Ávæningur af tungutaki og orðfæri Kollsvíkinga og annarra í Rauðasandshreppi, ásamt hneppi sjaldgæfra orða.

Valdimar Össurarson tók saman  -  2012 - 2018  -  Ófullgerð drög

 

Kollsvík er ein af svonefndum Útvíkum í hinum forna Rauðasandshreppi.  Hreppurinn nær yfir skagann sunnan Patreksfjarðar og er enn örnefni þrátt fyrir breytingar á stjórnsýslumörkum.  Vegna staðhátta hefur byggðin frá fornu fari skipst í svæði sem hvert samanstóð af fjölmennri byggð, langt fram á 20. öld.  Útvíkur eru yst á skaganum; þrjár að tölu; Kollsvík, Breiðavík og Látravík, auk Seljavíkur sem ekki er byggð.  Þær eru vestasta byggð Íslands og þar með Evrópu; yst á skaganum; milli Látrabjargs og Blakkness.  Sunnantil er byggðin Rauðisandur en Patreksfjarðarmegin eru Bæir yst, þá Örlygshöfn (Hafnarbæir); Innfjörður og Eyrar.

Rauðasandshreppur var fjölmennt samfélag gegnum alla sögu byggðar á Íslandi, eða allt þar til ný viðhorf og nútíma atvinnustjórnun hófu að brjóta niður rótgróna atvinnuhætti og menningu í byggðum landsins um miðja 20. öld.  Óvíða er búsældarlegra, sé horft til þeirra atvinnuhátta sem áður tíðkuðust.  Stutt er á fengsæl fiskimið, einkum frá Útvíkum; fyrirtaks sauðland; gnægð hlunninda og samgöngur tiltölulega greiðar.  Meðan þjóðin lifði af sjálfsþurftabúskap var hvergi betra að búa, enda var þangað mikið sótt úr öðrum landshlutum.  Íbúar í Rauðasandshreppi voru 470 árið 1870, á 41 heimili.  Við þéttbýlismyndun á Eyrum jókst fjöldinn enn, í 813 árið 1901, en Eyrar urðu sérstakt sveitarfélag árið 1907.  Síðan hefur orðið nokkuð stöðug og hröð fólksfækkun í Rauðasandshreppi, og nú (2016) eru einungis örfáir bæir eftir í byggð.  Búskapur hefur t.d. alveg lagst af í hinum búsældarlegu Útvíkum; einhverjum mestu hlunninda- og útræðisjörðum landsins til forna.

Þegar byggðarlag leggst nánast í eyði er óhjákvæmilegt að með því hverfi að miklu leyti þau menningarlegu sérkenni sem það einkenndu.  Þetta er sérlega áberandi í afskekktum samfélögum eins og hér um ræðir, þar sem menningarleg „mengun“ frá meginstraumum var hæg.  Tískusveiflur og iðuköst „heimsmenningar“ bárust seinna á útskækla landsins og þar voru menn líka tregari að láta slíkt hafa áhrif.   Útvíkur og aðrir byggðahlutar Rauðasandshrepps voru menningarsamfélag útaf fyrir sig.  Þar héldust ýmis sérkenni langt fram á 20. öldina, þó þá væru þau farin að samlagast í meira mæli.

Ég er fæddur 1956; uppalinn á Láganúpi í Kollsvík og dvaldi meirihluta minnar ævi í hinu merka samfélagi Rauðasandshrepps.  Þó byggðin væri þá á síauknu undanhaldi voru ýmis sérkenni hinnar staðbundnu menningar enn sýnileg, bæði í málfari og verklagi.  Auðvitað bar mest á því hjá þeim hjá þeim sem eldri voru, en ánægjulegt er að sumt hefur enn varðveist hjá yngri kynslóðum.  Hætt er þó við að öll þessi sérkenni máist endanlega út innan skamms tíma.  Það er kannski sérviska að vilja halda til haga menningarlegu litrófi þessa útkjálkasamfélags, en slík sérviska hefur stundum verið talin einkenna Kollsvíkinga.

Af og til kemur upp í huga minn eitt og eitt orð eða hugtak sem tamt var fólki sem ég umgekkst á þessum slóðum, en eru ekki almennt notuð.  Þessi skothríð úr fortíðinni hefur ágerst eftir að ég náði miðjum aldri.  Með þessari samantekt læt ég loksins verða af því að koma einhverju af því á blað.  Hér eru sett niður orð og orðatiltæki sem voru almennt notuð í Kollsvík í mínum uppvexti, ásamt öðrum sem ég heyrði fólk nota vestra en heyrast ekki oft núna.  Auk þess fljóta þarna með orð sem ég hef öruggar heimildir fyrir að hafi verið notuð á þessu svæði og eru sum einkennandi fyrir það, þó notkun þeirra hafi verið aflögð fyrir mitt minni.  

Mikilvægt er að hafa í huga að hér er aðeins brot þess mikla orðaforða sem mönnum var tiltækur, og á engan hátt má líta á þetta sem heildaryfirlit.  Safnið er einungis leiftursýn á þessa fjölskrúðugu veröld.

Þó að ég hafi, við val orða í skrána, einkum leitast við að skrá orð sem ég tel vera sjaldgæf eða jafnvel að glatast, þá eru þarna fjölmörg orð sem algeng eru í mæltu máli; enda erfitt að draga mörkin.  Máldæmin gefa þá hugmynd um notkun þeirra þar vestra.  Skráin hefur á köflum hneygst til þess að verða samtíningur ýmiskonar fróðleiks um svæðið, daglegt líf og atvinnuhætti.  Mörgum orðum fylgja setningar, skáldaðar af mér, sem er ætlað að gefa hugmynd um notkun þeirra í máli heimafólks.  Sumt kann að hafa vísun í raunveruleika; annað er spuni, en dregur þó upp sennilega mynd.  Sumum orðum fylgja tilvitnanir í heimildamenn sem ætla má að hafi þekkt til á þessum slóðum og rit sem nærtæk voru.  Margar þeirra geyma ríkulegar  heimildir um þennan menningarheim; lifnaðarhætti íbúa og staðhætti.  Heimildaskrá er aftast í orðaskránni.

Ekki er kafað djúpt í málfræði eða upprunaskýringar, og þó einhversstaðar komi fram mínar vangaveltur þá verður að líta á þær sem slíkar en ekki algildan sannleik.  Vitaskuld er slíkt uppá mína ábyrgð.  Ég tek fagnandi öllum leiðréttingum á því sem þarna kann að vera beinlínis rangt og biðst velvirðingar á því.  Þó safnið hafi um sumt yfirbragð hefðbundinna orðabóka þá er þeim reglum ekki fylgt mjög naugið.  T.d eru orð í flestum tilfellum tilgreind í þeirri mynd sem þau voru mest notuð, en ekki í hinum stöðluðu kennimyndum orðabóka.  Þau sem aðeins heyrðust í orðtökum eru tilgreind þannin.

Ég hef ekki lagst í mikla vinnu í málvísindum, t.d. við samanburð á þessu safni við útgefin orðasöfn.  Ég hef þó flett upp nokkrum þeim orðum sem ég hef sjaldnast heyrt í mæltu máli í seinni tíð.  Virðist mér furðu mörg orð vera all sérstæð og mörg hver finnast ekki í orðabókum.  Ég hef litamerkt nokkur þau sem sjaldgæfust eru, til að aðrir geti velt þessu fyrir sér.  Mér sýnist mega álykta út frá þessu að í Kollsvík hafi varðveist nokkuð sérstætt málfar; orð og orðnotkun sem málfarsleg meðalmennska hafi að nokkru útrýmt á fjarlægari svæðum.

 Valdimar Össurarson frá Láganúpi í Kollsvík

 

Framburðareinkenni 

Á síðari tímun, í minni skrásetjara, voru fyrri framburðarsérkenni Kollsvíkinga farin að líða undir lok.  Þó gætti þeirra mjög í máli eldra fólks og var t.d. eftirtektarvert í máli Guðbjarts Guðbjartssonar á Láganúpi (1879-1970) og konu hans, Hildar Magnúsdóttur (1889-1967); og gætti nokkuð í máli barna þeirra.  Helstu einkenni voru þessi:

  1. Harður framburður. d. saggði í stað sagði; habbdi í stað hafði; höbbdi í stað höfði; laggdi í stað lagði o.s.frv.
  2. Lokaður framburður tungubroddshljóða: T.d. gerdi í stað gerði; breggda í stað bregða; hurd í stað hurð; nordur í stað norður o.s.frv.
  3. Langur (opinn) sérhljóði á undan ng, t.d. í langur, gangur, hingað o.s.frv. Var þó hvorki jafn áberandi né ýkt og sumir ætla, og á undan nk var jafnvel lokaður framburður sérhljóða; t.d. hánki í stað hanki.
  4. Kringdur framburður, t.d. U eða Ö í stað E og Y; stundum einnig Ó í stað O. Dæmi; hvurt í stað hvert; spurja í stað spyrja; ruðja í stað ryðja; bruðja í stað bryðja; spur í stað spyr; öngvum í stað engum; höndur í stað hendur; tönnur í stað tennur o.s.frv.  Var þó ekki algilt heldur virtist venja fylgja hverju orði.  Einnig vórum í stað vorum.
  5. Beygingarsérkenni. d. beygist hönd þannig; hendi/hönd – hendi – hendi – handar.
  6. Orðfæri. Mörg dæmi voru um orð og orðalag sem að einhverju var frábrugðið því sem annarsstaðar tíðkaðist eða mælt er í dag.  Er það meginviðfangsefni þessa orðasafns að draga slíkt fram.  d. spurði G.G. „óðstu“? þegar strákurinn kom lúpulegur inn, og átti við „bleyttirðu þig í fæturna“?  Eða „vöknaðirdu“? í merkingunni „ert þú blautur“?

 

 Hægt er að sækja Orðasafnið á PDF formi á þessum tengli hér.

Leita