Saddur (l) Mettur; vel nærður; með fullan maga. „Ekki meira takk; nú er ég orðinn vel saddur“. Stundum notað yfir það að maður sé orðinn þreyttur á málefni/viðhorfi; þá gjarnan orðað þannig að maður sé „búinn að fá sig fullsaddan“ af einhverju.
Saddur lífdaga (orðtak) Búnn að fá það út úr lífinu sem vænta má á einni ævi. „Hann dó í hárri elli; saddur lífdaga“.
Saddur veit ei hvar svangur situr (orðatiltæki) Sá sem er saddur gleymir gjarnan þeim sem hungraðir eru.
Saðning (n, kvk) Magafylli; mettun. „Stór máfsungi getur verið góð saðning fyrir tvo og jafnvel eða fleiri“. „Ansi finnst mér lítil saðning í þessum bévítans pinnamat“!
Saðsamur (l) Mettar vel; er góð magafylli/staðgóður matur. „Alltaf er lúðan jafn saðsamur matur“.
Safamikill / Safaríkur (l) A. Um mat, jurt o.fl.; með mikinn safa/lög. „Rófurnar voru óvenju sætar og safaríkar“. B. Líkingamál um slúður/sögu; innihaldsríkur; kjarngóður. „Þetta þótti henni safaríkar fréttir“.
Safi (n, kk) Sætur/kjarngóður lögur; saft. T.d. ávaxtasafi, grænmetissafi o.fl.
Safn (n, hk) A. Hvaðeina sem safnað hefur verið saman. T.d. bókasafn, forngripasafn, steinasafn o.fl. B. Stofnun sem varðveitir safn; s.s. Þjóðminjasafnið. C. Stundum notað um fjárhóp sem smalað hefur verið, en mun oftar var talað um rekstur í Rauðasandshreppi. „Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu“ (PG; Veðmálið). D. Að fornu notað um skyr sem safnað hafði verið með mjólkurvinnslu á heimili, og gjarnan geymt í stórum niðurgröfnum sáum.
Safna / Safna saman (s/orðtak) Smala/sanka saman. „Nú þurfum við að fara að safna í brennu“.
Safnast saman (orðtak) Um mannfjölda; koma saman til fundar/skemmtunar o.fl.
Safnast þegar saman kemur (orðatiltæki) Margt smátt gerir eitt stórt; mikið verður úr því sem lítið er þegar fjöldinn er nægur.
Safta (s) Gera krækiberjasaft/rabbaberjasaft. „Kollsvíkingar, líkt og aðrir, fóru til berja hvert haust þegar ber voru þroskuð og tími gafst frá bústörfum. Oft var það að áliðnum águst eða í byrjun september. Berjalönd eru víða, t.d. í Húsadal, Keldeyradal, Lynggiljum, Grænubrekku, Stóravatnsbrekkum, við Litlavatn, Kjóavötn, Sandslá eða undir Breiðsholti. Tínt var ýmist með höndum eða berjatínum, oftast í 10 lítra fötur þegar fullorðnir áttu í hlut. Þegar heim var komið voru berin þurrkuð ef þess þurfti; síðan tínt úr þeim mesta ruslið, kerlingahland o.fl. Berin voru síðan marin; áðurfyrr í handsnúinni hakkavél en síðar í rafknúinni hakkavél með berjapressu. Síðan var saftin síuð gegnum grisju. Hratið sem eftir varð, ásamt hratinu úr pressunni var látið hanga yfir saftfötunni yfir nótt til að nýta hvern dropa sem úr því lak. Saftin var þynnt dálítið með vatni og í hana settur sykur og ögn af vínsýru; síðan hellt á flöskur. Berjasaft var notuð þynnt sem svaladrykkur og drukkin með mat. Einnig var hún notuð minna þynnt sem útálát á grauta og búðinga. Reynt var að láta fyrra árs birgðir klárast áður en ný saft var gerð, en stundum urðu flöskur einhverra ára gamlar og saftin þá gerjuð og í raun ágætis rauðvín. Rabarbarasaft var gerð á svipaðan hátt, úr rabarbaraleggjum“ (VÖ).
Safna glóðum elds að höfði sér (orðtak) Búa sér til erfið vandamál; auka sér vandræði; afla sér óvildarmanna.
Safna í sarpinn (orðtak) Safna forða stil síðari nota; leggja til hliðar.
Safna kröftum (orðtak) Hvíla/undirbúa sig fyrir verk/átök. „Ég er að safna kröftum til að einhenda mér í þetta“.
Safnaðarfundur (n, kk) Fundur safnaðar kirkju. „Bopðað var til safnaðarfundar í Breiðavíkursókn“.
Safnaðarsöngur (n, kk) Kirkjusöngur safnaðar. „Safnaðarsöngur í Breiðuvíkursókn hefir verið á vegum fjelagsins (Vestra) síðan 1917 og taka því allir fjelagar þátt í kirkjusöngnum. Söngæfingar hefir fjelagið haft nokkrar, sum árin“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Safnast fyrir / Safnast upp (orðtak) Um hluti, koma saman yfir tímabil og verða að haug/safni o.fl. „Hún var hirðusöm um öll ílát, og með tímanum safnaðist fyrir hjá henni mikið af pokum, dósum, krukkum og fleiru“.
Safnast til feðra sinna (orðtak) Deyja; andast; sálast. „Hann hefur þá safnast til feðra sinna; blessaður karlinn“.
Safnast þegar saman kemur (orðatiltæki) Margt smátt gerir eitt stórt. „Það safnast þegar saman kemur; á endanum varð það hinn myndarlegasti rekstur sem rann inn í Breiðavíkurrétt“.
Safngripur (n, kk) Minjar; hlutur sem vert er að geyma á safni. „Koparhringurinn á hlöðuhurðinni á Láganúpi er eiginlega safngripur, því hann er úr togaranum sem strandaði undir Hnífunum“.
Saft (kvk) Safi; t.d. berjasaft, rabbarbarasaft o.fl. „Berjatínsla var fastur liður síðsumars, og gerði mamma saft úr krækiberjunum ef nægilega mikið safnaðist“.
Safta (s) Búa til saft. „Misjafnt er hve lagnir menn eru að safta“.
Saftblanda (n, kvk) Þynnt berjasaft. „Saftblanda var notuð til drykkjar, en sem útálát á grauta og búðinga var saftin lítið þynnt“.
Saftflaska (n, kvk) Flaska með berjasaft. „Oft voru 20-30 saftflöskur afrakstur eins sumars“.
Saftkanna (n, kvk) Kanna sem saft er borin fram í. „Réttu mér saftkönnuna“.
Saftpottur (n, kk) Pottur sem saft er soðin í.
Saftpressa (n, kvk) Tæki til að pressa saft úr berjum; ýmist sett á hakkavél eða sérstakt tæki. Fyrir tíma hennar voru berin hökkuð í hakkavél.
Saftsúpa (n, kvk) Súpa sem soðin var úr berjasaft; oft þykkt dálítið; soðin með rúsínum og borðuð með brauði eða tvíbökum. Sést lítt á borðum í seinni tíð.
Sag (n, hk) Agnir/salli sem myndast við að efni er sagað.
Saga (n, kvk) A. Almennt; sögn; frásögn; skáldverk; það sem sagt er í tali/riti. B. Sértækt; fornsögur; Íslendingasögur.
Saga (s) A. Taka efni í sundur með sög. „Afi byggði sér torfkofa niðri við sjóinn, svo hann gæti sagað þar stórvið og geymt veiðarfæri“. B. Róa bát þar sem lítið gengur, t.d. móti straumi/vindi. „Við vorum lengi að saga suðurfyrir röstina“.
Saga að segja frá því (orðtak) Efni í töluverða frásögn. „Þú spyrð hvernig ég fékk þetta ör? Það er nú aldeilis saga að segja frá því“!
Saga til næsta bæjar (orðtak) Stórfrétt; frásagnarverð tíðindi. „Það yrði saga til næsta bæjar ef hann kláraði heyskapinn fyrir sláturtíð“.
Saga upp (orðtak) Saga sviðahaus í tvo helminga/kjamma. „Sviðahausar eru sagaðir upp, þannig að byrjað er á krúnunni og sagað niður, þangað til kjammarnir hanga saman á tungu og kverk. Þá er skorið sundur með hníf og heili hreinsaður úr áður en soðið er“.
Saga út (orðtak) Saga þunnan við eða krossvið með laufsög/útsögunarsög, oft með mjög kræklóttu sagarfari. Útsögun varð vinsæl handavinna á 20.öld, e.t.v. fyrir áhrif danskra tímarita.
Sagan er ekki nema hálfsögð ef einn segir frá (orðatiltæki) Auðskilin og alloft notuð speki.
Sagan segir (orðtak) Sagt er; heyrst hefur; svo er sagt. „Sagan segir að þetta hafi endað með slagsmálum; en ég sel það ekki dýrara en ég keypti“. „Segir sagan að fljótir hafi þeir félagar Jóns verið að setja upp húfur sínar er þeim mætti þessi sjón“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Sagarbakki (n, kk) Sú brún sagarblaðs sem er andstætt tönnunum.
Sagarfar / Sagarsár (n, hk) „Ekki er nú sagarfarið vel beint hjá honum“. „Rektu fleyginn betur í sagarsárið“.
Sagargeifla / Sagarkegg / Sagarspík (n, hk/kvk) Gæluheiti á sög. „Þessi sagargeifla er orðin nánast tannlaus“. „Ári er það orðið tannlaust þetta sagarkegg; þetta verður strax ónýtt af að saga upp sviðahausa“. „Hvar lét ég nú frá mér sagarspíkina“?
Sagði í óspurðum fréttum (orðtak) Sagði án þess að spurt væri eftir. „Hann sagði mér í óspurðum fréttum að nágranninn væri kominn með nýja ráðskonu“.
Sagður (l) Sagt/fullyrt að hafi. „Brynjólfur er sagður hafa borið takið á bakinu neðan úr fjöru, upp á bakka“. „Kollur er sagður fyrstur manna hafa komist af úr sjóslysi við Ísland. „Þetta var sagður stór reyðarhvalur“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Sagga (s) Slaga; myndast saggi. „Heyið hefur saggað dálítið yfir nóttina, það hefur náð að orna eitthvað“.
Saggaloft (n, hk) Rakamettað loft. „Járni hættir til að ryðga í saggaloftinu hér inni“.
Saggdi (s, ft) Kollsvíkurframburðurinn gamli á sögninni „sagði“. Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi hefur trúlega verið sá síðasti sem notaði framburðin undantekningarlaust, en þó brá honum fyrir hjá Halldóru Kristjánsdóttur frá Grundum eftir það. „Hvað saggdirdu við hann“? Málfræðingar nefna þetta bð og gð framburð. Notaður einnig t.d. í „habbdi“.
Saggi (n, kk) Slagi; raki í húsum sem ekki eru nægilega einangruð og loftræst. Saggafullur.
Saggur (n, kk) ....óviss merking.... Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Sagnabrunnur (n, kk) A. Uppspretta sagna. „Mörg skáld hafa sótt efnivið í sagnabrunn Heimskringlu“. B. Maður sem kann frá mörgu að segja. „Með Ásgeiri féll frá mikill sagnabrunnur og kvæðamaður“.
Sagnafár (l) Fámáll; þegjandalegur; fátt um svör. „Hann var fremur sagnafár þegar hann var spurður“.
Sagnahefð / Sagnamaður / Sagnameistari / Sagnaþulur (n, kk) Sá sem er fróður um sögur og segir vel frá. „Sagnahefð er að deyja út í þeirri mynd sem áður var. Tveir þættir hafa þar orðið líklega mestir örlagavaldar; fjölföldun ritmáls og ljósvakamiðlar, en einnig breyttur lífsstíll með hröðum samgöngum; gnótt afþreyingar og annarra glapa. Langt frameftir 20. öldinni voru þó margir snjallir sagnamenn í Rauðasandshreppi sem víðar. Menn sem kunnu ógrynni sagna og gátu sagt þær á þann hátt að hrein unun var á að hlýða; með viðeigandi spennu, kímni og öðrum tilfinningum. Fólk sem kunni þá list betur en nokkrir Hollívúddleikstjórar að leiða áheyrandann inn í lifandi heim frásögunnar; hvort sem var í vopnaglamri víkingaaldar eða svaðilförum síðari tíma. Sagnalistin er ekki öllum gefin; hún þróast aðeins með mikilli æfingu og í samfélagi sem kann að meta hana. Meðal snjallra sagnamanna sem ég man eftir er afi minn, Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi. Hann var yfirleitt fámáll, en í góðra vina hópi og á góðri stundu sagði hann listilega frá. Sama var um konu hans Hildi ömmu, og börn þeirra erfðu listina um margt. Sagnalist móður minnar hefur komið fram á síðari tímum, svo sem með skrifum hennar um fyrri tíma. Fyrstu almennilegu lygasöguna sagði mér Arinbjörn Guðbjartsson, gamall frændi minn sem kominn var frá Ameríku. Hann vissi allt um það hvernig tunglakarlarnir hefðu falið hausa sína í hrossastráum til að þeim yrði ekki stolið þegar þeir litu við hér á Jörðinni. Grafalvarlegur messaði hann sinn boðskap yfir dolföllnum barnaskaranum, sem þaut niður á Fit í sögulokin til að leita að hausunum. Síðan hef ég það fyrir vana að líta í hrossastráin þegar ég á leið hjá þeim, ef vera skyldi að þar leyndist einn haus, eða svo. Annálaður sagnaþulur og kvæðamaður var Ásgeir Erlendsson á Hvallátrum. Afi og Geiri voru af þeirri gerð saganmanna sem vildu hafa allar sögur sannar og réttar. Þórður, nábúi Ásgeits og mágurm kunni að segja listilega frá, en færði stundum í stílinn, einkum síðari tíma sögur; léttleikinn í fyrirrúmi. Sama mátti segja um sagnameistarann Jón Hákonarson á Hnjóti. Enginn tók honum fram í að koma sögum í búning gáska og gamans. Jafnvel ómerkilegustu hlutir og atburðir gátu orðið skemmtisaga í munni Jónsa og komið út hláturstárum áheyrandans. Hann kunni þann línudans að búa til kímnisögur úr samtímanum og af sveitungum sínum án þess að nokkur þyrfti að særast. Er menningarslys að þær sögur skuli ekki hafa varðveist. En Jónsi gat einnig verið alvarlegur og þræddi þá veg sannleikans eins og hæfir arfsögum og gengnum persónum. Fleiri mætti til nefna af góðum sögumönnum sem nú eru látnir. Hafliði Halldórsson frá Látrum var frábær sagnamaður. Einkum hafði ég áhuga á sögum hans af bjargferðum og viðureign við tófuna. Bræðurnir Sigurvin og Gunnar Össurarsynir voru margfróðir um lífshætti fyrri tíðar, auk þess sem báðir voru víðsigldir og veraldarvanir. Ívar Ívarsson í Kirkjuhvammi kunni frá mörgu að segja; var bæði nákvæmur og góður sögumaður. Ég kynntist aldrei bróður hans, hinum mikla sagnaþul og fræðimanni Rósinkrans sem Rósarímur voru um kveðnar. Ívar Halldórsson á Melanesi var skemmtilegur sögumaður og hafði lifað viðburðarríka ævi sem skútusjómaður o.fl. Sátum við löngum á kvöldin í bragga á Gjögrum í sláturtíðinni; hann skútukarlinn sem kjötmatsmaður og ég unglingurinn honum til aðstoðar við að hnýta á merkispjöld. Þar fékk ég að heyra magnaðar sögur af viðureign hans við Ægi konung og misvandaða samskipsmenn. Vildi þá stundum gleymast áhnýtingin þegar ég hlustaði opinmynntur á hrikalegar lýsingar sem mér kom ekki til hugar að efast um. Yrði mér það á að hvá brást sá gamli fljótt við; „Og þetta er sannleikur sem ég segi þér; sem ég sit hérna á stólnum“! Sonur hans er Ari Ívarsson, sem manna mest hefur ritað fróðleik og frásagnir úr Rauðasandshreppi á síðari tímum, t.d. í Árbækur Barðastrandasýslu. Í Gjögrabragga voru fleiri sagnamenn í sláturtíðinni. Þar mátti t.d. heyra listilega kryddaðar sögur Hjartar Skúlasonar af hans sjómennskuævi; fásagnir Óla á Gili af sveitalífi fyrri tíðar og úr samtímanum; Kitta í Hænuvík; Óla á Nesi; Árna í Tungu og fleiri. Stundum kom þar Patreksfirðingurinn Doddi kútur; Þórður Jónsson, verkamaður og fóstri Jóns úr Vör. Þá sló þögn á hávaðann í bragganum þegar Doddi hóf að segja frá með sinni hófstilltu röddu og sérstökum stíl, með viðmælandann í þriðju persónu. Marga fleiri mætti hér upp telja, en verður e.t.v. gert annarsstaðar“ (VÖ).
Sagnarandi (n, kk) Hugboð um óorðna hluti; forspá; vitneskja um hugsanir annarra. „Þú hlýtur að hafa haft einhvern sagnaranda, því þetta var einmitt það sem ég var að vonast eftir“!
Sagnir herma (orðtak) Svo segir í sögum. „Sagnir herma að á undir Biskupsþúfu hafi Kollur fólgið vopn sín og gersemar“. „Hér virðist ekki geta verið um annan hval að ræða en þann sem Einar dró á land í Kollsvík, að því er sagnir herma“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Sagógrjón (n, hk, fto) Grjón eða smákúlur sem unnar eru úr merg sagópálmans. Voru vinsæl til grautargerðar á síðari hluta 20.aldar.
Sagógrjónagrautur (n, kk) Vellingur búinn til úr sagógrjónum (kúlulaga perlum sagópálmamerg). „Sagógrjónagrautur naut vinsælda um tíma, en þeim hefur hnignað eins og annarri grautarmenningu“.
Sagt var mér en ekki sýnt (orðtak) Ég heyrði þetta sagt en sá það ekki sjálfur. Nokkuð notað t.d. þegar menn fría sjálfa sig af sögusögnum/slúðri sem þeir útbreiða.
Saka (s) A. Saka um; áfellast. B. Meiðast; skaðast; koma að sök. „Smásteinar komu fljúgandi ofanaf brún, en mig sakaði ekki“. „Almennt mátti ekki heita að skepnur kæmu á gjöf fyrr en um og eftir hátíðir, því kast það er gjörði snemma vetrar varð hér svo vægt að litlu sakaði“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1926).
Saka um (orðtak) Bera sakir á; áfellast; ákæra. „Ég er ekki að saka hann einan um að þetta fór svona“.
Sakar ekki (orðtak) Spillir ekki fyrir; væri ekki verra. „Þetta er kannski vonlaust, en það sakar ekki að reyna“.
Sakargiftir (n, kvk, fto) Ásakanir; ætlaður glæpur. „Ef ég er ásakaður um eitthvað þætti mér viðkunnanlegra að fá að heyra sakargiftirnar“!
Sakbitinn (l) Með slæma samvisku vegna misgjörðar; með samviskubit. „Ég er ekki svo mjög sakbitinn yfir þessum spýtum sem ég tók; hann skuldar mér drjúgt meira en það“!
Sakir / Sökum (fs) Vegna; af þeirri ástæðu. „Sláttuvél kom að Saurbæ 1908 en var skilað aftir sakir þess að greiða hennar var gerð fyrir grófara gras en hér óx“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Sakka (n, kvk) Þungur hlutur á enda færis til að halda því niðri og réttu á skakveiðum; pilkur. „Löngum notuðu menn stein í sökku, en síðar blý- og járnsökkur eftir að það varð unnt. Í Kollsvík tíðkaðist að menn smíðuðu sínar sökkur, t.d. með því að renna bráðnu blýi í járnhólk“.
Saklaus (l) A. Ekki sekur; sýkn. „Ég er alveg saklaus af því að stela hnífnum“. B. Ekki mjög til baga; ekki skaðlegur/íþyngjandi. „Þetta var nú bara saklaust grín“. „Það ætti að vera saklaust að láta svonalagað flakka í vísu“.
Saklaus er hver þar til sekt hans er sönnuð (orðatiltæki) Undirstöðuregla réttarfars og stjórnarskrár.
Saklaust veður (orðtak) Aðgerðalaust/meinlaust/meinhægt veður; tiltolulega stillt veður. „Það er svolítil rigning, en að öðru leyti alveg saklaust veður“.
Sakleysið uppmálað (orðtak) Lítur mjög sakleysislega út. „Ég gruna strákana um að vita eitthvað um þessi göt á hjallinum, þó þeir séu sakleysið uppmálað og með geislabaug á krúnunni“.
Sakleysingi (n, kk) Sá sem er saklaus.
Sakleysislega (ao) Eins og sé saklaust. „Þetta lítur svosem sakleysislega út“.
Sakna (s) Sjá eftir; finnast vanta; syrgja. „Alltaf saknar maður heimahaganna“.
Sakramenti (n, hk) Náðarmeðul; hluti af helgisiðum kristinnar kirkju; messuvín og obláta sem altarisgestur meðtekur sem tákn um blóð og hold Krists og í minningu síðustu kvöldmáltíðar Krists. Reyndar eru sakramenti lúthersku kirkjunnar taldar vera tvennskonar athafnir (hjá rómversk-kaþólskum eru þær sjö). Önnur þeirra er skírnin, sem er tákn um það þegar Kristur sendi lærisveina sína út um heiminn og fól þeim að „gera allar þjóðir að lærisveinum“. Vatnsaustur sem skírninni fylgir er til minningar um skírn Krists í ánni Jórdan. Kollsvíkingar hafa löngum verið skírðir uppúr Gvendarbrunnsvatni sem, auk náttúrulegs hreinleika, býr að blessan Guðmundar góða Hólabiskups. Hitt sakramenti kirkjunnar er altarisgangan. Kirkjugestir sem það vilja ganga þá inn að altarinu; krjúpa við gráturnar og þar útbýtir prestur sakramenti/náðarmeðulum, sem annarsvegar er obláta; lítið brauð sem táknar líkama Krists og hinsvegar messuvín sem táknar blóð Krists. Hvorttveggja tekur altarisgestur í munn sér og neytir. Þessi athöfn er í minningu síðustu kvöldmáltíðar Krists, er hann sat að borði með lærisveinum sínum yfir brauði og víni. Hann á þá að hafa sagt að brauðið væri líkami sinn sem fyrir þá væri gefinn og vínið væri kaleikur þess nýja sáttmála sem úthellt er til fyrirgefningar syndanna. Líta má því á altarissakramentin sem tákn um fyrirgefningu syndanna. Trú fólks fyrr á öldum byggði annarsvegar á þrá eftir sæluvist í himnaríki en hinsvegar og ekki síður á óttanum við eilífar kvalir í helvíti, sem prestar voru óþreytandi að útmála. Trúin gekk útá að allir væru syndugir og þyrftu að verja ævi sinni í að bæta fyrir syndir sínar. Ekki var því að undra að þessi syndaaflausn væri vinsæl; þetta strokuleður syndanna. Með minnkandi helvítistrú landsmanna fækkaði altarisgestum, og munu nú fáir ganga til altaris af trúarhitanum einum. Margir hafa þó þennan sið í heiðri, og viðhalda þannig gömlum venjum.
Sala (n, kvk) Það að selja/ láta af hendi gegn verðmætum.
Salatbeð (n, hk) Beð í garði þar sem ræktað er salat til matar. „Eru nú hænsnin komin í salatbeðið“!
Salerni (n, hk) Klósett; staður þar sem maður gerir stykkin sín; skítur; leysir buxur; kúkar. Orðið er samsett úr „salur“ og „erni“, og merkir salur þar sem maður gengur örna sinna.
Salla (s) Sáldra; dreifa salla/sagi/ryki/snjó. „Vertu nú ekki að salla rykinu niður á borðið“!
Salla niður (orðtak) A. Snjóa mjög mikið; oft notað yfir lognsnjó og jafnvel þegar ekki var von á slíku. „Það er allt í einu farið að salla niður snjó“. „Ári hefur sallað miklu niður í nótt“. B. Skjóta/drepa unnvörpum. „Þeir mættu ofurefli í orrustunni og voru sallaðir niður“.
Sallafínn (l) Mjög fínn/snyrtilegur. „Mikið ertu nú orðinn sallafínn“! „Ég segi bara allt sallafínt“.
Sallarólegur (l) Mjög rólegur/yfirvegaður. „Ég beið sallarólegur eftir því að tófan kæmi í færi“.
Sallasnjór n, kk) Grófkornaður snjór; haglsnjór. Erfiður bæði til að ganga og aka í, sé hann verulegur.
Salli (n, kk) A. Dreifð snjókorn á annars auðri jörðu. B. Grófur kornasnjór; sallasnjór. C. Fíngerð korn af hverskonar efni. „Hér hefur sáldrast einhver tóbakssalli niður á borðið“.
Salómonsdómur (n, kk) Úrskurður sem ekki verður hnekkt; gáfulegur dómur. „Hann kvað upp sinn salómonsdóm um að lambið teldist ómarkað með öllu“.
Salómonsvit (n, hk) Afburða vit; mikil skynsemi. Einkum notað um skepnur sem sýna meiri hugsun en aðrar. „Það er eins og hrafninn hafi salómonsvit þegar hann er að stríða hundinum“.
Salt (n, hk) NaCl; natríumklóríð; uppleysanlegt efnasamband sem mikið hefur verið notað til varðveislu á matvælum frá því um og uppúr 1600. Sjá söltun, saltfiskur, saltket, hrognkelsi.
Salta (n, hk) Verka mat með salti; bæta salti í mat. „Það hefði mátt salta grautinn aðeins meira“.
Salta niður (orðtak) Oftast haft um verkun saltkets; leggja niðurbrytjað niður í ílát með hæfilegri saltblöndu.
Saltari (n, kk) A. Guðsorðabók eða sálmabók. Oftast notað um Davíðssálma biblúnnar. Kunnast úr þjóðsögunni um Sæmund fróða, sem sló saltara í haus fjandans í selslíki. B. Sá sem saltar matvæli.
Saltbrenna (s) Skaðast af of miklu salti. Notað um skemmdir sem verða á ofsöltuðum fiski; skaða sem verður á húð eða augum af snertingu við salt og um ryðskemmdir á járni af sömu völdum.
Saltbrunninn (l) A. Rauðbólginn í húð vegna snertingar við salt/sjó. „Þú verður fljótt saltbrunninn á skallanum í ágjöfinni og sólskininu. Ég held að þú ættir að setja upp sjóhattinn“. B. Skemmdur matur vegna ofsöltunar. C. Um járn; ryðgað vegna snertingar við salt.
Saltfiskkassi (n, kk) Kassi sem fiskur er saltaður í. „Farið var í matfiskróðra á hverju sumri þegar tími og sjóveður leyfði. Fiskurinn var flattur og saltaður í sterkan saltfiskkassa í mókofanum og síðar í verkfærahúsinu. Hann var síðan tekinn upp í smáskömmtum og útvatnaður í brunnhúsinu fyrir neyslu“.
Saltfiskstæða (n, kvk) Hlaði/stæða af söltuðum fiski. „Mikið var lagt uppúr að saltfiskstæður væru rétt og snyrtilega hlaðnar“.
Saltfiskur / Saltfiskverkun hefur verið snar þáttur í atvinnuháttum Kollsvíkinga; allt frá því að salt fór að fást til fiskverkunar. „...saltfiskur af sunnanverðum Vestfjörðum var talinn best verkaður af öllum fiski“ (GG; Skútuöldin). Líklega hefur saltfiskverkun hafist hérlendis þegar salt fór að flytjast hingað að ráði, á fyrrihluta 17. aldar. „Engu að síður gegndi þurrkunin áfram mikilvægu hlutverki í verkun fisksins, og þegar saltfiskverkun hófst í einhverjum mæli undir lok 18. aldar, var fiskurinn verkaður samkvæmt svokallaðri „Nýfundnalandsaðferð““ (JÞÞ; Sjósókn og sjávarútvegur). Áður höfðu útlendingar veitt í salt við landið. Víst má telja að Útvíknamenn hafi verið fljótir að tileinka sér þessa verkunaraðferð: „Vestfirðingar voru öðrum fremri í saltfiskverkun“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Fátt er nú vitað í smáatriðum um vinnubrögðin fyrr á tíð, en lýsingar frá síðustu tímum útfgerðar í Kollsvíkurveri má sjá m.a. í frásögnum Ingvars Guðbjartssonar og Kristjáns J. Kristjánssonar. „.... þannig er aflinn borinn upp í ruðning. Ruðningur var trékassi á löppum. Flatningsborð á öðrum endanum en stúkað fyrir hausa á hinum. Þegar búið er að bera upp fara menn úr skinnklæðum; brókin er sett á brókarkvíslina til að hún þorni fyrir næsta róður. .... Ekki er beðið lengi með að fara í aðgerðina; einn hausar og tveir fletja. Lækur rann við endann á ruðningnum. Hann var stíflaður með hellu og flatti fiskurinn látinn detta af borðinu niður í stífluna. Þar taka strákar til að þvo hann og koma inn í kró sem stóð hinum megin við lækinn. Þar er hann saltaður í stæður sem eru umstaflaðar eftir 3-4 daga. Í þeim stóð fiskurinn þar til hann var vaskaður og þurrkaður“ (IG; Niðjatal HM/GG). „Hæfileg saltnotkun var talin 180 kg í skippundið af fullverkuðum fiski“ (GG; Skútuöldin). „Á Vestfjörðum var stakkurinn hlaðinn beint upp en syðra var hann látinn ganga að sér eftir því sem hann hækkaði“. Fiskurinn var þurrkaður á steinlögðum reitum, sem enn má sjá í Kollsvíkurveri, þó sandorpnir séu orðnir. „Ýmist var svo fiskurinn fluttur ópakkaður til sölu eða umboðssölu á Patreksfirði, eða stundum metinn og pakkaður í Verinu. Var hann þá oft fluttur um borð í skip sem tóku hann veint til útflutnings. Það var gert á vegum fyrsta pöntunarfélagsins sem stofnað var og starfrækt í Rauðasandshreppi, með aðalbækistöðvar á Patreksfirði. Það kom fyrir að fiskurinn var seldur upp úr salti; óverkaður og ópakkaður. Eitt skip tók allan voraflann úr verstöðinni“ (KJK; Kollsvíkurver). „Fiskur sem var 18 þumlungar og stærri var málfiskur, en millifiskur 12-18 þuml. og smáfiskur væri hann minni en 12 þumlungar“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Salthnefi (n, kk) Hnefafylli af salti. „Ég stráði salthnefa á fiskinn yfir nóttina“.
Salthús (n, hk) Hús til geymslu á salti. Milljónafélagið reisti og átti salthús í Kollsvíkurveri.
Saltket (n, hk) Saltkjöt. „Misjafnt er hvað menn eru lagnir að verka í saltket, svo vel geymist og haldi bragði. Fyrir daga frystitækni voru þeir menn eftirsóttir sem vel kunnu til verka. Eins voru menn misjafnlega lagnir að höggva kjöt í spað, en áðurfyrr var saltkjöt brytjað í spað með saxi á fjalhöggi áður en það var saltað með blöndu af fínu salti (vakúmsalti), sykri og ögn af saltpétri“.
Saltketsát (n, hk) Neysla á saltketi. „Nú væri tilbreyting að fá fisk eftir þetta hangikets- og saltketsát“.
Saltketsbiti (n, kk) Biti af saltketi.
Saltketsfat (n, hk) Fat/diskur sem saltket er fært uppá til að bera það á borð.
Saltketspottur (n, kk) Pottur sem saltket er soðið í. „Er farið að sjóða í saltfiskpottinum“?
Saltketskvartel / Saltketsstampur / Saltketstunna (n, hk/kk/kvk) Ílát sem saltket var gjarnan verkað og geymt í. „Mundu eftir að setja hlemminn á saltketskvartelið svo músin komist ekki í það“.
Saltketsverkun (n, kvk) Verkun saltkets; brytjun og söltun saltkets. „Ívar í Kirkjuhvammi var annálaður snillingur í saltketsverkun“.
Saltkjöt (n, hk) Stundum notað af Útvíknamönnum, sem þó töluðu fremur um saltket.
Saltkorn (n, hk) A. Korn af salti. B. Lítilsháttar magn af salti. „Geturðu nokkuð léð mér saltkorn“?
Saltlaus (l) Án salts. „Nú stefnir í óefni; við erum að varða saltlausir“. „Er grauturinn saltlaus hjá mér“?
Saltleysi / Saltskortur (n, hk/kk) Skortur á salti. „Fátt þykir uggvænlegra í verstöðvum en saltleysi“.
Saltlúka / Saltlús / Saltögn (n, kvk) Slatti/ lítið eitt af salti. „Ertu aflögufær um saltlúku fyrir mig“? „Áttu kannski saltögn að ljá mér um stundarsakir“? „Einhverja saltlús gat ég lánað honum“.
Saltlögur / Saltpekill / Saltpækill (n, kk) Pækill; vatn með miklu af uppleystu salti.
Saltmeti (n, hk) Matur sem saltaður er til geymslu. „Í Kaldabrunnslæk var tekið neysluvatn, þvegnir þvottar og afvatnað saltmeti“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Saltpétur (n, kk) Kalínítrat; hvítt efni sem notað var til íblöndunar við salt til matargerðar áðurfyrr; t.d. við saltketsverkun; rúllupylsugerð o.fl. Hefur m.a. þau áhrif að kjöt heldur betur rauða litnum, sem sumum þykir lystugra. Notkun þess dróst þó snarlega saman þegar sannað þótti að það væri krabbameinsvaldur.
Saltpoki / Saltskeppa (n, kk) Saltsekkur; salt var mestmegnis flutt í Kollsvíkurver í saltpokum. „Með saltpoka og annan þungavarning fara þeir léttilega“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Saltreka / Saltskófla (n, kvk) Reka/skófla til að moka salti. „Kastaðu einni saltreku aukalega yfir stæðuna“.
Saltsíld (n, kvk) Söltuð síld, vanalega í tunnu.
Saltsteinn (n, kk) A. Steinsalt; salt sem finnst í jarðlögum. Sumsstaðar er salt unnið úr slíkum jarðlögum í miklu magni, en það er leifar frá uppgufuðum innhöfum fyrir hundruðum milljóna ára. B. Klumpur sem hafður er aðgengilegur fyrir búfé að sleikja, og samanstendur af ýmsum söltum og bætiefnum.
Saltvondur (l) Blóðillur; fjúkandi reiður; fokillur; foxvondur. „Nú er hann saltvondur útaf því að hann var ekki látinn vita tímanlega af þessu“.
Saltsteinn (n, kk) Klumpur af pressuðu fíngerðu salti og steinefnum; hafður aðgengilegur í jötu/haga fyrir búfé til að sleikja, og svala þannig þörf fyrir sölt og steinefni.
Saltsktokkinn / Saltstorkinn (l) Saltdrifinn; krímugur í andliti af seltu, t.d. eftir ágjöf eða sjódrífu. „Mikið er maður orðinn saltstorkinn“.
Saltstorka (n, kvk) Krím/kám í andliti af seltu. „Mikið var gott að þvo af sér saltstorkuna“.
Saltsuða (n, kvk) Framleiðsla salts úr sjó með uppgufun hans. Saltsuða hefur verið reynd af og til hérlendis; einkum þar sem jarðhita nýtur við; enda þarf til mikla og langvarandi hitun.
Salttæpur (l) Tæpur með salt; á lítið af salti. „Við vorum búnir að róa alla vikuna, og því orðnir mjög salttæpir„ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Saltur (l) Saltaður; með miklu saltbragði. „Fiskurinn er dálítið saltur; hann hefði mátt útvatnast lengur“.
Saltvondur (l) Sjóðandi illur; blóðillur. „Það þýðir ekkert að vera saltvondur yfir því sem engum er að kenna“.
Sama (ao) Sjálfstæð mynd af lýsingarorðinu „samur“. „Mér er svosem alveg sama“, sem merkir; „Ég er jafn samur fyrir því“. „Honum má vera nokkurnvegin sama hvernig þetta verður haft“.
Sama (er mér) hvaðan gott kemur (orðtak) Uppruninn skiptir engu. „Ég er alltaf til í að éta egg; sama hvaðan gott kemur“.
Sama hvaðan vindurinn blæs (orðtak) Hvernig sem allt veltist; hvað sem á kann að ganga; hvernig sem vindáttin verður. „Hann er tryggur með sitt, sama hvernig vindurinn blæs“.
Sama hvar borið er niður (orðtak) Sama hvar reynt er. „Það var allsstaðar sama ördeyðan; sama hvar borið var niður“. „Hann var jafn vel heima um hverskonar fróðleik; sama hvar borið var niður“.
Sama hvar dáðlaus drattar (orðtak) Um ónytjung/ lítilsigldan mann; skiptir ekki máli hvort hann er með eða ekki. „Ég veit ekki hvort ég treysti mér með ykkur í róður, enda víst sama hvar dáðlaus drattar“.
Sama hvar frómur flækist / Einu gildir hvar frómur flækist (orðatiltæki) Hinn heiðarlegi/alþýðlegi fær allsstaðar góðar viðtökur.
Sama hvorumegin hryggjar það liggur (orðtak) Sama hvernig fer með það. „Þessi hnífbrók er orðin fjári lélig og mér er nokk sama hvorumegin hryggjar hún liggur, en nýja hnífinn þurfið þið að passa uppá“.
Sama og ekki neitt (orðtak) Nánast ekkert; hverfandi lítið. „Afskaplega er lítið eftir af saltinu; það er bara sama og ekki neitt“. „Það er sama og ekkert bensín eftir á tanknum“.
Sama marki brenndur (orðtak) Eins/svipaður að tilteknu leyti. „Þetta eru báðir vænstu hrútar, en ba´ðri eru þeir því sama marki brenndir að vera fjári lappastuttir“. Vísar til brennimerkinga, t.d. á reka eða sauðfé.
Sama sinnis (orðtak) Á sömu skoðun. „Ég spyr hann á morgun hvort hann sé enn sama sinnis varðandi þetta“.
Saman (ao) Að/hjá hvoru/hverju/hverjum öðrum; í hóp; sameinað. „Við gengum saman út í Vatnadal, en þá skildu leiðir“. „Hann er að ljókka ári mikið; ætli við förum ekki bara að raka saman“. „Svona mikill ís hafði ekki sést á víkinni áratugum saman“. „Ætli ég verði ekki barinn sundur og saman fyrir að segja þetta“? „Okkur kom saman um að þetta væri besta leiðin“.
Saman að sælda (orðtak) Samvistum við; í viðskiptum við. Oftast í orðtakinu „vilja ekkert hafa saman við (einhvern) að sælda“. Sjá þar.
Saman við (orðtak) Í og með; stundum; hálfpartinn. „Hann þóttist vera sármóðgaður yfir þessum hrekkjum, en saman við hafði hann gaman að þeim“.
Saman við að sælda (orðtak) Eiga samskipti við; vera með. „Ég vil nú sem minnst eiga nokkuð saman við hann að sælda“. Sælda merkir að sigta; dregið af sáld = sigti.
Samanbarinn (l) Samanþjappaður; eitilharður. „Skaflinn var svo samanbarinn að aka mátti á honum“.
Samanborið við (orðtak) Miðað við. „Þetta er bara ágæt heyskapartíð, samanborið við ótíðina í fyrra“.
Samanbrotinn (l) Brotinn saman. „Dúkinn fann ég samanbrotinn ofaní skúffu“.
Samanbundinn / Samanhnýttur / Samansplæstur (l) Hnýttur/splæstur saman. „Það þýðir ekkert að nota svona samanhnýtta enda fyrir handvað“. „Athugaðu að kaðallinn sé vel samansplæstur“.
Samanburður (n, kk) Tiljöfnuður; mat. „Frekar var þetta rýrt í dag, í samanburði við hrotuna í gær“.
Samandreginn (l) Dreginn saman. „Pyngjan var samandregin í opið“.
Samanfallinn / Samansiginn (l) Fallinn/siginn saman. „Kofinn var allmjög samansiginn“.
Samangróinn (l) Gróinn saman. „Lækurinn rann þarna í þröngum stokk og voru bakkarnir samangrónir“.
Samanhangandi (l) Sem hangir/tollir saman. „Ekki veit ég hvaða skömmum hann hellti yfir strákormana; en eitthvað var það samanhangandi“.
Samanhnoð (n, hk) Það sem er hnoðað saman; hnoð. Oft notað um stirðlegan skáldskap. „Mér finnst þetta ótttalegt samanhnoð hjá honum“.
Samanhnýttur (l) Hnýttur/bundinn saman. „Þú ferð ekki í lás í þessum andskota; samanhnýttum fúaspotta“!
Samankomnir (l) Komnir saman; mættir. „Jól í bernsku minni voru hátíðleg haldin þannig að á aðfangadag kl sex var allt heimilisfólkið samankomið við útvarpstækið að hlýða á aftansöng“ (ÖG; Glefsur og minningabrot).
Samankýldur / Samanþjappaður (l) Pressaður/þvingaður saman. „Ég sat samankýldur uppi í hlöðurjáfrinu og tróð heyinu útundir þakið eins og framast var unnt“. „Þarna komum við niður á samanþjappaðan jökulleir“.
Samanlímdur / Samanklesstur (l) Límdur/klesstur saman. „Hér eru síðurnar samanlímdar á kafla“.
Samanpressaður / Samanþjappaður (l) Pressaður/þjappaður saman. „Þarna komum við niður á samanþjappað ísaldarset“.
Samanrekinn (l) Þéttur á velli; luralegur; klossaður. „Hann var stuttur, en samanrekinn og gildur“.
Samanreyrður (l) Fast/þétt bundinn saman; samansúrraður. Flækjan var svo samanreyrð að ég ætlaði aldrei að geta losað um hana“.
Samanrunninn (l) Ruynninnn/bræddur saman. „Sykurinn í pokanum var samanrunninn í eitt staup“.
Samansafn / Samsafn (n, hk) Safn; söfnuður. „Hann sagði að flokkurinn væri bara samansafn af hálfvitum“.
Samansaumaður (l) A. Saumaður saman. B. Mjög aðhaldssamur; nískur. „Hann er samansaumaður nirfill“.
Samansettur (l) Settur saman; í heilu lagi. „Næsta traktor var ekið samansettum útyfir Hænuvíkurháls“.
Samansláttur (n, kk) Um samliggjandi bönd/teina/línur; flæktur saman. „Hér hefur orðið samansláttur á teinunum í lagningunni“. „Nú er einhver samansláttur á símalínunum; ég heyri kjaftæðið á Hafnarlínunni“.
Samanslegið (l) Slegið/undið saman. „Hér eru samanslegnir teinar á löngum kafla; það veiðist lítið í þetta“!
Samansnúinn / Samanspunninn / Samanundinn / Samanvafinn (l) Snúinn/undinn/vafinn saman. „Vírarnir voru samansnúnir og vafðir einangrunarbandi“.
Samanspyrtir / Samanvaldir / Samvaldir (l) Í skammarsetningum; samskonar. „Þeir eru samanspyrtir hálfvitar; báðir tveir“! „Þarna er þessum stjórnvöldum rétt lýst; þetta eru samvaldir aular; allir hreint með tölu, og hananú“! Vísar til þess að velja þarf jafnþunga fiska saman í spyrðu.
Samansull (n, hk) Það sem blandað/hrært/sullað hefur verið saman. „Eldri strákarnir gerðu á mér ýmsar tilraunir með grauta sem þeim hugkvæmdist að sjóða í niðursuðudós. Þar fékk ég að smakka súrugraut, eftingagraut, fíflagraut, geldingahnappasúpu og margt fleira; líka samansull af þessu öllu“.
Samansúrraður (l) Fast bundinn/flæktur í hnút. „Eftir storminn voru strengirnir á Bótinni ýmist samansúrraðir eða svo smekkfullir af þaraskít að netið flengrifnaði í drætti“.
Samansöfnuður (n, kk) Hópur; safn; sundurleit samkoma. „Allir hreppsbúar voru boðnir og búnir að mæta þegar miklar framkvæmdir voru á einum bæ, t.d. uppstypa húss. Þetta var oft hinn mesti samansöfnuður, þar sem sumir voru vel verkfærir og hörkuduglegir, en aðrir ýmist fúnir til erfiðisvinnu eða sjálfhlífnir“.
Samantalið (l) Talið/lagt saman; samtals. „Þetta nægir sennilega, þegar allt er samantalið“.
Samantekin ráð (orðtak) Samsæri; samráð um verknað. „Það voru samantekin ráð þeirra að velta sitjandi formanni úr sessi í næstu kosningum“.
Samantekt (n, kvk) A. Söfnun almennt. B. Upprakstur á heyi; það að raka saman/upp; taka saman. C. Úrdráttur/ endursögn máls/rits í stuttu yfirliti; útkoma samlagningar talna.
Samantvinnað (l) Flækt/snúið saman. Þinirnir voru samantvinnaðir á nokkrum kafla“..
Samantvinnuð blótsyrði (orðtak) Runa af samfelldum og öflugum blótsyrðum. „Hann hreytti úr sér samantvinnuðum blótsyrðum yfir klaufaskapnum“.
Samanþvældur (l) Kuðlaður saman. „Þvotturinn kom allur samanþvældur úr vélinni“.
Samasem (ao) Jafnt og; hér um bil; nærri því; svo gott sem. „Fatan er samasem full“.
Samastaður (n, kk) Verustaður; aðsetur. „Það var orðið svo þröngt á netalögnum þarna að erfitt var að finna strengnum einhvern samastað“.
Samábyrgur (l) Ber jafna ábyrgð og sá sem vísað er til; sólidarískur. „Þeir eiga útgerðina saman og eru því samábyrgir fyrir þessu“.
Samband (n, hk) A. Tenging af hverskonar tagi. „Ég setti tækið í samband“. B. Ákveðin tegund viðskiptatengsla, sbr. Samand íslenskra samvinnufélaga.
Sambland (n, hk) Blanda; belndingur. „Tilfinningin var í senn sambland af tilhlökkun og söknuði“.
Samblástur (n, kk) Samsæri; bylting; andspyrna. „Þeir efndu til samblásturs gegn sitjandi stjórn félagsins“.
Samblendingur (n, kk) Bræðingur; blanda; hræringur. „Hann velti fyrir sér hvernig samblendingur trölls og sæskrímslis gæti litið út“.
Samboðinn (l) Við hæfi; nógu virðulegur/góður/kurteis fyrir. „Svona háttalag er ekki samboðið nokkrum heiðvirðum manni“!
Sambreiskingur (n, kk) Sambræðingur; eitthvað sem er hrært/steypt er saman. „Einhver sambreyskingur er kominn í lapparbrotið, en það er ekki nærri gróið ennþá“. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Sambrýndur (l) Með samvaxnar augabrúnir. „Sagt er að Sölmundargjá dragi nafn af að þangað hafi drengur sloppið sem Hollendingar hafi ætlað að nota í beitu. Drengurinn hefur því auðvitað verið sambrýndur og rauðhærður“ (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).
Sambúð (n, kvk) Það að búa/dvelja/vera saman. „Stutt er síðan þau hófu sína sambúð“.
Sambyggður (l) Samfastur; áfastur. „Miklar framfarir urðu í búskap á Láganúpi þegar Guðbjartur og synir hans byggðu steinsteypt útihús um miðja 20.öld; sambyggð sex karma fjárhús með kjallara; stóra hlöðu með tveimur risum; þriggja bása fjós með haugkjallara og hlandfor. Á þeim árum varð einnig töluverð vélvæðing í heyskap“.
Sambærilegur (l) Sem unnt er að bera saman/ jafna við. „Þeir eru nokkuð sambærilegir að dugnaði og afli“.
Samdauna (l) Búinn að vera svo lengi í sterkri lykt að hún finnst ekki lengur. „Mér finnst skelfileg þessi fýla af hitaveituvatninu þarna syðra, en borgarbúar virðast alveg vera orðnir samdauna þessu“.
Samdóma (l) Samhljóða; samróma; með sömu niðurstöðu. „Þetta var samdóma álit þeirra sem til þekktu“.
Samdráttur (n, kk) A. Það að eitthvað dregst saman; herpingur. B. Ást; það að elskendur fella hugi saman.
Samdægurs (ao) Sama dag; á sama dgei. „Ég kom fjallskilaseðlinum samdægurs út að Breiðavík“.
Sameiginlega (ao) Í sameiningu. „Sameiginlega áttu þeir villisjeppann Siggu dýru“.
Sameiginlegur (l) Sem er sameign. „Þeim er margt sameiginlegt“. „Sætt er sameiginlegt skipbrot“.
Sameign (n, kvk) Eign sem fleiri en einn eiga sameiginlega. „Traktorinn var sameign bænda í Kollsvík“.
Sameina (s) Fella saman í eitt. „Hjáleigurnar Grundir og Hólar voru sameinaðar Láganúpsjörðinni“.
Sameining (n, kvk) Samanfelling; tenging. „Sameining Rauðasandshrepps við aðra hreppa var líklega óumflýjanleg á sínum tíma, en hefur ekki leitt til neinna framfara í hinu horfna sveitarfélagi“.
Samfagna (s) Taka þátt í gleði annars/annarra. „Vinir og ættingjar samfögnuðu honum á stóraflmælinu“.
Samfara (l) Í fylgd með; um leið og; samtímis. „Stórbrim, samfara stórstraumsflæði og djúpri lægð, olli því að brot hljóp á land og braut stórt skarð í Garðana. Einn áhrifavaldurinn er líklega sá að offjölgun hafði orðið í ígulkerjastofninum, með þeim afleiðingum að þaraskógurinn frammi á víkinni veitti lítið viðnám“. „Undanskil ég þá bændurna þá bændurna á Lambavatni, er verka betur hey sín en líklega nokkrir aðrir í þessu umdæmi. Samfara því er frábær hirðing hjá þeim á öllum pening“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929).
Samfarir (n, kvk, fto) A. Það sem fer saman. B. Kynlíf tveggja einstaklinga.
Samfeðra (l) Sem eiga sama föður. „Ólafur Magnússon á Hnjóti og Hildur í Kollsvík voru samfeðra“.
Samfella (n, hk) Það sem er samfellt. B. Fatnaður þeirrar gerðar að saman er fastur bolur og buxur. C. Pils við skautbúning.
Samfelldur (l) Sífelldur; felldur saman, órofinn; látlaus. „Í þorrabyrjun tók við samfelldur frostakafli“. „Hann gegndi starfinu í átta ár samfellt“.
Samferða (l) Með í för; í sömu ferð; fara saman. „Ég varð honum samferða innyfir Hálsinn“. „Við vorum samferða útyfir Strympur, en þá skildu leiðir. Hann fór upp Vörðubrekku en ég út Breiðshlíð“.
Samferðamaður (n, kk) Sá sem verður samferða.
Samfestingur (n, kk) Galli; vinnufatnaður úr vinnublússu með áföstum vinnubuxum.
Samfélag (n, hk) Félagsskapur; hópur/fylking fólks, t.d. á tilteknu svæði eða af tiltekinni gerð. T.d. samfélag kristinna manna eða hreppssamfélag.
Samfélagsmál (n, hk) Málefni/hagsmunir samfélags/íbúa. „Össur Guðbjartsson á Láganúpi vann ötullega og fórnfúst að samfélagsmálum alla sína starfsævi“.
Samfleytt (ao) Í samfellu; samfellt. „Hann gegndi þessu starfi í þrjá áratugi samfleytt“.
Samflot (n, hk) Um báta; verða samferða. „Þarna má segja að skipt hafi sköpum, að þessir bátar lentu af tilviljun í samfloti yfir Blakknesröstina“ (ÖG; Þokuróður).
Samfrosta (l) Frosnir saman. „Dreifðu vel úr fiskinum í frystinum svo hann verði ekki samfrosta“. „Ísferjur myndast þegar klaki í botni frostgígs verður samfrosta botnlaginu og flýtur upp með það í vatnavöxtum“.
Samfylgd (n, kvk) Fylgd. „Ég þáði samfylgd hans; enda ókunnugur leiðinni“.
Samfylgdarmaður (n, kk) Ferðafélagi; samferðamaður. „Hann reyndist vel sínum samfylgdarmönnum í lífinu“.
Samgangur (n, kk) Samskipti; blöndun einstaklinga. „Með þeim systrum var alla tíð mjög kært, og mikill samgangur á milli heimila þeirra“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Fé frá Láganúpi hefur alla tíð gengið mikið í norðanverðri Breiðavíkinni og lítill samgangur verið með því og Breiðavíkurfénu“.
Samgengt (l) Eiga samgang. „Láganúpsféð á lítið samgengt við Breiðavíkurfé, þó gangi í sömu vík“.
Samgleðjast (s) Taka þátt í fögnuði; samfagna. „Margir komu til að samgleðjast honum á afmælinu“.
Samgróinn (l) Gróinn fastur við. „Maður er svo samgróinn sinni vík að þar er hugurinn oft frekar en við það umhverfi sem maður dvelur í hverju sinni“.
Samgróningar (n, kk, fto) Óæskilegur bandvefur í sári, sem veldur óþægindum; óþægileg örmyndun.
Samgöngur (n, kvk, fto) „Þegar ég var að alast upp í Kollsvík á fjórða og fimmta tug þessarar aldar, voru samgöngur á landi til og frá Víkinni óbreyttar frá því sem verið hafði frá landnámsöld. Vegir voru ekki aðrir en gömlu þröngu hestagöturnar, sem enn má sjá móta fyrir á fjallvegum, en eru ekki lengur farnar. Þessar götur voru svo þröngar að ekki gátu tveir menn gengið þær samsíða... Af því ástandi vega sem hér hefur verið lýst, má ljóst vera að einu samgöngurnar á landi voru á hestum eð fótgangandi. Og ekki var um aðra vöruflutninga á landi að ræða en á hestum, eða það sem menn báru á sjálfum sér. Hér á ég við flutninga yfir hálsana beggja megin Kollsvíkur... Fjallvegasamgöngur við Kollsvíkinga héldust óbreyttar til ársins 1955, að lokið var við bílveg alla leið yfir Hænuvíkurháls. Rúmum áratug áður hafði verið hafist handa um lagningu akfærs vegar upp úr Kollsvík að norðanverðu“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Samhaldssamur (l) Sparsamur; nískur. „Hann var samhaldssamur í fjármálum og efnaðist nokkuð á því“.
Samheiti (n, hk) Annað heiti á sama fyrirbæri/hlut/málefni/hugtaki.
Samheldni (n, kvk) Samstaða; gagnkvæm samhjálp fólks. „Ég hef verið að hugsa það þegar ég skrifa þetta bréf, hve mikið mannfall var á fólki á góðum aldri í þessari litlu byggð (Rauðasandi). Athyglisvert er líka að engin af þessum fjölskyldum sundraðist; ekki eitt af ollum þessum börnum sem misstu föður eða móður á þessum árum á Rauðasandi þurfti að þiggja uppeldi annarsstaðar en á heimili sínu. Ég held að þetta lýsi nokkuð þeirri samheldni og hjálpsemi sem þarna var við lýði á þessum árum“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). „Sagði hann (S.J.Th) það heitustu ósk sína að samheldni mætti jafnan ríkja í sveitinni“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Samhengi (n, hk) Samband; tengsl. „Það er mikilvægt að átta sig á samhengi þessara mála“. „Orð hafa oft misjafna merkingu eftir samhenginu sem þau standa í, og einnig eftir raddblæ og áherslum“.
Samhengislaust (l) Án samhengis/tengingar; ruglingslega.
Samhentir (l) Samtaka; í samvinnu. „Þeir bræður unnu mjög samhentir að öllum verkum“.
Samhjálp (n, kvk) Þegar menn hjálpa hverjir öðrum; gagnkvæm aðstoð. „Þannig var ávallt aðstoð veitt og samhjálp í hvívetna, svo sem best mátti vera“ (KJK; Kollsvíkurver).
Samhljóða / Samhljóðandi / Samhljóma (l) Einum rómi; á sama veg. „Þessi ályktun var samhljóða hinum fyrri“. „Fundurinn samþykkti þetta samhljóða“.
Samhugur (n, kk) Samkennd; samstaða. „Oft hefur virst, einkum að vetrinum, að fjelagið væri nauðsynlegur þáttur í hinu kyrrláta lífi byggðarinnar; til að auka fjör og glæða samhug manna“ (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi).
Sami grautur í sömu skál (orðtak) Það sama og vant er; eins og vanalega. „Ég sé nú ekki merki um mikla breytingu á þessu veðri; það verður líklega sami grautur í sömu skál á morgun“.
Saminn (l) Skáldaður; búinn til; bundinn í orð/mál. „Ekki veit ég hvenær þessi saga var samin“.
Samjöfnuður (n, kk) Samanburður; jafngildi. „Þetta er ágætur hákarl, en hann kemst þó ekki í samjöfnuð við þann sem ég fékk í fyrra“.
Samkjafta (s) Tala/kjafta ekki samfellt; vera ekki með málæði; þegja. „Greyin mín reynið nú einu sinni að samkjafta eitt augnablik; skelfing er ég leiður á þessu masi“!
Samkjafta ekki (orðtak) Vera símalandi/óðamála; vera með munnræpu; blaðra/bulla/tala samfellt. „Hún samkjaftaði ekki alla leiðina“.
Samkoma / Samkunda (n, kvk) Mannfundur; mannamót; samkvæmi.
Samkomuhús (n, hk) Félagsheimili; hús sem hentar fyrir samkomur. „Íbúar Rauðasandshrepps áttu sín samkomuhús. Á Rauðasandi var það Ungmennafélgagshúsið, sem Ungmennafélagið Von byggði og var lengi helsti samkomustaður Rauðsendinga. Í Örlygshöfn var reist svonefnt Þinghús í landi Tungu, og gegndi það margvíslegu hlutverki fyrir skemmtanir og opinberar samkomur í áratugi. Árið 1955 var vígt glæsilegt samkomuhús stuttu neðar; Félagsheimilið Fagrihvammur. Það var síðan helsta samkomuhús íbúa Rauðasandshrepps meðan hann var við líði. Hinsvegar varð það eitt af fyrstu verkum sveitarfélagsins Vesturbygðar eftir sameiningu að selja þetta sameiningartákn og félagslega stoð íbúanna fyrir smáskildinga, um leið og skólahald var alfarið flutt úr hinum forna Rauðasandshreppi“.
Samkomulag (n, hk) A. Samningur; það sem menn eru ásáttir um. B. Vinátta; sátt. „Yfirleitt var gott samkomulag milli bæja í hreppnum meðan hreppurinn stóð í blóma“.
Samkomulagsatriði (n, hk) Samningsþáttur; það sem semja má um. „Tilhögun greiðslunnar er bara samkomulagsatriði, eftir að verðið er ákveðið“.
Samkrull (n, hk) Sambreyskingur; hræringur; blanda. „Mér líkar ekki þetta samkrull félaganna“.
Samhyrndur (l) Hornalag hrúts, þar sem bæði hornin virðast samgróin í hornrótinni.
Samkvæmishæfur (l) Skikkanlega útlítandi; slarkfær í mannasiðum. „Þú ert nú varla samkvæmishæfur í þessum buxnadruslum“.
Samkvæmur sjálfum sér (orðtak) Gerir/segir ekkert í mótsögn við aðrar gerðir/ önnur ummæli. „Það er ekki hægt að segja annað en að hann sé sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum, þó ég sé á annarri skoðun“.
Samla saman (orðtak) Safna saman; smala; raka saman. „Ætli við þurfum ekki að samla einhverju saman til að bæta á gryfjuna“.
Samlag (n, hk) A. Félagsskapur. B. Sameiginlegur verknaður; sameiginlegt innlegg.
Samlagast (s) Aðlagast; samsama sig. „Það þarf að hafa gætur á aðkomukindinni meðan hún er að samlagast öðru fé“.
Samlagssvæði (n, hk) Svæði þar sem bændur leggja inn afurðir í sameiginlega afurðastöð, t.d. mjólkursamlag.
Samlandi (n, kk) Maður frá sama landi.
Samleið (n, kvk) Sama leið. „Við áttum samleið yfir Sanddalinn, en þá skildu leiðir. Hann fór niður Flosagil en ég fór upp á Flosadal og svo niður á Hjalla“.
Samlitur (l) Í sama lit. „Kjóaunginn var svo samlitur umhverfinu þar sem hann lá grafkyrr, að ég tók ekki eftir honum fyrr en ég steig utaní stélið á honum“.
Samlíðun (n, kvk) Samúð; meðaumkun. „Maður finnur til samlíðunar með þessum vesalingum“.
Samlíking (n, kvk) Samanburður; viðlíking. „Mér fannst þetta furðuleg samlíking hjá honum“.
Samlíkja (s) Líkja saman; bera saman við. „Það er ekki hægt að samlíkja þessum mat við óætið sem mér var boðið á hótelinu“!
Samloðun (n, kvk) Viðloðun; samheldni. „Það vantar alla samloðun í þetta efni“.
Samloka (n, kvk) A. Skelfiskur með tveimur skeljum, s.s. kúfiskur, kræklingur, krákuskel o.fl. B. Tvær samanlagðar brauðsneiðar með meðlæti á milli. C. Líkingamál um góða vini. „Þeir eru eins og samlokur; mega hvorugur af hinum sjá“.
Samlyndi (n, hk) Samkomulag; sambúð. „Eitthvað hefur slest uppá þeirra samlyndi í seinni tíð“. Sjá í sátt og samlyndi.
Sammála (l) Á sama máli; taka undir það sem sagt er. „Ekki urðu þeir sammála um þetta fremur en annað“.
Sammerking (n, kvk) Það að marka fé undir mark sem er það sama og annars markeiganda á sama svæði, þannig að misgrip gætu orðið. Markaverðir eiga að úthluta mörkum á þann hátt að forðast sammerkingar.
Sammerkt (l) Um fé; með sama eyrnamark sitthvorra eigenda. „Með nýjum lögum um búfjármörk á 8. áratug 20. aldar var bannað að sammerkt væri nokkursstaðar á Vestfjörðum. Varð það m.a. til þess að ég missti mitt mark sem áður hafði átt Halldóra frá Grundum, amma mín; sneitt aftan; biti framan hægra. (VÖ).
Sammæðra (l) Um tvær eða fleiri manneskjur; eiga sömu móður en ekki endilega sama föður.
Sammælast (s) Koma sér saman um; vera einhuga um. „Hinn 5. apríl 1904 sammælast Kollsvíkingar til kaupstaðarferðar á Patreksfjörð“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sammæti (n, hk) Mót; koma saman. „Neðst á Litlufit eru sammæti Árinnar og Torfalækjar“.
Samnefndur (l) Heitir sama nafni. „Norðast á Grundabökkum var samnefnd þurrabúð, oft í daglegu tali einungis nefnd Bakkar“ (HÖ; Fjaran).
Samnemandi (n, kk) Sá sem nemur/lærir í sama skóla/bekk. „Við vorum samnemendur í Kollsvík“.
Samneyta (s) Vera samvistum við; sitja til borðs með. „Hann fór heim úr slátruninni í fússi; hann harðneitaði að samneyta þessum vitleysingum sem höfðu verið að atast í honum“.
Samneyti (n, hk) Samskipti; samvera; það að snæða með. „Ég hef, sem betur fer, ekki þurft að hafa mikið samneyti við þessa bullustrokka“!
Samning (n, kvk) Ritun; skáldun; samantekt; gerð. „Við samningu þessa orðasafns hef ég stuðst við ýmsar heimildir, en mörg máldæmin eru mín smíði; ýmist algerlega skálduð eða byggð á óljósu minni“.
Samningalipur (l) Um þann sem er laginn að semja við aðra/ þjáll í samningum. „Hann var einstaklega samningalipur og náði oftast sínu fram með hæglæti og rökræðum“.
Samningur (n, kk) Samkomulag; gagnkvæmur skilningur á samskiptum. Í samfélagi fyrri tíma var meira treyst á orðheldni manna og handsal en nú er; nú þurfa allir samningar að vera skriflegir og helst vottfestir.
Samnot / Samnýting (n, hk) Sameiginleg afnot. „Hvor útgerð hafði sitt hrognasigti en samnot voru af grófsigti“.
Samnýta (s) Nota í sameiningu. „Reki sunnan Ár var samnýttur frá Láganúpi og Grundum“.
Samplokkað (l) Um það þegar fiður af mismunandi grófleika er plokkað saman af fugli, án sorteringar. „Samplokkað fiður var einnig notað í yfirsængur, en þær voru þungar... “ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Samráð (n, hk) Sameiginleg ráðagerð; samtal. „Við þurfum að hafa samráð við formanninn um þetta“.
Samráðslaust / Samráðslítið (l) Án samráðs/ráðfæringa. „Þetta gerði hann samráðslaust og án minnar vitundar“!
Samráðsleysi (n, hk) Skortur á samráði/samtali/ráðfæringum. „Svona samráðsleysi kann ég ekki við“!
Samrekkja (einhverjum/einhverri) (orðtak) Sofa hjá einhv.; hafa samfarir við einhv.
Samrekstra (l) Unnt að reka með öðru fé. „Hænuvíkurkindurnar urðu illa samrekstra með Kollsvíkurfénu. Þegar kom uppundir Hjallagötur settu þær sig neðan með Hafnargili og hurfu á spretti uppaf brún“.
Samrekstur (n, kk) A. Sameiginlegur fjárrekstur tveggja eða fleiri fjáreigenda. „Látramenn höfðu samrekstur af Breiðavíkurrétt út að Látrum“. B. Rekstur tveggja eða fleiri fyrirtækja/viðskiptaeininga.
Samrit (n, hk) Rit sem er eins og annað rit; afrit; eftirrit; uppskrift.
Samróma (l) Þegar allir eru á einu máli; samhljóma; einróma. „Þetta var samróma álit allra viðstaddra“.
Samruni (n, kk) Sameining; samsteypa. „Samruni hreppanna var líkast til óumflýjanlegur, en ekki virðist hann hafa orðið Rauðasandshreppi til neinna framfara“.
Samrýmdir (l) Um tvo einstaklinga; sækja í gagnkvæman félagsskap; eru góðir vinir. „Við Buggi vorum mjög samrýmdir og því var ekki átakalaust að sjá á eftir honum vetraralangt vegna skólagöngu“.
Samræði (n, hk) Samfarir; kynlíf; holdlegt samneyti.
Samræðuhæfur (l) Hæfur til viðtals; unnt að tala við; hægt að mæla máli. „Hann var svo niðursokkinn í bókina að hann var ekki samræðuhæfur“. „Hann var svo sótvondur yfir þessum klaufaskap að hann var ekki samræðuhæfur fyrst í stað“.
Samræður (n, kvk, fto) Viðtal; samtal. „Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður“ (PG; Veðmálið). Sjá hrókasamræður.
Samræma (s) Samstilla; fella saman. „Erfiðlega gekk að samræma þetta tvennt“.
Samræmi (n, hk) Rím; samstilling; taktur; samsvörun. „Lítið samræmi var í frásögnum þeirra“.
Samsafn (n, hk) Samansafn; söfnuður. „Þetta virðist hafa verið samsafn tómra hálfvita“!
Samsekur (l) Á sinn þátt í sök/glæp/verknaði. „Ætli maður sé þá ekki samsekur öðrum, ef þetta er glæpur“.
Samsetning (n, kvk) Tenging; samtenging; festing. „Eftir samsetningu var Farmalnum ekið uppúr fjörunni“.
Samsetningur (n, kk) A. Þegar skipsáhafnir setja saman upp (eða niður) bát í lendingu. Þessi notkun orðsins virðist ekki hafa verið þekkt utan svæðisins. „Oft var það að skipshafnir höfðu samsetning á bátum...“ (KJK; Kollsvíkurver). „Bátana varð að setja upp á hverju kvöldi, og var þá venjulega hafður samsetningur af tveim til þremur bátum“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). B. Algengari merking; það sem sett/skeytt er saman; skáldskapur. „Þetta er ljóti samsetningurinn. Ég hef sjaldan séð annan eins leirburð“!
Samsettur (l) Samansettur; festur saman. „Stundum finnst mér karlinn einkennilega samsettur“!
Samsinna (s) Játa; vera sammála. „Ég gat ekki samsinnt því að leiðin niður í flesið væri ófær“.
Samsinna (l) Sammála. „Ég var honum samsinna í flestum atriðum“.
Samsíða (l) Samhliða; við hliðina á. „Við sigldum samsíða þeim um stund og höfðum af þeim tal“.
Samsíðungur (n, kk) Áhald sem einkum er notað til að lesa úr kortum og stinga út stefnu, t.d. við siglingu skips. Tvær reglustrikur tengdar saman þannig að þær eru ávallt samsíða þó millibil þeirra breytist.
Samskeyti (n, hk, fto) Samsetning/mót/mæti eininga. „Hér er rifa á samskeytunum“.
Samskeyttur (l) Festur saman. „Árin var samskeytt með blaðfellingu“.
Samskipa (l) Á sama skipi/báti. „Ég átti þess kost að stunda sjó með honum eitt vor samskipa...“ (ÖG; minn.grein um AK).
Samskipti (n, hk, fto) Samneyti; samvera; viðskipti. „Þegar þessu öllu er lokið, með liðsinni heimamanna, er kvaðst og þökkuð ágæt samskipti“ (KJK; Kollsvíkurver).
Samskonar (l) Eins; af sama tagi. „Þetta er samskonar mixtúra og síðast; bara í öðrum umbúðum“.
Samskot (n, hk, fto) Söfnun fjár til tiltekins málefnis, oftast í góðgerðarskyni. „Samskota hefir það (Umf Vestri) leitað, bæði utan fjelagsins og innan, til lýðskóla Vestfjarða; til ekkna og til fátækra barna; fatagjafir fyrir jólin. Alls hefir fjelagið sent frá sjer samskotafje að upphæð um 700 krónur“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Samskyns / Samslags (l) Af sama tagi; með sama lagi. „Enn eru samskyns dyntir í vélinni og í gær“! „Þetta er samslags áburður og í fyrra; í öðruvísi pokum“.
Samsláttur (n, kk) A. Um það þegar korkakeirnn/flotteinn og steinateinn/blýjateinn á neti vefjast saman í lagningu. „Hér hefur orðið samsláttur í lagningunni“. B. Um það þegar símalínum slær saman í óveðri, þar sem þær liggja tvær eða fleiri saman. „Nú er samsláttur á símalínu einhversstaðar; ég heyri kjaftæði í einhverjum á Hafnarlínunni inn á Víknalínuna“. C. Um of reynir á fjöðrun bíls á ósléttum vegi, þannig að öxull slæst við grindina.
Samsleginn (l) Um bönd; slegin/undin/flækt saman. „Þinirnir voru samslegnir á nokkrum kafla“.
Samsorta (l) Af sömu tegund; eiga saman/við. „Mér sýnist að þessi sokkur sé samsorta hinum“.
Samspil (n, hk) Samverkun. „Ógróinn sandurinn í Sandahlíðinni er sérkennilegt fyrirbæri, og stafar líklega af samspili margra þátta í náttúrunni“.
Samstaða (n, kvk) Samkennd; sameiginlegt álit/átak. „Órofa samstaða var um málið á fundinum“.
Samstarf (n, kk) Samvinna; sameiginlegur starfsvettvangur. „Samstarfi okkar lauk í fullri sátt“.
Samstíga (l) Samferða; vinna í takti. „Mikilvægt er að aðilar séu samstíga í þessum aðgerðum“.
Samstundis (ao) Á sama tíma; um leið. „Ég fann samstundis að færið var fast í botni“.
Samsuða (n, kvk) Samsetningur; blanda; samkrull; hræringur. „Karlinn talaði hrognamál sem fáir skildu til fulls, þó oft væri hægt að ráða í það; einhverja samsuðu íslensku, norsku og ensku“.
Samsull (n, hk) Blanda/hræringur efna/matvæla sem illa eiga saman. „Þetta er fremur ólystugt samsull“.
Samsvara (s) Svara til; vera líkur; falla að. „Ég tel þetta framlag samsvara því sem aðrir lögðu fram“.
Samsvarandi (l) Sem svarar til/ passar við/ fellur að. „Mig vantar samsvarandi lykil fyrir þessa ró“.
Samsæti (n, hk) Samkoma; mannfögnuður. „Þann 1. águst 1948 minntist Kaupfélag Rauðasands 40 ára samvinnustarfs í Rauðasandshreppi, með samsæti í húsi ungmennafélagsins Vonar“ (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).
Samt / Samt sem áður (ao/orðtak) Þó; þrátt fyrir. „Ég ætla samt að fara, þó veðrið gæti verið betra“.
Samtaka (l) Með sameiginlegu átaki. „Við vorum samtaka og náðum að ýta bílnum úr festunni“.
Samtakamáttur (n, kk) Samstilltur kraftur margra einstaklinga sem megnar að koma því í framkvæmd sem þeir hefðu ekki getað án samvinnu. „Þótt Kollsvíkingar væru upp til hópa einstaklingshyggjumenn sem mest treystu á sitt eigið framtak, þá var þeim mæta vel ljóst hverju samtakamátturinn gat áorkað. Það sýnir t.d. hið blómlega starf ungmennafélaga og það starf sem eftir þau liggur, t.d. í vegagerð og menningarmálum. Einnig samvinna um pöntunarfélög og kaupfélög til að koma afurðum sínum í verð og standa að kaupum á nauðsynjum. Ennfremur má nefna stofnun búnaðarfélags, nautgriparæktarfélags, ræktunarsambands, húsagerðasambands, byggingafélags, mjólkursamlags, sláturfélags, lestrarfélags, saumaklúbbs, slysavarnadeildar og annarra slíkra, auk sameignar um ýmis dýr tæki sem komu til sögunnar; s.s. traktora og bíla. Kollsvíkingar voru öflugir í slíkri félagsstarfsemi alla tíð, í góðri samvinnu við sveitunga sína“.
Samtíðarmaður (n, kk) Maður sem er samtíða því sem um er rætt.
Samtíningur (n, kk) A. Hvaðeina sem er tínt saman; ósamstæðir hlutir; ýmiskonar dót. „Þetta er nú ekkert gæðatimbur; bara samtíningur og afgangar“. B. Seinni slátrun; síðari sauðfjárslátrun að lokinni aðalslátrun og seinni smölun að hausti; þegar lítill hópur fjár kemur til slátrunar af hverjum bæ. „Það fer allmargt héðan í samtíning núna“.
Samtvinnaður (l) A. Um þráð/band/netaþin; samansnúið; samanvafið. Þinirnir voru samantvinnaðir eftir norðangarðinn“. B. Um málefni;nátengt; samhangandi. „Þessi tvö mál eru samtvinnuð og verða illa aðskilin“. C. Um blótsyrði; runa skamma/blótsyrða. „Það var víst dálítið samtvinnað hjá honum“.
Samtvinningur (n, kk) Blótsyrðaruna; blótsyrðabálkur; skammarræða; óbótaskammir. „Hann fékk víst að heyra einhvern samvinning hjá þeim gamla þegar hann kom upp á brún“.
Samur (l) Eins og var; svipaður; líkur. „Víst er Rósi eins og áður ör og glaður;/ samt þó eigi samur maður“ (JR; Rósarímur).
Samur við sig / Sjálfum sér líkur (orðtak) Um mann; sjálfum sér líkur; alltaf eins. „Alltaf er hann samur við sig blessaður; tilbúinn að hjálpa öðrum þó hann hafi nóg á sinni könnu“. „Alltaf er hann sjálfum sér líkur; rýkur af stað án þess að fá neinn með sér til hjálpar“!
Samúð (n, kvk) Meðlíðun/samkennd/vorkunnsemi vegna sorgar. „Ég votta þér innilega samúð“.
Samúðarkort / Samúðarskeyti (n, hk) Skrifleg vottun samúðar með korti eða símskeyti.
Samvaldir (l) Sem eru valdir til að passa saman. „Þetta eru ljótu glóparnir; báðir samvaldir aular! Hvernig gátu þeir misst allt féð framhjá sér? Hafa þeir ekki augu í hausnum eða hvað“?!
Samvera (n, kvk) Sambúð; það að vera saman. „Ég þakka fyrir samveruna þennan tíma“.
Samveiturafmagn (n, hk) Rafmagn frá almenningsveitu. „Samveiturafmagn kom ekki í Rauðasandshrepp fyrr en 1974 – 5; frá Orkubúi Vestfjarða. Baráttan um að fá hér rafmagn snérist mest um stofnun Orkubús Vestfjarða sem öll sveitarfélög á Vestfjörðum stóðu að. Að þessu var vitanlega talsverður aðdragandi en ég fylgdist nokkuð með þessu þar eð bóndi minn, Össur Guðbjartsson, var í fyrstu stjórn Orkubúsins og vann talsvert við undirbúning þess sem oddviti hér“ (SG; Rafvæðing; Þjhd.Þjms).
Samvinna (n, kvk) Vinna margra að sameiginlegu viðfangsefni/verkefni. Íbúar Rauðasandshrepps höfðu samvinnu á fjöldamörgum sviðum, bæði formleg og óformlega. Öllum var ljós nauðsyn og hagkvæmni þess að vinna sameiginlega að verkefnum sem erfið eru einum en auðveld mörgum.
Samvinnufélag (n, hk) Formlegt félag um samvinnu. „Á þessum tíma voru tvö samvinnufélög starfandi í Rauðasandshreppi og hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur…“ (PG; Veðmálið).
Samvinnufús / Samvinnuþýður (l) Viljugur til samstarfs/ samvinnu.
Samvinnuhugsjón (n, kvk) „Samvinnuhugsjónin, í sinni upprunalegu og skilvirku mynd, festi tryggar rætur meðal hinna félagslyndu og rökföstu bænda í Rauðasandshreppi. Í henni sáu þeir tækifæri til að beita samtakamætti sínum og vinna á jafnréttisgrunni að bættum hag allra, og um leið að efla félagslíf og samheldni. Eldmóðurinn og fórnfýsin fyrir heildina var almenn, þó mismunandi væri eftir einstaklingum og bæjum. Fremstu talsmenn samvinnuhugsjónarinnar í Rauðasandshreppi urðu þekktir af störfum sínum á þessu sviði. Má þar t.d. nefna Einar og Pál Guðbjartssyni frá Láganúpi; Ívar Ívarsson í Kirkjuhvammi; Sigurbjörn Guðjónsson í Hænuvík; Jón Hákonarson á Hnjóti og Össur Guðbjartsson, Láganúpi“.
Samviska (n, kvk) Siðgæði; vitneskja um að maður hafi breytt illa/ gert rangt.
Samviskulaus (l) Án eftirsjár/samúðar/sjálfsgagnrýni. „Þessir samviskulausu stjórnarherrar ætla að hundsa þarfir lansbyggðarinnar í samgöngumálum, eina ferðina enn“!
Samviskusamlega (l) Af vandvirkni/alúð. „Það þarf að gæta þess að þetta sé samviskusamlega unnið“.
Samviskusamur (l) Vandvirkur; nærgætinn; vinnur af alúð/kostgæfni. „Hann er samviskusamur við þetta“.
Samviskusemi (n, kvk) Vandvirkni; natni; heilindi. „Hún vann öll sín verk, hvor sem það var úti eða inni, af alúð og samviskusemi“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Samvist (n, kvk) Samvera. „Ég kæri mig ekkert um að vera samvistum við hann lengur en þörf er á“. Sjá slíta samvistum.
Samþjappaður (l) Samanpressaður; samanbarinn; settur í knappt form.
Samþjónn (n, kk) Samstarfsmaður. „.. en þar hitti ég marga misjafna samþjóna...“. (ÓTG; Ágrip af æviferli).
Samþykki / Samþykkt (n, hk) Játun; játning; viðurkenning. „Ég fékk hans samþykki fyrir þessu.
Samþykkja (s) Samsinna; játa; viðurkenna. „Ég var ekki tilbúinn að samþykkja þetta umyrðalaust“.
Samþykkur (l) Hlynntur. „Ég var samþykkur því að lagt væri í þessa framkvæmd“.
Sanda / Sandbera (s) Strá sandi yfir, t.d. hált svell til að gera það stamt. „Ég sandaði svellið framanvið fjárhúsin; þar var árans hálka“.
Sandalar (n, kk, fto) Opnir skór; bandaskór.
Sandauðn (n, kvk) Eyðimörk af sandi; mikið ógróið sandflæmi.
Sandaustur / Sandburður (n, kk) Mikið sandfok. „Norðanrokið kom með árans sandaustur uppum allt“!
Sandbakki / Sandbarð (n, kk) Bakki/barð úr skeljasandi. „Háir sandbakkar eru ofanvið Leirana sem heita Melarandir“ (HÖ; Fjaran).
Sandbarinn / Sandblásinn (l) Eyddur/núinn/tærður af sandblæstri. „Staruinn var oirðinn nokkuð sandblásinn“.
Sandblettur (n, kk) Blettur af skeljasandi. „Við skulum kippa hérna útfyrir sandblettina“.
Sandbleyta (n, kvk) Kviksyndi; blettur í sandflæmi, þar sem sandur hefur sest til í hægu vatni og hlaðist upp með svo lauslegri og vatnsmettaðri byggingu að lætur undan þegar stigið er á yfirborðið; með þeim afleiðingum að vegfarandinn sekkur viðstöðulítið í, en vatnspollur myndast í yfirborðið, þar sem áður virtist samfelldur og traustur sandur. „Sandbleytur myndast gjarnan á Leirunum í áfoki. Geta þær orðið svo varasamar að fullorðinn maður sekkur upp að hné. Börn voru því vöruð við að fara þar um“.
Sandborinn (l) Um jarðveg/tún; mettaður af sandi. „Tún á Láganúpi eru mörg allmjög sandborin“.
Sandbugur / Sandbót (n, kk) Bót/vík/vik með skeljasandsfjöru og skeljasandi í botni. „Innan við Sandoddann er sandbugur sem heitir Skersbugur“ (VP; Örn.skrá Hvalskers).
Sandburður (n, kk) Tilfærsla á sandi; sandsöfnun. „Sandburður getur verið verulegur í Kollsvík og gerbreytt landslagi á stuttum tíma, einkum sunnantil. Annarsvegar er gríðarlegur sandburður í fjörunni sem stjórnast af straumum, sjólagi og ríkjandi vindáttum en hinsvegar er sandfok upp á land sem stjórnast af hitastigi, þurrkum, vindáttum, veðurhæð, jarðvatnsstöðu á Fitinni og ástandi sandrifsins í fjörunni. Sandburður getur, við viss skilyrði, skilið eftir sig mikla sandskafla í lautum; rifið upp rofabörð; kaffært stórar landspildur og borist marga kílómetra, t.d. úr Láganúpsfjöru út á Flatir; Orma, Hnífa og jafnvel út á Sanddal á Breiðnum“.
Sandbylur (n, kk) Stormur eða rok sem ber með sér mikið af skeljasandi úr fjöru, Leirum eða melaskörðum. Sérlega áberandi sunnantil í Kollsvík og getur valdið skaða: Sandurinn sest í dyngjur á túnum og við hús; mattar gler og málaða fleti og er mjög tærandi vegna saltmóstunnar sem honum fylgir. Getur verið mjög erfitt að ganga í sandbyl sem stingur í húð og augu.
Sanddalur (n, kk) Sanddalir eru tveir í grennd við Kollsvík. Annarsvegar er Sanddalur heimantil á Blakknum og á milli hans og Núpsins. Hinn Sanddalurinn er á Breiðnum; utanvið Kjölinn. Bæði bera nofnin vitni um að sandfok hefur líklega verið meira fyrr á öldum en nú er. Þar hafa líklega verið sandskaflar þegar nöfnin urðu til, en nú má sjá í þeim grónar lautir með sendnum jarðvegi. Nöfnin sýna hve sandur úr Kollsvíkurfjöru getur borist um miklar vegalengdir í vissum aðstæðum; t.d. eru nær 4 km úr Láganúpsfjöru á miðjan Breið.
Sanddrift (n, kvk) Sandfok; sandburður; áfok.
Sanddyngja / Sandhaugur / Sandhrúga / Sandskafl (n, kvk/kk) Foksandur sem safnast hefur saman í hrúgur. Brögð eru að því eftir hörð norðanveður og mikið sandfok að miklir sandskaflar liggi eftir hlémegin við hús og aðrar hindranir í landi Láganúps, og hefur oft verið nokkuð verk að moka þeim í burtu.
Sandfjara (n, kvk) Fjara með sandi/skeljasandi. „Sandfjara er um miðja víkina, en sandurinn teygir sig mislangt til beggja enda, eftir því hvernir brimið leggur hann upp“.
Sandfláki (n, kk) Sendið svæði; einkum átt við neðansjávarsanda. „Miklir sandflákar eru á Kollsvíkinni; norðan frá Blakknesröst; upp í fjöru norðantil í víkinni og suður með landi framundan Grundatöngum; Hnífum; Vatnadalsbót, Breið og síðan áfram fyrir Breiðuvík, Látravík og Seljavík suður að Látraröst“. „Fyrir utan þarabeltið er sandfláki út, en einnig eru þar hleinar sem þurfti að gæt sín á“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Sandflæmi (n, hk) Stórt svæði þakið sandi. „Mikil sandflæmi eru frammi á víkinni, sem teygja sig uppum fjöruna; Rifið og uppyfir Leira“.
Sandflöt (n, kvk) Flatt sandborðið svæði, gróið eða ógróið.
Sandfok / Sandrok (n, hk) Þegar sandur rýkur í vindi; landeyðing. Sandfok var yfirleitt til vandræða í Útvíkunum og olli stundum stórtjóni á jörðum. „..illt var að verja fiskifangið fyrir sandfoki meðan það var í herslu“ (PJ; Barðstrendingabók).
Sandgirðing (n, kvk) Girðing kringum svæði til að verja það ágangi fjár. „Á sjöunda áratugnum var girt sandgirðing frá Grundabökkum upp í Fit; norðuryfir Torfalæk og Miðlæk; neðan fjárhúsanna á Melnum og upp með Ánni, upp að Svarðarholti.
Sandgljá (n, kvk) Sandblettur/sandlæna/sandflæmi á sjávarbotni. „Þó var ekki allsstaðar hrein sandgljá frama við aðal-þaragarðinn. Boðar og hleinar voru hér og þar...“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sandgólf (n, hk) Gólf úr sandi/ með sandi á yfirborði. „Búðirnar voru því miklu vistlegri með hvítu sandgólfi en illa hirtu timburgólfi“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Sandgræðsla (n, kvk) Uppgræðsla sands; landgræðsla.
Sandgræðslugirðing (n, kvk) Girðing til að verja uppgræðslu í viðkvæmu landi.
Sandi orpinn (orðtak) Kominn á kaf í sand (að hluta eða öllu leyti). „Allar verbúðir eru fallnar í tóft, og sumar sandi orpnar“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sandkoli (n, kk) Limanda limanda. Flatfiskur af flyðruætt; að mörgu leyti líkur skarkola að stærð, lagi og háttum. Vanalega innanvið 30 cm langur og undir 1 kg á þyngd. Lifir á sandbotni og hefur veiðst á Kollsvíkurmiðum; þá helst í hrognkelsanet.
Sandkorn (n, hk) Korn af sandi. „Ég held ég hafi fengið sandkorn í augað; heldurðu að þú gætir náð því með tungubroddinum“?
Sandkóf (n, hk) Sandmósta; selta og sandur sem blæs stundum hátt í loft í roki, og byrgir sýn.
Sandkvika (n, kvk) Sandbleyta; sandur sem er mettaður vatni, en sýnist þurr á yfirborði. Sá sem stígur í sandkviku getur sokkið niður þegar sandkornin falla saman og vatnið þrýstist upp á yfirborðið. „Annars var Vaðallinn alls staðar væður, en sumsstaðar mátti vara sig á Sandkviku“ (T´; Örn.skrá Breiðavíkur). „Varið ykkur þegar þið farið yfir Leirana; þar gæti leynst sandkvika“.
Sandlóa (n, kvk) Charadrius hiaticula. Smávaxinn vaðfugl af lóuætt; lengd 18-20 cm, þyngd 50-60 gr, vænghaf 50-55 cm, eða svipuð að stærð og sendlingur og lóuþræll. Minni og hálsstyttri en heiðlóa. Hefur tíðan fótaburð og flýgur lágt og hratt. Ljósbrún að ofan en hvít að neðan; með svartan og hvítan kraga um hálsinn; hvítt enni og breiða línu á milli svartra augna. Nef rauðgult með svörtum broddi; fætur ljósgulir. Eins og nafnið gefur til kynna heldur hún sig mikið í semdnu landslagi og melum, og verpur þar í örlitla dæld; fjórum eggjum sem falla vel að undirlaginu í lit. Ungar koma úr eggjum eftir 3-4 vikur; fara strax úr heiðri og bjarga sér með fæði undir vernd foreldra. Sandlóan er farfugl hérlendis en finnst um alla norðanverða Evrópu og Asíu. Hún kemur í Kollsvíkina um eða eftir miðjan apríl og fer um miðjan september. Verpur helst á melum nærri sjónum, eða á holtum í víkinni eða í grennd við hana.
Sandlæna (n, kvk) Mjótt sandsvæði. „Þarna má fá vel af grásleppu í þaragarðinum, en net eru fljót að fyllast af skít ef þau lenda fram á sandlænunni, örlítið dýpra“.
Sandmaðkur (n, kk) Arenicola marina. Stór burstaormur af fylkingu liðorma. Lifir mest á leirum á útfiri, niðurgrafinn í sand í u-laga göngum. Þar neytir hann fæðu sem hann vinnur úr sandinum og leirnum, en losar sig við úrganginn í hrúgu á yfirborðinu. Slíkar hrúgur eru augljós merki um verustað hans, og má oft sjá þær þéttar á útfiri, t.d. neðan Grundabakka, í Langatangabót og víðar. Fullvaxta ormur verður uppundir 15 cm langur og um 9 í þvermál; oftast rauðgulir að lit, en stundum grænleitir. Bolurinn er sverari að aftanverðu og er þar alsettur totum og burstum, sem eru öndunarfærin. Hann er tvíkynja. Maðkurinn er algeng fæða fugla; sérstaklega neflangra eis og tjaldsins. Sé hali slitinn af vex hann gjarnan aftur. Sandmaðkur var mikið notaður til beitu áðurfyrr, og þá ýmist grafinn upp með berum höndum eða með sérstakri hrífu. Þeir sem unnu að maðkatínslu meðan aðrir voru á sjó fengu aflahlut; svonefnda maðkafiska sem um er getið m.a. í Jarðabókinni, en þar segir um Láganúpsver: „Beita er maðkur og brandkóð. Item heilagfiski á vor“. Um Hænuvík segir: „Skiphlutur er einn og ekki meir. Maðkafiskar gefast af óskiftu ef sá sem grefur missir fyrir það svefns síns og grefur maðk um nætur. Ella skiftast hásetar til og tekur enginn nefnda maðkafiska. Fæstir formenn beita maðki um vertíð“ (ÁM; Jarðabók).
Sandmelur (n, kk) Gróið sandsvæði; oftast með lágvöxnu grasai en stundum melgresi. Oft stytt í „melur“.
Sandmiga (n, kvk) Annað heiti á smyrslingi/ smyrslingsskel (Mya truncata), sem er samlokutegund.
Sandmósta (n, kvk) Seltumósta; útfellingar úr foksandi á föstum hlutum. „Eftir sandstorm í Kollsvík var oftast töluverð sandmósta vindmegin á öllum hlutum. Hún samanstendur af salti og leir og er mjög tærandi“.
Sandmúli (n, kk) Múli/núpur sem gengur fram milli víkna eða dala og er áberandi orpinn skeljasandi. „Kvígindisdalur á land eftir gömlum máldögum inn að grjótgarði þeim sem er inn á sandmúlanum milli Kvígindisdals og Sauðlauksdals“ (Landamerkjabók Barðastrandasýslu).
Sandmökkur (n, kk) Sandur sem rýkur hátt í loft í sandroki og myndar dökkt ógegnsætt ský.
Sandoddi (n, kk) Endi á sandrifi við sjó. „Vaðalseyrar nefndust sandoddarnir beggja megin Vaðalsins, enaðn við Rifið“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). Sandoddi er einnig örnefi utan við Skersbug.
Sandorpinn / Sandi orpinn (l/ orðtak) Á kafi í sandi að hluta eða öllu leyti; þakinn sandi. „Búðirnar í Láganúpsveri eru fyrir löngu sandorpnar að fullu; þær sem ekki hafa verið rifnar til að nýta hleðslugrjótið í önnur hús og garðhleðslur “. „Töluverðar tóftarústir eru norðast á Bökkunum; mjög sandorpnar“ (HÖ; Fjaran).
Sandpappír (n, kk) Pappír með álímdum kvartssandi á annarri hlið; notaður til slípunar.
Sandrif (n, hk) Rif úr sandi; sandmön. „Þegar mikið rótast upp af sandi verður stundum til annað sandrif um tíma; framan við venjulega fjöru“.
Sandrok / Sandstormur (n, hk) Fok sands í miklu roki. Sandrok verður helst í Kollsvík í miklu norðanroki, þegar vindstrengur stendur fyrir Blakkinn í átt til Láganúps. Þá rýkur sandur af fjörunni, Rifinu og Leirunum, og berst yfirum Melarendur; Litlufit; Fit; Láganúpstún; Flatir; Gróumel; Hóla; Hjalla; Flatir; Hnífa og jafnvel útá Sanddal á Breiðnum. Mikil sandrok geta valdið verulegu tjóni; rofið jarðveg og skilið eftir sig miklar sanddyngjur.
Sandságangur (n, kk) Tjón vegna sandfoks. „... sandságangur ærinn (i Kollvík) “ (AM/PV Jarðabók).
Sandsbúi / Sandsmaður (n, kk) Íbúi á Rauðasandi í Rauðasandshreppi. Sja Rauðsendingur. Oftast er notað heitið Rauðsendingur yfir þessa íbúa, en hinum tveimur heitunum brá þó stundum fyrir í máli heimamanna. „Sandsmenn hafa ekki komið frá sér mjólk í nokkra daga vegna ófærðar“.
Sandsfé (n, hk) Sauðfé á/af Rauðasandi. „Sjaldgæft er að Sandsfé heimtist á Breiðavíkurrétt“.
Sandsíli (Ammnodytes tobianus). Fiskur af sandsílaætt, um 20 cm að lengd; mjóslegin og silfurlit. Önnur mjög lík tegund er marsíli (Ammodytes marinus) sem er algengari við landið og oftast einnig kölluð sandsíli, enda þekkjast tegundirnar illa í sundur. Hinsvegar eru trönusíli (Hyperoplus lanceolatus) nokkuð stærri. Allar eru þ.essar tegundir algengar í hlýsjónum sunnan og vestan landsins og sjást oft á Kollsvíkurmiðum, t.d. í maga fisks eða goggum fugla; enda eru þetta mikilvægar fæðutegundir þessara dýra. Sést það best á því að hnignun í stofnstærð m.a. svartfugls, ritu og kríu er rakin til minna framboðs síla. Fæða sílanna er aftur á móti ýmsir botnlægir hryggleysingjar; smá fiskseyði og hrogn. Er hnignun sílastofna m.a. talin stafa af því að klak verður fyrr vegna hlýnunar sjávar, og áður en nægt framboð verður fyrir þau af fæðu, svo þau svelta.
Sandskafl (n, kk) Skafl af skeljasandi. „Við vissar aðstæður getur sandfok orðið svo mikið úr Kollsvíkurfjörum að sandskaflar myndist við hús og í lautum á Láganúpi. Einkum er hætta á því þegar mikið er af þurrum og ófrosnum sandi á Rifinu en jörð annars frosinn og jafnvel freri á jörð; í stífri norðanátt. Hafa þá jafnvel orðið til sandskaflar uppi í Flötum og úti á Strympum, auk þess sem moka hefur þurft sandi af túnum og úr görðum á Láganúpi. „Um morguninn er kominn þar sandskafl sem fiskifangið lá“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sandskúra / Sandþvo (s) Þrífa með því að nota sand í vatni til að rífa upp skítinn. Meðan óvarin timburgólf voru í húsum var algengt að halda þeim hreinum á þennan hátt, enda efnið nærtækt.
Sandslétta / Sandtún (n, kvk) Ræktarland í skeljasandsjarðvegi. „Sandsléttan á Fitinni var nokkuð áburðarfrek, en hvergi var betri þurrkvöllur“.
Sandsorfinn (l) Sorfinn af sandblæstri; sandblásinn. „Girðingastaurinn var svo sandsorfinn að hann brotnaði“.
Sandsteinn (n, kk) Sandur sem pressaður er og límdur saman í berg. Náttúrulegur sandsteinn finnst sumsstaðar hérlendis og erlendis eru mikil jarðlög af honum frá forsögulegum tímum.
Sandsteypa (n, kvk) Sementslögun; múr. Blanda sements, sands og vatns. Oftast notuð til múrhúðunar.
Sandstorka (n, kvk) Húð af sandi og leir, sem gjarnan situr eftir á hlutum eftir mikið sandrok.
Sandugur (l) Ataður sandi. „Burstaðu nú af þér úti á stétt strákur; þú ert allur sandugur úr Gilinu“!
Sandur (n, kk) A. Sandur merkir í tali Kollsvíkinga og nærsveitunga þeirra skeljasandur; enda er hann mest áberandi þar um slóðir af fíngerðu hörðu jarðefni. Það sem t.d. Skaftfellingar nefna „sand“ er í tali Kollsvíkinga nefnt möl. B. Sandur er stytting á heitinu Rauðasandur; talað var t.d. um að „fara inn á Sand“.
Sandvarnargarður (n, kk) Garður til að verja land og hús fyrir sandfoki. „Gamlir grjótgarðar hafa fundist hér á kafi í sandi og gróið yfir svo engin merki sjást á yfirborði. Þeir hafa ekki verið kannaðir en virðast liggja þvert á norðanáttina sem hefur verið skæð með að ausa hér sandi úr fjörunni upp á túnið svo til vandræða hefur horft. Hefur mönnum því dottið í hug að þetta hafi verið sandvarnargarðar (kannske hefur Björn í Sauðlauksdal fengið þar hugmynd að sínum fræga Ranglát?)“ (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).
Sandverpast (s) Hyljast sandi; fara á kaf í sand. „Girðingin er farin að sandverpast mjög á kafla“.
Sandvík (n, kvk) Vík með sandfjöru. „Í lítilli sandvík sem er milli Gvendarhleinar og Melsendakletta er stundum nokkur trjáreki. Líklega er rekasæld þar hin mesta í Kollsvíkur- og Láganúpslandi“ (HÖ; Fjaran).
Sanka (s) A. Safna saman; safna/sanka að sér. „Vertu nú ekki að sanka þessum skothylkjum inn í hús“! B. Segja ljótt; hafa uppi ljótan munnsöfnuð; sjá bölva og sanka. Líklega hljóðbreyting frá „saman“; „samka“.
Sanka að sér (s) Safna; viða að sér; bera undir sig. „Kom í ljós að hann hafði sankað að sér bókum úr bókasafninu án þess að skila nokkru“.
Sanktipétur (n, kk) Pétur postuli. „Sanktus“ í latínu merkir heilagur, enda var Pétur talinn einn af helgustu dýrlingum kristinnar trúar í kaþólskum sið. Margar sagnir í íslenskri þjóðtrú vísa til Sanktipéturs, m.a. sagan um sköpun grásleppunnar, og heiti eru við hann kennd s.s. pétursspor, pétursbudda og pétursskegg.
Sanna sig (orðtak) Sýna hvað í manni býr; sýna getu sína. „Mér líst ekki illa á hann, en hann á alveg eftir að sanna sig í þessu starfi“.
Sannaðu/vittu til (orðtak) Upphrópun sem gjarnan er höfð í enda fullyrðingar; láttu sjá; vittu til; þú átt eftir að sjá að það er satt. „Þetta verður eins og ég hef spáð; sannaðu bara til“!
Sannarlega (ao) Vissulega; fyrir víst. Oft notað til áherslu. „Þetta var svo sannarlega steypibað“!
Sannast að segja / Sannast sagna / Satt best að segja (orðtök) Í raun og veru; ef satt skal segja; raunverulega. „Sannast að segja veit ég ekkert meira um þetta en þú“. „Sannast sagna held ég að þetta sé tómur tilbúningur“. „Satt best að segja skildi ég ekki baun af því sem hann sagði“.
Sannast á (orðtak) Vera vitnisburður um. „Sannaðist á honum hið fornkveðna; að enginn má sköpum renna“.
Sannferðugur (l) Trúverðugur; sannfærandi. „Mér finnst þetta nú ekki verulega sannferðugt“.
Sannfróður (l) Um mann ; fróður og sannsögull. „Sannfróðari mann er erfitt að finna“.
Sannfrétta / Sannspyrja (s) Fá sannar fréttir; heyra sagt satt. „Ég hef sannfrétt að þarna hafi sést útigangsfé“. „Ég hef sannspurt að þannig hafi þetta gengið til“.
Sannfróður (l) Fróður um það sem satt er/ um staðreyndir. „Hann mun vera manna sannfróðastur um þetta, af þeim sem enn eru á lífi“.
Sannfæra (s) Telja trú um; sýna framá sannindi; fá á sitt band. „Mér tókst loksins að sannfæra hann um að þetta væri nauðsynlegt“.
Sannfærandi (l) Með sannfæringarkraft; talar trúverðuglega. „Þetta eru mjög sannfærandi rök“.
Sannfæring (n, kvk) Skoðun;trú; það sem maður telur vera rétt. „Þetta er mín sannfæring í þessum efnum“.
Sanngirni (n, kvk) Réttlæti; það sem réttmætt er. „Það er lítil sanngirni í að hann fái minni hlut en hinir“!
Sanngjarn (l) Réttlátur; sem lætur mann/málefni njóta sannleika/réttlætis.
Sanni nær/næst (orðtak) Nær sannleikanum; því sem næst satt. „Það er fráleitt að þetta hafi verið svona mikill afli; hitt mun sanni nær að þetta hafi verið 10-12 fiskar“. „Hey munu allstaðar vera svo vel verkur sem frekast mun kostur; þá því næstliðið sumar var hið besta. En hitt mun líka sanni næst að víða séu þau í lausara lagi, því óvíða mun hafa hitnað í heyjum svo neinu nemi“ (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1923).
Sannindavottur (n, kk) Vottur af sannindum/réttu. „Einhver sannindavottur kann að vera í þessari sögu“.
Sannindi (n, hk, fto) Sannleikur; það sem rétt er. „Ekki veit ég hvaða sannindu eru í þessari frásögn“.
Sannkallaður (l) Réttnefndur. „Vegurinn niður á Blakk er sannkallaður tröllavegur“.
Sannkristinn (l) Rétttrúaður í kristni; trúheitur. „Hagaðu þér nú eins og sannkristin manneskja“!
Sannleikanum er/verður hver sárreiðastur (orðatiltæki) Mörgum finnst erfitt að heyra það sem þó er rétt. „Hann verður ekki hrifinn að heyra hvað flokkurinn er núna að gera; sannleikanum verður hver sárreiðastur“.
Sannleikanum samkvæmt (orðtak) Satt; eins og rétt er. „Allt er þetta sannleikanum samkvæmt“.
Sannleiksást (n, kvk) Virðing fyrir sannleikanum. „Ekki skein nú sannleiksástin útúr hans frásögn“!
Sannleikskorn / Sannleiksvottur (n, kk) Örlítill sannleikur; flugufótur. „Einhvað sannleikskorn kann að vera í sögunni um Simbadýrið“. „Ekki þótti þeim vera mikill sannleiksvottur í þessu fyllerísrugli“.
Sannleiksorð (n, hk) Sannleikur; satt orð. „Þetta er staðreynd; hafi ég einhverntíma sannleiksorð mælt“!
Sannleikur / Sannmæli (n, kk/ hk, fto) Það sem satt er; það sem rétt er sagt/hermt.
Sannleikurinn er (oft) eyrum beiskur (orðatiltæki) Oft er þungbært að heyra það sem þó er satt.
Sannleikurinn er sagna bestur (orðatiltæki) Segja þarf hverja sögu eins og hún gengur til. Speki sem allir vita, en mörgum gengur illa að fylgja.
Sannleikurinn er sagnafár (en lygin langorð) (orðatiltæki) Vísar til þess að oft þarf ekki mörg orð til að lýsa staðreynd/sannleika, en menn þylja oft langlokur til að rökstyðja það sem ósatt er.
Sannorður / Sannsögull (l) Segir rétt frá; trúverðugur. „Sagnaritarar eru misjafnlega sannsögulir“.
Sannprófa / Sannreyna (s) Sanna með prófun/reynslu. „Þetta hef ég sjálfur sannprófað“. „Þetta er dálítið snúið í framkvæmd; það áttu eftir að sannreyna“.
Sannspár (l) Spáir rétt fyrir um; giskar rétt á. „Hann reyndist sannspár um þetta“.
Sannsögli (n, hk) Rétt/sönn frásögn; sú venja að segja satt. „Hann er þekktur að heiðarleik og sannsögli“.
Sannsögulegur (l) Sem byggir á staðreyndum/sannindum. „Þetta er víst sannsöguleg frásögn“.
Sannsögull (l) Sem segir satt; ólyginn. „Hann reyndist sannsögull um þetta atriði“.
Sanntrúaður (l) Heittrúaður; sannfærður í sinni trú. „Framanaf var hann sanntrúaður kommúnisti“.
Sannur (l) Réttur; trúr; trúverðugur. „Ekki veit ég hvort þessi saga er sönn“.
Sannvirði (n, hk) Réttlátt verð.
Sans (n, kk) Tilfinning; áhugi. „Ég hef ekki mikinn sans fyrir þessu óperugauli“! Líklega sletta, t.d danska sense = tilfinning; skynfæri; vitsmunir.
Sansa (s) Koma reiðu á; sortera. „Það þyrfti að sansa þessa fatagarma eitthvað; og henda því sem ónýtt er“.
Sansast á (orðtak) Sættast/fallast á; sætta sig við. „Hann sansaðist á að vera í landi að þessu sinni“.
Sanskrít (n, kvk) Fornt indverskt tungumál; einkum meðal hindúa. Skiptist í tvo meginmálaflokka; vedic sanskrít og klassíska sanskrít. Sú vedíska var lík máli sem talað var á NV-Indlandi 18 öldum fyrir Krist, og var mál fínni stétta. Ritið Rigveda var á því máli. Klassísk sanskrít var töluð frá 5.öld f.Kr. Til 1000 e.Kr. Ýmis nútímamál á Indlandi hafa þróast frá sanskrít. Sanskrít er af indó-evrópskum málastofni, og er talið hafa verið mál hinna fornu Aría. Orðið „aríi“ er reyndar komið úr sanskrít og nefnir „göfugur“.
Sarg (n, hk) Urg; nístandi hljóð, t.d. við núning járns. „Skelfing fer svona fiðlusarg í eyrun á manni“.
Sarga í (orðtak) Nöldra um; rella; tuða. „Vertu nú ekki að sarga í mér með þetta“!
Sarga í sundur (orðtak) Saga/skera í sundur með erfiðleikum/óhljóðum. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Sarga upp (orðtak) Um fiskirí; veiða fisk öðru hvoru. „Mér tókst að sarga upp einn og einn indíána þarna“.
Sarga út (orðtak) Kreista út; fá með erfiðismunum. „Mér tókst að sarga útúr honum nokkrar grásleppur“.
Sargast upp / Sargast upp einn og einn (orðtak) Veiðast treglega. „Það var andskotann engin aðvera að hanga á þessu í svona skítaveltingi. En mesta furða samt hvað sargaðist upp“.
Sarga útúr (orðtak) Véla útúr; fá fyrir þrábeiðni. „Mér tókst að sarga út úr þeim dálítið af salti“.
Satansári / Satansekkisen (u) Upphrópun/áhersluorð af meðalstyrkleika. „Satansári var að tapa sökkunni“! „Satansekkisen rigning er þetta! Og ég sem ætlaði til berja í dag“!
Satt best að segja / Sannast sagna (orðtak) Í frómleika frá sagt; í einlægni/sannleika sagt; ef satt skal segja. „Satt best að segja hef ég eki hugmynd um hvað af þessu varð“.
Satt og rétt (orðtak) Alveg rétt; sannleikanum samkæmt. „Allt er þetta satt og rétt, en að hinu er að gá…“
Satt segir þú (orðtak) Mikið notað andsvar við fullyrðingu viðmælanda.
Sauðaábrystir / Sauðabroddur (n, kk) Mjólk úr lambám. „Sauðabroddur var einstaka sinnum matbúinn í sauðaábrystir þegar mjólka þurfti ær sem annaðhvort mjólkuðu of mikið fyrir lambið eða höfðu misst lamb“ .
Sauðahlað (n, hk) (Líkl.) Sauðahús eða kvíar. „Utan til við Brunnanúp, upp af Básum, er Gildruhjalli. Á honum er kví eða tóft; sauðahlað frá Saðulauksdal. Sagt er að Sauðlauksdalskirkja hafi átt 60 sauða göngu á Látrabjargi“ (DE; Örn.skrá Látrabjargs).
Sauðaket (n, hk) Ket af sauðum. Sauðaket hefur ávallt þótt gómsætast og matarmest af öllu keti; ekki síst ef það er reykt. Það er ýmist af veturgömlum ám eða sauðum (geltum hrútum).
Sauðaklippur (n, kvk, fto) Klippur/skæri til að taka ull af fé; fjárklippur.
Sauðakofi (n, kk) Kofi/hús fyrir sauði/sauðfé.
Sauðalegur (l) Sauðslegur, sjá þar.
Sauðalitir (n, kk, fto) Litir sem fyrirfinnast í sauðfé, þ.e. hvítur, svartur og mórauður, og afbrigði af þeim.
Sauðamaður (n, kk) Fjármaður; maður sem gætir sauða. „Í Fjarðarhorni sér fyrir beitarhúsatóttum og fjárrétt, og ef til vill kofa fyrir sauðamann“ (IG; Sagt til vegar I).
Sauðamergur (n, kk) Loiseleuria procumbens. Sígrænn smárunni af lyngætt með smá fjólublá blóm. Hann hefur jarðlægar brúnar greinar og smá dökkgræn blöð með sléttu leðurkenndu yfirborði. Brúnir blaðanna eru innsveigðar og því líkjast þau nokkuð grænum hrísgrjónum. Sauðamergur vex víða um land, þó ekki á Suðurlandi. Algengur í grennd Kollsvíkur, ofan láglendis. Hann dregur nafn sitt af því að fyrr á öldum þótti hann góð beitarplanta.
Sauðamjólk (n, kvk) Sauðamjólk var mikið notuð meðan fráfærur voru stundaðar og fé mjólkað í stekk eða í seli. Í seinni tíð var hún nýtt ef létta þurfti á lambám sem misst höfðu; voru misjúgra eða troðjúgra. „Sauðamjólkin var notuð þannig til matargerðar að henni var hellt í trog eftir mjaltir og rjóminn látinn setjast ofaná í troginu. Tók það oft á annan sólarhring. Síðan voru rjómi og undanrenna skilin að. Var það oft gert þannig að haldið var við rjómaskánina með hendinni á einu horni trogsins. Svo var troginu hallað og undanrennan látin renna undan rjómanum í annað ílát. Rjóminn var skekinn í strokk með bullu, og skildist þá í smjör og áfir. Smjörið var hnoðað í smjörsköku en áfirnar drukknar nýjar eða settar samanvið undanrennuna... Undanrennan var flóuð; þ.e. hituð upp að suðu en síðan látin kólna þar til hún var vel nýmjólkurvolg. Þá var settur í hana hleypir og þétti og ílátið vafið með þykkri flík svo að hægt kólnaði. Hljóp þá undanrennan og úr varð skyr. Hleypirinn var búinn til úr kálfsmaga, en þéttinn var skyr úr fyrri skyrgerð, sem hrært var út í kaldri flóaðri mjólk fyrir notkun. Þegar skyrið var hlaupið var mysan síuð frá því í gegnum gisinn klút, sem lagður var á skyrgrind. Skyrið var geymt í tunnum til vetrarins og var þá vel súrt og gat geymst mjög lengi ef það var varið myglu. Mysan undan skyrinu og sýra sem ausið var úr tunnum með súru skyri, var líka geymd á tunnum og látin súrna. Súrri mysunni, eða sýrunni, var blandað við vatn og kölluð blanda. Þótti hæfilegt að blanda 1 hluta sýru á móti 11 hlutum af vatni.... Skyrdrukkur var búinn til með því að hræra súrt skyr út í vatni.. Ostar vorustundum gerðir úr undanrennunni, en skyrgerðin var mun algengari. Smjörinu var drepið niður í skinnbelgi af kindum eðai í góð tréílát. Smjörið súrnaði við geymsluna og varð skarpt á bragðið. Þannig gat það geymst mjög lengi í köldum geymslum, ef ekki komst loft að því. Ríkidæmi manna var meðal annars mælt í smjöreign til forna“ (Stefan Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).
Sauðast (s) Álfast; aulast. „Ekki veit ég til hvers við vorum að sauðast hingað með netin; í algjöra ördeyðu“!
Sauðatað (n, hk) Skán; troðinn kindaskítur úr fjárhúsum. „Sauðatað er mjög gott til reykingar“. Eldiviður var mest mór og rekaspýtur, sem var raunar talsvert af. Einnig nokkuð sauðatað“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Sauðatollur (n, kk) Gjald fyrir afnot af hrút yfir fengitíma. „Hann lét mig hafa fleyg í sauðatollinn“.
Sauðaþjófnaður var talinn til alvarlegustu glæpa fyrr á tíð, jafnaðist hérumbil til mannsmorðs og líklega talinn alvarlegri en barnsútburður eða úthýsing förumanna. Á síðari tímum fóru engar sögur af vísvitandi sauðaþjófnaði í Rauðasandshreppi, en hinsvegar komu upp ýmis mál vegna óljósra marka og vegna þess að ekki var vandað til samalamennsku og eftirleita. Þannig gat heimst ómarkað útigangsfé á einum bæ sem þar ílentist, þó svo annar teldi sér þær. Þá var þessi nafngift mönnum tiltæk þó ekki yrðu stórmæli af.
Sú regla var virt í Kollsvík framá síðustu daga að aldrei mætti skera eyru af sviðahausum fyrr en þau væru borðuð. Efalaust komst sú regla á til að ekki léki vafi á um eignarhald sviðanna; sá sem skar eyru af gat verið að leyna sauðaþjófnaði. Sömuleiðis var því trúað að æti ólétt kona eyra sviðahauss með annars manns marki yrði barnið sauðaþjófur.
Sauðbeit / Sauðjörð (n, kvk) Bithagi; beit fyrir sauðfé. „Kollsvíkur- og Láganúpsjarðir þykja góðar sauðjarðir. Þar er víðast góð sauðbeit og yfirleitt fóðurlétt að vetrum“.
Sauðburður Sá tími vorsins þegar fæðing lamba gekk einkum yfir. Hófst yfirleitt í byrjun maí og stóð af mestum krafti seinnipart maí. Fyrst var hleypt til ánna, þ.e. farið með hrút, um jólin og stóð fengitíminn fram eftir janúar. Þegar leið að burði sást greinilega hvaða ær voru með lömbum og hverjar voru geldar. Oftast gekk meðgangan vel en þó bar við að kindur létu lömbum, þ.e. að þau fæddust sem meltingar fyrir tímann. Lambalát gat orðið faraldur og valdið miklum skaða. Þegar voraði vildu ærnar rása frá, og þá var farið að loka þær inni á túnum. Þeim var gefið hey og fóðurbætir, annaðhvort í fjárhúsum eða í sérstökum útijötum, en lágu við opið þegar veður var sæmilegt. Þær lambær sem þurftu sérstaka sinningu, svo sem tví- og þrílembur, voru þó oft teknar á hús og þeim gefið úrvalsfóður. Í seinni tíð hafa bændur farið að láta fé bera inni. Geldfé var fljótt hleypt útaf túni. Vakta þurfti féð vel yfir sauðburðinn og gá að lambfé með fárra stunda millibili allan sólarhringinn. Vökur urðu því oft æði miklar, einkum ef mannfátt var. Ærnar leituðu oft á afvikna staði til að bera og víða bar af í landslaginu svo gönguferðir urðu langar fyrir fjárgæslufólk. Oft mátti sjá það á hegðum ærinnar hvort hún var burðarleg. Hún var þá utan við sig, vildi ekki fóður; leitaði út úr hópnum og krafsaði sér ból á afviknum stað. Í byrjun fæðinga kom fyrst vatnsbelgur, en fljótlega eftir það átti lambið að koma ef allt var eðlilegt. Oftast gengur fæðing eðlilega fyrir sig, ef ærin er heilbrigð og hraust; burðinn ber rétt að og veður gott, en oft var einhver þessara þátta ekki í lagi og þá gat þurft að hjálpa ærinni. Lamb gat t.d. snúið öfugt í burðarliðnum og þá var nauðsynlegt að vera handfljótur til að það kafnaði ekki. Hausinn gat legið aftur og þá gat þurft að fara innmeð til að laga það. Hrútshorn gátu verið stór og valdið erfiðleikum og margt fleira gat amað að. Stundum gat lambið sjálft verið mjög stórt miðað við ána. Mjög var misjafnt hve fólk var lagið að hjálpa við burð. Við eðlilegan burð byrjar kindin strax að kara lambið, þ.e. sleikja af því slorið, og kumraði gjarnan móti jarmi lambsins. Það fór fljótlega að leita eftir spena, sem gat gengið misjafnlega vel. Þurfti þá stundum að koma því á spena. Eftir fæðingu heilaðist kindin fljótlega, þ.e. losnaði við hildirnar (fylgjuna). Sumar kindur átu þær en annars var hrafninn fljótur að gera þeim skil, væru þær ekki grafnar. Kindur sem eiga eitt lamb eru einlembur og lambið einlembingur, en tvílembur ef þær eiga tvílembinga. Þrílembur eru sjaldgæfar, en frjósemi eykst þó með bættri fóðrun og aðbúnaði. Lömb eru misstór; allt frá því að vera afturúrkreistingar eða örverpi upp í það að vera boldangshrútar. Sumar ær voru viðskotaillar og vörðu lömb sín grimmt; reyndu að stanga þann sem nálgaðist og fnæstu ákaft. Handsama þurfti lömbin innan fárra daga til að marka þau undir mark eigandans með hníf eða markatöng; merkja þau með númeruðu ál- eða plastmerki með tilvísun í ærbókina; sprauta þau við lambablóðsótt og e.t.v. gefa þeim fleiri lyf s.s. súlfatöflur. Lömbin urðu fljótt spræk og gat orðið harðsnúið að ná þeim. Gæta þurfti vel að lömbunum í þeim hættum sem víða leynast, s.s. í skurðum og gjótum. Þá var mikilvægt að koma fljótt til hjálpar ef þau voru veikburða; fengu t.d. stíuskjögur; fjöruskjögur eða ofkældust. Aumingjar voru stundum teknir í bæ til að orna þeim og gefa úr pela. Sum lömb voru vansköpuð á einhvern hátt, stundum þannig að þau lifðu ekki; sum voru með trönu, þ.e. með efri kjálka lengri en þann neðri, eða á hinn veginn; með skúffukjaft. Ef einlembd ær missti lambið snemma var reynt að venja undir, þ.e. taka lamb undan annarri sem e.t.v. var ekki treyst fyrir tveimur. Var þá stundum fleginn bjálfinn (skinnið) af dauða lambinu og það saumað utanum undirvaninginn til að lyktin yrði sú sama. Eftir nokkurra daga samvist í stíu tóku flestar ær undirvaningum. Lömb sem misstu móður og ekki var unnt að venja undir urðu heimalningar, þ.e. ólust upp heima við bæ og fengu mjólk úr pela. Þeir gátu orðið býsna frekir og heimakærir. Gæta varð varúðar kringum lambféð og passa að vía ekki lambið frá móðurinni. Lömb sem villtust frá mæðrum sínum voru undanvillingar. Þegar lömbin tóku að stálpast var ánum hleypt útaf túninu í hópum. Oft var valið í hópinn eftir því hvar æskilegt væri að féð gengi yfir sumarið og safnið síðan rekið á þann stað. Lambið sem fyrst fæddist að vorinu nefndist lambakóngur eða lambadrottning. Lömb gátu verið snemmborin eða síðborin; snemmborningar eða síðborningar. „Vorið er aðal annatíminn í sveitum, og svo var einnig þegar ég var að alast upp. Um sauðburðinn þurfti að smala á hverjum degi og jafnvel vitja fjárins að nóttu“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Þá tók sauðburðurinn við og við urðum að smala út í Breiðavík, ekki sjaldnar en annanhvern dag“ (IG; Æskuminningar).
Sauðdrukkinn (l) Kófdrukkinn; mjög ölvaður; á skallanum/eyrunum.
Sauðfita (n, kvk) Fita í ull sauðfjár. „Sauðfitan sér alveg um að smyrja klippurnar“.
Sauðfjárafurðir (n, kvk, fto) Hvaðeina það af sauðkind sem nýtist til sölu, matar, klæða eða annars.
Sauðfjárbeit (n, kvk) Beitiland fyrir sauðfé. „Góð sauðfjárbeit er í Kollsvík og öllu nágrenni hennar“.
Sauðfjárböðun (n, kvk) Sjá fjárböðun.
Sauðfjármark (n, hk) Mark; fjármark. „Ívar Ívarsson ræddi nokkuð um sauðfjármörk og markaskrá…“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Sauðheimska (n, kvk) Fáviska; glópska. „Þvílíka sauðheimsku hef ég sjaldan vitað“!
Sauðheimskur (l) Mjög heimskur; álfalegur; bjánalegur. „Andskoti geta þeir verið sauðheimskir þessir ráðherrar; að halda að hægt sé að rækta bara gærur án þess að framleiða ket“!
Sauðjörð / Sauðland (n, kvk) A. Fjárjörð; jörð sem hentar fyrir sauðfjárbúskap öðru fremur. B. Hagi sem nýtanlegur er fyrir sauðfé. „Þegar fannir voru mestar þann vetur tók nánast fyrir alla sauðjörð“.
Sauðkálfur (n, kk) Skammaryrði um mann sem þykir heimskur. „Óttalegur sauðkálfur getur þetta verið“!
Sauðkind / Sauðfé (n, kvk) Ovis aries. Ullarklædd jórturdýr/spendýr/klaufdýr sem um árþúsundir hafa verið ræktuð og nýtt til búskapar, og fylgdu landnámsmönnum hingað. Uppruni dýrategundarinnar er talinn vera í fjalllendum Anatólíu í Tyrklandi, og vísbendingar eru um að menn hafi fyrst byrjað sauðfjárbúskap fyrir um 11.000 árum. Sauðkindin er að eðli félagslynd og heldur sig í hópum, Hún er vel löguð að því að bjarga sér í rýrum bithögum af ýmsu tagi; jafnt klettum sem votlendi. Langvarndi ræktun hefur þó breytt ýmum eiginleikum, þar sem menn hafa sóst eftir auknu vöðvamagni og meiri og betri ull. Hver bóndi hefur sínar áherslur í ræktun. T.d. vildi Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi rækta fremur hyrnt fé en kollótt; hann vildi fremur háfætt fé en lágfætt og hann vildi fremur gult í rót á ull en snjakahvítt fé. Allt var það andstætt ríkjandi opinberri stefnu á þeim tíma, en nokkuð rökrétt. Sauðkindin á oftast eitt lamb, en oft þó tvílembinga og einstaka sinnum þrílembinga. Með aukinni ræktun og nútímaaðferðum við sæðingar hefur afkvæmafjöldinn aukist. Sauðburður er annatími hjá bændum, því oft þarf að aðstoða kindur við burð eins og aðrar skepnur sem maðurinn hefur breytt með ræktun. Fullyrða má að sauðkindin hefur staðið að langmestu leyti undir þeirri byggð sem verið hefur á Íslandi frá landnámsöld og a.m.k. fram á 20.öld. Allar fjölskyldur byggðu á sauðfjárrækt að langmestu leyti, þó sumsstaðar væri einnig sóttur sjór. Velferð manna byggðist því verulega á hæfni þeirra í búskap. Fyrri tíðar fólk þekkti betur til fullnýtingar á sauðkindinni en nú er, og má segja að allir hlutar hennar hafi verið nýttir; ýmist til matar, klæðnaðar eða til annarra þarfa. Meira að segja úrgangurinn; sauðataðið, var nýtt til kyndingar og reykingar matvæla.
Sauðlaukur (n, kk) Sauðarfita; fitulag á sauðkind í góðum holdum. Orðið er ekki notað nú á tímum en menn hafa löngum velt fyrir sér uppruna staðarnafnsins „Sauðlauksdalur“ í Rauðasandshreppi. Ýmislegt bendir til að það merki: „Dalur þar sem fé fitnar“ eða eitthvað í þá áttina. Til skamms tíma var fitulag ýmissa fuglategunda nefnt laukur. Einnig má hafa í huga að til skamms tíma þekktist sunnanlands orðtakið; að skepna „stígi ekki í laukana“; þ.e. að skepna sé mögur/kviðdregin. Laukur er upprunalega nafnkenning þess að loka/umlykja, og merkir upprunalega það sem lykur um; hjúpar; þ.e. hjúpur. Orðið fær síðan merkinguna fituhjúpur/fitulag/mör. Laukur; þ.e. fita, þótti góð í keti, og því varð til líkingin að einhver sem sæmd var að í ættum væri nefndur „laukur ættarinnar“. Sauðlaukur merkir því „sauðafita“. Staðarheitið Sauðlauksdalur verður auðskilið í því ljósi, enda dæmigerð fyrir þá viðleitni landnámsmanna að velja stöðum lýsandi heiti. Ekki er ólíklegt að nafngiftin hafi komið á fyrstu tímum byggðar. Líklegt er að Þórólfur spörr á Hvallátrum hafi haldið sauðum sínum til fitubeitar í Sauðlauksdal að vetrarlagi; þar er skjólsælla en á Bjarginu, þar sem einnig er gott til fitubeitar að sumarlagi.
Sauðmeinlaus (l) Alveg meinlaus; gerir engum illt. „Sem betur fer reyndist þetta vera sauðmeinlaust kvef“.
Sauðnaut (n, hk) A. Moskusuxi; Ovibos moschtus. Stórvaxin klaufdýr af ætt slíðurhyrninga sem lifa á túndrusvæðum Grænlands, Kanada og Alaska. Þau hafa verið flutt til Noregs, Svíþjóðar og Wrangeleyju í Síberíu. Á fyrrihluta 20.aldar var reynt að flytja sauðnaut til Íslands, en þær tilraunir mistókust. B. Níðyrði um mann sem þykir heimskur. „Skelfilegt sauðnaut getur hann verið“!
Sauðnálarkritja (n, kvk) Mjög lágvaxinn gróður; vottur að grænni jörð að vori en vart orðin sauðbeit. „Það fer að grænka úr þessu; strax komin einhver sauðnálarkritja“. „Þessi fíni matur í veislunni var nú varla annað en einhver sauðnálarkritja“. Orðið finnst ekki í orðabókum.
Sauðskepna (n, kvk) Sauðkind. Oftast notað sem áhersluorð þegar lýst er fáum kindum eða fjárleysi. „Ég leit af brúninni niður í hlíðina, en þar var ekki eina einustu sauðskepnu að sjá“.
Sauðskinn (n, hk) Gæra; sjá þar.
Sauðskinnsskór (n, kk, fto) Skór úr sauðskinni; skinnskór. Skinnið var sniðið til og saumað með tá- og hælsaum; síðan yfirleitt litað dökkum litum. Algengasti skóbúnaður manna fram á 20.öld. Ending skóa úr sauðskinni var þó langtum minni en þeirr sem voru úr nautsleðri, hrossalðri eða selskinni. Sauðskinn var betra því eldri sem sauðurinn var. Sjá gæra.
Sauðslegur / Sauðskur (l) Hjárænulegur; gleyminn; annarshugar. „Skelfing geturðu verið sauðslegur að gleyma þessu“! „Hann man kannski eftir þessu, þó sauðskur sé“.
Sauðspakur (l) Mjög gæfur; mannelskur. „Æðarkollan var orðin sauðspök og elti okkur um allar trissur“.
Sauðsvartur almúginn (orðtak) Lágstéttir manna; gæluheiti um það fólk sem ekki er ráðandi í samfélaginu. „Sauðsvartur almúginn fékk litlu ráðið um þetta; ekki frekar en fyrri daginn“!
Sauðtryggur (l) Tryggur í blindni. „ Og sauðtryggir flokksmennirnir fylgja fomanninum í þessa feigðarför“.
Sauður (n, kk) A. Geltur hrútur. Eftir að hrútlömb hafa verið gelt eru þau stundum nefnd geldingar fyrsta árið, en eftir það sauðir. B. Orðið er iðulega notað um sauðkindur almennt. Sú notkun hefur þó minnkað á síðari tímum. C. Líkingamál um hjárænulegan/annarshugar mann.
Sauðþrái (n, kk) Endemis þrjóska. „Ekki skil ég þennan sauðþráa í karlinum; það er bara ekki úr að aka“!
Sauðþrár / Sauðþrjóskur (l) Mjög þrjóskur/þver. „ég hélt að enginn gæti verið svona sauðþrjóskur“.
Sauma (s) Festa á/saman eða skreyta með saum. Við saumaskap er notuð nál með íþræddum þræði/tvinna, en í seinni tíð þó einkum saumavél.
Sauma að (einhverjum) (orðtak) Koma einhverjum í bobba/úlfakreppu; þjarma/þrengja að; pína. „Landeigandinn saumað svo að honum að loksins hrökklaðist hann af jörðinni“.
Sauma fyrir hrút (orðtak) Sauma bót á kvið hrúts til að hann nái ekki að lemba kind. Var þetta gert í einhverjum mæli áðurfyrr, til að geta haft hrúta með fé þegar kom framá vetur án þess að ær yrðu fyrirmálsfengnar.
Saumaklúbbur var starfræktur í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar, og nefndist hann Stautur.
Saumaklúbbskvöld (n, hk) Samkoma saumaklúbblsins Stauts; haldin á heimili einhverrar félagskonu. Annarsstaðar munu slík kvöld hafa heitið saumakvöld, en í Rauðasandshreppi föndruðu félagskonur við sitthvað annað en sauma; s.s. prjónaskap, hekl, bastvinnu og annað. En einnig var mikið talað.
Saumaskapur (n, kk) Sú iðja að sauma. „Hún er sérlega lagin við saumaskap og að prjóna“.
Saumavélaolía (n, kvk) Maskinuolía; handýolía; þunn olía sem nota mátti til að smyrja ýmislegt, s.s. smátæki og lamir. Gekk oftast undir heitinu saumavélaolía eða handýolía, en nefnist nú almennt maskinuolía.
Saumfar (n, hk) Röð bátasaums í umfari/borði báts. „Viið hlöðum ekki nema upp að næsta saumfari“.
Saumhögg (n, hk) A. Þrístrent járnstykki með hvössum kanti; notað til að klippa járntein niður í saum. B. Í líkingamáli; það sem er egghvasst. „Að ofan er Barðið víðasthvar líkt og saumhögg; með skarpri brún“. „Er Skor þessi eins og jötunefldu saumhöggi hafi verið höggvið inn í stálhart blágrýtið og látið eftir sig aflanga klauf, er líkist axarfari eftir tröllaukna bolöxi“ (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).
Saumnálargat (n, hk) Mjög lítið gat. „Það var saumnálargat á stakknum, en það nægði til að ég varð votur“.
Saumnálarleit (n, kvk) Erfið leit; eins og að leita að saumnál í heystakki. „Það verður alger saumnálarleit að reyna að finna þessi lömb aftur sem sluppu“.
Saumrekinn (l) Um við/efni; með mörgum negldum nöglum; útnegldur. „Ég lappaði við þetta með saumrekinni fúaspækju sem lá þarna nærri“.
Saumspretta (n, kvk) Saumur sem hefur gefið sig, þannig að efni losnar í sundur. „Ég fékk saumsprettu á buxurnar þegar ég beygði mig“.
Saumur (n, kk) A. Þráður sem notaður er til að festa saman tvö stykki, og nær orðið einnig yfir festinguna sjálfa. „Saumurinn er eitthvað að gefa sig aftaní buxunum“. B. Nagli til smíða. „Ég þarf að kaupa meira af þaksaum til að geta gengið frá þakpötunni“. Orðið hefur yfirfærst á þennan hátt vegna þess að fyrrum voru bátar festir saman með þræði. Heitið hélt sér eftir að trénaglar og síðan járnnaglar tóku við því hlutverki.
Saup (n, hk) Hlaup; þykk súpa; grautur. „Mér finnst ket alltaf fremur ólystugt ef það er soðið í saup“. Farðu varlega þarna; í svona bleytutíð verður jarðvegurinn eins og saup“.
Saupsáttir (l) Ósáttir; sundurorða. „Þeir urðu eitthvað saupsáttir út af þessum kvenmanni“.
Saur (n, kk) A. Almennt um leðju; for; drullu; óhreinindi. Að fornu hefur orðið verið notað um leirur á útfiri, og er það líklega skýringin á bæjarnafninu Saurbæ, t.d. á Rauðasandi og víðar. Hestum var riðið um þá saura og urðu saurugir. Bær var byggður nærri og sjálfsagt að nefna hann Saurbæ. B. Sértækari merking; kúkur; hægðir manna og dýra.
Saurblað (n, hk) Autt blað aftast og fremst í bók, til að taka við mesta káminu af fingrum lesandans. Líklega hefur það upphaflega átt við blað sem árituðum blöðum/bókum var pakkað í; jafnvel óinnbundnum.
Saurga (s) Ata/skíta út; gera skitugt/kámugt; óhreinka. Notað einnig fyrrum í merkingunni að vanhelga.
Saurindi (n, hk, fto) Skítur; saur; kám; óhreinindi. „Ég þreif mestu saurindin af þessu“.
Saurlifnaður / Saurlífi (n, kk) Taumlaust líferni; ólifnaður; lauslæti. Orðið var meira notað áðurfyrr, á tímum strangtrúar og siðvendni.
Saurljótur (l) A. Skítugur; kámugur „Óttalega ertu nú orðinn saurljótur í framan, þú ættir að þvo þér“. B. Skítsækinn; viðkvæmur fyrir kámi/skít. Sú merking orðsins var ráðandi fyrrum.
Saursæll (l) Sem hefur tilhneygingu til að verða skítugur/sölugur. „Farðu nú og reyndu að þvo þér geyið mitt, óttalega geturðu verið saursæll“!
Saurugur (l) Skítugur; ataður. „Déskoti ertu saurugur á hnjánum, farðu úr buxunum úti og fáðu þér hreinar“.
Sax (n, hk) A. Stór og þung sveðja með þykku blaði, notuð t.d. til að brytja í saltket. B. Staður sá á borðstokk báts framantil þar sem hann er farinn að leggjast verulega út og sveigjast aftur; staðurinn þar sem mætast yfirslíður og hástokkur. Sax er því þar á borðstokknum sem sveigjan verður mest að framan, og því leitast bógaldan við að hlaðast þar upp þegar mikið er siglt. Þegar hún gutlar þar uppundir heitir að sjóða/vaða á söxum.
Saxa (s) A. Brytja niður, t.d. kjöt í spað eða fisk í fóður. B. Raka saman hey með sérstökum hætti í föng, til að minna slæðist úr þegar þau eru sett upp í galta eða á heyvagn. Heyinu var þá þjappað með hrífu, litlu í einu, báðumegin í fangið. Sérlega var mikilvægt að vanda söxun í koll á göltum til að síður drypi í þá. C. Um bát; hjakka í ölduna; endastingast í öldugangi.
Saxast á (orðtak) Ganga á; eyðast; ganga til þurrðar. „Nokkuð er farið að saxast á fóðurbætinn“.
Saxast nú á limina hans Björns míns (orðatiltæki) Stundum notað þegar eitthvað þykir ganga til rýrnunar. Tilvitnun í meint orð Steinunnar, konu þrjótsins Axlar-Björns, þegar hann hafði verið beinbrotinn á öllum útlimum á Laugarbrekkuþingi á Snæfellsnesi árið 1596 fyrir morð sitt á átján mönnum. Björn, sem var annálaður skálkur á sinni tíð, lét sér að sögn lítt bregða. Á hann að hafa sagt um eitt höggið sem ekki dugði: „Sjaldan brotnar bein á huldu“, og er það einnig haft að orðtaki.
Sá (s) Dreifa fræi í jörð/ korni í akur; dreifa áburði á tún.
Sá/sú arna (orðtak) Sá/ þessi þarna; viðauki við nafnorð sem lýsa þeim sem eru vorkunnar verðir, eða afsaka þarf. „Hann má nú eiga það, aulinn sá arna, að hann gerði sitt besta“. Líklega myndbreytinga orðanna „sá þarna“, og er viðbótinni ætlað að auka áherslu hins mildandi tóns setningarinnar. Svipaðs eðlis er viðbótin „atarna“; „skinnið atarna“, sem e.t.v. er leitt af sömu rót (sjá þar).
Sá á fund sem finnur (ef enginn finnst eigandinn) ( orðatiltæki) Mikið notað orðtak vestra. Þó ekki seinniparturinn. „Það er ekkert víst að þú fáir þennan vasahníf; sá á fund sem finnur“!
Sá á kvölina sem á völina (orðatiltæki) Vísar til þess að oft getur verið erfitt, og jafnvel allmikil áhætta, að velja milli tveggja eða fleiri kosta. Völ merkir val. Sjá fara á vonarvöl.
Sá á lykt sem fyrst finnur ( orðatiltæki) Mikið notuð speki, einkum um illa þefjandi viðrekstrarfýlu/prumplykt.
Sá blái (orðtak) Gæluheiti á steinbít. (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heim; ÞJ). „Mér þótti sá blái nokkuð líflegur þegar sá fyrsti kom í bátinn og horfði ég á“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Sá einn veit sem reynir (orðatiltæki) Sumt verður ekki vitað nema með reynslu/prófun. Einnig; veit enginn fyrr en reynt hefur.
Sá er árla rís verður margt vís (orðatiltæki) Sama meining og morgunstund gefur gull í mund.
Sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur ( orðatiltæki) Menn finna auðvitað mest fyrir því sem mæðir á þeim sjálfum, en margir eiga erfiðara með að sjá það sem mæðir á öðrum. Forn speki.
Sá er/þykist fróður er fregna kann (orðatiltæki) Sá veit margt sem fréttir mikið.
Sá er góður (orðtak) Upphrópun sem gjarnan var viðhöfð þegar einhver sýndi yfirlæti eða hafði uppi stórorðar yfirlýsingar.
Sá fær/hefur byr sem bíða kann (orðatiltæki) Sá fær einhverntíma byr sem getur beðið eftir honum. Notað í líkingamáli um það að þolinmæðin borgar sig stundum ef eitthvað skal ávinnast.
Sá guli (orðtak) Gæluheiti á þorski. „Hann er eitthvað við í dag, sá guli“. „Alltaf var verið að færa sig úr stað, en sá guli var allsstaðar nauðatregur“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sá grái (orðtak) Gæluheiti á hákarli.
Sá hefur nóg sem nægja lætur (orðatiltæki) Vísar til þess að kunna sér hóf/ vera nægjusamur.
Sá hlær best sem síðast hlær (orðatiltæki) Sá getur hrósað sigri sem haft hefur betur/ sem að lokum er sigurvegari. „Þú hafðir betur í þessari lotu, en sá hlær best sem síðast hlær“!
Sá (hlýtur/verður að) laumast með landi sem lekan hefur bát (orðatiltæki) Spekin er auðskilin; menn fara ekki út á haf á hriplekum bát. Notað í líkingum um annað; að sá komi t.d. litlu í verk sem hefur lélegan búnað.
Sá nýtur oft sem óverðugur er / Sá nýtur oft sem ekki skyldi (orðtatiltæki) Oft nýtur maður ávaxtanna af erfiði annarra, t.d. erfingjar. Það er því ekki algilt að hver njóti síns um síðir.
Sá sem ekki vill vinna á ekki að fá að eta (orðatiltæki) Gömul speki sem oft var rifjuð upp í Kollsvík; einkum þegar rætt var um leti.
Sá svarti (sjálfur) (orðtak) Annað heiti á fjandanum/djöflinum. Leifar frá þeim tíma að blótsyrði voru talin stefna sálarheill í hættu. „Það má sá svarti sjálfur vita hvar hamarinn er niðurkominn“!
Sá verður að lúta sem lágar hefur dyr (orðatiltæki) Sá fátæki/undirokaði verður að lúta fyrir hinum voldugri. Ekki er það þó einhlítt, og oft hafa Kollsvíkingar rifið sinn kjaft með góðum árangri.
Sá vondi (orðtak) Satan; fjandinn; vondi karlinn. Oft notað sem milt blótsyrði. „Það má sá vondi sjálfur vita“!
Sá vægir sem vitið hefur meira (orðatiltæki) Um bardaga/viðureign/þrætu; sá lætur undan sem af hyggjuviti sér tilgangsleysið í viðureigninni/sigrinum. Oft notað, t.d. í þrætumálum og slagsmálum barna. Sjá vægir sá sem vitið hefur meira.
Sáðgresi (n, hk) Sléttugras; erlendar, grófgerðar grastegundir sem sáð er í sléttur til að fá meiri afrakstur heyja.
Sáðslétta (n, kvk) Sléttað tún sem grasfræi hefur verið sáð í.
Sál (n, kvk) A. Andi; sjálf; eigind hvers manns. „Upp upp mín sál og allt mitt geð…“ (HP; Passíusálmar). B. Lifandi maður. „Fáar sálir eru nú eftir í Breiðavíkursókn“. C. Skinnpoki (forn notkun). D. Hjarta í flyðru, hákarli eða skötu.
Sála (n, kvk) Sál; manneskja. „Hér er ekki nokkur sála á ferli“.
Sálaður (l) Andaður; dáinn; látinn. „Þá er hann sálaður, karlanginn, eftir langa og vinnusama ævi“.
Sálarkvöl og pína (orðtak) Nagandi óvissa; sálarstríð; uggur; kvíði. „Það var honum allmikil sálarkvöl og pína að ákveða hvorn hrútinn skyldi setja á“.
Sálarlaus (l) Án sálar/tilfinninga/persónuleika/eigindar. „Mikið finnst mér þessir kubbslaga húsklumpar vera sálarlaust fyrirbæri“!
Sálarstríð (n, hk) Sálarkvöl og pína; nagandi óvissa; uggur; kvíði. „Eftir mikið sálarstríð ákvað hann að skjóta kindina niður í stað þess að leggja menn í hættu við að reyna að ná henni úr sveltinu“.
Sálartetur / Sálartötur (n, hk) Gæluheiti á sál. „Maður ætti kannski að hressa aðeins uppá sálartötrið og hlusta á messuna“.
Sálast (s) Deyja; gefa upp öndina. „Hann var þá að sálast í nótt, sá gamli“. „Ég er að sálast úr þorsta“.
Sálddreifari (n, kk) Dreifari til að dreifa tilbúnum áburði. Sáldrar áburðinum niður um rifur/göt í botninum. Kastdreifari kastar honum aftur á móti frá sér með snúningsskífu eða öðru.
Sáldra (s) Dreifa/strá efni. „Það er ágætt að sáldra dálitlu salti yfir stæðuna“.
Sáldur (n, hk) Það sem sáldrast/ er sáldrað; kusk; duft. „Ég þurrkaði mesta sáldrið af borðinu“.
Sálga (s) Drepa; murka lífið úr. „Enn er ósannað að Steinunn á Sjöundá hafi tekið þátt í að sálga manni sínum“.
Sálmabók (n, kvk) Bók með trúarlegum kveðskap/ sálmum. Sálmabók var til á flestum heimilum, og á fyrri árum útvarps tók gott söngfólk undir með kórsöng þegar messum var útvarpað.
Sálmasöngur (n, kk) Söngur sálma. Sálmasöngur í Breiðavíkurkirkju var oftastnær hlutverk kirkjugesta ásamt presti. Margir voru fyrirtaks söngmenn, en aðrir ekki eins tónvissir.
Sálmur (n, kk) Trúarljóð; andlegur kveðskapur, oftast með sínu lagi og sunginn við helgiathafnir. „Gengið var kring um jólatréð og sungnir sálmar og ýmsir söngvar“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku).
Sálnahirðir / Sálusorgari (n, kk) Prestur.
Sálnaregistur (n, hk) Manntalsbók sóknar/sókna, sem prestur heldur utanum; kirkjubók.
Sálubót / Sáluhjálp (n, kvk) Hugarró; bætt sálarástand. „Maður er nú að þessu meira sér til sálubótar en nokkurs annars“.
Sálufélagi (n, kk) Sá sem hugsar eins; sá sem hefur sömu markmið/áhugamál. „Þar fann hann sér sálufélaga sem er ámóta furðulegur í hugsun“.
Sálugur (l) Látinn. Viðauki þegar rætt er um þá sem látnir eru. „Afi minn sálugur var með afbrigðum sauðglöggur“. „Fáa þekki ég eins mikla söngmenn og hana ömmu mína sálugu; Halldóru frá Grundum“.
Sáluhjálparatriði (n, hk) Það sem varðar sálarheill/inngöngu í Guðsríki. „Það er nú ekkert sáluhjálparatriði þó við klárum ekki að vitja um alla strengina í dag. Kannski er betra að róa heldur snemma á morgun“.
Sáluhlið (n, hk) Hlið á kirkjugarði. „Gera má ráð fyrir að sáluhlið kirkjugarðsins í Kollsvík hafi vitað móti vesturátt, eins og venja er enn; í átt til sjávar“.
Sáluhólpinn (l) Bjargað frá vítiseldi eftir dauða; öruggur um himnaríkisvist. „Maður ætti þá líklega að verða sáluhólpinn eftir svona góðverk“!
Sálutjón (n, hk) Tjón á sálarheill sinni; aukin hætta á að vera vísað frá himnaríkisvist. „Maður bíður nú kannski ekki neitt sálutjón á að heyra hvað þessi frambjóðandi hefur fram að færa, þó hann sé af þessu sauðahúsi“.
Sámleitur / Sámlitaður / Sámslegur (l) Dökkleitur; skáldaður í framan af skít; sámur. „Óttalega ertu sámslegur í framan eftir þessa moldarvinnu. Farðu nú og þvoðu framanúr þér drengur“.
Sámur (l) Sámleitur; dökkur; óhreinn. Ekki í notkun í seinni tíð. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Sáning (n, kvk) Það að sá, t.d. fræi.
Sápa (n, kvk) Efni sem notað er til hreinsunar og þvotta, t.d. á líkama og klæðnaði. Sápunotkun hefur aukist gríðarlega á síðari tímum, sem og úrval sérhæfðra sápuefna. Sápa var komin í notkun meðal fornþjóða nokkru fyrir Kristsburð, og m.a. bjuggu Fönikíumenn til sápu úr geitartólg og viðarösku.
Sápa / Sápubera (s) Bera sápu á. „Sápaðu skinnið vel og þvoðu það rækilega áður en þú spýtir það“.
Sápufroða (n, kvk) Froða eftir að sápa hefur freytt.
Sápugur (l) Með sápufroðu. „Þvoðu nú betur af þér drengur; þú ert enn sápugur á hönbdunum“!
Sápuhristari / Sápugrind / Sápusigti (n, kk) Eldhúsáhald; hylki úr vírgrind og með skafti úr sverum vír. Notað til að sápa vatn til uppþvotta á t.d. borðbúnaði. Hylkið var með smelltu loki úr samskonar vírgrind. Inn í það voru settir afgangar af handsápu/stangarsápu; síðan var hylkinu difið ofaní uppþvottavatnið og það hrist duglega þangaðtil nægilega sterk blanda var fengin. Notað á Láganúpi framundir það að uppþvottalögur fór að fást í verslunum; fyrir 1970.
Sápustykki (n, hk) Stykki af handsápu/stangarsápu. „Fjandi eru þau orðin óveruleg þessi sápustykki í dag“!
Sápustöng (n, kvk) Sápa, framleidd með nokkrum stykkjum samhangandi í lengju/stöng.
Sápuvatn (n, hk) Vatn með uppleystri sápu. „Ég þarf að hafa sápuvatn við hendina við þessa aðgerð“.
Sár (n, kk) Stórt ker/kerald. „Þar voru margir sáir, fullir af blautfiski“.
Sár (n, hk) Und; skurður/hrufl í húð. „Þetta er nú ekki djúpt sár; bara smáskurfa“.
Sár (l) A. Meiddur; slasaður. „Einhverjir voru víst sárir eftir slysið, en allir lifðu af“. B. Móðgaður; vonsvikinn; hryggur. „Ég er dálítið sár útí hann fyrir þessi ummæli“.
Sár á (orðtak) Nískur á; vill helst ekki láta. „Ég er dálítið sár á nýju skærin mín í svonalagað, en þið megið fá þau gömlu“.
Sára (ao) Áhersluorð, einkum um smæð: Sára sjaldan; sára lítilfjörlegt; sára meinlaust; sára hallærislegt.
Sáraáburður / Sárakrem / Sárasalvi / Sárasmyrsl (n, kk/hk) Sótthreinsandi áburður sem borinn er í sár.
Sárabindi / Sáragrisja / Sáraplástur / Sáraumbúðir (n, hk/kvk/kk) Umbúðir um sár.
Sárabót (n, kvk) Uppbót; bót í máli. „Það var nokkur sárabót að ná lambinu lifandi þegar kindin hrapaði“.
Sáraduft (n, hk) Sótthreinsandi duft/ pensillínduft sem stráð er í sár.
Sáraeinfalt (l) Mjög einfalt/auðvelt. „Þetta er sáraeinfaldur hnútur“.
Sárafáir (l) Mjög fáir. „Það mættu sárafáir á fundinn“. „Tvílembur voru sárafáar í hópinum“.
Sárafátækur (l) Mjög fátækur.
Sárafátækt (n, kvk) Mjög kröpp kjör; á horriminni; mikil neyð. „Hallærin komu verst niður á þeim sem kröppust höfðu kjörin og bjuggu við sárafátækt fyrir. Sjávarbyggðirnar höfðu meiri bjargarvon“.
Sáralítið (l) Mjög lítið/rýrt. „Ég veit sáralítið um þetta“. „Þeir fengu sáralítinn afla“.
Sáran (ao) Sárlega; sárt. „Hann kvartaði sáran undan þessu húfulagi hjá Vegagerðinni“.
Sáranauðsyn (n, kvk) Brýn nauðsyn/neyð. „Það er nú engin sáranauðsyn að komast á þennan fund í dag, en þið verðið að moka til að ég komi mjólkinni innyfir á morgun“.
Sárara/sorglegra/þungbærra/þyngra en tárum taki (orðtak) Mjög sárt/þungbært að vita til/ horfa uppá; sorglegt. „Það er sárara en tárum taki að horfa uppá hrun í sinni heimabyggð“.
Sárasaklaus (l) Alsaklaus; alveg saklaus; alls ekki sekur um. „Ég var sárasaklaus af þessum hrekkjum“.
Sárasjaldan (ao) Mjög sjaldan; í undantekningartilvikum. „Þetta hendir sárasjaldan“.
Sárasótt (n, kvk) Syfilis; fransós; smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar Treponema pallidum. Oft talinn till kynsjúkdóma, enda smitast hann m.a. við samfarir. Björn Gíslason (1650-1679) sýslumaður í Saurbæ á Rauðasandi er sagður hafa látist úr sárasótt, og Guðrún Eggertsdóttir kona hans blindaðist.
Sáratregt (l) Um aflabrögð; mjög tregt fiskirí. „Hann hefur verið sáratregur núna yfir smástrauminn“.
Sáravatn (n, hk) Sótthreinsandi lögur sem borinn er á sár.
Sárbeiða / Sárbæna / Sárbiðja (s) Grátbiðja; biðja innilega. „Það skipti engu þó heimamenn sárbeiddu um að fá að halda skólanum; það varð að flytja þetta allt í kaupstaðinn undir yfirskini hagræðingar“.
Sárbölva (s) Blóta í vonbrigðum og reiði. „Ég sárbölvaði mér fyrir klaufaskapinn, að gleyma ífærunni í landi“.
Sárfeginn (l) Mjög feginn/glaður. „Ég var því sárfeginn að finna hnífinn aftur“.
Sárfúll (l) Mjög argur/vonsvikinn/leiður. „Auðvitað er maður sárfúll yfir því að svona skyldi fara“.
Sárfættur (l) Aumur í fótum eftir mikla göngu eða/og af slæmum skóbúnaði.
Sárgrætilega (ao) Illilega; mjög; hörmulega; hryggilega. „Ég var sárgrætilega nærri því að ná að grípa fötuna áður en hún fauk framaf“.
Sárgrætilegt (l) Yfirgengilega leiðinlegt/hryggilegt. „Það var sárgrætilegt að sjá lúðuna slitna af við borðið“!
Sárgrætilegur andskoti (orðtak) Blótsyrði/áhersluorð um það sem fer verulega miður. „Auðvitað er það sárgrætilegur andskoti að hinir fornu útgerðarstaðir skuli einskis njóta af þúsund ára veiðireynslu, heldur séu örfáir hvítflibbar í Reykjavík búnir að sölsa undir sig allan rétt til fiskveiða. Hver ræður fyrir þeim fjanda“?!
Sárhentur (l) Aumur í höndum, t.d. eftir mikil átök með berum höndum á hrjúft yfirborð. „Maður verður svo ári sárhentur af þessum nælonspotta“.
Sárhungraður / Sársoltinn / Sársvangur (l) Mjög svangur/soltinn; glorsoltinn; banhungraður. „Ég er orðinn sárhungraður og ætla að ná í nestið“.
Sáriðra (s) Sjá mikið eftir. „Mig sáriðrar núna að hafa ekki skráð fróðleik af munni þeirra sem nú eru gengnir“.
Sárindalaust (l) Án illinda/leiða/sárinda. „Þetta var alveg sárindalaust að minni hálfu“.
Sárindalítið (l) Án mikilla sárinda/ mikillar eftirsjár/sútar. „Það væri mér sárindalítið þó sá bjálfi næði ekki kjöri“!
Sárindi (n, hk, fto) Sársauki, særindi. „Ég er með einhver sárindi í kverkunum“. „Þau skildu án allra sárinda“.
Sárkaldur (l) Svo kalt að verkjar. „Ég var vettlingalaus og orðinn sárkaldur á höndunum“.
Sárkvalinn (l) Þjáist mikið; finnur verulega til. „Ég var sárkvalinn í fyrstu, en það er að líða hjá núna“.
Sárlasinn (l) Mikið veikur; með bölvaða lumbru. „Maður er bara búinn að vera sárlasinn eins og aumingi“.
Sárleiðast (s) Leiðast mikið. „Mér sárleiddist þennan tíma, enda óvanur að vera mikið að heiman“.
Sárleiður (l) Mjög leiður/vonsvikinn/niðurdreginn. „Hann var sárleiður yfir þessu; sem vonlegt var“.
Sárlúinn (l) Mjög þreyttur; dauðuppgefinn. „Ertu ekki sárlúinn eftir þessar eltur“?
Sármóðga (s) Móðga/særa mikið. „Ég er hræddur um að ég hafi sármóðgað hann með þessari athugasemd“.
Sármóðgaður (l) Mjög móðgaður/fúll; finnst mjög að sér vegið. „Hann er sármóðagður við formanninn“.
Sárna (s) Verða móðgaður/sár/dapur/fúll. „Manni getur nú sárnað svona ummæli“!
Sárnauðugur (l) Mjög nauðugur; tilneyddur. „Ég gerði þetta sárnauðugur“.
Sáróánægður (l) Mjög óánægður/ósáttur. „Alveg er ég sáróánægður með niðurstöðuna í þessu máli“.
Sárreiður (l) Mjög reiður; særður og reiður. „Ég viðurkenni að ég varð sárreiður yfir þessari framkomu“. „Sannleikanum verður hver sárreiðastur“.
Sársaukafullt (l) Sárt; meiðandi. „Þetta var ekki svo mjög sársaukafullt“.
Sársaukalaust (l) Að meinalausu; án sárinda/skaða. „Það er alveg sársaukalaust að minni hálfu þó ég fari ekki með í þennan róður. Ég hef alveg nóg annað að gera þessa stundina“.
Sársauki (n, kk) Verkur; sár tilfinning. „Það olli mér nokkrum sársauka að hreyfa fótinn fyrst á eftir“.
Sársjúkur (l) Mjög mikið veikur.
Sársoltinn / Sársvangur (l) Banhungraður; mjög svangur.
Sárt um (orðtak) Vænt um; kært. „Honum var sárt um hnífinn og lét hann helst ekki í hendur á öðrum“. „Bölvaður klaufaskapur að tapa húfunni; mér var sérlega sárt um han, því hún var hlýrri en hin“.
Sárt bítur soltin lús (orðtatiltæki) Þessi bitra reynsla frá tímum lúsarinnar er gjarnan yfirfærð á mannlega hegðun. Aðþrengdur maður getur t.d. gripið til ýmiskonar örþrifaráða og reynst öðrum leiður.
Sárt ertu (nú) leikinn Sámur fóstri (orðatiltæki) Illa hefur nú verið farið með þig/það. Tilvísun í Njálu, en er oftlega viðhaft þegar mönnum rennur til rifja meðferð á einhverju/einhverjum.
Sárt til þess að hugsa/vita (orðtak) Þungbært að hugsa/vita um. „Það er sárt til þess að hugsa að þetta skuli ekki hafa varðveist“.
Sárverkja (s) Finna mikið til; vera kvalinn. „Mig sárverkjaði í öxlina eftir steinkastið, en harkaði þó af mér“.
Sárþjakaður / Sárþjáður (l) Mjög kvalinn; finnur mikið til. „Hann er fjanakornið ekki sárþjáður eftir byltuna fyrst hann getur rifið kjaft við þá, þrjá í einu“.
Sárþráður (l) Sem mjög/lengi hefur verið þráður.
Sárþreyttur (l) Svo þreyttur að verkjar; örþreyttur. „Við erum komnir í áfangastað eftir 8 klst ferð; sárþreyttir“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Sárþyrstur (l) Mjög þyrstur. „Svo sárþyrstur var ég orðinn að vatnið í Ormatjörninni var sem svaladrykkur“.
Sáröfunda (s) Öfunda mjög mikið; sjá miklum ofsjónum yfir. „Ég sáröfunda hann af þessum einkunnum“.
Sást ekki högg á vatni (orðtak) Munaði ekkert um; sást alls ekki að af hefði verið tekið. „Ég var búinn að ausa töluvert upp úr fjárhúskjallaranum, en það sást ekki högg á vatni“.
Sáta (n, kvk) Baggi/kös af heyi. „Þegar heyið var þurrt var það bundið í sátur og keyrt heim á hestvagni, eða borið þaðan sem styst var“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Sátt (n, kvk) Samkomulag; friður. „Við náðum sátt um þetta deilumál“.
Sáttaboð (n, hk) Boð um sátt/sættir.
Sáttanefnd (n, kvk) Nokkurskonar réttur sem starfaði innan hvers hrepps, samkvæmt kóngsins tilskipun frá 1795; allt til ársins 1981, að sáttanefndir voru lagðar niður. Öll deilumál þurftu að fara fyrir sáttanefnd áður en unnt væri að höfða um þær dómsmál. Í sáttanefnd sátu prestur og annar trúverðugur maður.
Sáttanefndarmaður (n, kk) Sá sem situr í sáttanefnd hrepps. „Einar yngri var m.a. sáttanefndarmaður, en því starfi hafði faðir hans einnig gegnt“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Sáttarhugur / Sáttarhönd / Sáttavilji / Sáttfýsi (n, kk/kvk) Hugur/vilji til sátta í deilumáli. „Í fyrstu var enginn sáttarhugur í honum, en eftir nokkra umhugsun rétti hann mér samt sáttarhönd“.
Sáttasemjari (n, kk) Sá sem gengst fyrir sáttum í deilumáli; milligöngumaður.
Sáttfús (l) Fús/viljugur til sátta.
Sáttur (l) Sammála; ánægður með. „Ég er alveg sáttur við þessa tilhögun“.
Sátubotn (n, kk) Galtabotn; neðsta lag galta eða sátu. Tekur oft raka úr jörðinni við langa stöðu og þá myndast gjarnan einhver mygla eða frugga í honum, sem slá þarf úr þegar galtinn er breiddur eða hirtur.
Sátugat (n, hk) Töðugat; op til að setja heyi í hlöðu/jötu. „Það hefur fokið frá sátugatinu á hlöðunni“.
Sátur (n, hk) A. Fiskimið; veiðislóð; legustaður skips sem liggur við festar. Ekki mikið notað í seinni tíð. Sjá súgur í sátri. B. Líkingamál um aðsetursstað, t.d. stað þar sem legið er við í fygling/eggjaferðum. C. Spólur í kyrra hluta rafals/rafmótors.
Sáturvaf / Sáturspóla (n, hk) Spóla í belg/ kyrra hluta rafals/rafmótors.
Seðill (n, kk) A. Stakt blað/bréf; bréflappi; snepill; t.d. kjörseðill. B. Peningaseðill.
Seðja sárasta hungrið (orðtak) Borða til að verða ekki eins banhungraður og áður.
Seðlabúnt / Seðlafúlga / Seðlahrúga (n, hk) Bunki/mikið af seðlum. „Þetta kostar víst einhver seðlabúntin“!
Sef / Sefgresi (n, hk) Gróft, loðið gras; oftast að uppistöðu þráðsef. „Þarna á nefinu var loðið sefgresi... “ (ÁH; Útkall við Látrabjarg). Sjá þráðsef. Sef er nafn á dýi sem nú hefur verið ræst fram, neðan gamla Láganúpstúnsins. Þar var kindum hætt, enda sóttu þær mjög í gróðurinn. Sagt var að kýr mjólkuðu sérlega vel af sefgresi. Hinsvegar þyrftu þær að hafa annað fóður með, til að halda holdum.
Sefgrænt (l) Heiti á grænu litarafbrigði. Heyrist lítið notað í seinni tíð, enda þjóðin nú fjarlægari öllu sefi.
Sefa (s) Róa; hugga. „Mér tókst að sefa barnsgrátinn eftir nokkrar fortölur“.
Sefönd (n, kvk) Annað heiti á flórgoða sem notað var m.a. í Kollsvík.
Segðu ekki meir! / Þú þarft ekkert að segja meir! / Þú þarft ekkert að segja mér um það! (orðtök) Upphrópun; viðbragð einhvers við tali annars. Merkir oftast undirtektir; að viðmælandi þurfi ekki að skýra málið meira til sannfæringar. „Já segðu ekki meir! Ætli ég kannist ekki við þessar tiltektir þeirra“!
Seggur (n, kk) Maður. Í dag oftast notað í niðrandi merkingu; óróaseggur; nautnaseggur, en einnig sjálfstætt: „Hann verður að standa sjálfur fyrir máli sínu, árans seggurinn“!
Segin saga (orðtak) Bregst ekki; venja. „Það er segin saga að tíkin þarf að spræna í hvert hjól á pósbílnum“.
Segir ekki mikið (orðtak) Munar ekki mikið um; er ekki mikið. „Mitt framlag segir kannski ekki mikið, en það hjálpar ef allir leggjast á eitt“.
Segir fátt af einum (orðatiltæki) Vísar til þess að einn maður á ferð er í mun meiri áhættu en ef fleiri eru; t.d. með að láta vita af sér eða kalla til aðstoð ef eitthvað kemur uppá.
Segir fyrir (orðtak) Um feigð. Í eiginlegri merkingu var þetta haft um feigðarboða, t.d. drauma. Mun algengara þó í óeiginlegri merkingu: Sagt var að þeim manni væri farið að segja fyrir sem tók upp á einhverju óvæntu. „Nú hlýtur honum að vera farið að segja fyrir; kominn á ról svo snemma morguns“.
Segja af eða á (orðtak) Ákveða; gera upp hug sinn. „Hann verður að segja af eða á um þetta“.
Segja allt af létta (orðtak) Segja alla frásögnina/söguna, án þess að draga nokkuð undan; létta á huga sínum. „Lýðir þá af langferðinni leita frétta./ Eigi tér hann allt af létta“ (JR; Rósarímur).
Segja berum orðum / Segja (hlutina) hreint út / Segja umbúðalaust/vafningalaust (orðtak) Segja það sem manni býr í brjósti án málalenginga/ án þess ð fara krókaleiðir að því. „Þú ættir bara að segja þetta berum orðum, en ekki vera að dylgja um það“! „Hún sagði honum vafningalaust að sér væri nóg boðið“.
Segja eftir (orðtak) Hafa eftir; vitna í. „Hann sagði það eftir hreppstjóranum að þessi mál væru leyst“.
Segja (eitthvað) gott að sinni / Segja (eitthvað) gott í dag (orðtak) Láta gott heita; hætta að gera/vinna; telja nægilegt. „Ætli við segjum þetta ekki gott að sinni. Við höldum svo áfram á morgun“.
Segja lausu (orðtak) Segja upp; segja sig frá; hætta; skiljast við. „Ég sagði starfinu lausu um áramót“.
Segir lítið / Hefur lítið að segja (orðtök) Hefur lítinn tilgang; er ekki nóg. „Þessi aðstoð segir kannski lítið, en meira get ég ekki núna“. „Það hefur lítið að segja þó maður reyni að skamma þá á framboðsfundum“.
Segir nú ekki frá/af... fyrr en (orðtak) Algengur frásagnarmáti til að brúa tíma í frásögn, eða skipta um svið. „Segir nú ekki frá því fyrr en árið eftir; það var fermingarárið mitt“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Segir sig sjálft (orðtak) Þarf ekki útskýringa við; þarf ekki að útskýra frekar. „Það segir sig sjálft að enginn óvitlaus fer í róður í þessu veðurútliti“.
Segir svo hugur um (orðtak) Grunar; hefur á tilfinningunni. „Mér segir svo hugur um að þessar kindur séu farnar til síns heima, og tilgangslaust að leita þeirra hér“.
Segir til sín (orðtak) Lætur vita af sér; kemur í koll; hefur að segja. „Ég verð nú aðeins að tylla mér; aldurinn og vaxtarlagið segir dálítið til sín þegar maður gengur svona skarpt á brekkuna“.
Segja (s) A. Tala; tjá; orða. „Ég heyrði ekki hvað þú varst að segja“. B. Greina frá; búa til sögu; flytja fréttir. „Sagan segir að í Biskupsþúfu hafi Kollur fólgið vopn sín og sjóði“.
Segja af eða á um (orðtak) Ákveða; taka af skarið. „Ég get ekki sagt af eða á um hvort það hafi einhver verið lifandi þarna um borð“ (Björgvin Sigurbjörnsson um Sargon-strandið; Útkall við Látrabjarg).
Segja afdráttarlaust/umbúðalaust / Segja fullum fetum (orðtak) Fullyrða; draga ekkert undan. „Ég sagði þeim mína skoðun á þessu; fullum fetum“.
Segja ekki bofs / Segja ekki neitt / Segja ekki orð (orðtök) Þegja; láta ekkert uppi; svara ekki. „Hann sagði ekki bofs við þessu“. „Ég segi ekki neitt um þetta“. „Og þið vissuð af þessu en sögðuð ekki orð“!
Segja farir sínar ekki sléttar (orðtak) Segja frá slæmri reynslu sinni; segja frá því sem illa hefur gengið hjá manni. „Hann kom móður og másandi uppá brúnina; fötulaus, og sagði farir sínar ekki sléttar“.
Segja fullum fetum / Segja hreint út (orðtak) Segja skýrt en ekki undir rós; draga ekki undan í frásögn. „Ég get sagt mína skoðun á þessu fullum fetum og við hvern sem er“! B. „Ég sagði honum þetta hreint út“.
Segja fyrir (orðtak) A. Segja fyrir verkum; skipa fyrir um verk. „Hann verður að segja fyrir um skipulagið á þessu“. B. Spá fyrir. „Hann hafði sagt fyrir um þennan atburð“. C. Vera feigur; vera dauðans matur. „Ég er hræddur um að nú sé honum farið að segja fyrir; þetta er svo óvanalegt af honum“.
Segja fyrir verkum (orðtak) Verkstýra; sjá um verkstjórn; skipa mönnum til verka.
Segja hvorki af né á (orðtak) Vera hvorki hrár né soðinn; vera á báðum áttum; ákveða sig ekki. „Hann sagði hvorki af né á um sínar skoðanir á þessu“.
Segja í óspurðum fréttum (orðtak) Segja án þess að um sé spurt; segja frá að fyrra bragði. „Hann sagði mér í óspurðum fréttum að þetta hjónaband væri fyrir bí“.
Segja sem svo / Setja (sem) svo (orðtak) Gefa sér; ganga útfrá; miða við. „Segjum nú sem svo að Landnáma hfi rétt fyrir sér um þetta; en er það ekki lygileg tilviljun að Ármóður hinn rauði skuli hafa akkúrat rammað á þennan rauða ægisand“? „Setjum svo að þú fáir bátinn nú lánaðan á laugardaginn; það er ekki þar með sagt að þessi bjarglega haldist þangað til“.
Segja sér til afsökunar/afbötunar (orðtak) Segja til skýringar/málsbóta á sinni yfirsjón/ávirðingu/töf. „Hann er bara að segja þetta sér til afsökunar; ég legg lítinn trúnað á það“!
Segja sig frá (orðtak) Hætta afskiptum af; segja lausu. „Ég fer nú að segja mig frá þessu formannsstarfi“.
Segja sig til sveitar (orðtak) Tilkynna hreppsnefnd að maður geti ekki séð sér eða sínum farborða og þurfi að þiggja framfæri af hreppssjóði.
Segja sisona / Segja tilsvona (orðtak) Orða/segja þannig; láta falla orð í þá átt; segja sem dæmi. „Ég segi nú bara sisona; þú þarft ekki að taka það alvarlega“.
Segja sína meiningu (orðtak) Segja það sem manni býr í brjósti; skamma; ryðja úr sér. „Þarna þótti mér hann ósanngjarn, svo ég sagði honum alveg mína meiningu; umbúðalaust“.
Segja sínar farir ekki sléttar (orðtak) Segja frá sínum hrakförum/óhöppum. „Hann bar sig aumlega og sagði sínar farir ekki sléttar“. Líkingin vísar til ósléttrar leiðar.
Segja skilið við (orðtak) Slíta sambandi við; hætta samveru með; hætta afskiptum af. „Sá sem einusinni hefur fest rætur í Kollsvíkinni segir ekki svo glatt skilið við hana, eins og dæmin sanna“.
Segja Spánarkonung dauðan (orðtak) Leikur sem iðkaður var í Kollsvík fyrrum og líklega framundir miðja 20.öld, en orðasafnara er ekki kunnugt um leikreglur. E.t.v. var um svipaðan orðaleik að ræða og „frúin í Hamborg“, þar sem kúnstin felst í að forðast að segja viss bannorð. „Gengið var kring um jólatréð og sungnir sálmar og ýmsir söngvar. Einnig var farið í leiki, svo sem að segja Spánarkonung dauðan o.fl. þess háttar“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku).
Segja til (orðtak) A. Leiðbeina. „Segðu mér til þegar ég bakka vagninum að hlöðunni“. B. Segja í fréttum. „Hvað segirðu til“?
Segja til (einhvers) (orðtak) Segja hvar einhver er niðurkominn; kjafta frá.
Segja til sín (orðtak) Finnast fyrir; sjást; vekja athygli. „Aldurinn segir til sín þegar maður lendir í svona erfiðisvinnu“. „Netið er orðið fjári gloppótt víða; það segir auðvitað til sín í veiðinni“.
Segja til sín í seinna verkinu / Hefna sín í seinna verkinu (orðtök) Leiða til ófarnaðar síðar. „Mér líst ekki á svona skyndiviðgerðir; það á eftir að segja til sín í seinna verkinu“.
Segja (einhverjum) til syndanna (orðtak) Skamma; ávíta; veita ofanígjöf. „Hún sagði þeim rækilega til syndanna“. Vísar til presta áðurfyrr, sem létu ekkert tækifæri ónotað til að vara menn við logum helvítis og telja fólki trú um að það væri syndum hlaðið.
Segja til vegar (orðtak) Leiðbeina; veita leiðsögn. „Ég fór með þeim til að segja þeim til vegar“.
Segja undan og ofanaf (orðtak) Segja óljóst/í meginatriðum frá; segja ekki alla söguna. „Hann sagði undan og ofan af þessu og ætlar að segja alla sólarsöguna seinna“.
Segja upp (orðtak) A. Afsegja; hætta. „Ég sagði upp í vinnunni“. „Það þarf að segja þessum samningum upp“. „Leigjandanum var sagt upp vistinni vegna óreglu“. B. Til forna; segja upp lög; túlka lög sem í gildi eru.
Segja verður sögu hverja eins og hún gengur til (orðatiltæki) Sagnamaðurinn þarf að vera trúr sannleikanum (eða a.m.k. segjast/þykjast vera það). „Segja hverja sögu má/ sem hún vísast gengur:/ Gjörist snemma hrundum hjá/ heimagöngull drengur“ (JR; Rósarímur).
Segja við (orðtak) Segja um; bregðast við; andmæla; mótmæla. Sögnin stýrir þá alltaf þágufalli. „Þetta er leitt að heyra en það er víst lítið við þessu að segja“. „Hún sagði ekkert við þessu“.
Segja það/þetta gott (orðtak) Láta gott heita; telja komið nóg. „Eigum við ekki að segja þetta gott í dag, þegar við erum búnir að draga þennan streng“?
Segja það sem (einhverjum) býr í brjósti (orðtak) Segja skoðun sína; láta í ljósi vilja sinn. „Mér fannst ég þurfa að segja henni það sem mér bjó í brjósti, þó ég vissi ekki fyrirfram hvernig hún kynni að taka því“.
Segja þvert nei (orðtak) Neita alfarið; vera algerlega andvígur. „Hann sagði þvert nei við þessu tilboði“.
Segjast frá (orðtak) Segja frá; koma sögu/upplýsingum/fréttum til skila. „Honum sagðist allt öðruvísi frá þessum atburðum en hinum. Hann sagði að steinn hefði skoppað undir framhjólið, og við það hefði bíllinn kastast útí kantinn“.
Segjum/setjum sem svo... (orðtak) Algengt upphaf setningar þegar verið er að lýsa því sem hugsanlega gæti orðið, eða ímynduðum aðstæðum. „Setjum nú sem svo að við prílum þarna niður og fáum verulegt af eggjum. Við værum þá engu bættari ef við erum ekki með næg ílát“.
Segl / Seglabúnaður Segl voru notuð á bátum í Útvíknaverstöðvum. Samkvæmt Jarðabókinni virðast Útvíkur hafa staðið framar flestum öðrum verstöðvum á landinu, hvað varðar seglanotkun um 1700; þar eru segl notuð í öllum útvíkum en hvergi er minnst á þau annarsstaðar á Vestfjörðum og einungis á örfáaum öðrum stöðum um landið. Tekið er fram t.d. í Keflavík að útgerðareigandi vilji ekki láta vemenn sína hafa segl, þó þau væru til stórra bóta. Ekki liggja fyrir óyggjandi heimildir um seglagerðir voru notaðar í víkunum. Líkur eru þó á að þau hafi, a.m.k. framan af, verið þversegl á algengustu bátastærðum. (Sjá sigling og seglfiskur).
Seglbátur (n, kk) Bátur sem siglt er; bátur sem unnt er að sigla.
Seglbót (n, kvk) Lítið segl; gæluorð um segl.
Seglbúa (s) Reisa segl á báti. „Þegar seglbúið var fylgdu því ýmiss konar fyrirskipanir formanns til háseta: Setjið upp og greiðið úr seglum! Tréreisið! Takið til! ..“ (LK; Ísl. sjávarhættir III). „Var nú ekki til setu boðið og tekið að seglbúa; sem óðar var búið, og sigling hafin“ (ÖG; Þokuróður).
Seglbúnaður (n, kk) Sá búnaður báts sem þarf til að unnt sé að sigla honum.
Segldúkur (n, kk) A. Efni í segl. B. Þéttofinn sterkur dúkur.
Seglfesta (n, kvk) Kjölfesta/ballest í skip til að vega á móti átaki segla. „Þegar seglfestu var skipað út var venjan að standa í röð og kasta steinum hver til annars...“. (ÓTG; Ágrip af æviferli).
Seglfestulaus (l) Með enga seglfestu/ballest. „Eitt sinn höfðu nokkrir hinna djörfu vermanna á Látrum farið á skektu Jóns seglfestulausri inn á Eyrar í suðaustanroki“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð).
Seglfiskur (n, kk) Fiskur sem tekinn er af óskiptum afla til að greiða fyrir leigu á segli. „Meðan enn var ekki algengt að segl fylgdu skipum varð að venju í sumum verstöðvum að taka leigu í hvert skipti sem þau voru notuð. Greiðslan fyrir seglið var vænsti fiskurinn úr hverjum róðri, tekinn af óskiptu“ (LK; Ísl.sjávarh. III). Samkvæmt Jarðabókinni voru seglfiskar teknir í Láganúpsveri árið 1703 á skipi landeiganda, og leigði hann það af formanni bátsins. Þar tíðkaðist hinsvegar ekki maðkafiskur eins og í Hænuvík. Í Keflavík tímdi útgerðarmaðurinn Guðrún Eggertsdóttir ekki að láta leiguliða sína hafa segl. Segla er ekki getið neinsstaðar á Vestfjörðum nema í Útvíkum á þessum tíma og á fáum stöðum öðrum á landinu. „Lýng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi. Þar er engin skipleiga. 1 skiphlutur. Allur hlutur skiptist ex æqvo (til jafnaðar) þá skift verður. Seglfiskar. Maðkafiskar engir“ (ÁM/PV Jarðabók).
Seglgarn (n, hk) Tvinnað mjótt band, úr hampi í seinni tíð en áður úr hrosshári. Notað í seglasaum fyrrum, en í ýmiskonar þarfabönd í seinni tíð.
Seglgarnshnota / Seglgarnsrjúpa / Seglgarnsrúlla (n, kvk) Rúlla af seglgarni. Oft undin þannig upp að holrúm var innaní, og þráðurinn dreginn útum gat úr því. „Veistu eitthvað um seglgarnssrúlluna“?
Seglháls (n, kk) Háls: neðra og fremra horn á segli (þversegli). „Þar sem mætist neðsti hluti forjaðars og framendi undirjaðars er seglháls...“ (LK; Ísl. sjávarhættir II).
Segljaðar (n, kk) Jaðar/lík segls.
Seglpoki (n, kk) Sterkur poki úr seglalérefti eða svipuðu efni, oft notaður undir fatnað og annað til ferðalaga.
Seglskip (n, hk) Skip sem knúið er áfram af krafti vinds, með seglum. Menn hafa lengi notað segl til að knýja báta og stærri skip. Einfaldasta gerð segls er þversegl, þar sem ferhyrnt segl er fest að ofanverðu í rá sem hífð er upp í siglutré/siglu, en fest að neðanverðu í borðstokka. Skip landnámsmanna voru með þverseglum, og einnig flestir bátar sem róið hefur verið úr Kollsvík og öðrum verstöðvum. Á síðari öldum urðu aðrar seglagerðir vinsælar. Sigling skips með seglum er vandasöm, og menn voru misjafnlega góðir skipstjórnendur. Um tíma rak Ólafur E. Thoroddsen skipstjórnarskóla í Vatnsdal og kenndi m.a. siglingu með seglum. Seglskip liðu að mestu undir lok með tilkomu vélskipa. Gerðir seglskipa voru margar; flokkaðar eftir skrokklagi, stærð, seglalagi og siglufjölda; má m.a. nefna þessar: Kjölbátar voru t.d. gaflkæna julla, jakt, skúta, kútter, slúppa, bússa, djúnka, dugga. Rásigld skip voru t.d. karavella, knörr, kuggur, barkantína, briggskip, brikantína og galías. Hásigld skip voru m.a. góletta, húkkorta, korvetta og skonnorta. Fullreiðaskip voru m.a. flauta, freigáta, galíon, klipper og línuskip.
Segltuska (n, kvk) Gæluorð um segl.
Segulhvolf (n, hk) Ósýnilegur hjúpur sem Jörðin og fleiri reikistjörnur hafa um sig, og stafar af virkni í kjarna þeirra vegna iðustrauma og möndulsnúnings. Það virkar að mörgu leyti líkt og segulsvið kringum segul og hefur m.a. áhrif á rafhlaðnar eindir og segulnæma málma. Segulsvið jarðar er líkt og kleinuhringur í lögun; þykkast yfir miðbaug en þynnst við pólana. Sólvindurinn; þ.e. rafhlaðnar agnir frá sólinni, hefur þau áhrif að segulhvolf jarðar teygist frá henni skuggamegin. Segulsviðið leiðir hinsvegar sólvindinn að skautunum og þar birtist agnastraumurinn okkur sem norðurljós. Ef ekki væri fyrir þessi verndandi áhrif segulhvolfsins væri líklega ekki líf á jörðinni.
Seguljárnsteinn (n, kk) Magnetít; járnoxíð; Fe3O4. Dökkbrún eða svört frumsteind í gosbergi; harka 5,5. Næstalgengasta steindin í basísku bergi á eftir sílíkati. Gosberg oxast hratt í snertingu við andrúmsloft, og kristallast. Lítil vatnsgufa í lofti veldur því að magnetítgjall verður svart, og við enn hraðari oxun myndast hematít, eða rautt gjall. Rauð millilög í bergstaflanum, t.d. á Vestfjörðum, mynduðust á hlýskeiðum í jarðsögunni; við oxun járnsteinda í gjósku. Þegar bergkvika storknar segulmagnast magnetít, þannig að kristallarnir verða eins og urmull segla sem snúa skautum að segulpólum. Eftir storknun helst þessi segulmögnun. Því er unnt að lesa úr berginu stöðu segulpóla á gostíma, og pólveltur sem orðið hafa. Þar sem seguljárnsteinn er í miklu magni í jarðskorpunni er hann unninn; t.d. í Kiruna í Svíþjóð. Seguljárnsteinn er í bergi í Kollsvík, m.a. áberandi í rauðum millilögum. Þá er hann áberandi í gangbergi, t.d. í Strengbergsgjá.
Segulkveikja (n, kvk) Magnettukveikja (sjá þar).
Segulnagli (n, kk) Sigurnagli, sjá þar. Samsetningarbúnaður á línu, t.d. skakfæri, til að ekki myndist álag á línuna þegar snýst uppá hana. Líklega er „segulnagli“ upphaflegt heiti, þar sem engu er líkara en segulkraftur haldi augunum saman. Heitið „sigurnagli“ hefur hinsvegar orðið lífseigara, a.m.k. í Kollsvík.
Segulnál (n, kvk) Segulmögnuð nál í áttavita/kompás.
Segulnorður / Segulpóll / Segulskaut (n, hk) Segulskaut jarðar er sá staður sem áttavitanál vísar til. Segulskautin tvö eru ekki það sömu punktar og landfræðileg norður- og suðurskaut; þar munar segulskekkjunni. Norðara segulskautið er þannig nokkru norðanvið austanvert Kanada, en færist til með tímanum.
Segulskekkja (n, kvk) Misvísun; mismunur í gráðum á stefnu áttavitanálar sem bendir á segulpól/segulskaut og stefnu á hinn landfræðilega pól, sem jarðarsnúningur er um. Segulskekkja er því mismunandi eftir því hvar maður er staddur. Hún er einnig misvísandi eftir tímum, því segulskautið flakkar nokkuð frá ári til árs. Misvísun á Íslandi getur numið tugum gráða.
Seiða (s) A. Laða að með seið/göldrum. „Einhvernvegin tekst honum að seiða til sín veiði, þó ördeyða sé hjá öðrum“! B. Sjóða. „Kollsvíkingnum Trausta Ólafssyni tókst að seiða gull úr grjótmola úr Esjunni“.
Seiði (n, hk) A. Afkvæmi fisks. „Össur og Ingvar fengu seiði sem þeir slepptu í Litlavatn og Stóravatn. Seiðin komu í plastpokum með lítilli flugvél sem lenti á Fitinni neðan Láganúps“. B. Lítill fiskur.
Seigdrepa (s) Drepa hægt. „Helvítis stofnanavæðingin er að seigdrepa allt framtak og alla menningu“!
Seigdrepandi (l) Hægdrepandi; banvænt með tímanum. „Þetta eilífa sinfóníugarg finnst mér seigdrepandi“.
Seigja (n, kvk) A. Úthald; þrautseigja. „Það er seigja í stráknum“! B. Sá eiginleiki efnis að veita mótstöðu en gefa samt eftir og svigna/bogna við mikið átak
Seigla (n, kvk) Úthald; þrautseigja. „Andrés var búinn seiglu og kjarki í ríkum mæli...“ (ÖG; minningargrein um AK).
Seiglast (s) Vera úthaldsgóður; halda út; þrjóskast. „Það er mesta furða hvað hann seiglast enn við þetta“.
Seiglingsátak / Seiglingsbarátta / Seiglingserfiði / Seiglingspuð / Seiglingsvinna (n, hk/kvk) Töluvert átak/erfiði/puð; allmikil barátta/vinna. „Það var seiglingsátak hjá okkur þremur að hífa hann síðasta spölinn“. „Það er seiglingspuð að ná bjórnum af þessum Hlíðalömbum“.
Seiglingsdrjúgur (l) Alldrjúgur; allmikill; nokkuð mikill. „Við ættum nú að fara að hafa uppi; það er seiglingsdrjúg sigling í land“. „Alltaf er hann jafn seiglingsdrjúgur á fótinn, blessaður dalurinn“.
Seiglingsgóður (l) Nokkuð góður; furðu góður. „Ég held að maður hafi bara fengið þarna seiglingsgóðan jeppa fyrir þetta verð“.
Seiglingslangur / Seiglingsmikill (l) Nokkuð/furðu langur/mikill. „Þeir eru seiglingslangir lásarnir í Stóðin. Maður er þreyttur eftir eina niðurferð“. „Þetta er bara seiglingsmikill afli á einum degi“.
Seiglingskippur (n, kk) Nokkuð löng sigling. „Heldurðu að við höfum nóg bensín? Það er seiglingskippur niður á dýpri Skeggja“.
Seiglingsslatti (n, kk) Allnokkuð magn; dágóður slatti. „Þeir fengu seiglingsslatta í róðrinum“.
Seiglingsspotti / Seiglingsspölur (n, kk) Nokkuð drjúg vegalengd; alllangt. „Þetta er seiglingsspotti þarna inná brúnina“. „Fáðu þér nú vel að éta áðuren þú ferð; það er seiglingsspölur innyfir heiðina“.
Seiglingur (n, kk) Töluvert; allmikið. „Það er seiglingur eftir enn þangað til við erum komnir á brún“.
Seiglumaður (n, kk) Maður sem er þolinn/seigur; úthaldsmikill.
Seigmeltur (l) Tormeltur; erfitt að melta. „Það má slæða þessu í sig, en þetta er seigmeltur andskoti“!
Seigmilk (l) Um kýr; selur illa; erfitt/seinlegt að mjólka. „Nótt er sérvitur og seigmilk fyrir ókunnuga“.
Seigt og bítandi (orðtak) Hægt en örugglega. „Það var seinlegt að handmoka veginn upp Kinnina, en seigt og bítandi hafðist það á endanum“.
Seigur (l) A. Um mat; erfitt að tyggja. „Ári er hákarlinn seigur“. B. Um mann; úthaldsmikill; þolinn; snjall. „Þetta er ótrúlega seigur náungi“.
Seigt undir tönn (orðtak) Um mat; erfitt að tyggja/ vinna á. „Harðfiskurinn var seigur undir tönn“.
Seil (n, kvk) Fiskseil. Seilað var út fiski til að ofhlaða ekki bát eða til að létta hann við lendingu. Kippan var þá dregin á eftir bátnum í land og dregin á höndum í fjöru. Þegar seilað var var fiskurinn bundinn í kippu á sérstakan hátt. Til þess var notuð seilarnál sem oft var úr hvalbeini; á hana hana var brugðiðseilaról sem lengst af var úr leðri af nautssvíra. Ýmist var festur seilarhnappur á neðri enda ólarinnar eða bundinn var á hana fyrsti fiskurinn og hinir þræddir á eftir. „Í Víkum vestur var nálinni stungið undir kjálka og út um munn á þorski, og eins á flyðru. Annars var hún og steinbítur oft þrædd í gegnum augun“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Þegar róið var með seilar í land voru þær bundnar á langbandið og lágu þétt utan á skipshliðinni.
Seil (n, kvk) Forarseil, dýjaseil; kelda. Dýjasvæði í mýrlendi þar sem var mikil hálffljótandi gróðurþekja og/eða mýramór og mikill vatnsagi sem gerði þetta illfært yfirferðar og hættulegt fyrir skepnur. Seilar eru margar í Kollsvík, en voru mun fleiri fyrir daga framræsluskurða. „Kýr voru reknar niður fyrir Gjótseil. Hún lá út í fenið sem Bugadý var í... Fyrir neðan Skolladý er Breiðaseil; sytra sem rann úr dýjum sunnan við hólinn... Norðan við Uxadýsál er ófæruseil sem nefnd er Svartaseil“ (Örnefnaskrár Kollsvíkur og Láganúps). „Síðan hefur aldrei staðið þar garðurinn. Við höfum ekki hátt um það að þar var seil; það er svona neðanmáls“ (SG; Skessan og séra Jón; Matarvenjur; Þjhd.Þjms) Orðið seil virðist ekki hafa verið notað annarsstaðar í þessari merkingu og finnst ekki þannig í orðabókum.
Seila / Seila út (s/orðtak) „Fyrir kom að svo mikið fiskaðist að seilað var, eða fiskurinn dreginn upp á línu; allri kippunni síðan varpað í sjóinn en tryggilega fest við bátinn og síðan dregin að landi“ (GÖ; minningabrot frá Láganúpi) Þetta var gert til að létta bátana fyrir landtöku einkum ef lending þótti varasöm eða illa stóð á sjó. „Seila menn allan fenginn út, og flytja so skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi, og setja þau þar upp“ (ÁM/PV; Jarðabók). „Þegar komið er að landi er fiskur seilaður á burðarólar; venjulega 20 fiskar á áol. Það þótti hæfileg byrði af lóðafiski, til að ber til ruðnings. Aftur á móti aðeins 10 steinbítar á ól. Það fór eftir afla hve margar ferðir komu á mann. 100 fiskar í róðri þótti tregur afli, en 200 og meira góður afli. ... Oft lagði þá báru að seila þurfti fiskinn á floti og láta seilarnar útbyrðis; jafnvel setja þær á streng, til þess að vera laus við þær meðan bátnum var brýnt úr sjó... Ólarnar með fiskinum voru dregnar að landi og bjargað úr sjó. síðan voru þær annað hvort bornar til ruðnings eða hver maður tók eina byrði og dróa hana til ruðnings upp eftir Búðalæknum“ (KJK; Kollsvíkurver). „Á leið í land er fiskurinn seilaður; þ.e. þræddur upp á seilarólina. Hún var úr tvöföldu gömlu færi; með tréhnapp á öðrum enda; stór nál úr hvalbeini þrædd á hinn endann; nálinni stungið undir kjálkann og 25 fiskar fara á hverja ól. Þegar kemur upp á Lægið er talið vissara að seila út, sem kallað er; það er að kasta ólunum út og binda þær í endann á legustrengnum; láta hann svo rekjast út um leið og lent er“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Seilað (l) Um mikið fiskirí; fullt net; stendur á hverju járni á slóða/lóð. „Nei, gáðu nú að! Það er bara seilað í bláendann á netinu; uppi í harðalandi. Ég skal bara segja ykkur það“!
Seilarmaður (n, kk) Maður sem stekkur fyrstur í land þegar landtaka er slæm, og dregur fiskseilar í land áður en báti er lent. „Seilin er sett á streng; síðan beðið eftir lagi; manni sleppt á land með enda seilarlínunnar sem bundin er um annan handlegg hans. Var það gert til að hann hefði báðar hendur lausar, því illt er að fóta sig í stórgrýtinu ef næsta lag náði honum áður en upp var komið. Maður sá var kallaður seilarmaður. Hann varð að vera bæði frískur og fótviss. Átti hann síðan að draga upp seilina og kasta henni í ruðninginn meðan hinir fóru með bátinn út á rifið og settu hann“ (PJ; Barðstrendingabók; Vorróðrar á Hvallátrum).
Seilarnál (n, kvk) Nál til að draga fisk upp á seil. „Seilarnál var oftast úr hvalbeini (helst kjálka) 20-25cm löng og að lögun svipuð skónál“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Seilarband / Seilaról (n, kvk) Ól sem fiskur er seilaður uppá (sjá seila). „Var svo brimróður tekinn, en er vantaði fáa metra í land þraut seilarbandið og þess vegna bar okkur lítið inn fyrir vörina“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Seilast (s) Teygja sig. „Ég seildist eftir hnífnum og skar á teininn“.
Seilast langt til (orðtak) Draga handfæri með löngum togum, en þá er átt við gömlu færagerðina; áður en rúllur komu til. Varð stundum mikill fyrirgangur hjá fiskimanni og öðrum bátsverjum hollast að vera ekki fyrir. „Þar dró Polli og seildist langt til“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).
Seilast um hurð/hurðarás til lokunnar (orðtak) Líkingamál; leggja mikið á sig í einhverjum tilgangi. Líking við að teygja sig (lamamegin) gegnum læsta hurðina til að taka hana úr lás. Heyrðist ekki oft notað, en brá þó fyrir.
Seilastrengur (n, kk) Strengur sem seil/seilaról, ein eða fleiri, er bundin í, þegar seilað er út. Í seinni tíð var seilað þannig út að seilin var bundin í langband í bátnum og hékk þannig utaná bátnum. Fyrrum tíðkaðist að binda seilarnar við seilarstreng; varpa þeim í sjóinn framanvið lendingu; gefa strenginn út frá bátnum þegar lent er, og draga seilarnar síðan í land. „Seila menn allan fenginn út og flytja so skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi, og setja þau þar upp. ... Seilastrengi og seilarólar leggja skipeigendur til með skipunum“ (ÁM/PV Jarðabók).
Seiling (n, kvk) A. Seilingarhæð; frá jörðu og svo hátt sem meðalmaður nær að teygja fingurgómana upp fyrir sig. „Rúm seiling er upp í ganginn, en hægt að klórast það fyrir lipran mann“. B. Það sem unnt er að ná til í kringum sig. „Vissara er að hafa koppinn innan seilingar þegar maður er með ælupest“.
Seilingarfjarlægð / Seilingarhæð (n, kvk) Sú fjarlægð/hæð/vegalengd sem maður getur lengst teygt höndina. „Ég teygði mig eftgir spottaendanum, sem var í seilingarhæð“.
Seimahrund (n, kvk) Kvenmannskenning í skáldskap. „Þyrsklingur um þorskagrund/ þykir nauðatregur./ Sá hefur fiplað seimahrund/ sem að fyrstur dregur“ (gömul vísa; höfundur ókunnur).
Seinagangur (n, kk) Hæglæti; seinfærni; tafir. „Ég þoli illa þennan seinagang við að hefja verkin“.
Seinastliðinn (l) Síðastliðinn. „Ég hitti hann seinastliðinn föstudag“.
Seinbakað (l) Bakast hægt. „Rúgbrauð er fremur seinbakað; einkum í stóru íláti“.
Seindrepandi (l) Sem drepur hægt. „Krabbamein getur verið seindrepandi og kvalafullur sjúkdómur“.
Seinekið / Seinfarið / Seingengið (l) Um veg eða leið sem er torsótt; ekki unnt að aka/fara hratt. „Það var þæfingur á Fjörunum og seinekið“. „Hægt er að komast um fjöruna fyrir Breið, en sú leið er stórgrýtt og því seinfarin“.
Seinfær (l) Svifaseinn; hægur í hreyfingum; hægfara. „Féð var orðið lúið og seinfært, og því gekk reksturinn hægt“.
Seinhentur (l) Hægur í hreyfingum; handaseinn; stirður. „Ég var nokkuð snöggur að hækla hvern dilk á árum áður, en eflaust væri maður seinhentari og stirðari núna“.
Seinheppinn (l) Ekki heppinn; óheppinn; ólánssamur.
Seinka (s) Verða/gera seinni; valda seinkun; verða seinni fyrir. „Honum seinkaði aðeins, svo við settum fundinn án hans“. „Nú hefur klukkan seinkað sér dálítið“.
Seinkun (n, kvk) Töf; það að seinka. „Mér finnst nokkur seinkun hafa orðið á þessu“.
Seinlega (ao) Hægt; treglega. „Heldur finnst mér seinlega ganga með að klára þetta“.
Seinlegt (l) Hægt; seint; svifaseint. „Best var að nota grænsápu til að hreinsa prentsvertu af hveitipokum áður en þeir voru nýttir, t.d. í lök; en seinlegt var það“.
Seinlesið (l) Ekki unnt að lesa hratt. „Þetta hrafnaspark en afskaplega seinlesið“!
Seinlært (l) Sem seinlegt/erfitt er að læra. „Mér fannst þessi árans algebra dálítið seinlærð“.
Seinlæs (l) Sem les hægt; sem er ekki vel læs; treglæs. „Strákurinn er farinn að stauta sæmilega, miðað við aldur, þó hann sé dálítið seinlæs ennþá“.
Seinlæti (n, hk) Hæglæti; slóðaskapur; seinfærni; droll. „Skelfingar seinlæti er þetta nú hjá þeim“!
Seinmæltur (l) Talar hægt. „Hann var fremur seinmæltur, en kvað fast að og ígrundaði hvert orð“.
Seinn (l) A. Seinlátur; hægfara; síðbúinn. „Ég varð dálítið sein fyrir með matinn“. B. Um tímasetningu. „Við komum ekki til baka fyrr en seint á degi“.
Seinn til gangs / Seinn á fæti / Þungur á sér / Þungur á fæti (orðtök) Ekki hraðgengur/léttstígur. „Maður er orðinn seinni til gangs núna en áður var“.
Seinn til svars (orðtak) Svarar seint; er ekki fljótur að svara. „Hann var seinn til svars og ég fann að honum var vandi á höndum“. „Móðir mín var sein til svars“ (JVJ; Nokkrir æviþættir).
Seinn á sér (orðtak) Seinlátur; handaseinn. Oftast í viðsnúinni merkingu: „Ég var ekki seinn á mér að rota steinbítinn þegar hann kom inní bátinn“.
Seinn fyrir (orðtak) Síðbúinn. „Ég varð heldur seinn fyrir, svo fyrsta féð úr Fjarðarhorninu náði að komast upp í Flosagjá“.
Seinna, segir sá lati (orðatiltæki) Auðskilið orðtak og viðhaft af þeim sem þykir annar latur, eða viðbrögð við tillögum einhvers um að fresta verkum.
Seinna/síðar meir / Seinnameir / Síðarmeir (orðtak/ao) Síðar; þegar frá líður. „Við getum lagað réttarhliðið seinna meir; nú þurfum við að koma fénu inná túnið“.
Seinna varp (orðtak) Eftir að fyrstu eggjaferðum á vorin lauk var stundum farið aftur síðar, og kallað að fara í seinna varp. Ýmist hafði þá fuglinn verpta aftur eða annar fugl í sama eggplássi.
Seinnameir / Síðarmeir / Seinna meir (ao/orðtak) Síðar; seinna. „Ekki henda þessu; það getur verið gott að eiga ílát seinnameir“. Oftast notað sem eitt orð væri.
„Þú gætir nú kannski séð þetta í öðru ljósi síðarmeir, þó þér finnist þetta núna“.
Seinni blessunin (n, kvk) Síðari hluti verks/athafnar. „Við verðum líklega ekki komnir á þessi mið á snúningnum, en við náum kannski seinni blessuninni á niðurslættinum“.
Seinni slátrun (orðtak) Samtíningur; síðari sauðfjárslátrun eftir aðalslátrun og síðari smölun að hausti.
Seinnismölun (n, kvk) Smölun/göngur/eftirleitir eftir fyrri smölun og réttir. „Ætli við þurfum ekki að fara í seinnismölun á Bjargið. Mig vantar enn þær sem ég vonaðist eftir af Geldingsskorardalnum“.
Seinnipartur (n, kk) Síðari hluti dags. „Seinnipart dags fór svo fólk að drífa að, vegna þess að jólatréð var núna á okkar heimili, og klukkan sex til sjö var kveikt á trénu“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). „Eitthvað minnisstæðasta um pabba er þegar hann tók okkur með oft á sunnudögum út að Litlavatni og heim Hnífa. Sérstaklega var það seinnipart sumra til að skoða féð; hvaða kindur við sæjum og hvað lömbin höfðu stækkað“ (IG; Æskuminningar). „…og skyldi róið seinnipart sunnudags“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Seinnitími / Síðaritími (n, kk) Tíminn sem síðar kemur. „Við geymum þetta til seinnitíma“. „Þetta er síðaritíma höfuðverkur“.
Seinrekið (l) Um fjárrekstur; rekst ekki hratt. „Féð var orðið þreytt og var því seinrekið síðasta spölinn“.
Seinsprottið (l) Sprettur ekki hratt. „Þessi kartöflutegund er fremur seinsprottin“.
Sint að byrgja brunninn (eftir að barnið er dottið ofaní) (orðatiltæki) Sjá Of seint er að byrgja…
Seint á degi/nóttu (orðtak) Síðla dags/nætur; síðdegis.
Seint birtist blámanns skinnið (orðatiltæki) Dökk húð verður aldrei ljós, sama hve vel er þvegið. „Hann er með þennan húðlit strákgreyið þó hann þvoi sér; seint birtist blámanns skinnið“! Birtast merkir þarna lýsast.
Seint fullþakkað/ofþakkað (orðtak) Seint nægjanlega vel þakkað fyrir; erfitt að þakka nægjanlega vel. „Honum verður seint ofþakkað hans framlag í þessum efnum“.
Seint fyllast sálir prestanna / Seint fyllist sálin prestanna (orðatiltæki) Viðhaft um það sem endalaust virðist geta tekið við, t.d. útgjöldum manns. „Eru þeir enn að rukka fyrir þetta? Ja, það verður ekki á þá logið; seint fyllast sálir prestanna“! Sál merkir í þessu samhengi sekkur/skinnpoki, og spekin vísar til þess tíma þegar kirkjan lagði síauknar og þungar álögur á þegnana í formi ýmiskonar gjalda. Prestar innheimtu, og þótti gjaldendum víst oft nóg um. Fyrrgreinda mynd máltækisins er líklega sú rétta, en sú síðari heyrðist oftar í Kollsvík. Sjá önnur orðtök af sama meiði; allt verður fyllt nema pokinn prestsins og flest étur svangur prestur og eins eru prestar og aðrir menn.
Seint fyrnast fornar ástir (orðatiltæki) Maður man lengi það sem þeim honum var eitt sinn mjög kært. Oft viðhaft, hvort heldur er um hluti eða manneskjur að ræða. Einnig stundum í kaldhæðni: „Seint fyrnast fornar ástir. Þó þeir hafi ekki sést í áratug þá fundu þeir sér strax eitthvað deiluefni“!
Seint í rassinn gripið (þegar allt er komið í buxurnar) / Seint séð (orðtak) Seint brugðist við þegar í óefni stefnir, og skaði jafnvel skeður. „Það er heldur seint séð að vilja halda uppá þetta núna; ég var að kasta því í sjóinn“. „Mér þykir nú dálítið seint í rassinn gripið að fara að smala þarna núna; þegar komið er fram í snjóa og frost“. Í Kollsvík var stundum viðhöfð sú ending sem þarna er innan sviga, og gerir fyrrnefnda orðtakið auðskiljanlegt í vissu ljósi. Sumir vilja þó ekki sjá þessa viðbót, og skýra orðtakið með líkingu við að maður falli fyrir borð á báti og menn verði og seinir til bjargar.
Seint koma heimskum hyggindi / Seint koma ósvinnum ráð í hug (orðatiltæki) Hinn heimski er ekki líklegur til að taka gáfulegar ákvarðanir. „Setti hann aftur bensín á dísilvélina?! Ja seint koma heimskum hyggindi“!
Seint koma sumir, og koma þó (orðtak) Um þann sem er seinn fyrir/ kemur seinna en vænst er.
Seint og illa (orðtak) Gegnsætt orðtak og nokkuð notað. „Skuldin greiddist bæði seint og illa hjá honum“.
Seint og síðarmeir / Seint og um síðir (orðtak) Um síðir; miklu seinna; of seint. „Þeir komu ekki heim fyrr en seint og síðarmeir“. „Seint og um síðir uppgötvaðist að taskan hafði gleymst heima“.
Seint verður á sögnum/sögum skortur (orðatiltæki) Vísar til söguburðar/slúðurs; þess að menn hafa tilhneygingu til að skálda upp sögur ef sannleikurinn er ekki kunnugur eða hljómar síður krassandi.
Seint mun hrafninn hvítur verða / Seint verður hrafninn hvítur (orðatiltæki) Sá sem illa er innrættur mun síðar sýna eðli sitt, þó hann kunni að leyna því um stund.
Seint verður tófa trygg (orðatiltæki) Vísar til þess að ekki er hægt að temja ref eins og hund. Til þess er villidýrseðlið of sterkt. Menn hafa iðulega tekið yrðlinga úr greni sem búið er að vinna og alið þá hjá sér. Þeir geta orðið mjög spakir og hændir að manni; jafnvel elt fólk meðan þeir eru enn ungir. En þegar þeir fullorðnast verður eðlishvötin sterkari og þá leggja þeir á fjöll, þó vissulega geti þeir átt það til að leita fremur að bæjum en aðrir refir. Sú sögn er lífseig að refir sem aldir eru af mönnum leggist fremur á fé en aðrir. Refaskyttur taka stundum yrðlinga og nota þá til að hæna ref í byssufæri.
Seintekinn (l) A. Um manneskju; seinn í viðkynningu. „Þetta er viðkunnanlegur maður, en dálítið dulur og seintekinn“. B. Um heyskap, eggjatöku o.fl. „Þegar töðuheyskapur var búinn var farið að slá Sláttumýrarnar, en þar var heyskapur seintekinn“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). „Töluvert er af fýlseggjum í Hnífunum, en þar er seintekið þar sem þau eru á stökum syllum“.
Seinvirkur (l) Sem virkar hægt; sem byrjar ekki strax að verka. „Þetta finnst mér alltof seinvirk aðferð“.
Seinþroska (l) Seinn til þroska; ekki bráðger. „Þótti henni við krakkarnir heldur sinþroska þegar við afþökkuðum kaffið þegar við komum við hjá henni“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Seinþreyttur til vandræða (orðtak) Sem forðast vandræði/vesen/ófrið. „Þó ég sé yfirleitt seinþreyttur til vandræða þá getur maður illa þolað svonalagað andmælalaust“!
Seinþroska (l) Seinn til eðlilegs þroska.
Seisei (u) Upphrópun eða hikorð; einatt sem andsvar við því sem annar segir. Ýmist notað sjálfstætt til að býsnast yfir/ lýsa undrun yfir því sem sagt er, eða sem áhersla á játun eða neitun. „Maður gat þetta auðveldlega fyrr á tíð; seisei já“! „Seisei nei; þesslags hef ég aldrei kunnað“!
Seisingarhnútur (n, kk) Sérstakur hnútur sem notaður var til að tengja tvo bjargvaði saman, enda í enda. „Sérstakur hnútur var hafður í þessu skyni; svokallaður seisingarhnútur. Voru þá endarnir báðumegin við hnútinn benslaðir með mjóu snæri eða seglgarni við vaðinn“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Sekkja (s) Setja í poka/sekk; poka. „Nú þyrftum við að fara að sekkja ullina“.
Sekkur (n, kk) Poki; balli. Á oftast við stóran poka.
Sekt (n, kvk) A. Sök; samviskubit. B. Bætur til samfélagsins fyrir lögbrot.
Sekt bítur sekan (orðatiltæki) Sekum manni líður oft illa af samviskubiti/eftirsjá.
Sekta (s) Leggja samfélagsbætur á einhvern fyrir lögbrot.
Sektarsvipur (n, kk) Svipur sem bendir til sakar/sektar; skömmustulegur svipur. „Tíkin tók við bitanum úr hendi hans með semingi, en leit síðan á mig með sektarsvip“.
Sektarkennd (n, kvk) Skammartilfinning; samviskubit; mórall. „Það er óþarfi að vera með einhverja sektarkennd yfir þessu; þetta var ekki með vilja gert“.
Sekur flýr þó enginn elti (orðatiltæki) Sá sem veit uppá sig afbrot er einatt á verði. Sjá sök bítur sekan.
Sel (n, hk) Útihús sem allajafna eru nokkru frá viðkomandi býli, þar sem legið var við með kýr og fráfæruær í góðum bithögum; þær mjólkaðar og mjólkin unnin. Síðasta sel í Rauðasandshreppi var á Seljadal ofan Látrabjargs; líklega aflagt í byrjun 20.aldar. Þangað ráku Látrabændurnir þrír kýr sínar og fráfæruær í sumarbyrjun og höfðu hjá þeim hver sína selráðskonu. „Fjós var sameiginlegt og rúmaði á seinustu tímum selsins fjórar kýr. Selhús munu að jafnaði hafa verið tvö... Selráðskonur mjöltuðu hver fyrir sig pening síns bónda og gerðu smjör og skyr. Mjólk til heimilisnota og skyr var sótt daglega í selið. Það aukastarf höfðu selráðskonur að hjálpa til við bjargsig milli mála, þá daga sem Látramenn voru í bjargi“ (MG; Látrabjarg).
Selalátur (n, hk) Staður þar sem selir kæpa. Bæjarnafnið Sellátranes er vafalítið kennt við selalátur; sem og Sellátrar í Tálknafirði. Selalátur eru sumsstaðar í Rauðasandshreppi, t.d. við Bjargtanga og líklega einnig á Landamerkjahlein undir Breið.
Selaskytterí (n, hk) Skotveiðar á sel. Selur var gjarnan drepinn í Kollsvík öðru hvoru til matar. Þó ekki á síðustu árum, enda fleiri matarholurnar nú en áður.
Selenskortur (n, kk) Stíuskjögur; hörgulsjúkdómur sem einkum er þekktur í lömbum en einnig öðrum skepnum og fólki. Hefur m.a. áhrif á starfsemi skjaldkirtilsins. Lömb með stíuskjögur verða einkennilega stirð í hreyfingum og vilja helst liggja. Ástæðan er oft innifóðrun fjár og skortur á kjarngóðu alhliða fóðri. Meðhöndlun felst í selengjöf og verður bati fljótt ef snemma er brugðist við.
Selbiti (n, kk) A. Biti af selketi. B. Lítilsháttar högg sem veitt er með því að láta vísifingur eða löngutöng smella af þumalfingurgómi sömu handar. Kallað að „gefa (einhverjum) selbita“.
Selflutningur (n, kk) Forfæringar; flutningur einhvers í áföngum. „Síðan hófst selflutningur eggjanna úr einum ganginum til annars; alla leið á brún“.
Selflytja (s) Flytja/færa í áföngum, oft hluta flutnings í einu. Líking við flutning í sel, meðan selstaða var. „Síðan varð hann að fara margar ferðir upp og niður Bjargið og selflytja feng sinn á brún“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Selja (s) A. Láta af hendi gegn greiðslu. B. Um kú; mjólka greiðlega. „Mjög er misjafnt hvort kýr selja vel eða illa; það fer bæði eftir kúnum og ástandi þeirra, en ekki síður eftir lagni mjaltamanns“.
Selja ekki dýrara en keypti (orðtak) Segja ekki meira en maður heyrir aðra segja; breyta ekki sögusögn. „Hann fullyrti að þetta hefði verið sjóskrýmsli, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti“.
Selja upp (orðtak) Æla; gubba (á sjó:) ræða við Jónas; skila matnum.
Seljabúskapur (n, kk) A. Búskapur/vist í seli. B. Líkingamál um veru í bústað um skamman tíma. T.d. notað um veru fólks á bæ sem annars er í eyði.
Seljuviður / Selja (n, kk/kvk) Lin og gisin viðartegund; Salix caprea. Þykir ekki endingargóður smíðaviður. Mikil hjátrú var tengd selju. Hún mátti t.d. ekki vera í húsum, því þá gekk fólki illa að fæða og skilja við/ deyja. Einnig er selja óhafandi í skip og talin manndrápsviður; bátur úr selju var talinn manndrápskolla; einkum úr blóðselju. Seljuviður var nefndur ýmsum niðrandi nöfnum s.s. vindselja og hlandselja.
Selkjöt (n, hk) „Selkjöt hefur einnig verið notað hér um slóðir allt fram á þennan dag. Það var þvegið; spikið skorið af og kjötið soðið; borðað með kartöflum og rófum. Spikið var saltað og notað með söltum og signum fiski“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Selráðskona (n, kvk) Kona sem hefur á hendi mjaltir og mjólkurvinnslu í seli.
Selrifinn (l) Um fisk; bitinn eftir sel. „Nokkrar grásleppurnar voru selrifnar og ónýtar“.
Selskapsmanneskja (n, kvk) Félagsvera, sá/sú sem er félagslynd(ur). „Hún er svo mikil selskapsmanneskja“.
Selskapsskepna (n, kvk) Dýr sem vill félagsskap/er mannelskt. „Æðarkollan sem afi hjó hálfdauða úr klaka niðri við sjó og móðir mín bjargaði frá vísum dauða taldi sig eftir það eina af heimilisfólkinu. Hún var mikil selskapsskepna og vildi helst vera þar sem annað fólk hélt sig, en kunni því illa að vera skilin ein eftir heima. Þá dýrkaði hún mjög klassíska tónlist, og kom sér vel fyrir framan við útvarpið ef slíkt var í boði“ (VÖ).
Selskapur (n, kk) Félagsskapur; samkvæmi; flokkur; hópur. Sjá halda (einhverjum) selskap.
Selskinn (n, hk) Skinn af sel. Selskinn hafa löngum verið verðmæt afurð, ekki síst til sölu og útflutnings. Þau eru þá skafin og fituhreinsuð eftir fláningu og síðan spýtt.
Selspik (n, hk) Selspik hefur löngum verið á borðum Íslendinga. Einnig var það fyrrum nýtt til hákarlabeitu, og fylgdi þ´vi bútur af húðinni nefndist það húðarselur.
Selstöðukaupmaður / Selstöðuverslun (n, kk/kvk) Selstöðukaupmenn hafa þeir kaupmenn verið nefndir sem ráku verslun á íslenskum verslunarhöfnum eftir að einokunarversluninni lauk árið 1787, og tímabil fríhöndlunar hófst. Nafnið er dregið af seli í íslenskum búskap, enda voru þeir yfirleitt búsettir í Kaupmannahöfn og höfðu þar aðalbækistövar sínar. Þeir önnuðust vöruinnkaup ytra til sölu hér, og tóku varning hér til sölu ytra. Hér höfðu þeir í sinni þjónustu verslunarstjóra, eða faktor. Nafngiftin selstöðukaupmaður var tekin upp í nokkuð niðrandi merkingu af síðari tíma íslenskum kaupmönnum, sem með því bentu á að affarasælla væri að Íslendingar önnuðust sjálfir sína verslun. Meðal fyrstu íslensku kaupmannanna var Ólafur Thorlacius á Bíldudal. Ein selstöðuverslana var á Vatneyri við Patreksfjörð. Helsta samkeppni selstöðukaupmanna var að hálfu lausakaupmanna; svonefndra spekúlanta, sem sigldu milli hafna og versluðu frá skipum sínum. Margir landsmenn voru þó bundnir af skuldum sínum við selstöðukaupmenn. Helstu innflutningsvörur á þessum tíma voru kornvara, salt, járn, steinkol, tjara og munaðarvara, s.s. sykur, kaffi, tóbak og brennivín. Út var einkum flutt; saltfiskur, lýsi, ull, tólg og prjónles. Um og uppúr miðri 19.öld tóku bændur að hnekkja veldi selstöðukaupmanna með stofnun verslunarsamtaka. Þá spruttu t.d. upp kaupfélög víðsvegar um landið, en einnig komu upp öflugir íslenskir kaupmenn. Tilkoma símans árið 1906 varð einnig til að færa miðstöð verslunar til landsins frá Kaupmannahöfn.
Selta / Seltumagn / Seltustig (n, kvk/hk) Styrkur salts í upplausn, t.d. í sjó.
Seltumósta (n, kvk) Sandmósta; útfellingar úr foksandi á föstum hlutum. „Eftir sandstorm í Kollsvík var oftast töluverð seltumósta vindmegin á öllum hlutum. Hún samanstendur af salti og leir og er mjög tærandi“. Hvorki sandmósta né seltumósta finnast í orðabókum, en bæði orðin voru notuð í Kollsvík.
Seltustorka (n, kvk) Salt eða saltblanda sem situr eftir þegar saltvatn eða sjór þornar. „Mikið verður gott að komast í vatn og þvo af sér seltustorkuna eftir þessa ágjöf“!
Selur (n, kk) Flokkur spendýrategunda sem eru vel lagaðar að lífi og veiðum í sjó. Algengasta selategundin hér við land er landselur, en einnig er mikið um útsel. Sjá þar.
Selur vel/illa (orðtak) Um það hve greiðlega kú mjólkast. „Kýr selur illa ef hún er mjög fastmilk að eðlisfari, en einnig getur verið að lausmilk kýr selji þeim vel sem hún er vön og öðrum illa sem beitir öðru mjaltalagi“.
Selveiði (n, kvk) Veiði á sel. Selveiði hefur aldrei verið veruleg í Útvíkum; utan það að menn hafa skotið sel öðruhvoru til átu og skinnaverkunar. Á Rauðasandi var selur veiddur að nokkru marki í net áðurfyrr. Athafnamaðurinn Pétur A. Ólafsson á Patreksfirði gerði um tíma út selveiðigufuskipið Kóp frá Suðureyri í Tálknafirði, með norskri áhöfn. Skipið keypti hann 1916, en það sökk árið eftir.
Sem að höndum ber (orðtak) Sem verða vill; sem skeður. „Það verður bara að taka því sem að höndum ber“.
Sem áður fyr(r) (orðtak) Eins og áður/fyrrum. „Kýr eru einnig vanfóðraðar í Kirkjuhvammi, sem orsakast af átleysi, sem áður fyr eftir óþurrkasumur“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).
Sem best (orðtak) A. Eins vel og hægt er. „Reyndu svo að skola bátinn sem best“. B. Vel; með góðu móti. „Mér dettur ekki í hug að gera þetta fyrir hann; hann getur sem best gert það sjálfur“!
Sem betur fer (orðtak) Til allrar lukku/hamingju; til bóta. „Sem betur fer var ég með nóg nesti og gat gefið hinum með mér“.
Sem ég er lifandi (kominn) / sem ég sit hérna (orðtök) Svardagar/heitingar til að undirstrika fullyrðingu. Sem ég er lifandi; féð er komið strax aftur inná“! „Ég get ekki sannara orð sagt; sem ég er sit hér á stólnum“!
Sem ég kann að nefna (orðtak) Notað sem setningarending á eftir hugtaki sem mælandi veit nafn á en telur sig ekki þekkja frekar. „Það var víst brotið eitthvað í drifinu; einhver pinjón sem ég kann að nefna“.
Sem fyrst (orðtak) Eins fljótt og unnt er; með fyrsta móti. „Þetta þyrfti að gera sem allra fyrst“.
Sem leið liggur (orðtak) Rakleiðis; eftir leiðinni. „Heldur nú Einar sem leið liggur með bola upp á Hálsinn innanverðan“ (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). „Eyra heillar æskumanns/ unnar strengjakliður;/ enda löngum liggur hans/ leið til strandar niður“ (JR; Rósarímur).
Sem maður sáir mun hann uppskera (orðatiltæki) Maður tekur afleiðingum gerða sinna, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Sjá eins og til var sáð/stofnað.
Sem mest má verða (orðtak) Eins mikið og unnt er. „Nú baknagar hann nágrannann sem mest má verða“.
Sem (neinu/nokkru) nemur (orðtök) Sem munar um; eins og nær. „Það hefr ekki rignt sem neinu nemur í heilan mánuð“.
Sem nöfnum tjáir að nefna (orðtak) Sem unnt er að tala um/ láta sér detta í hug. „Ég hrúgaði í þessa köku öllu sem nöfnum tjáir að nefna“.
Sem oftast (orðtak) Eins oft og unnt er. „Til þess að ná góðum árangri í íþróttum þá þarf að æfa sig sem allra oftast“ (Guðbjartur Hákonarson; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938).
Sem og (orðtak) Að auki; einnig. „Hann sporðrenndi átta eggjum; sem og stórri brauðsneið og mjólkurglasi“.
Sem steini/þrumu lostinn (orðtak) Mjög undrandi; standandi hissa; svo hissa/undrandi að maður getur ekki hreyft sig. „Ég var í fyrstu sem steini lostinn þegar ég heyrði þetta“.
Sem slægur er í (orðtak) Sem eftirsóknarvert er; sem eigulegt er. „Hér eru fáar spýtur eftir sem nokkur slægur er í“.
Sem stendur (orðtak) Að sinni; um sinn; eins og nú er. „Hann er ekki innivið sem stendur; hringdu aftur síðar“. Sjá nú sem stendur; rétt sem stendur; um þessar mundir.
Sem svarar (orðtak) Jafngildi; sem jafngildir; jafnt og. „Fyrir þetta fékk hann sem svaraði einum daglaunum“.
Sem veigur er í (orðtak) Sem dugir; sem er sterkur/dugandi. „Ég þarf að fá með mér smala sem einhver veigur er í“.
Sem vonlegt var (orðtak) Eins og búast mátti við; eins og vænta mátti. „Hann var fúll yfir þessu, sem vonlegt var; honum hafði verið lofað öðru“.
Sem því nemur (orðtak) Að því marki; jafn mikið. „Þegar aðföng til búsins hækka í verði verður afurðaverðið auðvitað að hækka sem því nemur“.
Sem vert er að nefna (orðtak) Sem ætti að ræða; sem er þess virði að sagt sé frá. „Eitt er það í viðbót sem vert er að nefna...“.
Sem vettlingi geta valdið (orðtak) Sjá allir sem vettlingi geta valdið.
Sem vonlegt er (orðtak) Eins og við er að búast; eins og ætla má. „En sem vonlegt var eru þeir þrekaðir af þreytu, vosbúð og kulda...“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sement (n, hk) Steinlím; kalk- og kísilblanda sem blandað er í steinsteypu til að framkalla viðloðun og hörðnun. Þróun sements hófst þegar menn komust uppá að vinna kalk úr kalksteini, og nær aftur til tíma Forngrikkja og Egypta um 2500 f.Kr. Ein elsta og merkasta bygging með sementsnotkun er Pantheon-musterið í Róm, frá 27 f.Kr, sem enn í dag er mesta steinsteypta bygging heims án járnabindingar. Fyrsta steinsteypta húsið í Rauðasandshreppi var íbúðarhúsið í Saurbæ; byggt 1907; smiður Finnur Thorlacius frá Saurbæ. Elsta steypta húsið í Kollsvík er Kollsvíkurhúsið sem enn stendur; byggt 1924.
Sementslögun (n, kvk) Sandsteypa; múr. Þunn blanda sands, sements og vatns; oftast notuð til múrhúðunar.
Sementskústa / Sementskústur (s/ n, kk) Bera sementslög á húsvegg með hentugum bursta/kústi. Sementskústun getur verið góð vörn á steinsteypu, einkum ef hún er sjálf sementsrýr. Var því mikið notuð fyrr á árum meðan sement var sparað í steypu, og voru t.d. gömlu útihúsin á Láganúpi sementskústuð.
Semítar (n, kk, fto) Fólk af kynstofnum sem tala semetísk mál. Til semíta teljast m.a. fornþjóðirnar Fönikíumenn/Föníkar; Aramear; púnverjar/ þ.e. íbúar Karþagó; Assýrar; Kaldear og Hebrear. Einnig nútímaþjóðirnar Arabar; Gyðingar og Eþíópíumenn. Samkvæmt gamla testamenti Biblíunnar voru semítar afkomendur Sems, en hann var elsti sonur Nóa.
Semja sig að (orðtak) Aðlaga sig; laga sig að; fella sig við. „Það verður víst að semja sig að þessum nýju siðum; hvort sem manni líkar það betur eða verr“. „Hann (Manús í Botni) samdi sig ekki alltaf að siðum annarra og sagt var til dæmis að klukkan væri ekki endilega það sem réði byrjun vinnu eða hættutíma“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Semjast um (orðtak) Semja um; ná samkomulagi um. „Okkur samdist um að skipta þessu að jöfnu“.
Semsagt / Sem sagt /Semsé / Sumsé (orðtak, uh) Hér um bil; nærri því; samasem. „Enn var það lágsjávað að báturinn tók sem sagt allur jafnt niðri, og dró það úr högginu“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Saltið er semsagt búið“. „Það er semsé ekkert eftir“. „Þú heldur sumsé að þetta geti gengið“.
Semsé (ao) Sem sagt; samasem; sumsé. „Nú hafði mönnum hlaupið kapp í kinn og margir skoruðu á þá Liða og Gumma að ljúka veðmálinu, en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn“ (PG; Veðmálið).
Sena (n, kvk) Svið í samkomuhúsi; leiksvið. „Árni Helgason skýrði frá því að þorrablótsnefnd 1971 hefði gefið húsinu tjöld fyrir senu, ásamt brautum“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Senda á (einhvern) (orðtak) Kasta til einhvers; ljóða á einhvern; senda bréf til einhvers; senda einhverjum.
Senda eftir (Senda einhvern til að sækja eitthvað. „Gamalt fólk trúði því að vatn úr Engislæknum hefði lækningamátt. Svað lítið sem krakkarnir urðu lasnir var alltaf sent eftir vatni úr honum“ (SE; Örn.skrá Stakkadals).
Senda kveðju guðs og sína (orðtak) Senda kveðju; biðja að heilsa. „Hann sendir þér kveðju guðs og sína, og biður þig nú endilega að líta við næst þegar þú átt leið um“.
Senda (einhverjum) tóninn (orðtak) Hasta á einhvern; skamma einhvern háum rómi; halda reiðilestur. „Hann sá okkur missa féð og sendi okkur tóninn; hvort við værum farlama gamalmenni og blindir í þokkabót“!
Sendast (s) A. Vera sendur. „Aftaná bréfinu stóð; sendist til baka ef vitakandi er fluttur“. B. Fara mjög hratt; þjóta; flýta sér. „Ég sentist á harðahlaupum niður holtið og náði að komast fyrir hópinn“. C. Fara í sendiferð. „Get ég fengið þig til að sendast dálítið fyrir mig“?
Sendiboð (n, hk) Skilaboð; orð; boð. „Ég fékk sendiboð um breytingu á fundartímanum“.
Sendibréf (n, hk) Bréf sem sent er. Meira notað áður.
Sendibréfsfær (l) Sæmilega ritfær. „Ég hélt að menn þyrftu að vera sendibréfsfærir til að verða ráðherrar“.
Sendiferð (n, kvk) Stutt ferð í erindum annarra. „Geturðu skroppið í sendiferð inn á Gjögra fyrir mig“?
Sendiför (n, kvk) Lengri ferð í erindum annarra. „Þessi sendiför þeirra var á vegum yfirvalda“.
Sending (n, kvk) A. Það sem sent er, t.d. póstsending. B. Draugur; uppvakningur. „Eftir að sendingin sem Benedikt Gabríel sendi Einari í Kollsvík hafði gengið að hesti hans dauðum... “ (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Sendingskast (n, hk) Sjá í sendingskasti.
Sendinn (l) Sandborinn; úr sandi. „Ofar taka við sendnir melar; svo mýrlendi“ (IG; Sagt til vegar I). „Fjaran er sendin, en hleinar um fjöruborð“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Senditík (n, kvk) Niðrandi heiti á þeim sem sendur er/ lætur aðra nota sig. „Þessir háu herrar þarna fyrir sunnan geta nú bara sleppt því að senda vestur einhverjar senditíkur til að tala gegn hagsmunum bænda“!
Sendlingur (n, kk) Calidris/Erolia maritima. Lítill strandfugl af snípuætt. Mjög algengur í fjörum landsins, m.a. í Kollsvík, og er gjarnan í hópum. Sendlingur er smávaxinn, þybbinn vaðfugl,og fremur stuttfættur. Grábrúnn á baki með dökkum flekkjum, en að mestu hvítur að neðan. Brjóst með smáum daufum gráum blettum; stélið stutt og nær alveg svart. Á flugi sést mjó hvít rönd eftir öllum vængnum aftarlega. Fætur gulleitir, og einnig nef sem þó dökknar að framan. Sendlingur er að hluta farfugl hérlendis, og þeir sem fara halda til á austurströnd N-Ameríku eða vesturströnd Evrópu. Fæðan er einkum það smálegt sem finnst á útfiri, s.s. meyjapöppur og marflær. Til heiða tínir hann skordýr, snigla o.fl. Sendlingurinn verpir helst til heiða og fjalla; holta og hæða. Hreiðrið er oft á berangri; lítil grunn dæld. Eggin eru ljós á lit með dökkum flekkjum. Í fyrstu liggja foreldrar jafnt á eggjunum en síðar karlfuglinn eingöngu. Lendir það einnig á honum að sinna ungunum, sem fara fljótt úr hreiðri.
Sengjubragð (n, hk) Bragð af mat sem hefur náð að brenna við; sængurkonubragð. Einkum getur þetta átt við um mjólkurgrauta, s.s. grjónagraut og flóaða mjólk. „Við fengum hjá þeim grjónagraut með rúsínum, en nokkuð sengjubragð fannst mér af honum“.
Senn (ao) A. Bráðum, rétt strax; fljótlega. „Það fer senn að birta“. B. Samstundir; í einu. „Nú gerðist margt í senn…“. „Hann heyrði ekkert; þó við kölluðum báðir í senn“.
Senn bólar/bryddir á Barða (orðatiltæki) Viðhaft þegar enn er beðið eftir því sem væntanlegt er. Sumir hafa talið máltækið vísa til minnis úr Heiðarvígasögu, þegar Borgfirðingar biðu eftir að Barði Guðmundsson kæmi suðurum heiði til að veita þeim lið. Útfrá orðatiltækinu varð til alþýðuskýring sem sjá má í Þjóðsögum Jóns Árnasonar; um smalann Barða sem hin fjölkunnuga Katla drekkti í sýrukeri. Líklegra er þó að orðtakið sé eldra; frá þeim tíma að menn áttu von á skipi úr hafi, en fornt heiti skips er „barði“. Menn biðu eftir að sjá skipið sem þúst/bólu við sjónarrönd. Önnur útgáfa orðtaksins er ekki bólar (enn) á barða.
Senna (n, kvk) Viðureign; rifrildi; deilur; verkhrota. „Við tókum eittsinn allharða sennu um þetta málefni“. „Munu renna tunglin tvenn;/ tímans brenna kerti þrenn,/ fyrr en kenni friðar menn;/ ferleg sennan stendur enn“ (JR; Rósarímur).
Sennilega (ao) Trúlega; líklega; líkast til. „Sennilega er þetta orð minna notað núorðið en áður var“.
Sennilegt (l) Líklegt; trúlegt. „Mér þykir sennilegt að Kollsvíkin komist fljótlega aftur í byggð“.
Sepi (n, kk) Flipi; húðfelling; tota. „Ég klippti af einhvern sepa sem ég fékk við að hruflast“.
Sepóttur (l) Með mörgum sepum; alsettur sepum. „Bergið í þaki holunnar er sepótt, líkt og þar sitji enn hraundropar sem storknuðu fyrir meira en tíu milljónum ára“.
Seppi (n, kk) Gæluheiti á hundi; hundsnafn.
Serða (s) Hafa samfarir við.
Serimóníur (n, kvk, fto) A. Eiginleg merking; athöfn. B. Líkingamál; sérstök aðferð; sérviska. „Hann þykist alltaf þurfa að nota einhverjar serimóníur við þetta verk“. „Ætli þurfi einhverjar serimóníur til að ná þessu stykki úr vélinni“?
Servíetta (n, kvk) Lítil handþurrka/munnþurrka sem stundum er notuð í fínni veislum og á veitingahúsum, en var til skamms tíma alls óþekkt og óþörf í daglegu lífi Kollsvíkinga; enda innfluttur snobbsiður.
Sess (n, kk) A. Sæti. Oftast í orðtökum; valtur í sessi; hár í sessi; velta úr sessi. B. Staðsetning í röð. „Hann hefur fengið sinn sess í sögunni“.
Sessa (n, kvk) A. Sæti á þóftu í árabát. B. Púði eða þykkt áklæði sem setið er á, t.d. í söðli eða sæti.
Sessunautur (n, kk) Sá sem situr við hliðina/ sama borð.
Set (n, hk) A. Sæti; bekkur. „Hér vantar fleiri set, þegar við erum svona margir“. Sjá færa sig um set. B. Botnfall sem fellur út í vatni eða sjó; efnislag á botni eða í jarðlögum. „Eitthvað set hefur safnast hér fyrir“.
Seta (n, kvk) A. Það að sitja. „Okkur þótti orðin nokkuð löng setan, svo ég fór framá brúnina og skimaði eftir honum“. Sjá fundarseta, og ekki til setunnar boðið. B. Það að liggja við hákarlsveiðar. C. Sæti. Oftast notað nú til dags um hring þann á salerni sem setið er á.
Setbað / Setbaðker (n, hk) Stutt baðker, með stalli í öðrum enda; ætlað til að menn sitji á meðan þeir baðast. „Setbaðker var á seinni árum á klósettinu í gamla bænum á Láganúpi (rifinn eftir 1974). Ekki hefði verið unnt að hafa þar stærra bað vegna plássleysis í skúrbyggingunni. Fyrir þann tíma baðaði Láganúpsfólk sig um tíma í steyptu baðkeri í verkfærahúsinu, en þar áður var notast við vaskafat og þvottapoka“.
Setbekkur (n, kk) Sæti sem margir geta setið á samtímis. „Í eldhúsinu var eldhúsbekkur og tveir setbekkir“.
Setberg (n, hk) Set sem orðið er að þéttri bergtegund vegna þrýstins og aldurs. T.d. er set í rauðu millilögunum sem áberandi eru í berglagastafla Kollsvíkur og víðar. Það er pressuð eldfjallaaska og jarðvegur frá goshléum meðan landið var að hlaðast upp fyrir mörgum milljónum ára.
Setgagn (n, hk) Stóll eða setbekkur; húsgagn sem setið er á. „Eru næg setgögn fyrir þennan mannfjölda“.
Setið egg (orðtak) Egg sem er enn ekki orðið stropað en rauðan er komin út að skurni og byrjuð að gulna. „Það er óþarfi að henda þessu eggi. Það er rétt örlítið setið og ekkert byrjað að stropa“.
Setinn bekkurinn (orðtak) Þétt raðað/skipað af mörgum einstaklingum. „... en það hefur líka verið setinn bekkurinn í Grundabænum, svo þú varst vön þrengslunum“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). Sjá þétt setinn bekkurinn.
Setja (s) A. Láta; staðsetja; koma fyrir. „Settu vatn í ketilinn fyrir mig og settu hann á eldavélina“. B. Um bát; draga/flytja. Í þrengri merkingu merkir orðið að setja niður/upp (sjá þar). Í almennari merkingu að draga hann milli staða með handafli, en í Kollsvíkurveri nær eingöngu notað um að draga báta á land. „Talað var um að „setja upp“ og „setja niður“, en oft var það stytt í „setja“ ef augljóst var hvað við var átt“. „Hann er að auka sjóinn. Ég held að við þurfum að setja bátinn ögn hærra“. Bátar voru stundum settir langar leiðir. T.d. kom fyrir að bátar væru settir milli Rauðasands og Barðastrandar. „Í eystri brún Bjarngötudals eru tveir allmiklir hjallar; Neðri- og Efri-Skipahjalli. Draga þeir nafn af því að skip voru tekin á vaðdrætti upp dalinn og sett eftir hjöllum þessum, aðallega þeim hærri“ (ÍÍ; Örn.skrá Bæjarparts). Oftast var bátur þó settur í lendingu: „Ef formanni leist svo á veðurhorfur að hann taldi að gæfi á sjó, fór hann inn og vakti skipverja sína. Þeir klæddust og fengu sér bita, og síðan var haldið til skips. Þegar þangað kom var það ávallt fyrsta verk formannsins að setja negluna í bátinn, og því næst var farviður borinn um borð. Þá voru skorður teknar undan og síðan var skipið sett.... Þegar skipið flaut fóru menn jafnóðum um borð, og síðan var tekið í, sem kallað var; skipinu snúið sólarsinnis. Þá voru tekin nokkur áratog en síðan gaf formaður skipun. Þá lyftu menn árunum; tóku ofan höfuðfötin og fóru með sjóferðabæn. Að því búnu var róið sem fastast uns komið var á mið“ (JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang). Þessi lýsing á við sjósetningu sunnanlands, en hún fór að mestu fram á svipaðan hátt í öllum verstöðvum. Einkanlega átti það við, að snúa bát ætíð sólarsinnis og biðja sjóferðabæn þegar bátur var kominn á flot og áður en haldið var í róðurinn. C. Skipa í embætti. D. Undirbúa fyrir prentun.
Setja að (orðtak) Kólna; kvefast „Búðu þig nú almennilega krakki; annars gæti sest að þér“!
Setja að eftirsjá/grát/hroll/ótta/sorg/ugg (orðtök) Fá tilfinningu um eftirsjá/grát/hroll/ótta/sorg/ugg. „Það setti að mér nokkra eftirsjá þegar bíllinn renndi úr hlaði, enda myndi ég ekki sjá hann fyrr en að vori“.
Setja (einhverjum) afarkosti (orðtak) Stilla einhverjum upp við vegg; gera einhverjum slæma valkosti/skilmála í samningum/viðskiptum. „Stjórnvöld hafa í raun sett bændum afarkosti með þessari tillögu“.
Setja á (orðtak) A. Taka það fé til lífs að hausti sem ekki fer í slátrun; taka til ásetnings. „Það er rétt að setja tvílembingana Lukku á; þeir eru svo ári vænir“. „Ég set hann ekki á þennan hrút þó það sé freistandi“. „Hún Gibba gamla er orðin ósköp ræfilsleg og varla á vetur setjandi“. „Ætlarðu virkilega að setja heimalingsfrekjuna á“? „Því lengur sem ég skoða og set á, eða hef þetta forðagæslueftirlit, því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). B. Um forðagæslumenn; skoða hvað heyforði bónda dugir fyrir mikinn bústofn. C. Gera slæmt veður. „Þá setti á suðaustan moldarbyl“ (TÓ; upptaka á Íslmús 1978).
Setja á blað (orðtak) Skrifa niður; rita. „Ég þarf endilega að setja þessa vísu á blað áður en ég gleymi henni“.
Setja á/yfir él (orðtak) Renna á éli; bresta á með éli. „Nú sýnist mér hann vera að setja yfir okkur annað él“.
Setja á flot (orðtak) Um bát; setja niður; setja fram; sjósetja; fleyta; ýta úr vör. „Hann er dottinn alveg niður með þennan gutlanda sem var; eigum við ekki bara að fara að setja á flot“? „Gamla Rut er sett á flot í Kollsvíkurveri. Sólóvélin sett í gang og keyrt suður á Bæi“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Setja/koma á fót / Setja á laggirnar (orðtök) Stofna til verkefnis; stofna fyrirtæki; hefja. „Bændur settu á fót kaupfélög til að tryggja sölu sinna afurða og afla sér um leið nauðsynjavöru á réttmætu verði“. „Sett var á laggirnar Jarðræktarfélag Kollsvíkurbænda um fyrsta traktorinn“.
Setja (einhvern) á galeiðuna (orðtak) Láta einhvern í erfitt starf/ í erfiðan félagsskap. „Þú varst heldur betur settur á galeiðuna; ekki öfunda ég þig af að þurfa að vinna með honum“!
Setja á guð og gaddinn (orðtak) Ætla að hafa fleiri skepnur yfir vetur en unnt er að fóðra eða hýsa. Sumum bændum hætti til að vera um of bjartsýnir í þeim efnum og voru mjög gagnrýndir af þeim varfærnari. Sjá gaddur; éta (einhvern) út á gaddinn; reka (einhvern) út á gaddinn.
Setja á oddinn (orðtak) Beita sér einkum fyrir; hafa sem helsta markmið. „Furðulegt er að flokkurinn skuli ætla að setja þetta mál á oddinn í kosningabaráttunni“.
Setja á ræðuhöld (orðtak) Halda langa ræðu; tala mikið. „Þetta veit ég alltsaman; það er óþarfi að setja á einhver ræðuhöld um það“!
Setja á sig (orðtak) Leggja á minnið; einsetja sér að muna. „Ég setti það nú ekki á mig hvar ég hvíldi mig, en líklega hef ég týnt hnífnum þar“. „Settu á þig miðin; við rennum hér aftur á morgun“.
Setja á sig rögg (orðtak) Drífa sig; fara að vinna kappsamlega; hleypa í sig kjarki. „Við ættum nú að setja á okkur rögg og mála þakið; ekki veitir því af“.
Setja á stall (orðtak) Hefja um of til virðingar; dýrka.
Setja á stofn (orðtak) Stofna; stofnsetja; grundvalla; stofna/efna til. Stofn merkir hér grundvöll einhvers, s.s. samþykktir/stofnfé þegar fyrirtæki er sett á stofn.
Setja á stokka (aotðtak) A. Setja tré á búkka/stokka, til að unnt sé að saga það. B. Leggja kjöl að bát á stokka til að unnt sé að hefja smíði hans.
Setja á streng (orðtak) Um landtöku báts; setja afla seilaðan útbyrðis og hafa hann á streng/taug í sjónum meðan lent er, til að létta bátinn ef slæmt er í sjó. Eftir lendingu er strengurinn dreginn í land. „Samt lagði oft þá báru, að seila þurfti fiskinn á floti og láta seilarnar útbyrðis; jafnvel setja þær á streng, til þess að vera laus við þær meðan bátnum var brýnt úr sjó“ (KJK; Kollsvíkurver).
Setja á stöfnum (orðtak) Um setningu báts; þoka bát ofar í fjöruna með því að færa stafnana í hálfhring hvorn á fætur öðrum; stafnsetja. Þannig má setja lítinn bát ef þrír eru við. Einn styður meðan hinir baka stafninn; sinnhvors vegar, og færa hann til.
Setja á tamp (orðtak) Um hákarlaveiðar; hagræða veiddum hákarli utanborðs. „Væri hlaðafli af lifur var hákarlinn settur á tamp. ... Með trumbuhníf var stungið í gegnum trjónu hákarlsins og snúið. Stóð þá eftir gat sem kaðalll var þræddur í. Kaðallinn var látinn liggja undir bátinn; sinn endi bundinn í hvorn borðstokk og þannig bætt á að jafnt átak væri báðum megin“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Setja bann við (orðtak) Banna; fyrirmuna. „Það verður að setja blátt bann við því að aka þarna um á bíl“.
Setja bát/setja upp (orðtak) Bjarga báti undan sjó; koma honum úr lendingu í sitt uppsátur. Til að setja bát þurfti nokkra menn, jafnvel þó um smáan bát væri að ræða. Til léttis voru notaðir hlunnar úr tré, hvalbeini eða síðast með járnrúllum. Bátar voru bæði settir upp og settir niður (eða settir fram), en það síðartalda nefndist einnig að ýta á flot. „Seila menn allan fenginn út, og flytja so skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi, og setja þau þar upp“ (ÁM/PV; Jarðabók). Oftast voru bátar settir á hlunnum, en þó þekktist að setja á stöfnum. Á síðari árum er sett á bátakerrum og dráttartækjum beitt fyrir. „Svo var spretturinn tekinn niður í fjöru, þar sem þeir voru að setja bátinn...“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Háflóð var, og því stutt að setja“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Setja ekki ljós sitt undir mæliker (orðtak) Efast ekki um eigin visku; þykjast vita meira en raun er á; vera ekki gagnrýninn á eigin hæfileika/vísdóm. Vísar til biblíutexta í Matt. 5.15; „Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku; og þá lýsir það öllum í húsinu“. Mæliker er þarna ílát sem hvolft er yfir ljósið. Segja má að öll merking myndlíkingarinnar hafi breyst, því skilningur þess er nú sá að menn mæli/meti/gagnrýni ekki nægjanlega það sem þeir segja.
Setja endapunktinn á (orðtak) Láta lokið; ljúka; enda. „Hér setjum við endapunktinn við þessa vertíð“.
Setja fast (orðtak) Festa vað/línu/stjórafæri eða annað. Vanalega átt við að festa færi sem er úti meðan annað verk er klárað; t.d. að blóðga úr síðasta drætti. Sett er fast t.d. með því að bregða skutilsbragði á tollu eftir að grunnmál hefur verið tekið. Einnig var talað um það í bjargferðum að setja fast þegar vaðnum var fest við örugga brúnarfestingu. „Láttu út af stjórafærinu sem svarar tvöföldu dýpi í yfirvarp og settu svo fast á hnýfilinn“. „Þegar farið er á Jónshöfðann er sett fast með því að bregða utanum lága klettaþúst í efsta ganginum“. „Þótt nú gerðist harðla hvasst/ hrikti í rám og taugum;/ segladótið set ég fast,/ sigli beint af augum“ (JR; Rósarímur).
Setja fram (orðtak) A. Um bát; setja niður; komast fram; ýta á flot/ úr vör; sjósetja. „Jæja, nú setjum við fram; takið á“! B. Líkingamál um málefni; segja sitt sjónarmið. „Þú skalt setja fram þína skoðun“.
Setja fund/samkomu (orðtak) Hefja fund/samkomu formlega. „Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen setti fundinn með nokkrum orðum og bauð fundarmenn velkomna“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Setja fyrir (orðtak) A. Setja stýri á árabát í róðri; hjara stýri. Stýri voru tekin frá þegar báti var lent; þ.e. stýrissveif var tekin úr og stýrinu kippt upp úr lykkjunum. Þá skrölti það ekki eða týndist þegar bátnum hafði verið brýnt. Eftir að báturinn var kominn á flot í upphafi róðrar var stýrið sett fyrir, og gerði það formaður. „Flestra háttur var að halla sér út og aftur fyrir borðstokkinn, venjulega stjórnborðsmegin við hnýfilinn; hafa hægri hönd á stýrisfjöður og láta krók og lykkju greiðlega standast á. Ekki þótti formannslegt að grúfa sig yfir hnýfilinn þegar stýri var hjarað, enda var það kallað að fara á kerlingu“ (LK; Ísl. sjávarhættir III). „Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Settu ekki í gang fyrr en ég er búinn að setja fyrir“. B. Um setningu báts; leggja hlunna í stefnu báts til að auðvelda setningu. „Hlunnar eru settir fyrir og báturinn settur niður “ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). C. Skipuleggja verk; segja nemendum hvað þeir eiga að læra næst.: „Ég setti þeim fyrir að stinga upp garðinn í dag“. „Mér var settur fyrir einn kafli í bókinni“. D. Setja hindrun fyrir, t.d. bíl svo ekki renni af stað. E. Loka hliði/fjárrétt/dyrum. „Gleymdirðu nokkuð að setja fyrir dyrnar á reykkofanum“?
Setja fyrir sig (orðtak) Gera mikið úr; telja frágangssök/óásættanlegt; þykja mikið; gera; fjargviðrast yfir. „Maður setur það nú ekki fyrir sig þó örlítil loðpurpa sjáist á ketbitanum: Svoleiðis má bara skafa í burtu“. „Þetta er nú vel klukkustundargangur frá Saurbæ, þó enginn setti slíkan smáspotta fyrir sig“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Setja hjá (orðtak) A. Staðsetja eitthvað hjá öðru. B. Hafa útundan; hafa afskiptan. „Honum fannst hann hafa nokkuð verið settur hjá við þessi skipti“.
Setja hljóðan (orðtak) Slá þögn á; þagna; eiga ekki orð til að lýsa tilfinningum; verða mjög undrandi/hissa/sorgmæddur. „Svo horfa þeir út á Víkina. Margir bátar; vinir þeirra og kunningjar. Allt er þegar ófært. Hvernig fer þetta? Þá setur hljóða“ „Þórarinn Bjarnason tók til máls; alla setti hljóða“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Setja hlunna (orðtak) Setja fyrir; leggja hlunna fyrir bát til að setja hann. „Þá eru settir hlunnar og einn maður þarf að styðja bátinn. Það þarf að vera fljótur með hlunnana því margir eru á spilinu“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Setja/reka hnefann í borðið (orðtak) Segja sínar skoðanir; mótmæla; standa fastur á sínum viðhorfum. „Hann er að verða fjári ágengur, ég þarf bráðum að fara að setja hnefann í borðið“. Sjá spyrna við fótum.
Setja inn (orðtak) A. Láta inn í hús. Sérstætt þýddi orðtakið einatt að láta fé inn í fjárhús; hýsa. „Ég ætla að skreppa í fjárhúsinn og setja inn“. B. Fella net á teina/þini. Tvær aðferðir voru notaðar við netafellingu. Sú eldri og meira notuð var nálarfelling. Til eru nokkur afbrigði við hana, en þeim er sameiginlegt að dreginn er þráður; netagarn, með netanál í gegnum möskva á jaðri netsins, og hann hnýttur um teininn með vissu millibili. Stundum er teinninn jafnframt dreginn í gegnum jaðarmöskvana, og stundum er netið fellt á sérstakan (mjóan) tein sem svo er benslaður við teininn. Hin meginaðferð til fellingar/innsetningar er bekkfelling. Þá er rör fest í þægilegri hæð á undirstöðu; oft lítinn lausan bekk. Uppá rörið eru jaðarmöskvar netsins þræddir, og er sett skutulsbragð á suma þeirra með vissu millibili. Síðan er teinninn dreginn í gegnum rörið og möskvarnir felldir af; þ.e. festir utanum teininn. Bekkfelling er fljótleg fyrir þá sem vanir eru, en þykir ekki jafn góð og nálarfelling, þar sem hætta er á að möskvarnir dagist eftir teininum, séu þeir ekki benslaðir fastir. C. Setja mann í fangelsi.
Setja inn net (orðtak) Fella net; setja tein/þin á netaslöngu. „Ég man samt eftir að Einar bróðir vann tog í tuttugu faðma innsett net; kembdi, spann, tvinnaði, riðaði og setti inn; og veiddi svo ágætlega í netið“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Setja í (orðtak) A. Um veiðiskap; veiða; krækja í; fá á öngul. „Nú held ég að ég hafi sett í lúðu“! B. Stilla stórviðarsög upp fyrir sögun trjáviðs. „Það var kallað að setja í þegar söginni hafði verið stillt þannig upp í byrjun að hún lægi beint við strikunum; bæði því lóðrétta og lárétta“ (LK; Ísl.sjávarhættir I).
Setja (einhvern) í bobba (orðtak) Setja einhvern í vandræðalega/erfiða stöðu; stilla (einhverjum) upp við vegg. „Nú seturðu mig í nokkurn bobba; en ég get illa neitað þér um þetta“. Sjá bobbi; komast/kominn í bobba.
Setja í brýrnar (orðtak) Hleypa brúnum; hvessa augun; láta augabrúnir síga, t.d. í reiði. „Hann setti í brýrnar og skipaði þeim að fara strax og sækja skófluna“.
Setja í driftir / skafla (orðtak) Skafa snjó í skafla. „Hann hefur sett allan snjó í driftir í látunum“.
Setja í gang (orðtak) Gangsetja vél. „Á þeim árum sem ljósavélar voru keyrðar í Kollsvík þurfti að fara daglega til að setja í gang, en það var sjaldnast orðað öðruvísi. Fyrstu árin voru þær ekki látnar ganga nema seinnipart daganna eftir að dimma tók, en síðar allan daginn, eftir því sem raftækjum fjölgaði á bæjum“.
Setja í hlið/dyr/gat (orðtak) Loka; setja hurð/hliðgrind/hlera fyrir. „Nú hefur gleymst að setja í hliðið, svo féð er allt komið inná“! „Settu í milligerðina; það er orðið nokkuð jafnt í hólfunum“.
Setja/geyma í súr (orðtak) Um geymsluaðferð matvæla sem notuð hefur verið frá fornu fari; setja matvæli, t.d. kjötmeti, í mysu eða annan mjólkurmat til að þau súrni og geymist en haldist vel æt og næringarrík.
Setja klukku/úr (orðtak) Stilla klukku/úr á réttan tíma. „Nú þyrfti að setja klukkuna“.
Setja (einhverjum) kosti/úrslitakosti (orðtök) Gefa einhverjum kost á að velja; setja lokaskilyrði. „Ég setti honum þá úrslitakosti að annaðhvort smalaði hann sjálfur sitt land eða annar yrði fenginn til að gera það á hans kostnað“.
Setja kúrsinn (orðtak) Taka stefnuna; stefna. „Ætli við förum ekki óðara að setja kúrsinn til lands“.
Setja í fisk/lúðu (orðtök) Veiða fisk/lúðu. „Hana! Loksins setti ég í fisk“! „Hér setti ég eitt sinn í stórlúðu“.
Setja í reyk (orðtak) Setja matvæli í reyk. Sjá kveikja undir; taka úr reyk.
Setja í skorður (orðtak) A. Koma bát á sinn stað, t.d. í sátri, og skorða hann svo ekki velti. B. Likingamál; koma einhverju í fast/staðfast/stöðugt form; koma einhverju á endanlegan stað.
Setja/krækja í þann stóra (orðtak) Sjómannamál og merkir eignlega að fá stóran fisk á sinn krók, en er oftast notað í líkingamáli um það að festa færið í botni; draga fósturjörðina/föðurlandið. „Ertu nú búinn að setja í þann stóra? Þú hefur ekki tekið nógu mikið grunnmál“!
Setja/hafa í öndvegi (orðtak) Koma til virðingar; setja í forgang. „Það er allt í lagi að kunna enskuna, en ástæðulaust að setja hana í eitthvað öndvegi“. Sjá öndvegi.
Setja niður (orðtak) A. Um bát; koma báti á flot; setja bát af kambi á sjó. „Hlunnar eru settir fyrir og báturinn settur niður“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Víða var skutur látinn ganga á undan í setningunni, nema ef brimaði; þá var borið við; þ.e. skipinu snúið sólarsinnis á landi. Var það gert þar sem skip voru yfirleitt viðtakameiri að framan. Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan. Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu. Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“ (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III). Sjá sjósetja; hvolfa upp; botnmálning. B. Setja bát niður í fjöru, sem hvolft hefur verið til geymslu uppi á bökkum, þó ekki sé sjósettur um leið. „Ætli við förum ekki að hvolfa upp og setja niður, fyrst hann er að spá sjóveðri á næstunni“. C. Um mann/málefni/stað; lækka í áliti/tign; setja ofan. „Mörgum fannst að staðurinn setti dálítið niður við þessar breytingar“. D. Koma kartöflum í jörð til ræktunar. „Ég setti niður fjórar tegundir“. E. Skrásetja; skálda. „Ég er svosem ekkert skáld, en ég setti niður eina stöku við þetta tækifæri“. F. Leggja frá sér. „Settu þetta bara hér niður“. G. Snjóa; fenna. „Hann hefur sett niður fjandi mikinn snjó síðasta sólarhringinn. Það gæti orðið skrautlegt ef hann hvessir í þetta“. H. Jafna ágreining milli manna; semja sættir. „Hann setti niður deiluna með þessu móti“.
Setja ofan (orðtak) A. Setja niður/ sjósetja bát. „Við skulum nú bráðum fara að setja ofan“. B. Setja niður; missa álit; minnka að virðingu. „Hann hefur sett ofan í mínum augum“. C. Um hlaup á kindum/fé; hlaupa niður brekku. „Ég náði að króa þær af uppi við kletta, en þá settu þær allar ofan; beint strik niður í fjöru“! D. Snjóa; fenna. „Enn setur hann ofan; ekki veit ég við hvað þetta lendir“!
Setja ofaní við (orðtak) Skamma; ávíta; veita ákúrur. „Mér finnst að einhver ætti að setja rækilega ofaní við karlinn fyrir þetta tiltæki“!
Setja saman (orðtak) A. Koma einhverju saman sem aðskilið er. „Menn hjálpuðust að við að setja traktorinn saman í fjörunni“. B. Semja skáldverk/vísu/ljóð. „Hver setti þessa vísu saman“?
Setja sér / Setja sér það mark og mið / Setja sér það takmark (orðtak) Einsetja sér; ákveða það takmark/stefnumið fyrir sig. „Hann setti sér að ná kindunum í rétt hjálparlaust“.
Setja sér fyrir hugskotssjónir / Setja sér fyrir sjónir (orðtak) Ímynda sér; hugsa sér. „Það má alveg setja sér fyrir sjónir að þetta hefði getað gerst með öðrum hætti; en þetta er nú það sem varð“. „Það getur hver og einn sett sér fyrir hugskotssjónir hvernig það færi ef báturinn fengi á sig sjó, svona hlaðinn“.
Setja sér markmið/takmark (orðtak) Hafa hugsjón/markmið/takmark sem unnið er markvisst að. Á þann hátt næst jafnan skjótari árangur en ef unnið er stefnulaust. „Og treystirðu Guði þá tekst þér um síð/ það takmark er snemma þú settir./ En mundu að oft kemur yfir sú tíð/ sem engu úr fyrir þér réttir./ Þá verðurðu að standa sem drengur á dröfn/ og drengur að reynast uns kemurðu í höfn“ (VÖe; Ísland).
Setja sig (orðtak) Taka á rás. „Kindurnar settu sig neðan brekkuna þegar ég hóaði“. „Hundurinn setti sig strax í sjóinn eftir fuglinum“ (IG; Sagt til vegar I). „Ég reyndi að komast fyrir lambhrútinn á brúninni, en hann setti sig þá bara framaf“! „En viti menn: Allt í einu setja ærnar sig út á ísinn í einum hnapp, er ég var rétt að komast fyrir þær“ (Júl. Reynir Ívarsson; Maður og kindur í ísvök; Lesb.Tímans)
Setja sig á háan hest (orðtak) Hreykja sér; þykjast meiri en maður er. „Vertu ekkert að setja þig á háan hest“!
Setja sig inní (orðtak) Kynna sér. „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu…“ (PG; Veðmálið).
Setja sig í stellingar (orðtak) Búast til; verða viðbúinn; hafa uppi viðbúnað; gera sig kláran. „Hann er að verða búinn að tína eggin saman af hillunni; setjið ykkur í stellingar til að draga“!
Setja sig neðan /ofan (orðtak) Fara (óvænt) upp eða niður; oft notað um fé sem smalað er í brattlendi. „Ég hélt ég væri kominn fyrir kindina í hlíðinni, en þá allt í einu setur hún sig ofan alla hlíð; á þessu líka skurki“! „Hrúturinn tekur þá rennslið og setur ofan allan hrygginn, niður undir sjórarkletta“. „Hópurinn setti sig neðan; upp hrygginn og Lambagang; alveg á brún“.
Setja sig niður (orðtak) A. Faá sér sæti; setjast. „Gerðu svo vel og komdu innfyrir og settu þig niður“. B. Setjast að; rífa sér ból. „Þau voru varla búin að setja sig niður á jörðinni þegar karlinum datt í hug að flytja aftur“.
Setja sig upp á móti (orðtak) Leggjast gegn; vera andvígur. „Ég ætla ekki að setja mig upp á móti þessu ef þið haldið að það sé til bóta, en ekki er ég vel hress með það“.
Setja/reisa skorður við (einhverju) / Setja (einhverju) skorður (orðtak) Setja (einhverju) takmörk; sporna við. „Stjórnvöld hafa talið nauðsynlegt að setja skorður við flóttamannastraumi til landsins“. Skorður eru reistar undir súð báta til að halda þeim réttum í sátri. Hér gæti þó verið átt við hindrun af einhverju tagi, t.d. í orrustu.
Setja skörinni lægra/hærra (oðtök) Meta/virða meira/minna en annað. „Fyrir mína parta þá set ég nú þennan hrút skörinni hærra en hinn, hvað varðar byggingarlagið“. Orðið er komið frá setu manna eftir virðingarröð í skálum að fornu. Pallar voru með veggjum og á þeim bekkir sem húsbændur og jafningjar þeirra sátu á, en vinnufólk, börn og annar lýður átti setu á pallskörinni. (Sjá skörin færist upp í bekkinn).
Setja (einhverjum) stólinn fyrir dyrnar (orðtak) Draga mörkin; reisa skorður við; grípa í taumana. „Skemmtanalífið var farið að verða æði kostnaðarsamt, og að því kom að foreldrarnir settu honum stólinn fyrir dyrnar“. Komið úr réttarvenju erlendis að setja stól fyrir dyr sem bann við aðgengi. „Þannig var t.d. settur sóll fyrir framan dyr tvígifts manns, ef rjúfa átti eignarsamfélag hans og barna af fyrra hjónabandi“ (HH; Ísl. orðtakasafn).
Setja/gera strik í reikninginn (orðtak) Setja áætlanir úr skorðum; hindra; breyta því sem ætlað var. „Ég ætlaði að vera kominn suður um þetta leyti, en veðráttan hefur heldur betur sett strik í reikninginn“. Dregið af breytingum í bókhaldi/reikningshaldi með útstrikunum.
Setja (einhverju) takmörk (orðtak) Takmarka eitthvað; draga einhverju mörk. „Það verður að setja því einhver takmörk sem eytt er í svona óþarfa af almannafé“! Sjá engin takmörk sett.
Setja til (orðtak) A. Ráða einhvern til verks/vinnu. „Ég var settur til að hausa“. B. Gera að skilyrði. „Hann seldi mér hrútinn, en setti það til að ég tæki hann strax á hús“.
Setja til höfuðs (orðtak) Setja til tryggingar; setja til gæslu. „Ég setti strákinn til höfuðs árans kúnum; að líta eftir því að þær færu ekki í rófugarðinn“.
Setja til sjóar / Setja niður / Setja ofan (orðtök) „Búið var að hreinsa sand úr bátum, og voru þeir settir til sjóar“ (KJK; Kollsvíkurver).
Setja tönn fyrir tungu (orðtak) Hætta að tala; þagna; loka sínum munni.
Setja undir sig hausinn (orðtak) Um erfitt úrlausnarefni; einhenda sér í; gera atlögu að. „Nú þarf ég bara að setja undir mig hausinn og klára að smíða þetta“.
Setja um (orðtak) Hrinda niður; fella; hella úr í ógáti. „Nei; nú setti ég bollan um í ógáti; réttu mér einhverja þurrku“. „Passaðu að hrútarnir setji ekki vatnfötuna um, þegar þú vatnar þeim“.
Setja undan sjó (orðtak) Setja/draga bát svo hátt í fjöruna að honum sé óhætt fyrir öllum sjógangi um háflæði. „Oftast var báturinn skolaður áður en hann var að fullu settur undan sjó; nema því aðeins að ráð væri á unglingum til að gera það þegar báturinn var kominn í skorður“ (KJK; Kollsvíkurver).
Setja undir sig hausinn (orðtak) Um það þegar skepna býst til að veita atlögu með því að lækka höfuðið og beina því í átt að andstæðingi. Einnig notað um það þegar maður beygir sig og gengur álútur gegn veðri til að hlífa andlitinu; eða beygir sig þegar ágjöf ríður yfir bát. Í líkingamáli notað um að nota seiglu/þrjósku þegar maður kemur málefni áfram. „Það verður víst að setja undir sig hausinn og halda út í élið“.
Setja upp (orðtak) A. Að draga bát upp á land. Áðurfyrr var sett upp með handafli, enda nægur mannskapur til þess. Síðar var farið að nota gangspil, og enn síðar að taka bát í sérsmíðaðan vagn, sem hann var settur í á floti og síðan dreginn upp með dráttarvél eða öðru. „Var verið að setja bátinn upp, en óðara brugðið við og haldið í áttina til Guðbjartar og hann fluttur í land, en síðan var báturinn sóttur“. (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). B. Að búa til lanir, galta eða hey. „Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi; í föng ef hey var blautt, annars lanir og að lokum galta; oftast kringlótta, þegar heyið var farið að þorna vel“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). C. Reisa mastur á bát; tréreisa. „Þegar seglbúið var fylgdu því ýmsar skipanir formanns til háseta: -Setjið upp!- Setjið upp og greiðið úr seglum! – Tréreisið! – Mastrið! – Takið til!“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Setja upp gestaspjót (orðtak) Um hegðun kattar; teygja aðra afturlöpp upp í loftið og sleikja sig að aftanverðu. Þjóðtrú sagði það boða gestakomu.
Setja upp hundshaus / Vera með hundshaus (orðtak) Vera óánægður; vera fúll/afundinn. „Það þýðir ekkert hjá honum að setja upp hundshaus yfir þessu; hann verður bara að bíta í það súra epli að þessu verður ekki breytt“!
Setja upp húfu/hatt/höfuðfat (orðtök) Setja höfuðfat á koll sér. „Segir sagan að fljótir hafi þeir félagar Jóns verið að setja upp húfur sínar er þeim mætti þessi sjón“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Setja upp skeifu (orðtak) Beygja af; mynda grátvipru á munni. „Það tekur því ekki að setja upp skeifu yfir því að heimalningurinn sé settur í sláturhúsið; það verður kannski annar næsta sumar, stubbur minn“.
Setja upp svip (orðtak) Verða reiðilegur/móðgaður/undrandi/hneykslaður á svipinn. „Ég sá að frúin setti upp svip þegar ég nefndi verðið“.
Setja út (orðtak) A. Hleypa fé útúr húsum; láta út. „Það mætti fara að setja féð út“. B. Í spilum; leggja spil af hendi í borðið. „Nú átt þú að setja út“. C. Um siglingu skips; miðun þeirrar stefnu í korti sem sigla skal. Ef siglt er til staðar sem ekki er í augsýn er stefna sett/stungin út í korti og síðan sigld eftir kompás.
Setja (einhvern) útaf laginu (orðtak) Fipa/rugla einhvern við það sem hann er að fást við. Vísar til þess að fipa áralag/takt manns við róður. „Nú settirðu mig alveg útaf laginu; ég þarf að byrja aftur að telja“!
Setja út af sakramentinu (orðtak) Fella í ónáð; segja upp störfum; svipta ábyrgðarstöðu. „Ég er hræddur um að þessi nýi smali verði fljótt settur út af sakramentinu ef hann liggur bara í berjum sýknt og heilagt“.
Setja út á (orðtak) A. Finna að; gera aðfinnslu/athugasemd við. „Ég held að hann hafi engin efni á að setja út á umgengni annarra“! B. Láta eitthvað út á annað. „Settu ögn meiri kanil útá grautinn fyrir mig“.
Setja yfir (orðtak) A. Setja pott á eldavél til matargerðar. „Ég set þá soðninguna yfir ef þið komið fljótlega í mat“. B. Breiða hærur yfir galta. „Það þarf að setja yfir niðri á Fitinni áður en fer að rigna“. C. Um úrkomu; koma með; setja á. „Nú held ég að hann sé að setja yfir okkur glórulaust él“.
Setjast að (orðtak) A. Búast til langdvalar. „Förum nú að koma okkur; eða ætlarðu kannski að setjast alveg að“? B. Um sár; skurma; byrja að gróa. „Það er byrjað að setjast dálítið að þessu“.
Setjast að (orðtak) A. Verða um kyrrt; búa um sig á stað; staðnæmast. „Nú þurfum við að fara að halda áfram göngunni; ef við ætlum ekki að setjast hér að“! „Þeim leist vel á bújörðina og langar að setjast hér að“. B. Umkringja; þjarma að. „Þeir settust að honum eftir þessa uppákomu, og hann viðurkenndi að lokum sín mistök“. C. Um sár/hrufl/skurð; byrja að gróa; koma bandvefur. „Ég tók umbúðirnar af og sýndist að aðeins væri byrjað að setjast að sárinu“.
Setjast að (orðtak) A. Um mann skepnu; verða um kyrrt; slá sér niður. „Heimakæri frændinn, hann rekur blómlegt bú;/ blessaður hann var að láta út kýrnar./ Ég flýtti mér þá til hans og sagði „sælinú/ ég sest hér að“; hann hvessti á mig brýrnar“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). B. Um sár; myndast skurn/húð á yfirborði; byrja að gróa; skurma. „Vertu nú ekki að rífa ofanaf sárinu eftir að farið er að setjast að því“!
Setjast að (einhverjum) (orðtak) Um það þegar einn eða fleiri hitta mann og reyna að þvinga hann eða fá til að samþykkja sinn vilja. „Þeir settust að honum og reyndu hvað þeir gátu, en hann sat fastur við sinn keip“.
Setjast að snæðingi (oðrtak) Setjast að borðum; fá sér að borða. „Settust nú allir að snæðingi og kveikt var undir kaffikatlinum“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). „Nú er Gummi kominn á Gjögra og hefur komið lömbum sínum í réttina og er þá sest að snæðingi í kofanum, eins og torfhúsið var oftast kallað“ (PG; Veðmálið). „Jól í bernsku minni voru hátíðleg haldin þannig að á aðfangadag kl sex var allt heimilisfólkið samankomið við útvarpstækið að hlýða á aftansöng. Síðan var sest að snæðingi“ (ÖG; Glefsur og minningabrot).
Setjast að spilum (orðtak) Setjast niður saman til að spila á spil. „Að því loknu var sest að spilum“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku hans).
Setjast á rökstóla (orðtak) Hefja rökræður; ræða um mál til að komast að kjarna/sannindum þess; jafna ágreining. „Við settumst á rökstóla og náðum að lokum samkomulagi“.
Setjast í dómarasæti (orðtak) Dæma; fella dóm. „Ég ætla ekki að fara að setjast í neitt dómarasæti í þessu“.
Setjast í helgan stein (orðtak) Hætta að vinna; slá sér til rólegheita. „Eruð þið alveg sestir í helgan stein þarna í aðgerðinni“?! Í líkingunni merkir steinn klaustur, og þvi er merkingin sú að ganga í klaustur.
Setjast til borðs (oðrak) Fá sér sæti við borð. „Maturinn er alveg að koma;viljiði ekki bara setjast til borð“? Af sama meiði er að „setja (einhvern) til borðs með (einhverjum“; að láta einhvern snæða með öðrum.
Setjast upp/ setjast að (orðtak) A. Um fólk; slá sér niður til langdvalar; verða um kyrrt; standa lengi við. „Það er best að fara að koma sér; ég ætlaði nú ekki að setjast hér upp“. B. Um fugl; koma í varpstað. „Nú er múkkinn farinn að setjast upp“.
Setjast upp (orðtak) A. Um fugl; koma í bjarg til undirbúnings varpi. „Múkkinn er farinn að setjast töluvert upp“. „Fuglinn er að mestu sestur upp á þessum tíma“. B. Um gest/aðkomumanneskju; gerast þaulsætinn á bæ; setjast að og vilja ekki fara. „Nú þarf ég annaðhvort að fara að koma mér, eða hreinlega setjast upp“!
Setjum sem svo... / Segjum nú... (orðtök) Ímyndum/hugsum okkur.... „Setjum nú sem svo að þessi flokkur komist í ríkisstjórn; haldiði bara að hér muni drjúpa smér af hverju strái daginn eftir“?!
Setlag (n, hk) Lag af seti, vanalega rauðleitt, milli blágrýtislaga í jarðlagastafla, t.d. í grennd við Kollsvík.
Setningsspil (n, hk) Gangspil; spil sem notað er til setningar á bát. „Tvö setningsspil voru í Kollsvík frameftir 20.öld; eitt í Kollsvíkurveri og annað ofanvið vörina í Láganúpslendingu“.
Setningur (n, kk) Það verk að draga bát upp, þannig að öruggt sé fyrir sjógangi. Var áðurfyrr jafnan í karlkyni í máli Kollsvíkinga, en vegna aðkominna áhrifa er það líklega oftar í kvenkyni nú. „Við setning voru alltaf notaðir hlunnar, er lagðir voru fyrir bátinn það þétt að jafnan voru tveir undir kjölnum samtímis“ (KJK; Kollsvíkurver).
Setprik (n, hk) Prik í hænsnahúsi/hænsnakofa, sem hænur sitja á.
Setskauti (n, kk) Hluti af skinnbrókum; sjá skinnklæði. „Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; eitt í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur“ (KJK; Kollsvíkurver).
Settla (s) Gera málamiðlun; stilla til friðar; koma á hreint. „Honum tókst að settla málin áður en til meiri ófriðar kom“. „Ætli við þurfum ekki eitthvað að settla þetta með skuldamálin“.
Settlega (ao) Myndarlega; reglulega; snyrtilega; rétt. „Mér fannst öllu mjög settlega fyrir komið“.
Settlegur (l) Myndarlegur; reglulegur; í góðu/réttu formi; snyrtilegur. „Frúin trítlaði á eftir; settleg og hringaskreytt“.
Setur (n, hk) A. Aðsetur höfðingja/prests; stytting úr höfðingjasetur/prestssetur. „Prestssetur var lengi í Sauðlauksdal“. B. Stór varpstaður bjargfugla; stytting úr fuglasetur. „Það er vel orpið í Setrunum“.
Sexflakandi (l) Um stærð á lúðu og skiptingu hennar í stykki. „Aftara flakið var látið halda fullri lengd á þeirri lúðustærð sem nefndar voru langflökur. Á stærri lúðum var þverbiti tekinn, jafnt vaðhornsskurði og þá voru þær kallaðar sexflakandi“ (KJK; Kollsvíkurver). Sjá nánar um „vaðhorn“.
Sexróinn (l) Um bát; róið af sex ræðurum allajafna.
Sextantur (n, kk) Mælitæki, einkum notað fyrr á tíð í skipum til staðarákvarðana og stefnumiðunar. Nafnið er dregið af því að skali tækisins tekur yfir sjötta part úr hring, eða 60 gráður. Notkunin felst í því að fá tiltekna stjörnu til að sýnast vera við sjóndeildarhring, en þá var hægt að reikna út þá breiddargráðu sem skipið var á. Ekki er vitað til þess að Kollsvíkingar hafi notað sextant til siglinga til eða frá víkinni, þó sumir hafi eflaust þekkt notkun hans.
Sexæringur (n, kk) Bátur af vissri stærð; oftast róinn af sex mönnum, en það var þó ekki einhlítt. „Sexæringar (á Tálknafirði og Arnarfirði) voru einkum notaðir til hafróðra og flutninga... Þeir voru áttrónir þótt þeir væru nefndir sexæringar. Allir sexæringar voru tvísigldir, og fylgdi þeim því tvö möstur, tvö segl og ein fokka. Útleggjari fyrir klýfi þekktist ekki fyrr en sprytsiglingin sunnlenska kom til sögunnar, rétt fyrir aldamótin (1900)“ (Ingivaldur Nikulásson; Barðstrendingabók).
Seyði (n, hk) Soð; súpa; soðvatn þess sem verið er að sjóða. Oftast er talað um seyði þegar soðnar eru jurtir, t.d. fjallagrasaseyði.
Seyðingur / Seyðingsverkur (n, kk) Langvarandi verkur, ekki mjög sár en óþægilegur. „Ég er kominn með einhvern fjárans seyðing í endajaxlinn. Ætli ég þurfi ekki að fara að líta til tannlæknis bráðlega“.
Seyma (s) Negla/festa með saum; oftast notað um bátasmíði. Bátar gátu verið þéttseymdir eða gisseymdir.
Seyma upp (orðtak) Endurnýja/bæta neglingu/seymingu á báti. „Það þyrfti að fara að seyma bátinn upp“.
Seymi (n, hk) A. Hverskonar saumur eða efni til sauma. B. Þráður til sauma; t.d. skinnklæða og skóa, fenginn úr sinaböndum sem liggja ofan á hryggvöðvum nautgripa, hrossa og hvala. Sinarnar voru þurrkaðar og þá mátti fá úr þeim fína og grófa þræði að vild.
Seymur (n, kk) Saumur. Orðið er eingöngu notað núorðið í orðtakinu að draga seyminn, þ.e. segja eitthvað með áberandi langri áherslu á sérhljóða. Ekki fer á milli mála að það orðtak vísar til sauma; til þess að draga langan þráð í gegnum klæði. Orðið „seymi“ sem nú er oftast í hvorugkyni, hefur því fyrrum verið í karlkyni.
Seyra (n, kvk) A. Drulla; efja; mykja. B. Stundum notað eingöngu um mannasaur sem safnað hefur verið í rotþró eða skítaþró. Fyrrum var seyra talin mikilvægur áburður og borin á tún. T.d. nýtti Guðbjartur á Láganúpi seyruna úr kamrinum þar meðan hann var. En nú veldur einhver pempíuháttur því að þessi dýrmæti áburður er urðaður; engum til gagns. C. Fátækt, bágindi. Sbr. búa/lifa við sult og seyru.
Seytl (n, hk) Vætl; sigt; sytra; lítið rennsli vatns eða annars vökva. „Víða er seytl úr jörðu á Hústóftarbökkunum“.
Seytla (s) Vætla; renna lítilsháttar. „Heimantil við Litlavatn seytlar vatn undan Strympuormunum“.
Sexróinn bátur (orðtak) Bátur með sex ræðum/keipum, sem unnt er að róa með sex árum. „Þeir fara frá Kollsvík fyrri part dags af stað, á róðrarbát sem hét Heppinn. Þetta var sexróinn bátur, eins og flestir bátar voru þá sem sóttu sjó með lóðum sem veiðarfæri í Kollsvík“ (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).
Sextugt (l) Sextíu faðma sjávardýpi/hæð bjargs. „Þar er sextugt af brún í fjöru“. „Snemma virðist sá háttur komast á að telja sextug (þ.e. 60 faðma) færi hæfilega löng“ (GG; Skútuöldin).
Sexæringur (n, kk) Bátur sem róinn er af sex ræðurum, þ.e. með tólf ræði. Þeir voru oft um 23-27 fet að lengd eða 7-8 ½ m, og burðargetan oft um 4 tonn. Sexæringar og stærri för voru gjarnan nefnd skip en bátar minni. „Þar sem Miðlandahilla er breiðust mætti hvolfa sexæringi“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Séð það svartara (orðtak) Sjá sjá það svartara.
Ség (s, þt) Þátíð orðsins að „síga“ var yfirleitt með þessum hætti í Rauðasandshreppi áðurfyrr, þó nú sé „seig“ almennt notuð. „...þegar hlaup var í ánni ruddi hún möl og rofahnausum í Síkið; eins ség jarðvegur frá mýrlendinu milli Holtanna og þrengdi farveginn“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Sélegur (l) Laglegur; vel útlítandi. „Þetta er hinn sélegasti gripur“.
Séní (n, hk) Dönskusletta, upptekin á síðari árum í merkingunni gáfnaljós/snillingur.
Séns (n, kvk) Sletta, upptekin á síðari árum í merkingunni möguleiki.
Sénslaust (l) Ómögulegt. Dregið af slettunni séns.
Sér (ao) Sér í lagi; sérstakur; aðskilinn frá öðrum. „Tvílembur eru hafðar í sér hólfi“.
Sér/sést á (orðtak) Má sjá á. „Nú er ég glaður á góðri stund/ sem á mér sér“ (Hallgrímur Pétursson).
Sér á grís hvar í garði er alinn (orðatiltæki) Útlit eða framferði manns ber oft upprunanum vitni. „Það var þá fögnuður að fá þennan flokkahlaupara í framboð; sér á grís hvar í garði er alinn“!
Sér á parti (orðtak) A. Sérstaklega; beinlínis; sér í lagi. Vegagerðin þarf að veita fé í þennan veg, sér á parti“ B. Einstakur; sérstakt mál/atriði. „Þarna voru margir góðir leikarar, en hann var alveg sér á parti“.
Sér eignar smalamaður fé (þó engan eigi hann sauðinn) ( orðatiltæki) Menn láta oft sem þeir eigi það sem þeir höndla með í umboði annarra.
Sér ekki á dökkan díl (orðtak) Svo mikill snjór á jörðu að fátt stendur uppúr; allt hvítt af lausamjöll. Sjá dökkur díll og rauð jörð.
Sér ekki á svörtu (orðtak) Sjá það sér ekki á svörtu.
Sér ekki fyrir endann á (orðtak) Sjást engin endalok á. „Það sér ekki enn fyrir endann á þessari kuldatíð“.
Sér ekki fyrir vend (á vað) (orðtak) Um það þegar vaður er gefinn svo hratt niður í bjargsigi að ekki sjást skil vafninga á honum þegar hann rennur um hendur undirsetumanna. „Ef um stórt loftsig var að ræða var vönum sigara gefið svo fljótt að ekki sá fyrir vend á vaðnum“ (LK; Ísl.sjávarhættir V).
Sér ekki högg á vatni (orðtak) Sést ekki að neitt sé farið/eytt/horfið. „Þrátt fyrir alla þessa miklu eggjatöku virtist ekki sjá högg á vatni; þetta hafði engin áhrif á fuglastofnin“. Líkingin á víð það að ekki sér á vatni þó höggvið sé í það.
Sér ekki út úr augum (orðtak) Um dimmviðri; lítið skyggni vegna úrkomu/snjókomu/kófs. „Það þýðir ekkert að leggja af stað í þessu; það sér ekki út úr augum fyrir byl“.
Sér er (nú) hver/hvað (orðtak) Upphrópun í byrjun andsvara í þrætu eða hneykslun. „Hann segist hafa látið moka hingað í gær. Sér er nú hver moksturinn, þegar vegurinn er gjörsamlega tepptur niðri í Hæðinni“!
Sér fyrir / Sér móta fyrir (orðtök) Sjást mót á; mótar fyrir. „Þarna sér ennþá fyrir tóftum“.
Sér fyrir endann á (orðtak) Fer að ljúka. „Loksins fer að sjá fyrir endann á þessari netahreinsun í bili“.
Sér hver heilvita maður / Sér hver sjáandi maður (orðtök) Getur hver maður séð; eir greinilegt. „Svona getur þetta ekki gengið; það sér hver heilvita maður“! „Þetta hlýtur hver sjáandi maður að sjá“!
Sér í hann hvítan (orðtak) Um sjólag; brotnar úr báru; fellur úr báru; hvítnar í báru (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar. „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi. Jók það báru mjög fljótt, þannig að farið var að falla af báru og sjá í hann hvítan“ (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).
Sér í lagi (orðtak) Sérstaklega; einkanlega. „Sér í lagi þykir fýlnum lifrin herramannsmatur“.
Sér til óbóta (orðtak) Svo manni verður illt af; svo manni líður illa. „Nú er ég búinn að éta mér til óbóta“.
Sér til sálubótar/sáluhjálpar (orðtök) Sér til hugarhægðar/yndisauka. „Maður er nú meira að hripa þessi orð niður sér til sálubótar en af einhverri fræðimennsku; hvað þá heldur af nokkurri getu“.
Séra (n, kk) Titill presta og prestvígðra manna. Var undantekningarlaust viðurnefni á undan nafni þeirra fyrrum, en stundum sleppt nú á tímum. „Séra Grímur Grímsson bjó síðastur presta í Rauðasandshreppi“.
Sérdeilis / Sérleiðis (l) Mjög; sérstaklega. „Það væri sérdeilis gaman ef þið létuð sjá ykkur í veislunni“.
Sérdrægni (n, kvk) Hlutdrægni; eigingirni; viðleitini til að skara eld að sinni köku. „Mér finnst að þeir hafi sýnt verulega sérdrægni í þessum vegamálum“.
Sérdrægur (l) Hneigist til hlutdrægni/eigingirni/sérdrægni.
Sérframboð (n, hk) Framboð utan flokka á pólitískum vettvangi.
Sérfróður (l) Fróðari en almennt gerist um tiltekið efni. „Hann er sérfróður á þessu sviði“.
Sérfræðingur (n, kk) Maður sem er sérfróður/ sem veit meira en hver annar um tiltekið efni. Sú fráleita hefð hefur skapast í íslensku nútímamáli að orðið eigi eingöngu við um þá sem lengsta hafa skólagönguna. Þetta er ein af skaðlegustu kreddum nútímaþjóðfélags, og veldur því að illa nýtist þekking hinna fjölmörgu sem hennar hafa aflað af eigin rammleik og/eða búa yfir meðfæddum hæfileikum. Hluti af menntasnobbi. Sjá einnig undirlægjuháttur.
Sérgáfa (n, kvk) Sérstakur meðfæddur hæfileiki.
Sérgóður (l) Sjálfgóður; sérhlífinn. „Það þótti hinn mesti löstur í Kollsvík að vera sérgóður og nískur“.
Sérgæðingur (n, kk) Sá sem er sérgóður. „Sumum þótti hann heldur mikill sérgæðingur í þessu efni“.
Sérgæðingsháttur (n, kk) Sú tilhneyging að halda sig og sína betri/æðri/fullkomnari en aðra. „Þessi fjölskkylda hefur komið sér fyrir í ráðandi stöðum samfélagsins af óverðskulduðum sérgæðingshætti“.
Sérhlífinn (l) Hlífir sér við vinnu/fyrirhöfn; latur. „Hann er helst til latur og sérhlífinn finnst mér“.
Sérhlífni (n, kvk) Leti. „Mér finnst þetta nokkur sérhlífni af honum“!
Sérhver jafnan sínu ann (orðtak) Hverjum þykir vænst um sitt/ sínar eigur/ sína vandamenn.
Sérhvur (fn) Sérhver; sérhvor. Nokkuð algeng framburðarmynd var áðurfyrr. „Þetta getur sérhvur maður séð“.
Sérílagi (ao) A. Sérstaklega; einkanlega. „Egg eru viðkvæm í flutningum; sérílagi múkkaeggin“. B. Sér; útaf fyrir sig. „Það er betra að sjóða lifrina sérílagi, en ekki með fiskinum“.
Sérkenni (n, hk, fto) Síðari tíma orð yfir einkenni.
Sérkennilegur (l) Einkennilegur; sérstakur; sker sig úr. „Niðurundan Þúfustekk er sérkennilegt vik eða skarð í hjallanum, nánast ferhyrnt að lögun, og heitir Klettakví“ (HÖ; Fjaran).
Sérlega (ao) Sérstaklega; mjög; afar. „Hann er sérlega laginn við svona smíði“. „Ekki þykir mér þetta sérlega gott, en hollt mun það vera“.
Sérlegur (l) Sérstakur. „Hann var sérlegur sendiboði stjórnvalda í þessum málum“.
Sérlundaður / Sérsinna (l) Sá sem hugsar öðruvísi en aðrir; sérvitur. „Hann þótti alltaf dálítið sérlundaður“.
Sérmunalega (ao) Sérdeilis; sérstaklega; einstaklega; afar; mjög. „Mér fannst þetta sérmunalega súrt í brotið, og lét óánægju mína skýrt í ljósi“. „Þetta finnst mér sérmunalega fráleit aðgerð“!
Sérmunalegur (l) Sérstakur; einstakur; mjög mikill. „Þetta var alveg sérmunalegur klaufaskapur“! Oriðn „sérmunalega“ og „sérmunalegur“ voru nokkuð almennt notuð í máli Kollsvíkinga framundir þennan dag, en virðast ekki hafa þekkst annarsstaðar.
Sérplæginn (l) Sérgóður; eigingjarn; hugsar mest um eigin hag.
Sérplægni (n, kvk) Eigingirni; síngirni; gróðahyggja.
Sérréttindi (n, hk, fto) Réttur umfram það sem almennt gerist; forréttindi.
Sérsaumaður (l) Um fatnað; saumaður sérstaklega til að passa viðkomandi manneskju.
Sérsinna (l) Sérvitur; sérlundaður; dyntóttur. „Sumum þótti hún dálítið sérsinns, en ég komst vel af með hana“.
Sérstaða (n, kvk) Það sem gerir eitthvað einstakt/sérstakt. „Sérstaða landslags á þessum slóðum liggur ekki síst í því að það er ómótað af skriðjöklum og stórfljótum á síðari tímum“.
Sérstaklega (ao) Einstaklega; mjög. „Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þessu“. „Ég þakkaði öllum fyrir, en henni þó sérstaklega fyrir þessa dýrmætu gjöf“. „Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu“ (PG; Veðmálið). „Heyrðu hérna lagsi, lýst þér ekki á mig?/ Lagleg er ég, sérstaklega í myrkri./ Ég fylgi þér í rúmið, þá fer svo vel um þig,/ og faðma þig með jómfrúrhendi styrkri“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Sérstæður (l) A. Sá sem stendur sér/ aðskilinn frá öðrum. B. Sérstakur; einkennilegur. „Hann var óumdeilanlega mjög sérstakur karakter“.
Séruppdráttur (n, kk) Sérstakt kort; sérstök teikning mannvirkis. „Teiknarinn Samúel Eggertsson bjó um tíma á Grund/Torfamel í Kollsvík og teiknaði þá séruppdrátt af Kollsvík og nágrenni“.
Sérviska (n, kvk) Sterk persónueinkenni í háttum/vilja; ákveðni í skoðunum; kenjar; duttlungar. „Sumir kalla það sérvisku að éta ekki þetta græna vatnsglundur sem kallast agúrka“.
Sérviskufullur (l) Haldinn mikilli sérvisku.
Sérviskufugl / Sérviskugaur / Sérviskuhundur / Sérviskupúki (n, kk) Sérvitringur; sá sem þykir helst til fylginn sér í skoðunum; mjög sjálfstæður í hugsun. „Þú færð þann sérviskufugl seint inn á þetta“. „Hann er óttalegur sérviskuhundur; það verður ekki af honum skafið“.
Sérviskukjaftæði / Sérviskurugl (n, hk) Fullyrðing sem talin er byggð á sérvisku. „Þetta er nú bara eitthvað sérviskukjaftæði, sem ekkert mark er á takandi“!
Sérvitringur (n, kk) Sá sem er sérlundaður/dyntóttur/öðruvísi í háttum/skoðunum en fjöldinn.
Sérvitur (l) Dyntóttur; hefur aðrar skoðanir en tíðkast; sérlundaður. „Karlinn var ekki vitlaus en afar sérvitur“.
Sést það síst sem nefinu er næst (orðtatiltæki) Maður sér stundum ekki það sem er nálægt. Um það var einnig sagt „það var of nærri mér“. Stundum haft um það að menn gagnrýni fremur hjá öðrum en sjálfum sér.
Séttla (s) Jafna; róa; friða. „Það verður að fara í að séttla þetta deilumál; það bíður sér ekki til bóta“.
Séttla málin (orðtak) Jafna ágreining; lægja öldurnar; friða. „Hann reynir til að séttla málin milli bæjanna“.
Séttlaður (l) Um mál/ágreining; búið að sætta; komin niðurstaða í. „Við getum ekki slitið fundi fyrr en þessi álitamál hafa verið séttluð“.
Séttla sig / Séttlast (orðtak/s) Róast; færast friður/ró yfir. „Við látum féð vera í hólfinu meðan það er að séttla sig“. „Úr þessu spunnust töluverðar deilur sem voru lengi að séttlast“.
Siða / Siða til (s/orðtak) Aga; ala upp; temja góða siði. „Það þyrfti aðeins að siða strákinn til“.
Siðaboð (n, hk, fto) Regla í siðferði; boðorð. „Rituðu margir riðuspá/ og reistu siðaboðin há./ /Engum griðum ærnar ná;/ úti er friður bændum hjá“ (ÖG; glefsur og minningabrot; ort þegar riðufé í Tálkna var skotið).
Siðaður / Siðmenntaður (l) Uppalinn; agaður; temur sér góða siði; kurteis. „Hagaðu þér nú eins og siðaður maður“!
Siðapostuli / Siðapredikun / Siðavendni / Siðferði (n, kvk) Ströng eftirfylgni þess sem viðkomandi ætlar að séu ríkjandi og góðir siðir samfélagsins; umvandanir við þá sem síður feta þann þrönga veg og þeir sjálfskipuðu regluverðir sem bera hitann og þungann af þessu. „Yfirleitt hafa Kollsvíkingar ekki mikið tafið sig við umhyggju fyrir kreddum samtímans, né heldur hlaupið eftir siðaboðskap sem á hverjum tíma er í tísku. Þeirra æðstu lögmál eru þau sem náttúran setur; þeirra helsta kennisetning er lífsbarátta. Þó hafa í þeirra hópi verið einstaklingar sem telja verður siðavanda í meira lagi. Hinir nafntoguðustu eru allt kvenfólk, sem bendir til að karlpeningurinn sé ekki eins smámunasamur á siðalögmálin. Á fyrri öldum rétttrúnaðar og kirkjulaga fólst starf siðapostulanna einkum í að halda breyskum lýðnum við trúarsetninguna; líta eftir að siðsemi væri gætt; að ástamál fylgdu stéttvísi; föstur væru haldnar og guðsorð haft um hönd fremur en hin litríku áhersluorð sem Kollsvíkingum eru nokkuð töm á tungu. Á fyrrihluta 20. aldfarinnar þróaðist starf siðapostulanna meira í það að halda fólki að góðum ungmennafélagsgildum; forðast brennivínsfjandann og gæta siðsemi í ástamálum. Eftir að hinir öflugu siðapostular hættu að þruma sína siðavendni yfir Kollsvíkingum og öðru útnesjafólki var þess stutt að bíða að hrun yrði í byggðinni. Má svo hver velta fyrir sér samhenginu þar á milli“.
Siðasakir (n, kvk, fto) Kurteisissakir; yfirskin kurteisi/siðsemi/venju. Sjá fyrir siðasakir.
Siðaskipti (n, hk, fto) Nafn sem jafnan er notað um það þegar Danakóngur og höfðingjaveldi hans þröngvuðu Íslendingum til að kasta rótgrónum kaþólskum siðum og taka upp nýja lútherska siði kristinnar trúar. Er vanalega miðað við að þetta hafi orðið haustið 1550, en þá var Jón Arason Hólabiskup; síðasti forvígismaður kaþólskra Íslendinga, hálshöggvinn í Skálholti. Siðbreyting í trúmálum var þó mestmegnis yfirvarp kóngs, sem í skjóli hennar sölsaði undir sig eignir kirkjunnar; kom á ýmsum ströngum lagabreytingum, t.d. með Stóradómi og bjó í haginn fyrir hina illræmdu dönsku einokunarverslun. Fyrir íslenska bændur fólst breytingin líklega helst í því að í stað kúgunar kaþólskrar kirkju kom nú kúgun kóngsins og höfðingja hans. Sama skýring virðist vera á siðaskiptunum annarsstaðar í Evrópu. Kirkjan var orðin valdamikil, rík og innan hennar þreifst allmikil spilling. Stjórnvöld gripu því víða feginshendi þessa tylliástæðu hreintrúar til að seilast eftir auði og völdum kaþólskrar kirkju. Vitanlega sótti smám saman í sama farið hjá hinni nýju kirkju varðandi spillingarmál, en girðingar voru settar við fyrri auðsöfnun.
Siðferði (n, hk) Hegðun með tilliti til siða, trúar og hefða. Oft í munni þeirra sem vilja upphefja sjálfa sig.
Siðgæði (n, hk) Óljóst hugtak og hvergi vel skilgreint, en vísar til siðferðiskenndar og góðra siða.
Siðlaus (l) Merkingarlaust hugtak, enda er enginn án siða eða lífsgilda af einhverju tagi.
Siðmenning (n, kvk) Menningarsérkenni hvers þjóðfélags eða samfélagshóps. Þannig hefur siðmenning t.d. Kollsvíkinga verið nánast sú sama og annarra Útvíknamanna; lítt frábrugðin því sem gerðist í næstu byggðum á sunnanverðum Vestfjörðum, en í fleiri atriðum frábrugðin t.d. Faxaflóasamfélaginu.
Siðprúður (l) Til fyrirmyndar í hegðun/siðum/kurteisi.
Siðsamlega (ao) Af siðsemi; með góðu/siðuðu framferði. „Hagaðu þér nú siðsamlega“!
Siðsamlegur (l) Háttprúður; siðprúður; sem sýnir háttvísi/kurteisi. „Þetta er nú ekki vel siðsamlegur klæðnaður við svona tækifæri“.
Siður (n, kk) A. Venja; ávani. „Hann hafði það til siðs að hella kaffinu úr bollanum á undirskálina og súpa af henni“. B. Háttprýði; góð venja; kurteisi. „Mikil áhersla var á að ala börnin upp í guðsótta og góðum siðum“. C. Trú; trúarbrögð. „Í Kollsvík var hálfkirkja í kaþólskum sið“.
Siðvenja (n, kvk) Venja; siður; hefð. Enn er í Kollsvík haldið þeirri siðvenju að biðja sjóferðabæn.
Sifjabönd (n, hk, fto) Skyldleiki; fjölskyldutengsl; mægðir. „Ég held að þeir séu tengdir einhverjum sifjaböndum, þó ég kunni ekki að rekja það“.
Sifjaður (l) Mægður; tengdur sifjaböndum. „Ég held að þeir séu sifjaðir í fjórða legg“.
Sifjamál (n, hk) Dómsmál sem rís vegna gruns um sifjaspell“.
Sifjaspell (n, hk) Blóðskömm; samfarir einstaklinga sem teljast of skyldir samkvæmt lögum.
Sig (fn) Svonefnt „afturbeygt fornafn“; hefur þá séstöðu að nefnifall er ekki til. „Það er best að fara að drífa sig“. „Þetta hefur ekkert uppá sig“. „Það segir sig sjálft“.
Sig (n, hk) A. Það að síga í bjarg, t.d. eftir fugli, eggjum eða fé. „Niður á Miðlandahillu er langt sig“. B. Stag sem sett er yfir bát, hús eða annað til að ekki fjúki. „Sett var sig yfir húsið og stórgrýti í hvorn enda“. C. Grjót sem stagað er neðan í hornstaur eða aðra hluta girðingar til að halda henni niðri í lautum.
Sigaband / Sigafesti (n, hk/kvk) Heyrðist sjaldan; venja var að tala um bjargtóg, bjargvað, sigtóg, sigvað eða einungis vað.
Sigamaður / Sigari (n, kk) Maður sem sígur í björg til fyglinga, eggja o.fl. „Hann var þrælvanur sigari og því sjálfsagt að fara að hans ráðum“. Venja var vestra að tala ýmist um sigmann eða sigara.
Sigðarlaga / Sigðboginn (l) Í laginu eins og sigð; bogið; hálfmánalagað.
Sigg (n, hk) Þykkildi sem myndast á hornhimnu húðar við endurtekið álag og núning; t.d. á höndum vegna mikillar vinnu eða á fótum vegna langra gönguferða.
Sigga dýra (sérnafn) Heiti á villisjeppa sem Össur og Ingvar í Kollsvík áttu um tíma í sameiningu á 7. áratug 20.aldar. Nafnið fékk jeppinn hjá fyrri eiganda, en það fylgdi honum síðan.
Sigggróinn (l) Með mikil þykkildi af siggi á höndum vegna vinnu. „Þegar menn byrja á erfiðisvinnu með höndum, s.s. rakstri, mokstri, steinhleðslu, vaðdrætti, róðri eða netadrætti, verða hendur fyrst fjári aumar og drifblöðrur myndast á álagsstöðum. En eftir nokkurn tíma þykknar skinnið og sigg kemur í þeirra stað. á endanum verða hendur sigggrónar og þola þá vel hið endurtekna álag“.
Siginn (l) Sem hefur sigið/hnigið/lækkað. „Heyið í hlöðunni er töluvert sigið, eftir að hitnaði í því“.
Siginn blundur á brá (orðtak) Sofnaður; farinn að sofa. „Mér sýnist að honum sé siginn blundur á brá, þarna í hægindastólnum“.
Siginn fiskur / Sigin grásleppa (orðtök/heiti) A. Fiskur, oftast smár þorskur eða ýsa, sem hengdur er á rá í hjall slægður og hausaður og látinn verkast þannig að fiskurinn visast og breytir bragði án þess að úldna. Tveir eru festir saman í spyrðu með bandsmeyg; spyrðubandi, sem hert er að stirtlunum með snúningi. Leggjast fiskarnir þannig sinn hvorumegin við rána. „Stærri fiskur en 12 tommur var yfirleitt flattur og saltaður eða hafður í skreið. Fiskur sem átti að visast var alltaf spyrtur, þ.e. tengdir saman tveir og tveir með lykkju; spyrðubandi og kallaðist parið spyrða. Stakur siginn fiskur nefnist spyrðingur.... Spyrðubönd voru jafnan úr slitinni línu. En eigi að síður var þeim safnað saman jafnóðum og þau losnuðu. Snúningurinn var tekinn af og spyrðuböndin geymd kippuð. Það var gömul trú að þau ættu að draga að afla, samanber málshátturinn „Gefst í gjörðar spyrður“. B. Grásleppa sem hengd er upp slægð en í heilu lagi og látin þorna/síga í nokkurn tíma. Einnig fyrrum nefnd afsigin grásleppa (sjá hrognkelsi). Grásleppa var látin síga í heilu lagi í Kollsvík, en ekki flökuð og kúluð eins og sá rauði, þunni og ónýti þráagrautur með sama nafni sem tíðkast syðra.
Sigla / Siglutré (n, kvk) Mastur á báti. Að reisa siglu var nefnt að tréreisa (sjá sigling).
Sigla (s) A. Koma báti leiðar sinnar með seglum og stjórna honum (sjá sigling). „Gísli gamli kom æpandi á móti syni sínum og sagði: „Ja þetta áttir þú ekki að gera. Þú áttir að sigla; halda á að sigla. Þá hefðir þú haft lagið upp“ “ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). Sjá sigling. B. Ferðast til útlanda.
Sigla af sér (orðtak) Sigla hraðar en annar bátur. „Eftir að Ólarnir komu á hraðbátinn voru þeir fljótir að sigla af sér alla aðra grásleppubáta“.
Sigla á reiðanum (orðtak) Láta bát/skip berast undan vindi með mastur og reiða uppi en án segla. Slíkt er gert ef vindur er svo mikill að báturinn þolir engin segl. Við þá siglingu er báturinn undir stjórn, en sé hann það ekki er það nefnt að láta reka á reiðanum.
Sigla beitivind / Sigla nærri vindi (orðtak) Beita uppí; sigla bát eins nærri mótvindi og unnt er.
Sigla/fara bil beggja (orðtak) A. Sigla skipi mitt á milli tveggja hindrana, t.d. boða. B. Líkingamál; Fara meðalveginn við lausn máls.
Sigla brattan/krappan/úfinn sjó (orðtak) A. Sigla í miklum/úfnum sjó. B. Líkingamál; standa í stórræðum með mál/verkefni sem við er að fást; mæta erfiðleikum/andstöðu.
Sigla fullum seglum (orðtak) A. Sigla með öll segl uppi; tjalda því sem til er. B. Líkingamál; reka málefni/verkefni af fullum krafti.
Sigla fyrir (orðtak) A. Sigla fyrir/yfir víkina. „Þarna er tvímöstruð skúta að sigla fyrir“. B. Líkingamál; forðast ásteyting/hindrun varðandi verkefni/málarekstur. „Við reynum að sigla fyrir þetta vandamál“.
Sigla fyrir lausu (orðtak) Um siglingu báts, þegar formaður/stýrimaður hefur dragreipið í hendi sér en setur það ekki fast, til að vera viðbúinn að lækka seglið í viðsjárverðri siglingu.
Sigla fyrir (öll) sker (orðtak) A. Sigla skipi svo djúpt að ekki steyti á grynningum og skerjum. B. Líkingamál; forðast vandræði/mótlæti/ásteyting. „Það verður seint siglt fyrir öll sker í svona málum“.
Sigla heilu fari/skipi í höfn (orðtak) Komast klakklaust í gegnum eitthvað. „Enn er ekki ljóst hvort hann siglir heilu fari í höfn eftir þennan málarekstur“.
Sigla hraðbyri (orðtak) A. Sigla hratt í góðum byr. B. Líkingamál; fara hratt/rakleiðis í átt að tilteknu marki. „Ég fæ ekki annað séð en þetta fyrirtæki sigli hraðbyri í gjaldþrot, með sama áframhaldi“.
Sigla í áslögum (orðtak) Nota beitiás þegar sigldur er beitivindur með þversegli (sjá beitiás og sigling).
Sigla í grænni tóft (orðtak) Sitja í grænni tóft sjá þar. Sigla þannig að svo virðist sem sjór sé hærri borðstokkum bátsins, en haldist frá af ferðinni.
Sigla í harða húnboru (orðtak) Sigla með segl órifuð og rá við húnboru/mastursauga, sem er gat ofarlega í siglu, sem dragreipið liggur um. Í líkingamáli er orðtakið notað um það að fara fram af fullum þunga, eða berast mikið á.
Sigla í strand (orðtak) Sigla skipi óvart þannig að það strandar. „Togarinn sigldi í strand á Blakknesboða“.
Sigla krappan sjó (orðtak) Sigla í slæmu sjólagi. Óbein merking; að lifa við hættur. „Oft sigldi Andrés krappan sjó í bókstaflegri merkingu, t.d. fór hann oft sinna ferða í því veðri sem stærri skip töldu sig fullkeypt á“ (ÖG; minningargrein um AK).
Sigla ljúft (orðtak) Sigla bát fremur flatt með vindi.
Sigla milli skers og báru (orðatiltæki) Fara milliveginn þegar um tvo kosti er að ræða, til að forðast vandræði. Sjá vandi er að sigla milli skers og báru og fara milli skers og báru.
Sigla niður (orðtak) Sigla á annað skip eða rekald svo það sekkur.
Sigla sama byr (orðtak) Sigla við sömu skilyrði vinds og sjólags. „Það sigla ekki allir sama byr“ merkir í líkingamáli að „misskipt er mannanna láni“; ekki njóta allir sömu velgengni.
Sigla sinn sjó (orðtak) Fara leiðar sinnar; fara þangað sem vill. „Hann verður þá bara að sigla sinn sjó ef hann vill ekki verða samferða okkur“. Sjá láta sigla sinn sjó.
Sigla strik (orðtak) Sigla í þá stefnu sem ákveðin hefur verið, t.d. sett út í korti.
Sigla til sama lands (orðtak) Fara heim; koma sér á sinn stað. „Jæja; nú er orðið áliðið og ég held að maður fari bara að sigla til sama lands bráðum“. Einnig stundum einungis „sigla“, viti viðstaddir hvað við er átt.
Sigla upp / Sigla uppundir (orðtak) Sigla í land; fara í áttina til lands. Notað eftir tíma seglbáta um róðrar- eða vélbáta. „Við skulum nú fara að sigla aðeins upp; við getum þá rennt einhversstaðar á leiðinni“.
Sigla við laust (orðtak) Sigla bát þannig að formaður heldur sjálfur við skaut segls og stjórnar því, en setur það ekki fast. Hann hefur seglið þá á höndum, sem kallað er.
Sigla þvert (fyrir vindi) (orðtak) Sigla með vind þvert á annað borðið. Sé vindur stífur getur slíkt reynt allmjög á hæfni báts og stjórnenda.
Siglari (n, kk) Skip sem fer vel í sjó/ lætur vel að stjórn undir seglum.
Sigldur (l) A. Farinn í siglingu. B. Líkingamál; búinn að fara til útlanda. „Hann var heldur betur rogginn með sig þegar hann kom úr reisunni; enda orðinn sigldur maður“!
Sigling Sjómenn í Útvíkum þurftu að kunna sitthvað fyrir sér í siglingum og vera naskir á sjólag til að tryggja öryggi sitt og annarra. Einkanlega reyndi á formennina, sem höfðu alla stjórn á hendi og stýrðu skipi. Notuð voru þversegl á minni bátum, þó aðrar seglagerðir hafi komið til á síðari öldum á þeim stærri. Formaður sagði fyrir um reisingu segla og hélt um stýri (sjá setja fyrir). „Að hafa geiglausa og listilega stjórn á stýri, jafnt í lognsævi sem spildusjó og háaroki, var óvéfengjanleg íþrótt... Ávallt reyndist munur á mönnum við stýri og kom margt til. Ef skip þótti skima mikið; vera óstöðugt í rásinni var það kallað að elta lambær... Stundum reis skip svo hátt í sjónum að það var hálft á lofti að aftan og við það missti stýrið sjó. Var þá sagt að skæri undan. En þá stýrðist ekki og skipið rann við og átti á hættu að taka sjó. Til að auka meðbyr þótti áhrifaríkt að leita sér lúsa og fleygja þeirri veiði aftur af skipinu. Aðrir létu lúsina á þóftu og veittu athygli skriði hennar; átti byrinn að koma úr sömu átt. Loks létu sumir lúsina í seglið. Með þessum aðferðum vonuðust menn eftir lúsabyr... Hvor sem þessi ráð dugðu betur eða verr þurfti oft að halda þangað sem kulaði; að róa undir vind. Væri svo lítið kul að róa þurfti undir seglum var talað um að damla undir. Þegar seglbúið var fylgdu því ýmiss konar fyrirskipanir formanns til háseta: Setjið upp og greiðið úr seglum! Tréreisið! Takið til! Einn maður réð við að tréreisa á bátum....Jafnskjótt og tréreist hafði verið, masturshællinn var kominn í stellinguna og mastrið hespað við þóftu, voru stagir leystir frá siglunni og síðan stagað í stafn og á bæði borð; framstag vanalega fest á undan höfuðbendum. Meðan jómfrúr og undirgjarðir voru notaðar voru stagir hertir með þeim, en eftir að stagkrókar komu var stagað með því að krækja þeim í lykkju í hástokk eða í hlekki. Á einsigldum sexæringi með þversegli tréreistu andófsmenn, en miðskipsmenn tóku sinn hvora höfuðbendu og festu þeim. Annar hálsmaður festi forstag um hnýfil en hinn greiddi fyrir segli og hnýtti dragreipinu um rána. Síðan var miðskipsmanni á kulborða fengið dragreipið en hinn greiddi fyrir skauti aftur til formannssætis, en það var vanalega dregið undir röng og sett fast í skut... Áður en hægt var að vinda til húns þurfti að fletta seglinu utan af ránni og festa dragreipið við hana með rábragði. Væri beitiás þurfti, strax og segl var komið að húnboru, að leggja í áslag, en það var að festa innri enda hans í þóftukverk, áslagið, og þeim ytri á saxinu. Þá var sagt að siglt væri í áslögum. Ef eitthvað var að veðri var dragreipið haft í höndum; siglt fyrir lausu. Sumir formenn sigldu ætíð fyrir lausu skauti, en þá var skautið dregið undir röng og hélt formaður í það með annarri hönd en hafði hina á stýrinu.
Byr bar nafn af því hvar hann stóð á skipið... Væri vindur beint á eftir því var beggja skauta byr. Hann þótti viðsjáll ef eitthvað var að veðri og sjó. Þegar vindur stóð á skutröng var skutrangarbyr, en á bitahöfuð bitahöfuðsbyr eða vindur á kinnung. Þegar vindur stóð á mitt borð var síðuvindur eða hálfur vindur. Yrði vindur þverari varð ekki hjá því komist að leggja bátnum við. En stæði vindur um saxið var kominn beitivindur; og ef hann stóð enn framar var nauðbeit. Þá var skammt til þess að vindur tæki ekki segl.
En jafnframt því að sigling fór eftir veðri og vindstöðu var hún einnig komin undir straumum og sjólagi. Lensið þótti einna hættulegust sigling. Þá átti að varast að láta ölduna elta sig heldur til hliðar. Til þess að verja skipið áföllum var talið heppilegast að sigla talsvert skáhallt með vindi, einkum í spildusjó. Væri siglt ljúft; nokkuð flatt með vindi, sá stjórnarinn stöðugt út frá skipinu á kulborða hvar og hvernig sjóar risu. Sumir formenn höfðu þann sið, þegar þeir sigldu krappan sjó, að hafa eina ár úti á vindborða til að brjóta með bárur. Þegar báran tók sig upp við skipshliðina... var barið með árinni í öldufaldinn og sprakk þá báran fyrir utan skipshliðina í stað þess að hvolfa niður í skipið. Ekki var alveg óþekkt að menn hefðu lag á að láta skipið ausa sig sjálft. Ekki var óalgengt að svo mikið væri siglt að skipið leggðist á lista. Þegar sýður á keipum skera tollurnar sjóinn, og eru þá borðstokkur og hástokkur komnir á kaf. Slík sigling þótti gapaleg. Ef sigldur var beitivindur þurfti í hvert skipti að venda, þegar tekinn var nýr slagur, eða bógur. Að sigla þannig var að slaga, bóga eða krusa. Stundum var eins bógs leiði í áfangastað en oftast urðu bógarnir margir, og þá ekki komist hjá því að venda í hvert skipti. Þegar veður var svo hvasst að seglum varð ekki við komið voru árar reistar í kjöl með hlumma niður og vindurinn látinn standa í árablöðin; þá var siglt með árum. Í roki nálægt landi, þegar öll segl höfðu verið tekin frá en möstur látin standa, var skipið látið reka á reiðanum. Ef hlöðnum báti er siglt í ljúfum vindi og hann grefur sig svo niður að sjórinn virðist báðum megin vera hærri en borðstokkurinn án þess að gefi á, var sagt að báturinn sitji í grænni tóft. (ÓETh o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir)
Siglingabjart (l) Nægilega bjart til að skipi/bát verði siglt af öryggi. „Slysavarnafélagið hafði beðið Saurbæ um að senda skeyti þegar siglingabjart væri undir Bjarginu“ (SbG; Að vaka og vinna).
Siglingaleið / Siglingamið (n, kvk) Leið sem er tiltölulega örugg og fjölfarin af skipum og viðmið hennar. „Siglingaleið fyrir Kollsvíkina er greið, sé siglt frá Bjargtöngum fyrir Blakk. Fari menn grunnleið frá Breiðuvík þarf að fara framfyrir Landamerkjahlein og hleinar framaf Hnífaflögunni. Þegar fer að sjást inná Kollsvíkina má ekki vera grynnra en svo að Skandardalstennurnar séu framundan til að vera framan við Djúpboðann og aðra boða. Í lygnum sjó má þó þræða grunnmegin Djúpboða en utan Arnarboða á litlum bátum. Sé farið fyrir Blakk sunnanað má forðast röstina og fara grunnmegin við Blakknesboða. Þá þarf að gæta þess að halda Bræðragjám ljósum þar til Tálkni kemur framundan. Á sama hátt má forðast Látraröstina og fara grunnt í sæmilegu sjólagi, með því að „fara gat“, þ.e. hafa gatið í sjávarklettum Bjarnanúpsins sýnilegt meðan farið er fyrir Bjargtangana“.
Siglingaljós (n, hk, fto) Ljósbúnaður skipa sem gefur til kynna stefnu þeirra og fleira. Skip á siglingu hafa uppi landþernur, sigluljós og skutljós. Skip sem er að veiðum hefur uppi tvö hringljós hvort yfir öðru. Á togurum er rautt yfir hvítu en annars grænt yfir hvítu. Lóðsbátar hafa hvítt yfir rauðu. Skip við akkeri hefur uppi hvítt hringljós eða svarta kúlu. Stjórnvana skip hefur uppi tvö rauð hringljós en skip með takmarkaða stjórnhæfni hefur auk þess uppi hvítt hringljós milli þeirra. Sjá landþerna/ þerna; sigluljós og skutljós.
Siglykkja (n, kvk) Lykkja á enda sigvaðs, sem bundin er um sigmann þegar sigið er; vaðarauga (sjá þar).
Sigluband (n, hk) Gjörð sem heldur segli við mastur á bát/skipi. Siglubönd voru ýmist eiginleg bönd eða úr eik, horni, seigum gjarðviði eða hvalskíði.
Sigluljós (n, hk) Ljós í siglu/mastri skips, sem lýsir framávið. Siglingareglur segja að öll skip sem sigla í dimmu skuli hafa sigluljós sem lýsir framávið í 225° geira. Sé skipið yfir 50 metrar að lengd skulu ljósin vera tvö, og það fremra nokkuð lægra. Sjá siglingaljós, landþerna og skutljós.
Siglutoppur (n, kk) Masturstoppur; efsti hluti masturs/siglu á bát/skipi.
Siglutré (n, hk) Sigla; mastur. Neðri hluti masturs á tvískiptu mastri stórs skips; efri hluturinn nefnist stöng.
Sigluþófta (n, kvk) Þófta á bát, sem sigla er fest við þegar hún er reist.
Sigmaður (n, kk) Sá sem sígur niður í kletta til fyglinga/eggja eða í öðrm tilgangi. „Sigmaður situr í sérstakri vaðarlykkju sem brugðið er í kappmellu um lendar og læri, en heldur um vaðinn og stýrir sér með fótum til að halda sér réttum. Hann er síðan gefinn niður af þeim sem eru á vað og stýrir sjálfur niðurferð og uppferð með merkjagjöf til vaðarmanns. Vaðurinn er sver og góður og liggur oftast á brúnahjóli. “.
Sigmannshlutur (n, kk) Þó sigari sé vanur og gætinn þá er hann í meiri áhættu en aðrir. Því fær hann aukahlut við skipti; sigmannshlut. Oftast er það heill hlutur, en þó misjafnt.
Signa (s) A. Gera krossmark og fela sig með því á guðs vald. Fyrrum var venja að signa sig við fleiri tækifæri en nú er gert. Sjálfsagt var að signa sig áður en haldið var í langferð; áður en sigið var í bjarg; áður en bátur var settur ofan; áður en farið var í róður; áður en menn fóru að sofa og að morgni. Einnig var bæjarhurð signd að kvöldi. B. Eldri merking; helga; vígja; gera Þórsmark yfir.
Signa sig (orðtak) Gera krossmark fyrir sér til að biðjast guðsblessunar. „Sá gamli siður hefur líklega haldið sér lengur í Kollsvík en víða annarsstaðar, og má vera að stutt signing hafi verið ýmsum einlægasta reglulega trúarathöfnin. Börnum var kennt að signa sig fyrir svefn, að loknum bæna- og faðirvorslestri. Undantekningarlaust var beðin sjóferðabæn þegar sett hafði verið á flot og áður en haldið var í róður. Allir tóku ofan höfuðfötin báðust fyrir í hljóði og signdu sig. Eftir að húfur voru aftur komnar upp gat hinsvegar hrokkið af munni blótsyrði ef t.d. vél var óþæg í gang. Örnefnið Bænagjóta utan við Láturdal minnir á þennan forna sið, en sagt var að vermenn í Láturdal skyldu hafa lokið bænum sínum áður en komið var útfyrir gjótuna. Í Kollsvík var vani að ljúka bænum eftir að komið var á flot en áður en farið var af Læginu. Signingar voru viðhafðar áðurfyrr áður en haldið var í ferðalög og áður en sigmaður fór í kletta. Í kirkjugarði er enn signt yfir hinn látna við greftrun og einnig þegar menn vitja grafar“. „Er bátnum hafði verið snúið í stefnu út Patreksfjörð, signdi formaður sig; tók ofan höfuðfatið, og við gerðum slíkt hið sama“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Bjargmenn signdu sig og kvöddu sitt heimafólk, eins og þeir væru að fara í langa för“ (ÁE; Ljós við Látraröst). Sjá biðja bænir.
Signa yfir (orðtak) A. Gera krossmark yfir, t.d. gröf eða líkkistu. B. Líkingamál; kveðja eitthvað hinsta sinni; ljúka verki/verkefni.
Signing (n, kvk) A. Það að signa. „Prestur hafði nærri gleymt signingunni“. B. Það að láta fisk síga. „Hann lét mig hafa nokkrar grásleppur til signingar“. C. Fyrrum notað yfir galdraþulur/særingar.
Signingarhjallur (n, kk) Hjallur sem einkum er notaður til að láta fisk síga. „Össur á Láganúpi reisti signingarhjall á brystinu utanvert við Kaldabrunn í kringum 1980“.
Signingartíð (n, hk/kvk) Veðurfar/tíðarfar sem hentar til að siginn fiskur verkist vel. „Það held ég að grásleppan fái góða signingartíð; hún verður klár eftir nokkra daga í viðbót í sveljandanum“.
Signt og heilagt (orðtak) Eilíflega; alltaf. „Vertu nú ekki að amast við honum bróður þínum; signt og heilagt“! Algengur framburðarmáti, en er í raun afbökun á orðtakinu sýknt og heilagt; sjá þar.
Sigra (s) Hafa sigur/vinning í viðureign. „Ég var ári montinn að hafa sigrað þá alla í spretthlaupinu“.
Sigra svefn (orðtak) Sofna; dotta. „Það má mikið vera ef mig hefur ekki sigrað svefn smástundí stólnum“.
Sigrast á (orðtak) Yfirvinna; sigra; hafa betur. „Þau eru nú að sigrast á mestu fjárhagserfiðleikunum“.
Sigrihrósandi (l) Fagnandi sigri; ánægður með að hafa haft betur.
Sigstaður (n, kk) Staður þar sem sigið var til eggja/fyglinga. Sigstaðir í Blakk eru t.d. á Höfðann í Mávakömbunum og á Höfðann norðan Jónshöfða. Fjölmargir sigstaðir eru í Látrabjargi.
Sigt (n, hk) Örlítið vatnsrennsli; sytra; vætl. „Í Harðatorfspytti er nún lítilsháttar sigt, en hefur líklega verið meiri lækur áður en Mýrarnar voru ræstar fram“. Orðið virðist ekki þekkjast annarsstaðar í þessari merkingu.
Sigta (s) A. Sálda/sía í gegnum sigti. „Hrognin þarf að sigta áður en þau eru söltuð í tunnu“. B. Miða á. „Kötturinn sat lengi og sigtaði á músina áður en hann stökk á hana“. „Það er erfitt að sigta á máfinn þegar hann er á svona hröðu og lágu rennsli“. C. Um vatn; renna í mjög litlu magni. „Það rétt sigtar úr krananum“. D. Fyrritíma merking; sakfella; dæma sekan.
Sigti (n, hk) A. Áhald til að sigta/sía/sálda eitthvað í gegnum. T.d. mjólkursigti, hrognasigti, mjölsigti o.fl. B. Litlir nabbar á byssuhlaupi, eða kross í byssukíki, til að miða á bráðina; mið.
Sigtisbotn (n, kk) Vattbotn (sjá þar).
Sigtóg / Sigvaður / Sigfesti (n, kvk/kk) Bjargtóg; bjargvaður; sigaband; sigafesti; festi; tóg; sigvaður; vaður; mannavaður. Ýmis heiti á festi þeirri sem notuð er til bjargsigs. Oftast var venja að tala um bjargtóg; bjargvað; sigtóg eða vað/sigvað. „Þar kom að bændur ákváðu, seinni hluta dags, að leggja upp að morgni, og varð þá uppi fótur og fit. Kvenfólkið tók til að útbúa nesti og taka til nauðsynjar. En karlmennirnir náðu í vaðina, sem geymdir voru á slám uppi undir rjáfri úti í hjalli. Hver bóndi áti nokkra vaði úr hæfilega gildum kaðli; mismunandi langa. Til siga voru ekki notaðir nema nýlegir og óskemmdir vaðir, en þeir sem voru farnir að slitna voru notaðir til að draga upp fugl þegar hann var tekinn (mannavaðir og fuglavaðir“ (MG; Látrabjarg).
Sigtun (n, kvk) Það að sigta; t.d. sigtun mjólkur/hveitis/hrogna o.fl.
Sigurkraftur (n, kk) Afl sem þarf til að sigrast á mótlæti. „Útlitið um framtíð þess er gott; það starfar af hugsjón og treystir á sigurkraft góðs málefnis“ (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi).
Sigurlykkja (n, kvk) Lykkja sem hnýtt var á ákveðinn hátt og átti, samkvæmt þjóðtrúnni, að hafa galdramátt; m.a. að geta létt konum fæðingu og lagað þvag- og hægðateppu.
Sigurnagli (n, kk) Segulnagli; búnaður sem settur er í taug/vað/festi til að létta af snúningi og hindra snurðu. Augu eru á hvorum enda sem í festist taugin í báðar áttir en á milli er liður, þannig að annað augað getur snúist án þess að valda snúningi á hinu. „Hákarlaöngull nefnist sókn. ... á efri enda sóknarinnar var sigurnagli, og í hann fest sóknarkeðja 3-4 álna löng.... Við hinn enda keðjunnar var tengdur sigurnagli... en hann var áfastur vaðarsteininum“ (GG;Skútuöldin). „Við erum með gömul færi; hamplínu, 4ra punda blýlóð með hálfás sigurnagla; taumur einn faðmur og handfærakrókur“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Ás í sökkur er ekki farið að nota fyrr en upp úr aldamótum, eða sigurnagla“ (GG; Kollsvíkurver).
Sigursæll (l) Sem sigrar oft í viðureignum. „Hann var oftast sigursæll í þeim hlaupum sem hann tók þátt í“.
Sigurvegari (n, kk) Sá sem sigrar/ hefur betur. Uppruni orðisins er líkast til mjög forn og merkir „sá sem vegur/drepur til sigurs“.
Sigurverk (n, hk) Upptrekkt gangverk t.d. í úri eða klukku. Líklega skýrist fyrrihluti orðsins af því að með réttum gangi sigurverksins er sigrast á flókinni tækni/ flóknum vandamálum. Sama skýring getur átt við orðið sigurnagla.
Sigvaður (n, kk) Vaður (band) sem notaður er til bjargsiga; sigtóg; bjargtóg; bjargvaður; vaður. Var lengst af úr nautshúð, en síðar úr manillahampi og nú til dags úr sterku gerviefni. Sigvaður var mikil eign áður fyrr og fyrir hann var tekinn sérstakur hlutur; vaðhlutur. Sigari var einnig á hærri hlut en aðrir þátttakendur, enda í meiri áhættu.
Sikksakka (s) Fara í krókaleiðum/sniðum. „Ég sikksakkaði allan dalinn og gáði í hverja laut; hrúturinn er ekki þar“. Nýlegt orð í málinu, komið úr t.d. zigzag í ensku sem merkir sagtennt mynstur.
Siklingur (n, kk) Verkfæri til slípunar yfirborðs viðs; stálplata með beinni og skarpri brún sem dregin er eins og skafa eftir viðnum.
Sikringsnæla (n, kvk) Öryggisnæla; lásnæla. Læst næla; notuð til að festa saman fataefni eða flíkur. Orðið er ekki í orðabókum en var almennasta heitið á þessum hlut í Kollsvík. „Réttu mér stóru sikringsnæluna“.
Silakeppur (n, kk) A. Sá sem silast/ er þungur á sér; hægfara/hægvirkur maður. Oftast í norðandi merkingu. „Óttalegur silakeppur getur maðurinn verið; hann er gersamlega ótækur í smalamennskur“! Þess hefur verið getið til að heitið sé dregið af klyfjum sem bundnar hafi verið með silum upp á hest. B. Otiorhynchus arcticus. Lítið svart gljándi skordýr af ætt ranabjallna, sem algengt er um allt land; frá fjöru til fjalla. Silakeppurinn líkist járnsmið í útliti, en er mjög hægfara í hreyfingum, eins og nafnið ber með sér. Hann er helst að finna á melum, söndum og öðru lítt grónu landi; forðast grósku og bleytu. Er helst á ferð að nóttunni en liggur á daginn undir steinum og öðrum hlutum. Nagar blöð margra plöntutegunda og lirfurnar leggjast á ræturnar.
Silalega (ao) Löturhægt; ofurhægt; með letilegum hreyfingum. „Hann teygði silalega úr sér“.
Silalegur (l) Hægfara; seinn í hreyfingum. „Ári er hann silalegur á brekkuna“!
Silast (s) Fara hægt/seinlega. „Mér sýnist að kýrnar séu að silast heim á leið“.
Silfraður (l) A. Silfurlitur; með silfurlitum blæ. B. Um lit á sauðkind; með gráum hærum í ljósari ull.
Silfur (n, hk) A. Góðmálmur með efnatáknið Ag. Hefur lengi verið talinn verðmætur, bæði til smíða og í viðskiptum. Mjög nýttur nú á tíð til húðunar muna úr öðrum málmi. B. Peningar úr silfri; mynt yfirleitt.
Silfurberg (n, hk) Kristall úr kalsíti/kalkspati. Silfurberg er fágætt utan Íslands; enda er alþjóðlegt heiti þess „Iceland spar“, en hér finnst það sumsstaðar í miklu magni, t.d. í Helgustaðanámu í Reyðarfirði og í Djúpadal í A-Barðastrandasýslu. Hefur ekki verið greint í Kollsvík, en er þar líklega; e.t.v. í tengslum við gangainnskot. Nafn sitt fær silfurberg af tærleika sínum og sérkennilegu ljósbroti. Silfurberg klýfur ljós í tvo geisla sem hafa sveiflu hornrétt hvor á annan; þ.e. ljósið pólariserast. Daninn Rasmus Bartholin lýsti fyrstur þessu tvöfalda ljósbroti, en síðan hefur silfurberg orðið undirstaða ýmsa merkra framfara í vísindum. Það var unnið í námum í Helgustöðum og að Hoffelli og flutt út í nokkru magni á fyrrihluta 20. aldar.
Silfurbúinn / Silfurrekinn (l) Um hlut; skreyttur með silfri. Margir munir efnafólks fyrr á tíð voru silfurbúnir; s.s. sverð, svipur, stafir, pontur og baukar.
Silfurhærður (l) Með silfurgrátt hár; gráhærður.
Silfurmura (n, kvk) Potentilla anserina. Jurtin er yfirleitt nefnd tágamura meðal grasafræðinga og margra annarra, en í Kollsvík var hún einatt nefnd silfurmura, og þar er hún algeng. Skriðul jurt af rósaætt, sem myndar langar ofanjarðarrenglur. Blóm eru fimmdeild; krónublöð sólgul en bikarblöð græn. Blómstilkur stuttur. Laufblöðin eru einnig á stuttum stilk. Þau eru stakfjöðruð og loðin, einkum á neðra borði. Ljósgræn að neðan en dökkgræn að ofan; með sérkennilega silfurlitum blæ. Af því er fyrri hluti nafnsins dreginn, en síðari hlutinn af forngermannska orðinu „murhon“, sem nefnir æt rót. Silfurmuran vex gjarnan í sendnu landslagi eins og er í Kollsvík; jafnvel í eintómum sandi og er meðal þrautseigasta gróðurs gagnvart uppblæstri.
Silfurplett (n, hk) Silfurhúðaður kopar. (e: Sheffield plated).
Silfurrefur (n, kk) Innflutt refategund á Íslandi, til ræktunar vegna skinnaframleiðslu; afbrigði af rauðref (Vulpes vulpes). Talið er að einhverjir þeirra hafi sloppið út og jafnvel tímgast með íslenska refnum.
Silfurský (n, hk) Lýsandi næturský. Ský sem myndast mjög hátt á lofti, eða ofan veðrahvolfs; í 75-80 km hæð Bláhvít örþunn skýjaslæða sem þekur heimskautasvæðin á sumrin, en sést aðeins að næturlagi í sérstökum birtuskilyrðum nætursólar. Skýin eru talin mynduð úr ískristöllum þar sem frostið er 99-123°C, en jafnvel hjkúpuð málmi úr geimryki. Því endurvarpa þau radargeislum. Glitský myndast hinsvegar mun neðar.
Sili (n, kk) A. Lykkja almennt. B. Lykkjan sem er á milli hagldanna á reipi, og heybaggar eru hengdir á.
Silkimjúkur (l) Mjúkur eins og silki.
Silungur (n, kk) Silungur hefur ekki verið í vötnum í grennd Kollsvíkur í manna minnum af náttúrulegum orsökum, en hinsvegar hafa a.m.k. tvisvar verið gerðar tilraunir með sleppingar í þau. Fyrra sinnið var á 7.áratug 20.aldar, en þá slepptu Ingvar og Össur Guðbjartssynir nokkru af silung (líkega urriða) úr Sauðlauksdalsvatni í Sandslágarvatn, Kjóavatn, Stóravatn og Litlavatn. Lítið veiddist af þessu aftur og er talið að fiskurinn hafi fljótlega dáið út í öllum vötnunum. Rúmum 10 árum síðar fengu þeir nokkuð magn seiða með flugvél; þingvallableikju (Salvelinus alpinus) frá Skúla Pálssyni í Laxalóni. Seyðin voru flutt í plastpokum og voru þokkalega hress þegar þeim var sleppt í Kjóavatn; Stóravatn og Litlavatn. Ekkert veiddist í Kjóavatni; og smávegis í Litlavatni. Hinsvegar virtist belikjan dafna mjög vel í Stóravatni, þó hún virtist ekki ná að fjölga sér. Fiskurinn tók ekki á krók, en veiddist þokkalega í net í allmörg ár. Varð hann mjög stór og sólspikaður; svo að roðið lagðist í fellingar á hnakkanum. Eitthvað barst niður í leysingum, og mátti opft að vori sjá för eftir dauða fiska í uppþornuðum Smávötnunum.
Simbadýrið (n, hk, sérnafn) Nafn á óvætti sem sagður er búa á Látraheiði og amaðist við ferðafólki áður fyrr. Kennt við Sigmund Hjálmarsson bónda á Hvalskeri sem lenti í átökum við það (ÁE; Ljós við Látraröst).
Simfónn (n, kk) Viðrekstur; fretur: búkloft. „Hver spilar svona listilega á simfón hér í stofunni“?
Sin (n, kvk) A. Sérstök gerð af sterkum bandvef, sem festir t.d. vöðva við bein líkamans. B. Reður nauts, hrúts o.fl. dýra.
Sina (n, kvk) Trénað og dautt gras. „Sinuhilla hefur nafn sitt af því að þangað var sótt sina til að gefa kúm, þegar heylítið var orðið“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Sinaber (l) Um mann; grannur og með þunna húð, þannig að mikið ber á vöðvum og sinum.
Sinadráttur (n, kk) Vöðvakrampi sem helst er hætta á ef reynt er mikið eða lengi á illa þjálfaða vöðva.
Sinfóníusarg (l) Niðrandi heiti á klassískri tónlist. Tónlistarsmekkur fólks er mismunandi, og sígild tónlist hljómaði oft skelfilega í ófullkomnum útvörpum fyrri tiðar; jafnvel í þeirra eyrum sinna aðdáenda.
Sinkill (n, kk) Tréankeri; teinn sem er yddur og vinkilbeygður í báða enda. Notaður til að festa saman tré á samskiptum, t.d. máttarviða í húsi. Sinklar voru t.d. notaðir við smíði fjárhúss/hlöðu/fjóss á Láganúpi.
Sinn (n, hk) Skipti. „Ég gaf þetta eftir í þetta sinn; en það geri ég ekki næst“! „Þetta gerðist mörgum sinnum“.
Sinn á hvora hönd / Sinn til hvorrar handar (orðtök) Báðumegin; einn við hvora hlið.
Sinn er siður í hverri sveit / Sinn er siður í landi hverju (orðatiltæki) Speki sem oft er viðhöfð þegar fréttist af háttum/siðum/lausnum annarra, sem þykja einkennilegir eða öðruvísi.
Sinn í hverju/hvoru lagi (orðtak) Hver/hvor fyrir sig. „Hrognin saltaði sinn í hverju lagi“.
Sinna (n, kvk) Ræna; hugsun; sinning; áhugi. „Hann hefur enga sinnu á þessu lengur“.
Sinna (n, kvk) Áhugi; ástundun. „Þú þarft að hafa meiri sinnu á náminu drengur“.
Sinna (s) A. Veita athygli; hugsa um; huga að. „Það þarf einhver að sinna barninu“. B. Ansa; svara; bregðast við. „Ég sinni ekki svona heimskulegum athugasemdum“!
Sinna fé/skepnum (orðtak) Hirða um fé/skepnur. „Um Völlur, Hryggi og Vallagjá/ Valla á lengstu sporin./ Lambánum hún þurfti þá/ þrátt að sinna á vorin“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Sinnaður (l) Hugsandi; þenkjandi. „Ég er ekki svo menningarlega sinnaður að ég sleppi þurrki vegna tónleika“.
Sinnaskipti (n, hk) Það að skipta um skoðun; umsnúningur. „Nú hafa heldur betur orðið sinnaskipti hjá honum þykir mér“! Sjá taka sinnaskiptum. „Einhver sinnaskipti hafa orðið hjá honum í þeirri afstöðu“.
Sinnast (s) Verða ósammála/sundurorða; deila; slettast uppá vinskapinn. „Þeim sinnaðist eitthvað útaf þessu“. Sjá kastast í kekki.
Sinnast uppá (orðtak) Sinna; hafa áhyggjur af; amstra með. „Ég er þá ekkert að sinnast uppá karlinn fyrst hann lætur ekki vita af sér; hann hlýtur að hafa fengið far með einhverjum öðrum“.
Sinnhvor (fn) Hvor sinn; hvor einn. „Hann skar eplið í sundur og gaf okkur sinnhvorn helminginn“.
Sinnhvorsvegar / Sinnhvorumegin (ao) Hvor sínu megin; sinn á hvora/hvorri hlið; báðumegin. Orðhlutana má skrifa hvern í sínu lagi, en hinsvegar er notkun og framburður oftast með því móti að um eitt orð sé að ræða. „Við fórum sinnhvorsvegar við Stórafellið“. „Við tókum sinnhvorumegin á bátnum og mjökuðum honum upp“. Einnig haft í kvenkyni og hvorugkyni.
Sinni (n, hk) Hugur; skap; skapgerð. „Svo er margt sinnið sem skinnið“.
Sinning (n, kvk) A. Viðvera; áhugi; athygli; drift. „Lambféð þarf stöðuga sinningu yfir sauðburðinn“. „Mér þykir þú hafa litla sinningu á náminu“. B. Fjósverk; fjárhúsverk; gegningar; verk sem sinna þarf á málum.
Sinnissjúkur / Sinnisveikur (l) Veikur á geði; þunglyndur. „Hann varð hálf sinnissjúkur eftir konumissinn“.
Sinnisveiki (n, kvk) Geðveiki; hugarvíl.
Sinnisveila (n, kvk) Geðveiki; þunglyndi. „Einhver sinnisveila virðist hrjá karlangann“.
Sinnulaus (l) Áhugalaus; hirðulaus; sljór. „Það gengur ekki að vera svona sinnulaus um námið“!
Sinnuleysi (n, kvk) Hirðuleysi; andvaraleysi. „Mér finnst þetta sinnuleysi hjá þingmönnunum“.
Sinnulítill (l) Áhugalítill; fráhverfur. „Hann er orðinn sinnulítill um búskapinn“. „Hangi ég því með sýrðan svip og sinnu lasna/ yfir daufum durins-asna“ (JR; Rósarímur).
Sinubeðja / Sinudyngja / Sinuflóki / Sinuruddi / Sinusæng (n, kk) Samfelldur flóki af visnuðu grasi; mikið af sinu. „Túnin eru öll lögst í sinubeðju“. „Þetta er fljótt að verða ein sinusæng þegar ekki er slegið“.
Sinubrenna / Sinubruni (n, kvk) Það að brenna sinu. „Sinubrenna getur farið úr böndunum. Pabbi sagði að eitt sinn hefði átt að brenna sinu í Breiðnum til að örva grassprettu, en eldurinn hafi farið víða um hlíðina og upp í ganga. Mökkurinn var svo mikill að um tíma sást ekki af Hústóftarbökkum suður á Bjarnanúp“ (VÖ).
Sinueldur (n, kk) Eldur í sinu; gróðureldur. „Sinueldur er stundum skæður ef hann fer úr böndunum. Því fengu Kollsvíkurbændur eitt sinn að kynnast er þeir kveiktu í sinu í Breiðnum. Eldurinn breiddist fljótar út en þeir fengu við ráðið og endaði svo að stór hluti af hlíðinni brann. Gróður jafnaði sig þó fljótt“.
Sinuruddi (n, kk) Fornslægja; hey sem inniheldur mikið af dauðri og næringarsnauðri sinu. „Við setjum þetta hey neðst í hlöðuna. Það er eitthvað í því af sinurudda“.
Sinustopp (n, hk) Sina sem notuð er sem stopp í eggjaílát. Þurr ófúin sina er besta stopp sem hugsast getur, en stundum var ekki völ á henni, og þurfti jafnvel að nota mosastopp.
Sinutotti / Sinubrúskur / Sinutoppur / Sinuvisk (n, kk/kvk) Toppur/brúskur/visk af sinu. „Sinubrúskar geta verið góðir og tryggir sem hald í klettum ef maður þekkir þá og grípur rétt í þá“. „Ef maður grípur vel niður í sinutottana og sparkar sér góð fótaför, þá má komast yfir þessa slefru með sæmilegu öryggi“.
Sirka (ao) Um það bil. Enskusletta, tilkomin á síðari árum
Sirkill (n, kk) Hringfari; áhald til að teikna hring eða færa lengdir milli staða, t.d. á korti.
Sirkla út (orðtak) Finna/reikna út; hnitmiða; áætla. „Ég held að ég sé búinn að sirkla út bestu leiðina til að komast í þetta fles“.
Sisona/ Sisvona / Rétt sisona (ao/orðtak) Svona; á þennan hátt; þannig. „Heilsan er sisona sæmileg, en ekki meira en það“. „Ég ætlaði, rétt sisvona, að hjálpa lambinu á fætur, en þá renndi móðirin í hnésbæturnar á mér“. Sjá einnig tisona; tilsvona og til svona.
Sitja að (orðtak) A. Sitja undir vað; sitja á brún og halda við vað. „Sitjið þið vel að þarna uppi á brúninni“? B. Búa yfir; hafa undir höndum; vera í góðri aðstöðu til. „Hann situr betur að þessum upplýsingum en aðrir“.
Sitja að sumbli (orðtak) Fást við drykkjuskap; vera á fylleríi. „Þeir sátu enn að sumbli þegar ég fór“.
Sitja að völdum (orðtak) Vera við völd; sitja/vera við stjórnvölinn.
Sitja af sér (orðtak) Missa af. „Nú sátum við af okkur uppstyttuna fyrir bölvaðan kjaftaganginn“! Sjá einnig bíða af sér.
Stitja af sér sjóveður (orðtak) Vera í landi þó gefi á sjó. „Ég ætla nú ekki að sitja af mér sjóveðrið aftur“.
Sitja auðum höndum (orðtak) Sitja aðgerðarlaus. „„Fjórir bæir bættust við á árinu með sjónvarpsgláp nú rétt fyrir jólin, með ærnum tilkostnaði umfram tækjakaupin. Fólk telur fénu ekki illa varið. En skelfing er það þó landeyðulegt að sjá sveitafólk sitja auðum höndum öll kvöld. En þetta kannske venst“ (ÞJ; Árb.Barð 1971).
Sitja á (orðtak) Geyma með sjálfum sér; láta aðra ekki fá. „Það dugir ekki að hann sitji á fjallskilaseðlinum dögum saman“!
Sitja á hakanum (orðtak) Lenda í drætti/útideyfu „Þetta hefur setið dálítið á hakanum hjá mér, en nú ætla ég að drífa í þessu“. Uppruni orðtaksins virðist ekki viss, en sumir ætla að haki þessi hafi verið endinn á kirkjubekk. Hafi þar ekki þótt þægilegt að sitja og þar gjarnan lent þeir sem útundan voru í samfélaginu.
Sitja á rassgatinu (orðtak) A. Um bát; vera mjög afturhlaðinn/reistur að framanverðu. „Færið ykkur aðeins framí, svo hann sitji ekki svona á rassgatinu“. B. Um mann; sitja auðum höndum; vera iðjulaus.
Sitja á rökstólum (orðtak) Rökræða; bera saman ráð sín. Rökræðulist var í hávegum höfð í Kollsvík, og er enn. Málefnin sem um var rætt gátu verið af hinu margvíslegasta tagi, en sneru oftar en ekki að fræðilegum efnum. Þó bar dægurmál oft á góma; innansveitarmál jafnt sem pólitík.
Sitja á sátts höfði (orðtak) Halda friðinn; vera friðsamur. „Hann var ansi uppivöðslusamur við nágranna sína í byrjun, þó hann hafi að vísu setið á sátts höfði í seinni tíð“. Uppruni orðtaksins er ekki fyllilega ljós. Hugsanlega vísar þetta til þeirrar reglu frá víkingatíma, þegar stríðsskip voru gjarnan með ógnandi stafnskraut, að það jafngilti árás eða stríðsyfirlýsingu að sigla að landi með gapandi trjónu; þ.e. með hið ógnandi stafnskraut. Er þess getið t.d. í Landnámabók þegar rætt er um nafn Þjórsár. Sá stýrimaður sem situr á sínu stafnskrauti situr því örugglega á sátts höfði. Í sumra munni hefur orðtakið ummyndast í að „sitja á sárs höfði“ eða „sárshöfði“, en hitt er líklega réttara.
Sitja á sér (orðtak) Stilla sig um; halda aftur af sér. „Ég gat ekki setið á mér lengur, og sprakk úr hlátri“.
Sitja á strák sínum (orðtak) Halda aftur af sér með hrekki/strákapör. „Sú saga er sögð af Árna Thoroddsen að eitt sinn hafi hann verið með öðrum að hvíla sig á brún eftir bjargferð. Þegar einn í hópnum sofnaði á bakinu, með útréttan lófa og opinn munn, gat Árni ekki setið á strák sínum. Hann brá þá brókum; skeit í lófann og kitlaði síðan manninn í nefið með strái, sem brást við með því að skella lortinum í andlit sitt. Ekki fer sögum af eftirmálum þess gráa gamans, en fleiri sögur voru sagðar af glettum Árna“ (VÖ eftir GnÖ).
Sitja á svikráðum við (orðtak) Vera tilbúinn að svíkja; vera ótrúr/ótraustur vinur. „Honum fannst aðrir stjórnarmenn sitja á svikráðum við sig og var var um sig“
Sitja bát / Sitja rétt í bát (orðtök) Sitja þannig í bát að hann fari vel á siglingu. Mjög fer eftir hleðslu bátsins, sjólagi og siglingarlagi hvernig hentar að sitja bát, en vanalega er best að hann sé sem réttastur á þverveginn og með lítilsháttar afturhalla á siglingu.
Sitja eftir (orðtak) A. Verða eftir. „Ég ætla ekki að sitja eftir ef aðrir eru til í að fara“. B. Sitja um; sækjast eftir; reyna að fá. „Ég hef verið að sitja eftir svari frá honum, en það er eitthvað djúpt á því“.
Sitja eftir með sárt ennið (orðtak) Vera skilinn eftir tómhentur; sæta prettum í viðskiptum. „Sjávarbyggðirnar sitja eftir með sárt ennið þegar sægreifarnir selja skip og kvóta af staðnum“. Upprunaskýring er ekki ljós, en líklega vísar þetta til þess að maður sé sleginn niður og rændur.
Sitja fastur (orðtak) Vera fastur. „Traktorinn sökk ofaní pyttinn og situr þar fastur“.
Sitja flötum beinum (orðtak) Sitja á gólfinu með beina fætur. „Vaðurinn hefur nú verið rakinn frá brúninni og hjólmaður kallar dráttarfólkið á vaðinn. Fólkið sest nú flötum beinum við vaðinn með nokkru millibili; allir sömu megin, en hjólmaður sest ofanvið hjólið og hefur viðspyrnu á hjólgrindinni. (MG; Látrabjarg).
Sitja fyrir (orðtak) A. Veita fyrirsát; vera í vegi einhvers. Sjá standa fyrir. B. Vera fyrirmynd í teikningu eða á ljósmynd.
Sitja fyrir rekum (orðtak) Ganga á reka; vakta það þegar reka ber á fjörur og bjarga honum undan sjó. „It þriðja (bú) átti hann (Skallagrímur) við sjóinn á vestanverðum Mýrum. Var þar enn betur komið að sitja fyri rekum, og lét hann hafa sæði og kalla að Ökrum“ (Egils saga Skallagrímssonar). Í Kollsvík var viðhaft orðalagið að ganga á reka.
Sitja fyrir svörum (orðtak) Svara; vera spurður. „Hann verður að sitja fyrir svörum varðandi þetta; ég kom ekki nálægt því“!
Sitja hjá (orðtak) A. Taka ekki afstöðu; greiða ekki atkvæði. B. Vakta; standa hjá. Fyrrum var setið hjá fé, t.d. kvíám eða meðan það var á beit. Í Kollsvík var fremur talað um að standa hjá, varðandi það síðarnefnda
Sitja hver í sínu horni (orðtak) Hafa ólíkar skoðanir; eiga ekki samskipti. „Félagið kemur litlu í verk ef hver situr í sínu horni og vill ekki vinna með hinum“!
Sitja í damminum / Sitja í súpunni (orðtak) Í slæmri stöðu; í klípu/vandræðum. „Þeir hlupu frá áður en verkið var hálfnað, svo ég sat eftir í damminum“. „Nú sitjum við í súpunni; heldurðu ekki að karlskarfurinn hafi lagt ofaní hjá okkur“! Dammur merkir í raun stífla/uppistaða, en var notað um for/drullupoll.
Sitja í festum (orðtak) Um konu; vera heitbundin en þurfa að bíða brúðgumans til giftingar.
Sitja í grænni tóft (orðtak) Um siglingu báts: „Ef hlöðnum báti er siglt í ljúfum vindi og hann grefur sig svo niður að sjórinn virðist báðum megin vera hærri en borðstokkurinn án þess að gefi á, var sagt að báturinn sitji í grænni tóft“ (ÓETh o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir).
Sitja í óskiptu búi (orðtak) Um erfðir; þegar ekkja/ekkill sér áfram um eignir eftir að maki fellur frá, án þess að gengið sé frá skiptum þeirra til erfingja.
Sitja í súpunni (orðtak) Vera í vandræðum; vera skuldum hlaðinn. Súpa er þarna stytting á skuldasúpa.
Sitja lömb (orðtak) Gæta lamba sem tekin voru frá mæðrum meðan fráfærur voru enn stundaðar. „Þessi brekka nefndist Lambabrekka; líklega örnefni frá því lömb voru setin á þessum slóðum“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals). „Þá sagði faðir minn mér að fara yfir á Kryppu; svo hét fell er skyggði á leiðina. Þar voru setin lömbin á sumrin“ (JVJ; Nokkrir æviþættir).
Sitja með hendur/höndur í skauti (orðtak) Vera aðgerðalaus. „Þó ég sé með einhverja lumbru ætla ég ekki að sitja bara með hendur í skauti meðan allir aðrir eru að vinna“. Skaut er sama og kjölta/fang.
Sitja meðan sætt er (orðtak) A. Vera á stað/ í husi meðan manni er vært; meðan maður er ekki hrakinn burt. B. Oftast notað í líkingu um veiðiskap; vera að veiðum meðan helst er unnt vegna veðurs/sjólags. „Það er ástæðulaust að rjúka í land þó gjóli eitthvað. Við skulum sitja meðan sætt er“.
Sitja og standa eftir (einhvers) höfði / Sitja og standa eins og (einhverjum) líkar (orðtök) Haga sér eftir geðþótta einhvers. „Bæjarhöfðingjarnir voru löngum einvaldir í Rauðasandshreppi og flestir hreppsbúar urðu að sitja og standa eftir þeirra höfði“.
Sitja sig ekki úr færi um (orðtak) Nota hvert tækifæri til. „Maður situr sig aldrei úr færi um eggjaferð ef hún býðst“. Færi í þessari merkingu er stytting úr tækifæri.
Sitja til (bát) (orðtak) Sitja þeim megin í bát sem þarf til að hann sitji sem réttastur í sjónum. „Veriði heldur bakborðsmegin og framí strákar; báturinn grefur sig dálitið í skutinn og ekki veitir af að sitja hann til.
Sitja til borðs (orðtak) Sitja við borð til að matast. „Hann sneri upp á sig og sagðist helst ekki vilja sitja til borðs með svona vitleysingum“.
Sitja um / Sitja eftir (orðtak) Bíða eftir; vakta. „Á Geirseyri var þá gestkomandi Þorgrímur Ólafsson úr Litluhlíð á Barðaströnd og sat um ferð út í Kollsvík“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Sitja undir (orðtak) Ver tilneyddur að hlusta á. „ég nennti ekki að sitja undir þessari hundleiðinlegu ræðu lengur“. „Það er helvíti hart að þurfa að sitja undir svona ásökunum að ósekju“!
Sitja undir borðum (orðtak) Sitja til borðs; vera við borð; sitja að snæðingi.
Sitja undir stjórn / Sitja undir stýri (orðtök) Vera við stjórn/stýri á bát/bíl o.fl. „Mennirnir komast á kjöl, nema Torfi sem setið mun hafa undir stjórn en varð laus við bátinn“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sitja undir vað (orðtak) Sitja og draga upp bjargmenn og afla þeirra. „Við sátum undir vaðnum, hver með sína spyrnu og vorum að draga“ Frásögn ÁH (ÓS; Útkall við Látrabjarg). „Þegar við komum úteftir leynir sér ekki að eitthvað alvarlegt hefur komið fyrir. Davíð situr undir vaðnum með brugðið aftur fyreir bak og spyrnir af miklu afli...“ (SbG; Að vaka og vinna). „Fólkið sest nú flötum beinum við vaðinn með nokkru millibili; allir sömu megin, en hjólmaður sest ofanvið hjólið og hefur viðspyrnu á hjólgrindinni. Hann situr undir, sem kallað er; lætur vaðinn renna yfir læri sér“ (MG; Látrabjarg).
Sitja uppi (orðtak) Sitja uppréttur (t.d. í rúmi). „Hann var hressari og sat uppi í rúminu þegar ég kom upp“.
Sitja uppi með (orðtak) Dæmast til að hafa á höndum/ vera með. „Ég kæri mig ekkert um að sitja uppi með féð frá honum í mínum túnum“!
Sitja uppi við dogg (orðtak) Sitja eða liggja á hliðinni og styðja sig við annan olnbogann. Doggur var heiti á litlum hákarli, og er orðtakið líklega dregið af því þegar hann sveigðist í bátnum eftir að hann var innbyrtur.
Sitja við (eitthvað) með sveittan skalla (orðtak) Strita/erfiða við. „Hann sat við það með sveittan skalla að berja saman vísur fyrir þorrablótið“.
Sitja (fast) við sinn keip (orðtak) Standa fast á sinni skoðun; gefa sig ekki í deilum/rökræðum. „Hann sat fast við sinn keip og neitaði að selja bílinn á þessu verði“. Keipur merkir þarna líklega tolla/ræði á borðstokk, sem árin leikur á, og hver ræðari situr við sinn keip eftir því sem formaður skipar til verka.
Sitja/vera við stjórnvölinn (orðtök) A. Halda um stýri/steyrissveif/stjórntauma báts og stjórna honum. B. Líkingamál um t.d. félagsskap eða fyrirtæki.: Vera við völd; sitja að völdum; stjórna; stýra.
Sitja yfir (orðtak) A. Vera bundinn yfir. „Ég þurfti að sitja yfir árans símanum lungann úr deginum“. B. Gæta; sjá um gæslu. „Kennarinn sat yfir börnunum meðan þau þreyttu prófið“.
Sitjandi (n, kk) Rass. „Ég er blautur á sitjandanum eftir að hafa setið í röku grasinu“.
Sitt á hvað (orðtak) Til skiptis; á víxl.
Sitt er nú hvað (orðtak) Það eru tveir ólíkir hlutir/ tvö aðskilin mál. „Auðvitað á að refsa fyrir svonalagað; en sitt er nú hvað að gera menn hausnum styttri eða stinga þeim í steininn um tíma“!
Sitt/ sittlítið af hvoru/hverju (tagi) (orðtak) Margbreytilegt; ýmislegt. „Hann er orðinn dálítið boginn og slitinn karlanginn, enda ekki furða; hann er búinn að úðra sitt af hvoru um ævina“. „Í bakaleið bar ég einhvern varning; sitt lítið af hverju“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Sitt/sinn/sín í hverja áttina (orðtök) Í tvær/margar áttir. „Gemlingarnir hlupu sinn í hvurja áttina, og það var allnokkuð verk að ná þeim saman aftur“.
Sitt líst/sýnist hverjum (orðtak) Ekki hafa allir sömu skoðun. „Stundum sýndist sitt hverjum, en þarna var þó oft ráðinn róður eða afráðinn“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sitt smakkast hverjum (orðatiltæki) Hver hefur sinn smekk.
Sitthvað (fn) Hitt og þetta; ýmislegt. „Líklega hefðu steinarnir sitthvað að segja ef þeir fengju málið“.
Sitthvað er Jón og séra Jón (orðatiltæki) Máltækið lifir góðu lífi enn í dag, en það vísar til þess tíma að prestar voru forréttindastétt, og létu sér ekki duga það sama og sauðsvartur pöpullinn. Sjá það eru ekki sama Jón og séra Jón og ekki eru allir Jónar jafnir.
Sitthvorumegin (ao) Hvor á sinni hlið; báðumegin. „Þá var tekið í það og plógurinn veginn inn yfir borðstokkinn. Síðan var tekið í tvö bönd er lágu sitthvorumegin úr plógnum niður í horn pokans“ (KJK; Kollsvíkurver). „Grastór eru sitthvorumegin í Dalnum; Breiðavíkurtó til vinstri og Hænuvíkurtó til hægri“ (IG; Sagt til vegar II).
Situr á hakanum (orðtak) Mætir afgangi; verður gert síðast. „Önnur búverk sitja dálítið á hakanum yfir sláturtíðina“.
Situr í (orðtak) Hvílir þungt á; veldur stöðugum ama/reiði/hefndarhug. „Þessar ásakanir sátu lengi í mér; enda áttu þær ekki við nein rök að styðjast“.
Sí og æ (orðtak) Alltaf sífellt; einatt; alltaf; aftur og aftur. „Hættu nú þessu nuddi sí og æ“!
Sía (orðtak) Sigti; sáld. Sbr mjólkursía, skyrsía; kaffisía, bensínsía, olíusía o.fl. Síðari liður orðsins skrúfsía er væntanlega af öðrum stofni, en það orð virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur og næsta nágrennis.
Sía (s) A. Láta eitthvað ganga í gegnum sigti/síu; sigta. „Það er eftir að sía þessa mjólk“. Sjá; láta grön sía. B. Renna einhverju hægt í gegn. „Skyldi það aldrei ætla að síast inní hausinn á þeim að þetta er ómögulegt“?!
Síargandi / Sígargandi / Sígrenjandi / Síhljóðandi / Síæpandi / Síöskrandi (l) Einatt arngandi/gargandi/æpandi. „Krakkarnir hætta fljótlega að taka mark á foreldrum sem eru síargandi á þau“.
Síberjandi lóminn / Síkvartandi / Síkveinandi (orðtak/l) Sífellt að bera sig illa/ kvarta. „Í raun hafa þau það bara ágætt, þó þau séu síberjandi lóminn“.
Síbetlandi / Síbiðjandi / Sínuddandi / Sínöldrandi / Sísníkjandi (l) Sífellt að biðja/sníkja. „Ég kann ekki við að vera síbetlandi um að fá þetta lánað svo ég keypti mér það bara sjálfur“.
Síblaðrandi / Sígapandi / Sígasprandi / Síjaplandi / Síkjaftandi / Síklifandi / Sísuðandi / Sítalandi / Síþvaðrandi (l) Eilift að blaðra/gaspra; klifa á. „Skelfing þoli ég illa þetta sígasprandi pakk“!
Síblautur / Sívotur (l) Alltaf blautur/votur. „Ég límdi gatið á stígvélinu, til að vera ekki síblautur í fæturna“.
Síblótandi / Síbölvandi / Síragnandi (l) Alltaf að blóta/bölva
Síboppandi / Síhóstandi / Síkjöltrandi (l) Sífellt hóstandi. „Ansi er þreytandi að vera svona síboppandi; það er eins og þessi kveffjandi ætli aldrei úr manni“!
Síborðandi / Síétandi / Sídrekkandi (l) Borðar mjög oft; alltaf að éta/drekka. „Ég fæa mér bara eitthvað seinna; maður getur ekki verið síétandi“.
Síbreytilegur (l) Sem breytist í sífellu. „Sandmagnið í fjörunni er síbreytilegt“.
Síbrosandi / Síglottandi / Síhlæjandi / Síkátur (l) Alltaf glaðlyndur. Síglottandi notað fremur í neikvæðri merkingu, en hin orðin í jákvæðri.
Síbullandi (l) Fer eilíflega með bull/rugl/vitleysu/lygi.
Síbylja (n, kvk) Leiðigjörn sífelld endurtekning. „Hann endurtók þetta í síbylju“.
Sídd (n, kvk) Lengd niður, t.d. á klæðaði. „Ja, ekki veit ég við hvað þetta lendir með síddina á pilsunum sem þessar ungpíur klæðast nú til dags! Faldurinn er kominn langt uppyfir hné og stefnir alla leið upp í klof“!
Sídettandi (l) Alltaf að detta/hnjóta. „Óttalega ertu hrösull ljúfurinn minn; þú ert bara sídettandi“!
Sídútlandi / Sídundandi / Sígaufandi (l) Sífellt að dunda við. „Hann er sídundandi við þessa bíldruslu“.
Síða (n, kvk) A. Hlið á manns- eða dýralíkama. „Ég er með árans verk í síðunni“. „Sálaður á síðu lá/ sauður fagur garði hjá“ (Jón Thoroddsen). B. Landshluti sem líkist síðu skv A. T.d. Síða í Skaftafellssýslu. C. Blaðsíða í bók/blaði.
Síðan (ao) Eftir það; frá þeim tíma. „Hann hefur ekki sést hér síðan í hittiðfyrra“. „Þetta var fyrir löngu síðan“.
Síðan ekki söguna meir (orðtak) Svo ekkert eftir það; svo var því lokið. „Hann sinnti þessu af alúð og dugnaði í nokkur ár, en síðan ekki söguna meir; þá missti hann áhugann á því“.
Síðan er mikið vatn til sjávar runnið (orðtak) Mjög langt er síðan; það gerðist fyrir löngu.
Síðari róður (orðtak) Síðari fiskiróður úr veri, ef tvíróið var sama daginn. „Þá var farið af stað í annan; venjulega síðari róður“ (KJK; Kollsvíkurver).
Síðarmeir (ao) Seinna; síðar. „Þetta kann að nýtast síðarmeir“. Sjá seint og síðarmeir.
Síðast en ekki síst (orðtak) Ekki hvað síst. „Síðast en ekki síst þurfti hún að annast barnahópinn sinn; sjá þeim fyrir fæði, gera þeim skó, prjóna sokka og sauma allar flíkur“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri“ (PG; Veðmálið).
Síðasta kvöldmáltíðin (orðtak) Minni úr píslarsögu Krists; síðasta máltíðin sem Kristur deildi með lærisveinum sínum. Samkvæmt Nýja testamentinu var hún að kvöldi skírdags/ fimmtudags fyrir páska. Kristnu fólki hefur löngum þótt altarisganga sérlega mikilvæg á þessum degi, enda vísar hún til útdeilingar Krists á víni og brauði, sem hann sagði vera tákn blóðs síns og holds.
Síðastaleikur (n, kk) Eltingaleikur barna með ákveðnum reglum. Fer í stórum dráttum þannig fram að einn „er hann“ og reynir að „klukka“ (snerta) þann sem hann nær; sá „er hann“ og tekur við hlutverkinu. Ýmis afbrigði eru til af leiknum, og sum e.t.v. skálduð á staðnum.
Síðasti biti í háls/kjaft (orðtak) Um síðasta matarbitann í boði eða lok verks. „Hér er eftir síðasti biti í kjaft. Ætli sé ekki best að ég taki hann; þá þarf ekki að slást um hann“!
Síðastliðinn (l) Sá tiltekni tími sem síðast leið; t.d. síðastliðinn vetur; síðastliðin helgi.
Síðastnefndur (l) Sá sem síðast var nefndur í umræðu/upptalningu.
Síðborið / Síðgotið (l) Lamb sem fæðist seint á sauðburði. „Það er ekki furða að hrúturinn sé lítill; hann er svo síðborinn“.
Síðborningur / Síðgotungur (n, kk) Lamb sem fætt er í enda sauðburðar eða eftir hann.
Síðbúinn (l) Seint tilbúinn; seinn fyrir. „Sigurður fer svo af stað með tvær stangir og ég á eftir honum með vað, en hinir þrír sem með okkur voru urðu eitthvað síðbúnari frá tjaldinu“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Síðbær (l) A. Um viðburð; veður seint. „Okkur barst þessi síðbæra frétt ekki fyrr en jarðarför var afstaðin“. B. Um kýr; ber seint á sumri.
Síðbæra (n, kvk) Kýr sem ber seint á sumri. Betra var að kýr bæru snemma á sumri til að beit nýttist sem best og kálfurinn braggaðist vel yfir sumarið.
Síðdegi (n, hk) Síðari hluti dags.
Síðdegisflæði (n, kvk) Seinni flæði; flóð sem verður eftir hádegi. „Hann gæti aukið aftur á síðdegisflæðinni“.
Síðfengin (l) Um ær; höfnuð af hrút seint á fengitíð, og verður því síðborin.
Síðgotungur (n, kk) Lamb, barn eða annað ungviði sem fæðist seinna en búast mætti við.
Síðjúgra (l) Um kýr; með síð júgur. „Síðjúgra kúm er mjög hætt við að stíga sig (stíga í spena og slasa sig). Til að forða þv, er stundum settur á þá júgurhaldari“.
Síðjökultími (n, kk) Tímabilið fyrst eftir lok ísaldar, eða frá ca 10.000 árum til ca 7000 árum. Á þeim tíma var jökull að hverfa, en láglendi víða undir sjó, þar sem landið hafði ekki náð að lyfta sér eftir jökulfargið. Þá var t.d. sjávarmál í Kollsvík líklega um Biskupsþúfu, Nautholt, Svarðarholt, Gróumel og Brunnsbrekku.
Síðla (ao) Seint. T.d. síðla dags; síðla vetrar; síðla sumars.
Síðmiðaldir (n, kvk, fto) Síðari hluti miðalda; venjulega átt við tímabilið frá 1400 eða fyrr, framyfir 1500.
Síðri (l) Lakari; verri; óæðri. „Hann er ekki síðri í smalamennskum en aðrir“.
Síðskeggjaður (l) Með sítt skegg.
Síðsleginn (l) Um gras/hey; slegið/heyjað seint að sumri. „Síðsleguð hey úr fyrsta slætti ést verr en annað“.
Síðslægja (n, kvk) Hey sem slegið er og verkað seint á sumri. Síðslægja þykir allajafna lakara fóður en snemmslegið hey, þó það fari reyndar mjög eftir aðstæðum og verkun.
Síðsumars (ao) Seint að sumri.
Síðubiti (n, kk) Rifjabiti; kjötbiti af síðu skrokksins. „Ári eru þetta feitir síðubitar sem eru eftir“.
Síður (ao) Frekarhelst ekki. „Best er að drífa þetta af í dagsbirtunni; ég vil síður vera að því í myrkri“.
Síður en svo (orðtak) Alls ekki; þveröfugt. „Það er síður en svo minni afli núna en á sama tíma í fyrra“.
Síðustu forvöð (orðtak) Síðasta tækifæri; hver að verða síðastur. „Það eru líklega að verða síðustu forvöð með að fara í fýlsegg, ef maður ætlar að fá þau ný“. Eldri mynd er „ystu forvöð“. Líkingin vísar til þess að sá sem fer með fjöru undir klettum þarf að komast fyrir áður en fellur uppá ystu/síðustu forvaðana.
Síðuvindur (n, kk) Um siglingu; hálfur vindur; vindur sem stendur þvert á bátinn.
Síðvembdur (l) M eð síðan kvið. „Mikið sýnist mér þessi kind vera síðvembd; ætli hún sé kviðslitin“?
Síemjandi / Síkvartandi (l) Hafa sífellt uppi kvartanir/bölmóð. „Maður er síkvartandi yfir vegunum, en þeir lagast lítið“.
Síendurtaka (s) Endurtaka oft. „Símasambandið var svo slæmt að ég þurfti að síendurtaka hvert orð“.
Síendurtekinn (l) Sem endurtekinn er í sífellu.
Síétandi (l) Alltaf að borða/éta. „Það liggur ekkert á að fara strax í matinn; maður er bara síétandi“.
Sífátandi / Sífiktandi (l) Sífellt að fikta/fáta í einhverju til óþurftar. „Vertu nú ekki sífátandi í stillingunum á útvarpinu; ég þarf að heyra veðrið á eftir“!
Sífellt (ao) Alltaf; sí og æ; alla tíð. „Hann var sífellt að spyrja mi9g að þessu“.
Sífra (s) Nöldra; klifa; tuða. „Hættu nú að sífra um þetta drengur“!
Sífretandi / Síprumpandi / Sírekandi við (l/orðtak) Einatt að leysa vind/prumpa/ reka við. „Þetta er ókosturinn við rúgbrauðið; maður er sífretandi ef maður étur það í óhófi“!
Sífullur (l) A. Alltaf mettur/saddur. „Það verður hreint ekkert gaman að éta ef maður er sífullur“. B. Alltaf ölvaður/kenndur. „Er karlinn bara sífullur þessa dagana“?!
Sífúll (l) Alltaf í þungu skapi; einatt reiður/leiður. „Maður nennir ekki að vera sífúll alla daga“.
Sífækkandi (l) Fækkar stöðugt. „Þeim fer sífækkandi sem tala það mál fullkomlega sem, Kollsvíkingum fyrr á tíð var tamt á tungu“.
Síga (s) A. Um það þegar sigari er látinn síga niður í bjarg í sigvað. „Þá var stundum sigið í Hjöllunum af þeim sem því þorðu, en ég var notaður til að halda við bandið“ (IG; Æskuminningar). B. Um það þegar hey sígur í hlöðu undan þunga, einkum þegar hitnar í því. C. Um það þegar fiskur er látinn þorna á rám eða í hjalli (siginn fiskur) D. Um ýmislegt annað, t.d. þegar mysa er látin síga af skyri eða saft af berjamauki eða bleyta úr fatnaði.
Í Kollsvík var oftar notuð þátíðarmyndin „sé“ en sjaldnar „seig“. Þannig var um önnur orð; „sté“ í stað „steig“; „hné“ í stað „hneig“; „mé“ í stað „meig“.
Síga að (orðtak) Um þoku/dimmviðri; koma yfir. „Mér sýnist að hann sé frekar að síga að með þokuna“.
Síga af (orðtak) Um bleytu; drjúpa af. „Við skulum láta síga af heyinu á vagninum í nótt og bæta á gryfjuna á morgun“.
Síga af stað / Síga heimleiðis / Síga í áttina (orðtak) Halda af stað/ halda heim á leið. „Ég held að við ættum nú að fara að síga af stað, ef við ætlum að ná á fundinn“. „Ætli maður ætti ekki að fara að síga heimleiðis“. „Það fer víst að koma tími til að síga í áttina hvað úr hverju“.
Síga á árar (orðtak) Leggjast á árar; taka á í róðri. „Þið megið síga betur á árarnar í andófinu; hann er að auka strauminn“.
Síga á seinni hlutann (orðtak) Komið á síðari hluta þess sem fyrir liggur/ þarf að gera; farnar að minnka birgðir o.fl. „Enn eigum við nokkuð eftir af verkinu, en það er farið að síga á seinni hlutann“.
Síga í (orðtak) A. Vera þungt að bera; þyngjast. „Það sígur í að bera tvo fulla eggjakúta og vaðinn að auki“. B. Reiðast; fjúka í; þyngjast skap. „Ég játa að það var farið að síga verulega í mig að horfa uppá þennan endemis klaufaskap, en ég stillti mig og þagði“. C. Fara í kletta/bjarg með sigi. „Sagnir eru um að Sighvatur þessi hafi sigið í Stóðin og haft þar sauði til eldis“.
Síga í brjóst (orðtak) Dotta; sofna; hverfa veröldin. „Ég held að mér hafi bara sigið aðeins í brjóst“.
Síga í sjó (orðtak) Um bát/skip; verða siginn vegna afla eða leka. „Skipið var farið að síga í sjó að framan“.
Sígandi lukka er best (orðatiltæki) Stöðug jákvæð þróun er heillavænlegri en skyndilegt happ. Sjá góðir hlutir gerast hægt.
Sígaretta (n, kvk) Vindlingur.
Sígaulandi (l) Niðrandi orðalag yfir að vera sífellt raulandi/syngjandi.
Sígeispandi (l) Syfjaður; alltaf að geispa. „Það gengur ekki að rorra hér sígeispandi; best að hafa sig í bælið“.
Sígeltandi (l) Alltaf að gelta; geltir oft. „Það verður að lóga hundinum ef hann ætlar að vera sígeltandi“.
Sígildur (l) Alltaf í sama verði; heldur verðgildi/gildi sínu. Orðið er oft ranglega notað um ýmiskonar list, s.s. tónlist, en eðli sínu samkvæmt er engin list sígild, þar sem viðhorf til hennar er misjafnt milli einstaklinga og tímabila. Sama bábilja ríkir í heimi akademíunnar varðandi skáld; ekkert skáld er sígilt fremur en list þess.
Síglaður / Síkátur / Síhress (l) Alltaf í góðu skapi; mjög sjaldan óánægður/niðurdreginn/fúll.
Sígrátandi / Sígrenjandi / Sískælandi / Sívolandi / Sívælandi
Sígrænn (l) Alltaf grænn; sölnar ekki. „Dýjamosinn kemur sígrænn undan vetrinum“.
Sígur í (orðtak) Er þungt. „Eggjakútarnir síga verulega í þegar gengið er á mosanum upp Geldingsskorardal, jafnvel þó þeir séu bornir í fatla“. Einnig haft um sigmann. Þegar hann bjóst til niðurferðar byrjaði hann á því að „síga í“; þ.e. setjast rólega af fullum þunga í vaðinn.
Síhikandi (l) Mjög oft hikandi/óákveðinn.
Síhikstandi (l) Með samfelldan hiksta. „Skelfilega er leiðinlegt að vera svona síhikstandi“!
Síhlaupandi (l) Alltaf á þönum/hlaupum. „Maður fitnar ekki meðan maður er síhlaupandi á eftir þessum rollurössum“!
Síhnuplandi / Sístelandi (l) Alltaf að taka ófrjálsri hendi. „Þeir sögðu að hann hefði verið síhnuplandi frá þeim; stal öllu steini léttara“.
Síhræddur (l) Sífellt hræddur/smeykur. „Maður er síhræddur um að þessi börð á Litlufitinni geti öll farið af stað, en þá yrði Láganúpsjörðin óbyggileg með öllu“.
Síhugsandi (l) Sífellt að hugsa um. „Segja má að maður hafi verið síhugsandi um þetta, allt frá unglingsaldri; hvernig beisla megi orku sjávar með raunhæfum hætti“.
Síhungraður / Sísoltinn / Sísvangur (l) Alltaf hungraður/svangur. „Heldur var naumt skammtað á bænum; við vorum síhungraðir meðan við vorum þarna í vinnu“.
Síhækkandi (l) Sem sífellt hækkar. „…einkum minntist hann á að rekstur barnaskólans færi síhækkandi“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Síjarmandi (l) Sífellt að jarma. „Hvað er með þetta síjarmandi lamb þarna uppi í Urðum“?
Síkveðandi / Síraulandi / Sísyngjandi / Sítrallandi / Sísönglandi (l) Sífellt að kveða/raula/syngja/tralla. „Ég man ekki eftir ömmu minni, Halldóru Kristjánsdóttur, öðruvísi en sísyngjandi. Hún kunni firn af vísum með lögum, og hafði góða söngrödd. Sama var um dóttur hennar; Sigríði móður mína, þó hún gerði heldur minna af því“.
Síkvefaður (l) Sífellt með kvef. „Ég held að maður sé bara síkvefaður þennan veturinn; svei mér þá“!
Síkvikur (l) Sífellt á hreyfingu; órólegur. „Hún var með einkennilega síkvik augu“.
Síla (s) Fá á sig ísingu/klakabrynju. „Grjótið sílar allt í frostinu“.
Sílaður (l) Með ísingu/klakabrynju. Einkum notað um ísingu á steinum og klettum. „Grjótið er allt sílað og stórvarasamt frammi á útfiri í svona miklu frosti“
Sílamávur (n, kk) Larus fuscus. Fremur stór mávur; líkist svartbaki en er minni og nettari. Dökkgrár á baki og vængjum, en annarsstaðar hvítur. Ungfuglar eru dökkbrúnflikróttir. Vængbroddar eru mjög dökkir. Fætur eru gulir og rauður blettur fremst á neðra skolti; augun gul. Sílamávur byrjaði að verpa á Íslandi á þriðja áratug 20.aldar, en hefur ekki orpið í Kollsvík eða annarsstaðar á vestanverðum Vestfjörðum, svo vitað sé.
Sílatorfa (n, kvk) Þétt torfa af síli, t.d. sandsíli; ger/gjör.
Síldarmjöl (n, hk) Mjöl sem gert er með bræðslu síldar. Allmikið notað sem skepnufóður milli 1930 og 1970. „Velfóðrað fé er einnig á Melanesi, enda hefur þar verið gefið síldarmjöl og nokkuð af því sem aukafóður, borið saman við vanalega gjöf undanfarna vetur…“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).
Síldarmjölspoki (n, kk) Poki af síldarmjöli. „Ég man enn eftir sjálfsánægju minni, þegar mér var í fyrsta skipti treyst til að bera 200 punda síldarmjölspoka upp úr bát í Kollsvíkurveri“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Sílesandi (l) Sífellt að lesa. „Maður var sílesandi flestar stundir þegar frí gafst frá vinnu og leikjum“.
Sílferð (n, kvk) Göngur af síli. „Það hlýtur að vera mikil sílferð á víkinni núna því það standa uppi nokkur gjör. Ég held það væri ráð að setja fram og renna fyrir fisk“.
Síli (n, hk) Síli var yfirleitt samheiti á eiginlegu síli og seiðum í munni sjómanna í Kollsvík og víðar. Þó voru sumir sem stúderuðu fisktegundir; lífshætti þeirra og hegðun meira en aðrir.
Síljúgandi / Síslúðrandi (l) Einatt að ljúga/ bera út kjaftasögur. „Ég hlusta ekki á þetta síslúðrandi pakk“!
Sílogandi (l) Um ljósfæri/rafljós; alltaf kveikt. „Það er óþarfi að hafa sílogandi á útiljósinu“.
Sílspikaður (l) Akfeitur; asafeitur; rær í spikinu. „Hann var sílspikaður; hérumbil hnöttóttur“.
Síma (s) Hringja; hafa símsamband; tala í síma. „Að því búnu símaði ég til Snæbjarnar Thoroddsen... “ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943).
Símaat (n, hk) Hrekkir með síma. „Stundum stálust hrekkjalómarnir til að gera símaat. Það var auðvelt á dögum sveitasímans. T.d. var hægt að skjóta inn einu og einu orði i samtal annarra eða trufla með öðru móti. Þetta var þó grátt gaman og hart á því tekið ef upp komst“.
Símabilun (n, kvk) Bilun í símasambandi. Símabilanir voru mjög algengar meðan enn voru loftlínur. Var fremur regla en undantekning að símalínur biluðu í miklum veðrum eða snjóþyngslum.
Símadama (n, kvk) Símastúlka; kona sem vinnur á skiptiborði á símstöðeða hjá fyrirtæki. „Símadaman bað mig að bíða aðeins á línunni“.
Símafundur (n, kk) Fundur sem haldinn er í síma. Sveitasíminn gamli bauð uppá ýmsa möguleika; m.a. þann að hlera samtöl annarra. En einnig gátu notendur á sömu línu haldið fund; tveir, þrír eða fleiri.
Símahlerun / Símhlerun (n, kvk) Það að liggja á hleri í sveitasíma/ hlera samtal um opna línu. „Allir vissu að það var argasti ósiður að hlera, en einnig að símahlerun var skilvirkasta fréttaveitan sem í boði var“.
Símakúla (n, kvk) Hvít einangrandi bjöllulaga kúla úr postulíni, sem höfð er efst á símastaur. Símalína í lofti liggur svo um þessa kúlu, sem varnar því að rafmagn leiði til jarðar.
Símalandi /Síblaðrandi (l) Sífellt talandi; samkjaftar ekki. „Hún er símalandi um þessa blessaða englabossa sína“. „Þú ert síblaðrandi um að það sé ekkert mál að komast upp klettinn; sýndu nú hvað þú getur“!
Símalaust (l) Dauður sími; ekkert símasamband. „Það er þá símalaust eins og vant er, eftir skrugguveðrið“.
Símalína (n, kvk) A. Lína sem áður lá í lofti milli bæja, borin uppi af staurum. „Niður með Gilinu lá símalínan að Breiðuvík og Látrum. Þarna á brúninni laust eldingu niður í línuna og af þremur staurum voru einungis eins meters stubbar upp úr jörð; og næstu klofnir niður í jörð. Ég var þá með eftirlit með símanum og tjaslaði þessu upp til bráðbirgða“ (IG; Sagt til vegar II). B. Rauðasandshreppi var skipt í svæði, og innan hvers svæðis höfðu nokkrir bæir sameiginlega símalínu; sem þýddi að ekki gat nema einn bær í einu notað línuna og unnt var að hlera símtöl hinna. Á Víknalínu voru bæirnir Kollsvík, Stekkjarmelur, Láganúpur, Breiðavík, og Látrabæirnir Ásgarður, Húsabær og Sæból.
Símamaður (n, kk) Maður sem vinnur við símalagningu/símaviðgerðir. „Símamenn að sunnan komu yfirleitt árlega í hreppinn; nokkrir saman á bíl sem var furðulegt sambland af smárútu og pallbíl. Á pallinum tróndu nokkrir símastaurar sem þeir höfðu til skiptanna.
Símasambandslaust (l) Án símasambands. „Fyrir stuttu þekktist ekki sími og fólk lifði í friði og ró. Nú lamast allt þjóðfélagið ef það verður símasambandslaust! Svo kalla menn þetta framfarir“!
Símastaur (n, kk) Staur til að halda símalínu frá jörð. Raðir símastaura voru áberandi í landslagi sveitarinnar meðan loftlínur voru notaðar til tenginga milli bæja. Símastaur er líklega um 10m hár og um 6-8“ í þvermál; sívalur og gegnsoðinn með tjöru. Neðri endi er tryggilega grafinn/rústaður í jörð og á efri endann er fest símakúla með sérstöku bognu járni sem skrúfast í staurinn. Staurum er valinn staður á efstu hólum í landslagi, með nokkru millibili; þó helst ekki á hæstu fjallstindum vegna eldingahættu. Í dimmviðrum gat verið öryggi að því fyrir ferðamenn og smala að geta fylgt símalínu milli staða. Eftir að loftlína lagðist af hafa staurar og línur sumsstaðar verið til óþrifa á jörðum, en sumsstaðar hafa bændur gtað hagnýtt sér staurana.
Símatími (n, kk) Tími sem viðvera er á símstöð. „Á fyrstu dögum síma í sveitum landsins hafði þetta orð aðra merkingu en nú er. Þá var einungis unnt að hringja yfir daginn, meðan vakt var á símstöðinni. Alltaf var þó unnt að ná í næstu bæi sem voru á sömu línu, en símstöð þurfti að tengja á næstu línur og í langlínusímtöl“.
Símaviðgerðarmaður (n, kk) Sá sem gerir við símalínur. „Ingvar í Kollsvík var símaviðgerðarmaður á Útvíknalínunni. Hann þurfti iðulega að brjótast langar leiðir í erfiðum aðstæðum, en þá bilaði helst“.
Símavír (n, kk) Efni það sem er í símalínu; venjulega koparvír með stálkjarna.
Símhringing (n, kvk) Hringing síma. Meðan gömlu sveitalínurnar voru við lýði hafði hver bær sína einkennandi hringingu, sem merkti að símtali væri beint á þann bæ. Í Kollsvík var hringingin ein löng og ein stutt, en á Láganúpi tvær stuttar og ein löng. Til að hringja á símstöð/miðstöð hringdu menn eina langa. Líklega hefur hringing á aðra bæi Víknalínu verið þessi: Breiðavík, tvær langar; Ásgarður, stutt löng; Húsabær, þrjár stuttar og ein löng; Sæból, þrjár stuttar.
Sími (n, kk) A. Símsamband; tækni sem gerir mönnum kleyft að talast við um langar vegalengdir. Skotinn Alexander graham Bell þróaði fyrsta nothæfa talsímann í Bandaríkjunum 1871, en Thomas Edison gerði á honum nokkrar breytingar. Landsími Íslands var stofnaður 1906 og sama ár var lagður sæsímastrengur frá Skotlandi um Færeyjar og til Seyðisfjarðar. „Sími kom fyrst í Rauðasandshrepp með lagningu sæsíma yfir Patreksfjörð árið 1927, fyrst að Hvalskeri og Kvígindisdal. Þar voru svonefndar 3.flokks símstöðvar. 1933 var lagður sími frá Kvígindisdal um Örlygshöfn (Hnjót) að Breiðavík og Látrum (Sæbóli). Einkalínur voru lagðar að Sauðlauksdal, Vatnsdal og Tungu. Af Hafnarfjalli var tekin lína að Kollsvík (Stekkjarmel) árið 1934. 1937 var lagður sími að Saurbæ á Rauðasandi og 1939 kom sími að Hænuvík. 1950-54 var lagður sveitasími á alla bæi hreppsins, með miðstöð á Patreksfirði. Sjálfvirkur sími kom í hreppinn 1984, og voru þá símalínur lagðar í jörð“ (BÞ; Fólkið, landið og sjórinn). Sjá símalína. B. Tæki til að móttaka og senda símtöl; símtæki; símtól. Til að hringja var snúið sveif sem knúði rafala og þá hringdi bjalla á hverjum bæ á línunni og í símstöð. Sjá símhringing. Símtæki voru yfirleitt vegghengd, en af ýmsum gerðum. Á Láganúpi var nettur veggsími úr Baekelit-plasti, en á Stekkjarmel og í Kollsvík voru símtæki í viðarkassa. Þegar símtól var lagt á tækið rauf það sambandið.
Símleiðis (ao) Með símasambandi; gegnum síma. „Fundurinn var boðaður símleiðis“.
Símon kjaftur (orðtak) A. Um seglabúnað skips; gæluheiti á stormklýfi. „Aðeins var lagt til með þrírifuðu stórsegli og stormklýfi, eða Símoni kjafti, eins og sjómenn kölluðu“ (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar). B. Gæluheiti á rifjárni; sérstöku verkfæri til að draga út nagla/saum.
Símskeyti (n, hk) Skeyti/boð/kveðja sem sent er með því móti að sendandi kemur boðinu til sinnar símstöðvar sem kemur því til símstöðvar notanda; sem prentar það út á sérstakt eyðublað og kemur því til móttakanda. Í upphafi símans og framyfir 1960 var algengt að menn sendu símskeyti, sérílagi boð sem þurfti að votta að hefðu komist til skila. Einnig sendu menn kveðjur til ástvina, s.s. heillaóskaskeyti og samúðarskeyti, sem enn er gert þó tölvur hafi mikisttil tekið við hlutverki símstöðva.
Símstjóri (n, kk) Umsjónarmaður landsímastöðvar. Ein slík stöð var starfrækt að Stekkjarmel í Kollsvík í upphafi símvæðingar; þangað þurftu Kollsvíkingar þá að leita með sín símtöl. „Andrés Karlsson, símstjóri á Mel í Kollsvík, fór nú heim til sín“ (ÞJ; Sargon strandið).
Símstjóri (n, kk) Umsjónarmaður símstöðvar. „Andrés Karlsson, símstjóri á Mel í Kollsvík, sem þarna var með okkur, fór nú heim til sín... “ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Símstöð (n, kvk) Miðstöð; tengistöð fyrir sveitasímalínur og langlínu.
Símtal (n, hk) Samtal gegnum síma.
Símtól (n, hk) A. Símtæki. B. Hluti símtækis; tólið sem haldið er á; talað í og hlustað. Tengt með snúru við símtækið fyrrum.
Símtæki (n, hk) Símar voru, í upphafi símavæðingar, mun umfangsmeiri og svipmeiri tól en núorðið er. „Fyrstu símtækin voru stórir trékassar, hengdir á vegg, með utanáliggjandi bjöllum að framanverðu og þungu snúrutengdu símtóli hangandi á krók á hliðinni. Þannig símtæki var t.d. fyristi síminn á Stekkjarmel, sem fluttist síðan að Kollsvík. Símtækið á Láganúpi var einnig vegghengt; úr svörtu baekelíttplasti og með ofanáliggjandi snúrutengdu símtóli. Einnig þekktust borðsímar af svipaðri gerð. Þessir símar voru allir með sveif til hringingar, en síðar komu skífusímar; þar á eftir takkasímar og löngu síðar þráðlausir símar“.
Sínagandi (l) Sífellt að naga/narta. „Það er ekki hollt að vera sínagandi rabbarbara; þú færð varaþurrk af því“.
Síngirni (n, kvk) Eigingirni; ágirnd. „Það er nú bara síngirni að gefa aldrei neitt til góðgerðarmála“.
Síngjarn (l) Eigingjarn; sjálfhverfur. „Það hafa aldrei þótt mannkostir að vera sjálfselskur og síngjarn“.
Sínkur (l) Aðsjáll; sparsamur; nískur. „Hann var ekkert sínkur á saltið við okkur“.
Sínum augum lítur hver á silfrið (orðatiltæki) Viðhaft um misjafnt álit manna; sérhver metur málefni og hluti á sínum forsendum. Vísar líklega til þess að fyrrum gátu orðið deilur um hreinleika og verðmæti silfurs sem notað var sem gjaldmiðill.
Sípárandi / Sískrifandi (l) Einatt að skrifa/ punkta hjá sér.
Sípirraður / Síæstur (l) Mjög oft pirraður/æstur. „Maður er sípirraður yfir þessum bjálfum sem kunna ekki að leggja í rétta stefnu“! „Það hefur ekkert uppá sig að vera síæstur yfir þessu; það bætir lítið blóðþrýstinginn“.
Síplagaður / Síþjakaður / Síþjáður (l) Sífellt hrjáður/kvalinn; eilíft með verki/þjáningar. „Það er óskemmtilegt að vera síplagaður af tannverkjum“. „Það étur hvern mann að vera síþjakaður af áhyggjum“.
Sípuðandi / Sístarfandi / Síúðrandi / Sívinnandi (l) Sífellt vinnandi; iðinn. „Ég man eftir henni Gunnu gömlu í Gröf, sem var ein af þessum gömlu sívinnandi konum sem ekki hafði verið mulið undir um ævina“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Sírennandi (l) Rennur samfellt. „Ég hef sírennandi vatn hjá fénu í hólfinu“.
Sírennsli (n, hk) Vatn sem rennur stöðugt úr krana/lögn o.fl. „Það þarf að laga þetta sírennsli í klósettinu“.
Sírexandi (l) A. Sífellt að ganga um. „Það kólnar fljótt í húsinu þegar krakkarnir eru sírexandi út og inn“! B. Sífellt að nauða/biðja/tuða. „Vertu nú ekki sírexandi í mér með þetta“!
Síreykjandi (l) Sífellt að reykja. „Það er nú varla nein hollusta að vera síreykjandi þessa pípu“!
Síríus (n, kk) Hundastjarnan. Bjartasta stjarnan í stjórnumerkinu Stórahundi og reyndar bjartasta fastastjarnan á himninum; um 25 sinnum ljósmeiri en sólin. Fjarlægð frá okkar sólkerfi er tæp 9 ljósár. Sírius er tvístirni, þar sem önnur stjárnan er hvítur dvergur.
Sísal / Sísalhampur / Sísaltóg (n, kk/kvk) Trefjar sem unnar eru úr plöntunni Agave sisalana, sem er hitabeltisplanta af þyrnililjuætt. Trefjarnar voru notaðar í kaðla/reipi/tóg sem nýtt er til margvíslegra hluta, en nú hafa gerviefni leyst hampinn af hólmi í flestu. Hampiðjan framleiddi sísalhamp fyrr á tíð.
Sískimandi (l) Sífellt að skima/skyggnast eftir. „Ég hef verið sískimandi eftir þessum kindum sem vantar“.
Sískjálfandi (l) Sífellt skjálfandi. „Blessaður búðu þig nú betur; það gengur ekki að vera sískjálfandi úr kulda“!
Sísofandi (l) Sefur mjög mikið. „Það vinnst nú lítið ef menn eru sísofandi; bæði dag og nætur“!
Síspriklandi (l) Einatt á iði/ spriklandi. „Þú mátt alveg sofa uppí hjá okkur ef þú ert ekki síspriklandi“.
Síspyrjandi (l) Einatt að spyrja. „Vertu nú ekki síspyrjandi alltaf að sama hlutnum“!
Síst datt mér það í hug/ til hugar (orðtak) Það hvarflaði síst að mér; ekki datt mér það í hug.
Sístagast / Sístaglast (s) Þrástagast; endurtaka ítrekað. „Hættu nú að sístagast á þessu“!
Sístækkandi (l) Sem stækkar jafnt og þétt. „Lífsbaráttan var erfið fyrir sístækkandi fjölskyldu á örreytiskoti“.
Sísveittur (l) Endalaust sveittur. „Nú mætti hann fara að kula dálítið; maður er sísveittur í þessari mollu“.
Sísyfjaður (l) Alltaf syfjaður. „ Ekki veit ég af hverju ég er svona sísyfjaður þessa dagana“.
Sísyngjandi (l) Iðulega að syngja. „Hún var alltaf í góðu skapi og sísyngjandi“.
Síungur (l) Virðist alltaf jafn ungur; eldist ekki sýnilega. „Alltaf virðist hún síung, frá því að ég sá hana fyrst“.
Síúðrandi (l) Önnum kafinn; vinnuþjarkur. „Aldrei sér maður hana öðruvísi en síúðrandi“.
Sívafinn (l) Margvafinn; undið með mörgum vafningum. „Gert var að fótbroti á kind með því fyrst að sótthreinsa sárið vel, væri það opið, og sívefja með fínni sáragrisju eða hreinu lérefti. Síðan voru útbúnar spelkur, t.d. úr bambusteinum, og þeim raðað kringum legginn með litlu millibili, og þannig að klaufir stæðu vel niðurúr. Hnýtt var rækilega að með snæri; fyrst með draglykkju en síðan sívafið utanum spelkurnar. Ef vel tókst til gat kindin farið allra sinna ferða og brotið greri vel, en halda þurfti umbúðunum þurrum“.
Sívaxandi (l) Sem stöðugt eykst/vex. „…fá Barðstrendinga til smölunar með Rauðsendingum, sökum mikils og sívaxandi ágangs fjár frá Barðstrendingum á fjalllendi Rauðsendinga“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Sívinnandi (l) Vinnur stöðugt/mikið; alltaf að. „Menn voru sívinnandi myrkranna á milli“.
Sívefja (s) Vefja oft kringum. „Ég lagði spelkurnar við fótbrotið á kindinni; sívafði svo með snæri og batt tryggilega að“.
Síviljugur (l) Alltaf viljugur/reiðubúinn. „Ég var síviljugur í alla hreyfingu; hvort sem það var smalamennskur eða eggjaferðir“.
Sívökull (l) Alltaf vakandi/ á verði. „Ekkert matarkyns fór framhjá sívökulum augum krumma“.
Síþreyttur (l) Alltaf þreyttur/ með þreytutilfinningu. „Það gengur ekki endalaust að vera síþreyttur“.
Síþyrstur (l) Alltaf þyrstur. „Maður er síþyrstur eftir þetta skötuát; hún hefur verið alltof sölt“!
Sjal (n, hk) Klútur sem konur sveipa gjarnan yfir herðar sér til skjóls og/eða skrauts.
Sjaldan (l) Ekki oft; fáum sinnum. „Þá tók sauðburðurinn við og við urðum að smala út í Breiðavík, ekki sjaldnar en annanhvern dag“ (IG; Æskuminningar). Orðmyndin „skjaldan“ var ekki notuð í Kollsvík, a.m.k. ekki í seinni tíð.
Sjaldan bítur refur/tófan nærri greni (orðtatiltæki) Refir kunna vel að leyna greni sínu, og liður í því er að fara gjarnan í langar veiðiferðir, en ekki eingöngu í sínu nágrenni. Spekin er svo heimfærð á mannfólkið; t.d. það að sauðaþjófum var gjarnt að stela fjarri sínu heimili.
Sjaldan bregst mjaldur af miði (orðatiltæki) Um þann sem er þaulsætinn á sama stað, eða bregður lítt útaf sínum vana. Vísar til þess að hvaltegundin mjaldur, sem fáséð er hér við land, mun vera heimakær og halda sig mikiðstil á sömu slóðum.
Sjaldan brotnar bein á huldu (orðatiltæki) Speki sem vísar til þess að bein eru oft sterk, og því þarf bæði að hafa gott undirlag og öflugt högg þegar þau eru brotin, t.d. til mergjar. Setningin er stundum sögð vera tilvitnun í skálkinn Axlar-Björn, þegar útlimir hans voru brotnir. Sjá; saxast nú á limina hans Björns míns.
Sjaldan brýtur gæfumaður gler (orðatiltæki) Vísar til þeirrar hjátrúar að maður kalli yfir sig ógæfu með því að brjóta gler.
Sjaldan bætir biðin / Sjaldan er bið til batnaðar/bóta (orðatiltæki) Sjaldgæft er að hlutirnir batni eða vandamál leysist við það að bíða.
Sjaldan er á botninum betra (orðatiltæki) Ekki skal leita langt yfir skammt; ekki finnst betra þó gramsað sé í íláti; þvert á móti er t.d. grogg við botninn í lýsistunnu. „Hentu til mín tveimur sneiðum þarna ofanaf; sjaldan er á botninum betra“. „Ég gekk út þegar hann upphóf skammarræðuna; minnugur þess að sjaldan er á botninum betra“. Stundum snúið upp í andhverfu: Oft er á botninum betra.
Sjaldan er bagi að bandi (orðatiltæki) Spekin vísar til þess að bandleysi bagaði menn oft á fyrri tíð; ekki síst í verstöðvum, þar sem þess var mikil þörf. Því tóku menn því jafnan feginshendi ef spotta var að finna. Því var það að eldri Kollsvíkingar töldu það happafeng þegar á fjörur rak lóðaflækjur eða vörpuslitur, og viðhöfðu þá gjarnan þetta máltæki. Til var lengri útgáfa; „sjaldan er bagi að bandi né burðarauki að staf“.
Sjaldan er bið til batnaðar / Sjaldan bætir biðin (orðatiltæki) Hið fyrra er meira notað í Kollsvík í seinni tíð, ekki síst af þeim sem óþolinmóðir eru. „Við ættum nú að fara að setja niður ef eitthvað á að verða úr róðri í dag! Sjaldan er bið til batnaðar og óvíst hvað sjóveðrið helst“. Sjá bíður sér ekki til batnaðar.
Sjaldan er breyting til batnaðar (orðatiltæki) Sjaldnast eru breytingar til bóta, ef þær eru gerðar án þess að nauðsyn beri til. Oftar er notað orðtakið breyting til batnaðar.
Sjaldan er ein báran stök (orðatiltæki) Oftast notað um áföll/óhöpp af einhverju tagi og vísar til þes að hverju ólagi á sjó eða í lendingu fylgja vanalega fleiri bárur. „Ólagsöldurnar eru taldar 4-5 og í vaxandi brimi er ætíð styttra milli ólaga“ (JT Kollsvík; LK; Ísl.sjávarhættir III). Þessi kenning um fjölda bára milli ólaga var býsna lífseig, þó fjöldinn væri á reiki. Vísindamenn telja hana þó almennt ekki trausta. Sjá þegar ein báran rís er önnur vís.
Sjaldan er eymdin einsömul ( orðatiltæki) Vísar til hörmunga fyrri tíma, þegar harðræði, plágur og óáran gekk yfir þjóðina og flestir lifðu við kröpp kjör. Þá þústnaði að hjá mörgum í senn.
Sjaldan er flas til fagnaðar (orðatiltæki) Speki sem vísar til þess að fara gætilega en ekki með asa/offorsi.
Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur eftir renni (orðatiltæki) Sjá gíll.
Sjaldan er glens í dauðs manns húsi (orðatiltæki) Viðhaft þegar einhver er niðurdreginn/ókátur, og oft nefnd ástæða á eftir. Tilvísunin er auðskiljandleg.
Sjaldan/aldrei er góð vísa of oft kveðin (orðatiltæki) Aldrei er góð speki of oft höfð um hönd. Sama gildir um góðan kveðskap og heilræði.
Sjaldan er köttur í feigs manns fleti / Sjaldan er fluga í feigs mat (orðatiltæki) Speki sem vísar til forlagatrúar; að dýr forðist fólk sem er feigt; sem er áskapað að deyja; einkum kettir. Viðhaft í seinni tíð meira í gamni en alvöru um það þegar köttur velur sér ból.
Sjaldan er langvinnur laugardagsþerrir (orðatiltæki) Máltækið kann að lýsa óþreyju sem skapast af þeim sið annarsvegar að undantekningarlaust er borið út, þ.e. hafinn heyskapur, á laugardegi, en hinsvegar að menn héldu heilagt á sunnudögum. Þá var ekki unnið nema brýna nauðsyn bæri til. Því nýttist illa þurrkur sem hugsanlega var á laugardag.
Sjaldan er mein að miðsvetrarís (orðatiltæki) Minni skaði er af hafís sem berst að landinu að vetrarlagi, þegar fé er á húsum og bátar í nausti, heldur en ef hann kemur að sumri.
Sjaldan er skammsýnn skaðlaus (orðatiltæki) Vísar til þess að sá sem er hugsar ekki fyrir hlutunum getur lent í vandamálum síðar.
Sjaldan er ýsa í asafiski eða ufsi í ördeyðu (orðatiltæki) Orðtakið heyrðist ekki vestra, a.m.k. ekki í seinni tíð, en kann að hafa verið þekkt þar fyrrum. Fiskifræði fyrri tíma. Menn tóku eftir því að ýsan dróst ekki mikið ef nóg var af öðrum fiski, en hinsvegar er ufsinn býsna viljugur þegar mikið er af fæðu í hlýsjó, en hverfur frá endranær; enda er hann hlýsjávarkær.
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni (orðtak) Ávöxturinn dettur beint af sinni grein og fer því ekki langt frá trénu. Oftast viðhaft um manneskju; að hún hafi sama svipmót eða hegðun og hennar forfeður. Líklega ævafornt, eða frá þeim tíma að Íslendingar höfðu náin kynni af eplum og orðið eik var notað um eplatré.
Sjaldan fellur tréð við fyrsta högg (orðatiltæki) Vísar til þess að lengi þarf að höggva til að fella tré; og á sama hátt getur þurft að vinna lengi að málefni til að fá því framgang.
Sjaldan fer betur þá breytt er (orðatiltæki) Ekki er öll breyting til batnaðar; breytingar virka ekki alltaf sem skyldi.
Sjaldan gefst sofandi manni sigur (orðatiltæki) Sá sem sefur nær litlum árangri/ kemur litlu í verk.
Sjaldan hef ég flotinu neitað (orðatiltæki) Ég slæ ekki hendinni á móti því; ég þigg það með þökkum. Orðatiltækið er viðhaft þegar manni er boðið ljúfmeti eða annað kærkomið og vísar líkingin til þess þegar feitmeti var eftirsóttur matur, í erfiðari lífsskilyrðum fyrri tíma.
Sjaldan hittir leiður í lið (orðatiltæki) Viðhaft um það að hinn leiði sækir sjaldan í skemmtan annarra, né kemur þegar vel stendur á. Málshátturinn er kominn úr Hávámálum; „Mikilsti snemma/ kom ek í marga staði/ en til síð í suma;/ öl var drukkit,/ sumt var ólagat; /sjaldan hittir leiður í lið“. Hann hefur verið talinn vísa til þess að erfitt er að hitta rétt í liðinn þegar löpp er skorin af skrokk sauðkindar/grips sem slátrað hefur verið. Til þess þarf umfram allt lagni en ekki óþolinmæði (leiða).
Sjaldan launar kálfur ofeldi (orðtatiltæki) Spekin á eflaust rætur í því að kálfar geta étið ótæpilega af fóðri í sínum uppvexti án þess að skila því í auknum nytjum fullvaxnir. Á sama hátt er ekki víst að maður launi alltaf vel fyrir sig þó vel sé gert við hann.
Sjaldan lýgur sveitarrómur/almannarómur (orðatiltæki) Meiningin er sú að varla geti allir haft rangt fyrir sér. Ekki er vitað hvaða spunameistari skapaði orðatiltækið, en rangari staðhæfing er líklega vandfundin. Nægir þar að vísa í bullið sem iðulega viðgengst á netmiðlum almennings síðari árin.
Sjaldan ropar svangur maður (orðatiltæki) Auðskilið, þar sem ropi er oftast afleiðing saðningar.
Sjaldan sem aldrei (orðtak) Nær aldrei en þó örsjaldan. „Það gerist sjaldan sem aldrei að kind fari þarna í svelti“.
Sjaldan veldur einn þá tveir deila (orðatiltæki) Þessi speki á stundum við, en þó getur hún verið kolröng. Þvert á móti er það líklega oftar svo að friðarspillir á alla sök á deilumálum. Ekki er ólíklegt að þessi frasi hafi verið uppfundinn af yfirgangssömu höfðingjaslekti eða kóngapakki.
Sjaldan viðrar eins um pálma og páska (orðatiltæki) Um veðurlag; sjaldan er sama veður á pálmasunnudag og páskadag. Spakmælið mun hafa verið gamalt en ég man KÓl, Hænuvík fara með þetta (VÖ).
Sjaldgæfur (l) Sem sjaldan ber fyrir augu; sem finnst sjaldan. „Í Grænlendingnum var sjaldgæf bergtegund“.
Sjaldséður (l) Fáséður; sem sést sjaldan. „Hingað komu sjaldséðir gestir um helgina“.
Sjaldséðir (eru) hvítir hrafnar (orðatiltæki) Gripið er til þessarar líkingar þegar t.d. gest ber að garði sem sjaldan kemur í heimsókn.
Sjatna (s) Minnka; lækka. „Það hefur sjatnað í Ánni“. „Ég verð að leggjast og láta sjatna í mér eftir matinn“ .
Sjá að sér (orðtak) Breyta til betri vegar; láta af röngum gerðum/fyrirætlunum. „Hann ætlaði í fyrstu að leggja einn af stað niður í klettana, en sá að sér og ákvað að skynsamlegra væri að bíða eftir hinum“.
Sjá af (orðtak) Láta í té; gefa; láta eftir/frá sér. „Geturðu nokkuð séð af örlitlu salti, þar til næst fellur ferð“?
Sjá aumur á (orðtak) Vorkenna; líkna. „Hvíti haninn mátti hýrast í sínum kofa nema einhver sæi aumur á honum og ræki hænur hans heim“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).
Sjá á (orðtak) Sjást skaði/meiðsli/óhreinindi; vera meiddur/skaðaður/skítugur. „Það sá ekkert á honum eftir byltuna“. „Hún sagði einusinni: „Það er ég viss um að Ingvar lærir aldrei að halda sér uppúr skítnum. Það er munur en hann Össur; það sér aldrei á honum“ “ (IG; Æskuminningar). Sjá stórsjá á.
Sjá á bak (einhverjum) (orðtak) Horfa á einhvern hverfa. „Það var þungbært að sjá á bak hnífnum. Eftir það var lítið annað að gera en hafa sig í land“.
Sjá á langleið (orðtak) Sjá langt að. „Það má nú sjá það á langleið að þarna fer enginn um“.
Sjá ástæðu til (orðtak) Finnast þörf á. „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því“ (PG; Veðmálið).
Sjá (engin) deili/mót til (orðtak) Sjá vott um; sjá ummerki um. Ég sé engin deili til þessa að hann muni birta til í dag“. „Ég sé lítil mót til þess að hann ætli að standa við loforðið“.
Sjá eftir (orðtak) Sakna; iðrast. „Ég sé mest eftir því að hafa ekki látið karlskrattann heyra það meðan ég var í kallfæri við hann“! „Það var haft eftir Gumma að aldrei hefði hann séð eftir bita eða sopa ofan í nokkurn mann…“ (PG; Veðmálið).
Sjá ekki fyrir vend (orðtak) Um bjargsig; gefa sigara svo hratt niður að ekki verði greindir vindingar (vend) á vaðnum. „Ef um loftsig var að ræða var vönum sigara gefið svo fljótt að ekki sá fyrir vend á vaðnum“ (LK; Ísl sjávarhættir V).
Sjá ekki glóru / Sjá ekki handa sinna skil / Sjá ekki út úr augum (orðtök) Sjá lítið sem ekkert fyrir myrkri/dimmviðri. „Ég sé ekki glóru hér inni svona ljóslaus“. Það er að verða svo dimmt að maður sér ekki handa sinna skil“. „Það skall á okkur slíkur þreifandi bylur að við sáum ekki útúr augum“.
Sjá ekki handa sinna skil (orðtak) Greina ekkert fyrir myrkri/þoku/reyk/snjókófi, jafnvel ekki hendur sínar. „Við snerum við uppi í Jökladalshæð. Hann gerði svo dimmt él að maður sá ekki handa sinna skil“.
Sjá ekki hálfa sjón (orðtak) Ver glámskyggn; láta fara framhjá sér; yfirsjást. „Sjáiði ekki nema hálfa sjón?! Þið misstuð kindurnar framhjá ykkur í seilingarfjarlægð“!
Sjá ekki sólina fyrir (einhverjum/einhverri) (orðtak) Vera mjög ástfanginn af einhverjum/einhverri.
Sjá farborða (orðtak) Bjarga; komast af. „Lífsbaráttan var ávallt hörð og menn urðu að leggja hart að sér til þess að sjá sér og sínum farborða“ (KJK; Kollsvíkurver). Merking ekki augljós. Farborð er heiti á einu af neðstu borðum súðbyrts báts. E.t.v. hefur nafið áður átt við eitt af efstu borðunum, en bátur er ekki öruggur nema að borð sé fyrir báru.
Sjá fjandann í hverju horni (orðtak) Vera mjög tortrygginn/ á verði. „Það þýðir ekkert að vera með svona svartsýni; þú kemst ekkert áfram með þetta ef þú sérð fjandann í hverju horni“!
Sjá framá (orðtak) Sjá fyrir/fyrirfram. „Ég sá framá að við næðum heyinu ekki öllu í hlöðu fyrir rigninguna, svo við settum það upp í galta“. „Mér varð fyrst fyrir að hrópa á hjálp, en sá fljótt framá að engin minnstu líkindi væru til björgunar; allt fólkið í rúminu nema prestkonan og ein stelpa“ (Júl. Reynir Ívarsson; Maður og kindur í ísvök; Lesb.Tímans).
Sjá framúr (einhverju verki) (orðtak) „Þetta hefur tekið óhemju langan tíma, en ég held ég fari nú að sjá framúr þessu“.
Sjá frá (orðtak) Um skipti á fiski; horfa í áttina frá hrúgum sem búið er að skipta, áður en sagt er hver skal hvað“. Sjá skipti. „Ég bendi; þú sérð frá“.
Sjá frá sér (orðtak) Sjá umhverfið í kringum sig; vera ekki blindaður af dimmu/dimmviðri/sjónleysi. „Ég er hættur að sjá eins vel frá mér og fyrrum“. „Við sáum ekkert frá okkur í þokunni“.
Sjá fyrir (orðtak) A. Spá fyrir um; átta sig á áður en skeður. „Enginn gat séð það fyrir að byggðin færi í eyði“. B. Sjá um; taka að sér; sjá farborða. „Ég sá fyrir því að smiðirnir hefðu nóg að bíta og brenna“. „Hann sá okkur fyrir nægu efni“.
Sjá fyrir endann á (orðtak) Sjá endalokin á; sjá enda. „Enn sér ekki fyrir endann á þessari rigningatíð“! „Það fer nú loksins að sjá fyrir endann á þessu verki“.
Sjá hvað setur / Sjá hvað verður / Sjá hverju fram vindur (orðtak) Sjá til; bíða og sjá hvað gerist. „Kannski kemur hann á morgun; við sjáum hvað setur“. „Við sjáum hvað verður með þetta veður; hvort þetta getur gengið í fyrramálið“.
Sjá (til) hvernig kaupin gerast á eyrinni (orðtak) Bíða eftir niðurstöðu mála. Bændur fóru með sína vöru í kaupstað fyrr á tímum, og lögðu inn hjá kaupmönnum. Verðið var oft ákveðið í samningum á staðnum, og því ekki alltaf vitað fyrirfram hvernig kaupin gerðust á eyrinni, þar sem verslun var gjarnan staðsett.
Sjá hvernig landið liggur (orðtak) Sjá hvernig í pottinn er búið; athuga hvernig málin standa. „Hér er dálítið af fé frammi í dalnum. Við skulum nú skoða betur hvernig landið liggur áður en við gerum vart við okkur“.
Sjá hvernig til verkast (orðtak) Bíða og sjá hvernig framvindan verður. „Ég er hræddur um að þessi girðing haldi illa; en við skulum bara bíða og sjá hvernig til verkast áður en meira er gert“.
Sjá hvorki haus né sporð (orðtak) Sjá hvorki tangur né tetur; finna ekki neitt af. „Ég leitaði fram allan dalinn en ég sá hvorki haus né sporð af þessum kindum sem sluppu“.
Sjá hvorki veður né reyk af (orðtak) Sjá hvorki tangur né tetur af; sjá hvorki haus né sporð af. Heyrðist mun sjaldnar notað í seinni tíð en hin orðtökin. „Ég sé hvorki veður né reyk af þessari bauju“.
Sjá hvorki tangur né tetur (orðtak) Sjá hvorki haus né sporð; finna ekkert af. „Af trénu sást hvorki tangur né tetur eftir flæðina“.
Sjá í (orðtak) Horfa í; sjá eftir; vera sínkur/sparsamur á. „Ég er ekkert að sjá í það þó menn fái sér egg í soðið í mínu landi. En annað er ef menn gera útá það í flokkum; þá finnst mér sjálfsagt að þeir biðji um leyfi“.
Sjá í friði (orðtak) Láta í friði; láta kjurrt. „Reyndu nú að sjá í friði það sem yngri bróðir þinn er að leika með“.
Sjá í gegnum (orðtak) Átta sig á, t.d. blekkingum. „Hann var fljótur að sjá í gegnum þessa leikfléttu“.
Sjá í gegnum fingur sér (orðtak) Líta framhjá; þykjast ekki sjá. Dregið af því að þykjast halda fyrir augu en fylgjast samt með milli fingra. „Landeigandinn sá í gegnum fingur sér vegna þessara óboðnu tjaldbúa“.
Sjá í hendi sér/sinni (orðtak) Sjá greinilega; sjá blasa við; greina mjög vel. „Ég sá það strax í hendi mér að það yrði ekki auðvelt verk að komast fyrir kindurnar þarna í klettunum“.
Sjá í iljarnar á (orðtak) Sjá einhvern forða sér hratt; um þann sem lætur sig hverfa/ fer burt. „Ég sá bara í iljarnar á þessum letihaug, um leið og ég nefndi að mig vantaði mannskap í steypu“.
Sjá (eitthvað) í nýju ljósi (orðtak) Horfa á eitthvað frá nýju/öðru sjónarhorni. „Skyndilega skýrt og vel nú skynjar Rósi/ náttúruna í nýju ljósi“ (JR; Rósarímur).
Sjá jafnlangt nefi sínu / Sjá/vita lengra en nef (einhvers) nær (orðtök) Vita meira en lítur útfyrir í fljótu bragði. „Karlinn sér lengra en nef hans nær í þessum efnum“.
Sjá lit á / Sjá litmót á (orðtak) Sjá möguleika á; telja mögulegt/gerlegt. „Ég sé engan lit á að geta klárað þetta í dag“. „Sérðu nokkuð litmót á að þú getir aðstoðað mig á morgun“?
Sjá með eigin augum (orðtak) Sjá sjálfur; upplifa. „Ég hefði ekki trúað þessu nema af því að ég sá það með eigin augum“!
Sjá með öðru auganu (orðtak) Verða var við án þess að veita því sérstaka athygli; sjá útundan sér. „Ég sá þetta með öðru auganu, en gaf því engan sérstakan gaum á þeim tíma“.
Sjá merki til (orðtak) Sjá ummerki um. „Ég sé engin merki til þess að hér hafi komið tófa“.
Sjá ofsjónir (orðtak) Sjá sýnir; missýnast; sjá það sem ekki er raunverulegt. Sjá ofsjónir.
Sjá ofsjónum yfir (orðtak) Öfunda; býsnast yfir. „Á hinum bátunum sáu menn nokkrum ofsjónum yfir því að karlinn skyldi koma með hlaðning, dag eftir dag, meðan þeir urðu varla varir sem grynnra voru“.
Sjá rautt (orðtak) Vera mjög reiður/æstur. „Hann sér alveg rautt þegar minnst er á þessa stofnun“.
Sjá sér farborða (orðtak) Sjá fyrir sér; framfleyta sér. „Meðan á náminu stóð sá hún sér farborða með skúringum“. Farborð er neðsta borðið í síðu súðbyrts báts, ofanvið kjalsíðuna. Tenging máltækisins er ekki augljós, en það vísar e.t.v. til þess að mikilvægt var að vel tækist til með sveigjuna á farborðinu. Ef hún lánaðist ekki var báturinn ekki sjóhæfur. Jafn mikilvægt er að menn sjái sér farborða; þ.e. komist af. Önnur skýring segir að farborði sé skipsfar/ far með skipi, en hún er ólíklegri.
Sjá sér fyrir (orðtak) Sjá sjálfur um að fá. „Við þurftum því að sjá okkur sjálf fyrir ferð norður“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Sjá sér fært (orðtak) Telja sig færan um; sjá möguleika á. „Ég sá mér ekki fært að mæta á fundinn“.
Sjá sér leik á borði (orðtak) Sjá/grípa tækiræri; sjá færi á. „Ég sá mér leik á borði og greip lambið um leið og það hrasaði í hillunni fyrir ofan mig“. Líkingin vísar til taflmennsku.
Sjá sig um (orðtak) Litast um; horfa í kringum sig. „Ég ætla að hlaupa uppá hjallann og sjá mig um“.
Sjá sig um hönd (orðtak) Skipta um skoðun. „Hann byrjaði á að velja sér fólksbíl en sá sig svo um hönd og fékk sér jeppa“.
Sjá sitt óvænna (orðtak) Sjá að í óefni er komið; átta sig á slæmri/tapaðri stöðu. „Nautið kom froðufellandi og bölvandi á móti mér, svo ég sá mitt óvænna og stökk aftur yfir girðinguna“.
Sjá sína sæng uppreidda (orðatiltæki) Horfast í augu við úrslitakosti/hið óumflýjanlega. „Maður reyndi að þrauka í búskapnum á þrjóskunni, en eftir síðustu bommertur ríkisstjórnarinnar sá ég mína sæng uppreidda“. Að reiða upp sæng er að hafa rúm tilbúið undir svefn eða veikindalegu. Sá sem sér sína sæng uppreidda er sá sem horfir framá langa legu í rúmi t.d. vegna veikinda eða annars óláns. Af því er líkingin dregin.
Sjá sóma sinn í (orðtak) Sjá að manni er sæmd í; sjá hvað manni er rétt að gera. „Ég held að hann ætti að sjá sóma sinn í að gera þetta almennilega, en ekki kasta svona til þess höndunum“!
Sjá (eitthvað) svart á hvítu (orðtak) Sjá eitthvað greinilega. „Það verður bara að sekta þessa letihauga; þeir sjá það þá kannski svart á hvítu hvað það þýðir að gera ekki fjallskil“!
Sjá til (orðtak) A. Bíða; láta bíða með. „Við skulum sjá til með að taka af þessari; henni er ekki vel fyllt ennþá“. „Hann sagðist ætla að sjá til með róður á morgun; það færi eftir útlitinu með morgninum“. B. Sjá tilsýndar/álengdar; verða vitni að. „Ég sé ekki lengur til kindanna vegna fjúksins“. „Sáu þeir til er skipið sökk“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna). „En þegar hann sér til Jóns, sem heima átti enn í Kvígindisdal, koma suður í Verið; hleypur hann af stað norður þangað “ (ÖG; glefsur og minningabrot). C. Geta séð hvað gert er. „Ég sé ekkert til að gera neitt í þessu myrkri“. „Sérðu nokkuð til við þetta“? D. Sjá um; taka ábyrgð á. „Þú verður að sjá til þess að þú eigir nóg salt ef þú vilt fara í róður“.
Sjá til fiskjar (orðtak) Sjá fisk á færi/línu niðri í sjó, áður en hann kemur að borði. Um það viðhöfðu menn ýmis orð áðurfyrr; „Meðan á drætti stóð, varð stundum þeim sem línuna dró þetta á munni þegar hann sá til fiskjar: „Einn fer að heiman“....“Tveir hafa það verið“.... „Nei, heilagur andi“.... „Og hefur staf“!...þegar fjórir voru komnir í sjónmál. Það kom þó fyrir, þegar vel var um fisk, að fleiri mátti sjá á ferð“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sjá til lands / Hafa landkenningu (orðtök) Um skyggni af sjó. „Nú vildi svo til að þokunni létti í bili, og sást þá til lands“ (ÖG; Þokuróður).
Sjá til sólar (orðtak) Sjá sól fyrir dimmviðri. „Það sá ekki til sólar í vikutíma fyrir úrhellisrigningum“.
Sjá tormerki á (orðtak) Finnast örðugt í framkvæmd; vera vantrúaður á. „Þetta er ágætis hugmynd, en ég þykist sjá ýmis tormerki á að koma henni í framkvæmd“.
Sjá um (orðtak) Annast um; taka að sér. „Hún sá um búskapinn meðan hann var að heiman“.
Sjá út (orðtak) A. Horfa út. B. Átta sig á; finna útúr. „Góður hleðslumaður er fljótur að sjá út hvern stein; hvernig hann fer best í hleðslunni“.
Sjá út sjóveður (orðtak) Bræða hann; reyna að spá fyrir um sjólag. „Á Skiptingshól skiptu Látrabændur fugli og eggjum, ef ekki var skipt á veiðistað. Þar komu menn einnig saman til að rabba um daginn og veginn, ræða bjargferðir, sjá út sjóveður til hákarlaveiða og annarra fiskifanga ef veður var tvísýnt, og margt fleira“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).
Sjá útundan sér / Sjá tilsýndar (orðtak) Sjá án þess að vera beint að horfa; sjá úr fjarlægð. „Ég sá útundan mér að strákarnir voru eitthvað að bralla“.
Sjá útúr (orðtak) Finna útúr; gera sér grein fyrir; finna lausn á. „Ég er að reyna að sjá útúr þessari flækju“.
Sjá við (orðtak) A. Bregðast við; kunna ráð við. Tekur með sér þgf í þessari merkingu. „Það er erfitt að sjá við svona bragði“. B. Sjá kosti við; sjá fegurð í. Strýrir þolfalli í þessari notkun. „Ekki veit ég hvað hún sér við hann“. C. Borga; greiða; meta til fjár. „Þakka þér fyrir greiðann; ég sé þetta við þig þó síðar verði“.
Sjá það svartara (orðtak) Upplifa verra ástand; vera í meiri hættu; eiga við meiri erfiðleika. „Ástandið var vissulega orðið nokkuð slæmt, en maður hefur nú séð það svartara“. „Það skall á okkur þvílíkur þreifandi bandvitlaus bylur að ég hef bara aldrei séð það svartara“! Vísar til dimmviðris.
Sjá þann kost vænstan (orðtak) Þykja það best; velja þann kostinn. „Ég sá þann kost vænstan að forða mér uppundir klettana til að losna úr mesta grjóthruninu“.
Sjáaldur (n, hk) Upphaflega merkingin er sjón, en orðið er nú notað um opið í augasteininum miðjum, sem ljós það kemur innum sem lendir á sjónhimnunni í augnbotninum. Sjá gæta eins og sjáaldurs augna sinna.
Sjáanlegur (l) Sem sést; sem unnt er að sjá. „Þarna var ekki nokkur kind sjáanleg“. „Þegar tekið er tillit til þess að vetur hefur verið fremur góður er það sjáanlegt eftir mælingu á heyjunum í haust þá hafa þau almennt verið laus og því ódrjúg“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1924).
Sjáðu nú til (orðtak) Líttu nú á. Einskonar upphrópun eða hiksetning sem iðulega er höfð á undan setningu þegar verið er að útskýra eitthvað fyrir viðmælanda.
Sjáðu til! (orðtak) Upphrópun sem iðulega er notuð á eftir fullyrðingu, til frekari sannfæringar. „Þetta á eftir að fara illa; sjáðu bara til“! Einnig notað sem hikorð inni í setningu, líkt og „sko“.
Sjálegur (l) Laglegur; fallegur; snotur. „Þetta er hinn sjálegasti gripur“.
Sjáum hvað setur (orðtak) Bíðum og sjáum hvað gerist. „Kannski væri rétt að raka upp ef hann færi að rigna, en ég held við látum það bíða og sjáum hvað setur“.
Sjálfafsakað (l) Afsakast af sjálfu sér; óhappaverknaður sem augljóslega er óviljaverk. „Ég tel það alveg sjálfafsakað þó menn reki við; jafnvel þó það sé í fínni veislum“.
Sjálfala (l) Um búfé; án fóðrunar/umönnunar manna. „Það eru mikil hlunnindi þar sem svo háttar til á bújörðum að fé getur gengið nánast sjálfala vegna mikillar útibeitar. Þannig var fé í Kollsvík mjög létt á fóðrum; væri næg fjörubeit og bitjörð. Enn fóðurléttara gat þó orðið á Hvallátrum“.
Sjálfbirgingsháttur (n, kk) Mont; stærilæti; þótta; það að hugsa meira um sjálfan sig en aðra. „Hann verður þá bara að eiga sig með sinn sjálfbirgingshátt“!
Sjálfbirgingslegur (l) Sérgóður; montinn; setur sjálfan sig í öndvegi. „Þetta finnst mér ári sjálfbyrgingslegur hugsanaháttur hjá honum“!
Sjálfbirgingur (n, kk) Sá sem er sjálfbyrgingslegur/sérgóður. „Sá sjálfbyrgingur ætti bara að skammast sín“!
Sjálfbjarga (l) Sem getur bjargað sér sjálfur; ekki hjálparþurfi; einfær. „Hann er alveg sjálfbjarga með þetta“.
Sjálfblekungur (n, kk) Eldra heiti á blekpenna/lindarpenna.
Sjálfboðalið (n, hk) Hópur sjálfboðaliða.
Sjálfboðaliði (n, kk) Sá sem býðst til að vinna án endurgjalds. „Samvinna fólks var mikil í sveitinni, og ef einhvern vantaði mannskap t.d. í göngur eða framkvæmdir, var óðar mættur hópur sjálfboðaliða“.
Sjálfboðavinna (n, kvk) „Mikið meira var unnið í sjálfboðavinnu í hinu gamla sveitasamfélagi en síðar varð, með vexti kaupstaða. Margar meiriháttar framkvæmdir samfélagsins voru unnar af sjálfboðaliðum, svosem vegavinna við hestavegi; kirkjubyggingar; bygging samkomuhúsa; lendingabætur, slátrun o.fl. Þá þótti sjálfsagt að allir legðu hönd á plóg við einstakar framkvæmdir hjá sveitungum, svosem við uppsteypu og járnun húsa, einkum hjá þeim sem stóðu verr að vígi t.d. vegna veikinda eða aldurs. Allir voru boðnir og búnir til að aðstoða ef sveitungi lenti á áfalli s.s. vegna húsbruna eða fráfalls fyrirvinnu. Ekki var heldur tekið fé fyrir það þó bíllausu fólki væri komið á milli staða af þeim sem bíl áttu, eða þó traktorseigendur aðstoðuðu hina við heyskap sem ekki höfðu vélvæðst. En þeir sem greiðans nutu leituðust einatt við að láta greiða koma á móti í einhverju formi. Úr þessum jarðvegi spruttu upp ungmennafélög og fyrstu kaupfélögin; þessi samhjálp og fórnfýsi var sú gróðurmold sem nærði þau og þroskaði meðan hún entist“.
„Að miklu leyti var þetta verk (vegalagning uppúr Kollsvík) unnið í sjálfboðavinnu; þ.e.a.s. að menn afsöluðu sér ákveðnum hluta af launatöxtum“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Sjálfboðið er góðum gesti (orðatiltæki) Góður gestur er alltaf velkominn og honum þarf ekki að bjóða. „Þú ert alltaf velkominn hvenær sem er; auðvitað er sjálfboðið góðum gesti“!
Sjálfbrynnari (n, kk) Sjálfbrynningartæki; brynningarskálar sem nú eru algengar; þar sem búfé skammtar sér sjálft vatnið, nefndust þessu nafni upphaflega í Rauðasandshreppi.
Sjálfbær / Sjálfbærni (l/ n, kvk) Orð sem ekki var notað í Kollsvík, en engu að síður í hávegum haft. Sjálfbærni er það að stunda endurnýjanlegt ferli; t.d. það að ganga ekki svo á neinar auðlindir að þær nái ekki að endurnýja sig. Menn gættu þess í lengstu lög að hrófla ekki náttúrunni til skaða; ganga ekki nærri gróðri eða fiskistofnum o.s.frv.
Sjálfdautt (l) Kjöt af fé sem drepist hafði úr veiki; afveltu; mýrafestu eða hrapi. Var síður haft til matar, en bar þó við ef skepnan hafði nýlega drepist af slysum. Sama var um þorsk sem drepist hafði í netum.
Sjálfdæmi (n, hk) Kaupandi ræður verði/endurgjaldi sjálfur. „Þú hefur alveg sjálfdæmi um verðið á þessu“.
Sjálfgefið (l) Sjálfsagt; auðvitað. „Það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum“.
Sjálfgert (l) Það sem er gert/ gerist/verður af sjálfu sér. „Eftir að við misstum síðari slóðann var það nokkuð sjálfgert að hafa sig í land“.
Sjálfhelda (n, kvk) Svelti; staður sem menn/skepnur fara á en komast ekki hjálparlaust frá aftur. „Sjálfhelda í klettum er nefnd svelti eða að það komist á þrot, en á fari fé í sjálfheldu á skerjum er sagt að það flæði“.
Sjálfhitnun (n, kvk) Hitamyndun í heyi vegna gerjunar. „Sjálfhitnun verður oftast í heyi sem sett er í hlöðu, og því meiri sem heyið er fjær fullþurrkun. Bændur eru oftast meðvitaðir um þessa hættu. Ekki er hætta þó lítilsháttar orni, en varasamt er þegar hitnar svo að ekki er hægt að halda hendi inni í stæðunni eða þegar mikill stakkur myndast á yfirborði hennar. Djarfar er hirt þar sem súgþurrkun er í hlöðu en þar sem fullþurrka þarf. Stundum dó mikill hiti út af sjálfu sér, þannig að einungis sat eftir dökkmórautt og ornað hey, en stöku sinnum kviknaði í heyi. Það skeði m.a. einusinni í hlöðu í Kollsvík, líklega á 8. áratug 20. aldar. Með miklum mannskap náðist að moka heyinu út í tíma, og slökkva glður sem komnar voru. Nokkrum árum síðar brann hlaða á Stökkum á Rauðasandi vegna sjálfhitnunar“.
Sjálfhleðsluvagn (n, kk) Heyvinnutæki sem um tíma var algengt í sveitum; eða kringum 1980-90. Heyvagn sem tók heyið uppí sig sjálfur með sópvindu, og skilaði því afturúr sér með færibandi; en hvorttveggja var drifið af dráttarvélinni. Sú heyskaparaaðferð vék víða fyrir rúllubindivélum stuttu síðar.
Sjálfhælinn (l) Montinn; lætur mikið yfir sjálfum sér. „Mikið ósköp getur maðurinn verið sjálfhælinn“!.
Sjálfhælni (n, kvk) Mont; gort; raup. „Ég þoli illa sjálfhælnina í karlinum“!
Sjálfhætt (l) Verk/athöfn sem stöðvast vegna augljósra orsaka. „Allri mjólkurframleiðslu var auðvitað sjálfhætt eftir að mjólkurbúið hætti að sækja mjólkina“.
Sjálfkjörinn / Sjálfkosinn (l) Sem er einn í framboði/kjöri; því óþarft að kjósa á milli og telst réttilega kjörinn.
Sjálfkrafa (ao) Án utanaðkomandi aðstoðar/verknaðar; af sjálfu sér. „Dyrnar höfðu lokast sjálfkrafa“.
Sjálflærður / Sjálfmenntaður Margfróður/menntaður fyrir eigin rammleik, með lestri bóka o.fl. en ekki með skólagöngu. „Margt sveitafólk áðurfyrr var víðlesið og í raun hámenntað þó það hefði takmarkaða skólagöngu hlotið og skartaði ekki glansandi prófgráðum. Þetta sjálfmenntaða fólk hafði ýmsar leiðir með að ná sér í lesefni sem það lagði sig eftir, og las það af meiri athygli og skilningi en margir skólanemendur“.
Sjálfmenntaður (l) Sem öðlast þekkingu/færni með eigin þekkingarleit, en ekki eingöngu með ítroðslu í skólakerfi. Yfirleitt er hinn sjálfmenntaði allajafna færari í því sem hann hefur menntað sig til, en hinn sem notið hefur ítroðslu hins steinrunna og kassavædda menntakerfis. Hinsvegar kann samfélagið yfirleitt ekki að nýta getu hins sjálfmenntaða, þar sem það er byggt upp fyrir kassakerfi hins skólagengna.
Sjálfráður (l) Sem ræður sér sjálfur. „Hann er auðvitað sjálfráður með sinn eignarhlut, en ég ætla að selja minn“. „Þér er ekki sjálfrátt“!
Sjálfrennandi / Rennandi (l) Sem rennur af sjálfu sér. Oft notað um vatn sem ekki þarf að dæla. „Það var mikill munur þegar sjálfrennandi vatn var lagt í hús, ásamt frárennsli“.
Sjálfrunnið lýsi (orðtak) Lýsi sem skilst úr fisklifur ef hún er látin standa í íláti. Þannig lýsi er bragðmeira en brætt lýsi, og þykir mörgum það betra.
Sjálfræði (n, hk) Frelsi; það að ráða sjálfur sínum ákvörðunum. „Hann hefur visst sjálfræði í þessari vinnu“.
Sjálfræðisaldur (n, kk) Aldur einstaklings þegar hann verður „sjálfs sín ráðandi“ sem kallað er; þ.e. að miklu leyti laus undan forræði foreldra og annarra. Skv. lögræðislögum nr 71/1997 er það við 18 ára aldur.
Sjálfs er höndin hollust (orðatiltæki) Vísdómur sem minnir á að það sé jafnan best sem menn geta sjálfir unnið í sína þágu; en síður það sem þegið er hjá öðrum. Tryggast er að treysta á sjálfan sig. Ævaforn speki.
Sjálfs sín (orðtak) Sjálfstæður; fjárráða; getur séð um sig sjálfur. Heyrist vart nú á tíð en var algengt fyrrum; oftast í merkingunni fjárráða eða fjárhagslega sjálfstæður.
Sjálfs síns herra (orðtak) Ræður sér sjálfur. „Hann er sjálfs síns herra í sínu fyrirtæki“.
Sjálfsafgreiðslubúð / Kjörbúð (n, kvk) Verslun þar sem viðskiptavinir taka sjálfir til sína vöru í körfu eða vagn og koma með hana að afgreiðsluborði, en kaupmaður tekur vöruna ekki til eins og áður tíðkaðist. Verslun Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum var breytt í kjörbúð kringum 1970, og færð sunnantil í húsið. Áður hafði verslunin verið sjávarmegin í húsinu og þá var afgreitt yfir borð.
Sjálfsagður hlutur / Sjálfsagt (orðtak/l) Eðlilegur hlutur; eðlilegt; það sem óþarft er að gefa leyfi til. „Honum þótti það bara sjálfsagður hlutur að hann fengi þetta lánað“. „Það er sjálfsagt að hjálpa þér með þetta“.
Sjálfsábyrgð (n, kvk) Eigin ábyrgð/áhætta. Oftast notað í tenglum við tryggingar. EF bótaskylt tjón verður þá greiðir tryggingataki sjálfur það sem nemur sjálfsábyrgð hans, en tryggingafélagið bætir eftirstöðvar tjóns.
Sjálfsáinn (l) Um jurt; sáir sér sjálf án mannlegrar aðstoðar.
Sjálfsálit (n, hk) Mikið álit á sjálfum sér; nauðsynlegt í hófi en getur orðið mont ef það er í óhófi.
Sjálfsánægja (n, kvk) Hreykni; vellíðan með sjálfan sig. „Ég man enn eftir sjálfsánægju minni, þegar mér var í fyrsta skipti treyst til að bera 200 punda síldarmjölspoka upp úr bát í Kollsvíkurveri“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Sjálfsásökun (n, kvk) Það að kenna sjálfum sér um eitthvað sem komið hefur fyrir. „Svona sjálfsásökun bætir ekkert, og á engan rétt á sér“.
Sjálfsbjargarleysi (n, hk) Skortur á sjálfsbjörg; hjálparleysi; umkomuleysi. „Óttalegt sjálfbjargarleysi er þetta“!
Sjálfsbjargarlíf (n, kk) Sjálfsþurftabúskapur; sjálfsbjargarviðleitni. „Annars skiptir það ekki mestu máli; heldur hitt að ég reyni að skrásetja merkilegan atburð úr sjálfsbjargarlífi Kollvíkurmanna, sem flest er úr minni liðið nú til dags“ (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).
Sjálfsbjargarviðleitni (n, kvk) Það að reyna að bjarga sér sjálfur; viðleitni til að leysa málin sjálfur.
Sjálfsblekking (n, kvk) Það að telja sjálfum sér trú um annað en rétt er.
Sjálfseignarbóndi (n, kk) Bóndi sem býr á sinni eignarjörð en ekki á láns- eða leigujörð.
Sjálfseignarjörð (n. kvk) Jörð þar sem sjálfseignarbóndi býr.
Sjálfselska (n, kvk) Það að virða sjálfan sig mun meira en aðra/ hugsa meira um sjálfan sig en aðra.
Sjálfsforræði (n, hk) Sjálfræði; það að ráða sér sjálfur.
Sjálfshól (n, hk) Mont; sagnir af eigin ágæti. „Ekki vantar sjálfshólið hjá þessum blöðrusel“!
Sjálfsíkveikja (n, kvk) Þegar eldur kviknar án þess að mannshönd komi nálægt. Oftast var talað um sjálfsíkveikju þegar ofhitnaði svo í illa þurrkuðu heyi að eldur kom upp í því.
Sjálfskaparvíti (n, hk) Slæm staða/uppákoma sem menn skapa sér sjálfir. „Auðvitað má kalla það sjálfskaparvíti kjósenda ef ríkisstjórnin reynist illa“.
Sjálfskaparvíti eru ekki/síst betri en önnur víti / Sjálfs eru vítin verst (orðatiltæki) Síst eru betri þau vandræði sem maður veldur sjálfur en þau sem aðrir valda.
Sjálfskeiðungur (n,. kk) Vasahnífur. Orðið var þekkt í Kollsvík en lítið notað þar.
Sjálfskuldarábyrgð (n, kvk) Ábyrgð fleiri en eins á sömu skuldbindingu; in solidarium; einn fyrir alla og allir fyrir einn. Ef aðalskuldari greiðir ekki skuldina á gjalddaga er sjálfsskuldarábyrgðarmaður skyldugur til að greiða hana eins og hann væri sjálfur aðalskuldari.
Sjálfsmennska (n, kvk) Það að sjá um sig sjálfur, t.d. í fæði. „Hann leigir þarna herbergi í sjálfsmennsku“.
Sjálfsnám (n, hk) Það að læra af eigin hvötum og þekkingarleit. Sjá sjálfmenntaður.
Sjálfstraust (n, hk) Trú á sjálfan sig; sjálfsöryggi; trú á eigin getu.
Sjálfstæðisár (n, hk) 1918; árið sem Ísland hlaut sjálfstæði. „Baldur var „heimtur úr helju“ aftur sjálfstæðisárið 8. des. 1918“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Sjálfstæður (l) Óháður öðrum; getur staðið einn og sér.
Sjálfsþurftabúskapur (n, kk) Notað um rekstur sem er sjálfum sér nægur um nánast allt og getur viðhaldið mannlífi. Í rauninni vísar hugtakið til þess búskaparforms sem tíðkaðist víðast á íslenskum bændabýlum til forna og allt framá 20.öld. Slíkt búskaparform endurspeglast glöggt í býlum í Kollsvík. Kollur landnámsmaður sá það strax í hendi sér að hentugt myndi að reka sjálfsþurftabúskap í Kollsvík, og tók sér ekki stærra landnám en hann þurfti til þess. Eftir að uppfylltar voru grunnþarfir í upphafi, svo sem skepnur sem þurfti til að hefja búskap og bátur til veiða, var Kollsvíkin orðin sjálfbær. Matur og klæði fékkst með fullnýtingu búfjárafurða og sjávarafla; efniviður til húsbygginga af grjóti, torfi, hrísi og rekavið; eldsneyti af mó, rekavið og lyngi, auk lýsis og tólgar; hagabeit og fjörubeit var næg að vetri og sumri fyrir sauðfé; taða fékkst af túnum sem ræktuð voru upp með ræksnum og húsdýraáburði, auk útslægna í tóm, vatnabroku, teigum og klettum; egg voru tekin í fuglavörpum og björgum; fugl snaraður og selur veiddur. Allt var til alls og engin brýn nauðsyn til búðarkaupa, þó vissulega væri þegið að geta fengið úr verslun salt, korn, járn og annað þegar á því varð kostur.
Sjálfum sér líkur (orðtak) Um mann; samur við sig; alltaf eins. „Alltaf er hann sjálfum sér líkur, sá háðfugl“.
Sjálfum sér nógur/nægur (orðtök) Hefur nóg fyrir sjálfan sig; þarf ekkert frá öðrum. „Bændur í Kollsvík voru yfirleitt sjálfum sér nægir um allt, og vel það“.
Sjálfum sér samkvæmur/ósamkvæmur (orðtök) Í/úr takti við það sem sá sami hefur áður sagt. „Vissulega langaði mig dálítið að mæta á fundinn, en til að vera sjálfum mér samkvæmur sat ég heima“.
Sjálfur (fn) Einkum notað með ýmsum nafnorðum og í orðasamböndum. Stundum einnig til að auka áherslu á orð: „Fjandinn sjálfur; þremillinn sjálfur“.
Sjálfvalinn (l) A. Velur sig sjálfur, annaðhvort af yfirburða verðleikum eða vegna þess að enginn annar er í boði; sjálfkjörinn. B. Það sem maður velur sjálfur. „Þetta var alveg sjálfvalið af honum“.
Sjálfviljugur (l) Af eigin vilja. „Kýrnar fóru alltaf sjálfviljugar á sína réttu bása“.
Sjálfþakkað (l) Þakkað fyrir af þeim sem þakkir á að fá. „Vertu ekki að þakka mér þetta; reyndar er þetta sjálfþakkað, eftir greiðann sem þú gerðir mér í fyrra“.
Sjár (n, kk) Sjór; haf. Sjaldan notað í nefnifalli nema í skáldskap, en bregður fyrir í eignarfalli; t.d. setja til sjávar, og í samsettum orðum; sjávarfall. Í Kollsvík var þó fremur notað eignarfallið af orðinu sjór; setja til sjóar og sjóarfall.
Sjást ekki fyrir (orðtak) Sýna ekki fyrirhyggju vegna ákafa/ágirndar o.fl. „Þegar svona aflahrota gengur yfir sjást menn stundum ekki fyrir, heldur ana á sjó í hvaða veðurútliti sem er“.
Sjást ekki útúr augum (orðtak) Sjást lítið, t.d. fyrir dimmviðri eða reyk. „Það sést ekkert útúr augum í þessari bikaþoku“.
Sjást litur á jörð/túnum (orðtak) Tún/jörð farin að grænka. „Hann vorar hratt þessa dagana. Það er strax farinn að sjást litur á túnum“.
Sjást yfir (orðtak) Yfirsjást; taka ekki eftir; líta óvart framhjá. „Þarna hefur mér sést yfir eitt kartöflugras í upptektinni“.
Sjávaður (l) Um sjávarstöðu; stendur á sjó. Þegar hásjávað er, er oft talað um að hann sé „hátt sjávaður“, og á sama máta „lágt sjávaður“ þegar stór fjara er. „Hvernig er hann sjávaður“? merkir „Hvernig stendur á sjó“? og er þá átt við hvort flæði sé eða fjara.
Sjávarafli (n, kk) Fiskifang; sjávargagn. Svipull er sjávarafli.
Sjávarafurðir (n, kvk, fto) Hvaðeina gagnlegt/verðmætt sem úr sjó kemur. Þannig á orðið jafnt við um nytjafisk, sem salt og sjávarorku.
Sjávarágangur / Sjóarágangur (n, kk) Skemmdir sem sjór getur valdið á landi við háa sjávarstöðu og mikinn sjógang. Dæmi um það er rof sem hófst á Grundabökkum kringum aldamótin 2000, og rof á Görðunum nokkru sunnar.
Sjávarbakkar / Sjóarbakkar (n, kk, fto) Bakkar ofan hæsta fjöruborðs; brimstallur sem sjór gengur sjaldan uppá. „Grundabakkar eru sjávarbakkar neðan Grundatúns. Í þeim koma fram fiskbenalög sem benda til að útgerð í Láganúpsveri eigi sér lengri og meiri sögu en skráð hefur verið“. „Bakkar voru grasbýli á Grundatúni, og stóð íbúðarhúsið neðst í túninu; alveg á sjávarbakkanum“ (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).
Sjávarborð (n, hk) Yfirborð sjávar. Í daglegu tali er oft átt við meðaltals-sjávarborð, burtséð frá sjávarföllum og loftþrýstingi. Sjávarborð í þeim skilningi fer nú hækkandi vegna bráðnunar jökla af völdum hlýnunar jarðar; sem aftur er talin stafa af gróðurhúsaáhrifum af mannavöldum.
Sjávarborðshækkun (n, kvk) Hækkun á meðalyfirborði sjávar; talin mestmegnis vegna bráðnunar jökla heims af völdum hækkandi hitastigs andrúmslofts, sem rakin er til mengunar af mannavöldum. „Áhrifa sjávarborðshækkunar virðist þegar gæta í Kollsvíkurfjöru sem annarsstaðar. Glögg ummerkin leyna sér ekki þar sem sjórinn nagar nú úr Grundarbökkunum á stöðum þar sem áður var gróið niður að malarfjöru. Einnig í því að í mesta brimi gengur sjór upp á bakkana sunnantil og hefur ágangurinn rofið Garðana á nokkrum stöðum, sem fengið hafa að standa óáreittir frá því þeir voru hlaðnir á miðöldum. Ekki er annað að sjá en þessi óheillaþróun muni halda áfram, því þrátt fyrir að vita áhrifin heldur mannkyn áfram að menga umhverfi sitt sem aldrei fyrr. Því má gera ráð fyrir að Garðarnir sléttist út, að hluta til,á næstu áratugum; að Grundabakkarnir rofni þannig að sjór gangi upp í Lögmannslá og Grundamýri; að gríðarmiklar breytingar verði á Rifinu með ófyrirséðum áhrifum á uppblástur yfir Láganúpsland og jafnvel eyðingu jarðarinnar. Kollsvíkingar leggja nú sitt að mörkum til að breyta þessari óheillaþróun, með því m.a. að koma á framfæri tækni til orkuframleiðslu úr sjávarföllum, sem er án allra umhverfisáhrifa, nýtist víða um heim og mun koma í stað mengandi jarðefnaeldsneytis (VÖ). „Hér verður þó að slá þann varnagla að samkvæmt nýjustu upplýsingum er sjávarborðshækkun á Íslandi líklega lítt merkjanleg enn vegna þyngdaraflsáhrifa og lyftingar landsins. Hinsvegar bendir ýmislegt til þess að nefndur sjávarágangur í Kollsvíkurfjörum stafi af ofbeit skollakopps á víkinni, en eyðing þaraskóganna veldur því að brimbáran á greiða leið með fullu afli upp á fjöruna. Sú kenning var rökstudd og sett fram af VÖ í grein í Bændablaðinu í febrúar 2017“.
Sjávardjúp (n, hk, fto) Djúp hafsins. „Lúðan hvarf aftur í sjávardjúpið og með henni slóði og sakka“.
Sjávardýpi (n, hk) Dýpi sjávar. Jafnan stytt í „dýpi“ í tali Kollsvíkinga.
Sjávarfall (n, hk) Sjóarfall. Reglubundin sveifla á sjávarhæð vegna áhrifa/togs tungls og sólar á yfirborð sjávar. Í storum dráttum má líkja sjávarföllum við það að tunglið veldur útbungun á þeirri hlið jarðar sem snýr að tungli, um leið og önnur slík verður til á gagnstæðum jarðarhelmingi. Jörðin snýst svo innan í þessum mishæðum svo sjávarföll; flæði og fjara, verða tvisvar á sólarhring. Sólin togar með hálfu minni krafti en stærst verða sjávarföllin í stórstraumi; þ.e. þegar jörð, sól og tungl eru í beinni línu. Staðsetning meginlandanna gerir þessa mynd þó mun flóknari. Því verða sjávarföll ýmist einusinni á sólarhring eða tvisvar, en sumsstaðar gætir þó alls ekki sjávarfalla. Í úthöfunum eru sumsstaðar straumleysispunktar (amphidromic points) þar sem engin sjávarföll eru, en útfrá þeim liggja jafntímalínur sjávarfalla í allar áttir. Einn slíkur er á vestanverðu Norður-Atlantshafi. Við Íslandsstrendur gætir sjávarfalla mjög mismikið. Flóðhæð verður langmest í Breiðafirði, en lítill flóðhæðarmunur er t.d. víða á Norðurlandi. Þar sem sjávarfallabylgjan þarf að sveigja fyrir annes eða fara yfir grynningar verður straumur mun hraðari en annarsstaðar. Mestur verður straumurinn hérlendis í sundum, t.d. í Breiðafirði; sumsstaðar yfir 7 m/sek. Einnig er gríðarlegur straumur í mörgum annesjaröstum, en stærst þeirra er Látraröst, þar sem straumur verður nokkrir metrar á sekúndu þegar harðast er fallið. Blakknesröstin er mun umfangsminni en getur orðið mjög straumhörð á kafla.
Víða um heim er leitað leiða til að virkja orku sjávarfalla. Flestir þróunaraðilar beina sjónum að mesta straumhraðanum; 2,5 m/sek eða meira, enda er þar mesta orku að hafa. Orka í streymi vökva eykst í þriðja veldi við aukningu straumhraða, þannig að við tvöföldun straumhraða eykst orkan áttfalt. Hinsvegar eru orkurýrari straumar margfalt umfangsmeiri í víðáttu en þeir hraðari. Því beinist verkefni Valorku ehf; eina íslenska þróunarverkefnisins á svíði sjávarorkutækni, að því að virkja hægari straumana á hagkvæman hátt. Er Valorka nú komin lengst allra í þeirri viðleitni.
„Á Kollsvík gætir sjávarfalla í tvær áttir; þar er ýmist norðurfall eða suðurfall, og er norðurfallið mun sterkara. Einnig munar miklu á styrk hvort stórstreymt er eða smástreymt. Þá er sjólag breytilegt eftir samspili vinds; ríkjandi báruáttar og vindátt. T.d. er Blakknesröstin mjög úfin og hættuleg smábátum ef stórstraumsnorðurfall liggur undir stífa norðanátt, og þeim mun verri ef ríkjandi er sver norðansjór. Hraði fallastrauma hefur ekki enn verið vísindalega mældur á þessum slóðum, en líklega fer hann vel yfir ½ m/sek í Blakknesröstinni í stórstraumsnorðurfalli“ (VÖ).
Sjávarfallaverfill (n, kk) Vélbúnaður/hverfill til nýtingar á sjávarfallaorku. Fyrsti íslenski sjávarfallahverfillinn er fundinn upp af Kollsvíkingi; höfundi þessarar samantektar. Sá hverfill var fyrsti íslenski hverfillinn til að hljóta einkaleyfi, og hlaut gullverðlaun International Inventors Awards árið 2011.
Sjávarfallaorka (n, kvk. Hreyfiorka sjávarfalla. „Sjávarfallaorka er all veruleg kringum Kollsvík.. Til suðurs er hin volduga Látraröst, þar sem sjávarfallið úr Breiðafirði þrýstist framhjá Bjargtöngum með firnamiklu afli. Látraröst er án vafa öflugasta sjávarröstin við Ísland þó enn hafi engar mælingar farið fram á umfangi hennar. Áhrifa hennar gætir langt útí haf til norðurs og til hliðar, uppá Útvíkurnar. Norðurfallið, sm er mun öflugra en suðurfallið, heldur a áfram norðaustur með núpum, en veldur um leið iðustraumumum upp á hverja vík, sem greinilegast er á Seljavík. Þar er nánast alltaf suðurfall. Blakknesröstin er mun kraftminni en Látraröst, en eigi að síður mjög öflug. Í þessum röstum býr gríðarmikil sjávarfallaorka, og eru Kollsvíkingar leiðandi á heimsvísu í þróun tækni til nýtingar á henni. Þó engar rannsóknir hafi fram við Ísland, hvorki á straumhraða í annesjaröstum né umfangi sjávarorku, þá má leiða að því líkum, með samanburði við erlendar rannsóknir, að hér við land séu um 338 TWst/ári í formi sjávarfallaorku. Sé gert ráð fyrir að Látraröst og núparastir við Útvíkur séu 6% þeirrar orku, þá eru þar yfir 20 TWst/ári, eða 2.315 MW, sem er nær fjórföld orka Kárahnjúkavirkjunar. Mögulegt nýtingarhlutfall þeirrar orku fer vitaskuld eftir þeirri tækni sem tiltæk er á hverjum tíma. Ekki er óraunhæft að ætla að innan fárra ára verði komin fram tækni sem gerir mögulegt að nýta um 10% þessarar orku, eða yfir 200 MW, en það er meira en allt uppsett afl Búrfellsvirkjunar“.
Sjávarfallastraumur (n, kk) Straumur sem verður til vegna sjávarfalla. Við réttar aðstæður er unnt að virkja hreyfiorku sjávarfallastraums með sjávarfallavirkjun.
Sjávarfallavirkjun (n, kvk) Virkjun sem nýtir sjávarfallaorku. „Sú staðreynd að þetta er í fyrsta sinn sem þetta orð kemst í orðasafn, lýsir því e.t.v. best hve þróun orkutækni á Íslandi hefur hingað til verið illa sinnt. Gnægð sjávarfallaorku er að finna allt í kringum Ísland, en Íslendingum hefur ekki verið sýnt um að nýta hana fremur en síldina fyrrum. Kollsvíkingar hafa nú komið fram með fyrstu tæknina til nýtingar á þessari gríðarmiklu orku sem í sjávarföllum býr. Með aðferðum Valorku á að vera unnt að virkja þessa orku án allra umhverfisáhrifa. Sjávarfallaorku er að finna víða við strendur heims. Sú staðreynd, ásamt vaxandi áherslum allra ríkja á endurnýjanlega orkuöflun, og að tækni Kollsvíkinga er fremst á heimsvísu, þýðir að markaðsmöguleikarnir eru gríðarlegir. Hverflar Valorku hafa verið þróaðir í 5 mismunandi gerðum, auk þess sem unnið er að fyrstu blendingstækni öldu- og sjávarfallavirkjunar í heimi. Með sjóprófunum í Hornafirði í júlí 2013 hóf Valorka fyrstu prófanir sjávarorkutækni á Íslandi; tækni sem á eftir að verða uppistaða orkuframleiðslu komandi kynslóða, þar sem hefðbundnir orkukostir vatnsfalla- og jarðhitaorku verða fullnýttir á næstu áratugum með sömu þróun, sé nýleg rammaáætlun lögð til grundvallar“ (VÖ).
Sjávarfang (n, hk) Sjávarfang; hvaðeina af verðmætum sem fæst úr sjó. Hingaðtil hefur sjávarfang merkt fiskmeti, skel og annað matarkyns í hugum margra. Rökrétt er að undir það falli einnig orka sem unnin verður úr sjó.
Sjávarfitjungur (Puccinella maritima) Fremur smávaxin grastegund sem er algeng á sjavarfitjum og í fjörum, allt í kringum landið. Vex í þéttum breiðum eða toppum; punturinn hefur grannar puntgreinar; blöðin mjó, sívöl og grópuð; stöngulblöðin stundum flöt eða samanbrotin. Vex líklega í Kollsvík, en greiningu vantar; erfitt er að greina sjávarfitjung frá varpafitjungi.
Sjávarflóð / Sjóarflóð (n, hk) Óvanalega há sjávarstaða, t.d. þegar saman fer stórstraumsháflæði, lágur loftþrýstingur og stífur álandsvindur. Þar sem land liggur mjög lágt að sjó hafa sjávarflóð stundum valdið gríðarlegum skemmdum og jafnvel manntjóni. Ekki er vitað til slíks tjóns af völdum sjávarflóðs í Kollsvík, en í manna minnum hefur sjávarflóð t.d. hlaupið upp á Leirana.
Sjávargagn / Sjóargagn (n, hk) Sjávarfang; það sem fæst gagnlegt úr sjó; fiskifang; fiskur. „Þó kom það fyrir að þurrabúðarfólk hafðist þar við með fáeinar kindur, en treysti að öðru leyti á sjávargagn sér til framfærslu“ (HÖ; Fjaran).
Sjávargangur (n, kk) Brim; sjógangur. „.... ekki var fært um skipið fyrir sjávargangi, roki og náttmyrkri“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Sjávargata / Sjóargata (n, kvk) Leið frá bæjum til sjávar, þar sem heimræði var. Um vertíðina munu konur og börn oftar hafa þrætt sjávargötu í Kollsvík en karlmenn sem reru, enda höfðu þeir þá aðsetur í sínum verbúðum og fengu sendan mat að heiman.
Sjávargos (n, hk) Nýyrði VÖ. E.t.v. væri réttara að nefna fyrirbærið „sjóargos“, samkvæmt þeim beygingarhætti sem alltaf var notaður í Kollsvík, en þessi fellur betur að því sem nú er almennast notað. „Sjávargos vera með þessum hætti: Lóðréttir strókar af sjó sem verða til við það að sjór þrýstist inn í lokaðan helli og uppúr gati á þaki hans. Sjávargos geta orðið á tveimur stöðum í Kollsvík vegna aðstæðna. Annar staðurinn er í Bekknum, norður undir Straumskeri undir Blakknum. Í miklum vestansjó og á flæði ganga öldur inn í sjávarhelli í Bekknum og spýtast upp um gat á þaki hans. Þau gos geta orðið tugir metra upp í loftið og sjást greinilega úr allri Víkinni. Hinn staðurinn er á hleinunum framundan Sandhelli í Hnífum utanverðum. Í henni er hellir með gati uppúr. Hleinin kemur uppúr á fjöru og í norðansjó geta orðið tilkomumikil gos uppúr gatinu. Orðið sjávarhellisgos er hér notað þar sem ekki hefur fundist annað hugtak yfir þetta náttúrufyrirbæri. Orðið var reyndar ekki notað í Kollsvík, heldur sagt sem svo; „Það er töluverður vestanrosi; sjór gegnur uppí miðjar hlíðar“, enda vissu heimamenn hvað við var átt. Kominn er tími til að þetta náttúrufyrirbæri fái viðeigandi og lýsandi heiti“ (VÖ).
„Sumsstaðar breytast öldurnar í stórfengleg gos; marga tugi metra í loft upp, er falla inn í voga og skúta“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sjávargróður (n, kk) Hverskonar gróður sem þrífst neðansjávar; þari þursaskegg og annað.
Sjávargrunn (n, hk) Grunnsvæði; grunn. Oftast var talað um grunn í Kollsvík.
Sjávarháski (n, kk) Hætta sem mönnum og bátum er búin til sjós eða við strönd. Furðu fáar sagnir hafa varðveist um að Kollsvíkurbátar hafi lent í sjávarháska, þó vissulega séu þær til. Ekki er þó vafi á því að á tímum hinnar miklu sjósóknar fyrr á öldum hafi orðið ýmis atvik sem ekki hafa ratað í rit.
Sjávarhellir (n, kk) Hellir í sjó; hellir sem sjór er allajafna í. „Dýpstur og lengstur voganna er Helluvogur, sem endar í miklum sjávarhelli sem gengur innundir sjávarklettana“ (HÖ; Fjaran).
Sjávarhús / Sjóarhús (n, hk) Hús sem byggt er við sjó, annaðhvort til að gagnast við sjósókn eða fjárhús vegna nytja fjörubeitar. Orðið var helst notað um veiðarfærageymslur eða smíðahús við sjó, en ekki um verbúðir eða naust. Guðbjartur á Láganúpi byggði sér sjávarhús til að saga þar stórvið og geyma veiðarfæri.
Sjávarjörð (n, kvk) Jörð sem liggur að sjó og hefur oftast meiri og minni sjávarnytjar. Sjávarjörð fylgir jafnan rekafjara og nethelgi, sem nær 60 faðma útfrá stórstraumsfjöruborði. Frá upphafi byggðar hefur einnig verið litið svo á að sjávarjörðum væri heimilt að nýta óátalið alla veiði sem frá henni var unnt að sækja. Þann rétt hafa stjórnvöld á síðari tímum afnumið með glæpsamlegum hætti, og fært hann í hendur sínum útvöldu kvótagreifum og stórútgerðum í fjarlægum landshlutum.
Sjávarkambur (n, kk) Fjörukambur; kambur; rif; hryggur sem mundast oft í sand- eða malarfjörum ofan hæstu fjörumarka/sjávarmarka. „Við þurfum að setja bátinn alveg uppá sjávarkambinn; hann er að auka straum núna“. Oftast nefnt aðeins kambur í máli Kollsvíkinga; eða rif.
Sjávarklettar / Sjóarklettar (n, kk, fto) Klettar við sjó, oft lægri klettar í núpum og múlum. „Þarna eykst brattinn og sjávarklettar hækka“ (IG; Sagt til vegar I). Annars oftar talað um sjóarkletta í Kollsvík.
Sjávarloft (n, hk) Loftslag og lykt sem einkennandi er nærri sjó, einkum þegar vindátt er af hafi.
Sjávarlón (n, hk) Oftast stytt í lón. Oft kemur fyrir í Kollsvík að mikil rif af skeljasandi myndast á skömmum tíma í fjörunni eftir mikil brim af norðri eða vestri. Þá geta lækir ekki runnið óhindrað til sjávar, heldur myndast uppistöðulón ofan hins nýja rifs. Þetta skeður oft í Ánni, en stundum í Búðalæk og stöku sinnum í Steingrímslæk/Myllulæk.
Sjávarlöður (n, hk) Sjólöður; froða sem myndast í miklum sjógangi; þegar brimið þeytir lífræn efni sem í sjónum eru. Verða stundum miklar hrannir löðurs í fjörum eftir stórbrim, sem oft sitja þar yfir sjávarfall eða lengur. Fremur var talað um sjólöður í Kollsvík.
Sjávarmál (n, hk) Yfirborð sjávar. A. Oftast er átt við hæstu stöðu sjávar, þ.e. í stórstraumsflæði. Hæð landslags, s.s. fjalla, er oftast miðuð við sjávarmál. B. Yfirborð sjávar hverju sinni.
Sjávarmegin / Sjóarmegin (ao) Þeim megin sem veit að sjó. „Rúm formanns var sjóarmegin í búðinni“.
Sjávarmenjar (n, kvk, fto) Menjar um sjávarágang frá löngu liðnum tímum. Sjávarmenjar frá síðjökultíma, þegar sjávarstaða var allmiklu hærri en nú, má sjá í fornum sjávarbökkum, t.d. ofanvið Fitina; um Svarðarholt, Nautholt, Breiðuseil, Túnbrekku ogTrantala í Kollsvík.
Sjávarmöl (n, kvk) Möl sem núin er af því að velkjast í sjó. Sjávarmöl finnst víðast í fjörum í Kollsvík þar sem ekki er skeljasandur, grjót eða hleinar.
Sjávarmörk (n, hk, fto) Fjörumörk; mörk þess sem sjór fellur hæst upp, að jafnaði. „Menjar má sjá í Kollsvík og víðar um að í eina tíð hafi sjávarmörk legið hærra en nú er. Ísaldarjökullinn þrýsti landinu nokkuð niður í jarðmöttulinn og þegar hann hopaði var landið nokkru seinna að rísa aftur en sem nam sjávarborðshækkun af bráðnun jökla. Því var t.d. allt Suðurlandsundirlendi og Borgarfjörður undir sjó um tíma. Landið þrýstist minna niður á Vestfjörðum, en þó lágu sjávarmörk ofar um tíma. Í Kollsvík eru þessi 11000 ára sjávarmörk einkum sýnileg sem stallur neðantil á Brunnsbrekkunni,t.d. rétt ofan Kaldabrunns. Þá virðist sjór hafa náð upp að þar sem nú standa fjárhúsin á Láganúpi. Þegar grafið var þar fyrir haughúsi við fjósið sáust greinilega menjar um þennan forna fjörukamb, og fannst þar bein úr máfi. Ýmsir telja sig greina merki þess að nú sé sjávarborð enn byrjað að hækka, og má þá líklega rekja það til bráðnunar jökla af völdum gróðurhúsaáhrifa“.
Sjávarpláss / Sjávarþorp (nb, hk) Síðari tíma heiti á þéttbýlisstað sem myndast við sjó, einkum vegna vélbáraútgerðar, með ýmiskonar verslun og þjónustu. Sjávarplássin eru arftakar hinna fornu verstöðva. Þannig tóku Vatneyri (Patreksfjarðarkauptún) og Sveinseyri (Tálknafjarðarkauptún) við hlutverki verstöðva í Útvíkum og víðar. Eflaust hefði þó mátt nefna byggðina í Kollsvík sjávarþorp þegar þaðan var mest sjósóknin; í aldaraðir úr Láganúpsveri og í byrjun 19.aldar úr Kollsvíkurveri.
Sjávarrof (n, hk) Rof í fjöruborði af völdum sjávaröldu/brims. Sjávarrof er jafnan töluvert í fjöruborði; einkum á stöðum fyrir opnu hafi, eins og í Kollsvík. Menjar um sjávarrof frá síðjökultíma má sjá nokkru ofan núverandi sjávarborðs; sjá sjávarmenjar. Sjávarrof sést vel í Grundabökkum. Sá sjávarbakki hefur lítið breyst um aldir, eins og sjá má af því að þar stóð Láganúpsverstöð til forna. Á síðustu áratugum, eða frá því laust fyrir aldamótin 2000, hefur rofið hinsvegar stóraukist, og minjar um þá fornu verstöð eru nú í stórhættu. Í fyrstu var talið að þetta tengdist hækkaðri sjávarstöðu vegna hlýnandi loftslags, en VÖ hefur sett fram líklegri kenningu. Hún er sú að ígulkerið skollakoppur hafi, vegna offjölgunar sem sannanlega varð í stofnstærð þess, hafi étið svo upp þaraskógana á Kollsvíkinni að þeir séu ekki sú fyrirstaða og dempun á brimöldunni sem þeir jafnan eru. Brimaldan æðir því óhindrað upp í fjöru; brýtur niður sjávarbakkana á háflæði; veldur spjöllum á Görðunum og ryður upp miklu magni sands, sem svo fýkur upp og veldur frekari spjöllum. Að beiðni VÖ var lögð fram fyrirspurn á Alþingi um vernd verminja sem nú eru víðast að hverfa vegna þessa mikla ágangs, en stjórnvöld hafa ekki sýnt mikil viðbrögð til að vernda þessar menningargersemar þjóðarinnar.
Sjávarorka (n, kvk) Orka sjávar, en helstu birtingarmyndir hennar eru sjávarfallaorka; ölduorka, dreypniorka og hitastigulsorka. Orðið er ekki að finna í orðabókum, enda hefur lítið verið hugað að nýtingu þessarar orku hérlendis þar til safnari þessa orðasjóðs stofnaði verkefni á því sviði árið 2009; Valorku ehf. Þau verkefni snúa að þróun sjávarfallahverfla, ölduvirkjun og rannsóknir á sjávarorku við Ísland. VÖ hefur leitt að því rök að sjávarorka sé í heild langstærsta orkulind landsins og hvatt stjórnvöld til að hefja rannsóknir og undirbúning nýtingar á henni. Sjá sjávarorkurannsóknir.
Sjávarorkunýting (n, kvk) Vinnsla og hagnýting sjávarorku í formi haföldu og strauma. VÖ hefur manna fyrstur unnið að þróun íslenskrar tækni til nýtingar á sjávarorku. Hugmyndavinna byrjaði á unga aldri en verkleg þróun sjávarfallahverfla hófst 2008 og VÖ stofnaði Valorku 2009 til að standa fyrir henni. Fjöldi nýrra hverfilgerða hefur komið fram og skilað góðum árangri í prófunum. Í byrjun er stefnt að nýtingu sjávarfallastrauma með hverflum staðsettum undir ölduhreyfingu og ofan botnkyrrðar. Enn hefur ekki fundist lausn á að beisla ölduorku, einkum vegna eyðingarmáttar brimsins þegar verst gegnir.
Sjávarorkurannsóknir (n, kvk, fto) Rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku. Engar slíkar rannsóknir hafa farið fram við Ísland, þó sjávarorka sé langmesta orkulind landsins; hrein og endurnýjanleg orka sem unnt er að nýta án allra umhverfisáhrifa. Að beiðni VÖ var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþinigi um undirbúning slíkra rannsókna árið 2011. Allir flokkar voru málinu sammála og eftir að hafa velkst um í þinginu var tillagan samþykkt samhljóða vorið 2014. Hinsvegar eyðilagði þáverandi iðnaðarráðherra málið með því að skipa afturhaldssama hagsmunagæslumenn í nefnd sem um það fjallaði, en sniðgekk forgöngumenn þess. Slík er hagsmunagæsla orkurisa sem einokað hafa orkumarkaðinn til þessa. Síðari kynslóðir munu fella sinn dóm um þennan framgang; þær eiga hér mest í húfi.
Sjávarorkuver / Sjávarvirkjun (n, hk/kvk) Tæki sem umbreytir orku sjávar, t.d. ölduorku eða sjávarfallaorku, í raforku eða annað nýtanlegt orkuform. Ýmis þróun á sér stað í þessháttar tækni víðsvegar um heim, þó engin slík virkjun sé enn tengd helstu neyslunetum. Líklegt er að sjávarorka verði nýtt í stórum stíl innan fárra áratuga; enda er hún umfangsmikil og endurnýjanleg orkulind sem unnt er að nýta án nokkurra þekktra umhverfisáhrifa. Valorka ehf er eina íslenska fyrirtækið sem stundar þróun á sjávarorkutækni.
Sjávarröst (n, kvk) Annesjaröst; aukinn straumhraði í sjávarfalli þar sem það mætir hindrun, s.s. grynningum eða annesjum; eða þarf að fara um þröng sund og firði. Sjávarrastir eru fyrir flestum ystu núpum Vestfjarða, t.d. Látraröst útaf Bjargtöngum og Blakknesröst útaf Blakknesi.
Sjávarselta (n, kvk) A. Saltmósta/saltstorka sem fallið hefur út og sest á hluti eftir mikið særok. B. Seltustig sjávar. Selta sjávar við Ísland er yfirleitt 33-35 seltustig; þ.e. 3,3-3,5 grömm af uppleystum söltum eru í hverju kílói sjávar; mest matarsalt.
Sjávarsíða / Sjóarsíða (n, kvk) Strandsvæði; landsvæði sem liggur nærri sjó. „Í hallærum fyrri tíðar áttu byggðir við sjóarsíðuna mun betri afkomumöguleika en byggðir inn til landsins“.
Sjávarstaða (n, kvk) Staða sjávarfalls; stendur á sjó. „Hvernig verður sjávarstaða þegar við komum að“? „Mér sýnist að sjávarstaða ætti að verða sæmileg ef við komumst snemma fram“.
Sjávarstraumur (n, kk) Straumur í sjó; sjávarfallastraumur og aðrir hafstraumar. Sjávarstraumar í Kollsvík orsakast einkum af sjávarföllum, en þeir fylgja þó fjölbreyttara mynstri en ætla mætti við fyrstu sýn. Tveir áhrifavaldar eru þar mestir: Annarsvegar er það sjávarfallasveiflan sjálf, sem orsakar norðurfall tvisvar á sólarhring og nokkuð vægara suðurfall jafn oft. Styrkur þessara reglulegu falla fer eftir því hvernig stendur á straum; hvort stórstreymt er eða smástreymt. Einnig hefur land- og botnlögun mikið að segja: Straumurinn verður sterkastur þar sem sjávarmassinn þarf að fara fyrir nes og núpa og yfir grunnsævi; t.d. í Blakknesröst. Meðan fallastraumurinn skiptir um stefnu eru fallaskipti eða liggjandi. Hinsvegar eru straumar sem orsakast af nálægð við öflugustu röst Íslands; Látraröstina. Breiðafjörðurinn verkar eins og trekt á sjávarfallabylgjuna, á leið hennar vestur og norður fyrir land. Mesta svefluhæð sjávarborðs við landið verður í Breiðafirði; þaðan spýtist straumurinn vesturmeð Bjarginu og sveigir til norðurs fyrir Víkurnar. Látraröstin er greinileg, einkum þegar hún í miklum ham ólgar á móti norðanátt í nokkrum sjógangi. Úr Kollsvík er hún þá tilsýndar sem hvítur borði boðafalla úti við hafsbrún. Þó ekki liggi fyrir því vísindalegar rannsóknir, þá bendir allt til þess að frá Látraröstinni séu hringiður upp á Útvíkurnar; sín iðan upp á hverja vík, og jafnvel ein heildariða til viðbótar. Slíkar iður má t.d. sjá af myndum af Golfstraumnum, þar sem hann liggur uppmeð vesturströnd Ameríku. Þar sem meginstefna Látrarastar er til norðurs, þá er augljóst að þessar iður orsaka straum til suðurs meðfram ströndinni í hverri vík. Þar er komin skýringin á því t.d. að sífellt er suðurfall á Seljavíkinni, og því hve mjög sandur úr Breiðafirði berst upp á strendur Útvíkna; sem og því hve sá sandburður leitar suðurmeð ströndinni. Þriðji meginþáttur hafstrauma er óreglulegri, en það eru áhrif vinda. Um þau áhrif verður ekki mikið fullyrt, en í tvennu eru þau þó greinanleg í Kollsvík. Annarsvegar eykur hvass álandsvindur flóðhæð og ágang sjávar, en hinsvegar getur langvarandi eináttar vindstaða ráðið miklu um það hver mikið magn af sandi er uppi í fjöru og hve langt hann teygist með ströndinni. Þörf væri á mælingum sjávarstrauma til að unnt sé að sannreyna þessi kerfi, enda getur sá skilningur á þeim komið að notum t.d. við varnir gegn uppblæstri.
Sjávarútvegur (n, kk) Sjósókn; fiskveiðar og það starf sem þeim viðkemur. Orðið var lítt sem ekki notað í Útvíkum fyrr á tíð, heldur var fremur talað um sjósókn, veiðar, verstöðu, útræði og róðra.
Sjóaður (l) A. Vanur sjómennsku; farinn að þekkja viðeigandi vinnubrögð og handtök. B. Hættur að vera sjóveikur. Flestir sem fara í fyrsta skipti á sjó í langan tíma finna til sjóveiki og verða sumir mjög veikir. Eftir nokkurn tíma/nokkra róðra fara menn að sjóast og sjóveikin hverfur. C. Afleidd merking; vanur/reyndur. „Hann er orðinn nokkuð sjóaður í fundarstjórninni“.
Sjóarapeysa (n, kvk) Duggarapeysa; notað í seinni tíð yfir bláar peysur úr ullarbandi, háar í hálsmálið, sem algengar voru í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar.
Sjóarbakki (n, kk) Sjávarbakki. „Víða er farið að brjóta úr sjóarbökkunum“. „Sjóar“ var algengari beyging áðurfyrr en „sjávar“.
Sjóarfall (n, hk) Sjávarfall, sjá þar. Í Kollsvík var venja að nota fremur orðið „sjór“, með eignarfallsmyndina „sjóar“, en „sjár“ með eignarfallsmyndina „sjávar“. „Við sátum þarna yfir eitt sjóarfall og höfðum ágæta viðveru af fiski“.
Sjóargata (n, kvk) Gata sem liggur t.d. frá bæ niður að sjó. „Sjóargatan frá Kollsvíkurbænum niður í Verið er nú algerlega horfin“.
Sjóarhjallur (n, kk) Hjallur sem stendur við sjó, til herðingar/upphengingar á fiski.
Sjóarhús (n, hk) Hús við sjó. Orðið var þó hvorki notað um verbúðir né naust, heldur einkum um geymslur.
Sjóarklettar (n, kk, fto) Sjávarklettar. „Skammt utanvið Garðsendann byrja lágir sjóarklettar; fyrst uppað Hreggnesanum, en svo hækka þeir við Undirhlíðarnefið, við norðurenda Hnífanna“.
Sjóarlöður (n, hk) Sjávarlöður; ágjöf. „Svo er Hreggnesi; klettanef á bersvæði, sem næðir mikið um og sjóarlöðrið eða gufan gengur upp að“ (Ól.Sveinss; Örn.skrá Naustabrekku).
Sjóast (s) Verða sjóaður; hætta að vera sjóveikur; farinn að kunna til verka á sjó; vera reyndur. „Mér líður betur en í síðustu róðrum; held ég sé að sjóast“.
Sjóbað / Sjóblautur (n, hk/l) Bað/kaffæring í sjó/ blautur af sjó. Ekki tíðkaðist í Kollsvík að stunda sjóböð að ástæðulausu, eins og nú er siður sumra landsmanna, en algengt var að menn urðu sjóblautir af ágjöf eða við setningu báta.
Sjóborð (n, hk) Nafn á því borði skips (oft 5.umfar) sem vanalega er að hluta í sjó á lítið hlöðnum bát. Næsta borð fyrir ofan nefnist sólborð, og er að jafnaði uppúr ef bátur er ekki mjög hlaðinn.
Sjóborg (n, kvk) Bátur/skip sem ver sig mjög vel í sjó; andstæða við t.d. sjókæfu.
Sjóblautur (l) Blautur af sjó. „Þegar sjóklæðin urðu sjóblaut voru þau þurrkuð, og var brókin sett til þurrks á svokallaðri brókarkvísl...“ (EÓ; Skinnklæðagerð).
Sjóbleyða (n, kvk) Sá sem er sjóhræddur/ þorir ekki að sækja sjó. „Atyrti hún Guðmund ráðsmann sinn harðlega; kvað hann hina mestu sjóbleyðu sem hræddist hverja golu, og ætti varla skilið að stíga út í bát framar“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).
Sjóbratt (l) Mikill bratti í átt til sjávar. „Geldingsskorardalslækir liggja niðurundan Háhöldum og út undir Flaugarnef; vætulækir, en gras á milli og sjóbratt mjög“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).
Sjóbúa (s) Um báta; gera klárt á sjó/ til sjóferða; gera sjóklárt. „Það var alltaf byrjað á einmánuði að þvo fisk frá haustinu áður, og um sumarmál að hvolfa upp bátunum og sjóbúa þá. Róðrar hófust svo strax og gaf“ (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).
Sjóbúð (n, kvk) Annað heiti á verbúð. Verbúðir í Kollsvík voru ekki nefndar sjóbúðir, en það var notað yfir verbúð í Kvígindisdal, sem stóð þar framyfir 1970. Í henni var svefnloft. „Þetta gerðist á áliðnu sumri 1928. Og við vorum staddir í sjóbúðinni í Kvígindisdal“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sjódauður (l) Dauður á sjó; dauður í sjóslysi. Mikil virðing hefur jafnan verið borin fyrir þeim mönnum sem leggja líf sitt í hættu til að sækja björg í bú í greipar ægis. Til var máltæki á þá leið að „sæll er sjódauður en vesæll vatnadauður“. Þjóðtrúin segir að sjódauðir menn komi jafnan heim fyrst eftir dauða sinn og birtist annaðhvort í draumum berdreyminna eða sem sýn skyggnra. Er þá mikilvægt að ekki sé á þá yrt. Í draugasögum eru mörg dæmi þess að sjódauðir menn séu vaktir upp og nýttir til sendinga. Hefur sú sagnahefð eflaust skapast af því að hinir sjódauðu voru stundum sjómenn úr fjarlægum lands- eða heimshlutum sem enginn þekkti, og því ekki eins þungbært að hafa dauða þeirra í flimtingum og hinna.
Sjódraugur (n, kk) Draugur sem verður til þegar sjódauður maður gengur aftur eða er vakinn upp.
Sjódrífa / Sjódrif (n, kvk) Sælöður; úði sem rýkur úr öldufaldi í roki. „Sjódrífan var svo mikil þarna í fjörunni að við urðum kollvotir við að bjarga trénu“. „En þegar þangað kom var veðurofsinn svo, að óstætt var og sjódrifið svo mikið að lítið sást frá sér“ (MG; Látrabjarg). „Var þá kvikmyndatökuvélin varla orðin gangfær fyrir sjódrifi sem á hana hafði sest“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Sjódrukknaður (l) Drukknaður á sjó.
Sjódyngjur (n, kvk, fto) Stöðugar gæftir. „Í góðviðri henti það stundum að farnir oru ellefu róðrar yfir vikuna. Svona stöðugar gæftir voru kallaðar sjódyngjur“ (PJ; Barðstrendingabók).
Sjóða (s) A. Elda mat með suðu. „Hæfilegt er að sjóða múkkaeggin í sjö til níu mínútur“. B. Sjóða/brasa saman; bræða járnhluti saman með mikilli hitun og renna málmi aukalega í samskeytin.
Sjóða á keipum (orðtak) Um siglingu báts; þegar skipið hallast svo undan byr í segl að sjór gutlar uppundir keipana/tollurnar hlémegin. Þótti háskasigling, einkum ef eitthvað var í sjóinn.
Sjóða á söxum (orðtak) Um siglingu báts; þegar skipi er siglt þannig að sjór freyðir uppundir söxin. Sjá sax.
Sjóða niður (orðtak) Um matvælageymslu; sjóða matvæli í íláti og loka því síðan; niðursuða. Með því er varan gerilsneydd og rotnar mun hægar. Þetta er sérlega auðvelt með súran mat. T.d. tíðkaði Sigríður Guðbjartsdóttir það í sinni búskapartíð að sjóða niður rabbarbara í loftéttar glerkrukkur. Hann var svo einkum snæddur sem ábætisréttur með rjóma, og þótti engu síðri en niðursoðnir ávextir, sem þá voru torfengnari en nú.
Sjóða saman (orðtak) A. Elda saman í potti. B. Sjóða/festa tvo málmhluta saman með hitun. C. Líkingamál; búa til texta, kvæði, ræðu eða annað.
Sjóða upp (orðtak) Um vökva í potti; gufa allt upp. „Vatnið hafði allt náð að sjóða upp af kartöflunum, og þær voru orðnar eins og kolamolar“.
Sjóða uppúr (orðtak) Um vökva sem hitaður er í potti; bulla svo ákaft við suðuna að froðan lyftist uppyfir barma ílátsins. Hættast er við uppúrsuðu þegar soðinn er mjólkurmatur.
Sjóðandi heitur / Sjóðheitur (orðtak/l) Svo heitur að nálgast suðumark; brennheitur; brennandi heitur. „Passaðu þig á grautnum; hann er sjóðheitur“!
Sjóðandi illur / Sjóðandi reiður / Sjóðandi vitlaus (orðtak) Blóðillur; saltvondur. „Sjóðandi illur henti hann moldarhnaus á eftir fjárhópnum“.
Sjóðbandvitlaus (l) Lýsing á mikilli reiði; brjálaður; kolvitlaus; trompaður; umturnaður. „Hann varð alveg sjóðbandvitlaus af vonsku þegar hann frétti af þessum tiltektum“.
Sjóðbullandi (l) Áhersluorð, einkum þegar blótað er eða lýst miklum æsingi; sjóðandi. „Fari það nú í sjóðbullandi helvíti“! „Hann varð alveg sjóðbullandi illur þegar hann heyrði af þessu“.
Sjóðhiti / Sjóðandi hiti (n, kk/orðtak) Mjög mikill hiti; steikjandi hiti. „Það þarf að setja í gang súgþurrkunina; það er kominn sjóðhiti í heyið og stakkur ofaná það“.
Sjóður (n, kk) A. Safn peninga eða annarra verðmætra muna. Þessi notkun orðsins var algeng í upphafi Íslandsbyggðar, en er nú einkum bundin við ráðstöfunarfé fyrirtækja og stofnana, t.d. ríkissjóður. B. Líkingamál um safn hverskonar muna og jafnvel huglægra efna, s.s. reynslusjóður. Nafn þessa orðasafns er dæmi um slíkt, enda má líta á orðaforða Kollsvíkinga sem hluta óáþreifanlegra menningarverðmæta sm þar voru lengi staðbundin en er nú í hættu með að glatast vegna byggðahrörnunar.
Sjóðvitlaus fiskur (orðtak) Asafiski; mjög góð veiði; aflahrota. „Við lentum í sjóðvitlausum fiski þarna“.
Sjóðvondur (l) Mjög reiður/æstur; saltvondur; blóðillur. „Hann var sjóðvondur yfir þessari niðurstöðu“.
Sjófang (n, hk) Afli/veiði úr sjó; sjávarafli; sjávargagn.
Sjófarandi (n, kk) Sá sem siglir um sjó. „Vitarnir bættu mjög öryggi sjófarenda“.
Sjóferð (n, kvk) Róður; ferð á sjó. „Þannig fór um sjóferð þá“!
Sjóferðabæn (n, kvk) Undantekningarlaust var venja að fara með sjóferðabæn, bæna sig, áður en farið var í róður. Bænin var vanalega flutt eftir að búið var að sjósetja og báturinn kominn fram á lægi. Þá voru árar lagðar upp; höfuðföt tekin niður og hver bað sína bæn í kyrrð áður en tekið var aftur til ára eða vél gangsett. Í sumum verstöðvum var þó ekki gert neitt slíkt stopp. Venja í Láturdal var sú að sjóferðabæn ætti að vera lokið þegar róið hafði verið út að Bænagjótu, en hún er rétt utanvið Klaufatangana. (Svo sagði mér Ingvar Guðbjartsson; VÖ). Ekki er nú vitað hvernig sjóferðabænir hljóðuðu áður fyrr, en hver hafði sitt lag á í seinni tíð. Oftast munu menn hafa farið með faðirvorið. Ríkt var haldið í þann sið að lesa sjóferðabæn í róðrum úr Kollsvíkurveri fram yfir 1970, þó þá væru þeir strjálir, og mun hann hvergi hafa viðgengist lengur (VÖ). „Allir tóku ofan sín höfuðföt og báðu sjóferðabænina þegar komið var á flot og menn höfðu sest undir árar“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Þá taka allir ofan höfuðfötin og lesa bæn; hver fyrir sig“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Heilög goð er heitið á/ höldum stoð að veita;/ brugðið voðarbandi þá;/ brunar gnoðin landi frá“ (JR; Rósarímur).
Sjóferðahugleiðingar (n, kvk, fto) Áætlanir/bollaleggingar um sjóferð. „Eruð þið í einhverjum sjóferðahugleiðingum? Ég held ég fari þá að berja eitthvað í nesti“.
Sjófiskur (n, kk) Fiskur sem lifir í sjó. „Af hvaða sjófiski hafa menn mest not“? (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1919).
Sjóflutningar (n, kk, fto) Vöruflutningar á sjó. Fyrr á tímum fóru aðdrættir Kollsvíkinga og ýmis flutningu afurða ýmist fram með sjóflutningum eða með landflutningum um hestavegina gömlu. Sjóflutningar voru jafnan nýttir fremur ef til þeirra gaf veður; einkum meðan alla vöru þurfti að sækja á Eyrar.
Sjófugl (n, kk) Fugl sem er aðlagaður lífi á sjó, og sækir fæðu sína einkum í sjó. Algengustu sjófuglar sem verpa í Kollsvík eru múkki, rita, hvítmáfur, svartbakur, hettumáfur, kría, lundi, teista, skarfur og æðarfugl, en aðrir eru algengir gestir á víkinni, s.s. súla, sílamáfur, langvía, nefskeri, álka og skrofa.
Sjófær (l) Um bát/skip; fær til siglinga; haffær. „Hann taldi bátinn ekki sjófæran fyrr en búið væri að seyma hann verulega að nýju“.
Sjógalli (n, kk) Hlífar; hlífðarfatnaður sjómanna. „Sjógallar hafa breyst í gegnum tíðina. Öldum saman voru skinnklæði bestu hlífar sem völ var á, og gerð þeirra var orðin nokkuð þróuð í Kollsvík, eins og sjá má af lýsingum þeirra sem síðast kunnu þar til verka. Eftir að olíustrigafatnaður varð fáanlegur tóku við dagar sjóstakksins; kjóllaga verju sem steypt var yfir höfuð sér og notuð með klofstígvélum og barðamiklum sjóhatti. Síðar komu til jakki og buxur úr þjálli efnum, notuð þá með lágstígvélum, enda sjaldnast þörf lengur á að vaða sjó í klof“.
Sjógangur (n, kk) Slæmt sjólag; mikill sjór; ókyrrð. „Það fer enginn smábátur í Röstina í þessum sjógangi“.
Sjógarður (n, kk) Stórsjór, brim. Þegar leið á daginn gerði áhlaupaveður með miklum sjógarði“. (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Sjógarpur / Sjókempa (n, kk) Sægarpur; sá sem þykir góður og sækinn sjómaður; áræðinn en útsjónarsamur og farsæll. Oftast stytt í kempa.
Sjógusa (n, kvk) Skvetta af sjó; ágjöf. „Var nú henst stein af steini, og þeir stirðari fengu sjógusu, því brim var óskaplegt“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Sjóhattur (n, kk) Höfuðfat sem notað er á sjó. „Sjóhatt áttu flestir, er aðeins var settur upp þegar ágjöf var eða illviðri“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sjóhrakinn (l) Þrekaður eftir volk í sjó. „Þegar þessir sjóhröktu menn töldust ferðafærir ... voru þeir fluttir til Patreksfjarðar“ (ÁE; Ljós við Látraröst). „Hinum sjóhröktu mönnum var tekið tveim höndum af heimamönnum....“ (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum).
Sjóhraustur (l) Þolir vel velting og volk á sjó án þess að blikna eða verða sjóveikur.
Sjóhundur (n, kk) Sá sem er ófyrirleitinn við sjósókn/sækir sjó þegar öðrum sýnist ekki fært sjóveður.
Sjóhögg (n, hk) Högg sem greitt er skötu eða steinbít til að rota/dauðrota. „Þegar skata kom að borði var hún dauðrotuð með haka eða kepp áður en hún var innbyrt; kallað sjóhögg“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Sjóinntak (n, hk) Gat í byrðing báts neðan sjávarborðs þar sem tekinn er inn sjór fyrir kælingu vélarinnar. „Vélin ofhitnaði þegar við fengum þara í sjóinntakið“.
Sjókind (n, kvk) Vera sem býr í sjó, oftast átt við þjóðsagnaveru/óvætt. „Það var ekkert frammi á hleininni þegar ég kom á staðinn, svo þetta hlýtur að hafa verið einhver sjókind“.
Sjóklár (l) Síðari tíma heiti um að vera tilbúinn í sjóferð. Notað bæði um bát og sjómann.
Sjóklæddur (l) Kominn í hlífar/sjógalla/skinnklæði sem þarf til sjóferðar/róðurs.
Sjóklæði (n, hk, fto) Hlífar/hlífðarfatnaður á sjó, sjá skinnklæði. „Karlmenn saumuðu sjálfir sjóklæði sín að vetrinum“ (KJK; Kollsvíkurver). Þjóðtrúin segir að ekki megi staga sjóklæði á sunnudegi; þá farist þeir sem þau bera. ( JÁ; Þjs).
Sjókort (n, hk) Kort sem sýnir legu strandar, stefnur, leiðir, dýpi, boða, vita og annað. Góð sjókort fóru ekki að tíðkast fyrr en á 19.öld, eftir að konungstilskipun hafði verið gefin út um strandmælingar við Ísland. Sjómenn Útvíkna treystu á staðkunnátu sína og munu sjaldnast hafa stuðst við sjókort. Færasti kortateiknari Íslands á sinni tíð bjó um tíma í Kollsvík; Samúel Eggertsson á Grund. Hann teiknaði gott kort af Rauðasandshreppi þar sem m.a. eru merktar inn sjóleiðir og boðar.
Sjókæfa (n, kvk) Bátur sem stingur sér í ölduna í stað þess að lyfta sér uppá hana. (Orðasafn Ingvars Guðbj.).
Sjókæld (l) Um vél í bát; kæld með sjó en ekki ferskvatni. Á grásleppuveiðum og við lendingar í fjöru þurfti að gæta varúðar að þari næði ekki að stífla sjóinntak slíkra véla, sem þá hæltti til að ofhitna.
Sjólag (n, hk) Hegðun sjávaryfirborðs/öldu; ölduhæð og öldugerð. „Oftast er annað sjólag í röstinni en það sem er beggjamegin við hana á sama tíma. Hún getur verið kolófær í stífu falli á móti vindi, þó rétt hjá henni sé hægt að vera að veiðum“.
Sjólaust (l) Ládeyða, eða a.m.k. ekki sjór til vandræða. „..mælirinn hefur fallið og sjáanlega er norðanátt í aðsigi en hann er sjólaus ennþá“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sjólax (n, kk) Gæluheiti á ufsa.
Sjóleið (n, kvk) Sjóferð; ferðalag sjóleiðis. „Vermenn í Kollsvík komu flestir sjóleið úr Breiðafirði í byrjun vertíðar. Sumir komu þó landleiðina“. Sjá sjóleiðis.
Sjóleiðis/landleiðis (ao) Þessar tvær meginleiðir voru til flutninga og aðdrátta í Kollsvík. Hestavegir, áður nefndir fjallvegir, lágu inn yfir Hænuvíkurháls til Hænuvíkur og inn með firði; yfir Tunguheiði til Örlygshafnar; yfir Sandsheiði og Brúðgumaskarð til Rauðasands og um Breið til Breiðuvíkur. Þyrfti flutning út kaupstaðnum á Eyrum var oftast betra að sitja eftir sjóveðri og róa eða sigla fyrir Blakk og inn Patreksfjörð. „ Enda þótt neysla á aðfluttum varningi væri mun fábreyttari en nú er orðið hefði orðið tafsamt að flytja aðfluttar vörur á hestum. Var því mestur hluti þeirra fluttur sjóleiðina“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG). „Einar brá þegar við, og fór sjóleiðis inn fyrir Blakknes“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Sjóleysa (n, kvk) Ládauður sjór. „Einnig hafði sunnangoluna hægt og alveg var ládeyðu sjóleysa, svo eftir engu var hægt að átta sig“ (ÖG; Þokuróður).
Sjólína (n, kvk) Um skip; skilin á skrokki skips milli þess sem er uppúr og ofaní sjó. „Kom þá í ljós að kjalfatta þurfti allt skipið fyrir ofan sjólínu“ (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).
Sjólítill (l) Lítill sjógangur;ekki mikið brim. „Veður var gott; sjólítið og logn. “ (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). „Hann hefur dottið niður og er orðinn fremur sjólítill“.
Sjólok (n, hk, fto) Yfirborð sjávar; þar sem sjó lýkur við yfirborð/hafflöt. „Lúðan braust um í sjólokunum, en okkur tókst að koma ífærunni í hana“. „Var þá svo komið að báturinn maraði í sjólokunum, nær fullur af sjó“ (BS; Barðstrendingabók)
Sjólæða (n, kvk) Lág þoka sem leggur inn frá sjónum. Getur þá tekið fyrir allt skyggni á láglendi þó bjart sé ofantil á fjöllum og núpum.
Sjólöður (n, hk) Sjávarlöður; froða sem myndast á sjó í miklu brimi. „Sjólöðrið lá í hnédjúpum hrönnum í fjöruborðinu“. Oftar var talað um sjólöður í Kollsvík en sjávarlöður.
Sjómaður (n, kk) Sá sem stundar fiskveiðar eða sækir af öðrum sökum sjó í atvinnuskyni. Heitið var ekki almennt notað í Kollsvík áðurfyrr; fremur var m.a. rætt um vermenn, fiskimenn, farmenn og útvegsbændur. Það ryður sér til rúms með tilkomu sjávarþorpa, seglskúta og síðar vélskipa.
Sjómannsefni (n, hk) Efni í sjómann; verðandi sjómaður. „Því allir voru þessir formenn, og skipsmenn þeirra flestir, margþjálfaðir á þessum litlu fleytum. Munu þær ekki sjómannsefnum lökustu skólaskipin“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sjómannsævi (n, kvk) Störf manns á sjó. „Ég hafði setið þarna hjá honum (Árna Dagbjartssyni) á þóftunni flest útstímin síðast liðin tvö vor og sumur; hlustað á sagnir frá hans löngu sjómannsævi á flestum gerðum skipa, víðsvegar um Atlantshafið; allt norður í Íshaf; við flestar tegundir fiskveiða, hvalveiði og selveiði, og einnig farmennsku“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sjómennska (n, kvk) Það að vera sjómaður/ stunda sjó.
Sjómennskubragur (n, kk) Hegðun/vinnubrögð eins og hjá sjómanni. „Mér finnst nú lítill sjómennskubragur að því að mæta til skips á strigaskóm og í stuttermabol! Blessaður komdu þér í eitthvað skjólbetra“!
Sjómennskulegur (ao) Sýnir þekkingu á sjómennsku. „Guðbjartur Torfason er jafnkunnur öllum staðháttum hér og við, og á engan hátt ófærari til sjómennskulegra aðgerða en við“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sjómíla (n, kvk) Mælieining vegalengdar, oftast notuð á sjó áðurfyrr, en nú einnig í flugi og víðar. Ein sjómíla er 1/60 úr breiddargráðu eða ein bogamínúta. Vegna þess að jörðin er ekki fullkomlega kúlulaga er lengdin því dálítið breytileg, en alþjóðlegur skilningur er sá að hún jafngildi 1.852 metrum. Hraðaeiningin hnútur er skilgreind sem ein sjómíla á klukkustund.
Sjón (n, kvk) A. Skyn sem byggir á augum. „Ég hef alveg sæmilega sjón ennþá“. B. Útlit. „Það var ekki sjón að sjá hann þegar hann skreiddist uppúr fjóshaugnum“.
Sjón ber sögu vitni (orðtak) Það sannast með sýnileikanum/ því sem sjá má; það sést. „Ég hélt að grásleppur yrðu ekki svona stórar, en sjón ber sögu vitni“.
Sjón er sögu ríkari (orðatiltæki) Það segir og sannar meira að sjá hlutina en heyra um þá. Forn speki.
Sjónarhorn / Sjónarhóll / Sjónarmið (n, hk) Afstaða; skoðun. „Frá mínu sjónarhorni er ekkert athugavert við þetta“. „Mitt sjónarmið í málinu liggur fyrir“.
Sjónarmunur (n, kk) Sýnilegur munur. „Lúðurnar eru álíka þungar, en þessi er þó sjónarmun stærri en hin“.
Sjónarrönd (n, kvk) Sjóndeildarhringur; það sem lengst verður séð. „Hafið, blá hafið, hugann dregur;/ hvað er bakvið ystu sjónarrönd?“ (Örn Arnarson; Sigling). „Léttan skoppar ára-önd/ öldutoppa kvika./ Glævur hoppa, hylur önd/ hríðarloppa sjónarrönd“ (JR; Rósarímur).
Sjónarspil (n, hk) Leiksýning; leikaraskapur; skrautsýning; ljósagangur. „Flugeldasýningin var mikið sjónarspil“.
Sjónarsvið (n, hk) Það svið sem augað sér; það svæði sem er sýnilegt. Sjá fram á sjónarsviðið.
Sjónarsviptir (n, kk) Breyting á svipmóti; missir þess sem setur svip á umhverfi sitt. „Það er alltaf sjónarsviptir að því þegar gömul og æruverðug hús hverfa. Þannig var t.d. þegar niður voru tekin Mókofinn og hænsnakofinn á Láganúpi; þegar brunnhúsið hvarf og þegar sjávarkofinn hans afa féll niður“.
Sjónarvegur (n, kk) Leið sem sýnileg er. Eingöngu notað í afleiddu merkingunni; möguleiki; hugsanlegt; tilsjón. „Heldurðu að það sé nokkur sjónarvegur að þú komist með okkur í smalamennskur um helgina“?
Sjónarvinkill (n, kk) Sjónarhorn. „Það má líka líta á málið með þeim sjónarvinkli“.
Sjónarvottur (n, kk) Vitni; sá sem sér/ er viðstaddur. „Ég varð sjónarvottur að þessu sjálfur“.
Sjónauki (n, kk) Kíkir. Sjónauki hefur lengi verið mikilvægt hjálpartæki; jafnt varðandi búskap og sjósókn.
Sjóndapur (l) Sjónskertur; farinn að sjá illa. „Maður verður sjóndapur með aldrinum“.
Sjóndepurð (n, kvk) Slæm/döpur sjón. „Skírnarvatnið þótti hafa lækningamátt við sjóndepurð og annarri augnveiki“ (SG; Kirkjur; Þjhd.Þjms).
Sjóngler (n, hk) Stækkunargler.
Sjónglöggur (l) Sér glöggt. Notað bæði um að sjá hluti sem eru í mikilli fjarlægð, og að glöggva sig á óljósu staki í stórum hópi. „Mikið asskoti ertu sjónglöggur að greina markið; svona ofanaf réttarveggnum“!
Sjónhending (n, kvk) Sjónlína. „...en úr greindum læk hjá Klúkutóftm ræður sjónhending upp í Altarisberg og ofan í áður skrifaðar reiðgötur“ (Landamerkjavitnisburður Saurbæjar 1660).
Sjónhverfingar (n, kvk, fto) Blekkingar þess sem sést. „Þarna hvarf féð; eins og fyrir sjónhverfingu“.
Sjónlína (n, kvk) Leið sem sést óhindrað; það sem séð verður. „Af Núpnum er sjónlína á Bjargtanga“.
Sjónmál (n, hk) Sjónlína. Eingögnu notað með forsetningunni „í“. Sjá í sjónmáli.
Sjónminni (n, hk) Hæfileikinn til að muna glöggt það sem maður hefur séð.
Sjónskarpur(l) Hefur góða/skarpa sjón.
Sjónvarp (n, hk) A. Tækni til þráðlausra myndsendinga, tilkomin á síðari hluta 20.aldar. B. Tæki til að sýna mynd sem send er með sjónvarpstækni.
Sjónvarpsútsendingar hófust hérlendis 30.09.1966, og fljótlega eftir það kom endurvarpstöð í Stykkishólmi og síðar var unnt að ná sjónvarpi á Patreksfirði. Tæknimenn Rúv mældu skilyrði til sjónvarpsmóttöku á bæjum í Rauðasandshreppi og voru vonlitlir um þau vegna hins fjöllótta landslags; en sendingargeislinn þarf að komast nánast um sjónlínu. Sumir bæir hreppsins gátu þó fljótlega náð sjónvarpi frá Patró, s.s. Kvígindisdalur, Tunga og Hænuvík. Meðan sjónvrpslaust var á bæjum í Kollsvík var Kollsvíkingum oft boðið til vinafólks í Hænuvík eða að Tungu ef eitthvað það var á dagskrá sem sérlega þótti áhugavert. T.d. fjölmenntu Kollsvíkingar að Hænuvík til að sjá leikritið Mann og Konu og fleira, og að Neðri-Tungu til að sjá fyrstu lendingu manna á tunglinu 20.07.1969. Eftir að ríkið hafði nánast afskrifað sjónvarpsmóttöku í Útvíkum um aldur og ævi var leitað til þúsundþjalasmiðsins Ólafs Sveinssonar á Sellátranesi; líkt og endranær þegar eitthvað vandasamt þurfti að lagfæra. Sá sjálfmenntaði töframaður vann svo það stórvirki við frumstæðar aðstæður og á eigin spýtur, að setja upp háreist loftnet á fjallsbrúnum til að ná merki frá Stykkishólmssendinum; leiða það mörghundruð metra leið að húsum og ná hljóði og mynd merkilega vel. Hann smíðaði sjálfur greiður magnara og annað sem til þurfti og sýndi einstaka útsjónarsemi og seiglu. Sjónvarp kom á Láganúp líklega 1970 eða 1971. Það var löngum hrjáð af hinni miklu mögnun merkisins; t.d. kom oft norsk sjónvarpsstöð inná og truflaði. Sjónvarpsgreiðan var uppi á Hjöllum, hjá Nónvörðu; reist á 8m langan staur. Merkið var leitt heim í jarðkapli með mögnurum á leiðinni. Móttakan varð fyrst truflanalaus á Láganúpi með tilkomu gervihnattadisks eftir aldamótin 2000. Sjónvarp í Kollsvík kom fyrst í búskapartíð Hilmars Össurarsonar. Með aðstoð Óla á Nesi reisti hann loftnet á brún Núpsins, ofan bæjarins; leiddi merkið í loftlínu niður og heim í bæ. Sá búnaður var aflagður eftir að Hilmar brá búi. Ólafur Sveinsson vann svipuð þrekvirki víðar um hreppinn; í Breiðavík; á Látrum; og á flestum bæjum á Rauðasandi. Til að betrumbæta móttöku á Hnjóti setti hann upp endurvarpsstöð á Tunguhlíð sem hann smíðaði sjálfur. Ein lárétt greiða tók á móti merki frá Patró en önnur lóðrétt sendi það áfram að Hnjóti. Gekk stöðin fyrir orku frá rafgeymum, en áform hafði hann um virkjun lækjarsprænu í grenndinni.
Sjónvarpsgláp (n, hk) Áhorf/gláp á sjónvarp. „Fjórir bæir bættust við á árinu með sjónvarpsgláp nú rétt fyrir jólin, með ærnum tilkostnaði umfram tækjakaupin. Fólk telur fénu ekki illa varið. En skelfing er það þó landeyðulegt að sjá sveitafólk sitja auðum höndum öll kvöld. En þetta kannske venst“ (ÞJ; Árb.Barð 1971).
Sjónvarpsgreiða / Sjónvarpskapall / Kóaxkapall / Sjónvarpsmagnari (n, kvk) Tæki og tækjahlutar sem til þurfti svo unnt væri að ná sjónvarpsútsendingum í Útvíkum og víðar. Sjónvarpsgreiða var loftnetið sem merkið nam; það var svo sent til bæjar um sjónvarpskapal; skermaðan „kóaxkapal“ með kjarna, en til að merkið dofnaði ekki á hinum langa flutningi var það magnað með sjónvarpsmagnara. Sjá sjónvarp.
Sjónvilla (n, kvk) Missýning; sýn sem ekki er raunveruleg. „Ég hélt fyrst að þetta væri einhver sjónvilla, en svo sá ég að það fór ekki á milli mála að þarna var hrúturinn kominn“.
Sjópróf (n, hk, fto) Réttarhöld og vitnaleiðslur sem halda þarf í kjölfar slyss á sjó, til að komast að og skrásetja rétta atburðarás, t.d vegna hugsanlegra saka eða bótaskyldu og til að geta fyrirbyggt endurtekningu.
Sjór (n, kk) Ýmis merking: Getur þýtt vökvann sjálfan; „ Hann hafði sopið allmikið af sjó þegar honum var bjargað“. Getur þýtt haf; „Við björguðum bátnum undan sjó“. Algengt í Kollsvík sem annað orð yfir brim; „Hann hefur haldið töluverðum sjó í tvær vikur samfellt“. Getur einnig verið stytting úr brotsjór. „Skipið fékk á sig sjó og laskaðist mjög“. „Á nefndu haustu, laugardagsmorgun einn, var hryðjuveður, ótryggt skýjafar og allmikill sjór“ (PJ; Barðstrendingabók). „Þó tókst Árna að forða honum frá stærstu sjóunum. ... Bátnum var snúið leiftursnöggt, en hann var samt ekki orðinn fyllilega réttur er stór sjór reið undir“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sjór á grasi / Sjóblautt á (orðtök) Mjög blautt á grasi eftir náttfall/úrkomu. „Það er enn hafsjór á; það þýðir ekki að hugsa til þess að hreyfa hey fyrr en líður á daginn“.
Sjór í miðjum hlíðum (orðtak) Sú fjarlægð frá landi að neðri hluti fjallshlíða hverfur bakvið sjóndeildarhring sjávar í björtu veðri og frá lágreistu fari. Líklega er þá komið langleiðina út í Víkurál frá Kollsvík.
Sjór undir þóftur (orðtak) Svo mikill sjór kominn í bát að fylli uppundir þófturnar.
Sjór upp í miðja snældu (orðtak) Sjór kominn inn í bát sem nær upp í miðja snældu (stoð undir þóftunni).
Sjórekinn (l) Rekinn af sjó á fjöru. „Mikið af þarfaböndum fékkst úr sjóreknum flækjum; línum og færum sem tapast höfðu af línubátum“.
Sjóreyfari / Sjóræningi (n, kk) Sjá fríbýttari.
Sjóréttur (n, kk) A. Réttarreglur sem gilda um siglingar. B. Sjódómur; réttur sem dæmir í sjóréttarbrotum.
Sjóriða (n, kvk) Ósjálfráð tilfinning hjá sumum, einkum þeim sem óvanir eru á sjó, þannig að þeim finnst þeir enn vera í veltingi þegar í land er komið.
Sjórok / Særok (n, hk) Sjódrífa; sædrífa; hávaðarok sem feykir miklu af sjó og sjólöðri uppá land eða yfir bát.
Sjóróðrar (n, kk, fto) Róðrar; vertíð. „Var hann farþegi og var á leið til sjóróðra í fyrsta sinn; ráðinn hjá Hákoni Jónssyni er þá var húsmaður á Stekkjarmel í Kollsvík“ (GG; Kollsvíkurver).
Sjórót (n, hk) Særót; öldugangur; stórsjór; brim.
Sjóselta (n, kvk) Selta sjávar; seltumósta sem sest á hluti. „Sjóseltan er fljót að vinna á beru járninu“.
Sjósetja (s) Setja á flot; setja fram; ýta úr vör. „Nú þurfum við að fara að sjósetja áður en fellur meira út“.
Sjósetning (n, kvk) Það að gera bát sjókláran, setja hann niður og ýta honum á flot. „Í Útvíkum báru hásetar farbúnað á skip meðan formaður naglfesti. Árar voru lagðar til lags; blöð andófsára lágu fram á söx en blöð miðskips- og austurúmsára aftur. Mastur og segl lágu þannig að masturstoppur nam við hnýfil, en masturshæll við kollharð á miðskipsþóftu bakborðsmegin. Aldrei mátti krossleggja barkann, sem kallað var; láta árar og mastur liggja í kross hvað ofan á öðru fram í barka. Víða var skutur látinn ganga á undan í setningunni, nema ef brimaði; þá var borið við; þ.e. skipinu snúið sólarsinnis á landi. Var það gert þar sem skip voru yfirleitt viðtakameiri að framan. Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan. Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu. Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“ (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III).
Sjósíða (n, kvk) Sjávarsíða; svæði nærri sjó; strandsvæði.
Sjóskip (n, hk) Bátur/skip í umræðu um hæfni til siglinga, og þá með lýsingarorði, t.d. gott, fyrir framan. „Vigga sigldi vel en var ekki gott sjóskip“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Sjóskór (n, kk, fto) Hluti skinnklæða (sjá þar). „Í hvert skipti er brók var klæðst varð ekki hjá því komist að binda skó á fæturna til hlífðar brókarsólum. Voru það sjóskór nefndir. Þeir voru vanalega gerðir úr sútuðu leðri, allþykku. Einnig gerðir úr leðri er skorið var ofan af lélegum leðurstígvélum. Þessir skór voru þjálli og fóru betu á fæti. Þeir voru varpaðir með snæri og með því sama snæri bundnir yfir mjóalegginn“ (KJK; Kollsvíkurver). „Við brækur voru notaðir sjóskór úr sútuðu leðri, til að hlífa þeim við sliti“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Sjóskrímsli (n, hk) Furðudýr úr sjó sem sumir segjast hafa séð á fjörum; þjóðsagnavera. „Ekki eru til beinar sannanir fyrir því að sjóskrímsli hafi sést á Kollsvíkurfjörum, en sagðar voru sögur af mönnum sem töldu sig hafa orðið vara við slíkt. Síðastur slíkra sjónarvotta var Gunnar Össurarson. Hann sagðist eitt sinn hafa séð torkennilega veru á snövli í Langatangabótinni. Sýndist honum það vera þeirrar tegundar sem nefnd hefur verið skeljaskrímsli, en þau eru svo vaxin skeljum að skröltir í þegar þau hreyfa sig. Þoka var á þegar þetta var og dýrið lét sig hverfa í sjóinn þegar Gunnar nálgaðist. Því komst hann aldrei svo nálægt að óyggjandi væri, en var sannfærður um tilvist sjóskrímsla þaðan í frá. Þetta sagði Gunnar mér sjálfur“ (VÖ).
Sjóslys (n, hk) Slys sem verður á sjó, t.d. drukknun manna eða bátur strandar eða ferst. Fyrrum var líklega sjaldan eða aldrei notað orðið sjóslys, heldur önnur heiti; t.d. bátstapi, drukknun, strand, skipsskaði o.fl.
Sjósmár (l) Sjólítið. „Veður var suðvestan kafaldskóf, hæglætisveður en ylgja; sjósmár“ : Um strand togarans Croupiers undir Blakk, líkl. haft eftir GG; (EÓ; skipsströnd í Rauðasandshreppi).
Sjósókn (n, kvk) Að sækja sjó; róa til fiskjar. „Furðu gegnir hve fá slys urðu við sjósókn úr Kollsvíkurveri“.
Sjósóknari (n, kk) Duglegur sjómaður. „Hann var mikill sjósóknari; sjómaður hinn besti...“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). „Þórarinn Bjarnason, gamall og þekktur sjósóknari úr Kollsvík sem ekki lét sér allt fyrir brjósti brenna... “ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „... en Jón faðir hans var mikill og áhugasamur sjósóknari“ (ÖG; Snæbj.J.Th; Árb.Barð 1980-90).
Sjóstakkur (n, kk) Olíustakkur; vatnsheldur stakkur til að verjast ágjöf og annarri vætu á sjó. Á 20.öld tíðkuðust víðir og síðir stakkar úr striga og gerviefnum sem menn steyptu yfir höfuð sér. Þeir vörðu líkamann niður á hné, fram á hendur og uppeftir hálsi. Ef maður var jafnframt í klofstígvélum, sjóvettlingum og með sjóhatt, var hann þokkalega vel varinn fyrir pusi. Síðar færðist heitið yfir á styttri stakka sem bornir eru við sjóbuxur; eru með hettu og allmiklu liðugri í notkun.
Sjóstígvél (n, hk, fto) Upphá stígvél; klofstígvél. „Ég skal ýta frá; ég er í sjóstígvélum“.
Sjóvanur (l) Aðlagaður veru á sjó; hættur að finna til sjóveiki og sjóriðu. „Þú verður orðinn sjóvanur eftir örfáa daga“.
Sjóveður (n, hk) Veður til að fara á sjó; gæftir. Lífsafkoma margra byggðist á sjósókn og því var fast sótt. Kappið hefur þó furðu sjaldan borið glöggskyggnina ofurliði, en slys í Kollsvík voru sennilega sjaldgæfari en í öðrum verstöðvum. „..þeir tóku daginn oftast snemma ef sjóveður var“ (FG; Niðjatal HM/GG). „Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til þess að bræða veðrið...“ (KJK; Kollsvíkurver). Eftirfarandi vísa er höfð eftir Ólafi E Thoroddsen Vatnsdal:
„Sýður á keipum sælöður;/ sönglar í reipum vindgustur;/ gnoðin hleypur graföldur;/ glettinn leikur hræsvelgur“ (ÓETh; LK; Ísl. sjávarhættir III).
„Það er hagkvæmt að bóndi sjái innan úr húsi sínu hvað um er úti; hvort nokkur ferðast um eða kemur að garði; um tún sitt og engjar; fjós og fjárhús; hjalla og skipavör við sjó. Þetta síðasta taka bændur á Vestfjörðum til vara og sjá þeir úr rúmi sínu hvort sjóveður er og hvað sjóarföllum líður“ (BH; Atli). „Það er hæg norðlæg átt og bárulaust; ákjósanlegt sjóveður“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Sjóveðurslegur (l) Líkt sjóveðri; nærri því sjóveður. „Ekki sýndist mér hann mikið sjóveðurslegur þegar ég gekk hér útfyrir húshornið áðan“. „Spáin er ekki sjóveðursleg næstu dagana; bölvaður norðansveljandi“!
Sjóveðurspá (n, kvk) Spá um sjóveður. „Ekki líkaði mér alveg þessi sjóveðurspá hjá honum“.
Sjóvegur (n, kk) Ferð/leið á sjó; sjóferð. „Fyrrum völdu menn oft að fara sjóveg milli staða, fremur en landveg. T.d. voru aðdrættir frá Eyrum að mestu með þeim hætti“. „Torfi sótti okkur á fjórum hestum. Eitthvað af dótinu fór sjóveg“ (JVJ; Nokkrir æviþættir).
Sjóveiki (n, kvk) Ógleði sem sumir finna fyrir í veltingi á sjó; einkum óvanir. „...fólkið var yfirleitt sjóveikt og ein stúlka verulega sjóhrædd“ (VÖ; sendibréf 1930) „Eina viku reri ég með ömmubróður mínum Guðbjarti Guðbjartssyni... og brá svo við að þar um borð fann ég aldrei til sjóveiki“ (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Sjóveikiefni (n, hk) Það sem eykur mönnum sjóveiki. „Skelin var svo geymd í pokum þar sem sjór féll á hana, en þegar þetta fór að eldast drapst skelin og þetta varð úldið og blátt. Varð þetta ekta sjóveikiefni þegar lyktin af þessu blandaðist saman við þefinn af brókunum sem verkaðar voru með lýsi eða grút“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Sjóveikur (l) Með ógleði vegna veltings á sjó. „Það var oft erfitt fyrir viðvaninga; sjóveika í byrjun, og kvalræði að fara með kúfiskinn“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Sjóvelktur (l) Búinn að velkjast á/í sjó. Yfirleitt notað um mann sem orðinn er þreyttur eftir langan dag á sjó en stundum um rekatré eða annað sem greinilega er búið að vera mjög lengi í sjó.
Sjóverk / Sjóvinna (n, hk, fto /kvk) Hverskonar vinnubrögð sem lúta að sjósókn, veiði og meðferð afla. Ekki oft notað í Kollsvík, enda voru þessháttar störf hluti af lifnaðarháttum; menn þurftu að vera jafnvígir á sjóvinnu sem bústörf.
Sjóvettlingar (n, kk, fto) Þykkir prjónavettlingar, notaðir af vermönnum. Sjá vettlingar og aðgerðarvettlingar.
Sjóvíkingur (n, kk) A. Fyrrum notað um sjóræningja/reyfara. B. Á síðari tímum notað um þann sem sækir sjóinn af miklu kappi og hræðist fátt.
Sjóvíti (orðtak) Sá glæpur að viðhafa orð sem ekki má viðhafa á sjó, til að valda ekki slysum og höfmungum. Hjátrú sjómanna var fyrrum rótgróin og hafði í aldanna rás magnast svo að hræðslan við ýmis hindurvitni varð jafnvel yfirsterkari hræðslu við stórsjó og illviðri. Einkenni hjátrúarinnar voru einkum ófrávíkjanleg íhaldssemi í fornar venjur og hætti; allt varð að gerast eftir því sem áður hafði tíðkast. T.d. varð ætíð að snúa báti með sól en ekki á móti, væri slíkt mögulegt. Sjóferðabæn var ófrávíkjanleg og líklega hefur bænalestur verið viðhafður við ýmis verk á sjó, s.s. þegar færi var rennt. Helstu sjóvíti voru þó þau að ekki mátti nefna sumar skepnur sínum nöfnum. Þannig mátti ekki nefna fisk eða þorsk, því þá kom hann ekki á færi; heldur var talað um þann gula eða önnur dulheiti notuð. Steinbítur var sá blái en hákarlinn var sá grái. Alvarlegra var þó að nefna hval á nafn, því þá yrði bátnum örugglega grandað af honum. Því urðu til ýmis dulnefni sem gengu meðal manna. Sum þeirra urðu síðar sjálf að sjóvítum er fram leið, og þá voru fundin ný. Þannig hefur líklega verið um orðið stökkull, svínfiskur, búrfiskur, búrhveli, hundur og köttur. Þó dulnefni eða feluorð væru almælt meðal sjómanna voru þau einnig notuð í landi. Því varð t.d. til orðið lágfóta yfir ref; afrás yfir flot/feiti og hóflax yfir hrossakjöt. Orðið pokaönd yfir æðarkollu var notað á síðari tímum, eftir að bannað var að skjóta æðarfugl.
Sjóvolk (n, hk) Þrekraun/hrakningar á sjó. „3. júní 1758 var jarðsettur Guðmundur Ásbjörnsson; giftur; dó af sjóvolki“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Sjóvotur (l) Blautur af sjó; sjóblautur. „Farðu nú í stakkinn, svo þú verðir ekki sjóvotur“.
Sjóvott á (orðtak) Rennandi blautt á grasi/jörðu. „.. þegar á bjargbrún kemur er sjóvott á, en ekki er talið ráðlegt að fara í bjargið þegar blautt er um...“ (MG; Látrabjarg).
Sjóþungi (orðtak) Sver undiralda. Venjulega fremur talað um „sjó“. „Það er enn nokkuð sver vestansjór“.
Sjúga sig (orðtak) Um kýr; sjúga sína eigin spena. „Það verður að setja júgurhaldara á Dumbu ef hún er farin að sjúga sig“.
Sjúga uppí nefið (orðtak) Sjúga hor uppí nef og niður í kok, fremur en að spýta. Getur einnig verið tjáningarfom, án þess að hor um hor sé að ræða. „Það er lítið við þessu að gara annað en bíta á vörina og sjúga uppí nefið“.
Sjúkdómsgreina (s) Greina sjúkdóm/veikindi/kvilla.
Sjúkdómur (n, kk) Veikindi; pest; kvilli. „Læknar vita ekki enn hverskonar sjúkdómur þetta er“.
Sjúkleiki (n, kk) A. Sjúkdómur; lasleiki. B. Slæm árátta. „Þetta er einhver sjúkleiki á honum; að þurfa eilíflega að egna fólk uppá móti sér; jafnvel af engu tilefni“!
Sjúkrabeður (n, kk) Rúm sjúks/veiks manns; kör. Oftast í orðtakinu; liggja á sjúkrabeði.
Sjúkravitjun (n, kvk) Ferð læknis eða þess sem hjúkrar/læknar til að fylgjast með líðan sjúklings.
Sjúskaður (l) Þvældur; tuskulegur; illa útlítandi. „Maður er orðinn hálf sjúskaður eftir þessa bjargferð“.
Sjöa (n, kvk) Sjö í spilum.
Sjösofendadagur (n, kk) 27. Júní. Messudagur sem í kaþólsku var tileinkaður sjö ungum mönnum sem sagt er að hafi sofið í sjö hundruð ár í helli við Efesus í Litlu-Asíu, til að losna undan ofsóknum Desíusar keisara um miðja 3.öld. Var á þá heitið við svefnleysi og hitasótt. Eins og margir kaþólskir messudagar var þessi dagur spádagur um tíðarfar. Sú trú lifði mikið lengur en hin, og var tilvitnuð í Rauðasandshreppi út 20.öld. Það veður sem er á sjösofendadag á að haldast næstu sjö dagana (sumir sögðu sjö vikur).
Sjöstirnið / Sjöstjarnan (n, kvk, m.gr) Stjörnuþyrping í stjörnumerkinu Nautið; sem sýnist í fljótu bragði vera ein stjarna. Menn með sæmilega sjón greina þó 6-7 einstaka stjörnur í henni, eða meira. Greindar hafa verið a.m.k. 120 stakar stjörnur á myndum, en þær eru mun fleiri. Fjarlægð frá okkar sólkerfi er um 400 ljósár.
Sjötti (num) Raðtalan af sex. Sumum var tamara að segja „sétti“, og heyrðist það framundir lok 20.aldar.
Sjöundármálið Alræmdasta sakamál sem upp hefur komið í Rauðasandshreppi á síðari öldum. Í lok 18.aldar bjuggu tvenn hjón á Sjöundá, sem er innsta býlið í hreppnum sé Skor frátalin, en bæði eru fyrir löngu farin úr byggð nú á dögum. Á öðrum bænum bjuggu Bjarni Bjarnason og Guðgrún Jónsdóttir en á hinum Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir. Steinunn þótti fríð sýnum og mikill kvenkostur en Jón fremur vílsamur. Bjarni þótti ófyrirleitinn þó röggsamur væri, en Guðrún pasturslítil. Áður en dró til tíðinda var nokkuð skrafað í sveitinni um samdrátt Steinunnar og Bjarna. Í apríl 1802 hvarf Jón og voru leiddar líkur að því að hann hefði hrapað þegar hann var að sækja hey að Skor, en þar er um hættulegar skriður að fara. Uppfrá því tók einnig að bera á veikindum Guðrúnar, og í júní sama ár lést hún. Var þá hafin rannsókn á samdrætti Bjarna og Steinunnar; hvort þau gætu hafa orðið völd að láti sinna maka. Sa grunur styrktist þegar lík Jóns fannst rekið á fjörur með grunsamlegum áverkum. Var Einar Jónsson í Kollsvík skipaður opinber sækjandi í málinu þegar Guðmundur Scheving sýslumaður í Haga setti rétt yfir skötuhjúunum. Þeir Einar og Guðmundur voru reyndar viðskiptafélagar; báðir áttu hlut í jaktinni Delphin. Fór svo að þau voru dæmd sek í nóvember 1802, og skyldu líflátast fyrir morð á mökum sínum. Bjarni var dæmdur fyrir að hafa unnið á Jóni með broddstaf en þau bæði fyrir að hafa eitrað fyrir Guðrúnu. Eingir þeirra skyldu falla til kóngsins. Þessi dómur var síðan staðfestur í Landsyfirrétti, en Einar og Guðmundur fengu snuprur fyrir misfellur í réttarfari. Bæði voru þau flutt í hegningarhúsið í Reykjavík, sem þá gekk undir nafninu „Steinninn“, en er nú aðsetur Stjórnarráðs Íslands. Bjarna tókst að strjúka úr fangavistinni í september 1804, en var handsamaður í Stafholtstungum og stungið aftur inn. Næsta ár var dómurinn staðfestur af kóngi og skyldu þau þá flutt til Danmerkur til aftöku. Steinunn lést hinsvegar í fangelsinu áður en að því kom; 36 ára að aldri. Sú saga komst á kreik að fangavörðurinn; alræmdur danskur ruddi, hefði nauðgað henni og fyrirkomið henni þegar þungun fór að sjást á henni. Sem dæmd manneskja mátti Steinunn ekki jarðast í kirkjugarði og því var hún dysjuð á Skólavörðuholti. Þar hét lengi síðan Steinkudys, en síðar var þar reist Skólavarða og löngu síðar Hallgrímskirkja. Vegfarendur höfðu það fyrir sið að kasta steini í Steinkudys, sem sýnir e.t.v. að í huga fólks naut hún nokkurrar samúðar. Bjarni var hinsvegar fluttur með skipi til Björgvinjar í Noregi og tekinn þar af lífi; þá 43 ára. Var hann síðastur Íslendinga fluttur út til aftöku.
Gunnar Gunnarsson ritaði skáldsöguna Svartfugl sem kom út 1929, og byggði hana á Sjöundármálum. Ekki voru heimamenn í Rauðasandshreppi fyllilega sáttir við alla efnismeðferð þar, en enginn deildi um stílbragðið. Í hugum manna í hreppnum hefur Steinunn alltaf notið nokkurrar samúðar og dómur alþýðunnar var sá að hún hafi í raun verið leiksoppur í höndum Bjarna í þessu morðmáli.
Sjöundá fór í eyði árið 1921.
Sjöviknafasta (n, kvk) Sjá langafasta.
Skadda / Skaða (s) Skaða; valda tjóni/skemmdum. „Það skaðar ekki að rölta hér niður á kletthornið og spá í útlitið, en einhvernvegin leggst það í mig að það verði landlega í dag“.
Skaddaður (l) Skemmdur; meiddur. „Mesta furða var hvað karlinn slapp lítið skaddaður frá þessu hrapi“.
Skaða sig (orðtak) Meiða/slasa sig. „Skaðaðu þig ekki á hnífnum; hann er flugbeittur“.
Skaðaður (l) Slasaður; meiddur. „Ertu mikið skaðaður á höbbdinu eftir steinkastið“?
Skaðasár (l) Sárt um sínar eigur; fárast yfir minnsta missi. „Blessaður vertu nú ekki að telja það eftir þó hann hafi stolið brauðsneiðinni. Þú mátt ekki vera svona fjandi skaðasár“!
Skaðbrenna (l) Brenna til skaða/mjög illa. „Kaffið var svo heitt að ég skaðbrenndi mig á því“.
Skaðbrunninn (l) Brunninn til skaða af eldi eða sól. „Hann varaði sig ekki á sólarsterkjunni og er skaðbrunninn á bakinu“. Orðabækur gefa upp myndina „skaðbrenndur“, sem ekki var notuð vestra.
Skaði er þó minna væri (orðatiltæki) Þó tjónið væri minna væri það samt verulegur skaði.
Skaðkalinn (l) Kalinn til skaða; með miklar kalskemmdir.
Skaðlaus / Skaðlítill (l) A. Ekki/lítið skaðaður. „Ég slapp skaðlítill frá þessum viðskiptum“. B. Ekki/lítt til skaða. „Ég held að þessar töflur séu alveg skaðlausar; en líklega einnig gersamlega gagnslausar“.
Skaðlegur (l) Til skaða; hættulegur. „Þetta getur haft skaðleg áhrif á byggðina“.
Skaðræði (n, hk) A. Skaðsemi. „Þetta getur haft ýmiskonar skaðræði í för með sér“. B. Skaðlegur hlutur; skaðleg skepna; skaðvaldur. „Tófufjandinn getur verið bölvað skaðræði í lömbum“.
Skaðræðisbrim (n, hk) Stólpabrim; öskrandi brim; mikill sjógangur. „Gætið nú að ykkur þarna undir klettunum; það er skaðræðisbrim og flanið getur kastast ansi hátt“.
Skaðræðisbylur (n, kk) Blindbylur; svo dimmur og hvass bylur að mannsskaði getur orðið af.
Skaðræðisgripur (n, kk) Hættulegur hlutur/maður; mannýgt naut. „Hentu þessum vasahníf; hann er skaðræðisgripur eftir að fjöðrin brotnaði“.
Skaðræðishávaði (n, kk) Mjög mikill hávaði. „Steinninn skall niður á hleinina stutt frá okkur, með skaðræðishávaða. Við vorum í öruggu skjóli uppundir, en fundum fyrir flísum úr honum“.
Skaðræðishiti (n, kk) Brennandi hiti. „Skaðræðishiti er nú á kaffinu“!
Skaðræðishósti (n, kk) Slæmur hósti; hrygluhósti með andköfum. „Þetta er ljóti skaðræðishóstinn í þér“.
Skaðræðiskjaftur (n, kk) Sá sem er mjög orðljótur/kjöftugur/slúðurgjarn. „Ég tek nú lítið mark á þeim skaðræðiskjafti; honum væri skammarnær að halda sér saman“!
Skaðræðiskvikindi / Skaðræðisskepna / Skaðræðisvargur (n, hk/kvk/kk) Hættulegt dýr. „Þessi hundfjandi hjá honum er skaðræðisskepna, þó karlinn fullyrði að hann bíti engan að fyrra bragði“!
Skaðræðisveður (n, hk) Aftakaveður; mannskaðaveður. „Það fer enginn milli bæja í þessu skaðræðisveðri“.
Skaðræðisöskur (n, hk) Mikið/ógnvekjandi öskur. „Hann rak upp skaðræðisöskur þegar hann sá þetta“.
Skaðsamt / Skaðvænlegt (l) Skaðlegt; hættulegt. „Þetta getur haft skaðvænlegar afleiðingar“.
Skaðsemi (n, kvk) Tjón sem valdið er; það að valda tjóni. „Hann var að tauta um skaðsemi pípureykinga“.
Skaðvaldur (n, kk) Sá/það sem veldur skaða; skaðræði. „Grasmaðkurinn getur verið árans skaðvaldur“.
Skaðvænlegur (l) Hættulegur; háskalegur. „Hætta skvettur skaðvænar;/ skilar léttu fari/ inn í kletta kjörið var,/ kólgu sléttir hrukkur þar“ (JR; Rósarímur).
Skafa (n, kvk) A. Áhald til að skafa með, t.d. flórskafa; siklingur; málningarskafa. B. Það sem skafið er af. „Hann tók eina sköfu með heflinum til að slétta yfirborðið“.
Skafa (s) A. Hefla; skrapa. „Þeir eru að skafa veginn yfir hálsinn“. Viltu skafa fyrir mig rófu“? Í fornu máli var einatt talað um að skafa við en ekki hefla. B. Skafa ösku af sviðum meðan sviðið er. „Ætlar þú að skafa ef ég svíð“?. C. Renna snjó/sandi með jörðu. „Hann er farinn að skafa töluvert. Það er hætt við að einhversstaðar setji í skafla í þessu“.
Skafa að (orðtak) Skafa snjó uppað/ í kringum. „Hafðu með þér reku ef mikið hefur skafið að hlöðudyrunum“.
Skafa á sér vangana (orðtak) Raka sig. Vísar til raksturs með rakhnífi eða rakvél með blaði. „Maður ætti kannski eitthvað að skafa á sér vangana, ef við erum að fara í fína veislu“.
Skafa ekki utanaf því (orðtak) Segja hreinskilnislega; segja sína meiningu. „Hann var ekkert að skafa utanaf því þegar hann las þingmanninum pistilinn“.
Skafa í driftir/hryggi/rastir/skafla (orðtak) Skafa snjó/sandi í litla eða stóra hryggi á sléttum fleti, s.s. vegi, en autt eða mun minni snjór á milli. „Hann hafði skafið í driftir uppi í Jökladalshæðinni“.
Skafa svið (orðtak) Skafa ösku af sviðum þegar sviðið er. Getur þurft að endurtaka svíðingu nokkrum sinnum, og skafa á milli, þar til allt hár er sviðið af skinni.
Skafa úr eyrunum (orðtak) Leggja betur við hlustir. „Reyndu nú að skafa aðeins úr eyrunum; ég var að segja að þetta væri alrangt hjá þér“!
Skafaheiðríkja (n, kvk) Algjörlega heiður himinn. „Hann rignir ekki úr svona skafaheiðríkju“
Skafaheiðríkt (l) Algerlega heiðríkt; ekki ský á himni.
Skafanki (n, kk) Agnúi; galli; það sem ekki er í lagi. „Hann taldi einhverja skafanka vera á þessu máli“.
Skafbylur (n, kk) Skafmold með ofankomu. „Við lentum í nokkuð blindum skafbyl á Aurtjörninni“.
Skaffa (s) Sjá fyrir; útvega. „Hann skaffaði fæði og húsnæði meðan á vinnunni stóð“. Dönskusletta.
Skafheiðríkja (n, kvk) Heiðskírt veður; ekki ský á himni; skafaheiðríkja.
Skafheiðríkt (l) Algerlega heiðríkt; ekki ský á himni; skafaheiðríkt.
Skafheiður himinn / Skafið loft (orðtak) Heiðskír himinn.
Skafi (n, hk) A. Skóf; það sem skafið er af. B. Einkum notað um lítið skýjafar á himni. „Það sést varla skafi á himni“. Sjá skafaheiðríkja.
Skafinn / Skafinn himinn / Skafheiður himinn (orðtak) Heiðríkja; sést ekki ský á himni. „Það er heldur betur breyting á eftir fúlviðrið; kominn rífandi þurrkur og skafinn himinn“. Stundum bara: „Hann er alveg skafinn núna“.
Skafl (n, kk) A. Snjóskafl. „Það er kominn firnamikill skafl í Hæðarendann“. B. Stórt grunnbrot; grunnskafl. C. Broddur á skeifu hests / skaflaskeifu. D. Tönn í kjafti hákarls.
Skaflajárn / Skaflaskeifa (n, hk/kvk) Skeifa á hest, með broddum til að gera hestinn stöðugri á ís/klaka.
Skaflajárna (s) Setja skaflajárn/skaflaskeifur undir hest.
Skaflar af sandi (orðtak) Dyngjur af skeljasandi sem sest hefur til í miklu sandfoki. „Eftir norðanbálið voru skaflar af sandi ofanvið öll hús á Láganúpi; uppi á Flöt og í garðinum. Einnig sumsstaðar úti á Hnífum“.
Skaflaskil (n, kvk, fto) Bil/skil á milli snjóskafla. „Miðbrekkan er ein þykk snjódyngja; þar er ekki hægt að segja að séu nein skaflaskil“.
Skaflbrún / Skafljaðar / Skaflrönd / Skaflþil (n, kvk/kk) Hlutar skafls/snjóskafls. „Fannir hafa engar verið síðustu áratugina miðað við það sem algengt var á vetrum áður. T.d. lagði iðulega svo háa skafla sunnanvið Láganúpsbæinn að krakkar gerðu þar veglega snjóhella. Dyrnar í skaflþilinu voru svo háar að vel var gengt fullorðnum“.
Skafmold (n, kk) Skafrenningur; renningur. Einnig; skafmoldarbylur og skafbylur.
Skafmoldarbylur (n, kk) Skafbylur; skafhríð; hvass vindur með ofankomu og miklum skafrenningi. „Við lentum í bölvuðum skafmoldarbyl á Hálsinum; svo dimmum að það sá ekki útúr augum um tíma“.
Skafmoldarkóf (n, hk) Þétt skafmold. „Mikið er gott að komast inn úr þessu skafmoldarkófi“. Sjá moldarkóf.
Skafmoldarmökkur (n, kk) Dimm og háreist skafmold. „Skafmoldarmökkurinn byrgði alla sýn“.
Skafrenningur (n, kk) Skafmold. „Það er töluverður skafrenningur; hætt við að safnist fljótt í skafla“. „Á Látraheiði er þokusamt og oft skafrenningur á vetrum og villugjarnt“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Skaft (n, hk) Handfang; stöng. T.d. hrífuskaft, hnífskaft, drifskaft o.fl.
Skaftlaus (l) Með öngvu skafti. „Það er langbest að nota í þetta skaftlausan skrúbb“.
Skaftpottur (n, kk) Lítill pottur með skafti; kastarhola.
Skaftstuttur (l) Með stuttu skafti. „Hamarinn er bölvað ólán; svona skaftstuttur“.
Skaga (s) Tróna; ná fram á eða upp. „Barð heitir núna...brík, skagandi fram á sjó útúr Bjarginu“ (MG; Látrabjarg).
Skagi (n, kk) Sá hluti landslags sem gengur fram; aðskilinn frá öðru með t.d. sjó. „Rauðasandsheppur er nafn skagans syðst á Vestfjörðum; milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar“.
Skak / Skakveiðar (n, hk/kvk) Skak merkir í raun endurtekin hreyfing fram og til baka/ upp og niður, en er vanalega notað um tiltekinn veiðiskap. Veiðar með haldfæri/handfæri; það að dúa handfæri til ginningar fiski. Fyrir daga skakrúlla var skakað með færi; línu með krók/slóða og pilk/sökku í enda. Færinu var rennt til botns á fiskimiði og dregið fljótt fáeinar álnir upp aftur; tekið grunnmál, til að ekki festist í botni. Skakað var kulmegin á báti; þ.e. vindmegin, þannig að færið leggðist ekki undir kjöl. Stundum var höfð vaðbeygja á borðstokknum til að hlífa honum. Færinu var síðan skakað með því að draga það í ákveðinni sveiflu með annarri höndinni og láta síga aftur. Misjafnt er hvaða lag menn hafa við skakið. sumir dúa færinu mjög létt og skaka stutt, meðan aðrir skaka langt; taka jafnvel bakföll. Mikilvægt var talið, ef reyna átti við lúðu, að taka stutt grunnmál og dúa færinu mjög létt nærri botni; jafnvel hafa beituna hreyfingarlausa um tíma. Krakkar sem skökuðu stutt voru sagðir mjólka tík. Þegar fiskur fór að narta var e.t.v. breytt skaklagi og reynt að tryggja að hann yrði vel fastur, jafnvel kokgleypti. Fyrir kom að hann var þverhúkkaður. Ef fiskað var með fleiri krókum á sama færi; með slóða, var reynt að fá sem flesta í einum drætti, einkum ef fiskur var undir; var viljugur; var við, eða var jafnvel kolvitlaus. Þá hljóp á snærið. Síðan var kappsmál að vera fljótur að innbyrða fiskinn, krækja honum af og hafa úti aftur. Síðan var fiskurinn blóðgaður, en ekki var hann slægður fyrr en haft var uppi (hlé varð á veiðum eða á landróðri/landstími. Fyrir kom, einkum ef kapp var í mörgum veiðimönnum á sama báti eða straumur/vindur var verulegur, að færin færu í færaflækju og þurfti þá að hafa uppi með tilheyrandi töfum. Tilgangslítið þótti að skaka ef færin fóru á glæ, glæjaði, í miklum straumi, og var þá frekar beðið liggjanda; fallaskipta. Þá var hankað uppi; þ.e. færið gert upp í hönk. Tíminn var jafnvel nýttur til að kippa dálítið; færa sig um set áður en rennt var aftur og tekið rek; þ.e. látið reka yfir sjávarfall. Fiskur gat verið undir þó komið væri út af hefðbundnum miðum. Oft var rennt í ger; fuglager; þ.e. þar sem fugl hópaðist saman til að grípa síli í yfirborðinu í mikilli sílferð, en fiskur sækir gjarnan í sama veisluborð. Það ger sem þá stóð uppi gat verið mávager eða svartfuglsger. Fyrsti fiskur veiðimanns var maríufiskur og átti að gefa hann fátækum. Fyrir kom að ódráttur kom á færið, s.s. marhnútur. Það þótti til háðungar en jafnvel var verra að koma með öngulinn í rassinum; þ.e. koma fisklaus úr róðri. Hinsvegar var það happadráttur ef hljóp á snærið lúða; spraka. Þá þurfti að beita þolinmæli og lagni til að leyfa henni að kokgleypa krókinn. Þungt gat verið að draga og ekki mátti slíta úr. Lúðan gat tekið uppá því að strika; þ.e. synda til hliðar af miklu afli og þá þurfti jafnvel að hafa úti (árar) til að létta á færinu. Þegar upp kom var mikilvægt að hafa ífæru (stóran krók) tilbúna til að færa í lúðuna og helst líka góðan gogg til að innbyrða hana.
Skaka / Skaka fyrir fisk (s/orðtak) Skaka á skakfiskveiðum. „Byrjað var að skaka fyrir smáfisk uppi í þaragarði“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Það var norðurundir Blakknesinu; grunnt nokkuð, og þar var tekið til að skaka. ... „Dagbjartur Björgvin skakaði þá í krafti og gekk illa“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Skakari (n, kk) Sjómaður sem stundar skakveiðar.
Skakbátur (n, kk) Bátur sem einkum er gerður út til skakveiða. Fyrrum, meðan veiðar voru eingöngu stundaðar með skaki, var þetta orð ekki notað, heldur rætt um t.d. báta, skektur, för eða róðrarbáta.
Skakk (ao) Ská; snið; til hliðar. „Gættu að því að spottinn liggur dálítið á skakk í lásnum“. „Hann var með derhúfuna á skakk, og töldum við það ekki góðs viti“.
Skakka / Skakka litlu/miklu (s/orðtök) Setja á skakk; halla; muna; búa til skekkju. „Það skakkar ekki svo miklu hvort við förum í dag eða á morgun“.
Skakka leikinn (orðtak) Stilla til friðar. „Þeir ætluðu að fara að fljúgast á, en ég hljóp til og skakkaði leikinn“.
Skakkafall (n, hk) Bára sem kemur skáhallt að landi. „Við lendingu er ár rennt út í skutnum til að varna því að bátinn fletji, því skakkafall var oft með sandinum“ (IG, Niðjatal HM/GG)
Skakkar skyrtuþykktinni (orðtak) Munar mjög litlu; ber sáralítið á milli. „Það rétt skakkaði skyrtuþykktinni að ég næði að grípa fötuna áður en hún fauk framaf“. Vísar e.t.v. til samfara manns og konu.
Skakkeygður (l) Með skásett augu. „Hann var sannfærður um að í fyrra lífi hefði hann verið skakkeygður hrísgrjónaræktandi í Austurlöndum“.
Skakkhyrnd (l) Um kind; með ósamhverf/skökk horn; með annað horn frábrugðið hinu. „Sú skakkhyrnda er óheimt ennþá“. Einnig notað um hornskökk hús o.fl; til er hús í Örlygshöfn sem heitir Skakkhyrna.
Skakki (n, kk) A. Mismunur; skekkja. „Það þyrfti að rétta af mesta skakkann á þessu“. B. Prjónuð þríhyrna; þríhyrndur höfðuðklútur; þríhyrnt segl. „Konan er líka illa klædd; hafði bundinn skakka um herðar sér af mórauðu ullarbandi, með hvítan bekk að neðan“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Skakklappalegur (l) Ólaginn/ófimur í fótaburði; hrösull. „Ári var maður eitthvað skakklappalegur í lásnum; Ég held maður sé bara farinn að eldast“!
Skakklappi (n, kk) Gæluorð yfir þann sem er með bæklaðan fót/ lélegur til gangs; fúinnfótur.
Skakklappast (s) Þvælast; skenglast; ganga með erfiðismunum. „Ég skakklappast þetta nú einhvernvegin“.
Skakkur (l) A. Hallandi; ekki rétt vísandi miðað við annað. „Mér sýnist staurinn vera dálítið skakkur“. B. Rangur. „Nú tók ég skakkan hníf með mér“.
Skakkur og skældur (orðtak) Mjög aflagaður/beyglaður/skekktur.
Skakkyrðast (s) Deila; rífast; verða sundurorða; fúkyrðast. „Hann fór eitthvað að skakkyrðast yfir því að hrognasigtið væri ekki á sínum stað, svo ég minnti hann á hver ætti það“.
Skakstur (n, kk) Hristingur; þvælingur. „Hún var orðin svo lasburða að hún treysti sér ekki í skaksturinn á þessum holóttu vegum“. „Það er bölvaður skakstur hérna í röstinni“ .
Skakveður (n, hk) Veiðiveður; veður til skakveiða. „Þetta er eiginlega ekki orðið neitt skakveður lengur“.
Skal hengja mig uppá (orðtak) Er tilbúinn að leggja mikið undir; er alveg sannfærður um. „Ég skal hengja mig uppá það að nú er hann eitthvað að plata okkur“! Sjá þori að hengja mig uppá.
Skal út með (orðtak) Skal láta af hendi; skal segja frá. „Ef hann greiðir eftir eindaga þá skal hann út með dráttarvexti í ofanálag“! „Vildi hann ekki segja frá því; ja hann skal nú út með það“!
Skall hurð nærri hælum (orðtak) Um atvik sem nærri varð að tjóni/slysi. „Þar skall hurð nærri hælum; ekki hefði verið gaman að lenda í þessu broti“!
Skall (nú/þar) þeim sem skyldi (orðatiltæki) Sá hlaut skell/ráðningu sem átti það skilið. Forn speki.
Skalli (n, kk) A. Hárlaus blettur þar sem hár er allajafna. Oftast átt við hárlausan blett á höfði sumra karlmanna. „Skalli er algengur í Kollsvíkurætt, þó sumir kjósi að nefna það fremur há kollvik“. B. Aftari endinn á haus ásláttarverkfæris, s.s. hamars og axar; sé hann þver fyrir. Fremri endinn nefnist munni.
Skamma (s) Ávíta. „Það þýðir ekkert að skamma mig fyrir þetta. Það er ekki mér að kenna“.
Skamma blóðugum skömmum (orðtak) Skamma/ávíta mjög mikið. „Ég skammaði hann blóðugum skömmum fyrir athæfið“.
Skamma eins og kvikindi (orðtak) Húðskamma; skamma/ávíta mjög mikið. „Ég var skammaður eins og kvikindi, enda voru flestir fundarmenn á öndverðri skoðun“. Vísar til þess að skamma óhlýðinn hund. Sjá eins og kvikindi, um það að veðrða gegnblautur.
Skamma heim / Skamma í burtu (orðtak) Um hund; skipa honum að fara him eða reka hann frá.
Skamma hríð / Skamma stund (orðtök) Í/yfir stuttan tíma.
Skamma sig upp (orðtak) Vinna sér til óhelgi; gera skammarstrik. „Nú hefur hann eitthvað skammað sig upp við frúna, fyrst hann fer á aðra bæi að sníkja sér að éta“.
Skamma stund verður hönd höggi fegin (orðatiltæki) Vísar til þess að menn dofna stundum fyrst þegar slegið er á hendi, en finna síðan til sársauka. Á sama hátt getur annað mótlæti virst skaðlaust í fyrstu; áður en menn átta sig á afleiðingunum.
Skamma til óbóta (orðtak) Skamma mjög mikið; hella sér yfir. „Mér dettur ekki í hug að hjálpa til ef maður er svo bara skammaður til óbóta fyrir smávægilegustu mistök“!
Skammarkornið (n, hk, m.gr) Áhersluorð í neikvæðum setningum: „Nei skammarkornið; heldurðu að þetta geti verið rétt“? „Ég held skammarkornið ekki“. Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur.
Skammarkornið það ég veit / Skammi mig að ég veit / Skammi það ég veit (orðtak) Ég get bara alls ekki munað (vitað) það. „Það slapp eitthvað af fé norður í Hryggi, en skammi mig að ég veit hvað það var margt“.
Skammargrey / Skammarkvikindi / Skammarræfill / Skammarskarn / Skammartuska / Skammarskinn (n, hk/kk/kvk) Gæluheiti sem einkum eru höfð um kött, en stundum um aðrar skepnur einnig, og jafnvel í vorkunnartóni um börn. „Ég gat ekki verið að skamma kattaróvænið; henni er það ekki láandi skammarskarninu þó hún fari í fiskinn ef hann er skilinn eftir óvarinn“!
Skammarlega (l) Smánarlega; til lítilsvirðingar. „Réttu mér kaffiflöskuna mína Gauji! Þetta var svo skammarlega lítið sem strákurinn gaf mér í morgun“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Skammarlegt (l) Til skammar; smánarlegt. „Mér finnst skammarlegt hvernig staðið var að þessu“!
Skammarnær (l, mst) Hefði verið hyggilegra/betra. „Ekki skil ég í þessu útstáelsi á drengnum um helgar. Honum væri skammarnær að halda sig betur að náminu; ekki mun af veita“! „Þér hefði verið skammarnær að búa þig betur áður en þú fórst út. „Honum hefði verið skammarnær að gá til veðurs áður en hann setti niður“. Einnig nær. „Átti Guðrún að hafa sagt við mann sinn (Einar Jónsson í Kollsvík) að „skammarnær hefði honum verið að láta Gunnar (lausaleiksbarn Einars) aldrei í burtu en að taka við honum horuðum og máttvana“ “ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Skammarorð / Skammaryrði (n, hk) Stuttar skammir. „Einhver skammarorð lét hann víst falla, en var þó ekki tiltakanlega reiður“. „Hann notaði þetta saklausa orð eins og hálfgildings skammaryrði“.
Skammarræða (n, kvk) Reiðilestur; miklar skammir. „Þeir fengu víst að heyra magnaða skammarræðu þegar þetta komst upp“.
Skammarskot (n, hk) Feilskot; skot sem ekki hæfa. „Þetta eru nú orðin fjári mörg skammarskot í röð“. Orðið var alloft notað þar þegar skot geigaði við mávaskytterí. Þekktist annarsstaðar án „r“.
Skammarstrik (n, hk) Óknyttir; hrekkur; óleyfileg athöfn. „Ósköp eruð þið undirfurðulegir og þegjandalegir strákar. Voruð þið að gera eitthvað skammarstrik“?
Skammarverðlaun (n. hk, fto) Óvirðing sem þeim er sýnd sem tapar oftast, þegar spiluð er félagsvist. „Oft var spiluð félagsvist á spilakvöldum í Fagrahvammi. Í lok kvöldsins voru veitt vegleg aðalverðlaun og mun óverulegri skammarverðlaun, en þó ekki þannig að óvirðing væri að“.
Skammarvísa (n, kvk) Tækifærisvísa sem kveðin er í áminningarskyni.
Skammast sín (niðurfyrir/ofanundir allar hellur) (rðtak) Skammast sín mjög mikið. „Við skömmuðumst okkar niðurfuyrir allar hellur fyrir þennan hrekk“.
Skammast til (orðtak) Drattast til. „Ég held honum væri nær að skammast til að vinna heldur en að leika sér“.
Skammbitasperra (n, kvk) Sperra í húsþaki, sem hefur skammbita sér til styrkingar, en liggur ekki á mæniási. „Í húsþökum í Kollsvík á síðari tímum voru skammbitasperrur algengari en ásaþök, þó þeu þekktust einnig“.
Skammbiti (n, kk) Þverbiti sem liggur ofarlega á milli gagnstæðra sperruleggja í húsþaki sem ekki hefur mæniás. „Upp á skammbitann í Mókofanum var skotið hrífum; orfum og öðrum amboðum til geymslu“.
Skammdegi (n, hk) Vetrardagar með stuttri dagsbirtu. „“Suðvestan stórviðri var skollið á, skammdegisnóttin í aðsigi, langt til lands og leiðir ókunnar og skerjóttar...“ (BS; Barðstrendingabók). „Fyrst á haustin var setið í rökkrinu og prjónað. Þegar kom fram á skammdegið lagði eldra fólkið sig í rökkrinu (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Skammdegisbirta (n, kvk) Skammæ dagsbirta í skammdeginu.
Skammdegismyrkur (n, hk) Myrkur í skammdeginu. Áðurfyrr vann fólk margskonar vinnu í skammdegismyrkrinu til að spara ljósmetið.
Skammdegisvonleysi (n, hk) Vonleysi/svartsýni sem grípur suma í mesta skammdeginu/ að vetrarlagi. „Þetta var ekkert skammdegisvonleysi, heldur gert þegar sól var hæst á lofti og bjartsýni á best með að njóta sín“ (ÞJ; Árb.Barð 1968).
Skammdrjúgur (l) Skammvinnur; ekki drjúgur/mikill. „Við þurfum að hafa með okkur meira bensín; það er hætt við að þessi sopi verði skammdrjúgur sem á tanknum er“.
Skammfeila (s) Klikka; bregast. Einkum notað þegar skot hleypur ekki úr byssu þegar skotið er, eða ef skotið geigar illilega.
Skammfeila sig (orðtak) A. Gera mistök; rugla; víxla. „Nú skammfeilaði ég mig alveg á þessu; ég setti lifrina ofaná mörinn í kassanum“. B. Skjóta skammarskot; skjóta framhjá. „Ég skammfeilaði mig illilega þarna“!
Skammfeilaður (l) Um taug/vað/rafstreng; trosnaður/skorinn/bilaður/veiklaður/leiðir út. „Þið yfirfarið vaðina vel áður en þið setjið mann í þá; hvort þeir eru einhversstaðar skammfeilaðir“. „Einhversstaðar er rafstrengurinn skammfeilaður; öryggið fyrir hænsnakofann brann yfir“.
Skammfeill (n, kk) Bilun/veiklun í vað; skammhlaup í rafleiðslu. „Hér er skammfeill á einum þætti í vaðnum“.
Skammfæra (s) Gera lítið úr; gera til skammar. „Karlinn, kominn hátt á sjötugsaldur, skammfærði alla unglingana þegar hann stakk þá af í kapphlaupinu“.
Skammgóður vermir (orðtak) Dugði ekki lengi; hrökk ekki langt. „Það reyndist skammgóður vermir þessi sólarglenna í gær; komin grenjandi rigning í dag“. Vermir er þarna hitagjafi; gæti verið átt við steina sem hitaðir voru og settir undir rekkjuvoðir hjá mönnumtil að hlýja þeim; t.d. eftir ofkælingu. Sjá vermisteinn og það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn.
Skammi mig (orðtak) Svei mér. „Ég held að þetta hafi skeð í fyrra, en skammi mig að ég man hvaða dag það var“! Vísar líklega til þess, líkt of „svei mér“, að fyrr á tímum var rík sú trú að fólk ætti von á ávítum og reiði guðs fyrir hinar minnstu yfirsjónir.
Skammi það / Skammi sú ögn (-in) (orðtak) Það er svo eiðfært; ég segi það alveg satt. „Einhvern afla fengu þeir, en skammi sú ögn að ég veit hvað það var mikið“. „Skammi sú ögn að hér sé nokkur rigning; það er lítið að marka spána“! Ekki sést að þetta hafi verið notað annarsstaðar. Sjá ögn.
Skammir (n, kvk, fto) A. Ávítur; ádrepa. „Hann fékk óbótaskammir þegar hann kom heim“. B. Óæskilegur verknaður; hrekkir; skemmdarverk. „Ég er hræddur um að hundurinn hafi gert einhverjar skammir af sér; mér sýnist hann vera að naga skó úti á hlaði“.
Skammlaust (l) Án skammar/mistaka; sómasamlega. „Mikið getur sumum körlum gengið illa að hitta skammlaust á klósettið þegar þeir míga“! „Ég var orðinn það sterkur að ég gat hæglega snúið fugl skammlaust.“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Skammlífur (l) Sem lifir/varir ekki lengi; skammær; skammvinnur.
Skammrif (n, hk) Hluti ketskrokks sem hlutaður hefur verið með fyrra laginu. Þá var skrokkurinn fyrst sagaður þversum, þannig að aftari hlutanum, krofinu, fylgdu 2-4 rif. Af framhlutanum voru teknir bógar og sagaður bringukollur, en það sem eftir var nefndist skammrif. Sjá böggull fylgir hverju skammrifi.
Skammrifsbrók (n, kvk) Frampartur af sauðkind, í verkun með sérstakri aðferð áður en hann er settur í reyk: „Fyrir sláturdaginn var afi minn búinn að útbúa litla trénagla sem hann notaði til að verka hangiketið í salt. Það var saltað nýslátrað, stráð í það volgt og staflað í stæðu. Tekið var í reyk helst geldfé; gjarnan valið vænt fé. Tekin voru krof af því; þ.e. skrokkurinn tekinn í sundur þvert aftan við bógana og læri, hryggur og síða saltað í heilu lagi. Svo var framparturinn klofinn eftir hrygg og þá fór hann afi að nota tréþollana sína. Skorið var inn með herðablaðinu í einskonar vasa, og þar var sett salt inn í vasann. Svo var nælt fyrir með trénöglunum svo saltið rynni ekki úr þessum vasa. Þetta var gert til þess að öruggt væri að saltaðist jafnt um þetta þykka stykki. Þetta var kallað skammrifsbrók“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Skammt stórra högga á milli (orðtak) Stutt á milli stórra/mikilla atburða.
Skammsýni (n, kvk) Fyrirhyggjuleysi; ekki hugsað til langs tíma. „Mér finnst það nokkur skammsýni að gera þetta svona. Þetta er bara eins og að pissa í skóinn sinn“!
Skammsýnn (l) Fyrirhyggjulaus; sem hugsar ekki langt fram í tímann. „Sjaldan er skammsýnn skaðlaus“.
Skammt er milli lífs og dauða (orðatiltæki) Speki sem alltaf á við þegar dauðinn er nálægur, en hefur þó líklega staðið Kollsvíkingum nær fyrr á tímum, þegar sjór var stíft sóttur á litlum fleytum fyrir opnu hafi.
Skammt er/mun skells að bíða (orðatiltæki) Ekki mun þurfa að bíða lengi eftir óláni/óveðri/áfalli. „Skammt mun skells að bíða; hann er að ljókka hratt núna“.
Skammta (s) Úthluta; útbýta. „Heldur þykir mér naumt skammtaðar fjárveitingar í þessa vegarspotta“.
Skammta (skít) úr hnefa (orðtak) Skammta naumt; gefa lítinn skammt. „Það þýðir ekkert að skammta þessa aðstoð úr hnefa“. „Þeir ætla að skammta þetta eins og skít út hnefa“!
Skammtur (n, kk) Það magn sem skammtað/úthlutað er. Fyrr á tímum var orðið einkum notað um matarúthlutun/skatt á máltíðum/málum. Húsfreyja hafði öll matarvöld á hverju heimili og var á hennar ábyrgð að láta þann mat endast sem heimilinu var tiltækur.
Skammt er milli lífs og dauða (orðatiltæki) Vísar til þess hve lífið er stutt; hve dauðinn getur komið óvænt; hve lífið getur stundum hangið á bláþræði.
Skammt er milli skitins og óþvegins (orðatiltæki) Vísar líklega til þess að sá sem er óhreinn geti einnig verið ómerkilegur og illa siðaður að eðlisfari.
Skammt er oft milli hláturs og gráts (orðatiltæki) Sjá oft er skammt milli hláturs og gráts.
Skammt er öfganna á milli (orðatiltæki) Vandratað er meðalhófið; oft er ekki langt úr einum öfgunum í aðra.
Skammvinn er óhófs ævin (orðatiltæki) Gömul sannindi sem þó hafa æ betur sannast á síðari tímum. Óhófslifnaður, t.d of mikil neysla óholls fæðis, drykkjuskapur og vímuefnaneysla legga sístækkandi hlutfall fólks inn á stofnanir og í gröfina.
Skammvinnur (l) Varir stutt; stendur stutt yfir. „Heldur4 finnst manni þetta skammvinnur þurrkur“!
Skammær (l) Sem varir stutt. „Ég hafði töluverðan verk í þessu fyrst á eftir, en hann var skammær“.
Skandalisera (s) Gera skammarstrik; valda hneyksli. „Hann var þá að skandalisera á þorrablótinu að vanda“!
Skandall (n, kk) Hneyksli; óþverraháttur. „Mér finnst það hreinn skandall hvernig þeir haga sér“.
Skanderast (s) A. Kveðast á (sjá þar). B. Í Kollsvík var merkingin þrengri og merkti að kasta kersknisvísum á milli manna; sem sumar gátu verið nokkuð grófar en aðrar voru háðvísur eða góðlátlegt grín. Stundum var orðið notað um jag/hnútukast/þrætur milli manna þó ekki væri í bundnu máli.
Skankaband (n, hk) Lykkja/hringur úr grönnu garni/seglgarni sem brugðið er afturfyrir banakringluna á kjötskrokki strax eftir slátrun og verkun, og framfyrir völuna á hvorum skanka/framfæti, til að skrokkurinn stirðni í þeim stellingum.
Skankalangur (l) Útlimalangur; með langar hendur. „Þú mættir gefa einu fangi færra en ég á jötuna; þú ert svo ári skankalangur og tekur meira í hverju fangi“.
Skanki (n, kk) A. Útlimur; hand-/fótleggur. „Réttu út skankann svo ég geti mælt hvort peysuermin sé orðin nógu löng“. B. Það sem skagar útúr. „Upp með Kinninni er skanki sem kallaður er Tranthali“ (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur). „Það þyrfti að raka mestu skankana inn að flekknum, svo hægara sé að rifja“. Sjá teygja skanka sína; teygja úr skönkunum.
Skans (n, kk) Virkisveggur; virki.
Skapa sér aldur / Stytta sér aldur (orðtak) Fremja sjálfsmorð; taka eigið líf.
Skapadægur (n, hk) Dánardægur sem hverjum er áskapað samkvæmt forlagatrú. „Enginn flýr sitt skapadægur“. „Þarna hafði nátttröllið mætt sínu skapadægri þegar sólin kom upp að morgni“. Sjá förlög; örlög; áskapað.
Skapalón (n, hk) Mót til formunar á smíðagrip, t.d. báti. „Gaman hefði verið að eiga skapalón af Rutinni, sem Óli á Nesi smíðaði fyrir Össur og Ingvar í Kollsvík. Hún var listasmíð í alla staði; burðarmikil; góður sjóbátur; gangmikil og létt í setningu“.
Skapanornir (n, kvk, fto) Örlaganornir; örlagagyðjur; vættir sem í mörgum fornum trúarbrögðum voru taldar ráða örlögum manna. „Þessu fári verst í vök/ veldið trölla forna./ Þaðan koma ragnarök;/ reiði skapanorna“ (JR; Rósarímur). Sjá forlög; örlög.
Skapbráður / Skapstyggur (l) Örgeðja; fljótillur; ör. „Honum hætti stundum til að vera nokkuð skapbráður“.
Skapfellt / Skapfellilegt (l) Það sem er manni að skapi; það sem manni fellur við/ líkar vel. „Honum var það ekki vel skapfellt, en samþykkti það þó“.
Skapferli / Skapgerð / Skapsmunir (n, hk) Geðslag; eðli; karakter. „Að sumu leyti hef ég líklega erft skapferli föður míns“.
Skapgerðareinkenni (n, hk) Persónugerð; lyndiseinkunn. „Hver hefur sitt skapgerðareinkenni“.
Skaphundur / Skapofsamaður / Skapvargur (n, kk) Sá sem er fljótur að reiðast heiftarlega/ verður bráðillur. „Hann er óttalegur skaphundur; fljótillur með afbrigðum“. „Það er vissara að fara gætilega í sakirnar við slíka skapofsamenn“.
Skaphöfn (n, kvk) Skapgerð; lyndi. „Hann var hinn mesti sómamaður, bæði að tryggð og allri skaphöfn“.
Skapi farinn (orðtak) Með skapsmuni; lundaður. „Ég er ekki þannig skapi farinn að ég sé neitt að erfa þetta“.
Skapi næst (orðtak) Eftir skapi; í takti við skapið. „Mér er skapi næst að fara í land ef hann gefur sig ekki til“.
Skapillska (n, kvk) Geðvonska; ergelsi. „Svona skapillska bætir ekkert ástandið“.
Skaplaus / Skaplítill / Skapmikill (l) Sem skiptir sjaldan skapi; með mikið jafnaðargeð. „Ekki held ég að hann sé alveg skaplaus, en mikill geðstillingarmaður“.
Skaplega (ao) Sæmilega; vel; þokkalega. „Hann ætlar að fara skaplega með veðrið í dag“.
Skaplegur (l) Ágætur; sæmilegur; þokkalegur. „Við fengum skaplegan afla hérna suður á Bæjunum“.
Skaplegheita veður (orðtak) Ágætt/þokkalegt/meinlaust veður. „Það er komið skaplegheita veður, svo við ættum að leggja af stað bráðlega“.
Skaplegt (l) Sæmilegt. „Enn er allt skaplegt með landtöku...“ (KJK; Kollsvíkurver). „Veðrið er mun skaplegra núna en það var í gær“.
Skaplyndi / Skapsmunir (n, kk, fto) Skapgerð; geðslag. „Hans skapsmunum var svo farið að hann gat orðið mjög fljótillur, en það rauk jafn fljótlega úr honum“. „Hann var dálítið erfiður á skapsmunum“.
Skapmaður / Skapsmunamaður (n, kk) Maður sem er fljótur að skipta skapi/ reiðast; sá sem er er skapstirður/uppstökkur.
Skapmikill (l) Fljótur að skipta skapi; reiðist auðveldlega; ekki með mikið jafnaðargeð/langlundargeð.
Skapnaður (n, kk) Sköpulag; gerð; lögun.
Skapofsi (n, kk) Bræði; snögg og mikil reiði; ofstopi. „Svona skapofsi gengur ekki ef menn ætla að semja“.
Skapraun (n, kvk) Mæða; gremja; leiði; ami. „Mér var nokkur skapraun að þessu framferði“.
Skaprauna (s) Ergja; móðga; reita til reiði. „Þeir gerðu það sem þeir gátu til að skaprauna karlinum“.
Skapstilling (n, kvk) Rólegheit; yfirvegun; gott taumhald á skapsmunum.
Skapstillingarmaður (n, kk) Sá sem hefur mikið jafnaðargeð/skiptir sjáldan skapi. „Nú var jafnvel farið að síga í þennan mikla skapstillingamann“.
Skapstirður (l) Erfiður í skapi; uppstökkur; fúll. „Hann er orðinn skapstirður og þolir ekki svona stríðni“.
Skapstór (l) Þungur á bárunni; langrækinn; reiðist/móðgast illa þegar gert er á hlut hans.
Skapvondur (l) Reiður; slæmur í skapinu; fjúkandi illur. „Maður verður bara skapvondur af því að hlusta á svona bévítans þvælu“!
Skapvonska (n, kvk) Reiði; bræði; illska. „Vertu nú ekki með þessa bölvaða skapvonsku; hún lagar ekkert“!
Skapþungur (l) Með erfitt skap; hættir til að verða reiður.
Skar (n, hk) A. Útbrunninn kveikur á kerti. Meðan kerti voru heimagerð úr tólg og kveikir snúnir úr fífu eða öðru, þurfti að taka skarið af til að kertið færi ekki að ósa. Sja taka af skarið. B. Líkingamál; Hrörlegur/vesæll maður. „Hann er orðinn hálfgert skar, gamli maðurinn“.
Skara (s) A. Leggja byggingarefni þannig að brúnir leggist á misvíxl. Báti er skarað þannig að neðri brún skíðis/borðs leggst yfir efri brún borðs sem er neðar. Helluþaki á húsi er skarað þannig að neðri brún efri hellu leggist yfir efri brún neðri hellu; svo vatn renni niður af þaikinu en ekki inn í húsið. „Í þakinu voru sperrur, og á þeim langbönd og ofan á þau skarað hellum og tyrft yfir“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). Borðum í súð á bát er skarað nokkuð á misvíxl. Þannig er oft gert með súð á húsi, sem þá er nefnd skarsúð. B. Hreyfa til glóð með skörungi, til að eldur nái súrefni fyrir kolun; sjá skara eld að eigin köku.
Skara að (orðtak) Færa eld/glóð að því sem verið er að hita, t.d. með skörungi. Meðan eldað var á hlóðum þurfti að fylgjast vel með eldinum og skara honum að pottinum.
Skara eld að eigin/sinni köku (orðtak) Vilja koma sínu fram; hygla sjálfum sér; ota sínum tota. „Mér sýnist að hann hugsi nú meira um að skara eld að eigin köku en hag almennings“. Vísar til þess að kökur voru bakaðar á glóð í hlóðum. Þegar hver bakaði fyrir sig reyndi e.t.v. einhver að koma glóðinni nær sinni köku.
Skara framúr (orðtak) Vera/standa skör/sjónarmun framar en næsti maður.
Skara í bálið/glóðina/eldinn (orðtak) Færa glóð til í eldi með skörungi, þannig að eldsmaturinn/eldiviðurinn komist að súrefni og nái að brenna, en lendi ekki undir koluðu efni og ösku. Á þann hátt fæst aukinn hiti.
Skara saman (orðtak) Fella efni saman með skörun/ því að skara; láta byggingar-/ smíðaefni ganga á misvíxl.
Skaraður (l) Látinn skarast. „Þakjárnið var skarað um minnst tvær tommur“.
Skarbítur (n, kk) Töng til að taka skar af kerti. Löguð eins og lítil skæri, en með lítilli pönnu fyrir skarið.
Skarð (n, hk) Rauf; dæld; skora. Skarð er algengt heiti í landslagi í nágrenni Kollsvíkur, um lægð á milli tveggja dala eða víkna. T.d. Skarð milli Kollsvíkur og Vatnadals; Hænuvíkurskarð, sunnantil í Hænuvík; Brúðgumaskarð, milli Breiðavíkur og Keflavíkur; Gjárdalsskarð, milli Sanddals og Gjárdals o.fl.
Skarða (s) Mynda skarð. Oftast notað um sjólag, þegar skil verða á milli brota í sömu báru. Formaður þurfti að vera glöggur á hvenær skarðaði í báru, bæði á siglingu en enn frekar í landtöku.
Skarð fyrir skildi (orðtak) Saknað manns; vantar góðan mann. „Nú er skarð fyrir skildi þegar þessi mikli baráttumaður er fallinn frá“. Líklega vísun til þess að skarð myndist í skjaldborg liðs, við það t.d. að hermaður fellur. Sumir vilja vísa til þess að bardagamenn hengdu skildi sína á vegg í skála, aftan við sætin. Þegar einhver hafði fallið í orrustu var skjöldurinn samt hengdur á vegginn, en skarð var í sætaröðinni.
Skarð í vör (orðtak) Fæðingargalli sem orðið getur þegar samruni á efri vör og/eða gómi fósturs verður fyrir truflun í móðurkviði. Vörin mótast á fimmtu til sjöundu viku meðgöngu, en gómurinn á þeirri sjöundu til tólftu. Á þessum tíma getur slík truflun orðið. Nú á dögum er unnt að lagfæra slíka fæðingagalla með skurðaðgerðum. Talið er að eitt af 6-800 börnum fæðist með skarð í vör.
Skarður hlutur (orðtak) Skertur skiptahlutur; of naum skipti. „Mátti Einar þó vita hvaða orð fór af Benedikt, og gat búist við því að hann sætti sig ekki við skarðan hlut“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). „Hann var því ekki vanur að bera skarðan hlut frá borði“.
Skarður máni (orðtak) Tungl sem er að verða fullt eða byrjað að skerðast.
Skarfakál (n, hk) Cochlearia officinalis. Planta af krossblómaætt, sem algeng er í klettum t.d. í kringum Kollsvík og víðar. Blöðin eru þykk, dökkgræn og hóflaga eða nær kringlótt; blóm eru hvít og í klösum. Skarfakál er mjög ríkt af C-vítamínum og hefur verið notuð sem heilsubótar- og lækningajurt lengi. Einkum þótti hún þjóðráð til lækninga á skyrbjúg, sem orsakast af C-vítamínskorti. Skarfakál var einkum borðað nýtt á staðnum í seinni tíð, en fyrrum mun það hafa verið notað sem salat eða soðið í grauta. Oft var einungis notað stuttheitið „kál“ yfir skarfakál. Sjá kálhilla.
Skarfaket (n, hk) Ket af skarfi. Skarfur var nokkuð skotinn til matar, líkt og mávur, fyrr á tíð; enda ágætur matfugl og matarmikill. Hann getur þó stundum verið undirlagður af hringormi.
Skarfjúk (n, hk) Skafrenningur af þeirri gerð að skör rifnar upp af snjónum þegar hvessir, og fýkur með jörðu. Gerist þetta helst þegar sólbráð hefur orðið á snjó, þannig að næfurþunn skör/klakaskán myndast. Hún brotnar síðan upp þegar kólnar, og fýkur af stað þegar vindar.
Skarfur (n, kk) A. Skarfur er algengur sjófugl í Kollsvík og nágrenni, og verpur dílaskarfur á stöku stað í rótum sjávarkletta; helst þar sem fjara er grýtt og stutt til sjávar. Mest er um dílaskarf (Phalacrocorax carbo), en einnig sést toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis). Dílaskarfur er heldur stærri eða 70-102cm að lengd og allt að 3,7 kg. Svartur að lit en með hvíta kverk og vanga. Nafnið er dregið af hvítum díl í lærum, sem er áberandi í varpskrúða. Flýgur með sjó, en þó hærra en toppskarfur. Eftir ætisleit þarf fuglinn að þurrka vængina. Hann situr þá gjarnan fremst á hleinum, breiðir út vængina og blakar þeim lítillega. Er þá líkur presti að blessa sinn söfnuð. Þegar menn nálgast skarf á hreiðri gerist hann viðskotaillur; glennir upp ginið, hvæsir og hristir hausinn. Um leið og hann flýgur af dritar hann gjarnan yfir eggin til að gera þau ólystugri. Toppskarfur er mun styggari. Skarfar eru gamlir í þróunarsögu fugla. Þeir eru skyldir pelíkönum og súlu. Fætur skarfa eru aftarlega á búknum og því eru þeir mjög slæmir til gangs og sitja uppréttir. Sundfitin er sérkennileg og stór og öðruvísi löguð en á öðrum hérlendum sundfuglum. Helsta fæðan er fiskur, og eru skarfar miklir kafarar og veiðifuglar. Í Kina tíðkast enn sá ævagamli siður að nota skarfa til fiskveiða. Eru þeir aldir sérstaklega í því skyni og ól bundin lauslega um háls þeirra fyrir köfun. B. Líkingamál um mann sem þykir sérkennilegur/undarlegur/skapstirður. Sjá karlskarfur.
Skari (n, kk) A. Hörð frostskán á snjó. Stundum mannheld en stundum ekki. „Það er fljótfarið yfir Tunguheiðina þegar unnt er að ganga á rennisléttum og öruggum skara í björtu veðri“. B. Hópur; söfnuður; mikill fjöldi einstaklinga. „Það var þröng á þingi þegar allur þessi skari var kominn inn í herbergið“. Sbr herskari. C. Maskinujárn; maskinukrókur; áhald til að skara í glóð á hlóðum eða í eldavél. Á tímum kola- og olíueldavéla var skarinn nauðsynlegt eldhúsáhald. Hann var oft með handfangi í öðrum enda, og krók á hinum endanum. Þannig nýttist hann bæði til að skara í eldi og til að taka upp heita hringi og hellur af eldavélinni. D. Skarbítur; sérstakt áhald til að klippa skar á logandi kerti, sem farið er að ósa.
Skarifífill (n, kk) Leontodon autumnalis) Meðalstór fífill sem algengur er um allt land. Vex einkum á láglendi. Karfan er gul; stönglar greindir, grannir, 1.5-2mm gáraðir, en ekki holir og sléttir einsog á túnfífli. Laufblöðin eru fjaðurflipótt og í hvirfingu. Algengur í Kollsvík og nærsvæðum; helst á harðbölum. Skarifífill blómstrar seint á sumri, og af því er síðara heitið dregið í því latneska.
Skarir (n, kvk, fto) A. Ísbrúnir sem myndast við bakka ár/vatns. „Féð stökk í ána en komst ekki upp á skarirrnar“. B. Kverkar á borðaskilum í skarsúðuðum báti. „Gættu þess að mála vel í skarirnar“.
Skark / Skarkali (n, kk) Hávaði; skrölt; fyrirgangur. „Verið ekki með þennan déskotans skarkala strákar“!
Skarka (s) A. Búa til skark/hávaða/skrölt. B. Rjála við. „Verið nú ekki að skarka í þessu strákar“! C. Reyna að veiða; skrapa saman; snövla. „Snurvoðabátarnir eru byrjaðir að skarka í Flóanum“.
Skarkoli (n, kk) Pleuronectes platessa; koli; rauðspretta. Flatfiskur af rauðsprettuætt sem algengur er við landið sem í öllu N-Atlantshafi; þar á meðal á Útvíkum og Patreksfirði. Algengastur er hann á 10-50m dýpi, á sand- eða leirbotni. Algeng stærð er 30-50cm. Hreistrið er slétt, fíngert og ekki skarað. Líkt og aðrir flatfiskar skyldir lúðu syndir kolinn á hliðinni Bæði augu eru á þeirri efri, sem er dekkri en hin og í henni eru rauðir blettir; neðri hliðin er hvít. Fæðan er skeldýr, smákrbbar, ormar og fleira smálegt. Grefur sig oft í botninn, þannig að augu standa uppúr. Góður matfiskur og mikið veiddur; aðallega í snurvoð, nót eða vörpu, en einnig kemur hann sem meðafli t.d. í grásleppunet. Gjarnan steiktur á pönnu. „Helgi þegar hratt fram gnoð/ og hervæddist sinni brók,/ þá skalf hvert einasta sköturoð/ og skarkolinn andköf tók“ (ÖG; glefsur og minningabrot; formannsvísa um Helga Árnason í Tröð).
Skarlat (n, hk) Vandaður og fíngerður ullarvefnaður, oftast í mörum litum.
Skarleppar (n, kk, fto) Ræmur úr taui/striga sem voru tjörubornar og lagðar milli borða/planka í skarir/samskeyti til þéttingar í nýsmíði og viðgerðum á bátum; einkum þeim stærri, s.s. skútum.
Skarn (n, hk) A. Skítur; taðköggull. B. Líkingamál sem gæluorð um barn: „Komdu nú hérna skarnið mitt“; eða dýr: „Ertu búinn að gefa kattarskarninu eitthvað að éta“?
Skarn er líka í skálinni prestsins (orðatiltæki) Vísar til þess að prestar og pótintátar eru rétt eins og annað fólk, þurfa t.d. að gera þarfir sínar. Heyrðist ekki oft í seinni tíð, en hefur eflaust verið tautað fyrr á tímum þegar undirlægjuháttur við höfðingjana gekk fram af fólki.
Skarpgáfaður / Skarpgreindur (l) Vel greindur; mikill viskubrunnur; snjall. „Hann er sagður skarpgreindur“.
Skarpheitur (l) Mjög heitur. „Til að bræða úr lögninni gat dugað að hella yfir hana skarpheitu vatni“. Varaðu þig á kaffinu; það er skarpheitt“. Orðið var algengt vestra en finnst ekki í orðabókum.
Skarpholda (l) Grannur; beinaber; horaður. „Ári er kýrin orðin skarpholda, hún þyrfti að fá meiri fóðurbæti“.
Skarphygli (n, kvk) Glöggskyggni; athygli; skynsemi. „Enginn stóð honum á sporði um greind og skarphygli“.
Skarplega athugað (orðtak) „Það var skarplega athugað hjá þér að muna eftir þessu atriði“.
Skarplegur (n, kk) Gáfulegur; af glöggskyggni. „Þetta er nokkuð skarpleg ályktun“.
Skarpleikskona / Skarpleiksmaður (n, kvk/kk) Sá/sú sem er greindari en almennt gerist.
Skarpleitur (l) Hvassleitur; með skarpa/harða andlitsdrætti; tekinn í andliti.
Skarpnefjaður (l) Hvassnefjaður; með hvasst/þunnt nef. „Þetta er hin gjörvulegasta kona, en nokkuð grannholda og skarpnefjuð“.
Skarpskyggn / Skarpsýnn / Skarpur (l) Glöggur; fljótur að átta sig; tekur vel eftir smáatriðum.
Skarpur (l) A. Beittur. „Gáðu að þér á hnífnum hann er mjög skarpur“. B. Heitur. „Ekki get ég sagt að það sé skarpur hiti á kaffinu“. C. Greindur. „Drengurinn er bara bráðskarpur“. D. Fljótt; skyndilega; ört. „Hann er að þykkna upp, ansi skarpt“. „Þurrkurinn er nokkuð skarpur í dag“. „Passaðu að hella ekki of skarpt á sigtið, þannig að flói útúr því“. „Það er varasamt að þamba kalt vatnið svona skarpt“.
Skarpur þurrkur (orðtak) Góður/hraður þurrkur; hlýtt, vindasamt og þurrt loft. „Það er svo skarpur þurrkur að grasið þornar á ljánum“.
Skarpþorna (s) Þorna hratt; breyskja af. „Við skulum hinkra ögn með sláttinn; jörðin skarpþornar fljótt í þessu breyskjusólskini.
Skarpþurrkaður (l) Þurrkaður hratt/við skarpan hita. „Þegar vöknar í rót virðast þessi leirhnoð minnka og mýkjast, samt verður ekkert hey af svona slægju sandlaust þó það sé margrakað upp og skarpþurrkað“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Skarsúð (n, kvk) Þiljun með borðum, þannig að brúnir ganga á misvíxl/skarast. Skarsúð er tíðast á bátum, en var einnig algeng sem innri þilja í húsþökum.
Skarsúða (s) Þilja með skarsúð. Aðferðin er notuð við smíði súðbyrtra báta og við þiljun lofta í húsum.
Skarsúðaður (l) Súðaður/þiljaður með skarsúð. „Bátar í Kollsvíkurveri voru allir skarsúðaðir“.
Skart (n, hk) Skraut; glingur; það sem haft er til fegrunar, bæði á fólki sem öðru. „Smávinir fagrir, foldarskart,/ fífill í haga, rauð og blá;/brekkusóley við mættum margt/ muna hvort öðru að segja frá…“ (Jónas Hallgrímsson; Úr hulduljóðum).
Skarta (s) Bera skart; skreyta sig með skarti.
Skarta sínu fegursta (orðtak) Vera glæsilegur; vera skreyttur/ í skartbúningi.
Skartar það á einum sem skömm er á öðrum (orðatiltæki) Einum fer vel það sem öðrum fer illa.
Skartbúinn (l) Sparibúinn; vel búinn og með mikið skart.
Skartklæði (n, hk, fto) Glæsifatnaður; hátíðarbúningur. „Það þýðir nú lítið að mæta á skartklæðum til skips“!
Skaröxi (n, kvk) Öxi til smíða, með sveigðu blaði sem snýr þvert á skaftið og oft með öngvum/litlum skalla. „Sumir eru slíkir snillingar með skarexi að efnið verður sem heflað á eftir. Enn er til á Láganúpi skaröxin hans Guðbjartar föðurafa míns“ (VÖ). Sjá öxi.
Skass (n, kvk) Frekja; frenja; brussa; skapmikill/ógnandi/orðljótur/skömmóttur kvenmaður. „Ég hálfvorkenni karlinum að þurfa að búa við þetta skass; en það er ekki mitt mál“. Náskylt heitinu „skessa“.
Skata (Raja batis) var töluvert veidd í Útvíkum, sennilega frá öndverðu, þó nú fáist ekki skata á sömu miðum og fyrrum. Skata var veidd bæði á línu/haukalóð og á handfæri. Rauðegni (slang) og kræklingur var notað í beitu; einnig ljósabeita sem roðin var með blóði. Sökum þess að skatan er oftast við botn þótti eðlilegt að láta beittan öngulinn nema við hann, eða taka lítið grunnmál. Öll skata var krækt/húkkuð sem veiddist á færi. Þegar skata kom að borði var hún dauðrotuð með haka eða kepp áður en hún var innbyrt; kallað sjóhögg. Skata er líflítil í drætti. Algengast var að barða/slægja skötuna í landi, þó stundum væri það gert á sjó. Ef mikið veiddist af henni var hún látin liggja óhreyfð í kös í eina viku. Þegar byrjað var að gera að skötu var farið með höndina uppí kjaftinn á henni, helst með vettlingi til að skaða sig ekki á skötuskaganum/tönnunum; hnífnum stungið í gegn fyrir ofan hausamótin og skorið kringlótt stykki í kringum kjaftinn. Að því búnu var skorið fyrir á magálnum; flipanum lyft upp og innyflin tekin. Loks var halinn skorinn af; kallað að sverja fyrir rass. Þegar skatan var börðuð var fyrst rist kringum hausinn eins og áður er lýst;o g síðan niðurmeð maganum báðumegin og út með hlaununum. Börðin héngu þá saman á trjónunni. Stykkið allt; bak, kviður og hali, sem losað var, hét einu nafni hlaunir/skötuhlaunir/sköturass. Í hlaununum eru tól graðskötunnar, en á börðum hennar eru smátennur; þornabök. Skötumaginn/bumlungurinn var víða hirtur. Hann var þrifinn; látinn standa í saltvatni; síðan hleypt upp á honum; lagður í súr og etinn með flautum. Einnig var hann blásinn upp eða troðinn út og notaður sem ílát/lýsispjása/sýrubelgur/dufl á lagvað.
Verkun skötu var með ýmsu móti. Börð sem verkuð voru til útflutnings voru fyrst lögð í saltpækil og síðan þvegin, söltuð og þurrkuð; breidd eins og saltfiskur. Sumir söltuðu börðin en kæstu ekki né hertu. Aðrir kæstu en söltuðu síðan. Meðan heitast var á sumrinu var skatan látin liggja vikutíma í kös, en síðla sumars og að haustinu ekki skemur en tólf daga. Að söltun undanskilinni var farið með skötu eins og hákarl, ema hvað verkun hennar tók miklu skemmri tíma. Mðean skatan var að gerjast/ryðja sig í kösinni varð að verja hana vatni. Algengt var að láta börðin í gryfju með grjóti og torfi ofaná. Ef menn vildu flýta fyrir kösuninni var skatan sett í fjós. Eftir kösun voru börðin hengd upp í hjalli. Þau voru þá ýmist hengd upp á trýninu, en einnig skorin þar í sundur og þá annaðhvort gerð þar þuma eða hnýttur var spotti utanum barðnefið og ránni stungið í gegnum hana eða þumuna. Algengt var að rista börðin í strengsli ofanfrá og niðurúr og jafnvel halda þeim sundur með spýtum eins og strengjaflaki lúðunnar. Einnig voru kösuð börð þurrkuð á klöppum og reitum. Sumir létu þau roðþorna en aðrir hertu þau eins og harðfisk.
Vestra var algengt að rífa roðið af skötunni áður en hún var látin í pottinn og yfirleitt var haft mörflot með henni. Skötustappa var algengur Þorláksmessumatur um Vestfirði og víðar. Skatan var þá helst ekki kösuð minna en í 2-4 vikur, því best þótti að þefinn legði framúr nefinu þegar hún var etin. Stór skata/lóðaskata þótti best í stöppuna. Eftir suðuna var brjóskið tínt úr og hún síðan stöppuð í svo miklu mörfloti að sneiða mátti hana niður eins og kæfu. Fyrrum var siður vestra að sjóða Þorláksmessuskötuna í hangikjötssoðinu. Með stöppunni höfðu ýmsir, feitar, reyktar bringur og rúgkökur. Í Kollsvík og e.t.v. víðar var skatan upp úr soðinu snædd með reyktum eða óreyktum bringum; hangiflot haft sem viðbit og á eftir drukkið kaffi með lummum. Skatan hert var etin eins og harðfiskur og viðbitið þá oft bræðingur. Það þynnsta af skötubarðinu; þynnkan/skötuþynnkan, var sett í súr eins og hún kom fyrir; ósoðin, og etin á sumrin til svala. Alltaf fékkst eitthvað af þeirri skötu sem tindabykkja heitir. Fyrr á tímum var hún hert og eingöngu hirt sem skepnufóður. Egg skötunnar nefnast pétursskip/pétursbuddur (sjá þar)“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild m.a. GG).
Þjóðsagan segir að skötumóðirin sé stærst af öllum skötum. Hættulegt getur verið að veiða hana, því hún kemur uppundir bátinn; kreppir börðin uppyfir borðstokkana og dregur bátinn í kaf. „Þá ætla ég að segja frá einum sköturóðri með haukalóð. Þeir voru oftast farnir um mitt sumar. Haukalóðin var úr sterkara efni en lóðir sem notaðar voru fyrir þorsk; oft 150 – 200 krókar, og voru þeir stærri en á þorskalóð. Hafður var tveir og hálfur faðmur á milli tauma, og taumurinn var einn faðmur. Steinar eða drekar voru á báðum endum og niðristöður og dufl. Byrjað var að skaka fyrir smáfisk uppi í þaragarði. Þegar nóg var komið í beitu var keyrt á það mið sem leggja átti lóðina. Smáfiskurinn var skorinn í lítil stykki og lóðin beitt niður í miðrúmið. Venjulega var farið þegar smástreymt var; keyrt á mið sem heitir Tálkni og Sandhóll; þegar Tálkni sást fyrir Blakkinn og Sandhóllinn í Breiðavík fyrir Breiðinn. Þar var leirbotn, og brást varla að fá skötu. Lagt var þvert á straum, og hyllst var til að leggja lóðina í fullhörku á straum. Láta hana fá einn snúning og draga svo aftur þegar tók að harðna fallið. Fljótlega fór lóðin að þyngjast, því skatan lá þungt í.... Skatan var gerð til; börðin voru grafin í sand svona vikur til 10 daga, þá tekin og þvegin; söltuð dálítið og geymd sem vetrarforði“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Á Þorláksmessu var alltaf borðuð skata, eins og raunar er gert víða enn“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). „Á Þorláksmessukvöld var skata og reyktar bringur og kaffi; og svo var spilað á Þorláksmessukvöld“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Skati (n, kk) Fornt heiti yfir mann. Helst notað nú á dögum í skáldskap. Var einkum haft um hávaxinn/höfðinglegan mann. Líklega leitt af orðinu“skate“ sem merkir beinan trjástofn, og er því skylt orðinu „skíði“, sem bæði er haft um borð í bát og þau sem á fótum eru höfð. Fleirtalan er „skatnar“. „Skatnar þarna skemmta sér í skapi fínu./ Býst svo hver að búi sínu“ (JR; Rósarímur).
Skatta (s) Taka/innheimta skatt/toll/gjald.
Skattera (s) Sauma út; baldera; myndskreyta með ísaumi.
Skattfé (n, hk) Fé sem innheimt er með skattlagningu.
Skattgildur (l) Skattskyldur; skyldugur til að greiða skatt.
Skatthol (n, hk) Húsgagn af tiltekinni gerð. Oftast Skrifpúlt með skúffum undir og litlum skápum eða hillum yfir borðinu, þannig gert að unnt er að leggja skrifborðið upp og loka þannig af það sem er fyrir innan það.
Skattland (n, hk) Land sem greiðir skatt til annars lands, en hefur að öðru leyti sjálfstjórn. Í sumu tilliti má líta svo á að Ísland hafi verið skattland Danmerkur um aldir, því þó í orði kveðnu væri yfirstjórnin einnig í Danmörku var hún í raun að mestu í höndum innlendra höfðingja. Kóngur var drjúgur að leggja álögur á Íslendinga, einkum þegar hann stóð í stríðsrekstri.
Skattur (n, kk) A. Gjald sem greitt er öðrum, oftast með viðmið í tekjum eða eignum. Nú á dögum er oftast átt við það gjald sem hver maður greiðir í samfélagslegan sjóð, t.d. ríkissjóð, til að standa undir sameiginlegum útgjöldum þjóðar eða tiltekins hóps. B. Matarskammtur sem húsfreyja útbýtti hverjum heimilismanni á málum fyrr á tímum. Var þá einkum átt við morgunmat.
Líklegt er að orðið „skattur“ eigi sér sömu rót og „skammtur“, og merki þá að hver maður eigi að greiða „skammt“ (þ.e. stutt/hluta) af sínu fé til höfðingja, landeiganda eða annars.
Skattyrðast (s) Deila; jagast; skútyrðast. „Ég ætla nú ekki að skattyrðast neitt við þig um það sem ég veit“!
Skattyrði (n, hk, fto) Skammir; harðorðar athugasemdir; fúkyrði.
Skauf (n, kvk) Orð sem ekki var notað vestra í seinni tíð. En þar sem umræður hafa iðulega orðið um nafnskýringu örnefnisins Skaufhóls milli Lambavatns og Naustabrekku skal hér litið ofaní heimildir. Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal segir orðið merkja „yfirhúð á hestskökli; sköp konu; rifu; skarð; sár eftir geldingu; nárasvæði og reðurslíður á hestum“. Einnig „skott“ sbr heitið „skaufhali“ um tófu. Skylt er orðið „skaufi“ í merkingunni getnaðarlimur. Engar samsvaranir eru í grannmálum. Orðabók Árna Böðvarssonar og Menningarsjóðs gefur að auki upp skýringuna „lítill poki; paufi; smábaggi; smáhnykill“. Að´öllu samanlögðu má álykta að skauf merki eitthverskonar litla og staka þúst, og er þá komin skýring á nafni hins sérstæða Skaufhóls. Hóllinn kann að hafa heitið Skauf í byrjun en „hóls“ -viðbótin komið síðar á öldum, þegar orðið var fallið úr almennri notkun og til áréttingar. Sjá einnig skaufhali.
Skaufast (s) Drattast; hundast; skriflast. „Reyniði nú að skaufast til að sækja kindina sem þið misstuð“!
Skaufhali (n, kk) Annað heiti á ref/tófu. „Refurinn hefur verið kallaður skaufhali og má láta sér detta í hug að e.t.v. sé samband milli þess og Skaufhólsnafnsins“ (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns). Sjá skauf.
Skaup (n, hk) Skop; háð; grín.
Skaut (n, hk) A. Neðstu hornin á segli, jafn að framan sem aftan. Af því er dregið heitið skautasegl um þversegl. B. Sérstakur höfuðbúnaður kvenna. C. Póll á segli/jarðhnetti/rafspennugjafa o.þ.h. D. Kelta; fang. Sbr að „sitja með barn í skauti sér“; „falla (einhverjum) í skaut“ o.fl.
Skauta (s) A. Bera höfuðbúnað/skaut. „Fyrr á öldum var talað um að kvenfólk skautaði sér, þegar það setti upp þeirra tíðar höfuðbúnað“. B. Fara á skauta; renna sér á skautum. C. Skautfesta; festa skauti segls við borðstokk báts. D. Kljúfa ljós á sérstakan hátt (pólarisera).
Skautafæri / Skautasvell (n, hk) Aðstæður til að renna sér á skautum. „Það er fínt skautasvell á Lögmannslánni núna“.
Skautahlaup (n, hk) Það að fara á skautum; sýna listir á skautum. „Glímur og skautahlaup hafa margir fjelagar æft, suma veturnar“ (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi).
Skautar (n, kk, fto) Fótabúnaður til að renna sér á ís. Skautar í dag eru sérstaklega gerðir uppháir reimaðir skór, með áföstum meiða undir úr hörðum málmi. Framá miðja 20.öld notuðu menn heimasmíðaða skauta úr tré, líka bátum með járnkili undir, og bundu þveng um fótinn. Fyrr á öldum renndu menn sér á leggjarbeinum sem bundin voru undir fæturna.
Skautasegl (n, hk) Þversegl; rásegl. Eina tegund siglingar hérlendis frá landnámi framundir lok 18.aldar.
Skautasvell (n, kk) Ís sem unnt er að nota til að iðka skautahlaup og aðrar skautakúnstir. Skautasvell getur víða orðið í Kollsvík, en oftast var farið á skautum á Lögmannslág í seinni tíð.
Skauti (n, kk) A. Skautar til að renna sér á ís (sjá þar). B. Hlífðarþynna á ár, þar sem hún leikur í keipunum. Oftast gerð úr hvalbeini.
Skáhallt / Skáhallt við (l/orðtak) Á ská; á skakk/skjön við; hallandi; ekki í beinni línu/stefnu við. „Straumurinn lá skáhallt frá landinu þarna við Þyrsklingahrygginn“. „Hornstaurinn hefur lent dálítið skáhallt við stefnuna“.
Skáhenda / Skáhendur bragarháttur (n, kvk/ orðtak) Skáhenda er afbrigði af ferskeytlu, og liggur munurinn í því að fyrsta og þriðja ljóðlína ríma ekki í enda. Hinsvegar er innra rím í þeim báðum, þannig að innrím og endarím hvorrar línu ríma saman. Dæmi: „Leit hann brátt hvar lýsti hátt/ linna bólið rauða;/ ofnis má þar unga sjá,/ öllum veitti hann dauða“ (Úr Konráðsrímum; höf ók; úr rímnabók Íslands frá 1550-1600).
Skái (n, kk) A. Hallandi flötur. „Báturinn var dreginn upp skáann í höfninni. B. Það sem betra er; skáinn af.
Skáinn af (orðtak) Það skásta af einhverju. „Kartöflurnar voru orðnar skemmdar en þetta er þó skáinn af þeim“
Skák (n, kvk) A. Hluti svæðis; landræma; túnblettur. „Ég girti af dálitla skák úr túninu fyrir kýrnar“. B. Stóll, bekkur eða annað setgagn. „Náðu þér í einhverja skák og sestu hjá okkur“. C. Tafl.
Skáka (einhverjum) (s) Leika á (einhvern); sjá við (einhverjum); gera betur en (einhver); sigra (einhvern). „Hann skákaði okkur alveg með því að leggja netin uppí kvöldið áður. Með því komst hann fyrr á miðin og var búinn að leggja þegar við komum út“.
Skáka í skjóli þess / Skáka í því skjólinu / Skáka í því hróksvaldinu (orðtak) Hafa það sér til blóra; njóta þess. „Þeir skáka í því skjólinu, þessir þingmenn, að maður er ekki á svæðinu til að taka í lurginn á þeim“! Vísar til þess að færa valdaðan taflmann á skákborði.
Skáka sér (orðtak) Fara; færa sig. „Ég þurfti að skáka mér afsíðis í smástund til að gera að brókum“.
Skákarendi (n, kk) Endi á skák/bekk. „Geturðu ekki sest hérna á skákarendann? Þröngt mega sáttir sitja“.
Skákborð (n, hk) Taflborð.
Skákmaður (n, kk) Manneskja sem er slyng í að tefla. Taflmaður er hinsvegar oftast haft um einn þeirra hluta sem teflt er með.
Skákreka (n, kvk) „Þegar þetta skeði var Bjarni eldri á leiðinni úr hlöðunni heim að bænum og gekk við skákreku“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). Ekki er fyllilega ljóst hvernig reku um er að ræða, en af OH má ráða að orðið sé ekki alveg óþekkt frá fyrri tíð (VÖ).
Skáktafl (n, hk) Venjulegt tafl. Orðið var ráðandi fyrrum en í seinni tíð er einatt talað um tafl.
Skál (n, kvk) A. Dallur; ílát. Sami orðstofn og orðið „skel“. B. Upphrópun þegar menn lyfta glösum. Þekkt en ekki viðhaft í Kollsvík.
Skáld (n, hk) A. Sá sem semur ljóð, upplognar sögur eða á annan hátt færir mál í listrænan búning. Misjafnt er mat manna á því hvenær maður telst skáld með slíkum gerningi; t.d. voru menn tæpast taldir skáld í Kollsvík þó þeir gætu gert prýðisgóð kvæði eða samið góðar sögur. Til þess titils þurftu menn að vinna nokkuð, og verða jafningjar t.d. Jóns úr Vör; Guðmundar G. Hagalín; Guðmundar Inga Kristjánssonar eða annarra slíkra. „Já, það var mikið kveðið í Kollsvíkurveri; einkum um það broslega sem fyrir kom. Býst við að flest sé það gleymt; þótt þetta væru dægurflugur voru innanum vel gerðar og prenthæfar vísur. Um skáld var lítið að ræða; helst var það Pétur Jónsson frá Stökkum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Málfræðingar hafa ekki greint augljósan uppruna orðsins, en líklega er það af sama stofni og skál og skel; með vísan í það að skáldið kemur málinu í fast listrænt form; býr það í fasta skel. Má í því efni benda á lýsingarorðið „skáldaður“ í merkingunni að hafa á sér skel óhreininda, og vera hárlaus að hluta eða öllu. Sagnorðið að skálda var notað um að rota hár af húð eða fiður af bumb.
Gömul sögn segir að skáld megi þekkja á því að þau hafi svo langa tungu að þau geti stungið henni upp í nefið, og var henni haldið á loft í Kollsvík. B. Lönguhrogn voru ýmist nefnd skáld eða greppur.
Skálda (n, kvk) Gæluheiti/ niðrandi heiti á riti. Ágætur maður af Kollsvíkurætt notaði þetta orð yfir bókina Kollsvíkurætt eftir TÓ, þar sem hann taldi að þar væri nokkuð um rangfeðranir.
Skálda (s) A. Semja ljóð eða skáldsögu. B. Ljúga; búa til. C. Rota hár af húð eða fiður af bumb fugla.
Skálda í eyðurnar / Skálda í skörðin (orðtök) Ljúga/ búa til, þegat sagt er frá, til að sagan verði heillegri og áheyrilegri. „Þarna held ég að hann hafi skáldað hressilega í skörðin; þetta er allst ekki rétt“!
Skálda upp / Skálda upp úr sér (orðtak) Búa til; ljúga; ýkja. „Ég held að karlinn hafi ekki lent í neinum ávætti, heldur hafi hann fengið þessi meiðsli við að detta, enda all slompaður; og skáldað upp söguna á heimleiðinni“.
Skáldaður (l) A. Sköllóttur; hárlaus; hárlaus á blettum. B. Mjög óhreinn. Sjá skáldaður af skít.
Skáldaður af óhreinindum/skít (orðtak) Mjög óhreinn/skítugur; með skánir af óhreinindum. „Mikið ankolli ertu nú skáldaður af skít drengur; þér veitti víst ekki af góðu þrifabaði“! Svo virðist sem orðið „skáldaður“ hafi ekki þekkst víðar í þessari merkingu. Það var oftast notað í þessu orðasambandi. Annars merkti orðið „sköllóttur/hárlaus“. Mjög skítugt búfé virðist vera hárlaus, og kann merkingin þannig að hafa yfirfærst.
Skáldagáfa / Skáldgáfa (n, kvk) A. Hæfileiki til að semja ljóð eða skáldverk. B. Hæfileiki til að ljúga/ýkja. „Hann hefur aldrei skort skáldagáfuna“!
Skáldalaun (n, hk, fto) Laun/ábati skálds fyrir skáldskap sinn.
Skáldaleyfi (n, hk) A. Heimild sem skáld taka sér stundum til að hagræða framsetningu á bundnu eða óbundnu máli, svo betur falli að ljóðformi/skáldverki; færa í stílinn. B. Líkingamál; leyfi til að ýkja/skrökva.
Skáldaskarð / Skáldhrukka (n, hk/kvk) Skáldaskarð er lóðrétt dæld framaní höku á manneskju. Þótti það bera vitni um skáldgáfur, einkum hjá barni. Sömuleiðis voru hrukkur í enni barns nefndar skáldhrukkur, og áttu að boða hið sama.
Skáldraftur (n, kk) Stuttur raftur/sperra/stoð í stoðgrind torfhúss. „Eitt fjárhús er þarna enn í átjándu aldar stíl. Það er tvæstæðuhús fyrir 50 kindur; veggir af torfi og grjóti; tveir mæniásar sem hvíla á stoðum og raftar af þeim niður á veggina. Á raftana eru svo haganlega skaraðar hellur, en utanyfir þær þakið með torfi. Að framan eru skáldraftar niður á dyratré“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).
Skáldhneigður (l) Hefur/sýnir burði til að verða skáld; sýnir skáldlega hæfileika; stundar skáldskap.
Skáldlega mælt (orðtak) Sagt á ljóðrænan hátt; sagt með háfleygum orðum/ líkingamáli.
Skáldlegur (l) Ljóðrænn; eins og skáld.
Skáldmæli (n, hk, fto) Skáldverk; ljóð.
Skáldmæltur (l) A. Hefur hæfileika til að yrkja. „Hann þykir allvel skáldmæltur“. B. Talar skáldlega.
Skáldsaga (n, kvk) A. Lygasaga. „Þessu trúi ég ekki; þetta hlýtur að vera einhver skáldsaga“!. B. Skáldverk.
Skáldskapur (n, kk) A. Skáldsaga; ljóð/kvæði/vísur. „Já, það var mikið kveðið í Kollsvíkurveri; einkum um það broslega sem fyrir kom. Býst við að flest sé það gleymt; þótt þetta væru dægurflugur voru innanum vel gerðar og prenthæfar vísur. Um skáld var lítið að ræða; helst var það Pétur Jónsson frá Stökkum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). B. Lygi; uppspuni. „Þetta held ég að hljóti að vera skáldskapur“!
Skáldskapargáfur (n, kvk, fto) Hæfileikinn til að yrkja ljóð eða skrifa sögu, svo vel fari. „Hann hefur aldrei viljað flíka sínum skáldskapargáfum, en hann getur gert prýðisgóðar vísur“.
Skáldverk (n, hk) Oftast notað um langa útgefna sögu rithöfundar, sem að stofni er tilbúningur/uppspuni.
Skáli (n, kk) A. Íverustaður/bústaður fólks. Til forna var skáli meginbygging mannabústaða; oft háreist og stór hús. Hann var helsti íverustaður fólks framyfir árið 1300, en síðan tók baðstofan við því hlutverki. Ekki er ólíklegt að Kollur landnámsmaður hafi reist sér skála í Kollsvík. Siðar varð skáli hluti af hinum íslenska bæ, sem hafði fleiri burstir og vistarverur. B. Lítið skýli, sbr. fjallaskáli. C. Hol í nútímahúsum.
Skálka hurðum (orðtak) Loka hurðum tryggilega; oftast átt við lokun með slagbrandi. „Var örugglega búið að skálka töðugötunum á hlöðunni“?
Skálkapör (n, hk, fto) Ruddaskapur; glæpir.
Skálkaskjól (n, hk) Yfirvarp; afsökun; blóri; það sem nýtist sem skjól fyrir hrappa/skálka.. „Hann nennti ekki til kirkju og hafi það fyrir skálkaskjól að hann þyrfti að fyljgast með hvort kýrin jafnaði sig að doðanum“.
Skálkur (n, kk) A. Þrjótur; ribbaldi. „Nú hefur minkfjandinn drepið kolluna á hreiðrinum. Það verður að fara að ná skálkinum“! B. Hefur líklega verið notað um slagbrand fyrir dyrum/lúgum, þó ekki væri í seinni tíð.
Skálm (n, kvk) A. Neðri hluti á buxum; buxnaskálm. B. Sax; stór sveðja; eineggja sverð. C. Áhald til að drepa hákarl. Svipað og drepur, nema að „skálmarnar voru líkastar stórum hnífum með álnarlöngu eineggjuðu blaði og rösklega álnarlöngu skafti“. (GG; Skútuöldin). „Kappinn grípur gnissu frá/ gilda skálm á lofti;/ sendir aftur, fálan flá/ fellur glenntum hvofti“ (JR; Rósarímur). D. Annar hluti hrognasekks/gotu.
Skálma (s) Ganga hratt/ákveðið; strika; rigsa. „Þú mátt ekki skálma svo hratt að strákrinn hafi ekki við þér“. „Hér mun eigi hlotnast nein/ hvíld í nauðum brýnum:/ Skjótt í hellinn skálmar ein/ skessa mikil sýnum“ (JR; Rósarímur).
Skálmöld (n, kvk) Stríðstími; tími mannvíga; ógnaröld; ófriður. Í seinni tíð ríkir um ófriðlegt ástand.
Skálmsprek (n, hk, fto) Álmur á brókarkvísl, sjá skinnklæði. „Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar. Þær voru í fjórum pörtum; kvíslarfótur rekinn ofan í jörðina; kvíslarhnakkur með hringlaga gati í miðjunni en tappi á fætinum gekk upp um. Önnur tvö göt voru á kvíslarhnakknum; sinn í hvorn enda frá hliðarfleti. Í þessi göt var skálmsprekum stungið og brókin færð á kvíslarnar. Ávallt snerust skálmarnar undan vindi og blés þá inn í brókina svo hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna“ (KJK; Kollsvíkurver).
Skán (n, kvk) A. Sauðatað; þurr kindaskítur úr fjáhúsum eða afrak af túni. „Skán er útmetin til uppkveikju“. Sumsstaðar notað um mó sem skorinn hefur verið í flögur. Einnig notað um lag sem myndast ofaná moldargólfum með þjöppun af umgangi. B. Rjómi sem skilist hefur út úr mjólk þegar hún stendur, og sest ofaná. C. Himna sem myndast ofan á grautarpottum o.fl. D. Himna sem stundum myndast á tungu. E. Frostþekja á pollum og tjörnum.
Skána (s) Batna; lagast. Oft notað um veður eða kvilla. „Mér sýnist verðrið eitthvað vera að skána“. „Mér hefur skánað mikið af pestinni“.
Skáoki (n, kk) Oki sem negldur er á ská innan á t.d. hurð til styrkingar; milli tveggja oka sem liggja þversum.
Skána (s) Lagast; batna. „Mér sýnist veðrið eitthvað vera að skána“.
Skáoki (n, kk) Oki/slá/biti sem liggur á ská. Oftast er talað um skáoka innaná hurð, milli þverokanna; sem hefur það hlutverk að mynda þríhyrnur og þannig varna bjögun í henni.
Skápur (n, kk) A. Algengt húsgagn. B. Vik/hvolf/skot inn í klettavegg. „Nokkuð fyrir innan Klauf er í fjörunni skápur sem heitir Bás. Hér fellur sjór í berg“ (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur). Jörðin Skápadalur í Patreksfjarðarbotni sunnanverðum dregur eflaust nafn af djúpum klettagljúfrum innst í dalnum. Jörðin er reyndar nefnd Skyttudalur í eldri heimildum. „Skyttudalur (aðrir meina það Skytludaler). Almennilega kallast jörðin Skápadalur“ (ÁM; Jarðabók). Skytta og „skytla“ er líklega af sömu rót og „skot“ = skápur.
Skár (l) A. Betur; sæmilegar. Sjaldan notað í frumstigi nú á tímum. „Mér líður mun skár en í gær“. „Veðrið er orðið mun skárra en í morgun“. „Ég held að þetta sé skásti kosturinn“. Sjá orðtökin skárra en ekkert og skárra er það nú. B. Síðari liður orða, s.s. herskár, opinskár o.fl. Endingin vísar líklega í stofninn „skái“ eða „á ská; sem hallast að“, líkt og endingin „-legur“.
Skára (s) Búa til skurðarfar/sláttufar/skára; slá með orfi „Skaflinn í Kinninni nær alveg fram af kanti og heldur líklega bílnum, en gott væri að skára far fyrir efra hjólið til að skriki síður til“. „Afi stóð uppi í Bæjarhólnum þegar ég kom út, og skáraði af kappi“.
Skári (n, kk) Farið sem myndast þegar slegið er með orfi; einn skári fyrir hverja sveiflu. Annarsstaðar virðist þetta hafa verið notað um grasið sem slegið er, en um það var notað orðið múgi í Kollsvík. Skári var einnig notað um það sem var svipað í lögun og skárar á velli; t.d. um skýjafar.
Skárra af tvennu illu (orðtak) Betri kosturinn af tveimur; betra úrræðið. „Af tvennu illu held ég að það sé skárra að draga þetta núna í slæmu, heldren geyma það til morguns“.
Skárra en ekkert (orðtak) Betra en án. „Ertu húfulaus eins og auli! Hérna, settu á þig pottlokið mitt; það er skárra en ekkert“.
Skárra er það /væri það (nú)! (orðatiltæki) Upphrópun í vanþóknun eða hneykslun. „Skárri eru það nú merkilegheitin í karlinum! Hann heilsaði ekki þegar við mættum honum á útstíminu“. „Auðvitað helli ég upp á kaffisopa þegar ég fæ heimsókn; skárra væri það nú“! Sjá ekki er það nú!
Skásettur (orðtak) Liggur á ská; hallandi. „Endastaurinn varð dálítið skásettur við aðra í girðingunni“.
Skáskera (s) Fara á snið upp/niður brekku. „Við skáskerum Sandahlíðina fyrir ofan Sandhólana; upp undir kletta“ (IG; Sagt til vegar I).
Skáskjóta augum / Skjálgra augum (orðtök) Gefa hornauga; skotra augum á skjálg; horfa útundan sér.
Skáskjóta sér (orðtak) Troða sér á milli með því að snúa hliðinni að. „Hellisopið er svo þröngt að maður verður að skáskjóta sér til að komast, og ófært er það fyrir feitlagið fólk“.
Skástífa (n, kvk) Biti/máttarviður sem liggur á ská, t.d. í húsgrind; til að gefa henni styrk þríhyrnunnar.
Ske (s) Verða; gerast. „Hvað er að ske“? „Það má ekki ske að þetta tækifæri glatist“. „Ég horfði á það ske“. „Hvernig má þetta ske“?
Skeður (l) Orðinn. „Það er of seint að jesúsa sig þegar skaðinn er skeður“.
Skefjalaus (l) Hömlulaus; gengdarlaus. „Það sem mér fannst um útrásarvíkinga fyrir hrun er hið sama og nú; nema hvað ég... hafði ekki hugmynd um hvað gróf þessi græðgi var, og skefjalaus“ (SG; Bankahrunið).
Skefjar (n, kvk, fto) Takmörk; útmörk. Einkum notað í orðtakinu að halda einhverju í skefjum; þ.e. innan ákveðinna marka. Skefjar var fyrrum notað um slægjubletti eða útslægjur (það sem skafið/slegið var).
Skefta (s) Setja skaft/handfang á áhald. „Það þyrfti að skefta þessa reku upp á nýtt“.
Skefti (n, hk) Skaft. Einkum notað nú um skaft á byssu; byssuskefti, en fyrr víðar, s.s. hnífskefti.
Skeftur (l) Búið að skefta. „Hnífurinn hafði nýlega verið skeftur“.
Skegg (n, hk) A. Hárvöxtur í andliti, einkum karlmanna. Sbr skylt er skeggið hökunni. B. Hökuþráður á fiski, s.s. þorski. C. Hak fremst á lykli; lykilskegg. D. Hak á skeggöxi. E. Stuttheiti á þursaskeggi.
Skeggbolli (n, kk) Drykkjarmál með loki yfir að hluta, til að yfirskegg blotni ekki í því sem drukkið er. Minnir á það sem nú er nefnt „stútkanna“, og er ætlað ungbörnum að drekka úr, eða öðrum sem illa valda bolla.
Skeggbroddar (n, kk, fto) Skegg sem rakað hefur verið en er að byrja að vaxa aftur.
Skeggburst / Skeggflóki (n, kvk) Mikið skegg; ósnyrt skegg. „Hann svaraði ekki strax, heldur kímdi og strauk skeggburstina“.
Skeggbursti / Skeggkústur (n, kk) Bursti til að sápa fyrir rakstur skeggs. „Ég þyrfti nýjan skeggkúst“.
Skegghýjungur / Skegglýjur (n, kk/ kvk, fto) Óræktarlegt skegg, t.d. á unglingi. „Farðu nú að raka af þér þennan skegghýjung“! „Skelfing eru þær óræktarlegar þessar skegglýjur framaní honum“!
Skeggjajúði (n, kk) Gæluheiti á þeim sem er með áberandi eða tætingslegt skegg. „Kemur þá þessi skeggjajúði“. Sagt þannig í máli Kollsvíkinga og nágranna; annarsstaðar þekkist „skeggjúði“.
Skegglýja / Skegglufsa / Skeggstrý (n, kvk) Gisið/tætingslegt/vanhirt skegg. „Hann mætti nú snyrta þessa skegglýju aðeins“.
Skeggprúður (l) Með tilkomumikið/þétt/glæsilegt skegg. „Fyrr á tíð voru margir karlar skeggprúðir mjög“.
Skeggræða (s) Ræða saman; diskútera. „Eftir spilamennskuna skeggræddu menn um heima og geima“.
Skeggsápa (n, kvk) Sápa sem ætluð er til að mýkja skegg fyrir rakstur. Fyrir tíma þrýstibrúsa var hún seld ýmist í staukum eða í bollum.
Skeggvari (n, kk) Lítill nestispoki. „Gleymdu svo ekki skeggvaranum“. Sköggvari mun annarsstaðar á landinu hafa verið notað um mal sem hékk aftan og framaná; með gati fyrir höfuð; einnig nefndur helsingjapoki.
Skeggöxi / Skeggja (n, hk) Öxi með áberandi langa egg miðað við blaðið, og er blaðið við eggina dregið í hyrnu, einkum neðantil. Slíkar axir voru algengar á 14. og 15. öld og voru fremur notaðar sem verkfæri en vopn. Heimildir benda til að þær hafi kostað meira en kýrverð.
Skegla (n, kvk) A. Annað heiti á fuglinum ritu. Rita var þó oftar notað í seinni tíð. B. Blökk úr tré.
Skegla sig (orðtak) Geifla sig; gretta sig. „Vertu nú ekki að skegla þig framaní barnið“!
Skeið (n, kvk) A. Áhald sem notað er til að borða spónamat/graut. Sbr eiga hvorki til hnífs né skeiðar. B. Gamalt heiti á stóru skipi. „Þrátt með löndum, þar sem bröndur vaka,/ fleyti ég minni fornu skeið/ fjarri glæstra skipa leið“ (JR; Rósarímur). C. Leggöng; kynfæri kvenna/kvendýra. D. Í ft; slíður hnífs, sverðs og annars eggjárns. E. Hluti í vefstól, með raufum sem þræðir liggja um. Líklega er orðstofninn „skíði“; þ.e. fjöl.
Skeið (n, hk) A. Afmarkað tímabil; afmörkuð vegalengd. „Um skeið var búið á Strákamel, og hefur hann síðan gengið jafnframt undir heitinu Gestarmelur“. B. Kapphlaup. Sbr. bregða á skeið. C. Gangtegund hests.
Skeiða (s) Um hest; hlaupa á skeiði.
Skeiðarblað (n, hk) A. Íhvolfur fremsti hluti skeiðar. B. Gróf mælieining; það magn sem kemst í skeið. „Það mætti setja útí þetta skeiðarblað af rommi til bragðbætingar“.
Skeiðklukka / Skeiðúr (n, kvk/hk) Klukka/úr sem notað er til afmarkaðra tímamælinga, t.d. í íþróttum.
Skeiðvatn (n, hk) Þynnt saltpéturssýra. Var um tíma notað til lækninga,t.d. til að sóttverja og bera á sár.
Skeifa (n, kvk) A. Hóflaga járnþynna sem fest er til hlífðar undir hófa reiðhests. B. Skeifulaga grátvipra um munninn. Setja upp skeifu.
Skeifhyrnd (l) Um hornalag kinda; hornin bogin líkt og skeifur. „Skeifa gamla var að sjálfsögðu skeifhyrnd“.
Skeifnajárn (n, hk) Flatt stangajárn, notað til smíða á skeifum. „Ekki er ljóst hvenær byrjað var að nota kúffiskplóg, en pabbi minnist þess að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík hafi smíðað kúffiskplóg úr skeifnajárni og með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi...“ (GG; Lóðir í Kollsvíkurveri).
Skeika (s) Mismuna; geiga; fara/gera skakkt; skjöplast. „Ekki skeikaði nema sekúndubroti að ég yrði á undan honum í markið“. „Þarna mátti engu skeika“. Sjá láta skeika að sköpuðu.
Skeikull (l) Sem skeikar; sem er ekki mjög nákvæmur. „Páfinn er skeikull sem aðrir“.
Skeina (n, kvk) Lítið sár. „Þetta er bara lítil skeina“.
Skeina sig (orðtak) A. Meiða/flumbra sig. „Hann skeindist eitthvað á hnénu“. B. Snyrta á sér óæðri endann.
Skeinast (s) A. Meiðast; fá sár; flumbra/skeina sig. „Varstu nú eitthvað að skeinast á puttanum“? „Þetta er bara smáskeina; það grær áður en þú giftir þig“. B. Í aðfinnslutón; drattast; drífa sig. „Reyndu nú að skeinast til að laga aðeins draslið í kringum þig“!
Skeinast til (orðtak) Drattast til; hafa sig í; sluddast til. „Reyndu nú að skeinast til að klára þetta verk áður en það er um seinan“. „Ekki stendur á loforðunum hjá þeim; bara að þeir gætu nú skeinst til að efna þau“.
Skeindur (l) A. Meiddur. „Ertu ekki eitthvað skeindur eftir byltuna“? B. Búið að þrífa hægðir.
Skeini (n, hk) A. Skeinispappír. B. Lítil fjöl sem fest er innaná stefni báts. Af henni er dregin líkingin skeini, sem heiti á aumum/vesölum manni.
Skeinisblað / Skeinisbréf / Skeinispappír (n, hk) Bréf til að þurrka endaþarm eftir hægðir. „Þess var gætt að á kamrinum væri alltaf nóg af skeinispappír. Flokksmálgagn Framsóknarmanna gegndi þar veigamiklu hlutverki, en einnig mátti nota umbúðir hans, þunnan pappírshólk, með sæmilegu móti. Á hinn bóginn var vonlaust að nota „Fakta om Sovietunionen“ sem stundum slæddist með í bunkanum. Það rit reyndist þó mjög gagnlegt þeim kamarnotendum sem voru að byrja að stauta sig framúr dönsku og alþjóðastjórnmálum“.
Skeinisblaðsvirði (l) Verðgildi eins skeinisblaðs. „Mér finnst nú lítið til um þessa nýju stjórnarstefnu; held nú bara að hún sé ekki skeinisblaðsvirði“!
Skeinuhætt (l) Hætta búin; í hættu. „Fénu getur orðið nokkuð skeinuhætt í hlíðunum eftir vetrarbyrjun“.
Skekja (s) Hrista rækilega til. „Hann sagðist vera uppgefinn eftir að skekjast á þessum vegleysum“.
Skekking (n, kvk) Skekkja; halli. Skekkingar er örnefni norðantil í klettum Núpsins. Þar er hægt að ganga úr Sandahlíðinni á ská uppá brún Sanddalsins“.
Skekkja (n, kvk) Frávik; skekking; halli. „Hér er einhver skekkja í mælingunni“.
Skekkja (s) Gera skakkt/frávik; halla. „Karlinn var búinn að skekkja húfuderinu alveg aftur á hnakka, svo eitthvað hlaut að hafa gengið á“. „Það þyrfti að skekkja tönnunum í söginni“.
Skekta (n, kvk) Lítill bátur; oftast 2ja manna far. „Gísli Guðbjartsson átti litla skektu sem kölluð var Korkanes“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Skektuhorn (n, hk) Gæluheiti á lítilli skektu. „Hann lagði rauðmaganet og vitjaði um það á skektuhorninu“.
Skel (n, kvk) A. Skel skeldýrs. T.d. krákuskel, öðuskel, kúffiskskel, olnbogaskel o.fl. B. Lítill bátur; bátskel. C. Almennt um þunna stökka skán eða hjúp; skurn.
Skelbeita (n, kvk) Skelfiskur sem skorinn er úr og notaður fyrir beitu, oftast kúffiskur.
Skeleggur (l) Ákveðinn; harður; fylginn sér. „Hann var mjög skelegggur í þeirri baráttu“. Vísar til þess að vera með skelþunna/flugbeitta egg.
Skelfdur (l) Hræddur; óttasleginn. „Hann var greinilega skelfdur við að heyra þessi torkennilegu hljóð“.
Skelfilega / Skelfing (ao) Illa; bölvanlega; hrikalega. „Það gengur skelfilega illa að fá svör frá ráðuneytinu“.
Skelfdur (l) Hræddur; mjög smeykur.
Skelfing / Skelfingar / Skelfingarinnar ( n, kvk) Ógn; ótti. Oftast notað til áherslu: „Mikið skelfing geturðu verið sinnulaus“. „Skelfingar hávaði er þetta“. „Hann er nú orðinn skelfing hrumur, karlanginn“. „Skelfingarinnar ósköp geturðu nú verið treggáfaður; ég beiddi þig að búa þig almennilega áður en við lögðum af stað, og samt ertu húfulaus“!
Skelfingaróp / Skelfingaröskur (n, hk) Öskur/óp þess sem verður mjög hræddur.
Skelfingarósköp (n, hk) Upphrópun/áhersluorð. „Mikil skelfingarósköp er þessi eilífa rigning nú leiðinleg“.
Skelfingarsvipur (n, kk) Svipbrigði hræðslu. „Ég gleymi ekki skelfingarsvipnum sem kom á hann“!
Skelfingu lostinn (orðtak) Mjög hræddur; frávita af hræðslu/seklfingu; í áfalli.
Skelfiskeitrun (n, kvk) Eitrun sem menn geta orðið fyrir af skelfiskneyslu. Það er ævagömul regla að ekki skuli tína skelfisk í r-lausum mánuðum; þ.e. að sumarlagi, og var hún þekkt og virt í Kollsvík. Vísindalegar rannsóknir hafa núna sýnt að reglan á fullan rétt á sér, þar sem skelfiskurinn innbyrðir oft mikið af eitruðum þörungum sem fjölga sér einkum að sumrinu. Í mönnum veldur eitrið þrennskonar kvillum. Algengastur er skelfiskeitrun, með miklum niðurgangi og uppköstum. Lömunareitrun er fátíðari en alvarlegri, þar sem lömun getur orðið í taugum og öndunarfærum. Þá er sumsstaðar erlendis þekkt minnistapseitrun. Á síðari tímum hefur meira orðið vart við hina eitruðu þörunga en áður; líklega vegna aukins magns næringarefna af landi, t.d. vegna afrennslis tilbúins áburðar.
Skelfisksát (n, hk) Neysla á skelfiski. Hún hefur eflaust alltaf verið töluverð þar sem skelfiskur var á fjörum, og lífsbjörg í harðindum. Mikið rekur á land í Kollsvík af öðu og kræklingi eftir brim, og hefur það löngum verið tínt til átu. „Vitað er að Sauðlauksdalskirkja verður mjög snemma eigandi að Hvalskeri og Skersbugnum og að þarna var mikið um að menn kæmu seinni hluta vetrar og að haustinu að afla sér þessarar bjargar. Skelfisksát var þá almennt um þessar slóðir. Til dæmis var sett bænhús í kaþólskum sið vergna þess fólks er þarna safnaðist saman vor og haust“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Skelfiskur / Skeldýr (n, kk) Lindýr sem hafa um sig kalkskel, oft í tveimur hlutum. Allmikið er um skelfisk á Kollsvík, enda góð lífsskilyrði margra tegunda í þaragarði og á hleinum og boðum. Brimið ber skelfisk iðulega upp á fjöru, og hefur hann nokkuð verið tíndur til manneldis. Eru það tegundirnar aða og kræklingur.
Skelja (s) A. Gera ísskán á vatni, jörð eða snjó. „Það hefur skeljað á pollum í næturfrostinu“. B. Um fisk; fá á sig harða skorpu við að þorna. „Fiskurinn er byrjaður að skelja dálítið í þurrkinum“. C. Um sár; fá á sig harða verndandi skel þornaðra vessa og blóðstorku. D. Um mó; verða þurr/skorpinn að utanverðu.
Skelja úr (orðtak) Skera skelfisk úr skel (kúskel) til að nota hann í beitu; skera úr. „Var það aðgengilegra fyrir þann sem beitti ef búið var að skelja úr, og skera beitu þegar þeir komu af sjónum“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Skeljabrot (orðtak) Brot skeljar. Mikið er af skeljasandi á fjörum í Breiðafirði og við sunnanverða Vestfirði. Allur er hann myndaður af skeljabrotum; mismunandi fíngerðum.
Skeljaður (l) A. Búinn að skelja. B. Þakinn áföstum skelfiski. Þannig ásætur eru algengar á hvölum og, að sögn, einnig skeljaskrímslum sem sumir telja sig hafa séð á fjörum.
Skeljasandsbotn (n, kk) Sjávarbotn þakinn skeljasandi. „Botnrek er töluvert mikið á skeljasandsbotninum“.
Skeljasandsfjara (n, kvk) Fjara í skeljasandi. „Hvít skeljasandsfjara er með sjónum, frá Grundatöngum norður undir Blakk; um 2 km að lengd“ (IG; Sagt til vegar I).
Skeljasandslag (n, hk) Jarðvegslag af skeljasandi. „Allur neðri hluti Breiðavíkur.. er þakinn þykkur skeljasandslagi“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Skeljasandur (n, kk) Sandur sem myndaður er úr mulinni skel og skeljabrotum. Skeljasandur er í miklu magni á fjörum þar sem mikið er um skelfisk á grunnsævi framundan. Þannig er við utanverðan Breiðafjörð; sunnan og norðan, og á fjörum sunnanverðra Vestfjarða. Skeljasandur getur verið mismunandi að lit, eftir því hvar á fjörum hann er. Þannig er skeljasandur á Rauðasandi rauðleitur, enda mikið í honum af hörpudiski, en skeljasandur á Útvíkum og norðar er ljósleitur, vegna hins háa hlutfalls kræklings og öðu. Sýnir þetta betur en annað að sandurinn er að mestu myndaður af þeirri skel sem fyrir landi er. Myndunin er vafalítið með tvennu móti: Annarsvegar mylur brimið niður skeljar og hinsvegar étur steinbíturinn gríðarlegt magn af skel sem hann mylur með sterkum tönnum. Hefur menn greint á um það hvor orsakavaldurinn sé öflugri. Þriðja kenningin um uppruna hins mikla sands norðan Látrabjargs er sú að hann hafi borist þangað úr Breiðafirðinum. Vissulega er sjávarfallastraumur öflugur útmeð Bjarginu og Látraröstin eflaust fær um mikla efnisflutninga af því tagi. Hinsvegar er erfitt að skýra með þessu móti hið mikla sandmagn inni í fjörðum og hina miklu flokkun eftir tegundum, sem áður er getið.
Skeljasandsbreiður liggja á grunnsævi á þessum slóðum en rótast upp í fjöruna í brimi. Geta verið gríðarlegir flutningar á sandi eftir því úr hvaða átt brimar. Þannig getur mikið vestanbrim flutt sand upp á fjörur undir Hryggjum og í Vatnadalsbót á einni flæði, í því magni að á fjöru verði gengt þurrum fótum þar sem áður voru forvaðar; en skolað sandinum aftur út í næsta norðansjó; byggt upp sandrif suðureftir Grundagrjótum og myndað lón við útfall lækja.
Í gegnum tíðina hafa myndast mikil landflæmi af skeljasandi í víkunum. T.d. eru þykk lög af sandi neðantil í Kollsvíkinni allri; einkum sunnantil. Sandurinn hefur gróið upp í gegnum tíðina, en gróðurþekjan er viðkvæm á þurrum og næringarsnauðum sandinum. Því hefur sandfok og uppblástur hrjáð þessar jarðir svo langt sem heimildir greina; einkum á þeim tímum þegar mikið er um norðanrok; þurrt er löngum í tíð, og mikið beitarálag er. Blása þá upp stór melaskörð og sandskaflar berast upp á tún og suðuryfir hálendið. Í sandfokinu er ekki einungis sandur heldur einnig leir og salt. Verður mökkurinn svo mikill í miklu sandfoki að skyggni verður lítið sem ekkert. Sandmóstan sest vindmegin á alla hluti og er t.d. járn fljótt að tærast. Tæki og girðingar hafa því gjarnan minni endingartíma en annarsstaðar. Ekki hafa fundist mikil not fyrir sandinn, að öðru leyti en því að nýta hann til steinsteypu. Hinsvegar eru sandbalarnir hinn besti þurrkvöllur, og þar urðu hin ágætustu tún þó þau séu í eðli sínu áburðarfrek mjög. Í gegnum tíðina hafa bændur kakkað á þau skít og ræksnum, með þeim árangri að kominn er frjór jarðvegur á yfirborðið. Gömlu túnin á Láganúpi, Hólum og Grundatúni eru t.d. í gríðarlegri rækt enn (2017), þó ekki hafi þau fengið áburðarkorn í nokkra áratugi, en nýjar sandsléttur gróa ekki nema með miklum áburði.
„Jarðvegur á Láganúpi er byggður upp á skeljasandi og því ófrjór og áburðarfrekur. “ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Skeljaskrímsli (n, hk) Tegund sjóskrímsla. Þó vísindin eigi erfitt með að finna þessari dýrategund stað þá er viss rökfræði í þjóðtrúnni, hér sem víðar. T.d. er ekki ólíklegra að ásætur eins og skeljar festi sig við skrímsli sem skríður á land en hvali sem reglulega koma úr sjó. „Sýndist honum það vera þeirrar tegundar sem nefnd hefur verið skeljaskrímsli, en þau eru svo vaxin skeljum að skröltir í þegar þau hreyfa sig“.
Skeljatínsla (n, kvk) Hirðing skelja af fjörum. „Skeljatínsla til matar var alltaf einhver í Kollsvík. Tínd var lifandi og óskemmd skel sem barst á land áföst þönglum eftir mikið brim. Í r-lausum mánuðum er skelin talin eitruð og ekki tínd. Síðari tíma vísindi hafa staðfest að þá er meiri hætta á þörungaeitrun í henni“.
Skelkaður (l) Hræddur; skelfingu lostinn. „Ég varð bara dálítið skelkaður við að horfa á þig príla þetta“.
Skelkjast (s) Verða mjög hræddur/skelfdur. „Það er óþarfi að skelkjast þó gefi dálítið á hérna í röstinni“.
Skelkur (n, kk) Hræðsla; beygur. „Einhver skelkur var í honum að leggja í lásinn“. Sjá; skjóta skelk í bringu.
Skella (n, kvk) A. Blettur; flekkur. „Er þetta kind þarna heimantil við hvítu skelluna í klettunum“? „Um morguninn ég uppdagaði óttalega þraut;/ ég alsettur var heljarmiklum bólum./ Með þessar rosaskellur til Þóris læknis þaut,/ ég þreyttur var og linnti ekki gólum“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). B. Graslaus blettur í túni; hárlaus/litaður blettur á húð. C. Hávær stelpa; brussa.
Skella (s) Detta harkalega; hlunkast. „Láttu ekki eggjakútinn skella harkalega utaní í hífunginni“!
Skella af (orðtak) Skera af; stytta. „Það þyrfti að fara að skella aðeins af hárinu á mér“. „Við þurfum að skella af hornunum á hrútnum áður en þau gróa inn“. Sjá hornskella.
Skella aftur (orðtak) Loka t.d. hurð/loki. „Ekki skella svona aftur útihurðinni; þú getur brotið glerið“!
Skella á / Skella yfir (orðtak) Um veðurbreytingu; skúr/rigning/él/stormur/fárviðri eða annað fer að. „Mér sýnist hann vera að skella á með eitthvað úrhelli; við ættum að fara að koma okkur heim“. „Ekki vorum við komin langt þegar á okkur skall suðaustan bylur…“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Skella/smella í góm (orðtak) Mynda hvellt hljóð með því að loka góm með tungubroddi; mynda lofttæmi í munnholi og opna fyrir. Oft notað til að lýsa vanþóknun eða fyrirlitningu; eða sem tákn við stjórnun dýra.
Skella í sig (orðtak) Slangurmál yfir það að innbyrða/borða/drekka eitthvað. „Það er ekki tiltökumál þó eggið sé örlítið byrjað að unga; skelltu þessu bara í þig“!
Skella/slá (sér) á lær (orðtak) Slá á lærið á sér í undrun/hneykslun/kátínu eða til að undirstrika önnur geðbrigði.
Skella skollaeyrum við (orðtak) Hlusta ekki á; hundsa; þykjast ekki heyra. „Svona fer þegar menn skella skollaeyrum við aðvörunum þeirra sem reynsluna hafa“. Gæti annaðhvort vísað til þess að fjandinn varni mönnum þess að heyra mál annarra, eða þess að púki tekur einungis við skipunum síns húsbónda.
Skella skoltum (orðtak) Loka opnum munni í fljótheitum; bíta snöggt saman gómum/tönnum. „Allt í einu skellti hún skoltum á stykkið, og það undraði mig mest hvað hún náði stórum bita“ (IG; Æskuminningar).
Skella undir nára (orðtak) A. Berja fótastokkinn á hesti; hleypa hesti. B. Líkingamál; hlaupa af stað; fara af stað í flýti. „Hann sagði þeim að éta það sem úti frýs; skellti svo undir nára og fór heim í fússi“.
Skella uppúr (orðtak) A. Um róðrarlagá árabát; árinn kemur uppúr sjónum í átaki og skellur aftur í sjóinn. Slíkt getur t.d. hent þegar róið er í miklum veltingi og ekki er tekið nógu djúpt í árinni. B. Líkingamál; Fara að hlæja hátt; skrolla (hart l). „Mér varð það fyrst fyrir þegar þetta skeði að skella uppúr“.
Skella við skætingi (orðtak) Svara með meinlegum/rætnum athugasemdum/svörum; hreyta ónotum.
Skellibjart (l) Flennibjart; alveg/mjög bjart. „Hann hafði létt þokunni og var komið skellibjart sólskin“.
Skellibylur (n, kk) Kastvindur; kasthviða. Mjög snörp og hvöss vindhviða niður dalverpi eða vík í aflandsvindi. „Það liggur við að karlgarminum finnist það spennandi, eftir allt hans amstur og bardús, að eiga nú að upplifa einn af þessum frægu skellibyljum“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru). Orðið finnst ekki í orðabókum.
Skellihlátur (n, kk) Hár og dillandi hlátur. „Hann rak upp skellihlátur þegar hann heyrði þetta“.
Skellihlæja (s) Hlæja skellihlátri. „Ég þurfti að hafa mig allan við, til að fara ekki að skellihlæja“.
Skellihurð (n, kvk) Hurð sem dregst sjálf að stöfum vegna halla, draglóðs eða annarrar þvingunar.
Skellinaðra (n, kvk) A. Annað heiti á skröltormi; amerískri eiturslöngu. B. Gælunafn á litlu mótorhjóli.
Skelliskauti (n, kk) Um bát með keiparæði; sá keipur/skauti keiparæðis sem veit frá ræðara/ er aftar á bátnum. Á honum skellur árin þegar henni er sveiflað fram eftir áratogið. Einnig nefndur fyrirskauti.
Skellóttur (l) Með skellum/flekkjum. „Túnin voru ansi skellótt eftir kalið“.
Skelltur (l) Klipptur; stýfaður. „Útaf fyrir sig er í lagi þó netið sé skellt í sundur ef maður hefur lagt yfir; en það er ruddaskapur að skera í sjó og binda ekki saman“!
Skellur (n, kk) Smellur; dynkur; snöggur hávaði.
Skemmdarvargur (n, kk) Sá sem skemmir að gamni sínu/þarflausu. „Það þarf að ná þessum skemmdarvargi“.
Skemmta skrattanum (orðtak) Gera illt verra; valda úlfúð/ruglingi/málþófi/skaða. „Mér líka ekki þessi ummæli hans, en ég ætla ekki að fara að skemmta skrattanum með því að deila meira við hann“.
Skella skolleyrum við (orðtak) Um það sem sagt er, t.d. viðvaranir; taka ekki mark á; hlusta ekki á; láta sem vind um eyru þjóta. „Hann skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum og lagði af stað“. Skollur merkir svik eða vélráð, sbr „skolli“. Skolleyru eru því væntanlega eyru sem svíkja; þ.e. þykjast ekki heyra/ heyra ekki.
Skellihæja (s) Hlæja hátt og dátt. „Hann skellihló þegar ég sagði honum frá þessum mistökum“.
Skellóttur (l) Blettóttur; skjömbóttur. „Þakið er að verða dálítið skellótt, það fer að þurfa málningu bráðum“.
Skelmir (n, kk) Þrjótur; vargur; óþokki. „Haldiði ekki að bannsettur skelmirinn hafi stolið af mér hnífnum“!
Skelmislegur (l) Hrekkjalegur; prakkaralegur. „Ekki gekkst hann við þessu, en mér fannst hann grunsamlega skelmislegur á svipinn“.
Skeltekja (n, kvk) Afli af skel þegar hennar var aflað til beitu. „Svona gekk þetta æ ogfan í æ; að draga plóginn og tæma pokana, uns sæmileg skeltekja var fengin og þreyta og svefnleysi fór að sækja á mannskapinn“ (KJK; Kollsvíkurver; sjá kúskel).
Skelþorna / Skelþurr (s/l) Þornuð skán utaná en rakara inní. „Riklingurinn...var venjulega þurrkaður. Flökin hengd upp og látin skelþorna...“ (KJK; Kollsvíkurver).
Skelþunnur (l) A. Mjög þunnur; eins og skel að þykkt. „Fyrir alla muni farið ekki út á ísinn; hann er skelþunnur“! B. Líkingamál um þann sem er mjög heimskur eða með eftirköst áfengisdrykkju.
Skemill (n, kk) Lágt sæti; upphækkun til að hvíla færur meðan maður situr.
Skemma (n, kvk) Geymsluhús. Var oft eitt húsa í gömlu burstabæjunum, en hefur síðar haldið heiti sem sérstætt hús.
Skemma (s) Spilla; eyðileggja; valda skemmdum. „Farðu nú varlega með þetta til að skemma það ekki“!
Skemma fyrir (einhverjum) (orðtak) Spilla fyrir. „Hann skemmdi fyrir sér með þessum kjaftagangi“.
Skemmast (s) A. Um hlut; verða fyrir skemmdum. B. Um mann; kala; meiðast.
Skemmd (n, kvk) A. Skaði; tjón; það sem ónýtt er af stærri heild. Sjá til skemmda. B. Kal; ígerð.
Skemmdarfýsn (n, kvk) Vilji til að valda skemmdum. „Ég skil ekki svona skemmdarfýsn“.
Skemmdarstarfsemi (n, kvk) Eyðileggingarnáttúra; ribbaldaháttur; vandalaháttur; það að eyðileggja eitthvað viljandi. „Þetta er auðvitað skemmdarstarfsemi og ekkert annað“!
Skemmdarvargur (n, kk) Sá sem skemmir/ veldur skemmdum. „Selurinn er bölvaður skemmdarvargur í netunum“.
Skemmdarverk (n, hk) Skaði sem unninn er vísvitandi. „Þetta eru bara hrein og klár skemmdarverk“!
Skemmri skírn / Skemmriskírn (orðtak/n, kvk) A. Skírn barns af óvígðum manni. Í kaþólskri kristni fyrr á öldum var álitið mjög mikilvægt að allir yrðu skírðir fyrir andlátið til að einhver von væri til að þeir yrðu sáluhólpnir; einnig börn sem séð varð að myndu deyja fjótlega eftir fæðingu. Því varð hver fullorðinn maður að kunna faðirvor og trúarjátningu til að vera reiðubúinn að skíra skemmri skírn. Er kveðið á um það í kristinrétti hinum forna frá því kringum 1130. Konur máttu þó helst ekki skíra skemmri skírn, ef völ var á karlmanni til verksins. B. Líkingamál um verk sem vinna þarf í hasti, þó ekki verði það jafn vandað og vera skal; verk sem virðist flausturslega unnið. „Þeir voru búnir að mála húsið, en mér fannst vera óttaleg skemmriskírn á því“.
Skemmst er frá (því) að segja (orðtak) Til að gera langa sögu stutta; svo farið sé fljótt yfir sögu; í stuttu máli.
Skemmta (s) Veita skemmtun/gleði. „Hann skemmti þar með söng“. Einnig í þolmynd: „Mér var ekki skemmt þegar ég fékk þessi tíðindi“.
Skemmta sér (orðtak) Hafa gaman; gleðjast; hlakka. „Ég skemmti mér hið besta við að horfa uppá þetta“.
Skemmta skrattanum (orðtak) Um óreiðu eða tilgangslausan/skaðlegan verknað. „Ég held að það hafi nú ekkert uppá sig að bölsótast þó vélin fari ekki í gang; það er nú bara til að skemmta skrattanum“. Vísar til þess að þjóðtrúin segir að púkar og árar fagni mjög þegar illa gengur hjá mannfólki og blótsyrða er von. Segir í þjóðsögum JÁ að orðtakið eigi sérlega við það þegar tveir kveða; sína vísuna hvor.
Skemmtanahald (orðtak) Samkoma; mannfagnaður. „Það verður lítið af skemmtanahaldi í þessu veðri“.
Skemmtiefni (n, hk) Það sem verður manni til skemmtunar; gleðiefni; aðhlátursefni. „Mér fannst það ekkert skemmtiefni að fá svona fréttir“.
Skemmtilega (l) Á áhugaverðan/skemmtilegan hátt. „Pabbi las líka oft sögur fyrir okkur á kvöldin, þegar við vorum lítil. Hann las svo skemmtilega að það var ekki hægt annað en taka eftir hverju orði“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Skemmtiferð / Skemmtireisa (n, kvk) Ferð sem farin er til skemmtunar. „Eina skemtiferð hafa fjelagar (í Vestra) farið á sjó; út á Bjargtanga til þess að skoða Bjargtangavitann, og aðra inn að Vestur-Botni í Patreksfirði til þess að skoða skógarleifarnar og skemta sjer. Fjelagar í Von komu þangað líka sama dag. Sumarið 1926 gekkst Von fyrir skemtiferð í Skor. Þar var haldin guðsþjónusta undir beru lofti í Skorarvogi í rigningu og fyrirlestur um Eggert Ólafsson“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Skemmtiganga (n,kvk) Skemmtileg gönguferð. „Hann var drullulofthræddur og fannst það lítil skemmtiganga að þurfa að smala þessar hlíðar“.
Skemmtiheimsókn (n, kvk) Heimsókn í skemmtanaskyni; vinaheimsókn. „Það er nú lítil skemmtiheimsókn að fá þessa hrútafjanda innanað. Þeir verða bara að sækja sem eiga“!
Skemmtilega (ao) Með ánægjulegum/gleðilegum hætti. „Það vill svo skemmtilega til“.
Skemmtilegheit (n, hk, fto) Ánægjuefni; ástæða til að gleðjast. Oft notað í andstæðri merkingu: „Hann segist vera kominn með ælupest, niðurgang og önnur slík skemmtilegheit“.
Skemmtilegheit (n, hk, fto) Skemmtiefni; glens. „Það voru ýmis skemmtilegheit þarna á hátíðinni“. Einnig í kaldhæðinni merkingu: „Það verða líklega skemmtilegheit í netunum eftir norðangarðinn“!
Skemmtilesning / Skemmtilestur (n, kvk) Ánægjulegt lesefni/sendibréf/rit. „Ekki er það nein skemmtilesning sem skattstjórinn er að senda núna“!
Skemmtisamkoma (n, kvk) Samkoma fólks til skemmtunar. „Almennar skemmtisamkomur hafa verið fátíðar í fjelaginu; ein og eingin á vetri, og hefir húsleysi valdið því“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Skemmtisigling (n, kvk) Skemmtileg sigling/bátsferð. „Það verður engin skemmtisigling í röstinni þegar svona stendur á falli“.
Skemmtun (n, kvk) Gleði; ánægja. „Við gerðum okkur það til skemmtunar að sigla tunnubátum á Torfalæknum“.
Skenglast (s) A. Rölta; komast; drattast. „Það er nú ekki fyrir hvern sem er að fara Sveltisganginn, en einhvernvegin skenglaðist maður þetta“. „Er hann ekkert að skenglast á fætur ennþá“? B. Um skó; epjast; skekkjast undir ilinni. „Það er ómögulegt að vera í of stórum stígvélum í smalamennsu; þú verður fljótt sárfættur þegar þau skenglast í ósléttunni“.
Skenkja (s) Gefa; færa að gjöf. „Hann skenkti mér þessa forláta bók“.
Skens / Skensyrði / Skensvísa (n, hk) Grín; hæðni. „Hann er alltof montinn til að skilja svona skens“.
Skensa (s) Gera grín að; hæða. „Þeir eru ennþá að skensa hann fyrir þessa uppákomu á þorrablótinu“.
Skensinn (l) Hæðinn; gagnrýninn. „Það er ekki nóg að vera skensinn á annarra manna tillögur, ef maður hefur svo ekkert sjálfur fram að færa“!
Skepna (n, kvk) A. Dýr í víðtækustu merkingu. „Þetta tíðarfar bitnar bæði á mönnum og skepnum“. B. Búfé, sbr skepnuhald; skepnubúskapur. C. Vesalingur; aumkunarverð manneskja. „Maður liggur bara í sínum veikindum, eins og hver önnur skempna“. D. Örlög. Dregið af sögninni að skapa eins og fyrrnefndar merkingar, og vísar stundum til skaparans: „Það þarf ekkert að sjóða þessi kríuegg; maður étur þau bara eins og þau koma fyrir af skepnunni“. E. Fantur; ruddi; ótukt. „Óttaleg skepna getur hann verið“!
Skepnan líða meinlaus má, mannsins því hún geldur (orðatiltæki) Spekin virðist hafa verið þekkt í Rauðasandshreppi áðurfyrr, af því sem ráða má í grein í Lilju; blaði Ungmennafélagsins Smára í Örlygshöfn í jan 1938, er nefnist „Meðferð á dýrum“. Heyrðist þó ekki mikið síðar á þeirri öld.
Skepnuhald / Skepnubúskapur (n, kk) Búskapur með sauðfé og/eða stórgripi, til aðgreiningar frá t.d. garðyrkjubúskap og ferðaþjónustu; framgangur/velferð búfjár. „Í Rauðasandshreppi hefur frá örófi alda verið stundaður skepnubúskapur á hverri jörð, og sumsstaðar útræði að auki; allt framá 20. öld. Þá fóru að koma upp ýmsir aðrir atvinnuhættir“. „Skepnuhöld hafa verið góð, að undanskildu því að í haust og fyrri hluta vetrar gjörði bráðapest vart við sig með mesta móti“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1926).
Skepnufóður (n, hk) Fóður/matur fyrir skepnur. „Þetta rúgmjöl er varla nothæft í skepnufóður“!
Skepnuheldur (l) Garður, girðing eða annað hólf sem skepnur komast ekki gegnum. „Á kambinum er hlaðinn túngarður sem stendur sumstaðar mjög vel. ...Fyrir ofan þennan garð voru hlaðnir veggir um kartöflugarða sem seinna standa það vel að þeir væru enn skepnuheldir með litlum lagfæringum“ (SG; Rústir; Þjhd.Þjms). Orðið finnst ekki í orðabókum en er almennt notað um girðingar og fleira í Kollsvík.
Skepnuhirðing (n, kvk) Umönnun búfjár, t.d. gjafir, vötnun, mjaltir, skítmokstur o.fl. „Karlmenn komu ekki að skepnuhirðingu eftir að þeir fóru í Verið. Konur urðu að bæta þeim á sig, og vinna á túnum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Skepnuhús (n, hk) Hús sem búfénaður er hafður í; fjárhús/fjós o.fl. ásamt fóðurgeymslu/hlöðu.
Skepnuskapur (n, kk) Illkvittni; slæm meðferð. „Hann var alræmdur fyrir skepnuskap við sína leiguliða“.
Skepnutegund (n, kvk) Dýrategund. „Ekki veit ég hvaða skepnutegund þetta er, þarna í þaranum“.
Skeppa (n, kvk) Gömul mælieining á rúmmáli þurrvöru. Ein skeppa samsvaraði 17,4 lítrum; tvær skeppur voru fjórðungur (34,7 lítrar) og átta skeppur sama og ein tunna (139 lítrar). Kornvara var oft mæld í skeppum.
Skeptískur (l) Tortrygginn; gagnrýninn; efinn. „Ég er dálítið skeptískur á svona tiltektir““.
Sker (n, hk) Hlein; klettur eða klöpp sem fer á kaf í sjó á flæði en kemur uppúr um fjöru. Getur verið landfast um fjöru eða úti í sjó. Dæmi um sker eru Breiðasker og Straumsker. Undantekningar eru á reglunni, t.d. fer Nónsker í Skor aldrei á kaf á flæði. Ef skerið kemur ekki uppúr sjó nefnist það grynning eða boði. Þó eru undantekningar á því einnig, t.d. Arnarboði, sem kemur uppúr um fjöru. Ekki eru dæmi þess í Rauðasandshreppi að sker séu inni í landi, líkt og sumsstaðar annarsstaðar á landinu. Sjá flæðisker.
Sker/nístir í gegnum merg og bein / Sker í eyru (orðtak) Um óhljóð/ískur/gaul/væl; illbærilegt að hlusta á. „Hrafninn renndi sér niður þakið með ískri sem skar í gegnum merg og bein“.
Skera (s) A. Taka í sundur með hníf. B. Um búfé; slátra. „Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“ (PG; Veðmálið).
Skera að sér/ frá sér (orðtök) Beita hnífsegg að/frá þegar skorið/telgt er.
Skera af fóðrum/heyjum (orðtak) Slátra fé að vetrarlagi, þegar sýnt er að fóður dugir ekki framúr (til vors) að öðrum kosti. Var talið neyðarúrræði í búskap.
Skera á (orðtak) Skera sundur band/línu o.þ.h. „Við skárum á netið sem lá yfir okkar, og gengum frá endum“.
Skera (sig) frá (orðtak) A. Skera sig svo illa á hníf að maður geti ekki unnið. „Getur þú mætt í slátrun á morgun; það var einn að skera sig frá“? B. Skera bát frá landfestu/öðrum báti t.d. vegna slæms sjólags. „Við urðum að skera okkur frá þegar hvert ólagið eftir annað skall yfir“. „Hafði því hákarlinn verið skorinn frá aðlokum; en ekki fyrr en um seinan“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Skera fyrir (orðtak) Skera fyrstu hnífsbrögðin við flatningu fisks (sjá þar).
Skera handa skollanum (orðtak) Hjátrú/víti sem segir að ef maður sker matinn frá sér í stað þess að skera hann að sér þá sé maður að skera handa skollanum; þ.e. fóðra andskotann.
Skera hrúta (orðtak) Hrjóta í svefni. „Það þýðir ekkert að þræta fyrir það; þú varst grjótsofnaður og farinn að skera hrúta. Minna mátti nú heyra“!
Skera inn (orðtak) Skera hákarl sem settur hefur verið á tamp, og innbyrða það sem nýtilegt er, t.d. lifur. Miðstykki úr baki var annars látið ganga fyrir ef plásslítið var í bátnum.
Skera í ígerð/meinsemd (orðtak) Gera lítinn skurð í ígerð til að hleypa greftri út og sótthreinsa sárið.
Skera í sjó (orðtak) Skera í sundur net/línu sem lögð hefur verið yfir annað veiðarfæri af slysni/gáleysi, án þess að hnýta skornu endana saman aftur. Óskráð regla var að setja skornu endana aftur saman með góðum hnút, en í svekkelsinu var hún ekki alltaf virt. „Það þykir hinn mesti ruddaskapur að skera í sjó, enda kostar það tafir við að fara í hitt bólið og getur valdið auknum skemmdum á veiðarfærum“.
Skera niður (orðtak) A. Skera stykki í búta/sneiðar. „Skerður ekki meira niður af brauðinu en notað verður“. B. Slátra bústofni að mestu eða öllu leyti, t.d. til að fækka á fóðrum eða vegna faraldurs. „Það þurfti að skera niður hjá honum vegna riðuveiki“. C. Skera net eða stóra skepnu við borstokk og hleypa niður. „Netin voru svo kjaftfull af skít að á kafla urðum við að skera þau niður“. „Meðan mest verð var á hákarlalýsi kom lítið á land annað en lifrin; hákarlinn var skorinn niður við skipshlið úti á miðum“. D. Minnka; rýra. „Fjárveitingar til snjómoksturs voru verulega skornar niður þetta árið“.
Skera (eitthvað) niður við trog (orðtak) Farga einhverju algerlega; drepa eitthvað niður. Líking við slátrun sauðkindar, en þá er trogi brugðið undir strjúpann til að hirða blóðið, eftir að hálsæðar eru skornar.
Skera ofanaf (orðtak) Rista torf af jörð; skera þúfur/þúfnakolla til að slétta land, t.d. við túnagerð.
Skera sig úr (orðtak) Vera öðruvísi en fjöldinn; vera áberandi. „Mér finnst þessi alveg skera sig úr“.
Skera til (orðtak) Sníða til; laga eitthvað, t.d. gæru eða skinn, með því að skera skækla af.
Skera undan (orðtak) Um siglingu báts; missa stýri; missa sjó; þegar kjölur báts lyftist að hluta upp úr sjó í öldugangi. „Stundum reis skip svo hátt í sjónum að það var hálft á lofti að aftan og við það missti stýrið sjó. Var þá sagt að skæri undan. En þá stýrðist ekki og skipið rann við og átti á hættu að taka sjó“ (LK; Ísl. sjávarh. III; eftir ÓETh).
Skera upp (orðtak) A. Gera skurðaðgerð. B. Hirða uppskeru, t.d. af korni. „Það uppsker hver sem hann sáir“. C. Búta hákarl niður í lykkjur.
Skera upp herör (orðtak) Notað nútildags um það að efna til átaks gegn einhverju málefni. Orðtakið vísar til ævaforns siðar sem viðhafður var til þess m.a. að kalla saman herlið til orrustu og efna til hreppsfunda. Var þá skorið boð um það á legg örvar eða eftirlíkingar af ör, og það boðsent bæ frá bæ; rétta boðleið, um byggðarlagið. Um boðsendinguna giltu afar strangar reglur sem tryggðu að boðið var fljótt í förum. Vitað er að Hákon Aðalsteinsfóstri endurbætti þessar reglur kringum 950. Síðar tóku þingboðsaxir og þingboðskrossar við hlutverki örvanna. Um axarboð giltu m.a. reglur í Grágás og síðar Jónsbók. Sjá nánar; boðleið. Sjá örvarboð.
Skera uppúr (orðtak) A. Rista fyrir þegar kindarskrokkur er fleginn. Einkanlega átt við fyrirristu á kvið. B. Skipta eftir hrygg; skera ullarreyfi á kind eftir hryggnum, þannig að hægara sé að taka af henni. C. Skera á milli blaða í nýútkominni bók. Bækur eru prentaðar í örkum,og fyrrum voru þær gefnar út þannig að lesandi þurfti að byrja á að skera milli blaða að framan og ofan. Nú er þetta skorið í vél fyrir útgáfu. D. Kveða upp úrskurð; taka ákvörðun í deilumáli. „Um þetta var þrætt, þangað til réttarstjóri skar uppúr með það að hrúturinn yrði boðinn upp“.
Skera úr (orðtak) A. Kveða upp úrskurð/dóm í máli; ákveða; ákvarða. B. Skera úr skel (sjá þar).
Skera úr skel / Skelja úr (orðtök) A. Skera skelfisk úr kúskel til að nýta hann í beitu. Meðan legið var yfir línu var skorið úr skel og beita brytjuð... (KJK; Kollsvíkurver; kúfiskur). „Var það aðgengilegra fyrir þann sem beitti ef búið var að skelja úr, og skera beitu þegar þeir komu af sjónum“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). B. Skera kjaftbein úr steinbítshaus. „Þegar hausinn var orðinn hálfþurr var kjaftbeinið stundum alveg losað frá; kallað að skera úr“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Skera úr hryggjum (orðtak) Skera sundmaga innanúr þorskhryggjum (sjá sundmagi).
Skera út (orðtak) Skera myndir/listaverk í tré. Í Kollsvík hafa búið margir oddhagir menn og listakonur. Af síðari tíma fólki má nefna listakonuna Sigríði Guðbjartsdóttur á Láganúpi.
Skerast vel/illa (orðtak) Um það hvort sláturdilkar eru vænni eða rýrari en búist var við meðan þeir voru á fæti. „Þú varst að slátra; og hvernig skarst hjá þér“?
Skera við nögl (orðtak) Skammta naumt; vera spar á. „Hann var kominn í stakkin; tók upp rjólstubbinn; brá honum undir jaxla og klippti af. Hún var ekki skorin við nögl þessi“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Skera (niður) við trog (orðtak) Slátra; skera stórlega niður; eyðileggja. „Fjárveitingar í þessa vegi hafa verið skornar niður við trog á síðari árum“. Þegar skepnu er slátrað er blóðinu safnað í trog, til sláturgerðar.
Skerast (s) A. Ganga inní. „Gjárdalur skerst inní brún Blakksins að norðanverðu“. B. Um búfé; slátrast. „ Hann taldi að vel hefði skorist hjá sér þetta haustið“.
Skerast í leikinn (orðtak) Skipta sér af. „Skríllinn var orðinn of galsafenginn svo lögreglan skarst í leikinn“.
Skerast í lið með (orðtak) Veita liðsinni; aðstoða; ganga til liðs við. „Ég skarst í lið með þeim við innreksturinn“.
Skerast í odda með (orðtak) Koma til bardaga/átaka á milli. „Á fundinum skarst nokkuð í odda með þeim sem voru með og á móti“. Vísar til orrustu; þegar lið mætast skarast oddar á vopnum.
Skerast úr leik (orðtak) Hætta þátttöku; vera ekki með. „Ætli ég verði ekki að skerast úr leik að þessu sinni“.
Skerða (s) Skera; skera/hluta af; minnka. Upprunalega hefur sögnin þýtt að skera, sbr ráskerðingur, sem er fiskur sem hengdur er upp til herslu. Í hann hefur upprunalega verið skorin þuma til festingar.
Skerðing (n, kvk) A. Það að skerða. B. Skora; skarð.
Skerðast um (orðtak) Sneiðast um; skorta; verða lítið um. „Það fer bráðum að skerðast um brauðamat“.
Skerfur (n, kk) Skiptahlutur; hluti; framlag. „Hann hefur nú fengið sinn skerf af mótlætinu blessaður“.
Skeri (n, kk) A. Fjörumaðkur; liðormur í sjó, með húðtotur og kítínbursta á hliðum. „Þorskurinn reyndist stútfullur af skera“. B. Torfljár; þökuskeri; ristuspaði; plógblað „Mér sýnist þetta vera blað af skera“.
Skerjabálkur / Skerjafláki / Skerjaflös (n, kk) Mörg samliggjandi sker; samliggjandi hleinar. „Að norðanverðu er skerjabálkur sem kallast Bjarnarklakkar“ (HÖ; Fjaran). „Undan Hænuvíkurnúpnum innanhallt er mikil skerjaflös sem getur verið varasöm þegar siglt er grunnt með landi um hálffallið“.
Skerjótt (l) Mikið um sker. „Undan Hreggnesanum er skerjótt og varasöm grunnleið“.
Skermsl (n, hk) Hrúður yfir sár. „Það er hætt að blæða og fljótlega kemur eitthvað skermsl yfir sárið“.
Skerpa (n, kvk) A. Töggur; viðbragðsflýtir; kraftur til vinnu, hlaupa og gangs; glöggskyggni í hugsun. „Það er enn fjandi mikil skerpa í gamla manninum, þegar hann þarf að smala kindum“. B. Mikill og skarpur þurrkur; skerpuþurrkur.
Skerpa (s) Brýna; gera skarpari/beittari.
Skerpa á (orðtak) A. Hnykkja á: „Hér gæti þurft að skerpa á reglum“. B. Hita: „Ég ætla að skerpa á kaffinu“. „Venjulega var tekið mað lítið eitt af kolum, sem þótti gott að geta gripið til ef sérlega þurfti að skerpa lítillega á eldi“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Skerpa bróðurkærleikann/kærleikann (orðtak) Oftast notað um það þegar tveir vinir eða skyldir rífast eða slást, og er því nokkurskonar kaldhæðni. „Það mátti heyra það um öll miðin þegar þeir fóru að skerpa bróðurkærleikann, og það skeði ekki ósjaldan“.
Skerpa undir (orðtak) Um eldun/hitun; auka hita undir. „Ég ætla að skerpa undir vatninu; svo hellum við okkur uppá kaffi“. „Ketsúpan er mikið betri eftir að búið er að skerpa undir henni í annað sinn“.
Skerpiket (n, hk) Þurrkað ket að hætti Færeyinga. Skerpiket er nokkurskonar þjóðarréttur Færeyinga og á sér meira en þúsund ára hefð.
Skerpiþjöl (n, kvk) Þjöl til að skerpa sagartennur; þrístrendingsþjöl. „Þessi þjöl er nú varla orðin nokkur skerpiþjöl lengur; hún er orðin svo lúin“.
Skerpla (n, kvk) Annar mánuður sumars samkvæmt fornu tímatali. Hefst laugardaginn í 5.viku sumars; 19.-25.maí. Nafnskýring ekki viss. Nefnd eggtíð og stekktíð í Snorra Eddu.
Skerpuróður (n, kk) Skarpur róður; hraður/ákafur róður. Notað þannig í Kollsvík, en annarsstaðar á landinu mun hafa tíðkast skerpingsróður eða að róa í skerpingi.
Skerpusólskin / Skerpuþurrkur (n, kk) Mjög góður þurrkur, þannig að hey þornar mjög fljótt (skarpt). „Fjandi verður heitt í bjarginu í þessu skerpusólskini“. „Það verður líkastil framhald á þessum skerpuþurrki á morgun; eftir spánni“. Annarsstaðar mun hafa þekkst „skerpiþurrkur“.
Skerpusprettur (n, kk) Hraður sprettur; hratt en tiltölulega stutt hlaup. „Þetta var skerpusprettur, en ég hafði kvikindið að lokum“!
Skerstokkur (n, kk) Stuttur stokkur með raufum í hliðum, sem notaður er til að saga sundur efni af nákvæmni.
Skessa (n, kvk) Óvættur úr þjóðtrú; tröllkona; flagð. Grýla og Gilitrutt voru nafntogaðar skessur.
Skessuketill (n, kk) A. Ketill sem þjóðtrúin segir skessur nota, m.a. til að sjóða í þeim mannfólk. B. Náttúrufyrirbæri sem finnst þar sem harður straumur vatns eða sjávarbrims þeytir steinum til á sama bletti og holar með því bergið í brunn. Víða má sjá skessukatla á hleinum, m.a. í Kollsvík og nágrenni.
Skessuleikur (n, kk) Leikur barna. Hann fer í stórum dráttum þannig fram að eitt barn í hópi er skessan, og situr hún í ímynduðum helli sínum. Hin börnin koma á landið hennar og tína ber. Segja gjarnan eitthvað á þessa leið; „tína ber í skessulandi; skessa er ekki heima“. Þegar skessan sér barn í færi stekkur hún upp og reynir að fanga það. Takist það verður hinn sami skessan.
Skeyta (s) A. Tengja/festa saman; setja skeyti/borð í bát. B. Skipta sér af; taka eftir. „Ég kallaði á hann en hann skeytti lítið um það“.
Skeyta að sköpuðu (orðtak) Laga sig að því sem er; gera það sem aðstæður gefa tilefni til. Skeyta merkir að fella að, og merkingin er sú að fella sig að þeim aðstæðum sem skapast hafa. Einnig; láta skeika að sköpuðu.
Skeyta engu/öngvu (orðtak) Hirða ekki um; hlýða ekki; hafa ekki áhyggjur af. „Hann skeytti því öngvu þó blóðið lagaði úr sárinu, heldur dró netið inn í kappi. Enda mátti engan tíma missa svo bátinn ræki ekki upp“.
Skeyta saman (orðtak) Tengja/festa saman.
Skeyta skapi sínu á (orðtak) Láta skapvonsku bitna á. „Tuddinn var kominn í ham og skeytti skapi sínu óspart á moldarbarðinu“.
Skeyta um (orðtak) Skipta sér af; hirða um
Skeytasendingar (n, kvk, fto) A. Um orrustu; örvahríð; örvar/kastspjót sem skotið er gegn óvini. B. Líkingamál; köpuryrði/skammir/aðfinnslur/níð sem sent er milli manna, annaðhvort einhliða eða gagnkvæmt. Stundum í bundnu máli. „Ég kæri mig ekkert um svona skeytasendingar frá honum“! C. Líkingamál; sending símskeyta um fjarskiptanet/símalínu; sending smáskilaboða/SMS.
Skeyti (í báti) (n, hk) A. Borð í báti. „Þegar fór að batna tíð var farið að huga að bátunum, en þeir voru á hvolfi frá því um haustið. Það þurfti að bika þá innan og mála utan, og ef til vill skipta um eitt eða tvö skeyti; gera við band eða bunkastokk og setja niður vélina “ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). B. Spjót, ör eða annað kastvopn. Síðar yfirfært á eldflaugar/flugskeyti. C. Símskeyti; símpóstur; smáskilaboð/SMS. D. Viðbót; viðskeyti við eitthvað, t.d. orð.
Skeyting (n, kvk) A. Samskeyti; samsetning. B. Hirðusemi; umhyggja.
Skeytingarlaus (l) Hirðulaus; kærulaus; áhugalaus. „Hann virðist alveg skeytingarlaus um þetta“.
Skeytingarleysi (n, hk) Hirðuleysi; áhugaleysi; kæruleysi.
Skeytingarlítill (l) Kærulaus; áhugalaus. „Óttalega finnst mér þú vera skeytingarlítill um námið“.
Skifta / Skiftast (s) Skipta / skiptast. Í eldri skjölum Kollsvíkinga (fyrir ca 1950) er rithátturinn með f en ekki p eins og annarsstaðar var og nú er viðtekið. „Arður sem verða kann af rekstrinum skiftist árlega á hluthafa eftir hlutafjárupphæð þeirra“ (Samþykktir fyrir Jarðræktarverkefni Kollsvíkinga, 1945).
Skiki (n, kk) Lítið svæði; hluti svæðis. „Það tekur því varða að slá þennan skika þegar nóg er annað“.
Skikk / Skikkan (n, hk/kvk) Regla; skipulag; siður; háttur. „Hann sá til þess að skikk var á hlutunum“. „Ætli það verði ekki að reyna að koma einhverri skikkan á þetta“. Koma skikki/skikkan á; með skikk og spekt.
Skikka til (orðtak) Skipa að gera; fyrirskipa. „Bændur voru skikkaðir til að flytja smjörið til bæja og svo bauð sýsli allt saman upp. Geri aðrir betur í húsbóndahollustu!“ (SG; Handverk og smíði; Þjhd.Þjms).
Skikkanlega (ao) Sæmilega; þolanlega. „Mér líður skikkanlega núna“.
Skikkanlegheit (n, hk, fto) „Rólegheit; gott lag; kurteisi; heiðarleiki. „Ég leit aðeins inn í fjárhúsin og þar var allt með skikkanlegheitum; engin virtist í tilferð með að bera“.
Skikkanlegheit (n, hk, fto) Reglusemi; rósemi; regla; kyrrð. „Það virtist allt með skikkanlegheitum í fjárhúsunum, og engin í tilferð með að bera“.
Skikkanlegheita (ao) Góður; rólegur; skynsamur. „Það er komið skikkanlegheita veður“.
Skikkanlegt (l) Sæmilegt; hóflegt. „Veðrið er nú skikkanlegt ennþá, en hann verður fljótur að breyta, trúi ég“. „Ég er nú með skikkanlegra móti en í gær, en hóstinn er ekki góður enn“.
Skikkast til (orðtak) Um veður/sjólag; lagast; batna; lygna. „Eitthvað sýnist mér þetta vera að skikkast aðeins til. Ég ætla allavegana að fara að hleypa fénu í vatn“.
Skikkelsi / Skikkur (n, hk) Regla; ró. „Það þarf að koma einhverju skikki á þessi mál“. „Er ekki allt í skikkelsi hér“?
Skikkelsisfólk / Skikkelsisgrey / Skikkelsisnáungi / Skikkelsismanneskja / Skikkelsispiltur / Skikkelsisskepna (n, hk/kk/kvk) Orð sem höfð eru til að lýsa mönnum og skepnum sem eru friðsöm/vingjarnleg/ ekki óstýrilát. „Strákurinn er mesta skikkelsisgrey“. „Mér fannst þetta bara skikkelsisnáungi“. „Þetta er mesta skikkelsisskepna“.
Skikkja (n, kvk) Möttull; ermalaus yfirhöfn sem fest er saman á brjósti.
Skikkun (n, kvk) Skipun; fyrirmæli. „Ég tek ekki við neinni skikkun af hans hendi“!
Skikkunarbréf (n, hk) Skipunarbréf, t.d. í embætti; bréf með fyrirmælum.
Skikkunarvald (n, hk) Vald til að gefa fyrirskipanir; vald til skipunar í stöðu/embætti.
Skil (n, kvk, fto) A. Aðgreining; skipting; landamörk; takmörk. „Um Ívarsegg liggja skilin milli Láganúps- og Breiðavíkurjarða“. Sjá ekki handa sinna skil. B. Greining þekkingaratriða. „Ég kann engin skil á þessu“. C. Greinargerð; reikningsskil; skilvísi. „Hann er í skilum með lánið“. „Hann greiddi þetta allt með skilum“. „Óskilafé ber að færa á skilarétt“. D. Bil milli þráða í vefstól.
Skila (s) Gera skil; greiða/láta til baka. „Ég skilaði þeirri vöru sem gölluð var“. B. Koma boðum áleiðis. „Skilaðu kveðju til allra“. C. Komast áfram í ætlaða stefnu. „Okkur skilaði fremur hægt áfram“.
Skila af sér (orðtak) Koma því til skila sem til stóð; losa sig við sendingu til vitakanda.
Skila nestinu (orðtak) Um sjóveiki; leggjast útá borðstokkinn og æla; leggja lóðir; kalla í Eyjólf. „Ætlarðu að skila öllu nestinu drengur“?
Skila sér (orðtak) Koma til baka. „Þaðan skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk“ (PG; Veðmálið).
Skila sér til sama lands (orðtak) Fara aftur á þann stað sem maður var á; snúa aftur heim. „Þetta var indælis heimsókn, en ætli maður fari ekki að skila sér til sama lands hvað úr hverju“. Líking við það að bátur snúi til vers úr róðri. Mikið notað af Kollsvíkingum.
Skilaboð (n, hk, fto) Boð sem send eru gegnum þriðja aðila. Vísar e.t.v. upphaflega til axarboðs, sjá boðleið.
Skiladagur (n, kk) Dagur þegar gera skal skil; greiðsludagur; gjalddagi.
Skilamaður (n, kk) Sá sem stendur í skilum/ greiðir á réttum tíma það sem honum ber.
Skilarétt – Aðalrétt – Aukarétt (n, kvk) Lögrétt; fjárrétt sem yfirvöld ákveða að skuli vera opinber miðstöð fjallskila. „Breiðavíkurrétt var skilarétt fyrir utanverðan Rauðasandshrepp; það er Örlygshöfn, Hænuvík, Útvíkur og Keflavík“ (PG; Veðmálið). Síðar var Breiðavíkurrétt skilgreind sem aukarétt: „Skilaréttir í hreppum sýslunnar skulu vara á þeim stöðum sem hér segir... Rauðasandshreppur: Aðalrétt á Rauðasandi; aukaréttir í Breiðuvík og Vesturbotni“ (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).
Skilasamur (l) Skilvís; reglusamur með skil/uppgjör/greiðslu. „Hann er mjög skilasamur“
Skilasemi (n, kvk) Skilvísi; reglusemi með skil/uppgjör/greiðslu. „Það má alltaf treysta hans skilasemi“.
Skildagi (n, kk) Ákveðin tímasetning sem skil eru miðuð við; skiladagur. Venjulega er átt við vinnuhjúaskildaga, sem var 14. maí, en þá hafði vinnufólk vistaskipti. Eða eldaskildaga; 10.maí, en þá skyldi skila fé úr vetrareldi; t.d. prestlömbum og því sem alið var fyrir landsdrottinn.
Skildi þar milli feigs og ófeigs (orðatiltæki) Þar slapp sá sem líf var ætlað en hinn fórst sem það var ætlað. Máltækið vísar til forlagatrúar; að mönnum séu sköpuð örlög og þar með dánardægur. Sá er feigur sem kominn er að sínum dánardegi. Máltækið er viðhaft þegar þegar einhver er hætt kominn en lifir af.
Skildingsvirði (n, hk) Verðgildi sem svarar einum skildingi, sem var verðlítil mynt. Venjulega notað í neikvæðri merkingu; að eitthvað sé „ekki skildingsvirði“, þegar gert er lítið úr verðmæti þess.
Skildingur (n, kk) A. Verðlítil mynt, sem um tíma tíðkaðist í Danaveldi og var 1/96 úr ríkisdal. B. Ensk mynt; shilling; 1/20 úr pundi. Nú aflögð, líkt og skildingar í Skandinavíu, Írlandi, Bretlandi og Austurríki.. D. Ríki þar sem skildingar eru í gildi (2017) eru Kenýa; Sómalía, Tansanía og Úganda.
Skilgetinn (l) A. Fæddur í hjónabandi. Fyrrum hafði slíkt meiri þýðingu en nú til dags. B. Líkingamál; talað er um að eitthvað, t.d. málefni, sé „skilgetið afkvæmi“ einhvers annars, þegar það hefur greinileg tengsl við það.
Skilgreina (s) Lýsa með rökstuðningi og í smáatriðum; útlista. „Það er erfitt að skilgreina þetta til fulls“.
Skilgreining (n, kvk) Greind lýsing; flokkun með rökstuðningi; útlistun.
Skilirí (n, hk) Málverk; veggskjöldur. „Þar hangir þetta forláta skilirí eftir Kjarval uppi á vegg“.
Skilja (n, kvk) A. Milligerð í bát, til að afli renni ekki á milli rúma. B. Tæki til aðgreiningar á einhverju, t.d. hrognaskilja sem skilur himnur frá hrognum.
Skilja (s) A. Sýna skilning; botna í. B. Vinna úr mjólk; skilja hana í rjóma og undanrennu. „Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í mat. Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). C. Um hjón slíta hjónabandi/samvistum.
Skilja að borði og sæng / Skilja að lögum (orðtak) Við skilnað að borði og sæng er slitið hjónabandi að hluta; þ.e. hjón eru ekki samvistum en þó enn lögformlega gift. Við skilnað að borði og sæng fellur niður ýmis réttur, t.d. sameiginleg fjárhagsábyrgð og erfðaréttur. Við skilnað að lögum; lögskilnað, er hjónabandi slitið.
Skilja að skiptum (orðtak) Slíta vinskap. Hefur líklega í upphafi merkt að hætta í róðrum, víkingaferðum eða öðrum sameiginlegum aflaferðum, þar sem hópurinn skiptir fengnum. Er nú notað um slit á hverskonar sambandi eða kunningsskap. Sjá skipti.
Skilja eftir í lausu lofti (orðtak) Um málefni; hafa óákveðið/ganga ekki frá ákvörðunum. „Segja má að þessi mál hafi verið skilin eftir í lausu lofti“.
Skilja ekki baun / Skilja ekki neitt í neinu (orðtak) Skilja hvorki upp né niður; átta sig alls ekki á. „Ég skildi ekki neitt í neinu þegar ég kom á staðinn; þar voru hvorki kindur né smalar“.
Skilja fyrr en skellur í tönnum (orðtak) Skilja fljótt hvernig í málum liggur; átta sig snarlega. Vísar til þess að átta sig áður en óvættur/vargur nær að bíta.
Skilja hrogn (orðtak) Skilja hrogn frá himnum og öðru sem ekki er söluvara. Meðan það var gert með handafli í hrognasigti var talað um að sigta hrognin, en síðar voru þau skilin í véldrifinni hrognaskilju.
Skilja hvernig í málinu liggur / Skilja hvernig landið liggur (orðtök) Átta sig á máli/samhengi. „Eftir þetta samtal skildi ég betur hvernig í málinu liggur“. „Við skulum byrja á að skoða hvernig landið liggur“.
Skilja í (orðtak) Botna í; átta sig á; skilja. „Ekki skil ég í þessari árans vitleysu í honum“!
Skilja/vita hvorki upp né niður (orðtak) Átta sig alls ekki á; botna ekki í. „Ég skil hvorki upp né niður í öllu þessu bulli“!
Skilja kjarnann frá hisminu (orðtak) Greina það í mæltu/skrifuðu máli sem mikilvægt er.
Skilja leiðir (orðtak) Um tvo/hóp á ferðalagi; fer hver/hvor sína leið; skiptast upp. „Þegar við komum út á Strympur skildu leiðir: Ég hélt áfram upp Vörðubrekku til að smala Sanddalinn,Flosadalinn og Hjallana, en pabbi hélt út í Breiðshlíðina til að smala Fjarðarhornið og Sandhólana“.
Skilja á milli (orðtak) A. Greina í sundur; aðgreina. B. Skilja nýbura frá móður með því að klippa/slíta naflastrenginn.
Skilja má fyrr en skellur í tönnum / Skilst fyrr en í tönnum skellur (orðatiltæki) Unnt er að skilja fyrr en brestur á. Vísar til þess að rándýr gefa oft frá sér viðvörun/urr áður en þau leggja til atlögu.
Skilja milli lífs og dauða (orðtak) Um það sem er lífshættulegt og ræður því hvort maður lifir eða deyr; notað bæði um atvik og hluti. „Skildi þar milli lífs og dauða að þeir komust af sem höfðu orku og fimi til að stökkva af lunningunni upp á hleinina; hinir hurfu í brimið“. „Það getur skilið milli lífs og dauða fyrir sigarann, að vel sé hreinsuð brúnin“.
Skilja mjólk (orðtak) Aðskilja rjóma frá undanrennu. Var gert áður með því að láta standa um tíma í trogum og hella síðan undan, en síðar með skilvindum.
Skilja sneiðina (orðtak) Skilja aðfinnslur/háð þó ekki sé sagt berum orðum.
Skilja undan (orðtak) Undanskilja; halda eftir; taka ekki með.
Skilja úr/frá (orðtak) Vinsa frá/úr; aðskilja. „Við skulum reyna að skilja Breiðavíkurkindurnar úr okkar fé“.
Skilja við (orðtak) A. Fara frá. „Það er ekki hægt að skilja við verkið svona hálfklárað“! B. Slíta hjónabandi. „Hún er víst skilin við karlinn fyrir löngu“. C. Andast; deyja; sálast. „Þá er hann skilinn við, blessaður“.
Skiljanlegt (orðtak) Sem unnt er að skilja. „Ég gerði honum það skiljanlegt að ég kærði mig ekkert um þetta“.
Skiljast við (orðtak) Skilja sig frá; skilja við sig. „Mér hefur alltaf gengið illa að skiljast við heimaslóðirnar“.
Skilkarl (n, kk) Það tæki í skilvindu sem skilur rjóma frá undanrennu mjólkurinnar.
Skilmáli (n, kk) Skilyrði. „Hann taldi sig hafa uppfyllt alla skilmála samningsins“. „Gummi hafði þegar sett fram hluta af skilmálunum og bætti nú við…“ (PG; Veðmálið).
Skilmerkilega (ao) Vel;greinilega; með skilum. „Hann gerði skilmerkilega grein fyrir sínum ferðum“.
Skilmerkilegur (l) Greinilegur; skýr. „Ég taldi mig hafa sagt honum þetta skýrt og skilmerkilega“.
Skilnaðarstund (n, kvk) Kveðjustund; stund þegar einhver fer/ einhverjir skiljast að.
Skilnaður (n, kk) A. Almennt það að skiljast að. B. Slit hjúskapar hjóna.
Skilningarvit (n, hk, fto) Skynfæri, s.s. eyru,augu, nef, munnur og húð. Einnig glöggskyggni/dómgreind sem þarf til að greina/skilja það sem skilningarvitin nema.
Skilningslaus / Skilningssljór (l) Skilur ekki; tregur; lokaður. „Hann reyndist alveg skilningslaus í þessu máli“. „Skelfing geturðu verið skilningssljór“!
Skilningsleysi (n, hk) Skortur á skilningi; sljóleiki.
Skilningssljór (l) Tregur; lokaður; gengur illa að skilja. „Skelfilega geturðu nú verið skilningssljór“!
Skilningur (n, kk) Það að skilja; greining og rökleiðsla þess sem skynjað er.
Skilorð (n, hk) A. Skilyrði; forsenda. „Hann fékk þetta lánað með því skilorði að hann færi vel með það“. Þannig var orðið einkum notað vestra. B. Í almennu máli; skilyrði fyrir lausagöngu fanga.
Skilrúm / Skilveggur (n, hk) Milligerð; milliveggur.
Skilsmunur á (orðtak) Munur; stigsmunur. „Þeir eru svipaðir, en þó er sá skilsmunur á að annar er hyrndur“.
Skilveggur (n, kk) Innveggur; milliveggur. „Skilveggur var í réttinni, og sláturlömbin sett þar innfyrir“.
Skilvinda (n, kvk) Tæki til að skilja að rjóma og undanrennu úr mjólk. Skilvinda var á flestum bæjum með kúabú á síðari hluta 20. aldar. Allar voru þær handknúnar. Mjólkinni var hellt í stóra skál ofaná skilvindunni. Byrjað var að snúa skilvindunni og hraðinn aukinn upp í 18-20 sn á mínútu á sveifinni, sem svo var mjög gírað upp inni í vélinni. Bjalla í handfanginu lét vita ef hæfilegri ferð var náð, en mikilvægt var að halda jöfnum hraða. Þá var opnað fyrir botnloka skálarinnar; mjólkin rann niður yfir skilkarlinn sem þar snerist undir; þar skildist hún á mörgum diskum; rjómi rann úr pípu öðrumegin og undanrenna hinumegin; hvort í stitt ílát. Á eftir var skilvindan tekin sundur og þvegin vandlega. Rjómagerð heimavið leið að mestu undir lok eftir að rjómi varð fáanlegur frá mjólkurbúum.
Skilvindukarl (n, kk) Sá hluti skilvindu sem í raun skilur rjóma mjólkurinnar frá undanrennunni. Hylki með mörgum kónískum skífum sem snúast á miklum hraða. Þegar mjólkin lendir á blöðunum þeytist þungri hluti hennar; undanrennan, lengra frá, meðan rjóminn, sem er léttari, se st nær miðju, og rennur sitt útum hvora rás.
Skilvindusónn / Skilvindusöngur (n, n, kk) Hátóna kliður sem heyrist í skilvindu þegar hún snýst á fullum hraða. Söngurinn kemur bæði frá gírhjólum skilvindunnar og skilvindukarlinum, sem snýst með gríðarlegum hraða. Eftir að hætt er að snúa sveifinni er söngurinn nokkurn tíma að deyja út.
Skilvís (l) Skilasamur; skilar/greiðir á réttum tíma; unnt að treysta.
Skilvísi (n, kvk) Skilasemi; skil/greiðsla á réttum tíma. „Það má alltaf treysta hans skilvísi“.
Skilvíslega (ao) Með skilum; eins og um var samið. „Hann greiðir sína skatta skilvíslega“.
Skilyrði (n, hk) Skilorð; forsenda. „Hann leyfði eggjatökuna með því skilyrði að fá landshlutinn heim“.
Skilyrðislaust (l) Án skilyrða; fortakslaust. „Þeirþurfa skilyrðislaust að hefla veginn með vorinu“! „Ég lofa því skilyrðislaust“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Skima (s) A. Skyggnast um í kringum sig; grína; litast um. B. Um siglingu báts; rása; vera ekki stefnufastur. „Ef skip þótti skima mikið; vera óstöðugt í rásinni var það kallað að elta lambær...“ (LK; Ísl. sjávarh. ÓETh).
Skima eftir (orðtak) Leita/gá að; leita/kíkja eftir. „Ég fór upp á hæðina og skimaði eftir kindunum“.
Skimpast (s) Hæðast; grínast. Heyrðist nær aldrei í rauðasandshreppi; heldur var þar notað „skippast“; sjá þar.
Skin (n, hk) Birta; geislar. Sjaldan notað nema með forskeyti; sólskin; tunglskin.
Skinhelgi (n, kvk) Hræsni; helgislepja; yfirborðskennd/blekkjandi trú. „Mér finnst það bölvuð skinhelgi að pína sig til kirkju ef maður hefur engan áhuga á því sem þar fer fram“. Orðið er líklega gamalt; jafnvel frá ásatrú eða náttúruvættatrú, og vísar líklega til þess að einhver reyni að lýsa því yfir, til að auka völd sín, að náttúruvætti eða goð undir hans yfirráðum sé heilagt. Ef almenningur festir ekki trúnað á því er það einungis skinheilagt; þ.e. það er þarna í skini sólar, en enginn trúir á það. Væri á það trúað var það ginheilagt.
Skinhoraður (l) Mjög grannholda/horaður/magur. „Ærin var skinhoruð og tjásuleg“. Vísar til beina sem sól hefur skinið á.
Skinin bein (orðtak) Bein sem legið hafa í sól. „Það var ekkert eftir af hræinu nema skinin beinin“.
Skinn (n, hk) A. Húð; gæra; bjór; há; feldur; bjálfi. „Skinnið roðnar við sólbruna“. B. Gæluheiti í vorkunnartón um barn eða þann sem aumkunarverður er. „Hann var mjög þakklátur, blessað skinnið“.
Skinn er undir þá skarn er af þvegið (orðatiltæki) Sá sem er illilegur í útliti og/eða tali getur reynst góðhjartaður/velviljaður undir niðri; enginn er alvondur. Einnig viðkvæði þegar kvartað er yfir að maður sé skítugur.
Skinn og bein (orðtak) Um mjög rýrt holdafar. „Kindin var ósköp aðframkomin; lítið annað en skinnin og beinin, þegar hún náðist úr sveltinu“.
Skinna (n, kvk) Þunnur efnisbútur; bót. Nú oft notað um skífu sem höfð er undir nagla-/boltahaus.
Skinna (s) Klæða með skinni; binda bók inn í skinn.
Skinnaköst (n, hk, fto) Um sjólag; þegar í logni koma vindsveipir á sjóinn hér og hvar, og gárublettirnir verða eins og skinnum hafi verið dreift á sjóinn. „Er þá farið að sjást eins og skinnaköst á sjóinn og fullt útlit fyrir skarpa aðlögn af norðri...“ (ÖG; Fiskiróður). „En þegar komið var yfir undir miðjan fjörð sáust smá skinnaköst á sjónum, og í sama bili brast á veður af norðaustri svo að við ekkert varð ráðið“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Skinnband (n, hk) Innbinding bókar í skinn.
Skinnbátur (n, kk) Kúði; bátur sem byrtur er með skinni en ekki borðum eins og algengast hefur verið hérlendis. Skinnbáta hafa menn notað frá því fyrir sögulegan tíma; líklega jafn lengi og trébyrta báta. Írar notuðu þá frá fornu fari og framá miðbik 19.aldar. Þar nefnast þeir „curragh“, en voru nefndir „kúðar“ meðal norrænna manna. Hafi papar komið til landsins, og séu sagnir af komu Brendans biskups réttar, er líklegt að þeir hafi komið á slíkum kúðum. Sannað hefur verið með eftirgerðum að kúðar eru vel brúkleg hafskip. Sesar rómakeisari segir að Bretar hafi notað skinnbáta þegar hann átti í stríði við þá.
Eskimóar hafa notað skinnbáta til þessa dags, og þróað sérstaka gerð þeirra. Annarsvegar er um að ræða eins manns báta sem henta til veiða og nefndir eru „kayak“, en hinsvegar burðarmeiri báta sem nefnast „umyak“ eða konubátar. Kayakar eru nú framleiddir úr ýmsum efnum og notaðir til sportsiglinga hjá fleiri þjóðum.
Ekki er vitað til að landnámsmenn hafi notað skinnbáta, þó líkum hafi verið leitt að því varðandi suma þeirra. Skinnbátar hafa vafalítið verið þekktir á Suðureyjum, þar sem fóstbræðurnir Örlygur og Kollur voru að námi hjá Patreki biskupi. En líklega hafa þeir komið hingað út á knörrum eins og aðrir. Til þess bendir skipbrot Kolls á Arnarboða.
Skinnbelgur (n, kk) Belgur úr sérstaklega fleginni og verkaðri gæru. „Skinnbelgir voru notaðir mikið undir mat; bæði kæfu, smjör, tólg og fleira. (Einnig í baujur/belgi). “ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin). Sjá gæra.
Skinnbrók (n, kvk) Brók/buxur úr skinni. Sjá skinnkæði.
Skinnflipi (n, kk) Skinn sem rifnað hefur upp, t.d. við meiðsl eða hrufl.
Skinnfóðraður (l) Með skinnfóðri.
Skinnfóður (n, hk) Skinn í innra byrði fatnaðar, oftast yfirhafnar s.s. úlpu.
Skinnið atarna (orðtak) Blessað skinnið/barnið; auminginn; vesalingurinn. „Hann gerði þetta ekki viljandi, skinnið atarna“. Atarna er líklega samansláttur úr „að þarna“ eða „það arna“ (sjá sá arna).
Skinnklæðaþráður (n, kk) Þráður úr togi til að sauma skinnklæði. „Eftir hátíðar var varið að elta skinn í brækur og spinna skinnklæðaþráð, en í hann var haft gott tog“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Skinnklæði (n, hk, fto) Skinnklæði voru lífðarbúnaður sjómanna í Kollsvík langt fram á 20. öld, og hafði svo verið um aldir. „Voru það brók og skinnstakkur, venjulega að mestu úr sauðskinnum. Sjóhatt áttu flestir, sen hann var aðeins settur upp þegar ágjöf var eða illviðri. Karlmenn saumuðu sjálfir sín skinnklæði að vetrinum. Tæki til þess voru fábotin; aðeins tvær nálar, fyrirseyma og eftirseyma, og klembrur (sjá þar). Saumgarnið var alltaf heimaspunninn togþráður, en náldragið annaðhvort hampgarn eða hvalseymi, ef það var til. Saumþráðurinn var venjulega hafður sex- eða áttfaldur. Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; einn í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur. Auk þess þurfti leður í sóla og aflanga skinnpjötlu í loku. Þær brækur þóttu fara betur er saumaðar voru með loku. Ennfremur þurfti nokkurt skinn í miðseymi, einkum notað úr gömlum skinnklæðum. Skinnin sem notuð voru til skinnklæðagerðar voru misjafnlega undirbúin. Sum voru jafnvel blásteinslituð, og þótti það eitthvað verja fúa; önnur voru hert ólituð og þannig tekin til brókargerðar, en síðar voru flestir farnir að elta þau vandlega áður en saumað var úr þeim. Þau skinnklæði tóku mikið betur við áburði; fernisolíu og lýsi, og urðu mýkri að klæðast í. (Nánar um brók, skinnstakk og sjóskó þar). Klæðst var brók og skinnstakki nær daglega við að bera fisk úr fjöru til ruðnings. Þegar meiri vöðsluverk voru unnin, t.d. borinn farmur af skipi, þ.e. stærri flutningabátum í nokkru brimi, bjuggust menn svo sem best mátti vera eða bakbeltuðust (sjá þar). Mjög gat skipt í tvö horn um þrif og verkun skinnklæða. Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar (sjá þar). Ýmsir sýndu mikla natni við þrif og verkun skinnklæða en aðrir miður, enda klæddust menn hlífðarfötum misjafnt eins og öðrum klæðum. Sagt var að sjómaðurinn, alklæddur hlífðarfötum, væri öðrum rétthærri; t.d. á við prestinn í stólnum.“ (KJK; Kollsvíkurver).
„Eftir hátíðar var farið að elta skinn í brækur og spinna skinnklæðaþráð, en í hann var haft gott tog. Kálfsskinn var notað í setskauta á brókum og leður í sóla. Notuð voru elt eða eirlituð skinn, Ljúka þurfti að sauma öll skinnklæði fyrir vertíð“ (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964).
„Á Vestfjörðum var algengt að barkarlita skinn. Löngum var notaður innlendur börkur, einkum af birkitrjám, einnig rekabörkur... Víða voru skinn eirlituð... Það bar við að eirnaglar og eirflögur væru látnar í trédall með fjórum pottum af keytu. Unglingur var látinn sitja úti í fjósi; lesa kverið sitt og gutla. En það var fólgið í því að hafa dallinn á kné sér og hreyfa hann að staðaldri uns eirinn var leystur upp úr hlandinu, en það tók stundum lengri tíma. Flestum þótti þetta leiðindaverk... Lengi tíðkaðist að elta skinn sem áttu að fara í brók og stakk. Þeir sem lagnir voru að handelta byrjuðu á jöðrunum. Aðrir byrjuðu á hálsinum; tóku skinnið saman með báðum höndum; settu á það einn snúning og nudduðu með því að láta vinstri hönd hvíla á vinstra hné. syðst á Vestfjörðum voru skinn ávallt elt áður en þau voru lituð. Þar var mönnum sem stóðu yfir fé á vetrum fengið skinn til að elta. Eins næturgestum ef þá bar að garði. (Frásögn ÓETh, HM o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir II).
„Brók og skinnstakkur voru þau hlífðarföt sem almennt voru notuð í verstöðvum frá fornu fari og fram um 1930. Brækur voru buxur sem náðu uppundir hendur, með áföstum sokkum. Pabbi saumaði mikið af skinnklæðum fyrir sig og aðra, en það var mikið vandaverk því brækurnar máttu ekki leka. Í hverja brók þurfti þrjú ærskinn og kálfskinn í setskautann, en leður af stórgrip í sólana. Við brækur voru notaðir sjóskór úr sútuðu leðri, til að hlífa þeim við sliti. Þeir voru ekki saumaðir, heldur gerð göt í hliðar skæðisins og bundið saman fremst; snæri dregið í götin; svo hert saman á hælnum og bundið um mjóalegg. Lýsi var borið á brækurnar til að mýkja og þétta þær; það var svo endurtekið um helgar eða í landlegum. Ef óhappagat kom á brók var gert við á þann hátt að smíðaður var tappi með rauf í röndunum. Honum smeyft í gatið; svo vafið utanum raufina með fínu bandi. Það var kallað að tappa brókina. Í skinnstakkinn fóru þrjú labsskinn. Hann var hafður í mjaðmasídd og tekinn saman í mitti með bróklinda. Skinnklæðin entust nokkur ár með góðri meðferð“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Skinnleisti (n, kk) Skinnsokkur; sokkur úr sauðskinni (sjá gæra).
Skinnskór (n, kk, fto) Sauðskinnsskór, sjá þar. „Meðal annars sem þurfti að gera var að búa til skinnskó á allan hópinn, og helst að prjóna leppa í þá“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Skinnspretta (n, kvk) Grunnt sár; rispa sem e.t.v. blæðir lítillega úr. „Ég er ekki mikið meiddur þó ég sé blóðugur. Þetta er bara skinnspretta“.
Skinnstakkur (n, kk) Efri hluti skinnklæða (sjá þar). „Í skinnstakkinn fóru þrjú skinn, venjulega lambskinn. Tvö í bak- og framstykki og eitt í ermar. Þegar klæðst var skinnstakki var fyrst farið í ermar og stakknum síðan steypt yfir höfuð sér. Hafa þurfti hálsmál allvítt, en til þess að þrengja það, eftir að komið var í stakkinn, voru smágöt gerð á skinnið umhverfis hálsmálið og í þau þræddur skinnþvengur eða snæri, til þess að geta dregið saman og þrengt stakkinn í hálsmálið. Þetta var nefnt hálsbjörg. Lítil beinplata með tveim götum var þrædd upp á þvengendana og þeir bundnir saman. Þegar hálsmálið var þrengt var þverhnútur með lykkju settur framan við plötuna, en hún var nefndur hálsbjargartygill“ (KJK; Kollsvíkurver).
Skinnþvengur (n, kk) Ól/þvengur/reim sem búin er til úr gæru; sjá þar.
Skip (n, hk) A. Farkostur sem flýtur á sjó eða vatni. Venja er að nefna skip það sem stærra er, en báta, kænur, skektur o.fl. það sem minna er. Oft er miðað við að sexæringar og stærra teljist vera skip, en bátar það sem minna er. B. Meginrými kirkju, þ.e. milli kórs og forkirkju.
Skipa (s) A. Bjóða; gefa fyrirmæli. „Verkstjórinn skipaði honum að hætta þessu og fara að vinna“. B. Haga; ráðstafa. „Enn er ekki búið að skipa í embættið“. „Hún skipaði mönnum til borðs“.
Skipa á (orðtak) Skipa í áhöfn á bát og hvernig menn raðast í rúm, en það var verkefni formanns.
Skipa (einhverjum) á bekk með (orðtak) Setja einhvern í flokk með. „Með sinni framgöngu skipaði hann sér í bekk með þeim sem lengst héldu úti vörnum fyrir sína byggð“. Vísar til þess hvernig mönnum var raðað á kirkjubekki fyrrum; en það var gert eftir mannvirðingum. Höfðingjarnir áttu sín sæti fremst; oft vandlega stíaðir frá pöpulnum.
Skipa kirkju (orðtak) Stofnsetja kirkju á nýjum kirkjustað. „E.t.v. hefur Jón Gerreksson Skálholtsbiskup skipað hálfkirkjuna í Kollsvík um svipað leyti og hann skipaði bænhúsið í Breiðavík, en það var árið 1431“.
Skipa til sætis (orðtak) Ákveða hvar hver skal sitja þegar um hóp er að ræða.
Skipa til verka (orðtak) Ákveða verkhluta hvers og eins af hópi.
Skipa upp (orðtak) Landa varningi úr skipi. „Báðum þessum bílum var skipað upp á Hvalskeri úr Ríkisskip, og voru notaðir tveir trillubátar til þess, en þar var ekki bryggja sem skip komst uppað“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Skipa út (orðtak) Hlaða varningi í skip. „Þegar útgerð var mest í Kollsvíkurveri kom það fyrir að strandferðaskip komu upp á víkina, og var fiski skipað beint út í þau. Slíkt sparaði siglingu á Eyrar með Fönix, en í þá daga var ekki um landflutninga að ræða í verulegu magni; enda bílvegir öngvir“.
Skipadómur (n, kk) Dómur sem Páll Stígsson hirðstjóri kvað upp árið 1564, og varðaði málefni vermanna og útgerðar. Þar var m.a. kveðið á um hvað vermanni bæri að gjalda fyrir kost sinn; hve mikið af tiltekinni fæðu ætti að vera í vermötunni og hve lengi vertíð skyldi standa.
Skipaeign (n, kvk) Eign manns af skipum/bátum. Ekki er vitað um skipaeign í Kollsvík á fyrri öldum, eða frá því að Kollur braut knörr sinn á Arnarboða og þar til Árni Magnússon var á ferð árið 1703. Öruggt má telja að útræði frá Láganúpsveri hafi eflst mjög með skreiðarsölu, líklega fyrir árið 1400. Um það leyti sölsaði Guðmundur ríki Arason jörðina undir sig, og hún komst síðar í eigu Saurbæjarhöfðingjanna. Þó bændur ættu gjarnan sínar fleytur var skipaeignin mest hjá höfðingjunum, sem mönnuðu báta sína með ánauðugum leiguliðum um allan hreppinn. Á 18. öld settist Einar Jónsson að í Kollsvík og gerðist umsvifamikill sveitarhöfðingi. Hann hélt bátum til róðra frá Kollsvíkurveri, en einnig eignaðist hann hlut í skútunni Delphin (sjá skútueigandi), og er því sá Kollsvíkingurinn sem átt hefur stærsta skipið ef frá er talinn Kollur. Annar skútueigandi hafði reyndar löngu fyrr verið eigandi Kollsvíkur, en það var séra Páll Björnsson í Selárdal sem smíðaði sér skútu og var sjálfur stýrimaður á henni; en hann bjó aldrei í Kollsvík. Kollsvíkingar áttu hákarlaskipið Fönix (eldri). Um líkt leyti og það var úr sögunni, undir lok 19.aldar, hófst útgerð frá Kollsvíkurveri, og urðu bátar þar flestir 25 eða 26, í eigu margra. Flestir voru þeir litlir, enda stutt að sækja, en sá stærsti var yngri Fönix sem notaður var til flutninga. Verstaða í Kollsvíkurveri leið undir lok fyrir síðari heimsstyrjöld, en síðan hafa heimamenn ávallt átt smábáta sem róið er til fiskjar vegna heimilisþarfa.
Skipaferðir (n, kvk, fto) Ferðir/umferð skipa. „Í Kollsvík má vel fylgjast með skipaferðum um grunnleiðir“.
Skipaleið (n, kvk) Leið sem skip sigla um. Fjölfarin skipaleið er fyrir Bjargtanga, og oftar en ekki má sjá skip á undan Kollsvíkinni; grunnt eða djúpt.
Skipalægi (n, hk) Staður þar sem skip varpa gjarnan stjóra. T.d. hefur löngum verið skipalægi innanvið Vatneyri í Patreksfirði.
Skipaskoðun (n, kvk) Prófun og skoðun á sjóhæfni skips/báts áður en leyfi er gefið fyrir róðrum. „Það var engin skipaskoðun fyrr en á seinni árum; líklega ekki fyrr en 1912 – 1914“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Skipasmiður (n, kk) Sá sem smíðar skip/báta. Færir skipasmiðir hafa löngum verið í Kollsvík. Síðastur þeirra var Andrés Karlsson á Stekkjarmel, sem smíðaði allnokkra báta. Einnig má nefna Halldór Jónsson. „Sá Halldór bjó á Láganúpi 1703, og var einn hinna kunnu Sellátrabræðra, sem rómaðir voru fyrir atorku og hreysti. Bróðir Halldórs; Bjarni Jónsson, bjó í Kollsvík. Hann var kunnur skipasmiður; smíðaði m.a. teinæring 19 ára gamall og fór á honum fjölda byrðingsferða norður á Strandir“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). Einn iðnlærður skipasmiður hefur búið í Rauðasandshreppi á síðari tímum; Borgar Þórisson á Hvalskeri.
Skipast á (einhvern) veg (orðtak) Æxlast; þróast. „…hafi ekki á fimm ára tímabilinu viðskipta- og félagsmálum sveitarfélagsins skipast á þann veg að sveitarstjórn og framkvæmdastjórn félagsins verði sammála um að ráða þessum málum á annan veg…“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Skipast um (orðtak) Verða breyting á; víxlast. „Heldur þykir mér hafa um skipast þegar hásetinn er farinn að segja skipstjóra fyrir verkum“!
Skipast við (eitthvað) (orðtak) Róast; spekjast. „Hann var orðinn fjúkandi illur og skipaðist lítt við það að ég sagði honum að þetta væri allt byggt á misskilningi“.
Skipbrot / Skipskaði / Skipstrand (n, hk) Strand og eyðilegging skips. Fyrsta skipbrot sem sögur fara af á Íslandi er strand Kolls landnámsmanns í Kollsvík. Í Hellismannasögu segir m.a. „Þá hét Örlygur á Patrek biskup, fóstra sinn, til landtöku og hann skyldi af hans nafni gefa örnefi þar sem hann tæki land, og voru þá komnir vestur um landið. Hann kom skipi sínu í Örlygshöfn, og þar inn kallaði hann Patreksfjörð. En Kollur hét á Þór. Þá skildi í storminum og kom hann þar er Kollsvík heitir og braut hann þar skip sitt. Þeir voru um veturinn og segir eigi meir af þeim í þessari sögu“ . Þetta er ekki einungis fyrsta skráða frásögnin af skipbroti við Íslandsstrendur heldur fyrsta frásögn af björgun úr skipsstrandi. Gömul arfsögn segir að Kollur hafi strandað á Arnarboða, sem er stutt undan Grundagrjótum; kemur uppúr á hvrri fjöru en verður aldrei landfastur. Aðstæður eru þar allar slíkar að þar gæti hafa strandað skip sem fer grunnt í stórviðri um hálffallinn sjó, og að þar gætu menn hafa komist af með því að fleyta sér í land á braki, eða sigla í fjöru illa löskuðu skipi. Verðugt væri að setja þarna upp eitthvað til minningar um þetta upphaf íslenskrar sjóbjörgunar, án þess þó að spilla náttúrufegurð og minjum sem þarna er að finna. Sjá einnig skipherra/skipstjóri.
Skipbrotsmaður (n, kk) Sá sem lendir í skipbroti/strandi/sjávarháska á skipi. „Skipbrotsmenn af togaranum British Empire náðu að stökkva í land eftir að hann strandaði undir Strengberginu, og komust af sjálfsdáðum til byggða“.
Skipbrotsmannaskýli (n, hk) Skýli sem skipbrotsmenn geta leitað í. Eftir strand togarans Dhoon undir Látrabjargi var byggt skipbrotsmannaskýlið Guðrúnarbúð í Keflavík“.
Skipeigandi (n, kk) Sá sem á skip/bát; bátseigandi. „Seilastrengi og seilarólar leggja skipeigendur (í Láganúpsveri) til með skipunum“ (ÁM/PV Jarðabók).
Skipgengur (l) Sem skip komast eftir. „Hafnarvaðall í Örlygshöfn mun áðurfyrr hafa verið skipgengur á flæði, a.m.k. fram fyrir eyri þá sem nefnist Neteyri; neðan Kálfadals. Sagði mér Ólafur Magnússon bóndi á Hnjóti að í hans minni hafi verið mikill hylur innanvert við eyrina og að í honum hafi verið veiði; jafnframt því sem skipgegn læna hafi verið út allan ósinn á flæði. Nú er þessi hylur fullur af framburði vaðalsins. Sé frásögn Landnámu dregin í efa er sennilegt að Örlygshöfn dragi nafn af því að þar hafi verið slík friðarhöfn í upphafi byggðar, enda er Landnáma líklega ekki góð heimild um uppruna örnefna (sjá landnám). Hugsanlega hefur heitið upphaflega verið „Örleikshöfn“ eða „Örlognshöfn“, en það síðan hljóðbreyst eins og víða hefur orðið“.
Skipherra / Skipstjóri (n, kk) Sá sem stjórnar skipi. Skipherra er einkum titill skipstjóra á varðskipi eða herskipi. Nafnkunnasti skipherra á landinu er Eiríkur Kristófersson frá Brekkuvelli á Barðastönd, sem var af Kollsvíkurætt. Stýrimaður gengur skipstjóra/skipherra næstur við skipstjórn í dag, en á landnámsöld var stýrimaður æðsti stjórnandi um borð og stafnbúi gekk honum næstur að tign. Munnmælin um strand Kolls á Arnarboða segja að Örn hafi verið stýrimaður Kolls. Sú staðreynd að skipstjórar voru ekki til gæti bent til þess að landnámsmaðurinn hafi í raun heitið Örn, en fegnið Kollsnafn sitt af öðru, t.d. af víkinni sem hann skýrði eftir hinni sérstæðu lögun Núpsins. Örn kann þó að hafa verið stafnbúi Kolls. Sjá skipbrot/skipskaði.
Skiphlutur (n, kk) Bátshlutur; sá hlutur sem bátseigandi fær þegar afla er skipt. „Í kvaðarnafni er ábúandi (á Grundum) formaður fyrir landsdrottins (Sauræjarbónda)skipi þar, og hefur í formannskaup höfuðin af skiphlutnum“ (ÁM/PV Jarðabók). Sama kvöð og skiptaregla gilti um bóndann á Hólum.
Skipleiga (n, kvk) Leiga fyrir bát; gjald sem er fastákveðið fyrirfram en ekki háð afla eins og skiphlutur/bátshlutur. „Lýng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi. Þar er engin skipleiga. 1 skiphlutur. Allur hlutur skiptist ex æqvo (til jafnaðar) þá skift verður. Seglfiskar. Maðkafiskar engir“ (ÁM/PV Jarðabók).
Skippast með (orðtak) Hafa í flimtingum; grínast með. „Það er nú ekki rétt að vera að skippast með svo alvarlega hluti“. Þessi framburðarháttur virðist hafa verið bundinn við þetta svæði; annarsstaðar ríkti framburðarhátturinn „skimpast með“ í sömu merkingu.
Skippersaga (n, kvk) Grobbsaga skútukarls af sjómennsku sinni. „Byrjar hann enn eina skippersöguna“! Sjá sögustund.
Skippund (n, hk) A. Mælieining þyngdar fyrrum; jafngildir 320 pundum eða 160 kg; eða 4 fjórðungum. „Hæfileg saltnotkun var talin 180 kg í skippundið af fullverkuðum fiski“ (GG; Skútuöldin). B. Mælieining yfir fisk. Þannig merkir það; 600 kg óslægður fiskur með haus; eða 500 kg slægður fiskur með haus; eða 400 kg flattur fiskur; eða 250 kg fullstaðinn saltfiskur.
Skipreika (l) Af skipi sem farist hefur. „Áhöfn British Empire varð skipreika í Kollsvík, eftir að togarinn strandaði undir Hnífum“.
Skipsferð (n, kvk) Ferðalag með skipi. „Ekki var um neina áætlunar- eða skipsferð að ræða frá Þingeyri til Patró fyrir jólin“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Skipsflaut (n, hk) Eimpípublástur; hljóð í flautu/lúðri skips. „Þegar ég var að alast upp í Kollsvíkinni mátti oft í þoku heyra skipsflaut í fjarska, djúpt frammi á Víkinni“ (VÖ).
Skipshöfn (n, kvk) Áhöfn á skipi/bát. „Gengið var inn í endann á flestum búðunum, en væri gengið inn á miðjum vegg voru þær oftast svo stórar að sín skipshöfnin var í hvorum enda“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Skipsrúm / Skiprúm (n, hk) Pláss/starf á báti yfir vertíð. „Skiprúmið mitt hjá Eyjólfi var uppá hálfan hlut, og það gerði 65 krónur sem ég hafði yfir vorið . ... Þá bauðst mér skipsrúm hjá móðurbróður mínum, Gísla Guðbjartssyni“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Nokkrir Kollsvíkingar höfðu fengið skiprúm í þá leguferð“ (KJK; Kollsvíkurver). „Rauðsendingar voru mikið í skipsrúmi í Kollsvík“ (IG; Sagt til vegar II).
Skipta (s) A. Deila í hluta; deila á milli; hluta/taka í sundur. „Við skiptum þessu á milli okkar“. „Áin skiptir löndum milli Láganúps- og Kollsvíkurjarða“. B. Skipta afla/feng. Sjá skipti. Breyta; býtta; hafa býtti á. „Hér þarf líklega að skipta um gír“. „Ég þyrfti kannski að skipta um buxur“.
Skipta afla / Skipta í hluti (orðtak) Skipta sameiginlegum afla/feng. Sjá skipti.
Skipta (jafnt/bróðurlega) á milli (orðtak) Kasta/hluta í sundur milli aðila; skipta upp. „Við skiptum súkkulaðinu bróðurlega á milli okkar“.
Skipta á sléttu (orðtak) Eiga kaup/skipti á eignum þannig að hvorugur greiði meðgjöf í reiðufé eða skuld.
Skipta eftir hrygg (orðtak) Skera uppúr; skipta reyfi á kind eftir hryggnum áður en tekið er af henni, til þægindaauka.
Skipta engum togum (orðtak) Gerist umsvifalaust/tafarlaust/fyrirvaralaust. „Hann steig útá grænu þúfuna, og skipti engum togum að hún sökk í dýið og hann með; alveg uppundir hendur“. Vísar til áratoga á bát; að ekki séu mörg áratog þar til komið sé að einhverju.
Skipta falli (orðtak) Um sjávarföll; fallaskipti; snúningur. „Hann fer fljótlega að skipta falli; þá gæti hann gefið sig betur til“. „Við förum í grunnbólið; ég held hann sé búinn að skipta falli“.
Skipta í köst og krumma (orðtak) „Síðan var tekið til við að skipta, og þar vestra kallað að skipta í köst og krumma; hálfa kastið var krumminn“ (LK; Ísl.sjávarhættir IV).
Skipta í tvö horn (orðtak) Greinast í tvennt ólíkt; vera mjög misjafnt. „Það skiptir í tvö horn með veðráttu þessa dagana; annan daginn rigning og hláka, en hinn beingaddur og hríð“.
Skipta liði (orðtak) Skipta hóp í tvo eða fleiri hópa. „Þegar upp á Breiðinn kom skiptum við liði: Tveir héldu áfram út Sanddal en tveir fóru niðurá brún. Annar þeirra færi síðan niður Dulu en hinn niður Flosagil“.
Skipta litum (orðtak) A. Roðna; verða litverpur í framan. „Hann skipti litum þegar hún kyssti hann á kinnina“. B. Breyta frá einum lit til annars. „Sérkennilegt er hvernig hlíðin skiptir litum við Bekkinn“.
Skipta löndum (orðtak) Vera á landamerkjum. „Milli Króks og Bæjar skiptir löndum lækur er heitir Landamerkjakrókur...“ (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).
Skipta máli (orðtak) Vera mikilvægt; hafa vægi; koma máli við; hafa hlutverk í því sem um er rætt. „Mér finnst það ekki skipta máli hvort við gerum þetta í dag eða á morgun“. Sjá skipta ekki/engu máli.
Skipta niður/upp (orðtak) Um akstur ökutækis; skipta í lægri/hærri gír.
Skipta orðum við (orðtak) Tala/deila við; eiga orðaskipti við. „Ég nennti ekki að skipta orðum við hann“.
Skipta sér af (orðtak) Blanda sér í; hafa afskipti af; sletta sér framí. „Ég skipti mér ekkert af þessu máli“.
Skipta skapi (orðtak) Verða reiður/æstur. „Sjaldan sást hann skipta skapi; sama hvað á gekk“.
Skipta sköpum (orðtak) Breyta mjög miklu; ráða örlögum. Sjá skiptir sköpum.
Skipta um (orðtak) Breyta; setja einn í stað annars. „Ég skipti um blað í ljánum“. Oft notað um veðurbreytingar: „Ég spái því að þessi rigning verðí út vikuna, en svo skipti hann um í vikulokin“.
Skipta um skoðun (orðtak) Breyta áliti sínu; taka sinnaskiptum. „Hann hafði skipt um skoðun þegar ég talaði við hann aftur, og var nú tilbúinn að koma með okkur“.
Skipta úr fjöru (orðtak) Skipta fiski blautum til bátverja; um leið og hann er borinn af báti. „Gísli skipti úr fjöru Einars hlut, en við lögðum inn í félagi; ég og formaðurinn... “ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Skipta (einhverjum) út (orðtak) A. Láta einhvern hafa sinn aflahlut/eignarhlut án þess að aðrar breytinmgar verði. B. Skipta um; láta einhvern fara úr liðsheild um leið og annar kemur í hans stað. Einnig um hluti.
Skipta (með sér) verkum (orðtak) Deila verkum niður á þá sem þau munu vinna. „Þá var skipt verkum; einn fór að kokka; annar að beita lóðina, og tveir að gera að aflanum…“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Skiptabelti / Skiptabeltissneið (n, hk, fto) Rafabelti sem hlutaskipt er á sérstakan hátt: „Áður en skipt var rafabeltunum voru tekin frá eitt eða tvö þau vænstu og þeim skipt á meðal skipverja. Voru þau kölluð skiptabelti. Fékk þar hver maður sinn deilda verð. Var síðan sest að snæðingi og voru menn glaðir og reifir eftir unna þraut. Getið var þess að sumir hefðu þá verið svo lystugir að þeir hefðu etið smjör við skiptabeltissneiðinni sinni“ (PJ; Barðstrendingabók). „Oft þrengdist í búi hjá vermönnum er að vertíðarlokum leið, enda var gamalt nafn hjá vermönnum á síðustu vertíðarvikunni. Nefndu þeir hana Roðaviku“. (PJ; Barðstrendingabók). „Áður en skipt var voru tekin frá tvö stærstu rafabeltin, svokölluð skiptabelti sökum þess að þau voru skorin í sundur og þeim deilt á milli áhafnarinnar. Fékk hver skipverji eina skiptabeltissneið og vænan riklingsbita. Slíkur skammtur þótti koma sér vel í lok roðavikunnar. Skipverjar settust síðan allir að snæðingi. Þess er getið að sumir hafi verið svo lystugir að þeir hafi étið smjör með skiptabeltissneiðinni sinni. Að síðustu var hitað kaffi og sjaldan mun þá brennivínstár hafa brostið til að sæta með soðið“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; eftir ÓETh og ÞJ).
Skiptafjara (n, kvk) Staður þar sem afla var skipt þegar í land var komið. „Úr skiptafjörunni bar síðan hver sinn afla til verkunar“.
Skiptahlutur (n, kk) Sá hlutur sem maður hefur úr skiptum eftir veiðiferð eða bjargferð.
Skiptar skoðanir (orðtak) Deildar meiningar; aðilar ósammála. „Allmiklar umræður spunnust út af þessum svörum, og virtust skoðanir mjög skiptar“ (Gerðabók Rauðas.hr; alm.hreppsfundur 22.03.1961; ritari ÖG).
Skiptasneið (n, kvk) Glaðningur formanns í vertíðarlok, til viðbótar við skiptabelti. „Í verstöðvunum milli Látrabjargs og Patreksfjarðar var venja, þegar aflaskipti höfðu farið fram, að formaðurinn tók vænt rafabelti; sneiddi það niður og gaf hverjum háseta eina sneið; skiptasneið“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: ÓETh, Vatnsdal).
Skiptast á ný og nið / Skiptast á skin og skúrir (orðtak) Um misjafnt gengi. „Það hafa skipst á skin og skúrir varðandi aflabrögðin þetta vorið“. „Það skiptast á ný og nið í mínu lífi sem annarra“. Ný og nið vísa í kvartilaskipti tungls.
Skiptast í tvö horn (orðtak) Vera mjög misjafnt; um öfgar í báðar áttir. „Mjög gat skipst í tvö horn um þrif og verkun skinnklæða“ (KJK; Kollsvíkurver).
Skiptavöllur (n, kk) Staður þar sem afla er skipt; eggjum eða fiski. „Þegar eggjum er skipt eftir bjargferð var vani að gera það á sléttum velli. Bjargmenn gengu í hring, hver með sitt eggjaílát og settu tvö egg í senn í hrúgur sem voru jafnmargar hlutunum sem skipt var út. Þannig var haldið áfram, hring eftir hring, þar til öllum óbrotnum eggjum hafði verið skipt, en eigandi skiptavallar fékk leskingjana gegn því að hreinsa völlinn. Sá yngsti í hópnum sneri sér undan og þuldi upp nöfn hluthafa meðan skiptastjóri benti á hrúgu og spurði „hverjum skal þetta“? Með þessari aðferð blönduðust eggin vel frá hinum ýmsu stöðum og útdeiling hluta varð tilviljanakennd. Skipting afla úr bát mun einhverntíma hafa verið með svipuðum hætti.
Skipti (n, hk) Sinn. „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum“ (PG; Veðmálið).
Skipti (n, hk, fto) Skipti afla skips milli háseta og í dauða hluti, eða skipti annars sameiginlegs fengs, s.s. eggja/fugls. Í Kollsvíkurveri og víðar voru yfirleitt sömu menn í áhöfn báts yfir vertíðina. Afli var verkaður sameiginlega og honum eða andvirði hans skipt í vertíðarlok (sjá aflahlutur og vorhlutur). Ákveðnar reglur gilda um skiptingu afla í fjöru. Þær eru víðast í stórum dráttum svipaðar um allt land og hafa sennilega breyst lítið gegnum aldirnar. Virðast að mörgu leiti hafa verið notaðar sömu reglur við skiptingu fugls og eggja úr bjargi.
„Eftir að fiskurinn var allur kominn í eina kös á skiptavöll (skiptifjöru)... hófust skiptin. Venjulega skipti formaður, en ef mikill var afli hafði hann einhvern sér til aðstoðar. Ýmist var skipt í köst eða hluti, en það fyrrnefnda var algengast á vetrarvertíð. Tveir voru um hvert kast, og spurði formaður háseta í byrjun vertíðar hverjir ætluðu að vera hlutalagsmenn, og var annar þeirra ávallt talinn fyrir kastinu. Þar sem var heimræði var venja að heimamaður og vermaður væru hlutalagsmenn. Væri t.d. skipt af sexæringi með sjö manna áhöfn urðu köstin fjögur og að auki hálft kast; stakur... Fyrst voru valdir stærstu fiskarnir í hvert kast og þá tveir saman... Er fiskunum úr kösinni fækkaði svo að áhöld voru um að dygði í öll köstin gekk hann á, þ.e. kastaði einum og einum. Og loks ef vantaði fisk í kast stóð hann við, t.d. við bakborðsmann í miðskipa. Það urðu menn að muna; ekki einungis til næsta róðurs heldur jafnvel til næstu vertíðar, og áttu þá að segja til þess þegar fyrst var skipt. .. Þegar aflinn var allur kominn í köst var komið að því að ákveða hvejir ættu að fá hvert þeirra, og var það gert með tvennu móti: Formaður sagði við einhvern hásetann; „sting þú á – ég skal sjá frá“, eða; „tak þú á – ég skal horfa frá“. Formaður sneri síðan baki að köstunum en hásetinn benti á eitt kastið og sagði; „hver skal þar“? Formaður nefndi þá nafn annars hásetans af þeim tveim sem voru hlutlagsmenn. Þegar kom að kastinu sem hann kaus sér ásamt einum af hásetum sínum mælti hann; „Ég sjálfur“. Væru köstin fjögur, t.d. af sexæringi, þurfti ekki að nefna það fjórða, bátskastið, og ekki heldur stak. Annar háttur var sá að meðan formaður horfði á völdu þeir sem fyrir köstum voru taldir sér einhvern hlut, t.d. stein, þangkló, fiskhrygg eða haus og létu í hrúgu. Formaður fleygði síðan þessum hlutum á köstin og átti hver að hafa gát á sínu kasti. Nefnt að kasta á. Að því búnu fóru hlutalagsmenn að hluta, þ.e. skipta kastinu á milli sín, en það gerðu þeir sinn daginn hvor. Þegar því var lokið horfði annar frá en hinn lagði á milli hlutanna; hníf, vettling, fisk eða stóð þar með fótinn og sagði; „á er skaft og blað“, „á er lófi og laski“, á er haus og sporður“ eða „á er tá og hæll“. Hinn svaraði þá; „haf þú skaftið ég skal hafa blaðið“ o.s.frv.....
Í syðri hluta Barðastrandasýslu tíðkaðist lengi að skipta ekki afla fyrr en í lok vertíðar. Þegar farið er uppúr fjörunni á Hvallátrum við Bjarg, veginn milli bæjanna, er neðst í túninu á hægri hönd flöt; Skiptingarflöt. Þangað var aflinn borinn að endaðri vertíð; venjulega á Maríumessu (2. júlí) eða næsta dag. Allar hrýgjurnar voru þá fluttar þangað, en áður teknir úr þeim vanmetasteinbítar, horólarsteinbítar og þeir lagðir til hliðar. eins var farið með mjög feita steinbíta, en þeir þóttu lítt ætir. Þá var tíndur úr hálfdrættingssteinbítur, ef hann hafði verið látinn samanvið... Síðan var tekið til við að skipta, og þar vestra kallað að skipta í köst og krumma; hálfa kastið var krumminn. Að því búnu var stungið á, og loks hlutuðu lagsmenn úr köstunum. Sá sem hafði krummann þótti ekki afskiptur. Stundum hafði formaður hann, en oftast var þó báts- og formannshlutur saman í kasti. Lúðuriklingur var allur veginn á reislu og skipt á þann hátt. Steinbíts- og þorskhausum var skipt þannig að kippurnar voru taldar, en oftast voru jafnmargir hausar í hverri. Ef lagsmenn voru vinnumenn sama húsbónda þurftu þeir ekki að hluta kasti. Eftir að hver hafði tekið við sínum hlut bar hann ábyrgð á honum. Sumir hrýgjuðu þá á ný, en þeir sem höfðu reipi settu í bagga; 30 steinbíta í hvern. Ef öll áhöfnin var frá sama stað var ekki skipt fyrr en heim var komið. “ (LK; Ísl, sjávarhættir IV; heimildir m.a. ÁE, DE og ÓETh).
Sú regla var við líði um 1700 að formenn á bátum Guðrúnar Eggertsdóttur í Saurbæ fengu hausa af aflanum í formannshlut, en ekkert annað umfram venjulegan hásetahlut. „Í Norðurvíkum fángast mest steinbítur; lítill fiskur. So verður þá höfuðhluturinn (sem þar er formannskaup) æði lítill“ (ÁM/PV Jarðabók).
Skipti Látramanna á bjargfugli voru um margt svipuð. „Skiptin fóru þannig fram að þeir sem fóru niður fengu hættuhlut. Skipt var í köst sem kallað var; þannig að tveir menn voru um hvert kast. Stæði hinsvegar á stöku var það látið til hliðar og kallaður krummi. Þessi hlutur var síðan notaður til að rétta af, ef mistalist hafði hjá einhverjum“ (ÁE; Ljós við Látraröst). Sjá skipta í köst og krumma.
„Í nokkrum verstöðvum gátu menn bætt sér í munni með eggjum eftir að varptíð byrjaði.... Vanalega voru 2 eða 3 skipshafnir saman um bjargferðir og þurfti einn maður að vera vanur sigari. Hann fékk tvo hluti og var annar hættuhlutur. Fyrir bjargfestina var tekinn einn hlutur og annar fyrir bjargið, en því sem eftir var skipt jafnt á milli allra skipverja, hvort sem þeir höfðu verið með í bjargferðinni eða orðið eftir heima, við að laga til á hrýgjugörðunum. Þegar jafnt hafði verið skipt, gat staðið þannig af sér að nokkur egg urðu í afgang; þau voru kölluð matarverð“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh). Sjá skipta úr fjöru.
Skipti engum togum (orðtak) Í einu vetfangi; allt í einu. Þá heyrir fólk skruðning og göngin fylltust af snjó. Skipti engum togum að bærinn splundraðist og hrundi yfir heimilisfolkið, sem mun hafa verið 15“ (SG; Náttúruhamfarir; Þjhd.Þjms). „Skipti það engum togum, að jafnt og báturinn tók niðri voru borðstokkar hans þaktir hraustum höndum, sem kipptu honum upp áður en við fengjum ráðrúm til að stöðva vélina og komast út“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). Tog er stytting úr áratog. Það sem skiptir engum togum gerist fljótt.
Skiptifjara (n, kvk) Sá staður í fjöru sem fiski var skipt. Sjá skipti.
Skiptilykill (n, kk) Skrúflykill; stillanlegt áhald til að skrúfa maskinubolta/ró.
Skiptimynt (n, kvk) Mynt sem notuð er til að gefa til baka af verðmeiri mynteiningu, s.s. seðli.
Skipting (n, kvk) A. Deiling; sundurhlutun. „Ég er vel sáttur með þessa skiptingu aflans“. B. Gír á ökutæki; gírskipting; sjálfskipting.
Skiptir ekki/engu máli / Skiptir engu/öngvu (orðtök) Er lítils virði; léttvægt. „“Það skiptir ekki máli hvernig hann gerði þetta; mestu skiptir að málið er leyst“. „Þetta skiptir mig öngvu“.
Skiptir í tvö horn (orðtak) Um misjafnt ástand. „Það skiptir í tvö horn með aflasældina; sumir koma drekkhlaðnir að landi meðan aðrir fá ekki bein úr sjó“.
Skiptir sköpum (orðatiltæki) Varðar örlög (sköp=örlög). Notað um tilvik þar sem atvik eða ákvörðun ræður því hvort vel eða illa fer, en þau urðu tíð við sjómennsku í Kollsvík. „En hver fær séð hvað sköpum skiptir? Þeir bíða lags uns róður er tekinn til lands en verða of seinir fyrir“ (KJK; Kollsvíkurver). Sjá forlög; örlög; enginn má sköpum renna.
Skiptiskrúfa (n, kvk) Bátsskrúfa með snúanlegum blöðum, þannig að breyta má átaki hennar frá áfram til afturábak, eða öfugt; með óbreyttri snuningsátt öxulsins.
Skipulag (n, hk) Tilhögun; haganleg röðun.
Skipulega (ao) Með skipulagi; í góðri/réttri reglu/röð.
Skipun (n, kvk) A. Fyrirmæli; boð. „Ég tek lítið mark á hans skipunum“! B. Ráðning/setning í starf.
Skipverji (n, kk) Sá sem er hluti af áhöfn skips, t.d. háseti eða yfirmaður.
Skirrast (ekki) við (orðtak) Tregðast/hika (ekki) við. „Það þýðir ekki að skirrast við að senda mann í göngur samkvæmt fjallskilaseðli“. „Þessir andskotar skirrast ekki við að sigla á fullir ferð á sjáfstýringunni, jafnvel með mannlausa brúna“!
Skita (n, kvk) A. Niðurgangur; óþrif. „Tvílembingarnir eru komnir með skitu. Við þurfum að gefa þeim súlfalyf“. B. Lítilræði; óvera; smáræði. Það er einhver skita enn eftir af fóðurbæti, en ég þyrfti að fara að fá meira“. C. Gæluorð um krakka/manneskju/skepnu, stundum í niðrandi tón en stundum vorkennandi. „Nú hefur rollufjárinn laumast aftur inná, skitan áhenni“. „Hefurðu ekki alveg við okkur skitan mín“?
Skitinn (l) Skítugur; óhreinn; sem búið er að skíta á/ ata skít. „Ári er rúðan að verða skitin eftir flugurnar“. B. Oftar notað í líkingamáli, í merkingunni lítilfjörlegur/ómerkilegur. „Ég er ekki með skitinn fimmeyring á mér til að borga undir bréfið“. „Hann sagðist ekki hafa fengið skitna krónu fyrir þessa vinnu“.
Skitirí (n, hk) Óvera; lítilræði. „Við flengdum út á ballarhaf; allaleið niður á Dýpri-Skeggja, en fengum ekkert nema þetta skitirí“
Skitna (s) Verða skítugur/sölugur/saurugur. „Ég er hræddur um að blankskórnir þingmnnsins hafi eitthvað skitnað þegar hann heimsótti mig í fjárhúsin“.
Skitugemlingur / Skitugemsi (n, kk) A. Gemlingur með skitu. B. Niðrandi heiti á manni sem þykir ótélegur í útliti og/eða framferði.
Skitulögg (n, kvk) A. Lítill sopi í bolla/ílát. „Ætli ég þiggi ekki smá skitulögg af kaffi hjá þér, fyrst þú ert með það á könnunni“. Líklega dregið af því að þó um lítið magn sé að ræða, óhreinkar það ílát. B. Gæluorð um barn. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Skitupest / Skitustand (n, kvk/hk) Niðurgangsveiki í búfé eða fólki. „Ég er hræddur um að ég sé kominn með þessa skitupest“. „Eitthvað er það í rénun þetta árans skitustand á manni“.
Skituskarn / Skituskömm / Skituögn (n, kvk) Gæluorð um barn eða dýr. „Gefðu nú tíkargreyinu ketbeinið með því sem eftir er á því; hún hefur ekki fengið neitt eftir smalamennskuna, skituskömmin“. „Hann gerði sitt besta, skituskarnið. Hann getur auðvitað ekki hlaupið eins hratt og þeir sem lappalengri eru“.
Skíðabrekka (n, kvk) Brekka sem hentar til að fara niður á skíðum þegar snjór er.
Skíðaferð (n, kvk) Það að ferðast á skíðum; skíðaganga.
Skíðafæri (n, hk) Það hversu vel snjóalög henta til skíðaferða; færð fyrir mann á skíðum.
Skíðastafur / Skíðastöng (n, kk) Stafur til stuðnings skíðamanni. Skíðastöng er lengri; ætluð til að ýta skíðamanni áfram.
Skíðgarður / Skíðgerði / Skíðveggur (n, kk/hk) Girðing úr samanstæðum tréstaurum (skíðum). Orðið er gamalt í málinu, þar sem í skóglitlu Íslandi hafa ekki verið reistir margir skíðgarðar, en þeir tíðkuðust sem varnarvirki erlendis.
Skíðhvalur / Skíðshvalur (n, kk) Hvalur sem lifir á smágerðri og síar hana átu, og síar hana úr sjónum með sérstökum skíðum sem hann hefur í stað tanna. Nokkrar hvalategundir; yfirleitt fremur stórvaxnar og er t.d. steypireyðurin stærsta dýr sem vitað er að lifað hafi á Jörðinni.
Skíði (n, hk) A. Upprunalega merkir heitið beinvaxinn og fremur grannan trjábol, en sú merking er lítið notuð nú. B. Borðviður. „Það mætti smíða góðar mublur úr svona fallegum skíðum“. C. Skíði til göngu á snjó; renniskíði;svigskíði. D. Byrðingur á báti. „Þegar skíðið var komin í fulla hæð var borðstokkað...“ (LK; Ísl sjávarhættir II; frás ÁE). E. Hornkenndar plötur í kjafti skíðishvala, sem koma í tanna stað. Þær eru trosnaðar í jaðra og henta til að sía hina smágerðu fæðu skíðhvala úr sjónum.
Skíðloga (s) Loga glatt. „Eftir stuttan tíma skíðlogaði í brennunni“. Vísar til þess að vel logar í þurrum skíðum; þ.e. viði.
Skífa (n, kvk) A. Hverskyns þynna/ þunn plata, t.d. „slúttskífa“ og „spenniskífa“ fyrir skrúfbolta; reimskífa. B. Stafaborð á klukku/úri; klukkuskífa; úrskífa. C. Þunnt lítið hellublað. „Hér er úrval af hellum og skífum“.
Skíma (n, kvk) Lítil birta. „Maður sér varla nokkra skímu í þessu myrkri“.
Skíma (s) Byrja að birta lítillega. „Við förum og leitum að þessum kindum þegar fer að skíma á morgun“.
Skíma af tungli (orðtak) Tunglsljós. „Góð skíma var af tungli og því ratljóst“.
Skín á gull þó í skarni liggi (orðatiltæki) Vísar til þess að gersemar geta leynst víða, jafnvel þó ytri umgjörð bendi ekki til þess. Getur bæði átt við mannfólk sem muni.
Skín lítið/ekkert gott af því (orðtak) er ekki til bóta/engu bættari. „Mér skín nú lítið gott af því, þó læknirinn komi eftir helgina: Ekki lagar það bakverkinn í dag“.
Skínandi (l) Áhersluorð. „Þetta er skínandi góð hugmynd“.
Skír (l) Hreinn, bjartur, óblandaður. „Þetta er skír vilji meirihlutans“. Sami orðstofn og „skær“. Sú málvilla festi rætur fyrir mörgum öldum að skrifa orðið með „ý“ í flestum tilvikum (sjá skýr). Engin viðhlítandi skýring (ritað með sömu málvillu) hefur fengist á því, sumir reyna að rökstyðja það með „skyri“ sem er ólíklegt. Í raun er „skír“ og „skýr“ sama orðið, með sömu merkinguna. Sjá skýr.
Skíra (s) A. Um trúarlega athöfn; gefa barni nafn og blessa það; ausa einstakling vatni. „Séra Grímur skírði okkur Láganúpsbræður alla“ (VÖ). B. Hreinsa; gera hreinan.
Skíragull / Skírasilfur (n, hk) Hreinir góðmálmar.
Skírdagur (n, kk) Fimmtudagurinn fyrir páska; einn bænadaganna. Meðal kristinna manna er hann talinn helgur vegna þess að þann vikudag þvoði Kristur fætur lærisveinanna fyrir síðustu kvöldmáltíðina/ fyrir krossfestingu sína. Skír merkir hreinn og vísar til hreinleika vatnsins, en vatnið er tákn hreinsunar; í þessu tilliti syndaaflausnar. Fótabað lærisveinanna var því ígildi skírnar. Fyrst eftir kristnitöku hét dagurinn líklega skíri þórsdagur. Eftir siðaskipti var litið á skírdag sem lok föstu, og haldið upp á það með mat. Var skammtaður hnausþykkur rauðseyddur mjólkurgrautur áður en gengið var til messu. Hann er nokkuð vindaukandi, og má ætla að ekki hafi loft skánað við það í torfkirkjum þess tíma. Sagt var að veður á skírdag væri fyrirboði um það hve vel myndi ganga að þurrka mó og tað. Skírdagur er lögbundinn frídagur.
Skíri (n, hk) „Shire“; umdæmi/greifadæmi í Englandi. Aðrar slíkar einingar eru „county“. Frægast slíkra er líklega Nottinghamskíri, þar sem Hrói höttur er sagður hafa verið skógarmaður í Skírisskógi.
Skírlífi (n, hk) Hreinlífi; piprun; líf fullorðinnar manneskju án samfara við manneskju af gagnstæðu kyni. Var talin dyggð á fyrri öldum strangtrúnaðar. Vísar það til ætlaðs kvenmannsleysis Krists, en æskilegt þótti að líkja eftir hans lífsháttum í hvívetna. Klausturlifnaður byggir á skírlífi og yfirleitt er gerð krafa um skírlífi til presta í kaþólskri trú. Þá var skírlífi fyrir giftingu talin alger nauðsyn. Eitthvað los mun komið á það nú á tímum, og hefði fyrritíðarfólk líklega orðað það þannig; „heimur versnandi fer“.
Skírn (n, kvk) Helgiathöfn sem viðhöfð er við lítil börn sem fæðast inn í kristna kirkjuhefð. Skírnin er annað sakramenta lútherskrar kirkju; tákn um það þegar Kristur sendi lærisveina sína út um heiminn og fól þeim að „gera allar þjóðir að lærisveinum“. Vatnsaustur sem skírninni fylgir er minni um skírn Krists í ánni Jórdan og fótaþvott hans á lærisveinum við síðustu kvöldmáltíðina. Kollsvíkingar hafa löngum verið skírðir uppúr Gvendarbrunnsvatni sem, auk náttúrulegs hreinleika, býr að blessan Guðmundar góða Hólabiskups. Skírnin var álitin mjög mikilvæg fyrir sálarheill manna fyrr á tímum, og ef illa horfði með lífslíkur barna við fæðingu var reynt að framkvæma skemmriskírn.
Skírnarfontur / Skírnarsár / Skírnarskál (n, kk) Skál sem skírnarvatn er haft í þegar barn er skírt. Skírnarsár er eldra heiti. Orðin skírnarfontur og skírnarsár ná einnig yfir stall þann er skálin stendur á, en oft er sá fótur viðamikill; fagurlega skreyttur/útskorinn og meðal helstu kirkjugripa. Skírnarskál nær yfir skálina sjálfa. Í litlum kirkjum, og þegar skírt er í heimahúsum, er oftast einungis skírnarskál.
Skírnarkjóll (n, kk) Síð mussa úr hvítu fínofnu efni sem börn eru gjarnan sett í við skírn þeirra. Þó kjóllinn sé síðari tíma hönnun hafa hvít skírnarklæði líklega tíðkast lengi.
Skírnarvatn (n, hk) Vatn sem barn er skírt uppúr. „Skírnarvatn fyrir börn sem skírð voru í Kollsvíkinni var tekið úr Gvendarbrunni, a.m.k. í seinni tíð, þar sem hann var vígður af Guðmundi biskupi góða. Engu að síður blessaði prestur það vatn sem annað skírnarvatn. Eftir skírnina þvoðu viðstaddir stundum augu sín úr vatninu, en það var talið bæta sjónina og auka endingu hennar. Aðrir gamlir siðir eru tengdir skírnarvatni í almennri þjóðtrú. T.d. var því trúað að barn yrði skyggnt, þ.e. gæti séð yfir í annan heim, ef skírnarvatnið rennur ekki í augu þess við skírnina. Þá var sá siður þekktur fyrrum að hella skírnarvatni sitthvorumegin við mæninn yfir rúmi foreldra barnsins, svo barnið verði þeim til blessunar“.
Skírnarvottur (n, kk) Sá skírnargesta sem er tilgreindur sem vottur að skírn þess; guðfaðir; guðmóðir. Skírnarvottar eru tveir, og vanalega tengdir foreldrum barnsins á einhvern hátt. Staða guðforeldra hefur í raun ekkert lagalegt gildi.
Skírskota til (orðtak) Vísa (skota/skjóta) til einhvers til sönnunar máli sínu/ til að skíra mál sitt; nefna til vitnis.
Skírteini (n, hk) Sönnun; sönnunargagn; skjal sem sannar. Myndað af orðhlutunum „skír“ og „teikn“ (tákn/sönnun), og auðskiljanlegt í því ljósi. Sbr. ökuskírteini, nafnskírteini o.fl.
Skíta A. Hafa hægðir; kúka; flytja lögmann; leysa buxur; ganga örna sinna. B. Óhreinka; ata; saurga. „Ertu strax búinn að skíta út buxurnar þínar“?!
Skíta/gera í bælið sitt / Skíta/gera undir sig (orðtök) A. Bókstafleg merking; skíta í rúmið. B. Líkingamál um það að fara illa með sinn málstað; gera það sem spillir fyrir manni. „Ég held að með þessu hafi hann gert alvarlega undir sig“.
Skíta út (orðtak) A. Óhreinka; saurga. „Varstu að skíta strax út buxurnar sem þú fórst í áðan drengur“?! B. Níða; tala illa um; baknaga. „Það er óþarfi að skíta hann út fyrir þetta; hann gerði sitt besta“.
Skítabára / Skítagutlandi / Skítasteytingur / Skítaveltingur (n, kk) Slæmt/leiðinlegt sjólag; erfitt að róa/sigla/ vera að veiðum. „Það var kominn skítagutlandi, og ekkert annað að gera en hafa uppi og koma sér í land“. „Við fengum vindinn á móti falllinu í röstinni og lentum í árans skítasteytingi“. „Það var andskotann engin aðvera að hanga á þessu í svona skítaveltingi. En mesta furða samt hvað sargaðist upp“.
Skítableyja (n, kvk) Kúkableyja; bleyja sem búið er að kúka í.
Skítablettur / Skítaklessa / Skítaskella (n, kk/kvk) Óhreinindablettur; óþrifaklessa. „Hér er einhver skítablettur í buxunum“. „Það þyrfti að þvo mestu skítaskellurnar af þessu“.
Skitabragð (n, hk) Slæmur keimur; slæmt bragð. „Mér finnst eitthvað skítabragð af þessari gúrku“.
Skítabrúnn (l) Brúnn að lit, eins og skítur. „Mér finnst þessi skítabrúni litur ekki fegra þetta mikið“.
Skítabörur (n, kvk, fto) Fjóshjólbörur; hjólbörur sem allajafna eru notaðar við að aka skít, t.d. úr fjósi.
Skítadreifari (n, kk) Mykjudreifari; tæki til að dreifa húsdýraáburði á tún. „Skítadreifarinn var mikið þarfaþing, en ósköp óliðugur í meðförum og bilanagjarn“.
Skítafýla (n, kvk) Mikil/megn ólykt/fnykur. „Bölvuð skítafýla er af hundinum; nú hefur hann komist í hræ“.
Skítagalli / Skítaleppar (n, kk) Mjög óhrein/skítug föt; drullugalli. „Farðu úr skítagallanum úti; ég þvæ hann á eftir“. „Ég held ég drífi mig bara úr þessum skítaleppum; maður er varla í húsum hæfur“.
Skítagemlingur / Skítagemsi (n, kk) A. Gemlingur sem orðinn er blakkur á lagð/ klepraður af skít eftir inniveru og legu á taði. B. Oftast í líkingamáli í seinni tíð; niðrandi heiti á manni. „Ég hef nú lítið álit á þeim skítagemlingi“. „Þetta er óttalegur skítagemsi“!
Skítahaugur / Skíthaugur (n, kk) Mykjuhaugur. Fyrstu árin eftir að grindafjárhús urðu almenn var jafnan skítahaugur framanvið þau, enda þurfti iðulega að moka undan grindum og aka skitnum úr húsunum. Eftir tilkomu öflugra traktora og skítadreifara var farið að aka honum beint á tún.
Skítahlass (n, hk) Kúaskítsklessa; kúaskítur. „Æ, þarna steig ég ofaní skítahlass“!
Skítaél / Skítahraglandi / Skítakóf (n, kk) Lýsingar á slæmu veðri sem veldur bleytu, kulda og jafnvel slæmu skyggni. „Við lentum í skítaéli“. „Búðu þig almennilega;það er skítahraglandi“! „Maður sá ekki spönn frá rassi í þessu skítakófi“!
Skítakarakter / Skítalabbi / Skítbuxi / Skíthæll (n, kk) Mannlýsing; illa innrættur maður; óþverri. „Hún hafði fengið nóg af þeim skítakarakter“. „Sá bölvaður skíthæll getur bara átt sig“!
Skítakaup / Skítalaun (n, hk) Mjög lág laun; lægri laun en vera ber. „Hann sagðist ekki vinna lengur fyrir svona skítalaun“.
Skítakerra (n, kvk) Kerra sem notuð er til að aka húsdýraáburði á tún. Eftir tilkomu traktors og fyrir daga skítadreifara var skít ekið á tún í kerru,og kastað úr honum þar með skóflu.
Skítakleprar / Skítaskán (n, kk/kvk) Lag af skít. Kleprar er oft notað um mykju sem sest hefur í hár/ull húsdýra. „Það þyrfti að kemba mestu skítakleprana af blessaðri kúnni“. Skán er hörð skel af skít, oft á linara undirlagi.
Skítakuldi / Skítanæðingur (n, kk) Bitur kuldi; kuldanæðingur. „Klæddu þig almennilega; það er bölvaður skítakuldi“. „Það var skítanæðingur orðinn þarna á brúninni“. Einnig oft notað kuldaskítur.
Skítaköggull / Skítakökkur (n, kk) Köggull af skít; oftast átt við eina stungu af skít, t.d. þegar verið er að stinga út úr fjárhúsum. „Gaffallinn er ágætur til að kasta skítakekkjunum upp í börur“.
Skítalykt (n, kvk) A. Óþefur; lykt af skít/mykju. B. Grunsamlegt yfirbragð á málefni. „Mér finnst einhver skítalykt af þessu máli“.
Skítamakari (n, kk) Sá sem vinnur verk sérlega illa; flumbrari; klastrari. „Hér hefur einhver andskotans skítamakari rekið krumlurnar í“! Skammaryrði sem stundum þurfti að grípa í; sést ekki í orðabókum.
Skítapleis (n, hk) Síðari tíma niðrandi heiti á stað, einkum þéttbýlisstað. „Ég er lítið hrifinn af því skítapleisi“!
Skítareka / Skítaskófla (n, kvk) Fjósreka; skófla sem notuð er til flórmoksturs.
Skítaskán (n, kvk) Hörð þunn skel af skít. „Ég skóf mestu skítaskánina af fjósstéttinni“.
Skítaskot (n, hk) A. Slæmt veður um stuttan tíma; stutt hret. „Hann er að ganga fjandi fljótt upp núna, en ég held að þetta verði lítið annað en skítaskot sem gengur fljótt yfir“. B. Um vél; feilpúst; missir neista í slagi og sprengir næst með hvelli. „Ferleg skítaskot eru þetta í vélinn núna“!
Skítaskófla / Skítreka (n, kvk) Fjósaskófla; fjósreka; flórreka; mykjuskófla. „Þú ert þó ekki að nota skítaskófluna til að skafa hússtéttina“?!
Skítasletta (n, kvk) Sletta af skít. „Ég þreif mestu skítasletturnar af traktornum“.
Skítastampur (n, kk) A. Drullustampur; ílát til að bera skítu úr fjósi út á haug fyrrum. B. Heyrist nú eingöngu í gróflega niðrandi lýsingum á manni eða bát.
Skítastígvél (n, hk, fto) Stígvél sem notuð eru í skítmokstur; mjög skítug stígvél. „Ég fer ekki á skítastígvélunum inn í slátursalinn“.
Skítaveður (n, hk) Vont veður; ekki síst viðhaft þegar gerði slydduél.
Skítaþró (n, kvk) Þró sem saur er safnað í. Svo var m.a. nefnd þróin undir kamrinum á Láganúpi, sem enn stendur, þó kamarinn sé aflagður. Reglulega þurfti að tæma skítaþróna og var innihaldið jafnan nýtt sem áburður á tún og sléttur.
Skítbillegt (l) Hræódýrt. Dönskusletta.
Skíthræddur (l) Mjög skelkaður; lafhræddur. „Við fátt var ég eins skíthræddur og hrossaflugur, á yngri árum“.
Skíthús / Skítkjallari (n, kk) Haughús; forarþró; kjallari undir fjárhúsi/fjósi sem skít er safnað í, en hann er síðan nýttur sem áburður á tún. „Skíthús voru ekki algeng við fjós á þeim tíma, og voru Láganúpsbændur með þeim fyrstu að tileinka sér þá nýjung“.
Skítkalt (l) Mjög kalt. „Er þér ekki alveg skítkalt á höndunum; svona vettlingalaus í þessum kulda“?
Skítkast (n, hk) A. Það að kasta skít. B. Líkingamál; hreyta ónotum/skömmum í einhvern.
Skítkokkur (n, kk) Uppnefni á manni. Virðist hafa komist á kreik sem niðrandi heiti á kokkum á skútum og fyrstu togurum. Fæði um borð var oft slæmt, enda geymslu- og eldunaraðstaða léleg.
Skítlingur (n, kk) Gæluheiti á litlu/veikburða/vannærðu lambi, vísar e.t.v. til lambs með skitu. „Óttalegir skítilingar eru þetta hjá tvævetlunni þarna; skyldi hún ekki mjólka þeim nóg“? Stundum notað sem gæluorð við börn. „Komdu hérna skítlingurinn minn“.
Skítmokstur (n, kk) Mokstur skíts/mykju/taðs, t.d. út út skepnuhúsum. „Strákarnir höfðu uppi miklar áætlanir um að verða bændur þegar þeir yrðu stórir, og nota feður sína til skítmoksturs og annarra snúninga“.
Skítnóg (l) Alveg/yfrið nóg; nægir vel. „Við fengum skítnóg af smælki, en minna af stórfiski“.
Skítnýta (s) Nýta að lágmarki; virða viðlits. Vanalega í neikvæðri merkingu. „Ég get ekki vorkennt þessum aulum, sem vilja ekki skítnýta glænýjan fisk sem þeim er boðinn ókeypis“.
Skítóánægður (l) Mjög óánægður/vonsvikinn; þykir mjög slæmt. „Ég er skítóánægður með þeirra frammistöðu í þessu máli“! Allmikið notað.
Skítsama (l) Skiptir ekki máli; gersamlega áhugalaus; læt í léttu rúmi liggja. „Mér er skítsama hvað honum finnst um það“! „Ætli öllum sé ekki skítsama um það“.
Skítsbætur (n, kvk, fto) Það sem þykir alltof lítið. „Ég gat ómögulega verið að selja þetta fyrir einhverjar skítsbætur“!
Skítseiði (n, hk) A. Lítill fiskur; síli; kóð. B. Í líkingamáli; ómerkileg persóna; mannhundur; úrþvætti. „Bölvað skítseyði má maðurinn vera; að haga sér svona gagnvart móður sinni“!
Skítsjá eftir (orðtak) Sjá mikið eftir; sakna mjög. „Ég skítsé eftir því að hafa ekki tekið kíkirinn með“.
Skítskyldugur (l) Mjög skyldurgur; ber mjög mikil skylda til. „Það er sama hvað honum finnst; hann er skítskyldugur að ljúka þessu verki“!
Skítsvirði (n, hk) Mjög lítils virði. „Hans orð eru ekki skítsvirði í þessum efnum; það hefur sýnt sig“!
Skítsækinn / Skítsæll (l) Sem verður auðveldlega óhreinn/skítugur; sem sér fljótt á. „Þú ættir ekki að vera í þessum buxum í svona verki; þær eru svo skítsæknar“.
Skítsæmilegur (l) Þolanlegur; þokkalegur; slarkandi. „Ég er að verða skítsæmilegur í fætinum“. „Veðrið var ekki nema réttsvo skítsæmilegt; en viðlétum okkur hafa það“.
Skítt (l) Slæmt; bölvað; neyðarbrauð. „Mér finnt það fjári skítt að þurfa að sitja aftur uppi með þessa stjorn“.
Skítt með / Skítt með það / Skítt veri með það (orðatiltæki) Það skiptir litlu máli; mér er sama um það. „Verst þótti mér að tapa skónum; skítt með það þó maður blotnaði dálítið“.
Skíttapa (s) Tapa með miklum mun; fá háðuglega útreið í keppni/slag/spili. „Þú ert búinn að skíttapa þessu“!
Skíttapaður (l) Sem búið er að tapa stórt/ með miklum mun. „Þessi skák er skíttöpuð, er ég hrædur um“.
Skítti (n, hk) Óvera; lítilræði; skitirí. „Þessi nýju útvörp eru óttaleg skítti og hljóðið eftir því“.
Skítugur (l) Óhreinn; saurugur; ataður. „Asskoti er maður orðinn skítugur eftir þetta at“!
Skítur (n, kk) A. Saur; hægðir. B. Óhreinindi; kám. C. Niðrandi heiti á manni.
Skítur á priki (orðtak) Lýsing á því sem þykir mjög lítið/óverulegt. „Þetta var andskotann enginn afli; bara skítur á priki“.
Skítur og ekki neitt (orðtak) Hverfandi lítið; örlítið. „Það er auðvitað nauðsynlegt að taka ullina af fénu, en þetta er bara skítur og ekki neitt sem bændur eru núna að fá fyrir hana“.
Skiturinn úr skrattanum (orðtak) Niðrandi heiti á lakkrís; einkum þeirra sem ekki kunnu að meta þá sælgætistegund þegar hún fluttist fyrst vestur.
Skítverk (n, hk) Verk sem er/þykir fráhrindandi/niðurlægjandi/óþrifalegt. „Hann verður að fá einhvern annan en mig til að sjá um sín skítverk“!
Skjaldan (l) Sjaldan. „Gíslavað var skjaldan farið“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur). Var áður algengur framburðarmáti, en heyrist ekki í dag.
Skjaldborg (n, kvk) Sú bardagaaðferð að liðsmenn standa hlið við hlið og snúa skjöldum að óvininum, þannig að sýnist vera óvinnanlegur varnarveggur. Sjá slá skjaldborg um.
Skjaldindi (n, hk) Tálknop og tálknbogar á lúðu. (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: KJK, E-Tungu).
Skjaldburkni (n, kk) Polysichum lonchitis; uxatunga. Burkni af skjaldburknaætt; vex víða um land, einkum í urðum þar sem snjóþungt er, og í skóglendi; ekki síst á Vestfjörðum. Ekki skal fullyrt um hvort hann finnst í Kollsvíkurlöndum, en hann vex t.d. í Bjarnahlíð, sem er efst norðantil í Látradal. Blöðin vaxa í þéttum toppum, upp af stuttum en gildum jarðstöngli. Þau eru stuttstilkuð, sígræn og einfjöðruð; 15-40 cm löng og 2-7 cm að breidd, með 20-40 pörum af skarptenntum smáblöðum. Gró vaxa í blettum á neðra borði blaða, í röðum meðfram blaðröndunum.
Skjalfest (l) Skráð; fest á skjal/pappír. „Þetta hlýtur að vera einhversstaðar skjalfest“.
Skjall (n, hk) A. Yfirborðskennt/óhóflegt hól/hrós. „Vertu nú ekki að skjalla hann fyrir þessa vitleysu“, B. Skjallhimna; himna milli hvítu og skurns á eggi.
Skjalla (s) Hrósa á yfirborðskenndan hátt; hlaða oflofi. „Hann kann að skjalla höfðingjana“!
Skjana uppá einhvern (orðtak) Orðtakið var ekki notað í seinni tíð í Kollsvík. Annarsstaðar þekktist orðtakið að „skjanna uppá einhvern“, í merkingunni að sneiða að einhverjum; skensa einhvern. „Skjana“ er líklega af sömu rót og „skjön“, og „skensa“. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Skjannabirta (n, kvk) Mikil birta; ofbirta. „Maður blindast alveg við að koma út í þessa skjannabirtu“.
Skjannabjart (l) Mjög bjart; glaðasólskin. „Það var skjannabjart yfir öllu og glampandi logn“.
Skjannahvítur (l) Snjóhvítur; alveg hvítur. „Mér sýnist að það sé komin einhver skjannahvít ær í fjárhópinn; líklega þá útigengin“.
Skjannaljós (n, hk) Mjög sterkt ljós; bjartur ljósglampi. „Það brá fyrir einhverju skjannaljósi hér frammi á víkinni; það hefur kannski verið ljóskastari á bát“.
Skjannasólskin (n, hk) Glampandi sólskin; mikil sólarbirta. „Þetta er furðulegt veðurlag; grenjandi rigning fram á hádegi en eftir það skjannasólskin“!
Skjatti (n, kk) Lítill poki; posi. „Réttu mér pokaskjattann með dagblöðunum“.
Skjágluggi (n, kk) Gluggi sem áður var almennt notaður; kringlótt grind 5-6“, skjágrind, sem á var strekktur líknabelgur (skæni), sköturoð eða annað sem hleypti skímu í gegnum sig. Skjágluggar voru settir á miðja þekju og voru lausir, þannig að taka mátti þá úr. Þeir hurfu úr notkun eftir að glergluggar komu til.
Skjágrind (n, kvk) A. Eiginleg merking (horfin úr málinu); grind sem líknarbelgur var þaninn á í skjái (glugga). B. Afleidd mynd (almennt notuð vestra en líklega ekki annarsstaðar); ótraust mannvirki; hrófatildur. „Mér finnst nú þessi sjónvarpsloftnet vera óttalegar skjágrindur sem varla þoli hvassviðri“.
Skjágrindalegur (l) Veikbyggður; skjálfandi; sem hriktir í. „Ósköp finnst mér skjágrindaleg þessi fjárgrind á vörubílnum. Skyldi hún endast alla leið í sláturhúsið“?
Skjálfa á beinunum (orðtak) Skjálfa úr kulda eða hræðslu. „Þá var hann orðinn gegnkaldur og skalf á beinunum“.
Skjálfa eins og hildafullur hundur (orðtak) Skjálfa mjög mikið, t.d. úr kulda. Líkingin er dregin af þeirri trú að hundum yrði illt af því að éta hildir; þá fengju þeir ofsalegan skjálfta.
Skjálfa eins og strá í vindi (orðtak) Skjálfa mjög mikið. „Ég held þú ættir nú að fá þér eitthvað utanyfir þig; þú skelfur eins og strá í vindi“!
Skjálfa og nötra (orðtak) Skjálfa mjög mikið og hristast. „Húsið skalf og nötraði í verstu byljunum“.
Skjálfandi og nötrandi (orðtak) Með mikinn skjálfta. „Hann var skjálfandi og nötrandi af hræðslu“.
Skjálfa sér til hita (orðtak) Búningur var stundum vondur fyrrum og menn urðu hraktir af kulda við hjástöðu fjár, sjósókn og önnur störf. Þá setti að mönnum skjálfta og var trúað að mönnum hitnaði ögn við það.
Skjálfandi úr kulda (orðtak) Ósjálfráðan skjálfta setur að þeim sem eru vanbúnir og kólnar. „Farðu frekar inn heldur en að hýrast þarna skjálfandi úr kulda“.
Skjálfhentur (l) Með skjálfandi hendur. „Þræddu nú fyrir mig skóna góði; ég er orðinn dálítið skjálfhentur“.
Skjálftahrollur / Skjálftakast (n, kk) Hrollur með skjálfta; kuldahrollur. „Það er í manni hálfgerður skjálftahrollur svona fyrst í morgunsárið“.
Skjár (n, kk) A. Gegnsæ himna í glugga. Fyrir daga glers var oftast notaður þurrkaður líknarbelgur í skjá, en stundum sköturoð. B. Gluggi, þ.e. himnan og umgjörðin; skjágluggi. C. Gæluheiti á auga. „Hann glennti upp skjáina“. D. Gluggi á rafeindatæki, t.d. sjónvarpsskjár, tölvuskjár, símaskjár o.fl.
Skjáta (n, kvk) Gælunafn um kind; stundum einnig um óþæga stelpu sem „stelpuskjáta“. „Ég ætla að skreppa í fjárhúsin og kasta í skjáturnar“ (gefa kindunum). „Þarna voru engir kotkarlar á ferð“. „Margur kotakarlinn rak upp kætihlátur/ þegar sá hann sínar skjátur“ (JR; Rósarímur).
Skjátlast (s) Skjöplast; gera mistök; hafa rangt fyrir sér. „Það má vera að mér hafi skjátlast um þetta atriði“.
Skjátlast (getur) þó skýr sé (orðatiltæki) Maður getur haft rangt fyrir sér þó hann sé gáfaður. Nokkuð notað í Kollsvík fram á síðari ár.
Skjátuskinn (n, hk) Gælunafn um eitthvað aumkvunarvert eða lítið, annaðhvort stelpu eða dýr. „Komdu hérna skjátuskinnið og fáðu eitthvað í svanginn“.
Skjóða (n, kvk) Lítill poki; posi; skjatti; skinnpoki; tuðra; taska. „Réttu mér nú skjóðuna með prjónlesinu“.
Skjól (n, hk) Hlé; var; afdrep. „Féð stóð í skjóli við hlöðuna í norðanrenningnum“.
Skjóla (n, kvk) Fata; spanda. „Helltu þessu svo í skjóluna“. Skjólur fyrri tíma voru gerðar af tréstöfum og girtar, líkt og tunnur; gjarnan með tréhaldi yfir, sem fest var með böndum í eyru á skjólubarminum.
Skjólagott (l) Um landslag; skjólsælt fyrir fé. „Þetta svæði heitir Undirlendi. Það er grasi vaxið og skjólagott..“ (GG; Örnefnaskrá Láganúps). Orðið finnst ekki í orðabókum og hefur ekki heyrst notað eftir tíð Guðbjartar.
Skjólasamt (l) gott skjól; skjólagott; skjólótt. „Þá er komið uppfyrir Hjallana. Þar er skjólasamt og fjölbreyttur gróður og gott beitiland í kring; hefur áreiðanlega verið gott fyrir fjárpening þar“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Skjólborð (n, hk) A. Skjólborði (sjá þar). B. Upphækkun/veggur á byrðingi báts eða kerru eða bílpalli. „Guðbjartur afi á Lambavatni smíðaði hugvitssamlegan heyvagn á fjórum járnhjólum, og voru þau fremrí stýranleg með beislinu. Þessi heyvagn var án skjólborða og þægilega lágur til gott væri að hlaða á hann með kvíslum“ (VÖ).
Skjólborði (n, kk) Hléborði; þeim megin skips/báts sem er undan vindi. „Það hefur nú alltaf þótt sjómannslegra að míga á skjólborða en kulborða. Þú manst það kannski næst góði minn“.
Skjólfat / Skjólfatnaður / Skjólflík (n, kk/kvk) Yfirhafnir; föt til að verja gegn regni/kulda/roki. „Ertu í nógu góðum skjólfatnaði“. „Þeir áttu ekki einusinni almennilegar skjólflíkur; hvað þá hjálma“ (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg).
Skjólgarður (n, kk) Garður sem hlaðinn/gerður er til að veita skjól fyrir veðri eða sjóum. Garðarnir á Grundabökkum gegndu margvíslegu hlutverki. Þeir voru túngarður um Grundatúnið og áveitu í Grundamýri; þeir veittu aðhald þegar fé var rekið til beitar úr fjárhúsum í Láganúpsfjöru; og þeir voru skjólgarður fyrir norðanáttinni. Að auki kunna þeir að hafa verið þurrkgarðar fyrir fisk á tímum Láganúpsvers.
Skjólgóður grautur (orðtak) Þykkur grautur, einkum notað um grjónagraut. „Þetta kalla ég skjólgóðan graut“.
Skjóllegt (l) Skýlt; skjólsælt. „Litlu utar er Katrínarstekkur í lítilli skjóllegri laut“ (IG; Sagt til vegar I).
Skjóllítill (l) Veitir lítið skjól/afdrep. A. Um fatnað: „Mér sýnist að þessar dulur á þér séu skratti skjóllitlar“. B. Um landsvæði: „Það er fremur skjóllítið fyrir lambféð í girðingunni“.
Skjólótt / Skjólríkt / Skjólsælt (l) Um stað/svæði; skýlt; gætir síður vinds/veðra en í kring. „Þetta svæði heitir Undirlendi. Þar er grasi vaxið og skjólagott, enda er skjólótt og mishæðótt á Hnífunum og safnast þar oft mikil fönn í austanbyljum“ (GG; Örnefnaskrá Láganúps).
Skjóta (s) A. Gera snöggt; bregða við. „Hann skaut orfinu uppá skúrþakið“. B. Hleypa af vopni; kasta vopni. „Ég ætla að rölta niður að Görðum og reyna að skjóta á fluginu“. „Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“ (PG; Veðmálið).
Skjóta að (einhverjum) (orðtak) Segja einhverjum eitthvað; gefa einhverjum vísbendingu; minna á. „Ég skaut því að honum að von væri á gestum“.
Skjóta augum á skjálg (orðtak) Skotra augum; gefa hornauga; horfa útundan sér eða til hliðar með því að renna til augunum.
Skjóta á fluginu (orðtak) Skjóta máf úr Byrginu á Grundarbökkum. Til þess var valin hagstæður vindur, helst norðanátt og um hálffallinn sjó eða nær flæði. „Að fara á skytterí niður að Görðum var fastur liður í heimsóknum þeirra Einars og Páls“ (GÖ; minningabrot frá Láganúpi). „Það var íþrótt að skjóta svartbaksunga á flugi hér í víkinni. Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í veðrið og flýgur lágt. Og á haustinn þá sátu þeir hérna niður á gömlu grjótgörðunum þegar þannig viðraði og skutu ungann á fluginu. Þetta þótti alveg herramannsmatur; ungarnir. Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Skjóta á frest (orðtak) Fresta; láta bíða. „Hann skaut því á frest að taka ákvörðun í málinu“.
Skjóta á fundi (orðtak) Halda fund í flýti; ráðgast um mál.
Skjóta á land (orðtak) Setja á land úr báti. „Töluverður súgur var við hleinina, en með því að sæta lagi tókst okkur að skjóta tveimur á land, sem byrjuðu þegar að leita eggja“.
Skjóta fram báti (orðtak) Fara fram; fara á sjó; fara í róður. „Eigum við ekki að nota lognið og skjóta fram báti“?
Skjóta inn orði (orðtak) Leggja orð í belg; segja inn í tal annars/annarra. „Ef ég mætti skjóta hér inn orði…“.
Skjóta í báru / Skjóta í fuglsbringur (orðtak) Falla úr báru. Notað um það þegar hvítnar í einstaka báru þegar eykur sjó. „Hann var þá farinn að hvessa og skjóta í fuglsbringur um allan sjó“.
Skjóta máli sínu til (einhvers) (orðtak) Bera undir einhvern; láta einhvern dæma í sínu máli.
Skjóta (einhverjum) ref fyrir rass (orðtak) Leika á einhvern; blekkja einhvern; sjá við einhverjum. „Hann ætlaði að vakna eldsnemma til að ná þessu netastæði, en ég skaut honum ref fyrir rass og lagði um nóttina“. Ekki fullkomlega ljóst um uppruna orðtaksins, en e.t.v. vísar það til þess að læðast lymskulega aftan að manni, líkt og kænn refur, eða lauma/skjóta ref afturfyrir mann til að refurinn geti lesið hugsanir mannsins.
Skjóta saman (orðtak) Safna. Oftast notað um það þegar fólk leggur af fé mörkum til tiltekins málefnis eða til að áorka einhverju sérstöku. „Hreppsbúar skutu saman nokkru fé í styrktarsjóð fyrir ekkjuna“.
Skjóta sig í (einhverjum) (orðtak) Vera ástfanginn af einhverjum.
Skjóta sig í fótinn (orðtak) Spilla fyrir sjálfum sér; gera eitthvað það sem kemur manni augljóslega í koll síðar. „Ég ætla ekki að skjóta mig í fótinn með því að leggja net á Kollsvíkinni, svona rétt fyrir norðangarðinn“.
Skjóta (einhverjum) skelk í bringu (orðtak) Hræða; gera bilt við; bregða. „Þeir ákváðu að skjóta honum skelk í bringu“. Skelkur merkir ótti/skelfing. Bringa vísat til stings sem menn fá fyrir brjóst þegar hjartsláttur eykst. Er því nánast sama orðtakið og „hleypur hland fyrir hjartað“, sem var mikið notað í Kollsvík en heyrist lítt þar fyrir utan.
Skjóta skildi fyrir (einhvern) (orðtak) Verja einhvern; halda uppi vörnum fyrir einhvern
Skjóta skjólshúsi yfir (orðtak) Veita húsaskjól; taka undir verndarvæng. „Auðvitað er sjálfsagt að skjóta skjólshúsi yfir þig yfir nóttina, skárra væri það nú“!
Skjóta skökku við (orðtak) Ekki eins og á að vera; ekki í góðu lagi; vera ankanalegt/undarlegt. „Mér finnst skjóta dálítið skökku við að tveir úr sömu fjölskyldu sitji í þriggja manna stjórn í svona félagi“! Líklega vísar orðtakið til skakkafalls; báru sem ríður skáhallt að strönd og getur valdið slysi/vandræðum í lendingu báts. Getur einnig átt rætur í vopnaviðskiptum; t.d. að maður skjóti skildi sínum skökkum við atlögu, og verjist því ekki vel“.
Skjóta til (einhvers) (orðtak) Fela öðrum að skera úr; bera undir. „Hann skaut málinu til Hæstaréttar“.
Skjóta undan (orðtak) Fela; koma undan; halda fjármunum í heimildarleysi; svíkja undan skatti.
Skjóta undir báru (orðtak) Um sjólag; stór alda ríður undir bát. „... skaut samt undir sverri báru stöku sinnum„ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Skjóta undir sjó (orðtak) Sjó eykur lítillega, en þó vel vært að veiðum. (JT Kollsvík LK; Ísl.sjávarhættir III).
Skjóta upp (orðtak) Koma úr kafi. „Ekki sást neitt til Sumarliða, en augnabliki síðar skaut honum upp góðan spöl frá bátnum“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Skjóta upp kollinum (orðtak) Koma í ljós; birtast. „Sú gráa skaut upp kollinum á Látraréttum“.
Skjóta yfir markið (orðtak) Ná ekki tilgangi sínum með atlögu/árás/ásökun; missa marks. Vísar til þess að hitta ekki í mark t.d. við skotfimi eða steinkasti/skeljakasti.
Skjótast (s) A. Fara í fljótheitum. „Ég ætla að skjótast á klósettið“. B. Skjöplast; misminna. „Mér kann að hafa skotist um einhver atriði í þessu langa máli“. C. Yfirsjást; trassa. „Mér hefur eitthvað skotist að greiða þennan reikning; hér fæ ég kröfu um dráttarvexti“. Sjá skotaskuld.
Skjótast eins og eldibrandur / Skjótast eins og píla (orðtök) Vera mjög fljótur í förum; hlaupa mjög hratt.
Skjótfenginn (l) Fljótfenginn; sem fæst fljótt. „Margir sáu í þessu skjótfenginn gróða“.
Skjótlega (ao) Fljótlega; fljótt; snarlega. „Þeir brugðust skjótlega við og komu okkur til aðstoðar“.
Skjótt skipast veður í lofti (orðtak) Veðrabrigði geta verið mjög snögg. Einkum gátu þau orðið skeinuhætt þegar róið var á litlum árabátum frá hafnlausri úthafsströnd, líkt og var um róðra frá Kollsvík. Því var þessi áminning Kollsvíkingum mjög töm á tungu. „En á skammri stundu skipast veður í lofti. Veðurútlit hefur breyst. Til hafsins er kominn norðan mökkur; og jafnsnemma leggur norðan kisur heim úr Blakknum og eykur norðan báru“ (KJK; Kollsvíkurver). Sjá fáir kunna sig í fögru veðri heiman að búa.
Skjótur (l) Fljótur; snar. „Vertu nú skjótur og hlauptu fyrir kýrnar; þær eru að steðja beint í garðinn“! „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína“ (PG; Veðmálið).
Skjótur í förum / Skjótur í snúningum (orðtök) Fljótur að ferðast/skjótast; snar í snúningum.
Skjögra (s) Riða; slaga; vera reikull í spori; ramba. „Ég ætti nú að geta skjögrað útá Brunnsbrekku til að standa fyrir, þó ég sé ekki liðugur til hlaupa“.
Skjögt (n, hk) Snúningar; sendiferðir; endurteknar stuttar ferðir.
Skjögta (s) Skrönglast; ganga með erfiðismunum. „Gamli maðurinn er nú enn að skjökta í gegningar“.
Skjögtari (n, kk) Farartæki sem notað er til snúninga. „Lítill skjögtari var notaður til að fara fram á leguna“.
Skjögur (n, hk) Samheiti yfir hörgulsjúkdóma sem orsaka máttleysi í sauðfé. Talað var um að þeim lömbum væri hætt við að fá fjöruskjögur sem voru undan ám sem mikið var beitt í fjöru (röskun á koparupptöku). Stíuskjögur var talið orsakast af of mikilli inniveru lambánna(selenskortur) en það má lækna með selengjöf.
Skjöldóttur (l) Litur á kúm; Dökk með hvíta stóra bletti/flekki, eða hvít með dökka stóra bletti/flekki. Þannig litur nefnist skjöldótt á kúm en flekkótt á sauðfé.
Skjöldur (n, kk) A. Hlemmur sem notaður er til varnar í bardaga. Venjulega úr tré fyrrum; stundum leðurklæddu; með höldu að innanverðu; misjafn að stærð. Sjá halda hlífiskildi yfir. B. Hvaðeina sem minnir á skjöld að lögun; t.d. tólgarskjöldur; storknuð fitubráð í potti.
Skjömbóttur (l) Smáskjöldóttur; dílóttur. Heyrðist notað um nautgripi með litla dökka bletti á ljósri húð. Mest þó notað í líkingamáli um krakka sem voru áberandi óhreinir í framan: „Farðu nú og þvoðu þér áður en þú borðar; þú ert svo ári skjömbóttur núna“. Heitið „skjambi“ mun áður hafa verið notað um kinn; litaðan blett á kinn eða kinnhest/löðrung. Má ætla að lýsingarorðið sé af því dregið.
Skjön (n, kvk) Skakki; skái. Oftast í orðtökum; ganga/vera á skjön við eitthvað.
Skjönglast (s) Skenglast; skriplast; komast/fara með erfiðismunum/við illan leik. „Ætli ég reyni ekki að skjönglast fyrir Breiðinn og reka úr Fjarðarhorninu ef þú kemur niður niður Flosagil og stendur fyrir þar“.
Skjöplast (s) Hafa rangt fyrir sér; skeika. „Þetta mun hafa verið svona, ef mér skjöplast ekki“.
Skjöplast skýrum / Skjöplast þó skýr sé (orðatiltæki) Hefur rangt fyrir sé þó hann sé greindur. Iðulega notað þegar talið er að einhver fari með rangt mál í umræddu tilviki, þó oftast megi treysta áliti hans; oft haft með „heldurbetur“eða „illa“ á eftir. „Nú skjöplast skýrum heldurbetur, þykir mér“!
Sko (uh) Hikorð sem sumir nota ótæpilega. Vafalítið stytting á „skoðaðu“, og því sömu merkingar og „líttu á“ sem er annað mikið notað hikorð. Sumir eru svo andsetnir af þessu hikorði að þeir hnoða því óafvitandi í nánast hverja einustu setningu; einkum við þvingandi aðstæður s.s. í fjölmiðlum. Af þessu eru ýmsar útgáfur, t.d. „neisko“; „skotil“ og „hérnasko“. Oftast er „sko“ áherslulaust, en stundum með mikilli áherslu: „Ég skal sko sýna honum í tvo heimana“!
Sko til (uh) Lítið bara á. Upphrópun sem viðhöfð er þegar eitthvað er að ganga/gerast, sem tvísynt var um áður. „Sko til; þarna er bara kominn þessi boltafiskur“!
Skoða (s) A. Líta á; virða fyrir sér. B. Hugleiða; velta fyrir sér. C. Líta eftir fóðurbirgðum og ásetningi bænda. „Því lengur sem ég skoða og set á, eða hef þetta forðagæslueftirlit, því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Skoða hug sinn (orðtak) Hugsa sig um; hugleiða. „Hann er að skoða hug sinn með þetta“.
Skoða í krók og kring (orðtak) Skoða mjög vandlega; rannsaka frá öllum hliðum. „Eftir að hafa skoðað askinn í krók og kring, sagðist hann sjaldan hafa séð jafn fallegan smíðisgrip“.
Skoða ofaní kjölinn (orðtak) Rannsaka vel; skoða í smáatriðum. „Endurskoðendurnir töldu sig þurfa að skoða þetta ofan í kjölinn“. Líkingamál sem vísar til þess að e.t.v. þarf að leita undir plittum báts þegar hlutur týnist eða til að þrífa hann vel.
Skoða sig um (orðtak) Litast um; horfa í kringum sig; athuga aðstæður.
Skoða til veðurs (orðtak) Gá til veðurs. „Skoða“ var mun minna notað en „gá“ í þessu samhengi.
Skoðanamunur (n, kk) Ágreiningur; mismunandi skoðanir. „Það kann að vera einhver skoðanamunur í þessum efnum, en í stórum dráttum eru menn þó sammála“.
Skoðanaskipti (n, hk, fto) Deilur; rifrildi; rökræður. „Á fundinum urðu uppbyggileg skoðanaskipti um þetta“.
Skoðandi (l) Athugandi; þess virði að skoða; vert skoðunar. „Það væri alveg skoðandi að fara í þetta verk“.
Skoðum til (orðtak) Sjáum til; látum sjá. „Það er ekkert sjóveður í dag; við skoðum til með útlitið á morgun“.
Skoðun (n, kvk) A. Álit; sannfæring; hugsun; niðurstaða. „Mín skoðun í þessu máli ætti að vera öllum kunn“. B. Athugun; rannsókn. „Þetta þyrfti betri skoðunar við“.
Skoðunardagur (n, kk) Dagur sem skoðað er, t.d. heyforði bónda. „Þá er fram liðu stundir kom í ljós að fóðurvöntun var almennt meiri en álitið var skoðunardagana“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1920).
Skoðunarefni (n, hk) Það sem vert er skoðunar; athugavert. „Skyldu þeir kunna margföldunartöfluna þessir kerfiskarlar sem drepa niður allt líf á landsbyggðinni? Það væri bara verðugt skoðunarefni“!
Skoðunarmaður (n, kk) Maður sem skoðar/rannsakar; endurskoðandi; forðagæslumaður. „Skoðun fór engin fram hjá Ólafi Ólafssyni í Krókshúsum. Hann vissi að skoðunarmaður væri á leið frá Naustabrekku en vildi ekki halda fé inni vegna þess að langt væri liðið á dag, en klukkan var 10 f.h. er þeir skildu. Ekki vildi Ólafur heldur ná í féð, sem ekki var langt í burtu. Hafði hann heldur ósæmileg orð um skoðunarmann“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938).
Skoðunarvirði / Skoðunarinnar virði (l/orðtak) Vert skoðunar; athugandi; skoðunarefni. „Það væri nú alveg skoðunarvirði að ganga þarna út á brúnirnar; það getur alltaf leynst fé þar í lautunum“.
Skoffín (n, hk) A. Furðukvikindi sem, samkvæmt þjóðtrúnni, átti að vera afkvæmi karlkyns refs og kattarlæðu. Skuggabaldur er hinsvegar afkvæmi refalæðu og kattarhögna. Skoffín var talið fáséður óvættur og tiltölulega skaðlaus. B. Niðrandi mannlýsing; bjáni; furðugripur; viðrini; ólíkindatól.
Skokk (n, hk) Gangtegund hests; jafn en óþýður gangur. B. Róleg hlaup.
Skokka (s) Hlaupa fremur rólega; fara tiltölulega stutta vegalengd; skreppa.
Skol (n, hk) A. Það að skola; þvottur. B. Lögur sem blandaður/þynntur er með vatni, sbr mjólkurskol; kaffiskol.
Skola (s) Þvo (stundum um óvandaðan þvott); hreinsa með vatni; skólpa. „Fiskurinn var skolaður í Búðalæknum“. „Ég skolaði úr sokkunum“.
Skola af sér (skítinn) / Skola á sér skrokkinn (orðtak) Þvo sér. „Ég ætla að skola af mér mesta skítinn áður en ég fæ mér kaffi“. „Maður þarf víst eitthvað að skola á sér skrokkinn ef maður er á leið í fína veislu“.
Skola á land / Skola upp (orðtök) Reka á land. „Hér festir lítið á fjöru, þó einhverju skoli upp“.
Skolast til (orðtak) Ruglast; fara á rangan stað. „Hér hefur eitthvað skolast til í frásögninni“.
Skolhærður (l) Með dökkleitan háralit, en þó ekki mjög dökkan.
Skollafingur (n, kk) A. Lágvaxin gróplanta af jafnaætt (Huperzia selago), sem víða má sjá í Kollsvík og grennd. Dálítið lík litunarjafna og lyngjafna. Stönglarnir teygja sig 5-12 cm uppúr jörðinni, loðnir og grænir, og vaxa nokkrir saman í kransi. B. Gróhluti elftingar (sjá elftingarte). Grannir gulleitir stönglar sem vaxa af rótum elftingar; með kólfi efst. Þjóðtrúin segir að skollafingur séu klær satans.
Skollagras (n, hk) Sjá tófugras.
Skollahár (Desmarestia aculeata) Sjávargróður sem algengur er með ströndum og stundum ranglega sagt vera þursaskegg. Greinóttir þræðir, oft um 1-3 mm að gildleika og allt að 1 m að lengd; hliðargreinar margar og stakstæðar. Leður kennd eða brjóskkennd. Berst iðulega í net og upp á fjörur.
Skollahráki (n, kk) Annað heiti á marglyttu. Vísar til þess að þjóðtrúin segir marglyttuna vera hráka skrattans.
Skollakollur (n, kk) Skrattakollur; niðrandi heiti á manni.
Skollakoppur (n, kk) Strongylocentrotus droebachiensis. Algengasta tegund ígulkerja; skrápdýra sem algeng eru í sjó allt í kringum landið. Grænbrún og fremur smávaxin tegund; verður mest um 8 cm í þvermál, en oftast minni. Hann lifir einkum á grunnsævi. Hrygnun og sviljun á sér stað á sama tíma í ígulkerjabyggð. Lirfurnar lifa sem svif fyrstu árin en setjast síðar á botninn og umbreytast í ígulker. Skollakoppur lifir einkum á blaðþara af ýmsum tegundum, t.d. stórþara og hrossaþara. Ígulker rekur iðulega á fjörur og eru einnig borin upp af sjófuglum. Þau ánetjast iðulega í netum og er stundum nokkuð vesen að greiða þau úr. Fjölgi þeim verulega, eins og hefur gerst á síðari árum, éta þau upp þaraskóga og eyðileggja með því búsvæði/veiðisvæði hrognkelsa og annarra sjávardýra. Miklar sveiflur geta orðið í stofnstærð skollakopps. Höfundur hefur leitt að því líkum að slík offjölgun kringum árið 1980 hafi lett til mikillar ofbeitar þaraskóga víðsvegar við strendur, sem aftur leiddi til þess að brimbáran komst óhindrað upp á fjörur og olli þar miklum spjöllum. Slíkt átti sér m.a. stað í Kollsvík undir lok 20.aldar, en þar braut brimið niður Grundabakka; olli spjöllum á Görðunum og bar upp kynstur af sandi sem síðan olli auknu sandfoki. Þessu orsakasamhengi hafði ekki verið lýst fyrr en VÖ sagði frá því í blaðagrein. Sjá ígulker.
Skollakornið (n, hk, m.gr) Milt blótsyrði/áhersluorð. „Þetta getur skollakornið ekki staðist“! „Ég fer skollakornið ekki að búa mig uppá til að fara á spilakvöld“!
Skollakúnstir (n, kvk, fto) Furðuleg/fáránleg brögð. „Séra Þórarinn Þór skemmti eittsinn á jólatréssamkomu í Fagrahvammi með spilagöldrum og ýmiskonar skollakúnstum, enda fær töfra- og sjónhverfingamaður“. „Rollufjandinn ætlaði að snúa á mig með því að fara upp í ganginn, en ég var fljótur að sjá við svoleiðis skollakúnstum“.
Skollaleikur (n, kk) A. Leikur barna; blindingsleikur. Bundið er fyrir augu eins úr hópnum, sem síðan á að reyna að snerta aðra innan tiltekins svæðis. B. Líkingamál um það að fara í felur með eitthvað; hafa í frammi blekkingar/laumuspil. „Óttalegur skollaleikur er þetta“!
Skollamark (n, hk) A. Mark fjandans á skepnum, en samkvæmt þjóðtrúnni markar hann sér fé annarra með því að skera allt eyrað af. B. Líkingamál um það að sölsa undir sig. Sagt er að einhver setji sitt skollamark á eitthvað þegar hann vill gína yfir því.
Skollansári (ao) Blótsyrði/áhersluorð í vægari flokknum. „Mér finnst skollansári slæmt að þurfa að skilja þessar kindur eftir“. Élið var bara skollansári dimmt; við sáum varla handaskil“.
Skollansekkisen (ao) Bölvaður; árans. Milt blótsyrði. „Skollansekkisen gleymska var það að skilja kaffið eftir á borðinu; við verðum víst að láta vatnið nægja í þessum róðri“.
Skollansnær (fs) Andskotansnær; fjandansnær; verið betra. „Ég held að honum væri skollansnær að hugsa um það sem að honum snýr, en vera ekki að gagnrýna aðra“!
Skollapuntur (n, kk) Fjallafoxgras; Phleum alpinum. Grastefgund sem algeng er um allt land, frá láglendi uppá fjöll. Vex einkum í hvömmum, lækjargiljum og dældum. Skollapuntur þekkist frá vallarfoxgrasi á sérkennilega uppblásnu slíðri neðan við stöngulblaðið. Smáöxin eru mjög þétt saman í 2-4cm löngum axleitum punti. Axagnir eru broddhyrndar, sú eftir lengri en súr neðri. Blöðin eru flöt; 3-6mm breið; stráið stutt, sívalt, gárað; blaðgrunnur oft fjólubláleitur við slíðurmótin; útstæð hár við slíðurhimnuna.
Skollareipi (n, hk) Rótartágar/renglur hrútaberjalyngs, sem oft eru sýnilegar ofanjarðar. Hrútaberjalyng hefur vaxið á einum stað í Kollsvík í seinni tíð; í Urðunum ofan Bergjanna í Kollsvík.
Skollaskyrpa (n, kvk) A. Dökkur blettur í gómfyllu þorskhauss (sjá þar). „Gómhimnan er einnig kölluð gómfilla og gómroð. Neðst á henni er dökkur blettur; hælroði/illa/ónæmisblettur/skollablettur/skollaskyrpa eða spítalski blettur. Sagt var að hann væri eftir kló skrattans, eða hráka hans. Himnan var talin óæt og jafnvel sögð valda holdsveiki eða vitglöpum.“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). B. Annað heiti á marglyttu.
Skollaþvengur (n, kk) Marþráður; Chorda filum. Brúnþörungur sem er eins og löng reim eða snúra í útliti; sívalur brúnn; 2-6m langur; 3-6mm í þvermál; þráðlaga og greinalaus; með lítilli skífulaga festingu neðst; sleipur viðkomu. Skollaþvengur er einær; vex snemma á vorin og hverfur að hausti. Algengur kringum allt land á grunnsævi. Kemur iðulega í net og á fjörur.
Skollaþýska (n, kvk) Hrognamál; óskiljanlegt blaður. „Hver heldurðu að skilji þessa skollaþýsku“?
Skolli (n, kk) A. Milt blótsyrði; milt heiti á myrkrahöfðingjanum eða útsendara hans. „Skolli varstu nú heppinn“! „Það er einhver skollans verkur í hnénu á mér“. B. Gæluheiti á tófu/ref.
Skolt (n, hk) Baknag; baktal; slúður; rógburður. „Ég ætla ekki að bera áfram þetta skolt sem maður heyrir“.
Skolta (s) Kjafta frá; uppljóstra; blaðra. „Hann var eitthvað að skolta um búskapinn á næsta bæ“. „Hann er búinn að skolta leyndarmálinu um allar jarðir“. Mikið notað af J.Hák. o.fl.
Skoltur (n, kk) Kjaftur; munnur. „Einhver eymsli eru nú skoltinum á mér; ég þyrfti að fara til tannlæknis“.
Skondið. (l) Skrýtið; sniðugt; skoplegt. „Það skondna er að áður framleiddi rennibekkurinn rafmagn. Pabbi tengdi við hann dýnamó og svo voru hlaðnar rafhlöður fyrir útvörpin, sem kallaðar voru votabatterí“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Skondið og skemmtilegt/skrýtilegt (orðtak) Sniðugt og skotplegt. Oft notað þannig tengt. „Þetta gæti orðið dálítið skondið og skemmtilegt“.
Skondra / Skondrast (s) Ganga; trítla. „Ég ætla að skondra hérna norðuryfir víkina og heilsa uppá fólkið“. „Viltu ekki skondrast fyrir mig niðurí mjólkurhús og sækja í fötuna; hún er þarna á borðinu“.
Skonnorta (n, kvk) Nokkuð stórt seglskip með tveimur eða fleiri möstrum; gaffalseglum og stagseglum (fokkusegl, klýfissegl, jagara og gaffaltoppsegl) og bugspjóti. Seglabúnaður af því tagi var nefndur „skonnortusegl“ eða „skonnortusigling“. Heitið „skonnorta“ er komið úr ensku (scooner), en franska heitið er „góletta“ (goélette). Skonnortur voru fyrst notaðar af Hollendingum á 17.öld. Þær voru mikið notaðar til fiskveiða, m.a. á Miklabanka við Nýfundnaland á 18.öld. Þá voru skonnortur notaðar sem herskip og til vörusiglinga á löngum leiðum; t.d. við te- og ópíumverslun Breta í Asíulöndum. Hér við land voru þær notaðar af Bandaríkjamönnum til lúðuveiða og af Frökkum til þorskveiða í kringum aldamótin 1900. Thor Jensen notaði skonnortur til Spánarsiglinga frá 1917. Fáeinar eru í notkun hér til hvalaskoðunarferða.
Skonnortubrigg er skip með tvö möstur; annað með gaffalseglum en hitt með þverseglum. Hún er því millistig milli skonnortu og briggskips, eða brigantínu, sem er með tvær siglur með þverseglum.
Skonrok (n, hk) Sérstök tegund af þurru, hörðu og geymsluþolnu hveitibrauði. Var allmikið notað í kost stærri skipa fyrrum, t.d. á skútuöldinni.
Skonsa (n, kvk) Lítið rými; klefi; skápur. „Þvottavélin var í skonsunni undir stiganum á Láganúpi“.
Skop (n, hk) Grín; aðhlátursefni; fyndni; spaug. „Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað skop“.
Skoplaust (l) Gamanlaust; grínlaust; alvörumál; ekki aðhlátursefni. „Þetta segi ég þér alveg skoplaust og í fúlustu alvöru“! „Það hefði verið skoplaust ef karlinn hefði ekki náð að grípa í spottann í fallinu“.
Skoplegt (l) Hlægilegt; spaugilegt. „Þetta var hin skoplegasta viðureign“. „Ég sé lítið skoplegt við þetta“.
Skoppa (s) A. Velta. „Ég skoppaði varadekkinu til hans“. B. Skjótast; skreppa; hlaupa. „Skoppaðu nú niðúr í mjólkurhús og náðu í sopa í fötuna“!
Skoppa gjörð (orðtak) Barnaleikur; skoppa gjörð af tunnu á undan sér, ýmist með priki eða höndum. Tíðkuðust ýmsar keppnisgreinar í þeim leik. Einnig var stundum skoppað gjörð af hesthjóli.
Skoppandi (n, kk) Um sjólag; veltingur; typpingur; bárusláttur. „Heldur er hann að aukast þessi skoppandi þegar harðnar innlögnin“.
Skopparakringla (n, kvk) A. Leikfang; kringla, oftast keilulaga, sem snúist getur af miklum hraða og haldið honum af snúðvægi sínu. Á sumum er trekkibúnaður til að auðvelda snúninginn. B. Líkingamál um mann sem er á miklum hlaupum/snúningum; eða skiptir oft um skoðun. „Hann hefur snúist í þessu máli eins og skopparakringla. Það er engu að treysta um hans stuðning við það“.
Skoppast (s) Skjótast; skreppa; hlaupa. „Skoppastu nú fyrir mig eftir mjólk í tankinn snöggvast“.
Skopskyggni / Skopskyn (n, kvk) Næmi manneskju fyrir því skoplega/skemmtilega í málum/umhverfi.
Skopstæling (n, kvk) Eftirgerð/teikning af einhverju en með gamansömum/afkáralegum frávikum.
Skor (n, kvk) Skora/rifa almennt; glufa inn í klett/hlein eða milli tveggja kletta/hleina. Skor er nafn á jörð sem löngum var í byggð; austast í Rauðasandshreppi. Dregur hún líklega nafn af lendingunni, sem er þröngur vogur milli tveggja kletta.
Skora (n, kvk) Skor; rifa; vik; rispa.
Skora (s) A. Gera rifu/skurð/skoru í eitthvað. B. Gera tilkall til. Sbr skora á hólm og skorast undan.
Skora á (einhvern) (orðtak) Mana einhvern í tiltekinn verknað; kalla einhvern til tiltekins verks. „Ég skora á þig að svara mér í bundnu máli“. Eflaust mjög gamalt í málinu, og vísar líklega til þess tíma að boð voru send með örvarboði eða axarboði. Þ.e. boðin voru skorin á legg örvar eða axar og boðsend viðtakanda. „Nú hafði mönnum hlaupið kapp í kinn og margir skoruðu á þá Liða og Gumma að ljúka veðmálinu…“ (PG; Veðmálið). „Almennur hreppsfundur skorar á vegamálastjórn og þingmenn Vestfjarða að beita sér fyrir…“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Skora (einhvern) á hólm (orðtak) Kalla einhvern til einvígis; mana einhvern til bardaga/slagsmála/viðureignar/hólmgöngu. „Ég get skorað hann á hólm í rökræðum um þessi efni, hvenær sem er“! Orðtakið er mjög gamalt. Hólmur sem hér um ræðir er líklega afmarkað svæði, en siður var að stinga niður tágum/greinum til að afmarka það svæði sem berjast mátti á; hasla bardaganum völl. Þegar maður var skoraður á hólm var skorið boð á boðör eða boðöxi, um að hann skyldi mæta til einvígis á tilteknum stað, og boðið boðsent honum rétta boðleið.
Skorast undan (orðtak) Víkjast undan. Hér er líklega um fornt orðtak að ræða; frá þeim tíma að menn voru boðaðir til þinga, dóma og einvíga með axar- eða örvarboðum. Sá sem taldi sig ekki geta orðið við boðinu „skoraði sig undan“; þ.e. hann hefur líklega skorið skilaboð um það, annaðhvort á sömu ör/öxi eða á sérstakt boð og komið þeim í hendur boðanda.
Skoraviðri (n, hk) Vindur sem stendur upp á bjargbrún. Ekki notað í seinni tíð, en til fyrritíðar notkunar bendir þessi gamla vísa sem ónefndur bjargmaður kvað á brún Látrabjargs forðum til hjólmannsins (festarhara); „Festarhari hugrakkur;/ hraustur snar og fljótur; / vertu bara vaðglöggur, / viðris skora njótur“ (LK; Ísl.sjávarhættir V). Sjá einnig festarhari.
Skorbiti (n, kk) Biti/slá/aukaþófta sem liggur á og milli hástokka á stærri róðrarbátum, milli bita og öftustu þóftu. Undir skorbita var oft stelkur niður í kjöl og á hann negldar fiskifjalir.
Skordýr / Skorkvikindi (n, hk) Undirfylking sexfætla. Skordýr eru fjölbreyttasti flokkur dýra jarðar, með yfir 800.000 þekktar tegundir, eða fleiri en allir aðrir hópar dýra samanlagt. Fyrstu skordýrin komu fram á Devon-tíma jarðsögunnar, fyrir um 400 milljónum ára, og tugir milljóna ára liðu þar til fyrstu tegundir þeirra komust á flug. Líkami skordýra er liðskiptur, með stoðgrind úr kítíni, og skiptist í þrjá hluta; höfuð, frambol og afturbol. Á höfði eru tveir fálmarar og par af samsettum augum, auk einfaldara depilauga.
Skorða (n, kvk) Búkki; fjöl; það sem styður við/stillir af. Til að halda báti á réttum kili í fjöru voru settar undir hann skorður. Í Kollsvíkurveri voru bæði notaðir búkkar sem skotið var undir byrðinginn og reistar fjalir sem sátu að ofanverðu við skör. „Settu aðra skorðu undir bátinn að framanverðu“. „Oftast var báturinn skolaður áður en hann var að fullu settur undan sjó; nema því aðeins að ráð væri á unglingum til að gera það þegar báturinn var kominn í skorður“ (KJK; Kollsvíkurver). „Svo röðuðum við okkur á bátinn og felldum skorður undan. Tveir bökuðu aftan; einn studi miðskips og einn ýtti að framan“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Skorða (s) A. Stilla af; festa; styðja við. „Mikilvægt er að skorða hvern stein þegar hlaðið er úr grjóti“. B. Ganga frá báti eftir setningu. Skorðað er með því að stinga búkka undir hvora síðu og slá hallandi skorður (fjalir) undir skarirnar framan og aftan.
Skorða skipsmenn en ábyrgjast eigendur (orðatiltæki) Minnir á þá reglu að áhöfn báts skal ganga frá honum í uppsátri en það er á ábyrgð eiganda að ganga úr skugga um að allt sé í lagi og rétt gengið frá. „Þegar báturinn er kominn upp á kamb er skorðað; oft var sagt: „Skorðið skipsmenn; ábyrgist eigendur“ “ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Skorðaður (l) A. Um bát; stífaður af með skorðum, svo hann standi á réttum kili. B. Líkingamál; tryggður fyrir því að hreyfast ekki; aðþrengdur.
Skorið við nögl (orðtak) Naumt skammtað; sparað. „Veitingarnar voru ekki skornar við nögl á þeim bænum“.
Skorinorður / Skorinyrtur (l) Gagnorður; kjarnyrtur. „Ræðumaðurinn var skorinyrtur og sparaði ekki lýsingarorðin“. Vísar til þess að skera óþarfa skrúðmælgi utanaf því sem sagt er.
Skorinyrði (n, hk) Hnitmiðað mál; kjarngóð ræða. „Ég lét hann heyra fáein skorinyrði“!
Skorningur (n, kk) Far; rás; skora; hjólfar. „Þeir þyrftu nú að fara að hefla þessa leiðinda skorninga“.
Skorpa (n, kvk) A. Hörð skán, t.d. á brauði, haug eða sári. „Éttu skorpuna líka drengur; þetta er matur“! B. Skörp vinnulota; skorpuvinna. „Steypa þurfti veggina í einni skorpu, til að ekki yrðu í þeim steypuskil“.
Skorpinn (l) Hrukkóttur; með skorpu/ harða skán/skel. „Ég tíndi þau ber úr sem voru skemmd eða skorpin“.
Skorpna (s) Verða skorpinn; þorna; skelja.
Skorpumaður (n, kk) Sá sem vinnur hratt og afkastar miklu á stuttum tíma en hentar ekki eins vel jöfn og stöðug vinna. „Hann var skorpumaður til vinnu og það gekk vel undan honum meðan hann var að.
Skorpuróður (n, kk) Ákafur róður sem róinn er í einni lotu.
Skorpuvinna (n, kvk) Verk sem þarf að koma frá í lotu; ekki stöðug vinna. „Löndunin var skorpuvinna, einkum ef afli var mikill og keppa þurfti við sjólag og sjávarfall“.
Skorsteinn (n, kk) Reykháfur. Sambærilegt orð er í norsku skorsten, og í þýsku schorstein. Merkingin er „skorðaður steinn“, sem vísar trúlega til þess að skorsteinn er gjarnan hinn fasti kjarni í því húsi sem hann er í; einkum í timburhúsum.
Skorta (s) Vanta; vanhaga um. „Mig skortir ekkert“. „Það gæti varið að skorta salt á næstunni“.
Skorta á/uppá (orðtak) Vanta á; vera ekki fullt/fullkomið. „Eitthvað skortir uppá mannasiðina hjá honum“.
Skortur (n, kk) Vöntun; hörgull. „Það er enginn skortur á rigningunni í dag“! Sjá af skornum skammti.
Skoskur ljár (orðtak) Torfaljár; bakkaljár (sjá þar).
Skoskt tau (oðtak) Tau/klæðaefni með rúðóttu mynstri. „Svuntan var af rúðóttu taui, sem var kallað skoskt tau; óhrein eða upplituð, því að framaná svuntunni var bót af sama efni er sýndi hinn upprunalega lit tausins“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Skot (n, hk) A. Afkimi; útskot. Stígvélin eru þarna í skotinu“. B. Skothylki í byssu. „Ég tek pakka af þessum skotum með niður í Byrgi“. C. Ör; skutull. „Benedikt Gabríel krafðist skotmannslauna sinna af Einari í Kollsvík“. D. Skyndilegt og skammvinnt óveður; spæna; hvellur. „Þetta var ansi hressilegt norðanskot“.
Skotalaus (l) Hefur engin skot. „Ég sé að ég er að verða skotalaus. Ætli maður fari þá ekki að hætta skytteríi þennan daginn“.
Skotaskuld (n, kvk) Skuld sem er í vanskilum; skuld sem manni hefur skotist að greiða. Sjá; verða ekki skotaskuld úr.
Skotbjart (l) Nægilega bjart til að skjóta tófu. „„... þarna í köldum skothúskofanum sat maður hálfu og heilu vetrarnæturnar og skalf sér til hita, meðan tunglið skein svo skotbjart var“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Skotbyrgi (n, hk) Skothús; mávabyrgi; tófuhús; staður þar sem legið var fyrir veiðibráð.
Skotferð / Skottúr (n, kvk/kk) Snögg/stutt ferð; skreppitúr. „Eg þarf víst að fara í skottúr á Patró“.
Skotfimi (n, kvk) Leikni í að skjóta/ hitta í mark.
Skotfljótur (l) Mjög fljótur í förum; eins og skot. „Ég ætla aðeins að skreppa; ég verð skotfljótur“.
Skotfæri (n, hk, fto) A. Hvaðeina sem skotið eða kastað er, s.s. steinar, örvar, spjót og hlaðin byssuskot. B. Líkingamál um tilefni til orðaskipta, einkum háðs eða skamma. C. Mjög góð færð á vegi.
Skotglaður (l) Þykir gaman að skjóta úr byssu; byssuóður. „Ekki voru allir leikir svo skotglaðir, því líka voru smíðaðir flugdrekar og einnig bátar af ýmsu tagi“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Skotharður (l) Um bráð sem skotið er á; brynjaður gegn skoti/ákomu; þolir vel kúlu/högl. „Það tekur því ekki að eyða skoti á gamalmáv þótt hann gefi færi. Bæði er hann seigur undir tönn, og svo er hann skotharðari en unginn“.
Skotheldur (l) A. Dugir sem vörn fyrir skoti. B. Líking; stenst gagnrýni; rökréttur.
Skothendur háttur (orðtak) Um vísnagerð; Skothending nefnist alrím eða hálfrím innan sömu braglínu. Dæmi um það er: „Hvert stefnið þér hrafnar,/ hart með flokk enn svarta“? (Þórður Kolbeinsson; Björns saga Hítardælakappa). Einnig nefnt sniðhending.
Skothríð (n, kvk) Áköf og ítrekuð byssuskot. „Heimanað mátti sjá mávahópinn nálgast Byrgið, þar sem fljótlega upphófst mikil skothríð“.
Skothundur (n, kk) Veiðihundur. „Með mér var mjög góður skothundur sem mér þótti mjög vænt um“ (IG; Sagt til vegar I).
Skothurð (n, kvk) Rennihurð; hurð sem skotið er til hliðar á brautum í stað þess að opnast á lömum.
Skothús / Skothúskofi (n, hk/kk) Tófuhús; lítið skýli þar sem legið var fyrir tófu. „Þarna á blábrúninni er mjög gamalt skothús sem notað var til skamms tíma. Þar var borið út hræ og legið fyrir tófu“ (IG; Sagt til vegar I). „... þarna í köldum skothúskofanum sat maður hálfu og heilu vetrarnæturnar og skalf sér til hita, meðan tunglið skein svo skotbjart var“ (ÁE; Ljós við Látraröst). „Á brún Strengbergs er rúst af skothúsi, frá því að vetrarveiðar voru stundaðar á ref“ (HÖ; Fjaran).
Skotist/skjátlast/skjöplast getur þó skýr sé / Skjátlast þó skýr sé (orðatiltæki) Vísar til þess að jafnvel þeim getur yfirsést/skjátlast sem er greindur/rökvís.
Skotklefi (n, kk) Klefi í sláturhúsi þar sem sláturfé er lógað. Sjá banaklefi.
Skotlaun (n, hk, fto) Verðlaun; þóknun sem greidd er af almannafé þeim sem vinnur tófu, vargfugl eða annan skaðvald. Vanalega nefnt verðlaun í Rauðasandshreppi í seinni tíð, sjá þar.
Skotlína (n, kvk) A. Leið sem skot fer þegar skotið er. „Gættu að því að ekkert sé í skotlínunni“. B. Fluglína; létt lína aftaní rakettu sem skotið er úr línubyssu, t.d. til björgunar úr strönduðu skipi. Rakettunni er skotið úr landi. Nái skipverjar skotlínunni draga þeir hana til sín, en í hana er fest sterkari tóg og síðan björgunarstól og tildráttarlínu.
Skotloka (n, kvk) Dyraloka; slagbrandur; renniloka. „Skotloka getur annað hvort verið með lausum slagbrandi, sem þá er rennt í kíl í dyrastafnum þegar lokað er, en hangir í spotta þegar opið er: Eða með slagbrandi sem rennur í spori á hurðinni; oftast í eitthvað móttak á stafnum“.
Skotmaður (n, kk) A. Sá starfsmaður í sláturhúsi sem hefur það hlutverk að lóga skepnum. B. Sá sem skýtur veiðidýr, s.s. tófu. „Skotmaður þarf að hirða skottið af refnum til að innheimta sín verðlaun hjá oddvita“.
Skotmannshlutur (n, kk) Hlutur þess sem skýtur af veiðifeng. „Leitar hann nú eftir við bónda hvort hann vilji ekki greiða sér skotmannshlut af hvalnum. En því neitar Einar með öllu“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Skotra (s) A. Almennt; renna til hliðar. Skotraðu þessu til mín“. B. Um augnaráð; skotra augunum.
Skotra augunum (orðtak) Gefa hornauga; horfa á skjálg; horfa útundan sér. „Hann skotraði augum til hennar“.
Skotra sér undan (orðtak) Víkja sér undan. „Hann náði naumlega að skotra sér undan þegar steinninn kom fljúgandi niður klettana“.
Skotrenna (n, kvk) Þaksund; lægð milli aðhallandi húsþaka, einkanlega renna sem þar tekur við regnvatni.
Skotróður (n, kk) Róður sem varir stuttan tíma; stuttur róður. „Ég náði að fara einn skotróður fram á Víkina“.
Skotsilfur (n, hk) A. Brotasilfur; silfur sem safnast (skotist) hefur úr mörgum áttum í viðskiptum fyrri tíðar. B Líkingamál; laust fé; peningar. „Ég er hér með eitthvað skotsilfur“.
Skotspónn (n, kk) Fornt orð um skotmark; vísar líklega til þess að skotið hafi verið í tré eða tréskífu, en e.t.v. annað sem ör eða spjóti var beint að. Hugsanlegt er að orðið hafi einnig, og/eða í einhvern tíma, merkt örina sem skotið var. Til þess benda orðtökin beina skotspónum að og heyra/frétta á skotspónum; sjá þar. Sjá einnig; vera skotspónn einhvers; hafa að skotspæni.
Skott (n, hk) A. Rófa á hundi/ketti/tófu/mink. Aldrei var talað um skott á kúm eða kindum, eins og nú er lenska hjá borgarkynslóðinni. B. Gæluorð um barn. „Komdu hérna skottið mitt og leyfðu mér að strjúka mesta skítinn framanúr þér“. C. Geymslupláss aftan í fólksbíl. Síðari tíma líking. D. Hali á skotthúfu.
Skotta (n, kvk) Gæluheiti á draug/uppvakningi. Einnig sem hundsheiti.
Skottast (s) Skjótast; fara; hlaupa um; leika sér. „Stelpan hefur verið að skottast hérna úti á hlaðinu“.
Skotthúfa (n, kvk) A. Húfa með skotti á; húfa sem er svo ílöng að hún efri endinn lafir niður. B. Peysufatahúfa; hluti íslensks kvenbúnings. Húfa með skott og skúf niður úr kollhettunni. „Hún (huldumærin) var vel klædd; þó ekki í upphlut né með skotthúfu“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Skottleggur (n, kk) Afturfótur. Nú einungis notað í orðtökunum að ná í skottlegginn á og rísa upp á skottleggina (sjá þar.
Skottulækning (n, kvk) Flaustursleg/léleg/ófagmannleg lækning. „Skotta“ er þarna hljóðbreyting af „skjótur“.
Skottulæknir (n, kk) Sá sem stundar skottulækningar/ þykist vera læknir; lélegur læknir.
Skóa (s) Gera skó á fætur; búa út með skó; járna hest.
Skóaður (l) Með skó. „Ertu nógu vel skóaður til að fara í kletta; er ekki betra að vera á strigaskóm“?
Skóari (n, kk) Skósmiður; sá sem gerir skó/ lagar skó.
Skóaskipti / Skóskipti (n, hk, fto) Skipti á skófatnaði. „Ég ætla að hafa skóaskipti áður en ég legg af stað“.
Skóbót (n, kvk) Bót á skó. Fyrrum var mikið gert af því að bæta skó og stígvél þegar göt komu á, eða slitna tók.
Skóbótarvirði (n, hk) Um það sem er mjög lítils virði. „Þetta er nú varla skóbótarvirði“.
Skóbúnaður (n, kk) Gerð af skóm/stívélum sem á gengið er í. „Þetta er varla hentugur skóbúnaður í kletta“!
Skóböðull (n, kk) Sá sem er fljótur að eyðileggja skó/skófrekur. „Óttalegur skóböðull geturðu verið“. Orðið finnst ekki í orðabókum.
Skóbösl / Skófatnaður (n, hk, fto) Skór; skóbúnaður.
Skófir (n, kvk, fto) A. Skánir; það sem skafið er af. Oftast er átt við það sem stundum sýður fast innanum pott þegar soðinn er mjólkurmatur. B. Frumstæð jurtafylking; fléttur. Fléttur eru sambýli sveppa og þörunga. Skófir er vanalega notað um þær tegundir fléttna sem eru blaðkenndar, s.s. geitaskóf og skeljaskóf, en vaxa ekki upp frá jarðvegi eins og flétturnar fjallagrös og hreindýramosi.
Skófla (n, kvk) Reka; amboð til moksturs eða/og stungu efnis. Heitið reka var oftar notað vestra.
Skófla (s) Moka með skóflu/reku.
Skófla í sig (orðtak) Borða með mikill áfergu/græðgi.
Skóflublað / Skófluskaft (n, hk) Hlutar skóflu.
Skóflustunga (n, kvk) Mæling á jarðvegsdýpt; sem svarar lengd á skóflublaði. „Ég pikkaði niður úr jaðrfrostinu og það er alveg full skóflustunga á dýpt“.
Skóinn kreppir að (orðtak) Þrengir að; þrengingar steðja að. „Hann þekkti þetta manna best, og vissi hvar skóinn helst kreppti að“.
Skólaskoðun (n, kvk) Læknisskoðun skólabarna. „Skólaskoðun var einusinni á ári“.
Skógahögg (n, hk) Skógarnytjar; það að höggva skóg til nytja. Skógur kann að hafa vaxið norðantil í Kollsvík við landnám, en þar hefur verið skóglaust svo langt sem elstu heimildir greina. Hinsvegar benda allar líkur til að a.m.k. á tímum Einars Jónssonar í Kollsvík hafi Kollsvíkingar átt skógarhögg annarsstaðar; til þess bendir járnvinnsla hans. Líklega hefur Einar fengið skógarhögg hjá mágfólki sínu í Vesturbotni.
Skógarítak (n, hk) Ítak til skógarhöggs í landi annarrar jarðar. „Sauðlauksdalskirkja á skógarhögg í Botnsskógi, og brúka leiguliðar þar kolaskóg ókeypis“ (ÁM; Jarðabók).
Skógarmaður (n, kk) A. Á þjóðveldisöld var heitið haft um þann sem dæmdur var til skóggangs/útlegðar´; skóggangsmaður. Sekir skógarmenn voru griðlausir og réttdræpir hvar sem þeir náðust, og er nafnið tilkomið af því að auðveldast var að leynast í skógum eða hellum. Þekktir skógarmenn eru t.d. Grettir sterki Ásmundarson og Gísli Súrsson. B. Sá sem er í skógi/ stundar skógarhögg.
Skóggangur / Skóggangssök (n, kvk) Skóggangur var ein þriggja refsinga sem sakamenn gátu verið dæmdir til, samkvæmt Grágásarlögum, en hinar voru útlegð og fjörbaugsgarður.Skóggangssök var glæpur sem til forna þótti svo mikill að rétt væri að dæma sakamann til útlegðar/skóggangs. Skóggangur og fjörbaugsgarður nefndust sekt. Mannvíg voru yfirleitt skóggangssök, en einnig aðrar alvarlegar skir. Með skóggangi var hinn seki sviptur allri vernd samfélagsins, svo hann var réttdræpur þar sem hann náðist. Hann var óalandi og óferjandi; þ.e. enginn mátti gefa honum að borða eða aðstoða hann á ferðalögum. Mennv oru einnig sviptir öllum titlum og réttindum og voru oft dæmdir í mikil fjárútlát eða eignaupptöku. Um 970 gengu mikil harðindi yfir; sjá óöld í heiðni, með mikilli fjölgun skóggangsmanna. Um 1000 var lögtekinn fjörbaugsgarður, sem var vægari refsing. Sjá skógarmaður.
Skóglaus (l) Ekki vaxinn skógi. Skóglaust hefur verið í Útvíkum, svo lengi sem elstu heimildir greina. Hafi þar verið einhver skógur við landnám hefur hann fljótlega eyðst við notkun; a.m.k. eftir að verstaða hófst. Vel líklegt er að fyrir landnám hafi skógur vaxið við bestu skilyrði, t.d. ofarlega og norðantil í Kollsvík og norðurundir Hjöllum í Breiðavík.
Skógrækt (n, kvk) Ræktun skógar. Tilraunur hafa verið gerðar til skógræktar í Kolsvík en ekki gengið. Páll Guðbjartsson plantaði birki í reit heiman Litlavatns, og síðar reyndu Ingvar og Össur bræður hans að koma til græðlingum í Urðunum sinnhvorsvegar í Kollsvík.
Skólaakstur (n, kk) Akstur með skólabörn milli heimilis og skóla. Á tímum farskóla hvíldi sú skylda á foreldrum að koma sínum börnum á kennslustað, þar sem þau dvöldu vanalega um tíma í fæði og húsnæði. Þegar Barnaskóli Rauðasandshrepps tók til starfa í Fagrahvammi 1965 var börnum í fyrstu skipt í yngri- og eldri-deild, sem skiptust á í skólanum hálfsmánaðarlega. Nokkrum árum eftir það var ráðinn sérstakur skólabílstjóri til að sjá um skólaaksturinn í stað foreldra. Síðar urðu ferðirnar vikulegar. Sá sem lengst af var skólabílstjóri í Rauðasandshreppi var Ólafur Sveinsson á Sellátranesi. Hann þótti fádæma öruggur og útsjónarsamur bílstjóri, en hvergi á landinu þurfti að aka börnum yfir fleiri fjallvegi til skóla.
Skólaskoðun (n, kvk) Læknisskoðun skólabarna, sem í Rauðasandshreppi var yfirleitt framkvæmd í byrjun skólahalds að hausti. Þá kom héraðslæknir eða hjúkrunarkona og skoðaði heilsufar barna. M.a. var gert berklapróf sem fólst í því að líma plástur með séstöku efni á bringu barnsins og athuga eftir nokkra daga hvort roðnað hefði undan.
Skólp / Skolp (n, hk) A. Skolvatn; óhreint vatn. B. Líkingamál um lélegt kaffi o.fl.
Skólpa (s) Þvo; skola. „Ég skal skólpa af diskunum eftir matinn“.
Skólpa af sér (skítinn) (orðtak) Þvosér lauslega; skola af sér. „Ég ætla rétt aðeins að skólpa mesta skítinn af höndunum“.
Skólpfata (n, kvk) Fata með óhreinu vatni; þvottafata.
Skósíður (l) Um yfirhöfn; sem nær niður á skó.
Skóslit (n, hk) Slit/eyðing skóa við það að gengið er á þeim. Sjá roðskóa leið, roðskór og skinnskór.
Skósóli (n, kk) A. Bót af seigu þykku efni sem sett er undir gangflöt á skó. B. Líkingamál um mat sem þykir seigur undir tönn. „Ekki fannst mér nú varið í þessa pitsu; þetta er eins og ólseigur skósóli“!
Skósverta (n, kvk) Þykkt litarefni til að bera á svarta skó og viðhalda með því lit og vörn.
Skótau (n, hk) Skófatnaður. Hann var mikilvægur hluti lífsbaráttunnar í Útvíkum, þar sem ganga þurfti langar leiðir um fjalllendi til að halda fé að beit; til gangna; til vikulegra kirkjuferða og annarra nauðsynjaferða. „Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni bryddu með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim. Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir“ (ÞB; Lesbók Þjóðv; viðt. v. HM). „Það voru einnig notaðir skór úr steinbítsroði, en hætt var að nota slíkt skótau að mestu þegar ég fermdist“ (DÓ; Að vaka og vinna).
Skótúttur (n, kvk) Lélegir/óþénanlegir skór; niðrandi heiti á skóm. „Ég fékk lánaðar einhverjar ólánlegar skótúttur sem bæði pössuðu mér illa og héldu engri vætu“.
Skóvarp (n, hk) Um snjódýpt; um 3ja til 5cm djúpur snjór, eða upp að skóvarpi á fyrri tíðar skóm.
Skóþvengur (n, kk) Skóreim; spotti til að festa skó að fæti. Kemur við sögu í ólíkum átrúnaði. Jóhannes skírari kvaðst ekki þess verður að leysa skóþveng Jesú. Íslensk þjóðtrú segir að losni skóþvengur gjafvaxta karlmanns, sé líklega stutt í giftingu hans.
Skraddari (n, kk) Fatagerðarmaður; klæðskeri.
Skraf (n, hk) Samtal, einkum á lágværum nótum; mas; rabb. Sjá til skrafs og ráðagerða.
Skrafa / Skrafa saman (s/orðtak) Ræða; tala saman; rabba; slúðra. „Margt var skrafað manna á milli“.
Skrafdrjúgt (l) Mikið umræðuefni. „Mönnum hefur orðið skrafdrjúgt um þessi prestmál“. Sjá verða skrafdrjúgt.
Skrafhreifinn / Skrafhreifur (l) Liðugt um málbeinið; talar mikið. „Ekki vil ég kalla hann bullustrokk, en mikið er maðurinn skrafhreifinn“! „Eftir fyrsta glasið var hann orðinn nokkuð skrafhreifur“.
Skraglast (s) Staulast; skriplast; komast með naumindum. „Esinhverntíma skraglaðist ég þarna út ganginn“.
Skrall (n, hk) A. Óvirðulegt heiti um skemmtun/samkomu. B. Verkfæri; stöng til að skrúfa topplykla með. C. Óreiða; bilun. „Það var allt í skralli með tækin á bænum“. Linur framburður á „l“.
Skralla (s) A. Skrölta. B. Stunda skemmtanalífið ótæpilega. Lint „l“.
Skrallsamkoma (n, kvk) Niðrandi heiti á skemmtisamkomu; svallpartí. „Ég nenni ekki á svona skrallsamkomur“! Lint „l“.
Skralt (l) Fátæklegt ;lítilfjörlegt; rýrt; fágæft; lítið um fóður/mat/veiði. „Fjári er þetta eithvað skralt hér á grunninu; ættum við ekki að renna niður á Skeggja“? „Það fer að ferða ansi skralt með saltið bráðum; ég þyrfti að fá meira áður en við förum aftur í róður“. „Nú er mér fremur skralt um ráð" Samsvarandi orð má finna í dönsku (skral = magur; lélegur) og lágþýsku (schral = magur; þurr; naumur). Algengt enn í munni Kollsvíkinga.
Skrambansári / Skrambansekkisen (n, kk) Upphrópun; mjög vægt blótsyrði. „Skrambansári er ég slæmur í bakinu núna“. „Þetta er bara skrambansekkisen eigulegt bátshorn“.
Skrambanskuldi / Skrambansóheppni / Skrambansólán / Skrambansótíð / Skrambansrigning / Skrambansvindur / Skrambansveltingur / Skrambansvesen / Skrambansþoka Heiti með áhersluorðinu skrambi. Áhersluorðið er stundum stakt, en stundum svo samtvinnað heitinu að telja verður eitt orð.
Skrambi (n, kk) Áhersluorð/blótsyrði. „Hver skrambinn“! „Skrambi er þetta nú horaður hrútur“. Skrambi var mjög vægt, og taldist varla til blótsyrða; ívið vægara en skolli. Eflaust afbökun á „skratti“, sem strangtrúaðir vildu helst ekki taka sér í munn.
Skrambihátt / Skrambiheitt / Skrambikalt / Skrambilangt / Skrambimikið / Skrambistutt / Skrambiþungt Lýsingar með áhersluorðinu skrambi. Stundum stakt, en iðulega samtvinnað lýsingarorðinu eins og hér.
Skran (n, hk) Dót; rusl; lélegir/ónýtir munir. „Margt þarna á geymsluloftinu reyndist óttalegt skran“.
Skranbúð (n, kvk) Gælunafn á verslun sem ekki selur matvöru heldur hluti, t.d. verkfæri eða annað.
Skransa (s) Síðari tíma heiti á því að hemla farartæki þannig að hjól dragist snúningslaus á undirlaginu.
Skrap (n, hk) Samtíningur; leifar; strjált. „Það er kannski eitthvað skrap af eggjum þarna á pallinum“.
Skrapa (n, kk) Skafa; áhald til að skafa/skrapa með, t.d. málningu af fleti.
Skrapa (s) Skafa; skarka; skrölta.
Skrapa saman (orðtak) Ná saman; raka saman; safna. „Honum tókst að skrapa saman fyrir útborguninni“.
Skrapatól (n, hk) Lélegt áhald/bíll eða annað. „Þessi traktor er að verða algjört skrapatól“.
Skrattagangur (n, kk) Andskotagangur; fyrirgangur; læti. „Þessu fylgdi dómadagshávaði og skrattagangur“.
Skrattakollur (n, kk) Skúrkur; deli. „Sá skrattakollur má sigla sinn sjó fyri mér“!
Skrattakornið (n, hk, gr) Vægt blótsyrði/áhersluorð. „Þú ferð skrattakornið ekki að fara einn í Breiðinn“?
Skrattalega (ao) Bölvanlega; illa. „Mér hefur liðið alveg skrattalega í hendinni upp á síðkastið“.
Skrattanum til skemmtunar (orðtak) Til óvinafagnaðar; til háðungar. „Ég held að það yrði bara skrattanum til skemmtunar ef ég tæki þátt í söngnum, svo ég sit bara hjá“.
Skrattansári (ao) Áhersluorð. „Skrattansári er þetta nú góður matur“! „Mér er orðið skrattansári heitt“.
Skrattansnær (fs) Andskotansnær; fjandansnær; væri betra. „Mér hefði verið skrattansnær að koma trénu aðeins hærra upp; þá hefði það ekki flotið út á kvöldflæðinni“!
Skrattast (s) Hypja sig; hundskast. „Ætli maður verði ekki að skrattast á þennan fund, þó það sé bölvað að fórna þurrkinum í það“.
Skrattast til (orðtak) Hundskast til; koma sér. „Skyldi hann ekki ætla að skrattast til að ná þessu útigöngufé“?
Skratti (n, kk) Áhersluorð eða milt blótsyrði; ári; púki. „Skratti getur þetta verið snúið“. Oft notað í ef m. gr: „Skrattans vesen er þetta“! „Skrattans löppin gaf sig, svo ég datt“. Oft einnig sem taglhnýtingur annarra heita: „Rolluskrattinn sneri á mig“!. „Skyldi hann ætla að svíkja mig um þetta, karlskrattinn“? „Sigurður var fyrstur í botninn og dró strax einn hvítan og fallegan fisk; en hann var húkkaður sá skratti“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Skrattinn hossi honum (orðtak) Upphrópun; fjandinn eigi hann; hann getur átt sig fyrir mér.
Skrattinn kemst í spilið (orðtak) Eitthvað fer úrskeiðis/miður vegna óvæntra atvika. „Það leit ágætlega út með að við næðum að hirða allt hey í hlöðu fyrir kvöldið. Þá fór að rigna og skrattinn komst í spilið; þá var ekkert annað að gera en ryðja þessu upp í galta“.
Skrattinn sjálfur! (orðtak) Upphrópun sem oft er viðhöfð, t.d. ef óvænt og óheppilegt atvik ber að.
Skrattinn skítur í eggina (orðtak) Sú var trú manna að ekki mætti ganga frá óbrýndum ljá eftir að slætti lauk um daginn; þá gæti skrattin skitið í eggina, þannig að ekkert bit fengist í hann næsta dag.
Skraufaþurr / Skraufþurr / Skráþurr (l) Alveg þurr; án nokkurrar vætu. „Það má hirða þetta hey í gömlu hlöðuna; það er skraufþurrt“. „Settu húfuna á ofninn; hún verður orðin skráþurr eftir matinn“.
Skraut (n, hk) A. Skart; glingur; það sem þykir bæta útlit. B. Skrautgripur.
Skrautgripur / Skrautmunur (n, kk) Gripur/munur sem er til fegurðarauka; skraut.
Skrautlega (ao) Fagurlega; litskrúðugt; glæsilega; með skrauti. „Henni þótti húsið skrautlega málað“.
Skrautlegur (l) A. Fagur; litskrúðugur; glæsilegur. „Hún óf skrutlegan krans úr blómunum“. B. Skrýtinn; furðulegur, „Þetta fannst honum hinn skrautlegasti samsetningur“.
Skrautskrift (n, kvk) Vönduð handskrift, oftast útflúruð. „Margir góðir skrautskrifarar hafa verið í Kollsvík í seinni tíð. Þar má nefna Samúel Eggertsson, kennara, kortateiknara og bróðurson Matthíasar Jochumssonar, sem bjó um tíma á Grund; Össur Guðbjartsson á Láganúpi, oddvita, kennara og félagasmálafrömuð sem taldi sig reyndar ekki skrautskrifara en skrifaði listilega góða rithönd; Sigríði Guðbjartsdóttur, konu Össurar, listakonu og fræðimann sem var eftirsóttur skrautritari og síðast en ekki síst Hólmfríði St. Sveinsdóttur, síðustu bóndakonu/búandkonu í Kollsvík og dóttur Sveins Ólafssonar myndskera frá Lambavatni“.
Skrá (n, kvk) A. Listi; innritun; upptalning; registur. „Hann hélt nákvæma skrá yfir fallþunga dilka“. B. Læsing. „Lykillinn gekk ekki að skránni“.
Skrá / Skrásetja (s) A. Rita; setja á blað; skrifa niður. „Þessi saga er hvergi skráð á bók“. B. Semja lista/skrá; setja á lista.
Skrá á bát / Lögskrá (orðtak/s) Bóka áhöfn báts í löggerningabók/skráningabók áður en haldið er í róðra. „Á seinustu árum var skráð á bátana og tryggingagjöld greidd; nokkru áður en útgerð lagðist þarna niður“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Skráargat (n, hk) Gat það í hurð sem lykli er stungið um í skrá. Einnig notað í líkingamáli um eitthvað það sem örðugt er að komast um. „Strandveiðisjómenn áttu erfitt með að lifa við þetta skráargat laganna“.
Skráma (n kvk) Fremur lítil meiðsli; hrufl. „Það sást ekki svo mikið sem skráma á honum“.
Skráma (s) Meiða; hrufla; særa. „Stórfurðulegt að hann skyldi ekki skrámast neitt við byltuna“.
Skrámaður (l) Meiddur; hruflaður; flumbraður. „Eitthvað var ég skrámaður á höndum eftir þetta“.
Skrápdýr (n, hk, fto) Fylking tegunda sjávardýra sem sum lifa á grunnsævi en önnur dýpra. Af algengum grunnsjávartegundum má nefna krossfiska, ígulker, sæbjúgu og sæliljur. Skrápdýr eru kennd við kalkflögur í húð þeirra, sem ýmist eru samfelldar, s.s. hjá ígulkerjum, eða sundurlausar, eins og hjá sæbjúgum.
Skrápur (n, kk) A. Hrjúft þykkt skinn sumra sjávarskepna, t.d. á hákarli. B. Líkingamál um ímyndaða brynju manns. „Það er nokkuð harður á honum skrápurinn, svo hann tók þetta ekki mjög nærri sér“.
Skráveifa (n, kvk) A. Upprunaleg merking er óviss. Skrá merkir skinn. Hugsanlega vísar orðið til einhverra galdraathafna eða helgisiða fyrrum; t.d. að maður hafi klæðst/veifað dýrsfeldi til að fá kraft; sjá fyrir atferli veiðidýra eða magna sendingu. B. Algengt í líkingunni hrekkur; sbr orðtakið gera einhverjum skráveifu.
Skráþurr (l) Alveg/mjög þurr; skraufþurr. „Þetta hey er orðið skráþurrt“. Skrá er gamalt heiti á uppþornuðu/skorpnu skinni, og er líkingin þar af dregin.
Skref (n, hk) A. Bil milli spora manns. „Þegar þokan svimaði frá sá ég að einungis voru örfá skref framá brúnina“. B. Stundum notað sem gróf mælieining, og eru t.d. sumir furðu nákvæmir að mæla einn metra í skrefi. C. Áfangi verks. „Þetta bréf var fyrsta skref mitt í málinu“.
Skrefa (s) A. Stika stórum; taka löng skref. B. Mæla í skrefum; stika. „Ég skrefaði breiddina á stykkinu“.
Skreflangur (l) Sem tekur löng skref/stikar stóran. „Hægðu nú aðeins á þér; þú ert svo skreflangur að þú drepur alla hina af þér“!
Skreflengd (n, kvk) Vegalengd í einu skrefi.
Skrefstuttur (l) Sem tekur stutt skref/ trítlar. „Þú ert enn helsti skrefstuttur til að fara með, stubbur minn“.
Skreið / Skreiðarverkun (n, hk) Fiskur sem þurrkaður er með visum aðferðum. Verkun fisks í skreið er án efa upprunalegasta geymsluaðferð hans; bæði til heimaneyslu og til sölu og hefur verið notuð frá upphafi byggðar í landinu til þessa dags. Skreiðarverkun í Kollsvíkurveri hefur eflaust nokkur verið frá upphafi, en líklega aukist verulega um 1300, þegar skreið varð helsta útflutningsvara Íslendinga, og á ensku öldinni; þegar Englendingar sóttu sjó við landið. Hugsanlega hafa þeir þá keypt skreið í verum Útvíkna, en ekki hafði minni áhrif að með þeim fluttist hingað tækni og efni til línuveiða. Línuveiðar voru síðan stundaðar samhliða skakveiðum um tíma, en lögðust tímabundið af í fiskileysisárum á 17. öld.
Útgerð í Kollsvíkurveri og öðrum útverum byggðist á skreiðarverkun framanaf, eða allt til þess að saltfiskverkun hófst, líklega í byrjun 17. aldar. „Á verslunarmáli nefndist útflutningsskreiðin plattfiskur, en á máli landsmanna skreið eða malflattur fiskur/reithertur fiskur. Það sem Danir nefndu hengifisk var sama og hnakkaflattur fiskur/ráhertur fiskur; einnig nefnt ráskerðingur, og var þá jafnframt átt við fisk sem ekki var hnakkaflattur. Loks var spelkafiskur.... Fiskur sem var kviðflattur og átti að verkast sem harðfiskur/plattfiskur var ætíð þveginn strax eftir flatningu og síðan lagður á helming ef útlit var fyrir þurrk; hafður þannig í einn sólarhring meðan hann var að spýta sjónum. Að því búnu var hann breiddur. En væri ekki þerrisvon var hann kasaður strax eftir flatningu... Fiskurinn var lagður þannig í kösina að dálkurinn sneri niður... Hann var kýttur, en það var að beygja hann í hnakkann svo að fiskurinn myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var sett ofan á það, en fiskurinn þar sveigður í hina áttina... Þannig myndaðist hringlaga kös sem stóð mislengi; stundum svo vikum skipti. Hann gat geymst vel þannig í kulda, en vildi verða maltur í vætu og hita. Því næst var fiskurinn þveginn og himnudreginn; svarta himnan í þunnildinu fjarlægð; síðan breiddur á garða eða möl og roðið ætíð látið snúa niður á daginn og upp að næturlagi. Honum var því þráfaldlega snúið. Þegar fiskurinn var orðinn svo skeljaður að hann bar sig voru nokkrir látnir standa saman á hnökkunum, studdir sporðunum að ofan og sneru bökunum saman, nema þegar rigndi. Slíkt hét buðlungur... Upp frá því var fiskinum hlaðið í smástakka og þeir fergðir, svo að úr honum sléttist. Í þurrki var fiskurinn breiddur úr þeim, uns hann var orðinn sprekharður og þar með hlaðtækur og vogbær. Malflattur fiskur var í margar aldir veigamikill í útflutningi landsmanna“ ... „Þegar gamalt fólk gaf klaustrum próventu sína (í kaþólskri tíð), setti það m.a. sem skilyrði að fá skreið til matar. Bæjarkirkja á Rauðasandi átti að fá eina vætt skreiðar frá hverjum skattmanni innan Bæjarþinga“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Athyglisvert er að í Norður-Noregi er orðið „skrei“ notað um hrygningarþorsk á miðum. Líklega er um sama orð að ræða, en ekki vitað hvenær merking þess færðist yfir á þurrkaðan fisk í íslensku máli.
Skreiðarbaggi (n, kk) Knippi sem skreiðin var bundin í til flutnings. Skreið var oft flutt langar leiðir á hestum. T.d. úr Útvíkum suður alla Barðaströnd; austur í sveitir. Oftast voru þá margir hestar í sömu skreiðarferð; nefnt skreiðarlest. Sjá skreiðarferð og skreiðarkaupaleiðir.
Skreiðarferð (n, kvk) Ferð með skreið; ferð til að sækja skreið. „Steinbítur þekktist ekki sem verslunarvara til kaupmanna, heldur eingöngu látinn til bænda sem ekki bjuggu við sjó. Verðið minnir mig að væri 20 aurar steinbíturinn. Margir komu í skreiðarferðir; t.d. man ég eftir sr. Guðmundi í Gufudal með stóra hestalest í skreiðarferð hingað. Viðskiptin voru einkum við bændur í sveitum við Breiðafjörð. Oftast voru það fastir viðskiptamenn: Þeir fengu steinbít og létu smjör og tólg. Þetta voru áreiðanlegir menn“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Skreiðarhjallur (n, kk) Hjallur þar sem skreið er þurrkuð. Skreiðarhjallar voru ekki notaðir á fyrstu öldum skreiðarverkunar; enda timbur þá vandfengið. Í þeirra stað var skreiðin þurrkuð á steinhlöðnum görðum eða á möl.
Skreiðarhlaði / Skreiðarstakkur (n, kk) Stafli af skreið. Sjá skreið.
Skreiðarkaupaleiðir / Skreiðarflutningar „Úr vestanverðum Breiðafjarðarbyggðum var farið um Þorskafjarðarheiði til skreiðarkaupa við Djúp, en Geir- og Gufdælir héldu út í Víkur. Fyrsta daginn var farið úr Geiradal að Þingmannaheiði; annan yfir hana að Brjánslæk og þann þriðja yfir Kleifaheiði, út með Patreksfirði, yfir Vaðalinn í Örlygshöfn, Tunguheiði og niður í Kollsvík. aðrir fóru úr Örlygshöfn yfir í Breiðavík eða að Hvallátrum. Þessar skreiðarleiðir voru síðast farnar vorið 1909, og tók ferðin úr Gufudal í Kollsvík og heim aftur 8 daga.
Með lengstu og erfiðustu skreiðarleiðum á sjó var úr verstöðvum norðan Látrabjargs inn í Festureyjar á Breiðavirði. Lagt var upp í þessar ferðir síðustu dagana í júní eða í byrjun júlí, meðan sjór var stilltastur og von góðviðris. Farið var í einum áfanga í verstöðvarnar og umfram allt var hugað að góðu leiði, en þá sem jafnan réðu straumar og vindar á Breiðafirði mest ferðinni. Venja Vestureyinga sem reru fyrir norðan Bjarg var að halda heim um miðjan júní með fullhlaðna róðrarbáta sína. Þeir sóttu þá stærri skip, átt- eða teinæringa, til að flytja voraflann. Meðan skreiðarskipin voru sótt var hafður í verinu einn maður frá hverjum báti, svokallaður eftirliggjari. Hann átti að hirða um þann hluta aflans sem ekki var fullþurr og líta eftir fiskifangi og föggum skipsfélaga sinna. Sú bið var aldrei skemmri en þrír dagar, stundum vika eða meira. Þegar heim skyldi halda var oft erfitt að ráða í veður á Breiðafirði. Engin sæmileg lending var nær en á Siglunesi og að snúa aftur gat verið voði, ef ólga hljóp í Látraröst, sem þráfaldlega gerðist á svipstundu. Ef í nauðir rak var reynt að lenda í Keflavík austan Bjargs eða í Skorarvogi. Þegar allt var tilbúið undir heimferðina annað en bera á, var sendur athugull maður út á bjargbrún til þess að vita hvort viðunandi ferðaveður væri inn Sandflóa; buginn milli Bjargtanga og Skorar. Bátarnir voru háfermdir og hækkaðir með stikum; kallað að brjóta út. Stærstu skipin voru talin bera 5-6 smálestir eða 1000-2900 fiska, en ekki mátti hlaða þau meira en svo að sjór væði í saumfari á þriðja borði. Ef veður breyttist eftir að borið hafði verið á skip varð að fresta brottför og bera af, í minnsta lagi ofan að söxum. Ætíð var lagt af stað þegar lítið var fallið út, eða eins og svaraði fullri skipslengd, væri stórstreymt. Þá var upptaka suðurfalls er komið væri austurfyrir Bjargtanga og þess vegna meðstreymt; ella var ógerlegt að komast leiðar sinnar. Straumur var svo harður langt innmeð Bjarginu að gekk sem siglt væri, en sex menn undir árum gerðu lítið betur en halda í við mótstreymi í fullhörðu falli í stórstreymi. Þrekraunin mesta var að komast að Siglunesi. Væri logn eða leiði entist veðstraumur að mestu þangað. Ef tiltækilegt var hvíldu menn sig stöku sinnum í Skorarvogi. Þeir töldu sig komna heim þegar náð var að Siglunesi. Reyndar var þá enn nokkuð langt til Flateyjar, en á þeirri leið voru víða lendingar. Stæði á austan þokuðust menn höfn úr höfn með austurföllunum, en lágu af sér vesturföllin inn með Barðaströndinni. Stöku sinnum liðu tvær vikur frá vertíðarlokum þangað til allir vermennirnir voru komnir heim til sín. Fyrir lánið á skreiðarskipinu voru teknir 60 steinbítar. Ekki er kunnugt um skipstapa eða slys í skreiðarferðum norðan fyrir Bjarg og inn í Vestureyjar“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimildir; GG; ÓETh; ÓM; PJ, Barðstrendingabók; Saga Snæbjarnar í Hergilsey o.fl.).
Skreiðarskemma (n, kvk) Skemma/hús þar sem skreið er geymd. Annaðhvort við bæ eða í veri.
Skreiðarskip (n, hk) Skip sem notað er til flutninga á skreið. „Fönix var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Skreiðarverslun (n, kvk) Verslun með skreið. Oftast er þá átt við útflutning skreiðar. Skreið hefur verið verkuð frá landnámi, og hefur líklega frá þeim tíma verið allmikil vöruskiptaverslunmeð með hana innanlands; enda liggja staðir misvel að sjósókn. Í Egilssögu er sagt frá skreiðarflutningum Þórólfs Kveldúlfssonar frá Noregi til Englands. Skreiðarsala til útflutnings hófst héðan á 14.öld, og þá upphófust útver til mikilla muna. Þá sá höfðingjaveldið hagnaðarvon í skreiðarverslun og sölsaði undir sig jarðir sem best lágu við sjósókn. Þá komst t.d. Láganúpur í eigu Guðmundar ríka Arasonar, og var eftir það eign höfðingjaveldisins fram á 20.öld.
Skreiðast (s) Skríða; skriplast. „Hægt er að skreiðast niður í Smérhellissveltið afturábak og á ská“.
Skreika / Skreika fótur (s/orðtak) Skrika; skrika fótur. Hvortveggja orðmyndin heyrðist.
Skreipt í spori (orðtak) Sleipt að ganga og hætt við að skriki fótur. „Gáðu að þér, það er skreipt í spori“.
Skrekkur (n, kk) Hræðsla. Fremur nýleg sletta í málinu. „Það er hálfgerður skrekkur í manni útaf þessu“.
Skreppa (n, kvk) Þverpoki; lítill sekkur; malur.
Skreppa (s) A. Fara í stutta ferð; skjótast. „Ef við skreppum nú niður á láglendið er þar fyrst flöt sem heitir Hamraendaflöt“ (ÍH; Örn.skrá Melaness). „Ég þarf að skreppa aðeins norður í Kollsvík“. B. Hrökkva. „Bittu (bintu) nú þannig á steininn að ekki skreppi af honum“.
Skreppa af bæ (orðtak) Fara í stutta ferð að heiman; bregða sér af bæ. „Hundurinn hvarf meðan hann skrapp af bæ“.
Skreppa frá (orðtak) Fara í stuttan tíma að heiman/ úr vinnu/ í burtu.
Skreppa saman (orðtak) Rýrna; dragast saman. „Timbrið skrapp nokkuð saman og vatt sig þegar það þornaði“.
Skreppa uppúr (orðtak) Um það sem sagt er í ógáti. „Þetta var kannski óvarlega sagt hjá mér, enda skrapp það uppúr mér alveg óvart“.
Skreppitúr (n, kk) Snögg/stutt ferð; skotferð. „Hann kom hérna aðeins í skreppitúr“. Nýlegt í máli.
Skreyta (s) A. Búa skrauti; fegra; gera litskrúðugt/skrautlegt. B. Líkingamál; ýkja; skrökva; bæta við sögu.
Skreyta sig með annarra fjöðrum (orðtak) Tileinka sér orðsnilld, hugkvæmni eða framtak annarra og eigna sjálfum sér, beint eða óbeint. Notað m.a. um ritstuld.
Skreytinn (l) Lyginn; krítar liðugt; færir í stílinn. „Hann er svo skreytinn að maður veit aldrei hvað satt er“.
Skreytni (n, kvk) Ósatt; lygi. „Óttaleg skreytni er nú í þér, ég held að þetta geti nú varla staðist“.
Skrið (n, hk) A. Það að skríða; fara um skríðandi. B. Allnokkur hraði. „Báturinn fór vel í sjó eftir að hann var kominn á skrið“.
Skriða (n, kvk) Brattur efnishaugur í fjallshlíð, oftast misstórt grjót og aur sem hrunið hefur úr klettum og myndar bratta fjallshlíð. Fjöll á Vestfjörðum einkennast mjög af skriðurunnum hæðum til landsins og sæbröttum núpum með efri- og neðriklettum og brattri skriðurunninni hlíð milli þeirra. Brött skriða getur verið hættuleg og erfið yfirferðar, sé hún ekki gróin eða komnar í hana fjárgötur.
Skriðinn (l) Hefur skriðið/ farið/gengið um. Notað um ýmislegt: Sagt er að túngras sé skriðið eða farið að skríða ef það er byrjað að leggjast og sölna í rót; orðið úr sér sprottið. Sagt er að tófa sé skriðin eða grensmogin, ef sýnilegt er á feldi hennar að hún hefur skriðið um greni. Sagt er að grásleppa sé nýgengin eða nýskriðin ef hún er nýkomin á grunnmið. Þá er hún vanalega ljósari en þær sem eru legnar í þara.
Skriðjökull (n, kk) Jökull sem er undir svo mikilli þjöppun og í svo miklum halla að hann myndbreytist, verður í nokkurskonar seigfljótandi ástandi og rennur hægt undan hallanum. Skriðjökull veldur allajafna miklu rofi á undirlagi sínu, bæði vegna þungans og vegna þess að í botni hans er frosið grjót sem skefur upp berg og annað. Því þykkari og þyngri sem skriðjökullinn er, því meira verður rofið. Engir skriðjöklar eru nú á suðurhluta Vestfjarða, en allt landslag er þar mótað af skriðjöklum ísaldar. Kollsvík er t.d. renna eftir skriðjökul, og sama á við um Vatnadal og nærliggjandi víkur og firði. Skriðjöklar ísaldar náðu fram á landgrunnsbrún og skófluðu griðarmiklu magni bergs fram á djúpið. Hlýnun eftir ísöld varð ekki samfelld, heldur komu kuldaskeið, sem ollu framskriði jökulsins sem fyrr hafði hopað. Má ætla að við slík framhlaup hafi jökullinn rutt fram jökulöldum sem nú sjást víða sem þykk malarholt eða sjávarrif. Má þar t.d. nefna Breiðsholt; Rifið í Kollsvík; Rifið í Breiðavík, Hænuvíkurholt; Gjögraholt o.fl. Af sama toga eru líklega grynningarnar í Patreksfjarðarflóa, en dýpst náði rof fjarðarins í Grænhólsdýpi, utan Skápadals. Skriðjökullinn skildi einnig eftir miklar jaðarurðir, t.d. Brunnbrekku, og í dýpsta rofinu mynduðust stöðuvötn, s.s. Stóravatn, Litlavatn, Kjóavatn og Sandslágarvatn.
Skriðkvikindi (n, hk) A. Skriðdýr. B. Líkingamál um vesælan mann. „Það er ekki tekið meira mark á manni en hverju öðru skriðkvikindi“!
Skriðljós (n, hk) Ljósker; meðfærileg lukt með glergluggum, sem kerti eða annað ljósmeti er sett inní.
Skriðufall / Skriðuhlaup (n, hk) Framskrið/hrun skriðu. „Það er hætt við skriðuföllum í svona leysingaveðri“.
Skriðufótur / Skriðujaðar / Skriðusporður (n, kk) Neðri mörk skriðu.
Skriðugrjót (n, hk) Grjót sem hrunið hefur úr klettum. Grjót til veggjahleðslu er í stórum dráttum af þennum toga í Kollsvík. Skriðugrjót er hrjúft, oft með hvössum eggjum og brotflötum í ákveðna stefnu. Það gerir því nákvæmar kröfur um legu í hleðslu, en getur gefið sléttan útflöt. Jökulnúið grjót eða holtagrjót er núið eftir jökul eða vatn og eftir að hafa rótast langar leiðir í ruðningum. Það er ekki eins kröfuhart um legu í vegg, og er yfirleitt sterkara en skriðugrjót. Lábarið grjót eða fjörugrjót er mest slípað og núið, og er oft nánast hnöttótt eða egglaga. Það er þægilegt hleðsluefni, t.d. í grjótgarða, en þarf vandaða fyllingu ef hleðslan á að verða vindheld.
Skriðuhlíð / Skriðurunnin hlíð (n, kvk /orðtak) Hlíð með skriðum.
Skriðuhætt (l) Hætt við skriðuföllum; hætta á skriðuföllum. „Skriðuhætt mjög, og grjótfall sífellt á vetur (um Kollsvíkurtún og bæjarstæði“ (AM/PV Jarðabók).
Skriðuurð (n, kvk) Urðarskriða; skriða af stórgerðu grjóti, oftast neðst í skriðuhliðinni þar sem bergmunlningurinn flokkast nokkuð þegar hann skríður fram og sá skriðþyngsti fer lengst.
Skriðþungi (n, kk) Vægi hlutar sem er á ferð og leitast við að halda þeirri ferð áfram ef ekki koma aðrir kraftar til, samkvæmt tregðulögmálinu (lögmálinu um varðveislu orku). Skriðþungi er þeim mun meiri sem eiginþyngd hlutarins er meiri.
Skrif (n, hk, fto) Það sem skrifað er; rit; sendibréf o.fl. „Ég hef ekki séð þessi skrif hans ennþá“. Sjá tilskrif.
Skrifa (s) A. Rita/letra stafi. B. Semja ritverk, t.d. skáldsögu. C. Skrásetja það sem lesið er fyrir. T.d. hafði bóndi oft einhvern með sér í fjárhús í fengitíma til að „skrifa“; þ.e. rita á bréfmiða nafn kindar sem fékk, og hrútinn sem farið var með. „Ætlar þú að koma með mér í húsin til að skrifa“? Sjá fara með hrút.
Skrifa bakvið eyrað (orðtak) Leggja á minnið. „Skrifaðu það bakvið eyrað að ég ætla að setja þessa gimbur á“. Oft notað. Sjá einnig mundu það með mér.
Skrifa eftir (orðtak) A. Skrifa afrit af lesmáli; skrifa upp. B. Skrifa, t.d. grein, til minningar um einhvern.
Skrifa einhverjum til (orðtak) A. Skrifa bréf eða annað til einhvers. B. Notað um það að krota með blýanti í kerti á bensinvél, til að örva kveikingu á neista. „Það gæti verið ráð að skrifa honum til; það lagar hann stundum af bévítans óþægðinni“!
Skrifa (einhvern) fyrir (orðtak) A. Skuldbinda einhvern með undirskrift sinni. „Hann er skrifaður fyrir litlum hlut í þessu hlutafélagi“. B. Ætla einhvern geranda/höfund/höfuðpaur. „Snorri er oft skrifaður fyrir Eglu“.
Skrifa hjá sér / Skrifa til minnis (orðtak) Skrifa niður minnisatriði.
Skrifa í sand (orðtak) Skrifa í tilgangsleysi; skrifa þannig að ekki varðveitist. „Þær reglur voru líkt og skrifaðar í sandinn; enginn virti þær“.
Skrifa niður (orðtak) Skrásetja; bóka; færa til bókar; skrifa hjá sér. „Skrifaðu niður vigtina á skrokkunum“.
Skrifa sig til skrattans (orðtak) Skrifa svo magnaða galdrastafi að skrattinn komi og færi mann til vítis. Fyrrum var talið varasamt að klóra einhverja torkennilega stafi af þessum sökum. Varasamt gat jafnvel verið að pára slíkt í snjó eða sand. Börn voru vöruð við því að krota óskiljanlegt pár á blað af þessum sökum.
Skrifa (einhverjum) til (orðtak) A. Rita einhverjum sendibréf. B. Um distilleringu/viðgerð á bensínvél; taka kerti úr blokkinni og nudda með blýanti á neistaoddana. Neistinn átti þá auðveldara með að hlaupa á milli, og gat þetta riðið baggamuninn í því að koma vélinni í gang. Einkum átti þetta við um vélar með smellikveikju/magnettukveikju, enda var þar um tiltölulega lága spennu að ræða, og veikan neista.
Skrifa undir (orðtak) Undirrita; setja nafnið sitt undir t.d. bréf eða skuldbindingu.
Skrifa/rita upp (orðtak) A. Rita eitthvað eftir forsögn/tali. B. Lista upp eignir í aðdraganda uppboðs. C. Endurrita/afrita texta.
Skrifa uppá (orðtak) Skuldbinda sig með undirskrift til að ábyrgjast greiðslu, t.d. víxils, fyrir annan mann.
Skrifa utaná (orðtak) Árita sendingu til viðtakanda, t.d. bréf eða böggul.
Skrifað stendur (orðtak) Oft sagt í upphafi tilvitnunar, t.d. í biblíu, reglu eða lög. Sjá eins og þar stendur.
Skrifandi (l) Hefur getu til að skrifa skiljanlegt mál. „Strákurinn er orðinn bæði læs og skrifandi“.
Skrifari (n, kk) A. Sá sem skrifar; höfundur; ritari. B. Gælunafn á óðinshana. Mikið notað.
Skrifast á (orðtak) A. Skiptast á sendibréfum/tölvupóstum á víxl. „Við höfum verið að skrifast á um nokkurn tíma“. B. Telst vera skuld/sök. „Þessi mistök verða alfarið að skrifast á hans reikning“.
Skrifborð (n, hk) Borð sem skrifað er við. Skrifborð voru mönnum ekki alltaf tiltæk áðurfyrr, og urðu margir furðu þjálfaðir í að skrifa á hnjám sér; e.t.v. með fjalarstúf undir.
Skrifbók (n, kvk) A. Bók sem skrifað er í, stílabók; glósubók; minnisbók. B. Forskriftabók; bók sem barn æfir sig að skrifa í. Oft með forskrift, þ.e. vel rituðum stöfum til viðmiðunar.
Skrifelsi (n, hk) Texti; sendibréf; lítilsháttar/óveruleg skrif. „Ég sendi dálitið skrifelsi á miða með pakkanum“.
Skriffinni (n, kk) Sá sem fæst mikið/eingöngu við skriftir. „Þetta kemur frá skriffinnunum fyrir sunnan“!
Skriffinnska (n, kvk) Mikil skrif; niðrandi heiti á ritun; íþyngjandi ritun. „Honum fannst skattskýrslan vera orðin ári mikil skriffinnska“.
Skriffæri / Skrifföng (n, hk, fto) Ritföng; það sem þarf til ritunar, s.s. penni, blýantur, strokleður, blekbytta, þerripappír, pappír o.fl. Í seinni tíð; tölva, prentari og það sem því tilheyrir.
Skrifirí (n, hk) Skriffinnska; það sem skrifað hefur verið; krot. „Hér er eitthvað skrifirí“.
Skrifkunnátta (n, kvk) Hæfni til að skrifa. „Skrifkunnáttu almennings hefur stórlega hrakað á tölvuöld“.
Skriflast (s) Klórast; komast við illan leik; skjökta. „Það er engin forsjón í að skriflast yfir skriðurnar í þessum þurrkum, sérstaklega þegar engin er fjárgatan“.
Skriflega (ao) Með því að skrifa; með ritun/skrift. „Ég tilkynnti honum þetta skriflega“.
Skriflegur (l) Skrifaður; ritaður. „Það þarf að leggja inn skriflega umsókn“.
Skrifletur (n, hk) Stafagerð sem skrifuð er. Menn skrifa margskonar rithönd, en nokkur munur þarf að vera á stafagerð svo hún sé talin sérstakt skrifletur. Þannig er t.d. myndletur Fornegypta frumstæð gerð skrifleturs, en af því þróaðist óhlutbundnara táknmál, s.s. letur Fönikíumanna, Grikkja og síðar hið rómverska letur sem við nú notum. Fundist hafa um 60 þúsund ára tákn í helli í Suður-Afríku, sem nú eru talin elsta þekkta skrifletur heims; rituð á strútseggjaskurn. Súmerar notuðu fleygletur sem þægilegt var að stimpla í leirtöflur. Margskonar skrifletur er notað í heiminum í dag. Hið latneska er í mörgum gerðum, en ólík því eru t.d. arabískt letur, sanskrít og ýmiskonar letur kínverja, japana og annarra asíuríkja. Skrifað letur hérlendis hefur löngum verið flokkað í ýmsa rithandarflokka, t.d. gotneskt letur; karlungaskrift; léttiskrift; fljótaskrift, settletur; snarhönd og blokkskrift.
Skrifli (n, hk) Hrófatildur; garmur; hró. „Það er nú ljóta skriflið þessi bíll sem þú varst að kaupa“!
Skrifpappír (n, kk) Pappír sem skrifa má á.
Skrifpúlt (n, hk) Húsgagn sem hentar til að skrifa á, oft hallandi og með einhverskonar geymsluhólfi fyrir ritföng o.fl.
Skrifræði (n, hk) Stjórnkerfi sem útheimtir verulega vinnu skrifstofufólks og stjórnenda. Einkennist af flóknu reglugerðarfargani og seinvirku leyfa- og eftirlitskerfi. Nútímaþjóðfélög hafa mjög þróast í átt til skrifræðis.
Skrift (n, kvk) A. Rithönd; skrifletur (sjá þar). B. Sá verknaður að skrifa. „Hann situr við skriftir“. C. Syndajátning í kaþólskri trú. Forðum var venja að skrifta syndir sínar fyrir presti og hljóta syndaaflausn t.d. gegn vissum trúarlegum athöfnum eða með gjöfum til guðskistu/kirkju. Ávallt í fleirtölu. D. Heilög ritning. „Synd kallazt i skriptinne eigi einazta þat syneliga likamans latædi“ (Oddur Gottskálksson; Nýja Testam.).
Skrifta (s) Játa syndir sínar. Í kaþólksri trú tíðkast það að fólk játi í einrúmi fyrir presti það sem það kann að hafa aðhafst sem ekki samræmist dyggðugu líferni. Prestur getur þá veitt manni aflausn með því að fyrirskipa betrun af einhverju tagi, t.d. gjafir til gustukamála eða kirkju, eða bænalestur og annað af því tagi.
Skrika fótur (orðtak) Renna til í hálku eða í brattlendi; missa fótanna; renna við. „Honum skrikaði fótur og kútveltist niður hlíðina“.
Skrika til (orðtak) Renna til. „Gættu þess að hafa góða handfestu, ef þú skrikar til í tæpum ganginum“.
Skrikull (l) Hrösull; hættir til að detta. „Það er hætt við að þér verði skrikult á svona skóm í vætunni“.
Skrimta (s) Draga fram lífið; hjara; komast lífs af. „Mér sýnist lambkettlingurinn ætla að skrimta“.
Skrimta af (orðtak) Komast lífs af; draga fram lífið; tóra. „Jafnvel í hörðustu hallærum skrimtu menn fremur af sem bjuggu við sjávarsíðuna en hinir sem bjuggu til landsins“.
Skringilega (ao) Furðulega; einkennilega. „Hann er farinn að hegða sér skringilega í seinni tíð“.
Skringilegheit / Skrýtilegheit (n, hk, fto) Furður; undarlegheit; spaugilegheit. „Þetta eru meiri skringilegheitin í veðráttunni; glampandi sól aðra stundina en skýfall hina“.
Skringilegur (l) Furðulegur; skrýtinn. „Mér fannst þetta nokkuð skringilegt alltsaman“.
Skripla (s) Renna til; skrika; skrika fótur. „Gættu þess að skripla ekki á hálkunni“!
Skriplast (s) Skreiðast; skrölta; skakklappast. „Það var með naumindum hægt að skriplast yfir svellbunkann“.
Skríða (s) A. Þokast; mjakast. „Krapaelgurinn er að skríða nær húsunum“. „Sólin er nú eitthvað að skríða hærra á himininn þegar kemur framá“. B. Færa sig til á maganum. „Barnið er byrjað að skríða“. C Um gras; spretta úr sér; gulna við rót og leggjast. „Það þarf að fara að slá sléttuna; það er farið að skríða á einstaka blettum á henni“. D. Um bát; komast á góða ferð/siglingu. „Virðist svo sem báturinn hafi ekki skriðið nóg, því að brátt lá hann undir stórágjöfum“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). „
Skríða saman (orðtak) Batna; brá af; hressast; jafna sig; ná sér; verða jafngóður. „Ég held ég sé nú eitthvað að skríða saman eftir pestina“.
Skríkja (s) Gefa frá sér hvellt/hávært hljóð; skrækja.
Skríll (n, kk) Niðrandi heiti á hópi; pakk; rumpulýður.
Skrílslæti (n, hk, fto) Ólæti skríls; múgæsingur. „Það eru þá sömu skrílslætin í borginni og vant er“!
Skrímsli (n, hk) Óvættur. Sjá sjóskrímsli.
Skrín / Skríni (n, hk) Hirsla í kaþólskum kirkjum, þar sem geymdir eru helgir dómar, þ.e. gripir kirkjunnar sem átrúnaður er á. Geta það t.d. verið líkamspartar Krists eða postulanna eða einhvers dýrlings. Eða klæði þeirra. Þá ku vera svo mikið til af flísum og bútum úr krossi Krists að feiknastór myndi vera samansettur. Skrín voru líklega að lögun sem einskonar koffort; misstór eftir vægi kirkna. Samskonar dýrkun var á sumum helgimyndum/líkneskjum/róðum og á krossum. Var krossinn í Kaldaðarnesi síðasta máttuga táknið af því tagi. Því var trúað að helgir dómar hefðu yfirnáttúrulega krafta og lækningamátt. Geta hálfheiðnir menn í dag hent gaman að þessu og kallað kjánaskap, en fyrrum veitti þetta þjáðu og kúguðu fólki von og þjappaði þvi saman félagslega. Ólíklegt er að skrín hafi verið í hálfkirkjum, líkt og í Kollsvík. En hinsvegar mætti líta á Biskupsþúfuna sem nokkuð ígildi þess. Undir henni er enn trúað að Kollur landnámsmaður hafi fólgið dýrgripi sína og vopn, en hann er einskonar „faðir Kollsvíkur“ og nam hjá Patreki biskupi á Suðureyjum. Á þúfunni hvílir helgi sem til þessa dags hefur varið hana. Því má velta upp að Kollur hafi reist fyrstu kirkju landsins í Kollsvík, og e.t.v. reist keltneskan kross á þúfunni í virðingarskyni við Patrek fóstra sinn og þakkarskyni fyrir björgunina við Arnarboða. Gæti nafn þúfunnar því verið frá landnámsöld.
Skrína / Skrínukostur (n, kk) Nesti vermanna í verum, sem geymt var í skrínum; vermatan. Orðið „skrínukostur“ lifir góðu lífi í Kollsvík í dag um nesti og matarforða almennt. „Það er nú óþarfi fyrir gesti að koma með skrínukost; nóg er til“. Sjá einnig verskrína.
„Hinn eiginlegi skrínukostur vermanna var feitmeti; smjör, tólg, hnoðmör, og kjötmeti sem þá var oftast kæfa. En auk þess fengu vermenn rúg, brauð, kökur, harðfisk, sýru og síðar kaffi, kaffibæti og sykur.... Hinn fastákveðni skammtur...var kallaður lögútgerð. Samkvæmt opinberri tilskipun frá 1720 var mötusmjörið ákveðið 12 fjórðungar fyrir manninn fyrir haust- og vetrarvertíð.... Í Víkum norðan Látrabjargs var 30 punda smjörmata til tólf vikna talin lögútgerð, eða 7 ½ pund til þriggja vikna, en það samsvaraði 5 merkum til vikunnar. ... Í þeim verstöðvum var skammturinn af kæfu hálfvættarkind yfir vertíðina; geld ær eða sauður. Nokkuð af kjötinu var reykt en hitt saltað og síðan búin til kæfa úr hvoru tveggja. Þar var algengt að formaður hefði með sér, auk kæfunnar, huppa, bringukolla og síður, því að þegar gestir komu bauð hann upp á skrínuna, eins og það var kallað. Einnig var venja hans að gefa hverjum háseta eitt hangikjötsrif; formannsrifið, eftir fyrsta róðurinn, þá er vel aflaðist. Einnig kom það fyrir að formaður gæfi hásetum bita úr skrínu sinni, auk formannsrifsins, þegar þeir komu að landi; dauðlerkaðir með punghlaðinn bát. Slíkum formanni gekk betur en öðrum að fá háseta og jók þetta á vinsældir hans. Í verstöðvum norðan Bjargs var mjölskammturinn einn fjórðungur til mánaðar, en 12 harðir steinbítar voru látnir koma í staðinn ef mjöl var ekki til. Húsbændur lögðu vinnumönnum til kaffi þó það væri ekki skylda; allt að 1 pd yfir vertíðina... Þegar tví- og þríróið var fengu menn sér bita milli þess að farið var á sjóinn... Sá sem kom vanbúinn af mötu í verið var kallaður mötulítill... Þegar saxast tók á mötuna var sagt að komnar væru Maríumessur í skrínurnar... Roðavika var gamalt nafn á síðustu vertíðarvikunni... Víðast var etinn soðfiskur að lokinni aðgerð, en þá matseld annaist einhver af áhöfninni eða fanggæslan. Víða átti hver vermaður sinn disk, fyrrum úr tré, sem soðningin var færð upp á, og átti hann sjálfur að sjá um þrif á honum“ (Frásögn ÓETh o.fl.) (LK; Ísl. sjávarhættir II). (Sjá vermata og verskrína.). „Þegar afli var kominn í ruðning var gengið til búðar; hitað kaffi og borðað með því smurt brauð með kæfu að áleggi. Það tók hver úr sinni skrínu eða kofforti“ (KJK; Kollsvíkurver). „Rekkjufélagar sváfu andfæting og höfðu koffortin sín; skrínurnar, við höfðalagið“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Mat höfðu menn með sér heimanað í kofforti. Þá var kæfa brædd í annan endann á skrínunni og smjöri stungið í hinn endann“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Þeir sem voru lengra að komnir höfðu með sér nesti og bjuggu við skrínukost, enda var mötuneytisaðstaða engin“ (PG; Veðmálið).
Skrínukind (n, kvk) Kind sem valin var til þess að verða slátrað og soðin úr henni kæfa fyrir skrínukost. Var hún líklega valin við ásetning á haustin; e.t.v. geldær eða gamalær sem ekki var talin framtíðarfénaður. Hún var alin yfir veturinn en slátrað þegar leið að verferðum að vori. Einnig nefnd kæfukind eða mötukind.
Skrípalega (ao) Fáránlega; kjánalega. „Látiði nú ekki svona skrípalega krakkar“!
Skrípalegur (l) Furðulegur; fáránlegur; kjánalegur. „Skelfing finnst mér hann stundum skrípalegur í háttum“!
Skrípalæti (n, hk, fto) Fíflagangur; bjánagangur; ólæti. „Hættu þessum andskotans skrípalátum“!
Skrípafígúra / Skrípamynd / Skrípateikning (n, kvk) Mynd/teikning sem sýnir viðfangsefnið á afkáralegan hátt; skopmynd. „Hann hafði teiknað ýmsar skrípafígúrur á blaðið, sem sumar minntu á fólk í sveitinni“.
Skrípi / Skrípildi (n, hk) Furðufyrirbæri; himpigimpi; fífl. „Ég ætla ekki að standa þarna uppi á sviði og gera mig að algeru skrípi“!
Skrjáf (n, hk) Lágvært hljóð/þrusk/brak/núningshljóð. „Erfitt var að vera í feluleik í hlöðunni þó þar væri myrkur, því alltaf heyrðist skjáfið í heyinu þegar einhver nálgaðist“.
Skrjáfa (s) Braka; marra. „Það skrjáfar í grásleppunni sem hangir hér undir þakskegginu“.
Skrjáfþurr (l) Svo þurr að skrjáfar í. „Það má taka signu grásleppuna niður; hún er orðin skrjáfþurr“.
Skrjóður (n, kk) A. Hrörlegur gripur/bíll. „Skyldi skrjóðurinn komast yfir fjallið“? B. Niðrandi heiti á manni; rumur; þrjótur. „Hann er farinn að verða dálítið gleyminn, karlskrjóðurinn“.
Skro (n, hk) Munntóbak; rjól; rulla. Sjá tóbaksneysla.
Skrof (n, hk) Íshröngl; ósléttur ís. „Fénu getur verið hætt ef það fer út á þetta skrof“.
Skrofa (n, kvk) Puffinus puffinus. Sjófugl af ættbálki pípunefja eða fýlinga, og því náskyld múkkanum. Hún heldur lengstum til úti á sjó, og kemur eingöngu á land til að verpa. Eini varpstaður skrofu á landinu er í Vestmannaeyjum. Hún hefur sést á sjó við Útvíkur. Fullvaxinn fugl er 30-38 cm að lengd með allt að 90 cm vænghaf; svört að ofan en hvít að neðan, með svörtu nefi og bleikum fótum. Skrofan verpir í holur eins og lundi, og er nafnið líklega komið af því að landið verður sem skrof eftir gröftinn. Fæðan er smáfiskur, krabbadýr og smokkfiskur. Skrofur eru góðir kafarar líkt og svartfugl, en flugið er líkt og hjá múkka. Sést gjarnan í hópum. Farfugl að hluta, og flýgur þá til strandsvæða Suður-Ameríku.
Skrofótt (l) Litur á sauðkind; því sem næst röndótt; hvít með dökkum röndum eða dökk með hvítum röndum. Sjaldnast eru þó ær reglulega röndóttar, heldur minnir mynstrið á rendur. Kind á Láganúpi um 1963 nefndist Skrofa; dökk með ljósum yrjum langseftir.
Skrokklag (n, hk) Lag á skrokki. Oftast notað um lag á bát, en einnig um byggingu skepna.
Skrokkmikill (l) Með stóran skrokk; feitlaginn; stórvaxinn.
Skrokkskjóða (n, kvk) Högg; bylta; ákoma. „Fékkstu ekki einhverjar skrokkskjóður við þetta fall“?
Skrokkskömm (n, kvk) Gæluheiti á líkama manns. „Ég hef það alveg ágætt, en skrokkskömmin er orðin lítlfjörleg til puðvinnu eða langhlaupa“.
Skrokkstór (l) Með stóran búk/skrokk; búkmikill.
Skrokkur (n, kk) A. Líkami manns í heilu lagi. „Ætli maður þurfi ekki eitthvað að skola á sér skrokkinn“. „Hann er mesti þrekskrokkur“. B. Búkur skepnu eftir slátrun, að frátöldum útlimum og höfði, innyflum og gæru/skinni. „… en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn“ (PG; Veðmálið). C. Bátur/skip, og er þá einkum átt við byrðinginn.
Skrokkþungi (n, kk) Fallþungi/kjötþungi sláturgrips/dilks. „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri“ (PG; Veðmálið).
Skroll (n, hk, linur frb.) Kverkmælgi. „Ekki lagast skrollið í honum með aldrinum“.
Skroll (n, hk, harður frb.) Sérlega hávær og grófgerður hlátur; hrossahlátur. „Ég held að þeim hafi ekki orðið svefnsamt í næstu búðum, af skrollinu í karlinum“!
Skrolla (s, linur frb.). A. Að vera kverkmæltur; gormæltur. „Hann skrollar óskaplega á errunum ennþá“. B. Skrölta. „Þessi skyrta er svo víð að hún skrollar utan á manni“. „Ég skrollaði eftir vegslóðanum“.
Skrolla (s, harður frb.) Hlæja með miklum hávaða/látum/tilþrifum; skella uppúr. „Það er nú ekki til siðs að skrolla svona í kirkjunni, þó prestinum verði á mismæli í ræðunni“!
Skrollroka (n, kvk) Samfelld roka/gusa af skrolli/hrossahlátri. „Hann rak upp þvílíka skrollroku þegar hann heyrði þetta, að ég hélt að þakið ætlaði ofan“!
Skróp (n, hk) Vísvitandi seinkun/fjarvist í vinnu eða skóla.
Skrudda (n, kvk) A. Bók; gjarnan þykk og/eða torlesin. B. Gustmikill kvenmaður; bryðja; galsafengin stelpa.
Skruðningur (n, kk) Hávaði; læti. „Heyrði ég þá skruðning upp yfir mér“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).
Skrugga (n, kvk) Þruma. „Í suðaustan og útsunnanáttum á haustin og tíðlega á vetrum heyrist einstaka sinnum skruggur. Kalla menn það boði góðan vetur, heyrist það fyrir nýár, en vondan ef síðar“. (séra Gísli Ólafsson; Sóknarlýsingar 1840).
Skruggufærð / Skruggufæri (n, kvk/hk) Um vegi; flennifæri; mjög góð færð. „Það er skruggufæri innyfir“.
Skrugguveður (n, hk) Þrumuveður. „Óttalega fer það alltaf í mig þetta skrugguveður“.
Skrukka (n, kvk) Niðrandi heiti á gamalli/fráhrindandi konu.
Skrum (n, hk) Yfirborðskenndar fullyrðingar; plat; mont. „Alltaf er það sama skrumið fyrir kosningarnar“!
Skruma (s) Blekkja; hafa í frammi mont/gort/ innantóma þvælu.
Skrumari (n, kk) Sá sem skrumar.
Skrumskæla (n, kvk) Gera afkáralegt; snúa útúr; afbaka.
Skrumskæling (n, kvk) Afbökun; útúrsnúningur.
Skrumskæling (n, kvk) Afskræming; afbökun. „Mér líkar bölvanlega svona skrumskæling á málinu“.
Skruna (n, kvk) Skriða.
Skruna (s) A. Renna sér á mikilli ferð. B. Tölvumál; renna mynd/tákni hratt niður/upp skjá.
Skrúbba (s) Skúra/þvo rækilega með skrúbb/bursta. „Skrúbbaðu vel allar blóðslettur úr bátnum“.
Skrúbbhaus / Skrúbbhár / Skrúbbskaft (n, kk/hk) Hlutar gólfslkrúbbs.
Skrúbbur (n, kk) Bursti með stífum hárum. „Það þyrfti að fara með skrúbbinn á gólfið eftir þetta“.
Skrúð (n, hk) Skraut; það sem er marglitt/skrautlegt. Sbr blómskrúð og málskrúð.
Skrúðganga (n, kvk) Oftast er átt við fjöldagöngu prúðbúins fólks á hátíðisdögum, gjarnan með fána, blöðrur, skilti eða annað litríkt. Slíkar göngur voru ekki farnar til sveita, en orðið var þekkt og notað í líkingum: „Hvaða skrúðganga kemur þarna niður Hjallana? Eitthvað hefur nú orðið eftir af fé í síðustu smölun“.
Skrúðgarður (n, kk) Garður með fjölbreyttum og litskrúðugum jurtategundum, skipulagður af listfengi.
Skrúðhús (n, hk) Afhýsi í kirkju, þar sem messuklæði eru geymd og þar sem prestur undirbýr sig fyrir athafnir, t.d. með því að fara í skrúða.
Skrúði (n, kk) Skartbúningur; hátíðabúningur; einkennisbúningur t.d. presta; skraut; litahaf.
Skrúðklæddur (l) Klæddur í skrúða/einkennisföt/viðhafnarfatnað. Skrautlega klæddur.
Skrúðmælgi (n, kvk) Fagurgali; hástemmdar lýsingar; orðaflaumur. „Þetta finnst mér óþarfa skrúðmælgi“.
Skrúf (n, hk) A. Lítill hlaði/haugur. Heyrðist þó ekki vestra í þeirri merkingu, a.m.k. ekki í seinni tíð. B. Skrúfað lok. Notað í seinni tíð um bolla sem skrúfaður er ofaná hitabrúsa. „Gefðu mér hálft skrúf af kaffi“.
Skrúfa (n, kvk) A. Hlutur með gengjum. Notað nú um gengjaðan nagla sem skrúfaður er í efni eða ró með snúningi. B. Aflskrúfa báts; skips; tæki með skásettum blöðum sem ýtir farinu í sjó/vatni við snúning. Einnig aflskrúfa flugvélar sem verkar eins í lofti en hentar önnur lögun.
Skrúfa (s) Festa með skrúfu; snúa skrúfu svo hún gangi í/úr efni eða ró.
Skrúfa sundur/saman (orðtök) Taka sundur með því að losa skrúfur, eða setja saman með skrúfum.
Skrúfa upp (orðtak) A. Þyrla upp. „Hann lagði bálhvassa hviðu upp túnið; svo flekkurinn skrúfaðist upp og sáldraðist uppeftir Fitinni“. B. Þvinga; neyða. „Ég er hættur við kaupin ef hann ætlar að skrúfa upp verðið“! C. Hækka sig í landslagi/klettum. „Hann náði að klórast upp á sylluna og skrúfaði sig svo neðan slefrurnar“. D. Auka birtu frá olíulampa með því að hækka kveikinn í kransi hans. E. Festa upp með skrúfu.
Skrúfbolti / Skrúfnagli (n, kk) Skrúfa með þverum enda og jafnsver um gengjuhlutann, gerð til að skrúfast í ró.
Skrúfgangur (n, kk) Gengjur; skáflötur á skrúfu/bolta/ró eða öðru sem skrúfað er.
Skrúfhyrnd (l) Um hornalag sauðkindar; horn vaxin áberandi uppávið; upphyrnd.
Skrúflykill (n, kk) Skiptilykill; áhald með stillanlegum kjafti, til að skrúfa t.d. maskinubolta/skrúfbolta.
Skrúfsía (n, kvk) Skrúfjárn. „Skrepptu út í Mókofa og náðu í skrúfsíuna fyrir mig“. Þetta var hið almenna heiti á skrúfjárni í Kollsvík langt fram eftir 20. öld og því undarlegt að það finnst hvergi í orðabókum.
Skrúfstykki (n, hk) Áhald sem fest er á borð, og notað til að halda hlutum föstum meðan unnið er við þá.
Skrúftappi (n, kk) Tappi sem skrúfaður er. T.d. flöskutappi.
Skrúftóg (n, hk) Aðferð til að velta sívölum og þungum hlutum; t.d. til að ná rekatrjám upp úr fjöru. Þá er tógi fest í annan enda spölkorn ofanvið tréð; brugðið utanum enda trjábolsins og togað í hinn enda tógsins. Eins var gert með öðrum vað á hinn bolendann og oftast togaði sinn maðurinn í hvorn enda til að velta trénu upp úr fjörunni. Með þessu geta tveir menn léttilega bjargað tré sem þeir hefðu annars ekki ráðið við.
Skrúfuhverfill (n, kk) Rella; hverfill t.d. til orkuframleiðslu í vindi/sjávarstraumi, sem snýst um einn öxul, þannig að öxulstefna sé í straumáttina/vindáttina en blöð með meginstefnu þvert á öxul. Hægstraumsverflar Valorku, þróaðir af Kollsvíkingi, eru ekki þessarar gerðar, heldur þverstöðuhverflar.
Skrykkjast (s) Rykkjast; hreyfast með stökum snöggum hreyfingum. „Eitthvað brotnaði af eggjum þegar við vorum að skrykkjast yfir torfærurnar“.
Skrykkur (n, kk) Hnykkur; ójöfn hreyfing. „Fyrsta traktorsferðin hans gekk í rykkjum og skrykkjum“.
Skryppildi (n, hk) Lítilfjörleg skepna; aumingi; ræfill. „Það er varla hægt að senda þetta skyppildi í sláturhús“.
Skrýða (s) Færa í skrúða/einkennisbúning/ skrautlegan búning.
Skrýtilega (ao) Undarlega; furðulega; einkennilega; forvitnilega. „Þetta finnst mér skrýtilega barið saman“. „Mér er búið að líða eitthvað svo skrýtilega í dag“.
Skrýtilegheit (n, hk, fto) Furðulegheit; einkennilegheit; furðuleg/óútskýranleg atvik. „Enginn botnaði upp né niður í þessum skrýtilegheitum í karlinum“.
Skrýtilegt (l) Furðulegt; athyglisvert. „Það gerðist margt skondið og skrýtilegt í þessari ferð“.
Skrýtinn (l) A. Furðulegur; fáránlegur; öðruvísi. „Þetta er skrýtin saga“. „Ég er eitthvað skrýtinn í höfðinu“. B. Geðbilaður. „Ertu eitthvað skrýtinn“! Dregið af „skraut“, og því með „y“.
Skrýtla (n, kvk) A. Fyndin smásaga/frásögn. B. Hvaðeina skrýtið/skrautlegt; m.a. nafn á skrautlegri ær.
Skræða (n, kvk) A. Bók; skrudda. „Einar í Kollsvík átti skræðu eina er Fornótt hét“. „Ár og síð menn segja hann kafinn sínum fræðum;/ grúskandi í gömlum skræðum“ (JR; Rósarímur). B. Hamsar í floti. Voru þó oftast nefndir „hamsar“ í Kollsvík.
Skræfa (n, kvk) Hræðslupúki; raggeit. „Þú ert varla sú skræfa að þora ekki einn í hlöðuna í myrkri“?
Skræfuháttur (n, kk) Heigulsháttur; roluskapur; óþarfa hræðsla. „Skelfingar skræfuháttur er þetta í honum! Það er hreint ekkert orðið að sjóveðri núna“!
Skrækja (s) Æpa mjög hvellt og hátt; reka upp stutt hávært væl/org.
Skrækraddaður / Skrækur (l) Um mann; mjóróma; liggur hátt rómur.
Skræla (s) A. Ofþurrka; láta visna. „Það er hætt við að þessir hitar skræli gróður þar sem þurrlent er“. B. Flysja, t.d. kartöflur, rófur eða ávexti. Oftar var notað orðið „flysja“ í Kollsvík.
Skrælast (s) Um afla/feng; orðinn tregur. „Nú er þetta heldur farið að skrælast hjá okkur“.
Skrælhiti / Skrælandi hiti (n, kk/ orðtak) Steikjandi hiti; brennandi hiti. „Það þarf að passa vel uppá vatnið hjá kálfunum í þessum skrælhita“.
Skrælingi (n, kk) A. Niðrandi heiti á manni; bjálfi; auli. B. Heiti sem um tíma var notað yfir indíána og eskimóa, einkum þá þjóðflokka sem norrænir landafundamenn fundu í Kanada í fyrstu ferðum þangað.
Skrælingjaháttur (n, kk) Skammaryrði yfir það sem þykir aulagangur/rataháttur/glópska/bjálfagangur eða jafnvel ruddaháttur/níðingsskapur. „Svona skrælingjaháttur fer afskaplega í taugarnar á mér“!
Skrælna (s) Þorna upp. „Það er allur gróður að skrælna í þurrkinum“. „Hentu þessum skrælnuðu blómum“.
Skrælnaður (l) Visnaður; þornaður; kyrkingslegur. „Sendin tún eru orðin ansi skrælnuð í þurrkinum“.
Skrælt (l) Lítið að hafa; lítilfjörlegt; tregt. „Það var fjári skrælt hjá okkur í dag; ekki sömu uppgripin og í gær“.
Skrælt um (orðtak) Erfitt að fá; lítið um; fágætt. „Það er orðið skrælt um skötuna í dag; jafnvel á gömlum og grónum skötumiðum“. Annarsstaðar var notað í sama tilgangi orðtakið „skart um“, dregið af „skarður“; þ.e. skertur/rýrður. Hér er stofnorðið „skrældur“, sem í raun merkir það sama.
Skrælt um góða kosti (orðtak) Fátt um góða kosti. „Það er skrælt um góða kosti í þessari stöðu“.
Skrælþurr (l) Mjög uppþornaður. „Jörðin er orðin skrælþurr í þurrkunum“. „Ég er skræþurr í hálsinum“.
Skræmta (s) Gefa frá sér lágt hljóð; krimta. „Hann þorði hvorki að æmta né skræmta“. Einkum í því orðtaki.
Skræpótt (l) Litur á sauðfé: Hvítt með dökkum dílum um allan skrokk eða öfugt. Oft þó einlitt á haus og fætur.
Skröggsháttur (n, kk) Hryssingur; grófgerð/stórkarlaleg framkoma. „Þetta finnst mér bara bölvaður skröggsháttur í honum“!
Skröggslega (ao) Hryssingslega; önugt. „Ég hef kannski svarað þessu heldur skröggslega“.
Skröggslegur (l) Stórkarlalegur; grófur; hryssingslegur. „Mér fannst hann heldur skröggslegur við krakkagreyið; þetta var nú óviljaverk“.
Skröggur (n, kk) Karl; vanalega í fremur niðrandi merkingu, en þó stundum í vorkunartón. „Ég legg nú lítið uppúr því sem sá skröggur segir“. Hann hefur mátt þola margt um ævina, karlskröggurinn“.
Skrök (n, hk) Lygar; ósannindi. „Ég held að þetta sé nú bara skrök (skröksaga) hjá þér“.
Skrökfrétt (n, kvk) Slúður; ósönn frétt. „Ég er alveg hættur að trúa svoleiðis skrökfréttum“.
Skröksaga (n, kvk) Lygasaga; tilbúningur; uppspuni. „Best gæti ég trúað að þetta sé einber skröksaga“.
Skrökva (s) Ljúga; segja ósatt. „Það var ekki til siðs að skrökva, en hinsvegar voru sumir lygnari en aðrir“.
Skröll (n, hk, fto) Hávaði; hávært gaspur , köll eða skröllahlátur. „Hættið nú þessum skröllum krakkar; þið fælið allt féð af túninu og gerið hundinn vitlausan“. „Hefurðu ekki heyrt skröllin hjá tröllunum í fjöllunum“? Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var mönnum tamt á svæðinu. E.t.v. má setja þetta í samhengi við að til er sérstakt fyrirbæri sem nefnist „Kollsvíkurhávaði“ og þykir liggja þar í ættum. Orðið finnst ekki í orðabókum.
Skrölla (s) Tala mjög hátt; hlæja skröllahlátri. „Karlinum var mikið niðri fyrir þegar hann sagði frá og skröllaði svo hátt að ekki var nokkur lífsins vegur að festa svefn uppi á loftinu“.
Skröllahlátur (n, kk/kvk) Mjög hávær, langvarandi og grófur hlátur; tröllahlátur. „Ferlegur skröllahlátur er þetta“!
Skröllroka (n, kvk) Stutt en hávær hláturshviða. „Neðan úr stofunni barst glaðvær kliður upp á loftið, og innámilli háværar skröllrokur“.
Skrölt (n, hk) A. Glamur; hávaði; barsmíðar. „Vertu nú ekki að þessu skrölti í þakjárninu“! B. Gæluorð um ferð, og þá helst endurteknar ferðir. „Maður losnar þá við þetta daglega skrölt yfir Hálsinn ef mjólkurbíllinn sækir alla leið“. Einnig um næturferðir. „Ekki meira kaffi svona seint; mér leiðist þetta skrölt að nóttunni“.
Skrölta (s) A. Um hátt surgandi/snjallt og endurtekið hljóð; skella ítrekað. „Hjóðkúturinn er farinn að skrölta undir bílnum“. B. Fara; komast; rölta. „Ætli ég reyni ekki að skrölta hér fram í Vatnadal og skoða hvort þar eru einhverjar skjátur“.
Skröltfær (l) Um veg; ekki vel fær; hægt að komast. „Fram á Blakkinn liggur eggjavegur; skröltfær“.
Skröngl (n, hk) Það sem farið er með erfiðismunum; skrölt; klór. „Það mætti kannski klórast þarna upp á hilluna, en það yrði hálfgert skröngl“.
Skrönglast (s) Komast með erfisðismunum; skrölta; skenglast; skjönglast. „Skriðan var skratti laus í sér, en einhvernvegin tókst mér að skrönglast yfir hana, og upp á bakkann hinumegin“. „Gat verið hægt að skrönglast niður Meðhjálparagjótu, þó Flosagil væri ófært“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Skröttur (n, kvk, fto) Skammaryrði um kindur sem þykja sérlega óþægar/ erfiðar viðfangs. „Þær sneru á mig á hjallabrúninni og ég mátti elta þessar skröttur útyfir Sanddali áður en ég komst fyrir þær aftur“!
Skubba (s) Skera; klippa; stytta. Gjarnan átt við að gera það hroðvirknislega/ á fljótlegan hátt. „Það þyrfti aðeins að fara að skubba neðanaf hárinu á mér“.
Skuddi (n, kk) Um smávaxna menn og skepnur. „Þessi hrútskuddi er nú varla til ásetnings“.
Skuðrildi (n, hk) Um hlut sem er ræfilslegur og ljótur. „Hvar hef ég nú týnt húfuskuðrildinu mínu“? Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var mörgum tamt á svæðinu. Sjá húfuskuð.
Skufsast (s) Gaufast; slugsa; hangsa; gera klaufalega/silalega. „Ætliði að skufsast við þetta í allan dag“?!
Skufsi (n, kk) Gæluorð um gagnslítinn mann eða ræfilslega skepnu; ræfill; aumingi; kægill.
Skugga ber á (orðtak) Í forsælu; í skugga frá einhverju svo sól ná ekki að skína á. „Geymdu nú nestið einhversstaðar þar sem skugga ber á“.
Skuggabaldur (n, kk) Furðukvikindi úr þjóðtrúnni. Skuggabaldur var afkvæmi refalæðu og kattarhögna, en skoffín var afkvæmi refahögna og kattarlæðu. Skuggabaldrar voru sögð illvíg kvikindi. Þeir leggjast undantekningarlaust á fé; verða dýrbítar. Ekki verða þeir unnir með venjulegum skotvopnum, en sagt var helsta ráðið að nota á þá vígðar silfurkúlur.
Skuggalegur (l) A. Um veður; dimmur; þungbúinn. „Ári er hann orðinn skuggalegur til loftsins“. B. Um svipmót manns; illilegur; ógnandi.
Skuggamynd (n, kvk) A. Mynd sem birtist á lýstum vegg þegar skyggt er fyrir ljós með t.d. höndum. Sumir eru lagnir við að mynda þannig ýmiskonar fígúrur með höndum. B. Skyggnumynd; sérstök tegund ljósmyndar sem unnt er að varpa á ljósan flöt með gegnumlýsingu.
Skuggamyndasýning (n, kvk) Sýning skuggamynda/skyggnumynda. „Eftir að skuggamyndir (slides) urðu algengar upphófust skuggamyndasýningar, þar sem menn komu saman og horfðu á myndir sem einn úr hópnum hafði tekið, t.d. á ferðalögum sínum. Það voru bíósýningar þess tíma. Gylfi Guðbjartsson hélt t.d. alloft slíkar sýningar á Láganúpi, en hann er snilldarljósmyndari og víðförull“.
Skuggamegin (ao) Forsælumegin; í skugga. „Ég setti fiskinn hérna skuggamegin við húsið“.
Skuggi (n, kk) Forsæla. „Leggðu svo fiskinn frá þér í skugga meðan við tökum upp bátinn“.
Skuggsjá (n, kvk) Gamalt heiti á spegli.
Skuggsýnt (l) Dimmt; ekki full birta; rokkið. „Við komum ekki heim fyrr en skuggsýnt var orðið“.
Skuld (n, kvk) Eignakrafa sem einn maður á í garð annars vegna viðskipta af einhverju tagi.
Skuldabaggi (n, kk) Miklar skuldir.
Skuldabasl (n, hk) Erfiðar aðgerðir til að unnt sé að standa í skilum með skuld; t.d. mikil vinna.
Skuldabréf (n, hk) Skjal sem maður undirritar til viðurkenningar á skuld sinni; skuldaviðurkenning.
Skuldadagur (n, kk) Greiðsludagur/gjalddagi skuldar. Sjá kemur að skuldadögunum.
Skuldaklafi (n, kk) Þrengingar í efnahag vegna mikilla skulda. „Hann var ánægður með að vera loksins laus úr þessum skuldaklafa“.
Skuldaskil (n, hk, fto) Uppgjör skulda; skuldadagur. „Fyrr eða síðar kemur að skuldaskilum“.
Skuldasúpa (n, kvk) Miklar fjárhagsskuldir eins aðila. Sjá sitja í súpunni.
Skuldaþræll (n, kk) Sá sem skuldar svo mikið að hann er mjög háður sínum lánadrottnum og tekjur fara að mestu til greiðslu skulda.
Skuldbinda sig til (orðtak) Undirgangast skyldur við; lofa að framkvæma/greiða.
Skuldbinding (n, kvk) Skylda; kvöð; skuld.
Skuldbindingarskrá (n, kvk) Skjal sem skuldbindur þann sem undirritar; handsölun. „enda átti fjelagið að starfa mest sem íþróttafjelag, þótt það þegar á fyrsta ári (31. okt 1909) sniði skuldbindingu sína eftir skuldbindingarskrá U.M.F.Í. “ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Skuldseigur (l) Um mann; sem erfitt er að innheimta skuld hjá; greiðir illa sínar skuldir. „Bankastjórinn kvartaði yfir honum; sagði að hann væri skuldseigari en andskotinn“.
Skuldsetja sig (orðtak) Hleypa sér í skuldir; taka lán hjá öðrum; skuldbinda sig.
Skuldsettur / Skuldugur / Skuldum vafinn (l/orðtak) Skuldar mikið; er hlaðinn lánum.
Skulfa (n, kvk) Mikil rigningarskúr; hreða. „Það gengur hér yfir hver skulfan eftir aðra og dúrar lítið á milli“
Skunda (s) Ganga rösklega; hraða sér; fara. „Ætli það sé ekki rétt að fara að skunda af stað“. „Hún um fjöllin fetar sig/ fljót og létt um tærnar./ Skekkinga um skakkan stíg/ skundar hún með ærnar“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Skupla (n, kvk) Höfuðklútur. Algengt var að konur bæru skuplur við t.d. útistörf eða mjaltir.
Skurðarróður (n, kk) Hákarlsróður þar sem fiskinum sjálfum er kastað, að því undanskildu að lifrin er tekin úr og hirt. Skurðarróðrar tíðkuðust mest á þeim tíma sem hákarlalýsi var verðmæt útflutningsvara sem ljósmeti, og voru helst farnir þegar leið á vetur.
Skurfa (n, kvk) Lítið sár; hrufl. „Fékkstu ekki einhverjar skurfur á hnéð þegar þú dast“?
Skurn (n, kk) Skelin á eggi var oftast nefnd þannig í Kollsvík. En ekki var það einhlítt, og þessar orðmundir hafa heyrst: Skurn (n, kvk); Skurn (n. hk) Skurm (n, hk); Skurm (n, kvk); Skurmur (n, kk). „Þú átt alltaf að byrja að brjóta á skurninum í breiðari endann“. „Sagt var að Hjalti hefði étið 40 bjargfuglsegg í einu; þar af 20 með skurminu“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Skupla (n, kvk) Höfuðklútur; slæða. „Almennt notuðu mjaltakonur skuplur áður fyrr“.
Skurðbakki / Skurðbarmur (n, kk) Bakki/brún á skurði. „Það þarf að hjálpa lambinu upp á skurðbakkann“.
Skurðgoð / Skurðgoðadýrkun (n, hk/kvk) Útskorið líkneski sem átrúnaður er á. Elstu skurðgoð sem vitað er um eru líklega litlar líkneskjur af kvenlíkama með ýktar lendar, maga og brjóst, sem talið er að hafi táknað frjósemisgyðju. Líkneski voru e.t.v. ákölluð í ásatrú, þó engin slík hafi fundist svo sannað verði. Biblían varar sérstaklega við skurðgoðadýrkun, enda boðar hún trú á einn ósýnilegan guð. Dýrlinga- og krossadýrkun í kaþólsku jaðrar þó við skurðgoðadýrkun.
Skurðendi (n, kk) Endi á skurði. „Farðu nú og gefðu henni Skottu þetta úti í skurðenda“. Annarsstaðar var „s“ í orðinu; „skurðsendi“, en ekki í Kollsvík.
Skurðgrafa (n, kvk) Vél með skóflu á armi; hentug til að grafa skurð í jarðveg t.d. til að ræsa land fram og þurrka það. Skurðgröfur hafa líklega valdið mestum breytingum sem orðið hafa af mannavöldum í náttúrufari og ásýnd Kollsvíkur frá upphafi byggðar, ef frá er talin e.t.v. eyðing kjarrs í kjölfar landnáms. Kringum 1954-56 kom stórvirk víragrafa í víkina og þá voru mótuð þau skurðakerfi sem enn ber mest á; ræst fram drápsdý í Mýrunum og land þurrkað í stórum stíl. Í kjölfarið voru unnar og ræktaðar fjölmargar túnsléttur með stórauknum heyfeng. Skurðinir hafa breytt ásýnd og lífríki, og sumsstaðar hurfu seilar og dý ásamt örnefnum sínum. Þrátt fyrir að síðar hafi oft verið grafið uppúr skurðunum hefur ekki tekist að uppræta að fullu öll drápsaugu sem heimtað hafa toll af búfénaði gegnum langa búskaparsögu Kollsvíkur. Skurðir voru reyndar grafnir í Kollsvík fyrir daga véltækni, og má víða enn sjá móta fyrir handgröfnum áveitu- og framræsluskurðum.
Skurðhagur (l) Hagleiksmaður um útskurð í tré; oddhagur. Skurðhagasti Kollsvíkingur síðari tíma er eflaust Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi, sem skorið hefur út listaverk af ýmsu tagi. Af Kollsvíkurætt var einnig Sveinn Ólafsson frá Lambavatni, sem varð afkastamikill útskurðarmeistari.
Skurðruðningur (n, kk) Efni sem grafið er uppúr skurði og verður eftir sem haugar á skurðbakkanum.
Skurður (n, kk) A. Far þar sem skorið hefur verið, t.d. með hnífi eða öðru í hold/tré eða skurðgröfu í jarðveg. B. Verknaðurinn að skera, sbr uppskurður; melskurður; útskurður.
Skurfa (n, kvk) Grunnt sár; hrufl. „Ég datt og fékk skurfu á höfuðið“.
Skurfaður (l) Skrámaður; meiddur; hruflaður. „Eitthvað var hann skurfaður eftir byltuna, en ekki alvarlega“.
Skurfslegur (l) Líkur skurfi. „Mér fannst þetta dálítið skurfslegar aðfarir“.
Skurfur (n, kk) Niðrandi heiti á karli; larfur; ódámur. „Hvað meinar skurfurinn með þessu“? Mun áðurfyrr hafa verið notað um skörðóttan hníf, og af því er líkingin dregin.
Skurk (n, hk) A. Hávaði. B. Hraðferð. „Hann kemur þarna á miklu skurki“. C. Átak; skorpa. „Þú ættir nú að gera skurk í að klára verkið fljótlega“. „Hann gerir líklega skurk í því“! Oft sagt háðslega um þann sem ekki er líklegur til framkvæmda, og þá með áherslu á „í“.
Skurka (s) Fara um með látum; bramboltast. „Hann skurkaði norður til að sækja rakstrarvélina“.
Skurma (s) A. Þegar kemur skurmur/hrúður á sár eða annað; setjast að. „Sárið hefst vel við og er aðeins byrjað að skurma“. B. Þegar klaki frýs ofan á vatni. „Aldrei þrýtur vatn í þessum brunni og í honum frýs ekki svo, að skurmaði í honum frostaveturinn 1918“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).
Skurmur (n, kk) Skurn (n, kvk) A. Eggjaskurn. „Það er vani að brjóta skurminn á egginu fyrst í sverari endann“. „Ýmist var notað hér nafnið skurn(in), eða skurmur; og svo skjall, rauða og hvíta“ (SG; Alifuglarækt). B. Hverskonar þunnt hart efnislag. T.d. stundum notað um þunnan ís á polli (sjá skurma). Stöku sinnum heyrðist orðið í hvorugkyni; „skurm“ en mun sjaldnar.
Skurnlaust (l) Um egg; án skurns. „Ef fuglinn vantar kalk þá er hætta á að eggin verði skurnlaus“.
Skurr (n, hk) Skurk; hraðferð; skutl.
Skurra (s) A. Skutla; láta einhvern hlut renna: „Skurraðu bakkanum til mín“. B. Fara í snögga ferð: „Ég ætla að skurra snöggvast á Patró“.
Skursl (n, hk) Sár; skurður. „Ég var með eitthvað skursl á hendinni sem búa þurfti um“. Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var mönnum tamt á svæðinu.
Skursla (s) Skera; einkum notað um að skera með hníf. „Skurslaðu bandið í sundur fyrir mig“.
Skursla sig (orðtak) Skera sig. „Varstu nú að skursla þig á ljánum“?
Skussaháttur (n, kk) Slóðaskapur; leti; dratthalagangur. „Skelfingar skussaháttur er svona verklag“!
Skussi (n, kk) Slóði; letingi; trassi; dratthali; sá sem er óduglegur við verk eða nám.
Skutband (n, hk) Taug sem bundin er stundum um afturhnýfil báts, líkt og kolluband/stjóri er um framhnýfil.
Skutgafl (n, kk) Gafl í skut báts í stað afturstefnis. Tíðkaðist ekki fyrr en á síðustu tímum; eftir tilkomu véla í báta. Rut, sem Ólafur Sveinsson á Sellátranesi smíðaði fyrir Ingvar og Össur í Kollsvík um 1970, var með hálfum skutgafli, svo unnt væri að setja þar á utanborðsvél.
Skutilbragð (n, hk) Skutulbragð; hestahnútur; hnokkabragð. Heitið var m.a. notað við netafellingu en hnúturinn notast víða. Skutill er sama orð og skutull. Sjá skutulbragð.
Skutilsveinn (n, kk) A. Virðingarstaða við hirð Noregskonunga fyrrum. B. Niðrandi heiti á manni sem þjónar öðrum eða gengur erinda annarra. „Hann þvertekur fyrir að verða þeirra skutilsveinn í þessum málum“.
Skutkrikkja (n, kvk) Hluti í bát; hælkrappi; kubbur úr sterkum viði sem er til styrktar samskeytum afturstefnis og kjalar.
Skutla (orðtak) Skjóta skutli. Einnig almennt um það að kasta einhverjum hlut. „Hann skutlar árinni fram til bátsins“ (KJK; Kollsvíkurver).
Skutlari (n, kk) Sá sem skutlar seli eða hvali. „Í þann tíð var maður uppi í Arnarfirði er Benedikt Gabríel nefndist, og var Jónsson. Hann var hvala- og selaskutlari mikill“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Skutljós (n, hk) Ljós á skipi aftanverðu. Siglingareglur segja að öll skip á siglingu skuli hafa afturljós í dimmu, sem nái yfir 135° geira. Sjá landþernur og sigluljós.
Skutplittur n, kk) Aftasti plittur í bát. Oftast þríhyrndur að lögun og stendur hærra í bát en þeir fremri.
Skutrangarbyr (n, kk) Vindur sem stendur uppá skutröng báts sem siglt er.
Skutrúm (n, hk) Aftasta rúm báts; formannsrúm. Í því er formannsþóftan.
Skutröng (n, kvk) Röng í skut á bát/skipi. „Skipið stóð þannig að framstafn vissi lengst upp í fjöruna; hallaðist það lítið eitt í stjórnborð og sjórinn lá í bakborðs skutröng“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Skuttogari (n, kk) Sú gerð togskips/togara/botnvörpungs sem ruddi sér til rúms hérlendis kringum 1960-70; með þveru afturstefni og skutrennu sem trollið er lagt og dregið um. Skuttogarinn er uppfinning Andrésar Guðmundssonar vélstjóra frá Patreksfirði. Hann kynnti hugmyndina fyrir ýmsum hérlendis um miðja 20.öld, en fékk engan hljómgrunn. Sama áhugaleysið var í fyrstu í Bretlandi, en eftir að Andrés hafði gefist upp á þeim tilraunum sínum tóku Bretar hugmyndina traustataki og hófu smíði skuttogara, sem síðan tóku alfarið við hlutverki síðutogara hér heima. Reynsla Andrésar er ekki ólík reynslu annarra hugvitsmanna, sem lenda í því að hugmyndum þeirra er stolið og verða að gagni án þess að þeir njóti sannmælis.
Skutulband / Skutullína / Skutultaug (n, hk) Lína sem fest er í skutuljárn í annan enda og hinum enda er fest í bát eða hann liggur í hendi skutlara. Henni er á leiðinni brugðið um skutulstöngina með skutulbragði. „Á Vestfjörðum var skutullínan oftast úr tveggja punda færi, er úr hafði verið dreginn einn þátturinn“ (LK; Ísl.sjávarhættir I).
Skutulbragð (n, hk) Skutilbragð; hestahnútur; hnokkabragð; hnútur/bragð á bandi til að festa það á hlut. Nafnið er dregið af því að með því var skutulbandi brugðið um skutulskaftið á leið sinni frá skutli til skutlara. Þegar net er sett inn með bekkfellingu/pípufellingu liggur þinurinn gegnum jaðarmöskvana, og er annarhver möskvi hafður laus, en hinn með skutulbragði. Einnig oft notað t.d. til að festa fangalínu/kollubandi á hnýfil báts og streng á staur.
Skutuljárn (n, hk) Skutull; oddhvasst járn sem fest er framaná skutulstöng en þó oftast þannig að það losnar af og situr fast í bráðinni eftir að hún hefur verið skutluð; tengt skutlara með taug/skutulbandi. Deilur Einars gamla í Kollsvík og Benedikts Gabríels hvalskutlara og galdramanns í Arnarfirði, hófust vegna þess að Benedikt átti skutuljárn í hval sem Einar eignaði sér, og var svikinn um réttmætan hlut.
Skutull (n, kk) Kastvopn til veiða á sel eða hval. Skutull er í tvennu lagi, og er skutuljárninu oftast fest lauslega framaná skutulstöngina áður en skutlað er. Sjá skutuljárn.
Skutulrá / Skutulstöng (n, kvk) Selará; kastrá; stöng/handfang sem skutuljárni er fest á þegar skutlað er, oft með skutilbragði/hestahnút og þannig að hún losnar frá járninu þegar það situr fast í bráðinni.
Skutulveiðar (n, kvk) Veiðar hvala eða sela með skutli. Skutulveiðar hvals voru allmikið stundaðar þar sem hvalir komu reglulega, t.d. á Arnarfirði. Voru þar hvalkóparnir veiddir en ekki mæðurnar. Þær veiðar lögðust af kringum 1875.
Skutur (n, kk) A. Afturendi á báti. B. Aftasta rúmið í báti; skutrúm; formannsrúm.
Skutþófta (n, kvk) Formannsþófta. Aftasta þóftan í báti. Stundum var í hennar stað laus fjöl. „Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað. Svo settist hann á skutþóftuna og hafði sveifina undir hendinni, meðan hann náði í tóbakstölu úr vasa sínum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Skúffa (n, kvk) A. Skúffa í húsgagni. B. Skúffukjaftur; vansköpun/andlitseinkenni þegar neðri kjálki stendur óvanalega langt framunan þeim efri: „Það er tæpt að þetta lamb geti lifað; með svona ferlega skúffu“.
Skúffa (s) Valda vonbrigðum. „Ætli ég hafi ekki eitthvað skúffað hana með þessu“? „Ég er dálítið skúffaður“. Sennilega ekki gamalt tökuorð.
Skúffaður (l) Móðgaður; vonsvikinn. „Hann var dálítið skúffaður yfir þessum málalokum“. Dönskusletta.
Skúffelsi (n, hk) Vonbrigði. „Það var heilmikið skúffelsi að komast ekki í þessa ferð“. „Auðvitað er það árans skúffelsi að róa alla þessa leið fyrir sáralítinn afla; en það verður að taka því eins og öðru hundsbiti“.
Skúffukjaftur (n, kk) A. Skúffa; vansköpun/útlitseinkenni þegar neðri kjálki stendur langt framundan þann efri. „Ferlegur skúffukjaftur er á lambinu“. B. Uppnefni á manni með skúffukjaft.
Skúfmagi (n, kk) Magatota/botnlangi í fiski; fiskmagi ásamt magatotum hans. Skúfmagi var það heiti sem mér (VÖ) var kennt í Kollsvík, en í fiskabók Bjarna Sæmundssonar er notað heitið skúflangar. „Á takmörkunum milli maga og garna eru oft einn eða fleiri botnlangar; skúflangarnir (appendices pylorici)“ (BS; Fiskarnir).
Skúfur (n, kk) A. Dúskur af einhverju tagi, s.s. skúfur í húfu. B. Gróður sem vex í topp; grasskúfur. C. Innyfli fisks; ræksni. D. Skúfmagi.
Skúfþang (n, hk) Skúfaþang; Fucus disthicus. Blaðlaga brúnþörungur með kvíslgreindum sléttum blöðum og fremur ógreinilegri miðtaug. Getur verið all breytilegt í útliti. Oft um 30-90cm langt með 1-2cm breiðum sléttum blöðkum. Á greinunum eru oft ílangir loftfylltir belgir. Algengt á fjörum um allt land, m.a. í Kollsvík. Á stórum flæðum þornar af því fremst á hleinum. Oft eru á því ásætur; hvítir kalkríkir snúðormar.
Skúm (n, hk) A. Húsaskúm; ló/hnoðri af ryki, hárum, köngulóarvef og öðru sem safnast getur inni í húsum. Hefur líklega verið í kk fyrrum, sbr skúmaskot. B. Froða. Dönkskusletta, sjaldan notað í þeirri merkingu.
Skúma (s) Freyða. Sjaldan notað.
Skúmaskot (n, hk) Dimmur afkimi þar sem líkur eru á að óhreinindi/skúm safnist fyrir. Oft notað um óræðan stað: „Þetta leynist kannski einhversstaðar hjá mér í skúmaskotum“. „Ég leitaði í hverju skúmaskoti“.
Skúmur (n, kk) A. Fugl af kjóaætt, sem ekki verpur í Kollsvík og sést þar sárasjaldan. Verpur á söndum í A-Skaftafellssýslu. B. Niðrandi mannlíking: svikahrappur; viðsjárverður maður. „Hann á það til að vera bölvaður skúmur í viðskiptum“. Einnig kjöftugur maður, sbr. kjaftaskúmur/kjaftaglúmur.
Skúnkur (n, kk) A. Erlend þefdýrstegund. B. Niðrandi mannlíking; refur; útsmoginn/undirförull maður. „Sá árans skúnkur er varasamur“.
Skúr (n, kk) Smáhýsi; byrgi; skýli; skyggni. Virðist í fyrstu einkum hafa verið notað um skyggni yfir dyrum, síðan um litla viðbyggingu við anddyri húsa (bíslag), og er nú algengt um smáhýsi. Norðlendingar notuðu orðið í karlkyni yfir skammvinna rigningu, meðan aðrir landsmenn höfðu það í kvenkyni. Norðlenski hátturinn hefur nú verið tekinn upp í opinberum veðurfréttaflutningi; sumum öðrum til nokkurs ama.
Skúr / Skúrahryðja (n, kvk) Rigningarskúr. Algengt orð, en ástæða er til að undirstrika að vestra var og er litið á það sem kvenkynsorð, þó áhrifafólk í öðrum landshlutum vinni nú ötullega við að karlgera það. „Þær ganga ört yfir skúrirnar þessa stundina“. „Bíddu meðan þessi skúrahryðja gengur yfir“.
Skúra (s) A. Þvo gólf. B. Um rigningarveður: ganga í skúrir; skúra sig
Skúra sig (orðtak) Um veður; breytast úr samfelldri rigningu í skúraveður; skúrir með hléum á milli. „Hann er eitthvað farinn að skúra sig, finnst mér“.
Skúra útúr dyrum (orðtak) Skúra/þvo/þrífa hús að öllu leyti.
Skúradembur / Skúrahryðjur (n, kvk, fto) Miklar/drjúgar skúrir; skúrir með mjög þéttri rigningu.
Skúradrög / Skúraleiðingar (n, kvk, fto) Um það þegar regnskúrir sjást ganga yfir í fjarlægð frá áhorfandanum. „Hann er með einhverjar skúraleiðingar fram með Hæðinni, en hangir þurr á hér ennþá“.
Skúralefsa (n, kvk) Staðbundin rigningarskúr. „Hann er að leiða einhverjar skúralefsur þarna norðurmeð Hæðinni“.
Skúralegur (l) Um veðurútlit; lítur út fyrir skúrir. „Ansi finnst mér hann skúralegur hér frammi á víkinni“.
Skúraloft (n, hk) Skúralegur; veðurlag sem bendir til þess að skúrir gætu fallið.
Skúraskil (n, hk, fto). Uppstytta/uppihang milli skúra. „Það eru nú farin að sjást einhver skúraskil í þessu“. Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum; annarsstaðar virðist þekkt „skúraskin“ í sömu merkingu.
Skúraskin (n, hk) Sólskin milli skúra. Einkum er slíkt áberandi í vestlægum áttum.
Skúraveður (n, hk) Veðurlag þar sem gengur á með skúrum.
Skúrgarmur (n, kk) Lélegur skúr; lélegt smáhýsi/byrgi.
Skúrksháttur (n, kk) Illur/níðingslegur verknaður; illvirki; níðingsskapur; grófir hrekkir; undirferli; svik. „Svona skúrksháttur má bara ekki líðast“! „Þetta er bara skúrksháttur af verstu gerð“!
Skúrkur (n, kk) Niðrandi mannlíking; þrjótur; hrappur.
Skúta (n, kvk) A. Allstórt hafskip, knúið seglum. Heitið mun upphaflega stafa af því að í stórum skipum var uppreist þilja/skýli eða „skúti“ til að skýla fólki og farmi, en önnur kenning er sú að það sé dregið af lagi stefnisins. Getið er um skútur á fyrstu öldum byggðar, en sjaldnar eftir að skreiðarsala hófst að mun. Hafa þær líklega verið á við tólfaæringa að stærð. B. Seglskip af ýmsum tegundum sem notuð var til veiða hérlendis á svonefndri skútuöld (ca 1800-1900). Fyrstu skúturnar voru einmastra slúppur, en af þeirri gerð var skútan Delphin sem Einar í Kollsvík átti hlut í. Slúppan er með láréttu buspjóti (spruði); fremur reistu stefni og nettum skut. Skonnortur voru tví- eða þrímastra, en af þeirri gerð voru mörg hákarlaskip og einnig lúðuveiðarar Ameríkana sem hér voru algengir um tíma. Galíasar voru skrokkmeiri og því burðarmeiri. Kútterar voru algengasta gerð skúta á skútuöld. Einkenni þeirra var reist og beint framstefni.
Skúti (n, kk) Lítill hellir; stór grunn hola; skvompa. „Smérhellirinn er nokkuð stór skúti yst í Undirhlíð í Hnífum, en undir Smérhelli er annar minni skúti í Smérhellissvelti“.
Skútueigandi / Skútuútgerð (n, kk/kvk) Segja má að upphaf þilskipaútgerðar á Íslandi megi að nokkru leiti rekja til Kollsvíkur. Þar bjó einn af fyrstu skútueigendum landsins; Einar Jónsson, bóndi, hreppstjóri og ættfaðir Kollsvíkurættar. Stuttu eftir aldamótin 1800 fjármagnaði hann kaup á fyrstu skútu Vestfirðinga; slúppunni Delphin, sem var um 35 tonn, og gerði hana út í félagi við frænda sinn; Guðmund Scheving sýslumann í Haga og síðar útgerðarfrömuð í Flatey. Einnig var hann um tíma í samstarfi við Thomsen; síðasta einokunarkaupmann Vatneyrar, um þessa útgerð. Delphin fórst árið 1813, og með henni Guðmundur Ingimundarson skipstjóri, sá sem upphaflega keypti skútuna og kom með hana til landsins. Ríkidæmi Einars beið við það hnekki, en þó ekki hrun. Guðmundur Scheving hélt áfram mikilli skútuútgerð í Flatey og var einn af mestu frumkvöðlum þilskipaútgerðar á Íslandi. Fjármögnun Kollsvíkurbóndans var því mikilvægur þáttur í hinni samfelldu útgerðarsögu þilskipa og síðar togara, sem síðan hefur verið meginstoð efnahags Íslendinga. Delphin var líklega gerð út jöfnum höndum til hákarlaveiða og handfæra. Guðmundur varð fyrstur útgerðarmanna á Vesturlandi til að taka upp hlutaskipti á skipum sínum, og má jafnvel ætla að þannig kjör hafi verið á Delphin. Taldi hann það eina ástæðu þess að sín skip fiskuðu betur en önnur. Skipverjar á Delphin voru líklega alltaf sex, og sá fjöldi fórst með skipinu árið 1813. Hlutaskipti við þorskveiðar voru þau að háseti fékk ¼ af afla sínum og yfirmenn fengu sérstaka þóknun, en útgerðin lagði til fæði og veiðarfæri. Við hákarlaveiðar var skipverja greidd viss upphæð á lifrartunnuna.
Skútyrðast (s) Skammast; skattyrðast; skiptast á ónotum; rífast. Fremur var talað um að skattyrðast.
Skútyrði (n, hk) Last; níð; skammir. Orðið er lítið notað á síðari tímum.
Skvaldra (s) Masa; tuldra; blaðra. „Á fundum saumaklúbbsins var mikið skvaldrað og skvaldrið á þessum klúbbfundum gat orðið býsna hávært ef mikið var að gerast í sveitaslúðrinu“.
Skvaldur / Skvaldurskliður (n, hk) Kliður;mas; rabb; blaður. „Hættið nú þessu skvaldri strákar og farið að sofa“! „Upphófst nú mikið skvaldur og voru uppi deildar meiningar um ágreiningsefnið“ (PG; Veðmálið).
Skvaldursamur (l) Gefinn fyrir að skvaldra/masa/blaðra.
Skvamp (n, hk) Skvetthljóð; hljóð þegar eitthvað fellur í vatn/sjó. „Ekkert heyrðist nema skvampið í árunum“.
Skvampa (s) Skvetta; sulla; þvo. „Mikið væri óskandi að hann gæti hætt að skvampa vona mikið í víni“.
Skvampa af sér (höndunum) (orðtök) Þvo sér; þvo sér um hendurnar. „Þú borðar ekki með svona skítugar hendur drengur; farðu nú og skvampaðu aðeins af þér“!
Skvap (n, hk) Efni sem er laust/froðukennt/fitukennt; fita. „Óttalegt skvap er að safnast framaná mann“!
Skvapholda (l) Feitlaginn; fituhlunkur. „Það er furða hvað hann kemst í klettum; svona skvapholda maður“.
Skvera sig (orðtak) A. Um troll togara; opnast í sjó fyrir veiðar. Enskusletta tilkomin á togaraöld. Líkingamál; þrífa sig; gera sig fínan.
Skvetta (n, kvk) Skúr; ágjöf. „Það er kvöld; orðið lágskýjað, og hráslagalegur vindur slítur úr þeim skvettur og slengir framan í þann sem í heimsku sinni ætlar að gá til veðurs úti á hlaði“ (ÞB; Lesbók Þjóðv.)
Skvetta (s) Gusa; sletta; hella; ausa. „Skvettu fisksoðinu úr pottinum hérna út á Flötina“.
Skvetta í sig (orðtak) Drekka heldur mikið af áfengi.
Skvetta sér upp / Skvetta úr klaufunum (orðtök) A. Um kýr sem kemur úr fjósi eftir innistöðu yfir vetur; stökkva um og slá upp afturendanum af kæti. B. Líkingamál um það þegar manneskja skemmtir sér.
Skvetta úr koppnum (orðtak) Hella hlandi úr næturgagni/kopp eftir nóttina.
Skvetta úr sér (orðtak) Um veðurfar; rigna dálítið; gera skúrir. „Ég er hræddur um að hann gæti skvett eitthvað úr sér með aðfallinu“.
Skvettlisti (n, kk) Listi eftir síðu báts; ofarlega að utanverðu, til að brjóta báru sem leitar upp með kinnungnum og varna því að hún skvettist inn í bátinn. Virðist annarsstaðar verið með i; „skvettilisti“, en var einatt án þess í Kollsvík; a.m.k. í seinni tíð.
Skvetta í (orðtak) Um sjómennsku; gefa á. „Við fengum væna báru og það skvetti drjúgt í“ (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).
Skvetta í sig (orðtak) Drekka áfengi í óhófi. „Þetta var viðkunnanlegur náungi en skvetti dálítið í sig stundum“.
Skvettingur / Skvettugangur (n, kvk) Ágjöf; skvettur; sjógangur. „Við leggjum að innantil við hleinina; það er árans skvettingur utanvið hana“.„Farðu í hlífar; það getur orðið skvettugangur í röstinni“.
Skvísa (n, kvk) Gæluheiti á ungri aðlaðandi konu. Síðari tíma sletta, byggð á ensku; „squeeze“. „Sá varð nú heldur byrstur og sagði: „Fussum fei;/ ég fer víst ekki að leika mér við skvísu./ Það kemur ei til mála; nei og aftur nei;/ ég var nefnilega að horfa á hana Dísu“!“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Skvompa (n, kvk) Hola; lítill hellir/vik. „Ofan við Bæjarvöllinn er dálítil skvompa með nokkrum eggjum“.
Skyggður (l) A. Gerður dökkur/dimmur. B. Um egg; búið að skyggna.
Skyggja (s) Verða skuggsýnt; dimma. „Drífum í þessu áður en fer að skyggja“.
Skyggja að (orðtak) Dimma; sortna. „Við komum heim um það bil sem farið var að skyggja að“.
Skyggja á (orðtak) Varpa skugga á; vera fyrir sjónlínu/birtu.
Skyggja í álinn (orðtak) Sortna í álinn (sjá þar).
Skyggn (l) Með dulræna hæfileika; sér annars heimsverur sem öðrum eru huldar.
Skyggna (n, kvk) Auga; sjón. „Hann sagði fátt, en hvessti á mig skyggnurnar“.
Skyggna / Skyggnast (s) Skima; litast um; gá. „Ætli við förum ekki að skyggnast í nestið bráðum“.
Skyggna egg (orðtak) Bregða eggi upp að sterku ljósi eða mikilli birtu til að sjá hvort það er nýtt eða ungað. Í geymslu var haldið aðskildum stropuðum eggjum og skyggndum.
Skyggna hönd fyrir augu (orðtak) Bera flata lárétta hönd yfir augu þegar horft er undir sól, til að varpa skugga á augun og útiloka sólarljós frá því að blinda/ trufla sýn.
Skyggnast eftir (orðtak) Gá að/til; leita að. „...en hann hafði verið fenginn til þess að fara út á Látrabjarg og skyggnast eftir því hvort hann yrði nokkurs vísari um afdrif þeirra félaga... “ (ÖG; Þokuróður).
Skyggnast til veðurs / Gá til veðurs (orðtök) Líta til lofts og huga að veðurútliti. Til skamms tím, eða frá öndverðu og fram á daga útvarpsfrétta, hefur mannskepnan þurft að skyggnast til veðurs, enda háð því um allt sitt líf og starf. Með mönnum þróaðist hæfileikinn til að spá í það og segja fyrir um horfur til skamms tíma. Sú kunnátta er að miklu leyti horfin meðal almennings í dag.
Skyggni (n, hk) A. Birta; það að sjá kringum sig; útsýni. „Gerði þá kafaldsbyl svo skyggni var nánast ekkert“ (ÁE; Ljós við Látraröst). B. Der á húfu; spjald til að verjas sól í framglugga bíls.
Skyggnigáfa (n, kvk) Hæfileikinn að vera skyggn; geta til að sjá það sem öðrum er hulið af t.d. verum annars heims eða óorðnum atburðum. Skyggnir menn flíka vanalega ekki sérgáfu sinni við aðra; enda geta þeir þá misst hana.
Skyggnishúfa (n, kvk) Derhúfa; sixpensari; húfupottlok með skyggni að framan.
Skylda (n, kvk) A. Kvöð; það sem ber að gera. „Mér fannst það vera skylda mín að koma fénu alla leið heim“. „Honum ber skylda til að greiða þetta“. B. Skyldleiki; ættartengsl. „Manni rennur blóðið til skyldunnar“.
Skylda til (orðtak) Gera skuldbundinn/skyldugan til; skipa að gera. „Lögin skylda bændur til að smala sínu fé að hausti“. „Skoðunarmaður hugðist leita réttar síns, en sá það ekki fært vegna galla laganna; sem ekki skylda fjáreigendur að framvísa fé sínu til skoðunarmanns“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938).
Skyldfólk (n, hk) Frændfólk; ættingjar.
Skyldi engan undra (orðtak) Ekki furða; kemur ekki á óvart. „Það skyldi engan undra ef hann ætti eftir að lenda í einhverjum hrakningum, eins og hann er fífldjarfur í sjósókninni“.
Skyldleikaræktun (n, kvk) Ræktun búfjár eða annarra skepna, þannig að mikil ættartengsl verði innbyrðis og skyldir einstaklingar eigi afkvæmi saman. Yfirleitt er mikil skyldleikaræktun talin óæskileg vegna hættu á erfðagöllum og úrkynjun, en þó má með henni kalla fljótt fram einstaka eiginleika. Var vestra með „un“ í enda, sem ekki mun hafa tíðkast annarsstaðar þó orðið sé annars algengt.
Skyldleiki (n, kk) Ættartengsl; skyldsemi; skyldugleiki. Er á seinni tímum notað einnig um önnur tengsl.
Skyldmenni (n, hk) Ættingi; frændi.
Skyldugur/skyldur til (orðtak) Skuldbundinn/skyldur til; ber skylda til. „Vegagerðin er skyldug til að halda vegunum færum, eins og fremst er kostur“.
Skyldunám (n, hk) Nám sem einstaklingi ber að stunda. Á síðari öldum hefur börnum verið skylt að stunda skyldunám á unga aldri, til almenns þekkingarauka eða/og undirbúnings sérhæfðara námi.
Skyldur (l) A. Ættaður; með ættartengsl/ í ætt við. „Margt er líkt með skyldum“. „Skylt er skeggið hökunni“. B. Skuldbundinn; skyldugur.
Skyldurækinn (l) Rækir/uppfyllir vel sínar skyldur/kvaðir.
Skyldurækni (n, kvk) Hollusta við réttarfar/trú/skyldu. „Hann kýs svona af skyldurækni við flokkinn“.
Skylduverk / Skylduvinna (n, hk) Verk/vinna sem skylt er að inna af hendi. „Þá var eitt skylduverkið að keyra fiskslorið í kerru úr Verinu og heim að Láganúpi“ (IG; Æskuminningar).
Skylmast (s) Berjast/ eigast við með sverðum eða öðrum vopnum. Oft notað í óeiginlegri merkingu nú á dögum, t.d. um það að deila/kýta eða kveðast á.
Skylmingar (n, kvk, fto) Viðureign; bardagi. Oft í óeiginlegri merkingu nú til dags.
Skylt er skeggið hökunni (og náið er nefið augunum) / Skylt er með skeggi og höku (orðtök) Oftast notað um mikil ættartengsl, en einnig um annan skyldleika sem menn þykjast sjá, t.d. á málefnum.
Skylt með skít og kúk (orðtak) Ábending um að tveir slæmir hlutir/aðilar séu kannski nærri jafnslæmir. „Ekki veit ég hvorn flokkinn maður ætti frekar að kjósa; mér finnst dálítið skylt með skít og kúk“.
Skyn (n, hk) Skynjun; þekking; tilfinning; skilningur. Sbr þefskyn. Sjá í því skyni; í gustukaskyni/guðsþakkarskyni og bera skyn/skynbragð á.
Skynbragð (n, hk) Skyn; skilningur; vit. Oftast í orðtakinu; bera skynbragð á.
Skynbær (l) Hefur þekkingu á; ber skynbragð á. „Ég er ekki mjög skynbær á svonalagað“
Skyndi / Skynding (n, hk/kvk) Flýtir; hast; fljótheit; hraði. „Ég greip gogginn í skyndi og náði að setja í lúðuna um leið og hún sleit sig af“.
Skyndiferð (n, kvk) Ferð sem farin er í skyndi; ferðalag sem varir stuttan tíma.
Skyndiheimsókn (n, kvk) Heimsókn án fyrirvara; heimsókn sem varir stuttan tíma.
Skyndilega (ao) Snöggt; allt í einu; fyrirvaralaust. „Skyndilega kom högg á bátinn“.
Skyndilegur (l) Snöggur; fyrirvaralaus. „Skyndileg rigning setti strik í reikningin“.
Skynding (n, kvk) Flýtir; hraði. Sjá; í skyndingu.
Skyndipróf (n, hk) Próf í skóla sem lagt er fyrirvaralítið fyrir nemanda til að kanna færni/þekkingu.
Skynfæri (n, hk) Næmt líffæri lífveru, sem nemur tilteknar aðstæður. T.d. snertinæmar frumur í húð; lyktarfrumur í nefi; bragðfrumur í tungu o.s.frv.
Skyni skroppinn (orðtak) Heimskur; vitlaus. „Maður er nú ekki svo skyni skroppinn að trúa öllu“!
Skynja (s) Finna; verða var við; öðlast skilning á. „Ég skynjaði að ekki var allt með felldu“.
Skynsamlega (ao) Af skynsemi/viti/rökhyggju. „Mér fannst þetta nokkuð skynsamlega ályktað“.
Skynsamlega mælt (orðtak) Skarplega athugað. „Þetta var skynsamlega mælt og þörf ábending“.
Skynsamlegheita (ao) Gáfulegur; með yfirbragð skynsemi. „Mér fannst þetta bara skynsamlegheita náungi“.
Skynsamlegur (l) Rökrænn; vitlegur; gáfulegur. „Mér finnst þetta skynsamleg niðurstaða í málinu“.
Skynsamur (l) Gáfaður; vitur; rökvís. „Ég átti ekki von á þessu; af jafn skynsömum manni og hann er“.
Skynsemdarmaður / Skynsemdarskepna (n, kk/kvk) Sá/sú sem er skynsöm/veit sínu viti.
Skynsemdarskortur /Skynsemisskortur (n, kk) Heimska; yfirsjón; greindarskortur. „Það er nú bara hreinn skynsemdarskortur að setja ekki útsæðið tímanlega í spírun“.
Skynsemi (n, kvk) Vit; greind; gáfur. „Hér þurfum við að beita skynseminni“.
Skynsemistrú (n, kvk) Efnishyggja/rökhyggja í trúmálum; (rationalismi). Skynsemistrú reis hratt til vegs með aukinni vísindaþekkingu og almennri skólagöngu, og hefur nú nánast alveg tekið við af bókstafstrú fyrri alda í kristnum heimi. Ekki er þar með sagt að almennt ríki trúleysi, enda er trúin samgróin mannlegri hugsun; heldur trúa menn ekki lengur almennt ýmsum skýringum biblíunnar á efnislegum fyrirbærum, t.d. um sköpun heimsins og upprisu dauðra. Einnig stendur nútímamönnum lítil ógn af Helvíti og Satan, sem prelátar fyrri tíma notuðu miskunnarlaust til ögunar. Þá hefur veraldleg réttarregla tekið við af kirkjurétti og veraldlegt vald af kirkjuvaldi. Flestum mun það þó eiginlegt; einkum þegar á bjátar, að trúa á Guð í einhverri mynd.
Skynsemisvottur (n, kk) Lítilsháttar skynsemi; tákn um skynsemi; vitglóra. „Hann er kannski mistækur, en mér þótti þetta framtak vera skynsemisvottur“.
Skynugur (l) Vitur; skynsamur; greindur; næmur. „Tíkarvikindið hún Pollý var ótrúlega skynug skepna. Hún gaut eitt sinn í holu sem hún hafði gert sér úti í Gili til að forða hvolpunum frá vísum dauða. Hún hafði líka vit á að geyma hvolpana í holunni þangað til þeir voru farnir að stálpast, enda fékk einn þeirra að lifa“.
Skynvilla (n, kvk) Röng skynjun á umhverfinu vegna þess annaðhvort að skynfæri greina rangt eða heili les boðin rangt. Dæmi um skynvillur eru ofsjónir; missýning; misheyrn o.fl.
Skyr (n, hk) Mjólkurafurð sem unnin er úr undanrennu; ferskur súrostur. Þekking á skyrgerð fluttist hingað með landnámsmönnum og hélst við hérlendis þó hún týndist að mestu erlendis. Til að búa til skyr er mjólkin fyrst skilin; þ.e. undanrenna skilin frá rjóma. Undanrennan er síðan hituð uppundir suðumark og með því gerilsneydd; en síðan kæld niðurundir líkamshita. Þá er þétti/skyrþétti bætt útí, en hann getur t.d. verið skyr úr fyrri framleiðslu sem inniheldur sýrumyndandi bakteríur og gersveppi. Ostahleypi/skyrhleypi er oft bætt útí til að gera skyrið þéttara, en hann var fyrrum fenginn úr kálfsmaga. Næst er skyrið látið standa og hlaupa, þ.e. gerjast og þykkna, sem tekur fáeinar klukkustundir. Síðan er það kælt; skorið í það og það látið standa í skyrsíu meðan mysan rennur af því. Skyrmysa er hollur drykkur sem fyrrum var safnað saman í sýrutunnu og síðan höfð meðferðis í ferðalög og róðra, gjarnan blönduð vatni og nefndist þá blanda eða drukkur.
Skyrgerðin gat lánast misjafnlega. Ef skyrið var gófgert og kornótt var það nefnt graðhestaskyr. Skyr sem var ósíað var bragðverra og nefnt ólekja. Mjög þunnt skyr nefnist skyrlap. Fyrir daga nútíma geymsluaðferða var skyri safnað saman yfir sumarið og það látið súrna í stórum sáum. Nefndist slíkt skyrsafn.
Skyr var oft borðað sem eftirmatur á eftir heitum rétti, t.d. saltfiski, en einnig sem uppistöðufæða. Fyrir neyslu var það oft bragðbætt með því að hræra samanvið það dálitlum sykri, og þynnt hæfilega með mjólk; en einnig var mjólk hellt útá eftir að á diskinn var komið. Oft var skyr hrært samanvið hafragraut og nefndist þá skyrhræringur eða hræringur. Gott þótti að setja rjóma eða bláber útá skyr, sjá berjaskyr.
Á síðustu árum hefur skyr verið selt í búðum með ýmsum bragðtegundum og í neysluskömmtum, auk þess sem það er nú orðin mikilvæg útflutningsafurð sem nýtur ört vaxandi vinsælda erlendis.
Skyrbjúgur (n, kk) Hörgulsjúkdómur sem stafar af skorti á C-vítamíni. Hann lýsir sér t.d. með mikilli tannholdsbólgu, tannlosi og síðar alvarlegri verkunum. Orðið er líklega stofnskyld ensku; scurvy og samsvarandi norrænum orðum. Skyrbjúgur þekktist ekki hjá fólki sem neytti grænmetis eða jurtafæðis. Í klettum vestra vex mikið af skarfakáli, sem er mjög auðugt af C-vítamíni, og var það notað þar til matar. Einna fyrstur hérlendis til að ráðleggja neyslu C-vítamínríkra jurta til lækningar á skyrbjúg var séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal.
Skyrdallur / Skyrkolla / Skyrskál (n, kk, kvk) Skál sem skyr er hrært í, og iðulega borið fram í.
Skyrgámur (n, kk) A. Hefur líklega fyrrum verið heiti á stóru íláti með skyri/ skyrsá; skyrkeri. B. Heiti eins af jólasveinunum, en sá á að vera sérlega sólginn í skyr.
Skyrgerð (n, kvk) Framleiðsla á skyri úr undanrennu. Sjá skyr.
Skyrhákarl (n, kk) Búkhákarl; býklykkja. Kæstur hákarl af baki skepnunnar; oftast hvítleitur í skurðarsárið; mjúkur til átu og bragðsterkur ef verkun heppnast vel.
Skyrhræringur (n, kk) Hræringur; spónamatur, gerður með því að hræra saman skyri og hafragraut. Oftast snætt með súrum blóðmör og mjólk. Nokkuð algengur matur áður, en þekkist varla nú á dögum.
Skyrlap / Skyrlepja / Skyrsúpa / Skyrþynnka (n, hk) Mjög þunnt skyr; skyr hrært mikilli mjólk, sem oft var haft sem eftirmatur heits réttar, s.s. saltfisks, meðan venja var að borða tvíréttað á hádegi. „Skyrlapið er ári þunnt; en gott er það“. „Áttu dálitla skyrsúpu fyrir mig“?
Skyrmislegt (l) Um himnu/þynnu/fatnað; skænislegt; þunnt; brothætt. „Ekki er ég hissa á að þessi plasthlíf brotnaði; mér fannst hún óttalega skyrmisleg“. „Þú ferð ekki út í svona skyrmislegum klæðnaði“! Skyrmi er stofnskylt orðinu skurmur/skurn, og skyrmi mun áður hafa verið notað í merkingunni skæni; t.d. um þunnan ís á vatni/polli.
Skyrmysa (n, kvk) Mysa sem sígur af skyri við skyrgerð. Sjá skyrsía og súr.
Skyrpa (n, kvk) Hráki; munnvatn/slím sem hrækt/spýtt er úr munni. Ekki lengur notað en lifir í málinu sem hluti fiskheitisins skollaskyrpu, sem er annað heiti á grásleppu.
Skyrpa (s) Hrækja; spýta. „Þeir stóðu í hrókasamræðum á réttarveggnum, en öðru hvoru litu þeir til hliðar og spýttu mórauðu“.
Skyrpa/spýta í lófana (orðtak) Ganga rösklega til verks; herða sig. „Við þurfum að skyrpa heldur betur í lófana ef þetta á að klárast fyrir hádegi“.
Skyrpingar (n, kvk, fto) Sá kækur að vera sífellt að hrækja munnvatni.
Skyrsár / Skyrker / Skyrkerald (n, kk/hk) Stórt ílát; gjarnan stór tunna, sem notað er til söfnunar og geymslu á skyri. Skyrsafn varð allmikið á stórum búum, og víða finnast för eftir skyrsái í fornum bæjarrústum.
Skyrsía / Skyrgrind (n, kvk) Djúpt trog með rimlabotni; notað til að sía skyr. „Þegar ég var að alast upp var alltaf gert skyr; síað í litla tunnu; skyrsía með rimlum í botninum; í hana var sett grisja og síað, og svo var mjólkurafgöngum og undanrennu hellt út í mysuna“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Skyrsleif (n, kvk) Sleif/þvara sem notuð er til að hræra/matbúa skyr. „Ég skal sleikja af skyrsleifinni“.
Skyrsleikja / Skyrsletta / Skyrspónn / Skyrögn (orðtak) Lítið eitt af skyri. „Ég myndi þiggja hjá þér dálitla skyrslettu á eftir“. „Gefðu mér dálitla skyrsleikju í viðbót“. „Mikið væri nú gott að fá skyrslettu á eftir þessu“.
Skyrsveppur (n, kk) Sjá gorkúla.
Skyrta / Skyrtutau (n, kvk) Fat sem borið er bert eða undir peysu/yfirhöfn og hylur búk milli lenda og háls, og oftast handleggi framundir hendur. Hlutar skyrtu eru skyrtubolur; skyrtuermar; skyrtukragi; skyrtulíningar; skyrtuhnappar og skyrtuvasi. Léleg skyrta nefnist oft skyrtugopi; skyrturæfill; skyrtutila; skyrtutötur eða skyrtudrusla.. Fyrrum voru menn bæði í nærskyrtu af t.d. bómull og milliskyrtu af þolnara efni, en það mun óalgengara nú.
Skyrugur (l) Með leifar/lit af skyri kringum munninn. „Þurrkaðu nú framan úr þér; þú ert dálítið skyrugur“.
Skyrþéttir (n, kk) Hvati (ensím) sem fæst m.a. úr maga úngkálfa, og notaður er til að hleypa mjólkurvöru; t.d. skyr. „Þegar ég var að alast upp var alltaf gert skyr; síað í litla tunnu; skyrsía með rimlum í botninum; í hana var sett grisja og síað.... Úr undanrennunni var yfirleitt gert skyr. Ef þéttirinn dugði ekki milli þess sem hleypt var, fengu menn þétta hjá nágrönnunum“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Skyssa (n, kvk) Mistök; afglöp. „Þarna varð mér á veruleg skyssa“!
Skytta (n, kvk) A. Skotmaður; sá sem skýtur af byssu, boga eða öðru skotvopni. B. Áhald sem notað er í vefstól til að þræða ívaf í vefnað þegar ofið er. C. Skytta eða „skytla“ er líklega gamalt orð yfir skot eða skáp. Sjá skápur.
Skytteri (n, hk) Veiðimennska með byssum. „Það var lengi íþrótt að fara niður að Görðum á mávaskytterí þegar flaug vel með“. „Menn lögðu mikið á sig í tófuskytteríi meðan verð á refaskinnum var hátt“. „Það var íþrótt að skjóta svartbaksunga á flugi hér í víkinni. Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í veðrið og flýgur lágt. Og á haustinn þá sátu þeir hérna niður á gömlu grjótgörðunum þegar þannig viðraði og skutu ungann á fluginu. Þetta þótti alveg herramannsmatur; ungarnir. Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Ský (n, hk) A. Þétting vatnsgufu í lofti, þannig að smásæir dropar byrgi sýn en falli þó oft ekki sem regn. Ský eru af margvíslegri gerð eftir hæð, hitafari, rakastigi, vindum og myndun. Fyrri tíðar fólk var margt sérlega lagið að spá fyrir um veður með því að lesa úr skýjafari. Þjóðtrúin segir að hrafninn miði oft við skýin þegar hann urðar bráð sína, og finni hana því oft ekki aftur. Sama hótfyndni er stundum höfð um sjómenn sem tapa miðum. B. Hvítnun/ógagnsæi sem myndast getur á glæru auga og hindrar sýn.
Skýdróg / Skýlufsa (n, kvk) Tætla/snifsi af skýi; lítið ský. „Það er ekki skýdróg að sjá á himni“. „Furðulegt er að fá þessa dropa úr heiðskýru lofti; þegar hvergi er skýlufsu að sjá“!
Skýfall (n, hk) Mjög mikil og skyndileg rigning; hellidemba. „Það gerði skýfall þegar við vorum að setja upp“.
Skýfar / Skýjafar (n, hk) Útlit á himni; tegund skýja. „Mér líst nú ekkert á þetta skýfar hér suðurá núna“.
Skýferð (n, kvk) Far á skýjum; um það þegar ský fjúka hratt undan háloftavindum. „Það er mikil skýferð núna“. Ekki sjást dæmi um orðið í orðabókum en það var töluvert notað svæðinu.
Skýhnoðri (n, kk) Lítið ský; vottur af skýi. „Það sést hvergi skýhnoðri í þessari heiðríkju“.
Skýjabakki (n, kk) Svartur bakki sem í Kollsvík sést einungis í vestri eða norðri, og er einungis nefndur „bakki“ eða bakki til hafsins.
Skýjaband / Skýjarák / Skýjaröst (n, hk/kvk) Löng rák/runa/röst af skýjum.
Skýjaborgir (n, kvk, fto) Líkingamál um hugmyndir sem þykja óraunsæjar/glæfralegar/ heldur mikilfenglegar. Orðið kann upphaflega að hafa merkt skýjaklakk/skúraklakk/skýjabólstur, en sú notkun er þá löngu horfin.
Skýjabólstur (n, kk) Háreistur og mikilúðlegur skýjaklakkur; skýjahattur á háreistu fjalli.
Skýjadreif (n, kvk) Þunn/sundurslitin ský. „Það er einhver skýjadreif í austri, en annars heiðskírt“.
Skýjað (l) A. Himinn hulinn skýjum. B. Móða á gleri eða ský á auga.
Skýjafar (n, hk) A. Staðsetning og útlit skýja á himni. „Ekki líst mér á skýjafarið þessa stundina“. B. Áberandi rek skýja fyrir vindi um himininn. „Kominn var norðanbelgingur og mikið skýjafar“.
Skýjafláki (n, kk) Áberandi/stór skýjabreiða á himni.
Skýjaglópur (n, kk) Niðrandi líking; sá sem starir upp í loftið. „Stattu ekki bara þarna eins og skýjaglópur“!
Skýjahattur / Skýjakúfur (n, kk) Lágský/þokublettur sem sest á eða rétt yfir háreista fjallsgnípu eða hátt fjall; staðbundið og án tengingar við önnur ský. Gerist þetta við ákveðin veðurskilyrði og einatt áveðurs eða yfir fjallinu.
Skýjahula (n, kvk) Þekja af skýjum á himni; oft þunn en nægileg til að draga úr sólskini.
Skýjaklakkur (n, kk) Háreist ský; þrumuský; skúraklakkur.
Skýjaklasi (n, kk) Þyrping skýja á himni.
Skýjakljúfur (n, kk) Síðari tíma slanguryrði yfir mjög háreista byggingu.
Skýjakóf (n, hk) Þétt ský; skýjahula; staðbundinn lágskýjabakki. „Öðruhvoru móaði fyrir sól í gegnum skýjakófið“. „Skýjakóf lá með Blakkbrúninni og kæfði uppá hana í golunni“.
Skýjaloft (n, hk) Mikið um ský á himni; all skýjað.
Skýjarek (n, hk) Rek af skýjum; skýjafar; áberandi hreyfing skýja undan vindi.
Skýjarof (n, hk) Rof/gat í skýjahulu. Yfirleitt einungis nefnt rof.
Skýjaruðningur (n, kk) Skýjabakki; hrönn af skýjum, gjarnan í tiltekinni átt.
Skýjaskin (n, hk) Nýyrði höfundar; endurvarp ljóss af skýi, svo sterkt að það er merkjanlegt á jörð og veldur skuggum. Skýjaskin getur orðið í dimmviðri, þegar sól brýst í gegn og lýsir upp lágský, sem aftur varpar birtu á jörðina neðanundir. Greinilegast er það kringum þéttbýli í skammdegismyrkri, þegar sterk birta berst uppí lágský sem varpa henni aftur niður, svo skuggar myndast á myrkvuðu nærsvæði. Orðið varð til í huga VÖ að morgni aðfangadags 2016 í nágrenni Ásbrúar við Keflavík, þegar ratljóst varð og skuggamyndun vegna skýjaskins, þegar gengið var með hundinn í kyrru veðri og snjóföl á jörðu.
Skýjaslitra / Skýjatjása (n, kvk) Vottur af skýi; tætt ský. „Einhverjar skýjaslitrur er að sjá þarna í austrinu“. „Það er bara alger heiðríkja; hvergis skýjatjásu að sjá“.
Skýjaslæða (n, kvk) Skýjaslitra; skýjatjása; þunnt sundurslitið belti af skýjum.
Skýjatrefill (n, kk) Skýjarönd í miðjum klettum hárra hamra. „Oft myndast skýjatrefill í Blakknum“.
Skýjatætingur (n, kk) Óreglulegt skýjafar; vindskafin ský; skýjatjásur. „Ekki veit ég hvað á að ráða í þennan skýjatæting á austurloftinu“.
Skýla (n, kvk) A. Skjól. B. Fatnaður sem skýlir. Nútildags nær eingöngu notað um sundskýlu.
Skýla (s) Veita skjól/afdrep. „Settu nestið inní lúkar til að skýla því fyrir ágjöf“.
Skýlaus (l) Afdráttarlaus; hreinn. „Það á að vera skýlaus krafa sjávarjarða að endurheimta sinn veiðirétt“.
Skýli (n, hk) Afdrep; byrgi; hjallur; hvaðeina sem veitir skjól.
Skýlt (l) Skjólagott; skjólótt; mikið skjól. „Hlíðarhvammur er fornt býli; þar eru greinilegar bæjarrústir. Þar er mjög skýlt“ (SE; Örn.skrá Stakkadals).
Skýluklútur (n, kk) Klútur/klæði sem skýlir annaðhvort hári/höfði (skupla/slæða) eða lendasvæði (lendaskýla).
Skýr (l) A. Greinilegur, ljós. „Hann gerði skýra grein fyrir sinni afstöðu“. Ypsilonið í orðinu er breyting sem varð fyrr á öldum, og virðist ekki styðjast við nein rök. Í raun er um sama orð að ræða og „skír“, sem er dregið af „skær“ (sjá skír). B. Greindur; glöggur. „Þú ert skýr; að átta þig svona fljótt á þessu“!
Skýra (s) Útskýra; gera ljóst/greinilegt. „Það er erfitt að skýra svona hluti“.
Skýra frá (orðtak) Segja frá.
Skýra út (orðtak) Útskýra; gera ljóst/greinilegt.
Skýrlega (ao) Greinilega; skýrt. „Ég lét hann vita skýrlega af minni afstöðu“.
Skýrlegur (l) Greindarlegur; skynsamlegur; skýr. „Mér fannst þetta nokkuð skýrlegur náungi“.
Skýrleiksbarn/ -náungi /-piltur /-stúlka (n, kk) Um greinda/skynsama manneskju.
Skýrmæltur / Skýrorður (l) Talar skýrt og greinilega.
Skýrt og skilmerkilega (orðtak) Mjög greinilega; án vafa. „Hún tilgreindi sín skilyrði, skýrt og skilmerkilega“.
Skýst (mörgum) þó skýr sé (orðatiltæki) Mörgum skjátlast/yfirsést (skýst) þó gáfaðir séu. Allmikið notað viðkvæði þegar maður geriðr óvænt mistök.
Skýstrokkur (n, kk) Hvirfilbylur (e: tornado). Ekki er óalgengt að iðuköst í líkingu við skýstrokka myndist hlémegin við fjöll í hvössum vindi, en ekkert í líkingu við þá sem myndast af mishitnun yfir meginlöndum. Má t.d. iðulega sjá stróka á sjónum sunnan Blakks í hvassri norðanátt.
Árið 1856 dundu mannskæðar náttúruhamfarir yfir bæjarhúsin í Kollsvík, sem um langan aldur voru helst taldar stafa af skýstrokk. Má enn sjá þá ályktun í handbókum fyrir ferðafólk. Hinsvegar er langsamlega líklegast að hér hafi verið um snjóflóð úr Núpnum að ræða; enda kom samskonar flóð á sama stað laust fyrir aldamótin 2000.
Skýtjása / Skýtutla (n, kvk) Lítið ský; skýhnoðri. „Það sést varla skýtjása á himni“.
Skæddur (l) Skóaður. „Ertu nægilega vel skæddur til að ganga innyfir Tunguheiði“?
Skæðadrífa (n, kvk) Dreif; það sem dreifst hefur víða. „Brakið úr kirkjunni var eins og skæðadrífa um allt“.
Skæðagrös (n, hk, fto) Mjög stór fjallagrös. „Stundum má finna skæðagrös uppundir Kóngshæð“.
Skæðar tungur (orðtak) Rógberar; slúðurskjóður; sveitaslúðrið. „Skæðar tungur segja að hjónaband þeirra standi fremur tæpt“.
Skæðaskinn (n, hk) Skinn/gæra sem nýtt er til að búa til skinnskó. Sjá gæra.
Skæðatollur (n, kk) Gjald sem greitt var áður frá bænhúsum og hálfkirkjum til presta (eða prestsetra) vegna skóslits presta við að halda uppi reglubundinni messu. „Hænuvík taldist að fornu til Saurbæjarsóknar, eins og allir bæir við Patreksfjörð. Kirkjuvegur hefur því verið langur og illur, svo að telja verður eðlilegt, að hér risi guðshús í einhverri mynd, enda mun svo hafa verið. Þannig kvittar Jón prestur Erlingsson hinn 4. október 1523 fyrir skæðatoll, sem goldist hefur og gjaldast á til Saurbæjarkirkju, en í máldögum hennar er þess getið, að hún eigi skæðatoll af hverju bænhúsi (sbr. um Saurbæ hér að framan)“ (Lýður B. Björnsson; Guðshús í Barðastrandasýslu“).
Skæði (n, hk, fto) Efni í skó. Notað jafnt um skinn sem roð (sjá roðskór).
Skæður (l) Skaðlegur; illur; eyðandi. „Svartidauði var skæður sjúkdómur sem lagði fjölda fólks að velli“.
Skæður með (orðtak) Hættir til; hefur tilhneygingu til. „Íslensku hænurnar voru mun skæðari mað að vilja liggja á...“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).
Skækill (n, kk) A. Ystu separ á gæru: „Það þarf að salta vel í skæklana“. B. Lítill blettur/svæði. „Það tekur því nú varla að slá þennan smáskækil“.
Skæklóttur (l) Með mörgum totum/skönkum/skæklum; sundurskorinn; vogskorinn.
Skæla (s) A. Vola; gráta. B. Gretta. „Vertu ekki að skæla þig framan í barnið; það gæti farið að skæla“. C. Aflaga; skekkja. „Vertu nú ekki að skæla niður stígvélin þín“!
Skælast (s) Þvælast; skakklappast. „Einhvernvegin skældist hann yfir Hálsinn í ófærðinni á Trabbanum“.
Skælbrosa (s) Brosa breitt.
Skældur (l) Skekktur; aflagaður. Oftast í orðtakinu skakkur og skældur.
Skælingur (n, kk) Þvælingur; erfið ferð. „Við komumst yfir hálsinn, en þetta er óttalegur skælingur eins og færðin er núna“. „Það var bara bölvaður skælingur í röstinni; vindur á móti fallinu“.
Skæna (s) Mynda húð/klaka/þynnu. „Aðeins hefur skænt á pollum í nótt“.
Skæni (n, hk) Þunnur ís. „Það er skæni á pollum eftir næturfrostið“. „Þessar veggþiljur eru óttalegt skæni“
Skænislegur (l) Þunnur; lélegur; lítilfjörlegur. „Skelfing finnst mér þetta skænislegur fatnaður sem þú ert í“!
Skænisþunnur (l) Mjög þunnur. „Mér líst ekkert á þennan bát. Byrðingurinn er svo skænisþunnur að maður þorir varla að stíga um borð“.
Skær (l) A. Mjög bjartur/ljós/skír. B. Sem unnt er að skera. Sbr tví-, þrí- eða fjórskær fiskur; þ.e. fiskur sem hagkvæmt er að þverskera í þrjá, fjóra eða fimm bita.
Skærur (n, kvk, fto) Erjur; illdeilur; skammvinnir bardagar. „Einhverjar skærur hafa verið með þeim“.
Skætingslegur (l) Um veður; ljótur útlits. Um mann: hryssingslegur. „Skelfing finnst mér hann skætingslegur til loftsins. Mér kæmi ekki á óvart þó hann kæmi með einhvern skít seinnipartinn“.
Skætingur (n, kk) Skammir; slæm veður. „Hreyttu þeir þar skætingi hvor í annan“. „Það er einhver vestan skætingur í honum núna“.
Sköddun (n, kvk) Skaði; meiðsli; skemmd.
Sköflungur (n, kk) Neðri hluti fótar, þ.e. milli hnés og ökkla. Í Sköflungnum eru sköflungsbein og dálkbein.
Sköfujárn (n, hk) Járn sem notað er til að skafa; skafa; siklingur. Fyrir daga hefla var viður sléttaður með öxi, lokar og sköfujárni. Nú er skafa einkum notuð til að hreinsa málningu af yfirborði.
Skögultenntur (l) Með skakkar tennur. „Ég hef aldrei séð svona skögultennta manneskju fyrr“.
Skömm (n, kvk) A. Það sem er skammarlegt/niðurlægjandi. B. Bilun; veikindi. „Það er einhver skömm búin að vera í mér í nokkra daga“. „Einhver skömm var þó í vélinni (í bátnum)... „ (ÁE; Ljós við Látraröst). C. Gæluorð um barn/mann/skepnu. „Þetta var nú alveg óvart hjá þér, skömmin mín“.
Skömm er að (orðtak) Til skammar; leiðinlegt. „Skömm er að sjá hvernig þú ferð með fötin þín“.
Skömminni (til) skárri/skárstur (orðtak) Örlítið/dálítið betri; ögn skárri; bestur af ýmsum miður góðum. „Ekki er ég orðinn góður af þessum hóstafjanda ennþá, þó ég sé skömminni skárri en í gær“.
Skömmóttur (l) Skammast mikið; hvatvís. „Það er ekkert til bóta að vera svona skömmóttur“.
Skömmtunarstarf (n, hk) Vinna við skömmtun. Einkum notað á tímum innflutningshafta og skömmtunar á varningi, um starf þeirra sem fengust við þá umsýslu. Kemur iðulega fyrir í bókum Rauðasandshrepps; t.d. greiddi hreppurinn kr. 100 fyrir starfið árið 1960.
Skömmu eftir / Skömmu síðar (orðtak) Stuttu á eftir; stuttu seinna. „Ég breiddi galtan og kastaði heyinu í föngum í flekkinn, en hann kom skömmu síðar og káði úr“. „… og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall…“ (PG; Veðmálið).
Skömmustulegur (l) Niðurlútur; daufur; með sektarkennd. „Hversvegna er tíkin svona skömmustuleg“?
Skömmustusvipur (n, kk) Svipur sem bendir til sektarkenndar/skammar. „Mér sýndist á skömmustusvipnum á tíkinni, að hún hefði eitthvað komið nálægt eggjunum“.
Sköndull (n, kk) A. Ílangur hlutur af hverskonar tagi. B. Getnaðarlimur, einkum á hestum, hákarl og öðrum stórum skepnum.
Sköp (n, hk, fto) A. Örlög; það sem áskapað er. „Enginn má sköpum renna“ vísar til þess að enginn getur flúið forlög/örlög sín, samkvæmt forlagatrú þeirri sem innbyggð er í m.a. ásatrú. B. Ytri kynfæri kvendýra/kvenna.
Sköpulag (n, hk) Mynd; skipulag í gerð. „Eigð þú við þennan netahnút; ég sé ekkert sköpulag á þessu“.
Sköpunarhæfileiki (n, kk) Hæfileiki til að skapa t.d. listaverk. „Sigríður á Láganúpi var gædd einstökum sköpunarhæfileika, eins og verk hennar sýna“.
Skör (n, kvk) A. Rönd; kantur; slá við stigaop. „Hann lagði frá sér næturgagnið á skörina meðan hann þokaði sér ofan stigann“. B. Súð á bát. „Málningin þarf að renna vel í skarirnar“. C. Borðstokkur á skipi. Sbr; láta til skarar skríða.
Skör lægra settur (orðtak) Tilheyrir lægri/óæðri hópi/stétt. Vísar til mannvirðinga í skálum til forna. Sjá pallborð og skörin að færast upp í bekkinn og eiga ekki upp á pallborðið.
Skörðóttur (l) Með mörgum skörðum/vikum. T.d. um fjall, hníf eða ljá. Þjóðtrúin segir að ef vanfær kona borðar með skörðóttum spæni (skörðóttri skeið) muni skarð verða í vör barnsins þegar það fæðist. Sama hefur verið sagt ef vanfær kona borðar af skörðóttum diski.
Skörin að færast upp í bekkinn (orðtak) Þykir nóg um; gengur helst til langt. „Þá er nú skörin farin að færast fullmikið upp í bekkinn, ef hann þykist geta lokað veginum niður að kirkjugarði“! Orðtakið vísar til setu manna í húsum/skálum að fornu. Fólk sat á upphækkunum við veggina, gegnt eldi sem hafður var til hitunar. Upphækkunin nær veggnum nefndist bekkur, og þar sátu húsbændur og jafningjar þeirra. Lægri bekkurinn, fjær veggnum, nefndist skör og þar sat vinnufólk, börn og annað lægra sett fólk. Vísar orðtakið til þess er óæðra fólk tyllti sér á bekk húsbænda. (HH; Ísl.orðtakasafn). Til var orðatiltæki sem styður þetta: „Líkir sitja sæmilegast bekkinn“.
Sköruglega (ao) Með röggsemi/myndugleik. „Hann stýrði hreppsmálum sköruglega meðan heilsan entist“.
Skörulegur (l) Ákveðinn; einbeittur; duglegur. „Hann var skörulegur forystumaður í félaginu í áravís“.
Skörungsbragur / Skörungsskapur (n, kk) Myndugleiki; reisn; atorka. „Mér finnst lítill skörungsbragur hafa verið á stjórn hreppsmála eftir sameiningu hreppanna, og sumt má að skammlausu kalla aumingjadóm“.
Skörungur (n, kk) A. Teinn sem notaður er til að skara í eldi; þ.e. skafa ösku af eldsmat og koma honum í mesta hitann. B. Líkingamál um mann sem þykir einstaklega duglegur/ötull/hetjulegur.
Skötubarð (n, kk) „Vængur“ af skötu, eftir að skorin hefur verið frá miðjan; hlaunirnar, með innyflum og kjafti.
Skötulíki (n, hk) Sem líkist skötu. Sagt er að eitthvað sé í skötulíki ef það er illa gert; óhönduglegt.
Skötulóð (n, kvk) Haukalóð (sjá þar).
Skötumið (n, hk) Mið þar sem vænlegt þótti að leggja haukalóð fyrir skötu.
Skötumóðir (n, kvk) Þjóðsagnakvikindi; risastór skata sem getur af sér mikla skötuveiði. Skötumóðir var sögð hafa verið í Skötutjörnum, sem eru tvær tjarnir uppi á Dalverpi, milli Sauðlauksdals og Keflavíkur. Þjóðsagan segir að á þeim hafi verið stunduð stórútgerð vegna mikillar skötuveiði sem þar hafi verið, og sjái enn til rústa af verbúðum. Dag nokkurn drógu menn þar risastóra skötu og komu henni til lands við illan leik. Eftir það hvarf öll skötuveiði úr Skötutjörnum. (Heimild MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn séra Magnúsar Gíslasonar, prests í Sauðlauksdal 1852-1879).
Sköturass (n, kk) Hlaunir skötu; stykki sem skorið er úr og hent þegar gert er að skötu. „Stykkið allt sem losað var frá börðunum (þegar barðað var); bak, kviður og hali. hét einu nafni hlaunir/skötuhlaunir/sköturass“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). (sjá skata).
Sköturoð (n, hk) Roð af skötu. Það er alsett göddum, en var nýtt til ýmissa hluta áðurfyrr. „Helgi þegar hratt fram gnoð/ og hervæddist sinni brók,/ þá skalf hvert einasta sköturoð/ og skarkolinn andköf tók“ (ÖG; glefsur og minningabrot; formannsvísa um Helga Árnason í Tröð).
Sköturoðshnakkur (n, kk) Hnakkur sem gerður er að einhverju leyti úr sköturoði. „Á Rauðasandi voru saumaðir sköturoðsvettlingar og þeir hafðir utanyfir ullarvettlinga á vetrum við fjárgæslu. Þar var sagt um þann sem var síðastur við verk eða að búa sig, að hann lenti í sköturoðshnakknum“ (LK; Ísl. sjávarh. IV; heim; RÍ). Bendir til að einhverntíma hafi slík hnakkasmíði þekkst þar um slóðir.
Sköturoðsvefjur (n, kvk, fto) Flys; flus; fótabúnaður úr sköturoði. „Í vefjur var einungis notað roð af stórri skötu; flenju/gammskötu, og voru oftast tekin af henni nýrri. Roðið var lagt þannig á fótinn að totan, efsti hluti þess, kom fyrir tærnar og undir þær. Það huldi síðan fótinn að ofan og náði upp á legginn. Margbundið var um þessa vestfirsku sköturoðsvefju/flys/flus, sem einkum var höfð til hlífðar í slabbi við útiverk“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild m.a. ÁE).
Sköturoðsvettlingar (n, kk, fto) Vettlingar gerðir úr sköturoði. „Á Rauðasandi voru saumaðir sköturoðsvettlingar og þeir hafðir utanyfir ullarvettlinga á vetrum við fjárgæslu. Þar var sagt um þann sem var síðastur við verk eða að búa sig, að hann lenti í sköturoðshnakknum“ (LK; Ísl. sjávarh. IV; heim; RÍ).
Sköturóður (n, kk) Róður til að veiða skötu; róður með haukalóð. „Þá ætla ég að segja frá einum sköturóðri með haukalóð“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Skötuselur (n, kk) Lophius piscatorius. Botnfiskur sem lifir í hafinu við Ísland og austar. Var ekki algengur við Vestfirði en virðist fara fjölgandi þar í seinni tíð. Gríðarlega kjaftstór miðað við búkinn. Var ekki nýttur fyrrum, en talinn sælkeramatur í dag. Ugga á kviðnum notar fiskurinn til að ganga á botninum, þar sem hann felur sig í botngróðri. Fiskurinn notar fálmara ofaná höfðinu til að ginna til sín bráð. Karlfiskurinn er miklu minni en kvenfiskurinn, en stærsti skötuselur sem veiðst hefur við landið var 134cm langur.
Skötuskagi (n, kk) Tennur í skötu. „Þegar byrjað var að gera að skötu var farið með höndina upp í kjaftinn, helst með vettlingi til þess að skaða sig ekki á skötuskaganum/tönnunum“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Skötustappa (n, kvk) Matur gerður úr kæstri skötu, kartöflum og hnoðmör, sem öllu er hrært saman. „Skötustappa var algengur Þorláksmessumatur um Vestfirði og víðar. Skatan var þá helst ekki kösuð minna en í 2-4 vikur, því best þótti að þefinn legði framúr nefinu þegar hún var etin. Stór skata/lóðaskata þótti best í stöppuna. Eftir suðuna var brjóskið tínt úr og hún síðan stöppuð í svo miklu mörfloti að sneia mátti hana niður eins og kæfu. “ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Skötuveiði (n, kvk) Veiði á skötu. „Skötuveiði er engin lengur á hinum gömlu skötumiðum“
Slabb (n, hk) Blautur snjór á jörð; krap. „Farðu í stígvél drengur, það er slabb á allri leiðinni“.
Slabbsamt (l) Krapi á jörð/leið; bloti. „Farðu í stígvél það gæti orðið æði slabbsamt á leiðinni“.
Sladdar í (orðtak) Heyrist skvamp í; er vætusamt. „Eitthvað sladdar í eggjakútnum“. „Hér sladdar í spori“.
Sladdi (n, kk) Slógmeri; slorugur og óaðgerður steinbítur. „Ég fékk eitt tonn af sladda til að hengja upp“. „Voraflinn var að mestu steinbítur. Hann var ávallt rotaður g slægður um leið og hann var kominn inn í bátinn. Áður en hann var borinn undan sjó var hann vandlega skolaður. Ekki var hann þveginn að lokinni flatningu en þess vandlega gætt að ekki bærist sandur eða slor á mötuna. Þótti spilla bragðinu að þvo flattan steinbít. Steinbíturinn var ekki hertur á rám heldur á grjótgörðum. Þegar hann hafði verið flattur var hann hengdur á einhlaðna garða, en þá er hann var hálfþurr var hann tekinn af þessum görðum og síðan var honum hrýgjað á aðra sem voru mun vandlegar hlaðnir en hinir og tvöfaldir að neðan. Um það bil þrjú hundruð voru höfð í hverri hrýgju. Þar beið hann skipta, en þau fóru ekki fram fyrr en í lok vertíðar“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru). Í seinni tíð hefur steinbítur verið hertur í hjöllum, einkum meðan hann var enn utan kvóta og fékkst fyrir viðráðanlegt verð.
Slaðra (s) Slúðra; segja kjaftasögur; masa. „Það er verið að slaðra með þetta út um alla sveit“.
Slaðrari (n, kk) Sá sem ber út kjaftasögur/slúður; slefberi.
Slaður (n, hk) Slúður; blaður; kjaftasögur. „Kanntu ekkert slaður að segja mér“?
Slaðursaga (n, hk) Slaður; slúður; slandur. „Það er nú varla hægt að leggja trúnað á svona slaðursögur“.
Slafneskur (l) Af austur-evrópskum/slafneskum ættum; sem talar slafneskt tungumál. „Báðir kunnu þeir bræður slafnesk mál; Gunnar Össurarson tékknesku og Sigurvin bróðir hans rússnesku“.
Slafra / Slafsa (s) Éta. Notað oftast í nokkuð niðrandi merkingu. „Reyndu nú að slafsa þetta í þig drengur; það er bara gikksháttur að éta ekki signa grásleppu“!
Slafra í sig (orðtak) Éta. Einkum notað í niðrandi merkingu. „Ég held að þeim sé fullgott að slafra þetta í sig“. „Maturinn var ekki kræsilegur, en ég lét mig hafa það að slafra hann í mig“.
Slafs (n, hk) Blautfóður; bland sem snætt/drukkið er. „Réttu kálfinum slafsið sitt“.
Slag (n, hk) A. Högg. „Það þurfti bara nokkur góð slög til að rétta járnstöngina“. B. Klukknahljómur. „Klukkan slær eitt slag á hálftímanum“ . Í afleiddri merkingu: „Verkurinn kemur annars slagið, en svo er ég góður á milli“. C. Magáll af kjötskrokk. „Slögin eru notuð í rúllupylsur eða annað“. D. Hjartaslag; heilablóðfall. „Hann dó víst úr slagi“. E. Um siglingu báts; krus; bógur; leggur. Þegar bát er siglt beitivind (mótvind) er siglt móti vindáttinni, en þó nokkuð til hliðar við hana, í krákustígum og vent á milli. Hver beinn leggur nefnist slag/krus/bógur.
Slag í slag (orðtak) Aftur og aftur; ítrekað. „Þetta gerðist slag í slag“. Vísar til þess að slaga/krusa þegar seglskipi er siglt beitivind.
Slaga (s) A. Riða; skjögra/reika sitt á hvað í göngu. B. Krusa; sigla beitivind með því að sigla skáhallt á móti honum í krákustígum sitt á hvað, og seglavendingum á milli. C. Sagga; verða rakur af sagga/slagvatni. „Kartöflugryfjan var grafin í jörð, svo veggir slöguðu síður“.
Slaga hátt í (orðtak) Nálgast að verða; nærri því. „Það fer nú að slaga hátt í postulatöluna; vantar einn uppá“.
Slagahár (l) Hefur fengið marga slagi í spilum. „Í lok spilakvölda voru verðlaun veitt þeim sem slagahæst voru; sín aðalverðlaun fyrir karla og konur, og sömuleiðis tvenn skammarverðlaun“.
Slagari (n, kk) A. Sá sem slær. Var stundum fyrrum notað um sjóræningja/ribbalda. B. Sá sem spilar á ásláttarhljóðfæri. Sbr, trommuslagari; hörpuslagari. C. Dægurlag sem „slegið hefur í gegn“.
Slagaveiki (n, kvk) Eldra heiti á flogaveiki.
Slagbekkur (n, kk) Bekkur/sæti sem unnt er að fella niður og upp, að þörfum.
Slagborð (n, hk) A. Vefjarslag; hluti af vefstól. B. Felliborð; borð sem unnt er að fella niður eða reisa upp. Slagborð var oft í verslunum fyrir tíma kjörbúða, sem unnt var að lyfta til að ganga um. Slagborð var í eldhúsinu í Láganúpsbænum (fyrir 1974), til að unnt væri að stækka það. Oftar nefnt felliborð.
Slagbrandur (n, kk) Hurðarloka. Annaðhvort slá sem lögð er þvert fyrir hurð, í móttök í dyrakörmum; eða minni tittur á innanverðri hurðinni, úr tré/járni, sem rennt er í far/auga í karminum til að loka.
Slaghamar (n, kk) Lítil sleggja; stór hamar sem gefur allmikinn slagkraft.
Slagi (n, kk) Vatn sem þéttist, t.d. á veggjum og rúðum í húsum þegar kalt er úti. Slagvatn.
Slagkraftur (n, kk) Afl í höggi/slagi.
Slaglóð (n, hk) Málmur eða málmblanda sem notuð er til að kveikja saman málmhluta. Koparslaglóð er notað til margskonar hluta, stundum blandað t.d. silfri. Silfur- og gullslaglóð eru notuð t.d. í skartgripasmíði.
Slaglóða (s) Kveikja saman málmhluti með hitun og slaglóði.
Slagna (s) Slaga; rakaslá sig; verða rakur. „Það þarf að setja það hey í sérstakan flekk sem hefur náð að slagna í botnunum á göltunum; það þarf lengri tíma til að þorna“.
Slagorð (n, hk) Orð eða orðtak sem ætlað er að vera grípandi/hrífandi. Mikið notuð t.d. af stjórnmálamönnum.
Slagsa (s) Vaða um; slaga; vingsast. „Veðrið er eitthvað að lagast; ætli við förum þá ekki að slagsa í áttina með hrútinn“.
Slagsíða (n, kvk) Um bát; halli vegna ójafnrar hleðslu. „Við þurfum að færa netin dálítið í bátnum svo ekki verði svona mikil slagsíða á honum á landstíminu“. Orðið vísar til þess að bátur leggst í annað borðið þegar honum er siglt beitivind; tekið slag. Hann liggur þá á slagsíðunni.
Slagsmál (n, hk, fto) Átök milli tveggja eða fleiri manna; bardagi; atgangur.
Slagsmálahundur / Slagsmálaseggur (n, kk) Sá sem oft lendir í slagsmálum/erjum. „Hann er ferlegur slagsmálahundur með víni“.
Slagsylla (n, kvk) Láréttur biti/máttarviður í húsbyggingu, milli stoða, sem þilja/klæðning festist á.
Slagur (n, kk) A. Bardagi; viðureign. „Þeir skildir að áður en rifrildið endaði í slag“. B. Sigling seglskips; leggur; bógur. „Við tókum slag uppundir Bjargið og lögðumst þar í var“ Í líkingamáli: „Við látum þá slag standa“. C. Vinningur í spilum; það sem í borði er. „Neisko; þarna fæ ég einn slag í viðbót á trompið“!
Slagvatn (n, hk) Saggi; vatn sem þéttist á yfirborði þegar rakaloft kólnar.
Slagveður / Slagviðri (n, hk) Lemjandi rigning: mikil slydda eða rigning í roki; slagveðursrigning. „Kom mönnum saman um að ekkert vit væri í að leggja af stað...í myrkri og slagviðri“ (MG; Látrabjarg). „Sauðfé rýrt vegna smfelldra slagviðra“ “ (SJTh; Árb.Barð 1955-56). „Ennfremur að viðra úti, helst daglega, ær lömb og hross, og halda nefndum pening til haga séu nokkur tök til þess... Varast þó slagviðri mikil; frost og snögga veðurbreytingu“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Slagveðursrigning / Slagveðursúrhelli (n, kvk) Mjög mikil rigning/hellirigning/hellidemba þegar hvassviðri fylgir með. „Þoka var á og slagveðursrigning“ (SbG; Að vaka og vinna). „Við lentum í slagveðursúrhelli“!
Slagverk (n, hk) A. Sá hluti veggklukku sem slær hljóm við heila og hálfa klukkustund. B. Notað í seinni tíð yfir hljóðfæri sem slegin eru í tónlist, s.s. trommur.
Slagþil (n, hk) Þil úr standandi fjölum sem slegnar/festar eru á þverbita.
Slagæð (n, kvk) Meginæð frá hjarta í bláæðar.
Slaka (s) A. Lina átak. „Slakaðu dálítið á kollubandinu svo við komum bátnum í kerruna“. B. Í bjargsigi; gefa niður vaðinn. „Slakið mér niður á hilluna hér fyrir neðan“.
Slaka á klónni (orðtak) Gefa eftir í máli/verki. „Það má ekki slaka neitt á klónni ef þetta á að lánast“. Vísar til þess að strekkja kló á segli. Kló er efra horn segls, og úr henni liggur klófalur um blökk/trissu ofantil í siglunni í hendur formannsins;einnig var honum oft brugðið undir röng, öðrumegin í skutnum.
Slaka á taumunum (orðtak) Gefa eftir mikið aðhald; verða afslappaðri/vægari í stjórnun.
Slaka til með (orðtak) Um málefni; gefa eftir; samþykkja. „Ætli maður slaki ekki til með það að þú hafi r rétt fyrir þér í þetta sinn“.
Slaki (n, kk) A. Linka. „Það er einhver slaki í norðanáttinni þessa stundina“. B. Bugt/eftirgjöf á bandi/vað. „Takið af slakann strákar“!
Slakki (n, kk) Laut; geil. „Gáðu vel upp í slakkann í hlíðinni, hvort þar leynist fé“. „Stór slakki er þarna utanvið, niður í klettana, og heitir það Undirlendi“ (IG; Sagt til vegar I).
Slaklega (l) Linlega; fremur illa. „Hann stóð sig slaklega á prófinu“.
Slaklegur (l) Lélegur; aumur. „Aflinn er slaklegur það sem af er, en það gæti breyst núna í stórstrauminn“.
Slakna (s) A. Um átak; linast. „Stattu klár að því þegar slaknar á vaðnum“! B. Um frost; þiðna. „Það verður að láta fiskinn slakna til að hann náist í sundur“. C. Um vindátt; linast. „Eitthvað er að slakna á ofsanum“.
Slakur (l) A. Linur; laus; ekki hertur. B. Lélegur; ekki harður. „Þetta er slakur árangur“.
Slakur árangur (orðtak) Ekki góður árangur.
Slakt fóður (orðtak) Ekki kjarngott fóður.
Slampandi (l) Um ökufæri/sjóveður; rétt viðunandi; unnt að komast. „Ekki get ég nú sagt að þetta sé renniblíða, en kannski slampandi“.
Slampast (s) Sleppa fyrir horn; reddast. „Ég rétt slampaðist við að ná prófinu“. „Þetta slampast furðanlega“. Sjá þetta slampast einhvernveginn.
Slams (n, hk) Samsull; grautur; hræringur. „Yrðlingurinn át slamsið, og líkaði vel“.
Slamsa (s) Háma; éta af græðgi. „Maður er fljótur að slamsa í sig tíu eggjum“.
Slandur (n, hk) Slúður; kjaftasaga. „Kanntu ekkert slandur að segja mér“? Orðið finnst ekki í orðabókum.
Slang (n, hk) A. Innyfli úr sláturfé. Orðið var ekki notað á svæðinu um innyfli úr fiski, eins og sumsstaðar tíðaðist; þau voru nefnd ræksni eða slóg. „Það þarf að grafa slangið eftir að búið er að hirða úr því mötuna“.
Slanga (n, kvk) A. Skriðkvikindi sem ekki lifa í íslenskri náttúru. B. Mjúk pípa til að leiða vökva. C. Slöngva; vopn til að kasta steinum eða öðrum skotum. D. Net sem búið er að ríða en ekki að fella á teina. E. Kringlóttur gúmmíhólkur sem settur er í dekk ökutækis til að halda lofti í því.
Slangra (s) Slaga; ganga óstöðugur. „Ökulagið var svipað og göngulag karlsins; bíllin slangraði milli kanta“.
Slangur (n, hk) A. Slæðingur; lítið magn. „Það er slangur af fé á Stígnum“. B. Ónöfn; ótæk orð; orð sem ekki eru fallin að hefðbundnu máli.
Slankbelti (n, hk) Lífstykki; aðhald til að þrýsta inn mittiskeppum.
Slap (n, hk) Linka; slaki; það sem hangir/slapir. „Það þarf að taka allan slapa úr yfirbreiðslunni“.
Slapa (s) Lafa; hanga; slúta. „Þegar þú ferð eftir ganginum þarftu að gæta þín á grastorfunni sem slapir þarna framyfir úr næsta gangi fyrir ofan; hún gæti hrunið niður“.
Slappelsi / Slappleiki (n, kk) Linka; veikindi; vesöld. „Það er enn einhver árans slappleiki í mér eftir pestina“.
Slapplegur (l) Slappur; linur; veiklulegur; slenjulegur. „Ári ertu eitthvað slapplegur í dag“.
Slappna (s) Verða slappara/lakara/máttlausara/veikara; hraka. „Votheysveikikindinni hefur heldur slappnað“.
Slappur (l) Máttlaus; veikur; linur; sloj; latur. „Maður er enn fjári slappur eftir veikindin“.
Slark (n, hk) A. Erfið ferð; svaðilför. B. Drykkjuskapur; ólifnaður; ófriður.
Slarka (s) A. Slarkast; geta naumlega; nægja. „Við erum orðnir tæpir með bensín, en það slarkar kannski í land“. B. Vera drukkinn; stunda drykkjuskap.
Slarkandi (l) Þolanlegt; hægt að komast af með það. „Þetta er svona slarkandi sjóveður, en það verður asskoti mikill veltingur á okkur“. Orðið virðist ekki hafa verið notað annarsstaðar í þessari mynd.
Slarkast (s) Sluddast; geta/framkvæma naumlega/ með erfiðismunum/ á einhvern hátt. „Einhvernvegin slarkaðist hann upp á brún, en hvorki hann né aðrir gátu botnað í því ferðalagi eftirá“.
Slarkferð (n, kvk) Ferðalag þar sem mikið reynir á/hætt er við áföllum/erfiðleikum. „Það er hætt við að þetta geti orðið slarkferð, eins og veðurútlitið er núna“.
Slarkfær (l) Um það sem hugsanlega getur gengið en þó með erfiðismunum eða illa. „Vegurinn er slarkfær“. „Það er nú ekki meir en svo slarkfært sjóveður“. „Ég er svona slarkfær í þýsku“.
Slarkróður (n, kk) Róður í slæmu sjólagi/veðri. „Svona slarkróðrar skila litlu miðað við áhættu og fyrirhöfn“.
Slarksamt (l) Um ferðalag/verk;erfitt; hættulegt; kuldalegt; hætt við ágjöf/stórsjó. „Það var æði slarksamt að sigla fyrir Blakkinn í þessu sjólagi“.
Slarkveður (n, hk) Vont veður; nærri ófært veður.
Slasa sig (orðtak) Meiða sig mikið; verða fyrir slysi. „Slasaðu þig ekki á þessu bévítans príli“!
Slasaður (l) Mikið meiddur; mjög sár.
Slaufa (n, kvk) A. Hnýting á bandi/reim þannig að tvær lykkjur verði í hnútnum, en hann er leystur með því að draga aðra þeirra út. Einnig skraut sem minnir á slíkt. B. Hálstau sem stundum er borið í bindis stað.
Slattatunna (n, kvk) Hrognatunna sem ekki er full. „Við notum þessa slattatunnu til áfyllingar á aðrar“.
Slatti (n, kk) Skammtur; dálítið magn. „Það er kominn slatti í miðrúmið“ „Við sameinum þessa slatta í eitt“.
Slá (n, kvk) A. Skör; loftslá. Á tvílyftum húsum er þetta notað yfir skörina ofan við stigann. „Farðu upp á loft og sæktu kassann. Hann er á slánni, rétt við stigagatið“. B. Þverbiti, t.d. undir fjárhúagrind; grindaslá.
Slá (s) A. Lemja. „Sláðu vel niður staurana“. B. Slá gras til heyja. „Hann fór tók orfið og sagðist ætla að fara að slá uppi í Urðum“. „Kollsvíkursystur; Halldóra og María Torfadætur, slógu. Annars var ekki algengt að konur væru við slátt, en þær systur misstu föður sinn ungar en voru þó elstar af systkinum, en enginn karlmaður til a slá“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). C. Slá til baka. Vélar sem snúnar voru í gang með handafli gátu átt það til að kveikja á vitlausum tíma og slógu þá í öfuga átt. „Farmallinn sló mig svo duglega að ég er hálf handlama á eftir“. D. Um bakslag haglabyssu: „Ég hélt byssunni ekki nægilega þétt að, svo hún sló mig illyrmislega“.
Slá að (orðtak) Ofkælast. „Klæddu þig vel og láttu ekki slá að þér þegar þú ert með þennan hitaslæðing“.
Slá af (orðtak) A. Drepa; slátra; stytta aldur. „Ef votheysveikisrollan fer ekkert að taka fóður, þá þýðir ekkert annaðen slá hana af“. B. Lækka verð; veita afslátt. „Hann sló dálíti af timbrinu eftir að ég benti honum á að kíkja fjalirnar“. C. Minnka ferð/vinnu/álag o.fl.. „Þú keyrir með fullri ferð, en verður viðbúinn að slá af þegar ég segi þér, og sjáðu um að húsið sé vel lokað“ .... „Bátnum var vikið leiftursnöggt. „Sláðu af“! kvað við úr skutnum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). D. Útiloka; hætta við. „Hann sló alveg af þessa skemmtiferð; sagði að nú lægi meira á að nýta þurrkinn við heyskap“. Sjá afslegið.
Slá af sér (orðtak) Klúðra tækifæri; semja af sér. „Ég held að hann hafi slegið af sér þegar hann seldi jörðina. Þetta var smánarverð“.
Slá á (orðtak) Minnka. Var notað í ýmsum tilgangi: „Lyfið er byrjað að slá á verkina“; „Aðeins er farið að slá á lætin í krökkunum“ „Þegar líða tók að morgni fór að slá svolítið á mesta ofsann“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Slá á léttari strengi (orðtak) Taka upp léttara hjal/tal; hætta að ræða alvarleg efni. „Eftir þessa áminningu sló hann á léttari strengi“. Líking við leik á strengjahljóðfæri.
Slá bandi um (orðtak) Binda utanum; binda að. „Hann pakkaði þessu vel inn og sló svo bandi um pakkann“.
Slá botninn í (orðtak) Ljúka; enda. „Nú held ég að við förum bráðum að slá botninn í þessa grásleppuvertíð“. Vísar til þess að slá botn í trétunnu og festa hana með gjörðum.
Slá brýnu (orðtak) Slá teig milli þess að ljár er brýndur.
Slá eign sinni á (orðtak) Eigna sér; sölsa undir sig; stela; fá. „Ég sló eign minni á þennan planka, fyrst enginn annar vildi hirða hann“.
Slá feilpúst (orðtak) Um vél; missa takt; ganga óreglulega. „Vélin kjaftaði alla leið í land og sló ekki feilpúst“.
Slá felmtri á (orðtak) Fyllast skelfingu; verða óttasleginn. „Sló nú felmtri á háseta Ólafs og féllust þeim hendur, er þeir sáu manninn drukkna fyrir augum sér“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).
Slá flötu (við báru) (orðtak) Um bát; leggjast með hlið móti báru. „...því ekki má strax slá flötu við bárunni“ (KJK; Kollsvíkurver). „Ekki mátti samt slá flötu svo ég hafði árar á keypum til að reyna að halda bátnum réttum fyrir báru ef vélin stoppaði“ (ÖG; Fiskiróður). „Svo missir Björgvin út aðra árina þegar við vorum komnir nokkuð grunnt uppá; og náttúrlega þegar átakið kom á annað borðið sló flötu. Það var kallað að slá flötu þegar skekktist báturinn og hann flatur fyrir bárunni“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Brimið slær nú bátnum flötum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Slá fram (orðtak) Um málefni/fullyrðingu/tillögu; setja fram; leggja til. „Ég sló því fram hvort við ættum ekki að nýta kjörin og fara í róður“.
Slá framá (orðtak) Um bát; renna framávið undan báru. „Þetta er hörð og tvísýn barátta. Þeir koma í veg fyrir að bátnum slái framá, því gerist það þá er öll von úti“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Slá framúr (orðtak) A. Slá alla leið í spildu. Það er best að slá þetta stykki alveg framúr“. B. Slá ljá fram úr orfi, þannig að hann losni. „... hann slær ljáinn framúr og gengur móti nautinu...“ (TÖ; viðtal á Ísmús 1978)
Slá (einhverju) frá sér (orðtak) Hafna; falla frá. „Ég fékk gott tilboð í bátinn en sló því frá mér og ætla að eiga hann“. Sjá einnig berja/slá frá sér.
Slá fyrir (orðtak) Um vind; leggja fyrir fjall, núp eða aðra hindrun. „Hann sló ansi miklum kviðum fyrir Blakkinn, en annars var þokkalegt næði þarna við Straumskerið“.
Slá fyrir brjóst/vit (orðtak) Standa á öndinni vegna ólyktar. „Bölvuð pest er af þessu; manni slær fyrir brjóst“!
Slá fyrir (hunda)heppni / Slá fyrir slembilukku (orðtak) Vilja heppilega til; vilja til happs. „Það sló fyrir heppni að ég var með góðan vasahníf, svo ég gat skorið á ullarflókana og hrúturinn losnaði úr gaddavírsflækjunni“. „Nú sló fyrir slembilukku; ef ég hefði ekki gripið í eggjakútinn hefði hann oltið um“!
Slá fyrir vit (orðtak) Lykt leggur að nefi. „Þegar ég kom fyrir húshornið sló fyrir vit mér ilmandi kleinulykt“.
Slá föstu (orðtak) Telja öruggt/tryggt; ganga útfrá. „Ég sló því föstu að hann væri farinn út og læsti húsinu“.
Slá (einhverjum) gullhamra (orðtak) Bera lof á; hrósa. „Hann var ekki mikið fyrir að slá neinum gullhamra, og allra síst í þeirra áheyrn“.
Slá hendi á móti (orðtak) Hafna; vilja ekki þiggja þegar boðið er. „Ég slæ aldrei hendinni á móti vel kæstri skötu“! „Mér þótti ástæðulaust að slá hendinni á móti þessu boði“.
Slá í (orðtak) Úldna lítillega; verkast; lágna; breyta bragði. „Mér þykir eggin öllu betri þegar farið er að slá í þau“ sagði gamla konan, „..og þau breyta sér fyrr í hlýjunni“ (MG; Látrabjarg).
Slá í bakseglin (orðtak) A. Bókstafleg merking; þegar vindur kemur öfugu megin í segl báts. „Þegar þeir komu uppundir Bjargtanga... sló í baksegl og hvolfdi bátnum á svipstundu“ (ÁE; Ljós við Látraröst). B. Í Líkingamáli; koma afturkippur í; lenda í mótlæti. „Honum gekk vel framan af, en svo sló eitthvað í bakseglin“. Líking við það að vindur kemur öfugu megin á segl báts.
Slá í bardaga/brýnu (orðtök) Verða slagsmál/rifrildi/illdeilur. „Í nokkra brýnu sló með ræðumönnum“.
Slá í logn (orðtak) Detta í logn/dúnalogn; lygna skyndilega.
Slá í miðju grasi (orðtak) Nýta illa það sem fyrir hendi er;t.d. vinna illa að mat sínum. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Slá í múga (orðtak) Múga; slá þannig að grasið hrannist saman í múga/garð um leið og slegið er.
Slá í stans (orðtak) Um sjávarföll; verða fallaskipti/snúningur. „Það fer að slá í stans fljótlega; hann gæti gefið sig betur til á upptöku norðurfallsins“.
Slá í sundur (orðtak) Taka í sundur. „Ég sló kassann í sundur og naglhreinsaði viðinn“.
Slá í þurrkinn (orðtak) Slá gras til að nýta þurrk/þurrviðri sem fyrirsjáanlegur er, þó ekki sé kominn.
Slá niður (orðtak) A. Heilsa versnar: „Honum var farið að batna í gær en sló aftur niður í dag“. B. Sjólag batnar: „Þegar eitthvað slær niður er báturinn dreginn hröðum höndum til lands“. (KJK; Kollsvíkurver). C. Vindi slær niður um reykháf svo reykur berst inn í húsið. „Nú hefur slegið niður um skorsteininn“. D. Slá mikið af túnum í einu. Vanalega var reynt að hafa ekki mikið undir í einu í heyskap, nema að rakinn þurrkur/rakin norðanátt væri fyrirséð. E. Lægja veðurhæð/vind; hægja. „Hann sló dálítið niður meðan hann skipti áttinni, en svo setti hann á sama belginginn af austri“.
Slá niður eldingu (orðtak) Um það þegar elding sést/ kemur niður í þrumuveðri. „Eldingum sló ítrekað niður í jarðsímann yfir Hænuvíkurháls svo leggja var hann af eftir fárra ára starfrækslu, og setja upp örbylgjusíma“.
Slá niður falli (orðtak) Minnka norður- eða suðurfall; hægja sjávarfall; kippa úr falli. „Ég held að við ættum bara að huga að nestinu meðan hann slær niður mesta fallinu“.
Slá niður í höfuð (orðtak) Fá hugmynd; muna eftir. „Ég var rétt að festa svefn þegar því sló allt í einu niður í höfuð mér hvar hnífurinn gæti verið“.
Slá niður straum (orðtak) Verða fallaskipti; draga úr sjávarfalli; taka úr. „Eitthvað er hann farinn að slá niður straum; hann kannski fer þá að gefa sig meira til“. Sjá vekja straum.
Slá óhug á (orðtak) Verða smeykur/hræddur; fyllast andúð/hryllingi. „Nokkrum óhug sló á mig þegar ég hugsaði um þetta“.
Slá/slökkva niður róðri/róðrum (orðtök) Hætta róðrum; gera hlé á róðrum. „Hver landlegustund var notuð við heimilisstörf. Stundum var karlmaður allt sumarið við heyvinnu og stundum var slegið niður róðri ef þurfti að þurrka mikið hey“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Slá ryki í augu (orðtak) Blekkja; dylja. „Þessi lygasaga virðist búin til í þeim tilgangi að slá ryki í augu þeirra sem ekki þekkja nægilega til hins rétta“. Vísar til þess að þyrla upp ryki til að leynast í bardaga.
Slá saman (orðtak) Smíða; negla/reka saman. „Ég sló saman kassa utanum þetta“.
Slá saman (línum) (orðtak) Um það þegar símalínur í lofti flækjast/slást saman, þannig að símasamband versnar eða dettur út. Þetta gerðist helst í miklu hvassviðri eða þegar losnað hafði af staurum, og nefndist samsláttur. „Nú hefur slegið saman; rétt eina ferðina enn“.
Slá sér á (orðtak) Kaupa; festa kaup á. „Einn bóndi hætti búskap; Ingvar Guðbjartsson í Kollsvík... jarðakaupasjóður sló sér á kotið, en býr ekki (“ (ÞJ; Árb.Barð 1971).
Slá sér niður / Slá sér til rólegheita (orðtak) Gista yfir nótt eða nokkra daga; setjast að um stund; fá gistingu; halda kyrru fyrir. „Ég held ég þiggi boðið og slái mér bara til rólegheita; mér liggur ekki svo mikið á“. „Liggur ykkur nokkuð á til baka í dag? „Viljið þið ekki bara slá ykkur til rólegheita og gista í nótt“?
Slá sér niður til langdvalar (orðtak) Setjast upp; dvelja lengi þegar maður er gestkomandi. „Viltu bara ekki slá þér niður yfir nóttina“? „Ég ætlaði nú ekki að slá mér niður til langdvalar“.
Slá sér saman (orðtak) Sameinast um t.d. ver eða kaup. „Því nú voru þeir búnir að kaupa vélbát (Fönix yngri) sem hafður var til allra flutninga fyrir þá sem reru í Kollsvík. Áður þurftu bátarnir að slá sér saman, þannig að annar fór eftir salti en hinn reri með lóðir beggja“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Slá sér til rólegheita (orðtak) Fara ekki strax af stað aftur; dvelja um stund þar sem maður er kominn; beiðast gistingar. „Liggur þér nokkuð á til baka? Ég held þú ættir bara að slá þér til rólegheita til morguns“.
Slá sér upp (orðtak) A. Sigla bát í átt til lands. „Við ættum kannski að fara að slá okkur meira upp, ef hann heldur áfram að auka þennan typping“. B. Vinna sig í álit. „Heldur sló hann sér upp með þessu; það eru ekki allir sem fá svona hrós frá verkstjóranum“. C. Um samdrátt stráks og stelpu. „Hann hefur víst verið að slá sér eitthvað upp með heimasætunni af næsta bæ“.
Slá sig (orðtak) Sagga. „Það er of lítil kynding á geymslunni í frostinu; veggirnir eru farnir að slá sig innan“.
Slá skjaldborg um (orðtak) A. Um orrrustu; liðsmenn raða sér hlið við hlið, láta skildi sína skarast og snúa að andstæðingi til að verja liðið. B. Líkingamál um það þegar margir sameinast um að verja málefni. „Heimamenn reyndu að slá skjaldborg um barnaskólann í sveitinni, en voru ofurliði bornir“.
Slá slöku við (orðtak) Gefa eftir; gera/sinna ekki af fullum krafti; linast; minnka vinnukergju; verða hirðulaus. „Það má ekki slá slöku við með þetta“. „Það dugir ekki að slá slöku við námið“! Líkingin vísar til siglingar báts; þegar ekki er strekkt nægilega á stögum eða kló, þannig að segl verða slök og virka ekki sem skyldi.
Slá striki yfir (orðtak) Strika út; eyða; gleyma. „Hann sagðist tilbúinn að slá striki yfir þessa smáskuld ef ég hjálpaði honum að smala í einn dag“.
Slá svita um (orðtak) Svitna. „Köldum svita sló um mig þegar ég hugsaði til þess hvernig þetta hefði getað farið“.
Slá til (orðtak) Fallast á að gera; leggja útí; þiggja. „Hann bauð mér þetta og ég sló til“.
Slá til baka / Slá (orðtak/s) Um vél sem snúið er í gang; kveikja á röngum tíma, þannig að vélin snýst öfugt, brot úr snúningi, og af miklu afli. Þarf að vara sig á þessu við gangsetningu, en af því hafa hlotist fingurbrot o.fl. Sjá bakslag.
Slá til beitar (orðtak) Notað í háði um það þegar illa er slegið. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Slá tvær flugur í einu höggi (orðtak) Ná tvennskonar árangri í einni tilferð.
Slá /einhvern) um lán/peninga (orðtak) Biðja einhvern um lán/peninga.
Slá um sig (orðtak) Hreykja sér; vera montinn. „Þú getur heldur betur slegið um þig eftir þennan árangur“.
Slá undan (orðtak) A. Snúa skipi og sigla undan vindi; slá við; halda undan. B. Líkingamál; gefa eftir í deilumáli; láta af stífni/þversku. „Hann kom með svo góð rök í málinu að ég neyddist til að slá undan“. C. Opna ventla á dísilvél. Erfitt getur verið að snúa í gang dísel-ljósavélum, sem voru á hverjum bæ áðurfyrr; flestar Lister-vélar. Til að auðvelda gangsetningu var ofaná þeim handfang til að slá undan ventlum; þ.e. setja ventla vélanna í óvirka stöðu, til að hindra þjöppun meðan náð var snúningi á kasthjólið. Síðan var slegið að; handfangið fært til aftur, þannig að ventlar lokuðust reglulega og vélin þjappaði; og átti þá að hrökkva í gang. Til að auka þjöppun vélarinnar var þjóðráð að snafsa hana.
Slá undir (orðtak) A. Um skýjafar; létta undir skýjabakka. „Mér sýnist að hann sé eitthvað farinn að slá undir þennan dumbung til hafsins“. B. Taka nýjan hlut í notkun. „Hann sló undir nýjum traktor fyrir sumarið“.
Slá (einhverju) upp í kæruleysi (orðtak) Bregða útaf áætlun; fara útí óvissu; gera það sem ekki var ætlað; gera það sem einhver gæti talið óábyrgt/kæruleysi. „Við erum nú komnir þokkalega fyrir vind með heyskapinn. Ég held við ættum að slá þessu upp í kæruleysi og fara í róður á morgun, ef stillan helst áfram“.
Slá upp tjaldi/veislu/dansleik o.fl. (orðtök) Reisa tjald; halda veislu/dansleik o.fl.
Slá upp tunnu (orðtak) Taka lok af tunnu, til þess m.a. að unnt sé að þvo hana eða útvatna. Þá er botngjörðin af annarri lögginni slegin upp af með tunnujárni eða díxil og slakað á hinni gjörðinni. Þá má slá lokið niður úr falsinum þannig að það sporðreisist og taka það síðan uppúr.
Slá/leggja upp þoku (orðtak) Koma með þoku yfir. „Hann gæti lagt upp þoku seinnipartinn í dag“.
Slá uppá einhvern (orðtak) Slá gras yfir landamerki. Sumsstaðar þar sem bæir standa þétt, t.d. á Hvallátrum og Lambavatni, er túnum skipt í samliggjandi bletti/skækla. Verður þá að vanda sig við slátt og gæta að merkjum, til að ekki sé slegið á annarra manna landi; slegið uppá aðra.
Slá utanum (eitthvað/einhvern) (orðtak) Smíða kassa/kistu utanum eitthvað/einhvern.
Slá/lemja/berja (einhvern) utanundir / Gefa (einhverjum) utanundir (orðtak) Gefa á kjaftinn; slá á kinn einhverjum t.d. í slagsmálum/deilum. „Ég átti bágt með mig að slá hann ekki utanundir fyrir hortugheitin“!
Slá úr (orðtak) A. Taka ljá úr orfi. B. Breiða úr fúlgum/haugum/föngum af heyi þegar galtar/garðar eru breiddir til þerris. Slegið er úr með höndum, kvíslum eða hrífum.
Slá úr og í (orðtak) Vera óákveðinn/ á báðum áttum/tvístígandi; hvorki hrár né soðinn. „Ég myndi ekki treysta á hann með þetta. Hann sló úr og í; sagði í öðru orðinu að þetta væri bráðsnjallt, en fann því allt til foráttu í hinu“. „Hann sló bæði úr og í með þetta“.
Slá úr sér A. Bátur getur slegið úr sér ef hann heggur/rennur harkalega í báru; fær á sig ólag eða steytir við land svo að gefst upp á saumum; rær dragast til sem eru hnoðaðar á sauminn, með þeim afleiðingum að báturinn fer að leka. Þá getur saumur gefið sig eða borð sprungið, einkanlega ef lélegt er. B. Vél getur slegið úr sér ef hún fær of sterka eldsneytisblöndu eða fer á yfirsnúning. Þá geta slitnað vélaboltar; brotnað stimpill eða deksel gefið sig.
Slá út (orðtak) A. Setja út spil í spilum. „Sláðu út“. B. Slá einhvern í rot; koma einhverjum úr jafnvægi. „Hann lét þetta ekki slá sig út“. C. Um rafkerfi; sjálfvar/öryggi rýfur samband. „Það sló út þegar ég kveikti á eldavélinni“.
Slá útaf laginu (orðtak) Trufla; rugla. „Hann lét þetta ekki slá sig útaf laginu“. Líklega vísun til þess að árar rekast saman þegar tveimur eða fleiri er róið á sama borð. Góður ræðari lætur aðra ekki slá sig svo glatt útaf áralagi sínu.
Slá útí aðra sálma (orðtak) Breyta um umræðuefni. „Í hvert sinn sem ég reyndi að leiða talið að þessu efn,i sló hann útí aðra sálma; eins og hann væri ekki tilbúinn að ræða það“.
Slá útí fyrir (orðtak) Rugla; verða elliær. „Það er nú eitthvað farið að slá útí fyrir gamla manninum“.
Slá varnagla (við) (orðtak) Setja varúðarreglu/skilyrði; hafa fyrrvara á; lofa/samþykkja með skilyrðum. „Hann bjóst við að geta smalað þetta með okkur, en sló þó þann varnagla að það væru allir að leggjast í pest á heimilinu, svo það gæti breyst“. Varnagli er nagli sem festir var/blað á reku/skóflu.
Slá við (orðtak) A. Batna af veikindum; rétta úr kútnum; hressast; hjarna við. „Mér sýndist að henni væri töluvert farið að slá við; hún var farin að halda haus“. B. Fitna; bæta utaná sig. „Ansi finnst mér að þér sé að slá við í seinni tíð“! Sjá slást við. C. Venda seglum þegar sigldur er beitivindur á seglskipi. Stundum notað um að slá undan; þ.e. breyta stefnu frá beitivindi í lens. D. Gera betur en sá sem borið er saman við. „Ég var ögn skárri en hann í lestri, en hann sló mér alveg við í reikningi“. E. Slá einhverju utaní fastan hlut; dangla. „Mávurinn var ekki alveg dauðskotinn, svo ég sló honum við áður en ég bar hann að Byrginu og lagði hann til hjá hinum“.
Slá vopn úr höndum (einhvers) (orðtak) Gera einhvern ófæran um að sækja fram eða verjast í máli. „Með ræðunni sló hann öll vopn úr hendi andstæðinganna“.
Slá þögn á (orðtak) Hljóðna; þagna. „Þögn sló á hópinn við þessi tíðindi“.
Sláandi (l) A. Um gras; unnt að slá vegna sprettu eða aðgengis. „Gamla túnið er alveg orðið sláandi núna“. B. Furðulega; svo manni bregður/hnykkir við. „Þeir frændur eru sláandi líkir“.
Slánalegur (l) Renglulegur; luralegur; klunnalegur; luralegur. „Væri hrúturinn vænni; ekki svona slánalegur, myndi ég setja hann á“.
Sláni (n, kk) Stór einstaklingur; ekki endilega þéttur á velli; klunni; stórbeinóttur maður/skepna. „Þetta var stór og slyttingslegur sláni“. „Þessi sláni var svosem ekki beisinn til vinnu“.
Slápur (n kk) A. Stórvaxinn fiskur; golþorskur; stór steinbítur. „Ég dró nokkra ári mikla slápa á þessu reki, en þeir voru ansi horaðir“. B. Í líkingamáli um stórvaxinn mann.
Slást í för með (orðtak) Verða samferða. „Hann var undireins til í að slást í för með okkur“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Slást svo til (orðtak) Vilja svo til; fara á þann veg. „Það gæti slegist svo til að ég þyrfti að fara suður“.
Slást til (orðtak) Sveiflast; dingla.
Slást við (orðtak) Fitna; bæta á sig holdum. „Kálfarnir verða fljótir að slást við í þessari beit“. Ekki hafa sést eða heyrst dæmi um orðtakið annarsstaðar en það var heimafólki tamt á svæðinu.
Slátra (s) Aflífa; slægta; drepa; lóga. „… en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn“ (PG; Veðmálið).
Slátrun (n, kvk) Aflífun; dráp. Fyrr á tímum fór öll slátrun búfjár fram heima á hverjum bæ fyrir sig. Enginn var góður búmaður nema hann gæti lógað skepnum sjálfur og nýtt afurðirnar á viðunandi hátt. Samhjálp var þó alltaf um smalanir og eflaust hafa menn alltaf einnig hjálpast að við slátrun að einhverju marki. Eðli sínu samkvæmt fer slátrun helst fram á haustin, þegar dilkar hafa notið sumarbeitar og áður en þeir fara að leggja af um vetur og ganga á hey. Sömuleiðis var stórgripum og gamalám lógað af fóðrum ef þeirra gerðist ekki þörf eða ef harðindi kölluðu á meiri matarforða en til var að vetrarlagi. Á síðari tímum, þegar fjölgaði í fjáreign hvers bónda, jókst þörf þess að standa sameiginlega að slátrun, um leið og neysluþörf heimila jókst og kallaði eftir meiri aðföngum. Þá spruttu upp pöntunarfélaög, sláturfélög og kaupfélög um allt land sem höfðu það að meginmarkmiði annarsvegar að standa fyrir sameiginlegum innkaupum og hinsvegar að standa fyrir samhjálp bænda um slátrun búfjár og koma afurðum í verð. Þessi tvö atriði fóru ágætlega saman, þar sem bændur lögðu inn afurðir sem þeir þurftu ekki til eigin nota og gátu þá tekið út á þær vörur gegnum sláturfélagið /kaupfélagið. Tvö slík félagssvæði voru í Rauðasandshreppi; annað á Rauðasandi og Innfirðinum og hitt sem náði yfir Örlygshöfn, Bæi og Útvíkur. Í síðustu sjálfstæðu mynd sinni nefndist það Sláturfélagið Örlygur; með verslunar- og sláturhús á Gjögrum. „Meðan slátrun fór fram heima á bæjunum var fénu lógað í síðari hlut orktobermánaðar... Fyrsti vetrarmáðnuðurinn að fornu hét gormánuður og ber nafn af sláturtíðinni, því gorið hafði þá verið skilið eftir á blóðvelli og bar vitni um slátrunina. Blóðvöllurinn var sléttur grasbali. Áðurfyrr var féð skorið á háls, en síðstu áratugina rotað eða skotið. Blóðið var látið renna í sérstakt ílát meðan verið var að skera hausinn af kindinni og var hrært í því á meðan svo það storknaði ekki. Síðan voru fætur skornir af kindinni (hæklað) og pungur af hrútum og júgur af ám. Þá var skinnið/gæran skorið upp innan á bógnum og frá bringu fram á háls; það heitir að rista fyrir. Að því búnu var kindin flegin, en þá var gæran losuð af skrokknum með því að þrengja hnefa annarrar handar milli gærunnar og skrokksins en halda á móti í gærunua með hinni hendinni. Þegar búið var að flá allan kviðinn var gæran rist sundur eftir endilöngum kviðnum og brett til beggja handa og síðan flegið það sem eftir var; nema skrokkurinn var látinn vera fastur við gæru á hálsi og aftur við rófuna/á tortunni. Því næst var kviðurinn opnaður. Áður var algengt að skerafrá í einu lagi magálinn, sem er kviðurinn allur, frá bringu og rifjahylki afturundir læri og upp undir hrygg. Magálar voru soðnir stutt; saltaðir og settir í reyk. Ef ekki var skorinn magáll var ristur skurður þvert fyrir aftan bringu og síðan á kviðinn miðjan; frá bringu og afturúr. Þá var hægt að fara innaní, eða taka innanúr kindinni. Byrjað var að taka inanúr kviðarholi. Fyrst var mörinn tekinn utan af vömbinni og öðrum mögum og lagður á gæruna. Þessi mör heitir netja. Þá var losað um vélindað í hálsinum og hnýtt fyrir það; og vömbin og hinir magarnir losaðir innanúr kviðarholinu. Vélindað var dregið niður í gegnum þindina og látið fylgja vömbinni, sem og miltað. Næst var blágirnið (garnirnar) rakið úr kindinni; byrjað á botnlanganum og endað þar sem blágirnið liggur frá vinstrinni. Þegar vanur maður rakti blágirnið gekk það mjög fljótt; eins og verið væri að rekja upp sokkbol. Ekki mátti slíta görnina þegar hún var rakin, því þá spýttist gor úr göninni yfir mör og kjöt. Næst var botnlanginn losaður frá garnmörnum. Þá var komið að ristlinum, sem nú var losaður úr, ásamt ollum garnmörnum; ristlinum fylgdi brisið, endagörnin, hlandblaðran og legið (krókasteikin). Haldnblaðran ar oftast skorin frá strax og fleygt, en stundum var hún blásin upp og látin þorna og höfð fyrir leikfang eða til veðurspádóma. Þá var nýrnamörinn með nýrum næst tekinn úr. Nú var þindin skorin úr skrokknum og barki, lungu, hjarta, þind og lifur tekið úr í einu og látið hanga saman. Gallið var losað af lifrinni og því oftast fleygt, en stundum notað til litunar. Skorinn var krossskurður í hjartað til að hleypa úr því blóði sem þar var eftir. Þar með var búið að taka allt innan úr kindinni og þá var skrokkurinn hengdur upp og breitt úr gærunni til að láta hana kólna“ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin). Sjá einnig; sláturgerð; hækla; sundra. „Við slátrunina unnu eingöngu bændur af félagssvæðnu og þeirra heimafólk…“ (PG; Veðmálið).
Slátta (n, kvk) A. Það sem slegið er af túni, sbr dagslátta. B. Það sem gert/slegið er af mynt, sbr myntslátta. Einnig notað um vinnustaðinn þar sem mynt er slegin.
Sláttufólk (n, hk) Fólk sem fyrrum hjálpaðist að við slátt; þ.e. sláttumenn og rakstrarfólk.
Sláttulag (n, hk) Aðferð við slátt með orfi og ljá. Sláttulag manna gat verið æði misjafnt.
Sláttumaður (n, kk) Maður sem slær gras. Fyrrum notað um þann sem sló með orfi og ljá, og í afleiddri merkingu um dauðann. „Dauðinn má svo með sanni/ samlíkjast þykir mér/ slyngum þeim sláttumanni/ sem slær allt hvað fyrir er …“ (Hallgrímur Pétusson; Um dauðans óvissa tíma).
Sláttur (n, kk) A. Athöfnin að slá gras. „Kollsvíkursystur; Halldóra og María Torfadætur, slógu. Annars var ekki algengt að konur væru við slátt, en þær systur misstu föður sinn ungar en voru þó elstar af systkinum, en enginn karlmaður til a slá“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). B. Árstími. „Við þurfum að ljúka þessu verki fyrir slátt“. C. Rigs; halasláttur; gustur. „Það er naumast slátturinn á karlinum í dag“! D. Kast; hlaup; gjökt. „ Það þarf að festa hljóðkútinn betur á traktorinn svo ekki sé sláttur á honum“. E. Skammvinnur vindur af tiltekinni átt; vindhviða. „Hann gerði skammvinnan slátt af norðan áður en hann lagðist aftur í vestanóþurrk“. „Hann lagði dálítinn slátt fyrir Núpinn“. F. Veltingur; sjógangur. „Hann er að rífa upp einhvern slátt af vestan“. Sjá bárusláttur/öldusláttur.
Slátturekja (n, kvk) Raki/áfall á grasi sem skal slá. Slíkt þótti til bóta; þá rann ljárinn betur.
Sláttuteigur (n, kk) Svæði sem slegið er.
Sláttutíð (n, kvk) Hentug tíð til sláttar; heyskapartíð.
Sláttutími (n, kk) Sláttur; heyskapartími; heyskapur.
Sláttutætari (n, kk) Sláttuvél sem tætir grasið í smátt og blæs því um leið upp á heyvagn. Allmikið notaður fyrir tíma rúllubindivéla, þar sem slegið var í vothey.
Sláttuveður (n, hk) Veðrátta sem hentar til sláttar; útlit fyrir þurrk og slátturekja.
Sláttuvél (n, kvk) Vél til að slá með. Notað um þau tæki sem tóku við hlutverki orfa og ljáa. Fyrstu sláttuvélarnar í Kollsvík voru greiðusláttuvélar á traktora, en síðar komu sláttuþyrlur og síðast sláttutætari.
Sláttuþyrla (n, kvk) Sláttuvél með tromlum/diskum sem snúast á miklum hraða. Í jaðri þeirra eru hnífar sem slá grasið. Afkastameiri tæki en fyrri greiðusláttuvélar.
Slátur (n, hk) A. Innmatur úr kind, ásamt blóði, haus/sviðum og löppum. B. Á síðari tímum notað um blóðmör og lifrarpylsu, eða jafnvel í enn þrengri merkingu um C. blóðmör eingöngu.
Sláturafurðir (n, kvk, fto) Það sem nýtanlegt er af búfé sem slátrað er, bæði til matar og annarra nota.
Sláturdagur (n, kk) Dagur sem fé er slátrað; oftast þá átt við slátrun heimavið. „Fyrir sláturdaginn var afi minn búinn að útbúa litla trénagla sem hann notaði til að verka hangikjötið í salt“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Sláturfé / Sláturfénaður (n, hk/kk) Sauðfé sem slátra skal.
Sláturfélag (n, hk) Félag bænda og e.t.v. annarra um sameiginlega slátrun búpenings. Sláturfélagið Örlygur á Gjögrum var stofnað af bændum í utanverðum Rauðasandshreppi í þeim tilgangi, en starfaði um leið lengi sem hvert annað kaupfélag; líklega hið eina á landinu sem ekki innibar kaupfélagsheitið í nafni sínu.
Sláturflutningur (n, kk) Flutningur á sláturafurðum, frá sláturhúsi og heimleiðis. „Venjulega þurfti tvo hesta undir sláturflutninginn að Láganúpi“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Sláturgerð (n, kvk) Matbúningur sláturafurða heimafyrir í sláturtíð. Sláturgerð nú á dögum á einungis við blóðmörsgerð, en áður merkti orðið allan frágang og matbúning sláturafurða og að koma honum í geymslu. „Þegar búið var að slátra var mikið verk fyrir höndum að koma öllum sláturafurðum í mat og láta ekkert fara til spillis... Fullrar hagsýni þurfti að gæta við notkun á eldivið sem var af skornum skammti. Það var hægt að nýta eldiviðinn á hagkvæmasta hátt og bjarga mestum mat frá skemmdum á stuttum tíma með því að sjóða að haustinu allan þann mat sem ekki varð geymdur ósoðinn; svíða sviðin við eldinn sem soðið var við og reykja þann mat sem hægt var að geyma í reyk við sama eldinn. Sýran frá mjólkurmatnum úr sauðamjólkinni að sumrinu var svo notuð til að geyma í soðna matinn frá haustinu. Úr blóðinu var búið til slátur/blóðmör. Hann er hnoðaður úr blóði, brytjuðum mör og mjöli. Oft var lítið um mör áður fyrr og voru þá notuð fjallagrös í staðinn. Mörinn í kindinni er þrenns konar. Netjan utanaf mögunum og nýrnamörinn af nýrunum var notað í slátur, en garnmörinn var bræddur og búin til úr honum tólg. Tólgin var notuð til matar og sem ljósmeti í kerti. Hnoðaður mör á Vestfjörðum var geymdur í mörtöflum til vetrarins og kross ristur í mörtöfluna enda á milli til þess að skrattinn kæmist ekki í mörinn. Gorinu var hellt úr vömbinni, keppnum og vinstrinni. Þau voru síðan þvegin, hreinsuð og saumaðir úr þeim keppir sem slátur var soðið í. Fyrrum voru keppir saumaðir úr sérstökum vambarþræði sem spunninn var úr grófu togi. Lifrin var etin ný eða notuð í lifrapylsu sem búin var til úr hakkaðri lifur, mjöli og brytjuðum mör; stundum blönduð mjólk. Lifrarpylsan var oftast soðin í vinstrinni, og var lifrarpylsa í vinstur fyrst boðin gestum af öllu slátri. Vömbin utanaf var að sjálfsögðu etin með slátrinu. Nýrun voru etin ný og þótti mörgum sælgæti. Garnirnar sem voru raktar úr garnmörnum meðan verið var að taka innanúr kindinni voru stroknar til að ná úr þeim gorinu, og þvegnar. Síðan voru þær fléttaðar saman, soðnar og látnar í súr. Á síðari árum hafa garnir verið notaðar utanum pylsur. Lungu voru soðin og ýmist etin ný eða uppúr sýru. Þá voru hökkuð lungu sett í langa og mör með, og sett í reyk; kallað bjúgu. Lungu voru líka geymd í súr sem hundamatur. Endagörnin var rist upp og skafin að innan, en mörinn látinn halda sér utan á henni. Hún var síðan lögð á þind, ásamt lundunum sem eru vöðvar innan á hryggnum á kindinni; þindin saumuð utanum og búinn til lundabaggi. Hann var soðinn og geymdur í sýru og þótti herramannsmatur. Stundum var allur ristillinn, sem er næstur á undan endagörn, ristur upp og skafinn um leið og endagörnin og lagður með í lundabaggann. Langarnir voru þvegnir og skafnir og voru áðurfyrr fylltir af ristum og sköfnum ristilgörnum með mörnum á; settir í reyk og kölluðust sperðlar. Seinna voru langarnir notaðir undir lifrarpylsu eða til að reykja í þeim hakkað kjöt, sem nútíma bjúgu. Nýtnin í sambandi við slátrunina var ótrúleg. Engu var fleygt sem ætt gat talist; jafnvel þeir hlutar af skepnunni sem ekki töldust ætir voru hirtir að haustinu, soðnir og settir í súr og ætlaðir hundunum; en gat einnig bjargað fólkinu frá hungurdauða ef sultur svarf að.
Kjötið var notað nýtt, á meðan það skemmdist ekki, en annars var það mest geymt saltað eða sett í reyk. Áður var saltað kjöt mjög dýrt og var þá meira reykt. Bringukollar voru stundum súrsaðir (en reyktir voru þeir sjálfsagður þorláksmessumatur í Kollsvík). Kjöt, einkum af gamalám, var soðið í kæfu. Það var þá mauksoðið; beinunum smeygt úr þegar laust varð á þeim og mikill mör soðinn með kjötinu. Kjötið og mörinn var síðan kreist eða hakkað í mauk. Kæfan var látin volg í skinnbelgi (sjá einnig verskrína) og drepið þétt í, svo að hvergi komst loft að. Gat hún þá geymst lengi. Bein voru yfirleitt brotin til mergjar og mergurinn etinn. Beinin voru stundum látin liggja í sýru þar til þau voru orðin meyr. Þá voru þau tekin upp og soðin. Þá hlutu þau saman í hlaup sem var borðað og þ´tti staðgóð fæða. Það hét beinastrjúgur.
Sláturtíðin var annasamur tími. Kjöt, sperðlar, bjúgu og magálar var hengt upp í reyk; sviðin svið, þ.e. hausarnir og lappirnar; og slátrið, sviðin, júgur, pungar, bringukollar og lundabaggar soðið og sett í sýru. (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin; lítillega stytt og staðfært).
Sláturgripur (n, kk) Stórgripur sem slátra skal.
Sláturhús (n, hk) Hús sem einkum er nýtt til slátrunar og úrvinnslu á sláturafurðum. „… hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur, og hafði verslunarbúð sína og einnig sláturhús að Gjögrum í Örlygshöfn“ … „Lömbin voru rekin til réttar við sláturhúsið, þar sem þau hvíldust eftir reksturinn og biðu slátrunar sem fór fram hinn næsta dag“ (PG; Veðmálið).
Sláturleyfi (n, hk) Leyfi stjórnvalds/yfirdýralæknis til að reka sláturhús. Á síðari hluta 20.aldar var allt opinbert eftirlit með matvælaframleiðslu mjög hert, bæði vegna heilbrigðissjónarmiða en ekki síður vegna markaðsstýringa af ýmsu tagi og hagsmunapots í stjórnkerfinu. Þannig voru sífellt gerðar strangari og kostnaðarsamari kröfur til lítilla sláturhúsa, s.s. Sláturfélagsins Örlygs; sem á endanum urðu til þess að ekki var lengur rekstrargrundvöllur fyrir sláturhúsinu.
Sláturpottur (n, kk) Stór pottur til að sjóða í slátur í sláturtíð. „Fyrstu hasutin sem ég fór að fylgjast með sláturgerð var slátur ávallt eldað um sláturtíðina í stórum hlóðapotti. Hlóðir voru útbúnar útivið; í Gilbarminum ofanvið hænsnakofann. Þangað var viðað nokkru af eldiviði; rekaspreki og afrakstri af túnum, og vatn sótt yfir í Brunnhúsið. Í þessum sláturpotti var soðið slátur og annað sem fara átti í súr; lundabaggar, vélindu; barkar; rúllupylsur og lítilsháttar af lungum fyrir hundinn. Síðar fór þessi eldun fram innivið; fyrst í stórum kolakyntum þvottapotti í Verkfærahúsinu; síðan á olíukyntri eldavél í eldhúsinu og síðast á rafmagnseldavél. Þá höfðu reyndar breyst geymsluaðferðir og vinnubrögð með rafvæðingu o.fl.“ (VÖ).
Sláturrekstur (n, kk) Rekstur fjárhóps til sláturhúss. „Fyrstu áratugina eftir að bændur tóku að slátra sameiginlega í sláturhúsi á Gjögrum var sláturfé Kollsvíkinga einatt rekið innyfir Hænuvíkurháls og inn Fjörur; í sérstakt girðingarhólf á Gjögrum. Úr því var það rekið í sláturréttina þaðan sem það var dregið eftir mörkum til slátrunar. Snemma á 7. áratug 20.aldar var tekið að flytja sláturfé með vörubílum. Fyrstu bílstjórar í því voru Agnar Sigurbjörnsson í Hænuvík; Egill Ólafsson og Hnjóti og Helgi Árnason í Neðri-Tungu.
Sláturrétt (n, kvk) Fjárrétt í sláturhúsi. „Ég vann margar sláturtíðir við að draga í sláturréttinni“.
Sláturstúss / Sláturvinna (n, hk) Vinna tengd slátrun búfjár að hausti.
Sláturstörf (n, hk, fto) Vinna við slátrun búfjár. „Þar sátu þá bræður mínir vi sláturstörf. Hafði sá yngri sagað með bitlausum vasahníf höfuðið af brúðunni minni og út rann sag sem hann taldi sig geta notað, en Pálmi mátti eiga skrokkinn! Svavar hafði sumsé haft frystuna í svona vafasömum athöfnum“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Slátursuðupottur (n, kk) Pottur til að sjóða í slátur og annað. „En við megum til að rifja upp hvernig slátursuðupottar á Lambavatni voru. Mér er næst að halda að þeir hafi verið sérhannaðir fyrir Lambavatnsbæina. Þetta voru stórir kassalagaðir pottar sem pabbi smíðaði og náðu útyfir eldavélarnar. Þeir tóku, að mig minnir, 30-40 keppi í einu og veitti ekki af að gengi suðan, þar sem forðinn var um tvær stórar tunnur á hvorum bæ, fyrir utan lundabagga, bringukolla og slíkt“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). „Á Láganúpi var löngum til stór slátursuðupottur úr pottjárni, ca 50 lítra og emaleraður innan minnir mig. Hann var með kúptum botni og bryggju á hliðum, ætlaður til notkunar á kolaeldavélum. Ég man þegar soðið var slátur í honum á hlóðum úti í Gili á Láganúpi, líklega eftir 1960. Mikið var soðið af slátri á haustin og sett í súrsun í tunnur, enda var þetta fyrir daga frystingar“ (VÖ).
Sláturtíð (n, kvk) Tíminn sem slátrun sauðfjár stendur yfir að hausti. „Kvöldvökur byrjuðu að lokinni sláturtíð, eða um veturnætur (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Sledda (n, kvk) Stór hnífur; sveðja. Oftast notað um þungan hníf með þykku blaði.
Sleðaband / Sleðataumur (n, hk/kk) Band/taumur sem bundið er fremst í sleða, til að draga hann.
Sleðabrekka (n, kvk) Brekka sem nýtist til að renna sér á sleða. „Sleðabrekka var mjög góð“ (IG; Sagt til vegar II).
Sleðafæri (n, hk) Aðstæður til að renna sér á sleða/ draga sleða.
Sleðaháttur (n, kk) Seinagangur; húfulag; sleifarlag. „Verkið klárast ekki í dag með þessum sleðahætti“!
Sleðameiði (n, kk) Sá hluti sleðans sem snertir jörð þegar hann rennur. Oft er sett drag undir meiðann úr slitsterku efni s.s. harðviði, beini eða girði; í seinni tíð plastefni.
Sleði (n, kk) A. Pallur með meiðum undir; m.a. notaður til að renna sér á í snjó, draga hluti og fólk o.fl.; snjósleði; hundasleði. „Að því loknu fórum við krakkarnir út á sleða, ef þannig viðraði“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). B. Kerra á hjólum til heyflutninga; heysleði. C. Maður sem er seinn í hreyfingum og latur til vinnu. „Það er ekki hægt að nota svona sleða til nokkurra verka“. D. Hægfara skip. E. Sá hluti tækis sem rennur til. T.d. sleði í ritvél eða sleði í prjónavél.
Slef (n, hk) A. Munnvatn sem lekur úr munni; oftar þó notuð orðmyndin slefa. B. Tog; eftirdráttur. „Rétt í því bar að Aðalstein á Tjaldi og tók hann okkur í slef á Patreksfjörð“ (ÖG; Fiskiróður). C. Rógur; slúður. Eingöngu í slefburður.
Slefa (n, kvk) Munnvatn sem lekur úr munni; slef; hráki.
Slefa (s) A. Leka munnvatni. „Var hundurinn að slefa svona á gólfið“? B. Draga; hafa í togi. „Okkur var slefað í land af trillu sem átti leið hjá“. C. Duga; nægja. „Lítið er nú saltið, en það slefar í þetta núna“.
Slefaður (l) Með slefu á sér; útslefaður. „Karlinn var heldur ófrýnn; óþveginn og slefaður af tóbaki ofaneftir höku“.
Slefberi (n, kk) Sá sem ber slúður/slef/róg; slúðrari; rógberi. „Ég tek lítið mark á þeim slefbera“!
Slefburður (n, kk) Söguburður; kjaftasaga; slúður. „Ég tek nú lítið mark á svona slefburði“.
Slefra (n, kvk, fto) A. Hallandi og sundurslitnir klettar, yfirleitt vel færir. „Best er að fara neðan slefrurnar“. B. Hvapp/fles í klettum. „Ég hef hug á að komast í slefruna þarna“.
Sleftóg (n, kvk) Dráttartóg; taug sem notuð er til að draga einn bát með öðrum.
Sleggja (n, kvk) Stór þungur hamar, oft með löngu skafti. Stórar sleggjur nýtast t.d. til múrbrots en minni sleggjur/ slaghamrar t.d. til að berja harðfisk. Sjá harðfisksleggja; beinasleggja; milli steins og sleggju.
Sleggjudómar (n, kk, fto) Hleypidómar; álit sem veitt/myndað er í fljótfærni. „Ég ætla ekki að fella neina sleggjudóma um þetta mál; ég þekki það bara ekki nógu vel“.
Slegið hár (orðtak) Laust sítt hár; hár sem ekki er fest með fléttun, spöng, spennu eða öðru, eða sett í tagl.
Slegið inní (orðtak) Um net sem koma óklár úr sjó; steini, blýi eða lykkju af teini slegið inn í möskva ofar í netinu, þannig að flækt er. „Þetta hefur óklárast hjá okkur í lagningunni: endasteininum er slegið inní netið“.
Sleginn yfir (einhverju) (orðtak) Brugðið yfir einhverju; vonsvikinn; niðurdreginn. „Menn voru nokkuð slegnir yfir þessum tíðindum“.
Sleifarlag (n, hk) Illt vinnulag; slæleg vinnubrögð; húfulag. „Þetta er ljóta andskotans sleifarlagið hjá ykkur“.
Sleifarlega (l) Slælega; klaufalega. „Það er vægast sagt sleifarlega að þessu verki staðið“.
Sleikifingur (n, kk) Gæluheiti á vísifingri.
Sleikja (n, kvk) A. Eftirhreytur; afgangur. „Það eru eftir sleikjur á gömlu túnunum; annars er ég búinn með heyskap“. B. Slatti; allmikið magn; hellingur. „Það þarf sleikju af möl til að fylla í þetta skarð“. C. Eldhúsáhald; mjúkur spaði til að hreinsa innanúr ílátum.
Sleikja (s) A. Bera tunguna að/eftir; taka t.d. mat upp með tungunni. B. Fara þétt meðfram. „Kjóinn renndi sér niður að hrafninum, svo nærri jörðu að hann sleikti grastoppana“.
Sleikja af sér (orðtak) A. Þrífa sig. Tilvísun í það að dýr þrífa feldinn með tungunni. B. Um veður; glaðna til; rofa fyrir sól. „Ég held bara að hann ætli eitthvað að fara að sleikja af sér“!
Sleikja kaun (orðtak) Jafna sig; gera/huga að sárum sínum. „Hætt er við að þeir þurfi að sleikja kaun sín eftir þessar ófarir“.
Sleikja ofanaf (orðtak) Taka efsta lagið af einhverju. „Mér finnst það lélegur sláttur að sleikja bara svona ofanaf grastoppunum“! „Hún sleikti froðuna ofanaf sultupottinum með matskeið“.
Sleikja sig upp við Koma sér í mjúkinn hjá; afla sér vinsælda hjá. „Hann er að sleikja sig upp við höfðingjana“.
Sleikja sólina/sólskinið (orðtak) Njóta sólarinnar; liggja í sólbaði.
Sleikja upp í skít (orðtak) Um fóðrun búfjár; búið að éta allt fóður nema moðið. „Fénu virðist líka þetta hey ágætlega; það hefur sleikt það alveg upp í skít“.
Sleikja úr (einhverjum) fýluna (orðtak) Reyna að blíðka einhvern/ gera einhverjum til hæfis.
Sleikja útum (orðtak) Sleikja með tungunni kringum munninn, t.d. til að innbyrða matarleifar. Stundum notað sem tilvísun í græðgi/eftirvæntingu.
Sleikjuháttur / Sleikjulæti (, kk) Undirlægjuháttur; fleðulæti. „Ég ætla ekki að sýna þeim neinn sleikjuhátt“.
Sleikjulegur (l) Fleðulegur; gerir sér dælt við; reynir að komast í álit/mjúkinn.
Sleiktur (l) Gerður sléttur; hreinsaður.
Sleipa (n, kvk) Hálka; hætta á að renna. „Passaður þig á þessar sleipu í Hæðinni“.
Sleipur (l) A. Háll. „Það er bara orðið fjári sleipt á Fjörunum“. B. Fær; laginn; klár. „Þú ert sleipur í þessu“!
Sleitulaust (l) Viðstöðulaust; án þess að sundur slitni. „Ég vann í þessu sleitulaust þar til það kláraðist“.
Slekti (n, hk) Hyski; hópur; ættingjar. Upphaflega notað um heldra fólk og aðalsættir, en hefur sett sumpart ofan í virðingu. „Þetta andskotans slekti er komið í túnið eina ferðina enn“! „Ætli ég fari ekki á ættarmót að heilsa uppá slektið, þó ég hafi nú verið lítið ættrækinn hingað til“. „Hvaða slekti skyldi nú setjast næst á þing“?
Slektskapur (n, kk) Skyldleiki. „Ekki veit ég til að neinn slektskapur sé þeirra á milli“.
Slemba (n, kvk) Annað heiti á grásleppu (sjá hrognkelsi). „Það var lítið í strenginn sem ég lagði við Straumskerið; bara fimm slembur“.
Slembilukka (n, kvk) Algjör heppni; mikið lán. „Fyrir einhverja slembilukku slapp ég“. Sjá einnig slá fyrir slembilukku.
Slen / Slenja (n, hk/kvk) Slappleiki; magnleysi. „Þetta lýsti sér fyrst með máttleysi og sleni, en herti svo á þar til þú varst yfirfallin af astma og auk þess liðagikt“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Slengja (s) Kasta; varpa; dengja.
Slenja (n, kvk) Slen; slappleiki; linka. „Er einhver slenja í þér stubbur“?
Slenjulegur (l) Veiklulegur; slappur; með slen/slenju. „Skratti er ég eitthvað slenjulegur eftir vökurnar í nótt“.
Slepja (n, kvk) A. Slím. „Það er ekki frítt við að þurfi að skera slepjuna utan af þessu“. B. Væmni í tali. „Skelfing leiðast mér predikanir þar sem lekur slepjan af hverju orði“.
Slepja (s) Verða slepjugur/úldinn. „Kjötið hékk of lengi í raka og var farið að slepja að utan“.
Slepjaður / Slepjugur (l) Farinn að slepja/úldna. „Fiskurinn er orðinn slepjugur þar sem hann stendur uppúr saltinu“.
Sleppa (s) A. Hætta að halda/festa; láta laust. „Haltu fast í bandið; þú mátt alls ekki sleppa“! B. Duga; slefa; hafast. „Ég á lítið eftir af kaffi, en ég held að það sleppi til morguns“. C. Enda; ljúka. „Þar sem Hreggnesa sleppir kallast fjaran Grundagrjót, í hvorugkyni fleirtölu“ (HÖ; Fjaran). D. Losa landfesti báts.
Sleppa / Slemba (n, kvk) Stytting úr „grásleppa“. „Það voru nokkrar sleppur í rauðmaganetunum“.
Sleppa billega/auðveldlega/létt frá (orðtök) Komast upp með óvönduð verk/ kjarfhátt. „Hann ætlaði sér að sleppa billega frá þessu, en ég sá við honum“.
Sleppa af (orðtak( Skreppa af; renna framaf/uppaf.
Sleppa fé (orðtak) Láta fé útaf túnum eftir sauðburð, á úthaga. „Nokkur ókostur var hve féð leitaði mikið í kletta; sérstaklega þegar snemma var sleppt“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Sleppa framaf sér beislinu (orðtak) Líkingamál um það að varpa af sér öllum hömlum í siðferði/ láta eftir sér að ólmast/drekka/lifa í óhófi.
Sleppa fyrir horn (orðtak) Bjargast/fara betur en á horfðist; forða frá slæmu/tjóni. „Ég var orðinn saltlítill, en það slapp fyrir horn fyrst aflinn var ekki meiri“.
Sleppa sér (orðtak) A. Sleppa því sem maður heldur í. Notað t.d. um barn sem er byrjað að ganga án þess að styðja sig við. B. Sleppa af sér hömlum; verða mjög reiður. „Hann sleppti sér alveg þegar hann heyrði þetta“.
Sleppa sjó / Ná ekki sjó (orðtök) Um bátsskrúfu; koma uppúr sjó, t.d. vegna rangrar hleðslu bátsins eða mikils sjógangs. „Komið aðeins afturí meðan við náum ferð; skrúfan er að sleppa sjó í kvikunni“.
Sleppur til (orðtak) Nægir; dugir. „Ég er alveg að verða kaffilaus, en það sleppur til í þessa lögun“. „Þetta er æði mikið af fiski; heldurðu að saltið slepptil, sem við eigum“?
Sleppa/hverfa uppaf (orðtak) Um fé; fara úr augsýn upp á hæðar-/fjallsbrún. „Vertu ofantil við reksturinn þegar kemur upp Hjallagöturnar, svo hann sleppi ekki uppaf“.
Sletta (n, kvk) A. Klessa; skella; blettur. B. Lítið magn, t.d. skyrsletta, grautarsletta o.fl. C. Útlent orð sem notað er gáleysislega í íslensku máli.
Sletta (s) Skvetta; klína. „Ætli maður þurfi ekki að fara að sletta einhverri málningu á veggina“.
Sletta sér framí (orðtak) Skipta sér af; verða aðili að; ráðskast með. „Ég hefði ekki látið bjóða mér svonalagað, en ég er ekkert að sletta mér framí það sem mér kemur ekkert við“.
Sletta úr klaufunum (orðtak) Fagna með galsa; hamast stjórnlaust í fögnuði. Upprunalega notað um háttalag nautgripa þegar þeir fá fyrst frelsi að vori, en nú almennt um að fólk skemmti sér.
Slettast upp á vinskapinn (orðtak) Verða til óvináttu; valda misklíð/óánægju milli vina. „Eitthvað slettist upp á vinskap þeirra nýlega, en það er svosem ekki óvanalegt“. Líklega líking við ágjöf á bát.
Slettilisti (n, kk) Skvettlisti, sjá þar.
Slettireka (n, kvk) Manneskja sem skiptir sér óhóflega af málum annarra; er hnýsin/afskiptasöm.
Slettirekast (s) Skipta sér óhóflega af málum annarra; hnýsast
Slétt og fellt (orðtak) Hrukkulaust; án ójafna/mishæða. „Rakað var yfir jarðraskið svo allt varð slétt og fellt“.
Slétt tala (orðtak) Jöfn tala; tala sem 2 ganga uppí þegar deilt er; önnurhver tala í réttri talningu. T.d. 2, 4, 6, 8 o.s.frv.
Slétta (n, kvk) A. Slétt landsvæði. B. Landspilda sem sléttuð hefur verið til ræktunar; oftast þá sáð í hana sléttugrasi.
Sléttbakur (n, kk) Eubalaena glacialis; hafurkitti. Stór skíðishvalur, en af þessari ættkvísl er einungis Íslandssléttbakur hér við land. Sléttbakur er mjög gildvaxinn, en ummálið er allt að 60% af heildarlengdinni. Hausinn er stór, eða um 25-30% af heildarlengdinni. Kjafturinn er sérkennilega sveigður, og munnvikin rísa í stórum boga frá trjónu yfir neðra kjálkabein og síðan í krappa beygju niðurfyrir augu. Ekkert horn er á baki og sporður er mjög breiður. Hvalurinn er svartur að lit, en stundum með hvíta bletti á kvi og hrúðurbletti ofaná hausnum. Kýrnar eru stærri en tarfarnir og verða allt að 17 metrum og 90 tonnum. Sléttbakur var mikið veiddur fyrrum hér við land, m.a. af Böskum. Hann hefur verið alfriðaður frá 1935, enda telur stofninn aðeins nokkurhundruð dýr.
Sléttbotna / Sléttbotnaður (l) Með sléttan botn. „Þú ferð ekki í kletta á sléttbotnuðum gúmmískóm“!
Sléttbyrtur (l) Um bát; með sléttan byrðing en ekki skarsúðaðan; plankabyggður.
Sléttfellt (l) Fellt saman þannig að slétt verði. „Gólfborðin voru sléttfelld“.
Sléttheflaður (l) Um við; heflaður sléttur með hefli eða öðru verkfæri. „Reisifjöl var slétthefluð borð, óplægð, sett innan á sperrur í gömlum baðstofum helluþöktum; stundum aðeins yfir rúmunum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Sléttheflaður / Slétthöggvinn (l) Um efnivið; heflaður/höggvinn þannig að sléttur sé.
Sléttlendi (n, hk) Jafnslétta; tiltölulega slétt landsvæði.
Sléttlendur (l) Um landsvæði; tiltölulega slétt. „Í Útvíkum er sléttlent milli fjöru og holta/fjallsróta.
Sléttubönd (n, hk, fto) Bragarháttur í vísnagerð; ferskeytla sem kveða má jafnt áfram sem afturábak án þess að brjóta bragfræðireglur og þannig að vit sé í. Sá sem fyrstur er talinn hafa ort sléttubönd var Guðmundur Andrésson (d 1654). Þekkt dæmi er þessi sléttubandavísa: „Grundar dóma, hvergi hann/ hallar réttu máli./ Stundar sóma, aldrei ann/ illu pretta táli“. … mér finnst gaman að æfa mig með ólík form, og mesta glíman er við andhverf sléttubönd“ (MH; Mbl 04.01.2017).
Sléttugras (n, hk) Sáðgresi; erlendt, gróft gras sem sáð er í sléttur til að fá meiri uppskeru í heyskap.
Sléttur (l) A. Jafn; án ójafna. „Túnið er sæmilega slétt, víðast hvar“. „Blíðuveður og sléttur sjór var þegar þessi ferð var farin“ (ÖG; glefsur og fyrsti róður). B. Nákæmlega. „Þetta hafði tekið slétta þrjá sólarhringa hjá okkur bræðrum“ (Björgvin Sigurbj.son; Útkall við Látrabjarg).
Slig (n, hk) Sig/dæld í baki skepnu eða mæni á húsi.
Sliga (s) Draga/þvinga niður, svo slig myndist; leggja of miklar byrðar á eitthvað. „Þessar álögur eru alveg að sliga landbúnaðinn“!
Slikja (n, kvk) Gljái/himna á yfirborði hluta. „Hvaða slikja er þetta ofaná vatninu“?
Slikkerí (n, hk) Sælgæti. Líklega nýlegt tökuorð.
Slindra (n, kvk) Himna; tægja. „Það þarf að nudda hrognin gegnum sigtið svo ekkert verði eftir nema slindrur“.
Slingra (s) Velta til og frá; riða. „Við þurfum að stífa þetta til hliðar svo það nái ekki að slingra“.
Slinkur (n, kk) Högg; kast. „Það sem hefur bjargað því að mennirnir sem voru að draga hrukku ekki framaf við slinkinn... hefur verið fyrst og fremst það að þeir voru báðir vel að manni; sérstaklega Davíð, sem var talinn sterkasti maður í hreppnum á þeim tíma...“ (SbG; Að vaka og vinna).
Sliskja (n, kvk) Biti; borð; skábraut. „Traktorinn var á sliskjum sem lagðar voru þvert yfir bátinn“.
Slit (n, hk) A. Eyðing hluta við notkun/núning. T.d. slit á fatnaði. B. Rof; t.d. slit taugar eða niðurlagning félags.
Slitalítið (l) Samfellt; án þess að hætta mikið/oft. „Við unnum í þessu slitalítið allan daginn“.
Slitgott / Slitsterkt (l) Endingargott; slitnar lítið við notkun/núning.
Slitkjölur (n, kk) Strákjölur; drag. Oftar var talað um drag undir bát; sjá þar.
Slitlag (n, hk) Það lag utaná/ofaná hlut sem helst slitnar við notkun, og á að verja aðra hluta sliti. Oftast notað um efsta lag vegar; það sem hið opinbera hefur mest vanrækt af skyldum sínum við Kollsvík síðustu ár.
Slitna frá (orðtak) Oftast um skip eða veiðarfæri; losna af sínum stað. „Grunnbaujan hafði slitnað frá“. „Báturinn slitnaði frá bryggju og rak upp hinumegin í höfninni“.
Slitna upp (orðtak) Um skip; slíta ankerisfestar og reka undan veðri og straumum. „Bella lá norður á Aðalvík, slitnaði upp... rak svo stjórnlaust fyrir Vestfirði og strandaði innantil við Sölmundargjá“ (EÓ; skipsströnd í Rauðasandshreppi).
Slitna uppúr (orðtak) Rofna; enda; trosna í sundur. Oftast í líkngamáli: „Þau voru trúlofuð um tíma, en það slitnaði uppúr því sambandi fyrir löngu“.
Slitringsfjúk (n, hk) Dálítil snjókoma, einkum í vindi.
Slitringur (n, kk) Lítil úrkoma; fáeinir dropar úr lofti; lítið snjófjúk. „Það er strax kominn slitringur“.
Slitróttur (l) Sem slitnar sundur á köflum. „Sjósóknin hefur verið æði slitrótt vegna ótíðar“.
Slitrur (n, kvk, fto) Ræfill; garmar. „Hér eru einhverjar slitrur af Passíusálmunum“.
Slituppgefinn (l) Mjög þreyttur/lúinn; kúguppgefinn. „Maður er alveg slituppgefinn eftir svona puð“.
Slitur (n, hk) Ræfill; afgangur/tægjur af. „Ég breiddi slitur af segldúk yfir eggjahrúguna“.
Slíðra (s) A. Setja í slíður/hulstur. Oftast um eggjárn. B. Setja slíður á bát.
Slíðra sverðin (orðtak) Líkingamál; sættast; leggja niður deilur.
Slíður (n, hk) A. Hulstur, t.d. til að stinga í hníf, sverði o.fl. B. Hólkur á legg blóma, grasa eða taugafruma. C. Hluti báts. „Bilið frá hníflunum að hástokksendanum, aftan og framan, hét slíður. Var þetta þó ekki vel ljóst, því í daglegu tali var allur fremri hluti barkans afturundir hálsþóftu nefndur slíður“ (Jóhann Bárðarson; Áraskip). „Torfi stýrði, og sat hann á borðvið sem stóð aftur af slíðrinu, bakborðsmegin“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Slíf (n, kvk) Sá hluti brunahreyfils/vélar sem umlykur brunahólfið og bulla gengur í. Stundum sérstakt stykki.
Slíkur (l) Þvílíkur; samskonar; af sama tagi. „Hann var yfir sig hrifinn af hrútnum, og sagði að slíkri metskepnu hefði hann aldrei kynnst fyrr“.
Slíma (s) Verða slímugur. „Kartöflunum hættir til að slíma fljótt í rakanum“.
Slímkenndur (l) Um vökva; hlaupkenndur; líkur slími.
Slímugur (l) Ataður slími. „Gættu þín á neðsta fjörugrjótinu; það er oft ansi slímugt og hált“.
Slímuseta (n, kvk) Lengri viðdvöl en hæfileg er; óhóflega löng/þreytandi heimsókn gests, seme.t.v. veldur töfum húsbænda frá verkum. „Það getur verið gaman að fá hann í heimsókn, en þessar slímusetur fara dálítið í taugarnar á mér“.
Slímusvefn (n, kk) Langur svefn; svfnttími sem þykir úr hófi langur. „Déskotans slímusvefn er þetta“!
Slípa (s) Sverfa; pússa; fægja; brýna.
Slípast til (orðtak) Laga sig að aðstæðum/umhverfi.
Slípivél (n, kvk) Brýnsluvél. Hverfisteinn var jafnan nota yfir brýnsluvél fyrir hefðbundna ljái og hnífa, en slípivél eða brýnsluvél var heiti á vél til að brýna ljái í sláttuvélum traktora.
Slíta (s) A. Almennt um að draga í sundur með afli, einkum notað um taug/festi/band/tvinna o.fl. B. Beita fatnað og annað núningi við ójöfnur, eða ganga lengi í honum, þannig að hann slitni. C. Um veiðar; toga svo fast í veiðarfæri (t.d. færi eða net) að það slitni. Gerist einkum ef fast er í botni eða þungur dráttur er. „
Slíta barnsskónum (orðtak) Alast upp; eyða æskuárum sínum. „Á þessum slóðum sleit ég barnsskónum“.
Slíta fundi (orðtak) Ljúka fundarstörfum/þinghaldi. „Fleira ekki gert. Fundi slitið“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Slíta samvistir (orðtak) Hætta sambúð; skilja. „Þau slitu samvistir eftir nokkurra ára sambúð“.
Slíta sig af (orðtak) Um fisk sem veiddur er; rífa sig af krók/öngli; losna af færi.
Slíta slóg (orðtak) Slægja; taka innanúr; gera að fiski. Stundum er sérstaklega átt við það að hirða það sem nýtilegt er í slógi, s.s. lifur, hrogn og kútmaga.
Slíta upp (orðtak) Veiða einn og einn í tregfiski. „... tregaðist fiskur svo mjög að menn slitu aðeins upp drátt og drátt með alllöngu millibili“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).
Slíta úr netum (orðtak) Hreinsa þara og önnur óhrinindi úr netum.
Slíta úr sér (orðtak) Byrja að rigna/dropa. „Ég er hræddur um að hann sé farinn að slíta eitthvað úr sér; við þurfum að drífa í að raka upp“.
Slítandi (l) Þreytandi; sem slítur liðamótum/veldur hrörnun. „Grjóthleðsla er slítandi starf til lengdar“.
Slítingur (n, kk) A. Lítil rigning eða slydda. „Það er að koma einhver slítingur úr þessum dumbungi“. B. Reytingsafli. „Það var dálítill slítingur hér suður á víkinni, en ekki hægt að segja að hann væri viljugur“. „Við fáum slíting af fiski yfir suðurfallið og framá liggjandann“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Eftir nokkurn tíma kipptum við fram á Stekka. Var þar nokkur viðkoma, eða sem kallað var „slítingur“ “ (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).
Sljákka (s) Hægja; lina; lækka; ganga niður. „Það er eitthvað að sljákka í norðanáttinni“. „Ég komst loksins að þegar sljákkaði í munnræpunni í honum“. „Það sljákkar fljótt í vildinni þegar tekur upp fallið“.
Sljóleiki / Sljóleikur (n, kk) Hugsunarleysi; yfirsjón; deyfð. „Funduð þið ekki féð; skelfingar sljóleiki er þetta“! „Stöðug vínnautn veldur viðloðandi eitrun á líkama mannsins; skemmir taugakerfið; orsakar sljóleik minnisins og veldur kæruleysi“ (GJH; grein í Lilju, blaði Umf. Smára; jan 1938).
Sljór A. Um bitjárn; bitlaus. B. Um manneskju; treggáfuð; sein að átta sig. Sjá sljóleiki.
Sljóvga (s) Gera sljóan; slæva; deyfa. „Merkilegt hvað þreytan sljóvgar alla hugsun“.
Sljóvgast (s) Missa bit/minni/greind. „Hnífurinn er farinn að sljóvgast“. „Maður sljóvgast með aldrinum“.
Sloj (l) Slappur; með slen; veikur. „Krakkinn hefur verið dálítið sloj. Það er kannski þessi umgangspest“.
Sloka / Slokra (s) Þamba; drekka með áfergju/krafti. „Ég var orðinn afar þyrstur; lagðist á lækjarbakkann og slokaði stórum í mig“. „Svona kraftmikil vél hlýtur að sloka verulega í sig“.
Slokkna (s) Slökkna. Líklega hefur „slokkna“ verið algengara í máli Kollsvíkinga, þó hvorttveggja heyrðist.
Slokkna útaf (orðtak) Deyja; sofna. Oftast notað um kerta- eða lampaljós; „Nú er kertið alveg að slokkna útaf“, eða um syfjaða manneskju; „Ég er alveg að slokkna útaf; ég fer bara að draga mig í bælið“.
Slompaður / Slompfullur (l) Drukkinn; kenndur; ölvaður. „Eftir næsta glas var hann orðinn verulega slompaður“.
Slontur (n, kk) Hellir/skúti í sjávarklettum, með gati í þaki; þannig að þegar alda gengur inní hellinn þrýstist hún af afli upp um gatið og geta þá orðið sjávargos. „Í Saltvík við Skor eru hlrinar og klettar og inn í einn klettinn, nokkuð framarlega, hefur sjórinn grafið tvo skúta eða litla hella. Síðan hefur hann sprengt mjórri rauf í þakið að endilöngu. Þarna verða mikil læti þegar brimið skellur inn í þessa skýta og þrýstist síðan upp um rofið þakið. Þetta fyrirbæri heitir Slontur“ (AÍ; Örn.skrá Sjöundár).
Slompaður (l) Drukkinn. „Ég held að hann sé að verða dálítið slompaður“.
Sloppur (n, kk) Víð og síð yfirhöfn, oft frekar þunn, til að vera í við innivinnu. Á síðari hluta 20.aldar var sloppurinn algengur yfirfatnaður kvenna við heimilisstörf, en nú er hann einkum notaður af læknum og öðrum á vinnustöðum, auk hinna algengu baðsloppa.
Slor / Fiskslor (n, hk) A. Innyfli úr fiski; innvols; slóg; rask; ræksni. „Slorið var einnig hirt; því var hent í tunnu, síðan keyrt heim og látið rotna í þró eða tunnum. Það var svo blandað með vatni og notað sem áburður á tún“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). B. Í þrengri merkingu nær orðið yfir slímið utaná fiskinum og óhreinindi af þess völdum. Sjá andstæða merkingu; ekkert slor.
Slora út (orðtak) Ata slori. „Gættu þess að slora þig ekki allan út; þú ert ekki í neinum hlífum“.
Slordallur (n, kk) Óhrjálegur bátur; niðrandi heiti um bát. „Hvað slordallur er þarna á ferðinni“?
Slordóni (n, kk) Ræfill; skíthæll. „Það er nú varla hægt að eyða orðum á svona slordóna“.
Slorgalli (n, kk) Fatnaður sem atast hefur fiskslori. „Það þarf að þvo slorgallann fljótlega“. Einnig var gripið til orða um einstök slorug föt; slorhúfa; slorvettlingur; slorúlpa; slorbuxur; slorstígvél o.fl.
Slorgryfja (n, kvk) Gryfja í jörðina sem í er safnað slógi/ræksnum eftir fiskverkun. Ekki fer sögum af slóggryfjum í Láganúps- eða Kollsvíkurverum, en líklega hafa þær þó verið til, þar sem ræksni voru notuð m.a. sem áburður á tún og hafa væntanlega þurft að verkast nokkuð til að vargfugl tíndi þau síður upp.
Slorkálfur (n, kk) Nýfæddur kálfur. „Farðu með slorkálfinn í jötuna svo kýrin geti karað hann“.
Slorlamb / Slorket (n, hk) Kjöt af nýlega bornu lambi. Þótti ekki mannamatur ef annað var í boði, en var sagt fátækramatur fyrrum. Orðin finnast ekki í orðabókum.
Slorlegur (orðtak) Óhrjálegur; ataður slori. Oftast notað í mótsettri merkingu; sjá ekki slorlegur.
Slorugur (l) Ataður fiskslori; með slor á sér. „Ég þvæ mér áður en ég fer inn; ég er hálf slorugur um hendur“.
Slorvöllur (n, kk) Blettur sem fiskur er verkaður á. Einkum notað um stað þar sem fiskdálkar voru þurrkaðir áður en þeir voru notaðir í eldivið.
Slot (n, hk) Höll; glæsibygging. Oft notað í líkingamáli um hús. „Gerðu svo vel og gakktu í slotið“.
Slota (s) A. Linna. „Ég man ekki hve marga daga stormurinn blés linnulaust, en loks þegar slota tók var farið að hyggja að farmi og bátum“ (KJK; Kollsvíkurver). B. Slúta; lúta framyfir.
Sló (n, kvk) A. Beinið innan í horni slíðurhyrninga, t.d. nautgripa og sauðfjár. „Slór voru notaðar fyrir lömb í hornabúinu en ærhornið sjálft fyrir kind og hrútshorn fyrir hrút“. B. Uppnefni á nefi. „Áttu korn í slóna“?
Slóa (s) Dóla; fara/sigla/aka/ganga hægt/rólega. „Þú skalt slóa hérna norður á Bæina meðan ég geri að þessum fisktittum sem komnir eru“. Líklega vísun í enska orðið „slow“ (hægt).
Slóð (n, kvk) A. Svæði; sbr fiskislóð. Oft notað í fleirtölu; sbr heimaslóðir; fornar slóðir. B. Röð af fótsporum eða öðrum ummerkjum; ferill. „Ég sá þarna slóð eftir tófu“.
Slóðadraga (s) Draga slóða yfir tún til að mylja húsdýraáburð niður í grasrótina.
Slóðaháttur / Slóðaskapur (n, kk) Húfulag; dratthalagangur; skussaháttur. „Ég hef sjaldan séð álíka slóðaskap á minni ævi“!
Slóðalegur (l) Slilalegur; letilegur; seinn til verka.
Slóðast (s) Láta dragast; dragnast; trassa. „Ekki gengur að slóðast svona með/við þetta verk“.
Slóði (n, kk) A. Sá hluti færis sem krókarnir eru á. B. Letingi; hirðulaus maður sem ástundar slóðaskap. C. Ávinnsluherfi; þungt net sem dregið er yfir tún til að mylja húsdýraáburð niður í rótina; slóðadraga. „Að vorinu var þessi áburður svo unninn sem best niður í grasrótina; var það kallað „að vinna á túni“. Til þess var notaður slóði sem muldi skítinn, og var hann dreginn af hesti“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). D. Stígur; óljós gata. Sbr götuslóði; gönguslíði.
Slóg (n, hk) Innyfli úr fiski; slang; slor; rask; ræksni. „Fyrrum var slóg nýtt til áburðar á tún“. Sjá slíta slóg.
Slógburður (n, kk) Burður ræksna t.d. til áburðar á tún. B. Líkingamál; slúður; kjaftasaga.
Slógdraga (s) Draga innyfli/slóg úr kviði fisks án þess að spretta opnum kviðnum. Einkum um síldarverkun.
Slógmelta (n, kvk) Nýting á slógi á síðari tímum til fóðurgerðar. Þá er slógið sett í tunnu og hrært samanvið það dálitlu af maurasýru. Eftir nokkurn tíma verður af þessu næringarrík súpa sem notuð er sem fóður.
Slógmeri (n, kvk) Óslægður steinbítur sem landað er. „Mikil hneisa þótti ef einhver átti óslægðan steinbít þegar að landi kom. Við þeirri sök lá ákveðið víti sem að sönnu mun aldrei hafa verið beitt. Drátturinn var nefndur slógmeri“ (PJ; Barðstrendingabók). „Ef einhverjum varð á að skilja við óslægðan steinbít, sem þá nefndist slógmeri, hafði hann kallað yfir sig það víti að bera merina í land á æxlunarlimnum. En slík viðurlög komu þó vitaskuld aldrei til framkvæmda“ (LK; Ísl.sjávarhættir).
Slór (n, hk) Seinagangur; slóðaskapur. „Ekki dugir þetta slór! “ (IG; Sagt til vegar I). „Ég má ekki vera að þessu slóri lengur“!
Slóra (s) A. Lifa; draga fram lífið. „“Ég held að þetta lesefni dugi mér meðan ég slóri“. B. Slæpast; tefja; staldra við. „Ekki kemur hann enn; hann er sennilega að slóra á bæjum á leiðinni“.
Slóra af (orðtak) Komast lífs af; lifa naumlega af; tóra.
Slórandi (l) A. Tórandi; lifandi. B. Slarkandi; rétt nægilegt. „Þetta hefði varla þótt slórandi afli í fyrra“.
Slóttugheit (n, kvk, fto) Klókindi; lævísi. „Með slóttugheitum lokkaði hrafninn hundinn langt frá bitanum“.
Slóttugur (l) Klókur; lævís; sýnir hyggindi. „Hann ætlaði að vera slóttugur og róa snemma til að ná að leggja á bestu staðina á undan hinum“.
Slubb (n, hk) Slor; hor. „Þurrkaðu nú slubbið framan úr þér“! „Oft hefur eitthvað brotnað af eggjum utaná sigmanninum og er þá mesta slubbið verkað með mosa...“ (MG; Látrabjarg).
Slubbugur (l) Slorugur; með hor; ataður. „Farðu nú úr buxunum úti, þær eru heldur slubbugar orðnar“.
Sludda (s) Gera með naumindum/erfiðismunum/ hangandi hendi; dragnast. „Ætli maður verði ekki að sludda þessu frá; þó ég nenni því varla“.
Sluddagangur / Sluddaháttur (n, kk) Sleifarlag; drullusokksháttur; seinagangur; leti. „Ég þoli ekki svona sluddagang“! „Þetta er ekkert annað en sluddaháttur; þeir bara nenna þessu ekki“!
Sluddast / Sluddast til (s) Geta eða ná naumlega; slarkast. „Hann rétt sluddaðist við að ná prófinu“. „Vélin sluddaðist í gang eftir nokkrar tilraunir“. „Gat hann nú ekki sluddast til að klára þetta almennilega“?!
Sluddaveður (n, hk) Hvöss slydduél; ógerð; slyddurskítur. „Féð gerir lítið úti í svona sluddaveðri“.
Slugs (n, hk) Hangs; slór; leti. „Svona slugs dugir víst ekki ef við ætlum að klára þetta í dag“. „Óttalegt slugs er þetta“!
Slugsa / Slugsast (s) Hangsa, tefja, fara sér hægt. „Hann var ekkert að slugsa við verkin“. „Ætlarðu að slugsast við þetta í allan dag“?!
Sluma í (orðtak) Róast; þagna. „Kerlingin reifst og skammaðist í fyrstu, en það slumaði í henni þegar karlinn slengdi lúðunni á eldhúsborðið“.
Slumma (n, kvk) Klessa; skammtur. „Hann spýtti stórri brúnni slummu sem lenti nákvæmlega á fyrirhuguðum stað; á bak við eldavélina“.
Slumpa (s) Áætla með grófu móti; reikna/mæla gróflega. „Ég lumpa á að þetta séu tvö kýrfóður“.
Slumpareikningur (n, kk) Ónákvæmir útreikningar; grófar áætlanir í útreikningum. „Þetta er nú bara slumpareikningur hjá mér; þú skalt taka hæfilega mikið mark á þessu“.
Slumpur (n, kk) Slatti; posjón; magn sem er ekki nákvæmlega mælt. „Þetta var einhver slumpur af hrognum“.
Slunginn (l) A. Sleginn; veifaður. „Hér er endasteinninn slunginn inn í netið“. B. Lipur; laginn; lævís. „Hann er furðu slunginn við refaveiðarnar“.
Slunkur (n, kk) Niðrandi heiti á manni; þrjótur; dratthali. „Hvað þykist þessi ekkisen slunkur vera að gera“?
Slurkur (n, kk) Sopi; teigur; skammtur. „Ég setti góðan slurk af maurasýru í þetta“. „Hann fékk sér vænan slurk úr pelanum og sagði að nú skyldu þeir fara að draga í sundur“.
Slúbbert (n, kk) Slanguryrði; þrjótur; vafasamur náungi.
Slúðra (s) A. Hafa uppi slúður; fara með kjaftasögur; ljúga. B. Um drifhjól á vél; snúast ekki í takti við andlag sitt, t.d. reim eða snertiflöt. „Það þarf að strekkja á reiminni; reimskífan slúðrar þegar álagið er mest“.
Slúður / Slúðursaga (n, hk) Kjaftasögur; sveitarógur; lygi. „Það er eins og sumir nærist á þessu slúðri“.
Slúðurberi (n, kk) Sá sem ber út slúður/kjaftasögur; slefberi. „Ég trúi nú ekki öllu hjá þeim slúðurbera“!
Súðurburður (n, kk) Það að bera út slúður/kjaftasögur.
Slúðurgefinn (l) Sem gefinn er fyrir að slúðra/ bera út slúðursögur; sögusmetta; kjaftakerling.
Slúðurrófa / Slúðurseggur (n, kvk/kk) Manneskjur sem þykja slúðra ótæpilega. „Ég marka nú lítið sögurnar hjá þeim slúðursegg“!
Slúffa (s) Útlend sletta; ljúka; klára.
Slúppskip / Slúppa (n, hk/kvk) Skúta með sérstöku lagi og seglabúnaði. Af þessari gerð var Delphin, sem Einar í Kollsvík tók þátt í að fjármagna og gera út í félagi við Guðmund Scheving sýslumann í Haga. Skútuna keypti upphaflega árið 1803 Guðmundur Ingimundarson í Breiðholti í Reykjavík; síðar á Felli í Tálknafirði, sem var skipstjóri hennar síðan og fórst með henni 1813. Delphin var aflaskip og átti mikinn þátt í að ryðja braut þilskipaútgerðar og síðar togaraútgerðar á Íslandi. „Aftur á móti hafði Guðmundur fest kaup á slupskipi sem var 13 ½ commerce-lest að stærð“ (GG; Skútuöldin). Þetta jafngildir 27 tonna stærð en aðrar heimildir segja að Delphin hafi verið 35 tonn. Í Skútuöldinni er slúppskipum lýst svo að þær hafi verið líkar jagtskipum; með fremur breiðum og djúpum skrokk miðað við lengdina; rúmgóðar og lestuðu vel en ekki sérlega góðir siglarar. Slúppur höfðu eina siglu; spruð (bugspjót) þeirra var lárétt; framstefni hallaðist lítið eitt uppávið; ýmist beint eða lítið lotað en skuturinn oftast þver, hallandi og fyrirferðarminni en á jagtskipum. „Skip þessi höfðu sjaldan nema tvö framsegl; stagfokku og klýfi. Hin stærstu munu þó hafa getað tjaldað þar þriðja seglinu; framhyrnu eða jagar. Aftan við siglutré voru einatt tvö segl á slupskipum; stórsegl og toppsegl“ (GG; Skútuöldin). Vart þarf að taka fram að stórsegl slúppu voru gaffalsegl. Sjá skútueigandi/ skútuútgerð.
Slúðurskjóða (n, kvk) Manneskja sem er gjörn á að bera út kjaftasögur; slúður.
Slúta fram / Slúta yfir (orðtök) Um bjarg/kletta; hallast framyfir sig; loft. „Í Stóragammi er mikið af fugli, en ekki er hægt að ná honum þar sem bergið slútir svo mikið fram“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Slútta (s) Útlend sletta; ljúka við; klára.
Slydda (n, kvk) Blaut snjókoma. „Það er kominn bannsettur slydduskítur“.
Slyddudrulla / Slydduklessa / Slydduklíningur / Slydduóþverri / Slydduskítur / Slyddusori Hugtök sem lýsa viðhorfi til blautrar, kaldrar slyddu sem límist við húð og föt og veldur kulda og vosbúð hjá fólki og skepnum. „Flest er betra en slyddudrullan“.
Slydduhraglandi (n, kk) Lítilsháttar slydda í stífum kalda/vindi. „Maður blotnar drjúgt í þessum slydduhraglanda“.
Slyddubylur / Slyddudrífa / Slydduél / Slydduhríð / Slyddukafald / Slyddurigning / Slydduslagur / Slydduslítingur / Slydduvaðall / Slydduveður (n, kk) Mikið slydduél. „Það er varla fært með hrútinn milli húsa í þessum slydduslag“.
Slyðruorð (n, hk) Slæmur orðrómur; ásökun um kjarkleysi/heigulshátt. Slyðra merkir ræksni af fiski; gauð eða lint gras, en það orð var ekki notað í seinni tíð. Sjá reka af sér slyðruorðið.
Slyndra (n, kvk) Slitur af einhverju; þykkildi; slím. Notað t.d. um himnu utan af hrognum/ hrognaslyndru, eða júgurbólguslyndru. Buska. „Helltu svo slyndrunum úr sigtinu út í læk þegar þú ert búinn að sigta hrognin“.
Slyngur (l) Snjall; leikinn; fær; útsmoginn. „Hann er ansi slyngur í svona viðgerðum“.
Slyppur (l) Tómhentur; allslaus.
Slyppur og snauður (orðtak) Fátækur; eignalaus. „Eftir gjaldþrotið stóð hann uppi slyppur og snauður“.
Slys / Slysfarir (n, hk/ kvk, fto) Óhapp; áfall; meiðsli/dauðsfall af völdum óhapps.
Slysagat (n, hk) Gat sem veður útaf áfalli/írekstri en ekki fyrir slit; „Fékkstu slysagat á stakkinn“?
Slysagildra / Slysahætta (n, kvk) Aðstæður sem augljóslega bjóða hættunni heim.
Slysalaust / Slysalítið (l) „Þeir komust slysalaust upp á Völlinn“. „Ætli ég geti þetta ekki slysalítið“. „Var slysalaust“? (Jón Magnússon á Hvallátrum, að afloknu björgunarafreki undir Látrabjargi).
Slysalega (ao) Illa; miður. „Það vildi svo slysalega til að fatan fór á hliðina“.
Slysaskot (n, hk) Skot sem óviljandi hleypur af byssu. Oft notað um þannig skot sem veldur meiðslum/dauða.
Slysast til (orðtak) Ske; oft í neikvæðri merkingu. „Það slysaðist svo til að bréfið komst ekki tímanlega í póst“.
Slysatilfelli (n, hk) Atvik þar sem slys/óhapp hefur orðið.
Slysavarnadeild / Slysavarnafélag (n, kvk/hk) Félagsskapur manna sem vinna saman að því að varna slysum og bjarga fólki úr slysum. Slysavarnafélag Íslands var stofnað 29.01.1928, og var ætlað að draga úr slysum á sjó og koma upp búnaði til björgunar. Helsti hvati að því var strand togarans Jóns forseta við Stafnes skömmu áður, þar sem 15 fórust. Slysavarnarfélagið beitti sér fyrir stofnun slysavarnadeilda víðsvegar um landið, og stuðlaði að útbreiðslu fluglínutækja til björgunar úr strandi. Auk þess voru fengin björgunarskip og stuðlað að bættri þekkingu varðandi viðbrögð við sjóslysum. Guðbjartur Ólafsson frá Kollsvík (21.03.89-15.05.1961), sem lengi var hafnsögumaður í Reykjavík, var einn af stofnendum SVFÍ; sat lengi í stjórn þess og forseti þess 1940-1960. Í Rauðasandshreppi var stofnuð Slysavarnadeildin Bræðrabandið árið 1933, og ári síðar komu fluglínutæki að Hvallátrum. Þau komu í góðar þarfir árið 1947, þegar togarinn Dhoon frá Fleetwood strandaði á Langurðum 12.12.1947, innanvert við Geldingsskorardal. Heimamenn í Rauðasandshreppi unnu þá eitt mesta björgunarafrek síðari tíma, þegar þeir sigu niður ísað bjargið um Flaugarnef; gengu um illfæra fjöru að slysstað; skutu þar út línu og tókst að bjarga flestum skipverjum í land og upp bjargið. Formaður Bræðrabandsins þá og lengi síðan var Þórður Jónsson hreppstjóri og bóndi á Hvallátrum, en hann sat lengi í stjórn SVFÍ. Fluglínutæki voru víðar geymd í hreppnum; í Kollsvík; Örlygshöfn og á Rauðasandi. Óskar Gíslason vann að heimildarmynd um björgunarafrekið í Kollsvík árið eftir þegar fréttist að annar togari, Sargon frá Grimsby hefði strandað við Hafnarmúla 01.12.1948. Aftur fóru heimamenn úr Bræðrabandinu til björgunar, og lánaðist að bjarga flestum skipverja. Myndir sem Óskar tók af því strandi voru notaðar í heimildarmynd hans um Björgunarafrekið við Látrabjarg. Eftir að íbúum fækkaði verulega í Rauðasandshreppi tók Bræðrabandið upp náið samstarf við Slvd Blakk á Patreksfirði. Slysavarnafélag Íslands hefur nú sameinast öðrum björgunarfélögum í félagið Landsbjörg.
Slysavarnarskýli (n, hk) Hús sem fólk getur leitað í, sem lendir í hrakningum. Í Rauðasandshreppi er eitt sem beinlínis var byggt sem slíkt; skipbrotsmannaskýlið Guðrúnarbúð í Keflavík.
Slysin gera ekki boð á undan sér / Slysin eru ekki lengi að ske/ vilja til (orðatiltæki) Maður veit aldrei fyrirfram hvenær slys ber að höndum. Mikið notað máltæki.
Slysni (n, kvk) Mistök; vangá; óhapp. „Svona slysni getur alla hent“. „Þetta gerðist eiginlega fyrir slysni“.
Slyttast (s) Hlunkast; ganga þunglamalega. „Ekki leist mér gæfulega á smalann; hann slyttist með okkur norður á hallinn, en þá settist hann á stein og sagðist vera búinn að fá nóg“.
Slytti (n, hk) Það sem er lint/kraftlaust; hrúgald. Stofnskylt orðunum sletta, slatti o.fl.
Slyttublautur (l) Um fatnað eða annað; svo blautur að slettist til. „Hann (Ívar í Hænuvík) var í skinnstakk, eins og þá var altítt, og lá hann út af borðinu að baki hans og drógst í sjónum; eftir því meira sem báturinn hallaðist meira, svo hann náði oft slyttublautur niður í hnésbætur að aftan þó hann væri skorpinn upp á brjósti að framan af hörku“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Slyttulegur (l) Linur; lympulegur. „Óttalega er ég eitthvað slyttulegur; eins og ég sé með árans pest“.
Slý (n, hk) Tegundir vatna- /sjávargróðurs. Samanstendur oftast af þráðlaga grænþörungum. Ein tegund þeirra er Tetraspora, sem sumir nefna lækjagörn og er algeng í lækjum; getur orðið nokkurra metra löng. „Þegar kemur framá og hlýnar í sjónum er hætt við að netin fyllist sumsstaðar af fjárans slýi, sem erfitt eða illmögulegt er að hreinsa úr“.
Slýja (s) Myndast slý. „Netin vilja slýja í sumarhitanum á þessum miðum“.
Slýjugur (l) Ataður/þakinn slýi. „Ári eru netin slýjuð þarna innanfjarðar“.
Slæða (n, kvk) A. Dreif af heyi. Slæður urðu t.d. eftir þegar rakað var með rakstrarvél á ósléttu túni og í beygjum; þegar verið var að setja upp galta eða hlaða á heyvagn og þegar fé dró hey út úr jötu. Lögð var áhersla á það áðurfyrr að raka saman öllum slæðum, enda var heytuggan þá meira virði en í vélvæðingu samtímans. Krakkar höfðu oft þann starfa að raka slæður á eftir rakstrarvél. B. Skupla kvenna. C. Þoka sem liggur staðbundin. „Þokuslæða er að laumast heim með Blakknum“.
Slæða (s) A. Láta línu dragast með botni. „Annar endi línunnar var festur í dreka en hinn endinn stundum hafður laus og línan þannig látin slæða botninn með fallinu“ Frásögn Sigurvins Össurarsonar um lóðafiskirí í Kollsvík. B. Það þegar fé dregur hey; slæður, útúr jötu og það dreifist á grindurnar (gólfið). „Betra er að gefa smágert hey uppá það að gera að þá slæðir féð minna“. Slæður geta einnig orðið eftir við heyskap á túni. Fyrrum var lögð áhersla á að raka slæður, þó nú sé það aflagt af bændum.
Slæða/sóða í sig (orðtak) Borða með semingi; borða í hallæri. „Ekki er það velgott; en það má slæða þessu í sig þegar ekkert annað er að hafa“. „Vertu nú ekki að þefa af þessu; slæddu þessu bara í andlitið á þér“!
Slæðingur (n, kk) A. Reitingur; dálítill fjöldi. „Það kemur alltaf einhver slæðingur af ufsa í hverjum róðri“. B. Flækingur; sjaldséður gestur. „Það rekast alltaf einhverjir slæðingar hingað utan úr löndum“. C. Draugur; yfirnáttúruleg vera. „Hann trúir því statt og stöðugt að í kofatóftinni sé einhver slæðingur“. D. Stytting úr hitaslæðingur/hitavella. „Ég er óðum að hressast, sen það er líklega enn einhver bölvaður slæðingur í mér“.
Slægð (n, kvk) Klókindi; lymska; undirferli; slóttugleiki. „Hundurinn sá ekki við þessari slægð hrafnsins“.
Slægður (l) Um fisk; aðgerður; kúttaður.
Slægja (n, kvk) A. Slægjuland. „Áttu nægar slægjur á heimajörðinni“? Einatt í fleirtölu í þessari merkingu. B. Óslegið gras. „Ekki kasta steinum út í slægjuna“! „Ég ætla að rölta upp á tún og gá til slægna“.
Slægja (s) Taka innan úr fiski; gera að. „Við slægjum á landstíminu“. „Aðgerðin hófst með því að skorinn var sundur munnamaginn. Síðan var hnífnum stungið í gotraufina og ristur fram kviðurinn á móts við kviðugga svo á vantaði um tvo þumlunga í lífoddann. Að því búnu var slitið slógið/slægt/fiskurinn skorinn upp. Þannig var ætiíð farið að ef hnakkafletja átti fiskinn, en ef hann var kviðflattur var rist alveg framúr á milli angiljubeina. Að lokinni slægingu var vaðkeipað/varkjaftað.
Slægja niður (orðtak) Slægja fisk fyrir borð á báti yfir fiskimiðum. Er jafnan talinn ósiður, því slíkt fælir fiskinn frá. „Formennirnir á bátum þeim er legulóðir áttu úti í Patreksfirði, fyrir utan Tálkna, höfðu bundist samtökum um að slægja aldrei niður á lóðunum; heldur fara í land og leggja af sér“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Slægjast eftir (orðtak) Vera á höttunum eftir; reyna að fá/eignast. „Áður voru menn mestmegnis að slægjast eftir hrognunum; nú er grásleppan sjálf orðin verulegt verðmæti“.
Slægjublettur / Slægjuengi / Slægjuland / Slægjulaut / Slægjumýri / Slægjustykki / Slægjufles / Slægjutó (n, kk/hk/kvk) Laut sem slegin er. „Bollarnir eru lautir neðan við hábrún og voru slægnalautir“ (ÓlÓ; Örn.skrá Vesturbotns). Fyrir daga sáðsléttna og véla leituðu bændur víða fanga með fóðuröflun. Heimatún voru oftast lítil og því var goggað víðast þar sem græna grastó var að hafa. Þannig var slegið brok í vötnum, s.s. í Ormatjörnum, Gormi og Kjóavötnum frá Láganúpi; Hænuvíkurtó, Kollsvíkurtó, Víðilækir, Startjarnir og aðrir blettir í Vatnadal; einnig Flesið í Breiðnum og e.t.v. fleiri slægjufles. Slegnar voru Flár og Pokavöllur í Hænuvíkurhlíðum; Saxagjárvöllur í Látrabjargi og Urðarvöllur á Gjögrafjörum var svo mikilvægur slægjublettur að Sellátranes- og Tungubændur börðust vegna hans í Bardagalág.
Slægjuengi (n, hk) Engi sem slegið er. „Frá Svarthamragili ná slægnaengjar, Engjar, niður að túni og að Hjallatúni“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Slægjuland (n, hk) Land sem gott er að rækta til slægna; ræktarland; blettur í rækt. „Víða leynast slægjulönd á svæðinu. Auk túna slógu menn brok í tjörnum; stórgrýttar urðir og skriðuhvamma í miðjum björgum“.
Slægjupartur (n, kk) Hluti slægjulands. „Fyrir neðan Vallgeirana eru aðeins slægjupartar sem eru með ýmsum nöfnum“ (Helgi einarsson; Örn.lýsing Geitagils).
Slægnaítak (n, hk) Ítak/réttindi sem ein jörð á í annarri varðandi slægjur.
Slægnalítill (l) Hefur lítið slægjuland. „Hann var að verða slægnalítill svo ég leyfði honum að slá sléttuna“.
Slægta (s) Slátra; lóga; drepa. Var notað sem einskonar tæpitunga yfir slátrun; t.d. þegar íhugað var hvort þyrfti að lóga einhverjum kostagrip. „Það gæti þurft að slægta henni Nótt ef hún lagast ekki í fótunum“. Annarsstaðar þekkist orðið í myndinni slagta, en er ætíð notað með æ í Kollsvík.
Slægur (n, kk) Góður/eftirsóknarverður fengur. Merkir e.t.v. upprunalega sláturdýr eða veiðidýr. „Þú mátt eiga þetta ef þér finnst einhver slægur í því“. „Ég hirti það sem slægur var í, en henti hinu“.
Slægur (l) A. Sem slær/ hættir til að slá/sparka. „Varaðu þig þegar þú ferð afturfyrir hestinn; hann er meinslægur“. B. Sem unnt er að slá. „Ég held að Grundatúnið sé að verða slægt“. C. Slóttugur; lævís; undirförull; slægvitur.
Slægvitur (l) Slóttugur; undirförull; lævís; slægur. „Sá gamli þótti nokkuð slægvitur í viðskiptum“.
Slælega (l) Fremur illa; linlega. „Það er nú fremur slælega unnið að þessu kjötbeini finnst mér“. „Og hálsmennirnir; þ.e. andófsmennirnir, urðu að róa til að hafa áfram. Ef það var slælega gert, kom áherðingur á línuna; þ.e. strekktist á línunni við dráttinn“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Slægur í (orðtak) Veigur í; verðmætur; eftirsóknarvert. „Það er lítill slægur í mörgu því sem karlinn gaf, en ég tók við því öllu“. Sjá sem slægur er í.
Slæm býti/býtti (orðtak) Ekki góð skipti/umskipti/viðskipti. „Ýmsum bændum þótti það heldur slæm býti að fá þann náunga fyrir landbúnaðarráðherra“. Vísar til skipta á aflahlut, en býti/býtti eru annað heiti á skiptum.
Slæma (klónum) í (orðtak) Klófesta; ná í. „Mér tókst að slæma í þennan rígaþorsk“.
Slæmska (n, kvk) Veikindi; verkur; ígerð. „Það hljóp einhver slæmska í þetta sár“.
Slæmur (l) A. Um innræti manns; illur; vondur; meinfýsinn. B. Ekki góður. „Ég hef verið fremur slæmur í bakinu uppá síðkastið“. „Þetta er alls ekki slæmt á bragðið“. Beygt nú til dags með „verri-verstur“, en stundum fyrrum „slæmari- slæmastur“.
Slæmt í sjóinn (orðtak) Mikill veltingur/sjógangur; slæmt sjóveður. „Það var ári slæmt í sjóinn fyrir Tangana“.
Slæmur til gangs (orðtak) Getur varla gengið; kemst ekki það sem þarf að fara. „Ég er frekar slæmur til gangs ennþá og treysti mér varla til að koma með ykkur“.
Slæmur yfirferðar (orðtak) Um göngu-/akstursleið; erfitt að komast um. „Hellan er aurskriða á leið út Stíginn; oft slæm yfirferðar“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).
Slæpast (s) Hangsa; slóra; sleðast. „Þið megið ekki slæpast neitt á leiðinni þegar þið sækið kýrnar, strákar“.
Slæpingi (n, kk) Slóði; letingi; auðnuleysingi. „Það eru bara slæpingjar sem hanga í landi í svona veðri“.
Slæpingsháttur (n, kk) Leti; ónytjungsháttur; landeyðuháttur. „Skelfingar slæpingsháttur er þetta í honum“.
Slæpingur (n, kk) Leti; reiðileysi; tilgangslítil ferð. „Ekki man ég hvaða slæpingur var á okkur þarna“.
Slæptur (l) Veiklaður; þreyttur. Var fólkið búið að vera á fimmta tíma á leiðinni heim í myrkrinu og sumir orðnir slæptir mjög...“ (MG; Látrabjarg).
Slær fyrir brjóst (orðtak) Sjá slá fyrir brjóst.
Slær fyrir heppni (orðtak) Er tilviljun; er lán. „Nú slær fyrir heppni að hnífurinn skuli vera við höndina“.
Slær hver með sínu lagi (orðatiltæki) Hver hefur sitt sláttulag. Notað sem líking um ólíkt vinnulag manna.
Slær í baksegl (orðtak) Vindur kemur öfugu megin í segl þegar siglt er. „Þetta gerðist með þeim hætti að þeir voru að koma úr fiskiróðri siglandi en sló í baksegl hjá þeim og hvolfdi þá bátnum“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Slæva (s) A. Sljóvga; deyfa. „Vínið slævir allt viðbragð“. B. Taka bit úr eggjárni. „Ljárinn slævist fljótt í sandinum“.
Slöður (n, hk) A. Laut/innskot í lóðréttan flöt, t.d. hlaðinn vegg eða upphlaðið hey. „Það er nú ekki fallegt að hafa svona slöður í heyinu, þó það sé annars vel sett upp“. B. Bil milli ganga í kletti/bjargi. „Hér er slöður í ganginum sem erfitt er að komast yfir“.
Slöðurmenni (n, hk) Óþokki; þrjótur; sá sem vantar gott innræti. „Ég fyrirlít svona slöðurmenni“! Líklega dregið af því að slöður merkir vöntun/geil.
Slökknaður (l) Um eld; dauður; kulnaður. „Ég er hræddur um að það hafi slökknað undir í reykkofanum“.
Slökkva (s) Kæfa; bæla niður. „Mundu að slökkva á kertinu þegar þú ferð úr fjósinu“.
Slökkva niður róðrum (orðtak) Um útræði í veri; hætta að róa; gera hlé á róðrum. „Menn slökktu niður róðrum um hátíðisdagana“.
Slökkva þorstann (orðtak) Svala þorstanum; fá sér að drekka þegar maður er þyrstur.
Slönguskór (n, kk, fto) Svartir gúmmískór; framleiddir úr gúmmíslöngum, og mjög vinsæll skófatnaður á síðari helmingi 20. aldar. „Mér finnst hvítbotnuðu skórnir nokkuð þægilegri en slönguskór“.
Slöngva (s) Slengja; kasta. Fremur var notað orðið „slengja“ meðal Kollsvíkinga.
Slöp (n, hk, fto) Svæðið kringum tálkn á hákarli og skötu. Einnig notað um gómfyllu á lúðu.
Slör (n, hk) Gisið ofið klæði sem kvenfólk hefur stundum til skrauts; t.d. hluti höfuðklæðnaðar brúðar.
Slöttólfur (n, kk) Gæluheiti um það sem er stórvaxið; rígaþorskur; stór kálfur; stór strákur.
Slöttungsafli (n, kk) Reytingsafli; sæmilegur afli. „Ég fékk slöttungsafla báða dagana; ekki samt nein ósköp“.
Slöttungsfyrði (n, kvk) Nokkuð mikil byrði; sígur í. „Það er nú slöttungsbyrði að kjaga með þetta allt“.
Slöttungur (n, kk) Slatti; allmikið/nokkuð magn; pokaskjatti.
Smakk (n, hk) Bragð; lítilsháttar af einhverju til að bragða/smakka á.
Smakka (s) Bragða; finna bragð; borða lítið.
Smakka á (orðtak) Bragða á.
Smakkast upp (orðtak) Um mat; vera étinn; klárast.
Smakka það (orðtak) Stundum notað um víndrykkju. „Ég kalla það nú ekki drykkjuskap, þó menn smakki það stöku sinnum“!
Smala (s) Leita að fé og reka það til réttar að hausti, til að heimta lömb og annað fé til slátrunar og til að hver bóndi heimti sitt fé. „Að síðustu langar mig að minnast á leitirnar. Þó þær væru hvorki langar eða erfiðar heima, voru þær eitt mesta tilhlökkunarefni bæði barna og fullorðinna. Gangnaseðillinn sem barst bæ frá bæ, kom að Láganúpi um hálfum mánuði fyrir göngur og þaðan varð pabbi að senda með hann út að Breiðavík. Í honum var ákveðið hvað pabbi ætti að senda marga í göngur á Breiðavíkurrétt, og hvort hann ætti að sækja fé á Skógarrétt. Á laugardag var slátrað lambi í gangnanestið og á sunnudag smalað heimalandið. Ókunnugt fé sem kom í réttina var látið í hús; það var svo rekið til réttar á mánudegi. Farið var af stað um kl 7, og fylgst að með reksturinn út að Litlavatni; þar skildu leiðir. Einn fór fyrir Breið, og þurfti það að vera sæmilega bjargfær maður, því oft voru kindur á slæmum stöðum. Annar fór upp Grenjalág og útyfir Breið; hann smalaði svo Fjarðarhornið með þeim sem kom fyrir Breið. Tveir héldu áfram með reksturinn upp Vörðubrekku og áttu að smala Sanddalina og Breiðavíkurhjallana. Og einn fór fram Ívarsegg; út yfir Flosadalinn og niður Hafnargil. Í Hjallagötu mættust svo allir og ráku til réttar“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). „Jafnframt smöluðu Kollsvíkingar Breiðavíkurháls og norðanverða Breiðuvík á leið sinni til réttar. Látramenn og Breiðvíkingar smöluðu hinsvegar sunnanverða Breiðuvík og Látramenn smöluðu Bjargið“ (PG; Veðmálið).
Smala/reka norður (orðtak) Smala fé handan til úr Kollsvíkinni til innrekstrar í réttina við Tröð, sem var sameiginleg rétt Láganúps- og Kollsvíkurfjár eftir að hætt var að nota réttina á Brunnsbrekku.
Smala til aftektar/rúnings (n, kvk) Smala fé til að rýja það (alltaf nefnt að „taka af“ í Kollsvík). „Keppst var við að vera búinn að smala til aftektar og ganga frá ullinni fyrir slátt“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Sauðfé smöluðu menn til rúnings í landlegum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Smaladrengur / Smalamaður / Smalastelpa / Smalastrákur (n, kk/kvk) Smali; sá/sú sem fæst við smalamennskur/göngur. „Smalamenn voru þreyttir við heimkomuna“.
Smalahundur (n, kk) Fjárhundur; hundur sem notaður er við smalamennskur.
Smalaferð (n, kvk) Ferð sem farin er til að smala fé; smölun; göngur. „Lambagangur var farinn í smalaferðum“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Smalahugleiðingar (n, kvk, fto) Áætlanir um smalamennsku. „Þýðir nokkuð að vera með einhverjar smalahugleiðingar í svona útliti“?
Smalaleið (n, kvk) Leið sem venjulega er farin í smalamennskum. „Ég ætla að fá þig til að ganga með mér nokkrar aðal göngu- og smalaleiðir sem lágu úr Víkinni til annarra og næstu byggða“ (IG; Sagt til vegar I)
Smalamennska (n, kvk) Göngur; smölun fjár; aðferð við að smala. „Á miðri leið er stór graslaut sem heitir Bolli. Þar sá Össur bróðir huldustrák hlaupa með tveim krökkum í smalamennsku“ (IG; Sagt til vegar II). „Með haustinu komu göngur og slátrun og þá ný horn til að leika sér með. Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag…“ (IG; Æskuminningar). „Svona smalamennsku hef ég ekki áður kynnst“!
Smalast (s) Safnast; nást saman; um velgengni í smalamennsku „Hvernig heldurðu að hafi smalast“? „Ég held að það hafi smalast nokkuð vel af Bjarginu núna“.
Smalast illa/vel (orðtök) Ganga illa/vel að smala fé; fé heimtist illa/vel í smölun. „Hræddur er ég um að ekki smalist vel af fjallinu í þessari þoku“.
Smalaveður (n, hk) Veðrátta við smölun búfjár að hausti; gat verið gott eða slæmt. Illa smalaðist í dimmviðri.
Smali (n, kk) Sá sem smalar fé, eða stendur yfir fé á beit; sá sem heldur fé til beitar/ gætir fjár. „Smali eða smalar frá Einari í Kollsvík fundu eða sáu hval inni við Láturdal... “ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Smá- Forskeyti sem notað er með mörgum nafnorðum til smækkunar því sem við er átt. Áhersla er í sumum orðum á fyrra atkvæði (t.d. smástrákur, smáatriði) eða í öðrum á hinu síðara (smábiti, smáblóð). Í seinna tilvikinu eru orðin ýmist rituð heil eða í tvennu lagi.
Smáatriði (n, hk) Lítið málefni; lítill þáttur. „Smáatriðin skipta máli í svona tilvikum“.
Smáatvik (n, hk) Lítið tilvik; lítill atburður; smá óhapp. „Þetta smáatvik breytti miklu“.
Smábarn (n, hk) Lítið barn. „Hún lagði nótt við dag til að anna öllum sínum verkum og var oftast með smábarn líka, því börnin urðu mörg“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Smábára (n, kvk) Lítilsháttar bára/veltingur. „Heyrðu þeir þá eins og vindsuðu, og um leið fór að bera á smábáru sem var mjög óð; eins og undan vindi“ (ÖG; Þokuróður).
Smábátur (n, kk) Lítið far. Oft er átt við tveggja- til fjögurramannafar.
Smábeinóttur (l) Um líkamsbyggingu; fíngerður. „Mér finnst hrúturinn smábeinóttur, þó annað sé í lagi“.
Smábiti (n, kk) Lítilsháttar að borða; lítið eitt af mat. „Viltu ekki koma inn og fá þér smábita með okkur“? Áhersla einatt á síðara atkvæðinu.
Smábýli (n, hk) Kot; lítil bújörð. „Um smábýli gefa jarðeigendur þá raison (ástæðu) að þeir þar með hjálpi snauðum mönnum sem ei sje færir fyrir meiru, af sveitinni; sem annars gjörði bændum þúnga“ (ÁM/PV Jarðabók). Sú mikla fjölgun sem varð í kotbýlum og hjáleigumí Rauðasandshreppi í kringum 1640-1670 er hér skýrð af höfðingjaveldinu á þann hátt að þeir hafi verið að gera fólki kleift að bjarga sér á eigin verðleikum í stað þess að lenda á þeirra framfæri. Kann rétt að vera að hluta, en t.d. í Kollsvík er ástæðan augljóslega einnig sú að höfðingjar vildu tryggja sér ánauðuga formenn til sjósóknar á sínum bátum.
Smáél / Smáfjúk (n, hk) Lítið/stutt él. „Þetta var ágætis veður, fyrir utan nokkur smáél“.
Smáferlíki / Smáflykki / Smáhlass (n, hk) Eingöngu notað í neikvæðum líkingum, enda merkja orðin ferlíki og flykki jafnan það sem stórvaxið er (sjá þar). „Þetta skeljaskrímsli var ekkert smáferlíki“!
Smáfikra (s) Feta sig mjög hægt. „Hann var fjári smeykur, en fór þó að smáfikra sig eftir ganginum“.
Smáflís (n, kvk) Lítill hluti; arða. „Smakkaðu hérna smáflís af hráu hangiketi; þetta er algert sælgæti“.
Smáfiskur / Smákóð (n, kk) A. Lítill fiskur; kóð; undirmálsfiskur; bútungsfiskur. Smáfiskur var algengasta heitið. B. Salfiskur sem er minna er 12 tommur frá hnakka aftur á sporð í mati (sjá saltfiskur).
Smáfoss (n, kk) Lítill foss. „Eru þar (í Vatnadalsbót) margir fagrir smáfossar sem koma beint út úr klettunum og falla í fjöruna“ (HÖ; Fjaran).
Smáfríður (l) Laglegur og fíngerður. Einkum notað um andlitssvip. „Ekki gat hann talist smáfríður í andliti“.
Smáfæra (s) Færa lítið í einu. „Hann var alltaf að smáfæra sig uppá skaftið“.
Smágaman (l) Lítið skemmtilegt. Oftast í mótsettri merkingu: „Okkur fannst ekkert smágaman að þessu“.
Smágára (n, kvk) Lítilsháttar gráð/bára á vatni/sjó. „Við fleyttum kerlingar og fylgdumst með hvernig smágárurnar bárust yfir spegilsléttan vatnsflötinn“.
Smágrasblettur (n, kk) Lítill grasblettur. „Frá túninu liggja smágrasblettir suður með holtunum fyrir ofan túnið og að Helguþúfu“. (DE; Örn.skrá Hvallátra).
Smáhandarvik (n, hk) Lítilsháttar vinna/aðstoð. „Það hefði ekki þurft annað en smáhandarvik til að bjarga þessu við“.
Smáherða vind (orðtak) Um veður; ganga smám saman upp með vind. „Allt til kvölds smáherðir á storminum“ (KJK; Kollsvíkurver).
Smáhjallar (n, kk, fto) Lágir hjallar; slitið hjallabelti. „Að norðanverðu eru smáhjallar og heita þar Taglbrekkur“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Smáhnyðja (n, kvk) Lítil hnyðja/krykkja/trjárót. „Sögn gekk um að notuð hefði verið í bátinn einhver spýta eða smáhnyðja sem gömul kona á Látrum var búin að vara við“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Smáhrekkur (n, kk) Dálítil bekkni. „Menn gerðu sér ýmislegt til dundurs í Verinu í landlegum, til að stytta sér stundir. Smáhrekkir og kerskni voru þar daglegt brauð, á milli þess sem menn kváðust á, gripu í spil eða reyndu með sér í íþróttum“.
Smáhyrnd (l) Um hornalag á sauðfé; með lítil/smávaxin horn.
Smájagast / Smákýta (s) Deila/munnhöggvast lítillega. „Þeir rifust aldrei í illu, svo ég vissi; en sífellt voru þeir að smájagast“. „Ekki var óalgengt að þeir væru að smákýta yfir þessu á réttunum“.
Smájag / Smákýtingur (n, hk/kk) Lítilsháttar rifrildi. „Þetta smájag jókst orð af orði, uppí hávaðarifrildi“.
Smáklettabrysti (n, hk) Lítill hjalli/klettur. „Grjóthjalli er upp af Litlahjalla; smáklettabrysti eða lítill hjalli“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Smákrytjur (n, kvk, fto) Litlar leifar; lítið magn; óvera. „Hér eru einhverjar smákrytjur af grasfræi eftir í pokahorninu“. „Safnið nú saman þessum smákrytjum af ull; þetta eru verðmæti þegar saman kemur“.
Smákvikindi (n, hk) Lítið dýr; mús. „Gættu þess að loka dyrunum vel, svo smákvikindin sleppi ekki inn“!
Smálagast (s) Batna örlítið. „Ég held að veðrið sé að smálagast“.
Smálegheit (n, hk, fto) Lítilræði; smávegis; smáræði. „Þiggðu þessi smálegheit fyrir aðstoðina“.
Smálegt (l) Lítilfjörlegt; lítið. „Hún fann ýmislegt smálegt í fjörunni, svosem meyjapöppur og skeljar“.
Smálest / Stórlest (n, kvk) Einingar þyngdar og burðarþols skipa. Smálest er sama og tonn/1000 kg. Stórlest er sama og commerce-lest, eða tvo tonn/2000kg.
Smálétta (s) Um veður; létta dálítið til. „Hann er eitthvað að smálétta þetta“.
Smálúða (n, kvk) Lítil lúða; lúðulok (sjá lúða). „Ef dregin var smálúða þótti gott að beita henni. Var þá skorin ræma úr þunnildinu hvítumegin og krækt á öngulinn“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Smálæna (n, kvk) Mjótt sund. „Hægt er að sigla inn á voginn um smálænu, ef kyrrt er í sjóinn“.
Smám saman (orðtak) Í litlum áföngum/skrefum; eftir hendinni; með hægðinni. „Við tókum á af lífs og sálar kröftum, og smám saman tókst okkur að mjaka steininum á réttan stað“.
Smámjatla (s) Láta mjög lítið magn í einu. „Það er í góðu lagi að smámjatla lakara heyinu með öðru“.
Smámsaman / Smám saman (ao/orðtak) Hægt og bítandi; eftir hendinni; rólega. „Smámsaman færir sandurinn þetta í kaf“. „Smám saman fann ég að drátturinn léttist, um leið og kúturinn þokaðist ofar í klettunum“.
Smámunasamur / Smásmugulegur (l) Nákvæmur; kvartsár yfir smámunum; nískur. „Það er óþarfi að vera smámunasamur þegar nóg er til“. „Skelfing getur nú þessi skattstjóri verið smásmugulegur“!
Smámunasemi (n, kvk) Sparðatíningur; fjas yfir litlu. „Þegar kom að því að gera upp veðmálið var ekki viðhöfð nein smámunasemi“ (PG; Veðmálið).
Smámunir (n, kk, fto) Það sem þykir lítilfjörlegt/óverulegt. „Þetta eru hreinir smámunir, og skiptir engu máli“. Áhersla alltaf á fyrra atkvæðið. Orðið hefur nokkuð aðra merkingu í eintölu:
Smámunur (n, kk) Lítilsháttar mismunur. „Mér finnst smámunur á þessum tveimur litum“. Áhersla yfirleitt á seinna atkvæðið. Í eintölu hefur orðið nokkuð aðra merkingu en í fleirtölu; sjá smámunir.
Smámýrarblettur (n, kk) Lítið mýrlent svæði. „Þar næst, aðskilið af smáholti, er smámýrarblettur sem heitir Þórðarmýri. Hann er við veginn til Kollsvíkur“ (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).
Smámæltur (l) Blæstur í máli; óskýr í tali; oft einkum varðandi það að nota „ð“ í stað „r“ og „þ“ í stað „s“.
Smámöl (n, kvk) Fíngerð möl; malarsalli.
Smán (n, kvk) A. Skömm; niðurlæging. B. Í líkingamáli notað sem gælu- eða skammarheiti. „Vertu ekki að skamma tíkina fyrir þetta; hún hélt að hún mætti eiga bitann, smánin sú arna“.
Smána (s) Niðurlægja; svívirða; gera lítið úr.
Smánarlega (ao) Lítilsvirðandi; til skammar. „Það er nú smánarlega lítið sem ég get gefið núna í söfnunina“.
Smánast til (orðtak) Drattast/hundskast til. „Ég held hann ætti frekar að smánast til að hafa hlutina í lagi hjá sjálfum sér, en að skipta sér af annarra málum“!
Smánurla (s) Safna að sér í litlum stíl. „Ég hef verið að smánurla þessu efni saman í langan tíma“.
Smáoddi (n, kk) Lítill broddur. „Það voru bara smáoddar af grasinu sem stóðu upp úr klakanum“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg).
Smátangi / Smánes (n, hk) Lítið nes. „Niður af Kollumýri er smánes fram í voginn, sem heitir Litlanes. Þetta er smátangi“ (ÍH; Örn.skrá Melaness).
Smápatti / Smápeyi / Smápolli (n, kk) Lítill strákur; drenghnokki. „Ég man eftir þessu frá því ég var smápatti“. „Merkilegt hvað þessi smápeyi getur hlaupið hratt“!
Smápetti (n, hk) A. Lítill blettur. „Þarna er fólki hrúgað saman á smápetti. B. Lítill stallur í klettum. „Það voru nokkur egg yfir í þessu smápetti“.
Smápinkill (n, kk) Lítill böggull/pakki. „Geturðu tekið þennan smápinkil fyrir mig inn á pósthús“?
Smáposi (n, kk) Lítill poki; pokaskjatti. „Þetta kemst ekkert í svona smáposa“, „Hann tíndi grös í smáposa“.
Smáputi (n, kk) Lítill strákur; pottormur; smávaxinn maður. „Það er mesta furða hvað svona smáputi getur“.
Smár (l) Lítill. „Margur er knár þótt hann sé smár“.
Smárein (n, kvk) Mjó rönd af túni/jörð. „Ég skildi eftir smárein óslegna svo kálfarnir hafi eitthvað að naga“.
Smáreytingur (n, kk) Smávegis afli. „Það var smáreytingur yfir fallið og svo gaf hann sig til um snúninginn“.
Smári (n, kk) A. Smæra; samheiti yfir jurtir í smáraættkvísl; Trifolium. Helstu tegundir hennar á Íslandi eru hvítsmári og rauðsmári, en hvorug þeirra vex í Rauðasandshreppi svo vitað sé. Smárinn bindur nitur í jarðveginum með aðstoð baktería. Túnsmári er víða nýttur til ræktunar. Til er sú þjóðtrú að fjögurra blaða smári færi mönnum heppni, og tengist það líklega krosstákninu sem blöðin minna á. B. Annað heiti á transistor, sem er íhlutur í rafeindabúnaði.
Smáriðið (l) Um net; með litlum riðli/möskva. „Loðnunótin var smáriðin og þótti upplögð til brönduveiða“.
Smárispa / Smáskeina (n, kvk) Lítilsháttar skurfa/hrufl/skurður á húð; smáskemmd á yfirborði hlutar. „Ég meiddi mig ekkert að ráð; þetta er bara smárispa“.
Smáræði (n, hk) Lítilræði; örlítið. „Mig langar að víkja einhverju smáræði að henni á afmælinu“.
Smásál (n, kvk) Sá sem er smámunasamur/nískur. „Karlinn veitti vel í veislum þó yfirleitt væri hann smásál“".
Smásálarháttur (n, kk) Nirfisháttur; níska. „Ferlegur smásálarháttur er nú þetta í karlinum“.
Smáseytl (n, hk) Lítlsháttar rennsli. „Þarna er smáseytl úr klettunum“.
Smásíga (s) Síga mjög hægt. „Þakið á kofanum hefur verið að smásíga á seinni árum“.
Smáskafl (n, kk) Lítill skafl. „Það eru nokkrir smáskaflar í Kinninni, en ekkert að færð“.
Smáskammtalækningar (n, kvk) Ein grein hómópatíu. Sú tegund óhefðbundinna læknismeðferða sem byggir á kenningum sem settar voru fram við upphaf 19.aldar um kosti þess að gefa mjög útþynntar lausnir sem meðöl við kvillum og sjúkdómum. Smáskammtalyf eru löguð þannig að lyfiðgegn kvillanum er þynnt með vatni eða öðrum vökva í hlutfallinu 1:10 og lausnin hrist rækilega. Síðan þynnt aftur og aftur og hrist á milli. Á lausnin að verða því áhrifameiri sem hún er þynnri og meira hrist. Endanleg lausn er því að mestu vatn, en smáskammtalæknar fullyrða að hún hafi samt mikinn lækningamátt. Ekki vísindalega viðurkenndar lækningar. Sjá hómópati.
Smáskeina / Smáskráma / Smáskursl (n, kvk) Lítið sár; skinnspretta; lítið skursl. „Þetta er bara smáskeina sem grær fljótt“. „Það er óþarfi að búa um svona smáskursl“. „Þetta var angann ekkert; bara smáskeina“.
Smáskiki / Smáskækill (n, kk) Lítið svæði; smáblettur.
Smáskitirí / Smáskita / Smáskítti / Smáskítur (n, kk) Lítið; óverulegt; eftirhreytur; sparðatíningur. „Þessi smáskita af salti dugir alls ekki í þetta mikið af hrognum“. „Það er bara einhver smáskítur eftir“. „Það tekur því ekki að setja þetta smáskítti á heyvagn, ég set það í galta“.
Smáskrýtinn (l) Ruglaður; öðruvísi en aðrir í hugsun. „Sumir segja að hann sé smáskrýtinn“.
Smáskurfa (n, kvk) Lítið sár; hrufl. „Þetta er ekki neitt; bara smáskurfa“.
Smáskækill (n, kk) Lítill blettur; lítið stykki. „Það er varla hægt að kalla þennan smáskækil tún“.
Smáslatti (n, kk) Lítill skammtur; óvera; lítið magn. „Ég fékk hjá honum smáslatta af maurasýru“.
Smásmíði (n, kvk) Lítill smíðisgripur. Oftast notað í neitunarsetningu: „Þetta er engin smásmíði“.
Smásmuga (n, kvk) Nirfill; aðhaldssamur maður. „Hann var engin smásmuga í jólagjöfum þetta árið“.
Smásmugulegheit (n, hk, fto) Smámunasemi; níska. „Vertu nú ekki með þessi smásmugulegheit“.
Smásopi (n, kk) Lítill sopi/slurkur. „Mikið væri nú hressanndi að fá smásopa af kaldri sýrublöndu“.
Smáspónn (n, kk) Lítil skei, notað sem magnlýsing. „Gefðu mér smáspón í viðbót af grautnum“.
Smásprek / Smáspýta (n, hk/kvk) Spýtubútur; kubbur. „Smáspreki var safnað í hrúgu hjá þvottapottinum“.
Smáspræna (n, kvk) Vatnslítill lækur; sytra. „Utanvert er smáspræna sem heitir Helgulind“ (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).
Smástallur (n, kk) Lítil hilla/ mjórg gangur í klettum. „Upp af Þorsteinshvammi eru smástallar ofan við veginn, neðan aðalklettanna...“ (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).
Smástreymi / Smástraumur (n, kk) Minni sveifla sjávarfalla vegna afstöðu tungls, jarðar og sólar. „Það veiðist oft minna í smástrauminn en í stórstraum, en oft koma nýjar göngur með stækkandi straumi“. „Í smástraum var þessi þykka sýra við botn tunnnnar, en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Smástreymt (l) Minni sjávarfallaseifla; smástreymi. „Háfjara í Kollsvík er um kl 9.00 í smástreymi“.
Smástund (n, kvk) Stuttur tími; stundarkorn. „Ég kem aftur efit smástund“.
Smátaddi (n, kk) Lítill poki; pokaskjatti. „Farðu nú fyrir mig í kistuna og sæktu smátadda af ullartjásum sem ég á þar“.
Smátittur (n, kk) A. Lítill nabbi/nagli/stautur. B. Smáfiskur; kóð. „Við erum ekkert að hanga yfir svona smátittum; við skulum kippa aðeins dýpra“.
Smátínast (s) Koma smám saman. „Féð er að smátínast niður undan snjónum“.
Smátt er betra en ekki neitt (orðatiltæki) Oftast er betra að hafa eitthvað en ekkert; lítið er betra en ekkert.
Smátt er (nú) skammtað smérið / Smátt þykir mér skammtað smérið (orðatiltæki) Viðhaft þegar einhverjum finnst hann bera skarðan hlut frá borði/ vera afskiptur. „Ætla þeir ekkert að setja meira fé í þessar vegnefnur; ja, skammt þykir skammtað smérið núna“!
Smátt og smátt (orðtak) Smám saman; með tíð og tíma; með hægðinni. „Hann var í fyrstu alveg gáttaður, en smátt og smátt fór rann það upp fyrir honum að þetta væri bara grín“.
Smátugga (n, kvk) Lítil tugga/visk af heyi. „Það þyrfti kannski að kasta einhverri smátuggu í féð, þó það hafi örugglega fengið þokkalega í sig úti“.
Smátækur (l) Tekur lítið/smátt í einu. „Hann hefur ekki verið smátækur með saltið“!
Smáufsi (n, kk) Lítill ufsi. „Þarna var ekkert annað en kolvitlaus smáufsi, sem stóð á hverjum krók“!
Smávatn (n, hk) Lítið stöðuvatn; pollur. Smávötn nefnast nokkrar dældir í Vatnadal; milli Stóravatns og Litlavatns, en í þeim situr vatn í leysingum og mikilli rigningatíð. Þar er frostgígamyndun.
Smávaxinn (l) Lítill/smár vexti. „Hann var fremur smávaxinn en kvikur og duglegur“.
Smáviðvik (n, hk) Lítilsháttar greiði/aðstoð. „Mig langar að biðja þig um smáviðvik“.
Smávægilegt (l) Lítilsháttar; óverulegt. „Við lentum í smávægilegu óhappi“.
Smáyfirsjón (n, kvk) Dálítil mistök; glappaskot. „Þetta var bara smáyfirsjón hjá honum, og engum til tjóns“.
Smáylgja (n, kvk) Dálítill sjór/veltingur. „Það er smáylgja hérna í Röstinni, en annars er pollslétt“.
Smáþræðingur (n, kk) Lítil hilla í bjargi/klettum. „Ýmsir gangar og smáþræðingar eru ofanvið Stíg (í Keflavíkurbjargi) en flestir nafnlausir“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Smáþægur (l) Nægjusamur; látur sér lítið nægja. „Börnin eru smáþæg á ungaaldri“.
Smeðjulegur (l) Væminn; óeðlilega vingjarnlegur/fláttlegur/undirgefinn; óhóflega kurteis á yfirborði.
Smekkfullur (l) Kjaftfullur, barmafullur. „Eftir storminn voru strengirnir á Bótinni ýmist samansúrraðir eða svo smekkfullir af þaraskít að netið flengrifnaði í drætti“.
Smekklaus (l) A. Um mann; þykir ekki hafa góðan smekk; er ekki fær um að dæma um fegurðargildi/stíl. B. Ruddafenginn; ófínn. „Heldur fannst henni þetta smekklaust af honum“.
Smekklegt (l) Áferðarfallegt; vel útlítandi. „Ekki finnst mér þetta smekklegur litur á húsinu“.
Smekkmanneskja (n, kvk) Sú sem er smekkvís/ gerir hluti áferðarfallega að mati annarra.
Smekkur (n, kk) A. Tilfinning/álit/skoðun vegna útlits/stíls/fegurðar hluta, t.d. klæðnaðar, húsgagna o.fl. „Þetta er alveg nógu fínt fyrir minn smekk“. B. Lítil svunta sem höfð er á brjósti ungbarna til að taka við slefi eða matarleifum þegar þau matast.
Smekkvís (l) Hefur góðan smekk; kann að meta það sem fallegt er.
Smella (n, kvk) Hvaðeina sem smellur saman eða gefur frá sér hvellt hljóð. Oftast notað um festingu á fatnaði, t.d. buxnaloku, þar sem tveimur hlutum er þrýst saman svo festist.
Smella (s) A. Skella; hrökkva; mætast. Oft með hvellu hljóði. „Steinninn small niður stutt frá okkur“. „Hurðin small í lás“. Beygist smella-small-smullum-smollið. B. Búa til hvellt hljóð; láta hrökkva. „Ég hrökk við þegar hann smellti fingrum“. „Þú hefur gleymt að smella buxnalokunni“. Beygist smella-smellti-smelltum-smellt.
Smella af (orðtak) Um myndatöku; taka mynd með myndavél.
Smellikveikja (n, kvk) Magnettukveikja; magnetta; segulkveikja. Kveikja sprengihreyfils sem ekki byggir á lágspennurás, heldur framleiðir vélin rafpúls með segli (oftast á svinghjólinu) sem fer hjá spólu. Rafpúlsinn er magnaður upp í sérstökum spenni á kveikjunni, og leiddur í kertið, þar sem hann veldur neista. Smellikveikjur voru oft vandræðagripir og óáreiðanlegar; þurfti oft að skrifa þeim til og þurrka kerfið.
Smellinn (l) Sniðugur; klókur; hnyttinn. „Hann er stundum smellinn í orðalagi“.
Smellkoss (n, kk) Koss með stút á vörum og smellhljóði. Fram eftir 20. öldinni, eða allt þar til bílvegir gerðu mannamót að hversdaglslegum viðburði, voru kossar mun meira viðhafðir en nú er. Heimilisfólk bauð hvert öðru góðan dag og góða nótt með kossi; fólk þakkaði fyrir mat og gjafir með kossi og kysst var þegar farið var á sjóinn; í bjarg eða í annað ferðalag. Gestum var alltaf fagnað með kossi, og oft innilegu faðmlagi líka ef um kunningja eða ættingja var að ræða. Nokkur tími fór í það á innansveitarsamkomum að fara um og heilsa; oft með kossi. Oftast var um að ræða smellkoss á vanga. Slíkir siðir hafa mikist til vikið; fyrst fyrir handabandi og svo fyrir stuttu ávarpsorði. Enn á 21.öld halda þó sumir Kollsvíkingar í þann gamla sið að heilsa nánum skyldmennum með kossi við gestakomur.
Smelltur (l) Sem er smellt saman. „Blússan er smellt að aftan“.
Smellur (n, kk) Hvellur/snöggur hávaði; skellur. „Smellur heyrðist, en skotið hljóp ekki af“.
Smelt (n, hk) Glerungur; skraut með glerungi.
Smelta (s) Gæluorð/sletta um að bræða. „Ég er að smelta feitina“.
Smergel (n, hk) Tæki/áhald til að sverfa/raspa járn. Oftast notað um slípivél með harðkornóttum kringlóttum steini sem snúið er hratt í gíraðri vél sem fest er á borð. Járnið er borið að steininum og sorfið; oftast með miklu neistaflugi. Einnig notað um smergelpappír.
Smergelmaskína / Smeregelskífa / Smergelhjól ( n, kvk/hk) Smergel; vél til að sverfa/slípa/raspa járn eða önnur efni. „Snúðu aðeins smergelmaskínunni fyrir mig, meðan ég brýni hnífinn“.
Smergelpappír (n, kk) Pappír, oft úr ofnu efni, með áföstu lagi af kornuðu slípiefni/karbít, notaður til að raspa/slípa járn eða annað efni.
Smetti (n, hk) Gæluheiti á andliti; fés. „Farðu nú og þvoðu á þér smettið áður en þú ferð að borða“.
Smeygja (s) Smokka; smokra. „Mér tókst að smeygja mér innum hellismunnan, þó þröngur væri“.
Smeygur (n, kk) Hólkur/lykkja sem smeygt er utanum eitthvað.
Smeykur (l) Hræddur. „Nú varstu smeykur góurinn“ (MG; Látrabjarg).
Smér (n, hk) Smjör. Var yfirleitt framborið og ritað þannig af innfæddum í Rauðasandshreppi. Þjóðtrúin segir að ekki megi éta smér við hangiketi því þá verði maður aldrei jarðeigandi. ( JÁ; Þjs). Sjá smjör.
Smérbiti / Smérflís / Smérstykki / Smérklessa / Smérögn (n, kk/hk/kvk) Biti/stykki/klessa/ögn af sméri/smjöri.
Smérdallur / Smérdiskur / Smérkúpa / Smérskál / Smértunna (n, kk/kvk) Ílát sem smér/smjör er geymt í. „Réttu mér smérdallinn“.
Smérfjórðungur (n, kk) Mælieining smjérs/smjörs. Sjá fjórðungur.
Smérgerð (n, kvk) Framleiðsla smérs/smjörs með strokkun rjóma.
Smérhellir (n, kk) Hellir þar sem smér var geymt fyrrum. Hellir með því örnefni er heimantil í Hnífum; rétt neðanvið brún. Í lágunum ofan hans voru nokkrir stekkir. Líklegt er talið að hellirinn dragi nafn af því að þar hafi verið geymt smjör, enda hefur hann verið besta kæligeymsla sem völ er á. Það sést best á því að í honum er oft hjarnskafl langt frameftir sumri þó snjór sé horfinn til fjalla.
Smérhnífur (n, kk) Hnífur til að skera smjör/ smyrja smjöri. „Hananú; datt smérhnífurinn í gólfið“!
Smérklípa (n, kvk) Lítill skammtur af sméri/smjöri; það sem klipið/skorið er af smérstykki til þess t.d. að smyrja brauðsneið. „Gefðu mér smá smérklípu ofaná sneiðina“.
Smérlaus / Smérlítill (l) Vantar smér/smjör. „Nú er bágt ástandið; ég er að verða smérlaus“!
Smérlíki (n, hk) Smjörlíki; margarín.
Smérpappír (n, kk) Pappír úr stinnu, hálfgegnsæju og vatnsfælnu efni, sem notaður er m.a. utanum smér/smjör og við bakstur.
Smérsalt (n, hk) Mjög fínmalað salt, sem notað er m.a. til söltunar á smjöri, hrognum o.fl.
Smiðja (n, kvk) A. Upprunaleg merking orðsins er svipuð og afl; þ.e. eldstæði sem notað er til að hita og vinna járn. Ná þarf miklum hita til að járn verði glóandi og vinnanlegt og er til þess bæði notað mjög hitagæft eldsneyti, s.s. viðarkol, og aukið súrefni með blæstri. Smiðjan er bæði notuð við járnvinnslu úr hráefni, þ.e. rauðablástur, og til að lina járn svo forma megi það með t.d. hamri á steðja. Á síðari tímum hafa rafdrifnar lofttælur tekið við hlutverki handknúins fýsibelgs og smiðjur eru oftast úr járni í stað steins fyrrum. Sjá rauðablástur. B. Hús þar sem málmsmíði/járnvinnsla fer fram, auk tækja sem þar eru. Smiðjur voru við flesta bæi meðan bændur þurftu að vera sjálfbjarga með t.d. dengingu ljáa sinna. Enn má sjá leifar af smiðjutóttinni á Grundum.
Smiðjubelgur (n, kk) Fýsibelgur sem notaður er til að auka hita í smiðju.
Smiðjuleir / Smiðjumór (n, kk) Deiglumór; leir sem t.d. kemur af móhellu eða hleðst upp við notkun hverfisteins. Smiðjumór var notaður t.d. við málmbræðslu; til að þétta eða forma steypumót.
Smiðjutótt (n, kvk) Veggir af smiðju. Smiðja var við hvern bæ áður, enda þurftu menn að vinna alla hluti sjálfir. Mikilvægt var t.d. að geta smíðað amboð; dengt ljái og útbúið sér veiðarfæri. Eina smiðjutóttin sem nú sést í Kollsvík er norðasta tóttin á Grundum. Þar hafði síðast smiðju Grímur Árnason. Ekkert er vitað hvar stóð smiðja Einars Jónssonar í Kollsvík, sem síðastur stundaði rauðablástur á Íslandi.
Smiðsauga (n, hk) Auga/smekkur fyrir góðri smíði; hæfni til að meta gæði smíðaðs hlutar eða hvernig skuli standa að smíði hluta.
Smiðshögg (n, hk) Sjá reka smiðshöggið á.
Smiðslega (ao) Laglega; líkt og hjá góðum smið. „Ekki finnst mér þetta nú smiðslega gert“.
Smiður (n, kk) A. Sá sem fæst við smiðar; meistari í smíðum. B. Dökkt litarafbrigði fýls/múkka. Sést stöku sinnum í Kollsvík og víðar. Líkingin stafar af því að járnsmiðir urðu gjarnan sótugir við vinnu sína. C. Skordýrategundir; t.d. járnsmiður og gullsmiður. Dökkar að lit eins og sótugir smiðir.
Smit (n, hk) A. Það þegar smitsjúkdómar berast milli manna/lífvera. B. Lítilsháttar leki úr íláti eða pípulögn; síun frá rökum/fitukenndum hlut yfir í annan þurrari.
Smita (s) A. Bera út smitsótt; verða til þess að annar fær veiki sem maður er sjálfur með. B. Leka lítillega. C. Um raka/fitu; færast frá einum hlut til annars með t.d. osmósu, hárpípukrafti.
Smitandi (l) Um sótt/veiki/pest; flyst auðveldlega milli einstaklinga.
Smitpest / Smitpestarfjandi (n, kvk/kk) Smitandi veiki; umgangspest. „Þessi smitpest er víst að ganga“. „Nú er ég líkasttil kominn með þennan smitpestarfjanda“.
Smitulogn (n, hk) Blankalogn eins langt og eygt verður. „Við fáum smitulogn alla leið“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). Orðið finnst ekki í orðabókum og er ekki algengt vestra nú á dögum.
Smíð / Smíði (n, kvk) Smíðisgripur. „Kofinn er nú ekki vönduð smíð, en hann dugir mér“. Smíði getur einnig merkt verknaðinn að smíða.
Smíða (s) A. Búa til hlut/smíðisgrip með hentugu vinnulagi og oftast áhöldum. B. Berja. „Hrúturinn hefur eitthvað verið að smíða stíuna sína“. C. Skálda/ spinna upp.
Smíða negluna á undan bátnum (orðtak) Byrja ekki rétt á verki; fara framúr sér í skipulagningu.
Smíða (utan) um (manneskju) (orðtak) Smíða einhverjum líkkistu. „Þegar ég var búinn að smíða um manneskjurnar sem fórust, komst ég með naumindum heim til mín og lagðist“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). „Svo var smíðað utan um hann og svo var hann fluttur yfir fjörð að Sauðlauksdal og jarðaður þar“ (JVJ; Nokkrir æviþættir).
Smíða upp / Gera upp (orðtök) Endurnýja smíðisgrip/hús/bát. „Fönix mun upphaflega hafa verið sexæringur, en smíðaður upp og stækkaður af Sturla Einarssyni bónda í Vatnsdal; Einarssonar bónda á Hnjóti“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Smíðaaðferð (n, kvk) Aðferð/lag við smíðar.
Smíðaáhald / Smíðatól / Smíðaverkfæri (n, hk) Áhald/verkfæri til smíða.
Smíðajárn (n, hk) Járn sem hentat til að smíða úr.
Smíðakoffort (n, hk) Koffort sem í eru geymd verkfæri og smíðatól. „Erlendur á Hvallátrum sendi einn af vinnumönnum sínum eftir smíðakoffortinu. Hann hét Gestur Jósepsson, og var síðar þurrabúðarmaður í Kollsvík (að Gestarmel) “ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Smíðakol (n, hk, fto) Kol sem henta til járnsmíða; viðarkol.
Smíðar (n, kvk, fto) Gerð muna og húsa. „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar. Jón Torfason afi minn smíðaði flest ílát í sveitinni. það voru glettilega fallegir askarnir útskornir. Hornspænir voru hér ekki algengir“ (H.M; Í Kollsv.veri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). „Var í smíðum um vorið og heyskap um sumarið…“ (IG; Æskuminningar).
Smíðatimbur (n, hk) Viður sem nota má til smíða/ ætlaður er til smíða. „Uppi á bitum var geymt smíðatimbur“.
Smíðisgripur (n, kk) Hlutur sem smíðaur hefur verið. „Þetta er með fallegri smíðisgripum sem maður sér“!
Smjaðra fyrir (einhverjum) / Smjaðra sig upp við (einhvern) (orðtak) Skjalla/lofa einhvern í óhófi; koma sér í mjúkinn hjá einhverjum.
Smjaðrari (n, kk) Sá sem smjaðrar fyrir öðrum.
Smjaður (n, hk) Skjall; fagurgali; gullhamrar; fleðuslæti. „Mér hefur aldrei verið sýnt um neitt smjaður“.
Smjaðurslegur (l) Sem hefur tilburði til að smjaðra/koma sér í mjúkinn hjá einhverjum. „Skelfing leiðist mér svona smjaðurslegt fólk; sem liggur gjörsamlega flatt fyrir höfðingjaslektinu“!
Smjaðurtunga (n, kvk) Manneskja sem smjaðrar mikið.
Smjatt (n, hk). Myndun munnhljóða með tungusmellum og með opinn munn; stundum við að tyggja.
Smjatta á (orðtak) A. Tyggja lítið af mat til að finna bragðið. B. Afleidd merking: Henda gaman af /halda á lofti slúðri eða mistökum/hrakförum annarra.
Smjúga (s) Komast í gegnum þrengsli; líða um. „Kindin náði að smjúga útum rifuna“.
Smjör (n, hk) Smér; feitmeti, unnið úr rjóma með strokkun. Oftar var talað um smér í Kollsvík áðurfyrr. Smjör var verðmætur gjaldmiðill á tímum vöruskipta fyrri alda, og ríkidæmi var gjarnan mælt í þeim smjörbirgðum sem til voru. Landskuld var gjarnan greidd í smjöri, t.d. af Láganúpi. Smjör er nú talið safnheiti og alltaf í eintölu, en áður var það oft til í fleirtölu: „Leigur (af Hænuvík) betalast í fiski í kaupstað, eður smjörum, peningum uppá danskan taxta og steinbíti heim til eiganda (Halldórs Pálssonar í Selárdal), eður það skemra sem þeim um semur“ (AM/PV Jarðabók).
Smjördallur (n, kk) Ílát fyrir smjör. „Réttu mér smjördallinn þegar þú ert búinn að smyrja“.
Smjörgerð (n, kvk) Gerð/framleiðsla smjörs. Smjör var gert á bæjum í Rauðasandshreppi allt þar til mjólkurbú tók til starfa á Patreksfirði.
Smjörhnútur (n, kk) Galdrastafur; fimmhyrnd stjarna sem rista má í smjör til að kanna hvort það var búið til með göldrum eða sé tilberasmjör. Sé svo hjaðnar smjörið um leið og stafurinn er ristur.
Smjörkaggi (n, kk) Stórt stykki /klumpur af smjöri. „Í byrjun mjólkursamlagsins var smjörið afgreitt til bæjanna í kílóavís, og þá í stórum klumpi sem síðan þurfti að skera niður til að bera á borð“.
Smjörklípa (n, kvk) Lítill skammtur af smjöri. Orðið er líklega frá þeim tíma þegar klipið var úr smjörstykki og því drepið á brauðið með fingrum. Í síðari tíma var orðið notað um lítnn smjörskammt. „Gefðu mér dálitla smjörklípu með lúðubitanum“.
Smjörsýra (n, kvk) A. Karboxýlsýra sem m.a. finnst í jarðvegi, fóðri og saur. Myndast einnig í smjöri. Hún er afurð smjörsýrugerla og af henni er einkennandi lykt; oft nefnd súrheyslykt, enda er slík lykt stundum af illa verkuðu votheyi/súrheyi. Mikil smjörsýrumyndun er talin óæskileg í heyi. B. Smjörsýra er einnig nafn á sljóvgandi efni; gammahydroxybutyrate (GHB) sem upphaflega var þróað sem svæfingalyf en hefur stundum verið notað sem vímugjafi. Það hefur hættulegar aukaverkanir; getur t.d. valdið öndunarstoppi.
Smjörtrog (n, hk) Trog sem smjör er hnoðað í.
Smogið greni / Smogin hola (orðtak) Greni/hola sem tófa hefur greinilega farið um nýlega. Slíkt má t.d. sjá af hárum og förum.
Smokka/smokra framaf sér (orðtak) Ná að koma framaf sér, t.d. helsi, lykkju, yfirhöfn eða öðru. „Kvígunni tókst að smokka framaf sér bandinu og tók sprettinn út í buskann“.
Smokkfiskur (Todarodes sagittadus) Kolkrabbi. Tálbeita fyrir fisk og nýttur til matar. Ekki fer sögum af því að smokkfiskur hafi verið veiddur í Kollsvík. Hann gengur þó iðulega í suðurfirði Vestfjarða á haustin . Heimildir eru um nýtingu á rekasmokk til beitu frá 17.öld og í lok 19.aldar var farið að veiða hann inni á fjörðum á sérstakan öngul.
Smokkfisköngull / Smokköngull (n, kk) Öngull til smokkfiskveiða. Blýsakka með krans af uppsveigðum krókum að neðanverðu. Slíkur öngull var lengi til á Láganúpi, heimasmíðaður og af gamalli gerð.
Smokra sér (orðtak) Smeygja sér. „Kálfinum hafði tekist að smokra sér úr helsinu“.
Smolt (n, hk) Fitubráð sem myndaðist á soði af feitum mat. Einkum notað þegar soðinn var fugl, s.s. máfur eða (áður fyrr) fýlungi. Í seinni tíð notað yfir alla feiti, s.s. bráðna tólg. „Smolt er fuglafeiti. Flotið af fuglunum er fleytt og notað í bræðing. Svo var það líka notað í ull þegar verið var að kemba, til að mýkja hana. Yfirleitt var það samt fótafeiti. Þetta er svolítið svipað; storknaði ekki“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Smotterí (n, hk) Smælki; smámunir. „Þetta er nú svoddan smotterí að tekur því varla að nefna það“.
Smuga (n, kvk) Gat/rifa/hola sem hægt er að smjúga/smeygja um; ranghali; þröngur gangur.
Smurdæla (n, kvk) Áhald til að dæla feiti/koppafeiti á liði véla.
Smurfeiti (n, kvk) Koppafeiti. „Það vantar smurfeiti í feitisdæluna“.
Smurningur (n, kk) Hvers konar feit til að smyrja vélar. Smurningur var áður notað um koppafeiti/smurfeiti, og einnig um vélaolíu. „Hefurðu aðthugað með smurning á traktornum nýlega“‘?
Smyrill (n, kk) Falco columbarius. Lítill fálki af fákungaætt. Íslenski smyrillinn er af undirstofninum Falco columbarius subaesalon verpir hér og á Færeyjum. Smyrill líkist fálka í útliti en er mun minni; 165-295g og að 30cm langur; kvenfuglinn stærri en karlinn. Verpur í klettum en stundum í bröttum brekkum. Farfugl, með vetursetu í vestanverðri Evrópu. Smyrill sést oft í Kollsvík; iðulega þá að eltast við smáfugla, sem eru helsta fæða hans. Hann er bæði hraðfleygur og mjög fimur á flugi.
Smyrja (s) A. Almennt; bera fitu/kvoðu eða annað á yfirborð hlutar. B. Þekja brauðsneið með smjöri. C. Setja smurning á vél til að liðka núningsfleti.
Smyrja þykkt á (orðtak) A. Leggja mikið á vöru til að skapa sér hagnað. B. Skálda mikið utanum söguþráð til að gera sögu áheyrilegri.
Smyrsl / Smyrsli (n, hk) Áburður/salvi sem borinn er á húð eða annað til lækninga.
Smyrslingur / Smyrslingsskel /n, kk/kvk) Mya truncata; sandmiga. Samlokuskel af ættbálki Desmodonta. Litlar egglaga skeljar; gulhvítar að lit; afturendi þverstýfður og framendinn bogadreginn. Algengur umhverfis landið niður að 130m dýpi. Skelin grefur sig niður í botnsetið, en er með tvær langar öndunarpípur sem standa uppúr. Skeljarnar rekur iðulega á fjörur t.d. í Kollsvík.
Smæð (n, kvk) Það að vera smár/lítill/óverulegur. „Maður finnur fyrir smæð sinni við þessar aðstæður“.
Smækka (s) Gera/verða smærri/minni. „Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu“ (PG; Veðmálið).
Smælingi (n, kk) Sá sem er minnimáttar/smár; fátæklingur; almúgamaður. „Það þýðir víst lítið fyrir okkur smælingjana að rífa kjaft þegar þeir stóru ætla sér eitthvað“!
Smælki (n, hk) Smáhlutir;það sem smátt er. A. smáfiskur. „Það þýðir ekkert að vera að hirða svona smælki þegar nóg er af stórfiski“. B. Smáar kartöflur; myr. „Það var lítið undir í þessu beði; tómt smælki“. C. Smár rekaviður; mor; spækjur. „Það má nýta þetta smælki til að reykja við“. D. Smávaxin lömb að hausti. „Ekki veit ég til hvers menn er að sækjast eftir tví- og þrílembingum; þetta er ekkert nema smælkið“! E. Lýs. „Abraham signdi sig ætíð áður en hann fór í skyrtuna, en gluggaði þó ögn í hana áður; uppá smælkið að gera“ (Jochum Eggertsson; Trýnaveður; Því gleymi ég aldrei. Lýsing á verbúðarlífi í Láturdal).
Smölun (n, kvk) A. Almennt um það að safna hlutum saman; söfnun. B. Göngur; það að leita uppi fé og reka það til réttar eða heimatúns.
Smölunardagur (n, kk) Gangnadagur; dagur sem ákveðið er að smala ákveðið svæði.
Smölunarleiðangur (n, kk) Ferðalag til að smala fé. „Við gerðum heilmikinn smölunarleiðangur inná Stíg“.
Snafs (n, kk) Lítill skammtur af vökva, einkum notað um vín.
Snafsa (l) Gefa í smáskömmtum. Mest notað um það þegar settur var skammtur af smurolíu niðuryfir ventla Lister-ljósavélar til að hún þjappaði betur og væri þægari í gang. „Það þarf að snafsa þrisvar sinnum“.
Snag (n, hk) A. Almennt um söfnun á því sem sjaldgæft/strjált er eða erfitt að ná í. B. Eggjataka í mjög strjálu varpi, með snögun. „Ég held að við eyðum ekki tímanum í svona snag þegar nóg er af eggjum rétt hjá“.
Snaga (s) A. Safna/afla þar sem strjált/erfitt er. „Menn snöguðu víða þar sem einhverja græna tuggu var að hafa. Slegið var í Hænuvíkur- og Kollsvíkurtóm; í grasflesjum í klettum og í stórgrýtisurðum“. B. Tína egg í bjargi, þar sem þau eru mjög strjált. „Við fórum svo að snaga þarna um höfðann, en varpið var fremur strjált þetta árið“. „Það er nú komið út í vafasamar æfingar þegar farið er að snaga þarna“.
Snaga eftir eggjum (orðtak) Safna eggjum þar sem strjált er varp, og erfitt aðgöngu.
Snaggaralega (ao) Snöggur upp á lagið; rösklega; fljótt. „Hann svaraði þessu snaggaralega“.
Snaggaralegur (l) Líflegur; hraustlegur; röskur. „Hann er ári snaggaralegur og gæti orðið vel að liði“.
Snaghyrnd (l) A. Með hvassar totur/hyrnur í hornum/endum. „Tungl er orðið fremur framgengið og snaghyrnt“. B. Um hornbalag sauðkindar; með horn sem eru sveigð til hliðar á endum. C. Um öxi; með löng sveigð horn blaðs, svipuð hálfmána.
Snaka (s) Smeygja; smokra. „Það er varla hægt að snaka sér í svo þröngar buxur“. „Snakaðu þér innfyrir“.
Snakillur / Snakvondur (l) Mjög reiður; viðskotaillur; bregst illa við. „Hann varð snakillur þegar þetta var borið upp á hann“. „Það mátti ekki orðinu halla, þá varð hann snakvondur“.
Snakk (n, hk) Kjaftæði; málæði, bull. „Nú er ég búinn að halda ykkur uppi á snakki of lengi og mál að fara“.
Snakka við (orðtak) Tala/ræða við. „Nú má ég ekki vera að því að snakka við þig mikið lengur“.
Snap (n, hk) Lítilfjörleg beit fyrir fé. „Það hafði einhver snöp í fjörunni en þarf samt verulega gjöf“.
Snapa (s) Leita; safna. „Tófan hefur farið hér um fjöruna í nótt að snapa sér æti“. Notað um fé; „það hefur lítð að snapa þegar svona skari er á jörð“. Orðið „snufsa“, um það sama, var ekki notað í Kollsvík. Sjá snöp.
Snapa saman (orðtak) Tína saman; hafa uppá og halda saman; útega. „Honum tókst að snapa saman nægu fé til að kaupa bátinn“.
Snapa sér (orðtak) A. Um fé; finna sér beit; geta bitið smávegis. B. Um mann; finna sér það sem með þarf. „Mér tókst að snapa mér nokkrar heimildir um þetta“.
Snaphagi (n, kk) Dálítil beit í úthaga; snöp. „Féð kemst þarna í dálítinn snaphaga, auk þess að vatna sér“.
Snapróður (n, kk) Róður sem lítið hefur fiskast í. „Þetta var nú hálfgerður snapróður hjá okkur í dag“.
Snar (l) A. Fljótur; snöggur; lipur. „Vertu nú snar og hlauptu í veg fyrir árans túnrolluna þarna“. B. Stytting úr snarvitlaus/snargeggjaður. „Ertu alveg snar“? C. Forskeyti margra orða til áhersluauka, s.s. snarvitlaus.
Snar í snúningum (orðtak) Fljótur; bregða fljótt við. „Þú ert svo snar í snúningum; skjóstu nú og víktu henni framfyrir girðinguna“.
Snar þáttur í (einhverju) (orðtak) Mikilvægur/stór hluti af einhverju. „Trú og helgihald var snar þáttur í lífi landsmanna fyrr á öldum“.
Snara (n, kvk) Lykkja sem kastað/fest er um háls t.d. veiðibráðar sem á að ná eða manns sem á að hengja.
Snara (s) A. Kasta snöru yfir eitthvað. B. Vinda/bregða. „Hann snaraði skrokknum upp á fláningsborðið“. C. Þýða tungumál. „Gunnar snaraði tékkneskunni yfir á íslensku“. D. Loka húsi með snara. „Hallaðu dyrunum og snaraðu þær“.
Snaraður (l) A. Um hurð; lokuð með snara. „Farðu nú hinumegin og opnaðu garðahurðina; hún er snöruð að innanverðu“. B. Um fugl; veiddur með snöru. „Snaraður fugl var dreginn upp í kippum“.
Snarast (s) A. Um manneskju; skreppa; hlaupa; bregða við. „Snarist þið nú upp á Hóla og víkið þessum túnrollum útfyrir“. B. Um vegg eða annan hlut; hallast mikið; hrynja vegna halla/missigs.
Snarauka (orðtak) A. Bæta verulega/fljótt við. B. Rífa upp sjó; brima. „Hann er að snarauka af vestan“!
Snaraukast (s) Aukast mjög mikið/ mjög fljótt. „Brimið hefur snaraukist frá því í morgun“.
Snarbatna (s) Batna/lagast mjög fljótt. „Veðrið hefur snarbatnað síðan í morgun“.
Snarbeygja (s) Taka krappa beygju/stefnubreytingu. „Við Þúfustekk snarbeygir brúnin til austurs…“ (HÖ; Fjaran).
Snarbilaður / Snargeggjaður / Snarbrjálaður / Snarvitlaus (l) Kolvitlaus; brjálaður; tröllheimskur. „Ertu alveg snarbilaður; þú stefnir beint á boðann“! „Þetta uppátæki ríkisins er alveg snargeggjað“. „Það þýðir ekkert að verða snarvitlaus þó strengurinn hafi verið skorinn. Þú vandar þig betur næst við lagninguna“.
Snarbirta (s) Birta skyndilega í lofti; birta snögglega til. „Nú sýnist mér hann vera að snarbirta til; meira að segja farið að glaðna fyrir sól“. „Það snarbirti í lofti þegar við komum suðurá Víkina“.
Snarbratt (l) Um landslag; mjög bratt; nær þverhnípt. „Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum. Það hey þurfti að bera á bakinu um snarbratta hryggi, með hengiflug fyrir ofan og neðan“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Snarbrjálað/Snarvitlaust veður (orðtak) Ofsaveður; mjög slæmt veður. Oft með viðeigandi blótsyrði.
Snardýpka (s) Dýpka mjög mikið á litlu svæði. „Undan Háanesinu er marbakki þar sem snardýpkar“. „Já, hér er flágrynni; landgrunninu hallar afarhægt. Hér snardýpkar ekki fyrr en við Víkurál, sem er um 9 stunda ferð frá Patreksfirði“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Snargalinn / Snargeggjaður (l) Vitskertur; mjög heimskur. Oftast þó í líkingamáli.
Snargarður (n, kk) Þéttrúllaður vöndull. „Netin höfðu öll rúllast upp í snargarð í þessum sjógangi“.
Snargrynna (s) Grynna mjög hratt; marbakki/brimstallur/kantur. „Talsvert dýpi er í um 80 – 100 metra fjarlægð frá landi um flóð, en þar snargrynnir á hleinarbrún sem kemur upp um hverja fjöru“ (KJK; Kollsvíkurver).
Snarhalda kjafti / Snarhalda sér saman (orðtök) Steinþegja. „Ég held að sá bullustrokkur ætti að snarhalda kjafti; alltaf sami slúðurberinn“! „Nú skulum við snarhalda okkur saman; þarna kemur hann sjálfur“!
Snarhalla (s) Halla mikið/skyndilega.
Snarhast / Snarhending (n, hk/kvk) Mikill flýtir; asi; hvellur. „Við drógum strenginn í snarhasti og drifum okkur í land“.
Snarhasta (s) Kalla mjög mikið að; vera brýnt. „Það snarhastar nú ekkert að svara svona vitleysu“.
Snarhvessa (s) Hvessa skyndilega; rífa sig upp; bæta mjög í (vind); ganga upp. „Hann snarhvessti með morgninum, og um hádegi var komið hífandi rok“.
Snarhyrnd (l) Um hornalag sauðkindar; horn aftursveigð í krappan hring.
Snarhægja / Snarlygna / Snarlægja (s) Um vind; lægja/hægja mjög skyndilega; detta niður; detta í dúnalogn. „Það snarhægði um leið og stytti upp“. „Mér finnst vindinn hafa snarlægt á stuttum tíma“.
Snarhækka (s) Hækka mjög ört/skyndilega. „Áburðurinn hefur snarhækkað í verði“. Við Undirhlíðarnef snarhækka sjávarklettarnir, en lækka aftur utar; nærri Hnífaflögu“.
Snarhætta (s) Hætta skyndilega. „Viltu snarhætta þessu fikti með eldinn drengur“!
Snari (n, kk) A. Snerill; tréfleygur innan á dyrakarmi sem unnt er að snúa og læsa þannig dyrum innanfrá. Þannig læsing var yfirleitt innan á fjárhúskörmum, en að utan var oft lokað með hespu eða bandi. B. Úrsnari; áhald til að hefla innan úr borgati svo að í grópið félli haus á undirsinkaðri tréskrúfu.
Snark (n, hk) Lágir brestir, t.d. í brennandi viði.
Snarka (s) Heyrast snark. „Fljótlega fór að snarka líflega í eldstæðinu“. „Steikin snarkar á pönnunni“.
Snarl (n, hk) Léttur matverður; skyndibiti. „Ég át svo vel í hádeginu að ég fékk mér bara snarl um kvöldið“.
Snarla (s) Borða léttan mat/skyndibita/snarl. „Við gáfum okkur örlítinn tíma til að snarla“.
Snarla sér (orðtak) Fá sér snarl; fá sér lítilsháttar að borða/ í svanginn. „Viltu ekki snarla þér eitthvað“?
Snarlagast (s) Batna/lagast mjög mikið/skyndilega. „Veðrið hefur snarlagast; ætli maður fari ekki að sýna fénu eitthvað út“.
Snarlega (l) Fljótt; brátt. „Ef einhver hænan er veik eða meidd ráðast hinar oftast á hana og eiga til að drepa hana snarlega“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).
Snarlétta til/þokunni (orðtak) Birta skyndilega upp él/snjókomu/rigningu/þoku; glaðna skyndilega til. „Hann er að snarlétta þokunni. Ansi hefur okkur rekið langt norður á Flóann“!
Snarminnka (l) Minnka mjög mikið/hratt.
Snarpheitt (l) Mjög heitt; sjóðheitt. „Varðaðu þig á kaffinu; það er snarpheitt“.
Snarpur (l) A. Hrjúfur/hvass/beittur/bitur/kaldur/heitur viðkomu. B. Ákafur; öflugur; hraustur; öflugur. „Eftir snarpa glímu stóð hann uppi sem sigurvegari“. „Hann gekk í snarpa norðanátt“. „…er við fórum að huga að sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst, og er farið að leggja snarpar vindhviður á sjóinn“ (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).
Snarráður (l) Ráðagóður; snjall; fljótur að hugsa. „Þarna varstu snarráður“!
Snarrót / Snarrótarpuntur (n, kk) Deschamsia cespitosa; stórvaxin grastegund sem algeng er um allt land; einkum í gömlum túnum sem komin eru í órækt; í graslendi, móum og holtum frá láglendi að 700m hæð. Jurtin getur orðið meira en metri að hæð við bestu aðstæður, en er oft um 40-50cm. Punturinn er langur og mjög ljósbrúnn eða fjólubláleitur; blómgast í júní-júlí. Blöðin eru um 2cm á breidd; mjög snörp og skarprifjuð; slíðurhimnur efstu blaða um 5cm langar. Snarrótarpuntur þykir illgresi í túnum, þar sem hann er þúfumyndandi og fóðurrýr. Þykir vottur um órækt í túnum.
Snarruglaður (l) Kolruglaður; alveg ringlaður; geðveikur; áttaviltur. „Maður getur orðið snarruglaður í svona tippingi og áttleysu, þegar hvergi sér til lands“.
Snarræði (n, hk) Skjót úttæði; snör hugsun/aðgerð til bjargar. „Um leið og Árni sagði þetta vék hann bátnum, og með snarræði tókst honum að mestu að forðast brotið“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Snarsnúa (s) Venda snarlega; snúa snöggt. „Árni snarsneri bátnum, svo við hrukkum við“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Snarstansa / Snarstoppa / Snarstöðvast (s) Soppa/stöðva skyndilega. „Kindin snarstoppaði fyrst þegar ég hóaði; svo tók hún á rás“.
Snarstytta upp (orðtak) Hætta skyndilega að rigna/snjóa. „Hann snarstytti upp þegar ég var kominn í regnkápuna“.
Snarsundla / Snarsvima (s) Sundla/svima mikið og skyndilega; verða skyndilega ringlaður/lofthræddur.
Snarvenda (n, kvk) Sérstök gerð vélar. Breyta má snúningsátt snarvendu í einu vetfangi, frá áfram í afturábak.
Snarvenda (s) A. Breyta snúningsátt á snarvendu. B. Skipta skyndilega um skoðun. „Það má alveg segja að ég hafi snarvent í þessu máli; eftir að hafa heyrt rökin með og á móti“.
Snarversna (s) Versna mjög mikið/hratt; versna til mikilla muna. „Veðrið er að snarversna allt í einu; ég fer bara að láta féð inn“.
Snarvitlaus (l) Um mann; kolvitlaus; brálaður; yfirmáta heimskur. B Um skepnu; ljónstygg.
Snarvitlaust veður (orðtak) Kolbrjálað veður; aftakaveður; mjög vont veður. „Þú ferð ekki að leggja af stað í svona snarvitlausu veðri; bíddu heldur þar til fer að lægja“.
Snarvöndull (n, kk) Bragð sem sett var t.d. utanum stór rekatré til að ná þeim undan sjó. Þá var annar endi tógsins settur fastur á hæl eða haldið við hann; vaðnum brugðið einn eða tvo hringi utanum bolinn og þá reyndist létt fyrir einn eða tvo að toga í hinn endann og velta þannig trénu uppúr fjörunni.
Snasa (s) Snuðra; þefa; bragða á. „Þrílemban er kannski að lagast af átleysinu; hún er farin að snasa í heyið“.
Snasla (s) Borða/éta í litlu magni; narta í; kroppa; bíta. „Féð er eitthvað að snasla í þennan rudda, en þetta er fjári lélegt fóður“.
Snata / Snata saman (s/orðtak) Safna saman; skrapa saman; nurla. „Honum tókst að snata saman einhverjum aurum til að greiða uppí skuldina“.
Snata í (orðtak) Hnýsast í; snuðra. „Ég hef aðeins verið að snata í þessi gömlu skjöl“.
Snata í sig (orðtak) Borða; narta í; nasla. „Reyndu nú að snata einhverju í þig af þessu“.
Snati (n, kk) A. Gæluorð um hund. B. Niðrandi heiti á manni sem þykir öðrum undirgefinn.
Snatt (n, hk) Smávægilegur erindarekstur; útréttingar; snúningar.
Snatta / Snattast (s) Snúast; fara í snúninga/snatt; útrétta. „Það fer ótrúlega mikill tími í að snatta í þessum kaupstaðarferðum“.
Snautlega (l) Fátæklega; lítilfjörlega. „Ferðalagið endaði fremur snautlega þegar bíllinn bilaði“.
Snautlegur (l) Ómerkilegur; skammarlegur; hlægilegur; kjánalegur. „Hann fékk heldur snautlega útreið“!
Snauður (l) Fátækur; allslaus.
Snauta / Snáfa (s) Hypja sig; lúffa; hverfa á braut.
Snáði (n, kk) Stubbur; stúfur; lítill drengur. „Sko litla snáðann; farinn að standa á eigin fótum“!
Snápur (n, kk) Þrjótur; auli; þorpari; ómerkilegur maður.
Snefilefni (n, hk, fto) Efni sem eru nauðsynleg í litlu magni, t.d. til viðhalds lífi og góðri heilsu.
Snefill (n, kk) Ögn; arða. „Það er ekki snefill af snjó eftir á Hálsinum“.
Snefsinn (l) Hryssingslegur; hvassyrtur. „Karlinn var viðskotaillur og snefsinn þegar yrt var á hann“. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Snefsni (n, kvk) Hryssingur í viðmóti; hvatyrði; steytingur. „Karlinn sýndi þeim bara snefsni og óvild“.
Snegla (n, kvk) Sá/sú sem er harðvítug/erfið/stygg viðureignar. Iðulega ærnafn í seinni tíð.
Sneið (n, kvk) A. Fleða/afskurður af brauði/keti eða öðru. B. Skens. „Skyldi hann hafa skilið sneiðina“?
Sneiða (s) Fleða; skera sneið af. „Búið var að seniða lundabaggann niður“.
Sneiða að/nærri (orðtök) Gagnrýna; ásaka; vega að; vera með getsakir um; höggva nærri; skensa; lítilsvirða. „Honum þótti að sér sneitt með þessari athugasemd“. „Það er varla hægt að ræða þetta nema að sneiða nærri sumum þingmönnum“. Líklega dregið af því að þegar stykki er sneitt niður geta fingur orðið í hættu.
Sneiða fyrir / Sneiða hjá (orðtak) Fara í kringum. „Fyrrum reyndu sjómenn að sneiða hjá því að nefna fiskinn réttu nafni á sjónum; það gat boðað fiskileysi“. Líklega dregið af því að forðast bein eða annað þegar matur var sneiddur niður. Oft áður „sneiða sig hjá“, en það er nú aflagt.
Sneiða sig upp/niður (orðtök) Fara í krákustígum/sneiðingum upp/niður. „Það má sneiða sig þarna upp klettaslefrurnar ef varlega er farið“.
Sneiðast um (orðtak) Skerðast um; skorta; verða lítið um. „Það er farið að sneiðast um saltið“. Líklega dregið af því að það stykki minnkar sem af er sneitt.
Sneiðing (n, kvk) Eyrnamark á sauðfé. Broddurinn skorinn af eyranu og á ská framávið eða afturávið, eftir því hvort er „sneitt framan“ eða „sneitt aftan“. Sé skorin rifa niður úr sneiðingunni heitir það mark sneiðrifa.
Sneiðingur (n, kk) Vegskering í fjallshlíð. „Sneiðingurinn í Hæðinni“.
Sneiðyrði (n, hk) Háðsglósur; sneið í orðum. „Hann tók þessi sneiðyrði dálítið nærri sér“.
Sneiðrifa / Sneiðrifað (n, kvk/ l) Eyrnamark á sauðfé. Fyrst er broddur skorinn skáhallt af eyranu, en síðan er gerð dálítil rifa ofaní miðja sneiðinguna og þvert á hana.
Sneis (n, kk) Fornt heiti á tollu/ræði á bát. Lifir í orðinu sneisafullur.
Sneisafullur (l) Alveg fullur; barmafullur; troðinn. „Votheysgryfjan er orðin sneisafull“. Sneis mun merkja pinni eða prik. Nafnið sneis var forðum haft yfir tollur/ræði á bár, og er merking orðsins því hin sama og „borðstokkafullur“. Einnig mun sneis hafa verið notað um pinna til að loka sláturkepp.
Sneisafylla (s) Fleytifylla; troðfylla; fylla alveg. „Við vorum fljótir að sneisafylla þau fáu ílát sem við höfðum“.
Sneisafylltur (l) Fleytifylltur; troðfylltur. „Hjólbörurnar voru sneisafylltar af eldivið og kjagað með þær upp að Hesthúsi“.
Sneitt (l) Eyrnamark á sauðfé. Sjá sneiðing.
Snekkja (n, kvk) A. Skip. Var forðum haft yfir langskip og önnur herskip, en merkir nú einkum lystiskip. B. Gírbúnaður; snigildrif.
Snekkjudrif / Snigildrif (n, hk) Gírbúnaður, þannig að snigill snýr hjóli. Mikil niðurfærsla á hraða.
Snemma á ferðinni (orðtak) Fyrr gert/mætt en áætlað var eða búast mætti við. „Og það snemma er hann á ferðinni að hann fær vélamann frá Danmörku til að annast viðhald vélanna“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). Sjá snemma í því.
Snemma beygist krókurinn (til þess sem verða vill) (orðatiltæki) Snemma kemur rétt eðli/ framtíðarstarf/ áhugamál fram hjá einstaklingi. Oft notað t.d. um það þegar barn sýnir áhuga á því sem síðar verður ævistarfið. Giskað hefur verið á að orðtakið vísi til þess hve konum gekk stundum erfiðlega að ráða við krókfald á höfði, og hefur e.t.v. átt að vísa til þess að hann leitaði í átt að væntanlegu mannsefni.
Snemma í því (orðtak) Snemma gert/mætt. Um það að hafa tímann fyrir sér. „Ég var full snemma í því. Það var enginn mættur á fundinn og ekki búið að opna húsið“. Sjá snemma á ferðinni.
Snemma upp (orðtak) Snemma á fætur. „Við þurfum að fara snemma upp í fyrramálið og búa okkur af stað“.
Snemma uppi (orðtak) Kominn snemma á fætur. „Hversvegna ert þú svona snemma uppi þennan daginn“?
Snemmborinn (l) Fæddur snemma. „Það er ekki að undra þó hrúturinn sé stór; hann er svo snemmborinn“.
Snemmbær (l) Kýr sem ber að vorlagi. „Það er kostur að kýr séu svo snemmbærar að þær geti nýtt nýgræðinginn til að græða sig“.
Snemmbæra (n, kvk) Snemmbær kýr.
Snemmdegis / Snemmindis (ao) Snemma dags; árla. Snemmdegis framborið með i-hljóði en ekki „snemmendis“ eins og annarsstaðar virðist hafa tíðkast. „Við þyrftum að vakna snemmindis til að komast á flot fyrir fjöruna“.
Snemmorpinn (l) Um fugl; verpir/verpur snemma. „Ári eru þetta snemmorpin langvíuegg; þau eru orðin eygð, þó múkkavarp sé varla byrjað“.
Snemmslegið (l) Um gras/hey; slegið snemma að vori. „Snemmslegna heyið er ólíkt betra fóður“.
Snemmsumars (ao) Snemma á sumri. „Best er að fara snemma vors, áður en slý og þörungagróður þekur fjöruna, en slíkt gerist snemmsumars vegna mikils og nær samfellds vatnsaga úr sjávarklettunum“ (HÖ; Fjaran).
Snepill (n, kk) A. Snifsi; afrifa; flipi; blaðka. Sbr eyrnasnepill; ullarsnepill. B. Ómerkilegt blað.
Sneplóttur (l) A. Um hund/kött/tófu sem er að fara úr hárum en hefur flyksur af gömlu hári flaksandi utan á sér. B. Um ær sem er mikils til búin að týna gömlu reyfi.
Snerill (n, kk) A. Snari til að loka hurð innanfrá. B. Hurðarhúnn með handfangi (ekki hnúður).
Snerpa (n, kvk) A. Lipurð; viðbragð; úthald; skörp greind. „Það er ótrúleg snerpa í stráknum að hlaupa svona á brattann“. B. Mjög góður þurrkur. „Nú er um að gera að nota þessa snerpu sem allra best“.
Snerpa (s) A. Herða á; taka til; vinna hraðar. „Þú mættir aðeins snerpa á þér í andófinu“. B. Skerpa á hita; sjóða. „Tylltu þér snöggvast; ég ætla að snerpa á könnunni“.
Snerpusprettur (n, kk) Mjög hraður hlaupasprettur. „Þetta var snerpusprettur; en kindin náðist“!
Snerpuþurrkur (n, kk) Mjög góður þurrkur; hlýr vindur og sólskin. „Það má einhvernvegin ná sæmilegum heyjum; með svona snerpuþurrk dag eftir dag“!
Snerra (n, kvk) Lota í viðureign; rifrildi. „Þeir tóku stundum skarpar snerrur um pólitík sér til skemmtunar“.
Snerta (n, kvk) Viðkoma; snerting; stytting á oddsnerta. Oftaast haft um veiðiskap: „Á þessum miðum var ekki ugga að hafa í þetta skiptið; ekki minnstu snertu“.
Snerta (s) A. Koma við; fara höndum að/um. „Þið snertið ekki sníðaskærin mín strákar“! B. Varða; koma við. „Þetta málefni snertir alla hreppsbúa“. Sjá; hvað það snertir.
Snerting (n, kvk) Það að snerta/snertast.
Snertur (n, kk) Vottur; sýnishorn; örlítið. „Hann er talinn hafa fengið snert af lungnabólgu“.
Snertuspölur (n, kk) Spottakorn; lítil vegalengd. „Snertuspöl, allgóðan, inn frá Ölduskarði gengur klakkur eða hnjótur fram úr hlíðinni, kallaður Speni“ (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).
Sneyddur (l) Rúinn; rændur. „Svona ruddar eru sneyddir allri samvisku“!
Sneyða (s) Taka frá; gera fátækan/snauðan; rýra. „Stjórnvöld hafa ekki hikað að sneyða sjávarjarðir sínum ævafornu veiðuréttindum“.
Sneyðast um (orðtak) Fækka bjargráðum/úrkostum. „Mér sýnist að bráðlega fari að sneyðast um saum“.
Sneypa (n, kvk) A. Skömm. „Honum fannst óttaleg sneypa að komast ekki upp á Völlinn“. B Gælunafn á hundtík. „Hún er nú að reyna að gera gagn, blessuð sneypan“. C. Taka haus af smáfiski og slógdraga hann um leið.
Sneypa (s) Skamma; ávíta. „Vertu nú ekki alltaf að sneypa tíkina, þá hættir hún að hlýða“. Nafnorðið sneypa.
Sneypast (s) Hundast; skammast. „Ég held honum væri skammarnær að sneypast til að biðja fólk afsökunar á fíflaganginum en að hreykja sér af honum“!
Sneypinn (l) Skömmóttur; uppstökkur.
Sneyptur (l) Skömmustulegur; niðurlútur. „Var maðurinn hinn versti við, og spurði hvort átt hefði að drepa sig. Urðu þá allir sneyptir og lofuðu að láta ekki slíkt sem þetta henda sig aftur“ (MG; Látrabjarg).
Sneypuför (n, kvk) Tilgangslaus ferð; ekki ferð til fjár. „Þessi róður varð nú hálfgerð sneypuför“.
Sneypulegur (l) Skömmustulegur; niðurlútur. „Því skyldi hundurinn vera svona sneypulegur núna“?
Snidda (n, kvk) Torfhnaus. Þegar nota á sniddu í torfhleðslu er hún vanalega stungin í hnaus sem er tígullaga, séður í grashliðina. Grasið er látið snúa út, og er því snidduhleðsla fljót að gróa.
Snið (hk) A. Form; svipur; skapalón. „Bátarnir eru með líku sniði“. „Ég fékk lánuð snið fyrir skyrtuna“. B. Vegskering í brekku; halli. „Rétt utan við Ána tekur við Vörðubrekkan. Gatan liggur í nokkrum sniðum upp bröttustu brekkuna; síðan vægur halli upp á Kjölinn“ (IG; Sagt til vegar II).
Sniðganga (s) Líta framhjá; hundsa; fara ekki að. „Hann kaus að sniðganga þessi fyrirmæli“.
Sniðgenginn (l) Lítilsvirtur; gengið framhjá. „Mér sýnist að hér hafi lögin heldur betur verið sniðgengin“.
Sniðglíma (n, kvk) Sérstakt bragð í glímu.
Sniðhallt (l) Skáhallt; á ská. „Leiðin liggur þarna sniðhallt uppyfir klettinn“.
Sniðhenda (n, kvk) Vísa með sniðhendingu. Sniðhending er hálfrím, eða rím einstakra atkvæða en ekki heilla orða. Einnig nefnd skothending. Dæmi: „Hvert stefnið þér hrafnar/ hart með flokk enn svarta“?
Sniðinn þröngur stakkur (orðtak) Aðþrengdur; ekki með mikið svigrúm. „Vegna fjárhags er félaginu mjög þröngur stakkur sniðinn við þessa framkvæmd“.
Sniðmát (n, hk) Hornmát; stillanlegt áhald til að mæla horn/snið hluta og færa þau milli smiðisgripa.
Sniðskera (s) Fara skáhallt. „Það er hægara að sniðskera sig upp hlíðina en kjaga beint upp“.
Sniðugheit (n, hk, fto) Flinkheit; snilld; snilli. „Þarna eru ýmsar snjallar lausnir og sniðugheit“.
Sniðuglega (ao) Á sniðugan/hugkvæman/snjallan hátt. „Hann leysti þessa þraut nokkuð sniðuglega“.
Sniðugur (l) A. Snjall; útsjónasamur. „Ólafur Sveinsson á Sellátranesi sýndi öðrum fremur að það eru ekki alltaf mesta langskólanámið sem skilar sniðugustu og snjöllustu lausnunum. Þegar tæknimenntaðir sérfræðingar töldu útilokað að koma sjónvarpi í Útvíkurnar tók Óli á Nesi það sem sína áskorun og hætti ekki fyrr en komið var sjónvarp á hvern einasta bæ í Rauðasandshreppi. Það verk vann hann að mestu í sjálfboðavinnu“. B. Fyndinn; hnyttinn í orðum. „Þetta fannst honum sniðugt“!
Sniffa (s) Þefa. „Því er hundurinn að sniffa svona útí loftið“?
Snifsi (n, hk) Tætla; smáleppur; blað. „Það er varla snifsi af ull eftir á þessum túnrollum“.
Snigill (n, kk) A. Stærsti flokkur lindýra; Gastropodia, með 60-75.000 tegundir landsnigla, sjávarsnigla og vantnasnigla. Sniglar eru vanalega með höfuð, tvo fálmara og kviðlægan fót. Flestir hafa þeir skel sem er oftast undin í spíral. Þeir geta flestir dregið sig inn í þessa skel og lokað henni á eftir sér. B. Tæki með skrúfulögun, t.d. til þess að flytja efni uppávið eða þjappa/dæla lofti. C. Niðrandi heiti um þann sem þykir mjög seinn á sér. D. Almennt um lítinn hlut; t.d. pokasnigill, stráksnigill.
Sniglarákir / Sniglaslóðir (n, kvk, fto) Glitrandi slímrákir sem stundum má sjá á hörðu yfirborði, s.s. klóppum, og eru eftir umferð snigla.
Sniglast (s) Mjakast; fara hægt; slóra. „Óttalega eru drengirninr lengi að sniglast heim með kýrnar“!
Snikka (s) Laga; smíða. „Eitthvað þarf nú að snikka þessa hurð til, svo hún falli í falsinn“.
Snikkari (n, kk) Trémiður.
Snilld / Snilli (n, kvk) Mjög góð lausn/hugmynd. „Þetta er algjör snilld“.
Snilldarlega (ao) Mjög vel; frábærlega. „Þetta var snilldarlega gert, eins og hans var von og vísa“.
Snilldarskáld (n, hk) Mjög gott skáld.
Snilldarsmíði (n, kvk) Mjög góð/vönduð smíði; vandaður smíðisgripur.
Snilldarvel (ao) Afar/mjög vel.
Snilldarverk (n, hk) Vandað verk; kostagripur. „Listfræðingurinn sagði hellumálverkin vera snilldarverk“.
Snilligáfa (n, kvk) Einstök fundvísi á góðar lausnir. „Svona innsæi er eiginlega snilligáfa“.
Snillingur (n, kk) Sá sem þykir öðrum færari/fljótari að finna góðar/snjallar lausnir.
Snippa (s) Hnussa; soga stutt og ákveðið upp í nefið til að tjá vandlætingu. „Hún þurfti verulega að snippa yfir þessum hugdettum unglinganna“.
Snitta (s) Búa til skrúfgang á hlut, t.d. járnrör.
Snitti (n, hk) A. Kambur af rauðmaga eða grásleppu, en hann var gjarnan hirtur fyrrum og borðaður súrsaður. Orðið kann að hafa verið notað um annan afskurð áðurfyrr. B. Snifsi; ögn. „Það er ekki snitti eftir af þessu“. Líklega líking við fyrrnefnda merkingu. C. Verklag; háttur; snið. „Við gerum þetta núna með þessu snitti og sjáum hvernig fer“. Orðið finnst ekki í þessari merkingu í orðabókum, en HÍ gefur upp merkinguna „tæki til að búa til skrúfgang með“, sem einnig er þekkt í Kollsvík.
Sníða (eitthvað) að þörfum (orðtak) Laga eitthvað eftir því sem best hentar tilgangi/tilefni.
Sníða sér stakk eftir vexti (orðtak) Takast ekki meira á hendur en unnt er að ráða við. „Gaman hefði verið að hefja vinnu við þetta, en ætli maður þurfi ekki að sníða sér stakk eftir vexti“. Vísar til þess að gera sér sjóstakk, sjá skinnklæði. Mikilvægt er að skinnklæði sem önnur föt séu af réttri stærð.
Sníkinn (l) Gjarn á að sníkja/betla/ falast eftir. „Heimalningurinn er að verða leiðinlega sníkinn“.
Sníkja (n, kvk) A. Sá/sú sem sníkir. Stundum ærnafn, t.d. á heimalningi. B. Það að sníkja. „Ég kann ekki við að lifa á sníkjum endalaust; betra væri að eignast þetta sjálfur“.
Sníkja (s) Betla; falast óhóflega eftir; biðja um. „Mig langar að sníkja hjá þér smá kaffisopa“.
Sníkja útúr (einhverjum) (orðtak) Falast eftir; biðja um. „Ég sníkti útúr honum saltlúku“.
Sníkjudallur (n, kk) Sá sem sníkir/sífrar um. „Mér finnst hann dálítið ýtinn, þessi sníkjudallur“.
Sníkjudýr (n, hk) Dýr sem lifir sníkjulífi á öðru dýri, t.d. lús.
Snjakahvítur (l) Skjannahvítur; glámhvítur. „Sumum er illa við að setja á svona snjakahvít lömb“.
Snjall (l) A. Klókur; vitur; útsjónarsamur. „Ansi varstu snjall að leysa þetta vandamál“! B. Skrækur; liggur hátt rómur; glymjandi. „Hann sagði þetta hátt og snjallt“.
Snjallráður (l) Klókur; útsjónarsamur; sem finnur góðar lausnir.
Snjallræði (n, hk) Mjög góð lausn/ gott ráð. „Það væri snjallræði að gera þetta svona“.
Snjáður (l) Um flík eða hlut; slitinn af núningi/notkun/þvælingi; velktur.
Snjáldur (n, hk) Trýni; trjóna; nef. „Þú ert dálítið tóbakugur á snjáldrinu“.
Snjó festir (orðtak) Sýnilegur snjór sest á jörð. „Það var svo hvasst að snjó festi ekki á jörð, heldur blés af og settist í skafla.
Snjóa (s) Koma/falla snjór. „Hann er byrjaður að snjóa“. „Hann snjóar drjúgt þessa stundina“.
Snjóa í fjöll (orðtak) Verða snjór ofan snjólínu. „Hann hefur snjóað í fjöll í nótt“.
Snjóakista (n, kvk) Snjóþungur staður; staður þar sem snjór safnast mjög í þykk lög. „Þarna er sumarfagurt, en þetta er líka hin mesta snjóakista“.
Snjóalaut / Snjóadæld (n, kvk) Laut/dæld sem gjarnan safnar í sig snjó. „Þú skalt reyna að fara eftir háholtinu til að forðast snjóalautirnar neðar“.
Snjóalög (n, hk, fto) Snjómagn; snjódýpt. „Þarna voru mikil snjóalög“.
Snjóasamt (l) Um tíðarfar; með miklu fannfergi/ mikilli snjókomu. „Þorrinn var snjóasamur í meira lagi“.
Snjóastaður (n, kk) Snjóþungur staður. „Með uppýtingu vega voru lagfærðir margir helstu snjóastaðirnir“.
Snjóavetur (n, kk) Snjóþungur vetur; vetur með miklum fönnum. „Þetta hefur verið ári mikill snjóavetur“.
Snjóbirta (n, kvk) Skjannabirta vegna endurkasts sólarljóss í snjó. „Maður greinir lítið í þessari snjóbirtu“.
Snjóbíll (n, kk) Beltabíll, sérstaklega gerður til að fljóta og ferðast á snjó.
Snjóblinda (n, kvk) Um það þegar menn fá ofbirtu í augu vegna birtu af snjónum, sérstaklega í sólskini. Sýnist þá allt renna saman, himinn og jörð. Blindan getur varað nokkra stund eftir að inn er komið og getur orðið hættuleg fyrir sjónina. „Vandamálið við snjóblindu var nánast úr sögunni eftir tilkomu sólgleraugna“.
Snjóblettur / Snjódíll (n, kk) Snjóskafl/hjarnskafl séður úr fjarska. „Leiðin yfir fjallið liggur þarna neðan snjóblettanna“.
Snjóbolti (n, kk) Bolti sem búinn er til með því að hnoða/velta saman snjó.
Snjóbólstur / Snjódyngja (n, kk/kvk) Miklar fannir; djúpur snjór. „Það eru komnar ferlegar snjódyngjur í Brekkurnar“.
Snjóbráð (n, kvk) Leysingavatn; vatn sem rennur þegar snjór bráðnar; bráð.
Snjóbreiða (n, kvk) Flæmi af snjó á jörð; snjóasvæði.
Snjóburður (n, kk) Það að bera snjó. Í Kollsvík tíðkaðist líklega sjaldan snjóburður í þeim tilgangi að vatna fé að vetrum. Ástæðan er sú að fjárhúsin voru einatt við sjó og var fénu undantekningarlaust hleypt út til beitar í fjöru og/eða bithaga, en þar eru einnig lækir nærri húsum sem alltaf eru auðir á útfiri.
Snjódrift (n, kvk) Snjóskafl. Fremur einungis talað um drift, og þá oftar í fleirtölu um fremur litla skafla.
Snjódrífa (n, kvk) Snjókoma; él. Fremur talað um drífu; stundum fanndrífu.
Snjódýpt (n, kvk) Dýpt snjóalaga. „Ætli snjódýptin hafi ekki verið svona uppá hné af jafnföllnu“.
Snjóél (n, hk) Él; snjókoma í stuttan tíma. „Við fengum á okkur ansi dimm snjóél á leiðinni“. Orðið er minna notað en áður var, enda nægir síðari hlutinn. Fyrrum náði heitið „él“ bæði yfir snjóél og regnskúrir, og er enn þannig í t.d. færeysku; „æl“.
Snjófjúk (n, hk) Dálítil snjókoma í fremur hægu veðri. „Þetta er ekki orðið neitt slæmt; bara snjófjúk ennþá“.
Snjóflóð (n, hk) Til skamms tíma var talið að snjóflóðahætta væri ekki mikil í Kollsvík. Nú hallast menn að því að eyðileggingu Kollsvíkurbæja og banaslys 3. desember árið 1857 megi rekja til kófhlaups úr Núpnum. Þá kom skyndilega þytur á baðstofuna, sem var 12 álna löng, og féll hún í sama vetfangi í grunn niður og mölbrotnaði hver spýta. Frammi í bænum var nýbyggt stofuhús sem búið var að leggja loft í. Hús þetta var fremur rammgert og að mestu byggt úr rekaviði. Viðirnir þverkubbuðust sundur, en mikið þarf til að seigur rekaviður brotni þannig. Í snjóflóðinu fórust gift kona, nær sextugu, og ungur maður. Annar ungur drengur náðist úr bæjarrústunum með lífsmarki eftir sólarhring og hresstist skjótt og varð heill. Tvö börn, annað á öðru ári, en hitt nokkru eldra, náðust ekki fyrr en að sex dögum liðnum og voru þá lifandi, en kalin. Þá var tvítug stúlka sem bjargaðist á þriðja degi allmikið kalin. Menn voru lengi ekki á einu máli um hvers konar náttúrufyrirbæri hér var á ferðinni, en nokkuð öruggt má telja að hér hafi valdið snjóflóð af þeirri gerð sem nefnd hafa verið kófhlaup og verða þau helst í smágerðum frostsnjó. Snjórinn í hlaupinu sjálfu verður meira og minna að fíngerðu snjóryki sem fyllir loftið. Kófhlaup fara með geysilegum hraða og valda ægilegum loftþrýstingi. Stormurinn, sem fylgir þessum snjóflóðum, feykir húsum, þverkubbar gild tré og brýtur svo að segja allt sem fyrir þeim verður. Nokkrum árum áður en Hilmar Össurarson hætti búskap í Kollsvík kom snjóflóð á svipuðum stað, sem fór að hluta yfir grunn gamla bæjarins. Þetta renndi enn frekari stoðum undir þá tilgátu að snjóflóð hefði valdið slysinu 1857. Annars eru snjóflóð nokkuð tíð yfir vegi í snarbröttum hlíðum, t.d. á Hænuvíkurfjörum; í Hafnarmúla; Vatnsdalsskriðum og á Skápadalshlíð í snjóþungum vetrum. Minni snjóflóð nefnast spýjur.
Snjóflyksa (n, kvk) Stórt snjókorn. „... og það get ég svarið að snjóflyksurnar voru stærri en potthlemmar“!
Snjóföl (n, kvk) Þunn snjóþekja á jörð. „Það gerði örlitla snjóföl þegar við vorum á leið í fýlsegg í Breiðnum“.
Snjóhengja (n, kvk) Hengja/skafl af snjó sem skafið hefur í skarpa brún. Getur verið hættuleg ef farið er framá hana eða verið neðan hennar þegar hún brestur og fellur niður. Oftast stytt í hengja.
Snjóhraglandi (n, kk) Lítilsháttar snjókoma í töluverðum kalda/vindi.
Snjóhula / Snjólag / Snjóþekja (n, kvk) Lag af snjó. „Hann var fljótur að taka upp þessa snjóhulu sem gerði í nótt“.
Snjóhús (n, hk) Hús/kofi sem hlaðið er úr snjó eða grafið inní skafl. Oft gert af börnum að leik á vetrum.
Snjóhvítur (l) Drifhvítur; skjannahvítur; fannhvítur.
Snjókarl / Snjókerling (n, kk/kvk) Eftirlíking af manneskju sem börn gera að leik að vetri. Oftast þannig að rúllað er snjóboltum og þeim hlaðið þremur hverjum ofaná annan. Á þann efsta eru sett augu, nef og munnur, gjarnan ú smásteinum; og stundum eitthvað höfuðfat.
Snjóklepraður (l) Þakinn snjó eða kleprum af snjó. Oftar þó talað um að eitthvað, t.d. fé, sé kleprað af snjó.
Snjókleprar (n, kk, fto) Drönglar af snjó sem hanga utaná t.d. mönnum eða fé sem verið hefur í snjó.
Snjókoma (n, kvk) Snjór að falla; úrkoma af snjó. „Það er bara þó nokkur snjógkoma“.
Snjókorn (n, hk) Arða/flyksa af snjó. Oftast notað til að lýsa litlum snjó. „Það var ekki snjókorn á veginum“.
Snjókóf (n, hk) Fíngerður snjór sem þyrlast í vindi. „Við sáum ekki útúr augum í mesta snjókófinu“.
Snjólaust (l) Enginn snjór; autt. „Hálsinn er að heita má snjólaus“. „Þótt veturinn hafi verið snjólaus hafa samt verið innistöður að mestu sökum illviðra fyrri hluta vetrarins, en kulda og storma með þurrkum eftir góubyrjun“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1942).
Snjóléttur vetur/staður (l) A. Um vetur sem ekki hefur bagað með miklum snjóum. B. Um stað þar sem snjó festir yfir leitt ekki til baga. „Þessum vegi var valið nýtt stæði, norðar yfir hálsinn og mun snjóléttara en þar sem hestavegurinn lá“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Snjólitur (n, kk) Litur af snjó. „Það er alveg einstakt að hvergi skuli vera snjólitur á þessum árstíma“!
Snjómokstur (n, kk) Í snjóþungum vetrum þarf verulegan snjómokstur fyrir Kollsvíkinga, ef bílvegir eiga að haldast færir. Snjóastaðir eru nokkrir á leiðinni inn í Örlygshöfn, þó þeim hafi fækkað mjög eftir að vegir voru byggðir sæmilega upp á nokkrum stöðum. „Fyrir daga mjólkursölu frá Láganúpi var það helst skólasókn barna sem kallaði á snjómokstur, en reyndar var það ekki talið ofverk þeirra að rölta bæjarleið útyfir Háls ef veður var sæmilegt. Þá voru vegir niðurgrafnir, t.d. í Hænuvíkurbrekkum og í Kinninni, sem hvorttveggja voru miklar snjóakistur. Ekki var óalgengt að Kollvíkingar fjölmenntu í þessar brekkur með skóflur og handmokuðu skaflana, kílómetrum saman. Verstu snjóastaðir eru þessir: Sniðin í Hæðinni urðu oft ófær, sér í lagi beygjan og uppi á Kálfsklettinum. Þá varð oft ófært innst í Húsadalnum, en suma vetur var þá farið upp miðjan dalinn utanvega. Kinnin var slæm áður en vegi var þar ýtt upp. Næsti ófærðarkafli var Jökladalshæðin; einkanlega uppi á fyrsta kastinu og svo bratta brekkan upp af Láturdalnum. Hænuvíkurbrekkurnar lögðuðust stórum eftir að þar var ýtt upp nýjum vegi, og þó þar hrykki enn í ófærð á stöku stað, er það lítið miðað við dyngjurnar fyrrum. Ófærð getur orðið töluverð á Bergjunum og fyrir Hænuvíkurnúpinn. Þá er það Neshyrnan. Hún hefur alltaf verið fljót að lokast í snjóum og verður stundum þannig að þykkur skafl nær ofan frá klettum og fram í sjó. Einn snjóaveturinn (líklega 1983-4) var vegur lagður í snjóskaflinn um veturinn og fóru það allir bílar, þar með talinn stór mjólkurbíll. Þegar kom fram á vor og mokað var á fast, kom í ljós að sjóvegurinn var um 4 m framan við vegkantinn! Allar Fjörurnar gátu orðið kikkófærar, þannig að ekki varð mokað nema með stórvirkustu tækjum“.
Snjómugga (n, kvk) Snjókoma í hægviðri. „Snjómuggan var svo þétt að ekki sást á milli húsa“.
Snjómyglingur / Snjómylgringur (n, kk) Lítilsháttar snjókoma. „Hann er drjúgur þessi eilífi snjómylgringur“!
Snjóþoka (n, kvk) Þoka sem myndast yfir snjó, einkum þegar snögghlýnar í veðri. Oft nær hún ekki hátt upp, jafnvel aðeins örfáa metra, en getur orðið all þétt og valdið vandræðum.
Snjóþungur (l) A. Um tímabil. „Þetta hefur verið fremur snjóþungur vetur“. B. Um veg/stað. „Kinnin var verulega snjóþung þangað til veginum var ýtt fram og hann hækkaður“.
Snjóþyngsli (n, hk, fto) „Snjóþyngsli geta orðið nokkur á hálsunum, en þó ekki meiri en yfirleitt á fjallvegum“.
Sniglast (s) Lötra; þokast; gaufa. „Vertu nú ekki að sniglast þetta! Reyndu að halda í við hópinn“.
Snjóbreiða (n, kvk) Stór/víðáttumikill snjóskafl. „Ég sagði að þetta væri ekki snjóbreiða, heldur væri þetta hvinið. Við köllum bjargbrúnina hvin“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Snjódróg (n, kvk) Vottur af snjó. „Það sést varla nokkur snjódróg í Kóngshæðinni lengur“.
Snjódyngjur (n, kvk, fto) Mjög djúpur snjór; oft laus og rokgjarn.
Snjóflóð (n, hk) Snjóskriða; hlaup; kófhlaup. Algengasta orðið í Kollsvík var spýja.
Snjóinn tekur í mjóalegg (orðtak) Um snjódýpt; snjórinn nær upp fyrir kálfa.
Snjólétt (l) Lítill snjór að vetrum að jafnaði. „Alltaf er þar snjólétt að vetrum og sumarhitar miklir“ (FÓT; Smiður í fjórum löndum)
Snjómugga (n, kvk) Fíngerð en þétt snjókoma; stundum notað um snjóþoku.
Snjósokkar (n, kk, fto) Háir prjónaðir sokkar. „Nöfn á sokkum voru á grófum hosum, háleistar, hosur, snjósokkar (háir) og var verið í þeim úti utan yfir smábandssokkum á vetrum eða í kulda. Þessir grófu voru handprjónaðir en þeir fínni oftast á prjónavél“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Snjóspýja (n, hk) Lítið snjóflóð. „Aðstæður voru mjög líkar þegar snjóspyjan kom niður 1995, nema örugglega hefur snjómagnið verið miklu meira 1857, enda flóðið mun stærra“ (SG; Náttúruhamfarir; Þjhd.Þjms).
Snjósæng (n, kvk) Snjódyngja; þykk snjóhula.
Snjótittlingur (n, kk) Plectrophenax nivalis. Lítill spörfugl; algengur hérlendis sem staðfugl og farfugl og einn einkennisfugla íslenskrar náttúru. Kvenfuglinn er ljósbrún; ljósari að neðan; með dökkt bak; yfirvængir með ljósum vængbeltum; rauðbrúnar kámur á höfði og bringuhliðum. Hún er dauglitari að vetri. Að vetri er karlfuglinn líkur kerlingunni að lit, en í sumarbúningi er hann snjóhvítur að undanskildu svörtu baki, axlarfjöðrum og vængbroddum. Vegna þessara litabreytinga nefnist fuglinn sólskríkja á sumrin en snjótittilingur að vetri. Goggur er keilulaga; svartur á sumrin en gulur að vetrarlagi; fætur svartir og augun dökk. Fer um í hópum að vetrarlagi en pör halda saman á sumrin. Fæðan er einkum fræ og ber, en einnig skordýr. Verpur í holum og glufum í vandaða hreiðurkörfu frá miðjum maí. Fuglar sem leita erlendis að vetri halda flestir til í Skotlandi, en hinsvegar eru grænlenskir snjótittlingar stundum hér að vetri. Samkvæmt þjóðtrúnni veit það á hríðarveður ef snjótittlingar hópast heim að bæjum, en hláku og hlýindi ef lítið ber á þeim. Söngur sólksríkju á bæjum veit á sólskin.
Snjóugur (l) Ataður snjó. „Farðu út og burstaðu þig, þú ert allur snjóugur“. „Féð var snjóugt eftir élið“. „Össur var mjög snjóugur og klakaður er hann kom til okkar, því hann hafði orðið að sækja á móti veðrinu“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Snjóþoka (n, kvk) Ísþoka; þoka sem myndast oft þegar rakt loft streymir innyfir land hulið snjó eða ís. Gerist oft þegar skyndilega hlýnar í veðri, og er þá rakaloftið gjarnan hlýrra en það sem fyrir var. Mjög getur verið villugjarnt að vera á ferð í snjóþoku, enda getur hún orðið mjög þétt og snjór og loft virðist renna saman.
Snjóþyngsli (n, hk, fto) A. Þungi af snjó. „Talið var að snjóþyngsli hefðu sligað þakið“. B. Um stað; iðulega snjóakista að vetrum. „Þarna frammi í dalnum eru oft mikil snjóþyngsli“.
Snobb (n, hk) Smjaður; það að auðmýkja sig fyrir þeim sem taldir eru valdamiklir/ríkir/tignir; þjónkun við vald og auð. „Ég þoli ekki svona snobb“!
Snobbsamkoma (n, kvk) Niðrandi heiti á samkomu fyrirfólks/ fínni samkvæmum. „Ég held ég láti það alveg vera að mæta á svona snobbsamkomu“!
Snoð (n, hk) Stutt hár. „Það tekur því varla að taka af þessari á; það er ekkert á henni nema snoð“.
Snoðir (n, kvk, fto) Það sem snuðrað er uppi. Sjá komast á snoðir um.
Snoða (s) Klippa feld/hár mjög snöggt/nálægt. „Ætli maður þurfi ekki að fara að láta snoða á sér lubbann“.
Snoðhærður / Snoðinn (l) Með snöggt hár. „Mikið er þessi hundur snoðhærður“.
Snoðklipptur (l) Klipptur mjög nærri hárrótinni.
Snollaður (l) Þröngur; lítill. „Mér finnst þessi jakki helst til snollaður núorðið“. Linur framburður l.
Snoppufríður (l) Laglegur í andliti. „Ekki vantar að gimbrin er snoppufríð, en mér líkar ekki byggingin“.
Snoppungur (n, kk) Kjaftshögg; löðrungur. „Ég heyrði að þú hefðir þegið snoppung á þorrablótinu“.
Snork (n, hk) Hrotur. „Árans snork er nú í karlinum; það heyrist ekki mannsins mál í bragganum. Er ekki hægt að troða einhverju uppí hann eða velta honum ofanúr kojunni“?!
Snorka (s) Hrjóta; draga til í; skera hrúta. „Það er bölvuð áfærni að ég hafi verið farinn að snorka“!
Snorkinn (l) A. Hárlítill maður; ullarlaus ær. B. Með skorpna eða grófa húð.
Snortinn (l) Hrifinn; þykir mikið til um; viðkvæmur; meir. „Margir voru snortnir vegna þessara atburða“.
Snotra (s) Snyrta; laga útlitið; fríkka. „Reyndu nú að snotra þig dálítið áður en gestirnir koma“!
Snotur (l) Laglegur; fallegur; fríður. „Þetta er nokkuð snotur fleyta“.
Snoturlega (ao) Laglega; listilega. „Báturinn er nokkuð snoturlega lagaður, en fremur veikbyggður“.
Snubbóttur (l) Endasleppur; stuttur. „Þetta er nú snubbótt heimsókn ef þú ætlar ekki að gista“.
Snudd (n, hk) Gauf; frýningur. „Við þurfum að fara að hætta þessu búðarsnuddi og komast af stað“.
Snudda (s) Snuðra; frýnast í. „Þeir eru hér matsmennirnir að snudda kringum húsin“.
Snudda eftir (orðtak) Leita að. „Ég var úti á Hnífum að snudda eftir eggjum“.
Snudda upp (orðtak) Finna með leit; komast á snoðir um; hafa uppá. Oft í neikvæðri merkingu. „Ekki veit ég hvernig honum tókst að snudda þetta upp með veiðina hjá okkur í gær“.
Snudda úr (orðtak) Taka afleiðingum. „Það er þá best að þeir fái að snudda úr þessu sem til þess hafa stofnað“!
Snuð (n, hk) A. Tútta sem ungbörnum er gefin að sjúga til að fullnægja sogþörf þeirra. B. Svik; svindl. C. Eftirgjöf í kúplingu vélar.
Snuða (s) A. Blekkja/hafa rangt við í kaupum. B. Um vél; slúðra; gefa eftir.
Snuðaður (l) Blekktur; svindlað á. „Ég kann því illa að vera snuðaður í viðskiptum“!
Snuðra (s) Þefa; frýnast í; forvitnast. „Honum er illa við að nokkur sé að snuðra kringum verkunarhúsið“.
Snuðrari (n, kk) Sá sem snuðrar/ frýnist í. „Honum var illa við þessa snuðrara frá eftirlitinu“.
Snupra (s) Ávíta; skamma. „Vertu ekki að snupra hundinn fyrir það sem hann hefur ekki gert“!
Snuprur (n, kvk, fto) Skammir; ávítur. „Ég fékk snuprur fyrir að mæta of seint í athöfnina“.
Snurða (n. kvk) Snarvöndull/snúður sem hleypur á þráð/band sem er spunnið of hart/mikið. Sjá hleypur snurða á þráðinn.
Snurðulaust (l) Hnökralaust; vandræðalaust. „Ferðin gekk alveg snurðulaust“.
Snurðulítið (l) Án teljandi vandræða/vandkvæða. „Þetta gekk snurðulítið fyrir sig“.
Snurfus (n, hk) Fínheit; penheit; pempíuháttur. „Vertu nú ekki að þessu déskotans snurfusi maður. Þetta er nú bara þorrablót en ekki hanastélspartí“!
Snurfusa (s) Snyrta; gera fínt; leggja lokahönd á. „Kannski væri rétt að snurfusa dálítið áður en gestir koma“.
Snurfusaður (l) Snyrtur; lagfærður; frágenginn. „Ég þekkti hann varla; svona þveginn og snurfusaðan“!
Snurpa (s) Draga saman fiskinót/hringnót.
Snurpinót (n, kvk) Herpinót/hringnót; snór nót sem dregin er kringum fiskitorfu og dregin saman að henni.
Snurvoð (n, kvk) Veiðarfæri: Lítil varpa sem veitt er í á einum báti. Annar leggurinn er lagður út fyrst; siglt í sveig; varpan lögð í leiðinni og svo síðari leggurinn; svo farið í ból fyrra leggsins og varpan dregin um borð.
Snurvoðabátur (n, kk) Bátur sem stundar snurvoðaveiðar. „Það veiðist ekki kvikindi á færi þegar snurvoðabátarnir eru byrjaðir“!
Snus (n, hk) Hnus; það að þefa/frýnast í. „Skelfingar snus er þetta ofan í annarra manna einkalíf“!
Snusa (s) Þefa; nasa. „Af hverju er hundurinn að snusa í fjörunni“? „Vertu ekki að snusa af matnum“.
Snúa (s) A. Snúa einhverju, s.s. snúa vél í gang með sveif. B. Snúa sér við. „Það er erfitt að snúa á svona þröngum vegi“. C. Rifja hey með hrífu eða vél til að þurrka það. D. Snúa fugl úr hálsliðnum til að lóga honum. „Ég var orðinn það sterkur að ég gat hæglega snúið fugl skammlaust.“ (ÁE; Ljós við Látraröst). E. Fá einhvern til að skipta um skoðun/trú. „Hann er helblátt íhald; honum verður ekki snúið“!
Snúa af sér (orðtak) Koma því frá sér sem maður vill ekki hafa nærri; bíta af sér. „Árni var í essinu sínu og spýtti af mikilli leikni og ánægju út í grængolandi öldurnar, þegar hann hafði snúið þær af sér“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Snúa aftur (orðtak) Snúa við; fara til baka. „Við snerum aftur við Blakkinn; enda var komin spæna a Víkina“.
Snúa aftur með (orðtak) Bakka með; skipta um skoðun. „Svona liggur í málinu; það er sannleikurinn og ég sný ekki aftur með það“!
Snúa aftur til sama lands (orðtak) Hætta við róður. Í líkingamáli um það að verða afturreka, t.d. með mál.
Snúa á (orðtak) A. Um kind/mann; leika á; beita brögðum; ginna; plata. „Ég hélt ég væri búinn að króa ána af, en hún sneri þá á mig og skaust framhjá mér“. B. Um ræðara sem er duglegri en sá sem rær á hitt borðið: „Hægðu nú á þér maður, þú ert engu bættari með að snúa svona á mig“. (Sjá einnig; skjana uppá).
Snúa baki við (orðtak) Verða fráhverfur; hætta stuðningi við. „Ekki veit ég hversvegna hann sneri baki við sínum gamla flokki“.
Snúa blinda auganu að (einhverju) (orðtak) Sjá horfa á eitthvað með blinda auganu.
Snúa bökum saman (orðtak) Standa saman til að verjast. „Nú þurfa allir að snúa bökum saman og reyna að varðveita þá jaðarmenningu sem er óðum að hverfa með minnkandi byggð í Rauðasandshreppi“. Vísar til þess í orrustu að lið getur þurft að verjast atlögu úr mörgum áttum. Sjá ber er hver að baki nema bróður eigi.
Snúa faðirvorinu uppá andskotann (orðtak) Snúa hlutunum við; telja það rétt sem í raun er rangt; ljúga. „Svona skrif eru líkt og að snúa faðirvorinu uppá andskotann; ég tek lítið mark á svona bulli“!
Snúa (einhverjum) af/frá villu hans vegar (orðtak) Beina einhverjum á farsælli veg; sannfæra einhvern; fá einhvern til að skipta um skoðun. „Hann var kominn ansi nærri því að kjósa íhaldið, en ég held að mér hafi tekist að snúa honum af villu hans vegar“.
Snúa í gang (orðtak) Setja traktor/bíl/vél í gang með því að snúa sveif; snúa; trekkja. „Passaðu að setja í hlutlausan áður en þú snýrð í gang“. „Komdu og sláðu undan ventlum meðan ég sný ljósavélinni í gang“. Flestum vélum var snúið í gang á fyrstu áratugum vélaaldar. Farmall A var fyrsta dráttarvél Kollsvíkinga; kom í lok seinna stríðs, og var alltaf snúið í gang. Gat verið skæður með að slá til baka, og því þurfti að passa að hafa alla fingur rétumegin á sveifinni. Fergusoninn sem Ingvar fékk var hinsvegar með startara, og var startað með gírstönginni. Startari var einnig á Siggu dýru; fyrsta villisjeppanum sem bræðurnir Ingvar og Össur fengu í Kollsvíkina, en þó þurfti iðulega að snúa henni í gang. Þá var vanalega hafður maður inni, til að „pumpa bensínið“ og stilla innsogið. Gamla 12volta Onan ljósavélin var dregin í gang með spotta, en lister ljósavélum var yfirleitt snúið í gang. Á gömlu listervélinni á Láganúpi var þó 12volta start í 220volta dýnamónum. Áburðarflugvélinni sem þeir bræður fengu í víkina til að bera á úthaga var snúið í gang á skrúfunni. Fékk flugmaðurinn oft þá bræður til að snúa, eftir að hann var sestur inn.
Snúa (einhvern) niður (orðtak) Yfirbuga einhvern með því að snúa uppá líkamshluta hans, t.d. háls eða útlim. „Hann tók ákveðið í granir tudda og sneri hann niður á augabragði“.
Snúa sér (í áttinni) (orðtak) Breyta um vindátt. „Hann er eitthvað að snúa sér þessa stundina; fer líklega að halla sér meira í norður“. „Skyldi hann vera eitthvað að snúa sér í áttinni“?
Snúa sér í (einhverju) (orðtak) Haga sér varðandi eitthvað. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í þessu máli“.
Snúa sér til (einhvers) (orðtak) Bera upp erindi við einhvern; eiga samtal við einhvern. „Maður snýr sér bara til stjórnenda þegar undirtyllurnar bregðast“.
Snúa sér til veggjar (orðtak) Fara að sofa; halla sér. „Ætli maður fari bara ekki að snúa sér til veggjar hvað úr hverju; það er orðið áliðið“.
Snúa sér undan (orðtak) Líta í aðra átt; snúa sér frá. „Við aflaskipti sneri einn sér undan og nefndi hver ætti að fá þann köst sem annar benti á“.
Snúa tauma (orðtak) Snúa saman þræði til að búa til öngultaum á fiskilínu. Taumar voru löngum snúnir úr hampi, þannig að fyrst var dregin út hæfilega þykk visk og hún snúin allmikið, síðan var sá þráður lagður tvöfaldur og sneri hann þá sjálfur uppá sig í taum, sem lagaður var til. Síðar voru notaðir þættir úr fiskilínu. Sjá taumur.
Snúa uppá (orðtak) A. Vinda uppá; setja snúning/vinding á. B. Láta texta fjalla um annað en hann er til ætlaður. T.d. var það argasti glæpur að snúa faðirvorinu uppá andskotann.
Snúa upp bífunum/tánum (orðtak) Deyja; andast. „Þetta dugir allavega þangað til maður snýr upp tánum“.
Snúa uppá sig (orðtak) Sýna merkilegheit/fyrirlitningu; vanþakka. „Hún sneri bara uppá sig þegar ég bauð henni laxinn og sagðist ekki éta þetta óæti sem kæmi í netin“! Áherslan oftast á á-inu.
Snúa úr hálsliðnum (orðtak) Hálsbrjóta; drepa með því að snúa uppá háls.
Snúa útúr (orðtak) Afbaka merkingu þess sem annar hefur sagt; rangsnúa. „Hættu að snúa útúr fyrir mér“!
Snúa við (orðtak) Hætta ferð í eina átt og fara í hina áttina. „Þessi skafl er algerlega ófær; ég held að við verðum að snúa við“.
Snúa við blaðinu (orðtak) Skipta um skoðun/aðferð. „Hann sneri alveg við blaðinu í þessu máli eftir fundinn“. Vísar til þess að lesa eða rita á blað/bók, en oft gleymist hvað var hinumegin á síðunni þegar blaði er flett.
Snúast (s) A. Snúa við; vindast hring eftir hring. B. Breyta vindátt; snúa sér. „Eitthvað er hann að snúast núna“. B. Snatta; erinda; útrétta. „Ég gæti þurft að snúast eitthvað á Eyrum“.
Snúast á hæli (orðtak) Snúa skyndilega við; fara skyndilega í aðra átt.
Snúast/leggjast á sveif með (orðtak) Styðja; hallast að; kjósa. „Hann hefur algerlega snúist á sveif með andstæðingunum í þessu máli“.
Snúast hugur (orðtak) Skipta um skoðun; hætta við það sem áður var ætlað. „Ég ætlaði að skreppa inneftir, en snerist hugur þegar ég kom upp á Jökladalshæðina; þar var strax orðið þungfært“.
Snúast í (orðtak) Fást við; sýsla; vera önnum kafinn við. „Ég nenni ekki að snúast í þessu lengur“.
Snúast uppí (orðtak) Þróast í að verða; verða. „Þessi umræða er farin að snúast uppí tóm fíflalæti“!
Snúast uppí andhverfu sína (orðtak) Verða á allt annan veg en í stefndi/ fyrirhugað var. „Þú skalt fara varlega í þessum efnum; svona hlutir geta auðveldlega farið úr böndunum og snúist uppí andhverfu sína“!
Snúast öndverður gegn/við (orðtak) Leggjast gegn; andmæla. „Hann snerist öndverður gegn tillögunum“.
Snúðáttaviti (n, kk) Gýrókompás. Áttaviti sem byggir á tregðu kringlu sem snýst á miklum hraða til að breyta öxulstefnu sinni. Snúðáttaviti er því ekki háður segulsviði og er hann því notaður í ýmsum farartækjum síðari tíma s.s. flugvélum, geimförum og flugskeytum.
Snúðharður (l) Um band/vað/kaðal. „Þessi kaðall er alltof snúðharður til að nota hann í lásband“.
Snúðuglega (ao) Með þykkju/þjósti; reiðilega; í fýlu. „Hann svaraði þeim fremur snúðuglega“.
Snúðugur (l) Önugur; þykkjuþungur; fúll. „Hann var snúðugur yfir að hafa ekki verið látinn vita“. „Sýna mun ég senn þess vott/ sveit í nýju ljósi“./ Að svo mæltu arkar brott/ æði snúðugt Rósi“ (JR; Rósarímur). „Hinn stóð inni í stofu og starði á sjónvarpið;/ stæðilegan kroppinn hafði að bera./ Hann sagði heldur snúðugt: „Hvað var það fyrir þig?/ Hvað viltu hingað? Hvað ert þú að gera“? “ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Snúður (n, kk) A. Snúningur/vindingur á bandi/reipi. „Það þarf að gæta þess að hafa hæfilega harðan snúð á lopanum þegar spunnið er“. Talað er um snúðhart band, þegar snúður er of harður. B. Kaka sem gerð er þannig að deig er flatt; á það sett sulta, kanill eða annað; það rúllað upp; skorið í sneiðar og bakað í litlum stykkjum. C. Gæluorð um nef/trýni á skepnu. „Vantar þig bita í snúðinn á þér, greyið mitt“? D. Það sem snýst, t.d. „ankeri“ (rótor) í rafal eða rafmótor.
Snúður á honum (orðtak) Hann er snúinn/önugur/þykkjuþungur. „Það var heldur betur snúður á karlinum“.
Snúinhyrnd (l) Um hornalag sauðkindar; horn snúin frá rót út til enda.
Snúinkjafta / Snúinkjaftur (n, kk) Sú/sá sem þykir kjöftugur/meinyrtur eða á annan hátt tala það sem öðrum ekki líkar. „Ég legg nú lítinn trúnað á það sem sá snúinkjaftur lætur útúr sér“!
Snúinn (l) A. Undinn. „Taumar voru fyrrum snúnir úr togi“. B. Erfiður. „Þetta gæti nú orðið dálítið snúið“. C. Önugur. „Karlinn var ferlega snúinn og úrillur“.
Snúningalipur (l) Viljugur að snúast/gera greiða/fara sendiferðir. „Alltaf er strákurinn jafn snúningalipur“.
Snúningalipurð (n, kvk) Það að vera snúningalipur; greiðvikni; dáderingar. „Hann er mesta gæðablóð þessi drengur. Og ekki skortir hann greiðvikni og snúningalipurð“.
Snúningalítið (l) Ekki mikil fyrirhöfn; ekki úrleiðis. „Það væri mjög snúningalítið að taka þetta í leiðinni“.
Snúningasamt (l) Mikil fyrirhöfn; mikill erill. „Snúningasamt hefur það verið hjá Hákoni, og ekki á allra færi að leika það eftir“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Snúningastrákur (n, kk) Léttadrengur; vikapiltur; strákur sem vinnur ýmsa snúninga og létt verk.
Snúningastelpa (n, kvk) Stúlka sem vinnur ýmis létt verk á búi/heimili.
Snúningsátt (n, kvk) Réttsælis eða rangsælis snúningur þess sem snýst. „Sjávarfallahverfill Valorku heldur óbreyttri snúningsátt þó straumstefnan breytist“.
Snúningur (n, kk) A. Það að snúast. „Vélin var komin á fullan snúning“. B. Fallaskipti. „Hann gaf sig til um snúninginn“. „Lagt var þvert á straum, og hyllst var til að leggja lóðina í fullhörku á straum. Láta hana fá einn snúning og draga svo aftur þegar tók að harðna fallið“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). C. Viðvik. „Hann er ágætur til snúninga, blessaður drengurinn“. D. Stutt ferð. „Þetta kostaði snúning inn á pósthús“. E. Dans. „Eigum við að fá okkur snúning“? F. Vindingur. „Hér er snúningur á netinu“. G. Breytt vindstaða. „Mér sýnist að einhver snúningur gæti verið í honum þessa stundina“.
Snúra (n, kvk) A. Almennt um band/taug/spotta. B. Þvottasnúra; band milli stólpa sem þvottur er hengdur á til þerris.
Snúra (s) A. Almennt um að mæla/merkja/girða með snúru/bandi. B. Snúra tré. Merkja fyrir langögun á stórviði með snúru. Var þetta gert þannig að sótug snúra var strekkt milli tveggja nagla á þeim stað sem saga skyldi. Miðja hennar var toguð frá og síðan sleppt, og skildi hún þá eftir beint strik þó bolurinn væri e.t.v. boginn.
Snúrusími (n, kk) Sími með snúru milli símtækis og handtóls. Allir símar voru snúrusímar, fram til þess að þráðlausir símar fóru að tíðkast (um 1980). Orðið er að sjálfsögðu ekki gamalt en varð útbreitt.
Snúrustaur / Snúrustólpi (n, kk) Staur til að halda uppi þvottasnúrum.
Snúss (n, hk) A. Gæluheiti á neftóbaki. „Fáðu þér snúss“. B. Snatt; smáerindi; snúningar; stúss.
Snússa (s) Snuðra; þefa. Hvað er hundurinn að snússa þarna úti á barðinu“?
Snússa sig (orðtak) Taka í nefið; fá sér í nefið. „Nú er í lagi að snússa sig; þegar féð er allt i réttinni“.
Snútur (n, kk) Trýni; nef; snúður. „Leyfðu mér að snýta á þér snútinn stubbur minn“.
Snyrta / Snyrta til (s/orðtak) Gera fínt/snyrtilegt; lagfæra; laga; fága.
Snyrta sig (orðtak) Laga/fága útlit sitt; greiða/þvo sér, skipta um föt o.fl.
Snyrtidót (n, hk) Áhöld til að snyrta sig.
Snyrtilega (l) Á skipulegan/fallegan hátt; hreinlega; fagmannlega. „Gakktu nú snyrtilega frá þessu“.
Snyrtilega (ao) Fallega; laglega; smekklega. „Það þarf að leggja snyrtilega á borðið fyrir veisluna“.
Snyrtimenni (n, kk) Vel til fara; hreinlátur. „Hann er mikið snyrtimenni og þolir illa svona óreiðu“.
Snyrtimennska (n, kvk) Það þegar maður er snyrtilegur/ gengur vel frá/um. „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi. Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill. Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið. En það er fleira en þetta sem ekki fer í handaskolum hjá þessum heiðursbændum; (svo sem) snyrtimennska á heimilum þessum, úti og inni“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).
Snyrting (n, kvk) A. Það að snyrta sig. B. Annað heiti á klósetti/salerni; staður til snyrtingar. Orðið er ekki gamalt í íslenskri tungu, enda tóku Íslendingar almennt ekki upp erlenda siði í snyrtingu fyrr en á 20.öld. Ekki var gert ráð fyrir verulegu snurfusi á kömrum sem tíðkuðust við hús í byrjun þeirrar aldar, en menn rökuðu sig á rúmstokknum og þvoðu sinn búk fyrir hátíðlegustu tækifærin uppúr vaskafati. Það dugði.
Snyrtitaska / Snyrtiveski (n, kvk/hk) Lítið veski til að geyma snyrtidót.
Snýta (n, kvk) Sú athöfn að snýta sér; hljóð sem heyrist þegar snýtt er. „Fáir framleiddu jafn tignarlegar og langdregnar snýtur og hann. Hús léku á reiðiskjálfi og ekki heyrðist mannsins mál meðan á þeim stóð“. „Margir voru kvefaðir í messunni, og stundum heyrðist lítið í presti fyrir snýtum, hóstum og ræskingum“. Stundum notað orðið snýting/snýtingar um það sama.
Snýta (s) Blása hor úr nefi með snöggum blæstri. Gjarnan er þá um leið þrengt að nasavængjum með tveimur fingrum. Nú á dögum snýta menn sér í vasaklút eða pappírsþurrku, en meðan menn unnu almennt úti snýttu menn sér iðulega með fingrum; enda ekki eins naugið hvar slumman lenti.
Snýta rauðu (orðtak) Um það þegar blóðlitur kemur í hor þegar snýtt er. „Hann snýtti rauðu fyrst eftir að hann fékk árina í sig, en það jafnaði sig fljótt og hann kenndi sér einskis meins“.
Snýta úr annarri nösinni (orðtak) Gera/greiða eitthvað auðveldlega. „Þetta verður æði kostnaðarsamt; hann snýtir því nú varla úr annarri nösinni“!
Snýtuklútur (n, kk) Vasaklútur. „Þurrkaðu nú ögn framan úr þér mesta slorið með snýtuklútnum“.
Snæða (s) Borða; matast. „Við hugum að þessu þegar við erum búnir að snæða“.
Snæðingur (n, kk) Matur; það að matast. „Síðan var sest að snæðingi“ (ÖG; Glefsur og minningabrot).
Snælda (n, kvk) Áhald til að spinna ull. Notað áður en rokkar komu til. Sjá tóvinna.
Snælda (n, kvk) A. Halasnælda; áhald til tóvinnu, gerð úr steini, beini eða tré. Samanstendur annarsvegar úr priki/skafti sem nefnist hali/snælduhali og hinsvegar úr kringlu/hnúð sem nefnist snældusnúður. Snúðurinn er vanalega kringla sem kúpt er öðrumegin, en í hinni hliðinni er gróp sem snælduhalinn festist í, en hann mjókkar vanalega í þann endan sem frá snúðnum veit. Þriðji hluturinn er krókur/lykkja úr eir eða járni sem nefnist hnokki og er fest á kúpuhlið snúðsins; gegnt halanum. Halasnældan var notuð til að spinna þráð úr ull eftir að hún hafði verið hreinsuð og kembd, en notkun hennar lagðist að mestu af með tilkomu spunarokka. Sjá tóvinna. B. Snælda í rokk/spunarokk. Snúðurinn sem spunnið bandið befst uppá um leið og spunnið er. C. Hespa af spunnu garni sem kemst uppá eina snældu. C. Stelkur; stoð undir þóftu báts, sem fiskifjalir festast á. D. Kassetta; segulband. Þráður til upptöku á hljóði, undinn upp á kringlu.
Snældubilaður / Snældubrjálaður / Snældugeggjaður / Snælduvitlaus (l) A. Um veður; Kolvitlaust; glórulaust. „Hann er að gera snældubrjálað veður“. B. Um mann; kolvitlaus; brjálaður. „Ertu alveg snældugeggjaður? Það er glórulaust að leggja á fjallið í þessu útliti“! „Karlinn varð alveg snælduvitlaus þegar hann frétti af þessu“.
Snældugeggjun (n, kvk) Algert brjálæði; frámunaleg vitleysa. „Ég hef sjaldan heyrt um álíka snældugeggjun“!
Snælduhali / Snælduhnokki / Snældusnúður (n, kvk) Hlutar snældu. Sjá snælda og tóvinna.
Snældustokkur (n, kk) Tréstokkur með uppháum göflum. Milli þeirra er teinn/vír sem spólum/snældum af rokk er rennt uppá og síðan dregið af þeim þegar spunnið er. Í stokknum er unnt að geyma snældur o.fl.
Snæra (s) Binda/súrra með snæri. „Hespan var brotin, svo ég snæraði hurðina aftur“. „Ekki líst mér gæfulega á heyvagninn hjá honum; allur snæraður saman“.
Snæraflækja (n, kvk) A. Færaflækja; flækja tveggja færa í sjó á skakveiðum. Snæri var annað orð á færi. B. Snæri sem farið hefur í flækju.
Snærahnýtingar (n, kvk, fto) Mikil notkun snærisspotta til að festa saman. „Hér þarf að fara að endursmíða dilkinn; þetta hangir bara saman á fúasprekum og snærahnýtingum“.
Snæri (n, hk) A. Mjó lína; band. „Hurðin var bundin aftur með snæri“. B. Færi. Það „stendur fiskur á hverju snæri“ er haft um mikla vild á fiski. Einnig orðtökin að vera „á einhvers snærum“, þ.e. tilheyra afla einhvers; og að það „hlaupi á snærið hjá manni“, sem þýðir að fá veiði. C. Lóð; fiskilína. Einkum haft um lúðulínu/haukalóð/sprökusnæri/hneifasnæri.
Snærisflækja (n, kvk) Snæri sem komið er í fækju.
Snærishanki (n, kk) Lykkja úr snæri. „Snærishanki er bundinn á netasteininn með sérstöku bragði“.
Snærishönk (n, kvk) Snæri sem hankað hefur verið upp/ hringað hefur verið í hönk.
Snærislengd (n, kvk) 60 faðmar; lengd á fiskilínu. „Báturinn var um snærislengd frá okkur“.
Snærisspotti / Snærisendi / Snærisstubbur (n, kk) Bútur af snæri. „Hafðu með þér snærisspotta og lappaðu uppá girðinguna“.
Snæugla (n, kvk) Bubo scandiacus. Tegund uglu sem er óreglulegur gestur hérlendis og hefur orpið á Suðurlandi. Hefur sést í Kollsvík. Sterkvaxinn fugl sem lifir mest á heimskautasvæðum og túndrum. Hvít að lit, með brúnum skellum; augu gul. Lengd allt að 71cm og vænghaf að 150cm; þyngd allt að 3kg. Verpur á jörðinni á bersvæði þar sem útsýni er gott. Mikill veiðifugl og lifir erlendis mikið á læmingjum, en hér á músum o.fl.
Snæviþakinn (l) Hulinn snjó. „Við sáum slóðina greinilega, fram allan snæviþaktan dalinn“.
Snöfl (n, hk) Snúningar; dund; útréttingar; frágangur. „Ég þarf að skreppa á Patró á morgun í ýmiskonar snöfl“.
Snöfla (s) Sniglast; gaufa; slóra. „Hann er að snöfla eitthvað í kringum bátinn niðri í fjöru“.
Snöfurmannlega (ao) Af röggsemi; rösklega; ákveðið. „Hann snaraðist snöfurmannlega inní dilkinn; þreif lambið upp og vippaði því inní almenninginn aftur“.
Snöfurmannlegur (l) Röggsamur; röskur; ákveðinn. „Hann þykir snöfurmannlegur í þessu hlutverki“.
Snöggbakað (l) Heldur lítið bakað. „Er brauðið eitthvað snöggbakað hjá mér“?
Snöggbreyta (s) Breyta skyndilega. „Hann hefur þá snöggbreytt um skoðun“.
Snöggbreytast (s) Breytast skyndilega. „Veðrið er gott núna en það getur snöggbreyst þá og þegar“.
Snöggdýpka (s) Dýpka hratt/skyndilega. „Þarna á kantinum snöggdýpkar“.
Snöggfrysta (s) Frysta skyndilega; hlaupa í frost. „Hann snöggfrysti með morgninum“.
Snögghlýna (s) Hlýna skyndilega. „Hálkan getur verið varasöm þegar snöghlýnar svona í veðri“.
Snögghægja (s) Hægja skyndilega. „Hann snögghægði þegar skúrinni létti“.
Snögghærður (l) Með stutt hár.
Snögghætta (s) Hætta skyndilega.
Snögglagast (s) Batna/lagast skyndilega. „Veðrið snögglagaðist eftir élið, svo við náðum að hlaupa heim“.
Snögglega (ao) Allt í einu; skyndilega. „Vélin stöðvaðist snögglega þegar sjór skvettist á kveikjuna“.
Snögglægja (s) Um veður/sjólag; lægja skyndilega. „Hann hefur snögglægt þennan vestangutlanda sem var í morgun“. „Hann snögglægði aftur eftir élið; jafn skyndilega og það hafði skollið á“.
Snöggreiðast (s) Reiðast skyndilega; fjúka í; rjúka upp. „Ég snöggreiddist þegar ég heyrði þetta“.
Snöggsjóða (s) Sjóða lítið; hleypa uppá. „Svona glænýjan fisk þarf rétt aðeins að snöggsjóða“.
Snöggsleginn (l) Sleginn nærri rót. „Svona óslétt tún verður aldrei snöggslegið“.
Snöggsoðinn (l) A, Um mat; soðinn í stuttan tíma. B. Líkingamál um málefni/vinnulag/verk. „Heldur fannst mér þessi skýrsla snöggsoðin hjá þeim“.
Snöggur blettur (orðtak) Viðkvæmur staður á líkama/persónu/skapsmunum. „Hann var meinstríðinn og laginn að finna snögga bletti á mönnum til að geta hleypt mönnum upp“.
Snöggt um (orðtak) Enda/deyja snögglega. „Það varð snöggt um karlinn; hann fékk hjartaslag og dó“. „Eftir þetta rifrildi varð fremur snöggt um kveðjur þeirra á milli“.
Snöggtum betri/bráðari/ fljótari/fyrr/harðari/hraðari/lakari/léttari/meiri/minni/mýkri/seinni/ skarpari/sljórri/sterkari/stærri/umfangsmeiri/veikari/þyngri/örari o.fl. (orðtök) Miklum mun…; mikið …. „Túnin eru snöggtum betur sprottin en í fyrra“. „Þetta er snöggtum lakari afli en í gær“.
Snöggur upp á lagið (orðtak) Höstuglegur; stuttur í spuna; snaggaralega; með hraði.
Snöggvast (ao) Í skyndingu/fljótheitum. „Komdu hérna snöggvast og réttu mér hendi“. Sjá rétt sem snöggvast.
Snöggþagna (s) Þagna skyndilega. „Í miðjum húslestrinum varð karli litið útum gluggann og sá að fært myndi vera orðið að róa. Hann snöggþagnaði; grýtti frá sér postillunni og sagði; „Hér er bókin; hvar er brókin; amen“! (Saga af Krisjáni Ásbjörnssyni á Grundum, sem þótti framkvæmdasamur mjög, en nokkuð fljótfær).
Snögun (n, kvk) Söfnun eggja í strjálu varpi í bjargi. „Maður nennir ekki að fást við snögun í Hnífunum þegar auðveldlega er hægt að komast í mikið samfelldara varp annarsstaðar“.
Snökt (n, hk) Dálítill grátur; vol; ekkasog. „Hættu nú þessu snökti stubbur minn; þetta lagast“!
Snökta (n, s) Gráta; vola; vera með ekka. „Hversvegna ert þú að snökta lambið mitt“?
Snöp (n, hk, fto) A. Lítilsháttar beit fyrir sauðfé. „Það má heita jarðlaust; þetta eru bara snöp hjá því“. B. Betl; beiðni um aðstoð; leit að litlu. „Um tíma var hann atvinnulaus og þurfti að lifa á snöpum“. Sjá snapa.
Snörl (n, hk) Hrygla; korr. „Óttalegt snörl er þetta í þér; er þessi pestarfjandi ekkert að lagast“?
Snörla (s) Vera með hryglu. „Mér finnst snörla óeðlilega í honum við andardráttinn“.
Snörun (n, kvk) A. Það að snara skepnu með því að koma lykkju yfir haus hennar. Oftast notað vestra um veiðar fugls í bjargi. B. Lokun hurðar með því að snara henni. C. Þýðing af einu tungumáli á annað.
Snös (n, kvk) Klettanef; nibba. „Í bjargferðum vofir jafnan yfir hætta úr öllum áttum. Steinn getur fallið í höfuð manni og snösin sem á er staðið, hrapað undan fótum hans“ (ES; Látrabjarg; Barðstrendingabók).
Soddan (l) Sjá svoddan.
Soð (n, hk) Vatn sem eitthvað hefur verið soðið í. T.d. fisksoð, kjötsoð. Sjá fá í soðið; veiða í soðið.
Soðfiskur (n, kk) Fiskur til suðu; soðinn fiskur. „Úr síðustu róðrunum var steinbíturinn oftast saltaður, bæði vegna þess að þannig var hann tiltækilegri til flutnings, og eins var hann hinn ágætasti soðfiskur sem heimilunum var kærkominn“ (KJK; Kollsvíkurver). „Víðast var etinn soðfiskur að lokinni aðgerð, en þá matseld annaist einhver af áhöfninni eða fanggæslan. Víða átti hver vermaður sinn disk, fyrrum úr tré, sem soðningin var færð upp á, og átti hann sjálfur að sjá um þrif á honum“ (Frásögn ÓETh o.fl.) (LK; Ísl. sjávarhættir II). Sjá skrínukostur; vermata og verskrína.
Soðhella (n, kvk) Hella í veri, sem soðning vermanna er færð uppá. Hellu með því nafni má enn sjá í verstöðinni Stöð í Keflavík.
Soðkaka (n, kvk) Kaka sem soðin er en ekki bökuð. Þekktist ekki í Kollsvík, a.m.k. ekki í seinni tíð.
Soðketill (n, kk) Ketill/pottur sem soðið er í. Orðið var algengara fyrrum.
Soðkraftur (n, kk) Síðari tíma heiti á vatni sem matur hefur verið soðinn í, en vatnið síðan soðið áfram þar til eftir situr tiltölulega lítið vatn með bragðefnum og fleiru úr soðningunni. Stytt í „kraftur“; t.d. kjötkraftur.
Soðmatur (n, kk) Matvæli sem tekin eru til suðu; soðinn matur; soðning. „Fisk til soðmatar tóku menn af óskiptum afla“. „Það heitir varla að þar sé báti ýtt úr vör; aðeins fiskjað til soðmatar“ (KJK; Kollsvíkurver).
Soðinn (l) Sem búið er að sjóða. „Eru ekki kartöflurnar að verða soðnar“? Sjá hvorki hrár né soðinn.
Soðna (s) Verða soðinn; hitna mjög mikið. „Fiskinum hættir til að soðna í sólarsterkjunni“.
Soðning (n, kvk) Soðinn fiskur; fiskur til suðu. „Ég er að færa soðninguna upp“. Ég pakka fiskinum þannig að hver skammtur nægi í eina soðningu“. „Heimamönnum færður grautur, mjólk og soðning, en eftir að þeir fengu prímusa, suðu þeir sjálfir soðninguna í Verinu á prímus“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). Þá var prímus, kaffiketill, kanna og fantar til að drekka úr; blikkfata eða pottur til að sjóða soðninguna“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Víða (í verstöðvum norðan Bjargs) átti hver skipverji sinn disk; fyrrum úr tré, sem soðningin var færð upp á, og átti hann sjálfur að sjá um þrif á honum“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).
Soðningardiskur / Soðningarfat (n, kk/hk) Platur/diskur sem soðning er sett á þegar fært er uppúr soðningarpotti.
Soðningarfiskur (n, kk) Fiskur sem ætlaður er til neyslu/soðningar fljótlega eftir að hann er veiddur.
Soðningarpottur (n, kk) Pottur til að elda soðningu. „Aflinn var lítill; varla í soðningarpottinn“.
Soðningarróður (n, kk) Róður sem farinn er til að sækja sér í soðið; fiskiróður til að fá sér í soðið. „Við brugðum okkur í soðningarróður framá víkina í veðurblíðunni“.
Soðpottur (n, kk) A. Pottur sem soðið er í (eldri merking). B. Pottur með soði (síðari tíma merking).
Sofa af (orðtak) Ljúka svefni; uppfylla svefnþörf. „Við skulum sofa af í nótt og athuga með þetta á morgun“.
Sofa (eitthvað) af sér (orðtak) Missa af einhverju vegna þess að maður sefur. „Ég svf af mér sjöfréttirnar í morgun og hafði því ekkert heyrt af þessu“.
Sofa andfæting / Sofa andfætis (orðtak) Tvímenna í rúmi, þannig að fætur annars séu við höfuð hins. Þannig var oft sofið áðurfyrr, t.d. í verbúðum, til að nýta rúmpláss og svefngögn. „Rekkjufélagar sváfu andfæting og höfðu koffortin sín; skrínurnar, við höfðalagið“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). Sjá andfætlingur.
Sofa á (orðtak) Láta nótt líða varðandi lausn vandamáls/viðfangsefnis. „Ég held að við ættum að sofa á þessu í nótt; kannski liggur þetta ljóst fyrir í fyrramálið“.
Sofa á sitt græna eyra (orðtak) Sofa. Orðtakið var mikið notað í Kollsvík, t.d. þegar menn voru orðnir mjög svefnþurfi eða þegar börn áttu að fara í rúmið „Farðu nú að sofa á þitt græna eyra lambið mitt“. „Ég held að maður fari nú bara að sofa á sitt græna eyra“. Ekki er ljóst um skýringu orðtaksins, en e.t.v. vísar það til þess að eyru séu orðin græn og úldin af svefnleysi. Sjá halla sér á sitt græna eyra.
Sofa eins og rotaður / Sofa eins og selur (orðtak) Sofa mjög fast. „Ég svaf eins og rotaður; langt fram á næsta morgun“.
Sofa fast/laust (orðtak) Vera í djúpum svefni eða grunnum. Sjá hafa andvara á sér.
Sofa frá sér vit og ráð/rænu / Sofa úr sér augun (orðtak) Sofa allt of mikið/yfir sig. „Ekki dugir að sofa frá sér vit og rænu ef við ætlum að klára þetta í dag“. „Láttu mig svo ekki sofa úr mér augun á morgun“. E.t.v. hefur þeirri trú verið komið inn í vinnukerju fyrri tíðar, að menn gætu orðið vitskertir og blindir af að sofa of mikið.
Sofa hjá / Sofa saman (orðtak) Stunda kynlíf.
Sofa í hausinn á sér Sofa til að hvílast. „Ég held að þér veiti nú ekki af að fara að sofa eitthvað í hausinn á þér; þú ert búinn að vera á stöðugum þeytingi í allan dag“.
Sofa svefni hinna réttlátu (orðtak) Sofa vært/vel. „Hann sefur enn svefni hinnar réttlátu. Ég gat ekki verið að vekja hann strax; eftir allar vökurnar í nótt“. Líklega hefur góður svefn fyrrum verið talinn merki um hreina samvisku og syndleysi, en martraðir og andvökur verið taldar stafa af slæmri samvisku og illsku viðkomandi.
Sofa úr sér (orðtak) Láta vímu renna af sér meðan maður sefur; sofa eftir fyllerí.
Sofa út (orðtak) Sofa eins og maður hefur þörf fyrir; fullnægja svefnþörf. „Hann var að langt frameftir nóttu, svo ég leyfði honum bara að sofa út og fór sjálfur í fjósið“.
Sofa yfir sig (orðtak) Sofa lengur en maður ætlar; sofa af sér. „Hann svaf yfir sig og mætti of seint“.
Sofandaháttur (n, kk) Andvaraleysi; deyfð; værukærð. „Skelfilegur sofandaháttur er á þessum þingmönnum“!
Sofandalegur (l) Daufur; í leiðslu; ekki hress. „Það dugir ekki að vera svona sofandalegur í náminu“.
Sofinn (l) Búinn að sofa; hvíldur. „Maður dálítið illa sofinn eftir þessa andvökunótt“.
Sofna útaf (orðtak) Sofna; festa svefn. „Ég var örþreyttur, en náði þó ekki strax að sofna útaf“.
Sofnaður (l) Farinn að sofa; ekki vakandi. „Hann er sofnaður fyrir allgóðum tíma“.
Sofnhús (n, hk) Hús til þurrkunar á korni. Ekki er vitað til að slíkt hús hafi verið í Kollsvík eða nágrenni.
Sog (n, hk) A. Ölduhreyfing við land; súgur. „Það er töluvert sog þarna í þræðingnum og rétt að fara með gát“. B. Það að soga/draga vökva; iða. „Í leysingum tók ræsið ekki við, og myndaðist mikið sog ofan við það“. C. Affall; ós. Orðið hefur ekki verið notað í þeirri merkingu í seinni tíð, en dæmi um hana er t.d. Sogið neðan Þingvallavatns.
Soga (s) Sjúga; draga að sér. „Haltu við bátinn í fjörunni, svo hann sogist ekki út með bárunni“. „Hann kveikti sér í pípu og sogaði reykinn meðan hann velti þessu fyrir sér“.
Sogdæla / Soglögn / Sogskiptir / Sogslanga / Sogventill (n, kvk/kk) Hlutar mjaltavélar.
Sogflaga / Sogskál (n, kvk) Skálarlaga felling neðan á sumum fiskum, t.d. hrognkelsi, sem fiskurinn notar til að soga sig fastan á undirlag, t.d. steina. Einnig nefnd kúla. Sogflaga er ofaná höfði sumra dvalfiska, sem fylgja eftir stærri fiski, og nota þeir hana til að festa sig við hann.
Sogin (l) Um kvendýr/móður; hefur gengið með og nært afkvæmi. „Ári er þessi kind halljúgra; hún er ekki sogin nema öðrumegin. Það þyrfti að ná henni og létta aðeins á henni“.
Sokkabandsár (n, hk, fto) Barnsár; uppvaxtarár. „Ég var þá á mínum sokkabandsárum“. Sokkabönd voru notuð til að halda uppi sokkum á fótum fyrir daga teygju sem nú er almennt í sokkum. Orðið er nú úrelt líkt og hluturinn, en lifir í þessu orðasambandi. Sjá duggarabandsár. „Heyr mig seljan safírblárra sokkabanda/ nú er ég í nokkrum vanda“ (JR; Rósarímur).
Sokkaleistar (n, kk, fto) Sokkar; leistar. „Vertu nú ekki að stjákla úti á sokkaleistunum drengur“! Fyrrum var heitið sokkur notað um fótafatnað sem náði hátt upp á legginn; uppundir hnér eða hærra. Leistur náði hinsvegar uppá ökkla eða lítiðeitt hærra. Sokkaleistur var því notað um það sem var þar á milli, en þegar sá fatnaður varð allsráðandi varð heitið sokkur ofaná. Sokkaleistar lifa þó enn, t.d. í máli Kollsvíkinga.
Sokkaplögg (n, hk, fto) Sokkar. „Ef nota átti bandið í vinnupeysur karla eða grófari sokkaplögg var kembt saman tog og þel, eða notað eingöngu tog; en tekið var ofan af sem kallað var þegar tog og þel var aðskilið... Nöfn á sokkum voru á grófum hosum, háleistar, hosur, snjósokkar (háir) og var verið í þeim úti utan yfir smábandssokkum á vetrum eða í kulda. Þessir grófu voru handprjónaðir en þeir fínni oftast á prjónavél.... Svo voru bæði stelpur og strákar í sokkum sem náðu upp á mið læri svo að næði vel saman buxur og sokkar. Sokkar voru með tölum efst og hnepptir upp með sokkaböndum sem aftur voru hneppt upp á kot sem krakkar voru í.“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). Hafði hann meðferðis sokkaplögg og fatnað er að gagni mætti koma“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Sokkaskipti (n, hk, fto) Skipti á sokkum á fótum. „Ég vöknaði aðeins í fæturna í rekjunni og mátti fara heim til að hafa sokkaskipti“.
Sokkótt (l) Hosótt; litur á sauðfé: Dökkt með ljósa fætur, misjafnlega langt upp og á misjafnlega mörgum fótum. Getur einnig verið í öfugri litaröð. Getur einnig átt við um kýr og hesta.
Sokkinn (l) Kominn á kaf; búinn að sökkva. „Grjót úr verbúðum í Láganúpsveri hefur fyrir löngu verið nýtt í aðrar hleðslur, og aðrar leifar þeirra eru sokknar í sand“.
Sollinn (l) Bólginn. „Hnéð er enn ansi sollið og aumt“. Þátíð af „svella“ sem þó hefur núna aðra merkingu.
Sollur (n, kk) Spilling; slark. „Það er nú eitthvað annað, kyrrðin í sveitinni en asinn í sollinum fyrir sunnan“.
Soltinn (l) Svangur; hungraður. „Maður er orðinn dálítið soltinn eftir þessar smalamennskur“.
Sopi (n, kk) A. Munnfylli af vatni eða öðrum vökva. „Nú myndi eg þiggja sopa af kaffi“. B. Dálítið magn af vökva. „Það er kominn drjúgur sopi í bátinn; ég ætla að ausa dálítið“.
Soppa (n, kvk) Grautur; hlaup. „Gættu að þér í seilinni. Þó þetta sýnist gróið þá er þetta bara fljótandi soppa“.
Sorajárn (n, kk) Járn sem mikið er í af gjalli eða öðrum óhreinindum; lélegt járn.
Sorakjaftur (n, kk) Ófagurt orðfæri; dónalegt tal. „Hann var orðinn blindfullur og hafði uppi sorakjaft.
Soramark (n, hk) Skaðamark; undanfæringamark; eyrnamark sem veldur miklum þjáningum/blæðingum hjá kindinni. “ Sumir fjárríkir bændur, sem stóðu mikið í fjárkaupum, áttu svokölluð undanfæringarmörk, þar sem svo mikið var tekið af eyranu að hægt var að nota þau til að marka upp kindur með svo að segja hvaða marki sem var. Þessi mörk voru stundum kölluð soramörk“ (Stefán Aðalst.; Sauðkindin, landið og þjóðin).
Sorabylur / Soraveður (n, kk/hk) Slæmt veður. Helst haft um þéttan slyddubyl/slyddusora. „Við skulum sjá hvort veðrið lagast ekki eitthvað; það er ástæðulaust að bleyta sig inn að skinni í þessu soraveðri“.
Sorfinn (l) Núinn/eyddur af brimi eða með verkfæri. „Hestur er í laginu eins og skip undir seglum; hár sem þriggja hæða hús, og situr fugl í honum. Hægt er að ganga upp á hann eftir sorfnum þrepum frá hafi í röndinni“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Sorg og sút (orðtak) Hugarvíl; dapurt hugarástand; sorg; söknuður. „Það er oft gott að hafa nóg fyrir stafni þegar ástvinamissir verður; fremur en að sitja aðgerðarlaus í sinni sorg og sút“.
Sorgarfrétt (n, kvk) Ótíðindi; frétt af dauðsfalli/mannskaða. „Hann brást þögull við þessari sorgarfrétt“.
Sorgarrönd (n, kvk) A. Dökk rönd óhreininda undir nöglum. B. Hringur innan á íláti eftir að staðið hefur í því t.d. mjólk og rjóminn skilið sig. „Í mjólkurkönnunni voru nokkrar sorgarrendur, sumar grænar og loðnar“.
Sorgarsjón / Sorgarsýn (n, kvk) Dapurleg sjón; hryggilegt að horfa uppá. „Túnin voru sannkölluð sorgarsjón þegar kalskemmdirnar fóru að koma í ljós“.
Sorgbitinn / Sorgmæddur (l) Dapur; niðurdreginn; saknandi. „Það þýðisr víst lítið að vera sorgbitinn yfir þessari lúðu til allrar eilífðar; hún var sýnd veiði en ekki gefin“.
Sorglega (ao) Dapurlega; sárlega.„Sorglega lítið hefur verið hugað að varðveislu þessarar sérstæðu menningar“.
Sorglegra/sárara/þyngra/þungbærra en tárum taki (orðtak) Sjá þungbærra en tárum taki.
Sori (n, kk) A. Botnfall; groms; sót; úrgangur frá t.d. brennslu. B. Gjall frá málmbræðslu. C. Dimmviðri; él; suddi; regnþykkni.
Sorpreki (n, kk) Reki af rusli/sorpi á fjörur. „Almennur hreppsfundur haldinn að Fagrahvammi beinir þeim ákveðnu tilmælum til hreppsnefndar Patrekshrepps að þannig sé unnið að sorpeyðingu staðarins að sorpreki sunnan fjarðarins valdi ekki óþrifnaði á fjörum eða öðru landi“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Sorprit (n, hk) Rit/bók/blað með efni sem ekki þykir viðeigandi/virðulegt/sómasamlegt. „Þú mátt fara með Moggaskrattann á aðra bæi; hér les enginn þannig sorprit“!
Sortera (s) Flokka. „Aflinn er sorteraður þannig að bútungur og rígaþorskur fer í sér kassa“.
Sort (n, kvk) Tegund; afbrigði. „Það þarf að reyna að flokka kartöflurnar eftir sortum“. „Hún hafði hlaðið borðið af bakkelsi; líklega einum þrjátíu sortum eða meira“!
Sorta (n, kvk) Svartur járnblandaður mýrarjarðvegur sem notaður var til litunar á ull. „Sortaugu voru rotpyttir, en horfnir nú þar sem búið er að grafa. Þar var sorta tekin til litunar og þótti góð“ (ÍÍ; Örn.skrá Grafar).
Sorta (s) Lita svart; sverta. Einkum notað um litun klæða/efnis með svörtum litarefnum. Sortulyng var notað til sortunar áðurfyrr.
Sortabylur / Sortaél / Sortahríð / Sortakafald (n, kk) Mjög dimmt él. „Það var komið foráttubrim í lendingunni, enda hafði vindur nú snúist til suðvesturs og kominn sortabylur“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Sortaþoka (n, kvk) Dimm þoka; niðaþoka. „Það er eins gott að kompásinn sé réttur í þessari sortaþoku“.
Sortera (s) Flokka/raða eftir sameiginlegum eiginleikum/eðli. „Ég er að sortera þessa pappíra“.
Sortering (n, kvk) Flokkun; rögun. „Vertu nú ekki að standa í svona sorteringum; þú étur bara rúsínurnar með jólakökunni, og ekkert múður með það“!
Sorti (n, kk) A. Svartur litur/lögur til litunar á t.d. fatnaði eða lopa. B. Dimma; dimmt él. „Þetta er meiri ansvítans sortinn. Það er varla ratljóst milli húsa“. C. Myrkvun, t.d. sólmyrkvi.
Sortna (s) Dimma; dökkna; verða svart. „Fjandi er hann að sortna skarpt í suðurloftið“!
Sortna fyrir augum (orðtak) Verða dimmt fyrir sjónum, líkt og aðkenning að yfirliði eða blóðleysi í höfði. „Mér sortnaði fyrir augum af högginu, en stóð þó í fæturna og færði mig uppað berginu“.
Sortnar/dökknar/syrtir í álinn (orðtak) Ástandið/útlitið versnar; syrta í álinn. „Það sornaði í álinn þegar árin brotnaði“.
Sortníðingur (n, kk) Sá sem borðar einungis eina sort/tegund af þeim réttum/kökum sem á borðum eru. „Þú mátt ekki vera þessi sortníðingur drengur þó þér þyki þessi kaka best; fáðu þér af hinum líka“!
Sortublek (n, hk) Sortulyngsseyði; blek sem búið er til úr sortulyngi, með uppleystu járnvítríóli.
Sortulita (s) Lita með sortulyngsseyði.
Sortulitur (n, kk) Litur sem myndast við litun með sortulyngsseyði.
Sortulyng / Sortulitun (n, hk/kvk) Arctostahylos uva ursi. Sortulyng vex víða í grennd við Kollsvík, t.d. í Keldeyrardal, Hvolfum og Vatnadal framanverðum. Það er lágvaxið en þétt lyng með sporöskjulaga, smáum grænum blöðum. Lyngið er með hárauðum berjum sem vestra nefnast músamuðlingar (framburður misjafn; stundum músamulningar) en annarsstaðar eingöngu „muðlingar“ og eru þau talin mikilvæg fæða músa. Lyngið er nokkuð algengt í holta- og móajarðvegi fram til dala,einkum þar sem snjósælt er. Gagnsemi sortulyngs var mikil áðurfyrr, einkum til litunar og bleksvertu eins og nafnið bendir til, en einnig mun það eitthvað hafa verið haft til matar. Til litunar á vaðmáli var aðferðin þessi: „Fyrst var tekið sortulyng, skorið og sett vatn á og látið standa viku til hálfan mánuð, þar til lögueinn var orðinn sterkur. Síðan er lynginu dreift á vaðmálið og það vafið yrir og látið í pott og leginum hellt yfir, svo að yfir fljóti. Lyng er einnig haft undir í pottinum til að vaðmálið brenni ekki við hann. Helst er prik haft innan í stranganum og hann látinn standa á endann í pottinum til þess að hægt sé að velta verkefninu til. Svo var liturinn soðinn í 6-8 stundir og svo látið kólna. Þetta varð mósvart á lit, og látið duga þegar um hversdagsföt var að ræða. En ef um spariföt var að ræða var... notuð sorta úr forarmýrum) (JJ; Ísl. þjóðhættir). „Ullarverk er litað í þessa lyngs legi, sem alkunnugt er, og verður gulmórautt. Af vatni sem hefur á blöðunum staðið má gjöra blek með því móti að láta koma eitt lóð af járnvítríóli í einn pott lynglagar. Næsta dag eftir er vítíólið runnið og blekið algjört, sem það kann að verða; hafi það staðið á hlýjum stað yfir nóttina, annars þarf tvær nætur. Betra er að hálft lóð gúmmí komi þar til. Í staðinn fyrir vítíól má járnsvarf hafa., en þá verður lengur að standa, og er þetta blek sem hér í landi brúkast svo undir komið. Seyði af sortulyngi, ellegar af blöðum þess , en helst af þess berjum, ef það er í súpu árla að morgni etið, er einkar hollt fyrir þá sem þjást af steinsótt ellegar hlandstemmu. Það stillir lífsýki þegar maginn er vel áður hreinsaður. Sama verkar seyði af blöðunum sem te er drukkið... Þessum rauðleitu berjum má safna á hausti. Þau fást stundum ekki fullorðin og þá eru þau þurrkuð við sól, en verða þar af nokkuð súrari. Menn merja þu; kreista úr þeim löginn í gegnum léreft og sjóða hann í potti til þess hann þykknar. Er hann því betri sem hann er lengur soðinn. Af þessum legi taka menn nokkur spónblöð; blanda þar í víni og sykri og reiða þetta fram til ídýfingar með allslags steikum. Þessi saft örvar blóðið og matarlystina... (BH; Grasnytjar). „Gærurnar voru rakaðar, fljótlega eftir að fénu hafði verið lógað. Stundum voru þær rakaðar samdægurs að kvöldi, eftir að slátrun var lokið. Í Búalögum er það talið meðalmannsverk að slátra 10 sauðum og raka gærurnar að kvöldi. Notaður var flugbeittur hnífur úr ljáblaði til að raka gæruna. Margir gerðu það á beru hnénu. Sagt var að fljótustu menn væru stundarfjórðung að raka eina gæru. Stundum var flegið þannig að skinnið var látið halda sér sem heill belgur að sem mestu leyti. Þegar búið var að raka voru belgirnir fylltir með heyi og hengdir upp í eldhúsi. Þar voru þeir látnir hanga og þorna. Síðan voru þeir teknir niður og eltir. Þegar þurrkað skinn var elt var það núið og hreyft milli handa sér eða undir fótunum. Þá komu fljótlega brot í það þar sem skinnið var að verða mjúkt. Þá var haldið áfram að núa, böggla, snúa, vinda og teygja skinnið, þangað til hvergi var orðinn eftir harður blettur og allt skinnið var orðið lungamjúkt. Það hét eltiskinn. Skinnbelgir voru notaðir mikið undir mat; bæði kæfu, smjör, tólg og fleira. (Einnig í baujur/belgi). Eltiskinn var haft í karlmannabuxur á 17. og 18. öld. Það var líka notað í skjóður og í skinnþvengi í skó og bryddingar á skó. Annars voru skinn af sauðkindum, sauðskinn, notuð í skó eins og þau komu fyrir, en sauðskinnsskór voru mikið notaðir áður fyrr og langt fram á 20. öld. Annars var skinn til skógerðar, sem hét skæðaskinn, oft blásteinslitað á síðustu áratugum, en til þess var notaður blásteinn (koparsúlfat) uppleystur í vatni. Sjóklæðnaður var allur úr sauðskinni áður fyrr (sjá skinnklæði). Skinn í sjóklæði og annan skinn fatnað voru verkuð með því að bera í þau lýsi, hangikjötsflot eða kúarjóma meðan verið var að elta þau. Lykt var af lýsisbornu skinnunum, en ekki af þeim sem flotið og rjóminn var borið í. Þvengjaskinn var búið til úr þunnum skinnum; yfirleitt lélugustu bjórunum. Þvengjaskinnið var stundum rakað en oftar var ullin rotuð af því með því að láta það liggja í hlýju í nokkra daga. Þá losnaði ullin af því og engin hnífsför komu í það, eins og stundum gerðist við raksturinn. Þvengjaskinnið var alltaf strekkt á sléttum fleti og neglt niður á öllum jöðrum. Það hét að spýta skinnið. Þá varð það rennislétt og hart þegar það þornaði og var geymt þannig. Mjóar ræmur voru ristar af skinninu og þær bleyttar og teygðar. Þannig voru þvengirnir búnir til.
Sauðskinnsskór og annar skinnfatnaður var saumaður með togþræði. Sauðskinnsskórnir vour stundum verptir, en þá var skinnþvengur dreginn kringum allt opið á skónum og dregið saman með þvengnum, sem lá yfir jaðar skóvarpsins milli hverra tveggja gata. Verptir skór voru með hælþvengjum og ristarböndum. Oft voru menn á skinnleistum innan í skónum til að verjast bleytu. Á ferðalögum voru menn stundum í belgjum af veturgömlum kindum; sínum á hvorum fæti, og leðurskór saumaðir neðan á belgina. Spariskór voru gerðir úr sortulituðu sauðskinni og bryddað kringum opið með hvítum eltiskinnsbryddingum. Þessir skór voru með hvítum hælþvengjum. Sauðskinnsskór fóru vel á fæti, en endingin var stutt. Þeir urðu harðir og flughálir á grasi í þurrkum, og voru þá látnir liggja í bleyti yfir nóttina. Skóþvengir urðu að vera sterkir, því mikið reyndi á þá þegar fast var spyrnt við fæti.
Hrútspungar undan fullorðnum hrútum voru oft skornir af þannig að mikið skinn af kviðnum var látið fylgja pungnum. Pungurinn var síðan rakaður; tekið innan úr honum og hann troðinn út með heyi. Um leið og troðið var í hann var hann teygður og lagaður til, eins og hann átti að verða. Síðan var hann þurrkaður, þangað til skinnið var orðið glerhart og glært, en að því búnu eltur vel og lengi, þangað til hann var orðinn mjúkur. Þá var komin skinnskjóða sem var til margra hluta nytsamleg. Margir höfðu hann undir neftóbak, og var hann þá brotinn saman í opið og vafinn upp til að loka honum. Stundum var dreginn þvengur í opið á pungnum og hann notaðu undir peninga og ýmsa smáhluti. (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).
Sortulyngskló (n, kvk) Grein/greinar af sortulyngi. Á seinni árum var litun með sortulyngi aflögð. Síðasta notkun sortulyngs á Láganúpi mun hafa verið sú að skreyta með því jólatré, en það var gert framyfir 1970.
Sortulyngsseyði (n, hk) Seyði af sortulyngi. Það var notað til lækninga; bæði útvortis til að stemma blæðingu í sári og húðsárum; sem og innvortis við niðurgangi.
Sosum (ao) Svosem; til málamynda; með semingi. „Ég get sosum gert þetta ef þú endilega vilt“.
Sovétríkin (n, hk, fto) Ráðstjórnarríkin; SSSR; nafn á sambandslýðveldi kommúnista sem náði yfir Rússland og 14 grannríki þess. Stofnsett árið 1922 en leystust upp 1991 í einstök sjálfsstjórnarríki. Stjórnarfar Sovétríkjanna byggði á einsflokkskerfi, án þess sem kallast fullt lýðræði á vesturlandavísu. Heimsveldi Sovétríkjanna náði í raun yfir stærra svæði, þar sem kommúnistaríki í Austur-Evrópu mynduðu með þeim hernaðarbandalag; Varsjárbandalagið, til mótvægis við hið vestræna NATO. Milli þessara valdablokka var landamæralína sem oft var nefnd Járntjaldið, og sá tími eftirstríðsáranna þegar mest spenna ríkti milli blokkanna var nefndur Kalda stríðið. Með aukinni upplýsingu almennings og spillingu valdamanna molnaði stjórnarfar kommúnistaríkjanna innanfrá; Sovétríkin liðu undir lok og mörg ríki tóku upp lýðræðislegri stjórnarhætti. Íslenskir kommúnistar hrifust margir um tíma af stjórnarfari og árangri Sovétríkjanna.
Sovétsnepill (n, kk) Niðrandi heiti á blaði sem gefið var úr um tíma hérlendis og nefndist „Fréttur um Sovétríkin“; þýtt úr sænsku blaði; „Fakta om Sovjetunionen“. Gunnar Össurarson, sem var einlægur vinstrimaður alla ævi, lét senda þetta blað til Láganúps um alllangan tíma. Þar var því vel tekið eins og öllu lesefni, án þess að valda pólitískum straumhvörfum. Það var í þægilegu broti til að lesa í rökkrinu á kamrinum en illa hannað til að brúka sem skeini, líkt og Tíminn. Landpósturinn; Kitti í Hænuvík, mun hafa valið blaðinu þetta óvirðulega heiti, en framsóknarmanninum þótti þungbært að bera slíkt útum sveitir.
Sóa (s) Eyða; fordjarfa. „Það er óþarfi að sóa saltinu í vitleysu“!
Sódóma (n, kvk) Borg sem nefnd er í Gamla testamenti Biblúnnar. Þar og í grannborginni Gómorru stunduðu íbúarnir svo syndugt líferni að guð sá sér þann kost vænstan að eyða borgunum með eldi. Í daglegu tali hefur heitið Sódóma orðið skammaryrði um lastaborg. Hrökk sumum af munni þegar útvarpið flutti sínar reglulegu fréttir af glæpum og annarri óáran í Reykjavík; „Ekki skil ég að nokkur maður skuli vilja búa í þessari Sódómu“!
Sóða í sig (orðtak) Um mat; borða án þess að lystugur sé. „Ekki er þetta velgott, en það má sóða því í sig“.
Sóða út (orðtak) Gera óhreint. „Eruð þið aftur búnir að sóða út í verkfærahúsinu; og ég var að taka þar til“.
Sóðakjaftur (n, kk) Manneskja sem hefur slæman munnsöfnuð/ talar illa um /við aðra. „Það var kominn tími til að hann fengi einhverja ofanígjöf; þessi sóðakjaftur“!
Sóðalega (ao) Ekki hreinlega; á óhreinlegan hátt. „Skelfing hafa þeir gengið sóðalega um bátinn“!
Sóðalegur (l) Ekki hreinlegur; með ljótum/óhreinum hætti; ataður; kámugur. „Ansi finnst mér hann sóðalegur; bæði í klæðnaði og umgegni“.
Sóðaskapur (n, kk) Hirðuleysi; slæm umgengni; óþrif. „Skelfilegur sóðaskapur er þetta“!
Sóði (n, kk) Sá sem er mjög óhreinlátur/ gengur ekki hreinlega um. „Hann er ferlegur sóði með þetta“!
Sófi (n, kk) Mjúkur þægilegur bekkur í stofu, stundum gerður bæði til setu og legu (svefnsófi). Orðið og húsgagnið varð ekki algengt í Kollsvík fyrr en seint á 7.áratug 20.aldar. Framað því hafði tíðkast að tala um „bekk“ eða „dívan“ um þau set- og svefngögn sem voru með gormum og/eða svampdýnum.
Sóka fyrir (orðtak) Vera á höttunum eftir; sækjast eftir. „Hann hefur verið að sóka fyrir að fá Kollsvíkurættina keypta, en hún hefur lítið verið í sölu“. „Maður reynir nú frekar að sóka fyrir stórþorski en svona moski“. Líklega komið úr dönsku; „söge efter“. Annarstaðar merkti orðtakið að annast/ sjá um.
Sókn (n, kvk) A. Það að sækja í eitthvað/eftir einhverju. „Sjávarsókn hefur líklega verið frá Kollsvík frá landnámstíð“. B. Hákarlaöngull. „Hákarlaöngull nefnist sókn. Hann var úr járni... Leggur sóknarinnar var 6-8 þumlungar á lengd, bugurinn var því sem næst þverhandsarvíður. Nokkuð framan við buginn kom agnhaldið; það var fremur lítið og ekki beitt... á efri enda sóknarinnar var sigurnagli, og í hann fest sóknarkeðja 3-4 álna löng, eftir því hvað skipið var hátt á ´siðu, og nefndist hún sóknarhlekkir. Við hinn enda keðjunnar var tengdur sigurnagli, svonefnt ístað, en hann var áfastur vaðsteininum“ (GG;Skútuöldin). C. Stytting úr kirkjusókn; landsvæði/umdæmi sóknarkirkju. „Eftir að sett var sérstök sókn um Breiðavíkurkirkju árið 1824 styttist mjög kirkjuvegur Kollsvíkinga“. D. Það að sækja fram, t.d. í orrustu.
Sókn er besta vörnin (orðatiltæki) Gamall vísdómur sem byggir á því að sá hefur oft sigur sem er nægilega djarfur og ákafur í að koma sínu fram; breyta og hafa sigur, en hinir eiga oftar á hættu að tapa sem einungis reyna að verjast og halda óbreyttu ástandi.
Sóknarbarn (n, hk) Manneskja sem tilheyrir kirkjusókn.
Sóknarhlekkir (n, kk, fto) Sóknarkeðja; keðja í hákarlasókn. „Hákarlaöngull nefnist sókn. á efri enda sóknarinnar var sigurnagli, og í hann fest sóknarkeðja 3-4 álna löng, eftir því hvað skipið var hátt á siðu, og nefndist hún sóknarhlekkir. Við hinn enda keðjunnar var tengdur sigurnagli, svonefnt ístað, en hann var áfastur vaðsteininum“ (GG;Skútuöldin).
Sóknarkirkja (n, kvk) Kirkja sem þjónar ákveðnu svæði. Ekki verður fullyrt hvernig sóknarmálum var háttað í Kollsvík í upphafi byggðar, en frásögn Landnámu bendir til að Kollur landnámsmaður hafi, ásamt Örlygi fóstbróur sínum, gengið í kristiboðsskóla Patreks biskups á Iona á Suðurhafseyjum. Biskup sendi þá með kirkjuvið til Íslands. Örlygur byggði sína kirkju að Esjubergi, en ekki er ólíklegt að Kollur hafi byggt sína kirkju í Kollsvík, sem þá hefur verið fyrsta kirkja norrænna manna í landinu. Hafi svo verið verður lítið sagt um tilhögun kirkjusóknar, en líklega hafa þeir sótt kirkju Kolls sem kristnir voru í næstu byggðum. Um kirkju Kolls verður ekkert fullyrt nema af líkum, og engar heimiildir eru heldur um örlög hennar.
Næst er vitað um kirkju í Rauðasandshreppi seint á 12.öld. Þá bjó hörðinginn Markús Gíslason í Saurbæ á Rauðasandi, sem fór til Noregs á eigin skipi og lét höggva sér við í stóra kirkju. Hann tók land á Austfjörðum og fór svo að hann gaf viðinn til kirkjubyggingar á Valþjófsstað. Fór Markús síðan aðra ferð og sótti við í kirkju sem hann lét reisa í Saurbæ. Í kirkjuna setti hann skrín mikið, svonefnt Ólafsskrín, og kirkjuklukkur tvær. Saurbæjarkirkja, sem var helguð Maríu mey og Jóni postula, varð svo um margar aldir sóknarkirkja og eina sóknarkirkjan á öllu svæðinu frá Tálknafirði til Barðastrandar, og þar þjónuðu tveir prestar í kaþólskri tíð. Auk hennar var hálfkirkja í Kollsvík, og hefur e.t.v. verið allt frá tíð Kolls. Auk þess voru bænhús á nokkrum stöðum; Melanesi, Hvalskeri, Vesturbotni, Hvallátrum og Breiðavík. Við siðaskiptin lögðust af bænhúsin og hálfkirkjan. Kirkjuvegur hefur þá orðið gríðarlega langur frá fjærstu bæjum til Saurbæjar, á þeim tímum sem mikið var lagt uppúr reglulegri kirkjusókn. Kollsvíkingar þurftu þá að fara um þingmannaleið um Víknafjall. Árið 1512 setti Stefán Jónsson Skálholtsbiskup sóknarkirkju í Sauðlauksdal, og voru sóknarmörk hennar frá Blakk innmeð firðinum til og með Vatneyri. Í kaþólsku var kirkjan helguð „Maríu mey og öllum heilögum“. Gaf Jón Jónsson Íslendingur og Dýrfinna kona hans land undir kirkjuna, en biskup lagði undir hana ýmis ítök og hlunnindi til tekna. Áfram var kirkjuvegur Kollsvíkinga hinn lengsti á svæðinu. Þá var það árið 1824 að sett var sóknarkirkja í Breiðavík í stað bænhússins sem þar hafði verið frá 1431. Undir Breiðavíkursókn heyra bæir í Útvíkum; Kollsvík, Breiðavík og Hvallátrum. Meðan enn var mikil útgerð í Útvíkum og mörg blómleg býli var sóknin all fjölmenn. Frá miðri 20.öld hefur byggð verið mjög á fallanda fæti, og í byrjun 21.aldar eru örfáar sálir í sókninni. Þar stendur vegleg kirkja sem sóknarbörn byggðu af miklum stórhug og var vígð árið 1964, og kirkjugarður er á túninu neðan hennar, þar sem fyrri kirkja stóð.
Sóknarbarn (n, hk) Meðlimur í kirkjusókn; sóknarmaður. Endingin „barn“ vísar til „guðsbarns“ en ekki aldurs.
Sóknarmaður (n, kk) A. Algengasta merking á seinni tímum; meðlimur í kirkjusókn; sóknarbarn. B. Upphaflega heiti á saksóknara sem bændur í hverjum hreppi kusu til að stjórna málefnum hreppsins og sækja menn til laga vegna brota á hreppssamþykktum. Sóknarmenn nefndust hreppstjórar eftir gildistöku tíundarlaga 1096. C. Fulltrúi sýslumanns í héruðum eða sýslum. Samkvæmt Jónsbókarlögum gat verið einungis einn sýslumaður í hverjum landsfjórðungi, en hann hafði þá sóknarmenn sér til fulltingis á nærsvæðum. Sóknarmenn voru einnig nefndir „sóknarar“ og síðar „lögsagnarar“.
Sóknarskifting (n, kvk) Skipting svæðis/prófastdæmis í sóknir. „Fjelagið skiftist í þrjár deildir eftir sóknarskiftingu hreppsins, og getur hver deild fengið bækur að láni átta vikna tíma í einu, og skulu þær ganga á milli fjelaganna í deildinni“ (Reglur Lestrarfjelagsins Bernskan í Rauðasandshreppi).
Sókndjarfur (l) Sækir sjóinn fast; sjóhundur; hugaður. „Hann þótti manna sókndjarfastur“.
Sóknharka (n, kvk) Dirfska/harka við sjósókn; ofurkapp í róðrum. „Sumum ofbauð þessi sóknharka“.
Sól / Sóla (n, kvk) Sól er nú á dögum almennt haft um þennan meginhnött okkar sólkerfis. Líklegt er að sóla hafi áður verið almennt heiti, og lifir sú orðmynd enn í ýmsum setningum sem ekki krefjast nefnifalls. „Hann hefur dregið fyrir sólu“.
Sól gengur/hnígur til viðar (orðtak) Sól sest. Viður merkir þarna skógur, svo ljóst má vera að orðtakið er frá árdögum landnáms eða fluttist hingað með landnámsmönnum.
Sól gengur undir / Sól sest (orðtök) Sól hnígur til viðar/ gengur undir sjóndeildarhring áhorfanda.
Sól setur ofan (orðtak) Sól var afbjarga þegar hún hvarf af hæstu fjallatindum og var bjart í norðurátt. Sól setur ofan, sögðu menn þegar sólargeislinn stafaði gegnum regnský, og vissi það á vætu“ (LK; Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).
Sól skín í heiði (orðtak) Sól skín á skýjalausum himni/ í heiðríkju.
Sóla sig (orðtak) Sleikja sólina; njóta sólar. „Það er nú ekki amalegt að sóla sig í svona blíðuveðri“!
Sólarbirta (n, kvk) Birta frá sólu; sólskin. „Þarna inni í hellinum nýtur aldrei sólarbirtu“.
Sólarblettur / Sólskinsblettur (n, kk) Blettur á jörðinni sem sól nær að skína á í skýjuðu lofti.
Sólarbreyskja (n, kvk) Mikill sólarhiti, oft í logni. „Það er hætt við að gróður skrælni í þessari sólarbreyskju“.
Sólardagur (n, kk) Dagur sólskins. „Sólardagar hafa ekki verið margir í þessum mánuði“.
Sólareldur (n, kk) Sólroði. „Dýrð var há í vorsins veldi/ vafin aftanroðanum,/ er höldar sigldu í sólareldi/ suður hjá Arnarboðanum“ (JB; Verstöðin Kollsvík, ljóð Helgu Ólafsdóttur um Kollsvik).
Sólargangur (n, kk) Lengd dags; sá tími sem sól er á lofti. „Við þurfum að hafa einhverja lýsingu við gjafirnar meðan stystur er sólargangurinn“.
Sólarglenna (n, kvk) Sólskin um stuttan tíma. „Hann gerði smá sólarglennu í morgun en síðan ekki meir“.
Sólarglæta (n, kvk) Vottur af sólskini; rof fyrir sólu; sólskinsblettur. „Hann er alveg styttur upp núna, og vottar jafnvel fyrir sólarglætu“.
Sólarhiti (n, kk) Hiti sólar. „Fiskurinn er fljótur að skemmast í þessum sólarhita“.
Sólarhringur (n, kk) 24 klukkutímar; dagur og samliggjandi nótt; snúningstími jarðar um möndul sinn.
Sólarhæð (n, kvk) Hæð sólar yfir sjóndeildarhring. Sólarhæð er notuð af sjófarendum og öðrum til að átta sig á stefnu þegar kennileiti skortir. Hjálpartæki við það er t.d. sextantur.
Sólarlag / Sólsetur (n, hk) Sá tími dags þegar sól gengur undir sjóndeildarhring í lok dags.
Sólarlagsbil (n, hk) Óskilgreindur tími kringum sólarlag. „Þeir voru komnir til baka um sólarlagsbil“.
Sólarlítið / Sólarlaust (l) Um sólfar; mikið eða lítið. „Það er ágætis þurrkur þó sólarlítið sé“.
Sólarmegin (l) A. Þeim megin sem sól skín. B. Í líkingamáli; í góðri stöðu. „Því sátu framsóknarmenn sólarmegin að þessu leyti“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Sólarmerki (n, hk, fto) A. Upphafl. merking; stjörnumerki. B. Í seinni tíð eingöngu notað í afleiddri merkingu, í klisjum; „Ég sé engin sólarmerki á því að þetta komist í verk“. „Eftir öllum sólarmerkjum að dæma verður landlega hjá okkur á morgun“.
Sólarorka (n, kvk) Orka sólargeisla. Sólarorka er líklega sú orkulind sem hefur mest áhrif á líf manna. Jurir nema sólarorku með blaðgrænu sinni, en á þeim byggir mestallt annað lífkerfi. Sólarorka hitar andrúmsloft og yfirborð jarðar þannig að lífvænlegt verði. Hún veldur mishitnun andrúmslofsins sem er meginorsök vinda, sem aftur knýja segl og vindmyllur. Hún veldur uppgufun sem er meginforsenda regns, sem aftur knýr vatnsorkuverin. Jarðefnaeldsneyti er leifar fornra lífvera, sem lifðu fyrir tilstilli sólar.
Sólarorka á hvern fermetra jarðaryfirborðs er mjög misjöfn og fer þéttni hennar m.a. eftir tíma dags; hnattlegu staðarins og hve heiðskírt er í veðri. Við miðbaug getur sólarorka um hádegi í heiðskíru veðri mælst um 1000 W/m², en lækkar skarpt þegar fjær dregur miðbaug. Sólarorkuver og sólarrafhlöður (sólarsellur) hafa mjög rutt sér til rúms á síðari tímum, í leit manna að nýtingu endurnýjanlegrar „grænnar“ orkuuppsprettu í stað jarðefnaeldsneytis.
Sólarsagan (n, kvk) Sagan í heild; sagan eins og hún er. „Svo sagði ég honum alla sólarsöguna“.
Sólarsinnis (ao) Réttsælis; snúningur með sólu. „Þess var gætt að snúa líkkistu ávallt sólarsinnis“. Ýmsar venjur daglegs lífs fyrri tíma tengdust því að snúa hlutum fremur sólarsinnis en rangsælis, og byggðu þær á því að sú snúningsátt hlyti að vera Guði þóknanlegri en hin, vegna gangs himintungla. Þannig mátti t.d. aldrei snúa bát í fjöru öðruvísi en sólarsinnis.
Sólarskíma (n, kvk) Dálítið/staðbundið/tímabundið sólskin. „Það er mikilvægt að nota hverja sólarskímu í svona óþurrkatíð“.
Sólaruppkoma / Sólarupprás / Sólris (n, kvk/hk) Sá tími þegar efri brún sólar kemur uppfyrir sjóndeildarhring.
Sólbakaður / Sólsoðinn / Sólsteiktur (l) Einkum notað um fisk; hefur náð að hitna í sólskini. „Forðaðu fiskinum í skuggann svo hann verði ekki sólbakaður“.
Sólblettir (n, kk, fto) Blettir á yfirborði sólarinnar sem eru dekkri og kaldari en umhverfið, eða 4.300°C miðað við um 6000°C umhverfis. Sólblettir standa í tenglslum við óreglu eða iðustrauma í segulsviði sólar. Fjöldi þeirra er háður sveiflum sem ná yfir 10 ára tímabil. Blettunum fylgir ýmiskonar önnur ókyrrð á yfirborði sólar s.s. sólblossar og sólkyndlar, en öll sú virkni truflar mjög rafhvolf jarðarinnar.
Sólbrunninn (l) Sólbrenndur. „Lambið var svo sólbrunnið að eyrun voru af við hlustir“ (IG; Sagt til vegar I).
Sólbrúnn (l) Með brúna húð af sólskini. Útfjólubláir geislar sólarljóss valda breytingum í húðinni með því að örva litfrumur til að mynda litarefnið melanín, sem ver húðina gegn þessum sömu geislum. Þessi varnaráhrif melaníns valda því að fólk með brúna húð fær sjaldnar húðkrabba en það sem er með ljósa húð, en húðkrabbi er alvarlegasta hættan við að vera lengi í sterkri útfjólublárri geislun. Menn sólbrenna mun hraðar en ella ef unhverfið endurspeglar sólargeisla, t.d. í snjó eða á sjó eins og þeir vita sem reynt hafa.
Sóley (n, kvk) Ætt blóma. Af henni axa nokkrar tegundir í ísleskri náttúru, s.s. brennisóley, hófsóley og melasól. Oftast er átt við brennisóley þegar önnur skilgreining fylgir ekki.
Sóleyjabreiða (n, kvk) Svæði þakið af sóleyjum.
Sólfagur dagur (n, kk) Dagur með hægviðri og sólskini. „Það er nú einhvernvegin hægt að eiga við heyskap á svona sólfögrum degi“!
Sólfar (n, hk) Sólskin. „Best var að grafa (eftir kúfiski) ef lygnt var og sólfar“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sólfarsgola / Sólfarsvindur (n, kvk/kk) Aðlögn; innlögn; vindur sem blæs innyfir land eftir sólríkan dag. Allajafna nefnt aðlögn í máli Kollsvíkinga þegar vindurinn finnst í víkinni, en innlögn inni í firði.
Sólginn í (orðtak) Gráðugur/gírugur í; sækist eftir. „Hrafninn er mest sólginn í augun á kindunum“.
Sólgulur (l) Með lit sólar/sóleyjar; heiðgulur. „Ansi er nú túnið að verða sólgult; betur kynni ég við það skrúðgrænt“.
Sólheiður himinn (orðtak) Heiðskír himinn og sólskin.
Sólheitur (l) Heitur af sól/sólskini. „Mér finnst þú nokkuð kappklæddur, svona á sólheitum degi“!
Sólhvörf / Sólstöður (n, hk, fto) Tveir dagar ársins sem umbreyting verður á lengingu/styttingu sólarbirtu; sú stund þegar sól kemst lenst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Vetrarsólhvörf/vetrarsólstöður verða á bilinu 20.-23. desember, og verður þá dagurinn stystur. En sumarsólstöður/sumarsólhvörf verða á tímabilinu 20.-22. júní ár hvert og þá er dagurinn lengstur. Breytileiki dagsetninga er vegna þess að almanaksárið er ekki nákvæmlega jafnlangt árstíðaárinu og samræmingin gerist í stökkum við hlaupár. Nafnið sólhvörf má e.t.v. rekja til þess að sólin hverfur aftur til meðaldagsins, en sólstöður tengjast því líklega að þá stendur sólin kyrr í því þróunarferli dagslengdar sem verið hafði á undan.
Sóli (n, kk) A. Skóbotn; sá hluti skóar sem gengið er á. B. Slitflötur t.d. hjólbarða.
Sólir á lofti (orðtak) Ljósbrot í lofti þannig að við sérstakar aðstæður má sjá aukasólir sinnhvorsvegar við hina raunverulegu. Sjá aukasólir; blæs út sólir; gíll og úlfur. Oftar var í Kollsvík talað um að blési út sólir.
Sólkerfi (n, hk) Kerfi himinhnatta þar sem plánetur, loftsteinar og smástirni ganga um miðlæga sól sem er mun stærri en þær og oftast heit af kjarnorku. Mörg sólkerfi mynda stærri einingar sem eru vetrarbrautir.
Sólkoli (n, kk) Þykkvalúra; Miscrostomus kitt. Flatfiskur af flyðruætt sem lifir í grunnsjó hér og í norðanverðri Evrópu. Fæst stundum sem meðafli á kolaveiðum, enda heldur hún sig á svipuðum slóðum og skarkoli. Sólkolinn er nokkuð þykkari en skarkoli; hauslítill; kjaftsmár; varaþykkur; fínhreistraður; stærð oft 20-40 cm. Ljós á vinstri/neðri hlið en rauðgrá eða dökkbrún á vinstri/efri hliðinni. Fæðan er smá botndýr. Nytjafiskur.
Sólmánuður (n, kk) Mánaðarheiti að gömlu tímatali. Sólmánuður hefst á mánudegi í 9.viku sumars (18.-24.júní). Sá mánuður er sól gengur um krabbamerkið. Sólmánuður hefst á sólstöðum, og fyrst í honum fara menn á grasafjall, eins og fram kemur í Grasnytjum Björns í Sauðlauksdal; safna lækningajurum; skera hvönn og gelda lambhrúta.
Sólmyrkvi (n, kk) Myrkvun sólar séð frá jörðu vegna þess að tunglið gengur milli jarðar og sólar. Ef tunglið nær að skyggja algerlega fyrir sólu nefnist það almyrkvi, en deildarmyrkvi skyggi það að hluta.
Sólóvél (n, kvk) Vél í bát, af gerðinni Solo sem var ein tegundin af þeim vélum sem fyrst komu í báta hérlendis, m.a. í Kollsvíkurveri. Eins strokks innanborðs fjórgengisvélar með þungu svinghjóli og magnettukveikju; gjarnan 4-5 hö að afli. „Gamla Rut er sett á flot í Kollsvíkurveri. Sólóvélin sett í gang og keyrt suður á Bæi“ (ÖG; glefsur og minningabrot). Síðar tíðkuðust eldavélar af gerðinni Solo; vinsælar í bátum og sumarhúsum.
Sólríkur (l) Með mikilli sól. Notað bæði um tíma og staði. „Þetta hefur verið einstaklega sólríkur mánuður“. „Eyrarsól vex helst á sólríkum stöðum; hæfilega skjólsælum og þurrum“.
Sólroði (n, kk) Rauðleitur himinn um sólarlag, kvöldroði, eða sólarupprás, morgunroði. „Sólroði að kvöldi vissi á sunnanátt“ (LK; Ísl.sjávarhættir III) „Þú gnæfir við himin í hrífandi fylling;/ þinn hraunkambur ljómar við sólroðans gylling“ (EG; kvæðið Blakkurinn; Niðjatal HM/GG).
Sólsegl (n, hk) Segl sem breitt er yfir eitthvað til að hlífa því við sólskini.
Sólskin (n, hk) Skin/birta sólar. „Maður svitnar hressilega í bjarginu í svona sólskini og logni“.
Sólskinsbros (n, hk) Einlægt gleðibros. „Hún varð eitt sólskinsbros þegar hún sá hver var kominn“.
Sólskinsskap (n, hk) Mjög gott skap; létt lund. „Hann kom að landi með hlaðinn bát, og í sólskinsskapi“.
Sólskríkja (n, kvk) Sjá snjótittlingur.
Sólstafir (n, kk, fto) Sólargeislar. Notað eingöngu um það þegar geislar brjótast gegnum ský í dimmviðri og sjást greinilega tilsýndar.
Sólstöður / Sólhvörf (n, kvk/hk, fto) Sú stund ársins þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Með öðrum orðum; þegar sól kemst hæst á himininn um hádegi (sumarsólstöður) eða lægst (vetrarsólstöður). Um sumarsólstöður er dagur/sólargangur lengstur, en um vetrarsólstöður stystur. Sumarsólstöður verða á misjöfnum tíma eftir árum, eða á tímabilinu 20.-22.júní; en vetrarsólstöður á tímabilinu 20.-23.desember. Nafnið vísar til þess að sólin hættir að auka/minnka hæð sína á daglegum sólargangi.
Sólunda (s) Eyða í vitleysu; fordjarfa. „Ég er þá ekkert að sólunda áburði á þennan blett lengur“.
Sólúr / Sólskífa (n, hk/kvk) Lárétt skífa með standandi pinna/titt í miðju. Þegar sól fellur á skífuna má sjá hvað tímanum líður á því hvar skuggi pinnans lendir. Sumsstaðar nokkuð notað áður en klukkur og úr komu til.
Sólvindur (n, kk) Staumur rafhlaðinna einda frá sólinni. Sólvindurinn er alltaf einhver, en getur margfaldast þegar mikil virkni er á yfirborði sólar, t.d. við sólblossa og sólbletti. Mikill sólvindur veldur m.a. auknum norðurljósum og truflunum á rafhvolfi jarðar.
Sólþurrkaður (l) Þurrkaður í sól; sólbakaður. „Mér þykir nú ekki eins varið í sólþurrkaðan saltfisk og þann sem saltaður er í stæðu“.
Sóma sér (orðtak) Njóta sín; vera til prýði. „Myndin sómir sér ágætlega þarna á veggnum“.
Sómafólk / Sómahjón / Sómakona / Sómamaður / Sómapiltur / Sómadrengur / Sómastúlka (n, hk/kvk/kk) Heiðvirt fólk; yndælisfólk. „Hann er sómamaður, enda mikið sómafólk sem að honum stendur“.
Sómasamlega (ao) Hæfilega vel; svo sómi sé að. „Þú þarft að sjá um að þetta sé sómasamlega gert“.
Sómasamlegur (l) Fullnægjandi; góður; viðeigandi. „Ég held að þetta sé alveg sómasamlegur frágangur“.
Sómi (n, kk) Virðing; heiður. „Svona munnsöfnuður er engum til sóma“!
Sóna (s) Tóna; framleiða einsleitan tón. „Hversvegna sónar svona í útvarpstækinu“?
Sónar (n, kk) Hljóðsjá; tæki sem notar endurkast á hljóði til að mæla fjarlægð og lögun hluta. Sónar nýttist í upphafi til að finna kafbáta á stríðstímum, en er nú m.a. notaður við skoðun á fóstrum í móðurkviði.
Sónn (n, kk) Tónn af einsleitri tíðni; hár stöðugur tónn. „Leiðinda sónn er þetta í símalínunni í þessum vindi“.
Sóp (n, hk) Fjúk; kóf af snjó/ryki. „Það var svo mikið sóp ofan af fjallinu að varla sá handaskil“.
Sópa (s) A. Hreinsa/safna með sóp/kústi. „Fyrstu bústörf mín í fjárhúsi voru að sópa jöturnar og leysa hey“. B. Hreinsa/ safna. „Snjónum hafði sópað saman í skafla“.
Sópa niður/ofan snjó (orðtak) Hlaða/moka niður snjó; snjóa mikið. „Nú sópar hann ofan snjónum“. Sjá ofansóp.
Sópa upp (orðtak) Hreinsa með sóp og skóflu. „Ég sópaði upp því mesta af hveitinu sem fór í gólfið“.
Sópar að (orðtak) Um manneskju; ber á; gustar af; er fyrirferðamikil/aðsópsmikil. „Hann var aðsópsmikill í félagsstarfinu, svo sumum þótti nóg um“.
Sópar af (orðtak) A. Um það þegar lausamjöll hreinsast af föstu undirlagi. „Hann hefur sópað allsstaðar af jafnsléttu; þetta er allt komið í skafla“. B. Rýkur úr báru í roki/ofsaveðri. „Það er svo hvasst að hann sópar af öldu“. C. Um áberandi/valdsmannslega persónu. „Það sópaði af honum, blessuðum sýslumanninum“.
Sósuspónn (n, kk) Dálítið af sósu; sósuskeið. „Gefðu mér nú smá sósuspón hér útá ketið“.
Sót (n, hk) Aska; dökkt duft sem situr eftir þegar efni, t.d. eldiviður, hefur brunnið. Mikið féll til af sóti á heimilum fyrri tíma, þegar öll hitun og eldun fór fram við opinn eld. Sót var notað í litlum mæli til blekgerðar, með því að hræra það kálfsblóði, og borið á sótþráð til merkinga á stórvið fyrir sögun.
Sóta (s) A. Ata sóti. „Bitarnir í reykkofanum voru all sótaðir“. B. Framleiða reyk með miklu sóti. „Nú er eitthvað að kyndingunni; hún á ekki að sóta svona“.
Sótbikasvartur / Sótsvartur (l) Kolsvartur. „Hann var sótbikasvartur á höndunum eftir viðgerðina“.
Sótbrunnið (l) Tært af sótfalli. „Þakið á Láganúpsbænum var úr alúminíumplötum, og var orðið all sótbrunnið kringum reykháfinn“.
Sótbölva (s) Blóta/formæla mjög mikið; krossbölva. „Hann sótbölvaði sjálfum sér fyrir gleymskuna“.
Sótillur / Sótreiður / Sótvondur (l) Bálvondur; afar reiður. „Karlinn var sótillur yfir þessu hirðuleysi unglinganna“. „Ég hef sjaldan séð hann svona sótvondan“!
Sótraftur á sjó dreginn (orðtak) Oftast: „hver/sérhver sótraftur á sjó dreginn“ eða „allir sótraftar á sjó dregnir“. Merkir; allir tiltækir eru nýttir. Líklega á orðtakið einkum við það að öllum haffærum bátum sé haldið till hafs/ ýtt úr vör; annaðhvort til orrustu eða til veiða. Sótraftur merkir þarna sótugur viður; þ.e. að jafnvel séu búnir til flekar úr sótugum máttarviðum húsa. Notað í margskonar tilefnum í dag; t.d. þegar maður er fenginn í verk sem hann hefur litla hæfileika til.
Sótrauður (l) Dökkrauður; dimmrauður. „Þá var karlinn orðinn sótrauður í framan af illsku“.
Sótroðna (s) Verða sótrauður í andliti. „Hann leit á hana og sótroðnaði“.
Sótsvartur (l) Mjög dökkur; kolsvartur. „Myrkrið var svo sótsvart þarna að ég sá ekki handaskil“.
Sótsvartabylur / Sótsvartaél / Sótsvartakafald / Sótsvartahríð / Sótsvartaskafmold (n, kk/hk/kvk) Mjög blind snjókoma/skafmold/hríð. „Hann skall yfir okkur með sótsvartaéli, svo við töpuðum áttum“.
Sótsvartamyrkur (n, hk) Niðamyrkur; algert myrkur. „Hafðu vasaljós; það er komið sótsvartamyrkur“.
Sótsvartaþoka (n, kvk) Mjög dimm þoka. „Við skulum nú fara að grynnka aðeins á okkur áður en hann setur yfir þessa sótsvörtu þoku sem mér sýnist að hann sé að leggja upp“.
Sótt (n, kvk) Smitsjúkdómur; pest; veikindi. „Hér hefur verið umgangur af allskonar sóttum þennan veturinn“.
Sóttarbæli (n, hk) Staður mikilla veikinda. „Hann neitaði alveg að heimsækja það sóttarbæli núna“.
Sóttarsæng (n, kvk) Rúm sem veik manneskja liggur í. Sjá liggja á sóttarsæng.
Sóttdauður (l) Dauður/látinn úr smitsjúkdómi/pest. „Þeir hafa nú ekki allir orðið sóttdauðir sem haga sér svona glannalega í sjósókn“!
Sóttharður (l) Harður af sér þó veikur sé; veikist sjaldan af smitsjúkdómum. „Það er eins og hann sleppi við allar pestir; það er með ólíkindum hvað maðurinn er sóttharður“!
Sótthreinsa (s) Drepa bakteríur/sóttkveikjur með suðu eða öðru móti. Varð ekki algengt í málinu fyrr en þekking hafði skapast á eðli og meðhöndlun smitsjúkdóma og sóttkveikja.
Sótthræddur (l) Hræddur við að smitast/veikjast. „Hann er svo sótthræddur að hann vill ekki fá neinn í heimsókn fyrr en pestin er gengin yfir“.
Sóttkveikja (n, kvk) Það sem veldur sótt; sýkill.
Sóttkví (n, kvk) Einangraður bær vegna faraldurs. „Látramenn eru enn einusinni í sjálfskipaðri sóttkví til að reyna að forðast flensuna. Póstur og vörur er skilið eftir við Tröllhólinn“.
Sóttlaus (l) Ekki veikur; ekki með sjúkdóm/pest. „Ég er alveg orðinn sóttlaus, en dálítið slappur ennþá“.
Sóttsækinn (l) Gjarn á að fá umgangspestir. „Enn er hann lagstur; meira hvað maðurinn er pestsækinn“!
Sóttvarnagirðing / Sóttvararlína (n, kvk) Girðing milli landsvæða, í þeim tilgangi að hættulegir smitsjúkdómar í sauðfé berist ekki á milli; mæðuveikigirðing; riðuveikigirðing. Upphaflega var girt til varnar mæðuveiki, en síðar riðu. Rauðasandshreppur var þannig sérstakt sóttvarnarhólf, þar sem þar hefur aldrei greinst riðuveiki, þó hún hafi komið upp t.d. á Barðaströnd. Bannað er að flytja fé milli sóttvarnarhólfa, og sömuleiðis óheinsuð tæki og annað sem borið getur smit.
Sótugur (l) Ataður sóti; kámugur af sótsvertu. „Veggurinn ofanvið eldstæðið var dálítið sótugur“.
Sótþoka (n, kvk) Svartaþoka; mjög dimm þoka.
Sótþreifandiblindöskubylur / Sótþreifandiöskubylur (n, kk) Mjög dimmur og hvass snjóbylur; dimmt skafmoldarkóf. „Við fengum á okkur þennan líka sótþreifandiblindöskubyl uppi á Aurtjörninni, svo við urðum hreinlega að stoppa og bíða hann af okkur“! „Það er kominn þvílíkur sótþriefandiöskubylur að ég held ég bíði smástund með að fara í húsin“.
Sótþráður (n, kk) Þráður, vættur í sótblandaðri terpentínu; notaður til að þræða stórvið. Þá er hann strengdur milli nagla og síðan teygður frá og sleppt. Við það kemur svart beint strik sem sagað er eftir“.
Sótþreifandi (l) Mjög svartur/blindur. „Á skömmum tíma skellti hann yfir okkur sótþreifandi blindöskubyl“.
Sóun (n, kvk) Eyðsla; fordjörfun. „Mér finnst þetta hin mesta sóun; bæði á tíma og fjármunum“.
Spað / Spaðbiti (n, hk) Bitar af kjöti. „Ket var brytjað í spað með saxi á fjalhöggi fyrir verkun í saltket“. „Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu“ (PG; Veðmálið).
Spaðahjól (n, hk) Vatnshjól; hjól með blöðum/spöðum sem annaðhvort er notað til að virkja rennsli í vatni/sjó eða til dælingar/austurs.
Spaðaöngull (n, kk) Öngull sem ekki er með auga á legg til festingar á öngultaumi, heldur spaða. Er þá taumurinn bundinn um legginn, en spaðinn hindrar að hann renni uppaf. Algeng gerð fyrrum.
Spaði (n, kk) A. Reka; skófla; áhald. T.d. stunguspaði; ristuspaði; fiskspaði. B. Flatur armur, t.d. mylluspaði, fiskispaði. C. Einn af fjórum litum í spilum.
Spaðket (n, hk) Ket sem búið er að brytja í spað/bita; ketbitar; saltket. „Þarna átti hann kvartel af spaðketi“.
Spaklega mælt / Spakmannlega mælt (orðtak) Viturlega sagt; gáfulegt. „Það var spakmannlega mælt af þér“!
Spaklyndur (l) Rólegur að eðlisfari; hygginn; íhugull.
Spakmáll (l) Talar/mælir gáfulega. „Hann hefur oft reynst spakmáll í þessum efnum“.
Spakmæli (n, hk, fto) Það sem er spaklega mælt; oftast notað um málshætti og fleyg heilræði.
Spakur (l) A. Rólegur. „Vertu nú bara spakur meðan ég útskýri málið“. „Yrðlingurinn virtist spakur“. B. Gæfur (um skepnur) „Heimalningurinn er ennþá spakur þó hann hafi farið á fjall í sumar“. C. Vitur; gáfaður. „Hann er oft spakur í þessum efnum“. D. Um veður; hægur; rólegur. „Við vonum að hann haldist áfram eins spakur í tíðinni og verið hefur“.
Spakvitur (l) Gáfaður; fróður. „Ekki er ég svo spakvitur að ég viti þetta“.
Span (n, hk) Þeytingur; hraðferð. „Hvaða skelfingar span er á þér“? „Hann fór framhjá á ógnar spani“
Spana (s) A. Æsa/espa/spana upp; mana. „Þeim tóknst að spana hann í þetta“. B. Fara/hlaupa hratt; spæna; strekkja. „Ég spanaði út á Brunnsbrekku til að standa fyrir rekstrinum áður en hann rynni niður í fjöru“.
Spana upp (orðtak) Espa upp; ögra; æsa. „Strákarnir höfðu gaman af að spana hann upp“.
Spana upp í (orðtak) Mana til/ upp í. „Láttu nú ekki strákana spana þig upp í svona bölvaða vitleysu“!
Spanda (n, kvk) Fata. „Réttu mér spönduna; hér eru nokkur egg“.
Spandals (n, kk) Bruðl; óþarfa eyðsla; skaði. „Mér finnst það bévítans skandals að henda góðum ílátum“. Orðabækur gefa upp „spandas“, líklega í sömu merkingu, en þetta var sagt svona vestra.
Spandera (s) Eyða; sóa. „Ósköp hef ég spanderað mörgum skotum á þessa fáu fugla“. „Mig langar ekkert að spandera fleir orðum á þann bjálfa að sinni“!
Spanghyrnd (l) Um hornalag sauðkindar; með horn sem standa tiltölulega lítið bogin og samsíða upp og aftur af höfðinu. Geitur eru oft spanghyrndar en sauðkindur sjaldnar. Drgið af spöng.
Spangól (n, hk) Ákaft, hátt og samfellt gól í hundi. „Láttu tíkina inn svo hún hætti að spangóla“.
Spanjóli (n, kk) Gæluheiti á Spánverja. „Maður er að verða sólbrúnn eins og spanjóli“.
Spanna (s) A. Mæla í spönnum, þ.e. millibilum glenntra fingra. C. Líkingamál; ná yfir. Búskapur á Grundum spannaði þriggja alda tímabil; eða frá því um 1650 til 1945.
Spannarlangur (l) Ein spönn að lengd. Spönn er gróf mælieining; hámarksbil á milli góma þumalfingurs og vísifingurs útglenntra. „Þarna var varla nokkur bútur meira en spannarlangur“.
Spannarlengd (n, kvk) Lengd sem svarar einni spönn. Sjá spannarlangur; spönn.
Spanskgræna (n, kvk) Eirraauði; koparkarbónat. „Kompásinn var fagurgrænn af spanskgrænu“.
Spanskreyr / Spanskreyrsstöng (n, kvk) Bambusstöng. „Hann útbjó sér langan eggjaháf úr spanskreyrstöng“.
Spar á (orðtak) Nískur á: sparar. „Maður má ekki vera of spar á fóðurbætinn þegar heyið er lélegt“.
Spara (s) Halda aftur af eyðslu; geyma. „Var nú ekki sparað vélaraflið“ (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).
Spara aurinn/eyrinn en kasta krónunni / Spara skildinginn en kasta/sóa dalnum (orðtök) Spara í því sem skiptir litlu máli og á þann hátt að skaði sé að í heildina; spara sér til skaða. „Það borgar sig ekki að kaupa ónýt áhöld; þá er maður að spara aurinn en kasta krónunni“.
Spara sér erfiði/vinnu (orðtak) Gera ekki það sem erfitt er og e.t.v. óþarft; velja auðveldari aðferð.
Spara kraftana / Spara sig (orðtök) Hlífa sér; draga af sér; beita sér ekki af fullum krafti. „Það þýðisr víst ekkert að spara sig ef þetta á að klárast í dag“.
Spara sér sporin (orðtak) Fara ekki; fara styttri leið. „Kindurnar voru komnar ehimundir hús þegar ég kom, svo ég hefði getað sparað mér sporin að leita að þeim“.
Spara sér til skaða (orðtak) Vera svo aðhaldssamur að maður skaðist af; spara aurinn en kasta krónunni. „Það þýðir ekkert að nýta þessar netadruslur lengur; þá er maður farinn að spara sér til skaða“.
Spara sig (orðtak) Hlífa sér; gera ekki af fullum kröftum. „Það þýðir ekkert að spara sig við þetta ef það á að klárast í dag“.
Spara til (orðtak) Spara í/við; kosta litlu til. „Þarna var engu til sparað“.
Sparð (n, hk) Kindasparð. Sauðfé lætur frá sér saurinn í mörgum taðkúlum; meira eða minna samlímdum; um og yfir 1cm í þvermál. Kindaspörð geta verið að veltast nokkurn tíma á j´örðinni áður en þau leysast í sundur.
Sparða (s) Um sauðfé; skíta. „Það gengur ekki að láta féð sparða í flekkinn“!
Sparðatíningur (n, kk) Þegar tínd eru til ómerkileg atriði í umræðu, líkt og einhver tíni kindaspörð af jörðu. „Þetta er nú bara sparðatíningur“.
Sparibrækur / Sparibuxur (n, kvk, fto) Fínni buxur. „Ætli maður verði ekki að draga fram sparibuxurnar í svona tilfellum“?
Sparibúinn / Spariklæddur (l) Uppábúinn; í sparifötum/sparifatnaði; í fínum fötum. „Það þýðir nú lítið að fara sparibúinn í svona skítverk“.
Sparibúningur / Sparidress / Sparifatnaður / Sparigalli / Spariföt / Spariklæðnaður (n, kk/hk hk, fto) Betri/fínni föt. „Reynt var að gera útiverkin snemma dags, þannig að allt væri tilbúið fyrir klukkan sex og allir komnir í sparifötin“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). Oftast notað orðið spariföt.
Sparihattur / Sparihúfa / Sparijakki / Sparikjóll / Sparipeysa / Sparipils / Sparisokkar / Spariskyrta / Sparitreyja / Spariúlpa / Sparivettlingar (n, kk/kvk/hk) Einstakir hlutar sparifatnaðar; fínni föt en hversdagsklæðnaður.
Sparilegur (l) Fínn; í sparifatnaði; uppábúinn. „Þú ert ekki beint sparilegur í þessum skítugu buxum“.
Sparisjóður (n, kk) Banki sérstakrar gerðar. Sparisjóðir eru oftast fremur litlar fjármálastofnanir; stofnaðir af hópi manna, t.d. byggðarlagi, sem samlagsfélag um inn- og útlánastarfsemi. Þeim er því ætlað að leysa þá þörf á sviði fjármála sem kaupfélögin gerðu á sviði verslunar, og með sömu félagslegu hugsjón. Blómatími sparisjóða var því meðan mest samkennd ríkti í fjölmennum sveitum; kringum miðbik 20.aldar. Segja má að sjálfstæður sparisjóður hafi starfað í hverju byggðarlagi, en flestir urðu þeir kringum 50 á landinu.
Sparisjóður Rauðasandshrepps var stofnaður 1910 af 20 bændum, og gegndi mikilvægu hlutverki sem fjármálastofnun í sveitinni allt þar til hann var lagður niður 1988 og rann inn í Eyrasparisjóð á Patreksfirði; sem síðan var einnig lagður niður líkt og urðu örlög flestra sparisjóða landsins kringum aldamótin 2000. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Rauðasandshrepps var lengst af Snæbjörn J. Thoroddsen í Kvígindisdal; farsæll og traustur í því starfi. 1977 tók við sjóðnum VÖ; höfundur þessarar samantektar, og var sparisjóðsstjóri til 1988. Á þeim árum voru m.a. tekin upp ávísanaviðskipti, sem juku þjónustu, umsvif og starfssvæði verulega, en ekki var bolmagn til að fylgja slíkum breytingum eftir, t.d. með auknu mannahaldi og tæknivæðingu. Það, ásamt verulegri fækkun í sveitinni, var meginástæða þess að sjóðurinn var lagður niður.
Spariskór (n, kk, fto) Skór sem notaðir eru á hátíðum og viðburðum en ekki daglega. „Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni, bryddir með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim. Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir. Þeir voru glettilega fallegir skinnskórnir; svartir með hvítum bryddingum og rósaleppum. Þeir voru hafðir fram á sumar og farið á þeim til kirkju“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Sparistell (n, hk) Borðbúnaður af vandaðri gerð, sem ætlaður er til notkunar í veislum en ekki hvurndags. Leirtau af samstæðri gerð og oftast með skreytingu, jafnvel gyllingu. „Hún fór að tína sparistellið út úr borðskápnum, en ég harðbannaði henni að hafa neitt fyrir okkur“.
Spark (n, hk) A. Högg sem veitt er með fæti. „Hurðin var freðin í falsinum, en hrökk upp við gott spark“. B. Traðk; kraðak af fótsporum. „Sjá mátti af sparkinu á jörðinni að hrútarnir höfðu stangast hressilega“.
Sparka (s) A. Veita högg með fæti. „Ekki skil ég þá sem fást við það eilíflega að sparka einhverri boltatuðru“! B. Spora. „Árans kálfurinn hefur sparkað upp kartöflubeðið“! C. Reka úr vinnu. „Ég heyrði að honum hefði verið sparkað vegna leti“.
Sparkvörn (n, kvk) Áhald til að varna því að kýr sparki við mjaltir. Járnrör, krókbogið í báða enda; var öðrum endanum krækt undir huppinn, nærkonumegin, en hinum yfir hrygg og á malirnar frákonumegin.
Sparlak (n, hk) Tjald fyrir lokrekkju. Þekktist að það væri notað um tjöld sem notuð voru til að tjalda veggi verbúða að innan, til að gera þær vistlegri.
Sparlega (ao) Spart; hóflega. „Farðu sparlega með mjólkina; þetta er restin fram að mjöltum“.
Sparnaður (n, kk) A. Hagur af því að spara; sparsemi. „Það er nú afskaplega hæpinn sparnaður af þessu þegar öllu er á botninn hvolft“. B. Sparifé.
Sparneytinn / Sparsamur (l) Eyðslugrannur; hófsamur; eyðir/neytir ekki í óhófi. Sparneytinn er í dag mest notað um eldsneytiseyðslu bíla, en á í raun fremur við um mannlega hegðun.
Sparorður (l) Notar ekki mörg orð; hófsamur í lýsingum; segir ekki margt. „Hún var alltaf sporð um sína eigin kosti og sitt framtak, en alltaf til í að hæla öðrum“.
Sparsemi (n, kvk) Hóf; andstæða eyðslu; aðhald; nurl. „Með ítrustu sparsemi tóks mér að láta þetta duga“.
Spaug / Spaugsyrði (n, hk) Gamansemi; grín; glettni. „Aldrei var spaugið langt undan hjá honum“.
Spauga (s) Gera grín; hafa uppi gamanmál. „Ég var nú bara að spauga með þetta“.
Spaugar ekki að (orðtak) Ekki til að henda gaman af; er alvarlegt mál. „Það spaugar ekki að! Nú er hann kominn með blindbyl úr hinni áttinni“!
Spaugar ekki með (orðtak) Um það sem alvarlegt er/ það sem gengur úr hófi. „Það spaugar ekki með þessa dýrtíð nú til dags; skyldi þessi ríkisstjórn vera flúin úr landi; eða er hún bara svona algerlega getulaus“?!
Spaugelsi (n, hk) Draugagangur; undarlegheit. „Það er þá eitthvað spaugelsi í sjónvarpinu eina ferðina enn“! Orðið er greinilega tökuorð úr dönsku. Það var töluvert notað vestra en finnst ekki í orðabókum.
Spaugilegheit (n, hk, fto) Fyndni; skopleg tilvik; skringilegheit. „Ýmis spaugilegheit gerðust í þessari ferð“.
Spaugsamur (l) Gamansamur; léttur í lund. „Liði var með hærri mönnum á vöxt og þrekinn; hæglátur í fasi en gat verið glettinn og spaugsamur“ (PG; Veðmálið).
Spá (n, kvk) A. Forsögn; það að segja fyrir um óorðna hluti. B. Stytting á veðurspá. „Heyrðirðu spána“?
Spá er spaks geta (orðatiltæki) Skynsemi þarf til að setja fram raunhæfa spá.
Spá / Spá fyrir um (l/orðtak) Segja fyrir um óorðna hluti. „Ég spái því að hann verði rigningarlaus síðar í dag“. „Það er útilokað að spá fyrir um þessa framvindu“.
Spá góðu/blíðu/einmunablíðu/slæmu/skítaveðri/ótíð (orðtök) Um veðurspár. „Hann spáir bara blíðu forút“!
Spá í loftið / Spá í útlitið (orðtak) Reyna að átta sig á því hvaða veðurbreytingar eru framundan með því að taka eftir staðbundnum veðurmerkjum í umhverfinu. „Það er erfitt að spá í svona loft“.
Spá í veðrið (orðtak) Spá fyrir um veður. „Heyrðirðu hverju hann spáði í veðrið í útvarpinu“?
Spá þurrklega (orðtak) Spá veðri sem nýtist til heyþurrkunar. „Hann spáir ekki þurrklega fyrir næstu daga“.
Spádómsgáfa n, kvk) Geta til að spá. „Mér er ekki gefin sú spádómsgáfa að ég geti séð þetta fyrir“.
Spádómur (n, kk) Spá; forsögn.
Spáin springur á rassinum á (einhverjum) (orðtak) Viðhorf sumra reyndra veðurspámanna í bændastétt gagnvart veðurspá í útvarpi. „Þessi spá á nú eftir að springa laglega á rassinum á þeim“!
Spámaður (n, kk) Sá sem spáir/ getur sagt fyrir um óorðna hluti. „Enginn er spámaður í sínu föðurlandi“.
Spámannlega vaxinn (orðtak) Með spádómsgáfu; forspár. „Maður þarf nú ekki að vera mjög spámannlega vaxinn til að sjá að þessi ríkisstjórn lifir ekki framyfir næstu kosningar“.
Spámannssvipur (n, kk) Íbyggni/dýgindalegur svipur þegar sagt er til um það sem ekki hefur skeð. „Hann sagði, með miklum spámannssvip, að sér kæmi ekki á óvart þó verra hret kæmi í kjölfarið“.
Spánnýr / Spánýr (l) Glænýr; alveg nýr; spónnýr. „Hann var víst að fá sér spánnýjan bíl“. Líklega til orðið með hljóðbreytingu úr „spónnýr“; spónn er fallegur meðan hann er nýr, en fúnar fljótt.
Spánverjavígin (n, hk, fto) Dráp um 30 baskneskra hvalveiðimanna á Vestfjörðum árið 1615. Sjá hvalveiðar.
Spár (l) Hæfur til að segja fyrir. „Ég er nú ekki vel spár á þetta, en mér þætti líklegt að hann færi að hvessa“.
Spásagnargáfa (n, kvk) Geta/hæfileiki til að spá. „Ég verð að viðurkenna að mín spásagnargáfa var ekki nægileg til að sjá þetta fyrir“.
Spássera (s) Ganga; dóla. „Þarna koma þau spásserandi yfir víkina“.
Spássering (n, kvk) Gönguferð; það að spássera. „Hvaða spássering er nú á blessuðum kúnum“?
Spássérskór (n, kk, fto) Gönguskór; tramparar. „Þetta eru bráðhentugir spásserskór, hvað sem útlitinu líður“.
Spássérstígvél (n, hk, fto) Göngustígvél; stígvél sem henta til gönguferða. „Mér finnst þessi brúnu stígvél svo ansi heppileg spássérstígvél. Ég nota helst ekki annað, hvort heldur er í smalamennskur eða bjargferðir“.
Spássérstúr (n, kk) Labbitúr; stutt gönguferð. „Við fáum okkur spásserstúr upp í garð“.
Spássía (n, kvk) Óskrifuð eyða á blaði, t.d. á jaðri þess eða milli dálka.
Spátré (n, hk) Viður sem brakar í, svo sumir þykjast geta lesið spádóm/fyrirsögn úr brakinu. Einkum var til þessa tekið ef brak heyrðist í viði án sýnilegrar ástæðu, en slíkt getur t.d. gerst við þurrkun eða hitabreytingar.
Spegilfagur (l) Vel sléttur og því fallegur.
Spegilfægður / Spegilglansandi / Spegilljáandi / Spegilglitrandi (l) Gerður alveg sléttur með sléttun/slípun; ; rennisléttur; speglandi; gljáandi. „Það má nú einhvernveginn vera að veiðum á svona pollsléttum og spegilglitrandi sjó“!
Spegilglans / Spegilglit (n, kk/hk) Mjög slétt yfirborð. „Það er ekki alveg sami spegilglansinn á sjónum núna og var í gær“.
Spegilkyrr sjór / Spegilsléttur sjór (orðtök) Algerlega sjólaust og logn. „Það var smá ylja í röstinni, en þegar kom suður á víkina var spegilkyrr sjór“. „Það er nú einhver munirinn að dorga í svona spegilsléttu“!
Spegilkyrrð / Spegillogn / Spegilslétta (n, kvk/hk) Um sjólag; pollslétta; ládeyða. „Skelfilegt er að horfa uppá þessa spegilsléttu dag eftir dag og þurfa að vera í landi“!
Spegilskyggndur / Spegilsléttur (l) Svo sléttfægður/-sléttur að speglanir sjáist á yfirborðinu
Spegla sig (orðtak) Sjá spegilmynd sína.
Speglun (n, kvk) Endurkast ljóss af svo sléttu yfirborði að mynd helst nánast óbrengluð.
Speki (n, kvk) A. Vit; gáfur; vísdómur. „Það þarf ekki mikla speki til að átta sig á þessu“! B. Það sem sagt er gáfulega; spakmæli; vel ígrunduð orð.
Spekingslega (ao) Gáfulega; af viti. „Þetta var mjögsvo spekingslega mælt“!
Spekingslegur (l) Gáfulegur; íhugull; hugsandi. „Hann var eitthvaðsvo spekingslegur á svip þegar hann laumaði þessari athugasemd útúr sér“.
Spekingsskepna (n, kvk) Gáfuleg/hugsandi skepna. „Hrafninn er stundum hin mesta spekingsskepna“.
Spekingssvipur (n, kk) Gáfulegur svipur. „Hann sagði þetta með miklum spekingssvip“.
Spekingur (n, kk) Gáfumaður; vitringur. „Í þessum efnum er hann hinn mesti spekingur“.
Spekja (s) Gera spakan/gæfan. „Það er erfitt að spekja yrðlinga svo varanlegt sé“.
Spekjast (s) Róast; renna reiðin. „Hann er aðeins að byrja að spekjast eftir þetta hörkurifrildi“.
Spekt (n, kvk) Rólegheit; ró; kyrrð. „Það var allt í spekt í fjárhúsunum og engin í tilferð með að bera“.
Spektarbarn (n, hk) Þægt/meðfærilegt/rólegt barn. „Þetta er mesta spektarbarn sem ég hef þekkt“.
Spektarblóð / Spektargrey / Spektarmaður / Spektarskinn (n, kk) Rólegheita maður; gæðablóð. „Strákurinn er mesta spektargrey“. „Að öllu jöfnu er hann spektarmaður, en síður vildi ég fá hann upp á móti mér“. „Hann er mesta spektarskinn ef rétt er farið að honum“.
Spektarskepna (n, kvk) Rólegt dýr. „Ég hef sjaldan vitað aðra ein spektarskepnu og þetta naut“!
Spektarveður (n, hk) Hægviðri; kyrrt veður. „Hann er dottinn í spektarveður eftir lætin í morgun“.
Spekúlant (n, kk) Fræðimaður/embættilmaður með ranghugmyndir. „Hvað heldurðu að spekúlöntunum þarna fyrir sunnan hafi núna dottið í hug? Jú; það er víst hægt að stunda allan íslenskan landbúnað með miklu hagkvæmari hætti á einu stórbúi þar í grenndinni! Þvílíkir andskotans grasasnar alla tíð“! Merkti upphaflega hugsandi mann/ gáfumann, en hefur í seinni tíð fengið háðslegri merkingu.
Spekúlasjón (n kvk) Hugleiðing; hugdetta. „Ég er hér með eina spekúlasjón sem væri gaman að ræða“.
Spekúlera / Spekúlera í (s/orðtak) Hugsa; hugleiða; velta vöngum yfir. „Það þýðir ekkert að vera að spekúlera; nú er bara að drífa í þessu“! „Ég var að spekúlera í að skipta um bíl“.
Spekúleringar (n, kvk, fto) Umhugsun; hugleiðingar; ígrundun. „Þetta þarf nú ekki mikilla spekúleringa við“.
Spekúleringar (n, kvk, fto) Hugleiðingar; vangaveltur; diskúsjónir; spekúlasjónir. „Það þjónar nú litlum tilgangi að vera með einhverjar spekúleringar um það hversvegna svona fór“.
Spela (s) Setja speli/rimla í t.d. fjárgrindur eða milligerð. „Það þyrfti að fara að spela þessar grindur uppá nýtt“.
Speldi (n, hk) Spjald; stykki; fjalarbútur. Ekki mikið notað orð vestra.
Spelka (n, kvk) Flöt lítil fjöl sem notuð er til að spelka/spengja það sem brotið er, t.d. girðingastaur eða fótlegg. „Bambus er ágætt efni í spelkur, þegar spelka þarf fótbrot kindar. Hæfilega sver bambusstöng er þá söguð í um spannarlangan bút; hann síðan klofinn í um ½“ spelkur og þær snyrtar til. EFtir að búið hefur verið að sárinu með grisju eða lérefti eru spelkurnar lagðar utaná umbúðirnar; þeim raðað kringum legginn; helst þannig að kindin tylli í spelkurnar fremur en klaufir; síðan sívafið með snæri og bundið hæfilega þétt að“.
Spelka (s) Leggja spelkur við brot. „Fáir voru lagnari að spelka beinbrot en Didda á Láganúpi“.
Spell (n, hk, fto; harður frb.) Skemmdarverk; ónæði; óskundi; usli; spjöll. „Hann er vís til að gera einhver bölvuð spell fyrst hann fornumaðist svona illa“.
Spellvirki (n, hk) Skaði; spell; spjöll: skemmdarverk. „Árans grasmaðkurinn hefur unnið töluverð spellvirki“.
Spellvirki (n, kk) Sá sem vinnur spellvirki/skemmdarverk/spjöll. „Ég náði bévítans spellvirkjanum“!
Spelur (n, kk) Viðarlisti sem notaður er í fjárgrindur í fjárhúsum, einnig nefnt grindaspelur. Spelirnir voru venjulega úr furu, oft 2“x1“ til 2½ “x 1¼“ í þversnið, með þverfingurs (ca 17-20 mm) millibili og voru negldir á grindaslár. „Hér þarf að fara að skipta um speli til að féð fari ekki að brjóta sig í þeim“.
Spenabroddur / Spenaendi / Spenagat / Spenavöðvi (n, kk/hk) Hlutar spena.
Spenafleiður / Spenahrufl / Spenahrúður / Spenameiðsli / Spenamein / Spenasár / Spenaskemmd / Spenasprunga (n, hk) Meinsemd í spena. Oftast átt við kýrspena, enda er kúm hætt við slysum á spenum og meiðsli þeirra oft viðkvæmari en annarra dýra vegna stöðugra mjalta. Kúm hættir til að stíga sig; þær sólbrenna á spenum og rífa spena á t.d. gaddavír.
Spenalag (n, hk) Lag á spenum. Spenalag kúa er mjög mismunandi og skiptir miklu máli vegna mjalta.
Spenasíð (l) Um kýr eða kind; með síða spena; síðjúgra.
Spenastór (l) Um kýr eðar kind; með stóra spena.
Spenatog (n, hk) Tog í spena þegar mjólkað er. „Eftir nokkur spenatog varð ég var við júgurbólguslyndrur í mjólkinni“.
Spenavanur (l) Um kálf; lamb; vanur að sjúga spena.
Spengilegur (l) Hár og grannur; eins og spöng/stöng í laginu.
Spengja (s) Setja styrkingu/spöng á legg til lagfæringa/viðgerðar; spelka. „Mér tókst að spengja hrífuhausinn“.
Spenna (n, kvk) A. A. Þensla; stöðuorka, sbr rafspenna, háspenna, hryggspenna. B. Fjöður sem tekið getur stöðuorku, s.s. hárspenna; sylgja. C. Líkingamál um viðsjárvert/ótryggt ástand eða eftirvæntingu, sbr taugaspenna.
Spenna (s) A. Þenja; búa til stöðuorku, sbr spenna boga/ byssubóg o.fl.; spenna hest fyrir vagn. B. Eyða; sóa. „Þú mátt ekki spenna peningunum strax í einhverja vitleysu strákur“!
Spenna bogann (of) hátt (orðtak) Setja sér of metnaðarfull markmið. Vísar til þess þegar barist er með boga í orrustu. Maður miðar boganum ofanvið markið ef það er langt frá, vegna falls örvarinnar á leiðinni. En líklegt er að maður missi marks ef maður skýtur á of löngu færi og spennir bogann of hátt. Skylt er orðatiltækið svo má sveigja bogann að hann bresti.
Spenna greipar (orðtak) Flétta saman fingur beggja handa á misvíxl, þannig að lófar lokist saman. T.d. þegar beðist er fyrir. Greipar merkir hendur. Sjá ganga (einhverjum) úr greipum; láta greipar sópa.
Spenna upp verðið (orðtak) Setja upp hátt verð; valda hárri verðlagningu. „Ég kaupi bílinn auðvitað ekki ef hann ætlar að spenna verðið svona upp“!
Spennandi (l) Sem heldur manni spenntum/æstum í eftirvæntingu. „Mér fannst bókin afar spennandi“.
Spenningur (n, kk) Spenna; eftirvænting; óþreyja. „Spenningur okkar óx þegar grynnkaði á lúðunni“.
Spennsli (n, hk) Spenna/sylgja með ólum, notað t.d. til lokunar á kistli, tösku eða bók.
Spenntur fyrir (orðtak) Áhugasamur um; vill. „Ég er ekki sérlega spenntur fyrir þessari samkomu“.
Spenvolg mjólk (orðtak) Mjólk sem enn er volg úr skepnunni. „Sumum þykir mjólkin best spenvolg“.
Sperðill (n, kk) A. Ristill/endaþarmur sauðkindar. B. Bjúga, búið til úr ristli. Ekki mikið notað orð í seinnitíð.
Sperra (n, kvk) A. Burðarviður í þaki, sbr skammbitasperra; kraftsperra. B. Vindur; kaldi. „Hann er kominn með einhverja bölvaða vestansperru í Flóann“.
Sperra (s) Spenna; reisa; skorða; setja sperru upp/við; strita. „Féð sperrti upp alla brekkuna, og ég á eftir“.
Sperra fyrir (orðtak) Setja sperru/skorðu fyrir; sperra við. „Það var sperrt fyrir dyrnar að innanverðu, svo ég komst ekki inn“.
Sperra inni (orðtak) Loka inni; láta vera inni. „Það er best að láta féð út þó það beiti sér lítið; það er tilgangslaust að sperra það inni í svona góðu veðri“.
Sperra upp/opinn gluggan / Sperra upp/opnar dyrnar (orðtök) Halda opnum glugganum/dyrnunum; halda opnu. „Vertu nú ekki að sperra upp gluggaboruna í þessum bévítans næðingi“.
Sperra upp vind (orðtak) Auka vind; hvessa. „Hann er að sperra upp norðangjólu“.
Sperra sig / Sperrast við (orðtak) Herða sig; rembast; reyna. „Hann er að sperra sig við að komast fyrir kindahópinn“. „Ég er að sperrast við að ná sama afla og í gær“.
Sperra við (orðtak) Setja stífu/skástífu t.d. hurð við svo dyr opnist ekki. „Ég sperrti við gaflinn á kofanum svo hann félli ekki þar til ég get farið í viðgerð á honum“.
Sperrast við (orðtak) Reyna af fremsta megni; strekkja við. „Við skulum ekkert vera að sperrast við að klára þetta í dag; hann spáir ágætu veðri á morgun“.
Sperrileggur (n, kk) A. Bein í fæti. B. Monthani; oflátungur. „Mér leiðist þessi sperrileggur“.
Sperringur (n, kk) A. Nokkuð stífur vindur; kaldi; vindsperringur. „Hann er að æsa sig upp í einhvern sperring“. Sjá t.d. norðansperringur. B. Rembingur. Það er dálítill sperringur í þessum nýja sýslumanni“.
Sperrtur (l) A. Reigður; reistur. B. Hnarreistur; montinn; kampagleiður. Sbr bísperrtur.
Sperrubil (n, hk) Bil milli sperra í húsþaki. Nokkuð mismunandi eftir efni, en oft um ein alin.
Sperrufótur (n, kk) Neðri endi á þaksperru, sem situr á vegglægju eða stendur útfyrir hana.
Sperrukjálki (n, kk) Sperra; annar leggur sperru í risþaki.
Sperruklampi (n, kk) Klampi/styrking úr fjalarbút sem felldur er utaná sperrukjálkamætin efst.
Sperrukverk (n, kvk) Neðst á samskeytum sperrukjálka efst í risþaki.
Sperrureisa (s) Reisa sperrur í húsbyggingu; reisa. Við þann áfanga er stundum haldið reisugildi.
Sperruþak (n, hk) Risþak. Fyrrum var ekki talað um sperrur nema sem máttarviði í húsum með risi. Væri húsið með mæniás var það ásþak/ásaþak, en skúrþak væri það hallandi. Í slíkum húsum voru þakbitar.
Spesía (n, kvk) Mynteining fyrri tíma; sjá ríkisdalur.
Spesíal (l) Síðari tíma sletta; sérstakt; sérlega gott. Síðar einatt stytt í „spes“.
Spesíalisti (n, kk) Síðari tíma slettuheiti; sérfræðingur.
Spesíuvirði (n, hk) Virði einnar spesíu. Notað í litilsvirðingartóni: „Þetta er ekki spesíuvirði“.
Spé (n, hk) Háð; grín; aðhlátur. „Við skulum ekki hafa neitt spé um þetta; þetta er alvörumál“!
Spéfugl / Spéspói (n, kk) Grínisti; sá sem gerir grín/háð; sá sem oft hefur gamanmál um hönd. „Hann er svoddan spéspói að maður veit aldrei hvenær hann er að tala í alvöru“. Vell spóans er ekki óáþekkt dillandi hlátri, og líklega er líkingin af því dregin.
Spéhræddur (l) Feiminn/hræddur við umtal/að gert sé grín að sér. „Veriði nú ekki að gera grín að honum strákar; hann er svo fjári spéhræddur“.
Spéhræðsla (n, kvk) Ótti við að verða fyrir aðhlátri.
Spékoppur (n, kk) Dæld í kinn manneskju, sem einkum verður áberandi þegar hún brosir.
Spéspegill (n, kk) Spegill sem ekki er vel sléttur, svo spegilmyndin verður aflöguð/skringileg.
Spik (n, hk) A. Fituvefur;fita. „Þessi biti er lítið annað en spik“. B. Fita utaná líkama. „Hann er heldur betur að hlaupa í spik í seinni tíð“!
Spikaður / Spikfeitur (l) Bráðfeitur; asafeitur; með þykkt spiklag. „Hrúturinn var orðinn vel spikaður“.
Spikkápa / Spiklag (n, kvk/hk) Lag af spiki milli kjöts og húðar á ýmsum dýrum og mannfólki. Áberandi á selum og hvölum, enda mikilvægt líffæri vegna einangrunar og flotjafnvægis.
Spikþjósa (n, kvk) Stykki af hvalspiki.
Spil (n, hk) A. Spil/kort til að spila á; þraut. „Öll fengum við kerti og spil, sem var okkar sameign. Aldrei mátti spila á aðfangadagskvöld“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). „Við spiluðum mikið á veturna; sátum á gólfinu uppi á lofti og spiluðum Lander, Stopp, Treykort, Hjónasæng o.fl. Fyrir gjald notuðum við þorskhausakvarnir sem nóg var til af“ (DÓ; Að vaka og vinna). B. Hljóðfæri, sbr dragspil (harmónikka). C. Tæki til að létta drátt/hífingu, sbr gangspil. D. Bitar af harðfiskstrengsli sem skorið hefur verið þvert yfir (sjá harðfiskur).
Spila (s) Leika með spil. „Svo var spilað (á áramótum). Aldrei var spilað á aðfangadag jóla, en á jóladag sátu allir við spil og var mest spilað púkk“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Spila eftir eyranu (orðtak) Spila nótnalaust; spila eftir sinni tilfinningu en ekki eftir skrifuðum nótum. „Svavar frændi gat spilað eftir eyranu á hérumbil hvaða hljóðfæri sem var, og var mjög lagviss“.
Spila inní (orðtak) Hafa áhrif. „Málin eru ekki svona einföld; það er margt sem spilar hér inní“.
Spila í sundur (orðtak) Lima í sundur. „Hrúturinn var búinn að spila í sundur stíuna“.
Spila með (einhvern) (orðtak) Hafa einhvern að leiksoppi; gera at í einhverjum. „Láttu nú ekki strákarassgötin vera að spila svona með þig“!
Spila rassinn úr buxunum / Spila sig fallítt (orðtak) Hleypa sér í skuldir; verða skuldugur; lifa/greiða um efni fram; fara á hausinn (fjárhagslega).
Spila sig (kjánalegan/veikan/afkáralegan/þreyttan o.fl) (orðtök) Gera sér upp; vera með látalæti. „Hann spilaði sig óskaplega reiðan, og las þeim pistilinn“.
Spila undir (orðtak) Leika á hljóðfæri meðan sungið er.
Spila upp (orðtak) Hífa upp með spili. „Þeir spiluðu síðan bátinn uppá kamb meðan ég hélt honum réttum“.
Spila úr (orðtak) Um tilhögun mála; ráðslaga; stjórna. „Nú er mikilvægt að spila rétt úr þessu“.
Spila út trompinu (orðtak) Beita góðu úrræði í t.d. viðureign/deilu. „Ég ætla ekki að spila út trompinu alveg strax; við skulum sjá hvað þeir reyna“! Sjá hafa tomp á hend; taka með trompi.
Spilaborg (n, kvk) Leikur/þraut sem byggir á því að hlaða háa grind úr spilum með því að láta þau styðja hvert við annað. Krefst rökhyggju, lagni og fumleysi. Notað í líkingamáli um ótryggt málefni.
Spilafífl (n, hk) Niðrandi heiti um áhugasaman spilamann.
Spilagaldur (n, kk) Brella þar sem spil eru notuð til sjónhverfinga/bragða af ýmsu tagi, sem við fyrstu sýn virðast vera galdur. „Séra Þórarinn Þór var sérlega laginn við spilagaldur af ýmsu tagi“.
Spilagosi (n, kk) Óvirðingarheiti um mann sem þykir mjög léttúðugur/glannafenginn/ mikill æringi.
Spilakvöld (n, hk) Samkoma þar sem fólk kemur saman af mörgum bæjum til að spila, oftast þá félagsvist. „Spilakvöldum hefur verið haldið uppi að vetrinum í sambandi við barnaskólann, og hafa konur í sveitinni lagt til veitingar“ (MG; Árb.Barð 1959-67).
Spilamaður (n, kk) Maður sem spilar vel/mikið. „Pabbi hafði mjög gaman af því að spila, og var talinn mikill spilamaður“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Spilamennska (orðtak) A. Það að spila á spil/ sitja að spilum. „Mér gekk ekkert vel spilamennskan í kvöld; það má mikið vera ef ég fæ ekki skammarverðlaunin“. B. Lag/háttur við spil. „Hverskonar spilamennska er þetta hjá þér maður“?!
Spilandi kátur (orðtak) Fjörugur; glaðvær; glaður og reifur. „Karlinn var þetta litla spilandi kátur yfir að hafa heimt hrútinn“.
Spilastokkur (n, kk) Bunki af spilum. „Stokkaðu vel, þetta er nýr spilastokkur“.
Spilbátur / Plógbátur (n, kk) Bátar sem notaðir voru saman til veiða á kúfisk til beitu „Þegar tveir bátar voru við plægingu var annar báturinn nefndur spilbátur en hinn plógbátur“ (KJK; Kollsvíkurver; sjá kúfiskur).
Spilda (n, kvk) Landsvæði; ræktunarsvæði; tún.
Spildingur (n, kk) Hryggur í lúðu. „„Oft var hausinn skorinn af, síðan sporðurinn; að því búnu var hnakkaflatt og úr tekinn spildingurinn“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; beitulok).
Spildusjór (n, kk) Stórsjór; ólgusjór. „Að hafa geiglausa og listilega stjórn á stýri, jafnt í lognsævi sem spildusjó og háaroki, var óvéfengjanleg íþrótt...“ (LK; Ísl. sjávarhættir III; frásögn ÓETh).
Spilfjörugur (l) Mjög glaður; líflegur í háttum/hreyfingum. „Karlinn er spilfjörugur innanum kvenfólkið“.
Spilhaus (n, kk) Efsti hlutinn á spilkarli. Gegnum hann ganga vindutré þegar bátur er spilsettur.
Spilirí (n, hk) Gæluorð um hljóðfæraleik.
Spilkarl (n, kk) Meginás í gangspili; sem spilvírinn vinst upp á; sívalt tré; 25-30cm að þvermáli og allt að 120cm á hæð. Spilkarlinn situr lóðréttur í sterkri grind sem fest er í jörð með keðjum, og getur snúist í henni. Þvert gegnum spilhausinn eru eitt eða tvö augu; annað þá hærra en hitt og hornrétt á það. Gegnum þau eru sett vindutré; eitt eða tvö; einnig nefnd spilsveif í Kollsvík. Spilkarlinn er styrktur með járngirði og utan um hann neðantil vinst spilvírinn þegar menn snúa hinum með því að ganga á vindutrén; hring eftir hring. Gangspil sem síðast voru í Kollsvík höfðu einungis eitt auga.
Spilkomma (n, kvk) Lítil skál til að borða úr. „Réttu mér spilkommuna svo ég geti ausið fyrir þig“. Var framborið með hörðu m-hljóði í Kollsvík (tvöfalt), en annarsstaðar virðist það hafa verið linara (einfalt).
Spilkoppur (n, kk) Skífa á véldrifnu spili, sem unnt er að bregða taug á til að létta drátt.
Spilkrókur (n, kk) Krókur í enda spilstrengs, sem krækt er í stefnislykkju báts til að draga hann á land með gangspili. „Króknum er krækt í stefnislykkjuna og gefið merki um að strekkja á spilstrengnum“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Spilla (s) Skemma; eyðileggja.
Spilla fyrir (orðtak) Hindra; skemma fyrir; torvelda. „Ekki ætti veðrið að spilla fyrir heyskapnum í dag“.
Spilla veðri (orðtak) Versna veður. „Ég held að ég komi mér innyfir áður en hann fer að spilla veðri“.
Spillast (s) Verða verri. Oftast notað um færð, sjóveður eða veður. „Þú ættir nú að drífa þig áður en færið yfir Hálsinn fer að spillast meira“. „Tók þá að halla degi, og veður að spillast“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík). „Ef búist var við að veður spilltist var þess jafnan gætt að róa í þá áttina að menn hefðu strauminn með sér í land“ (ÓETh o.fl. LK; Íslsjávarhættir 3).
Spilling (n, kvk) A. Eyðing; eyðilegging. „Menn hafa reynt að hindra spillingu túna af sandfoki“. B. Óeðlilegir stjórnarhættir valdsmanna, sem gæta betur eigin hagsmuna en annarra.
Spilmaður (n, kk) Sá sem vindur upp á spil við setningu báts eða plægingu kúfisks (sjá kúfiskur).
Spilsetja (s) Setja bát upp með spili; gangspili. Bátar í Kollsvíkurveri voru ýmist spilsettir eða settir upp á höndum. Orðið var notað í Kollsvík en finnst ekki í orðabókum.
Spilstrengur / Spilvír (n, kk) Vír, margþættur, sem notaður er þegar bátur er settur með gangspili. Sé sett upp með gangspili, eins og notað var í Kollsvíkurveri framyfir 1960, er öðrum enda vírsins krækt með spilkrók í stafnlykkju bátsins og hinn vefst upp á spilkarlinn þegar tveir menn eða fleiri snúa honum. Einn styður bátinn og annar færir hlunna. „Króknum er krækt í stefnislykkjuna og gefið merki um að strekkja á spilstrengnum“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Spilsveif (n, kvk) A. Varðandi gangspil; vindutré; rá sem sett er gegnum spilkarl til að snúa honum. B. Varðandi snúið spil; sveif sem hreyfð er með handafli til að snúa spiltromlunni.
Spilverk (n, hk) A. Grindverk; grind. „Hann hafði hrófað upp einhverju spilverki framanvið réttina til að halda utanað fjárhópnum“. B. Gæluorð um tónlist.
Spilvír (n, kk) Vír sem vefst uppá spilkarl þegar halað er inn, t.d. þegar bátur er dreginn.
Spindill (n, kk) A. Snúningsás. B. Í dag einkanlega notað um ás sem hjól bíls snýst um þegar beygt er, eða um ás í vatnskrana.
Spinna (s) Vinna ullarþráð, með því að snúa hann með snældu eða rokk, og jafna hann í hæfilegan sverleika um leið. „Ég man eftir að hann las stundum fyrir mömmu, þegar hún var að spinna eða prjóna á kvöldin að vetrinum“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Konur spunnu; karlmenn táðu, greiddu hrosshár og spunnu það á vinglu, eða fléttuðu reipi og brugðu gjarðir“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Spinna upp (orðtak) Skálda; ljúga; búa til. „Bölvaða lygasögu hefur hann nú spunnið upp“!
Spinnigal / Spinnvitlaus (l) Galinn; brjálaður. „Ertu alveg spinnigal? Veistu ekki hvað þetta kostar“?
Spígspora (s) Stjákla/ganga um. „Við sáum þá vera spígsporandi á Stórurðinni“.
Spík (n, kvk) A. Oddhvass mjór hlutur, sbr naglaspík. B. Ljár í orf; ljáspík. „Spíkin var geymd uppi í rjáfri; var stungið bakvið sperruna“. Orðið átti einkum við ljá sem orðinn var mjór af sliti.
Spílur (n, kvk, fto) A. Ræksni; ruður; úrgangur; það af hrámeti sem ekki er borðað/ætt, og er því kastað. B. Gæluorð um föt; tilur; leppar. „Þú átt ekki að henda spílunum af þér útum allt drengur“.
Spíra (n, kvk) A. Almennt um það sem er langt og mjótt; stöng. B. Frjóangi sem vex útúr kartöflu og verður að káli eða rót. B. Langt og grannt rekatré. „Þarna er rekin dálagleg spíra“.
Spíra (s) Vaxa frjóangar á kartöflu eða fræ.
Spíratunna (n, kvk) Tunna með spíritus/sterku áfengi í. „Seinna rak spíratunnu á Rauðasandi. Hreppstjórinn bjó þar, og það er sagt að ryðgað hefði á hana gat og allur spíritusinn lekið niður“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Spíritus / Spíri / Spritt (n, kk) Etanól. Algengast er það sem innihaldsefni í áfengi af ýmsu tagi. Í hreinna formi er það brennsluspritt sem notað er til sótthreinsunar og annarra lækninga.
Spíruleggur / Spírutré (n, kk/hk) Mjótt grannvaxið tré.
Spírun (n, kvk) Spíruvöxtur, t.d. á kartöflum. „Kartöflur voru settar í flötum kössum undir rúm til spírunar“.
Spíss (n, kk) A. Fleygur; fleyglaga/oddlaga hlutur. B. Dísa; stykki með örmjóu gati, sem olíu er þrýst í gegnum til stýrðrar brennslu, t.d. í díselvélum og í mótorlömpum.
Spíssaður / Spísslagaður (l) Yddur; oddlaga; með oddi/spíss. „Staurarnir eru spíssaðir í endann“.
Spísslag (n, hk) Oddlag; yddað. „Mér líkar ekki skór með svona spísslagi í tána“.
Spíssnál (n, kvk) Áhald sem notað var til að hreinsa stíflu úr spíss mótorlampa. Grönn nál úr málmi fest fremst á handfang.
Spíssreka (n, kvk) Malarreka; reka/skófla sem hentar í mokstur á möl; með íhvolfu og oddmynduðu blaði.
Spítalafiskur (n, kk) Kerlingarfiskur; aflahlutur sem lagður var á um tíma vegna spítalabygginga. Sjá hospítalshlutur.
Spítalamatur (n, kk) Uppnefni á þeim sem þarf sjúkrahúsvist. „Maður er bara hér um bíl spítalamatur eftir að hossast yfir þetta fjandans holukraðak; skyldu þeir vera búnir að friðlýsa þetta alveg“?!
Spítalavist (n, kvk) Sjúkrahúslega; vera á spítala. „Þetta ætti enginn að reyna sem ekki vill tryggja sér bráða kirkjugarðs- eða spítalavist“!
Spítali (n, kk) Sjúkrahús. Heitið var algengara áðurfyrr; dregið af „hospital“.
Spjald (n, hk) A. Flatur þunnur efnisbútur úr stífu efni, s.s. viði eða pappa. „Spjald var einatt haft með í tilhleypingarnar, og á það skrifað hvaða kind fékk með hvaða hrút. Það var síðan innfært í ærbók“. B. Stytting á „spjaldhryggur“. „Heldur finnst mér þessi hrútur rýrari á spjaldið en hinn“.
Spjalda (s) Hnýta spjald í herðakamb sláturfjár til auðkenningar. „Nokkuð var um að sláturfjáreigendur spjölduðu fé áður en það kom í sláturhús eða í sláturhússrétt, til að geta fylgt hverjum skrokki eftir fram að kjötmati. Þurftu þá fláningsmenn að gæta þess að færa spjaldið yfir á hækiljárnið“.
Spjaldhryggur (n, kk) Sá hluti hryggjar sem gengur gegnum mjaðmagrindina; fimm hryggjarliðir aftanvið brjóstliðina hjá dýrum en neðanvið þá hjá mönnum.
Spjaldvefnaður (n, kk) Forn aðferð við vefnað. Byggist á einu eða fleiri spjöldum, en uppistöðuþræðir eru festir nokkuð frá vefaranum; dregnir í gegnum jaðra spjaldsins og ofið milli þeirra með skyttu eða hnyklinum sjálfum. Spjaldofin bönd voru notuð t.d. í axlabönd, styttubönd, sokkabönd, ólar og tauma. Dæmi eru um spjaldvefnað frá 400 f.Kr. Aðferðin barst hingað með landnámsfólki.
Spjall (n, hk) Samtal. „Við áttum ágætt spjall yfir kaffibolla“. Sjá spjöll.
Spjalla (s) A. Tala saman; ræðast við. „Hann þurfti mikið að spjalla og gleymdi sér alveg“. B. Skemma, vinna spjöll á einhverju. C. Hafa samfarir við hreina mey; sjá spjallaður.
Spjallaður (l) A. Um hlut; skemmdur. „Fiskurinn var nokkuð spjallaður eftir sandfokið“. B. Um konu; spjölluð; ekki lengur hrein mey; hefur haft samfarir. Í siðferði fyrri tíma var lagt nokkuð uppúr því að kona væri óspjölluð þegar hún gifti sig, en nútímaviðhorf fást lítt um slíkt.
Spjara sig (orðtak) A. Upprunaleg merking; klæða sig; fara í spjarir/föt. B. Líkingamál; komast af/áfram; klára sig að; geta sjálfur. „Strákurinn spjarar sig alveg furðanlega“. Eingöngu notað þannig í seinni tíð.
Spjarafátækur / Spjaralítill (l) Hefur lítið af fötum til að fara í. „Þú ert að verða helst til spjarafátækur stubbur minn; þú stækkar svo ört“!
Spjarir (n, kvk, fto) Föt. „Tíndu utan á þig spjarirnar í hvelli; við þurfum að kasta úr göltunum“. „Þá fór hann að tína á sig spjarirnar, og það gerðum við einnig“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Spjálk (n, kvk) A. Stífa/stoð sem heldur í sundur og þenur út voð/vefnað; hluti af vefstað. B. Pinni/nagli sem notaður er til að spýta/þenja húð/gæru þegar skinn er spýtt. Spjálk var algengt nafn á kind.
Spjátra sig (orðtak) Ganga reigingslega um; sýna sig; rápa. „Maður hefur nú eitthvað þarfara við tímann að gera á þurrkdegi en að spjátra sig í kaupstað“!
Spjátrungslega (ao) Tilgerðarlega; með sýndarmennsku. „Ég kann ekkert að meta þá sem haga sér spjátrungslega“!
Spjátrungslegur (l) Tilgerðarlegur; montinn. „Skelfing leiðast mér svona spjútrungslegir náungar“.
Spjátrungur (n, kk) Monthani; vindbelgur. „Skyldu vera margir svona spjátrungar þarna syðra“?
Spjótaglamur (n, hk) Hótanir; ógnanir; heitingar. „Það þýðir ekkert að nálgast svona mál með einhverju spjótaglamri; hér verður að fara samningaleiðina“!
Spjótalög (n, hk, fto) Atlögur; árásir; sókn. „Þingmanningum tókst furðanlega að verjast spjótalögum stjórnarandstæðinga“.
Spjöll (n, kvk, fto) Skemmdir. „Nokkur spjöll urðu á húsum í fárviðrinu“. Í þessari merkingu er orðið eingöngu notað í fleirtölu. Spjall (sjá þar) er notað yfir samtal manna og er aldrei í fleirtölu. Undantekning er þó heitið guðspjall, sem getur bæði verið í eintölu og fleirtölu. Sjá einnig spjallaður.
Spjör (n, kvk) Fatnaður; flík. „Ég var holdvotur og varð að fara úr hverri spjör“.
Splitta (s) Læsa með splitti. „Mundirðu örugglega eftir að splitta fjárhúshurðina“?
Splitti (n, hk) Lítill tittur sem notaður er t.d. til að læsa hjóli uppi á öxli eða hespu á keng.
Splundra (s) Sprengja; eyðileggja. „Kassinn hafði splundrast í fjörubriminu“.
Splunkunýr (l) Glænýr; alveg nýr. „Hann er kominn á splunkunýjan bíl“.
Splæs (n, hk) Samsetning taugar með því að splæsa hana. „Splæs er talið öruggt ef brugðið er tryggilega þrisvar til fjórum sinnum hverjum þætti“.
Splæsa (s) Um samsetningu/frágang bands/kaðals/vírs; bregða. Þáttunum brugðið undir aðra með sérstöku lagi.
Spons (n, hk) A. Tappi í sponsgat á tunnu. Til að unnt sé að láta lög renna af tunnu án þess að slá hana upp, er borað gat, annaðhvort á belginn eða í lokið, og í það slegið kónískt spons. B. Gæluheiti á barni.
Sponsa (s) Setja spons í tunnu. Gat einnig merkt að bora sponsgat um leið. „Mundu eftir að sponsa tunnurnar“.
Sponsbor (n, kk) Bor til að bora sponsgat á tunnu. „Hvar setti ég nú sponsborinn“?
Sponsgat (n, hk) Gat sem spons gengur í, t.d. á tunnu. „Að síðustu var tunnan pækluð um sponsgatið“.
Spor (n, hk) A. Far eftir fót/umgang/verkfæri eða annað; slóð. „Þarna voru spor eftir nokkrar kindur“. B. Skref. „Hann er léttur í spori ennþá, sá gamli“. C. Nálbragð í klæði/efni. „Hún rippaði þetta með nokkrum sporum og burxurnar voru eins og nýjar“. D. Járnbraut. „Kolin voru dregin útúr Námunum á vögnum sem gengu á spori“.
Spor/skref í áttina / Spor/skref í rétta átt (orðtak) Rétt byrjun. „Þetta segir ekki mikið, en það er þó spor í rétta átt“.
Spora (s) A. Skilja eftir sig fótspor. „Farðu nú úr blautu sokkunum áður en þú sporar út allt gólfið“! B. Höggva úr efni með sporjárni eða öðru.
Sporaður (l) Með sporum/förum. „Skriðan var mun fljótfarnari eftir að hún hafði fyrst verið sporuð“.
Sporbaugur / Sporbraut (n, kk) A. Ílangur reglulegur hringferill. Líklega algengasta form lokaðs ferils í alheiminum, þar sem sérhver hnöttur og efnisögn í geimnum gengur eftir sporbaug; þar á meðal Tungl um Jörðu og Jörð um Sólu. B. Sporbraut getur einnig haft merkinguna járnbrautarteinar.
Spordrjúgur (l) Hraðgengur; ólatur. „Hann bauðst til að fara þetta, enda löngum verið spordrjúgur blessaður“.
Sporðaköst (n, hk, fto) A. Sporðasláttur fisks eftir að hann hefur verið innbyrtur í bát, en er með lífsmarki. B. Fyrirgangur manneskju; pilsaþytur; rassaköst. „Skárri eru það nú sporðaköstin í manneskjunni“!
Sporðblaðka (n, kvk) Flatasti/þynnsti hluti sporðs/stirtlu á fiski.
Sporðkrækja (s) Veiða fisk þannig að öngullinn festist í sporðinum. „Mér tókst að sporðkrækja þennan“!
Sporðkræktur (l) Veiddur þannig að krækist í sporðinn. „Ég fékk ekkert nema einn sporðkræktan marhnút“!
Sporðmerkja (s) Merkja fisk með skurði/marki í sporð.
Sporðreisa (s) Reisa upp á endann; endastinga.. „Kerran sproðreistist þegar þunginn kom aftur í hana“.
Sporðreistur (l) Sem búið er að sporðreisa/ hefur sporðreist. „Komumst við að rúminu, og var það heilt og óbrotið, en sigið ofan með gaflinum sporðreista, sem fyrr um getur“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).
Sporðrenna (s) Renna niður; borða. „Ég var orðinn svangur og sporðrenndi strax tveimur eggjum“. Líking við það að fugl gleypi fisk, en hann snýr honum ávallt þannig að sporður hverfur síðast. „Það var haft eftir Gumma að … sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum sem hann hefði áður áfellst sig fyrir að þiggja af Hafliða vini sínum“ (PG; Veðmálið).
Sporðskera / Sporðstýfa (s) Skera sporð af fiski. „Stórar flyðrur voru sporðskornar svo þær lemdu ekki bátinn“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Sporðstykki (n, hk) Það stykki fisks sem næst er sporði þegar hann er skorinn til suðu. Vinsælt hjá þeim sem latir/ólagnir eru við beinhreinsun, þar sem í þeim eru öngvir geislungar“.
Sporðsýling (n, kvk) Vikið sem kemur inní aftanverða spoðblöðku margra fisktegunda. Sporðsýling er áberandi á t.d. ufsa og makríl, en minna á þorski.
Sporður (n, kk) A. Afturendi fisks. B. Aftasti/neðsti/ysti endi sumra hluta, t.d. bryggju, brúar og skjaldar.
Sporgöngumaður (n, kk) Sá sem gengur í slóð/fylgir fordæmi annars. „Allir vildu hans sporgöngumenn vera“.
Sporhundur (n, kk) Hundur sem er þefvís á slóð/fótspor.
Sporhvatur (l) Gengur hratt; góður göngumaður. „Hann var svo sporhvatur að ég átti fullt í fangi með að fylgja honum eftir“.
Sporlatur (l) Latur til snúninga/göngu; nennir ekki. „Hann hefur nú aldrei sporlatur verið, blessaður“.
Sporjárn (n, hk) Verkfæri til trésmíða; ílangt járn með tréhaldi á öðrum enda en brýnt egghvasst þvert fyrir hinn. Brýningin er hallandi, þannig að spónn fer ávallt sömu megin. Notað m.a. til að taka spor/far í við; gjarnan með áslætti hamars á handfangsendann.
Sporlatur (l) Nennir ekki að ganga; gengur hægt; drumbsíður; silakeppur. „Ég er nú fjandi sporlatur að smala þessum bykkjum aftur ef hann sleppir þeim útaf túnunum“!
Sporléttur (l) Lipur á göngu; duglegur að hlaupa. „Af því þú ert svo sporléttur; viltu ekki skreppa og sækja mjólk í brúsann niðri í Kaldabrunni“?
Sporna við (orðtak) Andæfa gegn; veita andstöðu/mótstöðu; þráast við; strássast við. „Það er erfitt að sporna við breytingum af þessu tagi“.
Sporsla (n, kvk) Síðari tíma heiti á aukatekjum/aukastarfi, gjarnan þá bitlingum sem þeir fá sem nýta sér vinskap valdamanna eða hafa betri aðstöðu en almenningur.
Sporstuttur (l) Tekur stutt skref á göngu. „Farðu nú rólega svo strákurinn nái að fylgja þér eftir; hann er svo sporstuttur stubburinn“!
Sporna við (orðtak) Veita viðnám; vinna gegn; aftra. „Það þýðir lítið að sporna við þessum breytingum“.
Sporreka (n, kvk) Göngustafur með öflugum spaða í neðri enda. Sumsstaðar notað fyrrum af þeim sem þurftu að ganga um þar sem öruggara þótti að marka sér för, t.d. í hörðum skriðum eða bröttum fönnum. Brúkaðist ekki vestra í seinni tíð, en mun löngum hafa verið algengt norðaustanlands.
Sporrækt (l) Hægt að rekja spor í mjöll; dagsbirta næg; nógur snjór og hæfilega mjúkur. Þetta var mikilvægt bæði við refaveiðar og við leit að fé.
Sporstuttur (l) Tekur stutt skref; miðar hægt áfram. „Gakktu nú rólega, litli kúturinn er dálítið sporstuttur enn“.
Sposkur (l) Tvíræður; hæðnislegur á svip. „Hann spurði sposkur hvort hann ætti að aðstoða okkur við löndun“.
Spott (n, hk) A. Háð; stríðni; hæðni. „Þeir verða oft fyrir spotti og aðkasti sem reyna að leggja sig fram fyrir fjöldann“. B. Gæluorð um barn eða hund. „Komdu hérna spottið mitt og leyfðu mér að girða þig betur“.
Spottabasl / Spottadrasl (n, hk) Mikil notkun á bandspottum, t.d. til skammtímaviðgerða. „Skelfing leiðist mér þetta spottabasl; geta menn ekki gert almennilega við réttarræfilinn? Þeim finnst skárra að missa allt út“!
Spottakorn (n, hk) Stuttur spölur; mjög stutt leið. „Hrafninn settist spottakorn frá skurðendanum og þóttist vera að kroppa. Þegar tíkin hljóp í hann notaði hann tækifærið og stal beininu hennar“.
Spottalaus (l) Um bjargferðir; án stuðnings af vað/bandi; bandlaus; vaðlaus. „Það má vel komast spottalaus þarna á milli ganganna; það hef ég oft farið“.
Spotti (n, kk) A. Stutt vegalengd. „Nú urðum við að halda áfram þennan stutta spotta sem eftir var í Verið...“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). Sjá drjúgur/góður spotti. B. Stutt band; stuttur vaður. Oft notað um stuttan bjargvað; lásspotta; enda. „Við þurfum að hafa tvo spotta með okkur á þennan stað; þarna eru tveir lásar“.
Spottprís / Spottverð (n, hk) Mjög lágt verð; hlægilega lágt verð. „Ég fékk þetta fyrir spottprís“.
Spóaleggur (n, kk) Fótur manneskju, sem þykir áberandi mjór. „Þetta eru alltof víðar buxur á þig; þú ert með svoddan spóaleggi“!
Spói (n, kk) Numenius phaeopus. Vaðfugl af snípuætt; fremur stór, 40cm langur; háfættur og með langt og íbjúgt nef. Hljóðið er sérkennilega vellandi langdreginn hátónn; líkur dillandi hlátri; nefnt vell, og spóinn stundum nefndur velluspói. Fæðan er burstaormar, lindýr og aðrir hryggleysingjar. Heldur sig við móa og í fjörum; algengur m.a. í Kollsvík; farfugl sem hefur vetursetu í vestanverðri Afríku. Í þjóðtrúnni er spóinn talinn spáfugl, og er alþekkt máltækið „þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut“.
Spóka sig (orðtak) Sýna sig; vera á röltinu. „Maður getur ekki alltaf verið að spóka sig í kaupstaðarferð“.
Spóla (n, kvk) A. Kefli sem þráður er undinn uppá. B. Vindingur af vír sem þjónar hlutverki í raftæki. C. Vindingur af segulbandi til varðveislu/spilunar á hljóði/mynd.
Spóla (s) A. Vinda upp á spólu. B. Um bíl; láta hjól snúast án þess að bíllinn hreyfist samsvarandi.
Spóla í (einhverjum) (orðtak) Fíflast með einhvern; stríða einhverjum; rugla einhvern.
Spólera (s) Eyðileggja; skemma. Seinnitíma enskusletta; „spoil“.
Spóluormur (sn, kk) Ætt þráðorma (Nematoda) sem lifa sníkjulífi í dýrum og jafnvel fólki. Þekktastir hérlendis nú til dags eru spóluormar í köttum (Toxocara cati), en önnur tegund lifir í hundum og refum (Toxacara canis). Mikið getur verið af eggjum spóluorma í umhverfinu eða í millihýslum s.s. músum. Eftir að egg berst ofaní kött klekst lirfa út og kemur sér oftast fyrir í lifrinni og síðar lungunum. Þaðan aftur í meltingarveginn og þroskast þá í fullorðinn orm sem æxlast og skilar eggjum niður með saur. Sýkt dýr þrífst illa. Sýkingum er haldið frá með reglulegri ormalyfjagjöf.
Spólurokkur (n, kk) A. Áhald til vefnaðar. B. Mannlíking; ólíkindatól; rugludallur. „Sá bévítans spólurokkur“.
Spólvitlaus (l) Kolvitlaus; viti sínu fjær; frá sér. „Karlinn varð alveg spólvitlaus þegar hann komst að hrekknum“.
Spónamatur (n, kk) Súpa; grautur. „Heimamenn fengu daglega senda mjólk og einnig spónamat og nutu þess jafnt aðkomnir hásetar bændanna eins og þeir sjálfir“ (KJK; Kollsvíkurver). „Spónamat og mjólk höfðu krakkar komið með um leið og sást til bátanna á leið í land“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Spónblað (n, hk) A. Framhlutinn/munnhlutinn á spæni. B. Skeiðarfylli/spónfylli; spónn. „Það er ráð að setja spónblað af lýsi útí mjólkina fyrir kálfinn“.
Spónn (n, kk) A. Almennt; þunn flaga af efni. B. Viðarflaga sem tekin fellur til þegar viður er unninn með eggjárnum, s.s. öxi, sporjárni eða hefli. Spænir voru m.a. notaðir til eldiviðar, einangrunar og undirburðar. C. Skeið; borðbúnaður fyrri tíðar til að matast; hentaði vel fyrir askana sem þá tíðkuðust. Spænir voru gjarnan smíðaðir úr nautshornum, en spænir úr hrútshornum þóttu óvandaðri. „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar. Jón Torfason afi minn smíðaði flest ílát í sveitinni. það voru glettilega fallegir askarnir útskornir. Hornspænir voru hér ekki algengir“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). D. Mælieining; það sem kemst í einn spón/ eina matkeið; spónfylli. „Gefðu mér einn spón af sykri útí hræruna“. E. Þunn viðarflaga sem límd er utaná óvandaðri burðarplötu til að gefa henni fallega viðaráferð, sbr spónleggja. F. Spúnn; veiðarfæri til stangveiða; krókur með spjaldi sem dreginn er gegnum vatnið.
Spónnýr (l) Glænýr; alveg nýr. „Það þótti því engin fýluför þegar Guðbjartur Þorgrímsson brá sér út á Bjargtanga til að huga að sel en kom aftur með spónný gúmístígvél... “ (ÁE; Ljós við Látraröst). Vísar til þess að nýr viðarspónn er ilmandi og með áberandi æðum, en bliknar fljótt fyrir áhrif lofts og raka.
Spraka (n, kvk) Annað heiti á lúðu (sjá þar). „Þarna setti ég í sprökuna, sællar minningar“. Spraka var gjarnan notað í meiri viðhafnartón, t.d. þegar sagt var frá viðureign eða stærðin undirstrikuð. Sjá breytandi spraka.
Sprang (n, hk) A. Það að spranga; rösk ganga; rið í bjargi. B. Gömul útsaumsaðferð, þar sem sporin snúa á víxl; langsum í einum reit en þversum í næsta.
Spranga (s) Ganga rösklega. B. Sveifla sér í vað í bjargi. Notað þannig í Vestmannaeyjun og ekki gamalt vestra í þeirri merkingu, heldur var fyrrum talað um að taka rið eða fara á rið.
Sprauta (n, kvk) A. Áhald til að koma vökva úr biðu um þröngan stút, t.d. lyfi undir húð. T.d. lambasprauta. B. Líkingaheiti um duglegan/öflugan mann.
Sprauta (s) A. Beina bunu af vatni eða öðrum vökva. „Ég sprautaði vatni yfir steypumótin svo steypan harðnaði síður á þeim“. „Hún sprautaði rjóma yfir tertuna“. B. Koma lyfi í mann eða dýr mann eða dýr með sprautu.
Sprautusalta (s) Salta ket eða fisk með því að sprauta saltpækli víða inn í vöðvann gegnum nál.
Spraututaska (n, kvk) Merkjataska; taska sem höfð var meðferðis þegar farið var til bólusetnigar og merkinga á lömbum, en það var gert nær daglega um sauðburðinn. Í töskunni voru m.a. bóluefni, sprauta, glas af súlfatöflum, markatöng, merkjatöng, eyrnamerki, penni og fjárblað til innfærslu á upplýsingum um lambið; númer sem það fékk og móður þess.
Spreða (s) Eyða; sóa. „Það er óþarfi að spreða öllu um leið þó manni áskotnist fáeinir aurar“.
Spreka til (orðtak) Tala/kjafta til; lempa; sannfæra um. „Getur þú ekki sprekað þennan þverhaus eitthvað til“? Líklega stofnskylt heitinu sprok. Vestra stýrir sögnin einatt þolfalli, en sumsstaðar mun hún stýra þágufalli.
Sprekdót / Sprekrusl (n, hk) Smáspýtur; spýtukubbar; smælki af viði. „Ég safnaði einhverju sprekdóti þarna við reykkofann; til að hafa til uppkveikju“. „Það var ansann enginn reki; bara eitthvað sprekrusl í Bótinni“.
Sprekharður (l) Harður eins og spýta/sprek. Notað t.d. um skreið (sjá þar).
Sprell (n, hk) Grín; ærsl; hrekkir. „Hvaða ansvítans sprell eru strákaormarnir nú með í bígerð“? (Lint l)
Sprella (s) Grínast; hrekkja; ærslast; gera sprell. „Verið nú ekki að sprella þetta með karlangann“.
Sprellfjörugur (l) Mjög fjörugur; mikill fjörkálfur. „Hann var sprellfjörugur í dansinum, sá gamli“.
Sprelllifandi (l) Í fullu fjöri; með fullu lífsmarki. „Ærin var enn sprellifandi í sveltinu, en farin að horast“.
Sprelligosi / Sprellikarl (n, kk) A. Æringi; maður sem oft er til í ærsl/gárungshátt. B. Fígúra í mannsmynd sem hengd er á vegg og sé togað í spotta niðurúr er unnt að láta hana hreyfa hendur og fætur.
Sprengfullur (l) Svo fullur að er að springa; pínsfullur. „Þessi sekkur er orðinn sprengfullur“.
Sprenghlaup (n, hk, fto) Æðisgegnin hlaup; spretthlaup; strekkur. „Hann var örmagna eftir þessi sprenghlaup“.
Sprenghlægilegur (l) Mjög hlægilegur/spaugilegur; mikið aðhlátursefni;
Sprengidagur (n, kk) Þriðjudagur í föstuinngangi; hvíti týsdagur. Á þeim degi var forn siður í kaþólskri trú erlendis að hafa mikla kjötveislu áður en hin stranga langafasta byrjaði. Sá siður var á síðari tímum tekinn upp hérlendis, og varð venja að eta hressilega af saltketi.
Sprengidagsket / Sprengidagssaltket (n, hk) Saltket sem borðað er á sprengidag.
Sprengja net/nót (orðtak) Fá svo mikið í net/nót að rifni. „Árans hvalurinn hafði það af að sprengja netið“!
Sprengja upp verðið (orðtak) Hækka verðið óhóflega; valda verðhækkun.
Sprengjufrost (n, hk) (Líklega) Hörkufrost sem veldur háværum sprengingum í mýrlendi. Orðið finnst ekki í orðabókum og heyrðist ekki notað í seinni tíð. (Orðasafn IG)
Sprenglærður (l) Búinn að læra mjög mikið; mjög lærður/menntaður. „Mér finnst að margir þessara óskólagengnu sveitamanna; þessir sjálfmenntuðu fræðimenn, hafi staðið sprenglærðum sérfræðingum mun framar í öllu því sem þeir tóku sér fyrir hendur“.
Sprengmóður (l) Lafmóður; að springa úr mæði. „Ég var sprengmóður, en náði að komast samt fyrir kindina“.
Sprengsaddur (l) Pakksaddur; belgfullur; búinn að éta á sig gat. „Ekki meiri súpu takk; ég er sprengsaddur“.
Spretta (n, kvk) Vöxtur gróðurs. Einkum notað um grassprettu. „Sprettan hefur verið góð að undanförnu“.
Spretta (s) A. Um lífveru; vaxa; stækka; dafna. „Það sprettur vel í svona sprettutíð“. B. Taka skyndilegt stökk; hreyfa sig snögglega. „Hundurinn spratt upp þegar barið var að dyrum“. C. Koma í ljós; vella fram. „Þarna sprettur fram vatn úr klettinum“.
Spretta af (hesti) (orðtak) Losa hnakk af hesti með því að losa gjörð undan kvið.
Spretta uppúr (orðtak) Um bók/blað; skera uppúr; skera í sundur arkir á nýprentuðu riti.
Spretta úr sér (orðtak) Um grassprettu; trénast. „Það er allt að verða úr sér sprottið á sléttunni og farið að leggjast“.
Spretta úr spori (orðtak) Hraða sér á göngu; hlaupa; greikka sporið. „Ég er hræddur um að nú verðið þið að spretta úr spori; túnrolluskrattarnir ætla að notfæra sér að hliðið er opið“!
Sprettharður (l) Fjótur að hlaupa. „Sprettharðir og úthaldsmiklir einstaklingar voru eftirsóttir til smölunar í Rauðasandshreppi, og best var ef þeir væru um leið nokkuð brattgengir og vanir að umgangast fé“.
Spretthlaup (n, hk) Hratt hlaup. „Maður er alveg búinn eftir þetta spretthlaup fyrir rollustirrurnar“!
Sprettulaust (l) Um tíðarfar; mjög hæg spretta. „Það er búið að vera sprettulaust vegna kulda og þurrka“. Orðið finnst ekki í orðabókum.
Sprettuleysi (n, hk) Lítil grasspretta. „Mér líst ekkert á þetta sprettuleysi, það sem af er sumri“.
Sprettuleysissumar (n, hk) Sumar þegar gras sprettur mjög illa; grasleysissumar. „Eitt sinn þegar ég var vinnumaður hjá Ólafi heitnum Ásbjörnssyni í Botni, þá hafði verið sprettuleysissumar, svo hann var heykort um haustið“ (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).
Sprettulítill / Spretturýr (l) Um tún; sprettur lítið. „Ári eru sandtúnin spretturýr í svona þurrki“.
Sprettur (n, kk) Hröð hlaup, allajafna í fremur stuttan tíma. Sjá í einum (þan)spretti.
Sprettutíð (n, kvk) Um veðurfar sem örvar sprettu. „Þetta er hin besta sprettutíð; sól, hlýja og nægur raki“.
Spreyta sig (orðtak) Reyna sig; reyna; láta reyna á getu sína. „Það er gaman að spreyta sig við þetta takmark“.
Sprikl (n, hk) Tíðar og óskipulegar hreyfingar útlima. „Hún sagðist kunna betur við gömlu dansana en þetta nútíma sprikl og dingl; það ætti lítið skylt við dans“.
Sprikla (s) Iða; ólátast; kasta til útlimum.
Springa (s) A. Tætast í sundur með hvelli, t.d. í sprengingu. B. Springa úr mæði.
Springa upp (orðtak) Um jarðveg; brotna upp. „Svo sprakk oft upp botninn, og mógröfin fylltist af vatni; þá varð að byrja á nýrri“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Springa úr hlátri /orðtak) Hlæja mjög mikið. „Hann ætlaði alveg að springa úr hlátri þegar hann frétti þetta“.
Springa úr mæði (orðtak) Vera mjög móður/ lafmóður. „Ég var alveg að springa úr mæði þegar upp á brúnina var komið“.
Springa út (orðtak) Um blóm; opna blómkrónu sína.
Springur á rassinum (orðtak) Um spádóma/veðurspár; bregst algerlega. „Hún sprakk laglega á rassinum á þeim þessi rigningarspá; hér kom ekki dropi úr lofti“! Til var orðtakið „spáflugan springur á rassinum“, þó ekki heyrðist það vestra. Gæti verið tilvísun í gamla þjóðtrú/þjóðsögu sem nú er glötuð.
Sprit (n, hk) Sjá spryt.
Spritt (n, hk) Vatnsblandað etanól. Mest þekkt er brennsluspritt sem notað er m.a. til sótthreinsunar.
Sprok (n, hk) Upprunalega merkingin er „tungumál“ (sprog), en einkum notað í merkingunni háð; illmælgi; baktal. „Ég þoli illa þegar menn hafa uppi svona ástæðulaust sprok“.
Sproka með (orðtak) Tala um; ræða. „Hann var eitthvað að sproka með þetta“.
Sproksetja (s) Tala illa um; baktala; hæða. „Það er óþarfi að sproksetja menn fyrir svona litla yfirsjón“.
Sprotabelti (n, hk) Afbrigði af stokkabelti, sem borið er við hinn íslenska þjóðbúning kvenna. Stokkabeltið nefnist sprotabelti ef það er með sprota sem hangir niðurúr keðjunni að framanverðu.
Sproti (n, kk) A. Broddur á nýgræðingi; efsti hluti plöntu í vexti. B. Lítill stafur/teinn; grönn spýta. C. Líkingamál; það sem er að byrja/hefjast, t.d. starfsemi sem mikilst er vænst af.
Spruð (n, hk) Bugspjót; útleggjari; klýfir; spryð; bóma sem gengur fram af stefni flestra seglskipa og stærri báta sem nota segl. Á spruðið koma festingar fokku, stagsegls, jagara og annarra þríhyrndra framsegla. Spruð er ýmist lárétt, eins og oftast er um slúppskip, eða hallar upp framávið. „Ásgeir á Látrum minntist þess eitt sinn að faðir sinn, Erlendur á Látrum, hafi fengið gullfallega rekaspíru frá afa mínum, Guðbjarti á Láganúpi, til að nota í spruð á Kóp, sem var stórskip þeirra Látramanna“ (VÖ).
Sprund (n, hk) Kvenmaður; kona. Orðið er nær eingöngu notað í kveðskap.
Sprunginn (l) A. Tættur sundur í sprengingu. B. Örmagna; uppgefinn. „Ég er alveg sprunginn eftir þessi hlaup“!
Sprútt (n, hk) Gæluheiti á áfengi. Einkum notað um ólöglegt heimabrugg/landa.
Spryt (n, hk) Um seglabúnað báta; rá/stöng sem liggur frá mastri í efra afturhorn segls (veðurkló) þegar siglt er við sprytsegl.
Spryta (s) Setja upp sprytsegl með því að setja tappa á spritránni í þar til gerða lykkju á veðurkló seglsins.
Sprytsegl (n, hk) Seglabúnaður sem farið var að nota hérlendis um miðja 19. öld; einkum sunnanlands, en eitthvað á stærri bátum vestra. Ekki er vitað hvort eldri Fönix hafi haft þversegl eða sprytsegl, en sprytsegl voru líklega á Kópi á Hvallátrum. Sprytsegl eru ekki með rá, eins og þversegl, en hennar í stað er hallandi spryt/sprytrá, frá rakkanum, sem var kappmella neðanvert á siglunni; upp í efra og aftara horn seglsins, sem nefnist veðurkló. Sprytið, ásamt stögum og fal/dragreipi heldur seglinu þöndu. Úr neðra og aftara horni seglsins kom skautband aftur að skut, og með því stjórnað seglum. Meginseglið var því aftanvið sigluna. Framan við hana var oftast haft þríhyrnt segl, fokka/stagfokka, sem stöguð var fram í spruð/útleggjara/bugspjót, er gekk fram af stefni bátsins. (Stuðst m.a. við LK; Ísl. sjávarhættir II).
Spræklur (n, kvk, fto) Dílar; smáblettir sem eru mjög frábrugðnir að lit en umhverfið. Helst var talað um spræklur varðandi lit á lambi, en einnig einnig í öðru efni: „Hann er að leggja upp einhvern norðankalda; mér sýnist einhverjar spræklur vera komnar þarna frammi á víkinni“.
Spræklóttur (l) Um lit á lambi; mjög dílótt, þannig að skiptast á ljósir og dökkir toppar (krullur) um allan, eða mestallan búkinn. „Lífgjöf átti tvær gimbrar þetta vorið; aðra flekkótta en hina spræklótta“. Sjá rílótt.
Sprækur (l) Fjörugur; líflegur; fljótur; fær. „Hann er lygilega sprækur í smalamennskum drengurinn“.
Spræna (n, kvk) Mjó buna, t.d. lækjarspræna, hlandspræna. „Reyndu nú að láta sprænuna lenda utanvið borðstokkinn strákur“! „Þarna rennur spræna undan kletti í bjarginu“.
Sprökukeppur (n, kk) Kylfa/hnallur til að rota spröku/lúðu. Oft einnig notaður sem önglalag. Oft var steinbítshnallur einnig notaður sem sprökukeppur.
Sprökulóð (n, kvk) Lúðulóð; haukalóð.
Sprökumið (n, hk, fto) Fiskisklóð þar sem vænta má spröku. „Flyðruhnjótur (á Breiðnum) heitir hæsti hnúkurinn af Hjöllum framarlega. Hann er 271m á hæð og er gamalt sprökumið, og er sagt það hafi verið þannig; Kollsvíkurbær fyrir Hnífa og Flyðruhnjótur yfir Sandahlíð, sem er upp af Fjarðarhorni“ (Örnefnaskrá Breiðavíkur).
Sprökuróður (n, kk) Lúðuróður; róður sem farinn er með haukalóð.
Spunahúsið (n, kvk) Fangelsi í Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn, en það var, ásamt rasphúsinu, helsta kvennafangelsi Íslendinga fyrr á tíð. Þar var konum þrælað til að sauma, vefa og spinna; einkum einkennisklæðnað á danska herinn og kóngaslektið.
Spunakona / Spunamaður (n, kvk/kk) Sú/sá sem spinnur.
Spunarokkur (n, kk) Rokkur sem garn er spunnið á. Oftast stytt í „rokkur“. Stignir spunarokkar urðu ekki algengir á Íslandi fyrr en á 19.öld, og má ætla að í Rauðasandshreppi hafi víða verið spunnið á snældu framá 20.öld. Þá fóru rokkar að verða mikilvæg tóvinnutæki á heimilum. Afkastamesti rokkasmiður í Rauðasandshreppi var án efa Guðbjartur Egilsson á Lambavatni, en til eru fjölmargir gullfallegir rokkar smíðaðir af honum.
Spunastuttur (l) Stuttur í spuna; stuttorður; hryssingslegur/reiðilegur í orðum; önugur.
Spunavél (n, kvk) Vél til að spinna garn með afkastameiri hætti en gert er með venjulegum stignum rokk. Fyrstu spunavélarnar voru innfluttar, en uppfinningamenn í Villingaholtshreppi hófu framleiðslu á eigin vélum um miðja 20.öld; bæði Jón Gestsson í Villingaholti og Sigurjón Kristjánsson í Forsæti. Ein vél Jóns kom á Rauðasand; sameign Rauðsendinga.
Spuni (n, kk) A. Það að spinna. B. Það sem spunnið er á snældu eða á rokk/spunavél. C. Snúningur.
Spunnið í / Varið í (orðtök) Eftirsóknarvert; kjarnmikið; gott. „Ég held að það sé heilmikið spunnið í þennan strák til smalamennsku“. „Mér þykir ósköp lítið varið í þetta sjoppufæði“.
Spur (s) Spyr. Framsöguháttur af sögninni að spyrja. „Þá spur hann mömmu hvort hún sé ekki búin að láta inn kýrnar sínar“ (Guðný Ólafsd. frá Láganúpi; viðtal á Ísmús 1970). „Hann heilsar og spur frétta“. Báðir framburðarhættir notaðir jöfnum höndum, en þessi mun þó almennt hafa verið notaður áðurfyrr.
Spurðu hrafninn! (orðtak) Gjarnan viðkvæði bónda þegar innt er eftir horfinni kind eða vanhöldum. Vísar til þess að hrafninn er fljótur að finna kind sem er dauð eða bjargarlaus, og byrja að kroppa hana. Því ætti hann að vera fróðastur um vanhöld á svæðinu, enda spakur að viti.
Spurðu margs en segðu fátt (orðatiltæki) Heilræði sem vísar til þess að oft sé best að segja sem minnst en hlusta vel eftir fróðleik frá öðrum.
Spurja (s) Spyrja. Algengur framburðarmátiframeftir 20. öld en heyrist minna í dag. „Við ættum nú að koma við hjá honum og spurja frétta“.
Spurn (n, kvk) A. Frétt. Eldri mynd sem heyrist lítið í dag nema í orðtökum: „Hefurðu haft nokkrar spurnir af þeim síðan þeir fóru“? B. Spurning. „Mér er spurn hvor nokkur hefur gáð að þessu fé“?
Spurnarefni (n, hk) Tilefni spurningar. „Það er spurnarefni hvort þessi byggð muni blómstra aftur“?
Spurning / Spursmál (n, hk) Ráðgáta; spurning. „Þeir eru örugglega farnir. En hvert þeir fóru; það er spursmálið“. „Það er alveg spurning hvort við ættum að geyma þetta til morguns og vinna það í björtu“. Sjá það er spursmál.
Spurningar (n, kvk, fto) Fermingarundirbúningur fyrr á tímum nefndist að ganga til spurninga, og kverið sem börn áttu að kunna var nefnt spurningakver. Var mikið lagt uppúr kunnáttu á biblíutexta og kristilegum skilningi. Í fermingarathöfninni þurftu börnin að geta svarað spurningum prestsins.
Spursmál (n, hk) Spurning. „Hann þarf að svara þessu spursmáli“. „Það er spursmál hvort þetta er hægt“. „Þetta er ekkert spursmál; þetta verður að gerast“!
Spursmálslaust (ao) Vafalaust; öruggt. „Hrúturinn hefur hrapað úr ganginum; það er alveg spursmálslaust“. „Spursmálslaust munu allar skepnur vera í besta standi allsstaðar“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1926).
Spursmálsvert (l) Þess virði að spyrja. „Hann rignir örugglega með sunnanáttinni; það er varla spursmálsvert“!
Spurull (l) Síspyrjandi; spyr margs. „Þú verður að afsaka þó ég sé spurull, en þetta er allt nýtt fyrir mér“.
Spúa (s) Æla; selja upp. „Ef þú þarft að spúa, þá reyndu að koma því útyfir borðstokkinn“.
Spúnn (n, kk) Veiðitæki til stangveiða. Lítil plata; oft bogin, sem sett er hjá önglinum og verður til þess að hvorttveggja hlykkjast gegnum vatnið þegar línan er dregin inn, líkt og bráð fisksins. Líking við spón.
Spúsa (n, kvk) Eiginkona; heitkona. „Hann kom í heimsókn með spúsu sinni“.
Spyr oft vís þó viti (orðatiltæki) Hygginn maður spyr stundum að því sem hann þykist þó vita svör um, til að fá staðfestingu og ítarlegri heimildir/viðhorf.
Spyr/spur sá sem ekki veit (orðtak) Gegnsætt orðtak og mikið notað. „Og hversvegna þurfið þið að hafa fötu með ykkur út á Hnífa strákar? Spyr sá er ekki veit“!
Spyrða (n, kvk) Fiskar bundnir saman til upphengingar og þurrkunar. Væri um þorsk/ýsu/ufsa að ræða voru tveir fiskar festir/spyrtir saman með snærislykkju til þurrkunar í skreið/siginn fisk. Væri um grásleppu/rauðmaga að ræða voru oftast fjórir fiskar spyrtir saman. Þurrkunin var einnig nefnd að láta síga eða að hengja upp til signingar. (Sjá siginn fiskur)
Spyrða (s) Binda saman fiska í spyrðu til upphengingar (sjá siginn fiskur). Hyllst var til þess að hafa sem jafnast í spyrðunum, þannig að síður hallaðist á. Því var það líking um tvo menn sem þóttu svipaðir í tilteknum háttum að þá mætti spyrða saman, eða að þeir væru samanvaldir/samanspyrtir.
Spyrðingur (n, kk) Stakur siginn fiskur, en annars eru yfirleitt tveir í pari; spyrðu. (sjá siginn fiskur).
Spyrðuband (n, hk) A. Fyrri tíma merking; sama og spyrða (n). B. Á síðari tímum; band til að spyrða með (sjá siginn fiskur)
Spyrðustæði (n, hk) Mjósti staðurinn á stirtlu fisks. Á hákarli/lúðui nefnist spyrðustæðið strabbi.
Spyrja/spurja (s) A. Leita eftir svari við spurningu; inna eftir; afla fróðleiks. B. Frétta. Þetta spurðist fljótt út.
Spyrja að leikslokum (orðtak) Huga að því hvernig fer að lokum. „Hann er kannski búinn að taka af einni kind fleiri en ég núna, en við skulum bara spyrja að leikslokum“.
Spyrja eftir (orðtak) Spyrja um. „Ég hringdi og spurði eftir forstjóranum“. „Spurðu þá eftir færðinni“.
Spyrja eftir sér (orðtak) Um þann sið sumra sveitamanna sem sjaldan fóru að heiman, að hringja ótt og títt heim til að láta vita um gang ferðalagsins; spyrja um gang bústarfa; fá upplýsingar og vita hvað þyrfti að útvega á heimilið. Þessir menn ólust upp við slæmar samgöngur fyrri tíma og erfiða aðdrætti; því lá í augum uppi að nota sér tækni símans í þessum tilgangi. Líklega er GJH á Hnjóti höfundur þessa sérkennilega orðtaks, en hann var hnyttinn í orðum og fundvís á það spaugilega í tilverunni. „Hann var varla kominn inn úr búðardyrunum þegar hann bað um að fá að hringja til að spyrja eftir sér“.
Spyrja/inna frétta/tíðinda (orðtak) Ræða landsins gagn og nauðsynjar þegar tveir eða fleiri hittast. Gestakomur voru stjálli meðan samgöngur og samgöngutæki voru með hægari brag, og því var ýmislegt sem þurfti að ræða þegar svo bar við“. „Spurt var almæltra tíðinda, kastast á glensi og gamanmálum… “ (PG; Veðmálið).
Spyrja í þaula / Spyrja spjörunum úr (orðtak) Inna eftir mörgu; yfirheyra; spyrja ítrekað og á nærgöngulan hátt. „Sú gamla bauð trúboðunum í bæinn og spurði þá spjörunum úr. Bæklingana sagðist hún gjarnan þiggja til uppkveikju“.
Spyrja(st) til vegar (orðtak) Leita leiðbeininga; spyrja kunnugan mann um leiðir/áttir/vegi. „Við vorum ókunnugir á þessum slóðum, og spurðumst því til vegar hjá bónda“.
Spyrja (almæltra) tíðinda (orðtak) Spyrja frétta; inna eftir fréttum. „Ég spurði hann tíðinda, en hann sagði allt meinhægt“.
Spyrja/spurja útí (orðtak) Inna náið eftir; taka til ítarlegrar umræðu. „Ég spurði hann frekar útí þessi áform, en hann vildi lítið um það segja á þessu stigi“.
Spyrja útúr (orðtak) Yfirheyra; hlýða yfir; spyrja í þaula. „Hann svaraði engu þegar ég spurði hann útúr varðandi þetta samtal“.
Spyrjast fyrir (orðtak) Gera fyrirspurn; spyrja; leita upplýsinga. „Ég spurðist fyrir um þetta, en engin vildi við það kannast“.
Spyrjast til (orðtak) Fréttast af; vitnast um, t.d. afdrif/örlög. „Hefur nokkuð spurst til þessara ferðalanga“?
Spyrjast út (orðtak) Um málefni/frétt; verða á margra vitorði. „Honum þótti slæmt ef þetta spyrðist út“.
Spyrjum að leikslokum (orðatiltæki) Viðhaft um keppni/viðureign/framvindu þegar úrslit eru óráðin. „Það lítur ekki vel út að við klárum þetta, en við skulum bara spyrja að leikslokum“.
Spyrna sér frá (orðtak) Um bjargsig; ýta sér frá berginu með fóum þegar maður er dreginn eða manni slakað í bjargsigi, til að léttara sé að slaka/draga hjá brúnamönnum og til að maður festist síður við nibbur. Þegar dregið er reynir æfður sigari að létta dráttinn með því jafnframt að spyrna sér uppávið.
Spyrna/stinga við fótum (orðtak) Andmæla; veita andspyrnu/viðnám; streitast á móti. „Ætli menn verði ekki eitthvað að spyrna við fótum ef við þeim er amast“?
Spýja (n, kvk) A. Æla; gubb; uppsölur. „Við vorum varla konir frá landi þegar spýjan stóð uppúr honum“!. B. Snjóflóð, oft fremur lítið. Jöfnum höndum notað yfir snjóflóð, krapaflóð og aurflóð: Snjóhlaup, aurskriða.
Spýjupest (n, kvk) Gubbupest; ælupest; veikindi með uppgangi. „Hann liggur bara heima með spýjupest“.
Spýta (n, kvk) Fjöl; flatur viðarbútur. „Ég negldi spýtur í milligerðina“.
Spýta (s) A. Hrækja. B. Strekkja skinn á sléttan flöt og festa því í jaðrana til að láta þorna. Fyrrum var spýtt með trépinnum/þollum, en á seinni tímum með litlum saum/nöglum.
Spýta/skyrpa í lófana (orðtak) Herða sig við verk; vinna af auknum krafti. „Ég held að við verðum að spýta dálítið í lófana ef við eigum að ljúka þessu í dag“. Vísar til þess að sá sem rær eða vinnur erfiðisvinnu berhentur spýtir stundum í lófa til að mýkja átakið.
Spýta mórauðu (orðtak) Skyrpa tóbaksblönduðu munnvatni. „Karlarnir tróðu í vörina og spýttu mórauðu, milli þess sem þeir drógu sitt fé og þrösuðu hver við annan um veðráttuna og vænleika fjár.
Spýta rauðu (orðtak) Með blóð í munnvatni/munni sem sést þegar hrækt/spýtt er. „Báðir spýttu rauðu eftir slagsmálin, en hvorugur var stórmeiddur“. Sjá snýta rauðu.
Spýta skinn (orðtak) Þurrka skinn, þannig að eftir að búið er að hreinsa það og þvo er það strengt á slétt og hart undirlag með því að festa ystu skæklana með nöglum eða tittum.
Spýta um tönn (orðtak) Hrækja með því að kreista hrákann út milli tungu/varar og tanna.
Spýtingur (n, kk) A. Gusugangur; þegar vatn/sjór spýtist upp/út. B. Þegar sjór spýtist upp við það að bárur úr gagnstæðum áttum mætast, eða skella í kletta. C. Niðurgangur; veggspýtingur.
Spýtnabrak / Spýtnahrúga / Spýtnarusl (orðtak) Safn/hrúga af spýtum. Stundum líkingamál um lélega smíði.
Spýtt skinn (orðtak) Skinn sem búið er að þurrka með því að spýta það. Spýtt skinn er vanalega elt og verkað til frekari nota. „Skinnið var látið liggja í yfir nótt; síðan spýtt eða strekkt á hlera og látið harðna“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Spýtukarl (n, kk) Lítið líknesski í mannsmynd, oft skorið úr rekaspýtu og notað sem leikfang. „Afi tálgaði stundum spýtukarla fyrir okkur. Þeir voru einfaldir að gerð en ekki verri leikföng en nútíma plastdrasl“.
Spýtukubbur (n, kk) Bútur af spýtu/viði. „Þeir bjuggu sér til báta úr spýtukubbum“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Spýtustubbur / Spýtustúfur (n, kk) Stutt spýta. „Þessi spýtustúfur dugir skammt til viðgerða“.
Spækja (n, kvk) Léleg spýta; fjalargarmur. „Við löppuðum við réttina með spækjum úr fjörunni“.
Spæla egg (orðtak) Steikja egg. Nýlegt í málinu.
Spælegg / Spælt eff (n, hk/ orðtak) Steikt egg. Nýyrði.
Spæll (n, kk) Speldi/sepi til að hneppa að sér húfu; úlpu o.fl. „Hnepptu spælnum í hálsinn; það er kalt úti“.
Spæna (n, kvk) Rok; oft svo mikið að rýkur úr brimöldu og Víkin er hvít á sjó út. „Það var mjög tregt og illt í sjóinn; það lagði á norðan spænu með hálfgerðum brimhroða“ (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). Finnst ekki í orðabókum sem nafnorð.
Spæna (s) A. Kurla niður; höggva/tæta í spæni. „Vertu nú ekki að spæna brauðið niður á gólfið krakki“!. B. Fara/hlaupa hratt; spana; æða; strekkja. „Hann spændi inn allar háeggjar til að komast fyrir kindahópinn“.
Spölkorn (n, hk) Spottakorn; stuttur spölur; stutt vegalengd. „Þetta er hérna spölkorn í burtu“.
Spölur (n, kk) Nokkur/stutt vegalengd. „Spölur er frá bænum niður að sjó“. „Var þá einn sendur að sækja kol að Tröð, en þangað er stuttur spölur“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Spöng (n, kvk) A. Klampi; áfella; fjalarbútur, plata, spenna eða annað sem tengir/festir saman tvo hluti (sjá spengja). B. Fremur mjó ísbreiða; tangi af hafís. C. Mjó spenna sem notuð er til að halda hári í skefjum. D. Málbrú sem notuð er til tannréttinga.
Spönn (n, kvk) Mælieining lengdar. Spönn var fornt lengdarmál og merkti fjarlægð milli fingurgóma þumal- og vísifingurs á fullorðnum manni þegar þeir voru glenntir eins og mest gat orðið. Langspönn var lengri, enda er hún milli góma þumalfingurs og löngutangar. Langspönn var notuð til viðmiðunar þega bátar voru seymdir/negldir, en þá var nagli við hvorn góm og einn mitt í milli. Þó var það nokkuð misjafnt því sumir bátar voru þéttseymdir en aðrir fremur gisseymdir.
Spönn frá rassi (orðtak) Mjög stutt vegalengd. Oft notað í neikvæðum setningum. „Það þýðir ekkert að reyna að fá hann með; hann fer aldrei spönn frá rassi“.
Spörfugl (n, kk) Passeriformes. Ættbálkur fugla sem inniheldur meira en helming allra fuglategunda heims, eða yfir 5.400 tegundir. Spörfuglar á Íslandi eru yfirleitt fremur smáir; þeirra stærstur er hrafninn. Hann hefur nokkra sérstöðu í því að vera nánast alæta, en hinir smærri lifa yfirleitt á skordýrum og fræjum. Spörfuglar verpa í vönduð hreiður og bera foreldrar mat í unga sína þar til þeir komast á flug. Fætur spörfugla henta ekki til sunds; eru svonefndir setfætur. Stundum er heitið „spörvi“ notað yfir spörfugla, en það nær í raun yfir eina ætt þeirra; af henni hefur t.d. gráspör sést hérlendis.
Stabbi (n, kk) Stafli; hlaði; hey. „Leystu nú þannig úr stabbanum að geilin verði eins og hjá mönnum“. „Ég held að stabbinn í neðri hlöðunni dugi vel framúr“.
Staddur (l) Verandi; settur. „Hann er staddur í kaupstað þessa stundina“. „Ég er illa staddur ef ég finn ekki vasahnífinn“. Sbr. nærstaddur, viðstaddur o.fl. Sjá einnig statt og stöðugt.
Stabíll (l) Stöðugur; í jafnvægi; breytist lítið. „Ég er ekki viss um að steinnin sé nægilega stabíll til að við getum notað hann fyrir festu“.
Staða (n, kvk) A. Það að standa. „Maður verður þreyttur í fótum af þessum eilífu stöðum við netahreinsunina“. B. Ástand. „Hann kynnti okkur stöðu þessara mála“. C. Starf; virðingarstarf. „Svonalagað hæfir varla manni í hans stöðu“!
Staðaldur (n, kk) Varanleiki; það sem alltaf er/varir. Sjá að staðaldri.
Staðamálin fyrri og síðari Deilur kirkjuvaldsins við veraldlegt vald um valdmörk og fjárhag kirkjunnar. Rótin að þeim var sókn kirkjunnar á alþjóðlega vísu undir forystu páfans í Róm. Þannig var það stefna Alexanders páfa 3. (1159-81) að kirkjubændur fengju kirkjustaði að léni af biskupum og kirkjan réði prestaskipan. Hérlendis höfðu betri bændur og höfðingjar komið upp sínum eigin kirkjum og gegndu sjálfir preststörfum eða réðu presta. Einungis örfáar kirkjur heyrðu undir biskup. Þorlákur biskup Þórhallsson var ötull fylismaður kirkjuvaldsstefnu páfa og milli hans og höfðingja hófust harðar deilur árið 1179, sem nefndar eru staðarmálin fyrri. Höfðingjar undu þessu illa og er m.a. haft eftir Jóni Loftssyni í Odda (forföður Kollsvíkurættar): „Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er ég í að hafa hann að öngvu“. Hafði Jón betur varðandi sína kirkju og eftir það veitti höfðingjum betur.
Staðarmál hin síðari voru deilur Árna biskups Þorlákssonar og annarra kirkjunnar manna við höfðingjaveldið um forræði kirkjustaða í Skálholtsbiskupsdæmi á árunum 1269-97. Þá sat hinn harðskeytti Jón rauði sem erkibiskup í Niðarósi, sem orðið hfaði mikið ágengt gegn höfðingjum þar í landi. Kristinréttur Árna biskups var lögtekinn í Skálholtsumdæmi 1275, en í honum segir m.a. að biskup skuli ráða kirkjum og eignum þeirra í stað kirkjugoða og bænda, eins og tíðkast hafði allt frá kristnitöku. Hafði Árni sitt að miklu leyti fram, þrátt fyrir harða andstöðu. Hinsvegar syrti í álinn fyrir honum þegar Magnús lagabætir lést 1280 og við kóngsdæmi tók Eiríkur sem nefndur hefur verið „prestahatari“. Hann sá til þess að höfðingjar fengu aftur sinn rétt gagnvart kirkjuvaldinu. Árni gaf sig þó ekki, og á endanum náðust sættir 1296 sem staðfestar voru í Ögvaldsnesi árið eftir af Eiríki kóngi. Helsta inntak þeirra var að biskup réði kirkjustöðum þar sem kirkjan átti, en höfðingjar þeim sem þeir ættu a.m.k. að hálfu. Urðu málaferli þessi til að stórauka vald kirkjunnar.
Staðarlegt (l) Fallegt bæjarstæði. „Þangað er staðarlegt heim að líta“.
Staðarprýði (n, kvk) Setur fallegan svip á stað. „Blakkur og Núpur eru einstök staðarprýði í Kollsvík“
Staðarval (n, hk) Val á stað fyrir það sem tiltekið er. „Staðarval Kollsvíkurbæjar kemur ekki á óvart, enda óvíða skjólsælla í flestum áttum en þarna uppundir Núpnum; góð tún, og vatn nærtækt“.
Staðbundinn (l) Takmarkast við tiltekinn stað. „Sumt í máli Kollsvíkinga var geinilega upprunnið þar í byggðinni og staðbundið“.
Staðfastlega (ao) Eindregið; af staðfestu/einurð. „Hann neitaði þessu staðfastlega“.
Staðfastur (l) Stöðugur; kyrr á sínum stað; óhagganlegur í sínum skoðunum. „Ekki get ég nú fundið að hann sé staðfastur í þessari pólitík“.
Staðfesta (s) Lýsa yfir; segja að rétt sé. „Helgi í Tröð og fleiri lásu á hana (reisluna) og staðfestu þar með að Liði hefði unnið veðmálið“ (PG; Veðmálið).
Staðfesting (n, kvk) Sönnun; trygging. „Við höfum enga staðfestingu á þessari frásögn“.
Staðfestulaus / Staðfestulítill (l) Hvimandi; flöktandi; óráðinn; ístöðulítill. „Skelfing er hann staðfestulítill í öllum málum“.
Staðfestuleysi (n, hk) Það að vera óákveðinn/staðfestulaus/hvimandi. „Hann kemur málinu aldrei í höfn með svona staðfestuleysi“!
Staðfugl (n, kk) Fuglategund sem er á landinu allt árið. Farfuglar fara af landinu hluta ársins.
Staðfært (l) Um frásögn; tilbúningur/skáldskapur að hluta, en sönn að stofni til; sögn sem yfirfærð er af einum stað á annann; fært í stílinn. „Eitthvað er þetta nú staðfært hjá honum; en sagan er góð öngvu að síður“.
Staðgengill (n, kk) Sá sem kemur í stað annars/ leysir annan af í tilteknu hlutverki/starfi.
Staðgóður matur (orðtak) Mettandi og nærandi matur. „Skyrhræringur með slátri er mjög staðgóður matur“.
Staðgreiðsla (n, kvk) Greiðsla út í hönd; full greiðsla við móttöku vöru.
Staðháttaþekking (n, kvk) Þekking á staðháttum. „Hrun byggðar er það í raun menningarslys. Ein afleiðingin er sú að staðháttaþekking hverfur; ekki einungis örnefnin sjálf, heldur hvernig spunnust saman staðir og mannlíf og hvaða sögn fylgir hverju örnefni; hvernig staðir nýttust til viðmiða o.fl. o.fl.“.
Staðhæfa (s) Fullyrða; halda fram; segja fullum fetum. „Hann staðhæfði að þetta væri algjör endaleysa hjá okkur; svona hefði þetta alls ekki gengið til“.
Staðhæfing (n, kvk) Fullyrðing. „Mér fannst þetta nokkuð einkennileg staðhæfing“.
Staðhættir (n, kk, fto) Aðstæður á tilteknum stað; lega staðar. „Hann er þaulkunnugur staðháttum á þessum slóðum“.
Staðinn (l) Hefur staðið/ er búinn að standa/standast. „Mér líkar saltfiskur yfirleitt beur ef hann er vel staðinn“. „Með þessum slagi er sögnin staðin hjá okkur“. „Vertu ekki að drekka þetta kaffi; það er staðið síðan í morgun“.
Staðinn að verki (orðtak) Gripinn að óvörum við verknað. „Þjófurinn var staðinn að verki“.
Staðkunnugur (l) Fróður um stað/svæði. „Þeim fækkar ört sem eru vel staðkunnugir í Kollsvík og nágrenni“. „Torvelt er að komast í Tröllkarlshelli, og nær útilokað fyrir aðra en staðkunnuga að finna hann“ (HÖ; Fjaran).
Staðlausir stafir / Staðlaust bull/rugl / Staðleysa (orðtök/n, kvk) Ósannindi; á ekki við rök að styðjast. „Ég hef heyrt þessu fleygt, en þetta eru bara staðlausir stafir eins og flest annað sveitaslúður“.
Staðleysa (n, kvk) Markleysa; rugl; vitleysa; raöng staðhæfing/fullyrðing.
Staðna (s) Verða staðinn; stirðna. B. Um mannlega hegðun; hætta að breytast/þróast; stirðna í sama stað.
Staðráðinn í (orðtak) Ákveðinn; verður ekki hnikað. „Ég er staðráðinn í að klára þetta verk“.
Staðreyna (s) Sanna; sannreyna; fá sönnur fyrir. „Það er erfitt að staðreyna þessi ummæli í dag“.
Staðreynd (n, kvk) Það sem sannanlega er; það sem rétt er. „Ekki veit ég hvað rétt er í þessari sögu, en hitt er staðreynd að lúðuna veiddi hann“.
Staðsetja (s) Finna einhverju réttan stað; ákvarða staðsetningu einhvers.
Staðsetning (n, kvk) Réttur staður. „Eitthvað er á reiki með nákvæma staðsetningu og umfang Láganúpsvers, þar sem engar rústir sjást á yfirborði. En langmestar líkur eru til að það hafi verið neðst á Grundabökkum; nærri Búðalág og Lögmannslág“.
Staður (n, kk) A. Þar sem eitthvað er staðsett. „Ég lét þetta á góðan stað“. B. Bæjarstæði. Einkum notað um höfuðból og prestsetur fyrr á tíð, eins og mörg bæjaheiti bera með sér.
Staður (s) Fastur fyrir; vill ekki ganga af stað. „Fjandi er tuddinn staður“!
Staðviðrasamt (l) Tímar lítilla veðurbreytinga. „Árið var staðviðrasamt framanaf“.
Staðviðri (n, hk) Litlar breytingar í veðri um nokkurn tíma.
Staðþekking (n, kvk) Þekking á staðháttum; það að vera staðkunnugur.
Stafa (s) A. Um lestur; nefna einn staf í einu. „Hann er ári duglegur sá litli; farinn að stafa stuttu eftir að hann fer að tala“. B. Setja viði/stafi í hús, tunnu eða annan smíðisgrip. Af því er leitt orðtakið að „stafa af“, í merkingunni „orsaka“; „valda“; t.d. að hætta geti stafað af einhverju. C. Skína. Notað t.d. um ljósgeisla og sólstafi: „Sól setur ofan, sögðu menn þegar sólargeislinn stafaði gegnum regnský, og vissi það á vætu“ (LK; Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).
Stafa af (orðtak) Vera afleiðing; eiga ástæðu/rót/upptök í. „Ég held að bakverkurinn stafi af langri kyrrsetu“.
Stafa frá (orðtak) Leggja frá. „Henni fannst nokkur kuldi stafa frá glugganum“.
Stafa/stauta sig framúr (orðtak) Lesa; geta lesið við illan leik. „Það er erfitt að stafa sig framúr þessu klóri“.
Stafagerð (n, kvk) Gerð/lögun/ritun stafa. „Ég þekki utanáskriftina hans alltaf af stafagerðinni“.
Stafaklútur (n, kk) Lítill klútur með útsaumuðum stöfum og/eða öðru mynstri. „Stafaklúta heyrði ég um en kannast ekki við sjálf eða hjá mínum vinkonum á sama reki“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Stafalogn (n, hk) Algjört logn; rjómalogn; glampandi logn; svartalogn. Stafur er þarna í merkingunni geisli/skin, og vísar til þess að í stafalogni speglast sólin í yfirborði sjávar/vatns; sem og fjöll og annað.
Stafaskil (n, hk, fto) Bil/skil á milli einstakra stafa. „Ég sé nú varla stafaskil í þessu kroti“!
Stafavíxl (n, hk, fto) Víxlun stafa í rituðu máli, t.d. „gagnast“ í stað „gangast“.
Stafbroddur (n, kk) Broddur á broddstaf. „Gunnsi smíðaði sér broddstaf og notaði tanga af þjöl fyrir stafbrodd“.
Staffírugur (l) Kotroskinn; hress; borubrattur. „Strákurinn var heldur betur staffírugur eftir kapphlaupið“.
Stafgólf (n, hk) Bilið milli tveggja stoða/sperra í húsi; var meira notað á tímum torfbæjanna. Stafgólf samsvarði oftast lengd á rúmi, enda voru stoðir undir sperrum nýttar sem rúmmarar/rúmstöplar. Eitt stafgólf var oft um 3 álnir að lengd, eða um 1,8 metrar.
Stafhenda (n, kvk) Bragform ferskeytlu, þar sem allar fjórar ljóðlínur eru fjórir bragliðir, og allir öftustu bragliðir eru stífðir. Tvær fyrri ljóðlínur ríma saman og tvær síðari. Sé stafhenda víxlrímuð nefnist hún gagaraljóð. Dæmi um stafhendur er þessi: „Hefur aldrei drýgt nein dáð/ digur fær þó spott og háð/ lítið vildi læra hann/ lauslætinu mikið ann“.
Stafkarl / Stafkerling (n, kk/kvk) Betlari; umrenningur; beiningamaður/-kona. „Enginn vill ég stafkarl vera“. „Maður er kannski ekki ríkur, en ekki er ég enn sá stafkarl að ég þiggi ölmusu sem rétt er með fyrirlitningu afturfyrir bak“! Göngustafur var eitt merkja um eymd þeirra sem lifðu af ölmusum.
Stafkirkja (n, kvk) Kirkja úr timbri, sem byggð er þannig að veggirnir eru úr lóðréttum bjálkum sem klæddir eru lóðréttum borðum; standandi klæðningu. Slíkt byggingarlag var á kirkjum í upphafi kristni í Evrópu og líklega einnig hérlendis. Því má ætla að kirkjuviður Patreks biskups, sem hann sendi með þeim fóstbræðrum Örlygi og Kolli til Íslands, hafi verið ætlaður í stafkirkju. Hugsanlega var hluti viðarins í skipi Kolls er það fórst á Arnarboða, og má vera að hann hafi byggt úr því fyrstu kirkju landsins í Kollsvík. Vera má að hún hafi verið blendingur stafkirkju og torfkirkju, t.d. í líkingu við Geirsstaðakirkju; tilgátubyggingu sem reist hefur verið að Litla-Bakka í Hróarstungu.
Stafkrókur (n, kk) Gæluheiti á bókstaf eða ritmáli. „Í bókinni er hvergi að finna stafkrók þessu til sönnunar“.
Stafla / Stafla upp (s/orðtak) Raða hlutum upp í reglulega stæðu/ í stafla.
Staflaus (l) Án göngustafs til stuðnings. „Hann sagðist oft hafa rölt þarna fyrir klettinn, meðan hann gat enn gengið staflaust“. Sjá; gengur staflaust um sveitir.
Staflalöm (n, kvk) Löm á dyr, með stafla sem rekinn er í dyrastafinn, og á hann sest lamarblaðið á hurðinni. Önnur gerð af lömum var blaðlöm, sem er með blöðum báðumegin við liðinn.
Stafli (n, kk) A. Hlaði; stabbi; stæða; safn hluta sem staflað hefur verið upp, oftast reglulega. Talað er um stafla af t.d. kössum, blöðum o.fl. Varðandi fisk er talað um stæðu/stakk, en af heyi er talað um stabba. B. Þolinmóður í löm, ásamt festingu hans í dyrakarm. Oft er þannig stafli aðeins vinkill, og er þá lömin á öðrum arminum en hinn er rekinn í stafinn.
Stafliður (n, kk) Grein/setning í ritmáli sem merkt er sérstökum bókstaf/tölustaf eða öðrum greinarskilum.
Stafn (n, kk) A. Endi skips. Oftast er átt við framhald kjalar, þar sem það kemur uppúr sjó og uppá hnýfil. Oftar er talað um stafn sem framenda skips, en einnig er talað um afturstafn skips. Sjá; hafa fyrir stafni; stinga við stafni; fara vel/illa af stöfnum. B. Framhlið burstahúss.
Stafnbúi (n, kk) Sá sem er í stafni skips, gjarnan til leiðsögu og/eða stjórnunar. Á víkingatímum var stafnbúi sá sem leiddi áhöfnina í orrustum; skipstjórnandi sem gekk næst stýrimanni að völdum.
Stafngluggi (n, kk) Gluggi á stafni húss. Oftar notað um glugga á stafni torfbæja eða annarra fyrri tíðar húsa.
Stafnkrappi (n, kk) Máttarviður í bát; vinkillaga eða þríhyrndur kubbur úr góðum viði sem er á mótum borðstokka við stefnið, og tengir þá þrjá hluti saman.
Stafnkrikkja (n, kvk) Máttarviður í bát; þríhyrndur kubbur sem á sumum bátum er notaður innanvert til að styrkja samskeyti kjalar og stefnis.
Stafnljár (n, kk) Krókur sem í sjóorrustum er notaður til að draga skip hvort að öðru.
Stafnlok / Stafnseta (n, hk) Máttarviður í bát; öflug fjöl milli kinnunga í stefni báts, oftast um 1,5 fet neðanvið stafnkrappa. Fest við síðurnar en bil haft við stefni svo ekki sitji þar sjór.
Stafnlokseyra (n, hk) Síðuband í bát sem er framhald stafnloks skáhallt útá kinnunginn.
Stafnlykkja (n, kvk) Lykkja í stefni báts. Í hana er krækt spilvír þegar bátur er settur með spili. Orðið sést ekki í orðabókum, en hýtur þó að hafa verið notað víðar en í Kollsvík.
Stafnréttur (l) Um stefnu/horf báts; snýr rétt við í lendingu eða til að mæta stórsjó. „Miklu skiptir að bátur sé stafnréttur þegar róið er upp. Þá er minni hætta á skakkaföllum“.
Stafnsetja (s) Flytja/setja á stöfnum; setja bát með því lagi að lyfta öðru stefninu og snúa bátnum í hálfhring um hitt stefnið. Oftast notað ef fáliðað var við setningu.
Stafnsetningur (n, kk) Það að stafnsetja bát.
Stafnsperra (n, kvk) Sperra í stafni húss.
Stafnstag (n, hk) Hluti reiðabúnaðar skips; stag úr stafni upp í mastur, til að festa það við bátinn.
Stafnstingast (s) Um siglingu báts; stingast bratt niður af öldu, jafnvel svo að hvolfi eða sökkvi.
Stafnþil (n, hk) Þiljaður stafn á húsi.
Stafprik (n, hk) Stafur; göngustafur. „Mér finnst ágætt að hafa með mér stafprik á langri göngu“.
Stafrétt (l) Um orð/ ritað mál; rétt stafsett. „Þetta þarf ekki endilega að vera stafrétt; bara að það skiljist sem við er átt“.
Stafrófskver (n, hk) Lítil bók sem notuð er til að kenna börnum að þekkja stafi og lesa ritmál.
Stafur (n, kk) A. Stöng; prik, t.d. göngustafur. B. Lóðréttur stólpi/biti í byggingu/hlut, t.d. dyrastafur; tunnustafur. C. Grönn pípa, t.d. fjaðurstafur. D. Leturtákn í ritmáli. E. Líkingamál um óáþreifanlega hluti, t.d. grátstafur; kveinstafir.
Stafverk (n, hk) Síðari tíma heiti á því grindverki sem myndaði máttarviði húsa til forna. Dæmi um stafverk má sjá í tilgátubænum á Stöng, sem gerður er eftir fornleifum og heimildum. Einkennist af voldugum trésúlum, þakásum, útveggjastöfum og þiljum milli þeirra.
Stag (n, hk) A. Strengur/tjóður sem hefur það hlutverk að halda hlut í réttri stöðu ; t.d. staur uppréttum; girðingu strekktri og forða húsþaki/bát o.fl. frá foki. B. Strengur sem liggur úr siglutoppi skips niður í hnýfil eða borðstokk, til að skorða sigluna. Á framstag eru oft fest stagsegl, t.d. fokka og klýfir. C. Strengur sem settur er þversum á net til að það poki hæfilega í straumnum, en leggist ekki flatt.
Staga (s) A. Stoppa í sokka. B. Setja stag á t.d. girðingarstaura, tjöld, hús eða siglutré. B. Staglast á einhverju; stagast; þrástagast. C. Binda stagkálfa á beit í löghelsi.
Stagað (l) A. Um net; svo fullt af fiski að hvergi er bil á milli, svo langt niður sem séð verður; stagur niður. „Heyrðu! Mér sýnist þetta vera hreinlega stagað af nýgenginni grásleppu! Vonandi höfum við nóg ílát“. B. Krökkt. „Þegar grásleppuveiðar voru sem mest stundaðar frá Gjögrum, í kringum 1980, var þétt stagað af netum utanfrá Kofuhleinum undir Ytri-Hlíðum; svo að segja samfellt innfyrir Urðavöll, rétt utanvið Gjögra“. C. Um flík; búið að staga/stagbæta.
Stagbæta (s) Bæta flík oft og ítrekað, þannig að á henni sé nánast bót við bót.
Stagkálfur (n, kk) Kálfur sem bundinn er á beit. Eftir að kálfur gat farið að bíta, og gras var farið að grænka, var hann stagaður með bandi við hæl í sæmilegri beit. Í seinni tíð voru þeir kálfar í stíum eða girðinum.
Stagast á / Staglast á (orðtak) Margsegja sama hlutinn. „Ég nenni ekki að stagast á þessu endalaust“. „Það er óþarfi að staglast endalaust á því þó lúðan hafi sloppið“.
Stagbæta (s) Setja bót við bót á flík. „Það er alltaf spurning hvað unnt er að stagbæta þessar buxur mikið“.
Stagbættur (l) Um fatnað; með bót við bót; mikið slitinn/rifinn og bættur. „Hún var mjög nýtin á föt, og man ég eftir að vinnubuxur einar sem ég átti voru stagbættar, svo óvíða sást í upprunalegan vefnað“.
Stagfesta (s) Festa með stagi, t.d. siglu á bát.
Stagfokka (n, kvk) Stagsegl á skipi; oftast einungis nefnd fokka.
Stagkálfur (n, kk) A. Kálfur sem fæðist herptur vegna innvortis samgróninga eða annarrar vansköpunar. B. Stundum notað um kálf sem bundinn er við stag. C. Líkingamál um mjög þrjóska/þverska manneskju.
Stagl (n, hk) Endurtekning þess sem sagt er; klif; nöldur. „Mikið er maður orðinn leiður á þessu eilífðar stagli“!
Stagla (s) A. Endurtaka í sífellu; þrástagast/klifa á. „Vertu nú ekki að stagla þetta í mér lengur“! B. Sauma; bæta. „Það má nú kannski stagla aðeins í þessa sokka ennþá“. C. Þrjóskast; þráast. „Ekki veit ég hvað maður á lengi að stagla við þennan búskap, eins og búið er að honum“!
Stagla í (orðtak) A. Stoppa í; gera við. „Ég staglaði í hælinn á sokknum þínum“. B. Kenna; segja til. „Það var mest að furða hvað karlinn entist til að stagla í okkur þessum hundleiðinlegu og óskiljanlegu fræðum“.
Staglari (n, kk) Sá sem staglast mikið á einhverju; þverhaus. „Alltaf er hann sami staglarinn“!
Staglast á (orðtak) Klifa/þrástagast á; endurtaka í sífellu. „Byrjar hann enn að staglast á þessu“!
Stagsegl (n, hk) Segl á skipi, sem fest er á mastursstag skipsins en ekki á mastur. Oftast eru þau þríhyrnd. Helstu stafseglin eru fokka og klýfir, en einnig stundum jagar. Fokka er á stagi næst framsiglunni en framan við hana getur verið klýfir og stundum jagar; hvert segl á sínu framstagi. Á stærstu seglskipum eru stundum stagsegl milli mastra, t.d. messanstagsegl og krusbramstagsegl.
Stagur (n, kk) A. Stag; hluti reiðabúnaðar á skipi; festing masturs/segls (sjá sigling). B. Hverskonar festilína/tjóður, t.d. á hornstaur/húsi/ eða báti i hrófi eða kálfi á beit. C. Samfelld/mikil veiði á línu eða í net. „Þegar lóð flaut upp var stagur“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). „Það var stagur af grásleppu í netin úti við Kofuhleinar“. D. Mikill fjöldi. „Það er stagur af rollum í túninu á Melnum núna“. „Það er kominn stagur af netum við Landamerkjahleinina“.
Stagur niður (orðtak) Um það þegar net er fullt af fiski svo langt sem augað eygir niður í sjó; stagað. „Nei sko; það er bara stagur hér niður eftir öllu“! (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Stagvenda (s) Aðferð við að venda skipi; leggja yfir. Þá er framenda skipsins snúið gegn vindinum, þar til hann er kominn gagnstæðu megin við stagið en áður var; síðan er seglum hagrætt miðað við það. „Tvær voru aðferðir við að venda skipi. Mátti bæði stagvenda og hálsa, þ.e. kúvenda. Stagvending var miklu hentugri í alla staði og einatt viðhöfð þegar hægt var. ( GilsG; Skútuöldin) . Sjá venda.
Stagvending (n, kvk) Það að stagvenda skipi.
Staka (n, kvk) A. Vísa sem einungis er eitt erindi, en ekki hluti af lengra ljóði. Stakan er algengasta formið af tækifærisvísum. Mjög algengt var í Kollsvík, ekki síst í Verinu, að kasta fram stöku þegar tilefni gafst. Þær voru af ýmsum gæðum; sumar vart prenthæfar en sumar prýðisgóðar og lifðu lengi. B. Stakur fiskur þegar afla var skipt. „Þessir drengir fengu helming þess sem þeir drógu og alltaf stökuna ef hún var. Þetta var elsta venjan...“ Frásögn Jóns Guðjónssonar. (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Stakka (s) Hlaða í hlaða/stakk/stæðu. „Maður var heldur ekki mikill bógur að klöngrast kannski með fjóra eða fimm fiska í fanginu til Péturs, ssem stakkaði svo fiskinn sjálfur í stæður“ (DÓ; Að vaka og vinna).
Stakkaskipti (n, hk, fto) A. Upprunaleg merking er að skipta um yfirhöfn/stakk. B. Mest notað í líkingamáli um mikla breytingu. Sjá taka stakkaskiptum. „Þarna hafa orðið mikil stakkaskipti á hlutunum“.
Stakkelsarmingi / Stakkelsaumingi / Stakkelsgrey / Stakkelshró / Stakkelsskinn (orðtak) Vorkenningarorð í garð þess sem á bágt; dönskusletta sem sumum var töm. „Nú þykist kálfurinn vera orðinn svangur, stakkelsarminginn“. „Kastaðu kornlúku til fuglanna þarna úti; það er kalt á þessum stakkelsgreyjum“.
Stakket (n, hk) Timburgirðing; grindveggur; leiðishólf. „...garðurinn þar sem hann er nú; stakket í kring og hlið þar á...“. Frásögn Sigríðar Traustadóttur (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Stakkstæði (n, hk) Reitur/svæði til fiskþurrkunar. Í Kollsvík var jafnan fremur talað um reiti í þeirri merkingu.
Stakkur (n, kk) A. Hlaði; hleðsla. Upprunalegasta merking orðsins er líklega hey sem hlaðið hefur verið upp eftir verkun; stór galti. Áður en hlöður komu til var heyinu hlaðið upp útivið og tyrft yfir. Til forna voru slíkir stakkar stundum nærri engjum, og þá hlaðnir kringum þá stakkgarðar. Bæjarnafnið Stakkar vísar eflaust til þess að hólar þar í landslaginu líkjast heystökkum. B. Saggi sem myndast á yfirborði heys í hlöðu þegar hitnar í því og gufar úr því. Sagginn getur valdið myglu og fruggu í þurrheyi, auk þess sem það getur ornað inni í stabbanum og jafnvel valdið íkveikju. C. Yfirhöfn eða hlífðarfat; oft sítt ermalaust og óhneppt nema helst í hálsinn. T.d. sjóstakkur. D. Yfirhleðsla á báti í fiskaferðum. „Þegar talið var fært ferðaveður var byrjað að ferma skipin. Voru þau sett svo langt niður að þau gætu flotið um flóð, því jafnan var fermt á þurru. voru tekin af tvö rúm; hið aftasta og fremsta, og hlaðið í þau; jafnt í skut og barka. Rennt var rám ofan með borðunum með nokkru millibili; svo langt sem búlkurinn náði, einkum aftan. Stóðu þær nokkuð upp af borðunum og hölluðust lítið eitt útávið. Voru þetta nefndar borðstikur. Var svo hlaðið að borðstikunum; var það kallað að brjóta út. Það sem ofar var söxum kallaðist stakkur. Var hann lítið eitt breiðari en skipsbreiddinni nam. Borðstikurnar studdu hann báðumegin svo ekkert haggaðist. Á stærstu skipunum henti það að stakkurinn tók meðalmanni undir hönd af þóftu“ (PJ; Barðstrendingabók). E. Saltfiskstæða í fiskverkun. F. Einn margra hluta lúðu: „Sá hluti kápunnar sem fylgdi höfuðkinninni hét stakkur“ (LK; Ísl.sjávarhættir).
Staksteinn (n, kk) Steinn sem stendur stakur/ ekki mjög nálægt öðrum steinum.
Staksteinóttur (l) Með mörgum stökum steinum á strjáli. „Undir fjallshlíðinninorðantil við Fjraðarhorn var lítilsháttar grasivaxið undirlendi; staksteinóttur harðbali, vegna grjóthruns úr klettunum“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Stakur (n, kk) Hálft kast við skipti í aflahluti; einn hlutur. Sjá skipti.
Stakur (l) A. Sem er einn/ útaf fyrir sig. „Þarna eru skaflar á stöku stað“. „Hingað slæðist stöku gestur, af og til“. „Sjaldan er ein báran stök“. B. Annar hlutinn af því sem að jafnaði er par. T.s. stakur vettlingur/sokkur. C. Einstakur; sérstakur. „Hann er alveg stakt gæðablóð“. „Mér finnst það bara stakt óréttlæti ef þeir ætla að fara svona að ráði sínu“! „Hann var stakur reglumaður, bæði á vín og tóbak“. D. Einn af mörgum. „Á stöku bæjum eru hey ágætlega verkuð… (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1925).
Staldra við (orðtak) Stoppa nokkra stund. „Ég staldraði við efst í Grenjalánni og beið eftir hinum“.
Staldur (n, hk) Tími sem áð er/ staðið er við. „Hann gerði stutt staldur hér og þáði kaffibolla“.
Stall af stalli (orðtak) Um klettaklifur; ferð upp/niður kletta. „Rollufjandinn setti sig ofan klettana og ég sá hana bara stökkva á rassaköstum; stall af stalli; alla leið niður í hlíð“!
Stalla (n, kvk) Vinkona; stytting úr stallsystir. „Þær fóru saman í gönguferð, stöllurnar“.
Stalla (s) Gera gróp/stall í hlut til að fella hann að öðrum.
Stallbróðir (n, kk) Félagi; vinur. Gamalt í málinu og mun líklega upphaflega merkja „vinur í hesthúsi“. Til forna þekktist það að ganga í stallbræðralag, í sömu merkingu og fóstbræðralag.
Stalli (n, kk) A. Jafningi; af sömu stétt. Virðist ekki þekkt í þeirri merkingu utan Kollsvíkur, en þekktari er kvenmyndin stalla. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). B. Stallur; hilla; pallur. „... sáum þá hvar önnur fuglastöngin hafði stungist í aursvað á stallanum og fórum því niður og sóttum hana“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Stallsystir (n, kvk) Vinkona; stalla.
Stallur (n, kk) Hilla/pallur/gangur í klettum. „Þarna er þægilegur lás niður á stallinn“. B. Pallur; undirstaða; þrep af ýmsu tagi. C. Jata, einkum í hesthúsi. D. Slettuorð um hesthús. E. Stelling; festing fyrir siglutré í báti.
Stam / Stami (n, hk/kk) Hnökrar í mæli manns; endurtekning orða/orðhluta eða óeðlilegt hik í tali.
Stama (s) Tala með stami; tala með óeðlilegum endurtekningum eða hiki á einstökum orðum; reka í vörðurnar.
Stama (einhverju) upp (orðtak) Segja eitthvað með þvinguðum hætti eða af óöryggi/ótta; segja stamandi.
Stammi (n, kk) A. Almennt um meginstofn/aðalöxul. B. Einkum notað um stýrisás/stýrisstamma á skipi eða bíl. Ofantil er stýrisblaði skips fest við stýrisarm, en hann er svo festur á stýrisstamma sem gengur upp í gegnum afturstefnið og tengist stjórntækjum skipsins.
Stampast (s) Um bát; höggva mjög í báruna; steypa stömpum. Um fólk og fénað; stinga við; ganga rykkjótt. „Kindin getur alveg stampast áfram þó hún sé á þremur fótum“.
Stampur (n, kk) A. Ílát; fremur vítt í opið, en lágt á brún; kerald. „Þetta eru hinir þénanlegustu hrognastampar“. B. Líkingamál um bát sem er fremur stuttur miðað við breidd og heggur því mjög í báruna; steypir stömpum.
Stamur (l) A. Ekki háll/sleipur; sem rennur treglega á. „Ísinn er háll úti á vatninu, þó hann sé stamur uppi við landið“. B. Rakur; þvalur. „Galtarnir eru enn stamir að utan; við skulum leyfa þeim að þorna betur áður en þeir eru breiddir“.
Stand (n, hk) Ástand; staða; lag. „Fullur enn einusinni? Það er ætíð ljóta standið á þér“! „Þú ert ekki í neinu standi til að aka bíl“. „Þetta er meira standið“! „Bíllinn var í góðu standi þegar hann var seldur“. „Það tók nokkurn tíma að koma réttinni í stand“.
Standa (s) A. Um mann/skepnu/hlut; vera uppréttur; vera á réttum kili; vera kyrr; bíða. B. Um bát; sitja kjölréttur á botni í grunnum sjó. „„Haldið ykkur í bátinn“! kallar Árni; „og þú slærð ekki af fyrr en stendur“! “ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). C. Um orð/gerning; haldast; halda gildi sínu. T.d. orð skulu standa. D. Endast; vara. T.d. vel skal vanda það sem lengi skal standa. E. Vera fullgildur fyrir; standast. „Fiskurinn stendur vel sjö pund“. „Það er erfitt að standa honum snúning í þessum efnum“.
Standa að (orðtak) A. Standa hjá einhverju til að styðja við það. „Stattu aðeins að staurnum meðan ég slæ hann niður í holuna“. B. Um málefni/verkefni/eign; eiga aðild að; styðja. „Ég ætla ekki að standa að þessu“. C. Um klettaklifur/sig o.fl.; vera í góðri aðstöðu; gera. „Stendurðu vel að? Ég ætla að sveifla spottanum fyrir nefið“. „Þarna í Breiðnum heyjaði Ólafur Halldórsson á Grundum, en erfitt er að standa að slætti í svona bratta og bera svo heyið á bakinu heim á Bakka“ (IG; Sagt til vegar I).
Standa (einhvern) að (einhverju) (orðtak) Grípa einhvern við óæskilega iðju/hegðun. „Hann var staðinn að hnupli á næsta bæ“.
Standa (einhverjum) að baki (orðtak) Vera síðri/lakari en einhver. „Strákurinn stendur jafnöldrunum dálítið að baki í lestrinum“.
Standa að baki (einhverjum) (orðtak) Styðja einhvern; vera stuðningsmaður einhvers.
Standa að fé (orðtak) Standi hjá fjárhóp, þannig að kindur sleppi ekki; halda utanað/ standa utan að.
Standa (vel/illa/þannig) að verki (orðtak) Vinna verk (vel/illa/þannig); haga verkum. „Þarna fannst mér vel að verki staðið“. „Við þurfum að standa þannig að verki að þetta skemmist ekki“.
Standa (einhvern) að verki (orðtak) Góma einhvern við óréttmæta iðju, s.s. þjófnað. „Tíkin ætlaði að næla sér í bitann ofanaf stólnum, en var staðin að verki“.
Standa af (orðtak) Um vind; koma frá. „Hann hangir þurr meðan vindur stendur af hafi“.
Standa af sér (orðtak) A. Almennt; standast; þola; þreyja. „Hjallurinn hefur staðið af sér verri veður en þetta“. B. Bíða af sér, t.d. rigningarskúr eða él; harka af sér.
Standa af sér velting (orðtak) Stíga ölduna; standa uppréttur í veltandi bát. „Þú lærir fljótt að standa af þér veltinginn“.
Standa aftaná (orðtak) Standa sem farþegi á dráttarbeisli traktors. „Mér er illa við að þið séuð að standa aftaná strákar; verið heldur á heyvagninum“.
Standa á (orðtak) A. Vera aðstæður fyrir/til. „Það stendur illa á hjá honum núna, en hann sagðist geta borgað þetta eftir mánaðarmótin“. „Þetta fer alveg eftir því hvernig á stendur þegar þar að kemur“. B. Um það þegar áherðingur verður við drátt á línu/neti. „Og hálsmennirnir urðu að róa til að hafa áfram. Ef það var slælega gert kom áherðingur; þ.e. strekktist á lóðinni við dráttinn. Eftir að straumur harðnaði var erfitt að róa áfram; róa á móti straumnum til að ekki stæði á; að ekki yrði erfitt hjá dráttarmanninum“ (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004). C. Vera dragbítur; tefja. „Það stóð ekki á honum að veita okkur aðstoð þegar við óskuðum eftir henni“. „Ekki stóð á svörunum hjá henni“.
Standa á áttum (orðtak) Um vindátt/ölduátt. „Það eru sker fyrir utan, dálítið varasöm ef ekki er rétt farið, en lendingarleiðir voru farnar eftir því hvernig stóð á áttum“ (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).
Standa á beini (orðtak) Um þrönga flík: „Þessi skyrta er alltof þröng. Hún stendur mér allstaðar á beini“.
Standa á beit (orðtak) Um búfénað; vera á beit.
Standa á blístri (orðtak) Vera pakksaddur; búinn að éta yfir sig. „Ég át svo mikið að nú stend ég á blístri“. Blístur merkir í þessu sambandi þanda blöðru og er því tökuorð; t.d. enska;“blister“. Sjá blístur.
Standa á eigin fótum (orðtak) Vera sjálfstæður t.d. í fjármálum eða rekstri.
Standa á endum (orðtak) Gerast jafnsnemma; verða jafnmikið. „Stóðst það oft á endum að báðir komu jafnsnemma í Verið, bátsverjar og hinir fótfráu æskumenn...“ (KJK; Kollsvíkurver).
Standa á (einhverju) fastara en fótunum (orðtak) Vera sannfærður um; standa í bjargfastri trú á. „Hann stóð á því fastara en fótunum að hann hefði ekki gleymt að setja negluna í bátinn“.
Standa á fætur (orðtak) Rísa upp úr liggjandi/sitjandi stöðu í standandi.
Standa á gati (orðtak) Kunna ekki svör; geta ekki svarað. „Hann stóð alveg á gati varðandi þetta“.
Standa á gjöf (orðtak) Um búfé; vera á innistöðu; þurfa fóðrunar með. „Fé hefur staðið á gjöf mestalla vikuna vegna illviðris“.
Standa/fara/liggja á glæ (orðtak) Um færi; standa skáhallt frá bátnum í miklum straumi/reki. „Við höfðum uppi þegar fallið fór að harðna, enda voru færin þá farin að standa á glæ og lítil veiði“.
Standa á gömlum merg (orðtak) Vera með traustan/sannaðan grundvöll; byggja á gamalli/sannaðri aðferð/hefð/ætt. Vísar líklega til ættartengsla; að unnt sé að rekja ættir langt aftur. Slíkt þótti mikilvægt fyrrum, ekki síst þegar menn þurftu að sanna eigna- og erfðarétt sinn.
Standa á haus/höfði (orðtak) A. Bókstafleg merking um leik/íþrótt. B. Líkingamál um það að vera mjög önnum kafinn. „Ég stend á haus í heyskap meðan þurrkurinn endist“.
Standa á hljóðum/öskrum (orðtak) Öskra/kalla/baula/jarma mjög hátt; gefa frá sér mikil hljóð. „Það þarf að fara að sinna kúnum; þær eru farnar að standa á öskrum“. „Munið eftir að mæta á réttum tíma, svo ég þurfi ekki að standa á hljóðum úti á hlaði“!
Standa á hverju járni (orðtak) Um veiðiskap; fiskur er á öllum krókum á slóða þegar dregið er. „Fiskur var svo óður að stóð á hverju járnium leið og slóði komst í sjó“.
Standa á/í móti (orðtak) Leggjast gegn; vera andvígur. „Ekki ætla ég að standa í móti þessum breytingum“.
Standa á sama (orðtak) Vera sama um; kæra sig kollóttan. „Mér stendur nú ekki alveg á sama um þetta“.
Standa á sjó / Standa á tungli (orðtök) Vera ástatt með flóð/fjöru eða niðaskipti tungls. „Veit nokkur hvernig stendur á sjó núna; ég nenni ekki að koma að landi um blásandi fjöru“.
Standa (einhverjum) á sporði / Standa (einhverjum) snúning (orðtak) Vera jafnoki; standa jafnfætis að atgervi. „Enginn stóð honum á sporði í hlaupum“. „Fór samt vart á milli mála að Farmall og Ferguson stóðu öðrum á sporði að gæðum“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). Orðtakið varðandi sporðinn mun runnið af sögnum um viðureign við dreka eða slíka óvætti. (HH; Ísl. málsháttasafn).
Standa á stiklum (orðtak) Standa á framlengingum; standa á prikum/stiklum til að sýnast hærri en maður er. Þegar maður sýnir galopið augnaráð sem bendir til mikillar undrunar er sagt að augun standi á stiklum.
Standa á stöku (orðtak) Um það þegar einn gengur af/ verður útundan við skiptingu/skipti í jafna staði. „Hér stendur á stöku, svo ég held að við gefum stærsta fiskinn í guðskistuna“.
Standa á taði (orðtak) Um búfé; vera ekki á grindum í húsi. Þannig háttur var almennt tíðkaður frameftir öldum, enda var taðið dýrmætt eldsneyti.
Standa á þambi (orðtak) Vera uppþembdur af mikilli drykkju.
Standa á því fastar en fótunum (orðtak) Vera mjög viss í sinni sök; vera harður á sinni skoðun; gefa ekki eftir. „Hann stendur á því fastar en fótunum að svona hafi þetta verið, og ekki öðruvísi“.
Standa á (einhverjum) öll járn/spjót (orðtak) Allar atlögur beinast að einhverjum; einhver verður fyrir miklu ámæli/ miklum ásökunum/skömmum; einhver lendir í miklum önnum. „Nú standa á honum öll spjót útaf þessu máli“.
Standa á öndinni (orðtak) Vera svo móður að maður nái vart að anda fyrir mæði. Einnig er talað um að menn standi á öndinni ef menn halda niðri í sér andanum, t.d. af spenningi. Önd merkir hér andardráttur/öndun.
Standa á öskrum (orðtak) A. Um nautgripi; baula hátt. „Það þarf að gefa kúnum meira af þessu heyi; þær eru farnar að standa á öskrum á málum“. B. Um manneskju; kalla/æpa hátt og lengi. „Er eitthvað að heyrninni hjá ykkur strákar?! Ég er búinn að standa á öskrum í lengri tíma; að kalla á ykkur í matinn“!
Standa botn (orðtak) Um borgarísjaka; vera kominn svo uppá grunn að nemi við botn. „Það var tignarlegt að sjá borgarísinn standa botn lengst frammi á víkinni“.
Standa efni til (orðtak) Er ástæða/tilefni til. „Við skulum nú ekki gera meira úr málinu en efni standa til“!
Standa eftir (orðtak) Vera í afgang; vera eftir; standa útaf. „Þá er þetta vandamál frá, en hitt stendur eftir“. „Það standa bara smámunir eftir af skuldinni þegar þú ert búinn að borga þetta“.
Standa eins og stafur á bók (orðtak) Um loforð/fyrirheit; standast; rætast. „Hann er tregur til að gefa loforð, en það stenur allt eins og stafur á bók sem hann segir“.
Standa eins og auli/glópur/álfur/bjálfi / Standa eins og þvara (orðtak) Standa kyrr; vera ráðvilltur; standa aðgerðalaus/þegjandi. „Stattu nú ekki eins og glópur; reyndu að hjálpa til“! „Hann stóð bara eins og þvara og reyndi ekki að stöðva fjárhópinn. Það er til einhvers að láta svona menn standa fyrir í smalamennskum; ég segi nú bara það“! Glópur er sá sem glápir/horfir. Hið síðara er líking við sleif/þvöru sem stendur í potti.
Standa fast á / Standa fast á sínu / Standa fast á sínum rétti/skoðunum (orðtök) Verja sínar skoðanir/ sinn rétt af einurð. „Hann sendur fast á því að svona hafi þetta verið“. „Margir höfðu uppi efasemdir um þetta, en hann stóð fast á sínu“. „Þú verður að standa fast á þínum rétti“.
Standa framarlega (orðtak) A. Bókstafleg merking. T.d. standa framarlega í röð eða framarlega á bjargbrún. B. Líkingamál um að vera framarlega í flokki; baráttu fyrir málefni eða varðandi eiginleika, þekkingu o.fl.
Standa frammi fyrir (orðtak) A. Bókstafleg merking. B. Líkingamál; horfast í augu við; glíma við; þurfa að fást við/ leysa úr. „Þá stóðum við frammi fyrir nýju vandamáli“.
Standa fyrir (orðtak) A. Sjá um; hafa með höndum. „Það útheimtir töluverða fyrirhyggju að standa fyrir búi“. B. Hindra; vera í vegi fyrir. „Þarna koma þeir með reksturinn úr Breiðavík; hlauptu nú út á Brunnsbrekku og stattu fyrir, svo það fari ekki allt í fjöruna“. Stundum var setið fyrir, einkum í brattlendi.
Standa fyrir búi/rekstri (orðtak) Stjórna búi/rekstri; sjá um bú/rekstur.
Standa (einhverjum) (ljóslifandi) fyrir hugskotssjónum (orðtak) Um hugmynd/minningu/hugsun; vera skýrt í huga einhvers. „Þetta atvik stendur mér ennþá ljóslifandi fyrir hugskotssjónum“. Sjá líða fyrir hugskotssjónum.
Standa (einhverju) fyrir þrifum (orðtak) Standa í vegi fyrir því að eitthvað þrífist vel; hindra velgengni einhvers. „Húsnæðisskortur var farinn að standa félagsrekstrinum fyrir þrifum“.
Standa fyrir máli sínu (orðtak) Verja sínar fullyrðingar/skoðanir/gerðir. „Hann verður að mæta á næsta fund og standa fyrir máli sínu“!
Standa fyrir sínu (orðtak) Vera sannur/gildur/raunverulegur; vera það sem útlit/frásögn segir; standast próf/gagnrýni. „Kaffið stendur alltaf fyrir sínu; ég kann aldrei við þetta tesull“!
Standa (einhverjum) fyrir svefni (orðtak) Hindra svefn; valda svefnleysi. „Það stendur mér ekkert fyrir svefni þó hann sé eitthvað fúll útí mig“.
Standa (einhverju) fyrir þrifum / Standa í vegi fyrir (orðtak) Hindra þroska/viðgang; stoppa af. „Húsnæðisleysi stóð starfseminni fyri þrifum fyrst í stað“. „Fátt stendur í vegi fyrir þessu núna“.
Standa galopinn / Standa (opinn) uppá gátt (orðtak) Vera alveg opinn. „Látiði nú ekki dyrnar standa galopnar strákar; kunniði ekki að loka á eftir ykkur“?! „Hliðið stóð opið uppá gátt og féð allt komið í túnið“!
Standa geld (orðtak) Um kú; vera mjólkurlaus fyrir burð. Sjá geldstaða.
Standa glöggt (orðtak) Standa tæpt; vera hæpið; muna litlu; vera nærri mörkum. „Það stóð glöggt með að við næðum honum upp á brún, svona fáliðaðir; enda er þarna loftsig síðasta spölinn“.
Standa grunn / Standa á grunni (orðtak) Um siglingu skips; stranda. „Skipið var svo djúprist að það stóð grunn alllangt frá landi“. „Borgarísjakarnir stóðu grunn hér langt frammi á víkinni“.
Standa hjá (s) A. Standa hjá fjárhópi að vetrarlagi, á meðan féð er í haga eða fjörubeit; svo það rási ekki í burtu eða leiti heim. Vetrarhagar voru á mörgum stöðum í og við Kollsvík. Frá Láganúpi var fé t.d. rekið fram á Fossabrekku, Foldir eða Axlarhjalla; fram á milli Fella; upp í Sandslágarkjaft; út í Pálslaut, Smávatnabrekkur eða að Litlavatni; út á Orma eða Strympur; uppá Flatir; útá Hústóftarbakka; út í Stekkalautirnar eða út á Þúfustekk. Til að nýta fjörubeit varð að standa yfir fénu yfir fjöruna. Var því oftast vikið norður í Langatangabót; í bitfjöru á Breiðaskeri, Langatanga eða Grundatöngum; eða í nýjan lausaþara. Sumsstaðar var flæðihætta, einkum á Langatanga og Breiðaskeri. Hjástöðumaður hélt sig þá uppi á Bökkunum, í hliðinu upp á Grundatún. „Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn. Beitt var í fjöru ef þari var, og bitfjöru yfir stórstraum. Mest sótti féð í söl og maríukjarna . Menn af bæjum sunnanvert í Kollsvíkinni skiptust á að reka féð og standa hjá“ (ÖG; Niðjatal HM/GG). B. Almennt; vera hjá/við; vera óvirkur.
Standa höllum fæti / Standa illa að vígi (orðtak) Standa illa í baráttu/viðureign; fara halloka; hafa slæma vígstöðu. „Hann stóð fremur höllum fæti í þessari baráttu“.
Standa illa að vígi (orðtak) Sjá standa vel/illa að vígi.
Standa í (orðtak) A. Fást við; glíma við; gera. „Maður hættir nú alveg að standa í þessu þegar það skilar ekki neinu“. „Þeir stóðu í aðgerð langt fram á nótt“. B. Standa í einhverjum, merkir að hafa roð við honum; vera jafnoki hans. „Hann hélt að hann yrði fljótur að leggja mig í glímunni, en ég stóð lengi í honum“. C. Standa í einhverjum, getur einnig merkt að matur eða annað sitji fast í hálsi hans. „Láttu þetta ekki standa í þér“!
Standa í björtu báli / Standa í ljósum logum (orðtök) Vera alelda.
Standa í/með blóma (orðtak) Dafna/ganga vel. „Útgerð í Kollsvíkurveri stóð í blóma á fyrstu tugum 20.aldar“.
Standa í brasi (orðtak) Eiga í basli/brasi; glíma við erfiðleika. „Ég er búinn að standa í bölvuðu brasi við ráðuneytið varðandi þetta mál“.
Standa í fiski / Standa á hverjum króki/ hverju járni (orðtak) Um góða veiði. „Færið stóð í fiski um leið og það kom útfyrir borðstokkinn“. „Það stóð á hverju járni um leið og slóðinn kom í sjóinn“!
Standa í fæturna/lappirnar með (orðtak) Standa sig í að gera/framkvæma; standa við. „Ég vona að þeir standi í lappirnar með það sem þeir lofuðu“.
Standa í gegn (einhverju) (orðtak) Vera einhverju mótfallinn.
Standa í höm (orðtak) Um búfé; hama sig; standa og snúa afturenda/höm upp í vont veður; oftast þétt saman til að skýla sér. „Féð gerir ekkert úti í þessu veðri; það stendur bara í höm. Við þurfum fljótlega að láta það inn aftur“.
Standa í illdeilum/illindum við (orðtak) Troða illsakir við; eiga í ilindum/erjum við; vera andvígur/andstæðingur.
Standa í (rangri/þeirri) meiningu (orðtak) Halda; álíta; meina. „Ég stóð í þeirri meiningu að þú værir búinn að alheimta“. „Ég sé nú að ég hef staðið í rangri meiningu í þessum efnum“.
Standa í móti (orðtak) Leggjast gegn; vera á móti; sýna mótþróa; þverskallast/þráast/móast við.
Standa í skilum (orðtak) Gjalda það sem manni ber; greiða skuld á tilsettum tíma. „Þeir (drykkjumenn) missa alla löngun til þess að standa í skilum við aðra, það sem þeim ber; og missa þar af leiðandi tiltrú í mannfélaginu“ (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).
Standa í stað (orðtak) Vera kyrrstæður; fara ekkert. „Hópurinn stóð enn í sama stað“. „Tíminn stóð í stað“.
Standa í stappi/þrefi (orðtak) Vera í deilum/slag; glíma. „Ég vona að ég þurfi ekki að standa í stappi út af þessu“. „Ég nenni ekki að standa í einhverju þrefi útaf svona sjálfsögðum hlut“!
Standa í stímabraki (orðtak) Standa í stórræðum; vera í basli. „Þeir stóðu í stímabraki með bílinn; alveg fram á nótt“. Stímabrak merkir hávaði af bardaga.
Standa í stórræðum (orðtak) Færast mikið í fang; vinna mikið verk. „Maður stendur bara í stórræðum núna“.
Standa í streði / Standa í ströngu (orðtak) Vinna mikið erfiðsisverk/púl; glíma við mótlæti; eiga á brattann að sækja; standa í stórræðum. „Ég stend í ströngu með þessar árans ekkisen túnrollur“!
Standa í stykkinu (orðtak) Vera duglegur; spjara sig. Uppruni er ekki að fullu ljós.
Standa í vegi fyrir (orðtak) Hindra; gera ómögulegt. „Hann hefur alltaf staðið í vegi fyrir þessu“.
Standa í þakkarskuld við (einhvern) (orðtak) Vera einhverjum þakklátur; skulda einhverjum greiða.
Standa í þeirri meiningu/trú (orðtak) Vera þeirrar skoðunar; skilja mál/stöðu þannig. „Mér kemur þetta mjög á óvart. Ég stóð í þeirri meiningu að ekki yrði af þessu núna“.
Standa klár að (orðtak) Vera tilbúinn; vera í góðri aðstöðu. „Þið þurfið að standa klárir að því að taka við eggjakútnum þegar við slökum honum niður í bátinn“.
Standa mál/vigt (orðtak) Um hlut/vöru; reynast svo langur/mikill/þungur sem uppgefið er, eða yfir mörkum. „Þessi borðviður stendur alls ekki mál; tommuborðin eru ekki nema treikvart eða varla það“! „Gættu að því að saltið standi vigt, sem þú setur í pækilinn“.
Standa með (orðtak) Styðja; vera fylgjandi; veita stuðning. „Margir stóðu með honum í þessari afstöðu“.
Standa (einhverjum) nærri (orðtak) Vera viðkomandi/nákominn.
Standa (einhverjum) næst (orðtak) Vera skylda einhvers. „Hann sóðaði út; það stendur honum þá næst að þrífa þetta upp“.
Standa og falla með (einhverju) (orðtak) Binda sig þannig við eitthvað (málefni) að maður sigri eða tapi eftir gengi þess; taka einarða afstöðu í ágreiningi.
Standa (einhverjum) reikningsskap gerða sinna (orðtak) Útskýra gerðir sínar fyrir einhverjum; standa skil á einhverju við einhvern. „Ég þarf ekki að standa neinum reikningsskil gerða minna í þessum efnum; nema kannski drottni almáttugum á dómsdegi“!
Standa (djúpum) rótum í (einhverju) (orðtak) Vera samofið einhverju. „Tungumálið stendur djúpum rótum í þjóðmenningunni“.
Sanda saman (orðtak) A. Vera í hóp; standa nærri horum/hverjum öðrum. B. Sýna samstöðu um málefni.
Standa sem hæst (orðtak) Vera í hámarki/hápunkti; vera í fullum gangi. „Þegar dansinn stóð sem hæst var barið harkalega að dyrum“.
Standa sig / Standa sig í stykkinu (orðtak) Vera dugandi/röskur; vinna sín verk; standast álag. „Hann stendur sig vel í starfinu“. Stykki í þessu sambandi vísar líklega til slægjulands og dugnaðar við sláttinn.
Standa sinn dont (orðtak) Vera á verði; rækja sitt hlutverk. „Mig skiptir engu þó aðrir gefist upp í þessu máli. Ég ætla að standa minn dont“. „Þú verður að standa þinn dont drengur og ekki láta féð sleppa framhjá“.
Standa sína pligt (orðtak) Gera skyldu sína; gera sitt. „Það þýðir ekkert að andskotast í embættismönnum; þeir eru bara að reyna að standa sína pligt. Nær væri að taka þessar þingmannanefnur á beinið“.
Standa straum að/af (orðtak) Standa undir kostnaði við; bera kostnað; standa fyrir. „Hann stóð sjálfur straum af þessum viðburði“. Líklega komið af því þegar farið er yfir straumharða á, og einn er ofanvið og heldur í hina með hönd eða taug; stendur að/móti straumnum. Hefur líklega verið „að“ upphaflega í stað „af“; samanber að standa að einhverju; þ.e. hlú að; styðja eitthvað.
Standa stuggur af (orðtak) Vera smeykur við; hafa ímugust á. „Honum stóð stuggur af kofanum eftir að skyggja tók“. Sjá stuggur.
Standa svo á (orðtak) Vilja svo til; vera þannig ástatt; vera sú staða. „… og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall…“ (PG; Veðmálið). „Töldum við að ekki væri fært sundið og fórum fyrir framan. Þar er miklu meiri straumur; einkum er svo stendur á sem nú var“ (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).
Standa til / Standa fyrir dyrum (orðtak) Vera áætlað; liggja fyrir. „Sá er þetta rifjar upp hafði þarna á hendi formennsku og vélgæslu, eins og til stóð í fyrri ferðinni sem fara átti“ (KJK; Kollsvíkurver).
Standa til boða (orðtak) Bjóðast; vera í boði. „Þetta stendur mér til boða núna“.
Standa til bóta (orðtak) Horfa til betri vegar; vera von um úrbætur. „Heilsan hefur ekki verið uppá marga fiska, en það stendur allt til bóta, finnst mér“.
Standa til erfða (orðtak) Vera erfingi; eiga von í arfi. „Hann stóð einn til erfða eftir foreldra sína“.
Standa tæpt (orðtak) Standa glöggt (sjá þar).
Standa undir (orðtak) A. Vera standandi undir. B. Halda undir byrði, t.d. meðan annar bindur hana sér á bak, eða halda undir bagga öðrumegin á hesti meðan annar er festur hinumegin. C. Liggja við; stappa nærri. „Ég hef aldrei verið með neinu slysi á sjó og aldrei horft á slys annarra. En þetta vor stóð undir slysi í Láturdal“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Standa undir bát (orðtak) Um færi á skakveiðum; liggja undir borð bátsins vegna reks. „Leggðu nú út og snúðu bátnum; þetta stendur allt undir bátinn þegar rekur svona öfugt á“.
Standa undir kostnaði / Standa undir sér (orðtak) Greiða; vera greiðandi að; borga sig. „Við stóðum sameininlega undir kostnaði við þetta“. „Ég get ekki séð að þessi búskapur hjá honum standi undir kostnaði“. „Brúnkolavinnslan í Stálfjalli náði líklega aldrei að standa undir sér“.
Standa undir nafni (orðtak) Vera varla þess virði sem heitið bendir til. „Ég held að hjólbörurnar séu alveg hættar að standa undir nafni; þetta er allt að liðast í sundur“.
Standa upp (orðtak) Rísa á fætur. „Ætli maður fari nú ekki að standa upp frá borðum“.
Standa uppá (orðtak) A. Um vind; standa í; blása í átt að. „Það þarf að loka dyrunum vel þegar norðannæðingurinn stendur svona uppá þær“. B. Vantar uppá framlag/vinnu o.fl. „Ég er búinn með minn hluta verksins; nú stendur uppá hann að klára sitt“. C. Fullyrða; uppástanda; halda fram. „Hann stendur fast uppá því að ég hafi gefið sér þetta og hann þurfi því ekki að skila því“.
Standa uppi (orðtak) A. Um straumröst. Sagt er að röstin standi uppi þegar hún er úfin og jafnvel í henni hættuleg brot. Látraröst og Blakknesröst eru viðsjárverðar en aldrei þó eins og þegar fellur undir vind. Einnig getur leysingavatn staðið uppi í stíflum. B. Um hús; vera uppistandandi. „Hesthúsið á Hólum hefur líklega staðið uppi lengst allra húsa á Vestfjörðum“. C. Um lík; bíða greftrunar; vera á líkbörum. D. Vera á lífi; vera einhvers megnugur. „Þetta verður ekki gert meðan ég stend uppi“! Sjá uppistandandi.
Standa uppi allslaus/eignalaus/úrræðalaus (orðtök) Reynast vera orðinn allslaus/eignalaus/úrræðalaus. „Ég held hann ætti nú að hugsa fyrir þessu í tíma, í stað þess kannski að standa uppi úrræðalaus þegar á reynir“.
Standa uppi í hárinu á (einhverjum) (orðtak) Eiga í illdeilum við einhvern; veita einhverjum mótspyrnu. „Ætli maður reyni nú ekki að standa eitthvað uppi í hárinu á þeim, gegn þessu óréttlæti“. Líkingin kann að vera dregin af lús í höfði.
Standa uppúr (orðtak) Vera að hluta ofan yfirborðs. „Hann sökk í dýið, svo ekkert stóð uppúr nema hausinn“.
Standa utan að (orðtak) Standa hjá fé til að halda því í hóp. „Standiði nú þétt utan að því svo enginn sleppi“.
Standa utanvið (orðtak) Um umræður/deilur/málefni/aðild; blanda sér ekki í; vera óháður.
Standa útaf (orðtak) Vera framyfir; vera aukalegt/umfram. „Ég held að ekkert standi útaf í þessu uppgjöri“.
Standa vel/illa að vígi (orðtak) Vera í góðri/slæmri stöðu/aðstöðu; hafa góða/litla von um. „Þarna uppi á hjallanum stóð ég vel að vígi til að hindra að féð rynni upp Grenjalág“. Líking við vígstöðu í bardaga.
Standa við (orðtak) A. Um gestakomu; stoppa um stund; staldra við. „Hann kom hér aðeins, en stóð stutt við“. B. Efna; gera það sem lofað/heitið er. „Ég er tilbúinn að standa við það sem ég sagði áðan, en hafi ég rétt fyrir mér fæ ég skrokkinn af þínu lambi“ (PG; Veðmálið).
Standa við stóru orðin (orðtak) Efna mikil loforð; standa undir miklum yfirlýsingum.
Standa vörð um (orðtak) Verja; halda uppi vörnum fyrir.
Standa yfir (orðtak) A. Vakta; einkum átt við að vakta fé yfir sauðburðinn; gat einnig átt við að fylgjast með ákveðinni ær sem von var á að gengi illa, eða ær sem verið var að venja undir. B. Um búfé; éta ekki upp fóður/gjöf. „Það þýðir ekki að gefa kúnum svo mikið að þær standi yfir, það kemur bara upp átleysi í þeim“. C. Vera; vara; endast. „Við héldum okkur í skjóli í hellinum á meðan skúrin stóð yfir“. „…meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu“ (PG; Veðmálið).
Standa öll járn/spjót á (orðtak) Beinast allar atlögur/ásakanir/annir að. „Nú standa öll spjót á honum vegna þessara ummæla; hann verður að gera hreint fyrir sínum dyrum“. Líking við það að vegið sé að manni með vopnum.
Standandi hissa/hlessa (orðtak) Steinhissa; forviða; á ekki til orð; reka í stans/rogastans. „Ég varð bara standandi hissa þegar þeir birtust allt í einu“.
Standari (n, kk) Stoð á reiðhjóli, sem sett er niður til að styðja það upprétt í kyrstöðu.
Standast (s) A. Vera standandi; standa gegn; standa af sér. „Það er erfitt að standast svona freistingar“. B. Standa sem staðreynd; vera óhrekjanlegt. „Þetta getur varla staðist“.
Standast á (orðtak) Vera hvor andspænis öðrum; mætast.
Standast á endum (orðtak) Um það þegar eitt tekur við af öðru án þess að lát verði á /bil verði á milli. „Það stóðst á endum að þegar við komum með kýrnar var hún mætt í mjaltirnar“. „Stóðst það oft á endum að báðir komu jafnsnemma í Verið; bátsverjar og hinir fótfráu æskumenn, sem ekki víluðu fyrir sér að spretta úr spori undir leiðarlokin“ (KJK; Kollsvíkurver). Vísar til þess að hlutir snertast í endana. T.d. hús sem snúa göflum saman; bátar sem snertast í stafna; net í trossu o.fl.
Standast ekki freistinguna (orðtak) Láta undan freistingum/löngun. „Strengslin voru nú ekki alltaf heil þegar heim var komið, því við stóðumst ekki freistinguna að smakka þetta lostæti á leiðinni heim“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Standast ekki mátið (orðtak) Standast ekki freistinguna; láta undan. „Ég stóst ekki mátið og fékk mér köku“.
Standast ekki reiðari (orðtak) Geta ekki/varla hamið reiði sína lengur. „Ég stenst ekki reiðari en þegar menn tala með þessum hætti um hluti sem þeir hafa ekki hundsvit á“!
Standast ekki/engan samjöfnuð við (einhvern) (orðtak) Standa einhverjum að baki; komast ekki með tærnar þar sem einhver hefur hælana. „Þetta er þokkalegur hákarl, en hann stenst engan smjöfnuð við hinn“.
Standast (einhverjum) ekki snúning (orðtak) Hafa ekki roð við einhverjum; jafnast ekki á við einhvern. „Fáir hundar standast tófunni snúning“.
Standast tímans tönn (orðtak) Halda gildi sínu þó tíminn líði.
Standast (ekki) við (orðtak) Þola/afbera (ekki); halda (ekki) út. „Það stenst enginn við svona útgjöldum lengi“.
Standberg (n, hk) Þverhnípi; standklettar; klettur/bjarg sem er þverhnípt og óslitið af göngum frá neðstu rótum/ fjöru uppá brún; strengberg. „Í Strengbergsgjá er standberg af Blakkbrún niður í Hryggi“.
Standborvél (n, kvk) Borvél sem stendur á gólfi/borði, færanleg í sleða móti áföstu borði.
Standfjöður (n, kvk) Fjármark; annað nafn á fjöður.
Standhnítta (n, kvk) Nibba sem stendur upp úr bergi. „En þegar ég ætlaði að hlaupa fyrir kvíadyrnar datt ég um koll og kom með öxlina á standhníttu, en þær stóðu víðsvegar upp úr berginu“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). Orðið finnst ekki í orðabókum og er fáheyrt í Kollsvík nú á dögum.
Standklettar (n, kk, fto) Standberg; þverhnípi; strengberg. „Áfram útyfir Strengbergið, en það eru standklettar beint í sjó, ca 60-70 m háir“. (IG; Sagt til vegar).
Standsetja (s) Koma í lag; gera við. „Þeir eru byrjaðir að standsetja sláturhúsið“. „Barðstrendingar geymdu báta sína fram að vertíð innst í Patreksfirði; við árósana á Skeiðseyri; sléttri grasigróinni eyri vestan fjarðarins, sem nú hefur að mestu verið tekin til ofaníburðar. Þeir standsettu bátana áður en þeir komu í Verið“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Standur (n, kk) A. Hvaðeina sem stendur uppúr; tittur; þolinmóður; B. Drangur; berggnípa sem gnæfir sérstök upp úr landslagi eða sjó. „Var það venjulega fyrsta bjargganga ungra stráka að fara þarna niður og fram á standinn...“ (ÞJ; Örn.skrá Hvallátra).
Standþil (n, hk) Veggþilja úr lóðréttum/standandi borðum. „Ekki stóð uppi af baðstofunni nema sláin yfir standþilinu fyrir framan búrið“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).
Stanga (s) A. Um skepnu; reka hausinn/hornin í mann eða annað. „Passaðu að kindin stangi ekki barnið meðan ég marka lambið“. B. Stinga; sauma það sem þykkt er; stinga úr tönnunum. C. Gamalt orð um það að splæsa, t.d. kaðal/línu/tóg.
Stanga/stauta botn (orðtak) Skaka með of litlu grunnmáli, þannig að sakkan skelli í botn í hverju skaki. „Okkur er að reka upp; ég er allt í einu farinn að stanga botninn“.
Stanga úr tönnum (orðtak) Nota pinna/stöngul til að kroppa burtu matarleifar sem sitja milli tannanna.
Stangarbauja (n, kvk) Neta-/línubauja með gati og stöng þar í. Á neðri enda stangarinnar er lóð til að halda henni lóréttri, en á þeim efri vanalega flagg með númeri eða nafni bátsins, og stundum númeri strengs/línu.
Stangast á (orðtak) Um sauðfé/nautgripi; stangast renna saman. „Hrútarnir eru alblóðugir eftir að stangast á“.
Stangarbauja / Stangardufl (n, kvk) Bauja með stöng, sem helst lóðrétt í sjónum með lóði í neðri enda; oftast með veifu í efri endann. „Mun auðveldara er að finna stangarbaujur í veltingi en litla belgi; hvað þá kúlur“.
Stangarstökk (n, hk) Stökk þar sem maður ýtir sér hærra og lengra með stöng. Þeir sem höfðu göngustaf nýttu hann gjarnan á þann hátt þegar stokkið var yfir læki, ár og seilar.
Stangasápa (n, kvk) Sólsápa; sápa sem áðurfyrr var framleidd og seld í stöngum sem skipta mátti niður í sápustykki“. Þvottabrettin voru oftast með hillu efst sem hentaði til að geyma í stangasápuna.
Stangast á (orðtak) Rekast á; rekast hvert á annars horn; vera mótsagnakennt. „Þessi frásögn stangast verulega á við það sem ég hafði áður heyrt“.
Stanghyrnd (l) Um hornalag sauðkindar; með áberandi beinvaxin horn (ekki hringhyrnd/skeifhyrnd); upphyrnd.
Stangl (n, hk) Strjálingur; dreif. Hefur líklega fyrrum átt við dreif/slæður af heyi; stöng = strá. Nú oftast notað í orðtakinu á stangli. „Það flýgur eitthvað stangl af fugli með Görðunum; ég ætla að rölta með byssuna“.
Stanka (s) Lykta mjög illa. „Farðu úr skítagallanum úti; þú stankar alveg“. „Sorpílátið er farið að stanka“. Orðið finnst ekki í orðabókum.
Stankandi (l) Illa lyktandi; fúll. „Farðu nú í bað drengur; þú ferð ekki á skemmtunina stankandi af fjósalykt“!
Stankur (n, kk) Megn ólykt; fnykur. „Stankinn leggur langar leiðir“. „Inni í greninu var ferlegur stankur“. Bæði orðin (stanka og stankur) virðast vera óþekkt í þessari merkingu utan svæðisins en voru þar altöluð.
Stans (n, hk) A. Hlé; stopp. „Það verður stans á að hlaða bátana...“ (KJK; Kollsvíkurver). „Þeir voru á hraðferð og gerðu því stuttan stans“. B. Stundum notað um fallaskipti; snúning. „Það er alveg að slá í stans“. Ævinlega í karlkyni, en nú til dags tíðkast ekki síður hvorugkyn orðsins.
Stansa (s) A. Stöðva; stoppa; bíða. B. Höggva út form í þynnu með t.d. höggpípu eða vél. „Í Umbúðamiðstöðinni fékkst ég m.a. við að stansa öskjur“.
Stanslaust (l) Án þess að hlé verði. „Hann ætlar að rigna alveg stanslaust í dag“!
Stanslítið (l) Án þess að verulegt hlé verði. „Við gengum stanslítið á leiðarenda“.
Stapi (n, kk) A. Stakur brattur klettur í landslagi. B. Sérstök tegund fjalla, t.d. móbergsstapi.
Stapp (n, hk) A. Það að stappa með fótum. B. Þæfingur; erfiðleikar. „Alltaf er það sama stappið ef eiga þarf við þetta fjandans stjórnkerfi“. „Ég nennti ekki að standa í frekara stappi með þetta mál“.
Stappa (n, kvk) A. Stans; verkfæri sem slegið er á til að slá far eða gat með tilteknu formi í efni. B. Grautur sem stappaður hefur verið, t.d. úr mat; kartöflustappa; hausastappa. C. Þröng einstaklinga, t.d. fólks. „Ég bjóst ekki við þessum fjölda; þetta er meiri stappan“.
Stappa (s) A. Skella niður fæti; hoppa. B. Þjappa saman. „Það þýðir ekkert að stappa fénu svona þétt inn í dilkinn. Það endar bara með því að minnstu lömbin troðast undir“! C. Mauka; t.d. kartöflur eða fisk.
Stappa nærri (orðtak) Láta nærri; vera nálægt /í námunda við; standa undir. „Þetta fer bara að stappa nærri hávaðaroki“!
Stappa stálinu í (einhvern) (orðtak) Herða einhvern upp í verknað; hvetja einhvern. „Þangað til vorum við að stappa stálinu hvor í annan að við lögðum af stað eftir þræðingnum; yfir á höfðann“. Orðtakið er runnið af því að fella stáltein í járnblað á öxi eða sverði, sem svo er sleginn fram í flugbeitta egg.
Stappað (l) Þröngt; troðið. „Þa gengur ekki að hafa féð svona stappað í alltof þröngri stíu“. „Það var svo stappað af fólki á danskólfinu að menn gátu varla hreyft sig“. Sést ekki í þessari merkingu í orðabókum.
Stappar nærri (orðtak) Liggur við; er nálægt; jaðrar við. „Það stappaði nærri að hreppurinn leggðist í eyði“.
Stara (s) Glápa; góna; einblína; horfa lengi og ákveðið á það sama.
Stara/glápa/góna eins og naut á nývirki (orðtak) „Þyrlan kom fljúgandi heim með Blakknum og lenti í Verinu. Við strákarnir störðum fyrst eins og naut á nývirki, en tókum svo til fótanna og náðum að hitta flugmennina áður en þeir fóru aftur í loftið. Þeir höfðu þá málað kringlóttan gulan blett á Syðriklettana og sögðu að það væri vegna einhverra mælinga“.
Stararhey (n, hk) Hey af stör sem slegin var í fóður. „Þá var líka mikið um áveitur í Hænuvík, þar sem bæjarlæknum var veitt á slétturnar. Á þeim stöðum fékkst mikið stararhey“ (DÓ; Að vaka og vinna).
Starblinda (n, kvk) Blinda vegna skýs á auga. Oft notað í líkingamáli: „Hvenig í ósköpunum geta menn verið svona starbrindir á augljósa hluti“?!
Starblindur (l) Með ský á auga; blindur vegna matts augasteins. Líkingin er líklega við það að blind manneskja sýnist vera með starandi augnaráð.
Starblína (s) Horfa lengi og ákveðið á eitthvað sérstakt. „Ég starblíndi þangað sem hann benti, en sá ekki neitt ljós í hríðinni“.
Stareygur (l) Með störu; starandi; gónandi. „Hann horfði stareygður á þessar furðulegu aðfarir“.
Starfrækja (s) Reka; virkja; sjá um rekstur á.
Starfræksla (n, kvk) Rekstur; drift. „Kennari hreppsins skal vera formaður fjelagsins og hafa á hendi starfrækslu þess... “ (VÖe; Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps).
Starfsamur (l) Iðinn, duglegur; alltaf að. „Hann er kannski ekki mjög afkastamikill, en hann er starfsamur“.
Starfsemi (n, kvk) A. Upprunaleg merking; iðjusemi; dugnaður; vinnusemi. B. Síðari tíma merking; iðngrein; rekstur.
Stargresi (n, hk) Stör; gras af starartegund.
Starsýnt (l) Starandi; horfa mjög lengi og ákveðið á það sama. Sjá verða starfsýnt á.
Starta á / Starta í sig (orðtak) Narta í; naga; tönnlast á; borða; úða í sig. „Hvar náðir þú í þetta harðfiskstrengsli sem þú ert að starta á“? „Kýrin var komin í garðinn og farin að starta á rófunum“!
Statt og stöðugt (orðtak) Óbifanlega; óhagganlega; fyrir víst. „Ég trúi því statt og stöðugt að Kollsvíkin muni ekki verða lengi í eyði; svo fremi að einhver sjálfsbjargarviðleitni verði áfram hjá fólki“.
Stattu aldrei argur (orðatiltæki) Oraðtiltæki sem að öllu leyti er upprunnið í Rauðasandshreppi. Sú er tilurð þess að skessa ein mikil býr í Síðaskeggi, sem er áberandi berggangur í klettum í Lambavatnslandi. Prestur sá bjó á Lambavatni um skeið sem Jón hét Ólafsson (1640-1703), og þjónaði Saurbæjarkirkju Eggerts ríka Björnssonar. Skessan felldi hug til prests og sat um að elta hann þegar hann fór til þjónustu á kirkju sína, en varð einatt höndum seinni. Eitt sinn sá hún að prestur reið úr hlaði og ætlaði nú aldeilis að koma höndum yfir karl. Jón varð var við hana og þandi hrossið sem mest hann mátti, þóp skessan kallaði ítrekað; „bíddu mín séra Jón“! Þegar nálgaðist Saurbæ náði skessan í frakkalafið á honum, en Jón snaraðist úr flíkinni. Náði hann við það nokkru forskoti; þusti inn í kirkjuna og hringdi klukkunum sem ákafast, í þann mund sem skessan hljóp sem ákafast í hlað. Sá hljómur fer illa í tröllaeyru. Snarstansaði skessan og spyrnti um leið í garðinn svo sprakk fyrir. „Stattu þá aldrei argur“ hreytti skessan í garðinn. Hún gaf síðan þennan vonbiðil uppá bátinn. En kirkjugarðurinn hefur aldrei staðið vel síðan þetta skeði. Hefur þurft að hlaða hann reglulega upp; hvort sem um er að kenna slæmu undirlagi eða álögum skessunnar. En af Jóni er það að segja að hann gerðist drykkfelldur mjög. Þau urðu örlög hans að eitt sinn er hann kom frá annexíu sinni í Sauðlauksdal, þéttingskenndur, varð honum illt svo hann fór af baki þar sem heitir Krossi á Hnjótsheiði. Sagði fylgdarmaður hans að staðið hefði blár strókur framúr presti, og urðu það hans síðustu andvörp. Þrátt fyrir breyskleika sinn var Jón hinn merkasti prestur og skrifaði ýmislegt upp sem enn er varðveitt. Hann var einn af merkum forfeðrum Kollsvíkinga.
Statúta (n, kvk) Lagagrein; tilskipun; opinber regla. „Ég veit ekkert hvaða lög og statútur gilda um þetta; ég geri bara það sem mér finnst réttast“!
Staukur (n, kk) Baukur; dolla. „Láttu mig hafa einn stauk af kanil“.
Staulast (s) Ganga silalega/ með erfiðismunum; vera óöruggur/reikull á göngu; silast. „Gamli maðurinn staulaðist út að réttinni“.
Staup (n, hk) A. Lítið glas; vínglas. Sjá fá sér í staupinu; þykja gott í staupinu. B. Klumpur; frosið/steypt stykki. „Vatnið í fötunni var frosið í staup“.
Staupa sig (orðtak) Fá sér að drekka; drekka áfengi. „Þeir voru að staupa sig langt frameftir kvöldi“.
Staur (n, kk) Stólpi, t.d. girðingarstaur. B. Fremur lítið rekatré sem hæft er sem t.d. girðingarstaur. C. Staurfótur; staurliður. „Efti slysið varð fóturinn staur“.
Staurblindur (l) Alveg blindur/sjónlaus. „Hann hlýtur að hafa verið staurblindur fyrst hann sá ekki skerið“!
Staurfótur (n, kk) Fótur sem bagaður er á þann hátt að liðir eru fastir.
Staursetja (s) Jarða án þess að pretur syngi strax yfir. Í undantekningartilvikum var heimilt að jarða án þess að prestur syngi samtímis yfir hinum látna; væri sýnt að prestur kæmist ekki vegna veðurs eða annarra forfalla. Þá skyldi jarðað á sama hátt og með fullri virðingu, en settur skyldi staur upp af kistuloki sem næði uppúr jörðu. Þegar prestur kom að og söng yfir, var staurinn tekinn upp og vígðri mold kastað á kistuna niður um holuna, sem síðan var fyllt. Ekki eru þekktar sagnir um staursetningu í Rauðasandshreppi.
Staursetning (n, kvk) Jarðarför án aðkomu prests. Sjá staursetja.
Staut (n, hk) A. Stirður lestur; lestur þess sem ekki er vel lesandi. B. Erfiðleikar; fyrirhöfn; púl; pot. „Þetta er bölvað staut“!
Stauta (s) A. Um upplestur; kveða að; lesa hvert atkvæði fyrir sig. „Ertu ekki farinn að stauta eitthvað“? B. Um verk; gera með erfiðismunum. C. Pota/banka í með staut/sökku, t.d. stauta botn. „Þú rennir þangað til stautar og dregur svo þjá fjóra hringi áður en þú ferð að skaka“.
Stauta botn (orðtak) Um færi; renna í botn; steyta við botn. Virðist lítt þekkt utan Kollsvíkur en sést þó. (T.d. L.K; Ísl.sjávarhættir III, bls 359). (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). Sjá stanga botn.
Stautfær / Stautlæs (l) Lítillega/naumlega læs; les sundurslitið/í atkvæðum; farinn að kveða að.
Stautur (n, kk) Stutt stöng. „Notaðu stautinn til að troða í hakkavélina, svo þú missir ekki fingurna“.
Stál (n, hk) A. Járn með ákveðnu kolefnisinnihaldi sem breytir sameindabyggingu þess og gerir það mun harðara en hreint járn. B. Þverhnípi í bjargi, sbr Stálfjall sem er milli Rauðasands og Barðastrandar. „Hér er þverhnípt stál alla leið í sjó“. C. Veggur í heystabba sem leyst hefur verið úr eða stungið til gjafa. „Gott er að leysa þannig að stálið sé lóðrétt og slétt,en halli ekki upp við sig“. D. Lóðréttur veggur/klettur/bakki af hverskonar tagi. E. Brýnslustál. Teinn úr stáli með handfangi á enda, notaður til að fínslípa hnífsegg.
Stála (orðtak) Um hníf eða annað eggjárn; draga stál skáhallt eftir egginni til að fínslípa/skerpa hana. „Hann var meistari í að stála hnífa til bits“.
Stálbik (n, hk) Hart bik; notað brætt til þéttingar á samskeytum fyrir daga þjálli þéttiefna.
Stálgreindur (l) Skarpgreindur; bráðgáfaður. „Hann var talinn stálgreindur og dugnaðarforkur“.
Stálgreip (n, kvk) Mjög sterklegt grip/tak með hendi. „Ég treysti mun betur á hans stálgreipar en þó tíu meðaljónar sætu undir vaðnum“!
Stálheppinn (l) Einstaklega heppinn. „Ég var stálheppinn að finna vasahnífinn aftur“.
Stálma (s) Um kýr; júgur farin að verða hörð/bólgin vegna stálma.
Stálma kýr (orðtak) Kýr sem er með stálma í júgrum vegna báshellu, júgurbólgu eða vegna þess að júgur eru troðin fyrir burð.
Stálmi (n, kk) A. Báshella; bólguþykkildi sem kemur í júgur kúa sem liggja lengi á hörðu undirlagi. Mestur er stálmi í júgrum fyrst eftir burð. B. Stinningur/styrkur í efni, sem gerir erfitt að brjóta/beygja það. „Þú nærð ekki að sveigja þennan tein; það er svo mikill stálmi í honum“.
Stálminni (n, hk) Mjög gott minni. „Ég hef ekki sama stálminnið og hann“.
Stálminnugur (l) Mjög vel minnugur. „Hún er farin að gefa sig líkamlega, en alltaf er hún jafn stálminnug“.
Stálpast (s) Um unglinga sem eru að ná þroska. „Strákurinn er að stálpast og getur verið vel liðtækur á sjó“.
Stálseigla (n, kvk) Mikil seigla; mikið úthald. „Alveg dáist ég að þessari stálseiglu í honum“!
Stálsleginn (l) A. Bókst. merking; styrktur með járni. „Kistan var stálslegin“. B. Afleidd merking og algengari í seinni tíð; mjög hress/heilsgóður. „Ég fékk ári mikinn hita og beinverki, en núna er ég orðinn alveg stálsleginn“.
Stáltunna (n, kvk) „Þá þurfti líka að kaupa steinolíu til ljósmetis, og var hún venjulega flutt í 100 eða 200 lítra stáltunnum“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Stáss (n, hk) Skrautmunur; glingur, t.d. stofustáss.
Stássa sig (orðtak) Stæra sig; skreyta sig; gera sig fínan. „Það þýðir lítið að stássa sig á sparifötunum við svona óþrifaverk“.
Stássbúningur (n, kk) Sérlega fínn fatnaður viðhafnarklæðnaður.
Stássstígvél (n, hk, fto) Stígvél sem ekki eru ætluð til að vera í við vinnu; sparistígvél.
Stássstofa (n, kvk) Fínni stofa; gestastofa. Stássstofur voru einkum á heimilum hinna ríkari og valdameiri.
Státa af (orðtak) Vera hreykinn af; skarta. „Kollsvíkin státar af einstakri náttúrufegurð“.
Státa sig af (orðtak) Hreykja sér af; vera drýldinn yfir. „Þessi veiði er nú eitthvað til að státa sig af“!
Státinn (l) Hress; borubrattur; hraustlegur. „Hann er býsna státinn af þessu, enda ástæða til“.
Stearínkerti (n, hk) Vaxkerti. Einkum nefnd svo þegar þau fóru fyrst að ryðja tólgarkertum úr vegi.
Steðja (s) Ganga hratt; æða. „Þeir steðjuðu innyfir Tunguheiði“. „Kýrin steðjar upp á tún“.
Steðja að (orðtak) Koma; sækja að; ógna. „Hundar finna það oft á sér ef einhver hætta steðjar að“.
Steðji (n, kk) A. Þungur stálklumpur. Jafnan hafður uppi á tréhnalli og notaður til að hamra járn o.fl. Steðji er oft með odd/nefi að framanverðu og gati aftar, til að forma það sem slegið er til. B. Smábein í innra eyra; koddabein.
Stef (n, hk) A. Viðlag í kvæði. Kafli í kvæði/ljóði sem er endurtekinn til að auka takt, einkum þegar sungið er. B. Bútur úr kvæði eða tónverki.
Stefja (s) Yrkja; setja saman vísu/stef. „Stráks á munni stundum er/ stefjuð kersknisglósa./ Sjaldan marki framhjá fer/ flaugaskeyti Rósa“ (JR; Rósarímur).
Stefna (n, kvk) Tiltekin átt. T.d. sú átt sem haldið er í. „Haltu þessari stefnu uppundir Lægið“. B. Mót; staður þar sem fólk kemur saman, t.d. kaupstefna. C. Áætlun í tilteknum málum eða af tilteknum hópi.. D. Löggerningur sem boðar mann til mætingar, t.d. fyrir dómi. E. Eindagi. „Nú eru bara fáir dagar til stefnu“.
Stefna (s) Halda/fara í stefnu/átt. „Fjárhópurinn stefndi fram dalinn“.
Stefna í óefni/ógöngur/vitleysu/tvísýnu (orðtak) Fara á verri veginn; horfa til vandræða. „Ég er hræddur um að allt stefni í óefni með sprettuna ef hann fer ekkert að rigna“. Þótti sumum þarna stefna í mikla tvísýnu“.
Stefna (einhverju) í voða (orðtak) Leggja eitthvað í hættu.
Stefna saman (orðtak) Boða til móts/fundar.
Stefnislykkja (n, kvk) Járnlykkja neðarlega á framstefni báts, sem krók var brugðið í þegar báturinn var dreginn upp mað spili. „Teygðu þig með krókinn niður í stefnislykkjuna og studdu svo við bátinn“. „Króknum er krækt í stefnislykkjuna og gefið merki um að strekkja á spilstrengnum“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Stefnisrör (n, hk) Rör/pípa í gegnum afturstefni báts, sem skrúfuöxull gengur í gegnum frá vél að skrúfu. Stefnisrörið er vanalega fyllt af feiti/smurefni og með pakkdósum í endum til að varna því að sjór komist um það inní bátinn.
Stefnufastur (l) Heldur ákveðið sinni stefnu; hvikar ekki frá sínum ákvörðunum/skoðunum.
Stefnulaust (l) Án stefnu; ómarkvisst. „Við dóluðum stefnulaust framá Víkina, enda lítil von um veiði fyrr en eitthvað tæki úr mesta fallinu“.
Stefnuleysi (n, hk) Það að era stefnulaus. „Menn eru þreyttir á stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málinu“.
Stefnumið (n, hk) A. Merkir í raun það mið/viðmið/mark sem stefnt er á, einkum af báti á siglingu. B. Einkum notað núna í líkingamáli um markmið sem einstaklingur eða annar sækir að.
Stefnumót (n, hk) A. Merkir upprunalega staðinn þar sem leiðir tveggja (t.d. báta) skerast, sé haldið óbreyttri stefnu. B. Í síðari tíð notað einkum um fund sem tvær manneskjur ákveða, einkum fund karlmanns og konu.
Stefnuvargur (n, kk) A. Sending; kvikindi sem sent er til að ásækja mann og valda skaða. „Samt skeði það í harðærunum kringum 1850 að í Fremraskarði gróf tófa greni og kom þar upp nokkuð mörgum yrðlingum. Þau ár kom tófan eins og stefnuvargur yfir Rauðasandshrepp. Mun það hafa orsakast af harðæri víða um land, en fuglabjörgin voru jafnan bestu uppeldisstöðvar fyrir lágfótu ef hún gerðist sauðaþjófur“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals). B. Nú oftast notað í líkingamáli; „Það er eins og stjórnvöld hafi sent þessa eftirlitsmenn eins og stefnuvarga til að gera okkur erfiðara fyrir með okkar sláturhús“!
Sefnuvottur (n, kk) Maður sem skipaður er af yfirvaldi (hreppsnefnd/sýslumanni) og sendur af yfirvaldi (sýslumanni/saksóknara) til að birta manni stefnu um mætingu í fyrirtöku máls eða greiðslu skuldar.
Steggur (n, kk) Karlkyn dýrategundar; einkum notað um fugla og refi.
Stegla (n, kvk) A. Píningartæki á miðöldum. Staur sem glæpamaður var festur á með sársaukafullum og niðrandi hætti; öðrum til viðvörunar. B. Nafn Breiðfirðinga á stórri lúðu (30-50 kg).
Steigurlæti (n, hk, fto) Drambsemi; hroki; yfirlæti; þrjóska.
Steik (n, kvk) Steikt kjöt; kjöt sem eldað er án þess að sjóða í vatni/legi.
Steiking (n, kvk) Eldun matar án þess að soðið sé í vatni.
Steikja (s) Elda (mat) án suðu í vatni.
Steikjandi hiti (orðtak) „Það var brakandi þurrkur og steikjandi hiti í bjarginu“ (KJK).
Steikjandi sól/sólskin (orðtak) Mikill sólarhiti. „Þarna við eyrina eru bátarnir affermdir og Fönix snúið til heimferðar í logni og steikjandi sólskini“ (KJK; Kollsvíkurver).
Steilur (n, kvk, fto) A. Skammrif af sauðkind/dilk. Mun einkum hafa verið notað eystra og syðra, meðan Vestfirðingar töluðu fremur um skammrif. B. Brattir hálsar sem ganga fram úr hálendi. Þó ekki notað í almennu máli í seinni tíð að því frátöldu að Steilur er örnefni á brattri brekku í Jökladalshæð í Kollsvíkurlandi; þar sem hestavegurinn liggur yfir Hænuvíkurháls.
Steina (s) Festa steina á; t.d. net til fiskveiða. „Hér hefði mátt steina netið meira; það er of mikið flot í steinateininum“.
Steina niður (orðtak) Leggja uppí; leggja net niður í bát og festa í leiðinni netasteina á steinaþininn. Þetta var nokkuð tímafrek vinna; bæði við að leita að heppilegum steinum og að festa þá í sína hanka. Orðið hélst eftir að blýteinn leysti steina af hólmi; yfir það að gera net klár í bát fyrir lagningu. Sjá netasteinn.
Steinaltari (n, hk) Steinhlaðið altari til trúariðkunar. Munnmæli herma að á ferðum sínum vestra hafi Guðmundur góði Hólabiskup verið beðinn um að blessa leiðina um Raknadalshlíð, sem lengst af var hættulegur farartálmi þeim sem gengu milli Eyra og Raknadals. Hann lét þá hlaða steinaltari; blessaði það og mælti svo fyrir að þar skyldu ferðamenn biðjast fyrir sem á hlíðina lögðu utanfrá. Heitir þar síðan Altarisberg, og var um tíma hreppamörk milli Rauðasands- og Patrekshrepps. Þeir sem komu að hlíðinni innanfrá hafa efalítið beðist fyrir við Helguþúfu; innan Hlaðseyrar.
Steinahús (n, hk) Kjarni í epli, þar sem eplasteinar eru. „Það er alveg skaðlaust að borða steinahúsið líka“.
Steinasafn (n, hk) Safn steina, oftast fágætra og/eða skrautlegra. Allnokkuð steinasafn er á Láganúpi. Uppistaðan í því eru annarsvegar flökkusteinar frá Grænlandi, s.s. granít, gabbró, gneiss o.fl, sem borist hafa með borgarís uppá fjörur í Kollsvík og nágrenni, en hinsvegar er allmikið af kvartssteinum, s.s. jaspis, onyx og glerhalla, ásamt geislasteinum o.fl. sem fundnir eru á Lónsöræfum; hálsum í A-Barðastrandasýslu, Snæfellsnesi og víðar. Þá eru þarna holusteinar úr nágrenninu og för eftir trjáboli úr jarðlögum.
Steinatök (n, hk, fto) Aflraunasteinar sem voru við hverja verstöð til mælinga á kröftum vermanna. Líklegt er að steinatök hafi verið í Láganúpsverstöð, þó ekki sjái þeirra merki í dag, en þau hafa varðveist á Hvallátrum. „Steinatökin á Hvallátrum eru fjögur.. Þyngsti steinninn, Alsterkur, er 354 pund; næstur er Fullsterkur; 288 pund; Hálfsterkur 214 pund og Amlóði 192 pund“ (LK; Ísl.sjávarhættir IV). Eintala orðsins er steintak, sem merkir stein sem erfitt er að lyfta; sbr einnig grettistak.
Steinateinn / Steinaþinur (n, kk) Neðri þinur/teinn nets, sem steinar voru áður bundnir við til að halda því við botn. Nefndist blýteinn/blýþinur eftir að farið var að nota blý í stað steina.
Steinbálkur (n, kk) Hlaðinn stallur úr steinum. Einkum notað um steinhlaðið rúmstæði/flet.
Steinbítsarða / Steinbítsbiti / Steinbítsflís / Steinbítslús / Steinbítsögn (n, kvk/kk) Heiti yfir munnbita af hertum steinbít. „Á ég ekki að rífa fyrir þig steibítsörðu af strengslinu“? „Þú mættir alveg gefa mér smá steinbítslús ef þú tímir því“.
Steinbítsbudda / Gidda (n, kvk) Budda; kýta; lalli; magi úr steinbít. „Buddan var oft hirt; troðin út með þorskalifur og soðin; þótti matur góður og matarmeiri en kútmagi, enda þykkari, einkum í botninn. Efri hlutinn var nefndur gormur. Víða var steinbítsmaginn soðinn og látinn í súr“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Steinbítsflökun (n, kvk) Flökun steinbíts. Í seinni tíð er steinbítur einkum nýttur annaðhvort til suðu eða herslu. Í báðum tilvikum er hann oftast flakaður, en ekki flattur með fyrri tíðar aðferð (sjá steinbítur). Steinbítsflökun fer þannig fram að fiskurinn er lagður beinn á hliðina á slétt borð, oftast með innyflum. Skorið er niður að hrygg aftanvið eyrunnana og flakið með roði skorið af í einu bragði aftur á stirtlu. Hnífurinn fylgir hrygg en hjá vönum flakara er hvorki skorið í hrygg né verður mikill fiskur eftir þegar flakað hefur verið báðumegin. Eigi að sjóða eða steikja fiskinn er flakið stundum roðflett en eigi að herða hann er flakið oftast kúlað og skorin þuma til upphengingar á rá. Ekki má þvo þann steinbít úr vatni sem herða skal. Helst er hann óþveginn, en stundum difið í sjó.
Steinbítsgarður (n, kk) Grjótgarður sem áður fyrr var nýttur til að þurrka steinbít. „Steinbítsgarðar voru allir einhlaðni; meðalmanni undir hönd að hæð. Þeir smáþynntust eftir því sem ofar dró; og aðeins smágrjót efst. Venjulega voru þeir mjög fallnir á vori hverju er komið var til vers, og varð þá að hlaða garðana að mestu eða öllu leupp aftur. Auk þess hafði hver bátshöfn hrýgjugarð sem steinbítnum var hrúgað á jafnskjótt og hann harðnaði. Þeir garðar voru tvíhlaðnir neðan; traustlegri og betur hlaðnir en hinir“ (PJ; Barðstrendingabók). Mikið er enn sýnilegt af steinbítsgörðum í Kollvíkurveri og einnig sunnar í víkinni: „Í rifinu með sjónum sjást öðru hvoru koma úr sandi nokkrir fornir steinbítsgarðar en þegar þeir hafa verið í notkun hefur ekki verið svo mikill sandur í fjörunni og nú er, annars hefði fokið í steinbítinn sandur“ (SG; Rústir; Þjhd.Þjms). „Hvergi er í fornritum minnst á grjótgarða sem vergögn og aðeins tvívegis í fornbréfasafni.... En í heimildum frá þrem síðustu öldum er víða minnst á fiskigarða.... Samkvæmt konunglegri tilskipun 1758 um skyldur sjómanna var þeim m.a. ætlað að hressa við gamla gjótgarða og hlaða nýja“ .. „Steinbítsgarðarnir sneru hliðinni við aðalrigningaráttinni, en hrýgjugarðarnir endunum í hana.. Sumum þótti steinbíturinn verkast betur á görðum en í hjöllum. Þegar hann var orðinn hálfharður, næstum því kominn úr ábyrgð sem kallað var, og kúlurnar lögðust ekki lengur saman, var honum hrýgjað; hver steinbíturinn lagður ofan á annan með roðið upp. Undir þessum hrúgum voru hrýgjugarðarnir“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Steinbítsgoggur (n, kk) Goggur til að gogga og innbyrða steinbít við bátshlið. Það sem greindi hann frá venjulegum gogg var að hann var með hnalli á hnakka til að rota steinbítinn, gjarnan með gildingi úr hvalbeini.
Steinbítsgormur (n, kk) Garnir úr steinbít, notaðar til beitu. „Þegar líða tók á vorið og steinbítur tók að veiðast var notaður steinbítsgormur til beitu“ (Guðbjartur Guðbjartsson um Kollsvíkurver; viðt. EÓ 1962). „Áður var þó einnig höfð til beitu lifur og gota úr hrognkelsum, og gormur; steinbítsgormur; þ.e. garnir úr steinbít en ekki „buddan“; steinbítsmaginn“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Steinbítshamar / Steinbítshnallur / Steinbítssleggja (n, kk/kvk) Stór hamar/ lítil sleggja sem notuð var til að berja harðfisk, en harðfiskur í Kollsvík var allajafna steinbítur fyrrum. Heitið stenbítshnallur var þó einnig notað yfir barefli sem notað var til að rota steinbít eftir að hann var veiddur. Harðfiskur var barinn á sérstökum hentugum steini í nágrenni bæjar, og oft var sleggjan geymd þar ef stutt var í næsta barning. Fyrir daga járnhausa voru gegnumboraðir steinar skeftir fyrir sleggjuhausa. Mikilsvert þótti að vel væri barið, þannig að fiskurinn væri mjúkur undir tönn, en þó ekki svo að hann ódrýgðist eða roð færi að merjast að ráði.
Steinbítshelmingur / Helmingur (n, kk) Hálfur flattur steinbítur (sjá þar).
Steinbítshjallur (n, kk) Hjallur til að herða steinbít. „Ég lét draga gamla sláturhútið á Gjögrum út á bakkana og notaði það fyrir steinbítshjall“ (VÖ). „Venjulega voru fiskhjallarnir (steinbítshjallarnir) þannig gerðir að hlaðnir voru fjórir steinstólpar með stuttu millibili, er mynduðu ferhyrning. Á hverja tvo voru síðan lögð allsver tré; hjalltré, og náðu endarnir oftast nokkuð útfyrir stólpana. á hjalltrén voru síðan lagðar rár með hæfilegu millibili, er steinbíturinn var hengdur á“ (KJK; Kollsvíkurver).
Steinbítshlaup (n, hk) Steinbítsganga; gengd af steinbít. „Svo er sagt að síðari hluta aprílmánaðar vorið 1812 kæmi mikið steinbítshlaup á mið þeirra Látamanna“ (GiG; Frá ystu nesjum).
Steinbítskúlda (n, kvk) Kinn úr steinbítshaus. Var rifin úr hertum hausum og snædd.
Steinbítskvörn (n, kvk) Kvörn úr steinbítshaus. Steinbítskvarnir féllu til í miklu magni í Kollsvík og voru notaðar í leikjum barna og sem gjald í spilum. Sjá einnig þorskhausakvörn.
Steinbítslýri / Lýri (n, kk) Stór steinbítur; slápur. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar; LK; ísl sjávarh. IV; DE).
Steinbítslæpa (n, kvk) Horaður steinbítur. „Það er ekkert hægt að gera við svona steinbítslæpu; hentu þessu“.
Steinbítsmið (n, hk, fto) Fiskimið þar sem sérstaklega var að vænta steinbítsveiði. „Bætur eru þekktasta steinbítsmið Látra- og Víknamanna við Bjarg“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Steinbítsóþoli (n, kk) Eyruggi af steinbít og þó einkum fiskurinn undir honum.
Seinbítsroð (n, hk) Roð af steinbít. Það var mikið notað í skó í Útvíkum. „Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni, bryddir með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim. Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). Sjá roðskór. Steinbítsroð er með inngrónu hreistri, og það ásamt miklu slími gerir fiskinn sleipan viðkomu. Steinbítsroð af soðnum fiski er jafnan borðað.
Steinbítsrotari (n, kk) Sérstakur goggur sem notaður er á steinbítsveiðum, og var því algengari í Útvíkum en víða annarsstaðar. „Járn hans var sterkara en á þorskgoggi og neðst á öðrum kanti var oft hvalbeins- eða eikarklumpur svo og sver járnhringur“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Steinbítsrotari af þessari gerð var til á Láganúpi til skamms tíma, og gæti enn verið finnanlegur.
Steinbítsróður (n, kk) Fiskiróður til veiða á steinbít. „Áður en vertíð lauk var fiskur oft orðinn tregur á línu. Var þá farið í steinbítsróðra. Það var kallaður „messudagasteinbítur“ sem þá veiddist. Var hann þá orðinn miklu feitari og betri til átu en sá sem veiðst hafði á línu fyrr að vorinu“ (KJK; Kollsvíkurver).
Steinbítsseil (n, kvk) Kippa/seil af óslægðum og óverkuðum steinbít. „Við þennan stein var lent áður fyrr og einum manni af hverjum bát hleypt upp á hann með steinbítsseilarnar, og áttu þeir að sjá um að koma þeim upp í fjöru; bátunum róið frá og settir heim í lendingu“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).
Steinbítsslápur (n, kk) Stór steinbítur, oft horaður. „Hann er furðu vænn þessi steinbítsslápur“.
Steinbítstak (n, hk) A. Sérstakt tak sem notað er á nýveiddan steinbít. Þá er gripið aftan við hausinn; framan við bakuggan, þannig að gómar koma aftan við kjálkana og hann getur ekki bitið áður en hann er rotaður. B. Tak á manni; gripið um hálsinn að aftanverðu. „Hann náði góðu steinbítstaki á þrjótnum“.
Steinbítsstrengsli (n, hk) Eitt flak af hertum steinbít.
Steinbítstak (n, hk) A. Grip/tak sem hentar best til að halda á lifandi steinbít. Þá er gripið með þumalfingri og vísifingri ofaní gagnstæðar grópir aftanvið höfuð steinbítsins; yfir bakuggann framanverðan. B. Hálstak; grip/tak eins manns á öðrum, með því að hann læsir þumal- og vísifingri undir hnakkagrópina sínum hvorumegin og þrýstir að hálsvöðvunum. Sterkur maður getur þannig haldið öðrum sæmilega í skefjum.
Steinbítstros (n, hk) Saltaður steinbítur. Allur saltfiskur, annar en þorskur, kallaðist tros. Sjá þar.
Steinbítstönn (n, kvk) Tönn úr steinbít. Steinbítstennur finnast mjög víða í jarðlögum í Kollsvík nútildags, og ekki undarlegt þegar haft er í huga mikilvægi steinbíts í veiðum Víknamanna. Hausarnir voru hirtir til matar og tennurnar enduðu því gjarnan úti á öskuhaug; eða á túnum þegar ræksni voru borin á tún. Steinbítstennur voru hafðar til leikja hjá börnum og sem spilapeningar. Seinbíturinn hefur öflugar tennur, enda er hann fær um að bryðja harðasta skelfisk. Hann missir tennur um hrygningartímann ár hvert og er þá tannlaus. Talið var óheillamerki að draga tannlausan stenbít. Hann átti þá að skera í þrjá hluta og kasta bútunum í sjóinn til að minnka hættu á ógæfu.
Steinbítsveiði (n, kvk) Veiði á steinbít. Langmestu veiðisvæði steinbíts við landið eru við vestanverða Vestfirði; einkum svæðið útaf Útvíkum. Þar mældi Hafrannsóknastofnun 3-5 tonn á fermílu árið 2013. Ekki er því að undra að miklar menjar séu um steinbítsveiði í Kollsvík, og málfar svæðisins hafi sérstöðu í þessu efni. Steinbítsveiði var helst stunduð seinnihluta vetrar eða framanaf vori.
Steinbítsþön (n, kvk). Tálkn steinbíts. „Þar sem lítið var um steinbít voru hausarnir soðnir signir. Einnig þekktist að sjóða steinbítsþanir einungis til að sjúga beinið; sumir átu þær uppúr súr. “ (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh).
Steinbítur (Anarhichas lupus) hefur, ásamt þorskinum, verið uppistaðan í afla Útvíknamanna, líklega frá öndverðu. Líklega var hvergi á landinu veitt meira af steinbít á tímum árabáta en frá Kollsvíkurverum. Þar var framburðurinn jafnan „stenbítur“, og jafnvel „stembítur“, þó ritháttur væri „steinbítur“. „Steinbítur er allt í kringum landið en algengastur við Vestfirði; sérstakega milli Bjargtanga og Blakkness og út af Önundarfirði og Súgandafirði. Afli á þessum slóðum var mestur frá sumarmálum til júníloka og var þeirri veiði þá sinnt eingöngu; oft tvíróið sama daginn þótt verið væri með handfæri. Steinbíturinn var sagður gapalegur ef menn hlóðu á skammri stundu. Bætur var þekktasta steinbítsmið Víknamanna og Látramanna. Þar eins og annarsstaðar vestra þótti messudagasteinbítur feitastur, en hann veiddist seinni hluta júnímánaðar. Best gaf steinbíturinn sig til um fallaskipti og naumast var hægt að vera við veiðina fyrr en strauminn tók að lina. Steinbítsöngull þurfti að vera sterkur og oddstuttur; taumur jafnlangur og venjulega; grunnmál tvö eða þrjú handtök og ekki dúað eins skarpt og fyrir þorsk.
Þegar steinbítur var kominn á var mutrað með fyrsta handtakinu, en úr því dregið með mikilli skerpu. Hver maður hafði sinn gogg; steinbítsrotara, en járn hans var sterkara en á þorskgoggi og neðst á öðrum kanti var oft hvalbeins- eða eikarklumpur svo og sver járnhringur. Jafnskjótt of steinbítnum hafði verið kippt innfyrir borðstokkinn, greip dráttarmaður gogginn með hægri hendi; tyllti sérum leið á þóftuna; setti fiskinn á milli hnjánna og gaf honum vel útilátið rothögg á hnakkann. Sumir gripu með steinbítstaki yfir bakuggann framvið hausinn og héldu honum þannig meðan hann var rotaður. Krókurinn var losaður; beittur upp ef þörf gerðist og færinu kastað út aftur. Dráttarmaður tók síðan með vinstri hendi upp í kjaft steinbítsins; slengdi honum út á borðið, greip hnífinn í þá hægri; skar þverskurð/vaðkeppu fyrir framan tálknin; kom fingrunum þar í gegnum svo að fengist gott hald; stakk síðan hnífnum fram við háls og risti kviðinn í einu hnífsbragði aftur að gotrauf. Að því búnu setti hann hnífinn á milli tanna sér meðan slógið var slitið úr, sem allt fór fyrir borð nema gormurinn/steinbítsgormurinn. Loks var steinbíturinn skolaður vel úr sjónum og fleygt í bátinn. Við þetta allt þurfti að hafa hraðar hendur; helst að gerast samtímis og færið rann til botns. Ef einhverjum varð á að skilja við óslægðan steinbít, sem nefndist slógmeri, hafði hann kallað fir sig ákveðið víti.... Slæging steinbíts á sjó var gerð til að koma meiri afla í bátinn; létta fjöruburðinn og flýta fyrir aðgerð í landi. Steinbítur veiddist einnig á lóð, á sömu beitu og þorskur.
Væri mikill afli var komið með hann óslægðan að landi. Steinbíturinn var tekinn beint úr sjó og borinn úr fjöru upp í ruðning..; tveir fiskar hafðir hvorumegin á brjósti og fjórir í bak. Ef steinbíturinn hafði ekki verið blóðgaður og slægður á sjónum var fyrst vaðkeipað; síðan skorið milli eyrugga og fram í lífodda og loks aftur í gortrauf; síðan afhausað/kollað/afkollað. Næst kom til kasta pussarans, sem oft var hálfdrættingur, en verk hans var fólgið í að hreinsa allar innyflaleifar, munnamaga, lifraaragnir að framan en garnarendann að aftan og skera burt gotraufina, en í henni var oft skel og sandur sem tók bitið úr flatningshnífnum og óhreinkaði fiskinn. Var þetta kallað að pussa eða grúnsa. Flatningsmaður tók síðan við steinbítnum; lagði hann á vinstri hlið; lét sporðinn snúa að sér og risti framan frá gotrauf og aftur að sporði ofan á kviðugganum/gotraufarugganum. Hnífnum var þá snúið við og rist ofan á hryggnum/blóðdálkinum, fram í hnakka. Þvínæst var farið undir hrygginn um fjóra þumlunga frá sporði og rist með einu handtaki framúr. Loks var losað um hrygginn að aftan; honum lyft upp og tekinn burt. Urðu þá eftir nokkrir liðir næst sporði; markið. Síðast var gerður þverskurður í þunnildin/kisurnar/kerlingarnar til þess að losna við ýldu. Að lokinn flatningu var steinbíturinn kúlaður/stykkjaður, þ.e. gerðir þverskurðir í fiskinn með tveggja þumlunga millibili frá hnakka og aftur undir mark. Ekki mátti skera svo djúpt að að sæi í roðið og þaðan af síður roðskera. .. Eftir kúlun var steinbítnum fleygt í sjó ef hann hafði ekki verið nægilega skolaður áður.. Vatn mátti ekki nota því að þá var hætta á skemmdum...
Steinbíturinn var fluttur kúlaður á garða eða í hjalla. Þar var hann rifinn upp. Það gerðu þeir sem báru hann þangað, með því að taka í sína kerlinguna hvor og halda steinbítnum á lofti milli sín og láta fiskinn snúa að sér. Annar hafði hníf í hendi; spretti á roðinu við hnakkann og skar fimlega með oddinum niður eftir hryggnum út í roð og aftur að marki. Síðan var fiskurinn rifinn meðfram bakugganum og var þar með kominn í tvo helminga sem héngu saman á markinu/dyllunni/dyndlunni. Annar kallaðist meyjarhelmingur; og honum fylgdi gotraufarugginn/meyjarugginn, en hinum fylgdi bakugginn og markið; nefndist markhelmingur/graðhelmingur/dálkahelmingur. Ennfremur var talað um steinbítshelming eða aðeins helming... Yngsta aðferðin var að flaka hann og voru flökin þá kúluð eða skorin í tvö strengsli með bandshaldi.
Steinbítshausinn var klofinn/kjannaður/kollaður upp; ýmist með hníf eða exi og undir honum hafður hvalhryggjarliður ef til var. Haldið var með vinstri hendi undir neðri góm og hnakkabeinið klofið niður um miðju. Urðu þá til tveir jafnstórir kjannar. Einnig var hausinn klofinn að innanverðu við vinstra augað; hnakkabeinið skorið úr. Urðu þá kinnarnar eftir og héngu saman á granabeininu, en kjaftabeinið var áfast þeirri vinstri; allt kallað beinakjanni/beinakjammi.
Steinbítur var borðaður nýr og saltaður, en þó oftast harður... Þegar honum var sundrað í tvennt var tekið í hvorn helming og rifið um hnéð. Markið fylgdi þá dálkhelmingnum ásamt sporði og bekugga. Kroppað var úr hryggjarliðunum og þar í kring; kallað að vinna að markinu. Konum var ætlaður meyjarhelmingurinn. Þegar steinbítur var fleginn, þ.e. rifið af honum roðið svo það mætti nýta í skó, var kerling, ásamt kerlingarugga og kerlingarfiski rist af. Síðan var skorin smáfjöður uppi við sárið kviðarmegin í helmingnum og í broddi hennar fundin himna sem yrði laus við roðið en föst við fiskinn og héldi kúlunum saman. Hét það að taka uppundir. Ef það var ekki gert nægilega vel gekk illa að flá. Þegar kom afturundir gotraufina þótti vissara að skera þar fyrir, því að oft vildi rifna þar um. Hvorum roðhelmingi til skógerðar fylgdi kerlingin. Steinbítsmaginn/steinbítsbuddan/buddan/giddan/kýtan/lallinn/steinbítslallinn var oft hirtur; troðinn út með þorskalifur og soðinn. Þótti góður og matarmeiri en kútmagi, einkum í botninn. Efri hlutinn var kallaður gormur. Víða var steinbítsmaginn soðinn og látinn í súr.
Steinbítshausar voru þurrkaðir á grasi eða á grjóti væri vætusamt. Þeir voru oft látnir liggja í saltpækli áður en þeir voru breiddir til þerris, þar sem maðkur þreifst þá síður í þeim. Þegar hausinn var orðinn hálfþurr var kjaftbeinið stundum losað alveg frá; kallað að skera úr. Sæmilega harðir hausar voru bundnir saman; smáþætti var brugðið í gegnum auga á hvorum haus og hnýtt að. Við þá voru síðan aðrir tengdir á sama hátt, þar til komnir voru 8-10 í kippu, sem sett var yfir garð eða hrýgjuenda. Þar sem lítið var um steinbít voru hausarnir soðnir signir. Einnig þekktist að sjóða steinbítsþanir einungis til að sjúga beinið; sumir átu þær uppúr súr. Kinnfiskurinn/ kúldan/steinbítskúldan var víða rifin til átu úr hörðum hausnum. Dálítið var á reiki með kúlduheitið. Það gat átt við kinnbeinið ásamt fiskinum og einnig allan hausinn. Hryggirnir voru breiddir eins og hausarnir og þurrum staflað í hlaða. Öll voru þessi bein ásamt uggum ágætt skepnufóður“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum;GG; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh).
„Á Rauðasandi og Norður-Víkum og í Patreksfirði gefa menn kúm og lömbum fiskbein og ugga. Lifir peningurinn þar af nærri af helmingi á við heyið“ (Jarðabók ÁM/PV). „Á Vestfjörðum, einkum í Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslum, er graslendi og engjar víða fremur lítið, en hinsvegar er sjávarafli þar venjulega mikill, einkum.. af steinbít. Bændur herða af honum hausana ásamt dálkum og uggum. Þetta er síðan barið eða tilreitt á annan hátt.. og gefið skepnum. Kýr eru gráðugar í steinbítsbein og mjólka vel af þeim. Féð er einnig fóðrað með þeim... Þegar vel aflast, svo sjávarbændur hafa gnótt seinbíts en skorur er á heyi, er kúnum gefinn allur fiskurinn og þar sem slík fæða er bæði auðmeltari og meiri safi í henni en beinunum, mjólka kýrnar einnig betur af þessu fóðri“ (Eggert Ólafsson; Ferðabók).
„Eitt hundrað af steinbítshausum var metið til jafns við eina alin af heyi og eitt hundrað af hryggjum“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild GG). „Nokkuð fáum við af steinbít; hann er rotaður og slægður um leið og hann er tekinn inn“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Fyrrum var málvenja að einungis væri átt við þorsk þegar talað var um fisk: „Formenn þessir (í Láganúpsveri) og hásetar gefa í vertoll ½ vætt, og afhendist þar hálft í fiski; hálft í steinbít, og hefur þetta verið so í langan tíma“ (ÁM/PV Jarðabók). „Steinbítur á lóð var miklu horaðri og var hertur og notaður fyrir skepnur ef hann var mjög magur. Seinni hluta vertíðar; um messudagana, var kominn feitur steinbítur, kallaður „messudagasteinbítur“ . ... „Steinbítur þekktist ekki sem verslunarvara til kaupmanna, heldur eingöngu látinn til bænda sem ekki bjuggu við sjó. Verðið minnir mig að væri 20 aurar steinbíturinn. Margir komu í skreiðarferðir; t.d. man ég eftir sr. Guðmundi í Gufudal með stóra hestalest í skreiðarferð hingað“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Sú er sögn um sköpun steinbítsins að hann hafi orðið til úr hundum faraós þegar Egyptar eltu Móse og söfnuð hans um Rauðahafsbotn og drukknuðu þar.
Steinblindur (l) Áhersluorð; alveg blindur. „Þetta sér hver maður sem ekki er algerlega steinblindur“!
Steinbor (n, kk) Bor til að gera holu/gat í stein. Steinborar eru nú undantekningarlaust settir á höggborvélar, en fyrrum voru þeir sívöl ydd verkfæri úr hörðum málmi sem haldið var í hendi og slegið á með hamri.
Steinbrú (n, kvk) Brú úr bergi/steini. „á einum stað hefur brimið sorfið gat uppúr klettunum, svo gengt er á steinbrú fyrir framan það“ (HÖ; Fjaran).
Steinbrýni (n, hk) Brýni úr hörðum eða harðkornuðum steini en ekki steypt með stálsvarfi eins og síðari tíma brýni eru flest. „Uppi á sperru í mókofanum var slitið steinbrýni“. Efni í steinbrýni var oft gneiss eða dólerít.
Steindauður (l) A. Alveg dauður; ekki lífsmark. „Það er óþarfi að rota máfinn ef hann er steindauður“! B. Um veiðislóð; engin veiði. „Hér virðist vera alveg steindauður sjór“.
Steindepill (n, kk) Oenanthe oenanthe. Lítill spörfugl sem algengur er sem farfugl í Kollsvík sem um land allt. Annað nafn var steinklappa, og vísa heitin til sérkennilegs hljóðs fuglsins sem er líkast því að steinum sé smellt saman. Í sumarbúningi er karlfuglinn skrautlegur; blágrár á kolli hnakka og baki; svartur frá nefi aftur um augu og niður á vængjum, sem og aftast á stéli; mógulur á bringu og kverk en fölari að neðancerðu. Hvít rák er einnig ofanvið augu og hvítt á gumpi. Kvenfuglinn er hinsvegar móbrúnn á kolli, hnaka og baki, og á henni sést augnrák varla; litur á vængjum er mósvartu; kverk og bringa mó- eða fölgul; kviður ljósastur.. Nef beggja kynja er svart; sem og fætur og augu. Fuglinn er kvikur í hreyfingum; flýgur lágt; tyllir sér oft og hossar sér þá líflega. Vetursetu hefur fuglinn sunnan Sahara í Afríku og flýgur hann um 30 þúsund kílómetra til og frá varpstöðvunum á Íslandi. Fuglinn gerir sér gjarnan hreiður í holum og glufum í klettum, hleðslum og víðar. Hreiðurkarfan er nokkuð vönduð.
Steindepla (n, kvk) Veronica fruticans. Jurt af græðisúruætt, oft um 6-8 cm há. Fremur lágvaxin með áberandi dökkbláum ferblöðuðum blómum sem eru ljós í miðju, með tveim löngum fræflum. Blöðin eru oddbaugótt með stutum randhárum. Steindeplan vex í giljum, móum; á melum og í klettum. Nokkuð algeng í Kollsvík.
Steindofinn (l) Mjög dofinn; með litla sem öngva tilfinningu í t.d. hendi eða fæti. „Ég var alveg stendofinn í fætinum þegar ég stóð upp, en fékk fljótlega nístandi náladofa“.
Steindrangur (n, kk) Stakur hár klettur, oftast fremur mjór miðað við hæð. „Þarna undir Ytri-Hlíðunum eru tveir steindrangar sem nefnast Karl og Kerling“.
Steindrepa (s) Drepa alveg. „Þessi bjálfi uppi á brúninni reyndi að kasta grjóti til að hrekja féð af stað. Hann hefði getað steindrepið mig þarna í hlíðinni“!
Steindrepinn (l) Alveg deyddur; drepinn skyndilega. „Spánverjarnir voru allir steindrepnir og eru sagðir dysjaðir í Kúlureit á Brunnum“.
Steindrjóli (n, kk) Stór/illviðráðanlegur steinn. „Brynjólfstak er mikill steindrjóli; ílangur, kantaður og nær meðalmanni í brjósthæð“ (LK; Ísl.sjávarhættir IV).
Steindys (n, kvk) Leiði/kuml/dys úr hlöðnum steini. Þegar menn voru dysjaðir að fornum sið var oftast hlaðið að hinum látna með steinum en síðan orpinn haugur yfir.
Steinefni (n, hk) A. Efni í steintegund. B. Þau ólífrænu efni sem lífveru eru mikilvæg, t.d. málmar og sölt.
Steinefnablanda (n, kvk) Bætiefni í fóður fyrir búfé. „Það þarf að gefa steinefnablöndu með fiskimjölinu“.
Steinefnaskortur / Steinefnavöntun (n, kk/kvk) Skortur/vöntun á steinefnum. „Að lokum ræð ég flestum þeim til er gefa flóðhey; jafnvel þó vel verkist, að gefa með þeim steinefni; salt. Efnarannsókn hefir leitt í ljós einmitt steinefnavöntun í þessum heyjum“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Steinfall (n, hk) Grjóthrun. „Snjór og klaki í brúnum og á stöllum og aldrei meira klaka- og steinfall en nú í þíðunni“ (MG; Látrabjarg).
Steinflaga (n, kvk) Flaga/hella úr steini. Á oft fremur við um litla hellulaga steina, en stórir flatir steinar nefnast hellur. „Það getur verið ágætt að hafa steinflögur við hendina þegar hlaðið er“.
Steinflís (n, kvk) Lítill oddhvass steinn.
Steingarður (n, kk) Gjótgarður; grjóthlaðinn garður. „Steingarðar blasa hvarvetna við í Kollsvík“.
Steingálgi (n, kk) Þrífótur úr járni; notaður ásamt blökk/talíu til að lyfta stórgrýti. „Einar Guðbjartsson og bræður hans notuðu steingálga til að lagfæra vörina í Láganúpsfjöru“.
Steingeit (n, kvk) A. Geitartegund sem heldur sig gjarnan í klettum og fjöllum. B. Stjörnumerki (capricorn).
Steingeld (l) Um kind; alveg geld; án lambs; mjólkar ekki lambinu. „Mér sýnist að hún sé alveg steingeld. Það arf að venja lambið undir einhverja aðra eða gefa því heima“.
Steingervingur (n, kk) Lífvera eða hluti lífveru sem varðveist hefur um ármilljónir/árþúsindir vegna sérstakra geymsluskilyrða. Oftast er nfnið notað yfir lífveru sem umbreyst hefur eftir dauða sinn þannig að í stað lífræns vefs eru komnar steindir. Til að þetta geti gerst þarf skrokkurinn að verjast rotnun í nægilega langan tíma. Steingervingar finnast því oft þar sem t.d. skriða hefur fallið eða dýrin fallið í súrefnissnauðan pytt. Sumsstaðar hafa lífverur varðveist í ís um árþúsundir, t.d. mammútar, og eru einnig nefndir steingervingar. Einnig er heitið notað yfir mót sem lífvera skilur eftir sig í bergi. Steingerfingar finnast því víða í Kollsvíkur- og Láganúpslöndum; bæði þar sem holur eru í berglögum eftir viðarboli, s.s. í Vatnadalsbót og Grófarstekk; og þar sem hraun hefur runnið í brotsár trjáa, s.s. í Vatnadalsbót og Núp.
Seingildra (n, kvk) Steinhlaðin refagildra. Slíkar gildrur voru notaðar fyrrum, og ein slík varðveitist enn á Gildruhjalla í Seljadal á Hvallátrum.
Steingleyma (s) Gleyma alveg/gjörsamlega. „Þessu var ég nærri búinn að steingleyma“.
Steingleymast (s) Vleymast algerlega; verða algerlega útundan. „Það steingleymdist að loka hliðinu“.
Steingólf (n, hk) Gólf sem er lagt hellum/grjóti; steinstept gólf.
Steingrár (l) Líkur blágrýti að lit. Lýsingin er oft notuð um hesta en sjaldnar um kindur eða kýr.
Steinhella (n, kvk) Hella/flaga úr steini; grjóthella. „Sigríður á Láganúpi var frumherji í málun á steinhellur“.
Steinhissa / Steinhlessa (l) Hlessa; í forundran; gáttaður. „Maður er bara aleg steinhissa á þessari ufsagengd“.
Steinhlaða (s) Hlaða úr steini. „Þeir steinhlóðu allmikinn kamp aftanvið fjóshlöðuna á Melnum“
Steinhlaðinn (l) Hlaðinn úr grjóti. „Garðarnir eru steinhlaðnir með sjávarbökkunum, en torfhleðsla er í framhaldi þeirra neðan Brunnsbrekku“.
Steinhljóð (n, hk) Alger þögn; ekkert hljóð. „Eftir þessa skammarræðu var steinhljóð í salnum“.
Steinhljóður (l) Alveg þegjandi; þögull. „Hann sat steinhljóður og hlustaði á lesturinn“.
Steinhnullungur (n, kk) Oftast notað um stein sem er vel viðráðanlegur; allt frá kastgrjóti upp í steindrjóla.
Steinhús (n, hk) A. Hús hlaðið úr steinum; steinhlaðið hús. B. Í seinni tíð; hús úr steinsteypu.
Steini lostinn (orðtak) Mjög hissa; steinhissa; forviða. „Ég varð steini lostinn yfir þessum fréttum“. Líking við að fá stein í höfuðið, t.d. í bjargi eða í bardaga. „Forneskjunnar fargi létt og fjötur brostinn./ Stendur hann eins og steini lostinn“ (JR; Rósarímur).
Steinkast (n, hk) Hrun staksteina úr klettum/brattlendi. „Víða er varasamt undir bjarginu vegna steinkasts, einkum snemma á vorin og eftir miklar rigningar“.
Steinkol (n, hk, fto) Jarðlög sem mynduð eru við það að leifar ferskvatnsplantna lenda undir miklu fargi í jörð og myndbreytast fyrst í mó (60% kolefni); síðan í brúnkol (70%) en að lokum í steinkol (80%); svarta harða lífræna steintegund sem er hitagæf við íkveikju. Mest af steinkolaforða jarðar myndaðist á Kola-Perm tímabili í jarðsögunni; fyrir 345-225 milljónum ára. Steinkol finnast ekki á Íslandi, en voru á tímabili mikið flutt til landsins til kyndingar. Í Kollsvík voru kol um tíma notuð til hitunar vatns í stórum þvottapottum; fyrir daga dísilrafstöðva og rafvæðingar.
Steinkross (n, kk) Kross úr steini. Uppi eru vangaveltur um það hvort Kollur landnámsmaður, sem hingað kom í trúboðsleiðangur með kirkjuvið frá Suðureyjum, hafi byggt fyrstu kirkju landsins í Kollsvík; á undan þeirri sem Örlygur fóstbróðir hans byggði undir Esjuhlíðum. Hafi hann gert það, hefur hann líklega reist kirkjuna á lágum hól, steinsnar frá bæjarhólnum í Kollsvík; þar sem síðar stóð hin kaþólska hálfkirkju. Hann hefur þá líklega einnig reist keltneskan steinkross á Biskupsþúfu, sem er sjávarmegin og vestan kirkjuhólsins, enda var það siður í keltneskri kristni á þeim tíma. Vart hefur krossinn þó verið annað en rispur á steini, því ólíklegt er að mikið hafi bjargast af verkfærum úr strandinu á Arnarboða. Nafn Biskupsþúfu gæti því verið utaní Patrek biskup á Íona, þar sem Kollur nam kristin fræði, en ekki Guðmund góða biskup sem þar áði þremur öldum síðar; á leið sinni til vígslu Gvendarbrunns.
Steinlagður (l) Þakinn steinum sem raðað er saman. Fiskur var þurrkaður á steinlögðum reitum í Kollsvíkurveri, og má enn sjá marga þeirra.
Steinliggja (s) Liggja grafkyrr. Oftast notað um skepnu sem skotin er: „Ég lét fara á tófuna á löngu færi og hún steinlá í fyrsta skoti“.
Steinlóð (n, hk) Þyngdarklossi/lóð úr steini. Reislur voru margar með steinlóði, fyrr á tíð.
Steinn er stafns auki (orðatiltæki) Áminning um það að ráðlegt sé að hafa með sér stjórastein og fangalínu þegar haldið er á sjó, en hann var gjarnan hafður í stafni eða þar sem hann var minnst fyrir mönnum, afla og austri. Einnig var það ófrávíkjanleg regla, þegar vitjað var um net, að hafa aukasteina ef tapast hefðu netasteinar, miðmætingssteinar eða niðristöðusteinar.
Steinnef / Steinnibba / Steinkarta (n, kvk) Nef/horn á steini/kletti. „Passaðu að reka ekki eggjakassann utaní steinnibbuna þarna“! „Spottanum brá hann á litla steinkörtu sem virtist ekki mikið hald í“.
Steinolía (n, kvk) Eimuð hráolía. „Seinolía var mikið notuð fyrrum, í hinum margvíslegasta tilgangi. Fyrst og fremst var hún ljósmeti á olíulampa sem þá veru algengir, og á steinolíuluktir. Einnig þótti hún góð til að bera á ryðbletti á járni; sem hreinsiefni og smurefni; til að drepa lús og næra húðina og jafnvel til inntöku við hverskyns kvillum. Þá var tilveran mun einfaldari þegar eitt efni dugði við öllu, samanborið við óendanlegan fjölda eldsneytistegunda, ryðhreinsiefna; sleipiefna; meindýraeiturs; húðáburðar og lyfja í samtímanum“.
Steinolíubrúsi / Steinolíudunkur / Steinolíukútur (n, kk) Brúsi með/fyrir steinolíu.
Steinolíulampi (n, kk) Lampi til lýsingar og hitunar, sem brennir steinolíu. Þeir voru algengir á heimilum eftir að lýsislampar liðu undir lok og þar til rafmagn fór að gagnast. Helstu hlutar steinolíulampa eru byða; krans með stillanlegum kveik og lampagler. Steinolíulampar veittu góða birtu og allnokkurn hita. Enn eru varðveittir steinolíulampar á Láganúpi með byðum smíðuðum af þjóðhagasmiðnum Guðbjarti Guðbjartssyni á Lambavatni.
Steinolíulukt (n, kvk) Lukt til lýsingar. Helstu hlutar hennar eru þeir sömu og í steinolíulampa, en með nokkuð öðru lagi. Einnig var á henni handfang til að unnt væri að bera hana með sér. Önnur tegund lukta; gaslukt, var einnig kynt af steinolíu; en hún var nokkuð annarrar gerðar (sjá þar).
Steinrenna (s) Verða að steini. Samkvæmt þjóðtrúnni hættir nátttröllum til að steinrenna falli á þau dagsbirta og sólarljór. Því má víða sjá andlit þeirra og dranga í landslaginu, þar sem þau hafa mætt sínu skapadægri.
Steinrota / Steinrotast (s) Rota/rotast alveg; missa meðvitund af höggi. „Þú hefðir steinrotast, hefðirðu orðið fyrir þessu“.
Steinrotaður (l) A. Alveg rotaður/meðvitundarlaus, t.d. af höfuðhöggi. B. Í fastasvefni. „Ég sofnaði undir morgun og var steinrotaður framundir hádegið“.
Steinrunninn (l) A. Orðinn að steini. „Sagt er að drangurinn sé steinrunnið nátttröll“. B. Svo hissa/undrandi að maður stendur grafkyrr; gapandi hissa.
Steinsmuga (n, kvk) Ákafur og þunnur niðurgangur; skita; veggspýtingur; renniskítur. „Ég fékk heiftarlega steinsmugu eftir veisluna“. Orðið finnst ekki í orðabókum í þessari merkingu en var algengt í Útvíkum.
Steinsnar (n, hk) Örstutt vegalengd. Líking við þá vegalengd sem steini verður kastað. „Þetta er steinsnar frá“.
Steinsofa (s) Sofa mjög fast. „Hann steinsefur ennþá“.
Steinsofandi (l) Í fastasvefni; fastsofandi. „Hann vakti í alla nótt og er steinsofandi núna“.
Steinsofna (s) Sofna mjög fast. „Ég lagði mig aðeins, en ég held bara að ég hafi steinsofnað“.
Steinsótt (n, kvk) Veikindi sem stafa af myndun steina í líffærum. Oft notað fyrrum um gallsteinaveikindi.
Steinsteypa / Steinsteypt bygging (n, kvk/ orðtak) Blanda efna sem er þjál til hellingar í mót, en storknar og verður burðarmikil og endingargóð; mikið notuð til húsbygginga og annarra mannvirkja. Helstu innihaldsefni steinsteypu eru möl, sandur, vatn og sement, en oft er einnig blandað létttblendi o.fl. til að kalla fram æskilega eiginleika. Sementið hvarfast við vatnið á nokkrum klukkutímum og límir fylliefnin í harðan massa. Um leið verður nokkur hitamyndun. Rómverjar voru fyrstir til að nota steinsteypu, og ein elsta steynsteypta bygging heims er hið hvolfbyggða hof Pantheon í Róm; frá dögum Hadríanusar keisara; um 126 f.Kr. Fyrsta steinsteypta húsið á Íslandi mun hafa verið í Sveinatungu í Norðurárdal í Borgarfirði; byggt 1895. Áður höfðu hús verið byggð úr höggnum kalklímdum steini, s.s. Viðeyjarstofa, Alþingishúsið, Múrinn o.fl., en það er önnur saga. Fyrsta steynsteypta húsið í Rauðasandshreppi var íbúðarhús í Saurbæ; byggt 1907 af Finni Ó. Thorlacius sem þar ólst upp og varð síðan afkastamikill smiður og hönnuður. Það hús brann og er nú horfið. Finnur byggði einnig næsta steinsteypta húsið í hreppnum 1912, sem var íbúðarhús í Breiðavík og enn er hluti húsasamstæðu gistiheimilisins þar. Í Kollsvík, eins og víðar, var snemma byrjað að nota steinsteypu til fyllingar og límingar á grjóthlöðnum húsveggjum. Þannig var t.d. kjallarinn á húsinu í Tröð, sem Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir byggðu sér um 1911. Hinsvegar var steinsteyptur grunnur undir húsið sem þau, árið 1934, drógu neðan af Grundum að Láganúpi. Þar byggðu þau, með aðstoð sona sinna, steinsteypt skepnuhús og hlöður kringum 1940. Allnokkru fyrr, eða árið 1921, hafði verið byggt íbúðarhús í Kollsvík; veglegt og vandað að þeirra tíðar mælikvarða. Það þjónar enn sem íbúðarhús í Kollsvík, þó nokkrar endurbætur hafi verið gerðar á því. Enn fyrr reisti Milljónarfélagið (P.J. Thorsteinsson & Co) salthús í Kollsvíkurveri, en þar stundaði það veruleg saltfiskkaup. Líklega er það elsta steinsteypta byggingin í Kollsvík; sennilega byggt kringum 1910, en Milljónarfélagið starfaði milli 1907 og 1914. Má enn sjá leifar þess við Syðrilækinn í Verinu. Íbúðarhúsið á Láganúpi var byggt 1974; steinsteypt hús sem teiknað var og byggt af Gunnari Össurarsyni frá Láganúpi fyrir Össur Guðbjartsson og Sigríði Guðbjartsdóttur, bændur á Láganúpi.
Steinstopp (n, hk) Alveg kyrrt/stöðvað; allt stopp. „Vélin hökti nokkur púst í viðbót og var svo steinstopp“.
Steinstólpi (n, kk) Steinhlaðin undirstaða þurrkjalls (sjá þar).
Steintak (n, hk) Þungur steinn; steinn sem erfitt er að lyfta, sbr grettistak og steinatök.
Steintegund (n, kvk) A. Bergtegund; heiti ákveðinnar gerðar bergs. B. Frumsteind, annaðhvort í samsettu bergi eða sérstætt í völu/hnullungi.
Steintröll (n, hk) Nátttröll sem, samkvæmt þjóðtrú, hefur dagað uppi og er orðið að steini.
Steinuppgefinn (l) Mjög þreyttur; kúguppgefinn; að niðurlotum kominn. „Ég var steinuppgefinn eftir hlaupin“.
Steinþró (n, kvk) A. Þró/kista sem höggvin er út í stein. B. Steinsteypt þró, s.s. baðþró.
Steinvala (n, kvk) Lítill steinn; smásteinn.
Steinveggur (n, kk) A. Grjóthlaðinn veggur. B. Steinsteyptur veggur.
Steinþagna (s) Þagna alveg og skyndilega; verða klumsa. „Hann steinþagnaði við þessa ádrepu“.
Steinþegja (s) Þegja alveg; halda sér saman; þegja eins og steinn; grjóthalda kjafti. „Það vantar ekki aðfinnslurnar en svo steinþegir þessi grátkór þegar beðið er um lausnir“.
Stekkjarbrot / Stekkjarhleðsla / Stekkjarrúst / Stekkjartótt (n, hk/kvk) Rúst/leifar af stekk. „Sé um stekkjarrúst að ræða er hún mikið eldri en stekkjarústir sem eru mjög greinilegar á Hnífunum…“ (HÖ; Fjaran).
Stekkjarstaur (n, kk) Á síðari tímum hefur skapast hefð um að hann sé einn jólasveinanna, og komi fyrstur þeirra til byggða á jólaföstunni. Fyrrum voru þessar verur þó af allt öðru og misjöfnu sauðahúsi; flestir varasamar ókindur eða útilegufólk sem fólki stóð stuggur af á tímum hjátrúar og bókstafstrúar. Nafnið bendir til að stekkjarstaur hafi skapast sem ókind sem væri á flækingi kringum stekkinn; hugsanlegt er jafnvel að honum hafi verið kennt um ef vanhöld urðu á málnytjunni.
Stekkjartími (n, kk) Stekktíð; tíminn sem fráfærur standa yfir. „Í Ytri-Lambhaga (í Hnífunum) voru fráfærulömb geymd yfir stekkjartímann“ (HÖ; Fjaran).
Stekklamb (n, hk) Lamb sem fært er frá móður þegar ær eru mjólkaðar á stekk. Sumsstaðar mun hafa tíðkast að smalinn fengi stekklamb ef hann stóð sig vel um stekktíðina.
Stekktíð (n, kvk) Sá tími sem fráfærur stóðu fyrr á tíð, og ær voru mjólkaðar á stekk. Hófst 10. júní.
Stekkur (n, kk) Lítil fjárrétt þar sem kindur voru mjólkaðar meðan fráfærur voru stundaðar. Stekkur samanstendur af lítilli rétt, sem ær og lömb voru rekin inní og ærnar síðan mjólkaðar í; og minni lambakró við hliðina, sem lömbin voru sett í og höfð yfir nóttina. Hét það að stía. Fleirtölumynd orðsins var í seinni tíð „stekkir“ en hefur sennilega áður verið „stekkar“, samanber bæjarheitið Stekkadalur.
Fjölmagir stekkir eru í og við Kollsvík. Á Hnífum eru Grófarstekkur; Evararstekkur, Katrínarstekkur og Þúfustekkur. Grundir byggðust upp úr stekk, og e.t.v. Hólar einnig. Stekkjarmelur byggðist upp úr stekk og stekkur var á Stekkjarhjalla í Kollsvík. Líklegt er að stekkur hafi áður verið í Tröð og e.t.v. víðar í Kollsvíkurlandi.
„Fært var frá í júnímánuði. Fyrst var svonefnd stekktíð, en þá voru lömbin enn með mæðrum sínum en sett í lambakró á stekknum á kvöldin og höfð þar um nóttina en ærnar gengu lausar á meðan og voru svo mjólkaðar að morgni, áður en lömbunum var hleypt út. Þetta var líka kallað að stía lömbin og stóð yfirleitt í um tvær vikur (Wikipedia). „Stekkir hafa verið hér allmargir; flestir þó á Hnífunum. Þar eru, eins og áður var getið, lautir og bollar í brúninni og þar eru nafngreindir fjórir stekkir og sést vel fyrir hleðslum á þeim öllum. Hér næst er Þúfustekkur og er hann undir smá klöpp þar sem Brunnsbrekkan tekur við norður af Hnífunum og nær niður að sjó. Stuttan spöl þar fyrir utan er smálaut heimantil við Strengbergið sem er hæsta brúnin á Hnífunum. Þar er Eyvararstekkur, en utantil við Strengbergið er önnur svipuð laut með áþekkum smátóttum sem heitir Katrínarstekkur. Engin munnmæli eru til um við hvaða konur þessir stekkar eru kenndir en þeir eru mjög gamlir og mjög litlir. Sama má segja um fjórða stekkinn sem heitir Grófarstekkur. Hann er utar á Hnífunum upp af svonefndu Undirlendi í litlum djúpum bolla á brúninni. Hér í Víkinni voru mörg grasbýli þar sem fólk lifði á sjávarfangi og átti kannske örfáar kindur og líkur eru til að konurnar hafi haft þessar fáu ær í kvíum og stekkirnir verið nefndir eftir þeim enda eru þeir með ólíkindum litlir“ (SG; Rústir; Þjhd.Þjms). Sjá einnig fráfærur.
Stela senunni (orðtak) Taka athygli einhvers/áhorfenda frá öðru.
Stela öllu steini léttara / Stela öllu sem hönd á festir (orðtök) Um þjófnað; láta greipar sópa; stela öllu tiltæku. „Þeir segja að karlinn sé asskoti hvinnskur; að hann steli öllu sem hönd á festir“.
Stelast til (orðtak) Gera í óleyfi; laumast til að gera. „Ég stalst til að halla mér smástund á kirkjubekknum“.
Stelinn (l) Þjófóttur; hvinnskur. „Varaðu þig dálítið á honum; hann á það til að vera stelinn þegar færi gefst“.
Steliþjófur (n, kk) Gæluorð um þann sem stelur. „Ég gerðist steliþjófur og fékk hjá þér lúku af salti í gær“. Fyrrihlutinn er þarfleysa; líklega skeytt við til að milda síðari hlutann.
Stelksegg / Stelkshreiður (n, hk) Egg stelks eru jafnan fjögur; grænbrún brúndröfnótt og ydd í annan enda. Hreiðrið er í háum stráum á þurrum stað og karfan ekki vönduð að gerð.
Stelksgelt / Stelksgjamm / Stelksglamur (n, hk) Mikil og hávært hljóð í stelk. Eins og þeir vita sem reynt hafa er stelkurinn töluvert hávær fugl, ekki síst á varp- og ungatíma. Hans verður mjög vart þar sem varplönd eru nærri bæjum, t.d. á Láganúpi, og getur haldið vöku fyrir svefnstyggum. „Hann sagðist lítið hafa sofið fyrir þessu samfellda stelksglamri“. „Stelksgeltið gaf greinilega til kynna hvar kötturinn lá í leyni“.
Stelkur (n, kk) A. Tringa totanus. Vaðfugl af snípuætt sem algengur er um allt land. Um 28 cm langur; höfuð grábrúnt með liklum fíngerðum ljósum dílum sem fara stækkandi og verða rákir þegar kemur niður á háls. Kviður og bringa ljós með dökkum skellumen bak að mestu grábrúnt. Vængir ljósleitir; afturfjaðrir hvítaar; stél svart, en hvítt aftast á baki. Goggur svartur fremst; annars appelsínugulur eins og fæturnir. Kjörlendið eru mýrar og tjarnir. Stelkurinn er farfugl og algengur t.d. í Kollsvík að sumarlagi.
B. Snælda; Stoð undir þóftu í báti, sem á festast fiskifjalir.
Stell (n, hk, linur frb) A. Samstæður borðbúnaður í einum stíl. B. Burðargrind t.d. á bíl.
Stelling (n, kvk) A. Staða. „Þú situr illa að vaðnum í þessari stellingu“. Sjá setja sig í stellingar. B. Festing í botni báts fyrir masturshæl/neðri enda á siglutré. Gróp á sérstökum planka ofan á kilinum. „Áður en hægt væri að sigla þurfti að setja siglu í stellingu og hespa henni við þóftuna“.
Stelpa (n, kvk) Stúlka; telpa.
Stelpast (s) Lýsing sem Jón Hákonarson notaði um það eðli karlpenings að gera sér dælt við kvenfólk. Var almennt tekið upp í mælt mál í Rauðasandshreppi og víðar. „Ég veit ekki hvað satt er, en ég frétti að hann væri oft á nágrannabænum; eitthvað að stelpast. Hafðu það samt ekki eftir mér“.
Stelpugála / Stelpugopi / Stelpukind / Stelpunóra / Stelpuskessa / Stelpurófa / Stelpuskjáta / Stelpuskott / Stelputuðra / Stelputrippi (n, kvk/hk) Nokkur þeirra gæluorða um stelpu sem algeng voru. „Þá var farið að prjóna sokka á okkur börnin og sauma að minnsta kosti buxur á strákana og kjól á stelpuskessuna; sem var ég ein á tímabili“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). „Það er nokkuð erfitt að ætla að ná í mann;/ ég var uppgefin á líkama og sálu./ Á ferð minni um sveitina ég engan vinning vann./ Þeir vilja heldur unga stelpugálu“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Stelsýki (n, kvk) Árátta sem sumir eru haldnir og felst í því að hafa löngun til að stela, þó ekki sé af brýnni nauðsyn; það að vera stelvís/þjófóttur.
Stelvís (l) Þjófóttur; haldinn stelsýki.
Stemma (n, kvk) A. Stífla. B. Rímnalag; afbrigði/hluti rímnalags/kveðskapar. „Við fengum hann til að kveða fyrir okkur fáeinar stemmur“. C. Gæluheiti á viðrekstri/freti. „Hættu nú að kveða svona stemmur“!
Stemma (s) Stífla; hindra; stöðva.
Stemma stigu við/fyrir (orðtak) Hindra; stöðva. „Það verður að fara að stemma einhverja stigu við þessum fólksflótta“. Vísar til þess að setja hindrun á veg/stíg, en fyrri mynd orðsins „stígur“ var „stigur“.
Stemma við (orðtak) Passa við; vera í samræmi við. „Hans niðurstaða stemmdi við mína“.
Stemmandi (l) Stöðvar niðurgang/skitu; veldur harðlífi. „Lýsi er allra meina bót, en dálítið stemmandi“.
Stemmdur (l) Innstilltur á; í skapi til. „Hann getur sagt ansi skemmtilega frá, ef hann er þannig stemmdur“.
Stemning (n, kvk) Um andrúmsloft/viðhorf/samræmi í hópi. „Það var góð stemning í veislunni“.
Stendur/streymir á færi (orðtak) Um áhrif sjávarfalls á færi. „Það er líklega byrjað suðurfall hérna; mér sýnist standa öfugt á færið. Við gætum þurft að snúa bátnum“.
Stendur á hverju járni / hverjum krók / hverju snæri (orðtak) Um skakveiðar; fiskur á hverjum öngli á slóðanum. „Það er heldur viðkoma þetta; svei mér þá ef ekki stendur fiskur á hverju járni“. „Nú stendur bara á hverjum krók“! „Um tím stóf fiskur á hverju snæri, um leið og það kom í sjó“.
Stendur af hafi (orðtak) Um vindátt; álandsvindur. „Það kólnar í lofti þegar vindur stendur af hafi“.
Stendur á (orðtak) A. Almennt: Ástatt er; hittist á; mál standa. „Þú ert velkominn í kaffi þegar vel stendur á hjá þér“. B. Upprunaleg notkun: Staða á færi í sjó. Þegar legið er á skaki þykir standa vel á færið þegar það stendur annaðhvort beint niður, eins og gerist á fallaskiptum/snúningi, eða liggur lítillega frá því borði báts sem skakað er við; stendur frá. Sama er um net sem dregið er. Illa stendur á þegar færi liggur undir bát; þ.e. þegar liggur undir kjöl; rekur á færið/netið. „Nú þarf að snúa bátnum svo betur standi á“.
Stendur á gömlum merg (orðtak) Byggir á því sem fornt/gamalt er; byggist á gömlum siðum/hefðum. „Búskapur í Kollsvík hvílir á gömlum merg“.
Stendur á hverju járni (orðtak) Um góða veiði; ólmur fiskur; fiskur hleypur á krók um leið og honum er rennt í sjó; fiskur er á hverjum krók slóðans þegar upp er dregið.
Stendur á sjó (orðtak) Um sjávarstöðu; sjávaður. Haga þarf sjóferðum í Kollsvík eftir því hvernig stendur á sjó; hvort flæði er eða fjara. „Það stendur á útfalli, og er nokkrum hluta farmsins hlaðið í Fönix við sandinn“ (KJK; Kollsvíkurver). „Eftir að fiskur gekk á grunnmið; lóðamiðin; „sandinn“ eins og það var kallað í Kollsvík, var venja að róa eftir því sem stóð á flóði eða fjöru, og aldrei öðruvísi“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Stendur á straum (orðtak) Um stefnu/styrk sjávarfalls á tilteknum tíma. „Hvernig heldurðu að standi á straum núna“? Við róðra í Kollsvík var mikilvægt að hafa í huga hvernig stæði á straum þegar lagt var frá landi, enda er veiði mjög háð sjávarföllum. Oftast er fiskur mun tregari yfir harðasta fallið, einkum ef stórstreymt er, en gefur sig fremur til um snúninginn. Þá skiptir fallið máli varðandi drátt og lögn á línu og netum.
Stendur (allt) eins og stafur á bók (orðtak) Um það sem hægt er að treysta fullkomlega. „Hafi hann lofað einhverju þá stendur það eins og stafur á bók; því máttu treysta“.
Stendur ekki steinn yfir steini (orðtak) Allt jafnað við jörðu; allt í kaldakoli. „Þeir eru búnir að vinna svoleiðis að málefnum dreifbýlisins að þar stendur ekki steinn yfir steini“.
Stendur ekki/varla útúr hnefa (orðtak) Er agnarsmár/örlítill. „Merkilegt hvað þessi lambkægill getur hlaupið; sem stendur varla útúr hnefa“!
Stendur eins og stafur á bók (orðtak) Fer eins og lofað er; er áreiðanlegt. „Það má treysta því sem hann segir; það stendur eins og stafur á bók“. Vísar til þess að prentuðu máli verður ekki breytt.
Stendur frá (orðtak) Um færi á skakveiðum; stendur í átt frá bát og fiskimanni. Þykir fiskilegt ef það er í hófi, en ekki ef færið glæjar/ stendur á glæ þ.e. liggur svo skáhallt frá að sakkan nær vart botni.
Stendur heima (orðtak) Stemmir; passar; kemur heim og saman. „Var hún einhyrnd og kviðslitin segir þú? Það stendur heima; þetta er kindin sem við urðum að skilja eftir í síðustu smölun“. „Það stóð heima að hann var ferðbúinn á hlaðinu þegar ég mætti, svo við gátum strax lagt á fjallið“.
Stendur (illa/vel) í bólið/bælið hjá (einhverjum) (orðtak) Um dagfar/skap manneskju. „Hún getur verið fjandi illskeytt ef þannig stendur í bólið hennar, þó venjulega sé hún viðmótsþýð“.
Stendur í járnum (orðtak) Er rétt nægilegt/hæfilegt. „Mér sýnist að það hérumbil standi í járnum að saltið dugi á þennan afla“. Vísar líklega til vogar, þegar mundangina ber við lóðrétta uppistöðu kvarðans.
Stendur illa á færi / Stendur undir / Stendur undir bát / Stendur undir kjöl (orðtak) Um færi á skakveiðum; færið utan borðstokksinns dregst með byrðingnum; vísar í áttina undir bátinn. Það þykir ekki fiskilegt; færi á að vísa niður, eða aðeins frá bátnum. Sjá stendur á.
Stendur í valdi (einhvers) (orðtak) Er á færi einhvers; er einhverjum megnugt. „Það stendur ekki í mínu valdi að gera neitt í þessum málum“.
Stendur niður (orðtak) Um færi á skakveiðum; stendur niður í sjó í litlu sem engu reki. Sjá stendur á.
Stendur til (orðtak) Er fyrirhugað/ætlað; er framundan að gera. „Nú stendur víst til að leggja þangað veg“.
Stendur til bóta (orðtak) Mun lagast; verður lagfært/bætt. „Ekki er ástandið gott, en vonandi stendur það til bóta“. Mikið notað orðtak; hluti af speki Snorra Eddu; flest frumsmíð stendur til bóta.
Sterínkerti (n, hk) Kerti úr steríni; vaxkerti. „Mikill munur var þegar sterínkerti leystu tólgarkerti af hólmi“.
Sterkbyggður (l) Vel byggður/gerður og úr sterku efni.
Sterkefnaður (l) Verulega fjáður/ríkur; kemst vel af. „Hann er víst sterkefnaður karlinn“.
Sterkja (n, kvk) A. Það sem er sterkt/beiskt/rammt o.fl B. Efni til að gera lín stífara; stífelsi. C. Mjölvi; helsta tegund fjölsykra/kolvetna. Orkugjafi sem finnst t.d. í kartöflum og öllum korntegundum.
Sterkjubragð / Sterkjukeimur (n, hk/kk) Sterkt/rammt/beiskt bragð. „Eitthvað sterkjubragð er af þessu sem ég kann ekki að meta“.
Sterkjufnykur / Sterkjufýla / Sterkjupest (n, kk/kvk) Sterk/beisk/römm lykt. „Af hverjum ósómanum er þessi andskotans sterkjupest“?
Sterkjusólskin (n, hk) Sterkt sólskin með miklum hita. Einnig; sterkjuhiti.
Sterklega (ao) Fastlega; af þunga. „Ég býst sterklega við að verkið klárist í dag“.
Sterklegur (l) Sem virðist sterkur/sterkbyggður; þrekinn; sterklega vaxinn.
Sterkraddaður (l) Með sterka/háa rödd. „Það vill til að hann er sæmilega sterkraddaður, svo við gátum greint orðaskil í gegnum brimgnýinn“.
Sterkur (l) A. Um mann/skepnu sem hefur mikla krafta/ mikið vöðvaafl. „Brynjólfur var sterkari en hans samtíðarmenn. Til vitnis um það er steintak mikið í Brunnaverstöð; 281 kg að þyngd; við hann kennt. Brynjólfur er sagður hafa haldið á hellu þeirri neðanúr fjöru, eitt sinn er hann kom úr róðri. Taldi gott að eiga hana tiltæka í búðarhleðslur“. B. Um hluti og lífverur sem hafa mikið þol/viðnám gegn álagi/sliti/áfalli. „Heldurðu að staurinn sé nógu sterkur í brúarbita“? C. Um blöndu efna. „Nú þykir mér kaffið nokkuð sterkt“.
Sterkur á svellinu (orðtak) Harður af sér; einarður; getumikill. „Ég er ekki sérlega sterkur á svellinu í þessu hrognamáli“. Líkingin vísar e.t.v. til þess að þola að detta á svelli, en gæti einnig átt við glímu á svelli.
Sterkviðri (n, hk) Mikið rok; mjög hvass vindur, sem tekur í. „Það voru átök að berjast á móti þessu sterkviðri“.
Stertstýfa (s) Klippa neðanaf stert/tagli á hrossi.
Stertstýfður (l) Um hest; búið að klippa neðanaf tagli. Stundum í líkingamáli/háði um manneskju.
Stertur (n, kk) A. Tagl á hesti; afturendi á hesti. B. Líkingamál um afturenda/rasskinnar á manneskju. „Lyftu stertinum meðan ég ryksuga sófann“. C. Gæluheiti á reykjarpípu. „Hvar hef ég nú lagt stertinn minn og tóbakið“? „Karlinn sat um stund þegjandi og tottaði pípustertinn“.
Steypa (n, kvk) A. Stytting úr steinsteypa (sjá þar). „Það þarf allnokkuð af steypu í þetta“. B. Verkið að steypa. „Við þurfum að fá fleiri með okkur í steypuna“. C. Líkingamál um bull/munnræpu/þvælu/ innihaldslaust þvaður. „Láttu ekki nokkurn mann heyra þessa steypu“!
Steypa (s) A. Hrinda; velta; ýta um koll. B. Stökkva. „Farðu varlega að lambinu í ganginum, svo það steypi sér ekki framaf“. C. Gera/forma/móta úr steinsteypu eða öðru efni sem harðnar. „Salthús Milljónarfélagsins í Verinu var líklega fyrsta steypta húsið í Kollsvík“.
Steypa af stalli/stóli (orðtak) Velta úr sessi; koma frá völdum; lækka í tign/virðingu.
Steypa fram af sér (orðtak) Um hest; steypa böggum, knapa eða flutningi framfyrir sig. „Eitt sinn minnist ég þess að hafa séð hest; Stroku sem Helgi í Tröð átti, láta sig falla á hné, neðst í Kolsvíkurbrekkunni og steypa klyfjum og reiðingi fram af sér“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Steypa stömpum (orðtak) A. Um bát; hníga og hefjast mikið í sjó; stampast. „Skipið steypti stöfnum svo gaf yfir það aftur á skut“. B. Leikur sem felst í því að taka undir hnésbætur sér með báðum höndum og steypa sér kollhnís. Orðtakið er líking við það að hella úr stampi/tunnu.
Steypa undan (orðtak) Um fuglshreiður; eyðileggja varp. „Sumir vilja steypa undan hrafninum, en aðrir vilja meina að það geri hann aðeins grimmari við lömb og máttfarnar kindur“.
Steypast á höfuðið/hausinn (orðtak) Detta; hrasa. „Hann steyptist á hausinn í urðinni“.
Steypast úr loftinu (orðtak) Rigna mjög mikið; hellirigna. „Það steypist enn úr loftinu; það er ekkert linunarmót á þessu“.
Steypibað (n, hk) Mikið vatn sem hellist á stuttum tíma yfir. „Ég fékk heldur steypibaðið í dembunni“!
Steypiflóð / Steypiregn (n, hk) Hellirigning; skýfall. „Þetta bara steypiflóð; mikið déskoti getur hann rignt“! „Við bíðum aðeins og sjáum hvort ekki dregur úr þessu steypiregni“.
Steypifoss (n, kk) Mikill foss. „Ekki eru það nú leysingarnar; bara stórár og steypifossar útum allt“!
Steyptur í sama mót (orðtak) Líkur; nærri eins. „Mér sýnist að strákurinn sé steyptur í sama mót og pabbinn; segir ekki meira en hann getur staðið við“.
Steypubali / Steypubörur / Steypufata / Steypuhjólbörur / Steypukassi / Steypureka / Steypurenna / Steypuskófla (n, kk/kvk) Ílát og áhöld sem notuð eru við steypuvinnu. Algengara var að tala um reku en skóflu í Kollsvík.
Steypudagur (n, kk) Dagur sem steypt er. „Venja var í Rauðasandshreppi að menn hjálpuðust að þegar sérstaklega mannfrekt verkefni stóð yfir, svo sem við uppsteypu og járnun húsa. Var það yfirleitt unnið í sjálfboðavinnu, þannig að greiði kom í greiða stað. Steypudagur gat því orðið dagur mikilla mannfunda“.
Steypuefni (n, hk) Efni til steinsteypu. „Við þurfum að viða að okkur steypuefni á morgun“.
Steypugalli (n, kk) Hlífðarfatnaður manns við steinsteypu.
Steypuhræra / Steypulögun (n, kvk) Hræringur af steinsteypu. „Fyrir daga rafmagns og véla var steypa hrærð í höndum. Valið var gott undirlag, t.d. slétt hella eða járn. Á Láganúpi var löngum til stór járnplata til þessara nota. Tveir hrærðu; hvor á móti öðrum, gjarnan með sementsrekum. Skeljasandi og möl var fyrst hrært saman í réttum hlutföllum; síðan sett sement útí og að lokum hæfilega af vatni. Síðan hrærðu menn; ráku skóflurnar í haginn til skiptis; mokuðu hrærunni til hliðar á annan veginn og svo á hinn, þar til hæfilega var hrært og unnt að koma steypunni í mótið með fötu eða hjólbörum. Ólafur Guðbjartsson í Kollsvík átti stóra steyputunnu, sem í var hrært á þann hátt að draga af henni band með hestum eða mannafli. Síðar komu bensíndrifnar hrærivélar; traktorsdrifnar og rafdrifnar“.
Steypujárn / Steypt járn (n, hk/ orðtak) Pottjárn; járn með miklu kolefnisinnihaldi, sem formað er með steypu í mót, en ekki með því að slá það til eða beygja. Steypujárn er stökkt og erfitt að beygja það og sjóða.
Steypumót (n, hk, oftast fto) Mót sem steypu er hellt í, þar sem hún harðnar og formast.
Steypumöl (n, kvk) Grjótmulningur/möl sem hentar í steinsteypu. Gæði hennar fara eftir kornastærð, hreinleika og hörku. Steypumöl hefur ekki fundist í miklu magni í Kollsvík, en sennilega er gnægð af henni í Breiðsholti.
Steypusandur (n, kk) Sandur til fyllingar í steypu. Í Kollsvík er notaður skeljasandur með góðum árangri; enda nóg af honum.
Steypuskil (n, hk, fto) Skil í steyptu efni, þar sem t.d. fyrri steypa hefur náð að harðna áður en sú næsta batt sig við hana. Steypuskil eru illa séð í steinsteyptum veggjum, þar sem þar vill veggurinn leka eða skemmast.
Steypustyrktarjárn / Steypustyrktarstál / Steyputeinn/ Steypuvír / Mótavír (n, hk/kk) Stálteinar sem settir eru í steinsteypu til að styrkja hana og vír til að halda mótum saman.
Steypuvinna (n, kvk) Vinna við steypu/steinsteypu.
Steyta (s) A. Mylja; mola; mala. B. Rekast á/saman. Mestmegnis notað í orðasamböndum í seinni tíð.
Steyta á skeri (orðtak) Stranda á skeri. Oftast notað í líkingamáli; bera upp á sker; lenda í vandræðum.
Steyta golu/kalda/vind (orðtök) Vinda; auka vind/golu/kalda; kula. „Hann er farinn að steyta dálítinn vind hérna suðurá sýnist mér“.
Steyta görn (orðtak) A. Upprunaleg merking: „Væri fiskur dreginn af miklu dýpi var endaþarmurinn stundum úti sökum þrýstings; þá steytti hann görn“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Þótti það góður fyrirboði um afla þann daginn. B. Afleidd merking: Rífa kjaft; rífast. „Hvað ert þú að steyta görn, arminginn þinn“! (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). Síðari merkingin var almennt notuð í Rauðasandshreppi á síðari tímum en hin fyrri ekki.
Steyta hnefann (orðtak) Kreppa hnefann og ógna einhverjum með honum.
Steyta kjaft / Steyta sig / Steyta túlann (orðtak) Rífa kjaft; bregðast ókvæða við; rífast. „Hvað er þessi rýringur að steyta kjaft?! Ég held honum væri hollara að halda sig á mottunni“!
Steyta vömbina (orðtak) Þenja vömbina; borða í óhófi; morða mikið.
Steytingsgjóla / Steytingskaldi / Steytingur/ Steytingsskítur / Steytingsvindur / Steytingur (n, kvk/kk) All hvass vindur. Steytingur og steytingsskítur getur líka verið töluverður veltingur/ruglandi á sjó. „Það var kominn steytingskaldi, svo við drógum bara upp“. „Við vengum steytingsskít fyrir Blakkinn“.
Steytingshvass (l) Allhvass vindur. Virðist óþekkt utan Kollsvíkur. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Stél (n, hk) A. Aftasti hluti fugls, sem myndaður er af löngum stífum fjöðrum og notaður m.a. til stjórnunar á flugi. B. Lóðréttur stýrivængur á afturhluta flugvélar.
Stélfjöður (n, kvk) Fjöður í/úr stéli fugls.
Stélstuttur (l) Um fugl; með stutt stél.
Stétt (n, kvk) A. Hlað, t.d. framanvið bæ, úr föstu efni; t.d. steinlagt eða steypt. „Hann fór út á stétt til a taka á móti gestunum“. B. Hópur manna sem býr við svipuð kjör, einkum varðandi atvinnu, laun eða þjóðfélagsstöðu. „Össur á Láganúpi vann löngum að hagsmunamálum bændastéttarinnar“.
Stéttarfélag / Stéttarsamband (n, hk) Félagsskapur stéttar, sem berst fyrir hagsmunamálum hennar. „Össur var lengi fulltrúi síns héraðs í Stéttarsambandi bænda“.
Stifta (s) Skikka; skipa; skipuleggja. Mikið notað fyrrum, en heyrist vart í dag.
Stiftamtmaður (n, kk) Embættismaður; æðsti fulltrúi konungsvaldsins hérlendis frá 1684 til 1872. Var jafnan búsettur í Danmörku til 1770. Stiftamtmaður þáði föst laun en hafði landið ekki á leigu, líkt og hirðstjórar. Vald stiftamtmanna var m.a. á sviði kirkjumála, skólamála og dómsmála, en var þó aldrei eins mikið og vald landshöfðingja síðar.
Stifti (n, hk) Gamalt orð yfir biskupsdæmi.
Stig (n, hk) A. Skref almennt; það sem stigið er. B. Mælieining, t.d. hitastig. Til forna var stig lengdarmálseining og jafngilti hálfum faðmi eða 4 fetum. C. Stéttarstaða í þjóðfélagi fyrrum. „Hann var af lágum stigum“. D. Eyrnamark sauðfjár. Gert í hlið eyra líkt og biti, en þannig að neðri skurðurinn er láréttur en sá efri hallandi. E. Mynd í beygingu lýsingarorða, frumstig-miðstig-efstastig. F. Haft/þrep í stiga.
Stigagat / Stigaop (n, hk) Loftgat; op milli hæða í húsi, sem stigi liggur að. „En ég hafði ekki áhuga og fór ekki nema upp í stigagatið og lét hlerann hvíla á mér og fór ekki lengra, þrátt fyrir fortölur“ (IG; Æskuminningar).
Stigahaft / Stigaþrep (n, hk) Haft/þrep í stiga. „Gamla konan fékk veður af gestinum ... settist á loftskörina með fætur í efsta stigahaftinu og ræddi málin við pabba“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Stigakjálki (n, kk) Hlið/uppistaða stiga.
Stigamaður (n, kk) Ræningi. Nær einungis notað í sögum og ævintýrum. Myndbreyting hefur orðið, þannig að í stað „í“ er komið „i“. Orðið er í raun „stígamaður“; þ.e. sá sem heldur til á stígum og rænir vegfarendur. Breytingin sést í orðtökum, s.s. að vera „á refilstigum“ og „stemma stigu við“.
Stigaslá (n, kvk) Loftskör; brún stigagats. Oftast stytt í „slá“. „Ég setti skólatöskuna þína upp á slána“.
Stigfjöl (n, kvk) Fjöl á hverfisteini, rokk eða öðru tæki, sem stigið var á til að knýja hann áfram.
Stigi (n, kk) A. Gangvegur með tröppum/þrepum. B. Það sem hækkar í þrepum, s.s. tónstigi.
Stigsmunur (n, kk) Greinilegur/mælanlegur/verulegur munur.
Stika (n, kvk) A. Mjór staur; prik. B. Mæliprik; mælistika. Um tvær gerðir getur verið að ræða. Annarsvegar kvarða; prik með mælikvarða sem notað er til þess t.d. að mæla álnavöru í verslun. Afbrigði hennar er reglustika. Hinsvegar tvífætt stika sem gengið er með til að mæla vegalengd t.d. í metrum. Sjá stikulög. C. Lengdarmálseining sem fyrrum var í notkun. Ein stika jafngilti einni alin.
Stika (s) A. Mæla með stiku eða skrefum; skrefa. B. Reka niður stikur. C. Ganga hröðum/stórum skrefum.
Stika stóran (orðtak) Ganga í stórum skrefum; flýta sér. „Hann hraðaði sér þeim til aðstoðar og stikaði stóran“. Líklega er þetta orðtak stytting á einhverju eldra, en ekki er vitað hvaða orð hefur fallið aftanaf. Í seinni tíð hefur heyrst orðtakið „stika stórt“, en það var ekki í máli Kollsvíkinga, a.m.k. ekki eftir miðja 19. öld.
Stika út (orðtak) A. Mæla lengd/svæði með stiku. B. Mæla svæði og afmarka það með stikum.
Stikkfrí (l) A. Um leiki: Í eltingaleik og fleiri leikjum getur þáttakandi lýst sig „stikkfrí“, sem merkir að hann tekur sér frí úr leiknum; er ósnertanlegur. B. Vera laus allra mála; laus við vandræði. „Halda þessir háu herrar að þeir geti verið stikkfrí frá öllum vandamálum sem þeir efndu til á síðasta kjörtímabili“?
Stikkófær (l) Algjörlega ófær. „Það verður ekkert farið yfir Hálsinn í dag; hann er stikkófær“.
Stikkpilla (n, kvk) Lyf í töfluformi sem stungið er í endaþarm.
Stikla (n, kvk) A. Stöng sem staðið er á, til að geta tekið stærri skref of/eða sýnast hávaxnari en maður er; kallast að standa á stiklum. B. Steinn í á sem hoppað er á til að fara þurrum fótum yfir; stiklusteinn. C. Bútur úr frásögn/myndasýningu eða öðru.
Stikla (s) Stökkva/hoppa t.d. framhjá hindrunum.
Stikla á stóru (orðtak) Um frásögn; segja ekki nákvæmlega frá smáatriðum; fara fljótt yfir sögu.
Stiklusteinn (n, kk) A. Steinn sem stkilað er á, til að komast yfir illfæru, t.d. læk, á eða mýri. B. Steinn í urð eða grófu fjörugrjóti sem stokkið er á til að komast leiðar sinna r á göngu. „Stiklusteinunum í Ánni hefur skolað til í vatnavöxtunum“.
Stikna (s) Steikjast; verða mjög heitt; hitna vegna álags eða veðurs. „Það var svo heitt niðri í bjarginu í hádegissólinni, að við vorum alveg að stikna“!
Stikta .... Ókunn merking ...... E.t.v. sama og að skikka til, þ.e. skylda til; gera skyldugan til. (S.G. telur það merkja að staulast) (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Stikulög (n, hk, fto) Lög sem sett voru um árið 1200 að tilhlutan Páls biskups Jónssonar, til að koma betra samræmi á lengdarmál og vog. Mæltist Páll til að notuð yrði stika sem væri tvær álnir (sjá alin). Með stikulögum var í Grágásarlögum kveðið á um að mæla skyldi „vaðmál og léreft og klæði öll með stikum þeim sem tíu saman séu jafnlangar kvarða þeim sem merktur er á kirkjuvegg á Þingvelli, og skal leggja þumalfingur fyrir hverja stiku“. Forníslensk alin er talin hafa verið 49,2 cm.
Stilkur (n, kk) Leggur. Einkum notað um legg á jurt, s.s. blómstilkur.
Stillur (n, kvk, fto) A. Sjólaust og góðviðri yfir langan tíma; ládeyða. „Fyrir framan er endalaust úthafið oftast nær ókyrrt, nema á einstöku stilludögum“ (FÓT; Smiður í fjórum löndum). B. Smásteinar sem notaðir eru í vegghleðslu til að fylla upp í og rétta af. C. Stiklur; steinar sem standa uppúr ám og lækjum og henta til að stikla yfir, þurrum fótum. „Þægilegt er að komast yfir Ána á stillunum neðan við Vaðið“.
Stilla (s) A. Gera hæfilegt/rétt; skammta. „Það þyrfti að stilla klukkuna“. B. Um veður/sjólag; lægja; lagast. „Hann hefur nú eitthvað stillt þetta síðan í gær“. C. Stökkva á milli steina til að komast þurrum fótum yfir á. „...neðan við brotið eru Skógarstillur. Er hægt að stilla þar eins og á Klöppunum...“ (ÍH; Örn.skrá Melaness).
Stilla/stikla á steinum (orðtök) Stökkva af einum steini á annan, t.d. til að komast yfir á/læk. „Neðar í Ánni var hægt að stilla á steinum og komast þannig yfir“.
Stilla (einhverju) í hóf (orðtak) Fara varlega að einhverju; gera í hófi. „Samþykkt var að kosta byggingu slíks skýlis (við Rauðasandsrétt). Kostnaði skyldi stillt mjög í hóf…“ (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 22.03.1961; ritari ÖG).
Stilla sig um (orðtak) Halda aftur af sér; hafa stjórn á sér. „Ég stillti mig um að segja það sem mér datt í hug“.
Stilla skap sitt (orðtak) Hemja reiði sína; halda yfirvegun þrátt fyrir hugaræsing.
Stilla til friðar (orðtak) Koma friði á; róa þá sem hafa uppi ófrið. „Honum gekk fremur erfiðlega að stilla til friðar milli nágrannanna“.
Stilla undir fall (orðtak) Haga sjósókn þannig að komið sé að landi þegar hæfilega er fallið að/út; stilla sjósókn þannig að komið sé á miðin rétt fyrir fallaskipti/snúning, en þá er veiðilegast.
Stilla (einhverjum) upp við vegg (orðtak) Gera einhverjum úrslitakosti; neyða einhvern til að láta að sínum vilja. „Bændum var bara stillt upp við vegg; annaðhvort að byggja ný fjós eða hætta búskap“.
Stillans (n, kk, linur frb) Vinnupallur sem staðið er á til að auðvelda vinnu hátt uppi, t.d. við húsbyggingu.
Stilli (n, kvk) Rólegheit; yfirvegun; stilling. „Við skulum nú reyna að halda stilli okkar“!
Stillilega (ao) Af stillingu; með rósemd/yfirvegun.
Stillilogn (n, hk) Algjört logn. „Er siglt hafði verið nokkra stund til lands að lokinni velheppnaðri legu gerði stillilogn. Var þá sest undir árar og róið uppundir Látrabjarg“. (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi)
Stillilogn (n, hk) Stilla; algert hæglæti. „Það er einhvernvegin hægt að róa í svona stillilogni“!
Stilling (n, kvk) A. Sjálfsstjórn; rósemi; yfirvegun. „Hann tók þessu af mikilli stillingu“. B. Það að stilla eitthvað; búnaður til að stilla; stig stillingar.
Stillt veður (orðtak) Hæglæti. „Þessi flutningur fór fram fyrri hluta sumars og var valið stillt og gott veður “ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG). „Nú var svo stillt í sjóinn að hægt var að lenda þar“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Stilltur (l) A. Þægur; rólegur; yfirvegaður. „Þið verðið að sitja stilltir í kirkjunni strákar“! B. Búið að stilla.
Stilludagur / Stillutíð (n, kk/kvk) Dagur/tímabil með stillum/ládeyðu. „Við verðum að nýta vel þessa stillutíð til róðra; það er hæpið að geyma sér sjóveður“!
Stillur (n, kvk, fto) A. Stillur til hafsins. „Hvað skyldu þessar stillur standa legni“? „Ef vel gaf var róið fram undir veturnætur. Mér finnst að frekar hafi verið stillur á haustin áður fyrr “ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). B. Stiklur; steinar í á, sem unnt er að stikla/stökkva á til að komast þurrum fótum yfir. „Fyrsti farartálminn var Torfalækurinn, en það voru stillur í honum svo það var gott að komast yfir hann. ... Nokkru fyrir norðan Miðlækinn var Áin. Í henni voru líka stillur; tveir stórir steinar sem hægt var að stökkva á“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Stillur til hafsins (orðtak) Kyrr/sléttur sjór; sjóleysa. „Þetta eru einstakar stillur til hafsins, dag eftir dag“.
Stimamjúkur (l) Mjúkmáll; kurteis á yfirborði; snúningalipur. „Ætli maður verði ekki að vera dálítið stimamjúkur við þessa háu herra“. Ekki er vel ljóst hver stofn forliðarins er, en getum hefur verið leitt að því að hann eigi skilt við að stimpa/stimpast, og að orðið hafi áður verið notað í tengslum við glímu.
Stimpast (s) Ólmast; veita mótspyrnu; láta illa/ófriðlega. „Við þurfum að vera tveir með nautið ef það fer eitthvað að stimpast“.
Stimpast á (orðtak) Tuskast; fljúgast á án verulegrar hörku. „Hættið nú að stimpast svona strákar“!
Stimpast við (orðtak) A. Streytast á móti; spyrna við fótum. „Ætli maður reyni nú ekki eitthvað að stimpast við ef þeir ætla að fara svona með félagsmenn“! B. Slást við; ólmast við. „Ég nenni ekki að stimpast meira við karlfauskinn; annaðhvort vill hann þetta eða ekki“!
Stimpill (n, kk) A. Áhald til að stimpla með; áhald með upphleyptu letri eða myndum sem vætt er bleki og þrýst á blað eða annað t.d. til merkingar. B. Í vél; bulla sem hreyfist í sprengihreyfli.
Stimpingar (n, kvk, fto) Átök; létt áflog; bras; vesen. „Vertu nú ekki að þessum stimpingum við nautið“!
Stinga (s) Reka í, t.d. eitthvað oddhvasst s.s. nál, reku, hníf í það sem linara er.
Stinga (einhverju) að (einhverjum) (orðtak) A. Rétta einhverjum eitthvað, t.d. sem gjöf. Hann stakk hundraðkalli að mér um leið og hann kvaddi“. B. Segja einhverjum frá einhverju.
Stinga af (orðtak) Yfirgefa; fara/laumast frá. „Ég er hræddur um að sú gráa hafi stungið af með sína gimbur. Hún ætlar líklega að forða henni frá slátrun eins og þeirri síðustu“.
Stinga á (orðtak) A. Stinga hnífi í eitthvað til að hleypa úr því. „Mundu eftir að stinga á kýrvömbinni áður en þú mokar yfir kösina“. B. Nefna eigendur að köstum þegar skipt er aflahlutum (sjá skipti). C. Leggjast á árar með (einhverjum); standa andspænis ræðara á bát og ýta á árar hans til að létta róðurinn og auka átakið. D. Um baggaburð á hesti; lyfta undir annan baggann svo silinn þokist betur niður á klakkinn og hrökkvi síður uppaf.
Stinga/reka (einhvern) á hol (orðtak) Drepa einhvern með lagi vopns; nú að mestu aflagður ósiður.
Stinga á kýli (orðtak) Stinga hníf eða öðru í graftarkýli til að hleypa greftri út og létta á því.
Stinga (einhverju) á sig / Stinga (einhverju) í barminn (orðtök) Setja eitthvað í vasann, og þá einkum í innri brjóstvasa. Getur verið rósamál um þjófnað.
Stinga (einhverju) bakvið eyrað (orðtak) Leggja eitthvað á minnið; festa sér í minni.
Stinga fram (orðtak) Losa stíflu/uppistöðu með því að hleypa vatninu fram.
Stinga framúr (orðtak) A. Grafa skurð framúr dýi/drápsauga og veita mesta vatninu frá, til að minnka hættu á því að kindur fari ofaní. B Um slátrun fjár/gripa; skera milli hálsæða og stinga innmeð vélinda og barka og opna þannig inn í brjóstholið. Vanalega er hnýtt fyrir vélindað í leiðinni og það skilið frá barkanum.
Stinga frá (orðtak) Um skakveiðar; glæja; fara á glæ; bera frá; um það þegar færi stendur frá bátnum vegna mikils reks, og þykir ekki fiskilegt.
Stinga fyrir (einhverju) (orðtak) Marka fyrir einhverju með stungum/skurði. „ Ég stakk fyrir en þeir skáru torfið“.
Stinga (upp) garð (orðtak) Stinga upp mold í kartöflu-/jurtagarði og losa þannig um moldina,áður en ræktun hefst . „Á vorin voru stungnir garðar fyrir kartöflur og rófur“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Stinga gegnum (skafl) (orðtak) Moka snjóskafl á vegi til að fært sé um.
Stinga hausnum í sandinn (orðtak) Líkingamál um það að vilja ekki horfast í augu við eitthvað; þykjast ekki sjá eitthvað sem er e.t.v. óþægilegt.
Stinga hendinni í barminn / Stinga hendinni í barm sér (orðtök) Stinga hendinni innundir jaðar klæðnaðar framaná brjósti; t.d. jakkaboðung. „Hann stakk hendinni í barm sér og dró upp veskið“. Sjá barmur.
Stinga hjá sér / Stinga niður (orðtök) Setja eitthvað í hirslu sína.
Stinga inn (orðtak) Láta fé inn í fjárhús/ kýr inn í fjós. „Ég fer að stinga fénu inn; það er komið að húsunum“.
Stinga (einhverjum) inn / Stinga (einhverjum) í steininn (orðtak) Setja einhvern í fangelsi. Orðtakið vísar til þess að setja sakamann í fyrsta eiginlega fangelsi íslands, en það var steihlaðið hús við Lækjargötu í Reykjavík sem nú er Stjórnarráðshúsið og aðsetur forsætisráðuneytisins. Húsið var fullbyggt 1771 og þjónaði sem tugthús til 1816. Það gekk lengi vel undir gælunafninu „Múrinn „ eða „Steinninn“ og af því er orðtakið dregið. Gælunafnið yfirfærðist síðar á önnur fangelsi og á lögreglustöðina við Hverfisgötu, sem fékk gæluheitið „Hverfissteinn“. Ein þeirra fanga sem dæmdir voru til vistar í Múrnum var Steinunn Sveinsdóttir á Sjöundá; í kjölfar dóms vegna ætlaðra morða á Jóni og Guðrúnu á Sjöundá. Steinunn sætti illri meðferð í fangelsinu og lét þar líf sitt árið 1805; eftir tveggja ára vist.
Stinga í augu (orðtak) Vera óþægilegt að horfa á; falla illa í heildarmynd/yfirbragð. „Þetta bílhræ stingur dálítið í augu“.
Stinga í stúf (orðtak) Skera sig úr fjölda. „Þessi rytja stingur dálítið í stúf við fjárhópinn“. Upphaflega mun orðtakið hafa átt við það að hætta tali í miðri setningu. Stúfur merkir afgangur eða það sem klippt er af.
Stinga milli stafs og hurðar (orðtak) Koma einhverju inn í hús; skutla innfyrir. „Ég kem við hjá þér í leiðinni og sting þessu milli stafs og hurðar, en ég má ekkert vera að því að stoppa í kaffi“.
Stinga niður penna (orðtak) Skrifa; setja á blað; skrifa blaðagrein/umfjöllun. „Það gekk svo yfir mig að lesa þetta að mér fannst ég yrði bara að stinga niður penna og leiðrétta helstu missagnirnar“.
Stinga saman nefjum (orðtak) Ræðast við; ráðgast; tala saman. „Þeir eru að stinga saman nefjum um þetta“.
Stinga sér (orðtak) Varpa sér til sunds með höfuð á undan.
Stinga sér í bælið/lúsina/rúmið (orðtak) Fara að sofa; fara í rúmið. „Ætli maður fari ekki bara að stinga sér í lúsina, hvað úr hverju“.
Stinga sér í skó/stígvél (orðtak) Fara í skó/stígvél. „Stingtu þér nú í skó og hlauptu eftir mjólk í tankinn“!
Stinga sér kollhnís (orðtak) Lúta fram og setja höfuðið við gólf/jörð og velta sér um það framávið. „Mér fannst þetta leiðinlegt og erfitt, svo ég fór að stinga mér kollhnís niður alla brekku með föngin“ (IG; Æskuminningar).
Stinga sér niður (orðtak) Um farandpest/smit; sýkja einn og einn. „Þessi flensufjandi hefur víst verið að stinga sér niður hér í nágrenninu undanfarið“.
Stinga sig (orðtak) Stinga einhverju í sig; meiða sig á stungu. „Stakkstu þig á nálinni“?
Stinga skottinu á milli lappanna (orðtak) Skammast sín; gefast upp með skömm. „Því var viðbrugðið í sveitinni, hér áður, að þegar flökkuhundarnir höfðu gert einhverja skömm af sér þá stungu þeir skottinu á milli lappanna og étu sig hverfa á hljóðlátan hátt“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).
Stinga steini í vegg (orðtak) Fást við grjóthleðslu. „Eitthvað hefur maður gert af þvi að stinga steini í vegg“.
Stinga (einhverjum) svefnþorn (orðtak) Svæfa einhvern með t.d. eitruðum broddi (þorni).
Stinga/skera torf (orðtak) Flá torf af jörðu með torfljá eða öðru eggjárni.
Stinga (einhverju) undan (orðtak) Leyna einhverju; forða einhverju; koma einhverju í skjól.
Stinga undan (einhverjum) (orðtak) A. Veiða/vinna meira en einhver; vera fljótari en einhver; gelda einhvern. B. Stela unnustu maka af einhverjum
Stinga (einhverju) undir stól (orðtak) Láta hverfa, stinga undan; þagga niður. „Honum var gjarnt að stinga undir stól þeim málum sem óþægilegri voru“.
Stinga upp (orðtak) A. Oftast notað um það að stinga upp garð; þ.e. stinga reku ítrekað í moldina og losa um hana, til að auðvelda ræktun t.d. á kartöflum eða öðru. B. Stinga upp mó; taka upp mó til þurrkunar í eldsneyti. C. Stinga upp lás = dýrka upp lás; opna lás án lykils.
Stinga uppá (einhverju) (orðtak) Leggja eitthvað til; gera tillögu um eitthvað.
Stinga uppí sig (orðtak) Setja í munn sér; borða. „…og næsti maður til að opna kofahurðina var einmitt Gummi í Breiðuvík. Einmitt þegar Júlli hafði stungið upp í sig fyrsta bitanum og tuggði með velþóknun“ (PG; Veðmálið).
Stinga uppí (einhvern) (orðtak) Gera kjaftstopp; svara á þann hátt að umræddur sé orðlaus. „Hann var að skensa mig fyrir að aka hægt en ég stakk uppí hann með því að minna á áreksturinn í fyrra“.
Stinga út / Stinga útúr húsum (orðtök) Moka skít út úr fjárhúsum; moka undan grindum.
Stinga við (orðtak) A. Um róður báts; hamla; stöðva; andæfa; stinga árum í sjó til að draga úr ferð. „Nú erum við bráðum að renna í gjörið; leggðu út og stingtu við; ég drep á vélinni“. B. Ganga haltur; haltra; skakklappast. „Hann stingur ennþá dálítið við eftir fótbrotið“. Einnig „stinga við fæti“.
Stinga/spyrna við fótum / Stinga fótum fyrir (orðtök) Stoppa snögglega. „... sér í iljar bónda þegar hann steypist fram af bjargbrúninni. Ég sting við fótum þar sem ég er í nokkurra skrefa fjarlægð...“ Frásögn KJK (MG; Látrabjarg). „Bænir syngur bugað lið,/ brjóstin þyngir tregi./ Rekka kringir ráðleysið;/ Rósi stingur fótum við“ (JR; Rósarímur).
Stinga við (orðtak) A. Haltra; vera bagaður/haltur á fæti. „Hversvegna stingur þessi kind svona mikið við“? B. Um róður/siglingu báts; stinga árum í sjóinn til að stöðva skrið báts. „Stingtu aðeins við áður en við leggjum að hleininni“.
Stinga við stafni (orðtak) Koma við; stoppa í leiðinni. „Stingtu við stafni hjá mér þegar þú átt leið um“. Dregið af því að skip reki stefni að landi, t.d. til að maður geti stokkið frá borði/um borð. Knörrum landnámsmanna var jafnan lent flötum í fjöru til fermingar/affermingar, sem er andstæða þess að stinga við stafni.
Stingandi strá (orðtak) Einstakt strá. Yfir leitt með neitunarorði: „Það er ekki von að féð haldi sig á þessum eyðisöndum; hér er varla eitt stingandi strá“!
Stingandi verkur (orðtak) Sár verkur; verkur sem líkist því að stungið sé í mann hnífi.
Stingast á endum (orðtak) Endastingast; steypa stömpum; stinga endum niður á víxl.
Stingast á hausinn (orðtak) Detta um koll; detta á höfuðið.
Stingur (n, kk) A. Heynál; heystingur; áhald til að losa hey úr hlöðu. B. Fiskistingur; áhald til að færa fisk úr kös, t.d. uppí ílát; skaft með járnoddi í enda. C. Tilfinning í líkama, t.d. hlaupastingur; giktarstingur.
Stingveiði (n, kvk) Veiðiskapur þar sem bráðin er stungin með sting á skafti. „Fyrir kom að rauðmagi var veiddur með sting í fjörupollum frammi á hleinum í Láganúpsfjöru. Ég man eftir a.m.k. einu skipti sem pabbi fór á þannig veiðar. Minnir mig að hann hafi notað kvísl sem önnur álman hafði brotnað af. Ekki man ég hvað veiðin var mikil en held að það hafi verið nokkrir rauðmagar; allavega nóg í soðið“ (VÖ).
Stinkvatn (n, hk) Ilmvatn; rakspíri; vellyktandi. „Fjandi hefurðu nú farið óvarlega með stinkvatnið maður; það er ekki líft neinsstaðar í nágrenni við þig á næstunni“.
Stinningsgola (n, kvk) Kaldi; þéttingsgola. „Hann er að auka vindinn; það er komin stinningsgola“.
Stinningshvasst (l) Kaldi; nokkuð hvasst. „Það var bara orðið stinningshvasst þegar við fórum í land“.
Stinningskaldi / Stinningsvindur / Stinningur (n, kk) Allmikill vindur; allt að hvassviðri. „Hann er að leggja upp stinningskalda“!
Stinnur (l) Stífur; ekki/illa sveigjanlegur. „Best er að nota í þetta stinnan pappa“.
Stirðbusaháttur (n, kk) Klaufaskapur; klaufalega/óliðlega farið að. „Svona stirðbusaháttur gengur ekki“!
Stirðbusalega (ao) Stirðlega; klaufalega. „Heldur bar hann sig stirðbusalega til við þetta“.
Stirðbusalegur (l) Klunnalegur; klaufskur. „Óttalega ertu nú stirðbusalegur við þetta“!
Stirðbusast (s) Gera með erfiðismunum/klaufaskap. „Ætli ég reyni ekki að stirðbusast eitthvað við þetta“.
Stirðbusi (n, kk) Klunni; klaufi. „Ég er óttalegur stirðbusi í þessari fótamennt“.
Stirðfær / Stirðgengur (l) Ber sig stirðlega að; óöruggur. „Hann hefur löngum verið stirðfær í klettum“.
Stirðhentur (l) Stirður/óliðugur í höndum. „Skelfing er maður stirðhentur við svona fínvinnu“.
Stirðkvæður (l) Ekki liðugt um kveðskap; leirburðarskáld. „Heldur finnst mér hann stirðkvæður, blessaður“.
Stirðlega (ao) Ekki lipurlega; ekki með lagni/afköstum/dugnaði. „Honum gekk stirðlega með splæsið“.
Stirðlegur (l) Klunnalegur; seinfær. „Skelfing ertu nú stirðlegur við þetta; þú þarft að vera handfljótari“!
Stirðleiki (n, kk) Tregða; hnökrar; stirðnun; þrjóska. „Það er enn einhver stirðleiki í þeirra samskiptum“.
Stirðlyndi (n, hk) Slæmt/þungt skap; ergelsi. „Alltaf er sama stirðlyndið í þessum karlfauski“!
Stirðlyndur (l) Með erfitt skapferli; uppstökkur; argur; fúll.
Stirðlæs (l) Illa læs; gengur seint og örðuglega aðlesa. „Það er nú eitthvað að skólakerfinu ef börn eru almennt enn stirðlæs þegar þau eru komin um fermingu“!
Stirðmáll / Stirðmæltur (l) Á erfitt með að koma orðum að meiningu sinni. „Heldur fannst mér þessi prestur stirðmæltur“.
Stirðna (s) Verða stirður/stífur; frjósa að hluta; ryðga fast; versna tíðarfar; minnka kunnátta/lipurð. „Eitthvað hefur stirðnað á pollum í nótt“. „Við þurfum að hengja skrokkinn upp áður en hann fer að stirðna“. „Best væri að ná fénu úr bjarginu áður en tíð fer að stirðna“. „Ég er nú farinn að stirðna í þessu“.
Stirðningur (n, kk) Frostskán á jörð eða pollum; lítið frost. „Það er betra göngufærið í svona stirðningi“. Einnig er notað orðið stirningur til að lýsa aðstæðum í frosti; framburður eins og ritháttur líkur, en rótin allt önnur. Stirðningur er dregið af því að vatn stirðnar; þ.e. frýs, en stirningur er dregið af því að ískristallar (hrím) á jörðu glitra eins og stjörnur.
Stirðnun (n, kvk) Það að stirðna. „Einhver stirðnun er að koma í hnéð á mér“.
Stirður (l) A. Á erfitt um hreyfingar; stífur. B. Úfinn/illur í skapi; uppstökkur; fúll; andsnúinn. C. Um kveðskap; ekki lipurlega ort/kveðið. D. Um tíðarfar/veðráttu; illviðrasamt; óþurrkasamt; ógæftir.
Stirður í lund/skapi (orðtak) Úfinn/illur í skapi; uppstökkur; fúll; andsnúinn.
Stirður til gangs (orðtak) Fótstirður; á erfitt með gang, t.d. vegna giktar. „Afi var orðinn stirður til gangs á efri árum, enda höfðu hans fætur nokkur sporin tekið um ævina; bæði í smölunum sem grjótburði og fleiru“.
Stirfinn (l) A. Um mann; viðskotaillur; skapstyggur; önugur. „Hann er skelfing stirfinn og afundinn þessa dagana“. B. Um tíðarfar/veðráttu; rysjótt; erfið; slæm.
Stirfni (n, kvk) Þvermóðska; stirt geðslag. „Forðagæslumenn voru orðnir allþreyttir á stirfni karlsins“.
Stirna (s) Um endurkast/speglun ljóss;glampa; speglast; tindra. „Það stirndi á ísað grjótið“.
Stirningur (n, kk) Hrím/ísing á jörð; lítilsháttar frost, svo ískristallar myndast. Sjá einnig stirðningur. „Alltaf finnst mér magnað að líta yfir víkina í tunglsljósi, stillum og stirningi“.
Stirra (n, kvk) Óþæg ær. „Ég er hræddur um að það þurfi mannskap til að handsama þessa stirru“. „Við skulum láta sjá hvort þessar stirrur róast ekki til morguns“. Orðið finnst ekki í orðabókum en var almennt notað í Kollsvík og víðar um Rauðasandshrepp þar til sauðfjárbúskapur lagðist þar niður á síðustu áratugum 20.aldar. Orðstofninn er sami og „stirður“, og í t.d. sænsku er til orðtakið „stärre mot“ = streitast gegn.
Stirri (n, kk) Mislyndur/önugur maður. „Karlfauskurinn er óttalegur stirri í umgengni“.
Stirtla (n, kvk) A. Kýr/ær sem mjólkar mjög lítið. „Það verður að lóga þessari stirtlu næsta haust“. B. Afturendi/sporðstykki á fiski. Dregið af stertur = afturendi.
Stía (n, kvk) Hólf; afmarkað rými innan stærra rýmis. T.d. hrútastía í fjárhúsi eða kálfastía í fjósi.
Stía (s) Taka lamb af móður og geyma það í stíu á stekk að nóttunni, svo unnt sé að mjólka kindina um morguninn. Þetta var gert frá sauðburði, snemma í maí fram til Jónsmessu, meðan fráfærur voru stundaðar, en stekkir voru yfirleitt í göngufæri frá bæjum. „Þorgrímur þessi missti ábýli sitt af því að hann þótti áleitinn við göngusilung í ánni og við ásauði Rauðsendinga; stíaði og mjaltaði fé er leitaði í óveðrum niður í Krákinn og heim að Selinu. “ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Stía af / Stía frá / Stía í sundur (orðtök) Setja upp skilrúm/stíu til að skilja að; oft búfé sem ekki getur verið saman við annað. „Kálfurinn var stíaður af í hlöðuendanum“. „Fengnir gemlingar voru stíðaðir frá þeim geldu, innar í garðanum“. „Yfir sauðburð var stíað í sundur körmunum, svo lambfé hefði meira pláss“. Sjá stúka af; þilja af; afstíaður.
Stífa (n, kvk) Máttarviður í mannvirki; á oft við skammbita milli helstu burðarbita; stoð sem styður við. „Ég setti stífu við þilið meðan það var fest“.
Stífa (s) A. Setja upp stífu; ganga frá stífu. B. Um fatnað; gera stíft/stinnt.
Stífelsi (n, hk) Línsterkja; efni sem gerir fatnað/tau stíft/stinnt.
Stífingsgola / Stífingskaldi / Stífingsvindur (n, kvk/kk) Allnokkur vindur. „Hann er að æsa sig í stífingsgolu“!
Stífingshvass (l) Allhvass; töluverður vindur. „Hann var orðinn stífingshvass fyrir Blakkinn“.
Stífkrampi (n, kk) Krampi sem gerir líkamann stífan.
Stífla (n, kvk) A. Almennt; teppa, t.d. nefstífla. B. Stíflugarður í vatnsfalli. „Ingvar gerði vandaða stíflu í Ána og hafði þar 12 volta vatnsrafstöð til lýsingar á Stekkjarmel“.
Stífla (s) Setja stíflu í læk eða aðra rás; hindra; standa í vegi fyrir.
Stíflugarður (n, kk) Garður sem settur er þvert á vatnsfall til að stífla það. „Svavar setti stíflugarð í Torfalækinn til að búa til lón til æðarræktunar. Síðar byggði Kári stífluna upp til varnar sandfoki“.
Stífluveggur (n, kk) Veggur stífflugarðs; stíflugarður. „Okkur strákunum þótti það heilt ævintýri að ganga yfir steyptan stífluvegginn í Ánni; sérstaklega þegar vatn rann um yfirfallið“.
Stífna (s) Verða stífur/harður. „Sviðasultan var látin kólna, en við það stífnaði soðið“.
Stífni (n, kvk) Þverska; stirfni; óliðlegheit. „Um tíma ríkti allmikil stífni á báða bóga milli bæjanna“.
Stífpressaður / Stífstraujaður (l) Um fatnað; vel pressaður.
Stífpumpa (s) Dæla lofti í dekk þar til það er mjög hart. „Það þarf að stífpumpa dekkin undir heyvagninum; þó ekki svo að hætta sé á að gjarðirnar springi af“.
Stífur (l) A. Þröngur; stirður; stinnur. „Þessi vír er nokkuð stífur; áttu engan þjálli“? „Það er ári stíft að komast í þessi stígvél“. B. Um verk; fast; ötullega. „Þeir róa stíft meðan gæftirnar haldast“. „Hann sótti þetta mál mjög stíft“. „Þar var víst stíft drukkið“. C. Um persónugerð; þvermóðskufullur; þrjóskur. „Hann var stífur á þessari skoðun“. D. Um veðráttu; þrálát; eindregin; hvöss. „Ansi ætlar hann að verða stífur á norðanáttinni“! E. Yfirdrifinn; rösklegur; rúmur. „Þetta er alveg stíf tveggja tíma ganga“.
Stífur á áttinni (orðtak) Um veðurfar; þrálát vindátt. „Fjandi ætlar hann að verða stífur á vestanáttinni; hann er búinn að halda þessu í nærri viku“!
Stífur á golunni (orðtak) Hvass. „Ári er hann stífur á golunni. Hann á trúlega eftir að auka þennan veltingsfjanda“.
Stífur á meiningunni (orðtak) Þver; heldur fast við sinn keip; þrjóskur. „Um suma Kollsvíkinga hefur verið sagt að þeir sú dálítið stífir á meiningunni; jafnvel þverari en andskotinn“.
Stíga (s) A. Ganga; fara; setja niður fót. B. Hækka; vaxa; aukast; fara uppávið. C. Mæla vegalengd með því að ganga eða feta. „Ég er búinn að stíga þetta, og það eru kringum níutíu metrar“.
Stíga af sæng (orðtak) Fara á fætur eftir svefn eða veikindi.
Stíga á stokk (og strengja heit) (orðtak) Lýsa einhverju yfir. Oftas notað um það þegar maður, í viðurvist annarra, heitir að gera eitthvað. Stokkur merkir þarna trjábolur, og vísar orðtakið upphaflega til þess að maður stígur uppá trjábol eða aðra upphækkun til að aðrir megi heyra yfirlýsinguna. Er núna notað um hverskonar heit sem menn gefa, t.d. um það að láta af ósiðum sínum.
Stíga á svið (orðtak) Taka þátt í leikverki eða öðru sem fram fer á sviði.
Stíga ekki í vitið (orðtak) Vera ógáfaður/heimskur. „Hann hefur nú aldrei þótt stíga í vitið, blessaður“.
Stíga feilspor / Stíga víxlspor (orðtak) Ganga út af tæpri götu; gera eitthvað óæskilegt. „Gáið vel að ykkur þarna í skriðunum. Það getur verið afdrifaríkt að stíga þar feilspor“. „En saga mannkyns sýnir okkur, að þó að heildarútkoman sé þróun þá hafa mörg víxlspor verið stigin í baráttu þess upp á við, gegnum aldirnar“ (EG; Vakandi æska).
Stíga framá fótinn (orðtak) Setja annan fótinn fram og stíga í hann. Það er siður sumra, meðan þeir eiga samræður uppistandandi, að stíga reglulega framá fótinn.
Stíga hverfistein (orðtak) Snúa hverfisteini með því að stíga reglulega á stigfjalirnar til skiptis meðan lagt var á/ brýnt.
Stíga í pontu/ræðustól/stólinn (orðtak) Fara framfyrir hóp til að halda ræðu/tölu/predikun.
Stíga í vænginn við (orðtak) Fara á fjörurnar við; gera sér dælt við; reyna við; leita vinfengis við. „Þeir segja að hann sé farinn að stíga í vænginn við heimasætuna á næsta bæ“. Líking við dans fugla í tilhugalífi.
Stíga langt til (orðtak) Taka stór skref; vera stórstígur. „Sögn er um nafnið Kerlingarháls. Kerlingar tvær voru að fara innyfir hálsinn og metuðust á að stíga sem lengst til og feta í för hvorrar annarrar. Þá segir önnur, er hún steypir sér fraaf og niður á Brekkuhlíð: „Fetaðu nú í förun mín“. Og fór hin síðan á eftir“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Stíga rokk (orðtak) Snúa rokk með því að stíga reglulega á fótarfjölina.
Stíga sig (orðtak) A. Misstíga sig; snúa sig um ökkla. „Ég steig mig dálítil illa í gær“. B. Um það þegar síðjúgra kýr stígur á spena sinn og sker hann með klauf eða jafnvel tekur af honum, þegar hún stendur upp. „“Nú hefur hún Búkolla stigið sig í spenann nærkonumegin að framan“. Reynt var að sótthreinsa sárið sem best og bera undir kýrnar moð. Einnig nýjan þara þegar sárið var farið að skurma. Kúm sem hafa stigið sig er hætt við að leka sig (sjá þar).
Stíga (eitthvað) til höfuðs (orðtak) Ofmetnast yfir einhverju. „Honum stígur það dálítið til höfuðs að vera aflahæstur á vertíðinni“.
Stíga varlega til jarðar (orðtak) Ganga varlega um. Nokkuð notað í óeiginlegi merkingu; fara varlega í málum.
Stíga við stokk (orðtak) A. Um ungbarn; ganga með; standa uppvið eitthvað sér til stuðnings, t.d. rúmstokk. „Stubburinn er farinn að skríða útum allt á fjórum fótum, og jafnvel stíga við stokk“. B. Leikur við ungbarn sem farið er að stíga fyrstu sporin. Þá situr sá eldri á stól/rúmstokk; heldur í báðar hendur barnsins, sem stígur vaggandi í fæturna sitt á hvað í takt við vísu sem kveðin var í taktföstu hljóðfalli. Jafnan var þá kveðin þessi vísa, og stundum fleiri á eftir: „Stígur hann við stokkinn;/ stuttan á hann sokkinn;/ ljósan ber hann lokkinn/ litli srákahnokkinn“ (stelpuhnokkinn ef því var að skipta). Man ég eftir að HK amma mín kvað þetta gjarnan við ungbörn enda mjög söngvin; þetta var eitt af fáum skiptum sem ég heyrði GG afa minn kveða, sem þó var óvanalegt.
Stíga ölduna (orðtak) Tvístíga í bát í takt við ölduna til að taka af sér veltinginn. Nokkuð sem þeir læra fljótt sem sjóinn sækja.
Stígandi (n, kk) Hækkun; aukning. Oft notað um skáldverk, þegar það nær meiri fyllingu eða atburðarás verður magnaðri eftir því sem á líður.
Stígur (n, kk) Leið sem gengin er; mjó gata. Vanalega notað um slóða sem eru mjórri/torfarnari en vegir. Stígur nefnist breiður brattur grasfláki niðri í Bæjarbjargi, en í og um hann liggur mjó gata; brött á köflum.
Stígsferð (n, kvk) Ferð til eggja/ í fygling á Stíg í Bæjarbjargi. „Ekki brást að menn voru kúguppgefnir eftir hverja daglanga Stígsferð og hétu því að fara þenna fjanda aldrein meir. Vart brást að heldur að sömu menn voru mættir við fyrsta tækifæri á sömu slóðir aftur; búnir að steingleyma kjaginu upp dalinn“.
Stígvél (n, hk) Hár skófatnaður af ýmsum gerðum. Sagt hefur verið að góðir gönguskór hafi verið eitt mesta framfaraskrefið í heilsufarsmálum þjóðarinnar í seinni tíð, og vatnsheld stígvél lítið síður.
Stígvélabullur / Stígvélagarmar / Stígvélajollur / Stígvélaklossar (n, kvk/kk fto) Gæluheiti á stígvélum. Í Kollsvík var orðið „jollur“ (linur frb) þeirra mest notað í seinni tíð.
Stígvélaður (l) Í stígvélum. „Ég ætla að vera stígvélaður, ef féð skyldi hlaupa út yfir mýrarnar“.
Stígvélafullur (l) Með full stígvél af vatni/sjó.
Stígvélafylla sl) Fylla stígvél af vatni/sjó. „Þá kom bárukast undir bátinn, svo stígvélafyllti hjá mér“.
Stígvélafæri (n, hk) Göngufæri þannig, að nauðsynlegt sé að vera á stígvélum. „Vertu nú rétt skóaður; ég held að það sé bara stígvélafæri um Mýrarnar núna“.
Stígvélagat (n, hk) Gat á stígvéli. „Ég klippti af slönguræflinum til að líma stígvélagöt“.
Stíla á / Stíla til (orðtak) Um sendibréf; senda til; skrifa utaná til. „Ég stílaði bréfið á ráðherrann sjálfan“.
Stíla uppá (orðtak) Miða við; stilla inná; gera ráð fyrir. „Við stíluðum uppá að lenda í vel hálfföllnu að, svo að komin væri flæði þegar við værum búnir að bera af bátnum“.
Stílabók (n, kvk) Bók sem ritað er í. Í seinni tíð oftast notað um æfingabækur nemenda í skólum.
Stílbragð (n, hk) Yfirbragð ritverks/skáldverks; persónueinkenni við ritun/skáldskap.
Stílfær (l) Ritfær; hefur færni í ritun; kemur vel fyrir sig orði við skriftir.
Stíll (n, kk) A. Almennt um holan legg/ hola stutta pípu. B. Pennastöng sem áðurfyrr var notuð með því að framaní hana var stungið stálfjöður. C. Holnál sem stungið er uppí spena á kú vegna þess annaðhvort að hún er með spenamein eða júgurbólgu. Fyrst úr málmi, en í seinni tíð tíðkuðust plaststílar með tappa sem tekinn var úr þegar mjólkað var. D. Leturstafur til prentunar eða gyllingar. E. Aðferð til að reikna út tímatal, t.d. gamli stíll. F. Yfirbragð einhvers sem gert er, t.d. listaverks, bókar, ljóðs, eða byggingar. T.d. gotneskur stíll. G. Réttritunaræfing.
Stílmót (n, hk) Yfirbragð; ummerki. „Mér sýnist lítið stílmót á að hann ætli að taka sönsum með þetta“.
Stím (n, hk) A. Sigling; stefna á siglingu. „Það er tveggja tíma stím í land“. B. Samsetning/splæs.
Stíma (s) A. Stefna; sigla. „Við stímum hérna fyrir Blakkin til að byrja með“. B. Flétta saman. „Stímaðu þessa enda fyrir mig“.
Stímabrak (n, hk) Basl; vesen; fyrirhöfn. „Ég lenti í bölvuðu stímabraki með að koma bátnum í kerruna“. Upphafleg merking er hávaði af bardaga.
Stírur (n, kvk; fto) Slím sem safnast í augu í svefni. „„Já, hann hvessir í dag Árni minn“, sagði ég um leið og ég strauk stírurnar úr augunum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). Málspekingar telja orðið dregið af sögninni að „stara“ og skuli því ritast með einföldu „í“. Jafnrétt er að halda því fram að orðstofninn sé „stúrinn“, og því skuli heitið ritast „stýrur“ (VÖ).
Stíufjöl (n, kvk) Fjöl sem notuð er í stíu, s.s. fiskstíu eða kró fyrir sauðfé/nautgripi.
Stíusmíði (n, kvk) Smíði á stíu/kró. „Það getur kostað allmikla fóðrun og stíusmíði ef maður þarf að hafa féð á húsum yfir sauðburðinn“.
Stíuskjögur (n, hk) Hörgulsjúkdómur/steinefnaskortur í lömbum. Stafar af skorti á seleni;fremur sjaldgæfur.
Stjaka (s) Ýta við; þrýsta áfram.
Stjaka frá landi (orðtak) Ýta bát frá landi/ af grynningum með ár eða öðrum stjaka þegar hann flýtur á grunnu vatni eða í lendingu; þar til unnt er að setja út árar eða gangsetja vél. „Bátnum er stjakað frá landi með ár og lagðar út árar meðan vélin er sett í gang“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Stjaka við (orðtak) Ýta við; hrinda. „Hann fullyrti að einhver hefði stjakað harkalega við sér“.
Stjaki (n, kk) A. Stöng sem notuð er til að ýta bát í vör eða á öðrum grynningum. „Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu. Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“ (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III). Sjá sjósetja. B. Stöng með krók á enda, notuð t.d. til að fanga bauju frá bát; krókstjaki. C. Stytting á kertastjaki.
Stjana við (orðtak) Þjónusta; þjóna; oft í fyrirlitningar-/neitunarrtón. „Ég sé enga ástæðu til að vera að stjana við þessa herra. Ef þeir vilja hitta mig þá geta þeir bara komið til mín“.
Stjana undir (orðtak) Þjóna; þræla fyrir. „Ekki held ég að ég fari að stjana meira undir karlrassinn en orðið er“!
Stjarfeygður / Stjarfur (l) Með starandi augnaráð. „Ég held að þú ættir að fara að leggja þig. Þú ert alveg stjarfeygður af svefnleysi og þreytu“.
Stjarfi (n, kk) A. Stirðleiki/stífni í vöðvum. B. Stífkrampi.
Stjarfur (l) A. Með stífa vöðva; í krampakasti. B. Stirður; staðnaður: hreyfingarlaus; starandi. „Ég varð stjarfur af hræðslu þegar ég sá hrunið koma ofanúr bjarginu“.
Stjarfur af svefnleysi (orðtak) Geta lítið hugsað eða gert fyrir svefnleysi; vera stirður og starandi af syfju. „Maður er að verða stjarfur af svefnleysi“.
Stjá (n, kvk) Hreyfing; ið; stjákl. Einkum í orðtökum; fara á stjá; kominn á stjá; vera á stjái.
Stjákl (n, hk) Ráp; umgangur; ið. „Vertu nú ekki að þessu stjákli fram og til baka; sestu niður drengur“!
Stjákla (s) Rápa; ganga um. „Hann stjáklaði um stofugólfið meðan hann sagði frá“.
Stjórafiskur (n, kk) Fskur sem stjóraeigandi fékk af óskiptum afla fyrrum. Ekki eru þó heimildir um slíkt í Kollsvík.
Stjórafesti / Stjórafæri / Stjóri / Stjórastrengur (n, kvk/hk/kk) Strengur sem skipi er lagt við, en í hinum enda hans er stjórasteinn eða akkeri; akkerisfesti. Stjóri var yfirleitt heitið á hvorutveggju; strengnum og akkerinu/stjórasteininum. „Við drekann var fest svonefndum forhlaupara, en það var mjó og liðlega keðja, 20-30 faðmar að lengd. ... Síðan kom stjórafærið, eða hin svonefnda pertlína; gildur kaðall úr besta hampi. Stjórafærið var 300-350 faðmar á lengd (við akkeri á skútum).... “ (GG; Skútuöldin).
Stjórasteinn (n, kk) Steinn sem notaður er fyrir akkeri báts eða til að halda niðri lóð. Stjórasteinar voru oftast egglaga seinar, með gati nærri öðrum enda. Stundum var annað gat nærri miðju steinsins, og þar í tréfleygur sem gekk útúr steininum og hafði það hlutverk að grípa í botninn. Suma stjórasteina var einfaldlega bundið um, eða þeir hafðir í járnfati. Á stærri skipum var stjórinn stundum trégrind, fyllt með grjóti.
Stjórnari (n, kk) Stjórnandi; skipstjóri. „... enda þreyttist ég aldrei á að hlusta og spyrja, því Árni Dagbjartsson var ágætur sjómaður á hvaða farkosti sem var; auk þess frábær stjórnari“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Stjór (n, kk) Stytting úr stjornborði. „Þú mátt láta horfa heldur meira í stjór“.
Stjórn (n, kvk) A. Það að stjórna/stýra; vald. B. Aðili sem stýrir, stjórnar; ráð, t.d. ríkisstjórn, félagsstjórn.
Stjórnarfar / Stjórnskipan (n, hk) Skipulag/regla á stjórnun.
Stjórnari (n, kk) Stjórnandi; sá sem stjórnar. Oft fyrrum átt við stjórnanda/stýrimann báts. „Ívar gamli (bóndi í Hænuvík) var ágætur sjómaður og sagður góður stjórnari“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Stjórnborði (n, kk) Hægra megin við stefnu báts; hægri hlið báts; þeim megin sem stýri er vanalega. „Skipið stóð þannig að framstafn vissi lengst upp í fjöruna; hallaðist það lítið eitt í stjórnborð og sjórinn lá í bakborðs skutröng“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Stjórnmál (n, hk, fto) Hvaðeina sem lýtur að stjórnun lands og þjóðar; almennt nefnt „pólitík“.
Stjórnmálavafstur (n, hk) Afskipti af stjórnmálum/pólitík. „Össur á Láganúpi sagðist treglega vilja hella sér í mikið stjórnmálavafstur, en lét þó tilleiðast eitt sinn að vera í fjórða sæti á framboðslista Framsóknarflokksins á Vestfjörðum“.
Stjórnpallur (n, kk) Stýrishús/brú á skipi. Fyrr á öldum, meðan bátum var stýrt með stýrisár á hliðinni, stóð stýrimaður á stjórnpalli, þ.e. upphækkun í skut. „Eiríkur Kristófersson frá Brekkuvelli var af Kollsvíkurætt og einn happasælasti skipherra Landhelgisgæslunnar frá upphafi. Ein bóka hans nefnisr „Á stjórnpallinum““.
Stjórnsamur (l) Vill stjórna öðrum; ráðskast með menn og málefni. „Hann er helsti stjórnsamur“.
Stjórnsemi (n, kvk) Frekja; forræðishyggja. „Mér líkar ekki svona ansvítans stjórnsemi“.
Stjórnsýsla (n, kvk) Framkvæmd stjórnunar. Oftast notað um framkvæmdavald í landsmálum.
Stjórnvöld (n, hk, fto) Samheiti yfir þá opinberu aðila sem fara með stjórn landsins, Alþingi, ríkisstjórn, ráðuneyti, stofnanir og aðra. Stöku sinnum í eintölu.
Stjórnvölur (n, kk) Stýrissveif á bát. Oftast notað í óeiginlegri merkingu nú; sitja við stjórnvölinn, um það að stjórna; ráða fyrir.
Stjúpa / Stjúpmóðir (n, kvk) Sú sem er gift (í sambúð með) föður barns, en þó ekki móðir þess.
Stjúpbarn (n, hk) Barn maka/sambýlings manns/konu en ekki hans/hennar eigið.
Stjúpfaðir / Stjúpi (n, kk) Sá sem er giftur (í sambúð með) móður barns, en þó ekki faði þess.
Stjörnótt (l) Litur sauðfjár/nautgripa/hesta; ljós blettur í enni.
Stjörnubjart (l) Alveg heiður himinn að kvöld- eða næturlagi. „Það var stillt veður og stjörnubjart“.
Stjörnuhrap (n, hk) Fall loftsteins inn í lofthjúp jarðar, með tilheyrandi glæringum. Fyrr á tíð var litið á stjörnuhrap sem fall störnu niður af himni, enda minna vitað um geiminn og fastastjörnur en nú. Loftsteinar sem valda stjörnuhrapi geta verið af ýmsum gerðum. Oftast er um að ræða eitthvað af þeim mismunandi stóru ögnum sem eru á sveimi um sólkerfið. Sumar þeirra eru „afgangur“ frá því sólkerfið varð til en aðrir hafa skotist upp af öðrum plánetum, t.d. við árekstur stórra loftsteina. Sumsstaðar í sólkerfinu eru sveimar loftsteina sem jörðin fer árlega í gegnum, og verða stjörnuhröp þá tíðari en vanalega. Flestir loftsteinar eru agnarsmáir; á stærð við sandkorn eða litla steinvölu, þó ljósglampinn sé bjartur þegar þeir brenna upp. Sumir eru þó stærri, og ná jafnvel til jarðar. Gerð loftsteina er misjöfn, í þeim er misjafnt hlutfall málma og steinda. Stjörnuhröp eru misjafnlega björt, en þau bjartari geta hæglega lýst upp stórt svæði í heiðskíru veðri.
Stjörnumerki (n, hk) Mynstur sem fastastjörnur mynda á himni, eins og þær sjást frá jörðu. Gömul hefð er fyrir því hvaða stjörnur skuli mynda tiltekið merki og hvað merkið nefnist. Það er ævaforn iðja að spá í stjörnur og stjörnumerki. Taldist slíkt lengi vel til mikilvægra vísinda og enn er nokkur átrúnaður á stjörnuspádómum. Tólf stjörnumerki mynda svonefndan „dýrahring“, og er árinu skipt niður á þau. Telja stjörnuspámenn að greina megi persónueinkenni og lífsferil manna útfrá afmælisdegi og stjörnumerki þeirra, en yfirleitt leggur skynsamt fólk lítinn trúnað á slík hindurvitni; enn síður eftir að stjarnvísindi sýndu framá eðli og fjarlægðir þeirra fastastjarna sem mynda merkin. Ekki má þó gleymast að sum merkin höfðu hagnýta þýðingu; t.d. var Pólstjarnan notuð til að finna norðurátt, en hún er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlibjörn og nokkuð nærri því að vera yfir norðurpól jarðar. Pólstjarnan er raunar þyrping margra stjarna.
Stjörnuskin (n, hk) Dauf birta af stjörnubjörtum himni við nýtt tungl.
Stjörnuspá (n, kvk) Spádómur sem byggir á því t.d. að skoða fæðingardag manns og gerðir hans með tilliti til stöðu reikistjarna og stjörnumerkja. Byggir ekki á vísindalegum grunni og er af mörgum talið fásinna.
Stjörnuspeki (n, kvk) Spekúlasjónir sem lúta að stjörnuspám og stjörnumerkjum.
Stjörnuvitlaus (l) Bandbrjálaður; kolvitlaus; hamslaus. „Hann verður alveg stjörnuvitlaus ef hann smakkar dropa af áfengi“.
Stoð (n, kvk) A. Hvaðeina sem styður við; oftast um standandi staur/uppistöðu/súlu undir máttarviðum í húsi. B. Það sem aðstoðar/hjálpar/ veitir stuðning við manneskju. „Mér er lítil stoð í því að þú hnýtir svona laust á steinana“! „Henni var allgóð stoð í þessari hjálp“.
Stoð og stytta (orðtak) Mikilvæg aðstoð; styrkur; stuðningur. „Hann var stoð og stytta móður sinnar“.
Stoða (s) Koma að gagni; hjálpa. „Það stoðar lítið þó ég reyni að tala um fyrir honum; hann er svo fjári þver“!
Stoðlaust / Stoðlítið (l) Gagnslaust/gagnslítið. „Hann viðurkenndi þetta fúslega, enda vissi hann að stoðlaust var að neita“. „Það er stoðlítið að leita meira í þessu myrkri; við skulum bíða með það til morguns“.
Stofa (n, kvk) A. Yfirleitt notað um besta/stærsta/hlýjasta herbergi íbúðarhúss. Samstofna t.d. enska orðinu „stove“; ofn, og vísar til upphitaðs rýmis. B. Veglegt hús, t.d. Viðeyjarstofa. C. Á síðari tímum notað um stofnanir, s.s. Biskupsstofa, Fiskistofa o.fl.
Stofn (n, kk) A. Bolur á tré, trjástofn. B. Almennt notað í líkingum um meginhluta einhvers, s.s. bústofn, kynstofn, fiskistofn o.fl. Einnig um þann hluta einhvers sem tekur litlum breytingum, s.s. orðstofn. Einnig um grundvöll/undirstöðu einhvers; t.d. setja á stofn fyriræki/verkefni; gjaldstofn. C. Helmingur stórrar lúðu, sem stofnuð hefur verið; þ.e. skorin eftir endilöngum hrygg.
Stofna (s) A. Stofnsetja; koma á fót; leggja drög/stofn að. B. Um sundurhlutun lúðu: hluta lúðu í tvennt eftir endilöngum hrygg, að krummanum. Sín kinnin fylgir hvorum helmingi, en helmingarnir nefnast hnakkastofn og kviðstofn. „Allar lúður sem minni voru en svo að tekin yrðu af þeim fjögur flök og rafabelti, voru stofnaðar sem kallað var. Þær voru þá flattar; tekinn úr þeim hryggurinn og höfuð skorið af; sitt rafið var látið fylgja hverri kápu. Kápurnar voru síðan ristar og hertar. Lúður þessar voru kallaðar gjafalóur eða hásetasprökur. Var þeim skipt á milli hásetanna er öðrum afla hafði verið skipt“ (PJ; Barðstrendingabók). „Eftir stærð voru lúður stofnaðar eða flakaðar; stofnlúða eða flakandi lúða“ (LK; Ísl.sjávarhættir I). „Þegar lúður voru stofnaðar var byrjað að sundra þeim aftast; um miðjan sporð“ (LK; Ísl.sjávarhættir III). C. Um viðarhögg; höggva greinar af tré, þannig að eftir verði vinnanlegur stofn/bolur.
Stofna í hættu/voða (orðtök) Setja í hættu; taka áhættu með. „Ég vil ekki að menn stofni sér í hættu við sveltatökur; þá er betra að skjóta féð niður“.
Stofna til (orðtak) Hefja; eiga frumkvæði að; efna til. „Þetta fer þá bara eins og til þess var stofnað“! „Eg ætla ekki að stofna til verulegra útgjalda útaf þessu“.
Stofnanafargan (n, hk) Ofurfjöldi/akur óþarfra/óskilvirkra stofnana. „Þetta fer allt í skatta til að halda uppi þessu fjandans stofnanafargani þarna fyrir sunnan! Það mætti skera það alltsaman niður við trog mínvegna“!
Stofnanagemsi (n, kk) Niðrandi heiti á þeim sem vinnur á ríkisstofnun og talið er að hafi það markmið eitt að gera einfalda hluti flókna; heimta óþarfa skýrslur; setja óþarfar reglur og auka skriffinnsku. „Flest er það! Það er fátt sem þeim dettur ekki í hug þessum stofnanagemsum þarna fyrir sunnan“!
Stofnanakjaftæði / Stofnanaþvæla (n, hk) Þvælið og órökrétt málfar sem gjarnan tíðkast í því efni sem ritað er á vegum stofnana/stjórnsýslu eða talað af fólki í stofnunum/stjórnsýslu. „Hver á nú að átta sig á svona stofnanakjaftæði! Maður hefur bara ekki hugmynd um það hvað maðurinn er að fara“!
Stofnfé (n, hk) Fjárhæð sem notuð er til að mynda og koma af stað fyrirtæki/félagi/starfemi; fé sem sérstaklega er tilgreint í reikningshaldi fyrirtækis/félags, og lýtur gjarnan sérstökum reglum.
Stofnfélagi (n, kk) Manneskja sem er aðili að stofnun félags/fyrirtækis og er á fyrstu félagaskrá þess.
Stofnflak (n, hk) Flak af lúðuhelmingi/lúðustofni. „Sumir gerðu rikling úr stofnunum; svokölluð stofnflök“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Stofnfundur (n, kk) Fundur þar sem félag/fyrirtæki er stofnað.
Stofnlóa (n, kvk) Smálúða, um 10 kg að þyngd. „Margir höfðu trú á að beita lúðu, einkum stofnlóu sem Vestfirðingar kölluðu (5-15kg)“ (GG; Skútuöldin).
Stofnlúða (n, kvk) Lúða sem er stærri en smálúða, en oftast minni en flakandi lúða; lúða sem er nægilega stór til að heppilegt sé að stofna hana, þ.e. skipta henni í tvennt eftir hrygg. Sumir töldu það stofnlúðu ef hún var yfir 20 pund.
Stofnun (n, kvk) A. Það að stofna. „Haldið var uppá það að tíu ár voru liðin frá stofnun félagsins“. B. Stjórnunareining ákveðins málefnis, oftast í opinberri eigu og undir opinberri stjórn ríkis eða sveitarfélags en sumar stofnanir eru á vegum annarra s.s. flokka eða safnaða/kirkju.
Stofuhús (n, hk) Hús þar sem er fínni stofa en í baðstofum fyrri tíðar. Stofuhús voru stundum byggð við gömlu torfbæina, einkum á stórbýlum. „Staddur í Kollsvík, að mig minnir 1855 eða -6. Ég var nýbyrjaður að smíða innanum stofuhús, er átti að verða (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).
Stofupunt (n, hk) Stássgripur/skraut í stofu. „Nauðsynlegt þótti að krakkarnir, einkum strákarnir, eignuðust dótakassa sem svo voru nefndir, en stelpur áttu gjarnan dúkkuskot. Það var smáhorn sem rýmt var í baðstofum og stelpurnar fengu sem heimili fyrir dúkkurnar sínar og þeirra húsgögn og stofupunt. Þar var sumstaðar býsna fínt“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Stofustáss (n, hk) Skrautmunur í stofu. „Þessi smíðisgripur er kannski ekkert stofustáss, en hann dugir“.
Stokka (s) A. Almennt um að setja/raða í stokk. B. Rugla spilastokk með sérstökum handtökum.
Stokka upp línu (orðtak) Raða krókum línu í stokka. „Þá var lóðin stokkuð upp og tilbúin að beita hana“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Stokkabelti (n, hk) Skrautlegt belti úr málmi sem borið er við hinn íslenska þjóðbúning kvenna; þ.e. faldbúning, skautbúning eða kyrtil. Beltin eru oft úr silfri; stundum gyllt, og mjög mikil vinna lögð í fíngerðar skreytingar. Þau eru í einingum; stokkum, sem hlekkjaðar eru saman í belti með smáum hlekkjum og krækt saman með beltispörum. Sé stokkabelti með sprota að framanverðu nefnist það sprotabelti.
Stokkabyggt (l) Um hús; úr liggjandi bjálkum; bjálkabyggt. „Hús í Finnlandi ku almennt vera stokkabyggð“.
Stokkafarmur (n, kk) Skipsfarmur af trjáviði. „Áðurfyrr sóttu Kollsvíkingar heilu stokkafarmana af trjáviði á Hornstrandir, og fluttu þá á byrðingum“.
Stokkahús (n, hk) Bjálkahús; bjálkabyggt hús.
Stokkbólginn (l) Mikið bólginn; með mikinn þrota. „Einhver ígerð er í fingrinum; hann er stokkbólginn“
Stokkbyrt (l) Um skip; plankabyggt; sléttbyrt. „Flestar stærri skútur voru stokkbyrtar“.
Stokkfreðinn / Stokkfrosinn (l) Alveg frosinn; frosinn í staup. „Vatnið í drykkjardallinum er stokkfrosið“.
Stokkfrjósa (s) Frjósa í klump/staup. „Vatnið stokkfraus í fötunni í nótt“.
Stokkhúsið (n, hk) Eitt af dönskum fangelsum sem sekir Íslendingar máttu gista fyrr á tíð. Nefnt svo vegna þess að fætur fanga voru stundum settir í stokka; þ.e. tvö göt á láréttum bjálka. Stokkhúsvist þótti grimmileg refsing, og verri en á Brimarhólmi. Þar var mjög beitt líkamlegum pyntingum s.s. hýðingum, brennimerkingu og einangrun, enda áttu margir ekki afturkvæmt þaðan á lífi.
Stokkpumpa (n, kvk) Dæla/pumpa í bát. Hún er einföld að gerð; Fjögur borð voru fest saman á jöðrum þannig að þau mynduðu stokk/pumpustokk. Inn í hann var smíðuð bulla/pumpubulla; kubbur sem var rúmur í stokknum og ofaná hann leppur úr leðri/gúmmíi sem féll vel úti stokkveggina. Úr bullunni gekk pumpustöng; skaft sem náði uppúr stokknum. Stokkurinn var reistur frá kjalsogi uppyfir lunningu bátsins, og sjó dælt út bátnum með því að ýta bullunni niður og draga hana upp á víxl. Einfalt og afkastamikið tæki ef rétt var smíðað. Þannig stokkpumpa var m.a. í Voninni, sem Össur og Ingvar í Kollsvík áttu framundir 1970.
Stokkroðna (s) Verða mjög rjóður/rauður í andliti. „Strákurinn stokkroðnaði þegar stelpan kyssti hann“.
Stokktré (n, hk) A. Lóðastokkur; áhald með álmum sem krókum fiskilóðar er raðað uppá. B. Tré sem lagt er undir kjöl báts, ýmist sem hlunnur í setningu eða til að láta hann standa á í hrófi eða smíðum.
Stokkur (n. kk) A. Tréklumpur/trjábolur. Sbr stokkhús, hástokkur, borðstokkur, setstokkur. B. Langur og mjór kassi. Byggðir voru súgþurrkunarstokkar í gömlu hlöðuna. C. Bunki af spilum; spilastokkur. D. Þverslá ofantil á akkeri; gegnir því hlutverki að liggja á botninum og beina flaugunum niður í botninn, en stokkurinn snýr þvert á þær. E. Sá hluti á ár sem er á borðstokk báts þegar róið er, milli hlumms og leggjar. F. Klumpur; þéttur massi. Sbr stokkfrjósa. G. Grind sem tunna er sett uppá til að hægara sé að láta vökva (t.d. vín) renna af henni. H. Bjargstokkur; tré sem lagt er á bjargbrún þegar sigið er, þannig að sigvaðurinn renni um það og skerist síður á brúninni.
Stokkönd (n, kvk) Anas platyrhynchos. Grænhöfði; grænhöfðaönd; vatnsönd; gráönd. Algengur fugl af andarætt; að mestu staðfugl hérlendis m.a. í Kollsvík og nágrenni. Tilheyrir flokki svonefndra buslanda. Blikinn er mjög litskrúðugur, með grænan haus; hvítan hálshring; rauðbrúna bringu og gráleitan búk og vængi. Svart undirstél og gump og goggur gulgrænn. Kollan er brúnflikrótt, með ljósara höfuð og bringu og fínar rákir á höfði og bringu. Bæði kyn hafa dökkbláa vængspegla með hvítumog svörtum bryddingum. Stokköndin heldur sig oft á grunnu vatni og kafar til hálfs eftir æti á botninum. Eggin geta verið mörg, oft um átta. Kvenfuglinn liggur á en karlinn lætur sig hverfa á meðan. Karlarnir safnast saman meðan þeir fella fjaðrir. Ekki er óalgengt að kollan verpi mjög nærri mannabústöðum, jafnvel í görðum eða undir húsveggjum. Sennilega sækir hún með því í vernd gegn höfuðóvinum sínum; ref og mink.
Stolinn hnífur bítur best (orðatiltæki) Þjófnaður var og er jafnan talinn glæpur, en undanskilinn er þó þjófnaður á hnífum. Í Kollsvík gera menn sér að íþrótt að nappa vasahníf af nágrönnum og vinum við öll tækifæri. Allt er það þó í vinsemd og gamni, og hnífnum yfirleitt skilað. Líklega er um gamla reglu að ræða, frá þeim ófriðartímum að réttlætanlegt þótti að fjarlægja hugsanlegt morðvopn. Máltækið hefur orðið til útfrá þessari undantekningarreglu. Sjá lyginn maður brýnir best og bítur stolinn hnífur.
Stolt (n, hk) Hreykni; ánægja með eitthvað sem að manni snýr, en þó ekki eins neikvætt og mont/gort.
Stopp (n, hk) A. Viðdvöl; stans. „Það verður fremur stutt stopp hjá mér að þessu sinni“. B. Fylling sem sett er með brothættri vöru til að forða því að hún brotni. Oftast notað varðandi egg í seinni tíð. Við flutning fílseggja úr Blakk og Breið var þurr sina notuð sem stopp, en hún hentar mjög vel í það.
Stoppa (s) A. Stansa; stöðva. B. Sauma fyrir gat; staga. C. Setja stopp/bólstur í húsgögn eða með eggjum. „...var eggjunum raðað í trékassa og stoppað með mosa á milli þeirra“ (MG; Látrabjarg).
Stoppa í (orðtak) Sauma fyrir gat í flík eða öðrum vefnaði.
Stoppa upp (orðtak) Fylla eitthvað með stoppi/bólstri. Oftast notað um það að gera hami af dýrum sem líkasta því sem þau voru í lifanda lífi.
Stoppaður af kvefi (l) Svo kvefaður að nefgöng eru stífluð og bólgur í nefbeinsholum. „Ég er að stoppast af einhverjum kvefpestarfjanda“. „Hann hefur verið stoppaður af kvefi í marga daga“.
Stoppelsi (n, hk) Hindrun; stífla; tregða. „Það er einhvað stoppelsi í lögninni, því hér kemur ekki dropi“ „Nú er stoppelsi í réttardyrunum. Ég fer og lempa það“. Mikið notað í Kollsvík en sést ekki í orðabókum.
Stoppnál (n, kvk) Grófgerð nál, til að stoppa í sokka o.fl. með bandi/garni.
Stopppoki (n, kk) Poki af stoppi. „Við þurfum að taka með okkur stopppoka upp á brún, því þar er ekkert til að stoppa eggin með, fyrir burðinn heim“.
Stopull (l) Sem kemur sjaldan fyrir; sjaldgæfur; tregur. „Róðrar voru fremur stopulir síðustu vikuna“.
Storð (n, kvk) Jörð; land. Einkum notað í ljóðum.
Storka (n, kvk) Það sem er storkið/storknað; skorpa. T.d. saltstorka, leirstorka, hraunstorka; svitastorka; frosin skán á jörð. „Eftir sandrokið var leirstorka á hverjum steini, staur og húsvegg“.
Storka (s) Ögra; mana; erta; stríða. „Það getur hefnt sín að storka örlögunum um of“.
Storkinn / Storknaður (l) Um blóð/feiti; orðið hart. „Flýttu þér nú að borða fiskinn áður en flotið er alveg storknað“. „Ansi er að sjá þetta; hér er storkið blóð á skyrtunni“!
Storkna (s) Verða storkinn. „Mörinn var settur í netjuna og lagður á hillu meðan hann var að storkna“.
Stormasamt (l) A. Um tíðarfar; yfirleitt mjög vindasamt. „Það er búið að vera ári stormasamt þetta vorið“. „Janúar var stormasamur og kaldur, og því vart notandi útbeit“ (SJTh; Árb.Barð 1955-56). B. Notað í líkingamáli um ófriðlegt samband, t.d. hjónaband.
Stormbylur / Stormsveipur (n, kk) A. Öflug vindhviða. B Eldra orð yfir hvirfilbyl. C. Oftast notað í líkingum í seinni tíð: „Hann æddi hér inn eins og stormbylur og sagði að féð lægi allt í túninu“. „Þingmaðurinn æddi hér um allar sveitir eins og stormsveipur, en sagði fátt af viti“.
Stormhvessa (s) Hvessa mjög mikið; hvessa í stormstyrk; bálhvessa. „Hann er að stormhvessa; það er varla hægt að hreyfa hey mikið úr þessu“.
Stormhviða (n, kvk) Öflug vindhviða; vindhnútur; stormbylur. „Í einni stormhviðunni sviptist járnplata af húsinu“.
Stormhvítur (l) Um sjó; hvítur/freyðandi af roki og vindbáru. „Hann lagði hviður heimmeð Blakknum svo þar varð stormhvítur sjór á augabragði þó þar væri annars sjólítið í norðangarðinum“.
Stormklýfir (n, kk) Stagsegl á skipi; þríhyrnt segl sem kemur framanvið fokku, á stagi frá bugspjóti uppí framsiglu. Stormklýfir er minni en venjulegur klýfir, og hafður uppi þegar hvasst er.
Stormmáfur (n, kk) Larus canus. Máfategund sem sést hefur í auknum mæli hérlendis á síðari áratugum. Líkur silfurmáfi að nokkru marki, og líkur ritu að stærð og lit, nema að hún er með heiðgult nef, svartar og styttri fætur. Helsta varpsvæðið er í Eyjafirði, en hann hefur sést í Kollsvík.
Stormspá (n, kvk) Veðurspá þar sem spáð er miklu hvassviðri. „Við róum lítið á næstunni; það er bara stormspá út alla vikuna“!
Stormsperra / Stormsperringur / Stormsveljandi / Stormtætingur (n, kvk/kk) Stormur; vindsperringur, „Bölvaður stormsperringur er þetta“! „Endemis stormtætingur ætlar þetta að verða“!
Stormur (n, kk) Mjög hvasst, nærri eins og í roki. „Það er kominn norðan stormur“. „Þótt veturinn hafi verið snjólaus hafa samt verið innistöður að mestu sökum illviðra fyrri hluta vetrarins, en kulda og storma með þurrkum eftir góubyrjun“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1942).
Stormur í vatnsglasi (orðtak) Líkingamál um það sem einhverjum þykir stórmál en er í raun smámál sem litlu beytir.
Stó (n, kvk) Eldstæði; arinn, sbr eldstó. „Hún stendur við stóna og bakar fyrir okkur pönnukökur“. Stó er af sama orðstofni og stofa, og vísar til elds í íveruhúsum fyrr á tíð.
Stóð (n, hk) A. Almennt um hóp af einhverju. B. Hópur hesta, t.d. hrossastóð. C. Þéttur hávaxinn gróður, t.d. hvannstóð. Einkum notað í þeirri merkingu í Kollsvík. T.d. nefnist Sighvatsstóð allmikill hvanngróinn fláki í miðjum efriklettum fremst sunnantil í Blakknum. Orðstofninn vísar til sagnorðsins „standa“.
Stóla (n, kvk) Lindi sem prestur hefur stundum um háls sér við messugjörð og ber lit kirkjuársins.
Stóla á (orðtak) Treysta á. Dönskusletta.
Stólgarmur (n, kk) Lélegur stóll. „Gáðu að þér þegar þú sest á stólgarminn“. Einnig gæluorð um stól.
Stólkollur (n, kk) Kollustóll; kollur; stóll án baks. Einnig gæluorð um stól þó bak sé á. „Finndu þér einhvern stólkoll að tylla þér á“.
Stóll (n, kk) A. Sæti, oftast með setu, fótum og baki. B. Upphækkun/pallur sem ræðumaður stendur á, t.d. ræðustóll, predikunarstóll, valdastóll. C. Stytting úr biskupsstóll; aðsetur biskups. D. Meginstofn einhvers, s.s. skipastóll, höfuðstóll (efnahags).
Stólpabóndi (n, kk) Stórbóndi; duglegur/gildur bóndi; mikill búmaður.
Stólpabrim / Stólpasjór (n, hk) Mjög mikið brim; rótarbrim; húðveltubrim. „Það er kominn norðanofsi og stólpabrim“. „Hann heldur enn þessum stólpasjó þó slegið hafi í vindinn“.
Stólpagripur (n, kk) Öndvegisskepna. „Á Láganúpi var einn hestur, Glói að nafni; stólpagripur“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Stólpahjallur (n, kk) „Hjallur sem ekki var yfirbyggður kallaðist stólpahjallur, trönuhjallur eða lofthjallur“ (LK; Ísl.sjávarhættir IV). Ekki vitað nú hvort þessi heiti voru notað í Kollsvík.
Stólpakjaftur (n, kk) Um þann sem er kokhraustur og rífur kjaft. „Það er aldeilis stólpakjaftur á honum“.
Stólpanorðangarður / Stólpavestangarður (n, kk) Um langvarandi og mikið hvassviðri af norðan/vestan, með miklu brimi. „Enn ætlar hann ekkert að lina þennan stólpanorðangarð“!
Stólparok (n, hk) Hávaðarok; Mikið rok. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Stólpi (n, kk) Stöpull; sver girðingarstaur; súla; það sem ber eitthvað uppi; meginþáttur.
Stólpípa (n, hk) Áhald til að setja vökva í endaþarm, t.d. til að koma af stað hægðum. Fyrrum var hún eitt af mikilvægustu lækningatækjunum og talið meinhollt að setja mönnum stólpípu við hverkonar kvillum.
Stólræða (n, kvk) Ræða prests í predikunarstól; predikun.
Stólseign / Stólsjörð (n, kvk) Eign biskupsstóls. Voru þær flestar nætti biskupssetrunum.
Stór í sniðum/stykkinu (orðtak) Grófgerður; stór; umfangsmikill. „Framleiðslan er ekki stór í sniðum“.
Stór og stæðilegur (orðtak) Stór og stendur vel; reisulegur.
Stór orð (orðtak) Meiðyrði; öflug skammaryrði; heitingar; hótanir; sterkar lýsingar. „Hann var orðinn fjúkandi illur og hafði uppi stór orð um „þessa andskotans heimskingja og landeyður““.
Stór orð stoða lítið /Stóryrði stoða lítið (orðtatiltæki) Ekkert gagnast að bölsótast/hóta/bölva.
Stór uppá sig (orðtak) Merkilegur með sig; stórbokkalegur. „Eru menn nú orðnir svo stórir uppá sig að þeir heilsi ekki sveitungunum“?!
Stórabóla (n, kvk) Mannskæð farsótt sem barst til landsins í júní árið 1707. Hún breiddist hratt út og lagði fólk í flestum landshlutum. Dánarhlutfall íbúa var um 33% þar sem sóttin geisaði. Pestin barst á undraskömmum tíma vestur í Kollsvík, því áður en árið 1707 var úti hafði hún lagt býlið Hóla í eyði, sem þá hafði verið í byggð í rúm 50 ár. Þegar Jarðabókin var gerð fjórum árum fyrr bjó þar Ólafur Jónsson bóndi og formaður með 4 öðrum heimilismönnum með1 kú; 6 ær og 3 gemlinga. (Sbr. Jarðabók 1703 og Sóknarlýsingar 1840).
Stóraðgerð (n, kvk) A. Mikil vinna við frágang/aðgerð afla. B. Mikið verkefni. „Mér sýnist að vegalagning á þessum stað gæti verið stóaðgerð“. C. Mikil læknisaðgerð. „Ég fór í stóraðgerð á mjöðminni í vetur“.
Stórafmæli (n, hk) Merkisafmæli; tugafmæli; afmæli sem markar tugi ára frá fæðingu/upphafi.
Stórakasína (n, kvk) Tígultía í spilinu kasínu. Hún vegur hæst í stigagjöf eftir spilið.
Stórannir (n, kvk, fto) Miklar annir; annasamt; mikil verkefni. „Það eru nú ekki slíkar stórannir framundan hjá mér að ég geti ekki aðstoðað þig við þetta“.
Stóratburður / Stórviðburður (n, kk) Viðburður sem telst meiri en aðrir.
Stóratriði (n, hk) Veigamikill þáttur; meginþáttur; mikil áhersla. „Það er ekkert stóratriði að klára þetta í dag“.
Stórauðugur (l) Mjög auðugur/ríkur. „Einar í Kollsvík var talinn stórauðugur meðan hann var uppá sitt besta“.
Stóraukinn (l) Aukinn mjög mikið. „Telur fundurinn að verði það ekki gert sé sú hætta fyrir hendi að fólk flytji brott úr sveitinni í stórauknum mæli“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Stórá / Stórfljót (n,kvk/ hk) Mikið vatnsfall. „Litlar lækjarsprænur urðu eins og stórár í vatnavöxtunum“.
Stóráfall (n, hk) Mikið áfall; mikill hnekkir; stórslys.
Stórágjöf (n, kvk) Mikil ágjöf á bát; mikill sjór sem veltur inn í bát í sjógangi. „Virðist svo sem báturinn hafi ekki skriðið nóg, því að brátt lá hann undir stórágjöfum“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð).
Stórátak (n, hk) Mikið átak; mikið framfaraskref. „Stórátak var unnið með vegagerð yfir Hænuvíkurháls“.
Stórbatna / Stórlagast (s) Lagast/batna mikið; fara mikið fram. „Vegurinn í Kinninni stórbatnaði þegar honum var ýtt upp“. „Heilsan hefur stórlagast þó ekki sé maður orðinn velgóður ennþá“.
Stórbeinóttur (l) Með grófgerða beinabyggingu; beinasleggja.
Stórbilaður / Stórgeggjaður (l) Stórskrýtinn; alveg ær. „Ertu alveg stórgeggjaður; þetta er alltof vegleg afmælisgjöf“!
Stórbokkaháttur (n, kk) Yfirlæti; hroki. „Ég hef ekki þekkt hann að neinum stórbokkahætti hingað til“.
Stórbokkalegur (l) Yfirlætislegur; hrokafullur. „Séra Björn var sagður hafa verið nokkuð stórbokkalegur“.
Stórbokki (n, kk) Hrokagikkur; drambsamur maður. „Ég hef þá ekkert við slíka stórbokka að tala“! Sjá bokki.
Stórborg (n, kvk) Gæluheiti/uppnefni á Reykjavík. „Ertu að fara suður í stórborgina á næstunni“.
Stórbóndi (n, kk) Bóndi á stóru býli. „Hvað ætlar stórbóndinn að leggja marga til í göngur“?
Stórbót (n, kvk) Mikil bót/framför. „Þessi lagfæring er til stórbóta“.
Stórbreyting (n, kvk) Mikil breyting. „Það hafa orðið stórbreytingar á fjörunni í seinni tíð“.
Stórbrim (n, hk) Mikið brim. „Á Hvallátrum vestra og víðar við sjávarsíðuna rekur feikn af þöngli í stórbrimum að vetrum" (PJ; Barðstrendingabók).
Stórbrot (n, hk) Mikill brotsjór. „Var þá víkin að sjá sem eitt stórbrot“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). „Okkur vantaði örstutt í boðann, þegar á honum reis stórbrot sem æddi hrynjandi yfir sundið og upp leguna“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Stórbrotinn (l) Mikill/stór í sniðum; áberandi; fyrirferðarmikill; stórskorinn; heillandi.
Stórbú / Stórbýli (n, hk) Býli/bú með miklu skepnuhaldi; stór jörð með miklum búrekstri.
Stórbúskapur (n, kk) Mikill búrekstur á jörð. „Þetta er nú enginn stórbúskapur hjá honum“.
Stórbættur (l) Mjög bættur; mikið betri. „Samgöngur eru nú allar stórbættar“.
Stórdrykkjumaður (n, kk) Sá sem drekkur mikið áfengi; fyllibytta; róni.
Stórdularfullt (l) Mjög leyndardómsfullt; erfitt að útskýra. „Þetta mál er alltsaman stórdularfullt“!
Stórefa / Stórefast um (s/orðtak) Draga verulega í efa; efast mikið um. „Kannski þetta komi í leitirnar síðar, en ég stórefa það“. „Ég stórefast um að stjórnin haldi velli í kosningunum“.
Stóreflis... (l) Mjög mikið; stærðar... „Það hefur fallið stóreflis bjarg á Fjörurnar“.
Stórefnamaður (n, kk) Mjög auðugur/ríkur maður. „Ég hef nú aldrei verið neinn stórefnamaður“.
Stóreygur (l) A. Með stór augu. B. Líkingamál; hissa; undrandi; öfundsjúkur. „Nágrannarnir urðu all stóreygir yfir þessum miklu fjárfestingum, enda vissi enginn til þess að hann hefði efni á þessu“.
Stórfeginn (l) Mjög glaður/ánægður/feginn. „Ég er stórfeginn því að þessu er aflokið“!
Stórfelldur (l) Í miklum mæli; í miklu magni; mjög; mikið. „Stórfelldur dráttur varð á greiðslu skuldarinnar“.
Stórfenglegt (l) Stórkostlegt; mikilfenglegt. „Það er stórfenglegt sjónarspil þegar brimið er hvað mest“.
Stórfé (n, hk) Mikil/há fjárhæð/upphæð. „Hann tapaði stórfé á þessum rekstri“.
Stórfiskaleikur (n, kk) Ein tegund eltingaleiks. Einn þátttakandi (stórfiskur/hákarl) stendur í miðjum velli og aðrir þátttakendur í kring. Þegar hann gefur merki, t.d. klappar, eiga hinir að reyna að hlaupa þvert yfir völlinn en hann reynir að ná þeim (klukka þá). Sá sem næst gengur í lið með stórfiskinum/hákarlinum og sá vinnur leikinn sem síðast næst. Nokkuð leikið í Kollsvík, t.d. meðan þar var skólahald.
Stórfiskur (n, kk) A. Fiskur sem er stærri en almennt gerist; golþorskur. „Mér finnst áberandi meira af stórfiski í aflanum núna en í fyrra“. B. Gamalt heiti á hval eða hákarl. Bannhelgi var við því fyrrum að nefna hval á nafn á sjó, því þá gæti illhveli tortímt manni og bát, og því voru notuð önnur heiti s.s. stórfiskur.
Stórfjara (n, kvk) Mjög stór fjara; stórstraumsfjara.
Stórfjúk (n, hk) Mjög mikil snjókoma/skafmold í hvassviðri; skafmoldarbylur; stórhríð.
Stórflóð (n, hk) Mikið flóð. „Stórflóð kom niður Flötina þegar krapastíflan í Gilinu lét undan“.
Stórflæði (n, kvk) Flæði sem nær hátt, t.d. vegna stórstraums, stífrar landáttar og/eða lágs loftþrýstings; stórstraumsflóð.
Stórframkvæmd (n, kvk) Viðamikið verkefni; veruleg framkvæmd. „Stendur þú í stórframkvæmdum“?
Stórfróðlegur (l) Mjög fróðlegur/áhugaverður. „Þetta er stórfróðleg ritgerð hjá honum“.
Stórfugl (n, kk) Heiti sem vanalega var notað vestra um langvíu og nefskera, enda eru það stærri fuglar og matarmeiri en t.d. álka og lundi.
Stórfuglsegg (n, hk) Egg úr langvíu eða nefskera, en þau eru mun stærri en t.d. álkuegg. „Það þarf að vanda sig við skipti á eggjum; að setja ekki stórfuglsegg á móti álkueggi“.
Stórfurða (n, kvk) Mikil undrun; mikið undrunarefni. „Það þykir stórfurðu sæta að ekki skuli hafa farið verr“.
Stórfurðulegur / Stórundarlegur / Stórskrítinn (l) Mjög undarlegur/sérkennilegur/skrýtinn; kostulegur. „Þetta er ágætis maður, en stórfurðulegur í háttum“. „Mér finnst alveg stórfurðulegt að kindin finnist ekki“.
Stórgagn (n, hk) Mikið gagn. „Það væri stórgagn að því ef þessi beygja á veginum væri löguð“.
Stórgalli (n, kk) Mikill hængur/skavanki/ágalli. „Það er auðvitað stórgalli á nærbuxum þegar klaufina vantar“.
Stórgarður (n, hk) Veðurofsi; stólpabrim. „Um kvöldið gekk um með vestan stórgarð og skipið brotnaði í spón“ (um strand British Empire við Hnífa, líkl. haft eftir GG).
Stórgáfaður (l) Mjög gáfaður/greindur/skynsamur. „Sumir telja hann stórgáfaðan, en aðrir hálfvita“.
Stórgeðugur (l) Mjög viðkunnanlegur/viðfelldinn. „Mér fannst hún bara stórgeðug manneskja“.
Stórgeðja (l) Skapmikill; þungur á bárunni. „Hann var dagfarsprúður, en stórgeðja ef honum mislíkaði“.
Stórgeggjaður (l) Mjög/verulega geðbilaður/ veikur á geði; snarbilaður; úti að aka.
Stórgerður (l) Grófur; grófgerður; stórkarlalegur; með hrúfri áferð/ásýnd; ekki smágerður/smáfríður.
Stórglæpur (n, kk) Alvarlegt/mikið afbrot; mikil yfirsjón/afglöp.
Stórglæsilegur (l) Mjög myndarlegur/fallegur. „Albert var stórglæsilegur maður; afar traustvekjandi“ (Anna Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg).
Stórgreiði (n, kk) Mikil greiðvikni; mikið velvildarverk. „Það er erfitt að launa svona stórgreiða“.
Stórgripur (n, kk) A. Nautpeningur; kýr, naut, uxi eða stálpaður kálfur. „Í hverja brók þurfti þrjú ærskinn og kálfskinn í setskautann, en leður af stórgrip í sólana “ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Stórgripaslátrunin verður á undan sauðfjárslátrun þetta haustið“. B. Stór hlutur. „Það verður erfitt að koma þessum stórgrip inn í hús“.
Stórgróðastarfsemi (n, kvk) Starfsemi/rekstur sem gefur mikinn arð/hagnað. „Svona búrekstur getur kannski aldrei orðið stórgróðastarfsemi, en hann getur vel framfleytt samhentri og nægjusamri fjölskyldu“.
Stórgróði / Stórhagnaður (n, kk) Mikill arður/gróði/hagnaður.
Stórgrýti (n, hk) Stór steinn og svo þungur að honum verður ekki bifað án tækja. Safn slíkra steina á svæði, t.d. neðan hlíða, er stórgrýtisurð. „Hann þurfti að fjarlægja mikið af stórgrýti til að þarna yrði slægjur“.
Stórgrýtisfjara (n, kvk) Stórgrýtt fjara. „neðanvið Undirhlíð er stórgrýtisfjara“.
Stórgrýtisurð (n, kvk) Mjög stórgrýtt/gróf urð. „Nokkur hluti vegarins liggur gegnum stórgrýtisurð“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Stórgræða (s) Hagnast mjög mikið; fá verulegan arð.
Stórhátíð (n, kvk) Mikil hátíð; mestu hátíðir ársins s.s. jól, áramót, páskar og hvítasunna.
Stórheilagt (l) A. Stórhátíðisdagur; jól, páskar, hvítasunna. B. Líkingamál um alvarleika málefnis. „Það er nú ekki stórheilagt þó verkið klárist ekki allt í dag“.
Stórheit (n, hk, fto) A. Mikilfengleiki; mikið umfang. „Hann vissi ekki hvernig hann átti að taka þessum stórheitum. Hann hafði ekki búist við viðurkenningu úr þessari átt“. B. Stórmæli; heitingar; illska. „Af þessu máli spruttu stórheit og illdeilur milli bæjanna“. „Stóheitin flugu á milli þeirra“.
Stórheppni (n, kvk) Mikil heppni; mikið lán; hundaheppni.
Stórhneyksli (n, hk) Mikið hneyksli; mikill skandall.
Stórhóll (n, kk) Stór hóll. Stórhóll er nafn á áberandi strýtulaga hól utantil við Grófarstekk á Hnífum; heimanvið Flatir þar. Stórhóll er bústaður huldufólks og ávallt hefur verið bann við hávaða nærri honum. Þar má helst ekki hóa á fé, hvað þá ærslast. Í klettunum neðan Stórhóls er Sandhellir og eru göng sögð liggja úr honum upp í Stórhól. Er ekki vitað um aðra huldufólksbústaði sem hafa innangengt í viðlíka sjávarsýn, með sandvogi undir og sjávargosi í hlein. Skammt heiman Sandhellis er í klettunum Tröllkarlshellir, sem er mun tröllslegri ásýndum. Mun einstakt að svo stutt sé milli byggða þessara ólíku landvætta. Vel gengt er í báða hellana, þó varasamara í Tröllkarlshelli. Munnmælin segja að göng liggi frá Tröllkarlshelli í Hnífum í Tröllkonuhelli í innanverðum Blakk, en neðan hans er Kattarhola, og úr henni eru sögð vera göng alla leið í Urðarhjalla ofan Látrabjargs. Þjóðtrúin hóf því gangagerð á Vestfjörðum löngu á undan Vegagerðinni.
Stórhreingerningar (n, kvk, fto) Mikil þrif; miklar hreingerningar t.d. í húsi. „Stendur þú í stórhreingerningum“?
Stórhret (n, hk) Mikið/öflugt/langvarandi hret; mikil ótíð.
Stórhrifinn (l) Mjög hrifinn/ánægður/spenntur.
Stórhríð (n, kvk) Mikill bylur, oftast með ofankomu. „Gerði þá jarðbönn og stórhríðar með frosti; svo taka varð hross á hús og hey“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Stórhuga (l) Með miklar hugmyndir/hugsjónir; ætlar að gera mikið/ koma miklu í verk.
Stórhvalur / Stórhveli (n, kk/hk) Stór hvalur. „En nú var það erfiðasta eftir; að koma stórhveli að landi með árunum einum saman, á lítilli bátskel“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Stórhyrnd (l) Um hornalag á sauðkind/nautgrip; með stór/áberandi horn.
Stórhýsi (n, hk) Stórt/veglegt hús. „Okkur fannst nýja húsið vera stórhýsi, miðað við það eldra“.
Stórhætta (n, kvk) Mikil/bráð hætta. „Það var rækilega brýnt fyrir honum með handahreyfingum að hann mætti alls ekki færa sig úr stað. Þá væri stórhætta á að hann hrapaði fyrir björg“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg).
Stórhættulegur (l) Mjög hættulegur/varasamur. „Gættu að þér í aurskriðunni; hún er stórhættuleg í þurrki“.
Stóridómur (n, kk) Refsilöggjöf sem samþykkt var á Alþingi 1564 að tilhlutan Páls Stígssonar hirðstjóra og staðfest af Danakóngi. Einkum tók hún til siðferðisbrota, og með henni voru viðurlög verulega þyngd frá kristinréttarlögum sem gilt höfðu frá 1275, og heyrðu slík mál nú undir verlaldlegt vald en ekki kirkjulegt. Í stóradómi voru ákvæði um viðurlög við sifjaspellum, frillulífi, hórdómi o.fl. Við alvarlegustu brotunum var tekin upp dauðarefsing, þar sem karlar voru hálhöggnir en konum drekkt í Drekkingarhyl í Öxará. Vægari viðurlög vor t.d. húðstrýking; útlegð úr fjórðungi eða landi; aleigumissir eða lægri fjársektir. Var fjöldi manna dæmdur til harðra refsinga meðan stóridómur gilti, en hann var mildaður undir lok 18.aldar og afnuminn að mestu á 19.öld.
Stóriðra / Stóriðrast eftir (s/orðtak) Sjá mikið eftir; þykja leitt. „Hann má stóriðra það að hafa ekki róið í morgun, eins og veðrið hefur farið með sig“. „Ég stóriðrast eftir að hafa leyft honum þetta“.
Stórilla (ao) Mjög illa. „Mér líkaði það stórilla þegar tillagan var felld á fundinum“.
Stórjörð (n, kvk) Mikil jörð/landareign; mjög kostamikil jörð. Helsta stórjörðin í Rauðasandshreppi var alla tíð Saurbær á Rauðasandi; einkum meðan undir hana heyrðu fjölmargar hjáleigur og ítök.
Stórkarlabragur (n, kk) Grófgert/klunnalegt yfirbragð; yfirgangur. „Ekki finnst mér þetta vera nein fínsmíði hjá honum; það er óttalegur stórkarlabragur á þessu“.
Stórkarlahlátur (n, kk) Hrossahlátur; grófur gjallandi hlátur. „Verið ekki meðþennan stórkarlahlátur þegar barnið er að reyna að sofa“!
Stórkarlalega (ao) Gróft; hryssingslega; skröggslega.
Stórkarlalegur (l) Grófgerður; hrikalegur; höstugur; klunnalegur. „Þú þarft að vera fínhentari við þetta; það þýðir ekkert að vera svona stórkarlalegur“. „Skriftin var dálítið stórkarlaleg“.
Stórkostlega (ao) Mikilfenglega; mikið; aðdáanlega.
Stórkostlegur (l) Mikilfenglegur; mikill; frábær.
Stórkostulegur (l) Stórfurðulegur; mjög kostulegur/einkennilegur/furðulegur/sérkennilegur. „Okkur fannst þetta stórkostulegar aðfarir og skemmtum okkur konunglega“.
Stórlega (ao) Mikið. „Ég efast stórlega um að þessar kindur heimtist nokkurntíma aftur“.
Stórleysingar (n, kvk, fto) Miklar leysingar; asahláka. „Í stórleysingum flæðir vatn oft niður Flötina“.
Stórlundaður / Stórlyndur (l) Skapmikill; með erfiða skaphöfn. „Gísli Konráðsson segir að Guðrún hafi þótt stórlynd, en mikilhæf í mörgu og Einari hafi farist vel við hana þótt jafnan héldi hann framhjá henni, eins og Gísli orðar það“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Stórlúinn (l) Mjög lúinn/þreyttur; uppgefinn. „Ég er nú ekki stórlúinn eftir svona stutta göngu“.
Stórmannlega (ao) Höfðinglega; rausnarlega. „Þetta fannst mér nokkuð stórmannlega gert af honum“.
Stórmastur / Stórsigla (n, hk) Stærsta mastrið/siglutréð á seglskipi; aðalmastur.
Stórmál (n, hk) Mikilvægt málefni; helsta atriði; alvarlegt mál. „Þetta er nú ekki stórmál í mínum augum“.
Stórmenni (n, hk) Fólk sem álitið er mikilvægt í samfélagi; virðingarfólk. „Þarna kom margt stórmennið“.
Stórmennska (n, kvk) Höfðingsskapur; mikil gjafmildi/manngæska. „Hann átti það til að sýna stórmennsku, þó aðhaldssamur væri dagsdaglega“.
Stórmennskubragur (n, kk) Yfirbragð stórmennsku/höfðingsskapar. „Það er stórmennskubragur á svonalöguðu; þetta kunna menn að meta“!
Stórmerki (n, hk, fto) Mikilleiki; meiriháttar viðburður/atvik. „Mér finnst það nokkur undur og stórmerki að hann skuli hafa getað þetta án aðstoðar“.
Stórmerkilegur / Stórmerkur (l) Mjög merkilegur/merkur; athyglisverður; einstakur. „Hann var stórmerkilegur maður að ýmsu leyti“. „Mér finnst stórmerkilegt að þetta skuli ekki hafa verið athugað fyrr“.
Stórmóðga (s) Móðga/hneyksla mjög mikið.
Stórmóðgun (n, kvk) Mikil móðgun/fyrirlitning. „Honum fannst þetta vera stórmóðgun við sig“.
Stórmunur (n, kk) Mikll munur. „Maður sér stórmun á túnunum dag frá degi í svona gróðrartíð“.
Stórmyndarlegur (l) Mjög laglegur/ásjálegur/fallegur. „Hann á stórmyndarlega eiginkonu“.
Stórmæli (n, hk) A. Stór orð; gífuryrði. B. Alvarlegt dómsmál/sakamál; miklar sakir; stórglæpur.
Stórmöskvað / Stórriðið (l) Um net; með grófum/stórum möskva.
Stórnauðsyn (n, kvk) Mikil nauðsyn; mjög nauðsynlegt. „Mér finnst ekki nein stórnauðsyn á þessu“.
Stórorður (l) Stóryrtur; gífuryrtur. Gefur miklar yfirlýsingar; er grófur í tali.
Stórpólitískur (l) Sem mjög skiptar skoðanir eru um; umdeildur. „Fundurinn telur ekki hollt að draga að ástæðulausu stórpólitísk mál inn á sveitarfundi“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG).
Stórprýði (n, kvk) Mikil fegrun; skraut. „Þessi framkvæmd er til stórprýði fyrir staðinn“.
Stórreki (n, kk) Mikill reki; reki stórviðar/ stórra trjáa. „Það hafa ekki orðið miklir stórrekar nýlega“.
Stórrigning (n, kvk) Mjög mikil rigning. „Það var stöðug stórrigning þessa daga svo bæði var vossamt og erfitt fyrir menn og skepnur...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Stórrok (n, hk) Hávaarok; mjög mikið rok/hvassviðri. „Stórrok var ennþá, en þó mun minna en verið hafði um nóttina“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Stórræði (orðtak) Mikil ráðagerð; mikið verkefni/verk. „Hann er að herða sig upp í þetta stórræði“.
Stórsegl (n, hk) Aðalsegl/meginsegl á báti. Um þrennskonar meginsegl var að ræða: Þversegl eða skautasegl er elsta seglgerðin og sú sem nær einvörðungu var notuð á smábáta í íslenskum verstöðvum gegnum aldirnar. Þversegli er fest á rá, því sem næst þversum á bátlengdina; skautin (neðri hornin) eru fest sérstaklega og unnt að hagræða þeim eftir vindátt, en þversegl henta ekki í beitivindi. Loggortusegl eða gaffalsegl er fest á rá, gaffal, sem hallar upp og aftur frá siglutrénu; því sem næst í átt að skut. Þessi seglgerð hentar ágætlega í beitivindi. Sprytsegl er einnig aftur af siglunni, en ráin, sprytið sem heldur seglinu opnu, gengur frá neðra horni að framan upp í efra horn að aftan.
Flestir bátar sem reru úr verstöðvum útvíkna voru litlar skektur sem notuðu þversegl. Þó voru til stærri skip, t.d. teinæringurinn Fönix í Kollsvík, sem sagður var glæsilegasta skip sem nokkurntíma hefði róið frá útvíkum fram til aldamótanna 1900. Ekki fer neinum sögum af seglabúnaði á Fönix, en ekki er ólíklegt að hann hafi haft loggortusegl: „Hákarlaskip Vestfirðinga voru með einu þversegli. Á þeim þekktist reyndar loggortusigling, t.d. í Víkum norðan Látrabjargs, en þar var hinsvegr þversegl á öllum venjulegum fiskibátum, einnig færeyskum , sem þangað voru keyptir og í Arnarfjörð“ (LK; Ísl .sjávarhættir; m.a. eftir GG). Til viðbótar við stórseglið voru notuð minni segl, einkum á stærri bátum; s.s. stagsegl, klýfir og fokka. „Stórseglið hafði verið mjög stórt og þótti bera skipið ofurliði“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Stórsektir (n, kvk, fto) Miklar fjársektir. „Hann sagðist ekki ætla að lenda í stórsektum fyrir svonalagað“.
Stórsig (n, hk) Langt bjargsig, sem útheimtir mikinn mannskap og útbúnað. „Stórsig er á Miðlandahillu“.
Stórsjá á (orðtak) Sjást greinilegur skaði á; vera mikið meiddur/skaðaður. „Hann var sleginn þannig á kjaftinn á blótinu, að það stórsá á honum“.
Stórsjá eftir (orðtak) Sjá mikið eftir; vera mjög iðrandi. „Ég stórsé eftir að hafa lagt af stað í svona tvísýnu“!
Stórsjóaður (l) Með mikinn sjógang/ mikið brim. „Hann er að verða nokkuð stórsjóaður. Ég er hræddur um að hann gæti sett einhvern skít í netin núna“.
Stórsjór (n, kk) Mikill sjógangur. „Það er kominn hauga stórsjór af vestri“.
Stórskaða (s) Valda verulegu tjóni/slysi; slasa/skemma mikið. „Svona aðgerðir geta stórskaðað þessa atvinnugrein“.
Stórskaðast (s) Verða fyrir verulegu tjóni/slysi; slasast/skemmast mjög mikið. „Þakið hefur stórskaðast í rokinu“.
Stórskaði (n, kk) Stórtjón; mikill skaði. „Það yrði varla stórskaði þó hlöðuræksnið brynni“!
Stórskafl (n, kk) A. Stór snjóskafl. B. Mikil brimbára; brot. „Tilkomumikið er að horfa framá Kollsvíkina í sverum norðansjó; þegar hver stórskaflinn er framaf öðrum, svo langt sem augað eygir“.
Stórskammir (n, kvk, fto) Miklar skammir; óbótaskammir. „Hann fékk stórskammir fyrir tiltækið“.
Stórskemma (s) Skemma mikið; valda miklum skemmdum. „Það er búið að stórskemma vörðuna“!
Stórskip (n, hk) Stórt skip; hafskip. „Þeir ættu að geta róið á stórskipinu í svona tíkargjólu“!
Stórskipaleið (n, kvk) Siglingaleið stórra skipa. „Við reyndum bæði uppundir harðalandi og frammi á stórskipaleið; það var hvergi pöddu að hafa úr sjó“!
Stórskorinn (l) Grófgerður; með stórgert yfirbragð. „Hann var stórskorinn í útliti en gull af manni“.
Stórskrýtinn (l) Mjög undarlegur; ekki með öllum mjalla. „Hann var af mörgum talinn stórskrýtinn“.
Stórskuldugur (l) Mjög skuldugur; skuldum vafinn.
Stórslys (n, hk) Mikill skaði; alvarlegt slys. Í útgerðarsamfélögum oft notað um skipsskaða. „Gerði áhlaupsveður af norðri með snjókomu og veðurofsa, svo fólk í landi bjóst við stórslysi er svo margir bátar voru á sjó“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Stórspenótt (l) Um kind/kýr; með stóra spena. „Það er mesta furða að lambið skuli ná að sjúga hana, eins stórspenótt og hún er“.
Stórsteik (n, kvk) Kjöt sem steikt er í heilu/stóru stykki, t.d. læri eða hryggur.
Stórstígur (l) Sem tekur stór skref á göngu. „Hann var svo hraðgengur og stórstigur að ég átti fullt í fangi með að fylgja honum eftir“.
Stórstraumur / Smástraumur / Stórstreymi / Smástreymi / Stórstreymt / Smástreymt Miklu skipti fyrir búskap og útveg Kollsvíkinga hvernig stóð á straum. Róðrum varð að haga í takt við sjávarföll og fiskirí fylgir oft einnig þeim sveiflum. Þá fer veðurlag mikið eftir því hvernig stendur á straum. Ef þurrkur er ótryggur má heita öruggt að hann rigni í aðtakinu, einkanlega í stórstreymi. Gangur er fremur á búfé í stórstraumi en smástraumi. Skepnur og fólk fæða frekar í stórstreymi en smástreymi og botnfall (súr) í mysutunnum flýtur upp í stórstreymi. „Af áfunum kom þykk hvít sýra. Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum flaut hún upp á yfirborðið“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Aðeins var hægt að taka skelina um stórstraumsfjörur...“ (KJK; Kollsvíkurver). „Þá hljóp mjólkin og var til þykkur súr úr mysunni sem féll á botninn. Súrinn flaut svo upp þegar var stórstreymt“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Stórstraumsfall / Stórstraumsnorðurfall / Stórstraumssuðurfall (n, hk) Straumhraði í stórstraumi. „Það er lítil veiðivon í harðasta stórstraumsnorðurfalli“.
Stórstraumsfjara / Stórstraumsflæði / Stórstraumsflóð / Stórstraumsflóðmörk / Stórstraumsflæðarmál / Stórstraumsfjöruborð / Stórstraumsfjörumörk Heiti á stærstu flæðum og fjörum í stórstraumi og efstu/neðstu mörkum þeirra.
Stórstyrjöld (n, kvk) Mikið stríð; heimsstyrjöld.
Stórsynd (n, kvk) Mikil synd; mikil yfirsjón/afglöp. „Það telst nú varla stórsynd þó menn leysi örlítinn vind“!
Stórsyndugur (l) Mjög syndugur; með margar yfirsjónir á samviskunni.
Stórt hundrað (orðtak) Magneining fyrrum; 120; tólfrætt hundrað. „Allgott þótti ef þrjú hundruð stór fengust til hlutar yfir vorið. Var sá afli talinn bestu sex vætta virði“ (PJ; Barðstrendingabók).
Stórtap (n, hk) Mikið tap; mikill hallarekstur.
Stórtíðindalaust (l) Ekki mikið að frétta; engar stórfréttir. „Héðan er allt stórtíðindalaust“
Stórtíðindi (n, hk, fto) Miklar fréttir; stórfréttir. „Þetta kalla ég heldurbetur stórtíðindi“!
Stórtjón (n, hk) Mikið tjón; miklum verðmætum spillt. „Hann ku hafa orðið fyrir stórtjóni í óveðrinu“.
Stórtækur (l) Tekur mikið í einu; þurftafrekur. „Landeigandanum þótti þeir stórtækir í eggjatökunni“.
Stórufsi (n, kk) Stórvaxinn ufsi.
Stórum (meiri/minni/betri/verri/skárri/lakari/léttari/þyngri o.frv) (orðtök) Mikið; miklum mun. „Honum fannst aflabrögðin stórum skárri en á síðustu vertíð“.
Stórundarlegur (l) Mjög undarlegur/skrýtinn/furðulegur. „Mér fannst hann stóruundarlegur í háttum“. „Það var stórundarlegt að þeir skyldu ekki sjá þetta“.
Stórútgerð / Stórútvegur (n, kvk/kk) Mikil umsvif í útgerð; stórt útgerðarfyrirtæki.
Stórútlát (n, hk) Mikill kostnaður; mikil útgjöld. „Hann lenti í einhverjum stórútlátum útaf þessu klúðri“.
Stórvandamál / Stórvandræði (n, kk, hk) Mikið vandamál; mikil vandræði. „Þetta ætti ekki að verða neitt stórvandamál“.
Stórvarasamur (l) Mjög aðgæsluverður/hættulegur. „Farið ekki út á ísinn á vatninu; hann er stórvarasamur“!
Stórvaxinn (l) Mikill vexti; stór.
Stórvarasamt (l) Mjög varasamt; viðsjárvert. „Það er stórvarasamt að sigla of nærri boðanum í svona ylgju“.
Stórveisla (n, kvk) Mikil veisla. „Þetta er nú engin stórveisla; bara kaffi og kleinur“.
Stórvel (ao) Mjög vel. „Mér líkaði þetta bara stórvel“. „Hann er stórvel gefinn“.
Stórverk / Stórvirki (n, hk) Mikið verk; mikil framkvæmd. „Það ætti ekki að verða stórverk að klára þetta“.
Stórversna (s) Versna mjög mikið. „Veðrið er sæmilegt núna, en samkvæmt spánni á það eftir að stórversna“.
Stórviðarreki (n, kk) Reki stórra trjáa. „Varla er hægt að tala um neinn stórviðarreka í langan tíma“.
Stórviðarsög (n, kvk) Sög til að saga stórvið/rekavið að endilöngu. Getur verið handsög eða véldrifin.
Stórviðburðalaus (l) Án stórtíðinda. „Eftir þetta var ferðin stórviðburðalaus“.
Stórviðburður (n, kk) Mikill viðburður/atburður. „Síðan hef ég unnið við jarðboranir og tíminn hefur liðið án áfalla eða stórviðburða“ (IG; Æskuminningar).
Stórviðrasamt (l) Um tíðarfar; mikið um slæm veður. „Haustið hefur verið fremur stóðviðrasamt“.
Stórviðri (n, hk) Aftakaveður. „“... að þá hann reið yfir Kerlingarháls þar sem heitir Klifhyrna, hvar gatan liggur eftir fjallsbrúninni, fleygði stórviðri honum af hestinum fram af klettabrúninni og niður fyrir hamrana, hvar hann dó“ (RÍ; Ágrip af sögu kirkju og presta í Sauðlauksdal; um sr Björn Bjarnason, þj. 1602-1625).
Stórviður (n, kk) Mikið/voldugt tré. „Svona stórvið er best að taka upp á skrúftóg“.
Stórvægilega (ao) Mjög mikið. „Ég held að hann hafi ekki meitt sig neitt stórvægilega“.
Stórvægilegur (l) Meiriháttar; í miklum mæli. „Það hafa engar stórvægilegar breytingar orðið á þessu enn“.
Stóryrði (n, hk) Gífuryrði; heitingar; hótanir; skammir. „Það er óþarfi að hafa uppi stóryrði í þessu máli“.
Stóryrður / Stóryrtur (l) Notar stóryrði. „Hann var farinn að gerast helsti stóryrtur í minn garð“.
Stórþari (n, kk) Laminaria hyperboria. Yfirleitt einungis nefndur þöngull í máli Kollsvíkinga, enda er hann þar algengur. Stórvaxin þarategund sem algegng er neðst í klapparfjörum eins og í Kollsvík og öðru grunnsævi. Neðst er stór og öflugur, marggreinóttur þöngulhaus sem plantan notar til að festa sig við grjót eða klöpp. Ofan hans er sívalur stilkur, þaraleggur/þöngull, sem mjókkar upp og brotnar auðveldlega sé hann mikið sveigður. Hann getur orðið meira en 2ja metra langur og í þversniði hans má sjá vaxtarhringi. Efst situr stór, þykk, slétt og leðurkennd þarablaðka, sem oftast er klofin í endann í margar misbreiðar ræmur og nefnist kerlingareyra. Kjörsvæði stórþara er frá fremsta stórstraumsfjöruboði niður á 15 m dýpi. Á sömu slóðum vex hrossaþari og beltisþari, sjá þar. Mikinn þaraskóg má sjá í yfirborðinu fremst á stórstraumsfjörum í Kollsvík. Kerlingareyrun sem standa uppúr yfirborðinu eru gjarnan aðsýndar eins og sinuvaxið tún. Vaxtarhraðinn er um 25 cm á ári, en plantan getur náð 20 ára aldri. Blöðkuna/kerlingareyrað fellir hún árlega, og getur hún myndað mikla þarabunka í fjörum; einkum eftir mikinn garð.
Stórþjófnaður (n, kk) Mikill stuldur/þjófnaður. „Hann vildi meina að það væri ekki stórþjófnaður að stinga á sig annars manns hníf, heldur hefði það alltaf talist sjálfsögð sjálfsbjargarviðleitni“.
Stórþorskur (n, kk) Stór þorskur; golþorskur.
Stórættaður (l) Af frægu fólki kominn; vel ættaður; kominn af stórmennum.
Strabbi (n, kk) Fitleiki; sporðstæði á lúðu. „Þess voru dæmi að sá hluti fitleikans sem fylgdi bolnum þegar sporðurinn var skorinn frá, væri einungis nefndur brestur, en strabbi parturinn sem var áfastur blökunni“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heimild: Guðbj.Guðbjartsson).
Straff (n, hk) Refsing. „Kötturinn fékk ekki að fara út aftur þann daginn; það var straffið fyrir fuglaveiðarnar“.
Straffa (s) Refsa; veita ráðningu. „Bændum er straffað harðlega ef þeir eru of duglegir“!
Strambafjandi (n, kk) Blótsyrði um vindsperring/hvassviðri. „Skelfing er hann að verða hvimleiður þessi strambafjandi af norðan“!
Strambi (n, kk) Allhvass vindur; vindsperringur. „Við höfðum strambann í fangið á heimleiðinni“. Sjá vindstrambi. B. Erfiðleikar, þyngsli. Minna notað í þeirri merkingu.
Stramma sig af (orðtak) A. Koma sér í jafnvægi; gera sig kláran. B. Fá sér áfengi/snafs; reyna að sýnast ófullur þó fullur sé.
Stammi (n, kk) Grófofið efni sem notað er til ísaums.
Strand (n, hk) Það að bátur/skip lendir óviljandi upp í land eða uppá sker; siglir í strand.
Stranda (s) Verða strand; sigla í strand; lenda óvart á skipi uu í land eða uppá sker.
Strandaður (l) Kominn í strand. „Sáu Kollsvíkingar þá að togari var strandaður á Blakknesboða“.
Strandaglópur (n, kk) A. Sá sem missir af skipi/ verður eftir á ströndinni þegar skip leggur frá landi. B. Líkingamál um þann sem missir af hverskonar ferð/ þann sem fær ekki flutning.
Strandferðaskip (n, hk) Skip sem siglir meðfram ströndum og flytur varning til og frá sjávarplássum. Strandferðaskip voru gerð út á vegum Skipaútgerðar ríkisins og fleirum á 20.öld, en strandflutningar lögðust af þegar vegasamband byggðanna batnaði. Fyrir kom að strandferðaskip kom uppá Kollsvík til að lesta fiskafurðir, meðan útgerð var í Kollsvíkurveri.
Strandhögg (n, hk) A. Upphafleg merking er að gera árás af sjó uppá land og höggva þar menn og fénað. Mun einnig hafa verið notað um það að smala fé til skips og slátra því á ströndinni. B. Nútildags er merking þess að gera strandhögg sú að sölsa eitthvað undir sig; þvinga eitthvað útúr öðrum.
Strandleið (n, kvk) Leið með strönd landsvæðis.
Strandlengis (l) Meðfram/eftir ströndinni. „Hnífar er lágt fjall, og er strengberg í þeim æði langan veg strandlengis“ (Örnefnaskrá Láganúps; viðbót ókunns skrásetjara).
Strandlengja (n, kvk) Strönd landsvæðis. „Þegar mest barst á fjörur af skeljasandi má segja að mestöll strandlengjan fyrir Kollsvík væri sandfjara“.
Strandlína (n, kvk) Mörk strandar/fjöruborðs. Oft notað til að lýsa hærri sjávarstöðu fyrr á jarðsögutímanum. „Sjávarborð stóð hærra meðan landið var að lyfta sér eftir ísaldartímann. Merki sjást um að strandlína Kollsvíkur hafi um tíma verið neðan Umvarps; um Nautholt, Svarðarholt, og Brunnsbrekku“.
Strandrof (n, hk) Sjávarrof á strönd. „Strandrof jókst mikið í Kollsvík undir lok 20.aldar. Líkur benda til að það stafi af offjölgun ígulkersins skollakopps á víkinni, en ofbeit þess eyðir þaraskógunum sem gegna mikilvægu hlutverki í því að draga úr afli brimbárunnar“.
Strandsjór (n, kk) Sjór með strönd lands. Strandsjór er oft annars eðlis en úthafssjór. Hitastig og selta hans sveiflast á annan hátt en úthafssjávar og yfirleitt er hann mun ógegnsærri vegna gruggs af botni og landi. Þá geta straumar legið á allt annan hátt við ströndina en dýpra úti og sjávarföll verið úr fasa við það sem utar er.
Strandstaður (n, kk) Staður þar sem skip/bátur hefur strandað. „Undir Hreggnesa strandaði vélbáturinn Garðar 16.okt.1999 með tveggja manna áhöfn. Mannbjörg varð, enda veður gott. Báturinn eyðilagðist á strandstað, en nokkru tókst að bjarga, m.a. vél bátsins“ (HÖ; Fjaran).
Strandvirkjun (n, kvk) Nýyrði í íslensku máli; búið til af Valdimar Össurarsyni, þar sem orð vantar yfir þá nýju tækni sem uppfinningar hans ná til; virkjanir á orku sjávarfallastrauma í annesjaröstum, utan fjarða og sunda. VÖ er fyrsti Íslendingurinn til að þróa tækni á sviði sjávarorku og í því efni vantar skiljanlega ýmis orð.
Strangheiðarlegur (l) Mjög grandvar/frómur/heiðarlegur. „Hann var strangheiðarlegur og naut hvarvetna trausts þeirra sem við hann skiptu“.
Strangi (n, kk) Vöndull; rúlla/vindingur af t.d. klæðisefni. T.d. klæðisstrangi.
Stranglega (ao) Algerlega; af þunga. „Þetta er stranglega bannað“.
Strangt til tekið (orðtak) Í strangasta/þrengsta skilningi; ef vel er að gáð; raunverulega; í raun og sannleika. „Strangt til tekið hefðum við kannski átt að biðja um leyfi, en þarna höfðum við verið sjálfráðir og einir um eggjatöku í fjölda ára“.
Strangtrúðaður (l) Með mikla trúarsannfæringu; trúir í einlægni; hefur mikla trú á. „Ég er ekki svo strangtrúaður á að þetta takist“.
Strangur (l) A. Um mann; harður á sinni fyrirætlan; fylgir reglum/fyrirskipunum eftir út í æsar. „Sumum krökkunum fannst hann nokkuð strangur kennari“. „Hann var víst undir ströngu eftirliti frúarinnar á þorrablótinu“. B. Um t.d. straumvatn; straumhraður; stríður. „Straumurinn var orðinn nokkuð strangur þarna við hleinina“.
Straua (s) Æða; fara fljótt yfir; hlaupa. „Hópurinn strauaði neðan allan dal og hvarf innyfir Hænuvíkurskarð“.
Straubolti / Straujárn (n, kk/hk) Þungt járnáhald sem er hitað og notað til að fá slétta áferð á flíkur. Nútildags eru yfirleitt notuð sérstök felliborð, nefnd strauborð/straubretti, til að vinna að þessu, en fyrrum straujuðu húsmæður á eldhús- eða stofuborðum, með taustykki undir því sem straujað var.
Strauja (s) Renna straubolta/straujárni yfir flik til að slétta hana.
Straumafar (n, hk) Mynstur á stefnu og styrk strauma á tilteknu svæði. „Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á straumafari kringum Látraröst, þó sjómenn hafi um aldir þekkt margt í því efni. Lítið er t.d. vitað um iður þær sem Látraröst veldur upp á Útvíkur, eða hvaða áhrif hún hefur á sandburð“.
Staumamót / Straumaskil (n, hk, fto) Staður þar sem mætast straumar úr tveimur mismunandi áttum. „Norðan Bjargtanga; undan Seljavík, verða oft skörp straumamót“.
Straumaskipti (n, hk, fto) Fallaskipti; úr einu fallinu í annað. „Byrjað var að draga línuna á ný strax við straumaskipti“ (KJK; Kollsvíkurver). „Formenn miðuðu róðrartíma við það að vera komnir til miða um liggjandann; þ.e. straumaskipti norður- og suðurfalls. Út af víkunum eru þau um 1 til 1 ½ klukkutíma eftir háflæði og háfjöru“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Síðan var enn legið við sama enda þar til straumaskipti voru“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Straumbára / Straumalda (n, kvk) Bára sem kviknar þar sem mikill straumur er undir, einkum þar sem hindranir verða fyrir meginstraumnum, t.d. vegna botnlags eða straums úr annarri átt. „Þó sjólaust sé allt um kring geta myndast allkrappar straumbárur í miklum röstum, t.d. Látraröst og Blakknesröst“.
Straumbeljandi (n, kk) Harður/mikill straumur vatns eða sjávar. „Menn stilltu sig jafnan undir fall, ef unnt var, þegar fara þurfti um Blakknesröstina; enda ekki heiglum hent að róa á móti mesta straumbeljandanum“.
Straumbreytir (n, kk) Tæki sem breytir eðli rafstraums. Oftast notað um það sem lækkar spennu riðstraums.
Straumgöndull / Straumhvirfill / Straumiða (n, kk) Hvirfilstraumur; iða sem myndast í straumi, s.s. í stríðu sjávarfalli. „ Mikill straumgöndull eða rastarstrengur er oft sýnilegur fram af annnesi í stífu norðurfalli; einkum greinilegur ef vindur stendur á móti. Einnig má tíðum sjá straumgöndla niðri í sjónum hlémegin við fyrirstöður, s.s. belgi eða hleinar“.
Straumharður (l) Með mikinn straumhraða. „Í leysingunum urðu smálækir að straumhröðum stórfljótum“. „Þá hellir hún geislum á fjallanna frón/ þeir fossandi gullstrengir titra;/ og knýr framúr þögninni töfrandi tón,/ er túnin í sóleyjum glitra./ Nú rís eins og alda með ómþungum klið/ iðandi lífið í straumhörðum klið“ (VÖe; Ísland).
Straumhnútur (n, kk) Stórt og krappt brot sem verður til í miklu straumkasti, t.d. í Blakknesröst eða Látraröst.
Straumhraði (n, kk) Hraði straums/ rennandi vökva. Straumhraði í sjó var lengst af mældur í hnútum á klukkustund, en nú er oftast talað um metra á sekúndu. Straumhraði á opnu hafi er að jafnaði ekki mikill, hvorki af völdum meginstrauma né sjávarfalla, þó þar flytjist gríðarlegur massi og hafi mikil áhrif t.d. á hitafar og lífríki. Hinsvegar eykst straumhraðinn mikið þegar sjávarmassinn mætir hindrunum/þrengingum, t.d. í sundum eða við annes, auk þess sem sjávarföll eru misjafnlega sterk frá einum stað til annars. Mesti straumhraði hér við land verður í sundum Breiðafjarðar, þar hann fer sumsstaðar yfir 4 m/sek. Í Látraröst fer hann líklega vel yfir 1 m/sek þar sem mest er, en um það skortir allar vísindalegar mælingar. Straumhraði í Blakknesröst er líklega litlu minni skammt utan Blakkness í harðasta stórstraumsnorðurfalli.+
Straumhvörf (n, hk, fto) A. Upprunaleg merking; breyting á straumum; fallaskipti. B. Nú eingöngu notað í líkingamáli um stefnu- eða eðlisbreytingu sem verður á einhverju, t.d. framgangi málefnis eða listastefnu.
Straumiða / Straumkast / Straumsvelgur (n, kvk/hk/ kk) Hringiða/straumhnútur í vökva. „Innanvið bryggjuhausinn myndaðist nokkuð var fyrir stórsjóum en þar gat orðið öflug straumiða sem lamdi bátnum við bryggjuna“.
Straumkippur (n, kk) Stuttur róður til að komast aftur á fyrri veiðistað eftir að rekið hefur af honum undan miklum straumi. (LK; Ísl. sjávarhættir IV; eftir ÓETh).
Straumlítið / Straumlaust / Straumleysa (l/ n, kvk) Lítill/enginn straumur; fallaskipti. „Ég held að það sé orðið alveg straumlaust; færið stendur beint niður“.
Straummælingar (n, kvk, fto) Mælingar á hraða og eðli sjávarstrauma. Litlar sem engar vísindalegar starummælingar hafa verið gerðar á grunnsvæðum landsins. Höfundur þessarar samantektar fór þess á leit við stjórnvöld með skýrslu til Alþingis 2011 að úr yrði bætt, og samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem hann samdi vorið 2014. Ráðuneyti og stofnanir lögðust síðan á eitt um að hafa hana að engu, sem er í samræmi við þá andúð sem þær hafa sýnt nýtingu hinnar gríðarmiklu sjávarorku landsins.
Straumop (n, hk) Nýyrði Valdimars Össurarsonar. Vegna fyrstu þróunar sjávarhverfla á Íslandi skortir ýmis viðeigandi orð, og er þetta eitt þeirra sem þurft hefur að smíða. Straumop er op það sem straumur getur fallið um, og er á hverflum VÖ notað um op sem sveigt blað í lokaðri/óvirkri stöðu myndar á hverflnum straummegin við snúningsásinn; op sem straumurinn fer inn um og spennir blaðið í opna /virka stöðu. Orðið var fyrst notað í einkaleyfisumsókn um gerð V-3 af hverflum Valorku ehf.
Straumstefna (n, kvk) Stefna straums. „Sjávarfallahverfill Valorku heldur óbreyttri snúningsátt þó straumstefnan breytist“.
Straumstrengur (n, kk) Áll með miklum straumi á tiltölulega mjóu svæði, en minni straumi til hliða hans.
Straumtyppingur (n, kk) Alda/ slæmt sjólag sem verður eingöngu vegna straums. „Röstin getur verið varasöm litlum bátum vegna straumtyppings, jafnvel í blíðskaparveðri“.
Straumur (n, kk) A. Rennsli vökva, t.d. vatns eða sjávar. B. Sjávarfall; styrkur sjávarfalls. „Veistu hvernig stendur á straum núna“? Til þessa vísar orðtakið að vera kominn á straumana.
Straumur á (orðtak) Um veiðiskap; straumur þyngir á drætti línu/nets. „Um stórstrauminn var liggjandinn stuttur og straumur fljótt á“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Straumur liggur undir vind Notað um það þegar fallið er á móti vindáttinni, þannig að færi sem sett er út á kulborða hættir til að liggja undir bátinn. „Þeir vissu að veður var gengið til austurs því straumur lá undir vind“ (PJ; Barðstrendingabók).
Straumvatn (n, hk) Vatn sem rennur/streymir; t.d. ár og lækir.
Straumvör (n, kvk) Kambur/burst á framhlið árablaðs. Fremsti hluti árinnar nefnist árarblað, en mót þess við legginn nefnist áraröxl. Það sem fram veit á árablaðinu nefnist bak/árarbak, og er oftast með kambi sem á sunnanverðum Vestfjörðum nefndist straumvör. (heimild; ÓETh; LK; Ísl. sjávarhættir II).
Strausykur / Strásykur (n, kk) Heiti á skykri. Heitið strausykur var víða notað frameftir 20. öld, en heyrist varla núorðið; strásykur lifir enn góðu lífi.
Strax (ao) Nú þegar; undir eins;þegar í stað. Samstofna heitinu strik.
Strá salti í sárið (orðtak) Oft notað í óeiginlegri merkingu um að auka vanlíðan/reiði einhvers. „Það var ekki nóg með að hann ynni veðmálið um þyngd hrústins, heldur stráði hann salti í sárið með því að bjóða hinum hrútinn til kaups ef hans reyndist getulaus“!
Strádrepa (s) Fella/drepa unnvörpum
Stráheill (l) Alheill; óskaddaður. „Úrið reyndist stráheilt þó það hefði lent í þessu“.
Strákapör (n, hk, fto) Hrekkir; bekkni; óknyttir; glettur; prakkarastrik. „Hann hótaði þeim öllu illu ef þeir létu ekki af þessum strákapörum“.
Strákasni / Strákauli / Strákbjáni / Strákgemlingur / Strákhvolpur / Strákormur / Strákskratti / Strákskömm (n, kk) Niðrandi heiti á dreng; skammaryrði um strák.
Strákgrey / Strákkvöl / Strákkvikindi / (n, kvk) Vorkennandi heiti á dreng.
Strákjölur (n, kk) Slitkjölur; drag; renningur úr slitsterku efni sem settur er undir kjöl á bát til að verja hann sliti t.d. við endurtekna setningu á land. Fyrrum var strákjölur tíðum úr eik (eikardrag) en síðar úr járni. Nefndist einatt drag í Kollsvík, a.m.k. í seinni tíð.
Stráklingur (n, kk) Ungur strákur. „Ég var bara stráklingur þegar þetta gerðist“.
Strákpatti / Strákpeyi / Strákpjakkur / Strákpolli / Stráksi / Strákstauli / Stráktappi (n, kk) Gæluheiti á strák. Einnig strákastóð um hóp af drengjum.
Strákskapur (n, kk) Hrekkvísi; grátt gaman. „Þeir gerðu þetta af eintómum stráksskap“.
Strákslega (ao) Íbygginn; eins og hrekkjóttur strákur. „Hann glotti strákslega“.
Strákslegur (l) Ungæðislegur; hrekkjóttur; til alls vís. „Mér fannst þetta heldur stráksleg framkoma“.
Stráksnigill / Strákspott (n, kk/hk) Gæluorð um strák/strákling. „Geturðu ekki lánað mér stráksnigil til að hjálpa mér við rögun í réttinni“? „Það er aldeilis sprettur á honum; strákspottinu“!
Strákur (n, kk) A. Drengur; karlmaður á unga aldri. B. Óþekktarangi; óþekkt, t.d. sitja á strák sínum.
Strákur í (einhverjum) (orðtak) Einhver er hrekkvís/hrekkjóttur; einhver er til alls vís.
Srákústur (n, kk) Sópur/kústur með stinnum hárum, notaður m.a. til að sópa af gólfum útihúsa eða moði úr jötum skepnuhúsa.
Stráss (n, hk) Eingöngu notað í orðtakinu „í strássi við“, sjá þar. Orðið er ekki skýrt í orðabókum, en líklega er það af sama stofni og „stríð“ og „streð“. Sjá strássast við.
Strássast við (orðtak) Streitast á móti; þráast við; sporna við. „Það þýðir ekkert að strássast lengur við með þennan kúabúskap ef þeir hætta að sækja mjólkina“. Sjá strássast.
Strásykur (n, kk) Strausykur; sykur af venjulegustu gerð, hvítur og fínkornaður, sem unnt er að strá/sáldra.
Streð (n, hk) Mikið erfiði/púl/baks. „Ég er þá ekkert að standa í streði með að ná þessum kindum; fyrst hann sleppir þeim jafnharðan aftur“!
Streða við (orðtak) Rembast; reyna mikið; sperrast við. „Ertu enn að streða við að muna þetta ártal“?
Streitast á móti (orðtak) Berjast gegn; sýna mótþróa. „Nautið streittist á móti og vildi ekki fara inn“.
Streita (n, kvk) A. Upprunaleg merking er tog/þan á taug/bandi. B. Líkingamál; átök; deila; ósætti. Sjá halda til streitu. C. Sífelld og mikil spenna í hugarfari sem valdið getur heilsufarsvandamálum.
Streitast við (orðtak) Keppast við; erfiða við. „Þeir vissu því vel hvað þeir voru að gera þegar þeir streittust við að láta þann gula ekki lokka sig í tvísýnu út á Kollsvík“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Streittur (l) Stritandi; í samfelldu/miklu basli/puði. „Ég var búinn að standa streittur við moksturinn mikinn hluta dags“.
Strekking (n, kvk) Strekkur; tog; þan.
Strekkingsgjóla / Strekkingsgola / Strekkingskaldi / Strekkingsvindur /strekkingur (n, kvk/kk) Allnokkuð hvass vindur. „Þá var kominn strekkingsvindur af norðri, eða norðaustan, og alltaf jókst brimið í landi“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Strekkja (s) A. Þenja; gera þan/strekk/tog. B. Fara/hlaupa eins hratt og unnt er; æða; spæna; spana. „Hann er að strekkja upp á Enginúpinn til að hafa kindurnar áður en þær renna uppúr Verinu“. „Hver ætlar að strekkja til hans með skilaboðin“?
Strekkja sig (orðtak) Rembast; leggja á sig. „Maður þurfti verulega að strekkja sig upp brekkuna til að komast fyrir kindurnar“. „Það er erfitt að strekkja sig svona á móti vindinum“. „Hún strekkir sig við að hafa undan“.
Strekkja (sig) við (orðtak) Rembast við; reyna af fremsta megni; sperrast við. „Ég held að við ættum ekkert að strekkja við að vitja um alla strengi í dag; hann spáir þokkalega fyrir morgundaginn líka“.
Strekkjari (n, kk) Áhald til að strekkja t.d. vír í girðingu eða símalínu.
Strekkur (n, kk) A. Tog; strekkur; þan. „Togaðu ekki meira í þennan streng; það er kominn svipaður strekkur á hann og hina í girðingunni“. „Meiri hætta er á að vaðurinn merjist á skörpum brúnum sé mikill strekkur á honum“. B. Sprenghlaup; hlaupasprettur. „Rollan hljóp í rassaköstum út eftir bökkunum en þegar ég hafði hana þar þá tók hún strekkinn upp alla hlíð; alveg upp í Lambagang“!
Strembinn (l) Erfiður. „...ákvað Guðmundur að við skyldum róa þó strembin norðanátt væri á miðunum...“ (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Strendingur (n, kk) Hlutur sem er ílangur og gjarnan með skörpum brúnum/eggjum.
Strendur (l) Með skörpum brúnum/jöðrum/köntum, t.d. þrístrendur, ferstrendur.
Strengberg (n, hk) Standberg, þverhnípt frá brún niður úr (í fjöru); lóðréttur klettaveggur án ganga/hillna. „Hnífar er lágt fjall, og er strengberg í þeim æði langan veg strandlengis“ (Örnefnaskrá Láganúps; viðbót ókunns skrásetjara). Annarsstaðar merkir orðið „berggang“.
Strengilega (ao) Strangt; með ströngum hætti. „Ég bannaði honum strengilega að fikta í þessu“.
Strengilegur (l) Stranglegur; ákveðinn. „Í lögum eru strengileg fyrirmæli um þessi atriði“.
Strengir (n, kk, fto) Harðsperrur. „Ertu ekki með strengi eftir öll þessi hlaup“? „Ég fékk strengi eftir daginn“.
Strengja (s) A. Festa streng. B. Strekkja; þenja. „Það mætti strengja girðinguna aðeins meira“.
Strengja (einhvers) heit (orðtak) Heita einhverju; lofa einhverju. Ég strengdi þess heit að láta svonalagaðan viðbjóð aldrei framar innfyrir mínar varir“!
Strengjabiti (n, kk) Trébjálki sem lagður er þvert yfir skip til að binda það við legufæri. „Fönix var með strengjabita, en það var vænt tré að gildleika, sem lá þvert um skipið um hálsþóftuna og útyfir borðstokka. Bitanum var fest þannig að hann var bundinn niður í þóftuna beggja megin út við borðstokkana. Stjórafærinu var brugðið um strengjabitann er lagst var fyrir í hákarlalegum og var það kallað að liggja fyrir klofa. Fór skipið þannig mun betur í sjó heldur en ef festinni væri brugðið um stefni. Strengjabitinn náði það langt útfyrir borðstokka skipsins að tveir menn gátu haft handfestu á bitaendunum hvoru megin skipsins og haldið skipinu réttu í lendingu meðan borið var af (borið frá borði). Strengjabitinn tilheyrði farviði skipsins“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Strengjabrúða / Strengjadúkka (n, kvk) A. Brúða í brúðuleikhúsi, sem stjórnandinn stjórnar með strengjum. B. Líkingamál um þann sem fer í einu og öllu að vilja einhvers annars.
Strenglengd (n, kvk) Lengd á netastreng/trossu. „Þarna er ekki nema rúm strenglengd frá fjöru framá marbakka“.
Strengsla (s) A. Búa til strengsli/rikling úr lúðuflaki til herðingar. „Þegar langflök (lúðu) voru strengsluð, var hnífi fyrst stungið í flakið roðmegin og sem næst tveim þumlungum frá bandshaldinu og síðan rist niður úr því, og flakinu þannig skipt í tvennt því að lokum var skorið uppúr þumunni. Að því búnu var hvor helmingur ristur í sundur, en þá var skilið eftir haft við neðri brún strengslisins. Í þetta haft var tekið og strengslinu brugðið gegnum sjálft sig eins og gert er við kleinur… Með þessum hætti komu fjögur strengsli úr hverju langflaki og héngu tvö og tvö saman á uppfestunni“ (LK; Ísl.sjávarhættir III). B. Flaka steinbít til herslu án þess að kúla hann.
Strengslaður (l) Um steinbítsverkun; ekki kúlaður þegar hann er flakaður. „.. hvort þú tækir það gilt að ég sendi þér harðsteinbít, og hvort þú vildir hafa hann kúlaðan eða strengslaðan“ (Bréf AK til VÖe í júní 1941).
Strengsli (n, hk) A. Hert flak af steinbít „Þegar steinbíturinn var orðinn nógu harður fengum við alltaf nokkur strengsli með okkur“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). Orðið var ekki notað um annað í seinni tíð í Kollsvík.: B. Lúðuriklingur. „Lúðuriklingur var skorinn í strengsli og þau hert“ (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms). „Strengslariklingur...var úr hvers konar flökum, en helst ekki úr mjög stórum eða ýkja þykkum“ (LK; Ísl. sjávarhættir III). C. Niðurskornar ræmur af öðru, s.s. skötubörðum. „Algengt var að rista börðin í strengsli, ofanfrá og niðurúr, og jafnvel halda þeim sundur með spýtum“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Strengur (n, kk) A. Band; taug; lína af einhverju tagi, t.d. girðingarstrengur, bogastrengur, naflastrengur o.fl. B. Vindur sem er áberandi sterkastur á ákveðnu svæði. „Stundum liggur norðan vindstrengur alveg frá Trumbum og uppyfir bæi á Láganúpi“. C. Veiðarfæri; tengsli; trossa af netum sem fest eru saman, enda í enda. „Misjafnt er hve mörg grásleppunet eru í einum streng. Meðan dregið var á höndum voru þauoft fjögur, en eftir að glussaspil komu til sögunnar var algengt að þau væru sex og jafnvel fleiri; fer fjöldinn gjarnan eftir breidd þaragarðsins sem þau liggja í“. D. Torfa sem skorin er á vissan hátt, til að nota í vegghleðslu. „Búðirnar voru að innan hlaðnar úr grjóti, en að utan úr grjóti og strengjum; var það gert til að þétta á milli steinanna“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). E. Mittisborði á fatnaði. „Þessar buxur eru alltof þröngar í strenginn“. F. Harðsperrur; krampi í vöðvum eftir áreynslu. Einatt í fleirtölu: „Ég er með árans strengi eftir hlaupin í dag“. G. Harður straumur á tiltölulega mjóu svæði í vatnsfalli eða sjó. H. Plógstrengur; löng torfa sem myndast við plægingu jarðvegs.
Streyma á (orðtak) Stefna sjávarstraums/falls. „Gáðu hvernig streymir á baujuna; hvort sé réttara að fara fyrst í grunnbólið eða djúpbólið“. „Nú er farið að streyma öfugt á hjá okkur“.
Streymt (l) Staða sjávarfallasveiflu; stórstreymt eða smástreymt. „Veistu hvernig er streymt þessa dagana“?
Strigahæra (n, kvk) Hæra/yfirbreiðsla úr striga, til að breiða yfir galta svo ekki nái að dropa í heyið.
Strigakjaftur (n, kk) Kjöftugur/hávaðasamur/þrasgjarn maður. „Það hlustar nú enginn á þann strigakjaft“!
Strigapoki (n, kk) Poki úr striga. Meðan handafl var allsráðandi í sveitum var strigapokinn þarfaþing til hverskyns geymslu og flutninga, t.d. á heyi, ull, eldiviði, matvælum o.fl.
Strigaskór (n, kk, fto) Skór með yfirleður úr striga. „Vafalítið bætti tilkoma strigaskónna öryggi bjargmanna verulega“.
Strigi (n, kk) Grófofinn dúkur úr hampi eða jútu.
Strigsa (s) Rigsa; stika; strika; strunsa. „Hann strigsaði bara hjá án þess að líta til hægri né vinstri“.
Strik (n, hk) A. Lína sem hugsuð er eða dregin á blað milli tveggja punkta. B. Athöfn, sbr prakkarastrik. C. Eining á áttavitarós, en henni er skipt upp í 32 einingar; 8 milli hverra tveggja höfuðátta. Af því er það dregið að breyta stefnu um svo og svo mörg strik; að halda sínu striki; halda strikinu, og að ná sér á strik.
Strika (s) A. Fara fljótt í beina stefnu. „Lúðan var ekki fyrr kominn á krókinn en hún strikaði til hafs“. „Ég sá það síðast til kindanna að þær strikuðu neðan Vörðubrekku; á skurki út yfir Breiðuvíkurháls“. B. Draga línustrik. „Strikaðu undir þær sem fengnar eru“. „Ég strikaði þann þingmann út í kosningunum“.
Strikhefill (n, kk) Verkfæri til að gera strik/skoru til skrauts í borðvið, t.d. í veggjapanil eða gerekti.
Striklitur (n, kk) Litur striks sem steinn skilur eftir sig þegar honum er strokið við hart hrjúft yfirborð. Striklitur er notaður til að greina tegundir steina og steinda og getur verið allt annar en litur steinsins. T.d. hefur jaspis hvítan strik- og duftlit, þó hann sé rauður, grænn eða brúnleitur.
Striklota (n, kvk) Merkir líklega í upphafi það sem siglt er í sömu lotu í óbreytta stefnu/ með óbreytt strik. Nú eingöngu notað í orðtakinu; í striklotu.
Strikmát (n, hk) Rissmát; verkfæri til að rispa strik í vissri fjarlægð frá brún smíðisgrips.
Strimill (n, kk) A. Renningur; ræma; lengja; borði. B. Þykkildi í mjólk þegar mjólkað er, oftast vegna júgurbólgu. „Mér sýnist vera einhverjir árans strimlar í mjólkinni úr Dimmu; hún þarf aftur að fara á kúr“.
Strimla (s) Um mjólk; verða að strimlum/hlaupkenndum kekkjum vegna júgurbólgu eða geldstöðu. „Mér finnst vera að byrja að strimla í framjúginu fjær á Dimmu. Hún þyrfti að fá pensillínsprautu“.
Stripl (n, hk) Það að vera á ferli fatalaus eða fatalítill. „Það slær að þér með þessu béuðu stripli“! Þó orðrótin sé „strípl“ var framburðurinn vestra einatt með i-hljóði.
Striplast (s) Vera nakinn/fáklæddur. „Þú ættir nú ekki að vera að striplast lengi útivið svona kvefaður“.
Strit / Stritvinna (n, hk) Erfiði; púl. „Maður þreytist á svona samfelldu striti“.
Strita (s) Erfiða; púla; atast; vinna lengi í átakavinnu. „Við strituðum góða stund við snjómoksturinn“.
Stríð (n, hk) A. Langvarandi ófriður; röð af orrustum/skærum; vopnuð barátta. B. Líkingamál um óvopnaða baráttu/viðureign. „Ég hef lengi staðið í stríði við stofnunina vegna þessa máls“.
Stríða (s) A. Standa í stríði/baráttu. „Eilíft þarf maður að stríða við þessar stofnanir“! B. Erta; angra; skaprauna. „Hættu nú að stríða honum bróður þínum“! „Honum var strítt á þessum kækjum“.
Stríða gegn (orðtak) Stangast á við; ganga í móti; vera andstætt. „Þetta stríðir gegn guðs og manna lögum“!
Stríðala (s) Gefa yfirdrifið nægt fóður; kappala. „Það þýðir ekkert að stríðala hrútinn svo að hann verði alveg getulaus þegar á honum þarf að halda“!
Stríðalinn (l) Um skepnu; mjög vel alinn; í mjög góðu eldi. „Þessi hrútur hefur verið stríðalinn í vetur“.
Stríðhærður (l) Með strítt/stinnt/óþjált hár.
Stríðinn (l) Sem stríðir/ertir/ skapraunar öðrum viljandi. „Hann á það til að vera stríðinn og hrekkjóttur“. Sjá einnig meinstríðinn.
Stríðni (n, kvk) Ertni; ögrun. „Vertu nú ekki með þessa stríðni við karlinn“ „Þetta var bara stríðni í honum“.
Stríðnisglott (n, hk) Glott/bros þess sem er að stríða; merki um ánægju þess sem stríðir.
Stríðnispúki / Stríðnisseggur (n, kk) Sá sem stríðir/ertir/angrar af ásetningi. „Þetta er örugglega honum að kenna; hann á það til að vera skelfilegur stríðnisseggur“.
Stríðsterta (n, kvk) Mjög stór og ílagamikil terta með kremi/rjóma og allmikið skreytt. „Á borðum (á saumaklúbbskvöldum) var kaffi og stríðstertur. ... Þar var m.a. ein hagmælt kona sem eitt sinn dró úr pússi sínu drápu,nokkuð langa, sem hún kvað við raust yfir hinum konunum. Tilefni þessa var að konurnar þóttu stríðstertur nokkuð komnar út í öfgar, því hver vildi gera betur en sú síðasta og voru sumar orðnar hálfsmeykar við að halda klúbbana hjá sér, en þeir voru á bæjunum til skiptis.“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Stríðsvanur (l) Vanur erjum/illdeilum. „Það væri gráupplagt að fá einhvern stríðsvanann úr verkalýðsbaráttunni til að leiða flokkinn í næstu kosningum“.
Stríðsöxi (n, kvk) A. Öxi sem notuð er í stríði. B. Öxi sem notuð er að boða menn í stríð með axarboði. Leifar ævaforns siðar geymast enn t.d. í orðtökunum að grafa stríðsöxina og rétt boðleið. Sjá grafa stríðsöxina; axarboð; boðleið.
Stríðum straumum (orðtak) Í miklu magni; í flóði. „Leysingavatnið rann stríðum straumum niður Gilið“. Fyrrum var yfirleitt ekki notað „í“ á undan orðtakinu, eins og nú heyrist oftast.
Stríður (l) Erfiður; baldinn viðureignar; sem þarf að stríða við. „Eins og sagt hefur verið lá Kollsvíkin gegnt opnu hafi. Svipmót hennar var bæði blítt og strítt“ (KJK; Kollsvíkurver).
Stríli (n, kk) Sperrileggur; monthani. „Þessi bannsettur stríli, sem gengur um með nefið uppí loftið af monti“. Virðist ekki þekkt annarsstaðar.
Strípaður (l) Nakinn; allsnakinn; kviknakinn. „Farðu í fötin krakki; það slær að þér ef þú ert lengi stípaður“!
Strípalingur (n, kk) Sá sem er strípaður/nakinn. „Þú ert nú meiri strípalingurinn“!
Strjálast (s) Verða stopull/strjáll. „Mikið finnst mér rekinn hafa að strjálast í seinni tíð“.
Strjálbýli (n, hk) Dreifbýli; dreifð byggð.
Strjálfiski (n, hk) Reitingur; langt milli þess að fiskur er dreginn í veiðiferð. „Í strjálfiski, þegar fiskur kom upp á lóð með nokkru millibili… var stundum sagt; „það er langt á milli bæja“ eða „það er eitt og eitt æpandi kvikindi““ (LK; Ísl.Sjávarhættir IV).
Strjálingsveiði (n, kvk) Nokkur reitingur; nokkur veiði þó ekki sé það landburður. Oft notað í jákvæðum tóni, þegar menn hrósa veiðinni en vilja samt ekki gera of mikið úr. „Það er nú varin að verða strjálingsveiði í ystu lagnirnar, þó enn sé sama ördeyðan innar“.
Strjálingur (n, kk) Dreifðir/fáir hlutir/einstaklingar. „Mér sýndist vera strjálingur af fé í Lambahlíðinni“. „Það er nokkuð greiðfært yfir Hálsinn; bara einn og einn skafl á strjálingi“.
Strjáll (l) Dreifður; á víð og dreif; einn og einn á stangli. „Sólskinsdagar hafa verið ansi strjálir uppá síðkastið“.
Strjúgur (n, kk) Matur sem gerður er þannig að bein, t.d. fiskbein, eru látin liggja lengi og mýkjast í súr. Hefur líklega þótt fátækrafæða, og lítið notað þar sem nóg barst á land af fiskmeti.
Strjúka (s) A. Stelast í burtu; fara án leyfis. „Fyrir kom að strákarnir á upptökuheimilinu í Breiðavík reyndu að strjúka og enduðu á Láganúpi. Ekki var um annað að gera en láta umsjónarmenn vita, sem sóttu þá“. B. Renna hendi eftir einhverju, t.d. til að gæla við það. „Kettinum þykir gott að láta strjúka sér“.
Strjúka (ketti/einhverjum) um belginn (orðtak) Gæla við kött með því að stjúka honum um feldinn. Stundum í líkingamáli um að vera góður við einhvern; að smjaðra fyrir einhverjum.
Strjúka yfir (af) (orðtak) Þvo; þrífa. „Strjúktu af borðinu áður en þú setur nokkuð á það“. „Færið ykkur aðeins frá, ég ætla að strjúka yfir gólfin“.
Strjúka framanúr sér (orðtak) Þvo sér í framan. „Ég ætla að stjúka framanúr mér mesta skítinn áðuren ég sest inn“. Áherslur á „framanúr“ voru oftast á fyrra atkvæðið.
Strjúka belginn (orðtak) Strjúka kviðinn; liggja í leti. „Það þýðir víst lítið að liggja bara uppíloft inni í húsi og strjúka belginn þegar nýta þarf hverja þurrkflæsu sem gefst“.
Strjúpi (n, kk) Sárið sem eftir verður báðumegin þegar haus hefur verið skorinn af búk. „Eftir slátrun var saltað vel í strjúpann meðan hausinn var enn volgur“.
Stroff (n, hk) Fit á sokki, vettlingi, peysu o.fl; prjónað þannig að skiptist á slétt og brugðin lykkja.
Stroffa (n, kvk) Lykkja; hanki; smeygur.
Strok (n, hk) Það að strjúka/ stelast burt.
Stroka (n, kvk) A. Vindsveipur; öflug vindhviða; sterkur gustur/trekkur. „Lokaðu nú útidyrunum; það stendur strokan í gegnum bæinn“! B. Það að strjúka/klappa/klóra. „Meðan ég var að klappa hundinum kom kisa og heimtaði nokkrar strokur líka“.
Strokgjarn (l) Gjarn á að strjúka/stelast burt. „Það þarf að hafa gætur á henni Gránu, hún er oft stokgjörn fyrir burðinn“.
Strokinn (l) Farinn; hefur laumast burt. „Þeir voru að hringja frá Breiðavík og sögðu að strákurinn væri strokinn aftur. Ekki virðist honum þá líða vel í vistinni, skinninu atarna“.
Strokka (s) Vinna smjör úr rjóma með því að hræra/skekja mjólkina í sífellu þar til hún skilst að í smjör og áfir. „Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Strokkað (l) Sem búið er að strokka. „Mér heyrist að nú gæti smjörið verið fullstrokkað“.
Strokkhljóð (n, hk) Hljóð sem kemur þegar smjör er strokkað. „Ég hef hitt konu sem eitt sinn heyrði mannamál og strokkhljóð úr Strýtusteini“.
Strokklagaður (l) Líkur strokki í laginu; sívalur og mjórri í annan endann en hinn.
Strokksveif (n, kvk) Sveif á strokki sem snúið er/ á 20.aldar strokki. „Hún setti skyrið í grisju og hengdi það á strokksveifina, með fötu undir, til að láta síga betur af því“.
Strokkun (n, kvk) Það að strokka. „Strokkunin var á hendi mömmu eins og annað í mjólkurvinnslunni, en við bræður fengum oft það hlutverk að snúa strokknum þar til hljóðið í honum fór að breytast“.
Strokkur (n, kk) Búsáhald til að strokka mjólk. Lengst af voru notaðir bullustrokkar; ílöng tunna með stöng uppúr öðrum enda. Á enda stangarinnar, inni í strokknum var bulla/bulluhaus. Með því að hreyfa stöngina upp og niður strokkaðist mjólk í strokknum. Á 19.öld komu til strokkar úr málmi; láréttri sveif var snúið; snúningshraðinn gíraður upp með tannhjólum og mjólkin strokkuð á þann hátt með spöðum í tunnunni. „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar. Jón Torfason, afi minn, smíðaði flest ílát í sveitinni“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Strokudrengur (n, kk) Drengur sem hefur strokið/ stolist af heimili. „Fyrir kom að strokudrengir frá upptökuheimilinu í Breiðavík birtust á Láganúpi“.
Strokufé / Strokukind / Strokuær (n, hk/kvk) Kindur sem hafa strokið/sloppið. „Ég hafði loks uppi á strokufénu úti í Breið“.
Strolla (n, kvk, linur frb) Halarófa; hver eftir annan í hóp. „Nú er öll strollan af túnrollum komin inná“. „Mér sýnist að það sé bara strollan niður allan slóða; það stendur rígaþorskur á hverjum krók“!
Strolla (s, linur frb) Ganga í halarófu. „Árans reiðuleysi er á fénu. Nú strollar það alltsaman uppaf Hjöllum“.
Strompur (n, kk) A. Reykháfur/skorsteinn á húsi. B. Það sem líkist strompi, t.d.lóðrétt klauf eða gat í klettavegg, eða í hlein.
Stropa (s) A. Um egg; þegar rauða byrjar að breytast í unga. Sjá stropað egg. B. Líkingamál um konu; verða ólétt/barnshafandi.
Stropað egg / Stropaegg (norðtak) Egg sem byrjað er að breytast fyrir ungun. Í nýjum eggjum eru hvíta og rauða greinilega aðskilin. Þegar þau eru setin er rauðan byrjuð að gulna og færast nær skurninn/skurmminumi á einhverjum stað. Í stropuðum eggjum hefur hluti rauðunnar breyst í þynnri vökva; stropa, og hvítan breytist þannig að hún verður stífari við suðu. Á næsta stigi myndast augu ungans, eggin verða eygð, og æðar myndast úti við skjallhimnuna/skjallið. Næsta stig ungunar er myndun goggs og lappa. Smekkur manna er misjafn, en sumir geta étið egg þó þau séu töluvert stropuð. Sumir drekka stropann en aðrir síður. Flest egg er hægt að skyggna með því að bregða þeim yfir sterkt ljós eða móti sólu, en þá sést stropinn sem dökkur blettur eða hringur, misjafnlega stór. Þetta er auðvelt með t.d. fýlsegg en erfiðara með bjargfuglsegg með þykkri skurn. „Í þessum stokki eru leskingjar og stropaegg“.
Stropavottur (n, kk) Vottur/smávegis af stropa. „Arans gikkur geturðu verið! Það er varla stropavottur í þessu eggi; það er varla einusinni hægt að segja að það sé setið“!
Stropi (n, kk) Umbreyttur/þroskaður hluti eggs; þykkur ljósleitur vökvi við skurnina, sem byjar oft að myndast við breiðari enda eggsins. „Vertu ekki þessi pempía; gefðu mér bara stropann og éttu hitt“! Sjá stropað egg.
Strókur (n, kk) Það sem stendur upp í loft eins og súla, oftast notað um reyk, sbr reykjarstrókur, brimreyk, gufu eða vatnsbunu. „En standi reykurinn sem strókur í loft er ugglaust góðviðris merki /BH; Atli). Fyrir kemur að strókar frá hval sjáist frammi á víkinni“.
Struns (n, hk) An; gan; tafarlaus ganga án þess að virða það sem er í kring.
Strunsa (s) Stika/ganga/ana reigingslega/fljótt, án þess að aðgæta það sem er í kring. „Eftir að þessa skammarræðu strunsaði karlinn beinustu leið heim; fúll í bragði“.
Strú (n, hk) Trosnun á enda kaðals/trjáviðar. „Vð sögum endann af trénu, þá losnum við líka við strúið“.
Strúa (s) Gera strúað/trosnað; losa upp. „Gættu þess að strúa ekki endana meðan þú ert að splæsa“.
Strúaður (l) Um kaðal/trjávið; núinn; trosinn. „Þessi vaður er orðinn hæpinn, sýnist mér; hann er svo strúaður“.
Strúast (s) Um við/kaðal; trosna í enda; trosna við núning.. „Það hefur ekki verið gert fyrir endann á vaðnum og hann er farinn að strúast“. „Þarna hefur vaðurinn legið um brún og náð að strúast dálítið“.
Strúaður (l) Trosnaður; sundurlaus. „Tréð er æði langt, en töluvert strúað í endana; eins og það hafi lent í ís“.
Strútóttur (l) Litur á hundi; svartur með hvítan kraga um hálsinn.
Strympa (n, kvk) A. Hvaðeina sem er stromplaga; þ.e. uppmjótt en gjarnan opið í toppinn. B. Strympur er örnefni utan við Flatir; ofan Hnífa. Hár rani með lautum í toppinn. C. Mun áðurfyrr hafa verið notað um kvenmann sem er sver um mjaðmir. E.t.v. er vísað til þess í orðatiltækinu „Hækkar/vænkast nú hagur strympu“, um það þegar ástand/staða einhvers lagast. Annars er ekki ljóst um uppruna þess.
Strý (n, hk) Gæluorð um úfið hár/skegg. „Ætli maður verði ekki að fara að þvo á sér strýið“. Samstofna strú.
Strýhærður (l) Með úfið/stinnt hár; þunnhærður.
Strýking (n, kvk) Hýðing; húðlát; flenging. „Sem betur fer eru strýkingar aflagðar“.
Strýkja (s) Hýða; flengja; lúberja. „Réttast væri að strýkja þessa andskota og dýfa þeim í sjóinn“!
Strýta (n, kvk) Það sem er keilulaga, s.s. steinn/hæð/hóll. „Sauðasteinn er strýta á brún...“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).
Strýtulaga / Strýtulagaður (l) Eins og strýta í laginu; minnir á strýtu.
Strýtusteinn (n, kk) Strýtulaga steinn. „Strýtusteinn er allstór steinn á Brunnsbrekku, ofanvið réttina; álitinn vera bústaður huldufólks. Svo er einnig um Grástein á Torfamelnum“.
Ströggl (n, hk) Barátta; andstaða; mótspyrna; hark. „Ég þurfti að standa í ströggli til að fá bannsetta skattstofuna til að skilja þetta“! „Það var okkert orðið að hafa í endan á vertíðinni, svo það endað með því að við hættum þessu ströggli og tókum netin upp“.
Ströggla (s) Berjast á móti; veita andspyrnu; rífast. „Ég nenni ekki að ströggla útaf svona smáskuld“.
Ströngla (s) Gera göndla/ströngla; um net í sjó; rúllast upp; um vökva í slöngu; stirðna; frjósa. „Netin hafa sumsstaðar strönglast í þessum látum“. „Vatnið í slöngunni er farið að ströngla eftir næturfrostið“.
Ströngull (n, kk) Dröngull; göndull. „Þegar skrúfað var frá, komu fyrst strönglar af klaka úr slöngunni“.
Stubba (n, kvk) Gæluheiti á smástelpu. „Komdu nú hérna stubba mín“.
Stubbi / Stubbur (n, kk) (n, kk) A. Hvaðeina sem er stutt; bútur; endi. T.d. viðarstubbur, kertisstubbur, sígarettustubbur o.fl. B. Gæluheiti á strákhnokka.
Stuðla (s) A. Styðja; veita aðstoð. Nú aðeins í orðtakinu stuðla að. B. Hafa stuðla í kveðskap.
Stuðla að (orðtak) Aðstoða við; vinna að. „Þessi óvæntu útgjöld stuðluðu að gjaldþroti félagsins“.
Stuðlaberg (n, hk) Steindrangar/kubbar í storkubergi sem storknað hefur á vissan hátt, þannig að þeir hafa tilneygingu til að verða sexkantaðir. Sjá má stuðlaberg t.d. í Strengbergsgjá í Kollsvík, en þar hefur gangberg ekki einungis skipst í stuðla heldur hefur bergið skilið sig í stuðlunum og er t.d. járnríkur kjarni innst.
Stuðlar (n, kk, fto) A. Uppistöður/póstar t.d. í rúmi eða undir sperrum. B. Stuðlaberg. C. Hljóðstafir í ljóðagerð/kveðskap, þ.e. tveir stafir sem hljóma líkt. Í ferskeytlu eru t.d. tveir stuðlar í fyrstu ljóðlínu og höfustafur í upphafi annarrar ljóðlínu með sama hljómi. Sama regla gildir um síðari vísuhelminginn.
Stuðlasetning (n, kvk) Röðun stuðla í ljóð. Stuðlasetning lýtur ákveðnum reglum sem miða að því að gera ljóðið áheyrilegra í flutningi, en þær eru breytilegar eftir bragarhætti.
Stuðningsband / Stuðningsvaður (n, hk/kk) Band sem maður hefur sér til stuðnings og öryggis / til halds og trausts þegar klifið er um kletta eða mikinn bratta, án þess að um bjargsig eða lás sé að ræða.
Stuðningur (n, kk) A. Hvaðeina sem styður við. B. Aðstoð; hjálp. „Það er ágætt að hafa stuðning af vað þarna niður á höfðann“.
Stuðull (n, kk) Sjá stuðlar.
Stugga (s) Reka; hreyfa. „Ég stuggaði fénu úr slægjunni“. Farið nú og stuggið kindunum frá dýjunum“.
Stugga við (orðtak) Reka frá; vekja; ýta við. „Það þarf ekki mikið að stugga við fénu svo það skili sér heim“. „Það er nú allt í lagi að fara að stugga við honum; ekki er betra að hann sofi úr sér augun“.
Stuggur (n, kk) Ótti; ógn; viðbjóður; angist. Sjá standa stuggur af. Samstofna styggð.
Stuldur (n, kk) Þjófnaður; rán. „Þetta kalla ég bara hreinan stuld á annarra manna kveðskap“!
Stumra yfir (orðtak) Hlú að; annast um. „Systurnar stumra yfir honum, og töldu að hann hefði orðið bráðkvaddur“ (IG; Sagt til vegar II). Sögnin að stumra er líklega að uppruna stofnskyld sögninni að stama; þ.e. vera hikandi/óviss.
Stuna (n, kvk) Raddað andvarp; hljóð sem lýsir sársauka, vonbrigðum eða öðru neikvæðu. Það heyrist hvorki hósti né stuna frá þessum blessuðum þingmönnum um málið“.
Stund (n, kvk) A. Almennt um tíma. „Við áttum góðar stundir saman á þessum tíma“. „Hann gæti rignt enn um stund“. B. Langur tími. „Það er komin góð stund síðan þeir fóru“. C. Klukkustund; klukkutími. „Að tveimur stundum liðnum fórum við að vonast eftir þeim til baka“. D. Námstími. „Hann leggur stund á líffræði í háskólanum“.
Stund og stund (orðtak) Nokkurn tíma í einu; öðru hvoru.
Stund milli stríða (orðtak) Hlé; pása; frí/hvíld milli vinnulota.
Stunda (s) Vinna við að jafnaði; ástunda; gera. „Í Kollsvík hafa menn stundað sjó frá upphafi vega“. „Hann stundar námið af kappi“. „Surtla má fara að passa sín svið ef hún ætlar að stunda það að liggja í túninu“!
Stunda róðra/ Stunda sjó (orðtak) Sækja sjó; róa til fiskjar. Ég átti þess kost að stunda sjó með honum eitt vor, samskipa...“ (ÖG; minningargrein um AK). „... um vorið höfðu þeir feðgar stundað róðra úr Kvígindisdal“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). „Eftir að bryggja kom á Gjögra, og Einar bróðir byggði þar, stunduðum við bræður róðra þaðan nokkur vor“ (ÖG; Þokuróður).
Stundaglas (n, hk) Tímamælir sem notaður var til forna; lokað glerílát með þrengingu í miðju og sandi sem rennur um þrenginguna á ákveðnum tíma þegar glasinu er hvolft.
Stundaklukka (n, kvk) Stór klukka; stofuklukka. Áður notað til aðgreiningar frá úri eða öðrum tímamælum, en heyrist ekki lengur í málinu; eingöngu er notuð styttingin „klukka“.
Stundarástand (n, hk) Ástand sem varir stutta stund. „Maður vonar að þetta sé einungis stundarástand“.
Stundarbræði / Stundarreiði (n, kvk) Mikil reiði sem varir ekki lengi; fljótillska. „Ég hreytti þessu í hann í stundarbræði“.
Stundarfjórðungur (n, kk) Korter; 15 mínútur. „Klukkuna vantar stundarfjórðung í eitt“.
Stundarfriður (n, kk) Kyrrð/næði í nokkra stund. „Það er ekki stundarfriður fyrir þessum síma“!
Stundarferð / Stundarganga (n, kvk/kk) Ferð/ganga sem tekur klukkutíma; klukkutímaganga.
Stundarfjórðungur (n, kk) Korter; fimmtán mínútur. „Það er stundarfjórðungur síðan þeir fóru“.
Stundarfriður / Stundarnæði (n, kk) Friður/næði um stutta stund. „Maður fær ekki stundarfrið fyrir þessum lægðagangi“! „Skyldum við fá stundarnæði til að bæta á gryfjuna“?
Stundarfyrirbæri (n, hk) Það sem er mjög skammvinnt. „Ég óttast að þessi glenna sé bara stundarfyrirbæri“.
Stundargaman (n, hk) Skemmtun/fögnuður í litla stund. „Eftir útlitinu sýnist mér að þessi ráður gæti nú bara orðið stundargaman hjá okkur“.
Stundarhagur (n, kk) Skammvinnir hagsmunir; hagsmunir til skamms tíma. „Hann hafði einhvern stundarhag að þessu, en svo sótti aftur í sama farið“.
Stundarkorn / Stundarsakir (n, kvk) Dálítil/nokkur stund. „Svo voru húsakynni í Saurbæ rúmgóð, eins og fyrr segir, svo unga fólkið gat dregið sig nokkuð útúr eftir kaffidrykkju og jafnvel haft uppá grammófóngarmi og dansað stundarkorn“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). „Ég þurfti að bíða um stundarsakir þar til reksturinn kom“.
Stundaskrá / Stundatafla (n, kvk) Tímatafla, einkum notuð í skólum til að nemandi viti um sínar kennslustundir.
Stundlegur friður (orðtak) Stundarfriður; næði/kyrrð um stund. „Þeir segja að það sé ekki stundlegur friður fyrir ferðafólki“. „Ég var að vonast til að fá einhvern stundlegan frið til að ljúka þessu“.
Stundum (orðtak) Einstaka sinnum; stöku sinnum; endrum og eins; ekki alltaf.
Stundum ratast lygnum manni satt á munn (orðatiltæki) Hinn lygni segir stundum satt, en þá er ekki víst að honum verði trúað.
Stundvís (l) Gerir/kemur/mætir á tilsettum/vísum tíma. „Ekki er hann stundvís frekar en fyrri daginn“.
Stundvísi (n, kvk) Skynjun tíma; meðvitund um hvað tíma líður; mæting á réttum tíma.
Stunga (n, kvk) A. Far þar sem stungið hefur verið. „Farðu varlega með hnífinn svo ekki komi stungur í borðplötuna“. B. Dýpt þar sem stungið er með stungureku. „Mótekja fór þannig fram að stungnar voru tvær stungur ofan á móinn, og var þeim hent í næstu mógröf (ekki brennanlegur mór), svo komu 5-6 stungur af mó. Besti mórinn voru 2 neðstu stungurnar“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). Sjá mór.
Stungureka / Stunguskófla / Stunguspaði (n, kvk) Amboð/spaði til að stinga upp t.d. jarðveg, garð eða mó. Heitið reka var meira notað í Kollsvík en skófla.
Stunguþykkt (n, kvk) Sjá rekustunguþykkt.
Sturlaður (l) Brjálaður; vitfirrtur. „Alveg getur maður orðið sturlaður á svona heimskukjaftæði“!
Sturlun (n, kvk) Vitfirring; geðveiki; brjálsemi. „Það væri bara sturlun að róa í svona útliti“
Stutla (s) Þjappa mold í vegg með stutlu. „Nauðsynlegt er að stutla vel til að ekki leki og efnið renni ekki úr“.
Stutla (n, kvk) Stautur/prik til að þjappa mold í vegg. „Gott er að stutlan sé hæfilega löng og fari vel í hendi“.
Stutt gaman og skemmtilegt (orðatiltæki) Um eitthvað sem stendur of stutt yfir. „Þessi sólarglenna var stutt gaman og skemmtilegt. Það er komin hellirigning“. Mikið notað máltæki í Kollsvík en virðist ekki þekkt víðar.
Stutt í (einhverjum) (orðtak) Einhver er ósáttur/fúll og svarar í styttingi; einhver bregst við með stuttum svörum. „Nú skil ég hversvegna var svona stutt í honum þegar ég spurði eftir frúnni; ég vissi ekki um þetta framhjáhald“.
Stuttaralega (orðtak) Í styttingi; þurrlega; með þykkju/óvild; snaggaralega. „Hann svaraði þessu fremur stuttaralega og greinilegt að honum þótti“.
Stuttaralegur (l) Stuttur í spuna; fámáll. „Hann var sár yfir þessu og tók stuttaralega undir kveðjurnar“.
Stuttbuxnadrengur / Stuttbuxnagemsi / Stuttbuxnalið (n, kk/hk) Niðrandi heiti pólitískra andstæðinga um unga sjálfstæðismenn. „Skelfing er að heyra þessa stuttbuxnagemsa úr Valhöll tala um landbúnaðarmál; þessir bjálfar vita ekki hvað snýr aftur og fram á kind“! „Hleypur nú stuttbuxnaliðið framá ritvöllinn“!
Stuttbuxur (n, kvk, fto) Skálmalausar buxur; buxur með skálmastubba sem einungis ná niðurá læri.
Stuttfótur (n, kk) Gæluheiti á litlum strák.
Stuttfættur (l) Með stutta fætur. „Hann er ekki hlaupalega vaxinn; fremur stuttfættur og feitlaginn“.
Stutthyrnd (l) Um hornalag sauðkindar; með stutt horn. „Þarna er ein stutthyrnd með tvö lömb“.
Stutthærður (l) Með stutt hár.
Stuttífrá (ao) Skammt frá; rétt hjá. „Á blábrún Strengbergsins er tófuhús sem stóð uppi til skamms tíma, og þar skammtífrá má sjá grænan blett þar sem borið var niður“.
Stuttlega (ao) Í stuttu máli. „Hann rakti stuttlega forsögu málsins“.
Stuttleitur (l) Með stutt andlit; kringluleitur; ekki langleitur.
Stuttnefja (n, kvk) Svartfugl, líkur langvíu í útliti. Jafnan nefnd nefskeri í Útvíkum; sjá þar.
Stuttorður (l) Segja í stuttu máli; hnitmiðaður í frásögn.
Stuttstígur (l) Tekur stutt skref; skrefstuttur. „Farðu rólega; stubburinn er dálítið skrefstuttur enn“.
Stutt í (einhverju) (orðtak) Eitthvað er stutt; lítið er tiltækt af einhverju; ekki verður af einhverju. „Það er orðið fremur stutt í saltinu hjá okkur“. „Það gæti orðið stutt í vertíðinni ef tíðarfarið verður svona framúr“!
Stuttur í spuna / Stuttur í svörum / Stutt í honum/henni (orðtak) Fámáll; svarar fáu; fúll; viðskotaillur. „Hvers vegna er hann svona stuttur í spuna núna“? „Mér fannst frekar stutt í honum; eins og honum þætti eitthvað“.
Stuttur spölur (orðtak) Stutt vegalengd; stutt að fara. „... en það var stuttur spölur á milli bæjanna“ (DÓ; Að vaka og vinna).
Stuttur til hnésins (orðtak) Smávaxinn; ungur; skrefstuttur. „Nei, ég er hræddur um að þú sért enn heldur stuttur til hnésins til að smala á Breiðavíkurrétt. En þú mátt hjálpa til við að reka inn“.
Stúdent (n, kk) A. Sá sem lærir/ hefur lært. B. Í seinnitíð notað um þann sem lokið hefur framhaldsskólaprófi.
Stúdera (s) Rannsaka; velta fyrir sér; spá í. „Það þýðir ekkert að stúdera þetta eggpláss lengur; við höfum engin ráð til að komast í það núna“.
Stúderingar (n, kvk, fto) Athuganir; íhuganir. Í seinni tíð nota sumir orðskrípið „pælingar“ í sömu merkingu. „Ég hef ekki lagst í neinar sérstakar stúderingar á þessu fyrirbrigði“.
Stúdía (n, kvk) Fræðigrein; rannsóknarefni. „Það getur verið heil stúdía að fylgjast með því hvernig skepnurnar raða sér í innbyrðis virðingarstiga“.
Stúfhyrnd (l) Um hornalag sauðkindar; með brotið horn, en þó hornstúf; brotinhyrnd.
Stúfað (l) Eyrnamark sauðfjár; stýft (sjá þar).
Stúfnet (n, hk) Stutt net sem stundum var leyft að hnýta við enda netatrossu. Afla úr stúfneti máttu hásetar eiga sjálfir, án þess að skipt væri út aflahlut útgerðar. Var auðvitað illa séð af útgerðinni og aflagt í lok 19.aldar.
Stúfrifað (l) Fjármark; eyrnamark á sauðfé. Fyrst er stýft, en síðan gerður skurður niður í eyrað; hornrétt á stýfinguna. Heilrifað er það þegar gerður er skurður niður í mitt eyrað án stýfingar.
Stúfskeyta (s) Setja saman efnivið, t.d. við byrðingu báts. „Munurinn á blaðskeytingu/sniðskeytingu og stúfskeytingu er sá að með fyrrnefndu aðferðinni eru borðendarnir sniðskornir; blaðaðir saman, og seymdir í sniðið, en með stúfskeytingu eru borðin látin mætast enda í enda í fullri þykkt og yfir samskeytin er seymdur laski (skarklampi/stúfklampi).
Stúfur (n, kk) A. Stubbur; efnisbútur; afgangur; leifar útlims/trjábols. B. Eyrnamarkið stýft. „Mér sýnist þetta vera stúfur á hægra eyranu. C. Gæluheiti á smástrák. D. Eitthvað stutt, s.s. stutt fiskilína; netstubbi; stúfnet. E. Stýfður bragliður í kveðskap.
Stúlka (n, kvk) Stelpa; ung kona. Minna notað en áður; í staðinn er í óformlegu tali notað heitið stelpa.
Stúlkubarn (n, hk) Kvenkyns smábarn; smástúlka. „… og sumarið eftir átti systir mín stúlkubarn“ (JVJ; Nokkrir æviþættir). Stúlkubarnið var Hildur Magnúsdóttir, síðar á Láganúpi.
Stúka af (orðtak) Stía af; þilja af; skilja frá. „Kálfarnir voru stúkaðir af í hlöðuhorninu“.
Stúrinn (l) Óánægður; svekktur; leiður. „Hann var dálítið stúrinn yfir þessum málalokum“.
Stúss (n, hk) Fyrirhöfn; vesen. „Ég held bara að ég nenni ekki þessu stússi öllu lengur“.
Stússa / Stússast (s) Vera með stúss/vesen/fyrirhöfn. „Það er óþarfi að stússa þetta mín vegna“.
Stúta (s) Drepa/sálga; oftast notað um „óæðri skepnur“. „Ég náði að stúta minkfjandanum“.
Stúta sig (orðtak) Drekka af flöskustút; drekka áfengi. „Hann stútaði sig dálítið áður en hann hóf sönginn“.
Stútfullur (l) Um flösku; full upp í stút.
Stútkanna (n, kvk) A. Fyrri merking; kanna með stút sem hellt er af, s.s. kaffikanna. B. Síðari tíma merking; lokaður bolli með stút sem drukkið er af, s.s. drykkjarbolli ungbarna.
Stútungsfiskur (n, kk) Allstór fiskur; sæmilegur fiskur. „Við fengum þrjá stútungsfiska en svo ekki meir“.
Stútungskerling (n, kvk) Fullorðin kona; kona yfir miðjum aldri. „Tvær stútungskerlingar voru við afgreiðslu“.
Stútungsstærð (n, kvk) Góð meðalstærð; allnokkur/viðunandi stærð. „Sá fiskur sem við fengum þarna var þokkalegur; allur í stútungsstærð og nokkrir golþorskar innanum“.
Stútungsstór (l) Af góðri meðalstærð; sæmilega stór. „Ég lét hann hafa nokkra fiska; stútungsstóra“.
Stútungur (n, kk) Sá sem er af meðalstærð eða meira. „Hann lagði til tvo smágutta til að standa fyrir, og einn stútung til að fara með okkur í smalamennskurnar“.
Stútur (n, kk) A. Pípu-, rennu- eða trektlaga op á einhverju, gjarnan það sem hellt er út um, s.s. könnustútur. B. Herping munns, þannig að varir líkist röri. „Hreppstjórinn setti upp stút, eins og hann gerði jafnan þegar hann var efins eða hugsi“. C. Gæluorð um munn. „Mér lá við að rétta honum einn á stútinn“!
Stybba (n, kvk) Megn ólykt; reykjarkóf. „Þvílík andskotans stybba! Hvað settirðu eiginlega á eldinn“?
Stybbupest / Stybbusvæla (n, kvk) Mikil ólykt/pest; illa lyktandi reykjarsvæla. „Skelfingar styppupest er þetta“! „Opnaðu nú gluggann; maður nær varla andanum fyrir þessari stybbusvælu hér inni“!
Styðja (s) A. Veita stuðning; halda uppréttu. „Studdu bátinn meðan ég sæki búkkana“. B. Aðstoða; hjálpa. „Hann studdi sinn flokk með fjárframlögum“. C. Veita málefni framgöngu. „Ég styð þessa tillögu“.
Styðja að / Styðja við (orðtök) A. Ýta á; halda við/uppréttu. „Styddu að sárinu meðan ég bind um það“ B. Stuðla að framgangi málefnis.
Styðja hönd undir kinn (orðtak) Styðja með hönd undir höku eða kinn, til hvíldar t.d. þegar maður er að hlusta, hugsa, lesa o.fl.
Styðja við bakið á (einhverjum) (orðtak) Veita einhverjum stuðning; vera bakhjarl einhvers.
Styðjast við (orðtak) Fá stuðning af; styðja sig við. „Hann var orðinn fótfúinn og studdist við tvo stafi“.
Styggð (n, kvk) Fælni; ókyrrð. „Reyndu að komast framfyrir kindurnar án þess að það komi styggð að þeim“.
Styggðarkvikindi / Styggðarrófa (n, kvk) Mjög stygg/mannfælin kind. „Það er vonlaust að ná þessari snarvitlausu styggðarrófu“.
Styggðarorð / Styggðaryrði (n, hk) Orð í reiði; formælingar. „Sambúð þeirra var með ágætum og aldri heyrðust þau mæla styggðarorð hvort í annars garð“.
Styggja (s) A. Vekja styggð; valda ótta. „Eitthvað varð til að styggja tófuna“. B. Reita til reiði. „Ég vil nú helst ekki styggja karlinn mikið“.
Stygglyndur (l) Uppstökkur; úrillur. „Þeim þótti karlinn dályndið stygglyndur, einkum á morgnana“.
Styggur (l) A. Um kind eða annað dýr; hvumpinn; fælinn; hrekkur upp og hleypur frá við truflun. „Útigangsærin er svo stygg að það er hæpið að hún náist í hús með hinu fénu“. B. Reiður; úrillur.
Stykki (n, hk) A. Stór/þungur hlutur, t.d. skrúfstykki. B. Hluti af stærri hlut, t.d. kjötstykki.
Stykkja (s) A. Skera/saga eitthvað niður í stykki. „Bútungur var oftast þverstykkjaður í pottinn“. B. Kúla; skera raufar þversum í fiskflög sem hengd eru til herslu/signingar.
Stympast við (orðtak) Sjá stimpast við.
Stynja (s) Andvarpa raddað; gefa frá sér stunu.
Stynja þungan (orðtak) Stynja þunglega; gefa frá sér hljóð/stunu vonbrigða/þreytu/uppgjafar.
Styr (n, kk) A. Ófriður; bardagi; sríð. B. Í seinni tíð notað um ósætti/deilur. „Nokkur styr hefur staðið um þessa jörð um alllangan tíma“.
Styrjaldarástand (n, hk) Ófriður; stríðsástand.
Styrjöld (n, kvk) Stríð; mikill ófriður. Einnig í líkingum: „Ég nenni ekki að standa í styrjöld útaf þessu“.
Styrkja (s) Gera sterkari. „Hér gæti þurft að styrkja stífluna eitthvað“. „Þetta styrkir mig í þeirri trú að sagan sé hreinn uppspuni“.
Styrkjast í trúnni (orðtak) Verða sannfærðari en fyrr. „Ég fer nú að styrkjast í trúnni með það að hún hafi hrapað á Hlíðunum“.
Styrkleiki (n, kk) Styrkur; seigla; þol. „Ég hef kannski vanmetið styrkleikann í þessu“.
Styrktarstoð (n, kvk) Stoð sem sett er undir/við t.d. þakbita, til styrktar. „Ég setti styrktarstoð undir sperruna sem var að gefa sig; það verður að duga til vors“.
Styrkur (n, kk) A. Þolgæði; afl; megn; styrkleiki. „Ég er hræddur um að mesti styrkurinn sé farinn úr stefninu“. B. Hlutfall efnablöndu. „Það er ekkert gott að styrkur olíunnar sé of mikill í bensínunu; það fer illa með vélina“. C. Afl/frískleiki manneskju/skepnu. „Maður er aftur að ná fyrri styrk eftir veikindin“.
Styrkur (l) Sterkur; öflugur. „Honum veitir ekki af styrkri handleiðslu við þetta“.
Styrr (n, kk) Ófriður; stríð. „Það hefur löngum staðið styrr um eignarhaldið á þessum bletti“.
Stystur dagur / Stystur sólargangur (orðtök) Vetrarsólstöður, sem jafnaðarlega eru 21. desember ár hvert en geta verið á bilinu 20.-23. desember vegna hlaupára. Þá er sól lægst á lofti; úr því tekur dag að lengja. „Ekki er farið með hrút fyrr en kemur framyfir stysta sólarganginn“.
Stytta (n, kvk) A. Stoð; stuðningur. „Hér þyrfti að slá einhverja styttu undir mótin meðan steypt er“. B. Líkneski; myndastytta. C. Stuttklippt hár eða ull. „Mér finnst alltaf ljótt þegar klippt er í styttur þegar tekið er af“. D. Stytting á „uppstytta“. „Nú er um að gera að nota styttuna og koma sér í húsin“.
Stytta (s) Gera styttri; taka af. „Það mætti stytta fjölina dálítið“.
Stytta (einhverjum) aldur / Stytta sig (orðtök) Taka líf; drepa. „Hann mun líklega hafa stytt sig“.
Stytta (einhverjum) stundir (orðtak) Hafa ofanaf fyrir einhverjum; gera einhverjum biðina léttbærari; drepa tímann. „Ég stytti mér stundir í landlegunni við að greiða úr flækju“. „Hún stytti honnum stundir í veikindunum með því að lesa fyrir hann“.
Stytta sér leið (orðtak) Fara styttri leið. „Við styttum okkur leið með því að fara upp Grenjalág“.
Stytta má sitt (orðtak) Vera stuttorðari en til stóð; segja í stuttu máli.
Stytta sig (orðtak) Stytta sítt pils tímabundið, t.d. þegar vaðið er yfir vatnsfall, með því að hysja það upp og binda að með streng um mittið.
Stytta (einhverjum) stundir (orðtak) Halda selskap; hafa ofanaf fyrir; forða frá leiðindum. „Þegar veður var vont þá stytti maður sér oftast stundir með bóklestri ef enginn var nærindis til leikja“.
Stytta upp (orðtak) Um úrkomu; hætta að rigna/snjóa. „Ætlar hann ekkert að fara að stytta upp“? Stundum notað í afleiddri merkingu um veiðar; „Mér finnst að eitthvað sé farið að stytta upp í þessu hér“. „Þegar upp stytti hríðina var hafin leit að hestnum á ný“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Styttast fyrir (orðtak) Eiga skammt eftir ólifað; styttast ævin. „Einu sinni var það þegar gamla konan var orðin að mestu rúmliggjandi og farið að styttast fyrir henni að pabbi, sem hún hélt einhver ósköp uppá, kom að Gröf... „ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Styttast í (orðtak) Verða stutt í/ þar til. „Nú fer að styttast í það að taka þurfi hrúta á hús“.
Stytting (n, kvk) Aðgerð til að stytta. „Með nýja veginum náðist nokkur stytting leiðarinnar“.
Styttingur (n, kk) A. Missætti; óvild. „Þeir skildu í styttingi“. B. Þykkt skyr. Sumir nota orðið yfir smjör. C. Hvaðeina sem er áberandi stutt eða hefur verið stytt. Um tíma tíðkaðist að saga framanaf stefni báta til að fella þá að flokki fiskveiðistjórnunar, og nefndu sumir þá styttinga.
Styttir upp (orðtak) Hættir að rigna; élið hættir. „Sennilega er nú stytt upp í bili“.
Stýfa (s) Taka af; stytta. „Það þarf að stýfa af jötubandinu“. „Hans mark var stýft bæði eyru og gagnbitað“.
Stýfa úr hnefa/greip (orðtak) Borða/bíta í úr hendi sér með því að bíta í; halda í hendi og brytja uppí sig með hníf. „Mér finnst best að stýfa næpuna úr hnefa“.
Stýfing / Stýft (n, kvk/ l) Eyrnamark sauðfjár; stýft; stúfur; stúfað. „Ég held að þetta eigi að heita stýfing, hér á vinstra eyra“.
Stýra (s) Stjorna; ráða för; halda um stýri/stjórntæki. „Þú mátt stýra dálítið uppí strauminn til að halda réttri stefnu; það ber töluvert af þegar fallið er þvert á stefnuna“.
Stýri (n, hk) A. Stýrisbúnaður á farartæki, t.d. stýrisfjöl og stýrissveif á bát. B. Rófa á ketti.
Stýrimaður (n, kk) Sá sem heldur um stýri og stjórnar för, t.d. skips eða ökutækis. Munnmæli herma að Arnarboði dragi nafn af stýrimanni Kolls landnámsmanns, sem þar hafi strandað skipi þeirra við upphaf byggðar. Á þessum tímum var stýrimaður æðsti stjórnandi um borð í skipi; starfsheitið „skipstjóri“ var þá óþekkt. Því er það umhugsunarvert hvort landnámsmaðurinn Kollur hafi í raun heitið Örn. Víkina hafi hann nefnt Kollsvík eftir auðkennandi lögun Núpsins, en venja var að gefa stöðum heiti eftir einkennum þeirra frá hafi. Einnig var algengt að menn tækju viðurnefni af sínum heimastað. Örn gæti því hafa fengið nafnið Örn kollur, sem í sagnaminni hefur verið orðið að nafninu „Kollur“ við ritun landnámu; 300 árum síðar.
Stýrimennska (n, kvk) Það að stýra skipi. „Ekki líst mér á þessa stýrimennsku; þú stefnir beint uppá boðann“!
Stýrisauga (n, hk) Sveifarauga; ferkantað auga ofantil á stýri báts til að stinga stýrissveifinni í. „Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Stýrisár (n, kvk) Sérstakur stýrisbúnaður báts, þar sem skipinu er stýrt með blaðlaga legg sem ekki er festur aftaná stafn eins og stýrisfjöl. Þannig búnaður er algengur í Asíulöndum, og það heiti er stundum notað um stýrisbúnað víkingaskipa, sem festur var á afturbóg.
Stýrisfjöl (n, kvk) Stýri á báti. Einstakir hlutar þess voru stýrisfjöður, stýrishaus, stýrisháls, stýriskinnar, stýriskrókur, stýrislykkja, stýrisskór, stýrissveif, stýristaumar, stýrisvölur. „Við setjum stýrið fyrir þegar flýtur“. „Réttu mér stýrisfjölina“.
Stýrisfjöður (n, kvk) Aftasti hluti stýrisfjalar. „Hyllst var til að hafa stýrið úr einni fjöl, en oftast var þess ekki kostur og var þá renningi bætt aftan á það. Viðbót þessi var ýmist kölluð straumfjöður, stýrisfjöður eða stýrisblað“ (LK; Ísl.sjávarhættir; II).
Stýrishaus (n, kk) Efsti hluti stýris á báti; ofan við stýrisaugað sem stýrissveif leikur í“.
Stýrisháls (n, kk) Sá hluti bátsstýris sem er ofanvið stýrisfjöður en neðanvið stýrissveif.
Stýrishjarir / Stýrisjárn (n, hk, fto) Hjarir/járn á bátsstýri; samanstanda af stýrislykkjum og stýriskrókum.
Stýrishús (n, hk) Hús á sumum stærri bátum, sem stjórnandi bátsins stendur í. Ekki er vitað til að stýrishús hafi verið á neinum bátum sem róið hafa úr Kollsvík.
Stýriskinnar (n, kvk; fto) tveir þunnir klampar sem ganga af stýrishálsi á stýrishaus og mynda sveifargatið sem stýrissveifin gengur í.
Stýriskrókur / Stýriskengur (n, kk) Járnkrókur á bátsstýri sem gengur niður í stýrislykkju á afturstefninu þegar stýri er sett fyrir/hjarað; hluti stýrisjárna. Stýriskrókur er yddur í neðri enda til að auðvelda hjörunina.
Stýrislykkja (n, kvk) Lykkja/hólkur á afturstefni bát sem stýriskrókur gengur í þegar stýri er sett fyrir/hjarað.
Stýrismaskina / Stýrisvél (n, kvk) Gírbúnaður stýris á bíl/traktor, sem breytir snúningi stýrishjóls í lárétta hreyfingu.
Stýrisskór (n, kk) Neðsti hluti stýrisblaðs; oft sérstakt stykki; jafnþykk fjöl, þvert á stýrisfjölina. Fremri hlutinn á stýrisskó nefnist stýristá en aftari hlutinn stýrishæll.
Stýrisstöng (n, kvk) Leggur frá stýrishjóli bíls/traktors niður að stýrisvél.
Stýrissveif / Stýrisvölur / Stjórnvölur (n, kvk) Skaft/spýta sem stungið er í sveifarauga/stýrisauga bátsstýris; vogarstöng til að stýra bátnum. „Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). Einatt nefnt stýrissveif af síðari tíma Kollsvíkingum.
Stýristaumar (n, kk; fto) Taumar til að stýra báti. Taumastýring var ekki tíðkuð á Kollsvíkurbátum á síðari hluta 20. aldar, hvað sem áður kann að hafa verið, heldur var stýrt með sveif. Stýristaumar tengjast í sinn hvorn enda á stýrisveli, sem fest er þversum á stýrisfjölina.
Stýrisvölur (n, kk) Þverslá á bátsstýri sem stýristaumar festast við.
Stýrur (n, kvk, fto) Sjá stírur.
Stæða (n, kvk) A. Hlaði; stabbi; stafli. „Þar er fiskurinn saltaður í stæður sem er umstaflað eftir 3-4 daga“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Áður en hangiketið fór í reyk var það saltað volgt eftir slátrun og staflað í stæðu“. „Við hlóðum timbrinu í stæðu“. „…enda voru, á þrem síðastnefndu bæjum, heyin illa verkuð og skemmd í stæðum“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932). B. Raunveruleiki; staðreynd; hemja. „Það er ekki nokkur stæða að hann geti átt allt féð sem þarna er“.
Stæði (n, hk) Staður, ætlaður einhverju tilgreindu, s.s. bílastæði.
Stæðilegur (l) Reistur; hnarreistur; sem stendur vel. Sjá stór og stæðilegur. „Hinn stóð inni í stofu og starði á sjónvarpið;/ stæðilegan kroppinn hafði að bera./ Hann sagði heldur snúðugt: „Hvað var það fyrir þig?/ Hvað viltu hingað? Hvað ert þú að gera“? “ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Stæður (n, kvk, fto) Örnefni í Breiðavíkurlandi. Stæður nefnast djúpar lautir sunnan Breiðavíkurbotns. Í þeim eru tvö stöðuvötn; Stæðavötn, með silungi. Um Stæður liggur Stæðavegur uppí Brúðgumaskarð. Líklegt er að nafnið vísi til tjarnanna og merki „uppistöður“.
Stæður (l) A. Stendur vindátt. „Hvernig er hann stæður núna“? Einnig í endingum; norðanstæður; austanstæður o.fl. B. Um ástand einstaklings í fjármálum. „Hann er sagður þokkalega vel stæður“. C. Unnt að standa. „Hann var orðinn bálhvass á háfjallinu og varla stætt í verstu hviðunum“. „Hann óð út í sjóinn eins djúpt og stætt var“.
Stækja / Stækjufýla (n, kvk) Ólykt; fýla; brækja. „Það er bölvuð stækja af þessu hvalhræi í fjörunni“.
Stækka straum (orðtak) Verða meiri munur fljóðs og fjöru/ harðara fall; verða stórstraumur.
Stækur (l) A. Illa lyktandi/þefjandi; „Farðu nú úr böslunum úti; þau eru stæk af slorlykt“. B. Um pólitískar skoðanir; sanntrúaður. „Þetta er ágætismaður; fyrir utan það að vera stækur íhaldspoki“.
Stæla (n, kvk) A. Uppsteit; mótmæli; óþægð. „Vertu ekki með þessar stælur krakki og borðaðu matinn“! B. Deilur; rifrildi. „Ég lenti í stæðum við hann um þetta atriði“.
Stæla (s) A. Deila; rífast. „Ég ætla ekkert að stæla við þig um það sem ég veit fyrir víst“! B. Styrkja; gera stælt/stinnt. „Járnið var hert í vatni til að stæla það“.
Stæling (n, kvk) A. Stinnleiki; fjöðrun. „Þú sagar þetta stál ekki í sundur; það er of mikil stæling í því“. B. Eftiröpun; herma. „Mér sýnist þetta bara vera stæling á því sem aðrir hafa gert áður“.
Stæra sig af (orðtak) Miklast af; vera drjúgur yfir; vera hreykinn/montinn af. „Svona óknyttir eru ekki til að stæra sig af; þið ættuð frekar að skammast ykkar“!
Stæra sjó (orðtak) Aukast veltingur; versna sjólag. „Þið ættuð að drífa ykkur fljótt í land ef eitthvað fer að stæra sjó; spáin er ekkert alltof góð“.
Stærð (n, kvk) Það að vera stór/ taka rými. „Ekki er það nú stærðin á lamkvikindinu“!
Stærðar / Stærðarinnar (n, hk, ef) Gjarnan notað sem lýsingarorð til að leggja áherslu á heitið sem eftir fer. „Það er stærðar borgarísjaki sem trúlega stendur botn hér djúpt frammi á víkinni“. „Ég fann stærðarinnar trjárót rekna hér norður á Bótinni“.
Stærilátur (l) Drambsamur; lítur stórt á sig; góður með sig.
Stærilæti (n, hk) Drambsemi, mont. „Svararðu ekki þegar á þig er yrt? Skárra er það nú stærilætið!
Stærilætislaus (l) Yfirlætislaus; lítillátur.
Stætt (l) Hægt að standa. „Það var þvílíkur andskotans beljandi þarna á brúninni að varla var stætt“! Háabrekka er slétt en snarbrött, svo varla er stætt í henni, t.d. til að slá hana“ (SE; Örn.skrá Stakkadals).
Stöð (n, kvk) Staður; stæði; þar sem eitthvað er/stendur/starfar. T.d. veiðistöð, verstöð, miðstöð, bensínstöð, lögreglustöð. Stöð er sérnafn á verstöð í Keflavík; eflaust stytting á veiðistöð; staður sem róið er frá.
Stöðugleiki (n, kk) Staðfesta; það að vera rólegur/ í jafnvægi. „Það þyrfti að prófa stöðugleika bátsins áður en farið er á honum svona hlöðnum“.
Stöðuglyndi (n, hk) Jafnaðargeð; rólyndi. „Ef einhver fjelagsmaður neytir tóbaks skal formaður fjelagsins, eða annar sem hann tilnefnir, vanda um við hann; fá hann til að hætta og hvetja hann til stöðuglyndis“ (VÖe; Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps).
Stöðugur (l) Með stöðugleika; í jafnvægi; jafn. „Það verður stöðug ásókn af túnrollum meðan þær finna einhvern veikleika á girðingunum“. „Ertu nægilega stöðugur í þessari aðsetu“?
Stöðull (n, kk) Staður nærri bæ en oftan utan túns, þar sem kýr voru mjólkaðar að sumri. Stöðull í Kollsvík var jafnan frammi á Bergjum; neðan Hempulágar, og er þar örnefni. Stöðull á Láganúpi var síðast í kúagirðingu í Túnshalanum, en þar áður uppi á Hólum.
Stöðulvegur (n, kk) Vegur af bithaga eða alfaraleið heim á stöðul. „En það var enginn stöðulvegur; víðast hvar tæpir þræðingar“. (ÓTG; Ágrip af æviferli).
Stöður (n, kvk, fto) Um það þegar manneskja eða skepna stendur lengi í einu. „Það ætti nú einhver að leysa hann Kitta af við að sundra; þetta eru orðnar æði langar stöður hjá honum í dag“. Einnig uppistöður.
Stöðuvatn (n, hk) Vatn í dæld, sem stendur uppi allan ársins hring, jafnvel í mestu þurrkum. Nokkur stöðuvötn eru í Láganúpslandi; Breiðsvatn, Litlavatn, Stóravatn, Startjörn, Ormatjörn, Sandslág og tvö Kjóavötn. Önnur eru við það að falla undir þetta heiti, en þorna þó í mestu þurrkum; þar á meðal Gormtjörn, Langisjór, Smávötn og Lögmannslág. Sömuleiðis Keldeyradalstjörn og Hvolfatjörn í Kollsvíkurlandi.
Stöðva (s) Stoppa; drepa á. „Stöðvaðu vélina þegar við komum uppá Lagið; ég skal róa upp“.
Stöðvun (n, kvk) A. Það að hætta; upprof; endir. B. Um bát; stilling veltu. „Ekki töldu þeir þörf á því að bera í bátinn grjót til stöðvunar“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Stöfun (n, kvk) Það að stafa. „Strákurinn er að verða þokkalega góður í stöfun og byrjaður að kveða að“.
Stögun (n, kvk) Það að setja stag á eitthvað, t.d. girðingarstaur eða mastur á bát.
Stökk (n, hk) A. Það að hoppa/ spyrna sér á loft. „Ég stökk yfir skurðinn á eftir lambinu“. B. Hratt hlaup. Ég sentist á eftir honum á harða stökki“. C. Gangtegund hests.
Stökksprettur (n, kk) Harðasprettur; mjög hröð hlaup. „Ég hljóp í einum stökkspretti niður túnið og náði að komast fyrir fjárhópinn“.
Stökkva bros (orðtak) Brosa; láta eftir sér að brosa. „Honum stökk iðulega bros við lesturinn“.
Stökkva ekki bros á vör (orðtak) Vera alvarlegur; brosa ekki. Sjá með bros á vör.
Stökkva upp á nef sér (orðtak) Renna í skap; mislíka; reiðast. „Hann stökk upp á nef sér þegar hann fékk gangnaseðilinn“.
Stökkva yfir sauðarlegg (orðtak) Leikur sem stundaður var fyrrum, m.a. af vermönnum í landlegum. „Að stökkva yfir sauðarlegg er einfaldur leikur en alls ekki eins auðveldur og menn gætu ímyndað sér. Sauðaleggur er lagður á jörðina fyrir framan tærnar á keppanda. Hann á síðan að halda um tærnar á meðan hann stekkur jafnfætis yfir sauðarleggin, bæði áfram og afturábak“ (PJ; Vermannaleikir).
Stöku (l, ef) Einstöku; á strjálingi. Orðið stakur, í eignarfalli hvorugkyni, var/er notað með ýmsum nafnorðum. „Það eru skaflar á stöku stað í sniðinu“. „Þarna hefur stöku kind farið í svelti“. „Stöku fugl verpur þarna“.
Stökufær (l) Fær um að yrkja stöku/lausavísu.
Stökupartur (n, kk) Hluti af stöku/lausavísu. „Hann þrástagaðist á þessum stökuparti en mundi ekki botninn“.
Stöku sinnum (orðtak) Við og við; stundum; annað veifið. „Stöku sinnum berst upp svo mikill sandur í einni flæði í miklu brimróti, að árnar stíflast algerlega um tíma. Þá geta myndast nokkuð stór lón“.
Stöndugheita bú/heimili (orðtök) Efnaheimili; arðsamt bú. „Þetta má kallast stöndugheita bú hjá þeim, enda hafa þau verið dugleg og útsjónarsöm í öllu“.
Stöndugur (l) Ríkur; efnaður. „Hann ku vera sæmilega stöndugur“. „Hjóninn eru orðin það stöndug þegar þau eru á Auðshaugi að þau voru búin að semja um kaup á jörðinni.... “ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).
Stöng (n, kvk) A. Langt prik; mjór og langur stólpi, t.d. fánastöng, veiðistöng. B. Stytting á veiðistöng. C. Visnað/trénað gras/puntstrá. „Ári er túnið að verða óræktarlegt hjá honum; ekkert nema stöng“! Fleirtalan er ýmist stengur eða stangir.
Stöngull (n, kk) Lítil stöng. Oftast notað um legg jurtar.
Stöpull (n, kk) Sver stoð/súla; turn.
Stör (n, kvk) Flokkur jurta af ýmsum tegundum, t.d. gulstör. Stör vex t.d. í vötnum og tjörnum í Kollsvík og var áður slegin til nytja, sbr Startjarnir.
Subba (n, kvk) Sóðaleg/óþrifin manneskja. „Ekki segi ég að hún sé subba, en hún mætti vera dálítið þrifalegri í heimilishaldinu“.
Subba (s) Sóða út; sulla. „Sjáið hvernig þið hafið subbað fötin ykkar strákar“! Einnig notað kvenkynsorðið subba um verulegan sóða og subbuskapur yfir sóðaskap.
Subbulega (ao) Sóðalega; ekki snyrtilega.
Subbulegur (l) Sóðalegur; ófínn; ataður. „Skelfing ertu nú orðinn subbulegur eftir þetta“!
Subbuskapur / Subbuháttur (n, kk) Sóðaskapur; ruddaháttur. „Er þetta nú ekki óþarfa subbuskapur“?!
Sudda (s) Súlda; ýra; rigna fíngerðri rigningu. „Eitthvað er að sudda úr þokunni“.
Sudda/súlda úr honum (orðtak) Rigna/ýra fíngerðri rigningu. „Mér finnst að örlítið sé farið að sudda úr honum; þó varla svo að væti á steinum ennþá“.
Suddafýla / Suddaskítur / Suddaskratti / Leiðindasuddi (n,kvk/ kk) Niðrandi heiti á súld/sudda. „Það setti yfir okkur bölvaða suddafýlu“. „Það er bölvaður suddaskítur; maður neyðist til að hlífa sig“.
Suddarigning (n, kvk) Áköf súld; mikill suddi. „Búði þig nú; það er árans suddarigning“!
Suddaskúr (n, kvk) Súldarskúr; súld með köflum. „Hann gengur á með suddaskúrum“.
Suddaveður /Suddatíð (n, hk/kvk) Veðurfar með langvarandi súld/ýringi.
Suddaþoka (n, kvk) Súldarþoka; þoka með nokkrum ýringi/ dálítilli súld.
Suddi (n, kk) Súl; fín en drjúg rigning, oft í vindi. . „Það er hætt við að dropi í galtana í þessum sudda þegar hærurnar vantar“. „...og er þeir koma á Látraháls er þar þokusuddi töluverður“ (MG; Látrabjarg). Einnig er notuð sögnin að sudda: „Það suddar dálítið úr þokunni“.
Suð (n, hk) A. Lágt, niðandi hljóð, t.d. í fiskiflugu. B. Nöldur; tuð. „Æ, hættu nú þessu eilífa suði drengur“!
Suða (n, kvk) A. Það að sýður t.d. í potti. „Nú hefur dottið niður suðan á kartöflunum“. B. Viðgerð hlutar með suðu. „Stöngin brotnaði aftur, og nú um suðuna“. C. Suð; niður. „Ansi er leiðinleg þessi eilífa suða fyrir eyrunum á mér“. D. Stytting á t.d. rafsuða eða logsuða.
Suða um (orðtak) Nöldra; tuða; sífra. „Vertu nú ekki alltaf að suða um þetta“!
Suðaustan (ao) Vindur af suðaustri. „Ekki vorum við komin langt þegar á okkur skall suðaustan bylur“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Suður á bóginn (orðtak) Suðureftir; til suðurs; í suðurárr. „Hann hafði uppi og sigldi suður á bóginn“.
Suður með sjó (orðtak) Í munni Vestfirðinga merkir þetta vanalega svæðið við sunnanverðan Faxaflóa, eða nánar tiltekið á Suðurnesjum.
Suðurá (ao) Suðureftir. Einkum notað sem áttavísun á sjó. „Nú þurfum við að fara að kippa suðurá; okkur hefur rekið heilavegin norður á Flóa“. „Hann er að ganga suðurá“.
Suðureftir (ao) Í áttina suður. „Okkur rak töluvert suðureftir víkinni“. Oftast framborðið „suðrettir“.
Suðurfall (n, hk) Sjávarfall til suðurs. „Á Kollsvík gætir sjávarfalla í tvær áttir; þar er ýmist norðurfall eða suðurfall, og er norðurfallið mun sterkara. Einnig munar miklu á styrk hvort stórstreymt er eða smástreymt. Þá er sjólag breytilegt eftir samspili vinds; ríkjandi báruáttar og vindátt. T.d. er Blakknesröstin mjög úfin og hættuleg smábátum ef stórstraumsnorðurfall liggur undir stífa norðanátt, og þeim mun verri ef ríkjandi er sver norðansjór. Hraði fallastrauma hefur ekki enn verið vísindalega mældur á þessum slóðum, en líklega fer hann yfir ½ m/sek í Blakknesröstinni í stórstraumsnorðurfalli“ (VÖ). „Þar erum við um niðursláttinn á norðurfalli; liggjandann og upptöku á suðurfalli“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Suðurferð (n, kvk) Ferð til Reykjavíkur. „Hann er að pakka fyrir suðurferðina“.
Suðurfallsupptaka (n, kvk) Byrjun á suðurfalli. „Hann gaf sig ágætlega til um snúningin og suðurfallsupptökuna, en svo tók alveg undan“.
Suðurferð / Á suðurleið (n, kvk/orðtak) Um ferð til Reykjavíkursvæðisins. „Ég þyrfti líklega að skreppa í stutta suðurferð“. „Ertu eitthvað á suðurleið á næstunni“‘?
Suðurfirðir (n, kk, fto) A. Suðurfjarðahreppur sem náði yfir Bíldudal og firðina þar innaf, en er nú hluti Vesturbyggðar. B. Firðirnir á sunnanverðum Vestfjörðum; oftast átt við Arnarfj, Tálknafj og Patreksfjörð.
Suðurflói (n, kk) Sunnanverður Patreksfjarðarflói; hafsvæðið norður og út af Blakk og Hænuvík.. „Við færðum norður í Krossadal; fjóra strengi úr Suðurflóanum“.
Suðurfyrir (ao) Áleiðis suður og í hvarf. „Skipið er horfið suðurfyrir núna“.
Suðurleið (n, kvk) Leið til Reykjavíkur. „Ert þú á suðurleið eitthvað á næstunni“?
Suðurloft (n, hk) Útlits himins í suðurátt. „Mér líst ekkert á hvað hann er að ljókka í suðurloftið“.
Suðurnes (n, hk, fto) Heiti á útnesjum Reykjanesskaga syðra. Oftast var fyrrum átt við útverin í suðri frá Selatöngum, vestur og norður um Grindavík, Hafnir, Hvalsnes, Bæjasker, Garð, Gufuskála, Keflavík, Njarðvíkur, Hólmabúðir, Voga, Vatnsleysuströnd, Hvaleyri til og með Álftanesi.
Suðurrek (n, hk) Rek báts eða annars með suðurfalli. „Mér sýnist á niðristöðunni að það sé komið eitthvað suðurrek“. Sjá norðurrek.
Suðurum (ao) Suðureftir; suður um; suðuryfir. „Hann er að verða ári ljótur hér suðurum“. Oft notað sem áttavísun á sjó; „Við skulum setja í gang og keyra dálítið hérna suðurum“. Iðulega framborið „suðrum“. „Heldur er hann orðinn þungbúinn hérna suðrum“.
Suðurundir (ao) Suður við; sunnanundir. „Hann liggur í sólbaði suðurundir vegg“.
Suðuryfir (ao) Suður yfir. „Á tímabili voru í nokkur ár seld líflömb héðan úr vestursýslunni og flutt með bátum suðuryfir Breiðafjörð“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Suðuskjóða (n, kvk) Nöldurseggur; vælukjói; sá/sú sem nöldrar/suðar/tuðar mikið. „Vertu nú ekki eilíft að stagast á þessu; ég nenni ekki að hlusta á svona suðuskjóðu“!
Suðvestan (ao) Vindur af suðvestri. „Um morguninn var kominn suðvestan stormur með dimmum éljum“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Sukk (n, hk) Svall; óreiða; óregla; drykkjuskapur. „Mér fannst þorrablótið leystast upp í sukk og svínarí í lokin“.
Sukksamkoma / Sukkskemmtun (n, hk/kvk) Samkvæmi/skemmtun þar sem ölvun er áberandi og hömlur litlar. „Ætli maður láti það nú ekki vera að sækja svona sukksamkomur“! „Þetta var víst herjans sukkskemmtun“.
Sukksamt (l) Sóðalegt; vætusamt. „Heldur varð þetta sukksamt ferðalag; í slyddu og hvassviðri“. Orðið var oftar notað í þessari merkingu en þeirri sem almennt gerist; um svall og óreglu, enda lítið um slíkt í Kollsvík.
Sull (n, hk) A. Ógeðsleg/fráhrindandi blanda. „Hvaða ansvítans sull ertu nú að láta ofaní þig? Þetta lyktar verr en nokkuð kúahland“! B. Krap; vatnsagi á jörð. „Það verður fjárans sull á jörð þegar blotar svona skarpt ofaní fönnina“. Sjá krapasull. C. Það að sulla. „Hættið nú þessu sulli í vaskinum strákar“!
Sulla (s) A. Hræra saman; blanda; búa til sull. B. Vaða í læk eða mýri.
Sulla/slafra í sig (orðtök) Borða, þó ekki þyki gott. „Það má alveg sulla þessu í sig í hallæri“. Slafraðu þessu í þig og vertu ekki að þessu múðri“!
Sullandi (n, kk) Allnokkur sjór; ágjöf. Einkum notað um sjólag þegar siglt/keyrt er í ágjöf. „Það var kominn dálítill sullandi hérna fyrir Blakkinn“.
Sullaveiki (n, kvk) Smitsjúkdómur af völdum sníkjudýrs; sullaveikibandorms; Echinococcus granulosus, sem finnst víða um heim. Var skæður sjúkdómur í mönnum fyrr á tímum en var útrýmt hérlendis á 20.öld. Ferill sníkjudýrsins er þannig að grasbítar, t.d. ær, éta egg þess sem borist hafa í gras. Hundar og aðrar kjötætur sem komast í hræ grasbíta, éta bandormsbelgi fulla af lirfum og lifir sníkjudýrið einkum í þörmum þeirra; þroskast og getur af sér egg sem berast fráhundinum með saur. Menn geta svo sýkst við snertingu sýkts hunds, saurs eða jarðvegs, en eru yfirleitt ekki hluti þroskaferils bandormsins. Bandormurinn þvelur í þörmum hýsilsins og festir sig þar með sogskálum og krókum á höfðinu, en aftar eru þrír liðir. Fóstur hans komast inn í þarmaveggina og í önnur líffæri t.d. lungu. Þar þroskast það í blöðru, svonefndan sull, sem getur orðið allstór. Stærsti sullur í manni sem vitað er af hérlendis innihélt 16 lítra af sullungum og vökva. Meðan sullaveiki var landlæg hér létust nokkrir þeirra sem smituðust, þó flestir hefðu það af. Ólafur Tómas Guðbjartsson frá Kollsvík segir í endurminningum sínum frá mikilli sullaveiki sem hann fékk.
Sullsamt (l) Hætta á bleytu/ágjöf; vætusamt. „Við skulum fara í hlífar; það gæti orðið sullsamt í röstinni“.
Sullumbull (n, hk) Illskiljanlegt bull; hrognamál; barnababl. „Ég skildi ekki helminginn af þessu sullumbulli“.
Sullur (n, kk) Blaðra sem sullaveikibandormurinn myndar í hýsli sínum. Sjá sullaveiki.
Sulta (s) Búa til sultu. „Alltaf var sultað eitthvað af sviðum, þó flest væru þau fryst ósviðin“.
Sultarbúskapur (n, kk) Lélegur búskapur; hokur; oftast notað um skort/vöntun á því sem telst mikilvægt. „Mér finnst það nú hálfgerður sultarbúskapur að eiga ekki mola með kaffinu“!
Sultardauður (l) Dauður úr hungri/sulti. „Nú held ég að við ættum að fara að huga að nestinu, áður en við verðum alveg sultardauðir við þetta“.
Sultardropi (n, kk) Dropi hangandi í nefbroddi. „Hann er með sultardropa í nefinu“.
Sultarfæða (n, kvk) Matur sem er næringarlítill/ólystugur/almennt ekki étinn. „Sögur voru um að í verstu hallærum og bjargarleysi fyrri alda hafi fátæklingar lagt sér þöngla til munns, en þeir hafi þótt sultarfæða“.
Sultargjöf / Sultartugga (n, kvk) Lítil fóðurgjöf búpenings. „Ég gaf fénu nánast innistöðugjöf; það þýðir ekkert að gefa einhverja sultargjöf þegar það nær ekkert að nasla í fjörunni“.
Sultargörn (n, kvk) Um þann sem er oft svangur. „Þú ert nú meiri sultargörnin drengur! Þú áttir að fá þér nóg að borða áður en við lögðum af stað“.
Sultarhljóð (n, hk) A. Kvörtun um hungur/svengd/löngun í eitthvað. „Það er komið sultarhljóð í þá bændur sem ekki hafa fengið fullnaðargreiðslu fyrir afurðirnar“. B. Sérstakt krunk í hrafni.
Sultarlega (ao) Eins og svangur/soltinn sé. „Hentu þessum beinum útí skurðenda fyrir tíkina; hún ber sig eitthvað svo sultarlega núna“.
Sultarlegur (l) Lítur út fyrir að vera svangur; svengdarlegur. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Sultaról (n, kvk) Mittisól/belt þess sem er kviðdreginn af hor/svengd. Einkum í orðtakinu að herða sultarólina.
Sultarsöngur (n, kk) Nöldur/óánægjurödd hins svanga/hungraða. „Alltaf er sami sultarsöngurinn í þessum stórútgerðum þó þær skili methagnaði ár eftir ár“!
Sultugerð (n, kvk) Gerð sultu, t.d. rabbabarasultu eða sviðasultu.
Sultuhnífurinn Davíðs (orðtak) Líklega nýyrði, smíðað af Guðm. Jóni Hákonarsyni á Hnjóti (af Kollsvíkurætt), en hann brá því oft fyrir sig og eitthvað breiddist notkunin út. Þetta heiti var notað um alla smjörhnífa og aðra bitlitla hnífa. „Jón lagði sig eftir að nota sérstæð gömul orð í sínu máli, en einnig var hann sérlega hnyttinn að búa til snjöll nýyrði og var stundum erfitt fyrir ókunnuga að greina á milli. Ekki þekki ég söguna á bakvið, en hún mun eiga við Davíð sem bjá á Kóngsengjum“ (VÖ).
Sultukrukka (n, kvk) Glerkrukka sem sulta er geymd í.
Sultur (n, kk) Svengd. „...ekki höfðu þeir mat og drykk. Sótti á þá sultur“ (MG; Látrabjarg).
Sultur og seyra (orðtak) Fátækt, einkum í mat; matarskortur; slæmur aðbúnaður. „Á harðindatímum sótti fólk gjarnan í verin, sem flúði sult og seyru í sinni heimabyggð“.
Sultutau (n, hk) Annað heiti á sultu, nokkuð almennt notað á síðarihluta 20. aldar en heyrist vart nú.
Sumarauki (n, kk) Lagningarvika. Innskotsvika í hið gamla tímatal. Bætt var inn viku á nokkurra ára fresti til að samræma tímatalið árstíðaárinu. Í tveimur misserum að fornu tímatali teljast venjulega tólf mánuðir þrítugnættir og fjórar nætur umfram (aukanætur), eða aðeins 364 dagar. Árstíðaárið er rúmum degi lengra. Til lagfæringa er sumarauka skotið inn á eftir aukanóttum.
Sumardagur (n, kk) Dagur að sumarlagi. „Við göngum fyrir neðan Litlavatn, sem er neðsta vatnið í Vatnadal. Þangað var oft farið á hlýjum sumardegi til að baða sig og synda“ (IG; Sagt til vegar I).
Sumardagurinn fyrsti var fyrrum einn mesti hátíðisdagur ársins. Fólk tók daginn snemma, því fótaferðatími þennan dag var vísbending um það hve árrisult fólk yrði yfir sumarið. Húsbóndi aðstoðaði húsmóður við skömmtun matar þennan dag, og verl var gert við fólk í mat. Dagurinn var hafður til marks um veðráttu á því sumri. Ef veður var gott á sumardaginn fyrsta, og helst einnig á fyrsta sunnudag í sumri, þá yrði gott sumar. Eldiviðarþerrir fer eftir laugardeginum fyrsta í sumri, en heyþerrir eftir sunnudeginum fyrsta í sumri. „Rauðri krýndur röðulglóð/ rennur skýr og fagur,/ yfir fjöll og fannastóð/ fyrsti sumardagur“ (JR; Rósarímur).
Sumardvöl / Sumarvist (n, kvk) Vera/dvöl yfir sumarið. „Börn skyldmenna í borginni komu iðulega til sumardvalar og var að þeim mikil hjálp við heyskap o.fl. Sumum þeirra varð Kollsvíkin annað heimili“.
„... voru oftast eitt eða fleiri börn hjá þeim í sumardvöl“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Sumarfagur (l) Fagur að sumarlagi. „Það virðist ekki tilviljun ein að kirkjunni skyldi veljast heimkynni í hinum sumarfagra en veturkalda Sauðlauksdal“ (RÍ; Ágrip af sögu kirkju og presta í Sauðlauksdal).
Sumargjöf (n, kvk) Gjöf sem gefin er á sumardaginn fyrsta. Það mun hafa verið nokkuð almennur siður fyrr á tíð að gefa einhvern glaðning í sumargjöf, þó ekki sé núna vitað hvernig því var háttað í Úvíkum. Hinsvegar þekktust jólagjafir ekki fyrr en sent á 19.öld eða síðar.
Sumarhagi (n, kk) Beitiland að sumarlagi. Kollsvíkurfé var einatt haldið til beitar að vetrarlagi, þegar það var við hús; ýmist þá í fjöru eða í víkinni eða næsta nágrenni hennar. Sumarhagar sauðfjár voru þó sumir mun fjær, t.d. í Breiðavík, á Bjarginu, í Breiðnum eða langt inn til fjalla og dala.
Sumarhiti (n, kk) Mikill hiti að sumarlagi. „Breiddu yfir fiskinn , svo hann skemmist ekki í sumarhitanum“.
Sumarkoma (n, kvk) Koma sumars; hlýnun í tíð. „Sumarkoman ætlar að láta á sér standa þetta árið“.
Sumarkyrr (l) Lygn að sumarlagi. „Krakkar léku um Kallatún/ á kvöldum sumarkyrrum./ Landpóstur á brekkubrún/ blés í lúður fyrrum“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Sumarhitar (n, kk, fto) Mjög hlýtt að sumri. „Alltaf er þar snjólétt að vetrum og sumarhitar miklir“ (FÓT; Smiður í fjórum löndum)
Sumarlangt (l) Yfir allt sumarið; langt frameftir sumri. „Í kuldaárum kom hvergi dökkur díll upp úr hjarninu sumarlangt...“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Sumarlega (ao) Eins og á sumri. „Ekki viðrar hann beint sumarlega þessa stundina; bara árans kuldaskítur“!
Sumarlegur (l) Líkur sumri. „Sagt hefur verið að sumarleg jól gerðu jafnan vetrarlega páska“.
Sumarmál (n, hk, fto) Síðustu dagar vetrar að íslensku tímatali, frá laugardegi til miðvikudags í 26. viku vetrar. „Þá voru sumir bændur sem sendu vinnumenn sína til vers strax um eða fyrir sumarmál“ (KJK; Kollsvíkurver). „Það var því hlutverk húsmæðra að sjá um búið; auk sinna vanalegu starfa, meðan róðrar stóðu yfir; frá sumarmálum og fram að slætti“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Heimræði er þar (frá Láganúpsveri) ár um kring, en á vorið er þar vertíð frá sumarmálum til þingmaríumessu“ (ÁM/PV Jarðabók). „Gerist hveðru heiðin sál/ haldin angri og kvíða:/ Hækkar sól og sumarmál/ senn að garði ríða“ (JR; Rósarímur).
Sumarmálahret (n, hk) Hret/ótíð/kuldatíð sem gerir um sumarmál.
Sumartungl (n, hk) Heiti tunglkomu á eftir páskatungli.
Sumarveðrátta (n, kvk) Veðurfar líkt og á sumri. „Hann ætlar að halda þessari sumarveðráttu fram á hátíðar“.
Sumbl (n, hk) Drykkuveisla; drykkjuslark. „Þeir sátu að sumbli langt frameftir nóttu“.
Sumirhverjir (fn) Sumir af mörgum, nokkrir. „Sumirhverjir myndu nú dusta rykið af mannasiðunum og þakka fyrir sig“! „Þessi net eru orðin afskaplega léleg og sumhver alveg ónýt“.
Summa (n, kvk) A. Niðurstaða samlagningar/samantektar. B. Mikil upphæð; mikið magn. „Hann hlýtur að hafa gefið dálaglega summu fyrir þetta stóran traktor“.
Sumpart / Sumpartinn (ao) Að hluta til; að sumu leyti. „Hann ætlar að geyma verkið til morguns. Sumpartinn vegna þreytu, en svo er veðurútlitið orðið betra en það var“.
Sumra (s) Koma sumar; batna veður í vetrarlok. „Ég held bara að hann sé að byrja að sumra“.
Sumsé (ao) Semsé; þannig; svo. „Það er sumsé þannig sem í málunum liggur“.
Sumsstaðar (ao) Á sumum/nokkrum stöðum; víða. „Sumsstaðar er orðið marautt“.
Sumthvað (fn) Eitthvað; nokkuð; dálítill hluti. „Ég held ég muni flest erindin úr kvæðinu, en sumthvað er líklega alveg gleymt“.
Sumir (fn) Nokkrir; einhverjir af hópi/safni. „Sumir eiga erfitt með að smala í brattlendi“.
Sund (n, hk) A. Bil milli tveggja hækkana. T.d. sjólæna milli eyja, boða, skerja eða nesja. „Stundum fóru kunnugir um sundið milli Blakknesboðans og hleinarinnar til að losna við Blakknesröstina.“. Eða húsasund; bilið milli húsa. B. Það að synda eða vegalengd sem synt er. „Sund kunnu menn almennt ekki framyfir aldamótin 1900, en eflaust hefðu mannskaðar orðið færri ef svo hefði verið. Valdimar Össurarson, eldri, var frumherji í sundkennslu á fyrrihluta 20.aldar“.
Sundbolur (n, kk) Samfellubolur sem synt er í. Hefur á seinni tímum mjög vikið fyrir sundskýlu hjá körlum og bikinífatnaði hjá konum.
Sundfimi (n, kvk) Hæfni til sunds.
Sundkennsla (n, kvk) Kennsla sunds. Fyrstu sundkennslu sem gagn var að í Kollsvík stundaði Valdimar Össurarson (eldri) frá Láganúpi. Sundlaug var gerð í Miðlæknum, þannig að hann var stíflaður norðanvið kotbýlið Grund. Þetta var kalt mýrarvatn en sagt var að kennslan hefði verið góð. Einnig var synt í sjónum þegar hægt var. Valdimar kenndi sund víða, bæði í Barðastrandasýslu og víðar um land, og var mikill frumherji á því sviði á sinni tíð. „Sundkensla hefir farið fram í Kollsvík á vegum fjelagsins (Vestra) í 5 sumur; hálfsmánaðar tíma. Fjelagið bygði upp sundtjörnina, en sýslusjóður hefir launað kennaranum. Allir karlmenn í fjelaginu kunna sund. Vonandi hefir fjelagið unnið þar til mikillar blessunar, því að eigi hefir það ósjaldan hent, að menn hafi drukknað nærri landi í Víkum; þar er brimasamt“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Sundla (s) Svima; finna til lofthræðslu. „Hann segir að sig sundli bara við að ganga um hlíðina“.
Sundlaug (n, kvk) Laug sem notuð er til sunds. Fyrsta sundkennsla í Kollsvík fór fram í sundlaug sem gerð var með stíflu í Miðlæknum. Vatnið í honum er uppsprettuvatn úr Mýrunum og því nokkuð kalt, en þeir sem þarna syntu kvörtuðu ekki yfir því.
Sundlgjarnt (l) Hættir til að sundla/svima. „Hann sagði að sér væri oft sundlgjarnt og því færi hann varlega nálægt klettabrúnum og í háum hlíðum“.
Sundmaður / Sundkappi (n, kk) Maður sem syndir; sá sem er góður/þolinn við sund. „Engan sundmann hef ég séð betri en Kristján Friðgeirsson. Mér er minnisstætt þegar hann lagði til sunds á eftir snarvitlausu lambi sem hlaupið hafði í sjóinn þegar rekið var inn í réttina í Keflavík, líklega kringum 1970. Þónokkur ylgja var í sjó, en hann synti góðan spöl á haf út eftir lambinu og kom með það í land“ (VÖ).
Sundmagi (n, kk) Loftkennd blaðra í kviðarholi fiska, með hryggnum, sem þeir nota til að stjórna eðlisþyngd sinni og þar með flotmagni. „Sundmagi hefur lengi verið nýttur til matar og á Vestfjörðum var hann tekinn úr öllum málfiski. Að ná honum hét að skera úr hryggjum. Hann var síðan skafinn vel; hreinsaður og annaðhvort saltaður eða hertur, væri hann ekki soðinn strax. Stöku sinnum var sundmagi etinn nýr með lifur, en oftast var hann soðinn og settur í súr. Vermönnum var ætlað að hirða sundmaga úr sínum afla. Hertur sundmagi var kippaður upp með sundmaganál, sem oftast var úr hvalbeini. Um miðja 18. öld var farið að flytja sundmaga út til límgerðar, og eitthvað var unnið af slíku hérlendis. (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Sundra (s) A. Aðskilja. „Því skulu menn ekki sundra sem guð hefur sameinað“ (blessunarorð við hjónavígslu). B. Aðskilja mötuna eftir slátrun. Upphaflega mun orðið hafa ná jafnt yfir sundurlimun kjötskrokks sem aðskilnað innmats, en í seinni tíð var einungis talað um að sundra innmatnum. „Kitti í Hænuvík hafði löngum þann starfa í sláturhúsinu á Gjögrum að sundra, eftir að tekið var innanúr. Var enginn honum handfljótari við það“. C. Skilja að fisk, t.d. helminga herts steinbíts. „Steinbítur var borðaður nýr og saltaður, en þó oftast harður... Þegar honum var sundrað í tvennt var tekið í hvorn helming og rifið um hnéð. Markið fylgdi þá dálkhelmingnum ásamt sporði og bekugga. Kroppað var úr hryggjarliðunum og þar í kring; kallað að vinna að markinu. Konum var ætlaður meyjarhelmingurinn“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). Einnig er talað um að sundra lúðu/spröku þegar henni er skipt eftir hefðbundnum reglum.
Sundríða (s) Ríða hesti í vatni/sjó þar sem hann nær ekki til botns og þarf því að synda með reiðmanninn.
Sundrun (n, kvk) Skipting; það að sundra. „Kitti sá jafnan um sundrun meðan hann vann í Gjögrasláturhúsi“.
Sundrung (n, kvk) Upplausn; skipting; óreiða; tvístrun; ósamlyndi; deilur.
Sundur (ao) Í hluta/parta; í tvennt. „Það er ekki svo einfalt að ná þessu í sundur“.
Sundurbrotinn / Sundurslitinn (l) Brotinn/slitinn í sundur
Sundtök (n, hk, fto) Hreyfingar þess sem syndit; aðferð við sund. „Þarna tók ég fyrstu sundtökin“.
Sundurbrotinn / Sundurbútaður / Sundurdrafaður / Sundurétinn / Sundurflettur / Sundurgenginn Sundurgisnaður / Sundurgrafinn / Sundurgrotnaður / Sundurhlutaður / Sundurhöggvinn / Sundurklofinn / Sundurkraflaður / Sundurkraminn / Sundurlimaður / Sundurmarinn / Sundurmolnaður / Sundurmorkinn / Sundurnagaður / Sundurpurpaður / Sundurrifinn / Sundurristur / Sundurryðgaður / Sundursagaður / Sundurskilinn / Sundurskiptur / Sundurskorinn / Sundurskotinn / Sundurskrúfaður / Sundursleginn / Sundurslitinn / Sundursniðinn / Sundursoðinn / Sundursorfinn / Sundursprengdur / Sundursprunginn / Sundurtroðinn / Sundurtugginn / Sundurtjásaður / Sundurtærður / Sundurtættur / Sundurvigtaður (l) Genginn/tekinn/hlutaður í sundur af tilgreindum ástæðum. „Munið að taka hrífuna heim sem þarna liggur sundurbrotin“. „Stórfiskurinn var allur lausholda og sundurdrafaður; hann var engin söluvara“. Hér þarf eitthvað að laga; hurðin er öll sundurgengin“. „Við förum ekki langt á bílnum meðan hann er sundurhlutaður úti í skemmu“! „Skelfing er að sjá þetta hjá þér; ég get ekki hreinsað fiskinn ef þetta er allt svona sundurkraflað“! „Gættu þín þegar þú ferð fyrir nefið; það er allt dálítið sundurmolnað og veikt í sér“. „Það er ekkert hald í þessum staur; hann er allur sundurmorkinn“. „Það er ekki von að ljós sé á perunni; leiðslan er sundurnöguð hér við vegginn“! „Sléttan verður mun rýrari, svona sundurrist“. „Hún fékk efnið sundursniðið og hófst strax handa við saumaskapinn“. „Við skiljum ekki við netið svona sundurskorið; svona, hnýttu þetta saman drengur“! „Það er ómögulegt að eiga við þennan netahnút; hann er allur orðinn sundurtjásaður og útilokað að átta sig á nokkrum þræði“. „Púðurtunnan í duflinu var sundurtærð og púðrið löngu orðið hættulaust“.
Sundurdrafaður (l) Orðinn mjög morkinn/ laus í sér. „Fiskurinn verður hálf ólystugur þegar hann er sólsteiktur og sundurdrafaður“.
Sundurgerð (n, kvk) Tepruskapur; tilgerð; óþarfa glysgirni t.d. í klæðaburði.
Sundurgerðarmaður (n, kk) Sá sem stundar sundurgerð/ er áberandi í klæðaburði; skartmenni.
Sundurdráttur (n, kk) Fjárrag, oftast í réttum; þegar hver bóndi dregur sitt fé í dilk úr almenningi; það að draga í sundur. „Við sundurdrátt á bæjum skal aðkomufé dregið úr og fært til lögréttar á réttardögum, nema eigendur hafi áður vitjað þess“ (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).
Sundurgerðarmaður (n, kk) Sá sem er glysgjarn/sker sig úr í fatavali; stundar sundurgerð. „Hann þykir sundurgerðarmaður í klæðaburði“.
Sundurlaus (l) Laus í sundur; samhengislaus. „Heldur fannst mér ræðan vera sundurlaus og innihaldsrýr“.
Sundurliða (s) Greina/skipta í smærri einingar. „Hér þyrfti að sundurliða kostnaðinn“.
Sundurlima (s) Lima/skipta/taka í sundur; aðskilja í parta. „Vélin lá öll sundurlimuð á borðinu“.
Sundurlyndi (n, kvk) Ágreiningur; ósætti; fjandskapur. „Eitthvað sundurlyndi er þar núna á milli bæja“.
Sundurlyndisfjandinn (n, kk, ákv.gr) Persónugerving á tilhneygingu til ósamlyndis/ágreinings/misklíðar. „Lengi vel tókst þeim að vinna ágætlega saman og halda sundurlyndisfjandanum frá“.
Sundurorða (l) Ósáttur; lenda í rifrildi. „Enginn vissi til að þeim skipsfélögum hefði orðið sundurorða“.
Sundurskurður (n, kk) Skurður sem aðskilur/sundrar. „En um lok sláturtíðar gekk hér í frost og snjókomu. Töldu margir veðurfróðir að nú væri að ganga í einn hörkuveturinn. slíkur sem 1918, en hann byrjaði svipað; enda sundurskurður á miltum úr kúm og fleiri tákn staðfestu það“ (ÞJ; Árb.Barð 1968).
Sundurtekinn (l) Ósamsettur; sem búið er að taka í sundur. „…því Farmallinn kom víst sundurtekinn í kössum og var raunar ekki þungur þó búið væri að setja hann saman“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Sundurþykkja (n, kvk) Osamlyndi; deildar meiningar. „Var einhver sundurþykkja milli þeirra bræðra“?
Sunna (n, kvk) Sól. Nafnmyndin er nær eingöngu notuð í kveðskap nú á tímum.
Sunnanandvari / Sunnangola (n, kk) Hæglætisvindur af suðri. „Þetta þornar fljótt í sunnanandvaranum“.
Sunnanátt (n, kvk) Vindur frá suðri. „Mér sýnist hann ætla að ganga til sunnanáttar“. Fremur var þó talað um að „ganga til suðurs“ eða „ganga suðurá“.
Sunnanhallt (ao) Þar sem hallar suðuraf. „Flugvélin brotlenti sunnanhallt í hábungu Brunnahæðar“.
Sunnankaldi / Sunnankul / Sunnankæla (n, kk/hk) Nokkur vindur af suðri, meiri en gola. „Það þarf ekki mikla sunnankælu til að vekja upp gutlanda undir Bjarginu“.
Sunnanlands (ao) Á sunnanverðu landinu; á suðurlandi.
Sunnanmeð / Sunnanmegin / Sunnanvert við / Sunnanvið (orðtak/ao) Meðfram/að sunnanverðu; fyrir sunnan. „Sunnanvert við Kollsvíkina er Vatnadalur“. Það er ágætis skjól og hlýindi sunnanvið bæinn“. „Menn af bæjum sunnanvert í Kollsvíkinni skiptust á að reka féð og standa hjá“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Sunnanrosi (n, kk) Mjög slæm tíð með ríkjandi sunnanátt, t.d. miklar sunnanrigningar á heyskapartíma.
Sunnanslagveður / Sunnanslagviðri (n, hk) Mikil rigning af suðri. „Þeir létu sig hafa það að arka þessa leið í sunnanslagviðri; komið framundir myrkur“.
Sunnansperringur (n, kk) Hvass sunnanvindur. „Það verður ekki gaman að pelkja á móti þessum sunnansperringi og slagveðursrigningu“!
Sunnanstæður / Sunnanvindur (l/ n, kk) Um vindátt; suðlægur; af suðri.
Sunnantil (ao) Í suðurhluta. „... en líklegt er að fleiri bátar hafi verið á sjó, með því að bændur voru einnig á Láganúpi og Grundum, sunnantil í Kollsvíkinni“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Sunnanundir (ao) Suðurundir; sunnanvið. „Það var orðið vel heitt sunnanundir Núpnum“.
Sunnanþíða / Sunnanþíðviðri (n, kvk/hk) Hlýr vindur af suðri sem veldur leysingum.
Sunnarlega (ao) Í suðurhlutanum. „Við fengum gott kennsli hér sunnarlega á víkinni“.
Sunnlendingur (n, kk) Maður sem er upprunninn eða búsettur á Suðurlandi.
Sunnudagahvíld (n, kvk) Hvíld/frí á sunnudögum. „Hver er þýðing sunndagahvíldarinnar“ (fundarefni á 2. starfsári Umf Vöku, stofnað 1916). Gömul hefð er fyrir vinnubanni á sunnudögum.
Sunnudagshandavinna (n, kvk) Handavinna/hannyrðir sem kvenfólki leyfðist að vinna á sunnudögum áðurfyrr. „Kannske var móðir mín og hennar kynslóð mesta áhugafólkið sem ég vissi um í svona hannyrðum. Hún sagði mér að þær systur (4) hafi fengið sunnudögum úthlutað til slíkrar iðju og á sumrin sátu þær gjarnan úti við handavinnuna þegar gott var veður.... Saumaklúbbar voru ekki til hér fyrr en um 1950-60 nema, svo ég vitni aftur í móður mína, þá komu þær oft saman heimasætur af fleiri bæjum með sunnudagshandavinnuna; sérstaklega ef hægt var að vera úti. Ekki voru allstaðar rúmgóð húsakynni en heimasæturnar fjölmennar á bæjunum. Einnig var ekki eins góð birta í húsum og nú er“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Sunnudagshelgi (n, kvk) Það að halda sunnudaginn heilagan. Slík helgi var virt hérlendis um allar aldir, en hefur í seinni tíð látið síga undan auknu trúleysi og öðrum siðum nútímasamfélags. Þrátt fyrir vinnuhörku og ósérhlífni tóku menn sér undantekningarlaust frí á sunnudag og stunduðu sína trú. Bannað var að vinna við búskap eða útgerð nema til að bjarga verðmætum, og bannað var að vinna með eggjárn. Þó mátti stunda einhverja vinnu innivið, s.s. tóvinnu.
Sunnudagsmatur (n, kk) Víðasthvar er venja að hafa meira við í mat á sunnudögum en aðra vikudaga, þó sú hefð sé fremur á undanhaldi í seinni tíð eftir að nánast er aflagt að halda sunnudaga heilaga.
Surg (n, hk) Sarg; urg. „Það heyrðist eitthvað surg í klukkunni fyrir bilunina“. „Skelfilegt surg er í útvarpinu“.
Surga (s) Þegar surg heyrist; sarga. „Þetta er slæm lungnabólga. Það surgar í honum við hvern andardrátt“.
Surtarbrandur (n, kk) Steingerðar leifar hlýskeiðsgróðurs sem lent hefur undir hraunum þegar landið var að byggjast upp fyrir milljónum ára. Surtarbrandur finnst á nokkrum stöðum í Rauðasandshreppi. Stærstu og þekktustu námurnar eru undir Stálfjalli, innan Rauðasands. Þar var gerð tilraun til nýtingar fyrr á tíð, en sú vinnsla var aldrei arðbær. Surtarbrand er einnig að finna í Seljagili á Ósum; á Högum uppaf Raknadal og í Grænafelli sunnan Sauðlauksdals. „Þegar Draugagilið fellur framaf neðsta hjallanum í Grænafellinu myndar það smáfossa. Þarna í berginu eru leirlög og steingervingar og þó nokkuð af surtarbrandi... Þar sem lagið er þykkast er það fullir 2m að þykkt, en efra lagið 1m... Rauðasandsmegin í fjallinu er í svipaðri hæð surtarbrandur í Utanhlíðarhöfða, uppaf Stakkadal. Þaðan var surtarbrandsflagan er borðplatan í Saurbæ var smíðuð úr, en hún var 1,5 x 1,25m x 3 cm“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Surtarbrandsnáma (n, kvk) Vinnslustaður surtarbrands/brúnkola. Surtarbrandsnáma er í Stálfjalli, innanvið Völlur. Var þar vinnsla og námugröftur á fyrrihluta 20.aldar, en bar sig aldrei og var fljótlega hætt.
Surtla (n, kvk) Sú sem er svört. Algengt ærheiti.
Suss / Sussu (uh) Upphrópun sem annaðhvort er ætlað að þagga niður í þeim sem talar eða lýsa lítilsvirðingu á því sem sagt hefur verið. „Suss; þetta þykir mér ekki mikill afli eftir langa sjóferð“! Einnig stundum bætt „o“ fyrir framan þegar gert er lítið úr. Sjá sussu sei.
Sussa / Sussa á (s/ orðtak) Þagga niður í einhverjum með því að láta heyrast lágt langdregið s-hljóð með stút á vörum. „Ég sussaði á strákana; þeir voru í hrókasamræðum þegar þeir áttu að fara að sofa“.
Sussa niður (orðtak) Kveða/þagga niður; kæfa umræðu. „Þessi atburður var sussaður niður innan fjölskyldunnar, og aldrei um hann talað“.
Sussu sei / Sussu svei (orðtak) Upphrópun sem viðhöfð er til að gera lítið úr einhverju, stundum með „o“ fyrir framan. „O sussu sei; ekki þykir mér þessar pylsur vera merkilegum matur“!
Sú var tíð(in) (orðtak) Þeir tímar voru; eitt sinn fyrir löngu. „Heimur versnandi fer! Sú var tíðin að Kollsvíkingar reru þegar tími og veður gaf. Nú kostar það langvarandi píslargöngu í stjórnkerfinu og fúlgur fjár að fá náðarsamlegast að fiska á sínum eigin miðum“!
Súð (n, kvk) A. Skörun; samsetning klæðningar úr borðviði, þannig að efri rönd eins borðs skarast ofaná/undir neðri rönd aðliggjandi borðs, og þannig koll af kolli. Þannig skörun borða er í súðbyrtum bátum og stundum í þiljum í lofti húsa. B. Bátur; súðbyrðingur. „Svala brýtur boða slóð;/ braka hlýtur súðin./ Hviða þýtur, fer um flóð;/ faxi hvítu lagar stóð“ (JR; Rósarímur).
Súða (s) A. Smíða súð í húsi; vera smíðaður með súð. „Stofan var með súðuðu lofti“. B. Fella borð á súðbyrtan bát; byrða.
Súðbyrðingur (n, kk) Bátur byrtur með skarsúð, þar sem efra borð skarast að neðanverðu utan á neðra borð, en það var byggingarlag flestra árabáta. Flestar skútur voru sléttbyrðingar; öðru nafni plankabyggð skip.
Súðbyrtur (l) Um bát; súðbyrðingur; skarsúðaður.
Súðun (n, kvk) Skörun borða í súðbyrðingi. „Áður en borð voru látin við, var alltaf strikað fyrir súðuninni og eins þumlungs breiður kantur heflaður, og var það kallað að afsúða“ (LK; Ísl. sjávarhættir II).
Súðþil (n, hk) Þilklæðning í húsi með skarsúðuðum borðum, venjulega láréttum.
Súga (s) A. Gusta; blása; vinda. „Hann var varinn að súga allverulega þarna uppi á brúninni“. B. Koma ró á bátasaum með súg/súghamri; sauma/seyma (bát).
Súgandi (n, kk) Súgur; öldugangur á sjó; þung undiralda, einkum inn á milli hleina eða í öðru sundi. „Það var kominn árans súgandi við bryggjuhausinn“.
Súghamar (n, kk) Sérstakur hamar til að seyma/súga bát. Á öðrum skalla hans var súgur en hinn venjulegur.
Súgur (n, kk) A. Straumur haföldu við land; upp að landi og til baka. „Það er töluverður súgur þarna við hleinina og varasamt að leggja upp að“. B. Dragsúgur innandyra. „Það er súgur gegnum húsið“. C. Súgjárn; verkfæri til að halda ró á móti nagla þegar bátur er seymdur. Þungt járn með gati í enda. Róin/skinnan var sett upp á saumendan; súgurinn á eftir og haldið við með honum meðan saumurinn var rekinn í róna.
Súgur í sátri (orðtak) Orðtakið heyrist ekki í seinni tíð, en merkingin virðist þó augljós: Sátur merkir veiðislóð; þar sem legið er við fiskveiðar, og súgur er sjógangur. Menn höfðu því gjarnan upp og héldu í land ef súgur var í sátri. Kann einnig að hafa haft afleidda merkingu; e.t.v. um vindgang. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Súgþurrkun (n, kvk) Aðferð við verkun þurrheys. Þá var heyið hirt þegar það var enn grænt en samt orðið vel þurrt; því jafnað vel um hlöðuna og síðan blásið gegnum það lofti gegnum súgþurrkunarstokka með súgþurrkunarblásara sem annaðhvort var knúinn rafmótor eða dísilvél. Blása þurfti ört fyrstu dagana til að ekki ofhitnaði í heyinu. Með þessari aðferð hélst meiri næring í heyinu en með fyrri fullþurrkun.
Súgþurrkunarblásari (n, kk) Blásari til að blása lofti inn í súgþurrkunarkerfi; knúinn af rafmagnsmótor eða díselvél.
Súgþurrkunarskúr (n, kk) Skúr sem hýsir súgþurrkunarblásara og vél til að knýja hann; rafmótor eða díselvél.
Súgþurrkunarstokkur ( súgþurrkunarkerfi (n, kk/hk) Stokkur/ kerfi stokka í/að hlöðu sem lofti er blásið í til að fullþurrka hey eftir hirðingu. Súgþurrkunarkerfi var sett í hlöður á Láganúpi kringum 1970, og á savipuðum tíma í hlöður í Kollsvík. Á Láganúpi var settur búnaður í súgþurrkunarstokkinn til að blása heyi inn í hlöðuna. Búnaðurinn var haganlega útbúinn, en þótti ekki afkastamikill.
Súkkulaði (n, hk) A. Sætur brúnn massi sem unninn er úr kakóbaunum kakótrésins. Selt sem sælgæti eða til matargerðar, t.d. mjólkursúkkulaði eða suðusúkkulaði. „Afi átti oft suðusúkkulaðistykki í handraðanum á kistu sinni, og gaukaði gjarnan bita og bita að okkur strákunum“. B. Drykkur sem lagaður er úr suðusúkkulaði.
Súkkulaðidrykkja (n, kvk) Samsæti þar sem drukkið er heitt súkkulaði. „Setið var að súkkulaðidrykkju í stofunum í gamla húsinu.... “ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).
Súkkulaðistykki (n, hk) Súkkulaðiplata; heil sölueining af súkkulaði (oft 100g). „Eitt var það að ég átti stórt og þykkt súkkulaðistykki frá nöfnu minni, en frá henni kom eiginlega eina sælgætið sem kom á heimilið“ (IG; Æskuminningar).
Súla (n, kvk) A. Stoð; stólpi. B. Fuglategund. Sjófugl sem ekki verpir vestra, sen sést tíðum úti á víkum.
Súld (n, kvk) Fíngerð rigning; suddi; úði. „Ekki kemur hann þurrkinum fyrir sig; það er enn sama súldin“.
Súlda (s) Þegar súld er (fíngert regn). „Mér finnst hann vera að súlda meira úr þokunni með aðtakinu“.
Súldardrungi (n, kk) Súldarmugga í hægviðri og gjarnan molluhita. „Hann er búinn að hanga með þennan súldardrunga hér yfir í allan dag“.
Súldarfýla (n, kvk) Dálítil þokusúld. „Hann ætlar að halda sömu súldarfýlunni í dag eins og í gær“.
Súldarmugga (n, kvk) Þoka með súld. „Við sigldum inn í súldarmuggu uppi við landið“.
Súldarþoka (n, kvk) Þoka með nokkurri súld; dimmviðri með ýringi/sudda.
Súldra (s) Skæla svo lítið beri á; fella tár. „Yfir hverju ertu nú að súldra, lambið mitt“? Orðið er annarsstaðar notað um að súlda, en virðist ekki þekkt í þessari merkingu.
Súlfa / Súlfalyf / Súlfatafla (n, hk/kvk) Sýklalyf sem gefið er mannfólki, einkum gegn þvagfærasýkingum, og sauðfé/lömbum gegn niðurgangi. Venja var að gefa nýfæddum lömbum súlfatöflu um burð.
Súnka (s) Falla/detta skyndilega og þungt; hlunkast. „Tjakkurinn gaf sig og bíllinn sunkaði niður aftur“.
Súnna (s) Undirbúa; lagfæra; gera klárt. „Við þurfum víst eitthvað að súnna bátinn fyrir sumarið“.
Súnna sig (orðtak) Hafa sig til; snyrta sig; gera sig kláran. „Það er víst best að fara að súnna sig svo við getum lagt af stað“.
Súpa (n, kvk) A. Spónamatur; þunnur grautur; þykkt seyði, t.d. kjötsúpa, fiskisúpa. B. Safn einhvers, t.d. skuldasúpa. Sjá sitja í súpunni.
Súpa (s) Drekka. „Ég var orðinn verulega þyrstur og saup duglega á úr flöskunni“.
Súpa á (orðtak) A. Drekka. „Hann tók upp blöndukútinn og saup duglega á“. B. Um bát; taka sjó inná sig. „Báturinn keyrðist inn í ólagið og saup dálítið á, en reif sig samt fljótlega upp“.
Súpa fjörur (orðtak) Stundum heyrist orðtakið „hann /hún hefur marga fjöruna sopið“, þó ekki sé kunnugt um notkun þess meðal Kollsvíkinga. Einhverjir hafa skýrt þetta með því að vísað sé til selkópa sem sjúgi mæður í fjöru. Mun líklegra er að vísað sé til þess að menn hafi sloppið naumlega frá drukknun/skipsskaða við land; að orðið sé komið úr sjómannamáli, líkt og flest orðtök í íslensku máli sem ekki eru rakin til bardaga.
Súpa hregg (orðtak) Draga snöggt að sér andann, jafnvel með hryglu eða snörli; súpa hveljur. Hreggur er mjög hvass vindur eða stormél.
Súpa hveljur (orðtak) Draga andann mjög snöggt og djúpt, t.d. í undrun/ótta eða þegar maður kemur úr kafi. Líking við það að sloka í sig soðna hvelju af grásleppu eða rauðmaga.
Súpa seyðið af (einhverju) (orðtak) Hefnast fyrir (eitthvað); koma (eitthvað) í koll. „Við gætum þurft að súpa af því seyðið ef við förum af stað keðjulausir innyfir háls í þessari færð“. Seyði eða soð var drukkið af ýmsum mat. Væri maturinn slæmur var líklegt að seyðið væri ekki skárra.
Súpa úr vörinni (orðtak) Draga að sér andann þannig að vel heyrist þegar andardráttur sogast milli tanna og vara. Stundum notað til að lýsa efasemdum eða ógn.
Súpudiskur / Súpuskál (n, kk/kvk) Diskur/skál fyrir/með súpu.
Súpugutl / Súpulap / Súpusull (n, hk) Mjög þunn súpa. „Þetta súpugutl er bragðgott, en ekki er það skjólgott“.
Súpuskeið (n, kvk) Matskeið; djup skeið sem hentar til að borða með henni súpu.
Súr (n, kk) A. Þykkt, hvít þykkni sem botnfellur úr skyrmysu og súrnar. Gott til drykkjar, sérstaklega við þorsta. Orðið var annarsstaðar notað almennt um sýru, en þessi merking var sértækari og virðist bundin við svæðið. Menn veittu hegðun súrsins athygli áður, en hann hefur þá náttúru að fljóta upp í stórstreymi, og sumir sögðu að það gerði hann einnig í aðdraganda veðrabrigða. Má vera að því valdi breytingar í loftþrýstingi. „Áfunum sem komu þegar strokkað var og mysunni af skyrinu var safnað í tunnu og látið súrna. Af áfunum kom þykk hvít sýra. Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið. Var hún höfð til matar; ein sér, eða höfð út á graut. Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda“ (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG)
„Þegar ég var að alast upp var alltaf gert skyr; síað í litla tunnu; skyrsía með rimlum í botninum; í hana var sett grisja og síað, og svo var mjólkurafgöngum og undanrennu hellt út í mysuna. Þá hljóp mjólkin og var til þykkur súr úr mysunni sem féll á botninn. Súrinn flaut svo upp þegar var stórstreymt. Það var gjarnan ausa;hékk á barminum, og ef menn voru þyrstir fengu þeir sér svaladrykk úr tunnunni. Súrinn sjálfur var mest noraður út á hafragraut. Mysan var notuð til að súrsa í. Kannske var mjólkin sem hellt var í farin að súrna örlítið“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms). B. Almennt um sýru sem notuð er til geymslu á mat, Talað er um að setja í súr.
Súr (l) A. Með súru bragði. „Mér finnst mjólkin orðin dálítið súr“. B. Líkingamál; óánægður; fúll. „Hann varð dálítið súr þegar hann heyrði þetta“. C. Um efnasambönd; með lágu ph-gildi.
Súr á svip (orðtak) Fúll/óánægður/beiskur á svipinn. „Hann varð súr á svip þegar strákurinn dró og dró án þess að hann yrði var“.
Súr í sinni (orðtak) Fúll; afundinn; beiskur. „Mér fannst hann dálítið súr í sinni yfir þessum málalokum“.
Súra / Súrblaðka / Súrblaka (n, kvk) Blað hundasúru eða ólafssúru. Nafnið var án ð í tali eldri Kollsvíkinga, líkt og blaka (sporður) á lúðu. Súrblökur eru góðar til átu; mikill C-vítamíngjafi, en dálítið súrar. „Ég át súrblökur og hvannir við þorstanum...“ (KJK; Vornótt og hrap í Látrabjargi).
Súrblökugrautur / Súrblökuseyði / Súrblökute / Súrugrautur / Súruseyði / Súrute (n, kk/hk) Grautur/seyði/te sem soðið er af súrblöðku. Vinsælt tómstundagaman barna í Kollsvík var að tína hundasúrur og aðrar jurtir og sjóða af þeim te/seyði eða grauta. Soðið var í niðursuðudós eða öðru tiltæku íláti yfir hlóðaeldi sem kyndur var þar sem henta þótti. Var í kringum þetta mikil tilraunastarfsemi, og þurfti stundum allnokkuð áræði til að smakka afirðirnar af sumum hráefnunum, þó súrblökur þættu öndvegismatur.
Súrbragð / Sýrubragð / Súrt bragð (n, hk/ orðtak) Súr keimur, t.d.af mat.
Súrdoði (n, kk) Veiki sem kemur fyrir í skepnum, sérstaklega kúm; máttleysi sem stafar oftast af snöggum fóðurbreytingum þegar skepnan er í mikilli mjólkurframleiðslu. Einkum e hætta á súrdoða þegar mythá kýr kemst í kraftmikla beit en hefur áður verið á rýrara fóðri, t.d. heyi eða úthaga. Þá verður skortur á glúkósa til myndunar á nauðsynlegri mjólkursýru. Meðferðin felst í kalkgjöf, oft þá beint í æð.
Súreygur (l) Um þann sem súrnað hefur í augum af reyk. „Oft varð maður súreygur við uppkveikjur í gamla hesthúsinu; einkum meðan eldstæðið var enn innarlega á ganginum“.
Súrhey (n, hk) Vothey; gras sem hirt er án þurrkunar og látið hitna og verkast í gryfju eða stæðu. „Ýmist notuðu menn vestra heitið súrhey eða vothey. Í Kollsvík var rætt um vothey; súrhey heyrðist sjaldan.
Súrheysgjöf (n, kvk) Fóðrun með votheyi/súrheyi.
Súrheysverkun (n, kvk) Vortheysverkun; hirðing og verkun á votheyi/súrheyi.
Súrmatur / Súrmeti (n, kk/hk) Matur sem geymdur hefur verið í súr/sýru. Verkun matar í súr er ævaforn og fluttist hingað til lands með landnámsmönnum. Oftast er það ketmeti sem þannig er geymt, og þá jafnan í mjólkurafurðum sem látnar eru súrna, en sýran heldur rotnun frá. Súrmatur hefur jafnan annað bragð en nýmeti, og þykir mörgum súrbragðið eftirsóknarvert þó nú sé völ á öðrum geymsluaðferðum.
Súrmjólk (n, kvk) A. Mjólk sem orðin er súr. B. Undanrenna og áfir sem látnar eru súrna.
Súrmúla (s) Vera í fýlu; vera sorgmæddur; vola. „Vertu nú ekki að súrmúla lengur yfir þessu lítilræði“.
Súrna í augum (orðtak) Verða súreygður af reyk. „Mér súrnar oft í augum þegar ég kveiki undir í reykhúsinu“.
Súrra (s) Binda fast; reyra. „Þetta er nú svo samansúrrað hjá þér að það verður aldrei leyst“.
Súrraður (l) Um hnút/flækju; mjög hertur, svo erfitt er að leysa. Um net; mjög hert utanað veiðinni. „Netið var svo súrrað utanum hvalinn að við enduðum með því að skera sundur báða teinana“.
Súrringar (n, kvk, fto) Miklar hnýtingar sem erfitt er að leysa. „Hverskonar andskotans súrringar eru þetta?! Það er greinilega ekki ætlast til að sé gengið um þetta bannsetta hlið“!
Súrugrautur (n, kk) Greutur sem eldaður er úr hundasúrum. „Stundum settum við strákarnir upp hlóðir við kofann sem við byggðum í Gilinu, og elduðum súrugraut, stundum emð rabbabara eða öðru samanvið“.
Súrrun (n, kvk) Mikil hersla hnúts, nets, flækju o.fl. „Það var slík súrrun á hnútnum að mér ætlaði aldrei að lánast að leysa hann“.
Súrsmér (n, hk) Smjör/smér sem orðið er súrt. Fyrrum var smjör verðmætur gjaldmiðill og m.a. notað til greiðslu landsskulda. Salt var ekki að hafa fyrr á tímum, og því var smjörinu safnað saman og það látið súrna. Þótti það sumum betra en það saltaða, þegar það fór að tíðkast. „…það saltaða smjör heldur sér varla 2 ár, svo ætt sé á eptir, en það súra hefir óskémt haldð sér yfir 20 ár“ (BH; Arnbjörg).
Súrsun (n, kvk) Geymsluaðferð matmæla. Sjá súrmeti.
Súrt er lof í sjálfs munni (orðtak) Illa hljómar þegar menn hrósa sjálfum sér um of.
Súrt í brotið (orðtak) Þungbært; erfitt að þola/vita/heyra. „Mér þótti súrt í brotið að komast ekki með þeim“. Skýring orðtaksins er ekki augljós. Mun upprunalega að hafa verið „svart í brotið“ sem kann að vísa til þess að mergur sé svartur og ónýtur í beini sem brotið er til mergjar, en e.t.v. til þess að sár hafist illa við og sé orðið dökkt að sjá. Hugsanlega er þó einungis vísað til þess að sársaukafullt er að fá sýru í opið sár.
Súruát / Súrutínsla (n, hk/kvk) Tínsla/hirðing súru til átu. Súrur vaxa sumsstaðar nokkuð þétt í Kollsvík, bæði ólafssúrur, sem einkum vaxa í klettum og skuggasæld, og hundasúrur. Hundasúrur uxu t.d. þétt í laut í túninu á Torfamel/Júllamel, og sóttu krakkar mikið í hana. Súrur eru öflugur C-vítamíngjafi.
Súrublaðka (n, kvk) Blað af súru; hundasúru; ólafssúru.
Súrþari (n, kk) Þari sem verkaður er til fóðurs, líkt og vothey/súrhey. Súrþari var verkaður á nokkrum sjávarjörðum í Rauðasandshreppi fyrir og eftir 1900; m.a. á Láganúpi. Súrþaraverkunar er getið í forðagæsluskýrslum á Sjöundaá árið 1920, en þar bjó þá Egill Árnason. Þar má enn sjá þaragryfjur í bökkunum.
Sút (n, kvk) Hugarvíl; þunglyndi; sorg. „Það þýðir lítið að leggjast í sút þó ekki fáist hlaðningur hvern dag“.
Súta (s) A. Verka skinn, þannig að það rotni ekki og unnt sé að nota það sem leður. B. Sýta; sjá eftir; syrgja. „Ég súta það ekkert þó þessi ríkisstjórn falli í kosningunum; það er engin eftirsjón í henni“.
Sútað leður (orðtak) Þykkt skinn/leður sem búið er að verka með herslu, eltingu og oft einhverri efnameðferð. „Voru það sjóskór nefndir. Þeir voru vanalega gerðir úr sútuðu leðri, allþykku“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sútari (n, kk) Sá sem sútar/ lært hefur sútaraiðn. „Magnús sútari reri þetta vor í Breiðavík“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Sútarsorg (n, kvk) Mikil sorg/eftirsjá. „Það dugir víst ekki að vera með neina sútarsorg yfir þessu“.
Sútarsvipur (n, kk) Fýlusvipur; dapur svipur. „Vertu nú ekki með þennan sútarsvip yfir þessu: það er ekki hægt að ala hvert einasta lamb undan þínum rollum“!
Sútlaust (l) Sárindalaust; án sorgar/eftirsjár. „Sá skratti mætti alveg falla út af þingi; það væri fullkomlega sútlaust að minni hálfu“!
Sútun (n, kvk) Sútun er verkunaraðferð til að varðveita skinn (húðir) og gera þau hæf til ýmiskonar notkunar. Einnig nefnt að barka eða garfa skinn. Fysta stig sútunar er þvottur og útvötnun til að losna við óhreinindi og sölt. Síðan er fituhúð losuð frá. Ef hár eiga ekki að haldast á (loðskinn) eru þau losuð af með því að leggja húðina í kalklausn. Hún er síðan afkölkuð og böðuð í sútunarefnum. Síðast er húðin borin réttri feiti og elt til að mýkja hana; stundum einnig lituð. Sútunaraðferðir taka nöfn af sútunarefnum: Við krómsútun eru notuð krómsambönd; við jurtasútun/barkarsútun eru notuð jurtaefni, s.s. trjábörkur; við feitisútun er notuð olía eða lýsi; og við hvítsútun/álúnsútun/gljásútun er notuð upplausn úr kalíálúni og matarsalti; stundum einnig mjöl og eggjarauða. Sjá tannín.
Sprengja frost (orðtak) ....óviss merking.... (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Svað (í klettum) (n, hk) A. Aurskriða sem hlaupið hefur úr, eða framyfir berggang, þannig að hann er illfær; áberandi aur- eða moldarskriða í annars grónum klettum. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). B. Forar- eða aurvilpa; aurbleyta. „Vegurinn er allur að troðast upp í svað á þessum kafla“.
Svaðalegur (l) Hrikalegur; ægilegur; grófgerður. „Hann var all svaðalegur útlits þegar hann kom útúr skotklefanum; alblóðugur og brúnaþungur“.
Svaðamenni (n, hk) Rusti; ógnvænlegur maður. „Hann var dagfarsprúður en gat orðið svaðamenni með víni“.
Svaðamikill (l) Hrikalega mikill; orkansmikill; gríðarmikill; ógnarmikill. „Þarna hefur hlaupið svaðamikil aurskriða úr hlíðinni; hún er gjörsamlega ófær á þessum kafla“.
Svaðilför (n, kvk) Hættulegt ferðalag; hrakningaför.
Svaðhlaup (n, hk) Aurbleyta. „...svo mikill aur hafði runnið á leið þeirra frá hruninu að það var eins og yfir svaðhlaup að fara“ Frásögn DE (MG; Látrabjarg).
Svagur (l) Sveigjanlegur, linur. „Láttu ekki of mikinn þunga á borðið, það er dálítið svagurt“. Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Svakafenginn (l) Um mann; ofsafenginn; ruddi. „Sagt er að hann geti orðið nokkuð svakafenginn með vínsi“.
Svakalega (l) Mikið; rosalega; ofboðslega. „Mikið svakalega er hann kaldur í þessum norðanbeljanda“. Stundum stytt í „svaka“.
Svakamenni (n, hk) Ógnvænlegur maður; ribbaldi; ógnvaldur.
Svakka (s) Dúa; sullast. Ekki er til hentugt samyrði fyrir sagnorðið, en það er notað t.d. til að lýsa því þegar mýrlendi fer á hreyfingu þegar stigið er á þekjuna, eða þegar ýtt er við hlaupkenndu efni þannig að það skelfur. Einnig til að lýsa djúpi sullkenndu hljóði sem verður t.d. við það að maður gengur stígvélafullur eða skófullur. „Það svakkaði í gúmmískónum þegar ég steig uppúr læknum“.
Svakki (n, kk) Mýrlendi með fljótandi gróðurþekju. Oftar var þó talað um mýri, fen, dý eða vilpu.
Svala (n, kvk) A. Fuglategund. B. Heiti á skektu í eigu Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi.
Svala (s) Kæla; hressa, fullnægja. „Nú væri gott að svala sér með köldum vatnssopa“!
Svala forvitninni (orðtak) Fá að vita það sem maður óskar eftir/ er forvitinn um.
Svala þorstanum (orðtak) Fá að drekka þegar maður er þyrstur.
Svali (n, kk) Gola; andvari. „Mikið er nú gott að fá þennan svala eftir molluna sem verið hefur“.
Svalur (l) Fremur kaldur; andkaldur; hrollkaldur. „Ári er hann eitthvað svalur orðinn“. „Svalur ríkir sumarblær og sól á fjöllum;/ dimmt er enn í dölum öllum“ (JR; Rósarímur).
Svalur/kaldur í tíðinni (orðtak) Svalur/kaldur í veðri.„Hann er að verða frekar svalur í tíðinni með haustinu“.
Svaml (n, hk) Sund í yfirborði, gjarnan fremur brösulegt/klaufalegt.
Svamla (s) Synda um í yfirborði. „Ég gæti hengt mig uppá að þarna var eitthvað skeljaskrímsli svamlandi, rétt undan fjöruborðinu. Ég gæti bara ekki sannara orð sagt“!
Svampgúmmí (n, hk) Svampur gerður úr múmmíi; gúmmísvampur.
Svampur (n, kk) A. Svampdýr; Poryfera. Fylking frumstæðra dýra; hryggleysingja sem lifa í sjó og hafa mjög einfalda líkamsbyggingu. Elstu fjölfrumungar jarðar. Svampar eru vanalega fastir við undirag/botn. Þeir eru með litlum ofum á yfirborði sem sjór streymir um og færir dýrinu fæðu. Frumur svampa mynda enga vefi þó þau séu fjölfrumungar, heldur raðast frumurnar með boðskiprum sín á milli. Helstu flokkar svampa eru Kalksvampar, glersvampar og hornsvampar. Algengasta svamptegundin á Kollsvík og víðar aá grunnsævi er njarðarvöttur (sjá þar). B. Gleypið efni, notað til þrifa og til að þurrka upp raka.
Svangramannasjóveður (n, hk) Fremur slæmt sjóveður; allnokkur veltingur/sjór; ekki gott veiðiveður. „Þetta má heita svangramannasjveður; ég held það hafi lítið uppá sig að sullast á sjó í dag“.
Svangur (l) Hungraður; matarþurfi. „…gekk dagsverkið heldur hægar en áætlað hafði verið og voru menn bæði þreyttir og svangir að því loknu“… „Nú er hann svangur og lúinn að loknu löngu dagsverki og matarlaus, en á eftir að rölta heim til sín um það bil hálftímagang…“ (PG; Veðmálið).
Svangur er sá er eftir étur (orðatiltæki) Sá hlýtur að vera (hafa verið) svangur sem heldur áfram að borða þegar aðrir eru hættir.
Svanni (n, kk) Kona. Eingöngu notað í skáldskap nútildags.
Svanur (n, kk) Álft; sjá þar.
Svar (n, hk) Andsvar; viðbragð við spurningu eða öðrum tilmælum. „Þetta er ekkert svar“!
Svara (s) A. Ansa; bregðast við spurningu eða fullyrðingu. B. Vera jafnvirði; jafngilda. „Hann greiddi sem svaraði einu kýrverði fyrir bílskrjóðinn“.
Svara að bragði (orðtak) Svara strax/samstundis. „Hann svaraði að bragði og sagði að þetta kæmi sér ekki við“.
Svara fullum hálsi (orðtak) Svara uppi; rífast. „Ég svaraði þessum ásökunum fullum hálsi“.
Svara fyrir (orðtak) Verja; forsvara; tala fyrir hönd. „Hver ætlar að svara fyrir þessi mistök“?
Svara í sama lit (orðtak) Í spilum, einkanlega vist og bridds; láta út í sama lit og sá gerði sem var í forhönd, hafi maður slíkt á hendi.
Svara í styttingi (orðtak) Svara í fáum orðum; svara hranalega, t.d. þegar er guttur í (einhverjum). „Hann svaraði mér bara í styttingi þegar ég bar þetta upp við hann“.
Svara í sömu mynt (orðtak) Svara/gera eins og spyrjandi/gerandi. „Strákurinn sagði að hinn hefði slegið til sín og hann hefði þá bara svarað í sömu mynt“.
Svara með skömmum og skætingi (orðtak) Svara hryssingslega; svara fullum hálsi.
Svara með þögninni (orðtak) Svara engu; svara ekki. Sjá beita þögninni.
Svara ónotum/skömmum/skætingi (orðtak) Svara hryssingslega; svara með skömmum/illmælgi.
Svara til saka (orðtak) Standa fyrir máli sínu; gjalda fyrir afbrot/glæp. „Það verður að finna þann sem skemmdi þetta og láta hann svara til saka“!
Svara um hæl (orðtak) Svara strax/hiklaust. „Ég svaraði honum um hæl og harðneitaði þessu“.
Svara uppi (orðtak) Svara fullum hálsi; rífast. Mér þykir þú heldur uppástöndugur drengur; að svara verkstjóranum svona uppi“!
Svara (einhverju) út (orðtak) Greiða eitthvað sem er tilskilið/gjaldfallið; greiða út. „Þetta var meira verð en svo að hann gæti svarað því út í einni greiðslu“.
Svara út í bláinn / Svara út í hött (orðtak) Svara einhverri vitleysu; veita óviðeigandi svar. „Hann svaraði bara út í hött þegar ég spurði hann nánar um þetta“.
Svara (einhverjum) útaf (orðtak) Svara einhverjum út í hött; gefa ekki bent svar. „Hann svaraði mér eiginlega útaf þegar ég innti hann eftir þessu“.
Svara vant (orðtak) Vanta svör; skortur á svörum. „Ég var búinn að kynna mér málið vel, og mér varð því ekki svara vant þegar ég var spurður“.
Svara því (orðtak) A. Samsvara; jafnast á við. „Fólksfækkunin í Rauðasandshreppi á hálfri öld svarar því að allt höfuðborgarsvæðið, ásamt Vesturlandi, Suðurlandi og Norðurlandi hefði tæmst af fólki“. B. Hér um bil; nærri því. „Það líklega svarar því að tunnan sé full þegar þetta er komið í hana“.
Svarafár / Svarafátt (l) Getur ekki svarað; orðvana. „Hann var svarafár um ástæður þess að svona fór“. „Honum varð aldrei svarafátt, og lét þá stundum vaða á súðum“.
Svaramaður (n, kk) Sá sem er viðstaddur brúðkaup og er sérstakur/valinn vottur þess að ekkert sé brúðkaupinu til fyrirsöðu og að giftingn hafi farið fram. Svaramaður les yfir svokallað „könnunarvottorð“, um að ekkert sé giftingunni til fyrirstöðu og er viðstaddur giftinguna. Sinn svaramaðurinn er fyrir hvort hjónanna. Oft eru feður svaramenn, og eru það leifar fyrri tíma þegar feður réðu mestu um hjúskap barna sinna.
Svarar (ekki) kostnaði (orðtak) Borgar sig (ekki); er (ekki) þess virði. „Það svaraði ekki kostnaði að láta gera við vélina, svo ég pantaði bara nýja“.
Svarar til (orðtak) A. Samsvarar; líkist; svipar til. „Mér heyrist lýsingin á þessari kind svara til þeirrar sem ég sá þarna niðri í hlíðinni“. B. Svara; bregðast við. „Þegar ég innti hann eftir því hvað honum finndist um þingmanninn svaraði hann því til að hann hefði nú haft gæfulegri amlóða á sínum bát“.
Svara til sveitar (orðtak) Greiða sína skatta til sveitarfélags; greiða útsvar.
Svaraseinn (l) Seinn til svars; hikandi. „Hann var svaraseinn, en þeim mun kjarnyrtara varð svarið“.
Svaravert (l) Þess virði að svara; verðskuldar svar. „Svona bjánaspurning er nú ekki svaraverð“.
Svarblátt (l) Dökkblátt. E.t.v. upphaflega „svartblátt“ en ekki óþekkt svona. „Marið er að verða svarblátt“.
Svarbréf (n, hk) Bréf sem inniheldu andsvar/viðbrögð við fyrra bréfi þess sem svarað er.
Svardagi (n, kk) Eiður; loforð. „Ég ætla nú ekki að hafa uppi neina svardaga, en þetta mun standast“.
Svarðarholt (n, hk) Holt þar sem mór var tekinn. Svarðarholt er örnefni í Kollsvík; þurrt holt ofan við mógrafirnar handan Árinnar og norðantil í Láganúpsmýrum.
Svarðreipi (n, hk) Reipi sem búið var til úr lengjum af húð á fyrri tíð. Mest mun stórgripahúð hafa verið notuð í svarðreipi, en einnig af útsel. Best var þó grænlensk rostungshúð til þeirra nota. Húðin var þá sútuð og síðan skorin í samfelldar lengjur á sérstakan hátt; þannig að sem lengstar yrðu. Svarðreipi voru notuð til magra hluta, fyrir daga hampkaðla; s.s. í bjargvaði og festar og reiða á skipum.
Svarf (n, hk) Fíngert duft sem verður til við svörfun, t.d. með þjöl eða brýni.
Svarfa (s) Sverfa; sjá þar.
Svarfa að (orðtak) Harðna á dalnum; verða þröngt í búi; fækka úrræðum. „Hún sagðist alltaf kasta korni til smáfuglanna þegar færi að svarfa að hjá þeim í vetrarhörkum“.
Svarfast um (orðtak) Fækka; verða minna um. „Það fer nú að svarfast um saltið hvað úr hverju“.
Svarflekkótt (l) Um lit á sauðfé; svartflekkótt; hvítt með svörtum flekkjum. Þegar „svart“ er viðskeyti orðs er t-inu gjarnan sleppt. Hér er einungis eitt orð tekið til dæmis, en sama var um fjölmörg önnur. „Hvar skyldi sú svarflekkótta halda sig núna“?
Svargofótt (l) Litur á sauðfé; svart á bol en ljóst á kvið. Mógofótt var mórautt á bol en ljóst á kvið.
Svargrár (l) Dökkgrár. „Þetta var ung kind; hvít með svargráu lanbi“. Nokkuð notað vestra fyrrum, einkum til að lýsa sauðfé en einnig öðru. T hefur fallið niður tilhagræðis við framburð í þessari og öðrum litalýsingum.
Svargrænn (l) Dökkgrænn.
Svarkinnótt (l) Litur á sauðfé; Hvítt með svarta kinn.
Svarkur (n, kk) Frekja; rusti. „Kerlingin gat orðið svarkur í kjaftinum ef henni þótti“.
Svarmur (n, kk) Aragrúi; mikill fjöldi. „Það er ógnar svarmur af flugum kringum fiskinn í logninu“. „Það er kominn svarmur af fé inná túnin“!
Svarr (n, hk) Urgandi hljóð, þegar hlutir núast saman; hljóðið þegar brimaldan færir möl/grjót í brimgarðinum.
Svarra (s) Urga; sarga. Á einkum við hljóðið sem myndast.
Svarrabrim / Svarrandi brim (n, hk, orðtak) Mikið brim, svo dregur til stórgrýti með dynkjum. „Hann er ekkert að draga úr þessu svarrabrimi“! „Hann hefur rifið upp svarrandi vestanbrim“. „...verður þarna brimsvarri meiri en annarsstaðar“ (MG; Látrabjarg).
Svarralegur (l) Gustmikill; reiðilegur. „Kerlingin var oft mjög svarraleg í tilsvörum og ekki allra“.
Svarraskapur (n, kk) Ruddaleg framkoma; um það að skammast/ávíta mjög mikið.
Svarrauður (l) Dökkrauður.
Svarri (n, kk) A. Mikið brim; einnig notað um brimhljóðið. „Það er svarrabrim“ B. Mikill vindur; rok. C. Ákveðin og frek manneskja. „Hún er óttalegur svarri, enda er karlinn alltaf eins og mús undir fjalaketti“.
Svarstuttur (l) Stuttur í spuna/svörum. „Hann var orðinn pirraður og svarstuttur í lok fundarins“.
Svart af berjum (orðtak) Lýsing á góðri krækiberjasprettu. „Það er svart af berjum í Stóravatsbrekkunum“.
Svartabylur / Svartaél / Svartahríð / Svartakafald (n, hk) Mjög dimmt él. „Við förum ekkert af stað í þessum svartabyl“. „Það er komið svartaél svo sér ekki út úr augum“. „Það er ennþá svartahríð; við getum alveg tekið nokkur spil í viðbót“.
Svartagall / Svartagallsraus (n, hk) Svartsýnistal; bölmóður. „Ríkisstjórnin er vissulega ekki að standa sig sem best, en það er óþarfi að vera með svona svartagallsraus“.
Svartagler / Svartaglerhálka (n, hk/kvk) Mjög mikil hálka/ísing; launhálka. „Gættu að þér á Fjörunum; vegur er eitt svartagler framá kant“! „Þú stöðvar ekkert á punktinum í þessari svartaglerhálku“.
Svartakaf (n, hk) Bólakaf. „Ég sá það síðast af þessari stórlúðu að hún veifaði sporðinum til að kveðja mig og svo var hún horfin á svartakaf“. „Ekki lét hún ærslum af/ og engu sinnti banni./ Í mógröf sökk á svartakaf/ svo hinn ungi svanni“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Svartakóf (n, hk) Mjög dimmt snjókóf; svo þéttur skafrenningur að dimmir og sér ekki út úr augum“.
Svartalogn (n, hk) Algjört logn; stafalogn; rjómalogn. Blankalogn, einkum í skýjuðu svo dökkur himinn og fjöll speglast í haffletinum.
Svartamyrkur (n, hk) Niðdimma; algjört myrkur. „Þeir þurftu stöðugt að flýja undan briminuí svartamyrkri í sautján klukkustundir“ (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg).
Svartanótt (n, kvk) Hánótt; mesta lágnættið; dimm nótt. „Ætlið þið ekkert að fara að hætta að spila, þó komið sé fram á svartanótt“?
Svartari en erfðasyndin (orðtak) Mjög skítugur/dökkur. „Farðu nú og þvoðu framan úr þér drengur; þú ert svartari en erfðasyndin eftir þennan moldargröft“.
Svartasta skammdegi (orðtak) Sá árstími þegar dagar eru stystir; hávetur. „Það tók Látrabændur aðeins eitt lítið stundarkorn að ákveða að leggja til atlögu við sjálft Látrabjarg í svartasta skammdeginu í hláku og vatnsveðri, þegar búast mátti við frosti og flughálku þá og þegar“ (MG; Látrabjarg).
Svartaþoka (n, kvk) Niðdimm þoka; mjög þétt þoka; sótþoka. „Það er að skella yfir svartaþoka. Gáðu hvort kompásinn sé örugglega um borð“.
Svartbakahópur (n, kk) Hópur svartbaka. „Það er yfirleitt vonlítið að ná að skjóta nokkuð úr svartbakahóp ef honum fylgja gamalfuglar. Þeir eru tortryggnari en andskotinn og leiða ungann frá Byrginu“.
Svartbaksegg (n, hk) Egg úr svartbak; svipuð að stærð og fýlsegg en oddmjórri og brúndröfnótt. „Svartbakurinn verpir heldur fyrr en fýllinn og því þarf að fara snemma ef á að ná þeim eggjum nýjum“.
Svartbakshreiður (n, hk) Hreiður svartbaks.
Svartbaksungi (n, kk) Í Kollsvík var venjulega átt við ungfugl svartbaks þegar rætt var um svartbaksunga; sem kominn var á flug en þó enn svartyrjóttur á baki, stéli og vængjum en ekki kominn í svartbakslitina. „Svartbaksungi var mest eftirsóttur af þeim matfugli sem skotinn var á fluginu, enda herramannsmatur“.
Svartbaksvarp (n, hk) Varp svartbaks. „Víða er mikið svartbaksvarp í klettum í grennd við Kollsvík“.
Svartbakur (n, kk) Larus marinus; veiðibjalla. Stærsta máfategundin hérlendis. Svartur á baki og stéli en hvítur á herðum, bringu, hálsi og höfði; goggur gulur með rauðum bletti fremst á neðra skolti. Fætur ljósbleikir og augu ljós. Fullvaxinn vegur hann um og yfir 2 kg og vænghaf verður allt að 1,5 metrar. Verpir snemma vors, þannig að ungar séu komnir á legg fyrr en hjá öðrum fuglum sem svartbakurinn rænir eggjum og ungum. Svartbak fjölgaði verulega með stækkun fiskiskipaflotans, og var t.d. orðið mjög þétt varp hans í klettum við Kollvík. Varpið hefur hinsvegar dregist mjög saman með minnkuðu brottkasti, líkt og annarra sjófugla sem því eru háðir, s.s. múkka. Í Kollvík var svartbakur mjög skotinn á fluginu, enda er hann afbragðsgóður matfugl. Einkum var sóst eftir að skjóta ungann eftir að hann komst á flug á haustin. Legið var í Byrginu á Grundabökkum fyrir máfahópum, en máfurinn flýgur gjarnan með fjöruborðinu í fæðuleit, og í flæði og norðanátt liggur hann vel við skoti frá Byrginu. Fengust stundum tugir fugla í einni atrennu. Fuglinn var fyrrum plokkaður og fiðrið nýtt í sængur og dýnur, en í seinni tíð var hann fleginn. Ketið var saltað í kvartil og er herramannsmatur. Nýr fugl er soðinn í fuglasúpu. Verðlaun/skotlaun voru um tíma greidd gegn framvísun vængja, en vængir voru einnig nýttir til að veifa þeim í Bryginu og laða þannig að fuglahópa.
Svartbrýndur (l) Með áberandi svartar augabrúnir.
Svartfugl / Svartfuglsegg (n, kk/hk) Samheiti nokkurra bjargfuglategunda; langvíu, stuttnefju, álku og teistu og eggja þeirra Stundum er lundi talinn þar með, en það er ekki venja í Útvíkum. Eitt mesta svartfuglavarp Íslands er í Látrabjargi, og þar er mesta álkuvarp í heimi. Hinsvegar er lítið um svartfugl í löndum Kollvíkinga, a.m.k. í seinni tíð. Þó var stundumteistuvarp á stagli ofan flæðarmarka undir Hnífum og Breið. Lundavarp er í Lundaflesi og Álkuskúta í Hnífum og og einnig í Lundaflesinu í sjávarklettum uppaf Landamerkjahleininni.
„Kollsvíkingar fóru gjarnan í Látrabjarg til fuglatekju, annaðhvort á almenninga eða í leyfi landeiganda og þá stundum í þeirra hópi. Í seinni tíð hefur einkum verið sótt í svartfuglsegginn, eftir að fuglaveiði lagðist af. Sjálfur stundaði ég þessa eggjatöku nokkuð stíft á hverju vori í marga áratugi, oftast í hópi félaganna en stundum einn. Við fórum oftast í Bæjarbjarg; fyrst í leyfi landeigenda þar, en síðar með leyfi Náttúrufræðistofnunar eftir að ríkið fékk umráð yfir bjarginu. Ýmist er þar farið ofanfrá; á staði niðurundan Stígnum, eða á báti neðanundir bjarginu; á Langurðir og á Bæjarvöll. Þegar farið er á Stíginn er farið á bíl út Keflavíkurveg, og inn á Geldingsskorardalsskarð ef fært er vegna aurbleytu og snjóa. Stundum var farið niður dalinn á jeppum, en það var illa séð í seinni tíð. Gengið er niður Geldingsskorardal og farið niður á Stíginn neðan svokallaðs Byrgis, sem er tóft af eggjabyrgi/ vaðbyrgi. Venja var að á í Byrginu og skilja þar við sig hluta af kútum, nesti o.fl. Beint niðurundan Byrginu, þegar komið er niður á Stíginn, er dálítil sytra af vatni. Fyrirhyggnir menn gefa sér tíma til að hreinsa úr henni og búa til uppistöðu, til að geta slökkt þar þorstann á uppleiðinni. Þar sem farið er niður á Stíg heita Snið; brött brekka en sniðskorin af góðri kindagötu. Þegar komið er þar niðurfyrir er annaðhvort farið innávið/innum/inneftir; sé ætlunin að fara á Flaugarnef eða Gylfagang, eða útávið/útum/úteftir, sé ætlunin að fara í Lautirnar eða útfyrir Hellu. Stígurinn er nokkurnveginn í miðju Bjarginu, sé miðað við hábrún þess; og má þannig skoðast sem framhald af Miðlandahillu; Saxagjárvöllum og Hælavöllum, utar. Stígurinn er undir Geldingsskorardal og nær nokkuð útfyrir hann; endar í Setnagjá yst. Áðurnefnd fjárgata liggur út allan Stíginn; uppundir klettum. Á miðri leið er klettaslefra; svonefnd Hella, þar sem gatan er tæpust. Venjulega er hún þar vel fær, en stundum síður, þegar skriðuhlaup verða. Utanvið Hellu eru ágæt eggpláss í brúninni; einkum yst. Þar er m.a. unnt að fara langan lás niður á svokallaðan Þórðarbrandshöfða. Þar í efri klettum eru Pokavöllur, en ekki var farið á þær í minni tíð. Á fyrri tíð var þar hagvanur Aðalsteinn Sveinsson í Breiðuvík, ásamt sonum sínum. Þar var farið upp á svokölluðum hnoðaburði. Meðan safnað er eggjum utantil á Stígnum er oft bækistöð uppvið Álkuskúta; þar er afdrep fyrir grjótkasti að ofan, sem alltaf er nokkurt þó aldrei yrði að meini í minni tíð. Á Stígnum eru tekin nefskeraegg sem eru víða í brúninni; langvíuegg sem eru þétt sumsstaðar á stöllum og álkuegg sem eru algengust þarna í moldarflögum, brekkum og holum. Innantil/innanvert á Stígnum eru helst tekin egg utanvið Flaugarnefið og í Gylfagangi, en í báða staði eru nokkuð langir lásar. Eggjaferðir á Stíginn kosta töluvert erfiði, enda þarf að bera/hífa/handlanga eggin upp lásana; basla þeim upp bratta hlíð Stígsins; kjaga eftir Stíg upp; bisa upp snarbrött sniðin upp í Byrgi og hlunkast síðan með þau upp snarbrattan Geldingsskorardalinn, í dúnmjúkum mosaþembum. Menn voru því yfirleitt hvíldinni fegnastir þegar í bíl var komið; en þó iðulega komnir níður á Stig aftur daginn eftir, þrátt fyrir heitstrengingar um annað. Ég fór stundum einn á Stíginn og fékk uppá mig af eggjum. Það er hægt fyrir kunnugan mann sem veit hvar unnt er að snaga í stuttum lásum, en ekki til eftirbreytni uppá öryggið að gera.
Þegar farið er undir Bæjarbjarg er farið á báti; yfirleitt þá norðan úr víkum, en í seinni tíð höfum við stundum farið frá Keflavík eða Naustabrekku á gúmbátum. Til undirbjargsferðar þarf að vera bjarglega; þ.e. mjög kyrrt í sjó undir bjarginu, og voru ýmis viðmið um það. Ef hvítnar á Straumskeri undir Blakk er ekki bjarglega; ekki heldur ef hvítnar við land í Fjarðarhorni eða ef hvítnar við hleinar Bjargsins, séð ofanfrá. Þegar farið er á Bæjarvöllin er lagt upp að hlein undan uppgöngunni. Í seinni tíð hefur verið tiltækur vaður sem nýttur er til uppgöngu, en hann var upprunalega lagður af Sigurþór og Borgari Þórissonum á Hvalskeri sem klifu Völlinn bandlausir, líklega á 9.áratug 20.aldar; sem er nokkuð afrek. Vanalega fara nokkrir upp á Völlinn til að tína saman egg, sem þarna eru mesmegnis álkuegg, en einhverjir verða eftir í bát. Framundan Vellinum er vogur sem nefnist Sæluhöfn (Sæluvogur); varinn af skerjum. Eggjum er síðan slakað af Vellinum í kútum niður yfir helli sem þar er undir. Sjór gengur inn í hellinn og því hægt að vera þar á gúmbát og taka við kútunum beint í bátinn. Fyrir kom að ég fór á Völlinn við annan mann á gúmbát. Við drógum þá bátinn upp á hlein; fórum báðir upp og tíndum saman, en síðan fór annar ofan á undan og tók við eggjum sem hinn slakaði niður. Oft lentu menn í slarki í þessum ferðum og ekki komu allir þurrir heim í hvert sinn. Sjólag getur breyst mjög skyndilega undir Bjarginu, og fyrir hefur komið að menn hafi þurft að dvelja á urðum eða völlum um tíma þar til unnt var að ná þeim út aftur. Svartfuglsegg eru víðar tekin, og hef ég verið með í eggjatöku í Bjarnanúp, bæði utanvið Verið og í Bjarnargjá; í kringum Ritugjá og Stefni; á Stórurð og öðrum urðum undir Látrabjargi; á Votukleif; á Gullhaldi; á Breiðavíkurkleif og á Gorgánshillu. Í síðastnefnda plássið er gengið ofan frá Leifsgjá, niður Lambagang og alla hlíðina niðurundir sjávarkletta. Eggjanýting í Bjarginu kann að breytast á næstu árum, haldi svartfuglastofninn áfram að dala“ (VÖ).
Svartfuglavilla / Svarthulavilla (n, kvk) Haft um það þegar einhver virðist vera að villast eða þegar einhver birtist sem ekki var von á: „Hvaða svarthulavilla er eiginlega á þér?“. E.t.v. er orðið komið úr einhverri þjóðtrú sem nú er gleymd, en einnig gæti svarthula hafa verið heiti á þoku, þó nú sé það týnt. Orðið svarthulavilla eyrist ekki utan Kollsvíkur, en hinsvegar virðist þekkt annarsstaðar orðið svartfuglavilla, sem þar var einnig notað í svipuðu samhengi. Hafa menn reynt að skýra það með því að svartfugl villist, sem er afskaplega hæpið.
Svarthol (n, hk) A. Fangelsi; fangaklefi; dýflissa. B. Fyrirbæri í geimnum, þar sem svo mikill massi er samankominn að efni hrynur saman í form sem erfitt er að skilgreina. Líklegt er að massi í svartholi svari til 10.000-1.000.000 sólmassa. Aðdráttarafl þess er svo mikið að ekkert sleppur frá því, jafnvel ekki ljós. Því sjást svarthol ekki sjálf heldur má fá hugmynd um tilvist þeirra t.d. með skoðun á hegðun stjarna og annars efnis sem það snýr í kringum sig áður en það fer yfir viss fjarlægðarmörk; sjóndeildarhvel. Svarthol er í miðju okkar vetrarbrautar og líklega í miðju flestra annarra vetrarbrauta. Fátt er vitað um innri gerð og eðli svarthola; annað en ráðið verður af kenningum og forspám t.d. röksemdum Alberts Einstein. Líklegt er að gríðarlegur massi svarthola aflagi tíma það mikið að gagnvart þeim hafi hugtökin fortíð, nútíð og hraði harla litla þýðingu. Ekki er ólíklegt að uppruna Miklahvells fyrir meira en 15 milljörðum ára megi rekja til svarthola fyrir þann tíma.
Svarthöttótt (l) Litur á sauðfé; hvítt á skrokk en svart um höfuð háls og stundum niður á bringu.
Svartidauði (n, kk) Skæður smitsjúkdómur; heimsfaraldur sem náði hámarki í Evrópu um miðja 14. Öld. Líklega hefur sýkillinn verið bakterían Yersinia pestis. Talinn upprinninn í rottum í Asíu. Um 75 milljónir manna hafa líklega farist í faraldrinum, þar af 25-30 milljónir í Evrópu, eða þriðjungur þáverandi íbúafjölda. Þó pestin hafi náð hámarki í Evrópu um eða fyrir 1350 ollu strjálar skipaferðir því að hún barst ekki hingað til lands fyrr en 1402; með skipi sem kom til Maríuhafnar í Hvalfirði. Hér geisaði hún í tvö ár og er talið að meira en helmingur þjóðarinnar hafi fallið í valinn; sumir segja tveir þriðju. Ekki er vitað hver mannskaði varð í Kollsvík og nágrenni, en gera má ráð fyrir að þangað hafi pestin borist, enda sóttu margir í verin um langa vegu.
Svartigaldur (n, kk) Galdur sem beitt er í þágu hins illa og með aðstoð illra afla.
Svartnætti (n, hk) Dimm nótt. „Réttu mér vasaljósið; maður sér ekki handaskil í þessu svartnætti“.
Svartnættisbylur / Svartnættisél (n, kk/hk) Mjög dimmur bylur; dimmt él; kolsvartabylur; kolsvartaél. „Þú ferð ekkert út í þetta svartnættisél; láttu sjá hvort ekki rofar til“.
Svartnættisfordómar (n, kk, fto) Alger fyrirlitning; mjög miklir fordómar. „Ofalin elítan í sjóðakerfinu er haldin svartnættisfordómum í garð hugvitsmanna sem starfa utan akademíuklíkunnar“.
Svarnættisíhald (n, hk) Gæluorð sem sumir viðhafa um þá harðlínu í stjórnmálum sem fordæmir jöfnuð og samhjálp og vill innleiða óhefta samkeppni sem leiðir til yfirráða þeirra sterku og ve ættuðu, en kúgunar hinna minnimáttar. „Þú trúir þó ekki þessu svartnættisíhaldi sem var að stinga niður penna í Moggann“?
Svartnættisþoka (n, kvk) Mjög dimm þoka. „Það þýðir ekkert að leita að fé í þessari svartnættisþoku“.
Svartsýni (n, kvk) Vonleysi; bölsýni. „Það er óþarfi að vera með einhverja svartsýni fyrirfram“.
Svartsýnn (l) Vonlítill; vondaufur. „Ég er að verða svartsýnn á að við náum þessu inn fyrir rigninguna“.
Svartur eins og erfðasyndin (orðtak) Mjög dökkur/skítugur í framan. „Farðu nú og þvoðu þér drengur; þú ert svartur í framan eins og erfðasyndin“!
Sveðja (n, kvk) Stór/blaðmikill hnífur; bredda. Sjá t.d. hausasveðja.
Svefn sækir (einhvern) (orðtak) Einhver verður syfjaður. „Sængina sína var hann oft með í ýtunni, og þá loks að svefn sótti hann fór hann iðulega út á milli þúfna og lagði sig“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Svefndrungi (n, kk) Sljóleiki vegna syfju; mikil syfja; áskokn svefns. „Skelfilegur svefndrungi er nú að hellast yfir mig; ég held maður ætti bara að fara að drattast í lúsina“.
Svefndúr (n, kk) Lítill svefn. „Mér kom varla svefndúr á auga í alla nótt,útaf verkjum“
Svefngalsi (n, kk) Ærslagangur rétt fyrir svefninn. „Nú er kominn svefngalsi í ykkur og mál að fara í rúmið“.
Svefngengill (n, kk) Sá sem gengur í svefni; sá sem er yfir sig syfjaður en þó ekki sofandi. „Farðu nú að sofa í hausinn á þér; þú ert eins og svefngengill“!
Svefnlaus (l) Ósofinn; hefur ekki náð að sofa. „Það er nú ekki gæfulegt að fara svefnlaus á sjóinn“.
Svefnleysi (n, hk) Skortur á nægum svefni. „Nú held ég að maður ætti að fara að skríða í bælið áður en maður verður enn ruglaðri af svefnleysi en orðið er“.
Svefnleysisrugl (n, hk) Órökrétt bull sem maður segir þegar hann er orðinn ruglaður af svefnleysi. Oft svipaðs eðlis og ráðleysisrugl. „Þetta er nú komið út í tómt svefnleysisrugl hjá okkur; er ekki bara kominn tími til að skríða í bælið“?
Svefnléttur (l) Sem þarf ekki mikinn svefn; vaknar snemma. „Maður verður svefnléttari með aldrinum. Mér nægir dálítill fuglsblundur þegar ég hangi svona iðjulaus alla daga“.
Svefnlítill (l) Illa sofinn; hefur ekki fengið mikinn svefn. „Maður er stundum svefnlítill yfir sauðburðinn“.
Svefnpoki (n, kk) Létt þunn dýna sem rennt er saman með rennilás á jöðrum svo úr verður poki sem sofið er í.
Svefnpurka (n, kvk) Sá sem sefur fast/mikið/yfir sig. „Mikil ankollans svefnpurka getur maður verið“! Sjá purka.
Svefnsamt (l) Sjá verða ekki svefnsamt.
Svefnstyggur (l) Sefur laust; vaknar við minnstu truflun. „Hafiði hljótt fyrst hann er svona svefnstyggur“.
Svefnvana (l) Hefur ekki fengið nægan svefn; illa sofinn.
Svefnþungur (l) Sefur fast; á erfitt með að vakna. Ekki er ólíklegt að þeir sem áður voru taldir svefnþungir myndu í dag verða greindir með kæfisvefn.
Svefnþurfi (l) Þurfandi fyrir svefn; syfjaður. „Við vorum orðnir all svefnþurfi eftir langan dag“.
Svei (uh) Upphrópun til að lýsa vanþóknun eða fyrirlitningu. Oftast með styttyrði eða setningu. „Svei bara“! Af sama stofni og sví- í svívirða og orðin sveigur, svig og sveigja. E.t.v. upphaflega fyrirskipun um að sveigja; fara; víkja frá.
Svei mér (orðtak) Áherslusetning. „Sá skal svei mér fá að heyra skírnarnafnið sitt“!
Svei mér / Svei mér alla daga / Svei mér sú ögnin / Svei mér skrattakornið (orðtök) Upphrópanir sem lýsa undrun; áhersla með neitun. „Svei mér ef þetta er ekki tvævetlan sem ég hélt að hefði hrapað í bjarginu“! „Svei mér sú ögnin að ég hafi haft hönd á vasahnífnum þínum“. „Svei mér skrattakornið að ég fer á þetta fyllerísball“!
Svei mér þá / Svei mér þá alla daga (orðtök) Upphrópanir sem lýsa undrun. „Neisko: Svei mér þá ef ekki er fiskur á hverju járni“! Stundum var enn aukin áherslan með því að bæta „alla daga“ fyrir aftan; „Svei mér þá alla daga“!
Svei þér (bara)! (orðtak) Upprópun/skammaryrði til að lýsa vanþóknun á manni eða gerðum hans.
Svei því korninu / Svei því ögn(inni) (orðtak) Upphrópun sem lýsir vanþóknun; fari það og veri; bölvað sé það. „Hér er úr vöndu að ráða. Svei því ögn að ég veit hvað skal gera“!
Sveia (s) Lýsa vanþóknun með „svei“; sussa á; lítilsvirða; skamma.
Sveia burt (orðtak) Reka burt/frá. „Þú verður að sveia hundinum burt ef hann kemur niður í Byrgið“.
Sveia sér uppá (orðtak) Sverja; hóta sjálfum sér lítilsvirðingu ef maður lýgur/ segir ekki satt. „Hann sveiaði sér uppá að þetta væri allt hreinasatt; hvert einasta orð“.
Sveiattan / Svei því aftan (uh/ orðtak) Mikið notaðar upphrópanir til að lýsa vanþóknun, fyrirlitningu eða lítilsvirðingu á einhverju. Hefur e.t.v. upprunalega verið „svei því aftur“ í merkingunni „fari það aftur“. „Ja sveiattan: Nú þykist þessi ríkisstjórn ætla að bjarga lítilmagnanum eftir að vera búin að mergsjúga hann allt kjörtímabilið. Hún gerir skurk í því“! „Nú þykjast þessir pótintátar allt vilja gera fyrir bændur; svona rétt fyrir kosningarnar! Svei því bara aftan öllusaman! Ekki trúi ég orði af þeirra rausi“!
Sveif (n, kvk) Handfang/vogarstöng til að snúa einhverju. T.d. sveif á traktors- eða bílvél, til að snúa í gang með handafli, eða stýrissveif á bát. Einnig er sveif á t.d. kvörn, hakkavél, skilvindu og síðari tíma strokk.
Sveifa (s) Svífa; fljúga rólega. „Yfir hverju er hrafninn að sveifa þarna frammi á Mýrum“?
Sveifarauga (n, hk) Stýrisauga; ferkantað gat á stýri/stýrisfjöl báts til að stinga stýrissveifinni í.
Sveifarás (n, kk) Krungtappi; Meginásinn í sprengihreyfli.
Sveifarsími (n, kk) Sími með sveif á hliðinni, sem snúið var til að hringja. Þannig símar voru allsráðandi frá upphafi símavæðingar; þar til skífusímar komu. Rauðasandshreppi var skipt í svæði/línur; innan hvers svæðis átti hver bær sína hringingu. T.d. tvær stuttar og ein löng á Láganúpi; ein löng í Kollsvík og löng-stutt á símstöð. Hringt var fyrst, og hringdi þá bjalla á símum á línunni; tól hringjanda og móttakanda voru síðan tekin upp, en fyrir kom að fréttaþyrstir nágrannar gerðu það stundum líka. Símhleranir voru ekki fundnar upp af leyniþjónustum stórveldanna.
Sveifarstýri (n, hk) Stýri á bát sem hreyft er með stöng; stýrissveif. Ekki taumastýri með aktaumum. Sveifastýri var algengast í Kollsvík.
Sveifla (n, kvk) A. Veifa; hringhreyfing, t.d. handasveifla. B. Rið; umskipti, t.d. í radíóbylgjum eða sjávarföllum. C. Stundum notað sem þýðing á tónlistartegundinni „jazz“.
Sveifla (s) Veifa; gera sveiflu. „Hann sveiflaði lambinu uppúr dilknum“.
Sveigbentur (l) Um bát; með svigaböndum en ekki höggnum böndum.
Sveighnífur (n, kk) Tálguhefill; lítill tveggjahanda hefill/skafa úr járni með stillanlegri tönn í stuttum sóla milli handfanganna; notaður til að hefla sveigða fleti að innanverðu. „Afi minn, Guðbjartur Guðbjartsson, nefndi þetta verkfæri aldrei annað en sveighníf (frb. svæjhnífur), en það heiti finn ég hvergi annarsstaðar“ (VÖ).
Sveigja (n, kvk) Bogi; bugur; kilpur. „Hér er leiðinleg sveigja á borðinu“. „Skaftið þolir litla sveigju“.
Sveigja (s) Beygja; fara/setja í boga. „Ég þurfti að sveigja fjölina til að geta fest hana í báða enda“. „Ég ætla að fara fyrir féð og reyna að sveigja það aftur niður á götuna“.
Sveigja að (einhverju) (orðtak) Segja óljóst; láta liggja að einhverju. „Hann sveigði að þessu í ræðunni“.
Sveigja sig og beygja að/eftir vilja (einhvers) (orðtak) Vera öðrum undirgefinn; láta að öllum óskum einhvers. „Ég ætla nú ekkert að sveigja mig og beygja að þeirra vilja; ég geri bara það sem mér sýnist“!
Sveigjanlegur (l) Sem unnt er að sveigja; ekki stífur. Getur bæði átt við um hluti og skoðanir manns.
Sveigur (n, kk) A. Bogi. „Ég tók langan sveig uppfyrir hópinn til að ekki kæmi styggð að fénu“. B. Gjörð.
Sveima (s) Svífa; flögra. „Yfir hverju eru hrafnarnir að sveima þarna framfrá“?
Sveimérþá (alla daga) (uh) Upphrópun til að lýsa furðu eða aðdáun. „Sveimérþá; ég held það standi fiskur á hverju járni“! „Þvílíku öðru hef ég aldrei fyrr kynnst: Sveimérþá alla daga“!
Sveimur (n, kk) Hópur af einhverju sem sveimar, t.d. fuglasveimur; hrafnasveimur. Einhver sveimur af fugli er hérna frammi á víkinni, en ekki get ég sagt að það sé ger.
Sveinbarn (n, hk) Nýfætt barn af karlkyni; drengur; strákur.
Sveinn (n, kk) A. Almennt; ungur karlmaður; unglingur; barn. Oftast notað í skáldskap nú til dags, og þá stundum um leið heitið „svanni“ um unga konu. „Vaknaðu svanni og vaknaðu sveinn/ svo vormenn að megii ykkur kalla;/ hefjið upp fánann og heitið hver einn/ með honum að sigra eða falla./ Þá drengskap þið kveikið og ættjarðarást./ Sá eldlegi viti mun hvarvetna sjást“ (VÖe; Ísland). B. Iðnlærður maður, sá sem er í verknámi iðngreina undir leiðsögn meistara. C. Mannsnafn.
Sveinstauli (n, kk) Niðrandi heiti á dreng/ ungum manni. „Hvað var þessi sveinstauli eiginlega að hugsa“?!
Sveipa (s) Vefja; hylja. „Hérna; sveipaðu um þig teppinu meðan þú nærð úr þér hrollinum“.
Sveipaður (l) Hulinn; vafinn. „Hann skalf og nötraði þó hann væri sveipaður bæði sæng og teppi“.
Sveipóttur (l) Með miklum sviptivindum. „Hann getur orðið ári sveipóttur á Sandinum í þessari átt“.
Sveipur (n, kk) A. Almennt um það sem er sveigt í boga. B. Sviptivindur; hvirfilvindur; vindsveipur. C. Hár sem leggst í hring, þó stærra en krulla.
Sveit (n, kvk) A. Hópur manna, t.d. liðsveit, lúðrasveit. B. Hreppur; hérað; svæði. Sjá fara á sveitina; þiggja af sveit.
Sveitabær (n, kk) Byggt bú í sveit. Stundum notað til aðgreiningar frá þéttbýli/borg.
Sveitafólk (n, hk) Fólk í dreifbýli/sveitum; bændafólk. Stundum notað til aðgreiningar frá þéttbýlisbúum.
Sveitalimur (n, kk) Sá sem þiggur af sveit/ sveitarómagi. Hefur fremur niðrandi merkingu á síðari tímum.
Sveitarfélag (n, hk) A. Samfélag fólks á ákveðnu svæði. B. Stjórnsýslueining. Sjá hreppur.
Sveitarhöfðingi (n, kk) Sá sem er almennt viðurkenndur sem forystumaður sinnar sveitar. „Einar í Kollsvík var mestur sveitarhöfðingi á sinni tíð“.
Sveitarígur (n, kk) Viðvarandi deilur milli íbúa nærliggjandi sveitarfélaga. Hann mátti finna á sunnanverðum Vestfjörðum sem víðar, en yfirleitt risti hann hvorki djúpt né var rætinn.
Sveitarómagi (n, kk) Niðursetningur; sá sem er umkomulaus og þarf að vera á framfæri annarra. Fyrir daga almannatrygginga var það hlutverk sveitarstjórna að koma slíku fólki í vist á einhverju heimili gegn meðgjöf. „Gísli Ólafsson 50 ára sveitarómagi í Tungu... “ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Sveitarrykti / Sveitarslaður / Sveitarslúður (n, hk) Sveitarslúður; kjaftasaga. „Það segir þetta; sveitarryktið. Ekki er það frá mér komið“! „Ekki trúirðu þessu andskotans sveitarslúðri í alvöru“?
Sveitarsjóður (n, kk) Hreppsjóður; opinber sjóður í eigu sveitarfélags, sem heppsbúar greiða sín gjöl til og greitt er úr til verkefna sveitarfélagsins. Í umsjón oddvita/sveitarstjóra. „Í oddvitatíð föður míns var sveitarsjóður varðveittur í traustum læstum járnkassa. Framanaf var eflaust allmikið fé stundum varðveitt í honum, en fljótlega gerðust ávísanir almennari, ásamt millifærslum og gíróseðlum. Greiðslukort komu ekki til sögunnar fyrr en eftir að Rauðasandshreppur hætti að vera sjálfstæð stjórnsýslueining“ (VÖ).
Sveitarsómi (n, kk) Sá eða það sem er sveitarfélagi til sóma og heiðurs.
Sveitarstjóri (n, kk) Starfsmaður sveitarfélags sem er nokkurskonar framkvæmdastjóri sveitarstjórnar og fer með fjármál og rekstur í hennar umboði.
Sveitarþyngsli (n, hk, fto) Mikil útgjöld sveitarsjóðs. Oftast er átt við kostnað við framfærslu ómaga.
Sveitasími (n, kk) Sími kom í Kollsvík árið 1934. Fyrstu árin var einungis sími á Stekkjarmel en fljótlega kom hann einnig að Kollsvík og Láganúpi, eins og að öðrum byggðum bæjum í Rauðasandshreppi. Þessi sveitasími byggðist á símalínum á símastaurum og var býsna bilanagjarn í snjóþungum vetrum. Nokkrir bændur um sveitina höfðu stauraskó og verkfæri til viðgerða og gátu oft lagfært slitnar línur. Símtækin heimafyrir voru í fyrstu fornfálegir vegghengdir trékassar en síðar úr bakelitplasti. Sveitinni var skipt í notendasvæði, svonefndar línur og var Kollsvík á sömu línu og Hvallátrar og Breiðavík; útvíknalínu. Innan línunnar var alltaf hægt að hringja, en önnur símtöl þurftu að fara í gegnum miðstöðina á Patreksfirði og það var einungis hægt á daginn, meðan vakt var. Til að hringja var snúið sveif á símtækinu meðan tólið var á; eftir að búið var að kanna að ekki væri annar á tali; að línan væri ekki upptekin. Ein löng hringing var á miðstöðina; tvær langar voru að Kollsvík; tvær stuttar og ein löng að Láganúpi; þrjár stuttar að Breiðuvík; þrjár stuttar og ein löng voru að Heimabæ á Hvallátrum og stutt löng var hringingin að Ásgarði. Gamli sveitasíminn hafði þá eiginleika að símtöl var unnt að hlera af þeim sem ekki voru að tala. Þetta vissu allir að var ósiður og því var reynt að fara laumulega að með því t.d. að halda fyrir taltrektina og fara hljóðlega að öllu. Hinsvegar versnaði talsambandið eftir því sem fleiri lágu á hleri. Hinn augljósi kostur þessa háttalags var „algjört gagnsæi“; erfitt var að pukra, ljúga uppá nágrannann og yfirleitt fara með ósannindi. Að vísu með tilheyrandi skerðingu á persónurétti og friðhelgi. Tveir bæir í sveitinni gátu losnað við þessar hleranir: Drengjaheimilið í Breiðuvík var með bjagara, þannig að ekki skildust orðaskil þó hlerað væri. Kvígindisdalur efri var endabær og gat kúplað sér frá öðrum bæjum, enda var þar sparisjóður sveitarinnar. Gamli sveitasíminn lagði upp laupana um 1984 þegar sími var lagður í jörð og upp var tekinn óhleranlegur „sjálfvirkur sími“. Það er svo rannsóknarefni hvort sú breyting, s.s. aukin félagsleg einangrun, standi í sambandi við hinn mikla fólksflótta sem hófst úr sveitinni um sama leiti. Jarðsíminn yfir Hænuvíkurháls til Kollsvíkur var reyndar aldrei í lagi. Það kom semsé í ljós að hálsinn dregur að sér allar eldingar á svæðinu og þær fundu sér greiða braut um þessar símlagnir og bökuðu þær ótt og títt. Því var sett upp fjarskiptamastur á hálsinum og endurvarp að Láganúpi, en þaðan jarðsími að Kollsvík. Eftir 2000 var komið á GSM símasamband í Kollsvík. Hefði þeim eflaust þótt það þægindi, útvegsbændum í Kollsvíkurveri forðum, að geta talað við sitt heimafólk framan af miðum og fylgst með bústörfum. Tæknin er ekki alltaf til staðar þegar hennar er mest þörf.
Sveitasæla (n, kvk) Rómantískt hugtak um sældarlíf þess sem býr í sveit. Þó sveitalífið sé oft á tíðum erfitt og virðist stundum ekki annað en basl og mótlæti, þá kynntust menn líklega kostum þess fyrst að ráði þegar bæir tóku að vaxa, með ófrelsi og skuggahliðum sem þeim fylgja.
Sveitavargur (n, kk) Niðrandi heiti þéttbýlisbúa á manneskju sem býr í sveit.
Sveitavegur (n, kk) Vegur í strjálbýlli sveit. Sveitavegir mæta oftast afgangi í umhyggju opinberra stjórnvalda fyrir samgöngukerfi landsins. Enda eru það á endanum kjörnir fulltrúar sem ráðstafa viðhaldsfé vega og hafa tilhneygingu til að gera vel þar sem fjölmennustu atkvæðin er að hafa.
Sveitaþorp (n, hk) Þéttbýli/byggðakjarni í sveit. Segja má að allir þéttbýlisstaðir á Íslandi hafi byrjað sem sveitaþorp, enda byggðist landið upp á landbúnaði og útvegsbúskap. Fyrstu sveitaþorpin risu annarsvegar kringum verstöðvar en hinsvegar kringum verslunarhafnir, sem stundum voru á sama stað. Síðar varð þéttbýlismyndun kringum höfðingjasetur, klaustur og höfuðkirkjur. Líklega hefur fjölmennasta sveitaþorp Rauðasandshrepps verið í Kollsvík, meðan verstaða var þar í hámarki, en fjölmennt var löngum einnig í verstöðvum að Látrum og í Keflavík, auk þess sem byggð var þétt kringum Saurbæ. Undir lok 20.aldar stefndi Rauðasandshreppur að því að byggðakjarni yrði í Tungulandi í Örlygshöfn; í Hvammsholti, þar sem var barnaskóli, félagsheimili og verslun sveitarinnar. Þar voru byggð nokkur íbúðarhús áður en hreppurinn var sameinaður í Vesturbyggð; skólahaldi og verslun var hætt og búskapur og byggð dróst verulega saman.
Sveitfastur (l) Skráður íbúi í sveitarfélagi. Nú á tímum er hver maður frjáls að flutningum milli sveitarfélaga og litlarhömlur á því hvar menn skrá sig til heimilis. Fyrr á öldum var ófrelsi meira í þeim efnum. Fólk var almennt bundið vistarböndum og flutningar milli sveitarfélaga voru háðir ströngum reglum. Sjá vistarbönd.
Sveitfesti (n, kvk) A. Það að vera sveitfastur/ bundinn vistarböndum. Sjá hreppur. B. Lögheimili.
Sveitungi (n, kk) Sem býr í sömu sveit. „Eins og aðrir sveitungar mínir á þessum tíma voru þeir Gummi og Liði ágætir vinir og lögðu gjarnan hart að sér til að gera öðrum greiða“ (PG; Veðmálið).
Svekkja (s) Gera leitt; fara í taugar; græta. „Ríkisstjórnin finnur alltaf leiðir til að svekkja landsbyggðina“.
Svekkja sig (orðtak) Leggjast í þuglyndi; verða leiður. „Það þýðir ekkert að svekkja sig á þessu, þó bölvað sé“.
Svekkjandi (l) Ergilegt; vonbrigði. „Það er alltaf svekkjandi þegar svona lagað gerist“.
Svekkelsi (n, hk) Ergelsi; leiðindi; vonbrigði. „Við flengdum um allan sjó og renndum þar sem einhver veiðivon var, en höfðum lítið uppúr því nema svekkelsið. Þetta er bara ördeyða núna“.
Svekktur (l) Argur; leiður; fúll. „Ég er verulega svekktur yfir að missa af þessu“.
Svelgja í sig (orðtak) Þamba; drekka af ákafa. „Ég svelgdi í mig mjólkina og hljóp svo út“.
Svelgur (n, kk) A. Hringiða; mikill iðusveipur. B. Átvagl; sá sem svelgir í sig. „Þessi bíll er ansi öflugur en hann er líka mikill bensínsvelgur“. C. Niðurfall í gólfi á húsi eða dekki á skipi.
Svelja (s) Vinda; blása; kula. „Hann er farinn að svelja meira frá norðri; ætli við þurfum ekki að fara að koma okkur í land bráðum“. „Hér hefur sveljað hressilega um; allt fokið til andskotans“!
Sveljandalegur (l) Garralegur; sýnist vindasamur. „Mér sýnist hann orðinn dálítið sveljandalegur frammi“.
Sveljandasamur (l) Um tíðarfar; vindasamur. „Hann er búinn að vera ári sveljandasamur þessa vikuna“.
Sveljandi (n, kk) Hvass vindur, oft kaldur. „Það er napurt úti og bannsettur sveljandi“.
Svell (n, hk) Klaki á jörð; ís. Notað bæði í eintölu og fleirtölu og á einungis við þar sem mikill ís er á jörð; þykkur og/eða víðáttumikill. „Það eru tvö svell á Tunguhlíðinni“. „Það er svell yfir öllum Leirunum“.
Svella (s) Ólga; sjóða. „Mér svall hugur í brjósti“. Sjá svella hugur; svella móður; sollinn.
Svella hugur í brjósti; svella móður (orðtak) Finna til hugrekkis/áræðis; vera ákafur í að takast á við eitthvað.
Svellaður (ao) Með svellum. „Fór hesturinn greitt með prest þarna um tæpar og svellaðar götur...“ (MG; Látrabjarg).
Svellalög (n, hk, fto) Svellflákar; svellbreiða; svellbólstur. „Vegna hins mikla vatnsaga verða mikil svellalög á Leirunum á veturna“ (HÖ; Fjaran).
Svellavinna (n, kvk) Vinna við að eyða svellum/ ná svelli af vegi/leið. „Þá sagði hann (vegaverkstjóri) að svellavinna og snjómokstur færi ekki á viðhaldsfé“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Svellbólstur/ Svellglotti / Svellglanni / Svellbunga / Svellbunki (n, kk/kvk) Klakabunki. „Það er hættulegur svellglotti neðst í Hænuvíkurbrekkunum“. „Gáðu að þér á svellbunkanum í Hæðinni“. „Þarna er hættulegur svellglanni“.
Svellfrosinn (l) Frosinn í klaka. „Þú ferð ekki í vettlingana svona svellfrosna“.
Svellgljá / Svellglæra (n, kvk) Mikil svell; víðáttumikil svell. „Mýrarnar voru samfelld svellgljá í mestu frostunum“. „Farðu varlega með féð; Fitin er ein svellglæra“!
Svellharður (l) Harður eins og klaki/svell. „Okkur gekk treglega að komast niðurúr svellharðri móhellunni“.
Svellkaldur (l) Mjög kaldur viðkomu. „Farðu nú í vettlinga drengur; þú ert alveg svellkaldur á höndunum“!
Svellrónir / Svellþæfðir vettlingar (orðtak) Ullarvettlingar sem voru mjög þæfðir af notkun; stundum svo að þeir voru bognir í lófanum, líkt og með þeim hafi verið róið mjög lengi. „Fjögur lýsingarstig voru höfð um róðrarvettlinga; órónir; hálfrónir og svellrónir sama og kútrónir“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Svellþykkur (l) Mjög/vel þykkur. „Ég var kappklæddur; í loðbandspeysu, föðurlandi og tvennum sokkum; með svellþykka vettlinga á höndum og dembúl á höfði“.
Svellþæfður (l) Þæfður þar til orðinn er harður eins og svell. „Vettlingarnir voru svellþæfðir af núningnum“.
Svelta (s) A Hungra; vera svangur. „Við sjávarsíðuna þurfa menn sjaldan lengi að svelta sem hafa bát og einhvern dug til að bjarga sér“. B. Hafa í svelti; hafa hungraðan. „Ég er ekki vanur að svelta mínar skepnur“.
Svelta heilu hungri (orðtak) Vera í algeru svelti; vera lengi án fæðu. „Réttu mér nú nestið áður en þú ferð ofan; ég ætla ekki að svelta heilu hungri hérna uppi á brúninni meðan þið tínið saman“.
Svelti (n, hk) A. Hungur; matarleysi. B. Sjálfhelda í klettum sem kindur komast í en ekki úr. „Í Gránuhillu er stórt hvapp... þar fór fé oft í svelti sem varð að hjálpa; taka í böndum“ Frásögn DE (MG; Látrabjarg). Svelti er algengt nafn á hillum í klettum; t.d. Strengbergssvelti; Smérhellissvelti. Samheiti fyrir svelti, drápsdý og flæðisker er „hættur“.
Sveltistaka (n, kvk) Kind tekin úr sjálfheldu í klettum; tekin úr svelti. Þetta var algengur þáttur í fjárbúskap í Útvíkum, en er oftast hættulegt og til þarf brattgenga og útsjónarsama kunnáttumenn. Þekkt svelti í Hnífum eru t.d. Smjöhellissveltið og Gvendarhellissveltið en í Blakknum Vallarflessveltið og Sveltisgangurinn. „Ræddi hann í því sambandi nokkuð um sveltatökur…“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Sveltur sauðlaust bú (orðatiltæki) Gamalt máltæki sem sýnir trú bóndans á sauðkindinni við lífskjör fyrri tíma. Orðtakið á þó síður við þar sem björg er oft að hafa úr sjó þegar þústnar að með búskapinn.
Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær (orðatiltæki) Mikið notuð speki, sem vísar til þess að þeim eru flestar bjargir bannaðar sem ekki sýnir sjálfsbjargarviðleitni og leggur sig fram.
Svengd (n, kvk) Hungur; matarþörf. „Ég var orðinn fjári lúinn eftir daginn og farinn að finna til svengdar“.
Svengdarlegur (l) Hungraður að sjá. „Kastaðu afganginum í hundinn; hann er ósköp svengdarlegur“.
Svengja (s) Hungra; verða svangur. „Eftir þetta at var okkur farið að svengja nokkuð mikið“.
Sver (l) A. Þykkur; mikill að ummáli. „Þetta var ekki langt tré, en all svert“. B. Erfiður; kostar fyrirhöfn. „Þetta voru einhver sverustu átök sem ég hef lent í um dagana“!
Sver dagur (orðtak) Annasamur dagur; mikið dagsverk. „Það verður trúlega sver dagur í slátrun á morgun“.
Sver sjór (orðtak) Mikill sjór; þung undiralda. „Sjórinn var farinn að verða ískyggilega sver og lifandi bára farin að leika á bökum hinna sveru sjóa“ (ÞJ“Brimlending“ Sjóm.blaðið Víkingur 1957).
Sverð og skjöldur (einhvers) (orðtak) Helsti forsvarsmaður/verjandi einhvers. Sagt var um Jón Sigurðsson að hann hefði verið „sómi Íslands; sverð þess og skjöldur“.
Sverfa (s) Svarfa; raspa með þjöl eða öðru eggjárni.
Sverfa til stáls (orðtak) Sjá láta sverfa til stáls.
Sverfur að (orðtak) Svarfar að; þrengir að; verður erfiðara. „Það sverfur sífellt meira að búskap á svæðinu“.
Sverja fyrir (barn) (orðtak) Neita að gangast við barni; vinna eið að því að maður á ekki tiltekið barn.
Sverja fyrir / Sverja uppá (orðtak) Fortaka; neita; vinna eið að. „Ég get svarið fyrir það að ég tók ekki hnífinn“! „Ég held ég geti svarið uppá það að þessi kind er ekki frá mér“.
Sverja fyrir rass (orðtak) Taka hala af skötu þegar hún var slægð án þess að barða hana (sjá skata).
Sverja og sárt við leggja (orðtak) Sverja að viðlögðum missi eða refsingu. „Hann sór og sárt við lagði að hann hefði ekki stolið vasahnífnum; einhver annar hefði örugglega laumað honum í vasa hans“!
Sverja sig af (orðtak) Vera laus við; fría sig við. „Ég get kannski ekki svarið mig af allri sök í þessu efni; ég hefði átt að líta betur eftir hvað þeir voru að gera“. Vísar til þess að losna undan sök með eiði.
Sverja sig í ættina (orðtak) Sýna augljós merki um skyldleika. „Og þú ert af Kollsvíkurættinni. Þú þarft ekkert að segja mér annað; þú sverð þig í ættina með háralagið og hávaðann“!
Sverja þess dýran eið (orðtak) Sverja mjög hátíðlega; vinna öflugt heit. „Ég sór þess dýrran eið að þetta skyldu þeir fá borgað; fyrr eða síðar“.
Sverma fyrir (orðtak) Sækjast eftir; suða um; leita eftir að fá. „Ég hef verið að sverma fyrir að fá þessa bók lánaða hjá honum en hann segir að henni hafi enn ekki verið skilað úr síðasta útláni“. Líklega dregið af suði í flugnasvermi sem getur orðið leiðigjarnt.
Svermur (n, kk) Sveimur; mikill fjöldi; aragrúi. „Hvaðan kom þessi fiðrildasvermur allt í einu“?
Sverta (n, kvk) Svart litarefni, t.d. prentsverta; skósverta.
Sverta (s) A. Gera svart; dekkja. B. Kasta rýrð á; ófrægja. „Ég ætla ekki að sverta hann, en ég ætla heldur ekkert að hrósa honum óverðskuldað“.
Svertingi (n, kk) Blökkumaður; maður af dökkum kynþætti; negri. Til skamms tíma þótti það góð og gild íslenska að nefna fólk með dökka húð negra eða svertingja, en á síðari tímum hafa einhverjar sjálfskipaðar málalöggur talið slíkt bera vott um kynþáttahatur. Ekki er öll vitleysan eins!
Svið (n, hk) A. Svæði; vettvangur. Ég hef ekki mikla þekkingu á þessu sviði“. B. Upphækkun til sýninga í sal, t.d. leiksvið.
Svið (n, hk, fto) Sviðinn haus af skepnu, sem ætlaður er til matar. Stundum einnig notað um sviðna fætur til matar. „Alltaf finnst mér nú sviðin betri ef þau hafa fengið að standa dálítið fyrir frystingu“. Sjá sviðahaus.
Sviðabein (n, hk, fto) Hausbein úr sviðum. „Hentu nú fyrir mig sviðabeinunum útí skurðenda“.
Sviðahaus (n, kk) Haus sem er eða verður sviðinn. „Það þarf að saga upp nokkra sviðahausa“. Svið voru verkuð þannig fyrrum að saltað var í strjúpann meðan hausinn var enn volgur. Þannig var hann geymdur nokkra daga en lítið þótti varið í svið sem ekki höfðu náð að breyta bragði örlítið. Eftir tilkomu frystitækni voru hausar frystir ósviðnir. Fyrir daga gasbrennara var (á 20. öld) sviðið yfir prímus eða yfir hráolíuloga í opinni smurolíufötu með hænsnaneti yfir. Í strjúpann var stungið priki; hausaskafti. Skafa þarf öskuna af öðru hvoru. Fljótar gekk að svíða með gasbrennara og propangasi eftir að það kom til. Eftir að sviðið hefur verið er hausinn sagaður upp; sagaður í tvo helminga eftir snoppu og milli augna, og nefnist hvor helmingur kjammi, eða sviðakjammi. Heilinn er tekinn úr og hefur honum verið fleygt eftir að fólk varð meðvitað um smithættu af honum. Sviðin voru skrúbbuð vandlega úr skarpvolgu vatni og soðin. Eftir suðu voru þau yfirleitt látin kólna, þar sem mörgum þykir þau matarmeiri og ætilegri þannig, en sumir vilja þau þó frekar heit. Ef sviðin áttu að fara í sviðasultu var skorið utan af beinum eftir nokkra suðu og síðan hleypt upp á kjötinu aftur áður en því var hellt, með nokkru af soðinu, í mót og látið kólna, og síðan sett í súr. Fyrir neyslu er sviðakjamminn skorinn í tvennt fyrir neðan augað, og nefnast hlutarnir kjálki og auga. Misjafnt var hve vel menn unnu að sviðunum; fyrri tíðar fólk skóf allt það af beinum sem mögulegt var að eta og braut augað í tvennt til að komast betur að mat í því. Í seinni tíð hefur fækkað þeim sem láta sig hafa það að borða jafnt eyru og augu með öllu; nasir; gómfyllu og hnakkaspik. Þess var vandlega gætt að brjóta málbeinið, þar sem annars gæti barn á heimilinu orðið holgóma eða málhalt. Ekki var heldur ráðlegt að gefa hundinum það óbrotið því hann gæti þá farið að tala mannamál. Annars var ávallt veisla hjá hundinum þegar svið voru í matinn og mikil vinna við að verja góðgætið fyrir hrafninum. Þess má geta að ávallt var þess gætt að skera ekki eyru af sviðum fyrr en þau voru etin. Þessi regla þjónaði þeim tilgangi að bóndi yrði síður sakaður um sauðaþjófnað.
Sviðakjammi (n, kk) Hálfur sviðahaus; auga og kjálki. „Tveir sviðakjammar eru heldur mikið fyrir mig“.
Sviðalöpp (n, kvk) Sviðinn fótur af skepnu, ætlaður til suðu, súrsunar/sultunar og átu.
Sviðasulta (n, kvk) Sultuð svið (og sviðalappir). Sviðasulta er gerð þannig að svið eru soðin í saltvatni; hreinsað er af sviðabeinum; holdið grófskorið í bita og látið kólna í hluta af soðinu. Við það verður til þykkt og matarmikið hlaup sem ýmist er súrsað, fryst eða borðað nýtt.
Sviði (n, kk) Seiðandi staðbundinn verkur, t.d. eftir bruna eða mar.
Sviðin jörð (orðtak) Grasleysi; illa sprottið; kal í túnum; þurrkar „Sum túnin eru ekkert nema sviðin jörð“.
Sviðna (s) Verða brunninn/sviðinn. „Gras er farið að sviðna í þurrkinum, einkum á sendnum túnum“.
Sviðra (s) Nöldra; jagast; tuða. „Hann hefur verið að sviðra um að koma með í ferðalagið“.
Sviðra (s) A. Skafa snjó. Heyrðist oft notað ef skóf um göt inn í hús. „Það hefur sviðrað inn með hurðinni“ B. Nöldra. „Hann er ennþá að sviðra yfir fjallskilaseðlinum“.
Sviðra með (orðtak) Um skafrenning; renna með jörð án þess að snjói úr lofti. „Hann sviðrar hressilega með“.
Sviðra um (orðtak) Um skafrenning; þyrla snjókófi um; skafa hressilega. „Heldur er hann farinn að sviðra um“.
Sviðringur (n, kk) Skafmold, oftast lágarenningur. „Það var sviðringur á Hálsinum“.
Sviður (n, hk) Nöldur; kvartanir. „Vertu nú ekki með þetta sviður þó þú sért beðinn um viðvik“. Þetta orð var mikið notað í Kollsvík framá síðustu ár, og af sumum enn í dag, en það finnst hvergi í orðabókum. Hinsvegar tilgreina þær karlkynsorðið svinnur, í merkingunni skynsemi/viska, en það þekkist ekki í Kollsvík.
Svif (n, hk) A. Þum fugl/flygildi; það að haldast á lofti án þess að blaka vængjum eða vera knúinn öðru afli. B. Örlitlar lífverur í vatni eða sjó; undirstaða mikils hluta lífs á þeim slóðum. C. Fyrrum notað um hreyfingu. Frá þeim tíma er orðtakið; í þeim svifum.
Svifa (s) Svífa; svima; líða; fara í rólegheitum. „Þegar svifaði frá sólu sá ég glampa á baujuna“
Svifa frá (sólu) (orðtak) Draga (ský) frá sólu; birta/létta til. „Þetta er fljótt að þorna í flekknum ef eitthvað svifar frá sólu“.
Svifaseinn (l) Seinn í snúningum; hægur. „Ég var heldur svifaseinn að ná í gogginn núna“. „Næst fór ég á Rauðasand,/ þar rýringur er einn,/ raunalegt að hann skuli ekki fitna./ Í kvenna og ástamálum er hann mjög svifaseinn/ í sína ævi byrjaði að vitna“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Svignar bogi fyrr en brestur (orðatiltæki) Auðskilin speki, sem oft er yfirfærð á manneskju. Menn geta þolað furðu mikið án þess að gefast upp eða brotna saman.
Svigrúm (n, hk) Rými til athafna; olnbogarými. „Nú var gott að vera svo nærri boðunum, og hafa svigrúm til að snúa“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Svigur (n, kk) Sveigur; bogi. Einkum notað í orðtökum: fara/komast á svig við.
Svigurmæli (n, hk, fto) Stóryrði; hótanir; árás í orðum. „Hann sagðist ekki ætla að sitja undir svigurmælum í sinn garð vegna þessa óhapps“. Merkir í raun ill orð sem sveigt er í átt til manns.
Svik / Sviksemi (n, hk, fto/ kvk) Það að bregðast trausti/trúnaði; standa ekki við loforð. „En sú þróun mála væri svik við byggðarlagið og þá margumtöluðu byggðastefnu sem allir vilja eiga og telja sig vinna fyrir“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Svikabrigsl (n, hk, fto) Fullyrðing um að svik hafi verið reynd eða brögð séu í tafli. „Honum ferst ekki að tala um nein svikabrigsl af minni hálfu; sem sjálfur er ekkert nema lygin“!
Svikaglenna (n, kvk) Um það þegar birtir skyndilega til í rigningu eða þungbúnu veðri, en vitað er að það muni ekki standa lengi; ótrygg sólarglenna. „Þetta er bara svikaglenna“.
Svikahrappur / Svikari (n, kk) Svikull maður; sá sem bregst heiðarleika/loforðum/einlægni.
Svikalaust (l) Án undanbragða; með sóma; fullkomlega. „Hann gerða það alveg svikalaust“.
Svikalogn (n, hk) Ótraust veðurútlit; hætt við að hvessi. Oft getur lægt tímabundið en hvesst svo um munar stuttu síðar, t.d. þegar lægðarmiðja fer yfir. Glöggir veðurspámenn kunnu að greina svikalogn frá gæftum.
Svikka (s) Svigna; sveigjast til. „Það þarf að styrkja bitann, hann svikkar dálítið undan þunganum“
Sviklaust (l) Ákveðið; án undanbragða; skammlaust; svikalaust. „Hann skilaði sínu verki alveg sviklaust“.
Svikalogn (n, hk) Logn sem ekki er hægt að treysta á að haldist; viðsjárvert veður, þar sem hvesst getur mjög skyndilega; logn í miðju djúprar lægðar. „Ég er hræddur um að þetta sé bara svikalogn; hann á eftir að hvessa verulega úr hinni áttinni eftir smátíma“.
Svikamylla (n, kvk) Óheiðarleg aðferð; leikflétta byggð á undirferli. Vísar til leikgildru í teningaspilinu myllu.
Svikinn (l) Beittur brögðum/svikum; hlunnfarinn. „Ég er óhress með að vera svikinn um þetta“.
Svikk (n, hk) Eftirgjöf; sveigja; veikleiki. „Ég setti stoð undir miðja brúna til að ekki væri svikk á henni“.
Sviklaust (l) Fullum fetum; án þess að um svik sé að ræða. „Ég get sviklaust haldið þessu fram, því þetta veit ég uppá hár“!
Svikóttur (l) Sem svíkur; ekki traustur. „Við vorum oftast hundlaus því Urta sem pabbi átti var bæði löt og svikótt“ (IG; Æskuminningar).
Svikull (l) Viðsjárverður; hættir til að svíkja/bregðast. „Varaðu þig á árbakkanum hann getur verið svikull“.
Svikull er sjávar afli (orðatiltæki) Sjá svipull er sjávar afli.
Svil (n, hk, fto) Sæðiskirtlar/sæði karlfisks. Svil eru hvít og oft áberandi í kviði karlfiska. Ekki er vitað til að svil væru höfð til matar í Kollsvík, líkt og annarsstaðar mun hafa borið við; heldur voru þau nýtt ásamt öðrum ræksnum til fóðurs og áburðar á tún.
Svili (n, kk) Maður sem er kvæntur systur konu tiltekins manns. Svilar eru menn sem kvæntir eru systrum.
Svilkona (n, kvk) Kona sem kvænt er bróður eiginmanns tiltekinnar konu. Svilkonur eru kvæntar bræðrum.
Svima (s) A. Sundla; fá yfir höfuðið; fá svimatilfinningu. „Mig svimaði dálítið þegar ég leit framaf brúninni“. B. Fara rólega; svifa. „Mér sýnist að þokan sé eitthvað að svima frá“
Svima frá (orðtak) Líða frá (um þoku). „Þokan svimaði frá eitt augnablik svo ég grillti í land“.
Svimagjarnt (l) Hættir til að svima/sundla. „Mér verður oft svimagjarnt, sérstaklega í háum húsum“.
Svimi (n, kk) Sundl; jafnvægisleysistilfinning; ringl. „Hann sagðist finna til nokkurs svima“
Svipa til (orðtak) Líkjast; minna á. „Þessari veðráttu svipar til þeirrar sem var á sama tíma í fyrra“.
Svipaður (l) Líkur; nærri eins. „Þeir eru svipaðir að stærð“. „Ég er svipaður til heilsunnar og í gær“.
Svipbrigði (n, hk, fto) Breytingar á andlitssvip sem lýsa tilfinningum.
Svipillur (l) Illur/reiður/ófrýnn á svipinn. „Fyrsti desember rann upp; þungbúinn og svipillur“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Sviplegt (l) Ógnvænlegt; sorglegt. Einkum í síðari merkingunni í seinni tíð. „Þetta var sviplegt slys“.
Svipljótur (l) Illilegur; ófrýnn. „Hann sat þegjandi undir þessum lestri, en var orðinn fremur svipljótur“.
Svipmikill (l) Með sterk svipbigðaeinkenni/persónueinkenni í andliti.
Svipmót (n, hk) A. Svipur; yfirbragð. „Hér er allt með sama svipmóti og verið hefur“. „Eins og sagt hefur verið lá Kollsvíkin gegnt opnu hafi. Svipmót hennar var bæði blítt og strítt“ (KJK; Kollsvíkurver). B. Viðleitni; ummerki. „Ég sé ekkert svipmót á því að rigningin sé að minnka“. Sjá einnig litmót.
Svippa (s) Taka öll spilin úr borði í kasínu. „Nú geturdu svippað“.
Svipstund (n, kvk) Snöggur/stuttur tími; augnablik. „Þetta gerðist allt á svipstundu“.
Svipta (s) Sveifla; gera með sveiflu/ í fljótheitum.
Svipta (einhvern) (s) Hirða af einhverjum; taka frá einhverjum. „Augað liggur úti á kinn/ öllu sviptur ljósi;/ karl í helli æðir inn,/ er þar fyrir Rósi“ (JR; Rósarímur).
Sviptir (n, kk) Skaði; missir. „Mörgum fannst verulegur sviptir af honum úr hreppsnefndinni“.
Sviptivindur (n, kk) Vindhviða; vindsveipur; hvirfilbylur.
Sviptivindasamt (l) Hætta á sviptivindum/ miklum vindhviðum.
Svipull (l) Ótryggur; sem sést rétt í svip; hverfull. „Lífsgæfan er oft svipul“. Stofnskylt sögninni að svipta og sveipa/svipta burt.
Svipull/svikull er sjávar afli (orðatiltæki) Notað um það sem er erfitt að treysta á/ reikna út. Líkingin vísar til þess að veiði er alltaf ótrygg (svipul) þó haldið sé til veiða.
Svipur (n, kk) A. Svipmót; andlitsfall. „Hann ber mikinn svip af sínu föðurfólki“. „Ekki líst mér á svipinn á karlinum núna“! B. Draugur; afturganga. C. Snögg hreyfing; andrá, sbr rétt í svip.
Svipur af sjálfum sér (orðtak) Líkingamál um hrörnun/visnun/rýrnun; eingöngu notuð með neitandi orði framanvið (ekki/varla). „Byggðin í hreppnum er ekki nema svipur af sjálfum sér, nú á dögum“.
Svirgull (n, kk) Það sem er sverara og óliðugra en eðlilegt/æskilegt er. „Þið notið þennan kaðal ekki fyrir bjargvað; þetta er alltof óþjáll svirgull í slíkt“.
Svirgulslegur (l) Um band; grip; mann o.fl: Sver; luralegur; óþjáll. „Kaðallinn er of svirgulslegur í þetta“.
Svita sig (orðtak) Gera sig sveittan. „Það er óráðlegt að svita sig mikið í svona frosti“.
Svitabað / Svitakóf (n, hk) Mikill sviti . „Við vorum í svitabaði í sólarhitanum þarna á Stígnum“.
Svitadropi (n, kk) Dálítill sviti. „Það kostaði ófáa svitadropana að koma eggjunum á brún“.
Svitastorka (n, kvk) Uppþornaður sviti og óhreinindi. „Ég held ég verði að þvo af mér mestu svitastorkuna“.
Svía (s) Um verk/tak; minnka; mildast; linast: „Mér svíaði dálítið við að stungið var á kýlinu“. „Honum svíðaði þegar frá leið“.
Svíða (s) A. Brenna/kola að utanverðu. „Ég sveið hausa en hún skóf öskuna“. B. Verkja vegna sviða/bruna. „Mig svíður dálítið í fingurinn“.
Svíða (eitthvað) í augum (orðtak) Ógna eitthvað; þykja eitthvað yfirdrifið/ósvífið. „Mér svíður það í augum að sjá flekkinn rigna svona flatan. Helvíti að ná þessu ekki saman fyrir rigninguna“! Sjá blæða í augum.
Svíða sárlega/sárt (orðtak) Finna mikið til; líða illa yfir. „Mig svíður það sárast að missa þennan ágæta vasahníf“.
Svíðingsháttur (n, kk) Nirfilsháttur; níska; óþverraháttur; ruddaskapur. „Mér finnst það árans svíðingsháttur að ætla að hýrudraga þá fyrir þetta óviljaverk“!
Svíðingslegur (l) Níðingslegur; óbilgjarn; ósanngjarn. „Ósköp finnst mér hann svíðingslegur í garð sinna nánustu ættingja; að hafa af þeim jörðina með þessu móti“.
Svíðingur (n, kk) Nirfill; maurapúki; nánös.
Svífa (s) A. Um fugl; haldast á flugi með rennsli, án þess að blaka vængjum. B. Um bát/siglingu; snúast skyndilega og leggjast flatur fyrir báru, t.d. vegna þess að ár hefur brotnað. (heimildir; ÓETh og Snæbjörn Kr. í Hergilsey).
Svífa á (orðtak) Um áfengi; farið að hafa áhrif á líðan/hegðun manns. „Eftir tvö glös var farið að svífa töluvert á karlinn, og hann barinn að raula ættjarðarljóðin“.
Svífast einskis (orðtak) Hlífa engu; hafa einbeittan illvilja. „Passaðu þig á götunum þarna úti; þar eru víst til bévítans þorparar sem svífast einskis“.
Svíkja í tryggðum (orðtak) Bregðast trúnaði/trausti/vináttu; slíta trúlofun. „Grunur leikur á að hann hafi svikið sinn flokk í tryggðum að þessu sinni“.
Svíkja lit (orðtak) Í spilamennsku; spila ekki út spili af réttum lit þegar svo skal gert. Einnig notað í afleiddri merkingu um það þegar menn skerast úr hópi sem þeim er ætlað að tilheyra.
Svíkjast frá (orðtak) Laumast frá í óleyfi. „Hún notaði fyrsta tækifæri til að svíkjast frá okkur, svo við urðum að gelta eins og hundar“ (IG; Æskuminningar).
Svíkjast um (orðtak) Standa ekki við þó lofað/áskilið sé. „Hann ætlar alveg að svíkjast um að skila þessu, eins og hann þó lofaði statt og stöðugt“!
Svína út (orðtak) Ata; skíta út; óhreinka. „Halabandið hafði losnað og kvígan búin að svína út allt fjósið“!
Svínala (s) Ala/fóðra vel; hafa í góðu eldi. „Það þýðir ekkert að svínala hrútana svona ef þeir eiga að gagnast um fengitímann“!
Svínabesti (n, hk) Óþverri; óþokki; ræfill. „Skildi hann hliðið eftir opið; svínabestið atarna“!
Svínbinda (s) Reyra óhóflega. „Það er óþarft að svínbinda þetta þannig að ekki sé hægt að leysa það aftur“.
Svínarí (n, hk) Óþrif; at; mikill skítur; það sem er óþrifalegt; það sem unnið hefur verið með óvönduðum/óheiðarlegum aðferðum. „Þetta kalla ég nú bara svínarí“!
Svínastía (n, kvk) A. Stía sem svín eru höfð í. B. Líkingamál um óþrifalegan stað.
Svínfiskur / Svínhvalur / Svínhveli (n, kk/hk) A. Einn af fjölmörgum illfiskum sem fyrrum var trúað að byggju í hafinu og biðu færis að ráðast á báta og menn. Var það eitt sjóvíti af mörgum. Af sögnum að dæma virðist ótti við þessar þjóðsagnaverur hafa verið útbreiddur og jafnvel meiri en við stórsjó og illviðri. Stranglega var bannað að nefna hval á nafn, því með því væri kallað á illhveli. Því urðu til ýmis leyniheiti. Í byrjun hefur svínfiskur líklega verið eitt þeirra, en síðar varð það eitt bannheitanna. B. Á síðari tímum var heitið svínhvalur notað meðal fræðimanna yfir tannhvalstegund sem enn síðar nefndist marsvín.
Svínslega (ao) Níðingslega; mjög; illbærilega. „Honum fannst þetta svínslega þungt próf“
Svíradigur (l) Með sveran háls/svíra. „Hann var áberandi herðabreiður og svíradigur; heljarmenni að burðum“.
Svíri (n, kk) Háls. Sjá harðsvíraður; svíradigur.
Svíun (n, kvk) Linun; rénun; bætt líðan. „Það er nú dálítil svíun í að hinir féllu líka á prófinu“.
Svívirða / Svívirðing (n, kvk) Mikil hneysa/skömm/óvirðing. „Svonalagað má alls ekki viðgangast; þetta er alger svívirða“! Svi- er neitandi forskeyti, skylt svei; sveigja; svigi.
Svívirða (s) Vanvirða; smána; vanhelga.
Svívirðilega (ao) Skammarlega; óheyrilega. „Mér finnst verðið á þessu svívirðilega hátt“!
Svívirðilegur (l) Auvirðilegur; lítilmótlegur; hræðilegur. „Honum fannst þetta svívirðilegar álögur“.
Svívirtur (l) Vanhelgaður; lítilsvirtur.
Svo (ao) A. Sem burðarorð í lýsingum; það. „Brimrótið var svo mikið að ekki voru tiltök að lenda“. B. Það; svona; þannig. „Svo er sagt að þarna hafi í fyrndinni staðið bær“. „Svo var um þá Jón Thoroddsen í Kvígindisdal og Þórarinn Bjarnason á Grundabökkum, að þeir fóru báðir heim til sín um helgi og skyldi róið seinnipart sunnudags“ (ÖG; glefsur og minningabrot). C. Siðar; síðan. „Síðar var svo lagður sími á Rauðasand“ (ÖG; Slysavarnadeildin Bræðrabandið). D. Í niðurstöðu/spurningu: „Svo þú heldur að þú getir aðstoðað mig á morgun“?
Svo að segja (orðtak) Hér um bil; nærri því; til þess að gera. „Tankurinn er svo að segja fullur“.
Svo af guði gerður/skaptur (orðtak) Þannig innrættur; þannig skapi farinn. „Ég er svo af guði gerður að ég nenni ekki að kífa um smámuni“.
Svo aftur (orðtak) Hinsvegar; aftur á móti. „Það er klárt mál að þessar kindur voru í réttinni í gær. Svo aftur veit ég ekki hvort þær fóru með rekstrinum norður“. „Hann lofaði að koma flöskunni til skila; en svo er það aftur önnur saga hvenær af því verður“.
Svo á að heita / Svo er látið/sagt (orðtök) Sagt er; haft er fyrir satt; menn segja. „Svo átti að heita að ég væri formaður félagsins“. „Kollur braut skip sitt á Arnarboða; eða svo er að minnsta kosti sagt“.
Svo bilar hugur sem dugur (orðatiltæki) Menn verða oft ragir með aldrinum, um leið og getan minnkar. Einnig notað þegar einhverjum blöskrar hugleysi annarra.
Svo bregðast krosstré sem önnur tré (orðatiltæki) Hið sterkasta/öflugasta getur einnig brugðist/bilað/ látið undan. Vísar til þess að jafnvel viður úr Krists krossi, eða eftirlíking hans, getur látið undan; hversu trúaðir sem menn eru á ágæti hans. Sjá krosstré.
Svo ekki sé minnst á (orðtak) Að ógleymdu; nauðsynlegt er að nefna/ muna eftir. „Það hafðist fyrir harðfylgi smalanna að ná fénu í rétt; svo ekki sé minnst á litla stubbinn sem stóð fyrir“.
Svo er að sjá (orðtak) Það lítur þannig út; svo virðist. „Svo er að sjá að þarna hafi engin kind komið“.
Svo er margt sinnið sem skinnið (orðatiltæki) Menn eru ein misjafnir og þeir eru margir. Mikið notað.
Svo er sagt (orðtak) Það segir almannarómur; ég heyrði það svona; svo segir sagan. „Það ku víst vera barn á leiðinni hjá þeim; eða svo er sagt; ekki veit égðað“! Nokkuð mikið notað meðan enn voru sagðar kjarngóðar slúðursögur í Rauðasandshreppi, og þá gjarnan með tilvitnaðri viðbót.
Svo ergist hver sem hann eldist (orðatiltæki) Vísar til þess að á efri árum er stundum minni þolinmæði og leikgleði í mönnum; elli og sjúkdómar geta kallað fram ergelsi og kvartanir. Spekin kemur m.a. fyrir í Færeyingasögu og er þar talin forn. Brugðið upp af Kollsvíkingum til þessa dags.
Svo fór / Svo fóru leikar (orðtök) Þannig lauk atburðarrásinni; það endaði svo. „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum“ (PG; Veðmálið).
Svo flýgur hver sem hann er fjaðraður ( orðatiltæki) Fugl flýgur eins og útlit hans ber með sér. Sama líking gildir um mannsekjur; geta þeirra er misjöfn og svo verður einnig um verk þeirra og störf.
Svo fremi (að) (orðtak) Að því marki; svo framarlega; með því skilyrði. „Féð er allt komið heim að húsum, svo fremi ég veit“. „Ég mun koma; svo fremi ég verði enn tórandi“.
Svo getur heimskur spurt að enginn viti svarið (orðatiltæki) Til eru þær spurningar sem engin svör eru við.
Svo gott / Svo vel (orðtök) „Það er ekki svo gott að tunnan haldi vatni“. „Ekki býrðu svo vel að þú getir lánað mér saltlúku þar til ég fer næst á Eyrar“?
Svo gott sem / Svogottsem (orðtak) Hér um bil; samasem; nærri því; að kalla; svo nær sem; má heita; nærri lagi. „Hálsinn er svo gott sem ófær“. Oft framborið eins og eitt orð væri, og ætti því e.t.v. að skrifast þannig. „Litla gryfjan er svogottsem full“.
Svo grenja grísir sem gömul svín (orðatiltæki) Hinir yngri stagla oft það sama og þeir lærðu af þeim eldri, eins og sjá má t.d. af ungliðum í gömlum stjórnmálaflokkum.
Svo heimskur að það þornar ekki úr honum hlandið (orðtak) Niðrandi ummæli um frámunalega heimskan mann. Var nokkuð tiltækt sumum Kollsvíkingum þegar hneykslast þurfti á vitgrönnum mönnum.
Svo ku vera / Það er víst (orðatiltæki) Notað sem andsvar og þýðir nokkurnvegin það sama og „já“.
Svo langt sem augað eygir (orðtak) Eins langt og séð verður. „Íshröngl var á sjónum til norðurs; svo langt sem augað eygði“.
Svo langt sem ég veit (til) (orðtak) Að því er ég best veit; samkvæmt minni vitneskju; samkvæmt mínu minni. „Þetta hefur ekki skeð áður, svo langt sem ég veit til“.
Svo langt sem það nær (orðtak) Eins og það dugir til; með sínum takmörkunum. „Ég endurnýtti hleðslugrjótið við uppbygginguna, svo langt sem það náði; en nokkra viðbót þurfti til að ljúka við vegginn“.
Svo (lengi) lærir sem lifir (orðatiltæki) Þessi speki er sígild og sönn, og oft var gripið til hennar af Kollsvíkingum; líklega ekki síst þegar nýjungar héldu innreið sína á tækniöld.
Svo lengi má keipa/sarga að einn fáist (orðatiltæki) Vísar til þess að oftast fæst einn fiskur ef nógu lengi er skakað/reynt. Yfirfært á marga hluti, t.d. það að ef nöldrað er nógu lengi þá gæti hinn látið undan.
Svo lengi sem (orðtak) Eins lengi og; eins langt og nær. „Ég held áfram að berjast fyrir þessu málefni svo lengi sem ég lifi og held fullum sönsum.
Svo má vondu venjast að gott þyki (orðatiltæki) Unnt er að venjast/aðlagast furðu mörgu, jafnvel því sem við fyrstu reynslu þykir afleitt og fráhrindandi.
Svo mörg voru þau orð (orðtatiltæki) Þannig hljóðaði það; þannig var þetta sagt. Stundum viðhaft sem viðkvæði þegar t.d. einhver hefur sagt eitthvað sem öðrum kemur á óvart eða þykir ótrúlegt.
Svo verður hver að liggja sem hann hefur um sig búið (orðatiltæki) Hver er sinnar gæfu smiður; menn verða að búa við þær aðstæður sem þeir hafa skapað sér.
Svo (lengi) má brýna deigt járn að bíti (orðatiltæki) Oftast notað um það að jafnvel friðsömustu menn geta orðið skeinuhættir ef mikið er að þeim þjarmað.
Svo má sveigja bogann að hann bresti (orðatiltæki) Notað í líkingamáli um það að menn geta farið yfir mörkin í einhverju tilliti. T.d. er skyld líking að „spenna bogann of hátt“ þegar menn okra í viðskiptum.
Svo má illu venjast að gott þyki (orðatiltæki) Með þessum orðum hafa menn trúlega oft sætt sig við það sem ekki hefði þótt mannsæmandi í nútímaþjóðfélagi. Oft vitnað til í Kollsvík.
Svo má kerið fylla að útúr flói (orðatiltæki) Öllu má ofgera. Mikið notað í líkingamáli.
Svo má leiður ljúga að ljúfur verði að trúa (orðatiltæki) Svo sennilega getur skúrkurinn logið að hinn hrekklausi/einfaldi trúi því.
Svo má lengi keipa að einn fáist (orðatiltæki) Alltaf er von um einn (fisk). Keipa merkir að skaka færi í sjó.
Svo mikið er víst (orðtak) Áherslusening til að fylgja eftir fullyrðingu. „Ég skal ekki segja hvort búið sé að hreinsmala Bjargið, en Stígurinn er fjárlaus; svo mikið er víst“.
Svo nær/næst sem (orðtak) Mikiðstil; nærri því; nær alveg; svo gott sem. „Það vildi til að fatan var svo nær sem tóm þegar kálfurinn hellti henni niður“.
Svo og svo (orðtak) Með ýmsu móti. „Aflinn gat verið svo og svo mikill hverju sinni, en fyrirhöfnin var alltaf mikil“. „Hann þóttist hafa séð svo og svo margar kindur, en ég held að hann hafi ekkert fundið þarna“.
Svo orð sé á gerandi/hafandi (orðtak) Sem vert er að nefna; verulega. „Ekki var skipið beinlínis veikbyggt svo orð væri á gerandi, en sterkt var það heldur ekki“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Svo rætist hver draumur sem hann er ráðinn (orðtak) Drauma og ýmislegt fleira er oft unnt að útleggja og skýra á þann hátt sem henta þykir. Misjafnt var í Kollsvík sem annarsstaðar hve mikið mark var tekið á draumum, en til var fólk, og er enn, sem dreymir spádrauma sem furðu oft rætast. En á hverjum tíma eru þeir einnig til sem taka slíkt af mestu vantrú og kalla kerlingabækur; segja; „ekki er mark að draumum“.
Svo segir sagan (orðtak) Svo er sagt; það er fólk að segja; þannig er slúðrað. „Það gengur víst upp og niður með samlyndið á þeim bæ; eða svo segir sagan, ekkiveitég´ða“!
Svo sem / Svosem (orðtak/ ao) Líkt og; í líkingu við; nokkurnvegin. „Gefðu mér svo sem hálfan bolla“. „Ég get svosem gert þetta fyrir þig“.
Svo skal böl bæta að bíði ei annað meira (orðatiltæki) Úrbætur skulu gerðar þannig að þær valdi ekki meiri skaða.
Svo/eins talar barn sem á bæ er títt (orðtak) Börn eru fljót að læra og taka vel eftir. Þau segja gjarnan og hafa eftir það sem talað er í kringum þau, og getur það þá verið eftirtektarvert á öðrum bæjum.
Svo um munar (orðtak) Rækilega; mikið; svo mikil breyting sé á. „Hann hefur lægt svo um munar“.
Svo uppsker hver sem hann sáir / Svo uppsker hver sem til er sáð (orðatiltæki) Menn njóta þess árangurs sem þeir hafa undirbúið, hvort sem hann er góður eða slæmur. Iðulega viðhaft þegar árangur sýnir að illa hefur verið staðið að verki; t.d. afli skemmist vegna vansöltunar eða fé magurt eftir slæma fóðrun.
Svo var ekki meira með það (orðtak) Ein aðferð sögumanns til að ljúka frásögn. „Svo var nú ekki meira með það; Björgvin gaf mér allan aflann, sem voru átta fiskar og einn ufsi! “ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Svo vel sé (orðtak) Með góðu móti. „Þetta er einn aflraunasteinninn og heitir Klofi. Er sá vel baggatækur sem lyftir honum svo vel sé“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra“.
Svo verður að segja hverja sögu eins og hún gengur til (orðatiltæki) Frásögnin verður að njóta sannleikans, þó ekki séu allir sáttir við að heyra hann. Einnig; sannleikurinn er sagna bestur.
Svo verður hesturinn sem hann er hafður (orðtatiltæki) Speki sem vísar til hins sama og að menn uppskeri sem menn sái. T.d. mótar uppeldið börn; fóðrunin afuðir búsmalans o.þ.h.
Svo öllu sé til skila haldið (orðtak) Þannig að grein sé gerð fyrir öllu; þannig að allt komist til skila.
Svoddan (ao) Þannig; svonalagað; þvílíkt; slíkt. „Hann ræður ekkert við byrðina; þetta er svoddan veimiltíta“. „Vertu nú ekki að þakka fyrir meðlætið; þetta var svoddan óvera“.
Svofelldur / Svohljóðandi / Svolátandi (l) Sem hljóðar þannig/svo. „Skilaði nefndin svofelldu áliti…“ „Fundurinn samþykkti svolátandi tillögu í málinu…“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). „
Svokallaður / Svonefndur (l) Nefndur svo/ því nafni. „Við rerum norður á Bætur, svokallaðar“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Svoladrumbur / Svolahnyðja / Svolatré (n, kk/kvk/hk) Svert og mikið rekatré. Drumbur á við fremur stutt tré og hnyðja á við trjárót eða tré með mikla rót.
Svolalegur (l) Grófgerður; stór; risavaxinn; ógnvænlegur. „Mér fannst karlinn æði gustmikill og svolalegur“.
Svolamenni (n, hk) Ruddi; rusti; grófgerður/hrikalegur maður.
Svolátandi (l) Þannig; með þeim hætti; svoleiðis. „Hann talaði svolátandi að hann væri þessu samþykkur“.
Svoleiðis (ao) Þannig; á þann veg; þanniglagað. Notað á margan hátt, t.d. inni í setningu: „Ég þekki lítið til svoleiðis hluta“. Einnig oft notað í enda setningar til að leggja áherslu á vafa: „Hann hefur verið við þokkalega heilsu upp á síðkastið; eða svoleiðis“ (áhersla á miðatkvæðinu; „leið“). Einnig stakt sem andsvar til að lýsa skilningi: „Svoleiðis“ (áherslan á upphafsatkvæðinu). Þá er það notað til að auka áherslu; „Hann var kveðinn svoleiðis í kútinn með þetta mál, að hann nefnir það varla aftur á næstunni“. Og sem nafnorðsígildi: „Hvað skyldi svoleiðis kosta“?
Svoleiðis er (orðtak) Þannig er málum háttað; þannig liggur í hlutunum. Notað í upphafi frásagnar: „Ég þarf að bera nokkuð undir þitt álit: Svoleiðist er að …..“. Einnig í enda andsvars til að lýsa skilningi. „Ég er þá ekkert að ónáða hann, fyrst svoleiðis er“.
Svoleiðis/þannig lagað og litt (orðtak) Þannig liggur í málinu; þannig er málið vaxið. Oftast notað sem andsvar sem gefur til kynna að menn skilji hvernig í málinu liggur.
Svolgra / Svolgra í sig (s/orðtak) Þamba; drekka hratt og mikið. „Ég svolgraði í mig nýmjólkina í einum teig“.
Svoli (n, kk) Sá sem er sver/hrikalegur/ógnarstór. „Nautið var heljarmikill rauðusr svoli“.
Svolítill (l) Ofurlítill; pínulítill; agnarsmár; örlítill. „Gefðu mér svolitla sykurlús í kaffið“.
Svona (ao) Þannig; svo. Oft notað sem nokkurskonar hikorð. „Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum: „Heyrðu Gummi! Komdu og líttu á þennan: Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“? (PG; Veðmálið).
Svona eiga menn að vera / Svona eiga sýslumenn að vera! (orðatiltæki) Upphrópun í aðdáun, oftast yfir rausnarskap einhvers. „Kemur hann ekki með vindla! Þetta kann ég við; svona eiga sýslumenn að vera“! Upphaflega úr leikverkinu Útilegumenn eftir Matthías Jochumsson, um viðbrögð Lárenzíusar sýslumanns.
Svona fór um sjóferð þá (orðatiltæki) Svona endaði þetta; þetta fór ekki vel. „Svona fór um sjóferð þá; hefðirðu farið að mínum ráðum og keðjað bílinn, þá væri bíllinn kannski á báðum hjólunum ennþá“!
Svona og svona (orðtak) Upp og ofan; allavega; vel og illa; fremur illa. „Honum gekk svona og svona á prófunum, en náði þó lágmarkseinkunn“. „Aflinn hefur verið svona og svona“.
Svogottsem (ao) Nærri því; hérumbil; eins og sé alveg. „Tunnan var svogottsem full, svo ég pæklaði hana og sló lokið á“. „Þetta er undrameðal; ég var svogottsem dauður þegar þeir helltu því í mig“.
Svohljóðandi (l) Sem hljóðar þannig; þannig skrifað/sagt. „Tillaga kom fram svohljóðandi og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum: … “ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Svonalagað (l) Svona; þannig; svoddan; slíkt. Svonalagað kjaftæði vil ég ekki heyra“! Sjá þanniglagað.
Svonefndur (ao) Þannig látinn heita; þannig sagður; nefndur því nafni. „Þessi svonefndi hóll er nú lítið annað en hundaþúfa“.
Svosem (orðtak) Hikorð; þannig; eins og. „Ég get svosem gert þetta fyrir þig“. „Þetta er svosem ekkert sár“
Svunta (n, kvk) A. Klæði sem borið er framaná sér til að hlífa fötum þegar unnið er. Einkum hefur svuntan verið borin af konum við matseld. B. Lítil landspilda, t.d. skák í túni. Svunta var líklega eldra nafn á örnefninu Flöt; sléttu svæði ofan núverandi Láganúpsbæjar. Þar framaf var Svuntumýri sem nú hefur veið ræst fram og er horfin undir sléttur. C. Maríusvunta er grænþörungur á grunnsævi (sjá þar). Maríusvunta er einnig nafn á himnu í þorskhaus; sem nefnist einnig kisa.
Svuntubleðill / Svuntutuska (n, kk/kvk) Gæluheiti á svuntu sem borin er við verk/matseld.
Svuntuvasi (n, kk) Vasi á svuntu. „Oftast bar þetta tilætlaðan árangur, og kom þá gamla konan með eitthvað gott í svuntuvasa sínum og gaf okkur“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Svæði (n, hk) Landspilda; yfirborð; blettur. „Þetta svæði er alveg ósmalað enn“. Stofnskilt „svið“.
Svæfilver (n, hk) Koddaver. „Stelpur voru látnar æfa sig í að sauma út, strax og þær gátu haldið á nál (ca 7-9 ára), og þá byrja að sauma kontorsting og gjarnan í svæfilver“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Svækja (n, kvk) Hiti og raki. „Óttaleg svækja er núna í fjárhúsunum“. Það var hitasvækja niðri í bjarginu“.
Svækjuhiti (n, kk) Mikill hiti í röku lofti. „Skelfing er þessi svækjuhiti leiðinlegur þegar maður er í puði“.
Svæla (n, kvk) Stybba; þungt loft; mikill reykur. „Mikla svælu lagði frá bálinu“.
Svæla (s) A. Reykja. „Pípureykingamönnum þótti lítið til þess koma ef þeir þurftu að svæla sígarettur“. B. Reka út með reyk. „Okkur tókst að svæla tófuna úr greninu“. C. Sölsa undir sig; fá með prettum. „Honum tókst að svæla lambhrútinn útúr karlinum“. Oftar þó notað „særa út“ í sömu merkingu.
Svæla í sig (orðtak) Borða þó ekki þyki það gott. „Það má alveg svæla þessum pissulufsum í sig í harðindum, en ekki vildi ég þurfa að lifa á þessum fjanda langtímum saman“.
Svæla út (orðtak) Hrekja út með reyk. „Yrðlingarnir voru svældir út eftir að bæði dýrin höfðu náðst.
Svæsinn (l) Ákafur; ofsafenginn; erfiður; harður. Einkum notað um veikindi, en einnig um veðurfar; gróft orðalag og harðan atgang. „Lungnabólgan varð ansi svæsin“. „Hann gerði all svæsið norðanáhlaup“. „Ég sit ekki undir svona svæsnum aðdróttunum“!
Svöðusár (n, kvk) Mikið sár. „Þetta var reyndar ekkert svöðusár, en það blæddi töluvert“.
Svöðuskurður (n, kk) Djúpt/mikið skurðsár. „En á leiðinni dettur hann og sker sig svöðurskurð, þvert yfir lófann“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Svölun (n, kvk) A. Kæling. Sjaldan í þeirri merkingu. B. Hugarhægð. „Hann má alveg hafa þessa trú ef honum er einhver svölun í því, en þetta er ekkert nema hindurvitni“.
Svörður (n, kk) Grasrót; torf. „Hann liggur á grúfu, með hendurnar grafnar niður í svörðinn, en fætur fram á brún“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). Sumsstaðar þurfti að nýta svörð til eldiviðar áðurfyrr, en í Kollsvík var gnægð af mó og fjörumori til slíks.
Svörugur (l) Kjaftfor; svarar fullum hálsi. „Henni fannst strákurinn vera svörugur og ókurteis“.
Syfja (n, kvk) Þreyta; svefnlöngun; dos. „Óskaplega sækir á mig syfja, allt í einu“. „Seggur nú af syfju frí/ sínu ráði hastar:/ Hellisbúans eina í/ auga hnútu kastar“ (JR; Rósarímur).
Syfja (n, kvk) Þörf fyrir svefn; hneigð til svefns. „Ansi sækir nú að mér syfja allt í einu“.
Syfja (s) Verða svefnþurfi/þreyttur. „Mig er farið að syfja dálítið; ætli ég fari ekki að draga mig í háttinn“.
Syfjaður (l) Þurfandi fyrir svefn; með löngun í svefn. „Við vorum orðnit þreyttir og syfjaðir“.
Syfjulega (ao) Þreytulega; með syfju. „Hann sagði þetta fremur syfjulega og áhugalaust“.
Syfjulegur (l) Þreytulegur; svefndrukkinn. „Skelfing ertu nú orðinn þreytulegur, enda ekki furða“.
Sykur (n) Sætt, hvítt, kornótt efni. Algengara var að hafa heitið í hvorugkyni, en nú er það eingöngu í karlkyni „Farið sparlega með sykrið á pönnukökurnar strákar; ég fer að verða dálítið tæp af því“. „Ekki má vanta í þetta sykurinn“.
Sykurkassi (n, kk) Kassi með/undan molasykri. Molasykur var fyrrum seldur í þykkum 50 punda pappakössum. Algengt var að hvert heimili keypti slíkan kassa í einu, enda var molakaffi mikið drukkið.
Sykurlella (n, kvk) Sykurleðja; bleyttur sykur. „Settu nú ekki meira sykur útí; þetta er ekkert nema sykurlella“!
Sykurlús / Sykurkorn / Sykurögn (n, kvk/hk) Lítill skammtur af sykri. „Áttu nokkuð sykurkorn handa mér. útí kaffið“? „Mér finnst gott að hafa dálitla sykurlús útí tesopann“.
Sykurmoli (n, kk) Molasykursmoli. „Gefðu mér nú tvo sykurmola útí kaffið“.
Sykursalta (s) Salta með blöndu salts og sykurs. Þannig er gjarnan saltað bæði kjöt og fiskur (síld).
Sykurtöng (n, kvk) Sérstök töng til að klípa í sundur sykur/kandís. „Réttu mér sykurtöngina; ég skal ná í sundur kandísmolanum fyrir ykkur“.
Sykurvatn (n, hk) A. Sykrað/sætt vatn. B. Niðrandi heiti á gosdrykkjum, einkanlega í fyrstu.
Sylla (n, kvk) A. Hilla; grasgangur/klettasylla í bjargi/klettum. „Þarna niðri á syllunni er ansi þétt varp“. B. Láréttur biti í húsgrind; lausholt; vegglægja; brúnás.
Syllubrík / Sylluskák (n, kvk) Mjó sylla í bjargi. „Maður losar sig ekkert úr spotta á þessari syllubrík“. „Það var furðu mikið varp á sylluskákinni“.
Syllubrún (n, kvk) Frambrún á syllu/hillu í bjargi. „Stígðu varlega á syllubrúnina; hún er laus í sér“!
Synd (n, kvk) Yfirsjón; brot á réttri hegðun. Orðið er gamalt í málinu og kenningar ekki samhljóða um uppruna þess. Líklegt er að það sé samstofna „sundur“ og vísi til útlegðar þess sem brotið hefur af sér.
Synda (s) Hreyfa útlimi og skrokk taktfast og markvisst í vatni eða sjó, til að halda sér á floti og komast áfram. Sjá sund; sundkennsla.
Synd að segja (orðtak) Sjá væri synd að segja.
Synda fyrir (orðtak) Komast hjá; sleppa við. Oftast notað í líkingamáli: „Það verður ekki synt fyrir þá staðreynd að Hesthúsið er firna gamalt; þó deila megi um ártalið“.
Syndabað (n, hk) Gæluheiti á skrokkþvotti/baði. „Farðu nú að drífa þig í þitt syndabað drengur“!
Syndagjöld (n, hk, fto) Afrakstur slæmra gerða/mistaka. „Ég hefði betur rakað upp í gærkveldi; þá hefði flekkurinn ekki rignt í nótt. Það verður víst hver að bera sín syndagjöld“.
Syndajátning (n, kvk) Viðurkenning á að maður hafi syndgað/ gert rangt. „Ætli ég verði ekki að gera þá syndajátningu að ilmurinn er ættaður úr mínum búk“.
Syndaregistur (n, hk) Ímyndaður listi yfir mistök/syndir/klúður. „Enn bætist á syndaregistur þessarar ríkisstjórnar. Ekki veit ég við hvað þetta ætlar að lenda“!
Syndaselur (n, kk) Sökudólgur; ódámur. „Ætli ég sé ekki sjálfur syndaselurinn í þessu máli“.
Syndasvefn (n, kk) Djúpur/þungur svefn; allt of langur svefn. „Þvílíkur syndasvefn var þetta; ég hlýt að hafa verið orðinn nokkuð lúinn eftir hlaupin í gær“! Vísar til vinnukergju fyrri tíma, þegar þrotlaus vinna var höfuðdyggð en svefn og hvíld var nánast höfuðsynd“.
Syndga uppá náðina (orðtak) Nýta sér góðvilja; vera ágengur. „Mætti ég nokkuð syndga uppá náðina og sníkja af ykkur eina gistinótt í viðbót“? Merkir í raun að syndga í þeirri von að hljóta guðs fyrirgefningu.
Syndsamlega (ao) Mjög; yfirgengilega; blöskranlega. „Mér finnst orðið syndsamlega mikið af fé í túninu“.
Syndumhrjáður (l) Hlaðinn af misgjörðum/skammarstrikum. „Ætli maður láti ekki þessa syndumhrjáðu túnrollu fara á sláturhús núna“. „Skyldi sá syndumhrjáði flokkur fá einhver atkvæði í næstu kosningum“?
Syndur (l) Kann að synda.
Syngja (s) A. Kveða ljóð þannig að tóntegund og hljóðfall myndi áheyrilega samfellu; með eða án undirspils á hljóðfæri. Söngur er manninum eðlislægur, þó menn geri misjafnlega mikið af því. Sumir eru sífellt syngjandi, en aðrir bera það varla við. Þjóðtrúin segir að ekki megi fiskimenn syngja eða kveða við veiðiskap eða vararruðning; því fylgi ógæfa (JÁ; Þjs). B. Flytja messu.
Syngja í (orðtak) Heyrast hátt í. „Hann skellti hurðinni svo söng í, þegar hann strunsaði út í fússi“. „Ætli það eigi ekki eftir að syngja í karlinum þegar hann kemst að þessu“?
Syngja í rá og reiða (orðtak) A. Hvína í siglutré og reiða báts í miklum vindi; braka í reiða við mikil átök. B. Líkingamál um há hljóð í umhverfinu af tilteknum orsökum; bylja í. „Kerran rakst í húshornið, svo söng í rá og reiða“.
Syngja í símalínum (orðtak) Símalínur lágu milli flestra bæja í sveitum um miðbik 20. aldar, eða þar til sími var lagður í jörð og loftsamband. Þegar vindur hafði náð vissum vindstyrk, sem var nálægt roki, tóku símalínurnar að enduróma þannig að hár tónn myndaðist sem heyrðist greinilega í húsum sem þær lágu í, og einnig í nokkurri fjarlægð frá þeim á víðavangi. Þessi sérstæði söngur sveitanna er nú þagnaður.
Syngja/hvína/þjóta í tálknunum (á einhverjum) (orðtak) Hvína í; skammast. „Það söng hressilega í tálknunum á karlinum þegar hann komst að þessum hrekkjum unglinganna“. Niðrandi mannlýsing.
Syngja sitt síðasta (orðtak) Vera komin að fótum fram; á síðasta skeiði sinnar tilveru. Vísar líklega til þess að trúað fólk fer líklega oft með bænir þegar dauðastund nálgast, og hefur e.t.v. verið meira um það fyrrum; á tímum strangtrúnaðar og kaþólsku. Þegar menn syngja sitt síðasta er dauðinn stutt undan. Gjarnan notað nú á tímum um hluti sem eru að verða ónýtir. „Þessi rekuræfill fer nú að syngja sitt síðasta“.
Syngja úr hlaði (orðtak) „Á höfðingjasetrum mun það hafa tíðkast, einkum á 18. og 19. öld, að syngja menn úr hlaði og taka á móti þeim með söng. Fór þessi athöfn fram á ákveðnum stöðum á leiðinni frá eða að bænum; oftast rétt neðanvið túngarð. Söngholt voru tvö í Sauðlauksdal. Liggur Ranglátur, sandgræðslugarður Björns Halldórssonar yfir neðra söngholtið. Á báðum Söngholtunum eru leifar af mannvirki; ferstrendri vörðu eða byrgi, ca 1,5m á kant“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Syngja yfir (einhverjum) (orðtak) A. Jarða/jarðsyngja einhvern. B. Skamma einhvern mikið.
Syngjandi bólakaf (orðtak) Niður í djúpið. „Hnífurinn er kominn á syngjandi bólakaf; árans klaufaskapur“!
Syngt og heilagt (orðtak) Æ ofaní æ; sífellt; án afláts. Líkingin kann að vísa til þess að mönnum hafi leiðst hinir langdregnu söngvar og helgihald sem eitt sinn var skylda að sækja. Orðtakið var mikið notað í Kollsvík og nágrenn. „Vertu nú ekki að þessu suði drengur; syngt og heilagt“!
Syngur hver með sínu nefi (orðatiltæki) Hver maður hefur sitt orðalag og tóntegund um það sem hann vill tjá sig um.
Syngur í tálknunum á (einhverjum) (orðtak) Einhver skammast/rífst mikið. „Heldur söng í tálknunum á kerlu þegar karlinn drattaðist draugfullur heim; komið langt framyfir mjaltir“. Líking við að vera svo óðamála að munnur dugi varla til að koma málæðinu útúr sér.
Synja fyrir (orðtak) Sverja fyrir; neita; þræta fyrir. „Ekki ætla ég alveg að synja fyrir að ég komist með ykkur, ef vel gengur með hirðinguna í dag“.
Synja um (orðtak) Neita um. „Ekki synja ég þér um hnífinn, en þú bara passar þig á honum“!
Syrja (n, kvk) Seyra; sori; for. Syrjunni undan kömrum var áður ekið á tún og hún notuð sem áburður. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Syrjulitur (n, kk) Soralitur; dökkur litur. „Óttalegur syrjulitur er á vatninu núna“!
Syrpa (n, kvk) A. Safn; samfelld röð. „Við ættum að ná að vitja um alla netasyrpuna á Breiðuvíkinni í dag“. B. Um veður; óveður; éljagangur og hvassviðri um tíma.
Syrta (s) Dimma yfir. „Hann er að syrta ansi skarpt í loftið núna“. „Ári syrtir hann að, allt í einu“!
Syrta að með skúr/éli / Syrta í lofti / Syrta yfir (orðtök) Um veður; dimma að; dimma í lofti; dimma yfir.
Syrta/dökkna/sortna í álinn (orðtak) Versna í því; útlitið að versna; líta ekki vel út; þústa að. „Það syrti verulega í álinn hjá okkur þegar vélin bilaði“. Líklega vísar orðtakið til þess að vaðið sé yfir á, en litur hennar dökknar ef dýpið eykst, sem gæti þýtt það að snúa verði frá.
Systkin / Systkini (n, hk, fto) Bróðir/bræður og systir/systur. Báðar orðmyndir heyrðust í Kollsvík.
Systkinaerjur / Systkinarígur (orðtak) Ósamkomulag milli systkina.
Systkinasvipur (n, kk) Líkindi/samsvörun í útliti milli systkina. „Það er mikill systkinsvipur með þeim“.
Sytra (n, kvk) Lækur með afar litlu rennsli; vætl; seytl; sigt. „Dálítil sytra rennur stundum um Kollsvíkurtó á kafla, en hverfur alveg í miklum þurrkum“. Einnig er notuð sögnin að sytra um lítið rennsli.
Sytra (s) Vætla/renna/leka í litlu magni. „Þarna sytrar dálítið vatn úr klettinum“.
Sysífosarvinna (n, kvk) Síendurtekin vinna án enda og sýnilegs tilgangs. Líking við vinnu Sysifosar sem er þjóðsagnapersóna í grískri goðafræði. Honum voru dæmd þau örlög í undirheimum að velta sífellt níðþungum steini upp bratta brekku, en þegar á brekkubrún var náð valt steinninn niður aftur og hann þurfti að puða honum upp aftur; æ ofaní æ. „Mér finnst þetta nú hálfgerð sysífosarvinna, og alveg tilgangslaus“!
Sý / Sýg / Sýþráður (n, hk) Þráður sem felldur er í súð og rifur trébáta til þéttingar. Sýið var fyrrum úr togi, en síðar úr hampi; oftast tjargað eða þétt með öðru maki. Til skamms tíma enn notað t.d. í pípulagningum.
Sýhefill (n, kk) Hefill til að taka spor langseftir borði/skeyti í bát, svo þar megi fella í sý/sýþráð.
Sýki (n, kvk) Veiki; pest. „Einhver árans sýki er í þessum rófum núna“.
Sýkill (n, kk) Sóttkveikja; örvera sem veldur sýkingu/pest/veiki; sjúkdómsvaldur; meinvaldur. Sýkill getur verið frumdýr, sveppur, bktería, veira, bandórmur, þráðormur, agða eða liðdýr.
Sýking (n, kvk) A. Smit milli manna/dýra af veiki/pest. B. Það að bakteríur/sóttkveikjur komist í sár.
Sýkja (s) Smita; bera pest/veiki milli manna/skepna.
Sýkn / Sýkn saka (l/orðtak) Saklaus. „Núna er ég alveg sýkn saka af því að hafa stolið vasahnífnum þínum“.
Sýkna (n, kvk) Sakleysi.
Sýkna (s) Leysa undan sök; gefa upp sakir. „Brjóti nokkur þrisvar á ári getur hann sýknað sig sjálfur með því að skrifa fjelaginu afsökunarbrjef... “ (VÖe; Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps).
Sýknt og heilagt (orðtak) Alltaf; í tíma og ótíma. „Hættu nú að klifa á þessu sýknt og heilagt“. Sýkn dagur merkti fyrrum virkur/rúmhelgur dagur; dagur þegar refsingarlaust var að vinna. Því er merkingin; „bæði um virka daga og helgidaga“. (HH; Ísl. orðtakasafn). Orðtakið hefur brenglast með tímanum, og er nú málvenja að segja „signt og heilagt“, án þess að unnt sé að rökstyðja uppruna þess.
Sýla (s) Um hluti; ísa; verða klakabrynjaðir; fá á sig grýlukerti. „Þökin eru byrjuð að sýla“.
Sýlaður (l) Klakabarinn; klökugur; ísaður. „Klettarnir eru allir sýlaðir og hættulegt að klifra um þá“.
Sýling (n, kvk) A. Eyrnamark búfjár; tekinn er broddurinn af og v-laga bútur ofan af og niður í eyrað. B. Þríhyrnd úrtaka úr efni eða landsvæði. „Sjálf Skorin er sýling sem gengur inn í sjávarhamrana...“ (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).
Sýll (n, kk) Alur; nafar. „Veistu nokkuð hvað hefur orðið um sýlinn“? Sýling/sýll er líklega upphaflega heiti á fleyg eða því sem er fleygmyndað, og hefur því t.d. átt við grýlukerti. Stofnskylt heitinu „súla“.
Sýlspikaður (l) Akfeitur; mjög þéttholda. „Silungurinn var svo sýlspikaður að fellingar voru í hnakkanum“.
Sýn (n, kvk) A. Sjón. B. Það sem sést. „Þetta var kúnstugasta sýn sem ég hef nokkurntíma séð“! C. Vitrun; það sem maður þykist sjá en er ekki raunverulegt/ þessa heims.
Sýna (s) Láta sjá/skoða.
Sýna af sér (orðtak) Láta; láta í ljósi; vera með; vera í háttum; hafa í frammi. „Mér finnst hann hafa sýnt af sér vítavert kæruleysi með þessu framferði“.
Sýna af sér rögg (orðtak) Sýna framtak/dugnað; vera röskur. „Hann þarf að sýna af sér meiri rögg á þingi“.
Sýna (einhverjum) agt/virðingu (orðtak) Bera virðingu fyrir; hlýða. „Ég hef nú aldrei sýnt sýslumönnum mikla agt í þessu og ætla ekki að byrja á því á gamalsaldri“! Sjá agt.
Sýna á leið / Sýna áleiðis / Sýna í áttina (orðtök) Fylgja/vísa áleiðis; vísa í áttina; benda manni til vegar; fylgja manni á leið; fylgja fjárhóp eftir áleiðis í rétta stefnu.
Sýna á sér fararsnið (orðtak) Láta sjást að maður sé á förum; ferðbúast. „Hann sat góða stund í kaffi, en undir hádegið fór hann að sýna á sér fararsnið“.
Sýna framá (orðtak) Sannfæra; leiða í ljós; leiða fyrir sjónir. „Ég reyndi að sýna þeim framá hve arfavitlaus þessi hugmynd væri, en það var eins og að tala við grjótið“!
Sýna hvað í manni býr (orðtak) Sýna hvað maður getur. „Sýndu okkur nú hvað í þér býr og komdu steinvölunni uppá stallinn“.
Sýna hvern mann hefur að geyma (orðtak) Sýna hvernig innrætið er. „Þarna sýndi hann ágætlega hvern mann hann hefur að geyma“.
Sýna (einhverjum) í tvo heimana (orðtak) Veita ráðningu; lumbra á. „Ef ég næ á þá andskota sem skáru fyrir okkur í sjó, þá skal ég sýna þeim í tvo heimana; að mér heilum og lifandi“! Vísar til þess að hálfdrepa einhvern; þannig að hann sjái um stund inn í heim framliðinna áður en hann snýr aftur í þennan heim.
Sýna (vilja) í verki (orðtak) Leiða í ljós með verkum sínum. „Það er ekki nóg að segjast ætla að gera þetta; þú verður að sýna það í verki“!
Sýna lit/svipmót á (orðtak) Sýna viðleitni; leitast við. „Ætli maður verði ekki að sýna einhvern lit á að mæta í þessa veislu, þó ég hafi takmarkaðan áhuga á því“. „Hann hefur ekki sýnt neitt svipmót á því að klára það verk sem hann var byrjaður á“.
Sýna mótþróa (orðtak) Þumbast/þverskast/móast við; láta ekki vaða yfir sig. „Bændur hefðu vel mátt vera fleiri sem sýndu mótþróa gegn þeirri stjórnarstefnu sem lagði byggðirnar í eyði“.
Sýna sig (orðtak) Koma í ljós; birtast. „Það sýnir sig vel núna hvað þetta var nauðsynleg aðgerð“. „þð var nóg af smáfiski, en sá stóri sýndi sig ekki“.
Sýna sig að (orðtak) Vera í raun; gera; verða uppvís að. „Hann hefur ekki sýnt sig að neinu öðru en velvild í okkar garð, hvað sem líður öllum sögusögnum“.
Sýna sínar bestu hliðar (orðtak) Sýna það sem maður getur best gert.
Sýna sóma (orðtak) Bera virðingu fyrir; sýna ræktarsemi/umhyggju. „Þessari vél var lítill sómi sýndur undir lokin, og segja mátti að hún drabbaðist niður“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Sýna (einhverjum) (eitthvað) svart á hvítu (orðtak) „Hann þóttist ekki skilja þetta, svo ég ákvað að sýna honum það svart á hvítu“. Sjá sjá svart á hvítu.
Sýna (einhverjum) virðingu (orðtak) Bera virðingu fyrir; sýna auðmýkt gagnvart; taka mikið tillit til
Sýnast (s) Virðast; finnast. „Mér sýnist þetta lamb vera sjónarmun vænna“. „Ég segi bara það sem mér sýnist“!
Sýnd veiði en ekki gefin (orðtak) Ekki búið að ná, þó greint hafi verið; ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. „Það kom í ljós að tréð var sýnd veiði en ekki gefin. Það kostaði bölvað basl að bjarga þessu undan sjó“.
Sýndur (l) Farinn að sjá. „Hvolparnir voru byrjaðir að stækka, en ennþá ekki orðnir sýndir“.
Sýndarmennska (n, kvk) Uppgerð; látalæti. „Þetta er nú bara sýndarmennska í honum“.
Sýnilega (ao) Greinilega; bersýnilega. „Viðgerðin á girðingunni hefur sýnilega ekki verið nægileg“.
Sýnilegur (l) Sem sést. „Belgurinn var dökkur og illa sýnilegur í þokunni“.
Sýnishorn (n, hk) Sýniseintak; lítill hluti einhvers, ætlaður til sýnis og marks um annað. „Þetta orðasafn er einungis sýnishorn þess fjölskrúðuga málfars sem notað var í Kollsvík og nágrenni á síðari tímum“.
Sýnt um (orðtak) Fær í; hæfur til. „Hann er ágætur bóndi, en honum er ekki vel sýnt um fjármálin“.
Sýnu betri/ meiri (orðtak) Sjónarmun betri/meiri. „Það er sýnu meira í þessu glasi en hinu; þó ekki miklu“.
Sýra mat (orðtak) Láta mat súrna til að hann geymist. „Áfunum sem komu þegar strokkað var og mysunni af skyrinu var safnað í tunnu og látið súrna. Af áfunum kom þykk hvít sýra. Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið. Var hún höfð til matar; ein sér, eða höfð út á graut. Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda“ (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Sýra (n, kvk) Drukkur; mysa. „Ekki var venja að hafa mat með sér á sjóinn, aðeins venjulega sýrublöndu til drykkjar, því stutt var útivistin venjulega“ (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum). „Áfunum sem komu þegar strokkað var og mysunni af skyrinu var safnað í tunnu og látið súrna. Af áfunum kom þykk hvít sýra (súr). Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið. Var hún höfð til matar; ein sér, eða höfð út á graut. Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Sýrublanda (n, kvk) Sýra, þynnt með vatni. „Þá er farið að hita kaffi og tekið til nesti; og ekki má gleyma blöndukútnum. Í honum er sýrublanda og er hún góð við þorsta“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Ekki var venja að hafa mat með sér á sjóinn; aðeins venjulega sýrublöndu til drykkjar, því stutt var útivistin vanalega“ (ÖG; Þokuróður).
Sýruflaska (n, kvk) Flaska með sýru til drykkjar. „Þeir voru með eina sýruflösku og ég setti hana á munninn og teigaði“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Sýrutillag (n, hk) Sýruskammtur háseta til vertíðar. „Sama sýrutillag (80 merkur fyrir 12 vikna vertíð) var í verstöðvum norðan Bjargs og í Breiðafirði“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).
Sýrutunna (n, kvk) Tunna af/fyrir/undan sýru. „Okkur strákunum þótti fátt betra en stelast í sýrutunnuna með ausu og ná okkur í hnausþykkan og gallsúran súr af botninum“.
Sýsl (n, hk) Starfi; dund; verk. „Hann getur legið tímunum saman yfir þessu sýsli sínu“.
Sýsla (s) Starfa; vinna við; dunda. „Hann er úti í verkfærahúsi, eitthvað að sýsla“.
Sýsla (n, kvk) A. Löggæslu- og skattheimtuumdæmi. Í Jónsbók merkir heitið embættissvæði. Noregskóngur hóf að útbýta sýslum til höfðingja á 12.öld. Goðorð til forna höfðu ekki skýr landfræðileg mörk, en með Jónsbók var llandinu skipt í 12 umdæmi sem nefndust þing. Fyrir hverju þeirra fór umboðsmaður kóngs; sýslumaður. Síðari tíma skipting landsins í sýslur kom til á 16.öld. Næsta stóra breytingin varð árið 1989, þegar löggæsluvald og dómsvald var aðskilið. B. Umráðasvæði sýslumanns í Kollsvíkurveri. „„Sýslan“ var þá fjaran frá flæðarmáli og uppí Syðrikletta, sem kallaðir voru. Það var eins og gerðist í þá daga; þá voru hvergi til klósett...“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). Sá siður að sýsla væri svæði þar sem vermenn gengu örna sinna og sérstakur sýslumaður hafði á hendi þrifaeftirlit, virðist hafa verið útbreiddur á Vestfjörðum og í Breiðafirði. A.m.k. var slíkt við lýði t.d. á Gjögri; við Djúp og í Oddbjarnarskeri.
Sýsla við (orðtak) Fást við; gera; starfa; dunda; bjástra við. „Hvað ert þú að sýsla við þessa dagana“?
Sýslugjald (n, hk) Gjald sem innheimt var í Kollsvíkurveri fyrir sýsluna; eftirlit á aðstöðu til hægða. „Svo þegar leið á þá höfðum við ekki einurð í okkur til að rukka inn sýslugjöldin sem kölluð voru“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Sýslumaður (n, kk) A. Raunveruleg merking; æðsti opinber embættismaður sýslu. B. Sá sem hafði á hendi „sýsluna“. „Sýslur voru þar nefndar er vermenn gengu helst örna sinna, sem einnig var kallað að flytja lögmann. Rolluskúti undir Norðariklettunum var t.d. mjög fjölsótt sýsla, þótt víðar væri leitað vars“. (KJK; Kollsvíkurver). „Það var alltaf regla í Kollsvík að þeir sem reru þar í fyrsta skipti í þeirri verstöð áttu að glíma um sýsluna og sá sem féll var útnefndur sýslumaður. Sýslan var fjaran frá flæðarmáli og upp í Syðrikletta sem kallaðir voru. Það var eins og gerðist í þá daga; þá voru hvergi klósett. Þetta svæði urðu menn að nota sem klósett. Svona viðvaningar; nýliðar, þeir áttu að glíma um hver væri sýslumaðurinn; yfirmaðurinn á þessu svæði og annast þrif á því. Innheimta síðan gjald fyrir hvern mann sem notaði svæðið; gengi þar örna sinna“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). C. Gæluheiti á hníf til sjós. Einkum var þetta heiti viðhaft þegar hnífurinn var notaður til að skera net/fiskilínu annars sem lögð hafði verið yfir veiðarfæri. Siður var að reyna að draga að tengslum; leysa í sundur og binda aftur neðanvið veiðarfæri þolandans. Þyrfti að skera –láta sýslumanninn ráða- var reynt að hnýta eða setja bauju á stubbana. Sumir virtu það ekki heldur skáru í sjó, sem var talið óþokkabragð. „Hefur nú ódámurinn enn lagt ofaní. Hana, réttu mér sýslumanninn“!
Sýslumannsvæfla (n, kvk) Lítið álit á sýslumanni, sem stundum örlaði á meðal hinna sjálfstæðu Kollsvíkinga sem töldu sig ekki síðri sérfræðinga í réttvisi og reglu en aðra. „Skyldi þessi sýslumannsvæfla ekki geta gengið frá neinum dánarbússkiptum“?! Oftari voru þó Útvíknamenn vel sáttir við sína sýslumenn.
Sýslunefnd / Sýslunefndarmaður (n, kvk/kk) Fram á síðustu áratugi 20. aldar var starfandi sýslunefnd í hverri sýslu; skipuð af sýslunefndarmönnum; einum úr hverjum hreppi sem kosinn var sérstaklega um leið og kosið var til hreppsnefndar. Fyrir Rauðasandshrepp gegndu þessu embætti lengi Kristján Júlíus Kristjánsson frá Grundum og síðan Össur Guðbjartsson á Láganúpi. Össur var ritari sýslunefndar meðan hann sat í henni. Síðar tóku héraðsnefndir við af sýslunefndum. „Sýslunefndarmaður, Kr. Júl. Kristjánsson tók til máls og óskaði að heyra frá mönnum um mál sem þeir óskuðu að leggja fyrir sýslufund“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG).
Sýslungi (n, kk) Sá sem býr í sömu sýslu og annar. „Kunni hann fátt gott að segja um þann sýslunga sinn“.
Sýsluvegur (n, kk) Sá flokkur vega sem heyrði undir sýslusjóð/sýslunefnd samkvæmt fyrri vegaflokkun. Aðrir vegflokkar voru heimreiðar, hreppsvegir og þjóðvegir. Sýsluvegir urðu síðar héraðsvegir. „Ólafur Guðbjartsson fór fram á að fá verulegt framlag í sýsluveginn frá Gjögrum að Kollsvík“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG).
Sýsluýta (n, kvk) Jarðýta í eigu sýslusjóðs. „Vestursýslan keypti stóra vegýtu vorið 1949. Hefur hún síðan stöðugt unnið að vegagerð í héraðinu og orðið að miklu liði. Á árinu 1951 náði ég samkomulagi við vegamálastjóra um það að sýsluýtan ryddi Þingmannaheiði á kostnað fjallvegasjóðs“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi; úr greinargerð Jóhanns Skaftasonar sýslumanns). Þessi jarðýta var af gerðinni IH TD14 og nefnd Ásaþór. Fullyrða má að engin vél hafi unnið viðlíka stórvirki í þeim efnum að koma vestustu byggðum landsins í vegasamband og þessi litla jarðýta. Auk Þingmannaheiðar ruddi ýtan t.d. vegi yfir Fossháls og Klettsháls; oftast undir stjórn frumherjans Magnúsar í Botni.
Sýta (s) Syrgja; sjá eftir; harma; vera í sút. „Það munu fáir sýta það að þessi ríkisstjórn falli“. „Þó að vökni vettir manns/ vart ég sýta nenni;/ ef ég bara einhvers lands/ einhverntíma kenni“ (JR; Rósarímur).
Sæbarinn (l) Um stein sem er núinn af brimróti. „Pallasteinn er sæbarinn steinn í Grundafjöru, en í hann klappaði Páll Guðbjartsson ártal sem enn sést“. „Annar sæbarinn steinn úr Grundafjöru er á leiði foreldra Páls; Guðbjartar Guðbjartssonar og Hildar Magnúsdóttur frá Láganúpi í Breiðavíkurkirkjugarði“.
Sæbjúga (n, kvk) Holothroidea; gýgjarpus; brimbútur. Ættbálkur botlægra sjávarlífvera af fylkingu skrápdýra, sem telur um 1.250 tegundir víðsvegar um heimshöfin. Húð sæbjúgna er leðurkennd og sleip og líkaminn aflangur og sívalur. Á fremri enda er munnur, umkringdur þreifurum, en fæðan er fjölbreytt; mestmegnist svif, rusl og hræ. Öndun fer fram með æðakerfi við endaþarminn. Dýrið er mjög teygjanlegt. Það kemur oft í grásleppunet og lítur þá stundum út eins og hnöttóttur bolti, en verður harla efnislítið þegar vatn rennur úr. Sæbjúgu voru til skamms tíme ekki talin nytjaskepnur, en á síðustu árum eru hafnar veiðar á þeim, til útflutnings á Kínamarkað. Þar eru þau m.a. talin örva kynhvöt.
Sæbrattur (l) Um fjall/múla/klett/bratta sem liggur að sjó; brattur að sjó. „Annars er Breiðurinn allur sæbrattur mjög, og þó sýnu brattari Breiðavíkurmegin“ (HÖ; Fjaran).
Sæbúi / Sækind (n, kk/kvk) A. Hvaðeina sem í sjónum býr. B. Í þjóðsögum notað um verur í mannslíki sem búa í sjó, t.d. marbendla og hafmeyjar.
Sædjöfull (n, kk) Ceretias holboelli. Djúpsjávarfiskur af ætt kraftgelgja. Hrygnan verður allt að 130 cm að lengd, en karlinn er agnarsmár; vanalega fastur nærri gotrauf hennar og lifir þar sníkjulífi. Hrygnan laðar til sín lífverur í myrkum djúpunum með ljóstýru á einskonar veiðistöng, sem föst er á efra skolti.
Sædrif (n, hk) Sælöður; ágjöf; pus. „Sást skipið ekki nema endrum og eins fyrir dimmviðri og sædrifi“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Sæða / Sæðing (s/n, kvk) Frjóvga með sæði. Oftast er átt við tæknifrjóvgun kúa. Til skamms tíma þurftu bændur að halda naut fyrir kýr sínar eða leiða þær undir naut annarra, oft um langa og erfiða leið. Kollsvíkurbændur áttu oftast sameiginlegt þarfanaut, en fyrir kom að nautlaust var í Kollsvík og var þá farið innyfir Tunguheiði eða Hænuvíkurháls með beiðandi kú. Kringum 1980 fóru að tíðkast sæðingar sem gerðu þessi heimanaut óþörf. Þá var komin til tækni til frystingar á nautasæði. Það var þá tekið úr völdum kynbótanautum í nautastöðvum og fryst. Í hverri sveit var sæðingamaður/frjótæknir sem lært hafði til verka. Sæðingamenn höfðu sæðisstráin geymd í brúsum með fljótandi köfnunarefni, og fóru á bæ þegar kýr þurfti á þjónustu þeirra að halda. Var sæðinu komið fyrir í leggöngum kúnna með sérstökum áhöldum. Nútildags er algengt að ær séu einnig sæddar, og að gangmálum þeirra sé stjórnað með hormónagjöf, en sú tækni var ekki komin í Kollsvík þegar búskap lauk.
Sæðingamaður (n, kk) Frjótæknir; sá sem lært hefur sæðingar og fæst við þær. Í upphafi störfuðu við það Egill Ólafsson á Hnjóti og Júlíus Reynir Ívarsson á Móbergi. Gæluheiti starfsins var töskuboli.
Sæfa (s) Aflífa/drepa. Oftast notað um að aflífa skepnu með því að stinga sæfingajárni í mænuna.
Sæfarandi (n, kk) Sá sem fer um sjóinn; sjómaður. Orðið var ekki notað í Kollsvík.
Sæfingajárn (n, hk) Járn sem notað er til að sæfa/aflífa skepnu. Líkist langri skrúfsíu, en með hárbeittan fleyg fremst. Rekið inní háls dýrsins til að taka í sundur mænuna.
Sæfífill (n, kk) Actiniaria. Frumstæð fjölfruma sjávardýr skyld hveldýrum og kóröllum. Hér við land lifa allmargar tegundir sæfífla; flestir 5-30 cm á hæð; allt frá fjöru niður á nokkurhundruð metra dýpi. Sæfíflar festa sig flestir á hart undirlag en geta þó fært sig úr stað. Líkamsbyggingin minnir um margt á jurt, en efst eru armar til að grípa fæðu, t.d. smáfiska, og eru á þeim stingfrumur, líkt og hjá marglyttum. „Á vorin er oft mikið af flenniskuði/hraunpussu/sæfífli í Látraröst“ (LK; Ísl,sjávarhættir III; heim. ÓETh).
Sægarpur (n, kk) Reyndur, áræðinn og farsæll sjómaður. „Ég vildi að enginn þeirra færi að elta mig upp í Kollsvík“, sagði Árni (Dagbjartsson) eins og við sjálfan sig. Og svo spýtt´ ann þessi sægarpur“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sægjur (n, kvk, fto) Seigar rætur, sjá harðsægjur.
Sægrá (n, kk) Grár litur kúa. Víða í þjóðsögum segir frá sækúm, en allar eru þær sægráar.
Sægrænn (l) Grænt litarafbrigði.
Sægur (n, kk) Mikill fjöldi; aragrúi. „Það er kominn sægur af fé inn á slétturnar á Melnum; er opið hliðið“?
Sægúa (n, kvk) Hafmeyja. Orðið finnst ekki í orðabókum en þekktist í Kollsvík.
Sækinn (l) A. Almennt; leggur sig eftir; sækir fram; sækir í. „Þeim lærist margt sem eru sæknir í þekkingu“. B. Um sjómann; sækir sjóinn af kappi; rær allajafna hvern dag sem fært er.
Sækir að syfja (orðtak) Um það að verða mjög syfjaður. „Mikið hvað sækir nú að mér syfja allt í einu“!
Sækir heim vondan (orðtak) Stytting sem oft var viðhöfð á orðatiltækinu „vont sækir vondan heim“. „Nú sækir heim vondan; það verður erfitt hjá honum að fá aðstoð, eins meinlegur og hann hefur verið við aðra“.
Sækir (einhvern) svefn / Svefn sækir að (einhverjum) (orðtak) Einhver verður syfjaður. „Ansi sækir mig svefn allt í einu“! „Það er best að drífa sig í háttinn áður en svefninn sækir meira að mér“.
Sækist þó seint fari (orðatiltæki) Kemst þó hægt fari.
Sækja (sjó) (s) A. Ná í; fara og fá. „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína“ (PG; Veðmálið). B. Róa til fiskjar. Oft notað sérstætt; „þá var fast sótt“. Einnig með öðru; „Sjóveður var oft gott á sumrin, enda sóttum við ekki sjó nema í góðu veðri“ (VÖ eldri; Einn á bát 1955). „Þetta gekk nú svona sæmilega; við rerum þarna með færi og var oft lítið sótt“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). C. Ganga fram gegn andstæðingi í viðureign/bardaga/kappleik.
Sækja að /í (orðtak) A. Sagt var, þegar mann syfjaði mjög utan venjulegs svefntíma; „nú sækir að mér“ og var með því vísað til þjóðtrúr um að fylgja væntanlegs gests orsakaði syfjuna. Sama var um orðtakið „nú sækir einhver í þetta“ sem var viðhaft þegar eitthvað helltist niður innanhúss eða fór úrskeiðis á annan hátt. Sjá aðsókn. B. Renna á; fá þörf fyrir. „Ég varð að halla mér eftir matinn því það sótti að mér ákafur svefn“. „Það sótti að mér ónotatilfinning þegar mér varð hugsað um þetta hræðilega slys“.
Sækja á brekkuna (orðtak) A. Í eiginlegri merkingu; að ganga upp brekku. „Tófa sem elt er af hundi sækir gjarnan á brekkuna; þar er hún oftast fljótari en hundurinn. Hinsvegar gengur tófu illa að hlaupa undan brekku“. B. Í líkingamáli; takast á við erfiðleika; sækja í erfitt verkefni.
Sækja á móti veðri (orðtak) Berjast/baksa/ganga gegn vindi. „Össur var mjög snjóugur og klakaður er hann kom til okkar, því hann hafði orðið að sækja á móti veðrinu“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Sækja fast (orðtak) A. Vilja eindregið; vinna ötullega að. „Hann sótti það fast að fá að vera með í hópnum“. B. Stunda sjó af kappi; róa stíft. „Heimamenn (í Kollsvík) fluttu einnig í sínar verbúðir; fannst meira næði þar en heima á bæjunum, því oft var róið jafnt á nóttunni og menn lögðu sig þá að deginum, en fast var sótt ef gæftir voru“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Sækja björg í bú (orðtak) Afla sér lífsviðurværis; veiða. „Menn komu víða að til að sækja björg í bú“ (ÁE; Ljós við Látraröst). „Sjórinn fyrir Látrabjargi og Víkunum var lífæð sveitarinnar. Þangað var sótt björg í bú, auk þess sem selt var kaupmönnum til útflutnings, enda voru sjóróðrar stundaðir af miklu kappi með vökum, þreytu, vosbúð og áhættu“ (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).
Sækja gull í greipar Ægis (orðtak) Róa til fiskjar. „Ekki þýddi fyrir aðra en þá sem ódeigir voru að ætla sér að sækja gull í greipar Ægis þar“ (ÖG; minningargrein um AK).
Sækja í (orðtak) Leita í/til. „Féð sækir töluvert í fjöruna“. B. Sækjast eftir; langa í; leitast eftir. „Það var verið að þurrka hey uppi á Hólum. Mamma var með Össur, sem sat við flekkina. Hann sótti í að éta sand og lambaspörð“ (IG; Æskuminningar).
Sækja í sama farið (orðtak) Verða eins og áður; halda sömu venju og fyrrum. „Hann var búinn að vera vínlaus í nokkra mánuðu, en nú sýnist mér allt vera að sækja í sama farið og áður hjá honum“.
Sækja í sig veðrið (orðtak) Herða á veðri; sækja ákafar fram. „Mér sýnist hann heldur vera að sækja í sig veðrið af norðri“. „Flokkurinn sækir nú mjög í sig veðrið eftir formannaskiptin“. Líkingin gæti vísað til þess að draga djúpt inn andann áður en t.d. verk/átak er hafið eða höggvið er í orrustu. En hér kann einnig að vera vísun í veðurteikn sem eru á lofti; merki þess að guð sem ræður fyrir veðri sé að undirbúa hvassviðri.
Sækja niður að (orðtak) Um fugl; steypa sér ógnandi niður að manni/skepnu til að t.d. hrekja hann frá hreiðri eða unga. „Kjóinn sótti ákaft niður að tíkinni, sem stökk þá geltandi upp. Einnig sækja fuglar gjarnan niður að fæðu í yfirborðinu; t.d. krían.
Sækja sér í soðið (orðtak) A. Oftast haft um það að veiða í soðið; fara á sjó og veiða sér til matar. Sjá fá í soðið. B. Sækja matfisk í ver. „Þá var að fara með mat í verið; sækja fisk í soðið og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður“ (IG; Æskuminningar).
Sækja sjó (orðtak) Stunda róðra/veiðar; fara á sjó. „Ekki verður þó annað sagt en sjór væri sóttur af kappi, og þó með hæfilegri forsjá“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sækja skóla / Sækja vinnu (orðtök) Ganga í skóla; vera í vinnu.
Sækja smjör í strokkinn (orðtak) Leikur sem iðkaður var fyrrum, bæði meðal barna en ekki síður vermanna í landlegum. „Þessi leikur felst í því að tveir menn mynda nokkurs konar strokk. Þeir standa hvor á móti öðrum og leggja hendur á axlir hins. Klútur er síðan settur á jörðina á milli þeirra. Síðan skríður leikmaðurinn ofan í strokkinn, yfir hendur mannanna og niður og tekur smjörið (klútinn) upp með munninum. Aðalkúnstin er fólgin í að koma sér sömu leið upp úr strokknum aftur. Ef það tekst ekki var sagt að hann hefði kafnað í strokknum“ (PJ; Vermannaleikir).
Sækja (hegðun/útlit) til (einhvers) (orðtak) Líkjast einhverjum, oftast skyldum. „Hann á ekki langt að sækja námsgáfurnar“. „Rauða hárið sækir hann í móðurættina“.
Sækja um vist (orðtak) Sækja um að fá að vera/dvelja. „Þessu næst sótti ég um vist í Samvinnuskólanum haustið 1947 en fékk aldrei svar við því “ (IG; Æskuminningar).
Sækja vatn (orðtak) Sækja vatn í brunn eða læk til að nota fyrir heimili eða brynna skepnum á innistöðu. „Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag; sækja vatn bæði fyrir heimilið og kýrnar, eftir því sem geta og vilji náði, og fara með pabba að gefa fénu“ (IG; Æskuminningar).
Sækja vatnið yfir lækinn (orðtak) Leita langt yfir skammt; leita lengra en þörf er á eftir einhverju.
Sækjandi (n, kk) Sá sem sækir mál fyrir dómi; núna venjulega lærður lögmaður en fyrrum einhver „málsmetandi maður“. Einar Jónsson ættfaðir Kollsvíkurættar var sækjandi í Sjöundármálinu.
Sækjast seint (róðurinn) (orðtak) Um það þegar verk gengur seint. „Þeir sátu víst yfir honum hálfan dag, þessir „vottar jehóva“, en sóttist fremur seint róðurinn í að koma honum í átt til himnaríkis“. Orðtakið er úr sjómannamáli og auðskilið.
Sækjast sér um líkir (orðatiltæki) Um það þegar tveir eða fleiri af svipuðu sauðahúsi koma/vinna saman. Ekki var á síðari tímum í Kollsvík notuð viðbótin „… og saman þinga níðingar“.
Sæktu nú handbókina (orðatiltæki) Sjá hlauptu eftir handbókinni.
Sækýr (n, hk) Kýr sem kemur úr sjó samkvæmt þjóðtrúnni. „Eitthvað heyrði ég minnst á huldufé og jafnvel huldukýr. Þó var aðallega talað um sækýr, en ég held að það hafi verið annar stofn. Þessar sækýr voru gráar; ljósar með dekkri yrjum, og það var talað um að sá litur væri arfur frá þannig ættuðum kúm“ (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms). Bæta má því við að sækýr voru sagðar vera með blöðru á grönum. Væri blaðran sprengd gátu þær ekki komist aftur í sjóinn og unnt var að handsama þær.
Sæla / Sæld (n, kvk) Unaður; góð til finning; velgengni. „Það er ekki alltaf sælan til sjós“! „Þetta er ekki tekið út með sældinni“.
Sælast til (orðtak) Sækjast eftir; reyna. „Vermenn sældust til að nota hvern dag til róðra sem á sjó gaf“.
Sældarbrauð (n, hk) Sæla; auðvelt. „Það er ekkert sældarbrauð að handsama ljónstygga útigangsær“.
Sældarkjör (n, hk, fto) Mjög góð lífsskilyrði; góðar aðstæður; góð vinnulaun. „Ekki bjuggu þau þarna við nein sældarkjör“.
Sældarlíf (n, hk) Gott líf; líf í munaði. „Ætli menn geti nú ekki orðið þreyttir á svona sældarlífi til lengdar“.
Sældarlegur (l) Makindalegur; líður vel. „Hún er orðin nokkuð bústin og sældarleg á meðgöngunni“.
Sælgæti (n, hk) Góður matur. Nú á dögum takmarkað við sykurvörur, en mun víðtækara áður; merkir í raun „sældarfæða“. Nútíma sælgæti var mjög fáséð í Kollsvík fyrr en kom framyfir 1960.
Sælgætismatur (n, kk) Mjög gómsætur matur. „Þetta finnst mér algjör sælgætismatur“!
Sælkeri (n, kk) Sá sem er sólginn í sælgæti/veislumat; sá sem leggur mikið uppúr bragðgæðum matar.
Sæll (l) A. Hamingjusamur; ánægður; lánsamur; sem líður vel. B. Kveðja. „Komdu nú sæll og blessaður“. „Sæll vertu“. „Vertu sæll“.
Sæll er hver í sinni trú (orðatiltæki) Sá sem trúir er yfirleitt ánægðari en trúleysinginn; burtséð frá því hver trúin er. Sjá sæll í sinni trú.
Sæll er hver í sínum ranni (orðatiltæki) Manni líður vel heima hjá sér; maður er heimakær. „Ég nenni ekkert að flandra mikið til útlanda; sæll er hver í sínum ranni“.
Sæll er sá sem annars böl bætir (orðatiltæki) Vísar til hamingju/vellíðunar þess sem gerir öðrum góðverk.
Sæll er sá sem engin börnin á (orðatiltæki) Speki sem gripið er til þegar óþægð barna keyrir úr hófi.
Sæll er sá sem sér lynda lætur / Sæll er sá sem sínu ann (orðatiltæki) Sá á gott sem er nægjusamur.
Sæll í sinni trú (orðtak) Ánægður með sína skoðun; fullviss um að rétt hafi verið gert. „Hann lokaði féð inni í réttinni, sæll í sinni trú; en áttaði sig ekki á að það gat komist út í gegnum einn dilkinn“. Sjá sæll er hver í sinni trú.
Sæll og ánægður / Sæll og glaður (orðtök) Alsæll; mjög ánægður. „Mér er nokk sama um tvævetluna; hún kemur aftur, en ég er sæll og ánægður yfir að hafa heimt hrútinn“!
Sælla er að gefa en þiggja (orðatiltæki) Fornt máltæki sem löngum hefur viðhaldið velferðarsamfélögum.
Sællar minningar (orðtak) Sem vekur upp góðar minningar. „Og svo má ekki gleyma því þegar hann vann glímuna, sællar minningar…“.
Sællegur (l) Feitur; sem lítur vel út; sem virðist ánægður.
Sællífi (n, hk) Óhóf; hóglífi.
Sælubros (n, hk) Gleðibros; einlægt bros. „Hann varð eitt sælubros þegar hann sá hákarlslykkjuna“.
Sæluhús (n, hk Hús sem stendur ferðamönnum opið til skjóls og áningar, t.d. á löngum og erfiðum leiðum á heiðum og öræfum eða á eyðistöðum.
Sæluhöfn (n, kvk) Friðarhöfn; lægi fyrir báta, þar sem er gott skjól t.d. fyrir stórsjó. Sæluhöfn nefnist vík utantil við Bæjarvöll undir Djúpadal.
Sælöður (n, hk) Froða á sjónum, einkanlega eftir brim. Getur einnig merkt ágjöf. „..óspart var þá leitað í rjólið og sælöðrið dreifði þá legi þess allvíða um andlitið“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Báturinn geystist áfram, og sælöðrið dreif yfir“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Sæma (s) A. Veita sóma; heiðra. „Margir björgunarmanna voru sæmdir orðum og þakkarskjölum“. B. Hæfa; vera við hæfi. „Honum sæmir ekki að viðhafa svona orðbragð“! „Honum væri sæmra að biðjast afsökunar á þessu“! „Ég held honum væri sæmst að þegja um þetta mál“.
Sæmandi (l) Sómandi; sem sæmir. „Það er ekki nokkrum manni sæmandi að fara svona með skepnur“!
Sæmd (n, kvk) Heiður; sómi; virðing. „Hann hlaut af þessu góða sæmd og virðingu“.
Sæmdarauki (n, kk) Virðingarauki; meiri heiður. „Það er engum sæmdarauki að svona orðbragði“!
Sæmdarfólk / Sæmdarheimili / Sæmdarhjón Viðurkenningarorð um gott fólk/heimili.
Sæmdarsnauður (l) Nýtur ekki virðingar. „Mér finnst þessi ráðherra heldur sæmdarsnauður uppá síðkastið“.
Sæmdur (l) Sýndur sómi; heiðraður með; veittur. „Nokkrir björgunarmanna voru sæmdir heiðursmerkjum“.
Sæmilega (ao) Þolanlega; skikkanlega. „Þetta gekk nú svona sæmilega; við rerum þarna með færi og var oft lítið sótt“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Næst var gerð tilraun til náms veturinn 1944-45 á Núpi í Dýrafirði, og gekk það sæmilega“ (IG; Æskuminningar).
Sæmilegur (l) Allgóður; ágætur; skikkanlegur. „Þarna frammi á Foldunum er vel sæmilegur bithagi“. „…allir munu geta haldið skepnum sínum í sæmilegu standi, verði tíð ekki því lakari“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1924).
Sænaut (n, hk) Þjóðsagnakvikindi sem býr í sjó. A. Grátt naut sem gengur stundum á land, oft í fylgd sækúa og er líkt öðrum nautum en með blöðru á grönum. B. Skepna sem líkist hval; talið illhveli.
Sæng (n, kvk) A. Vanalega notað um ábreiðu þá sem menn hafa yfir sér að nóttu, og oft er fyllt léttu einangrandi efni. B. Rúm. Sjaldan í þeirri merkingu nú. Sjá ganga í eina sæng; leggjast á sæng.
Sænga hjá/saman (orðtak) A. Sofa hjá; sofa í sama rúmi yfir nótt/nætur. B. Hafa samræði.
Sængurföt (n, hk, fto) Rúmföt. „Í mínu uppeldi saumaði mamma öll sængurföt á heimilinu. Sængur- og koddaver voru úr keyptu efni en lög vanalega úr lérefti af hveitisekkjum. Nokkur vinna var vanalega við að þvo það með grænsápu til að ná m.a. stöfum af, en þetta voru hinar ágætustu rekkjuvoðir“ (VÖ). „Fyrsta sem hún gerði var að senda okkur út í skemmu með sængurfötin okkar“ (IG; Æskuminningar).
Sængurgarmur / Sængurleppar / Sængurtilur / Sængurtuska Ýmis gæluheiti á sæng/sængurfötum. „Þú ættir bara að slá þér niður til gistingar. Það hlýtur að finnast einhver sængurtuska fyrir þig“.
Sængurgjöf (n, kvk) Gjöf sem gefin er konu sem nýlega hefur fætt barn.
Sængurkona (n, kvk) Kona sem er rúmliggjandi/ liggur á sæng verna barneignar.
Sængurkonubragð (n, hk) Sengjubragð; sérstakt bragð sem kemur á mjólkurmat ef hann nær að brenna lítilsháttar við í suðuíláti. „Mér finnst hálfgert sængurkonubragð af grjónagrautnum“.
Sængurkonugrautur (n, kk) Mjög þykkur grautur; hrísmjölsgrautur. Í seinni tíð notað um hrísgrjónagraut eða sagógrónagraut sem hníga varla, eða rabbarbaragraut sem er svo hlaupkenndur að hangir saman frá munni í disk. „Þetta er hálfgerður sængurkonugrautur, en skrambi er hann þó bragðgóður“.
Sængurkonukaffi / Sængurkonuvatn (n, hk) Lapþunnt kaffi; vinnukonuvatn; englahland; nærbuxnavatn. „Ég kalla þetta nú frekar sængurkonuvatn en kaffi“! „Þetta varð hálfgert sængurkonukaffi hjá mér núna“.
Sængurlega (n, kvk) Veikindi; það að liggja í rúmi vegna veikinda. „Ég hjarnaði við eftir langa sængurlegu“.
Sængurver (n, hk) Klæði sem haft er utanum sæng og hægt er að taka af til þvottar.
Særa (s) A. Koma sári á; slasa; meiða. B. Skerða lítillega. „Það þarf ekki að klippa hárið mikið; bara rétt særa það“. C. Fara með særingar/galdra; töfra/galdra fram. „Ég hef reynt allt nema særa fram draug og senda á þá“! D. Biðja um til þrautar; sárbiðja. „Mér tókst að særa útúr honum annan ljáinn“.
Særa upp (orðtak) Um fiskveiði; draga/fá fisk. Oft um trega veiði. „Þetta var ósköp dauðalegt, en fáin kvikindi tókst okkur þó að særa upp“. Líklega tilvísun í þjóðsögn um galdraþulur sem gætu bætt veiði.
Særa út (orðtak) Fá með fortölum; kría út. „Honum tókst að særa út úr mér bókina“.
Særður (l) A. Slasaður; meiddur. B. Vonsvikinn; móðgaður.
Særeykur (n, kk) Brimreykur; mugga sem liggur yfir ströndinni eftir mikið brim og orsakast af ýringi úr briminu. „Særeykur er oft greinilegur undir Blakknum í logni og miklum vestansjó“. Orðið virðist ekki þekkt utan svæðisins.
Særindi (n, hk, fto) Sárindi; eymsli. „Ég er með bölvuð særindi í hálsinum“.
Særingar (n, kvk, fto) Fortölur; þrábeiðni. „Það kostaði allnokkrar særingar að ná þessu útúr honum“.
Særingarmark (n, hk) Soramark; frjármark sem meiðir mjög mikið og forðast/bannað er að nóta nú á dögum.
Særok (n, hk) Hvassviðri, svo mikið að feykir löðri úr báru. „Særokið í fjörunnu var svo mikið að við urðum kollvotir á augabragði“.
Sæskrímsli (n, hk) Kvikindi sem eiga heima í sjó og þjóðtrú. Sjá fjörulalli og marbendill.
Sæta (s) A. Þola bera. „Hann sætti ekki góðri meðferð á því heimili“. „Þarna þarf að sæta sjávarföllum“. „Hverju sætir þetta“? „Það þótti tíðindum sæta“. B. Setja hey upp í sátur. C. Gera eitthvað sætt; sykra.
Sæta falli / Sæta sjávarföllum (orðtök) Haga lendingu eða öðru eftir því hvernig stendur á sjávarfalli. „Sæta þurfti sjávarföllum, róa og koma að á nokkuð hásjávuðu, til að bátarnir flytu um Þráðinn...“ (ÓG; Úr verbúðum í víking). „Sæta þarf sjávarföllum til að komast fyrir Forvaðann“.
Sæta lagi (s) Einkum notað um landtöku báta. Sæta þurfti lagi til lendingar þegar slæmt var í sjóinn. Þá var beðið og fylgst með ólögum sem gengu undir bátinn, og þegar minni bára kom inná milli var sætt lagi og bátnum rennt upp í fjöruna. Einnig gat þurft að sæta lagi til að ýta bát úr vör. Notað einnig í óeiginlegri merkingu. „Hún sætti lagi og krækti í hann öskupoka meðan hann uggði ekki að sér“. „Sæta“ einhverju merkir að „taka“ einhverju; þurfa að sætta sig við eitthvað.
Sæta straumum (s) haga sjóferðum með tilliti til strauma, en erfitt var að róa gegn fallinu. „Ávallt var tvíróið þegar gaf, því að sæta þurfti straumum“ (PJ; Barðstrendingabók).
Sæta undrum (orðtak) Vera mjög undarlegt; vekja mikla furðu. „Hann var svo sterkur að undrum sætti“.
Sætabrauð (n, hk) Kökur. „Það er nú óþarfi að troða sig út af sætabrauði, en ég neita nú aldrei meðlætinu“.
Sætabrauðsát (n, hk) Mikil neysla á kökum og öðru sætu meðlæti. „Ekki grennist maður af öllu þessu sætabrauðsáti“!
Sæti (n, hk) A. Hægindi til að sitja á; stóll; set. B. Hey; sáta; stór galti. „Fullþurrt hey var stundum sett upp í sæti, sem var nokkru stærra en galtar; ef ekki tókst að koma því í hlöðu en von var á óþurrki.
Sætindi (n, hk, fto) Sælgæti; sykraður matur.
Sætir fádæmum/furðu/undrum (orðtök) Þykir furðulegt/undarlegt. „Þarna rak á fjörur svo mikið af þessum sjávarmosa að furðum sætti“. „Undrum sætir að þetta skuli ekki hafa uppgötvast fyrr“.
Sætt (n, kvk) Sátt; sáttargjörð. „Ég er feginn því að sættir tókust í þessu máli“.
Sætt/ósætt á sjó (orðtök) Um það hvort unnt var að sitja á sjó vegna sjógangs/veðurs. „Helstu boðarnir voru; Djúpboði og Leiðarboðar. Setið var á sjó þó að á þeim félli grunnbrot um fjöru. Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu; að minnsta kosti með landtöku í Kollsvíkurveri í huga“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sætt er lof í sjálfs munni (orðatiltæki) Vísar til þess að sjálfshólið virðist veita monthanananum einhverja ánægju. Eldri mynd spakmælisins; „súrt“ í stað „sætt“, heyrðist ekki í Kollsvík í seinni tíð.
Sætta sig við (orðtak) Gera sér að góðu; láta sér lynda; láta duga. „Ég varð að sætta mig við þessa niðurstöðu“.
Sætta sjónarmið (orðtak) Ná samkomulagi um deilumál; komast að niðurstöðu.
Sætur er sjálfs aflinn / Sætur er matur á sjálfs búi (orðatiltæki) Gott er það sem maður aflar sjálfur; bestur er maturinn í heimahúsi.
Sætur er þefur úr sjálfs rassi (orðatiltæki) Mönnum finnst sín eigin viðrekstrarfýla yfirleitt ekki eins slæm eins og annarra. Eins er um verk manna; margir eiga erfitt með að gagnrýna eigin verk.
Sætt er lof í sjálfs munni (orðatiltæki) Vísar til vellíðunar þess sem hælir sjálfum sér.
Sætt er sameiginlegt skipbrot (orðatiltæki) Vísar til þess að stundum er ásættanlegra að bíða ósigur eða lenda í óláni ef einhver annar lendir í því sama.
Sætukoppur (n, kk) Blóm bláberjalyngs, sem eru sæt á bragðið.
Sætur (l) A. Með sætu bragði/ sykurbragði. B. Ljúfur; veitir vellíðan. T.d. sætur sigur. C. Snotur; fallegur.
Sævarhamrar (n, kk, fto) Sjávarklettar; sæbratt bjarg. „.... en þó eru þar (í Breiðnum) um 100 faðma sævarhamrar fremst....“ (EG; Viðtal á Ísmús 1968).
Söðla (s) Leggja hnakk/söðul á hest.
Söðla um (orðtak) Skipta um skoðun; breyta um aðferð. Sennilega líking við það að færa hnakk sinn yfir á annan hest.
Söðlasmiður (n, kk) Iðnaðarmaður sem fæst við smíðar og viðgerðir á hnökkum/söðlum.
Söðulbakaður (l) Um það sem er í laginu að ofan eins og hnakkur. „Þetta hey er ansi söðulbakað“. „Fjári er nú gamli kofinn að verða söðulbakaður í seinni tíð“.
Söðulbein (n, hk) Framstandandi bein milli vaðhornsbeinanna á fiski, líkt söðli í laginu.
Söðulnefjaður (l) Með kónganef; með krung á nefi.
Söfnuður (n, kk) A. Safn af einhverju; flokkur; sægur. „Nú er herjansekkisen söfnuðurinn kominn aftur í túnið“! Sjá einnig munnsöfnuður. B. Deild svæðis í kirkjustarfi. „Kollsvík tilheyrir Breiðavíkursöfnuði, sem þó er orðinn fámennur á síðustu árum“. C. Fyrrum notað yfir skyr eða smjör sem safnað var í forða.
Söfnun (n, kvk) Það að safna saman. „Við strákarnir stunduðum ákaft frímerkjasöfnun“.
Söfnunarárátta (n, kvk) Löngun/hneygð til söfnunar. „Söfnunaráráttan getur farið útí öfgar, en hún hefur líka bjargað mörgu gömlu og óbætanlegu frá glötun“.
Sögubók (n, kvk) Skáldsaga; bók með sannri eða skáldaðri sögu. „Ég er alveg hættur að nenna að lesa sögubækur, en legg mig frekar eftir þeim fróðleik sem ég næ í“.
Söguburður (n, kk) Slúður; baktal. „Ég læt það bara vera að taka þátt í svona söguburði“.
Sögufróður (l) Sem kann margar sögur að segja. Oft notað um þann sem ber út slúður/kjaftasögur, en stundum um þann sem er vel að sér í sagnfræði og fyrri tíma atburðum.
Sögufölsun (n, kvk) Ranghermi; rangfærslur á staðreyndum fyrri tíma. „Þetta kalla ég bara hreina og klára sögufölsun“!
Sögulegur (l) Frásagnarverður. „En sögulegasta happið þar um slóðir mun vafalaust hafa verið er Kollsvíkingar fundu hval á reki og tókst eftir langa mæðu að bjarga honum á land í Kollsvík“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). „Síðan gerðist ekkert sögulegt fram að jólafríi“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Sögumaður (n, kk) Sá sem segir sögu; sá sem er helsti heimildarmaður að sögu.
Sögunaraðstaða (n, kvk) Aðstaða til sögunar t.d. á stórviði/rekatrjám. „Þarna í kofanum kom hann sér upp prýðilegri sögunaraðstöðu og undi þar löngum stundum“.
Sögunarbúkki (n, kk) Lágar trönur/undirstöður undir viði/tré til að þægilegt sé að saga. „Í sjávarkofanum kom afi sér upp sögunarbúkkum og vann þar löngum við að fletta rekatrjám“.
Sögusagnir (n, kvk, fto) Orðrómur; lausafréttir. „Hefurðu heyrt einhverjar sögusagnir um að hann sé að flytja“?
Sögusmetta (n, kvk) Um þann sem ber út slúðursögur; slefberi. „Hún er óttaleg sögusmetta“.
Sögustund (n, kvk) Tími þegar sögur eru sagðar og aðrir sitja hljóðir og hlusta. „Eftir að slátrun lauk á Gjögrum settust þeir oft inn í bragga sem verið höfðu í frágangi og kjötmati; fengu sér kaffi og hvíldu lúin bein. Meðan Ívar Halldórsson á Melanesi var þar kjötmatsmaður upphófst gjarnan sögustund, þar sem hann sagði sögur frá fyrri tíð. Þær voru af margvíslegu tagi, en oft sögur af sjómennsku hans á skútum; svonefndar „skippersögur“ eins og gárungar kölluðu þær. Hann hafði skemmtilegan frásagnarmáta, en var lítið gefinn fyrir það að sögurnar væru dregnar í efa.
Sögusagnir (n, kvk, fto) Sögur sem lítill/enginn fótur er fyrir; slúðursaga/uppspuni; flökkusögn. „Ég held að þetta séu eintómar sögusagnir; ekki legg ég hinn minnsta trúnað á það“!
Söguöld (n, kvk) Tímabil í íslenskri sögu; oft talið ná frá 930 til 1030, þegar kristni var að nafninu komin á; Alþingi hafði verið stofnsett og stjórnkerfið var að styrkjast í sessi með goðum og þingum. Á þessum tíma gerast margar Íslendingasögur, en þær voru hinsvegar ekki festar á rit fyrr en á 13.öld.
Sök (n, kvk) A. Sekt; glæpur; afbrot. „Hann átti enga sök á þessu“. B. Málefni; hlutur. „Hann fór varlega í sakirnar í fyrstu“. C. Stytting á „orsök“: „Ekki veit ég af hvaða sökum þetta var“.
Sök bítur sekan (orðatiltæki) Vísar til þess að menn fái samviskubit/bakþanka eftir ranga breytni.
Sök fyrir sig / Sök sér (orðtak) Útaf fyrir sig; sér í lagi; sérstakt málefni. Látum það nú vera að hann hafi gert þessi mistök; það er sök fyrir sig. Hitt er verra, að segja ekki frá því“. „Það er sök sér þó hann liggi í berjum, en að taka ekki eftir þegar rolluhópurinn hljóp framhjá augunum á honum; það er óskiljanlegur sofandaháttur“! Líking við það að sakarefni eru skilgreind hjá sakamanni.
Sökkulaus (l) Ekki með sökku/lóð. „Við getum alveg eins verið í landi og að fara sökkulausir í róður“!
Sökkva (s) A. Fara undir yfirborð sjávar/vatns. Um bát; farast. „Togarinn mun hafa sokkið á Flóanum, nokkrar mílur norður af Blakk“. B. Láta sökkva. „Þeir voru nærri búnir að sökkva bátnum af ofhleðslu“!
Sökkva sér niður í (orðtak) Verða hugfanginn af; verða upptekinn við. „Ég sökkti mér niður í lesturinn“.
Söknuður (n, kk) Eftirsjá; depurð eftir viðskilnað.
Sökudólgur (n, kk) Sá sem á sök á einhverju; þrjótur; gerandi. „Sökudólgurinn er fundinn“.
Sökum (fs) Vegna; af þeirri ástæðu. „… sökum mikils og sívaxandi ágangs fjár frá Barðstrendingum á fjalllendi Rauðsendinga“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). „Sökum anna gat ég ekki komið við að skoða heybirgðir á Sandinum í haust, og fékk til þess Ólaf Jónsson…“ (Þórður Ó Thorlacius; Forðagæslubók Rauðasands 1923).
Söl (n, hk, fto) Rauðþörungur, Palmaria palmata, sem algengur er framarlega á fjörum og var einn mikilvægasti sjávargróðurinn til bæði fjörubeitar og manneldis. Söl eru dökkrauð en geta upplitast og orðið gul eða græn á litlu dýpi. Plantan hefur stilk sem getur orðið um 5 mm. Upp af honum vex eitt eða fleiri stofnblað, og útúr því hliðarblöð. Heildarlengd sölva er oft 20-30 cm. Vöxtur sölva er mestur á vorin og er algengast að þau vaxi upp af eldri stofnblöðkum. Fullsprottin eru þau í júníbyrjun, en fyrir veturinn safna þau í sig forðasykrum. Og slitna blöðin mjög um haustið. „Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn. Beitt var í fjöru ef þari var og bitfjöru um stórstraum. Mest sótti féð í söl og maríukjarna“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Sölna (s) A. Um jurt; falla; fölna. „Mér sýnist kartöflugrasið hafa sölnað í næturfrostinu“. B. Verða skítugur. „Settu sparifötin í plastpoka svo þau sölni ekki í rykinu“.
Sölnaður (l) Um gróður; fölnaður; fallinn í sumarlok.
Sölsa undir sig (orðtak) Taka traustataki; yfirtaka; hertaka; leggja hald á; gera upptækt. „Nú finnst mér að hann sé að sölsa undir sig meira vald en honum ber“. Ekki er fyllilega ljós uppruni sagnarinnar að „sölsa“, en e.t.v. á hún sömu rætur og enska orðið „salvage“, sem nú hefur merkinguna að bjarga.
Söltun (n, kvk) Algeng geymsluaðferð matvæla. Við söltun er vatni í matvörunni að hluta skipt út fyrir salt, en þannig minnkar það vatnsmagn sem þær örverur geta nýtt sér sem vinna að niðurbroti; auk þess sem þeim gengur illa að vinna á saltmettuðum vöðva. Um leið fást fram æskileg bragð- og áferðareinkenni á matvöruna, sem eru t.d. allt önnur í saltfiski en nýjum fiski. Söltun fisks fer venjulega fram í tveimur þrepum, eftir að fiskurinn hefur verið slægður, hausaður og oftast einnig flattur: Fyrra stigið er oftast pækilsöltun, en þá liggur fiskurinn nokkra daga í eigin saltpækli. Síðan er hann rifinn upp og þurrsaltaður í stæðu. Við söltun fer saltinnihald fisks úr 0,2%, sem er eðlilegt í lifandi veru, í 20%, sem nægir til alllangrar geymslu. Saltfisk þarf að útvatna fyrir neyslu til að minnka saltinnihaldið. Söltun kjöts er með tvennu móti, samkvæmt þeim aðferðum sem viðhafðar voru m.a. í Kollsvík. Annarsvegar var stráð grófu salti um smátíma í mat sem síðan fékk aðra verkun, s.s.hangiket og svið. Hinsvegar var saltket brytjað í spað og vandlega saltað með blöndu salts, sykurs og saltpéturs. Sjá salt, saltfiskur, saltket.
Söltunarkró (n, kvk) Hlaðin kró/þró sem fiskur er saltaður í í veri. „Skipshafnir frá þessum verbúðum, sem voru 5 (tvær í einni), höfðu sitt athafnasvæði; ruðninga og söltunarkrær, meðfram læk er var skamman spöl norðanvið Norðarikletta og hét Breiðilækur“ (KJK; Kollsvíkurver).
Sölubúð (n, kvk) Búð þar sem vörur eru seldar. Forskeytið var fyrrum nauðsynlegt til aðgreiningar frá verbúðum sem þá voru algengari. Nú á dögum eru verbúðir síður í huga fólks, en sölubúðir allsráðandi.
Sölugur (l) Skítugur; óhreinn. „Þú ert sölugri en sá ljóti sjálfur drengur; farðu og þvoðu þér“! Orðið virðist ekki þekkt utan svæðisins en var þar almennt notað.
Söluhorfur (n, kvk, fto) Horfur/möguleikar á sölu/verði vöru.
Söluhæfur (l) Hæfur til sölu. „Þess var gætt að sandur bærist ekki í fisk í Kollsvíkurveri, sem gæti gert hann ósöluhæfan“.
Söluskúr / Söluskýli (n, kk/hk) Lítið hús þar sem sala fer fram. „Umsókn … um leyfi til að stofnsetja og reka söluskúr á Hvallátrum“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Söluvara (n, kvk) Vara sem unnt er að selja. „Eftir rúning þurfti að fara í kaupstaðinn með ullina og eftir að bjargferðum var lokið var fiðrið líka söluvara“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Sölvafjara / Sölvatekja (n, kvk) Fjara þar sem skera má söl til manneldis / tekja sölva til manneldis. Ekki fer sögum af sölvatekju í Kollsvík, en á Látrum var ágæt sölvafjara á Sölvatanga“.
Söm er þín gerð (orðatiltæki) Andsvar; sama og gert; sama og þegið. Oftast notað í þakkarskyni, t.d. þegar gesti eru boðnar góðgerðir en hann þiggur ekki. Einnig í umræðu um mann, þegar sá hefur haft áform sem ekki komust í framkvæmd: „Söm er hans gerð“.
Sömu megin (orðtak) Á sömu hlið. „Við settumst sömu megin við borðið“.
Sömuleiðis (ao) Á sama hátt; í sömu mynt. „Fyrsta tilraunin mistókst, og sú næsta sömuleiðis. En í þriðju atrennu tókst betur til“.
Söndugur (l) Ataður sandi; með mikinn sand utaná sér. „Dustiði nú utanaf ykkur úti á hlaði strákar; þið eruð ekki í húsum hæfir svona söndugir“!
Söngelskur / Söngvinn (l) Mikið fyrir söng; lagviss. „Fjölskyldan á Grundum var nefnilega söngvin og sum systkinanna hefðu örugglega náð langt ef þau hefðu komist í söngnám. Trúlega hefur það ekki verið algengt á afskekktum sveitabæ, að í stað rökkursvefnsins sem algengur var á bæjum meðan beðið var eftir að hæfilegt væri að kveikja á lampanum, væri æfður raddaður kórsöngur í borðstofunni“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Söngl (n, hk) Raul; söngur sem hvorki er markviss né kraftmikill, og oft slitróttur.
Söngla (s) Raula; syngja lágt/fyrir munni sér. „Hann heyrðist söngla á traktornum við sláttinn“.
Sönglist (n, kvk) Listin að syngja. Sönglist var og er í hávegum höfð af mörgum Kollsvíkingum, þó aðrir telji sig skorta hana algerlega. T.d. var heimilið á Grundum; Kristján Ásbjörnsson og fjölskylda hans, orðlagt söngfólk.
Söngur (n, kk) A. Það sem heyrist þegar sungið er; t.d. kórsöngur, fuglasöngur Söngur getur einnig átt við textann sem sunginn er. „Gengið var kring um jólatréð og sungnir sálmar og ýmsir söngvar“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). B. Niðrandi heiti á nöldri, tuði. „Alltaf er sami söngurinn í þessum burgeisum þegar minnst er á skatta“! C. Messa. D. Sífrandi hlóð, t.d. í gírum véla.
Sönnu nær / Sönnu næst (orðtak) Nær sanni; sem næst því að vera satt. „Það er ekki rétt að vegurinn hafi verið heflaður í fyrra. Hitt mun sönnu nær að þeir óku yfir Hálsinn á hefli og settu niður tönn hér og þar“.
Sönnur (n, kvk, fto) Sannanir; fullvissa. „Ég hef svosem öngvar sönnur fyrir þessari sögu, en svona heyrði ég þetta“. „Honum gekk illa að færa sönnur á þessa fullyrðingu“
Sörvi (n, hk) Men; hálsmen. Heiti sem nú er aflagt, en enn finnast sörvistölur/perlur sem fornar menjar.
Sötra (s) Drekka; drekka með soghljóði. „Sötraðu ekki mjólkina með þessum látum drengur“!
Sötur (n, hk) Hljóðið sem heyrist þegar sötrað er. „Drekktu nú eins og maður; þú vekur upp drauga með þessu sötri drengur“!
Söxun (n, kvk) Það að saxa í sundur með saxi/exi/hníf, eða saxa hey í föng með hrífu.