasta við Siglunesinginn eru líkindi hans með berserkjunum frá Lewis, eins og Guðmundur G. Þórarinsson bendir á í sínu riti: „The enigma of the Lewis chessmen“.

siglfirdingurÞetta dylst engum sem ber þessar myndir saman:  Siglunesingurinn er til vinstri en Ljóðhúsaberserkur til hægri.  Hjálmlagið er hið sama; sverðið og skjöldurinn í stíl og borin á sama hátt; brynjan skorin á líkan hátt; öll hlutföll þau sömu.  Munurinn er helst sá að Siglunesingurinn er mun minni; hann bítur ekki í skjaldarröndina og mynstur á skildi er líklega annað.  Líkindin eru svo mikil að útilokað er að um tilviljun sé að ræða, eins og Guðmundur bendir á.

Sú spurning hlýtur því að vakna hvernig á þessum líkindum stendur.  Allar líkur benda til þess að hérlendis hafi útskurður taflmanna verið allmikill iðnaður.  Sá sem sker út riddara í tafl nú á dögum mun að öllum líkindum hafa hann í þeirri stöðluðu gerð sem nú tíðkast.  Líklegt er að sama lögmál hafi gilt fyrr á tíð.  Taflmenn voru söluvara á erlendri grund, ekki síður en vaðmál og grávara.  Kaupandinn þurfti að geta treyst því að taflið væri nothæft; að útlit taflmannanna sýndi án vafa hverjir þeir væru.   Margt mælti með því að Íslendingar nýttu rostungstennur til slíkra fínsmíða, öðrum þjóðum fremur.  Verður hér síðar vikið að ástæðum þess. Taflmaðurinn á Siglunesi hefur líklega ekki verið ætlaður til sölu á erlendan markað.  Ólíklegt er að menn nýttu klumbubein í slíkt.  Líklegra er að einhver handlaginn sjómaður hafi gert sér það til dundurs í landlegum að telgja hann til eigin nota.

 

Nokkrir aðrir fornir taflmenn

Víða um heim hafa fundist taflmenn frá fyrri tíð.  Í þeim má rekja þróun taflsins og útbreiðslu.  Skáklistina í einhverju formi má líklega rekja til Indlands, einhverntíma um eða fyrir árið 500; þó sumir álíti hana fremur upprunna í Kína.  Hún breiddist síðan til Persíu og hrifust Arabar af henni þegar þeir náðu þar yfirráðum.  Frá hinum múslimska heimi breiddist skákin út til sunnanverðrar Evrópu og síðan norðar.  Talið er að skákin hafi fyrst komið til vestanverðrar Evrópu á 9 öld, og um 1000 hafði hún náð þar verulegri útbreiðslu, ekki síst fyrir tilstilli Mára á Íberíuskaga.  Ætla má að landnámsmenn hérlendis hafi þekkt til skáklistar, og minnst er á hana í fornritum um 1100. 

Hnefatafl á ýmislegt skylt við hefðbundið tafl, en er frábrugðið í mörgum atriðum.  Það var vinsælt á víkingatímum og síðar, og breiddist nokkuð út með víkingum og landnámsmönnum.

Hér verða nefndir nokkrir þeirra gripa sem komið hafa úr jörðu, einkum þeir sem skornir eru í mannslíki, og hafa í því tilliti nokkurn skyldleika við Kollsvíkinginn sem um er rætt.

tafl drottning clonardÁrið 1817 fundust nokkrir taflmenn í mýri nærri Clonard í Meath-sýslu í Írlandi.  Aðeins einn er til í dag; drottningin.  Hún er úr rostungstönn; líkist um margt drottningum frá Lewis-eyju og er talin gerð um líkt leyti.  Líkt og þær styður hún hönd undir kinn; mædd á svip.  Dvelur nú á Þjóðarsafninu í Dyflini.

tafl riddari

 

Þessi riddari úr rostungstönn fannst 1846 við skurðgröft í Salisbury á Englandi.  Talinn vera frá því um 1200 og gerður í Skandinavíu eða Þýskalandi, en gæti rétt eins verið skorinn á Íslandi eins og fleira.  Mjög vönduð smíði, þó stíllinn sé allt annar en á Lewis-mönnunum; sbr t.d. fótgönguliðið kringum hestinn.  Margir fleiri gripir komu upp við þennan mikla skurðgröft, og urðu til þess að stofnað var Salisbury-safnið.

Við fornleifauppgröft hjá Öm-klaustri á Sjálandi fannst árið 1996 biskup úr tafli, skorinn úr rostungstönn.  Gripurinn er talinn hafa verið gerður um eða eftir 1200.

tafl riddar bronsÞessi riddari, steyptur úr bronsi, fannst með málmleitartæki á akri í Nottinghamskíri árið 2005.  Hann er talinn gerður á 12. eða 13. öld.  Nokkuð máður.  Engin vopn sjást, en hann heldur á aflöngum skildi.  Um 5 cm að lengd og 6 á hæð.  Hefur hugsanlega verið silfursleginn að hluta.  Sum einkenni þykja minna á Lewis riddarana.

tafl eddudrottning

 

 

Drottning kom upp í fornleifauppgreftri í Linköping í Svíþjóð.  Hún er gerð úr horni, líklega uppúr 1200.  Hæðin er 7 cm.  Situr í hásæti.  Leifar af rauðum lit fundust á skikkju hennar.  Kóróna er á höfði og hárið fléttað. Hún fékk nafnið „Eddudrottningin“ og er núna á Sögusafninu í Lundi.

tafl steinbruFjöldinn allur af taflmönnum frá fyrri tíð hefur komið úr jörðu hérlendis og í okkar grannlöndum.  Vandaðir taflmenn í heilli mannsmynd eru þó tiltölulega fáir, og enginn fundur af því tagi slær við Lewis-taflmönnunum; hvorki að fjölda né listfengi.  Langflestir jarðfundnir taflmenn eru ýmist úr hnefatöflum eða úr hefðbundnum töflum með lágmarks auðkenni.  Hérlendis hefur fundist nokkuð af slíku.  T.d. fannst peðið hér við hliðina í uppgreftri að Steinboga í Mývatnssveit árið 2002.

 

Taflmaðurinn frá Kollsvík og kollegi hans frá Siglunesi virðast vera þeir einu í fullri mannsmynd sem hérlendis hafa fundist, og Kollsvíkingurinn er líklega eini fulltrúi mikils iðnaðar og útflutningsgreinar af rostungstönnum, eins og hér verður drepið nánar á.

 

 Efniviðurinn

Íslandsrostungur eða Grænlandsrostungur

Taflmaðurinn í Kollsvík er skorinn í rostungstönn.  Rostungar hafa þó ekki lifað á þessum slóðum svo langt sem heimildir greina.  Hér verður leitað skýringa.

rostungurRostungur (Odobenus rosmarus) nefndist rosmhvalur í upphafi Íslandsbyggðar; sbr. heitið Rosmhvalanes.  Þetta er stórt hreifadýr með einkennandi langar skögultennur í efri skolti.  Þrjár undirtegundir lifa nú á dögum:  Ein, sem ber viðurnefnið rosmarus, lifir í Norður Atlantshafi, t.d. við Grænland, Svalbarða og á norðvesturströnd Rússlands.  Önnur hefur nafnbótina divergens og lifir norðan Kyrrahafs; í Alaska og Austur-Síberíu.  Þriðja ber viðurnefnið laptevi, og á heimkynni milli hinna tveggja á Síberíuströnd.  Atlantshafstegundin er örlítið smávaxnari, en þó eru þetta stórar skepnur:  Fullvaxinn brimill er um 3 m. að lengd og vegur allt að einu tonni.  Feldurinn er snögghærður en húðin mjög þykk og undir henni þykkt spiklag.  Skögultennurnar eru oft um hálfan metra að lengd en geta orðið meterslangar.  Þær notar rostungurinn til að róta á hafsbotninum eftir fæðu; til varnar; til að brjóta sér öndunarop á ís og til að vega sig upp á ísröndina.   

Fæða rostungs er einkum botndýr, þó hann slái ekki hreyfa á móti fiski þegar færi gefst.  Skeljar grefur hann úr botnlaginu, en étur einnig skrápdýr, krabbadýr og sjávargróður.  Rostungar geta náð 50 ára aldri.  Kæpurnar verða kynþroska 4-7 ára og kæpa í látrum á ísrönd eða ströndu, nærri fæðuframboðinu.

Menn hafa veitt og nytjað rostung lengi; líklega frá því þeir komust fyrst í færi við hann.  Af honum fékkst ket og spik; þykkar og miklar húðir, t.d. í svarðreipi, og stórar tennur sem nota mátti á margan hátt, líkt og fílabein.  Mjög var gengið nærri Atlantshafsstofninum á fyrrihluta 20.aldar með ofveiði, einkum í Kanada, þar sem honum var útrýmt á einstöku svæðum.   Um miðja öldina var Atlantshafsstofninn friðaður, en fjölgar hægt og er í heild um 22.500 dýr.  Eru einungis heimilar frumbyggjaveiðar undir ströngu eftirliti; fáein dýr á ári.

Rosmhvalaveiðar á landnámsöld

Rostungur var algengur á Íslandsströndum þegar fyrstu landkönnuðir komu og líklega nokkuð framyfir landnámsöld, en virðist þá hafa horfið algerlega.  Sífellt fjölgar gögnum sem styðja þessa tilgátu, og þó ekki sé miklar beinar sönnur að hafa úr rituðum fornbókum má þó lesa ýmislegt úr þeim í þessa veru. 

rostungaveidar

Myndin er frá rostungaveiðum í Síberíu í seinni tíð.  Líkar aðfarir kunna að hafa verið tíðkaðar hér á landnámsöld.

Mikið hefur fundist af rostungstönnum og rostungshauskúpum, einkum á vestanverðu landinu.  Fundarstaðir eru gjarnan þar sem strandlína hefur áður legið og rof verður vegna sjávarágangs eða framkvæmda.  Nýlega var settur á hóp rannsóknarhópur vísindamanna frá Háskóla Íslands, Náttúruminjasafni Íslands og Kaupmannahafnarháskóla.  Niðurstöður greiningar á erfðaefni rostungabeina hérlendis leiða líkum að því að hér við land hafi lifað sérstök undirtegund rostunga.  Þau sýni sem rannsökuð hafa verið eru frá því 6000 fyrir Krist til ársins 800-830.  Rannsóknir eru enn í gangi og eiga eflaust eftir að leiða fleira í ljós. 

Þessi staðreynd varpar algerlega nýju ljósi á orsakir og tilhögun landnáms á Íslandi, og skýrir fjöldamarga þætti.  Rostungstennur eru verðmæt verslunarvara, ekki síður en fílabein, og eftirsótt til ýmissa hluta; ekki síst til listmunagerðar.  Sömuleiðis hefur skinnið eða grávaran verið í háu verði. 

Þegar haffær súðbyrt skip höfðu verið þróuð í Skandinavíu á 8.öld sköpuðust ekki einungis forsendur fyrir ránsferðum víkinga, heldur einnig til könnunar og landaleitar.  Þá eins og nú leituðu menn nýrra tækifæra í búsetu, veiðum og verslun.   Nafngreindir landkönnuðir sem voru á ferð við Ísland; Naddoður; Garðar Svavarsson og Hrafna-Flóki Vilgerðarson, komu ekki aðeins að vel grónu landi með gnægð fiskjar við strendur; heldur hefur blasað við þeim fjöldi gæfra rostunga og sela á fjörum. 

Ekki getur leikið neinn vafi á því að helsti hvati til fyrstu Íslandsferða hefur verið veiðiskapur, en hvorki landnám né búskapur.  Veiðarnar hafa fyrst og fremst verið til öflunar á rostungstönnum og grávöru til sölu á mörkuðum í Evrópu.  Ekki er líklegt að fiskur hafi verið veiddur í miklu magni sem útflutningsvara.  Fiskveiðar og -hersla voru tímafrekar og fiskafurðir erfiðar í flutningi á opnum skipum, auk þess sem skreiðarmarkaðir þróuðust ekki fyrr en síðar.  Fljótlegra var að veiða rostung og hirða út honum hinar verðmætu tennur. 

Í þessu ljósi verða skiljanlegar þær veiðistöðvar sem hafa fundist á síðari tímum, þar sem búseta virðist hafa verið nokkru fyrir þann tíma sem almennt er miðað við sem landnám Íslands.  Hefur Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur rannsakað slíkar veiðistöðvar og sett fram mjög trúverðugar kenningar í þessa veru.  Þar hafa menn sennilega haft búsetu hluta úr ári og stundað veiðiskap, en farið áður en vetur gekk í garð og selt varning sinn í Evrópu.  Í þessum hópi var Hrafna-Flóki.  Þegar Landnáma segir að hann hafi sökkt sér svo niður í veiðiskap að heyskapur til vetrarins varð útundan, þá er þar sennilega fremur átt við rostungaveiðar en fiskveiðar.

Rostungalátur réðu búsetu

Fyrstu landnámsmenn sem settust að til varanlegrar búsetu hafa vafalaust einnig viljað nýta sér þá ábatasömu „aukabúgrein“ sem rostungaveiðar voru.  Reyndar má ætla að sumir þeirra sem Landnáma greinir frá hafi í raun fyrst og fremst stundað rostungaveiðar, en lítinn búskap.  Um þau efni hefur þegar nokkuð verið skrifað, og má t.d. benda á bók Bergsveins Birgissonar; „Svarti víkingurinn“, um rostungaveiðar Geirmundar Heljarskinns. 

Helstu skeljasandssvæðin hér við land eru fyrir vestanverðu landinu; allt frá Reykjanesi í suðri, norður um Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði alla og inn á Húnaflóa.  Rökrétt er að álykta að þarna hafi verið helstu rostungasvæði landsins, enda gnægð fæðu við hæfi.  Sömuleiðis má ætla að helstu rostungalátrin hafi verið þar sem mest er af skeljasandi, og þar með skelfiskmið fyrir landi. 

Þegar skoðuð er búseta landnámsmanna í þessum landshluta sést greinilega að fyrstu landnámsmennirnir setjast einmitt að nærri miklum skeljasandsströndum.  Lítum aðeins kringum okkur á Sunnanverðum Vestfjörðum; nærri heimkynnum Kollsvíkingsins:

Fyrstu landnámsmenn í Barðastrandasýslu eru fóstbræðurnir Ármóður rauði sem nam Rauðasand og Geirleifur Eiríksson sem nam Barðaströnd þar innaf og til Vatnsfjarðar.  Hefur það líklega verið á árabilinu 860-880.  Öruggt má telja að þeir hafi fyrst og fremst verið á höttunum eftir rostung, og ekki ólíklegt að þeir hafi fengið upplýsingar frá Hrafna-Flóka um veiðilendurnar.  Óvíða eru meiri skeljasandsfjörur en á Rauðasandi og lífsskilyrði eflaust mjög hagstæð fyrir rostung.  Þar eru í dag mikil selalátur í Bæjarós.   Ármóður nam ekki víðara land í Rauðasandshreppi, sem bendir til að hann hafi ekki viljað stunda landsölu, líkt og ýmsir eftirkomendur hans, heldur talið veiðilendurnar nægja sér og sínum.  Geirleifur hefur sömuleiðis haft nóg fyrir stafni, en á Barðaströnd eru ekki síðri skilyrði fyrir rostungalátur t.d. við Haukabergsvaðal og Hagavaðal.  Hann kann að hafa nýtt húsbyggingar Flóka. 

Næst hrekjast hér að ströndum trúboðar á tveimur skipum; Kollur og Örlygur, sem þó ætluðu til Kjalarness til að stunda trúboð á slóðum frændfólks Örlygs; í landnámi Ingólfs.  Örlygur kemst í var inn á Patreksfjörð  og lætur fyrirberast yfir vetur í Örlygshöfn áður en hann heldur suður á frænda slóðir, á Kjalarnesi.  Kollur hrekst til strands í Kollsvík, en kemst af ásamt mönnum sínum.  Hann ákveður síðan að setjast að þar sem forlögin höfðu ráðið honum stað og nemur Kollsvíkina eina, sem er langsamlega minnsta frumlandnám á Íslandi; einungis um 28 km².  Menn hafa velt fyrir sér ástæðum þeirrar nægjusemi, en hún verður ósköp skiljanleg þegar reynt er að átta sig á líklegum rostungalátrum.  Svonefndar Útvíkur eru á yst á skaganum milli Bjargtanga og Blakkness; Látravík (Hvallátur), Breiðavík og Kollsvík.  Í hverri þeirra eru miklar skeljasandsfjörur og skelfiskmið fyrir landi.  Í hverri vík hafa því verið rostunga- og selalátur.  Þegar þeim hlunnindum er bætt við aðra búsæld, s.s. góða fjárhaga, gróskumikið láglendi, reka á fjörum, mótekju, byggingarefni af öllu tagi og fiskauðugustu grunnmið svæðisins, er vel skiljanleg þessi nægjusemi Kolls.  Þar á ofan höfðu þeir fóstbræður þau fyrirmæli frá Patreki (Federac) biskup að byggja kirkju og sinna trúboði. 

Skipverjar Kolls voru öllu stórtækari í landnámum.  Þórólfur Spörr nam allan skagann milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar, að frátöldum landnámum Kolls í Kollsvík og Ármóðs á Rauðasandi.  Bræðurnir Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma námu norðurströnd Patreksfjarðar og Tálknafjörð til Kópaness.  Þórólfur spörr valdi sér Hvallátra sem bústað, þrátt fyrir að víða væri skjólsælla og betra sauðland í hans landnámi.  Staðarvalið er augljóst þegar horft er til mikilvægis rostungaveiða á þeim tíma.  Þar, ekki síður en í Kollsvík, hefur verið mikið rostungalátur.  Af því dregur staðurinn nafn, því rostungur nefndist á þeim tíma rosmhvalur.  Eflaust hafa einnig verið veiðilendur í Breiðuvík, en e.t.v. hafa Kollur og Þórólfur skipt með sér þeirri veiðistöð þar til þar var stofnsett jörð, þó ekki fari sögum af því.  Ætla má að Þorbirnirnir hafi sest að nærri rostunga- og selalátrum í sínu landámi, t.d. Sellátrum í Tálknafirði eða Selárdal í Arnarfirði, en líklega bera báðir staðir nöfn frá þeim tíma. 

Mikil skelfisksvæði eru einnig í Patreksfirði sunnanverðum; einkum í Örlygshöfn og Skersbug, innan Sauðlauksdals.  Innan Skersbugs er Hvalsker, sem ætla má að dragi nafn af rosmhval, þó einnig komi þar til greina hvalbakslöguð hlein sem nafngjafi.  Heita má öruggt að þarna hafi verið mikið um rostung, enda kjörlendi fyrir hann.  Hvergi er meira um kúfskel í þessum landshluta en í Skersbug.  Þangað fóru menn úr verum í Útvíkum til að afla beitu á lóðir sínar.

Vöðubátur frá landnámsöld?

vatnsdalsbatur

Eftirlíking Vatnsdalsbátsins, smíðuð af Hjalta Hafþóssyni og nú varðveitt á Siglufirði.

 Árið 1964 var gerður merkur fornleifafundur í Vatnsdal í Patreksfirði, sem er miðja vegu milli Örlygshafnar og Skersbugs.  Þar fannst bátskuml frá landnámsöld, sem í höfðu verið heygðar 7 manneskjur ásamt munum sem bentu bæði til heiðni og kristni.  Báturinn var 6 metra langur og 95 cm breiður; líklega borðlágur og með vaðbeygjum úr hvalbeini.  Báturinn var tæpast hæfur til mikilla siglinga utan fjarðar, en væri hinsvegar einkar heppilegur vöðubátur, til veiða á sel eða rostung.  Vöðubátum er svo lýst af Guðbjarti Guðbjartssyni (1879-1970), bónda á Láganúpi og formanni í Kollsvíkurveri:


„Með fyrstu aðkomubátum í Kollsvíkurver var vöðubátur, en svo voru þeir bátar kallaðir sem notaðir voru til vöðuselsveiða.  Selurinn gekk oft í stórum torfum inn á firðina.  Var hann mikið veiddur, og veiðarfærið var skutull.  Vöðubátar voru frekar litlir; minni en fjögramannaför, en það var hin venjulega stærð róðrarbáta.  Þessir bátar voru öðruvísi lagaðir en róðrarbátar; byggðir með það fyrir augum að vera sem hraðskreiðastir“.

vadbeygjurÞví má velta fyrir sér hvort báturinn í Vatnsdal hafi verið nýttur á landnámstíð til veiða á rostungi og sel í Patreksfirði; e.t.v. á vegum fyrstu landnámsmannanna eða afkomenda þeirra.  Það gæti skýrt t.d. hinar slitnu vaðbeygjur (sjá mynd); hníf og brýni.  Hugsanlega hefur ein slík veiðiferð endað með drukknun bátsverja sem þarna voru heygðir. 

 

Þrjár leiðir efnisöflunar

rostungstennurEins og áður sagði hafa rostungstennur og -hauskúpur iðulega komið úr jörðu á umræddum slóðum; á Barðaströnd, Rauðasandi og Útvíkum.   Á  myndinni sést hauskúpa með tönnum sem varðveitt er á minjasafninu á Hnjóti í Örlygshöfn.

Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar voru allmikil samskipti milli Íslendinga og Grænlendinga, sem þá voru af norrænum/íslenskum uppruna.  Þau viðskipti voru blómleg allt fram á 15.öld, þegar sá kynstofn hverfur í Grænlandi.  Frá Grænlandi fluttist hingað varningur veiðimanna, s.s. náhvals- og rostungstennur, svarðreipi, skinn og lifandi dýr s.s. birnir og fálkar.  Þessar vörur rötuðu síðan áfram á Evrópumarkað, en vafalítið hafa Íslendingar aukið verðmætið eftir föngum, t.d. með því að skera út í tennurnar. 

Efniviðurinn í taflmanninn í Kollsvík getur því hafa átt einn þriggja fyrrnefndra uppruna:

  1. a) Hugsanlegt er að tönn hafi varðveist úr íslandsrostungi frá landnámsöld; e.t.v. frá Kolli sjálfum eða hans fólki. 
  2. b) Hugsanlega hefur tönnin komið úr jörð í Kollsvík eða nágrenni, líkt og gerist enn í dag, en þá væri hún líklega einnig úr íslandsrostungi.
  3. c) Þriðja, og e.t.v. líklegasta skýringin, er að tönnin hafi komið frá Grænlandsversluninni. Sem leiðir okkur að spurningunni um það hvenær gripurinn var gerður og hver var fyrirmynd hans.

 

Hver var fyrirmyndin ?

Aldur taflmannsins í Kollsvík

Þeir taflmennirnir úr rostungstönn sem nefndir voru hér að framan eru flestir taldir vera gerðir á svipuðum tíma, eða kringum 1200.  Líklega eru Lewis-mennirnir þeirra elstir, en þeir eru að öllum líkindum gerðir á Íslandi, og benda til þess að hér hafi verið all þróaður listiðnaður af þessu tagi.  Í því ljósi væri freistandi að telja Kollsvíkinginn vera frá svipuðum tíma.  Engin aldursgreining hefur verið gerð á

 Kollsvíkingnum með kolefnisaðferð, enda erfitt að ná sýni úr svo litlum grip án þess að skemma hann.  Því verður að ráða í aldurinn eftir útliti. 

„Fötin skapa manninn“ segir spakmælið, og svo vill til að þessi fígúra er í mjög sérkennilegum fatnaði sem einungis tíðkaðist á tiltölulega þröngu tímabili.

Lítum aðeins nánar á taflmannin í Kollsvík:

taflmadur

taflmadur hlid

taflmaður aftan

Hann er í áberandi víðum stuttbuxum og uppháum sokkum.  Einhnepptum aðskornum jakka með áberandi háum uppslögum og gæti verið með pípukraga um hálsinn þar undir.  Á höfði hefur hann aðfellt höfuðfat með þykkum börðum; á fótum líkast til skinnskó.  Hann hefur hjartalaga skjöld sér við vinstri hlið, en framréttur hægri armur er brotinn.  Þar gæti hann hafa haldið á einhverju, t.d. spjóti eða sverði.  Hann er skeggjaður, með sérkennilegt keilulag á neðanverðu skeggi; hárið stýft um eyru.  Andlitsdrættir að öðru leyti ógreinilegir. 

 

 

Klæðnaður af þessu tagi varð almennur meðal fyrirfólks á síðari hluta 16.aldar í Evrópu:

frobisher

hattonfrakkakongur

Hér má sjá málverk af þremur fyrirmönnum í Evrópu:  Lengst til vinstri er Martin Frobisher, málað 1577, þá er málverk af Cristopher Hatton frá 1590 og lengst t.h. er Karl IX Frakkakóngur, málaður 1563.

Líkindin í klæðaburði leyna sér ekki.  Engu er líkara en Kollsvíkingurinn hafi komist í fatahirslur þessara nafntoguðu Evrópubúa frá 16. öld.  Helsti munurinn er höfuðbúnaðurinn.  En um það atriði getum við litið til Lewis-taflmanna:  

 

 

hattur lewishattur kollsvikingurHér sést vinstra megin hattur hróks frá Lewis-eyju en hattur Kollsvíkingsins hægra megin,.  Líkindin leyna sér ekki.  Var þetta hefð í skurði taflmanna?

Ætla má að 400 árum muni milli útskurðar þessara tveggja merkismanna; annar skorinn fyrir 1200 en hinn fyrir eða um 1600.  Hélst hattatískan óbreytt svona lengi, eða voru þetta einkenni í útskurði taflmanna?   Á 16.öld tíðkuðust hattar og húfur af þessu tagi:

hattur bettleshattur prjonahufa

Vinstra megin er málverk eftir John Bettles eldri frá 1545; „Maður með svartan hatt“ en hattkúfur hans minnir á þann sem Kollsvíkingurinn ber.  Hægra megin er prjónahúfa frá svipuðum tíma.  Hattar af þessu tagi hafa verið við lýði frá 12.öld eða fyrr fram á þennan dag.  Í dag er líkt lag á því sem nefnist „harðkúluhattar“, „Bowler-hattar“ eða „Derby-hattar“.

 

harklipping

Hárskurður Kollsvíkingsins er það sem nú er stundum nefnd „skálarklipping“, þ.e. stallur sem nær kringum höfuðið.  Sú klipping var í móð í Evrópu á 16.öld, eins og t.d. má sá af þessari sjálfsmynd þýska málarans Hans Holbein yngri (1497-1543). 

 

 

Hver var sá glæsti heimsmaður?

Af framansögðu má ljóst vera að taflmaðurinn í Kollsvík hefur að öllum líkindum verið gerður kringum aldamótin 1600; og þó líklega fyrir þau en eftir.  Ljóslega er hér um efnamann að ræða.  Dæmigerður íslenskur alþýðumaður myndi varla leggja svo mikið í klæðaburð eða sýna þá fordild á tímum strangtrúar að eltast við tískusveiflur erlendra fyrirmanna.  Vaðmálsflíkur í sauðalitum hafa þá líklega verið alþýðuklæðnaður, en einnig lærðu Íslendingar að prjóna um þetta leyti; fyrstir Norðurlandabúa. 

Kollsvík er góð bújörð og hefur líklega oft verið setin af betri bændum.  Þar hafa búið gildir sjálfseignarbændur sem höfðu góðar tekjur af útgerð.  Má þar nefna sem dæmi Einar Jónsson (1759-1836), ættföður Kollsvíkurættar; einn frumkvöðla í skútuútgerð á landinu; hreppstjóra og sækjanda í Sjöundármálinu og hinn síðasta til að stunda rauðablástur á landinu.  En jafnvel hinir gildu Kollsvíkurbændur hefðu varla látið eftir sér þá sundurgerð í klæðaburði sem taflmaðurinn vitnar um.  Þar á bæ hefur fiskur og sauður gjarnan verið talið mikilvægara en evrópskir tískustraumar.

Grunurinn beinist einkum að einum tilteknum manni í þessum efnum.  Þeim höfðingja íslenskum sem orðlagður var í lifanda lífi fyrir skartklæðnað og glæsimennsku; þeim sem einum hefur verið gefið viðurnefni fyrir glæsimennsku eftir lok söguldar.  Fullyrða má að hér sé stiginn úr moldu Magnús prúði Jónsson.  Að hér sé fram komið eina líkneskið af þeim glæsta höfðingja, og um leið líklega elsta líkneskja íslensk sem með nokkurri vissu sýnir nafngreindan einstakling.  Líkindin eru þó ekki einungis í klæðaburði.  Skeggklipping og andlitslag fellur vel að þeim myndum sem til eru af Magnúsi prúða. 

Hér verður því varið nokkru rými í umfjöllun um Magnús prúða; sem stökk svo óvænt fram á sjónarsviðið í formi líkneskis; 300 árum eftir dauða sinn.  Fróðleikur um Magnús er allmjög sóttur í skrif fræðimannsins Kjartans Ólafssonar um byggðir í Rauðasandshreppi, en einnig í fleiri heimildir.

Magnús prúði Jónsson

Af góðu fólki kominn.  Magnús fæddist árið 1532 (eða 1533) og lést 1591.  Hann var sonur Jóns ríka Magnússonar lögréttumanns á Svalbarði við Eyjafjörð, og konu hans Ragnheiðar Pétursdóttur, sem nefnd hefur verið „Ragnheiður á rauðum sokkum“.  Hann fékk því bæði ættgöfgi og ríkidæmi í vöggugjöf, þar sem faðir hans var talinn auðugasti maður norðan lands á sinni tíð og móðir hans var af göfgum magnus prudiættum, m.a. sonardóttir Lofts íslendings Ormssonar riddara.  Jón og Ragnheiður eignuðust fjóra syni, sem allir urðu miklir lögspekingar og kunnir á sinni tíð; Jón lögmaður á Þingeyrum; Sigurður sýslumaður á Reynistað og Staðarhóls-Páll, sem talinn var lögfróðastur hérlendis á sinni tíð.  Páll giftist um tíma Helgu, dóttur Jóns Arasonar; síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi.  Ragnheiður og Jón áttu einnig þrjár dætur; þeirra á meðal Steinunni, sem var þriðja kona Eggerts lögmanns Hannessonar í Saurbæ.  Jón átti auk þess soninn Kolbein framhjá Ragnheiði.  Magnús prúði var snemma hagmæltur.  Um sig og bræður sína orti hann:

Sigurður, Jón og Kolbeinn klakkur
kenni ég gjörla hann Manga.
Og þó hann Páll sé augnaskakkur
allir fá þeir að ganga.

Heimsmaðurinn Magnús.  Ungur fór Magnús til náms í Þýskalandi.  Má ætla að á þeim tíma hafi hann tileinkað sér háttu og lífstíl evrópskra fyrirmanna sem urðu hans fylgifiskar síðan.  Hann mun hafa talað þýsku reiprennandi, og hefur líklega einnig fengið góða tilsögn í frönsku, grísku, latínu og öðrum málum.

Auðugustu ættir landsins mægjast.  Heimkominn gerðist Magnús sýslumaður í Þingeyjasýslu og bjó á Rauðuskriðu.  Árið 1564 fluttist hann í Ísafjarðarsýslu og settist að í Ögri.  Þá jörð átti Eggert Hannesson lögmaður í Saurbæ á Rauðasandi og mágur Magnúsar; líkt og fjölda annarra jarða á Vestfjörðum og víðar.  Árið 1565 kvæntist Magnús Ragnheiði, dóttur Eggerts í Saurbæ.  Hann var þá 33 ára ekkill eftir fyrri konu sína, en Ragnheiður var 16 ára.  Þar mægðust einar valdamestu og auðugustu ættir landsins. 

Eggert Hannesson, mágur og tengdafaðir Magnúsar, hafði fest kaup á Saurbæ árið 1554.  Hann var sonur Hannesar Eggertssonar hirðstjóra; Eggertssonar lögmanns og aðalsmanns úr Víkinni í Noregi.  Eggert í Saurbæ lifði tímana tvenna.  Hann var fyrst í þjónustu Ögmundar Pálssonar biskups en söðlaði um við siðaskiptin og fylgdi Gissuri Einarssyni biskupi, sem síðar giftist systur Eggerts.  Hann varð lögmaður frá 1553 og hirðstjóri um skeið; mikill fjáraflamaður og sennilega auðugasti Íslendingurinn á sinni tíð. 

Ránið í Saurbæ.  Mikil ógæfa steðjaði að Eggert og Saurbæjarheimilinu árið 1579, þegar þar þustu sjóræningjar í garð; brutu og rændu og numu Eggert á brott með sér í böndum.  Ræningjarnir höfðu lagt skipi sínu á Hænuvík í Patreksfirði og komið fjallveg að Saurbæ.  Foringi þeirra var Jón Fálki; fálkaveiðari sem sinnast hafði við Eggert og bent enskum sjóræningja á þann auð sem í Saurbæ væri að hafa.  Þeir fluttu Eggert nakinn og bundinn yfir fjallið og sigldu með hann norður með Vestfjörðum.  Ragnheiði dóttur hans og Magnúsi í Ögri tókst að skrapa saman allmiklu lausnargjaldi, og svo fór að Eggert var sleppt en ræningjarnir sigldu brott með annan ránsfeng.   Eggert fór með málið fyrir kóng og á endanum voru ræningjarnir hengdir.  Hann undi þó lítt í Saurbæ eftir þetta og flutti alfarinn til Hamborgar árið 1580.

Valdamikill og vinsæll höfðingi

 Magnús prúði settist að í Saurbæ eftir brotthvarf tengdaföður síns árið 1580, ásamt Ragnheiði konu sinni, og tók við sýsluvöldum í Barðastrandasýslu.  Saurbær hefur löngum verið mesta höfuðból sunnanverðra Vestfjarða, en líklega hefur þar aldrei setið ættstærra eða auðugra fólk en á þessum tíma.  Má fullyrða að Magnús prúði hefur verið valdamesti maður Vestfjarða um þetta leyti; ef ekki landsins alls. 

Allar heimildir benda til þess að Magnús hafi notið vinsælda bæði af háum stéttum og lágum, og þótt einstaklega réttsýnn og skörulegur stjórnandi.  Hann sýndi hvergi af sér yfirgang, en gat þó verið harðdrægur í viðskiptum og lítt fyrir að láta hlut sinn.  Embættið þótti hann rækja vel og var góður lagamaður.

Þess munu fá dæmi á Íslandi að svo valdamikill maður hafi reynst jafn farsæll og óáleitinn sem Magnús var.  Varð hann vinsæll af þessum mannkostum sínum og örlæti; eða eins og séra Ólafur Halldórsson á Stað í Steingrímsfirði orti:

Virti hann meira vini en auð;
vænstu hélt því dæmi.
Frá honum fór engin höndin snauð,
til hans þó fátæk kæmi.

Prúðastur Íslendinga.  Viðurnefni Magnúsar prúða hefur líklega öðru fremur skapað honum sérstöðu í daglegu máli fram á þennan dag.  Höfðingjar reyndu gjarnan að búast virðulega í samræmi við efnahaginn, en til enginn virðist hafa skarað fram úr Magnúsi að glæsileik, bæði í fatavali og framgöngu.  Björn annálsritari á Skarðsá var á unglingsaldri er Magnús lést.  Hann lýsir því þannig er Magnús reið til Alþingis ásamt sveit sinni:

„Einn hans höfðingsskapur var sá, er menn sáu altíð er hann reið á Alþing, að hans selskapur var auðkenndur frá annarra höfðingja fylgd í því, að þeir höfðu allir nær lagvopn, og setti hver einn upp sitt vopn er heim á Þingvöll riðu fyrst; og voru það fjörutíu menn vel svo, er slík lagvopn höfðu.  Þetta var svo hvert sumar meðan bóndi Magnús sat uppi, því hver maður kepptist að vera í hans för er til þings erindi höfðu“. 

Skjaldarmerki Magnúsar prúða.  Ljóst er að Magnús vissi vel til sinnar ættgöfgi og hefur litið á sig sem aðalsmann.  Hann var jú fimmti ættliður frá Lofti ríka Guttormssyni hirðstjóra og aðalsmanni, þó ekki væri í beinan karllegg.  Margt bendir til að Magnús hafi tekið upp skjaldarmerki Lofts ríka forföður síns; hvítan fálka í bláum feldi.  Um þetta vitnar önnur vísa eftir séra Ólaf Halldórsson:

Færði hann í feldi blá
fálkann hvíta skildi á.
Hver mann af því hugsa má;
hans muni ekki ættin smá.

Má því ætla að þetta skjaldarmerki hafi prýtt skjöld þann sem taflmaðurinn í Kollsvík hefur sér við vinstri hönd. 

skjaldarmerkitaflmaður aftanÁ myndinni hér vinstra megin er tilgáta Sigurðar Guðmundssonar málara um útlit þess.  Við getum svo ímyndað okkur hvernig það hefur sómt sér á skildi taflmannsins í Kollsvík. 

Í hægri hönd hefur líkneskið líklega haldið lagvopni, líkt og þeir liðsmenn Magnúsar sem lýst er hér að framan af samtímaheimild.

Vopnadómurinn í Tungu.  Eftir ránið á tengdaföður sínum varð Magnúsi ljóst það varnarleysi sem landsmenn bjuggu við, þegar styrjaldir geisuðu í grannríkjum og sjóræningjar sigldu með Íslandsströndum.  Fáum árum fyrir ránið í Saurbæ hafði vopnaburður verið dæmdur af með öllu hér á landi.  Kóngur brást að vísu lítillega við eftir ránið og sendi sex byssur og átta spjót sem dreifa skyldi í sýslur landsins, en heldur hefur Magnúsi þótt það lítilfjörlegar landvarnir.

Magnús prúði lét því axarboð ganga rétta boðleið um sveitir, haustið 1581, og boðaði þegna sína til þings á þingstað Rauðasandshrepps; Tungu í Örlygshöfn.  Þar kvað hann, ásamt þrettán nafngreindum bændum, upp dóm sem síðan hefur verið nefndur „Vopnadómurinn í Tungu“.  Hann er all sérstæður fyrir þær sakir að með honum er líklega gerð fyrsta og eina tilraun Íslendinga til að skipuleggja landvarnir hér á eigin forsendum og með innlendu herliði.  Þar sem hernaðarlegt og efnahagslegt sjálfræði hefur löngum verið talið undirstaða sjálfstæðis þjóða, má færa fyrir því rök að Íslendingar hafi aldrei komist nær því að verða sjálfstæðir frá þjóðveldisöld til lýðveldisstofnunar, þó ekki fengi dómurinn lagagildi.

Vopnadómurinn í Tungu snýr að því fyrst og fremst að koma á virku eftirliti og boðkerfi gagnvart árásum óvina og ribbalda af hafi; ásamt því að gera landsmenn í stakk búna til að verjast slíkum ófögnuði.  Allir bændur voru skyldaðir til að eiga vopn og verjur „eftir fjárupphæð“ eins og það er orðað.  Hlaða skyldi bálkesti á hæstu hæðum og endurnýja þá fyrir krossmessu (3. maí) hvert ár.  Um vörslu þeirra skyldu sjá þeir „sem hreppstjórum þykja trúlyndastir og léttvígastir vera, og sýslumann sem fyrst við varan gera“.  Skipuleggja skyldi virki, þar sem unnt væri að verja íbúa og búsmala.  Lúðrar skyldu vera til, og þeyta þegar hætta steðjaði að; einnig amboð, svo stinga mætti torf og hlaða skansa.  Sérhver skattbóndi skyldi eiga eina luntabyssu (lunti var glóðarhólf) og þrjár merkur púðurs; „arngeir og annað lagvopn gilt og gott“. 

Varnarvirki Magnúsar prúða á Blakknesi.  Lítlum sögum fer af því hve landsmenn almennt sinntu þessu „herútboði“ Magnúsar prúða.  Ætla má að í fjarlægum landshlutum hafi menn jafnvel glott í kampinn og látið sér fátt um finnast, enda var dómurinn aldrei samþykktur á Alþingi og hafði því ekki lagaígildi.  Hinsvegar eru allar líkur á að á helsta valdasvæði Magnúsar, um Vestfirði og Breiðafjörð, hafi dómnum allnokkuð verið framfylgt; einkanlega á hans heimaslóðum í Rauðasandshreppi. 

Ekki er vitað til að sérstakar rannsóknir hafi verið gerðar á minjum sem tengjast þessum merka dómi.  Hinsvegar átti greinarhöfundur leið fram á Blakknesnibbu sumarið 2017, og var einkum að skima eftir leifum af Kollsleiði.  Munnmæli segja að Kollur landnámsmaður hafi verið heygður uppi á Blakknesnibbu, þar sem hann hefði yfirsýn yfir landnám sitt og einkanlega fjársóð sinn sem hann kvað hafa falið undir Biskupsþúfu neðan gamla bæjarhólsins í Kollsvík.  Sagt var að leiðið hafi verið sýnilegt fram yfir 1900.  Ekki fann greinarhöfundur neitt sem líklega væri leiðið; með sjónlínu í Biskupsþúfu.  Hinsvegar er þarna á Nibbunni greinanlegt fornt mannvirki sem í fljótu bragði olli heilabrotum. 

varnarvirki blakkÞetta er stutt grjóthlaðið garðbrot; staðsett stutt frá brún á hæsta stað Blakksins, þar sem vel sér norður um Patreksfjörð, Tálknafjörð, Kóp og núpa þar norður af, en einnig suður allar víkur og núpa til Bjargtanga (þó útsýni á myndinni takmarkist af þoku).  Kunnugir sjá að þarna er ekki sjónlína á Biskupsþúfu.  Vandséð er hvaða tilgangi svona mannvirki gæti þjónað á þessum stað; öðrum en þeim að veita skjól, því þarna getur orðið aftaka hvasst.  Heimar á Blakkbrúninni má sjá yngri hleðslur nærri brún, sem voru skjól fyrir eggjamenn sem sigu eftir fýlseggjum í eggpláss þar undir.  Hinsvegar er eggjatekja strjálli og erfiðari þarna undir Nibbunni; auk þess sem fýllinn var mun sjaldgæfari fyrir daga vélbáta. 

Líkur benda til að hér sjáist leifar þess varnarbúnaðar sem Magnús prúði fyrirskipaði með vopnadómi sínum árið 1581.  Öruggt má telja að Blakknesnibba hafi verið einn þeirra víðsýnu staða sem bálköst skyldi byggja fyrir krossmessu árlega (3.maí).  Þar er víðsýnt til allra átta, og í nágrenninu var Kollsvík, þar sem löngum bjó hreppstjóri Rauðasandshrepps og aðrir „trúlyndir“ fulltrúar sýslumanns.  Rekaviður hefur þá líklega verið dreginn af Kollsvíkurfjörum fram á Nibbuna, og skjólveggurinn hefur átt að varna því að hann fyki fyrir brún í aftakaveðrum.  Hinsvegar verður lítt um það fullyrt nú hvort, og þá í hvaða mæli, varðstaða hefur verið á Nibbunni og njósnir um ferðir sjóræningja.  Hætt er við að bændur hafi treglega fórnað vinnutíma háseta eða annars vinnufólk í slíkt hangs til lengdar.

Skáldið og heimspekingurinn Magnús prúði

Magnús prúði var betur menntaður en flestir ef ekki allir samtíðarmenn hans á landinu.  Eða eins og Jón Þorkelsson segir í bók sinni um Magnús:

„Var Magnús talinn með mesti lagamönnum á þeirri tíð; mælskumaður mikill; fróður í besta lagi á íslenska vísu og manna best að sér um allan fróðleik er þá tíðkaðist meðal lærða og viturra manna.  Einkum í heimspeki og mælskufræði, og eru deili til þess að hann hafi átt gott bókasafn; bæði útlent og innlent“.

Magnús þýddi erlendar bækur á íslensku; Rhetorica, sem er mælskufræði, og Dialectica, sem er rökfræði.  Þær ritgerðir eru til í dag; elstu rit á íslensku sem runnin eru af rótum grískrar heimspeki. 

Frægasta skáldverk Magnúsar prúða eru eflaust Pontusrímur hans.  Það er flokkur 13 rímna, en aðrir juku við þær síðar, t.d. fyrrnefndur séra Ólafur Halldórsson frá Stað.  Rímurnar eru undir nokkrum bragarháttum; Ferskeyttar; samhentar; gagaraljóð; braghentar; skáhentar og svonefnt úrkast.  Hér er gripið niður í þriðju rímu, þar sem skáldið lýsir áhyggjum af landi sínu og þjóð og gefur heilræði sem þjóðarleiðtoga sæmir:

„Allra gagn það undir gár,
ósamþykkið veldur því;
enginn hirðir hvernig stár
hagur þessu landi í.

Undir kóng og kirkju er
komið vort góss en stirðna hót.
Út af landi flýgur og fer,
fátæktin þar tekst í mót.

Hef ég nú tólf og tuttugu ár,
trúi ég geri á sönnu skil.
Ég efast hvort að Ísland stár
ef önnur gá sem þessi til.

Því skal hugsa hver mann til,
hann af guði skapaður er;
föður síns landi víst í vil
Að vinna til gagns það þörf til sér.

Ekki stunda á eigið gagn,
annars nauðsyn líta á,
sem hann hefur til mátt og magn
mætti landið uppreisn fá.


Eftir andlát Magnúsar árið 1591 bjó Ragnheiður Eggertsdóttir sem ekkja í Saurbæ í rösklega hálfa öld.  Hún var ríkasta kona landsins og eflaust hafa margir vonbiðlar rennt hýru auga til Saurbæjar, en engum giftist hún aftur.  Ellefu börn þeirra Magnúsar komust á legg.  Er talið að út af þeim sé verulegt hlutfall þjóðarinnar komið, og allflestir Vestfirðingar.

magnus prudi malverk

 

Þetta málverk er af Magnúsi og Ragnheiði, ásamt börnum þeirra.  Myndin var lengi á altarisbrík yfir kórdyrum í Hagakirkju á Barðaströnd, þar sem Jón sonur þeirra bjó; hinn eldri með því nafni.  Myndin er nú varðveitt í Þjóðminjasafninu.  Synir þeirra urðu landsþekktir, enda margir valdamenn.  Björn sonur þeirra hlaut Saurbæ í arf frá Eggert afa sínum og varð þar sýslumaður.  Hans synir urðu m.a. séra Páll galdramannahrellir í Selárdal og Eggert sýslumaður Barðastrandasýslu.  Ari settist að í Ögri sem sýslumaður og er einna kunnastur í tengslum við Baskavígin 1615-16.  Þau mál snertu reyndar Ragnheiði móður hans einnig.  Baskar þeir sem undan komust höfðu vetursetu í kaupmannshúsunum á Vatneyri, en fóru í ránsferðir er líða tók að vori.  Komu þeir m.a. að Sauðlauksdal, þar sem Ragnheiður bjó þá, og keypti hún þá af sér með matgjöfum.

 

 

 

 

Aftur að taflmanninum í Kollsvík. 

Hér hefur í nokkru máli verið lýst Magnúsi prúða Jónssyni.  Allar líkur benda til þess að litla mannslíkneskið sem birtist í Stórakálgarði haustið 1895 sé eftirlíking þessa mikla höfðingja og tignarmanns.  Til þess bendir hinn íburðarmikli klæðnaður, sem var í tísku á tímum þessa auðuga heimsmanns er hann ríkti í Barðastrandasýslu.

magnus pruditaflmadur

Til er teikning af Magnúsi prúða; að öllum líkindum byggð á málverkinu sem hér var sagt frá.  Myndin prýðir bókina „Saga Magnúsar prúða“ eftir Jón Þorkelsson, sem út kom árið 1895.  Þegar hún er borin saman við líkneskið má glöggt sjá að andlitslagið er það sama, þrátt fyrir óljósa andlitsdrætti á líkneskinu.  Jafnvel uppslögin á hempunni á myndinni og jakkanum á líkneskinu eru svipuð; svo og er pípukraginn á sínum stað. 

Telur greinarhöfundur óyggjandi að hér sé komin eftirlíking Magnúsar prúða.  Hinsvegar er erfitt að fullyrða hvenær líkneskið var gert.  Hvort það var meðan Magnús var enn á lífi eða síðar. 

 

Hver skar; hvenær og hvers vegna?

Greinarhöfundur telur líklegast að líkneskið hafi verið gert meðan Magnús var enn á lífi, og að það hafi verið gert að hans beiðni.   Rökin fyrir því liggja einkum í þeim metnaði Magnúsar að sýna sig jafnan á hinn glæsilegasta hátt og láta taka eftir sér sem tignarhöfðingja.  Slíkur höfðingi þarf einnig að geta sýnt gestum sínum manntafl listilega skorið í rostungstönn; auðvitað með sjálfan sig sem konung, berandi sitt skjaldarmerki.  Má ímynda sér að drottning taflsins hafi átt að vera eftirmynd Ragnheiðar og synir þeirra meðal annarra taflmanna.  Í ljósi þeirra Pontusrímna sem til var vitnað væri ekki fráleitt að ætla að sjálfur Danakóngur og drottning hans hafi átt að vera fyrirmyndir taflmanna af hinum litnum, með hirðina sér við hlið.  Allt kæmi þetta ágætlega heim og saman við þá ímynd Magnúsar prúða sem lýst hefur verið.  Fleiri stórmenni kunna því að liggja í Bæjarhólnum í Kollsvík.

Tvennt er líklegast að Magnús hafi ætlast fyrir með taflið:  Annaðhvort að eiga það sjálfur til að sýna gestum sínum eða gefa það sér tignari manni, en sá hefur líklega verið Danakóngur.

Ekki er nokkur leið að renna grun í hver skar þennan grip út.  Að mestum líkindum er það einhver heimilismaður í Kollsvík, þó vissulega komi annað til greina.  Afburða oddhagar manneskjur hafa af og til skotið upp kollinum í okkar þjóðfélagi; ekki fremur úr einni stétt en annarri eða af öðru kyninu fremur en hinu.  Nægir þar að minna á Margréti hina högu, sem getið var hér að framan.  Þarna hefur listræn og útsjónarsöm manneskja farið höndum um Magnús prúða; með góð verkfæri og góðan efnivið; hvaðan svo sem sú rostungstönn var komin. 

Eins og á var minnst hafa sjálfseignarbændur oft setið Kollsvíkurjörðina, og þar hafa búið margir hreppstjórar sem þá hafa notið góðs trúnaðar sýslumanns á hverjum tíma.  Ætla má að sá Kollsvíkurbóndi sem tók að sér að gera, eða gerði sjálfur, taflmennina fyrir Magnús prúða hafi einnig verið sá sem brást vel við vopnadómi hans og hlóð skjól á Blakknesnibbu fyrir bálköst til landvarna.  Hvorttveggja kann að hafa gerst um líkt leyti.

Gunnar Jónsson bóndi í Kollsvík.  Trausti Ólafsson efnafræðiprófessor (1891-1961) fæddist í Breiðuvík og var af Kollsvíkurætt.  Hann samdi bókina „Kollsvíkurætt“ og viðaði saman miklum fróðleik um íbúatal Rauðasandshrepps frá upphafi.  Af blöðum hans má sjá að árið 1658 drukknaði Jón Oddsson frá Kollsvík en Gunnar sonur hans komst af.  Móðir Gunnars var Þorgerður Gunnarsdóttir, en Borgar afi hans, bóndi í Breiðuvík, drukknaði er farmskip Eggerts Hannessonar fórst í Arnarfirði.  Gunnar Jónsson er líklega bóndi í Kollsvík á sýslumannsárum Magnúsar prúða í Saurbæ.  Má því e.t.v. ætla að hann hafi verið sá sem gerði eða lét gera taflmanninn og stóð fyrir hleðslunum á Blakknesnibbu, þó það sé engan vegin öruggt.  Hafa þarf í huga að oft var tvíbýli í Kollsvík, eins og var þegar taflmaðurinn fannst árið 1895.

Ætla má að taflmaðurinn hafi verið skorinn einhverntíma á tímabilinu frá því að Magnús settist að völdum í Saurbæ árið 1580, fram að andláti hans árið 1591. 

Á sama hátt má ætla að andlát Magnúsar hafi valdið því að gripurinn fór aldrei frá Kollsvík.  Með fráfalli hans var enginn eftir til að segja til um smíði þeirra manna sem ólokið var, auk þess sem með honum hvarf sú metnaðargirnd sem að baki verkinu bjó.  Ekkjan og synirnir höfðu ærið annað að starfa við að reka hið mikla eignasafn og hlú að framtíð afkomenda.  Taflmaðurinn kann að hafa prýtt veggjasyllur í Kollsvík um tíma áður en einhver þau atvik urðu að hann hvarf í jörðu.  Hvort fleiri taflmenn af sama tagi leynast meðal forminja í gamla bæjarhólnum í Kollsvík verður tíminn og rannsóknir í framtíðinni að leiða í ljós.

thjodminjasafn taflmennTaflmaðurinn frá Kollsvík meðal
annarra taflmanna í feb. 2019 á
grunnsýningu Þjóðminjasafnsins.

Ætla má að Magnúsi prúða hefði þótt sér betur sæma að vera fremstur í flokki á slíkri sýningu, og líklega væri hann vel að því kominn.

 

Niðurstöður

Hér hefur verið fjallað um taflmanninn í Kollsvík frá nokkrum sjónarhornum og reynt að leiða líkum að því hver hann var; hvenær hann var gerður; hvaðan efniviðurinn kom og á hvern hátt hann er merkilegur fyrir íslenska sögu og menningu.  Niðurstöðurnar hljóta alltaf að markast af sömu óvissu og forsendurnar.  Hinsvegar má líta á þær sem hið rétta að óbreyttum forsendum.  Niðurstöðurnar eru þessar:

  • Líkneskið sem kom upp úr Stórakálgarði í Kollsvík árið 1895 hefur að öllum líkindum komið upp úr húskjallara sem grafið var fyrir í hinn forna bæjarhól stuttu áður.
  • Líkneskið er að öllum líkindum taflmaður, en með sterk sérkenni.
  • Taflmaðurinn var gerður samkvæmt hefð sem þróast hafði hérlendis um aldaraðir um útskurð taflmanna úr rostungstönnum til sölu á erlenda markaði.
  • Taflmaðurinn í Kollsvík var úr rostungstönn og er eini taflmaðurinn í mannsmynd úr því efni sem fundist hefur hérlendis.
  • Honum svipar að sumu leyti til Lewis-taflmannanna frá 12. öld, en er minni og einkenni í klæðaburði og klippingu benda til síðari hluta 16. aldar.
  • Uppúrstandandi höfðingi á þessum tíma varðandi glæsileika og efnahag var Magnús prúði Jónsson, sem var sýslumaður í Saurbæ frá 1580 til dauðadags 1591.
  • Magnús var metnaðargjarn um ásýnd sína, eins og heimildir sanna. Hann væri því manna líklegastur á þessum tíma til að vilja móta hana í varanlegan grip.
  • Hugsanlegt er að taflmaðurinn hafi verið gerður af heimilismanni Gunnars Jónssonar sem þá var bóndi í Kollsvík; ef ekki af honum sjálfum.
  • Á svipuðum tíma var hlaðið garðbrot á Blakknesnibbu, sem hluti af varnarbúnaði landsins sem Magnús fyrirskipaði í vopnadómi sínum.
  • Taflmaðurinn í Kollsvík er elsta líkneski landsins sem svo sterkar líkur benda til að sé af nafngreindri persónu.

Summary in english

In 1895 a chess piece was found in a potato garden by the farm Kollsvik on the southern part of Westfjords in Iceland.  The piece measures 3,7 x 2,1 x 1,3 and is made of walrus tooth.  It may represent a chess-king, depicting a bearded man in 16th century clothing and a hat; standing upright and holding a shield by his left side.  The right hand is broken off, but by comparison to other chessmen it may have held some weapon. 

This essay reasons that the chess piece is cut in the image of Magnús „gentleman“ Jónsson, born 1532/3; died 1591.  He was born into a wealthy family and became the wealthiest and most influental person of Iceland in this time.  Yet he was popular and had good reputation.  He was educated in Germany and the most educated Icelander of his time. 

It is most probable that Magnús himself had this chesspiece made in Kollsvík; either for himself or as a gift; perhaps to the Danish king.  His death may have stopped the completion of the chess set, and this piece eventually got lost.

The farmer in Kollsvik at that time was Gunnar Jónsson.  He may have had some connection to Magnús.  A piece of stone wall may be seen on the top of Blakknes; a high ness by Kollsvík.  This may be the remnants of a shelter for a fire-pile, such as Magnús ordered to be built on every mountaintop as an early-warning of pirate attacks. 

This essay also adresses the origin of walrus bones in Iceland.  Discoveries in later years have revealed that by the time of first settlements in Iceland, there was a great population of walruses, especially by the western coast.  The first settlers located their homes near the best hunting grounds.  This was probably a special variant of walrus which became extinct by over-exploitation at the age of settlement.  Later Icelanders settled in Greenland and for centuries they traded walrus teeth to Iceland and Europe. 

In Iceland there probably was an industry of carving things out of walrus teeth.  The famous Lewis-chessmen were most likely carved in Iceland, as reasoned by Guðmundur G Þórarinsson in his essay; „The enigma of the Lewis-chessmen“. 

This chessman is probably the oldest icelandic human fugure in the image of a known person.

 

Meðal heimilda sem í er sótt:

Þjóðminjasafn Íslands.  Upplýsingaveitan Sarpur og grunnsýning.

Landnámabók; Ari fróði o.fl.

Örnefnaskrá Kollsvíkur.  Ýmsir heimildamenn.

Ýmislegt efni á vefnum kollsvik.is.

The enigma of the Lewis chessmen.  Guðmundur G. Þórarinsson, 4.útg. 2017.

Kollsvíkurver.  Guðbjartur Guðbjartsson.  Kollsvik.is.

Kollsvíkurætt.  Trausti Ólafsson, 1964.

Drög að ábúendatali Rauðasandshrepps.  Trausti Ólafsson.

Vísir; umfjöllun um rostunga á Íslandi á landnámsöld.  Kristján Már Unnarsson o.fl.

Samskipti Íslendinga og Grænlendinga.  Sumarliði Ísleifsson, 2014.

Fróðleikur um Magnús prúða o.fl. í Rauðasandshreppi; Kjartan Ólafsson.

Einnig ýmislegt af Netinu; Wikipedia; Loftmyndir o.fl.

 

Hugsanlegar skekkjur í tilvitnunum eru á ábyrgð höfundar.

Mars 2019

Valdimar Össurarson