Saddur (l) Mettur; vel nærður; með fullan maga.  „Ekki meira takk; nú er ég orðinn vel saddur“.  Stundum notað yfir það að maður sé orðinn þreyttur á málefni/viðhorfi; þá gjarnan orðað þannig að maður sé „búinn að fá sig fullsaddan“ af einhverju.

Saddur lífdaga (orðtak)  Búnn að fá það út úr lífinu sem vænta má á einni ævi.  „Hann dó í hárri elli; saddur lífdaga“.

Saddur veit ei hvar svangur situr (orðatiltæki)  Sá sem er saddur gleymir gjarnan þeim sem hungraðir eru.

Saðning  (n, kvk)  Magafylli; mettun.  „Stór máfsungi getur verið góð saðning fyrir tvo og jafnvel eða fleiri“.  „Ansi finnst mér lítil saðning í þessum bévítans pinnamat“!

Saðsamur (l)  Mettar vel; er góð magafylli/staðgóður matur.  „Alltaf er lúðan jafn saðsamur matur“.

Safamikill / Safaríkur (l)  A.  Um mat, jurt o.fl.; með mikinn safa/lög.  „Rófurnar voru óvenju sætar og safaríkar“.  B.  Líkingamál um slúður/sögu; innihaldsríkur; kjarngóður.  „Þetta þótti henni safaríkar fréttir“.

Safi (n, kk)  Sætur/kjarngóður lögur; saft.  T.d. ávaxtasafi, grænmetissafi o.fl.

Safn (n, hk)  A.  Hvaðeina sem safnað hefur verið saman.  T.d. bókasafn, forngripasafn, steinasafn o.fl.  B. Stofnun sem varðveitir safn; s.s. Þjóðminjasafnið.  C.  Stundum notað um fjárhóp sem smalað hefur verið, en mun oftar var talað um rekstur í Rauðasandshreppi.  „Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu“  (PG; Veðmálið).   D.  Að fornu notað um skyr sem safnað hafði verið með mjólkurvinnslu á heimili, og gjarnan geymt í stórum niðurgröfnum sáum.

Safna / Safna saman (s/orðtak)  Smala/sanka saman.  „Nú þurfum við að fara að safna í brennu“.

Safnast saman (orðtak)  Um mannfjölda; koma saman til fundar/skemmtunar o.fl.

Safnast þegar saman kemur (orðatiltæki)  Margt smátt gerir eitt stórt; mikið verður úr því sem lítið er þegar fjöldinn er nægur.

Safta (s)  Gera krækiberjasaft/rabbaberjasaft.  „Kollsvíkingar, líkt og aðrir, fóru til berja hvert haust þegar ber voru þroskuð og tími gafst frá bústörfum.  Oft var það að áliðnum águst eða í byrjun september.  Berjalönd eru víða, t.d. í Húsadal, Keldeyradal, Lynggiljum, Grænubrekku, Stóravatnsbrekkum, við Litlavatn, Kjóavötn, Sandslá eða undir Breiðsholti.  Tínt var ýmist með höndum eða berjatínum, oftast í 10 lítra fötur þegar fullorðnir áttu í hlut.  Þegar heim var komið voru berin þurrkuð ef þess þurfti; síðan tínt úr þeim mesta ruslið, kerlingahland o.fl.  Berin voru síðan marin; áðurfyrr í handsnúinni hakkavél en síðar í rafknúinni hakkavél með berjapressu.  Síðan var saftin síuð gegnum grisju.  Hratið sem eftir varð, ásamt hratinu úr pressunni var látið hanga yfir saftfötunni yfir nótt til að nýta hvern dropa sem úr því lak.  Saftin var þynnt dálítið með vatni og í hana settur sykur og ögn af vínsýru; síðan hellt á flöskur.  Berjasaft var notuð þynnt sem svaladrykkur og drukkin með mat.  Einnig var hún notuð minna þynnt sem útálát á grauta og búðinga.  Reynt var að láta fyrra árs birgðir klárast áður en ný saft var gerð, en stundum urðu flöskur einhverra ára gamlar og saftin þá gerjuð og í raun ágætis rauðvín.  Rabarbarasaft var gerð á svipaðan hátt, úr rabarbaraleggjum“ (VÖ).

Safna glóðum elds að höfði sér (orðtak)  Búa sér til erfið vandamál; auka sér vandræði; afla sér óvildarmanna.

Safna í sarpinn (orðtak)  Safna forða stil síðari nota; leggja til hliðar.

Safna kröftum (orðtak)  Hvíla/undirbúa sig fyrir verk/átök. „Ég er að safna kröftum til að einhenda mér í þetta“.

Safnaðarfundur (n, kk)  Fundur safnaðar kirkju.  „Bopðað var til safnaðarfundar í Breiðavíkursókn“.

Safnaðarsöngur (n, kk)  Kirkjusöngur safnaðar.  „Safnaðarsöngur í Breiðuvíkursókn hefir verið á vegum fjelagsins (Vestra) síðan 1917 og taka því allir fjelagar þátt í kirkjusöngnum.  Söngæfingar hefir fjelagið haft nokkrar, sum árin“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Safnast fyrir / Safnast upp (orðtak)  Um hluti, koma saman yfir tímabil og verða að haug/safni o.fl.  „Hún var hirðusöm um öll ílát, og með tímanum safnaðist fyrir hjá henni mikið af pokum, dósum, krukkum og fleiru“.

Safnast til feðra sinna (orðtak)  Deyja; andast; sálast.  „Hann hefur þá safnast til feðra sinna; blessaður karlinn“.

Safnast þegar saman kemur (orðatiltæki)  Margt smátt gerir eitt stórt.  „Það safnast þegar saman kemur; á endanum varð það hinn myndarlegasti rekstur sem rann inn í Breiðavíkurrétt“.

Safngripur (n, kk)  Minjar; hlutur sem vert er að geyma á safni.  „Koparhringurinn á hlöðuhurðinni á Láganúpi er eiginlega safngripur, því hann er úr togaranum sem strandaði undir Hnífunum“.

Saft (kvk)  Safi; t.d. berjasaft, rabbarbarasaft o.fl.  „Berjatínsla var fastur liður síðsumars, og gerði mamma saft úr krækiberjunum ef nægilega mikið safnaðist“. 

Safta (s)  Búa til saft.  „Misjafnt er hve lagnir menn eru að safta“.

Saftblanda (n, kvk)  Þynnt berjasaft.  „Saftblanda var notuð til drykkjar, en sem útálát á grauta og búðinga var saftin lítið þynnt“.

Saftflaska (n, kvk)  Flaska með berjasaft.  „Oft voru 20-30 saftflöskur afrakstur eins sumars“.

Saftkanna (n, kvk)  Kanna sem saft er borin fram í.  „Réttu mér saftkönnuna“.

Saftpottur (n, kk)  Pottur sem saft er soðin í.

Saftpressa (n, kvk)  Tæki til að pressa saft úr berjum; ýmist sett á hakkavél eða sérstakt tæki.  Fyrir tíma hennar voru berin hökkuð í hakkavél. 

Saftsúpa (n, kvk)  Súpa sem soðin var úr berjasaft; oft þykkt dálítið; soðin með rúsínum og borðuð með brauði eða tvíbökum.  Sést lítt á borðum í seinni tíð.

Sag (n, hk)  Agnir/salli sem myndast við að efni er sagað.

Saga (n, kvk)  A.  Almennt; sögn; frásögn; skáldverk; það sem sagt er í tali/riti.  B.  Sértækt; fornsögur; Íslendingasögur. 

Saga (s)  A.  Taka efni í sundur með sög.  „Afi byggði sér torfkofa niðri við sjóinn, svo hann gæti sagað þar stórvið og geymt veiðarfæri“.  B.  Róa bát þar sem lítið gengur, t.d. móti straumi/vindi.  „Við vorum lengi að saga suðurfyrir röstina“.

Saga að segja frá því (orðtak)  Efni í töluverða frásögn.  „Þú spyrð hvernig ég fékk þetta ör?  Það er nú aldeilis saga að segja frá því“!

Saga til næsta bæjar (orðtak)  Stórfrétt; frásagnarverð tíðindi.  „Það yrði saga til næsta bæjar ef hann kláraði heyskapinn fyrir sláturtíð“.

Saga upp (orðtak)  Saga sviðahaus í tvo helminga/kjamma.  „Sviðahausar eru sagaðir upp, þannig að byrjað er á krúnunni og sagað niður, þangað til kjammarnir hanga saman á tungu og kverk.  Þá er skorið sundur með hníf og heili hreinsaður úr áður en soðið er“.

Saga út (orðtak)  Saga þunnan við eða krossvið með laufsög/útsögunarsög, oft með mjög kræklóttu sagarfari.  Útsögun varð vinsæl handavinna á 20.öld, e.t.v. fyrir áhrif danskra tímarita.

Sagan er ekki nema hálfsögð ef einn segir frá (orðatiltæki)  Auðskilin og alloft notuð speki.

Sagan segir (orðtak)  Sagt er; heyrst hefur; svo er sagt.  „Sagan segir að þetta hafi endað með slagsmálum; en ég sel það ekki dýrara en ég keypti“.  „Segir sagan að fljótir hafi þeir félagar Jóns verið að setja upp húfur sínar er þeim mætti þessi sjón“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Sagarbakki (n, kk)  Sú brún sagarblaðs sem er andstætt tönnunum.

Sagarfar / Sagarsár (n, hk)  „Ekki er nú sagarfarið vel beint hjá honum“.  „Rektu fleyginn betur í sagarsárið“.

Sagargeifla / Sagarkegg / Sagarspík (n, hk/kvk)  Gæluheiti á sög.  „Þessi sagargeifla er orðin nánast tannlaus“.  „Ári er það orðið tannlaust þetta sagarkegg; þetta verður strax ónýtt af að saga upp sviðahausa“.  „Hvar lét ég nú frá mér sagarspíkina“?

Sagði í óspurðum fréttum (orðtak)  Sagði án þess að spurt væri eftir.  „Hann sagði mér í óspurðum fréttum að nágranninn væri kominn með nýja ráðskonu“.

Sagður (l)  Sagt/fullyrt að hafi.  „Brynjólfur er sagður hafa borið takið á bakinu neðan úr fjöru, upp á bakka“.  „Kollur er sagður fyrstur manna hafa komist af úr sjóslysi við Ísland.  „Þetta var sagður stór reyðarhvalur“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Sagga (s)  Slaga; myndast saggi.  „Heyið hefur saggað dálítið yfir nóttina, það hefur náð að orna eitthvað“.

Saggaloft (n, hk)  Rakamettað loft.  „Járni hættir til að ryðga í saggaloftinu hér inni“.

Saggdi (s, ft)  Kollsvíkurframburðurinn gamli á sögninni „sagði“.  Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi hefur trúlega verið sá síðasti sem notaði framburðin undantekningarlaust, en þó brá honum fyrir hjá Halldóru Kristjánsdóttur frá Grundum eftir það.  „Hvað saggdirdu við hann“?  Málfræðingar nefna þetta bð og gð framburð.  Notaður einnig t.d. í „habbdi“.

Saggi (n, kk)  Slagi; raki í húsum sem ekki eru nægilega einangruð og loftræst.  Saggafullur.

Saggur (n, kk) ....óviss merking.... Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Sagnabrunnur (n, kk)  A.  Uppspretta sagna.  „Mörg skáld hafa sótt efnivið í sagnabrunn Heimskringlu“. B.  Maður sem kann frá mörgu að segja.  „Með Ásgeiri féll frá mikill sagnabrunnur og kvæðamaður“.

Sagnafár (l)  Fámáll; þegjandalegur; fátt um svör.  „Hann var fremur sagnafár þegar hann var spurður“.

Sagnahefð / Sagnamaður / Sagnameistari / Sagnaþulur  (n, kk)  Sá sem er fróður um sögur og segir vel frá.  „Sagnahefð er að deyja út í þeirri mynd sem áður var.  Tveir þættir hafa þar orðið líklega mestir örlagavaldar; fjölföldun ritmáls og ljósvakamiðlar, en einnig breyttur lífsstíll með hröðum samgöngum; gnótt afþreyingar og annarra glapa.  Langt frameftir 20. öldinni voru þó margir snjallir sagnamenn í Rauðasandshreppi sem víðar.  Menn sem kunnu ógrynni sagna og gátu sagt þær á þann hátt að hrein unun var á að hlýða; með viðeigandi spennu, kímni og öðrum tilfinningum.  Fólk sem kunni þá list betur en nokkrir Hollívúddleikstjórar að leiða áheyrandann inn í lifandi heim frásögunnar; hvort sem var í vopnaglamri víkingaaldar eða svaðilförum síðari tíma.  Sagnalistin er ekki öllum gefin; hún þróast aðeins með mikilli æfingu og í samfélagi sem kann að meta hana.  Meðal snjallra sagnamanna sem ég man eftir er afi minn, Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi.  Hann var yfirleitt fámáll, en í góðra vina hópi og á góðri stundu sagði hann listilega frá.  Sama var um konu hans Hildi ömmu, og börn þeirra erfðu listina um margt.  Sagnalist móður minnar hefur komið fram á síðari tímum, svo sem með skrifum hennar um fyrri tíma.  Fyrstu almennilegu lygasöguna sagði mér Arinbjörn Guðbjartsson, gamall frændi minn sem kominn var frá Ameríku.  Hann vissi allt um það hvernig tunglakarlarnir hefðu falið hausa sína í hrossastráum til að þeim yrði ekki stolið þegar þeir litu við hér á Jörðinni.  Grafalvarlegur messaði hann sinn boðskap yfir dolföllnum barnaskaranum, sem þaut niður á Fit í sögulokin til að leita að hausunum.  Síðan hef ég það fyrir vana að líta í hrossastráin þegar ég á leið hjá þeim, ef vera skyldi að þar leyndist einn haus, eða svo.  Annálaður sagnaþulur og kvæðamaður var Ásgeir Erlendsson á Hvallátrum.  Afi og Geiri voru af þeirri gerð saganmanna sem vildu hafa allar sögur sannar og réttar.  Þórður, nábúi Ásgeits og mágurm kunni að segja listilega frá, en færði stundum í stílinn, einkum síðari tíma sögur; léttleikinn í fyrirrúmi.  Sama mátti segja um sagnameistarann Jón Hákonarson á Hnjóti.  Enginn tók honum fram í að koma sögum í búning gáska og gamans.  Jafnvel ómerkilegustu hlutir og atburðir gátu orðið skemmtisaga í munni Jónsa og komið út hláturstárum áheyrandans.  Hann kunni þann línudans að búa til kímnisögur úr samtímanum og af sveitungum sínum án þess að nokkur þyrfti að særast.  Er menningarslys að þær sögur skuli ekki hafa varðveist.  En Jónsi gat einnig verið alvarlegur og þræddi þá veg sannleikans eins og hæfir arfsögum og gengnum persónum.  Fleiri mætti til nefna af góðum sögumönnum sem nú eru látnir.  Hafliði Halldórsson frá Látrum var frábær sagnamaður.  Einkum hafði ég áhuga á sögum hans af bjargferðum og viðureign við tófuna.  Bræðurnir Sigurvin og Gunnar Össurarsynir voru margfróðir um lífshætti fyrri tíðar, auk þess sem báðir voru víðsigldir og veraldarvanir.  Ívar Ívarsson í Kirkjuhvammi kunni frá mörgu að segja; var bæði nákvæmur og góður sögumaður.  Ég kynntist aldrei bróður hans, hinum mikla sagnaþul og fræðimanni Rósinkrans sem Rósarímur voru um kveðnar.  Ívar Halldórsson á Melanesi var skemmtilegur sögumaður og hafði lifað viðburðarríka ævi sem skútusjómaður o.fl.  Sátum við löngum á kvöldin í bragga á Gjögrum í sláturtíðinni; hann skútukarlinn sem kjötmatsmaður og ég unglingurinn honum til aðstoðar við að hnýta á merkispjöld.  Þar fékk ég að heyra magnaðar sögur af viðureign hans við Ægi konung og misvandaða samskipsmenn.  Vildi þá stundum gleymast áhnýtingin þegar ég hlustaði opinmynntur á hrikalegar lýsingar sem mér kom ekki til hugar að efast um.  Yrði mér það á að hvá brást sá gamli fljótt við; „Og þetta er sannleikur sem ég segi þér; sem ég sit hérna á stólnum“!  Sonur hans er Ari Ívarsson, sem manna mest hefur ritað fróðleik og frásagnir úr Rauðasandshreppi á síðari tímum, t.d. í Árbækur Barðastrandasýslu.  Í Gjögrabragga voru fleiri sagnamenn í sláturtíðinni.  Þar mátti t.d. heyra listilega kryddaðar sögur Hjartar Skúlasonar af hans sjómennskuævi; fásagnir Óla á Gili af sveitalífi fyrri tíðar og úr samtímanum; Kitta í Hænuvík; Óla á Nesi; Árna í Tungu og fleiri.  Stundum kom þar Patreksfirðingurinn Doddi kútur; Þórður Jónsson, verkamaður og fóstri Jóns úr Vör.  Þá sló þögn á hávaðann í bragganum þegar Doddi hóf að segja frá með sinni hófstilltu röddu og sérstökum stíl, með viðmælandann í þriðju persónu.  Marga fleiri mætti hér upp telja, en verður e.t.v. gert annarsstaðar“  (VÖ).

Sagnarandi (n, kk)  Hugboð um óorðna hluti; forspá; vitneskja um hugsanir annarra.  „Þú hlýtur að hafa haft einhvern sagnaranda, því þetta var einmitt það sem ég var að vonast eftir“!

Sagnir herma (orðtak)  Svo segir í sögum.  „Sagnir herma að á undir Biskupsþúfu hafi Kollur fólgið vopn sín og gersemar“.  „Hér virðist ekki geta verið um annan hval að ræða en þann sem Einar dró á land í Kollsvík, að því er sagnir herma“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Sagógrjón (n, hk, fto)  Grjón eða smákúlur sem unnar eru úr merg sagópálmans.  Voru vinsæl til grautargerðar á síðari hluta 20.aldar. 

Sagógrjónagrautur (n, kk)  Vellingur búinn til úr sagógrjónum (kúlulaga perlum sagópálmamerg).  „Sagógrjónagrautur naut vinsælda um tíma, en þeim hefur hnignað eins og annarri grautarmenningu“.

Sagt var mér en ekki sýnt (orðtak)  Ég heyrði þetta sagt en sá það ekki sjálfur.  Nokkuð notað t.d. þegar menn fría sjálfa sig af sögusögnum/slúðri sem þeir útbreiða.

Saka (s)  A.  Saka um; áfellast.  B.  Meiðast; skaðast; koma að sök.  „Smásteinar komu fljúgandi ofanaf brún, en mig sakaði ekki“.  „Almennt mátti ekki heita að skepnur kæmu á gjöf fyrr en um og eftir hátíðir, því kast það er gjörði snemma vetrar varð hér svo vægt að litlu sakaði“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Saka um (orðtak)  Bera sakir á; áfellast; ákæra.  „Ég er ekki að saka hann einan um að þetta fór svona“.

Sakar ekki (orðtak)  Spillir ekki fyrir; væri ekki verra.  „Þetta er kannski vonlaust, en það sakar ekki að reyna“.

Sakargiftir (n, kvk, fto)  Ásakanir; ætlaður glæpur.  „Ef ég er ásakaður um eitthvað þætti mér viðkunnanlegra að fá að heyra sakargiftirnar“!

Sakbitinn (l)  Með slæma samvisku vegna misgjörðar; með samviskubit.  „Ég er ekki svo mjög sakbitinn yfir þessum spýtum sem ég tók; hann skuldar mér drjúgt meira en það“!

Sakir / Sökum (fs)  Vegna; af þeirri ástæðu.  „Sláttuvél kom að Saurbæ 1908 en var skilað aftir sakir þess að greiða hennar var gerð fyrir grófara gras en hér óx“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Sakka (n, kvk)  Þungur hlutur á enda færis til að halda því niðri og réttu á skakveiðum; pilkur.  „Löngum notuðu menn stein í sökku, en síðar blý- og járnsökkur eftir að það varð unnt.  Í Kollsvík tíðkaðist að menn smíðuðu sínar sökkur, t.d. með því að renna bráðnu blýi í járnhólk“.

Saklaus (l)  A.  Ekki sekur; sýkn.  „Ég er alveg saklaus af því að stela hnífnum“.  B.  Ekki mjög til baga; ekki skaðlegur/íþyngjandi.  „Þetta var nú bara saklaust grín“.  „Það ætti að vera saklaust að láta svonalagað flakka í vísu“.

Saklaus er hver þar til sekt hans er sönnuð (orðatiltæki)  Undirstöðuregla réttarfars og stjórnarskrár.

Saklaust veður (orðtak)  Aðgerðalaust/meinlaust/meinhægt veður; tiltolulega stillt veður.  „Það er svolítil rigning, en að öðru leyti alveg saklaust veður“.

Sakleysið uppmálað (orðtak)  Lítur mjög sakleysislega út.  „Ég gruna strákana um að vita eitthvað um þessi göt á hjallinum, þó þeir séu sakleysið uppmálað og með geislabaug á krúnunni“.

Sakleysingi (n, kk)  Sá sem er saklaus.

Sakleysislega (ao)  Eins og sé saklaust.  „Þetta lítur svosem sakleysislega út“.

Sakna (s)  Sjá eftir; finnast vanta; syrgja.  „Alltaf saknar maður heimahaganna“.

Sakramenti (n, hk)  Náðarmeðul; hluti af helgisiðum kristinnar kirkju; messuvín og obláta sem altarisgestur meðtekur sem tákn um blóð og hold Krists og í minningu síðustu kvöldmáltíðar Krists.  Reyndar eru sakramenti lúthersku kirkjunnar taldar vera tvennskonar athafnir (hjá rómversk-kaþólskum eru þær sjö).  Önnur þeirra er skírnin, sem er tákn um það þegar Kristur sendi lærisveina sína út um heiminn og fól þeim að „gera allar þjóðir að lærisveinum“.  Vatnsaustur sem skírninni fylgir er til minningar um skírn Krists í ánni Jórdan.  Kollsvíkingar hafa löngum verið skírðir uppúr Gvendarbrunnsvatni sem, auk náttúrulegs hreinleika, býr að blessan Guðmundar góða Hólabiskups.  Hitt sakramenti kirkjunnar er altarisgangan.  Kirkjugestir sem það vilja ganga þá inn að altarinu; krjúpa við gráturnar og þar útbýtir prestur sakramenti/náðarmeðulum, sem annarsvegar er obláta; lítið brauð sem táknar líkama Krists og hinsvegar messuvín sem táknar blóð Krists.  Hvorttveggja tekur altarisgestur í munn sér og neytir.  Þessi athöfn er í minningu síðustu kvöldmáltíðar Krists, er hann sat að borði með lærisveinum sínum yfir brauði og víni.  Hann á þá að hafa sagt að brauðið væri líkami sinn sem fyrir þá væri gefinn og vínið væri kaleikur þess nýja sáttmála sem úthellt er til fyrirgefningar syndanna.  Líta má því á altarissakramentin sem tákn um fyrirgefningu syndanna.  Trú fólks fyrr á öldum byggði annarsvegar á þrá eftir sæluvist í himnaríki en hinsvegar og ekki síður á óttanum við eilífar kvalir í helvíti, sem prestar voru óþreytandi að útmála.  Trúin gekk útá að allir væru syndugir og þyrftu að verja ævi sinni í að bæta fyrir syndir sínar.  Ekki var því að undra að þessi syndaaflausn væri vinsæl; þetta strokuleður syndanna.  Með minnkandi helvítistrú landsmanna fækkaði altarisgestum, og munu nú fáir ganga til altaris af trúarhitanum einum.  Margir hafa þó þennan sið í heiðri, og viðhalda þannig gömlum venjum.

Sala (n, kvk)   Það að selja/ láta af hendi gegn verðmætum. 

Salatbeð (n, hk)  Beð í garði þar sem ræktað er salat til matar.  „Eru nú hænsnin komin í salatbeðið“!

Salerni (n, hk)  Klósett; staður þar sem maður gerir stykkin sín; skítur; leysir buxur; kúkar.  Orðið er samsett úr „salur“ og „erni“, og merkir salur þar sem maður gengur örna sinna.

Salla (s)  Sáldra; dreifa salla/sagi/ryki/snjó.  „Vertu nú ekki að salla rykinu niður á borðið“!

Salla niður (orðtak)  A.  Snjóa mjög mikið; oft notað yfir lognsnjó og jafnvel þegar ekki var von á slíku.  „Það er allt í einu farið að salla niður snjó“.  „Ári hefur sallað miklu niður í nótt“.  B.  Skjóta/drepa unnvörpum.  „Þeir mættu ofurefli í orrustunni og voru sallaðir niður“.

Sallafínn (l)  Mjög fínn/snyrtilegur.  „Mikið ertu nú orðinn sallafínn“!  „Ég segi bara allt sallafínt“.

Sallarólegur (l)  Mjög rólegur/yfirvegaður.  „Ég beið sallarólegur eftir því að tófan kæmi í færi“.

Sallasnjór n, kk)  Grófkornaður snjór; haglsnjór.  Erfiður bæði til að ganga og aka í, sé hann verulegur.

Salli (n, kk)  A.  Dreifð snjókorn á annars auðri jörðu.  B.  Grófur kornasnjór; sallasnjór.  C.  Fíngerð korn af hverskonar efni.  „Hér hefur sáldrast einhver tóbakssalli niður á borðið“.

Salómonsdómur (n, kk)  Úrskurður sem ekki verður hnekkt; gáfulegur dómur.  „Hann kvað upp sinn salómonsdóm um að lambið teldist ómarkað með öllu“.

Salómonsvit (n, hk)  Afburða vit; mikil skynsemi.  Einkum notað um skepnur sem sýna meiri hugsun en aðrar.  „Það er eins og hrafninn hafi salómonsvit þegar hann er að stríða hundinum“.

Salt (n, hk)  NaCl; natríumklóríð; uppleysanlegt efnasamband sem mikið hefur verið notað til varðveislu á matvælum frá því um og uppúr 1600. Sjá söltun, saltfiskur, saltket, hrognkelsi.

Salta (n, hk)  Verka mat með salti; bæta salti í mat.  „Það hefði mátt salta grautinn aðeins meira“.

Salta niður (orðtak)  Oftast haft um verkun saltkets; leggja niðurbrytjað niður í ílát með hæfilegri saltblöndu.

Saltari (n, kk)  A.  Guðsorðabók eða sálmabók.  Oftast notað um Davíðssálma biblúnnar.  Kunnast úr þjóðsögunni um Sæmund fróða, sem sló saltara í haus fjandans í selslíki.  B.  Sá sem saltar matvæli.

Saltbrenna (s)  Skaðast af of miklu salti.  Notað um skemmdir sem verða á ofsöltuðum fiski; skaða sem verður á húð eða augum af snertingu við salt og um ryðskemmdir á járni af sömu völdum.

Saltbrunninn (l)  A.  Rauðbólginn í húð vegna snertingar við salt/sjó.  „Þú verður fljótt saltbrunninn á skallanum í ágjöfinni og sólskininu.  Ég held að þú ættir að setja upp sjóhattinn“.  B.  Skemmdur matur vegna ofsöltunar.  C.  Um járn; ryðgað vegna snertingar við salt. 

Saltfiskkassi (n, kk)  Kassi sem fiskur er saltaður í.  „Farið var í matfiskróðra á hverju sumri þegar tími og sjóveður leyfði.  Fiskurinn var flattur og saltaður í sterkan saltfiskkassa í mókofanum og síðar  í verkfærahúsinu.  Hann var síðan tekinn upp í smáskömmtum og útvatnaður í brunnhúsinu fyrir neyslu“. 

Saltfiskstæða (n, kvk)  Hlaði/stæða af söltuðum fiski.  „Mikið var lagt uppúr að saltfiskstæður væru rétt og snyrtilega hlaðnar“.

Saltfiskur / Saltfiskverkun hefur verið snar þáttur í atvinnuháttum Kollsvíkinga; allt frá því að salt fór að fást til fiskverkunar.  „...saltfiskur af sunnanverðum Vestfjörðum var talinn best verkaður af öllum fiski“  (GG; Skútuöldin).  Líklega hefur saltfiskverkun hafist hérlendis þegar salt fór að flytjast hingað að ráði, á fyrrihluta 17. aldar.  „Engu að síður gegndi þurrkunin áfram mikilvægu hlutverki í verkun fisksins, og þegar saltfiskverkun hófst í einhverjum mæli undir lok 18. aldar, var fiskurinn verkaður samkvæmt svokallaðri „Nýfundnalandsaðferð““  (JÞÞ; Sjósókn og sjávarútvegur).  Áður höfðu útlendingar veitt í salt við landið.  Víst má telja að Útvíknamenn hafi verið fljótir að tileinka sér þessa verkunaraðferð:  „Vestfirðingar voru öðrum fremri í saltfiskverkun“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  Fátt er nú vitað í smáatriðum um vinnubrögðin fyrr á tíð, en lýsingar frá síðustu tímum útfgerðar í Kollsvíkurveri má sjá m.a. í frásögnum Ingvars Guðbjartssonar og Kristjáns J. Kristjánssonar.  „.... þannig er aflinn borinn upp í ruðning.  Ruðningur var trékassi á löppum.  Flatningsborð á öðrum endanum en stúkað fyrir hausa á hinum.  Þegar búið er að bera upp fara menn úr skinnklæðum; brókin er sett á brókarkvíslina til að hún þorni fyrir næsta róður.  ....  Ekki er beðið lengi með að fara í aðgerðina; einn hausar og tveir fletja.  Lækur rann við endann á ruðningnum.  Hann var stíflaður með hellu og flatti fiskurinn látinn detta af borðinu niður í stífluna.  Þar taka strákar til að þvo hann og koma inn í kró sem stóð hinum megin við lækinn.  Þar er hann saltaður í stæður sem eru umstaflaðar eftir 3-4 daga.  Í þeim stóð fiskurinn þar til hann var vaskaður og þurrkaður“  (IG; Niðjatal HM/GG).  „Hæfileg saltnotkun var talin 180 kg í skippundið af fullverkuðum fiski“  (GG; Skútuöldin).  „Á Vestfjörðum var stakkurinn hlaðinn beint upp en syðra var hann látinn ganga að sér eftir því sem hann hækkaði“.  Fiskurinn var þurrkaður á steinlögðum reitum, sem enn má sjá í Kollsvíkurveri, þó sandorpnir séu orðnir.  „Ýmist var svo fiskurinn fluttur ópakkaður til sölu eða umboðssölu á Patreksfirði, eða stundum metinn og pakkaður í Verinu.  Var hann þá oft fluttur um borð í skip sem tóku hann veint til útflutnings.  Það var gert á vegum fyrsta pöntunarfélagsins sem stofnað var og starfrækt í Rauðasandshreppi, með aðalbækistöðvar á Patreksfirði.  Það kom fyrir að fiskurinn var seldur upp úr salti; óverkaður og ópakkaður.  Eitt skip tók allan voraflann úr verstöðinni“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Fiskur sem var 18 þumlungar og stærri var málfiskur, en millifiskur 12-18 þuml. og smáfiskur væri hann minni en 12 þumlungar“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).

Salthnefi (n, kk)  Hnefafylli af salti.  „Ég stráði salthnefa á fiskinn yfir nóttina“.

Salthús (n, hk)  Hús til geymslu á salti.  Milljónafélagið reisti og átti salthús í Kollsvíkurveri.

Saltket (n, hk)  Saltkjöt.  „Misjafnt er hvað menn eru lagnir að verka í saltket, svo vel geymist og haldi bragði.  Fyrir daga frystitækni voru þeir menn eftirsóttir sem vel kunnu til verka.  Eins voru menn misjafnlega lagnir að höggva kjöt í spað, en áðurfyrr var saltkjöt brytjað í spað með saxi á fjalhöggi áður en það var saltað með blöndu af fínu salti (vakúmsalti), sykri og ögn af saltpétri“.

Saltketsát (n, hk)  Neysla á saltketi.  „Nú væri tilbreyting að fá fisk eftir þetta hangikets- og saltketsát“.

Saltketsbiti (n, kk)  Biti af saltketi.

Saltketsfat (n, hk)  Fat/diskur sem saltket er fært uppá til að bera það á borð.

Saltketspottur (n, kk)  Pottur sem saltket er soðið í.  „Er farið að sjóða í saltfiskpottinum“?

Saltketskvartel / Saltketsstampur / Saltketstunna (n, hk/kk/kvk)  Ílát sem saltket var gjarnan verkað og geymt í.  „Mundu eftir að setja hlemminn á saltketskvartelið svo músin komist ekki í það“.

Saltketsverkun (n, kvk)  Verkun saltkets; brytjun og söltun saltkets.  „Ívar í Kirkjuhvammi var annálaður snillingur í saltketsverkun“.

Saltkjöt (n, hk)  Stundum notað af Útvíknamönnum, sem þó töluðu fremur um saltket.

Saltkorn (n, hk)  A.  Korn af salti.  B.  Lítilsháttar magn af salti.  „Geturðu nokkuð léð mér saltkorn“?

Saltlaus (l)  Án salts.  „Nú stefnir í óefni; við erum að varða saltlausir“.  „Er grauturinn saltlaus hjá mér“?

Saltleysi / Saltskortur (n, hk/kk)  Skortur á salti.  „Fátt þykir uggvænlegra í verstöðvum en saltleysi“.

Saltlúka / Saltlús / Saltögn (n, kvk)  Slatti/ lítið eitt af salti.  „Ertu aflögufær um saltlúku fyrir mig“?  „Áttu kannski saltögn að ljá mér um stundarsakir“?  „Einhverja saltlús gat ég lánað honum“.

Saltlögur / Saltpekill / Saltpækill (n, kk)  Pækill; vatn með miklu af uppleystu salti. 

Saltmeti (n, hk)  Matur sem saltaður er til geymslu.  „Í Kaldabrunnslæk var tekið neysluvatn, þvegnir þvottar og afvatnað saltmeti“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Saltpétur (n, kk)  Kalínítrat; hvítt efni sem notað var til íblöndunar við salt til matargerðar áðurfyrr; t.d. við saltketsverkun; rúllupylsugerð o.fl.  Hefur m.a. þau áhrif að kjöt heldur betur rauða litnum, sem sumum þykir lystugra.  Notkun þess dróst þó snarlega saman þegar sannað þótti að það væri krabbameinsvaldur.

Saltpoki / Saltskeppa (n, kk)  Saltsekkur; salt var mestmegnis flutt í Kollsvíkurver í saltpokum.  „Með saltpoka og annan þungavarning fara þeir léttilega“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Saltreka / Saltskófla (n, kvk)  Reka/skófla til að moka salti.  „Kastaðu einni saltreku aukalega yfir stæðuna“.

Saltsíld (n, kvk)  Söltuð síld, vanalega í tunnu. 

Saltsteinn (n, kk)  A.  Steinsalt; salt sem finnst í jarðlögum.  Sumsstaðar er salt unnið úr slíkum jarðlögum í miklu magni, en það er leifar frá uppgufuðum innhöfum fyrir hundruðum milljóna ára.  B.  Klumpur sem hafður er aðgengilegur fyrir búfé að sleikja, og samanstendur af ýmsum söltum og bætiefnum.

Saltvondur (l)  Blóðillur; fjúkandi reiður; fokillur; foxvondur.  „Nú er hann saltvondur útaf því að hann var ekki látinn vita tímanlega af þessu“.

Saltsteinn (n, kk)  Klumpur af pressuðu fíngerðu salti og steinefnum; hafður aðgengilegur í jötu/haga fyrir búfé til að sleikja, og svala þannig þörf fyrir sölt og steinefni.

Saltsktokkinn / Saltstorkinn (l)  Saltdrifinn; krímugur í andliti af seltu, t.d. eftir ágjöf eða sjódrífu.  „Mikið er maður orðinn saltstorkinn“.

Saltstorka (n, kvk)  Krím/kám í andliti af seltu.  „Mikið var gott að þvo af sér saltstorkuna“.

Saltsuða (n, kvk)  Framleiðsla salts úr sjó með uppgufun hans.  Saltsuða hefur verið reynd af og til hérlendis; einkum þar sem jarðhita nýtur við; enda þarf til mikla og langvarandi hitun.

Salttæpur (l)  Tæpur með salt; á lítið af salti.  „Við vorum búnir að róa alla vikuna, og því orðnir mjög salttæpir„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Saltur (l) Saltaður; með miklu saltbragði.  „Fiskurinn er dálítið saltur; hann hefði mátt útvatnast lengur“.

Saltvondur (l)  Sjóðandi illur; blóðillur.  „Það þýðir ekkert að vera saltvondur yfir því sem engum er að kenna“.

Sama (ao)  Sjálfstæð mynd af lýsingarorðinu „samur“.  „Mér er svosem alveg sama“, sem merkir;  „Ég er jafn samur fyrir því“.  „Honum má vera nokkurnvegin sama hvernig þetta verður haft“.

Sama (er mér) hvaðan gott kemur (orðtak)  Uppruninn skiptir engu.  „Ég er alltaf til í að éta egg; sama hvaðan gott kemur“.

Sama hvaðan vindurinn blæs (orðtak)  Hvernig sem allt veltist; hvað sem á kann að ganga; hvernig sem vindáttin verður.  „Hann er tryggur með sitt, sama hvernig vindurinn blæs“.

Sama hvar borið er niður (orðtak)  Sama hvar reynt er.  „Það var allsstaðar sama ördeyðan; sama hvar borið var niður“.  „Hann var jafn vel heima um hverskonar fróðleik; sama hvar borið var niður“.

Sama hvar dáðlaus drattar (orðtak)  Um ónytjung/ lítilsigldan mann; skiptir ekki máli hvort hann er með eða ekki.  „Ég veit ekki hvort ég treysti mér með ykkur í róður, enda víst sama hvar dáðlaus drattar“.

Sama hvar frómur flækist / Einu gildir hvar frómur flækist (orðatiltæki)  Hinn heiðarlegi/alþýðlegi fær allsstaðar góðar viðtökur.

Sama hvorumegin hryggjar það liggur (orðtak)  Sama hvernig fer með það.  „Þessi hnífbrók er orðin fjári lélig og mér er nokk sama hvorumegin hryggjar hún liggur, en nýja hnífinn þurfið þið að passa uppá“.

Sama og ekki neitt (orðtak)  Nánast ekkert; hverfandi lítið.  „Afskaplega er lítið eftir af saltinu; það er bara sama og ekki neitt“.  „Það er sama og ekkert bensín eftir á tanknum“.

Sama marki brenndur (orðtak)  Eins/svipaður að tilteknu leyti.  „Þetta eru báðir vænstu hrútar, en ba´ðri eru þeir því sama marki brenndir að vera fjári lappastuttir“.  Vísar til brennimerkinga, t.d. á reka eða sauðfé.

Sama sinnis (orðtak)  Á sömu skoðun.  „Ég spyr hann á morgun hvort hann sé enn sama sinnis varðandi þetta“.

Saman (ao)  Að/hjá hvoru/hverju/hverjum öðrum; í hóp; sameinað.  „Við gengum saman út í Vatnadal, en þá skildu leiðir“.  „Hann er að ljókka ári mikið; ætli við förum ekki bara að raka saman“.  „Svona mikill ís hafði ekki sést á víkinni áratugum saman“.  „Ætli ég verði ekki barinn sundur og saman fyrir að segja þetta“?  „Okkur kom saman um að þetta væri besta leiðin“.

Saman að sælda (orðtak)  Samvistum við; í viðskiptum við.  Oftast í orðtakinu „vilja ekkert hafa saman við (einhvern) að sælda“.  Sjá þar.

Saman við (orðtak)  Í og með; stundum; hálfpartinn.  „Hann þóttist vera sármóðgaður yfir þessum hrekkjum, en saman við hafði hann gaman að þeim“.

Saman við að sælda (orðtak)  Eiga samskipti við; vera með.  „Ég vil nú sem minnst eiga nokkuð saman við hann að sælda“.  Sælda merkir að sigta; dregið af sáld = sigti. 

Samanbarinn (l)  Samanþjappaður; eitilharður.  „Skaflinn var svo samanbarinn að aka mátti á honum“.

Samanborið við (orðtak)  Miðað við.  „Þetta er bara ágæt heyskapartíð, samanborið við ótíðina í fyrra“.

Samanbrotinn (l)  Brotinn saman.  „Dúkinn fann ég samanbrotinn ofaní skúffu“.

Samanbundinn / Samanhnýttur / Samansplæstur (l)  Hnýttur/splæstur saman.  „Það þýðir ekkert að nota svona samanhnýtta enda fyrir handvað“.  „Athugaðu að kaðallinn sé vel samansplæstur“.

Samanburður (n, kk)  Tiljöfnuður; mat.  „Frekar var þetta rýrt í dag, í samanburði við hrotuna í gær“.

Samandreginn (l)  Dreginn saman.  „Pyngjan var samandregin í opið“.

Samanfallinn / Samansiginn (l)  Fallinn/siginn saman.  „Kofinn var allmjög samansiginn“.

Samangróinn (l)  Gróinn saman.  „Lækurinn rann þarna í þröngum stokk og voru bakkarnir samangrónir“.

Samanhangandi (l)  Sem hangir/tollir saman.  „Ekki veit ég hvaða skömmum hann hellti yfir strákormana; en eitthvað var það samanhangandi“.

Samanhnoð (n, hk)  Það sem er hnoðað saman; hnoð.  Oft notað um stirðlegan skáldskap.  „Mér finnst þetta ótttalegt samanhnoð hjá honum“.

Samanhnýttur (l)  Hnýttur/bundinn saman.  „Þú ferð ekki í lás í þessum andskota; samanhnýttum fúaspotta“!

Samankomnir (l)  Komnir saman; mættir.  „Jól í bernsku minni voru hátíðleg haldin þannig að á aðfangadag kl sex var allt heimilisfólkið samankomið við útvarpstækið að hlýða á aftansöng“  (ÖG; Glefsur og minningabrot). 

Samankýldur / Samanþjappaður (l)  Pressaður/þvingaður saman. „Ég sat samankýldur uppi í hlöðurjáfrinu og tróð heyinu útundir þakið eins og framast var unnt“.  „Þarna komum við niður á samanþjappaðan jökulleir“.

Samanlímdur / Samanklesstur (l)  Límdur/klesstur saman.  „Hér eru síðurnar samanlímdar á kafla“.

Samanpressaður / Samanþjappaður (l)  Pressaður/þjappaður saman.  „Þarna komum við niður á samanþjappað ísaldarset“.

Samanrekinn (l)  Þéttur á velli; luralegur; klossaður.  „Hann var stuttur, en samanrekinn og gildur“.

Samanreyrður (l)  Fast/þétt bundinn saman; samansúrraður.  Flækjan var svo samanreyrð að ég ætlaði aldrei að geta losað um hana“.

Samanrunninn (l)  Ruynninnn/bræddur saman.  „Sykurinn í pokanum var samanrunninn í eitt staup“.

Samansafn / Samsafn (n, hk)  Safn; söfnuður.  „Hann sagði að flokkurinn væri bara samansafn af hálfvitum“.

Samansaumaður (l)  A.  Saumaður saman.  B.  Mjög aðhaldssamur; nískur.  „Hann er samansaumaður nirfill“.

Samansettur (l)  Settur saman; í heilu lagi. „Næsta traktor var ekið samansettum útyfir Hænuvíkurháls“.

Samansláttur (n, kk)  Um samliggjandi bönd/teina/línur; flæktur saman.  „Hér hefur orðið samansláttur á teinunum í  lagningunni“.  „Nú er einhver samansláttur á símalínunum; ég heyri kjaftæðið á Hafnarlínunni“.

Samanslegið (l)  Slegið/undið saman.  „Hér eru samanslegnir teinar á löngum kafla; það veiðist lítið í þetta“!

Samansnúinn / Samanspunninn / Samanundinn / Samanvafinn (l)  Snúinn/undinn/vafinn saman.  „Vírarnir voru samansnúnir og vafðir einangrunarbandi“. 

Samanspyrtir / Samanvaldir / Samvaldir (l)  Í skammarsetningum; samskonar.  „Þeir eru samanspyrtir hálfvitar; báðir tveir“!  „Þarna er þessum stjórnvöldum rétt lýst; þetta eru samvaldir aular; allir hreint með tölu, og hananú“!  Vísar til þess að velja þarf jafnþunga fiska saman í spyrðu.

Samansull (n, hk)  Það sem blandað/hrært/sullað hefur verið saman.  „Eldri strákarnir gerðu á mér ýmsar tilraunir með grauta sem þeim hugkvæmdist að sjóða í niðursuðudós.  Þar fékk ég að smakka súrugraut, eftingagraut, fíflagraut, geldingahnappasúpu og margt fleira; líka samansull af þessu öllu“.

Samansúrraður (l)  Fast bundinn/flæktur í hnút.  „Eftir storminn voru strengirnir á Bótinni ýmist samansúrraðir eða svo smekkfullir af þaraskít að netið flengrifnaði í drætti“.

Samansöfnuður (n, kk)  Hópur; safn; sundurleit samkoma.  „Allir hreppsbúar voru boðnir og búnir að mæta þegar miklar framkvæmdir voru á einum bæ, t.d. uppstypa húss.  Þetta var oft hinn mesti samansöfnuður, þar sem sumir voru vel verkfærir og hörkuduglegir, en aðrir ýmist fúnir til erfiðisvinnu eða sjálfhlífnir“.

Samantalið (l)  Talið/lagt saman; samtals.  „Þetta nægir sennilega, þegar allt er samantalið“.

Samantekin ráð (orðtak)  Samsæri; samráð um verknað.  „Það voru samantekin ráð þeirra að velta sitjandi formanni úr sessi í næstu kosningum“.

Samantekt (n, kvk)  A.  Söfnun almennt. B.  Upprakstur á heyi; það að raka saman/upp; taka saman.  C.  Úrdráttur/ endursögn máls/rits í stuttu yfirliti; útkoma samlagningar talna.

Samantvinnað (l)  Flækt/snúið saman.  Þinirnir voru samantvinnaðir á nokkrum kafla“..

Samantvinnuð blótsyrði (orðtak)  Runa af samfelldum og öflugum blótsyrðum.  „Hann hreytti úr sér samantvinnuðum blótsyrðum yfir klaufaskapnum“.

Samanþvældur (l)  Kuðlaður saman.  „Þvotturinn kom allur samanþvældur úr vélinni“.

Samasem (ao)  Jafnt og; hér um bil; nærri því; svo gott sem.  „Fatan er samasem full“. 

Samastaður (n, kk)  Verustaður; aðsetur.  „Það var orðið svo þröngt á netalögnum þarna að erfitt var að finna strengnum einhvern samastað“.

Samábyrgur (l)  Ber jafna ábyrgð og sá sem vísað er til; sólidarískur.  „Þeir eiga útgerðina saman og eru því samábyrgir fyrir þessu“.

Samband (n, hk)  A.  Tenging af hverskonar tagi.  „Ég setti tækið í samband“.  B.  Ákveðin tegund viðskiptatengsla, sbr. Samand íslenskra samvinnufélaga.

Sambland (n, hk)  Blanda; belndingur.  „Tilfinningin var í senn sambland af tilhlökkun og söknuði“.

Samblástur (n, kk)  Samsæri; bylting; andspyrna.  „Þeir efndu til samblásturs gegn sitjandi stjórn félagsins“.

Samblendingur (n, kk)  Bræðingur; blanda; hræringur.  „Hann velti fyrir sér hvernig samblendingur trölls og sæskrímslis gæti litið út“.

Samboðinn (l)  Við hæfi; nógu virðulegur/góður/kurteis fyrir.  „Svona háttalag er ekki samboðið nokkrum heiðvirðum manni“!

Sambreiskingur (n, kk)  Sambræðingur; eitthvað sem er hrært/steypt er saman.  „Einhver sambreyskingur er kominn í lapparbrotið, en það er ekki nærri gróið ennþá“.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Sambrýndur (l)  Með samvaxnar augabrúnir.  „Sagt er að Sölmundargjá dragi nafn af að þangað hafi drengur sloppið sem Hollendingar hafi ætlað að nota í beitu.  Drengurinn hefur því auðvitað verið sambrýndur og rauðhærður“ (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).

Sambúð (n, kvk)  Það að búa/dvelja/vera saman.  „Stutt er síðan þau hófu sína sambúð“.

Sambyggður (l)  Samfastur; áfastur.  „Miklar framfarir urðu í búskap á Láganúpi þegar Guðbjartur og synir hans byggðu steinsteypt útihús um miðja 20.öld; sambyggð sex karma fjárhús með kjallara; stóra hlöðu með tveimur risum; þriggja bása fjós með haugkjallara og hlandfor.  Á þeim árum varð einnig töluverð vélvæðing í heyskap“.

Sambærilegur (l)  Sem unnt er að bera saman/ jafna við.  „Þeir eru nokkuð sambærilegir að dugnaði og afli“.

Samdauna (l)  Búinn að vera svo lengi í sterkri lykt að hún finnst ekki lengur.  „Mér finnst skelfileg þessi fýla af hitaveituvatninu þarna syðra, en borgarbúar virðast alveg vera orðnir samdauna þessu“.

Samdóma (l)  Samhljóða; samróma; með sömu niðurstöðu.  „Þetta var samdóma álit þeirra sem til þekktu“.

Samdráttur (n, kk)  A.  Það að eitthvað dregst saman; herpingur.  B.  Ást; það að elskendur fella hugi saman.

Samdægurs (ao)  Sama dag; á sama dgei.  „Ég kom fjallskilaseðlinum samdægurs út að Breiðavík“.

Sameiginlega (ao)  Í sameiningu.  „Sameiginlega áttu þeir villisjeppann Siggu dýru“.

Sameiginlegur (l)  Sem er sameign.  „Þeim er margt sameiginlegt“.  „Sætt er sameiginlegt skipbrot“.

Sameign (n, kvk)  Eign sem fleiri en einn eiga sameiginlega.  „Traktorinn var sameign bænda í Kollsvík“.

Sameina (s)  Fella saman í eitt.  „Hjáleigurnar Grundir og Hólar voru sameinaðar Láganúpsjörðinni“.

Sameining (n, kvk)  Samanfelling; tenging.  „Sameining Rauðasandshrepps við aðra hreppa var líklega óumflýjanleg á sínum tíma, en hefur ekki leitt til neinna framfara í hinu horfna sveitarfélagi“.

Samfagna (s)  Taka þátt í gleði annars/annarra.  „Vinir og ættingjar samfögnuðu honum á stóraflmælinu“.

Samfara (l)  Í fylgd með; um leið og; samtímis.  „Stórbrim, samfara stórstraumsflæði og djúpri lægð, olli því að brot hljóp á land og braut stórt skarð í Garðana.  Einn áhrifavaldurinn er líklega sá að offjölgun hafði orðið í ígulkerjastofninum, með þeim afleiðingum að þaraskógurinn frammi á víkinni veitti lítið viðnám“.  „Undanskil ég þá bændurna þá bændurna á Lambavatni, er verka betur hey sín en líklega nokkrir aðrir í þessu umdæmi.  Samfara því er frábær hirðing hjá þeim á öllum pening“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Samfarir (n, kvk, fto)  A.  Það sem fer saman.  B.  Kynlíf tveggja einstaklinga.

Samfeðra (l)  Sem eiga sama föður.  „Ólafur Magnússon á Hnjóti og Hildur í Kollsvík voru samfeðra“.

Samfella (n, hk)  Það sem er samfellt.  B. Fatnaður þeirrar gerðar að saman er fastur bolur og buxur.  C.  Pils við skautbúning.

Samfelldur (l)  Sífelldur; felldur saman, órofinn; látlaus.  „Í þorrabyrjun tók við samfelldur frostakafli“.  „Hann gegndi starfinu í átta ár samfellt“.

Samferða (l)  Með í för; í sömu ferð; fara saman.  „Ég varð honum samferða innyfir Hálsinn“.  „Við vorum samferða útyfir Strympur, en þá skildu leiðir.  Hann fór upp Vörðubrekku en ég út Breiðshlíð“.

Samferðamaður (n, kk)  Sá sem verður samferða.

Samfestingur (n, kk)  Galli; vinnufatnaður úr vinnublússu með áföstum vinnubuxum.

Samfélag (n, hk)  Félagsskapur; hópur/fylking fólks, t.d. á tilteknu svæði eða af tiltekinni gerð. T.d. samfélag kristinna manna eða hreppssamfélag.

Samfélagsmál (n, hk)  Málefni/hagsmunir samfélags/íbúa.  „Össur Guðbjartsson á Láganúpi vann ötullega og fórnfúst að samfélagsmálum alla sína starfsævi“.

Samfleytt (ao)  Í samfellu; samfellt.  „Hann gegndi þessu starfi í þrjá áratugi samfleytt“.

Samflot (n, hk)  Um báta; verða samferða.  „Þarna má segja að skipt hafi sköpum, að þessir bátar lentu af tilviljun í samfloti yfir Blakknesröstina“  (ÖG; Þokuróður). 

Samfrosta (l)  Frosnir saman.  „Dreifðu vel úr fiskinum í frystinum svo hann verði ekki samfrosta“.  „Ísferjur myndast þegar klaki í botni frostgígs verður samfrosta botnlaginu og flýtur upp með það í vatnavöxtum“.

Samfylgd (n, kvk)  Fylgd.  „Ég þáði samfylgd hans; enda ókunnugur leiðinni“.

Samfylgdarmaður (n, kk)  Ferðafélagi; samferðamaður. „Hann reyndist vel sínum samfylgdarmönnum í lífinu“.

Samgangur (n, kk)  Samskipti; blöndun einstaklinga.  „Með þeim systrum var alla tíð mjög kært, og mikill samgangur á milli heimila þeirra“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).   „Fé frá Láganúpi hefur alla tíð gengið mikið í norðanverðri Breiðavíkinni og lítill samgangur verið með því og Breiðavíkurfénu“.

Samgengt  (l)  Eiga samgang.  „Láganúpsféð á lítið samgengt við Breiðavíkurfé, þó gangi í sömu vík“.

Samgleðjast (s)  Taka þátt í fögnuði; samfagna.  „Margir komu til að samgleðjast honum á afmælinu“.

Samgróinn (l)  Gróinn fastur við.  „Maður er svo samgróinn sinni vík að þar er hugurinn oft frekar en við það umhverfi sem maður dvelur í hverju sinni“.

Samgróningar (n, kk, fto)  Óæskilegur bandvefur í sári, sem veldur óþægindum; óþægileg örmyndun.

Samgöngur (n, kvk, fto)  „Þegar ég var að alast upp í Kollsvík á fjórða og fimmta tug þessarar aldar, voru samgöngur á landi til og frá Víkinni óbreyttar frá því sem verið hafði frá landnámsöld.  Vegir voru ekki aðrir en gömlu þröngu hestagöturnar, sem enn má sjá móta fyrir á fjallvegum, en eru ekki lengur farnar.  Þessar götur voru svo þröngar að ekki gátu tveir menn gengið þær samsíða... Af því ástandi vega sem hér hefur verið lýst, má ljóst vera að einu samgöngurnar á landi voru á hestum eð fótgangandi.  Og ekki var um aðra vöruflutninga á landi að ræða en á hestum, eða það sem menn báru á sjálfum sér.  Hér á ég við flutninga yfir hálsana beggja megin Kollsvíkur...  Fjallvegasamgöngur við Kollsvíkinga héldust óbreyttar til ársins 1955, að lokið var við bílveg alla leið yfir Hænuvíkurháls.  Rúmum áratug áður hafði verið hafist handa um  lagningu akfærs vegar upp úr Kollsvík að norðanverðu“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Samhaldssamur (l)  Sparsamur; nískur.  „Hann var samhaldssamur í fjármálum og efnaðist nokkuð á því“.

Samheiti (n, hk)  Annað heiti á sama fyrirbæri/hlut/málefni/hugtaki.

Samheldni (n, kvk)  Samstaða; gagnkvæm samhjálp fólks.  „Ég hef verið að hugsa það þegar ég skrifa þetta bréf, hve mikið mannfall var á fólki á góðum aldri í þessari litlu byggð (Rauðasandi).  Athyglisvert er líka að engin af þessum fjölskyldum sundraðist; ekki eitt af ollum þessum börnum sem misstu föður eða móður á þessum árum á Rauðasandi þurfti að þiggja uppeldi annarsstaðar en á heimili sínu.  Ég held að þetta lýsi nokkuð þeirri samheldni og hjálpsemi sem þarna var við lýði á þessum árum“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  „Sagði hann (S.J.Th) það heitustu ósk sína að samheldni mætti jafnan ríkja í sveitinni“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Samhengi (n, hk)  Samband; tengsl.  „Það er mikilvægt að átta sig á samhengi þessara mála“.  „Orð hafa oft misjafna merkingu eftir samhenginu sem þau standa í, og einnig eftir raddblæ og áherslum“.

Samhengislaust (l)  Án samhengis/tengingar; ruglingslega.

Samhentir (l)  Samtaka; í samvinnu.  „Þeir bræður unnu mjög samhentir að öllum verkum“.

Samhjálp (n, kvk)  Þegar menn hjálpa hverjir öðrum; gagnkvæm aðstoð.  „Þannig var ávallt aðstoð veitt og samhjálp í hvívetna, svo sem best mátti vera“  (KJK; Kollsvíkurver).

Samhljóða / Samhljóðandi / Samhljóma (l)  Einum rómi; á sama veg.  „Þessi ályktun var samhljóða hinum fyrri“.  „Fundurinn samþykkti þetta samhljóða“.

Samhugur (n, kk)  Samkennd; samstaða.  „Oft hefur virst, einkum að vetrinum, að fjelagið væri nauðsynlegur þáttur í hinu kyrrláta lífi byggðarinnar; til að auka fjör og glæða samhug manna“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Sami grautur í sömu skál (orðtak)  Það sama og vant er; eins og vanalega.  „Ég sé nú ekki merki um mikla breytingu á þessu veðri; það verður líklega sami grautur í sömu skál á morgun“.

Saminn (l)  Skáldaður; búinn til; bundinn í orð/mál.  „Ekki veit ég hvenær þessi saga var samin“.

Samjöfnuður (n, kk)  Samanburður; jafngildi.  „Þetta er ágætur hákarl, en hann kemst þó ekki í samjöfnuð við þann sem ég fékk í fyrra“.

Samkjafta (s)  Tala/kjafta ekki samfellt; vera ekki með málæði; þegja.  „Greyin mín reynið nú einu sinni að samkjafta eitt augnablik; skelfing er ég leiður á þessu masi“!

Samkjafta ekki (orðtak)  Vera símalandi/óðamála; vera með munnræpu; blaðra/bulla/tala samfellt. „Hún samkjaftaði ekki alla leiðina“. 

Samkoma / Samkunda (n, kvk)  Mannfundur; mannamót; samkvæmi. 

Samkomuhús (n, hk)  Félagsheimili; hús sem hentar fyrir samkomur. „Íbúar Rauðasandshrepps áttu sín samkomuhús.  Á Rauðasandi var það Ungmennafélgagshúsið, sem Ungmennafélagið Von byggði og var lengi helsti samkomustaður Rauðsendinga.  Í Örlygshöfn var reist svonefnt Þinghús í landi Tungu, og gegndi það margvíslegu hlutverki fyrir skemmtanir og opinberar samkomur í áratugi.  Árið 1955 var vígt glæsilegt samkomuhús stuttu neðar; Félagsheimilið Fagrihvammur.  Það var síðan helsta samkomuhús íbúa Rauðasandshrepps meðan hann var við líði. Hinsvegar varð það eitt af fyrstu verkum sveitarfélagsins Vesturbygðar eftir sameiningu að selja þetta sameiningartákn og félagslega stoð íbúanna fyrir smáskildinga, um leið og skólahald var alfarið flutt úr hinum forna Rauðasandshreppi“. 

Samkomulag (n, hk)  A.  Samningur; það sem menn eru ásáttir um.  B.  Vinátta; sátt.  „Yfirleitt var gott samkomulag milli bæja í hreppnum meðan hreppurinn stóð í blóma“.

Samkomulagsatriði (n, hk)  Samningsþáttur; það sem semja má um.  „Tilhögun greiðslunnar er bara samkomulagsatriði, eftir að verðið er ákveðið“.

Samkrull (n, hk)  Sambreyskingur; hræringur; blanda.  „Mér líkar ekki þetta samkrull félaganna“.

Samhyrndur (l)  Hornalag hrúts, þar sem bæði hornin virðast samgróin í hornrótinni. 

Samkvæmishæfur (l)  Skikkanlega útlítandi; slarkfær í mannasiðum.  „Þú ert nú varla samkvæmishæfur í þessum buxnadruslum“.

Samkvæmur sjálfum sér (orðtak)  Gerir/segir ekkert í mótsögn við aðrar gerðir/ önnur ummæli.  „Það er ekki hægt að segja annað en að hann sé sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum, þó ég sé á annarri skoðun“.

Samla saman (orðtak)  Safna saman; smala; raka saman.  „Ætli við þurfum ekki að samla einhverju saman til að bæta á gryfjuna“.

Samlag (n, hk)  A.  Félagsskapur.  B.  Sameiginlegur verknaður; sameiginlegt innlegg. 

Samlagast (s)  Aðlagast; samsama sig.  „Það þarf að hafa gætur á aðkomukindinni meðan hún er að samlagast öðru fé“.

Samlagssvæði (n, hk)  Svæði þar sem bændur leggja inn afurðir í sameiginlega afurðastöð, t.d. mjólkursamlag.

Samlandi (n, kk)  Maður frá sama landi.

Samleið (n, kvk)  Sama leið.  „Við áttum samleið yfir Sanddalinn, en þá skildu leiðir.  Hann fór niður Flosagil en ég fór upp á Flosadal og svo niður á Hjalla“.

Samlitur (l)  Í sama lit.  „Kjóaunginn var svo samlitur umhverfinu þar sem hann lá grafkyrr, að ég tók ekki eftir honum fyrr en ég steig utaní stélið á honum“.

Samlíðun (n, kvk)  Samúð; meðaumkun.  „Maður finnur til samlíðunar með þessum vesalingum“.

Samlíking (n, kvk)  Samanburður; viðlíking.  „Mér fannst þetta furðuleg samlíking hjá honum“.

Samlíkja (s)  Líkja saman; bera saman við.  „Það er ekki hægt að samlíkja þessum mat við óætið sem mér var boðið á hótelinu“!

Samloðun (n, kvk)  Viðloðun; samheldni.  „Það vantar alla samloðun í þetta efni“.

Samloka (n, kvk)  A.  Skelfiskur með tveimur skeljum, s.s. kúfiskur, kræklingur, krákuskel o.fl.  B.  Tvær samanlagðar brauðsneiðar með meðlæti á milli.  C.  Líkingamál um góða vini.  „Þeir eru eins og samlokur; mega hvorugur af hinum sjá“.

Samlyndi (n, hk)  Samkomulag; sambúð.  „Eitthvað hefur slest uppá þeirra samlyndi í seinni tíð“.  Sjá í sátt og samlyndi.

Sammála (l)  Á sama máli; taka undir það sem sagt er.  „Ekki urðu þeir sammála um þetta fremur en annað“.

Sammerking (n, kvk)  Það að marka fé undir mark sem er það sama og annars markeiganda á sama svæði, þannig að misgrip gætu orðið.  Markaverðir eiga að úthluta mörkum á þann hátt að forðast sammerkingar.

Sammerkt (l)  Um fé; með sama eyrnamark sitthvorra eigenda.  „Með nýjum lögum um búfjármörk á 8. áratug 20. aldar var bannað að sammerkt væri nokkursstaðar á Vestfjörðum.  Varð það m.a. til þess að ég missti mitt mark sem áður hafði átt Halldóra frá Grundum, amma mín; sneitt aftan; biti framan hægra. (VÖ). 

Sammæðra (l)  Um tvær eða fleiri manneskjur; eiga sömu móður en ekki endilega sama föður.

Sammælast (s)  Koma sér saman um; vera einhuga um.  „Hinn 5. apríl 1904 sammælast Kollsvíkingar til kaupstaðarferðar á Patreksfjörð“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sammæti (n, hk)  Mót; koma saman.  „Neðst á Litlufit eru sammæti Árinnar og Torfalækjar“.

Samnefndur (l)  Heitir sama nafni.  „Norðast á Grundabökkum var samnefnd þurrabúð, oft í daglegu tali einungis nefnd Bakkar“  (HÖ; Fjaran). 

Samnemandi (n, kk)  Sá sem nemur/lærir í sama skóla/bekk.  „Við vorum samnemendur í Kollsvík“.

Samneyta (s)  Vera samvistum við; sitja til borðs með.  „Hann fór heim úr slátruninni í fússi; hann harðneitaði að samneyta þessum vitleysingum sem höfðu verið að atast í honum“.

Samneyti (n, hk)  Samskipti; samvera; það að snæða með.  „Ég hef, sem betur fer, ekki þurft að hafa mikið samneyti við þessa bullustrokka“!

Samning (n, kvk)  Ritun; skáldun; samantekt; gerð.  „Við samningu þessa orðasafns hef ég stuðst við ýmsar heimildir, en mörg máldæmin eru mín smíði; ýmist algerlega skálduð eða byggð á óljósu minni“.

Samningalipur (l)  Um þann sem er laginn að semja við aðra/ þjáll í samningum.  „Hann var einstaklega samningalipur og náði oftast sínu fram með hæglæti og rökræðum“.

Samningur (n, kk)  Samkomulag; gagnkvæmur skilningur á samskiptum.  Í samfélagi fyrri tíma var meira treyst á orðheldni manna og handsal en nú er; nú þurfa allir samningar að vera skriflegir og helst vottfestir.

Samnot / Samnýting (n, hk)  Sameiginleg afnot.  „Hvor útgerð hafði sitt hrognasigti en samnot voru af grófsigti“.

Samnýta (s)  Nota í sameiningu.  „Reki sunnan Ár var samnýttur frá Láganúpi og Grundum“.

Samplokkað (l)  Um það þegar fiður af mismunandi grófleika er plokkað saman af fugli, án sorteringar.  „Samplokkað fiður var einnig notað í yfirsængur, en þær voru þungar... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Samráð (n, hk)  Sameiginleg ráðagerð; samtal.  „Við þurfum að hafa samráð við formanninn um þetta“.

Samráðslaust / Samráðslítið (l)  Án samráðs/ráðfæringa.  „Þetta gerði hann samráðslaust og án minnar vitundar“!

Samráðsleysi (n, hk)  Skortur á samráði/samtali/ráðfæringum.  „Svona samráðsleysi kann ég ekki við“!

Samrekkja (einhverjum/einhverri) (orðtak)  Sofa hjá einhv.; hafa samfarir við einhv.

Samrekstra (l)  Unnt að reka með öðru fé.  „Hænuvíkurkindurnar urðu illa samrekstra með Kollsvíkurfénu.  Þegar kom uppundir Hjallagötur settu þær sig neðan með Hafnargili og hurfu á spretti uppaf brún“.

Samrekstur (n, kk)  A.  Sameiginlegur fjárrekstur tveggja eða fleiri fjáreigenda.  „Látramenn höfðu samrekstur af Breiðavíkurrétt út að Látrum“.  B.  Rekstur tveggja eða fleiri fyrirtækja/viðskiptaeininga.

Samrit (n, hk)  Rit sem er eins og annað rit; afrit; eftirrit; uppskrift. 

Samróma (l)  Þegar allir eru á einu máli; samhljóma; einróma.  „Þetta var samróma álit allra viðstaddra“.

Samruni (n, kk)  Sameining; samsteypa.  „Samruni hreppanna var líkast til óumflýjanlegur, en ekki virðist hann hafa orðið Rauðasandshreppi til neinna framfara“.

Samrýmdir (l)  Um tvo einstaklinga; sækja í gagnkvæman félagsskap; eru góðir vinir.  „Við Buggi vorum mjög samrýmdir og því var ekki átakalaust að sjá á eftir honum vetraralangt vegna skólagöngu“.

Samræði (n, hk)  Samfarir; kynlíf; holdlegt samneyti.

Samræðuhæfur (l)  Hæfur til viðtals; unnt að tala við; hægt að mæla máli.  „Hann var svo niðursokkinn í bókina að hann var ekki samræðuhæfur“.  „Hann var svo sótvondur yfir þessum klaufaskap að hann var ekki samræðuhæfur fyrst í stað“.

Samræður (n, kvk, fto)  Viðtal; samtal.  „Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður“  (PG; Veðmálið).   Sjá hrókasamræður.

Samræma (s)  Samstilla; fella saman.  „Erfiðlega gekk að samræma þetta tvennt“.

Samræmi (n, hk)  Rím; samstilling; taktur; samsvörun.  „Lítið samræmi var í frásögnum þeirra“.

Samsafn (n, hk)  Samansafn; söfnuður.  „Þetta virðist hafa verið samsafn tómra hálfvita“!

Samsekur (l)  Á sinn þátt í sök/glæp/verknaði.  „Ætli maður sé þá ekki samsekur öðrum, ef þetta er glæpur“.

Samsetning (n, kvk)  Tenging; samtenging; festing.  „Eftir samsetningu var Farmalnum ekið uppúr fjörunni“.

Samsetningur (n, kk)  A.   Þegar skipsáhafnir setja saman upp (eða niður) bát í lendingu. Þessi notkun orðsins virðist ekki hafa verið þekkt utan svæðisins.   „Oft var það að skipshafnir höfðu samsetning á bátum...“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Bátana varð að setja upp á hverju kvöldi, og var þá venjulega hafður samsetningur af tveim til þremur bátum“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   B.  Algengari merking; það sem sett/skeytt er saman; skáldskapur.  „Þetta er ljóti samsetningurinn.  Ég hef sjaldan séð annan eins leirburð“!

Samsettur (l)  Samansettur; festur saman.  „Stundum finnst mér karlinn einkennilega samsettur“!

Samsinna (s)  Játa; vera sammála.  „Ég gat ekki samsinnt því að leiðin niður í flesið væri ófær“.

Samsinna (l)  Sammála.  „Ég var honum samsinna í flestum atriðum“.

Samsíða (l)  Samhliða; við hliðina á.  „Við sigldum samsíða þeim um stund og höfðum af þeim tal“.

Samsíðungur (n, kk)  Áhald sem einkum er notað til að lesa úr kortum og stinga út stefnu, t.d. við siglingu skips.  Tvær reglustrikur tengdar saman þannig að þær eru ávallt samsíða þó millibil þeirra breytist.

Samskeyti (n, hk, fto)  Samsetning/mót/mæti eininga.  „Hér er rifa á samskeytunum“.

Samskeyttur (l)  Festur saman.  „Árin var samskeytt með blaðfellingu“.

Samskipa (l)  Á sama skipi/báti.  „Ég átti þess kost að stunda sjó með honum eitt vor samskipa...“  (ÖG; minn.grein um AK).

Samskipti (n, hk, fto)  Samneyti; samvera; viðskipti.  „Þegar þessu öllu er lokið, með liðsinni heimamanna, er kvaðst og þökkuð ágæt samskipti“  (KJK; Kollsvíkurver).

Samskonar (l)  Eins; af sama tagi.  „Þetta er samskonar mixtúra og síðast; bara í öðrum umbúðum“.

Samskot (n, hk, fto)  Söfnun fjár til tiltekins málefnis, oftast í góðgerðarskyni.  „Samskota hefir það (Umf Vestri) leitað, bæði utan fjelagsins og innan, til lýðskóla Vestfjarða; til ekkna og til fátækra barna; fatagjafir fyrir jólin.  Alls hefir fjelagið sent frá sjer samskotafje að upphæð um 700 krónur“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Samskyns / Samslags (l)  Af sama tagi; með sama lagi.  „Enn eru samskyns dyntir í vélinni og í gær“!  „Þetta er samslags áburður og í fyrra; í öðruvísi pokum“.

Samsláttur (n, kk)  A.  Um það þegar korkakeirnn/flotteinn og steinateinn/blýjateinn á neti vefjast saman í lagningu.  „Hér hefur orðið samsláttur í lagningunni“.  B.  Um það þegar símalínum slær saman í óveðri, þar sem þær liggja tvær eða fleiri saman.  „Nú er samsláttur á símalínu einhversstaðar; ég heyri kjaftæði í einhverjum á Hafnarlínunni inn á Víknalínuna“.  C.  Um of reynir á fjöðrun bíls á ósléttum vegi, þannig að öxull slæst við grindina.

Samsleginn (l)  Um bönd; slegin/undin/flækt saman.  „Þinirnir voru samslegnir á nokkrum kafla“.

Samsorta (l)  Af sömu tegund; eiga saman/við.  „Mér sýnist að þessi sokkur sé samsorta hinum“.

Samspil (n, hk)  Samverkun.  „Ógróinn sandurinn í Sandahlíðinni er sérkennilegt fyrirbæri, og stafar líklega af samspili margra þátta í náttúrunni“.

Samstaða (n, kvk)  Samkennd; sameiginlegt álit/átak.  „Órofa samstaða var um málið á fundinum“.

Samstarf (n, kk)  Samvinna; sameiginlegur starfsvettvangur.  „Samstarfi okkar lauk í fullri sátt“.

Samstíga (l)  Samferða; vinna í takti.  „Mikilvægt er að aðilar séu samstíga í þessum aðgerðum“.

Samstundis (ao)  Á sama tíma; um leið.  „Ég fann samstundis að færið var fast í botni“.

Samsuða (n, kvk)  Samsetningur; blanda; samkrull; hræringur.  „Karlinn talaði hrognamál sem fáir skildu til fulls, þó oft væri hægt að ráða í það; einhverja samsuðu íslensku, norsku og ensku“.

Samsull (n, hk)  Blanda/hræringur efna/matvæla sem illa eiga saman.  „Þetta er fremur ólystugt samsull“.

Samsvara (s)  Svara til; vera líkur; falla að.  „Ég tel þetta framlag samsvara því sem aðrir lögðu fram“.

Samsvarandi (l)  Sem svarar til/ passar við/ fellur að.  „Mig vantar samsvarandi lykil fyrir þessa ró“.

Samsæti (n, hk)  Samkoma; mannfögnuður.  „Þann 1. águst 1948 minntist Kaupfélag Rauðasands 40 ára samvinnustarfs í Rauðasandshreppi, með samsæti í húsi ungmennafélagsins Vonar“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Samt / Samt sem áður (ao/orðtak)  Þó; þrátt fyrir.  „Ég ætla samt að fara, þó veðrið gæti verið betra“.

Samtaka (l)  Með sameiginlegu átaki.  „Við vorum samtaka og náðum að ýta bílnum úr festunni“.

Samtakamáttur (n, kk)  Samstilltur kraftur margra einstaklinga sem megnar að koma því í framkvæmd sem þeir hefðu ekki getað án samvinnu.  „Þótt Kollsvíkingar væru upp til hópa einstaklingshyggjumenn sem mest treystu á sitt eigið framtak, þá var þeim mæta vel ljóst hverju samtakamátturinn gat áorkað.  Það sýnir t.d. hið blómlega starf ungmennafélaga og það starf sem eftir þau liggur, t.d. í vegagerð og menningarmálum.  Einnig samvinna um pöntunarfélög og kaupfélög til að koma afurðum sínum í verð og standa að kaupum á nauðsynjum.  Ennfremur má nefna stofnun búnaðarfélags, nautgriparæktarfélags, ræktunarsambands, húsagerðasambands, byggingafélags, mjólkursamlags, sláturfélags, lestrarfélags, saumaklúbbs, slysavarnadeildar og annarra slíkra, auk sameignar um ýmis dýr tæki sem komu til sögunnar; s.s. traktora og bíla.  Kollsvíkingar voru öflugir í slíkri félagsstarfsemi alla tíð, í góðri samvinnu við sveitunga sína“.

Samtíðarmaður (n, kk)  Maður sem er samtíða því sem um er rætt.

Samtíningur (n, kk)  A.  Hvaðeina sem er tínt saman; ósamstæðir hlutir; ýmiskonar dót.  „Þetta er nú ekkert gæðatimbur; bara samtíningur og afgangar“.  B.  Seinni slátrun; síðari sauðfjárslátrun að lokinni aðalslátrun og seinni smölun að hausti; þegar lítill hópur fjár kemur til slátrunar af hverjum bæ.  „Það fer allmargt héðan í samtíning núna“.

Samtvinnaður (l)  A. Um þráð/band/netaþin; samansnúið; samanvafið.  Þinirnir voru samantvinnaðir eftir norðangarðinn“.  B.  Um málefni;nátengt; samhangandi.  „Þessi tvö mál eru samtvinnuð og verða illa aðskilin“.  C.  Um blótsyrði; runa skamma/blótsyrða.  „Það var víst dálítið samtvinnað hjá honum“.

Samtvinningur (n, kk)  Blótsyrðaruna; blótsyrðabálkur; skammarræða; óbótaskammir.  „Hann fékk víst að heyra einhvern samvinning hjá þeim gamla þegar hann kom upp á brún“.

Samur (l)  Eins og var; svipaður; líkur.  „Víst er Rósi eins og áður ör og glaður;/ samt þó eigi samur maður“  (JR; Rósarímur). 

Samur við sig / Sjálfum sér líkur (orðtak)  Um mann; sjálfum sér líkur; alltaf eins.  „Alltaf er hann samur við sig blessaður; tilbúinn að hjálpa öðrum þó hann hafi nóg á sinni könnu“.  „Alltaf er hann sjálfum sér líkur; rýkur af stað án þess að fá neinn með sér til hjálpar“!

Samúð (n, kvk)  Meðlíðun/samkennd/vorkunnsemi vegna sorgar.  „Ég votta þér innilega samúð“.

Samúðarkort / Samúðarskeyti (n, hk)  Skrifleg vottun samúðar með korti eða símskeyti.

Samvaldir (l)  Sem eru valdir til að passa saman.  „Þetta eru ljótu glóparnir; báðir samvaldir aular!  Hvernig gátu þeir misst allt féð framhjá sér?  Hafa þeir ekki augu í hausnum eða hvað“?!

Samvera (n, kvk)  Sambúð; það að vera saman.  „Ég þakka fyrir samveruna þennan tíma“.

Samveiturafmagn (n, hk)  Rafmagn frá almenningsveitu.  „Samveiturafmagn kom ekki í Rauðasandshrepp fyrr en 1974 – 5; frá Orkubúi Vestfjarða. Baráttan um að fá hér rafmagn snérist mest um stofnun Orkubús Vestfjarða sem öll sveitarfélög á Vestfjörðum stóðu að. Að þessu var vitanlega talsverður aðdragandi en ég fylgdist nokkuð með þessu þar eð bóndi minn, Össur Guðbjartsson, var í fyrstu stjórn Orkubúsins og vann talsvert við undirbúning þess sem oddviti hér“  (SG; Rafvæðing; Þjhd.Þjms). 

Samvinna (n, kvk)  Vinna margra að sameiginlegu viðfangsefni/verkefni.  Íbúar Rauðasandshrepps höfðu samvinnu á fjöldamörgum sviðum, bæði formleg og óformlega.  Öllum var ljós nauðsyn og hagkvæmni þess að vinna sameiginlega að verkefnum sem erfið eru einum en auðveld mörgum.

Samvinnufélag (n, hk)  Formlegt félag um samvinnu.  „Á þessum tíma voru tvö samvinnufélög starfandi í Rauðasandshreppi og hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur…“  (PG; Veðmálið). 

Samvinnufús / Samvinnuþýður (l)  Viljugur til samstarfs/ samvinnu.

Samvinnuhugsjón (n, kvk)  „Samvinnuhugsjónin, í sinni upprunalegu og skilvirku mynd, festi tryggar rætur meðal hinna félagslyndu og rökföstu bænda í Rauðasandshreppi.  Í henni sáu þeir tækifæri til að beita samtakamætti sínum og vinna á jafnréttisgrunni að bættum hag allra, og um leið að efla félagslíf og samheldni.  Eldmóðurinn og fórnfýsin fyrir heildina var almenn, þó mismunandi væri eftir einstaklingum og bæjum.  Fremstu talsmenn samvinnuhugsjónarinnar í Rauðasandshreppi urðu þekktir af störfum sínum á þessu sviði.  Má þar t.d. nefna Einar og Pál Guðbjartssyni frá Láganúpi; Ívar Ívarsson í Kirkjuhvammi; Sigurbjörn Guðjónsson í Hænuvík;  Jón Hákonarson á Hnjóti og Össur Guðbjartsson, Láganúpi“.

Samviska (n, kvk)  Siðgæði; vitneskja um að maður hafi breytt illa/ gert rangt. 

Samviskulaus (l)  Án eftirsjár/samúðar/sjálfsgagnrýni.  „Þessir samviskulausu stjórnarherrar ætla að hundsa þarfir lansbyggðarinnar í samgöngumálum, eina ferðina enn“!

Samviskusamlega (l)  Af vandvirkni/alúð.  „Það þarf að gæta þess að þetta sé samviskusamlega unnið“.

Samviskusamur (l)  Vandvirkur; nærgætinn; vinnur af alúð/kostgæfni.  „Hann er samviskusamur við þetta“.

Samviskusemi (n, kvk)  Vandvirkni; natni; heilindi.  „Hún vann öll sín verk, hvor sem það var úti eða inni, af alúð og samviskusemi“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Samvist (n, kvk)  Samvera.  „Ég kæri mig ekkert um að vera samvistum við hann lengur en þörf er á“.  Sjá slíta samvistum.

Samþjappaður (l)  Samanpressaður; samanbarinn; settur í knappt form.

Samþjónn (n, kk)  Samstarfsmaður.  „.. en þar hitti ég marga misjafna samþjóna...“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Samþykki / Samþykkt (n, hk)  Játun; játning; viðurkenning.  „Ég fékk hans samþykki fyrir þessu.

Samþykkja (s)  Samsinna; játa; viðurkenna.  „Ég var ekki tilbúinn að samþykkja þetta umyrðalaust“.

Samþykkur (l)  Hlynntur.  „Ég var samþykkur því að lagt væri í þessa framkvæmd“.

Sanda / Sandbera (s)  Strá sandi yfir, t.d. hált svell til að gera það stamt.  „Ég sandaði svellið framanvið fjárhúsin; þar var árans hálka“.

Sandalar (n, kk, fto)  Opnir skór; bandaskór. 

Sandauðn (n, kvk)  Eyðimörk af sandi; mikið ógróið sandflæmi.

Sandaustur / Sandburður (n, kk)  Mikið sandfok.  „Norðanrokið kom með árans sandaustur uppum allt“!

Sandbakki / Sandbarð (n, kk)  Bakki/barð úr skeljasandi.  „Háir sandbakkar eru ofanvið Leirana sem heita Melarandir“  (HÖ; Fjaran). 

Sandbarinn / Sandblásinn (l)  Eyddur/núinn/tærður af sandblæstri.  „Staruinn var oirðinn nokkuð sandblásinn“.

Sandblettur (n, kk)  Blettur af skeljasandi.  „Við skulum kippa hérna útfyrir sandblettina“.

Sandbleyta (n, kvk)  Kviksyndi; blettur í sandflæmi, þar sem sandur hefur sest til í hægu vatni og hlaðist upp með svo lauslegri og vatnsmettaðri byggingu að lætur undan þegar stigið er á yfirborðið; með þeim afleiðingum að vegfarandinn sekkur viðstöðulítið í, en vatnspollur myndast í yfirborðið, þar sem áður virtist samfelldur og traustur sandur.  „Sandbleytur myndast gjarnan á Leirunum í áfoki.  Geta þær orðið svo varasamar að fullorðinn maður sekkur upp að hné.  Börn voru því vöruð við að fara þar um“.

Sandborinn (l)  Um jarðveg/tún; mettaður af sandi.  „Tún á Láganúpi eru mörg allmjög sandborin“.

Sandbugur / Sandbót (n, kk)  Bót/vík/vik með skeljasandsfjöru og skeljasandi í botni.  „Innan við Sandoddann er sandbugur sem heitir Skersbugur“  (VP;  Örn.skrá Hvalskers).

Sandburður (n, kk)  Tilfærsla á sandi; sandsöfnun.  „Sandburður getur verið verulegur í Kollsvík og gerbreytt landslagi á stuttum tíma, einkum sunnantil.  Annarsvegar er gríðarlegur sandburður í fjörunni sem stjórnast af straumum, sjólagi og ríkjandi vindáttum en hinsvegar er sandfok upp á land sem stjórnast af hitastigi, þurrkum, vindáttum, veðurhæð, jarðvatnsstöðu á Fitinni og ástandi sandrifsins í fjörunni.  Sandburður getur, við viss skilyrði, skilið eftir sig mikla sandskafla í lautum; rifið upp rofabörð; kaffært stórar landspildur og borist marga kílómetra, t.d. úr Láganúpsfjöru út á Flatir; Orma, Hnífa og jafnvel út á Sanddal á Breiðnum“.

Sandbylur (n, kk)  Stormur eða rok sem ber með sér mikið af skeljasandi úr fjöru, Leirum eða melaskörðum.  Sérlega áberandi sunnantil í Kollsvík og getur valdið skaða:  Sandurinn sest í dyngjur á túnum og við hús; mattar gler og málaða fleti og er mjög tærandi vegna saltmóstunnar sem honum fylgir.  Getur verið mjög erfitt að ganga í sandbyl sem stingur í húð og augu.

Sanddalur (n, kk)  Sanddalir eru tveir í grennd við Kollsvík.  Annarsvegar er Sanddalur heimantil á Blakknum og á milli hans og Núpsins.  Hinn Sanddalurinn er á Breiðnum; utanvið Kjölinn.  Bæði bera nofnin vitni um að sandfok hefur líklega verið meira fyrr á öldum en nú er.  Þar hafa líklega verið sandskaflar þegar nöfnin urðu til, en nú má sjá í þeim grónar lautir með sendnum jarðvegi.  Nöfnin sýna hve sandur úr Kollsvíkurfjöru getur borist um miklar vegalengdir í vissum aðstæðum; t.d. eru nær 4 km úr Láganúpsfjöru á miðjan Breið.

Sanddrift (n, kvk)  Sandfok; sandburður; áfok. 

Sanddyngja / Sandhaugur / Sandhrúga / Sandskafl (n, kvk/kk)  Foksandur sem safnast hefur saman í hrúgur.  Brögð eru að því eftir hörð norðanveður og mikið sandfok að miklir sandskaflar liggi eftir hlémegin við hús og aðrar hindranir í landi Láganúps, og hefur oft verið nokkuð verk að moka þeim í burtu.

Sandfjara (n, kvk)  Fjara með sandi/skeljasandi.  „Sandfjara er um miðja víkina, en sandurinn teygir sig mislangt til beggja enda, eftir því hvernir brimið leggur hann upp“.

Sandfláki (n, kk)  Sendið svæði; einkum átt við neðansjávarsanda.  „Miklir sandflákar eru á Kollsvíkinni; norðan frá Blakknesröst; upp í fjöru norðantil í víkinni og suður með landi framundan Grundatöngum; Hnífum; Vatnadalsbót, Breið og síðan áfram fyrir Breiðuvík, Látravík og Seljavík suður að Látraröst“.  „Fyrir utan þarabeltið er sandfláki út, en einnig eru þar hleinar sem þurfti að gæt sín á“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Sandflæmi (n, hk)  Stórt svæði þakið sandi.  „Mikil sandflæmi eru frammi á víkinni, sem teygja sig uppum fjöruna; Rifið og uppyfir Leira“.

Sandflöt (n, kvk)  Flatt sandborðið svæði, gróið eða ógróið.

Sandfok / Sandrok (n, hk)  Þegar sandur rýkur í vindi; landeyðing.  Sandfok var yfirleitt til vandræða í Útvíkunum og olli stundum stórtjóni á jörðum. „..illt var að verja fiskifangið fyrir sandfoki meðan það var í herslu“  (PJ; Barðstrendingabók).

Sandgirðing (n, kvk)  Girðing kringum svæði til að verja það ágangi fjár.  „Á sjöunda áratugnum var girt sandgirðing frá Grundabökkum upp í Fit; norðuryfir Torfalæk og Miðlæk; neðan fjárhúsanna á Melnum og upp með Ánni, upp að Svarðarholti.

Sandgljá (n, kvk)  Sandblettur/sandlæna/sandflæmi á sjávarbotni.  „Þó var ekki allsstaðar hrein sandgljá frama við aðal-þaragarðinn.  Boðar og hleinar voru hér og þar...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sandgólf (n, hk)  Gólf úr sandi/ með sandi á yfirborði.  „Búðirnar voru því miklu vistlegri með hvítu sandgólfi en illa hirtu timburgólfi“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Sandgræðsla (n, kvk)  Uppgræðsla sands; landgræðsla.

Sandgræðslugirðing (n, kvk)  Girðing til að verja uppgræðslu í viðkvæmu landi.

Sandi orpinn (orðtak)  Kominn á kaf í sand (að hluta eða öllu leyti).  „Allar verbúðir eru fallnar í tóft, og sumar sandi orpnar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sandkoli (n, kk) Limanda limanda.  Flatfiskur af flyðruætt; að mörgu leyti líkur skarkola að stærð, lagi og háttum.  Vanalega innanvið 30 cm langur og undir 1 kg á þyngd.  Lifir á sandbotni og hefur veiðst á Kollsvíkurmiðum; þá helst í hrognkelsanet. 

Sandkorn (n, hk)  Korn af sandi.  „Ég held ég hafi fengið sandkorn í augað; heldurðu að þú gætir náð því með tungubroddinum“?

Sandkóf (n, hk)  Sandmósta; selta og sandur sem blæs stundum hátt í loft í roki, og byrgir sýn.

Sandkvika (n, kvk)  Sandbleyta; sandur sem er mettaður vatni, en sýnist þurr á yfirborði.  Sá sem stígur í sandkviku getur sokkið niður þegar sandkornin falla saman og vatnið þrýstist upp á yfirborðið.  „Annars var Vaðallinn alls staðar væður, en sumsstaðar mátti vara sig á Sandkviku“ (T´; Örn.skrá Breiðavíkur).  „Varið ykkur þegar þið farið yfir Leirana; þar gæti leynst sandkvika“.

Sandlóa (n, kvk)  Charadrius hiaticula.  Smávaxinn vaðfugl af lóuætt; lengd 18-20 cm, þyngd 50-60 gr, vænghaf 50-55 cm, eða svipuð að stærð og sendlingur og lóuþræll.  Minni og hálsstyttri en heiðlóa.  Hefur tíðan fótaburð og flýgur lágt og hratt.  Ljósbrún að ofan en hvít að neðan; með svartan og hvítan kraga um hálsinn; hvítt enni og breiða línu á milli svartra augna.  Nef rauðgult með svörtum broddi; fætur ljósgulir.  Eins og nafnið gefur til kynna heldur hún sig mikið í semdnu landslagi og melum, og verpur þar í örlitla dæld; fjórum eggjum sem falla vel að undirlaginu í lit.  Ungar koma úr eggjum eftir 3-4 vikur; fara strax úr heiðri og bjarga sér með fæði undir vernd foreldra.  Sandlóan er farfugl hérlendis en finnst um alla norðanverða Evrópu og Asíu.  Hún kemur í Kollsvíkina um eða eftir miðjan apríl og fer um miðjan september.  Verpur helst á melum nærri sjónum, eða á holtum í víkinni eða í grennd við hana.

Sandlæna (n, kvk)  Mjótt sandsvæði.  „Þarna má fá vel af grásleppu í þaragarðinum, en net eru fljót að fyllast af skít ef þau lenda fram á sandlænunni, örlítið dýpra“.

Sandmaðkur (n, kk)  Arenicola marina.  Stór burstaormur af fylkingu liðorma.  Lifir mest á leirum á útfiri, niðurgrafinn í sand í u-laga göngum.  Þar neytir hann fæðu sem hann vinnur úr sandinum og leirnum, en losar sig við úrganginn í hrúgu á yfirborðinu.  Slíkar hrúgur eru augljós merki um verustað hans, og má oft sjá þær þéttar á útfiri, t.d. neðan Grundabakka, í Langatangabót og víðar.  Fullvaxta ormur verður uppundir 15 cm langur og um 9 í þvermál; oftast rauðgulir að lit, en stundum grænleitir.  Bolurinn er sverari að aftanverðu og er þar alsettur totum og burstum, sem eru öndunarfærin.  Hann er tvíkynja.  Maðkurinn er algeng fæða fugla; sérstaklega neflangra eis og tjaldsins.  Sé hali slitinn af vex hann gjarnan aftur.  Sandmaðkur var mikið notaður til beitu áðurfyrr, og þá ýmist grafinn upp með berum höndum eða með sérstakri hrífu.  Þeir sem unnu að maðkatínslu meðan aðrir voru á sjó fengu aflahlut; svonefnda maðkafiska sem um er getið m.a. í Jarðabókinni, en þar segir um Láganúpsver:  „Beita er maðkur og brandkóð.  Item heilagfiski á vor“.  Um Hænuvík segir:  „Skiphlutur er einn og ekki meir.  Maðkafiskar gefast af óskiftu ef sá sem grefur missir fyrir það svefns síns og grefur maðk um nætur.  Ella skiftast hásetar til og tekur enginn nefnda maðkafiska.  Fæstir formenn beita maðki um vertíð“  (ÁM;  Jarðabók).

Sandmelur (n, kk)  Gróið sandsvæði; oftast með lágvöxnu grasai en stundum melgresi.  Oft stytt í „melur“.

Sandmiga (n, kvk)  Annað heiti á smyrslingi/ smyrslingsskel (Mya truncata), sem er samlokutegund.

Sandmósta (n, kvk)  Seltumósta; útfellingar úr foksandi á föstum hlutum.  „Eftir sandstorm í Kollsvík var oftast töluverð sandmósta vindmegin á öllum hlutum.  Hún samanstendur af salti og leir og er mjög tærandi“.

Sandmúli (n, kk)  Múli/núpur sem gengur fram milli víkna eða dala og er áberandi orpinn skeljasandi.  „Kvígindisdalur á land eftir gömlum máldögum inn að grjótgarði þeim sem er inn á sandmúlanum milli Kvígindisdals og Sauðlauksdals“  (Landamerkjabók Barðastrandasýslu).

Sandmökkur (n, kk)  Sandur sem rýkur hátt í loft í sandroki og myndar dökkt ógegnsætt ský.

Sandoddi (n, kk)  Endi á sandrifi við sjó.  „Vaðalseyrar nefndust sandoddarnir beggja megin Vaðalsins, enaðn við Rifið“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).  Sandoddi er einnig örnefi utan við Skersbug.

Sandorpinn / Sandi orpinn (l/ orðtak)  Á kafi í sandi að hluta eða öllu leyti; þakinn sandi.  „Búðirnar í Láganúpsveri eru fyrir löngu sandorpnar að fullu; þær sem ekki hafa verið rifnar til að nýta hleðslugrjótið í önnur hús og garðhleðslur “.  „Töluverðar tóftarústir eru norðast á Bökkunum; mjög sandorpnar“  (HÖ; Fjaran). 

Sandpappír (n, kk)  Pappír með álímdum kvartssandi á annarri hlið; notaður til slípunar.

Sandrif (n, hk)  Rif úr sandi; sandmön.  „Þegar mikið rótast upp af sandi verður stundum til annað sandrif um tíma; framan við venjulega fjöru“.

Sandrok / Sandstormur (n, hk)  Fok sands í miklu roki.  Sandrok verður helst í Kollsvík í miklu norðanroki, þegar vindstrengur stendur fyrir Blakkinn í átt til Láganúps.  Þá rýkur sandur af fjörunni, Rifinu og Leirunum, og berst yfirum Melarendur; Litlufit; Fit; Láganúpstún; Flatir; Gróumel; Hóla; Hjalla; Flatir; Hnífa og jafnvel útá Sanddal á Breiðnum. Mikil sandrok geta valdið verulegu tjóni; rofið jarðveg og skilið eftir sig miklar sanddyngjur.

Sandságangur (n, kk)  Tjón vegna sandfoks.  „... sandságangur ærinn (i Kollvík) “  (AM/PV Jarðabók).

Sandsbúi / Sandsmaður (n, kk) Íbúi á Rauðasandi í Rauðasandshreppi.  Sja Rauðsendingur.  Oftast er notað heitið Rauðsendingur yfir þessa íbúa, en hinum tveimur heitunum brá þó stundum fyrir í máli heimamanna.  „Sandsmenn hafa ekki komið frá sér mjólk í nokkra daga vegna ófærðar“.

Sandsfé (n, hk)  Sauðfé á/af Rauðasandi.  „Sjaldgæft er að Sandsfé heimtist á Breiðavíkurrétt“.

Sandsíli (Ammnodytes tobianus).  Fiskur af sandsílaætt, um 20 cm að lengd; mjóslegin og silfurlit.  Önnur mjög lík tegund er marsíli (Ammodytes marinus) sem er algengari við landið og oftast einnig kölluð sandsíli, enda þekkjast tegundirnar illa í sundur.  Hinsvegar eru trönusíli (Hyperoplus lanceolatus) nokkuð stærri.  Allar eru þ.essar tegundir algengar í hlýsjónum sunnan og vestan landsins og sjást oft á Kollsvíkurmiðum, t.d. í maga fisks eða goggum fugla; enda eru þetta mikilvægar fæðutegundir þessara dýra.  Sést það best á því að hnignun í stofnstærð m.a. svartfugls, ritu og kríu er rakin til minna framboðs síla.  Fæða sílanna er aftur á móti ýmsir botnlægir hryggleysingjar; smá fiskseyði og hrogn.  Er hnignun sílastofna m.a. talin stafa af því að klak verður fyrr vegna hlýnunar sjávar, og áður en nægt framboð verður fyrir þau af fæðu, svo þau svelta.

Sandskafl (n, kk)  Skafl af skeljasandi.  „Við vissar aðstæður getur sandfok orðið svo mikið úr Kollsvíkurfjörum að sandskaflar myndist við hús og í lautum á Láganúpi.  Einkum er hætta á því þegar mikið er af þurrum og ófrosnum sandi á Rifinu en jörð annars frosinn og jafnvel freri á jörð; í stífri norðanátt.  Hafa þá jafnvel orðið til sandskaflar uppi í Flötum og úti á Strympum, auk þess sem moka hefur þurft sandi af túnum og úr görðum á Láganúpi.  „Um morguninn er kominn þar sandskafl sem fiskifangið lá“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sandskúra / Sandþvo (s)  Þrífa með því að nota sand í vatni til að rífa upp skítinn.  Meðan óvarin timburgólf voru í húsum var algengt að halda þeim hreinum á þennan hátt, enda efnið nærtækt.

Sandslétta / Sandtún (n, kvk)  Ræktarland í skeljasandsjarðvegi.  „Sandsléttan á Fitinni var nokkuð áburðarfrek, en hvergi var betri þurrkvöllur“.

Sandsorfinn (l)  Sorfinn af sandblæstri; sandblásinn.  „Girðingastaurinn var svo sandsorfinn að hann brotnaði“.

Sandsteinn (n, kk)  Sandur sem pressaður er og límdur saman í berg.  Náttúrulegur sandsteinn finnst sumsstaðar hérlendis og erlendis eru mikil jarðlög af honum frá forsögulegum tímum.

Sandsteypa (n, kvk)  Sementslögun; múr.  Blanda sements, sands og vatns.  Oftast notuð til múrhúðunar.

Sandstorka (n, kvk)  Húð af sandi og leir, sem gjarnan situr eftir á hlutum eftir mikið sandrok.

Sandugur (l)  Ataður sandi.  „Burstaðu nú af þér úti á stétt strákur; þú ert allur sandugur úr Gilinu“!

Sandur (n, kk)  A.  Sandur merkir í tali Kollsvíkinga og nærsveitunga þeirra skeljasandur; enda er hann mest áberandi þar um slóðir af fíngerðu hörðu jarðefni.  Það sem t.d. Skaftfellingar nefna „sand“ er í tali Kollsvíkinga nefnt möl.  B.  Sandur er stytting á heitinu Rauðasandur; talað var t.d. um að „fara inn á Sand“.

Sandvarnargarður (n, kk)  Garður til að verja land og hús fyrir sandfoki.  „Gamlir grjótgarðar hafa fundist hér á kafi í sandi og gróið yfir svo engin merki sjást á yfirborði. Þeir hafa ekki verið kannaðir en virðast liggja þvert á norðanáttina sem hefur verið skæð með að ausa hér sandi úr fjörunni upp á túnið svo til vandræða hefur horft. Hefur mönnum því dottið í hug að þetta hafi verið sandvarnargarðar (kannske hefur Björn í Sauðlauksdal fengið þar hugmynd að sínum fræga Ranglát?)“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms). 

Sandverpast (s)  Hyljast sandi; fara á kaf í sand.  „Girðingin er farin að sandverpast mjög á kafla“.

Sandvík (n, kvk)  Vík með sandfjöru.  „Í lítilli sandvík sem er milli Gvendarhleinar og Melsendakletta er stundum nokkur trjáreki.  Líklega er rekasæld þar hin mesta í Kollsvíkur- og Láganúpslandi“  (HÖ; Fjaran). 

Sanka (s)  A.  Safna saman; safna/sanka að sér.  „Vertu nú ekki að sanka þessum skothylkjum inn í hús“!  B.  Segja ljótt; hafa uppi ljótan munnsöfnuð; sjá bölva og sanka.  Líklega hljóðbreyting frá „saman“; „samka“.

Sanka að sér (s)  Safna; viða að sér; bera undir sig.  „Kom í ljós að hann hafði sankað að sér bókum úr bókasafninu án þess að skila nokkru“. 

Sanktipétur (n, kk)  Pétur postuli.  „Sanktus“ í latínu merkir heilagur, enda var Pétur talinn einn af helgustu dýrlingum kristinnar trúar í kaþólskum sið.  Margar sagnir í íslenskri þjóðtrú vísa til Sanktipéturs, m.a. sagan um sköpun grásleppunnar, og heiti eru við hann kennd s.s. pétursspor, pétursbudda og pétursskegg.

Sanna sig (orðtak)  Sýna hvað í manni býr; sýna getu sína.  „Mér líst ekki illa á hann, en hann á alveg eftir að sanna sig í þessu starfi“.

Sannaðu/vittu til (orðtak)  Upphrópun sem gjarnan er höfð í enda fullyrðingar; láttu sjá; vittu til; þú átt eftir að sjá að það er satt.  „Þetta verður eins og ég hef spáð; sannaðu bara til“!

Sannarlega (ao)  Vissulega; fyrir víst.  Oft notað til áherslu.  „Þetta var svo sannarlega steypibað“!

Sannast að segja / Sannast sagna / Satt best að segja (orðtök)  Í raun og veru; ef satt skal segja; raunverulega.  „Sannast að segja veit ég ekkert meira um þetta en þú“.  „Sannast sagna held ég að þetta sé tómur tilbúningur“.  „Satt best að segja skildi ég ekki baun af því sem hann sagði“.

Sannast á (orðtak)  Vera vitnisburður um.  „Sannaðist á honum hið fornkveðna; að enginn má sköpum renna“.

Sannferðugur (l)  Trúverðugur; sannfærandi.  „Mér finnst þetta nú ekki verulega sannferðugt“.

Sannfróður (l)  Um mann ; fróður og sannsögull.  „Sannfróðari mann er erfitt að finna“.

Sannfrétta / Sannspyrja (s)  Fá sannar fréttir; heyra sagt satt.  „Ég hef sannfrétt að þarna hafi sést útigangsfé“.  „Ég hef sannspurt að þannig hafi þetta gengið til“.

Sannfróður (l)  Fróður um það sem satt er/ um staðreyndir.  „Hann mun vera manna sannfróðastur um þetta, af þeim sem enn eru á lífi“.

Sannfæra (s)  Telja trú um; sýna framá sannindi; fá á sitt band.  „Mér tókst loksins að sannfæra hann um að þetta væri nauðsynlegt“.

Sannfærandi (l)  Með sannfæringarkraft; talar trúverðuglega.  „Þetta eru mjög sannfærandi rök“.

Sannfæring (n, kvk)  Skoðun;trú; það sem maður telur vera rétt.  „Þetta er mín sannfæring í þessum efnum“.

Sanngirni (n, kvk)  Réttlæti; það sem réttmætt er.  „Það er lítil sanngirni í að hann fái minni hlut en hinir“!

Sanngjarn (l)  Réttlátur; sem lætur mann/málefni njóta sannleika/réttlætis.

Sanni nær/næst (orðtak)  Nær sannleikanum; því sem næst satt.  „Það er fráleitt að þetta hafi verið svona mikill afli; hitt mun sanni nær að þetta hafi verið 10-12 fiskar“.  „Hey munu allstaðar vera svo vel verkur sem frekast mun kostur; þá því næstliðið sumar var hið besta.  En hitt mun líka sanni næst að víða séu þau í lausara lagi, því óvíða mun hafa hitnað í heyjum svo neinu nemi“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1923). 

Sannindavottur (n, kk)  Vottur af sannindum/réttu.  „Einhver sannindavottur kann að vera í þessari sögu“.

Sannindi (n, hk, fto)  Sannleikur; það sem rétt er.  „Ekki veit ég hvaða sannindu eru í þessari frásögn“.

Sannkallaður (l)  Réttnefndur.  „Vegurinn niður á Blakk er sannkallaður tröllavegur“.

Sannkristinn (l)  Rétttrúaður í kristni; trúheitur.  „Hagaðu þér nú eins og sannkristin manneskja“!

Sannleikanum er/verður hver sárreiðastur (orðatiltæki)  Mörgum finnst erfitt að heyra það sem þó er rétt.  „Hann verður ekki hrifinn að heyra hvað flokkurinn er núna að gera; sannleikanum verður hver sárreiðastur“.

Sannleikanum samkvæmt (orðtak)  Satt; eins og rétt er.  „Allt er þetta sannleikanum samkvæmt“.

Sannleiksást (n, kvk)  Virðing fyrir sannleikanum.  „Ekki skein nú sannleiksástin útúr hans frásögn“!

Sannleikskorn / Sannleiksvottur (n, kk)  Örlítill sannleikur; flugufótur.  „Einhvað sannleikskorn kann að vera í sögunni um Simbadýrið“.  „Ekki þótti þeim vera mikill sannleiksvottur í þessu fyllerísrugli“.

Sannleiksorð (n, hk)  Sannleikur; satt orð.  „Þetta er staðreynd; hafi ég einhverntíma sannleiksorð mælt“!

Sannleikur / Sannmæli (n, kk/ hk, fto)  Það sem satt er; það sem rétt er sagt/hermt.

Sannleikurinn er (oft) eyrum beiskur (orðatiltæki)  Oft er þungbært að heyra það sem þó er satt.

Sannleikurinn er sagna bestur (orðatiltæki)  Segja þarf hverja sögu eins og hún gengur til.  Speki sem allir vita, en mörgum gengur illa að fylgja.

Sannleikurinn er sagnafár (en lygin langorð) (orðatiltæki)  Vísar til þess að oft þarf ekki mörg orð til að lýsa staðreynd/sannleika, en menn þylja oft langlokur til að rökstyðja það sem ósatt er. 

Sannorður / Sannsögull (l)  Segir rétt frá; trúverðugur.  „Sagnaritarar eru misjafnlega sannsögulir“.

Sannprófa / Sannreyna (s)  Sanna með prófun/reynslu.  „Þetta hef ég sjálfur sannprófað“.  „Þetta er dálítið snúið í framkvæmd; það áttu eftir að sannreyna“.

Sannspár (l)  Spáir rétt fyrir um; giskar rétt á.  „Hann reyndist sannspár um þetta“.

Sannsögli (n, hk)  Rétt/sönn frásögn; sú venja að segja satt.  „Hann er þekktur að heiðarleik og sannsögli“.

Sannsögulegur (l)  Sem byggir á staðreyndum/sannindum.  „Þetta er víst sannsöguleg frásögn“.

Sannsögull (l)  Sem segir satt; ólyginn.  „Hann reyndist sannsögull um þetta atriði“.

Sanntrúaður (l)  Heittrúaður; sannfærður í sinni trú.  „Framanaf var hann sanntrúaður kommúnisti“.

Sannur (l)  Réttur; trúr; trúverðugur.  „Ekki veit ég hvort þessi saga er sönn“.

Sannvirði (n, hk)  Réttlátt verð. 

Sans (n, kk)  Tilfinning; áhugi.  „Ég hef ekki mikinn sans fyrir þessu óperugauli“!  Líklega sletta, t.d danska sense = tilfinning; skynfæri; vitsmunir.

Sansa (s)  Koma reiðu á; sortera.  „Það þyrfti að sansa þessa fatagarma eitthvað; og henda því sem ónýtt er“.

Sansast á (orðtak)  Sættast/fallast á; sætta sig við.  „Hann sansaðist á að vera í landi að þessu sinni“.

Sanskrít (n, kvk)  Fornt indverskt tungumál; einkum meðal hindúa.  Skiptist í tvo meginmálaflokka; vedic sanskrít og klassíska sanskrít.  Sú vedíska var lík máli sem talað var á NV-Indlandi 18 öldum fyrir Krist, og var mál fínni stétta.  Ritið Rigveda var á því máli.  Klassísk sanskrít var töluð frá 5.öld f.Kr. Til 1000 e.Kr.  Ýmis nútímamál á Indlandi hafa þróast frá sanskrít.  Sanskrít er af indó-evrópskum málastofni, og er talið hafa verið mál hinna fornu Aría.  Orðið „aríi“ er reyndar komið úr sanskrít og nefnir „göfugur“.

Sarg (n, hk)  Urg; nístandi hljóð, t.d. við núning járns.  „Skelfing fer svona fiðlusarg í eyrun á manni“.

Sarga í (orðtak)  Nöldra um; rella; tuða.  „Vertu nú ekki að sarga í mér með þetta“!

Sarga í sundur (orðtak)  Saga/skera í sundur með erfiðleikum/óhljóðum.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Sarga upp (orðtak)  Um fiskirí; veiða fisk öðru hvoru.  „Mér tókst að sarga upp einn og einn indíána þarna“.

Sarga út (orðtak)  Kreista út; fá með erfiðismunum.  „Mér tókst að sarga útúr honum nokkrar grásleppur“.

Sargast upp / Sargast upp einn og einn (orðtak)  Veiðast treglega.  „Það var andskotann engin aðvera að hanga á þessu í svona skítaveltingi.  En mesta furða samt hvað sargaðist upp“.

Sarga útúr  (orðtak)  Véla útúr; fá fyrir þrábeiðni.  „Mér tókst að sarga út úr þeim dálítið af salti“.

Satansári / Satansekkisen  (u)  Upphrópun/áhersluorð af meðalstyrkleika.  „Satansári var að tapa sökkunni“!  „Satansekkisen rigning er þetta!  Og ég sem ætlaði til berja í dag“!

Satt best að segja / Sannast sagna (orðtak)  Í frómleika frá sagt; í einlægni/sannleika sagt; ef satt skal segja.  „Satt best að segja hef ég eki hugmynd um hvað af þessu varð“.

Satt og rétt (orðtak)  Alveg rétt; sannleikanum samkæmt. „Allt er þetta satt og rétt, en að hinu er að gá…“

Satt segir þú (orðtak)  Mikið notað andsvar við fullyrðingu viðmælanda. 

Sauðaábrystir / Sauðabroddur (n, kk)  Mjólk úr lambám.  „Sauðabroddur var einstaka sinnum matbúinn í sauðaábrystir þegar mjólka þurfti ær sem annaðhvort mjólkuðu of mikið fyrir lambið eða höfðu misst lamb“ .

Sauðahlað (n, hk)  (Líkl.) Sauðahús eða kvíar.  „Utan til við Brunnanúp, upp af Básum, er Gildruhjalli.  Á honum er kví eða tóft; sauðahlað frá Saðulauksdal.  Sagt er að Sauðlauksdalskirkja hafi átt 60 sauða göngu á Látrabjargi“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs).

Sauðaket (n, hk)  Ket af sauðum.  Sauðaket hefur ávallt þótt gómsætast og matarmest af öllu keti; ekki síst ef það er reykt.  Það er ýmist af veturgömlum ám eða sauðum (geltum hrútum). 

Sauðaklippur (n, kvk, fto)  Klippur/skæri til að taka ull af fé; fjárklippur.

Sauðakofi (n, kk)  Kofi/hús fyrir sauði/sauðfé.

Sauðalegur (l)  Sauðslegur, sjá þar.

Sauðalitir (n, kk, fto)  Litir sem fyrirfinnast í sauðfé, þ.e. hvítur, svartur og mórauður, og afbrigði af þeim.

Sauðamaður (n, kk)  Fjármaður; maður sem gætir sauða.  „Í Fjarðarhorni sér fyrir beitarhúsatóttum og fjárrétt, og ef til vill kofa fyrir sauðamann“  (IG; Sagt til vegar I).  

Sauðamergur (n, kk)  Loiseleuria procumbens.  Sígrænn smárunni af lyngætt með smá fjólublá blóm.  Hann hefur jarðlægar brúnar greinar og smá dökkgræn blöð með sléttu leðurkenndu yfirborði.  Brúnir blaðanna eru innsveigðar og því líkjast þau nokkuð grænum hrísgrjónum.  Sauðamergur vex víða um land, þó ekki á Suðurlandi.  Algengur í grennd Kollsvíkur, ofan láglendis.  Hann dregur nafn sitt af því að fyrr á öldum þótti hann góð beitarplanta.

Sauðamjólk (n, kvk)  Sauðamjólk var mikið notuð meðan fráfærur voru stundaðar og fé mjólkað í stekk eða í seli.  Í seinni tíð var hún nýtt ef létta þurfti á lambám sem misst höfðu; voru misjúgra eða troðjúgra.  „Sauðamjólkin var notuð þannig til matargerðar að henni var hellt í trog eftir mjaltir og rjóminn látinn setjast ofaná í troginu.  Tók það oft á annan sólarhring.  Síðan voru rjómi og undanrenna skilin að.  Var það oft gert þannig að haldið var við rjómaskánina með hendinni á einu horni trogsins.  Svo var troginu hallað og undanrennan látin renna undan rjómanum í annað ílát.  Rjóminn var skekinn í strokk með bullu, og skildist þá í smjör og áfir.  Smjörið var hnoðað í smjörsköku en áfirnar drukknar nýjar eða settar samanvið undanrennuna... Undanrennan var flóuð; þ.e. hituð upp að suðu en síðan látin kólna þar til hún var vel nýmjólkurvolg.  Þá var settur í hana hleypir og þétti og ílátið vafið með þykkri flík svo að hægt kólnaði.  Hljóp þá undanrennan og úr varð skyr.  Hleypirinn var búinn til úr kálfsmaga, en þéttinn var skyr úr fyrri skyrgerð, sem hrært var út í kaldri flóaðri mjólk fyrir notkun.  Þegar skyrið var hlaupið var mysan síuð frá því í gegnum gisinn klút, sem lagður var á skyrgrind.  Skyrið var geymt í tunnum til vetrarins og var þá vel súrt og gat geymst mjög lengi ef það var varið myglu.  Mysan undan skyrinu og sýra sem ausið var úr tunnum með súru skyri, var líka geymd á tunnum og látin súrna.  Súrri mysunni, eða sýrunni, var blandað við vatn og kölluð blanda.  Þótti hæfilegt að blanda 1 hluta sýru á móti 11 hlutum af vatni.... Skyrdrukkur var búinn til með því að hræra súrt skyr út í vatni..  Ostar vorustundum gerðir úr undanrennunni, en skyrgerðin var mun algengari.  Smjörinu var drepið niður í skinnbelgi af kindum eðai í góð tréílát.  Smjörið súrnaði við geymsluna og varð skarpt á bragðið.  Þannig gat það geymst mjög lengi í köldum geymslum, ef ekki komst loft að því.  Ríkidæmi manna var meðal annars mælt í smjöreign til forna“  (Stefan Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).

Sauðast (s)  Álfast; aulast.  „Ekki veit ég til hvers við vorum að sauðast hingað með netin; í algjöra ördeyðu“!

Sauðatað (n, hk)  Skán; troðinn kindaskítur úr fjárhúsum.  „Sauðatað er mjög gott til reykingar“.  Eldiviður var mest mór og rekaspýtur, sem var raunar talsvert af.  Einnig nokkuð sauðatað“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Sauðatollur (n, kk)  Gjald fyrir afnot af hrút yfir fengitíma.  „Hann lét mig hafa fleyg í sauðatollinn“.

Sauðaþjófnaður var talinn til alvarlegustu glæpa fyrr á tíð, jafnaðist hérumbil til mannsmorðs og líklega talinn alvarlegri en barnsútburður eða úthýsing förumanna.  Á síðari tímum fóru engar sögur af vísvitandi sauðaþjófnaði í Rauðasandshreppi, en hinsvegar komu upp ýmis mál vegna óljósra marka og vegna þess að ekki var vandað til samalamennsku og eftirleita.  Þannig gat heimst ómarkað útigangsfé á einum bæ sem þar ílentist, þó svo annar teldi sér þær.  Þá var þessi nafngift mönnum tiltæk þó ekki yrðu stórmæli af.
Sú regla var virt í Kollsvík framá síðustu daga að aldrei mætti skera eyru af sviðahausum fyrr en þau væru borðuð.  Efalaust komst sú regla á til að ekki léki vafi á um eignarhald sviðanna; sá sem skar eyru af gat verið að leyna sauðaþjófnaði.  Sömuleiðis var því trúað að æti ólétt kona eyra sviðahauss með annars manns marki yrði barnið sauðaþjófur.

Sauðbeit / Sauðjörð (n, kvk)  Bithagi; beit fyrir sauðfé.  „Kollsvíkur- og Láganúpsjarðir þykja góðar sauðjarðir.  Þar er víðast góð sauðbeit og yfirleitt fóðurlétt að vetrum“.

Sauðburður Sá tími vorsins þegar fæðing lamba gekk einkum yfir.  Hófst yfirleitt í byrjun maí og stóð af mestum krafti seinnipart maí.  Fyrst var hleypt til ánna, þ.e. farið með hrút, um jólin og stóð fengitíminn fram eftir janúar.  Þegar leið að burði sást greinilega hvaða ær voru með lömbum og hverjar voru geldar.  Oftast gekk meðgangan vel en þó bar við að kindur létu lömbum, þ.e. að þau fæddust sem meltingar fyrir tímann.  Lambalát gat orðið faraldur og valdið miklum skaða.  Þegar voraði vildu ærnar rása frá, og þá var farið að loka þær inni á túnum.  Þeim var gefið hey og fóðurbætir, annaðhvort í fjárhúsum eða í sérstökum útijötum, en lágu við opið þegar veður var sæmilegt.  Þær lambær sem þurftu sérstaka sinningu, svo sem tví- og þrílembur, voru þó oft teknar á hús og þeim gefið úrvalsfóður.  Í seinni tíð hafa bændur farið að láta fé bera inni.  Geldfé var fljótt hleypt útaf túni.  Vakta þurfti féð vel yfir sauðburðinn og gá að lambfé með fárra stunda millibili allan sólarhringinn.  Vökur urðu því oft æði miklar, einkum ef mannfátt var.  Ærnar leituðu oft á afvikna staði til að bera og víða bar af í landslaginu svo gönguferðir urðu langar fyrir fjárgæslufólk.  Oft mátti sjá það á hegðum ærinnar hvort hún var burðarleg.  Hún var þá utan við sig, vildi ekki fóður; leitaði út úr hópnum og krafsaði sér ból á afviknum stað.  Í byrjun fæðinga kom fyrst vatnsbelgur, en fljótlega eftir það átti lambið að koma ef allt var eðlilegt.  Oftast gengur fæðing eðlilega fyrir sig, ef ærin er heilbrigð og hraust; burðinn ber rétt að og veður gott, en oft var einhver þessara þátta ekki í lagi og þá gat þurft að hjálpa ærinni.  Lamb gat t.d. snúið öfugt í burðarliðnum og þá var nauðsynlegt að vera handfljótur til að það kafnaði ekki.  Hausinn gat legið aftur og þá gat þurft að fara innmeð til að laga það.  Hrútshorn gátu verið stór og valdið erfiðleikum og margt fleira gat amað að.  Stundum gat lambið sjálft verið mjög stórt miðað við ána.  Mjög var misjafnt hve fólk var lagið að hjálpa við burð.  Við eðlilegan burð byrjar kindin strax að kara lambið, þ.e. sleikja af því slorið, og kumraði gjarnan móti jarmi lambsins.  Það fór fljótlega að leita eftir spena, sem gat gengið misjafnlega vel.  Þurfti þá stundum að koma því á spena.  Eftir fæðingu heilaðist kindin fljótlega, þ.e. losnaði við hildirnar (fylgjuna).  Sumar kindur átu þær en annars var hrafninn fljótur að gera þeim skil, væru þær ekki grafnar.  Kindur sem eiga eitt lamb eru einlembur og lambið einlembingur, en tvílembur ef þær eiga tvílembinga.  Þrílembur eru sjaldgæfar, en frjósemi eykst þó með bættri fóðrun og aðbúnaði.  Lömb eru misstór; allt frá því að vera afturúrkreistingar eða örverpi upp í það að vera boldangshrútar.  Sumar ær voru viðskotaillar og vörðu lömb sín grimmt; reyndu að stanga þann sem nálgaðist og fnæstu ákaft.  Handsama þurfti lömbin innan fárra daga til að marka þau undir mark eigandans með hníf eða markatöng; merkja þau með númeruðu ál- eða plastmerki með tilvísun í ærbókina; sprauta þau við lambablóðsótt og e.t.v. gefa þeim fleiri lyf s.s. súlfatöflur.  Lömbin urðu fljótt spræk og gat orðið harðsnúið að ná þeim.  Gæta þurfti vel að lömbunum í þeim hættum sem víða leynast, s.s. í skurðum og gjótum.  Þá var mikilvægt að koma fljótt til hjálpar ef þau voru veikburða; fengu t.d. stíuskjögur; fjöruskjögur eða ofkældustAumingjar voru stundum teknir í bæ til að orna þeim og gefa úr pela.  Sum lömb voru vansköpuð á einhvern hátt, stundum þannig að þau lifðu ekki; sum voru með trönu, þ.e. með efri kjálka lengri en þann neðri, eða á hinn veginn; með skúffukjaft.  Ef einlembd ær missti lambið snemma var reynt að venja undir, þ.e. taka lamb undan annarri sem e.t.v. var ekki treyst fyrir tveimur.  Var þá stundum fleginn bjálfinn (skinnið) af dauða lambinu og það saumað utanum undirvaninginn til að lyktin yrði sú sama.  Eftir nokkurra daga samvist í stíu tóku flestar ær undirvaningum.  Lömb sem misstu móður og ekki var unnt að venja undir urðu heimalningar, þ.e. ólust upp heima við bæ og fengu mjólk úr pela.  Þeir gátu orðið býsna frekir og heimakærir.  Gæta varð varúðar kringum lambféð og passa að vía ekki lambið frá móðurinni.  Lömb sem villtust frá mæðrum sínum voru undanvillingar.  Þegar lömbin tóku að stálpast var ánum hleypt útaf túninu í hópum.  Oft var valið í hópinn eftir því hvar æskilegt væri að féð gengi yfir sumarið og safnið síðan rekið á þann stað.  Lambið sem fyrst fæddist að vorinu nefndist lambakóngur eða lambadrottning.  Lömb gátu verið snemmborin eða síðborin; snemmborningar eða síðborningar.  „Vorið er aðal annatíminn í sveitum, og svo var einnig þegar ég var að alast upp.  Um sauðburðinn þurfti að smala á hverjum degi og jafnvel vitja fjárins að nóttu“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Þá tók sauðburðurinn við og við urðum að smala út í Breiðavík, ekki sjaldnar en annanhvern dag“  (IG; Æskuminningar). 

Sauðdrukkinn (l)  Kófdrukkinn; mjög ölvaður; á skallanum/eyrunum.

Sauðfita (n, kvk)  Fita í ull sauðfjár.  „Sauðfitan sér alveg um að smyrja klippurnar“.

Sauðfjárafurðir (n, kvk, fto)  Hvaðeina það af sauðkind sem nýtist til sölu, matar, klæða eða annars. 

Sauðfjárbeit (n, kvk)  Beitiland fyrir sauðfé.  „Góð sauðfjárbeit er í Kollsvík og öllu nágrenni hennar“.

Sauðfjárböðun (n, kvk)   Sjá fjárböðun

Sauðfjármark (n, hk)  Mark; fjármark.  „Ívar Ívarsson ræddi nokkuð um sauðfjármörk og markaskrá…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Sauðheimska (n, kvk)  Fáviska; glópska. „Þvílíka sauðheimsku hef ég sjaldan vitað“!

Sauðheimskur (l)  Mjög heimskur; álfalegur; bjánalegur.  „Andskoti geta þeir  verið sauðheimskir þessir ráðherrar; að halda að hægt sé að rækta bara gærur án þess að framleiða ket“!

Sauðjörð / Sauðland (n, kvk)  A.  Fjárjörð; jörð sem hentar fyrir sauðfjárbúskap öðru fremur.  B.  Hagi sem nýtanlegur er fyrir sauðfé.  „Þegar fannir voru mestar þann vetur tók nánast fyrir alla sauðjörð“.

Sauðkálfur (n, kk)  Skammaryrði um mann sem þykir heimskur.  „Óttalegur sauðkálfur getur þetta verið“!

Sauðkind / Sauðfé (n, kvk)  Ovis aries.  Ullarklædd jórturdýr/spendýr/klaufdýr sem um árþúsundir hafa verið ræktuð og nýtt til búskapar, og fylgdu landnámsmönnum hingað.  Uppruni dýrategundarinnar er talinn vera í fjalllendum Anatólíu í Tyrklandi, og vísbendingar eru um að menn hafi fyrst byrjað sauðfjárbúskap fyrir um 11.000 árum.  Sauðkindin er að eðli félagslynd og heldur sig í hópum,  Hún er vel löguð að því að bjarga sér í rýrum bithögum af ýmsu tagi; jafnt klettum sem votlendi.  Langvarndi ræktun hefur þó breytt ýmum eiginleikum, þar sem menn hafa sóst eftir auknu vöðvamagni og meiri og betri ull.  Hver bóndi hefur sínar áherslur í ræktun.  T.d. vildi Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi rækta fremur hyrnt fé en kollótt; hann vildi fremur háfætt fé en lágfætt og hann vildi fremur gult í rót á ull en snjakahvítt fé.  Allt var það andstætt ríkjandi opinberri stefnu á þeim tíma, en nokkuð rökrétt.  Sauðkindin á oftast eitt lamb, en oft þó tvílembinga og einstaka sinnum þrílembinga.  Með aukinni ræktun og nútímaaðferðum við sæðingar hefur afkvæmafjöldinn aukist.  Sauðburður er annatími hjá bændum, því oft þarf að aðstoða kindur við burð eins og aðrar skepnur sem maðurinn hefur breytt með ræktun.  Fullyrða má að sauðkindin hefur staðið að langmestu leyti undir þeirri byggð sem verið hefur á Íslandi frá landnámsöld og a.m.k. fram á 20.öld.  Allar fjölskyldur byggðu á sauðfjárrækt að langmestu leyti, þó sumsstaðar væri einnig sóttur sjór.  Velferð manna byggðist því verulega á hæfni þeirra í búskap.  Fyrri tíðar fólk þekkti betur til fullnýtingar á sauðkindinni en nú er, og má segja að allir hlutar hennar hafi verið nýttir; ýmist til matar, klæðnaðar eða til annarra þarfa.  Meira að segja úrgangurinn; sauðataðið, var nýtt til kyndingar og reykingar matvæla. 

Sauðlaukur (n, kk)  Sauðarfita; fitulag á sauðkind í góðum holdum.  Orðið er ekki notað nú á tímum en menn hafa löngum velt fyrir sér uppruna staðarnafnsins „Sauðlauksdalur“ í Rauðasandshreppi.  Ýmislegt bendir til að það merki: „Dalur þar sem fé fitnar“ eða eitthvað í þá áttina.  Til skamms tíma var fitulag ýmissa fuglategunda nefnt laukur.  Einnig má hafa í huga að til skamms tíma þekktist sunnanlands orðtakið; að skepna „stígi ekki í laukana“; þ.e. að skepna sé mögur/kviðdregin.  Laukur er upprunalega nafnkenning þess að loka/umlykja, og merkir upprunalega það sem lykur um; hjúpar; þ.e. hjúpur.  Orðið fær síðan merkinguna fituhjúpur/fitulag/mör.  Laukur; þ.e. fita, þótti góð í keti, og því varð til líkingin að einhver sem sæmd var að í ættum væri nefndur „laukur ættarinnar“.  Sauðlaukur merkir því „sauðafita“.  Staðarheitið Sauðlauksdalur verður auðskilið í því ljósi, enda dæmigerð fyrir þá viðleitni landnámsmanna að velja stöðum lýsandi heiti.  Ekki er ólíklegt að nafngiftin hafi komið á fyrstu tímum byggðar.  Líklegt er að Þórólfur spörr á Hvallátrum hafi haldið sauðum sínum til fitubeitar í Sauðlauksdal að vetrarlagi; þar er skjólsælla en á Bjarginu, þar sem einnig er gott til fitubeitar að sumarlagi.

Sauðmeinlaus (l)  Alveg meinlaus; gerir engum illt.  „Sem betur fer reyndist þetta vera sauðmeinlaust kvef“.

Sauðnaut (n, hk)  A.  Moskusuxi; Ovibos moschtus.  Stórvaxin klaufdýr af ætt slíðurhyrninga sem lifa á túndrusvæðum Grænlands, Kanada og Alaska.  Þau hafa verið flutt til Noregs, Svíþjóðar og Wrangeleyju í Síberíu.  Á fyrrihluta 20.aldar var reynt að flytja sauðnaut til Íslands, en þær tilraunir mistókust.  B.  Níðyrði um mann sem þykir heimskur.  „Skelfilegt sauðnaut getur hann verið“!

Sauðnálarkritja (n, kvk)   Mjög lágvaxinn gróður; vottur að grænni jörð að vori en vart orðin sauðbeit.  „Það fer að grænka úr þessu; strax komin einhver sauðnálarkritja“.  „Þessi fíni matur í veislunni var nú varla annað en einhver sauðnálarkritja“.  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Sauðskepna (n, kvk)  Sauðkind.  Oftast notað sem áhersluorð þegar lýst er fáum kindum eða fjárleysi.  „Ég leit af brúninni niður í hlíðina, en þar var ekki eina einustu sauðskepnu að sjá“.

Sauðskinn (n, hk)  Gæra; sjá þar.

Sauðskinnsskór (n, kk, fto)  Skór úr sauðskinni; skinnskór.  Skinnið var sniðið til og saumað með tá- og hælsaum; síðan yfirleitt litað dökkum litum.  Algengasti skóbúnaður manna fram á 20.öld.  Ending skóa úr sauðskinni var þó langtum minni en þeirr sem voru úr nautsleðri, hrossalðri eða selskinni.  Sauðskinn var betra því eldri sem sauðurinn var.  Sjá gæra.

Sauðslegur / Sauðskur (l)  Hjárænulegur; gleyminn; annarshugar.  „Skelfing geturðu verið sauðslegur að gleyma þessu“!  „Hann man kannski eftir þessu, þó sauðskur sé“.

Sauðspakur (l)  Mjög gæfur; mannelskur.  „Æðarkollan var orðin sauðspök og elti okkur um allar trissur“.

Sauðsvartur almúginn (orðtak)  Lágstéttir manna; gæluheiti um það fólk sem ekki er ráðandi í samfélaginu.  „Sauðsvartur almúginn fékk litlu ráðið um þetta; ekki frekar en fyrri daginn“!

Sauðtryggur (l)  Tryggur í blindni.  „ Og sauðtryggir flokksmennirnir fylgja fomanninum í þessa feigðarför“.

Sauður (n, kk)  A.  Geltur hrútur.  Eftir að hrútlömb hafa verið gelt eru þau stundum nefnd geldingar fyrsta árið, en eftir það sauðir.  B.  Orðið er iðulega notað um sauðkindur almennt.  Sú notkun hefur þó minnkað á síðari tímum.  C.  Líkingamál um hjárænulegan/annarshugar mann.

Sauðþrái (n, kk)  Endemis þrjóska.  „Ekki skil ég þennan sauðþráa í karlinum; það er bara ekki úr að aka“!

Sauðþrár / Sauðþrjóskur (l)  Mjög þrjóskur/þver.  „ég hélt að enginn gæti verið svona sauðþrjóskur“.

Sauma (s)  Festa á/saman eða skreyta með saum.  Við saumaskap er notuð nál með íþræddum þræði/tvinna, en í seinni tíð þó einkum saumavél.

Sauma að (einhverjum) (orðtak)  Koma einhverjum í bobba/úlfakreppu; þjarma/þrengja að; pína.  „Landeigandinn saumað svo að honum að loksins hrökklaðist hann af jörðinni“.

Sauma fyrir hrút (orðtak)  Sauma bót á kvið hrúts til að hann nái ekki að lemba kind.  Var þetta gert í einhverjum mæli áðurfyrr, til að geta haft hrúta með fé þegar kom framá vetur án þess að ær yrðu fyrirmálsfengnar.

Saumaklúbbur var starfræktur í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar, og nefndist hann Stautur.

Saumaklúbbskvöld (n, hk)  Samkoma saumaklúbblsins Stauts; haldin á heimili einhverrar félagskonu.  Annarsstaðar munu slík kvöld hafa heitið saumakvöld, en í Rauðasandshreppi föndruðu félagskonur við sitthvað annað en sauma; s.s. prjónaskap, hekl, bastvinnu og annað.  En einnig var mikið talað.

Saumaskapur (n, kk)  Sú iðja að sauma.  „Hún er sérlega lagin við saumaskap og að prjóna“.

Saumavélaolía (n, kvk)  Maskinuolía; handýolía; þunn olía sem nota mátti til að smyrja ýmislegt, s.s. smátæki og lamir.  Gekk oftast undir heitinu saumavélaolía eða handýolía, en nefnist nú almennt maskinuolía.

Saumfar (n, hk)  Röð bátasaums í umfari/borði báts.  „Viið hlöðum ekki nema upp að næsta saumfari“.

Saumhögg (n, hk)  A.  Þrístrent járnstykki með hvössum kanti; notað til að klippa járntein niður í saum.  B.  Í líkingamáli; það sem er egghvasst.  „Að ofan er Barðið víðasthvar líkt og saumhögg; með skarpri brún“.  „Er Skor þessi eins og jötunefldu saumhöggi hafi verið höggvið inn í stálhart blágrýtið og látið eftir sig aflanga klauf, er líkist axarfari eftir tröllaukna bolöxi“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Saumnálargat (n, hk)  Mjög lítið gat.  „Það var saumnálargat á stakknum, en það nægði til að ég varð votur“.

Saumnálarleit (n, kvk)  Erfið leit; eins og að leita að saumnál í heystakki.  „Það verður alger saumnálarleit að reyna að finna þessi lömb aftur sem sluppu“.

Saumrekinn (l)  Um við/efni; með mörgum negldum nöglum; útnegldur.  „Ég lappaði við þetta með saumrekinni fúaspækju sem lá þarna nærri“.

Saumspretta (n, kvk)  Saumur sem hefur gefið sig, þannig að efni losnar í sundur.  „Ég fékk saumsprettu á buxurnar þegar ég beygði mig“.

Saumur (n, kk)  A.  Þráður sem notaður er til að festa saman tvö stykki, og nær orðið einnig yfir festinguna sjálfa.  „Saumurinn er eitthvað að gefa sig aftaní buxunum“.  B.  Nagli til smíða.  „Ég þarf að kaupa meira af þaksaum til að geta gengið frá þakpötunni“.  Orðið hefur yfirfærst á þennan hátt vegna þess að fyrrum voru bátar festir saman með þræði.  Heitið hélt sér eftir að trénaglar og síðan járnnaglar tóku við því hlutverki.

Saup (n, hk)  Hlaup; þykk súpa; grautur.  „Mér finnst ket alltaf fremur ólystugt ef það er soðið í saup“.  Farðu varlega þarna; í svona bleytutíð verður jarðvegurinn eins og saup“.

Saupsáttir (l)  Ósáttir; sundurorða.  „Þeir urðu eitthvað saupsáttir út af þessum kvenmanni“.

Saur (n, kk)  A.  Almennt um leðju; for; drullu; óhreinindi.  Að fornu hefur orðið verið notað um leirur á útfiri, og er það líklega skýringin á bæjarnafninu Saurbæ, t.d. á Rauðasandi og víðar.  Hestum var riðið um þá saura og urðu saurugir.  Bær var byggður nærri og sjálfsagt að nefna hann Saurbæ.  B.  Sértækari merking; kúkur; hægðir manna og dýra. 

Saurblað (n, hk)  Autt blað aftast og fremst í bók, til að taka við mesta káminu af fingrum lesandans.  Líklega hefur það upphaflega átt við blað sem árituðum blöðum/bókum var pakkað í; jafnvel óinnbundnum.

Saurga (s)  Ata/skíta út; gera skitugt/kámugt; óhreinka.  Notað einnig fyrrum í merkingunni að vanhelga.

Saurindi (n, hk, fto)  Skítur; saur; kám; óhreinindi.  „Ég þreif mestu saurindin af þessu“.

Saurlifnaður / Saurlífi (n, kk)  Taumlaust líferni; ólifnaður; lauslæti.  Orðið var meira notað áðurfyrr, á tímum strangtrúar og siðvendni. 

Saurljótur (l)  A.  Skítugur; kámugur „Óttalega ertu nú orðinn saurljótur í framan, þú ættir að þvo þér“.  B.  Skítsækinn; viðkvæmur fyrir kámi/skít.  Sú merking orðsins var ráðandi fyrrum. 

Saursæll (l)  Sem hefur tilhneygingu til að verða skítugur/sölugur.  „Farðu nú og reyndu að þvo þér geyið mitt, óttalega geturðu verið saursæll“!

Saurugur (l)  Skítugur; ataður.  „Déskoti ertu saurugur á hnjánum, farðu úr buxunum úti og fáðu þér hreinar“.

Sax (n, hk)  A.  Stór og þung sveðja með þykku blaði, notuð t.d. til að brytja í saltket.  B.  Staður sá á borðstokk báts framantil þar sem hann er farinn að leggjast verulega út og sveigjast aftur; staðurinn þar sem mætast yfirslíður og hástokkur.  Sax er því þar á borðstokknum sem sveigjan verður mest að framan, og því leitast bógaldan við að hlaðast þar upp þegar mikið er siglt.  Þegar hún gutlar þar uppundir heitir að sjóða/vaða á söxum.

Saxa (s)  A.  Brytja niður, t.d. kjöt í spað eða fisk í fóður.  B.  Raka saman hey með sérstökum hætti í föng, til að minna slæðist úr þegar þau eru sett upp í galta eða á heyvagn.  Heyinu var þá þjappað með hrífu, litlu í einu, báðumegin í fangið.  Sérlega var mikilvægt að vanda söxun í koll á göltum til að síður drypi í þá.  C.  Um bát; hjakka í ölduna; endastingast í öldugangi.

Saxast á (orðtak)  Ganga á; eyðast; ganga til þurrðar.  „Nokkuð er farið að saxast á fóðurbætinn“.

Saxast nú á limina hans Björns míns (orðatiltæki)  Stundum notað þegar eitthvað þykir ganga til rýrnunar.  Tilvitnun í meint orð Steinunnar, konu þrjótsins Axlar-Björns, þegar hann hafði verið beinbrotinn á öllum útlimum á Laugarbrekkuþingi á Snæfellsnesi árið 1596 fyrir morð sitt á átján mönnum.  Björn, sem var annálaður skálkur á sinni tíð, lét sér að sögn lítt bregða.  Á hann að hafa sagt um eitt höggið sem ekki dugði: „Sjaldan brotnar bein á huldu“, og er það einnig haft að orðtaki.

(s)  Dreifa fræi í jörð/ korni í akur; dreifa áburði á tún. 

Sá/sú arna (orðtak)  Sá/ þessi þarna; viðauki við nafnorð sem lýsa þeim sem eru vorkunnar verðir, eða afsaka þarf.  „Hann má nú eiga það, aulinn sá arna, að hann gerði sitt besta“.  Líklega myndbreytinga orðanna „sá þarna“, og er viðbótinni ætlað að auka áherslu hins mildandi tóns setningarinnar.  Svipaðs eðlis er viðbótin „atarna“; „skinnið atarna“, sem e.t.v. er leitt af sömu rót (sjá þar).

Sá á fund sem finnur (ef enginn finnst eigandinn) ( orðatiltæki)  Mikið notað orðtak vestra.  Þó ekki seinniparturinn.  „Það er ekkert víst að þú fáir þennan vasahníf; sá á fund sem finnur“!

Sá á kvölina sem á völina (orðatiltæki)  Vísar til þess að oft getur verið erfitt, og jafnvel allmikil áhætta, að velja milli tveggja eða fleiri kosta.  Völ merkir val.  Sjá fara á vonarvöl.

Sá á lykt sem fyrst finnur ( orðatiltæki)  Mikið notuð speki, einkum um illa þefjandi viðrekstrarfýlu/prumplykt.

Sá blái (orðtak)  Gæluheiti á steinbít.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heim; ÞJ).  „Mér þótti sá blái nokkuð líflegur þegar sá fyrsti kom í bátinn og horfði ég á“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Sá einn veit sem reynir (orðatiltæki)  Sumt verður ekki vitað nema með reynslu/prófun.  Einnig; veit enginn fyrr en reynt hefur.

Sá er árla rís verður margt vís (orðatiltæki)  Sama meining og morgunstund gefur gull í mund.

Sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur ( orðatiltæki)  Menn finna auðvitað mest fyrir því sem mæðir á þeim sjálfum, en margir eiga erfiðara með að sjá það sem mæðir á öðrum.  Forn speki.

Sá er/þykist fróður er fregna kann (orðatiltæki)  Sá veit margt sem fréttir mikið.

Sá er góður (orðtak)  Upphrópun sem gjarnan var viðhöfð þegar einhver sýndi yfirlæti eða hafði uppi stórorðar yfirlýsingar.

Sá fær/hefur byr sem bíða kann (orðatiltæki)  Sá fær einhverntíma byr sem getur beðið eftir honum.  Notað í líkingamáli um það að þolinmæðin borgar sig stundum ef eitthvað skal ávinnast.

Sá guli (orðtak)  Gæluheiti á þorski.  „Hann er eitthvað við í dag, sá guli“.  „Alltaf var verið að færa sig úr stað, en sá guli var allsstaðar nauðatregur“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Sá grái (orðtak)  Gæluheiti á hákarli. 

Sá hefur nóg sem nægja lætur (orðatiltæki)  Vísar til þess að kunna sér hóf/ vera nægjusamur. 

Sá hlær best sem síðast hlær (orðatiltæki)  Sá getur hrósað sigri sem haft hefur betur/ sem að lokum er sigurvegari.  „Þú hafðir betur í þessari lotu, en sá hlær best sem síðast hlær“!

Sá (hlýtur/verður að) laumast með landi sem lekan hefur bát (orðatiltæki)  Spekin er auðskilin; menn fara ekki út á haf á hriplekum bát.  Notað í líkingum um annað; að sá komi t.d. litlu í verk sem hefur lélegan búnað.

Sá nýtur oft sem óverðugur er / Sá nýtur oft sem ekki skyldi (orðtatiltæki)  Oft nýtur maður ávaxtanna af erfiði annarra, t.d. erfingjar.  Það er því ekki algilt að hver njóti síns um síðir.

Sá sem ekki vill vinna á ekki að fá að eta (orðatiltæki)  Gömul speki sem oft var rifjuð upp í Kollsvík; einkum þegar rætt var um leti. 

Sá svarti (sjálfur) (orðtak)  Annað heiti á fjandanum/djöflinum.  Leifar frá þeim tíma að blótsyrði voru talin stefna sálarheill í hættu.  „Það má sá svarti sjálfur vita hvar hamarinn er niðurkominn“!

Sá verður að lúta sem lágar hefur dyr (orðatiltæki)  Sá fátæki/undirokaði verður að lúta fyrir hinum voldugri.  Ekki er það þó einhlítt, og oft hafa Kollsvíkingar rifið sinn kjaft með góðum árangri.

Sá vondi (orðtak)  Satan; fjandinn; vondi karlinn.  Oft notað sem milt blótsyrði.  „Það má sá vondi sjálfur vita“!

Sá vægir sem vitið hefur meira (orðatiltæki)  Um bardaga/viðureign/þrætu; sá lætur undan sem af hyggjuviti sér tilgangsleysið í viðureigninni/sigrinum.  Oft notað, t.d. í þrætumálum og slagsmálum barna.  Sjá vægir sá sem vitið hefur meira.

Sáðgresi (n, hk)  Sléttugras; erlendar, grófgerðar grastegundir sem sáð er í sléttur til að fá meiri afrakstur heyja.

Sáðslétta (n, kvk)  Sléttað tún sem grasfræi hefur verið sáð í.

Sál (n, kvk)  A.  Andi; sjálf; eigind hvers manns.  „Upp upp mín sál og allt mitt geð…“ (HP; Passíusálmar).  B.  Lifandi maður.  „Fáar sálir eru nú eftir í Breiðavíkursókn“.  C.  Skinnpoki (forn notkun).  D.  Hjarta í flyðru, hákarli eða skötu.

Sála (n, kvk)  Sál; manneskja.  „Hér er ekki nokkur sála á ferli“.

Sálaður (l)  Andaður; dáinn; látinn.  „Þá er hann sálaður, karlanginn, eftir langa og vinnusama ævi“.

Sálarkvöl og pína (orðtak)  Nagandi óvissa; sálarstríð; uggur; kvíði.  „Það var honum allmikil sálarkvöl og pína að ákveða hvorn hrútinn skyldi setja á“.

Sálarlaus (l)  Án sálar/tilfinninga/persónuleika/eigindar.  „Mikið finnst mér þessir kubbslaga húsklumpar vera sálarlaust fyrirbæri“!

Sálarstríð (n, hk)  Sálarkvöl og pína; nagandi óvissa; uggur; kvíði.  „Eftir mikið sálarstríð ákvað hann að skjóta kindina niður í stað þess að leggja menn í hættu við að reyna að ná henni úr sveltinu“.

Sálartetur / Sálartötur (n, hk)  Gæluheiti á sál.  „Maður ætti kannski að hressa aðeins uppá sálartötrið og hlusta á messuna“.

Sálast (s)  Deyja; gefa upp öndina.  „Hann var þá að sálast í nótt, sá gamli“.  „Ég er að sálast úr þorsta“.

Sálddreifari (n, kk)  Dreifari til að dreifa tilbúnum áburði.  Sáldrar áburðinum niður um rifur/göt í botninum.  Kastdreifari kastar honum aftur á móti frá sér með snúningsskífu eða öðru.

Sáldra (s)  Dreifa/strá efni.  „Það er ágætt að sáldra dálitlu salti yfir stæðuna“.

Sáldur (n, hk)  Það sem sáldrast/ er sáldrað; kusk; duft.  „Ég þurrkaði mesta sáldrið af borðinu“.

Sálga (s)  Drepa; murka lífið úr.  „Enn er ósannað að Steinunn á Sjöundá hafi tekið þátt í að sálga manni sínum“.

Sálmabók (n, kvk)  Bók með trúarlegum kveðskap/ sálmum.  Sálmabók var til á flestum heimilum, og á fyrri árum útvarps tók gott söngfólk undir með kórsöng þegar messum var útvarpað.

Sálmasöngur (n, kk)  Söngur sálma.  Sálmasöngur í Breiðavíkurkirkju var oftastnær hlutverk kirkjugesta ásamt presti.  Margir voru fyrirtaks söngmenn, en aðrir ekki eins tónvissir.

Sálmur (n, kk)  Trúarljóð; andlegur kveðskapur, oftast með sínu lagi og sunginn við helgiathafnir.  „Gengið var kring um jólatréð og sungnir sálmar og ýmsir söngvar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Sálnahirðir / Sálusorgari (n, kk)  Prestur.

Sálnaregistur (n, hk)  Manntalsbók sóknar/sókna, sem prestur heldur utanum; kirkjubók.

Sálubót / Sáluhjálp (n, kvk)  Hugarró; bætt sálarástand.  „Maður er nú að þessu meira sér til sálubótar en nokkurs annars“.

Sálufélagi (n, kk)  Sá sem hugsar eins; sá sem hefur sömu markmið/áhugamál.  „Þar fann hann sér sálufélaga sem er ámóta furðulegur í hugsun“.

Sálugur (l)  Látinn.  Viðauki þegar rætt er um þá sem látnir eru.  „Afi minn sálugur var með afbrigðum sauðglöggur“.  „Fáa þekki ég eins mikla söngmenn og hana ömmu mína sálugu; Halldóru frá Grundum“.

Sáluhjálparatriði (n, hk)  Það sem varðar sálarheill/inngöngu í Guðsríki.  „Það er nú ekkert sáluhjálparatriði þó við klárum ekki að vitja um alla strengina í dag.  Kannski er betra að róa heldur snemma á morgun“.

Sáluhlið (n, hk)  Hlið á kirkjugarði.  „Gera má ráð fyrir að sáluhlið kirkjugarðsins í Kollsvík hafi vitað móti vesturátt, eins og venja er enn; í átt til sjávar“.

Sáluhólpinn (l)  Bjargað frá vítiseldi eftir dauða; öruggur um himnaríkisvist.  „Maður ætti þá líklega að verða sáluhólpinn eftir svona góðverk“!

Sálutjón (n, hk)  Tjón á sálarheill sinni; aukin hætta á að vera vísað frá himnaríkisvist.  „Maður bíður nú kannski ekki neitt sálutjón á að heyra hvað þessi frambjóðandi hefur fram að færa, þó hann sé af þessu sauðahúsi“.

Sámleitur / Sámlitaður / Sámslegur (l)  Dökkleitur; skáldaður í framan af skít; sámur.  „Óttalega ertu sámslegur í framan eftir þessa moldarvinnu.  Farðu nú og þvoðu framanúr þér drengur“.

Sámur  (l)  Sámleitur; dökkur; óhreinn.  Ekki í notkun í seinni tíð.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Sáning (n, kvk)  Það að sá, t.d. fræi. 

Sápa (n, kvk)  Efni sem notað er til hreinsunar og þvotta, t.d. á líkama og klæðnaði.  Sápunotkun hefur aukist gríðarlega á síðari tímum, sem og úrval sérhæfðra sápuefna.  Sápa var komin í notkun meðal fornþjóða nokkru fyrir Kristsburð, og m.a. bjuggu Fönikíumenn til sápu úr geitartólg og viðarösku.

Sápa / Sápubera (s)  Bera sápu á.  „Sápaðu skinnið vel og þvoðu það rækilega áður en þú spýtir það“.

Sápufroða (n, kvk)  Froða eftir að sápa hefur freytt. 

Sápugur (l)  Með sápufroðu.  „Þvoðu nú betur af þér drengur; þú ert enn sápugur á hönbdunum“!

Sápuhristari / Sápugrind / Sápusigti (n, kk)  Eldhúsáhald; hylki úr vírgrind og með skafti úr sverum vír.  Notað til að sápa vatn til uppþvotta á t.d. borðbúnaði.  Hylkið var með smelltu loki úr samskonar vírgrind.  Inn í það voru settir afgangar af handsápu/stangarsápu; síðan var hylkinu difið ofaní uppþvottavatnið og það hrist duglega þangaðtil nægilega sterk blanda var fengin.  Notað á Láganúpi framundir það að uppþvottalögur fór að fást í verslunum; fyrir 1970.

Sápustykki (n, hk)  Stykki af handsápu/stangarsápu.  „Fjandi eru þau orðin óveruleg þessi sápustykki í dag“!

Sápustöng (n, kvk)  Sápa, framleidd með nokkrum stykkjum samhangandi í lengju/stöng.

Sápuvatn (n, hk)  Vatn með uppleystri sápu.  „Ég þarf að hafa sápuvatn við hendina við þessa aðgerð“.

Sár (n, kk)  Stórt ker/kerald.  „Þar voru margir sáir, fullir af blautfiski“.

Sár (n, hk)  Und; skurður/hrufl í húð.  „Þetta er nú ekki djúpt sár; bara smáskurfa“.

Sár (l)  A.  Meiddur; slasaður.  „Einhverjir voru víst sárir eftir slysið, en allir lifðu af“.  B.  Móðgaður; vonsvikinn; hryggur.  „Ég er dálítið sár útí hann fyrir þessi ummæli“.

Sár á (orðtak)  Nískur á; vill helst ekki láta.  „Ég er dálítið sár á nýju skærin mín í svonalagað, en þið megið fá þau gömlu“.

Sára (ao)  Áhersluorð, einkum um smæð:  Sára sjaldan; sára lítilfjörlegt; sára meinlaust; sára hallærislegt.

Sáraáburður / Sárakrem / Sárasalvi / Sárasmyrsl (n, kk/hk)  Sótthreinsandi áburður sem borinn er í sár.

Sárabindi / Sáragrisja / Sáraplástur / Sáraumbúðir (n, hk/kvk/kk)  Umbúðir um sár.

Sárabót (n, kvk)  Uppbót; bót í máli.  „Það var nokkur sárabót að ná lambinu lifandi þegar kindin hrapaði“.

Sáraduft (n, hk)  Sótthreinsandi duft/ pensillínduft sem stráð er í sár.

Sáraeinfalt (l)  Mjög einfalt/auðvelt.  „Þetta er sáraeinfaldur hnútur“. 

Sárafáir (l)  Mjög fáir.  „Það mættu sárafáir á fundinn“.  „Tvílembur voru sárafáar í hópinum“.

Sárafátækur (l)  Mjög fátækur.

Sárafátækt (n, kvk)  Mjög kröpp kjör; á horriminni; mikil neyð.  „Hallærin komu verst niður á þeim sem kröppust höfðu kjörin og bjuggu við sárafátækt fyrir.  Sjávarbyggðirnar höfðu meiri bjargarvon“.

Sáralítið (l)  Mjög lítið/rýrt.  „Ég veit sáralítið um þetta“.  „Þeir fengu sáralítinn afla“.

Sáran (ao)  Sárlega; sárt.  „Hann kvartaði sáran undan þessu húfulagi hjá Vegagerðinni“.

Sáranauðsyn (n, kvk)  Brýn nauðsyn/neyð.  „Það er nú engin sáranauðsyn að komast á þennan fund í dag, en þið verðið að moka til að ég komi mjólkinni innyfir á morgun“.

Sárara/sorglegra/þungbærra/þyngra en tárum taki (orðtak)  Mjög sárt/þungbært að vita til/ horfa uppá; sorglegt.  „Það er sárara en tárum taki að horfa uppá hrun í sinni heimabyggð“.

Sárasaklaus (l)  Alsaklaus; alveg saklaus; alls ekki sekur um.  „Ég var sárasaklaus af þessum hrekkjum“.

Sárasjaldan (ao)  Mjög sjaldan; í undantekningartilvikum.  „Þetta hendir sárasjaldan“.

Sárasótt (n, kvk)  Syfilis; fransós; smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar Treponema pallidum.  Oft talinn till kynsjúkdóma, enda smitast hann m.a. við samfarir.  Björn Gíslason (1650-1679) sýslumaður í Saurbæ á Rauðasandi er sagður hafa látist úr sárasótt, og Guðrún Eggertsdóttir kona hans blindaðist.

Sáratregt (l)  Um aflabrögð; mjög tregt fiskirí.  „Hann hefur verið sáratregur núna yfir smástrauminn“.

Sáravatn (n, hk)  Sótthreinsandi lögur sem borinn er á sár.

Sárbeiða / Sárbæna / Sárbiðja  (s)  Grátbiðja; biðja innilega.  „Það skipti engu þó heimamenn sárbeiddu um að fá að halda skólanum; það varð að flytja þetta allt í kaupstaðinn undir yfirskini hagræðingar“.

Sárbölva (s)  Blóta í vonbrigðum og reiði.  „Ég sárbölvaði mér fyrir klaufaskapinn, að gleyma ífærunni í landi“.

Sárfeginn (l)  Mjög feginn/glaður.  „Ég var því sárfeginn að finna hnífinn aftur“.

Sárfúll (l)  Mjög argur/vonsvikinn/leiður.  „Auðvitað er maður sárfúll yfir því að svona skyldi fara“.

Sárfættur (l)  Aumur í fótum eftir mikla göngu eða/og af slæmum skóbúnaði.

Sárgrætilega (ao)  Illilega; mjög; hörmulega; hryggilega.  „Ég var sárgrætilega nærri því að ná að grípa fötuna áður en hún fauk framaf“.

Sárgrætilegt (l)  Yfirgengilega leiðinlegt/hryggilegt.  „Það var sárgrætilegt að sjá lúðuna slitna af við borðið“!

Sárgrætilegur andskoti (orðtak)  Blótsyrði/áhersluorð um það sem fer verulega miður.  „Auðvitað er það sárgrætilegur andskoti að hinir fornu útgerðarstaðir skuli einskis njóta af þúsund ára veiðireynslu, heldur séu örfáir hvítflibbar í Reykjavík búnir að sölsa undir sig allan rétt til fiskveiða.  Hver ræður fyrir þeim fjanda“?!

Sárhentur (l)  Aumur í höndum, t.d. eftir mikil átök með berum höndum á hrjúft yfirborð.  „Maður verður svo ári sárhentur af þessum nælonspotta“.

Sárhungraður / Sársoltinn / Sársvangur (l)  Mjög svangur/soltinn; glorsoltinn; banhungraður.  „Ég er orðinn sárhungraður og ætla að ná í nestið“.

Sáriðra (s)  Sjá mikið eftir.  „Mig sáriðrar núna að hafa ekki skráð fróðleik af munni þeirra sem nú eru gengnir“.

Sárindalaust (l)  Án illinda/leiða/sárinda.  „Þetta var alveg sárindalaust að minni hálfu“.

Sárindalítið (l)  Án mikilla sárinda/ mikillar eftirsjár/sútar.  „Það væri mér sárindalítið þó sá bjálfi næði ekki kjöri“!

Sárindi (n, hk, fto)  Sársauki, særindi.  „Ég er með einhver sárindi í kverkunum“.  „Þau skildu án allra sárinda“.

Sárkaldur (l)  Svo kalt að verkjar.  „Ég var vettlingalaus og orðinn sárkaldur á höndunum“.

Sárkvalinn (l)  Þjáist mikið; finnur verulega til.  „Ég var sárkvalinn í fyrstu, en það er að líða hjá núna“.

Sárlasinn (l)  Mikið veikur; með bölvaða lumbru.  „Maður er bara búinn að vera sárlasinn eins og aumingi“.

Sárleiðast (s)  Leiðast mikið.  „Mér sárleiddist þennan tíma, enda óvanur að vera mikið að heiman“.

Sárleiður (l)  Mjög leiður/vonsvikinn/niðurdreginn.  „Hann var sárleiður yfir þessu; sem vonlegt var“.

Sárlúinn (l)  Mjög þreyttur; dauðuppgefinn.  „Ertu ekki sárlúinn eftir þessar eltur“?

Sármóðga (s)  Móðga/særa mikið.  „Ég er hræddur um að ég hafi sármóðgað hann með þessari athugasemd“.

Sármóðgaður (l)  Mjög móðgaður/fúll; finnst mjög að sér vegið.  „Hann er sármóðagður við formanninn“.

Sárna (s)  Verða móðgaður/sár/dapur/fúll.  „Manni getur nú sárnað svona ummæli“!

Sárnauðugur (l)  Mjög nauðugur; tilneyddur.  „Ég gerði þetta sárnauðugur“.

Sáróánægður (l)  Mjög óánægður/ósáttur.  „Alveg er ég sáróánægður með niðurstöðuna í þessu máli“.

Sárreiður (l)  Mjög reiður; særður og reiður.  „Ég viðurkenni að ég varð sárreiður yfir þessari framkomu“.  „Sannleikanum verður hver sárreiðastur“.

Sársaukafullt (l)  Sárt; meiðandi.  „Þetta var ekki svo mjög sársaukafullt“.

Sársaukalaust (l)  Að meinalausu; án sárinda/skaða.  „Það er alveg sársaukalaust að minni hálfu þó ég fari ekki með í þennan róður.  Ég hef alveg nóg annað að gera þessa stundina“.

Sársauki (n, kk)  Verkur; sár tilfinning.  „Það olli mér nokkrum sársauka að hreyfa fótinn fyrst á eftir“.

Sársjúkur (l)  Mjög mikið veikur. 

Sársoltinn / Sársvangur  (l)  Banhungraður; mjög svangur. 

Sárt um (orðtak)  Vænt um; kært.  „Honum var sárt um hnífinn og lét hann helst ekki í hendur á öðrum“.  „Bölvaður klaufaskapur að tapa húfunni; mér var sérlega sárt um han,  því hún var hlýrri en hin“.

Sárt bítur soltin lús (orðtatiltæki)  Þessi bitra reynsla frá tímum lúsarinnar er gjarnan yfirfærð á mannlega hegðun.  Aðþrengdur maður getur t.d. gripið til ýmiskonar örþrifaráða og reynst öðrum leiður.

Sárt ertu (nú) leikinn Sámur fóstri (orðatiltæki)  Illa hefur nú verið farið með þig/það.  Tilvísun í Njálu, en er oftlega viðhaft þegar mönnum rennur til rifja meðferð á einhverju/einhverjum.

Sárt til þess að hugsa/vita (orðtak)  Þungbært að hugsa/vita um.  „Það er sárt til þess að hugsa að þetta skuli ekki hafa varðveist“.

Sárverkja (s) Finna mikið til; vera kvalinn.  „Mig sárverkjaði í öxlina eftir steinkastið, en harkaði þó af mér“.

Sárþjakaður / Sárþjáður (l)  Mjög kvalinn; finnur mikið til.  „Hann er fjanakornið ekki sárþjáður eftir byltuna fyrst hann getur rifið kjaft við þá, þrjá í einu“.

Sárþráður (l)  Sem mjög/lengi hefur verið þráður. 

Sárþreyttur (l)  Svo þreyttur að verkjar; örþreyttur.  „Við erum komnir í áfangastað eftir 8 klst ferð; sárþreyttir“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Sárþyrstur (l)  Mjög þyrstur.  „Svo sárþyrstur var ég orðinn að vatnið í Ormatjörninni var sem svaladrykkur“.

Sáröfunda (s)  Öfunda mjög mikið; sjá miklum ofsjónum yfir.  „Ég sáröfunda hann af þessum einkunnum“.

Sást ekki högg á vatni (orðtak)  Munaði ekkert um; sást alls ekki að af hefði verið tekið.  „Ég var búinn að ausa töluvert upp úr fjárhúskjallaranum, en það sást ekki högg á vatni“.

Sáta (n, kvk)  Baggi/kös af heyi.  „Þegar heyið var þurrt var það bundið í sátur og keyrt heim á hestvagni, eða borið þaðan sem styst var“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Sátt (n, kvk)  Samkomulag; friður.  „Við náðum sátt um þetta deilumál“.

Sáttaboð (n, hk)  Boð um sátt/sættir.

Sáttanefnd (n, kvk)  Nokkurskonar réttur sem starfaði innan hvers hrepps, samkvæmt kóngsins tilskipun frá 1795; allt til ársins 1981, að sáttanefndir voru lagðar niður.  Öll deilumál þurftu að fara fyrir sáttanefnd áður en unnt væri að höfða um þær dómsmál.  Í sáttanefnd sátu prestur og annar trúverðugur maður.

Sáttanefndarmaður (n, kk)  Sá sem situr í sáttanefnd hrepps.  „Einar yngri var m.a. sáttanefndarmaður, en því starfi hafði faðir hans einnig gegnt“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Sáttarhugur / Sáttarhönd / Sáttavilji / Sáttfýsi (n, kk/kvk)  Hugur/vilji til sátta í deilumáli.  „Í fyrstu var enginn sáttarhugur í honum, en eftir nokkra umhugsun rétti hann mér samt sáttarhönd“.

Sáttasemjari (n, kk)  Sá sem gengst fyrir sáttum í deilumáli; milligöngumaður.

Sáttfús (l) Fús/viljugur til sátta.

Sáttur (l)   Sammála; ánægður með.  „Ég er alveg sáttur við þessa tilhögun“.   

Sátubotn (n, kk)  Galtabotn; neðsta lag galta eða sátu.  Tekur oft raka úr jörðinni við langa stöðu og þá myndast gjarnan einhver mygla eða frugga í honum, sem slá þarf úr þegar galtinn er breiddur eða hirtur.

Sátugat (n, hk)  Töðugat; op til að setja heyi í hlöðu/jötu.  „Það hefur fokið frá sátugatinu á hlöðunni“.

Sátur (n, hk)  A.  Fiskimið; veiðislóð; legustaður skips sem liggur við festar.  Ekki mikið notað í seinni tíð.  Sjá súgur í sátri.  B.  Líkingamál um aðsetursstað, t.d. stað þar sem legið er við í fygling/eggjaferðum.  C.  Spólur í kyrra hluta rafals/rafmótors.

Sáturvaf / Sáturspóla (n, hk)  Spóla í belg/ kyrra hluta rafals/rafmótors.

Seðill (n, kk)  A.  Stakt blað/bréf; bréflappi; snepill; t.d. kjörseðill.  B. Peningaseðill.

Seðja sárasta hungrið (orðtak)  Borða til að verða ekki eins banhungraður og áður. 

Seðlabúnt / Seðlafúlga / Seðlahrúga (n, hk)  Bunki/mikið af seðlum.  „Þetta kostar víst einhver seðlabúntin“!

Sef / Sefgresi (n, hk)  Gróft, loðið gras; oftast að uppistöðu þráðsef.  „Þarna á nefinu var loðið sefgresi... “  (ÁH; Útkall við Látrabjarg).  Sjá þráðsef.  Sef er nafn á dýi sem nú hefur verið ræst fram, neðan gamla Láganúpstúnsins.  Þar var kindum hætt, enda sóttu þær mjög í gróðurinn.  Sagt var að kýr mjólkuðu sérlega vel af sefgresi.  Hinsvegar þyrftu þær að hafa annað fóður með, til að halda holdum.

Sefgrænt (l) Heiti á grænu litarafbrigði.  Heyrist lítið notað í seinni tíð, enda þjóðin nú fjarlægari öllu sefi.

Sefa (s)  Róa; hugga.  „Mér tókst að sefa barnsgrátinn eftir nokkrar fortölur“.

Sefönd (n, kvk)  Annað heiti á flórgoða sem notað var m.a. í Kollsvík.

Segðu ekki meir! / Þú þarft ekkert að segja meir! / Þú þarft ekkert að segja mér um það! (orðtök)  Upphrópun; viðbragð einhvers við tali annars.  Merkir oftast undirtektir; að viðmælandi þurfi ekki að skýra málið meira til sannfæringar.  „Já segðu ekki meir!  Ætli ég kannist ekki við þessar tiltektir þeirra“!

Seggur (n, kk)   Maður.  Í dag oftast notað í niðrandi merkingu; óróaseggur; nautnaseggur, en einnig sjálfstætt:  „Hann verður að standa sjálfur fyrir máli sínu, árans seggurinn“!

Segin saga (orðtak)  Bregst ekki; venja.  „Það er segin saga að tíkin þarf að spræna í hvert hjól á pósbílnum“.

Segir ekki mikið (orðtak)  Munar ekki mikið um; er ekki mikið.  „Mitt framlag segir kannski ekki mikið, en það hjálpar ef allir leggjast á eitt“.

Segir fátt af einum (orðatiltæki)  Vísar til þess að einn maður á ferð er í mun meiri áhættu en ef fleiri eru; t.d. með að láta vita af sér eða kalla til aðstoð ef eitthvað kemur uppá.

Segir fyrir (orðtak)  Um feigð.  Í eiginlegri merkingu var þetta haft um feigðarboða, t.d. drauma.  Mun algengara þó í óeiginlegri merkingu:  Sagt var að þeim manni væri farið að segja fyrir sem tók upp á einhverju óvæntu.  „Nú hlýtur honum að vera farið að segja fyrir; kominn á ról svo snemma morguns“.

Segja af eða á (orðtak)  Ákveða; gera upp hug sinn.  „Hann verður að segja af eða á um þetta“.

Segja allt af létta (orðtak)  Segja alla frásögnina/söguna, án þess að draga nokkuð undan; létta á huga sínum.  „Lýðir þá af langferðinni leita frétta./  Eigi tér hann allt af létta“  (JR; Rósarímur). 

Segja berum orðum / Segja (hlutina) hreint út / Segja umbúðalaust/vafningalaust (orðtak)  Segja það sem manni býr í brjósti án málalenginga/ án þess ð fara krókaleiðir að því.  „Þú ættir bara að segja þetta berum orðum, en ekki vera að dylgja um það“!  „Hún sagði honum vafningalaust að sér væri nóg boðið“.

Segja eftir (orðtak)  Hafa eftir; vitna í.  „Hann sagði það eftir hreppstjóranum að þessi mál væru leyst“.

Segja (eitthvað) gott að sinni / Segja (eitthvað) gott í dag (orðtak)  Láta gott heita; hætta að gera/vinna; telja nægilegt.  „Ætli við segjum þetta ekki gott að sinni.  Við höldum svo áfram á morgun“.

Segja lausu (orðtak)  Segja upp; segja sig frá; hætta; skiljast við.  „Ég sagði starfinu lausu um áramót“.

Segir lítið / Hefur lítið að segja (orðtök)  Hefur lítinn tilgang; er ekki nóg.  „Þessi aðstoð segir kannski lítið, en meira get ég ekki núna“.  „Það hefur lítið að segja þó maður reyni að skamma þá á framboðsfundum“.

Segir nú ekki frá/af... fyrr en (orðtak)  Algengur frásagnarmáti til að brúa tíma í frásögn, eða skipta um svið.  „Segir nú ekki frá því fyrr en árið eftir; það var fermingarárið mitt“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Segir sig sjálft (orðtak)  Þarf ekki útskýringa við; þarf ekki að útskýra frekar.  „Það segir sig sjálft að enginn óvitlaus fer í róður í þessu veðurútliti“.

Segir svo hugur um (orðtak)  Grunar; hefur á tilfinningunni.  „Mér segir svo hugur um að þessar kindur séu farnar til síns heima, og tilgangslaust að leita þeirra hér“.

Segir til sín (orðtak)  Lætur vita af sér; kemur í koll; hefur að segja.  „Ég verð nú aðeins að tylla mér; aldurinn og vaxtarlagið segir dálítið til sín þegar maður gengur svona skarpt á brekkuna“.

Segja (s)  A.  Tala; tjá; orða.  „Ég heyrði ekki hvað þú varst að segja“.  B.  Greina frá; búa til sögu; flytja fréttir.  „Sagan segir að í Biskupsþúfu hafi Kollur fólgið vopn sín og sjóði“. 

Segja af eða á um (orðtak)  Ákveða; taka af skarið.  „Ég get ekki sagt af eða á um hvort það hafi einhver verið lifandi þarna um borð“  (Björgvin Sigurbjörnsson um Sargon-strandið; Útkall við Látrabjarg).

Segja afdráttarlaust/umbúðalaust / Segja fullum fetum (orðtak)  Fullyrða; draga ekkert undan.  „Ég sagði þeim mína skoðun á þessu; fullum fetum“.

Segja ekki bofs / Segja ekki neitt / Segja ekki orð (orðtök)  Þegja; láta ekkert uppi; svara ekki.  „Hann sagði ekki bofs við þessu“.  „Ég segi ekki neitt um þetta“.  „Og þið vissuð af þessu en sögðuð ekki orð“!

Segja farir sínar ekki sléttar (orðtak)  Segja frá slæmri reynslu sinni; segja frá því sem illa hefur gengið hjá manni.  „Hann kom móður og másandi uppá brúnina; fötulaus, og sagði farir sínar ekki sléttar“.

Segja fullum fetum / Segja hreint út (orðtak)  Segja skýrt en ekki undir rós; draga ekki undan í frásögn.  „Ég get sagt mína skoðun á þessu fullum fetum og við hvern sem er“!  B.  „Ég sagði honum þetta hreint út“.

Segja fyrir (orðtak)  A.  Segja fyrir verkum; skipa fyrir um verk.  „Hann verður að segja fyrir um skipulagið á þessu“.  B.  Spá fyrir.  „Hann hafði sagt fyrir um þennan atburð“.  C.  Vera feigur; vera dauðans matur.  „Ég er hræddur um að nú sé honum farið að segja fyrir; þetta er svo óvanalegt af honum“.

Segja fyrir verkum (orðtak)  Verkstýra; sjá um verkstjórn; skipa mönnum til verka.

Segja hvorki af né á (orðtak)  Vera hvorki hrár né soðinn; vera á báðum áttum; ákveða sig ekki.  „Hann sagði hvorki af né á um sínar skoðanir á þessu“.

Segja í óspurðum fréttum (orðtak)  Segja án þess að um sé spurt; segja frá að fyrra bragði.  „Hann sagði mér í óspurðum fréttum að þetta hjónaband væri fyrir bí“.

Segja sem svo / Setja (sem) svo (orðtak)  Gefa sér; ganga útfrá; miða við.  „Segjum nú sem svo að Landnáma hfi rétt fyrir sér um þetta; en er það ekki lygileg tilviljun að Ármóður hinn rauði skuli hafa akkúrat rammað á þennan rauða ægisand“?  „Setjum svo að þú fáir bátinn nú lánaðan á laugardaginn; það er ekki þar með sagt að þessi bjarglega haldist þangað til“.

Segja sér til afsökunar/afbötunar (orðtak)  Segja til skýringar/málsbóta á sinni yfirsjón/ávirðingu/töf.  „Hann er bara að segja þetta sér til afsökunar; ég legg lítinn trúnað á það“!

Segja sig frá (orðtak)  Hætta afskiptum af; segja lausu.  „Ég fer nú að segja mig frá þessu formannsstarfi“.

Segja sig til sveitar (orðtak)  Tilkynna hreppsnefnd að maður geti ekki séð sér eða sínum farborða og þurfi að þiggja framfæri af hreppssjóði.

Segja sisona / Segja tilsvona (orðtak)  Orða/segja þannig; láta falla orð í þá átt; segja sem dæmi.  „Ég segi nú bara sisona; þú þarft ekki að taka það alvarlega“. 

Segja sína meiningu (orðtak)  Segja það sem manni býr í brjósti; skamma; ryðja úr sér.  „Þarna þótti mér hann ósanngjarn, svo ég sagði honum alveg mína meiningu; umbúðalaust“.

Segja sínar farir ekki sléttar (orðtak)  Segja frá sínum hrakförum/óhöppum.  „Hann bar sig aumlega og sagði sínar farir ekki sléttar“.  Líkingin vísar til ósléttrar leiðar.

Segja skilið við (orðtak)  Slíta sambandi við; hætta samveru með; hætta afskiptum af.  „Sá sem einusinni hefur fest rætur í Kollsvíkinni segir ekki svo glatt skilið við hana, eins og dæmin sanna“.

Segja Spánarkonung dauðan (orðtak)  Leikur sem iðkaður var í Kollsvík fyrrum og líklega framundir miðja 20.öld, en orðasafnara er ekki kunnugt um leikreglur.  E.t.v. var um svipaðan orðaleik að ræða og „frúin í Hamborg“, þar sem kúnstin felst í að forðast að segja viss bannorð.  „Gengið var kring um jólatréð og sungnir sálmar og ýmsir söngvar.  Einnig var farið í leiki, svo sem að segja Spánarkonung dauðan o.fl. þess háttar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Segja til (orðtak)  A.  Leiðbeina.  „Segðu mér til þegar ég bakka vagninum að hlöðunni“.  B.  Segja í fréttum.  „Hvað segirðu til“?

Segja til (einhvers) (orðtak)  Segja hvar einhver er niðurkominn; kjafta frá.

Segja til sín (orðtak)  Finnast fyrir; sjást; vekja athygli.  „Aldurinn segir til sín þegar maður lendir í svona erfiðisvinnu“.  „Netið er orðið fjári gloppótt víða; það segir auðvitað til sín í veiðinni“.

Segja til sín í seinna verkinu / Hefna sín í seinna verkinu (orðtök)  Leiða til ófarnaðar síðar.  „Mér líst ekki á svona skyndiviðgerðir; það á eftir að segja til sín í seinna verkinu“.

Segja (einhverjum) til syndanna (orðtak)  Skamma; ávíta; veita ofanígjöf.  „Hún sagði þeim rækilega til syndanna“.  Vísar til presta áðurfyrr, sem létu ekkert tækifæri ónotað til að vara menn við logum helvítis og telja fólki trú um að það væri syndum hlaðið.

Segja til vegar (orðtak)  Leiðbeina; veita leiðsögn.  „Ég fór með þeim til að segja þeim til vegar“.

Segja undan og ofanaf (orðtak)  Segja óljóst/í meginatriðum frá; segja ekki alla söguna.  „Hann sagði undan og ofan af þessu og ætlar að segja alla sólarsöguna seinna“.

Segja upp (orðtak)  A.  Afsegja; hætta.  „Ég sagði upp í vinnunni“.  „Það þarf að segja þessum samningum upp“.  „Leigjandanum var sagt upp vistinni vegna óreglu“.  B.  Til forna; segja upp lög; túlka lög sem í gildi eru.

Segja verður sögu hverja eins og hún gengur til (orðatiltæki)  Sagnamaðurinn þarf að vera trúr sannleikanum (eða a.m.k. segjast/þykjast vera það).  „Segja hverja sögu má/ sem hún vísast gengur:/  Gjörist snemma hrundum hjá/ heimagöngull drengur“  (JR; Rósarímur).

Segja við (orðtak)  Segja um; bregðast við; andmæla; mótmæla.  Sögnin stýrir þá alltaf þágufalli.  „Þetta er leitt að heyra en það er víst lítið við þessu að segja“.  „Hún sagði ekkert við þessu“.

Segja það/þetta gott (orðtak)  Láta gott heita; telja komið nóg.  „Eigum við ekki að segja þetta gott í dag, þegar við erum búnir að draga þennan streng“?

Segja það sem (einhverjum) býr í brjósti (orðtak)  Segja skoðun sína; láta í ljósi vilja sinn.  „Mér fannst ég þurfa að segja henni það sem mér bjó í brjósti, þó ég vissi ekki fyrirfram hvernig hún kynni að taka því“.

Segja þvert nei (orðtak)  Neita alfarið; vera algerlega andvígur.  „Hann sagði þvert nei við þessu tilboði“.

Segjast frá (orðtak)  Segja frá; koma sögu/upplýsingum/fréttum til skila.  „Honum sagðist allt öðruvísi frá þessum atburðum en hinum.  Hann sagði að steinn hefði skoppað undir framhjólið, og við það hefði bíllinn kastast útí kantinn“.

Segjum/setjum sem svo... (orðtak)  Algengt upphaf setningar þegar verið er að lýsa því sem hugsanlega gæti orðið, eða ímynduðum aðstæðum.  „Setjum nú sem svo að við prílum þarna niður og fáum verulegt af eggjum.  Við værum þá engu bættari ef við erum ekki með næg ílát“.

Segl / Seglabúnaður  Segl voru notuð á bátum í Útvíknaverstöðvum.  Samkvæmt Jarðabókinni virðast Útvíkur hafa staðið framar flestum öðrum verstöðvum á landinu, hvað varðar seglanotkun um 1700; þar eru segl notuð í öllum útvíkum en hvergi er minnst á þau annarsstaðar á Vestfjörðum og einungis á örfáaum öðrum stöðum um landið.  Tekið er fram t.d. í Keflavík að útgerðareigandi vilji ekki láta vemenn sína hafa segl, þó þau væru til stórra bóta.  Ekki liggja fyrir óyggjandi heimildir um seglagerðir voru notaðar í víkunum.   Líkur eru þó á að þau hafi, a.m.k. framan af, verið þversegl á algengustu bátastærðum.  (Sjá sigling og seglfiskur).

Seglbátur (n, kk)  Bátur sem siglt er; bátur sem unnt er að sigla.

Seglbót (n, kvk)  Lítið segl; gæluorð um segl.

Seglbúa (s)  Reisa segl á báti.  „Þegar seglbúið var fylgdu því ýmiss konar fyrirskipanir formanns til háseta:  Setjið upp og greiðið úr seglum!  Tréreisið!  Takið til! ..“  (LK; Ísl. sjávarhættir III).  „Var nú ekki til setu boðið og tekið að seglbúa; sem óðar var búið, og sigling hafin“  (ÖG; Þokuróður). 

Seglbúnaður (n, kk)  Sá búnaður báts sem þarf til að unnt sé að sigla honum.

Segldúkur (n, kk)  A.  Efni í segl.  B.  Þéttofinn sterkur dúkur.

Seglfesta (n, kvk)  Kjölfesta/ballest í skip til að vega á móti átaki segla.  „Þegar seglfestu var skipað út var venjan að standa í röð og kasta steinum hver til annars...“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli). 

Seglfestulaus (l)  Með enga seglfestu/ballest.  „Eitt sinn höfðu nokkrir hinna djörfu vermanna á Látrum farið á skektu Jóns seglfestulausri inn á Eyrar í suðaustanroki“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð).

Seglfiskur (n, kk)  Fiskur sem tekinn er af óskiptum afla til að greiða fyrir leigu á segli.  „Meðan enn var ekki algengt að segl fylgdu skipum varð að venju í sumum verstöðvum að taka leigu í hvert skipti sem þau voru notuð.  Greiðslan fyrir seglið var vænsti fiskurinn úr hverjum róðri, tekinn af óskiptu“ (LK; Ísl.sjávarh. III).  Samkvæmt Jarðabókinni voru seglfiskar teknir í Láganúpsveri árið 1703 á skipi landeiganda, og leigði hann það af formanni bátsins.  Þar tíðkaðist hinsvegar ekki maðkafiskur eins og í Hænuvík.   Í Keflavík tímdi útgerðarmaðurinn Guðrún Eggertsdóttir ekki að láta leiguliða sína hafa segl.  Segla er ekki getið neinsstaðar á Vestfjörðum nema í Útvíkum á þessum tíma og á fáum stöðum öðrum á landinu.  „Lýng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi.  Þar er engin skipleiga. 1 skiphlutur.  Allur hlutur skiptist ex æqvo (til jafnaðar) þá skift verður. Seglfiskar.  Maðkafiskar engir“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Seglgarn (n, hk)  Tvinnað mjótt band, úr hampi í seinni tíð en áður úr hrosshári.  Notað í seglasaum fyrrum, en í ýmiskonar þarfabönd í seinni tíð.

Seglgarnshnota / Seglgarnsrjúpa / Seglgarnsrúlla (n, kvk)  Rúlla af seglgarni.  Oft undin þannig upp að holrúm var innaní, og þráðurinn dreginn útum gat úr því.  „Veistu eitthvað um seglgarnssrúlluna“?

Seglháls (n, kk)  Háls: neðra og fremra horn á segli (þversegli).  „Þar sem mætist neðsti hluti forjaðars og framendi undirjaðars er seglháls...“  (LK; Ísl. sjávarhættir II).

Segljaðar (n, kk)  Jaðar/lík segls.

Seglpoki (n, kk)  Sterkur poki úr seglalérefti eða svipuðu efni, oft notaður undir fatnað og annað til ferðalaga.

Seglskip (n, hk)  Skip sem knúið er áfram af krafti vinds, með seglum.  Menn hafa lengi notað segl til að knýja báta og stærri skip.  Einfaldasta gerð segls er þversegl, þar sem ferhyrnt segl er fest að ofanverðu í rá sem hífð er upp í siglutré/siglu, en fest að neðanverðu í borðstokka.  Skip landnámsmanna voru með þverseglum, og einnig flestir bátar sem róið hefur verið úr Kollsvík og öðrum verstöðvum.  Á síðari öldum urðu aðrar seglagerðir vinsælar.  Sigling skips með seglum er vandasöm, og menn voru misjafnlega góðir skipstjórnendur.  Um tíma rak Ólafur E. Thoroddsen skipstjórnarskóla í Vatnsdal og kenndi m.a. siglingu með seglum.  Seglskip liðu að mestu undir lok með tilkomu vélskipa.  Gerðir seglskipa voru margar; flokkaðar eftir skrokklagi, stærð, seglalagi og siglufjölda; má m.a. nefna þessar:  Kjölbátar voru t.d. gaflkæna julla, jakt, skúta, kútter, slúppa, bússa, djúnka, dugga.  Rásigld skip voru t.d. karavella, knörr, kuggur, barkantína, briggskip, brikantína og galías.  Hásigld skip voru m.a. góletta, húkkorta, korvetta og skonnorta.  Fullreiðaskip voru m.a. flauta, freigáta, galíon, klipper og línuskip.

Segltuska (n, kvk)  Gæluorð um segl.

Segulhvolf (n, hk)  Ósýnilegur hjúpur sem Jörðin og fleiri reikistjörnur hafa um sig, og stafar af virkni í kjarna þeirra vegna iðustrauma og möndulsnúnings.  Það virkar að mörgu leyti líkt og segulsvið kringum segul og hefur m.a. áhrif á rafhlaðnar eindir og segulnæma málma.  Segulsvið jarðar er líkt og kleinuhringur í lögun; þykkast yfir miðbaug en þynnst við pólana.  Sólvindurinn; þ.e. rafhlaðnar agnir frá sólinni, hefur þau áhrif að segulhvolf jarðar teygist frá henni skuggamegin.  Segulsviðið leiðir hinsvegar sólvindinn að skautunum og þar birtist agnastraumurinn okkur sem norðurljós.  Ef ekki væri fyrir þessi verndandi áhrif segulhvolfsins væri líklega ekki líf á jörðinni.

Seguljárnsteinn (n, kk)  Magnetít; járnoxíð; Fe3O4.  Dökkbrún eða svört frumsteind í gosbergi; harka 5,5.  Næstalgengasta steindin í basísku bergi á eftir sílíkati.  Gosberg oxast hratt í snertingu við andrúmsloft, og kristallast.  Lítil vatnsgufa í lofti veldur því að magnetítgjall verður svart, og við enn hraðari oxun myndast hematít, eða rautt gjall.  Rauð millilög í bergstaflanum, t.d. á Vestfjörðum, mynduðust á hlýskeiðum í jarðsögunni; við oxun járnsteinda í gjósku.  Þegar bergkvika storknar segulmagnast magnetít, þannig að kristallarnir verða eins og urmull segla sem snúa skautum að segulpólum.  Eftir storknun helst þessi segulmögnun.  Því er unnt að lesa úr berginu stöðu segulpóla á gostíma, og pólveltur sem orðið hafa.  Þar sem seguljárnsteinn er í miklu magni í jarðskorpunni er hann unninn; t.d. í Kiruna í Svíþjóð.  Seguljárnsteinn er í bergi í Kollsvík, m.a. áberandi í rauðum millilögum.  Þá er hann áberandi í gangbergi, t.d. í Strengbergsgjá.

Segulkveikja (n, kvk)  Magnettukveikja (sjá þar).

Segulnagli (n, kk)  Sigurnagli, sjá þar.  Samsetningarbúnaður á línu, t.d. skakfæri, til að ekki myndist álag á línuna þegar snýst uppá hana.  Líklega er „segulnagli“ upphaflegt heiti, þar sem engu er líkara en segulkraftur haldi augunum saman.  Heitið „sigurnagli“ hefur hinsvegar orðið lífseigara, a.m.k. í Kollsvík.

Segulnál (n, kvk)  Segulmögnuð nál í áttavita/kompás.

Segulnorður / Segulpóll / Segulskaut (n, hk)  Segulskaut jarðar er sá staður sem áttavitanál vísar til.  Segulskautin tvö eru ekki það sömu punktar og landfræðileg norður- og suðurskaut; þar munar segulskekkjunni.  Norðara segulskautið er þannig nokkru norðanvið austanvert Kanada, en færist til með tímanum.

Segulskekkja (n, kvk)  Misvísun; mismunur í gráðum á stefnu áttavitanálar sem bendir á segulpól/segulskaut og stefnu á hinn landfræðilega pól, sem jarðarsnúningur er um.  Segulskekkja er því mismunandi eftir því hvar maður er staddur.  Hún er einnig misvísandi eftir tímum, því segulskautið flakkar nokkuð frá ári til árs.  Misvísun á Íslandi getur numið tugum gráða.

Seiða (s)  A.  Laða að með seið/göldrum.  „Einhvernvegin tekst honum að seiða til sín veiði, þó ördeyða sé hjá öðrum“!  B.  Sjóða.  „Kollsvíkingnum Trausta Ólafssyni tókst að seiða gull úr grjótmola úr Esjunni“.

Seiði (n, hk)  A.  Afkvæmi fisks.  „Össur og Ingvar fengu seiði sem þeir slepptu í Litlavatn og Stóravatn.  Seiðin komu í plastpokum með lítilli flugvél sem lenti á Fitinni neðan Láganúps“.  B.  Lítill fiskur. 

Seigdrepa (s)  Drepa hægt.  „Helvítis stofnanavæðingin er að seigdrepa allt framtak og alla menningu“!

Seigdrepandi (l)  Hægdrepandi; banvænt með tímanum.  „Þetta eilífa sinfóníugarg finnst mér seigdrepandi“.

Seigja (n, kvk)  A.  Úthald; þrautseigja.  „Það er seigja í stráknum“!  B.  Sá eiginleiki efnis að veita mótstöðu en gefa samt eftir og svigna/bogna við mikið átak

Seigla (n, kvk)  Úthald; þrautseigja.  „Andrés var búinn seiglu og kjarki í ríkum mæli...“  (ÖG; minningargrein um AK).

Seiglast (s)  Vera úthaldsgóður; halda út; þrjóskast.  „Það er mesta furða hvað hann seiglast enn við þetta“.

Seiglingsátak / Seiglingsbarátta / Seiglingserfiði / Seiglingspuð / Seiglingsvinna (n, hk/kvk)  Töluvert átak/erfiði/puð; allmikil barátta/vinna.  „Það var seiglingsátak hjá okkur þremur að hífa hann síðasta spölinn“.  „Það er seiglingspuð að ná bjórnum af þessum Hlíðalömbum“.

Seiglingsdrjúgur (l)  Alldrjúgur; allmikill; nokkuð mikill.  „Við ættum nú að fara að hafa uppi; það er seiglingsdrjúg sigling í land“.  „Alltaf er hann jafn seiglingsdrjúgur á fótinn, blessaður dalurinn“.

Seiglingsgóður (l)  Nokkuð góður; furðu góður. „Ég held að maður hafi bara fengið þarna seiglingsgóðan jeppa fyrir þetta verð“.

Seiglingslangur / Seiglingsmikill (l)  Nokkuð/furðu langur/mikill.  „Þeir eru seiglingslangir lásarnir í Stóðin.  Maður er þreyttur eftir eina niðurferð“.  „Þetta er bara seiglingsmikill afli á einum degi“. 

Seiglingskippur (n, kk)  Nokkuð löng sigling.  „Heldurðu að við höfum nóg bensín?  Það er seiglingskippur niður á dýpri Skeggja“.

Seiglingsslatti (n, kk)  Allnokkuð magn; dágóður slatti.  „Þeir fengu seiglingsslatta í róðrinum“.

Seiglingsspotti / Seiglingsspölur (n, kk)  Nokkuð drjúg vegalengd; alllangt.  „Þetta er seiglingsspotti þarna inná brúnina“.  „Fáðu þér nú vel að éta áðuren þú ferð; það er seiglingsspölur innyfir heiðina“.

Seiglingur (n, kk)  Töluvert; allmikið.  „Það er seiglingur eftir enn þangað til við erum komnir á brún“.

Seiglumaður (n, kk)  Maður sem er þolinn/seigur; úthaldsmikill. 

Seigmeltur (l)  Tormeltur; erfitt að melta.  „Það má slæða þessu í sig, en þetta er seigmeltur andskoti“!

Seigmilk (l)  Um kýr; selur illa; erfitt/seinlegt að mjólka.  „Nótt er sérvitur og seigmilk fyrir ókunnuga“.

Seigt og bítandi (orðtak)  Hægt en örugglega.  „Það var seinlegt að handmoka veginn upp Kinnina, en seigt og bítandi hafðist það á endanum“.

Seigur (l)  A.  Um mat; erfitt að tyggja.  „Ári er hákarlinn seigur“.  B.  Um mann; úthaldsmikill; þolinn; snjall.  „Þetta er ótrúlega seigur náungi“.

Seigt undir tönn (orðtak)  Um mat; erfitt að tyggja/ vinna á.  „Harðfiskurinn var seigur undir tönn“.

Seil (n, kvk)  Fiskseil.  Seilað var út fiski til að ofhlaða ekki bát eða til að létta hann við lendingu.  Kippan var þá dregin á eftir bátnum í land og dregin á höndum í fjöru.  Þegar seilað var var fiskurinn bundinn í kippu á sérstakan hátt.  Til þess var notuð seilarnál sem oft var úr hvalbeini; á hana hana var brugðiðseilaról sem lengst af var úr leðri af nautssvíra.  Ýmist var festur seilarhnappur á neðri enda ólarinnar eða bundinn var á hana fyrsti fiskurinn og hinir þræddir á eftir.  „Í Víkum vestur var nálinni stungið undir kjálka og út um munn á þorski, og eins á flyðru.  Annars var hún og steinbítur oft þrædd í gegnum augun“   (LK; Ísl. sjávarhættir IV).   Þegar róið var með seilar í land voru þær bundnar á langbandið og lágu þétt utan á skipshliðinni.

Seil (n, kvk)  Forarseil, dýjaseil; kelda.  Dýjasvæði í mýrlendi þar sem var mikil hálffljótandi gróðurþekja og/eða mýramór og mikill vatnsagi sem gerði þetta illfært yfirferðar og hættulegt fyrir skepnur.  Seilar eru margar í Kollsvík, en voru mun fleiri fyrir daga framræsluskurða.  „Kýr voru reknar niður fyrir Gjótseil.  Hún lá út í fenið sem Bugadý var í...  Fyrir neðan Skolladý er Breiðaseil; sytra sem rann úr dýjum sunnan við hólinn...  Norðan við Uxadýsál er ófæruseil sem nefnd er Svartaseil“  (Örnefnaskrár Kollsvíkur og Láganúps).  „Síðan hefur aldrei staðið þar garðurinn.  Við höfum ekki hátt um það að þar var seil; það er svona neðanmáls“  (SG; Skessan og séra Jón; Matarvenjur; Þjhd.Þjms)  Orðið seil virðist ekki hafa verið notað annarsstaðar í þessari merkingu og finnst ekki þannig í orðabókum.

Seila / Seila út (s/orðtak)  „Fyrir kom að svo mikið fiskaðist að seilað var, eða fiskurinn dreginn upp á línu; allri kippunni síðan varpað í sjóinn en tryggilega fest við bátinn og síðan dregin að landi“  (GÖ; minningabrot frá Láganúpi)  Þetta var gert til að létta bátana fyrir landtöku einkum ef lending þótti varasöm eða illa stóð á sjó.  „Seila menn allan fenginn út, og flytja so skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi, og setja þau þar upp“  (ÁM/PV; Jarðabók).  „Þegar komið er að landi er fiskur seilaður á burðarólar; venjulega 20 fiskar á áol.  Það þótti hæfileg byrði af lóðafiski, til að ber til ruðnings.  Aftur á móti aðeins 10 steinbítar á ól.  Það fór eftir afla hve margar ferðir komu á mann.  100 fiskar í róðri þótti tregur afli, en 200 og meira góður afli. ... Oft lagði þá báru að seila þurfti fiskinn á floti og láta seilarnar útbyrðis; jafnvel setja þær á streng, til þess að vera laus við þær meðan bátnum var brýnt úr sjó... Ólarnar með fiskinum voru dregnar að landi og bjargað úr sjó.  síðan voru þær annað hvort bornar til ruðnings eða hver maður tók eina byrði og dróa hana til ruðnings upp eftir Búðalæknum“ (KJK; Kollsvíkurver).  „Á leið í land er fiskurinn seilaður; þ.e. þræddur upp á seilarólina.  Hún var úr tvöföldu gömlu færi; með tréhnapp á öðrum enda; stór nál úr hvalbeini þrædd á hinn endann; nálinni stungið undir kjálkann og 25 fiskar fara á hverja ól.  Þegar kemur upp á Lægið er talið vissara að seila út, sem kallað er; það er að kasta ólunum út og binda þær í endann á legustrengnum; láta hann svo rekjast út um leið og lent er“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Seilað (l)  Um mikið fiskirí; fullt net; stendur á hverju járni á slóða/lóð.   „Nei, gáðu nú að!  Það er bara seilað í bláendann á netinu; uppi í harðalandi.  Ég skal bara segja ykkur það“! 

Seilarmaður (n, kk)  Maður sem stekkur fyrstur í land þegar landtaka er slæm, og dregur fiskseilar í land áður en báti er lent.  „Seilin er sett á streng; síðan beðið eftir lagi; manni sleppt á land með enda seilarlínunnar sem bundin er um annan handlegg hans.  Var það gert til að hann hefði báðar hendur lausar, því illt er að fóta sig í stórgrýtinu ef næsta lag náði honum áður en upp var komið.  Maður sá var kallaður seilarmaður.  Hann varð að vera bæði frískur og fótviss.  Átti hann síðan að draga upp seilina og kasta henni í ruðninginn meðan hinir fóru með bátinn út á rifið og settu hann“  (PJ;  Barðstrendingabók; Vorróðrar á Hvallátrum). 

Seilarnál (n, kvk)  Nál til að draga fisk upp á seil. „Seilarnál var oftast úr hvalbeini (helst kjálka) 20-25cm löng og að lögun svipuð skónál“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Seilarband / Seilaról (n, kvk)  Ól sem fiskur er seilaður uppá (sjá seila).  „Var svo brimróður tekinn, en er vantaði fáa metra í land þraut seilarbandið og þess vegna bar okkur lítið inn fyrir vörina“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Seilast (s)  Teygja sig.  „Ég seildist eftir hnífnum og skar á teininn“.

Seilast langt til (orðtak)  Draga handfæri með löngum togum, en þá er átt við gömlu færagerðina; áður en rúllur komu til.  Varð stundum mikill fyrirgangur hjá fiskimanni og öðrum bátsverjum hollast að vera ekki fyrir.  „Þar dró Polli og seildist langt til“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Seilast um hurð/hurðarás til lokunnar (orðtak)  Líkingamál; leggja mikið á sig í einhverjum tilgangi.  Líking við að teygja sig (lamamegin) gegnum læsta hurðina til að taka hana úr lás.  Heyrðist ekki oft notað, en brá þó fyrir.

Seilastrengur (n, kk)  Strengur sem seil/seilaról, ein eða fleiri, er bundin í, þegar seilað er út.  Í seinni tíð var seilað þannig út að seilin var bundin í langband í bátnum og hékk þannig utaná bátnum.  Fyrrum tíðkaðist að binda seilarnar við seilarstreng; varpa þeim í sjóinn framanvið lendingu; gefa strenginn út frá bátnum þegar lent er, og draga seilarnar síðan í land.  „Seila menn allan fenginn út og flytja so skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi, og setja þau þar upp.  ... Seilastrengi og seilarólar leggja skipeigendur til með skipunum“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Seiling (n, kvk)  A.  Seilingarhæð; frá jörðu og svo hátt sem meðalmaður nær að teygja fingurgómana upp fyrir sig.  „Rúm seiling er upp í ganginn, en hægt að klórast það fyrir lipran mann“.  B.  Það sem unnt er að ná til í kringum sig.  „Vissara er að hafa koppinn innan seilingar þegar maður er með ælupest“.

Seilingarfjarlægð / Seilingarhæð (n, kvk)  Sú fjarlægð/hæð/vegalengd sem maður getur lengst teygt höndina.  „Ég teygði mig eftgir spottaendanum, sem var í seilingarhæð“.

Seimahrund (n, kvk)  Kvenmannskenning í skáldskap.  „Þyrsklingur um þorskagrund/ þykir nauðatregur./  Sá hefur fiplað seimahrund/ sem að fyrstur dregur“ (gömul vísa; höfundur ókunnur).

Seinagangur (n, kk)  Hæglæti; seinfærni; tafir.  „Ég þoli illa þennan seinagang við að hefja verkin“.

Seinastliðinn (l)  Síðastliðinn.  „Ég hitti hann seinastliðinn föstudag“.

Seinbakað (l)  Bakast hægt.  „Rúgbrauð er fremur seinbakað; einkum í stóru íláti“.

Seindrepandi (l)  Sem drepur hægt.  „Krabbamein getur verið seindrepandi og kvalafullur sjúkdómur“.

Seinekið / Seinfarið / Seingengið (l)  Um veg eða leið sem er torsótt; ekki unnt að aka/fara hratt.  „Það var þæfingur á Fjörunum og seinekið“.  „Hægt er að komast um fjöruna fyrir Breið, en sú leið er stórgrýtt og því seinfarin“.

Seinfær (l)  Svifaseinn; hægur í hreyfingum; hægfara.  „Féð var orðið lúið og seinfært, og því gekk reksturinn hægt“.

Seinhentur (l)  Hægur í hreyfingum; handaseinn; stirður.  „Ég var nokkuð snöggur að hækla hvern dilk á árum áður, en eflaust væri maður seinhentari og stirðari núna“.

Seinheppinn (l)  Ekki heppinn; óheppinn; ólánssamur. 

Seinka (s)  Verða/gera seinni; valda seinkun; verða seinni fyrir.  „Honum seinkaði aðeins, svo við settum fundinn án hans“.  „Nú hefur klukkan seinkað sér dálítið“.

Seinkun (n, kvk)  Töf; það að seinka.  „Mér finnst nokkur seinkun hafa orðið á þessu“.

Seinlega (ao)  Hægt; treglega.  „Heldur finnst mér seinlega ganga með að klára þetta“.

Seinlegt (l)  Hægt; seint; svifaseint.  „Best var að nota grænsápu til að hreinsa prentsvertu af hveitipokum áður en þeir voru nýttir, t.d. í lök; en seinlegt var það“.

Seinlesið (l)  Ekki unnt að lesa hratt.  „Þetta hrafnaspark en afskaplega seinlesið“!

Seinlært (l)  Sem seinlegt/erfitt er að læra.  „Mér fannst þessi árans algebra dálítið seinlærð“.

Seinlæs (l)  Sem les hægt; sem er ekki vel læs; treglæs.  „Strákurinn er farinn að stauta sæmilega, miðað við aldur, þó hann sé dálítið seinlæs ennþá“.

Seinlæti (n, hk)  Hæglæti; slóðaskapur; seinfærni; droll.  „Skelfingar seinlæti er þetta nú hjá þeim“!

Seinmæltur (l)  Talar hægt.  „Hann var fremur seinmæltur, en kvað fast að  og ígrundaði hvert orð“.

Seinn (l)  A.  Seinlátur; hægfara; síðbúinn.  „Ég varð dálítið sein fyrir með matinn“.  B.  Um tímasetningu.  „Við komum ekki til baka fyrr en seint á degi“.

Seinn til gangs / Seinn á fæti / Þungur á sér / Þungur á fæti (orðtök)  Ekki hraðgengur/léttstígur.  „Maður er orðinn seinni til gangs núna en áður var“.

Seinn til svars (orðtak)  Svarar seint; er ekki fljótur að svara.  „Hann var seinn til svars og ég fann að honum var vandi á höndum“.  „Móðir mín var sein til svars“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Seinn á sér (orðtak)  Seinlátur; handaseinn.  Oftast í viðsnúinni merkingu:  „Ég var ekki seinn á mér að rota steinbítinn þegar hann kom inní bátinn“.

Seinn fyrir (orðtak)  Síðbúinn.  „Ég varð heldur seinn fyrir, svo fyrsta féð úr Fjarðarhorninu náði að komast upp í Flosagjá“.

Seinna, segir sá lati (orðatiltæki)  Auðskilið orðtak og viðhaft af þeim sem þykir annar latur, eða viðbrögð við tillögum einhvers um að fresta verkum.

Seinna/síðar meir / Seinnameir / Síðarmeir (orðtak/ao)  Síðar; þegar frá líður.  „Við getum lagað réttarhliðið seinna meir; nú þurfum við að koma fénu inná túnið“.

Seinna varp (orðtak)  Eftir að fyrstu eggjaferðum á vorin lauk var stundum farið aftur síðar, og kallað að fara í seinna varp.  Ýmist hafði þá fuglinn verpta aftur eða annar fugl í sama eggplássi.

Seinnameir / Síðarmeir / Seinna meir (ao/orðtak)  Síðar; seinna.  „Ekki henda þessu; það getur verið gott að eiga ílát seinnameir“.  Oftast notað sem eitt orð væri.

  „Þú gætir nú kannski séð þetta í öðru ljósi síðarmeir, þó þér finnist þetta núna“.

Seinni blessunin (n, kvk)  Síðari hluti verks/athafnar.  „Við verðum líklega ekki komnir á þessi mið á snúningnum, en við náum kannski seinni blessuninni á niðurslættinum“.

Seinni slátrun (orðtak)  Samtíningur; síðari sauðfjárslátrun eftir aðalslátrun og síðari smölun að hausti. 

Seinnismölun (n, kvk)  Smölun/göngur/eftirleitir eftir fyrri smölun og réttir.  „Ætli við þurfum ekki að fara í seinnismölun á Bjargið.  Mig vantar enn þær sem ég vonaðist eftir af Geldingsskorardalnum“.

Seinnipartur (n, kk)  Síðari hluti dags.  „Seinnipart dags fór svo fólk að drífa að, vegna þess að jólatréð var núna á okkar heimili, og klukkan sex til sjö var kveikt á trénu“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).   „Eitthvað minnisstæðasta um pabba er þegar hann tók okkur með oft á sunnudögum út að Litlavatni og heim Hnífa.  Sérstaklega var það seinnipart sumra til að skoða féð; hvaða kindur við sæjum og hvað lömbin höfðu stækkað“  (IG; Æskuminningar).  „…og skyldi róið seinnipart sunnudags“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Seinnitími / Síðaritími (n, kk)  Tíminn sem síðar kemur.  „Við geymum þetta til seinnitíma“.  „Þetta er síðaritíma höfuðverkur“.

Seinrekið (l)  Um fjárrekstur; rekst ekki hratt.  „Féð var orðið þreytt og var því seinrekið síðasta spölinn“.

Seinsprottið (l)  Sprettur ekki hratt.  „Þessi kartöflutegund er fremur seinsprottin“.

Sint að byrgja brunninn (eftir að barnið er dottið ofaní) (orðatiltæki)  Sjá Of seint er að byrgja…

Seint á degi/nóttu (orðtak)  Síðla dags/nætur; síðdegis.

Seint birtist blámanns skinnið (orðatiltæki)  Dökk húð verður aldrei ljós, sama hve vel er þvegið.  „Hann er með þennan húðlit strákgreyið þó hann þvoi sér; seint birtist blámanns skinnið“!  Birtast merkir þarna lýsast.

Seint fullþakkað/ofþakkað (orðtak)  Seint nægjanlega vel þakkað fyrir; erfitt að þakka nægjanlega vel.  „Honum verður seint ofþakkað hans framlag í þessum efnum“.

Seint fyllast sálir prestanna / Seint fyllist sálin prestanna (orðatiltæki)  Viðhaft um það sem endalaust virðist geta tekið við, t.d. útgjöldum manns.  „Eru þeir enn að rukka fyrir þetta?  Ja, það verður ekki á þá logið; seint fyllast sálir prestanna“!  Sál merkir í þessu samhengi sekkur/skinnpoki, og spekin vísar til þess tíma þegar kirkjan lagði síauknar og þungar álögur á þegnana í formi ýmiskonar gjalda.  Prestar innheimtu, og þótti gjaldendum víst oft nóg um.  Fyrrgreinda mynd máltækisins er líklega sú rétta, en sú síðari heyrðist oftar í Kollsvík.  Sjá önnur orðtök af sama meiði; allt verður fyllt nema pokinn prestsins og flest étur svangur prestur og eins eru prestar og aðrir menn.

Seint fyrnast fornar ástir (orðatiltæki)  Maður man lengi það sem þeim honum var eitt sinn mjög kært.  Oft viðhaft, hvort heldur er um hluti eða manneskjur að ræða.  Einnig stundum í kaldhæðni:  „Seint fyrnast fornar ástir.  Þó þeir hafi ekki sést í áratug þá fundu þeir sér strax eitthvað deiluefni“!

Seint í rassinn gripið (þegar allt er komið í buxurnar) / Seint séð (orðtak)  Seint brugðist við þegar í óefni stefnir, og skaði jafnvel skeður.  „Það er heldur seint séð að vilja halda uppá þetta núna; ég var að kasta því í sjóinn“.  „Mér þykir nú dálítið seint í rassinn gripið að fara að smala þarna núna; þegar komið er fram í snjóa og frost“.  Í Kollsvík var stundum viðhöfð sú ending sem þarna er innan sviga, og gerir fyrrnefnda orðtakið auðskiljanlegt í vissu ljósi.  Sumir vilja þó ekki sjá þessa viðbót, og skýra orðtakið með líkingu við að maður falli fyrir borð á báti og menn verði og seinir til bjargar.

Seint koma heimskum hyggindi / Seint koma ósvinnum ráð í hug (orðatiltæki)  Hinn heimski er ekki líklegur til að taka gáfulegar ákvarðanir.  „Setti hann aftur bensín á dísilvélina?!  Ja seint koma heimskum hyggindi“!

Seint koma sumir, og koma þó (orðtak)  Um þann sem er seinn fyrir/ kemur seinna en vænst er. 

Seint og illa (orðtak)  Gegnsætt orðtak og nokkuð notað.  „Skuldin greiddist bæði seint og illa hjá honum“.

Seint og síðarmeir / Seint og um síðir (orðtak)  Um síðir; miklu seinna; of seint.  „Þeir komu ekki heim fyrr en seint og síðarmeir“.  „Seint og um síðir uppgötvaðist að taskan hafði gleymst heima“.

Seint verður á sögnum/sögum skortur (orðatiltæki)  Vísar til söguburðar/slúðurs; þess að menn hafa tilhneygingu til að skálda upp sögur ef sannleikurinn er ekki kunnugur eða hljómar síður krassandi. 

Seint mun hrafninn hvítur verða / Seint verður hrafninn hvítur (orðatiltæki)  Sá sem illa er innrættur mun síðar sýna eðli sitt, þó hann kunni að leyna því um stund.

Seint verður tófa trygg (orðatiltæki)  Vísar til þess að ekki er hægt að temja ref eins og hund.  Til þess er villidýrseðlið of sterkt.  Menn hafa iðulega tekið yrðlinga úr greni sem búið er að vinna og alið þá hjá sér.  Þeir geta orðið mjög spakir og hændir að manni; jafnvel elt fólk meðan þeir eru enn ungir.  En þegar þeir fullorðnast verður eðlishvötin sterkari og þá leggja þeir á fjöll, þó vissulega geti þeir átt það til að leita fremur að bæjum en aðrir refir.  Sú sögn er lífseig að refir sem aldir eru af mönnum leggist fremur á fé en aðrir.  Refaskyttur taka stundum yrðlinga og nota þá til að hæna ref í byssufæri.

Seintekinn (l)  A.  Um manneskju; seinn í viðkynningu.  „Þetta er viðkunnanlegur maður, en dálítið dulur og seintekinn“.  B.  Um heyskap, eggjatöku o.fl.  „Þegar töðuheyskapur var búinn var farið að slá Sláttumýrarnar, en þar var heyskapur seintekinn“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Töluvert er af fýlseggjum í Hnífunum, en þar er seintekið þar sem þau eru á stökum syllum“.

Seinvirkur (l)  Sem virkar hægt; sem byrjar ekki strax að verka.  „Þetta finnst mér alltof seinvirk aðferð“. 

Seinþroska (l)  Seinn til þroska; ekki bráðger.  „Þótti henni við krakkarnir heldur sinþroska þegar við afþökkuðum kaffið þegar við komum við hjá henni“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Seinþreyttur til vandræða (orðtak)  Sem forðast vandræði/vesen/ófrið.  „Þó ég sé yfirleitt seinþreyttur til vandræða þá getur maður illa þolað svonalagað andmælalaust“!

Seinþroska (l)  Seinn til eðlilegs þroska. 

Seisei (u)  Upphrópun eða hikorð; einatt sem andsvar við því sem annar segir.  Ýmist notað sjálfstætt til að býsnast yfir/ lýsa undrun yfir því sem sagt er, eða sem áhersla á játun eða neitun.  „Maður gat þetta auðveldlega fyrr á tíð; seisei já“!  „Seisei nei; þesslags hef ég aldrei kunnað“!

Seisingarhnútur (n, kk)  Sérstakur hnútur sem notaður var til að tengja tvo bjargvaði saman, enda í enda.  „Sérstakur hnútur var hafður í þessu skyni; svokallaður seisingarhnútur.  Voru þá endarnir báðumegin við hnútinn benslaðir með mjóu snæri eða seglgarni við vaðinn“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Sekkja (s)  Setja í poka/sekk; poka.  „Nú þyrftum við að fara að sekkja ullina“.

Sekkur (n, kk)  Poki; balli.  Á oftast við stóran poka.

Sekt (n, kvk)  A.  Sök; samviskubit.  B.  Bætur til samfélagsins fyrir lögbrot. 

Sekt bítur sekan (orðatiltæki)  Sekum manni líður oft illa af samviskubiti/eftirsjá. 

Sekta (s)  Leggja samfélagsbætur á einhvern fyrir lögbrot.

Sektarsvipur (n, kk)  Svipur sem bendir til sakar/sektar; skömmustulegur svipur.  „Tíkin tók við bitanum úr hendi hans með semingi, en leit síðan á mig með sektarsvip“.

Sektarkennd (n, kvk)  Skammartilfinning; samviskubit; mórall.  „Það er óþarfi að vera með einhverja sektarkennd yfir þessu; þetta var ekki með vilja gert“.

Sekur flýr þó enginn elti (orðatiltæki)  Sá sem veit uppá sig afbrot er einatt á verði.  Sjá sök bítur sekan.

Sel (n, hk)  Útihús sem allajafna eru nokkru frá viðkomandi býli, þar sem legið var við með kýr og fráfæruær í góðum bithögum; þær mjólkaðar og mjólkin unnin.  Síðasta sel í Rauðasandshreppi var á Seljadal ofan Látrabjargs; líklega aflagt í byrjun 20.aldar.  Þangað ráku Látrabændurnir þrír kýr sínar og fráfæruær í sumarbyrjun og höfðu hjá þeim hver sína selráðskonu.  „Fjós var sameiginlegt og rúmaði á seinustu tímum selsins fjórar kýr.  Selhús munu að jafnaði hafa verið tvö...  Selráðskonur mjöltuðu hver fyrir sig pening síns bónda og gerðu smjör og skyr.  Mjólk til heimilisnota og skyr var sótt daglega í selið.  Það aukastarf höfðu selráðskonur að hjálpa til við bjargsig milli mála, þá daga sem Látramenn voru í bjargi“  (MG; Látrabjarg).

Selalátur (n, hk)  Staður þar sem selir kæpa.  Bæjarnafnið Sellátranes er vafalítið kennt við selalátur; sem og Sellátrar í Tálknafirði.  Selalátur eru sumsstaðar í Rauðasandshreppi, t.d. við Bjargtanga og líklega einnig á Landamerkjahlein undir Breið.

Selaskytterí (n, hk)  Skotveiðar á sel.  Selur var gjarnan drepinn í Kollsvík öðru hvoru til matar.  Þó ekki á síðustu árum, enda fleiri matarholurnar nú en áður.

Selenskortur (n, kk)  Stíuskjögur; hörgulsjúkdómur sem einkum er þekktur í lömbum en einnig öðrum skepnum og fólki.  Hefur m.a. áhrif á starfsemi skjaldkirtilsins.  Lömb með stíuskjögur verða einkennilega stirð í hreyfingum og vilja helst liggja.  Ástæðan er oft innifóðrun fjár og skortur á kjarngóðu alhliða fóðri.  Meðhöndlun felst í selengjöf og verður bati fljótt ef snemma er brugðist við.

Selbiti (n, kk)  A.  Biti af selketi.  B.  Lítilsháttar högg sem veitt er með því að láta vísifingur eða löngutöng smella af þumalfingurgómi sömu handar.  Kallað að „gefa (einhverjum) selbita“.

Selflutningur (n, kk)  Forfæringar; flutningur einhvers í áföngum.  „Síðan hófst selflutningur eggjanna úr einum ganginum til annars; alla leið á brún“.

Selflytja (s)  Flytja/færa í áföngum, oft hluta flutnings í einu.  Líking við flutning í sel, meðan selstaða var.  „Síðan varð hann að fara margar ferðir upp og niður Bjargið og selflytja feng sinn á brún“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Selja (s)  A.  Láta af hendi gegn greiðslu.  B.  Um kú; mjólka greiðlega.  „Mjög er misjafnt hvort kýr selja vel eða illa; það fer bæði eftir kúnum og ástandi þeirra, en ekki síður eftir lagni mjaltamanns“.

Selja ekki dýrara en keypti (orðtak)  Segja ekki meira en maður heyrir aðra segja; breyta ekki sögusögn.  „Hann fullyrti að þetta hefði verið sjóskrýmsli, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti“.

Selja upp (orðtak)  Æla; gubba (á sjó:) ræða við Jónas; skila matnum. 

Seljabúskapur (n, kk)  A.  Búskapur/vist í seli.  B.  Líkingamál um veru í bústað um skamman tíma.  T.d. notað um veru fólks á bæ sem annars er í eyði.

Seljuviður / Selja (n, kk/kvk)  Lin og gisin viðartegund; Salix caprea.  Þykir ekki endingargóður smíðaviður.  Mikil hjátrú var tengd selju.  Hún mátti t.d. ekki vera í húsum, því þá gekk fólki illa að fæða og skilja við/ deyja.  Einnig er selja óhafandi í skip og talin manndrápsviður; bátur úr selju var talinn manndrápskolla; einkum úr blóðselju.  Seljuviður var nefndur ýmsum niðrandi nöfnum s.s. vindselja og hlandselja.

Selkjöt (n, hk)  „Selkjöt hefur einnig verið notað hér um slóðir allt fram á þennan dag.  Það var þvegið; spikið skorið af og kjötið soðið; borðað með kartöflum og rófum.  Spikið var saltað og notað með söltum og signum fiski“    (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Selráðskona (n, kvk)  Kona sem hefur á hendi mjaltir og mjólkurvinnslu í seli.

Selrifinn (l)  Um fisk; bitinn eftir sel.  „Nokkrar grásleppurnar voru selrifnar og ónýtar“.

Selskapsmanneskja (n, kvk)  Félagsvera, sá/sú sem er félagslynd(ur).  „Hún er svo mikil selskapsmanneskja“.

Selskapsskepna (n, kvk)  Dýr sem vill félagsskap/er mannelskt.  „Æðarkollan sem afi hjó hálfdauða úr klaka niðri við sjó og móðir mín bjargaði frá vísum dauða taldi sig eftir það eina af heimilisfólkinu.  Hún var mikil selskapsskepna og vildi helst vera þar sem annað fólk hélt sig, en kunni því illa að vera skilin ein eftir heima.  Þá dýrkaði hún mjög klassíska tónlist, og kom sér vel fyrir framan við útvarpið ef slíkt var í boði“ (VÖ).

Selskapur (n, kk)  Félagsskapur; samkvæmi; flokkur; hópur.  Sjá halda (einhverjum) selskap

Selskinn (n, hk)  Skinn af sel.  Selskinn hafa löngum verið verðmæt afurð, ekki síst til sölu og útflutnings.  Þau eru þá skafin og fituhreinsuð eftir fláningu og síðan spýtt.

Selspik (n, hk)  Selspik hefur löngum verið á borðum Íslendinga.  Einnig var það fyrrum nýtt til hákarlabeitu, og fylgdi þ´vi bútur af húðinni nefndist það húðarselur.

Selstöðukaupmaður / Selstöðuverslun (n, kk/kvk)  Selstöðukaupmenn hafa þeir kaupmenn verið nefndir sem ráku verslun á íslenskum verslunarhöfnum eftir að einokunarversluninni lauk árið 1787, og tímabil fríhöndlunar hófst.  Nafnið er dregið af seli í íslenskum búskap, enda voru þeir yfirleitt búsettir í Kaupmannahöfn og höfðu þar aðalbækistövar sínar.  Þeir önnuðust vöruinnkaup ytra til sölu hér, og tóku varning hér til sölu ytra.  Hér höfðu þeir í sinni þjónustu verslunarstjóra, eða faktor.  Nafngiftin selstöðukaupmaður var tekin upp í nokkuð niðrandi merkingu af síðari tíma íslenskum kaupmönnum, sem með því bentu á að affarasælla væri að Íslendingar önnuðust sjálfir sína verslun.  Meðal fyrstu íslensku kaupmannanna var Ólafur Thorlacius á Bíldudal.  Ein selstöðuverslana var á Vatneyri við Patreksfjörð.  Helsta samkeppni selstöðukaupmanna var að hálfu lausakaupmanna; svonefndra spekúlanta, sem sigldu milli hafna og versluðu frá skipum sínum.  Margir landsmenn voru þó bundnir af skuldum sínum við selstöðukaupmenn.  Helstu innflutningsvörur á þessum tíma voru kornvara, salt, járn, steinkol, tjara og munaðarvara, s.s. sykur, kaffi, tóbak og brennivín.  Út var einkum flutt; saltfiskur, lýsi, ull, tólg og prjónles.  Um og uppúr miðri 19.öld tóku bændur að hnekkja veldi selstöðukaupmanna með stofnun verslunarsamtaka.  Þá spruttu t.d. upp kaupfélög víðsvegar um landið, en einnig komu upp öflugir íslenskir kaupmenn.  Tilkoma símans árið 1906 varð einnig til að færa miðstöð verslunar til landsins frá Kaupmannahöfn.

Selta / Seltumagn / Seltustig (n, kvk/hk)  Styrkur salts í upplausn, t.d. í sjó.

Seltumósta (n, kvk)  Sandmósta; útfellingar úr foksandi á föstum hlutum.  „Eftir sandstorm í Kollsvík var oftast töluverð seltumósta vindmegin á öllum hlutum.  Hún samanstendur af salti og leir og er mjög tærandi“.  Hvorki sandmósta né seltumósta finnast í orðabókum, en bæði orðin voru notuð í Kollsvík.

Seltustorka (n, kvk)  Salt eða saltblanda sem situr eftir þegar saltvatn eða sjór þornar.  „Mikið verður gott að komast í vatn og þvo af sér seltustorkuna eftir þessa ágjöf“!

Selur (n, kk)  Flokkur spendýrategunda sem eru vel lagaðar að lífi og veiðum í sjó.  Algengasta selategundin hér við land er landselur, en einnig er mikið um útsel.  Sjá þar.

Selur vel/illa  (orðtak)  Um það hve greiðlega kú mjólkast.  „Kýr selur illa ef hún er mjög fastmilk að eðlisfari, en einnig getur verið að lausmilk kýr selji þeim vel sem hún er vön og öðrum illa sem beitir öðru mjaltalagi“.

Selveiði (n, kvk)  Veiði á sel.  Selveiði hefur aldrei verið veruleg í Útvíkum; utan það að menn hafa skotið sel öðruhvoru til átu og skinnaverkunar.  Á Rauðasandi var selur veiddur að nokkru marki í net áðurfyrr.  Athafnamaðurinn Pétur A. Ólafsson á Patreksfirði gerði um tíma út selveiðigufuskipið Kóp frá Suðureyri í Tálknafirði, með norskri áhöfn.  Skipið keypti hann 1916, en það sökk árið eftir.

Sem að höndum ber (orðtak)  Sem verða vill; sem skeður.  „Það verður bara að taka því sem að höndum ber“.

Sem áður fyr(r) (orðtak)  Eins og áður/fyrrum.  „Kýr eru einnig vanfóðraðar í Kirkjuhvammi, sem orsakast af átleysi, sem áður fyr eftir óþurrkasumur“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Sem best (orðtak)  A.  Eins vel og hægt er.  „Reyndu svo að skola bátinn sem best“.  B.  Vel; með góðu móti. „Mér dettur ekki í hug að gera þetta fyrir hann; hann getur sem best gert það sjálfur“!

Sem betur fer (orðtak)  Til allrar lukku/hamingju; til bóta.  „Sem betur fer var ég með nóg nesti og gat gefið hinum með mér“.

Sem ég er lifandi (kominn) / sem ég sit hérna  (orðtök)  Svardagar/heitingar til að undirstrika fullyrðingu.  Sem ég er lifandi; féð er komið strax aftur inná“!  „Ég get ekki sannara orð sagt; sem ég er sit hér á stólnum“!

Sem ég kann að nefna (orðtak)  Notað sem setningarending á eftir hugtaki sem mælandi veit nafn á en telur sig ekki þekkja frekar.  „Það var víst brotið eitthvað í drifinu; einhver pinjón sem ég kann að nefna“.

Sem fyrst (orðtak)  Eins fljótt og unnt er; með fyrsta móti.  „Þetta þyrfti að gera sem allra fyrst“.

Sem leið liggur (orðtak)  Rakleiðis; eftir leiðinni.  „Heldur nú Einar sem leið liggur með bola upp á Hálsinn innanverðan“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).   „Eyra heillar æskumanns/ unnar strengjakliður;/ enda löngum liggur hans/ leið til strandar niður“  (JR; Rósarímur).

Sem maður sáir mun hann uppskera (orðatiltæki)  Maður tekur afleiðingum gerða sinna, hvort sem þær eru góðar eða slæmar.  Sjá eins og til var sáð/stofnað.

Sem mest má verða (orðtak)  Eins mikið og unnt er.  „Nú baknagar hann nágrannann sem mest má verða“.

Sem (neinu/nokkru) nemur (orðtök)  Sem munar um; eins og nær.  „Það hefr ekki rignt sem neinu nemur í heilan mánuð“. 

Sem nöfnum tjáir að nefna (orðtak)  Sem unnt er að tala um/ láta sér detta í hug.  „Ég hrúgaði í þessa köku öllu sem nöfnum tjáir að nefna“.

Sem oftast (orðtak)  Eins oft og unnt er.  „Til þess að ná góðum árangri í íþróttum þá þarf að æfa sig sem allra oftast“  (Guðbjartur Hákonarson; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938). 

Sem og (orðtak)  Að auki; einnig.  „Hann sporðrenndi átta eggjum; sem og stórri brauðsneið og mjólkurglasi“.

Sem steini/þrumu lostinn (orðtak)  Mjög undrandi; standandi hissa; svo hissa/undrandi að maður getur ekki hreyft sig.  „Ég var í fyrstu sem steini lostinn þegar ég heyrði þetta“.

Sem slægur er í (orðtak)  Sem eftirsóknarvert er; sem eigulegt er.  „Hér eru fáar spýtur eftir sem nokkur slægur er í“.

Sem stendur (orðtak)  Að sinni; um sinn; eins og nú er.  „Hann er ekki innivið sem stendur; hringdu aftur síðar“. Sjá nú sem stendur; rétt sem stendur; um þessar mundir

Sem svarar (orðtak)  Jafngildi; sem jafngildir; jafnt og.  „Fyrir þetta fékk hann sem svaraði einum daglaunum“.

Sem veigur er í (orðtak)  Sem dugir; sem er sterkur/dugandi.  „Ég þarf að fá með mér smala sem einhver veigur er í“.

Sem vonlegt var (orðtak)  Eins og búast mátti við; eins og vænta mátti.  „Hann var fúll yfir þessu, sem vonlegt var; honum hafði verið lofað öðru“.

Sem því nemur (orðtak)  Að því marki; jafn mikið.  „Þegar aðföng til búsins hækka í verði verður afurðaverðið auðvitað að hækka sem því nemur“. 

Sem vert er að nefna (orðtak)  Sem ætti að ræða; sem er þess virði að sagt sé frá.  „Eitt er það í viðbót sem vert er að nefna...“.

Sem vettlingi geta valdið (orðtak)  Sjá allir sem vettlingi geta valdið.

Sem vonlegt er (orðtak)  Eins og við er að búast; eins og ætla má.  „En sem vonlegt var eru þeir þrekaðir af þreytu, vosbúð og kulda...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sement (n, hk)  Steinlím; kalk- og kísilblanda sem blandað er í steinsteypu til að framkalla viðloðun og hörðnun.  Þróun sements hófst þegar menn komust uppá að vinna kalk úr kalksteini, og nær aftur til tíma Forngrikkja og Egypta um 2500 f.Kr.  Ein elsta og merkasta bygging með sementsnotkun er Pantheon-musterið í Róm, frá 27 f.Kr, sem enn í dag er mesta steinsteypta bygging heims án járnabindingar.  Fyrsta steinsteypta húsið í Rauðasandshreppi var íbúðarhúsið í Saurbæ; byggt 1907; smiður Finnur Thorlacius frá Saurbæ.  Elsta steypta húsið í Kollsvík er Kollsvíkurhúsið sem enn stendur; byggt 1924.

Sementslögun (n, kvk)  Sandsteypa; múr.  Þunn blanda sands, sements og vatns; oftast notuð til múrhúðunar.

Sementskústa / Sementskústur (s/ n, kk)  Bera sementslög á húsvegg með hentugum bursta/kústi.  Sementskústun getur verið góð vörn á steinsteypu, einkum ef hún er sjálf sementsrýr.  Var því mikið notuð fyrr á árum meðan sement var sparað í steypu, og voru t.d. gömlu útihúsin á Láganúpi sementskústuð.

Semítar (n, kk, fto)  Fólk af kynstofnum sem tala semetísk mál.  Til semíta teljast m.a. fornþjóðirnar Fönikíumenn/Föníkar; Aramear; púnverjar/ þ.e. íbúar Karþagó; Assýrar; Kaldear og Hebrear.  Einnig nútímaþjóðirnar Arabar; Gyðingar og Eþíópíumenn.  Samkvæmt gamla testamenti Biblíunnar voru semítar afkomendur Sems, en hann var elsti sonur Nóa.

Semja sig að (orðtak)  Aðlaga sig; laga sig að; fella sig við.  „Það verður víst að semja sig að þessum nýju siðum; hvort sem manni líkar það betur eða verr“.  „Hann (Manús í Botni) samdi sig ekki alltaf að siðum annarra og sagt var til dæmis að klukkan væri ekki endilega það sem réði byrjun vinnu eða hættutíma“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Semjast um (orðtak)  Semja um; ná samkomulagi um.  „Okkur samdist um að skipta þessu að jöfnu“.

Semsagt / Sem sagt /Semsé / Sumsé (orðtak, uh)  Hér um bil; nærri því; samasem.  „Enn var það lágsjávað að báturinn tók sem sagt allur jafnt niðri, og dró það úr högginu“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „Saltið er semsagt búið“.  „Það er semsé ekkert eftir“.  „Þú heldur sumsé að þetta geti gengið“.

Semsé (ao)  Sem sagt; samasem; sumsé.  „Nú hafði mönnum hlaupið kapp í kinn og margir skoruðu á þá Liða og Gumma að ljúka veðmálinu, en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn“  (PG; Veðmálið). 

Sena (n, kvk)  Svið í samkomuhúsi; leiksvið.  „Árni Helgason skýrði frá því að þorrablótsnefnd 1971 hefði gefið húsinu tjöld fyrir senu, ásamt brautum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Senda á (einhvern) (orðtak)  Kasta til einhvers; ljóða á einhvern; senda bréf til einhvers; senda einhverjum.

Senda eftir (Senda einhvern til að sækja eitthvað.  „Gamalt fólk trúði því að vatn úr Engislæknum hefði lækningamátt.  Svað lítið sem krakkarnir urðu lasnir var alltaf sent eftir vatni úr honum“  (SE; Örn.skrá Stakkadals).

Senda kveðju guðs og sína (orðtak)  Senda kveðju; biðja að heilsa.  „Hann sendir þér kveðju guðs og sína, og biður þig nú endilega að líta við næst þegar þú átt leið um“.

Senda (einhverjum) tóninn (orðtak)  Hasta á einhvern; skamma einhvern háum rómi; halda reiðilestur.  „Hann sá okkur missa féð og sendi okkur tóninn; hvort við værum farlama gamalmenni og blindir í þokkabót“!

Sendast (s)  A.  Vera sendur.  „Aftaná bréfinu stóð; sendist til baka ef vitakandi er fluttur“.  B.  Fara mjög hratt; þjóta; flýta sér.  „Ég sentist á harðahlaupum niður holtið og náði að komast fyrir hópinn“.  C.  Fara í sendiferð.  „Get ég fengið þig til að sendast dálítið fyrir mig“?

Sendiboð (n, hk)  Skilaboð; orð; boð.  „Ég fékk sendiboð um breytingu á fundartímanum“.

Sendibréf (n, hk)  Bréf sem sent er.  Meira notað áður.

Sendibréfsfær (l)  Sæmilega ritfær.  „Ég hélt að menn þyrftu að vera sendibréfsfærir til að verða ráðherrar“.

Sendiferð (n, kvk)  Stutt ferð í erindum annarra.  „Geturðu skroppið í sendiferð inn á Gjögra fyrir mig“?

Sendiför (n, kvk)  Lengri ferð í erindum annarra.  „Þessi sendiför þeirra var á vegum yfirvalda“.

Sending (n, kvk)  A.  Það sem sent er, t.d. póstsending.  B.  Draugur; uppvakningur.  „Eftir að sendingin sem Benedikt Gabríel sendi Einari í Kollsvík hafði gengið að hesti hans dauðum... “  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Sendingskast (n, hk)  Sjá í sendingskasti.

Sendinn (l)  Sandborinn; úr sandi.  „Ofar taka við sendnir melar; svo mýrlendi“  (IG; Sagt til vegar I).  „Fjaran er sendin, en hleinar um fjöruborð“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Senditík (n, kvk)  Niðrandi heiti á þeim sem sendur er/ lætur aðra nota sig.  „Þessir háu herrar þarna fyrir sunnan geta nú bara sleppt því að senda vestur einhverjar senditíkur til að tala gegn hagsmunum bænda“!

Sendlingur (n, kk)  Calidris/Erolia maritima.  Lítill strandfugl af snípuætt.  Mjög algengur í fjörum landsins, m.a. í Kollsvík, og er gjarnan í hópum.  Sendlingur er smávaxinn, þybbinn vaðfugl,og fremur stuttfættur.  Grábrúnn á baki með dökkum flekkjum, en að mestu hvítur að neðan.  Brjóst með smáum daufum gráum blettum; stélið stutt og nær alveg svart.  Á flugi sést mjó hvít rönd eftir öllum vængnum aftarlega.  Fætur gulleitir, og einnig nef sem þó dökknar að framan.  Sendlingur er að hluta farfugl hérlendis, og þeir sem fara halda til á austurströnd N-Ameríku eða vesturströnd Evrópu.  Fæðan er einkum það smálegt sem finnst á útfiri, s.s. meyjapöppur og marflær.  Til heiða tínir hann skordýr, snigla o.fl.  Sendlingurinn verpir helst til heiða og fjalla; holta og hæða.  Hreiðrið er oft á berangri; lítil grunn dæld.  Eggin eru ljós á lit með dökkum flekkjum.  Í fyrstu liggja foreldrar jafnt á eggjunum en síðar karlfuglinn eingöngu.  Lendir það einnig á honum að sinna ungunum, sem fara fljótt úr hreiðri.

Sengjubragð (n, hk)  Bragð af mat sem hefur náð að brenna við; sængurkonubragð.  Einkum getur þetta átt við um mjólkurgrauta, s.s. grjónagraut og flóaða mjólk.  „Við fengum hjá þeim grjónagraut með rúsínum, en nokkuð sengjubragð fannst mér af honum“.

Senn (ao)  A.  Bráðum, rétt strax; fljótlega.  „Það fer senn að birta“.  B.  Samstundir; í einu.  „Nú gerðist margt í senn…“.  „Hann heyrði ekkert; þó við kölluðum báðir í senn“.

Senn bólar/bryddir á Barða (orðatiltæki)  Viðhaft þegar enn er beðið eftir því sem væntanlegt er.  Sumir hafa talið máltækið vísa til minnis úr Heiðarvígasögu, þegar Borgfirðingar biðu eftir að Barði Guðmundsson kæmi suðurum heiði til að veita þeim lið.  Útfrá orðatiltækinu varð til alþýðuskýring sem sjá má í Þjóðsögum Jóns Árnasonar; um smalann Barða sem hin fjölkunnuga Katla drekkti í sýrukeri.  Líklegra er þó að orðtakið sé eldra; frá þeim tíma að menn áttu von á skipi úr hafi, en fornt heiti skips er „barði“.  Menn biðu eftir að sjá skipið sem þúst/bólu við sjónarrönd.  Önnur útgáfa orðtaksins er ekki bólar (enn) á barða.

Senna (n, kvk)  Viðureign; rifrildi; deilur; verkhrota.  „Við tókum eittsinn allharða sennu um þetta málefni“.  „Munu renna tunglin tvenn;/ tímans brenna kerti þrenn,/ fyrr en kenni friðar menn;/ ferleg sennan stendur enn“  (JR; Rósarímur). 

Sennilega (ao)  Trúlega; líklega; líkast til.  „Sennilega er þetta orð minna notað núorðið en áður var“.

Sennilegt (l)  Líklegt; trúlegt.  „Mér þykir sennilegt að Kollsvíkin komist fljótlega aftur í byggð“.

Sepi (n, kk)  Flipi; húðfelling; tota.  „Ég klippti af einhvern sepa sem ég fékk við að hruflast“.

Sepóttur (l)  Með mörgum sepum; alsettur sepum.  „Bergið í þaki holunnar er sepótt, líkt og þar sitji enn hraundropar sem storknuðu fyrir meira en tíu milljónum ára“.

Seppi (n, kk)  Gæluheiti á hundi; hundsnafn. 

Serða (s)  Hafa samfarir við.

Serimóníur (n, kvk, fto)  A.  Eiginleg merking; athöfn.  B.  Líkingamál; sérstök aðferð; sérviska.  „Hann þykist alltaf þurfa að nota einhverjar serimóníur við þetta verk“.  „Ætli þurfi einhverjar serimóníur til að ná þessu stykki úr vélinni“?

Servíetta (n, kvk)  Lítil handþurrka/munnþurrka sem stundum er notuð í fínni veislum og á veitingahúsum, en var til skamms tíma alls óþekkt og óþörf í daglegu lífi Kollsvíkinga; enda innfluttur snobbsiður.

Sess (n, kk)  A.  Sæti.  Oftast í orðtökum; valtur í sessi; hár í sessi; velta úr sessi.  B.  Staðsetning í röð.  „Hann hefur fengið sinn sess í sögunni“.

Sessa (n, kvk)  A.  Sæti á þóftu í árabát.  B.  Púði eða þykkt áklæði sem setið er á, t.d. í söðli eða sæti.

Sessunautur (n, kk)  Sá sem situr við hliðina/ sama borð.

Set (n, hk)  A.  Sæti; bekkur.  „Hér vantar fleiri set, þegar við erum svona margir“.  Sjá færa sig um set.  B.  Botnfall sem fellur út í vatni eða sjó; efnislag á botni eða í jarðlögum. „Eitthvað set hefur safnast hér fyrir“.

Seta (n, kvk)  A.  Það að sitja.  „Okkur þótti orðin nokkuð löng setan, svo ég fór framá brúnina og skimaði eftir honum“.  Sjá fundarseta, og ekki til setunnar boðið.  B.  Það að liggja við hákarlsveiðar.  C.  Sæti.  Oftast notað nú til dags um hring þann á salerni sem setið er á.

Setbað / Setbaðker (n, hk)  Stutt baðker, með stalli í öðrum enda; ætlað til að menn sitji á meðan þeir baðast.  „Setbaðker var á seinni árum á klósettinu í gamla bænum á Láganúpi (rifinn eftir 1974).  Ekki hefði verið unnt að hafa þar stærra bað vegna plássleysis í skúrbyggingunni.  Fyrir þann tíma baðaði Láganúpsfólk sig um tíma í steyptu baðkeri í verkfærahúsinu, en þar áður var notast við vaskafat og þvottapoka“.

Setbekkur (n, kk)  Sæti sem margir geta setið á samtímis.  „Í eldhúsinu var eldhúsbekkur og tveir setbekkir“.

Setberg (n, hk)  Set sem orðið er að þéttri bergtegund vegna þrýstins og aldurs. T.d. er set í rauðu millilögunum sem áberandi eru í berglagastafla Kollsvíkur og víðar.  Það er pressuð eldfjallaaska og jarðvegur frá goshléum meðan landið var að hlaðast upp fyrir mörgum milljónum ára.

Setgagn (n, hk)  Stóll eða setbekkur; húsgagn sem setið er á.  „Eru næg setgögn fyrir þennan mannfjölda“.

Setið egg (orðtak)  Egg sem er enn ekki orðið stropað en rauðan er komin út að skurni og byrjuð að gulna.  „Það er óþarfi að henda þessu eggi.  Það er rétt örlítið setið og ekkert byrjað að stropa“.

Setinn bekkurinn (orðtak)  Þétt raðað/skipað af mörgum einstaklingum.  „... en það hefur líka verið setinn bekkurinn í Grundabænum, svo þú varst vön þrengslunum“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  Sjá þétt setinn bekkurinn.

Setja (s)  A.  Láta; staðsetja; koma fyrir. „Settu vatn í ketilinn fyrir mig og settu hann á eldavélina“.   B.  Um bát; draga/flytja.  Í þrengri merkingu merkir orðið að setja niður/upp (sjá þar).  Í almennari merkingu að draga hann milli staða með handafli, en í Kollsvíkurveri nær eingöngu notað um að draga báta á land.  „Talað var um að „setja upp“ og „setja niður“, en oft var það stytt í „setja“ ef augljóst var hvað við var átt“.  „Hann er að auka sjóinn.  Ég held að við þurfum að setja bátinn ögn hærra“.  Bátar voru stundum settir langar leiðir.  T.d. kom fyrir að bátar væru settir milli Rauðasands og Barðastrandar.  „Í eystri brún Bjarngötudals eru tveir allmiklir hjallar; Neðri- og Efri-Skipahjalli.  Draga þeir nafn af því að skip voru tekin á vaðdrætti upp dalinn og sett eftir hjöllum þessum, aðallega þeim hærri“  (ÍÍ; Örn.skrá Bæjarparts).  Oftast var bátur þó settur í lendingu:  „Ef formanni leist svo á veðurhorfur að hann taldi að gæfi á sjó, fór hann inn og vakti skipverja sína.  Þeir klæddust og fengu sér bita, og síðan var haldið til skips.  Þegar þangað kom var það ávallt fyrsta verk formannsins að setja negluna í bátinn, og því næst var farviður borinn um borð.  Þá voru skorður teknar undan og síðan var skipið sett....  Þegar skipið flaut fóru menn jafnóðum um borð, og síðan var tekið í, sem kallað var; skipinu snúið sólarsinnis.  Þá voru tekin nokkur áratog en síðan gaf formaður skipun.  Þá lyftu menn árunum; tóku ofan höfuðfötin og fóru með sjóferðabæn.  Að því búnu var róið sem fastast uns komið var á mið“  (JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang).  Þessi lýsing á við sjósetningu sunnanlands, en hún fór að mestu fram á svipaðan hátt í öllum verstöðvum.  Einkanlega átti það við, að snúa bát ætíð sólarsinnis og biðja sjóferðabæn þegar bátur var kominn á flot og áður en haldið var í róðurinn.  C.  Skipa í embætti.  D.  Undirbúa fyrir prentun.

Setja að (orðtak)  Kólna; kvefast „Búðu þig nú almennilega krakki; annars gæti sest að þér“!

Setja að eftirsjá/grát/hroll/ótta/sorg/ugg (orðtök)  Fá tilfinningu um eftirsjá/grát/hroll/ótta/sorg/ugg.  „Það setti að mér nokkra eftirsjá þegar bíllinn renndi úr hlaði, enda myndi ég ekki sjá hann fyrr en að vori“.

Setja (einhverjum) afarkosti (orðtak)  Stilla einhverjum upp við vegg; gera einhverjum slæma valkosti/skilmála í samningum/viðskiptum.  „Stjórnvöld hafa í raun sett bændum afarkosti með þessari tillögu“.

Setja á (orðtak)  A.  Taka það fé til lífs að hausti sem ekki fer í slátrun;  taka til ásetnings.  „Það er rétt að setja tvílembingana Lukku á; þeir eru svo ári vænir“.  „Ég set hann ekki á þennan hrút þó það sé freistandi“.  „Hún Gibba gamla er orðin ósköp ræfilsleg og varla á vetur setjandi“. „Ætlarðu virkilega að setja heimalingsfrekjuna á“?  „Því lengur sem ég skoða og set á, eða hef þetta forðagæslueftirlit, því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).  B.  Um forðagæslumenn; skoða hvað heyforði bónda dugir fyrir mikinn bústofn.  C.  Gera slæmt veður.  „Þá setti á suðaustan moldarbyl“  (TÓ; upptaka á Íslmús 1978).

Setja á blað (orðtak)  Skrifa niður; rita.  „Ég þarf endilega að setja þessa vísu á blað áður en ég gleymi henni“.

Setja á/yfir él (orðtak)  Renna á éli; bresta á með éli.  „Nú sýnist mér hann vera að setja yfir okkur annað él“.

Setja á flot (orðtak)  Um bát; setja niður; setja fram; sjósetja; fleyta; ýta úr vör.  „Hann er dottinn alveg niður með þennan gutlanda sem var; eigum við ekki bara að fara að setja á flot“?  „Gamla Rut er sett á flot í Kollsvíkurveri.  Sólóvélin sett í gang og keyrt suður á Bæi“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Setja/koma á fót / Setja á laggirnar (orðtök)  Stofna til verkefnis; stofna fyrirtæki; hefja.  „Bændur settu á fót kaupfélög til að tryggja sölu sinna afurða og afla sér um leið nauðsynjavöru á réttmætu verði“.  „Sett var á laggirnar Jarðræktarfélag Kollsvíkurbænda um fyrsta traktorinn“.

Setja (einhvern) á galeiðuna (orðtak)  Láta einhvern í erfitt starf/ í erfiðan félagsskap.  „Þú varst heldur betur settur á galeiðuna; ekki öfunda ég þig af að þurfa að vinna með honum“!

Setja á guð og gaddinn (orðtak)  Ætla að hafa fleiri skepnur yfir vetur en unnt er að fóðra eða hýsa.  Sumum bændum hætti til að vera um of bjartsýnir í þeim efnum og voru mjög gagnrýndir af þeim varfærnari.  Sjá gaddur; éta (einhvern) út á gaddinn; reka (einhvern) út á gaddinn.

Setja á oddinn (orðtak)  Beita sér einkum fyrir; hafa sem helsta markmið.  „Furðulegt er að flokkurinn skuli ætla að setja þetta mál á oddinn í kosningabaráttunni“.

Setja á ræðuhöld (orðtak)  Halda langa ræðu; tala mikið.  „Þetta veit ég alltsaman; það er óþarfi að setja á einhver ræðuhöld um það“!

Setja á sig (orðtak)   Leggja á minnið; einsetja sér að muna.  „Ég setti það nú ekki á mig hvar ég hvíldi mig, en líklega hef ég týnt hnífnum þar“.  „Settu á þig miðin; við rennum hér aftur á morgun“.

Setja á sig rögg (orðtak)   Drífa sig; fara að vinna kappsamlega; hleypa í sig kjarki.  „Við ættum nú að setja á okkur rögg og mála þakið; ekki veitir því af“.

Setja á stall (orðtak)  Hefja um of til virðingar; dýrka. 

Setja á stofn (orðtak)  Stofna; stofnsetja; grundvalla; stofna/efna til.  Stofn merkir hér grundvöll einhvers, s.s. samþykktir/stofnfé þegar fyrirtæki er sett á stofn.

Setja á stokka (aotðtak)  A.  Setja tré á búkka/stokka, til að unnt sé að saga það.  B.  Leggja kjöl að bát á stokka til að unnt sé að hefja smíði hans.

Setja á streng (orðtak)  Um landtöku báts; setja afla seilaðan útbyrðis og hafa hann á streng/taug í sjónum meðan lent er, til að létta bátinn ef slæmt er í sjó.  Eftir lendingu er strengurinn dreginn í land.  „Samt lagði oft þá báru, að seila þurfti fiskinn á floti og láta seilarnar útbyrðis; jafnvel setja þær á streng, til þess að vera laus við þær meðan bátnum var brýnt úr sjó“  (KJK; Kollsvíkurver).

Setja á stöfnum (orðtak)  Um setningu báts; þoka bát ofar í fjöruna með því að færa stafnana í hálfhring hvorn á fætur öðrum; stafnsetja.  Þannig má setja lítinn bát ef þrír eru við.  Einn styður meðan hinir baka stafninn; sinnhvors vegar, og færa hann til.

Setja á tamp (orðtak)  Um hákarlaveiðar; hagræða veiddum hákarli utanborðs.  „Væri hlaðafli af lifur var hákarlinn settur á tamp.  ... Með trumbuhníf var stungið í gegnum trjónu hákarlsins og snúið.  Stóð þá eftir gat sem kaðalll var þræddur í.  Kaðallinn var látinn liggja undir bátinn; sinn endi bundinn í hvorn borðstokk og þannig bætt á að jafnt átak væri báðum megin“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Setja bann við (orðtak)  Banna; fyrirmuna.  „Það verður að setja blátt bann við því að aka þarna um á bíl“.

Setja bát/setja upp (orðtak)  Bjarga báti undan sjó; koma honum úr lendingu í sitt uppsátur.  Til að setja bát þurfti nokkra menn, jafnvel þó um smáan bát væri að ræða.  Til léttis voru notaðir hlunnar úr tré, hvalbeini eða síðast með járnrúllum.  Bátar voru bæði settir upp og settir niður (eða settir fram), en það síðartalda nefndist einnig að ýta á flot.  „Seila menn allan fenginn út, og flytja so skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi, og setja þau þar upp“  (ÁM/PV; Jarðabók).  Oftast voru bátar settir á hlunnum, en þó þekktist að setja á stöfnum.  Á síðari árum er sett á bátakerrum og dráttartækjum beitt fyrir.  „Svo var spretturinn tekinn niður í fjöru, þar sem þeir voru að setja bátinn...“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).    „Háflóð var, og því stutt að setja“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Setja ekki ljós sitt undir mæliker (orðtak)  Efast ekki um eigin visku; þykjast vita meira en raun er á; vera ekki gagnrýninn á eigin hæfileika/vísdóm.  Vísar til biblíutexta í Matt. 5.15; „Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku; og þá lýsir það öllum í húsinu“.  Mæliker er þarna ílát sem hvolft er yfir ljósið.  Segja má að öll merking myndlíkingarinnar hafi breyst, því skilningur þess er nú sá að menn mæli/meti/gagnrýni ekki nægjanlega það sem þeir segja.

Setja endapunktinn á (orðtak)  Láta lokið; ljúka; enda.  „Hér setjum við endapunktinn við þessa vertíð“.

Setja fast (orðtak)  Festa vað/línu/stjórafæri eða annað.  Vanalega átt við að festa færi sem er úti meðan annað verk er klárað; t.d. að blóðga úr síðasta drætti.  Sett er fast t.d. með því að bregða skutilsbragði á tollu eftir að grunnmál hefur verið tekið.  Einnig var talað um það í bjargferðum að setja fast þegar vaðnum var fest við örugga brúnarfestingu. „Láttu út af stjórafærinu sem svarar tvöföldu dýpi í yfirvarp og settu svo fast á hnýfilinn“.  „Þegar farið er á Jónshöfðann er sett fast með því að bregða utanum lága klettaþúst í efsta ganginum“.  „Þótt nú gerðist harðla hvasst/ hrikti í rám og taugum;/ segladótið set ég fast,/ sigli beint af augum“  (JR; Rósarímur).

Setja fram (orðtak)  A.  Um bát; setja niður; komast fram; ýta á flot/ úr vör; sjósetja.  „Jæja, nú setjum við fram; takið á“!  B.  Líkingamál um málefni; segja sitt sjónarmið.  „Þú skalt setja fram þína skoðun“.

Setja fund/samkomu (orðtak)  Hefja fund/samkomu formlega.  „Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen setti fundinn með nokkrum orðum og bauð fundarmenn velkomna“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Setja fyrir (orðtak)  A.  Setja stýri á árabát í róðri; hjara stýri.  Stýri voru tekin frá þegar báti var lent; þ.e. stýrissveif var tekin úr og stýrinu kippt upp úr lykkjunum.  Þá skrölti það ekki eða týndist þegar bátnum hafði verið brýnt.  Eftir að báturinn var kominn á flot í upphafi róðrar var stýrið sett fyrir, og gerði það formaður.  „Flestra háttur var að halla sér út og aftur fyrir borðstokkinn, venjulega stjórnborðsmegin við hnýfilinn; hafa hægri hönd á stýrisfjöður og láta krók og lykkju greiðlega standast á.  Ekki þótti formannslegt að grúfa sig yfir hnýfilinn þegar stýri var hjarað, enda var það kallað að fara á kerlingu“  (LK; Ísl. sjávarhættir III).  „Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).  „Settu ekki í gang fyrr en ég er búinn að setja fyrir“.  B.  Um setningu báts; leggja hlunna í stefnu báts til að auðvelda setningu.  „Hlunnar eru settir fyrir og báturinn settur niður “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).   C.  Skipuleggja verk; segja nemendum hvað þeir eiga að læra næst.:  „Ég setti þeim fyrir að stinga upp garðinn í dag“.  „Mér var settur fyrir einn kafli í bókinni“.  D.  Setja hindrun fyrir, t.d. bíl svo ekki renni af stað.  E.  Loka hliði/fjárrétt/dyrum.  „Gleymdirðu nokkuð að setja fyrir dyrnar á reykkofanum“?

Setja fyrir sig (orðtak)  Gera mikið úr; telja frágangssök/óásættanlegt; þykja mikið; gera; fjargviðrast yfir.  „Maður setur það nú ekki fyrir sig þó örlítil loðpurpa sjáist á ketbitanum: Svoleiðis má bara skafa í burtu“. „Þetta er nú vel klukkustundargangur frá Saurbæ, þó enginn setti slíkan smáspotta fyrir sig“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Setja hjá (orðtak)  A.  Staðsetja eitthvað hjá öðru.  B.  Hafa útundan; hafa afskiptan.  „Honum fannst hann hafa nokkuð verið settur hjá við þessi skipti“.

Setja hljóðan (orðtak)  Slá þögn á; þagna; eiga ekki orð til að lýsa tilfinningum; verða mjög undrandi/hissa/sorgmæddur.  „Svo horfa þeir út á Víkina.  Margir bátar; vinir þeirra og kunningjar.  Allt er þegar ófært.  Hvernig fer þetta?  Þá setur hljóða“ „Þórarinn Bjarnason tók til máls; alla setti hljóða“   (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Setja hlunna (orðtak)  Setja fyrir; leggja hlunna fyrir bát til að setja hann.  „Þá eru settir hlunnar og einn maður þarf að styðja bátinn.  Það þarf að vera fljótur með hlunnana því margir eru á spilinu“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Setja/reka hnefann í borðið (orðtak)  Segja sínar skoðanir; mótmæla; standa fastur á sínum viðhorfum.  „Hann er að verða fjári ágengur, ég þarf bráðum að fara að setja hnefann í borðið“.  Sjá spyrna við fótum.

Setja inn (orðtak)  A.  Láta inn í hús.  Sérstætt þýddi orðtakið einatt að láta fé inn í fjárhús; hýsa.  „Ég ætla að skreppa í fjárhúsinn og setja inn“.  B.  Fella net á teina/þini.  Tvær aðferðir voru notaðar við netafellingu.  Sú eldri og meira notuð var nálarfelling.  Til eru nokkur afbrigði við hana, en þeim er sameiginlegt að dreginn er þráður; netagarn, með netanál í gegnum möskva á jaðri netsins, og hann hnýttur um teininn með vissu millibili.  Stundum er teinninn jafnframt dreginn í gegnum jaðarmöskvana, og stundum er netið fellt á sérstakan (mjóan) tein sem svo er benslaður við teininn.  Hin meginaðferð til fellingar/innsetningar er bekkfelling.  Þá er rör fest í þægilegri hæð á undirstöðu; oft lítinn lausan bekk.  Uppá rörið eru jaðarmöskvar netsins þræddir, og er sett skutulsbragð á suma þeirra með vissu millibili.  Síðan er teinninn dreginn í gegnum rörið og möskvarnir felldir af; þ.e. festir utanum teininn.  Bekkfelling er fljótleg fyrir þá sem vanir eru, en þykir ekki jafn góð og nálarfelling, þar sem hætta er á að möskvarnir dagist eftir teininum, séu þeir ekki benslaðir fastir.  C.  Setja mann í fangelsi.

Setja inn net (orðtak)  Fella net; setja tein/þin á netaslöngu.  „Ég man samt eftir að Einar bróðir vann tog í tuttugu faðma innsett net; kembdi, spann, tvinnaði, riðaði og setti inn; og veiddi svo ágætlega í netið“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Setja í (orðtak)  A.  Um veiðiskap; veiða; krækja í; fá á öngul.  „Nú held ég að ég hafi sett í lúðu“!  B.  Stilla stórviðarsög upp fyrir sögun trjáviðs.  „Það var kallað að setja í þegar söginni hafði verið stillt þannig upp í byrjun að hún lægi beint við strikunum; bæði því lóðrétta og lárétta“  (LK; Ísl.sjávarhættir I). 

Setja (einhvern) í bobba (orðtak)  Setja einhvern í vandræðalega/erfiða stöðu; stilla (einhverjum) upp við vegg.  „Nú seturðu mig í nokkurn bobba; en ég get illa neitað þér um þetta“.  Sjá bobbi; komast/kominn í bobba.

Setja í brýrnar (orðtak)  Hleypa brúnum; hvessa augun; láta augabrúnir síga, t.d. í reiði.  „Hann setti í brýrnar og skipaði þeim að fara strax og sækja skófluna“.

Setja í driftir / skafla (orðtak) Skafa snjó í skafla.  „Hann hefur sett allan snjó í driftir í látunum“.

Setja í gang (orðtak)  Gangsetja vél.  „Á þeim árum sem ljósavélar voru keyrðar í Kollsvík þurfti að fara daglega til að setja í gang, en það var sjaldnast orðað öðruvísi.  Fyrstu árin voru þær ekki látnar ganga nema seinnipart daganna eftir að dimma tók, en síðar allan daginn, eftir því sem raftækjum fjölgaði á bæjum“.

Setja í hlið/dyr/gat (orðtak)  Loka; setja hurð/hliðgrind/hlera fyrir.  „Nú hefur gleymst að setja í hliðið, svo féð er allt komið inná“!  „Settu í milligerðina; það er orðið nokkuð jafnt í hólfunum“.

Setja/geyma í súr (orðtak)  Um geymsluaðferð matvæla sem notuð hefur verið frá fornu fari; setja matvæli, t.d. kjötmeti, í mysu eða annan mjólkurmat til að þau súrni og geymist en haldist vel æt og næringarrík.

Setja klukku/úr (orðtak)  Stilla klukku/úr á réttan tíma.  „Nú þyrfti að setja klukkuna“.

Setja (einhverjum) kosti/úrslitakosti (orðtök)  Gefa einhverjum kost á að velja; setja lokaskilyrði.  „Ég setti honum þá úrslitakosti að annaðhvort smalaði hann sjálfur sitt land eða annar yrði fenginn til að gera það á hans kostnað“.

Setja kúrsinn (orðtak)  Taka stefnuna; stefna.  „Ætli við förum ekki óðara að setja kúrsinn til lands“.

Setja í fisk/lúðu (orðtök)  Veiða fisk/lúðu.  „Hana! Loksins setti ég í fisk“!  „Hér setti ég eitt sinn í stórlúðu“.

Setja í reyk (orðtak)  Setja matvæli í reyk.  Sjá kveikja undir; taka úr reyk.

Setja í skorður (orðtak)  A.  Koma bát á sinn stað, t.d. í sátri, og skorða hann svo ekki velti.  B.  Likingamál; koma einhverju í fast/staðfast/stöðugt form; koma einhverju á endanlegan stað.

Setja/krækja í þann stóra (orðtak)  Sjómannamál og merkir eignlega að fá stóran fisk á sinn krók, en er oftast notað í líkingamáli um það að festa færið í botni; draga fósturjörðina/föðurlandið.  „Ertu nú búinn að setja í þann stóra?  Þú hefur ekki tekið nógu mikið grunnmál“!

Setja/hafa í öndvegi (orðtak)  Koma til virðingar; setja í forgang.  „Það er allt í lagi að kunna enskuna, en ástæðulaust að setja hana í eitthvað öndvegi“.  Sjá öndvegi.

Setja niður (orðtak)  A.  Um bát; koma báti á flot; setja bát af kambi á sjó.  „Hlunnar eru settir fyrir og báturinn settur niður“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Víða var skutur látinn ganga á undan í setningunni, nema ef brimaði; þá var borið við; þ.e. skipinu snúið sólarsinnis á landi.  Var það gert þar sem skip voru yfirleitt viðtakameiri að framan.  Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan.  Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu.  Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja; hvolfa upp; botnmálning.  B.  Setja bát niður í fjöru, sem hvolft hefur verið til geymslu uppi á bökkum, þó ekki sé sjósettur um leið.  „Ætli við förum ekki að hvolfa upp og setja niður, fyrst hann er að spá sjóveðri á næstunni“.  C.  Um mann/málefni/stað; lækka í áliti/tign; setja ofan.  „Mörgum fannst að staðurinn setti dálítið niður við þessar breytingar“.  D.  Koma kartöflum í jörð til ræktunar.  „Ég setti niður fjórar tegundir“.  E.  Skrásetja; skálda.  „Ég er svosem ekkert skáld, en ég setti niður eina stöku við þetta tækifæri“.  F.  Leggja frá sér.  „Settu þetta bara hér niður“.  G.  Snjóa; fenna.  „Hann hefur sett niður fjandi mikinn snjó síðasta sólarhringinn.  Það gæti orðið skrautlegt ef hann hvessir í þetta“.  H.  Jafna ágreining milli manna; semja sættir.  „Hann setti niður deiluna með þessu móti“.

Setja ofan (orðtak)  A.  Setja niður/ sjósetja bát.  „Við skulum nú bráðum fara að setja ofan“.  B.  Setja niður; missa álit; minnka að virðingu.  „Hann hefur sett ofan í mínum augum“.  C.  Um hlaup á kindum/fé; hlaupa niður brekku.  „Ég náði að króa þær af uppi við kletta, en þá settu þær allar ofan; beint strik niður í fjöru“!  D.  Snjóa; fenna.  „Enn setur hann ofan; ekki veit ég við hvað þetta lendir“!

Setja ofaní við (orðtak)  Skamma; ávíta; veita ákúrur.  „Mér finnst að einhver ætti að setja rækilega ofaní við karlinn fyrir þetta tiltæki“!

Setja saman (orðtak)  A.  Koma einhverju saman sem aðskilið er.  „Menn hjálpuðust að við að setja traktorinn saman í fjörunni“.  B.  Semja skáldverk/vísu/ljóð.  „Hver setti þessa vísu saman“?

Setja sér / Setja sér það mark og mið / Setja sér það takmark (orðtak)  Einsetja sér; ákveða það takmark/stefnumið fyrir sig.  „Hann setti sér að ná kindunum í rétt hjálparlaust“.

Setja sér fyrir hugskotssjónir / Setja sér fyrir sjónir (orðtak)  Ímynda sér; hugsa sér.  „Það má alveg setja sér fyrir sjónir að þetta hefði getað gerst með öðrum hætti; en þetta er nú það sem varð“. „Það getur hver og einn sett sér fyrir hugskotssjónir hvernig það færi ef báturinn fengi á sig sjó, svona hlaðinn“.

Setja sér markmið/takmark (orðtak)  Hafa hugsjón/markmið/takmark sem unnið er markvisst að.  Á þann hátt næst jafnan skjótari árangur en ef unnið er stefnulaust.  „Og treystirðu Guði þá tekst þér um síð/ það takmark er snemma þú settir./  En mundu að oft kemur yfir sú tíð/ sem engu úr fyrir þér réttir./  Þá verðurðu að standa sem drengur á dröfn/ og drengur að reynast uns kemurðu í höfn“  (VÖe; Ísland). 

Setja sig (orðtak)  Taka á rás.  „Kindurnar settu sig neðan brekkuna þegar ég hóaði“.  „Hundurinn setti sig strax í sjóinn eftir fuglinum“  (IG; Sagt til vegar I).  „Ég reyndi að komast fyrir lambhrútinn á brúninni, en hann setti sig þá bara framaf“!  „En viti menn:  Allt í einu setja ærnar sig út á ísinn í einum hnapp, er ég var rétt að komast fyrir þær“  (Júl. Reynir Ívarsson; Maður og kindur í ísvök; Lesb.Tímans)

Setja sig á háan hest (orðtak)  Hreykja sér; þykjast meiri en maður er.  „Vertu ekkert að setja þig á háan hest“!

Setja sig inní (orðtak)  Kynna sér.  „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu…“  (PG; Veðmálið). 

Setja sig í stellingar (orðtak)  Búast til; verða viðbúinn; hafa uppi viðbúnað; gera sig kláran.  „Hann er að verða búinn að tína eggin saman af hillunni; setjið ykkur í stellingar til að draga“!

Setja sig neðan /ofan (orðtak)  Fara (óvænt) upp eða niður; oft notað um fé sem smalað er í brattlendi.  „Ég hélt ég væri kominn fyrir kindina í hlíðinni, en þá allt í einu setur hún sig ofan alla hlíð; á þessu líka skurki“! „Hrúturinn tekur þá rennslið og setur ofan allan hrygginn, niður undir sjórarkletta“.  „Hópurinn setti sig neðan; upp hrygginn og Lambagang; alveg á brún“.

Setja sig niður (orðtak)  A.  Faá sér sæti; setjast.  „Gerðu svo vel og komdu innfyrir og settu þig niður“.  B.  Setjast að; rífa sér ból.  „Þau voru varla búin að setja sig niður á jörðinni þegar karlinum datt í hug að flytja aftur“. 

Setja sig upp á móti (orðtak)  Leggjast gegn; vera andvígur.  „Ég ætla ekki að setja mig upp á móti þessu ef þið haldið að það sé til bóta, en ekki er ég vel hress með það“.

Setja/reisa skorður við (einhverju) / Setja (einhverju) skorður (orðtak)  Setja (einhverju) takmörk; sporna við.  „Stjórnvöld hafa talið nauðsynlegt að setja skorður við flóttamannastraumi til landsins“.  Skorður eru reistar undir súð báta til að halda þeim réttum í sátri.  Hér gæti þó verið átt við hindrun af einhverju tagi, t.d. í orrustu.

Setja skörinni lægra/hærra (oðtök)  Meta/virða meira/minna en annað.  „Fyrir mína parta þá set ég nú þennan hrút skörinni hærra en hinn, hvað varðar byggingarlagið“.  Orðið er komið frá setu manna eftir virðingarröð í skálum að fornu.  Pallar voru með veggjum og á þeim bekkir sem húsbændur og jafningjar þeirra sátu á, en vinnufólk, börn og annar lýður átti setu á pallskörinni.  (Sjá skörin færist upp í bekkinn).

Setja (einhverjum) stólinn fyrir dyrnar (orðtak)  Draga mörkin; reisa skorður við; grípa í taumana.  „Skemmtanalífið var farið að verða æði kostnaðarsamt, og að því kom að foreldrarnir settu honum stólinn fyrir dyrnar“.  Komið úr réttarvenju erlendis að setja stól fyrir dyr sem bann við aðgengi.  „Þannig var t.d. settur sóll fyrir framan dyr tvígifts manns, ef rjúfa átti eignarsamfélag hans og barna af fyrra hjónabandi“ (HH; Ísl. orðtakasafn).

Setja/gera strik í reikninginn (orðtak)  Setja áætlanir úr skorðum; hindra; breyta því sem ætlað var.  „Ég ætlaði að vera kominn suður um þetta leyti, en veðráttan hefur heldur betur sett strik í reikninginn“.  Dregið af breytingum í bókhaldi/reikningshaldi með útstrikunum.

Setja (einhverju) takmörk (orðtak)  Takmarka eitthvað; draga einhverju mörk.  „Það verður að setja því einhver takmörk sem eytt er í svona óþarfa af almannafé“!  Sjá engin takmörk sett.

Setja til (orðtak)  A.  Ráða einhvern til verks/vinnu.  „Ég var settur til að hausa“.  B.  Gera að skilyrði.  „Hann seldi mér hrútinn, en setti það til að ég tæki hann strax á hús“.

Setja til höfuðs (orðtak)  Setja til tryggingar; setja til gæslu.  „Ég setti strákinn til höfuðs árans kúnum; að líta eftir því að þær færu ekki í rófugarðinn“.

Setja til sjóar / Setja niður / Setja ofan (orðtök)  „Búið var að hreinsa sand úr bátum, og voru þeir settir til sjóar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Setja tönn fyrir tungu (orðtak)  Hætta að tala; þagna; loka sínum munni.

Setja undir sig hausinn (orðtak)  Um erfitt úrlausnarefni; einhenda sér í; gera atlögu að.  „Nú þarf ég bara að setja undir mig hausinn og klára að smíða þetta“.

Setja um (orðtak)  Hrinda niður; fella; hella úr í ógáti.  „Nei; nú setti ég bollan um í ógáti; réttu mér einhverja þurrku“.  „Passaðu að hrútarnir setji ekki vatnfötuna um, þegar þú vatnar þeim“.

Setja undan sjó (orðtak)  Setja/draga bát svo hátt í fjöruna að honum sé óhætt fyrir öllum sjógangi um háflæði.  „Oftast var báturinn skolaður áður en hann var að fullu settur undan sjó; nema því aðeins að ráð væri á unglingum til að gera það þegar báturinn var kominn í skorður“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Setja undir sig hausinn (orðtak)  Um það þegar skepna býst til að veita atlögu með því að lækka höfuðið og beina því í átt að andstæðingi.  Einnig notað um það þegar maður beygir sig og gengur álútur gegn veðri til að hlífa andlitinu; eða beygir sig þegar ágjöf ríður yfir bát.  Í líkingamáli notað um að nota seiglu/þrjósku þegar maður kemur málefni áfram.  „Það verður víst að setja undir sig hausinn og halda út í élið“.

Setja upp (orðtak)  A.  Að draga bát upp á land. Áðurfyrr var sett upp með handafli, enda nægur mannskapur til þess.  Síðar var farið að nota gangspil, og enn síðar að taka bát í sérsmíðaðan vagn, sem hann var settur í á floti og síðan dreginn upp með dráttarvél eða öðru.  „Var verið að setja bátinn upp, en óðara brugðið við og haldið í áttina til Guðbjartar og hann fluttur í land, en síðan var báturinn sóttur“.   (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).   B. Að búa til lanir, galta eða hey.  „Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi; í föng ef hey var blautt, annars lanir og að lokum galta; oftast kringlótta, þegar heyið var farið að þorna vel“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  C.  Reisa mastur á bát; tréreisa.  „Þegar seglbúið var fylgdu því ýmsar skipanir formanns til háseta:  -Setjið upp!- Setjið upp og greiðið úr seglum! – Tréreisið! – Mastrið! – Takið til!“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Setja upp gestaspjót (orðtak)  Um hegðun kattar; teygja aðra afturlöpp upp í loftið og sleikja sig að aftanverðu.  Þjóðtrú sagði það boða gestakomu.

Setja upp hundshaus / Vera með hundshaus (orðtak)  Vera óánægður; vera fúll/afundinn.  „Það þýðir ekkert hjá honum að setja upp hundshaus yfir þessu; hann verður bara að bíta í það súra epli að þessu verður ekki breytt“!

Setja upp húfu/hatt/höfuðfat (orðtök)  Setja höfuðfat á koll sér.  „Segir sagan að fljótir hafi þeir félagar Jóns verið að setja upp húfur sínar er þeim mætti þessi sjón“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Setja upp skeifu (orðtak)  Beygja af; mynda grátvipru á munni.  „Það tekur því ekki að setja upp skeifu yfir því að heimalningurinn sé settur í sláturhúsið; það verður kannski annar næsta sumar, stubbur minn“.

Setja upp svip (orðtak)  Verða reiðilegur/móðgaður/undrandi/hneykslaður á svipinn.  „Ég sá að frúin setti upp svip þegar ég nefndi verðið“.

Setja út (orðtak)  A.  Hleypa fé útúr húsum; láta út.  „Það mætti fara að setja féð út“.  B.  Í spilum; leggja spil af hendi í borðið.  „Nú átt þú að setja út“.  C.  Um siglingu skips; miðun þeirrar stefnu í korti sem sigla skal.  Ef siglt er til staðar sem ekki er í augsýn er stefna sett/stungin út í korti og síðan sigld eftir kompás.

Setja (einhvern) útaf laginu (orðtak)  Fipa/rugla einhvern við það sem hann er að fást við.  Vísar til þess að fipa áralag/takt manns við róður.  „Nú settirðu mig alveg útaf laginu; ég þarf að byrja aftur að telja“!

Setja út af sakramentinu (orðtak)  Fella í ónáð; segja upp störfum; svipta ábyrgðarstöðu.  „Ég er hræddur um að þessi nýi smali verði fljótt settur út af sakramentinu ef hann liggur bara í berjum sýknt og heilagt“.

Setja út á (orðtak)  A.  Finna að; gera aðfinnslu/athugasemd við.  „Ég held að hann hafi engin efni á að setja út á umgengni annarra“!  B.  Láta eitthvað út á annað.  „Settu ögn meiri kanil útá grautinn fyrir mig“.

Setja yfir (orðtak)  A.  Setja pott á eldavél til matargerðar.  „Ég set þá soðninguna yfir ef þið komið fljótlega í mat“.  B.  Breiða hærur yfir galta.  „Það þarf að setja yfir niðri á Fitinni áður en fer að rigna“.  C.  Um úrkomu; koma með; setja á.  „Nú held ég að hann sé að setja yfir okkur glórulaust él“.

Setjast að (orðtak)  A.  Búast til langdvalar.  „Förum nú að koma okkur; eða ætlarðu kannski að setjast alveg að“?  B.  Um sár; skurma; byrja að gróa.  „Það er byrjað að setjast dálítið að þessu“.

Setjast að (orðtak)  A.  Verða um kyrrt; búa um sig á stað; staðnæmast.  „Nú þurfum við að fara að halda áfram göngunni; ef við ætlum ekki að setjast hér að“!  „Þeim leist vel á bújörðina og langar að setjast hér að“.  B.  Umkringja; þjarma að.  „Þeir settust að honum eftir þessa uppákomu, og hann viðurkenndi að lokum sín mistök“.  C.  Um sár/hrufl/skurð; byrja að gróa; koma bandvefur.  „Ég tók umbúðirnar af og sýndist að aðeins væri byrjað að setjast að sárinu“.

Setjast að (orðtak)  A.  Um mann skepnu; verða um kyrrt; slá sér niður.  „Heimakæri frændinn, hann rekur blómlegt bú;/ blessaður hann var að láta út kýrnar./  Ég flýtti mér þá til hans og sagði „sælinú/ ég sest hér að“; hann hvessti á mig brýrnar“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).  B.  Um sár; myndast skurn/húð á yfirborði; byrja að gróa; skurma.  „Vertu nú ekki að rífa ofanaf sárinu eftir að farið er að setjast að því“!

Setjast að (einhverjum) (orðtak)  Um það þegar einn eða fleiri hitta mann og reyna að þvinga hann eða fá til að samþykkja sinn vilja.  „Þeir settust að honum og reyndu hvað þeir gátu, en hann sat fastur við sinn keip“.

Setjast að snæðingi (oðrtak)  Setjast að borðum; fá sér að borða.  „Settust  nú allir að snæðingi og kveikt var undir kaffikatlinum“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).  „Nú er Gummi kominn á Gjögra og hefur komið lömbum sínum í réttina og er þá sest að snæðingi í kofanum, eins og torfhúsið var oftast kallað“  (PG; Veðmálið).  „Jól í bernsku minni voru hátíðleg haldin þannig að á aðfangadag kl sex var allt heimilisfólkið samankomið við útvarpstækið að hlýða á aftansöng.  Síðan var sest að snæðingi“  (ÖG; Glefsur og minningabrot). 

Setjast að spilum (orðtak)  Setjast niður saman til að spila á spil.  „Að því loknu var sest að spilum“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku hans). 

Setjast á rökstóla (orðtak)  Hefja rökræður; ræða um mál til að komast að kjarna/sannindum þess; jafna ágreining.  „Við settumst á rökstóla og náðum að lokum samkomulagi“.

Setjast í dómarasæti (orðtak)  Dæma; fella dóm.  „Ég ætla ekki að fara að setjast í neitt dómarasæti í þessu“.

Setjast í helgan stein (orðtak)  Hætta að vinna; slá sér til rólegheita.  „Eruð þið alveg sestir í helgan stein þarna í aðgerðinni“?!  Í líkingunni merkir steinn klaustur, og þvi er merkingin sú að ganga í klaustur.

Setjast til borðs (oðrak)  Fá sér sæti við borð.  „Maturinn er alveg að koma;viljiði ekki bara setjast til borð“?  Af sama meiði er að „setja (einhvern) til borðs með (einhverjum“; að láta einhvern snæða með öðrum.

Setjast upp/ setjast að (orðtak)  A.  Um fólk; slá sér niður til langdvalar; verða um kyrrt; standa lengi við.  „Það er best að fara að koma sér; ég ætlaði nú ekki að setjast hér upp“.  B.  Um fugl; koma í varpstað.  „Nú er múkkinn farinn að setjast upp“.

Setjast upp (orðtak)  A.  Um fugl; koma í bjarg til undirbúnings varpi.  „Múkkinn er farinn að setjast töluvert upp“.  „Fuglinn er að mestu sestur upp á þessum tíma“.  B.  Um gest/aðkomumanneskju; gerast þaulsætinn á bæ; setjast að og vilja ekki fara.  „Nú þarf ég annaðhvort að fara að koma mér, eða hreinlega setjast upp“!

Setjum sem svo... / Segjum nú...  (orðtök)  Ímyndum/hugsum okkur....  „Setjum nú sem svo að þessi flokkur komist í ríkisstjórn; haldiði bara að hér muni drjúpa smér af hverju strái daginn eftir“?!

Setlag (n, hk)  Lag af seti, vanalega rauðleitt, milli blágrýtislaga í jarðlagastafla, t.d. í grennd við Kollsvík.

Setningsspil (n, hk)  Gangspil; spil sem notað er til setningar á bát.  „Tvö setningsspil voru í Kollsvík frameftir 20.öld; eitt í Kollsvíkurveri og annað ofanvið vörina í Láganúpslendingu“.

Setningur (n, kk)  Það verk að draga bát upp, þannig að öruggt sé fyrir sjógangi.  Var áðurfyrr jafnan í karlkyni í máli Kollsvíkinga, en vegna aðkominna áhrifa er það líklega oftar í kvenkyni nú.  „Við setning voru alltaf notaðir hlunnar, er lagðir voru fyrir bátinn það þétt að jafnan voru tveir undir kjölnum samtímis“  (KJK; Kollsvíkurver).

Setprik (n, hk)  Prik í hænsnahúsi/hænsnakofa, sem hænur sitja á.

Setskauti (n, kk)  Hluti af skinnbrókum; sjá skinnklæði.  „Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; eitt í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Settla (s)  Gera málamiðlun; stilla til friðar; koma á hreint.  „Honum tókst að settla málin áður en til meiri ófriðar kom“.  „Ætli við þurfum ekki eitthvað að settla þetta með skuldamálin“.

Settlega (ao)  Myndarlega; reglulega; snyrtilega; rétt.  „Mér fannst öllu mjög settlega fyrir komið“. 

Settlegur (l)  Myndarlegur; reglulegur; í góðu/réttu formi; snyrtilegur.  „Frúin trítlaði á eftir; settleg og hringaskreytt“.

Setur (n, hk)  A.  Aðsetur höfðingja/prests; stytting úr höfðingjasetur/prestssetur.  „Prestssetur var lengi í Sauðlauksdal“.  B. Stór varpstaður bjargfugla; stytting úr fuglasetur.  „Það er vel orpið í Setrunum“.

Sexflakandi (l)  Um stærð á lúðu og skiptingu hennar í stykki.  „Aftara flakið var látið halda fullri lengd á þeirri lúðustærð  sem nefndar voru langflökur.  Á stærri lúðum var þverbiti tekinn, jafnt vaðhornsskurði og þá voru þær kallaðar sexflakandi“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá nánar um „vaðhorn“.

Sexróinn (l)  Um bát; róið af sex ræðurum allajafna. 

Sextantur (n, kk)  Mælitæki, einkum notað fyrr á tíð í skipum til staðarákvarðana og stefnumiðunar.  Nafnið er dregið af því að skali tækisins tekur yfir sjötta part úr hring, eða 60 gráður.  Notkunin felst í því að fá tiltekna stjörnu til að sýnast vera við sjóndeildarhring, en þá var hægt að reikna út þá breiddargráðu sem skipið var á.  Ekki er vitað til þess að Kollsvíkingar hafi notað sextant til siglinga til eða frá víkinni, þó sumir hafi eflaust þekkt notkun hans.

Sexæringur (n, kk)  Bátur af vissri stærð; oftast róinn af sex mönnum, en það var þó ekki einhlítt.  „Sexæringar (á Tálknafirði og Arnarfirði) voru einkum notaðir til hafróðra og flutninga...  Þeir voru áttrónir þótt þeir væru nefndir sexæringar.  Allir sexæringar voru tvísigldir, og fylgdi þeim því tvö möstur, tvö segl og ein fokka.  Útleggjari fyrir klýfi þekktist ekki fyrr en sprytsiglingin sunnlenska kom til sögunnar, rétt fyrir aldamótin (1900)“  (Ingivaldur Nikulásson; Barðstrendingabók). 

Seyði (n, hk)  Soð; súpa; soðvatn þess sem verið er að sjóða.  Oftast er talað um seyði þegar soðnar eru jurtir, t.d. fjallagrasaseyði

Seyðingur / Seyðingsverkur (n, kk)  Langvarandi verkur, ekki mjög sár en óþægilegur.  „Ég er kominn með einhvern fjárans seyðing í endajaxlinn.  Ætli ég þurfi ekki að fara að líta til tannlæknis bráðlega“.

Seyma (s)  Negla/festa með saum; oftast notað um bátasmíði.  Bátar gátu verið þéttseymdir eða gisseymdir.

Seyma upp (orðtak)  Endurnýja/bæta neglingu/seymingu á báti.  „Það þyrfti að fara að seyma bátinn upp“.

Seymi (n, hk)  A.  Hverskonar saumur eða efni til sauma.  B.  Þráður til sauma; t.d. skinnklæða og skóa, fenginn úr sinaböndum sem liggja ofan á hryggvöðvum nautgripa, hrossa og hvala.  Sinarnar voru þurrkaðar og þá mátti fá úr þeim fína og grófa þræði að vild.

Seymur (n, kk)  Saumur.  Orðið er eingöngu notað núorðið í orðtakinu að draga seyminn, þ.e. segja eitthvað með áberandi langri áherslu á sérhljóða.  Ekki fer á milli mála að það orðtak vísar til sauma; til þess að draga langan þráð í gegnum klæði.  Orðið „seymi“ sem nú er oftast í hvorugkyni, hefur því fyrrum verið í karlkyni.

Seyra (n, kvk)  A.  Drulla; efja; mykja.  B.  Stundum notað eingöngu um mannasaur sem safnað hefur verið í rotþró eða skítaþró.  Fyrrum var seyra talin mikilvægur áburður og borin á tún.  T.d. nýtti Guðbjartur á Láganúpi seyruna úr kamrinum þar meðan hann var.  En nú veldur einhver pempíuháttur því að þessi dýrmæti áburður er urðaður; engum til gagns.  C.  Fátækt, bágindi.  Sbr. búa/lifa við sult og seyru.

Seytl (n, hk)  Vætl; sigt; sytra; lítið rennsli vatns eða annars vökva.  „Víða er seytl úr jörðu á Hústóftarbökkunum“.

Seytla (s)  Vætla; renna lítilsháttar.  „Heimantil við Litlavatn seytlar vatn undan Strympuormunum“.

Sexróinn bátur (orðtak)  Bátur með sex ræðum/keipum, sem unnt er að róa með sex árum.  „Þeir fara frá Kollsvík fyrri part dags af stað, á róðrarbát sem hét Heppinn.  Þetta var sexróinn bátur, eins og flestir bátar voru þá sem sóttu sjó með lóðum sem veiðarfæri í Kollsvík“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Sextugt (l)  Sextíu faðma sjávardýpi/hæð bjargs.  „Þar er sextugt af brún í fjöru“.  „Snemma virðist sá háttur komast á að telja sextug (þ.e. 60 faðma) færi hæfilega löng“  (GG; Skútuöldin). 

Sexæringur (n, kk)  Bátur sem róinn er af sex ræðurum, þ.e. með tólf ræði.  Þeir voru oft um 23-27 fet að lengd eða 7-8 ½ m, og burðargetan oft um 4 tonn.  Sexæringar og stærri för voru gjarnan nefnd skip en bátar minni. „Þar sem Miðlandahilla er breiðust mætti hvolfa sexæringi“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Séð það svartara (orðtak)  Sjá sjá það svartara.

Ség (s, þt)  Þátíð orðsins að „síga“ var yfirleitt með þessum hætti í Rauðasandshreppi áðurfyrr, þó nú sé „seig“ almennt notuð.  „...þegar hlaup var í ánni ruddi hún möl og rofahnausum í Síkið; eins ség jarðvegur frá mýrlendinu milli Holtanna og þrengdi farveginn“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Sélegur (l)  Laglegur; vel útlítandi.  „Þetta er hinn sélegasti gripur“.

Séní (n, hk)  Dönskusletta, upptekin á síðari árum í merkingunni gáfnaljós/snillingur.

Séns (n, kvk)  Sletta, upptekin á síðari árum í merkingunni möguleiki.

Sénslaust (l)  Ómögulegt.  Dregið af slettunni séns.

Sér (ao)  Sér í lagi; sérstakur; aðskilinn frá öðrum.  „Tvílembur eru hafðar í sér hólfi“.

Sér/sést á (orðtak)  Má sjá á.  „Nú er ég glaður á góðri stund/ sem á mér sér“ (Hallgrímur Pétursson).

Sér á grís hvar í garði er alinn (orðatiltæki)  Útlit eða framferði manns ber oft upprunanum vitni.  „Það var þá fögnuður að fá þennan flokkahlaupara í framboð; sér á grís hvar í garði er alinn“!

Sér á parti (orðtak)  A.  Sérstaklega; beinlínis; sér í lagi.  Vegagerðin þarf að veita fé í þennan veg, sér á parti“   B.  Einstakur; sérstakt mál/atriði.  „Þarna voru margir góðir leikarar, en hann var alveg sér á parti“.

Sér eignar smalamaður fé (þó engan eigi hann sauðinn) ( orðatiltæki)  Menn láta oft sem þeir eigi það sem þeir höndla með í umboði annarra. 

Sér ekki á dökkan díl (orðtak)  Svo mikill snjór á jörðu að fátt stendur uppúr; allt hvítt af lausamjöll.  Sjá dökkur díll og rauð jörð.

Sér ekki á svörtu (orðtak)  Sjá það sér ekki á svörtu.

Sér ekki fyrir endann á (orðtak)  Sjást engin endalok á.  „Það sér ekki enn fyrir endann á þessari kuldatíð“.

Sér ekki fyrir vend (á vað) (orðtak)  Um það þegar vaður er gefinn svo hratt niður í bjargsigi að ekki sjást skil vafninga á honum þegar hann rennur um hendur undirsetumanna.  „Ef um stórt loftsig var að ræða var vönum sigara gefið svo fljótt að ekki sá fyrir vend á vaðnum“ (LK; Ísl.sjávarhættir V). 

Sér ekki högg á vatni (orðtak)  Sést ekki að neitt sé farið/eytt/horfið.  „Þrátt fyrir alla þessa miklu eggjatöku virtist ekki sjá högg á vatni; þetta hafði engin áhrif á fuglastofnin“.  Líkingin á víð það að ekki sér á vatni þó höggvið sé í það.

Sér ekki út úr augum (orðtak)  Um dimmviðri; lítið skyggni vegna úrkomu/snjókomu/kófs.  „Það þýðir ekkert að leggja af stað í þessu; það sér ekki út úr augum fyrir byl“.

Sér er (nú) hver/hvað (orðtak)  Upphrópun í byrjun andsvara í þrætu eða hneykslun.  „Hann segist hafa látið moka hingað í gær.  Sér er nú hver moksturinn, þegar vegurinn er gjörsamlega tepptur niðri í Hæðinni“!

Sér fyrir / Sér móta fyrir (orðtök)  Sjást mót á; mótar fyrir.  „Þarna sér ennþá fyrir tóftum“.

Sér fyrir endann á (orðtak)  Fer að ljúka.  „Loksins fer að sjá fyrir endann á þessari netahreinsun í bili“.

Sér hver heilvita maður / Sér hver sjáandi maður (orðtök)  Getur hver maður séð; eir greinilegt.  „Svona getur þetta ekki gengið; það sér hver heilvita maður“!  „Þetta hlýtur hver sjáandi maður að sjá“!

Sér í hann hvítan (orðtak)  Um sjólag; brotnar úr báru; fellur úr báru; hvítnar í báru (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar.  „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi.  Jók það báru mjög fljótt, þannig að farið var að falla af báru og sjá í hann hvítan“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Sér í lagi (orðtak)  Sérstaklega; einkanlega.  „Sér í lagi þykir fýlnum lifrin herramannsmatur“.

Sér til óbóta (orðtak)  Svo manni verður illt af; svo manni líður illa.  „Nú er ég búinn að éta mér til óbóta“.

Sér til sálubótar/sáluhjálpar (orðtök)  Sér til hugarhægðar/yndisauka.  „Maður er nú meira að hripa þessi orð niður sér til sálubótar en af einhverri fræðimennsku; hvað þá heldur af nokkurri getu“.

Séra (n, kk)  Titill presta og prestvígðra manna.  Var undantekningarlaust viðurnefni á undan nafni þeirra fyrrum, en stundum sleppt nú á tímum.  „Séra Grímur Grímsson bjó síðastur presta í Rauðasandshreppi“.

Sérdeilis / Sérleiðis (l)  Mjög; sérstaklega.  „Það væri sérdeilis gaman ef þið létuð sjá ykkur í veislunni“.

Sérdrægni (n, kvk)  Hlutdrægni; eigingirni; viðleitini til að skara eld að sinni köku.  „Mér finnst að þeir hafi sýnt verulega sérdrægni í þessum vegamálum“.

Sérdrægur (l)  Hneigist til hlutdrægni/eigingirni/sérdrægni.

Sérframboð (n, hk)  Framboð utan flokka á pólitískum vettvangi.

Sérfróður (l)  Fróðari en almennt gerist um tiltekið efni.  „Hann er sérfróður á þessu sviði“.

Sérfræðingur (n, kk)  Maður sem er sérfróður/ sem veit meira en hver annar um tiltekið efni.  Sú fráleita hefð hefur skapast í íslensku nútímamáli að orðið eigi eingöngu við um þá sem lengsta hafa skólagönguna.  Þetta er ein af skaðlegustu kreddum nútímaþjóðfélags, og veldur því að illa nýtist þekking hinna fjölmörgu sem hennar hafa aflað af eigin rammleik og/eða búa yfir meðfæddum hæfileikum.  Hluti af menntasnobbi.  Sjá einnig undirlægjuháttur.

Sérgáfa (n, kvk)  Sérstakur meðfæddur hæfileiki. 

Sérgóður (l)  Sjálfgóður; sérhlífinn.  „Það þótti hinn mesti löstur í Kollsvík að vera sérgóður og nískur“.

Sérgæðingur (n, kk)  Sá sem er sérgóður.  „Sumum þótti hann heldur mikill sérgæðingur í þessu efni“.

Sérgæðingsháttur (n, kk)  Sú tilhneyging að halda sig og sína betri/æðri/fullkomnari en aðra.  „Þessi fjölskkylda hefur komið sér fyrir í ráðandi stöðum samfélagsins af óverðskulduðum sérgæðingshætti“.

Sérhlífinn (l)  Hlífir sér við vinnu/fyrirhöfn; latur.  „Hann er helst til latur og sérhlífinn finnst mér“.

Sérhlífni (n, kvk)  Leti. „Mér finnst þetta nokkur sérhlífni af honum“!

Sérhver jafnan sínu ann (orðtak)  Hverjum þykir vænst um sitt/ sínar eigur/ sína vandamenn.

Sérhvur (fn)  Sérhver; sérhvor.  Nokkuð algeng framburðarmynd var áðurfyrr.  „Þetta getur sérhvur maður séð“.

Sérílagi (ao)  A.  Sérstaklega; einkanlega.  „Egg eru viðkvæm í flutningum; sérílagi múkkaeggin“.  B.  Sér; útaf fyrir sig.  „Það er betra að sjóða lifrina sérílagi, en ekki með fiskinum“.

Sérkenni (n, hk, fto)  Síðari tíma orð yfir einkenni. 

Sérkennilegur (l)  Einkennilegur; sérstakur; sker sig úr.  „Niðurundan Þúfustekk er sérkennilegt vik eða skarð í hjallanum, nánast ferhyrnt að lögun, og heitir Klettakví“  (HÖ; Fjaran). 

Sérlega (ao)  Sérstaklega; mjög; afar.  „Hann er sérlega laginn við svona smíði“.  „Ekki þykir mér þetta sérlega gott, en hollt mun það vera“.

Sérlegur (l)  Sérstakur.  „Hann var sérlegur sendiboði stjórnvalda í þessum málum“.

Sérlundaður / Sérsinna (l)  Sá sem hugsar öðruvísi en aðrir; sérvitur.  „Hann þótti alltaf dálítið sérlundaður“.

Sérmunalega (ao)  Sérdeilis; sérstaklega; einstaklega; afar; mjög.   „Mér fannst þetta sérmunalega súrt í brotið, og lét óánægju mína skýrt í ljósi“.  „Þetta finnst mér sérmunalega fráleit aðgerð“!

Sérmunalegur (l)  Sérstakur; einstakur; mjög mikill.  „Þetta var alveg sérmunalegur klaufaskapur“!  Oriðn „sérmunalega“ og „sérmunalegur“ voru nokkuð almennt notuð í máli Kollsvíkinga framundir þennan dag, en virðast ekki hafa þekkst annarsstaðar.

Sérplæginn (l)  Sérgóður; eigingjarn; hugsar mest um eigin hag.

Sérplægni (n, kvk)  Eigingirni; síngirni; gróðahyggja.

Sérréttindi (n, hk, fto)  Réttur umfram það sem almennt gerist; forréttindi.

Sérsaumaður (l)  Um fatnað; saumaður sérstaklega til að passa viðkomandi manneskju.

Sérsinna (l)  Sérvitur; sérlundaður; dyntóttur.  „Sumum þótti hún dálítið sérsinns, en ég komst vel af með hana“.

Sérstaða (n, kvk)  Það sem gerir eitthvað einstakt/sérstakt.  „Sérstaða landslags á þessum slóðum liggur ekki síst í því að það er ómótað af skriðjöklum og stórfljótum á síðari tímum“.

Sérstaklega (ao)  Einstaklega; mjög.  „Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þessu“.  „Ég þakkaði öllum fyrir, en henni þó sérstaklega fyrir þessa dýrmætu gjöf“.  „Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu“  (PG; Veðmálið).   „Heyrðu hérna lagsi, lýst þér ekki á mig?/  Lagleg er ég, sérstaklega í myrkri./  Ég fylgi þér í rúmið, þá fer svo vel um þig,/ og faðma þig með jómfrúrhendi styrkri“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Sérstæður (l)  A.  Sá sem stendur sér/ aðskilinn frá öðrum.  B.  Sérstakur; einkennilegur.  „Hann var óumdeilanlega mjög sérstakur karakter“.

Séruppdráttur (n, kk)  Sérstakt kort; sérstök teikning mannvirkis.  „Teiknarinn Samúel Eggertsson bjó um tíma á Grund/Torfamel í Kollsvík og teiknaði þá séruppdrátt af Kollsvík og nágrenni“.

Sérviska (n, kvk)  Sterk persónueinkenni í háttum/vilja; ákveðni í skoðunum; kenjar; duttlungar.  „Sumir kalla það sérvisku að éta ekki þetta græna vatnsglundur sem kallast agúrka“.

Sérviskufullur (l)  Haldinn mikilli sérvisku.

Sérviskufugl / Sérviskugaur / Sérviskuhundur / Sérviskupúki (n, kk)  Sérvitringur; sá sem þykir helst til fylginn sér í skoðunum; mjög sjálfstæður í hugsun.  „Þú færð þann sérviskufugl seint inn á þetta“.  „Hann er óttalegur sérviskuhundur; það verður ekki af honum skafið“.

Sérviskukjaftæði / Sérviskurugl (n, hk)  Fullyrðing sem talin er byggð á sérvisku.  „Þetta er nú bara eitthvað sérviskukjaftæði, sem ekkert mark er á takandi“!

Sérvitringur (n, kk)  Sá sem er sérlundaður/dyntóttur/öðruvísi í háttum/skoðunum en fjöldinn. 

Sérvitur (l)  Dyntóttur; hefur aðrar skoðanir en tíðkast; sérlundaður.  „Karlinn var ekki vitlaus en afar sérvitur“.

Sést það síst sem nefinu er næst (orðtatiltæki)  Maður sér stundum ekki það sem er nálægt.  Um það var einnig sagt „það var of nærri mér“.  Stundum haft um það að menn gagnrýni fremur hjá öðrum en sjálfum sér.

Séttla (s)  Jafna; róa; friða.  „Það verður að fara í að séttla þetta deilumál; það bíður sér ekki til bóta“.

Séttla málin (orðtak)  Jafna ágreining; lægja öldurnar; friða.  „Hann reynir til að séttla málin milli bæjanna“.

Séttlaður (l)  Um mál/ágreining; búið að sætta; komin niðurstaða í.  „Við getum ekki slitið fundi fyrr en þessi álitamál hafa verið séttluð“.

Séttla sig / Séttlast (orðtak/s)  Róast; færast friður/ró yfir.  „Við látum féð vera í hólfinu meðan það er að séttla sig“.  „Úr þessu spunnust töluverðar deilur sem voru lengi að séttlast“.

Siða / Siða til (s/orðtak)  Aga; ala upp; temja góða siði.  „Það þyrfti aðeins að siða strákinn til“.

Siðaboð (n, hk, fto)  Regla í siðferði; boðorð.  „Rituðu margir riðuspá/ og reistu siðaboðin há./  /Engum griðum ærnar ná;/ úti er friður bændum hjá“  (ÖG; glefsur og minningabrot; ort þegar riðufé í Tálkna var skotið). 

Siðaður / Siðmenntaður (l)  Uppalinn; agaður; temur sér góða siði; kurteis.  „Hagaðu þér nú eins og siðaður maður“!

Siðapostuli / Siðapredikun / Siðavendni / Siðferði (n, kvk)  Ströng eftirfylgni þess sem viðkomandi ætlar að séu ríkjandi og góðir siðir samfélagsins; umvandanir við þá sem síður feta þann þrönga veg og þeir sjálfskipuðu regluverðir sem bera hitann og þungann af þessu.   „Yfirleitt hafa Kollsvíkingar ekki mikið tafið sig við umhyggju fyrir kreddum samtímans, né heldur hlaupið eftir siðaboðskap sem á hverjum tíma er í tísku.  Þeirra æðstu lögmál eru þau sem náttúran setur; þeirra helsta kennisetning er lífsbarátta.  Þó hafa í þeirra hópi verið einstaklingar sem telja verður siðavanda í meira lagi.  Hinir nafntoguðustu eru allt kvenfólk, sem bendir til að karlpeningurinn sé ekki eins smámunasamur á siðalögmálin.  Á fyrri öldum rétttrúnaðar og kirkjulaga fólst starf siðapostulanna einkum í að halda breyskum lýðnum við trúarsetninguna; líta eftir að siðsemi væri gætt; að ástamál fylgdu stéttvísi; föstur væru haldnar og guðsorð haft um hönd fremur en hin litríku áhersluorð sem Kollsvíkingum eru nokkuð töm á tungu.  Á fyrrihluta 20. aldfarinnar þróaðist starf siðapostulanna meira í það að halda fólki að góðum ungmennafélagsgildum; forðast brennivínsfjandann og gæta siðsemi í ástamálum.  Eftir að hinir öflugu siðapostular hættu að þruma sína siðavendni yfir Kollsvíkingum og öðru útnesjafólki var þess stutt að bíða að hrun yrði í byggðinni.  Má svo hver velta fyrir sér samhenginu þar á milli“.

Siðasakir (n, kvk, fto)  Kurteisissakir; yfirskin kurteisi/siðsemi/venju.  Sjá fyrir siðasakir.

Siðaskipti (n, hk, fto)  Nafn sem jafnan er notað um það þegar Danakóngur og höfðingjaveldi hans þröngvuðu Íslendingum til að kasta rótgrónum kaþólskum siðum og taka upp nýja lútherska siði kristinnar trúar.  Er vanalega miðað við að þetta hafi orðið haustið 1550, en þá var Jón Arason Hólabiskup; síðasti forvígismaður kaþólskra Íslendinga, hálshöggvinn í Skálholti.  Siðbreyting í trúmálum var þó mestmegnis yfirvarp kóngs, sem í skjóli hennar sölsaði undir sig eignir kirkjunnar; kom á ýmsum ströngum lagabreytingum, t.d. með Stóradómi og bjó í haginn fyrir hina illræmdu dönsku einokunarverslun.  Fyrir íslenska bændur fólst breytingin líklega helst í því að í stað kúgunar kaþólskrar kirkju kom nú kúgun kóngsins og höfðingja hans.  Sama skýring virðist vera á siðaskiptunum annarsstaðar í Evrópu.  Kirkjan var orðin valdamikil, rík og innan hennar þreifst allmikil spilling.  Stjórnvöld gripu því víða feginshendi þessa tylliástæðu hreintrúar til að seilast eftir auði og völdum kaþólskrar kirkju.  Vitanlega sótti smám saman í sama farið hjá hinni nýju kirkju varðandi spillingarmál, en girðingar voru settar við fyrri auðsöfnun.

Siðferði (n, hk)  Hegðun með tilliti til siða, trúar og hefða.  Oft í munni þeirra sem vilja upphefja sjálfa sig.

Siðgæði (n, hk)  Óljóst hugtak og hvergi vel skilgreint, en vísar til siðferðiskenndar og góðra siða.

Siðlaus (l)  Merkingarlaust hugtak, enda er enginn án siða eða lífsgilda af einhverju tagi.

Siðmenning (n, kvk)  Menningarsérkenni hvers þjóðfélags eða samfélagshóps.  Þannig hefur siðmenning t.d. Kollsvíkinga verið nánast sú sama og annarra Útvíknamanna; lítt frábrugðin því sem gerðist í næstu byggðum á sunnanverðum Vestfjörðum, en í fleiri atriðum frábrugðin t.d. Faxaflóasamfélaginu.

Siðprúður (l)  Til fyrirmyndar í hegðun/siðum/kurteisi.

Siðsamlega (ao)  Af siðsemi; með góðu/siðuðu framferði.  „Hagaðu þér nú siðsamlega“!

Siðsamlegur (l)  Háttprúður; siðprúður; sem sýnir háttvísi/kurteisi.  „Þetta er nú ekki vel siðsamlegur klæðnaður við svona tækifæri“.

Siður (n, kk)  A.  Venja; ávani.  „Hann hafði það til siðs að hella kaffinu úr bollanum á undirskálina og súpa af henni“.  B.  Háttprýði; góð venja; kurteisi.  „Mikil áhersla var á að ala börnin upp í guðsótta og góðum siðum“.  C.  Trú; trúarbrögð.  „Í Kollsvík var hálfkirkja í kaþólskum sið“.

Siðvenja (n, kvk)  Venja; siður; hefð.  Enn er í Kollsvík haldið þeirri siðvenju að biðja sjóferðabæn.

Sifjabönd (n, hk, fto)  Skyldleiki; fjölskyldutengsl; mægðir.  „Ég held að þeir séu tengdir einhverjum sifjaböndum, þó ég kunni ekki að rekja það“.

Sifjaður (l)  Mægður; tengdur sifjaböndum.  „Ég held að þeir séu sifjaðir í fjórða legg“.

Sifjamál (n, hk)  Dómsmál sem rís vegna gruns um sifjaspell“.

Sifjaspell (n, hk)  Blóðskömm; samfarir einstaklinga sem teljast of skyldir samkvæmt lögum.

Sig (fn)  Svonefnt „afturbeygt fornafn“; hefur þá séstöðu að nefnifall er ekki til.  „Það er best að fara að drífa sig“.  „Þetta hefur ekkert uppá sig“.  „Það segir sig sjálft“.

Sig (n, hk)  A.  Það að síga í bjarg, t.d. eftir fugli, eggjum eða fé.  „Niður á Miðlandahillu er langt sig“.  B.  Stag sem sett er yfir bát, hús eða annað til að ekki fjúki.  „Sett var sig yfir húsið og stórgrýti í hvorn enda“. C.  Grjót sem stagað er neðan í hornstaur eða aðra hluta girðingar til að halda henni niðri í lautum.

Sigaband / Sigafesti (n, hk/kvk)  Heyrðist sjaldan; venja var að tala um bjargtóg, bjargvað, sigtóg, sigvað eða einungis vað.

Sigamaður / Sigari (n, kk)  Maður sem sígur í björg til fyglinga, eggja o.fl.  „Hann var þrælvanur sigari og því sjálfsagt að fara að hans ráðum“.  Venja var vestra að tala ýmist um sigmann eða sigara.

Sigðarlaga / Sigðboginn (l)  Í laginu eins og sigð; bogið; hálfmánalagað.

Sigg (n, hk)  Þykkildi sem myndast á hornhimnu húðar við endurtekið álag og núning; t.d. á höndum vegna mikillar vinnu eða á fótum vegna langra gönguferða.

Sigga dýra (sérnafn)  Heiti á villisjeppa sem Össur og Ingvar í Kollsvík áttu um tíma í sameiningu á 7. áratug 20.aldar.  Nafnið fékk jeppinn hjá fyrri eiganda, en það fylgdi honum síðan.

Sigggróinn (l)  Með mikil þykkildi af siggi á höndum vegna vinnu.  „Þegar menn byrja á erfiðisvinnu með höndum, s.s. rakstri, mokstri, steinhleðslu, vaðdrætti, róðri eða netadrætti, verða hendur fyrst fjári aumar og drifblöðrur myndast á álagsstöðum.  En eftir nokkurn tíma þykknar skinnið og sigg kemur í þeirra stað.  á endanum verða hendur sigggrónar og þola þá vel hið endurtekna álag“.

Siginn (l)  Sem hefur sigið/hnigið/lækkað.  „Heyið í hlöðunni er töluvert sigið, eftir að hitnaði í því“.

Siginn blundur á brá (orðtak)  Sofnaður; farinn að sofa.  „Mér sýnist að honum sé siginn blundur á brá, þarna í hægindastólnum“.

Siginn fiskur / Sigin grásleppa (orðtök/heiti)  A.  Fiskur, oftast smár þorskur eða ýsa, sem hengdur er á rá í hjall slægður og hausaður og látinn verkast þannig að fiskurinn visast og breytir bragði án þess að úldna.  Tveir eru festir saman í spyrðu með bandsmeyg; spyrðubandi, sem hert er að stirtlunum með snúningi.  Leggjast fiskarnir þannig sinn hvorumegin við rána.  „Stærri fiskur en 12 tommur var yfirleitt flattur og saltaður eða hafður í skreið.  Fiskur sem átti að visast var alltaf spyrtur, þ.e. tengdir saman tveir og tveir með lykkju; spyrðubandi og kallaðist parið spyrða.  Stakur siginn fiskur nefnist spyrðingur....  Spyrðubönd voru jafnan úr slitinni línu.  En eigi að síður var þeim safnað saman jafnóðum og þau losnuðu.  Snúningurinn var tekinn af og spyrðuböndin geymd kippuð. Það var gömul trú að þau ættu að draga að afla, samanber málshátturinn „Gefst í gjörðar spyrður“.  B.  Grásleppa sem hengd er upp slægð en í heilu lagi og látin þorna/síga í nokkurn tíma.  Einnig fyrrum nefnd afsigin grásleppa (sjá hrognkelsi).  Grásleppa var látin síga í heilu lagi í Kollsvík, en ekki flökuð og kúluð eins og sá rauði, þunni og ónýti þráagrautur með sama nafni sem tíðkast syðra. 

Sigla / Siglutré (n, kvk)  Mastur á báti.  Að reisa siglu var nefnt að tréreisa (sjá sigling).

Sigla (s)  A.  Koma báti leiðar sinnar með seglum og stjórna honum (sjá sigling).  „Gísli gamli kom æpandi á móti syni sínum og sagði: „Ja þetta áttir þú ekki að gera.  Þú áttir að sigla; halda á að sigla.  Þá hefðir þú haft lagið upp“ “  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  Sjá sigling.  B.  Ferðast til útlanda. 

Sigla af sér (orðtak)  Sigla hraðar en annar bátur.  „Eftir að Ólarnir komu á hraðbátinn voru þeir fljótir að sigla af sér alla aðra grásleppubáta“.

Sigla á reiðanum (orðtak)  Láta bát/skip berast undan vindi með mastur og reiða uppi en án segla.  Slíkt er gert ef vindur er svo mikill að báturinn þolir engin segl.  Við þá siglingu er báturinn undir stjórn, en sé hann það ekki er það nefnt að láta reka á reiðanum.

Sigla beitivind / Sigla nærri vindi (orðtak)  Beita uppí; sigla bát eins nærri mótvindi og unnt er.

Sigla/fara bil beggja (orðtak)  A.  Sigla skipi mitt á milli tveggja hindrana, t.d. boða.  B.  Líkingamál; Fara meðalveginn við lausn máls.

Sigla brattan/krappan/úfinn sjó (orðtak)  A.  Sigla í miklum/úfnum sjó.  B.  Líkingamál; standa í stórræðum með mál/verkefni sem við er að fást; mæta erfiðleikum/andstöðu.

Sigla fullum seglum (orðtak)  A.  Sigla með öll segl uppi; tjalda því sem til er.  B.  Líkingamál; reka málefni/verkefni af fullum krafti.

Sigla fyrir (orðtak)  A.  Sigla fyrir/yfir víkina.  „Þarna er tvímöstruð skúta að sigla fyrir“.  B.  Líkingamál; forðast ásteyting/hindrun varðandi verkefni/málarekstur.  „Við reynum að sigla fyrir þetta vandamál“.

Sigla fyrir lausu (orðtak)  Um siglingu báts, þegar formaður/stýrimaður hefur dragreipið í hendi sér en setur það ekki fast, til að vera viðbúinn að lækka seglið í viðsjárverðri siglingu.

Sigla fyrir (öll) sker (orðtak)  A.  Sigla skipi svo djúpt að ekki steyti á grynningum og skerjum.  B.  Líkingamál; forðast vandræði/mótlæti/ásteyting.  „Það verður seint siglt fyrir öll sker í svona málum“.

Sigla heilu fari/skipi í höfn (orðtak)  Komast klakklaust í gegnum eitthvað.  „Enn er ekki ljóst hvort hann siglir heilu fari í höfn eftir þennan málarekstur“.

Sigla hraðbyri (orðtak)  A.  Sigla hratt í góðum byr.  B.  Líkingamál; fara hratt/rakleiðis í átt að tilteknu marki.  „Ég fæ ekki annað séð en þetta fyrirtæki sigli hraðbyri í gjaldþrot, með sama áframhaldi“.

Sigla í áslögum (orðtak)  Nota beitiás þegar sigldur er beitivindur með þversegli (sjá beitiás og sigling).

Sigla í grænni tóft (orðtak)  Sitja í grænni tóft sjá þar.  Sigla þannig að svo virðist sem sjór sé hærri borðstokkum bátsins, en haldist frá af ferðinni.

Sigla í harða húnboru (orðtak)  Sigla með segl órifuð og rá við húnboru/mastursauga, sem er gat ofarlega í siglu, sem dragreipið liggur um.  Í líkingamáli er orðtakið notað um það að fara fram af fullum þunga, eða berast mikið á.

Sigla í strand (orðtak)  Sigla skipi óvart þannig að það strandar.  „Togarinn sigldi í strand á Blakknesboða“.

Sigla krappan sjó (orðtak)  Sigla í slæmu sjólagi.  Óbein merking; að lifa við hættur.  „Oft sigldi Andrés krappan sjó í bókstaflegri merkingu, t.d. fór hann oft sinna ferða í því veðri sem stærri skip töldu sig fullkeypt á“  (ÖG; minningargrein um AK).

Sigla ljúft (orðtak)  Sigla bát fremur flatt með vindi.

Sigla milli skers og báru (orðatiltæki)  Fara milliveginn þegar um tvo kosti er að ræða, til að forðast vandræði.  Sjá vandi er að sigla milli skers og báru og fara milli skers og báru.

Sigla niður (orðtak)  Sigla á annað skip eða rekald svo það sekkur.

Sigla sama byr (orðtak)  Sigla við sömu skilyrði vinds og sjólags.  „Það sigla ekki allir sama byr“ merkir í líkingamáli að „misskipt er mannanna láni“; ekki njóta allir sömu velgengni.

Sigla sinn sjó (orðtak)  Fara leiðar sinnar; fara þangað sem vill.  „Hann verður þá bara að sigla sinn sjó ef hann vill ekki verða samferða okkur“.  Sjá láta sigla sinn sjó.

Sigla strik (orðtak)  Sigla í þá stefnu sem ákveðin hefur verið, t.d. sett út í korti. 

Sigla til sama lands (orðtak)  Fara heim; koma sér á sinn stað.  „Jæja; nú er orðið áliðið og ég held að maður fari bara að sigla til sama lands bráðum“.  Einnig stundum einungis „sigla“, viti viðstaddir hvað við er átt.

Sigla upp / Sigla uppundir (orðtak)  Sigla í land; fara í áttina til lands.  Notað eftir tíma seglbáta um róðrar- eða vélbáta.  „Við skulum nú fara að sigla aðeins upp; við getum þá rennt einhversstaðar á leiðinni“.

Sigla við laust (orðtak)  Sigla bát þannig að formaður heldur sjálfur við skaut segls og stjórnar því, en setur það ekki fast.  Hann hefur seglið þá á höndum, sem kallað er.

Sigla þvert (fyrir vindi) (orðtak)  Sigla með vind þvert á annað borðið.  Sé vindur stífur getur slíkt reynt allmjög á hæfni báts og stjórnenda.

Siglari (n, kk)  Skip sem fer vel í sjó/ lætur vel að stjórn undir seglum.

Sigldur (l)  A.  Farinn í siglingu.  B.  Líkingamál; búinn að fara til útlanda.  „Hann var heldur betur rogginn með sig þegar hann kom úr reisunni; enda orðinn sigldur maður“!

Sigling  Sjómenn í Útvíkum þurftu að kunna sitthvað fyrir sér í siglingum og vera naskir á sjólag til að tryggja öryggi sitt og annarra.  Einkanlega reyndi á formennina, sem höfðu alla stjórn á hendi og stýrðu skipi.  Notuð voru þversegl á minni bátum, þó aðrar seglagerðir hafi komið til á síðari öldum á þeim stærri.  Formaður sagði fyrir um reisingu segla og hélt um stýri (sjá setja fyrir).  „Að hafa geiglausa og listilega stjórn á stýri, jafnt í lognsævi sem spildusjó og háaroki, var óvéfengjanleg íþrótt...  Ávallt reyndist munur á mönnum við stýri og kom margt til.  Ef skip þótti skima mikið; vera óstöðugt í rásinni var það kallað að elta lambær... Stundum reis skip svo hátt í sjónum að það var hálft á lofti að aftan og við það missti stýrið sjó.  Var þá sagt að skæri undan.  En þá stýrðist ekki og skipið rann við og átti á hættu að taka sjó.  Til að auka meðbyr þótti áhrifaríkt að leita sér lúsa og fleygja þeirri veiði aftur af skipinu.  Aðrir létu lúsina á þóftu og veittu athygli skriði hennar; átti byrinn að koma úr sömu átt.  Loks létu sumir lúsina í seglið.  Með þessum aðferðum vonuðust menn eftir lúsabyr... Hvor sem þessi ráð dugðu betur eða verr þurfti oft að halda þangað sem kulaði; að róa undir vind.  Væri svo lítið kul að róa þurfti undir seglum var talað um að damla undir.  Þegar seglbúið var fylgdu því ýmiss konar fyrirskipanir formanns til háseta:  Setjið upp og greiðið úr seglum!  Tréreisið!  Takið til!  Einn maður réð við að tréreisa á bátum....Jafnskjótt og tréreist hafði verið, masturshællinn var kominn í stellinguna og mastrið hespað við þóftu, voru stagir leystir frá siglunni og síðan stagað í stafn og á bæði borð; framstag vanalega fest á undan höfuðbendum.  Meðan jómfrúr og undirgjarðir voru notaðar voru stagir hertir með þeim, en eftir að stagkrókar komu var stagað með því að krækja þeim í lykkju í hástokk eða í hlekki.   Á einsigldum sexæringi með þversegli tréreistu andófsmenn, en miðskipsmenn tóku sinn hvora höfuðbendu og festu þeim.  Annar hálsmaður festi forstag um hnýfil en hinn greiddi fyrir segli og hnýtti dragreipinu um rána.  Síðan var miðskipsmanni á kulborða fengið dragreipið en hinn greiddi fyrir skauti aftur til formannssætis, en það var vanalega dregið undir röng og sett fast í skut...  Áður en hægt var að vinda til húns þurfti að fletta seglinu utan af ránni og festa dragreipið við hana með rábragði.  Væri beitiás þurfti, strax og segl var komið að húnboru, að leggja í áslag, en það var að festa innri enda hans í þóftukverk, áslagið, og þeim ytri á saxinu.  Þá var sagt að siglt væri í áslögum.  Ef eitthvað var að veðri var dragreipið haft í höndum; siglt fyrir lausu.  Sumir formenn sigldu ætíð fyrir lausu skauti, en þá var skautið dregið undir röng og hélt formaður í það með annarri hönd en hafði hina á stýrinu. 
Byr bar nafn af því hvar hann stóð á skipið... Væri vindur beint á eftir því var beggja skauta byr.  Hann þótti viðsjáll ef eitthvað var að veðri og sjó.  Þegar vindur stóð á skutröng var skutrangarbyr, en á bitahöfuð bitahöfuðsbyr eða vindur á kinnung.  Þegar vindur stóð á mitt borð var síðuvindur eða hálfur vindur.  Yrði vindur þverari varð ekki hjá því komist að leggja bátnum við.  En stæði vindur um saxið var kominn beitivindur; og ef hann stóð enn framar var nauðbeit.  Þá var skammt til þess að vindur tæki ekki segl. 
En jafnframt því að sigling fór eftir veðri og vindstöðu var hún einnig komin undir straumum og sjólagi.  Lensið þótti einna hættulegust sigling.  Þá átti að varast að láta ölduna elta sig heldur til hliðar.  Til þess að verja skipið áföllum var talið heppilegast að sigla talsvert skáhallt með vindi, einkum í spildusjó.  Væri siglt ljúft; nokkuð flatt með vindi, sá stjórnarinn stöðugt út frá skipinu á kulborða hvar og hvernig sjóar risu.  Sumir formenn höfðu þann sið, þegar þeir sigldu krappan sjó, að hafa eina ár úti á vindborða til að brjóta með bárur.  Þegar báran tók sig upp við skipshliðina... var barið með árinni í öldufaldinn og sprakk þá báran fyrir utan skipshliðina í stað þess að hvolfa niður í skipið.  Ekki var alveg óþekkt að menn hefðu lag á að láta skipið ausa sig sjálft.  Ekki var óalgengt að svo mikið væri siglt að skipið leggðist á lista.  Þegar sýður á keipum skera tollurnar sjóinn, og eru þá borðstokkur og hástokkur komnir á kaf.  Slík sigling þótti gapaleg.  Ef sigldur var beitivindur þurfti í hvert skipti að venda, þegar tekinn var nýr slagur, eða bógur.  Að sigla þannig var að slaga, bóga eða krusa.  Stundum var eins bógs leiði í áfangastað en oftast urðu bógarnir margir, og þá ekki komist hjá því að venda í hvert skipti.  Þegar veður var svo hvasst að seglum varð ekki við komið voru árar reistar í kjöl með hlumma niður og vindurinn látinn standa í árablöðin; þá var siglt með árumÍ roki nálægt landi, þegar öll segl höfðu verið tekin frá en möstur látin standa, var skipið látið reka á reiðanum.  Ef hlöðnum báti er siglt í ljúfum vindi og hann grefur sig svo niður að sjórinn virðist báðum megin vera hærri en borðstokkurinn án þess að gefi á, var sagt að báturinn sitji í grænni tóft.  (ÓETh o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir)

Siglingabjart (l)  Nægilega bjart til að skipi/bát verði siglt af öryggi.  „Slysavarnafélagið hafði beðið Saurbæ um að senda skeyti þegar siglingabjart væri undir Bjarginu“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Siglingaleið / Siglingamið (n, kvk)  Leið sem er tiltölulega örugg og fjölfarin af skipum og viðmið hennar.  „Siglingaleið fyrir Kollsvíkina  er greið, sé siglt frá Bjargtöngum fyrir Blakk.  Fari menn grunnleið frá Breiðuvík þarf að fara framfyrir Landamerkjahlein og hleinar framaf Hnífaflögunni.  Þegar fer að sjást inná Kollsvíkina má ekki vera grynnra en svo að Skandardalstennurnar séu framundan til að vera framan við Djúpboðann og aðra boða.  Í lygnum sjó má þó þræða grunnmegin Djúpboða en utan Arnarboða á litlum bátum.  Sé farið fyrir Blakk sunnanað má forðast röstina og fara grunnmegin við Blakknesboða.  Þá þarf að gæta þess að halda Bræðragjám ljósum þar til Tálkni kemur framundan.  Á sama hátt má forðast Látraröstina og fara grunnt í sæmilegu sjólagi, með því að „fara gat“, þ.e. hafa gatið í sjávarklettum Bjarnanúpsins sýnilegt meðan farið er fyrir Bjargtangana“.

Siglingaljós (n, hk, fto)  Ljósbúnaður skipa sem gefur til kynna stefnu þeirra og fleira.  Skip á siglingu hafa uppi landþernur, sigluljós og skutljós.  Skip sem er að veiðum hefur uppi tvö hringljós hvort yfir öðru.  Á togurum er rautt yfir hvítu en annars grænt yfir hvítu.  Lóðsbátar hafa hvítt yfir rauðu.  Skip við akkeri hefur uppi hvítt hringljós eða svarta kúlu.  Stjórnvana skip hefur uppi tvö rauð hringljós en skip með takmarkaða stjórnhæfni hefur auk þess uppi hvítt hringljós milli þeirra.  Sjá landþerna/ þerna; sigluljós og skutljós.

Siglykkja (n, kvk)  Lykkja á enda sigvaðs, sem bundin er um sigmann þegar sigið er; vaðarauga (sjá þar).

Sigluband (n, hk)  Gjörð sem heldur segli við mastur á bát/skipi.  Siglubönd voru ýmist eiginleg bönd eða úr eik, horni, seigum gjarðviði eða hvalskíði.

Sigluljós (n, hk)  Ljós í siglu/mastri skips, sem lýsir framávið.  Siglingareglur segja að öll skip sem sigla í dimmu skuli hafa sigluljós sem lýsir framávið í 225° geira.  Sé skipið yfir 50 metrar að lengd skulu ljósin vera tvö, og það fremra nokkuð lægra.  Sjá siglingaljós, landþerna og skutljós.

Siglutoppur (n, kk)  Masturstoppur; efsti hluti masturs/siglu á bát/skipi.

Siglutré (n, hk)  Sigla; mastur.  Neðri hluti masturs á tvískiptu mastri stórs skips; efri hluturinn nefnist stöng.

Sigluþófta (n, kvk)  Þófta á bát, sem sigla er fest við þegar hún er reist.

Sigmaður (n, kk)  Sá sem sígur niður í kletta til fyglinga/eggja eða í öðrm tilgangi.  „Sigmaður situr í sérstakri vaðarlykkju sem brugðið er í kappmellu um lendar og læri, en heldur um vaðinn og stýrir sér með fótum til að halda sér réttum.  Hann er síðan gefinn niður af þeim sem eru á vað og stýrir sjálfur niðurferð og uppferð með merkjagjöf til vaðarmanns.  Vaðurinn er sver og góður og liggur oftast á brúnahjóli.  “. 

Sigmannshlutur (n, kk)  Þó sigari sé vanur og gætinn þá er hann í meiri áhættu en aðrir.  Því fær hann aukahlut við skipti; sigmannshlut.  Oftast er það heill hlutur, en þó misjafnt.

Signa (s)  A.  Gera krossmark og fela sig með því á guðs vald.  Fyrrum var venja að signa sig við fleiri tækifæri en nú er gert.  Sjálfsagt var að signa sig áður en haldið var í langferð; áður en sigið var í bjarg; áður en bátur var settur ofan; áður en farið var í róður; áður en menn fóru að sofa og að morgni.  Einnig var bæjarhurð signd að kvöldi.  B.  Eldri merking; helga; vígja; gera Þórsmark yfir.

Signa sig (orðtak)  Gera krossmark fyrir sér til að biðjast guðsblessunar.  „Sá gamli siður hefur líklega haldið sér lengur í Kollsvík en víða annarsstaðar, og má vera að stutt signing hafi verið ýmsum einlægasta reglulega trúarathöfnin.  Börnum var kennt að signa sig fyrir svefn, að loknum bæna- og faðirvorslestri.  Undantekningarlaust var beðin sjóferðabæn þegar sett hafði verið á flot og áður en haldið var í róður.  Allir tóku ofan höfuðfötin báðust fyrir í hljóði og signdu sig.  Eftir að húfur voru aftur komnar upp gat hinsvegar hrokkið af munni blótsyrði ef t.d. vél var óþæg í gang.  Örnefnið Bænagjóta utan við Láturdal minnir á þennan forna sið, en sagt var að vermenn í Láturdal skyldu hafa lokið bænum sínum áður en komið var útfyrir gjótuna.  Í Kollsvík var vani að ljúka bænum eftir að komið var á flot en áður en farið var af Læginu.  Signingar voru viðhafðar áðurfyrr áður en haldið var í ferðalög og áður en sigmaður fór í kletta.  Í kirkjugarði er enn signt yfir hinn látna við greftrun og einnig þegar menn vitja grafar“.  „Er bátnum hafði verið snúið í stefnu út Patreksfjörð, signdi formaður sig; tók ofan höfuðfatið, og við gerðum slíkt hið sama“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).  „Bjargmenn signdu sig og kvöddu sitt heimafólk, eins og þeir væru að fara í langa för“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  Sjá biðja bænir.

Signa yfir (orðtak)  A.  Gera krossmark yfir, t.d. gröf eða líkkistu.  B.  Líkingamál; kveðja eitthvað hinsta sinni; ljúka verki/verkefni. 

Signing (n, kvk)  A.  Það að signa.  „Prestur hafði nærri gleymt signingunni“.  B.  Það að láta fisk síga.  „Hann lét mig hafa nokkrar grásleppur til signingar“.  C.  Fyrrum notað yfir galdraþulur/særingar.

Signingarhjallur (n, kk)  Hjallur sem einkum er notaður til að láta fisk síga.  „Össur á Láganúpi reisti signingarhjall á brystinu utanvert við Kaldabrunn í kringum 1980“.

Signingartíð (n, hk/kvk)  Veðurfar/tíðarfar sem hentar til að siginn fiskur verkist vel.  „Það held ég að grásleppan fái góða signingartíð; hún verður klár eftir nokkra daga í viðbót í sveljandanum“.

Signt og heilagt (orðtak)  Eilíflega; alltaf.  „Vertu nú ekki að amast við honum bróður þínum; signt og heilagt“!  Algengur framburðarmáti, en er í raun afbökun á orðtakinu sýknt og heilagt; sjá þar.

Sigra (s)  Hafa sigur/vinning í viðureign.  „Ég var ári montinn að hafa sigrað þá alla í spretthlaupinu“.

Sigra svefn (orðtak)  Sofna; dotta.  „Það má mikið vera ef mig hefur ekki sigrað svefn smástundí stólnum“.

Sigrast á (orðtak)  Yfirvinna; sigra; hafa betur.  „Þau eru nú að sigrast á mestu fjárhagserfiðleikunum“.

Sigrihrósandi (l)  Fagnandi sigri; ánægður með að hafa haft betur.

Sigstaður (n, kk)  Staður þar sem sigið var til eggja/fyglinga.  Sigstaðir í Blakk eru t.d. á Höfðann í Mávakömbunum og á Höfðann norðan Jónshöfða.  Fjölmargir sigstaðir eru í Látrabjargi.

Sigt (n, hk)  Örlítið vatnsrennsli; sytra; vætl.  „Í Harðatorfspytti er nún lítilsháttar sigt, en hefur líklega verið meiri lækur áður en Mýrarnar voru ræstar fram“.  Orðið virðist ekki þekkjast annarsstaðar í þessari merkingu.

Sigta (s)  A.  Sálda/sía í gegnum sigti.  „Hrognin þarf að sigta áður en þau eru söltuð í tunnu“.  B.  Miða á.  „Kötturinn sat lengi og sigtaði á músina áður en hann stökk á hana“.  „Það er erfitt að sigta á máfinn þegar hann er á svona hröðu og lágu rennsli“.  C.  Um vatn; renna í mjög litlu magni.  „Það rétt sigtar úr krananum“.  D.  Fyrritíma merking; sakfella; dæma sekan. 

Sigti (n, hk)  A.  Áhald til að sigta/sía/sálda eitthvað í gegnum.  T.d. mjólkursigti, hrognasigti, mjölsigti o.fl.  B.  Litlir nabbar á byssuhlaupi, eða kross í byssukíki, til að miða á bráðina; mið.

Sigtisbotn (n, kk)  Vattbotn (sjá þar).

Sigtóg / Sigvaður / Sigfesti (n, kvk/kk)  Bjargtóg; bjargvaður; sigaband; sigafesti; festi; tóg; sigvaður; vaður; mannavaður.  Ýmis heiti á festi þeirri sem notuð er til bjargsigs.  Oftast var venja að tala um bjargtóg; bjargvað; sigtóg eða vað/sigvað.  „Þar kom að bændur ákváðu, seinni hluta dags, að leggja upp að morgni, og varð þá uppi fótur og fit.  Kvenfólkið tók til að útbúa nesti og taka til nauðsynjar.  En karlmennirnir náðu í vaðina, sem geymdir voru á slám uppi undir rjáfri úti í hjalli.  Hver bóndi áti nokkra vaði úr hæfilega gildum kaðli; mismunandi langa.  Til siga voru ekki notaðir nema nýlegir og óskemmdir vaðir, en þeir sem voru farnir að slitna voru notaðir til að draga upp fugl þegar hann var tekinn (mannavaðir og fuglavaðir“  (MG; Látrabjarg). 

Sigtun (n, kvk)  Það að sigta; t.d. sigtun mjólkur/hveitis/hrogna o.fl.

Sigurkraftur (n, kk)  Afl sem þarf til að sigrast á mótlæti.  „Útlitið um framtíð þess er gott; það starfar af  hugsjón og treystir á sigurkraft góðs málefnis“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Sigurlykkja (n, kvk)  Lykkja sem hnýtt var á ákveðinn hátt og átti, samkvæmt þjóðtrúnni, að hafa galdramátt; m.a. að geta létt konum fæðingu og lagað þvag- og hægðateppu.

Sigurnagli (n, kk)  Segulnagli; búnaður sem settur er í taug/vað/festi til að létta af snúningi og hindra snurðu.  Augu eru á hvorum enda sem í festist taugin í báðar áttir en á milli er liður, þannig að annað augað getur snúist án þess að valda snúningi á hinu.   „Hákarlaöngull nefnist sókn.  ... á efri enda sóknarinnar var sigurnagli, og í hann fest sóknarkeðja 3-4 álna löng....  Við hinn enda keðjunnar var tengdur sigurnagli...  en hann var áfastur vaðarsteininum“  (GG;Skútuöldin).  „Við erum með gömul færi; hamplínu, 4ra punda blýlóð með hálfás sigurnagla; taumur einn faðmur og handfærakrókur“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Ás í sökkur er ekki farið að nota fyrr en upp úr aldamótum, eða sigurnagla“  (GG; Kollsvíkurver).

Sigursæll (l)  Sem sigrar oft í viðureignum.  „Hann var oftast sigursæll í þeim hlaupum sem hann tók þátt í“.

Sigurvegari (n, kk)  Sá sem sigrar/ hefur betur.  Uppruni orðisins er líkast til mjög forn og merkir „sá sem vegur/drepur til sigurs“.

Sigurverk (n, hk)  Upptrekkt gangverk t.d. í úri eða klukku.  Líklega skýrist fyrrihluti orðsins af því að með réttum gangi sigurverksins er sigrast á flókinni tækni/ flóknum vandamálum.  Sama skýring getur átt við orðið sigurnagla.

Sigvaður (n, kk)  Vaður (band) sem notaður er til bjargsiga; sigtóg; bjargtóg; bjargvaður; vaður.  Var lengst af úr nautshúð, en síðar úr manillahampi og nú til dags úr sterku gerviefni.  Sigvaður var mikil eign áður fyrr og fyrir hann var tekinn sérstakur hlutur; vaðhluturSigari var einnig á hærri hlut en aðrir þátttakendur, enda í meiri áhættu.

Sikksakka (s)  Fara í krókaleiðum/sniðum.  „Ég sikksakkaði allan dalinn og gáði í hverja laut; hrúturinn er ekki þar“.  Nýlegt orð í málinu, komið úr t.d. zigzag í ensku sem merkir sagtennt mynstur.

Siklingur (n, kk)  Verkfæri til slípunar yfirborðs viðs; stálplata með beinni og skarpri brún sem dregin er eins og skafa eftir viðnum. 

Sikringsnæla (n, kvk)  Öryggisnæla; lásnæla.  Læst næla; notuð til að festa saman fataefni eða flíkur.  Orðið er ekki í orðabókum en var almennasta heitið á þessum hlut í Kollsvík.  „Réttu mér stóru sikringsnæluna“.

Silakeppur (n, kk)  A.  Sá sem silast/ er þungur á sér; hægfara/hægvirkur maður.  Oftast í norðandi merkingu.  „Óttalegur silakeppur getur maðurinn verið; hann er gersamlega ótækur í smalamennskur“!  Þess hefur verið getið til að heitið sé dregið af klyfjum sem bundnar hafi verið með silum upp á hest.  B.  Otiorhynchus arcticus.  Lítið svart gljándi skordýr af ætt ranabjallna, sem algengt er um allt land; frá fjöru til fjalla.  Silakeppurinn líkist járnsmið í útliti, en er mjög hægfara í hreyfingum, eins og nafnið ber með sér.  Hann er helst að finna á melum, söndum og öðru lítt grónu landi; forðast grósku og bleytu.  Er helst á ferð að nóttunni en liggur á daginn undir steinum og öðrum hlutum.  Nagar blöð margra plöntutegunda og lirfurnar leggjast á ræturnar.

Silalega (ao)  Löturhægt; ofurhægt; með letilegum hreyfingum.  „Hann teygði silalega úr sér“.

Silalegur (l)  Hægfara; seinn í hreyfingum.  „Ári er hann silalegur á brekkuna“!

Silast (s)  Fara hægt/seinlega.  „Mér sýnist að kýrnar séu að silast heim á leið“.

Silfraður (l)  A.  Silfurlitur; með silfurlitum blæ.  B.  Um lit á sauðkind; með gráum hærum í ljósari ull.

Silfur (n, hk)  A.  Góðmálmur með efnatáknið Ag.  Hefur lengi verið talinn verðmætur, bæði til smíða og í viðskiptum.  Mjög nýttur nú á tíð til húðunar muna úr öðrum málmi.  B.  Peningar úr silfri; mynt yfirleitt.

Silfurberg (n, hk)  Kristall úr kalsíti/kalkspati.  Silfurberg er fágætt utan Íslands; enda er alþjóðlegt heiti þess „Iceland spar“, en hér finnst það sumsstaðar í miklu magni, t.d. í Helgustaðanámu í Reyðarfirði og í Djúpadal í A-Barðastrandasýslu.  Hefur ekki verið greint í Kollsvík, en er þar líklega; e.t.v. í tengslum við gangainnskot.  Nafn sitt fær silfurberg af tærleika sínum og sérkennilegu ljósbroti.  Silfurberg klýfur ljós í tvo geisla sem hafa sveiflu hornrétt hvor á annan; þ.e. ljósið pólariserast.  Daninn Rasmus Bartholin lýsti fyrstur þessu tvöfalda ljósbroti, en síðan hefur silfurberg orðið undirstaða ýmsa merkra framfara í vísindum.  Það var unnið í námum í Helgustöðum og að Hoffelli og flutt út í nokkru magni á fyrrihluta 20. aldar.

Silfurbúinn / Silfurrekinn (l)  Um hlut; skreyttur með silfri.  Margir munir efnafólks fyrr á tíð voru silfurbúnir; s.s. sverð, svipur, stafir, pontur og baukar.

Silfurhærður (l)  Með silfurgrátt hár; gráhærður.

Silfurmura (n, kvk)  Potentilla anserina.  Jurtin er yfirleitt nefnd tágamura meðal grasafræðinga og margra annarra, en í Kollsvík var hún einatt nefnd silfurmura, og þar er hún algeng.  Skriðul jurt af rósaætt, sem myndar langar ofanjarðarrenglur.  Blóm eru fimmdeild; krónublöð sólgul en bikarblöð græn.  Blómstilkur stuttur.  Laufblöðin eru einnig á stuttum stilk.  Þau eru stakfjöðruð og loðin, einkum á neðra borði.  Ljósgræn að neðan en dökkgræn að ofan; með sérkennilega silfurlitum blæ.  Af því er fyrri hluti nafnsins dreginn, en síðari hlutinn af forngermannska orðinu „murhon“, sem nefnir æt rót.  Silfurmuran vex gjarnan í sendnu landslagi eins og er í Kollsvík; jafnvel í eintómum sandi og er meðal þrautseigasta gróðurs gagnvart uppblæstri. 

Silfurplett (n, hk)  Silfurhúðaður kopar.  (e: Sheffield plated). 

Silfurrefur (n, kk)  Innflutt refategund á Íslandi, til ræktunar vegna skinnaframleiðslu; afbrigði af rauðref (Vulpes vulpes).  Talið er að einhverjir þeirra hafi sloppið út og jafnvel tímgast með íslenska refnum.

Silfurský (n, hk)  Lýsandi næturský.  Ský sem myndast mjög hátt á lofti, eða ofan veðrahvolfs; í 75-80 km hæð  Bláhvít örþunn skýjaslæða sem þekur heimskautasvæðin á sumrin, en sést aðeins að næturlagi í sérstökum birtuskilyrðum nætursólar.  Skýin eru talin mynduð úr ískristöllum þar sem frostið er 99-123°C, en jafnvel hjkúpuð málmi úr geimryki.  Því endurvarpa þau radargeislum.  Glitský myndast hinsvegar mun neðar.

Sili (n, kk)  A.  Lykkja almennt.  B.  Lykkjan sem er á milli hagldanna á reipi, og heybaggar eru hengdir á.

Silkimjúkur (l)  Mjúkur eins og silki. 

Silungur (n, kk)  Silungur hefur ekki verið í vötnum í grennd Kollsvíkur í manna minnum af náttúrulegum orsökum, en hinsvegar hafa a.m.k. tvisvar verið gerðar tilraunir með sleppingar í þau.  Fyrra sinnið var á 7.áratug 20.aldar, en þá slepptu Ingvar og Össur Guðbjartssynir nokkru af silung (líkega urriða) úr Sauðlauksdalsvatni í Sandslágarvatn, Kjóavatn, Stóravatn og Litlavatn.  Lítið veiddist af þessu aftur og er talið að fiskurinn hafi fljótlega dáið út í öllum vötnunum.  Rúmum 10 árum síðar fengu þeir nokkuð magn seiða með flugvél; þingvallableikju (Salvelinus alpinus) frá Skúla Pálssyni í Laxalóni.  Seyðin voru flutt í plastpokum og voru þokkalega hress þegar þeim var sleppt í Kjóavatn; Stóravatn og Litlavatn.  Ekkert veiddist í Kjóavatni; og smávegis í Litlavatni.  Hinsvegar virtist belikjan dafna mjög vel í Stóravatni, þó hún virtist ekki ná að fjölga sér.  Fiskurinn tók ekki á krók, en veiddist þokkalega í net í allmörg ár.  Varð hann mjög stór og sólspikaður; svo að roðið lagðist í fellingar á hnakkanum.  Eitthvað barst niður í leysingum, og mátti opft að vori sjá för eftir dauða fiska í uppþornuðum Smávötnunum.

Simbadýrið (n, hk, sérnafn)  Nafn á óvætti sem sagður er búa á Látraheiði og amaðist við ferðafólki áður fyrr.  Kennt við Sigmund Hjálmarsson bónda á Hvalskeri sem lenti í átökum við það (ÁE; Ljós við Látraröst).

Simfónn (n, kk)  Viðrekstur; fretur: búkloft.  „Hver spilar svona listilega á simfón hér í stofunni“?

Sin (n, kvk)  A.  Sérstök gerð af sterkum bandvef, sem festir t.d. vöðva við bein líkamans.  B.  Reður nauts, hrúts o.fl. dýra.

Sina (n, kvk)  Trénað og dautt gras.  „Sinuhilla hefur nafn sitt af því að þangað var sótt sina til að gefa kúm, þegar heylítið var orðið“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Sinaber (l)  Um mann; grannur og með þunna húð, þannig að mikið ber á vöðvum og sinum.

Sinadráttur (n, kk)  Vöðvakrampi sem helst er hætta á ef reynt er mikið eða lengi á illa þjálfaða vöðva.

Sinfóníusarg (l)  Niðrandi heiti á klassískri tónlist.  Tónlistarsmekkur fólks er mismunandi, og sígild tónlist hljómaði oft skelfilega í ófullkomnum útvörpum fyrri tiðar; jafnvel í þeirra eyrum sinna aðdáenda.

Sinkill (n, kk) Tréankeri; teinn sem er yddur og vinkilbeygður í báða enda.  Notaður til að festa saman tré á samskiptum, t.d. máttarviða í húsi.  Sinklar voru t.d. notaðir við smíði fjárhúss/hlöðu/fjóss á Láganúpi. 

Sinn (n, hk)   Skipti.  „Ég gaf þetta eftir í þetta sinn; en það geri ég ekki næst“!  „Þetta gerðist mörgum sinnum“.

Sinn á hvora hönd / Sinn til hvorrar handar (orðtök)  Báðumegin; einn við hvora hlið.

Sinn er siður í hverri sveit / Sinn er siður í landi hverju (orðatiltæki)  Speki sem oft er viðhöfð þegar fréttist af háttum/siðum/lausnum annarra, sem þykja einkennilegir eða öðruvísi. 

Sinn í hverju/hvoru lagi (orðtak)  Hver/hvor fyrir sig.  „Hrognin saltaði sinn í hverju lagi“.

Sinna (n, kvk)  Ræna; hugsun; sinning; áhugi.  „Hann hefur enga sinnu á þessu lengur“.

Sinna (n, kvk)  Áhugi; ástundun.  „Þú þarft að hafa meiri sinnu á náminu drengur“.

Sinna (s)  A.  Veita athygli; hugsa um; huga að.  „Það þarf einhver að sinna barninu“.  B.  Ansa; svara; bregðast við.  „Ég sinni ekki svona heimskulegum athugasemdum“!

Sinna fé/skepnum (orðtak)  Hirða um fé/skepnur.  „Um Völlur, Hryggi og Vallagjá/ Valla á lengstu sporin./  Lambánum hún þurfti þá/ þrátt að sinna á vorin“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). 

Sinnaður (l)  Hugsandi; þenkjandi.  „Ég er ekki svo menningarlega sinnaður að ég sleppi þurrki vegna tónleika“.

Sinnaskipti (n, hk)  Það að skipta um skoðun; umsnúningur.  „Nú hafa heldur betur orðið sinnaskipti hjá honum þykir mér“!  Sjá taka sinnaskiptum.  „Einhver sinnaskipti hafa orðið hjá honum í þeirri afstöðu“.

Sinnast (s)  Verða ósammála/sundurorða; deila; slettast uppá vinskapinn.  „Þeim sinnaðist eitthvað útaf þessu“. Sjá kastast í kekki.

Sinnast uppá (orðtak)  Sinna; hafa áhyggjur af; amstra með.  „Ég er þá ekkert að sinnast uppá karlinn fyrst hann lætur ekki vita af sér; hann hlýtur að hafa fengið far með einhverjum öðrum“.

Sinnhvor (fn)  Hvor sinn; hvor einn.  „Hann skar eplið í sundur og gaf okkur sinnhvorn helminginn“.

Sinnhvorsvegar / Sinnhvorumegin (ao)  Hvor sínu megin; sinn á hvora/hvorri hlið; báðumegin.  Orðhlutana má skrifa hvern í sínu lagi, en hinsvegar er notkun og framburður oftast með því móti að um eitt orð sé að ræða.  „Við fórum sinnhvorsvegar við Stórafellið“.  „Við tókum sinnhvorumegin á bátnum og mjökuðum honum upp“.  Einnig haft í kvenkyni og hvorugkyni.

Sinni (n, hk)  Hugur; skap; skapgerð.  „Svo er margt sinnið sem skinnið“.

Sinning (n, kvk)  A.  Viðvera; áhugi; athygli; drift.  „Lambféð þarf stöðuga sinningu yfir sauðburðinn“.  „Mér þykir þú hafa litla sinningu á náminu“.  B.  Fjósverk; fjárhúsverk; gegningar; verk sem sinna þarf á málum.

Sinnissjúkur / Sinnisveikur (l)  Veikur á geði; þunglyndur.  „Hann varð hálf sinnissjúkur eftir konumissinn“.

Sinnisveiki (n, kvk)  Geðveiki; hugarvíl.

Sinnisveila (n, kvk)  Geðveiki; þunglyndi.  „Einhver sinnisveila virðist hrjá karlangann“.

Sinnulaus (l)  Áhugalaus; hirðulaus; sljór.  „Það gengur ekki að vera svona sinnulaus um námið“!

Sinnuleysi (n, kvk)  Hirðuleysi; andvaraleysi.  „Mér finnst þetta sinnuleysi hjá þingmönnunum“.

Sinnulítill (l)  Áhugalítill; fráhverfur.  „Hann er orðinn sinnulítill um búskapinn“.  „Hangi ég því með sýrðan svip og sinnu lasna/ yfir daufum durins-asna“ (JR; Rósarímur). 

Sinubeðja / Sinudyngja / Sinuflóki / Sinuruddi / Sinusæng (n, kk)  Samfelldur flóki af visnuðu grasi; mikið af sinu.  „Túnin eru öll lögst í sinubeðju“.  „Þetta er fljótt að verða ein sinusæng þegar ekki er slegið“.

Sinubrenna / Sinubruni (n, kvk)  Það að brenna sinu.  „Sinubrenna getur farið úr böndunum.  Pabbi sagði að eitt sinn hefði átt að brenna sinu í Breiðnum til að örva grassprettu, en eldurinn hafi farið víða um hlíðina  og upp í ganga.  Mökkurinn var svo mikill að um tíma sást ekki af Hústóftarbökkum suður á Bjarnanúp“ (VÖ).

Sinueldur (n, kk)  Eldur í sinu; gróðureldur.  „Sinueldur er stundum skæður ef hann fer úr böndunum.  Því fengu Kollsvíkurbændur eitt sinn að kynnast er þeir kveiktu í sinu í Breiðnum.  Eldurinn breiddist fljótar út en þeir fengu við ráðið og endaði svo að stór hluti af hlíðinni brann.  Gróður jafnaði sig þó fljótt“.

Sinuruddi (n, kk)  Fornslægja; hey sem inniheldur mikið af dauðri og næringarsnauðri sinu.  „Við setjum þetta hey neðst í hlöðuna.  Það er eitthvað í því af sinurudda“.

Sinustopp (n, hk)  Sina sem notuð er sem stopp í eggjaílát.  Þurr ófúin sina er besta stopp sem hugsast getur, en stundum var ekki völ á henni, og þurfti jafnvel að nota mosastopp.

Sinutotti / Sinubrúskur / Sinutoppur / Sinuvisk (n, kk/kvk)  Toppur/brúskur/visk af sinu.  „Sinubrúskar geta verið góðir og tryggir sem hald í klettum ef maður þekkir þá og grípur rétt í þá“.  „Ef maður grípur vel niður í sinutottana og sparkar sér góð fótaför, þá má komast yfir þessa slefru með sæmilegu öryggi“.

Sirka (ao)  Um það bil.  Enskusletta, tilkomin á síðari árum

Sirkill (n, kk)  Hringfari; áhald til að teikna hring eða færa lengdir milli staða, t.d. á korti.

Sirkla út (orðtak)  Finna/reikna út; hnitmiða; áætla.  „Ég held að ég sé búinn að sirkla út bestu leiðina til að komast í þetta fles“.

Sisona/ Sisvona / Rétt sisona (ao/orðtak)  Svona; á þennan hátt; þannig.  „Heilsan er sisona sæmileg, en ekki meira en það“.  „Ég ætlaði, rétt sisvona, að hjálpa lambinu á fætur, en þá renndi móðirin í hnésbæturnar á mér“.  Sjá einnig tisona; tilsvona og til svona.

Sitja að (orðtak)  A.  Sitja undir vað; sitja á brún og halda við vað.  „Sitjið þið vel að þarna uppi á brúninni“?  B.  Búa yfir; hafa undir höndum; vera í góðri aðstöðu til.  „Hann situr betur að þessum upplýsingum en aðrir“.

Sitja að sumbli (orðtak)  Fást við drykkjuskap; vera á fylleríi.  „Þeir sátu enn að sumbli þegar ég fór“.

Sitja að völdum (orðtak)  Vera við völd; sitja/vera við stjórnvölinn.

Sitja af sér (orðtak)  Missa af.  „Nú sátum við af okkur uppstyttuna fyrir bölvaðan kjaftaganginn“!  Sjá einnig bíða af sér

Stitja af sér sjóveður (orðtak)  Vera í landi þó gefi á sjó.  „Ég ætla nú ekki að sitja af mér sjóveðrið aftur“.

Sitja auðum höndum (orðtak)  Sitja aðgerðarlaus.  „„Fjórir bæir bættust við á árinu með sjónvarpsgláp nú rétt fyrir jólin, með ærnum tilkostnaði umfram tækjakaupin.  Fólk telur fénu ekki illa varið.  En skelfing er það þó landeyðulegt að sjá sveitafólk sitja auðum höndum öll kvöld.  En þetta kannske venst“  (ÞJ; Árb.Barð 1971).

Sitja á (orðtak)  Geyma með sjálfum sér; láta aðra ekki fá.  „Það dugir ekki að hann sitji á fjallskilaseðlinum dögum saman“!

Sitja á hakanum (orðtak)  Lenda í drætti/útideyfu  „Þetta hefur setið dálítið á hakanum hjá mér, en nú ætla ég að drífa í þessu“.  Uppruni orðtaksins virðist ekki viss, en sumir ætla að haki þessi hafi verið endinn á kirkjubekk.  Hafi þar ekki þótt þægilegt að sitja og þar gjarnan lent þeir sem útundan voru í samfélaginu.

Sitja á rassgatinu (orðtak)  A.  Um bát; vera mjög afturhlaðinn/reistur að framanverðu.  „Færið ykkur aðeins framí, svo hann sitji ekki svona á rassgatinu“.  B. Um mann; sitja auðum höndum; vera iðjulaus. 

Sitja á rökstólum (orðtak)  Rökræða; bera saman ráð sín.  Rökræðulist var í hávegum höfð í Kollsvík, og er enn.  Málefnin sem um var rætt gátu verið af hinu margvíslegasta tagi, en sneru oftar en ekki að fræðilegum efnum.  Þó bar dægurmál oft á góma; innansveitarmál jafnt sem pólitík. 

Sitja á sátts höfði (orðtak)  Halda friðinn; vera friðsamur.  „Hann var ansi uppivöðslusamur við nágranna sína í byrjun, þó hann hafi að vísu setið á sátts höfði í seinni tíð“.  Uppruni orðtaksins er ekki fyllilega ljós.  Hugsanlega vísar þetta til þeirrar reglu frá víkingatíma, þegar stríðsskip voru gjarnan með ógnandi stafnskraut, að það jafngilti árás eða stríðsyfirlýsingu að sigla að landi með gapandi trjónu; þ.e. með hið ógnandi stafnskraut.  Er þess getið t.d. í Landnámabók þegar rætt er um nafn Þjórsár.  Sá stýrimaður sem situr á sínu stafnskrauti situr því örugglega á sátts höfði.  Í sumra munni hefur orðtakið ummyndast í að „sitja á sárs höfði“ eða „sárshöfði“, en hitt er líklega réttara.

Sitja á sér (orðtak)  Stilla sig um; halda aftur af sér.  „Ég gat ekki setið á mér lengur, og sprakk úr hlátri“.

Sitja á strák sínum (orðtak)  Halda aftur af sér með hrekki/strákapör.  „Sú saga er sögð af Árna Thoroddsen að eitt sinn hafi hann verið með öðrum að hvíla sig á brún eftir bjargferð.  Þegar einn í hópnum sofnaði á bakinu, með útréttan lófa og opinn munn, gat Árni ekki setið á strák sínum.  Hann brá þá brókum; skeit í lófann og kitlaði síðan manninn í nefið með strái, sem brást við með því að skella lortinum í andlit sitt.  Ekki fer sögum af eftirmálum þess gráa gamans, en fleiri sögur voru sagðar af glettum Árna“ (VÖ eftir GnÖ).

Sitja á svikráðum við (orðtak)  Vera tilbúinn að svíkja; vera ótrúr/ótraustur vinur.  „Honum fannst aðrir stjórnarmenn sitja á svikráðum við sig og var var um sig

Sitja bát / Sitja rétt í bát (orðtök)  Sitja þannig í bát að hann fari vel á siglingu.  Mjög fer eftir hleðslu bátsins, sjólagi og siglingarlagi hvernig hentar að sitja bát, en vanalega er best að hann sé sem réttastur á þverveginn og með lítilsháttar afturhalla á siglingu.

Sitja eftir (orðtak)  A.  Verða eftir.  „Ég ætla ekki að sitja eftir ef aðrir eru til í að fara“.  B.  Sitja um; sækjast eftir; reyna að fá.  „Ég hef verið að sitja eftir svari frá honum, en það er eitthvað djúpt á því“.

Sitja eftir með sárt ennið (orðtak)  Vera skilinn eftir tómhentur; sæta prettum í viðskiptum.  „Sjávarbyggðirnar sitja eftir með sárt ennið þegar sægreifarnir selja skip og kvóta af staðnum“.  Upprunaskýring er ekki ljós, en líklega vísar þetta til þess að maður sé sleginn niður og rændur.

Sitja fastur (orðtak)  Vera fastur.  „Traktorinn sökk ofaní pyttinn og situr þar fastur“.

Sitja flötum beinum (orðtak)  Sitja á gólfinu með beina fætur.  „Vaðurinn hefur nú verið rakinn frá brúninni og hjólmaður kallar dráttarfólkið á vaðinn.  Fólkið sest nú flötum beinum við vaðinn með nokkru millibili; allir sömu megin, en hjólmaður sest ofanvið hjólið og hefur viðspyrnu á hjólgrindinni.  (MG; Látrabjarg). 

Sitja fyrir (orðtak)  A.  Veita fyrirsát; vera í vegi einhvers.  Sjá standa fyrir.  B.  Vera fyrirmynd í teikningu eða á ljósmynd.

Sitja fyrir rekum (orðtak)  Ganga á reka; vakta það þegar reka ber á fjörur og bjarga honum undan sjó.  „It þriðja (bú) átti hann (Skallagrímur) við sjóinn á vestanverðum Mýrum.  Var þar enn betur komið að sitja fyri rekum, og lét hann hafa sæði og kalla að Ökrum“ (Egils saga Skallagrímssonar).  Í Kollsvík var viðhaft orðalagið að ganga á reka.

Sitja fyrir svörum (orðtak)  Svara; vera spurður.  „Hann verður að sitja fyrir svörum varðandi þetta; ég kom ekki nálægt því“!

Sitja hjá (orðtak)  A.  Taka ekki afstöðu; greiða ekki atkvæði.  B.  Vakta; standa hjá.  Fyrrum var setið hjá fé, t.d. kvíám eða meðan það var á beit.  Í Kollsvík var fremur talað um að standa hjá, varðandi það síðarnefnda

Sitja hver í sínu horni (orðtak)  Hafa ólíkar skoðanir; eiga ekki samskipti.  „Félagið kemur litlu í verk ef hver situr í sínu horni og vill ekki vinna með hinum“!

Sitja í damminum / Sitja í súpunni (orðtak)  Í slæmri stöðu; í klípu/vandræðum.  „Þeir hlupu frá áður en verkið var hálfnað, svo ég sat eftir í damminum“.  „Nú sitjum við í súpunni; heldurðu ekki að karlskarfurinn hafi lagt ofaní hjá okkur“!  Dammur merkir í raun stífla/uppistaða, en var notað um for/drullupoll.

Sitja í festum (orðtak)  Um konu; vera heitbundin en þurfa að bíða brúðgumans til giftingar.

Sitja í grænni tóft (orðtak)  Um siglingu báts:  „Ef hlöðnum báti er siglt í ljúfum vindi og hann grefur sig svo niður að sjórinn virðist báðum megin vera hærri en borðstokkurinn án þess að gefi á, var sagt að báturinn sitji í grænni tóft“  (ÓETh o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir).

Sitja í óskiptu búi (orðtak)  Um erfðir; þegar ekkja/ekkill sér áfram um eignir eftir að maki fellur frá, án þess að gengið sé frá skiptum þeirra til erfingja. 

Sitja í súpunni (orðtak)  Vera í vandræðum; vera skuldum hlaðinn.  Súpa er þarna stytting á skuldasúpa.

Sitja lömb (orðtak)  Gæta lamba sem tekin voru frá mæðrum meðan fráfærur voru enn stundaðar.  „Þessi brekka nefndist Lambabrekka; líklega örnefni frá því lömb voru setin á þessum slóðum“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).  „Þá sagði faðir minn mér að fara yfir á Kryppu; svo hét fell er skyggði á leiðina. Þar voru setin lömbin á sumrin“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Sitja með hendur/höndur í skauti (orðtak)  Vera aðgerðalaus.  „Þó ég sé með einhverja lumbru ætla ég ekki að sitja bara með hendur í skauti meðan allir aðrir eru að vinna“.  Skaut er sama og kjölta/fang.

Sitja meðan sætt er (orðtak)  A.  Vera á stað/ í husi meðan manni er vært; meðan maður er ekki hrakinn burt.  B.  Oftast notað í líkingu um veiðiskap; vera að veiðum meðan helst er unnt vegna veðurs/sjólags.  „Það er ástæðulaust að rjúka í land þó gjóli eitthvað.  Við skulum sitja meðan sætt er“.

Sitja og standa eftir (einhvers) höfði / Sitja og standa eins og (einhverjum) líkar (orðtök)  Haga sér eftir geðþótta einhvers.  „Bæjarhöfðingjarnir voru löngum einvaldir í Rauðasandshreppi og flestir hreppsbúar urðu að sitja og standa eftir þeirra höfði“.

Sitja sig ekki úr færi um (orðtak)  Nota hvert tækifæri til.  „Maður situr sig aldrei úr færi um eggjaferð ef hún býðst“.  Færi í þessari merkingu er stytting úr tækifæri.

Sitja til (bát) (orðtak)  Sitja þeim megin í bát sem þarf til að hann sitji sem réttastur í sjónum.  „Veriði heldur bakborðsmegin og framí strákar; báturinn grefur sig dálitið í skutinn og ekki veitir af að sitja hann til.

Sitja til borðs (orðtak)  Sitja við borð til að matast.  „Hann sneri upp á sig og sagðist helst ekki vilja sitja til borðs með svona vitleysingum“.

Sitja um / Sitja eftir (orðtak)  Bíða eftir; vakta.  „Á Geirseyri var þá gestkomandi Þorgrímur Ólafsson úr Litluhlíð á Barðaströnd og sat um ferð út í Kollsvík“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Sitja undir (orðtak)  Ver tilneyddur að hlusta á.  „ég nennti ekki að sitja undir þessari hundleiðinlegu ræðu lengur“.  „Það er helvíti hart að þurfa að sitja undir svona ásökunum að ósekju“!

Sitja undir borðum (orðtak)  Sitja til borðs; vera við borð; sitja að snæðingi.

Sitja undir stjórn / Sitja undir stýri (orðtök)  Vera við stjórn/stýri á bát/bíl o.fl.  „Mennirnir komast á kjöl, nema Torfi sem setið mun hafa undir stjórn en varð laus við bátinn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sitja undir vað (orðtak)  Sitja og draga upp bjargmenn og afla þeirra.  „Við sátum undir vaðnum, hver með sína spyrnu og vorum að draga“  Frásögn ÁH  (ÓS; Útkall við Látrabjarg).  „Þegar við komum úteftir leynir sér ekki að eitthvað alvarlegt hefur komið fyrir.  Davíð situr undir vaðnum með brugðið aftur fyreir bak og spyrnir af miklu afli...“  (SbG; Að vaka og vinna).  „Fólkið sest nú flötum beinum við vaðinn með nokkru millibili; allir sömu megin, en hjólmaður sest ofanvið hjólið og hefur viðspyrnu á hjólgrindinni.  Hann situr undir, sem kallað er; lætur vaðinn renna yfir læri sér“  (MG; Látrabjarg). 

Sitja uppi (orðtak)  Sitja uppréttur (t.d. í rúmi).  „Hann var hressari og sat uppi í rúminu þegar ég kom upp“.

Sitja uppi með (orðtak)  Dæmast til að hafa á höndum/ vera með.  „Ég kæri mig ekkert um að sitja uppi með féð frá honum í mínum túnum“!

Sitja uppi við dogg (orðtak)  Sitja eða liggja á hliðinni og styðja sig við annan olnbogann.  Doggur var heiti á litlum hákarli, og er orðtakið líklega dregið af því þegar hann sveigðist í bátnum eftir að hann var innbyrtur.

Sitja við (eitthvað) með sveittan skalla (orðtak)  Strita/erfiða við.  „Hann sat við það með sveittan skalla að berja saman vísur fyrir þorrablótið“. 

Sitja (fast) við sinn keip (orðtak)  Standa fast á sinni skoðun; gefa sig ekki í deilum/rökræðum.  „Hann sat fast við sinn keip og neitaði að selja bílinn á þessu verði“.  Keipur merkir þarna líklega tolla/ræði á borðstokk, sem árin leikur á, og hver ræðari situr við sinn keip eftir því sem formaður skipar til verka.

Sitja/vera við stjórnvölinn (orðtök)  A.  Halda um stýri/steyrissveif/stjórntauma báts og stjórna honum.  B.  Líkingamál um t.d. félagsskap eða fyrirtæki.:  Vera við völd; sitja að völdum; stjórna; stýra.  

Sitja yfir (orðtak)  A.  Vera bundinn yfir.  „Ég þurfti að sitja yfir árans símanum lungann úr deginum“.  B.  Gæta; sjá um gæslu.  „Kennarinn sat yfir börnunum meðan þau þreyttu prófið“.

Sitjandi (n, kk)  Rass.  „Ég er blautur á sitjandanum eftir að hafa setið í röku grasinu“.

Sitt á hvað (orðtak)  Til skiptis; á víxl.

Sitt er nú hvað (orðtak)  Það eru tveir ólíkir hlutir/ tvö aðskilin mál.  „Auðvitað á að refsa fyrir svonalagað; en sitt er nú hvað að gera menn hausnum styttri eða stinga þeim í steininn um tíma“!

Sitt/ sittlítið af hvoru/hverju (tagi)  (orðtak)  Margbreytilegt; ýmislegt.  „Hann er orðinn dálítið boginn og slitinn karlanginn, enda ekki furða; hann er búinn að úðra sitt af hvoru um ævina“.  „Í bakaleið bar ég einhvern varning; sitt lítið af hverju“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Sitt/sinn/sín í hverja áttina (orðtök)  Í tvær/margar áttir.  „Gemlingarnir hlupu sinn í hvurja áttina, og það var allnokkuð verk að ná þeim saman aftur“.

Sitt líst/sýnist hverjum (orðtak)  Ekki hafa allir sömu skoðun.  „Stundum sýndist sitt hverjum, en þarna var þó oft ráðinn róður eða afráðinn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sitt smakkast hverjum (orðatiltæki)  Hver hefur sinn smekk.

Sitthvað (fn)  Hitt og þetta; ýmislegt.  „Líklega hefðu steinarnir sitthvað að segja ef þeir fengju málið“.

Sitthvað er Jón og séra Jón (orðatiltæki)  Máltækið lifir góðu lífi enn í dag, en það vísar til þess tíma að prestar voru forréttindastétt, og létu sér ekki duga það sama og sauðsvartur pöpullinn.  Sjá það eru ekki sama Jón og séra Jón og ekki eru allir Jónar jafnir.

Sitthvorumegin (ao)  Hvor á sinni hlið; báðumegin.  „Þá var tekið í það og plógurinn veginn inn yfir borðstokkinn.  Síðan var tekið í tvö bönd er lágu sitthvorumegin úr plógnum niður í horn pokans“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Grastór eru sitthvorumegin í Dalnum; Breiðavíkurtó til vinstri og Hænuvíkurtó til hægri“  (IG; Sagt til vegar II). 

Situr á hakanum (orðtak)  Mætir afgangi; verður gert síðast.  „Önnur búverk sitja dálítið á hakanum yfir sláturtíðina“.

Situr í (orðtak)  Hvílir þungt á; veldur stöðugum ama/reiði/hefndarhug.  „Þessar ásakanir sátu lengi í mér; enda áttu þær ekki við nein rök að styðjast“.

Sí og æ (orðtak)  Alltaf sífellt; einatt; alltaf; aftur og aftur.  „Hættu nú þessu nuddi sí og æ“!

Sía (orðtak)  Sigti; sáld.  Sbr mjólkursía, skyrsía; kaffisía, bensínsía, olíusía o.fl.  Síðari liður orðsins skrúfsía er væntanlega af öðrum stofni, en það orð virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur og næsta nágrennis.

Sía (s)  A.  Láta eitthvað ganga í gegnum sigti/síu; sigta.  „Það er eftir að sía þessa mjólk“. Sjá; láta grön sía.  B.  Renna einhverju hægt í gegn.  „Skyldi það aldrei ætla að síast inní hausinn á þeim að þetta er ómögulegt“?!

Síargandi / Sígargandi / Sígrenjandi / Síhljóðandi / Síæpandi / Síöskrandi (l)  Einatt arngandi/gargandi/æpandi.  „Krakkarnir hætta fljótlega að taka mark á foreldrum sem eru síargandi á þau“.

Síberjandi lóminn / Síkvartandi / Síkveinandi (orðtak/l)  Sífellt að bera sig illa/ kvarta.  „Í raun hafa þau það bara ágætt, þó þau séu síberjandi lóminn“.

Síbetlandi / Síbiðjandi / Sínuddandi / Sínöldrandi / Sísníkjandi (l)  Sífellt að biðja/sníkja.  „Ég kann ekki við að vera síbetlandi um að fá þetta lánað svo ég keypti mér það bara sjálfur“.

Síblaðrandi / Sígapandi / Sígasprandi / Síjaplandi / Síkjaftandi / Síklifandi / Sísuðandi / Sítalandi / Síþvaðrandi (l)  Eilift að blaðra/gaspra; klifa á.  „Skelfing þoli ég illa þetta sígasprandi pakk“!

Síblautur / Sívotur (l)  Alltaf blautur/votur.  „Ég límdi gatið á stígvélinu, til að vera ekki síblautur í fæturna“.

Síblótandi / Síbölvandi / Síragnandi (l)  Alltaf að blóta/bölva

Síboppandi / Síhóstandi / Síkjöltrandi (l)  Sífellt hóstandi.  „Ansi er þreytandi að vera svona síboppandi; það er eins og þessi kveffjandi ætli aldrei úr manni“!

Síborðandi / Síétandi / Sídrekkandi (l)  Borðar mjög oft; alltaf að éta/drekka.  „Ég fæa mér bara eitthvað seinna; maður getur ekki verið síétandi“.

Síbreytilegur (l)  Sem breytist í sífellu.  „Sandmagnið í fjörunni er síbreytilegt“.

Síbrosandi / Síglottandi / Síhlæjandi / Síkátur (l)  Alltaf glaðlyndur.  Síglottandi notað fremur í neikvæðri merkingu, en hin orðin í jákvæðri.

Síbullandi (l)  Fer eilíflega með bull/rugl/vitleysu/lygi.

Síbylja (n, kvk)  Leiðigjörn sífelld endurtekning.  „Hann endurtók þetta í síbylju“.

Sídd (n, kvk)  Lengd niður, t.d. á klæðaði.  „Ja, ekki veit ég við hvað þetta lendir með síddina á pilsunum sem þessar ungpíur klæðast nú til dags!  Faldurinn er kominn langt uppyfir hné og stefnir alla leið upp í klof“!

Sídettandi (l)  Alltaf að detta/hnjóta.  „Óttalega ertu hrösull ljúfurinn minn; þú ert bara sídettandi“!

Sídútlandi / Sídundandi / Sígaufandi (l)  Sífellt að dunda við.  „Hann er sídundandi við þessa bíldruslu“.

Síða (n, kvk)  A.  Hlið á manns- eða dýralíkama.  „Ég er með árans verk í síðunni“.  „Sálaður á síðu lá/ sauður fagur garði hjá“ (Jón Thoroddsen).  B.  Landshluti sem líkist síðu skv A.  T.d. Síða í Skaftafellssýslu.  C.  Blaðsíða í bók/blaði.

Síðan (ao)  Eftir það; frá þeim tíma.  „Hann hefur ekki sést hér síðan í hittiðfyrra“.  „Þetta var fyrir löngu síðan“.

Síðan ekki söguna meir (orðtak)  Svo ekkert eftir það; svo var því lokið.  „Hann sinnti þessu af alúð og dugnaði í nokkur ár, en síðan ekki söguna meir; þá missti hann áhugann á því“.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið (orðtak)  Mjög langt er síðan; það gerðist fyrir löngu. 

Síðari róður (orðtak)  Síðari fiskiróður úr veri, ef tvíróið var sama daginn.  „Þá var farið af stað í annan; venjulega síðari róður“  (KJK; Kollsvíkurver).

Síðarmeir (ao)  Seinna; síðar.  „Þetta kann að nýtast síðarmeir“.  Sjá seint og síðarmeir.

Síðast en ekki síst (orðtak)  Ekki hvað síst.  „Síðast en ekki síst þurfti hún að annast barnahópinn sinn; sjá þeim fyrir fæði, gera þeim skó, prjóna sokka og sauma allar flíkur“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri“  (PG; Veðmálið). 

Síðasta kvöldmáltíðin (orðtak)  Minni úr píslarsögu Krists; síðasta máltíðin sem Kristur deildi með lærisveinum sínum.  Samkvæmt Nýja testamentinu var hún að kvöldi skírdags/ fimmtudags fyrir páska.  Kristnu fólki hefur löngum þótt altarisganga sérlega mikilvæg á þessum degi, enda vísar hún til útdeilingar Krists á víni og brauði, sem hann sagði vera tákn blóðs síns og holds.

Síðastaleikur (n, kk)  Eltingaleikur barna með ákveðnum reglum.  Fer í stórum dráttum þannig fram að einn „er hann“ og reynir að „klukka“ (snerta) þann sem hann nær; sá „er hann“ og tekur við hlutverkinu.  Ýmis afbrigði eru til af leiknum, og sum e.t.v. skálduð á staðnum.

Síðasti biti í háls/kjaft (orðtak)  Um síðasta matarbitann í boði eða lok verks.  „Hér er eftir síðasti biti í kjaft.  Ætli sé ekki best að ég taki hann; þá þarf ekki að slást um hann“!

Síðastliðinn (l)  Sá tiltekni tími sem síðast leið; t.d. síðastliðinn vetur; síðastliðin helgi.

Síðastnefndur (l)  Sá sem síðast var nefndur í umræðu/upptalningu.

Síðborið / Síðgotið (l)  Lamb sem fæðist seint á sauðburði.  „Það er ekki furða að hrúturinn sé lítill; hann er svo síðborinn“.

Síðborningur / Síðgotungur  (n, kk)  Lamb sem fætt er í enda sauðburðar eða eftir hann.

Síðbúinn (l)  Seint tilbúinn; seinn fyrir.  „Sigurður fer svo af stað með tvær stangir og ég á eftir honum með vað, en hinir þrír sem með okkur voru urðu eitthvað síðbúnari frá tjaldinu“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Síðbær (l)  A.  Um viðburð; veður seint.  „Okkur barst þessi síðbæra frétt ekki fyrr en jarðarför var afstaðin“.  B.  Um kýr; ber seint á sumri.

Síðbæra (n, kvk) Kýr sem ber seint á sumri.  Betra var að kýr bæru snemma á sumri til að beit nýttist sem best og kálfurinn braggaðist vel yfir sumarið.

Síðdegi (n, hk)  Síðari hluti dags.

Síðdegisflæði (n, kvk)  Seinni flæði; flóð sem verður eftir hádegi.  „Hann gæti aukið aftur á síðdegisflæðinni“.

Síðfengin (l)  Um ær; höfnuð af hrút seint á fengitíð, og verður því síðborin.

Síðgotungur (n, kk)  Lamb, barn eða annað ungviði sem fæðist seinna en búast mætti við. 

Síðjúgra (l)  Um kýr; með síð júgur.  „Síðjúgra kúm er mjög hætt við að stíga sig (stíga í spena og slasa sig).  Til að forða þv, er stundum settur á þá júgurhaldari“.

Síðjökultími (n, kk)  Tímabilið fyrst eftir lok ísaldar, eða frá ca 10.000 árum til ca 7000 árum.  Á þeim tíma var jökull að hverfa, en láglendi víða undir sjó, þar sem landið hafði ekki náð að lyfta sér eftir jökulfargið.  Þá var t.d. sjávarmál í Kollsvík líklega um Biskupsþúfu, Nautholt, Svarðarholt, Gróumel og Brunnsbrekku.

Síðla (ao)  Seint.  T.d. síðla dags; síðla vetrar; síðla sumars.

Síðmiðaldir (n, kvk, fto)  Síðari hluti miðalda; venjulega átt við tímabilið frá 1400 eða fyrr, framyfir 1500.

Síðri (l)  Lakari; verri; óæðri.  „Hann er ekki síðri í smalamennskum en aðrir“.

Síðskeggjaður (l)  Með sítt skegg.

Síðsleginn (l)  Um gras/hey; slegið/heyjað seint að sumri.  „Síðsleguð hey úr fyrsta slætti ést verr en annað“.

Síðslægja (n, kvk)  Hey sem slegið er og verkað seint á sumri.  Síðslægja þykir allajafna lakara fóður en snemmslegið hey, þó það fari reyndar mjög eftir aðstæðum og verkun.

Síðsumars (ao)  Seint að sumri.

Síðubiti (n, kk)  Rifjabiti; kjötbiti af síðu skrokksins.  „Ári eru þetta feitir síðubitar sem eru eftir“.

Síður (ao)  Frekarhelst ekki.  „Best er að drífa þetta af í dagsbirtunni; ég vil síður vera að því í myrkri“.

Síður en svo (orðtak)  Alls ekki; þveröfugt.  „Það er síður en svo minni afli núna en á sama tíma í fyrra“.

Síðustu forvöð (orðtak)  Síðasta tækifæri; hver að verða síðastur.  „Það eru líklega að verða síðustu forvöð með að fara í fýlsegg, ef maður ætlar að fá þau ný“.  Eldri mynd er „ystu forvöð“.  Líkingin vísar til þess að sá sem fer með fjöru undir klettum þarf að komast fyrir áður en fellur uppá ystu/síðustu forvaðana.

Síðuvindur (n, kk) Um siglingu; hálfur vindur; vindur sem stendur þvert á bátinn. 

Síðvembdur (l)  M eð síðan kvið.  „Mikið sýnist mér þessi kind vera síðvembd; ætli hún sé kviðslitin“?

Síemjandi / Síkvartandi (l)  Hafa sífellt uppi kvartanir/bölmóð.  „Maður er síkvartandi yfir vegunum, en þeir lagast lítið“.

Síendurtaka (s)  Endurtaka oft.  „Símasambandið var svo slæmt að ég þurfti að síendurtaka hvert orð“.

Síendurtekinn (l)  Sem endurtekinn er í sífellu. 

Síétandi (l)  Alltaf að borða/éta.  „Það liggur ekkert á að fara strax í matinn; maður er bara síétandi“.

Sífátandi / Sífiktandi (l)  Sífellt að fikta/fáta í einhverju til óþurftar.  „Vertu nú ekki sífátandi í stillingunum á útvarpinu; ég þarf að heyra veðrið á eftir“!

Sífellt (ao)  Alltaf; sí og æ; alla tíð.  „Hann var sífellt að spyrja mi9g að þessu“.

Sífra (s)  Nöldra; klifa; tuða.  „Hættu nú að sífra um þetta drengur“!

Sífretandi / Síprumpandi / Sírekandi við (l/orðtak)  Einatt að leysa vind/prumpa/ reka við.  „Þetta er ókosturinn við rúgbrauðið; maður er sífretandi ef maður étur það í óhófi“!

Sífullur (l)  A.  Alltaf mettur/saddur.  „Það verður hreint ekkert gaman að éta ef maður er sífullur“.  B.  Alltaf ölvaður/kenndur.  „Er karlinn bara sífullur þessa dagana“?!

Sífúll (l)  Alltaf í þungu skapi; einatt reiður/leiður.  „Maður nennir ekki að vera sífúll alla daga“.

Sífækkandi (l)  Fækkar stöðugt.  „Þeim fer sífækkandi sem tala það mál fullkomlega sem, Kollsvíkingum fyrr á tíð var tamt á tungu“.

Síga (s)  A.  Um það þegar sigari er látinn síga niður í bjarg í sigvað.  „Þá var stundum sigið í Hjöllunum af þeim sem því þorðu, en ég var notaður til að halda við bandið“  (IG; Æskuminningar).   B.  Um það þegar hey sígur í hlöðu undan þunga, einkum þegar hitnar í því.  C.  Um það þegar fiskur er látinn þorna á rám eða í hjalli (siginn fiskur)  D. Um ýmislegt annað, t.d. þegar mysa er látin síga af skyri eða saft af berjamauki eða bleyta úr fatnaði.
Í Kollsvík var oftar notuð þátíðarmyndin „sé“ en sjaldnar „seig“.  Þannig var um önnur orð; „sté“ í stað „steig“; „hné“ í stað „hneig“; „mé“ í stað „meig“.

Síga að (orðtak)  Um þoku/dimmviðri; koma yfir.  „Mér sýnist að hann sé frekar að síga að með þokuna“.

Síga af (orðtak)  Um bleytu; drjúpa af.  „Við skulum láta síga af heyinu á vagninum í nótt og bæta á gryfjuna á morgun“.

Síga af stað / Síga heimleiðis / Síga í áttina (orðtak)  Halda af stað/ halda heim á leið.  „Ég held að við ættum nú að fara að síga af stað, ef við ætlum að ná á fundinn“.  „Ætli maður ætti ekki að fara að síga heimleiðis“.  „Það fer víst að koma tími til að síga í áttina hvað úr hverju“.

Síga á árar (orðtak)  Leggjast á árar; taka á í róðri.  „Þið megið síga betur á árarnar í andófinu; hann er að auka strauminn“.

Síga á seinni hlutann (orðtak)  Komið á síðari hluta þess sem fyrir liggur/ þarf að gera; farnar að minnka birgðir o.fl.  „Enn eigum við nokkuð eftir af verkinu, en það er farið að síga á seinni hlutann“.

Síga í (orðtak)  A.  Vera þungt að bera; þyngjast.  „Það sígur í að bera tvo fulla eggjakúta og vaðinn að auki“.  B.  Reiðast; fjúka í; þyngjast skap.  „Ég játa að það var farið að síga verulega í mig að horfa uppá þennan endemis klaufaskap, en ég stillti mig og þagði“.  C.  Fara í kletta/bjarg með sigi.  „Sagnir eru um að Sighvatur þessi hafi sigið í Stóðin og haft þar sauði til eldis“.

Síga í brjóst (orðtak)  Dotta; sofna; hverfa veröldin.  „Ég held að mér hafi bara sigið aðeins í brjóst“.

Síga í sjó (orðtak)  Um bát/skip; verða siginn vegna afla eða leka.  „Skipið var farið að síga í sjó að framan“.

Sígandi lukka er best (orðatiltæki)  Stöðug jákvæð þróun er heillavænlegri en skyndilegt happ.  Sjá góðir hlutir gerast hægt.

Sígaretta (n, kvk)  Vindlingur.

Sígaulandi (l)  Niðrandi orðalag yfir að vera sífellt raulandi/syngjandi.

Sígeispandi (l)  Syfjaður; alltaf að geispa.  „Það gengur ekki að rorra hér sígeispandi; best að hafa sig í bælið“.

Sígeltandi (l)  Alltaf að gelta; geltir oft.  „Það verður að lóga hundinum ef hann ætlar að vera sígeltandi“.

Sígildur (l)  Alltaf í sama verði; heldur verðgildi/gildi sínu.  Orðið er oft ranglega notað um ýmiskonar list, s.s. tónlist, en eðli sínu samkvæmt er engin list sígild, þar sem viðhorf til hennar er misjafnt milli einstaklinga og tímabila.  Sama bábilja ríkir í heimi akademíunnar varðandi skáld; ekkert skáld er sígilt fremur en list þess.

Síglaður / Síkátur / Síhress (l)  Alltaf í góðu skapi; mjög sjaldan óánægður/niðurdreginn/fúll.

Sígrátandi / Sígrenjandi / Sískælandi / Sívolandi / Sívælandi

Sígrænn (l)  Alltaf grænn; sölnar ekki.  „Dýjamosinn kemur sígrænn undan vetrinum“.

Sígur í (orðtak)  Er þungt.  „Eggjakútarnir síga verulega í þegar gengið er á mosanum upp Geldingsskorardal, jafnvel þó þeir séu bornir í fatla“.  Einnig haft um sigmann.  Þegar hann bjóst til niðurferðar byrjaði hann á því að „síga í“; þ.e. setjast rólega af fullum þunga í vaðinn. 

Síhikandi (l)  Mjög oft hikandi/óákveðinn.

Síhikstandi (l)  Með samfelldan hiksta.  „Skelfilega er leiðinlegt að vera svona síhikstandi“!

Síhlaupandi (l)  Alltaf á þönum/hlaupum.  „Maður fitnar ekki meðan maður er síhlaupandi á eftir þessum rollurössum“!

Síhnuplandi / Sístelandi (l)  Alltaf að taka ófrjálsri hendi.  „Þeir sögðu að hann hefði verið síhnuplandi frá þeim; stal öllu steini léttara“.

Síhræddur (l)  Sífellt hræddur/smeykur.  „Maður er síhræddur um að þessi börð á Litlufitinni geti öll farið af stað, en þá yrði Láganúpsjörðin óbyggileg með öllu“.

Síhugsandi (l)  Sífellt að hugsa um.  „Segja má að maður hafi verið síhugsandi um þetta, allt frá unglingsaldri; hvernig beisla megi orku sjávar með raunhæfum hætti“.

Síhungraður / Sísoltinn / Sísvangur (l)  Alltaf hungraður/svangur.  „Heldur var naumt skammtað á bænum; við vorum síhungraðir meðan við vorum þarna í vinnu“.

Síhækkandi (l)  Sem sífellt hækkar.  „…einkum minntist hann á að rekstur barnaskólans færi síhækkandi“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Síjarmandi (l)  Sífellt að jarma.  „Hvað er með þetta síjarmandi lamb þarna uppi í Urðum“?

Síkveðandi / Síraulandi / Sísyngjandi / Sítrallandi / Sísönglandi (l)  Sífellt að kveða/raula/syngja/tralla.  „Ég man ekki eftir ömmu minni, Halldóru Kristjánsdóttur, öðruvísi en sísyngjandi.  Hún kunni firn af vísum með lögum, og hafði góða söngrödd.  Sama var um dóttur hennar; Sigríði móður mína, þó hún gerði heldur minna af því“.

Síkvefaður (l)  Sífellt með kvef.  „Ég held að maður sé bara síkvefaður þennan veturinn; svei mér þá“!

Síkvikur (l)  Sífellt á hreyfingu; órólegur.  „Hún var með einkennilega síkvik augu“.

Síla (s)  Fá á sig ísingu/klakabrynju.  „Grjótið sílar allt í frostinu“.

Sílaður (l)  Með ísingu/klakabrynju.  Einkum notað um ísingu á steinum og klettum.  „Grjótið er allt sílað og stórvarasamt frammi á útfiri í svona miklu frosti“

Sílamávur (n, kk)  Larus fuscus.  Fremur stór mávur; líkist svartbaki en er minni og nettari.  Dökkgrár á baki og vængjum, en annarsstaðar hvítur.  Ungfuglar eru dökkbrúnflikróttir.  Vængbroddar eru mjög dökkir.  Fætur eru gulir og rauður blettur fremst á neðra skolti; augun gul.  Sílamávur byrjaði að verpa á Íslandi á þriðja áratug 20.aldar, en hefur ekki orpið í Kollsvík eða annarsstaðar á vestanverðum Vestfjörðum, svo vitað sé.

Sílatorfa (n, kvk)  Þétt torfa af síli, t.d. sandsíli; ger/gjör.

Síldarmjöl (n, hk)  Mjöl sem gert er með bræðslu síldar.  Allmikið notað sem skepnufóður milli 1930 og 1970.  „Velfóðrað fé er einnig á Melanesi, enda hefur þar verið gefið síldarmjöl og nokkuð af því sem aukafóður, borið saman við vanalega gjöf undanfarna vetur…“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932). 

Síldarmjölspoki (n, kk)  Poki af síldarmjöli.  „Ég man enn eftir sjálfsánægju minni, þegar mér var í fyrsta skipti treyst til að bera 200 punda síldarmjölspoka upp úr bát í Kollsvíkurveri“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Sílesandi (l)  Sífellt að lesa.  „Maður var sílesandi flestar stundir þegar frí gafst frá vinnu og leikjum“.

Sílferð (n, kvk)  Göngur af síli.  „Það hlýtur að vera mikil sílferð á víkinni núna því það standa uppi nokkur gjör.  Ég held það væri ráð að setja fram og renna fyrir fisk“.

Síli (n, hk)  Síli var yfirleitt samheiti á eiginlegu síli og seiðum í munni sjómanna í Kollsvík og víðar.  Þó voru sumir sem stúderuðu fisktegundir; lífshætti þeirra og hegðun meira en aðrir.

Síljúgandi / Síslúðrandi (l)  Einatt að ljúga/ bera út kjaftasögur.  „Ég hlusta ekki á þetta síslúðrandi pakk“!

Sílogandi (l) Um ljósfæri/rafljós; alltaf kveikt.  „Það er óþarfi að hafa sílogandi á útiljósinu“.

Sílspikaður (l)  Akfeitur; asafeitur; rær í spikinu.  „Hann var sílspikaður; hérumbil hnöttóttur“.

Síma (s)  Hringja; hafa símsamband; tala í síma.  „Að því búnu símaði ég til Snæbjarnar Thoroddsen... “  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).  „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Símaat (n, hk)  Hrekkir með síma.  „Stundum stálust hrekkjalómarnir til að gera símaat.  Það var auðvelt á dögum sveitasímans.  T.d. var hægt að skjóta inn einu og einu orði i samtal annarra eða trufla með öðru móti.  Þetta var þó grátt gaman og hart á því tekið ef upp komst“.

Símabilun (n, kvk)  Bilun í símasambandi.  Símabilanir voru mjög algengar meðan enn voru loftlínur. Var fremur regla en undantekning að símalínur biluðu í miklum veðrum eða snjóþyngslum.

Símadama (n, kvk)  Símastúlka; kona sem vinnur á skiptiborði á símstöðeða hjá fyrirtæki.  „Símadaman bað mig að bíða aðeins á línunni“.

Símafundur (n, kk)  Fundur sem haldinn er í síma.  Sveitasíminn gamli bauð uppá ýmsa möguleika; m.a. þann að hlera samtöl annarra.  En einnig gátu notendur á sömu línu haldið fund; tveir, þrír eða fleiri.

Símahlerun / Símhlerun (n, kvk)  Það að liggja á hleri í sveitasíma/ hlera samtal um opna línu.  „Allir vissu að það var argasti ósiður að hlera, en einnig að símahlerun var skilvirkasta fréttaveitan sem í boði var“.

Símakúla (n, kvk)  Hvít einangrandi bjöllulaga kúla úr postulíni, sem höfð er efst á símastaur.  Símalína í lofti liggur svo um þessa kúlu, sem varnar því að rafmagn leiði til jarðar. 

Símalandi /Síblaðrandi (l)  Sífellt talandi; samkjaftar ekki.  „Hún er símalandi um þessa blessaða englabossa sína“.  „Þú ert síblaðrandi um að það sé ekkert mál að komast upp klettinn; sýndu nú hvað þú getur“!

Símalaust (l)  Dauður sími; ekkert símasamband.  „Það er þá símalaust eins og vant er, eftir skrugguveðrið“.

Símalína (n, kvk)  A.  Lína sem áður lá í lofti milli bæja, borin uppi af staurum.  „Niður með Gilinu lá símalínan að Breiðuvík og Látrum.  Þarna á brúninni laust eldingu niður í línuna og af þremur staurum voru einungis eins meters stubbar upp úr jörð; og næstu klofnir niður í jörð.  Ég var þá með eftirlit með símanum og tjaslaði þessu upp til bráðbirgða“  (IG; Sagt til vegar II).  B.  Rauðasandshreppi var skipt í svæði, og innan hvers svæðis höfðu nokkrir bæir sameiginlega símalínu; sem þýddi að ekki gat nema einn bær í einu notað línuna og unnt var að hlera símtöl hinna. Á Víknalínu voru bæirnir Kollsvík, Stekkjarmelur, Láganúpur, Breiðavík, og Látrabæirnir Ásgarður, Húsabær og Sæból.

Símamaður (n, kk)  Maður sem vinnur við símalagningu/símaviðgerðir.  „Símamenn að sunnan komu yfirleitt árlega í hreppinn; nokkrir saman á bíl sem var furðulegt sambland af smárútu og pallbíl.  Á pallinum tróndu nokkrir símastaurar sem þeir höfðu til skiptanna.

Símasambandslaust (l)  Án símasambands.  „Fyrir stuttu þekktist ekki sími og fólk lifði í friði og ró.  Nú lamast allt þjóðfélagið ef það verður símasambandslaust!  Svo kalla menn þetta framfarir“!

Símastaur (n, kk)  Staur til að halda símalínu frá jörð.  Raðir símastaura voru áberandi í landslagi sveitarinnar meðan loftlínur voru notaðar til tenginga milli bæja.  Símastaur er líklega um 10m hár og um 6-8“ í þvermál; sívalur og gegnsoðinn með tjöru.  Neðri endi er tryggilega grafinn/rústaður í jörð og á efri endann er fest símakúla með sérstöku bognu járni sem skrúfast í staurinn.  Staurum er valinn staður á efstu hólum í landslagi, með nokkru millibili; þó helst ekki á hæstu fjallstindum vegna eldingahættu.  Í dimmviðrum gat verið öryggi að því fyrir ferðamenn og smala að geta fylgt símalínu milli staða.  Eftir að loftlína lagðist af hafa staurar og línur sumsstaðar verið til óþrifa á jörðum, en sumsstaðar hafa bændur gtað hagnýtt sér staurana.

Símatími (n, kk)  Tími sem viðvera er á símstöð.  „Á fyrstu dögum síma í sveitum landsins hafði þetta orð aðra merkingu en nú er.  Þá var einungis unnt að hringja yfir daginn, meðan vakt var á símstöðinni.  Alltaf var þó unnt að ná í næstu bæi sem voru á sömu línu, en símstöð þurfti að tengja á næstu línur og í langlínusímtöl“.

Símaviðgerðarmaður (n, kk)  Sá sem gerir við símalínur.  „Ingvar í Kollsvík var símaviðgerðarmaður á Útvíknalínunni.  Hann þurfti iðulega að brjótast langar leiðir í erfiðum aðstæðum, en þá bilaði helst“.

Símavír (n, kk)  Efni það sem er í símalínu; venjulega koparvír með stálkjarna.

Símhringing (n, kvk)  Hringing síma.  Meðan gömlu sveitalínurnar voru við lýði hafði hver bær sína einkennandi hringingu, sem merkti að símtali væri beint á þann bæ.  Í Kollsvík var hringingin ein löng og ein stutt, en á Láganúpi tvær stuttar og ein löng.  Til að hringja á símstöð/miðstöð hringdu menn eina langa.  Líklega hefur hringing á aðra bæi Víknalínu verið þessi:  Breiðavík, tvær langar; Ásgarður, stutt löng; Húsabær, þrjár stuttar og ein löng; Sæból, þrjár stuttar.

Sími (n, kk)  A.  Símsamband; tækni sem gerir mönnum kleyft að talast við um langar vegalengdir.  Skotinn Alexander graham Bell þróaði fyrsta nothæfa talsímann í Bandaríkjunum 1871, en Thomas Edison gerði á honum nokkrar breytingar.  Landsími Íslands var stofnaður 1906 og sama ár var lagður sæsímastrengur frá Skotlandi um Færeyjar og til Seyðisfjarðar.  „Sími kom fyrst í Rauðasandshrepp með lagningu sæsíma yfir Patreksfjörð árið 1927, fyrst að Hvalskeri og Kvígindisdal.  Þar voru svonefndar 3.flokks símstöðvar. 1933 var lagður sími frá Kvígindisdal um Örlygshöfn (Hnjót) að Breiðavík og Látrum (Sæbóli).  Einkalínur voru lagðar að Sauðlauksdal, Vatnsdal og Tungu.  Af Hafnarfjalli var tekin lína að Kollsvík (Stekkjarmel) árið 1934.  1937 var lagður sími að Saurbæ á Rauðasandi og 1939 kom sími að Hænuvík.  1950-54 var lagður sveitasími á alla bæi hreppsins, með miðstöð á Patreksfirði.  Sjálfvirkur sími kom í hreppinn 1984, og voru þá símalínur lagðar í jörð“ (BÞ; Fólkið, landið og sjórinn).  Sjá símalína.  B.  Tæki til að móttaka og senda símtöl; símtæki; símtól.  Til að hringja var snúið sveif sem knúði rafala og þá hringdi bjalla á hverjum bæ á línunni og í símstöð.  Sjá símhringing.  Símtæki voru yfirleitt vegghengd, en af ýmsum gerðum.  Á Láganúpi var nettur veggsími úr Baekelit-plasti, en á Stekkjarmel og í Kollsvík voru símtæki í viðarkassa.  Þegar símtól var lagt á tækið rauf það sambandið.

Símleiðis (ao)  Með símasambandi; gegnum síma.  „Fundurinn var boðaður símleiðis“.

Símon kjaftur (orðtak)  A.  Um seglabúnað skips; gæluheiti á stormklýfi.  „Aðeins var lagt til með þrírifuðu stórsegli og stormklýfi, eða Símoni kjafti, eins og sjómenn kölluðu“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).  B.  Gæluheiti á rifjárni; sérstöku verkfæri til að draga út nagla/saum.

Símskeyti (n, hk)  Skeyti/boð/kveðja sem sent er með því móti að sendandi kemur boðinu til sinnar símstöðvar sem kemur því til símstöðvar notanda; sem prentar það út á sérstakt eyðublað og kemur því til móttakanda.  Í upphafi símans og framyfir 1960 var algengt að menn sendu símskeyti, sérílagi boð sem þurfti að votta að hefðu komist til skila.  Einnig sendu menn kveðjur til ástvina, s.s. heillaóskaskeyti og samúðarskeyti, sem enn er gert þó tölvur hafi mikisttil tekið við hlutverki símstöðva.

Símstjóri (n, kk)  Umsjónarmaður landsímastöðvar.  Ein slík stöð var starfrækt að Stekkjarmel í Kollsvík í upphafi símvæðingar; þangað þurftu Kollsvíkingar þá að leita með sín símtöl.  „Andrés Karlsson, símstjóri á Mel í Kollsvík, fór nú heim til sín“ (ÞJ; Sargon strandið). 

Símstjóri (n, kk)  Umsjónarmaður símstöðvar.  „Andrés Karlsson, símstjóri á Mel í Kollsvík, sem þarna var með okkur, fór nú heim til sín... “  (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949). 

Símstöð (n, kvk)  Miðstöð; tengistöð fyrir sveitasímalínur og langlínu.

Símtal (n, hk)  Samtal gegnum síma. 

Símtól (n, hk)  A.  Símtæki.  B.  Hluti símtækis; tólið sem haldið er á; talað í og hlustað.  Tengt með snúru við símtækið fyrrum.

Símtæki (n, hk)  Símar voru, í upphafi símavæðingar, mun umfangsmeiri og svipmeiri tól en núorðið er.  „Fyrstu símtækin voru stórir trékassar, hengdir á vegg, með utanáliggjandi bjöllum að framanverðu og þungu snúrutengdu símtóli hangandi á krók á hliðinni.  Þannig símtæki var t.d. fyristi síminn á Stekkjarmel, sem fluttist síðan að Kollsvík.  Símtækið á Láganúpi var einnig vegghengt; úr svörtu baekelíttplasti og með ofanáliggjandi snúrutengdu símtóli.  Einnig þekktust borðsímar af svipaðri gerð.  Þessir símar voru allir með sveif til hringingar, en síðar komu skífusímar; þar á eftir takkasímar og löngu síðar þráðlausir símar“.

Sínagandi (l)  Sífellt að naga/narta.  „Það er ekki hollt að vera sínagandi rabbarbara; þú færð varaþurrk af því“.

Síngirni (n, kvk)  Eigingirni; ágirnd.  „Það er nú bara síngirni að gefa aldrei neitt til góðgerðarmála“.

Síngjarn (l)  Eigingjarn; sjálfhverfur.  „Það hafa aldrei þótt mannkostir að vera sjálfselskur og síngjarn“.

Sínkur (l)  Aðsjáll; sparsamur; nískur.  „Hann var ekkert sínkur á saltið við okkur“.

Sínum augum lítur hver á silfrið (orðatiltæki)  Viðhaft um misjafnt álit manna; sérhver metur málefni og hluti á sínum forsendum.  Vísar líklega til þess að fyrrum gátu orðið deilur um hreinleika og verðmæti silfurs sem notað var sem gjaldmiðill.

Sípárandi / Sískrifandi (l)  Einatt að skrifa/ punkta hjá sér.

Sípirraður / Síæstur (l)  Mjög oft pirraður/æstur.  „Maður er sípirraður yfir þessum bjálfum sem kunna ekki að leggja í rétta stefnu“!  „Það hefur ekkert uppá sig að vera síæstur yfir þessu; það bætir lítið blóðþrýstinginn“.

Síplagaður / Síþjakaður / Síþjáður (l)  Sífellt hrjáður/kvalinn; eilíft með verki/þjáningar.  „Það er óskemmtilegt að vera síplagaður af tannverkjum“.  „Það étur hvern mann að vera síþjakaður af áhyggjum“.

Sípuðandi / Sístarfandi / Síúðrandi / Sívinnandi (l)  Sífellt vinnandi; iðinn.  „Ég man eftir henni Gunnu gömlu í Gröf, sem var ein af þessum gömlu sívinnandi konum sem ekki hafði verið mulið undir um ævina“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Sírennandi (l)  Rennur samfellt.  „Ég hef sírennandi vatn hjá fénu í hólfinu“.

Sírennsli (n, hk)  Vatn sem rennur stöðugt úr krana/lögn o.fl.  „Það þarf að laga þetta sírennsli í klósettinu“.

Sírexandi (l)  A.  Sífellt að ganga um.  „Það kólnar fljótt í húsinu þegar krakkarnir eru sírexandi út og inn“!  B.  Sífellt að nauða/biðja/tuða.  „Vertu nú ekki sírexandi í mér með þetta“!

Síreykjandi (l)  Sífellt að reykja.  „Það er nú varla nein hollusta að vera síreykjandi þessa pípu“!

Síríus (n, kk)  Hundastjarnan.  Bjartasta stjarnan í stjórnumerkinu Stórahundi og reyndar bjartasta fastastjarnan á himninum; um 25 sinnum ljósmeiri en sólin.  Fjarlægð frá okkar sólkerfi er tæp 9 ljósár.  Sírius er tvístirni, þar sem önnur stjárnan er hvítur dvergur.

Sísal / Sísalhampur / Sísaltóg (n, kk/kvk)  Trefjar sem unnar eru úr plöntunni Agave sisalana, sem er hitabeltisplanta af þyrnililjuætt.  Trefjarnar voru notaðar í kaðla/reipi/tóg sem nýtt er til margvíslegra hluta, en nú hafa gerviefni leyst hampinn af hólmi í flestu.  Hampiðjan framleiddi sísalhamp fyrr á tíð.

Sískimandi (l)  Sífellt að skima/skyggnast eftir.  „Ég hef verið sískimandi eftir þessum kindum sem vantar“.

Sískjálfandi (l)  Sífellt skjálfandi.  „Blessaður búðu þig nú betur; það gengur ekki að vera sískjálfandi úr kulda“!

Sísofandi (l)  Sefur mjög mikið.  „Það vinnst nú lítið ef menn eru sísofandi; bæði dag og nætur“!

Síspriklandi (l)  Einatt á iði/ spriklandi.  „Þú mátt alveg sofa uppí hjá okkur ef þú ert ekki síspriklandi“.

Síspyrjandi (l)  Einatt að spyrja.  „Vertu nú ekki síspyrjandi alltaf að sama hlutnum“!

Síst datt mér það í hug/ til hugar (orðtak)  Það hvarflaði síst að mér; ekki datt mér það í hug. 

Sístagast / Sístaglast (s)  Þrástagast; endurtaka ítrekað.  „Hættu nú að sístagast á þessu“!

Sístækkandi (l)  Sem stækkar jafnt og þétt.  „Lífsbaráttan var erfið fyrir sístækkandi fjölskyldu á örreytiskoti“.

Sísveittur (l)  Endalaust sveittur.  „Nú mætti hann fara að kula dálítið; maður er sísveittur í þessari mollu“.

Sísyfjaður (l)  Alltaf syfjaður. „ Ekki veit ég af hverju ég er svona sísyfjaður þessa dagana“.

Sísyngjandi (l)  Iðulega að syngja.  „Hún var alltaf í góðu skapi og sísyngjandi“.

Síungur (l)  Virðist alltaf jafn ungur; eldist ekki sýnilega. „Alltaf virðist hún síung, frá því að ég sá hana fyrst“.

Síúðrandi (l)  Önnum kafinn; vinnuþjarkur.  „Aldrei sér maður hana öðruvísi en síúðrandi“.

Sívafinn (l)  Margvafinn; undið með mörgum vafningum.  „Gert var að fótbroti á kind með því fyrst að sótthreinsa sárið vel, væri það opið, og sívefja með fínni sáragrisju eða hreinu lérefti.  Síðan voru útbúnar spelkur, t.d. úr bambusteinum, og þeim raðað kringum legginn með litlu millibili, og þannig að klaufir stæðu vel niðurúr.  Hnýtt var rækilega að með snæri; fyrst með draglykkju en síðan sívafið utanum spelkurnar.  Ef vel tókst til gat kindin farið allra sinna ferða og brotið greri vel, en halda þurfti umbúðunum þurrum“.

Sívaxandi (l)  Sem stöðugt eykst/vex.  „…fá Barðstrendinga til smölunar með Rauðsendingum, sökum mikils og sívaxandi ágangs fjár frá Barðstrendingum á fjalllendi Rauðsendinga“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Sívinnandi (l)  Vinnur stöðugt/mikið; alltaf að.  „Menn voru sívinnandi myrkranna á milli“.

Sívefja (s)  Vefja oft kringum.  „Ég lagði spelkurnar við fótbrotið á kindinni; sívafði svo með snæri og batt tryggilega að“.

Síviljugur (l)  Alltaf viljugur/reiðubúinn.  „Ég var síviljugur í alla hreyfingu; hvort sem það var smalamennskur eða eggjaferðir“.

Sívökull (l)  Alltaf vakandi/ á verði.  „Ekkert matarkyns fór framhjá sívökulum augum krumma“.

Síþreyttur (l)  Alltaf þreyttur/ með þreytutilfinningu.  „Það gengur ekki endalaust að vera síþreyttur“.

Síþyrstur (l)  Alltaf þyrstur.  „Maður er síþyrstur eftir þetta skötuát; hún hefur verið alltof sölt“!

Sjal (n, hk)  Klútur sem konur sveipa gjarnan yfir herðar sér til skjóls og/eða skrauts.

Sjaldan (l)  Ekki oft; fáum sinnum.  „Þá tók sauðburðurinn við og við urðum að smala út í Breiðavík, ekki sjaldnar en annanhvern dag“  (IG; Æskuminningar).  Orðmyndin „skjaldan“ var ekki notuð í Kollsvík, a.m.k. ekki í seinni tíð.

Sjaldan bítur refur/tófan nærri greni (orðtatiltæki)  Refir kunna vel að leyna greni sínu, og liður í því er að fara gjarnan í langar veiðiferðir, en ekki eingöngu í sínu nágrenni.  Spekin er svo heimfærð á mannfólkið; t.d. það að sauðaþjófum var gjarnt að stela fjarri sínu heimili.

Sjaldan bregst mjaldur af miði (orðatiltæki)  Um þann sem er þaulsætinn á sama stað, eða bregður lítt útaf sínum vana.  Vísar til þess að hvaltegundin mjaldur, sem fáséð er hér við land, mun vera heimakær og halda sig mikiðstil á sömu slóðum.

Sjaldan brotnar bein á huldu (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að bein eru oft sterk, og því þarf bæði að hafa gott undirlag og öflugt högg þegar þau eru brotin, t.d. til mergjar.  Setningin er stundum sögð vera tilvitnun í skálkinn Axlar-Björn, þegar útlimir hans voru brotnir.  Sjá; saxast nú á limina hans Björns míns.

Sjaldan brýtur gæfumaður gler (orðatiltæki)  Vísar til þeirrar hjátrúar að maður kalli yfir sig ógæfu með því að brjóta gler.

Sjaldan bætir biðin / Sjaldan er bið til batnaðar/bóta (orðatiltæki)  Sjaldgæft er að hlutirnir batni eða vandamál leysist við það að bíða.

Sjaldan er á botninum betra (orðatiltæki)  Ekki skal leita langt yfir skammt; ekki finnst betra þó gramsað sé í íláti; þvert á móti er t.d. grogg við botninn í lýsistunnu.  „Hentu til mín tveimur sneiðum þarna ofanaf; sjaldan er á botninum betra“.  „Ég gekk út þegar hann upphóf skammarræðuna; minnugur þess að sjaldan er á botninum betra“.  Stundum snúið upp í andhverfu:  Oft er á botninum betra.

Sjaldan er bagi að bandi (orðatiltæki)  Spekin vísar til þess að bandleysi bagaði menn oft á fyrri tíð; ekki síst í verstöðvum, þar sem þess var mikil þörf.  Því tóku menn því jafnan feginshendi ef spotta var að finna.  Því var það að eldri Kollsvíkingar töldu það happafeng þegar á fjörur rak lóðaflækjur eða vörpuslitur, og viðhöfðu þá gjarnan þetta máltæki.  Til var lengri útgáfa; „sjaldan er bagi að bandi né burðarauki að staf“.

Sjaldan er bið til batnaðar / Sjaldan bætir biðin (orðatiltæki)  Hið fyrra er meira notað í Kollsvík í seinni tíð, ekki síst af þeim sem óþolinmóðir eru.  „Við ættum nú að fara að setja niður ef eitthvað á að verða úr róðri í dag!  Sjaldan er bið til batnaðar og óvíst hvað sjóveðrið helst“.  Sjá bíður sér ekki til batnaðar.

Sjaldan er breyting til batnaðar (orðatiltæki)  Sjaldnast eru breytingar til bóta, ef þær eru gerðar án þess að nauðsyn beri til.  Oftar er notað orðtakið breyting til batnaðar.

Sjaldan er ein báran stök (orðatiltæki)  Oftast notað um áföll/óhöpp af einhverju tagi og vísar til þes að hverju ólagi á sjó eða í lendingu fylgja vanalega fleiri bárur.  „Ólagsöldurnar eru taldar 4-5 og í vaxandi brimi er ætíð styttra milli ólaga“  (JT Kollsvík; LK; Ísl.sjávarhættir III).  Þessi kenning um fjölda bára milli ólaga var býsna lífseig, þó fjöldinn væri á reiki.  Vísindamenn telja hana þó almennt ekki trausta.  Sjá þegar ein báran rís er önnur vís.

Sjaldan er eymdin einsömul ( orðatiltæki)  Vísar til hörmunga fyrri tíma, þegar harðræði, plágur og óáran gekk yfir þjóðina og flestir lifðu við kröpp kjör.  Þá þústnaði að hjá mörgum í senn.

Sjaldan er flas til fagnaðar (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að fara gætilega en ekki með asa/offorsi.

Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur eftir renni (orðatiltæki)  Sjá gíll.

Sjaldan er glens í dauðs manns húsi (orðatiltæki) Viðhaft þegar einhver er niðurdreginn/ókátur, og oft nefnd ástæða á eftir.  Tilvísunin er auðskiljandleg.

Sjaldan/aldrei er góð vísa of oft kveðin (orðatiltæki)  Aldrei er góð speki of oft höfð um hönd.  Sama gildir um góðan kveðskap og heilræði.

Sjaldan er köttur í feigs manns fleti / Sjaldan er fluga í feigs mat (orðatiltæki)  Speki sem vísar til forlagatrúar; að dýr forðist fólk sem er feigt; sem er áskapað að deyja; einkum kettir.  Viðhaft í seinni tíð meira í gamni en alvöru um það þegar köttur velur sér ból.

Sjaldan er langvinnur laugardagsþerrir (orðatiltæki)  Máltækið kann að lýsa óþreyju sem skapast af þeim sið annarsvegar að undantekningarlaust er borið út, þ.e. hafinn heyskapur, á laugardegi, en hinsvegar að menn héldu heilagt á sunnudögum.  Þá var ekki unnið nema brýna nauðsyn bæri til.  Því nýttist illa þurrkur sem hugsanlega var á laugardag.

Sjaldan er mein að miðsvetrarís (orðatiltæki)  Minni skaði er af hafís sem berst að landinu að vetrarlagi, þegar fé er á húsum og bátar í nausti, heldur en ef hann kemur að sumri.

Sjaldan er skammsýnn skaðlaus (orðatiltæki)  Vísar til þess að sá sem er hugsar ekki fyrir hlutunum getur lent í vandamálum síðar. 

Sjaldan er ýsa í asafiski eða ufsi í ördeyðu (orðatiltæki)  Orðtakið heyrðist ekki vestra, a.m.k. ekki í seinni tíð, en kann að hafa verið þekkt þar fyrrum.   Fiskifræði fyrri tíma.  Menn tóku eftir því að ýsan dróst ekki mikið ef nóg var af öðrum fiski, en hinsvegar er ufsinn býsna viljugur þegar mikið er af fæðu í hlýsjó, en hverfur frá endranær; enda er hann hlýsjávarkær.

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni (orðtak)  Ávöxturinn dettur beint af sinni grein og fer því ekki langt frá trénu.  Oftast viðhaft um manneskju; að hún hafi sama svipmót eða hegðun og hennar forfeður.  Líklega ævafornt, eða frá þeim tíma að Íslendingar höfðu náin kynni af eplum og orðið eik var notað um eplatré.

Sjaldan fellur tréð við fyrsta högg (orðatiltæki)  Vísar til þess að lengi þarf að höggva til að fella tré; og á sama hátt getur þurft að vinna lengi að málefni til að fá því framgang.

Sjaldan fer betur þá breytt er (orðatiltæki)  Ekki er öll breyting til batnaðar; breytingar virka ekki alltaf sem skyldi.

Sjaldan gefst sofandi manni sigur (orðatiltæki)  Sá sem sefur nær litlum árangri/ kemur litlu í verk. 

Sjaldan hef ég flotinu neitað (orðatiltæki)  Ég slæ ekki hendinni á móti því; ég þigg það með þökkum.  Orðatiltækið er viðhaft þegar manni er boðið ljúfmeti eða annað kærkomið og vísar líkingin til þess þegar feitmeti var eftirsóttur matur, í erfiðari lífsskilyrðum fyrri tíma.

Sjaldan hittir leiður í lið (orðatiltæki)  Viðhaft um það að hinn leiði sækir sjaldan í skemmtan annarra, né kemur þegar vel stendur á.  Málshátturinn er kominn úr Hávámálum; „Mikilsti snemma/ kom ek í marga staði/ en til síð í suma;/  öl var drukkit,/ sumt var ólagat; /sjaldan hittir leiður í lið“.  Hann hefur verið talinn vísa til þess að erfitt er að hitta rétt í liðinn þegar löpp er skorin af skrokk sauðkindar/grips sem slátrað hefur verið.  Til þess þarf umfram allt lagni en ekki óþolinmæði (leiða).

Sjaldan launar kálfur ofeldi (orðtatiltæki)  Spekin á eflaust rætur í því að kálfar geta étið ótæpilega af fóðri í sínum uppvexti án þess að skila því í auknum nytjum fullvaxnir.  Á sama hátt er ekki víst að maður launi alltaf vel fyrir sig þó vel sé gert við hann.

Sjaldan lýgur sveitarrómur/almannarómur (orðatiltæki)  Meiningin er sú að varla geti allir haft rangt fyrir sér.  Ekki er vitað hvaða spunameistari skapaði orðatiltækið, en rangari staðhæfing er líklega vandfundin.  Nægir þar að vísa í bullið sem iðulega viðgengst á netmiðlum almennings síðari árin.

Sjaldan ropar svangur maður (orðatiltæki)  Auðskilið, þar sem ropi er oftast afleiðing saðningar.

Sjaldan sem aldrei (orðtak)  Nær aldrei en þó örsjaldan.  „Það gerist sjaldan sem aldrei að kind fari þarna í svelti“.

Sjaldan veldur einn þá tveir deila (orðatiltæki)  Þessi speki á stundum við, en þó getur hún verið kolröng.  Þvert á móti er það líklega oftar svo að friðarspillir á alla sök á deilumálum.  Ekki er ólíklegt að þessi frasi hafi verið uppfundinn af yfirgangssömu höfðingjaslekti eða kóngapakki.

Sjaldan viðrar eins um pálma og páska (orðatiltæki)  Um veðurlag; sjaldan er sama veður á pálmasunnudag og páskadag.  Spakmælið mun hafa verið gamalt en ég man KÓl, Hænuvík fara með þetta (VÖ).

Sjaldgæfur (l)  Sem sjaldan ber fyrir augu; sem finnst sjaldan.  „Í Grænlendingnum var sjaldgæf bergtegund“.

Sjaldséður (l)  Fáséður; sem sést sjaldan.  „Hingað komu sjaldséðir gestir um helgina“.

Sjaldséðir (eru) hvítir hrafnar (orðatiltæki)  Gripið er til þessarar líkingar þegar t.d. gest ber að garði sem sjaldan kemur í heimsókn. 

Sjatna (s)  Minnka; lækka.  „Það hefur sjatnað í Ánni“.  „Ég verð að leggjast og láta sjatna í mér eftir matinn“ .

Sjá að sér (orðtak)  Breyta til betri vegar; láta af röngum gerðum/fyrirætlunum.  „Hann ætlaði í fyrstu að leggja einn af stað niður í klettana, en sá að sér og ákvað að skynsamlegra væri að bíða eftir hinum“.

Sjá af (orðtak)  Láta í té; gefa; láta eftir/frá sér.  „Geturðu nokkuð séð af örlitlu salti, þar til næst fellur ferð“?

Sjá aumur á (orðtak)  Vorkenna; líkna.  „Hvíti haninn mátti hýrast í sínum kofa nema einhver sæi aumur á honum og ræki hænur hans heim“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Sjá á (orðtak)  Sjást skaði/meiðsli/óhreinindi; vera meiddur/skaðaður/skítugur.  „Það sá ekkert á honum eftir byltuna“.   „Hún sagði einusinni:  „Það er ég viss um að Ingvar lærir aldrei að halda sér uppúr skítnum.  Það er munur en hann Össur; það sér aldrei á honum“ “  (IG; Æskuminningar).   Sjá stórsjá á.

Sjá á bak (einhverjum) (orðtak)  Horfa á einhvern hverfa.  „Það var þungbært að sjá á bak hnífnum.  Eftir það var lítið annað að gera en hafa sig í land“.

Sjá á langleið (orðtak)  Sjá langt að.  „Það má nú sjá það á langleið að þarna fer enginn um“.

Sjá ástæðu til (orðtak)  Finnast þörf á.  „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því“  (PG; Veðmálið). 

Sjá (engin) deili/mót til (orðtak)  Sjá vott um; sjá ummerki um.  Ég sé engin deili til þessa að hann muni birta til í dag“.   „Ég sé lítil mót til þess að hann ætli að standa við loforðið“.

Sjá eftir (orðtak)  Sakna; iðrast.  „Ég sé mest eftir því að hafa ekki látið karlskrattann heyra það meðan ég var í kallfæri við hann“!  „Það var haft eftir Gumma að aldrei hefði hann séð eftir bita eða sopa ofan í nokkurn mann…“  (PG; Veðmálið). 

Sjá ekki fyrir vend (orðtak)  Um bjargsig; gefa sigara svo hratt niður að ekki verði greindir vindingar (vend) á vaðnum.  „Ef um loftsig var að ræða var vönum sigara gefið svo fljótt að ekki sá fyrir vend á vaðnum“ (LK; Ísl sjávarhættir V). 

Sjá ekki glóru / Sjá ekki handa sinna skil  / Sjá ekki út úr augum (orðtök)  Sjá lítið sem ekkert fyrir myrkri/dimmviðri.  „Ég sé ekki glóru hér inni svona ljóslaus“.  Það er að verða svo dimmt að maður sér ekki handa sinna skil“.  „Það skall á okkur slíkur þreifandi bylur að við sáum ekki útúr augum“.

Sjá ekki handa sinna skil (orðtak)  Greina ekkert fyrir myrkri/þoku/reyk/snjókófi, jafnvel ekki hendur sínar.  „Við snerum við uppi í Jökladalshæð.  Hann gerði svo dimmt él að maður sá ekki handa sinna skil“.

Sjá ekki hálfa sjón (orðtak)  Ver glámskyggn; láta fara framhjá sér; yfirsjást.  „Sjáiði ekki nema hálfa sjón?!  Þið misstuð kindurnar framhjá ykkur í seilingarfjarlægð“!

Sjá ekki sólina fyrir (einhverjum/einhverri) (orðtak)  Vera mjög ástfanginn af einhverjum/einhverri. 

Sjá farborða (orðtak)  Bjarga; komast af.  „Lífsbaráttan var ávallt hörð og menn urðu að leggja hart að sér til þess að sjá sér og sínum farborða“  (KJK; Kollsvíkurver).  Merking ekki augljós.  Farborð er heiti á einu af neðstu borðum súðbyrts báts.  E.t.v. hefur nafið áður átt við eitt af efstu borðunum, en bátur er ekki öruggur nema að borð fyrir báru.

Sjá fjandann í hverju horni (orðtak)  Vera mjög tortrygginn/ á verði.  „Það þýðir ekkert að vera með svona svartsýni; þú kemst ekkert áfram með þetta ef þú sérð fjandann í hverju horni“!

Sjá framá (orðtak)  Sjá fyrir/fyrirfram.  „Ég sá framá að við næðum heyinu ekki öllu í hlöðu fyrir rigninguna, svo við settum það upp í galta“.  „Mér varð fyrst fyrir að hrópa á hjálp, en sá fljótt framá að engin minnstu líkindi væru til björgunar; allt fólkið í rúminu nema prestkonan og ein stelpa“ (Júl. Reynir Ívarsson; Maður og kindur í ísvök; Lesb.Tímans). 

Sjá framúr (einhverju verki) (orðtak)  „Þetta hefur tekið óhemju langan tíma, en ég held ég fari nú að sjá framúr þessu“.

Sjá frá (orðtak)  Um skipti á fiski; horfa í áttina frá hrúgum sem búið er að skipta, áður en sagt er hver skal hvað“.  Sjá skipti.  „Ég bendi; þú sérð frá“.

Sjá frá sér (orðtak)  Sjá umhverfið í kringum sig; vera ekki blindaður af dimmu/dimmviðri/sjónleysi.  „Ég er hættur að sjá eins vel frá mér og fyrrum“.  „Við sáum ekkert frá okkur í þokunni“.

Sjá fyrir (orðtak)  A.  Spá fyrir um; átta sig á áður en skeður.  „Enginn gat séð það fyrir að byggðin færi í eyði“.  B.  Sjá um; taka að sér; sjá farborða.  „Ég sá fyrir því að smiðirnir hefðu nóg að bíta og brenna“.  „Hann sá okkur fyrir nægu efni“.

Sjá fyrir endann á (orðtak)  Sjá endalokin á; sjá enda.  „Enn sér ekki fyrir endann á þessari rigningatíð“!  „Það fer nú loksins að sjá fyrir endann á þessu verki“.

Sjá hvað setur / Sjá hvað verður / Sjá hverju fram vindur (orðtak)  Sjá til; bíða og sjá hvað gerist.  „Kannski kemur hann á morgun; við sjáum hvað setur“.  „Við sjáum hvað verður með þetta veður; hvort þetta getur gengið í fyrramálið“.

Sjá (til) hvernig kaupin gerast á eyrinni (orðtak)  Bíða eftir niðurstöðu mála.  Bændur fóru með sína vöru í kaupstað fyrr á tímum, og lögðu inn hjá kaupmönnum.  Verðið var oft ákveðið í samningum á staðnum, og því ekki alltaf vitað fyrirfram hvernig kaupin gerðust á eyrinni, þar sem verslun var gjarnan staðsett.

Sjá hvernig landið liggur (orðtak)  Sjá hvernig í pottinn er búið; athuga hvernig málin standa.  „Hér er dálítið af fé frammi í dalnum.  Við skulum nú skoða betur hvernig landið liggur áður en við gerum vart við okkur“.

Sjá hvernig til verkast (orðtak)  Bíða og sjá hvernig framvindan verður.  „Ég er hræddur um að þessi girðing haldi illa; en við skulum bara bíða og sjá hvernig til verkast áður en meira er gert“.

Sjá hvorki haus né sporð (orðtak)  Sjá hvorki tangur né tetur; finna ekki neitt af.  „Ég leitaði fram allan dalinn en ég sá hvorki haus né sporð af þessum kindum sem sluppu“.

Sjá hvorki veður né reyk af (orðtak)  Sjá hvorki tangur né tetur af; sjá hvorki haus né sporð af.  Heyrðist mun sjaldnar notað í seinni tíð en hin orðtökin.  „Ég sé hvorki veður né reyk af þessari bauju“.

Sjá hvorki tangur né tetur (orðtak)  Sjá hvorki haus né sporð; finna ekkert af.  „Af trénu sást hvorki tangur né tetur eftir flæðina“.

Sjá í (orðtak)  Horfa í; sjá eftir; vera sínkur/sparsamur á.  „Ég er ekkert að sjá í það þó menn fái sér egg í soðið í mínu landi.  En annað er ef menn gera útá það í flokkum; þá finnst mér sjálfsagt að þeir biðji um leyfi“.

Sjá í friði (orðtak)  Láta í friði; láta kjurrt.  „Reyndu nú að sjá í friði það sem yngri bróðir þinn er að leika með“.

Sjá í gegnum (orðtak)  Átta sig á, t.d. blekkingum.  „Hann var fljótur að sjá í gegnum þessa leikfléttu“.

Sjá í gegnum fingur sér (orðtak)  Líta framhjá; þykjast ekki sjá.  Dregið af því að þykjast halda fyrir augu en fylgjast samt með milli fingra.  „Landeigandinn sá í gegnum fingur sér vegna þessara óboðnu tjaldbúa“.

Sjá í hendi sér/sinni (orðtak)  Sjá greinilega; sjá blasa við; greina mjög vel.  „Ég sá það strax í hendi mér að það yrði ekki auðvelt verk að komast fyrir kindurnar þarna í klettunum“.

Sjá í iljarnar á (orðtak)  Sjá einhvern forða sér hratt; um þann sem lætur sig hverfa/ fer burt.  „Ég sá bara í iljarnar á þessum letihaug, um leið og ég nefndi að mig vantaði mannskap í steypu“.

Sjá (eitthvað) í nýju ljósi (orðtak)  Horfa á eitthvað frá nýju/öðru sjónarhorni.  „Skyndilega skýrt og vel nú skynjar Rósi/ náttúruna í nýju ljósi“ (JR; Rósarímur). 

Sjá jafnlangt nefi sínu / Sjá/vita lengra en nef (einhvers) nær (orðtök)  Vita meira en lítur útfyrir í fljótu bragði.  „Karlinn sér lengra en nef hans nær í þessum efnum“.

Sjá lit á / Sjá litmót á (orðtak)  Sjá möguleika á; telja mögulegt/gerlegt.  „Ég sé engan lit á að geta klárað þetta í dag“.  „Sérðu nokkuð litmót á að þú getir aðstoðað mig á morgun“?

Sjá með eigin augum (orðtak)  Sjá sjálfur; upplifa.  „Ég hefði ekki trúað þessu nema af því að ég sá það með eigin augum“!

Sjá með öðru auganu (orðtak)  Verða var við án þess að veita því sérstaka athygli; sjá útundan sér.  „Ég sá þetta með öðru auganu, en gaf því engan sérstakan gaum á þeim tíma“.

Sjá merki til (orðtak)  Sjá ummerki um.  „Ég sé engin merki til þess að hér hafi komið tófa“.

Sjá ofsjónir (orðtak)  Sjá sýnir; missýnast; sjá það sem ekki er raunverulegt.  Sjá ofsjónir.

Sjá ofsjónum yfir (orðtak)  Öfunda; býsnast yfir.  „Á hinum bátunum sáu menn nokkrum ofsjónum yfir því að karlinn skyldi koma með hlaðning, dag eftir dag, meðan þeir urðu varla varir sem grynnra voru“.

Sjá rautt (orðtak)  Vera mjög reiður/æstur.  „Hann sér alveg rautt þegar minnst er á þessa stofnun“.

Sjá sér farborða (orðtak)  Sjá fyrir sér; framfleyta sér.  „Meðan á náminu stóð sá hún sér farborða með skúringum“.  Farborð er neðsta borðið í síðu súðbyrts báts, ofanvið kjalsíðuna.  Tenging máltækisins er ekki augljós, en það vísar e.t.v. til þess að mikilvægt var að vel tækist til með sveigjuna á farborðinu.  Ef hún lánaðist ekki var báturinn ekki sjóhæfur.  Jafn mikilvægt er að menn sjái sér farborða; þ.e. komist af.  Önnur skýring segir að farborði sé skipsfar/ far með skipi, en hún er ólíklegri.

Sjá sér fyrir (orðtak)  Sjá sjálfur um að fá.  „Við þurftum því að sjá okkur sjálf fyrir ferð norður“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Sjá sér fært (orðtak)  Telja sig færan um; sjá möguleika á.  „Ég sá mér ekki fært að mæta á fundinn“.

Sjá sér leik á borði (orðtak)  Sjá/grípa tækiræri; sjá færi á.  „Ég sá mér leik á borði og greip lambið um leið og það hrasaði í hillunni fyrir ofan mig“.  Líkingin vísar til taflmennsku.

Sjá sig um (orðtak)  Litast um; horfa í kringum sig.  „Ég ætla að hlaupa uppá hjallann og sjá mig um“.

Sjá sig um hönd (orðtak)  Skipta um skoðun.  „Hann byrjaði á að velja sér fólksbíl en sá sig svo um hönd og fékk sér jeppa“.

Sjá sitt óvænna (orðtak)  Sjá að í óefni er komið; átta sig á slæmri/tapaðri stöðu.  „Nautið kom froðufellandi og bölvandi á móti mér, svo ég sá mitt óvænna og stökk aftur yfir girðinguna“.

Sjá sína sæng uppreidda (orðatiltæki)  Horfast í augu við úrslitakosti/hið óumflýjanlega.  „Maður reyndi að þrauka í búskapnum á þrjóskunni, en eftir síðustu bommertur ríkisstjórnarinnar sá ég mína sæng uppreidda“.  Að reiða upp sæng er að hafa rúm tilbúið undir svefn eða veikindalegu.  Sá sem sér sína sæng uppreidda er sá sem horfir framá langa legu í rúmi t.d. vegna veikinda eða annars óláns.  Af því er líkingin dregin.

Sjá sóma sinn í (orðtak)  Sjá að manni er sæmd í; sjá hvað manni er rétt að gera.  „Ég held að hann ætti að sjá sóma sinn í að gera þetta almennilega, en ekki kasta svona til þess höndunum“!

Sjá (eitthvað) svart á hvítu (orðtak)  Sjá eitthvað greinilega.  „Það verður bara að sekta þessa letihauga; þeir sjá það þá kannski svart á hvítu hvað það þýðir að gera ekki fjallskil“!

Sjá til (orðtak)  A.  Bíða; láta bíða með.  „Við skulum sjá til með að taka af þessari; henni er ekki vel fyllt ennþá“.  „Hann sagðist ætla að sjá til með róður á morgun; það færi eftir útlitinu með morgninum“.  B.  Sjá tilsýndar/álengdar; verða vitni að.  „Ég sé ekki lengur til kindanna vegna fjúksins“.   „Sáu þeir til er skipið sökk“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).  „En þegar hann sér til Jóns, sem heima átti enn í Kvígindisdal, koma suður í Verið; hleypur hann af stað norður þangað “  (ÖG; glefsur og minningabrot).  C.  Geta séð hvað gert er.  „Ég sé ekkert til að gera neitt í þessu myrkri“.  „Sérðu nokkuð til við þetta“?  D.  Sjá um; taka ábyrgð á.  „Þú verður að sjá til þess að þú eigir nóg salt ef þú vilt fara í róður“.

Sjá til fiskjar (orðtak)  Sjá fisk á færi/línu niðri í sjó, áður en hann kemur að borði.  Um það viðhöfðu menn ýmis orð áðurfyrr;  „Meðan á drætti stóð, varð stundum þeim sem línuna dró þetta á munni þegar hann sá til fiskjar:  „Einn fer að heiman“....“Tveir hafa það verið“.... „Nei, heilagur andi“.... „Og hefur staf“!...þegar fjórir voru komnir í sjónmál.  Það kom þó fyrir, þegar vel var um fisk, að fleiri mátti sjá á ferð“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sjá til lands / Hafa landkenningu (orðtök)  Um skyggni af sjó.  „Nú vildi svo til að þokunni létti í bili, og sást þá til lands“  (ÖG; Þokuróður).

Sjá til sólar (orðtak)  Sjá sól fyrir dimmviðri.  „Það sá ekki til sólar í vikutíma fyrir úrhellisrigningum“.

Sjá tormerki á (orðtak)  Finnast örðugt í framkvæmd; vera vantrúaður á.  „Þetta er ágætis hugmynd, en ég þykist sjá ýmis tormerki á að koma henni í framkvæmd“.

Sjá um (orðtak)  Annast um; taka að sér.  „Hún sá um búskapinn meðan hann var að heiman“.

Sjá út (orðtak)  A.  Horfa út.  B.  Átta sig á; finna útúr.  „Góður hleðslumaður er fljótur að sjá út hvern stein; hvernig hann fer best í hleðslunni“.

Sjá út sjóveður (orðtak)  Bræða hann; reyna að spá fyrir um sjólag.  „Á Skiptingshól skiptu Látrabændur fugli og eggjum, ef ekki var skipt á veiðistað.  Þar komu menn einnig saman til að rabba um daginn og veginn, ræða bjargferðir, sjá út sjóveður til hákarlaveiða og annarra fiskifanga ef veður var tvísýnt, og margt fleira“  (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).

Sjá útundan sér / Sjá tilsýndar (orðtak)  Sjá án þess að vera beint að horfa; sjá úr fjarlægð.  „Ég sá útundan mér að strákarnir voru eitthvað að bralla“.

Sjá útúr (orðtak)  Finna útúr; gera sér grein fyrir; finna lausn á.  „Ég er að reyna að sjá útúr þessari flækju“.

Sjá við (orðtak)  A.  Bregðast við; kunna ráð við.  Tekur með sér þgf í þessari merkingu.  „Það er erfitt að sjá við svona bragði“.  B.  Sjá kosti við; sjá fegurð í.  Strýrir þolfalli í þessari notkun.  „Ekki veit ég hvað hún sér við hann“.  C.  Borga; greiða; meta til fjár.  „Þakka þér fyrir greiðann; ég sé þetta við þig þó síðar verði“.

Sjá það svartara (orðtak)  Upplifa verra ástand; vera í meiri hættu; eiga við meiri erfiðleika.  „Ástandið var vissulega orðið nokkuð slæmt, en maður hefur nú séð það svartara“.  „Það skall á okkur þvílíkur þreifandi bandvitlaus bylur að ég hef bara aldrei séð það svartara“!  Vísar til dimmviðris.

Sjá þann kost vænstan (orðtak)  Þykja það best; velja þann kostinn.  „Ég sá þann kost vænstan að forða mér uppundir klettana til að losna úr mesta grjóthruninu“.

Sjáaldur (n, hk)  Upphaflega merkingin er sjón, en orðið er nú notað um opið í augasteininum miðjum, sem ljós það kemur innum sem lendir á sjónhimnunni í augnbotninum.  Sjá gæta eins og sjáaldurs augna sinna.

Sjáanlegur (l)  Sem sést; sem unnt er að sjá.  „Þarna var ekki nokkur kind sjáanleg“.  „Þegar tekið er tillit til þess að vetur hefur verið fremur góður er það sjáanlegt eftir mælingu á heyjunum í haust þá hafa þau almennt verið laus og því ódrjúg“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Sjáðu nú til (orðtak)  Líttu nú á.  Einskonar upphrópun eða hiksetning sem iðulega er höfð á undan setningu þegar verið er að útskýra eitthvað fyrir viðmælanda. 

Sjáðu til! (orðtak)  Upphrópun sem iðulega er notuð á eftir fullyrðingu, til frekari sannfæringar.  „Þetta á eftir að fara illa; sjáðu bara til“!  Einnig notað sem hikorð inni í setningu, líkt og „sko“. 

Sjálegur (l)  Laglegur; fallegur; snotur.  „Þetta er hinn sjálegasti gripur“.

Sjáum hvað setur (orðtak)  Bíðum og sjáum hvað gerist.  „Kannski væri rétt að raka upp ef hann færi að rigna, en ég held við látum það bíða og sjáum hvað setur“.

Sjálfafsakað (l)  Afsakast af sjálfu sér; óhappaverknaður sem augljóslega er óviljaverk.  „Ég tel það alveg sjálfafsakað þó menn reki við; jafnvel þó það sé í fínni veislum“.

Sjálfala (l)  Um búfé; án fóðrunar/umönnunar manna.  „Það eru mikil hlunnindi þar sem svo háttar til á bújörðum að fé getur gengið nánast sjálfala vegna mikillar útibeitar.  Þannig var fé í Kollsvík mjög létt á fóðrum; væri næg fjörubeit og bitjörð.  Enn fóðurléttara gat þó orðið á Hvallátrum“.

Sjálfbirgingsháttur (n, kk)  Mont; stærilæti; þótta; það að hugsa meira um sjálfan sig en aðra.  „Hann verður þá bara að eiga sig með sinn sjálfbirgingshátt“!

Sjálfbirgingslegur (l)  Sérgóður; montinn; setur sjálfan sig í öndvegi.  „Þetta finnst mér ári sjálfbyrgingslegur hugsanaháttur hjá honum“!

Sjálfbirgingur (n, kk)  Sá sem er sjálfbyrgingslegur/sérgóður.  „Sá sjálfbyrgingur ætti bara að skammast sín“!

Sjálfbjarga (l)  Sem getur bjargað sér sjálfur; ekki hjálparþurfi; einfær.  „Hann er alveg sjálfbjarga með þetta“.

Sjálfblekungur (n, kk)  Eldra heiti á blekpenna/lindarpenna.

Sjálfboðalið (n, hk)  Hópur sjálfboðaliða.

Sjálfboðaliði (n, kk)  Sá sem býðst til að vinna án endurgjalds.  „Samvinna fólks var mikil í sveitinni, og ef einhvern vantaði mannskap t.d. í göngur eða framkvæmdir, var óðar mættur hópur sjálfboðaliða“.

Sjálfboðavinna (n, kvk)  „Mikið meira var unnið í sjálfboðavinnu í hinu gamla sveitasamfélagi en síðar varð, með vexti kaupstaða.  Margar meiriháttar framkvæmdir samfélagsins voru unnar af sjálfboðaliðum, svosem vegavinna við hestavegi; kirkjubyggingar; bygging samkomuhúsa; lendingabætur, slátrun o.fl.  Þá þótti sjálfsagt að allir legðu hönd á plóg við einstakar framkvæmdir hjá sveitungum, svosem við uppsteypu og járnun húsa, einkum hjá þeim sem stóðu verr að vígi t.d. vegna veikinda eða aldurs.  Allir voru boðnir og búnir til að aðstoða ef sveitungi lenti á áfalli s.s. vegna húsbruna eða fráfalls fyrirvinnu.  Ekki var heldur tekið fé fyrir það þó bíllausu fólki væri komið á milli staða af þeim sem bíl áttu, eða þó traktorseigendur aðstoðuðu hina við heyskap sem ekki höfðu vélvæðst.  En þeir sem greiðans nutu leituðust einatt við að láta greiða koma á móti í einhverju formi.  Úr þessum jarðvegi spruttu upp ungmennafélög og fyrstu kaupfélögin; þessi samhjálp og fórnfýsi var sú gróðurmold sem nærði þau og þroskaði meðan hún entist“. 
„Að miklu leyti var þetta verk (vegalagning uppúr Kollsvík) unnið í sjálfboðavinnu; þ.e.a.s. að menn afsöluðu sér ákveðnum hluta af launatöxtum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Sjálfboðið er góðum gesti (orðatiltæki)  Góður gestur er alltaf velkominn og honum þarf ekki að bjóða.  „Þú ert alltaf velkominn hvenær sem er; auðvitað er sjálfboðið góðum gesti“!

Sjálfbrynnari (n, kk)  Sjálfbrynningartæki; brynningarskálar sem nú eru algengar; þar sem búfé skammtar sér sjálft vatnið, nefndust þessu nafni upphaflega í Rauðasandshreppi.

Sjálfbær / Sjálfbærni (l/ n, kvk)  Orð sem ekki var notað í Kollsvík, en engu að síður í hávegum haft.  Sjálfbærni er það að stunda endurnýjanlegt ferli; t.d. það að ganga ekki svo á neinar auðlindir að þær nái ekki að endurnýja sig.  Menn gættu þess í lengstu lög að hrófla ekki náttúrunni til skaða; ganga ekki nærri gróðri eða fiskistofnum o.s.frv.

Sjálfdautt (l)  Kjöt af fé sem drepist hafði úr veiki; afveltu; mýrafestu eða hrapi.  Var síður haft til matar, en bar þó við ef skepnan hafði nýlega drepist af slysum.  Sama var um þorsk sem drepist hafði í netum.

Sjálfdæmi (n, hk)  Kaupandi ræður verði/endurgjaldi sjálfur.  „Þú hefur alveg sjálfdæmi um verðið á þessu“.

Sjálfgefið (l)  Sjálfsagt; auðvitað.  „Það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum“.

Sjálfgert (l)  Það sem er gert/ gerist/verður af sjálfu sér.  „Eftir að við misstum síðari slóðann var það nokkuð sjálfgert að hafa sig í land“. 

Sjálfhelda (n, kvk)  Svelti; staður sem menn/skepnur fara á en komast ekki hjálparlaust frá aftur.  „Sjálfhelda í klettum er nefnd svelti eða að það komist á þrot, en á fari fé í sjálfheldu á skerjum er sagt að það flæði“.

Sjálfhitnun (n, kvk)  Hitamyndun í heyi vegna gerjunar.  „Sjálfhitnun verður oftast í heyi sem sett er í hlöðu, og því meiri sem heyið er fjær fullþurrkun.  Bændur eru oftast meðvitaðir um þessa hættu.  Ekki er hætta þó lítilsháttar orni, en varasamt er þegar hitnar svo að ekki er hægt að halda hendi inni í stæðunni eða þegar mikill stakkur myndast á yfirborði hennar.  Djarfar er hirt þar sem súgþurrkun er í hlöðu en þar sem fullþurrka þarf.  Stundum dó mikill hiti út af sjálfu sér, þannig að einungis sat eftir dökkmórautt og ornað hey, en stöku sinnum kviknaði í heyi.  Það skeði m.a. einusinni í hlöðu í Kollsvík, líklega á 8. áratug 20. aldar.  Með miklum mannskap náðist að moka heyinu út í tíma, og slökkva glður sem komnar voru.  Nokkrum árum síðar brann hlaða á Stökkum á Rauðasandi vegna sjálfhitnunar“.

Sjálfhleðsluvagn (n, kk)  Heyvinnutæki sem um tíma var algengt í sveitum; eða kringum 1980-90.  Heyvagn sem tók heyið uppí sig sjálfur með sópvindu, og skilaði því afturúr sér með færibandi; en hvorttveggja var drifið af dráttarvélinni.  Sú heyskaparaaðferð vék víða fyrir rúllubindivélum stuttu síðar.

Sjálfhælinn (l)  Montinn; lætur mikið yfir sjálfum sér.  „Mikið ósköp getur maðurinn verið sjálfhælinn“!.

Sjálfhælni (n, kvk)  Mont; gort; raup.  „Ég þoli illa sjálfhælnina í karlinum“!

Sjálfhætt (l)  Verk/athöfn sem stöðvast vegna augljósra orsaka.  „Allri mjólkurframleiðslu var auðvitað sjálfhætt eftir að mjólkurbúið hætti að sækja mjólkina“.

Sjálfkjörinn / Sjálfkosinn (l)  Sem er einn í framboði/kjöri; því óþarft að kjósa á milli og telst réttilega kjörinn.

Sjálfkrafa (ao)  Án utanaðkomandi aðstoðar/verknaðar; af sjálfu sér.  „Dyrnar höfðu lokast sjálfkrafa“.

Sjálflærður / Sjálfmenntaður  Margfróður/menntaður fyrir eigin rammleik, með lestri bóka o.fl. en ekki með skólagöngu.  „Margt sveitafólk áðurfyrr var víðlesið og í raun hámenntað þó það hefði takmarkaða skólagöngu hlotið og skartaði ekki glansandi prófgráðum.  Þetta sjálfmenntaða fólk hafði ýmsar leiðir með að ná sér í lesefni sem það lagði sig eftir, og las það af meiri athygli og skilningi en margir skólanemendur“.

Sjálfmenntaður (l)  Sem öðlast þekkingu/færni með eigin þekkingarleit, en ekki eingöngu með ítroðslu í skólakerfi.  Yfirleitt er hinn sjálfmenntaði allajafna færari í því sem hann hefur menntað sig til, en hinn sem notið hefur ítroðslu hins steinrunna og kassavædda menntakerfis.  Hinsvegar kann samfélagið yfirleitt ekki að nýta getu hins sjálfmenntaða, þar sem það er byggt upp fyrir kassakerfi hins skólagengna.

Sjálfráður (l)  Sem ræður sér sjálfur.  „Hann er auðvitað sjálfráður með sinn eignarhlut, en ég ætla að selja minn“.  „Þér er ekki sjálfrátt“!

Sjálfrennandi / Rennandi (l)  Sem rennur af sjálfu sér.  Oft notað um vatn sem ekki þarf að dæla.  „Það var mikill munur þegar sjálfrennandi vatn var lagt í hús, ásamt frárennsli“.

Sjálfrunnið lýsi (orðtak)  Lýsi sem skilst úr fisklifur ef hún er látin standa í íláti.  Þannig lýsi er bragðmeira en brætt lýsi, og þykir mörgum það betra.

Sjálfræði (n, hk)  Frelsi; það að ráða sjálfur sínum ákvörðunum.  „Hann hefur visst sjálfræði í þessari vinnu“.

Sjálfræðisaldur (n, kk)  Aldur einstaklings þegar hann verður „sjálfs sín ráðandi“ sem kallað er; þ.e. að miklu leyti laus undan forræði foreldra og annarra.  Skv. lögræðislögum nr 71/1997 er það við 18 ára aldur.

Sjálfs er höndin hollust (orðatiltæki)  Vísdómur sem minnir á að það sé jafnan best sem menn geta sjálfir unnið í sína þágu; en síður það sem þegið er hjá öðrum.  Tryggast er að treysta á sjálfan sig. Ævaforn speki.

Sjálfs sín (orðtak)  Sjálfstæður; fjárráða; getur séð um sig sjálfur.  Heyrist vart nú á tíð en var algengt fyrrum; oftast í merkingunni fjárráða eða fjárhagslega sjálfstæður.

Sjálfs síns herra (orðtak)  Ræður sér sjálfur.  „Hann er sjálfs síns herra í sínu fyrirtæki“.

Sjálfsafgreiðslubúð / Kjörbúð (n, kvk)  Verslun þar sem viðskiptavinir taka sjálfir til sína vöru í körfu eða vagn og koma með hana að afgreiðsluborði, en kaupmaður tekur vöruna ekki til eins og áður tíðkaðist.  Verslun Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum var breytt í kjörbúð kringum 1970, og færð sunnantil í húsið.  Áður hafði verslunin verið sjávarmegin í húsinu og þá var afgreitt yfir borð.

Sjálfsagður hlutur / Sjálfsagt (orðtak/l)  Eðlilegur hlutur; eðlilegt; það sem óþarft er að gefa leyfi til.  „Honum þótti það bara sjálfsagður hlutur að hann fengi þetta lánað“.  „Það er sjálfsagt að hjálpa þér með þetta“.

Sjálfsábyrgð (n, kvk)  Eigin ábyrgð/áhætta.  Oftast notað í tenglum við tryggingar.  EF bótaskylt tjón verður þá greiðir tryggingataki sjálfur það sem nemur sjálfsábyrgð hans, en tryggingafélagið bætir eftirstöðvar tjóns.

Sjálfsáinn (l)  Um jurt; sáir sér sjálf án mannlegrar aðstoðar.

Sjálfsálit (n, hk)  Mikið álit á sjálfum sér; nauðsynlegt í hófi en getur orðið mont ef það er í óhófi.

Sjálfsánægja (n, kvk)  Hreykni; vellíðan með sjálfan sig.  „Ég man enn eftir sjálfsánægju minni, þegar mér var í fyrsta skipti treyst til að bera 200 punda síldarmjölspoka upp úr bát í Kollsvíkurveri“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Sjálfsásökun (n, kvk)  Það að kenna sjálfum sér um eitthvað sem komið hefur fyrir.  „Svona sjálfsásökun bætir ekkert, og á engan rétt á sér“.

Sjálfsbjargarleysi (n, hk)  Skortur á sjálfsbjörg; hjálparleysi; umkomuleysi.  „Óttalegt sjálfbjargarleysi er þetta“!

Sjálfsbjargarlíf (n, kk)  Sjálfsþurftabúskapur; sjálfsbjargarviðleitni.  „Annars skiptir það ekki mestu máli; heldur hitt að ég reyni að skrásetja merkilegan atburð úr sjálfsbjargarlífi Kollvíkurmanna, sem flest er úr minni liðið nú til dags“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Sjálfsbjargarviðleitni (n, kvk)  Það að reyna að bjarga sér sjálfur; viðleitni til að leysa málin sjálfur. 

Sjálfsblekking (n, kvk)  Það að telja sjálfum sér trú um annað en rétt er. 

Sjálfseignarbóndi (n, kk)  Bóndi sem býr á sinni eignarjörð en ekki á láns- eða leigujörð.

Sjálfseignarjörð (n. kvk)  Jörð þar sem sjálfseignarbóndi býr.

Sjálfselska (n, kvk)  Það að virða sjálfan sig mun meira en aðra/ hugsa meira um sjálfan sig en aðra.

Sjálfsforræði (n, hk)  Sjálfræði; það að ráða sér sjálfur. 

Sjálfshól (n, hk)  Mont; sagnir af eigin ágæti.  „Ekki vantar sjálfshólið hjá þessum blöðrusel“!

Sjálfsíkveikja (n, kvk)  Þegar eldur kviknar án þess að mannshönd komi nálægt.  Oftast var talað um sjálfsíkveikju þegar ofhitnaði svo í illa þurrkuðu heyi að eldur kom upp í því. 

Sjálfskaparvíti (n, hk)  Slæm staða/uppákoma sem menn skapa sér sjálfir.  „Auðvitað má kalla það sjálfskaparvíti kjósenda ef ríkisstjórnin reynist illa“.

Sjálfskaparvíti eru ekki/síst betri en önnur víti / Sjálfs eru vítin verst (orðatiltæki)  Síst eru betri þau vandræði sem maður veldur sjálfur en þau sem aðrir valda. 

Sjálfskeiðungur (n,. kk)  Vasahnífur.  Orðið var þekkt í Kollsvík en lítið notað þar.

Sjálfskuldarábyrgð (n, kvk)  Ábyrgð fleiri en eins á sömu skuldbindingu; in solidarium; einn fyrir alla og allir fyrir einn.  Ef aðalskuldari greiðir ekki skuldina á gjalddaga er sjálfsskuldarábyrgðarmaður skyldugur til að greiða hana eins og hann væri sjálfur aðalskuldari.

Sjálfsmennska (n, kvk)  Það að sjá um sig sjálfur, t.d. í fæði.  „Hann leigir þarna herbergi í sjálfsmennsku“.

Sjálfsnám (n, hk)  Það að læra af eigin hvötum og þekkingarleit.  Sjá sjálfmenntaður.

Sjálfstraust (n, hk)  Trú á sjálfan sig; sjálfsöryggi; trú á eigin getu.

Sjálfstæðisár (n, hk)  1918; árið sem Ísland hlaut sjálfstæði.  „Baldur var „heimtur úr helju“ aftur sjálfstæðisárið 8. des. 1918“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Sjálfstæður (l)  Óháður öðrum; getur staðið einn og sér

Sjálfsþurftabúskapur (n, kk)  Notað um rekstur sem er sjálfum sér nægur um nánast allt og getur viðhaldið mannlífi.  Í rauninni vísar hugtakið til þess búskaparforms sem tíðkaðist víðast á íslenskum bændabýlum til forna og allt framá 20.öld.  Slíkt búskaparform endurspeglast glöggt í býlum í Kollsvík.  Kollur landnámsmaður sá það strax í hendi sér að hentugt myndi að reka sjálfsþurftabúskap í Kollsvík, og tók sér ekki stærra landnám en hann þurfti til þess.  Eftir að uppfylltar voru grunnþarfir í upphafi, svo sem skepnur sem þurfti til að hefja búskap og bátur til veiða, var Kollsvíkin orðin sjálfbær.  Matur og klæði fékkst með fullnýtingu búfjárafurða og sjávarafla; efniviður til húsbygginga af grjóti, torfi, hrísi og rekavið; eldsneyti af mó, rekavið og lyngi, auk lýsis og tólgar; hagabeit og fjörubeit var næg að vetri og sumri fyrir sauðfé; taða fékkst af túnum sem ræktuð voru upp með ræksnum og húsdýraáburði, auk útslægna í tóm, vatnabroku, teigum og klettum; egg voru tekin í fuglavörpum og björgum; fugl snaraður og selur veiddur.  Allt var til alls og engin brýn nauðsyn til búðarkaupa, þó vissulega væri þegið að geta fengið úr verslun salt, korn, járn og annað þegar á því varð kostur.

Sjálfum sér líkur (orðtak)  Um mann; samur við sig; alltaf eins.  „Alltaf er hann sjálfum sér líkur, sá háðfugl“.

Sjálfum sér nógur/nægur (orðtök)  Hefur nóg fyrir sjálfan sig; þarf ekkert frá öðrum.  „Bændur í Kollsvík voru yfirleitt sjálfum sér nægir um allt, og vel það“.

Sjálfum sér samkvæmur/ósamkvæmur (orðtök)  Í/úr takti við það sem sá sami hefur áður sagt.  „Vissulega langaði mig dálítið að mæta á fundinn, en til að vera sjálfum mér samkvæmur sat ég heima“.

Sjálfur (fn)  Einkum notað með ýmsum nafnorðum og í orðasamböndum.  Stundum einnig til að auka áherslu á orð:  „Fjandinn sjálfur; þremillinn sjálfur“.

Sjálfvalinn (l)  A.  Velur sig sjálfur, annaðhvort af yfirburða verðleikum eða vegna þess að enginn annar er í boði; sjálfkjörinn.   B.  Það sem maður velur sjálfur.  „Þetta var alveg sjálfvalið af honum“.

Sjálfviljugur (l)  Af eigin vilja.  „Kýrnar fóru alltaf sjálfviljugar á sína réttu bása“.

Sjálfþakkað (l)  Þakkað fyrir af þeim sem þakkir á að fá.  „Vertu ekki að þakka mér þetta; reyndar er þetta sjálfþakkað, eftir greiðann sem þú gerðir mér í fyrra“.

Sjár (n, kk)  Sjór; haf.  Sjaldan notað í nefnifalli nema í skáldskap, en bregður fyrir í eignarfalli; t.d. setja til sjávar, og í samsettum orðum; sjávarfall.  Í Kollsvík var þó fremur notað eignarfallið af orðinu sjór; setja til sjóar og sjóarfall.

Sjást ekki fyrir (orðtak)  Sýna ekki fyrirhyggju vegna ákafa/ágirndar o.fl.  „Þegar svona aflahrota gengur yfir sjást menn stundum ekki fyrir, heldur ana á sjó í hvaða veðurútliti sem er“.

Sjást ekki útúr augum (orðtak)  Sjást lítið, t.d. fyrir dimmviðri eða reyk.  „Það sést ekkert útúr augum í þessari bikaþoku“.

Sjást litur á jörð/túnum (orðtak)  Tún/jörð farin að grænka.  „Hann vorar hratt þessa dagana.  Það er strax farinn að sjást litur á túnum“.

Sjást yfir (orðtak)  Yfirsjást; taka ekki eftir; líta óvart framhjá.  „Þarna hefur mér sést yfir eitt kartöflugras í upptektinni“.

Sjávaður (l)  Um sjávarstöðu; stendur á sjó.  Þegar hásjávað er, er oft talað um að hann sé „hátt sjávaður“, og á sama máta „lágt sjávaður“ þegar stór fjara er.  „Hvernig er hann sjávaður“? merkir „Hvernig stendur á sjó“? og er þá átt við hvort flæði sé eða fjara.

Sjávarafli (n, kk)  Fiskifang; sjávargagn.  Svipull er sjávarafli.

Sjávarafurðir (n, kvk, fto)  Hvaðeina gagnlegt/verðmætt sem úr sjó kemur.  Þannig á orðið jafnt við um nytjafisk, sem salt og sjávarorku.

Sjávarágangur / Sjóarágangur (n, kk)  Skemmdir sem sjór getur valdið á landi við háa sjávarstöðu og mikinn sjógang.  Dæmi um það er rof sem hófst á Grundabökkum kringum aldamótin 2000, og rof á Görðunum nokkru sunnar.

Sjávarbakkar / Sjóarbakkar (n, kk, fto)  Bakkar ofan hæsta fjöruborðs; brimstallur sem sjór gengur sjaldan uppá.  „Grundabakkar eru sjávarbakkar neðan Grundatúns.  Í þeim koma fram fiskbenalög sem benda til að útgerð í Láganúpsveri eigi sér lengri og meiri sögu en skráð hefur verið“.  „Bakkar voru grasbýli á Grundatúni, og stóð íbúðarhúsið neðst í túninu; alveg á sjávarbakkanum“  (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).

Sjávarborð (n, hk)  Yfirborð sjávar.  Í daglegu tali er oft átt við meðaltals-sjávarborð, burtséð frá sjávarföllum og loftþrýstingi.  Sjávarborð í þeim skilningi fer nú hækkandi vegna bráðnunar jökla af völdum hlýnunar jarðar; sem aftur er talin stafa af gróðurhúsaáhrifum af mannavöldum.

Sjávarborðshækkun (n, kvk)  Hækkun á meðalyfirborði sjávar; talin mestmegnis vegna bráðnunar jökla heims af völdum hækkandi hitastigs andrúmslofts, sem rakin er til mengunar af mannavöldum.  „Áhrifa sjávarborðshækkunar virðist þegar gæta í Kollsvíkurfjöru sem annarsstaðar.  Glögg ummerkin leyna sér ekki þar sem sjórinn nagar nú úr Grundarbökkunum á stöðum þar sem áður var gróið niður að malarfjöru.  Einnig í því að í mesta brimi gengur sjór upp á bakkana sunnantil og hefur ágangurinn rofið Garðana á nokkrum stöðum, sem fengið hafa að standa óáreittir frá því þeir voru hlaðnir á miðöldum.  Ekki er annað að sjá en þessi óheillaþróun muni halda áfram, því þrátt fyrir að vita áhrifin heldur mannkyn áfram að menga umhverfi sitt sem aldrei fyrr.  Því má gera ráð fyrir að Garðarnir sléttist út, að hluta til,á næstu áratugum; að Grundabakkarnir rofni þannig að sjór gangi upp í Lögmannslá og Grundamýri; að gríðarmiklar breytingar verði á Rifinu með ófyrirséðum áhrifum á uppblástur yfir Láganúpsland og jafnvel eyðingu jarðarinnar.  Kollsvíkingar leggja nú sitt að mörkum til að breyta þessari óheillaþróun, með því m.a. að koma á framfæri tækni til orkuframleiðslu úr sjávarföllum, sem er án allra umhverfisáhrifa, nýtist víða um heim og mun koma í stað mengandi jarðefnaeldsneytis (VÖ).  „Hér verður þó að slá þann varnagla að samkvæmt nýjustu upplýsingum er sjávarborðshækkun á Íslandi líklega lítt merkjanleg enn vegna þyngdaraflsáhrifa og lyftingar landsins.  Hinsvegar bendir ýmislegt til þess að nefndur sjávarágangur í Kollsvíkurfjörum stafi af ofbeit skollakopps á víkinni, en eyðing þaraskóganna veldur því að brimbáran á greiða leið með fullu afli upp á fjöruna.  Sú kenning var rökstudd og sett fram af VÖ í grein í Bændablaðinu í febrúar 2017“.

Sjávardjúp (n, hk, fto)  Djúp hafsins.  „Lúðan hvarf aftur í sjávardjúpið og með henni slóði og sakka“.

Sjávardýpi (n, hk)  Dýpi sjávar.  Jafnan stytt í „dýpi“ í tali Kollsvíkinga.

Sjávarfall (n, hk)  Sjóarfall.  Reglubundin sveifla á sjávarhæð vegna áhrifa/togs tungls og sólar á yfirborð sjávar.  Í storum dráttum má líkja sjávarföllum við það að tunglið veldur útbungun á þeirri hlið jarðar sem snýr að tungli, um leið og önnur slík verður til á gagnstæðum jarðarhelmingi.  Jörðin snýst svo innan í þessum mishæðum svo sjávarföll; flæði og fjara, verða tvisvar á sólarhring.  Sólin togar með hálfu minni krafti en stærst verða sjávarföllin í stórstraumi; þ.e. þegar jörð, sól og tungl eru í beinni línu.  Staðsetning meginlandanna gerir þessa mynd þó mun flóknari.  Því verða sjávarföll ýmist einusinni á sólarhring eða tvisvar, en sumsstaðar gætir þó alls ekki sjávarfalla. Í úthöfunum eru sumsstaðar straumleysispunktar (amphidromic points) þar sem engin sjávarföll eru, en útfrá þeim liggja jafntímalínur sjávarfalla í allar áttir.  Einn slíkur er á vestanverðu Norður-Atlantshafi.  Við Íslandsstrendur gætir sjávarfalla mjög mismikið.  Flóðhæð verður langmest í Breiðafirði, en lítill flóðhæðarmunur er t.d. víða á Norðurlandi.  Þar sem sjávarfallabylgjan þarf að sveigja fyrir annes eða fara yfir grynningar verður straumur mun hraðari en annarsstaðar.  Mestur verður straumurinn hérlendis í sundum, t.d. í Breiðafirði; sumsstaðar yfir 7 m/sek.  Einnig er gríðarlegur straumur í mörgum annesjaröstum, en stærst þeirra er Látraröst, þar sem straumur verður nokkrir metrar á sekúndu þegar harðast er fallið.  Blakknesröstin er mun umfangsminni en getur orðið mjög straumhörð á kafla. 
Víða um heim er leitað leiða til að virkja orku sjávarfalla.  Flestir þróunaraðilar beina sjónum að mesta straumhraðanum; 2,5 m/sek eða meira, enda er þar mesta orku að hafa.  Orka í streymi vökva eykst í þriðja veldi við aukningu straumhraða, þannig að við tvöföldun straumhraða eykst orkan áttfalt.  Hinsvegar eru orkurýrari straumar margfalt umfangsmeiri í víðáttu en þeir hraðari.  Því beinist verkefni Valorku ehf; eina íslenska þróunarverkefnisins á svíði sjávarorkutækni, að því að virkja hægari straumana á hagkvæman hátt.  Er Valorka nú komin lengst allra í þeirri viðleitni.
„Á Kollsvík gætir sjávarfalla í tvær áttir; þar er ýmist norðurfall eða suðurfall, og er norðurfallið mun sterkara.  Einnig munar miklu á styrk hvort stórstreymt er eða smástreymt.  Þá er sjólag breytilegt eftir samspili vinds; ríkjandi báruáttar og vindátt.  T.d. er Blakknesröstin mjög úfin og hættuleg smábátum ef stórstraumsnorðurfall liggur undir stífa norðanátt, og þeim mun verri ef ríkjandi er sver norðansjór.  Hraði fallastrauma hefur ekki enn verið vísindalega mældur á þessum slóðum, en líklega fer hann vel yfir ½ m/sek í Blakknesröstinni í stórstraumsnorðurfalli“ (VÖ).

Sjávarfallaverfill (n, kk)  Vélbúnaður/hverfill til nýtingar á sjávarfallaorku.  Fyrsti íslenski sjávarfallahverfillinn er fundinn upp af Kollsvíkingi; höfundi þessarar samantektar.  Sá hverfill var fyrsti íslenski hverfillinn til að hljóta einkaleyfi, og hlaut gullverðlaun International Inventors Awards árið 2011.

Sjávarfallaorka (n, kvk.  Hreyfiorka sjávarfalla.  „Sjávarfallaorka er all veruleg kringum Kollsvík..  Til suðurs er hin volduga Látraröst, þar sem sjávarfallið úr Breiðafirði þrýstist framhjá Bjargtöngum með firnamiklu afli.  Látraröst er án vafa öflugasta sjávarröstin við Ísland þó enn hafi engar mælingar farið fram á umfangi hennar.  Áhrifa hennar gætir langt útí haf til norðurs og til hliðar, uppá Útvíkurnar.  Norðurfallið, sm er mun öflugra en suðurfallið, heldur a áfram norðaustur með núpum, en veldur um leið iðustraumumum upp á hverja vík, sem greinilegast er á Seljavík.  Þar er nánast alltaf suðurfall.  Blakknesröstin er mun kraftminni en Látraröst, en eigi að síður mjög öflug.  Í þessum röstum býr gríðarmikil sjávarfallaorka, og eru Kollsvíkingar leiðandi á heimsvísu í þróun tækni til nýtingar á henni.  Þó engar rannsóknir hafi fram við Ísland, hvorki á straumhraða í annesjaröstum né umfangi sjávarorku, þá má leiða að því líkum, með samanburði við erlendar rannsóknir, að hér við land séu um 338 TWst/ári í formi sjávarfallaorku.  Sé gert ráð fyrir að Látraröst og núparastir við Útvíkur séu 6% þeirrar orku, þá eru þar yfir 20 TWst/ári, eða 2.315 MW, sem er nær fjórföld orka Kárahnjúkavirkjunar.  Mögulegt nýtingarhlutfall þeirrar orku fer vitaskuld eftir þeirri tækni sem tiltæk er á hverjum tíma.  Ekki er óraunhæft að ætla að innan fárra ára verði komin fram tækni sem gerir mögulegt að nýta um 10% þessarar orku, eða yfir 200 MW, en það er meira en allt uppsett afl Búrfellsvirkjunar“.

Sjávarfallastraumur (n, kk)  Straumur sem verður til vegna sjávarfalla.  Við réttar aðstæður er unnt að virkja hreyfiorku sjávarfallastraums með sjávarfallavirkjun.

Sjávarfallavirkjun (n, kvk)  Virkjun sem nýtir sjávarfallaorku.  „Sú staðreynd að þetta er í fyrsta sinn sem þetta orð kemst í orðasafn, lýsir því e.t.v. best hve þróun orkutækni á Íslandi hefur hingað til verið illa sinnt.  Gnægð sjávarfallaorku er að finna allt í kringum Ísland, en Íslendingum hefur ekki verið sýnt um að nýta hana fremur en síldina fyrrum.  Kollsvíkingar hafa nú komið fram með fyrstu tæknina til nýtingar á þessari gríðarmiklu orku sem í sjávarföllum býr.  Með aðferðum Valorku á að vera unnt að virkja þessa orku án allra umhverfisáhrifa.  Sjávarfallaorku er að finna víða við strendur heims.  Sú staðreynd, ásamt vaxandi áherslum allra ríkja á endurnýjanlega orkuöflun, og að tækni Kollsvíkinga er fremst á heimsvísu, þýðir að markaðsmöguleikarnir eru gríðarlegir.  Hverflar Valorku hafa verið þróaðir í 5 mismunandi gerðum, auk þess sem unnið er að fyrstu blendingstækni öldu- og sjávarfallavirkjunar í heimi.  Með sjóprófunum í Hornafirði í júlí 2013 hóf Valorka fyrstu prófanir sjávarorkutækni á Íslandi; tækni sem á eftir að verða uppistaða orkuframleiðslu komandi kynslóða, þar sem hefðbundnir orkukostir vatnsfalla- og jarðhitaorku verða fullnýttir á næstu áratugum með sömu þróun, sé nýleg rammaáætlun lögð til grundvallar“  (VÖ).

Sjávarfang (n, hk)  Sjávarfang; hvaðeina af verðmætum sem fæst úr sjó.  Hingaðtil hefur sjávarfang merkt fiskmeti, skel og annað matarkyns í hugum margra.  Rökrétt er að undir það falli einnig orka sem unnin verður úr sjó.

Sjávarfitjungur (Puccinella maritima)  Fremur smávaxin grastegund sem er algeng á sjavarfitjum og í fjörum, allt í kringum landið.  Vex í þéttum breiðum eða toppum; punturinn hefur grannar puntgreinar; blöðin mjó, sívöl og grópuð; stöngulblöðin stundum flöt eða samanbrotin.  Vex líklega í Kollsvík, en greiningu vantar; erfitt er að greina sjávarfitjung frá varpafitjungi.

Sjávarflóð / Sjóarflóð (n, hk)  Óvanalega há sjávarstaða, t.d. þegar saman fer stórstraumsháflæði, lágur loftþrýstingur og stífur álandsvindur.  Þar sem land liggur mjög lágt að sjó hafa sjávarflóð stundum valdið gríðarlegum skemmdum og jafnvel manntjóni.  Ekki er vitað til slíks tjóns af völdum sjávarflóðs í Kollsvík, en í manna minnum hefur sjávarflóð t.d. hlaupið upp á Leirana.

Sjávargagn / Sjóargagn (n, hk)  Sjávarfang; það sem fæst gagnlegt úr sjó; fiskifang; fiskur.  „Þó kom það fyrir að þurrabúðarfólk hafðist þar við með fáeinar kindur, en treysti að öðru leyti á sjávargagn sér til framfærslu“  (HÖ; Fjaran). 

Sjávargangur (n, kk)  Brim; sjógangur.  „.... ekki var fært um skipið fyrir sjávargangi, roki og náttmyrkri“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Sjávargata / Sjóargata (n, kvk)  Leið frá bæjum til sjávar, þar sem heimræði var.  Um vertíðina munu konur og börn oftar hafa þrætt sjávargötu í Kollsvík en karlmenn sem reru, enda höfðu þeir þá aðsetur í sínum verbúðum og fengu sendan mat að heiman.

Sjávargos (n, hk)  Nýyrði VÖ.  E.t.v. væri réttara að nefna fyrirbærið „sjóargos“, samkvæmt þeim beygingarhætti sem alltaf var notaður í Kollsvík, en þessi fellur betur að því sem nú er almennast notað.  „Sjávargos vera með þessum hætti:  Lóðréttir strókar af sjó sem verða til við það að sjór þrýstist inn í lokaðan helli og uppúr gati á þaki hans.  Sjávargos geta orðið á tveimur stöðum í Kollsvík vegna aðstæðna.  Annar staðurinn er í Bekknum, norður undir Straumskeri undir Blakknum.  Í miklum vestansjó og á flæði ganga öldur inn í sjávarhelli í Bekknum og spýtast upp um gat á þaki hans.  Þau gos geta orðið tugir metra upp í loftið og sjást greinilega úr allri Víkinni.  Hinn staðurinn er á hleinunum framundan Sandhelli í Hnífum utanverðum.  Í henni er hellir með gati uppúr.  Hleinin kemur uppúr á fjöru og í norðansjó geta orðið tilkomumikil gos uppúr gatinu.  Orðið sjávarhellisgos er hér notað þar sem ekki hefur fundist annað hugtak yfir þetta náttúrufyrirbæri.  Orðið var reyndar ekki notað í Kollsvík, heldur sagt sem svo; „Það er töluverður vestanrosi; sjór gegnur uppí miðjar hlíðar“, enda vissu heimamenn hvað við var átt.  Kominn er tími til að þetta náttúrufyrirbæri fái viðeigandi og lýsandi heiti“  (VÖ).
„Sumsstaðar breytast öldurnar í stórfengleg gos; marga tugi metra í loft upp, er falla inn í voga og skúta“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sjávargróður (n, kk)  Hverskonar gróður sem þrífst neðansjávar; þari þursaskegg og annað.

Sjávargrunn (n, hk)  Grunnsvæði; grunn.  Oftast var talað um grunn í Kollsvík.

Sjávarháski (n, kk)  Hætta sem mönnum og bátum er búin til sjós eða við strönd.  Furðu fáar sagnir hafa varðveist um að Kollsvíkurbátar hafi lent í sjávarháska, þó vissulega séu þær til.  Ekki er þó vafi á því að á tímum hinnar miklu sjósóknar fyrr á öldum hafi orðið ýmis atvik sem ekki hafa ratað í rit.

Sjávarhellir (n, kk)  Hellir í sjó; hellir sem sjór er allajafna í.  „Dýpstur og lengstur voganna er Helluvogur, sem endar í miklum sjávarhelli sem gengur innundir sjávarklettana“  (HÖ; Fjaran). 

Sjávarhús / Sjóarhús (n, hk)  Hús sem byggt er við sjó, annaðhvort til að gagnast við sjósókn eða fjárhús vegna nytja fjörubeitar.  Orðið var helst notað um veiðarfærageymslur eða smíðahús við sjó, en ekki um verbúðir eða naust.  Guðbjartur á Láganúpi byggði sér sjávarhús til að saga þar stórvið og geyma veiðarfæri.

Sjávarjörð (n, kvk)  Jörð sem liggur að sjó og hefur oftast meiri og minni sjávarnytjar.  Sjávarjörð fylgir jafnan rekafjara og nethelgi, sem nær 60 faðma útfrá stórstraumsfjöruborði.  Frá upphafi byggðar hefur einnig verið litið svo á að sjávarjörðum væri heimilt að nýta óátalið alla veiði sem frá henni var unnt að sækja.  Þann rétt hafa stjórnvöld á síðari tímum afnumið með glæpsamlegum hætti, og fært hann í hendur sínum útvöldu kvótagreifum og stórútgerðum í fjarlægum landshlutum.

Sjávarkambur (n, kk)  Fjörukambur; kambur; rif; hryggur sem mundast oft í sand- eða malarfjörum ofan hæstu fjörumarka/sjávarmarka.  „Við þurfum að setja bátinn alveg uppá sjávarkambinn; hann er að auka straum núna“.  Oftast nefnt aðeins kambur í máli Kollsvíkinga; eða rif.

Sjávarklettar / Sjóarklettar (n, kk, fto)  Klettar við sjó, oft lægri klettar í núpum og múlum.  „Þarna eykst brattinn og sjávarklettar hækka“  (IG; Sagt til vegar I).  Annars oftar talað um sjóarkletta í Kollsvík.

Sjávarloft (n, hk)  Loftslag og lykt sem einkennandi er nærri sjó, einkum þegar vindátt er af hafi.

Sjávarlón (n, hk)  Oftast stytt í lón.  Oft kemur fyrir í Kollsvík að mikil rif af skeljasandi myndast á skömmum tíma í fjörunni eftir mikil brim af norðri eða vestri.  Þá geta lækir ekki runnið óhindrað til sjávar, heldur myndast uppistöðulón ofan hins nýja rifs.  Þetta skeður oft í Ánni, en stundum í Búðalæk og stöku sinnum í Steingrímslæk/Myllulæk.

Sjávarlöður (n, hk)  Sjólöður; froða sem myndast í miklum sjógangi; þegar brimið þeytir lífræn efni sem í sjónum eru.  Verða stundum miklar hrannir löðurs í fjörum eftir stórbrim, sem oft sitja þar yfir sjávarfall eða lengur.  Fremur var talað um sjólöður í Kollsvík.

Sjávarmál (n, hk)  Yfirborð sjávar.  A.  Oftast er átt við hæstu stöðu sjávar, þ.e. í stórstraumsflæði.  Hæð landslags, s.s. fjalla, er oftast miðuð við sjávarmál.  B.  Yfirborð sjávar hverju sinni. 

Sjávarmegin / Sjóarmegin (ao)  Þeim megin sem veit að sjó.  „Rúm formanns var sjóarmegin í búðinni“.

Sjávarmenjar (n, kvk, fto)  Menjar um sjávarágang frá löngu liðnum tímum.  Sjávarmenjar frá síðjökultíma, þegar sjávarstaða var allmiklu hærri en nú, má sjá í fornum sjávarbökkum, t.d. ofanvið Fitina; um Svarðarholt, Nautholt, Breiðuseil, Túnbrekku ogTrantala í Kollsvík.

Sjávarmöl (n, kvk)  Möl sem núin er af því að velkjast í sjó.  Sjávarmöl finnst víðast í fjörum í Kollsvík þar sem ekki er skeljasandur, grjót eða hleinar.

Sjávarmörk (n, hk, fto)  Fjörumörk; mörk þess sem sjór fellur hæst upp, að jafnaði.  „Menjar má sjá í Kollsvík og víðar um að í eina tíð hafi sjávarmörk legið hærra en nú er.  Ísaldarjökullinn þrýsti landinu nokkuð niður í jarðmöttulinn og þegar hann hopaði var landið nokkru seinna að rísa aftur en sem nam sjávarborðshækkun af bráðnun jökla.  Því var t.d. allt Suðurlandsundirlendi og Borgarfjörður undir sjó um tíma.  Landið þrýstist minna niður á Vestfjörðum, en þó lágu sjávarmörk ofar um tíma.  Í Kollsvík eru þessi 11000 ára sjávarmörk einkum sýnileg sem stallur neðantil á Brunnsbrekkunni,t.d. rétt ofan Kaldabrunns.  Þá virðist sjór hafa náð upp að þar sem nú standa fjárhúsin á Láganúpi.  Þegar grafið var þar fyrir haughúsi við fjósið sáust greinilega menjar um þennan forna fjörukamb, og fannst þar bein úr máfi.  Ýmsir telja sig greina merki þess að nú sé sjávarborð enn byrjað að hækka, og má þá líklega rekja það til bráðnunar jökla af völdum gróðurhúsaáhrifa“.

Sjávarpláss / Sjávarþorp (nb, hk)  Síðari tíma heiti á þéttbýlisstað sem myndast við sjó, einkum vegna vélbáraútgerðar, með ýmiskonar verslun og þjónustu.  Sjávarplássin eru arftakar hinna fornu verstöðva.  Þannig tóku Vatneyri (Patreksfjarðarkauptún) og Sveinseyri (Tálknafjarðarkauptún) við hlutverki verstöðva í Útvíkum og víðar.  Eflaust hefði þó mátt nefna byggðina í Kollsvík sjávarþorp þegar þaðan var mest sjósóknin; í aldaraðir úr Láganúpsveri og í byrjun 19.aldar úr Kollsvíkurveri.

Sjávarrof (n, hk)  Rof í fjöruborði af völdum sjávaröldu/brims.  Sjávarrof er jafnan töluvert í fjöruborði; einkum á stöðum fyrir opnu hafi, eins og í Kollsvík.  Menjar um sjávarrof frá síðjökultíma má sjá nokkru ofan núverandi sjávarborðs; sjá sjávarmenjar.  Sjávarrof sést vel í Grundabökkum.  Sá sjávarbakki hefur lítið breyst um aldir, eins og sjá má af því að þar stóð Láganúpsverstöð til forna.  Á síðustu áratugum, eða frá því laust fyrir aldamótin 2000, hefur rofið hinsvegar stóraukist, og minjar um þá fornu verstöð eru nú í stórhættu.  Í fyrstu var talið að þetta tengdist hækkaðri sjávarstöðu vegna hlýnandi loftslags, en VÖ hefur sett fram líklegri kenningu.  Hún er sú að ígulkerið skollakoppur hafi, vegna offjölgunar sem sannanlega varð í stofnstærð þess, hafi étið svo upp þaraskógana á Kollsvíkinni að þeir séu ekki sú fyrirstaða og dempun á brimöldunni sem þeir jafnan eru.  Brimaldan æðir því óhindrað upp í fjöru; brýtur niður sjávarbakkana á háflæði; veldur spjöllum á Görðunum og ryður upp miklu magni sands, sem svo fýkur upp og veldur frekari spjöllum.  Að beiðni VÖ var lögð fram fyrirspurn á Alþingi um vernd verminja sem nú eru víðast að hverfa vegna þessa mikla ágangs, en stjórnvöld hafa ekki sýnt mikil viðbrögð til að vernda þessar menningargersemar þjóðarinnar.

Sjávarorka (n, kvk)  Orka sjávar, en helstu birtingarmyndir hennar eru sjávarfallaorka; ölduorka, dreypniorka og hitastigulsorka.  Orðið er ekki að finna í orðabókum, enda hefur lítið verið hugað að nýtingu þessarar orku hérlendis þar til safnari þessa orðasjóðs stofnaði verkefni á því sviði árið 2009; Valorku ehf.  Þau verkefni snúa að þróun sjávarfallahverfla, ölduvirkjun og rannsóknir á sjávarorku við Ísland.  VÖ hefur leitt að því rök að sjávarorka sé í heild langstærsta orkulind landsins og hvatt stjórnvöld til að hefja rannsóknir og undirbúning nýtingar á henni.  Sjá sjávarorkurannsóknir.

Sjávarorkunýting (n, kvk)  Vinnsla og hagnýting sjávarorku í formi haföldu og strauma.  VÖ hefur manna fyrstur unnið að þróun íslenskrar tækni til nýtingar á sjávarorku.  Hugmyndavinna byrjaði á unga aldri en verkleg þróun sjávarfallahverfla hófst 2008 og VÖ stofnaði Valorku 2009 til að standa fyrir henni.  Fjöldi nýrra hverfilgerða hefur komið fram og skilað góðum árangri í prófunum.  Í byrjun er stefnt að nýtingu sjávarfallastrauma með hverflum staðsettum undir ölduhreyfingu og ofan botnkyrrðar.  Enn hefur ekki fundist lausn á að beisla ölduorku, einkum vegna eyðingarmáttar brimsins þegar verst gegnir.

Sjávarorkurannsóknir (n, kvk, fto)  Rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku.  Engar slíkar rannsóknir hafa farið fram við Ísland, þó sjávarorka sé langmesta orkulind landsins; hrein og endurnýjanleg orka sem unnt er að nýta án allra umhverfisáhrifa.  Að beiðni VÖ var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþinigi um undirbúning slíkra rannsókna árið 2011.  Allir flokkar voru málinu sammála og eftir að hafa velkst um í þinginu var tillagan samþykkt samhljóða vorið 2014.  Hinsvegar eyðilagði þáverandi iðnaðarráðherra málið með því að skipa afturhaldssama hagsmunagæslumenn í nefnd sem um það fjallaði, en sniðgekk forgöngumenn þess.  Slík er hagsmunagæsla orkurisa sem einokað hafa orkumarkaðinn til þessa.  Síðari kynslóðir munu fella sinn dóm um þennan framgang; þær eiga hér mest í húfi.

Sjávarorkuver / Sjávarvirkjun (n, hk/kvk)  Tæki sem umbreytir orku sjávar, t.d. ölduorku eða sjávarfallaorku, í raforku eða annað nýtanlegt orkuform.  Ýmis þróun á sér stað í þessháttar tækni víðsvegar um heim, þó engin slík virkjun sé enn tengd helstu neyslunetum.  Líklegt er að sjávarorka verði nýtt í stórum stíl innan fárra áratuga; enda er hún umfangsmikil og endurnýjanleg orkulind sem unnt er að nýta án nokkurra þekktra umhverfisáhrifa.  Valorka ehf er eina íslenska fyrirtækið sem stundar þróun á sjávarorkutækni.

Sjávarröst (n, kvk)  Annesjaröst; aukinn straumhraði í sjávarfalli þar sem það mætir hindrun, s.s. grynningum eða annesjum; eða þarf að fara um þröng sund og firði.  Sjávarrastir eru fyrir flestum ystu núpum Vestfjarða, t.d. Látraröst útaf Bjargtöngum og Blakknesröst útaf Blakknesi.

Sjávarselta (n, kvk)  A.  Saltmósta/saltstorka sem fallið hefur út og sest á hluti eftir mikið særok. B.  Seltustig sjávar.  Selta sjávar við Ísland er yfirleitt 33-35 seltustig; þ.e. 3,3-3,5 grömm af uppleystum söltum eru í hverju kílói sjávar; mest matarsalt. 

Sjávarsíða / Sjóarsíða (n, kvk)  Strandsvæði; landsvæði sem liggur nærri sjó.  „Í hallærum fyrri tíðar áttu byggðir við sjóarsíðuna mun betri afkomumöguleika en byggðir inn til landsins“.

Sjávarstaða (n, kvk)  Staða sjávarfalls; stendur á sjó.  „Hvernig verður sjávarstaða þegar við komum að“?  „Mér sýnist að sjávarstaða ætti að verða sæmileg ef við komumst snemma fram“.

Sjávarstraumur (n, kk)  Straumur í sjó; sjávarfallastraumur og aðrir hafstraumar.  Sjávarstraumar í Kollsvík  orsakast einkum af sjávarföllum, en þeir fylgja þó fjölbreyttara mynstri en ætla mætti við fyrstu sýn.  Tveir áhrifavaldar eru þar mestir:  Annarsvegar er það sjávarfallasveiflan sjálf, sem orsakar norðurfall tvisvar á sólarhring og nokkuð vægara suðurfall jafn oft.  Styrkur þessara reglulegu falla fer eftir því hvernig stendur á straum; hvort stórstreymt er eða smástreymt.  Einnig hefur land- og botnlögun mikið að segja:  Straumurinn verður sterkastur þar sem sjávarmassinn þarf að fara fyrir nes og núpa og yfir grunnsævi; t.d. í Blakknesröst.  Meðan fallastraumurinn skiptir um stefnu eru fallaskipti eða liggjandi.  Hinsvegar eru straumar sem orsakast af nálægð við öflugustu röst Íslands; Látraröstina.  Breiðafjörðurinn verkar eins og trekt á sjávarfallabylgjuna, á leið hennar vestur og norður fyrir land.  Mesta svefluhæð sjávarborðs við landið verður í Breiðafirði; þaðan spýtist straumurinn vesturmeð Bjarginu og sveigir til norðurs fyrir Víkurnar.  Látraröstin er greinileg, einkum þegar hún í miklum ham ólgar á móti norðanátt í nokkrum sjógangi.  Úr Kollsvík er hún þá tilsýndar sem hvítur borði boðafalla úti við hafsbrún.  Þó ekki liggi fyrir því vísindalegar rannsóknir, þá bendir allt til þess að frá Látraröstinni séu hringiður upp á Útvíkurnar; sín iðan upp á hverja vík, og jafnvel ein heildariða til viðbótar.  Slíkar iður má t.d. sjá af myndum af Golfstraumnum, þar sem hann liggur uppmeð vesturströnd Ameríku.  Þar sem meginstefna Látrarastar er til norðurs, þá er augljóst að þessar iður orsaka straum til suðurs meðfram ströndinni í hverri vík.  Þar er komin skýringin á því t.d. að sífellt er suðurfall á Seljavíkinni, og því hve mjög sandur úr Breiðafirði berst upp á strendur Útvíkna; sem og því hve sá sandburður leitar suðurmeð ströndinni.  Þriðji meginþáttur hafstrauma er óreglulegri, en það eru áhrif vinda.  Um þau áhrif verður ekki mikið fullyrt, en í tvennu eru þau þó greinanleg í Kollsvík.  Annarsvegar eykur hvass álandsvindur flóðhæð og ágang sjávar, en hinsvegar getur langvarandi eináttar vindstaða ráðið miklu um það hver mikið magn af sandi er uppi í fjöru og hve langt hann teygist með ströndinni. Þörf væri á mælingum sjávarstrauma til að unnt sé að sannreyna þessi kerfi, enda getur sá skilningur á þeim komið að notum t.d. við varnir gegn uppblæstri.

Sjávarútvegur (n, kk)  Sjósókn; fiskveiðar og það starf sem þeim viðkemur.  Orðið var lítt sem ekki notað í Útvíkum fyrr á tíð, heldur var fremur talað um sjósókn, veiðar, verstöðu, útræði og róðra.

Sjóaður (l)  A.  Vanur sjómennsku; farinn að þekkja viðeigandi vinnubrögð og handtök.  B.  Hættur að vera sjóveikur.  Flestir sem fara í fyrsta skipti á sjó í langan tíma finna til sjóveiki og verða sumir mjög veikir.  Eftir nokkurn tíma/nokkra róðra fara menn að sjóast og sjóveikin hverfur.  C.  Afleidd merking; vanur/reyndur.  „Hann er orðinn nokkuð sjóaður í fundarstjórninni“.

Sjóarapeysa (n, kvk)  Duggarapeysa; notað í seinni tíð yfir bláar peysur úr ullarbandi, háar í hálsmálið, sem algengar voru í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar.

Sjóarbakki (n, kk)  Sjávarbakki.  „Víða er farið að brjóta úr sjóarbökkunum“.  „Sjóar“ var algengari beyging áðurfyrr en „sjávar“.

Sjóarfall (n, hk)  Sjávarfall, sjá þar.  Í Kollsvík var venja að nota fremur orðið „sjór“, með eignarfallsmyndina „sjóar“, en „sjár“ með eignarfallsmyndina „sjávar“.   „Við sátum þarna yfir eitt sjóarfall og höfðum ágæta viðveru af fiski“.

Sjóargata (n, kvk)  Gata sem liggur t.d. frá bæ niður að sjó.  „Sjóargatan frá Kollsvíkurbænum niður í Verið er nú algerlega horfin“.

Sjóarhjallur (n, kk)  Hjallur sem stendur við sjó, til herðingar/upphengingar á fiski.

Sjóarhús (n, hk)  Hús við sjó.  Orðið var þó hvorki notað um verbúðir né naust, heldur einkum um geymslur.

Sjóarklettar (n, kk, fto)  Sjávarklettar.  „Skammt utanvið Garðsendann byrja lágir sjóarklettar; fyrst uppað Hreggnesanum, en svo hækka þeir við Undirhlíðarnefið, við norðurenda Hnífanna“.

Sjóarlöður (n, hk)  Sjávarlöður; ágjöf.  „Svo er Hreggnesi; klettanef á bersvæði, sem næðir mikið um og sjóarlöðrið eða gufan gengur upp að“  (Ól.Sveinss; Örn.skrá Naustabrekku).

Sjóast (s)  Verða sjóaður; hætta að vera sjóveikur; farinn að kunna til verka á sjó; vera reyndur.  „Mér líður betur en í síðustu róðrum; held ég sé að sjóast“.

Sjóbað / Sjóblautur (n, hk/l)  Bað/kaffæring í sjó/ blautur af sjó.  Ekki tíðkaðist í Kollsvík að stunda sjóböð að ástæðulausu, eins og nú er siður sumra landsmanna, en algengt var að menn urðu sjóblautir af ágjöf eða við setningu báta.

Sjóborð (n, hk)  Nafn á því borði skips (oft 5.umfar) sem vanalega er að hluta í sjó á lítið hlöðnum bát.  Næsta borð fyrir ofan nefnist sólborð, og er að jafnaði uppúr ef bátur er ekki mjög hlaðinn.

Sjóborg (n, kvk)  Bátur/skip sem ver sig mjög vel í sjó; andstæða við t.d. sjókæfu

Sjóblautur (l)  Blautur af sjó.  „Þegar sjóklæðin urðu sjóblaut voru þau þurrkuð, og var brókin sett til þurrks á svokallaðri brókarkvísl...“  (EÓ; Skinnklæðagerð).

Sjóbleyða (n, kvk)  Sá sem er sjóhræddur/ þorir ekki að sækja sjó.  „Atyrti hún Guðmund ráðsmann sinn harðlega; kvað hann hina mestu sjóbleyðu sem hræddist hverja golu, og ætti varla skilið að stíga út í bát framar“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Sjóbratt (l)  Mikill bratti í átt til sjávar.  „Geldingsskorardalslækir liggja niðurundan Háhöldum og út undir Flaugarnef; vætulækir, en gras á milli og sjóbratt mjög“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Sjóbúa (s)  Um báta; gera klárt á sjó/ til sjóferða; gera sjóklárt.  „Það var alltaf byrjað á einmánuði að þvo fisk frá haustinu áður, og um sumarmál að hvolfa upp bátunum og sjóbúa þá.  Róðrar hófust svo strax og gaf“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Sjóbúð (n, kvk)  Annað heiti á verbúð.  Verbúðir í Kollsvík voru ekki nefndar sjóbúðir, en það var notað yfir verbúð í Kvígindisdal, sem stóð þar framyfir 1970.  Í henni var svefnloft.  „Þetta gerðist á áliðnu sumri 1928.  Og við vorum staddir í sjóbúðinni í Kvígindisdal“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).

Sjódauður (l)  Dauður á sjó; dauður í sjóslysi.  Mikil virðing hefur jafnan verið borin fyrir þeim mönnum sem leggja líf sitt í hættu til að sækja björg í bú í greipar ægis.  Til var máltæki á þá leið að „sæll er sjódauður en vesæll vatnadauður“.  Þjóðtrúin segir að sjódauðir menn komi jafnan heim fyrst eftir dauða sinn og birtist annaðhvort í draumum berdreyminna eða sem sýn skyggnra.  Er þá mikilvægt að ekki sé á þá yrt.  Í draugasögum eru mörg dæmi þess að sjódauðir menn séu vaktir upp og nýttir til sendinga.  Hefur sú sagnahefð eflaust skapast af því að hinir sjódauðu voru stundum sjómenn úr fjarlægum lands- eða heimshlutum sem enginn þekkti, og því ekki eins þungbært að hafa dauða þeirra í flimtingum og hinna.

Sjódraugur (n, kk)  Draugur sem verður til þegar sjódauður maður gengur aftur eða er vakinn upp.

Sjódrífa / Sjódrif (n, kvk)  Sælöður; úði sem rýkur úr öldufaldi í roki.  „Sjódrífan var svo mikil þarna í fjörunni að við urðum kollvotir við að bjarga trénu“.  „En þegar þangað kom var veðurofsinn svo, að óstætt var og sjódrifið svo mikið að lítið sást frá sér“  (MG; Látrabjarg).  „Var þá kvikmyndatökuvélin varla orðin gangfær fyrir sjódrifi sem á hana hafði sest“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Sjódrukknaður (l)  Drukknaður á sjó.

Sjódyngjur (n, kvk, fto)  Stöðugar gæftir.  „Í góðviðri henti það stundum að farnir oru ellefu róðrar yfir vikuna.  Svona stöðugar gæftir voru kallaðar sjódyngjur“  (PJ; Barðstrendingabók).

Sjóða (s)  A.  Elda mat með suðu.  „Hæfilegt er að sjóða múkkaeggin í sjö til níu mínútur“.  B.  Sjóða/brasa saman; bræða járnhluti saman með mikilli hitun og renna málmi aukalega í samskeytin.

Sjóða á keipum (orðtak)  Um siglingu báts; þegar skipið hallast svo undan byr í segl að sjór gutlar uppundir keipana/tollurnar hlémegin.  Þótti háskasigling, einkum ef eitthvað var í sjóinn.

Sjóða á söxum (orðtak)  Um siglingu báts; þegar skipi er siglt þannig að sjór freyðir uppundir söxin. Sjá sax.

Sjóða niður (orðtak)  Um matvælageymslu; sjóða matvæli í íláti og loka því síðan; niðursuða.  Með því er varan gerilsneydd og rotnar mun hægar.  Þetta er sérlega auðvelt með súran mat.  T.d. tíðkaði Sigríður Guðbjartsdóttir það í sinni búskapartíð að sjóða niður rabbarbara í loftéttar glerkrukkur.  Hann var svo einkum snæddur sem ábætisréttur með rjóma, og þótti engu síðri en niðursoðnir ávextir, sem þá voru torfengnari en nú.

Sjóða saman (orðtak)  A.  Elda saman í potti.  B.  Sjóða/festa tvo málmhluta saman með hitun.  C.  Líkingamál; búa til texta, kvæði, ræðu eða annað. 

Sjóða upp (orðtak)  Um vökva í potti; gufa allt upp.  „Vatnið hafði allt náð að sjóða upp af kartöflunum, og þær voru orðnar eins og kolamolar“.

Sjóða uppúr (orðtak)  Um vökva sem hitaður er í potti; bulla svo ákaft við suðuna að froðan lyftist uppyfir barma ílátsins.   Hættast er við uppúrsuðu þegar soðinn er mjólkurmatur.

Sjóðandi heitur / Sjóðheitur (orðtak/l)  Svo heitur að nálgast suðumark; brennheitur; brennandi heitur.  „Passaðu þig á grautnum; hann er sjóðheitur“!

Sjóðandi illur / Sjóðandi reiður / Sjóðandi vitlaus (orðtak)  Blóðillur; saltvondur.  „Sjóðandi illur henti hann moldarhnaus á eftir fjárhópnum“.

Sjóðbandvitlaus (l)  Lýsing á mikilli reiði; brjálaður; kolvitlaus; trompaður; umturnaður.  „Hann varð alveg sjóðbandvitlaus af vonsku þegar hann frétti af þessum tiltektum“.

Sjóðbullandi (l)  Áhersluorð, einkum þegar blótað er eða lýst miklum æsingi; sjóðandi.  „Fari það nú í sjóðbullandi helvíti“!   „Hann varð alveg sjóðbullandi illur þegar hann heyrði af þessu“.

Sjóðhiti / Sjóðandi hiti (n, kk/orðtak)  Mjög mikill hiti; steikjandi hiti.  „Það þarf að setja í gang súgþurrkunina; það er kominn sjóðhiti í heyið og stakkur ofaná það“.

Sjóður (n, kk)  A.  Safn peninga eða annarra verðmætra muna.  Þessi notkun orðsins var algeng í upphafi Íslandsbyggðar, en er nú einkum bundin við ráðstöfunarfé fyrirtækja og stofnana, t.d. ríkissjóður.  B.  Líkingamál um safn hverskonar muna og jafnvel huglægra efna, s.s. reynslusjóður.  Nafn þessa orðasafns er dæmi um slíkt, enda má líta á orðaforða Kollsvíkinga sem hluta óáþreifanlegra menningarverðmæta sm þar voru lengi staðbundin en er nú í hættu með að glatast vegna byggðahrörnunar.

Sjóðvitlaus fiskur (orðtak)  Asafiski; mjög góð veiði; aflahrota.  „Við lentum í sjóðvitlausum fiski þarna“.

Sjóðvondur (l)  Mjög reiður/æstur; saltvondur; blóðillur.  „Hann var sjóðvondur yfir þessari niðurstöðu“.

Sjófang (n, hk)  Afli/veiði úr sjó; sjávarafli; sjávargagn.

Sjófarandi (n, kk)  Sá sem siglir um sjó.  „Vitarnir bættu mjög öryggi sjófarenda“.

Sjóferð (n, kvk)  Róður; ferð á sjó.  „Þannig fór um sjóferð þá“!

Sjóferðabæn (n, kvk)  Undantekningarlaust var venja að fara með sjóferðabæn, bæna sig,  áður en farið var í róður.  Bænin var vanalega flutt eftir að búið var að sjósetja og báturinn kominn fram á lægi.  Þá voru árar lagðar upp; höfuðföt tekin niður og hver bað sína bæn í kyrrð áður en tekið var aftur til ára eða vél gangsett.  Í sumum verstöðvum var þó ekki gert neitt slíkt stopp.  Venja í Láturdal var sú að sjóferðabæn ætti að vera lokið þegar róið hafði verið út að Bænagjótu, en hún er rétt utanvið Klaufatangana.  (Svo sagði mér Ingvar Guðbjartsson; VÖ).  Ekki er nú vitað hvernig sjóferðabænir hljóðuðu áður fyrr, en hver hafði sitt lag á í seinni tíð.  Oftast munu menn hafa farið með faðirvorið.  Ríkt var haldið í þann sið að lesa sjóferðabæn í róðrum úr Kollsvíkurveri fram yfir 1970, þó þá væru þeir strjálir, og mun hann hvergi hafa viðgengist lengur (VÖ).  „Allir tóku ofan sín höfuðföt og báðu sjóferðabænina þegar komið var á flot og menn höfðu sest undir árar“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Þá taka allir ofan höfuðfötin og lesa bæn; hver fyrir sig“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Heilög goð er heitið á/ höldum stoð að veita;/ brugðið voðarbandi þá;/ brunar gnoðin landi frá“  (JR; Rósarímur).  

Sjóferðahugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir/bollaleggingar um sjóferð.  „Eruð þið í einhverjum sjóferðahugleiðingum?  Ég held ég fari þá að berja eitthvað í nesti“.

Sjófiskur (n, kk)  Fiskur sem lifir í sjó.  „Af hvaða sjófiski hafa menn mest not“?  (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1919). 

Sjóflutningar (n, kk, fto)  Vöruflutningar á sjó.  Fyrr á tímum fóru aðdrættir Kollsvíkinga og ýmis flutningu afurða ýmist fram með sjóflutningum eða með landflutningum um hestavegina gömlu.  Sjóflutningar voru jafnan nýttir fremur ef til þeirra gaf veður; einkum meðan alla vöru þurfti að sækja á Eyrar.

Sjófugl (n, kk)  Fugl sem er aðlagaður lífi á sjó, og sækir fæðu sína einkum í sjó.  Algengustu sjófuglar sem verpa í Kollsvík eru múkki, rita, hvítmáfur, svartbakur, hettumáfur, kría, lundi, teista, skarfur og æðarfugl, en aðrir eru algengir gestir á víkinni, s.s. súla, sílamáfur, langvía, nefskeri, álka og skrofa.

Sjófær (l)  Um bát/skip; fær til siglinga; haffær.  „Hann taldi bátinn ekki sjófæran fyrr en búið væri að seyma hann verulega að nýju“.

Sjógalli (n, kk)  Hlífar; hlífðarfatnaður sjómanna.  „Sjógallar hafa breyst í gegnum tíðina.  Öldum saman voru skinnklæði bestu hlífar sem völ var á, og gerð þeirra var orðin nokkuð þróuð í Kollsvík, eins og sjá má af lýsingum þeirra sem síðast kunnu þar til verka.  Eftir að olíustrigafatnaður varð fáanlegur tóku við dagar sjóstakksins; kjóllaga verju sem steypt var yfir höfuð sér og notuð með klofstígvélum og barðamiklum sjóhatti.  Síðar komu til jakki og buxur úr þjálli efnum, notuð þá með lágstígvélum, enda sjaldnast þörf lengur á að vaða sjó í klof“.

Sjógangur (n, kk)  Slæmt sjólag; mikill sjór; ókyrrð.   „Það fer enginn smábátur í Röstina í þessum sjógangi“.

Sjógarður (n, kk)  Stórsjór, brim.  Þegar leið á daginn gerði áhlaupaveður með miklum sjógarði“.  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Sjógarpur / Sjókempa (n, kk)  Sægarpur; sá sem þykir góður og sækinn sjómaður; áræðinn en útsjónarsamur og farsæll.  Oftast stytt í kempa.

Sjógusa (n, kvk)  Skvetta af sjó; ágjöf.  „Var nú henst stein af steini, og þeir stirðari fengu sjógusu, því brim var óskaplegt“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Sjóhattur (n, kk)  Höfuðfat sem notað er á sjó.  „Sjóhatt áttu flestir, er aðeins var settur upp þegar ágjöf var eða illviðri“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sjóhrakinn (l)  Þrekaður eftir volk í sjó.  „Þegar þessir sjóhröktu menn töldust ferðafærir ... voru þeir fluttir til Patreksfjarðar“   (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Hinum sjóhröktu mönnum var tekið tveim höndum af heimamönnum....“  (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum).

Sjóhraustur (l)  Þolir vel velting og volk á sjó án þess að blikna eða verða sjóveikur. 

Sjóhundur (n, kk)  Sá sem er ófyrirleitinn við sjósókn/sækir sjó þegar öðrum sýnist ekki fært sjóveður.

Sjóhögg (n, hk)  Högg sem greitt er skötu eða steinbít til að rota/dauðrota.  „Þegar skata kom að borði var hún dauðrotuð með haka eða kepp áður en hún var innbyrt; kallað sjóhögg“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Sjóinntak (n, hk)  Gat í byrðing báts neðan sjávarborðs þar sem tekinn er inn sjór fyrir kælingu vélarinnar.  „Vélin ofhitnaði þegar við fengum þara í sjóinntakið“.

Sjókind (n, kvk)  Vera sem býr í sjó, oftast átt við þjóðsagnaveru/óvætt.  „Það var ekkert frammi á hleininni þegar ég kom á staðinn, svo þetta hlýtur að hafa verið einhver sjókind“.

Sjóklár (l)  Síðari tíma heiti um að vera tilbúinn í sjóferð.  Notað bæði um bát og sjómann.

Sjóklæddur (l)  Kominn í hlífar/sjógalla/skinnklæði sem þarf til sjóferðar/róðurs.

Sjóklæði (n, hk, fto)  Hlífar/hlífðarfatnaður á sjó, sjá skinnklæði.  „Karlmenn saumuðu sjálfir sjóklæði sín að vetrinum“  (KJK; Kollsvíkurver).  Þjóðtrúin segir að ekki megi staga sjóklæði á sunnudegi; þá farist þeir sem þau bera.  ( JÁ; Þjs). 

Sjókort (n, hk)  Kort sem sýnir legu strandar, stefnur, leiðir, dýpi, boða, vita og annað.  Góð sjókort fóru ekki að tíðkast fyrr en á 19.öld, eftir að konungstilskipun hafði verið gefin út um strandmælingar við Ísland.  Sjómenn Útvíkna treystu á staðkunnátu sína og munu sjaldnast hafa stuðst við sjókort.  Færasti kortateiknari Íslands á sinni tíð bjó um tíma í Kollsvík; Samúel Eggertsson á Grund.  Hann teiknaði gott kort af Rauðasandshreppi þar sem m.a. eru merktar inn sjóleiðir og boðar.

Sjókæfa (n, kvk)  Bátur sem stingur sér í ölduna í stað þess að lyfta sér uppá hana.  (Orðasafn Ingvars Guðbj.).

Sjókæld (l)  Um vél í bát; kæld með sjó en ekki ferskvatni.  Á grásleppuveiðum og við lendingar í fjöru þurfti að gæta varúðar að þari næði ekki að stífla sjóinntak slíkra véla, sem þá hæltti til að ofhitna.

Sjólag (n, hk)  Hegðun sjávaryfirborðs/öldu; ölduhæð og öldugerð.  „Oftast er annað sjólag í röstinni en það sem er beggjamegin við hana á sama tíma.  Hún getur verið kolófær í stífu falli á móti vindi, þó rétt hjá henni sé hægt að vera að veiðum“.

Sjólaust (l)  Ládeyða, eða a.m.k. ekki sjór til vandræða.  „..mælirinn hefur fallið og sjáanlega er norðanátt í aðsigi en hann er sjólaus ennþá“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Sjólax (n, kk)  Gæluheiti á ufsa.

Sjóleið (n, kvk)  Sjóferð; ferðalag sjóleiðis.  „Vermenn í Kollsvík komu flestir sjóleið úr Breiðafirði í byrjun vertíðar.  Sumir komu þó landleiðina“.  Sjá sjóleiðis.

Sjóleiðis/landleiðis (ao)  Þessar tvær meginleiðir voru til flutninga og aðdrátta í Kollsvík.  Hestavegir, áður nefndir fjallvegir, lágu inn yfir Hænuvíkurháls til Hænuvíkur og inn með firði; yfir Tunguheiði til Örlygshafnar; yfir Sandsheiði og Brúðgumaskarð til Rauðasands og um Breið til Breiðuvíkur.  Þyrfti flutning út kaupstaðnum á Eyrum var oftast betra að sitja eftir sjóveðri og róa eða sigla fyrir Blakk og inn Patreksfjörð.  „ Enda þótt neysla á aðfluttum varningi væri mun fábreyttari en nú er orðið hefði orðið tafsamt að flytja aðfluttar vörur á hestum.  Var því mestur hluti þeirra fluttur sjóleiðina“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Einar brá þegar við, og fór sjóleiðis inn fyrir Blakknes“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Sjóleysa (n, kvk)  Ládauður sjór.  „Einnig hafði sunnangoluna hægt og alveg var ládeyðu sjóleysa, svo eftir engu var hægt að átta sig“  (ÖG; Þokuróður).

Sjólína (n, kvk)  Um skip; skilin á skrokki skips milli þess sem er uppúr og ofaní sjó.  „Kom þá í ljós að kjalfatta þurfti allt skipið fyrir ofan sjólínu“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).

Sjólítill (l)  Lítill sjógangur;ekki mikið brim.  „Veður var gott; sjólítið og logn.  “  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).  „Hann hefur dottið niður og er orðinn fremur sjólítill“. 

Sjólok (n, hk, fto)  Yfirborð sjávar; þar sem sjó lýkur við yfirborð/hafflöt.  „Lúðan braust um í sjólokunum, en okkur tókst að koma ífærunni í hana“.  „Var þá svo komið að báturinn maraði í sjólokunum, nær fullur af sjó“  (BS; Barðstrendingabók)

Sjólæða (n, kvk)  Lág þoka sem leggur inn frá sjónum.  Getur þá tekið fyrir allt skyggni á láglendi þó bjart sé ofantil á fjöllum og núpum.

Sjólöður (n, hk)  Sjávarlöður; froða sem myndast á sjó í miklu brimi.  „Sjólöðrið lá í hnédjúpum hrönnum í fjöruborðinu“.  Oftar var talað um sjólöður í Kollsvík en sjávarlöður.

Sjómaður (n, kk)  Sá sem stundar fiskveiðar eða sækir af öðrum sökum sjó í atvinnuskyni.  Heitið var ekki almennt notað í Kollsvík áðurfyrr; fremur var m.a. rætt um vermenn, fiskimenn, farmenn og útvegsbændur.  Það ryður sér til rúms með tilkomu sjávarþorpa, seglskúta og síðar vélskipa.

Sjómannsefni (n, hk)  Efni í sjómann; verðandi sjómaður.  „Því allir voru þessir formenn, og skipsmenn þeirra flestir, margþjálfaðir á þessum litlu fleytum.  Munu þær ekki sjómannsefnum lökustu skólaskipin“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Sjómannsævi (n, kvk)  Störf manns á sjó.  „Ég hafði setið þarna hjá honum (Árna Dagbjartssyni) á þóftunni flest útstímin síðast liðin tvö vor og sumur; hlustað á sagnir frá hans löngu sjómannsævi á flestum gerðum skipa, víðsvegar um Atlantshafið; allt norður í Íshaf; við flestar tegundir fiskveiða, hvalveiði og selveiði, og einnig farmennsku“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Sjómennska (n, kvk)  Það að vera sjómaður/ stunda sjó. 

Sjómennskubragur (n, kk)  Hegðun/vinnubrögð eins og hjá sjómanni.  „Mér finnst nú lítill sjómennskubragur að því að mæta til skips á strigaskóm og í stuttermabol!  Blessaður komdu þér í eitthvað skjólbetra“!

Sjómennskulegur (ao)  Sýnir þekkingu á sjómennsku.  „Guðbjartur Torfason er jafnkunnur öllum staðháttum hér og við, og á engan hátt ófærari til sjómennskulegra aðgerða en við“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Sjómíla (n, kvk)  Mælieining vegalengdar, oftast notuð á sjó áðurfyrr, en nú einnig í flugi og víðar.  Ein sjómíla er 1/60 úr breiddargráðu eða ein bogamínúta.  Vegna þess að jörðin er ekki fullkomlega kúlulaga er lengdin því dálítið breytileg, en alþjóðlegur skilningur er sá að hún jafngildi 1.852 metrum.  Hraðaeiningin hnútur er skilgreind sem ein sjómíla á klukkustund.

Sjón (n, kvk)  A.  Skyn sem byggir á augum.  „Ég hef alveg sæmilega sjón ennþá“.  B.  Útlit.  „Það var ekki sjón að sjá hann þegar hann skreiddist uppúr fjóshaugnum“.

Sjón ber sögu vitni (orðtak)  Það sannast með sýnileikanum/ því sem sjá má; það sést.  „Ég hélt að grásleppur yrðu ekki svona stórar, en sjón ber sögu vitni“.

Sjón er sögu ríkari (orðatiltæki)  Það segir og sannar meira að sjá hlutina en heyra um þá.  Forn speki.

Sjónarhorn / Sjónarhóll / Sjónarmið (n, hk)  Afstaða; skoðun.  „Frá mínu sjónarhorni er ekkert athugavert við þetta“.  „Mitt sjónarmið í málinu liggur fyrir“.

Sjónarmunur (n, kk)  Sýnilegur munur.  „Lúðurnar eru álíka þungar, en þessi er þó sjónarmun stærri en hin“.

Sjónarrönd (n, kvk)  Sjóndeildarhringur; það sem lengst verður séð.  „Hafið, blá hafið, hugann dregur;/ hvað er bakvið ystu sjónarrönd?“  (Örn Arnarson;  Sigling).  „Léttan skoppar ára-önd/ öldutoppa kvika./  Glævur hoppa, hylur önd/ hríðarloppa sjónarrönd“  (JR; Rósarímur). 

Sjónarspil (n, hk)  Leiksýning; leikaraskapur; skrautsýning; ljósagangur.  „Flugeldasýningin var mikið sjónarspil“.

Sjónarsvið (n, hk)  Það svið sem augað sér; það svæði sem er sýnilegt.  Sjá fram á sjónarsviðið.

Sjónarsviptir (n, kk)  Breyting á svipmóti; missir þess sem setur svip á umhverfi sitt.  „Það er alltaf sjónarsviptir að því þegar gömul og æruverðug hús hverfa.  Þannig var t.d. þegar niður voru tekin Mókofinn og hænsnakofinn á Láganúpi; þegar brunnhúsið hvarf og þegar sjávarkofinn hans afa féll niður“.

Sjónarvegur (n, kk)  Leið sem sýnileg er.  Eingöngu notað í afleiddu merkingunni; möguleiki; hugsanlegt; tilsjón.  „Heldurðu að það sé nokkur sjónarvegur að þú komist með okkur í smalamennskur um helgina“?

Sjónarvinkill (n, kk)  Sjónarhorn.  „Það má líka líta á málið með þeim sjónarvinkli“.

Sjónarvottur (n, kk)  Vitni; sá sem sér/ er viðstaddur.  „Ég varð sjónarvottur að þessu sjálfur“.

Sjónauki (n, kk)  Kíkir.  Sjónauki hefur lengi verið mikilvægt hjálpartæki; jafnt varðandi búskap og sjósókn.

Sjóndapur (l)  Sjónskertur; farinn að sjá illa.  „Maður verður sjóndapur með aldrinum“.

Sjóndepurð (n, kvk)  Slæm/döpur sjón.  „Skírnarvatnið þótti hafa lækningamátt við sjóndepurð og annarri augnveiki“  (SG; Kirkjur; Þjhd.Þjms).

Sjóngler (n, hk)  Stækkunargler.

Sjónglöggur (l)  Sér glöggt.  Notað bæði um að sjá hluti sem eru í mikilli fjarlægð, og að glöggva sig á óljósu staki í stórum hópi.  „Mikið asskoti ertu sjónglöggur að greina markið; svona ofanaf réttarveggnum“!

Sjónhending (n, kvk)  Sjónlína.  „...en úr greindum læk hjá Klúkutóftm ræður sjónhending upp í Altarisberg og ofan í áður skrifaðar reiðgötur“ (Landamerkjavitnisburður Saurbæjar 1660).

Sjónhverfingar (n, kvk, fto)  Blekkingar þess sem sést.  „Þarna hvarf féð; eins og fyrir sjónhverfingu“.

Sjónlína (n, kvk)  Leið sem sést óhindrað; það sem séð verður.  „Af Núpnum er sjónlína á Bjargtanga“.

Sjónmál (n, hk)  Sjónlína.  Eingögnu notað með forsetningunni „í“.  Sjá í sjónmáli.

Sjónminni (n, hk)  Hæfileikinn til að muna glöggt það sem maður hefur séð. 

Sjónskarpur(l)  Hefur góða/skarpa sjón.

Sjónvarp (n, hk)  A.  Tækni til þráðlausra myndsendinga, tilkomin á síðari hluta 20.aldar.  B.  Tæki til að sýna mynd sem send er með sjónvarpstækni. 
Sjónvarpsútsendingar hófust hérlendis 30.09.1966, og fljótlega eftir það kom endurvarpstöð í Stykkishólmi og síðar var unnt að ná sjónvarpi á Patreksfirði.  Tæknimenn Rúv mældu skilyrði til sjónvarpsmóttöku á bæjum í Rauðasandshreppi og voru vonlitlir um þau vegna hins fjöllótta landslags; en sendingargeislinn þarf að komast nánast um sjónlínu.  Sumir bæir hreppsins gátu þó fljótlega náð sjónvarpi frá Patró, s.s. Kvígindisdalur, Tunga og Hænuvík.  Meðan sjónvrpslaust var á bæjum í Kollsvík var Kollsvíkingum oft boðið til vinafólks í Hænuvík eða að Tungu ef eitthvað það var á dagskrá sem sérlega þótti áhugavert.  T.d. fjölmenntu Kollsvíkingar að Hænuvík til að sjá leikritið Mann og Konu og fleira, og að Neðri-Tungu til að sjá fyrstu lendingu manna á tunglinu 20.07.1969.  Eftir að ríkið hafði nánast afskrifað sjónvarpsmóttöku í Útvíkum um aldur og ævi var leitað til þúsundþjalasmiðsins Ólafs Sveinssonar á Sellátranesi; líkt og endranær þegar eitthvað vandasamt þurfti að lagfæra.  Sá sjálfmenntaði töframaður vann svo það stórvirki við frumstæðar aðstæður og á eigin spýtur, að setja upp háreist loftnet á fjallsbrúnum til að ná merki frá Stykkishólmssendinum; leiða það mörghundruð metra leið að húsum og ná hljóði og mynd merkilega vel.  Hann smíðaði sjálfur greiður magnara og annað sem til þurfti og sýndi einstaka útsjónarsemi og seiglu.  Sjónvarp kom á Láganúp líklega 1970 eða 1971.  Það var löngum hrjáð af hinni miklu mögnun merkisins; t.d. kom oft norsk sjónvarpsstöð inná og truflaði.  Sjónvarpsgreiðan var uppi á Hjöllum, hjá Nónvörðu; reist á 8m langan staur.  Merkið var leitt heim í jarðkapli með mögnurum á leiðinni.  Móttakan varð fyrst truflanalaus á Láganúpi með tilkomu gervihnattadisks eftir aldamótin 2000.  Sjónvarp í Kollsvík kom fyrst í búskapartíð Hilmars Össurarsonar.  Með aðstoð Óla á Nesi reisti hann loftnet á brún Núpsins, ofan bæjarins; leiddi merkið í loftlínu niður og heim í bæ.  Sá búnaður var aflagður eftir að Hilmar brá búi.  Ólafur Sveinsson vann svipuð þrekvirki víðar um hreppinn; í Breiðavík; á Látrum; og á flestum bæjum á Rauðasandi.  Til að betrumbæta móttöku á Hnjóti setti hann upp endurvarpsstöð á Tunguhlíð sem hann smíðaði sjálfur.  Ein lárétt greiða tók á móti merki frá Patró en önnur lóðrétt sendi það áfram að Hnjóti.  Gekk stöðin fyrir orku frá rafgeymum, en áform hafði hann um virkjun lækjarsprænu í grenndinni.

Sjónvarpsgláp (n, hk)  Áhorf/gláp á sjónvarp.  „Fjórir bæir bættust við á árinu með sjónvarpsgláp nú rétt fyrir jólin, með ærnum tilkostnaði umfram tækjakaupin.  Fólk telur fénu ekki illa varið.  En skelfing er það þó landeyðulegt að sjá sveitafólk sitja auðum höndum öll kvöld.  En þetta kannske venst“  (ÞJ; Árb.Barð 1971).

Sjónvarpsgreiða / Sjónvarpskapall / Kóaxkapall / Sjónvarpsmagnari (n, kvk)  Tæki og tækjahlutar sem til þurfti svo unnt væri að ná sjónvarpsútsendingum í Útvíkum og víðar.  Sjónvarpsgreiða var loftnetið sem merkið nam; það var svo sent til bæjar um sjónvarpskapal; skermaðan „kóaxkapal“ með kjarna, en til að merkið dofnaði ekki á hinum langa flutningi var það magnað með sjónvarpsmagnara.  Sjá sjónvarp.

Sjónvilla (n, kvk)  Missýning; sýn sem ekki er raunveruleg.  „Ég hélt fyrst að þetta væri einhver sjónvilla, en svo sá ég að það fór ekki á milli mála að þarna var hrúturinn kominn“.

Sjópróf (n, hk, fto)  Réttarhöld og vitnaleiðslur sem halda þarf í kjölfar slyss á sjó, til að komast að og skrásetja rétta atburðarás, t.d vegna hugsanlegra saka eða bótaskyldu og til að geta fyrirbyggt endurtekningu.

Sjór (n, kk)  Ýmis merking:  Getur þýtt vökvann sjálfan; „ Hann hafði sopið allmikið af sjó þegar honum var bjargað“.  Getur þýtt haf; „Við björguðum bátnum undan sjó“.  Algengt í Kollsvík sem annað orð yfir brim; „Hann hefur haldið töluverðum sjó í tvær vikur samfellt“.  Getur einnig verið stytting úr brotsjór.  „Skipið fékk á sig sjó og laskaðist mjög“.  „Á nefndu haustu, laugardagsmorgun einn, var hryðjuveður, ótryggt skýjafar og allmikill sjór“ (PJ; Barðstrendingabók).  „Þó tókst Árna að forða honum frá stærstu sjóunum. ...  Bátnum var snúið leiftursnöggt, en hann var samt ekki orðinn fyllilega réttur er stór sjór reið undir“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Sjór á grasi / Sjóblautt á (orðtök)  Mjög blautt á grasi eftir náttfall/úrkomu.  „Það er enn hafsjór á; það þýðir ekki að hugsa til þess að hreyfa hey fyrr en líður á daginn“.

Sjór í miðjum hlíðum (orðtak)  Sú fjarlægð frá landi að neðri hluti fjallshlíða hverfur bakvið sjóndeildarhring sjávar í björtu veðri og frá lágreistu fari.  Líklega er þá komið langleiðina út í Víkurál frá Kollsvík.

Sjór undir þóftur (orðtak)  Svo mikill sjór kominn í bát að fylli uppundir þófturnar.

Sjór upp í miðja snældu (orðtak)  Sjór kominn inn í bát sem nær upp í miðja snældu (stoð undir þóftunni).  

Sjórekinn (l)  Rekinn af sjó á fjöru.  „Mikið af þarfaböndum fékkst úr sjóreknum flækjum; línum og færum sem tapast höfðu af línubátum“.

Sjóreyfari / Sjóræningi (n, kk)  Sjá fríbýttari.

Sjóréttur (n, kk)  A.  Réttarreglur sem gilda um siglingar.  B.  Sjódómur; réttur sem dæmir í sjóréttarbrotum.

Sjóriða (n, kvk)  Ósjálfráð tilfinning hjá sumum, einkum þeim sem óvanir eru á sjó, þannig að þeim finnst þeir enn vera í veltingi þegar í land er komið.

Sjórok / Særok (n, hk)  Sjódrífa; sædrífa; hávaðarok sem feykir miklu af sjó og sjólöðri uppá land eða yfir bát.

Sjóróðrar (n, kk, fto)  Róðrar; vertíð.  „Var hann farþegi og var á leið til sjóróðra í fyrsta sinn; ráðinn hjá Hákoni Jónssyni er þá var húsmaður á Stekkjarmel í Kollsvík“  (GG; Kollsvíkurver).

Sjórót (n, hk)  Særót; öldugangur; stórsjór; brim.

Sjóselta (n, kvk)  Selta sjávar; seltumósta sem sest á hluti.  „Sjóseltan er fljót að vinna á beru járninu“.

Sjósetja (s)  Setja á flot; setja fram; ýta úr vör.  „Nú þurfum við að fara að sjósetja áður en fellur meira út“.

Sjósetning (n, kvk)  Það að gera bát sjókláran, setja hann niður og ýta honum á flot.  „Í Útvíkum báru hásetar farbúnað á skip meðan formaður naglfesti.  Árar voru lagðar til lags; blöð andófsára lágu fram á söx en blöð miðskips- og austurúmsára aftur.  Mastur og segl lágu þannig að masturstoppur nam við hnýfil, en masturshæll við kollharð á miðskipsþóftu bakborðsmegin.  Aldrei mátti krossleggja barkann, sem kallað var; láta árar og mastur liggja í kross hvað ofan á öðru fram í barka.  Víða var skutur látinn ganga á undan í setningunni, nema ef brimaði; þá var borið við; þ.e. skipinu snúið sólarsinnis á landi.  Var það gert þar sem skip voru yfirleitt viðtakameiri að framan.  Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan.  Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu.  Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III). 

Sjósíða (n, kvk)  Sjávarsíða; svæði nærri sjó; strandsvæði.

Sjóskip (n, hk)  Bátur/skip í umræðu um hæfni til siglinga, og þá með lýsingarorði, t.d. gott,  fyrir framan.  „Vigga sigldi vel en var ekki gott sjóskip“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi). 

Sjóskór (n, kk, fto)  Hluti skinnklæða (sjá þar).  „Í hvert skipti er brók var klæðst varð ekki hjá því komist að binda skó á fæturna til hlífðar brókarsólum.  Voru það sjóskór nefndir.  Þeir voru vanalega gerðir úr sútuðu leðri, allþykku.  Einnig gerðir úr leðri er skorið var ofan af lélegum leðurstígvélum.  Þessir skór voru þjálli og fóru betu á fæti.  Þeir voru varpaðir með snæri og með því sama snæri bundnir yfir mjóalegginn“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Við brækur voru notaðir sjóskór úr sútuðu leðri, til að hlífa þeim við sliti“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Sjóskrímsli (n, hk)  Furðudýr úr sjó sem sumir segjast hafa séð á fjörum; þjóðsagnavera.  „Ekki eru til beinar sannanir fyrir því að sjóskrímsli hafi sést á Kollsvíkurfjörum, en sagðar voru sögur af mönnum sem töldu sig hafa orðið vara við slíkt.  Síðastur slíkra sjónarvotta var Gunnar Össurarson.  Hann sagðist eitt sinn hafa séð torkennilega veru á snövli í Langatangabótinni.  Sýndist honum það vera þeirrar tegundar sem nefnd hefur verið skeljaskrímsli, en þau eru svo vaxin skeljum að skröltir í þegar þau hreyfa sig.  Þoka var á þegar þetta var og dýrið lét sig hverfa í sjóinn þegar Gunnar nálgaðist.  Því komst hann aldrei svo nálægt að óyggjandi væri, en var sannfærður um tilvist sjóskrímsla þaðan í frá.  Þetta sagði Gunnar mér sjálfur“ (VÖ).

Sjóslys (n, hk)  Slys sem verður á sjó, t.d. drukknun manna eða bátur strandar eða ferst.  Fyrrum var líklega sjaldan eða aldrei notað orðið sjóslys, heldur önnur heiti;  t.d. bátstapi, drukknun, strand, skipsskaði o.fl.

Sjósmár (l) Sjólítið.  „Veður var suðvestan kafaldskóf, hæglætisveður en ylgja; sjósmár“ : Um strand togarans Croupiers undir Blakk, líkl. haft eftir GG;    (EÓ; skipsströnd í Rauðasandshreppi). 

Sjósókn (n, kvk)  Að sækja sjó; róa til fiskjar.  „Furðu gegnir hve fá slys urðu við sjósókn úr Kollsvíkurveri“.

Sjósóknari (n, kk)  Duglegur sjómaður.  „Hann var mikill sjósóknari; sjómaður hinn besti...“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).  „Þórarinn Bjarnason, gamall og þekktur sjósóknari úr Kollsvík sem ekki lét sér allt fyrir brjósti brenna... “  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „... en Jón faðir hans var mikill og áhugasamur sjósóknari“  (ÖG; Snæbj.J.Th; Árb.Barð 1980-90). 

Sjóstakkur (n, kk)  Olíustakkur; vatnsheldur stakkur til að verjast ágjöf og annarri vætu á sjó.  Á 20.öld tíðkuðust víðir og síðir stakkar úr striga og gerviefnum sem menn steyptu yfir höfuð sér.  Þeir vörðu líkamann niður á hné, fram á hendur og uppeftir hálsi.  Ef maður var jafnframt í klofstígvélum, sjóvettlingum og með sjóhatt, var hann þokkalega vel varinn fyrir pusi.  Síðar færðist heitið yfir á styttri stakka sem bornir eru við sjóbuxur; eru með hettu og allmiklu liðugri í notkun.

Sjóstígvél (n, hk, fto)  Upphá stígvél; klofstígvél.  „Ég skal ýta frá; ég er í sjóstígvélum“.

Sjóvanur (l)  Aðlagaður veru á sjó; hættur að finna til sjóveiki og sjóriðu.  „Þú verður orðinn sjóvanur eftir örfáa daga“.

Sjóveður (n, hk)  Veður til að fara á sjó; gæftir.  Lífsafkoma margra byggðist á sjósókn og því var fast sótt.  Kappið hefur þó furðu sjaldan borið glöggskyggnina ofurliði, en slys í Kollsvík voru sennilega sjaldgæfari en í öðrum verstöðvum.   „..þeir tóku daginn oftast snemma ef sjóveður var“  (FG; Niðjatal HM/GG).   „Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til þess að bræða veðrið...“ (KJK; Kollsvíkurver).  Eftirfarandi vísa er höfð eftir Ólafi E Thoroddsen Vatnsdal:
„Sýður á keipum sælöður;/ sönglar í reipum vindgustur;/ gnoðin hleypur graföldur;/ glettinn leikur hræsvelgur“   (ÓETh; LK;  Ísl. sjávarhættir III).
„Það er hagkvæmt að bóndi sjái innan úr húsi sínu hvað um er úti; hvort nokkur ferðast um eða kemur að garði; um tún sitt og engjar; fjós og fjárhús; hjalla og skipavör við sjó.  Þetta síðasta taka bændur á Vestfjörðum til vara og sjá þeir úr rúmi sínu hvort sjóveður er og hvað sjóarföllum líður“  (BH; Atli).  „Það er hæg norðlæg átt og bárulaust; ákjósanlegt sjóveður“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Sjóveðurslegur (l)  Líkt sjóveðri; nærri því sjóveður.  „Ekki sýndist mér hann mikið sjóveðurslegur þegar ég gekk hér útfyrir húshornið áðan“.  „Spáin er ekki sjóveðursleg næstu dagana; bölvaður norðansveljandi“!

Sjóveðurspá (n, kvk)  Spá um sjóveður.  „Ekki líkaði mér alveg þessi sjóveðurspá hjá honum“.

Sjóvegur (n, kk)  Ferð/leið á sjó; sjóferð.  „Fyrrum völdu menn oft að fara sjóveg milli staða, fremur en landveg.  T.d. voru aðdrættir frá Eyrum að mestu með þeim hætti“.  „Torfi sótti okkur á fjórum hestum. Eitthvað af dótinu fór sjóveg“  (JVJ; Nokkrir æviþættir). 

Sjóveiki (n, kvk) Ógleði sem sumir finna fyrir í veltingi á sjó; einkum óvanir.  „...fólkið var yfirleitt sjóveikt og ein stúlka verulega sjóhrædd“  (VÖ; sendibréf 1930)  „Eina viku reri ég með ömmubróður mínum Guðbjarti Guðbjartssyni... og brá svo við að þar um borð fann ég aldrei til sjóveiki“   (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Sjóveikiefni (n, hk)  Það sem eykur mönnum sjóveiki.  „Skelin var svo geymd í pokum þar sem sjór féll á hana, en þegar þetta fór að eldast drapst skelin og þetta varð úldið og blátt.  Varð þetta ekta sjóveikiefni þegar lyktin af þessu blandaðist saman við þefinn af brókunum sem verkaðar voru með lýsi eða grút“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Sjóveikur (l)  Með ógleði vegna veltings á sjó.  „Það var oft erfitt fyrir viðvaninga; sjóveika í byrjun, og kvalræði að fara með kúfiskinn“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Sjóvelktur (l)  Búinn að velkjast á/í sjó.  Yfirleitt notað um mann sem orðinn er þreyttur eftir langan dag á sjó en stundum um rekatré eða annað sem greinilega er búið að vera mjög lengi í sjó.

Sjóverk / Sjóvinna (n, hk, fto /kvk)  Hverskonar vinnubrögð sem lúta að sjósókn, veiði og meðferð afla.  Ekki oft notað í Kollsvík, enda voru þessháttar störf hluti af lifnaðarháttum; menn þurftu að vera jafnvígir á sjóvinnu sem bústörf.

Sjóvettlingar (n, kk, fto)  Þykkir prjónavettlingar, notaðir af vermönnum.  Sjá vettlingar og aðgerðarvettlingar.

Sjóvíkingur (n, kk)  A.  Fyrrum notað um sjóræningja/reyfara.  B.  Á síðari tímum notað um þann sem sækir sjóinn af miklu kappi og hræðist fátt.

Sjóvíti (orðtak)  Sá glæpur að viðhafa orð sem ekki má viðhafa á sjó, til að valda ekki slysum og höfmungum.  Hjátrú sjómanna var fyrrum rótgróin og hafði í aldanna rás magnast svo að hræðslan við ýmis hindurvitni varð jafnvel yfirsterkari hræðslu við stórsjó og illviðri.  Einkenni hjátrúarinnar voru einkum ófrávíkjanleg íhaldssemi í fornar venjur og hætti; allt varð að gerast eftir því sem áður hafði tíðkast.  T.d. varð ætíð að snúa báti með sól en ekki á móti, væri slíkt mögulegt.  Sjóferðabæn var ófrávíkjanleg og líklega hefur bænalestur verið viðhafður við ýmis verk á sjó, s.s. þegar færi var rennt.  Helstu sjóvíti voru þó þau að ekki mátti nefna sumar skepnur sínum nöfnum.  Þannig mátti ekki nefna fisk eða þorsk, því þá kom hann ekki á færi; heldur var talað um þann gula eða önnur dulheiti notuð.  Steinbítur var sá blái en hákarlinn var sá grái.  Alvarlegra var þó að nefna hval á nafn, því þá yrði bátnum örugglega grandað af honum.  Því urðu til ýmis dulnefni sem gengu meðal manna.  Sum þeirra urðu síðar sjálf að sjóvítum er fram leið, og þá voru fundin ný.  Þannig hefur líklega verið um orðið stökkull, svínfiskur, búrfiskur, búrhveli, hundur og köttur.  Þó dulnefni eða feluorð væru almælt meðal sjómanna voru þau einnig notuð í landi.  Því varð t.d. til orðið lágfóta yfir ref; afrás yfir flot/feiti og hóflax yfir hrossakjöt.  Orðið pokaönd yfir æðarkollu var notað á síðari tímum, eftir að bannað var að skjóta æðarfugl.

Sjóvolk (n, hk)  Þrekraun/hrakningar á sjó.  „3. júní 1758 var jarðsettur Guðmundur Ásbjörnsson; giftur; dó af sjóvolki“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Sjóvotur (l)  Blautur af sjó; sjóblautur.  „Farðu nú í stakkinn, svo þú verðir ekki sjóvotur“.

Sjóvott á (orðtak)  Rennandi blautt á grasi/jörðu.  „.. þegar á bjargbrún kemur er sjóvott á, en ekki er talið ráðlegt að fara í bjargið þegar blautt er um...“ (MG;  Látrabjarg).

Sjóþungi (orðtak)  Sver undiralda.  Venjulega fremur talað um „sjó“. „Það er enn nokkuð sver vestansjór“.

Sjúga sig (orðtak)  Um kýr; sjúga sína eigin spena.  „Það verður að setja júgurhaldara á Dumbu ef hún er farin að sjúga sig“.

Sjúga uppí nefið (orðtak)  Sjúga hor uppí nef og niður í kok, fremur en að spýta.  Getur einnig verið tjáningarfom, án þess að hor um hor sé að ræða.  „Það er lítið við þessu að gara annað en bíta á vörina og sjúga uppí nefið“.

Sjúkdómsgreina (s)  Greina sjúkdóm/veikindi/kvilla. 

Sjúkdómur (n, kk)  Veikindi; pest; kvilli.  „Læknar vita ekki enn hverskonar sjúkdómur þetta er“.

Sjúkleiki (n, kk)  A.  Sjúkdómur; lasleiki.  B.  Slæm árátta. „Þetta er einhver sjúkleiki á honum; að þurfa eilíflega að egna fólk uppá móti sér; jafnvel af engu tilefni“!

Sjúkrabeður (n, kk)  Rúm sjúks/veiks manns; kör.  Oftast í orðtakinu; liggja á sjúkrabeði.

Sjúkravitjun (n, kvk)  Ferð læknis eða þess sem hjúkrar/læknar til að fylgjast með líðan sjúklings.

Sjúskaður (l)  Þvældur; tuskulegur; illa útlítandi.  „Maður er orðinn hálf sjúskaður eftir þessa bjargferð“.

Sjöa (n, kvk)  Sjö í spilum.

Sjösofendadagur (n, kk)  27. Júní.  Messudagur sem í kaþólsku var tileinkaður sjö ungum mönnum sem sagt er að hafi sofið í sjö hundruð ár í helli við Efesus í Litlu-Asíu, til að losna undan ofsóknum Desíusar keisara um miðja 3.öld.  Var á þá heitið við svefnleysi og hitasótt.  Eins og margir kaþólskir messudagar var þessi dagur spádagur um tíðarfar.  Sú trú lifði mikið lengur en hin, og var tilvitnuð í Rauðasandshreppi út 20.öld.  Það veður sem er á sjösofendadag á að haldast næstu sjö dagana (sumir sögðu sjö vikur).

Sjöstirnið / Sjöstjarnan (n, kvk, m.gr)  Stjörnuþyrping í stjörnumerkinu Nautið; sem sýnist í fljótu bragði vera ein stjarna.  Menn með sæmilega sjón greina þó 6-7 einstaka stjörnur í henni, eða meira.  Greindar hafa verið a.m.k. 120 stakar stjörnur á myndum, en þær eru mun fleiri.  Fjarlægð frá okkar sólkerfi er um 400 ljósár.

Sjötti (num)  Raðtalan af sex.  Sumum var tamara að segja „sétti“, og heyrðist það framundir lok 20.aldar.

Sjöundármálið  Alræmdasta sakamál sem upp hefur komið í Rauðasandshreppi á síðari öldum.  Í lok 18.aldar bjuggu tvenn hjón á Sjöundá, sem er innsta býlið í hreppnum sé Skor frátalin, en bæði eru fyrir löngu farin úr byggð nú á dögum.  Á öðrum bænum bjuggu Bjarni Bjarnason og Guðgrún Jónsdóttir en á hinum Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir.  Steinunn þótti fríð sýnum og mikill kvenkostur en Jón fremur vílsamur.  Bjarni þótti ófyrirleitinn þó röggsamur væri, en Guðrún pasturslítil.  Áður en dró til tíðinda var nokkuð skrafað í sveitinni um samdrátt Steinunnar og Bjarna.  Í apríl 1802 hvarf Jón og voru leiddar líkur að því að hann hefði hrapað þegar hann var að sækja hey að Skor, en þar er um hættulegar skriður að fara.  Uppfrá því tók einnig að bera á veikindum Guðrúnar, og í júní sama ár lést hún.  Var þá hafin rannsókn á samdrætti Bjarna og Steinunnar; hvort þau gætu hafa orðið völd að láti sinna maka.  Sa grunur styrktist þegar lík Jóns fannst rekið á fjörur með grunsamlegum áverkum.  Var Einar Jónsson í Kollsvík skipaður opinber sækjandi í málinu þegar Guðmundur Scheving sýslumaður í Haga setti rétt yfir skötuhjúunum.  Þeir Einar og Guðmundur voru reyndar viðskiptafélagar; báðir áttu hlut í jaktinni Delphin.    Fór svo að þau voru dæmd sek í nóvember 1802, og skyldu líflátast fyrir morð á mökum sínum.  Bjarni var dæmdur fyrir að hafa unnið á Jóni með broddstaf en þau bæði fyrir að hafa eitrað fyrir Guðrúnu.  Eingir þeirra skyldu falla til kóngsins.  Þessi dómur var síðan staðfestur í Landsyfirrétti, en Einar og Guðmundur fengu snuprur fyrir misfellur í réttarfari.  Bæði voru þau flutt í hegningarhúsið í Reykjavík, sem þá gekk undir nafninu „Steinninn“, en er nú aðsetur Stjórnarráðs Íslands.  Bjarna tókst að strjúka úr fangavistinni í september 1804, en var handsamaður í Stafholtstungum og stungið aftur inn.  Næsta ár var dómurinn staðfestur af kóngi og skyldu þau þá flutt til Danmerkur til aftöku.  Steinunn lést hinsvegar í fangelsinu áður en að því kom; 36 ára að aldri.  Sú saga komst á kreik að fangavörðurinn; alræmdur danskur ruddi, hefði nauðgað henni og fyrirkomið henni þegar þungun fór að sjást á henni.  Sem dæmd manneskja mátti Steinunn ekki jarðast í kirkjugarði og því var hún dysjuð á Skólavörðuholti.  Þar hét lengi síðan Steinkudys, en síðar var þar reist Skólavarða og löngu síðar Hallgrímskirkja.  Vegfarendur höfðu það fyrir sið að kasta steini í Steinkudys, sem sýnir e.t.v. að í huga fólks naut hún nokkurrar samúðar.  Bjarni var hinsvegar fluttur með skipi til Björgvinjar í Noregi og tekinn þar af lífi; þá 43 ára.  Var hann síðastur Íslendinga fluttur út til aftöku.
Gunnar Gunnarsson ritaði skáldsöguna Svartfugl sem kom út 1929, og byggði hana á Sjöundármálum.  Ekki voru heimamenn í Rauðasandshreppi fyllilega sáttir við alla efnismeðferð þar, en enginn deildi um stílbragðið.  Í hugum manna í hreppnum hefur Steinunn alltaf notið nokkurrar samúðar og dómur alþýðunnar var sá að hún hafi í raun verið leiksoppur í höndum Bjarna í þessu morðmáli.
Sjöundá fór í eyði árið 1921.

Sjöviknafasta (n, kvk)  Sjá langafasta.

Skadda / Skaða (s)  Skaða; valda tjóni/skemmdum.  „Það skaðar ekki að rölta hér niður á kletthornið og spá í útlitið, en einhvernvegin leggst það í mig að það verði landlega í dag“.

Skaddaður (l)  Skemmdur; meiddur.  „Mesta furða var hvað karlinn slapp lítið skaddaður frá þessu hrapi“.

Skaða sig (orðtak)  Meiða/slasa sig.  „Skaðaðu þig ekki á hnífnum; hann er flugbeittur“.

Skaðaður (l)  Slasaður; meiddur.  „Ertu mikið skaðaður á höbbdinu eftir steinkastið“?

Skaðasár (l)  Sárt um sínar eigur; fárast yfir minnsta missi.  „Blessaður vertu nú ekki að telja það eftir þó hann hafi stolið brauðsneiðinni.  Þú mátt ekki vera svona fjandi skaðasár“!

Skaðbrenna (l)  Brenna til skaða/mjög illa.  „Kaffið var svo heitt að ég skaðbrenndi mig á því“. 

Skaðbrunninn (l)  Brunninn til skaða af eldi eða sól.  „Hann varaði sig ekki á sólarsterkjunni og er skaðbrunninn á bakinu“.  Orðabækur gefa upp myndina „skaðbrenndur“, sem ekki var notuð vestra.

Skaði er þó minna væri (orðatiltæki)  Þó tjónið væri minna væri það samt verulegur skaði.

Skaðkalinn (l)  Kalinn til skaða; með miklar kalskemmdir. 

Skaðlaus / Skaðlítill (l)  A.  Ekki/lítið skaðaður.  „Ég slapp skaðlítill frá þessum viðskiptum“.  B.  Ekki/lítt til skaða.  „Ég held að þessar töflur séu alveg skaðlausar; en líklega einnig gersamlega gagnslausar“.

Skaðlegur (l)  Til skaða; hættulegur.  „Þetta getur haft skaðleg áhrif á byggðina“.

Skaðræði (n, hk)  A.  Skaðsemi.  „Þetta getur haft ýmiskonar skaðræði í för með sér“.  B.  Skaðlegur hlutur; skaðleg skepna; skaðvaldur.  „Tófufjandinn getur verið bölvað skaðræði í lömbum“.

Skaðræðisbrim (n, hk)  Stólpabrim; öskrandi brim; mikill sjógangur.  „Gætið nú að ykkur þarna undir klettunum; það er skaðræðisbrim og flanið getur kastast ansi hátt“.

Skaðræðisbylur (n, kk)  Blindbylur; svo dimmur og hvass bylur að mannsskaði getur orðið af.

Skaðræðisgripur (n, kk)  Hættulegur hlutur/maður; mannýgt naut.  „Hentu þessum vasahníf; hann er skaðræðisgripur eftir að fjöðrin brotnaði“.

Skaðræðishávaði (n, kk)  Mjög mikill hávaði.  „Steinninn skall niður á hleinina stutt frá okkur, með skaðræðishávaða.  Við vorum í öruggu skjóli uppundir, en fundum fyrir flísum úr honum“.

Skaðræðishiti (n, kk)  Brennandi hiti.  „Skaðræðishiti er nú á kaffinu“!

Skaðræðishósti (n, kk)  Slæmur hósti; hrygluhósti með andköfum.  „Þetta er ljóti skaðræðishóstinn í þér“.           

Skaðræðiskjaftur (n, kk)  Sá sem er mjög orðljótur/kjöftugur/slúðurgjarn.  „Ég tek nú lítið mark á þeim skaðræðiskjafti; honum væri skammarnær að halda sér saman“!

Skaðræðiskvikindi / Skaðræðisskepna / Skaðræðisvargur (n, hk/kvk/kk)  Hættulegt dýr.  „Þessi hundfjandi hjá honum er skaðræðisskepna, þó karlinn fullyrði að hann bíti engan að fyrra bragði“!

Skaðræðisveður (n, hk)  Aftakaveður; mannskaðaveður.  „Það fer enginn milli bæja í þessu skaðræðisveðri“.

Skaðræðisöskur (n, hk)  Mikið/ógnvekjandi öskur.  „Hann rak upp skaðræðisöskur þegar hann sá þetta“.

Skaðsamt / Skaðvænlegt (l)  Skaðlegt; hættulegt.  „Þetta getur haft skaðvænlegar afleiðingar“.

Skaðsemi (n, kvk)  Tjón sem valdið er; það að valda tjóni.  „Hann var að tauta um skaðsemi pípureykinga“.

Skaðvaldur (n, kk)  Sá/það sem veldur skaða; skaðræði.  „Grasmaðkurinn getur verið árans skaðvaldur“.

Skaðvænlegur (l)  Hættulegur; háskalegur.  „Hætta skvettur skaðvænar;/ skilar léttu fari/ inn í kletta kjörið var,/ kólgu sléttir hrukkur þar“  (JR; Rósarímur). 

Skafa (n, kvk)  A.  Áhald til að skafa með, t.d. flórskafa; siklingur; málningarskafa.  B.  Það sem skafið er af.  „Hann tók eina sköfu með heflinum til að slétta yfirborðið“. 

Skafa (s)  A.  Hefla; skrapa.  „Þeir eru að skafa veginn yfir hálsinn“.  Viltu skafa fyrir mig rófu“?  Í fornu máli var einatt talað um að skafa við en ekki hefla.  B.  Skafa ösku af sviðum meðan sviðið er.  „Ætlar þú að skafa ef ég svíð“?.  C.  Renna snjó/sandi með jörðu.  „Hann er farinn að skafa töluvert.  Það er hætt við að einhversstaðar setji í skafla í þessu“. 

Skafa að (orðtak)  Skafa snjó uppað/ í kringum.  „Hafðu með þér reku ef mikið hefur skafið að hlöðudyrunum“.

Skafa á sér vangana (orðtak)  Raka sig.  Vísar til raksturs með rakhnífi eða rakvél með blaði.  „Maður ætti kannski eitthvað að skafa á sér vangana, ef við erum að fara í fína veislu“.

Skafa ekki utanaf því (orðtak)  Segja hreinskilnislega; segja sína meiningu.  „Hann var ekkert að skafa utanaf því þegar hann las þingmanninum pistilinn“.

Skafa í driftir/hryggi/rastir/skafla (orðtak)  Skafa snjó/sandi í litla eða stóra hryggi á sléttum fleti, s.s. vegi, en autt eða mun minni snjór á milli.  „Hann hafði skafið í driftir uppi í Jökladalshæðinni“.

Skafa svið (orðtak)  Skafa ösku af sviðum þegar sviðið er.  Getur þurft að endurtaka svíðingu nokkrum sinnum, og skafa á milli, þar til allt hár er sviðið af skinni.

Skafa úr eyrunum (orðtak)  Leggja betur við hlustir.  „Reyndu nú að skafa aðeins úr eyrunum; ég var að segja að þetta væri alrangt hjá þér“!

Skafaheiðríkja (n, kvk)  Algjörlega heiður himinn.  „Hann rignir ekki úr svona skafaheiðríkju“

Skafaheiðríkt (l)  Algerlega heiðríkt; ekki ský á himni.

Skafanki (n, kk)  Agnúi; galli; það sem ekki er í lagi.  „Hann taldi einhverja skafanka vera á þessu máli“.

Skafbylur (n, kk)  Skafmold með ofankomu.   „Við lentum í nokkuð blindum skafbyl á Aurtjörninni“.

Skaffa (s)  Sjá fyrir; útvega.  „Hann skaffaði fæði og húsnæði meðan á vinnunni stóð“.  Dönskusletta.

Skafheiðríkja (n, kvk)  Heiðskírt veður; ekki ský á himni; skafaheiðríkja.

Skafheiðríkt (l)  Algerlega heiðríkt; ekki ský á himni; skafaheiðríkt.

Skafheiður himinn / Skafið loft (orðtak)  Heiðskír himinn.

Skafi (n, hk)  A.  Skóf; það sem skafið er af.  B.  Einkum notað um lítið skýjafar á himni.  „Það sést varla skafi á himni“.  Sjá skafaheiðríkja.

Skafinn / Skafinn himinn / Skafheiður himinn (orðtak)  Heiðríkja; sést ekki ský á himni.  „Það er heldur betur breyting á eftir fúlviðrið; kominn rífandi þurrkur og skafinn himinn“.  Stundum bara: „Hann er alveg skafinn núna“.

Skafl (n, kk)  A. Snjóskafl.  „Það er kominn firnamikill skafl í Hæðarendann“.  B.  Stórt grunnbrot; grunnskafl.  C.  Broddur á skeifu hests / skaflaskeifu.  D.  Tönn í kjafti hákarls.

Skaflajárn / Skaflaskeifa (n, hk/kvk)  Skeifa á hest, með broddum til að gera hestinn stöðugri á ís/klaka. 

Skaflajárna (s)  Setja skaflajárn/skaflaskeifur undir hest.

Skaflar af sandi (orðtak)  Dyngjur af skeljasandi sem sest hefur til í miklu sandfoki.  „Eftir norðanbálið voru skaflar af sandi ofanvið öll hús á Láganúpi; uppi á Flöt og í garðinum.  Einnig sumsstaðar úti á Hnífum“.

Skaflaskil (n, kvk, fto)  Bil/skil á milli snjóskafla.  „Miðbrekkan er ein þykk snjódyngja; þar er ekki hægt að segja að séu nein skaflaskil“.

Skaflbrún / Skafljaðar / Skaflrönd / Skaflþil (n, kvk/kk)  Hlutar skafls/snjóskafls. „Fannir hafa engar verið síðustu áratugina miðað við það sem algengt var á vetrum áður.  T.d. lagði iðulega svo háa skafla sunnanvið Láganúpsbæinn að krakkar gerðu þar veglega snjóhella.  Dyrnar í skaflþilinu voru svo háar að vel var gengt fullorðnum“.

Skafmold  (n, kk)  Skafrenningur; renningur.  Einnig; skafmoldarbylur og skafbylur.

Skafmoldarbylur (n, kk)  Skafbylur; skafhríð; hvass vindur með ofankomu og miklum skafrenningi.  „Við lentum í bölvuðum skafmoldarbyl á Hálsinum; svo dimmum að það sá ekki útúr augum um tíma“.

Skafmoldarkóf (n, hk)  Þétt skafmold.  „Mikið er gott að komast inn úr þessu skafmoldarkófi“.  Sjá moldarkóf.

Skafmoldarmökkur (n, kk)  Dimm og háreist skafmold.  „Skafmoldarmökkurinn byrgði alla sýn“.

Skafrenningur (n, kk)  Skafmold.  „Það er töluverður skafrenningur; hætt við að safnist fljótt í skafla“.  „Á Látraheiði er þokusamt og oft skafrenningur á vetrum og villugjarnt“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Skaft (n, hk)  Handfang; stöng.  T.d. hrífuskaft, hnífskaft, drifskaft o.fl.

Skaftlaus (l)  Með öngvu skafti.  „Það er langbest að nota í þetta skaftlausan skrúbb“.

Skaftpottur (n, kk)  Lítill pottur með skafti; kastarhola.

Skaftstuttur (l)  Með stuttu skafti.  „Hamarinn er bölvað ólán; svona skaftstuttur“.

Skaga (s)  Tróna; ná fram á eða upp.  „Barð heitir núna...brík,  skagandi fram á sjó útúr Bjarginu“  (MG; Látrabjarg).

Skagi (n, kk)  Sá hluti landslags sem gengur fram; aðskilinn frá öðru með t.d. sjó.  „Rauðasandsheppur er nafn skagans syðst á Vestfjörðum; milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar“.

Skak / Skakveiðar (n, hk/kvk)  Skak merkir í raun endurtekin hreyfing fram og til baka/ upp og niður, en er vanalega notað um tiltekinn veiðiskap.  Veiðar með haldfæri/handfæri; það að dúa handfæri til ginningar fiski.  Fyrir daga skakrúlla var skakað með færi; línu með krók/slóða og pilk/sökku í enda.  Færinu var rennt til botns á fiskimiði og dregið fljótt fáeinar álnir upp aftur; tekið grunnmál, til að ekki festist í botni.  Skakað var kulmegin á báti; þ.e. vindmegin, þannig að færið leggðist ekki undir kjöl.  Stundum var höfð vaðbeygja á borðstokknum til að hlífa honum.  Færinu var síðan skakað með því að draga það í ákveðinni sveiflu með annarri höndinni og láta síga aftur.  Misjafnt er hvaða lag menn hafa við skakið.  sumir dúa færinu mjög létt og skaka stutt, meðan aðrir skaka langt; taka jafnvel bakföll.  Mikilvægt var talið, ef reyna átti við lúðu, að taka stutt grunnmál og dúa færinu mjög létt nærri botni; jafnvel hafa beituna hreyfingarlausa um tíma.  Krakkar sem skökuðu stutt voru sagðir mjólka tík.  Þegar fiskur fór að narta var e.t.v. breytt skaklagi og reynt að tryggja að hann yrði vel fastur, jafnvel kokgleypti.  Fyrir kom að hann var þverhúkkaður.  Ef fiskað var með fleiri krókum á sama færi; með slóða, var reynt að fá sem flesta í einum drætti, einkum ef fiskur var undir; var viljugur; var við, eða var jafnvel kolvitlaus.  Þá hljóp á snærið.  Síðan var kappsmál að vera fljótur að innbyrða fiskinn, krækja honum af og hafa úti aftur.  Síðan var fiskurinn blóðgaður, en ekki var hann slægður fyrr en haft var uppi (hlé varð á veiðum eða á landróðri/landstími.  Fyrir kom, einkum ef kapp var í mörgum veiðimönnum á sama báti eða straumur/vindur var verulegur, að færin færu í færaflækju og þurfti þá að hafa uppi með tilheyrandi töfum.  Tilgangslítið þótti að skaka ef færin fóru á glæ, glæjaði, í miklum straumi, og var þá frekar beðið liggjanda; fallaskipta.  Þá var hankað uppi; þ.e. færið gert upp í hönk.  Tíminn var jafnvel nýttur til að kippa dálítið; færa sig um set áður en rennt var aftur og tekið rek; þ.e. látið reka yfir sjávarfall.  Fiskur gat verið undir þó komið væri út af hefðbundnum miðum.  Oft var rennt í ger; fuglager; þ.e. þar sem fugl hópaðist saman til að grípa síli í yfirborðinu í mikilli sílferð, en fiskur sækir gjarnan í sama veisluborð.  Það ger sem þá stóð uppi gat verið mávager eða svartfuglsger.  Fyrsti fiskur veiðimanns var maríufiskur og átti að gefa hann fátækum.  Fyrir kom að ódráttur kom á færið, s.s. marhnútur.  Það þótti til háðungar en jafnvel var verra að koma með öngulinn í rassinum; þ.e. koma fisklaus úr róðri.  Hinsvegar var það happadráttur ef hljóp á snærið lúða; spraka.  Þá þurfti að beita þolinmæli og lagni til að leyfa henni að kokgleypa krókinn.  Þungt gat verið að draga og ekki mátti slíta úr.  Lúðan gat tekið uppá því að strika; þ.e. synda til hliðar af miklu afli og þá þurfti jafnvel að hafa úti (árar) til að létta á færinu.  Þegar upp kom var mikilvægt að hafa ífæru (stóran krók) tilbúna til að færa í lúðuna og helst líka góðan gogg til að innbyrða hana. 

Skaka / Skaka fyrir fisk (s/orðtak)  Skaka á skakfiskveiðum.  „Byrjað var að skaka fyrir smáfisk uppi í þaragarði“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Það var norðurundir Blakknesinu; grunnt nokkuð, og þar var tekið til að skaka. ...  „Dagbjartur Björgvin skakaði þá í krafti og gekk illa“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Skakari (n, kk)  Sjómaður sem stundar skakveiðar.

Skakbátur (n, kk)  Bátur sem einkum er gerður út til skakveiða.  Fyrrum, meðan veiðar voru eingöngu stundaðar með skaki, var þetta orð ekki notað, heldur rætt um t.d. báta, skektur, för eða róðrarbáta.

Skakk (ao)  Ská; snið; til hliðar.  „Gættu að því að spottinn liggur dálítið á skakk í lásnum“.  „Hann var með derhúfuna á skakk, og töldum við það ekki góðs viti“.

Skakka / Skakka litlu/miklu (s/orðtök)  Setja á skakk; halla; muna; búa til skekkju.  „Það skakkar ekki svo miklu hvort við förum í dag eða á morgun“.

Skakka leikinn (orðtak)  Stilla til friðar.  „Þeir ætluðu að fara að fljúgast á, en ég hljóp til og skakkaði leikinn“. 

Skakkafall (n, hk)  Bára sem kemur skáhallt að landi.  „Við lendingu er ár rennt út í skutnum til að varna því að bátinn fletji, því skakkafall var oft með sandinum“ (IG, Niðjatal HM/GG)

Skakkar skyrtuþykktinni (orðtak)  Munar mjög litlu; ber sáralítið á milli.  „Það rétt skakkaði skyrtuþykktinni að ég næði að grípa fötuna áður en hún fauk framaf“.  Vísar e.t.v. til samfara manns og konu.

Skakkeygður (l)  Með skásett augu.  „Hann var sannfærður um að í fyrra lífi hefði hann verið skakkeygður hrísgrjónaræktandi í Austurlöndum“.

Skakkhyrnd (l)  Um kind; með ósamhverf/skökk horn; með annað horn frábrugðið hinu.  „Sú skakkhyrnda er óheimt ennþá“.  Einnig notað um hornskökk hús o.fl; til er hús í Örlygshöfn sem heitir Skakkhyrna.

Skakki (n, kk)  A.  Mismunur; skekkja.  „Það þyrfti að rétta af mesta skakkann á þessu“.  B.  Prjónuð þríhyrna; þríhyrndur höfðuðklútur; þríhyrnt segl.  „Konan er líka illa klædd; hafði bundinn skakka um herðar sér af mórauðu ullarbandi, með hvítan bekk að neðan“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).

Skakklappalegur (l)  Ólaginn/ófimur í fótaburði; hrösull.  „Ári var maður eitthvað skakklappalegur í lásnum; Ég held maður sé bara farinn að eldast“!

Skakklappi (n, kk)  Gæluorð yfir þann sem er með bæklaðan fót/ lélegur til gangs; fúinnfótur.

Skakklappast (s)  Þvælast; skenglast; ganga með erfiðismunum.  „Ég skakklappast þetta nú einhvernvegin“.

Skakkur (l)  A.  Hallandi; ekki rétt vísandi miðað við annað.  „Mér sýnist staurinn vera dálítið skakkur“.  B.  Rangur.  „Nú tók ég skakkan hníf með mér“.

Skakkur og skældur (orðtak)  Mjög aflagaður/beyglaður/skekktur. 

Skakkyrðast (s)  Deila; rífast; verða sundurorða; fúkyrðast.  „Hann fór eitthvað að skakkyrðast yfir því að hrognasigtið væri ekki á sínum stað, svo ég minnti hann á hver ætti það“.

Skakstur (n, kk)  Hristingur; þvælingur.  „Hún var orðin svo lasburða að hún treysti sér ekki í skaksturinn á þessum holóttu vegum“.  „Það er bölvaður skakstur hérna í röstinni“ .

Skakveður (n, hk)  Veiðiveður; veður  til skakveiða.  „Þetta er eiginlega ekki orðið neitt skakveður lengur“.

Skal hengja mig uppá (orðtak)  Er tilbúinn að leggja mikið undir; er alveg sannfærður um.  „Ég skal hengja mig uppá það að nú er hann eitthvað að plata okkur“!  Sjá þori að hengja mig uppá.

Skal út með (orðtak)  Skal láta af hendi; skal segja frá.  „Ef hann greiðir eftir eindaga þá skal hann út með dráttarvexti í ofanálag“!  „Vildi hann ekki segja frá því; ja hann skal nú út með það“!

Skall hurð nærri hælum (orðtak)  Um atvik sem nærri varð að tjóni/slysi.  „Þar skall hurð nærri hælum; ekki hefði verið gaman að lenda í þessu broti“!

Skall (nú/þar) þeim sem skyldi (orðatiltæki)  Sá hlaut skell/ráðningu sem átti það skilið.  Forn speki.

Skalli (n, kk)  A.  Hárlaus blettur þar sem hár er allajafna.  Oftast átt við hárlausan blett á höfði sumra karlmanna. „Skalli er algengur í Kollsvíkurætt, þó sumir kjósi að nefna það fremur há kollvik“.  B.  Aftari endinn á haus ásláttarverkfæris, s.s. hamars og axar; sé hann þver fyrir.  Fremri endinn nefnist munni.

Skamma (s)  Ávíta.  „Það þýðir ekkert að skamma mig fyrir þetta.  Það er ekki mér að kenna“.

Skamma blóðugum skömmum (orðtak)  Skamma/ávíta mjög mikið.  „Ég skammaði hann blóðugum skömmum fyrir athæfið“.

Skamma eins og kvikindi (orðtak)  Húðskamma; skamma/ávíta mjög mikið.  „Ég var skammaður eins og kvikindi, enda voru flestir fundarmenn á öndverðri skoðun“.  Vísar til þess að skamma óhlýðinn hund.  Sjá eins og kvikindi, um það að veðrða gegnblautur.

Skamma heim / Skamma í burtu (orðtak)  Um hund; skipa honum að fara him eða reka hann frá.

Skamma hríð / Skamma stund (orðtök)  Í/yfir stuttan tíma.

Skamma sig upp (orðtak)  Vinna sér til óhelgi; gera skammarstrik.  „Nú hefur hann eitthvað skammað sig upp við frúna, fyrst hann fer á aðra bæi að sníkja sér að éta“.

Skamma stund verður hönd höggi fegin (orðatiltæki)  Vísar til þess að menn dofna stundum fyrst þegar slegið er á hendi, en finna síðan til sársauka.  Á sama hátt getur annað mótlæti virst skaðlaust í fyrstu; áður en menn átta sig á afleiðingunum.

Skamma til óbóta (orðtak)  Skamma mjög mikið; hella sér yfir.  „Mér dettur ekki í hug að hjálpa til ef maður er svo bara skammaður til óbóta fyrir smávægilegustu mistök“!

Skammarkornið (n, hk, m.gr)  Áhersluorð í neikvæðum setningum:  „Nei skammarkornið; heldurðu að þetta geti verið rétt“?  „Ég held skammarkornið ekki“.  Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur.

Skammarkornið það ég veit / Skammi mig að ég veit / Skammi það ég veit (orðtak)  Ég get bara alls ekki munað (vitað) það.  „Það slapp eitthvað af fé norður í Hryggi, en skammi mig að ég veit hvað það var margt“.

Skammargrey / Skammarkvikindi / Skammarræfill / Skammarskarn / Skammartuska / Skammarskinn (n, hk/kk/kvk)  Gæluheiti sem einkum eru höfð um kött, en stundum um aðrar skepnur einnig, og jafnvel í vorkunnartóni um börn.  „Ég gat ekki verið að skamma kattaróvænið; henni er það ekki láandi skammarskarninu þó hún fari í fiskinn ef hann er skilinn eftir óvarinn“!

Skammarlega (l)  Smánarlega; til lítilsvirðingar.  „Réttu mér kaffiflöskuna mína Gauji!  Þetta var svo skammarlega lítið sem strákurinn gaf mér í morgun“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Skammarlegt (l)  Til skammar; smánarlegt.  „Mér finnst skammarlegt hvernig staðið var að þessu“!

Skammarnær (l, mst)  Hefði verið hyggilegra/betra.  „Ekki skil ég í þessu útstáelsi á drengnum um helgar.  Honum væri skammarnær að halda sig betur náminu; ekki mun af veita“! „Þér hefði verið skammarnær að búa þig betur áður en þú fórst út.  „Honum hefði verið skammarnær að gá til veðurs áður en hann setti niður“.  Einnig nær.  „Átti Guðrún að hafa sagt við mann sinn (Einar Jónsson í Kollsvík)  að „skammarnær hefði honum verið að láta Gunnar (lausaleiksbarn Einars) aldrei í burtu en að taka við honum horuðum og máttvana“ “  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Skammarorð / Skammaryrði (n, hk)  Stuttar skammir.  „Einhver skammarorð lét hann víst falla, en var þó ekki tiltakanlega reiður“.  „Hann notaði þetta saklausa orð eins og hálfgildings skammaryrði“.

Skammarræða (n, kvk)  Reiðilestur; miklar skammir.  „Þeir fengu víst að heyra magnaða skammarræðu þegar þetta komst upp“. 

Skammarskot (n, hk)  Feilskot; skot sem ekki hæfa.  „Þetta eru nú orðin fjári mörg skammarskot í röð“.  Orðið var alloft notað þar þegar skot geigaði við mávaskytterí.  Þekktist annarsstaðar án „r“.

Skammarstrik (n, hk)  Óknyttir; hrekkur; óleyfileg athöfn.  „Ósköp eruð þið undirfurðulegir og þegjandalegir strákar.  Voruð þið að gera eitthvað skammarstrik“?

Skammarverðlaun (n. hk, fto)  Óvirðing sem þeim er sýnd sem tapar oftast, þegar spiluð er félagsvist.  „Oft var spiluð félagsvist á spilakvöldum í Fagrahvammi.  Í lok kvöldsins voru veitt vegleg aðalverðlaun og mun óverulegri skammarverðlaun, en þó ekki þannig að óvirðing væri að“.

Skammarvísa (n, kvk)  Tækifærisvísa sem kveðin er í áminningarskyni.

Skammast sín (niðurfyrir/ofanundir allar hellur) (rðtak)  Skammast sín mjög mikið.  „Við skömmuðumst okkar niðurfuyrir allar hellur fyrir þennan hrekk“.

Skammast til (orðtak)  Drattast til.  „Ég held honum væri nær að skammast til að vinna heldur en að leika sér“.

Skammbitasperra (n, kvk)  Sperra í húsþaki, sem hefur skammbita sér til styrkingar, en liggur ekki á mæniási.  „Í húsþökum í Kollsvík á síðari tímum voru skammbitasperrur algengari en ásaþök, þó þeu þekktust einnig“.

Skammbiti (n, kk)  Þverbiti sem liggur ofarlega á milli gagnstæðra sperruleggja í húsþaki sem ekki hefur mæniás.  „Upp á skammbitann í Mókofanum var skotið hrífum; orfum og öðrum amboðum til geymslu“.

Skammdegi (n, hk)  Vetrardagar með stuttri dagsbirtu.  „“Suðvestan stórviðri var skollið á, skammdegisnóttin í aðsigi, langt til lands og leiðir ókunnar og skerjóttar...“  (BS; Barðstrendingabók).  „Fyrst á haustin var setið í rökkrinu og prjónað.  Þegar kom fram á skammdegið lagði eldra fólkið sig í rökkrinu  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Skammdegisbirta (n, kvk)  Skammæ dagsbirta í skammdeginu.

Skammdegismyrkur (n, hk)  Myrkur í skammdeginu.  Áðurfyrr vann fólk margskonar vinnu í skammdegismyrkrinu til að spara ljósmetið.

Skammdegisvonleysi (n, hk)  Vonleysi/svartsýni sem grípur suma í mesta skammdeginu/ að vetrarlagi.  „Þetta var ekkert skammdegisvonleysi, heldur gert þegar sól var hæst á lofti og bjartsýni á best með að njóta sín“  (ÞJ; Árb.Barð 1968).

Skammdrjúgur (l)  Skammvinnur; ekki drjúgur/mikill.  „Við þurfum að hafa með okkur meira bensín; það er hætt við að þessi sopi verði skammdrjúgur sem á tanknum er“.

Skammfeila (s)  Klikka; bregast.  Einkum notað þegar skot hleypur ekki úr byssu þegar skotið er, eða ef skotið geigar illilega.

Skammfeila sig (orðtak)  A.  Gera mistök; rugla; víxla.  „Nú skammfeilaði ég mig alveg á þessu; ég setti lifrina ofaná mörinn í kassanum“.  B.  Skjóta skammarskot; skjóta framhjá.  „Ég skammfeilaði mig illilega þarna“!

Skammfeilaður (l)  Um taug/vað/rafstreng; trosnaður/skorinn/bilaður/veiklaður/leiðir út.  „Þið yfirfarið vaðina vel áður en þið setjið mann í þá; hvort þeir eru einhversstaðar skammfeilaðir“.  „Einhversstaðar er rafstrengurinn skammfeilaður; öryggið fyrir hænsnakofann brann yfir“. 

Skammfeill (n, kk)  Bilun/veiklun í vað; skammhlaup í rafleiðslu.  „Hér er skammfeill á einum þætti í vaðnum“.

Skammfæra (s)  Gera lítið úr; gera til skammar.  „Karlinn, kominn hátt á sjötugsaldur, skammfærði alla unglingana þegar hann stakk þá af í kapphlaupinu“.

Skammgóður vermir (orðtak)  Dugði ekki lengi; hrökk ekki langt.  „Það reyndist skammgóður vermir þessi sólarglenna í gær; komin grenjandi rigning í dag“.  Vermir er þarna hitagjafi; gæti verið átt við steina sem hitaðir voru og settir undir rekkjuvoðir hjá mönnumtil að hlýja þeim; t.d. eftir ofkælingu.  Sjá vermisteinn og það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn.

Skammi mig (orðtak)  Svei mér.  „Ég held að þetta hafi skeð í fyrra, en skammi mig að ég man hvaða dag það var“!  Vísar líklega til þess, líkt of „svei mér“, að fyrr á tímum var rík sú trú að fólk ætti von á ávítum og reiði guðs fyrir hinar minnstu yfirsjónir.

Skammi það / Skammi sú ögn (-in) (orðtak)  Það er svo eiðfært; ég segi það alveg satt.  „Einhvern afla fengu þeir, en skammi sú ögn að ég veit hvað það var mikið“.  „Skammi sú ögn að hér sé nokkur rigning; það er lítið að marka spána“!  Ekki sést að þetta hafi verið notað annarsstaðar.  Sjá ögn.

Skammir (n, kvk, fto)  A.  Ávítur; ádrepa.  „Hann fékk óbótaskammir þegar hann kom heim“.  B.  Óæskilegur verknaður; hrekkir; skemmdarverk.  „Ég er hræddur um að hundurinn hafi gert einhverjar skammir af sér; mér sýnist hann vera að naga skó úti á hlaði“.

Skammlaust (l)  Án skammar/mistaka; sómasamlega.  „Mikið getur sumum körlum gengið illa að hitta skammlaust á klósettið þegar þeir míga“!  „Ég var orðinn það sterkur að ég gat hæglega snúið fugl skammlaust.“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Skammlífur (l)  Sem lifir/varir ekki lengi; skammær; skammvinnur.

Skammrif (n, hk)  Hluti ketskrokks sem hlutaður hefur verið með fyrra laginu.  Þá var skrokkurinn fyrst sagaður þversum, þannig að aftari hlutanum, krofinu, fylgdu 2-4 rif.  Af framhlutanum voru teknir bógar og sagaður bringukollur, en það sem eftir var nefndist skammrif.  Sjá böggull fylgir hverju skammrifi.

Skammrifsbrók (n, kvk)  Frampartur af sauðkind, í verkun með sérstakri aðferð áður en hann er settur í reyk:  „Fyrir sláturdaginn var afi minn búinn að útbúa litla trénagla sem hann notaði til að verka hangiketið í salt.  Það var saltað nýslátrað, stráð í það volgt og staflað í stæðu.  Tekið var í reyk helst geldfé; gjarnan valið vænt fé.  Tekin voru krof af því; þ.e. skrokkurinn tekinn í sundur þvert aftan við bógana og læri, hryggur og síða saltað í heilu lagi.  Svo var framparturinn klofinn eftir hrygg og þá fór hann afi að nota tréþollana sína.  Skorið var inn með herðablaðinu í einskonar vasa, og þar var sett salt inn í vasann.  Svo var nælt fyrir með trénöglunum svo saltið rynni ekki úr þessum vasa.  Þetta var gert til þess að öruggt væri að saltaðist jafnt um þetta þykka stykki.  Þetta var kallað skammrifsbrók“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).   

Skammt stórra högga á milli (orðtak)  Stutt á milli stórra/mikilla atburða. 

Skammsýni (n, kvk)  Fyrirhyggjuleysi; ekki hugsað til langs tíma.  „Mér finnst það nokkur skammsýni að gera þetta svona.  Þetta er bara eins og að pissa í skóinn sinn“!

Skammsýnn (l)  Fyrirhyggjulaus; sem hugsar ekki langt fram í tímann.  „Sjaldan er skammsýnn skaðlaus“.

Skammt er milli lífs og dauða (orðatiltæki)  Speki sem alltaf á við þegar dauðinn er nálægur, en hefur þó líklega staðið Kollsvíkingum nær fyrr á tímum, þegar sjór var stíft sóttur á litlum fleytum fyrir opnu hafi.

Skammt er/mun skells að bíða (orðatiltæki)  Ekki mun þurfa að bíða lengi eftir óláni/óveðri/áfalli.  „Skammt mun skells að bíða; hann er að ljókka hratt núna“.

Skammta (s)  Úthluta; útbýta.  „Heldur þykir mér naumt skammtaðar fjárveitingar í þessa vegarspotta“.

Skammta (skít) úr hnefa (orðtak)  Skammta naumt; gefa lítinn skammt.  „Það þýðir ekkert að skammta þessa aðstoð úr hnefa“.  „Þeir ætla að skammta þetta eins og skít út hnefa“!

Skammtur (n, kk)  Það magn sem skammtað/úthlutað er.  Fyrr á tímum var orðið einkum notað um matarúthlutun/skatt á máltíðum/málum.  Húsfreyja hafði öll matarvöld á hverju heimili og var á hennar ábyrgð að láta þann mat endast sem heimilinu var tiltækur. 

Skammt er milli lífs og dauða (orðatiltæki)  Vísar til þess hve lífið er stutt; hve dauðinn getur komið óvænt; hve lífið getur stundum hangið á bláþræði.

Skammt er milli skitins og óþvegins (orðatiltæki)  Vísar líklega til þess að sá sem er óhreinn geti einnig verið ómerkilegur og illa siðaður að eðlisfari.  

Skammt er oft milli hláturs og gráts (orðatiltæki)  Sjá oft er skammt milli hláturs og gráts.

Skammt er öfganna á milli (orðatiltæki)  Vandratað er meðalhófið; oft er ekki langt úr einum öfgunum í aðra.

Skammvinn er óhófs ævin (orðatiltæki)  Gömul sannindi sem þó hafa æ betur sannast á síðari tímum.  Óhófslifnaður, t.d of mikil neysla óholls fæðis, drykkjuskapur og vímuefnaneysla legga sístækkandi hlutfall fólks inn á stofnanir og í gröfina.

Skammvinnur (l)  Varir stutt; stendur stutt yfir.  „Heldur4 finnst manni þetta skammvinnur þurrkur“!

Skammær (l)  Sem varir stutt.  „Ég hafði töluverðan verk í þessu fyrst á eftir, en hann var skammær“.

Skandalisera (s)  Gera skammarstrik; valda hneyksli.  „Hann var þá að skandalisera á þorrablótinu að vanda“!

Skandall (n, kk)  Hneyksli; óþverraháttur.  „Mér finnst það hreinn skandall hvernig þeir haga sér“.

Skanderast (s)  A.  Kveðast á (sjá þar).  B.  Í Kollsvík var merkingin þrengri og merkti að kasta kersknisvísum á milli manna; sem sumar gátu verið nokkuð grófar en aðrar voru háðvísur eða góðlátlegt grín.  Stundum var orðið notað um jag/hnútukast/þrætur milli manna þó ekki væri í bundnu máli.

Skankaband (n, hk)  Lykkja/hringur úr grönnu garni/seglgarni sem brugðið er afturfyrir banakringluna á kjötskrokki strax eftir slátrun og verkun, og framfyrir völuna á hvorum skanka/framfæti, til að skrokkurinn stirðni í þeim stellingum.

Skankalangur (l)  Útlimalangur; með langar hendur.  „Þú mættir gefa einu fangi færra en ég á jötuna; þú ert svo ári skankalangur og tekur meira í hverju fangi“.

Skanki (n, kk)  A.  Útlimur; hand-/fótleggur.  „Réttu út skankann svo ég geti mælt hvort peysuermin sé orðin nógu löng“.   B.  Það sem skagar útúr.  „Upp með Kinninni er skanki sem kallaður er Tranthali“  (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur).  „Það þyrfti að raka mestu skankana inn að flekknum, svo hægara sé að rifja“.  Sjá teygja skanka sína; teygja úr skönkunum.

Skans (n, kk)  Virkisveggur; virki.

Skapa sér aldur / Stytta sér aldur (orðtak)  Fremja sjálfsmorð; taka eigið líf.

Skapadægur (n, hk)  Dánardægur sem hverjum er áskapað samkvæmt forlagatrú. „Enginn flýr sitt skapadægur“.  „Þarna hafði nátttröllið mætt sínu skapadægri þegar sólin kom upp að morgni“. Sjá förlög; örlög; áskapað.

Skapalón (n, hk)  Mót til formunar á smíðagrip, t.d. báti.  „Gaman hefði verið að eiga skapalón af Rutinni, sem Óli á Nesi smíðaði fyrir Össur og Ingvar í Kollsvík.  Hún var listasmíð í alla staði; burðarmikil; góður sjóbátur; gangmikil og létt í setningu“.

Skapanornir (n, kvk, fto)  Örlaganornir; örlagagyðjur; vættir sem í mörgum fornum trúarbrögðum voru taldar ráða örlögum manna.  „Þessu fári verst í vök/ veldið trölla forna./  Þaðan koma ragnarök;/ reiði skapanorna“ (JR; Rósarímur).  Sjá forlög; örlög.

Skapbráður / Skapstyggur (l)  Örgeðja; fljótillur; ör.  „Honum hætti stundum til að vera nokkuð skapbráður“.

Skapfellt / Skapfellilegt (l)  Það sem er manni að skapi; það sem manni fellur við/ líkar vel.  „Honum var það ekki vel skapfellt, en samþykkti það þó“.

Skapferli / Skapgerð / Skapsmunir (n, hk)  Geðslag; eðli; karakter.  „Að sumu leyti hef ég líklega erft skapferli föður míns“.

Skapgerðareinkenni (n, hk)  Persónugerð; lyndiseinkunn.  „Hver hefur sitt skapgerðareinkenni“.

Skaphundur / Skapofsamaður / Skapvargur (n, kk)  Sá sem er fljótur að reiðast heiftarlega/ verður bráðillur.  „Hann er óttalegur skaphundur; fljótillur með afbrigðum“.  „Það er vissara að fara gætilega í sakirnar við slíka skapofsamenn“.

Skaphöfn (n, kvk)  Skapgerð; lyndi.  „Hann var hinn mesti sómamaður, bæði að tryggð og allri skaphöfn“.

Skapi farinn (orðtak)  Með skapsmuni; lundaður.  „Ég er ekki þannig skapi farinn að ég sé neitt að erfa þetta“.

Skapi næst (orðtak)  Eftir skapi; í takti við skapið.  „Mér er skapi næst að fara í land ef hann gefur sig ekki til“.

Skapillska (n, kvk)  Geðvonska; ergelsi.  „Svona skapillska bætir ekkert ástandið“.

Skaplaus / Skaplítill / Skapmikill (l)  Sem skiptir sjaldan skapi; með mikið jafnaðargeð.  „Ekki held ég að hann sé alveg skaplaus, en mikill geðstillingarmaður“.

Skaplega (ao)  Sæmilega; vel; þokkalega.  „Hann ætlar að fara skaplega með veðrið í dag“.

Skaplegur (l)  Ágætur; sæmilegur; þokkalegur.  „Við fengum skaplegan afla hérna suður á Bæjunum“.

Skaplegheita veður (orðtak)  Ágætt/þokkalegt/meinlaust veður.  „Það er komið skaplegheita veður, svo við ættum að leggja af stað bráðlega“.

Skaplegt (l)  Sæmilegt.  „Enn er allt skaplegt með landtöku...“   (KJK; Kollsvíkurver).  „Veðrið er mun skaplegra núna en það var í gær“.

Skaplyndi / Skapsmunir (n, kk, fto)  Skapgerð; geðslag.  „Hans skapsmunum var svo farið að hann gat orðið mjög fljótillur, en það rauk jafn fljótlega úr honum“.  „Hann var dálítið erfiður á skapsmunum“.

Skapmaður / Skapsmunamaður (n, kk)  Maður sem er fljótur að skipta skapi/ reiðast; sá sem er er skapstirður/uppstökkur.

Skapmikill (l)  Fljótur að skipta skapi; reiðist auðveldlega; ekki með mikið jafnaðargeð/langlundargeð.

Skapnaður (n, kk)  Sköpulag; gerð; lögun. 

Skapofsi (n, kk)  Bræði; snögg og mikil reiði; ofstopi.  „Svona skapofsi gengur ekki ef menn ætla að semja“.

Skapraun (n, kvk)  Mæða; gremja; leiði; ami.  „Mér var nokkur skapraun að þessu framferði“.

Skaprauna  (s)  Ergja; móðga; reita til reiði.  „Þeir gerðu það sem þeir gátu til að skaprauna karlinum“.

Skapstilling (n, kvk)  Rólegheit; yfirvegun; gott taumhald á skapsmunum. 

Skapstillingarmaður (n, kk)  Sá sem hefur mikið jafnaðargeð/skiptir sjáldan skapi.  „Nú var jafnvel farið að síga í þennan mikla skapstillingamann“.

Skapstirður (l)  Erfiður í skapi; uppstökkur; fúll.  „Hann er orðinn skapstirður og þolir ekki svona stríðni“.

Skapstór (l)  Þungur á bárunni; langrækinn; reiðist/móðgast illa þegar gert er á hlut hans.

Skapvondur (l)  Reiður; slæmur í skapinu; fjúkandi illur.  „Maður verður bara skapvondur af því að hlusta á svona bévítans þvælu“!

Skapvonska (n, kvk)  Reiði; bræði; illska.  „Vertu nú ekki með þessa bölvaða skapvonsku; hún lagar ekkert“!

Skapþungur (l)  Með erfitt skap; hættir til að verða reiður.

Skar (n, hk)  A.  Útbrunninn kveikur á kerti.  Meðan kerti voru heimagerð úr tólg og kveikir snúnir úr fífu eða öðru, þurfti að taka skarið af til að kertið færi ekki að ósa.  Sja taka af skarið.  B.  Líkingamál; Hrörlegur/vesæll maður.  „Hann er orðinn hálfgert skar, gamli maðurinn“.

Skara (s)  A.  Leggja byggingarefni þannig að brúnir leggist á misvíxl.  Báti er skarað þannig að neðri brún skíðis/borðs leggst yfir efri brún borðs sem er neðar.  Helluþaki á húsi er skarað þannig að neðri brún efri hellu leggist yfir efri brún neðri hellu; svo vatn renni niður af þaikinu en ekki inn í húsið. „Í þakinu voru sperrur, og á þeim langbönd og ofan á þau skarað hellum og tyrft yfir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  Borðum í súð á bát er skarað nokkuð á misvíxl.  Þannig er oft gert með súð á húsi, sem þá er nefnd skarsúð.  B.  Hreyfa til glóð með skörungi, til að eldur nái súrefni fyrir kolun; sjá skara eld að eigin köku.

Skara að (orðtak)  Færa eld/glóð að því sem verið er að hita, t.d. með skörungi.  Meðan eldað var á hlóðum þurfti að fylgjast vel með eldinum og skara honum að pottinum.

Skara eld að eigin/sinni köku (orðtak)  Vilja koma sínu fram; hygla sjálfum sér; ota sínum tota.  „Mér sýnist að hann hugsi nú meira um að skara eld að eigin köku en hag almennings“.  Vísar til þess að kökur voru bakaðar á glóð í hlóðum.  Þegar hver bakaði fyrir sig reyndi e.t.v. einhver að koma glóðinni nær sinni köku.

Skara framúr (orðtak)  Vera/standa skör/sjónarmun framar en næsti maður.

Skara í bálið/glóðina/eldinn (orðtak)  Færa glóð til í eldi með skörungi, þannig að eldsmaturinn/eldiviðurinn komist að súrefni og nái að brenna, en lendi ekki undir koluðu efni og ösku.  Á þann hátt fæst aukinn hiti.

Skara saman (orðtak)  Fella efni saman með skörun/ því að skara; láta byggingar-/ smíðaefni ganga á misvíxl.

Skaraður (l)  Látinn skarast.  „Þakjárnið var skarað um minnst tvær tommur“.

Skarbítur (n, kk)  Töng til að taka skar af kerti.  Löguð eins og lítil skæri, en með lítilli pönnu fyrir skarið.

Skarð (n, hk)  Rauf; dæld; skora.  Skarð er algengt heiti í landslagi í nágrenni Kollsvíkur, um lægð á milli tveggja dala eða víkna.  T.d. Skarð milli Kollsvíkur og Vatnadals; Hænuvíkurskarð, sunnantil í Hænuvík; Brúðgumaskarð, milli Breiðavíkur og Keflavíkur; Gjárdalsskarð, milli Sanddals og Gjárdals o.fl.

Skarða (s)  Mynda skarð.  Oftast notað um sjólag, þegar skil verða á milli brota í sömu báru.  Formaður þurfti að vera glöggur á hvenær skarðaði í báru, bæði á siglingu en enn frekar í landtöku.

Skarð fyrir skildi (orðtak)  Saknað manns; vantar góðan mann.  „Nú er skarð fyrir skildi þegar þessi mikli baráttumaður er fallinn frá“.  Líklega vísun til þess að skarð myndist í skjaldborg liðs, við það t.d. að hermaður fellur.  Sumir vilja vísa til þess að bardagamenn hengdu skildi sína á vegg í skála, aftan við sætin.  Þegar einhver hafði fallið í orrustu var skjöldurinn samt hengdur á vegginn, en skarð var í sætaröðinni. 

Skarð í vör (orðtak)  Fæðingargalli sem orðið getur þegar samruni á efri vör og/eða gómi fósturs verður fyrir truflun í móðurkviði.  Vörin mótast á fimmtu til sjöundu viku meðgöngu, en gómurinn á þeirri sjöundu til tólftu.  Á þessum tíma getur slík truflun orðið.  Nú á dögum er unnt að lagfæra slíka fæðingagalla með skurðaðgerðum.  Talið er að eitt af 6-800 börnum fæðist með skarð í vör.

Skarður hlutur (orðtak)  Skertur skiptahlutur; of naum skipti.  „Mátti Einar þó vita hvaða orð fór af Benedikt, og gat búist við því að hann sætti sig ekki við skarðan hlut“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Hann var því ekki vanur að bera skarðan hlut frá borði“.

Skarður máni (orðtak)  Tungl sem er að verða fullt eða byrjað að skerðast.

Skarfakál (n, hk)  Cochlearia officinalis.  Planta af krossblómaætt, sem algeng er í klettum t.d. í kringum Kollsvík og víðar.  Blöðin eru þykk, dökkgræn og hóflaga eða nær kringlótt; blóm eru hvít og í klösum.  Skarfakál er mjög ríkt af C-vítamínum og hefur verið notuð sem heilsubótar- og lækningajurt lengi.    Einkum þótti hún þjóðráð til lækninga á skyrbjúg, sem orsakast af C-vítamínskorti.  Skarfakál var einkum borðað nýtt á staðnum í seinni tíð, en fyrrum mun það hafa verið notað sem salat eða soðið í grauta.  Oft var einungis notað stuttheitið „kál“ yfir skarfakál.  Sjá kálhilla.

Skarfaket (n, hk)  Ket af skarfi.  Skarfur var nokkuð skotinn til matar, líkt og mávur, fyrr á tíð; enda ágætur matfugl og matarmikill.  Hann getur þó stundum verið undirlagður af hringormi.

Skarfjúk (n, hk)  Skafrenningur af þeirri gerð að skör rifnar upp af snjónum þegar hvessir, og fýkur með jörðu.  Gerist þetta helst þegar sólbráð hefur orðið á snjó, þannig að næfurþunn skör/klakaskán myndast.  Hún brotnar síðan upp þegar kólnar, og fýkur af stað þegar vindar.

Skarfur (n, kk)  A.  Skarfur er algengur sjófugl í Kollsvík og nágrenni, og verpur dílaskarfur á stöku stað í rótum sjávarkletta; helst þar sem fjara er grýtt og stutt til sjávar.  Mest er um dílaskarf (Phalacrocorax carbo), en einnig sést toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis).  Dílaskarfur er heldur stærri eða 70-102cm að lengd og allt að 3,7 kg.  Svartur að lit en með hvíta kverk og vanga.  Nafnið er dregið af hvítum díl í lærum, sem er áberandi í varpskrúða.  Flýgur með sjó, en þó hærra en toppskarfur.  Eftir ætisleit þarf fuglinn að þurrka vængina.  Hann situr þá gjarnan fremst á hleinum, breiðir út vængina og blakar þeim lítillega.  Er þá líkur presti að blessa sinn söfnuð.  Þegar menn nálgast skarf á hreiðri gerist hann viðskotaillur; glennir upp ginið, hvæsir og hristir hausinn.  Um leið og hann flýgur af dritar hann gjarnan yfir eggin til að gera þau ólystugri.  Toppskarfur er mun styggari.  Skarfar eru gamlir í þróunarsögu fugla.  Þeir eru skyldir pelíkönum og súlu.  Fætur skarfa eru aftarlega á búknum og því eru þeir mjög slæmir til gangs og sitja uppréttir.  Sundfitin er sérkennileg og stór og öðruvísi löguð en á öðrum hérlendum sundfuglum.  Helsta fæðan er fiskur, og eru skarfar miklir kafarar og veiðifuglar.  Í Kina tíðkast enn sá ævagamli siður að nota skarfa til fiskveiða.  Eru þeir aldir sérstaklega í því skyni og ól bundin lauslega um háls þeirra fyrir köfun. B.  Líkingamál um mann sem þykir sérkennilegur/undarlegur/skapstirður.  Sjá karlskarfur.

Skari (n, kk) A.   Hörð frostskán á snjó.  Stundum mannheld en stundum ekki.  „Það er fljótfarið yfir Tunguheiðina þegar unnt er að ganga á rennisléttum og öruggum skara í björtu veðri“.  B.  Hópur; söfnuður; mikill fjöldi einstaklinga.  „Það var þröng á þingi þegar allur þessi skari var kominn inn í herbergið“.  Sbr herskari.  C.  Maskinujárn; maskinukrókur; áhald til að skara í glóð á hlóðum eða í eldavél.  Á tímum kola- og olíueldavéla var skarinn nauðsynlegt eldhúsáhald.  Hann var oft með handfangi í öðrum enda, og krók á hinum endanum.  Þannig nýttist hann bæði til að skara í eldi og til að taka upp heita hringi og hellur af eldavélinni.  D.  Skarbítur; sérstakt áhald til að klippa skar á logandi kerti, sem farið er að ósa.

Skarifífill (n, kk)  Leontodon autumnalis)  Meðalstór fífill sem algengur er um allt land.  Vex einkum á láglendi.  Karfan er gul; stönglar greindir, grannir, 1.5-2mm gáraðir, en ekki holir og sléttir einsog á túnfífli.  Laufblöðin eru fjaðurflipótt og í hvirfingu.  Algengur í Kollsvík og nærsvæðum; helst á harðbölum.  Skarifífill blómstrar seint á sumri, og af því er síðara heitið dregið í því latneska.

Skarir (n, kvk, fto)  A.  Ísbrúnir sem myndast við bakka ár/vatns.  „Féð stökk í ána en komst ekki upp á skarirrnar“.  B.  Kverkar á borðaskilum í skarsúðuðum báti.  „Gættu þess að mála vel í skarirnar“.

Skark / Skarkali (n, kk)  Hávaði; skrölt; fyrirgangur.  „Verið ekki með þennan déskotans skarkala strákar“!

Skarka (s)  A.  Búa til skark/hávaða/skrölt.  B.  Rjála við.  „Verið nú ekki að skarka í þessu strákar“!  C.  Reyna að veiða; skrapa saman; snövla.  „Snurvoðabátarnir eru byrjaðir að skarka í Flóanum“.

Skarkoli (n, kk)  Pleuronectes platessa; koli; rauðspretta.  Flatfiskur af rauðsprettuætt sem algengur er við landið sem í öllu N-Atlantshafi; þar á meðal á Útvíkum og Patreksfirði.  Algengastur er hann á 10-50m dýpi, á sand- eða leirbotni.  Algeng stærð er 30-50cm.  Hreistrið er slétt, fíngert og ekki skarað.  Líkt og aðrir flatfiskar skyldir lúðu syndir kolinn á hliðinni Bæði augu eru á þeirri efri, sem er dekkri en hin og í henni eru rauðir blettir; neðri hliðin er hvít.  Fæðan er skeldýr, smákrbbar, ormar og fleira smálegt.  Grefur sig oft í botninn, þannig að augu standa uppúr.  Góður matfiskur og mikið veiddur; aðallega í snurvoð, nót eða vörpu, en einnig kemur hann sem meðafli t.d. í grásleppunet.  Gjarnan steiktur á pönnu.  „Helgi þegar hratt fram gnoð/ og hervæddist sinni brók,/ þá skalf hvert einasta sköturoð/ og skarkolinn andköf tók“  (ÖG; glefsur og minningabrot; formannsvísa um Helga Árnason í Tröð). 

Skarlat (n, hk)  Vandaður og fíngerður ullarvefnaður, oftast í mörum litum.

Skarleppar (n, kk, fto)  Ræmur úr taui/striga sem voru tjörubornar og lagðar milli borða/planka í skarir/samskeyti til þéttingar í nýsmíði og viðgerðum á bátum; einkum þeim stærri, s.s. skútum.

Skarn (n, hk)  A.  Skítur; taðköggull.  B.  Líkingamál sem gæluorð um barn:  „Komdu nú hérna skarnið mitt“; eða dýr: „Ertu búinn að gefa kattarskarninu eitthvað að éta“?

Skarn er líka í skálinni prestsins (orðatiltæki) Vísar til þess að prestar og pótintátar eru rétt eins og annað fólk, þurfa t.d. að gera þarfir sínar.  Heyrðist ekki oft í seinni tíð, en hefur eflaust verið tautað fyrr á tímum þegar undirlægjuháttur við höfðingjana gekk fram af fólki.

Skarpgáfaður / Skarpgreindur  (l)  Vel greindur; mikill viskubrunnur; snjall.  „Hann er sagður skarpgreindur“.

Skarpheitur (l)  Mjög heitur.  „Til að bræða úr lögninni gat dugað að hella yfir hana skarpheitu vatni“.  Varaðu þig á kaffinu; það er skarpheitt“.  Orðið var algengt vestra en finnst ekki í orðabókum.

Skarpholda (l)  Grannur; beinaber; horaður.  „Ári er kýrin orðin skarpholda, hún þyrfti að fá meiri fóðurbæti“.

Skarphygli (n, kvk)  Glöggskyggni; athygli; skynsemi.  „Enginn stóð honum á sporði um greind og skarphygli“.

Skarplega athugað (orðtak)  „Það var skarplega athugað hjá þér að muna eftir þessu atriði“.

Skarplegur (n, kk)  Gáfulegur; af glöggskyggni.  „Þetta er nokkuð skarpleg ályktun“.

Skarpleikskona / Skarpleiksmaður (n, kvk/kk)  Sá/sú sem er greindari en almennt gerist.

Skarpleitur (l)  Hvassleitur; með skarpa/harða andlitsdrætti; tekinn í andliti.

Skarpnefjaður (l)  Hvassnefjaður; með hvasst/þunnt nef.  „Þetta er hin gjörvulegasta kona, en nokkuð grannholda og skarpnefjuð“.

Skarpskyggn / Skarpsýnn / Skarpur  (l)  Glöggur; fljótur að átta sig; tekur vel eftir smáatriðum. 

Skarpur (l)  A.  Beittur.  „Gáðu að þér á hnífnum hann er mjög skarpur“.  B.  Heitur.  „Ekki get ég sagt að það sé skarpur hiti á kaffinu“.  C.  Greindur.  „Drengurinn er bara bráðskarpur“.  D.  Fljótt; skyndilega; ört.  „Hann er að þykkna upp, ansi skarpt“.  „Þurrkurinn er nokkuð skarpur í dag“.  „Passaðu að hella ekki of skarpt á sigtið, þannig að flói útúr því“.  „Það er varasamt að þamba kalt vatnið svona skarpt“.

Skarpur þurrkur (orðtak)  Góður/hraður þurrkur; hlýtt, vindasamt og þurrt loft.  „Það er svo skarpur þurrkur að grasið þornar á ljánum“.

Skarpþorna (s)  Þorna hratt; breyskja af.  „Við skulum hinkra ögn með sláttinn; jörðin skarpþornar fljótt í þessu breyskjusólskini.

Skarpþurrkaður (l)  Þurrkaður hratt/við skarpan hita.  „Þegar vöknar í rót virðast þessi leirhnoð minnka og mýkjast, samt verður ekkert hey af svona slægju sandlaust þó það sé margrakað upp og skarpþurrkað“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Skarsúð (n, kvk)   Þiljun með borðum, þannig að brúnir ganga á misvíxl/skarast.  Skarsúð er tíðast á bátum, en var einnig algeng sem innri þilja í húsþökum.

Skarsúða (s)  Þilja með skarsúð.  Aðferðin er notuð við smíði súðbyrtra báta og við þiljun lofta í húsum.

Skarsúðaður (l)  Súðaður/þiljaður með skarsúð.  „Bátar í Kollsvíkurveri voru allir skarsúðaðir“.

Skart (n, hk)  Skraut; glingur; það sem haft er til fegrunar, bæði á fólki sem öðru.  „Smávinir fagrir, foldarskart,/ fífill í haga, rauð og blá;/brekkusóley við mættum margt/ muna hvort öðru að segja frá…“ (Jónas Hallgrímsson; Úr hulduljóðum).

Skarta (s)  Bera skart; skreyta sig með skarti. 

Skarta sínu fegursta (orðtak)  Vera glæsilegur; vera skreyttur/ í skartbúningi.

Skartar það á einum sem skömm er á öðrum (orðatiltæki)  Einum fer vel það sem öðrum fer illa.

Skartbúinn (l)  Sparibúinn; vel búinn og með mikið skart.

Skartklæði (n, hk, fto)  Glæsifatnaður; hátíðarbúningur.  „Það þýðir nú lítið að mæta á skartklæðum til skips“!

Skaröxi (n, kvk)  Öxi til smíða, með sveigðu blaði sem snýr þvert á skaftið og oft með öngvum/litlum skalla.  „Sumir eru slíkir snillingar með skarexi að efnið verður sem heflað á eftir.   Enn er til á Láganúpi skaröxin hans Guðbjartar föðurafa míns“ (VÖ).  Sjá öxi.

Skass (n, kvk)  Frekja; frenja; brussa; skapmikill/ógnandi/orðljótur/skömmóttur kvenmaður.  „Ég hálfvorkenni karlinum að þurfa að búa við þetta skass; en það er ekki mitt mál“.  Náskylt heitinu „skessa“.

Skata (Raja batis)  var töluvert veidd í Útvíkum, sennilega frá öndverðu, þó nú fáist ekki skata á sömu miðum og fyrrum.  Skata var veidd bæði á línu/haukalóð og á handfæri.  Rauðegni (slang) og kræklingur var notað í beitu; einnig ljósabeita sem roðin var með blóði.  Sökum þess að skatan er oftast við botn þótti eðlilegt að láta beittan öngulinn nema við hann, eða taka lítið grunnmál.  Öll skata var krækt/húkkuð sem veiddist á færi.  Þegar skata kom að borði var hún dauðrotuð með haka eða kepp áður en hún var innbyrt; kallað sjóhögg.  Skata er líflítil í drætti.  Algengast var að barða/slægja skötuna í landi, þó stundum væri það gert á sjó.  Ef mikið veiddist af henni var hún látin liggja óhreyfð í kös í eina viku.  Þegar byrjað var að gera að skötu var farið með höndina uppí kjaftinn á henni, helst með vettlingi til að skaða sig ekki á skötuskaganum/tönnunum; hnífnum stungið í gegn fyrir ofan hausamótin og skorið kringlótt stykki í kringum kjaftinn.  Að því búnu var skorið fyrir á magálnum; flipanum lyft upp og innyflin tekin.  Loks var halinn skorinn af; kallað að sverja fyrir rass.  Þegar skatan var börðuð var fyrst rist kringum hausinn eins og áður er lýst;o g síðan niðurmeð maganum báðumegin og út með hlaununum.  Börðin héngu þá saman á trjónunni.  Stykkið allt; bak, kviður og hali, sem losað var, hét einu nafni hlaunir/skötuhlaunir/sköturass.  Í hlaununum eru tól graðskötunnar, en á börðum hennar eru smátennur; þornabök.  Skötumaginn/bumlungurinn var víða hirtur.  Hann var þrifinn; látinn standa í saltvatni; síðan hleypt upp á honum; lagður í súr og etinn með flautum.  Einnig var hann blásinn upp eða troðinn út og notaður sem ílát/lýsispjása/sýrubelgur/dufl á lagvað. 
Verkun skötu var með ýmsu móti.  Börð sem verkuð voru til útflutnings voru fyrst lögð í saltpækil og síðan þvegin, söltuð og þurrkuð; breidd eins og saltfiskur.  Sumir söltuðu börðin en kæstu ekki né hertu.  Aðrir kæstu en söltuðu síðan.  Meðan heitast var á sumrinu var skatan látin liggja vikutíma í kös, en síðla sumars og að haustinu ekki skemur en tólf daga.  Að söltun undanskilinni var farið með skötu eins og hákarl, ema hvað verkun hennar tók miklu skemmri tíma.  Mðean skatan var að gerjast/ryðja sig í kösinni varð að verja hana vatni.  Algengt var að láta börðin í gryfju með grjóti og torfi ofaná.  Ef menn vildu flýta fyrir kösuninni var skatan sett í fjós.  Eftir kösun voru börðin hengd upp í hjalli.  Þau voru þá ýmist hengd upp á trýninu, en einnig skorin þar í sundur og þá annaðhvort gerð þar þuma eða hnýttur var spotti utanum barðnefið og ránni stungið í gegnum hana eða þumuna.  Algengt var að rista börðin í strengsli ofanfrá og niðurúr og jafnvel halda þeim sundur með spýtum eins og strengjaflaki lúðunnar.  Einnig voru kösuð börð þurrkuð á klöppum og reitum.  Sumir létu þau roðþorna en aðrir hertu þau eins og harðfisk. 
Vestra var algengt að rífa roðið af skötunni áður en hún var látin í pottinn og yfirleitt var haft mörflot með henni.  Skötustappa var algengur Þorláksmessumatur um Vestfirði og víðar.  Skatan var þá helst ekki kösuð minna en í 2-4 vikur, því best þótti að þefinn legði framúr nefinu þegar hún var etin.  Stór skata/lóðaskata þótti best í stöppuna.  Eftir suðuna var brjóskið tínt úr og hún síðan stöppuð í svo miklu mörfloti að sneiða mátti hana niður eins og kæfu.  Fyrrum var siður vestra að sjóða Þorláksmessuskötuna í hangikjötssoðinu.  Með stöppunni höfðu ýmsir, feitar, reyktar bringur og rúgkökur.  Í Kollsvík og e.t.v. víðar var skatan upp úr soðinu snædd með reyktum eða óreyktum bringum; hangiflot haft sem viðbit og á eftir drukkið kaffi með lummum.  Skatan hert var etin eins og harðfiskur og viðbitið þá oft bræðingur.  Það þynnsta af skötubarðinu; þynnkan/skötuþynnkan, var sett í súr eins og hún kom fyrir; ósoðin, og etin á sumrin til svala.  Alltaf fékkst eitthvað af þeirri skötu sem tindabykkja heitir.  Fyrr á tímum var hún hert og eingöngu hirt sem skepnufóður.  Egg skötunnar nefnast pétursskip/pétursbuddur (sjá þar)“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild m.a. GG). 
Þjóðsagan segir að skötumóðirin sé stærst af öllum skötum.  Hættulegt getur verið að veiða hana, því hún kemur uppundir bátinn; kreppir börðin uppyfir borðstokkana og dregur bátinn í kaf.  „Þá ætla ég að segja frá einum sköturóðri með haukalóð.  Þeir voru oftast farnir um mitt sumar.  Haukalóðin var úr sterkara efni en lóðir sem notaðar voru fyrir þorsk; oft 150 – 200 krókar, og voru þeir stærri en á þorskalóð.  Hafður var tveir og hálfur faðmur á milli tauma, og taumurinn var einn faðmur.  Steinar eða drekar voru á báðum endum og niðristöður og dufl.  Byrjað var að skaka fyrir smáfisk uppi í þaragarði.  Þegar nóg var komið í beitu var keyrt á það mið sem leggja átti lóðina.  Smáfiskurinn var skorinn í lítil stykki og lóðin beitt niður í miðrúmið.  Venjulega var farið þegar smástreymt var; keyrt á mið sem heitir Tálkni og Sandhóll; þegar Tálkni sást fyrir Blakkinn og Sandhóllinn í Breiðavík fyrir Breiðinn.  Þar var leirbotn, og brást varla að fá skötu.  Lagt var þvert á straum, og hyllst var til að leggja lóðina í fullhörku á straum.  Láta hana fá einn snúning og draga svo aftur þegar tók að harðna fallið.  Fljótlega fór lóðin að þyngjast, því skatan lá þungt í....  Skatan var gerð til; börðin voru grafin í sand svona vikur til 10 daga, þá tekin og þvegin; söltuð dálítið og geymd sem vetrarforði“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Á Þorláksmessu var alltaf borðuð skata, eins og raunar er gert víða enn“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).  „Á Þorláksmessukvöld var skata og reyktar bringur og kaffi; og svo var spilað á Þorláksmessukvöld“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Skati (n, kk)  Fornt heiti yfir mann.  Helst notað nú á dögum í skáldskap.  Var einkum haft um hávaxinn/höfðinglegan mann.  Líklega leitt af orðinu“skate“ sem merkir beinan trjástofn, og er því skylt orðinu „skíði“, sem bæði er haft um borð í bát og þau sem á fótum eru höfð.  Fleirtalan er „skatnar“.  „Skatnar þarna skemmta sér í skapi fínu./  Býst svo hver að búi sínu“  (JR; Rósarímur). 

Skatta (s)  Taka/innheimta skatt/toll/gjald. 

Skattera (s)  Sauma út; baldera; myndskreyta með ísaumi.

Skattfé (n, hk)  Fé sem innheimt er með skattlagningu.

Skattgildur (l)  Skattskyldur; skyldugur til að greiða skatt.

Skatthol (n, hk)  Húsgagn af tiltekinni gerð.  Oftast Skrifpúlt með skúffum undir og litlum skápum eða hillum yfir borðinu, þannig gert að unnt er að leggja skrifborðið upp og loka þannig af það sem er fyrir innan það.

Skattland (n, hk)  Land sem greiðir skatt til annars lands, en hefur að öðru leyti sjálfstjórn.  Í sumu tilliti má líta svo á að Ísland hafi verið skattland Danmerkur um aldir, því þó í orði kveðnu væri yfirstjórnin einnig í Danmörku var hún í raun að mestu í höndum innlendra höfðingja.  Kóngur var drjúgur að leggja álögur á Íslendinga, einkum þegar hann stóð í stríðsrekstri.

Skattur (n, kk)  A.  Gjald sem greitt er öðrum, oftast með viðmið í tekjum eða eignum.  Nú á dögum er oftast átt við það gjald sem hver maður greiðir í samfélagslegan sjóð, t.d. ríkissjóð, til að standa undir sameiginlegum útgjöldum þjóðar eða tiltekins hóps.  B.  Matarskammtur sem húsfreyja útbýtti hverjum heimilismanni á málum fyrr á tímum.  Var þá einkum átt við morgunmat. 
Líklegt er að orðið „skattur“ eigi sér sömu rót og „skammtur“, og merki þá að hver maður eigi að greiða „skammt“ (þ.e. stutt/hluta) af sínu fé til höfðingja, landeiganda eða annars.

Skattyrðast (s)  Deila; jagast; skútyrðast.  „Ég ætla nú ekki að skattyrðast neitt við þig um það sem ég veit“!

Skattyrði (n, hk, fto)  Skammir; harðorðar athugasemdir; fúkyrði.

Skauf (n, kvk)  Orð sem ekki var notað vestra í seinni tíð.  En þar sem umræður hafa iðulega orðið um nafnskýringu örnefnisins Skaufhóls milli Lambavatns og Naustabrekku skal hér litið ofaní heimildir.  Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal segir orðið merkja „yfirhúð á hestskökli; sköp konu; rifu; skarð; sár eftir geldingu; nárasvæði og reðurslíður á hestum“.  Einnig „skott“ sbr heitið „skaufhali“ um tófu.  Skylt er orðið „skaufi“ í merkingunni getnaðarlimur.  Engar samsvaranir eru í grannmálum.  Orðabók Árna Böðvarssonar og Menningarsjóðs gefur að auki upp skýringuna „lítill poki; paufi; smábaggi; smáhnykill“.  Að´öllu samanlögðu má álykta að skauf merki eitthverskonar litla og staka þúst, og er þá komin skýring á nafni hins sérstæða Skaufhóls.  Hóllinn kann að hafa heitið Skauf í byrjun en „hóls“ -viðbótin komið síðar á öldum, þegar orðið var fallið úr almennri notkun og til áréttingar.  Sjá einnig skaufhali.

Skaufast (s)  Drattast; hundast; skriflast.  „Reyniði nú að skaufast til að sækja kindina sem þið misstuð“!

Skaufhali (n, kk)  Annað heiti á ref/tófu.  „Refurinn hefur verið kallaður skaufhali og má láta sér detta í hug að e.t.v. sé samband milli þess og Skaufhólsnafnsins“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).  Sjá skauf.

Skaup (n, hk)  Skop; háð; grín.

Skaut (n, hk)  A.  Neðstu hornin á segli, jafn að framan sem aftan.  Af því er dregið heitið skautasegl um þversegl.  B.  Sérstakur höfuðbúnaður kvenna.  C.  Póll á segli/jarðhnetti/rafspennugjafa o.þ.h.  D.  Kelta; fang.  Sbr að „sitja með barn í skauti sér“; „falla (einhverjum) í skaut“ o.fl.

Skauta (s)  A.  Bera höfuðbúnað/skaut.  „Fyrr á öldum var talað um að kvenfólk skautaði sér, þegar það setti upp þeirra tíðar höfuðbúnað“.  B.  Fara á skauta; renna sér á skautum.  C.  Skautfesta; festa skauti segls við borðstokk báts.  D.  Kljúfa ljós á sérstakan hátt (pólarisera).

Skautafæri  / Skautasvell (n, hk)  Aðstæður til að renna sér á skautum.  „Það er fínt skautasvell á Lögmannslánni núna“.

Skautahlaup (n, hk)  Það að fara á skautum; sýna listir á skautum.  „Glímur og skautahlaup hafa margir fjelagar æft, suma veturnar“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Skautar (n, kk, fto)  Fótabúnaður til að renna sér á ís.  Skautar í dag eru sérstaklega gerðir uppháir reimaðir skór, með áföstum meiða undir úr hörðum málmi.  Framá miðja 20.öld notuðu menn heimasmíðaða skauta úr tré, líka bátum með járnkili undir, og bundu þveng um fótinn.  Fyrr á öldum renndu menn sér á leggjarbeinum sem bundin voru undir fæturna.

Skautasegl (n, hk)  Þversegl; rásegl.  Eina tegund siglingar hérlendis frá landnámi framundir lok 18.aldar.

Skautasvell (n, kk)  Ís sem unnt er að nota til að iðka skautahlaup og aðrar skautakúnstir.  Skautasvell getur víða orðið í Kollsvík, en oftast var farið á skautum á Lögmannslág í seinni tíð.

Skauti (n, kk)  A.  Skautar til að renna sér á ís (sjá þar).  B.  Hlífðarþynna á ár, þar sem hún leikur í keipunum.  Oftast gerð úr hvalbeini.

Skáhallt / Skáhallt við (l/orðtak)  Á ská; á skakk/skjön við; hallandi; ekki í beinni línu/stefnu við.  „Straumurinn lá skáhallt frá landinu þarna við Þyrsklingahrygginn“.  „Hornstaurinn hefur lent dálítið skáhallt við stefnuna“.

Skáhenda / Skáhendur bragarháttur (n, kvk/ orðtak)  Skáhenda er afbrigði af ferskeytlu, og liggur munurinn í því að fyrsta og þriðja ljóðlína ríma ekki í enda.  Hinsvegar er innra rím í þeim báðum, þannig að innrím og endarím hvorrar línu ríma saman.  Dæmi:  „Leit hann brátt hvar lýsti hátt/ linna bólið rauða;/ ofnis má þar unga sjá,/ öllum veitti hann dauða“ (Úr Konráðsrímum; höf ók; úr rímnabók Íslands frá 1550-1600).

Skái (n, kk)  A.  Hallandi flötur.  „Báturinn var dreginn upp skáann í höfninni. B.  Það sem betra er; skáinn af.

Skáinn af (orðtak)  Það skásta af einhverju.  „Kartöflurnar voru orðnar skemmdar en þetta er þó skáinn af þeim“

Skák (n, kvk)  A.  Hluti svæðis; landræma; túnblettur.  „Ég girti af dálitla skák úr túninu fyrir kýrnar“.  B.  Stóll, bekkur eða annað setgagn.  „Náðu þér í einhverja skák og sestu hjá okkur“.  C.  Tafl.

Skáka (einhverjum) (s)  Leika á (einhvern); sjá við (einhverjum); gera betur en (einhver); sigra (einhvern).  „Hann skákaði okkur alveg með því að leggja netin uppí kvöldið áður.  Með því komst hann fyrr á miðin og var búinn að leggja þegar við komum út“.

Skáka í skjóli þess / Skáka í því skjólinu / Skáka í því hróksvaldinu (orðtak)  Hafa það sér til blóra; njóta þess.  „Þeir skáka í því skjólinu, þessir þingmenn, að maður er ekki á svæðinu til að taka í lurginn á þeim“!    Vísar til þess að færa valdaðan taflmann á skákborði.

Skáka sér (orðtak)  Fara; færa sig.  „Ég þurfti að skáka mér afsíðis í smástund til að gera að brókum“.

Skákarendi (n, kk)  Endi á skák/bekk.  „Geturðu ekki sest hérna á skákarendann?  Þröngt mega sáttir sitja“.

Skákborð (n, hk)  Taflborð.

Skákmaður (n, kk)  Manneskja sem er slyng í að tefla.  Taflmaður er hinsvegar oftast haft um einn þeirra hluta sem teflt er með.

Skákreka (n, kvk)  „Þegar þetta skeði var Bjarni eldri á leiðinni úr hlöðunni heim að bænum og gekk við skákreku“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).  Ekki er fyllilega ljóst hvernig reku um er að ræða, en af OH má ráða að orðið sé ekki alveg óþekkt frá fyrri tíð (VÖ).

Skáktafl (n, hk)  Venjulegt tafl.  Orðið var ráðandi fyrrum en í seinni tíð er einatt talað um tafl.

Skál (n, kvk)  A.  Dallur; ílát.  Sami orðstofn og orðið „skel“.  B.  Upphrópun þegar menn lyfta glösum.  Þekkt en ekki viðhaft í Kollsvík.

Skáld (n, hk)  A.  Sá sem semur ljóð, upplognar sögur eða á annan hátt færir mál í listrænan búning.  Misjafnt er mat manna á því hvenær maður telst skáld með slíkum gerningi; t.d. voru menn tæpast taldir skáld í Kollsvík þó þeir gætu gert prýðisgóð kvæði eða samið góðar sögur.  Til þess titils þurftu menn að vinna nokkuð, og verða jafningjar t.d. Jóns úr Vör; Guðmundar G. Hagalín; Guðmundar Inga Kristjánssonar eða annarra slíkra. „Já, það var mikið kveðið í Kollsvíkurveri; einkum um það broslega sem fyrir kom.  Býst við að flest sé það gleymt; þótt þetta væru dægurflugur voru innanum vel gerðar og prenthæfar vísur.  Um skáld var lítið að ræða; helst var það Pétur Jónsson frá Stökkum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).   
Málfræðingar hafa ekki greint augljósan uppruna orðsins, en líklega er það af sama stofni og skál og skel; með vísan í það að skáldið kemur málinu í fast listrænt form; býr það í fasta skel.  Má í því efni benda á lýsingarorðið „skáldaður“ í merkingunni að hafa á sér skel óhreininda, og vera hárlaus að hluta eða öllu.  Sagnorðið að skálda var notað um að rota hár af húð eða fiður af bumb.
Gömul sögn segir að skáld megi þekkja á því að þau hafi svo langa tungu að þau geti stungið henni upp í nefið, og var henni haldið á loft í Kollsvík.  B.  Lönguhrogn voru ýmist nefnd skáld eða greppur.

Skálda (n, kvk)  Gæluheiti/ niðrandi heiti á riti.  Ágætur maður af Kollsvíkurætt notaði þetta orð yfir bókina Kollsvíkurætt eftir TÓ, þar sem hann taldi að þar væri nokkuð um rangfeðranir.

Skálda (s)  A.  Semja ljóð eða skáldsögu.  B.  Ljúga; búa til. C.  Rota hár af húð eða fiður af bumb fugla.

Skálda í eyðurnar / Skálda í skörðin (orðtök)  Ljúga/ búa til, þegat sagt er frá, til að sagan verði heillegri og áheyrilegri.  „Þarna held ég að hann hafi skáldað hressilega í skörðin; þetta er allst ekki rétt“!

Skálda upp / Skálda upp úr sér (orðtak)  Búa til; ljúga; ýkja. „Ég held að karlinn hafi ekki lent í neinum ávætti, heldur hafi hann fengið þessi meiðsli við að detta, enda all slompaður; og skáldað upp söguna á heimleiðinni“.

Skáldaður (l)  A.  Sköllóttur; hárlaus; hárlaus á blettum.  B.  Mjög óhreinn.  Sjá skáldaður af skít.

Skáldaður af óhreinindum/skít (orðtak)  Mjög óhreinn/skítugur; með skánir af óhreinindum.  „Mikið ankolli ertu nú skáldaður af skít drengur; þér veitti víst ekki af góðu þrifabaði“!  Svo virðist sem orðið „skáldaður“ hafi ekki þekkst víðar í þessari merkingu.  Það var oftast notað í þessu orðasambandi.  Annars merkti orðið „sköllóttur/hárlaus“.  Mjög skítugt búfé virðist vera hárlaus, og kann merkingin þannig að hafa yfirfærst.

Skáldagáfa / Skáldgáfa (n, kvk)  A.  Hæfileiki til að semja ljóð eða skáldverk.  B.  Hæfileiki til að ljúga/ýkja.  „Hann hefur aldrei skort skáldagáfuna“!

Skáldalaun (n, hk, fto)  Laun/ábati skálds fyrir skáldskap sinn. 

Skáldaleyfi (n, hk)  A. Heimild sem skáld taka sér stundum til að hagræða framsetningu á bundnu eða óbundnu máli, svo betur falli að ljóðformi/skáldverki; færa í stílinn.  B.  Líkingamál; leyfi til að ýkja/skrökva.

Skáldaskarð / Skáldhrukka (n, hk/kvk)  Skáldaskarð er lóðrétt dæld framaní höku á manneskju.  Þótti það bera vitni um skáldgáfur, einkum hjá barni.  Sömuleiðis voru hrukkur í enni barns nefndar skáldhrukkur, og áttu að boða hið sama.

Skáldraftur (n, kk)  Stuttur raftur/sperra/stoð í stoðgrind torfhúss.  „Eitt fjárhús er þarna enn í átjándu aldar stíl.  Það er tvæstæðuhús fyrir 50 kindur; veggir af torfi og grjóti; tveir mæniásar sem hvíla á stoðum og raftar af þeim niður á veggina.  Á raftana eru svo haganlega skaraðar hellur, en utanyfir þær þakið með torfi.  Að framan eru skáldraftar niður á dyratré“  (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).

Skáldhneigður (l)  Hefur/sýnir burði til að verða skáld; sýnir skáldlega hæfileika; stundar skáldskap.

Skáldlega mælt (orðtak)  Sagt á ljóðrænan hátt; sagt með háfleygum orðum/ líkingamáli.

Skáldlegur (l)  Ljóðrænn; eins og skáld.

Skáldmæli (n, hk, fto)  Skáldverk; ljóð.

Skáldmæltur (l)  A.  Hefur hæfileika til að yrkja.  „Hann þykir allvel skáldmæltur“.  B.  Talar skáldlega.

Skáldsaga (n, kvk)  A.  Lygasaga.  „Þessu trúi ég ekki; þetta hlýtur að vera einhver skáldsaga“!.  B.  Skáldverk.

Skáldskapur (n, kk)  A.  Skáldsaga; ljóð/kvæði/vísur.  „Já, það var mikið kveðið í Kollsvíkurveri; einkum um það broslega sem fyrir kom.  Býst við að flest sé það gleymt; þótt þetta væru dægurflugur voru innanum vel gerðar og prenthæfar vísur.  Um skáld var lítið að ræða; helst var það Pétur Jónsson frá Stökkum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  B.  Lygi; uppspuni.  „Þetta held ég að hljóti að vera skáldskapur“!

Skáldskapargáfur (n, kvk, fto)  Hæfileikinn til að yrkja ljóð eða skrifa sögu, svo vel fari.  „Hann hefur aldrei viljað flíka sínum skáldskapargáfum, en hann getur gert prýðisgóðar vísur“.

Skáldverk (n, hk)  Oftast notað um langa útgefna sögu rithöfundar, sem að stofni er tilbúningur/uppspuni.

Skáli (n, kk)  A.  Íverustaður/bústaður fólks.  Til forna var skáli meginbygging mannabústaða; oft háreist og stór hús.  Hann var helsti íverustaður fólks framyfir árið 1300, en síðan tók baðstofan við því hlutverki.  Ekki er ólíklegt að Kollur landnámsmaður hafi reist sér skála í Kollsvík.  Siðar varð skáli hluti af hinum íslenska bæ, sem hafði fleiri burstir og vistarverur.  B.  Lítið skýli, sbr. fjallaskáli.  C.  Hol í nútímahúsum.

Skálka hurðum (orðtak)  Loka hurðum tryggilega; oftast átt við lokun með slagbrandi. „Var örugglega búið að skálka töðugötunum á hlöðunni“?

Skálkapör (n, hk, fto)  Ruddaskapur; glæpir.

Skálkaskjól (n, hk)  Yfirvarp; afsökun; blóri; það sem nýtist sem skjól fyrir hrappa/skálka..  „Hann nennti ekki til kirkju og hafi það fyrir skálkaskjól að hann þyrfti að fyljgast með hvort kýrin jafnaði sig að doðanum“.

Skálkur (n, kk)  A.  Þrjótur; ribbaldi.  „Nú hefur minkfjandinn drepið kolluna á hreiðrinum.  Það verður að fara að ná skálkinum“!  B.  Hefur líklega verið notað um slagbrand fyrir dyrum/lúgum, þó ekki væri í seinni tíð.

Skálm (n, kvk)  A.  Neðri hluti á buxum; buxnaskálm.  B.  Sax; stór sveðja; eineggja sverð.  C.  Áhald til að drepa hákarl.  Svipað og  drepur, nema að „skálmarnar voru líkastar stórum hnífum með álnarlöngu eineggjuðu blaði og rösklega álnarlöngu skafti“. (GG; Skútuöldin).  „Kappinn grípur gnissu frá/ gilda skálm á lofti;/ sendir aftur, fálan flá/ fellur glenntum hvofti“ (JR; Rósarímur).  D.  Annar hluti hrognasekks/gotu.

Skálma (s)  Ganga hratt/ákveðið; strika; rigsa.  „Þú mátt ekki skálma svo hratt að strákrinn hafi ekki við þér“.  „Hér mun eigi hlotnast nein/ hvíld í nauðum brýnum:/  Skjótt í hellinn skálmar ein/ skessa mikil sýnum“ (JR; Rósarímur). 

Skálmöld (n, kvk)  Stríðstími; tími mannvíga; ógnaröld; ófriður.  Í seinni tíð ríkir um ófriðlegt ástand.

Skálmsprek (n, hk, fto)  Álmur á brókarkvísl, sjá skinnklæði.  „Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar.  Þær voru í fjórum pörtum; kvíslarfótur rekinn ofan í jörðina; kvíslarhnakkur með hringlaga gati í miðjunni en tappi á fætinum gekk upp um.  Önnur tvö göt voru á kvíslarhnakknum; sinn í hvorn enda frá hliðarfleti.  Í þessi göt var skálmsprekum stungið og brókin færð á kvíslarnar.  Ávallt snerust skálmarnar undan vindi og blés þá inn í brókina svo hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna“  (KJK; Kollsvíkurver).

Skán (n, kvk)  A.  Sauðatað; þurr kindaskítur úr fjáhúsum eða afrak af túni.  „Skán er útmetin til uppkveikju“.  Sumsstaðar notað um mó sem skorinn hefur verið í flögur.  Einnig notað um lag sem myndast ofaná moldargólfum með þjöppun af umgangi.  B.  Rjómi sem skilist hefur út úr mjólk þegar hún stendur, og sest ofaná.  C.  Himna sem myndast ofan á grautarpottum o.fl.  D.  Himna sem stundum myndast á tungu.  E.  Frostþekja á pollum og tjörnum.

Skána (s)  Batna; lagast.  Oft notað um veður eða kvilla.  „Mér sýnist verðrið eitthvað vera að skána“.  „Mér hefur skánað mikið af pestinni“.

Skáoki (n, kk)  Oki sem negldur er á ská innan á t.d. hurð til styrkingar; milli tveggja oka sem liggja þversum.

Skána (s)  Lagast; batna.  „Mér sýnist veðrið eitthvað vera að skána“.

Skáoki (n, kk)  Oki/slá/biti sem liggur á ská.  Oftast er talað um skáoka innaná hurð, milli þverokanna; sem hefur það hlutverk að mynda þríhyrnur og þannig varna bjögun í henni.

Skápur (n, kk)  A.  Algengt húsgagn.  B.  Vik/hvolf/skot inn í klettavegg.  „Nokkuð fyrir innan Klauf er í fjörunni skápur sem heitir Bás.  Hér fellur sjór í berg“  (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).   Jörðin Skápadalur í Patreksfjarðarbotni sunnanverðum dregur eflaust nafn af djúpum klettagljúfrum innst í dalnum.  Jörðin er reyndar nefnd Skyttudalur í eldri heimildum.  „Skyttudalur (aðrir meina það Skytludaler).  Almennilega kallast jörðin Skápadalur“ (ÁM; Jarðabók).  Skytta og „skytla“ er líklega af sömu rót og „skot“ = skápur.

Skár (l)  A.  Betur; sæmilegar.  Sjaldan notað í frumstigi nú á tímum.  „Mér líður mun skár en í gær“.  „Veðrið er orðið mun skárra en í morgun“.  „Ég held að þetta sé skásti kosturinn“.  Sjá orðtökin skárra en ekkert og  skárra er það nú.  B.  Síðari liður orða, s.s. herskár, opinskár o.fl.  Endingin vísar líklega í stofninn „skái“ eða „á ská; sem hallast að“, líkt og endingin „-legur“. 

Skára (s)  Búa til skurðarfar/sláttufar/skára; slá með orfi  „Skaflinn í Kinninni nær alveg fram af kanti og heldur líklega bílnum, en gott væri að skára far fyrir efra hjólið til að skriki síður til“.  „Afi stóð uppi í Bæjarhólnum þegar ég kom út, og skáraði af kappi“.

Skári (n, kk)  Farið sem myndast þegar slegið er með orfi; einn skári fyrir hverja sveiflu.  Annarsstaðar virðist þetta hafa verið notað um grasið sem slegið er, en um það var notað orðið múgi í Kollsvík.  Skári var einnig notað um það sem var svipað í lögun og skárar á velli; t.d. um skýjafar.

Skárra af tvennu illu (orðtak)  Betri kosturinn af tveimur; betra úrræðið.  „Af tvennu illu held ég að það sé skárra að draga þetta núna í slæmu, heldren geyma það til morguns“.

Skárra en ekkert (orðtak)  Betra en án.  „Ertu húfulaus eins og auli!  Hérna, settu á þig pottlokið mitt; það er skárra en ekkert“.

Skárra er það /væri það (nú)!  (orðatiltæki)  Upphrópun í vanþóknun eða hneykslun.  „Skárri eru það nú merkilegheitin í karlinum!  Hann heilsaði ekki þegar við mættum honum á útstíminu“.  „Auðvitað helli ég upp á kaffisopa þegar ég fæ heimsókn; skárra væri það nú“!  Sjá ekki er það nú!

Skásettur (orðtak)  Liggur á ská; hallandi.  „Endastaurinn varð dálítið skásettur við aðra í girðingunni“.

Skáskera (s)  Fara á snið upp/niður brekku.  „Við skáskerum Sandahlíðina fyrir ofan Sandhólana; upp undir kletta“  (IG; Sagt til vegar I).  

Skáskjóta augum / Skjálgra augum (orðtök)  Gefa hornauga; skotra augum á skjálg; horfa útundan sér

Skáskjóta sér (orðtak)  Troða sér á milli með því að snúa hliðinni að.  „Hellisopið er svo þröngt að maður verður að skáskjóta sér til að komast, og ófært er það fyrir feitlagið fólk“.

Skástífa (n, kvk)  Biti/máttarviður sem liggur á ská, t.d. í húsgrind; til að gefa henni styrk þríhyrnunnar.

Ske (s)  Verða; gerast.  „Hvað er að ske“?  „Það má ekki ske að þetta tækifæri glatist“.  „Ég horfði á það ske“.  „Hvernig má þetta ske“?

Skeður (l)  Orðinn.  „Það er of seint að jesúsa sig þegar skaðinn er skeður“.

Skefjalaus (l)  Hömlulaus; gengdarlaus.  „Það sem mér fannst um útrásarvíkinga fyrir hrun er hið sama og nú; nema hvað ég... hafði ekki hugmynd um hvað gróf þessi græðgi var, og skefjalaus“  (SG; Bankahrunið). 

Skefjar (n, kvk, fto)  Takmörk; útmörk.  Einkum notað í orðtakinu að halda einhverju í skefjum; þ.e. innan ákveðinna marka.  Skefjar var fyrrum notað um slægjubletti eða útslægjur (það sem skafið/slegið var). 

Skefta (s)  Setja skaft/handfang á áhald.  „Það þyrfti að skefta þessa reku upp á nýtt“. 

Skefti (n, hk)  Skaft.  Einkum notað nú um skaft á byssu; byssuskefti, en fyrr víðar, s.s. hnífskefti.

Skeftur (l)  Búið að skefta.  „Hnífurinn hafði nýlega verið skeftur“.

Skegg (n, hk)  A.  Hárvöxtur í andliti, einkum karlmanna.  Sbr skylt er skeggið hökunni.  B.  Hökuþráður á fiski, s.s. þorski.  C.  Hak fremst á lykli; lykilskegg.  D.  Hak á skeggöxi.  E.  Stuttheiti á þursaskeggi.

Skeggbolli (n, kk)  Drykkjarmál með loki yfir að hluta, til að yfirskegg blotni ekki í því sem drukkið er.  Minnir á það sem nú er nefnt „stútkanna“, og er ætlað ungbörnum að drekka úr, eða öðrum sem illa valda bolla.

Skeggbroddar (n, kk, fto)  Skegg sem rakað hefur verið en er að byrja að vaxa aftur.

Skeggburst / Skeggflóki (n, kvk)  Mikið skegg; ósnyrt skegg.  „Hann svaraði ekki strax, heldur kímdi og strauk skeggburstina“.

Skeggbursti / Skeggkústur (n, kk)  Bursti til að sápa fyrir rakstur skeggs.  „Ég þyrfti nýjan skeggkúst“.

Skegghýjungur / Skegglýjur (n, kk/ kvk, fto)  Óræktarlegt skegg, t.d. á unglingi.  „Farðu nú að raka af þér þennan skegghýjung“!  „Skelfing eru þær óræktarlegar þessar skegglýjur framaní honum“!

Skeggjajúði  (n, kk)  Gæluheiti á þeim sem er með áberandi eða tætingslegt skegg.  „Kemur þá þessi skeggjajúði“.  Sagt þannig í máli Kollsvíkinga og nágranna; annarsstaðar þekkist „skeggjúði“.

Skegglýja / Skegglufsa / Skeggstrý (n, kvk)  Gisið/tætingslegt/vanhirt skegg.  „Hann mætti nú snyrta þessa skegglýju aðeins“.

Skeggprúður (l)  Með tilkomumikið/þétt/glæsilegt skegg.  „Fyrr á tíð voru margir karlar skeggprúðir mjög“.

Skeggræða (s)  Ræða saman; diskútera.  „Eftir spilamennskuna skeggræddu menn um heima og geima“.

Skeggsápa (n, kvk)  Sápa sem ætluð er til að mýkja skegg fyrir rakstur.  Fyrir tíma þrýstibrúsa var hún seld ýmist í staukum eða í bollum.

Skeggvari (n, kk)  Lítill nestispoki.  „Gleymdu svo ekki skeggvaranum“.  Sköggvari mun annarsstaðar á landinu hafa verið notað um mal sem hékk aftan og framaná; með gati fyrir höfuð; einnig nefndur helsingjapoki.

Skeggöxi / Skeggja (n, hk)  Öxi með áberandi langa egg miðað við blaðið, og er blaðið við eggina dregið í hyrnu, einkum neðantil.  Slíkar axir voru algengar á 14. og 15. öld og voru fremur notaðar sem verkfæri en vopn.  Heimildir benda til að þær hafi kostað meira en kýrverð.

Skegla (n, kvk)  A.  Annað heiti á fuglinum ritu.  Rita var þó oftar notað í seinni tíð.  B. Blökk úr tré.

Skegla sig (orðtak)  Geifla sig; gretta sig.  „Vertu nú ekki að skegla þig framaní barnið“!

Skeið (n, kvk)  A.  Áhald sem notað er til að borða spónamat/graut.  Sbr eiga hvorki til hnífs né skeiðar.  B.  Gamalt heiti á stóru skipi.  „Þrátt með löndum, þar sem bröndur vaka,/ fleyti ég minni fornu skeið/ fjarri glæstra skipa leið“  (JR; Rósarímur).  C.  Leggöng; kynfæri kvenna/kvendýra.  D.  Í ft; slíður hnífs, sverðs og annars eggjárns.  E.  Hluti í vefstól, með raufum sem þræðir liggja um.  Líklega er orðstofninn „skíði“; þ.e. fjöl. 

Skeið (n, hk)  A.  Afmarkað tímabil; afmörkuð vegalengd.  „Um skeið var búið á Strákamel, og hefur hann síðan gengið jafnframt undir heitinu Gestarmelur“.  B.  Kapphlaup.  Sbr. bregða á skeið.  C.  Gangtegund hests.

Skeiða (s)  Um hest; hlaupa á skeiði.

Skeiðarblað (n, hk)  A.  Íhvolfur fremsti hluti skeiðar.  B.  Gróf mælieining; það magn sem kemst í skeið.  „Það mætti setja útí þetta skeiðarblað af rommi til bragðbætingar“.

Skeiðklukka / Skeiðúr (n, kvk/hk)  Klukka/úr sem notað er til afmarkaðra tímamælinga, t.d. í íþróttum.

Skeiðvatn (n, hk)  Þynnt saltpéturssýra.  Var um tíma notað til lækninga,t.d. til að sóttverja og bera á sár.

Skeifa (n, kvk)  A.  Hóflaga járnþynna sem fest er til hlífðar undir hófa reiðhests.  B.  Skeifulaga grátvipra um munninn.  Setja upp skeifu.

Skeifhyrnd (l)  Um hornalag kinda; hornin bogin líkt og skeifur.  „Skeifa gamla var að sjálfsögðu skeifhyrnd“.

Skeifnajárn (n, hk)  Flatt stangajárn, notað til smíða á skeifum.  „Ekki er ljóst hvenær byrjað var að nota kúffiskplóg, en pabbi minnist þess að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík hafi smíðað kúffiskplóg úr skeifnajárni og með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi...“  (GG; Lóðir í Kollsvíkurveri).

Skeika (s)  Mismuna; geiga; fara/gera skakkt; skjöplast.  „Ekki skeikaði nema sekúndubroti að ég yrði á undan honum í markið“.  „Þarna mátti engu skeika“.  Sjá láta skeika að sköpuðu.

Skeikull (l)  Sem skeikar; sem er ekki mjög nákvæmur.  „Páfinn er skeikull sem aðrir“.

Skeina (n, kvk)  Lítið sár.  „Þetta er bara lítil skeina“.

Skeina sig (orðtak)  A.  Meiða/flumbra sig.  „Hann skeindist eitthvað á hnénu“.  B.  Snyrta á sér óæðri endann.  

Skeinast (s)  A.  Meiðast; fá sár; flumbra/skeina sig.  „Varstu nú eitthvað að skeinast á puttanum“?  „Þetta er bara smáskeina; það grær áður en þú giftir þig“.  B.  Í aðfinnslutón; drattast; drífa sig.  „Reyndu nú að skeinast til að laga aðeins draslið í kringum þig“!

Skeinast til (orðtak)  Drattast til; hafa sig í; sluddast til.  „Reyndu nú að skeinast til að klára þetta verk áður en það er um seinan“.  „Ekki stendur á loforðunum hjá þeim; bara að þeir gætu nú skeinst til að efna þau“.

Skeindur (l)  A.  Meiddur.  „Ertu ekki eitthvað skeindur eftir byltuna“?  B.  Búið að þrífa hægðir. 

Skeini (n, hk)  A.  Skeinispappír.  B.  Lítil fjöl sem fest er innaná stefni báts.  Af henni er dregin líkingin skeini, sem heiti á aumum/vesölum manni.

Skeinisblað / Skeinisbréf / Skeinispappír (n, hk)  Bréf til að þurrka endaþarm eftir hægðir.  „Þess var gætt að á kamrinum væri alltaf nóg af skeinispappír.  Flokksmálgagn Framsóknarmanna gegndi þar veigamiklu hlutverki, en einnig mátti nota umbúðir hans, þunnan pappírshólk, með sæmilegu móti.  Á hinn bóginn var vonlaust að nota „Fakta om Sovietunionen“ sem stundum slæddist með í bunkanum.  Það rit reyndist þó mjög gagnlegt þeim kamarnotendum sem voru að byrja að stauta sig framúr dönsku og alþjóðastjórnmálum“.

Skeinisblaðsvirði (l)  Verðgildi eins skeinisblaðs.  „Mér finnst nú lítið til um þessa nýju stjórnarstefnu; held nú bara að hún sé ekki skeinisblaðsvirði“!

Skeinuhætt (l)  Hætta búin; í hættu.  „Fénu getur orðið nokkuð skeinuhætt í hlíðunum eftir vetrarbyrjun“.

Skekja (s)  Hrista rækilega til.  „Hann sagðist vera uppgefinn eftir að skekjast á þessum vegleysum“.

Skekking (n, kvk)  Skekkja; halli.  Skekkingar er örnefni norðantil í klettum Núpsins.  Þar er hægt að ganga úr Sandahlíðinni á ská uppá brún Sanddalsins“.

Skekkja (n, kvk)  Frávik; skekking; halli.  „Hér er einhver skekkja í mælingunni“.

Skekkja (s)  Gera skakkt/frávik; halla.  „Karlinn var búinn að skekkja húfuderinu alveg aftur á hnakka, svo eitthvað hlaut að hafa gengið á“.  „Það þyrfti að skekkja tönnunum í söginni“.

Skekta (n, kvk)  Lítill bátur; oftast 2ja manna far.  „Gísli Guðbjartsson átti litla skektu sem kölluð var Korkanes“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Skektuhorn (n, hk)  Gæluheiti á lítilli skektu.  „Hann lagði rauðmaganet og vitjaði um það á skektuhorninu“.

Skel (n, kvk)  A.  Skel skeldýrs.  T.d. krákuskel, öðuskel, kúffiskskel, olnbogaskel o.fl.  B.  Lítill bátur; bátskel.  C.  Almennt um þunna stökka skán eða hjúp; skurn.

Skelbeita (n, kvk)  Skelfiskur sem skorinn er úr og notaður fyrir beitu, oftast kúffiskur.

Skeleggur (l)  Ákveðinn; harður; fylginn sér.  „Hann var mjög skelegggur í þeirri baráttu“.  Vísar til þess að vera með skelþunna/flugbeitta egg.

Skelfdur (l)  Hræddur; óttasleginn.  „Hann var greinilega skelfdur við að heyra þessi torkennilegu hljóð“.

Skelfilega / Skelfing  (ao)  Illa; bölvanlega; hrikalega.  „Það gengur skelfilega illa að fá svör frá ráðuneytinu“.

Skelfdur (l)  Hræddur; mjög smeykur. 

Skelfing / Skelfingar / Skelfingarinnar ( n, kvk)  Ógn; ótti.  Oftast notað til áherslu:  „Mikið skelfing geturðu verið sinnulaus“.  „Skelfingar hávaði er þetta“.  „Hann er nú orðinn skelfing hrumur, karlanginn“.  „Skelfingarinnar ósköp geturðu nú verið treggáfaður; ég beiddi þig að búa þig almennilega áður en við lögðum af stað, og samt ertu húfulaus“!

Skelfingaróp / Skelfingaröskur (n, hk)  Öskur/óp þess sem verður mjög hræddur.

Skelfingarósköp (n, hk)  Upphrópun/áhersluorð.  „Mikil skelfingarósköp er þessi eilífa rigning nú leiðinleg“.

Skelfingarsvipur (n, kk)  Svipbrigði hræðslu.  „Ég gleymi ekki skelfingarsvipnum sem kom á hann“!

Skelfingu lostinn (orðtak)  Mjög hræddur; frávita af hræðslu/seklfingu; í áfalli. 

Skelfiskeitrun (n, kvk)  Eitrun sem menn geta orðið fyrir af skelfiskneyslu.  Það er ævagömul regla að ekki skuli tína skelfisk í r-lausum mánuðum; þ.e. að sumarlagi, og var hún þekkt og virt í Kollsvík.  Vísindalegar rannsóknir hafa núna sýnt að reglan á fullan rétt á sér, þar sem skelfiskurinn innbyrðir oft mikið af eitruðum þörungum sem fjölga sér einkum að sumrinu.  Í mönnum veldur eitrið þrennskonar kvillum.  Algengastur er skelfiskeitrun, með miklum niðurgangi og uppköstum.  Lömunareitrun er fátíðari en alvarlegri, þar sem lömun getur orðið í taugum og öndunarfærum.  Þá er sumsstaðar erlendis þekkt minnistapseitrun.  Á síðari tímum hefur meira orðið vart við hina eitruðu þörunga en áður; líklega vegna aukins magns næringarefna af landi, t.d. vegna afrennslis tilbúins áburðar. 

Skelfisksát (n, hk)  Neysla á skelfiski.  Hún hefur eflaust alltaf verið töluverð þar sem skelfiskur var á fjörum, og lífsbjörg í harðindum.  Mikið rekur á land í Kollsvík af öðu og kræklingi eftir brim, og hefur það löngum verið tínt til átu.  „Vitað er að Sauðlauksdalskirkja verður mjög snemma eigandi að Hvalskeri og Skersbugnum og að þarna var mikið um að menn kæmu seinni hluta vetrar og að haustinu að afla sér þessarar bjargar.  Skelfisksát var þá almennt um þessar slóðir.  Til dæmis var sett bænhús í kaþólskum sið vergna þess fólks er þarna safnaðist saman vor og haust“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Skelfiskur / Skeldýr (n, kk)  Lindýr sem hafa um sig kalkskel, oft í tveimur hlutum.  Allmikið er um skelfisk á Kollsvík, enda góð lífsskilyrði margra tegunda í þaragarði og á hleinum og boðum.  Brimið ber skelfisk iðulega upp á fjöru, og hefur hann nokkuð verið tíndur til manneldis.  Eru það tegundirnar aða og kræklingur.

Skelja (s)  A.  Gera ísskán á vatni, jörð eða snjó.  „Það hefur skeljað á pollum í næturfrostinu“. B.  Um fisk; fá á sig harða skorpu við að þorna.  „Fiskurinn er byrjaður að skelja dálítið í þurrkinum“.  C.  Um sár; fá á sig harða verndandi skel þornaðra vessa og blóðstorku.  D.  Um mó; verða þurr/skorpinn að utanverðu.

Skelja úr (orðtak)  Skera skelfisk úr skel (kúskel) til að nota hann í beitu; skera úr.  „Var það aðgengilegra fyrir þann sem beitti ef búið var að skelja úr, og skera beitu þegar þeir komu af sjónum“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Skeljabrot (orðtak)  Brot skeljar.  Mikið er af skeljasandi á fjörum í Breiðafirði og við sunnanverða Vestfirði.  Allur er hann myndaður af skeljabrotum; mismunandi fíngerðum.

Skeljaður (l)  A.  Búinn að skelja.  B.  Þakinn áföstum skelfiski.  Þannig ásætur eru algengar á hvölum og, að sögn, einnig skeljaskrímslum sem sumir telja sig hafa séð á fjörum.

Skeljasandsbotn (n, kk)  Sjávarbotn þakinn skeljasandi.  „Botnrek er töluvert mikið á skeljasandsbotninum“.

Skeljasandsfjara (n, kvk)  Fjara í skeljasandi.  „Hvít skeljasandsfjara er með sjónum, frá Grundatöngum norður undir Blakk; um 2 km að lengd“  (IG; Sagt til vegar I).  

Skeljasandslag (n, hk)  Jarðvegslag af skeljasandi.  „Allur neðri hluti Breiðavíkur.. er þakinn þykkur skeljasandslagi“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Skeljasandur (n, kk)  Sandur sem myndaður er úr mulinni skel og skeljabrotum.  Skeljasandur er í miklu magni á fjörum þar sem mikið er um skelfisk á grunnsævi framundan.  Þannig er við utanverðan Breiðafjörð; sunnan og norðan, og á fjörum sunnanverðra Vestfjarða.  Skeljasandur getur verið mismunandi að lit, eftir því hvar á fjörum hann er.  Þannig er skeljasandur á Rauðasandi rauðleitur, enda mikið í honum af hörpudiski, en skeljasandur á Útvíkum og norðar er ljósleitur, vegna hins háa hlutfalls kræklings og öðu.  Sýnir þetta betur en annað að sandurinn er að mestu myndaður af þeirri skel sem fyrir landi er.  Myndunin er vafalítið með tvennu móti:  Annarsvegar mylur brimið niður skeljar og hinsvegar étur steinbíturinn gríðarlegt magn af skel sem hann mylur með sterkum tönnum.  Hefur menn greint á um það hvor orsakavaldurinn sé öflugri.  Þriðja kenningin um uppruna hins mikla sands norðan Látrabjargs er sú að hann hafi borist þangað úr Breiðafirðinum.  Vissulega er sjávarfallastraumur öflugur útmeð Bjarginu og Látraröstin eflaust fær um mikla efnisflutninga af því tagi.  Hinsvegar er erfitt að skýra með þessu móti hið mikla sandmagn inni í fjörðum og hina miklu flokkun eftir tegundum, sem áður er getið. 
Skeljasandsbreiður liggja á grunnsævi á þessum slóðum en rótast upp í fjöruna í brimi.  Geta verið gríðarlegir flutningar á sandi eftir því úr hvaða átt brimar.  Þannig getur mikið vestanbrim flutt sand upp á fjörur undir Hryggjum og í Vatnadalsbót á einni flæði, í því magni að á fjöru verði gengt þurrum fótum þar sem áður voru forvaðar; en skolað sandinum aftur út í næsta norðansjó; byggt upp sandrif suðureftir Grundagrjótum og myndað lón við útfall lækja.
Í gegnum tíðina hafa myndast mikil landflæmi af skeljasandi í víkunum.  T.d. eru þykk lög af sandi neðantil í Kollsvíkinni allri; einkum sunnantil.  Sandurinn hefur gróið upp í gegnum tíðina, en gróðurþekjan er viðkvæm á þurrum og næringarsnauðum sandinum.  Því hefur sandfok og uppblástur hrjáð þessar jarðir svo langt sem heimildir greina; einkum á þeim tímum þegar mikið er um norðanrok; þurrt er löngum í tíð, og mikið beitarálag er.  Blása þá upp stór melaskörð og sandskaflar berast upp á tún og suðuryfir hálendið.  Í sandfokinu er ekki einungis sandur heldur einnig leir og salt.  Verður mökkurinn svo mikill í miklu sandfoki að skyggni verður lítið sem ekkert.  Sandmóstan sest vindmegin á alla hluti og er t.d. járn fljótt að tærast.  Tæki og girðingar hafa því gjarnan minni endingartíma en annarsstaðar.  Ekki hafa fundist mikil not fyrir sandinn, að öðru leyti en því að nýta hann til steinsteypu.  Hinsvegar eru sandbalarnir hinn besti þurrkvöllur, og þar urðu hin ágætustu tún þó þau séu í eðli sínu áburðarfrek mjög.  Í gegnum tíðina hafa bændur kakkað á þau skít og ræksnum, með þeim árangri að kominn er frjór jarðvegur á yfirborðið.  Gömlu túnin á Láganúpi, Hólum og Grundatúni eru t.d. í gríðarlegri rækt enn (2017), þó ekki hafi þau fengið áburðarkorn í nokkra áratugi, en nýjar sandsléttur gróa ekki nema með miklum áburði.
„Jarðvegur á Láganúpi er byggður upp á skeljasandi og því ófrjór og áburðarfrekur. “  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Skeljaskrímsli (n, hk)  Tegund sjóskrímsla.  Þó vísindin eigi erfitt með að finna þessari dýrategund stað þá er viss rökfræði í þjóðtrúnni, hér sem víðar.  T.d. er ekki ólíklegra að ásætur eins og skeljar festi sig við skrímsli sem skríður á land en hvali sem reglulega koma úr sjó.  „Sýndist honum það vera þeirrar tegundar sem nefnd hefur verið skeljaskrímsli, en þau eru svo vaxin skeljum að skröltir í þegar þau hreyfa sig“.    

Skeljatínsla (n, kvk)  Hirðing skelja af fjörum.  „Skeljatínsla til matar var alltaf einhver í Kollsvík.  Tínd var lifandi og óskemmd skel sem barst á land áföst þönglum eftir mikið brim.  Í r-lausum mánuðum er skelin talin eitruð og ekki tínd.  Síðari tíma vísindi hafa staðfest að þá er meiri hætta á þörungaeitrun í henni“.

Skelkaður (l)  Hræddur; skelfingu lostinn.  „Ég varð bara dálítið skelkaður við að horfa á þig príla þetta“.

Skelkjast (s)  Verða mjög hræddur/skelfdur.  „Það er óþarfi að skelkjast þó gefi dálítið á hérna í röstinni“.

Skelkur (n, kk)  Hræðsla; beygur.  „Einhver skelkur var í honum að leggja í lásinn“.  Sjá; skjóta skelk í bringu.

Skella (n, kvk) A.   Blettur; flekkur.  „Er þetta kind þarna heimantil við hvítu skelluna í klettunum“? „Um morguninn ég uppdagaði óttalega þraut;/ ég alsettur var heljarmiklum bólum./  Með þessar rosaskellur til Þóris læknis þaut,/ ég þreyttur var og linnti ekki gólum“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   B.  Graslaus blettur í túni; hárlaus/litaður blettur á húð.  C.  Hávær stelpa; brussa.

Skella (s)  Detta harkalega; hlunkast.  „Láttu ekki eggjakútinn skella harkalega utaní í hífunginni“!

Skella af (orðtak)  Skera af; stytta.  „Það þyrfti að fara að skella aðeins af hárinu á mér“.  „Við þurfum að skella af hornunum á hrútnum áður en þau gróa inn“.  Sjá hornskella.

Skella aftur (orðtak)  Loka t.d. hurð/loki.  „Ekki skella svona aftur útihurðinni; þú getur brotið glerið“!

Skella á / Skella yfir (orðtak)  Um veðurbreytingu; skúr/rigning/él/stormur/fárviðri eða annað fer að.  „Mér sýnist hann vera að skella á með eitthvað úrhelli; við ættum að fara að koma okkur heim“.  „Ekki vorum við komin langt þegar á okkur skall suðaustan bylur…“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Skella/smella í góm (orðtak)  Mynda hvellt hljóð með því að loka góm með tungubroddi; mynda lofttæmi í munnholi og opna fyrir.  Oft notað til að lýsa vanþóknun eða fyrirlitningu; eða sem tákn við stjórnun dýra.

Skella í sig (orðtak)  Slangurmál yfir það að innbyrða/borða/drekka eitthvað.  „Það er ekki tiltökumál þó eggið sé örlítið byrjað að unga; skelltu þessu bara í þig“!

Skella/slá (sér) á lær (orðtak)  Slá á lærið á sér í undrun/hneykslun/kátínu eða til að undirstrika önnur geðbrigði.

Skella skollaeyrum við (orðtak)  Hlusta ekki á; hundsa; þykjast ekki heyra.  „Svona fer þegar menn skella skollaeyrum við aðvörunum þeirra sem reynsluna hafa“.  Gæti annaðhvort vísað til þess að fjandinn varni mönnum þess að heyra mál annarra, eða þess að púki tekur einungis við skipunum síns húsbónda.

Skella skoltum (orðtak)  Loka opnum munni í fljótheitum; bíta snöggt saman gómum/tönnum.  „Allt í einu skellti hún skoltum á stykkið, og það undraði mig mest hvað hún náði stórum bita“  (IG; Æskuminningar).

Skella undir nára (orðtak)  A.  Berja fótastokkinn á hesti; hleypa hesti.  B.  Líkingamál; hlaupa af stað; fara af stað í flýti.  „Hann sagði þeim að éta það sem úti frýs; skellti svo undir nára og fór heim í fússi“.

Skella uppúr (orðtak)  A.  Um róðrarlagá árabát; árinn kemur uppúr sjónum í átaki og skellur aftur í sjóinn.  Slíkt getur t.d. hent þegar róið er í miklum veltingi og ekki er tekið nógu djúpt í árinni.  B.  Líkingamál; Fara að hlæja hátt; skrolla (hart l).  „Mér varð það fyrst fyrir þegar þetta skeði að skella uppúr“.

Skella við skætingi (orðtak)  Svara með meinlegum/rætnum athugasemdum/svörum; hreyta ónotum.

Skellibjart (l)  Flennibjart; alveg/mjög bjart.  „Hann hafði létt þokunni og var komið skellibjart sólskin“.

Skellibylur (n, kk)  Kastvindur; kasthviða. Mjög snörp og hvöss vindhviða niður dalverpi eða vík í aflandsvindi.  „Það liggur við að karlgarminum finnist það spennandi, eftir allt hans amstur og bardús, að eiga nú að upplifa einn af þessum frægu skellibyljum“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Skellihlátur (n, kk)  Hár og dillandi hlátur.  „Hann rak upp skellihlátur þegar hann heyrði þetta“.

Skellihlæja (s)  Hlæja skellihlátri.  „Ég þurfti að hafa mig allan við, til að fara ekki að skellihlæja“.

Skellihurð (n, kvk)  Hurð sem dregst sjálf að stöfum vegna halla, draglóðs eða annarrar þvingunar.

Skellinaðra (n, kvk)  A.  Annað heiti á skröltormi; amerískri eiturslöngu.  B.  Gælunafn á litlu mótorhjóli.

Skelliskauti (n, kk)  Um bát með keiparæði; sá keipur/skauti keiparæðis sem veit frá ræðara/ er aftar á bátnum.  Á honum skellur árin þegar henni er sveiflað fram eftir áratogið.  Einnig nefndur fyrirskauti.

Skellóttur (l)  Með skellum/flekkjum.  „Túnin voru ansi skellótt eftir kalið“.

Skelltur (l)  Klipptur; stýfaður.  „Útaf fyrir sig er í lagi þó netið sé skellt í sundur ef maður hefur lagt yfir; en það er ruddaskapur að skera í sjó og binda ekki saman“!

Skellur (n, kk)  Smellur; dynkur; snöggur hávaði. 

Skemmdarvargur (n, kk)  Sá sem skemmir að gamni sínu/þarflausu.  „Það þarf að ná þessum skemmdarvargi“.

Skemmta skrattanum (orðtak)  Gera illt verra; valda úlfúð/ruglingi/málþófi/skaða.  „Mér líka ekki þessi ummæli hans, en ég ætla ekki að fara að skemmta skrattanum með því að deila meira við hann“.

Skella skolleyrum við (orðtak)  Um það sem sagt er, t.d. viðvaranir; taka ekki mark á; hlusta ekki á; láta sem vind um eyru þjóta.  „Hann skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum og lagði af stað“.  Skollur merkir svik eða vélráð, sbr „skolli“.  Skolleyru eru því væntanlega eyru sem svíkja; þ.e. þykjast ekki heyra/ heyra ekki.

Skellihæja (s)  Hlæja hátt og dátt.  „Hann skellihló þegar ég sagði honum frá þessum mistökum“.

Skellóttur (l)  Blettóttur; skjömbóttur.  „Þakið er að verða dálítið skellótt, það fer að þurfa málningu bráðum“.

Skelmir (n, kk)  Þrjótur; vargur; óþokki.  „Haldiði ekki að bannsettur skelmirinn hafi stolið af mér hnífnum“!

Skelmislegur (l)  Hrekkjalegur; prakkaralegur.  „Ekki gekkst hann við þessu, en mér fannst hann grunsamlega skelmislegur á svipinn“.

Skeltekja (n, kvk)  Afli af skel þegar hennar var aflað til beitu.  „Svona gekk þetta æ ogfan í æ; að draga plóginn og tæma pokana, uns sæmileg skeltekja var fengin og þreyta og svefnleysi fór að sækja á mannskapinn“  (KJK; Kollsvíkurver; sjá kúskel). 

Skelþorna / Skelþurr (s/l)  Þornuð skán utaná en rakara inní.  „Riklingurinn...var venjulega þurrkaður.  Flökin hengd upp og látin skelþorna...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Skelþunnur (l)  A.  Mjög þunnur; eins og skel að þykkt.  „Fyrir alla muni farið ekki út á ísinn; hann er skelþunnur“!  B.  Líkingamál um þann sem er mjög heimskur eða með eftirköst áfengisdrykkju.

Skemill (n, kk)  Lágt sæti; upphækkun til að hvíla færur meðan maður situr.

Skemma (n, kvk)  Geymsluhús.  Var oft eitt húsa í gömlu burstabæjunum, en hefur síðar haldið heiti sem sérstætt hús.

Skemma (s)  Spilla; eyðileggja; valda skemmdum.  „Farðu nú varlega með þetta til að skemma það ekki“!

Skemma fyrir (einhverjum) (orðtak)  Spilla fyrir.  „Hann skemmdi fyrir sér með þessum kjaftagangi“.

Skemmast (s)  A.  Um hlut; verða fyrir skemmdum.  B.  Um mann; kala; meiðast.

Skemmd (n, kvk)  A.  Skaði; tjón; það sem ónýtt er af stærri heild.  Sjá til skemmda.  B.  Kal; ígerð. 

Skemmdarfýsn (n, kvk)  Vilji til að valda skemmdum.  „Ég skil ekki svona skemmdarfýsn“.

Skemmdarstarfsemi (n, kvk)  Eyðileggingarnáttúra; ribbaldaháttur; vandalaháttur; það að eyðileggja eitthvað viljandi.  „Þetta er auðvitað skemmdarstarfsemi og ekkert annað“!

Skemmdarvargur (n, kk)  Sá sem skemmir/ veldur skemmdum.  „Selurinn er bölvaður skemmdarvargur í netunum“.

Skemmdarverk (n, hk)  Skaði sem unninn er vísvitandi.  „Þetta eru bara hrein og klár skemmdarverk“!

Skemmri skírn / Skemmriskírn (orðtak/n, kvk)  A.  Skírn barns af óvígðum manni.  Í kaþólskri kristni fyrr á öldum var álitið mjög mikilvægt að allir yrðu skírðir fyrir andlátið til að einhver von væri til að þeir yrðu sáluhólpnir; einnig börn sem séð varð að myndu deyja fjótlega eftir fæðingu.  Því varð hver fullorðinn maður að kunna faðirvor og trúarjátningu til að vera reiðubúinn að skíra skemmri skírn.  Er kveðið á um það í kristinrétti hinum forna frá því kringum 1130.  Konur máttu þó helst ekki skíra skemmri skírn, ef völ var á karlmanni til verksins.  B.  Líkingamál um verk sem vinna þarf í hasti, þó ekki verði það jafn vandað og vera skal; verk sem virðist flausturslega unnið.  „Þeir voru búnir að mála húsið, en mér fannst vera óttaleg skemmriskírn á því“.

Skemmst er frá (því) að segja (orðtak)  Til að gera langa sögu stutta; svo farið sé fljótt yfir sögu; í stuttu máli. 

Skemmta (s) Veita skemmtun/gleði.  „Hann skemmti þar með söng“.  Einnig í þolmynd:  „Mér var ekki skemmt þegar ég fékk þessi tíðindi“.

Skemmta sér (orðtak)  Hafa gaman; gleðjast; hlakka.  „Ég skemmti mér hið besta við að horfa uppá þetta“.

Skemmta skrattanum (orðtak)  Um óreiðu eða tilgangslausan/skaðlegan verknað.  „Ég held að það hafi nú ekkert uppá sig að bölsótast þó vélin fari ekki í gang; það er nú bara til að skemmta skrattanum“.  Vísar til þess að þjóðtrúin segir að púkar og árar fagni mjög þegar illa gengur hjá mannfólki og blótsyrða er von.  Segir í þjóðsögum JÁ að orðtakið eigi sérlega við það þegar tveir kveða; sína vísuna hvor.

Skemmtanahald (orðtak)  Samkoma; mannfagnaður.  „Það verður lítið af skemmtanahaldi í þessu veðri“.

Skemmtiefni (n, hk)  Það sem verður manni til skemmtunar; gleðiefni; aðhlátursefni.  „Mér fannst það ekkert skemmtiefni að fá svona fréttir“.

Skemmtilega (l)  Á áhugaverðan/skemmtilegan hátt.  „Pabbi las líka oft sögur fyrir okkur á kvöldin, þegar við vorum lítil.  Hann las svo skemmtilega að það var ekki hægt annað en taka eftir hverju orði“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Skemmtiferð / Skemmtireisa (n, kvk)  Ferð sem farin er til skemmtunar.  „Eina skemtiferð hafa fjelagar (í Vestra) farið á sjó; út á Bjargtanga til þess að skoða Bjargtangavitann, og aðra inn að Vestur-Botni í Patreksfirði til þess að skoða skógarleifarnar og skemta sjer.  Fjelagar í Von komu þangað líka sama dag.  Sumarið 1926 gekkst Von fyrir skemtiferð í Skor.  Þar var haldin guðsþjónusta undir beru lofti í Skorarvogi í rigningu og fyrirlestur um Eggert Ólafsson“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Skemmtiganga (n,kvk)  Skemmtileg gönguferð.  „Hann var drullulofthræddur og fannst það lítil skemmtiganga að þurfa að smala þessar hlíðar“.

Skemmtiheimsókn (n, kvk)  Heimsókn í skemmtanaskyni; vinaheimsókn.  „Það er nú lítil skemmtiheimsókn að fá þessa hrútafjanda innanað.  Þeir verða bara að sækja sem eiga“!

Skemmtilega (ao)  Með ánægjulegum/gleðilegum hætti.  „Það vill svo skemmtilega til“.

Skemmtilegheit (n, hk, fto)  Ánægjuefni; ástæða til að gleðjast.  Oft notað í andstæðri merkingu:  „Hann segist vera kominn með ælupest, niðurgang og önnur slík skemmtilegheit“.

Skemmtilegheit (n, hk, fto)  Skemmtiefni; glens.  „Það voru ýmis skemmtilegheit þarna á hátíðinni“.  Einnig í kaldhæðinni merkingu:  „Það verða líklega skemmtilegheit í netunum eftir norðangarðinn“!

Skemmtilesning / Skemmtilestur (n, kvk)  Ánægjulegt lesefni/sendibréf/rit.  „Ekki er það nein skemmtilesning sem skattstjórinn er að senda núna“!

Skemmtisamkoma (n, kvk)  Samkoma fólks til skemmtunar.  „Almennar skemmtisamkomur hafa verið fátíðar í fjelaginu; ein og eingin á vetri, og hefir húsleysi valdið því“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Skemmtisigling (n, kvk)  Skemmtileg sigling/bátsferð.  „Það verður engin skemmtisigling í röstinni þegar svona stendur á falli“.

Skemmtun (n, kvk)  Gleði; ánægja.  „Við gerðum okkur það til skemmtunar að sigla tunnubátum á Torfalæknum“.

Skenglast (s)  A.  Rölta; komast; drattast.  „Það er nú ekki fyrir hvern sem er að fara Sveltisganginn, en einhvernvegin skenglaðist maður þetta“.  „Er hann ekkert að skenglast á fætur ennþá“?  B.  Um skó; epjast; skekkjast undir ilinni. „Það er ómögulegt að vera í of stórum stígvélum í smalamennsu; þú verður fljótt sárfættur þegar þau skenglast í ósléttunni“.

Skenkja (s)  Gefa; færa að gjöf.  „Hann skenkti mér þessa forláta bók“.

Skens / Skensyrði / Skensvísa (n, hk)  Grín; hæðni.  „Hann er alltof montinn til að skilja svona skens“.

Skensa (s)  Gera grín að; hæða.  „Þeir eru ennþá að skensa hann fyrir þessa uppákomu á þorrablótinu“.

Skensinn (l)  Hæðinn; gagnrýninn.  „Það er ekki nóg að vera skensinn á annarra manna tillögur, ef maður hefur svo ekkert sjálfur fram að færa“!

Skepna (n, kvk)  A.  Dýr í víðtækustu merkingu.  „Þetta tíðarfar bitnar bæði á mönnum og skepnum“.  B.  Búfé, sbr skepnuhald; skepnubúskapur.  C.  Vesalingur; aumkunarverð manneskja.  „Maður liggur bara í sínum veikindum, eins og hver önnur skempna“.  D.  Örlög.  Dregið af sögninni að skapa eins og fyrrnefndar merkingar, og vísar stundum til skaparans:  „Það þarf ekkert að sjóða þessi kríuegg; maður étur þau bara eins og þau koma fyrir af skepnunni“.  E.  Fantur; ruddi; ótukt.  „Óttaleg skepna getur hann verið“!

Skepnan líða meinlaus má, mannsins því hún geldur (orðatiltæki)  Spekin virðist hafa verið þekkt í Rauðasandshreppi áðurfyrr, af því sem ráða má í grein í Lilju; blaði Ungmennafélagsins Smára í Örlygshöfn í jan 1938, er nefnist „Meðferð á dýrum“.  Heyrðist þó ekki mikið síðar á þeirri öld.

Skepnuhald / Skepnubúskapur (n, kk)  Búskapur með sauðfé og/eða stórgripi, til aðgreiningar frá t.d. garðyrkjubúskap og ferðaþjónustu; framgangur/velferð búfjár.  „Í Rauðasandshreppi hefur frá örófi alda verið stundaður skepnubúskapur á hverri jörð, og sumsstaðar útræði að auki; allt framá 20. öld.  Þá fóru að koma upp ýmsir aðrir atvinnuhættir“.  „Skepnuhöld hafa verið góð, að undanskildu því að í haust og fyrri hluta vetrar gjörði bráðapest vart við sig með mesta móti“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Skepnufóður (n, hk)  Fóður/matur fyrir skepnur.  „Þetta rúgmjöl er varla nothæft í skepnufóður“!

Skepnuheldur (l)  Garður, girðing eða annað hólf sem skepnur komast ekki gegnum.  „Á kambinum er hlaðinn túngarður sem stendur sumstaðar mjög vel. ...Fyrir ofan þennan garð voru hlaðnir veggir um kartöflugarða sem seinna standa það vel að þeir væru enn skepnuheldir með litlum lagfæringum“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).  Orðið finnst ekki í orðabókum en er almennt notað um girðingar og fleira í Kollsvík.

Skepnuhirðing (n, kvk)  Umönnun búfjár, t.d. gjafir, vötnun, mjaltir, skítmokstur o.fl.  „Karlmenn komu ekki að skepnuhirðingu eftir að þeir fóru í Verið.  Konur urðu að bæta þeim á sig, og vinna á túnum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Skepnuhús (n, hk)  Hús sem búfénaður er hafður í; fjárhús/fjós o.fl. ásamt fóðurgeymslu/hlöðu.

Skepnuskapur (n, kk)  Illkvittni; slæm meðferð.  „Hann var alræmdur fyrir skepnuskap við sína leiguliða“.

Skepnutegund (n, kvk)  Dýrategund.  „Ekki veit ég hvaða skepnutegund þetta er, þarna í þaranum“.

Skeppa (n, kvk)  Gömul mælieining á rúmmáli þurrvöru.  Ein skeppa samsvaraði 17,4 lítrum; tvær skeppur voru fjórðungur (34,7 lítrar) og átta skeppur sama og ein tunna (139 lítrar).  Kornvara var oft mæld í skeppum.

Skeptískur (l)  Tortrygginn; gagnrýninn; efinn.  „Ég er dálítið skeptískur á svona tiltektir““.

Sker (n, hk)  Hlein; klettur eða klöpp sem fer á kaf í sjó á flæði en kemur uppúr um fjöru.  Getur verið landfast um fjöru eða úti í sjó.  Dæmi um sker eru Breiðasker og Straumsker.  Undantekningar eru á reglunni, t.d. fer Nónsker í Skor aldrei á kaf á flæði.  Ef skerið kemur ekki uppúr sjó nefnist það grynning eða boði.  Þó eru undantekningar á því einnig, t.d. Arnarboði, sem kemur uppúr um fjöru.  Ekki eru dæmi þess í Rauðasandshreppi að sker séu inni í landi, líkt og sumsstaðar annarsstaðar á landinu.  Sjá flæðisker.

Sker/nístir í gegnum merg og bein / Sker í eyru (orðtak)  Um óhljóð/ískur/gaul/væl; illbærilegt að hlusta á.  „Hrafninn renndi sér niður þakið með ískri sem skar í gegnum merg og bein“.

Skera (s)  A.  Taka í sundur með hníf.  B.  Um búfé; slátra.  „Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“  (PG; Veðmálið). 

Skera að sér/ frá sér (orðtök)  Beita hnífsegg að/frá þegar skorið/telgt er.

Skera af fóðrum/heyjum (orðtak)  Slátra fé að vetrarlagi, þegar sýnt er að fóður dugir ekki framúr (til vors) að öðrum kosti.  Var talið neyðarúrræði í búskap.

Skera á (orðtak)  Skera sundur band/línu o.þ.h.  „Við skárum á netið sem lá yfir okkar, og gengum frá endum“.

Skera (sig) frá (orðtak)  A.  Skera sig svo illa á hníf að maður geti ekki unnið.  „Getur þú mætt í slátrun á morgun; það var einn að skera sig frá“?  B.  Skera bát frá landfestu/öðrum báti t.d. vegna slæms sjólags.  „Við urðum að skera okkur frá þegar hvert ólagið eftir annað skall yfir“.  „Hafði því hákarlinn verið skorinn frá aðlokum; en ekki fyrr en um seinan“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Skera fyrir (orðtak)  Skera fyrstu hnífsbrögðin við flatningu fisks (sjá þar). 

Skera handa skollanum (orðtak)  Hjátrú/víti sem segir að ef maður sker matinn frá sér í stað þess að skera hann að sér þá sé maður að skera handa skollanum; þ.e. fóðra andskotann.

Skera hrúta (orðtak)  Hrjóta í svefni.  „Það þýðir ekkert að þræta fyrir það; þú varst grjótsofnaður og farinn að skera hrúta.  Minna mátti nú heyra“!

Skera inn (orðtak)  Skera hákarl sem settur hefur verið á tamp, og innbyrða það sem nýtilegt er, t.d. lifur.  Miðstykki úr baki var annars látið ganga fyrir ef plásslítið var í bátnum.

Skera í ígerð/meinsemd (orðtak)  Gera lítinn skurð í ígerð til að hleypa greftri út og sótthreinsa sárið.

Skera í sjó (orðtak)  Skera í sundur net/línu sem lögð hefur verið yfir annað veiðarfæri af slysni/gáleysi, án þess að hnýta skornu endana saman aftur.  Óskráð regla var að setja skornu endana aftur saman með góðum hnút, en í svekkelsinu var hún ekki alltaf virt.  „Það þykir hinn mesti ruddaskapur að skera í sjó, enda kostar það tafir við að fara í hitt bólið og getur valdið auknum skemmdum á veiðarfærum“. 

Skera niður (orðtak)  A.  Skera stykki í búta/sneiðar.  „Skerður ekki meira niður af brauðinu en notað verður“.  B.  Slátra bústofni að mestu eða öllu leyti, t.d. til að fækka á fóðrum eða vegna faraldurs.  „Það þurfti að skera niður hjá honum vegna riðuveiki“.  C.  Skera net eða stóra skepnu við borstokk og hleypa niður.  „Netin voru svo kjaftfull af skít að á kafla urðum við að skera þau niður“.  „Meðan mest verð var á hákarlalýsi kom lítið á land annað en lifrin; hákarlinn var skorinn niður við skipshlið úti á miðum“.  D.  Minnka; rýra.  „Fjárveitingar til snjómoksturs voru verulega skornar niður þetta árið“.

Skera (eitthvað) niður við trog (orðtak)  Farga einhverju algerlega; drepa eitthvað niður.  Líking við slátrun sauðkindar, en þá er trogi brugðið undir strjúpann til að hirða blóðið, eftir að hálsæðar eru skornar.

Skera ofanaf (orðtak)  Rista torf af jörð; skera þúfur/þúfnakolla til að slétta land, t.d. við túnagerð.

Skera sig úr (orðtak)  Vera öðruvísi en fjöldinn; vera áberandi.  „Mér finnst þessi alveg skera sig úr“.

Skera til (orðtak)  Sníða til; laga eitthvað, t.d. gæru eða skinn, með því að skera skækla af.

Skera undan (orðtak)  Um siglingu báts;  missa stýri; missa sjó; þegar kjölur báts lyftist að hluta upp úr sjó í öldugangi.  „Stundum reis skip svo hátt í sjónum að það var hálft á lofti að aftan og við það missti stýrið sjó.  Var þá sagt að skæri undan.  En þá stýrðist ekki og skipið rann við og átti á hættu að taka sjó“ (LK; Ísl. sjávarh. III; eftir ÓETh). 

Skera upp (orðtak)  A.  Gera skurðaðgerð.  B.  Hirða uppskeru, t.d. af korni.  „Það uppsker hver sem hann sáir“.  C.  Búta hákarl niður í lykkjur.

Skera upp herör (orðtak)  Notað nútildags um það að efna til átaks gegn einhverju málefni.  Orðtakið vísar til ævaforns siðar sem viðhafður var til þess m.a. að kalla saman herlið til orrustu og efna til hreppsfunda.  Var þá skorið boð um það á legg örvar eða eftirlíkingar af ör, og það boðsent bæ frá bæ; rétta boðleið, um byggðarlagið.  Um boðsendinguna giltu afar strangar reglur sem tryggðu að boðið var fljótt í förum.  Vitað er að Hákon Aðalsteinsfóstri endurbætti þessar reglur kringum 950.  Síðar tóku þingboðsaxir og þingboðskrossar við hlutverki örvanna.  Um axarboð giltu m.a. reglur í Grágás og síðar Jónsbók.  Sjá nánar; boðleið.  Sjá örvarboð.

Skera uppúr (orðtak)  A.  Rista fyrir þegar kindarskrokkur er fleginn.  Einkanlega átt við fyrirristu á kvið.  B.  Skipta eftir hrygg; skera ullarreyfi á kind eftir hryggnum, þannig að hægara sé að taka af henni.  C.  Skera á milli blaða í nýútkominni bók.  Bækur eru prentaðar í örkum,og fyrrum voru þær gefnar út þannig að lesandi þurfti að byrja á að skera milli blaða að framan og ofan.  Nú er þetta skorið í vél fyrir útgáfu.  D.  Kveða upp úrskurð; taka ákvörðun í deilumáli.  „Um þetta var þrætt, þangað til réttarstjóri skar uppúr með það að hrúturinn yrði boðinn upp“.

Skera úr (orðtak)  A.  Kveða upp úrskurð/dóm í máli; ákveða; ákvarða.  B.  Skera úr skel (sjá þar).

Skera úr skel / Skelja úr (orðtök)  A.  Skera skelfisk úr kúskel til að nýta hann í beitu.  Meðan legið var yfir línu var skorið úr skel og beita brytjuð... (KJK; Kollsvíkurver; kúfiskur).  „Var það aðgengilegra fyrir þann sem beitti ef búið var að skelja úr, og skera beitu þegar þeir komu af sjónum“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).  B.  Skera kjaftbein úr steinbítshaus.  „Þegar hausinn var orðinn hálfþurr var kjaftbeinið stundum alveg losað frá; kallað að skera úr“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  

Skera úr hryggjum (orðtak)  Skera sundmaga innanúr þorskhryggjum (sjá sundmagi).

Skera út (orðtak)  Skera myndir/listaverk í tré.  Í Kollsvík hafa búið margir oddhagir menn og listakonur.  Af síðari tíma fólki má nefna listakonuna Sigríði Guðbjartsdóttur á Láganúpi.

Skerast vel/illa (orðtak)  Um það hvort sláturdilkar eru vænni eða rýrari en búist var við meðan þeir voru á fæti.  „Þú varst að slátra; og hvernig skarst hjá þér“?

Skera við nögl (orðtak)  Skammta naumt; vera spar á.  „Hann var kominn í stakkin; tók upp rjólstubbinn; brá honum undir jaxla og klippti af.  Hún var ekki skorin við nögl þessi“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Skera (niður) við trog (orðtak)  Slátra; skera stórlega niður; eyðileggja.  „Fjárveitingar í þessa vegi hafa verið skornar niður við trog á síðari árum“.  Þegar skepnu er slátrað er blóðinu safnað í trog, til sláturgerðar.

Skerast (s)  A.  Ganga inní.  „Gjárdalur skerst inní brún Blakksins að norðanverðu“.  B.  Um búfé; slátrast.  „          Hann taldi að vel hefði skorist hjá sér þetta haustið“.

Skerast í leikinn (orðtak)  Skipta sér af.  „Skríllinn var orðinn of galsafenginn svo lögreglan skarst í leikinn“.

Skerast í lið með (orðtak)  Veita liðsinni; aðstoða; ganga til liðs við.  „Ég skarst í lið með þeim við innreksturinn“.

Skerast í odda með (orðtak)  Koma til bardaga/átaka á milli.  „Á fundinum skarst nokkuð  í odda með þeim sem voru með og á móti“.  Vísar til orrustu; þegar lið mætast skarast oddar á vopnum.

Skerast úr leik (orðtak)  Hætta þátttöku; vera ekki með.  „Ætli ég verði ekki að skerast úr leik að þessu sinni“.

Skerða (s)  Skera; skera/hluta af; minnka.  Upprunalega hefur sögnin þýtt að skera, sbr ráskerðingur, sem er fiskur sem hengdur er upp til herslu.  Í hann hefur upprunalega verið skorin þuma til festingar.

Skerðing (n, kvk)  A.  Það að skerða.  B.  Skora; skarð.

Skerðast um (orðtak)  Sneiðast um; skorta; verða lítið um.  „Það fer bráðum að skerðast um brauðamat“.

Skerfur (n, kk)  Skiptahlutur; hluti; framlag.  „Hann hefur nú fengið sinn skerf af mótlætinu blessaður“.

Skeri (n, kk)  A.  Fjörumaðkur; liðormur í sjó, með húðtotur og kítínbursta á hliðum.  „Þorskurinn reyndist stútfullur af skera“.  B.  Torfljár; þökuskeri; ristuspaði; plógblað  „Mér sýnist þetta vera blað af skera“.

Skerjabálkur / Skerjafláki / Skerjaflös (n, kk)  Mörg samliggjandi sker; samliggjandi hleinar.  „Að norðanverðu er skerjabálkur sem kallast Bjarnarklakkar“  (HÖ; Fjaran).  „Undan Hænuvíkurnúpnum innanhallt er mikil skerjaflös sem getur verið varasöm þegar siglt er grunnt með landi um hálffallið“.

Skerjótt (l)  Mikið um sker.  „Undan Hreggnesanum er skerjótt og varasöm grunnleið“.

Skermsl (n, hk)  Hrúður yfir sár.  „Það er hætt að blæða og fljótlega kemur eitthvað skermsl yfir sárið“.

Skerpa (n, kvk)  A.  Töggur; viðbragðsflýtir; kraftur til vinnu, hlaupa og gangs; glöggskyggni í hugsun.  „Það er enn fjandi mikil skerpa í gamla manninum, þegar hann þarf að smala kindum“.  B.  Mikill og skarpur þurrkur; skerpuþurrkur

Skerpa (s)  Brýna; gera skarpari/beittari.

Skerpa á (orðtak)  A.  Hnykkja á:  „Hér gæti þurft að skerpa á reglum“.  B.  Hita:  „Ég ætla að skerpa á kaffinu“.  „Venjulega var tekið mað lítið eitt af kolum, sem þótti gott að geta gripið til ef sérlega þurfti að skerpa lítillega á eldi“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Skerpa bróðurkærleikann/kærleikann (orðtak)  Oftast notað um það þegar tveir vinir eða skyldir rífast eða slást, og er því nokkurskonar kaldhæðni.  „Það mátti heyra það um öll miðin þegar þeir fóru að skerpa bróðurkærleikann, og það skeði ekki ósjaldan“.

Skerpa undir (orðtak)  Um eldun/hitun; auka hita undir.  „Ég ætla að skerpa undir vatninu; svo hellum við okkur uppá kaffi“.  „Ketsúpan er mikið betri eftir að búið er að skerpa undir henni í annað sinn“.

Skerpiket (n, hk)  Þurrkað ket að hætti Færeyinga.  Skerpiket er nokkurskonar þjóðarréttur Færeyinga og á sér meira en þúsund ára hefð.

Skerpiþjöl (n, kvk)  Þjöl til að skerpa sagartennur; þrístrendingsþjöl. „Þessi þjöl er nú varla orðin nokkur skerpiþjöl lengur; hún er orðin svo lúin“.

Skerpla (n, kvk)  Annar mánuður sumars samkvæmt fornu tímatali.  Hefst laugardaginn í 5.viku sumars; 19.-25.maí.  Nafnskýring ekki viss.  Nefnd eggtíð og stekktíð í Snorra Eddu.

Skerpuróður (n, kk)  Skarpur róður; hraður/ákafur róður.  Notað þannig í Kollsvík, en annarsstaðar á landinu mun hafa tíðkast skerpingsróður eða að róa í skerpingi.

Skerpusólskin / Skerpuþurrkur  (n, kk)  Mjög góður þurrkur, þannig að hey þornar mjög fljótt (skarpt).  „Fjandi verður heitt í bjarginu í þessu skerpusólskini“.   „Það verður líkastil framhald á þessum skerpuþurrki á morgun; eftir spánni“.  Annarsstaðar mun hafa þekkst „skerpiþurrkur“.

Skerpusprettur (n, kk)  Hraður sprettur; hratt en tiltölulega stutt hlaup.  „Þetta var skerpusprettur, en ég hafði kvikindið að lokum“!

Skerstokkur (n, kk)  Stuttur stokkur með raufum í hliðum, sem notaður er til að saga sundur efni af nákvæmni.

Skessa (n, kvk)  Óvættur úr þjóðtrú; tröllkona; flagð.  Grýla og Gilitrutt voru nafntogaðar skessur.

Skessuketill (n, kk)  A.  Ketill sem þjóðtrúin segir skessur nota, m.a. til að sjóða í þeim mannfólk.  B.  Náttúrufyrirbæri sem finnst þar sem harður straumur vatns eða sjávarbrims þeytir steinum til á sama bletti og holar með því bergið í brunn.  Víða má sjá skessukatla á hleinum, m.a. í Kollsvík og nágrenni.

Skessuleikur (n, kk)  Leikur barna.  Hann fer í stórum dráttum þannig fram að eitt barn í hópi er skessan, og situr hún í ímynduðum helli sínum.  Hin börnin koma á landið hennar og tína ber.  Segja gjarnan eitthvað á þessa leið; „tína ber í skessulandi; skessa er ekki heima“.  Þegar skessan sér barn í færi stekkur hún upp og reynir að fanga það.  Takist það verður hinn sami skessan.

Skeyta (s)  A. Tengja/festa saman; setja skeyti/borð í bát. B.  Skipta sér af; taka eftir.  „Ég kallaði á hann en hann skeytti lítið um það“. 

Skeyta að sköpuðu (orðtak)  Laga sig að því sem er; gera það sem aðstæður gefa tilefni til.  Skeyta merkir að fella að, og merkingin er sú að fella sig að þeim aðstæðum sem skapast hafa.  Einnig; láta skeika að sköpuðu.

Skeyta engu/öngvu (orðtak)  Hirða ekki um; hlýða ekki; hafa ekki áhyggjur af.  „Hann skeytti því öngvu þó blóðið lagaði úr sárinu, heldur dró netið inn í kappi.  Enda mátti engan tíma missa svo bátinn ræki ekki upp“.

Skeyta saman (orðtak)  Tengja/festa saman.

Skeyta skapi sínu á (orðtak)  Láta skapvonsku bitna á.  „Tuddinn var kominn í ham og skeytti skapi sínu óspart á moldarbarðinu“.

Skeyta um (orðtak)  Skipta sér af; hirða um

Skeytasendingar (n, kvk, fto)  A.  Um orrustu; örvahríð; örvar/kastspjót sem skotið er gegn óvini.  B.  Líkingamál; köpuryrði/skammir/aðfinnslur/níð sem sent er milli manna, annaðhvort einhliða eða gagnkvæmt.  Stundum í bundnu máli.  „Ég kæri mig ekkert um svona skeytasendingar frá honum“!  C.  Líkingamál; sending símskeyta um fjarskiptanet/símalínu; sending smáskilaboða/SMS.

Skeyti (í báti) (n, hk)  A.  Borð í báti.  „Þegar fór að batna tíð var farið að huga að bátunum, en þeir voru á hvolfi frá því um haustið.  Það þurfti að bika þá innan og mála utan, og ef til vill skipta um eitt eða tvö skeyti; gera við band eða bunkastokk og setja niður vélina “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  B.  Spjót, ör eða annað kastvopn.  Síðar yfirfært á eldflaugar/flugskeyti.  C.  Símskeyti; símpóstur; smáskilaboð/SMS.  D.  Viðbót; viðskeyti við eitthvað, t.d. orð.

Skeyting (n, kvk)  A.  Samskeyti; samsetning.  B.  Hirðusemi; umhyggja. 

Skeytingarlaus (l)  Hirðulaus; kærulaus; áhugalaus.  „Hann virðist alveg skeytingarlaus um þetta“.

Skeytingarleysi (n, hk)  Hirðuleysi; áhugaleysi; kæruleysi.

Skeytingarlítill (l)  Kærulaus; áhugalaus.  „Óttalega finnst mér þú vera skeytingarlítill um námið“.

Skifta / Skiftast  (s)  Skipta / skiptast.  Í eldri skjölum Kollsvíkinga (fyrir ca 1950) er rithátturinn með f en ekki p eins og annarsstaðar var og nú er viðtekið.  „Arður sem verða kann af rekstrinum skiftist árlega á hluthafa eftir hlutafjárupphæð þeirra“  (Samþykktir fyrir Jarðræktarverkefni Kollsvíkinga, 1945).

Skiki (n, kk)  Lítið svæði; hluti svæðis.  „Það tekur því varða að slá þennan skika þegar nóg er annað“.

Skikk / Skikkan (n, hk/kvk)  Regla; skipulag; siður; háttur.  „Hann sá til þess að skikk var á hlutunum“.  „Ætli það verði ekki að reyna að koma einhverri skikkan á þetta“.  Koma skikki/skikkan á; með skikk og spekt.

Skikka til (orðtak)  Skipa að gera; fyrirskipa.  „Bændur voru skikkaðir til að flytja smjörið til bæja og svo bauð sýsli allt saman upp.  Geri aðrir betur í húsbóndahollustu!“  (SG; Handverk og smíði; Þjhd.Þjms). 

Skikkanlega (ao)  Sæmilega; þolanlega.  „Mér líður skikkanlega núna“.

Skikkanlegheit (n, hk, fto)  „Rólegheit; gott lag; kurteisi; heiðarleiki.  „Ég leit aðeins inn í fjárhúsin og þar var allt með skikkanlegheitum; engin virtist í tilferð með að bera“.

Skikkanlegheit (n, hk, fto)  Reglusemi; rósemi; regla; kyrrð.  „Það virtist allt með skikkanlegheitum í fjárhúsunum, og engin í tilferð með að bera“.

Skikkanlegheita (ao)  Góður; rólegur; skynsamur.  „Það er komið skikkanlegheita veður“.

Skikkanlegt (l)  Sæmilegt; hóflegt.  „Veðrið er nú skikkanlegt ennþá, en hann verður fljótur að breyta, trúi ég“.  „Ég er nú með skikkanlegra móti en í gær, en hóstinn er ekki góður enn“.

Skikkast til (orðtak)  Um veður/sjólag; lagast; batna; lygna.  „Eitthvað sýnist mér þetta vera að skikkast aðeins til.  Ég ætla allavegana að fara að hleypa fénu í vatn“.

Skikkelsi  / Skikkur (n, hk)  Regla; ró.  „Það þarf að koma einhverju skikki á þessi mál“.  „Er ekki allt í skikkelsi hér“?

Skikkelsisfólk / Skikkelsisgrey / Skikkelsisnáungi / Skikkelsismanneskja / Skikkelsispiltur / Skikkelsisskepna (n, hk/kk/kvk)  Orð sem höfð eru til að lýsa mönnum og skepnum sem eru friðsöm/vingjarnleg/ ekki óstýrilát.  „Strákurinn er mesta skikkelsisgrey“.  „Mér fannst þetta bara skikkelsisnáungi“.  „Þetta er mesta skikkelsisskepna“.

Skikkja (n, kvk)  Möttull; ermalaus yfirhöfn sem fest er saman á brjósti.

Skikkun (n, kvk)  Skipun; fyrirmæli.  „Ég tek ekki við neinni skikkun af hans hendi“!

Skikkunarbréf (n, hk)  Skipunarbréf, t.d. í embætti; bréf með fyrirmælum.

Skikkunarvald (n, hk)  Vald til að gefa fyrirskipanir; vald til skipunar í stöðu/embætti.

Skil (n, kvk, fto)  A.  Aðgreining; skipting; landamörk; takmörk.  „Um Ívarsegg liggja skilin milli Láganúps- og Breiðavíkurjarða“.  Sjá ekki handa sinna skil.  B.  Greining þekkingaratriða.  „Ég kann engin skil á þessu“.  C.  Greinargerð; reikningsskil; skilvísi.  „Hann er í skilum með lánið“.  „Hann greiddi þetta allt með skilum“.  „Óskilafé ber að færa á skilarétt“.  D.  Bil milli þráða í vefstól.

Skila (s)  Gera skil; greiða/láta til baka.  „Ég skilaði þeirri vöru sem gölluð var“.  B.  Koma boðum áleiðis.  „Skilaðu kveðju til allra“.  C.  Komast áfram í ætlaða stefnu.  „Okkur skilaði fremur hægt áfram“.

Skila af sér (orðtak)  Koma því til skila sem til stóð; losa sig við sendingu til vitakanda.

Skila nestinu (orðtak)  Um sjóveiki; leggjast útá borðstokkinn og æla; leggja lóðir; kalla í Eyjólf.  „Ætlarðu að skila öllu nestinu drengur“?

Skila sér (orðtak)  Koma til baka.  „Þaðan skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk“  (PG; Veðmálið). 

Skila sér til sama lands (orðtak)  Fara aftur á þann stað sem maður var á; snúa aftur heim.  „Þetta var indælis heimsókn, en ætli maður fari ekki að skila sér til sama lands hvað úr hverju“.  Líking við það að bátur snúi til vers úr róðri.  Mikið notað af Kollsvíkingum.

Skilaboð (n, hk, fto)  Boð sem send eru gegnum þriðja aðila.  Vísar e.t.v. upphaflega til axarboðs, sjá boðleið.

Skiladagur (n, kk)  Dagur þegar gera skal skil; greiðsludagur; gjalddagi.

Skilamaður (n, kk)  Sá sem stendur í skilum/ greiðir á réttum tíma það sem honum ber.

Skilarétt – Aðalrétt – Aukarétt (n, kvk)  Lögrétt; fjárrétt sem yfirvöld ákveða að skuli vera opinber miðstöð fjallskila.  „Breiðavíkurrétt var skilarétt fyrir utanverðan Rauðasandshrepp; það er Örlygshöfn, Hænuvík, Útvíkur og Keflavík“  (PG; Veðmálið).  Síðar var Breiðavíkurrétt skilgreind sem aukarétt:  „Skilaréttir í hreppum sýslunnar skulu vara á þeim stöðum sem hér segir...  Rauðasandshreppur: Aðalrétt á Rauðasandi; aukaréttir í Breiðuvík og Vesturbotni“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982). 

Skilasamur (l)  Skilvís; reglusamur með skil/uppgjör/greiðslu.  „Hann er mjög skilasamur“

Skilasemi (n, kvk)  Skilvísi; reglusemi með skil/uppgjör/greiðslu.  „Það má alltaf treysta hans skilasemi“.

Skildagi (n, kk)  Ákveðin tímasetning sem skil eru miðuð við; skiladagur.  Venjulega er átt við vinnuhjúaskildaga, sem var 14. maí, en þá hafði vinnufólk vistaskipti.  Eða eldaskildaga; 10.maí, en þá skyldi skila fé úr vetrareldi; t.d. prestlömbum og því sem alið var fyrir landsdrottinn.

Skildi þar milli feigs og ófeigs (orðatiltæki)  Þar slapp sá sem líf var ætlað en hinn fórst sem það var ætlað.  Máltækið vísar til forlagatrúar; að mönnum séu sköpuð örlög og þar með dánardægur.  Sá er feigur sem kominn er að sínum dánardegi.  Máltækið er viðhaft þegar þegar einhver er hætt kominn en lifir af.

Skildingsvirði (n, hk)  Verðgildi sem svarar einum skildingi, sem var verðlítil mynt.  Venjulega notað í neikvæðri merkingu; að eitthvað sé „ekki skildingsvirði“, þegar gert er lítið úr verðmæti þess.

Skildingur (n, kk)  A.  Verðlítil mynt, sem um tíma tíðkaðist í Danaveldi og var 1/96 úr ríkisdal.  B.  Ensk mynt; shilling; 1/20 úr pundi.  Nú aflögð, líkt og skildingar í Skandinavíu, Írlandi, Bretlandi og Austurríki..  D.  Ríki þar sem skildingar eru í gildi (2017) eru Kenýa; Sómalía, Tansanía og Úganda.

Skilgetinn (l)  A.  Fæddur í hjónabandi.  Fyrrum hafði slíkt meiri þýðingu en nú til dags.  B. Líkingamál; talað er um að eitthvað, t.d. málefni, sé „skilgetið afkvæmi“ einhvers annars, þegar það hefur greinileg tengsl við það.

Skilgreina (s)  Lýsa með rökstuðningi og í smáatriðum; útlista.  „Það er erfitt að skilgreina þetta til fulls“.

Skilgreining (n, kvk)  Greind lýsing; flokkun með rökstuðningi; útlistun.

Skilirí (n, hk)  Málverk; veggskjöldur.  „Þar hangir þetta forláta skilirí eftir Kjarval uppi á vegg“.

Skilja (n, kvk)  A.  Milligerð í bát, til að afli renni ekki á milli rúma.  B.  Tæki til aðgreiningar á einhverju, t.d. hrognaskilja sem skilur himnur frá hrognum.

Skilja (s)  A.  Sýna skilning; botna í.  B.  Vinna úr mjólk; skilja hana í rjóma og undanrennu.  „Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í mat.  Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  C.  Um hjón slíta hjónabandi/samvistum. 

Skilja að borði og sæng / Skilja að lögum (orðtak)  Við skilnað að borði og sæng er slitið hjónabandi að hluta; þ.e. hjón eru ekki samvistum en þó enn lögformlega gift.  Við skilnað að borði og sæng fellur niður ýmis réttur, t.d. sameiginleg fjárhagsábyrgð og erfðaréttur.  Við skilnað að lögum; lögskilnað, er hjónabandi slitið.

Skilja að skiptum (orðtak)  Slíta vinskap.  Hefur líklega í upphafi merkt að hætta í róðrum, víkingaferðum eða öðrum sameiginlegum aflaferðum, þar sem hópurinn skiptir fengnum.  Er nú notað um slit á hverskonar sambandi eða kunningsskap.  Sjá skipti.

Skilja eftir í lausu lofti (orðtak)  Um málefni; hafa óákveðið/ganga ekki frá ákvörðunum.  „Segja má að þessi mál hafi verið skilin eftir í lausu lofti“.

Skilja ekki baun / Skilja ekki neitt í neinu (orðtak)  Skilja hvorki upp né niður; átta sig alls ekki á.  „Ég skildi ekki neitt í neinu þegar ég kom á staðinn; þar voru hvorki kindur né smalar“.

Skilja fyrr en skellur í tönnum (orðtak)  Skilja fljótt hvernig í málum liggur; átta sig snarlega.  Vísar til þess að átta sig áður en óvættur/vargur nær að bíta.

Skilja hrogn (orðtak)  Skilja hrogn frá himnum og öðru sem ekki er söluvara.  Meðan það var gert með handafli í hrognasigti var talað um að sigta hrognin, en síðar voru þau skilin í véldrifinni hrognaskilju.

Skilja hvernig í málinu liggur / Skilja hvernig landið liggur (orðtök)  Átta sig á máli/samhengi.  „Eftir þetta samtal skildi ég betur hvernig í málinu liggur“.  „Við skulum byrja á að skoða hvernig landið liggur“.

Skilja í (orðtak)  Botna í; átta sig á; skilja.  „Ekki skil ég í þessari árans vitleysu í honum“!

Skilja/vita hvorki upp né niður (orðtak)  Átta sig alls ekki á; botna ekki í.  „Ég skil hvorki upp né niður í öllu þessu bulli“!

Skilja kjarnann frá hisminu (orðtak)  Greina það í mæltu/skrifuðu máli sem mikilvægt er.

Skilja leiðir (orðtak)  Um tvo/hóp á ferðalagi; fer hver/hvor sína leið; skiptast upp.  „Þegar við komum út á Strympur skildu leiðir:  Ég hélt áfram upp Vörðubrekku til að smala Sanddalinn,Flosadalinn og Hjallana, en pabbi hélt út í Breiðshlíðina til að smala Fjarðarhornið og Sandhólana“.

Skilja á milli (orðtak)  A.  Greina í sundur; aðgreina.  B.  Skilja nýbura frá móður með því að klippa/slíta naflastrenginn.

Skilja má fyrr en skellur í tönnum / Skilst fyrr en í tönnum skellur (orðatiltæki)  Unnt er að skilja fyrr en brestur á.  Vísar til þess að rándýr gefa oft frá sér viðvörun/urr áður en þau leggja til atlögu.

Skilja milli lífs og dauða (orðtak)  Um það sem er lífshættulegt og ræður því hvort maður lifir eða deyr; notað bæði um atvik og hluti.  „Skildi þar milli lífs og dauða að þeir komust af sem höfðu orku og fimi til að stökkva af lunningunni upp á hleinina; hinir hurfu í brimið“.  „Það getur skilið milli lífs og dauða fyrir sigarann, að vel sé hreinsuð brúnin“.

Skilja mjólk (orðtak)  Aðskilja rjóma frá undanrennu.  Var gert áður með því að láta standa um tíma í trogum og hella síðan undan, en síðar með skilvindum.

Skilja sneiðina (orðtak)  Skilja aðfinnslur/háð þó ekki sé sagt berum orðum.  

Skilja undan (orðtak)  Undanskilja; halda eftir; taka ekki með. 

Skilja úr/frá (orðtak)  Vinsa frá/úr; aðskilja.  „Við skulum reyna að skilja Breiðavíkurkindurnar úr okkar fé“.

Skilja við (orðtak)  A.  Fara frá.  „Það er ekki hægt að skilja við verkið svona hálfklárað“!  B.  Slíta hjónabandi.  „Hún er víst skilin við karlinn fyrir löngu“.  C.  Andast; deyja; sálast.  „Þá er hann skilinn við, blessaður“.

Skiljanlegt (orðtak)  Sem unnt er að skilja.  „Ég gerði honum það skiljanlegt að ég kærði mig ekkert um þetta“.

Skiljast við (orðtak)  Skilja sig frá; skilja við sig.  „Mér hefur alltaf gengið illa að skiljast við heimaslóðirnar“.

Skilkarl (n, kk)  Það tæki í skilvindu sem skilur rjóma frá undanrennu mjólkurinnar.

Skilmáli (n, kk)  Skilyrði.  „Hann taldi sig hafa uppfyllt alla skilmála samningsins“.  „Gummi hafði þegar sett fram hluta af skilmálunum og bætti nú við…“  (PG; Veðmálið). 

Skilmerkilega (ao)  Vel;greinilega; með skilum.  „Hann gerði skilmerkilega grein fyrir sínum ferðum“.

Skilmerkilegur (l)  Greinilegur; skýr. „Ég taldi mig hafa sagt honum þetta skýrt og skilmerkilega“.

Skilnaðarstund (n, kvk)  Kveðjustund; stund þegar einhver fer/ einhverjir skiljast að. 

Skilnaður (n, kk)  A.  Almennt það að skiljast að.  B.  Slit hjúskapar hjóna. 

Skilningarvit (n, hk, fto)  Skynfæri, s.s. eyru,augu,  nef, munnur og húð.  Einnig glöggskyggni/dómgreind sem þarf til að greina/skilja það sem skilningarvitin nema.

Skilningslaus / Skilningssljór (l)  Skilur ekki; tregur; lokaður.  „Hann reyndist alveg skilningslaus í þessu máli“.  „Skelfing geturðu verið skilningssljór“!

Skilningsleysi (n, hk)  Skortur á skilningi; sljóleiki.

Skilningssljór (l)  Tregur; lokaður; gengur illa að skilja.  „Skelfilega geturðu nú verið skilningssljór“!

Skilningur (n, kk)  Það að skilja; greining og rökleiðsla þess sem skynjað er.

Skilorð (n, hk)  A.  Skilyrði; forsenda.  „Hann fékk þetta lánað með því skilorði að hann færi vel með það“.  Þannig var orðið einkum notað vestra.  B.  Í almennu máli; skilyrði fyrir lausagöngu fanga.

Skilrúm / Skilveggur (n, hk)  Milligerð; milliveggur.  

Skilsmunur á (orðtak)  Munur; stigsmunur.  „Þeir eru svipaðir, en þó er sá skilsmunur á að annar er hyrndur“.

Skilveggur (n, kk)  Innveggur; milliveggur.  „Skilveggur var í réttinni, og sláturlömbin sett þar innfyrir“.

Skilvinda (n, kvk)  Tæki til að skilja að rjóma og undanrennu úr mjólk.  Skilvinda var á flestum bæjum með kúabú á síðari hluta 20. aldar.  Allar voru þær handknúnar.  Mjólkinni var hellt í stóra skál ofaná skilvindunni.  Byrjað var að snúa skilvindunni og hraðinn aukinn upp í 18-20 sn á mínútu á sveifinni, sem svo var mjög gírað upp inni í vélinni.  Bjalla í handfanginu lét vita ef hæfilegri ferð var náð, en mikilvægt var að halda jöfnum hraða.  Þá var opnað fyrir botnloka skálarinnar; mjólkin rann niður yfir skilkarlinn sem þar snerist undir; þar skildist hún á mörgum diskum; rjómi rann úr pípu öðrumegin og undanrenna hinumegin; hvort í stitt ílát.  Á eftir var skilvindan tekin sundur og þvegin vandlega.  Rjómagerð heimavið leið að mestu undir lok eftir að rjómi varð fáanlegur frá mjólkurbúum.

Skilvindukarl (n, kk)  Sá hluti skilvindu sem í raun skilur rjóma mjólkurinnar frá undanrennunni.  Hylki með mörgum kónískum skífum sem snúast á miklum hraða.  Þegar mjólkin lendir á blöðunum þeytist þungri hluti hennar; undanrennan, lengra frá, meðan rjóminn, sem er léttari, se st nær miðju, og rennur sitt útum hvora rás.

Skilvindusónn / Skilvindusöngur (n, n, kk)  Hátóna kliður sem heyrist í skilvindu þegar hún snýst á fullum hraða.  Söngurinn kemur bæði frá gírhjólum skilvindunnar og skilvindukarlinum, sem snýst með gríðarlegum hraða.  Eftir að hætt er að snúa sveifinni er söngurinn nokkurn tíma að deyja út.

Skilvís (l)  Skilasamur; skilar/greiðir á réttum tíma; unnt að treysta. 

Skilvísi (n, kvk)  Skilasemi; skil/greiðsla á réttum tíma.  „Það má alltaf treysta hans skilvísi“.

Skilvíslega (ao)  Með skilum; eins og um var samið.  „Hann greiðir sína skatta skilvíslega“.

Skilyrði (n, hk)  Skilorð; forsenda.  „Hann leyfði eggjatökuna með því skilyrði að fá landshlutinn heim“.

Skilyrðislaust (l)  Án skilyrða; fortakslaust.  „Þeirþurfa skilyrðislaust að hefla veginn með vorinu“!  „Ég lofa því skilyrðislaust“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Skima (s)  A.  Skyggnast um í kringum sig; grína; litast um.  B.  Um siglingu báts; rása; vera ekki stefnufastur.  „Ef skip þótti skima mikið; vera óstöðugt í rásinni var það kallað að elta lambær...“ (LK; Ísl. sjávarh. ÓETh).

Skima eftir (orðtak)  Leita/gá að; leita/kíkja eftir.  „Ég fór upp á hæðina og skimaði eftir kindunum“.

Skimpast (s)  Hæðast; grínast.  Heyrðist nær aldrei í rauðasandshreppi; heldur var þar notað „skippast“; sjá þar.

Skin (n, hk)  Birta; geislar.  Sjaldan notað nema með forskeyti; sólskin; tunglskin.

Skinhelgi (n, kvk)  Hræsni; helgislepja; yfirborðskennd/blekkjandi trú.  „Mér finnst það bölvuð skinhelgi að pína sig til kirkju ef maður hefur engan áhuga á því sem þar fer fram“.  Orðið er líklega gamalt; jafnvel frá ásatrú eða náttúruvættatrú, og vísar líklega til þess að einhver reyni að lýsa því yfir, til að auka völd sín, að náttúruvætti eða goð undir hans yfirráðum sé heilagt.  Ef almenningur festir ekki trúnað á því er það einungis skinheilagt; þ.e. það er þarna í skini sólar, en enginn trúir á það.  Væri á það trúað var það ginheilagt.

Skinhoraður (l)  Mjög grannholda/horaður/magur.  „Ærin var skinhoruð og tjásuleg“.  Vísar til beina sem sól hefur skinið á.

Skinin bein (orðtak)  Bein sem legið hafa í sól.  „Það var ekkert eftir af hræinu nema skinin beinin“.

Skinn (n, hk)  A.  Húð; gæra; bjór; há; feldur; bjálfi.  „Skinnið roðnar við sólbruna“.  B.  Gæluheiti í vorkunnartón um barn eða þann sem aumkunarverður er.  „Hann var mjög þakklátur, blessað skinnið“. 

Skinn er undir þá skarn er af þvegið (orðatiltæki)  Sá sem er illilegur í útliti og/eða tali getur reynst góðhjartaður/velviljaður undir niðri; enginn er alvondur.  Einnig viðkvæði þegar kvartað er yfir að maður sé skítugur.

Skinn og bein (orðtak)  Um mjög rýrt holdafar.  „Kindin var ósköp aðframkomin; lítið annað en skinnin og beinin, þegar hún náðist úr sveltinu“.

Skinna (n, kvk)  Þunnur efnisbútur; bót.  Nú oft notað um skífu sem höfð er undir nagla-/boltahaus.

Skinna (s)  Klæða með skinni; binda bók inn í skinn.

Skinnaköst (n, hk, fto)  Um sjólag; þegar í logni koma vindsveipir á sjóinn hér og hvar, og gárublettirnir verða eins og skinnum hafi verið dreift á sjóinn.  „Er þá farið að sjást eins og skinnaköst á sjóinn og fullt útlit fyrir skarpa aðlögn af norðri...“  (ÖG; Fiskiróður).  „En þegar komið var yfir undir miðjan fjörð sáust smá skinnaköst á sjónum, og í sama bili brast á veður af norðaustri svo að við ekkert varð ráðið“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Skinnband (n, hk)  Innbinding bókar í skinn.

Skinnbátur (n, kk)  Kúði; bátur sem byrtur er með skinni en ekki borðum eins og algengast hefur verið hérlendis.  Skinnbáta hafa menn notað frá því fyrir sögulegan tíma; líklega jafn lengi og trébyrta báta.  Írar notuðu þá frá fornu fari og framá miðbik 19.aldar.  Þar nefnast þeir „curragh“, en voru nefndir „kúðar“ meðal norrænna manna.  Hafi papar komið til landsins, og séu sagnir af komu Brendans biskups réttar, er líklegt að þeir hafi komið á slíkum kúðum.  Sannað hefur verið með eftirgerðum að kúðar eru vel brúkleg hafskip.  Sesar rómakeisari segir að Bretar hafi notað skinnbáta þegar hann átti í stríði við þá.
Eskimóar hafa notað skinnbáta til þessa dags, og þróað sérstaka gerð þeirra.  Annarsvegar er um að ræða eins manns báta sem henta til veiða og nefndir eru „kayak“, en hinsvegar burðarmeiri báta sem nefnast „umyak“ eða konubátar.  Kayakar eru nú framleiddir úr ýmsum efnum og notaðir til sportsiglinga hjá fleiri þjóðum.
Ekki er vitað til að landnámsmenn hafi notað skinnbáta, þó líkum hafi verið leitt að því varðandi suma þeirra.  Skinnbátar hafa vafalítið verið þekktir á Suðureyjum, þar sem fóstbræðurnir Örlygur og Kollur voru að námi hjá Patreki biskupi.  En líklega hafa þeir komið hingað út á knörrum eins og aðrir.  Til þess bendir skipbrot Kolls á Arnarboða.

Skinnbelgur (n, kk)  Belgur úr sérstaklega fleginni og verkaðri gæru.  „Skinnbelgir voru notaðir mikið undir mat; bæði kæfu, smjör, tólg og fleira.  (Einnig í baujur/belgi).  “  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  Sjá gæra.

Skinnbrók (n, kvk)  Brók/buxur úr skinni.  Sjá skinnkæði.

Skinnflipi (n, kk)  Skinn sem rifnað hefur upp, t.d. við meiðsl eða hrufl. 

Skinnfóðraður (l)  Með skinnfóðri.

Skinnfóður (n, hk)  Skinn í innra byrði fatnaðar, oftast yfirhafnar s.s. úlpu.

Skinnið atarna (orðtak)  Blessað skinnið/barnið; auminginn; vesalingurinn.  „Hann gerði þetta ekki viljandi, skinnið atarna“.  Atarna er líklega samansláttur úr „að þarna“ eða „það arna“ (sjá sá arna).

Skinnklæðaþráður (n, kk)  Þráður úr togi til að sauma skinnklæði.  „Eftir hátíðar var varið að elta skinn í brækur og spinna skinnklæðaþráð, en í hann var haft gott tog“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Skinnklæði (n, hk, fto)  Skinnklæði voru lífðarbúnaður sjómanna í Kollsvík langt fram á 20. öld, og hafði svo verið um aldir.  „Voru það brók og skinnstakkur, venjulega að mestu úr sauðskinnumSjóhatt áttu flestir, sen hann var aðeins settur upp þegar ágjöf var eða illviðri.  Karlmenn saumuðu sjálfir sín skinnklæði að vetrinum.  Tæki til þess voru fábotin; aðeins tvær nálar, fyrirseyma og eftirseyma, og klembrur   (sjá þar).  Saumgarnið var alltaf heimaspunninn togþráður, en náldragið annaðhvort hampgarn eða hvalseymi, ef það var til.  Saumþráðurinn var venjulega hafður sex- eða áttfaldur.  Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; einn í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur.  Auk þess þurfti leður í sóla og aflanga skinnpjötlu í loku.  Þær brækur þóttu fara betur er saumaðar voru með loku.  Ennfremur þurfti nokkurt skinn í miðseymi, einkum notað úr gömlum skinnklæðum.  Skinnin sem notuð voru til skinnklæðagerðar voru misjafnlega undirbúin.  Sum voru jafnvel blásteinslituð, og þótti það eitthvað verja fúa; önnur voru hert ólituð og þannig tekin til brókargerðar, en síðar voru flestir farnir að elta þau vandlega áður en saumað var úr þeim.  Þau skinnklæði tóku mikið betur við áburði; fernisolíu og lýsi, og urðu mýkri að klæðast í.  (Nánar um brók, skinnstakk og sjóskó þar).   Klæðst var brók og skinnstakki nær daglega við að bera fisk úr fjöru til ruðnings.  Þegar meiri vöðsluverk voru unnin, t.d. borinn farmur af skipi, þ.e. stærri flutningabátum í nokkru brimi, bjuggust menn svo sem best mátti vera eða bakbeltuðust (sjá þar).  Mjög gat skipt í tvö horn um þrif og verkun skinnklæða.  Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar (sjá þar).  Ýmsir sýndu mikla natni við þrif og verkun skinnklæða en aðrir miður, enda klæddust menn hlífðarfötum misjafnt eins og öðrum klæðum.  Sagt var að sjómaðurinn, alklæddur hlífðarfötum, væri öðrum rétthærri; t.d. á við prestinn í stólnum.“  (KJK; Kollsvíkurver).
„Eftir hátíðar var farið að elta skinn í brækur og spinna skinnklæðaþráð, en í hann var haft gott tog.  Kálfsskinn var notað í setskauta á brókum og leður í sóla.  Notuð voru elt eða eirlituð skinn,  Ljúka þurfti að sauma öll skinnklæði fyrir vertíð“  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). 
„Á Vestfjörðum var algengt að barkarlita skinn.  Löngum var notaður innlendur börkur, einkum af birkitrjám, einnig rekabörkur...  Víða voru skinn eirlituð...  Það bar við að eirnaglar og eirflögur væru látnar í trédall með fjórum pottum af keytu.  Unglingur var látinn sitja úti í fjósi; lesa kverið sitt og gutla.  En það var fólgið í því að hafa dallinn á kné sér og hreyfa hann að staðaldri uns eirinn var leystur upp úr hlandinu, en það tók stundum lengri tíma.  Flestum þótti þetta leiðindaverk...  Lengi tíðkaðist að elta skinn sem áttu að fara í brók og stakk.  Þeir sem lagnir voru að handelta byrjuðu á jöðrunum.  Aðrir byrjuðu á hálsinum; tóku skinnið saman með báðum höndum; settu á það einn snúning og nudduðu með því að láta vinstri hönd hvíla á vinstra hné.  syðst á Vestfjörðum voru skinn ávallt elt áður en þau voru lituð.  Þar var mönnum sem stóðu yfir fé á vetrum fengið skinn til að elta.  Eins næturgestum ef þá bar að garði.  (Frásögn ÓETh, HM o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir II).
 „Brók og skinnstakkur voru þau hlífðarföt sem almennt voru notuð í verstöðvum frá fornu fari og fram um 1930.  Brækur voru buxur sem náðu uppundir hendur, með áföstum sokkum.  Pabbi saumaði mikið af skinnklæðum fyrir sig og aðra, en það var mikið vandaverk því brækurnar máttu ekki leka.  Í hverja brók þurfti þrjú ærskinn og kálfskinn í setskautann, en leður af stórgrip í sólana.  Við brækur voru notaðir sjóskór úr sútuðu leðri, til að hlífa þeim við sliti.  Þeir voru ekki saumaðir, heldur gerð göt í hliðar skæðisins og bundið saman fremst; snæri dregið í götin; svo hert saman á hælnum og bundið um mjóalegg.  Lýsi var borið á brækurnar til að mýkja og þétta þær; það var svo endurtekið um helgar eða í landlegum.  Ef óhappagat kom á brók var gert við á þann hátt að smíðaður var tappi með rauf í röndunum.  Honum smeyft í gatið; svo vafið utanum raufina með fínu bandi.  Það var kallað að tappa brókina.  Í skinnstakkinn fóru þrjú labsskinn.  Hann var hafður í mjaðmasídd og tekinn saman í mitti með bróklinda.  Skinnklæðin entust nokkur ár með góðri meðferð“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Skinnleisti (n, kk)  Skinnsokkur; sokkur úr sauðskinni (sjá gæra).

Skinnskór (n, kk, fto)  Sauðskinnsskór, sjá þar.  „Meðal annars sem þurfti að gera var að búa til skinnskó á allan hópinn, og helst að prjóna leppa í þá“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Skinnspretta (n, kvk)  Grunnt sár; rispa sem e.t.v. blæðir lítillega úr.  „Ég er ekki mikið meiddur þó ég sé blóðugur.  Þetta er bara skinnspretta“.

Skinnstakkur (n, kk)  Efri hluti skinnklæða (sjá þar).  „Í skinnstakkinn fóru þrjú skinn, venjulega lambskinn.  Tvö í bak- og framstykki og eitt í ermar.  Þegar klæðst var skinnstakki var fyrst farið í ermar og stakknum síðan steypt yfir höfuð sér.  Hafa þurfti hálsmál allvítt, en til þess að þrengja það, eftir að komið var í stakkinn, voru smágöt gerð á skinnið umhverfis hálsmálið og í þau þræddur skinnþvengur eða snæri, til þess að geta dregið saman og þrengt stakkinn í hálsmálið.  Þetta var nefnt hálsbjörg.  Lítil beinplata með tveim götum var þrædd upp á þvengendana og þeir bundnir saman.  Þegar hálsmálið var þrengt var þverhnútur með lykkju settur framan við plötuna, en hún var nefndur hálsbjargartygill“  (KJK; Kollsvíkurver).

Skinnþvengur (n, kk)  Ól/þvengur/reim sem búin er til úr gæru; sjá þar.

Skip (n, hk)  A.  Farkostur sem flýtur á sjó eða vatni.  Venja er að nefna skip það sem stærra er, en báta, kænur, skektur o.fl. það sem minna er.  Oft er miðað við að sexæringar og stærra teljist vera skip, en bátar það sem minna er.  B.  Meginrými kirkju, þ.e. milli kórs og forkirkju. 

Skipa (s)  A.  Bjóða; gefa fyrirmæli.  „Verkstjórinn skipaði honum að hætta þessu og fara að vinna“.  B.  Haga; ráðstafa.  „Enn er ekki búið að skipa í embættið“.  „Hún skipaði mönnum til borðs“.    

Skipa á (orðtak)  Skipa í áhöfn á bát og hvernig menn raðast í rúm, en það var verkefni formanns. 

Skipa (einhverjum) á bekk með (orðtak)  Setja einhvern í flokk með.  „Með sinni framgöngu skipaði hann sér í bekk með þeim sem lengst héldu úti vörnum fyrir sína byggð“.  Vísar til þess hvernig mönnum var raðað á kirkjubekki fyrrum; en það var gert eftir mannvirðingum.  Höfðingjarnir áttu sín sæti fremst; oft vandlega stíaðir frá pöpulnum.

Skipa kirkju (orðtak)  Stofnsetja kirkju á nýjum kirkjustað.   „E.t.v. hefur Jón Gerreksson Skálholtsbiskup skipað hálfkirkjuna í Kollsvík um svipað leyti og hann skipaði bænhúsið í Breiðavík, en það var árið 1431“.

Skipa til sætis (orðtak)  Ákveða hvar hver skal sitja þegar um hóp er að ræða.

Skipa til verka (orðtak)  Ákveða verkhluta hvers og eins af hópi.

Skipa upp (orðtak)  Landa varningi úr skipi.  „Báðum þessum bílum var skipað upp á Hvalskeri úr Ríkisskip, og voru notaðir tveir trillubátar til þess, en þar var ekki bryggja sem skip komst uppað“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Skipa út (orðtak)  Hlaða varningi í skip.  „Þegar útgerð var mest í Kollsvíkurveri kom það fyrir að strandferðaskip komu upp á víkina, og var fiski skipað beint út í þau.  Slíkt sparaði siglingu á Eyrar með Fönix, en í þá daga var ekki um landflutninga að ræða í verulegu magni; enda bílvegir öngvir“.

Skipadómur (n, kk)  Dómur sem Páll Stígsson hirðstjóri kvað upp árið 1564, og varðaði málefni vermanna og útgerðar.  Þar var m.a. kveðið á um hvað vermanni bæri að gjalda fyrir kost sinn; hve mikið af tiltekinni fæðu ætti að vera í vermötunni og hve lengi vertíð skyldi standa.

Skipaeign (n, kvk)  Eign manns af skipum/bátum.  Ekki er vitað um skipaeign í Kollsvík á fyrri öldum, eða frá því að Kollur braut knörr sinn á Arnarboða og þar til Árni Magnússon var á ferð árið 1703.  Öruggt má telja að útræði frá Láganúpsveri hafi eflst mjög með skreiðarsölu, líklega fyrir árið 1400.  Um það leyti sölsaði Guðmundur ríki Arason jörðina undir sig, og hún komst síðar í eigu Saurbæjarhöfðingjanna.  Þó bændur ættu gjarnan sínar fleytur var skipaeignin mest hjá höfðingjunum, sem mönnuðu báta sína með ánauðugum leiguliðum um allan hreppinn.  Á 18. öld settist Einar Jónsson að í Kollsvík og gerðist umsvifamikill sveitarhöfðingi.  Hann hélt bátum til róðra frá Kollsvíkurveri, en einnig eignaðist hann hlut í skútunni Delphin (sjá skútueigandi), og er því sá Kollsvíkingurinn sem átt hefur stærsta skipið ef frá er talinn Kollur.  Annar skútueigandi hafði reyndar löngu fyrr verið eigandi Kollsvíkur, en það var séra Páll Björnsson í Selárdal sem smíðaði sér skútu og var sjálfur stýrimaður á henni; en hann bjó aldrei í Kollsvík.  Kollsvíkingar áttu hákarlaskipið Fönix (eldri).  Um líkt leyti og það var úr sögunni, undir lok 19.aldar, hófst útgerð frá Kollsvíkurveri, og urðu bátar þar flestir 25 eða 26, í eigu margra.  Flestir voru þeir litlir, enda stutt að sækja, en sá stærsti var yngri Fönix sem notaður var til flutninga.  Verstaða í Kollsvíkurveri leið undir lok fyrir síðari heimsstyrjöld, en síðan hafa heimamenn ávallt átt smábáta sem róið er til fiskjar vegna heimilisþarfa. 

Skipaferðir (n, kvk, fto)  Ferðir/umferð skipa.  „Í Kollsvík má vel fylgjast með skipaferðum um grunnleiðir“.

Skipaleið (n, kvk)  Leið sem skip sigla um.  Fjölfarin skipaleið er fyrir Bjargtanga, og oftar en ekki má sjá skip á undan Kollsvíkinni; grunnt eða djúpt.

Skipalægi (n, hk)  Staður þar sem skip varpa gjarnan stjóra.  T.d. hefur löngum verið skipalægi innanvið Vatneyri í Patreksfirði.

Skipaskoðun (n, kvk)  Prófun og skoðun á sjóhæfni skips/báts áður en leyfi er gefið fyrir róðrum.  „Það var engin skipaskoðun fyrr en á seinni árum; líklega ekki fyrr en 1912 – 1914“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Skipasmiður (n, kk)  Sá sem smíðar skip/báta.  Færir skipasmiðir hafa löngum verið í Kollsvík.  Síðastur þeirra var Andrés Karlsson á Stekkjarmel, sem smíðaði allnokkra báta.  Einnig má nefna Halldór Jónsson.  „Sá Halldór bjó á Láganúpi 1703, og var einn hinna kunnu Sellátrabræðra, sem rómaðir voru fyrir atorku og hreysti.  Bróðir Halldórs; Bjarni Jónsson, bjó í Kollsvík.  Hann var kunnur skipasmiður; smíðaði m.a. teinæring 19 ára gamall og fór á honum fjölda byrðingsferða norður á Strandir“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  Einn iðnlærður skipasmiður hefur búið í Rauðasandshreppi á síðari tímum; Borgar Þórisson á Hvalskeri.

Skipast á (einhvern) veg  (orðtak)  Æxlast; þróast.  „…hafi ekki á fimm ára tímabilinu viðskipta- og félagsmálum sveitarfélagsins skipast á þann veg að sveitarstjórn og framkvæmdastjórn félagsins verði sammála um að ráða þessum málum á annan veg…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Skipast um (orðtak)  Verða breyting á; víxlast.  „Heldur þykir mér hafa um skipast þegar hásetinn er farinn að segja skipstjóra fyrir verkum“!

Skipast við (eitthvað) (orðtak)  Róast; spekjast.  „Hann var orðinn fjúkandi illur og skipaðist lítt við það að ég sagði honum að þetta væri allt byggt á misskilningi“.

Skipbrot / Skipskaði / Skipstrand (n, hk)  Strand og eyðilegging skips.  Fyrsta skipbrot sem sögur fara af á Íslandi er strand Kolls landnámsmanns í Kollsvík.  Í Hellismannasögu segir m.a.  „Þá hét Örlygur á Patrek biskup, fóstra sinn, til landtöku og hann skyldi af hans nafni gefa örnefi þar sem hann tæki land, og voru þá komnir vestur um landið.  Hann kom skipi sínu í Örlygshöfn, og þar inn kallaði hann Patreksfjörð.  En Kollur hét á Þór.  Þá skildi í storminum og kom hann þar er Kollsvík heitir og braut hann þar skip sitt.  Þeir voru um veturinn og segir eigi meir af þeim í þessari sögu“ .  Þetta er ekki einungis fyrsta skráða frásögnin af skipbroti við Íslandsstrendur heldur fyrsta frásögn af björgun úr skipsstrandi.  Gömul arfsögn segir að Kollur hafi strandað á Arnarboða, sem er stutt undan Grundagrjótum; kemur uppúr á hvrri fjöru en verður aldrei landfastur.  Aðstæður eru þar allar slíkar að þar gæti hafa strandað skip sem fer grunnt í stórviðri um hálffallinn sjó, og að þar gætu menn hafa komist af með því að fleyta sér í land á braki, eða sigla í fjöru illa löskuðu skipi.  Verðugt væri að setja þarna upp eitthvað til minningar um þetta upphaf íslenskrar sjóbjörgunar, án þess þó að spilla náttúrufegurð og minjum sem þarna er að finna.  Sjá einnig skipherra/skipstjóri.

Skipbrotsmaður (n, kk)   Sá sem lendir í skipbroti/strandi/sjávarháska á skipi.  „Skipbrotsmenn af togaranum British Empire náðu að stökkva í land eftir að hann strandaði undir Strengberginu, og komust af sjálfsdáðum til byggða“.

Skipbrotsmannaskýli (n, hk)  Skýli sem skipbrotsmenn geta leitað í.  Eftir strand togarans Dhoon undir Látrabjargi var byggt skipbrotsmannaskýlið Guðrúnarbúð í Keflavík“.

Skipeigandi (n, kk)  Sá sem á skip/bát; bátseigandi.  „Seilastrengi og seilarólar leggja skipeigendur (í Láganúpsveri) til með skipunum“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Skipgengur (l)  Sem skip komast eftir.  „Hafnarvaðall í Örlygshöfn mun áðurfyrr hafa verið skipgengur á flæði, a.m.k. fram fyrir eyri þá sem nefnist Neteyri; neðan Kálfadals.  Sagði mér Ólafur Magnússon bóndi á Hnjóti að í hans minni hafi verið mikill hylur innanvert við eyrina og að í honum hafi verið veiði; jafnframt því sem skipgegn læna hafi verið út allan ósinn á flæði.  Nú er þessi hylur fullur af framburði vaðalsins.  Sé frásögn Landnámu dregin í efa er sennilegt að Örlygshöfn dragi nafn af því að þar hafi verið slík friðarhöfn í upphafi byggðar, enda er Landnáma líklega ekki góð heimild um uppruna örnefna (sjá landnám).  Hugsanlega hefur heitið upphaflega verið „Örleikshöfn“ eða „Örlognshöfn“, en það síðan hljóðbreyst eins og víða hefur orðið“.

Skipherra / Skipstjóri (n, kk)  Sá sem stjórnar skipi.  Skipherra er einkum titill skipstjóra á varðskipi eða herskipi.  Nafnkunnasti skipherra á landinu er Eiríkur Kristófersson frá Brekkuvelli á Barðastönd, sem var af Kollsvíkurætt.  Stýrimaður gengur skipstjóra/skipherra næstur við skipstjórn í dag, en á landnámsöld var stýrimaður æðsti stjórnandi um borð og stafnbúi gekk honum næstur að tign.  Munnmælin um strand Kolls á Arnarboða segja að Örn hafi verið stýrimaður Kolls.  Sú staðreynd að skipstjórar voru ekki til gæti bent til þess að landnámsmaðurinn hafi í raun heitið Örn, en fegnið Kollsnafn sitt af öðru, t.d. af víkinni sem hann skýrði eftir hinni sérstæðu lögun Núpsins.  Örn kann þó að hafa verið stafnbúi Kolls.  Sjá skipbrot/skipskaði.

Skiphlutur (n, kk)  Bátshlutur; sá hlutur sem bátseigandi fær þegar afla er skipt.  „Í kvaðarnafni er ábúandi (á Grundum) formaður fyrir landsdrottins (Sauræjarbónda)skipi þar, og hefur í formannskaup höfuðin af skiphlutnum“  (ÁM/PV Jarðabók).    Sama kvöð og skiptaregla gilti um bóndann á Hólum.

Skipleiga (n, kvk)  Leiga fyrir bát; gjald sem er fastákveðið fyrirfram en ekki háð afla eins og skiphlutur/bátshlutur.  „Lýng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi.  Þar er engin skipleiga. 1 skiphlutur.  Allur hlutur skiptist ex æqvo (til jafnaðar) þá skift verður. Seglfiskar.  Maðkafiskar engir“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Skippast með (orðtak)  Hafa í flimtingum; grínast með.  „Það er nú ekki rétt að vera að skippast með svo alvarlega hluti“.  Þessi framburðarháttur virðist hafa verið bundinn við þetta svæði; annarsstaðar ríkti framburðarhátturinn „skimpast með“ í sömu merkingu.

Skippersaga (n, kvk)  Grobbsaga skútukarls af sjómennsku sinni.  „Byrjar hann enn eina skippersöguna“! Sjá sögustund.

Skippund (n, hk)   A.  Mælieining þyngdar fyrrum; jafngildir 320 pundum eða 160 kg; eða 4 fjórðungum.  „Hæfileg saltnotkun var talin 180 kg í skippundið af fullverkuðum fiski“  (GG; Skútuöldin).   B.  Mælieining yfir fisk.  Þannig merkir það; 600 kg óslægður fiskur með haus; eða 500 kg slægður fiskur með haus; eða 400 kg flattur fiskur; eða 250 kg fullstaðinn saltfiskur.  

Skipreika (l)  Af skipi sem farist hefur.  „Áhöfn British Empire varð skipreika í Kollsvík, eftir að togarinn strandaði undir Hnífum“.

Skipsferð (n, kvk)  Ferðalag með skipi.  „Ekki var um neina áætlunar- eða skipsferð að ræða frá Þingeyri til Patró fyrir jólin“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Skipsflaut (n, hk)  Eimpípublástur; hljóð í flautu/lúðri skips.  „Þegar ég var að alast upp í Kollsvíkinni mátti oft í þoku heyra skipsflaut í fjarska, djúpt frammi á Víkinni“ (VÖ).

Skipshöfn (n, kvk)  Áhöfn á skipi/bát.  „Gengið var inn í endann á flestum búðunum, en væri gengið inn á miðjum vegg voru þær oftast svo stórar að sín skipshöfnin var í hvorum enda“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Skipsrúm / Skiprúm (n, hk)  Pláss/starf á báti yfir vertíð.  „Skiprúmið mitt hjá Eyjólfi var uppá hálfan hlut, og það gerði 65 krónur sem ég hafði yfir vorið . ...  Þá bauðst mér skipsrúm hjá móðurbróður mínum, Gísla Guðbjartssyni“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Nokkrir Kollsvíkingar höfðu fengið skiprúm í þá leguferð“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Rauðsendingar voru mikið í skipsrúmi í Kollsvík“  (IG; Sagt til vegar II). 

Skipta (s)  A.  Deila í hluta; deila á milli; hluta/taka í sundur.  „Við skiptum þessu á milli okkar“.  „Áin skiptir löndum milli Láganúps- og Kollsvíkurjarða“.  B.  Skipta afla/feng.  Sjá skipti.  Breyta; býtta; hafa býtti á.  „Hér þarf líklega að skipta um gír“.  „Ég þyrfti kannski að skipta um buxur“.

Skipta afla / Skipta í hluti (orðtak)  Skipta sameiginlegum afla/feng.  Sjá skipti.

Skipta (jafnt/bróðurlega) á milli (orðtak)  Kasta/hluta í sundur milli aðila; skipta upp.  „Við skiptum súkkulaðinu bróðurlega á milli okkar“.

Skipta á sléttu (orðtak)  Eiga kaup/skipti á eignum þannig að hvorugur greiði meðgjöf í reiðufé eða skuld.

Skipta eftir hrygg (orðtak)  Skera uppúr; skipta reyfi á kind eftir hryggnum áður en tekið er af henni, til þægindaauka. 

Skipta engum togum (orðtak)  Gerist umsvifalaust/tafarlaust/fyrirvaralaust.  „Hann steig útá grænu þúfuna, og skipti engum togum að hún sökk í dýið og hann með; alveg uppundir hendur“.  Vísar til áratoga á bát; að ekki séu mörg áratog þar til komið sé að einhverju.

Skipta falli (orðtak)  Um sjávarföll; fallaskipti; snúningur.  „Hann fer fljótlega að skipta falli; þá gæti hann gefið sig betur til“.  „Við förum í grunnbólið; ég held hann sé búinn að skipta falli“.

Skipta í köst og krumma (orðtak)  „Síðan var tekið til við að skipta, og þar vestra kallað að skipta í köst og krumma; hálfa kastið var krumminn“  (LK; Ísl.sjávarhættir IV).

Skipta í tvö horn (orðtak)  Greinast í tvennt ólíkt; vera mjög misjafnt.  „Það skiptir í tvö horn með veðráttu þessa dagana; annan daginn rigning og hláka, en hinn beingaddur og hríð“.

Skipta liði (orðtak)  Skipta hóp í tvo eða fleiri hópa.  „Þegar upp á Breiðinn kom skiptum við liði:  Tveir héldu áfram út Sanddal en tveir fóru niðurá brún.  Annar þeirra færi síðan niður Dulu en hinn niður Flosagil“.

Skipta litum (orðtak)  A.  Roðna; verða litverpur í framan.  „Hann skipti litum þegar hún kyssti hann á kinnina“.  B.  Breyta frá einum lit til annars.  „Sérkennilegt er hvernig hlíðin skiptir litum við Bekkinn“.

Skipta löndum (orðtak)  Vera á landamerkjum.  „Milli Króks og Bæjar skiptir löndum lækur er heitir Landamerkjakrókur...“  (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).

Skipta máli (orðtak)  Vera mikilvægt; hafa vægi; koma máli við; hafa hlutverk í því sem um er rætt.  „Mér finnst það ekki skipta máli hvort við gerum þetta í dag eða á morgun“.  Sjá skipta ekki/engu máli.

Skipta niður/upp (orðtak)  Um akstur ökutækis; skipta í lægri/hærri gír.

Skipta orðum við (orðtak)  Tala/deila við; eiga orðaskipti við.  „Ég nennti ekki að skipta orðum við hann“.

Skipta sér af (orðtak)  Blanda sér í; hafa afskipti af; sletta sér framí.  „Ég skipti mér ekkert af þessu máli“.

Skipta skapi (orðtak)  Verða reiður/æstur.  „Sjaldan sást hann skipta skapi; sama hvað á gekk“.

Skipta sköpum (orðtak)  Breyta mjög miklu; ráða örlögum.  Sjá skiptir sköpum.

Skipta um (orðtak)  Breyta; setja einn í stað annars.  „Ég skipti um blað í ljánum“.  Oft notað um veðurbreytingar:  „Ég spái því að þessi rigning verðí út vikuna, en svo skipti hann um í vikulokin“.

Skipta um skoðun (orðtak)  Breyta áliti sínu; taka sinnaskiptum.  „Hann hafði skipt um skoðun þegar ég talaði við hann aftur, og var nú tilbúinn að koma með okkur“.

Skipta úr fjöru (orðtak)  Skipta fiski blautum til bátverja; um leið og hann er borinn af báti.  „Gísli skipti úr fjöru Einars hlut, en við lögðum inn í félagi; ég og formaðurinn... “  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Skipta (einhverjum) út (orðtak) A.   Láta einhvern hafa sinn aflahlut/eignarhlut án þess að aðrar breytinmgar verði.  B.  Skipta um; láta einhvern fara úr liðsheild um leið og annar kemur í hans stað.  Einnig um hluti.

Skipta (með sér) verkum (orðtak)  Deila verkum niður á þá sem þau munu vinna.  „Þá var skipt verkum; einn fór að kokka; annar að beita lóðina, og tveir að gera að aflanum…“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Skiptabelti / Skiptabeltissneið (n, hk, fto)  Rafabelti sem hlutaskipt er á sérstakan hátt:  „Áður en skipt var rafabeltunum voru tekin frá eitt eða tvö þau vænstu og þeim skipt á meðal skipverja.  Voru þau kölluð skiptabelti.  Fékk þar hver maður sinn deilda verð.  Var síðan sest að snæðingi og voru menn glaðir og reifir eftir unna þraut.  Getið var þess að sumir hefðu þá verið svo lystugir að þeir hefðu etið smjör við skiptabeltissneiðinni sinni“  (PJ;  Barðstrendingabók).  „Oft þrengdist í búi hjá vermönnum er að vertíðarlokum leið, enda var gamalt nafn hjá vermönnum á síðustu vertíðarvikunni.  Nefndu þeir hana Roðaviku“.  (PJ;  Barðstrendingabók).  „Áður en skipt var voru tekin frá tvö stærstu rafabeltin, svokölluð skiptabelti sökum þess að þau voru skorin í sundur og þeim deilt á milli áhafnarinnar.  Fékk hver skipverji eina skiptabeltissneið og vænan riklingsbita.  Slíkur skammtur þótti koma sér vel í lok roðavikunnar.  Skipverjar settust síðan allir að snæðingi.  Þess er getið að sumir hafi verið svo lystugir að þeir hafi étið smjör með skiptabeltissneiðinni sinni.  Að síðustu var hitað kaffi og sjaldan mun þá brennivínstár hafa brostið til að sæta með soðið“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; eftir ÓETh og ÞJ). 

Skiptafjara (n, kvk)  Staður þar sem afla var skipt þegar í land var komið.  „Úr skiptafjörunni bar síðan hver sinn afla til verkunar“.

Skiptahlutur (n, kk)  Sá hlutur sem maður hefur úr skiptum eftir veiðiferð eða bjargferð.

Skiptar skoðanir (orðtak)  Deildar meiningar; aðilar ósammála.  „Allmiklar umræður spunnust út af þessum svörum, og virtust skoðanir mjög skiptar“  (Gerðabók Rauðas.hr; alm.hreppsfundur 22.03.1961; ritari ÖG). 

Skiptasneið (n, kvk)  Glaðningur formanns í vertíðarlok, til viðbótar við skiptabelti.  „Í verstöðvunum milli Látrabjargs og Patreksfjarðar var venja, þegar aflaskipti höfðu farið fram, að formaðurinn tók vænt rafabelti; sneiddi það niður og gaf hverjum háseta eina sneið; skiptasneið“  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: ÓETh, Vatnsdal).

Skiptast á ný og nið / Skiptast á skin og skúrir (orðtak)  Um misjafnt gengi.  „Það hafa skipst á skin og skúrir varðandi aflabrögðin þetta vorið“.  „Það skiptast á ný og nið í mínu lífi sem annarra“.  Ný og nið vísa í kvartilaskipti tungls.

Skiptast í tvö horn (orðtak)  Vera mjög misjafnt; um öfgar í báðar áttir.  „Mjög gat skipst í tvö horn um þrif og verkun skinnklæða“  (KJK; Kollsvíkurver).

Skiptavöllur (n, kk)  Staður þar sem afla er skipt; eggjum eða fiski.  „Þegar eggjum er skipt eftir bjargferð var vani að gera það á sléttum velli.  Bjargmenn gengu í hring, hver með sitt eggjaílát og settu tvö egg í senn í hrúgur sem voru jafnmargar hlutunum sem skipt var út.  Þannig var haldið áfram, hring eftir hring, þar til öllum óbrotnum eggjum hafði verið skipt, en eigandi skiptavallar fékk leskingjana gegn því að hreinsa völlinn.  Sá yngsti í hópnum sneri sér undan og þuldi upp nöfn hluthafa meðan skiptastjóri benti á hrúgu og spurði „hverjum skal þetta“?  Með þessari aðferð blönduðust eggin vel frá hinum ýmsu stöðum og útdeiling hluta varð tilviljanakennd.  Skipting afla úr bát mun einhverntíma hafa verið með svipuðum hætti.

Skipti (n, hk)  Sinn.  „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum“  (PG; Veðmálið). 

Skipti (n, hk, fto)  Skipti afla skips milli háseta og í dauða hluti, eða skipti annars sameiginlegs fengs, s.s. eggja/fugls.  Í Kollsvíkurveri og víðar voru yfirleitt sömu menn í áhöfn báts yfir vertíðina.  Afli var verkaður sameiginlega og honum eða andvirði hans skipt í vertíðarlok (sjá aflahlutur og vorhlutur).  Ákveðnar reglur gilda um skiptingu afla í fjöru.  Þær eru víðast í stórum dráttum svipaðar um allt land og hafa sennilega breyst lítið gegnum aldirnar.  Virðast að mörgu leiti hafa verið notaðar sömu reglur við skiptingu fugls og eggja úr bjargi. 
„Eftir að fiskurinn var allur kominn í eina kös á skiptavöll (skiptifjöru)... hófust skiptin.  Venjulega skipti formaður, en ef mikill var afli hafði hann einhvern sér til aðstoðar.  Ýmist var skipt í köst eða hluti, en það fyrrnefnda var algengast á vetrarvertíð.  Tveir voru um hvert kast, og spurði formaður háseta í byrjun vertíðar hverjir ætluðu að vera hlutalagsmenn, og var annar þeirra ávallt talinn fyrir kastinu. Þar sem var heimræði var venja að heimamaður og vermaður væru hlutalagsmenn.  Væri t.d. skipt af sexæringi með sjö manna áhöfn urðu köstin fjögur og að auki hálft kast; stakur... Fyrst voru valdir stærstu fiskarnir í hvert kast og þá tveir saman...  Er fiskunum úr kösinni fækkaði svo að áhöld voru um að dygði í öll köstin gekk hann á, þ.e. kastaði einum og einum.  Og loks ef vantaði fisk í kast stóð hann við, t.d. við bakborðsmann í miðskipa.  Það urðu menn að muna; ekki einungis til næsta róðurs heldur jafnvel til næstu vertíðar, og áttu þá að segja til þess þegar fyrst var skipt. .. Þegar aflinn var allur kominn í köst var komið að því að ákveða hvejir ættu að fá hvert þeirra, og var það gert með tvennu móti:  Formaður sagði við einhvern hásetann; „sting þú á – ég skal sjá frá“, eða; „tak þú á – ég skal horfa frá“.  Formaður sneri síðan baki að köstunum en hásetinn benti á eitt kastið og sagði; „hver skal þar“?  Formaður nefndi þá nafn annars hásetans af þeim tveim sem voru hlutlagsmenn.  Þegar kom að kastinu sem hann kaus sér ásamt einum af hásetum sínum mælti hann; „Ég sjálfur“.  Væru köstin fjögur, t.d. af sexæringi, þurfti ekki að nefna það fjórða, bátskastið, og ekki heldur stak.  Annar háttur var sá að meðan formaður horfði á völdu þeir sem fyrir köstum voru taldir sér einhvern hlut, t.d. stein, þangkló, fiskhrygg eða haus og létu í hrúgu.  Formaður fleygði síðan þessum hlutum á köstin og átti hver að hafa gát á sínu kasti.  Nefnt að kasta á.  Að því búnu fóru hlutalagsmenn að hluta, þ.e. skipta kastinu á milli sín, en það gerðu þeir sinn daginn hvor.  Þegar því var lokið horfði annar frá en hinn lagði á milli hlutanna; hníf, vettling, fisk eða stóð þar með fótinn og sagði; „á er skaft og blað“, „á er lófi og laski“, á er haus og sporður“ eða „á er tá og hæll“.  Hinn svaraði þá; „haf þú skaftið ég skal hafa blaðið“ o.s.frv.....
Í syðri hluta Barðastrandasýslu tíðkaðist lengi að skipta ekki afla fyrr en í lok vertíðar.  Þegar farið er uppúr fjörunni á Hvallátrum við Bjarg, veginn milli bæjanna, er neðst í túninu á hægri hönd flöt; Skiptingarflöt.  Þangað var aflinn borinn að endaðri vertíð; venjulega á Maríumessu (2. júlí) eða næsta dag.  Allar hrýgjurnar voru þá fluttar þangað, en áður teknir úr þeim vanmetasteinbítar, horólarsteinbítar og þeir lagðir til hliðar.  eins var farið með mjög feita steinbíta, en þeir þóttu lítt ætir.  Þá var tíndur úr hálfdrættingssteinbítur, ef hann hafði verið látinn samanvið...   Síðan var tekið til við að skipta, og þar vestra kallað að skipta í köst og krumma; hálfa kastið var krumminn.  Að því búnu var stungið á, og loks hlutuðu lagsmenn úr köstunum.  Sá sem hafði krummann þótti ekki afskiptur.  Stundum hafði formaður hann, en oftast var þó báts- og formannshlutur saman í kasti.  Lúðuriklingur var allur veginn á reislu og skipt á þann hátt.  Steinbíts- og þorskhausum var skipt þannig að kippurnar voru taldar, en oftast voru jafnmargir hausar í hverri.  Ef lagsmenn voru vinnumenn sama húsbónda þurftu þeir ekki að hluta kasti.  Eftir að hver hafði tekið við sínum hlut bar hann ábyrgð á honum.  Sumir hrýgjuðu þá á ný, en þeir sem höfðu reipi settu í bagga; 30 steinbíta í hvern.  Ef öll áhöfnin var frá sama stað var ekki skipt fyrr en heim var komið.  “  (LK; Ísl, sjávarhættir IV; heimildir m.a. ÁE, DE og ÓETh).
 Sú regla var við líði um 1700 að formenn á bátum Guðrúnar Eggertsdóttur í Saurbæ fengu hausa af aflanum í formannshlut, en ekkert annað umfram venjulegan hásetahlut.  „Í Norðurvíkum fángast mest steinbítur; lítill fiskur.  So verður þá höfuðhluturinn (sem þar er formannskaup) æði lítill“  (ÁM/PV Jarðabók). 
Skipti Látramanna á bjargfugli voru um margt svipuð.  „Skiptin fóru þannig fram að þeir sem fóru niður fengu hættuhlut.  Skipt var í köst sem kallað var; þannig að tveir menn voru um hvert kast.  Stæði hinsvegar á stöku var það látið til hliðar og kallaður krummi.  Þessi hlutur var síðan notaður til að rétta af, ef mistalist hafði hjá einhverjum“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  Sjá skipta í köst og krumma.
„Í nokkrum verstöðvum gátu menn bætt sér í munni með eggjum eftir að varptíð byrjaði....  Vanalega voru 2 eða 3 skipshafnir saman um bjargferðir og þurfti einn maður að vera vanur sigari.  Hann fékk tvo hluti og var annar hættuhlutur.  Fyrir bjargfestina var tekinn einn hlutur og annar fyrir bjargið, en því sem eftir var skipt jafnt á milli allra skipverja, hvort sem þeir höfðu verið með í bjargferðinni eða orðið eftir heima, við að laga til á hrýgjugörðunum.  Þegar jafnt hafði verið skipt, gat staðið þannig af sér að nokkur egg urðu í afgang; þau voru kölluð matarverð“  (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).  Sjá skipta úr fjöru

Skipti engum togum (orðtak)  Í einu vetfangi; allt í einu.  Þá heyrir fólk skruðning og göngin fylltust af snjó.  Skipti engum togum að bærinn splundraðist og hrundi yfir heimilisfolkið, sem mun hafa verið 15“  (SG; Náttúruhamfarir; Þjhd.Þjms).  „Skipti það engum togum, að jafnt og báturinn tók niðri voru borðstokkar hans þaktir hraustum höndum, sem kipptu honum upp áður en við fengjum ráðrúm til að stöðva vélina og komast út“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   Tog er stytting úr áratog.  Það sem skiptir engum togum gerist fljótt.

Skiptifjara (n, kvk)  Sá staður í fjöru sem fiski var skipt.  Sjá skipti.

Skiptilykill (n, kk)  Skrúflykill; stillanlegt áhald til að skrúfa maskinubolta/ró.

Skiptimynt (n, kvk)  Mynt sem notuð er til að gefa til baka af verðmeiri mynteiningu, s.s. seðli.

Skipting (n, kvk)  A.  Deiling; sundurhlutun.  „Ég er vel sáttur með þessa skiptingu aflans“.  B.  Gír á ökutæki; gírskipting; sjálfskipting.

Skiptir ekki/engu máli / Skiptir engu/öngvu (orðtök)  Er lítils virði; léttvægt.  „“Það skiptir ekki máli hvernig hann gerði þetta; mestu skiptir að málið er leyst“.  „Þetta skiptir mig öngvu“.

Skiptir í tvö horn (orðtak)  Um misjafnt ástand.  „Það skiptir í tvö horn með aflasældina; sumir koma drekkhlaðnir að landi meðan aðrir fá ekki bein úr sjó“.

Skiptir sköpum (orðatiltæki)  Varðar örlög (sköp=örlög).  Notað um tilvik þar sem atvik eða ákvörðun ræður því hvort vel eða illa fer, en þau urðu tíð við sjómennsku í Kollsvík. „En hver fær séð hvað sköpum skiptir?  Þeir bíða lags uns róður er tekinn til lands en verða of seinir fyrir“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá forlög; örlög; enginn má sköpum renna.

Skiptiskrúfa (n, kvk)  Bátsskrúfa með snúanlegum blöðum, þannig að breyta má átaki hennar frá áfram til afturábak, eða öfugt; með óbreyttri snuningsátt öxulsins.

Skipulag (n, hk)  Tilhögun; haganleg röðun.

Skipulega (ao)  Með skipulagi; í góðri/réttri reglu/röð.

Skipun (n, kvk)  A.  Fyrirmæli; boð.  „Ég tek lítið mark á hans skipunum“!  B.  Ráðning/setning í starf. 

Skipverji (n, kk)  Sá sem er hluti af áhöfn skips, t.d. háseti eða yfirmaður.

Skirrast (ekki) við  (orðtak)  Tregðast/hika (ekki) við.  „Það þýðir ekki að skirrast við að senda mann í göngur samkvæmt fjallskilaseðli“.  „Þessir andskotar skirrast ekki við að sigla á fullir ferð á sjáfstýringunni, jafnvel með mannlausa brúna“!

Skita (n, kvk)  A.  Niðurgangur; óþrif.  „Tvílembingarnir eru komnir með skitu.  Við þurfum að gefa þeim súlfalyf“.  B.  Lítilræði; óvera; smáræði.  Það er einhver skita enn eftir af fóðurbæti, en ég þyrfti að fara að fá meira“.  C.  Gæluorð um krakka/manneskju/skepnu, stundum í niðrandi tón en stundum vorkennandi.  „Nú hefur rollufjárinn laumast aftur inná, skitan áhenni“.  „Hefurðu ekki alveg við okkur skitan mín“?

Skitinn (l) Skítugur; óhreinn; sem búið er að skíta á/ ata skít.  „Ári er rúðan að verða skitin eftir flugurnar“.  B.  Oftar notað í líkingamáli, í merkingunni lítilfjörlegur/ómerkilegur.  „Ég er ekki með skitinn fimmeyring á mér til að borga undir bréfið“.  „Hann sagðist ekki hafa fengið skitna krónu fyrir þessa vinnu“.

Skitirí (n, hk)  Óvera; lítilræði.  „Við flengdum út á ballarhaf; allaleið niður á Dýpri-Skeggja, en fengum ekkert nema þetta skitirí“

Skitna (s)  Verða skítugur/sölugur/saurugur.  „Ég er hræddur um að blankskórnir þingmnnsins hafi eitthvað skitnað þegar hann heimsótti mig í fjárhúsin“.

Skitugemlingur / Skitugemsi (n, kk)  A.  Gemlingur með skitu.  B.  Niðrandi heiti á manni sem þykir ótélegur í útliti og/eða framferði.

Skitulögg (n, kvk)  A.  Lítill sopi í bolla/ílát.  „Ætli ég þiggi ekki smá skitulögg af kaffi hjá þér, fyrst þú ert með það á könnunni“.  Líklega dregið af því að þó um lítið magn sé að ræða, óhreinkar það ílát.  B.  Gæluorð um barn.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). 

Skitupest / Skitustand (n, kvk/hk)  Niðurgangsveiki í búfé eða fólki.  „Ég er hræddur um að ég sé kominn með þessa skitupest“.  „Eitthvað er það í rénun þetta árans skitustand á manni“.

Skituskarn / Skituskömm / Skituögn (n, kvk)  Gæluorð um barn eða dýr.  „Gefðu nú tíkargreyinu ketbeinið með því sem eftir er á því; hún hefur ekki fengið neitt eftir smalamennskuna, skituskömmin“.   „Hann gerði sitt besta, skituskarnið.  Hann getur auðvitað ekki hlaupið eins hratt og þeir sem lappalengri eru“.

Skíðabrekka (n, kvk)  Brekka sem hentar til að fara niður á skíðum þegar snjór er.

Skíðaferð (n, kvk)  Það að ferðast á skíðum; skíðaganga.

Skíðafæri (n, hk)  Það hversu vel snjóalög henta til skíðaferða; færð fyrir mann á skíðum.

Skíðastafur / Skíðastöng (n, kk)  Stafur til stuðnings skíðamanni.  Skíðastöng er lengri; ætluð til að ýta skíðamanni áfram.

Skíðgarður / Skíðgerði / Skíðveggur (n, kk/hk)  Girðing úr samanstæðum tréstaurum (skíðum).  Orðið er gamalt í málinu, þar sem í skóglitlu Íslandi hafa ekki verið reistir margir skíðgarðar, en þeir tíðkuðust  sem varnarvirki erlendis.

Skíðhvalur / Skíðshvalur (n, kk)  Hvalur sem lifir á smágerðri og síar hana átu, og síar hana úr sjónum með sérstökum skíðum sem hann hefur í stað tanna.  Nokkrar hvalategundir; yfirleitt fremur stórvaxnar og er t.d. steypireyðurin stærsta dýr sem vitað er að lifað hafi á Jörðinni.

Skíði (n, hk)  A. Upprunalega merkir heitið beinvaxinn og fremur grannan trjábol, en sú merking er lítið notuð nú.  B.  Borðviður.  „Það mætti smíða góðar mublur úr svona fallegum skíðum“.  C.  Skíði til göngu á snjó; renniskíði;svigskíði.  D.  Byrðingur á báti.  „Þegar skíðið var komin í fulla hæð var borðstokkað...“ (LK; Ísl sjávarhættir II; frás ÁE).  E.  Hornkenndar plötur í kjafti skíðishvala, sem koma í tanna stað.  Þær eru trosnaðar í jaðra og henta til að sía hina smágerðu fæðu skíðhvala úr sjónum.

Skíðloga (s)  Loga glatt.  „Eftir stuttan tíma skíðlogaði í brennunni“.  Vísar til þess að vel logar í þurrum skíðum; þ.e. viði.

Skífa (n, kvk)  A.  Hverskyns þynna/ þunn plata, t.d. „slúttskífa“ og „spenniskífa“ fyrir skrúfbolta; reimskífa.  B.  Stafaborð á klukku/úri; klukkuskífa; úrskífa.  C.  Þunnt lítið hellublað.  „Hér er úrval af hellum og skífum“.

Skíma (n, kvk)  Lítil birta.  „Maður sér varla nokkra skímu í þessu myrkri“.

Skíma (s)  Byrja að birta lítillega.  „Við förum og leitum að þessum kindum þegar fer að skíma á morgun“.

Skíma af tungli (orðtak)  Tunglsljós.  „Góð skíma var af tungli og því ratljóst“.

Skín á gull þó í skarni liggi (orðatiltæki)  Vísar til þess að gersemar geta leynst víða, jafnvel þó ytri umgjörð bendi ekki til þess.  Getur bæði átt við mannfólk sem muni.

Skín lítið/ekkert gott af því (orðtak)  er ekki til bóta/engu bættari.  „Mér skín nú lítið gott af því, þó læknirinn komi eftir helgina:  Ekki lagar það bakverkinn í dag“.

Skínandi (l)  Áhersluorð.  „Þetta er skínandi góð hugmynd“.

Skír (l)  Hreinn, bjartur, óblandaður.  „Þetta er skír vilji meirihlutans“.  Sami orðstofn og „skær“.  Sú málvilla festi rætur fyrir mörgum öldum að skrifa orðið með „ý“ í flestum tilvikum (sjá skýr).  Engin viðhlítandi skýring (ritað með sömu málvillu) hefur fengist á því, sumir reyna að rökstyðja það með „skyri“ sem er ólíklegt.  Í raun er „skír“ og „skýr“ sama orðið, með sömu merkinguna. Sjá skýr.

Skíra (s)  A.  Um trúarlega athöfn; gefa barni nafn og blessa það; ausa einstakling vatni.  „Séra Grímur skírði okkur Láganúpsbræður alla“ (VÖ).  B.  Hreinsa; gera hreinan. 

Skíragull / Skírasilfur (n, hk)  Hreinir góðmálmar.

Skírdagur (n, kk)  Fimmtudagurinn fyrir páska; einn bænadaganna. Meðal kristinna manna er hann talinn helgur vegna þess að þann vikudag þvoði Kristur fætur lærisveinanna fyrir síðustu kvöldmáltíðina/ fyrir krossfestingu sína.  Skír merkir hreinn og vísar til hreinleika vatnsins, en vatnið er tákn hreinsunar; í þessu tilliti syndaaflausnar.  Fótabað lærisveinanna var því ígildi skírnar.  Fyrst eftir kristnitöku hét dagurinn líklega skíri þórsdagur.  Eftir siðaskipti var litið á skírdag sem lok föstu, og haldið upp á það með mat.  Var skammtaður hnausþykkur rauðseyddur mjólkurgrautur áður en gengið var til messu.  Hann er nokkuð vindaukandi, og má ætla að ekki hafi loft skánað við það í torfkirkjum þess tíma.  Sagt var að veður á skírdag væri fyrirboði um það hve vel myndi ganga að þurrka mó og tað.  Skírdagur er lögbundinn frídagur.

Skíri (n, hk)  „Shire“; umdæmi/greifadæmi í Englandi.  Aðrar slíkar einingar eru „county“.  Frægast slíkra er líklega Nottinghamskíri, þar sem Hrói höttur er sagður hafa verið skógarmaður í Skírisskógi.

Skírlífi (n, hk)  Hreinlífi; piprun; líf fullorðinnar manneskju án samfara við manneskju af gagnstæðu kyni.  Var talin dyggð á fyrri öldum strangtrúnaðar.  Vísar það til ætlaðs kvenmannsleysis Krists, en æskilegt þótti að líkja eftir hans lífsháttum í hvívetna.  Klausturlifnaður byggir á skírlífi og yfirleitt er gerð krafa um skírlífi til presta í kaþólskri trú.  Þá var skírlífi fyrir giftingu talin alger nauðsyn.  Eitthvað los mun komið á það nú á tímum, og hefði fyrritíðarfólk líklega orðað það þannig; „heimur versnandi fer“.

Skírn (n, kvk)  Helgiathöfn sem viðhöfð er við lítil börn sem fæðast inn í kristna kirkjuhefð.  Skírnin er annað sakramenta lútherskrar kirkju; tákn um það þegar Kristur sendi lærisveina sína út um heiminn og fól þeim að „gera allar þjóðir að lærisveinum“.  Vatnsaustur sem skírninni fylgir er minni um skírn Krists í ánni Jórdan og fótaþvott hans á lærisveinum við síðustu kvöldmáltíðina.  Kollsvíkingar hafa löngum verið skírðir uppúr Gvendarbrunnsvatni sem, auk náttúrulegs hreinleika, býr að blessan Guðmundar góða Hólabiskups.  Skírnin var álitin mjög mikilvæg fyrir sálarheill manna fyrr á tímum, og ef illa horfði með lífslíkur barna við fæðingu var reynt að framkvæma skemmriskírn.

Skírnarfontur / Skírnarsár / Skírnarskál (n, kk)  Skál sem skírnarvatn er haft í þegar barn er skírt.  Skírnarsár er eldra heiti.  Orðin skírnarfontur og skírnarsár ná einnig yfir stall þann er skálin stendur á, en oft er sá fótur viðamikill; fagurlega skreyttur/útskorinn og meðal helstu kirkjugripa.  Skírnarskál nær yfir skálina sjálfa.  Í litlum kirkjum, og þegar skírt er í heimahúsum, er oftast einungis skírnarskál.

Skírnarkjóll (n, kk)  Síð mussa úr hvítu fínofnu efni sem börn eru gjarnan sett í við skírn þeirra.  Þó kjóllinn sé síðari tíma hönnun hafa hvít skírnarklæði líklega tíðkast lengi.

Skírnarvatn (n, hk)  Vatn sem barn er skírt uppúr.  „Skírnarvatn fyrir börn sem skírð voru í Kollsvíkinni var tekið úr Gvendarbrunni, a.m.k. í seinni tíð, þar sem hann var vígður af Guðmundi biskupi góða.  Engu að síður blessaði prestur það vatn sem annað skírnarvatn.  Eftir skírnina þvoðu viðstaddir stundum augu sín úr vatninu, en það var talið bæta sjónina og auka endingu hennar.  Aðrir gamlir siðir eru tengdir skírnarvatni í almennri þjóðtrú.  T.d. var því trúað að barn yrði skyggnt, þ.e. gæti séð yfir í annan heim, ef skírnarvatnið rennur ekki í augu þess við skírnina.  Þá var sá siður þekktur fyrrum að hella skírnarvatni sitthvorumegin við mæninn yfir rúmi foreldra barnsins, svo barnið verði þeim til blessunar“. 

Skírnarvottur (n, kk)  Sá skírnargesta sem er tilgreindur sem vottur að skírn þess; guðfaðir; guðmóðir.  Skírnarvottar eru tveir, og vanalega tengdir foreldrum barnsins á einhvern hátt.  Staða guðforeldra hefur í raun ekkert lagalegt gildi.

Skírskota til (orðtak)  Vísa (skota/skjóta) til einhvers til sönnunar máli sínu/ til að skíra mál sitt; nefna til vitnis.

Skírteini (n, hk)  Sönnun; sönnunargagn; skjal sem sannar.  Myndað af orðhlutunum „skír“ og „teikn“ (tákn/sönnun), og auðskiljanlegt í því ljósi.  Sbr. ökuskírteini, nafnskírteini o.fl.

Skíta  A.  Hafa hægðir; kúka; flytja lögmann; leysa buxur; ganga örna sinna.  B.  Óhreinka; ata; saurga.  „Ertu strax búinn að skíta út buxurnar þínar“?!

Skíta/gera í bælið sitt / Skíta/gera undir sig (orðtök)  A.  Bókstafleg merking; skíta í rúmið.  B.  Líkingamál um það að fara illa með sinn málstað; gera það sem spillir fyrir manni.  „Ég held að með þessu hafi hann gert alvarlega undir sig“.

Skíta út (orðtak)  A.  Óhreinka; saurga.  „Varstu að skíta strax út buxurnar sem þú fórst í áðan drengur“?!  B.  Níða; tala illa um; baknaga.  „Það er óþarfi að skíta hann út fyrir þetta; hann gerði sitt besta“.

Skítabára / Skítagutlandi / Skítasteytingur / Skítaveltingur (n, kk)  Slæmt/leiðinlegt sjólag; erfitt að róa/sigla/ vera að veiðum.  „Það var kominn skítagutlandi, og ekkert annað að gera en hafa uppi og koma sér í land“.  „Við fengum vindinn á móti falllinu í röstinni og lentum í árans skítasteytingi“. „Það var andskotann engin aðvera að hanga á þessu í svona skítaveltingi.  En mesta furða samt hvað sargaðist upp“.

Skítableyja (n, kvk)  Kúkableyja; bleyja sem búið er að kúka í.

Skítablettur / Skítaklessa / Skítaskella (n, kk/kvk)  Óhreinindablettur; óþrifaklessa.  „Hér er einhver skítablettur í buxunum“.  „Það þyrfti að þvo mestu skítaskellurnar af þessu“.

Skitabragð (n, hk)  Slæmur keimur; slæmt bragð.  „Mér finnst eitthvað skítabragð af þessari gúrku“.

Skítabrúnn (l)  Brúnn að lit, eins og skítur.  „Mér finnst þessi skítabrúni litur ekki fegra þetta mikið“.

Skítabörur (n, kvk, fto)  Fjóshjólbörur; hjólbörur sem allajafna eru notaðar við að aka skít, t.d. úr fjósi.

Skítadreifari (n, kk)  Mykjudreifari; tæki til að dreifa húsdýraáburði á tún.  „Skítadreifarinn var mikið þarfaþing, en ósköp óliðugur í meðförum og bilanagjarn“.

Skítafýla (n, kvk)  Mikil/megn ólykt/fnykur.  „Bölvuð skítafýla er af hundinum; nú hefur hann komist í hræ“.

Skítagalli / Skítaleppar (n, kk)  Mjög óhrein/skítug föt; drullugalli.  „Farðu úr skítagallanum úti; ég þvæ hann á eftir“.  „Ég held ég drífi mig bara úr þessum skítaleppum; maður er varla í húsum hæfur“.

Skítagemlingur / Skítagemsi (n, kk)  A.  Gemlingur sem orðinn er blakkur á lagð/ klepraður af skít eftir inniveru og legu á taði.  B.  Oftast í líkingamáli í seinni tíð; niðrandi heiti á manni.  „Ég hef nú lítið álit á þeim skítagemlingi“.  „Þetta er óttalegur skítagemsi“!

Skítahaugur / Skíthaugur (n, kk)  Mykjuhaugur.  Fyrstu árin eftir að grindafjárhús urðu almenn var jafnan skítahaugur framanvið þau, enda þurfti iðulega að moka undan grindum og aka skitnum úr húsunum.  Eftir tilkomu öflugra traktora og skítadreifara var farið að aka honum beint á tún.

Skítahlass (n, hk)  Kúaskítsklessa; kúaskítur.  „Æ, þarna steig ég ofaní skítahlass“!

Skítaél / Skítahraglandi / Skítakóf (n, kk)  Lýsingar á slæmu veðri sem veldur bleytu, kulda og jafnvel slæmu skyggni.  „Við lentum í skítaéli“.  „Búðu þig almennilega;það er skítahraglandi“!  „Maður sá ekki spönn frá rassi í þessu skítakófi“!

Skítakarakter / Skítalabbi / Skítbuxi / Skíthæll (n, kk)  Mannlýsing; illa innrættur maður; óþverri.  „Hún hafði fengið nóg af þeim skítakarakter“.  „Sá bölvaður skíthæll getur bara átt sig“!

Skítakaup / Skítalaun (n, hk)  Mjög lág laun; lægri laun en vera ber.  „Hann sagðist ekki vinna lengur fyrir svona skítalaun“.

Skítakerra (n, kvk)  Kerra sem notuð er til að aka húsdýraáburði á tún.  Eftir tilkomu traktors og fyrir daga skítadreifara var skít ekið á tún í kerru,og kastað úr honum þar með skóflu. 

Skítakleprar / Skítaskán (n, kk/kvk)  Lag af skít.  Kleprar er oft notað um mykju sem sest hefur í hár/ull húsdýra.  „Það þyrfti að kemba mestu skítakleprana af blessaðri kúnni“.  Skán er hörð skel af skít, oft á linara undirlagi.

Skítakuldi / Skítanæðingur (n, kk)  Bitur kuldi; kuldanæðingur.  „Klæddu þig almennilega; það er bölvaður skítakuldi“.  „Það var skítanæðingur orðinn þarna á brúninni“.  Einnig oft notað kuldaskítur.

Skítaköggull / Skítakökkur (n, kk)  Köggull af skít; oftast átt við eina stungu af skít, t.d. þegar verið er að stinga út úr fjárhúsum.  „Gaffallinn er ágætur til að kasta skítakekkjunum upp í börur“.

Skítalykt (n, kvk)  A.  Óþefur; lykt af skít/mykju.  B.  Grunsamlegt yfirbragð á málefni.  „Mér finnst einhver skítalykt af þessu máli“.

Skítamakari (n, kk)  Sá sem vinnur verk sérlega illa; flumbrari; klastrari.  „Hér hefur einhver andskotans skítamakari rekið krumlurnar í“!  Skammaryrði sem stundum þurfti að grípa í; sést ekki í orðabókum.

Skítapleis (n, hk)  Síðari tíma niðrandi heiti á stað, einkum þéttbýlisstað.  „Ég er lítið hrifinn af því skítapleisi“!

Skítareka / Skítaskófla (n, kvk)  Fjósreka; skófla sem notuð er til flórmoksturs. 

Skítaskán (n, kvk)  Hörð þunn skel af skít.  „Ég skóf mestu skítaskánina af fjósstéttinni“.

Skítaskot (n, hk)  A.  Slæmt veður um stuttan tíma; stutt hret.  „Hann er að ganga fjandi fljótt upp núna, en ég held að þetta verði lítið annað en skítaskot sem gengur fljótt yfir“.  B.  Um vél; feilpúst; missir neista í slagi og sprengir næst með hvelli.  „Ferleg skítaskot eru þetta í vélinn núna“!

Skítaskófla / Skítreka (n, kvk)  Fjósaskófla; fjósreka; flórreka; mykjuskófla.  „Þú ert þó ekki að nota skítaskófluna til að skafa hússtéttina“?!

Skítasletta (n, kvk)  Sletta af skít.  „Ég þreif mestu skítasletturnar af traktornum“.

Skítastampur (n, kk)  A.  Drullustampur; ílát til að bera skítu úr fjósi út á haug fyrrum.  B.  Heyrist nú eingöngu í gróflega niðrandi lýsingum á manni eða bát. 

Skítastígvél (n, hk, fto)  Stígvél sem notuð eru í skítmokstur; mjög skítug stígvél.  „Ég fer ekki á skítastígvélunum inn í slátursalinn“.

Skítaveður (n, hk)  Vont veður; ekki síst viðhaft þegar gerði slydduél.

Skítaþró (n, kvk)  Þró sem saur er safnað í.  Svo var m.a. nefnd þróin undir kamrinum á Láganúpi, sem enn stendur, þó kamarinn sé aflagður.  Reglulega þurfti að tæma skítaþróna og var innihaldið jafnan nýtt sem áburður á tún og sléttur.

Skítbillegt (l)  Hræódýrt.  Dönskusletta.

Skíthræddur (l)  Mjög skelkaður; lafhræddur.  „Við fátt var ég eins skíthræddur og hrossaflugur, á yngri árum“.

Skíthús / Skítkjallari (n, kk)  Haughús; forarþró; kjallari undir fjárhúsi/fjósi sem skít er safnað í, en hann er síðan nýttur sem áburður á tún.  „Skíthús voru ekki algeng við fjós á þeim tíma, og voru Láganúpsbændur með þeim fyrstu að tileinka sér þá nýjung“.

Skítkalt (l)  Mjög kalt.  „Er þér ekki alveg skítkalt á höndunum; svona vettlingalaus í þessum kulda“?

Skítkast (n, hk)  A.  Það að kasta skít.  B.  Líkingamál; hreyta ónotum/skömmum í einhvern.

Skítkokkur (n, kk)  Uppnefni á manni.  Virðist hafa komist á kreik sem niðrandi heiti á kokkum á skútum og fyrstu togurum.  Fæði um borð var oft slæmt, enda geymslu- og eldunaraðstaða léleg.

Skítlingur (n, kk)  Gæluheiti á litlu/veikburða/vannærðu lambi, vísar e.t.v. til lambs með skitu.  „Óttalegir skítilingar eru þetta hjá tvævetlunni þarna; skyldi hún ekki mjólka þeim nóg“?  Stundum notað sem gæluorð við börn.  „Komdu hérna skítlingurinn minn“.

Skítmokstur (n, kk)  Mokstur skíts/mykju/taðs, t.d. út út skepnuhúsum.  „Strákarnir höfðu uppi miklar áætlanir um að verða bændur þegar þeir yrðu stórir, og nota feður sína til skítmoksturs og annarra snúninga“.

Skítnóg (l)  Alveg/yfrið nóg; nægir vel.  „Við fengum skítnóg af smælki, en minna af stórfiski“.

Skítnýta (s)  Nýta að lágmarki; virða viðlits.  Vanalega í neikvæðri merkingu.  „Ég get ekki vorkennt þessum aulum, sem vilja ekki skítnýta glænýjan fisk sem þeim er boðinn ókeypis“.

Skítóánægður (l)  Mjög óánægður/vonsvikinn; þykir mjög slæmt.  „Ég er skítóánægður með þeirra frammistöðu í þessu máli“!  Allmikið notað.

Skítsama (l)  Skiptir ekki máli; gersamlega áhugalaus; læt í léttu rúmi liggja.  „Mér er skítsama hvað honum finnst um það“!  „Ætli öllum sé ekki skítsama um það“.

Skítsbætur (n, kvk, fto)  Það sem þykir alltof lítið.  „Ég gat ómögulega verið að selja þetta fyrir einhverjar skítsbætur“!

Skítseiði (n, hk)  A.  Lítill fiskur; síli; kóð.  B.  Í líkingamáli; ómerkileg persóna; mannhundur; úrþvætti.  „Bölvað skítseyði má maðurinn vera; að haga sér svona gagnvart móður sinni“!

Skítsjá eftir (orðtak)  Sjá mikið eftir; sakna mjög.  „Ég skítsé eftir því að hafa ekki tekið kíkirinn með“.

Skítskyldugur (l)  Mjög skyldurgur; ber mjög mikil skylda til.  „Það er sama hvað honum finnst; hann er skítskyldugur að ljúka þessu verki“!

Skítsvirði (n, hk)  Mjög lítils virði.  „Hans orð eru ekki skítsvirði í þessum efnum; það hefur sýnt sig“!

Skítsækinn / Skítsæll (l)  Sem verður auðveldlega óhreinn/skítugur; sem sér fljótt á.  „Þú ættir ekki að vera í þessum buxum í svona verki; þær eru svo skítsæknar“.

Skítsæmilegur (l)  Þolanlegur; þokkalegur; slarkandi.  „Ég er að verða skítsæmilegur í fætinum“.  „Veðrið var ekki nema réttsvo skítsæmilegt; en viðlétum okkur hafa það“.

Skítt (l)  Slæmt; bölvað; neyðarbrauð.  „Mér finnt það fjári skítt að þurfa að sitja aftur uppi með þessa stjorn“.

Skítt með / Skítt með það / Skítt veri með það (orðatiltæki)  Það skiptir litlu máli; mér er sama um það.  „Verst þótti mér að tapa skónum; skítt með það þó maður blotnaði dálítið“.

Skíttapa (s)  Tapa með miklum mun; fá háðuglega útreið í keppni/slag/spili.  „Þú ert búinn að skíttapa þessu“!

Skíttapaður (l)  Sem búið er að tapa stórt/ með miklum mun.  „Þessi skák er skíttöpuð, er ég hrædur um“.

Skítti (n, hk)  Óvera; lítilræði; skitirí.  „Þessi nýju útvörp eru óttaleg skítti og hljóðið eftir því“.

Skítugur (l)  Óhreinn; saurugur; ataður.  „Asskoti er maður orðinn skítugur eftir þetta at“!

Skítur (n, kk)  A.  Saur; hægðir.  B.  Óhreinindi; kám.  C.  Niðrandi heiti á manni.

Skítur á priki (orðtak)  Lýsing á því sem þykir mjög lítið/óverulegt.  „Þetta var andskotann enginn afli; bara skítur á priki“.

Skítur og ekki neitt (orðtak)  Hverfandi lítið; örlítið.  „Það er auðvitað nauðsynlegt að taka ullina af fénu, en þetta er bara skítur og ekki neitt sem bændur eru núna að fá fyrir hana“.

Skiturinn úr skrattanum (orðtak)  Niðrandi heiti á lakkrís; einkum þeirra sem ekki kunnu að meta þá sælgætistegund þegar hún fluttist fyrst vestur.

Skítverk (n, hk)  Verk sem er/þykir fráhrindandi/niðurlægjandi/óþrifalegt.  „Hann verður að fá einhvern annan en mig til að sjá um sín skítverk“!

Skjaldan (l)  Sjaldan.  „Gíslavað var skjaldan farið“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur).  Var áður algengur framburðarmáti, en heyrist ekki í dag.

Skjaldborg (n, kvk)  Sú bardagaaðferð að liðsmenn standa hlið við hlið og snúa skjöldum að óvininum, þannig að sýnist vera óvinnanlegur varnarveggur.  Sjá slá skjaldborg um.

Skjaldindi (n, hk)  Tálknop og tálknbogar á lúðu.  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: KJK, E-Tungu).

Skjaldburkni (n, kk)  Polysichum lonchitis; uxatunga.  Burkni af skjaldburknaætt; vex víða um land, einkum í urðum þar sem snjóþungt er, og í skóglendi; ekki síst á Vestfjörðum.  Ekki skal fullyrt um hvort hann finnst í Kollsvíkurlöndum, en hann vex t.d. í Bjarnahlíð, sem er efst norðantil í Látradal.  Blöðin vaxa í þéttum toppum, upp af stuttum en gildum jarðstöngli.  Þau eru stuttstilkuð, sígræn og einfjöðruð; 15-40 cm löng og 2-7 cm að breidd, með 20-40 pörum af skarptenntum smáblöðum.  Gró vaxa í blettum á neðra borði blaða, í röðum meðfram blaðröndunum.

Skjalfest (l)  Skráð; fest á skjal/pappír.  „Þetta hlýtur að vera einhversstaðar skjalfest“.

Skjall (n, hk)  A.  Yfirborðskennt/óhóflegt hól/hrós.  „Vertu nú ekki að skjalla hann fyrir þessa vitleysu“,  B.  Skjallhimna; himna milli hvítu og skurns á eggi.

Skjalla (s)  Hrósa á yfirborðskenndan hátt; hlaða oflofi.  „Hann kann að skjalla höfðingjana“!

Skjana uppá einhvern (orðtak)  Orðtakið var ekki notað í seinni tíð í Kollsvík.  Annarsstaðar þekktist orðtakið að „skjanna uppá einhvern“, í merkingunni að sneiða að einhverjum; skensa einhvern.  „Skjana“ er líklega af sömu rót og „skjön“, og „skensa“.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Skjannabirta (n, kvk)  Mikil birta; ofbirta.  „Maður blindast alveg við að koma út í þessa skjannabirtu“.

Skjannabjart (l)  Mjög bjart; glaðasólskin.  „Það var skjannabjart yfir öllu og glampandi logn“.

Skjannahvítur (l)  Snjóhvítur; alveg hvítur.  „Mér sýnist að það sé komin einhver skjannahvít ær í fjárhópinn; líklega þá útigengin“.

Skjannaljós (n, hk)  Mjög sterkt ljós; bjartur ljósglampi.  „Það brá fyrir einhverju skjannaljósi hér frammi á víkinni; það hefur kannski verið ljóskastari á bát“.

Skjannasólskin (n, hk)  Glampandi sólskin; mikil sólarbirta.  „Þetta er furðulegt veðurlag; grenjandi rigning fram á hádegi en eftir það skjannasólskin“!

Skjatti (n, kk)  Lítill poki; posi.  „Réttu mér pokaskjattann með dagblöðunum“.

Skjágluggi (n, kk)  Gluggi sem áður var almennt notaður; kringlótt grind 5-6“, skjágrind, sem á var strekktur líknabelgur (skæni), sköturoð eða annað sem hleypti skímu í gegnum sig.  Skjágluggar voru settir á miðja þekju og voru lausir, þannig að taka mátti þá úr.  Þeir hurfu úr notkun eftir að glergluggar komu til.

Skjágrind (n, kvk)  A.  Eiginleg merking (horfin úr málinu); grind sem líknarbelgur var þaninn á í skjái (glugga).  B.  Afleidd mynd (almennt notuð vestra en líklega ekki annarsstaðar); ótraust mannvirki; hrófatildur.  „Mér finnst nú þessi sjónvarpsloftnet vera óttalegar skjágrindur sem varla þoli hvassviðri“.

Skjágrindalegur (l)  Veikbyggður; skjálfandi; sem hriktir í.  „Ósköp finnst mér skjágrindaleg þessi fjárgrind á vörubílnum.  Skyldi hún endast alla leið í sláturhúsið“?

Skjálfa á beinunum (orðtak)  Skjálfa úr kulda eða hræðslu.  „Þá var hann orðinn gegnkaldur og skalf á beinunum“.

Skjálfa eins og hildafullur hundur (orðtak)  Skjálfa mjög mikið, t.d. úr kulda.  Líkingin er dregin af þeirri trú að hundum yrði illt af því að éta hildir; þá fengju þeir ofsalegan skjálfta.

Skjálfa eins og strá í vindi (orðtak)  Skjálfa mjög mikið.  „Ég held þú ættir nú að fá þér eitthvað utanyfir þig; þú skelfur eins og strá í vindi“!

Skjálfa og nötra (orðtak)  Skjálfa mjög mikið og hristast.  „Húsið skalf og nötraði í verstu byljunum“.

Skjálfandi og nötrandi (orðtak)  Með mikinn skjálfta.  „Hann var skjálfandi og nötrandi af hræðslu“.

Skjálfa sér til hita (orðtak)  Búningur var stundum vondur fyrrum og menn urðu hraktir af kulda við hjástöðu fjár, sjósókn og önnur störf.  Þá setti að mönnum skjálfta og var trúað að mönnum hitnaði ögn við það.

Skjálfandi úr kulda (orðtak)  Ósjálfráðan skjálfta setur að þeim sem eru vanbúnir og kólnar.  „Farðu frekar inn heldur en að hýrast þarna skjálfandi úr kulda“.

Skjálfhentur (l)  Með skjálfandi hendur.  „Þræddu nú fyrir mig skóna góði; ég er orðinn dálítið skjálfhentur“.

Skjálftahrollur / Skjálftakast (n, kk)  Hrollur með skjálfta; kuldahrollur.  „Það er í manni hálfgerður skjálftahrollur svona fyrst í morgunsárið“.

Skjár (n, kk)  A.  Gegnsæ himna í glugga.  Fyrir daga glers var oftast notaður þurrkaður líknarbelgur í skjá, en stundum sköturoð.  B.  Gluggi, þ.e. himnan og umgjörðin; skjágluggi.  C.  Gæluheiti á auga.  „Hann glennti upp skjáina“.  D.  Gluggi á rafeindatæki, t.d. sjónvarpsskjár, tölvuskjár, símaskjár o.fl.

Skjáta (n, kvk)  Gælunafn um kind; stundum einnig um óþæga stelpu sem „stelpuskjáta“.  „Ég ætla að skreppa í fjárhúsin og kasta í skjáturnar“ (gefa kindunum).  „Þarna voru engir kotkarlar á ferð“.  „Margur kotakarlinn rak upp kætihlátur/ þegar sá hann sínar skjátur“  (JR; Rósarímur). 

Skjátlast (s)  Skjöplast; gera mistök; hafa rangt fyrir sér.  „Það má vera að mér hafi skjátlast um þetta atriði“.

Skjátlast (getur) þó skýr sé (orðatiltæki)  Maður getur haft rangt fyrir sér þó hann sé gáfaður.  Nokkuð notað í Kollsvík fram á síðari ár.

Skjátuskinn (n, hk)  Gælunafn um eitthvað aumkvunarvert eða lítið, annaðhvort stelpu eða dýr.  „Komdu hérna skjátuskinnið og fáðu eitthvað í svanginn“.

Skjóða (n, kvk)  Lítill poki; posi; skjatti; skinnpoki; tuðra; taska.  „Réttu mér nú skjóðuna með prjónlesinu“.

Skjól (n, hk)  Hlé; var; afdrep.  „Féð stóð í skjóli við hlöðuna í norðanrenningnum“.

Skjóla (n, kvk)  Fata; spanda.  „Helltu þessu svo í skjóluna“.  Skjólur fyrri tíma voru gerðar af tréstöfum og girtar, líkt og tunnur; gjarnan með tréhaldi yfir, sem fest var með böndum í eyru á skjólubarminum.

Skjólagott (l)  Um landslag; skjólsælt fyrir fé.  „Þetta svæði heitir Undirlendi.  Það er grasi vaxið og skjólagott..“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  Orðið finnst ekki í orðabókum og hefur ekki heyrst notað eftir tíð Guðbjartar.

Skjólasamt (l)  gott skjól; skjólagott; skjólótt.  „Þá er komið uppfyrir Hjallana.  Þar er skjólasamt og fjölbreyttur gróður og gott beitiland í kring; hefur áreiðanlega verið gott fyrir fjárpening þar“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Skjólborð (n, hk)  A.  Skjólborði (sjá þar).  B.  Upphækkun/veggur á byrðingi báts eða kerru eða bílpalli.  „Guðbjartur afi á Lambavatni smíðaði hugvitssamlegan heyvagn á fjórum járnhjólum, og voru þau fremrí stýranleg með beislinu.  Þessi heyvagn var án skjólborða og þægilega lágur til gott væri að hlaða á hann með kvíslum“ (VÖ).

Skjólborði (n, kk)  Hléborði; þeim megin skips/báts sem er undan vindi.  „Það hefur nú alltaf þótt sjómannslegra að míga á skjólborða en kulborða.  Þú manst það kannski næst góði minn“.

Skjólfat / Skjólfatnaður / Skjólflík (n, kk/kvk)  Yfirhafnir; föt til að verja gegn regni/kulda/roki.  „Ertu í nógu góðum skjólfatnaði“.  „Þeir áttu ekki einusinni almennilegar skjólflíkur; hvað þá hjálma“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Skjólgarður (n, kk)  Garður sem hlaðinn/gerður er til að veita skjól fyrir veðri eða sjóum.  Garðarnir á Grundabökkum gegndu margvíslegu hlutverki.  Þeir voru túngarður um Grundatúnið og áveitu í Grundamýri; þeir veittu aðhald þegar fé var rekið til beitar úr fjárhúsum í Láganúpsfjöru; og þeir voru skjólgarður fyrir norðanáttinni.  Að auki kunna þeir að hafa verið þurrkgarðar fyrir fisk á tímum Láganúpsvers.

Skjólgóður grautur (orðtak)  Þykkur grautur, einkum notað um grjónagraut.  „Þetta kalla ég skjólgóðan graut“.

Skjóllegt (l)  Skýlt; skjólsælt.  „Litlu utar er Katrínarstekkur í lítilli skjóllegri laut“  (IG; Sagt til vegar I).  

Skjóllítill (l)  Veitir lítið skjól/afdrep.  A.  Um fatnað:  „Mér sýnist að þessar dulur á þér séu skratti skjóllitlar“.  B.  Um landsvæði:  „Það er fremur skjóllítið fyrir lambféð í girðingunni“.

Skjólótt / Skjólríkt / Skjólsælt (l)  Um stað/svæði; skýlt; gætir síður vinds/veðra en í kring.  „Þetta svæði heitir Undirlendi.  Þar er grasi vaxið og skjólagott, enda er skjólótt og mishæðótt á Hnífunum og safnast þar oft mikil fönn í austanbyljum“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps). 

Skjóta (s)  A.  Gera snöggt; bregða við.  „Hann skaut orfinu uppá skúrþakið“.  B.  Hleypa af vopni; kasta vopni.  „Ég ætla að rölta niður að Görðum og reyna að skjóta á fluginu“.  „Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“  (PG; Veðmálið). 

Skjóta að (einhverjum) (orðtak)  Segja einhverjum eitthvað; gefa einhverjum vísbendingu; minna á.  „Ég skaut því að honum að von væri á gestum“.

Skjóta augum á skjálg (orðtak)  Skotra augum; gefa hornauga; horfa útundan sér eða til hliðar með því að renna til augunum. 

Skjóta á fluginu (orðtak)  Skjóta máf úr Byrginu á Grundarbökkum.  Til þess var valin hagstæður vindur, helst norðanátt og um hálffallinn sjó eða nær flæði.  „Að fara á skytterí niður að Görðum var fastur liður í heimsóknum þeirra Einars og Páls“  (GÖ; minningabrot frá Láganúpi).  „Það var íþrótt að skjóta svartbaksunga á flugi hér í víkinni.  Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í veðrið og flýgur lágt.  Og á haustinn þá sátu þeir hérna niður á gömlu grjótgörðunum þegar þannig viðraði og skutu ungann á fluginu.  Þetta þótti alveg herramannsmatur; ungarnir.  Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Skjóta á frest (orðtak)  Fresta; láta bíða.  „Hann skaut því á frest að taka ákvörðun í málinu“.

Skjóta á fundi (orðtak)  Halda fund í flýti; ráðgast um mál. 

Skjóta á land (orðtak)  Setja á land úr báti.  „Töluverður súgur var við hleinina, en með því að sæta lagi tókst okkur að skjóta tveimur á land, sem byrjuðu þegar að leita eggja“.

Skjóta fram báti (orðtak)  Fara fram; fara á sjó; fara í róður.  „Eigum við ekki að nota lognið og skjóta fram báti“?

Skjóta inn orði (orðtak)  Leggja orð í belg; segja inn í tal annars/annarra.  „Ef ég mætti skjóta hér inn orði…“. 

Skjóta í báru / Skjóta í fuglsbringur (orðtak)  Falla úr báru.  Notað um það þegar hvítnar í einstaka báru þegar eykur sjó.  „Hann var þá farinn að hvessa og skjóta í fuglsbringur um allan sjó“.

Skjóta máli sínu til (einhvers) (orðtak)  Bera undir einhvern; láta einhvern dæma í sínu máli. 

Skjóta (einhverjum) ref fyrir rass (orðtak)  Leika á einhvern; blekkja einhvern; sjá við einhverjum.  „Hann ætlaði að vakna eldsnemma til að ná þessu netastæði, en ég skaut honum ref fyrir rass og lagði um nóttina“.  Ekki fullkomlega ljóst um uppruna orðtaksins, en e.t.v. vísar það til þess að læðast lymskulega aftan að manni, líkt og kænn refur, eða lauma/skjóta ref afturfyrir mann til að refurinn geti lesið hugsanir mannsins.

Skjóta saman (orðtak)  Safna.  Oftast notað um það þegar fólk leggur af fé mörkum til tiltekins málefnis eða til að áorka einhverju sérstöku.  „Hreppsbúar skutu saman nokkru fé í styrktarsjóð fyrir ekkjuna“.

Skjóta sig í (einhverjum) (orðtak)  Vera ástfanginn af einhverjum.

Skjóta sig í fótinn (orðtak)  Spilla fyrir sjálfum sér; gera eitthvað það sem kemur manni augljóslega í koll síðar.  „Ég ætla ekki að skjóta mig í fótinn með því að leggja net á Kollsvíkinni, svona rétt fyrir norðangarðinn“.

Skjóta (einhverjum) skelk í bringu (orðtak)  Hræða; gera bilt við; bregða.  „Þeir ákváðu að skjóta honum skelk í bringu“.  Skelkur merkir ótti/skelfing.  Bringa vísat til stings sem menn fá fyrir brjóst þegar hjartsláttur eykst.  Er því nánast sama orðtakið og „hleypur hland fyrir hjartað“, sem var mikið notað í Kollsvík en heyrist lítt þar fyrir utan.

Skjóta skildi fyrir (einhvern) (orðtak)  Verja einhvern; halda uppi vörnum fyrir einhvern

Skjóta skjólshúsi yfir (orðtak)  Veita húsaskjól; taka undir verndarvæng.  „Auðvitað er sjálfsagt að skjóta skjólshúsi yfir þig yfir nóttina, skárra væri það nú“!

Skjóta skökku við (orðtak)  Ekki eins og á að vera; ekki í góðu lagi; vera ankanalegt/undarlegt.  „Mér finnst skjóta dálítið skökku við að tveir úr sömu fjölskyldu sitji í þriggja manna stjórn í svona félagi“!  Líklega vísar orðtakið til skakkafalls; báru sem ríður skáhallt að strönd og getur valdið slysi/vandræðum í lendingu báts.  Getur einnig átt rætur í vopnaviðskiptum; t.d. að maður skjóti skildi sínum skökkum við atlögu, og verjist því ekki vel“.

Skjóta til (einhvers) (orðtak)  Fela öðrum að skera úr; bera undir.  „Hann skaut málinu til Hæstaréttar“.

Skjóta undan (orðtak)  Fela; koma undan; halda fjármunum í heimildarleysi; svíkja undan skatti.

Skjóta undir báru (orðtak)  Um sjólag; stór alda ríður undir bát.  „... skaut samt undir sverri báru stöku sinnum„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Skjóta undir sjó (orðtak)  Sjó eykur lítillega, en þó vel vært að veiðum.  (JT Kollsvík  LK; Ísl.sjávarhættir III).

Skjóta upp (orðtak)  Koma úr kafi.  „Ekki sást neitt til Sumarliða, en augnabliki síðar skaut honum upp góðan spöl frá bátnum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Skjóta upp kollinum (orðtak)  Koma í ljós; birtast.  „Sú gráa skaut upp kollinum á Látraréttum“.

Skjóta yfir markið (orðtak)  Ná ekki tilgangi sínum með atlögu/árás/ásökun; missa marks.  Vísar til þess að hitta ekki í mark t.d. við skotfimi eða steinkasti/skeljakasti.

Skjótast (s)  A.  Fara í fljótheitum.  „Ég ætla að skjótast á klósettið“.  B.  Skjöplast; misminna.  „Mér kann að hafa skotist um einhver atriði í þessu langa máli“.  C.  Yfirsjást; trassa.  „Mér hefur eitthvað skotist að greiða þennan reikning; hér fæ ég kröfu um dráttarvexti“.  Sjá skotaskuld.

Skjótast eins og eldibrandur / Skjótast eins og píla (orðtök)  Vera mjög fljótur í förum; hlaupa mjög hratt.

Skjótfenginn (l)  Fljótfenginn; sem fæst fljótt.  „Margir sáu í þessu skjótfenginn gróða“.

Skjótlega (ao)  Fljótlega; fljótt; snarlega.  „Þeir brugðust skjótlega við og komu okkur til aðstoðar“.

Skjótt skipast veður í lofti (orðtak)  Veðrabrigði geta verið mjög snögg.  Einkum gátu þau orðið skeinuhætt þegar róið var á litlum árabátum frá hafnlausri úthafsströnd, líkt og var um róðra frá Kollsvík.  Því var þessi áminning Kollsvíkingum mjög töm á tungu.  „En á skammri stundu skipast veður í lofti.  Veðurútlit hefur breyst.  Til hafsins er kominn norðan mökkur; og jafnsnemma leggur norðan kisur heim úr Blakknum og eykur norðan báru“  (KJK; Kollsvíkurver). Sjá fáir kunna sig í fögru veðri heiman að búa.

Skjótur (l)  Fljótur; snar.  „Vertu nú skjótur og hlauptu fyrir kýrnar; þær eru að steðja beint í garðinn“!  „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína“  (PG; Veðmálið). 

Skjótur í förum / Skjótur í snúningum (orðtök)  Fljótur að ferðast/skjótast; snar í snúningum.

Skjögra (s)  Riða; slaga; vera reikull í spori; ramba.  „Ég ætti nú að geta skjögrað útá Brunnsbrekku til að standa fyrir, þó ég sé ekki liðugur til hlaupa“.

Skjögt (n, hk)  Snúningar; sendiferðir; endurteknar stuttar ferðir.

Skjögta (s) Skrönglast; ganga með erfiðismunum.  „Gamli maðurinn er nú enn að skjökta í gegningar“.

Skjögtari (n, kk)  Farartæki sem notað er til snúninga.  „Lítill skjögtari var notaður til að fara fram á leguna“.

Skjögur (n, hk)  Samheiti yfir hörgulsjúkdóma sem orsaka máttleysi í sauðfé.  Talað var um að þeim lömbum væri hætt við að fá fjöruskjögur sem voru undan ám sem mikið var beitt í fjöru (röskun á koparupptöku).  Stíuskjögur var talið orsakast af of mikilli inniveru lambánna(selenskortur) en það má lækna með selengjöf.

Skjöldóttur (l)  Litur á kúm; Dökk með hvíta stóra bletti/flekki, eða hvít með dökka stóra bletti/flekki.  Þannig litur nefnist skjöldótt á kúm en flekkótt á sauðfé.

Skjöldur (n, kk)  A.  Hlemmur sem notaður er til varnar í bardaga.  Venjulega úr tré fyrrum; stundum leðurklæddu; með höldu að innanverðu; misjafn að stærð.  Sjá halda hlífiskildi yfir.  B.  Hvaðeina sem minnir á skjöld að lögun; t.d. tólgarskjöldur; storknuð fitubráð í potti.

Skjömbóttur (l)  Smáskjöldóttur; dílóttur.  Heyrðist notað um nautgripi með litla dökka bletti á ljósri húð.  Mest þó notað í líkingamáli um krakka sem voru áberandi óhreinir í framan:  „Farðu nú og þvoðu þér áður en þú borðar; þú ert svo ári skjömbóttur núna“.  Heitið „skjambi“ mun áður hafa verið notað um kinn; litaðan blett á kinn eða kinnhest/löðrung.  Má ætla að lýsingarorðið sé af því dregið.

Skjön (n, kvk)  Skakki; skái.  Oftast í orðtökum; ganga/vera á skjön við eitthvað.

Skjönglast (s)  Skenglast; skriplast; komast/fara með erfiðismunum/við illan leik.  „Ætli ég reyni ekki að skjönglast fyrir Breiðinn og reka úr Fjarðarhorninu ef þú kemur niður niður Flosagil og stendur fyrir þar“.

Skjöplast (s)  Hafa rangt fyrir sér; skeika.  „Þetta mun hafa verið svona, ef mér skjöplast ekki“. 

Skjöplast skýrum / Skjöplast þó skýr sé (orðatiltæki)  Hefur rangt fyrir sé þó hann sé greindur.  Iðulega notað þegar talið er að einhver fari með rangt mál í umræddu tilviki, þó oftast megi treysta áliti hans; oft haft með „heldurbetur“eða „illa“ á eftir.  „Nú skjöplast skýrum heldurbetur, þykir mér“!

Sko (uh)  Hikorð sem sumir nota ótæpilega.  Vafalítið stytting á „skoðaðu“, og því sömu merkingar og „líttu á“ sem er annað mikið notað hikorð.  Sumir eru svo andsetnir af þessu hikorði að þeir hnoða því óafvitandi í nánast hverja einustu setningu; einkum við þvingandi aðstæður s.s. í fjölmiðlum.  Af þessu eru ýmsar útgáfur, t.d. „neisko“; „skotil“ og „hérnasko“.  Oftast er „sko“ áherslulaust, en stundum með mikilli áherslu:  „Ég skal sko sýna honum í tvo heimana“!

Sko til (uh)  Lítið bara á.  Upphrópun sem viðhöfð er þegar eitthvað er að ganga/gerast, sem tvísynt var um áður.  „Sko til;  þarna er bara kominn þessi boltafiskur“!

Skoða (s)  A.  Líta á; virða fyrir sér.  B.  Hugleiða; velta fyrir sér.  C.  Líta eftir fóðurbirgðum og ásetningi bænda.  „Því lengur sem ég skoða og set á, eða hef þetta forðagæslueftirlit, því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Skoða hug sinn (orðtak)  Hugsa sig um; hugleiða.  „Hann er að skoða hug sinn með þetta“.

Skoða í krók og kring (orðtak)  Skoða mjög vandlega; rannsaka frá öllum hliðum.  „Eftir að hafa skoðað askinn í krók og kring, sagðist hann sjaldan hafa séð jafn fallegan smíðisgrip“.

Skoða ofaní kjölinn (orðtak)  Rannsaka vel; skoða í smáatriðum.  „Endurskoðendurnir töldu sig þurfa að skoða þetta ofan í kjölinn“.  Líkingamál sem vísar til þess að e.t.v. þarf að leita undir plittum báts þegar hlutur týnist eða til að þrífa hann vel.

Skoða sig um (orðtak)  Litast um; horfa í kringum sig; athuga aðstæður. 

Skoða til veðurs (orðtak)  Gá til veðurs.  „Skoða“ var mun minna notað en „gá“ í þessu samhengi.

Skoðanamunur (n, kk)  Ágreiningur; mismunandi skoðanir.  „Það kann að vera einhver skoðanamunur í þessum efnum, en í stórum dráttum eru menn þó sammála“.

Skoðanaskipti (n, hk, fto)  Deilur; rifrildi; rökræður.  „Á fundinum urðu uppbyggileg skoðanaskipti um þetta“.

Skoðandi (l) Athugandi; þess virði að skoða; vert skoðunar.  „Það væri alveg skoðandi að fara í þetta verk“.

Skoðum til (orðtak)  Sjáum til; látum sjá.  „Það er ekkert sjóveður í dag; við skoðum til með útlitið á morgun“.

Skoðun (n, kvk)  A.  Álit; sannfæring; hugsun; niðurstaða.  „Mín skoðun í þessu máli ætti að vera öllum kunn“.  B.  Athugun; rannsókn.  „Þetta þyrfti betri skoðunar við“.

Skoðunardagur (n, kk)  Dagur sem skoðað er, t.d. heyforði bónda.  „Þá er fram liðu stundir kom í ljós að fóðurvöntun var almennt meiri en álitið var skoðunardagana“   (ÓHE;  Forðagæslubók Rauðasands 1920).  

Skoðunarefni (n, hk)  Það sem vert er skoðunar; athugavert.  „Skyldu þeir kunna margföldunartöfluna þessir kerfiskarlar sem drepa niður allt líf á landsbyggðinni?  Það væri bara verðugt skoðunarefni“!

Skoðunarmaður (n, kk)  Maður sem skoðar/rannsakar; endurskoðandi; forðagæslumaður.  „Skoðun fór engin fram hjá Ólafi Ólafssyni í Krókshúsum.  Hann vissi að skoðunarmaður væri á leið frá Naustabrekku en vildi ekki halda fé inni vegna þess að langt væri liðið á dag, en klukkan var 10 f.h. er þeir skildu.  Ekki vildi Ólafur heldur ná í féð, sem ekki var langt í burtu.  Hafði hann heldur ósæmileg orð um skoðunarmann“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938). 

Skoðunarvirði / Skoðunarinnar virði (l/orðtak)  Vert skoðunar; athugandi; skoðunarefni.  „Það væri nú alveg skoðunarvirði að ganga þarna út á brúnirnar; það getur alltaf leynst fé þar í lautunum“.

Skoffín (n, hk)  A.  Furðukvikindi sem, samkvæmt þjóðtrúnni, átti að vera afkvæmi karlkyns refs og kattarlæðu.  Skuggabaldur er hinsvegar afkvæmi refalæðu og kattarhögna.  Skoffín var talið fáséður óvættur og tiltölulega skaðlaus.  B.  Niðrandi mannlýsing; bjáni; furðugripur; viðrini; ólíkindatól.

Skokk (n, hk)  Gangtegund hests; jafn en óþýður gangur.  B.  Róleg hlaup.

Skokka (s)  Hlaupa fremur rólega; fara tiltölulega stutta vegalengd; skreppa.

Skol (n, hk)  A.  Það að skola; þvottur.  B.  Lögur sem blandaður/þynntur er með vatni, sbr mjólkurskol; kaffiskol.

Skola (s)  Þvo (stundum um óvandaðan þvott); hreinsa með vatni; skólpa. „Fiskurinn var skolaður í Búðalæknum“.  „Ég skolaði úr sokkunum“.

Skola af sér (skítinn) / Skola á sér skrokkinn (orðtak)  Þvo sér.  „Ég ætla að skola af mér mesta skítinn áður en ég fæ mér kaffi“.  „Maður þarf víst eitthvað að skola á sér skrokkinn ef maður er á leið í fína veislu“.

Skola á land / Skola upp (orðtök)  Reka á land.  „Hér festir lítið á fjöru, þó einhverju skoli upp“.

Skolast til (orðtak)  Ruglast; fara á rangan stað.  „Hér hefur eitthvað skolast til í frásögninni“.

Skolhærður (l)  Með dökkleitan háralit, en þó ekki mjög dökkan.

Skollafingur (n, kk)  A.  Lágvaxin gróplanta af jafnaætt (Huperzia selago), sem víða má sjá í Kollsvík og grennd.  Dálítið lík litunarjafna og lyngjafna.  Stönglarnir teygja sig 5-12 cm uppúr jörðinni, loðnir og grænir, og vaxa nokkrir saman í kransi.  B. Gróhluti elftingar (sjá elftingarte).  Grannir gulleitir stönglar sem vaxa af rótum elftingar; með kólfi efst.  Þjóðtrúin segir að skollafingur séu klær satans.

Skollagras (n, hk)  Sjá tófugras.

Skollahár (Desmarestia aculeata)  Sjávargróður sem algengur er með ströndum og stundum ranglega sagt vera þursaskegg.  Greinóttir þræðir, oft um 1-3 mm að gildleika og allt að 1 m að lengd; hliðargreinar margar og stakstæðar.  Leður kennd eða brjóskkennd.  Berst iðulega í net og upp á fjörur.

Skollahráki (n, kk)  Annað heiti á marglyttu.  Vísar til þess að þjóðtrúin segir marglyttuna vera hráka skrattans.

Skollakollur (n, kk)  Skrattakollur; niðrandi heiti á manni.

Skollakoppur (n, kk)  Strongylocentrotus droebachiensis.  Algengasta tegund ígulkerja; skrápdýra sem algeng eru í sjó allt í kringum landið.  Grænbrún og fremur smávaxin tegund; verður mest um 8 cm í þvermál, en oftast minni.  Hann lifir einkum á grunnsævi.  Hrygnun og sviljun á sér stað á sama tíma í ígulkerjabyggð.  Lirfurnar lifa sem svif fyrstu árin en setjast síðar á botninn og umbreytast í ígulker.  Skollakoppur lifir einkum á blaðþara af ýmsum tegundum, t.d. stórþara og hrossaþara.  Ígulker rekur iðulega á fjörur og eru einnig borin upp af sjófuglum.  Þau ánetjast iðulega í netum og er stundum nokkuð vesen að greiða þau úr.  Fjölgi þeim verulega, eins og hefur gerst á síðari árum, éta þau upp þaraskóga og eyðileggja með því búsvæði/veiðisvæði hrognkelsa og annarra sjávardýra.  Miklar sveiflur geta orðið í stofnstærð skollakopps.  Höfundur hefur leitt að því líkum að slík offjölgun kringum árið 1980 hafi lett til mikillar ofbeitar þaraskóga víðsvegar við strendur, sem aftur leiddi til þess að brimbáran komst óhindrað upp á fjörur og olli þar miklum spjöllum.  Slíkt átti sér m.a. stað í Kollsvík undir lok 20.aldar, en þar braut brimið niður Grundabakka; olli spjöllum á Görðunum og bar upp kynstur af sandi sem síðan olli auknu sandfoki.  Þessu orsakasamhengi hafði ekki verið lýst fyrr en VÖ sagði frá því í blaðagrein.  Sjá ígulker.

Skollakornið (n, hk, m.gr)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Þetta getur skollakornið ekki staðist“! „Ég fer skollakornið ekki að búa mig uppá til að fara á spilakvöld“!

Skollakúnstir (n, kvk, fto)  Furðuleg/fáránleg brögð.  „Séra Þórarinn Þór skemmti eittsinn á jólatréssamkomu í Fagrahvammi með spilagöldrum og ýmiskonar skollakúnstum, enda fær töfra- og sjónhverfingamaður“.  „Rollufjandinn ætlaði að snúa á mig með því að fara upp í ganginn, en ég var fljótur að sjá við svoleiðis skollakúnstum“.

Skollaleikur (n, kk)  A.  Leikur barna; blindingsleikur.  Bundið er fyrir augu eins úr hópnum, sem síðan á að reyna að snerta aðra innan tiltekins svæðis.  B.  Líkingamál um það að fara í felur með eitthvað; hafa í frammi blekkingar/laumuspil.  „Óttalegur skollaleikur er þetta“!

Skollamark (n, hk)  A.  Mark fjandans á skepnum, en samkvæmt þjóðtrúnni markar hann sér fé annarra með því að skera allt eyrað af.  B.  Líkingamál um það að sölsa undir sig.  Sagt er að einhver setji sitt skollamark á eitthvað þegar hann vill gína yfir því.

Skollansári (ao)  Blótsyrði/áhersluorð í vægari flokknum.  „Mér finnst skollansári slæmt að þurfa að skilja þessar kindur eftir“.  Élið var bara skollansári dimmt; við sáum varla handaskil“.

Skollansekkisen (ao)  Bölvaður; árans.  Milt blótsyrði.  „Skollansekkisen gleymska var það að skilja  kaffið eftir á borðinu; við verðum víst að láta vatnið nægja í þessum róðri“.

Skollansnær (fs)  Andskotansnær; fjandansnær; verið betra.  „Ég held að honum væri skollansnær að hugsa um það sem að honum snýr, en vera ekki að gagnrýna aðra“!

Skollapuntur (n, kk)  Fjallafoxgras; Phleum alpinum.  Grastefgund sem algeng er um allt land, frá láglendi uppá fjöll.  Vex einkum í hvömmum, lækjargiljum og dældum.  Skollapuntur þekkist frá vallarfoxgrasi á sérkennilega uppblásnu slíðri neðan við stöngulblaðið.  Smáöxin eru mjög þétt saman í 2-4cm löngum axleitum punti.  Axagnir eru broddhyrndar, sú eftir lengri en súr neðri.  Blöðin eru flöt; 3-6mm breið; stráið stutt, sívalt, gárað; blaðgrunnur oft fjólubláleitur við slíðurmótin; útstæð hár við slíðurhimnuna.

Skollareipi (n, hk)  Rótartágar/renglur hrútaberjalyngs, sem oft eru sýnilegar ofanjarðar.  Hrútaberjalyng hefur vaxið á einum stað í Kollsvík í seinni tíð; í Urðunum ofan Bergjanna í Kollsvík.

Skollaskyrpa (n, kvk)  A.  Dökkur blettur í gómfyllu þorskhauss (sjá þar).  „Gómhimnan er einnig kölluð gómfilla og gómroð.  Neðst á henni er dökkur blettur; hælroði/illa/ónæmisblettur/skollablettur/skollaskyrpa eða spítalski blettur.  Sagt var að hann væri eftir kló skrattans, eða hráka hans.  Himnan var talin óæt og jafnvel sögð valda holdsveiki eða vitglöpum.“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).   B.  Annað heiti á marglyttu.

Skollaþvengur (n, kk)  Marþráður; Chorda filum.  Brúnþörungur sem er eins og löng reim eða snúra í útliti; sívalur brúnn; 2-6m langur; 3-6mm í þvermál; þráðlaga og greinalaus; með lítilli skífulaga festingu neðst; sleipur viðkomu.  Skollaþvengur er einær; vex snemma á vorin og hverfur að hausti.  Algengur kringum allt land á grunnsævi.  Kemur iðulega í net og á fjörur.

Skollaþýska (n, kvk)  Hrognamál; óskiljanlegt blaður.  „Hver heldurðu að skilji þessa skollaþýsku“?

Skolli (n, kk)  A.  Milt blótsyrði; milt heiti á myrkrahöfðingjanum eða útsendara hans.  „Skolli varstu nú heppinn“!  „Það er einhver skollans verkur í hnénu á mér“.  B.  Gæluheiti á tófu/ref.

Skolt (n, hk)  Baknag; baktal; slúður; rógburður.  „Ég ætla ekki að bera áfram þetta skolt sem maður heyrir“.

Skolta (s)  Kjafta frá; uppljóstra; blaðra.  „Hann var eitthvað að skolta um búskapinn á næsta bæ“.  „Hann er búinn að skolta leyndarmálinu um allar jarðir“.  Mikið notað af J.Hák. o.fl. 

Skoltur (n, kk)  Kjaftur; munnur.  „Einhver eymsli eru nú skoltinum á mér; ég þyrfti að fara til tannlæknis“.

Skondið.  (l)  Skrýtið; sniðugt; skoplegt.  „Það skondna er að áður framleiddi rennibekkurinn rafmagn.  Pabbi tengdi við hann dýnamó og svo voru hlaðnar rafhlöður fyrir útvörpin, sem kallaðar voru votabatterí“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Skondið og skemmtilegt/skrýtilegt (orðtak)  Sniðugt og skotplegt.  Oft notað þannig tengt.  „Þetta gæti orðið dálítið skondið og skemmtilegt“.

Skondra / Skondrast (s)  Ganga; trítla.  „Ég ætla að skondra hérna norðuryfir víkina og heilsa uppá fólkið“.  „Viltu ekki skondrast fyrir mig niðurí mjólkurhús og sækja í fötuna; hún er þarna á borðinu“.

Skonnorta (n, kvk)  Nokkuð stórt seglskip með tveimur eða fleiri möstrum; gaffalseglum og stagseglum (fokkusegl, klýfissegl, jagara og gaffaltoppsegl) og bugspjóti.  Seglabúnaður af því tagi var nefndur „skonnortusegl“ eða „skonnortusigling“.  Heitið „skonnorta“ er komið úr ensku (scooner), en franska heitið er „góletta“ (goélette).   Skonnortur voru fyrst notaðar af Hollendingum á 17.öld.  Þær voru mikið notaðar til fiskveiða, m.a. á Miklabanka við Nýfundnaland á 18.öld.  Þá voru skonnortur notaðar sem herskip og til vörusiglinga á löngum leiðum; t.d. við te- og ópíumverslun Breta í Asíulöndum.  Hér við land voru þær notaðar af  Bandaríkjamönnum til lúðuveiða og af Frökkum til þorskveiða í kringum aldamótin 1900.  Thor Jensen notaði skonnortur til Spánarsiglinga frá 1917.  Fáeinar eru í notkun hér til hvalaskoðunarferða.
Skonnortubrigg er skip með tvö möstur; annað með gaffalseglum en hitt með þverseglum.  Hún er því millistig milli skonnortu og briggskips, eða brigantínu, sem er með tvær siglur með þverseglum.

Skonrok (n, hk)  Sérstök tegund af þurru, hörðu og geymsluþolnu hveitibrauði.  Var allmikið notað í kost stærri skipa fyrrum, t.d. á skútuöldinni.

Skonsa (n, kvk)  Lítið rými; klefi; skápur.  „Þvottavélin var í skonsunni undir stiganum á Láganúpi“.

Skop (n, hk)  Grín; aðhlátursefni; fyndni; spaug.  „Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað skop“.

Skoplaust (l)  Gamanlaust; grínlaust; alvörumál; ekki aðhlátursefni.  „Þetta segi ég þér alveg skoplaust og í fúlustu alvöru“!  „Það hefði verið skoplaust ef karlinn hefði ekki náð að grípa í spottann í fallinu“.

Skoplegt (l)  Hlægilegt; spaugilegt.  „Þetta var hin skoplegasta viðureign“.  „Ég sé lítið skoplegt við þetta“.

Skoppa (s)  A.  Velta.  „Ég skoppaði varadekkinu til hans“.  B.  Skjótast; skreppa; hlaupa.  „Skoppaðu nú niðúr í mjólkurhús og náðu í sopa í fötuna“!

Skoppa gjörð (orðtak)  Barnaleikur; skoppa gjörð af tunnu á undan sér, ýmist með priki eða höndum.  Tíðkuðust ýmsar keppnisgreinar í þeim leik.  Einnig var stundum skoppað gjörð af hesthjóli.

Skoppandi (n, kk)  Um sjólag; veltingur; typpingur; bárusláttur.  „Heldur er hann að aukast þessi skoppandi þegar harðnar innlögnin“.

Skopparakringla (n, kvk)  A.  Leikfang; kringla, oftast keilulaga, sem snúist getur af miklum hraða og haldið honum af snúðvægi sínu.  Á sumum er trekkibúnaður til að auðvelda snúninginn.  B.  Líkingamál um mann sem er á miklum hlaupum/snúningum; eða skiptir oft um skoðun.  „Hann hefur snúist í þessu máli eins og skopparakringla.  Það er engu að treysta um hans stuðning við það“.

Skoppast (s)  Skjótast; skreppa; hlaupa.  „Skoppastu nú fyrir mig eftir mjólk í tankinn snöggvast“.

Skopskyggni / Skopskyn (n, kvk)  Næmi manneskju fyrir því skoplega/skemmtilega í málum/umhverfi. 

Skopstæling (n, kvk)  Eftirgerð/teikning af einhverju en með gamansömum/afkáralegum frávikum.

Skor (n, kvk)  Skora/rifa almennt; glufa inn í klett/hlein eða milli tveggja kletta/hleina.  Skor er nafn á jörð sem löngum var í byggð; austast í Rauðasandshreppi.  Dregur hún líklega nafn af lendingunni, sem er þröngur vogur milli tveggja kletta. 

Skora (n, kvk)  Skor; rifa; vik; rispa.

Skora (s)  A.  Gera rifu/skurð/skoru í eitthvað.  B.  Gera tilkall til.  Sbr skora á hólm og skorast undan.

Skora á (einhvern) (orðtak)  Mana einhvern í tiltekinn verknað; kalla einhvern til tiltekins verks.  „Ég skora á þig að svara mér í bundnu máli“.  Eflaust mjög gamalt í málinu, og vísar líklega til þess tíma að boð voru send með örvarboði eða axarboði.  Þ.e. boðin voru skorin á legg örvar eða axar og boðsend viðtakanda.  „Nú hafði mönnum hlaupið kapp í kinn og margir skoruðu á þá Liða og Gumma að ljúka veðmálinu…“  (PG; Veðmálið).  „Almennur hreppsfundur skorar á vegamálastjórn og þingmenn Vestfjarða að beita sér fyrir…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Skora (einhvern) á hólm (orðtak)  Kalla einhvern til einvígis; mana einhvern til bardaga/slagsmála/viðureignar/hólmgöngu.  „Ég get skorað hann á hólm í rökræðum um þessi efni, hvenær sem er“!  Orðtakið er mjög gamalt.  Hólmur sem hér um ræðir er líklega afmarkað svæði, en siður var að stinga niður tágum/greinum til að afmarka það svæði sem berjast mátti á; hasla bardaganum völl.  Þegar maður var skoraður á hólm var skorið boð á boðör eða boðöxi, um að hann skyldi mæta til einvígis á tilteknum stað, og boðið boðsent honum rétta boðleið.

Skorast undan (orðtak)  Víkjast undan. Hér er líklega um fornt orðtak að ræða; frá þeim tíma að menn voru boðaðir til þinga, dóma og einvíga með axar- eða örvarboðum.  Sá sem taldi sig ekki geta orðið við boðinu „skoraði sig undan“; þ.e. hann hefur líklega skorið skilaboð um það, annaðhvort á sömu ör/öxi eða á sérstakt boð og komið þeim í hendur boðanda.

Skoraviðri (n, hk)  Vindur sem stendur upp á bjargbrún.  Ekki notað í seinni tíð, en til fyrritíðar notkunar bendir þessi gamla vísa sem ónefndur bjargmaður kvað á brún Látrabjargs forðum til hjólmannsins (festarhara); „Festarhari hugrakkur;/ hraustur snar og fljótur; / vertu bara vaðglöggur, / viðris skora njótur“ (LK; Ísl.sjávarhættir V).  Sjá einnig festarhari.

Skorbiti (n, kk)  Biti/slá/aukaþófta sem liggur á og milli hástokka á stærri róðrarbátum, milli bita og öftustu þóftu.  Undir skorbita var oft stelkur niður í kjöl og á hann negldar fiskifjalir.

Skordýr / Skorkvikindi (n, hk)  Undirfylking sexfætla.  Skordýr eru fjölbreyttasti flokkur dýra jarðar, með yfir 800.000 þekktar tegundir, eða fleiri en allir aðrir hópar dýra samanlagt.  Fyrstu skordýrin komu fram á Devon-tíma jarðsögunnar, fyrir um 400 milljónum ára, og tugir milljóna ára liðu þar til fyrstu tegundir þeirra komust á flug.  Líkami skordýra er liðskiptur, með stoðgrind úr kítíni, og skiptist í þrjá hluta; höfuð, frambol og afturbol.  Á höfði eru tveir fálmarar og par af samsettum augum, auk einfaldara depilauga.

Skorða (n, kvk)  Búkki; fjöl; það sem styður við/stillir af.  Til að halda báti á réttum kili í fjöru voru settar undir hann skorður.  Í Kollsvíkurveri voru bæði notaðir búkkar sem skotið var undir byrðinginn og reistar fjalir sem sátu að ofanverðu við skör.   „Settu aðra skorðu undir bátinn að framanverðu“.  „Oftast var báturinn skolaður áður en hann var að fullu settur undan sjó; nema því aðeins að ráð væri á unglingum til að gera það þegar báturinn var kominn í skorður“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Svo röðuðum við okkur á bátinn og felldum skorður undan.  Tveir bökuðu aftan; einn studi miðskips og einn ýtti að framan“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Skorða (s)  A.  Stilla af; festa; styðja við.  „Mikilvægt er að skorða hvern stein þegar hlaðið er úr grjóti“.  B.  Ganga frá báti eftir setningu.  Skorðað er með því að stinga búkka undir hvora síðu og slá hallandi skorður (fjalir) undir skarirnar framan og aftan. 

Skorða skipsmenn en ábyrgjast eigendur (orðatiltæki)  Minnir á þá reglu að áhöfn báts skal ganga frá honum í uppsátri en það er á ábyrgð eiganda að ganga úr skugga um að allt sé í lagi og rétt gengið frá.  „Þegar báturinn er kominn upp á kamb er skorðað; oft var sagt:  „Skorðið skipsmenn; ábyrgist eigendur“ “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Skorðaður (l)  A.  Um bát; stífaður af með skorðum, svo hann standi á réttum kili.  B. Líkingamál; tryggður fyrir því að hreyfast ekki; aðþrengdur. 

Skorið við nögl (orðtak)  Naumt skammtað; sparað.  „Veitingarnar voru ekki skornar við nögl á þeim bænum“.

Skorinorður / Skorinyrtur (l)  Gagnorður; kjarnyrtur.  „Ræðumaðurinn var skorinyrtur og sparaði ekki lýsingarorðin“.  Vísar til þess að skera óþarfa skrúðmælgi utanaf því sem sagt er.

Skorinyrði (n, hk)  Hnitmiðað mál; kjarngóð ræða.  „Ég lét hann heyra fáein skorinyrði“!

Skorningur (n, kk)  Far; rás; skora; hjólfar.  „Þeir þyrftu nú að fara að hefla þessa leiðinda skorninga“.

Skorpa (n, kvk)  A.  Hörð skán, t.d. á brauði, haug eða sári.  „Éttu skorpuna líka drengur; þetta er matur“!  B.  Skörp vinnulota; skorpuvinna.  „Steypa þurfti veggina í einni skorpu, til að ekki yrðu í þeim steypuskil“.

Skorpinn (l)  Hrukkóttur; með skorpu/ harða skán/skel.  „Ég tíndi þau ber úr sem voru skemmd eða skorpin“.

Skorpna (s)  Verða skorpinn; þorna; skelja.

Skorpumaður (n, kk)  Sá sem vinnur hratt og afkastar miklu á stuttum tíma en hentar ekki eins vel jöfn og stöðug vinna.  „Hann var skorpumaður til vinnu og það gekk vel undan honum meðan hann var að.

Skorpuróður (n, kk)  Ákafur róður sem róinn er í einni lotu.

Skorpuvinna (n, kvk)  Verk sem þarf að koma frá í lotu; ekki stöðug vinna.  „Löndunin var skorpuvinna, einkum ef afli var mikill og keppa þurfti við sjólag og sjávarfall“.

Skorsteinn (n, kk)  Reykháfur.  Sambærilegt orð er í norsku skorsten, og í þýsku schorstein.  Merkingin er „skorðaður steinn“, sem vísar trúlega til þess að skorsteinn er gjarnan hinn fasti kjarni í því húsi sem hann er í; einkum í timburhúsum.

Skorta (s)  Vanta; vanhaga um.  „Mig skortir ekkert“.  „Það gæti varið að skorta salt á næstunni“.

Skorta á/uppá (orðtak)  Vanta á; vera ekki fullt/fullkomið.  „Eitthvað skortir uppá mannasiðina hjá honum“.

Skortur (n, kk)  Vöntun; hörgull.  „Það er enginn skortur á rigningunni í dag“! Sjá af skornum skammti.

Skoskur ljár (orðtak)  Torfaljár; bakkaljár (sjá þar).

Skoskt tau (oðtak)  Tau/klæðaefni með rúðóttu mynstri.  „Svuntan var af rúðóttu taui, sem var kallað skoskt tau; óhrein eða upplituð, því að framaná svuntunni var bót af sama efni er sýndi hinn upprunalega lit tausins“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).

Skot (n, hk)  A.  Afkimi; útskot.  Stígvélin eru þarna í skotinu“.  B.  Skothylki í byssu.  „Ég tek pakka af þessum skotum með niður í Byrgi“.  C.  Ör; skutull.  „Benedikt Gabríel krafðist skotmannslauna sinna af Einari í Kollsvík“.  D.  Skyndilegt og skammvinnt óveður; spæna; hvellur.  „Þetta var ansi hressilegt norðanskot“.

Skotalaus (l)  Hefur engin skot.  „Ég sé að ég er að verða skotalaus.  Ætli maður fari þá ekki að hætta skytteríi þennan daginn“.

Skotaskuld (n, kvk)  Skuld sem er í vanskilum; skuld sem manni hefur skotist að greiða.  Sjá; verða ekki skotaskuld úr.

Skotbjart (l)  Nægilega bjart til að skjóta tófu.  „„... þarna í köldum skothúskofanum sat maður hálfu og heilu vetrarnæturnar og skalf sér til hita, meðan tunglið skein svo skotbjart var“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Skotbyrgi (n, hk)  Skothús; mávabyrgi; tófuhús; staður þar sem legið var fyrir veiðibráð. 

Skotferð / Skottúr (n, kvk/kk)  Snögg/stutt ferð; skreppitúr.  „Eg þarf víst að fara í skottúr á Patró“.

Skotfimi (n, kvk)  Leikni í að skjóta/ hitta í mark.

Skotfljótur (l)  Mjög fljótur í förum; eins og skot.  „Ég ætla aðeins að skreppa; ég verð skotfljótur“.

Skotfæri (n, hk, fto)  A.  Hvaðeina sem skotið eða kastað er, s.s. steinar, örvar, spjót og hlaðin byssuskot.  B.  Líkingamál um tilefni til orðaskipta, einkum háðs eða skamma.  C.  Mjög góð færð á vegi.

Skotglaður (l)  Þykir gaman að skjóta úr byssu; byssuóður.  „Ekki voru allir leikir svo skotglaðir, því líka voru smíðaðir flugdrekar og einnig bátar af ýmsu tagi“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Skotharður (l)  Um bráð sem skotið er á; brynjaður gegn skoti/ákomu; þolir vel kúlu/högl.  „Það tekur því ekki að eyða skoti á gamalmáv þótt hann gefi færi.  Bæði er hann seigur undir tönn, og svo er hann skotharðari en unginn“.

Skotheldur (l)  A.  Dugir sem vörn fyrir skoti.  B.  Líking; stenst gagnrýni; rökréttur.

Skothendur háttur (orðtak)  Um vísnagerð; Skothending nefnist alrím eða hálfrím innan sömu braglínu.  Dæmi um það er: „Hvert stefnið þér hrafnar,/ hart með flokk enn svarta“? (Þórður Kolbeinsson; Björns saga Hítardælakappa).  Einnig nefnt sniðhending.

Skothríð (n, kvk)  Áköf og ítrekuð byssuskot.  „Heimanað mátti sjá mávahópinn nálgast Byrgið, þar sem fljótlega upphófst mikil skothríð“.

Skothundur (n, kk)  Veiðihundur.  „Með mér var mjög góður skothundur sem mér þótti mjög vænt um“  (IG; Sagt til vegar I).  

Skothurð (n, kvk)  Rennihurð; hurð sem skotið er til hliðar á brautum í stað þess að opnast á lömum.

Skothús / Skothúskofi (n, hk/kk)  Tófuhús; lítið skýli þar sem legið var fyrir tófu.  „Þarna á blábrúninni er mjög gamalt skothús sem notað var til skamms tíma.  Þar var borið út hræ og legið fyrir tófu“  (IG; Sagt til vegar I).  „... þarna í köldum skothúskofanum sat maður hálfu og heilu vetrarnæturnar og skalf sér til hita, meðan tunglið skein svo skotbjart var“   (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Á brún Strengbergs er rúst af skothúsi, frá því að vetrarveiðar voru stundaðar á ref“  (HÖ; Fjaran).  

Skotist/skjátlast/skjöplast getur þó skýr sé / Skjátlast þó skýr sé (orðatiltæki)  Vísar til þess að jafnvel þeim getur yfirsést/skjátlast sem er greindur/rökvís.

Skotklefi (n, kk)  Klefi í sláturhúsi þar sem sláturfé er lógað.  Sjá banaklefi

Skotlaun (n, hk, fto)  Verðlaun; þóknun sem greidd er af almannafé þeim sem vinnur tófu, vargfugl eða annan skaðvald.  Vanalega nefnt verðlaun í Rauðasandshreppi í seinni tíð, sjá þar.

Skotlína (n, kvk)  A.  Leið sem skot fer þegar skotið er.  „Gættu að því að ekkert sé í skotlínunni“.  B.  Fluglína; létt lína aftaní rakettu sem skotið er úr línubyssu, t.d. til björgunar úr strönduðu skipi.  Rakettunni er skotið úr landi. Nái skipverjar skotlínunni draga þeir hana til sín, en í hana er fest sterkari tóg og síðan björgunarstól og tildráttarlínu.

Skotloka (n, kvk)  Dyraloka; slagbrandur; renniloka.  „Skotloka getur annað hvort verið með lausum slagbrandi, sem þá er rennt í kíl í dyrastafnum þegar lokað er, en hangir í spotta þegar opið er:  Eða með slagbrandi sem rennur í spori á hurðinni; oftast í eitthvað móttak á stafnum“. 

Skotmaður (n, kk)  A.  Sá starfsmaður í sláturhúsi sem  hefur það hlutverk að lóga skepnum.  B.  Sá sem skýtur veiðidýr, s.s. tófu.  „Skotmaður þarf að hirða skottið af refnum til að innheimta sín verðlaun hjá oddvita“.

Skotmannshlutur (n, kk)  Hlutur þess sem skýtur af veiðifeng.  „Leitar hann nú eftir við bónda hvort hann vilji ekki greiða sér skotmannshlut af hvalnum.  En því neitar Einar með öllu“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Skotra (s)  A.  Almennt; renna til hliðar.  Skotraðu þessu til mín“.  B.  Um augnaráð; skotra augunum.

Skotra augunum (orðtak)  Gefa hornauga; horfa á skjálg; horfa útundan sér.  „Hann skotraði augum til hennar“.

Skotra sér undan (orðtak)  Víkja sér undan.  „Hann náði naumlega að skotra sér undan þegar steinninn kom fljúgandi niður klettana“.

Skotrenna (n, kvk)  Þaksund; lægð milli aðhallandi húsþaka, einkanlega renna sem þar tekur við regnvatni.

Skotróður (n, kk)  Róður sem varir stuttan tíma; stuttur róður.  „Ég náði að fara einn skotróður fram á Víkina“.

Skotsilfur (n, hk)  A.  Brotasilfur; silfur sem safnast (skotist) hefur úr mörgum áttum í viðskiptum fyrri tíðar.  B  Líkingamál; laust fé; peningar.  „Ég er hér með eitthvað skotsilfur“.

Skotspónn (n, kk)  Fornt orð um skotmark; vísar líklega til þess að skotið hafi verið í tré eða tréskífu, en e.t.v. annað sem ör eða spjóti var beint að.  Hugsanlegt er að orðið hafi einnig, og/eða í einhvern tíma, merkt örina sem skotið var.  Til þess benda orðtökin beina skotspónum að og heyra/frétta á skotspónum; sjá þar.  Sjá einnig; vera skotspónn einhvers; hafa að skotspæni.

Skott (n, hk)  A.  Rófa á hundi/ketti/tófu/mink.  Aldrei var talað um skott á kúm eða kindum, eins og nú er lenska hjá borgarkynslóðinni.  B.  Gæluorð um barn.  „Komdu hérna skottið mitt og leyfðu mér að strjúka mesta skítinn framanúr þér“.  C.  Geymslupláss aftan í fólksbíl.  Síðari tíma líking.  D.  Hali á skotthúfu.

Skotta (n, kvk)  Gæluheiti á draug/uppvakningi.  Einnig sem hundsheiti. 

Skottast (s)  Skjótast; fara; hlaupa um; leika sér.  „Stelpan hefur verið að skottast hérna úti á hlaðinu“.

Skotthúfa (n, kvk)  A.  Húfa með skotti á; húfa sem er svo ílöng að hún efri endinn lafir niður.  B.  Peysufatahúfa; hluti íslensks kvenbúnings.  Húfa með skott og skúf niður úr kollhettunni.  „Hún (huldumærin) var vel klædd; þó ekki í upphlut né með skotthúfu“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Skottleggur (n, kk)  Afturfótur.  Nú einungis notað í orðtökunum að ná í skottlegginn á og rísa upp á skottleggina (sjá þar.

Skottulækning (n, kvk)  Flaustursleg/léleg/ófagmannleg lækning.  „Skotta“ er þarna hljóðbreyting af „skjótur“.

Skottulæknir (n, kk)  Sá sem stundar skottulækningar/ þykist vera læknir; lélegur læknir.          

Skóa (s)  Gera skó á fætur; búa út með skó; járna hest.

Skóaður (l)  Með skó.  „Ertu nógu vel skóaður til að fara í kletta; er ekki betra að vera á strigaskóm“?

Skóari (n, kk)  Skósmiður; sá sem gerir skó/ lagar skó.

Skóaskipti / Skóskipti (n, hk, fto)  Skipti á skófatnaði.  „Ég ætla að hafa skóaskipti áður en ég legg af stað“.

Skóbót (n, kvk)  Bót á skó.  Fyrrum var mikið gert af því að bæta skó og stígvél þegar göt komu á, eða slitna tók.

Skóbótarvirði (n, hk)  Um það sem er mjög lítils virði.  „Þetta er nú varla skóbótarvirði“.

Skóbúnaður (n, kk)  Gerð af skóm/stívélum sem á gengið er í.  „Þetta er varla hentugur skóbúnaður í kletta“!

Skóböðull (n, kk)  Sá sem er fljótur að eyðileggja skó/skófrekur.  „Óttalegur skóböðull geturðu verið“.  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Skóbösl / Skófatnaður (n, hk, fto)  Skór; skóbúnaður

Skófir (n, kvk, fto)  A.  Skánir; það sem skafið er af.  Oftast er átt við það sem stundum sýður fast innanum pott þegar soðinn er mjólkurmatur.  B.  Frumstæð jurtafylking; fléttur.  Fléttur eru sambýli sveppa og þörunga.  Skófir er vanalega notað um þær tegundir fléttna sem eru blaðkenndar, s.s. geitaskóf og skeljaskóf, en vaxa ekki upp frá jarðvegi eins og flétturnar fjallagrös og hreindýramosi.

Skófla (n, kvk)  Reka; amboð til moksturs eða/og stungu efnis.  Heitið reka var oftar notað vestra.

Skófla (s)  Moka með skóflu/reku. 

Skófla í sig (orðtak)  Borða með mikill áfergu/græðgi.

Skóflublað / Skófluskaft (n, hk)  Hlutar skóflu.

Skóflustunga (n, kvk)  Mæling á jarðvegsdýpt; sem svarar lengd á skóflublaði.  „Ég pikkaði niður úr jaðrfrostinu og það er alveg full skóflustunga á dýpt“.

Skóinn kreppir að  (orðtak)  Þrengir að; þrengingar steðja að.  „Hann þekkti þetta manna best, og vissi hvar skóinn helst kreppti að“.

Skólaskoðun (n, kvk)  Læknisskoðun skólabarna.  „Skólaskoðun var einusinni á ári“.

Skógahögg (n, hk)  Skógarnytjar; það að höggva skóg til nytja.  Skógur kann að hafa vaxið norðantil í Kollsvík við landnám, en þar hefur verið skóglaust svo langt sem elstu heimildir greina.  Hinsvegar benda allar líkur til að a.m.k. á tímum Einars Jónssonar í Kollsvík hafi Kollsvíkingar átt skógarhögg annarsstaðar; til þess bendir járnvinnsla hans.  Líklega hefur Einar fengið skógarhögg hjá mágfólki sínu í Vesturbotni.

Skógarítak (n, hk)  Ítak til skógarhöggs í landi annarrar jarðar.  „Sauðlauksdalskirkja á skógarhögg í Botnsskógi, og brúka leiguliðar þar kolaskóg ókeypis“  (ÁM; Jarðabók). 

Skógarmaður (n, kk)  A.  Á þjóðveldisöld var heitið haft um þann sem dæmdur var til skóggangs/útlegðar´; skóggangsmaður.  Sekir skógarmenn voru griðlausir og réttdræpir hvar sem þeir náðust, og er nafnið tilkomið af því að auðveldast var að leynast í skógum eða hellum.  Þekktir skógarmenn eru t.d. Grettir sterki Ásmundarson og Gísli Súrsson.  B.  Sá sem er í skógi/ stundar skógarhögg.

Skóggangur / Skóggangssök (n, kvk)  Skóggangur var ein þriggja refsinga sem sakamenn gátu verið dæmdir til, samkvæmt Grágásarlögum, en hinar voru útlegð og fjörbaugsgarður.Skóggangssök var glæpur sem til forna þótti svo mikill að rétt væri að dæma sakamann til útlegðar/skóggangs.  Skóggangur og fjörbaugsgarður nefndust sekt.  Mannvíg voru yfirleitt skóggangssök, en einnig aðrar alvarlegar skir.  Með skóggangi var hinn seki sviptur allri vernd samfélagsins, svo hann var réttdræpur þar sem hann náðist.  Hann var óalandi og óferjandi; þ.e. enginn mátti gefa honum að borða eða aðstoða hann á ferðalögum.  Mennv oru einnig sviptir öllum titlum og réttindum og voru oft dæmdir í mikil fjárútlát eða eignaupptöku.  Um 970 gengu mikil harðindi yfir; sjá óöld í heiðni, með mikilli fjölgun skóggangsmanna.  Um 1000 var lögtekinn fjörbaugsgarður, sem var vægari refsing.  Sjá skógarmaður.

Skóglaus (l)  Ekki vaxinn skógi.  Skóglaust hefur verið í Útvíkum, svo lengi sem elstu heimildir greina.  Hafi þar verið einhver skógur við landnám hefur hann fljótlega eyðst við notkun; a.m.k. eftir að verstaða hófst.  Vel líklegt er að fyrir landnám hafi skógur vaxið við bestu skilyrði, t.d. ofarlega og norðantil í Kollsvík og norðurundir Hjöllum í Breiðavík.

Skógrækt (n, kvk)  Ræktun skógar.  Tilraunur hafa verið gerðar til skógræktar í Kolsvík en ekki gengið.  Páll Guðbjartsson plantaði birki í reit heiman Litlavatns, og síðar reyndu Ingvar og Össur bræður hans að koma til græðlingum í Urðunum sinnhvorsvegar í Kollsvík.   

Skólaakstur (n, kk)  Akstur með skólabörn milli heimilis og skóla.  Á tímum farskóla hvíldi sú skylda á foreldrum að koma sínum börnum á kennslustað, þar sem þau dvöldu vanalega um tíma í fæði og húsnæði.  Þegar Barnaskóli Rauðasandshrepps tók til starfa í Fagrahvammi 1965 var börnum í fyrstu skipt í yngri- og eldri-deild, sem skiptust á í skólanum hálfsmánaðarlega. Nokkrum árum eftir það var ráðinn sérstakur skólabílstjóri til að sjá um skólaaksturinn í stað foreldra.  Síðar urðu ferðirnar vikulegar.  Sá sem lengst af var skólabílstjóri í Rauðasandshreppi var Ólafur Sveinsson á Sellátranesi.  Hann þótti fádæma öruggur og útsjónarsamur bílstjóri, en hvergi á landinu þurfti að aka börnum yfir fleiri fjallvegi til skóla.

Skólaskoðun (n, kvk)  Læknisskoðun skólabarna, sem í Rauðasandshreppi var yfirleitt framkvæmd í byrjun skólahalds að hausti.  Þá kom héraðslæknir eða hjúkrunarkona og skoðaði heilsufar barna.  M.a. var gert berklapróf sem fólst í því að líma plástur með séstöku efni á bringu barnsins og athuga eftir nokkra daga hvort roðnað hefði undan. 

Skólp / Skolp (n, hk)  A.  Skolvatn; óhreint vatn.  B.  Líkingamál um lélegt kaffi  o.fl.

Skólpa (s)  Þvo; skola.  „Ég skal skólpa af diskunum eftir matinn“.

Skólpa af sér (skítinn) (orðtak)  Þvosér lauslega; skola af sér.  „Ég ætla rétt aðeins að skólpa mesta skítinn af höndunum“.

Skólpfata (n, kvk)  Fata með óhreinu vatni; þvottafata.

Skósíður (l)  Um yfirhöfn; sem nær niður á skó.

Skóslit (n, hk)  Slit/eyðing skóa við það að gengið er á þeim. Sjá roðskóa leið, roðskór og skinnskór.

Skósóli (n, kk)  A.  Bót af seigu þykku efni sem sett er undir gangflöt á skó.  B.  Líkingamál um mat sem þykir seigur undir tönn.  „Ekki fannst mér nú varið í þessa pitsu; þetta er eins og ólseigur skósóli“!

Skósverta (n, kvk)  Þykkt litarefni til að bera á svarta skó og viðhalda með því lit og vörn.

Skótau (n, hk)  Skófatnaður.  Hann var mikilvægur hluti lífsbaráttunnar í Útvíkum, þar sem ganga þurfti langar leiðir um fjalllendi til að halda fé að beit; til gangna; til vikulegra kirkjuferða og annarra nauðsynjaferða.  „Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni bryddu með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim.  Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir“   (ÞB; Lesbók Þjóðv; viðt. v. HM).  „Það voru einnig notaðir skór úr steinbítsroði, en hætt var að nota slíkt skótau að mestu þegar ég fermdist“ (DÓ; Að vaka og vinna). 

Skótúttur (n, kvk)  Lélegir/óþénanlegir skór; niðrandi heiti á skóm.  „Ég fékk lánaðar einhverjar ólánlegar skótúttur sem bæði pössuðu mér illa og héldu engri vætu“.

Skóvarp (n, hk)  Um snjódýpt; um 3ja til 5cm djúpur snjór, eða upp að skóvarpi á fyrri tíðar skóm.

Skóþvengur (n, kk)  Skóreim; spotti til að festa skó að fæti.  Kemur við sögu í ólíkum átrúnaði.  Jóhannes skírari kvaðst ekki þess verður að leysa skóþveng Jesú.  Íslensk þjóðtrú segir að losni skóþvengur gjafvaxta karlmanns, sé líklega stutt í giftingu hans.

Skraddari (n, kk)  Fatagerðarmaður; klæðskeri.

Skraf (n, hk)  Samtal, einkum á lágværum nótum; mas; rabb.  Sjá til skrafs og ráðagerða.

Skrafa / Skrafa saman (s/orðtak)  Ræða; tala saman; rabba; slúðra.  „Margt var skrafað manna á milli“.

Skrafdrjúgt (l)  Mikið umræðuefni.  „Mönnum hefur orðið skrafdrjúgt um þessi prestmál“. Sjá verða skrafdrjúgt.

Skrafhreifinn / Skrafhreifur (l)  Liðugt um málbeinið; talar mikið.  „Ekki vil ég kalla hann bullustrokk, en mikið er maðurinn skrafhreifinn“!  „Eftir fyrsta glasið var hann orðinn nokkuð skrafhreifur“.

Skraglast (s)  Staulast; skriplast; komast með naumindum.  „Esinhverntíma skraglaðist ég þarna út ganginn“.

Skrall (n, hk)  A.  Óvirðulegt heiti um skemmtun/samkomu.  B. Verkfæri; stöng til að skrúfa topplykla með.  C.  Óreiða; bilun.  „Það var allt í skralli með tækin á bænum“.  Linur framburður á „l“.

Skralla (s)  A.  Skrölta.  B. Stunda skemmtanalífið ótæpilega. Lint „l“.

Skrallsamkoma (n, kvk)  Niðrandi heiti á skemmtisamkomu; svallpartí.  „Ég nenni ekki á svona skrallsamkomur“!  Lint „l“.

Skralt (l)  Fátæklegt ;lítilfjörlegt; rýrt; fágæft; lítið um fóður/mat/veiði.  „Fjári er þetta eithvað skralt hér á grunninu; ættum við ekki að renna niður á Skeggja“?  „Það fer að ferða ansi skralt með saltið bráðum; ég þyrfti að fá meira áður en við förum aftur í róður“.  „Nú er mér fremur skralt um ráð"  Samsvarandi orð má finna í dönsku (skral = magur; lélegur) og lágþýsku (schral = magur; þurr; naumur).  Algengt enn í munni Kollsvíkinga.

Skrambansári / Skrambansekkisen (n, kk)  Upphrópun; mjög vægt blótsyrði.  „Skrambansári er ég slæmur í bakinu núna“.  „Þetta er bara skrambansekkisen eigulegt bátshorn“.

Skrambanskuldi / Skrambansóheppni / Skrambansólán / Skrambansótíð / Skrambansrigning / Skrambansvindur / Skrambansveltingur / Skrambansvesen / Skrambansþoka  Heiti með áhersluorðinu skrambi.  Áhersluorðið er stundum stakt, en stundum svo samtvinnað heitinu að telja verður eitt orð.

Skrambi (n, kk)  Áhersluorð/blótsyrði.  „Hver skrambinn“!  „Skrambi er þetta nú horaður hrútur“.  Skrambi var mjög vægt, og taldist varla til blótsyrða; ívið vægara en skolli.  Eflaust afbökun á „skratti“, sem strangtrúaðir vildu helst ekki taka sér í munn.

Skrambihátt / Skrambiheitt / Skrambikalt / Skrambilangt / Skrambimikið / Skrambistutt / Skrambiþungt  Lýsingar með áhersluorðinu skrambi.  Stundum stakt, en iðulega samtvinnað lýsingarorðinu eins og hér.

Skran (n, hk)  Dót; rusl; lélegir/ónýtir munir.  „Margt þarna á geymsluloftinu reyndist óttalegt skran“.

Skranbúð (n, kvk)  Gælunafn á verslun sem ekki selur matvöru heldur hluti, t.d. verkfæri eða annað.

Skransa (s)  Síðari tíma heiti á því að hemla farartæki þannig að hjól dragist snúningslaus á undirlaginu.

Skrap (n, hk)  Samtíningur; leifar; strjált.  „Það er kannski eitthvað skrap af eggjum þarna á pallinum“.

Skrapa (n, kk)  Skafa; áhald til að skafa/skrapa með, t.d. málningu af fleti.

Skrapa (s)  Skafa; skarka; skrölta. 

Skrapa saman (orðtak)  Ná saman; raka saman; safna.  „Honum tókst að skrapa saman fyrir útborguninni“.

Skrapatól (n, hk)  Lélegt áhald/bíll eða annað.  „Þessi traktor er að verða algjört skrapatól“.

Skrattagangur (n, kk)  Andskotagangur; fyrirgangur; læti.  „Þessu fylgdi dómadagshávaði og skrattagangur“.

Skrattakollur (n, kk)  Skúrkur; deli.  „Sá skrattakollur má sigla sinn sjó fyri mér“!

Skrattakornið (n, hk, gr)  Vægt blótsyrði/áhersluorð.  „Þú ferð skrattakornið ekki að fara einn í Breiðinn“?

Skrattalega (ao)  Bölvanlega; illa.  „Mér hefur liðið alveg skrattalega í hendinni upp á síðkastið“.

Skrattanum til skemmtunar (orðtak)  Til óvinafagnaðar; til háðungar. „Ég held að það yrði bara skrattanum til skemmtunar ef ég tæki þátt í söngnum, svo ég sit bara hjá“.

Skrattansári (ao)  Áhersluorð.  „Skrattansári er þetta nú góður matur“!  „Mér er orðið skrattansári heitt“.

Skrattansnær (fs)  Andskotansnær; fjandansnær; væri betra.  „Mér hefði verið skrattansnær að koma trénu aðeins hærra upp; þá hefði það ekki flotið út á kvöldflæðinni“!

Skrattast (s)  Hypja sig; hundskast.  „Ætli maður verði ekki að skrattast á þennan fund, þó það sé bölvað að fórna þurrkinum í það“.

Skrattast til (orðtak)  Hundskast til; koma sér.  „Skyldi hann ekki ætla að skrattast til að ná þessu útigöngufé“?

Skratti (n, kk)  Áhersluorð eða milt blótsyrði; ári; púki.  „Skratti getur þetta verið snúið“.  Oft notað í ef m. gr:  „Skrattans vesen er þetta“!  „Skrattans löppin gaf sig, svo ég datt“.  Oft einnig sem taglhnýtingur annarra heita:  „Rolluskrattinn sneri á mig“!.  „Skyldi hann ætla að svíkja mig um þetta, karlskrattinn“?  „Sigurður var fyrstur í botninn og dró strax einn hvítan og fallegan fisk; en hann var húkkaður sá skratti“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Skrattinn hossi honum (orðtak)  Upphrópun; fjandinn eigi hann; hann getur átt sig fyrir mér. 

Skrattinn kemst í spilið (orðtak)  Eitthvað fer úrskeiðis/miður vegna óvæntra atvika.  „Það leit ágætlega út með að við næðum að hirða allt hey í hlöðu fyrir kvöldið.  Þá fór að rigna og skrattinn komst í spilið; þá var ekkert annað að gera en ryðja þessu upp í galta“.

Skrattinn sjálfur! (orðtak)  Upphrópun sem oft er viðhöfð, t.d. ef óvænt og óheppilegt atvik ber að.

Skrattinn skítur í eggina (orðtak)  Sú var trú manna að ekki mætti ganga frá óbrýndum ljá eftir að slætti lauk um daginn; þá gæti skrattin skitið í eggina, þannig að ekkert bit fengist í hann næsta dag.

Skraufaþurr / Skraufþurr / Skráþurr (l)  Alveg þurr; án nokkurrar vætu.  „Það má hirða þetta hey í gömlu hlöðuna; það er skraufþurrt“.  „Settu húfuna á ofninn; hún verður orðin skráþurr eftir matinn“.

Skraut (n, hk)  A.  Skart; glingur; það sem þykir bæta útlit.  B.  Skrautgripur.

Skrautgripur / Skrautmunur (n, kk)  Gripur/munur sem er til fegurðarauka; skraut.

Skrautlega (ao)  Fagurlega; litskrúðugt; glæsilega; með skrauti.  „Henni þótti húsið skrautlega málað“.

Skrautlegur (l)  A.  Fagur; litskrúðugur; glæsilegur.  „Hún óf skrutlegan krans úr blómunum“.  B.  Skrýtinn; furðulegur,  „Þetta fannst honum hinn skrautlegasti samsetningur“.

Skrautskrift (n, kvk)  Vönduð handskrift, oftast útflúruð.  „Margir góðir skrautskrifarar hafa verið í Kollsvík í seinni tíð.  Þar má nefna Samúel Eggertsson, kennara, kortateiknara og bróðurson Matthíasar Jochumssonar, sem bjó um tíma á Grund; Össur Guðbjartsson á Láganúpi, oddvita, kennara og félagasmálafrömuð sem taldi sig reyndar ekki skrautskrifara en skrifaði listilega góða rithönd; Sigríði Guðbjartsdóttur, konu Össurar, listakonu og fræðimann sem var eftirsóttur skrautritari og síðast en ekki síst Hólmfríði St. Sveinsdóttur, síðustu bóndakonu/búandkonu í Kollsvík og dóttur Sveins Ólafssonar myndskera frá Lambavatni“.

Skrá (n, kvk)  A.  Listi; innritun; upptalning; registur.  „Hann hélt nákvæma skrá yfir fallþunga dilka“.  B.  Læsing.  „Lykillinn gekk ekki að skránni“.

Skrá / Skrásetja (s)  A.  Rita; setja á blað; skrifa niður.  „Þessi saga er hvergi skráð á bók“.  B.  Semja lista/skrá; setja á lista. 

Skrá á bát / Lögskrá (orðtak/s)  Bóka áhöfn báts í löggerningabók/skráningabók áður en haldið er í róðra.  „Á seinustu árum var skráð á bátana og tryggingagjöld greidd; nokkru áður en útgerð lagðist þarna niður“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Skráargat (n, hk)  Gat það í hurð sem lykli er stungið um í skrá.  Einnig notað í líkingamáli um eitthvað það sem örðugt er að komast um.  „Strandveiðisjómenn áttu erfitt með að lifa við þetta skráargat laganna“.

Skráma (n kvk)  Fremur lítil meiðsli; hrufl.  „Það sást ekki svo mikið sem skráma á honum“.

Skráma (s)  Meiða; hrufla; særa.  „Stórfurðulegt að hann skyldi ekki skrámast neitt við byltuna“.

Skrámaður (l)  Meiddur; hruflaður; flumbraður.  „Eitthvað var ég skrámaður á höndum eftir þetta“.

Skrápdýr (n, hk, fto)  Fylking tegunda sjávardýra sem sum lifa á grunnsævi en önnur dýpra.  Af algengum grunnsjávartegundum má nefna krossfiska, ígulker, sæbjúgu og sæliljur.  Skrápdýr eru kennd við kalkflögur í húð þeirra, sem ýmist eru samfelldar, s.s. hjá ígulkerjum, eða sundurlausar, eins og hjá sæbjúgum.

Skrápur (n, kk)  A.  Hrjúft þykkt skinn sumra sjávarskepna, t.d. á hákarli.  B.  Líkingamál um ímyndaða brynju manns.  „Það er nokkuð harður á honum skrápurinn, svo hann tók þetta ekki mjög nærri sér“.

Skráveifa (n, kvk)  A.  Upprunaleg merking er óviss.  Skrá merkir skinn.  Hugsanlega vísar orðið til einhverra galdraathafna eða helgisiða fyrrum; t.d. að maður hafi klæðst/veifað dýrsfeldi til að fá kraft; sjá fyrir atferli veiðidýra eða magna sendingu.  B.  Algengt í líkingunni hrekkur; sbr orðtakið gera einhverjum skráveifu.

Skráþurr (l)  Alveg/mjög þurr; skraufþurr.  „Þetta hey er orðið skráþurrt“.  Skrá er gamalt heiti á uppþornuðu/skorpnu skinni, og er líkingin þar af dregin.

Skref (n, hk)  A.  Bil milli spora manns.  „Þegar þokan svimaði frá sá ég að einungis voru örfá skref framá brúnina“.  B.  Stundum notað sem gróf mælieining, og eru t.d. sumir furðu nákvæmir að mæla einn metra í skrefi.  C.  Áfangi verks.  „Þetta bréf var fyrsta skref mitt í málinu“.

Skrefa (s)  A.  Stika stórum; taka löng skref.  B.  Mæla í skrefum; stika.  „Ég skrefaði breiddina á stykkinu“.

Skreflangur (l)  Sem tekur löng skref/stikar stóran.  „Hægðu nú aðeins á þér; þú ert svo skreflangur að þú drepur alla hina af þér“!

Skreflengd (n, kvk)  Vegalengd í einu skrefi.

Skrefstuttur (l)  Sem tekur stutt skref/ trítlar.  „Þú ert enn helsti skrefstuttur til að fara með, stubbur minn“.

Skreið / Skreiðarverkun (n, hk)  Fiskur sem þurrkaður er með visum aðferðum.  Verkun fisks í skreið er án efa upprunalegasta geymsluaðferð hans; bæði til heimaneyslu og til sölu og hefur verið  notuð frá upphafi byggðar í landinu til þessa dags.  Skreiðarverkun í Kollsvíkurveri hefur eflaust nokkur verið frá upphafi, en líklega aukist verulega um 1300, þegar skreið varð helsta útflutningsvara Íslendinga, og  á ensku öldinni; þegar Englendingar sóttu sjó við landið.  Hugsanlega hafa þeir þá keypt skreið í verum Útvíkna, en ekki hafði minni áhrif að með þeim fluttist hingað tækni og efni til línuveiða.  Línuveiðar voru síðan stundaðar samhliða skakveiðum um tíma, en lögðust tímabundið af í fiskileysisárum á 17. öld. 
Útgerð í Kollsvíkurveri og öðrum útverum byggðist á skreiðarverkun framanaf, eða allt til þess að saltfiskverkun hófst, líklega í byrjun 17. aldar.  „Á verslunarmáli nefndist útflutningsskreiðin plattfiskur, en á máli landsmanna skreið eða malflattur fiskur/reithertur fiskur.  Það sem Danir nefndu hengifisk var sama og hnakkaflattur fiskur/ráhertur fiskur; einnig nefnt ráskerðingur, og var þá jafnframt átt við fisk sem ekki var hnakkaflattur.  Loks var spelkafiskur.... Fiskur sem var kviðflattur og átti að verkast sem harðfiskur/plattfiskur var ætíð þveginn strax eftir flatningu og síðan lagður á helming ef útlit var fyrir þurrk; hafður þannig í einn sólarhring meðan hann var að spýta sjónum.  Að því búnu var hann breiddur.  En væri ekki þerrisvon var hann kasaður strax eftir flatningu... Fiskurinn var lagður þannig í kösina að dálkurinn sneri niður...  Hann var kýttur, en það var að beygja hann í hnakkann svo að fiskurinn  myndaði ¼  úr hring.  Næsta lag var sett ofan á það, en fiskurinn þar sveigður í hina áttina... Þannig myndaðist hringlaga kös sem stóð mislengi; stundum svo vikum skipti.  Hann gat geymst vel þannig í kulda, en vildi verða  maltur í vætu og hita.  Því næst var fiskurinn þveginn og himnudreginn; svarta himnan í þunnildinu fjarlægð; síðan breiddur á garða eða möl og roðið ætíð látið snúa niður á daginn og upp að næturlagi.  Honum var því þráfaldlega snúið.  Þegar fiskurinn var orðinn svo skeljaður að hann bar sig voru nokkrir látnir standa saman á hnökkunum, studdir sporðunum að ofan og sneru bökunum saman, nema þegar rigndi.  Slíkt hét buðlungur... Upp frá því var fiskinum hlaðið í smástakka og þeir fergðir, svo að úr honum sléttist.  Í þurrki var fiskurinn breiddur úr þeim, uns hann var orðinn sprekharður og þar með hlaðtækur og vogbær.  Malflattur fiskur var í margar aldir veigamikill í útflutningi landsmanna“  ... „Þegar gamalt fólk gaf klaustrum próventu sína (í kaþólskri tíð), setti það m.a. sem skilyrði að fá skreið til matar.  Bæjarkirkja á Rauðasandi átti að fá eina vætt skreiðar frá hverjum skattmanni innan Bæjarþinga“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 
Athyglisvert er að í Norður-Noregi er orðið „skrei“ notað um hrygningarþorsk á miðum.  Líklega er um sama orð að ræða, en ekki vitað hvenær merking þess færðist yfir á þurrkaðan fisk í íslensku máli.

Skreiðarbaggi (n, kk)  Knippi sem skreiðin var bundin í til flutnings.  Skreið var oft flutt langar leiðir á hestum.  T.d. úr Útvíkum suður alla Barðaströnd; austur í sveitir.  Oftast voru þá margir hestar í sömu skreiðarferð; nefnt skreiðarlest.  Sjá skreiðarferð og skreiðarkaupaleiðir.

Skreiðarferð (n, kvk)  Ferð með skreið; ferð til að sækja skreið.  „Steinbítur þekktist ekki sem verslunarvara til kaupmanna, heldur eingöngu látinn til bænda sem ekki bjuggu við sjó.  Verðið minnir mig að væri 20 aurar steinbíturinn.  Margir komu í skreiðarferðir; t.d. man ég eftir sr. Guðmundi í Gufudal með stóra hestalest í skreiðarferð hingað.  Viðskiptin voru einkum við bændur í sveitum við Breiðafjörð.  Oftast voru það fastir viðskiptamenn:  Þeir fengu steinbít og létu smjör og tólg.  Þetta voru áreiðanlegir menn“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Skreiðarhjallur (n, kk)  Hjallur þar sem skreið er þurrkuð.  Skreiðarhjallar voru ekki notaðir á fyrstu öldum skreiðarverkunar; enda timbur þá vandfengið.  Í þeirra stað var skreiðin þurrkuð á steinhlöðnum görðum eða á möl.

Skreiðarhlaði / Skreiðarstakkur (n, kk)  Stafli af skreið.  Sjá skreið.

Skreiðarkaupaleiðir / Skreiðarflutningar  „Úr vestanverðum Breiðafjarðarbyggðum var farið um Þorskafjarðarheiði til skreiðarkaupa við Djúp, en Geir- og Gufdælir héldu út í Víkur.  Fyrsta daginn var farið úr Geiradal að Þingmannaheiði; annan yfir hana að Brjánslæk og þann þriðja yfir Kleifaheiði, út með Patreksfirði, yfir Vaðalinn í Örlygshöfn, Tunguheiði og niður í Kollsvík.  aðrir fóru úr Örlygshöfn yfir í Breiðavík eða að Hvallátrum.  Þessar skreiðarleiðir voru síðast farnar vorið 1909, og tók ferðin úr Gufudal í Kollsvík og heim aftur 8 daga.
Með lengstu og erfiðustu skreiðarleiðum á sjó var úr verstöðvum norðan Látrabjargs inn í Festureyjar á Breiðavirði.  Lagt var upp í þessar ferðir síðustu dagana í júní eða í byrjun júlí, meðan sjór var stilltastur og von góðviðris.  Farið var í einum áfanga í verstöðvarnar og umfram allt var hugað að góðu leiði, en þá sem jafnan réðu straumar og vindar á Breiðafirði mest ferðinni.  Venja Vestureyinga sem reru fyrir norðan Bjarg var að halda heim um miðjan júní með fullhlaðna róðrarbáta sína.  Þeir sóttu þá stærri skip, átt- eða teinæringa, til að flytja voraflann.  Meðan skreiðarskipin voru sótt var hafður í verinu einn maður frá hverjum báti, svokallaður eftirliggjari.  Hann átti að hirða um þann hluta aflans sem ekki var fullþurr og líta eftir fiskifangi og föggum skipsfélaga sinna.  Sú bið var aldrei skemmri en þrír dagar, stundum vika eða meira.  Þegar heim skyldi halda var oft erfitt að ráða í veður á Breiðafirði.  Engin sæmileg lending var nær en á Siglunesi og að snúa aftur gat verið voði, ef ólga hljóp í Látraröst, sem þráfaldlega gerðist á svipstundu.  Ef í nauðir rak var reynt að lenda í Keflavík austan Bjargs eða í Skorarvogi.  Þegar allt var tilbúið undir heimferðina annað en bera á, var sendur athugull maður út á bjargbrún til þess að vita hvort viðunandi ferðaveður væri inn Sandflóa; buginn milli Bjargtanga og Skorar.  Bátarnir voru háfermdir og hækkaðir með stikum; kallað að brjóta út.  Stærstu skipin voru talin bera 5-6 smálestir eða 1000-2900 fiska, en ekki mátti hlaða þau meira en svo að sjór væði í saumfari á þriðja borði.  Ef veður breyttist eftir að borið hafði verið á skip varð að fresta brottför og bera af, í minnsta lagi ofan að söxum.  Ætíð var lagt af stað þegar lítið var fallið út, eða eins og svaraði fullri skipslengd, væri stórstreymt.  Þá var upptaka suðurfalls er komið væri austurfyrir Bjargtanga og þess vegna meðstreymt; ella var ógerlegt að komast leiðar sinnar.  Straumur var svo harður langt innmeð Bjarginu að gekk sem siglt væri, en sex menn undir árum gerðu lítið betur en halda í við mótstreymi í fullhörðu falli í stórstreymi.  Þrekraunin mesta var að komast að Siglunesi.  Væri logn eða leiði entist veðstraumur að mestu þangað.  Ef tiltækilegt var hvíldu menn sig stöku sinnum í Skorarvogi.  Þeir töldu sig komna heim þegar náð var að Siglunesi.  Reyndar var þá enn nokkuð langt til Flateyjar, en á þeirri leið voru víða lendingar.  Stæði á austan þokuðust menn höfn úr höfn með austurföllunum, en lágu af sér vesturföllin inn með Barðaströndinni.  Stöku sinnum liðu tvær vikur frá vertíðarlokum þangað til allir vermennirnir voru komnir heim til sín.  Fyrir lánið á skreiðarskipinu voru teknir 60 steinbítar.  Ekki er kunnugt um skipstapa eða slys í skreiðarferðum norðan fyrir Bjarg og inn í Vestureyjar“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimildir; GG; ÓETh; ÓM; PJ, Barðstrendingabók; Saga Snæbjarnar í Hergilsey o.fl.).

Skreiðarskemma (n, kvk)  Skemma/hús þar sem skreið er geymd.  Annaðhvort við bæ eða í veri.

Skreiðarskip (n, hk)   Skip sem notað er til flutninga á skreið.  „Fönix var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Skreiðarverslun (n, kvk)  Verslun með skreið.  Oftast er þá átt við útflutning skreiðar.  Skreið hefur verið verkuð frá landnámi, og hefur líklega frá þeim tíma verið allmikil vöruskiptaverslunmeð með hana innanlands; enda liggja staðir misvel að sjósókn.  Í Egilssögu er sagt frá skreiðarflutningum Þórólfs Kveldúlfssonar frá Noregi til Englands.  Skreiðarsala til útflutnings hófst héðan á 14.öld, og þá upphófust útver til mikilla muna.  Þá sá höfðingjaveldið hagnaðarvon í skreiðarverslun og sölsaði undir sig jarðir sem best lágu við sjósókn.  Þá komst t.d. Láganúpur í eigu Guðmundar ríka Arasonar, og var eftir það eign höfðingjaveldisins fram á 20.öld.

Skreiðast (s)  Skríða; skriplast.  „Hægt er að skreiðast niður í Smérhellissveltið afturábak og á ská“.

Skreika / Skreika fótur (s/orðtak)  Skrika; skrika fótur.  Hvortveggja orðmyndin heyrðist.

Skreipt í spori (orðtak)  Sleipt að ganga og hætt við að skriki fótur.  „Gáðu að þér, það er skreipt í spori“. 

Skrekkur (n, kk)  Hræðsla.  Fremur nýleg sletta í málinu.  „Það er hálfgerður skrekkur í manni útaf þessu“.

Skreppa (n, kvk)  Þverpoki; lítill sekkur; malur.  

Skreppa (s)  A.  Fara í stutta ferð; skjótast.  „Ef við skreppum nú niður á láglendið er þar fyrst flöt sem heitir Hamraendaflöt“  (ÍH; Örn.skrá Melaness).  „Ég þarf að skreppa aðeins norður í Kollsvík“.  B.  Hrökkva.  „Bittu (bintu) nú þannig á steininn að ekki skreppi af honum“.

Skreppa af bæ (orðtak)  Fara í stutta ferð að heiman; bregða sér af bæ.  „Hundurinn hvarf meðan hann skrapp af bæ“.

Skreppa frá (orðtak)  Fara í stuttan tíma að heiman/ úr vinnu/ í burtu. 

Skreppa saman (orðtak)  Rýrna; dragast saman.  „Timbrið skrapp nokkuð saman og vatt sig þegar það þornaði“.

Skreppa uppúr (orðtak)  Um það sem sagt er í ógáti.  „Þetta var kannski óvarlega sagt hjá mér, enda skrapp það uppúr mér alveg óvart“.

Skreppitúr (n, kk)  Snögg/stutt ferð; skotferð.  „Hann kom hérna aðeins í skreppitúr“.  Nýlegt í máli.

Skreyta (s)  A.  Búa skrauti; fegra; gera litskrúðugt/skrautlegt.  B.  Líkingamál; ýkja; skrökva; bæta við sögu.

Skreyta sig með annarra fjöðrum (orðtak)  Tileinka sér orðsnilld, hugkvæmni eða framtak annarra og eigna sjálfum sér, beint eða óbeint.  Notað m.a. um ritstuld.

Skreytinn (l)  Lyginn; krítar liðugt; færir í stílinn.  „Hann er svo skreytinn að maður veit aldrei hvað satt er“.

Skreytni (n, kvk)  Ósatt; lygi.  „Óttaleg skreytni er nú í þér, ég held að þetta geti nú varla staðist“.

Skrið (n, hk)  A.  Það að skríða; fara um skríðandi.  B.  Allnokkur hraði.  „Báturinn fór vel í sjó eftir að hann var kominn á skrið“. 

Skriða (n, kvk)  Brattur efnishaugur í fjallshlíð, oftast misstórt grjót og aur sem hrunið hefur úr klettum og myndar bratta fjallshlíð.  Fjöll á Vestfjörðum einkennast mjög af skriðurunnum hæðum til landsins og sæbröttum núpum með efri- og neðriklettum og brattri skriðurunninni hlíð milli þeirra.  Brött skriða getur verið hættuleg og erfið yfirferðar, sé hún ekki gróin eða komnar í hana fjárgötur.

Skriðinn (l)  Hefur skriðið/ farið/gengið um.  Notað um ýmislegt:  Sagt er að túngras sé skriðið eða farið að skríða ef það er byrjað að leggjast og sölna í rót; orðið úr sér sprottið.  Sagt er að tófa sé skriðin eða grensmogin, ef sýnilegt er á feldi hennar að hún hefur skriðið um greni.  Sagt er að grásleppa sé nýgengin eða nýskriðin ef hún er nýkomin á grunnmið.  Þá er hún vanalega ljósari en þær sem eru legnar í þara.

Skriðjökull (n, kk)  Jökull sem er undir svo mikilli þjöppun og í svo miklum halla að hann myndbreytist, verður í nokkurskonar seigfljótandi ástandi og rennur hægt undan hallanum.  Skriðjökull veldur allajafna miklu rofi á undirlagi sínu, bæði vegna þungans og vegna þess að í botni hans er frosið grjót sem skefur upp berg og annað.  Því þykkari og þyngri sem skriðjökullinn er, því meira verður rofið.  Engir skriðjöklar eru nú á suðurhluta Vestfjarða, en allt landslag er þar mótað af skriðjöklum ísaldar.  Kollsvík er t.d. renna eftir skriðjökul, og sama á við um Vatnadal og nærliggjandi víkur og firði.  Skriðjöklar ísaldar náðu fram á landgrunnsbrún og skófluðu griðarmiklu magni bergs fram á djúpið.  Hlýnun eftir ísöld varð ekki samfelld, heldur komu kuldaskeið, sem ollu framskriði jökulsins sem fyrr hafði hopað.  Má ætla að við slík framhlaup hafi jökullinn rutt fram jökulöldum sem nú sjást víða sem þykk malarholt eða sjávarrif.  Má þar t.d. nefna Breiðsholt; Rifið í Kollsvík; Rifið í Breiðavík, Hænuvíkurholt; Gjögraholt o.fl.  Af sama toga eru líklega grynningarnar í Patreksfjarðarflóa, en dýpst náði rof fjarðarins í Grænhólsdýpi, utan Skápadals.  Skriðjökullinn skildi einnig eftir miklar jaðarurðir, t.d. Brunnbrekku, og í dýpsta rofinu mynduðust stöðuvötn, s.s. Stóravatn, Litlavatn, Kjóavatn og Sandslágarvatn.

Skriðkvikindi (n, hk)  A.  Skriðdýr.  B.  Líkingamál um vesælan mann.  „Það er ekki tekið meira mark á manni en hverju öðru skriðkvikindi“!

Skriðljós (n, hk)  Ljósker; meðfærileg lukt með glergluggum, sem kerti eða annað ljósmeti er sett inní.

Skriðufall / Skriðuhlaup (n, hk)  Framskrið/hrun skriðu.  „Það er hætt við skriðuföllum í svona leysingaveðri“.

Skriðufótur / Skriðujaðar / Skriðusporður (n, kk)  Neðri mörk skriðu.

Skriðugrjót (n, hk)  Grjót sem hrunið hefur úr klettum.  Grjót til veggjahleðslu er í stórum dráttum af þennum toga í Kollsvík.  Skriðugrjót er hrjúft, oft með hvössum eggjum og brotflötum í ákveðna stefnu.  Það gerir því nákvæmar kröfur um legu í hleðslu, en getur gefið sléttan útflöt.  Jökulnúið grjót eða holtagrjót er núið eftir jökul eða vatn og eftir að hafa rótast langar leiðir í ruðningum.  Það er ekki eins kröfuhart um legu í vegg, og er yfirleitt sterkara en skriðugrjót.  Lábarið grjót eða fjörugrjót er mest slípað og núið, og er oft nánast hnöttótt eða egglaga.  Það er þægilegt hleðsluefni, t.d. í grjótgarða, en þarf vandaða fyllingu ef hleðslan á að verða vindheld. 

Skriðuhlíð / Skriðurunnin hlíð (n, kvk /orðtak)  Hlíð með skriðum.

Skriðuhætt (l)  Hætt við skriðuföllum; hætta á skriðuföllum.  „Skriðuhætt mjög, og grjótfall sífellt á vetur (um Kollsvíkurtún og bæjarstæði“  (AM/PV Jarðabók). 

Skriðuurð (n, kvk)  Urðarskriða; skriða af stórgerðu grjóti, oftast neðst í skriðuhliðinni þar sem bergmunlningurinn flokkast nokkuð þegar hann skríður fram og sá skriðþyngsti fer lengst.

Skriðþungi (n, kk)  Vægi hlutar sem er á ferð og leitast við að halda þeirri ferð áfram ef ekki koma aðrir kraftar til, samkvæmt tregðulögmálinu (lögmálinu um varðveislu orku).  Skriðþungi er þeim mun meiri sem eiginþyngd hlutarins er meiri.

Skrif (n, hk, fto)  Það sem skrifað er; rit; sendibréf o.fl.  „Ég hef ekki séð þessi skrif hans ennþá“.  Sjá tilskrif.

Skrifa (s)  A.  Rita/letra stafi.  B.  Semja ritverk, t.d. skáldsögu.  C.  Skrásetja það sem lesið er fyrir.  T.d. hafði bóndi oft einhvern með sér í fjárhús í fengitíma til að „skrifa“; þ.e. rita á bréfmiða nafn kindar sem fékk, og hrútinn sem farið var með.  „Ætlar þú að koma með mér í húsin til að skrifa“?  Sjá fara með hrút.

Skrifa bakvið eyrað (orðtak)  Leggja á minnið.  „Skrifaðu það bakvið eyrað að ég ætla að setja þessa gimbur á“.  Oft notað.  Sjá einnig mundu það með mér.

Skrifa eftir (orðtak)  A.  Skrifa afrit af lesmáli; skrifa upp.  B.  Skrifa, t.d. grein, til minningar um einhvern.

Skrifa einhverjum til (orðtak)  A.  Skrifa bréf eða annað til einhvers.  B.  Notað um það að krota með blýanti í kerti á bensinvél, til að örva kveikingu á neista.  „Það gæti verið ráð að skrifa honum til; það lagar hann stundum af bévítans óþægðinni“!

Skrifa (einhvern) fyrir (orðtak)  A.  Skuldbinda einhvern með undirskrift sinni.  „Hann er skrifaður fyrir litlum hlut í þessu hlutafélagi“.  B.  Ætla einhvern geranda/höfund/höfuðpaur.  „Snorri er oft skrifaður fyrir Eglu“.

Skrifa hjá sér / Skrifa til minnis (orðtak)  Skrifa niður minnisatriði.

Skrifa í sand (orðtak)  Skrifa í tilgangsleysi; skrifa þannig að ekki varðveitist.  „Þær reglur voru líkt og skrifaðar í sandinn; enginn virti þær“.

Skrifa niður (orðtak)  Skrásetja; bóka; færa til bókar; skrifa hjá sér.  „Skrifaðu niður vigtina á skrokkunum“.

Skrifa sig til skrattans (orðtak)  Skrifa svo magnaða galdrastafi að skrattinn komi og færi mann til vítis.  Fyrrum var talið varasamt að klóra einhverja torkennilega stafi af þessum sökum.  Varasamt gat jafnvel verið að pára slíkt í snjó eða sand.  Börn voru vöruð við því að krota óskiljanlegt pár á blað af þessum sökum.

Skrifa (einhverjum) til (orðtak)  A.  Rita einhverjum sendibréf.  B.  Um distilleringu/viðgerð á bensínvél; taka kerti úr blokkinni og nudda með blýanti á neistaoddana.  Neistinn átti þá auðveldara með að hlaupa á milli, og gat þetta riðið baggamuninn í því að koma vélinni í gang.  Einkum átti þetta við um vélar með smellikveikju/magnettukveikju, enda var þar um tiltölulega lága spennu að ræða, og veikan neista.

Skrifa undir (orðtak)  Undirrita; setja nafnið sitt undir t.d. bréf eða skuldbindingu.

Skrifa/rita upp (orðtak)  A.  Rita eitthvað eftir forsögn/tali.  B.  Lista upp eignir í aðdraganda uppboðs.  C.  Endurrita/afrita texta.

Skrifa uppá (orðtak)  Skuldbinda sig með undirskrift til að ábyrgjast greiðslu, t.d. víxils, fyrir annan mann.

Skrifa utaná (orðtak)  Árita sendingu til viðtakanda, t.d. bréf eða böggul.

Skrifað stendur (orðtak)  Oft sagt í upphafi tilvitnunar, t.d. í biblíu, reglu eða lög.  Sjá eins og þar stendur.

Skrifandi (l)  Hefur getu til að skrifa skiljanlegt mál.  „Strákurinn er orðinn bæði læs og skrifandi“.

Skrifari (n, kk)  A.  Sá sem skrifar; höfundur; ritari.  B.  Gælunafn á óðinshana.  Mikið notað.

Skrifast á (orðtak)  A.  Skiptast á sendibréfum/tölvupóstum á víxl.  „Við höfum verið að skrifast á um nokkurn tíma“.  B.  Telst vera skuld/sök.  „Þessi mistök verða alfarið að skrifast á hans reikning“.

Skrifborð (n, hk)  Borð sem skrifað er við.  Skrifborð voru mönnum ekki alltaf tiltæk áðurfyrr, og urðu margir furðu þjálfaðir í að skrifa á hnjám sér; e.t.v. með fjalarstúf undir.

Skrifbók (n, kvk)  A.  Bók sem skrifað er í, stílabók; glósubók; minnisbók.  B.  Forskriftabók; bók sem barn æfir sig að skrifa í.  Oft með forskrift, þ.e. vel rituðum stöfum til viðmiðunar.

Skrifelsi (n, hk)  Texti; sendibréf; lítilsháttar/óveruleg skrif.  „Ég sendi dálitið skrifelsi á miða með pakkanum“.

Skriffinni (n, kk)  Sá sem fæst mikið/eingöngu við skriftir.  „Þetta kemur frá skriffinnunum fyrir sunnan“!

Skriffinnska (n, kvk)  Mikil skrif; niðrandi heiti á ritun; íþyngjandi ritun.  „Honum fannst skattskýrslan vera orðin ári mikil skriffinnska“.

Skriffæri / Skrifföng (n, hk, fto)  Ritföng; það sem þarf til ritunar, s.s. penni, blýantur, strokleður, blekbytta, þerripappír, pappír o.fl.  Í seinni tíð; tölva, prentari og það sem því tilheyrir.

Skrifirí (n, hk)  Skriffinnska; það sem skrifað hefur verið; krot.  „Hér er eitthvað skrifirí“.

Skrifkunnátta (n, kvk)  Hæfni til að skrifa.  „Skrifkunnáttu almennings hefur stórlega hrakað á tölvuöld“.

Skriflast (s)  Klórast; komast við illan leik; skjökta.  „Það er engin forsjón í að skriflast yfir skriðurnar í þessum þurrkum, sérstaklega þegar engin er fjárgatan“.

Skriflega (ao)  Með því að skrifa; með ritun/skrift.  „Ég tilkynnti honum þetta skriflega“.

Skriflegur (l)  Skrifaður; ritaður.  „Það þarf að leggja inn skriflega umsókn“.

Skrifletur (n, hk)  Stafagerð sem skrifuð er.  Menn skrifa margskonar rithönd, en nokkur munur þarf að vera á stafagerð svo hún sé talin sérstakt skrifletur.  Þannig er t.d. myndletur Fornegypta frumstæð gerð skrifleturs, en af því þróaðist óhlutbundnara táknmál, s.s. letur Fönikíumanna, Grikkja og síðar hið rómverska letur sem við nú notum.  Fundist hafa um 60 þúsund ára tákn í helli í Suður-Afríku, sem nú eru talin elsta þekkta skrifletur heims; rituð á strútseggjaskurn.  Súmerar notuðu fleygletur sem þægilegt var að stimpla í leirtöflur.  Margskonar skrifletur er notað í heiminum í dag.  Hið latneska er í mörgum gerðum, en ólík því eru t.d. arabískt letur, sanskrít og ýmiskonar letur kínverja, japana og annarra asíuríkja.  Skrifað letur hérlendis hefur löngum verið flokkað í ýmsa rithandarflokka, t.d. gotneskt letur; karlungaskrift; léttiskrift; fljótaskrift, settletur; snarhönd og blokkskrift.

Skrifli (n, hk)  Hrófatildur; garmur; hró.  „Það er nú ljóta skriflið þessi bíll sem þú varst að kaupa“!   

Skrifpappír (n, kk)  Pappír sem skrifa má á.

Skrifpúlt (n, hk)  Húsgagn sem hentar til að skrifa á, oft hallandi og með einhverskonar geymsluhólfi fyrir ritföng o.fl. 

Skrifræði (n, hk)  Stjórnkerfi sem útheimtir verulega vinnu skrifstofufólks og stjórnenda.  Einkennist af flóknu reglugerðarfargani og seinvirku leyfa- og eftirlitskerfi.  Nútímaþjóðfélög hafa mjög þróast í átt til skrifræðis.

Skrift (n, kvk)  A. Rithönd; skrifletur (sjá þar).  B.  Sá verknaður að skrifa.  „Hann situr við skriftir“.  C. Syndajátning í kaþólskri trú.  Forðum var venja að skrifta syndir sínar fyrir presti og hljóta syndaaflausn t.d. gegn vissum trúarlegum athöfnum eða með gjöfum til guðskistu/kirkju.  Ávallt í fleirtölu.  D.  Heilög ritning.  „Synd kallazt i skriptinne eigi einazta þat syneliga likamans latædi“  (Oddur Gottskálksson; Nýja Testam.).

Skrifta (s)  Játa syndir sínar.  Í kaþólksri trú tíðkast það að fólk játi í einrúmi fyrir presti það sem það kann að hafa aðhafst sem ekki samræmist dyggðugu líferni.  Prestur getur þá veitt manni aflausn með því að fyrirskipa betrun af einhverju tagi, t.d. gjafir til gustukamála eða kirkju, eða bænalestur og annað af því tagi.

Skrika fótur (orðtak)  Renna til í hálku eða í brattlendi; missa fótanna; renna við.  „Honum skrikaði fótur og kútveltist niður hlíðina“.

Skrika til (orðtak)  Renna til.  „Gættu þess að hafa góða handfestu, ef þú skrikar til í tæpum ganginum“.

Skrikull (l)  Hrösull; hættir til að detta.  „Það er hætt við að þér verði skrikult á svona skóm í vætunni“.

Skrimta (s)  Draga fram lífið; hjara; komast lífs af.  „Mér sýnist lambkettlingurinn ætla að skrimta“.

Skrimta af (orðtak)  Komast lífs af; draga fram lífið; tóra.  „Jafnvel í hörðustu hallærum skrimtu menn fremur af sem bjuggu við sjávarsíðuna en hinir sem bjuggu til landsins“.

Skringilega (ao)  Furðulega; einkennilega.  „Hann er farinn að hegða sér skringilega í seinni tíð“.

Skringilegheit / Skrýtilegheit (n, hk, fto)  Furður; undarlegheit; spaugilegheit.  „Þetta eru meiri skringilegheitin í veðráttunni; glampandi sól aðra stundina en skýfall hina“.

Skringilegur (l)  Furðulegur; skrýtinn.  „Mér fannst þetta nokkuð skringilegt alltsaman“.

Skripla (s)  Renna til; skrika; skrika fótur.  „Gættu þess að skripla ekki á hálkunni“!

Skriplast (s)  Skreiðast; skrölta; skakklappast.  „Það var með naumindum hægt að skriplast yfir svellbunkann“.

Skríða (s)  A.  Þokast; mjakast.  „Krapaelgurinn er að skríða nær húsunum“.  „Sólin er nú eitthvað að skríða hærra á himininn þegar kemur framá“.  B.  Færa sig til á maganum.  „Barnið er byrjað að skríða“.  C  Um gras; spretta úr sér; gulna við rót og leggjast.  „Það þarf að fara að slá sléttuna; það er farið að skríða á einstaka blettum á henni“.  D.  Um bát; komast á góða ferð/siglingu.  „Virðist svo sem báturinn hafi ekki skriðið nóg, því að brátt lá hann undir stórágjöfum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). „ 

Skríða saman (orðtak)  Batna; brá af; hressast; jafna sig; ná sér; verða jafngóður.  „Ég held ég sé nú eitthvað að skríða saman eftir pestina“.

Skríkja (s)  Gefa frá sér hvellt/hávært hljóð; skrækja. 

Skríll (n, kk)  Niðrandi heiti á hópi; pakk; rumpulýður.

Skrílslæti (n, hk, fto)  Ólæti skríls; múgæsingur.  „Það eru þá sömu skrílslætin í borginni og vant er“!

Skrímsli (n, hk) Óvættur. Sjá sjóskrímsli.

Skrín / Skríni (n, hk)  Hirsla í kaþólskum kirkjum, þar sem geymdir eru helgir dómar, þ.e. gripir kirkjunnar sem átrúnaður er á.  Geta það t.d. verið líkamspartar Krists eða postulanna eða einhvers dýrlings.  Eða klæði þeirra.  Þá ku vera svo mikið til af flísum og bútum úr krossi Krists að feiknastór myndi vera samansettur.  Skrín voru líklega að lögun sem einskonar koffort; misstór eftir vægi kirkna. Samskonar dýrkun var á sumum helgimyndum/líkneskjum/róðum og á krossum.  Var krossinn í Kaldaðarnesi síðasta máttuga táknið af því tagi.  Því var trúað að helgir dómar hefðu yfirnáttúrulega krafta og lækningamátt.  Geta hálfheiðnir menn í dag hent gaman að þessu og kallað kjánaskap, en fyrrum veitti þetta þjáðu og kúguðu fólki von og þjappaði þvi saman félagslega.  Ólíklegt er að skrín hafi verið í hálfkirkjum, líkt og í Kollsvík.  En hinsvegar mætti líta á Biskupsþúfuna sem nokkuð ígildi þess.  Undir henni er enn trúað að Kollur landnámsmaður hafi fólgið dýrgripi sína og vopn, en hann er einskonar „faðir Kollsvíkur“ og nam hjá Patreki biskupi á Suðureyjum.  Á þúfunni hvílir helgi sem til þessa dags hefur varið hana.  Því má velta upp að Kollur hafi reist fyrstu kirkju landsins í Kollsvík, og e.t.v. reist keltneskan kross á þúfunni í virðingarskyni við Patrek fóstra sinn og þakkarskyni fyrir björgunina við Arnarboða.  Gæti nafn þúfunnar því verið frá landnámsöld.

Skrína / Skrínukostur (n, kk)  Nesti vermanna í verum, sem geymt var í skrínum; vermatan.  Orðið „skrínukostur“ lifir góðu lífi í Kollsvík í dag um nesti og matarforða almennt.  „Það er nú óþarfi fyrir gesti að koma með skrínukost; nóg er til“. Sjá einnig verskrína.
„Hinn eiginlegi skrínukostur vermanna var feitmeti; smjör, tólg, hnoðmör, og kjötmeti sem þá var oftast kæfa.  En auk þess fengu vermenn rúg, brauð, kökur, harðfisk, sýru og síðar kaffi, kaffibæti og sykur.... Hinn fastákveðni skammtur...var kallaður lögútgerð.  Samkvæmt opinberri tilskipun frá 1720 var mötusmjörið ákveðið 12 fjórðungar fyrir manninn fyrir haust- og vetrarvertíð.... Í Víkum norðan Látrabjargs var 30 punda smjörmata til tólf vikna talin lögútgerð, eða 7 ½ pund til þriggja vikna, en það samsvaraði 5 merkum til vikunnar.  ... Í þeim verstöðvum var skammturinn af kæfu hálfvættarkind yfir vertíðina; geld ær eða sauður.  Nokkuð af kjötinu var reykt en hitt saltað og síðan búin til kæfa úr hvoru tveggja.  Þar var algengt að formaður hefði með sér, auk kæfunnar, huppa, bringukolla og síður, því að þegar gestir komu bauð hann upp á skrínuna, eins og það var kallað.  Einnig var venja hans að gefa hverjum háseta eitt hangikjötsrif; formannsrifið, eftir fyrsta róðurinn, þá er vel aflaðist.  Einnig kom það fyrir að formaður gæfi hásetum bita úr skrínu sinni, auk formannsrifsins, þegar þeir komu að landi; dauðlerkaðir með punghlaðinn bát.  Slíkum formanni gekk betur en öðrum að fá háseta og jók þetta á vinsældir hans.  Í verstöðvum norðan Bjargs var mjölskammturinn einn fjórðungur til mánaðar, en 12 harðir steinbítar voru látnir koma í staðinn ef mjöl var ekki til. Húsbændur lögðu vinnumönnum til kaffi þó það væri ekki skylda; allt að 1 pd yfir vertíðina... Þegar tví- og þríróið var fengu menn sér bita milli þess að farið var á sjóinn...  Sá sem kom vanbúinn af mötu í verið var kallaður mötulítill...  Þegar saxast tók á mötuna var sagt að komnar væru Maríumessur í skrínurnar...   Roðavika var gamalt nafn á síðustu vertíðarvikunni...  Víðast var etinn soðfiskur að lokinni aðgerð, en þá matseld annaist einhver af áhöfninni eða fanggæslan.  Víða átti hver vermaður sinn disk, fyrrum úr tré, sem soðningin var færð upp á, og átti hann sjálfur að sjá um þrif á honum“  (Frásögn ÓETh o.fl.)  (LK;  Ísl. sjávarhættir II). (Sjá vermata og verskrína.).  „Þegar afli var kominn í ruðning var gengið til búðar; hitað kaffi og borðað með því smurt brauð með kæfu að áleggi.  Það tók hver úr sinni skrínu eða kofforti“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Rekkjufélagar sváfu andfæting og höfðu koffortin sín; skrínurnar, við höfðalagið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Mat höfðu menn með sér heimanað í kofforti.  Þá var kæfa brædd í annan endann á skrínunni og smjöri stungið í hinn endann“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Þeir sem voru lengra að komnir höfðu með sér nesti og bjuggu við skrínukost, enda var mötuneytisaðstaða engin“  (PG; Veðmálið). 

Skrínukind (n, kvk)  Kind sem valin var til þess að verða slátrað og soðin úr henni kæfa fyrir skrínukost.  Var hún líklega valin við ásetning á haustin; e.t.v. geldær eða gamalær sem ekki var talin framtíðarfénaður.  Hún var alin yfir veturinn en slátrað þegar leið að verferðum að vori.  Einnig nefnd kæfukind eða mötukind.

Skrípalega (ao)  Fáránlega; kjánalega.  „Látiði nú ekki svona skrípalega krakkar“!

Skrípalegur (l)  Furðulegur; fáránlegur; kjánalegur.  „Skelfing finnst mér hann stundum skrípalegur í háttum“!

Skrípalæti (n, hk, fto)  Fíflagangur; bjánagangur; ólæti.  „Hættu þessum andskotans skrípalátum“!

Skrípafígúra / Skrípamynd / Skrípateikning (n, kvk)  Mynd/teikning sem sýnir viðfangsefnið á afkáralegan hátt; skopmynd.  „Hann hafði teiknað ýmsar skrípafígúrur á blaðið, sem sumar minntu á fólk í sveitinni“.

Skrípi / Skrípildi (n, hk)  Furðufyrirbæri; himpigimpi; fífl.  „Ég ætla ekki að standa þarna uppi á sviði og gera mig að algeru skrípi“!

Skrjáf (n, hk)  Lágvært hljóð/þrusk/brak/núningshljóð.  „Erfitt var að vera í feluleik í hlöðunni þó þar væri myrkur, því alltaf heyrðist skjáfið í heyinu þegar einhver nálgaðist“.

Skrjáfa (s)  Braka; marra.  „Það skrjáfar í grásleppunni sem hangir hér undir þakskegginu“.

Skrjáfþurr (l)  Svo þurr að skrjáfar í.  „Það má taka signu grásleppuna niður; hún er orðin skrjáfþurr“.

Skrjóður (n, kk)  A.  Hrörlegur gripur/bíll.  „Skyldi skrjóðurinn komast yfir fjallið“?  B. Niðrandi heiti á manni; rumur; þrjótur.  „Hann er farinn að verða dálítið gleyminn, karlskrjóðurinn“.

Skro (n, hk)  Munntóbak; rjól; rulla.  Sjá tóbaksneysla.

Skrof (n, hk) Íshröngl; ósléttur ís.  „Fénu getur verið hætt ef það fer út á þetta skrof“.

Skrofa (n, kvk)  Puffinus puffinus.  Sjófugl af ættbálki pípunefja eða fýlinga, og því náskyld múkkanum.  Hún heldur lengstum til úti á sjó, og kemur eingöngu á land til að verpa.  Eini varpstaður skrofu á landinu er í Vestmannaeyjum.  Hún hefur sést á sjó við Útvíkur.  Fullvaxinn fugl er 30-38 cm að lengd með allt að 90 cm vænghaf; svört að ofan en hvít að neðan, með svörtu nefi og bleikum fótum.  Skrofan verpir í holur eins og lundi, og er nafnið líklega komið af því að landið verður sem skrof eftir gröftinn.  Fæðan er smáfiskur, krabbadýr og smokkfiskur.  Skrofur eru góðir kafarar líkt og svartfugl, en flugið er líkt og hjá múkka.  Sést gjarnan í hópum.  Farfugl að hluta, og flýgur þá til strandsvæða Suður-Ameríku.

Skrofótt (l)  Litur á sauðkind; því sem næst röndótt; hvít með dökkum röndum eða dökk með hvítum röndum.  Sjaldnast eru þó ær reglulega röndóttar, heldur minnir mynstrið á rendur.  Kind á Láganúpi um 1963 nefndist Skrofa; dökk með ljósum yrjum langseftir.

Skrokklag (n, hk)  Lag á skrokki.  Oftast notað um lag á bát, en einnig um byggingu skepna.

Skrokkmikill (l)  Með stóran skrokk; feitlaginn; stórvaxinn. 

Skrokkskjóða (n, kvk)  Högg; bylta; ákoma.  „Fékkstu ekki einhverjar skrokkskjóður við þetta fall“?

Skrokkskömm (n, kvk)  Gæluheiti á líkama manns.  „Ég hef það alveg ágætt, en skrokkskömmin er orðin lítlfjörleg til puðvinnu eða langhlaupa“.

Skrokkstór (l)  Með stóran búk/skrokk; búkmikill.

Skrokkur (n, kk)  A.  Líkami manns í heilu lagi.  „Ætli maður þurfi ekki eitthvað að skola á sér skrokkinn“.  „Hann er mesti þrekskrokkur“.   B.  Búkur skepnu eftir slátrun, að frátöldum útlimum og höfði, innyflum og gæru/skinni. „…  en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn“  (PG; Veðmálið).   C.  Bátur/skip, og er þá einkum átt við byrðinginn.

Skrokkþungi (n, kk)  Fallþungi/kjötþungi sláturgrips/dilks.  „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri“  (PG; Veðmálið). 

Skroll (n, hk, linur frb.)  Kverkmælgi.   „Ekki lagast skrollið í honum með aldrinum“.

Skroll (n, hk, harður frb.)  Sérlega hávær og grófgerður hlátur; hrossahlátur.  „Ég held að þeim hafi ekki orðið svefnsamt í næstu búðum, af skrollinu í karlinum“!

Skrolla (s, linur frb.). A.  Að vera kverkmæltur; gormæltur.  „Hann skrollar óskaplega á errunum ennþá“.  B.  Skrölta.  „Þessi skyrta er svo víð að hún skrollar utan á manni“.  „Ég skrollaði eftir vegslóðanum“.

Skrolla (s, harður frb.)  Hlæja með miklum hávaða/látum/tilþrifum; skella uppúr.  „Það er nú ekki til siðs að skrolla svona í kirkjunni, þó prestinum verði á mismæli í ræðunni“!

Skrollroka (n, kvk)  Samfelld roka/gusa af skrolli/hrossahlátri.  „Hann rak upp þvílíka skrollroku þegar hann heyrði þetta, að ég hélt að þakið ætlaði ofan“!

Skróp (n, hk)  Vísvitandi seinkun/fjarvist í vinnu eða skóla.

Skrudda (n, kvk)  A.  Bók; gjarnan þykk og/eða torlesin.  B.  Gustmikill kvenmaður; bryðja; galsafengin stelpa.

Skruðningur (n, kk)  Hávaði; læti.  „Heyrði ég þá skruðning upp yfir mér“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Skrugga (n, kvk)  Þruma.  „Í suðaustan og útsunnanáttum á haustin og tíðlega á vetrum heyrist einstaka sinnum skruggur.  Kalla menn það boði góðan vetur, heyrist það fyrir nýár, en vondan ef síðar“.  (séra Gísli Ólafsson; Sóknarlýsingar 1840).

Skruggufærð / Skruggufæri (n, kvk/hk)  Um vegi; flennifæri; mjög góð færð.  „Það er skruggufæri innyfir“.

Skrugguveður (n, hk)  Þrumuveður.  „Óttalega fer það alltaf í mig þetta skrugguveður“.

Skrukka (n, kvk)  Niðrandi heiti á gamalli/fráhrindandi konu.

Skrum (n, hk)  Yfirborðskenndar fullyrðingar; plat; mont.  „Alltaf er það sama skrumið fyrir kosningarnar“!

Skruma (s)  Blekkja; hafa í frammi mont/gort/ innantóma þvælu.

Skrumari (n, kk)  Sá sem skrumar.

Skrumskæla (n, kvk)  Gera afkáralegt; snúa útúr; afbaka. 

Skrumskæling (n, kvk)  Afbökun; útúrsnúningur.

Skrumskæling (n, kvk)  Afskræming; afbökun.  „Mér líkar bölvanlega svona skrumskæling á málinu“.

Skruna (n, kvk)  Skriða.

Skruna (s)  A.  Renna sér á mikilli ferð.  B.  Tölvumál; renna mynd/tákni hratt niður/upp skjá.

Skrúbba (s)  Skúra/þvo rækilega með skrúbb/bursta.  „Skrúbbaðu vel allar blóðslettur úr bátnum“.

Skrúbbhaus / SkrúbbhárSkrúbbskaft (n, kk/hk)  Hlutar gólfslkrúbbs.

Skrúbbur (n, kk)  Bursti með stífum hárum.  „Það þyrfti að fara með skrúbbinn á gólfið eftir þetta“.

Skrúð (n, hk)  Skraut; það sem er marglitt/skrautlegt.  Sbr blómskrúð og málskrúð.         

Skrúðganga (n, kvk)  Oftast er átt við fjöldagöngu prúðbúins fólks á hátíðisdögum, gjarnan með fána, blöðrur, skilti eða annað litríkt.  Slíkar göngur voru ekki farnar til sveita, en orðið var þekkt og notað í líkingum:  „Hvaða skrúðganga kemur þarna niður Hjallana?  Eitthvað hefur nú orðið eftir af fé í síðustu smölun“.

Skrúðgarður (n, kk)  Garður með fjölbreyttum og litskrúðugum jurtategundum, skipulagður af listfengi.

Skrúðhús (n, hk)  Afhýsi í kirkju, þar sem messuklæði eru geymd og þar sem prestur undirbýr sig fyrir athafnir, t.d. með því að fara í skrúða.

Skrúði (n, kk)  Skartbúningur; hátíðabúningur; einkennisbúningur t.d. presta; skraut; litahaf.

Skrúðklæddur (l)  Klæddur í skrúða/einkennisföt/viðhafnarfatnað.  Skrautlega klæddur.

Skrúðmælgi (n, kvk)  Fagurgali; hástemmdar lýsingar; orðaflaumur.  „Þetta finnst mér óþarfa skrúðmælgi“.

Skrúf (n, hk)  A.  Lítill hlaði/haugur.  Heyrðist þó ekki vestra í þeirri merkingu, a.m.k. ekki í seinni tíð.  B.  Skrúfað lok.  Notað í seinni tíð um bolla sem skrúfaður er ofaná hitabrúsa.  „Gefðu mér hálft skrúf af kaffi“.

Skrúfa (n, kvk)  A.  Hlutur með gengjum.  Notað nú um gengjaðan nagla sem skrúfaður er í efni eða ró með snúningi.  B.  Aflskrúfa báts; skips; tæki með skásettum blöðum sem ýtir farinu í sjó/vatni við snúning.  Einnig aflskrúfa flugvélar sem verkar eins í lofti en hentar önnur lögun.

Skrúfa (s)  Festa með skrúfu; snúa skrúfu svo hún gangi í/úr efni eða ró. 

Skrúfa sundur/saman (orðtök)  Taka sundur með því að losa skrúfur, eða setja saman með skrúfum.

Skrúfa upp (orðtak)  A.  Þyrla upp.  „Hann lagði bálhvassa hviðu upp túnið; svo flekkurinn skrúfaðist upp og sáldraðist uppeftir Fitinni“.  B. Þvinga; neyða.   „Ég er hættur við kaupin ef hann ætlar að skrúfa upp verðið“!  C.  Hækka sig í landslagi/klettum.  „Hann náði að klórast upp á sylluna og skrúfaði sig svo neðan slefrurnar“.  D.  Auka birtu frá olíulampa með því að hækka kveikinn í kransi hans.  E.  Festa upp með skrúfu.

Skrúfbolti / Skrúfnagli (n, kk)  Skrúfa með þverum enda og jafnsver um gengjuhlutann, gerð til að skrúfast í ró.

Skrúfgangur (n, kk)  Gengjur; skáflötur á skrúfu/bolta/ró eða öðru sem skrúfað er.

Skrúfhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; horn vaxin áberandi uppávið; upphyrnd.

Skrúflykill (n, kk)  Skiptilykill; áhald með stillanlegum kjafti, til að skrúfa t.d. maskinubolta/skrúfbolta.

Skrúfsía (n, kvk)  Skrúfjárn.  „Skrepptu út í Mókofa og náðu í skrúfsíuna fyrir mig“.  Þetta var hið almenna heiti á skrúfjárni í Kollsvík langt fram eftir 20. öld og því undarlegt að það finnst hvergi í orðabókum.

Skrúfstykki (n, hk)  Áhald sem fest er á borð, og notað til að halda hlutum föstum meðan unnið er við þá.

Skrúftappi (n, kk)  Tappi sem skrúfaður er.  T.d. flöskutappi.

Skrúftóg (n, hk)  Aðferð til að velta sívölum og þungum hlutum; t.d. til að ná rekatrjám upp úr fjöru.  Þá er tógi fest í annan enda spölkorn ofanvið tréð; brugðið utanum enda trjábolsins og togað í hinn enda tógsins.  Eins var gert með öðrum vað á hinn bolendann og oftast togaði sinn maðurinn í hvorn enda til að velta trénu upp úr fjörunni.  Með þessu geta tveir menn léttilega bjargað tré sem þeir hefðu annars ekki ráðið við.

Skrúfuhverfill (n, kk)  Rella; hverfill t.d. til orkuframleiðslu í vindi/sjávarstraumi, sem snýst um einn öxul, þannig að öxulstefna sé í straumáttina/vindáttina en blöð með meginstefnu þvert á öxul.  Hægstraumsverflar Valorku, þróaðir af Kollsvíkingi, eru ekki þessarar gerðar, heldur þverstöðuhverflar.

Skrykkjast (s)  Rykkjast; hreyfast með stökum snöggum hreyfingum.  „Eitthvað brotnaði af eggjum þegar við vorum að skrykkjast yfir torfærurnar“.

Skrykkur (n, kk)  Hnykkur; ójöfn hreyfing.  „Fyrsta traktorsferðin hans gekk í rykkjum og skrykkjum“.

Skryppildi (n, hk)  Lítilfjörleg skepna; aumingi; ræfill.  „Það er varla hægt að senda þetta skyppildi í sláturhús“.

Skrýða (s)  Færa í skrúða/einkennisbúning/ skrautlegan búning. 

Skrýtilega (ao)  Undarlega; furðulega; einkennilega; forvitnilega.  „Þetta finnst mér skrýtilega barið saman“. „Mér er búið að líða eitthvað svo skrýtilega í dag“.

Skrýtilegheit (n, hk, fto)  Furðulegheit; einkennilegheit; furðuleg/óútskýranleg atvik.  „Enginn botnaði upp né niður í þessum skrýtilegheitum í karlinum“.

Skrýtilegt (l)  Furðulegt; athyglisvert.  „Það gerðist margt skondið og skrýtilegt í þessari ferð“.

Skrýtinn (l)   A. Furðulegur; fáránlegur; öðruvísi.  „Þetta er skrýtin saga“.  „Ég er eitthvað skrýtinn í höfðinu“. B.  Geðbilaður.  „Ertu eitthvað skrýtinn“!  Dregið af „skraut“, og því með „y“.

Skrýtla (n, kvk)  A.  Fyndin smásaga/frásögn.  B.  Hvaðeina skrýtið/skrautlegt; m.a. nafn á skrautlegri ær.

Skræða (n, kvk)  A.  Bók; skrudda.  „Einar í Kollsvík átti skræðu eina er Fornótt hét“.  „Ár og síð menn segja hann kafinn sínum fræðum;/ grúskandi í gömlum skræðum“  (JR; Rósarímur).   B.  Hamsar í floti.  Voru þó oftast nefndir „hamsar“ í Kollsvík.

Skræfa (n, kvk)  Hræðslupúki; raggeit.  „Þú ert varla sú skræfa að þora ekki einn í hlöðuna í myrkri“?

Skræfuháttur (n, kk)  Heigulsháttur; roluskapur; óþarfa hræðsla.  „Skelfingar skræfuháttur er þetta í honum!  Það er hreint ekkert orðið að sjóveðri núna“!

Skrækja (s)  Æpa mjög hvellt og hátt; reka upp stutt hávært væl/org. 

Skrækraddaður / Skrækur (l)  Um mann; mjóróma; liggur hátt rómur

Skræla (s)  A.  Ofþurrka; láta visna.  „Það er hætt við að þessir hitar skræli gróður þar sem þurrlent er“.  B.  Flysja, t.d. kartöflur, rófur eða ávexti.  Oftar var notað orðið „flysja“ í Kollsvík.

Skrælast (s)  Um afla/feng; orðinn tregur.  „Nú er þetta heldur farið að skrælast hjá okkur“.

Skrælhiti / Skrælandi hiti (n, kk/ orðtak)  Steikjandi hiti; brennandi hiti.  „Það þarf að passa vel uppá vatnið hjá kálfunum í þessum skrælhita“.

Skrælingi (n, kk)  A.  Niðrandi heiti á manni; bjálfi; auli.  B.  Heiti sem um tíma var notað yfir indíána og eskimóa, einkum þá þjóðflokka sem norrænir landafundamenn fundu í Kanada í fyrstu ferðum þangað.

Skrælingjaháttur (n, kk)  Skammaryrði yfir það sem þykir aulagangur/rataháttur/glópska/bjálfagangur eða jafnvel ruddaháttur/níðingsskapur.  „Svona skrælingjaháttur fer afskaplega í taugarnar á mér“! 

Skrælna (s)  Þorna upp.  „Það er allur gróður að skrælna í þurrkinum“.  „Hentu þessum skrælnuðu blómum“.

Skrælnaður (l)  Visnaður; þornaður; kyrkingslegur.  „Sendin tún eru orðin ansi skrælnuð í þurrkinum“.

Skrælt (l)  Lítið að hafa; lítilfjörlegt; tregt.  „Það var fjári skrælt hjá okkur í dag; ekki sömu uppgripin og í gær“.

Skrælt um (orðtak)  Erfitt að fá; lítið um; fágætt.  „Það er orðið skrælt um skötuna í dag; jafnvel á gömlum og grónum skötumiðum“.  Annarsstaðar var notað í sama tilgangi orðtakið „skart um“, dregið af „skarður“; þ.e. skertur/rýrður.  Hér er stofnorðið „skrældur“, sem í raun merkir það sama.

Skrælt um góða kosti (orðtak)  Fátt um góða kosti.  „Það er skrælt um góða kosti í þessari stöðu“.

Skrælþurr (l)  Mjög uppþornaður.  „Jörðin er orðin skrælþurr í þurrkunum“.  „Ég er skræþurr í hálsinum“.

Skræmta (s)  Gefa frá sér lágt hljóð; krimta.  „Hann þorði hvorki að æmta né skræmta“.  Einkum í því orðtaki.

Skræpótt (l)  Litur á sauðfé:  Hvítt með dökkum dílum um allan skrokk eða öfugt.  Oft þó einlitt á haus og fætur.

Skröggsháttur (n, kk)  Hryssingur; grófgerð/stórkarlaleg framkoma.  „Þetta finnst mér bara bölvaður skröggsháttur í honum“!

Skröggslega (ao)  Hryssingslega; önugt.  „Ég hef kannski svarað þessu heldur skröggslega“.

Skröggslegur (l)  Stórkarlalegur; grófur; hryssingslegur.  „Mér fannst hann heldur skröggslegur við krakkagreyið; þetta var nú óviljaverk“.

Skröggur (n, kk)  Karl; vanalega í fremur niðrandi merkingu, en þó stundum í vorkunartón.  „Ég legg nú lítið uppúr því sem sá skröggur segir“.  Hann hefur mátt þola margt um ævina, karlskröggurinn“.

Skrök (n, hk)  Lygar; ósannindi.  „Ég held að þetta sé nú bara skrök (skröksaga) hjá þér“.

Skrökfrétt (n, kvk)  Slúður; ósönn frétt.  „Ég er alveg hættur að trúa svoleiðis skrökfréttum“.

Skröksaga (n, kvk)  Lygasaga; tilbúningur; uppspuni.  „Best gæti ég trúað að þetta sé einber skröksaga“.

Skrökva (s)  Ljúga; segja ósatt.  „Það var ekki til siðs að skrökva, en hinsvegar voru sumir lygnari en aðrir“.

Skröll (n, hk, fto)  Hávaði; hávært gaspur , köll eða skröllahlátur.  „Hættið nú þessum skröllum krakkar; þið fælið allt féð af túninu og gerið hundinn vitlausan“.  „Hefurðu ekki heyrt skröllin hjá tröllunum í fjöllunum“?  Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var mönnum tamt á svæðinu.  E.t.v. má setja þetta í samhengi við að til er sérstakt fyrirbæri sem nefnist „Kollsvíkurhávaði“ og þykir liggja þar í ættum.  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Skrölla (s)  Tala mjög hátt; hlæja skröllahlátri.  „Karlinum var mikið niðri fyrir þegar hann sagði frá og skröllaði svo hátt að ekki var nokkur lífsins vegur að festa svefn uppi á loftinu“.

Skröllahlátur (n, kk/kvk)  Mjög hávær, langvarandi og grófur hlátur; tröllahlátur.  „Ferlegur skröllahlátur er þetta“!

Skröllroka (n, kvk)  Stutt en hávær hláturshviða.  „Neðan úr stofunni barst glaðvær kliður upp á loftið, og innámilli háværar skröllrokur“.

Skrölt (n, hk)  A.  Glamur; hávaði; barsmíðar.  „Vertu nú ekki að þessu skrölti í þakjárninu“!  B.  Gæluorð um ferð, og þá helst endurteknar ferðir.  „Maður losnar þá við þetta daglega skrölt yfir Hálsinn ef mjólkurbíllinn sækir alla leið“.  Einnig um næturferðir.  „Ekki meira kaffi svona seint; mér leiðist þetta skrölt að nóttunni“.

Skrölta (s)  A.  Um hátt surgandi/snjallt og endurtekið hljóð; skella ítrekað.  „Hjóðkúturinn er farinn að skrölta undir bílnum“.  B.  Fara; komast; rölta.  „Ætli ég reyni ekki að skrölta hér fram í Vatnadal og skoða hvort þar eru einhverjar skjátur“.

Skröltfær (l)  Um veg; ekki vel fær; hægt að komast.  „Fram á Blakkinn liggur eggjavegur; skröltfær“.

Skröngl (n, hk)  Það sem farið er með erfiðismunum; skrölt; klór.  „Það mætti kannski klórast þarna upp á hilluna, en það yrði hálfgert skröngl“.

Skrönglast (s)  Komast með erfisðismunum; skrölta; skenglast; skjönglast.  „Skriðan var skratti laus í sér, en einhvernvegin tókst mér að skrönglast yfir hana, og upp á bakkann hinumegin“.  „Gat verið hægt að skrönglast niður Meðhjálparagjótu, þó Flosagil væri ófært“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Skröttur (n, kvk, fto)  Skammaryrði um kindur sem þykja sérlega óþægar/ erfiðar viðfangs.  „Þær sneru á mig á hjallabrúninni og ég mátti elta þessar skröttur útyfir Sanddali áður en ég komst fyrir þær aftur“!

Skubba (s)  Skera; klippa; stytta.  Gjarnan átt við að gera það hroðvirknislega/ á fljótlegan hátt.  „Það þyrfti aðeins að fara að skubba neðanaf hárinu á mér“.

Skuddi (n, kk)  Um smávaxna menn og skepnur.  „Þessi hrútskuddi er nú varla til ásetnings“.

Skuðrildi (n, hk)  Um hlut sem er ræfilslegur og ljótur.  „Hvar hef ég nú týnt húfuskuðrildinu mínu“?  Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var mörgum tamt á svæðinu.  Sjá húfuskuð.

Skufsast (s)  Gaufast; slugsa; hangsa; gera klaufalega/silalega.  „Ætliði að skufsast við þetta í allan dag“?!

Skufsi (n, kk)  Gæluorð um gagnslítinn mann eða ræfilslega skepnu; ræfill; aumingi; kægill.

Skugga ber á (orðtak)  Í forsælu; í skugga frá einhverju svo sól ná ekki að skína á.  „Geymdu nú nestið einhversstaðar þar sem skugga ber á“.

Skuggabaldur (n, kk)  Furðukvikindi úr þjóðtrúnni.  Skuggabaldur var afkvæmi refalæðu og kattarhögna, en skoffín var afkvæmi refahögna og kattarlæðu.  Skuggabaldrar voru sögð illvíg kvikindi.  Þeir leggjast undantekningarlaust á fé; verða dýrbítar.  Ekki verða þeir unnir með venjulegum skotvopnum, en sagt var helsta ráðið að nota á þá vígðar silfurkúlur.

Skuggalegur (l)  A.  Um veður; dimmur; þungbúinn.  „Ári er hann orðinn skuggalegur til loftsins“.  B.  Um svipmót manns; illilegur; ógnandi. 

Skuggamynd (n, kvk)  A.  Mynd sem birtist á lýstum vegg þegar skyggt er fyrir ljós með t.d. höndum.  Sumir eru lagnir við að mynda þannig ýmiskonar fígúrur með höndum.  B.  Skyggnumynd; sérstök tegund ljósmyndar sem unnt er að varpa á ljósan flöt með gegnumlýsingu.

Skuggamyndasýning (n, kvk)  Sýning skuggamynda/skyggnumynda.  „Eftir að skuggamyndir (slides) urðu algengar upphófust skuggamyndasýningar, þar sem menn komu saman og horfðu á myndir sem einn úr hópnum hafði tekið, t.d. á ferðalögum sínum.  Það voru bíósýningar þess tíma.  Gylfi Guðbjartsson hélt t.d. alloft slíkar sýningar á Láganúpi, en hann er snilldarljósmyndari og víðförull“.

Skuggamegin (ao)  Forsælumegin; í skugga.  „Ég setti fiskinn hérna skuggamegin við húsið“.

Skuggi (n, kk)  Forsæla.  „Leggðu svo fiskinn frá þér í skugga meðan við tökum upp bátinn“.

Skuggsjá (n, kvk)  Gamalt heiti á spegli.

Skuggsýnt (l)  Dimmt; ekki full birta; rokkið.  „Við komum ekki heim fyrr en skuggsýnt var orðið“.

Skuld (n, kvk)  Eignakrafa sem einn maður á í garð annars vegna viðskipta af einhverju tagi.

Skuldabaggi (n, kk)  Miklar skuldir.

Skuldabasl (n, hk)  Erfiðar aðgerðir til að unnt sé að standa í skilum með skuld; t.d. mikil vinna.

Skuldabréf (n, hk)  Skjal sem maður undirritar til viðurkenningar á skuld sinni; skuldaviðurkenning.

Skuldadagur (n, kk)  Greiðsludagur/gjalddagi skuldar.  Sjá kemur að skuldadögunum.

Skuldaklafi (n, kk)  Þrengingar í efnahag vegna mikilla skulda.  „Hann var ánægður með að vera loksins laus úr þessum skuldaklafa“.

Skuldaskil (n, hk, fto)  Uppgjör skulda; skuldadagur.  „Fyrr eða síðar kemur að skuldaskilum“.

Skuldasúpa (n, kvk)  Miklar fjárhagsskuldir eins aðila.  Sjá sitja í súpunni.

Skuldaþræll (n, kk)  Sá sem skuldar svo mikið að hann er mjög háður sínum lánadrottnum og tekjur fara að mestu til greiðslu skulda.

Skuldbinda sig til (orðtak)  Undirgangast skyldur við; lofa að framkvæma/greiða. 

Skuldbinding (n, kvk)  Skylda; kvöð; skuld.

Skuldbindingarskrá (n, kvk)  Skjal sem skuldbindur þann sem undirritar; handsölun.  „enda átti fjelagið að starfa mest sem íþróttafjelag, þótt það þegar á fyrsta ári (31. okt 1909) sniði skuldbindingu sína eftir skuldbindingarskrá U.M.F.Í. “  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Skuldseigur (l)  Um mann; sem erfitt er að innheimta skuld hjá; greiðir illa sínar skuldir.  „Bankastjórinn kvartaði yfir honum; sagði að hann væri skuldseigari en andskotinn“.

Skuldsetja sig (orðtak)  Hleypa sér í skuldir; taka lán hjá öðrum; skuldbinda sig. 

Skuldsettur / Skuldugur / Skuldum vafinn (l/orðtak)  Skuldar mikið; er hlaðinn lánum.

Skulfa (n, kvk)  Mikil rigningarskúr; hreða.  „Það gengur hér yfir hver skulfan eftir aðra og dúrar lítið á milli“

Skunda (s)  Ganga rösklega; hraða sér; fara.  „Ætli það sé ekki rétt að fara að skunda af stað“.  „Hún um fjöllin fetar sig/ fljót og létt um tærnar./  Skekkinga um skakkan stíg/ skundar hún með ærnar“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). 

Skupla (n, kvk)  Höfuðklútur.  Algengt var að konur bæru skuplur við t.d. útistörf eða mjaltir.

Skurðarróður (n, kk)  Hákarlsróður þar sem fiskinum sjálfum er kastað, að því undanskildu að lifrin er tekin úr og hirt.  Skurðarróðrar tíðkuðust mest á þeim tíma sem hákarlalýsi var verðmæt útflutningsvara sem ljósmeti, og voru helst farnir þegar leið á vetur.

Skurfa (n, kvk)   Lítið sár; hrufl.  „Fékkstu ekki einhverjar skurfur á hnéð þegar þú dast“?

Skurn (n, kk)  Skelin á eggi var oftast nefnd þannig í Kollsvík.  En ekki var það einhlítt, og þessar orðmundir hafa heyrst:  Skurn (n, kvk); Skurn (n. hk)  Skurm (n, hk);  Skurm (n, kvk);  Skurmur (n, kk).  „Þú átt alltaf að byrja að brjóta á skurninum í breiðari endann“.  „Sagt var að Hjalti hefði étið 40 bjargfuglsegg í einu; þar af 20 með skurminu“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Skupla (n, kvk)  Höfuðklútur; slæða.  „Almennt notuðu mjaltakonur skuplur áður fyrr“.

Skurðbakki / Skurðbarmur (n, kk)  Bakki/brún á skurði.  „Það þarf að hjálpa lambinu upp á skurðbakkann“.

Skurðgoð / Skurðgoðadýrkun (n, hk/kvk)  Útskorið líkneski sem átrúnaður er á.  Elstu skurðgoð sem vitað er um eru líklega litlar líkneskjur af kvenlíkama með ýktar lendar, maga og brjóst, sem talið er að hafi táknað frjósemisgyðju.  Líkneski voru e.t.v. ákölluð í ásatrú, þó engin slík hafi fundist svo sannað verði.  Biblían varar sérstaklega við skurðgoðadýrkun, enda boðar hún trú á einn ósýnilegan guð.  Dýrlinga- og krossadýrkun í kaþólsku jaðrar þó við skurðgoðadýrkun.

Skurðendi (n, kk)  Endi á skurði.  „Farðu nú og gefðu henni Skottu þetta úti í skurðenda“.  Annarsstaðar var „s“ í orðinu; „skurðsendi“, en ekki í Kollsvík.

Skurðgrafa (n, kvk)  Vél með skóflu á armi; hentug til að grafa skurð í jarðveg t.d. til að ræsa land fram og þurrka það.  Skurðgröfur hafa líklega valdið mestum breytingum sem orðið hafa af mannavöldum í náttúrufari og ásýnd Kollsvíkur frá upphafi byggðar, ef frá er talin e.t.v. eyðing kjarrs í kjölfar landnáms.  Kringum 1954-56 kom stórvirk víragrafa í víkina og þá voru mótuð þau skurðakerfi sem enn ber mest á; ræst fram drápsdý í Mýrunum og land þurrkað í stórum stíl.  Í kjölfarið voru unnar og ræktaðar fjölmargar túnsléttur með stórauknum heyfeng.  Skurðinir hafa breytt ásýnd og lífríki, og sumsstaðar hurfu seilar og dý ásamt örnefnum sínum.  Þrátt fyrir að síðar hafi oft verið grafið uppúr skurðunum hefur ekki tekist að uppræta að fullu öll drápsaugu sem heimtað hafa toll af búfénaði gegnum langa búskaparsögu Kollsvíkur.  Skurðir voru reyndar grafnir í Kollsvík fyrir daga véltækni, og má víða enn sjá móta fyrir handgröfnum áveitu- og framræsluskurðum.

Skurðhagur (l)  Hagleiksmaður um útskurð í tré; oddhagur.  Skurðhagasti Kollsvíkingur síðari tíma er eflaust Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi, sem skorið hefur út listaverk af ýmsu tagi.  Af Kollsvíkurætt var einnig Sveinn Ólafsson frá Lambavatni, sem varð afkastamikill útskurðarmeistari.

Skurðruðningur (n, kk)  Efni sem grafið er uppúr skurði og verður eftir sem haugar á skurðbakkanum.

Skurður (n, kk)  A.  Far þar sem skorið hefur verið, t.d. með hnífi eða öðru í hold/tré eða skurðgröfu í jarðveg.  B.  Verknaðurinn að skera, sbr uppskurður; melskurður; útskurður. 

Skurfa (n, kvk)  Grunnt sár; hrufl.  „Ég datt og fékk skurfu á höfuðið“.

Skurfaður (l)  Skrámaður; meiddur; hruflaður.  „Eitthvað var hann skurfaður eftir byltuna, en ekki alvarlega“.

Skurfslegur (l)  Líkur skurfi.  „Mér fannst þetta dálítið skurfslegar aðfarir“.

Skurfur (n, kk)  Niðrandi heiti á karli; larfur; ódámur.  „Hvað meinar skurfurinn með þessu“?  Mun áðurfyrr hafa verið notað um skörðóttan hníf, og af því er líkingin dregin.

Skurk (n, hk)  A.  Hávaði.  B.  Hraðferð.  „Hann kemur þarna á miklu skurki“.  C.  Átak; skorpa.  „Þú ættir nú að gera skurk í að klára verkið fljótlega“.  „Hann gerir líklega skurk í því“!  Oft sagt háðslega um þann sem ekki er líklegur til framkvæmda, og þá með áherslu á „í“.

Skurka (s)  Fara um með látum; bramboltast.  „Hann skurkaði norður til að sækja rakstrarvélina“.

Skurma (s)  A.  Þegar kemur skurmur/hrúður á sár eða annað; setjast að.  „Sárið hefst vel við og er aðeins byrjað að skurma“.  B.  Þegar klaki frýs ofan á vatni.   „Aldrei þrýtur vatn í þessum brunni og í honum frýs ekki svo, að skurmaði í honum frostaveturinn 1918“  (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).

Skurmur (n, kk)  Skurn (n, kvk)  A.  Eggjaskurn.  „Það er vani að brjóta skurminn á egginu fyrst í sverari endann“.  „Ýmist var notað hér nafnið skurn(in), eða skurmur; og svo skjall, rauða og hvíta“  (SG; Alifuglarækt).  B.  Hverskonar þunnt hart efnislag.  T.d. stundum notað um þunnan ís á polli (sjá skurma).  Stöku sinnum heyrðist orðið í hvorugkyni; „skurm“ en mun sjaldnar.

Skurnlaust (l)   Um egg; án skurns.  „Ef fuglinn vantar kalk þá er hætta á að eggin verði skurnlaus“.

Skurr (n, hk)  Skurk; hraðferð; skutl.

Skurra (s)   A.  Skutla; láta einhvern hlut renna: „Skurraðu bakkanum til mín“.  B.  Fara í snögga ferð:  „Ég ætla að skurra snöggvast á Patró“.

Skursl (n, hk)  Sár; skurður.  „Ég var með eitthvað skursl á hendinni sem búa þurfti um“. Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var mönnum tamt á svæðinu.

Skursla (s)  Skera; einkum notað um að skera með hníf.  „Skurslaðu bandið í sundur fyrir mig“.

Skursla sig (orðtak) Skera sig.  „Varstu nú að skursla þig á ljánum“?

Skussaháttur (n, kk)  Slóðaskapur; leti; dratthalagangur.  „Skelfingar skussaháttur er svona verklag“!

Skussi (n, kk)  Slóði; letingi; trassi; dratthali; sá sem er óduglegur við verk eða nám.

Skutband (n, hk)  Taug sem bundin er stundum um afturhnýfil báts, líkt og kolluband/stjóri er um framhnýfil.

Skutgafl (n, kk)  Gafl í skut báts í stað afturstefnis.  Tíðkaðist ekki fyrr en á síðustu tímum; eftir tilkomu véla í báta.  Rut, sem Ólafur Sveinsson á Sellátranesi smíðaði fyrir Ingvar og Össur í Kollsvík um 1970, var með hálfum skutgafli, svo unnt væri að setja þar á utanborðsvél.

Skutilbragð (n, hk)  Skutulbragð; hestahnútur; hnokkabragð.  Heitið var m.a. notað við netafellingu en hnúturinn notast víða.  Skutill er sama orð og skutull.  Sjá skutulbragð.

Skutilsveinn (n, kk)  A.  Virðingarstaða við hirð Noregskonunga fyrrum.  B.  Niðrandi heiti á manni sem þjónar öðrum eða gengur erinda annarra.  „Hann þvertekur fyrir að verða þeirra skutilsveinn í þessum málum“.

Skutkrikkja (n, kvk)  Hluti í bát; hælkrappi; kubbur úr sterkum viði sem er til styrktar samskeytum afturstefnis og kjalar.

Skutla (orðtak)  Skjóta skutli.  Einnig almennt um það að kasta einhverjum hlut.  „Hann skutlar árinni fram til bátsins“  (KJK; Kollsvíkurver).

Skutlari (n, kk)  Sá sem skutlar seli eða hvali.  „Í þann tíð var maður uppi í Arnarfirði er Benedikt Gabríel nefndist, og var Jónsson.  Hann var hvala- og selaskutlari mikill“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Skutljós (n, hk)  Ljós á skipi aftanverðu.  Siglingareglur segja að öll skip á siglingu skuli hafa afturljós í dimmu, sem nái yfir 135° geira.  Sjá landþernur og sigluljós.

Skutplittur n, kk)  Aftasti plittur í bát.  Oftast þríhyrndur að lögun og stendur hærra í bát en þeir fremri.

Skutrangarbyr (n, kk)  Vindur sem stendur uppá skutröng báts sem siglt er.

Skutrúm (n, hk)  Aftasta rúm báts; formannsrúm.  Í því er formannsþóftan.

Skutröng (n, kvk)  Röng í skut á bát/skipi.  „Skipið stóð þannig að framstafn vissi lengst upp í fjöruna; hallaðist það lítið eitt í stjórnborð og sjórinn lá í bakborðs skutröng“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Skuttogari (n, kk)  Sú gerð togskips/togara/botnvörpungs sem ruddi sér til rúms hérlendis kringum 1960-70; með þveru afturstefni og skutrennu sem trollið er lagt og dregið um.  Skuttogarinn er uppfinning Andrésar Guðmundssonar vélstjóra frá Patreksfirði.  Hann kynnti hugmyndina fyrir ýmsum hérlendis um miðja 20.öld, en fékk engan hljómgrunn.  Sama áhugaleysið var í fyrstu í Bretlandi, en eftir að Andrés hafði gefist upp á þeim tilraunum sínum tóku Bretar hugmyndina traustataki og hófu smíði skuttogara, sem síðan tóku alfarið við hlutverki síðutogara hér heima.  Reynsla Andrésar er ekki ólík reynslu annarra hugvitsmanna, sem lenda í því að hugmyndum þeirra er stolið og verða að gagni án þess að þeir njóti sannmælis.

Skutulband / Skutullína / Skutultaug (n, hk)  Lína sem fest er í skutuljárn í annan enda og hinum enda er fest í bát eða hann liggur í hendi skutlara.  Henni er á leiðinni brugðið um skutulstöngina með skutulbragði.  „Á Vestfjörðum var skutullínan oftast úr tveggja punda færi, er úr hafði verið dreginn einn þátturinn“ (LK; Ísl.sjávarhættir I).

Skutulbragð (n, hk)  Skutilbragð; hestahnútur; hnokkabragð; hnútur/bragð á bandi til að festa það á hlut.  Nafnið er dregið af því að með því var skutulbandi brugðið um skutulskaftið á leið sinni frá skutli til skutlara.  Þegar net er sett inn með bekkfellingu/pípufellingu liggur þinurinn gegnum jaðarmöskvana, og er annarhver möskvi hafður laus, en hinn með skutulbragði.  Einnig oft notað t.d. til að festa fangalínu/kollubandi á hnýfil báts og streng á staur.

Skutuljárn (n, hk)  Skutull; oddhvasst járn sem fest er framaná skutulstöng en þó oftast þannig að það losnar af og situr fast í bráðinni eftir að hún hefur verið skutluð; tengt skutlara með taug/skutulbandi.  Deilur Einars gamla í Kollsvík og Benedikts Gabríels hvalskutlara og galdramanns í Arnarfirði, hófust vegna þess að Benedikt átti skutuljárn í hval sem Einar eignaði sér, og var svikinn um réttmætan hlut.

Skutull (n, kk)  Kastvopn til veiða á sel eða hval.  Skutull er í tvennu lagi, og er skutuljárninu oftast fest lauslega framaná skutulstöngina áður en skutlað er.  Sjá skutuljárn.

Skutulrá / Skutulstöng (n, kvk)  Selará; kastrá; stöng/handfang sem skutuljárni er fest á þegar skutlað er, oft með skutilbragði/hestahnút og þannig að hún losnar frá járninu þegar það situr fast í bráðinni.

Skutulveiðar (n, kvk)  Veiðar hvala eða sela með skutli.  Skutulveiðar hvals voru allmikið stundaðar þar sem hvalir komu reglulega, t.d. á Arnarfirði.  Voru þar hvalkóparnir veiddir en ekki mæðurnar.  Þær veiðar lögðust af kringum 1875.

Skutur (n, kk)  A.  Afturendi á báti.  B.  Aftasta rúmið í báti; skutrúm; formannsrúm.

Skutþófta (n, kvk)  Formannsþófta.  Aftasta þóftan í báti.  Stundum var í hennar stað laus fjöl.  „Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað.  Svo settist hann á skutþóftuna og hafði sveifina undir hendinni, meðan hann náði í tóbakstölu úr vasa sínum“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Skúffa (n, kvk)  A.  Skúffa í húsgagni.  B.  Skúffukjaftur;  vansköpun/andlitseinkenni þegar neðri kjálki stendur óvanalega langt framunan þeim efri:  „Það er tæpt að þetta lamb geti lifað; með svona ferlega skúffu“.

Skúffa (s)  Valda vonbrigðum.  „Ætli ég hafi ekki eitthvað skúffað hana með þessu“?  „Ég er dálítið skúffaður“.  Sennilega ekki gamalt tökuorð.

Skúffaður (l)  Móðgaður; vonsvikinn.  „Hann var dálítið skúffaður yfir þessum málalokum“.  Dönskusletta.

Skúffelsi (n, hk)  Vonbrigði.  „Það var heilmikið skúffelsi að komast ekki í þessa ferð“.  „Auðvitað er það árans skúffelsi að róa alla þessa leið fyrir sáralítinn afla; en það verður að taka því eins og öðru hundsbiti“.

Skúffukjaftur (n, kk)  A.  Skúffa; vansköpun/útlitseinkenni þegar neðri kjálki stendur langt framundan þann efri.  „Ferlegur skúffukjaftur er á lambinu“.  B.  Uppnefni á manni með skúffukjaft.

Skúfmagi (n, kk)  Magatota/botnlangi í fiski; fiskmagi ásamt magatotum hans.  Skúfmagi var það heiti sem mér (VÖ) var kennt í Kollsvík, en í fiskabók Bjarna Sæmundssonar er notað heitið skúflangar.  „Á takmörkunum milli maga og garna eru oft einn eða fleiri botnlangar; skúflangarnir (appendices pylorici)“  (BS; Fiskarnir).

Skúfur (n, kk) A.  Dúskur af einhverju tagi, s.s. skúfur í húfu.  B.  Gróður sem vex í topp; grasskúfur.  C.  Innyfli fisks; ræksni.  D.  Skúfmagi.

Skúfþang (n, hk)  Skúfaþang; Fucus disthicus.  Blaðlaga brúnþörungur með kvíslgreindum sléttum blöðum og fremur ógreinilegri miðtaug.  Getur verið all breytilegt í útliti.  Oft um 30-90cm langt með 1-2cm breiðum sléttum blöðkum.  Á greinunum eru oft ílangir loftfylltir belgir.  Algengt á fjörum um allt land, m.a. í Kollsvík.  Á stórum flæðum þornar af því fremst á hleinum.  Oft eru á því ásætur; hvítir kalkríkir snúðormar.

Skúm (n, hk)  A.  Húsaskúm; ló/hnoðri af ryki, hárum, köngulóarvef og öðru sem safnast getur inni í húsum. Hefur líklega verið í kk fyrrum, sbr skúmaskot.  B.  Froða.  Dönkskusletta, sjaldan notað í þeirri merkingu.

Skúma (s)  Freyða.  Sjaldan notað.

Skúmaskot (n, hk)  Dimmur afkimi þar sem líkur eru á að óhreinindi/skúm safnist fyrir.  Oft notað um óræðan stað:  „Þetta leynist kannski einhversstaðar hjá mér í skúmaskotum“.  „Ég leitaði í hverju skúmaskoti“.

Skúmur (n, kk)  A.  Fugl af kjóaætt, sem ekki verpur í Kollsvík og sést þar sárasjaldan.  Verpur á söndum í A-Skaftafellssýslu.  B.  Niðrandi mannlíking: svikahrappur; viðsjárverður maður.  „Hann á það til að vera bölvaður skúmur í viðskiptum“.  Einnig kjöftugur maður, sbr. kjaftaskúmur/kjaftaglúmur.

Skúnkur (n, kk)  A.  Erlend þefdýrstegund.  B.  Niðrandi mannlíking; refur; útsmoginn/undirförull maður.  „Sá árans skúnkur er varasamur“.

Skúr (n, kk)  Smáhýsi; byrgi; skýli; skyggni.  Virðist í fyrstu einkum hafa verið notað um skyggni yfir dyrum, síðan um litla viðbyggingu við anddyri húsa (bíslag), og er nú algengt um smáhýsi.  Norðlendingar notuðu orðið í karlkyni yfir skammvinna rigningu, meðan aðrir landsmenn höfðu það í kvenkyni.  Norðlenski hátturinn hefur nú verið tekinn upp í opinberum veðurfréttaflutningi; sumum öðrum til nokkurs ama.

Skúr / Skúrahryðja (n, kvk)  Rigningarskúr.  Algengt orð, en ástæða er til að undirstrika að vestra var og er litið á það sem kvenkynsorð, þó áhrifafólk í öðrum landshlutum vinni nú ötullega við að karlgera það.  „Þær ganga ört yfir skúrirnar þessa stundina“.  „Bíddu meðan þessi skúrahryðja gengur yfir“.

Skúra (s)  A.  Þvo gólf.  B.  Um rigningarveður: ganga í skúrir; skúra sig

Skúra sig (orðtak)  Um veður; breytast úr samfelldri rigningu í skúraveður; skúrir með hléum á milli.  „Hann er eitthvað farinn að skúra sig, finnst mér“. 

Skúra útúr dyrum (orðtak)  Skúra/þvo/þrífa hús að öllu leyti.

Skúradembur / Skúrahryðjur (n, kvk, fto)  Miklar/drjúgar skúrir; skúrir með mjög þéttri rigningu. 

Skúradrög / Skúraleiðingar (n, kvk, fto)  Um það þegar regnskúrir sjást ganga yfir í fjarlægð frá áhorfandanum.  „Hann er með einhverjar skúraleiðingar fram með Hæðinni, en hangir þurr á hér ennþá“.

Skúralefsa (n, kvk)  Staðbundin rigningarskúr.  „Hann er að leiða einhverjar skúralefsur þarna norðurmeð Hæðinni“. 

Skúralegur (l)  Um veðurútlit; lítur út fyrir skúrir.  „Ansi finnst mér hann skúralegur hér frammi á víkinni“.

Skúraloft (n, hk)  Skúralegur; veðurlag sem bendir til þess að skúrir gætu fallið.

Skúraskil (n, hk, fto).  Uppstytta/uppihang milli skúra.  „Það eru nú farin að sjást einhver skúraskil í þessu“. Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum; annarsstaðar virðist þekkt „skúraskin“ í sömu merkingu.

Skúraskin (n, hk)  Sólskin milli skúra.  Einkum er slíkt áberandi í vestlægum áttum.

Skúraveður (n, hk)  Veðurlag þar sem gengur á með skúrum.

Skúrgarmur (n, kk)  Lélegur skúr; lélegt smáhýsi/byrgi.

Skúrksháttur (n, kk)  Illur/níðingslegur verknaður; illvirki; níðingsskapur; grófir hrekkir; undirferli; svik.  „Svona skúrksháttur má bara ekki líðast“!  „Þetta er bara skúrksháttur af verstu gerð“!

Skúrkur (n, kk)  Niðrandi mannlíking; þrjótur; hrappur.

Skúta (n, kvk)  A.  Allstórt hafskip, knúið seglum.  Heitið mun upphaflega stafa af því að í stórum skipum var uppreist þilja/skýli eða „skúti“ til að skýla fólki og farmi, en önnur kenning er sú að það sé dregið af lagi stefnisins.  Getið er um skútur á fyrstu öldum byggðar, en sjaldnar eftir að skreiðarsala hófst að mun.  Hafa þær líklega verið á við tólfaæringa að stærð.  B.  Seglskip af ýmsum tegundum sem notuð var til veiða hérlendis á svonefndri skútuöld (ca 1800-1900).  Fyrstu skúturnar voru einmastra slúppur, en af þeirri gerð var skútan Delphin sem Einar í Kollsvík átti hlut í.  Slúppan er með láréttu buspjóti (spruði); fremur reistu stefni og nettum skut.  Skonnortur voru tví- eða þrímastra, en af þeirri gerð voru mörg hákarlaskip og einnig lúðuveiðarar Ameríkana sem hér voru algengir um tíma.  Galíasar voru skrokkmeiri og því burðarmeiri.  Kútterar voru algengasta gerð skúta á skútuöld.  Einkenni þeirra var reist og beint framstefni.

Skúti (n, kk)  Lítill hellir; stór grunn hola; skvompa.  „Smérhellirinn er nokkuð stór skúti yst í Undirhlíð í Hnífum, en undir Smérhelli er annar minni skúti í Smérhellissvelti“.

Skútueigandi / Skútuútgerð (n, kk/kvk)  Segja má að upphaf þilskipaútgerðar á Íslandi megi að nokkru leiti rekja til Kollsvíkur.  Þar bjó einn af fyrstu skútueigendum landsins; Einar Jónsson, bóndi, hreppstjóri og ættfaðir Kollsvíkurættar.  Stuttu eftir aldamótin 1800 fjármagnaði hann kaup á fyrstu skútu Vestfirðinga; slúppunni Delphin, sem var um 35 tonn, og gerði hana út í félagi við frænda sinn; Guðmund Scheving sýslumann í Haga og síðar útgerðarfrömuð í Flatey.  Einnig var hann um tíma í samstarfi við Thomsen; síðasta einokunarkaupmann Vatneyrar, um þessa útgerð.  Delphin fórst árið 1813, og með henni Guðmundur Ingimundarson skipstjóri, sá sem upphaflega keypti skútuna og kom með hana til landsins.  Ríkidæmi Einars beið við það hnekki, en þó ekki hrun.  Guðmundur Scheving hélt áfram mikilli skútuútgerð í Flatey og var einn af mestu frumkvöðlum þilskipaútgerðar á Íslandi.  Fjármögnun Kollsvíkurbóndans var því mikilvægur þáttur í hinni samfelldu útgerðarsögu þilskipa og síðar togara, sem síðan hefur verið meginstoð efnahags Íslendinga.  Delphin var líklega gerð út jöfnum höndum til hákarlaveiða og handfæra.  Guðmundur varð fyrstur útgerðarmanna á Vesturlandi til að taka upp hlutaskipti á skipum sínum, og má jafnvel ætla að þannig kjör hafi verið á Delphin.  Taldi hann það eina ástæðu þess að sín skip fiskuðu betur en önnur.  Skipverjar á Delphin voru líklega alltaf sex, og sá fjöldi fórst með skipinu árið 1813. Hlutaskipti við þorskveiðar voru þau að háseti fékk ¼ af afla sínum og yfirmenn fengu sérstaka þóknun, en útgerðin lagði til fæði og veiðarfæri.  Við hákarlaveiðar var skipverja greidd viss upphæð á lifrartunnuna.  

Skútyrðast (s)  Skammast; skattyrðast; skiptast á ónotum; rífast.  Fremur var talað um að skattyrðast.

Skútyrði (n, hk)  Last; níð; skammir.  Orðið er lítið notað á síðari tímum.

Skvaldra (s)  Masa; tuldra; blaðra.  „Á fundum saumaklúbbsins var mikið skvaldrað og skvaldrið á þessum klúbbfundum gat orðið býsna hávært ef mikið var að gerast í sveitaslúðrinu“. 

Skvaldur / Skvaldurskliður (n, hk)  Kliður;mas; rabb; blaður.  „Hættið nú þessu skvaldri strákar og farið að sofa“!  „Upphófst nú mikið skvaldur og voru uppi deildar meiningar um ágreiningsefnið“  (PG; Veðmálið). 

Skvaldursamur (l)  Gefinn fyrir að skvaldra/masa/blaðra. 

Skvamp (n, hk)  Skvetthljóð; hljóð þegar eitthvað fellur í vatn/sjó.  „Ekkert heyrðist nema skvampið í árunum“.

Skvampa (s)  Skvetta; sulla; þvo.  „Mikið væri óskandi að hann gæti hætt að skvampa vona mikið í víni“.

Skvampa af sér (höndunum)  (orðtök)  Þvo sér; þvo sér um hendurnar.  „Þú borðar ekki með svona skítugar hendur drengur; farðu nú og skvampaðu aðeins af þér“!

Skvap (n, hk)  Efni sem er laust/froðukennt/fitukennt; fita.  „Óttalegt skvap er að safnast framaná mann“!

Skvapholda (l)  Feitlaginn; fituhlunkur.  „Það er furða hvað hann kemst í klettum; svona skvapholda maður“.

Skvera sig (orðtak)  A.  Um troll togara; opnast í sjó fyrir veiðar.  Enskusletta tilkomin á togaraöld.  Líkingamál; þrífa sig; gera sig fínan.

Skvetta (n, kvk)  Skúr; ágjöf.  „Það er kvöld; orðið lágskýjað, og hráslagalegur vindur slítur úr þeim skvettur og slengir framan í þann sem í heimsku sinni ætlar að gá til veðurs úti á hlaði“  (ÞB; Lesbók Þjóðv.)

Skvetta (s)  Gusa; sletta; hella; ausa.  „Skvettu fisksoðinu úr pottinum hérna út á Flötina“.

Skvetta í sig (orðtak)  Drekka heldur mikið af áfengi.

Skvetta sér upp / Skvetta úr klaufunum (orðtök)  A.  Um kýr sem kemur úr fjósi eftir innistöðu yfir vetur; stökkva um og slá upp afturendanum af kæti.  B.  Líkingamál um það þegar manneskja skemmtir sér.

Skvetta úr koppnum (orðtak)  Hella hlandi úr næturgagni/kopp eftir nóttina. 

Skvetta úr sér (orðtak)  Um veðurfar; rigna dálítið; gera skúrir.  „Ég er hræddur um að hann gæti skvett eitthvað úr sér með aðfallinu“.

Skvettlisti (n, kk)  Listi eftir síðu báts; ofarlega að utanverðu, til að brjóta báru sem leitar upp með kinnungnum og varna því að hún skvettist inn í bátinn.  Virðist annarsstaðar verið með i; „skvettilisti“, en var einatt án þess í Kollsvík; a.m.k. í seinni tíð.

Skvetta í (orðtak)  Um sjómennsku; gefa á.  „Við fengum væna báru og það skvetti drjúgt í“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). 

Skvetta í sig (orðtak)  Drekka áfengi í óhófi.  „Þetta var viðkunnanlegur náungi en skvetti dálítið í sig stundum“.

Skvettingur / Skvettugangur (n, kvk)  Ágjöf; skvettur; sjógangur.  „Við leggjum að innantil við hleinina; það er árans skvettingur utanvið hana“.„Farðu í hlífar; það getur orðið skvettugangur í röstinni“.

Skvísa (n, kvk)  Gæluheiti á ungri aðlaðandi konu.  Síðari tíma sletta, byggð á ensku; „squeeze“.  „Sá varð nú heldur byrstur og sagði: „Fussum fei;/ ég fer víst ekki að leika mér við skvísu./  Það kemur ei til mála; nei og aftur nei;/ ég var nefnilega að horfa á hana Dísu“!“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Skvompa (n, kvk)  Hola; lítill hellir/vik.  „Ofan við Bæjarvöllinn er dálítil skvompa með nokkrum eggjum“.

Skyggður (l)  A.  Gerður dökkur/dimmur.  B.  Um egg; búið að skyggna

Skyggja (s)  Verða skuggsýnt; dimma.  „Drífum í þessu áður en fer að skyggja“.

Skyggja að (orðtak)  Dimma; sortna.  „Við komum heim um það bil sem farið var að skyggja að“.

Skyggja á (orðtak)  Varpa skugga á; vera fyrir sjónlínu/birtu.

Skyggja í álinn (orðtak)  Sortna í álinn (sjá þar).

Skyggn (l)  Með dulræna hæfileika; sér annars heimsverur sem öðrum eru huldar. 

Skyggna (n, kvk)  Auga; sjón.  „Hann sagði fátt, en hvessti á mig skyggnurnar“.

Skyggna / Skyggnast (s)  Skima; litast um; gá.  „Ætli við förum ekki að skyggnast í nestið bráðum“.

Skyggna egg (orðtak)  Bregða eggi upp að sterku ljósi eða mikilli birtu til að sjá hvort það er nýtt eða ungað.  Í geymslu var haldið aðskildum stropuðum eggjum og skyggndum.

Skyggna hönd fyrir augu (orðtak)  Bera flata lárétta hönd yfir augu þegar horft er undir sól, til að varpa skugga á augun og útiloka sólarljós frá því að blinda/ trufla sýn.

Skyggnast eftir (orðtak)  Gá að/til; leita að.  „...en hann hafði verið fenginn til þess að fara út á Látrabjarg og skyggnast eftir því hvort hann yrði nokkurs vísari um afdrif þeirra félaga... “  (ÖG; Þokuróður). 

Skyggnast til veðurs / Gá til veðurs (orðtök)  Líta til lofts og huga að veðurútliti.  Til skamms tím, eða frá öndverðu og fram á daga útvarpsfrétta, hefur mannskepnan þurft að skyggnast til veðurs, enda háð því um allt sitt líf og starf.  Með mönnum þróaðist hæfileikinn til að spá í það og segja fyrir um horfur til skamms tíma.  Sú kunnátta er að miklu leyti horfin meðal almennings í dag.

Skyggni (n, hk)  A.  Birta; það að sjá kringum sig; útsýni.  „Gerði þá kafaldsbyl svo skyggni var nánast ekkert“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  B.  Der á húfu; spjald til að verjas sól í framglugga bíls.

Skyggnigáfa (n, kvk)  Hæfileikinn að vera skyggn; geta til að sjá það sem öðrum er hulið af t.d. verum annars heims eða óorðnum atburðum.  Skyggnir menn flíka vanalega ekki sérgáfu sinni við aðra; enda geta þeir þá misst hana.

Skyggnishúfa (n, kvk)  Derhúfa; sixpensari; húfupottlok með skyggni að framan.

Skylda (n, kvk)  A.  Kvöð; það sem ber að gera.  „Mér fannst það vera skylda mín að koma fénu alla leið heim“.  „Honum ber skylda til að greiða þetta“.  B.  Skyldleiki; ættartengsl.  „Manni rennur blóðið til skyldunnar“.

Skylda til (orðtak)  Gera skuldbundinn/skyldugan til; skipa að gera.  „Lögin skylda bændur til að smala sínu fé að hausti“.  „Skoðunarmaður hugðist leita réttar síns, en sá það ekki fært vegna galla laganna; sem ekki skylda fjáreigendur að framvísa fé sínu til skoðunarmanns“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938). 

Skyldfólk (n, hk)  Frændfólk; ættingjar.

Skyldi engan undra (orðtak)  Ekki furða; kemur ekki á óvart.  „Það skyldi engan undra ef hann ætti eftir að lenda í einhverjum hrakningum, eins og hann er fífldjarfur í sjósókninni“.

Skyldleikaræktun (n, kvk)  Ræktun búfjár eða annarra skepna, þannig að mikil ættartengsl verði innbyrðis og skyldir einstaklingar eigi afkvæmi saman.  Yfirleitt er mikil skyldleikaræktun talin óæskileg vegna hættu á erfðagöllum og úrkynjun, en þó má með henni kalla fljótt fram einstaka eiginleika.  Var vestra með „un“ í enda, sem ekki mun hafa tíðkast annarsstaðar þó orðið sé annars algengt.

Skyldleiki (n, kk)  Ættartengsl; skyldsemi; skyldugleiki.  Er á seinni tímum notað einnig um önnur tengsl.

Skyldmenni (n, hk)  Ættingi; frændi.

Skyldugur/skyldur til (orðtak)  Skuldbundinn/skyldur til; ber skylda til.  „Vegagerðin er skyldug til að halda vegunum færum, eins og fremst er kostur“.

Skyldunám (n, hk)  Nám sem einstaklingi ber að stunda.  Á síðari öldum hefur börnum verið skylt að stunda skyldunám á unga aldri, til almenns þekkingarauka eða/og undirbúnings sérhæfðara námi.

Skyldur (l)  A.  Ættaður; með ættartengsl/ í ætt við.  „Margt er líkt með skyldum“.  „Skylt er skeggið hökunni“.  B.  Skuldbundinn; skyldugur.

Skyldurækinn (l)  Rækir/uppfyllir vel sínar skyldur/kvaðir. 

Skyldurækni (n, kvk)  Hollusta við réttarfar/trú/skyldu.  „Hann kýs svona af skyldurækni við flokkinn“.

Skylduverk / Skylduvinna (n, hk)  Verk/vinna sem skylt er að inna af hendi.  „Þá var eitt skylduverkið að keyra fiskslorið í kerru úr Verinu og heim að Láganúpi“  (IG; Æskuminningar). 

Skylmast (s)  Berjast/ eigast við með sverðum eða öðrum vopnum.  Oft notað í óeiginlegri merkingu nú á dögum, t.d. um það að deila/kýta eða kveðast á.

Skylmingar (n, kvk, fto)  Viðureign; bardagi.  Oft í óeiginlegri merkingu nú til dags.

Skylt er skeggið hökunni (og náið er nefið augunum) / Skylt er með skeggi og höku  (orðtök)  Oftast notað um mikil ættartengsl, en einnig um annan skyldleika sem menn þykjast sjá, t.d. á málefnum.

Skylt með skít og kúk (orðtak)  Ábending um að tveir slæmir hlutir/aðilar séu kannski nærri jafnslæmir.  „Ekki veit ég hvorn flokkinn maður ætti frekar að kjósa; mér finnst dálítið skylt með skít og kúk“.

Skyn (n, hk)  Skynjun; þekking; tilfinning; skilningur.  Sbr þefskyn.  Sjá í því skyni; í gustukaskyni/guðsþakkarskyni og bera skyn/skynbragð á.

Skynbragð (n, hk)  Skyn; skilningur; vit.  Oftast í orðtakinu; bera skynbragð á.

Skynbær (l)  Hefur þekkingu á; ber skynbragð á.  „Ég er ekki mjög skynbær á svonalagað“

Skyndi / Skynding (n, hk/kvk)  Flýtir; hast; fljótheit; hraði.  „Ég greip gogginn í skyndi og náði að setja í lúðuna um leið og hún sleit sig af“.

Skyndiferð (n, kvk)  Ferð sem farin er í skyndi; ferðalag sem varir stuttan tíma.

Skyndiheimsókn (n, kvk)  Heimsókn án fyrirvara; heimsókn sem varir stuttan tíma.

Skyndilega (ao)  Snöggt; allt í einu; fyrirvaralaust.  „Skyndilega kom högg á bátinn“.

Skyndilegur (l)  Snöggur; fyrirvaralaus.  „Skyndileg rigning setti strik í reikningin“.

Skynding (n, kvk)  Flýtir; hraði.  Sjá; í skyndingu.

Skyndipróf (n, hk)  Próf í skóla sem lagt er fyrirvaralítið fyrir nemanda til að kanna færni/þekkingu.

Skynfæri (n, hk)  Næmt líffæri lífveru, sem nemur tilteknar aðstæður.  T.d. snertinæmar frumur í húð; lyktarfrumur í nefi; bragðfrumur í tungu o.s.frv.

Skyni skroppinn (orðtak)  Heimskur; vitlaus.  „Maður er nú ekki svo skyni skroppinn að trúa öllu“!

Skynja (s)  Finna; verða var við; öðlast skilning á.  „Ég skynjaði að ekki var allt með felldu“.

Skynsamlega (ao)  Af skynsemi/viti/rökhyggju.  „Mér fannst þetta nokkuð skynsamlega ályktað“.

Skynsamlega mælt (orðtak)  Skarplega athugað.  „Þetta var skynsamlega mælt og þörf ábending“.

Skynsamlegheita (ao)  Gáfulegur; með yfirbragð skynsemi.  „Mér fannst þetta bara skynsamlegheita náungi“.

Skynsamlegur (l)  Rökrænn; vitlegur; gáfulegur.  „Mér finnst þetta skynsamleg niðurstaða í málinu“.

Skynsamur (l)  Gáfaður; vitur; rökvís.  „Ég átti ekki von á þessu; af jafn skynsömum manni og hann er“.

Skynsemdarmaður / Skynsemdarskepna (n, kk/kvk)  Sá/sú sem er skynsöm/veit sínu viti.

Skynsemdarskortur /Skynsemisskortur  (n, kk)  Heimska; yfirsjón; greindarskortur.  „Það er nú bara hreinn skynsemdarskortur að setja ekki útsæðið tímanlega í spírun“.

Skynsemi (n, kvk)  Vit; greind; gáfur.  „Hér þurfum við að beita skynseminni“.

Skynsemistrú (n, kvk)  Efnishyggja/rökhyggja í trúmálum; (rationalismi).  Skynsemistrú reis hratt til vegs með aukinni vísindaþekkingu og almennri skólagöngu, og hefur nú nánast alveg tekið við af bókstafstrú fyrri alda í kristnum heimi.  Ekki er þar með sagt að almennt ríki trúleysi, enda er trúin samgróin mannlegri hugsun; heldur trúa menn ekki lengur almennt ýmsum skýringum biblíunnar á efnislegum fyrirbærum, t.d. um sköpun heimsins og upprisu dauðra.  Einnig stendur nútímamönnum lítil ógn af  Helvíti og Satan, sem prelátar fyrri tíma notuðu miskunnarlaust til ögunar.  Þá hefur veraldleg réttarregla tekið við af kirkjurétti og veraldlegt vald af kirkjuvaldi.  Flestum mun það þó eiginlegt; einkum þegar á bjátar, að trúa á Guð í einhverri mynd.

Skynsemisvottur (n, kk)  Lítilsháttar skynsemi; tákn um skynsemi; vitglóra.  „Hann er kannski mistækur, en mér þótti þetta framtak vera skynsemisvottur“.

Skynugur (l)  Vitur; skynsamur; greindur; næmur.  „Tíkarvikindið hún Pollý var ótrúlega skynug skepna.  Hún gaut eitt sinn í holu sem hún hafði gert sér úti í Gili til að forða hvolpunum frá vísum dauða. Hún hafði líka vit á að geyma hvolpana í holunni þangað til þeir voru farnir að stálpast, enda fékk einn þeirra að lifa“.

Skynvilla (n, kvk)  Röng skynjun á umhverfinu vegna þess annaðhvort að skynfæri greina rangt eða heili les boðin rangt.  Dæmi um skynvillur eru ofsjónir; missýning; misheyrn o.fl.

Skyr (n, hk)  Mjólkurafurð sem unnin er úr undanrennu; ferskur súrostur.  Þekking á skyrgerð fluttist hingað með landnámsmönnum og hélst við hérlendis þó hún týndist að mestu erlendis.  Til að búa til skyr er mjólkin fyrst skilin; þ.e. undanrenna skilin frá rjóma.  Undanrennan er síðan hituð uppundir suðumark og með því gerilsneydd; en síðan kæld niðurundir líkamshita.  Þá er þétti/skyrþétti bætt útí, en hann getur t.d. verið skyr úr fyrri framleiðslu sem inniheldur sýrumyndandi bakteríur og gersveppi.  Ostahleypi/skyrhleypi er oft bætt útí til að gera skyrið þéttara, en hann var fyrrum fenginn úr kálfsmaga.  Næst er skyrið látið standa og hlaupa, þ.e. gerjast og þykkna, sem tekur fáeinar klukkustundir.  Síðan er það kælt; skorið í það og það látið standa í skyrsíu meðan mysan rennur af því.  Skyrmysa er hollur drykkur sem fyrrum var safnað saman í sýrutunnu og síðan höfð meðferðis í ferðalög og róðra, gjarnan blönduð vatni og nefndist þá blanda eða drukkur.
Skyrgerðin gat lánast misjafnlega.  Ef skyrið var gófgert og kornótt var það nefnt graðhestaskyr.  Skyr sem var ósíað var bragðverra og nefnt ólekja.  Mjög þunnt skyr nefnist skyrlap.  Fyrir daga nútíma geymsluaðferða var skyri safnað saman yfir sumarið og það látið súrna í stórum sáum.  Nefndist slíkt skyrsafn.
Skyr var oft borðað sem eftirmatur á eftir heitum rétti, t.d. saltfiski, en einnig sem uppistöðufæða.  Fyrir neyslu var það oft bragðbætt með því að hræra samanvið það dálitlum sykri, og þynnt hæfilega með mjólk; en einnig var mjólk hellt útá eftir að á diskinn var komið.  Oft var skyr hrært samanvið hafragraut og nefndist þá skyrhræringur eða hræringur.  Gott þótti að setja rjóma eða bláber útá skyr, sjá berjaskyr.
Á síðustu árum hefur skyr verið selt í búðum með ýmsum bragðtegundum og í neysluskömmtum, auk þess sem það er nú orðin mikilvæg útflutningsafurð sem nýtur ört vaxandi vinsælda erlendis.

Skyrbjúgur (n, kk)  Hörgulsjúkdómur sem stafar af skorti á C-vítamíni.  Hann lýsir sér t.d. með mikilli tannholdsbólgu, tannlosi og síðar alvarlegri verkunum.  Orðið er líklega stofnskyld ensku; scurvy og samsvarandi norrænum orðum.  Skyrbjúgur þekktist ekki hjá fólki sem neytti grænmetis eða jurtafæðis.  Í klettum vestra vex mikið af skarfakáli, sem er mjög auðugt af C-vítamíni, og var það notað þar til matar.  Einna fyrstur hérlendis til að ráðleggja neyslu C-vítamínríkra jurta til lækningar á skyrbjúg var séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal.

Skyrdallur / Skyrkolla / Skyrskál (n, kk, kvk)  Skál sem skyr er hrært í, og iðulega borið fram í.

Skyrgámur (n, kk)  A.  Hefur líklega fyrrum verið heiti á stóru íláti með skyri/ skyrsá; skyrkeri.  B.  Heiti eins af jólasveinunum, en sá á að vera sérlega sólginn í skyr.

Skyrgerð (n, kvk)  Framleiðsla á skyri úr undanrennu.  Sjá skyr.

Skyrhákarl (n, kk)  Búkhákarl; býklykkja.  Kæstur hákarl af baki skepnunnar; oftast hvítleitur í skurðarsárið; mjúkur til átu og bragðsterkur ef verkun heppnast vel. 

Skyrhræringur (n, kk)  Hræringur; spónamatur, gerður með því að hræra saman skyri og hafragraut.  Oftast snætt með súrum blóðmör og mjólk.  Nokkuð algengur matur áður, en þekkist varla nú á dögum.

Skyrlap / Skyrlepja / Skyrsúpa / Skyrþynnka (n, hk)  Mjög þunnt skyr; skyr hrært mikilli mjólk, sem oft var haft sem eftirmatur heits réttar, s.s. saltfisks, meðan venja var að borða tvíréttað á hádegi.  „Skyrlapið er ári þunnt; en gott er það“.  „Áttu dálitla skyrsúpu fyrir mig“?

Skyrmislegt (l)  Um himnu/þynnu/fatnað; skænislegt; þunnt; brothætt.  „Ekki er ég hissa á að þessi plasthlíf brotnaði; mér fannst hún óttalega skyrmisleg“.  „Þú ferð ekki út í svona skyrmislegum klæðnaði“!  Skyrmi er stofnskylt orðinu skurmur/skurn, og skyrmi mun áður hafa verið notað í merkingunni skæni; t.d. um þunnan ís á vatni/polli.

Skyrmysa (n, kvk)  Mysa sem sígur af skyri við skyrgerð.  Sjá skyrsía og súr.

Skyrpa (n, kvk)  Hráki; munnvatn/slím sem hrækt/spýtt er úr munni.  Ekki lengur notað en lifir í málinu sem hluti fiskheitisins skollaskyrpu, sem er annað heiti á grásleppu.

Skyrpa (s)  Hrækja; spýta.  „Þeir stóðu í hrókasamræðum á réttarveggnum, en öðru hvoru litu þeir til hliðar og spýttu mórauðu“.

Skyrpa/spýta í lófana (orðtak)  Ganga rösklega til verks; herða sig.  „Við þurfum að skyrpa heldur betur í lófana ef þetta á að klárast fyrir hádegi“.

Skyrpingar (n, kvk, fto)  Sá kækur að vera sífellt að hrækja munnvatni. 

Skyrsár / Skyrker / Skyrkerald (n, kk/hk)  Stórt ílát; gjarnan stór tunna, sem notað er til söfnunar og geymslu á skyri.  Skyrsafn varð allmikið á stórum búum, og víða finnast för eftir skyrsái í fornum bæjarrústum.

Skyrsía / Skyrgrind (n, kvk)  Djúpt trog með rimlabotni; notað til að sía skyr.  „Þegar ég var að alast upp var alltaf gert skyr; síað í litla tunnu; skyrsía með rimlum í botninum; í hana var sett grisja og síað, og svo var mjólkurafgöngum og undanrennu hellt út í mysuna“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Skyrsleif (n, kvk)  Sleif/þvara sem notuð er til að hræra/matbúa skyr.  „Ég skal sleikja af skyrsleifinni“.

Skyrsleikja / Skyrsletta / Skyrspónn / Skyrögn (orðtak)  Lítið eitt af skyri.  „Ég myndi þiggja hjá þér dálitla skyrslettu á eftir“. „Gefðu mér dálitla skyrsleikju í viðbót“.  „Mikið væri nú gott að fá skyrslettu á eftir þessu“.

Skyrsveppur (n, kk)  Sjá gorkúla.

Skyrta / Skyrtutau (n, kvk)  Fat sem borið er bert eða undir peysu/yfirhöfn og hylur búk milli lenda og háls, og oftast handleggi framundir hendur.  Hlutar skyrtu eru skyrtubolur; skyrtuermar; skyrtukragi; skyrtulíningar; skyrtuhnappar og skyrtuvasi.  Léleg skyrta nefnist oft skyrtugopi; skyrturæfill; skyrtutila; skyrtutötur eða skyrtudrusla..  Fyrrum voru menn bæði í nærskyrtu af t.d. bómull og milliskyrtu af þolnara efni, en það mun óalgengara nú. 

Skyrugur (l)  Með leifar/lit af skyri kringum munninn.  „Þurrkaðu nú framan úr þér; þú ert dálítið skyrugur“.

Skyrþéttir (n, kk)  Hvati (ensím) sem fæst m.a. úr maga úngkálfa, og notaður er til að hleypa mjólkurvöru; t.d. skyr.  „Þegar ég var að alast upp var alltaf gert skyr; síað í litla tunnu; skyrsía með rimlum í botninum; í hana var sett grisja og síað....  Úr undanrennunni var yfirleitt gert skyr.  Ef þéttirinn dugði ekki milli þess sem hleypt var, fengu menn þétta hjá nágrönnunum“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Skyssa (n, kvk)  Mistök; afglöp.  „Þarna varð mér á veruleg skyssa“!

Skytta (n, kvk)  A.  Skotmaður; sá sem skýtur af byssu, boga eða öðru skotvopni.  B. Áhald sem notað er í vefstól til að þræða ívaf í vefnað þegar ofið er.  C.  Skytta eða „skytla“ er líklega gamalt orð yfir skot eða skáp.  Sjá skápur.

Skytteri (n, hk)  Veiðimennska með byssum.  „Það var lengi íþrótt að fara niður að Görðum á mávaskytterí þegar flaug vel með“.  „Menn lögðu mikið á sig í tófuskytteríi meðan verð á refaskinnum var hátt“.  „Það var íþrótt að skjóta svartbaksunga á flugi hér í víkinni.  Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í veðrið og flýgur lágt.  Og á haustinn þá sátu þeir hérna niður á gömlu grjótgörðunum þegar þannig viðraði og skutu ungann á fluginu.  Þetta þótti alveg herramannsmatur; ungarnir.  Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Ský (n, hk)  A.  Þétting vatnsgufu í lofti, þannig að smásæir dropar byrgi sýn en falli þó oft ekki sem regn.  Ský eru af margvíslegri gerð eftir hæð, hitafari, rakastigi, vindum og myndun.  Fyrri tíðar fólk var margt sérlega lagið að spá fyrir um veður með því að lesa úr skýjafari.  Þjóðtrúin segir að hrafninn miði oft við skýin þegar hann urðar bráð sína, og finni hana því oft ekki aftur.  Sama hótfyndni er stundum höfð um sjómenn sem tapa miðum.  B.  Hvítnun/ógagnsæi sem myndast getur á glæru auga og hindrar sýn.

Skýdróg / Skýlufsa (n, kvk)  Tætla/snifsi af skýi; lítið ský.  „Það er ekki skýdróg að sjá á himni“.  „Furðulegt er að fá þessa dropa úr heiðskýru lofti; þegar hvergi er skýlufsu að sjá“!

Skýfall (n, hk)  Mjög mikil og skyndileg rigning; hellidemba.  „Það gerði skýfall þegar við vorum að setja upp“.

Skýfar / Skýjafar (n, hk)  Útlit á himni; tegund skýja.  „Mér líst nú ekkert á þetta skýfar hér suðurá núna“.

Skýferð (n, kvk)  Far á skýjum;  um það þegar ský fjúka hratt undan háloftavindum.  „Það er mikil skýferð núna“.  Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var töluvert notað svæðinu.

Skýhnoðri (n, kk)  Lítið ský; vottur af skýi.  „Það sést hvergi skýhnoðri í þessari heiðríkju“.

Skýjabakki (n, kk)  Svartur bakki sem í Kollsvík sést einungis í vestri eða norðri, og er einungis nefndur „bakki“ eða bakki til hafsins.

Skýjaband / Skýjarák / Skýjaröst (n, hk/kvk)  Löng rák/runa/röst af skýjum. 

Skýjaborgir (n, kvk, fto)  Líkingamál um hugmyndir sem þykja óraunsæjar/glæfralegar/ heldur mikilfenglegar.  Orðið kann upphaflega að hafa merkt skýjaklakk/skúraklakk/skýjabólstur, en sú notkun er þá löngu horfin.

Skýjabólstur (n, kk)  Háreistur og mikilúðlegur skýjaklakkur; skýjahattur á háreistu fjalli. 

Skýjadreif (n, kvk)  Þunn/sundurslitin ský.  „Það er einhver skýjadreif í austri, en annars heiðskírt“.

Skýjað (l)  A.  Himinn hulinn skýjum.  B.  Móða á gleri eða ský á auga.

Skýjafar (n, hk)  A.  Staðsetning og útlit skýja á himni.  „Ekki líst mér á skýjafarið þessa stundina“.  B.  Áberandi rek skýja fyrir vindi um himininn.  „Kominn var norðanbelgingur og mikið skýjafar“.

Skýjafláki (n, kk)  Áberandi/stór skýjabreiða á himni.

Skýjaglópur (n, kk)  Niðrandi líking; sá sem starir upp í loftið.  „Stattu ekki bara þarna eins og skýjaglópur“!

Skýjahattur / Skýjakúfur (n, kk)  Lágský/þokublettur sem sest á eða rétt yfir háreista fjallsgnípu eða hátt fjall; staðbundið og án tengingar við önnur ský.  Gerist þetta við ákveðin veðurskilyrði og einatt áveðurs eða yfir fjallinu.

Skýjahula (n, kvk)  Þekja af skýjum á himni; oft þunn en nægileg til að draga úr sólskini.

Skýjaklakkur (n, kk)  Háreist ský; þrumuský; skúraklakkur. 

Skýjaklasi (n, kk)  Þyrping skýja á himni. 

Skýjakljúfur (n, kk)  Síðari tíma slanguryrði yfir mjög háreista byggingu.

Skýjakóf (n, hk)  Þétt ský; skýjahula; staðbundinn lágskýjabakki.  „Öðruhvoru móaði fyrir sól í gegnum skýjakófið“.  „Skýjakóf lá með Blakkbrúninni og kæfði uppá hana í golunni“.

Skýjaloft (n, hk)  Mikið um ský á himni; all skýjað.

Skýjarek (n, hk)  Rek af skýjum; skýjafar; áberandi hreyfing skýja undan vindi.

Skýjarof (n, hk)  Rof/gat í skýjahulu.  Yfirleitt einungis nefnt rof.

Skýjaruðningur (n, kk)  Skýjabakki; hrönn af skýjum, gjarnan í tiltekinni átt.

Skýjaskin (n, hk)  Nýyrði höfundar; endurvarp ljóss af skýi, svo sterkt að það er merkjanlegt á jörð og veldur skuggum.  Skýjaskin getur orðið í dimmviðri, þegar sól brýst í gegn og lýsir upp lágský, sem aftur varpar birtu á jörðina neðanundir.  Greinilegast er það kringum þéttbýli í skammdegismyrkri, þegar sterk birta berst uppí lágský sem varpa henni aftur niður, svo skuggar myndast á myrkvuðu nærsvæði.  Orðið varð til í huga VÖ að morgni aðfangadags 2016 í nágrenni Ásbrúar við Keflavík, þegar ratljóst varð og skuggamyndun vegna skýjaskins, þegar gengið var með hundinn í kyrru veðri og snjóföl á jörðu.

Skýjaslitra / Skýjatjása (n, kvk)  Vottur af skýi; tætt ský.  „Einhverjar skýjaslitrur er að sjá þarna í austrinu“.  „Það er bara alger heiðríkja; hvergis skýjatjásu að sjá“.

Skýjaslæða (n, kvk)  Skýjaslitra; skýjatjása; þunnt sundurslitið belti af skýjum.

Skýjatrefill (n, kk)  Skýjarönd í miðjum klettum hárra hamra.  „Oft myndast skýjatrefill í Blakknum“.

Skýjatætingur (n, kk)  Óreglulegt skýjafar; vindskafin ský; skýjatjásur.  „Ekki veit ég hvað á að ráða í þennan skýjatæting á austurloftinu“.

Skýla (n, kvk)  A.  Skjól.  B.  Fatnaður sem skýlir.  Nútildags nær eingöngu notað um sundskýlu.

Skýla (s)  Veita skjól/afdrep.  „Settu nestið inní lúkar til að skýla því fyrir ágjöf“.

Skýlaus (l)  Afdráttarlaus; hreinn.  „Það á að vera skýlaus krafa sjávarjarða að endurheimta sinn veiðirétt“.

Skýli (n, hk)  Afdrep; byrgi; hjallur; hvaðeina sem veitir skjól. 

Skýlt (l)  Skjólagott; skjólótt; mikið skjól.  „Hlíðarhvammur er fornt býli; þar eru greinilegar bæjarrústir.  Þar er mjög skýlt“  (SE; Örn.skrá Stakkadals).

Skýluklútur (n, kk)  Klútur/klæði sem skýlir annaðhvort hári/höfði (skupla/slæða) eða lendasvæði (lendaskýla).

Skýr (l)  A.  Greinilegur, ljós.  „Hann gerði skýra grein fyrir sinni afstöðu“.  Ypsilonið í orðinu er breyting sem varð fyrr á öldum, og virðist ekki styðjast við nein rök.  Í raun er um sama orð að ræða og „skír“, sem er dregið af „skær“ (sjá skír).  B.  Greindur; glöggur.  „Þú ert skýr; að átta þig svona fljótt á þessu“!

Skýra (s)  Útskýra; gera ljóst/greinilegt.  „Það er erfitt að skýra svona hluti“.

Skýra frá (orðtak)  Segja frá.

Skýra út (orðtak)  Útskýra; gera ljóst/greinilegt.

Skýrlega (ao)  Greinilega; skýrt.  „Ég lét hann vita skýrlega af minni afstöðu“.

Skýrlegur (l)  Greindarlegur; skynsamlegur; skýr.  „Mér fannst þetta nokkuð skýrlegur náungi“.

Skýrleiksbarn/ -náungi /-piltur /-stúlka (n, kk)  Um greinda/skynsama manneskju.

Skýrmæltur / Skýrorður (l)  Talar skýrt og greinilega.

Skýrt og skilmerkilega (orðtak)  Mjög greinilega; án vafa.  „Hún tilgreindi sín skilyrði, skýrt og skilmerkilega“.

Skýst (mörgum) þó skýr sé (orðatiltæki)  Mörgum skjátlast/yfirsést (skýst) þó gáfaðir séu.  Allmikið notað viðkvæði þegar maður geriðr óvænt mistök.

Skýstrokkur (n, kk)  Hvirfilbylur (e: tornado).  Ekki er óalgengt að iðuköst í líkingu við skýstrokka myndist hlémegin við fjöll í hvössum vindi, en ekkert í líkingu við þá sem myndast af mishitnun yfir meginlöndum.  Má t.d. iðulega sjá stróka á sjónum sunnan Blakks í hvassri norðanátt. 
Árið 1856 dundu mannskæðar náttúruhamfarir yfir bæjarhúsin í Kollsvík, sem um langan aldur voru helst taldar stafa af skýstrokk.  Má enn sjá þá ályktun í handbókum fyrir ferðafólk.  Hinsvegar er langsamlega líklegast að hér hafi verið um snjóflóð úr Núpnum að ræða; enda kom samskonar flóð á sama stað laust fyrir aldamótin 2000.

Skýtjása / Skýtutla (n, kvk)  Lítið ský; skýhnoðri.  „Það sést varla skýtjása á himni“.

Skæddur (l)  Skóaður.  „Ertu nægilega vel skæddur til að ganga innyfir Tunguheiði“?

Skæðadrífa (n, kvk)  Dreif; það sem dreifst hefur víða.  „Brakið úr kirkjunni var eins og skæðadrífa um allt“.

Skæðagrös (n, hk, fto)  Mjög stór fjallagrös.  „Stundum má finna skæðagrös uppundir Kóngshæð“.

Skæðar tungur (orðtak)  Rógberar; slúðurskjóður; sveitaslúðrið.  „Skæðar tungur segja að hjónaband þeirra standi fremur tæpt“.

Skæðaskinn (n, hk)  Skinn/gæra sem nýtt er til að búa til skinnskó.  Sjá gæra.

Skæðatollur (n, kk)  Gjald sem greitt var áður frá bænhúsum og hálfkirkjum til presta (eða prestsetra) vegna skóslits presta við að halda uppi reglubundinni messu.  „Hænuvík taldist að fornu til Saurbæjarsóknar, eins og allir bæir við Patreksfjörð. Kirkjuvegur hefur því verið langur og illur, svo að telja verður eðlilegt, að hér risi guðshús í einhverri mynd, enda mun svo hafa verið. Þannig kvittar Jón prestur Erlingsson hinn 4. október 1523 fyrir skæðatoll, sem goldist hefur og gjaldast á til Saurbæjarkirkju, en í máldögum hennar er þess getið, að hún eigi skæðatoll af hverju bænhúsi (sbr. um Saurbæ hér að framan)“ (Lýður B. Björnsson; Guðshús í Barðastrandasýslu“).

Skæði (n, hk, fto)  Efni í skó.  Notað jafnt um skinn sem roð (sjá roðskór).

Skæður (l)  Skaðlegur; illur; eyðandi.  „Svartidauði var skæður sjúkdómur sem lagði fjölda fólks að velli“.

Skæður með (orðtak)  Hættir til; hefur tilhneygingu til.  „Íslensku hænurnar voru mun skæðari mað að vilja liggja á...“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Skækill (n, kk)  A.  Ystu separ á gæru:  „Það þarf að salta vel í skæklana“.  B.  Lítill blettur/svæði.  „Það tekur því nú varla að slá þennan smáskækil“.

Skæklóttur (l)  Með mörgum totum/skönkum/skæklum; sundurskorinn; vogskorinn. 

Skæla (s) A.  Vola; gráta.   B.  Gretta.  „Vertu ekki að skæla þig framan í barnið; það gæti farið að skæla“.  C.  Aflaga; skekkja.  „Vertu nú ekki að skæla niður stígvélin þín“!

Skælast (s)  Þvælast; skakklappast.  „Einhvernvegin skældist hann yfir Hálsinn í ófærðinni á Trabbanum“.

Skælbrosa (s)  Brosa breitt.

Skældur (l)  Skekktur; aflagaður.  Oftast í orðtakinu skakkur og skældur.

Skælingur (n, kk)  Þvælingur; erfið ferð.  „Við komumst yfir hálsinn, en þetta er óttalegur skælingur eins og færðin er núna“.  „Það var bara bölvaður skælingur í röstinni; vindur á móti fallinu“. 

Skæna (s)  Mynda húð/klaka/þynnu.  „Aðeins hefur skænt á pollum í nótt“.

Skæni (n, hk)  Þunnur ís.  „Það er skæni á pollum eftir næturfrostið“.  „Þessar veggþiljur eru óttalegt skæni“

Skænislegur (l)  Þunnur; lélegur; lítilfjörlegur. „Skelfing finnst mér þetta skænislegur fatnaður sem þú ert í“!

Skænisþunnur (l)  Mjög þunnur.  „Mér líst ekkert á þennan bát.  Byrðingurinn er svo skænisþunnur að maður þorir varla að stíga um borð“.

Skær (l)  A.  Mjög bjartur/ljós/skír.  B.  Sem unnt er að skera.  Sbr tví-, þrí- eða fjórskær fiskur; þ.e. fiskur sem hagkvæmt er að þverskera í þrjá, fjóra eða fimm bita.

Skærur (n, kvk, fto)  Erjur; illdeilur; skammvinnir bardagar.  „Einhverjar skærur hafa verið með þeim“.

Skætingslegur (l)  Um veður; ljótur útlits.  Um mann: hryssingslegur.  „Skelfing finnst mér hann skætingslegur til loftsins.  Mér kæmi ekki á óvart þó hann kæmi með einhvern skít seinnipartinn“. 

Skætingur (n, kk)  Skammir; slæm veður.  „Hreyttu þeir þar skætingi hvor í annan“.  „Það er einhver vestan skætingur í honum núna“.

Sköddun (n, kvk)  Skaði; meiðsli; skemmd. 

Sköflungur (n, kk)  Neðri hluti fótar, þ.e. milli hnés og ökkla.  Í Sköflungnum eru sköflungsbein og dálkbein.

Sköfujárn (n, hk)  Járn sem notað er til að skafa; skafa; siklingur.  Fyrir daga hefla var viður sléttaður með öxi, lokar og sköfujárni.  Nú er skafa einkum notuð til að hreinsa málningu af yfirborði.

Skögultenntur (l)  Með skakkar tennur.  „Ég hef aldrei séð svona skögultennta manneskju fyrr“.

Skömm (n, kvk)  A.  Það sem er skammarlegt/niðurlægjandi.  B.  Bilun; veikindi. „Það er einhver skömm búin að vera í mér í nokkra daga“.   „Einhver skömm var þó í vélinni (í bátnum)... „  (ÁE; Ljós við Látraröst).  C.  Gæluorð um barn/mann/skepnu.  „Þetta var nú alveg óvart hjá þér, skömmin mín“.

Skömm er að (orðtak)  Til skammar; leiðinlegt.  „Skömm er að sjá hvernig þú ferð með fötin þín“.

Skömminni (til) skárri/skárstur (orðtak)  Örlítið/dálítið betri; ögn skárri; bestur af ýmsum miður góðum.  „Ekki er ég orðinn góður af þessum hóstafjanda ennþá, þó ég sé skömminni skárri en í gær“.

Skömmóttur (l)  Skammast mikið; hvatvís.  „Það er ekkert til bóta að vera svona skömmóttur“.

Skömmtunarstarf (n, hk)  Vinna við skömmtun.  Einkum notað á tímum innflutningshafta og skömmtunar á varningi, um starf þeirra sem fengust við þá umsýslu.  Kemur iðulega fyrir í bókum Rauðasandshrepps; t.d. greiddi hreppurinn kr. 100 fyrir starfið árið 1960.

Skömmu eftir / Skömmu síðar (orðtak)  Stuttu á eftir; stuttu seinna.  „Ég breiddi galtan og kastaði heyinu í föngum í flekkinn, en hann kom skömmu síðar og káði úr“.  „… og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall…“  (PG; Veðmálið). 

Skömmustulegur (l)  Niðurlútur; daufur; með sektarkennd.  „Hversvegna er tíkin svona skömmustuleg“?

Skömmustusvipur (n, kk)  Svipur sem bendir til sektarkenndar/skammar.  „Mér sýndist á skömmustusvipnum á tíkinni, að hún hefði eitthvað komið nálægt eggjunum“.

Sköndull (n, kk)  A.  Ílangur hlutur af hverskonar tagi.  B.  Getnaðarlimur, einkum á hestum, hákarl og öðrum stórum skepnum. 

Sköp (n, hk, fto)  A.  Örlög; það sem áskapað er.  „Enginn má sköpum renna“ vísar til þess að enginn getur flúið forlög/örlög sín, samkvæmt forlagatrú þeirri sem innbyggð er í m.a. ásatrú.  B.  Ytri kynfæri kvendýra/kvenna.

Sköpulag (n, hk)  Mynd; skipulag í gerð.  „Eigð þú við þennan netahnút; ég sé ekkert sköpulag á þessu“.

Sköpunarhæfileiki (n, kk) Hæfileiki til að skapa t.d. listaverk.  „Sigríður á Láganúpi var gædd einstökum sköpunarhæfileika, eins og verk hennar sýna“.

Skör (n, kvk)  A.  Rönd; kantur; slá við stigaop.  „Hann lagði frá sér næturgagnið á skörina meðan hann þokaði sér ofan stigann“.  B.  Súð á bát.  „Málningin þarf að renna vel í skarirnar“.  C.  Borðstokkur á skipi.  Sbr; láta til skarar skríða.

Skör lægra settur (orðtak)  Tilheyrir lægri/óæðri hópi/stétt.  Vísar til mannvirðinga í skálum til forna.  Sjá pallborð og skörin að færast upp í bekkinn og eiga ekki upp á pallborðið.

Skörðóttur (l)  Með mörgum skörðum/vikum.  T.d. um fjall, hníf eða ljá.  Þjóðtrúin segir að ef vanfær kona borðar með skörðóttum spæni (skörðóttri skeið) muni skarð verða í vör barnsins þegar það fæðist.  Sama hefur verið sagt ef vanfær kona borðar af skörðóttum diski.

Skörin að færast upp í bekkinn (orðtak)  Þykir nóg um; gengur helst til langt.  „Þá er nú skörin farin að færast fullmikið upp í bekkinn, ef hann þykist geta lokað veginum niður að kirkjugarði“!  Orðtakið vísar til setu manna í húsum/skálum að fornu.  Fólk sat á upphækkunum við veggina, gegnt eldi sem hafður var til hitunar.  Upphækkunin nær veggnum nefndist bekkur, og þar sátu húsbændur og jafningjar þeirra.  Lægri bekkurinn, fjær veggnum, nefndist skör og þar sat vinnufólk, börn og annað lægra sett fólk.  Vísar orðtakið til þess er óæðra fólk tyllti sér á bekk húsbænda.  (HH; Ísl.orðtakasafn).  Til var orðatiltæki sem styður þetta:  „Líkir sitja sæmilegast bekkinn“.

Sköruglega (ao)  Með röggsemi/myndugleik.  „Hann stýrði hreppsmálum sköruglega meðan heilsan entist“.

Skörulegur (l)  Ákveðinn; einbeittur; duglegur.  „Hann var skörulegur forystumaður í félaginu í áravís“.

Skörungsbragur / Skörungsskapur (n, kk)  Myndugleiki; reisn; atorka.  „Mér finnst lítill skörungsbragur hafa verið á stjórn hreppsmála eftir sameiningu hreppanna, og sumt má að skammlausu kalla aumingjadóm“.

Skörungur (n, kk)  A.  Teinn sem notaður er til að skara í eldi; þ.e. skafa ösku af eldsmat og koma honum í mesta hitann.  B.  Líkingamál um mann sem þykir einstaklega duglegur/ötull/hetjulegur.

Skötubarð (n, kk) „Vængur“ af skötu, eftir að skorin hefur verið frá miðjan; hlaunirnar, með innyflum og kjafti.

Skötulíki (n, hk)  Sem líkist skötu.  Sagt er að eitthvað sé í skötulíki ef það er illa gert; óhönduglegt.

Skötulóð (n, kvk)  Haukalóð (sjá þar).

Skötumið (n, hk)  Mið þar sem vænlegt þótti að leggja haukalóð fyrir skötu.

Skötumóðir (n, kvk)  Þjóðsagnakvikindi; risastór skata sem getur af sér mikla skötuveiði.  Skötumóðir var sögð hafa verið í Skötutjörnum, sem eru tvær tjarnir uppi á Dalverpi, milli Sauðlauksdals og Keflavíkur.  Þjóðsagan segir að á þeim hafi verið stunduð stórútgerð vegna mikillar skötuveiði sem þar hafi verið, og sjái enn til rústa af verbúðum.  Dag nokkurn drógu menn þar risastóra skötu og komu henni til lands við illan leik.  Eftir það hvarf öll skötuveiði úr Skötutjörnum.  (Heimild MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn séra Magnúsar Gíslasonar, prests í Sauðlauksdal 1852-1879). 

Sköturass (n, kk)  Hlaunir skötu; stykki sem skorið er úr og hent þegar gert er að skötu. „Stykkið allt sem losað var frá börðunum (þegar barðað var); bak, kviður og hali. hét einu nafni hlaunir/skötuhlaunir/sköturass“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  (sjá skata).

Sköturoð (n, hk)  Roð af skötu.  Það er alsett göddum, en var nýtt til ýmissa hluta áðurfyrr.  „Helgi þegar hratt fram gnoð/ og hervæddist sinni brók,/ þá skalf hvert einasta sköturoð/ og skarkolinn andköf tók“  (ÖG; glefsur og minningabrot; formannsvísa um Helga Árnason í Tröð). 

Sköturoðshnakkur (n, kk)  Hnakkur sem gerður er að einhverju leyti úr sköturoði.  „Á Rauðasandi voru saumaðir sköturoðsvettlingar og þeir hafðir utanyfir ullarvettlinga á vetrum við fjárgæslu.  Þar var sagt um þann sem var síðastur við verk eða að búa sig, að hann lenti í sköturoðshnakknum“  (LK; Ísl. sjávarh. IV; heim; RÍ).  Bendir til að einhverntíma hafi slík hnakkasmíði þekkst þar um slóðir.

Sköturoðsvefjur (n, kvk, fto)  Flys; flus; fótabúnaður úr sköturoði.  „Í vefjur var einungis notað roð af stórri skötu; flenju/gammskötu, og voru oftast tekin af henni nýrri.  Roðið var lagt þannig á fótinn að totan, efsti hluti þess, kom fyrir tærnar og undir þær.  Það huldi síðan fótinn að ofan og náði upp á legginn.  Margbundið var um þessa vestfirsku sköturoðsvefju/flys/flus, sem einkum var höfð til hlífðar í slabbi við útiverk“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild m.a. ÁE). 

Sköturoðsvettlingar (n, kk, fto)  Vettlingar gerðir úr sköturoði.  „Á Rauðasandi voru saumaðir sköturoðsvettlingar og þeir hafðir utanyfir ullarvettlinga á vetrum við fjárgæslu.  Þar var sagt um þann sem var síðastur við verk eða að búa sig, að hann lenti í sköturoðshnakknum“  (LK; Ísl. sjávarh. IV; heim; RÍ). 

Sköturóður (n, kk)  Róður til að veiða skötu; róður með haukalóð.  „Þá ætla ég að segja frá einum sköturóðri með haukalóð“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Skötuselur (n, kk)  Lophius piscatorius.  Botnfiskur sem lifir í hafinu við Ísland og austar.  Var ekki algengur við Vestfirði en virðist fara fjölgandi þar í seinni tíð.  Gríðarlega kjaftstór miðað við búkinn.  Var ekki nýttur fyrrum, en talinn sælkeramatur í dag.  Ugga á kviðnum notar fiskurinn til að ganga á botninum, þar sem hann felur sig í botngróðri. Fiskurinn notar fálmara ofaná höfðinu til að ginna til sín bráð.  Karlfiskurinn er miklu minni en kvenfiskurinn, en stærsti skötuselur sem veiðst hefur við landið var 134cm langur.

Skötuskagi (n, kk)  Tennur í skötu.  „Þegar byrjað var að gera að skötu var farið með höndina upp í kjaftinn, helst með vettlingi til þess að skaða sig ekki á skötuskaganum/tönnunum“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Skötustappa (n, kvk)  Matur gerður úr kæstri skötu, kartöflum og hnoðmör, sem öllu er hrært saman.  „Skötustappa var algengur Þorláksmessumatur um Vestfirði og víðar.  Skatan var þá helst ekki kösuð minna en í 2-4 vikur, því best þótti að þefinn legði framúr nefinu þegar hún var etin.  Stór skata/lóðaskata þótti best í stöppuna.  Eftir suðuna var brjóskið tínt úr og hún síðan stöppuð í svo miklu mörfloti að sneia mátti hana niður eins og kæfu.  “  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Skötuveiði (n, kvk)  Veiði á skötu.  „Skötuveiði er engin lengur á hinum gömlu skötumiðum“

Slabb (n, hk)  Blautur snjór á jörð; krap.  „Farðu í stígvél drengur, það er slabb á allri leiðinni“.

Slabbsamt (l)  Krapi á jörð/leið; bloti.  „Farðu í stígvél það gæti orðið æði slabbsamt á leiðinni“.

Sladdar í (orðtak)  Heyrist skvamp í; er vætusamt.  „Eitthvað sladdar í eggjakútnum“.  „Hér sladdar í spori“.

Sladdi (n, kk)  Slógmeri; slorugur og óaðgerður steinbítur.  „Ég fékk eitt tonn af sladda til að hengja upp“.  „Voraflinn var að mestu steinbítur.  Hann var ávallt rotaður g slægður um leið og hann var kominn inn í bátinn.  Áður en hann var borinn undan sjó var hann vandlega skolaður.  Ekki var hann þveginn að lokinni flatningu en þess vandlega gætt að ekki bærist sandur eða slor á mötuna.  Þótti spilla bragðinu að þvo flattan steinbít.  Steinbíturinn var ekki hertur á rám heldur á grjótgörðum.  Þegar hann hafði verið flattur var hann hengdur á einhlaðna garða, en þá er hann var hálfþurr var hann tekinn af þessum görðum og síðan var honum hrýgjað á aðra sem voru mun vandlegar hlaðnir en hinir og tvöfaldir að neðan.  Um það bil þrjú hundruð voru höfð í hverri hrýgju.  Þar beið hann skipta, en þau fóru ekki fram fyrr en í lok vertíðar“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  Í seinni tíð hefur steinbítur verið hertur í hjöllum, einkum meðan hann var enn utan kvóta og fékkst fyrir viðráðanlegt verð.

Slaðra (s)  Slúðra; segja kjaftasögur; masa.  „Það er verið að slaðra með þetta út um alla sveit“.

Slaðrari (n, kk)  Sá sem ber út kjaftasögur/slúður; slefberi.

Slaður (n, hk)  Slúður; blaður;  kjaftasögur.  „Kanntu ekkert slaður að segja mér“?

Slaðursaga (n, hk)  Slaður; slúður; slandur.  „Það er nú varla hægt að leggja trúnað á svona slaðursögur“.

Slafneskur (l)  Af austur-evrópskum/slafneskum ættum; sem talar slafneskt tungumál.  „Báðir kunnu þeir bræður slafnesk mál; Gunnar Össurarson tékknesku og Sigurvin bróðir hans rússnesku“.

Slafra / Slafsa (s)  Éta.  Notað oftast í nokkuð niðrandi merkingu.  „Reyndu nú að slafsa þetta í þig drengur; það er bara gikksháttur að éta ekki signa grásleppu“!

Slafra í sig (orðtak)  Éta.  Einkum notað í niðrandi merkingu.  „Ég held að þeim sé fullgott að slafra þetta í sig“.  „Maturinn var ekki kræsilegur, en ég lét mig hafa það að slafra hann í mig“.

Slafs (n, hk)  Blautfóður; bland sem snætt/drukkið er.  „Réttu kálfinum slafsið sitt“.

Slag (n, hk)  A.  Högg.  „Það þurfti bara nokkur góð slög til að rétta járnstöngina“.  B. Klukknahljómur.  „Klukkan slær eitt slag á hálftímanum“ .  Í afleiddri merkingu: „Verkurinn kemur annars slagið, en svo er ég góður á milli“.   C.  Magáll af kjötskrokk.  „Slögin eru notuð í rúllupylsur eða annað“.  D. Hjartaslag; heilablóðfall.  „Hann dó víst úr slagi“.  E.  Um siglingu báts; krus; bógur; leggur.  Þegar bát er siglt beitivind (mótvind) er siglt móti vindáttinni, en þó nokkuð til hliðar við hana, í krákustígum og vent á milli.  Hver beinn leggur nefnist slag/krus/bógur.

Slag í slag (orðtak)  Aftur og aftur; ítrekað.  „Þetta gerðist slag í slag“.  Vísar til þess að slaga/krusa þegar seglskipi er siglt beitivind.

Slaga (s)  A.  Riða; skjögra/reika sitt á hvað í göngu.  B.  Krusa; sigla beitivind með því að sigla skáhallt á móti honum í krákustígum sitt á hvað, og seglavendingum á milli.  C.  Sagga; verða rakur af sagga/slagvatni.  „Kartöflugryfjan var grafin í jörð, svo veggir slöguðu síður“.

Slaga hátt í (orðtak)  Nálgast að verða; nærri því.  „Það fer nú að slaga hátt í postulatöluna; vantar einn uppá“.

Slagahár (l)  Hefur fengið marga slagi í spilum.  „Í lok spilakvölda voru verðlaun veitt þeim sem slagahæst voru; sín aðalverðlaun fyrir karla og konur, og sömuleiðis tvenn skammarverðlaun“.

Slagari (n, kk)  A.  Sá sem slær.  Var stundum fyrrum notað um sjóræningja/ribbalda.  B. Sá sem spilar á ásláttarhljóðfæri.  Sbr, trommuslagari; hörpuslagari.  C.  Dægurlag sem „slegið hefur í gegn“.

Slagaveiki (n, kvk)  Eldra heiti á flogaveiki.

Slagbekkur (n, kk)  Bekkur/sæti sem unnt er að fella niður og upp, að þörfum. 

Slagborð (n, hk)  A.  Vefjarslag; hluti af vefstól.  B.  Felliborð; borð sem unnt er að fella niður eða reisa upp.  Slagborð var oft í verslunum fyrir tíma kjörbúða, sem unnt var að lyfta til að ganga um.  Slagborð var í eldhúsinu í Láganúpsbænum (fyrir 1974), til að unnt væri að stækka það.  Oftar nefnt felliborð.

Slagbrandur (n, kk)  Hurðarloka.  Annaðhvort slá sem lögð er þvert fyrir hurð, í móttök í dyrakörmum; eða minni tittur á innanverðri hurðinni, úr tré/járni, sem rennt er í far/auga í karminum til að loka.

Slaghamar (n, kk)  Lítil sleggja; stór hamar sem gefur allmikinn slagkraft.

Slagi (n, kk)  Vatn sem þéttist, t.d. á veggjum og rúðum í húsum þegar kalt er úti.  Slagvatn.

Slagkraftur (n, kk)  Afl í höggi/slagi.

Slaglóð (n, hk)  Málmur eða málmblanda sem notuð er til að kveikja saman málmhluta.  Koparslaglóð er notað til margskonar hluta, stundum blandað t.d. silfri.  Silfur- og gullslaglóð eru notuð t.d. í skartgripasmíði.

Slaglóða (s)  Kveikja saman málmhluti með hitun og slaglóði.

Slagna (s)  Slaga; rakaslá sig; verða rakur.  „Það þarf að setja það hey í sérstakan flekk sem hefur náð að slagna í botnunum á göltunum; það þarf lengri tíma til að þorna“.

Slagorð (n, hk)  Orð eða orðtak sem ætlað er að vera grípandi/hrífandi.  Mikið notuð t.d. af stjórnmálamönnum.

Slagsa (s)  Vaða um; slaga; vingsast.  „Veðrið er eitthvað að lagast; ætli við förum þá ekki að slagsa í áttina með hrútinn“.

Slagsíða (n, kvk)  Um bát; halli vegna ójafnrar hleðslu.  „Við þurfum að færa netin dálítið í bátnum svo ekki verði svona mikil slagsíða á honum á landstíminu“.  Orðið vísar til þess að bátur leggst í annað borðið þegar honum er siglt beitivind; tekið slag.  Hann liggur þá á slagsíðunni.

Slagsmál (n, hk, fto)  Átök milli tveggja eða fleiri manna; bardagi; atgangur.

Slagsmálahundur / Slagsmálaseggur (n, kk)  Sá sem oft lendir í slagsmálum/erjum.  „Hann er ferlegur slagsmálahundur með víni“.

Slagsylla (n, kvk)  Láréttur biti/máttarviður í húsbyggingu, milli stoða, sem þilja/klæðning festist á. 

Slagur (n, kk)  A.  Bardagi; viðureign.  „Þeir skildir að áður en rifrildið endaði í slag“.  B.  Sigling seglskips; leggur; bógur.  „Við tókum slag uppundir Bjargið og lögðumst þar í var“   Í líkingamáli:  „Við látum þá slag standa“.  C.  Vinningur í spilum; það sem í borði er.  „Neisko; þarna fæ ég einn slag í viðbót á trompið“!

Slagvatn (n, hk)  Saggi; vatn sem þéttist á yfirborði þegar rakaloft kólnar.

Slagveður / Slagviðri (n, hk)  Lemjandi rigning: mikil slydda eða rigning í roki; slagveðursrigning.  „Kom mönnum saman um að ekkert vit væri í að leggja af stað...í myrkri og slagviðri“  (MG; Látrabjarg).  „Sauðfé rýrt vegna smfelldra slagviðra“ “  (SJTh; Árb.Barð 1955-56).  „Ennfremur að viðra úti, helst daglega, ær lömb og hross, og halda nefndum pening til haga séu nokkur tök til þess...  Varast þó slagviðri mikil; frost og snögga veðurbreytingu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).   

Slagveðursrigning / Slagveðursúrhelli (n, kvk)  Mjög mikil rigning/hellirigning/hellidemba þegar hvassviðri fylgir með.  „Þoka var á og slagveðursrigning“  (SbG; Að vaka og vinna).  „Við lentum í slagveðursúrhelli“!

Slagverk (n, hk)  A.  Sá hluti veggklukku sem slær hljóm við heila og hálfa klukkustund.  B.  Notað í seinni tíð yfir hljóðfæri sem slegin eru í tónlist, s.s. trommur.

Slagþil (n, hk)  Þil úr standandi fjölum sem slegnar/festar eru á þverbita.

Slagæð (n, kvk)  Meginæð frá hjarta í bláæðar.

Slaka (s)  A.  Lina átak.  „Slakaðu dálítið á kollubandinu svo við komum bátnum í kerruna“.   B.  Í bjargsigi; gefa niður vaðinn.  „Slakið mér niður á hilluna hér fyrir neðan“.

Slaka á klónni (orðtak)  Gefa eftir í máli/verki.  „Það má ekki slaka neitt á klónni ef þetta á að lánast“.  Vísar til þess að strekkja kló á segli.  Kló er efra horn segls, og úr henni liggur klófalur um blökk/trissu ofantil í siglunni í hendur formannsins;einnig var honum oft brugðið undir röng, öðrumegin í skutnum.

Slaka á taumunum (orðtak)  Gefa eftir mikið aðhald; verða afslappaðri/vægari í stjórnun.

Slaka til með (orðtak)  Um málefni; gefa eftir; samþykkja.  „Ætli maður slaki ekki til með það að þú hafi r rétt fyrir þér í þetta sinn“.

Slaki (n, kk)  A.  Linka.  „Það er einhver slaki í norðanáttinni þessa stundina“.  B.  Bugt/eftirgjöf á bandi/vað.  „Takið af slakann strákar“!

Slakki (n, kk)  Laut; geil.  „Gáðu vel upp í slakkann í hlíðinni, hvort  þar leynist fé“.  „Stór slakki er þarna utanvið, niður í klettana, og heitir það Undirlendi“  (IG; Sagt til vegar I).  

Slaklega (l)  Linlega; fremur illa.  „Hann stóð sig slaklega á prófinu“.

Slaklegur (l)  Lélegur; aumur.  „Aflinn er slaklegur það sem af er, en það gæti breyst núna í stórstrauminn“.

Slakna (s)  A.  Um átak; linast.  „Stattu klár að því þegar slaknar á vaðnum“!  B.  Um frost; þiðna.  „Það verður að láta fiskinn slakna til að hann náist í sundur“.  C.  Um vindátt; linast.  „Eitthvað er að slakna á ofsanum“. 

Slakur (l)  A.  Linur; laus; ekki hertur.  B.  Lélegur; ekki harður.  „Þetta er slakur árangur“.

Slakur árangur (orðtak)  Ekki góður árangur.

Slakt fóður (orðtak)  Ekki kjarngott fóður.

Slampandi (l) Um ökufæri/sjóveður; rétt viðunandi; unnt að komast.  „Ekki get ég nú sagt að þetta sé renniblíða, en kannski slampandi“. 

Slampast (s)  Sleppa fyrir horn; reddast.  „Ég rétt slampaðist við að ná prófinu“.  „Þetta slampast furðanlega“.  Sjá þetta slampast einhvernveginn.

Slams (n, hk)  Samsull; grautur; hræringur.  „Yrðlingurinn át slamsið, og líkaði vel“.

Slamsa (s)  Háma; éta af græðgi.  „Maður er fljótur að slamsa í sig tíu eggjum“.

Slandur (n, hk)  Slúður; kjaftasaga.  „Kanntu ekkert slandur að segja mér“?  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Slang (n, hk)  A.  Innyfli úr sláturfé.  Orðið var ekki notað á svæðinu um innyfli úr fiski, eins og sumsstaðar tíðaðist; þau voru nefnd ræksni eða slóg.  „Það þarf að grafa slangið eftir að búið er að hirða úr því mötuna“.

Slanga (n, kvk)  A.  Skriðkvikindi sem ekki lifa í íslenskri náttúru.  B.  Mjúk pípa til að leiða vökva.  C.  Slöngva; vopn til að kasta steinum eða öðrum skotum.  D.  Net sem búið er að ríða en ekki að fella á teina.  E.  Kringlóttur gúmmíhólkur sem settur er í dekk ökutækis til að halda lofti í því. 

Slangra (s)  Slaga; ganga óstöðugur.  „Ökulagið var svipað og göngulag karlsins; bíllin slangraði milli kanta“.

Slangur (n, hk)  A.  Slæðingur; lítið magn.  „Það er slangur af fé á Stígnum“.  B.  Ónöfn; ótæk orð; orð sem ekki eru fallin að hefðbundnu máli.

Slankbelti (n, hk)  Lífstykki; aðhald til að þrýsta inn mittiskeppum.

Slap (n, hk)  Linka; slaki; það sem hangir/slapir.  „Það þarf að taka allan slapa úr yfirbreiðslunni“.

Slapa (s)  Lafa; hanga; slúta.  „Þegar þú ferð eftir ganginum þarftu að gæta þín á grastorfunni sem slapir þarna framyfir úr næsta gangi fyrir ofan; hún gæti hrunið niður“.

Slappelsi / Slappleiki (n, kk)  Linka; veikindi; vesöld.  „Það er enn einhver árans slappleiki í mér eftir pestina“.

Slapplegur (l)  Slappur; linur; veiklulegur; slenjulegur.  „Ári ertu eitthvað slapplegur í dag“.

Slappna (s)  Verða slappara/lakara/máttlausara/veikara; hraka.  „Votheysveikikindinni hefur heldur slappnað“.

Slappur (l)  Máttlaus; veikur; linur; sloj; latur.  „Maður er enn fjári slappur eftir veikindin“.

Slark (n, hk)  A.  Erfið ferð; svaðilför.  B.  Drykkjuskapur; ólifnaður; ófriður.

Slarka (s)  A.  Slarkast; geta naumlega; nægja.  „Við erum orðnir tæpir með bensín, en það slarkar kannski í land“.  B.  Vera drukkinn; stunda drykkjuskap. 

Slarkandi (l)  Þolanlegt; hægt að komast af með það.  „Þetta er svona slarkandi sjóveður, en það verður asskoti mikill veltingur á okkur“.  Orðið virðist ekki hafa verið notað annarsstaðar í þessari mynd.

Slarkast (s)  Sluddast; geta/framkvæma naumlega/ með erfiðismunum/ á einhvern hátt.  „Einhvernvegin slarkaðist hann upp á brún, en hvorki hann né aðrir gátu botnað í því ferðalagi eftirá“.

Slarkferð (n, kvk)  Ferðalag þar sem mikið reynir á/hætt er við áföllum/erfiðleikum.  „Það er hætt við að þetta geti orðið slarkferð, eins og veðurútlitið er núna“.

Slarkfær (l)  Um það sem hugsanlega getur gengið en þó með erfiðismunum eða illa.  „Vegurinn er slarkfær“.  „Það er nú ekki meir en svo slarkfært sjóveður“.  „Ég er svona slarkfær í þýsku“.

Slarkróður (n, kk)  Róður í slæmu sjólagi/veðri.  „Svona slarkróðrar skila litlu miðað við áhættu og fyrirhöfn“.

Slarksamt (l)  Um ferðalag/verk;erfitt; hættulegt; kuldalegt; hætt við ágjöf/stórsjó.  „Það var æði slarksamt að sigla fyrir Blakkinn í þessu sjólagi“.

Slarkveður (n, hk)  Vont veður; nærri ófært veður. 

Slasa sig (orðtak)  Meiða sig mikið; verða fyrir slysi.  „Slasaðu þig ekki á þessu bévítans príli“!

Slasaður (l)  Mikið meiddur; mjög sár. 

Slaufa (n, kvk)  A.  Hnýting á bandi/reim þannig að tvær lykkjur verði í hnútnum, en hann er leystur með því að draga aðra þeirra út.  Einnig skraut sem minnir á slíkt.  B.  Hálstau sem stundum er borið í bindis stað.

Slattatunna (n, kvk)  Hrognatunna sem ekki er full.  „Við notum þessa slattatunnu til áfyllingar á aðrar“.

Slatti (n, kk)  Skammtur; dálítið magn.  „Það er kominn slatti í miðrúmið“  „Við sameinum þessa slatta í eitt“.

Slá (n, kvk)   A.  Skör; loftslá.  Á tvílyftum húsum er þetta notað yfir skörina ofan við stigann.  „Farðu upp á loft og sæktu kassann.  Hann er á slánni, rétt við stigagatið“.  B.  Þverbiti, t.d. undir fjárhúagrind; grindaslá.

Slá (s) A.  Lemja.  „Sláðu vel niður staurana“.  B.  Slá gras til heyja.  „Hann fór tók orfið og sagðist ætla að fara að slá uppi í Urðum“.  „Kollsvíkursystur; Halldóra og María Torfadætur, slógu.  Annars var ekki algengt að konur væru við slátt, en þær systur misstu föður sinn ungar en voru þó elstar af systkinum, en enginn karlmaður til a slá“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  C.  Slá til baka.  Vélar sem snúnar voru í gang með handafli gátu átt það til að kveikja á vitlausum tíma og slógu þá í öfuga átt.  „Farmallinn sló mig svo duglega að ég er hálf handlama á eftir“.   D.  Um bakslag haglabyssu:  „Ég hélt byssunni ekki nægilega þétt að, svo hún sló mig illyrmislega“.

Slá að (orðtak)  Ofkælast.  „Klæddu þig vel og láttu ekki slá að þér þegar þú ert með þennan hitaslæðing“.

Slá af (orðtak)  A.  Drepa; slátra; stytta aldur.  „Ef votheysveikisrollan fer ekkert að taka fóður, þá þýðir ekkert annaðen slá hana af“.  B.  Lækka verð; veita afslátt.  „Hann sló dálíti af timbrinu eftir að ég benti honum á að kíkja fjalirnar“.  C.  Minnka ferð/vinnu/álag o.fl..  „Þú keyrir með fullri ferð, en verður viðbúinn að slá af þegar ég segi þér, og sjáðu um að húsið sé vel lokað“ .... „Bátnum var vikið leiftursnöggt.  „Sláðu af“! kvað við úr skutnum“   (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  D.  Útiloka; hætta við.  „Hann sló alveg af þessa skemmtiferð; sagði að nú lægi meira á að nýta þurrkinn við heyskap“.  Sjá afslegið.

Slá af sér (orðtak)  Klúðra tækifæri; semja af sér.  „Ég held að hann hafi slegið af sér þegar hann seldi jörðina.  Þetta var smánarverð“.

Slá á (orðtak) Minnka.  Var notað í ýmsum tilgangi:  „Lyfið er byrjað að slá á verkina“; „Aðeins er farið að slá á lætin í krökkunum“  „Þegar líða tók að morgni fór að slá svolítið á mesta ofsann“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Slá á léttari strengi (orðtak)  Taka upp léttara hjal/tal; hætta að ræða alvarleg efni.  „Eftir þessa áminningu sló hann á léttari strengi“.  Líking við leik á strengjahljóðfæri.

Slá bandi um (orðtak)  Binda utanum; binda að.  „Hann pakkaði þessu vel inn og sló svo bandi um pakkann“.

Slá botninn í (orðtak)  Ljúka; enda.  „Nú held ég að við förum bráðum að slá botninn í þessa grásleppuvertíð“.    Vísar til þess að slá botn í trétunnu og festa hana með gjörðum.

Slá brýnu (orðtak)  Slá teig milli þess að ljár er brýndur.

Slá eign sinni á (orðtak)  Eigna sér; sölsa undir sig; stela; fá.  „Ég sló eign minni á þennan planka, fyrst enginn annar vildi hirða hann“.

Slá feilpúst (orðtak)  Um vél; missa takt; ganga óreglulega.  „Vélin kjaftaði alla leið í land og sló ekki feilpúst“.

Slá felmtri á (orðtak)  Fyllast skelfingu; verða óttasleginn.  „Sló nú felmtri á háseta Ólafs og féllust þeim hendur, er þeir sáu manninn drukkna fyrir augum sér“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Slá flötu (við báru) (orðtak)  Um bát; leggjast með hlið móti báru.  „...því ekki má strax slá flötu við bárunni“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Ekki mátti samt slá flötu svo ég hafði árar á keypum til að reyna að halda bátnum réttum fyrir báru ef vélin stoppaði“  (ÖG; Fiskiróður).  „Svo missir Björgvin út aðra árina þegar við vorum komnir nokkuð grunnt uppá; og náttúrlega þegar átakið kom á annað borðið sló flötu.  Það var kallað að slá flötu þegar skekktist báturinn og hann flatur fyrir bárunni“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Brimið slær nú bátnum flötum“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Slá fram (orðtak)  Um málefni/fullyrðingu/tillögu; setja fram; leggja til.  „Ég sló því fram hvort við ættum ekki að nýta kjörin og fara í róður“.

Slá framá (orðtak)  Um bát; renna framávið undan báru.  „Þetta er hörð og tvísýn barátta.  Þeir koma í veg fyrir að bátnum slái framá, því gerist það þá er öll von úti“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Slá framúr (orðtak)  A.  Slá alla leið í spildu.  Það er best að slá þetta stykki alveg framúr“.  B.  Slá ljá fram úr orfi, þannig að hann losni.  „... hann slær ljáinn framúr og gengur móti nautinu...“ (TÖ; viðtal á Ísmús 1978)

Slá (einhverju)  frá sér (orðtak)  Hafna; falla frá.  „Ég fékk gott tilboð í bátinn en sló því frá mér og ætla að eiga hann“.  Sjá einnig berja/slá frá sér.

Slá fyrir (orðtak)  Um vind; leggja fyrir fjall, núp eða aðra hindrun.  „Hann sló ansi miklum kviðum fyrir Blakkinn, en annars var þokkalegt næði þarna við Straumskerið“.

Slá fyrir brjóst/vit (orðtak)  Standa á öndinni vegna ólyktar.  „Bölvuð pest er af þessu; manni slær fyrir brjóst“!

Slá fyrir (hunda)heppni / Slá fyrir slembilukku (orðtak)  Vilja heppilega til; vilja til happs.  „Það sló fyrir heppni að ég var með góðan vasahníf, svo ég gat skorið á ullarflókana og hrúturinn losnaði úr gaddavírsflækjunni“.  „Nú sló fyrir slembilukku; ef ég hefði ekki gripið í eggjakútinn hefði hann oltið um“!

Slá fyrir vit (orðtak)  Lykt leggur að nefi.  „Þegar ég kom fyrir húshornið sló fyrir vit mér ilmandi kleinulykt“.

Slá föstu (orðtak)  Telja öruggt/tryggt; ganga útfrá.  „Ég sló því föstu að hann væri farinn út og læsti húsinu“.

Slá (einhverjum) gullhamra (orðtak)  Bera lof á; hrósa.  „Hann var ekki mikið fyrir að slá neinum gullhamra, og allra síst í þeirra áheyrn“.

Slá hendi á móti (orðtak)  Hafna; vilja ekki þiggja þegar boðið er.  „Ég slæ aldrei hendinni á móti vel kæstri skötu“!  „Mér þótti ástæðulaust að slá hendinni á móti þessu boði“.

Slá í (orðtak)  Úldna lítillega; verkast; lágna; breyta bragði. „Mér þykir eggin öllu betri þegar farið er að slá í þau“ sagði gamla konan, „..og þau breyta sér fyrr í hlýjunni“  (MG; Látrabjarg).

Slá í bakseglin (orðtak)  A.  Bókstafleg merking; þegar vindur kemur öfugu megin í segl báts.  „Þegar þeir komu uppundir Bjargtanga... sló í baksegl og hvolfdi bátnum á svipstundu“   (ÁE; Ljós við Látraröst).  B.  Í Líkingamáli; koma afturkippur í; lenda í mótlæti.  „Honum gekk vel framan af, en svo sló eitthvað í bakseglin“.  Líking við það að vindur kemur öfugu megin á segl báts.

Slá í bardaga/brýnu (orðtök)  Verða slagsmál/rifrildi/illdeilur.  „Í nokkra brýnu sló með ræðumönnum“.

Slá í logn (orðtak)  Detta í logn/dúnalogn; lygna skyndilega.

Slá í miðju grasi (orðtak)  Nýta illa það sem fyrir hendi er;t.d. vinna illa að mat sínum.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Slá í múga (orðtak)  Múga; slá þannig að grasið hrannist saman í múga/garð um leið og slegið er.

Slá í stans (orðtak)  Um sjávarföll; verða fallaskipti/snúningur.  „Það fer að slá í stans fljótlega; hann gæti gefið sig betur til á upptöku norðurfallsins“.

Slá í sundur (orðtak)  Taka í sundur.  „Ég sló kassann í sundur og naglhreinsaði viðinn“.

Slá í þurrkinn (orðtak)  Slá gras til að nýta þurrk/þurrviðri sem fyrirsjáanlegur er, þó ekki sé kominn.

Slá niður (orðtak)  A.  Heilsa versnar:  „Honum var farið að batna í gær en sló aftur niður í dag“.  B.  Sjólag batnar:  „Þegar eitthvað slær niður er báturinn dreginn hröðum höndum til lands“.  (KJK; Kollsvíkurver).  C.  Vindi slær niður um reykháf svo reykur berst inn í húsið.  „Nú hefur slegið niður um skorsteininn“.  D.  Slá mikið af túnum í einu.  Vanalega var reynt að hafa ekki mikið undir í einu í heyskap, nema að rakinn þurrkur/rakin norðanátt væri fyrirséð.  E.  Lægja veðurhæð/vind; hægja.  „Hann sló dálítið niður meðan hann skipti áttinni, en svo setti hann á sama belginginn af austri“.

Slá niður eldingu (orðtak)  Um það þegar elding sést/ kemur niður í þrumuveðri.  „Eldingum sló ítrekað niður í jarðsímann yfir Hænuvíkurháls svo leggja var hann af eftir fárra ára starfrækslu, og setja upp örbylgjusíma“.

Slá niður falli (orðtak)  Minnka norður- eða suðurfall; hægja sjávarfall; kippa úr falli.  „Ég held að við ættum bara að huga að nestinu meðan hann slær niður mesta fallinu“.

Slá niður í höfuð (orðtak)  Fá hugmynd; muna eftir.  „Ég var rétt að festa svefn þegar því sló allt í einu niður í höfuð mér hvar hnífurinn gæti verið“.

Slá niður straum (orðtak)  Verða fallaskipti; draga úr sjávarfalli; taka úr.  „Eitthvað er hann farinn að slá niður straum; hann kannski fer þá að gefa sig meira til“. Sjá vekja straum.

Slá óhug á (orðtak)  Verða smeykur/hræddur; fyllast andúð/hryllingi.  „Nokkrum óhug sló á mig þegar ég hugsaði um þetta“.

Slá/slökkva niður róðri/róðrum (orðtök)  Hætta róðrum; gera hlé á róðrum.  „Hver landlegustund var notuð við heimilisstörf.  Stundum var karlmaður allt sumarið við heyvinnu og stundum var slegið niður róðri ef þurfti að þurrka mikið hey“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Slá ryki í augu (orðtak)  Blekkja; dylja.  „Þessi lygasaga virðist búin til í þeim tilgangi að slá ryki í augu þeirra sem ekki þekkja nægilega til hins rétta“.  Vísar til þess að þyrla upp ryki til að leynast í bardaga.

Slá saman (orðtak)  Smíða; negla/reka saman.  „Ég sló saman kassa utanum þetta“.

Slá saman (línum) (orðtak)  Um það þegar símalínur í lofti flækjast/slást saman, þannig að símasamband versnar eða dettur út.  Þetta gerðist helst í miklu hvassviðri eða þegar losnað hafði af staurum, og nefndist samsláttur.  „Nú hefur slegið saman; rétt eina ferðina enn“.

Slá sér á (orðtak)  Kaupa; festa kaup á.  „Einn bóndi hætti búskap; Ingvar Guðbjartsson í Kollsvík...  jarðakaupasjóður sló sér á kotið, en býr ekki (“  (ÞJ; Árb.Barð 1971).

Slá sér niður / Slá sér til rólegheita (orðtak)  Gista yfir nótt eða nokkra daga; setjast að um stund; fá gistingu; halda kyrru fyrir.  „Ég held ég þiggi boðið og slái mér bara til rólegheita; mér liggur ekki svo mikið á“. „Liggur ykkur nokkuð á til baka í dag?  „Viljið þið ekki bara slá ykkur til rólegheita og gista í nótt“?

Slá sér niður til langdvalar (orðtak)  Setjast upp; dvelja lengi þegar maður er gestkomandi.  „Viltu bara ekki slá þér niður yfir nóttina“?  „Ég ætlaði nú ekki að slá mér niður til langdvalar“.

Slá sér saman (orðtak)  Sameinast um t.d. ver eða kaup.  „Því nú voru þeir búnir að kaupa vélbát (Fönix yngri) sem hafður var til allra flutninga fyrir þá sem reru í Kollsvík.  Áður þurftu bátarnir að slá sér saman, þannig að annar fór eftir salti en hinn reri með lóðir beggja“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Slá sér til rólegheita (orðtak)  Fara ekki strax af stað aftur; dvelja um stund þar sem maður er kominn; beiðast gistingar.  „Liggur þér nokkuð á til baka?  Ég held þú ættir bara að slá þér til rólegheita til morguns“.

Slá sér upp (orðtak)  A.  Sigla bát í átt til lands.  „Við ættum kannski að fara að slá okkur meira upp, ef hann heldur áfram að auka þennan typping“.  B.  Vinna sig í álit. „Heldur sló hann sér upp með þessu; það eru ekki allir sem fá svona hrós frá verkstjóranum“.  C.  Um samdrátt stráks og stelpu.  „Hann hefur víst verið að slá sér eitthvað upp með heimasætunni af næsta bæ“.

Slá sig (orðtak)  Sagga.  „Það er of lítil kynding á geymslunni í frostinu; veggirnir eru farnir að slá sig innan“.

Slá skjaldborg um (orðtak)  A.  Um orrrustu; liðsmenn raða sér hlið við hlið, láta skildi sína skarast og snúa að andstæðingi til að verja liðið.  B.  Líkingamál um það þegar margir sameinast um að verja málefni.  „Heimamenn reyndu að slá skjaldborg um barnaskólann í sveitinni, en voru ofurliði bornir“.

Slá slöku við (orðtak)  Gefa eftir; gera/sinna ekki af fullum krafti; linast; minnka vinnukergju; verða hirðulaus.  „Það má ekki slá slöku við með þetta“.  „Það dugir ekki að slá slöku við námið“!  Líkingin vísar til siglingar báts; þegar ekki er strekkt nægilega á stögum eða kló, þannig að segl verða slök og virka ekki sem skyldi.

Slá striki yfir (orðtak)  Strika út; eyða; gleyma.  „Hann sagðist tilbúinn að slá striki yfir þessa smáskuld ef ég hjálpaði honum að smala í einn dag“.

Slá svita um (orðtak)  Svitna.  „Köldum svita sló um mig þegar ég hugsaði til þess hvernig þetta hefði getað farið“.

Slá til (orðtak)  Fallast á að gera; leggja útí; þiggja.  „Hann bauð mér þetta og ég sló til“.

Slá til baka / Slá (orðtak/s)  Um vél sem snúið er í gang; kveikja á röngum tíma, þannig að vélin snýst öfugt, brot úr snúningi, og af miklu afli.  Þarf að vara sig á þessu við gangsetningu, en af því hafa hlotist fingurbrot o.fl.  Sjá bakslag.

Slá til beitar (orðtak)  Notað í háði um það þegar illa er slegið.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Slá tvær flugur í einu höggi (orðtak)  Ná tvennskonar árangri í einni tilferð. 

Slá /einhvern) um lán/peninga (orðtak)  Biðja einhvern um lán/peninga.

Slá um sig (orðtak)  Hreykja sér; vera montinn.  „Þú getur heldur betur slegið um þig eftir þennan árangur“.

Slá undan (orðtak)  A.  Snúa skipi og sigla undan vindi; slá við; halda undan.  B.  Líkingamál; gefa eftir í deilumáli; láta af stífni/þversku.  „Hann kom með svo góð rök í málinu að ég neyddist til að slá undan“.  C.  Opna ventla á dísilvél.  Erfitt getur verið að snúa í gang dísel-ljósavélum, sem voru á hverjum bæ áðurfyrr; flestar Lister-vélar.  Til að auðvelda gangsetningu var ofaná þeim handfang til að slá undan ventlum; þ.e. setja ventla vélanna í óvirka stöðu, til að hindra þjöppun meðan náð var snúningi á kasthjólið.  Síðan var slegið að; handfangið fært til aftur, þannig að ventlar lokuðust reglulega og vélin þjappaði; og átti þá að hrökkva í gang.  Til að auka þjöppun vélarinnar var þjóðráð að snafsa hana.

Slá undir (orðtak)  A.  Um skýjafar; létta undir skýjabakka.  „Mér sýnist að hann sé eitthvað farinn að slá undir þennan dumbung til hafsins“.  B.  Taka nýjan hlut í notkun.  „Hann sló undir nýjum traktor fyrir sumarið“. 

Slá (einhverju) upp í kæruleysi (orðtak)  Bregða útaf áætlun; fara útí óvissu; gera það sem ekki var ætlað; gera það sem einhver gæti talið óábyrgt/kæruleysi.  „Við erum nú komnir þokkalega fyrir vind með heyskapinn.  Ég held við ættum að slá þessu upp í kæruleysi og fara í róður á morgun, ef stillan helst áfram“.

Slá upp tjaldi/veislu/dansleik o.fl. (orðtök)  Reisa tjald; halda veislu/dansleik o.fl.

Slá upp tunnu (orðtak)  Taka lok af tunnu, til þess m.a. að unnt sé að þvo hana eða útvatna.  Þá er botngjörðin af annarri lögginni slegin upp af með tunnujárni eða díxil og slakað á hinni gjörðinni.  Þá má slá lokið niður úr falsinum þannig að það sporðreisist og taka það síðan uppúr.

Slá/leggja upp þoku (orðtak)  Koma með þoku yfir.  „Hann gæti lagt upp þoku seinnipartinn í dag“.

Slá uppá einhvern (orðtak)  Slá gras yfir landamerki.  Sumsstaðar þar sem bæir standa þétt, t.d. á Hvallátrum og Lambavatni, er túnum skipt í samliggjandi bletti/skækla.  Verður þá að vanda sig við slátt og gæta að merkjum, til að ekki sé slegið á annarra manna landi; slegið uppá aðra.

Slá utanum (eitthvað/einhvern) (orðtak)  Smíða kassa/kistu utanum eitthvað/einhvern.

Slá/lemja/berja (einhvern) utanundir / Gefa (einhverjum) utanundir (orðtak)  Gefa á kjaftinn; slá á kinn einhverjum t.d. í slagsmálum/deilum.  „Ég átti bágt með mig að slá hann ekki utanundir fyrir hortugheitin“!

Slá úr (orðtak)  A.  Taka ljá úr orfi.  B.  Breiða úr fúlgum/haugum/föngum af heyi þegar galtar/garðar eru breiddir til þerris.  Slegið er úr með höndum, kvíslum eða hrífum.

Slá úr og í (orðtak)  Vera óákveðinn/ á báðum áttum/tvístígandi; hvorki hrár né soðinn.  „Ég myndi ekki treysta á hann með þetta.  Hann sló úr og í; sagði í öðru orðinu að þetta væri bráðsnjallt, en fann því allt til foráttu í hinu“. „Hann sló bæði úr og í með þetta“.

Slá úr sér A.  Bátur getur slegið úr sér ef hann heggur/rennur harkalega í báru; fær á sig ólag eða steytir við land svo að gefst upp á saumum; rær dragast til sem eru hnoðaðar á sauminn, með þeim afleiðingum að báturinn fer að leka.  Þá getur saumur gefið sig eða borð sprungið, einkanlega ef lélegt er.  B.  Vél getur slegið úr sér ef hún fær of sterka eldsneytisblöndu eða fer á yfirsnúning.  Þá geta slitnað vélaboltar; brotnað stimpill eða deksel gefið sig.

Slá út (orðtak)  A.  Setja út spil í spilum.  „Sláðu út“.  B.  Slá einhvern í rot; koma einhverjum úr jafnvægi.  „Hann lét þetta ekki slá sig út“.  C.  Um rafkerfi; sjálfvar/öryggi rýfur samband.  „Það sló út þegar ég kveikti á eldavélinni“. 

Slá útaf laginu (orðtak)  Trufla; rugla.  „Hann lét þetta ekki slá sig útaf laginu“.  Líklega vísun til þess að árar rekast saman þegar tveimur eða fleiri er róið á sama borð.  Góður ræðari lætur aðra ekki slá sig svo glatt útaf áralagi sínu.

Slá útí aðra sálma (orðtak)  Breyta um umræðuefni.  „Í hvert sinn sem ég reyndi að leiða talið að þessu efn,i sló hann útí aðra sálma; eins og hann væri ekki tilbúinn að ræða það“.

Slá útí fyrir (orðtak)  Rugla; verða elliær.  „Það er nú eitthvað farið að slá útí fyrir gamla manninum“.

Slá varnagla (við) (orðtak)  Setja varúðarreglu/skilyrði; hafa fyrrvara á; lofa/samþykkja með skilyrðum.  „Hann bjóst við að geta smalað þetta með okkur, en sló þó þann varnagla að það væru allir að leggjast í pest á heimilinu, svo það gæti breyst“.  Varnagli er nagli sem festir var/blað á reku/skóflu.

Slá við (orðtak)  A.  Batna af veikindum; rétta úr kútnum; hressast; hjarna við.  „Mér sýndist að henni væri töluvert farið að slá við; hún var farin að halda haus“.  B.  Fitna; bæta utaná sig.  „Ansi finnst mér að þér sé að slá við í seinni tíð“!  Sjá slást við.  C.  Venda seglum þegar sigldur er beitivindur á seglskipi.  Stundum notað um að slá undan; þ.e. breyta stefnu frá beitivindi í lens.  D.  Gera betur en sá sem borið er saman við.  „Ég var ögn skárri en hann í lestri, en hann sló mér alveg við í reikningi“.  E.  Slá einhverju utaní fastan hlut; dangla.  „Mávurinn var ekki alveg dauðskotinn, svo ég sló honum við áður en ég bar hann að Byrginu og lagði hann til hjá hinum“.

Slá vopn úr höndum (einhvers) (orðtak)  Gera einhvern ófæran um að sækja fram eða verjast í máli.  „Með ræðunni sló hann öll vopn úr hendi andstæðinganna“.

Slá þögn á (orðtak)  Hljóðna; þagna.  „Þögn sló á hópinn við þessi tíðindi“.

Sláandi (l)  A. Um gras; unnt að slá vegna sprettu eða aðgengis.  „Gamla túnið er alveg orðið sláandi núna“.  B.  Furðulega; svo manni bregður/hnykkir við.  „Þeir frændur eru sláandi líkir“.

Slánalegur (l)  Renglulegur; luralegur; klunnalegur; luralegur.  „Væri hrúturinn vænni; ekki svona slánalegur, myndi ég setja hann á“.

Sláni (n, kk)  Stór einstaklingur; ekki endilega þéttur á velli; klunni; stórbeinóttur maður/skepna.  „Þetta var stór og slyttingslegur sláni“.  „Þessi sláni var svosem ekki beisinn til vinnu“.

Slápur (n kk)  A.  Stórvaxinn fiskur; golþorskur; stór steinbítur.  „Ég dró nokkra ári mikla slápa á þessu reki, en þeir voru ansi horaðir“.  B.  Í líkingamáli um stórvaxinn mann.

Slást í för með (orðtak)  Verða samferða.  „Hann var undireins til í að slást í för með okkur“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Slást svo til (orðtak)  Vilja svo til; fara á þann veg.  „Það gæti slegist svo til að ég þyrfti að fara suður“.

Slást til (orðtak)  Sveiflast; dingla. 

Slást við (orðtak)  Fitna; bæta á sig holdum.  „Kálfarnir verða fljótir að slást við í þessari beit“.  Ekki hafa sést eða heyrst dæmi um orðtakið annarsstaðar en það var heimafólki tamt á svæðinu.

Slátra (s)  Aflífa; slægta; drepa; lóga.  „… en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn“  (PG; Veðmálið). 

Slátrun (n, kvk)  Aflífun; dráp. Fyrr á tímum fór öll slátrun búfjár fram heima á hverjum bæ fyrir sig.  Enginn var góður búmaður nema hann gæti lógað skepnum sjálfur og nýtt afurðirnar á viðunandi hátt.  Samhjálp var þó alltaf um smalanir og eflaust hafa menn alltaf einnig hjálpast að við slátrun að einhverju marki.  Eðli sínu samkvæmt fer slátrun helst fram á haustin, þegar dilkar hafa notið sumarbeitar og áður en þeir fara að leggja af um vetur og ganga á hey.  Sömuleiðis var stórgripum og gamalám lógað af fóðrum ef þeirra gerðist ekki þörf eða ef harðindi kölluðu á meiri matarforða en til var að vetrarlagi.  Á síðari tímum, þegar fjölgaði í fjáreign hvers bónda, jókst þörf þess að standa sameiginlega að