Fróðleikur sem Kollsvíkingar hafa haldið til haga varðandi fatnað, hannyrðir og húsverk fyrr á tímum.

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti)
Fatnaður og saumur  Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi segir frá iðni, útsjónarsemi og nýtni í hannyrðum.
Prjónaskapur  Sigríður ræðir um prjónaskap fyrr á tímum, þegar konum féll aldrei verk úr hendi.
Útsaumur   Hér fjallar Sigríður á Láganúpi um útsaum; m.a. krosssaum, kontórsting og saumaklúbba.
Fatnaður og saumaskapur
Torfi Össurarson frá Kollsvík ræðir saumaskap, pressujárn, náldrag o.fl. 
Hreingerningar og þvottar Torfi fræðir hér um ýmis efni; m.a. vatnsveitur; loftun og brókarkvíslar.

 

Fatnaður og saumur

sg sg

Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1990. 

Hér var iðkaður saumaskapur sem var nokkuð sérhæfður. Það var sjóklæðagerð (skinn). Við það voru notaðar fjaðranálar tvær og svokallaðar klömbrur, sem var beináhald sem líktist skærum og var haft til að draga nálarnar í gegn um skinnið.  Ekki þori ég að fara nánar út í aðferðina við þennan skinnsaum enda hafið þið það trúlega skráð. Ég hef hér í höndunum áhald sem hét prem og er held ég heimasmíðað. Þetta er beinstautur ca. 7-8sm langur, renndur, sívalur og með oddi. Þetta var notað við hvítsaum til að gata efnið. Þetta tilheyrði nú að vísu handavinnu en fléttast þó saman við fatasaum, því þegar ég man fyrst eftir voru gjarnan bróderaðir hvítir kragar á barnafötum; oft lausir og þræddir á hálsmálið svo hægt væri að taka þá af og þvo oftar en dökk fötin; líka voru þeir oft notaðir á önnur föt en þau upprunalegu.

Ekki veit ég til að fleiri en eitt heimili væru um hvora saumavél. Amma mín, Rebekka Gísladóttir, átti litla saumavél; alla úr járni og mjög einfalda að gerð.

Til gamans langar mig til að segja frá því að afi smíðaði fyrir hana skáp til að geyma í saumavélina; hurð að neðan en skúffa ofan með hólfum og meira að segja leynihólfi! Þetta borð eða skáp á ég enn og vildi mikið gefa til að eiga líka saumavélina. Þessi vél mun hafa verið keypt amk. fyrir 1920; ég veit ekki hvar. En gömul kunningjakona mín (ættuð frá Barðaströnd), um 80 ára, segir mér að móðin hennar hafi átt svona vél sem hafi verið pöntuð úr verðlista. Mamma mín átti handsnúna saumavél í tréramma eða litlu borði; lítil skúffa undir spólur og slíkt vinstra megin. Trélok eða kassi hvolfdist yfir þegar hún var ekki í notkun. Þessi vél er til enn og vel nothæf. Aldrei man ég eftir að þessi vél bilaði en hefði það gerst, held ég að föður mínum hefði tæpast orðið skotaskuld úr að gera við hana. Hann var þúsund þjala smiður. Ég man ekki heldur að hann fengi aðrar saumavélar til viðgerða sem hann hefði eflaust fengið hefðu þær bilað.

Þegar ég ólst upp á Lambavatni var þar tvíbýli og hafði verið í ómuna tíð. Milli bæjanna var rétt steinsnar svo ég var þar kunnug eins og heima hjá mér. Þar voru tvær stignar saumavélar enda voru þar tvær húsmæður, systur og giftar bræðrum. Önnur þeirra systra dó fyrir mitt minni. Bæði heima og á hinum bænum var allt saumað heima nema spariföt fullorðinna. Ekki veit ég vel hvar fengin voru snið en hef grun um að þau hafi gengið á milli kvennanna. Eftir að ég komst nokkuð á legg voru komin tískublöð til sögunnar en þeim fylgdu ekki snið fyrr en erlend blöð (t.d. Burda) fóru að sjást. Ég held að konur hafi komið sér upp grunnsniðum og breytt eftir en gömlum vefstól man ég eftir sem afi minn óf í. Bæði heyrði ég að ofið hefði verið vaðmál í ytri fatnað og svo heyrði ég talað um tvist í karlmannaskyrtur. Efni sem keypt voru var mest nankin í karlmannabuxur og tvisttau í skyrtur. Konur saumuðu kjóla á sig og dæturnar úr sirsi nema sparikjóla úr einhverju fínna efni. Drengjabuxur voru oft saumaðar úr einhverju ullarefni.

Allir hveitipokar sem voru þá úr lérefti voru notaðir í rúmföt, aðallega lök en fyrir kom að þeir voru notaðir í sængurver ef léreftið var talið nógu gott sem var nú ekki oft. Annars var keypt damask eða léreft í sængurver. Misjafnt var hvenær ungar stúlkur fóru að sauma á sig eða aðrar. Það fór bæði eftir hæfileikum við slíkt og svo heimilisástæðum, t.d. hvort mörg börn yngri voru á heimilum. Flestar hafa held ég verið komnar um eða yfir fermingu en þó sumar yngri.

Fötum var vent hér um slóðir og þótti sjálfsagt. Ég heyrði um dæmi þess að það væri gert tvisvar og var þá upprunalega réttan komin út aftur. Enn algengara var að sauma upp úr gömlum fötum eftir að ég man eftir og það gerði ég í mínum búskap. Ég saumaði á syni mína ekki minna úr notuðu en nýju og fannst það satt að segja jafnvel skemmtilegra en úr nýju ef það var lítið slitið. Föt voru (og eru enn) notuð á yngri systkini af þeim eldri eða þau gengu til frændfólks. Strákar gengu í stuttbuxum til 12-14 ára aldurs .Mín kynslóð var ekki alin upp í því ríkidæmi sem nú virðist vera að hægt væri að henda lítt slitnum eða góðum flíkum, dæmi þess að börnin vilji ekki þau föt sem foreldrar hafa keypt og þá fara þau beint í ruslatunnuna. (Altsvo fötin). Föt voru bætt þegar þau slitnuðu. Það var bæði stykkjað eða þrædd bót undir gatið og það klippt eins og ætti að setja stykki í en saumað niður í bótina og faldað í leiðinni og ég held að það sé aðferð sem hefur verið notuð áður en saumavélar komu á heimili.

Sængurver voru gjarnan útsaumuð eða sem algengara var; með hekluðum milliverkum. Einnig koddaver.  Handklæði voru gjarnan úr striga, þau sem notuð voru til handþurrks þegar komið var frá útiverkum, annars frottehandklæði.  Diskaþurrkur og slíkt var yfirleitt úr slitnum rúmfötum.

Enginn saumanámskeið voru í sveitinn í mínu ungdæmi en eftir að ég man eftir fóru ungar stúlkur í húsmæðraskóla, margar hverjar. Móðir mín fór á námskeið á Núpi í, að ég held, tvo mánuði, sennilega vorið 1927 eða 28. Þar var kennt smávegis í saumum og matreiðslu. Annars fóru ungar stúlkur gjarnan til Reykjavíkur einn vetur eða tvo, í vist í betri húsum og var það talinn góður undirbúningur undir húsmóðurstörfin. Móðir mín fór í þannig nám og einnig flestar konur sem ég ólst upp nærri og ef vel tókst til með húsin sem þær lentu í var þetta nokkuð góður undirbúningur.

Saumakonur voru ekki í minni sveit en konur sem færari voru í saumaskap sniðu gjarnan fyrir nágrannakonurnar og saumuðu stundum líka. Spariföt kvenna sem voru undantekningalítið peysuföt og/eða upphlutur voru oftast saumað af saumakonu sem var á Patreksfirði og hét Guðrún Þorsteinsdóttir. Hún sneið og saumaði það sem vandasamt var en konurnar saumuðu oft sjálfar það auðveldara. Ég þekki ekki til saumakvenna sem fóru með vermönnum til sauma, þeir voru örugglega útbúnir með fatnað áður en þeir fóru í ver og svo var hér í Kollsvík kvennaval í nágrenni versins sem hlupu undir bagga ef þurfti að fá gert við saumsprettu.

Karlmenn stunduðu ekki sauma hér svo ég viti nema sjóklæði (skinn) sem þeir saumuðu að ég held undantekningarlaust. Reyndar var föðurbróðir minn talinn næstum undarlegur vegna þess að hann saumaði og prjónaði á dóttur sína (f.1930) en hann missti konu sína frá 2 ára dótturinni og hafði hana hjá sér og ól upp einn að mestu en þá var það næstum einsdæmi að karlmaður væri fær um slíkt. Ekki veit ég um borgun fyrir fatasaum en heima á Rauðasandi held ég að slíkt hafi ekki verið gert upp með peningagreiðslum, heldur greiði á móti greiða.

Straujárn voru ýmist til massív járn sem hituð voru á eldavélinni, eða járn sem voru hol innan með tungu sem svo var kölluð sem var hituð í eldi inni í eldavél. Lok var aftan á straujárnum sem lokað var þegar tungan var komin glóheit í sitt hólf. (Tengur notaðar til að ná tungunni úr eldinum). Laust handfang var á járnunum sem hituð voru ofan á vélinni til þess að það hitnaði ekki því var svo smellt á þegar járnið var heitt og næsta járn hitað. Það þurfti ekki nema eitt handfang en gjarnan voru notuð 2-3 járn.

Hversdagsföt voru kannski ekki svo mjög frábrugðin því sem vinnuföt eru enn, nema nærföt.  Karlar gengu í síðum nærbuxum úr ull amk. á vetrum og þá ullarnærskyrtu, þó fremur eldri menn. Svo voru nankinsbuxur, skyrta úr flóneli eða tvisttaui, ullarpeysa og stakkur sem svo kallaðist úr kakí eða nankini. Konur voru í skyrtubol, stundum prjónanærbuxum á vetrum, sokkabandabelti, háum sokkum (ull) undirkjóll og morgunkjóll úr sirsi. Gömlu konurnar voru í þykkum dökkum fellingapilsum og dagtreyjum, ermalöngum treyjum, dökkum. Náðu þær niður í mitti, aðskornar og kræktar framan.  Þegar konurnar fóru til kirkju eða önnur mannamót voru þær í peysufötum eða upphlut, peysufötin þóttu jafnvel fínni þrátt fyrir allt silfrið eða gullið á upphlutnum. Svo höfðu þær sjal. Karlar voru bara í jakkafötum líkt og nú.

Barnaföt voru lík fötum fullorðinna nema þar tilheyrði kot sem bæði strákar og stelpur voru í. Það var stuttur bolur með hlýrum yfir axlir. Þetta var hneppt að aftan og neðan á því voru 4 tölur sem sokkabönd voru fest í. Svo voru börn í ullarsokkum næstum upp í klof og á þeim tölur sem sokkaböndum var hneppt á. Strákarnir voru svo í stuttum buxum þar til þeir gerðu uppreisn gegn slíku. Stelpur voru í prjónaklukkum og svo kjólum og reyndar voru eldri konur oft í klukkum líka. Minn aldursflokkur puntaði sig gjarnan með því sem upp er talið t.d. pallíettur, útsaum, perlur, fyllingar og alla muni, axlapúða ofl.

Ég náði því að eignast sauðskinnsskó þegar ég var 3-4 ára en þá voru þeir að hverfa nema hjá sumum gömlum konum. Gömul kona var í Neðri bænum á Lambavatni þegar ég var að alast upp sem eignaðist að ég held aldrei aðra skó en skinnskó eða roðskó úr steinbítsroði sem hún gekk alltaf í hversdags en skinnskórnir voru til spari. Í þessum skóm voru alltaf leppar, prjónaðir með garðaprjóni og það var fyrsta plaggið sem smástelpur prjónuðu. Þessi kona hét Elín Benónýsdóttir og okkur krökkunum fannst hún persónugerfingur gamla tímans. Verst var með þessa skó hennar að hundar sóttu í þá og átu þá.

Gamlar konur gengu gjarnan með skakka; prjónahyrnur á herðum, krossbundnar yfir brjóst og bundin aftur fyrir. Svo gleymdi ég að geta um að engin kona var fullklædd fyrr en hún var komin með svuntuna, átti það bæði við ungar og gamlar.

Höfuðföt voru ekki margbreytt.  Karlar gengu með derhúfur; enskar húfur kallaðar. Konur gengu með skýluklúta og börn með prjónahúfur. Tískubreytingar hafa verið eins til sveita eins og annarsstaðar frá því ég man eftir; kjólar ýmist stuttir eða síðir, þröngir eða víðir. Einu sinni var mjög fínt og móðins að kjólar væru þröngir með rúnnskornu skjuði sem kallað var, stutt pils utanyfir því þrönga.

Varðandi fermingarföt langar mig að segja frá því að tengdafaðir minn (f.1879) sagði að elsta systir hans hafi saumað fermingarfötin hans í höndum því þá var ekki til saumavél. Hún hét Halldóra Guðbjartsdóttir og var elst af 17 systkinum sem upp komust en tengdapabbi var yngstur. Hún þótti mjög myndarleg við saumaskap og mun hafa eignast eina fyrstu saumavél sem hér þekktist.

Ég var komin um eða yfir fermingu þegar ég eignaðist fyrst síðbuxur. Þær voru lítið notaðar af kvenfólki fyrs, og alls ekki af fullorðnum konum. Ég held að þær hafi þótt fljótt sjálfsagðar.

Fatahirslur voru mest kistur fyrst, og kommóður. Fataskápar til að hengja í föt þekktust ekki allra fyrst þegar ég man eftir, en fatahengi með tjaldi fyrir. Reyr var notaður til að gera góða lykt í föt. Mölkúlum man ég eftir. Fötin voru borin út og viðruð á vorin í vorhreingerningunum.

Ég man ekki eftir neinni þjóðtrú í sambandi við saumaskap; það var þá helst lukkuhnútur. Smá viðbót um spariföt kvenna. Í Neðri bænum á Lambavatni var til skautbúningur sem Halldóra Ólafsdóttir hafði átt. Hún var úr Breiðafj.eyjum, dóttir dóttir Eyjólfs eyjajarls, móðir Ólafs Sveinssonar, Eyjólfs Sveinssonar og þeirra bræðra, og amma Magnúsar Torfa og Sveins. Þessi búningur er til og vel varðveittur. 

Prjónaskapur

Höfundur:  Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan).  Ritað 1996.

Fyrstu prjónar sem ég man eftir voru stálprjónar, og svo man ég eftir kopar- eða eirprjónum sem ég held að hafi verið heimasmíðaðir. En aðallega voru notaðir tréprjónar, heimasmíðaðir. Voru þeir úr bambuslegg sem mikið rak af á Rauðasandi. Þetta var einstaklega heppilegt efni í prjóna. Leggirnir voru klofnir niður og skornir til eftir því hvað þeir áttu að vera grófir. Notað var ysta lagið á leggnum. Svo voru prjónarnir skafnir vel og vandlega og pússaðir með sandpappír þar til þeir voru alveg örðulausir og hálir. Við systkinin smíðuðum okkur prjóna og mér fannst mun meira gaman að framleiða prjónana en prjónlesið! Þessir tréprjónar þóttu fara mun betur með hendur prjónakvenna en stálprjónarnir sem voru taldir orsaka handadofa. Prjónakonur geymdu gjarnan prjónana í prjónastokkum. Ég hef ekki vitað prjónað á fleiri prjóna en fjóra-fimm. Tínur voru til og notaðar undir hnykla og annað smádót. Þær voru gerðar úr þunnum fjölum sem voru sveigðar í aflangar öskjur (teikning), milli oka sem voru á endum tínanna; lok voru smellt.

Band var notað um garn úr íslenskri ull, en garn úr innfluttri ull þótti mýkra og betra í barnaföt og slíkt. Band var oftast heimaspunnið og spunakonur voru hreinir listamenn við rokkinn. Börn og unglingar (og karlmenn) kembdu ullina. Ef nota átti bandið í vinnupeysur karla eða grófari sokkaplögg var kembt saman tog og þel eða notað eingöngu tog en tekið var ofan af sem kallað var þegar tog og þel var aðskilið. Svo var send ull í Gefjun á Akureyri til að vinna úr henni lopa. Fólk gat fengið unnið úr sinni ull og þá ýmist óofanaftekin ull eða þel og var þá þó nokkur vinna að taka ofan af mörgum reyfum. Ekki þarf að taka fram að ullin var öll þvegin heima; úr keytu fyrst eftir að ég man eftir mér.

Nokkrir bændur á Rauðasandi keyptu saman spunavél, sennilega um 1935 -40. Hægt var að spinna í henni 5 - 10 þræði í einu. Var hún mikið notuð enda hið mesta þing. Menn komu stundum með lopa annars staðar frá úr sveitinni og fengu að spinna eða fengu heimamenn til að spinna fyrir sig.

Þelband var mest notað í nærföt, einspinna í nærskyrtur, allt frá ungbarnaskyrtur og upp í kven- og karlmannaskyrtur og nærbuxur á yngstu börnin (bleyjubuxur). Annars var „föðurlandið“ úr smáu tvinnuðu bandi. Prjónaklukkur á stelpur voru úr hárfínu tvinnuðu bandi eða einspinnu, þær voru prjónaðar með klukkuprjóni. Reyndar var ég hundlöt við prjónaskapinn þegar ég var að alast upp enda var farið að slaka nokkuð á vinnuhörku fyrri ára og alda þegar ég var að alast upp svo ég veit kannske ekki mikið um prjónamunstur fyrri ára!

Væri prjónað á tvo prjóna var okkur kennt að taka fyrstu lykkju óprjónaða fram af prjónunum. Venja var og er að lykkja saman prjón ef þurfti að setja saman enda, t.d. á öxlum. Ég lærði að setja saman prjón, jaðar við jaðar á réttunni. Tekið til skiptis í hvorn jaðarinn. Ýmist voru hælar prjónaðir sem „húfuhæll“ eða „Halldóruhæll“ sem var með stalli og heitinn eftir Halldóru Bjarnadóttur.  „Húfuhæll“ var prjónaður eins og táúrtökur nema úrtökurnar styttri (mynd) þá var prjónað í auka band þvert á „húfuna“ það var svo rakið úr eins og þegar var rakið úr fyrir þumli og teknar upp lykkjurnar og prjónaður framleisturinn. Svo var og er mælt band einu sinni eða tvisvar á ilinni; auka umferð undir ilinni.

Börn lærðu fyrst að prjóna leppa (hér ekki illeppar) með garðaprjóni. Þá var fyrst prjónaður miðhlutinn (teikning af lepp) þversum, svo teknir upp á prjón jaðrarnir og prjónaðar húfur á endana með úrtökum. Ég man ekki eftir prjónagerðum kenndum við nöfn nema Halldórufit og Halldóruhæl. Tvíbanda prjón var kallað þegar prjónað var með tveim eða fleiri litum. Ekki held ég að öðruvísi prjónles hafi verið fyrir sjómenn nema peysur þykkri og hlýrri kannske.

Efst á sokkum og vettlingum hét fit eða brugðningar. Þá var ýmist 1 slétt og 1 brugðin eða 2 og 2. Nöfn á sokkum voru á grófum hosum, háleistar, hosur, snjósokkar (háir) og var verið í þeim úti utan yfir smábandssokkum á vetrum eða í kulda. Þessir grófu voru handprjónaðir en þeir fínni oftast á prjónavél. Sokkavél (hringprjónavél) var keypt heima um 1935 - 36.

Vettlingar voru ýmist handvettlingar sem voru notaðir ef fólk fór t.d. milli bæja. Þeir voru gjarnan úr smáu bandi og oft tvíbanda. Svo voru grófari vettlingar notaðir við vinnu og þeir þykkustu voru sjóvettlingar. Þeir þófnuðu gjarnan á árinni og voru þá kallaðir rónir. Vettlingar voru oftast með tveim þumlum (nema barna og kvenvettlingar). Voru þá þumlarnir sem ekki voru notaðir snúnir inn í vettlinginn. Svo var skipt um þumla og þá þófnuðu þeir og slitnuðu jafnar.

Farið var að prjóna lopapeysur eftir að farið var að vinna ullina í lopa en oftast voru vinnupeysur úr bandi (Gefjunarband) og þá prjónaðar í tvíkjálka prjónavélum ef fólk átti aðgang að slíkum. Buxur voru prjónaðar síðar á karlmenn, stuttar eða hnésíðar á konur en á börn oftast niður undir hné. Svo voru bæði stelpur og strákar í sokkum sem náðu upp á mið læri svo að næði vel saman buxur og sokkar. Sokkar voru með tölum efst og hnepptir upp með sokkaböndum sem aftur voru hneppt upp á kot sem krakkar voru í.

Stelpur voru oftast í pilsum eða kjólum og það var ekki fyrr en um eða eftir 1940 sem síðbuxur á stelpur fóru að vera algengar. Strákarnir voru í stuttbuxum fram á 12 - 13 ára aldur.

Tátiljur voru algengar og krakkar æfðu sig gjarnan á prjónaskapnum á slíku prjónlesi.

Ég var búin að nefna hringprjónavél sem var til heima og þótti mikil framför. Í henni voru prjónaðir allir sokkar (nema grófar hosur og snjósokkar) og stundum vettlingar. Þessari prjónavel fylgdi svokallað brugðningarstykki sem féll ofan í hringinn og var þá hægt að prjóna brugðið í vélinni þó ekki nema í hring. Var það notað til að prjóna nærboli á börn og konur. Ekki þótti samt gott að prjóna boli á fullorðna því þá þurfti að klippa upp hólkinn og nota tvær lengjur. Svo var ein kona á Rauðasandi sem átti tvíkjálka prjónavél og prjónaði talsvert fyrir sveitungana.  Hún hét Kristín Pétursdóttir og hún og bræður hennar voru í mörgu á undan sinni samtíð. Hún giftist aldrei en bjó hjá bróður sínum Jóni á Stökkum og nokkur ár hjá Hólmfríði systur sinni í Bæ, vann þar við bústörf en prjónaði á vélina sína til að drýgja örlítið tekjurnar. Einnig átti hún garð og ræktaði rófur og átti líka nokkrar hænur til búdrýginda. Henni féll aldrei verk úr hendi en þær voru svo sem fleiri konurnar í þá daga sem það mátti segja um en hún var aldrei vinnukona eins og tíðkuðust en réði sér og sínum verkum sjálf, bráðskynsöm kona og eina af þessum konum sem ég kynntist ung og bý að þeim kynnum enn. Eldhugi eins og faðir hennar Pétur Jónsson fræðimaður frá Stökkum. Nú er ég farin að villast alltof langt frá efninu.

Ég held að konurnar hafi prjónað alla daga nema þá helst fyrri hluta sunnudaga, og gömlu konurnar prjónuðu gjarnan ef þær gengu milli bæja. Þegar sokkar slitnuðu þá voru brugðningar raktar ofan af og prjónaðir nýir sokkar neðan við brugðningarnar.

Mig langar til að bæta við þetta nokkrum orðum um spuna á vinglu sem afi minn notaði til að spinna á; aðallega hrosshár en smávegis líka togi. Úr hrosshársbandinu fléttaði hann svo reipi, alltaf með 5 þáttum. Líka var halasnælda notuð talsvert mikið til að tvinna og þrinna á; einkum gróft band.  

Úsaumur

Höfundur:  Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan).  Ritað 1991.

Þetta er nú kannske ekki alveg mín deild, þar sem ég þótti heldur löt við svona kvenlegar dyggðir í uppvextinum og þó kannske fremur sérvitur, þar sem ég hafði mestan áhuga á að hanna mína handavinnu sjálf.  Í þeim litla farskóla sem ég gekk í var einfaldlega engin handavinna en í Héraðsskólanum á Núpi þar sem ég var í tvo vetur var smávegis handavinnukennsla og þá saumaður krosssaumur í púða og teppi. Einnig var saumað í hör og léreft og svo nokkuð sem kallaðist forníslenskur saumur. Í kvennaskóla gekk ég ekki.

Stelpur voru látnar æfa sig í að sauma út, strax og þær gátu haldið á nál (ca 7-9 ára), og þá byrja að sauma kontorsting og gjarnan í svæfilver. Stafaklúta heyrði ég um en kannast ekki við sjálf eða hjá mínum vinkonum á sama reki. Hinsvegar er til smáklútur sem amma mín saumaði í stafi og kynjadýr með krosssaum en hún var orðin fullorðin þegar hún var að æfa sig í þessu. Þegar hún var barn átti hún þess ekki kost að læra svona dútl.  Kannske var móðir mín og hennar kynslóð mesta áhugafólkið sem ég vissi um í svona hannyrðum. Hún sagði mér að þær systur (4) hafi fengið sunnudögum úthlutað til slíkrar iðju og á sumrin sátu þær gjarnan úti við handavinnuna þegar gott var veður.

Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum, löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi líkt og þetta. (mynd) Hliðin sem sneri að vegg var ekki með mynstri eða blúndu en blúnda var með hliðum og framan. Svo var mikið saumað í punthandklæði oftast með kontorsting en ég á enn slitur af þannig handklæði sem mamma saumaði með feneyjarsaum og poka undir óhrein barnaföt í sama lit. Svo var líka saumað í vasaklúta.

Saumaklúbbar voru ekki til hér fyrr en um 1950-60 nema, svo ég vitni aftur í móður mína, þá komu þær oft saman heimasætur af fleiri bæjum með sunnudagshandavinnuna; sérstaklega ef hægt var að vera úti. Ekki voru allstaðar rúmgóð húsakynni en heimasæturnar fjölmennar á bæjunum. Einnig var ekki eins góð birta í húsum og nú er. Þeir saumaklúbbar sem hér hafa verið á seinni árum eru svipaðir held ég allstaðar; nema hér hafa þeir verið nokkuð fjölmennir enda samanstendur af öllum konum í meirihluta sveitarinnar, sem er að vísu ekki fjölmenn. Þetta hafa verið 12-15 konur. Stundum hafa verið unnin sameiginleg verkefni ef basar hefur staðið til. T.d. hafa prjónavélaeigendur prjónað barnaföt heima og gengið frá því í saumaklúbbum. Á borðum var kaffi og stríðstertur. Þær urðu flestar að hafa karlana með sem bílstjóra því að lengi vel óku þær ekki sjálfar, sérstaklega eftir vanhirtum vetrarvegum hér í sveit. Þeir sátu gjarnan við spil, og gott ef einhverjar konur laumuðu sér ekki stundum í þann hóp.

Eitt er það hópverkefni í hannyrðum sem ég hef heyrt um í Sauðlauksdalsskóla, þó ekki kunni ég að tímasetja það hvenær það var unnið, en það er altarisdúkur í Sauðlauksdalskirkju. Ég hef heyrt að konur í sókninni hafi saumað í hann með feneyjarsaum; til skiptis sinn hlutann hver. Sá dúkur er orðinn slitinn og hætt að nota hann, svo trúlega er hann gamall nokkuð. Svolítið var um að vísur voru gerðar á eða um saumaklúbbinn.  Þar var m.a. ein hagmælt kona sem eitt sinn dró úr pússi sínu drápu,nokkuð langa, sem hún kvað við raust yfir hinum konunum. Tilefni þessa var að konurnar þóttu stríðstertur nokkuð komnar út í öfgar, því hver vildi gera betur en sú síðasta og voru sumar orðnar hálfsmeykar við að halda klúbbana hjá sér, en þeir voru á bæjunum til skiptis. En þessi hagmælta kona snaraði þá bara nokkrum grundvallarreglum í rím til þess að síður gleymdust. Var þar varað við of miklum tertum o.fl. sem til bóta taldist horfa.

Um garn og annað efni sem notað var eftir að ég man til, er nú svipað að segja og nú er; auroragarn, perlugarn, silkigarn og eitthvað sem kallaðist flokkasilki. Svo allskonar ullargarn og þá saumað í stramma, java eða ullarefni. Með fínna garninu var saumað í hör, léreft, silki og fleira. Mynstur gengu gjarnan á milli kvenna. Einnig fengust mynstur úr kvennablöðum og svo úr dönsku blöðunum, t.d. Familie Journalen sem var keypt á bæjunum heima frá því stuttu eftir síðustu aldamót. Allar konur og stúlkur áttu nálapúða, broderskæri, fingurbjörg og margar saumakassa. Þeir voru heimasmíðaðir á báðum Lambavatnsbæjum enda voru þar listasmiðir. Svo var áhald sem margar konur áttu sem hét perm. Það var rennt úr beini; a.m.k. það sem ég á (mynd), og notað til að gera göt þegar saumaður var svokallaður enskur saumur.

Mér finnst bera meira á krosssaumsmyndum en áður var, og ég held að þar spili nokkuð inn í að húsmæðraskólar hafa verið lagðir niður. Þar var kennd fjölbreytt handavinna t.d. harðangurssaumur ofl.

Mig langar til að segja frá litlum dúk sem ég saumaði í og gaf mömmu minni í jólagjöf. Þá var ég 11-12 ára. Mynstrið teiknaði ég sjálf en studdist við mynd af dúk sem ég sá í blaði. Saumurinn var kontorstingur, flatsaumur og mislöng spor. Garnið var auroragarn sem stelpur voru gjarnan birgar af. En það var vinnuaðstaðan sem gerði þennan dúk mér minnisstæðan. Þar sem þetta átti að vera jólagjöf þá mátti enginn sjá þetta. En í litlum húsakynnum og fjölmennum var það ekki auðvelt. Svo hagaði til að hænsnin á bænum fengu að hafa olíulukt hjá sér í skammdeginu, en bara á daginn. Undir kvöldið fór hænsnahirðirinn, ég, og gaf þeim kvöldmatinn og svo þurfti að slökkva á luktinni, en ekki fyrr en þau voru komin upp á prik. Innangengt var úr hænsnakofanum í fjárhúsin. Því tók ég með mér kerti sem alltaf var nóg af á stríðsárunum og settist á jötubandið og saumaði á meðan hænsnin átu. Þetta tókst, en ekki segi ég að hvíta léreftið hafi verið skjannahvítt að lokum. En þetta mátti þvo og nágrannakona mín saumaði blúndu á dúkinn og ég á enn ræfilinn af honum.

En þetta með kertaauðinn á stríðsárunum kom til af því að þá rak á Rauðasandi geysilegt góss úr skipum sem sökkt var þarna undan Söndum. Þar á meðal ósköp af kertavaxi. Úr því voru steypt kerti eftir þörfum. En þar sem það er önnur saga er ég að hugsa um að setja það og fleira á annað blað. Svona er það þegar farið er að rifja upp gamalt, að þá er erfitt að hætta og er ég þó pennalatasta manneskja sem ég þekki. Ætli ég setji þá ekki amen eftir efninu því aldrei hef ég á húsmæðraskóla farið og veit ekki nóg um skólahandavinnu til frekari umræðna. 

Fatnaður og saumaskapur

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa gerði hann að beiðni Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1984.

Áhöld til sauma voru nú heldur fátækleg.  Þó átti móðir mín saumavél til strax og ég man eftir mér. Auðvitað átti hún skæri, fingurbjargir, margskonar nálar allt frá fínum saumnálum og varpanál til að þvengja roðskóna. Svo voru þrístrendar nálar til að brydda með leðurskó og skinnskó. Nálhús eða prillur einnig voru til; heimasmíðaðar nálar; fjaðranálar og ávalar einkum notað til að sauma skinnklæði.  Þvengjanálin var lang stærst; einkum notuð til þess að þvengja leður og skinnskó og roðskó. Roðið kom af steinbít, skötu og hámeri, sel o.fl. s.s. nautahúð og hrosshúð.    Nálapúðar voru allstaðar til. Heimasmíðuðu nálarnar voru smíðaðar úr deigu járni, eldborið þegar augað var gert; beygt og svorfið til eins og fjaðrirnar á fjaðranálunum.

Um verð á saumavélum um aldamót hefi ég ekki hugmynd um. Auðvitað var saumavélin flutt inn frá útlöndum. Ekki þekkti ég það að fleiri heimili slægu sér saman um saumavél.    Þessi saumavél sem móðir mín átti var handunnin og stóð í tréramma eða skúffu. Henni var lyft upp til þess að smyrja hana. 2 eða þrjár spólur fylgdu. Var hægt að fylla þær í þartilgerðum stól og svo snúið vélinni þar til spólan var full.    Viðgerðarmaður var faðir minn ef laga þurfti eitthvað, en vélin bilaði sjaldan.    Svartur og hvítur tvinni var ávalt til í vélina.

Hörtvinni var sterkur þráður. Þráðarleggjum þarf nú ekki að lýsa. Þeir komu af sviðafótum kindanna. Ullarþráður var notaður til þess að sauma  skinnklæði og skinnskó og annað skótau.  Fatasnið voru oft fengin að láni ef konur gátu ekki búið þau til en oft munu útslitin föt verið höfð til að sníða eftir, t.d. man ég eftir að móðir mín fékk lánaðan kjól til að sníða sinn fyrsta kjól því hún hafði áður notast við pils og stutta treyju, þó hefi ég verið 5 eða 6 ára. Kjólinn fékk hún hjá stúlku af næsta bæ sem hafði verið eitthvað í höfuðborginni.   Úr heimaofnu efni var nánast allur fatnaður saumaður bæði á karla og konur, innst sem yst.  Rúmföt, undirsængur, ver voru þó úr útlendu efni. Tvistur var mikið notaður í uppistöður en ullarband, einfalt í fyrirvar. Tvisturinn var innfluttur, hann var hvítur og allavega litur.    Útlent efni var keypt í sængurver, oft mislitt, oft kallað sirs. Síðar komu Gefjunarvaðmál sem var notað í jakkaföt. 1925 saumaði systir mín tvenn jakkaföt, önnur úr heimaofnu vaðmáli dökku hin úr Gefjunarvaðmáli.  Yngri systur mínar byrjuðu á því að sauma föt á brúðurnar sínar.    

Lítið sá ég móður mína venda fötum en alltaf bæta og stykkja föt og sauma upp úr gömlum fötum. Ég held að móðir mín hafi verið snillingur í því að bæta og stykkja föt. Hún klippti úr því sem hún stykkjaði ávalt í rétt horn, saumaði stykki í gatið sem klippt var úr flíkinni og allt fór þetta svo vel. Hún gerði mér frakka úr gauðrifnum karlmannsfrakka; klippti úr ótal stykki og setti saman í frakka á mig 6 eða 7 ára. Að lýsa þessum verkum væri óhugsandi fyrir mig.  Rúmföt voru auðvitað saumuð með saumavél eins og allt annað þar sem komið var við. Handklæði gátu verið úr ofnu efni en snemma voru þau keypt. Diskar og matarílát voru þvegin og þurrkuð með stykki úr útslitnu handklæði.  Ef til vill voru svampar sem ráku úr sjó notaðir til uppþvotta.    Móðir mín lánaði systur sinni fermingarfötin mín á son hennar sem var fermdur árið eftir að ég fermdist.

Ekki man ég nein saumanámskeið, en næst elsta systir mín fékk tilsögn í karmannafatasaum nokkra daga á Patreksfirði hjá konu sem var þekkt fyrir kunnáttu á slíkum saumum.  Annars get ég ekkert sagt um saumakonur eða störf þeirra.    Ekki þekki ég konur sem saumuðu íslenska búninginn en kona mín, Helga Sigurrós, saumaði upphlutinn og það sem honum tilheyrði.  Ég þekki einn karlmann sem saumaði buxur á sjálfan sig og syni sína. Einnig spilaði hann nokkur lög á fiðlu sem hann átti. Þessa fiðlu sá ég og heyrði Kalla spila á fiðluna, en svo var hann kallaður (Karl Kristjánsson á Stekkjarmel).    Ekki þekkti ég neinn sem tók að sér að  gera við föt. 

Pressujárn voru til á mörgum bæjum; þau voru hituð á eldavél.  Svo komu strauboltar með tungu sem hituð var á glóð og sett glóandi rauð inn í boltann.  Boltatengur sá ég aldrei.  Engin strauborð; það var notast við eldhúsborðið eða stofuborðið.  Daglegur fatnaður var allur heimaofinn og saumaður. Vaðmálið var aðalefnið í pils og millipils og treyjur, svuntur gátu verið heimaofnar úr tvisti mislitum, prjónaðar þríhyrnur voru algengar svo komu sjölin við peysufötin og slifsin úr útlendu efni.  Skotthúfur voru gerðar úr fínu ullarbandi, prjónaðar, skúfurinn var úr útlendu garni.  Sokkabönd kvenna voru oft skrautofin. Treflar voru oftast úr ull, vettlingar og sokkar einnig vettlingar voru oft skrautlega prjónaðir. Reiðföt kvenna voru all fyrirferðamikil, skósítt pils og vítt, aðskorin treyja, hattur, stundum með slöri.  Karlafatnaður var algengur úr vaðmáli, jakkar og buxur og vesti á betri fötum, algengar voru ullarpeysur og prjónahúfur. Kuldahúfur úr svörtu kattarskinni og líka úr hundskinni. Kattarskinnshúfan var mikið fallegri. Milliskyrtur voru saumaðar úr ofnum tvisti, nærbuxur úr hvítu vaðmáli en fljótlega komu prjónaðar nærbuxur úr smáu bandi og jafnvel nærskyrtur, sokkar úr smáu bandi, stundum mórauðir ytri sokkar. Snjósokkar voru jafnvel úr togi og náðu upp fyrir hné.  Kvensokkar voru ávalt svartir.    

Hekl var oft í koddaveri barna; heklaður renningur yfir sængurver úr lérefti. Krókapör voru oft notuð á fatnað; rennilásinn kom síðar. Koddaverið mitt núna er útsaumað eftir konu mína.  Höfuðföt voru oft prjónuð og einnig úr dökku efni, lambhúshettur, þó ekki algengar, þær voru með uppbroti sem var hægt að leggja niður. Skófatnaður var algengastur úr sauðskinni og af stórgripaleðri og selskinn ofl.  Konur klæddust fyrst síðbuxum um miðja þessa öld, viðbrögð við því voru lítil.  Gúmmískór voru fyrst notaðir og gerðir af bónda í Önundarfirði, líklega fyrir 1929. Hirslur. Fatakistu átti næst elsta systir mín, firnastóra, hún erfði hana eftir ömmu sína Magdalenu. Kistan var með ávölu loki og máluð með rósum til enda og í miðju. Ég held að þessi systir mín hafi að lokum látið saga hana niður í eldivið, kistan þótti óhæf í smáu húsi sökum stærðar. Kistur og dragkistur voru notaðar til þess að geyma fatnað ofl.    Ég og sonur minn smíðuðum dragkistu sem var notuð til fatageymslu, hún er til ennþá.  Reyrgras var notað til þess að fá betri ilm í geymslunni. Föt voru viðruð úti í góðu veðri, auk allsherjar hreingerninga að vori í góðu veðri þá var baðstofan þvegin hátt og lágt, rúmföt og rúmfatnaður borið út og þvegin rúmföt og sem lauslegt var. 

Náldrag var unnið úr hálssinum úr stórgripum. Það var þrætt á þráðargarnið sem var margfaldur, vel snúðharður þráður úr ull. Náldragið var þrætt í margfaldan ullarþráðinn og tvöfalt í nálaraugað og síðan fléttað upp á nálaroddinn, síðan dregið niður af nálinni svo náldragið sat fast í nálarauganu.    Jakkafötin tvenn saumaði systir mín á mig 1925.

Hreingerningar og þvottur

Höfundur:  Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).  Ritað 1986.

Það var árið 1913 sem ég sá fyrst vatn leitt inn í íbúðarhús.  Þá dvaldi ég þar hálfsmánaðartíma og tók þátt í sundnámskeiði sem var í tjörn eða upphlöðnu lóni, alldjúpu, í engjunum í Saurbæ á Rauðasandi.  Kennari var Finnbogi Rútur Þorvaldsson frá Sauðlauksdal, faðir Vigdísar núverandi (1984) forseta Íslands.  Vatnið var leitt gegnum vegg eldhússins og krani þar inni en trékassi undir krananum, svo var vatnið leitt út úr honum undir gólfinu og út og niður á túnið.  Því skólpi sem tilféll í eldhúsinu var hellt í kassann.  Þetta var á heimili Guðmundar Sigfreðssonar, bónda í Króki á Rauðasandi.  Handlaugar eða þvottaföt voru til þegar ég man fyrst eftir mér. Fyrsta sápan sem ég man eftir var grænsápan.  Hún var flutt inn í litlum tréstokkum og þannig keypt.  Litlu síðar kom stangasápan eða sólsápan.  Á sama tíma var handsápa keypt og notuð við andlits- og handþvott og á skrokkinn allan.  Þessar handsápur voru mjög ilmandi. 

Það mun hafa verið á árunum upp úr 1910, sem Pöntunarfélag Rauðasandshrepps flutti inn nauðsynjar bænda í áðurnefndum hreppi.  Ég man svo vel eftir rúsínukössunum, sápustokkunum og hvítasykurtoppunum.  Önnur matvara kom í 50 kg sekkjum og jafnvel 100 kg (hrísgrjón), og ekki má gleyma kandískössunum sem í var rauður og glær, margur molinn.   Heimagerða sápu gerði ég eftir 1927.  Í hana notaði ég vítissóta og kindafeiti.  Feitin var brædd og síuð og látin kólna nokkuð.  Síðan var sótinn látinn út í feitina; hrært vel í og látið bíða til morguns.  Þá var sápan tilbúin; skorin í sneiðar og stykki.  Vítissótinn var notaður við grófan þvott og hreinsunar á ílátum.  Lýsól var mikið notað til hreinsunar á sárum á mönnum og skepnum. 

Bensín var notað til hreinsunar á blettum úr fötum. Blákka var keypt í smádósum, til þess að fá hvítan blæ á léreft.  Leir til þvotta hefi ég ekki heyrt um.  Keytan var fyrst og fremst notuð til ullarþvotta.  Henni var safnað í stampa, oft í nokkrar vikur, og var þá kölluð keyta.  Henni var blandað í þvottavatnið sem var vel hitað og ullin þvæld í og síðan skoluð í rennandi vatni; því voru hlóðirnar sem ullin var þvæld yfirleitt við á eða læk.  Síðast þvoði ég ull í tunnu í heitu vatni, skolaði í rennandi vatni. 

Fægiduft var notað til að fægja lampa, mataráhöld, skotthúfuhólka og fleira.  Ofnar voru fægðir með ofnsvertu, þar sem þeir voru til.  Móaska var notuð til að fægja skeiðar o.fl.  Ekki vissi ég til að föt eða annað væri þvegið úr soði, en eitt sinn sá ég húsmóður láta hundinn sinn sleikja diskinn sinn eftir að hún hafði borðað soðninguna af diskinum.  Fataburstar voru til þess að bursta kirkjufötin.  Burstar til þvotta á matarílátum voru ekki til þegar ég man fyrst eftir mér.  Þess í stað voru notaðar þvögur úr slitnum rýjum; helst úr lérefti.  Fyrst man ég eftir kústum til þvotta á skilvinduhlutum sem mjólkin var látin renna í gegnum.  Þessir burstar voru úr grófu svörtu hári, sem var í snúnum vír.  Gólfklútar voru einkum úr strigapokum og þá voru oftast hreinsuð gólf með bleikum fjörusandi sem nóg er af á Vestfjörðum.  Þvottahús komu fyrst með steinhúsunum, en það var í byrjun 4. áratugar þessarar aldar, og þvottavélar um svipað leyti.  Þvottavél fengum við með miðflóttaafli, vindu rafknúna (rafmagn frá díselvél) og taurullu litlu síðar, handknúna.  Þetta hafði mjög mikla þýðingu, létti vinnu og var tímasparandi.  Þvottakeppurinn var notaður sérstaklega á grófari fatnað og sokkaplögg.  Hreinsaður eftir þvott með heitu vatni. Engin hjátrú fylgdi þessum áhöldum.  Ég veit ekki hvort þessi tæki eru til, tel það ólíklegt.  

Í baðstofunni sem ég ólst upp í voru gluggar á báðum stöfnum og voru þeir báðir með opnanlega rúðu.  Að auki var op í miðjum mæni og var það kallað "túða" eða "gola". Þetta op var opið dag og nótt, nema ef til vill í stórviðrum.  Eldhúsið var undir lofti, gangur í miðju og stofa í hinum endanum.  Forstofa fyrir dyrum sem voru fyrir miðju.  Hæð undir loft mun hafa verið rúmir 2 metrar.  Uppi var lóðréttur veggur það hár að rúmin gengu vel að vegg og síðan hátt ris, líklega 70-80 cm lóðréttur veggur.  Niðri voru opnanlegir gluggar.  Þessi híbýli voru víðast hvar bæði í Rauðasandshreppi og einnig í Mýrahreppi í Dýrafirði, er ég kom þar fyrst.  Hef aldrei séð líknarbelg í glugga; ekki einu sinni í fjósi, en glergluggar voru mjög litlir á skepnuhúsum.  Í þessum íbúðum voru eldavélar oft múraðar niður.   Í foreldrahúsum mínum var frístandandi allstór eldavél, úr þykku steyptu járni, með hitavatnspotti og bakarofni, tvö eldhólf með hringjum.  Ég þekkti ekkert íbúðarhús sem lak, ekki einu sinni verbúðirnar.  Ilmreyr var mikið notaður til þess að fá góða lykt í föt og fatageymslur.  Einir var eitthvað notaður líka. Í svefnstað var venja að breiða yfir rúm fljótlega eftir fótaferð.  Göng voru fátíð.  Gluggatjöld voru fyrir öllum gluggum.  Oftast var efnið í þeim léreft, hvítt eða ljósleitt.  Það þurfti ekki að fægja húsgögn þar sem þau voru engin til.

Stórhreingerning fór fram einu sinni á ári, að vorinu og þyrfti að sjá sér út gott veður, helst sólskin.  Þessi hreingerning tók allan daginn og var hann þá tekinn senmma, en ekki var tekið fyrir nema efri hæðin eða aðalsvefnstaðurinn.  Neðri hæðin tekin næsta dag ef veður leyfði.  Það var til að fengin var dugleg hreingerningakona.  Þetta var roskin kona sem ég man eftir.  Launin voru áreiðanlega ekki í peningum, en ávallt einhver greiði.  Eitthvað mun hafa verið með kaffinu, lummur eða pönnukökur.  Í þessari hreingerningu var allt borið út sem ekki var naglfast, rúm og rúmbotnar þvegnir og allar þiljur hvítskúraðar með ljósum sandi og vatnið heitt.  Venja var að þvo gólf á hverjum laugardegi.  Gluggar og rúður um leið og oft rúmstokkar, á þeim var ávallt setið þegar verið var inni. Ég var með mína roðskó inni sem úti á bernskuárum, en brydda sauðskinnskó á jólum og öðrum stórhátíðum og þegar farið var í kirkju.  Ég held að lítið hafi verið um sérstaka inniskó nema þá helst meðal kvenna.  Ég hefi aldrei gengið á gólfdreglum.  Máluð gólf þekkti ég ekki í bernsku eða æsku, en moldargólfi gekk ég aldrei á nema í verbúinni í Kollsvíkurveri.  Gólfdúkar komu með steinhúsunum.  Sandskúring fór þannig fram að gólfið var bleytt með pokadulu sem notuð var við þvottinn, síðan var sandurinn settur á þvöguna og skrúbbað gólfið og síðan þveginn sandurinn af með gólfdulinni.  Ýmist var notað heitt eða kalt vatn, þótti gólfið jafnvel verða hvítara úr köldu vatni.  Fyrsta steinhúsið í Rauðasandshreppi var byggt rétt eftir síðustu aldamót.

Lengd rúma hef ég ekki tiltæk, en hygg að þau hafi verið 1.70 til 1.80 m og breidd miðuð við að tveir svæfu í rúmi, 1.20 til 1.30 m (ágiskun).  Rúmlegan var með ýmsu móti.  Við bræður sváfum ætíð báðir á sama kodda, ekki mjög hátt undir höfði.  Sængur í rúmum voru allar með svartfuglafiðri.  Undirsængin þurfti að vera með tvöföldu eða þreföldu magni af fiðri og í öllum koddum var fiður.  Bjargfuglinn gaf mikið fiður af sér, því áður var bjargið stundað meira og minna af öllum bændum í Rauðasandshreppi.  Það má geta þess að breidd á hjónarúmi var talin hæfileg 2-1/2 alin eða eins og kýrbásinn.  Þessar fiðursængur voru hreinsaðar með því að bursta þær úr volgu sápuvatni, en innihaldið dugði að minnsta kosti mannsævina.  Rúmföt, þ.e. yfirver og undirlak og koddaver, voru þvegin á hálfsmánaðarfresti.  Margir snéru undirsæng daglega eða áður en háttað var, því rúmin voru að deginum til að sitja á við vinnu sína og einnig ef menn lögðu sig í rökkrinu.  Rúmfatageymslur voru fátíðar, en flestir lögðu yfirsængina samanlagða upp við rúmstokk fjær.  Ábreiður voru yfir öll ávallt heimaofin, stundum salonvefnaður á þeim.  Við hjónin ófum slíkar ábreiður á fyrstu búskaparárum okkar.  Rúmin voru ávallt notuð til þess að sitja á þeim, við ullarvinnu fyrst og fremst.  

Það er bull að rúmbotnar væru notaðir sem hirslur, en undir þeim var oft geymt það sem ekki átti að vera fyrir allra augum, t.d. næturgagnið eða koppurinn.  Ég þekkti þá emileraða, ekki trékollur.  Einnig geymdum við krakkarnir leikföngin svo þau yngri færu ekki illa með þau.  Undir koddanum var oft geymt það sem haldið var upp á, bréf eða bók og fleira smávegis.  Enga hjátrú þekkti ég þar um. Matarílát voru þvegin úr heitu vatni, engin sápa notuð og þurrkuð með léreftsklút.  Ílátin voru leirskálar og diskar, einnig emileruð, bollapör úr leir, fátítt úr postulíni.  Ég heyrði ekki talað um sérstakt nafn á uppþvottavatninu.  Mjólkurílát þurfti að þvo vel, ekki síst tréílátin.  Að loknum þvotti þótti gott ef hægt var að stilla þeim upp úti í sólskini.

Á yngri árum mínum sá ég ekki nema fullorðna menn nota tóbak í nefið og upp í sig.  Ég var víst kominn um tvítugt þegar ég sá menn með sígarettur, en algengt var að menn tuggðu rullu.   Faðir minn sagði mér þá sögu, að á bæ einum var verið að lesa húslestur og var lokasálmi að ljúka.  Þá sátu menn á rúmum sínum, hver á móti öðrum og var stutt bil á milli.  En annar sem söng sagði um leið og hann tók rullutugguna út úr sér:  "Gæti vor Guð" og henti tuggunni og í augað á þeim sem sat beint á móti honum.   Skorið tóbak var geymt í margeltum hrútspung.  Tóbaksklútar voru venjulega rauðir með hvítum dropum.  Sumir geymdu rulluna í ??broti sínu.  Vitanlega var tóbaksgeymslan í vasa, en að nóttu á borði við rúmið eða þá undir koddahorninu.  Einn karl sem tuggði rullu, spýtti oft í hundinn sinn.  Oftast átti fólk eitthvað í vasa til að snýta sér í úti, var því fleygt í jörð eða sjó.  Krakkar snýttu sér oft á erminni þó þeim væri bannað það.  Hrákadalla sá ég á yngri árum, þeir voru bæði emileraðir og úr tré og þá með sagi í.  Öskubakka sá ég ekki á yngri árum.  Þessir dallar voru venjulega í horni stofu, einnig voru náttpottar notaðir til þess að hrækja í.  Þeir voru skolaðir daglega en hrákadallar sjaldnar.  

Þar sem fátt var í heimili eða engin vinnukona, mun húsmóðir hafa annast þvotta og svo dætur hjóna, er þeim óx þróttur og aldur.  Enga samvinnu um þvott þekkti ég og vissi ekki heldur um konur sem fóru á milli heimila og þvoðu þvotta og seldu þannig vinnu sína.  Algengast var að þvo á hálfsmánaðarfresti, bæði ígangsföt og sængurföt.  Þvottaaðstaðan var eldhúsið yfirleitt, vatnið hitað á eldavélinni í stærsta potti sem til var.  Þvottur fór fram í stórum trébala á trébretti, báróttu. Daginn áður en þvegið var, var þvotturinn eða fötin lagt í bleyti í stóran trébala.  Eitthvað var látið í vatnið af þvottaefni, sóta eða grænsápu.  Ekki var óhreinn yfirfatnaður látinn saman við nærföt eða rúmföt.  Hlóðaeldhús þekkti ég lítið.  Þvottapotturinn mun hafa tekið yfir 20 lítra og veitti ekki af, þá voru 10-12 manns á heimili.  Eingöngu mór var sem eldsneyti á flestum bæjum, þá var brennt þurrum þönglum og þangi og eitthvað af kolum er á leið annan tug þessarar aldar.  Sauðatað var eitthvað notað, helst þar sem fé var ekki á grindum.  Einnig þekkti ég að gerður var klíningur snemma, var úr kúamykju. Notuð var grænsápa og stangasápa síðar, um mál get ég ekkert sagt en eflaust var hún ekki notuð í óhófi.  

Með þvottinn var yfirleitt farið í læk til skolunar,.  Í læk var mjög mislangt að fara.  Hveraþvott eða lauga þekkti ég ekki.  Þvotturinn var borinn í fötum til lækjar.  Brunnhús voru víðast hvar byggð yfir læk eða uppsprettulind, bæði til að sækja vatn til neyslu og þvottaskolunar.  Einnig var þar afvatnaður saltfiskur.  Í brunnhúsum var lækjarbakkinn lagður hellusteinum og á þeim voru klappaðir sokkar og vaðmálsföt, ytri föt aðallega.  Ef gott var veður var allur þvottur hengdur á snærissnúrur úti.  Að vetri brást það oft.  Ég man að móðir mín þurrkaði oft þvott á leirrörinu sem reykurinn frá eldavélinni fór út um; einnig á sjálfri eldavélinni og hnéröri sem lá frá eldavélinni og í leirrörin.  Einkum var stundum erfitt að þurrka pissudulur af smábörnum sem þurfti að þvo og þurrka oft á dag, því upplagið var ekki svo mikið að hægt væri að láta bíða einn eða fleiri daga. Skinnklæðin saumuðu og hirtu karlmenn, en annan fatnað hirtu konur um að öllu eða flestu leyti.  Sparifötin var nú ekki alltaf verið að þvo, því í þau var ekki farið nema á hátíðum og til kirkju.  Ábreiður voru sjaldnar þvegnar en sængurver og koddaver og lök.  Sokkaplögg stundum daglega.  Hlífðarföt voru sjaldgæf sem heitið gæti.  Fjósaföt voru viðruð úti og þvegin af og til.  Þvottaskólpi var fleygt út í kálgarð að vetrinum eða meðan kartöflugrösin voru ekki í blóma.

Þegar veður leyfði var þurrkað úti á snúrum.  Sums staðar var rimlahjallur til þurrkunar á þvotti, en oft var þurrkað við reykrörin frá eldavélinni, sérstaklega smábarnaplögg og sokkar ef á lá.  Þvottasnúrur voru úr þriggjapunda línu, festar á tré eða þvertré sem fest var á jarðfastan stólpa.  Heyrt hefi ég að konur þurrkuðu á sjálfum sér barnableyjur, en það mun hafa verið sjaldgæft. 

Brókarkvíslar kannast ég vel við því þær voru notaðar í Kollsvíkurveri, líklega frá ómunatíð.  Kvíslar voru gerðar af tré sem fest var í jörðu lóðrétt, með sívölum tappa efst.  Á þann tappa kom hnakkurinn ca. 1-1/2 fet á lengd, með sívöli gati á miðju, en til endanna lárétt aflöng göt þar sem álmunum var stungið í og svo langar að brókin næði vel yfir hnakkinn.  Ef vindur var snerist brókin á hnakknum og blés þá vel út og þornaði fljótlega.  En ekki mátti hún þorna of mikið því þá gisnaði saumurinn og brókin lak í sjónum. Allt sem hreint var, var þvottur þurrkaður á, klappir, stórir steinar og jafnvel á jörð sem blasti vel við sól.  Gaddavír var ekki kominn þegar ég man fyrst eftir mér.  Að leggja þvott "á blei" kannast ég ekki við en giska á að það sé að leggja þvott í bleyti næturlangt eða svo og þó með þvottaefni í vatninu.  Það var gert til þess að losa um óhreinindin eða leysa þau upp.  Um hlóðarsteina tala ég ekki um, en allt mögulegt var þurrkað við eldavélina eða rörin frá henni, nema það væri mjög óhreint.  Ég man vel að við bræður lögðum sokkana undir rekkjuvoðina ef þeir voru aðeins rakir, einkum í verinu.  Nærföt og rúmföt voru brotin saman. 

Oft var talað um fátækraþerri, einkum fyrir jólin.  Konur voru ávallt misjafnlega heppnar með þurrkinn, en mest var það í orði, svo sem að piltar litu til þessarar eða hinnar. Þvottur var ekki almennt sléttaður nema helst spariskyrtur.  Pressujárn voru til þegar ég man fyrst eftir mér.  Strauboltar komu síðar, þar sem tungan var hituð í eldi og síðan sett í holan boltann með loku fyrir gafli.  Ávallt var votur léreftsklútur hafður yfir því sem verið var að pressa, t.d. saumar á buxum o.fl.  Tauklemmur komu seinna.  Oft voru þau tæki lánuð til nágranna.  Pressujárnið var hitað á hringjum eldavélarinnar.  Lítið var um það að pressa föt, en sléttuð og brotin snyrtilega saman.  Flibbar og skyrtubrjóst voru helst stífuð með línsterkju, en það voru aðeins spariföt.  Geymslur undir föt voru ekki annað en kistur, engir skápar nema undir bækur þar sem þær voru til og þá opnar.  Nærföt og sokkar voru oft merkt, það var nauðsynlegt fyrir sjómenn.  Vettlingar voru oftast merktir með upphafsstöfum eiganda. 

Um sorpeyðingu var ekki að ræða, af því að lítið sem ekkert féll til af slíku.  Þá var ekki til nælon eða plast.  Það var allt notað sem til féll af umbúðum, s.s. pokar.  Brotnar leirskálar og diskar voru boraðir og settir saman með tvinna eða öðru garni.  Blikkbox var lítið um og þá notað ef eitthvað var.  Nú fellur til ósköpin öll af plastkollum og öðrum pokum og pappakössum sem lítið sem ekki sást áður.  En umgengni utanhúss var æði misjöfn eins og hún er enn í dag.  Askan var lengi borin í flórinn en saur og þvagi var stundum, einkum að vetri, fleygt í kálgarða en meðan engir kamrar voru var gengið örna sinna út um hvippinn og hvappinn.  Útikamrar komu á öðrum áratug þessarar aldar.  Ég byggði t.d. timburskýli rétt fyrir fjóshauginn sem notað var um hríð.  Líka sá ég útikamar, byggðan úr torfi og grjóti, með fötu undir bekk með gati og árin sem ég var við nám á Hvanneyri voru útikamrar með fötum undir bekk.  Þetta var árin 1925-26 og 1927.  Soði og skolpi var hent og fleygt í kálgarða sem voru nálægt bænum.  Öskuhauga sá ég ekki fyrr en ég kom í Dýrafjörð, til dæmis var feikna mikill öskuhaugur á Felli í Dýrafirði þegar ég kom þangað.  Ég flutti mikið af honum í flög á túninu og jafnaði hann svo út við neðanverðan bæinn í sáðsléttu.  Safnþrær þekkti ég ekki.  Lækjargil voru engin þar sem ég þekkti til, en opið skolpræsi sá ég á einum bæ í Kolluvík (líkl. Grundum) sem rann út í allstóra tjörn (Lögmannslág) skammt frá sjó og rann úr tjörninni út í sjó, einkum í leysingum.  Forir við bæi eða fjós þekkti ég ekki.  Mykjan úr fjósum var flutt á völl daglega, því lengst um er snjólétt í Rauðasandshreppi og þó ekki síst í Kollsvík, við ysta haf.  Fjárhús voru niður við sjó.  Ég þekkti því ekki neinn sérstakan sóðaskap í sambandi við hlandfor eða mykjuhauga. Verkfæri voru í æsku minni harla fá, handbörur, mykjusleðar og hrip á klakk.  

Skemmur voru til á öllum bæjum og oft var smíðað þar, en helst var tekið þar til að hausti þegar kartöflur voru teknar upp, kjötið var saltað og korn og fleira í kistum geymt, en ég minnist ekki annars en að þar væri þrifalegt.  Reiðtygi voru mjög lítið notuð í Kollsvík, frekar var það á Rauðasandi en á þau var borin smurolía eða einhver feiti. Fyrstu kerruna sá ég þegar ég var 8 eða 9 ára í Kollsvík.  Hygg ég það fyrstu kerruna í hreppnum.  Kerrur voru ævinlega þvegnar eftir mykju eða áburðarnotkun. Í þinghús hreppsins kom ég þegar ég var 6 eða 7 ára.  Það var byggt úr grjóti og steinsteypu, með trégólfi.  Gólfið var hreint í það sinn.  Skóli var á heimilum víðs vegar um hreppinnm. Við þinghús eða kirkjur voru engin nútímaþægindi.  Í þinghúsinu aðeins eitt borð og bekkir meðfram veggjum og engin upphitun, ekki heldur í kirkjunni, en þar voru næg sæti.  Gangnakofar voru engir í Rauðasandshreppi eða Mýrahreppi í Dýrafirði, aðeins dagsmölun.

Ekki get ég gert greinarmun á hreinlætisvenjum fólks í þéttbýli eða sveit.  Eflaust er það rafmagnið sem valdið hefur mestri byltingu almennt, bæði í sveit og borg.  En í sveit er vélavinnan stærsta byltingin, ræktun og samgöngur, ennfremur skipakostur til sjávar og veiðitækni. Þéttbýlissvæði þekkti ég aðeins Patreksfjörð og man ég ekki eftir neinum sóðaskap í fjörum eða á vinnustöðum.  Stakkstæðin voru annað hvort hreint grjót eða þá timbur eða vírreittir.  Sorphauga sá ég þar enga og við verslun var sérstaklega þrifalegt. (Torfi lét fylgja lýsingunni rissteikningu af brókarkvísl).