Hér verður rýnt lítillega í þá þjóðtrú sem þekkt var og varðveitt í Kollsvík og nærbyggðum, eftir því sem heimildir ná til. Þó fólk leggði fæst mikinn trúnað á hindurvitni var mörgum mikið í mun að varðveita gamlan þjóðlegan fróðleik. Hér er leitað í þann fróðleiksbrunn.
Efni: (Flýtival með smelli á kaflaheiti).
Himintungl Kristján Júlíus Kristjánsson frá Grundum lýsir hér ýmsu varðandi sól og tungl.
Veðurboðar Fjölbreytt safn af ýmsu sem fólk nýtti til veðurspár fyrir daga nútímatækni.
Spáð í milti Grein eftir Valdimar Össurarson (eldri) um þetta efni frá 1919
Vísindi og kerlingabækur Fleiri molar út þjóðtrúnni, sem átti svar við flestu.
Náttúrufyrirbæri Fyrri tíma skýringar á ýmsum náttúrufyrirbærum.
Kraftaverk Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi segir frá.
Höfundurinn: Kristján Júlíus Kristjánsson var fæddur 12. júlí árið 1896 á Grundum í Kollsvík. Hann ólst upp við hin fjölbreyttu störf bænda og útvegsmanna sem þá tíðkuðust og byrjaði snemma róðra. Júlíus kvæntist Dagbjört Torfadóttur; og tóku þau við búi af foreldrum hans. Þau bjuggu á Grund og Stekkjarmel en síðar og lengst af í Efri Tungu. Hann var lengi barnakennari í Rauðasandshreppi, auk þess að gegna mörgum trúnaðarstörfum; var í hópi færustu bjargmanna, og söngmaður afbragðsgóður. Kristján Júlíus Kristjánsson lést 9. oktober árið 1970. Eftirfarandi lýsingu ritaði hann sem svör við spurningum Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins.
Orðið himintungl var haft um sól, tungl og stjörnur og er því í fleirtölu. En annars nefnt hvert í sínu lagi, ef talað var um sólina, tunglið eða stjörnurnar. Ekki kannast ég við bann við því að benda á stjörnur eða reyna að telja þær. Alkunnur jólaleikur var það, að fara út með stúlku og telja stjörnurnar. Mismunurinn á hugsaðri tölu þeirra, sem inni voru og paranna, sem út fóru var jafnaður með kossum. Ef stjörnur tindruðu mikið, var hvassviðri. Ef himinn var stjörnuber; þéttstirndur, voru kuldar í vændum. Stjörnuspár að öðru leyti kannast ég ekki við. Aftur á móti voru nokkrir, einnig konur, sem spáðu í vetrarbrautina. Þetta fólk er því nær horfið úr tölu lifenda. Þéttir flókar í vetrarbrautinni áttu að boða harðindakafla þann vetur, sem spáð var fyrir. Sumir trúðu því að stjörnuhrap boðaði mannslát eða fréttir um mannslát, jafnvel nákomins. Ekki hef ég haft spurnir af neinum stjörnufróðum manni eða konu, er spáð hafi í stjörnur um forlög manna.
Algengast var hér að tala um sólaruppkomu að morgni, en einnig að sól rísi að morgni. Víðast hvar var sól miðuð í eyktarmörkum: um miðjan morgun, dagmál, hádegi, miðmunda, nón, miðaftan, náttmál, lágnætti og ótta. Ekki hef ég heyrt talað um skaftháa sól. Talað var um sólstöður að sumrinu, þegar sól er hæst á lofti, en sólhvörf að vetrinum, er sól fór lægst. Oft var búist við veðrabrigðum upp úr sólstöðum eða þá amk. um sjösofandann (27.júní). Í Kollsvík, þar sem ég ólst upp var talað um sólarlag eða að sól sigi í æginn, en þar sást hún einnig rísa úr ægi, en á sólstöðudaginn var hún vart meira en 1/2 klst. undir hafsbrún. Morgunroðinn vætir, kvöldroðinn bætir, er algengt orðtak hér og jafnvel staðreynd. Hér er það nefnt að "blása út sólirnar", þegar geislabrot myndast á undan og eftir sól, gíll og úlfur. En væru geislabrotin 4, einnig yfir og undir sól, þá var sólin í "hjálmaböndum". Talið var von á veðrabrigðum þegar sólir blés út, sbr. vísuna: „Þegar í austri sólir sjást/ seggi fæsta gleður;/ en í vestri aldrei brást/ allra besta veður“. Aftur á móti voru rosabaugar um sól og tungl taldir boða þráviðri.
Á öllum bæjum í sveitinni er sólin að heiman að vetrinum, nema á Rauðasandi. Þó er talsvert mislangur tími, víða sem 2 mánuðir. Á einum bæ, Sellátranesi, er það 4 eða á 5. mánuð, sem sól er að heiman. Öllum var það fagnaðarefni, þegar sólina sá á ný, ekki síst þegar hún sást á heimkomudaginn. Ég held að það hafi verið hér föst venja, að húsmæður gæfu heimilisfólkinu sólarkaffi; kaffi með pönnukökum og öðru meðlæti, umfram daglegar veitingar. Ekki veit ég hve gamall þessi siður er. Ég læt hér fljóta með 3 vísur, etv. alkunnar:
„Ef að vantar varmaföng,
vistir og heyjaforðann,
þorradægur þykja löng
þegar hann blæs að norðan“.
Hinar 2 eru um merkisdagana Páls og Kyndilmessu:
„Ef dagur Páls er dýr og klár
drengir fá hið besta ár,
en sé hann þykkur þoku með
þá deyr bæði menn og féð“.
„Ef í heiði sólin sést
á sjálfri Kyndilmessu,
snjóa vænta máttu mest
maður upp frá þessu“.
Regnboginn: Það var algenga og venjulega nafn hans, en einnig stundum nefndur friðarboginn. Ekki held ég að almenn eða sterk trú hafi verið á regnboga sem veðurboða, nema ef vera skyldi að þá tæki að þorna ef hann sást í rigningatíð. Þá var óskastundin upprunnin, ef einhver lenti undir öðrum hvorum fæti regnbogans, en hvenær gerðist það frá eigin augum séð?
Ekki var alltaf jafn hlýlega um tunglið talað og sólina. Hún var "blessuð brúðurin"; en tunglið fullt var að "glenna sig" eða "hvað er máninn að glenna sig". Þegar nýtt tungl "sprakk út", var það einnig nefnt tunglkveikja. Algengara var heitið tungl en máni. Engan merkingarmun þekki ég á tungli eða mána. Skáldin notuðu heitin jöfnum höndum, sbr. „Stóð ég úti í tunglsljósi“, og „Máninn hátt á himni skín“, og ennfremur: „Þakið bláa er þandi mund/ þín yfir höllu mána“, o.fl. Oft var minnst á karlinn í tunglinu, en fátt um hann sagt. Tunglheiti (sbr. upptalningu í spurningaskrá) voru alkunn; þorratungl o.s.frv., en páskatunglið einnig nefnt gyðingatungl. Ekki þekki ég það að talin væri von veðrabrigða, eftir því á hvaða vikudegi tunglkveikja átti sér stað, en aftur á móti í hvaða átt það skeði. Formbert tungl og stafnahvasst er hér talað um, en að tunglið grúfði, er mér ókunnugt og allt þetta þó án merkingar. Litur tungls og merking var sbr. vísu þessari svo: „Rauða tunglið vottar vind,/ vætu bleika hlíðir; skíni það bjart með skærri mynd/ skírviðri það þýðir“. Ýmsir munu hafa vænt veðrabrigða við tunglkomu eða fyllingu, eins var vænst fiskigengdar í afturkipp straumsins á þeim árstíma, sem það gat gerst.
Orðið sjávarföll var einkum notað um strauma er fylgdu legu strandarinnar; t.d. suðurfall og norðurfall. Frá lágfjöru var talað um að komið væri aðtak þegar fyrst vottaði fyrir aðfalli, sem stóð til flóðs eða háflóðs. Með aðfalli urðu fallaskipti frá suðri til norðurs. Þegar hnikaði úr háflóði kallaðist það brestur. Með útfalli urðu fallaskipti frá norðri til suðurs. Þegar fallstraumur var þyngstur, nefndist það fullharka, svo kom stans, síðan fallaskipti eða liggjandi, og að síðustu upptaka næsta falls.
Fjara nefndist ströndin, þó um háflóð væri. Sagt var: "Börnin fóru niður í fjöru", hvernig sem stóð á sjó. Það sem varð á þurru milli flóðs og fjöru nefndist útfiri. Stærstu fjörur voru nefndar ginur, góuginur. Með höfuðdagsstraumi fór að leggja þyngri sjóa að ströndinni.
Víst var svo, að tungl var talið og hafði áhrif á ýmsa atburði lífsins, bæði á menn og skepnur,og einnig á hina dauðu náttúru. Það seinkaði burði hjá skepnum og sennilega fæðingu hjá konum, þegar tungl var minnkandi, en gagnstætt með vaxandi tungli. Eldri konur, sem muna sýru- eða skyrgerð heima í sáum, í stórstreymi flaut sýran og skyrið ofan á, en féll til botnsins, þegar smækkaði straum. Eins var með grút og sjálfrunnið lýsi, þar á urðu samskonar endaskipti. Ennfremur var torfrista ótæk um stórstreymi, þó sæmileg reyndist um smástreymi, þ.e. um kvartilaskipti tungls. Ég hefi áður minnst á rosabaug um sól og tungl og ætla þá að láta staðar numið að tala um tunglið.
Um teikn á himni hefi ég ekkert að segja. "Hin heiðu kvöld, er himintjöld af norðurljósaleiftrum braga". Það er oft dásamleg sjón að sjá bragandi norðurljós, en aðeins einu sinni hefi ég séð snögg og tilkomumikil umskipti. Ég var einn á ferð síðla kvölds að vetrarlagi. Himinn var heiður, en skuggsýnt þó, en á svipstundu verður bjart eins og á degi. Himinhvolfið bragar allt eins og af norðurljósum. Ég sá glöggt til allra bæja í Kollsvík, en birtan er öðruvísi en dagsbirta. Ég átti aðeins stuttan spöl heim þegar þetta gerðist, en áður en spölurinn er allur að baki, er birtan horfin, en skuggsýnt og kyrrt sem áður var.
Valdimar Össurarson skráði eftir ýmsum heimildum.
Á valdi veðráttunnar
Íslensk þjóð var mun háðari veðri með alla lífsafkomu sína fyrr á öldum en nú er. Erfitt er fyrir nútímamann að gera sér þann mun í hugarlund, sem allt í senn hefur ávallt tryggar veðurspár til langs tíma; vinnur jafnvel innivinnu þar sem veður skiptir ekki máli og hefur skjólfatnað, hús og farartæki sem duga í flestum veðrum. Allt þetta skorti fyrrum. Skilið gat milli lífs og dauða að kunna að lesa úr öllum hugsanlegum vísbendingum um veðurfar. Þeir sem leiknastir urðu í því lifðu fremur af en hinir og, samkvæmt lögmáli Darwins um náttúruval, eru þeir líklegri til að vera okkar forfeður. Reynt var að ráða í öll möguleg og ómöguleg veðurteikn. Sum þeirra virðast okkur hrein hindurvitni, en önnur eru í raun það sem nútíma veðurfræði byggir einnig á. Á milli eru ýmsir forvitnilegir veðurboðar sem e.t.v. hafa ekki verið rannsakaðir til fulls. Það sem hér fer á eftir er aðeins lítið brot af því sem fólk í Rauðasandshreppi þekkti á þessu sviði; örlítið sýnishorn af fjölbreyttu tagi, til að sýna veðurvísindi forfeðranna.
Veðurboðar í Rauðasandshreppi. Sólroði á kvöldi veit á sunnanátt, og eins ef „hann var eyddur (skafinn) í norðrinu“ þ.e. ekki sá ský á norðurhimni. Ef þokuslitur eru í hlíðum Blakkness, Tálkna og Kóps er vestan- eða norðvestanátt í vændum. Ef skýjað er og rífur skyndilega úr suðurloftinu svo heiðbirtir í stutta stund er norðan hvassviðri í aðsigi. Sé ekki lát á fyrirstöðu boðar hún drýgindi; þ.e. sama veðurlag í nokkra daga. Íganga er vaxandi skýjafar af ríkjandi átt og merki um að hún haldist. Íblástur merkir hið sama, en á þó öllu fremur við um veðrið. Ef norðanátt gengur skyndilega niður en rýkur aftur upp sama sólarhringinn er það nefnt íherðingur, og boðar vaxandi norðanátt næstu dægur.
Sól er afbjarga þegar hún hverfur af hæstu fjallatindum og bjart er til norðurs. „Sól setur ofan“ er það kallað þegar sólargeislum stafar gegnum regnský, en það veit á vætu. Mikill árniðurí kvöldkyrrð boðar sunnanátt. Ef í Örlygshöfn heyrist mikill brimgnýr frá Rauðasandi og Látrabjargi er von á vaxandi vestanátt og síðan norðanátt.
Leggi vindgára með hafsbrún er það sögð skörp innlogn og boðar norðan hvassviðri. Skýjaþykkni yfir Patreksfirði innanverðum veit á sunnanátt, og einnig ef blika er yfir Rauðasandsfjöllunum. Þegar mökkur er á Blakknesi og Kóp er von á norðanátt; og vaxandi vestanátt væri blika yfir Látrabjargi.
Þegar þoka er við hafsbrún er hann að leggja upp, og boðar það sterka innlögn; væga norðanátt, sem heitir þá „stillt átt“. Leggði grána á hafflöt er það víst norðanáhlaup, en gráni er vægur vindur sem veldur því að hafflöturinn verður grár að sjá. Mikill niður í Grænalæk á Sellátranesi boðar norðanátt.
(LK; Ísl.sjávarhættir III; frásagnir Ólafs E Thoroddsen; Daníels Eggertssonar, Ólafs Magnússonar og Sveins Jónssonar).
Úr fræðum séra Björns. Þegar betur en að venju fer grunn sjóar í ládeyðu; helst hvar sandur er undir, boðar það mjúkt og milt veður þegar í nánd. Þegar fýlu leggur upp af sjóarvogum og bæjarforum, meira en að venju, er það þýviðrismerki. Leggist vetur að með frostum og fönnum um sólhvörf helst það fram á góu. Dragi grænar blikur upp á loft strax eftir sólhvörf boðar það vetrarríki. Stígi hrímþoka jafnan upp í loft á öndverðum vetri boðar það langvinna fannkomu. Hjaðni hrímþoka við jörð og fari ei upp í loftið aftur boðar það snjóminni vetur. Sýnist sólin oft rauð eftir sólhvörf á vetrum boðar það frostasaman og vindsvalan vetur. Það sama merkja dökkir og grænir hringar um sólina öndverðan vetur. Það sama merkir grænn eða gulleitur litur sólar, og þó helst að vetur mini snivinn og vindsvalur verða. Allt þetta eru ei annað en náttúrulegar loftsins verkanir, sem hver hygginn maður má skilja. (Björn Halldórsson; Atli).
Morgunroðinn vætir; kvöldroðinn bætir. Þetta var almenn og þekkt veðurfræði í Rauðasandshreppi. Hætt er við votviðri ef sólroði sést að morgni, en kvöldroði á himni boðar þurrviðri næsta dag. (Kristján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjms).
Sólir á lofti. Endrum og sinnum sáust sólir á lofti; algengast að þær væru þrjár í senn, eða tvær aukasólir; gíll og úlfur. Fer gíllinn fyrir sól, en úlfurinn á eftir. (Sjá nánar hér á undan; „eigi er gíll fyrir góðu nema úlfur é eftir renni“). Þá var sagt að sólin væri í úlfakreppu. Sló stundum sló regnbogalitum á hjásólirnar. (LK; Ísl.sjávarhættir III).
„Hér er það nefnt að "blása út sólirnar", þegar geislabrot myndast á undan og eftir sól, gíll og úlfur. En væru geislabrotin 4, einnig yfir og undir sól, þá var sólin í "hjálmaböndum“. Talið var von á veðrabrigðum þegar sólir blés út, sbr. vísuna: „Þegar í austri sólir sjást/ seggi fæsta gleður;/ en í vestri aldrei brást/ allra besta veður“. Aftur á móti voru rosabaugar um sól og tungl taldir boða þráviðri“ (Kristján Júlíus Kristjánsson; Himintungl).
„Hnyklaði himinský/ hryllti hvern meðaldraug./ Máninn öslaði í/ illspáum rosabaug./ Allskonar fjandafeikn/ fóru helreið um land./ Loguðu í ljósi teikn/ lýstu upp Rauðasand“ (JR; Rósarímur).
Rosabaugur um tungl boðar oftast storm; ýmist með regni eða hríð. Þeim mun stærri sem baugurinn er verður illviðrið meira. Sé op á baugnum er von á vindi úr þeirri átt. Sé hann mánaber (skýr) og rauðgulur í ytri rönd í kyrru og heiðríku veðri er hann ekki talinn vita á illt (LK; Ísl.sjávarhættir III; sögn Þórðar Jónssonar Hvallátrum).
Tunglkveikja getur verið veðurboði. Veðurs er helst að vænta úr þeirri átt sem nýtt tungl kviknar. Einnig er rétt að huga að lit tunglsins: „Rauða tunglið vottar vind,/ vætu bleika hlíðir; skíni það bjart með skærri mynd/ skírviðri það þýðir“. (Kristján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjms).
Þrínætt tungl rautt með hvössum hornum merkir vind og kulda fram til fyllingar. Bleikt merkir úrkomu, og skært heiðbirtu eins lengi. Sjái maður þrínætt tungl í sunnanátt er bráðum regns að vænta. (Björn Halldórsson; Atli).
Stjörnublik og stjörnuhrap. Ef himinn er stjörnuber; þéttstirndur, eru kuldar í vændum. Bliki þær mikið er sagt að það sé „hvasst á stjörnunni“ og þá er stormur í aðsigi. Úr þeirri átt sem stjarna sést hrapa að kvöldi má vænta storms næsta dag. Sumir trúðu því að stjörnuhrap boðaði mannslát eða fréttir um mannslát, jafnvel nákomins. (Kristján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjms).
Vetrarbrautin. Þéttir flókar í vetrarbrautinni áttu að boða harðindakafla þann vetur, sem spáð var fyrir. (Kristján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjms).
Norðurljósin boða bjartviðri og kyrrur ef þau mynda breið belti og eru tiltölulega stillt. En sé mikið far á þeim og ör litaskipti má vænta storms úr þeirri átt.
Regnbogi. Það var algenga og venjulega nafn hans, en einnig stundum nefndur friðarboginn. Ekki held ég að almenn eða sterk trú hafi verið á regnboga sem veðurboða, nema ef vera skyldi að þá tæki að þorna ef hann sást í rigningatíð. Þá var óskastundin upprunnin, ef einhver lenti undir öðrum hvorum fæti regnbogans, en hvenær gerðist það frá eigin augum séð? (Kristján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjms). „Regnbogi í skýjum boðar oftast milda og vota veðráttu og komi hann með skýjum eftir bjartviðri boðar hann varanlegt regn; helst ef hann er mjög grænn þegar hann er í austri. Mjög hvítur regnbogi í þurrum vatnslausum skýjum boðar kulda, snjó eða krapa; eftir ársins tíðum“ (Björn Halldórsson; Atli).
Hafgall nefnist það þegar regnbogastólpi, eða endi regnboga, sýnist standa upp úr sjó. „Hafgall kallast geisli mislitur við hafsbrún; ei ólíkur hálfþrotnu tungli eða nokkuð áþekkur regnbogafæti. Boðar langvinnt regn; að sögn bænda ei skemur en hálfan mánuð“ (Björn Halldórsson; Atli).
Sauðlauksdalsprestur les í skýin... Rauð ský sem upp koma eftir niðurgang sólar; er menn kalla kvöldroðma, og öll þau ský sem fylgja upprennandi sól og eyðast strax af hennar skini, merkir gott veður á næstu dægrum.
Þegar þykk vindaský standa við hafsbrún og dragast öll upp á loft, fyrir utan alla undirbliku, er þerrisviti. Öll græn, rauð, vatnslituð ský og helst hin þykku svörtu sem vindur rekur til norðurs, boða regn. Hvít og ljósgræn ský eru þurrari, boða el á vetrum en á sumrum skúraveður. Þegar sést klósigi á lofti árla dags; það eru langar hvassyddar skýjarastir, þá kemur vindur á þann odda sem fyrr afdróst og tvíllaust á annan hvorn. Blika sem dregur á loft upp um vetur merkir þá hláku ef hún er dökkblá, og kemur þá fyrst af henni snæfjúk. En hvít með þoku boðar snjó. Blika sem skjótt upp dregur merkir skammvinnt regn. En sú sem ýmist gengur upp eða niður, en dregst þó yfir loft um síðir, verður drjúgust; með hreggviðri á sumrum en kafaldi á vetrum. Vindblika er jafnan þunn og þó dökkleit að sjá; gengur ei hátt á loft upp. Svo lengi sem hún stendur varir kuldi og vindur og rofar þar í háloft. Þegar sólargeislar myndast í skýjum á vesturlofti um sólar uppruna boðar það regn. Þegar norrænur ganga og skýjabakkar sjást í austri og vestri er það merki um þráviðri. Og svo lengi sem hvorugur skýjabakkinn eyðist og gengur hvorki upp né niður helst hinn sami mótþrói. Þegar tennir á hafmekki eða nær ský myndast þar sem klakkar eða tenningar (sagtennt ský) boðar slíkt æsingog ofviðri útsjóar og ófæru farmönnum. (Björn Halldórsson; Atli).
… þokuna... Þegar mikil þoka og langsöm gengur þá er víst að vænta að eftir hana komi vindar, kuldi og stundum varanlegt regn. Lítil þoka kringum sól þegar hún gengur upp eða niður merkir klárt veður. Sama merkir sú þoka sem dregst ofan að jörð þegar fjallatindar eru fríir; það köllum vér dallægju eða sjólægju. (Björn Halldórsson; Atli).
… og vindinn. Vindur sem kemur á degi varir lengur en sá sem á nóttu kemur. Eftir langan sunnanvind kmeur jafnaðarlega regn; og flestir stormar endast í regni. Hefjist hvass vindur í logndögg þá er viss von að bráðum þorni. Útnyrðingur sefast oft um sólarlag, þegar hún kemur í þá átt. En hægi þá ekki merkir það hörku og líka þráviðri. Austanvindar endast oft með hreggi, og þar af er komið máltækið; „oft kemur óveður í endaðan þey“. (Björn Halldórsson; Atli).
Margt má af sjónum marka. Þegar brimlaus sjór í logni gefur hljóð af sér merkir það að regn og stormur eru í vændum. Ef bylgjur og brim vaxa í logni yfir eðli boðar það storm og kulda. Ef sjór sýnist gruggugur og mórauður á lit, með moski og ögnum í, boar það storm. Óvenjulegt stórflóð, í brimlausu fögru veðri, boðar hafviðri. Sjái maður sjóinn óstilltan, gjálfmikinn og úfinn í góðu veðri og logni er það merki til rosa og óstilltrar veðráttu. Ef þang frýs mjög í fjörum og frostgufa sést inni á fjörðum boðar það minnkun kulda. (Björn Halldórsson; Atli).
Lítum til fjalla. Þegar fjöll sýnast óvenjulega há, ellegar sýnast bleik eða blá, er boði vindaa og votviðris. Heyrist dunur eða niður til þeirra merkir það hið sama. Þegar eyjar og lönd hillir uppi, eða þær tvær sýnast þar sem ein heldur en raunar er, boðar það úrkomu og stundum storm.
Drífi snjór á fjöll og byggð í september vænta menn snjólítið verða muni til sólhvarfa. Standi oft þokuský á fjöllum um vetur og hylji fjallatinda, merkir það vetrarríki. Sjáist fjallatindar klárir og skýlausir öndverðan vetur og fram um jól, þá boðar það mildan vetur. (Björn Halldórsson; Atli).
Eldur er forspár. Eldur; rauður mjög, merkir kulda, en skær logi og blankandi merkir skírviðri. Þegar ljós logar stillilega sýnir stillt veður. En þegar það logar óstöðugt, og þegar að logi elds og ljósa gefur frá sér sindrandi gneista, þá er von á hreggviðri og stormi. Elds- og ljólogi vleikur og myrkur í sér boðar úrkomu og vind. Þegar skarpskyggnum manni finnst sem regnbogi kringum ljós boðar það sudda. Vilji eldur ei tendrast án orsaka mrkir það hið sama.
Sjái maður eldflug um loft á nóttu í rökkri eða hálflýsi; með þykkum skýjum, merkir það regn. En ef þá er heiðskírt boðar það snjó af þeirri átt sem eldflug kom. Þegar reykur úr strompi eða reykháfi í lognveðri leggst allur strax niður við jörð merkir það þykkt þungt loft. En standi reykurinn sem strókur í loft upp er það ugglaust góðviðris merki. (Björn Halldórsson; Atli).
Og svo er það bannsett gigtin… Hver maður sem veikur er eða limlestur í nokkrum lim og er þó ei að öðru sjúkur, hann kennir til verkja í þeim veiku limum undan stormum og hríðum. Þegar á heilbrigðum manni kólna útlimir og dofna sinar; ellegar hann gjörist svefnugri en að venju og svo þyngri á sér, samt óglaðari; þó boðar það kulda og óveður. Kuldabólgu fá menn í hendur og fætur eftir langvinnt frost, þegar fyrst bregður til hlýinda. Og er það góðrar heilsu merki manns. (Björn Halldórsson; Atli).
… og annað í daglegu lífi. Léreft sem úr vatni er tekið er þá venju stífara ef von er á frosti eftir. Þegar snarkar í ljósi sem logar af hreinni feiti með sindrandi gneistum út úr þá kemur regn á eftir. Þegar maður heyrir brak eða hljóð í trébyggingum boðar það storm í vændum. Þegar klukknahljóð er venju skærara boðar það þykkt þungt loft, og síðan regn. Þegar skrúfa eða lok á trésmíði er þrengra en að venju boðar það hið sama. Og enn hið sama þegar rifa á þili, sem áður sá í gegnum, lykur sig. (Björn Halldórsson; Atli).
Nýársdagur. Svo mun viðra í janúar sem viðrar til miðdegis á nýársdag, en seinniparturinn er til merkis um veðurfar í febrúar. Morgunroði á nýársdag er góðs viti. Mikið stjörnublik á nýársnótt boðar aflasæla vertíð.
Nýársnótt var merkisviðburður vætta. Þá fluttu álfar búferlum; þá töluðu kýr mannamál; þá breyttist vatn í vín. Segja sumir að á nýársnótt sé óskastund.
Pálsmessa (25. janúar) er marktækur veðurspárdagur. Um það vitnar þessi gamla vísa: „Ef heiðríkt er og himin klár/ á helga Pálusmessu/ mun þá verða mjög gott ár/ mark skalt taka á þessu“. Einnig þessi: „Ef dagur Páls er dýr og klár/ drengir fá hið besta ár,/ en sé hann þykkur þoku með/ þá deyr bæði menn og féð“ (Kristján Júlíus Kristjánsson; Himintungl). „Pálsmessa og Kyndilmessa voru að vísu ekki helgidagar en gleymdust aldrei vegna þess spádóms um væntanlegt veðurfar sem við þá var bundinn og þarf ekki að rekja. Ekki fullyrði ég að menn hafi almennt trúað þessum veðurboðum en öllum þótti betra að þeir bentu á hagstætt veðurfar. En Pálsmessan var líka dagur hrafnsins. Þjóðtrúin sagði að þeir sem gæfu hrafninum ríflegan skammt á Pálsmessu ættu ekki á hættu að hann legðist á lömb þeirra að vorinu. Ég tel að þessi þjóðtrú hafi átt nokkuð sterk ítök fram á tuttugustu öldina og ef til vill lifir hún ennþá“ (Einar Guðbjartsson; Hátíðir og merkisdagar).
Þorri spáir. „Þurr skyldi þorri, en þeysöm góa“; votur einmánuður, og þá mun vel vora“. Einnig var sagt: „Grimmur skyldi góudagurinn fyrsti, annar og hinn þriðji; þá mun góð verða góa“.
Kyndilmessa (2. febrúar) er einnig mikill spádagur, en hann er hreinsunardagur Maríu meyjar 40 dögum eftir fæðingu Krists, og er nafnið dregið af vígðum kertum sem borin voru í skrúðgöngu þennan dag. Framundir lok 20. aldar vitnuðu gamlir Rauðasandshreppsbúar í þessa vísu: „Ef í heiði sólin sést/ á sjálfri Kyndilmessu/, snjóa vænta máttu mest/ maður upp frá þessu“ (KJK; Himintungl).
Öskudagsbræður. Eftir því sem viðrar á öskudaginn; svo mun viðra næstu 18 daga aðra á föstunni. Eru þeir nefndir öskudagsbræður. Einnig má ætla að síðar á vertíðinni verði nákvæmlega sams konar breyting á veðri og var yfir öskudagsbræðurna. (LK; Ísl.sjávarhættir III; sögn Ólafs E. Thoroddsen).
Gvendardagur er 16. mars. Ef þá er vestanátt boðar það gott vor.
Boðunardagur Maríu er 25. mars. Væri þá heiríkt og stjörnubjart boðaði það góða tíð.
Pálmasunnudagur og páskar. „Sjaldan viðrar sama um pálma og páska“ er sagt.
Kóngsbænadagur er 4. föstudagur eftir páska. Hann var áður almennur bænadagur; fyrst skipaður af Danakóngi árið 1686; lögtekin hérlendis 1702, en afnuminn sem helgidagur 1893. Enn er dagurinn haldinn hátíðlegur í Danmörku (store bededag) og Færeyjum (dýri biðidagur). Yfirleitt kunnu Íslendingar illa að meta þessa kóngsdýrkun, eins og kemur fram í húsganginum: „Innan sleiki ég askinn minn,/ ekki er saddur maginn./ Kannast ég við kreistinginn/ kóngs- á bænadaginn“. Sú var trú manna að ef gróður færi vel af stað í maí mætti vænta góðs af sumri; ekki síst ef þokusamt var
Frýs saman vetur og sumar. Góðs viti er ef saman frýs vetur og sumar; þ.e. ef frost er aðfaranótt sumardagsins fyrsta.
Krossmessa að vori er 3. maí, í minningu þess er kross Krists var fundinn árið 326. Sú krossmessa var einn af mestu átrúnaðardögum varðandi veðurfar, og mátti marka tíðarfarið eftir hann af veðurfari þann dag.
Jónsmessa að sumri, 24. júní, er í minningu fæðingar Jóhannesar skírara. Allra meina bót er það ef maður veltir sér nakinn upp úr dögginni á jónsmessunótt.
Sjösofendamessa er 27. júní. Messudagur sem í kaþólsku var tileinkaður sjö ungum mönnum sem sagt er að hafi sofið í sjö hundruð ár í helli við Efesus í Litlu-Asíu, til að losna undan ofsóknum Desíusar keisara um miðja 3.öld. Var á þá heitið við svefnleysi og hitasótt. Það veður sem er á sjösofendadag á að haldast næstu sjö dagana (sumir sögðu sjö vikur). „Oft var búist við veðrabrigðum upp úr sólstöðum eða þá amk. um sjösofandann“ (KJK; Himintungl).
Þingmaríumessa er 2. júlí; vitjunardagur Maríu meyjar. Upp tekinn hérlendis á 15. öld og er nafnið tengt því að Alþingi var haldið um þetta leyti árs. Vertíðir í Útvíkum stóðu jafnan frá sumarmálum til þingmaríumessu. Gott veður á þingmaríumessu er merki um góða tíð það sem eftir lifir sumars.
Hundadagar. Dagarnir 13.júlí til 23. ágúst ár hvert. Nafnið er upphaflega komið frá Forn-Grikkjum, sem settu sumarhitana í samband við Hundastjörnuna/Síríus, sem þá fór að sjást á morgunhimni. Tímabilið er nær sami tími og stjórnartíð Jörundar Jörgensen (25. júní-22. ágúst 1809), sem af því hlaut nafnið hundadagakóngur. Mikill átrúnaður var á þessum dögum varðandi tíðarfar og veðrabrigði. Þá var talið að umskipti yrðu í veðri; óþurrkar í kjölfar þurrka; þurrviðri á eftir ótíð.
Barthólómeusarmessa er 24. ágúst. Eins og viðrar á þeim degi mun viðra allt haustið.
Höfuðdagur er 29. ágúst; aftökudagur Jóhannesar skírara. Einna lengst eimdi eftir af honum af hinum förnu veðurspárdögum, en mikil trú var á að þá skipti um veðurfar. „Æskilegast var talið að ljúka heyskap fyrir höfuðdag, en eftir hann þótti allra veðra von“ (Einar Guðbjartsson; svör til þjhd. Þjms).
Krossmessa að hausti er 14. september í minningu þess að Heraklíus keisari vann Jerúsalem og paufaðist með krossinn upp á Golgata. Svo mun viðra til áramóta sem veður er milli krossmessu og allra heilagra messu.
Allra heilagra messa er 1. nóvember. Gott veður þann dag boðar góðan vetur.
Vetrarsólhvörf eru á tímbilinu 20-23. desember. Svo sem viðrar þann dag og 3 dagana fyrir og eftir; svo mun veturinn verða.
Að dreyma sauðfé að vetrinum er talið fyrir fannkomu. (Kistján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjms)
Kýr spá... Ef kýr hristir annan afturfót sinn veit það á slæmt veðurlag. (Guðbjartur Guðbjartsson; svör til þjhd. Þjms).
… og sauðir. Þegar sauðir stangast mjög með flæstum nösum upp í loftið merkir það storm og úrfelli. (Björn Halldórsson; Atli).
Kattarþvottur… Ef köttur þvær sér aftur fyrir hægra eyrað að vorlagi boðar það góðviðri. Ef kötturinn teygir sig og lætur klær standa fram úr loppunum veit það á hvassviðri.
Þegar kötturinn sleikir lappir sínar og kembir með þeim höfuð sitt, háls og bóga er það vætu merki. (Björn Halldórsson; Atli).
… hunds murr… Þegar murr heyrist í hundsbelg og þegar hundar grafa sér holur í jörð þá er úrkomu von. (Björn Halldórsson; Atli).
… og mús í veggjarholu. Þegar mýs tísta meira en að venju er von á sltormi, hreggi og kulda. (Björn Halldórsson; Atli).
Hegðun fugla. Þegar fuglar, sem jafnan eru á sjó eða vatni, setjast upp á þurrt og kroppa sig; það er merki hreggviðris eða snjókomu. Þegar fuglar leita til sjóar eða stórvatna af landi ofan, boðar það frost. Þegar fuglar safnast saman og baða sig í sjó eða ám; vötnum eða og svo sorpi, og ausa vatni yfir sig, þá er vís úrkoma. Þegar sjófuglar firrast sjó og fljúga upp á land, kemur úrfelli eða stormur. (Björn Halldórsson; Atli).
Hænsnanna hegðan. Þegar hani galar oftar en að venju veit hann á úrkomu. Sama veit á hæna ef hún í votviðri fer ei inn, heldur er úti að tína sér. Þegar hæns fljúga seint ofan á vetur að morgni vita þau á snjó og kulda. Sama merkir það ef að þau setjast upp á kvöldin, venju fyrr. (Björn Halldórsson; Atli).
Margvitur er hrafninn. Þegar hrafnar safnast saman og fljúgast á í lofti; berjandi hvern annan með vængjunum, þá vita þeir úrfelli nálægt. En ef að þeir leika sér í lofti, með litlu og léttu krinki merkir það gott veður. (Björn Halldórsson; Atli).
Himbrima tekur í löppina. Fljúgi himbrimi um með háum gólum er sagt að hann „taki í löppina“ eða „taki í lærið“, og veit það á hvassviðri. (Sigríður Guðbjartsdóttir Láganúpi, eftir eldra fólki).
Grár múkki sem syndir kringum bát á miðum boðar mannskaðaveður.
Halkíonskyrrur. Fuglinn halkíon verpur í bláhafi á ísi og gerir sér hreiður úr fiskmeinum á sjó sjö dögum fyrir vetrarsólhvörf. Liggur hann síðan á jafnmarga daga á eftir. Þessi tími er nefndur halkíonsdagar og þá daga er ládeyða og logn um allan sjó. Nefnist það halkíonskyrrur eða halkíonslogn. (LK; Ísl.sjávarhættir III; sögn Þórðar Jónssonar og Daníels Eggertssonar Hvallátrum).
Ritan er spáfugl á Hvallátrum, og segir til um vindátt. Sitji hún á Sölvatanga er sunnanátt í vændum, en sitji hún á Friðku er norðanátt og þurrkur framundan. (LK; Ísl.sjávarhættir III; sögn Þórðar Jónssonar).
Óðinshani á sjó sem syndir mjög kringum bát boðar hvalavöðu eða norðanstorm. (LK; Ísl.sjávarh. III; sögn Þórðar Jónssonar).
Vorboðinn ljúfi. Lóan þykir ótvírætt merki um sumarkomu.
Þá er úti vetrar þraut þegar spóinn vellir graut. Þegar spóinn kemur að vori er lítil hætta talin lengur á skæðum vorhretum. Þegar spói langvellir (vellir óvanalega lengi) boðar það votviðri.
Þorskur sem spriklar mjög þegar hann er dreginn um borð spáir vindi. (LK; Ísl.sjávarh. III; sögn Snæbjarnar J. Thoroddsen).
Fleiru kunna fiskar að spá. Þegar fiskar og fiskseiði taka mjög uppi í sjó eða vötnum boðar það regn. (Björn Halldórsson; Atli).
Vetrarkvíði nefnist teppi fíngerðra köngulóaþráða sem oft leggst yfir graslendi á haustin. Mælt er að svo verði snjódýptin um veturinn sem vetrarkvíðinn liggur hátt að haustinu. „Köngulóarvefir miklir um haga vita jafnan á logn og votviðri“ (Björn Halldórsson; Atli).
Mýið. Þegar mý safnast saman í stórum hópum, lítið frá jörðu eftir sólarlag, boðar það hlýtt veður og gott að morgni. (Björn Halldórsson; Atli).
Valdimar Össurarson (eldri) frá Kollsvík ritaði innlegg um þetta efni í grein sem birtist í Árbók hins íslenska fornleifafjelags árið 1919, og var að stofni til eftir Matthías Þórðarson þjóðminjavörð. Matthías segir í inngangi: "Það var alkunnur siður hér á landi að spá í milti. Kannast margir við hann enn af frásögnum manna eða eiginni sjón og reynd, en hann mun vera orðinn fremur fáséður á síðari árum. Má því búast við að hann kunni að leggjast niður og gleymast, en fyrir því að ætla má að hann sé forn að uppruna og að því leyti merkilegur, skal honum lýst hjer nokkuð; enda er ókunnugt um að það hafi gjört verið áður opinberlega". Matthías segir að tvær aðferðir hafi tíðkast við spána. Báðar byggðust á því að skera miltað í sundur og skoða hlutana, en í annarri er skorið blindandi en hinni sjáandi. Hann segist hafa fengið tvo "námsmenn í Kennaraskólanum" til að lýsa sinni reynslu. Annar þeirra var Jón B. Jónsson frá Ljárskógum í Dölum, en hinn Valdimar Össurarson frá Kollsvík. Valdimar segir svo frá:
"Lýsing eftir því sem jeg sá það gert í Kollsvík í Barðastrandarsýslu haustið 1912:
Ef nautgripi var slátrað að hausti til og einhver vildi "spá í milti" fyrir tíðinni næsta vetur, var það gert þannig: Maður tók nautgripamilti; lagði það reglulega á jörðina; settist á hækjur sínar; hafði miltið fyrir aftan sig og lokaði augunum. Þá seildist maður með hníf í hægri hendinni aftur fyrir sig og bráhonum á miltið í tveimur stöðum; frá hægri til vinstri.
Það þótti boða besta tíð ef miltið skarst alveg í sundur í þrjá jafna parta. Hver partur átti að tákna part af vetrinum; talið frá hægri til vinstri, fyrir aftan sig. Fyrsti parturinn frá veturnóttum til jólaföstu; annar frá jólaföstu til Þorra og sá þriðji frá Þorra og fram úr. Eftir því sem stykkin voru stærri, því verri átti tíðin að verða". Valdimar Össurarson frá Kollsvík.
Valdimar Össurarson skráði eftir ýmsum heimildum.
Rætur nútímavísinda
Hér er lítið eitt gluggað í ýmis fræði sem lifað hafa með kynslóðunum; sumt ævafornt en annað líklega yngra. Þeim sem þykjast hafa höndlað sannleikann á öld nútimavísinda hættir til að nefna þetta hjátrú og kerlingabækur. Vissulega er margt af þessu brennt marki þess menntasveltis og trúarofstækis sem þjóðin bjó við um aldir,og leiddi af sér margvíslegar alþýðuskýringar. En margt er hér einnig sem byggir á reynslu og athugunum kynslóðanna, en oft á tíðum fært í áheyrilegan búning sagnalistarinnar.
Eins og annarsstaðar í þessari samantekt er hér sjónum fyrst og fremst beint að því sem var í huga og munni fólks í Rauðasandshreppi. Í mörgum tilfellum beinar tilvitnanir í orð þess, en annað telur skrásetjari sig vita að þekkt var á svæðinu.
Svæðið hefur alið af sér suma merkustu vísindamenn þjóðarinnar á sinni tíð, og nægir þar að nefna mágana Eggert Ólafsson og séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal.
=============
Sköpun kattarins. Biblían kennir okkur að Guð skapaði manninn. Kölski vildi ekki ómáttugri vera. En tilraunir hans leiddu til sköpunar kattarins, sem einatt hefur þótt flárátt kvikindi og ótryggara en hundurinn. Ekki tókst honum að skapa skinnið, en Sankti-Pétur aumkaðist yfir köttinn og skapaði honum dúnmjúkan feld. Um það fjallar þessi húsgangur, sem þekktur varð: „Skrattinn fór að skapa mann,/skinnlaus köttur varð úr því./ Heilagi Pétur hjálpa vann;/ húðina færði dýrið í“.
Sköpun rauðmaga, grásleppu og marglyttu. Eitt sinn gengur þeir með sjó saman; Kristur og Sankti-Pétur. Kristur hrækti í sjóinn og úr hráka hans varð rauðmaginn; margvíslegur að lit og gómsætur til átu. Pétur hrækti einnig í sjóinn og úr því varð grásleppan; grá að lit og einnig matfiskur ef rétt er verkuð. Kölski gekk í humátt á eftir þeim; vildi ekki vera síðri og hrækti einnig í sjóinn. En af hráka hans varð marglyttan; glært og lepjulegt kvikindi, sem fremur hefur verið mönnum til ama en nytja.
Skatan og Sankti Pétur. Sankti Pétur bað guð að sýna sér hvaða fiskakyn væri helgast og eðlisbest í sæ. Siðan varpaði hann út öngli sínum og dró þegar skötu. Honum fannst fiskurinn ljótur og leygði honum út aftur. En svo fór þrisvar sinnum, að hann dró skötu. Slægði hann hana þá og fann í henni buddur þær er Pétursbuddur eru síðan kallaðar. (LK; Ísl.sjávarh IV; Þjs.J.Á).
Máttur pétursbuddunnar. Ef hrein jómfrú ber pétursbuddu á brjósti sér í þrjú ár má kljúfa hana og finnast þá í henni þrír steinar. Þeim fylgir sú náttúra að sá sem ber þá á sér mun ekki drukkna; hefur alltaf sigur í máli og mun aldrei skorta fé. (LK; Ísl.sjávarh IV; Þjs.J.Á).
Maríufiskur nefnist fyrsti fiskurinn sem maður dregur. Ævagömul regla er að hann skuli gefa fátæklingi eða aldraðri manneskju. Var þetta enn haft í heiðri í Kollvík þegar skrásetjari dró sinn maríufisk. Hildur föðuramma var þá elsta manneskjan í víkinni og fékk hún þorskinn í soðið. (VÖ).
Heilagfiski er annað heiti á lúðunni, og mun svo vera af því að hún var í uppáhaldi hjá Sankti Pétri. Ástæða þess að hún syndir á hliðinni, og hefur bæði augu annars vegar er þessi: Eitt sinn gekk Sankti María með sjó. Þá kom lúða og skældi sig framan í hana. „Sértu ætið svo frýn“, sagði María, og síðan hefur svo verið. Sagt er að lúður finnist með bæði augu á hvítu hliðinni, en þær séu óætar.
Gæta verður þess að hvíta hlið lúðunnar snúi ávallt upp í báti, því ef hún nær að sjá alla skipverja er einhver þeirra feigur. Unglingsstrákur sem dregur lúðu er kominn með hvolpavitið (þ.e. farinn að hafa náttúru til kvenna) (LK; Ísl.sjávarh. III; sögn Þórðar Jónssonar).
Ef lúða í bát lyftir mjög blökunni (sporðinum) þá „spáir hún á sig“; þ.e. þá mun önnur bráðlega veiðast. (LK; Ísl.sjávarh. III; sögn Snæbjarnar J. Thoroddsen).
Heiðinn kjammi og kristinn kjammi. Í Útvíkum kallaðist hvíta kinn lúðunnar „heiðinn kjammi“ en sá svarti „kristinn kjammi“. (LK; Ísl.sjávarh. III; sögn Guðbjartar Guðbjartssonar).
Blettur og rönd á ýsunni. Eitt sinn fór Kölski til fiskiveiða. Þreifaði hann fyrir sér, og fyrir honum varð ýsa. Hann greip um hana undir eyruggana og eftir góma hans eru þar síðan svartir blettir. Það eru fingraför Kölska. En ýsan tók mikið viðbragð og rann úr greip Kölska. Eftir klær hans er svarta rákin langseftir bol ýsunnar.
Happadrátturinn margliði. Margliði nefnist sá fiskur sem var með marga hlykki milli sporðs og gotraufarugga. Sá sem dregur slíkan fisk dregur eins mörg hundruð á veríðinni og hlykkirnir eru margir. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Ólafs E. Thoroddsen, Vatnsdal).
Fiskur spáir um veiði. Blaki fiskur sporði eftir að vera kominn á land er hann að spá veiði. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Snæbjörns J. Thoroddsen, Kvígindisdal).
Marbendill vísar til veiði. Sæbúar nefnast einu nafni þær mannlegu verur sem búa í sjó. Þær eru all frábrugðnar huldufólkinu sem býr á landi. Ekki þó eins mannlegar og oft varasamar viðskiptis; þá sjaldan þær birtast mönnum. Einkum eru þær af tvennum toga. Annarsvegar margýgur, sem sumir nefna hafmeyju. Hún er að hálfu fiskur en að hálfu manneskja. Hitt kynið er marbendill. Hann kemur stundum upp með veiðarfærum manna. Er þá durtslegur og óþýður samskiptis. Hrekkjóttur er marbendill; leysir iðulega festar- og vaðsteina og króka af línum; festir færin í botni og spillir á annan hátt veiðarfærum sem lenda í túnum hans. Búskap stundar hann á hafsbotni og hefur sægráar kýr; sérlega mjólkurlagnar. Þær villast stundum á land og geta menn þá náð þeim með því að sprengja blöðru á grönum þeirra áður en þær komast í sjóinn aftur.
Sjómaður einn fyrr á öldum veiddi eitt sinn marbendil. Sá vildi ólmur komast aftur til sinna heimkynna en bóndi gaf þess engan kost nema hann segði sér fyrst til veiði. Marbendill gaf þessi ráð, sem fleyg hafa orðið síðan: „Tuggið járn og troðið skal í öngla hafa; og setja önglasmiðju þar sem heyrist til ár og lár (sjávar). Herða skal öngul í jóra mæði; hafa gráan griðungsvað og hráan hrossaskinnstaum. Fuglsfóarn og flyðruhorn skal til beitu hafa, en mannaket á miðjum bug og músarhjarta á oddi. Muntu þá feigur ef þú fiskar ei“. (Þjóðs. JÁ)
Líklega hefur þetta verið þegar járn var að byrja að flytjast til landsins, stuttu fyrir siðaskipti. Þá var það vandfengið og af nokkru meiri gæðum en landsmenn höfðu fyrr haft úr rauðablæstri sínum. Lá því beint við að ætla að það væri „tuggið og troðið“ af kölska sjálfum. Erfitt er að herða járn í andardrætti hesta og ekki eru aðföngin auðfengnari.
Þula marbendils var höfð þannig í Kollsvíkurveri: „Fuglsfóarn og flyðrubita;/ mannaket á miðjum krók/ og mús á oddi;/ Komi þá enginn kolmúlugur úr kafi/ þá er ördeyða á öllu Norðuratlantshafi“. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Moldrass boðar vá. Það getur verið merki um feigð ef ófiskinn maður byrjar allt í einu að fiska grimmt. (LK; Ísl.sjávarh III; sögn Ólafs E. Thoroddsen). Ófiskinn maður var stundum uppnefndur moldrass. „Nú fékk moldi fisk“ var viðkvæðið þegar hljóp á snærið hjá honum. (LK; Ísl.sjávarh III; sögn Ólafs Magnússonar).
Haftyrðill spáir um aflabrögð og hafís. Gott fiskiár er í vændum þegar mikið sést af haftyrðlum uppi við land. Þá má einnig vænta hafíss. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Daníels Eggertssonar).
Guð launar fyrir hrafninn. Þetta orðatiltæki var mjög í heiðri haft í Rauðasandshreppi. Hrafnar halda þing að hausti og skipta sér niður á bæi; eitt par á hvern bæ. Þegar hart er í ári gæta menn þess að hrafninn fái einatt einhverjar leifar til matbjargar, enda búnast þeim betur sem það gera. „Pálsmessan er dagur hrafnsins. Þeir sem gefa hrafninum ríflegan skammt á Pálsmessu eiga ekki á hættu að hann leggist á lömb þeirra að vorinu“ (Einar Guðbjartsson; svör til þjhd. Þjms).
Fiskur í hjalli dregur að meiri afla. Ýmsir létu hjall sinn aldrei vera tóman af fiskmeti; hvort heldur var þorskur, steinbítur, hákarlsbeita eða hvalþjós. Allt átti það að draga að afla. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Ólafs E. Thoroddsen, Vatnsdal).
Sjófylltur bátur og góðmeti. Það er fyrir góðum afla að dreyma bát sinn velkjast fullan í brimi. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Þórðar Jónssonar, Hvallátrum). Einnig boðar það góðan afla að dreyma ketmáltíð og kaffi með brauði. Fer aflinn þá eftir því sem fram er reitt. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Ólafs E. Thoroddsen, Vatnsdal).
Draumur fyrir aflaleysi. Það boðar aflaleysi að dreyma bát sinn settan á land. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Ólafs E. Thoroddsen, Vatnsdal).
Váboðar. Sá er talinn feigur sem dreymir sig sitjandi á sel. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Sigurjóns Á Ólafssonar, Króki). Að dreyma bát sinn brotinn er fyrir óhöppum, og einnig ef selur sveimar í kringum hann. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Þórðar Jónssonar, Hvallátrum).
Aldei krossleggja barkann. Aldrei má láta árar og mastur liggja hvað ofan á öðru í barka báts. Það nefnist að „krossleggja barkann“ og er ólánsmerki. (LK; Ísl.sjávarh. III; sögn Ólafs E. Thoroddsen).
Varasamt hreinlæti. Ekki má þvo fiskslor af höndum sér í róðri. Þá þvær maður af sér aflasældina. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Ólafs E. Thoroddsen, Vatnsdal).
Sjódreginn steinn. Talið er feigðarmerki að draga stein úr sjó. Honum á samt ekki að fleygja útbyrðis heldur hafa hann í bátnum; og er hann þá verndargripur. Lítill sjódreginn steinn var hafður fyrir neglustein (steinn sem lagður er á negluna til að hlífa henni). (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Ólafs E. Thoroddsen).
Hvalkvörn til dýralækninga. Hvalkvörn kemur að góðum notum við að lækna doða í kúm. Hún er látin liggja í vatni nokkra daga fyrir og eftir burð kýrinnar og henni brynnt með því. Sumir létu kúna drekka volgt þess konar seyði milli kálfs og hilda. (LK; Ísl.sjávarhættir IV; sögn Egils Ólafssonar, Hnjóti).
Vindgapi er hafður til að gjöra ofviðri að mönnum sem eru á sjó og drekkja þeim. Þessi aðferð er sögð hafa verið þannig viðhöfð að galdramaður tók upprifið lönguhöfuð og festi það upp á stöng, annaðhvort á sjávarbakka ef hann var hár, t.d. bergsnös eða á öðrum stað sem hátt bar á, og lét það sem út snýr á lönguhausnum óupprifnum snúa í þá átt sem hann ætlaðist til að veðrið kæmi úr. Síðan tók hann kefli og risti á það bandrún; þandi svo með keflinu út kjaftinn á lönguhausnum og festi það þar. Æstist þá veður í lofti úr þeirri átt sem galdramaður vildi og umhverfði sjónum svo engum skipum var fært á sjó að vera, nema þeim einum sem jafn vel voru að mennt eða betur en sá sem veðrinu olli. (Þjóðs. J.Á).
Mörkun lamba. Minna blæðir séu lömb mörkuð með aðfalli. Sum mörk eru lánsamari en önnur. (Kristján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjóðm.safns).
Einkenni góðrar skepnu. Það var talið mikið atriði á nýfæddum kvígukálfi að halinn næði sem lengst niður, helst niður á konungsnef. Þá var stórt júgurstæði talið ótvírætt merki um mjólkurlagni.
Sagt var að kýr "stæðu á stálma" þegar júgur þeirra varð mjög hart fyrir burð.
Lausir hnýflar á kúm hétu hornakörtur. Mjólkurbrunnar á kvígum eru framan til við júgrið eða júgurstæðið. Eftir því sem þeir voru gleggri voru það ótvíræðara merki um mjólkurlagni.
Eftir því sem meira bar á mjólkuræðum, voru kýrnar taldar betri mjólkurkýr. Vambsíðar kýr áttu að reynast öðrum betri. Það mun hafa byggst á því að þær rúmuðu meira fóður og mjólkuðu því betur. Það þótti ótvíræður kostur á góðum mjólkurkúm ef húðin var mjög laus. (Guðbjartur Guðbjartsson; svör til þjhd. Þjms)
Bann við sunnudagavinnu. Ekki má heyja á sunnudegi eða vinna annað nytjaverk. Undantekning er þó gerð ef forða þarf heyjum eða öðru frá skaða. Stranglega er bannað að vinna með hverskonar eggjárn á sunnudegi. Ekki má róa á sunnudegi né öðrum helgum degi, nema mikið liggi við. Ekki má heldur staga í skinnklæði sjómanns á slíkum degi; þá ferst sá sem klæðin ber. (Þetta bann var virt af mörgum í hreppnum fram undir lok 20.aldar).
Með aðfalli en ekki útfalli skal flytja inn í nýjan bústað. Sömuleiðis skal nýr búsmali rekinn heim á aðfalli; annars festir hann þar ekki yndi. Kampa á skepnuhúsi skal hlaða á aðfalli. Sláturfé skal skorið á aðfalli, því þá verður blóðið drýgra.
Með útfalli skal hinsvegar setja stromp á hús.
Áhrif tunglsins; stórstraumur og smástraumur. „Víst var svo, að tungl var talið og hafði áhrif á ýmsa atburði lífsins, bæði á menn og skepnur,og einnig á hina dauðu náttúru. Það seinkaði burði hjá skepnum og sennilega fæðingu hjá konum, þegar tungl var minnkandi, en gagnstætt með vaxandi tungli. Eldri konur, sem muna sýru- eða skyrgerð heima í sáum, í stórstreymi flaut sýran og skyrið ofan á, en féll til botnsins, þegar smækkaði straum. Eins var með grút og sjálfrunnið lýsi, þar á urðu samskonar endaskipti. Ennfremur var torfrista ótæk um stórstreymi, þó sæmileg reyndist um smástreymi, þ.e. um kvartilaskipti tungls“. (Kristján Júl. Kristjánsson; svör til þjhd. Þjms).
„Af áfunum kom þykk hvít sýra. Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum flaut hún upp á yfirborðið“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Ýmis önnur áhrif eru þekkt sem fylgja gangi tungls um jörðu. Meiri líkur eru til að gangur verði á ám og kúm; þ.e. að þær verði blæsma, með stækkandi straumi. Burðar hjá skepnum og barneigna hjá konum er fremur að vænta um stórstreymi. Torfskurður er léttari í stórstreymi en smástreymi. Einnig sögðu sumir að lund fólks væri léttari í stórstreymi en smástreymi.
Mánudagur til mæðu. Sá sem fæðist á sunnudegi fæðist til sigurs; sá sem fæðist á mánudegi fæðist til mæðu; á þriðjudegi til þrautar; á miðvikudegi til moldar; á fimmtudegi til frama; og á laugardegi fæðast menn til lukku. Sama gildir um fyrirtæki sem stofnað er eða verkefni sem hafið er.
Aldrei skera eyru af sviðum. Aldrei má skera eyru af sviðum áður en þau eru borin á borð; þá eru líkur á að maður sé sauðaþjófur. Ekki má heldur borða eyru af sviðum, af sömu ástæðu. Bannið um afskurð eyrna var algerlega virt frameftir 20.öld; enda voru sauðaþjófnaðir mönnum enn í fersku minni og enginn vildi vera sakaður um slíkt.
Eggjárn eru hefndargjöf. Ekki má gefa neinum eggjárn, nema það eigi að nota sem vopn; annars mun það valda þiggjanda eða gefanda skaða. Þetta bann var almennt virt frameftir 20.öld. En líklega er það afleiðing þessa banns að menn töldu það ekki þjófnað að stela eggjárni, jafnvel frá sínum bestu vinum. Skrásetjari vandist því snemma á að passa sinn vasahníf og lána hann engum nema undir eftirliti um skil.
Ekkert söngl. Varasamt er að syngja við fiskveiðar. Þá kveður maður til sín óvætti en frá sér veiði. Söngli barn yfir mat sínum verður það ekki mett.
Engar bendingar. Ekki má benda með fingri á skip á sjó. Þá mun það farast. Af sömu ástæðu er varasamt að benda á manneskju.
Ekki kvelja kertaljós. Varasamt er að leika sér með logann á kerti eða týru, t.d. með því að fella skarið, blása á logann eða spilla honum á annan hátt. Þeim sem það gerir mun reynast andlátið erfitt.
Varasamar sveiflur og steinkast. Ekki skyldi sveifla bandspotta, spýtu eða öðru óvarlega í kringum sig. Það fælir burt góðar vættir. Sömuleiðis skyldi enginn kasta steinum út á sjó sér til skemmtunar. Slíkt geta ókindur notað til að magna upp mannskætt hafrót.
Hrífutindana niður. Aldrei má skilja við hrífu liggjandi, þannig að tindarnir snúi upp. Slíkt er óbrigðul ávísun á rigningu og óþurrk. Meðan hrífur voru notaðar í Rauðasandshreppi var víðast gengið ríkt eftir þessu banni.
Skrattinn skítur í eggina. Gangi maður svo frá orfi sínu að maður brýni það ekki að loknum slætti mun skrattin skíta í eggina. Bítur því ljárinn ekki þegar næst er slegið.
Að skemmta skrattanum. Ósamlyndi manna er ávallt skrattanum til skemmtunar. Einnig er það að skemmta skrattanum þegar margir tala í einu og reyna að yfirgnæfa hvern annan.
Að skera skrattanum. Ávallt skal skera í áttina að sér þegar maður sker mat í greip sér. Skeri maður frá sér sker maður skrattanum bita.
Að teyma skrattann. Sá teymir skrattann sem gengur með hendur kræktar fyrir aftan bak.
Róður kölska. Ræðari sem lætur enda árahlummsins standa langt útfyrir höndina hefur kölska sér til hjálpar við róðurinn.
Naglaskurður. Geymi maður lengi að skera eða klippa neglur sínar, þannig að afskurðurinn verði breiður mun skrattinn nýta hann í skæði sín; sumir segja í náskip þess sem sker. Því skyldi ávallt hluta neglurnar í sundur eftir klippingu.
Svartur blettur á tungu. Ef maður (barn) lýgur merkir skrattinn sér tunguna með svörtum bletti. Sama gildir um blótsyrði, sem sumir töldu þó nauðsynleg til áhersluauka.
Hættur á meðgöngu. Ávallt skal brjóta málbeinið þegar svið eru snædd, eða stinga því í veggjarholu. Sé það ekki gert, og þunguð kona er á bænum, mun barnið verða mállaust. Ef þunguð kona borðar gómfyllu af sviðahaus mun barnið fæðast holgóma. Ef hún borðar rjúpuegg verður barnið freknótt.
Hnerrinn og guðs hjálp. Alltaf skal biðja guð að hjálpa þeim sem hnerrar. Sé það ekki gert er hætta á að hann og annað heimilisfólk verði drepsóttum að bráð.
Nástrá. Nástrá nefnist það strá sem vex inn úr húsþekju; venjulega gult og aumingjalegt. Ekki má slíta nástrá, þá missir maður einvern ástvin.
Ekki ganga afturábak. Gangi maður afturábak gengur maður samferðamann sinn ofan í jörðina.
Úthverf föt. Sá sem er í peysu sinni úthverfri, eða öðrum fatnaði, mun ekki villast þann daginn.
Saursæll er auðsæll. Sá sem ávallt sýnist vera skítugur er líklegri en aðrir til að auðgast. Sama gildir um þann sem hefur hárvöxt niðureftir hálsi aftanverðum, og þann sem hefur áberandi vörtu. Klæji mann í lófana er það líklega fyrir happi eða skyndilegum auði.
Hleypur á snærið. Hlaupi hnútur á færi eða línu boðar það stórhöpp, t.d. happadrátt á sjó. Af því er komið orðtakið að „hlaupi á snærið“ hjá þeim sem verður fyrir óvæntu láni.
Hnerri til aflasældar. Hnerri maður í veiðarfæri boðar það þau verði fiskin.
Að taka úr kitlurnar. Þegar unga stúlku hættir að kitla er það merki um að hún sé ekki lengur hrein mey. Sama gildir um yngissvein. Þá er búið að „taka úr þeim kitlurnar“.
Endurkoma. Gleymi maður hlut í húsi þar sem maður var gestkomandi, kemur maður fljótlega þangað aftur.
Ráð gegn ásókn draugs er að fara úr öllum fötunum. Enginn draugur er svo magnaður að hann sæki að nakinni manneskju.
Til að auka sér byr er þjóðráð að fara úr skyrtu sinni; tína lýsnar af henni og setja í seglið. Ekki er rannsakað hvort sama ráð gildir á vélbátaöld; t.d. að setja lýs í eldsneytistankinn.
Réttsælis skal snúa. Líkkistu skal ávallt snúa réttsælis þega t.d. gengið er með hana úr kirkju. Þegar báti er snúið á landi skal það ávallt gert sólarsinnis. Annað boðar ógæfu.
Fall er farar heill. Detti maður við upphaf ferðar að heiman boðar það velferð. Hinsvegar er það óheillamerki að detta á heimleiðinni.
Sá sem er góður við köttinn er líklegur til að vera einnig góður við konu sína.
Þrettándanótt er tími dulmagnanna. Þá tala kýr mannamál og álfar eru á ferli.
Óskabjörn er stór þanglús, sem festir sig stundum á roð fiska með sterkum klóm á framlimunum. Getur einnig synt á milli hýsla. Hann er þó í raun hrææta eins og marflóin. Sú þjóðsaga er um óskabjörninn að hann hafi í fyrndinni verið með stærstu hvalfiskum. Eitt sinn þegar hann elti bát Péturs postula og ætlaði að granda honum, kastaði Pétur vaðsteini sínum í gin hans og sagði um leið að hann skyldi verða hið vesælasta kvikindi í sjó og skríða um á sporðum annarra fiska. Ef óskabjörn er þurrkaður heill og síðan krufinn finnst í honum steinn eins í lögun og klappaður vaðsteinn. Sá sem ber hann á sér á aldrei að fá sinateygjur. Sá getur óskað sér hvers sem er sem lætur lifandi og afvelta óskabjörn bíta sig fastan við tunguræturnar. Sé óskabjarnarsteinn hafður í buddu dregur hann að peninga. Gott þótti að drekka seyði af steininum við hjartaverk.
Flæðarmús er, samkvæmt þjóðtrúnni, lítið kvikindi; mús sem sögð er lifa í sjó, en skríður stundum upp á útsker; logagyllt að lit, og er stundum á kreiki í flæðarmálinu. Náist hún, dregur hún peninga að eiganda sínum úr sjónum. Láti menn pening undir hana sækir hún samskonar pening út í sjó. Eina leiðin til að veiða flæðarmús er að leggja fyrir hana fínriðið net úr meyjarhári. Best mun vera að geyma hana í hveiti; liggjandi í meyjarhári og þar undir skal vera gullpeningur. En menn urðu að losna við hana áður en þeir dóu, og það var ekki vandalaust. Best var að setja hana í sjóvettling; sívefja með snærum og róa með hana út á sjó. En það þurfti að gera með aðgát, því þegar músin kemur í sjó veldur hún mannskaðaveðri og gríðarlegu hafróti; svonefndu flæðarmúsaveðri./músarbyl.
Í dýrafræði raunveruleikans er heitið notað um dýr (Aphrodite aculeata) af ætt burstaorma sem lifir á grunnsævi og finnst oft fremst framá útfiri í sandfjöru. Brúnleit, flöt, sporöskjulaga og alsett grábrúnum burstum á hliðum; einskonar kögri. Verða allt að 15-20cm. (Meðf. mynd er af burstaormi (Aphrodite aculeata) sem ber sama nafn, en er nokkuð annars eðlis).
Skoffín, skuggabaldur og stefnuvargur. Skoffín er afkvæmi tófusteggs og kattarlæðu. Skuggabaldur er afkvæmi kattarhögna og refalæðu. Bæði eru þau kvikindi skæð við fénað manna, en þó er skuggabaldur öllu meiri meinvættur, því hann getur drepið skepnur og menn með augnaráðinu einu saman. Stefnuvargur er slíkur óvættur sem slyngur galdramaður sendir á sína óvini til að vinna þeim mein. (Þjóðs. J.Á. o.fl.).
Gestaspjót á ketti. Þegar kötturinn sest á gólfið og sleikir sig, og setur um leið aðra afturlöppina beint upp í loftið er sagt að hann setji upp gestaspjót. Þá er öruggt að von er á gesti.
Hundur boðar gestakomu þegar hann liggur fram á lappir sér þannig að haus veit til dyra.
Ef vogmeri rekur á fjörur og hausinn veit á land boðar það hvalreka.
Dordingull og köngulóarvefur. Sá sem eyðileggur köngulóarvef verður ólánsmaður. Ógæfu boðar einnig að slíta niður þráð dordinguls. Unnt er að láta hann spá fyrir um aflabrögð með því að bregða hendi undir hann og segja: „Upp, upp fiskikarl ef þú færir veiði; niður ef þú færir eigi“. Sömuleiðis boðar ógæfu að hrekkja járnsmið.
Baneitraðar brunnklukkur. Brunnklukkur eru sagðar skaðræðiskvikindi ef þær komast ofan í mann. Þær séu baneitraðar, en auk þess bori þær sér inn í innyflin og éta mann innanfrá. Best þykir henni lifrin. Hún er svo lífseig að hún þolir þrjár suður. Fari brunnklukka ofan í mann er eina ráðið að fanga jötunuxa; binda um hann spotta; gleypa hann og draga upp aftur eftir að hann hefur banað brunnklukkunni. Slitni spottinn mun jötunuxinn reynast manni banvænn. Ekkert kvikindi annað þrífst í brunnklukkutjörn. Vatnskötturinn er engu betri, og þeim mun skæðari að hann getur stokkið upp úr vatninu. Liggi maður á vatnsbakka með opinn munn er hætta á að hann stökkvi upp í mann.
Rjúpnaveiðibann. Veiði menn rjúpur til matar er það ávísun á sult og ógæfu. (Rjúpur voru almennt ekki veiddar til matar í Rauðasandshreppi, þó þar veiddu menn ýmsan fugl annan, svo sem svartfugl, lunda, skarf og máf).
Spá hrossagauksins. Vert er að taka eftir því úr hvaða átt manni berst hnegg hrossagauks:
„Í austri unaðsgaukur; í suðri sælugaukur; í vestri vesalgaukur; í norðri námsgaukur; uppi unaðsgaukur; niðri nágaukur“.
Undirflog. Steindepill veldur undirflogi (júgurbólgu) í kúm og ám, með því að fljúga undir kvið þeirra.
Fjandafæla (t.v.) var talin hafa þá náttúru að væri hún borin í húfu manns verndaði hún gegn ásókn vætta og sendinga. Nota má sortulyng í sama tilgangi.
Brönugras til barnalagnaðar Þessi jurt (t.h.) hefur mjög kraft til að styrkja bæði karla og konur til barnlagnaðar; helst
rót hennar, sem eykur fjör manna; varðveitir hafnir kvenna og styrkir til fæðingar í hæfan tíma. (Björn Halldórsson; Grasnytjar).
Manndrápsviður. Blóðeik má ekki nota til skipasmíða; það skip myndi farast í fyrsta róðri. Ekki má kona stíga yfir kjöl sem lagður hefur verið að báti; það boðar sama voða. Seljan er ólánsviður. Sé hún í húsi mun kona ekki geta alið þar barn, né dauðvona manneskja skilist við. Skeri maður sig við vinnslu selju mun illt hlaupa í sárið. Reyniviður leitast við að draga bát í djúpið sé hann hafður til bátasmíða. Hann er þó stundum hafður í kjöl eða kjalsíður, með því að einiviður er hafður í hástokka, því hann fleytir bátnum. Ef einir og reynir eru í sama húsi mun það brenna til grunna. Séu þær viðartegundir sitt hvoru megin á hesti mun snarast af honum.
Blótspónn og eirpeningur. Þegar smíða skal bát er nauðsynlegt að höggva blótspón af bátaviðnum. Þá er höggvinn spónn þannig að hann falli til jarðar. Falli hann á grúfu er hætta á að bátnum lánist ekki vel. Einnig má fleyta blótspæni og fer lán bátsins þá eftir því hvað hann flýtur vel.
Það boðar velgengni í aflabrögðum að hafa eirpening í skinnu á bátsröng eða kollharði (LK; Ísl.sjávarh. II; sögn Þórðar Jónssonar).
Valdimar Össurarson skráði eftir ýmsum heimildum.
Eigi er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni. Gíll og úlfur eru ljósbrot á himni sem veldur því að við hlið sólar sjást stundum tvær aukasólir/hjásólir; sín hvorumegin. Talað er um að hann „blási út sólir“; að „sólir séu á lofti“, eða að „sól sé í úlfakreppu“. Sú trú er ævaforn að dílarnir séu vættir sem vilja tortíma sólinni. Í Gylfaginningu Snorra-Eddu segir að Úlfurinn Skoll renni á eftir sólu og muni gleypa hana, en Hati Hróðvinarson hlaupi fyrir og vilji gleypa tunglið. Þessu tengist forspá um veður og annað: „Eigi/sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“. (Sjá nánar um veðurboða hér á eftir).
Vígahnettir og vígabrandar. Vígahnöttur eða vígabrandur er það sem nú er nefnt loftsteinn; steinn utan úr geimnum sem kemur á miklum hraða inn í lofthjúp jarðar og brennur oftast upp að miklu eða öllu leyti. Þeir er af misjöfnum stærðum; stundum ein stórir og tungl í fyllingu, eins og sá sem Eggert Ólafsson sá árið 1756. Vígahnettir voru fyrrum taldir boða mannskæðar farsóttir og styrjaldir.
Urðarmáni var mönnum lengi ráðgáta; ljóshnöttur sem sagður er geta svifið í lausu lofti og skotist inn í hús og gjótur. Fyrirbærið er nú á dögum talinn vera staðbundin rafhleðsla; svonefnd kúluelding. Flestum sjónarvottum ber saman um að hann hverfi með miklum hvelli eða sprengingu; stundum finnst sérstakur þefur á eftir. Stærð urðarmána er oft um 20-30 cm. Tíðum sést hann í tengslum við þrumuveður. Hann er sagður hafa sést innandyra án þess að sæi á veggjum, hurðum eða gleri; sést inni í flugvélum og í kafbátum. Nýlega hefur tilvist fyrirbærisins verið vísindalega staðfest og tekist hefur að framkalla slíka ljóshnoðra með hárri spennu við sérstakar aðstæður, en óvíst er að allt þetta fyrirbæri sé af sama uppruna.
Lofteldurinn við Látrabjarg. Eggert Ólafsson; skáld, vísilögmaður og náttúrufræðingur, ritaði margt um íslenska náttúru og náttúrufyrirbæri. M.a. ritaði hann eftirfarandi um svonefnda „loftelda“ sem hann sagði að einkum yrði vart í sveitinni næst Látrabjargi. Hann mátti trútt um tala, þar hann dvaldi nokkrum sinnum í Sauðlauksdal, hjá séra Birni Halldórssyni. Eggert lýsir lofteldinum þannig:
„Hann sést aðeins á vetrum þegar hálfskýjað er og hvassviðri og skafhríð en kollheiður himinn. Á nóttinni og í rökkrinu sýnist þá stundum allt loftið standa í björtu báli og getur sýn þessi staðið stundarkorn. Á jörðu verður albjart líkt og af eldingu en ljós þetta hreyfist ekki nálægt því eins hratt eins og eldingarleiftrin. … Fólkið á þessum slóðum skelfist mjög við þessa sýn því að það þekkir ekki hina réttu orsök og heldur að hér séu eldingar á ferðinni. Skepnur og einkum þó hestar hræðast einnig lofteldinn. Hestar verða trylltir af fælni og hlaupa í allar áttir og stökkva jafnvel fyrir björg þar sem þeir hálsbrotna eða limlestast á annan hátt“. Segir hann merkilegasta dæmið um slíkan lofteld vera frá 25.janúar 1762, en það var sex árum áður en hann var á ferð í Sauðlauksdal í sinni hinstu för. Vera má að það sem Eggert ræðir hér um sé sama fyrirbærið og Hrævareldur:
Hrævareldur, sem einnig nefnist vafurlogi eða mýraljós er náttúrufyrirbæri sem gamlar sagnir greina frá og „vísindamenn“ vildu um tíma ekki viðurkenna. Þjóðtrúin segir að fyrirbærið birtist sem logi upp af hólum og holtum; einkum þar sem fólk hefur verið dysjað, og af því er nafnið dregið. Tvenns konar vísindalegar skýringar hafa verið settar fram á fyrirbærinu. Önnur er sú að kviknað hafi í mýrargasi (metan) sem iðulega losnar úr mýrlendi (nefnt will-o´-the-wisp á ensku). Þetta getur hugsanlega átt við hluta fyrirbæranna. Hin skýringin er að við sérstakar veðurfarsaðstæður myndist verulegur spennumunur rafspennu milli loftlaga nærri jörðu, þannig að hlutur sem réttur er milli laganna sýnist ljóma og gefi þá gjarnan frá sér suð um leið. Fyrirbærið er víða þekkt og nefnist á ensku St. Elmo´s fire.
Höfundurinn: Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp. Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni. Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land. Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja. Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1997.
Það er nú ekki margt sem ég get sagt frá kraftaverkum, þrátt fyrir það að ég er sannfærð um að slíkt á sér stað. Eitt vil ég þó nefna sem öll þjóðin fylgdist raunar með, en það er þegar breskum sjómönnum var bjargað af togaranum „Dhoon“ undir Látrabjargi. Það var eitt stórt kraftaverk að enginn skyldi farast við þessar aðstæður; hvorki björgunarmenn eða skipbrotsmenn nema þeir þrír skipverjar sem fórust áður en björgunarmenn komu á vettvang. Ég ætla ekki að rekja þetta hér enda nýverið gerð góð skil í fjölmiðlum á 50 ára afmæli þessa atburðar. Þegar mennirnir voru þarna í fjörunni hrundu steinar og klakastykki úr hömrunum og lentu á milli mannanna. Ekki hefði þurft um að binda ef slíkt hefði lent á þeim úr mikilli hæð. Þegar menn fóru í þessa björgun vissu þeir að kraftaverk þyrfti til ef allir kæmu heilir aftur.
Sjálf hef ég reynslu af að maður fær hjálp sem ekki verður skýrð með rökum. Ég held að flestir fullorðnir Íslendingar hafi heyrt um eða kynnst fólki sem virðist hafa kraft og hæfileika til að hjálpa í veikindum og öðrum erfiðleikum.
Ég veit ekki hvort það getur talist til kraftaverka, þær einkennilegu tilviljanir sem komu mér til hjálpar eftir að maðurinn minn veiktist 1986. Ég var hjá honum í Reykjavík eftir að hann veiktist en hann var mjög háður mér, enda lamaður að mestu. Þegar ég sá að þetta yrði löng dvöl að heiman þá sá ég að ég yrði að útvega mér dvalarstað í borginni því ekki gengi að búa hjá vinum og vandamönnum svo vikum og mánuðum skipti. Ég skrapp hingað heim fáa daga að tína saman nauðsynlegt dót án þess að hafa getað leyst málið enda fjármagn takmarkað og lítið framboð á húsnæði sem hentaði. Kvöldið áður en ég fór aftur suður er barið að dyrum og þar voru komin hjón frá Selfossi, góðir vinir okkar en hittumst sjaldan enda langt á milli. Við vorum að ræða málið um kvöldið um þessi vandkvæði mín í íbúðarmálum. Vinkona mín fór þá að róta í veski sínu og kemur svo með lykil sem hún fær mér með þeim ummælum að ég fari bara í lítinn gamlan bæ sem þau áttu í Vesturbænum og notuðu sem svefnstað ef þau þurftu að gista í Reykjavík vegna sinna starfa. Þessi gamli bær var örstutt frá Landakoti þar sem bóndi minn lá inni.
Þetta var í júlí og þarna var ég fram á haust. Þá fór ég að fá slæma samvisku yfir dvölinni þarna, þau notuðu þetta húsnæði meira að vetrinum. Þá átti gamall kunningi og sveitungi 50 ára afmæli. Ég ætlaði nú ekki að heimsækja hann en mér fannst endilega að ég ætti að fara út á Álftanes en þar býr hann. En í veislunni hitti ég konu sem ég þekki sem sagði mér að systir sín og hennar maður væru að ljúka við að innrétta litla íbúð í kjallara húss síns sem þau myndu leigja. Stutt frá sagt fékk ég þessa íbúð og þar vorum við (ég og bóndi minn eftir að hann fór að geta komið heim um helgar) til vors en þá komust við heim. Þegar svona gerist hvað eftir annað fer maður að hugsa hvort maður hafi ekki einhvers staðar aðstoð sem ekki ber mikið á í daglega lífinu. Fleira gæti ég rakið en þetta á kannske ekki heima hér svo ég læt þá staðar numið.