Kaðalbútur / Kaðalspotti / Kaðalstubbur (n, kk) Stuttur kaðall/vaður; kaðalendi; vaðstubbur. „Við skulum hafa með okkur þennan kaðalstubb frekar en ekki neitt, ef einhversstaðar þarf að halda við“.
Kaðalendi (n, kk) A. Endi kaðals/vaðs. B. Stuttur kaðall; kaðalstubbur; kaðalbútur.
Kaðalhönk (n, kvk) Hönk af kaðal/vað; uppgerður kaðall.
Kaðall (n, kk) Svert margþætt band; vaður. „Þennan kaðal mætti vel nota í dráttartóg“.
Kaðalstigi (n, kk) Stigi með hliðum úr kaðli, og jafnvel þrepum einnig.
Kaðlakista (n, kvk) Kista sem kaðlar eru geymdir í. „Fluglínutækin voru geymd í skúrnum á Melnum, en fyrirferðarmestar voru tvör stórar, hvítmálaðar kaðlakistur úr tré, með öflugum höldum til burðar“.
Kafald / Kafaldsél (n, hk) Snjókoma, oft í fremur hægu veðri en getur orðið þétt. „Þannig sigldu þeir lengi dags án þess að út af borðstokknum sæi fyrir kafaldi“ (BS; Barðstrendingabók). „Á örfáum mínútum byrgði kafald alla landsýn...“ (BS; Barðstrendingabók)
Kafaldsbylur (n, kk) Kafald með hvassviðri. „En þá gekk á kafaldsbylur með vindi á suðaustan“ (BS; Barðstrendingabók)
Kafaldsfjúk / Kafaldsmyglingur (n, hk/kk) Fjúk; allnokkuð kafald með léttum snjó í fremur hægum vindi.
Kafaldshraglandi / Kafaldsslítingur (n, kk) Ekki þétt kafald; kafaldsfjúk, stundum í hvössum vindi.
Kafaldshríð / Kafaldskóf (n, hk) Þétt snjókoma og allnokkur vindur. „Veður var suðvestan kafaldskóf, hæglætisveður en ylgja; sjósmár“ (um strand togarans Croupiers undir Blakk, frás ÖG eldri).
Kafaldsmolla / Kafaldsmugga (n, kvk) Mjög dimmt/þétt kafald í fremurhægu veðri eða logni. „Þegar fréttist um þennan fund rifjaðist upp fyrir fólki á Hnjóti og Geitagili, að snemma í janúar veturinn áður; í vestan hægviðri og kafaldsmollu. heyrðist mikið skipsflaut og stóð nokkurn tíma, seinni hluta dags“ (MG; Látrabjarg). „Um morguninn hafði verið kafaldsmugga“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Kafaldsmyrkur (n, hk) Myrkur í lofti vegna þétts kafalds; þétt kafald.
Kafaþoka (n, kvk) Niðaþoka; kafþoka; mjög þétt/dimm þoka. „Það verður erfitt að finna djúpbólið í þessari kafaþoku; við skulum bara taka grunnbólið þó hitt væri betra“.
Kafbeit (n, kvk) Mikil beit; vel gróið beitarland fyrir skepnur. „Féð sótti mjög í þessa kafbeit í klettunum“.
Kafblautt á (orðtak) Mikil bleyta á jörðu/grasi. „Það er kafblautt á ennþá. Maður hugsar ekkert til að breiða garðana fyrr en eftir hádegið“.
Kafbleyta (n, kvk) Mikil bleyta. Einkum notað um mikla bleytu á jörðu. „Það hreyfir enginn hey í þessari kafbleytu“.
Kafél (n, hk) Mjög dimmt él. „Við sáum ekki spönn frá okkur í þessu kaféli, og gengum í kolvitlausa átt“.
Kaffenna (s) Snjóa á kaf; snjóa mjög mikið. „Enn er hann að kaffenna; ég veit ekki við hvað þetta lendir“!
Kaffenntur (l) Snjóaður á kaf; horfinn undir snjó. „Skóflan er kaffennt einhversstaðar á bakkanum“.
Kaffibaunir (n, kvk, fto) Baunir kaffiplöntunnar, sem eru brenndar og malaðar til að unnt sé að laga úr þeim kaffi. Í upphafi kaffidrykkju hérlendis þurftu menn að kaupa baunirnar í stórum sekkjum; brenna þær heima og mala kaffið í kaffimyllum sem til voru á flestum bæjum. „Gunna gamla í Gröf var kaffikerling mikil, og átti alltaf kaffibaunir og molasykur“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kaffiborð (n, hk) Matarborð sem kaffi er drukkið við. „Hinir sátu gjarnan góða stund við kaffiborðið og ræddu landsins gagn og nauðsynjar“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kaffibox / Kaffidallur (n, kk) Box/ílát sem kaffiduft er geymt í, áður en lagað er úr því kaffi. „Gleymdu ekki að loka kaffidallinum“.
Kaffibragð (n, hk) Bragð eins og af kaffi. „Það er þó kaffibragð af þessu; ekki eins og lapið á sumum bæjum“!
Kaffibrauð (n, hk) Brauð eða kökur sem snætt er með kaffi eða um kaffileytið.
Kaffibrennslupottur (n, kk) Pottur eða panna til að brenna/hita kaffibaunir. „Kaffibrennslupotturinn var netakúla sem tekin var í sundur í miðju og notuð til að brenna á hringavélinni. Það þurfti sérstakan pott til þess, því það var svo mikil sterkjan í kaffinu“ „ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Kaffibætir / Kaffirót / Export Sikkorírót; ristuð, mulin og pökkuð í pressuðum þunnum skífum; notuð til að drýgja kaffi áðurfyrri. Rótarkaffi mæltist misjafnlega vel fyrir, sérlega ef mikið var notað af rótinni. Baunakaffi þótti flestum betra, en það er lagað úr kaffibaunum; án kaffibætis.
Kaffidropi / Kaffibolli / Kaffilögg / Kaffisopi / Kaffitár (n, kk) Gæluorð um skammt/bolla af kaffi. „Mikið væri nú indælt að fá smá kaffidropa“. Viltu ekki fá þér kaffibolla áður en þú ferð“? „Nú held ég að maður fái sér kaffisopa“!
Kaffidrykkja (n, kvk) Neysla á kaffi hefur verið mikil hjá bændafólki á þessum slóðum, en þó ekki síður hjá vermönnum. „Ég hafði nú kveikt á prímusnum, sem stóð á kassa við rúm mitt, og sett ketilinn yfir. Kaffikannan stóð einnig á kassanum, svo og annað sem til kaffidrykkju þurfti“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Fyrir norðan Bjarg lögðu húsbændur vinnumönnum sínum til kaffi, þótt ekki væri það talin skylda, en ekki var skammturinn meiri ein eitt pund yfir vertíðina“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).
Kaffidrykkjumaður / Kaffikarl / Kaffikerling / Kaffisvelgur (n, kk/kvk) Sá/sú sem drekkur kaffi. „Ég er nú vanalega ekki mikill kaffidrykkjumaður“. „Gunna gamla í Gröf var kaffikerling mikil, og átti alltaf kaffibaunir og molasykur“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kaffidúkur (n, kk) Lítill dúkur til að hafa á borðum, t.d. við kaffidrykkju. „Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka;bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum; löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi...“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Kaffiflaska (n, kvk) Flaska sem kaffi er sett á, þegar það er haft meðferðis í róður/ferðalög. Fyrir tíma hitabrúsa var kaffi oft sett á glerflöskur og þær hafaðar meðferðis í ullarsokk, t.d. í róður.
Kaffihland / Kaffilap / Kaffiskol (n, hk) Mjög þunnt kaffi. „Skelfingar kaffihland varð nú úr þessu hjá mér“! „Það er nú eitthvað annað að drekka þetta en kaffilapið sem maður fær á sumum bæjum, sem ég ætla ekki að nefna; og berrassað í þokkabót“!
Kaffiilmur / Kaffilykt (n, kk/kvk) Lykt af kaffi. „Hér er þessi líka indælis kaffiilmur“.
Kaffikanna (n, kvk) Oftast er átt við könnu þá sem kaffið er lagað í, en í seinni tíð nær orðið yfir hitakönnur sem það er geymt í. Á tímum kola- og olíueldavéla var kaffinu haldið heitu um nokkurn tíma á eldavélinni.
Kaffiketill (n, kk) Ketill til að laga kaffi í, vanalega ketilkaffi. „Þá var prímus, kaffiketill, kanna og fantar til að drekka úr; blikkfata eða pottur til að sjóða soðninguna“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Kaffikorgur (n, kk) Hrat malaðra bauna sem eftir situr þegar kaffi hefur verið lagað úr því. Kaffikorgur var áðurfyrr notaður til fægingar. Ekki tíðkaðist vestra að spá í kaffikorg, eins og annarsstaðar var reynt.
Kaffikvörn / Kaffimylla (n, kvk) Sérstakt áhald til að mala kaffi. Samanstendur af trekt sem brenndar kaffibaunir eru settar í; þar undir hnífar sem snúið er með láréttri sveif, svo baunirnar malast og falla niður í skúffu, neðst í myllunni. Kom ýmist í hlut húsmóður, eldra fólks eða krakka að sitja við að mala. Oftar var talað um myllu en kvörn í þessu sambandi í Kollsvík.
Kaffikönnupoki (n, kk) Poki í kaffikönnu sem notaður er við uppáhellingu. „Kaffikönnupokar voru áður saumaðir úr lérefti eða, sem jafnvel þótti betra; úr skálm af bómullarnærbuxum. Þannig poka mátti þvo og nota mjög lengi“. Orðið finnst ekki í orðabókum. Annarsstaðar virðast menn hafa kallað þennan hlut kaffipoka, en í Kollsvík var kaffipoki eða kaffisekkur sá poki sem óbrenndar baunir voru keyptar í.
Kaffilaus / Kaffilítill (l) Skortur eða yfirvofandi skortur á kaffi. „Nú fer að líða að Gjögraferð; við förum að verða kaffilítil eftir þennan gestagang“.
Kaffileyti / Kaffitími (n, hk) Kaffi;sá tími sem kaffi er venjulega drukkið á. „Ég verð kominn heim um kaffileytið“. „Nú fer að líða að kaffitíma hjá okkur“.
Kaffilús / Kaffiögn (n, kvk) Lítilsháttar kaffi. Ýmist var átt við kaffiduft eða lagað kaffi. „Áttu smá kaffilús fyrir mig“? „Ég fékk lánaða kaffiögn hjá þeim“.
Kaffilús / Kaffitár (n, kvk) Lítið eitt af kaffi. „Áttu nokkra kaffilús á könnunni“? „Komdu við í Kaupfélaginu og fáðu einhverja kaffilús“. „Má ekki bjóða þér kaffitár“?
Kaffimál (n, hk) Emaleruð drykkjarkanna úr járni, en þannig ílát voru tíðum notuð undir kaffi áðurfyrr.
Kaffimylla (n, kvk) Kvörn til að mala kaffibaunir í kaffiduft, eftir brennslu. „Kaffikvörn var til á hverju heimili áðurfyrr; að sjálfsögðu handknúnar. Kaffibaunir eru setar í trekt ofan á kvörninni og síðan snúið láréttri sveif. Malað kaffið safnast í skúffu neðst, sem tæmd er í kaffibox eða kaffikrukku.
Kaffipanna (n, kvk) Stór panna sem kaffi er brennt á. „Á Láganúpi var til stór ferköntuð panna sem notuð var til að brenna kaffibaunir á. Gylfi Guðbjartsson smíðaði hana, þannig að passaði inn í ofn olíueldavélarinnar“.
Kaffipoki (n, kk) A. Kaffisekkur; poki af kaffibaunum, vanalega óbrenndum í strigapoka. B. Poki í kaffikönnu til að hella uppá kaffi. Oft heimasaumaðir áðurfyrr, en nú úr pappírsgrisju
Kaffisekkur (n, kk) Sekkur af óbrenndum kaffibaunum, oftast strigapoki; kaffipoki.
Kaffiskol (n, hk) Mjög þunnt kaffi; niðrandi heiti á kaffi. „Ekki líkaði mér kaffiskolið þar á bæ“!
Kaffisopi (n, kk) Skammtur/bolli af löguðu kaffi. „Mikið væri nú gott að fá smá kaffisopa“.
Kaffiþamb (n, hk) Mikil/óhófleg drykkja á kaffi. „Ætlarðu að vera endalaust að þessu kaffiþambi“?!
Kaffiþorsti (n, kk) Löngun í kaffi. „Það var nú útaf fyrir sig að hanga á brúninni; en kaffiþorstinn var alveg að gera útaf við mig“!
Kaffiþurfi / Kaffiþyrstur (l) Þurfandi fyrir kaffi; þyrstur í kaffi. „Mikið skelfing er ég nú orðinn kaffiþyrstur“!
Kaffæra (s) Færa í kaf; ýta undir yfirborðið. „Við skemmtum okkur við að skvetta á og kaffæra hvorn annan“.
Kaffönn / Kafsnjór (n, kvk) Mikill snjór yfir allt; allt á kafi í snjó. „Féð gerir lítið í þessum kafsnjó“.
Kafgras / Kafslægja (n, hk/kvk)) Vel sprottið gras; þétt gras. „Það er kafgras á sléttunni framanverðri, en bölvaður hýjungur heimantil, þar sem hún er sendnari“. „Þarna eykst brattinn og sjávarklettar hækka, en hér byrjar kafgras og allstaðar er hér kál og hvönn á syllum“ (IG; Sagt til vegar I).
Kafhlaup (n, hk) Um krapa/snjó/vatnselg; mikla ófærð vegna dýpis. „Það er kafhlaup af krapa í Gilinu og varla fært með féð þar yfir“.
Kafloðinn (l) A. Um það sem er hári vaxið; mjög hárvaxinn B. Um tún; mjög mikið sprottin; grösug.
Kafna undir nafni / Kikna undan nafni (orðtak) Standa illa undir virðingarheiti/mannsnafni/uppnefni. „Nú, fyrst þeir kalla mig ófriðarsegg, þá gerir maður ýmislegt til að kafna ekki undir nafni“!
Kafnegla / Kafreka (s) Negla nagla/saum þannig að hann fari á kaf í efnið.
Kafófærð / Kafsnjór (n, kvk) Mikil ófærð; kolófært. Venjulega þá bæði vegur og vegkantar á kafi í snjó.
Kafreykur (n, kk) Mikill/þéttur reykur. „Það var kafreykur ennþá í kofanum síðan í gær“.
Kafrjóður (l) Eldrauður í andliti. „Báðir voru þeir kafrjóðir eftir rifrildið“.
Kafrok (n, hk) Mikil og þétt sjávardrífa/ þétt löður sem rýkur úr brimi. „Þeir sáu varla í skipið fyrir kafroki“.
Kafsigla (s) Sigla bát/skipi svo að hætta sé á að sökkvi. „Að þeir skuli ekki vera búnir að kafsigla dallinum fyrir löngu; eins og þeir hlaða hann djarft“!
Kafsina (n, kvk) Mikil sina á jörð; sinudyngjur. „Þarna á Stígnum er kafsina, enda ekki mikil beit“.
Kafskýjað (l) Mjög skýjað. „Ári finnst mér hann vera að ljókka. Það er orðið kafskýjað hér suðurum“.
Kafsnjór (n, kk) Mjög djúpur snjór; klofsnjór. „Það er kafsnjór í allri Kinninni“.
Kafþoka (n, kvk) Mjög dimm þoka. „Hann er að leggja kafþoku upp á víkina“.
Kaga (s) Skaga fram eða upp í loftið. „...kagandi fram á kalda röst...“ (JH; Áfangar; um Látrabjarg).
Kaggi (n, kk) A. Lítil tunna; kvartel; kútur. B. Líkingamál um drossíu; stóran fólksbíl; ólögulegan bát.
Kaghýða (s) Flengja/hýða af miklu offorsi/afli. „Það væri réttast að taka þennan vitleysing á hné sér og kaghýða hann“! Kagi mun í fornum þýskum tungum þýða staur sem menn voru hýddir við opinberlega.
Kaghýddur (l) Flengdur/hýddur fast/rækilega. „Við bjuggumst við að verða kaghýddir ef uppum kæmist“.
Kakalofn (n, kk) Einfaldur eldofn; eldstó. Tökuorð úr dönsku, en nokkuð gamalt í málinu.
Kakka (s) Þrengja; hrúga; hafa í kökk. „Það gengur ekki að kakka fénu svona þétt í stíurnar“. „Það er ekki að undra þó sléttan spretti; eins og var kakkað á hana af áburði“. „Það var kakkað af grásleppu í bláendann á netinu“.
Kakka saman (orðtak) Hafa í þéttum hóp; þjappa saman. „Fénu líður ekki vel með að vera kakkað svona þétt saman allan þennan tíma“!
Kakkaður / Kakkfullur (l) Kjaftfullur; alveg fullur. „Netin frammi á víkinni vöru svo kökkuð af drullu að við ætluðum ekki að ná þeim inn í bátinn“. „Dilkurinn er orðinn kakkfullur; þar kemst ekki lamb í viðbót“. „Það var kakkað af grásleppu í bláendann á netinu; þétt upp við Landamerkjahleinina“!
Kakksalta (s) Rígsalta; salta mjög mikið; salta svo mikið að hrúgur/kekkir af salti sitji ofaná. „Það má kakksalta fiskinn; verra er að vanti“.
Kakksaltaður (l) Svo mikið saltaður að haugar/kekkir sitji ofaná. „Efsta lagið kakksaltaði ég svo að hvergi sá í fiskinn“.
Kakó / Kakóduft / Kakópúlver (n, hk) Duft sem úr var lagað drykkurinn kakó. Púlver mun áður hafa verið nokkuð almennt notað yfir duft.
Kakóbox (n, hk) Box/dós sem kakó er keypt í. Kakóbox voru til margra hluta nytsamleg ílát eftir að innihaldið var búið úr þeim. T.d. sem berjabox, kökubox eða brauðbox.
Kal / Kalsár / Kalskaði / Kalskemmd (n, hk) A. Fólk getur fengið kalsár af frostbiti. B. Kal í túnum getur orðið verulegur skaði fyrir heyfeng bænda. Það myndast við sérstakar aðstæður; ef frystir þegar frost í jörðu er annars á undanhaldi, þannig að neðra og efra frostlag slíta ræturnar við frostþenslu og gras drepst. „Mikið kal var í túnum í Rauðasandshreppi í sumar..“ (viðtal við ÖG í Tímanum mars 1969).
Kala (s) Verða kalinn. „Þeim túnum er hættara við að kala sem illa eru kýfð“.
Kalblettur / Kalskella (n, kk/kvk) Gróðurlaus blettur í túni þar sem hefur kalið; komið kal.
Kalda (s) Kula; gera vindkalda. „Við fáum slíting af fiski yfir suðurfallið og framá liggjandann, en þá fer að kalda af norðri svo færin eru gerð upp og haldið í land“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Kaldabras (n, hk) A. Aðferð til að festa saman járn án þess að hita, þannig að verði sem heilt. Aðferðin mun hafa verið þjóðsagan einber, líkt og gullgerð. B. Líkingamál um matargerð án hitunar. „Þetta var nú hálfgert kaldabras hjá mér; ég veit ekkert hvort þetta er ætt“.
Kaldakol (n, hk, fto) Auðn; eyðilegging; brunarúst. Eingöngu notað nú í líkingamáli. „Svo skilja þeir við ríkissjóð í kaldakoli þegar þeir loksins hrökklast frá“!
Kaldavermsl (n, hk) Uppsprettuvatn sem kemur djúpt úr jörðu og heldur stöðugu hitastigi; oftast 4°C. „Pollurinn náði undir hluta af kofagólfinu, en þetta var kaldavermsl sem aldrei fraus“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).
Kaldaskítur / Kaldaskratti / Kaldasperringur / Kaldaspæna / Kaldaþræsingur Ýmis heiti á stífum vindi/ kalda. „Hann er að leggja upp einhvern kaldaskratta“. „Árans kaldasperringur er þetta að verða“!
Kaldgeðja (l) Kaldur í viðmóti; ekki hlýlegur/tillitssamur. „Hún var sögð fremur kaldgeðja, og ekki allra“.
Kaldhnoða (s) Forma/hnoða járn/hnoð án hitunar. „Ljáblöðin voru kaldhnoðuð á bakkann með ljáhnoðum“.
Kaldhæðinn (l) Sem beitir kaldhæðni; með beittan húmor. „Hnn þótti oft kaldhæðinn og meinlegur í tilsvörum; einkanlega ef hann vildi sýna lítilsvirðingu sína á viðmælanda“.
Kaldhæðni (n, kvk) Beittur húmor í ummælum/tilsvörum; rósamál; ádeila. „Ég nenni ekki að hlusta á einhverja kaldhæðni eða útursnúninga; annaðhvort svarar þú þessu hreint út eða alls ekki“!
Kaldhæðnislegt (l) Grátbroslegt; furðulegt; sérkennilegt. „Það var óneitanlega kaldhæðnislegt að hann, sem manna mest hafði áminnt menn um varúð í bjargferðum, skyldi svo gleyma hjálminum sínum heima“!
Kaldi (n, kk) Vindur; nokkru meiri en kul og gola. „Vindkulið varð að kalda og Kópur lyftist og hneig á bárunni“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kaldibrunnur (Sérn. kk) Kaldavermsl; uppspretta með köldu vatni. Kaldibrunnur er algengt örnefni á mörgum jörðum í Rauðasandshreppi og e.t.v. víðar. „Brunnsbrekka dregur nafn af læk , en nær bæ rétt við girðinguna er Kaldibrunnur“ (GG; Örn.skrá Láganúps). „Undan Kryppufæti er uppspretta sem heitir Kaldibrunnur“ (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).
Kaldlegt (l) Kaldranalegt; kuldalegt; kalt. „Oft var fremur aldlegt hjá refaskyttunum, þegar þær hírðust hreyfingarlausar í frosti og náttmyrkri í þessum þröngu tófuhúsum“. „Heldur var kaldranalegt þarna á Bjarginu; þungur vinddynur um brúnirnar, en að neðan heyrðist hávær niður öldufallsins að berginu...“ (MG; Látrabjarg).
Kaldór (n, kk) Óhreint járn, sem hætt er við að brotna við kaldhömrun. Orðið heyrist vart í seinni tíð, en mun hafa verið algengt meðan ljáir voru dengdir; enda skiptu efnisgæði þá miklu máli.
Kaldranalegt (l) A. Um veður; kuldalegt; hryssingslegt. „Ári er nú orðið kaldranalegt hér norðurum“. B. Um manneskju; köld/fráhrindandi í viðmóti. „Heldur þótti mér karlinn kaldranalegur og fáskiptinn“.
Kaldrani (n, kk) Kuldi; kuldatíð; hryssingslegt veður. „Þessi kaldrani fer nú að verða leið igjarn til lengdar“.
Kaldreyking (n, kvk) Venjuleg aðferð til reykinga matvæla; reyking matvæla án þess að þau hitni.
Kaldreykja (s) Reykja matvæli án þess að þau hitni. Gagnstætt við heitreykingu sem stundum er viðhöfð við reykingu fiskmetis, en þá soðnar fiskurinn lítillega um leið og hann tekur reyk“.
Kaldreyktur (l) Um matvæli/fisk; sem búið er að kaldreykja. „Kaldreyktur ufsi er herramannsmatur“.
Kaldrifjaður (l) Kaldlyndur; ófyrirleitinn; samviskulaus. „Fannst mörgum hann kaldrifjaður að ætlast til að menn reru á þessu lekahripi“.
Kaldsamt (l) Fremur kalt. „Svo þurfti að skola þvottinn úti í læk, og það gat verið kaldsamt á vetrum“. (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). „Oft var kaldsamt í þessum hákarlalegum“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kaldur (l) A. Ekki heitur/hlýr. „Fjandi er hann að verða kaldur í tíðinni núna“. B. Óragur; vogaður. „Þú ert kaldur þyki mér; að príla þetta svona bandlaus“!
Kaldur á klónum (orðtak) Kaldur á höndunum; með naglakul; klókaldur. „Fjandi var maður orðinn kaldur á klónum að norpa svona í þessari netahreinsun“.
Kaldur í tíðinni (orðtak) Köld veðrátta. „Hann er farinn að verða kaldur í tíðinni þessa dagana“.
Kalfatta (s) Kjalfatta; þétta bát svo ekki leki. Einnig var notuð orðmyndin kjalfatta, en þessi mun vera nær upprunanum; danska orðinu „kalfatre“, og hitt þá alþýðuskýring.
Kali (n, kk) Fæð; þungur hugur. „Ekki varð séð að hún bæri neinn kala til hans fyrir þessa breyskni“.
Kalinn (l) Kalskemmdur; búinn að kala. Notað bæði um tún og menn. „Sléttan er þónokkuð kalin framantil“. „Hann var dálítið kalinn á höndum, en náði sér að mestu“.
Kalhætta (n, kvk) Hætta á kali í túnum. „Alltaf er veruleg kalhætta í svona umhleypingatíð“.
Kalka (s) A. Bera kalk á t.d. húsveggi til verndunar og skreytingar. „Öll fjölskyldan vann að því um vorið að kalka fjárhúsin og hlöðuna“. B. Tapa minni. „Hann er nú dálítið farinn að kalka, karlinn“.
Kalkaður (l) Farinn að tapa minni; kominn með minnistap. „Mikið asskoti er maður orðinn kalkaður“.
Kalkbera (s) Bera kalkmálningu á veggi; kalka.
Kalkbursti / Kalkkústur (n, kk) Breiður málningarpensill, sem notaður er m.a. til að kalkbera veggi og sem þakkústur til að mála bárujárnsþök.
Kalkera (s) Þrykkja eftirmynd/afriti á blað með því að hafa það bakvið annað og kalkipappír/blekpappír á milli. Á fremra blaðið er prentað eða dregin teikning, sem afritast á þá aftari vegna kalkipappírsins. „Ég kalkeraði myndina með því að fara ofaní hana með nagla“.
Kalkipappír (n, kk) Blekpappír. Þunnur pappír með blekmassa á annarri hliðinni, notaður til að taka afrit/ kalkera (sjá þar). Meðan ritvélar voru notaðar, fyrir tölvuöld, var algengt að afrit væru tekin með því að hafa kalkipappír milli tveggja blaða.
Kalkríkur (l) Inniheldur mikið af kalki. „Jarðvegur sunnantil í Kollsvík er mjög kalkríkur vegna skeljasandsins. Sama er að segja um vatnið“.
Kalkhrjónungur / Kalkhrúður / Kalkskán / Kalkútfelling (n, kk/hk/kvk) Heiti á útfellingum sem verða úr kalkríku vatni, eins og t.d. er á Láganúpi. „Með tíð og tíma sest kalkhrjónunungur innanum vatnslagnirnar og stíflar þær meira og minna“.
Kall (n, hk) A. Óp; hátt hljóð þegar kallað er; fyrirskipun. „Eru þeir ekkert að koma í mat; gefðu þeim nú kall hérna úti á hlaði“. B. Stytting á prestakall. „Hann var víst dæmdur frá kjól og kalli“. C. Dauði; andlát. „Hann sagðist ekkert kvíða því þegar kallið kemur; það yrði bara þegar Guði þóknaðist“. D. Karl; karlmaður. Stundum skrifað með ll í stað rl, í líkingu við framburðinn. „Hvað var kallinn að tauta“?
Kalla (s) A. Æpa; hrópa; gefa skipanir. „Því svaraðirðu ekki þegar ég kallaði“? B. Nefna; láta heita. „Hann heitir Karl, en er kallaður Kalli af kunnugum“. C. Sækja. „Það þurfti ekki að kalla lækni til“.
Kalla á Eyjólf (orðtak) Háðsyrði um sjóveiki; leggjast á borðstokkinn til að æla; leggja lóðir; skila nestinu. „Ætlarðu aftur að fara að kalla í Eyjólf“?
Kalla á vaðinn (orðtak) Kalla dráttarfólk/undirsetumenn að sigvað og gera það tilbúið fyrir bjargsig. „Vaðurinn hefur nú verið rakinn frá brúninni og hjólmaður kallar dráttarfólkið á vaðinn. Fólkið sest nú flötum beinum við vaðinn með nokkru millibili; allir sömu megin, en hjólmaður sest ofanvið hjólið og hefur viðspyrnu á hjólgrindinni“. (MG; Látrabjarg).
Kalla ekki allt ömmu sína (orðtak) Kvarta ekki af litlu tilefni; vera harður í horn að taka. „Þeir kölluðu ekki allt ömmu sína þessir sjóhundar“!
Kalla ferju (orðtak) Kalla/hóa yfir á/sund/ mjóan fjörð eftir ferju/bát til að fá sig ferjaðan yfir. „Fylgdi hann okkur út í Sveinseyrarodda og kallaði ferju frá Hvammeyri, þar beint á móti“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Kalla til (orðtak) A. Hrópa á. B. Fá til verkefnis. „Ólafur Magnússon á Hnjóti var einstaklega laginn dýralæknir þó ólærður væri á því sviði, og var jafnan kallaður til þegar amaði að skepnum í sveitinni“.
Kalla til skips (orðtak) Boða áhöfn í róður/bátsferð; láta áhöfn vita að róið verði. „Nú er hann, held ég, að lægja þennan gutlanda mikið. Þú ættir að fara að kalla til skips ef þú ætlar að róa í dag“.
Kalla til verks (orðtak) Boða menn til vinnu. „Ég hafði verkfærin klár, ef kallað yrði til verks“.
Kallaður (l) Nefndur. „Kristján Júlíus, eða Júlli í Tungu eins og hann var kallaður meðal sveitunga, var einn af eldri bræðrum Gumma“ (PG; Veðmálið).
Kallar ekki allt ömmu sína (orðtak) Er hraustur/hugrakkur/vogaður. „Andrés Karlsson sótti sjóinn fastar en flestir trillukarlar á Patró. Sá reynslubolti kallaði ekki allt ömmu sína“.
Kallast á (orðtak) Kalla hvor á annan; talast við með því að kalla/hrópa. „Þeir héldu áfram að kallast á yfir dalinn og kenna hvor öðrum um að hafa misst féð“.
Kallfæri (n, hk) Sú vegalengd sem kall verður greint. „Ég skal biðja hann um að koma í símann ef hann er hér einhversstaðar í kallfæri“.
Kalítt (n, hk) Masónít; þunnar, brúnar, pressaðar trefjaplötur sem notaðar voru víða til inniklæðninga íbúðahúsa eftir daga torfbæja. Kalítt var algengasta heiti þeirra vestra; masónít minna.
Kalka (s) A. Bera kalk á veggi; kalkbera. B. Hrörna í rökhugsun og minni; hafa alzheimersjúkdóm.
Kalkkústur (n, kk) Stór pensill sem notaður er til að bera kalk á veggi.
Kallsa við (orðtak) Ræða lítillega við; brúa á. Ég kallsaði það lítillega við hann að aðstoða við smalanir í haust“. (Lint l)
Kalóna / Kalúna (s) Hreinsa í sjóðheitu vatni. Vambir voru kalónaðar í volgu vatni sem kalki hafði verið bætt útí. Svínsskrokkur er kalónaður í heitu vatni í stóru keri, til að ná hárum af honum. Líkingin er stundum notuð um sköllóttan mann. „Maður er að verða nokkuð kalónaður á kollinum“.
Kalsaél (n, hk) Slydduél í köldu veðri. „Búðu þig nú almennilega; hann gengur á með kalsaéljum“.
Kalsagjóstur / Kalsagustur (n, kk) Köld gola; kaldur vindur; nepja. „Láttu þér nú ekki varða kalt í þessum kalsagjóstri“! „Það er dálítill kalsagustur, en annars bjart og ekkert að veðri“.
Kalsahraglandi / Kalsahreytingur (n, kk) Vægt slydduél með kuldagjósti. „Búðu þig vel fyrir smölunina; það er kominn leiðinda kalsahraglandi“. Fleiri orðasamsetningar voru viðhafðar með sama forskeyti.
Kalsalegt / Kalsamt (l) Kalt; hrollkalt; mikil kæling. „Ári er hann að verða kalsalegur í tíðinni“. „Klæddu þig vel. Það er kalsamt að pelkja á móti þessari slyddu“.
Kalsanæðingur / Kalsaskítur (n, kk) Kaldur vindur; næðingur; kuldagjóstur. „Það er úkomulaust eins og er, en bölvaður kalsaskítur og nauðsynlegt að klæða sig vel“. „Árans kalsanæðingur er þetta“!
Kalsarigning (n, kvk) Köld rigning; rigning í köldu veðri. „Féð gerir lítið í þessari kalsarigningu“.
Kalsaveðrátta / Kalsatíð (n, kvk) „Það er viðbúið að gangi hraðar á fóður í svona kalsatíð“
Kalsaveður / Kalsi (n, hk/kk) Næðingur; kuldagjóstur; nöpur þéttingsgola. „Ertu nógu vel búinn til að standa hjá í þessum kalsa“?
Kalslétta / Kaltún (n, kvk/hk) Slétta/tún sem orðið hefur fyrir kalskemmdum. „Það tekur því varla að slá þessa kalsléttu“.
Kalt á milli (orðtak) Stirð samskipti; rígur; andúð; andar köldu. „Eftir deilunar var lengi kalt á milli þeirra“.
Kalt er kattartrýnið (orðatiltæki) Rétt í bókstaflegri merkingu. Einnig í líkingum t.d. um kaldlynda framkomu.
Kalt er klæðalausum (orðatiltæki) Þeim verður kalt sem er illa búinn/klæddur í kulda.
Kalt er konulausum (orðatiltæki) Þeim er hættara við að kólna í rúmi sem engan hafa rekkjunautinn. Einnig er þeim oft hættara við einmanaleika sem einir búa.
Kalt í veðri (orðtak) Kalt veður; kuldi. „Það er nokkuð kalt í veðri, en fyrirtaks smalaveður“.
Kalt í tíðinni (orðtak) Tímabil kulda/ kaldrar veðráttu. „Ári er nú að verða kalt í tíðinni“!
Kalúnera (s) Hreinsa hár af skinni með því að leggja það í heitt vatn og/eða með kalki. „Svínaslátrun var stunduð a.m.k. eitt haust í sláturhúsinu á Gjögrum. Í því skyni var smíðað stórt ker úr áli til að kalúnera skrokkana“.
Kamar (n, kk) Náðhús; sérbyggt salerni yfir safnþró. „Áður en rennandi vatn fór að tíðkast í húsum var kamar við hvert heimili. Kamar var á Láganúpi framyfir 1960, þrátt fyrir að þá hefði verið kranavatn þar um nokkur ár. Öðrum þræði kann það að hafa verið vegna hins dýrmæta áburðar sem safnaðist í skítaþró og var borinn á tún. Það var áður en íslenskir bændur urðu of fínir með sig til að nýta slík náttúrugæði. Á kamarárunum var sérhannaður salernispappír óþekktur og óþarfur lúxus; þar var nýtnin enn í fyrirrúmi með því að notuð voru dagblöð. Málgagn framsóknarmanna; Tíminn, var þar nýttur til hins ítrasta; fyrst lesin meðan lögmaður var fluttur og síðan notaður til neðanfrágangs. Kamarinn á Láganúpi var líklega ekki meira en metri á kant að gólffleti og mannhæð undir þak; bárujárnshús ofaná steyptri þró, um 8m frá íbúðarhúsinu; festur niður með stögum í hornin. Dyr sneru upp að Flötinni og gegnt þeim var stallur með opi niður í haughúsið og setu kringum það. Loftræsting var um lítið op ofan við dyrnar; og nægileg birta til að rýna í Tímablaðið áður en það gegndi sínu hinsta hlutverki“ (VÖ).
Kamarferð (n, kvk) Ferð á kamarinn til páfatafls. „Ég er hræddur um að þessi brauðsúpa geti kostað einhverjar kamarferðir hjá þér, ef þú ætlar að fá þér þriðja diskinn“!
Kambur (n, kk) A. Hárkambur. B. Ílöng hæð sem hátt ber í landslagi; malarkambur. C. Grásleppukambur; gaddaröð efst á búk grásleppunnar og hveljan sem henni fylgir. D. Fjörukambur; sjávarkambur; rif; efsti hluti fjörunnar; rifið sem sjór gengur ekki á nema e.t.v. í mestu aftökum. „Þegar báturinn er kominn upp á kamb er skorðað; oft var sagt: „Skorðið skipsmenn; ábyrgist eigendur“ “ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Kames (n, hk) Herbergi; fremur lítið. „Ég leigði þar kames uppi á loftinu um tíma“. „Er þetta þitt kames“? Ekki heyrðist notað „r“ í þessu orði í máli Kollsvíkinga, eins og víðast virðist hafa tíðkast.
Kamína (n, kvk) Lítill ofn til hitunar og eldunar í húsum og stundum í skipum.
Kampagleiður / Kampakátur (l) Hýr á brá; brosmildur; hress. „Hann er æði kampagleiður með heimturnar þetta haustið“.
Kampajúði (n, kk) Niðrandi orð um skeggjaðan mann. „Þeim kampajúða ferst ekki að gera grín að öðrum“!
Kampur (n, kk) A. Hlaðinn veggur; hlaðinn bratti/kantur. „Ég lagði orfið uppá kampin“. B. Skegg. Orðið er horfið úr þeirri notkun í seinni tíð fyrir utan orðtakið „að glotta/brosa í kampinn“, og í fleirtölu um veiðihár á dýrum.
Kan (n, hk) Span; þeytingur; asi; harðakan. „Ég mætti honum á miklu kani hér norður á vegi“.
Kandís / Kandísmoli / Kandíssykur (n, kk) Brenndur sykur; brúnleitur sykur í kristölluðum klumpum sem áðurfyrr var töluvert notaður, t.d. með kaffi í stað molasykurs og sem sælgæti. Eftir að sykurneysla varð almennari í öllum mat hefur kandís ekki þótt jafn eftirsóknarverður. „Afi átti stundum kandís í poka eða suðusúkkulaðistykki í koffortinu sínu, og gaukaði molum að okkur krökkunum“.
Kandísrófa (n, kvk) Rófa sem notuð er til að bræða í kandís. „Þetta húsráð til lækninga á kvefi var notað þegar við bræður vorum að alast upp á Láganúpi og rófurnar voru nefndar því nafni“ (VÖ). „Rófurnar voru skornar sundur (hráar) og tekinn þriðjungur innan úr miðjunni; látinn kandísmoli í holuna og látinn renna. Svo var safinn gefinn inn með skeið, þeim sem voru með kvef“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Kanilsykur (n, kk) Sykur sem blandaður er með kanilkryddi og notaður útá grjónagraut/velling. „Það þarf að blanda ögn meira af kanilsykri“. Jöfnum höndum var í Kollsvík talað um kanil og kanilsykur þegar átt var við blandaðan kanil. Orðin voru ekki með e-hljóði eins og víðast tíðkaðist.
Kankvís (l) Glettnislegur; glottuleitur; íbygginn. „Hann var kankvís á svip, eins og eitthvað byggi undir“.
Kankvíslega (l) Með kankvísum svip/hætti. „Hann skotraði á hana augunum kankvíslega, en sagði ekki orð“.
Kann að vera / Kannski / Má vera (orðtök) Getur verið. „Það kann að vera eitthvað rétt í þessu“. „Má vera að þetta sé sem þú segir, en mín skoðun haggast ekkert fyrir því“! Orðið „kannske“ hefur að fullu umbreyst í „kannski“ í munni Kollsvíkinga, a.m.k. í seinni tíð, en var þó í sumum tilfellum haft í tveimur orðum; „kann ske“, eða þremur; „kann að ske“. „Það kann að ske að eitthvað sé til í þessu, þó ég hafi ekki heyrt það“.
Kann ekki góðri lukku að stýra (orðtak) Boðar ekki gott; veit ekki á gott. „Ekki líst mér á útlitið; það kann ekki góðri lukku að stýra að hann sé svona eyddur til hafsins“.
Kannast við (orðtak) Þekkja; vera kunnugur. „Kallamelinn könnumst við./ Krían í Fit á heima./ Með Umvarpi að öldnum sið/ andann látum sveima“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Kannast við sig (orðtak) Þekkja sig; þekkja staðinn sem maður er staddur á. „Nú fer ég loksins að kannast við mig; hér hef ég áður verið í eggjum“.
Kankast (s) Ræða málin; jagast; kíta. „Þeir eru eitthvað að kankast á úti í Gili, strákarnir“.
Kansellístíll (orðtak) Skrúðmælgi kerfiskarla/embættismanna í ritmáli. Frá því elstu sögur greina hefur embættismannaveldið sýnt viðleitni til að hefja sig yfir pöpulinn með sérstæðu; flóknu og óþörfu skrúðmælgi, ásamt yfirgengilegri formfestu og orðhengilshætti; jafnt í bréfaskriftum sem í öðu skrifuðu máli.
Kantaður (l) Um lögun; strendur; með þrjá eða fleiri kanta og nokkuð slétta fleti á milli.
Kantboginn (l) Um borðvið; íhvolfur eða ávalur eftir kantinum; ekki með beinan kant. „Þetta er ljóti bátaviðurinn; ýmist þrælundinn eða kantboginn“!
Kanthefla / Kantsaga (s) Hefla/saga af kanti á borðvið, plötu eða öðru. „Ég slípaði borðplötuna og kantheflaði hana alla“.
Kanthleðsla (n, kvk) Hlaðinn kantur. „Ingvar hlóð firnamikla kanthleðslu við Melshlöðuna“.
Kantra (s) Reisast upp á kant/rönd; hvolfa. „Báturinn rann til á skerinu; kantraði, og tók í sig sjó“.
Kantréttur (l) Um borðvið; fjöl; planka; plötu; beinn í kantinn. „Viðurinn er furðu kantréttur, þó hann sé dálítið misþykkur“.
Kantskera (s) Skera/snyrta kanta/brúnir. „Við skulum láta torfið ganga aðeins útaf veggnum og kantskera það svo á eftir“.
Kantskorinn (l) Búið að kantskera/snyrta. „Alltaf er nú settlegra að sjá þetta svona vel kantskorið“.
Kapall (n, kk) A. Heiti á hesti; helst notað í skáldskap nú á tímum. B. Hestburður. Fyrrum var t.d. hey af velli stundum mælt í fjölda kapla. Fremur var þó talað um hesta eða hestburði vestra. C. Einmenningsspil. „Hann segir að ráðskonan sé duglegri við að leggja kapal en hjálpa til við útiverkin“. D. Taug, t.d. rafmagnskapall. Algengasta notkun orðsins í seinni tíð.
Kapítal (n, hk) Fjármagn; sjóður; auður. „Eitthvað kapítal þarf nú til að eignast þetta“
Kapítalisti (n, kk) Fjármagnshyggja; sá sem aðhyllist auðsöfnun í þágu einstaklinga fremur en almenna velferð; andstaða við kommúnista/sósíalista.
Kapítuli (n, kk) Kafli; bókarhluti; lagagrein. Mun upphaflega hafa merkt yfirlit í upphafi bókar.
Kaplamjólk (n, kvk) Merarmjólk. „Kaplamjólk er líkust brjóstamjólk, og stundum gefin ungbörnum“.
Kapp er best með forsjá (orðatiltæki) Speki sem vísar til þess að þó ákafi/áhugi sé lofsverður þá þarf góð skipulagning og hyggindi einnig að vera til staðar, ef vel á að fara. „Ekki verður þó annað sagt en sjór væri sóttur af kappi, og þó með hæfilegri forsjá“ (KJK; Kollsvíkurver).
Kappa (s) Setja kappa í skemmt dekk svo unnt sé að nýta það áfram. „Það má alveg kappa þessa litlu rifu í hlið dekksins; það er óslitið að öðru leyti“.
Kappala / Kappfóða (s) Ala mjög vel; stríðala. „Hann kappelur þessar örfáu skjátur svo þær vaga í spikinu“.
Kappalinn / Kappfóðraður (l) Fóðraður/alinn mjög vel; hefur fengið nóg fóður. „Hrúturinn var víst svo kappalinn hjá honum að hann gagnaðist lítið framan af“. „Féð hefur verið kappfóðrað í vetur“
Kappát (n, hk) Keppni í því hver er fyrstur að ljúka sínum matarskammti; mikill hraði á snæðingi. „Við fláningsmenn þurfum ekki að vera í neinu kappáti; hann er nýfarinn út til að byrja að skjóta“.
Kappbúinn / Kappklæddur (l) Mjög vel búinn/ mikið klæddur. „Manni getur varla kólnað, svona kappklæddum“. „Mér varð fljótt alltof heitt, enda kappbúinn“.
Kappfullur / Kappmikill (l) Ákafur/duglegur við vinnu/verk/keppni; fjörmikill; áræðinn. „Við vorum ungir og kappfullir á þeim dögum“.
Kappganga / Kapphlaup (n, kvk/hk) Keppni sem mikið var stunduð, þátttakendum og öðrum til gamans.
Kappi (n, kk) A. Kempa; baráttumaður; sá sem gengur rösklega fram í t.d. bardaga eða öðru verki. B. Brík, t.d. yfir glugga til að hylja efri kant gluggatjalda. C. Þykk gúmmíbót sem sett er innanvið gat/rifu í hlið dekks, til að unnt sé að nýta það áfram með gúmmíslöngu (sjá kappa).
Kappklæddur (l) Mjög mikið/vel/hlýlega klæddur. „Ég var kappklæddur; í loðbandspeysu, föðurlandi og tvennum sokkum; með svellþykka vettlinga á höndum og dembúl á höfði“.
Kappkosta (s) Kosta kapps um; keppa að; leitast við; leggja áherslu á. „Ég kappkostaði að ná þessu prófi“.
Kappkynda (s) Kynda hús mjög mikið; halda miklum hita. „Það er óþarfi að kappkynda húsið í svona veðri“.
Kappkyntur (l) Kyntur/hitaður mikið. „Ofninn var kappkyntur þar til hann glóði, en hitaði lítið í framhúsinu“.
Kappmella (n, kvk) Bragð á bandi/línu, þannig að lykkju úr línunni er hvolft uppá hana sjálfa. Við það myndast auga/rennilykkja sem herðist saman þegar togað er í tvöfalda línuna.
Kappmella (s) Setja kappmellubragð á band; festa hlut með kappmellu. „Steinarnir voru kappmellaðir neðan í netin, til að halda þeim sem best við botninn“ (Magnús á Skógi; Árb.Barð; 1959-67).
Kappmikill / Kappsamur (l) Duglegur; vinnusamur; metnaðarfullur. „Hann er ári röskur og kappmikill, drengurinn“.
Kappnógur / Kappnægur (l) Alveg nóg; yfirdrifið; ærið. „Þetta er nú kappnógur skammtur fyrir mig, ég torga þessu varla“. „Kindurnar höfðu haft kappnæga beit í sjálfheldunni, og voru vel á sig komnar“.
Kappræður (n, kvk, fto) Ákafar samræður; keppni í rökræðum; deilur. „Yfir kaffihaldinu upphófust ákafar kappræður um pólitík, og urðu menn ekki á eitt sáttir fremur venju“.
Kappsamlega (ao) Af kappi/kappsemi/dugnaði. „Ég var orðinn svangur og tók kappsamlega til matarins“.
Kappsamur (l) Ákafur; drífandi; röskur. „Jafnan var það svo að formenn í Kollsvíkurveri voru kappsamir um sjósókn“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Kappsemi (n, kvk) Ákafi við vinnu/verk; eljusemi. „Þarna var víst kappsemin meiri en forsjáin“.
Kappsláttur (n, kk) Keppni tveggja eða fleiri í því hver er fyrstur og bestur í því að slá með orfi. „Tvisvar hefur það (Umf Von) staðið fyrir kappslætti, með góðum árangri“ (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi).
Kappsmaður (n, kk) Ákafamaður; eldhugi. „Hann var mikill kappsmaður til allrar vinnu“.
Kappsmál (n, hk) Markmið sem keppt er að; áhersluatriði. „Mér var það kappsmál að þetta gengi eftir“. „
Kappsmunir (kk, fto) Eldlegur/mikill áhugi. „Að þessu vann hann af miklum kappsmunum“.
Kappsund (n, hk) Keppni í sundi. „Þeir fóru í kappsund í kaldri lauginni, til að halda á sér hita“.
Kapptínsla (n, kvk) Keppni í tínslu berja/eggja. „Enginn lagði í kapptínslu við Bugga; hann var alltaf langfyrstur að fylla“. „Við byrjuðum sinn á hvorum enda urðarinnar og svo var kapptínsla þar til við mættumst á henni miðri“.
Kar (n, hk) A. Ker; stór skál. Sbr fiskikar. „Sláturfélagið lét smíða geypistórt kar, svo kalóna mætti svínin frá Breiðavíkurbúinu“. B. Slor á nýfæddum kálfi (sjaldan notað).
Kara (s) Um kind/kýr; sleikja slorið af nýfæddu lambi/kálfi. „Það er í eðli móðurinnar að kara sín afkvæmi“.
Karaður (l) Um lamb/kálf; búið að kara/ sleikja slorið af. Sjá nýkaraður.
Karakálfur (n, kk) A. Nýborinn kálfur sem ekki hefur verið karaður. B. Meira notað í líkingum um mann sem er illa að sér; nýgræðing; heimskingja. „Hann er alger karakálfur í þessum efnum“.
Karakter (n, kk) A. Persónuleiki; eðli; art; hegðun. „Þetta er eitt af því fáa sem ég get illa fellt mig við í hans karakter“. B. Sérkennileg/heillandi manneskja/skepna; skepna með mannleg einkenni. „Heimalningurinn er heilmikill karakter, og gerir sér töluverðan mannamun“.
Karakterslaus (l) Skortir persónuleika/ sérkenni í hegðun. „Ég kann aldrei við þessi einsleitu og karakterslausu hvítu hænsni. Það má mikið vera ef eggin úr þeim eru ekki bragðlausari líka“! Einatt sagt með „s“ í Kollsvík. Annarsstaðar þekktist orðið án þess.
Kararmaður / Kararkerling (n, kk/kvk) Um karl/konu sem orðin eru heilsulaus vegna elli. „Ég hef hugsað mér að ljúka við þetta áður en ég er kararmaður orðinn“.
Karbarator (n, kk) Blöndungur á bensínvél. „Einhver andskotans stífla er í karbaratornum eina ferðina enn“!
Karbítur (n, kk) Efnið kalsíumkarbíð; CaC². Þetta brúna efni var mikið notað áðurfyrr, bæði í karbítljós og til að framleiða asetylengas til suðu o.fl. Það er búið til með hvörfun kalks við kolefni í viðarkolum.
Karbítljós (n, hk) Ljós sem töluvert voru notuð fyrir daga rafmagnsljósa, t.d. á skútum. Þau gáfu mun skærari birtu en olíuluktir, en voru varasöm. Oft urðu slys þegar sjór eða vatn komst í karbítinn.
Karbólsýra / Karbólvatn (n, kvk/hk) Karbólsýra (fenól) er lífræn sýra; lítillega súr. Var fyrst framleidd úr koltjöru, en nú úr jarðolíu, og notuð í gerviefnaiðnaði. Karbólvatn er mjög þynnt karbólsýra, og var til skamms tíma mikið notað til sótthreinsunar.
Karbæta (s) Stagbæta; leggja bót ofaná bót. „Það er hæpinn gróði að því að karbæta slönguna frekar“.
Karbættur (l) Stagbættur; með bót við/ofaná bót. „Nú held ég sé kominn tími til að henda þessum kagbættu stígvélum“. Forliðurinn líklega samstofna orðinu kör = ellihrumleiki.
Karfa (n, kvk) A. Ílát, oft líkt bala og flettað úr tágum. Notað t.d. til að bera fisk. Nokkuð rak af slíkum körfum á fjörur í Kollsvík, og voru þær notaðar til að bera hey á garða. Tágakarfa; fiskikarfa; heykarfa.
Karfakvikindi (n, hk) Gæluorð um karfa. „Það dregst stöku sinnum karfakvikindi þarna á djúpslóðinni“.
Karfi (n, kk) Fisktegund. Fyrir kom að á dýpri miðum Útvíkna veiddist litli karfi (Sebastes viviparus).
Kargabotn (n, kk) Grýttur hafsbotn þar sem hætt er við festum; hraunbotn. „Hér er bölvaður kargabotn; það hefur ekkert uppá sig að renna hér“.
Kargi / Kargablettur / Kargaþýfi (n, hk) Mjög þýft land; margar þúfur. „Hlýtur að hafa verið seinlegt að slá þarna í kargaþýfinu“.
Kargahraun / Kargi (n, hk) Stórgrýttur hafsbotn. „Við þurfum að kippa áður en okkur rekur lengra suður; þar er kargahraun og hætt við botnfestum“. „Ég lenti á kargafjanda og tapaði slóðanum“! Einnig hraunkargi.
Kargur (l) Þvermóðskufullur; þvergirðingslegur; þver; uppá móti; skapstirður. „Mörgum fannst hann óbilgjarn og kargur í þessu máli“.
Karl í krapinu (orðtak) Mikill karl; mikil hetja; framar öðrum mönnum. „Hann var sko karl í krapinu, skal ég segja þér“! „Þetta hefurðu uppúr því að vera karl í krapinu og þykjast ekki þurfa húfu“!
Karlagrobb (n, hk) Mont; raup. „Óttalegt karlagrobb er nú komið í þig í seinni tíð“!
Karlalegur (l) Um karlmann; orðinn aldraður í háttum/útliti. „Skelfing finnst mér hann orðinn karlalegur“.
Karlafmánin / Karlanginn / Karlaulinn / Karlauminginn / Karlálftin / Karlbjálfinn / Karlfjandinn / Karlgarmurinn / Karlgepillinn / Karlfauskurinn / Karlfýlan / Karlhelvítið / Karlhólkurinn / Karlhlunkurinn / Karlhrotan / Karlhróið / Karluglan / Karlgreyið / Karlkurfurinn / Karlkvikindið / Karlrassgatið / Karlrassinn / Karlrokkurinn / Karlrýjan / Karlræfillinn / Karlpungurinn / Karlsauðurinn / Karlskarið / Karlskepnan / Karlskrattinn / Karlskrjóðurinn / Karlskröggurinn / Karlskuddinn / Karlskunkurinn / Karlskúmurinn / Karlskömmin / Karltötrið / Karluglan / Karlvesalingurinn Gæluorð um karlmenn í umtali; oft í góðlátlegri meiningu, en stundum neikvæðri. Einatt með greini. Blæmunur er á notkun eftir samhenginu. Karlanginn, karlauminginn, karlhróið og karlgarmurinn eru t.d. notuð í vorkenningarskyni (oft án forskeytisins); karlálftin og karlhólkurinn ef um yfirsjón eða góðverk hefur verið að ræða en karlaulinn, karlfauskurinn, karlfjandinn, karlfýlan, karlhelvítið, karluglan og karlskúmurinn hafa neikvæðasta merkingu. Sambærileg gæluorð eru stundum notuð um kvenfólk í umtali, en þá með forskeytinu kerlingar- í stað karl-. Eðlilegt er þó að í svo fjölmennri verstöð sem Kollsvík var um aldaraðir hafi fleiri slík gæluorð verið notuð um karlmenn. Áðurfyrri þótti slík orðanotkun ekki hafa þá meiðandi merkingu sem viðkvæmni borgarsamfélagsins vill vera láta í dag. „Hvað skyldi hann meina með þessu, karlskúmurinn“? „Hvað var hann eiginlega að hugsa, karlgepillinn“?! „Ég held að karlrassinn geti átt sig fyrir mér“! „Ekki held ég að ég stjani meira við karlrassgatið en orðið er“! „Hann á það nú skilið karlkurfurinn, að fá þessa viðurkenningu eftir sitt ævistreð í þágu annarra“. „Það verður nú að virða það við karlkvikindið að hann er allur af vilja gerður, þó þetta fari svona í handaskolum hjá honum“. „Ég hálfvorkenni honum, karlrýjunni; að þurfa að búa við þetta bölvað skass“. „Hvert ætlar karlafmánin eiginlega að fara með féð“?!
Karlaskapur (n, kk) Mannlýsing; þegar menn eru orðnir stirðir og ódrjúgir til einhverra verka. „Þetta er nú allt komið í karlaskap hjá mér núorðið; ár og dagur síðan ég fór ofan í kletta til eggja“.
Karldyr (n, kvk, fto) Aðaldyr/útidyr húss. Fornt orð og fallið úr notkun. Sjá anddyri.
Karlmannlega (ao) Eins og karlmaður; mannalega; hraustlega. „Hann tók þessu mótlæti karlmannlega“. Oft var viðhöfð þessi vísa Kristjáns Jónssonar fjallaskálds: „Við skulum ekki víla hót, / það varla léttir trega./ Það er þó alltaf búningsbót/ að bera sig karlmannlega“.
Karlmannlegur (l) Hraustlegur; vel að manni; sterkur. „Hann virðist nógu karlmannlegur á velli; hvernig sem hann svo reynist þegar á hólminn er komið“!
Karlmannslaus / Kvenmannslaus (l) Ekki í sambandi/tygjum við einstakling af gagnstæðu kyni; án karlmanns/kvenmanns. „Hann hefur bara séð, þegar kom ég karlmannslaus;! Kannske vissi hann hvað ég vildi segja./ Hann flýtti sér í bólið og breiddi uppfyrir haus/ og bjóst þá við að af hræðslu myndi hann deyja“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Karlmannsleysi /Kvenmannsleysi (n, hk) Skortur annars kynsins á samneyti við hitt, og hugarvíl sem því kann að fylgja. „Hann er eitthvað að vorkenna konunni þessa einveru; ég held að hann hafi mikinn hug á að bæta úr karlmannsleysinu á bænum“!
Karlmannsverk (n, hk) Verk sem eðlilegra þykir að unnið sé af karlmanni en kvenmanni. Verkaskipting af þessu tagi hefur tekið miklum breytingum í seinni tíð; efti að hafa haldist nær óbreytt um aldaraðir. Undir karlmannsverk féllu allajafna helstu erfiðisverk utanhúss; bæði til lands og sjós, ásamt þeim inniverkum sem kröfðust líkamlegra átaka eða húsbóndavalds. Ekki var þó þessi skipting einhlít, og með réttu má halda því fram að húsmæður og vinnukonur hafi tíðum stritað fullt eins mikið og karlmenn heimilisins. Til karlmannsverka taldist flest skepnuhirðing, að mjöltum frátöldum; þær voru kvenmannsverk. Bóndi hélt fénaði til beitar; sá um smalamennskur; slátt túna; slátrun fjárins; mótöku; kolagerð; smíðar; grjóthleðslu; róðra; aðgerð afla og fleira. Margt var þó unnið í sameiningu, s.s. heyverkun; hirðing; aftekt; sláturvinnsla og verkun afla. Nokkur dæmi voru um að konur fengjust við róða í Kollsvík um og eftir aldamótin 1900.
Karlmenni (n, hk) Maður með mönnum; hetja; harður af sér; sterkur; mannskapsmikill. „Og það vissi ég að hann sagði satt því hann var karlmenni mikið og þungur í skapi“ (JVJ; Nokkrir æviþættir).
Karlmennska / Karlmennskubragur (n, kvk/kk) Hetjuskapur; áræði; mikil geta; áttur sannra karlmanna. „Mér þykir það nú lítil karlmennska að renna af hólmi strax og á móti blæs“! „Það er kannski ekki mikill karlmennskubragur á þessu, en það er alltaf betra að hafa vaðið fyrir neðan sig“.
Karlpeningur (n, kk) Gæluorð um karlmenn; karlmaður. „Karlpeningurinn er allur að smala“.
Karlsvagninn (n, kk) Hluti af stjörnumerkinu Stóra-birni. Karlsvagninn er myndaður af sjö stjörnum og er nafnið dregið af því að saman þyki þær minna á hestavagn með kjálkum. Karlsvagninn má nota til að miða út pólstjörnuna, en hún er nánast yfir norðupól jarðar og var notuð fyrrum sem leiðarstjarna. Er hún í framhaldi af línu sem dregin er milli „afturhjóla“ vagnsins.
Karmavillt (l) Um það þegar maður/ær fer í/opnar rangan karm á fjárhúsi. „Ég fór eitthvað karmavillt þegar ég hleypti fénu út; áttaði mig ekkert fyrr en gemlingaskrattarnir komu valhoppandi út“.
Karmdyr (n, kvk, fto) Dyr á karmi. „Stattu innanvið karmdyrnar svo gemlingarnir ryðjist ekki allir út í einu“.
Karmi (n, kk) Fuglakippa sjá þar. Notkun orðsins virðist hafa takmarkast við Útvíkurnar.
Karmur (n, kk) A. Garði; stía fyrir fé í fjárhúsi. Karmur var oftar notað en garði í Kollsvík. „Hún Gibba gamla fer alltaf á sinn stað í norðari karminum í miðhúsinu“. B. Rammi í dyra-/ gluggagætt. Dyrakarmur.
Karp (n, hk) Deilur; stælur; jag; rifrildi. „Skelfing leiðist mér þetta eilífa karp um pólitík“!
Karpa (s) Deila; rífast. „Karlarnir kjánkuðust og körpuðu yfir svörtu ketilkaffi sem alltaf var til reiðu á prímusnum þegar tími gafst til“ (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Karpgjarn (l) Gjarn á að karpa; hefur unun af deilum. Þrasgjarn var þó meira notað.
Karphús (n, hk) Hegningarhús. Í seinni tíð eingöngu notað í orðtakinu að taka í karphúsið.
Karri (n, kk) Karlkyns rjúpa. Einhversstaðar mun orðið hafa verið notað um ullarkamba, en það var körrur í Kollsvík. Bæði orðin vísa líklega til hljóðs nafnberans.
Karta (n, kvk) Arða; ögn; nabbi; hnúfa. „Þú skefur stærstu körturnar af grásleppuhveljunni, og sumir taka brjóskið líka, en hitt er allt matur“.
Kartnögl (n, kvk) Nögl sem er afmynduð í vexti, oftast kúpt og hrufótt.
Karton (n, hk) Slettuorð. A. Þykkur pappír. B. Aflangur pakki með mörgum smærri pökkum.
Kartöflubingur / Kartöfluhrúga (n, kk/kvk) Bingur/hrúga af kartöflum.
Kartöfludiskur / Kartöflupottur / Kartöfluskál (n, kk/kvk) Ílát sem kartöflur eru bornar fram í, eftir að soðnar hafa verið í kartöflupotti. „Réttu mér kartöfludiskinn“.
Kartöflugryfja (n, kvk) Jarðhýsi til að geyma kartöflur, rófur og fleira. „Kartöflugarðar og kartöflugryfjur voru nánast á hverjum bæ í hreppnum“.
Kartöfluhýði (n, hk) Húðin yst á kartöflu. Stundum stytt í hýði, en aldrei var talað um „flus“ í Kollsvík.
Kartöflujafningur (n, kk) Hvít sósa með flysjuðum kartöflum útí. Annarsstaðar heyrðist orðið „uppstú“ eða „uppstúfur“ um þennan rétt, en það var aldrei notað í Kollsvík. Kartöflujafningur var helst notaður til hátíðarbrigða, t.d. ef hangiket var á borðum.
Kartöflufata / Kartöfluílát / Kartöflukyrna / Kartöfluskál / Kartöfluspanda (n, kvk/hk) Ílát sem notuð voru til að setja kartöflur í þegar þær voru teknar upp. Vanalega hafði hver upptökumaður hjá sér tvö ílát; annað stórt fyrir stærri kartöflurnar/ matarkartöflur, og hitt minna fyrir myrið. Stundum var það þriðja haft undir útsæðiskartöflur, en oftar voru þær flokkaðar frá þegar búið var að breiða til þurrrks.
Kartöflugaffall / Kartöfluklóra / Kartöflukvísl (n, kvk) Kvísl til að taka upp kartöflur. Kartöfluklóra er sérstaklega til þess ætluð; með vinkilbeygða tinda sem höggvið er niður við kartöflugrasið. Kartöflugaffall er sama verkfærið og hnausakvísl/hnausagaffall; ýmist með sívölum eða flötum tindum; ætlaður fyrir ástig.
Kartöflumóðir (n, kvk) Útsæðiskartafla, eftir að hún hefur getið af sér nýjar kartöflur að hausti og er þá oftast orðin dökk og lin.
Kartöflupoki / Kartöfluposi / Kartöflusekkur / Kartöfluskjatti (n, kk) Poki undir kartöflur/poki með kartöflum. Sekkur er stór poki en skjatti eða posi er lítill.
Kartöflurækt (n, kvk) Ræktun jarðepla/kartafla. „Kartöflurækt hefur lengi verið stunduðá flestum bæjum í Rauðasandshreppi, enda var þar upphaf samfelldrar kartöfluræktunar á Íslandi, með ræktunartilraunum Björns í Sauðlauksdal. Bændur í Kollsvík voru fljótir að tileinka sér þessar afurðir, og komu sér upp kartöflugörðum við sína bæi. T.d. voru tveir garðar á bæjarhólnum í Kollsvík í byrjun 20. aldar, og aldrei hefur fallið niður kartöflurækt í víkinni frá upphafi. Kartöflugryfjur voru byggðar til að geyma þessa matvöru og tókst yfirleitt vel til með það. Menn voru fastheldnir á gamlar tegundir um leið og nýjar voru reyndar. Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi hefur verið mikil áhugamanneskja um varðveislu þeirra“.
„Já, það voru alltaf ræktaðar kartöflur og þær spruttu; og þær spruttu vel. Það var alltaf sett mánuð af sumri. Rófur voru einnig ræktaðar. Þetta tilheyrði vorverkum kvennanna“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Kartöflustappa (n, kvk) Marðar kartöflur sem matbúnar eru, t.d. með sykri og smjöri sem þykkur grautur. Þetta meðlæti var aldrei nefnt öðru nafni áðurfyrri, en nú hefur frönskuslettan „kartöflumús“ eða „mús“ tekið algerlega yfir. Væri þarna þörf á afturhvarfi til réttara máls.
Kartöfluupptaka (n, kvk) Upptaka kartaflna úr garði.
Kasa (s) A. Aðferð til að geyma fisk sem ætlaður er í skreið þar til hann er þurrkaður (sjá skreið). B. Kæsa, t.d. skötu og hákarl. C. Hafa í þéttum haug/ þéttum hóp/ kös. „Það er ekki hægt að kasa svona mörgu fólki inn í þetta litla herbergi“!
Kasa inni (orðtak) Vanalega um húsdýr; hafa í þéttum hóp í húsi. „Það er ástæðulaust að kasa féð lengur inni fyrst veðrið er að lagast“.
Kasa saman (orðtak) Hrúga saman í kös. „Kálfarnir þrífast ekki vel þegar þeim er kasað svona þétt saman“.
Kasína (n, kvk) Tveggja manna spil. Gefið er þannig að gjafari gefur mótspilara 3 spil; sjálfum sér 3 og leggur 2 í borðið. Síðan hinum 2; sjálfum sér 2 og 2 í borðið. Stokkurinn geymdur og gefinn síðar. Mótspilari byrjar og tekur úr borðinu með einu spili jafnmikið og nemur gildi þess; eitt eða fleiri spil. Ásinn er ýmist hæstur og gildir 14 eða lægstur og gildir 1. Gefið er aftur þegar öll spil á hendi eru búin, en þá ekki gefið í borðið. Í síðustu gjöf eru 4 spil á hvorn. Eftir spilið eru slagir reiknaðir hjá hvorum. Spaðatvistur nefnist litlakasína og gefur 2 stig; tígultían nefnist stórakasína og gefur 5 stig. Að ná öllum spilunum úr borði nefnist að svippa, og gefur 1 stig. Að ná síðustu spilum úr bori gefur 1 stig, og sá sem fær síðasta slag má hirða restina úr borðinu. Fleiri spaðar í lok spils gefa 1 stig. Fleiri ásar í lok spils gefa 1 stig. Fleiri spil í slögunum gefa 1 stig. Sá vinnur sem fyrr nær 20 stigum. Náist þau ekki er spilað aftur. „Guðbjartur afi á Láganúpi hafði gaman af spilum á gamals aldri, og þurfti ekki mikla hvatningu frá okkur bræðrum til að fást í eina kasínu á kistulokinu“.
Kaskeiti (n, hk) Derhúfa af fínna tagi; yfirleitt einungis notað um derhúfur með glansderi.
Kasólétt (n, kvk) Um konu; greinilega þunguð; með barni. „Hún er víst orðinn kasólétt enn einusinni“.
Kast (n, hk) A. Það að kasta/fleygja. „Ég batt bandið um stein, en náði ekki að fleygja því upp á brúnina í fyrsta kasti“. B. Yfirvarp. Sá hluti niðristöðu fyrir dreka/netastein/stjóra sem er umfram dýpið til að átakið verði meira á hlið en beint upp; sú vegalengd sem bauja á yfirborði er frá því að vera beint upp af stjóra/netasteini. „Það þarft að hafa tíu faðma fyrir kast á þessu dýpi“. C. Hæð; hóll; barð; hilla/völlur framaní bjargi. „Ég sá fjáhópinn þegar við komum upp á kastið“. D. Í orðatiltæki: „Ég ætla að hvíla mig fyrsta kastið“. E. Skiptahlutur; hrúga af fiski/eggjum/hvalketi o.fl sem skipt er er sameiginlegum afla. Í hverju kasti eru tveir hlutir sem síðan er skipt milli þeirra sem eiga (sjá skipti). F. Lagning fiskilínu; notkun vörpu; varp króks með stöng. „Þegar lokið var við að draga línuna var bátnum fest við það stjórafæri þar sem drætti lauk. Þetta var kallað að „ljúka við kastið“. Þá var byrjað að blóðga þorskinn; slægja steinbítinn og skera beitu uppá næsta kast“ (KJK; Kollsvíkurver). G. Skapbrigði; geðsveifla; flog. (Seinni tíma merking). H. Sveifla; slag. „Mér sýnist vera eitthvað kast á kerruhjólinu“. I. Kafli/tímabil í veðráttu, t.d. kuldakast. „Almennt mátti ekki heita að skepnur kæmu á gjöf fyrr en um og eftir hátíðir, því kast það er gjörði snemma vetrar varð hér svo vægt að litlu sakaði“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1926).
Kasta/fleygja af auga / Kasta af hendi (orðtak) Kasta án verulegrar nákvæmni; kasta í sömu átt og maður snýr/horfir; kasta með hendinni. „Þegar ég hafði gengið frá því að festa endann tók ég vaðarhönkina og kastaði henni af auga framyfir brúnina“. „Ég tók steinbítinn og kastaði honum af hendi útfyrir borðstokkinn“.
Kasta af sér (orðtak) A. Fara úr yfirhöfn. „Kastaðu nú af þér og fáðu þér kaffisopa“. B. Um það þegar reimar milli véla fara útaf reimskífum sínum. „Vélin kastar alltaf af sér einni blásarareiminni“.
Kasta af sér vatni (orðtak) Míga; pissa. „Fyrsta verk bónda var ávallt að fara útfyrir húshorn; gá til veðurs og sjávar og kasta af sér vatni. Að sumri var stundum strokið handarbaki á jörð og kannað hvort þurrt væri af“.
Kasta akkeri/dreka/stjóra (orðtak) Leggjast fyrir fast; leggjast við akkeri. „Nú skulum við kasta drekanum meðan við gerum að; en fyrst held ég að við lítum á nestið“.
Kasta á (orðtak) Merkja köst þegar skipt er aflahlutum (sjá skipti).
Kasta á fjöll (orðtak) Grána í fjöll; grána uppi; setja dálítinn snjó í fjöll, þó autt sé í byggð. „Aðeins hefur kastað á fjöll; enda ekki nema von þegar komið er þetta mikið framá“.
Kasta á glæ (orðtak) Fleygja frá sér; eyðileggja; fórna. „Svona tækifæri má ekki kasta á glæ“. Glær merkti sjó í fornu máli. Rót orðtaksins má rekja til þess að fleygja einhverju í sjóinn eða missa fyrir borð af báti.
Kasta á kveðju (orðtak) Kveðja. „Ég ætla að kasta kveðju á fólkið, svo við förum ekki með vitið úr bænum“.
Kasta á tölu (orðtak) Telja. „Kastaðu tölu á féð í norðasta karminum; mér taldist að vantaði eina“.
Kasta barninu út með baðvatnnu (orðtak) Líkingamál, komið úr dönsku, sem oft er viðhaft um það þegar menn kasta frá eða hafna því sem þeim finnst þarflaust eða léttvægt þá stundina, en uppgötva síðar að það var hið mikilvægasta eða kjarni málsins.
Kasta bóli (orðtak) Varpa í sjóinn dufli/bóli og niðristöðu, áfast neti eða línu. „Þá var kastað bóli, eftir því miði sem formaðurinn valdi sér, og lóðirnar lagðar“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Kasta dropum (orðtak) Um úrkomu; rigna í litlu magni. „Drífum okkur að klára að galta þetta; hann er strax byrjaður að kasta dropum“.
Kasta ekki hendinni á móti (orðtak) Hafna/ vilja ekki þegar boðið er. „Ég er nú eiginlega vel saddur, en ég kasta aldrei hendinni á móti góðum rúsínugraut“.
Kasta ellibelgnum (orðtak) Um eldri manneskju; haga sér/ líta út eins og mikið yngri manneskja.
Kasta eign sinni á (orðtak) Eigna sér; sölsa undir sig. „Í ljós kom að karlinn hafði kastað eign sinni á túnblett nágrannans, án þess að spyrja kóng eða prest“.
Kasta éli / Kasta úr éli (orðtak) Gera él. „Það hefur aðeins kastað éli í nótt og gert hvítt í rót“.
Kasta fram (orðtak) Leggja fram tillögu; láta einhvers getið; segja. „Ég kastaði því fram við hann hvort við ættum kannski að skreppa í róður á morgun ef veðrið helst“.
Kasta fram neti (orðtak) Leggja net. „Við ættum nú að kasta fram neti hér á bótina í næsta róðri“.
Kasta fram stöku/vísu (orðtak) Fara með vísu. Oftast þá átt við frumsamda stöku. „Það skiptir líka máli að alast upp þar sem vísum er kastað fram“ (MH um Sunnu Hlín dótturdóttur sína sem hlaut verðlaun í ljóðasamkeppni 10 ára; Mbl 04.01.2017)
Kasta frá (orðtak) Taka úr safni það sem lakara er. „Kastaðu særðum kartöflum frá; þær verða borðaðar fljótlega með myrinu“.
Kasta færi (orðtak) Renna færi fyrir fisk; reyna; renna. „Við köstum færi á Stekkunum en verðum ekki varir; þá er að dýpka sig meira“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Kasta heimdraganum (orðtak) Losna við heimþrá/ löngun til að komast aftur heim. „Mér lánaðist ekki að kasta heimdraganum þegar ég fór fyrst að heiman í skóla“.
Kasta hlut / Kasta hlutkesti (orðtak) Varpa hlutkesti um val milli tveggja eða fleiri kosta. „Við köstum hlut uppá það hver á að fara núna að reka útaf“.
Kasta hnútum að (einhverjum) (orðtak) Hreyta ónotum í; atyrða einhvern. „Verið nú ekki að kasta hnútum að honum fyrir þetta; hann á enga sök á þessu“! Hnúta er bein, og þá helst átt við kastið/liðinn, en bein voru brotin til mergjar fyrrum.
Kasta höndunum til (orðtak) Sjá kasta til þess höndunum.
Kasta í (orðtak) Gefa fóður. „Ég ætla að skreppa og kasta í skepnurnar“. „Ertu búinn að kasta í hænsnin“?
Kasta í skepnurnar (orðtak) Gefa á garðann; gefa fénu; færa búfé fóður.
Kasta kisum (orðtak) Um veður; setja yfir vindkviður, þó ekki meiri en þegar kattarfeldur strýkst við vanga. Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur, en þó þekktist kisuvindur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Kasta krónunni en hirða aurinn (orðtak) Gefa frá sér það dýrmæta fyrir hitt sem minna gildi hefur.
Kasta kveðju á (orðtak) Kveðja. „Ég ætla að hlaupa inn og kasta kveðju á fólkið áður en ég fer“. „Allt er nú tilbúið og sigarinn snýr sér að fólkinu og kastar á það kveðju, en það óskar honum góðrar ferðar“ (MG; Látrabjarg).
Kasta mæðinni (orðtak) Hvíla sig eftir erfiða vinnu/ göngu eða annað; pústa; varpa öndinni. „Við settumst niður í lautina efst í Grenjaláginni og köstuðum mæðinni“.
Kasta mörsiðrinu (orðtak) Tefla fram því síðasta sem til er; setja sig í þá stöðu að ekki verði aftur snúið. Er stundum sagt vísa í þá sögn að menn hafi varist í Borgarvirki þegar óvinir sóttu að þeim, og hafi að lokum tekið það ráð að kasta mörsiðrum (sláturkeppum) að þeim og sýna þannig að vistir væru ekki á þrotum; sem þær þó voru. Vera kann þó að sagan sé löguð að mun eldri málshætti.
Kasta perlum fyrir svín (orðtak) Gera það fyrir einhvern sem hann kann ekki að meta að verðleikum. „Ég kalla það nú að kasta perlum fyrir svín að gefa honum koníaksflösku; fanatískum bindindismanni“!
Kasta rekunum yfir/á (orðtak) A. Um manneskju; jarðsetja; jarða. „Það er erfitt að spyrja hann ráða úr þessu, eftir að búið er að kasta yfir hann rekunum“. B. Í líkingum um málefni/hlut; hætta við; leggja endanlega af. „Ég er nú feginn því að búið er að kasta rekunum á þessa vitleysu fyrir fullt og fast“.
Kasta ryki í augun á (orðtak) Blekkja. „Ég held að hann hafi bara sagt þetta til að kasta ryki í augun á þeim sem voru farnir að átta sig á raunveruleikanum í málinu“.
Kasta rýrð á (orðtak) Gera lítið úr (manneskju/málefni). „Þó þessi orðabók sé samin útfrá sýn Kollsvíkings, er henni ekki með nokkru móti ætlað að kasta rýrð á samsveitunga; né heldur önnur málverndarsvæði landsins“.
Kasta sér / Halla sér / Fleygja sér (orðtak) A. Um manneskju: Fá sér stuttan lúr/kríu. „Óskaplega er kott að kasta sér örlítið eftir matinn“. „Ætli ég fari ekki bráðum að halla mér á eyrað“. B. Um borðvið/planka (kasta sér): Verpast; vindast; breyta sér. „Það liggur illa í þessari fjöl; ég er hræddur um að hún geti kastað sér“.
Kasta steini úr götu (orðtak) A. Hreinsa steina af vegi (hestavegi/bílvegi). Steinar vilja hrynja í niðurgrafnar götur og úr fjallshlíðum. Það þótti sjálfsögð tillitsemi, sem sumir virða enn, að kasta steini úr götu strax og við hann varð vart, svo ekki yrði til trafala fyrir þá sem síðar færu um. B. Líkingamál um það að greiða fyrir einhverjum á einhvern hátt; gera einhverjum greiða.
Kasta steinum úr glerhúsi (orðtak) Bera sakir á aðra þegar maður er sjálfur í sök.
Kasta til þess höndunum (orðtak) Gera í fljótheitum og óvandað; vinna hrákasmíði; hrækja saman; gera einhvernvegin og einhvernvegin. „Það er betra að láta verkið ógert en að kasta svona til þess höndunum“!
Kasta tólfunum (orðtak) Fara fram úr öllu hófi; gengur of langt. „Röstin er leiðinleg í bullandi stórstraums norðurfalli, en þá kastar nú fyrst tólfunum þegar kaldi er af norðan; þá er hún hættuleg litlum bátum“. Líkingin er oft talin vísa til þess að sex; hæsta tala, komi upp á báðum teningum í teningaspili. Hugsanlegt er þó að hún sé af trúarlegum uppruna; frá þeim tíma að menn hétu á postulana tólf sér til heilla. Þá kastaði tólfunum þegar allir postularnir brugðust.
Kasta tölu á (orðtak) Telja í fljótheitum. „Ég ætla að kasta tölu á það sem er í dilknum núna“.
Kasta upp (orðtak) A. Æla; spúa; selja upp. B. Gera uppkast að ritverki, t.d. sendibréfi.
Kasta uppá (orðtak) A. Moka heyi upp á heyvagn með kvísl. „Ég skal kasta uppá ef þú lagar til og treður“. B. Kasta teningi eða krónu til ákvörðunar á einhverju, t.d. vinningi. „Við skulum kasta uppá það hver byrjar“.
Kasta úr (orðtak) A. Dreifa heyi; breiða. „Við þurfum að fara að kasta úr þessum göltum til að geta hirt þá seinna í dag“. B. Moka snjó. „Það er líklega fært yfir hálsinn ef við köstum úr skaflinum í beygjunni“.
Kasta úr báru (orðtak) Brjóta lítillega úr bárutoppum; hvítna í báru. „Heldur er hann að vinda; hann er aðeins farinn að kasta úr báru hér fyrir utan“.
Kasta úr sér skúrum/éljum (orðtak) Um veður; vera með skúraleiðingar/éljaleiðingar; gera skúrir/él. „Ég er dálítið hræddur um að hann geti kastað af sér skúrum með aðtakinu“.
Kasta útá (orðtak) Setja mél eða annað í graut/súpu. „Það er ágætt að kasta bæði haframéli og hrísgrjónum útá ketsúpuna“. Sjá einnig útákast.
Kasta vatni / Kasta af sér vatni (orðtök) Míga; pissa; spræna. „Afa fannst algjör óþarfi að nota klósett þó þyrfti að kasta af sér vatni. Sjálfsagðara væri að gera það utan við húshornið og líta til veðurs í leiðinni“.
Kastarola (n, kvk) Lítill skaftpottur. Litlir pottar, höldulausir en með skafti, voru aldrei nefndir annað en kastarholur áður fyrr Þeir voru t.d. notaðir til að sjóða kartöflur og bræða í þeim feiti eða flot. Sumsstaðar sést orðið ritað „kastarhola“. H heyrðist ekki í framburði Kollsvíkinga og á engan rétt á sér; enda ekki í hinum franska stofni; „casserole“.
Kasta/varpa/leggja fyrir róða Leggja af; láta lönd og leið; vera ekki lengur bundinn af. „Ég held að maður kasti nú allri kurteisi fyrir róða þegar maður mætir svona fordómum“!
Kasta í féð/skepnurnar (orðtak) Gæluorð um það að gefa búfénaði fóður/ gefa á garðann. „Ég ætla að rölta norður á Mel og kasta í féð“.
Kasta perlum fyrir svín (orðtak) Gera eitthvað óþarflega vel/vandað fyrir þann sem ekki kann að meta það. „Það er reynsla flestra íslenskra hugvitsmanna að það sé líkt og að kasta perlum fyrir svín að reyna að koma gagnlegri hugmynd á framfæri við íslenska ráðamenn. Þeir hafa alltaf verið ginnkeyptari fyrir því sem kemur frá útlöndum en gagnlegum hugmyndum eigin þegna“.
Kasta/varpa ryki í augun á (orðtak) Blekkja; fara með rangt mál; snúa útúr. „Honum tekst ekki að kasta ryki í augun á mér með þessu bölvuðu bulli“!
Kasta rýrð á (orðtak) Gera lítið úr; niðurlægja. „Ég held að ekki sé rýrð á neinn kastað þó fullyrt sé að hann hafi verið helsti baráttumaður fyrir hagsmunum sinnar sveitar meðan hann gegndi hreppsnefndar- og oddvitastörfum.
Kasta sér (orðtak) Leggjast til hvíldar; fá sér lúr. „Ætli maður kasti sér ekki í smástund eftir matinn“.
Kasta skugga á (orðtak) A. Skyggja á. „Breiðsbrúnin kastaði skugga á ytri bakka Litlvatnsins“. B. Líkingamál; stórmál yfirskyggir minniháttar mál; áberandi persóna gerir hinn hægláta lítt sýnilegan.
Kasta til þess höndunum (orðtak) Vanda ekki til verks; vera óvandvirkur. „Asskoti er þetta listilega skorinn askur; sú hefur ekki kastað til þeiss höndunum“!
Kasta tólfunum (orðtak) Keyrir úr hófi; keyrir um þverbak; gengur framaf mér. „Þeir geta verið ansvíti hávaðasamir tveir, en þá kastar fyrst tólfunum þegar þriðji bróðirinn bætist í hópinn“! Líking við teningaspil þar sem hæsti möguleiki kemur upp; tvöfalt sex.
Kasta tölu á (orðtak) Telja. „Kastaðu tölu á féð í norðasta karminum; mér finnst að eitthvað vanti“.
Kasta úr (orðtak) A. Um hey; breiða; dreifa úr. „Við skulum kasta úr göltunum og leyfa heyinu að taka sig áður en það er hirt“. „Það þarf að kasta úr þykkustu görðunum svo heytætlan ráði við þá“. B. Um snjóskafl; moka; ryðja. „Ég þurfti aðeins að kasta úr í Hæðarendanum“.
Kasta út mörsiðrinu (orðtak) Sjá kasta mörsiðrinu.
Kastalaró (n, kvk) Skrúfuð ró með tindum á öðrum jaðri, til að unnt sé að splitta hana fasta á boltann, svo hún hreyfist ekki í gengjunum. Slíkar rær viku mjög fyrir „sjálfsplittuðum róm“, með plaststoppara.
Kastast (s) Um bauju/ból eða fyrirsát á línu/neti; reka; færast til. „Það borgar sig ekki að hafa of langt í færinu á svona grunnu vatni; það bara kastast einhvern óraveg og getur flækst í næstu ból“.
Kastast á glensi/gamanyrðum/vísum/stökum (orðtök) Skiptast á glensi/gamanyrðum/vísum/stökum. „Spurt var almæltra tíðinda, kastast á glensi og gamanmálum og sumir huguðu að afrakstri sumarsins… “ (PG; Veðmálið).
Kastast/skiptast á orðum (orðtak) Eiga samtal; talast við. „Við köstuðumst á nokkrum orðum áður en hver hélt í sína áttina“. „Ég læt það alveg vera að skiptast á orðum við þann kauða“!
Kastast í kekki með (einhverjum) (orðtak) Einhverjum sinnast; einhverjir verða ósáttir. „Það kastaðist í kekki með þeim á fundinum, en þeir náðu að jafna þann ágreining“. Vísar líklega til þess að menn verði svo ósáttir að þeir grýti því hvor að öðrum sem hendi er næst, t.d. moldarkögglum eða skít. Langsóttara er að hér sé átt við grautargerð.
Kastblökk (n, kvk) Opnanleg/opin blökk/trissa, þannig að á hana megi bregða vír/taug með hægu móti.
Kastdreifari (n, kk) Áburðardreifari til að dreifa tilbúnum áburði á tín, þannig gerður að hann kastar frá sér áburðinum með snúningsskífu eða öðru móti. Sálddreifari, aftur á móti, dreifir með því að sáldra áburðinum niður um rifur/göt í botninum.
Kastfimi (n, kvk) Leikni í því að kasta langt og/eða með nákvæmni. „Í Kollsvíkurveri kepptu menn í kastfimi, t.d. með því að kasta kúskeljum í gafl Salthússins“.
Kastgrjót (n, hk) Grjót af þeirri stærð að því megi kasta til með annarri hendi. „Garðarnir eru tvíhlaðnir úr lábörðu hleðslugrjóti, og með kjarna úr kastgrjóti“.
Kasthviða (n, kvk) Kastvindur; skellibylur. Stök, hvöss vindhviða, t.d. niður úr dölum og víkum. Getur verið skeinuhætt.
Kastvindur (n, kk) Kasthviða; skellibylur. Stök vindhviða í hægara veðri. „Þó stillt sé undir Bjarginu í stífum norðanvindi getur iðulega komið öflugur kastvindur niður úr dölunum“.
Kasúldna (s) Verða mjög úldinn/ dragúldinn. „Nú er fiskslógið farið að kasúldna þarna í fötunni“.
Kasúldinn (l) Mjög úldinn; dragúldinn. „Hér hefur lent fiskur á bak við kassann; og orðinn kasúldinn“.
Katólska (n, kvk) Kaþólsk trú. Undantekningarlaust báru gamlir Kollsvíkingar orðið fram hart; með t en ekki þ og notaði t.d. G.G. Láganúpi ekki annað. „Saggt er að hebbdi verið þar kirkjugardur í katólskri tíð“.
Kattarafmán / Kattargrey / Kattarhró / Kattarkvikindi / Kattarlúra / Kattaróbermi / Kattaróhræsi / Kattarómynd / Kattaróræsti / Kattaróvæni / Kattarræfill / Kattarskarn / Kattarskinn (n, hk) Gæluorð um kött. Orðið óvæni, eða óvæmi, er gamalt í málinu en sennilega ekki notað utan Kollsvíkur og þá í þessari samsetningu.
Kattarhland (n, hk) Þvag úr ketti. „Komdu árans kettinum úr hlöðunni; ég kæri mig ekkert um að fá kattahland í heyið“!
Kattarfjandi (n, kk) Skammaryrði um kött. „Er nú kattarfjandinn búinn að drepa máríuerluna sem varp í mókofatóttinni“?!
Kattarhola (n, kvk) Hola sem köttur fer um. Kattarholur eru til á a.m.k. þremur stöðum sem örnefni í Rauðasandshreppi. „Kattarhola nefnist hola í hlein rétt utanvið Þyrsklingahrygg, norðantil í Blakknesi. Á köttur að hafa farið þar inn og komið út á Kattarholuvegi í Keflavík“ (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur). „Neðst, undir miðju klettabelti Lambabrekku, er hola er Kattarhola nefnist. Á hún að liggja þvert í gegnum hálsinn og koma út í Gissurstúnum í Kvígindisdalsbotningum“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Kattarklór (n, hk) A. Klór/sár eftir kött. „Berðu júgursmyrsl á þetta kattaklór og hættu svo að atast í kettlingnum“! B. Slæm/illlæsileg skrift. „Skelfing er erfitt að skilja kattarklórið hjá karlinum“!
Kattarplatur (n, hk) Matarskál kattar. „Settu fiskruslið í kattarplatrið. Ekki veitir henni af; óvæninu atarna“.
Kattarþvottur (n, kk) A. Bókstafl. merking. B. Slæmur þvottur handa/andlits. C. Lélegar afsakanir.
Kattliðugur (l) Liðugur eins og köttur. „Hann er kattliðugur og vel fær í klettum“. Sjá köttliðugur.
Kattugla (n, kvk) Asio flammeus; brandugla. Algengasta uglutegund á Íslandi er almennt nefnd brandugla í dag, en var þekktari sem kattugla vestra. Hún mun hafa sést í Kollsvík á árum áður.
Kattþrifinn (l) Mjög þrifinn; heldur sér hreinum. „Hann er kattþrifinn; hvað sem öðru líður“.
Kauðaháttur (n, kk) Búraháttur; sérviska; illgirni. „Mér finnst þetta bölvaður kauðaháttur af karlinum“.
Kauðalega / Kauðslega (ao) A. Klaufalega; illa. „Mér fannst kauðalega farið að hlutunum“. B. Af óbilgirni/illgirni/meinsemi. „Hann kom kauðslega fram við blessaða konuna“.
Kauðalegur / Kauðslegur (l) A. Búralega/hallærislega klæddur. „Ósköp er karlinn alltaf kauðalegur til fara“. B. Illgjarn; kvikindislegur. „Mér finnst þetta bara kauðsleg framkoma“!
Kauði (n, kk) Náungi; kumpáni. „Mýlir hann svo kauða, og leggur með hann af stað upp Hænuvíkurháls“ (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Kauðsháttur (n, kk) Illgirni; undirferli; mannvonska. „Mörgum fannst þetta kauðsháttur af honum“.
Kauðskur (l) Leiðinlegur; óþverralegur. „Hann var bara kauðskur að segja þetta við hana“. Einnig notað kauðalegur í sömu merkingu. Kauði var notað um fremur leiðinlega menn.
Kauli (n, kk) Lítill nautkálfur; auli. „Til að kenna kaulanum að drekka úr fötu er best að láta hann sjúga fingur sem haldið er niðri í mjólkinni, en hún þarf að vera volg“.
Kaun (n, hk, fto) Sár; meiðsli; ígerð. „Ég fékk einhver kaun á handlegginn, en er óbrotinn“.
Kaunaður (l) Slasaður; meiddur. „Eftir slagsmálin voru báðir meira og minna kaunaðir; þó ekki alvarlega“.
Kaunast (s) Meiðast; slasast. „Það sleppur enginn frá svona falli án þess að kaunast verulega, ef hann þá sleppur við örkuml eða bana“.
Kaup kaups (orðtak) Skipti á sléttu; gagnkvæm kaup; frágengin verslun. „Við skulum þá láta það heita kaup kaups ef þú ert sáttur við það; hrútslánið í vetur og mína vinnu núna“.
Kaupa/selja (eitthvað) dýrum dómum (orðtak) Kaupa/selja á háu verði. „Ríkið stal veiðiréttinum af hinum fornu sjávarjörðum; þannig að nú þurfa jarðeigindur að kaupa kvótann dýrum dómum ef þeir vilja draga titt úr sjó“! Vísar til þess þegar verð er ákveðið með úrskurði/dómum.
Kaupa köttinn í sekknum (orðtak) Fá í kaupum annað og lakara en maður ætlar.
Kaupafólk / Kaupahjú/ Kaupakoma / Kaupamaður Vinnufólk til sveita fyrr á tímum. Í dag er fremur talað um vinnufólk, sumarfólk eða launamenn. Sjá einnig fardagar.
Kaupahéðinn (n, kk) Niðrandi orð yfir fjárfesti/auðmann/ þann sem kaupir verðmæta eign.
Kaupamennska / Kaupavinna (n, kvk) Starf kaupafólks/kaupakonu/kaupamanns.
Kaupavinna (n, kvk) Vinna gegn launum. Yfirleitt þá átt við tímabundna vinnu, líkt og sumarvinnu vinnufólks á sveitabæjum áðurfyrr. „Næsta vetur var ég í Vatnsdal hjá Ólafi Thoroddsen, en næsta vor var ég við róðra og síðan sumarið í kaupavinnu á Hnjóti hjá Ólafi Magnússyni móðurbróður mínum“ (IG; Æskuminningar).
Kaupeyrir (n, kk) Hvaðeina verðmæti sem unnt er að versla með/ selja; verslunarvarningur; peningar.
Kaupfélag (n, hk) Félag sem menn stofna með sér til að ná hagkvæmum kjörum á innkaupum nauðsynjavara og sölu afurða. Mörg kaupfélög voru stofnuð á Íslandi á seinnihluta 19.aldar og fyrri helmingi 20. aldar, og svo var einnig í Rauðasandshreppi. Hið fyrsta var Pöntunarfélag Rauðasandshrepps, sem stofnað var í Saurbæ veturinn 1907-1908, en hafði aðsetur á Patreksfirði. Það starfaði til 1923. Í kjölfar þess var stofnað Pöntunarfélag Patreks árið 1925; einnig með rekstur á Patreksfirði, en nefndist síðar Kaupfélag Rauðsendinga og starfaði til 1934. Sláturfélagið Örlygur var stofnað 1931; upphaflega til að reka sláturhús á Gjögrum fyrir Kaupfélag Rauðsendinga. Einnig rak það sölubúðir á Gjögrum, og um tíma í Hænuvík. Að því stóðu einkum Útvíknamenn; Bæjafólk og Hafnarmenn. Eftir lok þess síðarnefnda starfaði Sláturfélagið Örlygur sem öflugt kaupfélag um langa hríð. Kaupfélag Rauðasands var stofnað 1933, og stóðu að því bændur á Rauðasandi og innbæjum Patreksfjarðar. Það rak sláturhús og verslun á Hvalskeri, en var lagt niður 1975. Sláturfélagið Örlygur gekk inn í sameiningu kaupfélaga á svæðinu í Kaupfélag Vestur-Barðstrendinga árið 1983, og það rak verslun í Örlygshöfn til 1986, en þá lauk sögu kaupfélaga í Rauðasandshreppi.
Kaupfélögin voru í ýmsum skilningi þungamiðja samfélagsins meðan þeirra naut við, og veittu byggðinni verulegan stuðning. Þau stunduðu fjölbreyttan verslunarrekstur með mestallan þann varning sem félagsmenn þurftu; á vegum þeirra voru starfrækt öflug sláturhús þar sem bændur slátruðu sínu búfé og lögðu andvirðið oftast inn til kaupa á nauðsynjum; þau keyptu verkaðan fisk félagsmanna, meðan róið var úr verum, og þau ráku jafnvel töluverða bankastarfsemi í fomi innlánsdeilda. Margt í ytri aðstæðum varð þessum sveitakaupfélögum mótdrægt á síðari hluta 20. aldar, auk þess sem hugsjónin dofnaði sem þau byggðu á. Byggð í Rauðasandshreppi komst á fallanda fót um leið og kaupfélögin liðu undir lok, þó deila megi um samhengið þar á milli.
Kaupfélagsfyrirkomulag (n, hk) Kaupfélagsrekstur. „En 1936 breytti Sláturfélagið Örlygur starfsemi sinni og gerðist neytendafélag með kaupfélagsfyrirkomulagi“ (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).
Kaupfox (n, hk) Svik í kaupum. Orðið heyrðist ekki mikið í Kollsvík en var þekkt eins og fleira í lögum. „Nú á sá kaup að hafa er fyrri keypti, ef honum fullnast vitni að skiladómi, og er þeim kaupfox er síðar keypti“ (Jónsbók). Til er máltækið; „þeim er kaupfox er síðar keypti“, þ.e. kaup öðru sinni eru ógild kaup og sá ber skaðann sem keypti í síðara sinnið.
Kaupin gerast á eyrinni (orðtak) Um framvindu mála/viðskipta. Hluti í öðrum orðasamböndum. „Þetta fer allt eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni“. „Hann gæti stórgrætt á þessu ef kaupin gerast þannig á eyrinni“. Vísar til þess tíma þegar kaupmenn versluðu á fáeinum stöðum, oftast á eyrum s.s. Vatneyri. Þangað fóru bændur með afurðir sínar og síðan upphófst oft þjark um mat og verðlag vörunnar.
Kauplaust (l) Án kaups/launa. „Áðurfyrr þótti sjálfsagt til sveita að hjálpast að með allar meiriháttar framkvæmdir, s.s. húsbyggingar. Fóru menn þá frá verkum á búi sínu og unnu kauplaust hjá sveitunga sínum eða að samfélagsverkefni. Um þetta ríkti þegjandi og aldagamalt samkomulag; allt til þjóðfélagsbyltingarinnar miklu á síðari hluta 20. aldar, þegar menn hófu að meta alla hluti í peningum“.
Kaupmannaokur (n, hk) Ósanngjarnir viðskiptahættir kaupmanna. „Framsýnir menn í hreppnum sáu að nú var röðin komin að þeim að gangast fyrir samvinnuverslun; þrátt fyrir að enginn mun hafa talið að hér ríkti kaupmannaokur“ (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).
Kaupmannsreikningur (n, kk) Reikningshald viðskiptamanns hjá kaupmanni. „Ábúandi á Láganúpi er Halldór Jónsson. Landskuld hans er 6 vættir. Betalast í kaupmannsreikning so mikið sem verður, hitt í gildum landaurum“ (ÁM/PV Jarðabók).
Kaupmáli (n, kk) Samningur sem hjón gera með sér um eignarhald og fjármál.
Kaupskapur (n, kk) Verslun; viðskipti. „Líklegt er að Englendingar hafi átt verulegan kaupskap við Útvíknafólk meðan skútuútgerð þeirra stóð með mestum blóma hér við land“.
Kaupstaðarferð / Kaupstaðarleiðangur (n, kvk/kk) Eyrarferð; ferð í kaupstað. „Fönix var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). „Á sumrin voru kaupstaðarferðir eingöngu farnar á sjó“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Ætli maður verði ekki að fara í kaupstaðarleiðangur til að nálgast þetta, þó ég hafi engan tíma til þess“.
Kaupstaðarlykt (n, kvk) Vínlykt af manni. „Ég er ekki frá því að það hafi verið kaupstaðarlykt af honum“.
Kaupstaðarnef (n, hk) Áberandi rautt nef. Nafngiftin vísar til þess að vínhvneigðir menn héldu sig gjarnan nærri víntunnum kaupmanna, en ein afleiðing drykkjuskapar er rauðleitt nef. Nokkuð notað í líkingum: „Skolli ertu kominn með myndarlegt kaupstaðarnef strákur; er þér kalt“?
Kaupstaður / Kauptún (n, kk/hk) kaupstaður er þéttbýlisstaður sem er sérstakt sveitarfélag en getur þó ekki talist bær. Kaupstaðir á Íslandi hafa ýmist þróast nálægt góðum höfnum, þar sem fyrrum var aðsetur erlendra kaupmanna og síðar mikill sjávarútvegur, eða þar sem þjónusta hefur orðið til vegna góðrar staðsetningar gagnvart fjölmennum landbúnaðarsvæðum. Ekki hafa þó allir slíkir þéttbýlisstaðir fengið kaupstaðarréttindi; t.d. er enginn kaupstaður í Barðastrandasýslum. Þar eru þrjú kauptún; Eyrar, sem í daglegu tali eru nefndar Patreksfjörður; Sveinseyri, sem í daglegu tali er nefnd Tálknafjörður og Bíldudalur.
Kaupstefna / Kauptíð (n, kvk) Markaður sem til forna var haldinn á löghelguðum og friðlýstum verslunarstað á fyrirfrmam ákveðnum árstímum; kauptíð. Kauptíð féll oft að tímasetningum þinga og blóta. Kaupstefnur á Íslandi voru einatt tengdar komu erlendra verslunarskipa og einkum voru þar stunduð vöruskipti. Á þjóðveldisöld var landinu skipt í verslunarhéruð. Þrír tilkvaddir verðlagsstjórar skyldu stja hámarksverð á varning áður en tvær vikur væru liðnar frá komu kaupskips. Þeir sem sóttu kaupstefnur skyldu njóta vatns og hagagöngu á kaupstefnustað í þrjár nætur samfleytt. Þingfaraarkaupsbændur voru skyldir til að fara til skipdráttar, væri eftir því leitað. Aðalkaupstefnur voru í júní, settar með formála og friðlýsingu. Friðhelgun kaupstefnustaða féll niður á síðari hluta 18. Aldar, þegar kaupstaðir urðu til.
Kavíar (n, kk) Hrogn. Upphaflega náði orðið einungis yfir styrjuhrogn, en þau voru eftirsótt og dýr matvara. Síðar var farið að nota grásleppuhrogn sem staðgengil þeirra, undir sama heiti, og hófst mikil veiði grásleppu m.a. í Rauðasandshreppi, þar sem einungis hrognin voru hirt (sjá hrognkelsi). Orðið er nú notað um ýmsar gerðir hrogna sem verkuð eru til matar; m.a. þorskhrogn.
Kaþólskari en páfinn (orðtak) Um þann sem er mjög róttækur/strangtrúaður í sínum skoðunum eða framfylgir reglum/ kennisetningum af hörku/ út í æsar. „Hann hefur alltaf verið kaþólskari en páfinn í þessum efnum“.
Kaþólskur (l) Sem aðhyllist kaþólskan sið í kristindómi. Allt frá landnámi og kristnitöku til siðaskipta uppúr 1550 ríkti kaþólsk trú á Íslandi. Bænhús voru þá allvíða í Rauðasandshreppi, og hálfkirkja með greftrun var í Kollsvík, sem þá mun hafa heitið Kirkjuból um tíma.
Ká úr (orðtak) Breiða hey til þurrks;einkanlega að breiða betur út hey þar sem þykkt er á, t.d. þegar breitt hefur verið úr göltum. „Ég skal kasta úr galtanum ef þú kemur með hrífuna og káir úr“.
Káeta (n, kvk) A. Vistarvera skipverja á skipi; hásetaklefi. Komið úr dönsku; kahytt. B. Lokað skýli fremst í litlum bát, þar sem er geymsla fyrir ýmsan búnað bátsins og nesti áhafnarinnar. „Handlangaðu nú nestispokann; hann er frammi í káetu“.
Káf (n, hk) A. Þukl; þreifingar. „Hún sagði að karlinn væri alltaf sl´mur með þetta káf utaní ókunnugu kvenfólki þegar hann væri kominn í kippinn“. B. Illa unnið verk; handabakavinnubrögð. „Skelfingar káf er nú þetta; hafa þessir menn aldrei unnið ærlegt handtak“?!
Káfa (s) Snerta; þukla; handfara. „Vertu nú ekki að káfa á þvottinum með skítugum höndunum“!
Káfa uppá (orðtak) Um málefni; koma illa við mann; snerta á slæman hátt; koma sér illa. „Mér finnst þetta lúaleg aðferð hjá þessum stjórnvöldum, þó það káfi svosem ekkert uppá okkur hér“.
Kák (n, hk) Flaustursleg/óvönduð vinna; handabakavinnubrögð; káf. „Mér sýndit þetta bara vera óttalegt kák hjá þeim“.
Káka við (orðtak) Flaustra við; kasta til höndunum; koma lítillega að. „Aðeins hef ég verið að káka við þetta orðasafn, í þeirri veiku von að með því megi varðveita lítið brot af menningararfleifð Kollsvíkinga“.
Kál (n, hk) A. Sértæk merking; það kál sem ræktað er til matar, yfirleitt helst átt við hvítkál, en einnig grænkál, blómkál og salat. „Ég er með kál í þessu beði“. Kál af rófum var oft gefið kúm. B. Almenn merking; blöðkumikil planta, yfirleitt helst átt við hvönn sem vex þétt í brattlendi, eða skarfakál. „Stígurinn er illfær að sumarlagi, þegar kálið er fullsprottið“.
Kálbeð (n, hk) Beð/garðhluti þar sem kál er ræktað. „ Settu vel af taði í kálbeðið“.
Kálbrúskur / Kálhnúskur (n, kk) Hnúskur/brúskur/planta af skarfakáli. „Það er lítið hald í kálbrúskinum“. „Gættu þín að detta ekki um staksteina eða kálhnúska í hillunni“.
Kálfabeit (n, kvk) Bithagi fyrir kálfa. „Það er ágæt kálfabeit þarna í kringum seilarnar“.
Kálfabland / Kálfamjólk (n, hk/kvk) Mjólk blönduð undanrennu, vatni, fóðurmjöli eða öðru, og gefið kálfum.
Kálfabytta / Kálfadallur / Kálfafata / Kálfaspanda (n, kk/kvk) Ílát sem kálfum er gefin mjólk í, eða annað kálfafóður. „Jafnaðu þessum sopa í kálfadallana“. „Hvar er nú blessuð kálfaspandan“?
Kálfagarði / Kálfakarmur (n, kk) Karmur/garði í fjárhúsi/fjósi þar sem kálfar eru hafðir. „Það þyrfti að laga grindurnar í kálfagarðanum“. Hluta fjárhússins á Láganúpi var breytt í fjós og kálfagarða.
Kálfagerði (n, hk) Hólf/girðing sem kálfar eru geymdir í, án þess að þar sé mikil beit. „Hilmar kom upp kálfagerði framan við fjósið á Láganúpi þegar hann tók við búskap“.
Kálfagirðing / Kálfahólf (n, kvk/hk) Girðing/girðingarhólf sem kálfar eru hafðir í. „Ég ætla að fara með hey í kálfagirðinguna“.
Kálfahersing / Kálfahópur / Kálfaskari / Kálfastóð / Kálfastrolla (n, kvk/kk) Hópur af kálfum Ungnaut og kvígur voru gjarnan höfð í girðingu eða vel sprottnum úthaga, og héldu sig oft saman í hóp. Var illa séð ef hópurinn komst inn á ræktuð og óslegin tún. „Nú hefur hliðið á Júllamelnum verið skilið eftir opið, og kálfastrollan er vaðandi um alla Grásteinssléttuna! Bregðið nú undir ykkur betri fætinum strákar“! „Eftir að mjólkursala hófst, fjölgaði mjög í kálfastóðinu“.
Kálfaket (n, hk) Kálfakjöt; ket af kálfum. „Kálfaket er herramannsmatur, ef rétt er eldað“.
Kálfkvikindi / Kálfóbermi / Kálfpeyi / Kálfpusi / Kálfskuddi / Kálftötur (í fleirtölukálfakvikindi) (n, hk) Gælurorð um kálf/kálfa. „Gleymdu nú ekki að gefa kálfkvikindinu dálítinn sopa“. „Kálfakvikindin þurfa að hafa eitthvað afdrep, ef gerir slæm veður“. „Vertu nú ekki með kálfpusann hérna uppi á stéttinni“.
Kálfaskol / Kálfaskólp (n, hk) A. Eiginleg merking; vatnsblönduð mjólk sem kálfum er gefin þegar þeir er farnir að nærast eitthvað af grasi/heyi. B. Niðrandi heiti sumra á mjólkurblönduðu kaffi (því sem einhverjir nefna „latte“). „Þú þarft ekki að koma með mjólk fyrir mig. Eg drekk bara kaffi en ekki neitt kálfaskólp“!
Kálfaslátrun (n, kvk) Slátrun kálfa. Á seinni tímum hefur tíðkast að ala kálfa upp í nær tveggja ára aldur til frálags í ungnautaket, og á orðið við tímann sem sláturtíð þeirra stendur. Fyrrum var kálfum of slátrað yngri.
Kálfastía (n, kvk) Stía í skepnuhúsi sem kálfar eru hafðir í.
Kálffull (l) Um kú; með óbornum kálfi. „Gott er að setja moð eða hálm undir bása hjá kálffullum kúm“. Oftar var þó sagt að kýr væri með kálfi en að hún væri kálffull.
Kálflaus (l) Um kú; án kálfs; án fangs. „Það verður að tala aftur við þennan töskubola; ekki er hægt að hafa kúna kálflausa þó hún hafi gengið upp“.
Kálfskinn (n, hk) Skinn af kálfi, m.a. notað í skinnklæði. „Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; eitt í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur“ (KJK; Kollsvíkurver).
Kálgarðshleðsla (n, kvk) A. Hleðsla grjótgarðs kringum kálgarð. B. Hlaðinn garður kringum kálgarð. „Miklar kálgarðshleðslur Kristjáns Ásbjörnssonar má enn sjá við Garðana á Grundabökkum“.
Kálgarður / Kálgarðshola (n, kk/kvk) Matjurtagarður; kartöflugarður.
Kálhaus / Kálhöfuð (n, kk/hk) A. Bókstafleg merking; haus/knúppur á hvítkáli/blómkáli/grænkáli o.fl. B. Líkingamál um heimskan mann/ hálfvita.
Kálhilla (n, kvk) Hilla/gangur í klettum, þar sem mikið vex af skarfakáli. „Til að komast yfir á höfðann þurftum við að fara um nokkuð langa kálhillu“.
Kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið (orðatiltæki) Málinu/viðfangsefninu er ekki að fullu lokið; enn er málið ekki að fullu í höfn. Vísar líklega til þess að erfitt getur reynst að veiða kálblað uppúr potti.
Kálmeti (n, hk) Kál sem haft er til matar. „Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur.... Kál var notað í kjötsúpur og soðið. Karlar gamlir töldu þetta ekki vera mannamat; vildu heldur éta gras. Það var erfitt að kenna þeim það“. Össur maður Sigríðar vandist ekki við að éta svona kálmeti, því það var lítið gert af því í Víkunum“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Kálsúpa (n, kvk) Súpa með miklu káli, en gjarnan einnig einhverju öðru, oftast keti.
Kám (n, hk) Klístur; at; óhreinkun. „Kollsvíkurættin er mikilsmetin bók; ekki síður þó á henni sjáist nokkuð kám og tóbaksslettur“.
Káma / Káma á (s/orðtak) Klístra; óhreinka. „Passaðu þig að káma ekki á bókinni með skítugum höndum“.
Kámugur (l) Skítugur; óhreinn; ataður kámi. „Skelfing ertu nú kámugur í framan; farðu og skólpaðu af þér“!
Kápa (n, kvk) A. Síð yfirhöfn kvenna. B. Laust blað sem haft er utanum bók til hlífðar. C. Lúðuflak.
Kápa (s) Einn margra hluta lúðu og aðferðin við hlutun hans: „Litlar lúður voru stöku sinnum kápaðar, en þá var tekið af þeim eitt flak hvorumegin. Þessi flök voru nefnd kápur eða kápuflök. Fyrst var sporðurinn skorinn frá, en síðan var rist fyrir hnakkabelti aftanfrá og framúr; því næast var farið eins með kviðbeltið. Aðr því búnu var gerður skurður frá hnakka, undir eyrugga og framundir kviðugga. Loks var skorið langt bandhald framundir kápumön. Að síðustu var flakið rist af ... Sá hluti kápunnar sem fylgdi höfuðkinninni hét stakkur“ (LK; Ísl.sjávarhættir
Kápótt (l) Litur á sauðfé: Dökkt að framan og aftur fyrir bóga en ljóst aftan og um fætur.
Kári (n, kk) A. Mannsnafn B. Gæluorð um vind. „Eitthvað er kári að hreyfa upp á sér þessa stundina“.
Kárínur (n, kvk, fto) Ávítur; skammir. „Ég er þá ekkert að aðstoða þig við smalamennskur ef ég hef ekkert nema kárínurnar uppúr því“!
Kárna gamanið (orðtak) Staðan að verða ískyggilegri; versna útlitið. „En svo fór að kárna gamanið þegar eggjatöku var lokið á Vellinum; þá hafði sjó aukið það mikið að ekki var viðlit að leggja við hleinina“.
Kássa (n, kvk) A. Stappa; grautur af keti. „Ketið er að verða soðið í kássu“. „Öllum afgöngum var hent í eina kássu, sem síðan var gefin hundi og hænsnum“. B. Þrengsli. „Fólkið sat þarna í hálfgerðri kássu“.
Kássufúinn (l) Grautfúinn; mjög feyskinn. „Grindasláin er orðin kássufúin og handónýt“.
Kátbroslegt (l) Broslegt; fyndið; skemmtilegt. „Mér fannst þetta dálítið kátbroslegt alltsaman“.
Kátína (n, kvk) Fjör; gleði; gáski. „Karlinn ætlaði að rifna af kátínu þegar lúðan var kominn um borð“.
Kátlega (ao) Skringilega; kjánalega; broslega. „Ég játa að þetta lítur dálítið kátlega út“.
Kátlegheit (n, hk, fto) Furðuleg/brosleg uppákoma; kjánalæti; undarlegheit. „Ég kann enga skýringu á þessum kátlegheitum í karlinum, en hann verður að fá að hafa sína sérvisku fyrir sig“.
Kátlegt (l) Furðulegt; skringilegt; broslegt; hlægilegt. „Mér fannst dálítið kátlegt hvernig hann tók þessu“.
Kátt er oft í koti þá karl er ekki heima (orðatiltæki) Þegar húsbóndi bregður sér af bæ getur vinnufólk e.t.v. tekið lífinu léttar, eða húsdýrin leikið lausum hala.
Keðja (s) Setja snjókeðjur á bíl/traktor. „Ætli það sé ekki vissara að keðja áður en lagt er af stað“?
Keðjufæriband (n, hk) Færiband sem drifið er af einni eða fleiri keðjum. „Makkormikk-skítadreifarinn vann að mörgu leyti ágætlega, en var klettþungur í meðförum og keðjufæribandið bilanagjant“.
Keðjureykingamaður (n, kk) Maður sem keðjureykir/ reykir hverja sígarettuna á fætur annarri. „Það þýðir nú lítið að hafa einhverja síhóstandi og úthaldslausa keðjureykingamenn í svona smalamennskur“!
Keðjuslóði (n, kk) Slóði/slóðadragi til að erja skít niður í jörðina til ræktunar, gerður úr gaddakeðjum sem festar eru saman í nokkurra fermetra net með slá á fremri kanti og dregnar af traktor.
Keðjusög (n, kvk) Sög til að saga stórvið. „Keðjusögin tók við af langviðarsöginni, og var nokkuð fljótvirkari. En hún hefur þá galla að erfitt er að saga beina línu án stýringa, og einnig fer töluvert til spillis af viðnum“.
Kefi / Kefaræði (n, kk/hk) Ein tegund ræðis á árabátum (ræði er liðamótin sem árin leikur í á borðstokknum). Nútíma kefi er gaffall sem árin leggst niðurí, en hann leikur í pinna sem stingst niður í borðstokkinn, eða í festingu innan á honum. Kefaræði var líklega aldrei notað á árabátum fyrri tíðar í Kollsvík, en er núna notað á litlum plast- og gúmmíbátum. Kefaræði var á fyrri tímum útbúið þannig að árin lék laus á borðstokknum, enþegar áratog var tekið nam hún við kefa/kefaklossa, sem var klossi eða horn á borðstokknum. Hömluband/hamla kom í veg fyrir að hún drægist of langt í hina áttina í framslaginu.
Keflahlunnur (n, kk) Rúlluhlunnur; hlunnur til að setja báta, með járnkefli á tréramma. Uppfinning Ásgeirs Erlendssonar á Hvallátrum. „Fljótlega eftir að við Þórður fengum Kóp (1932) fór ég að velta því fyrir mér á hvern hátt mætti gera setninginn úr sjá og á auðveldari. Upp úr þessum vangaveltum smíðaði ég keflahlunna úr járni og eik. Þeir reyndust vel, en entust ekki eins og skyldi, svo ég fór þá með teikningu af þeim í vélsmiðjuna Héðin, og brugðust þeir vel við og smíðuðu sterka og vandaða hlunna sem leystu hvalbeinshlunnana alveg af hólmi. Ekki varð ég þó ríkur af þessari uppfinningu, enda ekki til þess gert“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kefla (s) Binda kefli/lambakefli í munn unglamba.
Kefli (n, hk) A. Sívöl spýta; grannur trjádrumbur. B. Hvaðeina sívalt stykki sem undið er uppá garn/snæri/vír o.þ.h. sbr tvinnakefli. C. Lambakefli; sívöl spýta sem tálguð er þannig að hún falli í munn lamba og er fest með bandi afturfyrir hnakka. Endarnir standa útfyrir og eru yddir, þannig að þegar lambið reynir að sjúga móðurina veldur það sársauka. Keflin voru stundum notuð við fráfærur; þ.e. þegar ærnar voru mjólkaðar, til að lömbin sygju ekki alla mjólkina. Segir svo í Jarðabókinni: „Afréttir hafa Patrixfirðíngar engar, heldur kefla lömbin með (ánum)“. Eitthvað munu slíkar keflanir hafa verið stundaðar í Kollsvík áðurfyrri, og tálgaði Guðbjartur Guðbjartsson eitt slíkt kefli til sýnis á efri árum“.
Keifa (s) Trítla; ganga hratt, stuttum skrefum. „Þarna kemur hann keifandi utan af túni“.
Keikur (l) Hnarreistur; uppréttur. „Þú klæddur ert brynju úr köldu grjóti/ og keikur þú stendur þótt byljirnir þjóti....“ (EG; Blakkurinn; Niðjatal HM/GG). „Oft ég var við Ána smeik/ ei þorði að leggja í hana,/ er fisk ég hugðist færa keik/ fólkinu á Rana“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Keila (n, kvk) A. Brosme brosme. Nytjafiskur á Íslandsmiðum og víðar, þó sjaldgæf á grunnmiðum Útvíkna. Keilan er í meðallagi löng, með sívalan bol; einn bakugga eftir endilöngu baki; einn langan raufarugga; lítinn og hringlaga sporð; með skeggþráð á neðri kjálkum; móleit að lit með rönd eftir bol; roðið þykkt og hreistur smátt. Lifir á 20-1000 m dýpi; fæða krabbadýr og önnur smákvikindi. B. Hlutur með ákveðna lögun; sívalningur með botni í annan enda en mjókkandi út í odd í hinum.
Keimur (n, kk) Bragð. „Mér finnst einhver slæmur keimur af þessu“.
Keimlíkur (l) Svipaður; frekar líkur. „Mér finnst þeir dálítið keimlíkir í háttum, frændurnir“.
Keipa (s) Skaka færi. „Þú mátt ekki gleyma að keipa drengur“! „Svo má lengi keipa að einn fáist“. „Færum er rennt. Fiskur tregur. Keipað um stund; síðan kippt fram á Stekka“ (ÖG; glefsur og fyrsti róður).
Keipur / Keiparæði / Keipstokkur (n, kk/hk) Tolla; fast stykki í borðstokk sem ár á bát nemur við þegar róið er. Mismunandi er hvernig gengið er frá keipum. Í seinni tíð voru tollur í Kollsvíkurveri úr járni og gekk lykkja á árinni niður á þær. Tollan gekk niður í gegnum flatjárn á borðstokknum, sem nefnist keipstokkur, og ver borðstokkinn fyrir núningi árinnar. Áður fyrr var keipurinn úr tré og við hann steytti árin þegar róið var. Henni var þá fest við keipin með hömlubandi, og „sat föst við sinn keip“. Illt var ef árin varð laus og „dróst úr hömlu“. „Ekki mátti samt slá flötu, svo að ég hafði árar á keipum til þess að reyna að halda bátnum réttum fyrir báru ef vélin stoppaði“ (ÖG; Þokuróður).
Kekkjagrautur (n, kk) Kekkjóttur grautur; grautur með kekkjum.
Kekkjaskyr (n, hk) Kekkjótt skyr; illa hrært skyr, með grófari kekkjum en graðhestaskyr. „Ekki líkaði mér kekkjaskyrið hjá henni, en hveitikökurnar voru lygilega góðar“.
Kekkjóttur (l) Með kekkjum/þykkildum. „Grauturinn varð dálítið kekkjóttur en er annars ágætur“.
Kekkur (n, kk) Þykkildi; ójafna (einkum í sósu/graut). „Árans kekkir eru nú í sósunni“.
Kelda (n, kvk) Dý; forarseil. Betri er krókur en kelda. Hestkelda og Grænakelda eru drápsdý í Kollsvík. Í Kollsvík var orðið ekki notað um brunn eða uppsprettu, eins og fyrr mun víða hafa verið.
Keldusvín (n, hk) Rallus aquaticus; votlendisfugl af relluætt. Fuglinn virðist alveg hættur varpi á Íslandi á seinni árum, og hafði lengi verið mjög sjaldgæfur. Honum sást þó bregða fyrir í Kollsvík framundir 1970; helst á vappi í skurðum og sefi. Fullorðinn fugl er 23-28 cm langur; mjósleginn; brúnn að ofan en blágrár að neðan; svartyrjaður og með langar tær, stutt stél og rauðleitan gogg.
Kelfd (l) Um kýr; með kálfi; höfnuð. „Kýrnar eru allar kelfdar núna og tvær komnar í geldstöðu“.
Kella (n, kvk) Kerling (gæluorð). „Eftir um 3 vikur kom kella með 10 eða 11 unga“ (SG; Alifuglarækt).
Kelta (n, kvk) Fang; faðmur; skaut; ofaná lærum sitjandi manneskju. „Hún tók barnið í keltu sér og gaf því pelann“. Beygist kelta-kjöltu-kjöltu-kjöltu, og er af sömu rót og enska orðið child.
Keltar / Keltneska Þrátt fyrir miklar rannsóknir er enn margt óljóst um fornþjóðina Kelta, en á blómaskeiði hennar frá 700-100 f.Kr var hún útbreidd á svæðinu frá Svartahafi til Írlands. Rómverjar háðu mikil og mörg stríð við Kelta, sem þeir nefndu barbara, og nánast útrýmdu þeim á stórum svæðum, s.s. í Frakklandi. Keltar voru mikil akuryrkjuþjóð; ruddu brautina í notkun járns og sköpuðu einstaka listmuni. Um 50 e.Kr var Írland eini staðurinn þar sem keltnesk menning blómstraði enn, og hefur gert til þessa dags. Keltar á Írlandi tóku snemma upp kristna trú, eða um 400, en löguðu hana á margan hátt að keltneskum siðum. Frá Írlandi lögðu munkar í langar sjóferðir til landafunda og til að stunda sína trú í einrúmi. Slík var ferð munksins Brendans á skinnkúða sínum, og þannig komu papar líklega til Íslands. Á Írlandi er enn töluð gelíska, sem er í raun hin forna keltneska. Keltnesk tunga er einnig töluð nokkuð í Skotlandi, Wales og á Bretagneskaga.
Kemba (s) A. Hluti ullarvinnslu: Ullarlagður er settur á milli tveggja kamba, sem eru sérstaklega lagaðir spaðar með fjölda vírgadda. Kambarnir eru síðan dregnir á misvíxl, þannig að þræðirnir í lagðinum leggjast beinir og samsíða; tilbúnir í frekari vinnslu í lopa og band. „Smolt var líka notað í ull þegar verið var að kemba, til að mýkja hana. Yfirleitt var það samt fótafeiti. Þetta er svolítið svipað; storknaði ekki“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms). „Þelið var síðan kembt og spunnið úr því. Á 18. öld var farið að nota nýja gerð kamba, sem kallaðir voru ullarkambar. Þeir voru með vírtennur festar í skinn, sem neglt var á fjöl með áföstu skafti. Fínasta gerðin af þessum kömbum var kölluð þelkambar. Kembur voru ekki lyppaðar heldur spunnið beint úr þeim. Hægt var að spinna mjög fínan þráð úr þelinu. Sumar tóvinnukonur báru fótafeiti af soðnum sviðalöppum samn við þelið til að það kembdist betur og hægt væri að teygja það í fínni þráð við spunann.
Togið var kembt í gömlu togkömbunum. Það var dregið þannig úr kömbunum að toghárin lægju því sem næst öll langs eftir þræðinum. Dregna togið var vafið upp í hönk sem síðan var spunnið úr. “ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin). Sjá tóvinna. B. Greiða og hreinsa hár á manneskju eða skepnu. Kýr standa vetrarlangt á básum sínum og nauðsynlegt er að kemba þeim öðruhvoru. Það er gert með kúakambi/kúaklóru. Þá eru hreinsaðir um leið skítakleprar sem stundum setjast í læri þeirra; sér í lagi ef halinn leggst í flórinn. Hundar og kettir eru kembdir, t.d. til að hreinsa feldinn þegar dýrin fara úr hárum. Konur kembdu hár sitt með kambi áður en hárburstar komu til sögunnar.
Kemba (n, kvk) Lagður af þeli sem búið er að kemba. Sjá tóvinna.
Kemba (ekki) hærurnar (orðtak) Líkingamál um að lifa/ komast (ekki) af. „Það er hætt við að menn kembi ekki lengi hærurnar í dreifbýlinu ef þessi áform komast í framkvæmd“.
Kempa (n, kvk) A. Mikilmenni; hetja; kappi. „Hann var orðlögð kempa á sinni samtíð“. B. Listi ofaná borðstokki báts; framhald af hástokki/rimaborði. C. Vaður á hákarlaskipi.
Kemst ekki með tærnar þar sem ... hefur hælana (orðtak) Um samanburð manna; stenst ekki samjöfnuð; miklu síðri. „Hann er nokkuð vel að sér, þó hann komist ekki með tærnar þar sem sá gamli hefur hælana“.
Kemst þó hægt fari (orðatiltæki) Speki sem vísar til þess að menn geta komist á áfangastað þó hægt miði.
Kemur að skuldadögunum (orðtak) Gjalddagi skuldar kemur; skuld þarf að greiða; hefnist fyrir. Oft notað í óeiginlegri merkingu, t.d. um verknað sem sýnist vænlegur til skamms tíma en getur síðar komið í koll gerendum. „Þar kom að skuldadögum hjá honum; hann hirti svo djarft að heyið ornaði allt í hlöðunni“.
Kemur að því sem Krukkur spáði (orðatiltæki) Nú rætist það sem spáð var. Máltækið vísar til Krukkspár, en það er rit frá 16.öld; talið samið af Jóni krukki. Sumir telja hann sama mann og Jón Guðmundsson hinn lærða.
Kemur (veltur) afturábak/öfugt útúr (orðtak) Um mismæli/rassbögur; orð koma í öfugri röð. „Nei, nú kemur þetta allt afturábak útúr mér; en það sem ég vildi sagt hafa er þetta....“. Sjá ambögusmiður/rassbögusmiður.
Kemur babb í bátinn (orðtak) Sjá babb í bátinn.
Kemur ekki til af góðu (orðtak) Er sprottið af nauðsyn; stafar af slæmri þörf. „Ég veit að þetta var glæfraferð í svona veðurútliti, en það kemur ekki til af góðu; nú er ég nefnilega alveg tóbakslaus“!
Kemur ekki til greina/mála (orðtak) Útilokað; óhugsandi; er ekki til umræðu; alveg loku fyrir það skotið. „Nei fari það í helvíti. Það kemur ekki til mála að þessi kettlingur hafi 35 punda skrokk. Það þori ég að veðja um“! (PG; Veðmálið).
Kemur einn og biður um kaffirót (orðtök) Viðhaft t.d. þegar maður veiðir fisk í tregfiski; þegar sargast upp einn og einn.
Kemur enn ket í skjóðu (orðatiltæki) Viðhaft þegar eitthvað birtist/kemur sem mönnum líst ekki vel á. Mun leitt af því að fyrrum fengu gangnamenn nýtt ket í nesti, en það fékk fljótt leiðindabragð í nestisskjóðunni og varð ólystugt; var nefnt skjóðuket.
Kemur fram í seinna verkinu (orðtak) Hefnist fyrir það síðar. Sjá það kemur fram í seinna verkinu sem gert í því fyrra.
Kemur fyrir ekki/lítið. (orðtak) Er árangurslaust. „Við remdumst allt hvað af tók, en það kom fyrir ekki; steinninn bifaðist varla“.
Kemur í einn/sama stað niður / Kemur út í eitt (orðtak) Gildir einu; sama útkoman hvað sem er valið. „Það kemur út í eitt hvort þarna eru lögð grásleppunet eða rauðmaganet; alltaf eru þau kjaftfull“!
Kemur ekki til af góðu (orðtak) Ekki af nauðsynjalausu; nauðsyn ber til. „Afsakaðu að ég hringi svona seint, en það kemur ekki til af góðu“.
Kemur niður í seinna verkinu (orðtak) Hefnir sín síðar; verður síðar fjötur um fót; bíður sér ekki til bóta. „Ef illa er gert við girðinguna kemur það bara niður í seinna verkinu; túnrollurnar eru fljótar að finna það út“!
Kemur (ekki) til greina/mála (orðtak) Mögulegt (ekki mögulegt). „Það kemur ekki til greina að ég þiggi þetta“. „Sá varð nú heldur byrstur og sagði: „Fussum fei;/ ég fer víst ekki að leika mér við skvísu./ Það kemur ei til mála; nei og aftur nei;/ ég var nefnilega að horfa á hana Dísu“!“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Kemur einn og biður um kaffirót (orðatiltæki) Þetta er dæmi um þau orðatiltæki sem vermenn í Kollsvíkurveri létu falla þegar fiskur var dreginn að borði; líklega í þeim tilgangi að stytta skipsfélögum stundir með óvæntum og spaugilegum setningum. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Kemur ekki áttinni fyrir sig (orðtak) Notað um það þegar vindur blæs úr tveimur áttum um tíma; er tvíátta, og ekki ljóst hvor verður ofaná, eða þegar menn vænta vindáttar sem ekki er komin.
Kemur enn ket í skjóðu (orðtak) Bætist enn við; lengi er von á einum. (e.t.v. eitt af þeim orðatiltækjum sem vermenn notuðu þegar fiskur var dreginn; VÖ) (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Kemur heim og saman (orðtak) Passar/stemmir við; rímar við; stendur heima. „Lýsingin á þessu útigangsfé kemur heim og saman við það sem slapp úr réttinni í haust“.
Kemur í sama stað niður (orðtak) Skiptir ekki máli; kemur út á eitt.
Kemur spánskt fyrir sjónir (orðtak) Virðist undarlegt; kemur á óvart; stingur í stúf. „Það kemur mér afskaplega spánskt fyrir sjónir ef hann hefur samþykkt þetta“. Vísar líklega til þess að Þjóðverjum komu ókunnuglega fyrir þeir spönsku siðir sem Karl V. keisari vildi innleiða, en hann var af spönskum ættum.
Kemur styggð að (orðtak) Styggist; fælist; hrekkur við; hleypur/fer burt. „Ég læddist varlega uppfyrir féð og gætti þess að ekki kæmi styggð að því“. „Skyndilega kom styggð að refnum, og hann tók til fótanna“.
Kemur (ekki) til greina (orðtak) Hugsanlegt; kannski (útilokað) . „Þett kemur alveg til greina“.
Kemur úr hörðustu átt (orðtak) Kemur frá þeim sem síst skyldi. „Henni fannst það koma úr hörðustu átt þegar hann fór að tala um sóðaskap“. Líking við að óveður komi úr þeirri átt sem það veldur miklum skaða, en menn væntu síst.
Kemur út á eitt (orðtak) Skiptir ekki máli; kemur í sama stað niður. „Það kemur út á eitt hver fer fyrstur“.
Kemur vatn í munninn (orðtak) Kemur upp löngun í að borða. „Það kemur alltaf vatn í munninn þegar maður hugsar um glæný múkkaegg, þó nokkuð sé síðan maður fór síðast til eggja“.
Kemur vel á vondan (orðatiltæki) Hefnist fyrir; honum mátulegt. „Nú kemur vel á vondan þegar stjórnarandstaðan þarf sjálf að nota þær aðferðir sem hún gagnrýndi fyrri stjórn fyrir“. Sjá illt kemur vel á vondan.
Kenderí (n, hk) Fyllerí; altarisganga. „Þeir eru að flækjast á milli bæja á kenderíi, skilst mér“.
Kengboginn (l) Beygður mikið/ í vinkil; mjög hlykkjóttur. „Það er ekkert hægt að nota þessa árans uppréttinga; þeir eru margir ennþá kengbognir“!
Kengbogna (s) Bogna í vinkil/ mikið. „Höggið kom skakkt á naglann, svo hann kengbognaði“.
Kengfullur (l) Útúrdrukkinn; sauðdrukkinn; boginn/framlágur af áfengisneyslu.
Kengur (n, kk) A. Bogi; efni sem bogið er; lykkja í hurðar-/gluggakarmi. „Fjárhúsdyrunum var lokað ýmist með spotta sem undinn var á nagla í stafnum, eða með hespu og keng“. B. Ræði; tolla; pinni á borðstokk báts sem árin leikur á þegar róið er. „Svo missti ég nú aðra árina upp af kengnum; eitthvað afslepp tollan. Þá sló flötu, ég lenti í broti og það skvettist duglega í Korkanesið“ (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). C. Veikindi; slæmska; vanheilsa. „Það er búinn að vera einhver bölvaður kengur í mér síðustu dagana. Það er kannski bara þessi pestarskratti“.
Kengur í (orðtak) Bogið við; bilað; sjúkt; kreppt. „Mér finnst þessi kind vera ári slappleg; einhver kengur er í henni“. „Það er þá einhver kengur í vélarfjandanum; eina ferðina enn“!
Kenjadýr / Kenjagripur / Kenjakrakki / Kenjakvikindi / Kenjaskepna (n, hk/kk) Kenjótt/fyrirtektarsöm manneskja/skepna; sérvitringur. „Þetta er óttalegur kenjagripur, þó hann sé að ýmsu leyti vel gefinn“. „Þessi langvía er stundum mesta kenjakvikindi“. Einnig stundum notað um vélar: „Vélin í bátnum var mesti kenjagripur“.
Kenjar (n, kvk, fto) Sérviska; fyrirtektir; tiktúrur; gikksháttur. „Það eru ekkert nema kenjar í stráknum að vilja ekki láta klippa sig“. „Hættu nú þessum árans kenjum og settu á þig bindið“! „Aldrei fyrri hættir hér/ hlýddu manna kenjum./ En nú haga mun ég mér/ móti tröllavenjum“ (JR; Rósarímur).
Kenjóttur (l) Sérvitur; með sérþarfir/kenjar; dyntóttur. „Ég er kannski kenjóttur að éta ekki þessar bévítans gúrkur, en það er þó ekki hálft á við þig; að vilja ekki neitt grænmeti yfirhöfuð“!
Kenna (s) A. Þekkja; kannast við. „Ég bað Guð að hjálpa mér þegar ég sá bátinn snúa hér að landi; nema Árni Dagbjartsson ráði þar skipi. Og létti stórlega er ég kenndi bátinn“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Sker hann síðan hnýðinginn; finnur í honum skutulinn og kennir mark Benedikts, sem var á skutlinum “ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík). B. Finna til/fyrir; finna sársauka. „Ég kenni dálítið í höfðinu eftir steinkastið“. „Kenndirdu þegar þú dazt“? C. Leiðsegja; leiðbeina; innprenta; þjálfa. „Ég kenndi honum undirstöðuatriðin í þessu“.
Kenna botns (orðtak) Verða var við botn; ná niður á botn. „Pytturinn er alveg botnlaus. Ég rak einusinni langa spanskreyrsstöng niður í hann; og hendina með, en kanndi ekki grunns“.
Kenna grunns (orðtak) Um siglingu báts; taka niðri; rekast í botn. „Sló bátnum flötum er hann kenndi grunns...“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). „Þá höfðum við mann í bandi í fjörunni til að taka á móti skipverjum er þeir kenndu grunns... “ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Kenna lands (orðtak) Sjá land; sjá til lands; fá landkenningu. „Þó að vökni vettir manns/ vart ég sýta nenni;/ ef ég bara einhvers lands/ einhverntíma kenni“ (JR; Rósarímur).
Kenna í brjósti um (orðtak) Vorkenna; aumka; finna til með. „Maður hálf kennir í brjósti um karlræfilinn“. Sjá brjóst; brjóstumkennanlegur.
Kenna lands (orðtak) Verða var við land; hafa landsýn. „Við skulum nú ekki fara dýpra en svo að við kennum lands, fyrst við erum áttavitalausir í þokunni“.
Kenna lasleika (orðtak) Verða lasinn/veikur/sloj. „Hann kenndi einhvers lasleika og fór heim“.
Kenna sér (einskis) meins (orðtak) Finna (ekki) fyrir sársauka/veikindum/meinum; vera alheill.
Kenna til (orðtak) Finna til. Var mjög mikið notað í Kollsvík fyrrum. Einnig sérstætt; kenna. „Hann skarst á hendi og kenndi nokkuð mikið, en harkaði af sér“. „Kennirðu mikið til í þessu“?
Kenna um (orðtak) Ásaka fyrir; skella/koma sök/skuld á. „Ég kenni honum ekki um það hvernig fór“.
Kenndirí (n, hk) Fyllerí; neysla áfengis. „Er nú karlinn kominn á kenndirí“!
Kenndur (l) Ölvaður/hífaður af víni. „Karlinn var orðinn all kenndur og vel skrafhreyfinn“. „Dósina fékk ég, en síðan hef ég ekki sungið nema ég væri kenndur eða einn uppi á fjalli“ (IG; Æskuminningar).
Kenndur við (orðtak) Tekur nafn af; heitinn utaní. „Magnús var oft kenndur við uppeldis- og heimaslóðir sínar og nefndur Mangi í Botni, en víða um land er hann þekktur sem Magnús vítamín, vegna farandsölu sinnar“.
Kennileiti (n, hk) Sérkenni í landslagi. „Fyrri tíðar fólk var næmt á sérkenni í landslagi, enda þurfti það að nýta kennileiti til þess m.a. að rata um smalaland í dimmviðri og miða út vænleg fiskimið á sjó.
Kennimaður (n, kk) Predikari; sá sem er lunkinn við að innræta öðrum sínar skoðanir Fyrrum var orðið gjarnan notað um þá sem þóttu afburða miklir guðsmenn og predikarar guðsorðs.
Kenning (n, kv) Hvaðeina sem verður til fróðleiks/uppfræðslu. A. Í trúarlegum efnum; guðsorð og útlegging þess; biblían B. Í vísindalegum skilningi; staðhæfing/fullyrðing sem sett er fram með röksemdafærslu. C. Aukin reynsla; lærdómur. „Láttu þetta þér svo að kenningu verða“! D. Sýn; það sem sést. „Kollur og Örlygur höfðu ekki kenningu af landi fyrr en þá hafði hrakið norður fyrir Látrabjarg“. E. Orðlíking í skáldskap, oft í tveimur orðum; t.d. „hestur hafs“ um skip.
Kennir margra (ýmissa) grasa (orðtak) Er fjölbreytt/margbreytt. „Í verkfærahúsinu kennir margra grasa“.
Kennsli (n, hk) Um skakveiðar; að verða var; fá sæmilega veiði. „Nafnið á miðinu (Bjarni Gíslason) er þannig til komið að menn létu reka þarna á skaki og fengu sæmilegt kennsli á þessum bletti...“. (IG; Sagt til vegar).
Keppast við (orðtak) Vinna ákaft að. „Keppst var við að vera búinn að smala til aftektar og ganga frá ullinni fyrir slátt“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Færum var rennt í sjó, og strax var fiskur á hverju bandi; allir kepptust við dráttinn“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Kepphúfa (n, kvk) Hluti meltingarfæra jórturdýra; sá hluti keppsins sem nær er vélindanu. Orðið var einungis notað þegar vömbum var skipt og saumað fyrir þær við sláturgerð. „Saumaðu fyrir þessar kepphúfur“.
Keppikefli (n, hk) Takmark; stefnumið. „Mér er það ekkert keppikefli að vera með í þessum hópi“.
Keppinautur (n, kk) Sá sem við er keppt; mótherji í keppni/samkeppni.
Keppnismaður (n, kk) Sá sem gjarnan vill keppa; með keppnisskap. „Mun Kristján (Ásbjörnsson á Grundum) hafa varið landlegum til garðhleðslunnar og nýtt starfskrafta áhafnar sinnar, enda annálaður ákafa- og keppnismaður“ (HÖ; Fjaran).
Keppur (n, kk) A. Iður af blóðmör eða lifrapylsu. „Ég sauð þrjá blóðmörskeppi“. B. Kylfa/hnallur til að rota flyðru eða aðra veiðibráð. „Á Láganúpi var lengi til keppur með gogg öðrumegin og hvalbeinsflís í hinum jaðrinum“ (VÖ).
Ker / Kerald (n, hk) Stórt ílát, oft fremur grunnt miðað við víddina.
Kergja (n, kvk) Þrjóska; stífni. „Hann hefur lengi verið á móti þessu, en nú er hlaupin algjör kergja í hann“.
Kerling (n, kvk) A. Niðrandi heiti á konu, einkanlega eldri konu. B. Stelling; lárétt tré í botni báts sem masturshællinn gengur niður í. C. Efri hæll á orfi var stundum nefndur kerling, og karl sá neðri. D. Kerlingarbak; kisa; þunnildi á steinbít (sjá þar). (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). „Hvorum helmingi til skógerðar fylgdi kerlingin“ (LK; Ísl sjávarhættir IV).
Kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn (orðatiltæki) Sjá hafa nokkuð fyrir snúð sinn.
Kerlingabækur (n, kvk, fto) Hjátrú; kreddur; kjaftasögur. „Ég hef nú litla trú á svona kerlingabókum“.
Kerlingahland (n, hk) Ónýtt/óætt krækiber, annaðhvort vegna ofþroska/elli eða vegna næturfrosts. „Ber hafa sumsstaðar frosið í nótt; í lautunum er ekkert nema kerlingahland“.
Kerlingaranginn / Kerlingarálftin / Kerlingarhróið /Kerlingarræksnið / Kerlingaruglan / Kerlingartötrið / Kerlingarkvölin Gæluorð um kvenmann; yfirleitt ekki í niðrandi merkingu.
Kerlingarapparat / Kerlingarálka / Kerlingarbrýni / Kerlingarherfa / Kerlingarhrota / Kerlingarhukla / Kerlingarskass (n, kvk) Niðrandi heiti á kvenmanni. „Hún var að skamma mig fyrir þetta, kerlingarapparatið; ég held hún ætti frekar að skamma karlinn sinn“! „Skratti ætlar hún að reynast erfið; þetta kerlingarbrýni á skattstofunni“! „Hún ætlar hreint ekki að geta skilið þetta; kerlingarhuklan“!
Kerlingareldur (n, kk) Sjá gorkúla.
Kerlingareyra (n, hk) Blaðkan á stórþara (sjá þar). Líklega dregið af því að á stórstraumsfjöru stendur marggreind blaðkan uppúr sjávarborðinu, líkt og eyru.
Kerlingarprjónn (n, kk) Hausbein úr tálknvængjum þorsks sem stundum fylgir gellu fyrir mistök (sjá gella).
Kerlingarsvunta (n, kvk) Himna sem er milli vangaroðs, bógfisks og kinnfisks á þorskhaus (sjá þar). „Á henni eru ellefu nöfn; brúðarsvunta/hænusvunta/kerlingarsvinta; kerlingarsvunta/maðkasvunta/maríusvunta/ meyjarsvunta/silkisvunta/spákerling/spákerlingarsvunta og þerrisvunta. Kerlingarsvunta var algengast. Svuntan var notuð sem veðurtákn á þann hátt að kerlingarspón var haldið milli vísifingurs og þumalfingurs; svuntunni stungið í munn sér og spurt um leið um vindátt daginn eftir. Ef svuntan stóð bein eftir að henni hafði verið brugðið í munninn spáði hún logni og þurrviðri, en ef hana lagði undir átti það að vita á storm úr þeirri átt, og hann þeim mun stríðari sem svuntu lagði meir. Í annan stað var einkum tekið mark á henni varðandi þurrviðri eða regn. Svuntan var einnig óskaboði. Þegar hún stóð bein er hún var dregin út úr munninum mátti sá sem á henni hélt bera fram þrjár óskir í hljóði. En ef hana lagði varð hlutaðeigandi óskmissa“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Kerra (n, kvk) A. Vagn sem dreginn er af ökutæki. B. Barnavagn. Almennt notað af eldra fólki þegar barnavagnar fóru fyrst að tíðkast. „Er barnið eitthvað að hljóða í kerrunni“?
Kerrufóður / Kerrumatur (n, kk) Úrgangur/ ónýtt ket í sláturhúsi sem fer í kerru, til urðunar. Allmikið notað í sláturhúsinu á Gjögrum, en virðist ekki hafa verið mjög útbreitt. „Þessi horskrokkur er bara kerrumatur“.
Kerruhlass (n, hk) Sá farmur sem unnt er að flytja í einu í kerru.
Kerskni (n, kvk) Stríðni; háð. „Ég helda að þetta sé bara kerskni í honum“.
Kersknisskáldskapur / Kersknisvísa (n,kk/ kvk) Skammarvísa; níðvísa; háðvísa. „Margir höfðu gaman af því að hnoða saman vísum í Verinu; þó getan til þess væri misjöfn. Mikið af þessu voru tækifærisvísur af ýmsu tagi og kersknisskáldskapur, en einnig prýðisgóðar formannavísur og annar skáldskapur“.
Kertaljós (n, hk) Ljós af kertum, lýsislömpum og síðar olíulömpum var, ásamt hlóðaeldinum, eini ljósgjafinn sem þjóðin bjó við á myrkum vetrarkvöldum fyrir tíma rafvæðingar.
Kertaklemma (n, kvk) Lítil járnklemma með höldu fyrir lítið kerti á öðrum kjammanum; notuð sem festing fyrir kerti á jólatré. „Kertaklemmur lögðust af eftir að jólaseríur fyrir rafmagn komu til sögunnar, en voru notaðar, t.d. á Láganúpi framyfir 1960“ (VÖ).
Kertastjaki (n, kk) Áhald til að halda logandi kerti uppréttu; vanalega sökkull sem kertið fellur í, og oft með áföstum diski til að taka við bráðnu vaxinu.
Kertisstubbur (n, kk) Stutt kerti; afgangur af kerti. „Kertisstubburinn í fjósinu fer að verða útbrunninn“.
Ket (n, hk) Kjöt. Var yfirleitt framborið og skrifað þannig af innfæddum í Rauðasandshreppi; sem og allat samsetningar, s.s. ketsúpa; ketskrokkur o.fl. „Hvílir pottur hlóðum á/ heldur stór í seti./ Ljúfa honum leggur frá/ lykt af soðnu keti“ (JR; Rósarímur).
Ketafgangur (n, kk) Afgangur/leifar af ketmáltíð. „Það má hita þessa ketafganga í sósunni í kvöld“.
Ketarða / Ketdróg / Ketbiti / Ketnurta / Ketögn / Kettutla / Kettægja (n, kvk) Ögn/flís/smábiti af keti/kjöti. „Eftir að hann hafði kroppað af beinunum var ekki eina einustu ketörðu á þeim að finna“.
Ketát (n, hk) Neysla kets. „Mikið verður gott að fá saltfisk eftir allt þetta ketát um hátíðarnar“.
Ketbein (n, hk) Kjötbein.
Ketbirgðir / Ketfjall (n, kvk, fto) Birgðir af keti/kjöti; offramleiðsla á keti.
Ketbiti / Ketstykki (n, kk) Kjötbiti/kjötstykki.
Ketbolla (n, kvk) Kjötbolla.
Ketbúð (n, kvk) Kjötbúð; búð sem selur ket/kjöt.
Ketdiskur / Ketfat / Kettrog (n, kk/hk) Diskur/fat/trog með keti/ fyrir ket. „Þú ert nær ketdiskinum; skerðu smáflís fyrir mig“.
Ketfars / Kethakk / Ketkássa (n, hk) Kjötfars/kjöthakk/kjötkássa.
Ketfasta (n, kvk) Fasta þar sem kets er ekki neytt. „Í kaþólskum sið var ketfasta síðustu tvo daga fyrir upphaf páskaföstu“.
Ketfasta (s) Bindindi á ketneyslu.
Ketfat (n, hk) Fat með keti/ undir ket. „Réttu mér ketfatið“.
Ketflís (n, kvk) Sneið af keti/kjöti. „Gefðu mér tvær ketflísar. Það má alveg vera eitthvað ljóst með“.
Ketflutningar (n, hk, fto) Flutningar á keti/kjöti, t.d. frá sláturhúsi.
Ketfylling (n, kvk) Fylling af keti í annarskonar mat. „Hún bar fram minn uppáhaldsrétt; samanbrotnar eggjakökur með ketfyllingu“.
Ketgaffall (n, kk) Stór gaffall sem notaður er til að ná keti úr potti og til að hafa á ketfati.
Kethákur (n, kk) Sá sem etur mikið af keti/ þykir ket mjög gott. „Ég er hinn mesti kethákur, þó vissulega sé fiskurinn alltaf góður“.
Kethjastur / Ketmusl (n, hk) Tægjur/uppsóp/sag af keti, þar sem ket hefur verið stykkjað/sagað niður. „Sópaðu þessu ketmusli saman og fleygðu því í hundinn“.
Kethnífur (n, kk) Kjöthnífur; hnífur sem hentar vel í ketskurð.
Ketilhrúður (n, hk) Kalkútfelling sem fellur út úr vatni þegar það kólnar og sest innanum hluti. Ketilhrúður er því sérlega áberandi í ílátum sem notuð eru til að hita vatn, s.s. í kötlum, og af því stafar heitið.
Ketilkaffi (n, hk) Kaffi sem lagað er á þann hátt að kaffiduftið er látið sjóða í vatni í kaffikatli, og síðan hellt ofanaf. Stundum er þá hellt í gegnum síu til að ná korginum úr, eða hellt varlega.
Ketílát (n, hk) Ílát undir ket; ílát með keti. „Ég nota þetta varla fyrir ketílát“.
Ketjafningur / Ketkássa (n, kvk) Marið/hakkað ket, sem soðið er sem þykkur grautur. Oft borðað með kartöflumús. Ketjafningur var af sumum talið fínna orð.
Ketkrókur (n, kk) Einn jólasveinanna; Kjötkrókur. ELíklega fyrrum nafn á krók til upphengingar á keti.
Ketkvartel / Kettunna (n, kvk) Kvartel/tunna með keti/ fyrir ket. „Láttu standa vatn í ketkvartelinu til að þétta það“.
Ketkyns (ao) Ketmeti; úr keti. „Á sunnudögum höfum við eitthvern ketkyns mat“.
Ketlykt (n, kvk) Lykt af keti/kjöti.
Ketlæri (n, hk) Kjötlæri.
Ketmáltíð / Ketsoðning / Ketveisla (n, kvk) Máltíð kets; málsverður þar sem ket/kjöt er á borðum.
Ketmatur / Ketmeti (n, hk) Matur sem samanstendur einkum af kjöti/keti. „Maður hefur borðað svo mikið ketmeti yfir jólin að nú væri góð tilbreyting að fá fisk“.
Ketpoki (n, kk) Kjötpoki; grisjupoki sem ketskrokkum var pakkað í eftir slátrun. Snemma hvers morguns, áður en slátrun hófst, mætti hópur manna í Gjögrasláturhús til að pakka keti frá deginum áður.
Ketpottur (n, kk) Pottur sem ket/kjöt er soðið i.
Ketréttur (n, kk) Kjötréttur.
Ketsax (n, hk) Sax sem notað er til að höggva ket í spað, til söltunar í saltket.
Ketskammtur (n, kk) Skammtur af keti/kjöti.
Ketskrokkur (n, kk) Kjötskrokkur; skrokkur af skepnu sem slátrað hefur verið.
Ketskrúbbur (n, kk) Skrúbbur sem notaður er til að þvo ketskrokk. Meðan slátrað var í nýrra sláturhúsinu á Gjögrum var slíkur skrúbbur útbúinn þannig að sagaður var í tvennt langur handskrúbbur; borað gat í helminginn og þar í skrúfuð vatnsbyssa sem tengd var slöngu með rennandi vatni. Til venjulegra þvotta á ketskrokk var bundin grisja yfir hárin, en þau óvarin ef ná þurfti óhreinindum af.
Ketskurður (n, kk) Kjötskurður; verkun/niðurskurður kjöts.
Ketsoð (n, hk) Kjötsoð.
Ketsúpa (n, kvk) Súpa soðin af keti, oftast með grjónum, grænmeti og e.t.v. méli. „Ketsúpan er alltaf betri ef hún er a.m.k. tvíhituð“.
Ketsög (n, kvk) Sög til að hluta ketskrokk í sundur. „Ári er nú ketsögin að verða tannlaus“.
Ketsöltun (n, kvk) Söltun kets/kjöts. „Ketsöltun er nákvæmnisverk, og misjafnt hvernig mönnum ferst það úr hendi. Illa saltað ket er fljótt að skemmast“.
Kettlingskvikindi (n, hk) Gæluorð um kettling. „Vertu nú ekki að djöflast lengur í kettlingskvikindinu“!
Kettlingur (n, kk) A. Afkvæmi kattar/kattardýrs. B. Líkingamál um lítið lamb/ lambkægil. „Nei fari það í helvíti. Það kemur ekki til mála að þessi kettlingur hafi 35 punda skrokk. Það þori ég að veðja um“! “ (PG; Veðmálið).
Kettunna (n, kvk) Tunna undir saltket. „Mundu eftir að setja lokið og fargið aftur á kettunnuna“.
Ketvara (n, kvk) Kjötvara.
Ketverð (n, hk) Verð á kjöti/keti.
Ketþvottur (n, kk) Þvottur ketskrokks eftir slátrun. Ef hreinlega tekst til við fláningu og innanúrtöku þarfnast skrokkur yfirleitt ekki þvotta, en í nýrra sláturhúsinu á Gjögrum voru skrokkar einatt þvegnir með ketskrúbb; einkum að innan og á hálsi eftir að hálsæðar höfðu verið skornar af.
Ketöxi (n, kvk) Öxi til að höggva niður ketskrokk.
Kex (n, hk) Bökuð, þurrkuð, þétt og fínkorna brauðkaka með mikið geymsluþol. Kex hefur trúlega snemma borist til Kollsvíkur og annarra útgerðarstaða, en það kom fyrst til landsins með frönskum skútusjómönnum. Þeirra kex var í fyrstu nefnt pompólabrauð; kennt við bæinn Paimpol í Frakklandi.
Keyptur (l) Fenginn gegn greiðslu í peningum, vöru,vinnu eða öðru. „Þeir keyptu hann í þetta hrekkjabragð, því þeir lögðu ekki í það sjálfir“.
Keyra (s) A. Lemja; berja. „Þrem dögum eftir slysið fann ég hamarinn, er ég var að keyra naglann með er þetta skeði, inn í eldhúsdyrum“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). ). B. Aka farartæki. „Sveitabörn voru oftast búin að keyra traktor í mörg ár áður en þau komust á bílprófsaldur“. C. Sigla vélbáti. „Gamla Rut er sett á flot í Kollsvíkurveri. Sólóvélin sett í gang og keyrt suður á Bæi“ (ÖG; glefsur og fyrsti róður).
Keyra á færið/festuna (orðtak) Um fiskveiðar: A. Létta á drætti færis í vindi/straumi með því að sigla í þá átt sem það liggur. „Það er töluverður straumur með innlögninni; þú þarft að keyra á færið meðan ég hanka upp“. B. Reyna að losa veiðarfæri/stjórafæri úr botnfestu með því að sigla báti til og frá og halda þétt í línuna/netið/færið á meðan. Gefur vanalega nokkuð góða raun.
Keyra á mið (orðtak) Sigla til fiskimiðs á vélbát. „Þegar nóg var komið í beitu var keyrt á það mið sem leggja átti lóðina.... Venjulega var farið þegar smástreymt var; keyrt á mið sem heitir Tálkni og Sandhóll; þegar Tálkni sást fyrir Blakkinn og Sandhóllinn í Breiðavík fyrir Breiðinn“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Keyra í báruna (orðtak) Sigla báti á móti báru. „Keyrt er því beint í báruna um stund; því næst snúið undan bárunni á skutröng og horfi beint uppundir Blakkinn“ (KJK; Kollsvíkurver).
Keyra um þverbak (orðtak) Ganga of langt; kasta tólfunum; ganga framaf. „Það er alveg nóg að þurfa að þola þessar reykspúandi orrustuþotur í háloftunum, en það keyrir nú um þverbak þegar þetta er ofan í húsum“! Sennilega líking við það að slá (keyra) hest með svipu þvert yfir bakið, sem kallar fram mikil viðbrögð.
Keyra (fram) úr (öllu) hófi (orðtak) Fara yfir mörkin; vera um of; vera yfirdrifið. „Ég bjóst nú við að þetta væri nokkuð dýrt en svona verðlagning keyrir úr öllu hófi; þetta er bara rán úm hábjartan dag“!
Keyra/kippa upp (orðtak) Um vélbát; sigla í land/ nær landi. „Nú held ég að við ættum að fara að keyra upp“.
Keyrslutími (n, kk) Tími sem vinnuvél er keyrð; vinnutími vélar. „Gjal fyrir vélina skal vera kr 15.00 á klst; reiknað fyrir keyrslutíma frá því að vélin kemur á vinnustað“ (Starfsreglur fyrir jarðræktarverkefni Kollsvíkinga 1945).
Keyta (n, kvk) Hland sem safnað var saman áðurfyrr og notað til þvotta á ull. „Ullin var áður fyrr þvegin úr keytu sem var þvag úr fólki. Þá voru koppar/næturgögn undir hverju rúmi á bænum, sem menn köstuðu af sér vatni í að nóttunni. Því þvagi var safnað allt árið í tunnu og geymt, þar til ullin var þvegin“ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin). „Ekki þarf að taka fram að ullin var öll þvegin heima; úr keytu fyrst eftir að ég man eftir mér“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). „Ullarþvotturinn fór fram við Torfalækinn. Vatn var hitað upp að suðu á hlóðum í stórum potti; í það var blandað keitu, en hún var notuð í stað sápu. Þá var ullin sett í pottinn og þvæld í nokkurn tíma; síðan tekin upp í körfu og skoluð vel í læknum. Að því loknu var hún borin upp á Torfamel og breidd þar til þerris“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). “ (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). Sjá tóvinna. Þjóðtrúin segir að draugar þoli illa hland/keytu, og því veitti það eflaust mikið öryggi að hafa kopp undir rúmstokk meðan á þá var trúað. Það mum hafa þekkst að stökkva keytu innanum t.d. fjós ef grunur var um að þar væri óhreint á sveimi.
Keytufýla (n, kvk) Stæk lykt af hlandi/keytu. „Mér varð hálf ómótt af keytufýlunni þarna inni“.
Keytukerald / Keytustampur / Keytutunna (n, hk) Stór tunna eða annað ílát sem keytu var safnað í.
Kibba (n, kvk) Algengt gælunafn á kind, ekki síst heimalningi. Einnig Gibba, Gimba o.fl.
Kið / Kiðlingur (n, hk/kk) Afkvæmi geitar. Af sömu rót og enska orðið kid (krakki).
Kiða (s) Iða; vera órór/tvístígandi.
Kiða að sér (orðtak) Kjassa; faðma; láta vel að. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Kiðagrey / Kiðakútur / Kiðalýja / Kiðaskinn / Kiðastubbur / Kiðlingur (n, hk/kk/kvk) Gæluorð í ávarpi við ungbörn. „Komdu hérna kiðakúturinn minn“. „Langar þig að ná í þetta, kiðastubbur“?
Kiðfættur (l) Hjólbeinóttur; Með fætur innbogna, þannig að bil er á milli hnjákolla þegar staðið er með fætur saman. Algengara var í Kollsvík að nefna þannig fólk og skepnur hjólbeinótt.
Kikkófær (l) Algerlega ófær; mjög mikil ófærð. „Fjörurnar eru gjörsamlega kikkófærar núna“.
Kikna (s) Bogna; svigna; heykjast. „Settu ekki svo mikið á heyvagnsræfilinn að hann kikni undan því“
Kikna í hnjáliðum (orðtak) Hræðast; verða smeykur; verða máttlaus af hrifningu. „Það er nú óþarfi að kikna í hnjáliðunum þó þessar þingmannsnefnur séu á ferðinni; maður á eitt og annað vantalað við þá“!
Kilpast (s) Kikna; bogna; gefa eftir. „Þú mátt ekki láta sögina kilpast í átakinu“.
Kilpur (n, kk) A. Lykkja; hönk; sveigja; bogi. „Gáðu að þegar þú tekur í vaðinn! Það er kilpur á honum í efri ganginum“. B. Fyrrum notað um handfang á fötu.
Kimi (n, kk) Vik; skot; vogur; geil. „Víða geta leynst kindur í þessumkimum“.
Kind (n, kvk) A. Ær; kvenkyn af sauðkind. Oftar var talað um kindur eða rollur en ær í Kollsvík, a.m.k. í seinni tíð. Í samsettum orðum var þó líklega oftar notað forskeytið ær-, sauða-, rollu- eða fjár-. B. Gæluorð um manneskju. „Hún getur víst lítið að þessu gert, blessuð kindin“.
Kindabyssa (n, kvk) Fjárbyssa; stutthleypt byssa til að lóga búfénaði. „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína“ (PG; Veðmálið).
Kindagata (n, kvk) Fjárslóð; fjárgata; greinilegur slóði/braut sem myndast á jörðinni þar sem fé gengur mikið um. Kindagötur geta orðið mjög áberandi og varanleg kennileiti í landslagi, og jafnan má treysta því að féð velur hentugstu leiðina á hverjum stað.
Kindaket / Kindakjöt (n, hk) Ærket; ket af fullorðnu. „Ég nota þetta kindaket í kæfugerð“.
Kindakofi (n, kk) Kofi/hús fyrir fáar kindur. Væru þar fleiri kindur var talað um fjárhús.
Kindarlegur (l) Skömmustulegur; niðurlútur. „Það er óþarfi að vera svona kindarlegur yfir þessu“.
Kindarskjáta (n, kvk) Rolluskjáta; gæluorð um kind. „Ég er hræddur um að þessi kindarskjáta hafi orðið eftir“.
Kindarsvipur (n, kk) Skömmustulegur svipur; niðurlútur svipur. „Ég sá á kindarsvipnum á honum að hann var ekki að segja allan sannleikann“.
Kindaskítur (n, kk) Skítur úr sauðfé. „Í hellinum var mikið af kindaskít“. Sjá kindasparð; sparð.
Kindaskjátur (n, kvk, fto) Rolluskjátur; gæluheiti á kindum. „Ætli ekki þurfi að kasta einhverju í þessar kindaskjátur eins og vant er“. „Þótt ég við það vinni mér/ verðan tröllahlátur,/ eftirlæt ég allar þér/ ykkar kindaskjátur“ (JR; Rósarímur).
Kindasparð (n, hk) Sparð; kúla af kindaskít. Sjá sparð.
Kinka kolli (orðtak) Hreyfa höfuð framávið, til merkis um samþykki.
Kinna (s) Kljúfa þorskhaus upp og taka úr honum krummann/krummabeinið. „Væri heilkinnað þá var haldið með vinstri hendi ofarlega um hægri kinnina og farið með hníf undir kerlingarspaðann að aftan og skorið upp með krummanum; ýmist fyrir utan augað eða innan; uppfyrir nefið og niður hinsvegar. Kinnarnar voru þar með lausar frá krummanum og héngu saman á kjálkum og granabeinum, ýmist með kverksiga eða án. Stundum var hausinn gellaður áður en hann var kinnaður. Þegar hálfkinnað var var byrjað að fara með hníf undir granbeilurnar hægra megin; rist upp og niður hinsvegar, og þær losaðar frá kjálkum og látnar fylgja krummanum. að því búnu var skorið niður frá innanverðu kjálkabeini og milli kerlingarspaða, kjálkabarðs og sjálfs kjammabeinsins; fram og uppmeð krummanum innanvið augað og niður hinsvegar með sama hætti. Eftir oru blákinnarnar; fastar saman á kjálkunum, oftast án kverksigans. Oft voru kinnar soðnar nýjar, en algengt var að þurrsalta eða pækilsalta þær og geyma eins og annað trosmeti“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Kinnamikill (l) Búlduleitur í andliti; kúlduleitur; fullur að vöngum; vangamikill.
Kinnfiskasoginn (l) Um andlitsfall; með innfallnar kinnar, t.d. vegna vannæringar eða tannleysis.
Kinnfiskur (n, kk) A. Kúlda, fiskholdið sem þykkast er í kinn á fiskhaus. „Kinnfiskurinn/ kúldan/steinbítskúldan var víða rifin til átu úr hörðum hausnum“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). (Sjá þorskhaus og lygabarð). B. Fylling í kinnum manns. Þeir sem eru kinnfiskamiklir eru búlduleitir.
Kinnhestur (n, kk) Löðrungur. „Það þótti ekki tiltökumál forðum, þó óþægum börnum væri rekinn léttur kinnhestur ef þau höfðu brotið alvarlega og viljandi af sér. Það var þó að leggjast af uppúr miðri 20. öldinni, og mun nú flokkast undir níð, enda nær aflagt að foreldrar búi börn sín sjálfir undir framtíðina“.
Kinnklofinn / Krummaklofinn (l) Um aðferð til að höggva upp kringluhausa/þorskhausa. „Sumir höfðu fyrir venju að höggva upp kringluhausa meðan þeir voru í verkun, en ekki fyrr en þeir voru orðnir sæmilega harðir. Ýmist voru þeir kinnklofnir eða krummaklofnir. Til þess var notuð heimasmíðuð skaröxi/hausaexi...“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Kinnótt (l) Litur á sauðfé: Hvítt með dökka eina kinn. Væru höfuðflekkir meiri var hún bíldótt.
Kinnroðalaust (l) Án þess að blikna/ skammast sín. „Það má kinnroðalaust fullyrða að í gegnum tíðina hafi Útvíkur Rauðasandshrepps verið eitt lífvænlegasta hérað Íslands; ekki síst á harðindatímum“.
Kinnunga (s) Löðrunga; slá/gefa kinnhest. „Hann var víst heldur betur kinnungaður á framboðsfundinum“.
Kinnungur (n, kk) Síða/bógur á báti. „Hnísurnar stukku upp úr sjó við kinnunginn á bátnum“. „Kaldan hjala kinnung við/ kólgu svalar dætur./ Göltur kjalar greikkar skrið/ gjálpadal og bylgjurið“ (JR; Rósarímur
Kinoka sér við (orðtak) Veigra sér við; koma sér hjá; vera ragur við. „Hann kinokaði sér ekkert við að spyrja hana hreint út um þetta“. Var í máli sumra Kollsvíkinga framundir 2000, en heyrist varla nú.
Kippa (s) A. Róa stuttan spöl; færa sig aftur á mið eftir að rekið hefur af því. „...en þegar við höfðum reynt þar fyrir okkur í nokkra klukkutíma og lítið fengið kipptum við frá og suður á Barðsbrekkur...“ (ÖG; Fiskiróður). „Við fengum skipun um að hafa uppi færin; það átti að kippa. En það var ekki síðasti kippurinn þennan dag“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Færum er rennt. Fiskur tregur. Keipað um stund; síðan kippt fram á Stekka“ (ÖG; glefsur og fyrsti róður). B. Setja í kippu. „Ég kippaði rauðmagann og saltaði í hann“.
Kippa að sér hendinni (orðtak) Draga boð eða annað til baka; draga í land. „Ég ætla að grípa þetta tilboð, áður en hann kippir að sér hendinni með það“. Myndræn líking, t.d. um handaband við samninga.
Kippa á (orðtak) Um sjómennsku; sigla/róa upp í straum/vind til að komast á mið/fiskislóð sem bát hefur rekið af. „Okkur hefur rekið töluvert norður. Prófum að kippa aðeins á slóðina aftur“.
Kippa fótunum undan (orðtak) Raska forsendum/grundvelli fyrir; gera að engu. „Svona grasbrestur getur alveg kippt fótunum undan þeim búum sem tæpt standa“.
Kippa í kynið (orðtak) Líkjast sínum foreldrum/forfeðrum/ættingjum. „Honum kippir í kynið með hjálpsemina, blessuðum; hann á ekki langt að sækja það.
Kippa í lag (orðtak) Lagfæra í skyndi; kippa í liðinn. „Ég kippi þessu í lag í hvelli“.
Kippa í liðinn (orðtak) A. Toga í handlegg/fót sem farið hefur úr lið, til að koma honum í lið aftur. B Afleidd merking og meir notuð; koma því í lag sem farið hefur útskeiðis. „Ég kippi þessu í liðinn eins og skot“.
Kippa/taka í taumana (orðtak) A. Stjórna/ halda aftur af hesti með taumum. B. Hafa stjórn/hemil á einhverju.
Kippa sér upp við (orðtak) Láta sér bregða við; verða uppnæmur vegna; láta fara í taugarnar á sér. „Múkkinn ældi auðvitað yfir hausinn á honum á uppleiðinni, en hann kippti sér ekkert upp vvið það“.
Kippa undan (orðtak) Um fiskveiðar; þegr skyndilega hættir að fiskast þegar maður er að skaki. „Nú hefur alveg kippt undan; við skulum keyra örlítið og reyna að láta reka inní gerið aftur“.
Kippa undan sjó (orðtak) Setja bát/reka nægjanlega hátt í fjöru að hann sé ekki í hættu með að fara í sjóinn. „Hjálpaðu mér aðeins að kippa bátnum undan sjó“
Kippa upp / Kippa frá /Kippa norður /Kippa suður (orðtök) Um veiðiskap; róa/keyra nær eða fjær landi; norðurávið eða suðurávið, eftir því sem þörf er á, t.d. vegn reks. „En þegar við höfðum reynt fyrir okkur nokkra klukkutíma og lítið fengið, kipptum við frá og suður á Barðsbrekku“ (ÖG; Þokuróður).
Kippa úr (orðtak) A. Draga úr straumi/falli. „Ég ætla nú að halla mér aðeins yfir harðasta fallið. Þið vekið mig þegar fer að kippa úr aftur“. „Grásleppuveiðin datt frekar niður aftur þegar kippti úr straumnum“. B. Um veiði; kippa undan; þegar fiskur hverfur frá báti og hættir að veiðast. C. Um vöxt í gróðri og skepnum; minnka; hætta að vaxa/stækka.
Kippa úr falli (orðtak) Draga úr straumi í sjávarfalli; nálgast liggjanda; kippa úr; slá niður falli.
Kippir úr kjafti (orðtak) Dregur skyndilega úr velsæld/matarframboði/lífsgæðum. „Það kippti verulega úr kjafti hjá bændum, þegar þeir hættu að stunda grásleppuveiðar á vorin“.
Kippir úr vexti (orðtak) Dregur úr vexti/sprettu. „Það kippir auðvitað úr vexti ef gemlingakvikindin fá ekkert annað en svona rudda“.
Kippkorn (n, hk) Stuttur spölur; smáspotti. „Ég lagðist í leyni kippkorn frá greninu og beið eftir tófunni“.
Kippuband (n, hk) Band/tóg til að draga fuglakippur á bjargbrún. „Sextíu fuglar voru dregnir upp í einu; notuð voru sérstök kippubönd, sverari en venjuleg dráttarbönd“ (ÁE; Ljós við Látraröst). „Venjan var, þegar borið var upp Bjargið, að hafa 40 fugla í byrði. Það voru 10 fuglar í hvorum enda kippubandsins og bornar tvær kippur í bak og fyrir og krosslagðar á bakinu. Fuglinn er talinn til jafnaðar eitt kíló, svo venjulegar byrðar voru um 40 kg“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Kippur (n, kk) A. Stuttur róður/ stutt keyrsla á bát, til að komast aftur á fiskislóð sem rekið hefur af. „Við fengum skipun um að hafa uppi færin; það átti að kippa. En það var ekki síðasti kippurinn þennan dag“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). B. Vegalengd; spölur. „Kýrnar voru komnar góðan kipp frammeð Axlarhjöllunum“. „Lítinn kipp utanvið urðina var ágætis lendingarstaður“. C. Snögg hreyfing; viðbragð. „Þessir ósjálfráðu kippir í handleggnum voru honum oft til baga“. „Einhverjir kippir eru nú í færið“.
Kipra (s) Draga saman; þrengja. „Ósjálfrátt kipraði ég augun í sterku ljósinu“. „Hann kipraði munnin í vanþóknun, en sagði ekki neitt“. „Ég kipraði mig saman og faldi mig í skápnum“.
Kipringur (n, kk) Samdráttur. „Það getur komið einhver kipringur í viðinn þegar hann þornar“.
Kirfilega (ao) Tryggilega; algerlega. „Gakktu svo úr skugga um að báturinn sé kirfilega bundinn niður“.
Kirfilegur (l) Vel útilátinn; mikill. „Veggurinn gaf sig eftir nokkur kirfileg sleggjuhögg“.
Kirkja (n, kvk) Guðshús. Orðið er leitt af gríska orðinu kyriakon; þ.e. „sá sem er guðs“. Kirkjur hafa verið all margar í Rauðasandshreppi frá fornu fari, séu bænhús meðtalin. Þó ekki séu um það beinar ritheimildir má leiða veigamikil rök að því að fyrsta kirkja á Íslandi hafi verið reist í Kollsvík. Kollur landnámsmaður var, ásamt fóstbróður sínum Örlygi, í trúboðsskóla á Suðureyjum. Patrekur biskup sendi þá í trúboðsleiðangur til Íslands; á Kjalarnessvæðið þar sem þá var að myndast þétt byggð, og kirkjuvið höfðu þeir meðferðis. Þeir hröktust vesturfyrir land og náðu landi í Rauðasandshreppi. Eftir vetursetu verður það niðurstaðan að Kollur nemur land í Kollsvík og hásetar hans allt nágrennið, en Örlygur fer suður og reisir kirkju að Esjubergi. Miklar líkur eru á því að Kollur hafi einnig reist kirkju í Kollsvík; enda hér kominn í sama tilgangi. Líkur eru þá á að hann hafi lokið fyrr við hana en Örlygur, þar sem hann byrjaði árinu fyrr. Bær hans hlýtur nafnið Kirkjuból, þó í seinni tíð hafi hann tekið nafn af víkinni. Víst er að í Kollsvík er orðin staðfest kaþólsk hálfkirkja rúmum þrjúhundruð árum síðar; þegar Guðmundur biskup góði lagði sína leið í Kollsvík ásamt föruneyti sínu. Höfðingjaveldi komst fljótt á legg í Saurbæ á Rauðasandi. „Markús Gíslason bóndi að Saurbæ á Rauðasandi, fór utan og lét höggva í Noregi kirkjuvið góðan. Síðan fór hann til Íslands og kom út í Gautavik á Austfjörðum. Hann gaf allan kirkjuviðinn Sigmundi Ormssyni, sem þá var mestur höfðingi á Austurlandi og lét hann gera af honum kirkju á Valþjófsstað". (Safn til sögu Íslands). Þetta mun hafa verið um 1180 en 10 árum seinna íór Markús Gíslason aðra ferð frá Saurbæ til að sækja kirkjuvið, og byggði af honum kirkju i Saurbæ. Í hana setti hann kirkjuklukkur tvær, og Ólafsskrín, er hann kom með úr þessari ferð, að þvi er segir í sömu heimildum. Má vera að í kjölfar kristnitökunnar hafi togstreita orðið milli Kollsvíkur- og Bæjarhöfðingja um kirkjumál og hinn síðarnefndi haft betur. Í Saurbæ var síðan um aldir höfuðkirkja svæðisins; helguð heilagri Maríu og Jóni postula, en hálfkirkjur og bænhús voru nokkur á 15. öld, einkanlega á fjölmennum byggðum sem áttu langa kirkjusókn. Bænhús var sett í Breiðavík árið 1431 af Jóni biskupi Geirekssyni; bænhús voru einnig í Sauðlauksdal; Melanesi (frá 1514); Stökkum; Hvallátrum; Veturbotni og Geirseyri. Hálfkirkja var þá í Kollsvík, eins og áður sagði, og eingöngu þar voru leyfðar greftranir utan Saurbæjarkirkju sjálfrar. Árið 1512 setti Stefán Jónsson biskup sóknarkirkju í Sauðlauksdal, og þangað skyldi eiga sókn fólk af öllum bæjum við Patreksfjörð. Nokkru síðar gáfu eigendur Sauðlauksdals; Jón Jónsson Íslendingur og Dýrfinna kona hans, 6 hundruð til Sauðlauksdalskirkju, auk ýmissa hlunninda. Síðari eigendur gáfu staðnum alla jörðina. Um siðaskiptin uppúr 1550 voru öll bænhúsin aflögð, og einnig hálfkirkjan í Kollsvík. Þá eru einungis tvær kirkjur í Rauðasandshreppi; Saurbæjarkirkja og Breiðavíkurkirkja. Langur hefur þá kirkjuvegurinn verið frá ystu bæjum, t.d. frá Vatneyri, Geirseyri og Útvíknabæjunum; en ströng skylda hvíldi á öllum um að sækja messur reglulega. Árið 1824 rættist úr fyrir Útvíknafólki, þegar sett var sóknarkirkja í Breiðavík með sérstöku konungsbréfi árið 1824. Voru þá 3 sóknir í hreppnum. Árið 1907 var Patrekshreppur stofnaður út úr Rauðasandshreppi og það ár var þar vígð sóknarkirkja, en 1903 hafði þar verið stofnuð sérstök kirkjusókn. Síðustu áratugi hefur fækkað mjög í sóknum Rauðasandshrepps; ekki er lengur (árið 2016) unnt að manna sóknarnefnd í Breiðavíkurkirkju, og fáir eiga sókn í Sauðlauksdals- og Saurbæjarkirkjur.
Kirkjuból (n, hk) Fornt heiti jarðar sem kirkja stóða á. Einnig stundum nafn jarðar í kirkjueign. Langflest eru kirkjubólsnöfnin á Vestfjörðum; en af 26 kirkjubólsnöfnum á landinu eru 5 í Barðastrandasýslum; 10 í Ísafjarðasýslum og tvö í Strandasýslu. Talið er að nafnið kirkjuból bendi til að þar hafi kirkja staðið a.m.k. frá upphafi kristni í landinu, en líklega þó enn fyrr; eða þar sem kristnir landnámsmenn reistu sínar heimakirkjur. Einkum er talið að þar hafi átt í hlut landnámsmenn frá Írlandi og Suðureyjum, þar sem kristni var landlæg. Nafnið Kirkjuból var eitt sinn notað um Kollsvíkurjörðina. Ekki er vitað frá hvaða tíma, en á síðari öldum hafði það vikið fyrir Kollsvíkurnafninu. Það var svo tekið upp aftur um tíma á síðari hluta 19.aldar og var viðloðandi framundir miðja 20.öld, þegar Kollsvíkurnafnið tók aftur við. Töluverðar líkur eru á því að Kollur landnámsmaður hafi reist sér kirkju í Kollsvík og af henni sé nafnið dregið. Fóstbræðurnir Kollur og Örlygur voru að námi við Kólumbusarklaustrið á Iona á Suðureyjum. Patrekur biskup sendi þá til Íslands þar sem þeir skyldu reisa kirkju og boða trú á Kjalarnesi. Þeir hröktust vesturum land. Örlygur fór aftur suður eftir vetursetu í Örlygshöfn en Kollur braut skip sitt í Kollsvík og lét þar skeika að sköpuðu. Allar líkur benda til þess að hann hafi þar reist sér kirkju; líklega hina fyrstu á Íslandi, til þakkar drottni og heilögum Kólumba fyrir björgunina. Síðan hafi bærinn tekið nafn af kiskjunni og nefnst Kirkjuból, en Kollur tekið nafn af fjallinu fyrir ofan, sem að nokkrum líkindum hefur heitið eftir sékennilegri lögun sinni og nefnst Kollur eða Kollnúpur sem síðar styttist í Núpur. Landnámsmaðurinn kann að hafa heitið Örn, en munnmælasagan segir að Arnarboði heiti í höfuð stýrimanni Kolls. Þar sem stýrimaður á þessum tíma var æðsti stjórnandi skipsins gæti þar verið komið hið rétta heiti landnámsmannsins. Hann hafi síðar tekið nafn af vík sinni, líkt og siður var í þann tíð; nefnst Koll-Örn og síðar Kollur.
Kirkjubóndi (n, kk) Eigandi og ábúandi kirkjustaðar; prestvígður sem þjónaði kirkju sinni. Á þjóðveldisöld var kirkjubóndi oft goðorðsmaður, en goðum var síðar bannað að taka vígslu. Líklega hefur Kollur landnámsmaður verið fyrsti kirkjubóndi landsins; sjá kirkjuból. Á síðari tímum er heitið kirkjubóndi notað yfir bónda á kirkjustað.
Kirkjubygging (n, kvk) Bygging nýrrar kirkju. „Ekki var einhugur í sókninni um nýja staðsetningu Breiðavíkurkirkju, en eftir að hún var ákveðin unnu öll sóknarbörn að kirkjubyggingunni í sjálfboðavinnu“.
Kirkjugarðsveggur (n, kk) Veggur kringum kirkjugarð. „Jón hét Saurbæjarprestur sem einnig sinn þjónaði Sauðlauksdal. Eitt sinn var hann á heimleið þaðan eftir messugerð. Leiðin liggur neðan Síðaskeggs, sem er áberandi bergþil í klettunum utan- og ofanvið Lambavatn. Þar býr skessa ein mikil, og hugði hún gott til glóðarinnar er hún sá prest. Jón hraðaði för sinni er hann sá óvættinn steðja niður hlíðina, og reið í loftköstum í átt til Bæjarkirkju. Vissi hann að sín eina von væri að komast á vígðan reit. Við kirkjugarðsvegginn stökk hann af baki; hljóp inn í kirkjuna og hringdi klukkunum sem ákafast. Skessan var komin að garðinum en brá nú við hart. Spyrnti hún fæti í vegginn svo úr honum hrundi, og mælti; „Stattu aldrei, argur“ Hafa þau álög hvílt á kirkjugarðsveggnum síðan, og jafnan leggst hann útaf á nokkurra ára bili. Reyndar kunna vantrúarmenn að skýra það með því að þarna er jarðvegur bæði djúpur og gljúpur undir“. Við svonefnda Jónshlöðutóft; efst í Kollsvíkurtúni, stendur steinnibba úr jörðu. Sá steinn er sagður hluti af kirkjugarðsveggnum kringum hina fornu Kollsvíkurkirkju. Kann það vel að vera; enda hafa iðulega komið upp mannabein úr jörðu þar stutt frá. Jónshlaðan stóð þá líklega á sama stað og kirkjan stóð forðum.
Kirkjuhóll (n, kk) Hóll sem kirkja stendur á. Tilhneyging hefur verið til þess frá því að byggð hófst í landinu, að byggja bæi og kirkjur á hólum og hæðum í landslaginu, þó ýmsir aðrir þættir hafi einnig vegið þungt, s.s. skjól; hætta af snjó- og vatnsflóðum, gróðurfar, megináttir, útsýni og fleira. Bæjarhólar hafa svo stækkað í tímans rás, þegar hvert mannvistarlagið hlóðst ofan á annað. Slíkt má sjá á bæjarhólum t.d. í Kollsvík og á Láganúpi. Kirkjur voru jafnan stutt frá bæ, og einnig á einhverri hólmynd ef kostur var. Þannig hagar til í Kollsvík. Í hásuður af gamla bæjarhólnum er nokkru lægri hóll, þar sem nú er tóft Jónshlöðu. Þar stóð fyrrum hálfkirkjan í Kollsvík; e.t.v. fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi (sjá kirkja).
Kirkjujárn (n, hk) Járnkarl í eigu kirkju, sem notaður er til að höggva jarðklaka þegar grafir eru teknar að vetrarlagi. „Að morgni þess sama dags og slysið varð (1774), tóku piltarnir kirkjujárnið í leyfisleysi til að kanna ísinn á vatninu“ (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu).
Kirkjukaffi (n, hk) Kaffi sem boðið er uppá að lokinni messu. „Alltaf var boðið uppá kirkjukaffi að messulokinni, og ekki af verri endanum“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kirkjurækinn (l) Samviskusamur með kirkjusókn; fer oft til messu.
Kirkjusókn (n, kvk) A. Sækja kirkju; skylda til að sækja tiltekna kirkju. „Kollsvíkingar áttu í margar aldir kirkjusókn að Saurbæ, eða allt til þess að í Braiðavík var stofnuð sóknarkirkja árið 1824“. B. Svæði/byggð sem sókn til tiltekinnar kirkju nær til. „Fátt er nú orðið í kirkjusókn Breiðavíkur“.
Kirkjuvegur (n, kk) Leið til sóknarkirkju. „Kirkjuvegur (frá Kollsvík að Saurbæ) lángur og vondur; meir en þingmannaleið... “ (AM/PV Jarðabók).
Kirkjuviður (n, kk) Viður til kirkjubyggingar; viður úr kirkjubyggingu. „Landnáma segir að þeir fóstbræður Kollur og Örlygur hafi haft með sér kirkjuvið þegar þeir komu í sinn trúboðsleiðangur til Íslands. Eftir vetursetu í Örlygshöfn sigldi Örlygur suður og byggði kirkju að Esjubergi. Líklegt er að Kollur hafi strax hafið byggingu kirkju í Kollsvík, og hún þannig orðið fyrsta kirkjan sem reis á Íslandi. Kollsvík var minnsta landnám landsins, og fjarlæg ritunarstað Landnámu í tíma og rúmi. Því er Kollskirkju þar ekki getið“.
Kirkjuvætt (n, kvk) Skiptahlutur kirkju af hvalreka á fjörur þar sem hún á ítök. „Ekki er þess heldur getið að Einar hafi goldið kirkjuvættir af hvalnum til Saurbæjarkirkju á Rauðasandi, er þá var venja til. Kirkjan var talin eiga tíundu hverja vætt af öllum hvalreka sem á land kom á svæðinu frá Skor að Tálkna“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Kirtill (n, kk) Líffæri líkamans, sem vinnur efi úr blóðinu og framleiðir ýmist vökva af einhverju tagi eða annað, t.d. hormón. (Sjá einnig kyrtill).
Kisa (n, kvk) A. Köttur. B. Líkingamál; sá/sú sem þolir illa hita. „Gefðu mér mjólkurlögg í kaffið; ég er svoddan kisa“. Sjá einnig eins og köttur í kringum heitan graut. C. Líkingamál um veður; kasta kisum.
Kisi (n, kk) Gæluorð um kött, oftast notað um högna.
Kista (n, kvk) Aflangur kassi, oftast úr tré og opnanlegur að ofan. Kistur voru mikilvæg ílát á heimilum fyrrum. Í þeim vöru geymd föt og fleiri persónulegar eigur, og þannig kistur voru oft hafðar nærri rúmi eigandans. Í búri voru oft kistur til geymslu á mjöli og annarri matvöru. Kistur voru oft með kúptu loki, allt að 1m að lengd og 30-50cm á aðra vegu. Lamir að utanverðu; oft góður lás með lykli og stundum járnslegnar. Í kistu var oft hólf að endilöngu að innanverðu, nefnt handraði, þar sem smáhlutir voru geymdir. Kistur voru einnig til annarra nota; t.d. líkkistur og kaðlakistur; og í seinni tíð frystikistur. Gluggakista er ekki eiginleg kista, heldur innri umgjörð glugga. Dragkista var annað orð yfir það sem nú er nefnt kommóða. Fiskikista er notað um fiskigeymslur eða fiskigildrur í ám; einnig sem líking um gjöful fiskimið.
Kistill (n, kk) Lítil kista; lítill kassi. Oftast með sléttu loki og stundum með hólfum í lokinu. „Við rúmbríkina hjá mér er kistill“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Kisulóra / Kisukvikindi (n, kvk) Gæluorð um kisu/kött. „Hvað er kisukvikindið nú að sniglast frammi á túni“?
Kisur (n, kvk, fto) A. Stakar vindhviður sem mynda gárubletti á yfirborði sjávar í misvindi eða þegar vind eykur skyndilega. „Til hafsins er kominn norðan mökkur og jafnsnemma leggur norðan kisur heim úr Blakknum og eykur norðan báru“. B. Kerlingar; þunnildi á steinbít (sjá steinbítur).
Kitl (n, hk) Létt snerting. Stundum notað við veiðiskap. „Mér fannst ég finna eitthvert kitl (í færið)“.
Kitla (s) A. Snerta einhvern á þann hátt að hann fari að hlæja. B. Fá fiðring7kitltilfinningu. „Fjári er óþægilegt að kitla í nefið þegar maður er með sjóvettlinga; viltu klóra mér örlítið“?
Kitlinn (l) Viðkvæmur fyrir kitli; iðar/hlær við minnstu viðkomu.
Kitlur (n, kvk, fto) Tilfinningin/hæfileikinn að kitla/ fá fiðring þegar maður er snertur létt á sumum stöðum, t.d. hálsi eða kvið. „Vantar í þig kitlurnar núna“? Sjá einnig taka úr kitlurnar.
Kitlinn (l) Viðkvæmur fyrir kitli; kitlar við minnstu snertingu. „Óskaplega ertu kitlinn“!
Kíf (n, hk) Jag; deilur; tuð. „Hættiði nú þessu eilífa kífi“! „Mikið fer þetta kíf í taugarnar á mér“!
Kífa (s) Deila; jagast; tuða. „Ef þið ætlið áfram að kífa um þetta þá sigli ég í land“!
Kífinn / Kífsamur (l) Gjarn á að kífa/deila. „Hann á það til að vera leiðinlega kífinn útaf smámunum“.
Kíghósti (n, kk) A. Soghósti; smitnæmur sjúkdómur með miklu hóstakviðum. „Eitt barn þeirra; Jón Ingvar, dó úr kíghósta árið 1920“ (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG). B. Líkingamál um slæman/óstöðvandi hósta. „Skárri er það nú andskotans kíghóstinn í manni“!
Kíkir (n, kk) Áhald með glerlinsum, til að sjá betur það sem fjarlægt er. Ekki er vitað hvenær kíkir kom fyrst í Kollsvík, en í seinni tíð þótti hann nauðsynlegur á hverjum bæ, t.d. til að fylgjast með sauðfé og bátum.
Kíkishulstur / Kíkistaska (n, hk) Hulstur/taska utanum kíki. „Hér er kíkistaskan tóm; einhver hefur gleymt að setja kíkinn á sinn stað“.
Kíkislaus (l) Án kíkis. „Mér sýnist eitthvað fé vera þarna, en kíkislaus get ég ekki greint fjöldann“.
Kíkisól (n, kvk) Ól á kíki til að bregða um hálsinn til öryggis.
Kikisræfill (n, kk) Gæluorð um kíki. „Það er víst eins gott að muna eftir að hafa kíkisræfilinn með“.
Kíkja (s) A. Líta á; skoða. „Leyfðu mér að kíkja á þetta hjá þér“. B. Skoða með kíki. „Ég gat ekki séð neitt fé í Hryggjunum þegar ég kíkti“. C. Líta við; heimsækja. „Kíktu hingað ef þú ert á ferðinni“.
Kíkja eftir (orðtak) Leita að; horfa eftir. „Mundu nú að kíkja eftir reka ef þú ferð niður á Bakkana“.
Kíkja fjöl/borðvið (orðtak) Horfa eftir kanti á fjöl til að athuga hvort hún er bogin. „Kíktu réttskeiðina fyrir mig; sýnist þér ekki líka að hún sé dálítið sveigð“?
Kíll (n, kk) Hægrennandi, djúpur lækur; aflangur pollur eða lón; aflagður árfarvegur.
Kílræsa (s) Plægja jörð með kílplóg til þurrkunar. „Sléttur víða í Kollsvík voru kílræstar kringum 1970. Kílplógurinn var flatjárn sem fest var niður úr ýtutannarboga, en neðst á því var járnkeila; kíllinn. Þegar boginn var niðri var kíllinn um metra niðri í jörð; ýtan bakkaði og dró kílinn þannig niðri í jörðinni og myndaði holu, um 8cm í þvermál, sem síðan urðu vatnsrásir neðanjarðar, út í skurð; með 10-20m millibili. Sumsstaðar náðist að þurrka með þessu bleytusvæði í sléttum“.
Kíma (s) Brosa/glotta lítillega. „Karlinn svaraði engu en kímdi við“.
Kímileitur (l) Sposkur; glaðleitur; með glettnissvip. „Hann horfði kímileitur á aðfarirnar“.
Kímni (n, kvk) Spaugsemi; grín. „Kímnigáfa er mönnum misjafnlega í blóð borin. Engu er líkara en sumum sé það eðlislægt að skemmta hinum sem naumara er skammtað af slíku. Slík kímni var eðlislæg mönnum eins og Kitta í Botni; Jónsa á Hnjóti; Ívari í Kirkjuhvammi; Marinó í Tungu og ýmsum öðrum á gullaldarárum Rauðasandshrepps í mínu minni“ (VÖ).
Kímnigáfa (n, kvk) Hæfileiki til að sjá skoplegu hliðarnar á flestu; hæfileiki til að segja skemmtilega frá. „Kímnigáfan brást honum ekki, frekar en fyrri daginn“.
Kínverska (n, kvk) A. Mál kínverja. B. Líkingamál um hvaðeina sem óskiljanlegt er af máli eða letri. „Þetta hljómar bara eins og einhver kínverska fyrir mér“!
Kíta (s) Rífast; deila án illinda. „Þetta er nú allt í góðu hjá þeim strákunum; þeir eru bara eitthvað að kíta“. Orðið er ýmist skrifað með „í“ eða „ý“, og er það síðara líklega rétt, þar sem líkingin er við að kýta fisk þegar hann var verkaður í skreið; dregið af „kútur“.
Kítta (s) Þétta með kítti.
Kítti (n, hk) Seigfljótandi efni til að þétta rifur með, t.d. við gluggaísetningar og aðra smíði. Margvíslegar tegundir bjóðast í dag, með mismunandi eiginleika. Orðið er samstofna orðinu kvoða.
Kíttisbyssa (n, kvk) Kíttissprauta; áhald til að sprauta kítti/þéttiefni í rifur og samskeyti.
Kjafta (s) A. Tala (notað í neikvæðri merkingu). B. Gjökta; verða laust í festingum/liðamótum: „Stóllinn er farinn að kjafta“. C. Um vélar; ganga. „Samt hélt vélin áfram að kjafta þar til við vorum komnir á lygnari sjó“ (ÖG; Fiskiróður).
Kjafta á ... hver tuska (orðtak) Vera vel málglaður/skrafhreyfinn. „Hann var eitthvað niðurdreginn í gær og dróst varla úr honum orð, en í dag er allt annað uppi á teningnum. Það kjaftar á honum hver tuska“.
Kjafta frá (orðtak) Segja frá því sem leynt á að fara; skolta. „Ekki gat hann setið á sér að kjafta frá þessu“!
Kjafta frá sér allt vit (orðtak) Tala of mikið/of lengi. „Er klukkan orðin svona margt? Maður kjaftar frá sér allt vit þegar sjaldséðir gestir koma í heimsókn“.
Kjafta í kaf / Kjafta uppi (orðtök) Tala svo mikið að viðmælandinn kemur ekki að orði. „Það óð svo á kerlingunni að hún kjaftaði mig gjörsamlega í kaf“.
Kjafta (einhvern) uppi (orðtak) Tala svo mikið við einhvern að hann gleymi sér/ hvað tímanum líður. Sjá láta kjafta sig uppi.
Kjafta útúr sér (orðtak) Segja frá; upplýsa. „Hann hefði alveg mátt kjafta því útúr sér að hann hefði séð kindurnar á Hnífunum; í stað þess að láta okkur plampa framum allan Vatnadal“!
Kjaftabein (n, hk) Bein í kjafti fisks sem tanngarðurinn situr á. „Þegar fiskur er seilaður er seilanálinni stungið undir kjálkabarðið hjá kverksiginni vinstra megin, og út fyrir ofan kjaftabeinið“.
Kjaftablaður (n, hk) Kjaftæði; munnræpa; bull. „Ég hlusta ekki á svona rugl; þetta er ekkert annað en kjaftablaður“!
Kjaftafyllur (n, kvk, fto) ...óljós merking.... (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Kjaftagangur (n, kk) Kjaftæði; mas; samfellt og hátt tal. „Hættið nú þessum kjaftagangi strákar, og farið strax að sofa“!
Kjaftagleiður (l) Málgefinn; kjaftfor. „Þú værir ekki svona kjaftagleiður hefðirðu sjálfur tapað slóðanum“!
Kjaftaglúmur / Kjaftaskúmur (n, kk) Kjaftakvörn; málgefinn/lausmáll maður. „Það er ekki hægt að trúa þessum kjaftaglúmi fyrir nokkrum hlut“!
Kjaftakerling (n, kvk) Sögusmetta; slúðurgefin kona. „Ég tek nú lítið mark á þeirri kjaftakerlingu“!
Kjaftaklúbbur (n, kk) Samkoma þar sem mikið er talað, en af litlu viti og tilefni. „Ég held ég nenni ekki að sækja svona fund aftur. Þetta er ekkert nema tilgangslaus og hugsunarlaus kjaftaklúbbur“!
Kjaftakvörn (n, kvk) Kjaftaglúmur; símalandi einstaklingur. „Mikið er ég leiður á þessari kjaftakvörn“!
Kjaftaprestur (n, kk) Sá bátverji í línudrætti sem fylgist með aflanum sem sést koma upp á línunni. „Jafnskjótt og byrjað var að draga bauðst einhver hásetinn til að vera kjaftaprestur; hann ætlaði að segja til hvað margir fiskar sæjust utan borðs hverju sinni. Oft var það andófsmaður á stjór eða sá sem goggaði. Yfirleitt mátti ekki telja fisk á lóð með venjulegum hætti...“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Um talningaraðferðir; sjá bannorð.
Kjaftasaga / Kjaftasögn (n, kvk) Sveitaslúður; slúðursaga; gróusaga; slaður. „Þetta var kjaftasagan sem ég heyrði“. „Það hefur gengið einhver kjaftasögn um að þú værir að hætta að búa“.
Kjaftar á (einhverjum) hver tuska (orðatiltæki) Einhver er málgefinn/þagnar ekki. „Annað slagið dregst ekki úr honum orð, en hina stundina kjaftar á honum hver tuska“.
Kjaftasaga (n, kvk) Slúður; flugufregn. „Ég veit ekkert hvað er til í þessu, en þessi kjaftasaga er að ganga“.
Kjaftaskur (n, kk) Kjaftaglúmur; blaðurskjóða. „Maður skyldi aldrei trúa þeim kjaftaski“!
Kjaftasnakk (n, hk) Kjaftæði; innantómt blaður. „Ég er búinn að fá nóg af þannig kjaftasnakki“.
Kjaftastóll (n, kk) A. Klappstóll; samanfellanlegur stóll. „Kjaftastóll var lengi til í stofunni heima, smíðaður af afa mínm Guðbjarti Egilssyni á Lambavatni. Fætur stólsins voru renndir, og munu hafa verið það fyrsta sem afi renndi eftir að hann fékk fótstigna rennibekkinn sem Valdimar bróðir hans smíðaði. Stóllinn var baklaus og um tíma með setu úr selskinni. Síðar breytti mamma honum í ferkantað borð sem átti að verða skákborð, en er enn í stofunni á Láganúpi“ (VÖ). B. Í líkingum um stól sem er bilaður á samsetningum. „Sestu varlega; þetta er hálfgerður kjaftastóll“.
Kjaftatífa (n, kvk) Sögusmetta; blaðurskjóða. „Byrjar hún enn, þessi kjaftatífa, að bera út sögur“!
Kjaftatík (n, kvk) A. Hundtík sem geltir mikið. B. Niðrandi heiti á konu; blaðurskjóða; kjaftakerling: bullukolla; slúðrandi kvenmaður. „Taktu ekki mark á þeirri kjaftatík“.
Kjaftatörn (n, kvk) Langt samtal. „Við lentum á kjaftatörn svo ég gleymdi alveg tímanum“.
Kjaftavaðall (n, kk) Ákaft og hávaðasamt samtal; vaðall; málæði. „Hættið nú þessum andskotans kjaftavaðli; það er ekki svefnfriður í húsinu“!
Kjaftavit (n, hk) Hæfileiki til að tala þannig að ókunnugum sýnist af töluverðu viti, þó innihaldið sé rýrt og hugsunin lítil sem að baki býr. „Hann hefur töluvert kjaftavit; það verður ekki af honum skafið“.
Kjaftaþáttur (n, kk) Þáttur í útvarpi/sjónvarpi þar sem mikið er talað/blaðrað. Einkum notað í niðrandi tón um þá sjálfhverfu blaðurþætti sem tröllríða fjölmiðlum, þar sem fáeinir fjölmiðlamenn á launum hjá almenningi blaðra hver við annan um eigin áhugamál með aulalegum hlátrasköllum og flissi.
Kjaftaþvaður / Kjaftaþras / Kjaftaþvæla / Kjaftæði (n, kvk/hk) Algert rugl/bull; alger vitleysa; haugalygi. „Ég heyrði þessu fleygt, en ég býst við að það sé bara einhver kjaftaþvæla“. „Ég nenni nú ekki að hlusta á svona kjaftæði öllu lengur“!
Kjaftbiti (n, kk) Munnbiti; biti sem hæfilegur er í munn í einu. „Það var ekki kjaftbiti eftir þegar hann var hafði lokið sér af“.
Kjaftfor (l) Kjaftagleiður; gefinn fyrir að rífast; djarfur í tali. „Hann var bara kjaftfor við gamla manninn“.
Kjaftfylla (s) Yfirfylla; fylla alveg; troðfylla; pínsfylla. „Það þýðir ekki að kjaftfylla pokann; þú verður að ná að binda fyrir hann“! „Það gerði þvílít sandrok að Torfalækurinn kjaftfylltist af sandi“.
Kjaftfyllast (s) Fyllast alveg/algerlega. „Netin kjaftfylltust af þara í norðangarðinum“.
Kjaftfylli (n, kvk) A. Munnfylli; gúlfylli. B. Fullfermi (um bát).
Kjaftfullur (l) Alveg fullur; barmafullur. „Þorskurinn var kjaftfullur af síli, svo vall uppúr honum“.
Kjaftfær (l) Slarkfær; fær um að tala um málefni; samræðuhæfur. „Ég get alveg verið kjaftfær í þessu, þó ekki sé ég neinn sérfræðingur“.
Kjaftháttur (n, kk) Bull; lygaburður. „hann var víst rekinn úr skólanum fyrir kjafthátt“.
Kjaftíska (n, kvk) Kjaftæði; bull; þvæla; orðatiltæki sem ekki fær staðist og/eða hefur ekki tíðkast. „Hverskonar kjaftíska er þetta nú eiginlega“?!
Kjaftshögg (n, hk) Högg á kjálka/kjaft. „Ég ráðlagði honum að pilla sig strax í burtu ef hann vildi ekki vel útilátið kjaftshögg“. B. Slæm uppákoma; áfall. „Það var bölvað kjaftshögg að tapa þessum streng“.
Kjaftstopp (l) Klumsa; eiga ekki til orð. „Ég hélt að þeir væru að ljúga til um aflann, en þegar ég gáði í bátinn varð ég alveg kjaftstopp“. „Kerlingin hellti sér yfir karlinn með óbótaskömmum þegar hann kom heim, svo hann varð alveg kjaftstopp“. Sjá gera kjaftstopp.
Kjaftstór / Kjaftvíður (l) Munnvíður. „Skötuselurinn er firna kjaftstór miðað við búkstærð“.
Kjafttugga (n, kvk) Heytugga. „Ég er hræddur um að kýrnar hafi fengið of lítið núna; það er ekki kjafttugga eftir hjá þeim“.
Kjaftur (n, kk) A. Munnur á dýrum; munnur á mönnum í niðrandi merkingu. B. Mynni; opnun á dal/lægð. „Féð er að koma heim um Sandslágarkjaftinn“.
Kjaftur á honum/henni (orðtök) Er kjaftfor; hefur uppi stóryrði/skammir. „Það var aldrei að það var kjaftur á honum! Maður kom varla að einu orði“!
Kjaftvik (n, hk) Munnvik. „Öngullinn sat laflaus í kjaftvikinu á lúðunni; það var hundaheppni að ná henni“!
Kjaftæði (n, hk) Vitleysa; rugl; þvæla. „Þvílíkt og annað eins kjaftæði hef ég aldrei fyrr heyrt“!
Kjag (n, hk) Rölt; vag. „Það er heilmikið kjag fyrir svo seinfæran mann að röta inn Tunguheiði“.
Kjaga (s) Vaga; rölta; ganga með vaggandi göngulagi. „Ætli maður reyni ekki að kjaga niður að sjó“.
Kjalbekkur (n, kk) Um bátsmíði; fjöl sem fest er flöt ofaná kjölinn, ogfestist einnig við kjalsíðuna.
Kjaldrag /Kjöldrag (n, hk) Drag undir kili báts; renningur með mikinn slitstyrk til að taka við álagi af því að báturinn er dreginn í fjöru með tilheyrandi núningi. Sjá drag.
Kjallarakompa (n, kvk) Lítið rými undir húsgólfi. „Algengt var, fyrst eftir að hús fóru að byggjast með steyptum sökkli; að sökkullinn væri hafður holur, innangengur og svo djúpur undir gólf að þar mætti komast um; nota fyrir geymslu og e.t.v. smíða- eða þvottaaðstöðu. Þannig var t.d. í Kollsvíkurhúsinu“.
Kjalfatta (s) Þétta skip með því að slá hamp (oft tólgar- eða tjöruborinn) inn á milli borða/planka í byrðingnum. Annarsstaðar neft að „kalfatta“. „Kom þá í ljós að kjalfatta þurfti allt skipið fyrir ofan sjólínu“ (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).
Kjalsíða / Kjalsýja / Kjalborð / Kjölsíða (n, kvk) Neðsti hlutinn í súð báts; fyrsta umfar; borð/planki sem liggur með kilinum og lagaður er þannig að næsta borð kemur í rétta stefnu frá kili.
Kjalsvín (n, hk) Hluti skips; öflugur langbiti sem liggur ofaná og langseftir kili sumra skipa; einkum seglskipa. Í kjalsvínið festast kjalsíður og ofan á það kemur stellingin, sem mastursfótur situr í.
Kjammi (n, kk) A. Hluti af andliti; haka, kjálkabarð, kinn og uppeftir gagnauga. „Ætli maður þurfi ekki eitthvað að skafa á sér kjammana áður en haldið er á mannamót“. „Hundrað kíló vóg ég hérna í fyrravor./ Heldur er það mikið segir granninn./ En þær eru ekki duglegri sem drepast vilja úr hor,/ né dyggari þótt málaður sé kjamminn“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). B. Sviðakjammi; helmingur af sviðahaus; auga og kjálki. C. Hlíð í landslagi. „Brekka í brúninni utan Gjardals heitir Gjárdalskjammi“.
Kjams (n, hk) Það að kjamsa/tyggja; hljóð sem heyrist þegar tuggið er.
Kjamsa (s) Tyggja; tönnla; smjatta.
Kjamsa á (orðtak) Smjatta á; oftast notað í óeiginlegri merkingu þegar sagt er ítrekað frá krassandi/kjarngóðri frétt/sögu. „Kjaftasmettunum mun heldur betur þykja varið í að kjamsa á þessu“.
Kjamsa í sig (orðtak) Slafra/hylka í sig; borða; eta. „Blessaður kjamsaðu þetta bara í þig og vertu ekki að fást um útlirið á því“.
Kjanna / Kolla (s) Kljúfa upp steinbítshaus í tvo helminga til herslu. „Steinbítshausinn var klofinn/kjannaður/kollaður upp; ýmist með hníf eða exi og undir honum hafður hvalhryggjarliður ef til var. Haldið var með vinstri hendi undir neðri góm og hnakkabeinið klofið niður um miðju. Urðu þá til tveir jafnstórir kjannar. Einnig var hausinn klofinn að innanverðu við vinstra augað; hnakkabeinið skorið úr. Urðu þá kinnarnar eftir og héngu saman á granabeininu, en kjaftabeinið var áfast þeirri vinstri; allt kallað beinakjanni/beinakjammi.“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh).
Kjanni (n, kk) Kinn/helmingur á hertum fiskhaus (sjá kjanna og steinbítur).
Kjarkaður (l) Kjarkmikill. „Menn þurfa að vera nokkuð kjarkaðir til að fara neðanfrá upp í Brimnesgjótu“.
Kjarkkona (n, kvk) Áræðin/kjarkmikil kona. „Hún var kjarkkona, sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna“.
Kjarklaus / Kjarklítill (l) Huglaus; uppburðarlítill. „... og Gvendur Jónsson; einhleypur og heldur kjarklítill karl, sem jafnan var í vinnumennsku“ (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).
Kjarklegur / Kjarkmikill / Kjarkstór (l) Hugaður; hugrakkur. „Hlaut hann mikið hrós fyrir kjarklega framgöngu“. „Ekki var hundurinn kjarkstór þegar hrúturinn sneri sér við“.
Kjarkleysi (n, hk) Heigulsháttur; skortur á kjarki. „Það má kannski segja að þetta hafi verið kjarkleysi, en mér er illa við að taka áhættu þegar um aðra er að ræða en sjálfan mig“.
Kjarkmaður / Kjarkmenni (n, kk) Sá sem er hugaður/áræðinn. „Kjarkmaður ertu; að láta þetta útúr þér svona umbúðalaust“! „Það þarf kjarkmenni til að leggja í þetta klifur“.
Kjarnabeit (n, kvk) Mjög kjarnmikil beit fyrir fé eða nautgripi. „Ókosturinn við þessa kjarnabeit á Stígnum er sá að lömb verða mjög spikuð, og hættir þá fremur til að hrapa í brattlendinu“.
Kjarnakarl / Kjarnakerling / Kjarnakona / Kjarnakvenmaður (n, kvk) Atorkumiklar/dugandi manneskjur.
Kjarnfóður (n, hk) Fóðurbætir; kraftmikið fóður sem gefið er skepnum með heyjum og til að auka afurðir.
Kjarnfóðurgjöf (n, kvk) Fóðrun búfjár með kjarnfóðri. „Léleg hey kalla á aukna kjarnfóðurgjöf“.
Kjarngóður (l) Innihaldsríkur. „Kýrnar eru fljótar að græða sig þegar þær fá kjarngott gras“. „Þetta var kjarngóð saga, en ég held að þetta sé bölvuð lygi frá rótum“.
Kjarni (n, kk) A. Miðja þess sem um er rætt. „Þetta er kjarni málsins“. B. Steinn í ávexti. „Ég sker kjarnann alltaf úr eplunum“. C. Marinkjarni (þarategund). D. Tegund af köfnunarefnisáburði. E. Innsti hluti frumu. F. Innsti hluti trjábols; mergur. G. Þungamiðja frumeindar; rót- og nifteindir. H. Miðstöð í borg/byggingu.
Kjarnlítið (orðtak) Um gras/fóður/hey; orkulítið; lélegt. „Beit þarna er fremur kjarnlítil þegar kemur framá“.
Kjarnorður / Kjarnyrtur (l) Gagnorður; orðljótur; orðheppinn. „Hann var vanalega ekki margmáll en þeim mun kjarnyrtari“. „Sigarinn var víst kjarnorður þegar hann kom upp og lét undirsetumenn fá það óþvegið“.
Kjarnorka / Kjarnorkukítti (n, kvk/hk) Stálkítti; sérstök gerð af fljótharðnandi fylli/kítti sem seld var og nokkuð notuð, a.m.k. í Rauðasandshreppi, kringum 1960-80. Gráleitur einþættur massi sem smyrja mátti í rifur og göt á þunnum málmhlutum, s.s. pottum; harðnaði fljótlega og dugði um nokkurn tíma. Líklega kennt við kjarnorku vegna umræðu sem var í upphafi kjarnorkunotkunar. En vitanlega þekktu þar ögn til eins og í öðrum fræðum, og á Láganúpi voru t.d. til bækur um innri gerð mismunandi kjarnorkuofna.
Kjarnorkukona (n, kk) Afburða framtakssöm kona; dugnaðarforkur. „Í þessu reyndist hún kjarnorkukona“.
Kjarnviður (n, kk) A. Innra efni trjábols. „Trjábolur samanstendur úr tvennskonar viði; kjarnviði, sem er mjúkur og oftast dekkri, og ytri viði eða afhöggi sem er harðari og ljósari“. B. Líking um mannkostamann.
Kjarnyrði (n, hk) Blótsyrði; kröftugt áhersluorð. „Hann lét víst einhver kjarnyrði fjúka yfir þessari heimsku“.
Kjarr (n, hk) Lágvaxinn trjágróður; runnar. „Skógur er enginn í nágrenni Kollsvíkur, en í Víðilækjunum er nokkurt kjarr af fjalldrapa, lyngi og öðrum gróðri“.
Kjass (n, hk) Kossaflens; knús; blíðuhót. „Hún sagðist ekki kæra sig um neitt svona kjass frá hans hendi“.
Kjassa (s) Kyssa; knúsa; sýna blíðuhót. „Verið nú ekki að kjassa heimalninginn svona mikið“!
Kjá (s) Gæla; kankast. „Hann er enn að kjá við þessa hugmynd“.
Kjálkabarð (n, hk) Neðri brún á höku.
Kjálkafiskur (n, kk) Hanafiskur; kjaftafiskur; fiskvöðvi utaná kjálka þorskhauss (sjá þar).
Kjálkakýr (n, kvk) Leikföng í hornabúi barna; stórgripakjálkar notaðir fyrir kýr. „Ég átti hornabú sem svo kallaðist. Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn.“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Kjánagangur / Kjánaháttur / Kjánaskapur (n, kk) Heimska; kjánaleg hegðun. „Hverskonar kjánagangur er þetta nú“?! „Þessi flumbrugangur skilar engu. Mér líkar ekki svona kjánaháttur“.
Kjánalegur (l) Aulalegur; heimskulegur; bjánalegur. „Þetta finnst mér kjánaleg fullyrðing“.
Kjánaprik (n, hk) Gæluorð um krakka sem gerir eitthvað í barnaskap. „Þú ert meira kjánaprikið“.
Kjánaskapur (n, kk) Bjánagangur; heimska; einfeldni. „Skelfilegur kjánaskapur er þetta nú“!
Kjáni (n, kk) Bjáni; auli; heimskingi. „Óttalegur kjáni geturðu verið ef þú heldur það“!
Kjánkast (s) Grínast; segja brandara; hjala létt. „Karlarnir kjánkuðust og körpuðu yfir svörtu ketilkaffi sem alltaf var til reiðu á prímusnum þegar tími gafst til“ (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Kjói (n, kk) Stercorarius parasiticus; sjófugl af kjóaætt sem algengur er sem varpfugl um allt land. Kringum Kollsvík verpur hann helst á melum og holtum, t.d. eru þekkt óðöl á Nautholti ofanverðu; á Brunnsbrekku; neðanvert á Flötum og í grennd við Kjóavötn. Sé komið nærri hreiðri byrjar fuglinn fyrst á því að barma sér, en takist ekki að leiða gestinn burt þannig, hefur hann hatrammar árásir. Rennir hann sér þá á steypiflugi að gestinum og slær hann með væng í höfuðið. Þessu er beitt jafnt á manneskjur sem búfé og hunda. Höggin geta verið all þung miðað við stærð fuglsins. Unginn fellur oft svo vel að umhverfinu þegar hann liggur grafkyrr, að erfitt er að greina hann. Kjóinn er farfugl og lifir á ýmiskonar smádýrum, eggjum og ungum annarra fugla. Hann stundar t.d. mikið að ræna fæðu annarra fugla á flugi. Tvö litarafbrigði eru af kjóanum; dökkbrúnt og ljóst eða skjótt. Hljóð kjóans er langdregið væl, og af því leidd líkingin vælukjói. Kjóinn er stundum nefndur vætukjói, þar eð því var trúað að mikið væl hans vissi á votviðri.
Kjólgopi (n, kk) Lélegur/skjóllítill kjóll. „Mér verður bara hrollkalt að sjá stelpuna í þessum kjólgopa“.
Kjóll (n, kk) A. Fatnaður kvenna. B. Gamalt orð um síða yfirhöfn, einkum fínan klæðnað. C. Prestshempa. D. Bátur; skip. Eingöngu notað í kveðskap. „Bjarnar njólu nálgast þrot/ norðra gjólu bani;/ atreið sólar, ísabrot;/ er þá kjóli hrint á flot“ (JR; Rósarímur).
Kjóll og hvítt (orðtak) Fín jakkaföt og hvít skyrta undir. „Það tekur því nú ekki að fara í kjól og hvítt þegar farið er í múkkaegg“.
Kjóll og kall (orðtak) Prestskapur; sókn/umboð prests. „Hann var dæmdur frá kjóli og kalli fyrir drykkjulætin“.
Kjótla (s) Mutra; mylgra; þoka einhverju áleiðis í smáum áföngum; ausa bát. „Það er mun fljótlegra að moka undan fjárhúsgrindum með traktor en að kjótla þessu út í hjólbörum“.
Kjulla (n, kvk) Tréhnallur; sleggja með haus úr tré eða steini. „Notaðu kjulluna á sporjárnið“.
Kjurr / Kjur (l) Kyrr; hreyfingarlaus. „Vertu kjurr meðan ég næ flísinni“. „Tófan liggur alveg kjur á bakvið barðið“. „Láttu þetta alveg kjurrt sem ég er að vinna við“. „Draumur er til í sambandi við Selið. K.B. dreymdi eitt sinn er hann hafði tekið hellu eina við Selið, að huldukona kom til hans og sagði: „Láttu vera kjura helluna mína, eða þú skalt hafa verra af““ (Magnús Jónsson; Örn.skrá Raknadals).
Kjúka (n, kvk) Fingur- eða tábein. „Hann missti kjúku framanaf löngutöng í þessu vinnuslysi“.
Kjöftugur (l) Lausmáll; málgefinn. „Það er varla hægt að trúa henni fyrir neinu; hún er svo kjöftug“.
Kjökra (s) Vola; skæla; hálf-gráta. „Hún sagði kjökrandi að hún hefði tapað öðrum vettlingnum“.
Kjökur (n, hk) Vol; væl; skælur. „Ég nennti ekki að hlusta á kjökrið í karlinum, og sagði honum að vera bara heima; ég fengi örugglega annan með mér í þetta verk“.
Kjöldraga (s) Aðferð til að refsa manni til sjós. Felst í því að draga hann undir kjöl skipsins. Aðferðin mun hafa verið notuð erlendis en ekki er vitað um staðfest tilvik slíks hérlendis.
Kjölfar (n, hk) A. Farvatn; iða sem myndast á eftir bát/skipi, líkt og rák sem dofnar með fjarlægð. Þjóðtrúin segir að blóðlitað kjölfar báts merki að áhöfn hans sé feig. Hún segir einnig að álfarákir á sjó séu kjölfar báta huldufólksins. B. Far í jarðveg/fjöru, þar sem bátur hefur verið settur til sjávar/ undan sjó.
Kjölfesta (n, kvk) Þyngd sem sett er í botn báts til að gera hann stöðugri á sjónum. „Enn er flutt út í Fönix, uns komið er allmikið háfermi af skreið. Nokkur kjölfesta er þó að trosi“ (KJK; Kollsvíkurver).
Kjölfestugrjót (n, hk) Grjót sem notað er sem kjölfesta. „Því var fyrrum trúað að grænlenska flökkugrjótið sem víða finnst á fjörum, m.a. í Kollsvík, hefði borist hingað sem kjölfestugrjót. Ljóst er að það hefur komið hingað neðaní borgarísjökum sem bráðnað hafa á grynningum“.
Kjölfestulaus (l) A. Án kjölfestu. „Þessi bátur gæti verið hættulegur, svona kjölfestulaus“. B. Líkingamál um mann sem ekki er staðfastur; er ístöðulaus.
Kjölsog (n, hk) Neðsti hluti rýmis í bát; sá staður yfir kili báts sem sjór safnast í, sem kemur inn í bátinn. „Þess var gætt að kjölvatnið gæti runnið hindrunarlítið um kjölsogið milli rúma báts, annaðhvort með götum neðst í bunkastokkunum eða með því að pláss væri undir böndunum. Þegar net voru dregin þurfti að kasta út þara sem vildi stífla þessar rásir“. „Þarna missti ég brýnið niður í kjölsogið“.
Kjöllur (n, kk) Skjálfti; hrollur. „Heyrði ég þá skruðning upp yfir mér. Það var helluárefti á húsinu. Það hljóp í mig kjöllur, og hljóp ég eftir kistunum að gaflinum“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).
Kjölréttur (l) Bátur á réttum kili. „Aftur veltur báturinn og er nú kjölréttur, en borðafullur“ (KJK; Kollsvíkurver). „Eftir steininum lá djúp glufa er báturinn stóð kjölréttur í þegar út sogaði“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Kjölsvín (n, hk) Styrking ofaná kili báts/skips, t.d. þar sem eru undirstöður mastra, gufuketils eða annars.
Kjölta (n, kvk) Fang; faðmur. „Hann sat með bæði börnin í kjöltu sér og las fyrir þau sögu“.
Kjöltra (s) Hósta mjög veikt; hrygla. „Eitthvað líf er nú í lambræflinum; mér heyrist það vera að kjöltra“. „Ég hef verið hóstandi og kjöltrandi í allan dag“.
Kjöltubarn (n, hk) Ungbarn. Oftast notað í líkingamáli í seinni tíð. „Hann er nú ekki neitt kjöltubarn lengur“.
Kjöltur (n, hk) Hósti; lágur hósti; ræskingar; hrygla. „Mér líst ekkert á þetta kjöltur í þér“. Sjá hóstakjöltur.
Kjölturakki (n, kk) Hundur/hvolpur sem hafður er fyrir gæludýr.
Kjölur (n, kk) A. Máttarviður í bát/skipi, sem liggur neðst og tengist stefnum, böndum og byrðingi. B. Háfjall; vatnaskil á fjalli. „Kjölur nefnist eggin á Breið, ofan Vörubrekku, þar sem eru landamerki Láganúps og Breiðavíkur“. C. Burst á húsi; brúnin efst á risi húss. D. Sú hlið bókar sem blöðin festast í.
Kjölvatn (n, hk) Austur; vatn sem komið er í kjölsog báts. Oftar var talað um austur í Kollsvík.
Kjölvatnsdæla (n, kvk) Lensidæla; dæla til að koma austri báts útfyrir borðstokkinn.
Kjömmótt (l) Litur á sauðfé; ljós á búk og haus, en grá/svört/mórauð á höku/kjömmum.
Kjör (n, hk, fto) Einstaklega góð tíð með stöðugum gæftum. „Það vildi til að kjör stóðu í hálfan mánum um þetta leyti, en vikutíma tók það að koma hvalnum í land“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). ). Ef kjör stóðu lengi voru þau nefnd ægikjör og haft er eftir Jóni Torfasyni orðið lífægikjör. (LK; Ísl. sjávarhættir III). „Það tekur á taugarnar að liggja, þegar hinir eru að koma með hlaðning, dag eftir dag, því það eru svo mikil kjör að menn hér muna ekki eftir slíku“ (Bréf AK til VÖe í júní 1941).
Kjör (n, hk) Kosning; val. „Þetta gerðist daginn fyrir kjör forseta Íslands“.
Kjör (n, hk, fto) Lífsskilyrði; aðstæður; vinnulaun. „Ég réði mig uppá þessi kjör“. „Þau bjuggu við bág kjör“!
Kjöraðstæður (n, kvk, fto) Eins hentugar aðstæður og helst er á kosið; bestu aðstæður.
Kjörbarn (n, hk) Barn annarra sem hjón/sambýlingar ættleiða/ fá fullan umráðarétt yfir og ala upp, líkt og væri þeirra eigið. „Þau voru ekki hennar blóðforeldrar, heldur var hún kjörbarn þeirra“.
Kjörbeita (n, kvk) Besta beita; mjög lokkandi beita. „Úldið hrossaket var talið kjörbeita fyrir hákarl“.
Kjörbréf (n, hk) Bréf til sönnunar því að manneskja hafi verið kjörin í stöðu/embætti.
Kjörbúð (n, kvk) Verslun þar sem viðskiptavinir geta gengið um og valið sjálfir vöruna áður en farið er að kassa til að greiða fyrir hana; andstæða við búð þar sem kaupmaður tekur vöruna til og afhendir yfir borð. „Verslun Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum var breytt í kjörbúð kringum árið 1970“.
Kjörbyr (n, kk) Óskabyr; vindur af þeirri átt og þeim styrk sem hentar best þegar siglt er.
Kjördagur (n, kk) Dagur kosninga.
Kjördeild (n, kvk) Svæði með sérstakri kjörstjórn, þar sem íbúar hafa sameiginlegan kjörstað. Lengi vel voru fjórar kjördeildir í Rauðasandshreppi; Breiðavíkurkjördeild; Hafnarkjördeild; Fjarðarkjördeild og Rauðasandskjördeild. Má m.a. sjá merki þess í bókum hreppsins frá 1943. Síðar fækkaði þeim, og var orðin ein sameiginleg þegar hreppurinn sameinaðist fleirum hreppum í Vesturbyggð.
Kjördæmapot (n, hk) Sú iðja þingmanns að beita sér meira í þágu síns kjördæmis, og þá gjarnan sinna dyggu flokksmanna, en þjóðarinnar í heild. Er vafalaust eðlilegt og þarft í sumu tilliti, en vandratað er meðalhófið.
Kjörforeldrar (n, kk, fto) Foreldrar barns sem þau hafa ættleitt.
Kjörfundur (n, kk) Kosningar; samkoma þar sem kosið er.
Kjörgengur (l) Hæfur til að bjóða sig fram til kjörs, t.d. vegna aldurs eða annarra skilyrða.
Kjörgripur (n, kk) Kostagripur; mjög góður/eigulegur hlutur. „Vasaúrið afa var mikill kjörgripur“.
Kjörið (l) Gráupplagt; tilvalið; vel til fundið. „Nú væri alveg kjörið að fá sér í pípustert“.
Kjörin móta manninn (orðatiltæki) Menn bera oft merki um það atlæti sem þeir hafa hlotið, einkum í æsku. T.d. eru þeir sparsamari og nægjusamari sem alast upp við kröpp kjör, en hinir sem fæðast með silfurskeið í munni.
Kjörinn (l) A. Kosinn, valinn. B. Tilvalinn; upplagður. „Þessi drumbur væri kjörinn fyrir hornstaur“.
Kjörkassi / Kjörgögn (n, kk/hk) Gögn til leynilegra kosninga. Kjörkassi er kassi sem kjósandi lætur atkvæði sitt í, og er oftast innsiglaður þar til bærir menn telja uppúr honum. Önnur kjörgögn eru t.d. gerðabók kjörstjórnar og kjörskrá kjördeildar/svæðis.
Kjörland / Kjörlendi / Kjörsvæði (n, hk/kvk/hk) Svæði sem best hentar (t.d. dýrategund).
Kjörnari (n, kk) Lítið áhald til ásláttar, notað til að marka holu/far í málm t.d. til að auðvelda borun.
Kjörseðill (n, kk) Atkvæðaseðill; blað sem kjósandi notar til að greiða atkvæði sitt.
Kjörviðri (n, hk) Stillur; mjög gott sjóveður; blíða. „Það er sama kjörviðrið dag eftir dag“!
Kjörviður (n, kk) Úrvalstimbur; mjög góður/hentugur viður. „Í kili skal kjörviður“.
Kjöt / Kjötafurðir Jafnan framborið ket í Kollsvík, þó undantekningar væru á því í seinni tíð. Kjöt var og er uppistöðufæða hérlendis. Svo var einnig meðal bænda í Kollsvík, en þó var fiskur eðlilega hærra hlutfall fæðunnar þar en víða annarsstaðar. Nánast allt var verkað og nýtt af skepnunni og borðað allt sem ætt var. Geymsluaðferðir skiptu ketinu í meginflokka, áður en frysting varð möguleg. Nýtt ket var einungis á boðstólum í stuttan tíma eftir slátrun. Þurrkun og reyking eru aðferðir sem tíðkast hafa frá landnámstíð, en reykt ket nefnist hangiket. Unnið ket var einnig reykt, t.d. bjúgu. Súrsun er einnig ævagömul aðferð, sem beitt var á ket og ýmsar unnar afurðir s.s. slátur, sultu og lundabagga. Þegar salt varð fáanlegt var ketið saltað. Bæði var hangiketið saltað fyrir reykingu en einnig var ket brytjað í spað og saltað í tunnur; í saltket.
Kjöta (s) Vinna ket til matar; t.d. hluta skrokka eða brytja í spað. „Hann var að vinna fram á kvöld við að kjöta fyrir nágrannan“. Var notað meðal sláturhússmanna á Gjögrum, en ekki vitað um aldur.
Kjötforði (n, kk) Matarforði heimilis af kjöti. „Heima var svo slátrað þeim skepnum sem ætlaðar voru sem kjötforði fyrir heimilin“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kjötþungi (n, kk) Fallþungi; þungi kjöts af skepnu sem slátrað er. „Tvílembum fjölgar og kjötþungi lambanna hefur aukist“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Klabb (n, hk) Slabb; blautur snjór. Oftast notað í orðatiltækinu allt heila klabbið.
Klafabundinn (l) Festur við; tengdur við. „Hann hefur alla tíð verið klafabundinn sjálfstæðismaður“. Klafi er hringur um háls nautgrips, en band úr klafanum festir hann á sinn bás.
Klaga (s) Kvarta. „Vertu ekki að klaga hann bróður þinn fyrir þetta; þú ert lítið betri sjálfur stundum“! „Ég hef ekkert undan þessu að klaga“.
Klaga uppá (orðtak) Kvarta undan; eiga sökótt við. „Mér finnst hann mætti vera röggsamari í þessum efnum, en annað hef ég ekki uppá hann að klaga“. Sjá hafa uppá að klaga.
Klak (n, hk) Útungun eggja hjá fuglum; koma fiskseiða úr hrognum. „Það ætti að vera komið að klaki hjá hænunni“. „Silungurinn þreifst vel í Stóravatni, en klak virtist ekki takast þar“.
Klaka (s) A. Ísa; þekjast klaka. „Veggurinn var allur klakaður eftir þessa frostrigningu“. B. Gæla við; tala við í gælutón. „Tíkinni er illa við að ég sé að klaka alltof mikið uppá köttinn“
Klaka uppá (orðtak) Hlú að; veita umhyggju. „Það væri nú gustuk að klaka dálítið meira uppá tíkarræfilinn meðan fótbrotið er að gróa“. Upphaflega er orðið „klaka“ notað um unga- eða fuglahljóð en heyrðist ekki í þeirri merkingu í Kollsvík. Hinsvegar var það notað í þessu samhengi, sem ekki heyrðist annarsstaðar.
Klakabarinn (l) Þakinn klaka eftir óveður. „Bjargið var ekki árennilegt; allt klakabarið...“ Frásögn ÁH (ÓS; Útkall við Látrabjarg).
Klakabingur / Klakabólstur / Klakabunki (n, kk) Árennsli; svell. „Það er hættulegur klakabólstur í neðstu brekkunni“.
Klakabólginn (l) Upphleyptur af klakabólstrum. „Vegurinn fram hlíðina er allur klakabólginn og hættulegur“.
Klakabryggja (n, kvk) Skör; klakarönd í bakka ár/skurðar. „Kindurnar náðu ekki að stökkva uppá klakabryggjuna í árbakkanum“.
Klakabrynja (n, kvk) Klammi; glæra; ísing. „Hús og tæki eru ein klakabrynja eftir þessa ísrigningu“.
Klakabrynjaður (l) Þakinn klakastykkjum í frosti. „Það þýðir ekki að hleypa fénu fram á bitfjöru í þessu frosti; það verður bara klakabrynjað þegar það blotnar“.
Klakaður (l) Klakabrynjaður; sílaður; ísaður; klökugur; þakinn klaka/ís. „Gættu þín að vera ekki nærri klettunu; þeir geta verið hættulegir svona klakaðir“.
Klakadröngull (n, kk) Stórt grýlukerti/klakastykki. „Farðu ekki nærri klakadrönglunum þarna í klettunum“.
Klakaður (l) Þakinn klaka; ísaður; klökugur. „Össur var mjög snjóugur og klakaður er hann kom til okkar, því hann hafði orðið að sækja á móti veðrinu“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Klakahella (n, kvk) Þykkur klaki/lagnaðarís; klakabrynja. „Vegurinn norður víkina er ein klakahella“.
Klakahraun / Klakahröngl (n, hl) Mjög ósléttur klaki; e.t.v. þar sem krap hefur vaðist upp af umferð og frosið.
Klakahrjónungur (n, kk) Grófur/upphleyptur klaki/ís. „Fitin var einn samfelldur klakahrjónungur“.
Klakahröngl (n, hk) Íshröngl; safn af brotnum klaka.
Klakaklepri (n, kk) Klakadröngull. Oftast átt við klakastykki sem myndast neðan í ull fjár sem er á fjörubeit í miklu frosti.
Klakarunnið (l) Runnið/hlaupið í klaka. „En fyrir neðan var allt klakarunnið“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg).
Klakaskari / Klakaskán / Klakaskel (n, kk/kvk) Klaki ofaná snjó; snjór sem bráðnað hefur og frosið í klaka ofaná snjó. „Ég missti fótanna á klakaskara ofarlega í brekkunni og rann stjórnlaust niður í lautina“.
Klakastaup (n, hk) Vatn í íláti sem gegnfrosið hefur. „Í fötunni var klakastaup sem ég þurfti að berja úr“.
Klakastífla (n, kvk) Stífla úr klaka/ís. „Flóðbylgjan æddi niður yfir túnið þegar klakastíflan brast“.
Klakastykki (n, hk) A. Stykki/brot af klaka. „Það höfðu hrunið yfir þá klakastykki um nóttina, og Hafliði hafði fengið eitt slíkt í höfuðið“ (Björgvin Sigurbjörnsson; Útkall við Látrabjarg). B. Líkingamál; „Mér var svo kalt að ég var eins og klakastykki“.
Klaki (n, kk) A. Ís á vatni eða öðru yfirborði. „Áin var þá í klakaböndum“. „Féð var allt klakabrynjað“ „Klaki var þá yfir ám og vötnum“. B. Jarðfrost; frost í jörð. „Klaki fór ekki úr fyrr en langt var liðið á vor“. C. Sérnafn á frostavetrinum mikla 1802: „Í janúar 1802 rak hafís að landi...og lá allt vorið og sumarið þar til höfuðdag. Stöfuðu af þessu hin mestu harðindi til lands og sjávar og mundi enginn jafnharðan vetur....var hann á Vestfjörðum nefndur Klaki“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Klakinn (l) Útungaður. „Ég henti þeim fúleggjum sem ekki voru enn klakin“.
Klakklaust (l) Án áfalla. „...og komust þeir þannig klakklaust yfir Röstina“ (ÖG; Þokuróður).
Klakkur (n, kk, fto) A. Krókur á klyfbera til flutninga á hesti. B. Háreist og dökk skúraský. „Það eru æði miklir klakkar að sjá hér suður yfir“. C. Sker sem rís hátt úr sjó um fjöru. Í Kollsvík er Breiðaskersklakkur, og í Hænuvík er skerið Klakkur.
Klambra saman (orðtak) Smíða ónákvæmt/ í flaustri; reka/klastra saman. „Ætli það verði ekki að klambra saman einhverri stíu fyrir hrútræfilinn“. „Hann klambraði saman vísukorni, en það var lítið lag á“.
Klambur (n, hk) Klastur; óhöndugleg smíði. „Mér finnst þessi rétt vera óttalegt klambur hjá honum“.
Klamburslegur (l) Illa smíðaður; klambrað saman. „Óttalega er þetta nú klambursleg hliðgrind“!
Klambursmíð (n, kvk) Klastur; lélegur smíðisgripur. „Kofinn varð óttaleg klambursmíð“.
Klammi (n, kk) Svelli þakið yfirborð. „Það er samfelldur klammi á vegi yfir allan Hálsinn“.
Klampa saman (orðtak) Setja saman með áfellum/klömpum. „Það skiptir engu þó borðið nái ekki eftir öllum réttarveggnum; við bara klömpum það saman“.
Klampi (n, kk) Áfella; laski; bútur sem festur er utaná og yfir samsetningu til styrkingar; bútur sem festur er á efni sem sæti fyrir stoð eða annað. „Klampar voru á dyrastöfum, sem slagbrandurinn settist í“.
Klandur (n, hk) Slæm staða/uppákoma; vesen; vandræði. „Nú hefur kjafthátturinn komið honum í klandur“.
Klapp (n, hk) A. Strokur; gælur. „Henni virtist ekki vera illa við klappið“. B. Lófaskellir til að lýsa fögnuði eða hrósi. C. Flöt fjöl sem notuð var til að banka óhreinindi úr þvotti áðurfyrr.
Klappa (s) A. Slá saman, t.d. lófum, til að framleiða hvellt hljóð. „Mikið var klappað í sýningarlok“. B. Strjúka; gæla við. „Þú mátt alveg klappa hundinum; hann bítur ekki“. C. Hamra/meitla í stein eða annað fast efni. „Norðast í Grundagrjótum má finna í fjörunni stóran nokkuð áberandi stein, sem klappað er á ártalið 1950. Það er verk Páls Guðbjartssonar sem þá var bondasonur á Láganúpi“ (HÖ; Fjaran). D. Dengja ljá.
Klappa (n, kvk) Hamar/meitill sem notaður er til járnsmíða, s.s. til að gata skeifur.
Klappa (einhverjum) lof í lófa (orðtak) Fagna/hrósa einhverjum með lófaklappi eða á annan hátt.
Klappa (einhvern) upp (orðtak) Um leiksýningu eða annan flutning á sviði; klappa höndum til að fá leikara/flytjendur aftur fram á sviðið. „Leikararnir voru tvisvar klappaðir upp í lokin“.
Klappað og klárt (orðtak) Frágengið að öllu leyti; reiðubúið. „Þetta mál er alveg klappað og klárt“. Líklega líkingamál um ljá sem búið er að klappa/dengja, og orðinn tilbúinn til að setja í orf.
Klapparholt (n, hk) Holt úr föstu bergi. „Fyrir ofan klapparholtið er illfær mýri“.
Klapparhnúta (n, kvk) Klöpp; klapparhorn; klakkur. „Fremst á Breiðaskeri er nokkru hærri klapparhnúta sem heitir Breiðaskersklakkur“ (HÖ; Fjaran).
Klapparholt (n, hk) Holt/hæð, að mestu úr jarðfastri klöpp. „Helluhnúkur er klapparholt á Hæðinni sunnarlega. Þar flagnar bergið í þunnar hellur þegar það veðrast, og hefur þar verið eitt helsta hellutakið í Kollsvík“. „Þar eru tvö klapparholt ofanvið fjöruna. Heitir það syðra Syðriklettar og hitt Norðariklettar“ (HÖ; Fjaran).
Klapparhorn (n, hk) Horn/skanki á klöpp; útúrskagandi klöpp. „Við klapparhornið í neðsta sniðinu í Hænuvíkurbrekkum vildi oft setjast snjór áðurfyrr, og það sem verra var; miklir og hættulegir klakabólstrar“.
Klapparskál (n, kvk) Skál/dæld í klöpp. „Undir fossinum (í Láturdalsá) var ofurlítil þró eða hylur í klapparskál, sem fossinn hefur verið að grafa niður í bergið frá ómunatíð. Var allur fiskurinn þveginn upp úr þessari þró. Er það eitt hið besta uppþvottaker er ég hefi þekkt í nokkurri veiðistöð“ (HO; Ævisaga).
Klastra (s) Smíða óvandað; lappa uppá. „Í fljótheitum var klastrað við pottinn“.
Klastrari (n, kk) Lélegur smiður; skítamakari. „Ég vil ekki sjá neina klastrara í þetta verk“.
Klastur (n, hk) Hrákasmíð; hrófatildur; slæm smíði. „Þetta er ljóta bannsett klastrið hjá þér“!
Klasturslegur (l) Illa smíðaður; klastrað saman. „Þetta varð nú heldur klasturslegt hjá mér“.
Klatti (n, kk) Lumma. „Eftir puðið í heyskapnum var gott að fá nýbakaða klatta“.
Klauf (n, kvk) A. Rauf; rás; þrenging; sýling; spíss. „Klauf nefnist fremsti hluti lendingarinnar í Láganúpsveri, og önnur með sama nafni er í Kollsvíkurveri. Á báðum stöðunum er þröngt vik á milli lágra klappa á mesta útfiri. B. Tá klaufdýrs. C. Tangi aftaná klaufhamar. D. Stytting á orðinu buxnaklauf.
Klaufabárður (n, hk) Klaufalegur maður; klunni. „Skelfingar klaufabárður geturðu nú verið við þetta“.
Klaufabragur / Klaufaháttur / Klaufaskapur (n, kk) Mistök; klunnalegar/viðvaningslegar aðfarir. „Bölvaður klaufaskapur var þetta hjá mér; máfurinn var í dauðafæri“!
Klaufaklipping / Klaufasnyrting (n, kvk) Það verk að klippa framanaf klaufum kúa. Klaufirnar vaxa, einkum að vetrarlagi þegar kýrin stendur á bás, og sér í lagi ef undirlag er mjúkt. Þá er nauðsynlegt að klippa framan af þeim, og var það oftast gert með beittum naglbít. „Búbót hlýtur að líða betur eftir klaufasnyrtinguna“.
Klaufalega (ao) Af klaufaskap; óhönduglega; klunnalega; viðvaningslega.
Klaufalegur (l) Viðvaningslegur; óhönduglegur; klunnalegur. „Ósköp geturðu nú verið klaufalegur við þetta“!
Klaufarí / Klaufska (n, kk) Aulaháttur; handvömm; klaufaskapur. „Skelfingar klaufarí er þetta“! „Þetta var hrein klaufska af minni hendi“.
Klaufhamar (n, kk) Hamar með skalla öðrumegin á haus en klauf hinumegin, til að draga út nagla.
Klaufi (n, kk) Ólaginn maður; sá sem klúðrar verki. „Óttalegur klaufi er ég nú við þetta“!
Klauflax (n, kk) Dulnefni á keti. Sagt var að meðan fastan var tekin sem hátíðlegust, í kaþólskum sið, hafi verið bannað að tala um ketið sem ekki mátti eta; heldur varð að nefna það dulnefninu „klauflax“. Sömuleiðis var flotið uppnefnt „afrás“. Þetta kann þó að vera uppspuninn einber.
Klaufskur (l) Klaufalegur; óhönduglegur. „Ekki segi ég að hann sé klaufskur en ég hef séð lagnari menn“.
Klausa (n, kvk) Efnisgrein/smákafli í riti; paragraf. „Hann bætti við klausu um þetta í gerðabókina“.
Klaustur (n, hk) Staður þar sem hópur karlmanna eða kvenna býr saman að eigin vilja til að iðka trú sína. Munkar/nunnur hafna hjúskap og ýmsum veraldargæðum, oftast ævilangt. Heitið er komið úr latínu; „claustrum“ sem merkir afluktur staður. Fyrsta klaustrið er talið stofnað í Egyptalandi um 315, en síðan risu þau upp víða um hinn kristna heim, og með nokkrum afbrigðum í áherslum. Á Írlandi kom kristni snemma til sögunnar og þar þróuðust einsetuklaustur; hafði hver ættbálkur sitt klaustur. Munkarnir nefndust papar, og stóðu þesi klaustur í mestum blóma kringum 550-650. Írski trúboðinn Kólumbus, sem á móðurmálinu nefndist Colm Cille (521-597), stofnaði klaustur á eynni Iona í Suðureyjum og kristnaði Skota. Klaustrið varð ein helsta mennta- og trúarmiðstöð vestanverðrar Evrópu um margar aldir. Á landnámsöld numu þar fræði sín Örlygur Hrappsson og fóstbróðir hans, sem í Landnámu er nefndur Kollur. Lærimeistari þeirra; Patrekur biskup, sendi þá síðan í trúboðsleiðangur til Íslands, þar sem þeir skyldu reisa kirkju á Kjalarnesi, sem þá var orðið nokkuð fjölmennt. Lét biskup þeim í té kirkjuvið og messugögn. Þeir náðu til Íslands en hröktust vesturum í stórviðri. Örlygur náði inn á Patreksfjörð og hafði vetursetu í Örlygshöfn áður en hann fór suður og byggði kirkjuna að Esjubergi. Kollur lenti í ófærri Blakknesröstinni; leitaði hafnar suðurmeð og braut skip sitt á Arnarboða en komst af; ásamt a.m.k. mörgum sinna háseta. Hann nam land í Kollsvík og settist þar að. Að öllum líkindum hefur hann byggt fyrstu kirkju landsins í Kollsvík; sjá kirkjuból og kirkja. Nokkur klaustur risu upp hérlendis eftir að kristni komst á. Í Hólabiskupsdæmi voru það Þingeyraklaustur; Munkaþverárklaustur; Reynistaðaklaustur og Saurbæjarklaustur. Í Skálholtsbiskupdæmi voru Þykkvabæjarklaustur; Flateyjaklaustur; Helgafellsklaustur; Kirkjubæjarklaustur; Viðeyjaklaustur; Skriðuklaustur; Hítardalsklaustur ; Stafholtsklaustur og Keldnaklaustur. Klaustrin urðu miklar menningarmiðstöðvar og þar voru m.a. skrifuð mörg handritanna sem varðveist hafa. Þau voru einnig umsvifamikil í eignaumsýslu og áttu margar jarðir og ítök. Klausturlíf lagðist af við siðaskipti.
Kláðabað / Kláðaböðun (n, kvk) Sauðfjárböðun (sjá þar).
Kláðabaðlyf / Kláðalyf (n, hk) Efni sem blandað er í vatnið við kláðabað/sauðbjárböðun.
Kláðablettur (n, kk) A. Staður á húð þar sem mann klæjar mikið. B. Blettur á húð sauðfjár þar sem gætir skorpukláða. Gamalt húsráð var að nudda blettinn með tóbakslegi. Með reglulegri sauðfjárböðun var kláðanum útrýmt.
Kláðabóla (n, kvk) A. Bóla í skinni sem mann klæjar mikið í; oft graftrarbóla. B. Bóla í húð sauðfjár.
Kláðakartafla (n, kvk) Kartafla með hrúður. „Kláðakartöflur komu mun oftar upp úr görðum í sandinum í Láganúpslandi en súrari mold í Kollsvíkurlandi“.
Kláðakast (n, hk) Áköf kláðatilfinning sem erfitt er að stöðva; langvarandi/ákafur kláði.
Kláðamaur (n, kk) Psoroptes ovis; mítill sem lifir sníkjulífi í skinni sauðfjár og olli verulegum skaða á bústofni víða um land á síðari hluta 19. aldar og framá þá næstu. Útrýmt með niðurskurði og böðun.
Kláðapest / Kláðaveiki / Kláði (n, kvk/kk) Fjárkláði; faraldur sem orsakast af útbreiðslu kláðamaurs í sauðfé.
Kláðaskoðun (n, kvk) Skoðun sauðfjár til að athuga hvort á því leynist kláðamaur.
Kláðaskoðunarmaður (n, kk) Sá sem framkvæmir kláðaskoðun á sauðfé. Til þess starfa fékk hreppsnefnd sérstaka menn. Síðar breyttist starfsheitið í böðunarstjóri, þegar böðun sauðfjár varð almenn.
Kláðasækinn (l) Gjarn á að klæja; hættir til að hafa mikinn kláða. „Fjandi er maður kláðasækinn þessa dagana; skyldi það vera eitthvað í fatnaðinum eða veðrinu“!
Kláðatilfinning / Kláði (n, kvk/kk) Pirringur sem vekur þörf á að nudda og klóra viðkomandi svæði. „Eftir að sárið greri hef ég verið með hálfgerðan erting og kláðatilfinningu í því“.
Klám (n, hk) A. Lostafullar lýsingar; kynlífslýsingar eða það sem vísar til slíks þó óljóst sé. B. Illa unnið verk. „Mér sýndist þetta óttalegt klám hjá honum“.
Klámfenginn (l) Sem oft notar klám, t.d. í bröndurum eða athugasemdum.
Klámhögg (n, hk) A. Högg sem geigar/ missir marks. B. Líkingamál um hverskonar verknað eða athugasemd sem missir marks. „Þessar árásir hans í minn garð eru því algjört klámhögg“.
Klámkjaftur (n, kk) Sá sem oft notar klám, eða talar af lítilsvirðingu um gagnstætt kyn.
Klámvísa (n, kvk) Vísa sem inniheldur klám. „Ekki hefur varðveist nein klámvísa úr Kollsvíkurveri, en vafalítið hafa þær hrotið þar um borð eins og annarsstaðar þar sem karlar eru langdvölum kvennalausir“.
Klár (l) A. Greiður; skipulegur. „Ég held að þessi línuflækja sé að verða nokkuð klár“. „Það veiðist lítið í netið ef það fer ekki klárt í sjóinn“! B. Tilbúinn. „Ég er alveg klár í slaginn“. „Þetta er allt klappað og klárt“. „Er neglan klár“? C. Snjall; úrræðagóður; vitur. „Hann er ótrúlega klár í hugarreikningi“. D. Heiðskír; skír. „Það ýrði örlítið, þó klár væri himinn“. „Ef heiðbjart er og himinn klár/ á helga Pálus messu;/ mun þá verða mjög gott ár/ maður upp frá þessu“ (þjóðvísa). „Bakkinn var úr klára silfri“. E. Öruggt. „Það er alveg klárt fyrir mína parta að ég samþykki þetta ekki“! „Ég er ekki klár á því hvernig þetta á að snúa“. „Þetta var alveg klárt lögbrot“.
Klár (n, kk) Hestur; góðhestur; reiðhestur.
Klára (n, kvk) Áhald sem áðurfyrr var notað til að „vinna á túni“/ að berja sundur skít og róta honum niður í grasrótina. „Til þess var notaður slóði sem muldi skítinn, og var hann dreginn af hesti. Síðan var rakað yfir með kláru eða hrífu“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Klára (s) Taka/borða/drekka/gera allt; ljúka við. „Ætlarðu ekki að klára matinn þinn“? „Hann kláraði verkið á mettíma“.
Klára sig að (orðtak) Geta sjálfur; komast frá; spjara sig. „Heldurðu að strákurinn klári sig að þessu hjálparlaust“? „Ég hjálpaði henni aðeins við burðinn; hún hefði aldrei klárað sig að þessu öðruvísi“.
Kláraður (l) Lokið við gerð á. „Það sama haust og þessi hleðsla var gerð voru fjárhúsin hér á Láganúpi kláruð; þ.e. 2 þau norðari“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Klárlega (ao) Greinilega; örugglega. „Hann hefur klárlega lagt yfir hjá okkur“!
Klárt og kvitt (orðtak) Á hreinu; að öllu leyti; skuldlaust; skýrt. „Þá er allt klárt og kvitt okkar á milli“.
Klásúla (n, kvk) Klausa; efnisgrein í ritmáli; lagagrein; fyrirvari. „Hann sagðist til í að koma með okkur, en lét þá klásúlu fylgja að hann vildi enga slóða í hópnum“. „Ég sé enga klásúlu um þetta í lögum“.
Klefi (n, kk) Lítið herbergi/rými í byggingu. „Mitt fyrsta hlutverk í sláturhúsi var að lesa á mörk í réttinni, og rétta skotmanni lömbin fram í skotklefann“.
Kleif (n, kvk) A. Brött brekka/hlíð; stígur/vegur í brattri brekku. Samstofna orðunum klif og að klífa. B. Djúp gjá; djúpt gil. Samstofna orðinu klauf. Örnefnið Kleifaheiði gæti átt skírskotun í hvorutveggja.
Kleifur (l) Sem unnt er að klífa. „Hann mændi lengi á standinn og komst að þeirri niðurstöðu að hann myndi vera kleifur, ef rétt væri að farið“. Sjá gera kleift.
Kleggi (n, kk) A. Köggull; hnaus. B. Lítil heysáta; lítill galti. C. Hrossafluga. Orðið heyrðist einungis notað í fyrri merkingunni í Kollsvík.
Kleina (n, kvk) Kökubiti sem skorin er og snúin á sérstakan hátt, og síðan soðinn í olíu. Algengt viðbit t.d. með kaffi á sveitabæjum. „Fyrir jólin voru bakaðar lummur, laufabrauð, kleinur og stór kaka“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Kleinujárn / Kleinuskeri (n, hk/kk) Lítið áhald til að skera kleinudeig, áður en kleina er bökuð; rifflað hjól á skafti, sem rennt er eftir útflöttu deigi til að skera það í hæfilega stóra bita, og skera rifur í miðju þeirra.
Kleinukaffi (n, hk) Kaffiveitingar þar sem kleinur eru bornar fram, oft nýbakaðar. „Það er heldur munur að fá kleinukaffið hjá þér en berrassað kaffi á ónefndum bæjum“!
Kleinupottur (n, kk) Pottur sem hentar til kleinusteikingar. Oftast efnismikill pottur úr steypujárni, sem þolir vel mishitun án þess að aflagast. Nú á dögum stundum með innbyggðu hitaelimenti.
Klekja út (orðtak) Koma ungum úr eggjum með því að halda á þeim réttum hita og raka og snúa þeim reglulega. „Ekki tókst mér að klekja út hrafnsegginu“.
Klekkja á (orðtak) Koma höggi á; hafa undir; gera óvígan; bera hærri hlut. „Mér finnst það óverraháttur í þeim að ætla að klekkja á karlanganum með þessu“.
Klembrur (n, kvk, fto) Sérstök töng til sauma á skinnklæðum. „Karlmenn saumuðu sjálfir sín skinnklæði að vetrinum. Tæki til þess voru fábotin; aðeins tvær nálar, fyrirseyma og eftirseyma, og klembrur. Klembrur voru heimasmíði, annaðhvort úr hvalbeinum eða kindarleggjum. Tvær hvalbeinsflísar voru tengdar með þolinmóði í annan endann. Gripið var á nálunum með því að klemma þær fastar milli beinanna og þær dregnar út. Í beinkinnarnar voru boraðar smáholur þar sem nálaraugað hafði viðnám þegar nálinni var stungið í gegnum margfaldan sauminn. Klembrur úr sauðarleggjum voru svipaðar að gerð. (KJK; Kollsvíkurver). Sjá nánar um skinnklæði.
Klemma (s) Klípa; þrengja að; þvinga. „Passaðu að klemma þig ekki á hleranum“.
Klemma (n, kvk) A. Klípa; vandræði; þrengingar. „Ég er í bölvaðri klemmu fyrst þessi smali brást mér“. B. Þvinga; áhald til að halda hlutum saman við smíðar, eða hvað annað til að klemma að/ þvinga saman, s.s. hosuklemma, bréfaklemma, þvottaklemma o.fl..
Kleppsvinna (n, kvk) Mjög erfið vinna; at; þrælavinna. Líkingin er dregin af því að strita við burð á þungum hlutum, en kleppur merkir þungt stykki/ þungur köggull/kökkur.
Klepra (s) Verða þakinn af kleprum. Oftast notað um það að klakakleprar myndast neðan í ull fjár þegar það bítur þara í fjöru í miklu frosti. „Haltu fénu ekki lengi í þaranum; það er svo fljótt að klepra í þessum gaddi“. Einnig um það þegar skítur sest í ull fjár sem er lengi á innistöðu og liggur á taði.
Klepraður /Klepróttur (l) Allur settur kleprum/klakakleprum/skítakleprum.
Klepraður af skít (orðtak) Með skítaklessur á sér. M.a. viðhaft um kind sem legið hefur inni á taði, og orðin mjög óhrein. „Bölvað sinnuleysi er þetta hjá karlinum; mér sýndist hver einasta kind vera klepruð af skít“!
Klepraður af snjó/klaka (orðtak) Með snjóklepra; klakadröngla á sér. „Það er best að hleypa fénu inn áður en það verður allt kleprað af snjó“.
Kleprar (n, kk, fto) Klaka- eða skítadrönglar. „Féð var mjög kleprað þegar það kom úr fjörunni“. Rót orðsins er kleppur sem merkir þungur köggull.
Klerkur (n, kk) Prestur. Klerkur var minna notað, og þá oftar í hálfkæringi eða kerskni.
Klessa (s) Klína; ata; klemma. „Klesstu einhverjum stöfum á kvittunina ef þú ert sáttur við verðið“.
Klessa (n, kvk) A. Efnishaugur sem límst hefur við undirlagið; klíningur. „Skafðu fituklessurnar af borðinu“. B. Niðrandi heiti; „Sittu ekki þarna eins og klessa; hlauptu út og reyndu að hjálpa til“! C. Slydda; klessusnjór; klessingur.
Klessumálverk (n, hk) Óvandað/óskiljanlegt/ljótt málverk.
Klessusnjór / Klessingur / Klessuskítur (n, kk) Blautur snjór/ slydda sem hleðst á það sem á fellur. „Það verður snyrtilegt ef hann frystir í þennan klessusnjó“! „Skelfing verður féð óþrifalegt í þessum klessingi“. „Búðu þig almennilega; þessi klessuskítur bleytir þig annars alveg inn að beini“!
Klettabelti (n, hk) Löng röð tiltölulega lágra kletta. „Vegghamrar nefnis klettabelti norðan í Húsadal“.
Klettabrík (n, kvk) Klettur sem stendur sér/útúr/fram; klettabrún.
Klettaflá (n, kvk) Hallandi grasflæmi í klettum; flá.
Klettagil (n, hk) Gil/gjá með klettaveggjum á báða vegu. „Norðanvið Ytri-Lambhagann tekur við nokkuð djúpt klettagil sem nær niður í fjöru“ (HÖ; Fjaran).
Klettagljúfur (n, hk) Klettum girt gil. „Neðanvið Fossa rennur Áin um stutt klettagljúfur“.
Klettahaft (n, hk) Berghaft; skil úr föstu bergi/ klöpp. „Haftið milli gatanna í Gatakletti hefur mjög eyðst hin síðari ár vegna sjávarrofs, og er alls ekki víst að kletturinn standi það af sér að klettahaftið á milli gatanna sé rofið“ (HÖ; Fjaran).
Klettahilla (n, kvk) Gangur/sylla í klettum. „Út af Bæjargjá er breið klettahilla í miðjum klettum sem heitir Aukahlíð...“ (PJ; Örn.skrá Rauðasands).
Klettahlein (n, kvk) Hlein sem er framhald af kletti/klettarana. „Landamerkjahlein markar landamerki Láganúps og Breiðavíkur; er það klettahlein fremur lág og löng sem liggur fram undan fjallsnúpnum Breið u.þ.b. miðjum“ (HÖ; Fjaran)
Klettaklakkur (n, kk) Sker; boði; grynning. „Þannig hagar til í Kollsvík að tveir klettaklakkar eru nokkuð fyrir framan lendinguna, og er lítið bil milli þeirra en þó vel árafrítt, og var það kölluð miðleið“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). „Fremst á Breiðaskeri er klettaklakkur sem heitir Breiðaskersklakkur“ (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur).
Klettaklungur (n, hk) Torfær leið um kletta; klettaslefrur. „Þessi leið upp á fjallið er torsótt; um urðir og klettaklungur“.
Klettakví (n, kvk) Svæði sem aflokað er að mestu eða hluta af klettum í kring. Örnefnið Klettakví er í Láganúpslandi, neðanvið Þúfustekk; ofan Brunnsbrekku. Brött grasbrekka er á ferköntuðu svæði; girt klettum á þrjá vegu en opið að neðan.
Klettanef / Klettanibba (n, hk) Staður þar sem klettur skagar meira fram en í grenndinni. „Þá er farið niður sjávarklettana í Vatnadalsbót, annaðhvort í Árdalnum (gilinu) eða niður klettanef norðan við Árdalinn; hvorutveggja dálítið klöngur“ (HÖ; Fjaran). „Ég festi spottann á klettanibbu og komst eftir honum niður í næsta gang“.
Klettanes (n, hk) Nes afmarkað af klettum. „Hleinarnar frá Sandhelli að Hnífaflögu, sem er klettanes er skagar í vestur frá miðjum Hnífunum, heita einu nafni Sveinaflögur“ (HÖ; Fjaran).
Klettarani (n, kk) Staður í klettum þar sem þeir teygjast fram í tiltölulega mjóa totu; berggangur. „Norðan Gatakletts hækka sjávarklettar allmikið en lækka fljótlega aftur þar sem klettaraninn Forvaði gengur fram í fjöruna“ (HÖ; Fjaran).
Klettaskor (n, kvk) Gjá í klettum. „Ofanvið Flöguna er djúp klettaskor, þar sem gengt er í fjöru“.
Klettaslefrur (n, kvk, fto) Sundurslitnir klettar; gjarnan aflíðandi með skriðum inn á milli. „“Áframhald af Kjölnum til vinstri taka við klettaslefrur fram með Vatnadalnum; það heitir Ívarsegg“ (I.G. Sagt til vegar II). „Árnateigur eru klettaslefrur og gil í, þar sem vatn rennur niður af Húsadal“ (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur).
Klettaslæfur (n, hk) Klettaslefrur; sundurslitnir klettar. „Bæjarkletturinn er klettaslæfur, mjög sprungið, því þarna var aðalgrjótrif í hinar mörgu byggingarframkvæmdir í Sauðlauksdal á fyrsta áratugnum eftir aldamótin (1900)“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Klettaslöður (n, hk) Aflíðandi/hallandi klettar. „Það er vel gengt upp þetta klettaslöður“.
Klettasnös (n, kvk) Klettanef. „Vel sér niður í Vatnadalsbót ofan af klettasnös sem nefnist Grófarnef“.
Klettastallur / Klettasylla (n, kk/kvk) Sylla/gangur í klettum. „Það greri snemma á klettasyllum og féð stökk niður á þær til að ná sér í æti“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). „Ær hafði þá verið þar nýborin og hafði hún misst lambið nýfætt niður á klettastall í Skorarjaðrinum…“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Klettastandur (n, kk) Klettanef sem skagar framúr/uppúr öðru landslagi. „Klettastandur skagar þar fram í fjöruna, og eru í honum tvö manngeng göt neðst“.
Klettaveggur / Klettaþil (n, kk/hk) Samfelldir, brattir og háir klettar. „Þarna skella öldurnar á klettaveggnum um háflæði“.
Klettbrún (n, kvk) Brún/nöf á kletti. „Gilskletturinn var notaður til æfinga, og mikið var ég montinn þegar ég í fyrsta skipti klöngraðist laus upp á klettbrúnina“.
Kletti (n, hk) Neðsti hluti kviðar á fólki; aftasti hluti kviðar á búfé.
Klettshorn (n, hk) Klettsendi. „Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma, var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til þess að „bræða veðrið“, sem svo var kallað. Oft var þessi ráðstefna sett og haldin á klettshorninu syðra á Norðariklettunum“ (KJK; Kollsvíkurver).
Klettur (n, kk) A. Þverhnípt berg. Vanalega ekki mjög hátt ef orðið er í eintölu, en getur mekt bjarg ef það er í fleirtölu. B. Stór jarðfastur steinn eða stök bergstrýta. C. Líkingamál um staðfastan mann. D. Líkingamál um mjög þungan hlut.
Klettþungur (l) Níðþungur; mjög þungur. „Skápurinn reyndist klettþungur“. „Sumir voru klettþungir í drætti, en aðrir léttir og liprir eins og köttur“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kleyfur (l) A. Sem unnt er að kljúfa. „Það þýðir ekkert að nota greni í þetta; það er alltof kleyft“. Sem er gerlegt/framkvæmanlegt. „Ekki taldi hann að myndi þurfa að óttast það að ekki myndi reynast kleyft að ljúka þeim skuldum sem nú hvíla á hreppnum vegna þessarar byggingar“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Klént (l) Rýrt í roðinu; illa útilátið; naumt. „Skelfing er orðið klént þetta efni í blaðinu“.
Kliða (s) A. Óma; hljóma. „Enn kliðar þetta í höfðinu á mér, sem hann sagði“. B. Suða; nöldra; biðja ítrekað. „Enn er hann að kliða um þetta“.
Kliður (n, kk) Ómur; hljómur; samfellt hljóð, þó ekki endilega hátt. „Þessi kliður er dálítið þreytandi“.
Klif (n, hk) A. Kleif; brött hlíð; einstigi upp mikinn bratta. B. Klifandi; kliður; málæði. „Vertu nú ekki að þessu eilífa klifi“!
Klifa á (orðtak) Endurtaka í sífellu; tönnlast á. „Enn ertu byrjaður að klifa á þessu“!
Klifandi (n, kk) Málæði; sífelldur hávaði. „Stöðugur klifandi heyrðist úr Gilinu í vatnavöxtunum“.
Klifra (s) Klífa í klettum; fara laus. Orðið er vanalega notað um það þegar farið var um kletta bandlaus, en þó stundum um bjarg- og klettaferðir almennt. Þegar farið er með vað og hann settur fastur er „farið í lás“, en þegar menn á brún draga bjargmanninn er farið „til siga“ eða „í sig“. Væri
Klifrari / Klifurmaður (n, kk) Sá sem er færari en aðrir að klifra í klettum. „Góður bjargmaður þarf að hafa marga eiginleika. Hann þarf að vera passasamur og fyrirhyggjusamur með öll öryggisatriði og vita hvað til þarf; hann þarf að hafa næmt auga fyrir hættum, t.d. af lausu grjóti; hann þarf að geta haldið rósemi og má ekki vera of lofthræddur; hann þarf að geta stýrt sér í siginu með því að spyrna frá bergi og halda sér réttum í loftsigi; hann þarf að vera góður klifrari og útsjónarsamur á leiðir og sína getu; og hann þarf að vera í góðum samskiptum við félaga sína. Er þá aðeins fátt talið“.
Klifur (n, hk) A. Það að klifra/klífa kletta. „Svona klifur finnst mér dálítið gapalegt“. B. Leið í klettum. „Það er töluvert klifur eftir þó þú komist upp á stallinn“.
Klinka (n, kvk) Lokubúnaður á hurð/íláti; járn á hurðinni sem fellur upp á krók í stafnum.
Klikka (s) Bila; bregðast. „Byssufjárinn klikkaði þegar máfurinn var í dauðafæri“. „Nú má ekkert klikka“.
Klikkaður / Klikkaður í kollinum (l/orðtak) Ruglaður; ekki með fullu viti. „Ertu alveg klikkaður“! „Mér finnst þessir þingmenn ansi klikkaðir í kollinum ef þeir halda að þetta gangi upp“.
Klikkhaus (n, kk) Rugludallur; vitleysingur. „Skelfingar klikkhaus getur maðurinn verið; þvílík yfirsjón“!
Klippa (s) Taka í sundur efni með skærum. Orðið er einkum notað um að snyrta hár og efni, en aldrei um það að taka ull af kind. Það er að taka af. Hinsvegar voru skærin til þess oft nefnd klippur.
Klippa haus (orðtak) Klippa/skera fiskhaus áður en hann er hengdur upp til þurrks. „Þá var að fara með mat í verið; sækja fisk í soðið og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður og koma þeim í þurrk“ (IG; Æskuminningar).
Klipping (n, kvk) Hárskurður.
Klippur (n, kvk, fto) A. Skæri til að taka ull af fé; sauðaklippur. B. Skæri til að klippa þunnt járn; þakklippur.
Klitti (n, hk) A. Klofskækill í gæru. Þegar skorið er fyrir við fláningu kindar þá er klitti nefndur sá skækill sem verður til í júgurstæðinu; milli skurða frá afturhæklum. Meðan slátrað var á Gjögrum var það í verkahring hæklara að rífa upp klittið áður en skrokkurinn var hengdur á gálga til fláningar. B. Eldra nafn á setskauta í skinnklæðum, en enn eimir eftir af nafninu í saumnum: „Var haldið áfram með leggsaum upp að klittnaspori. .... Þarna var klittnasporið tekið og vandað um það líkt og við hælsporið“ (KJK; Kollsvíkurver).
Klittnaspor (n, hk) Saumur í klofi á skinnbrókum; sjá skinnklæði. „Var þá haldið áfram með leggsaum upp að klittnaspori“ (KJK; Kollsvíkurver).
Klífa þrítugan hamarinn (orðtak) Vinna mjög erfitt verkefni; gera hvað sem er. „Hann þarf nú að klífa þrítugan hamarinn ef hann vill fá hennar atkvæði“!
Klígja (n, kvk) Velgja; ælutilfinning. „Ég held að þessi klígja sé að líða hjá núna“.
Klígja / Klígja við (s/orðtak) Vera með/fá velgju/ælutilfinningu; bjóða við. „Nú er mig aðeins farið að klígja; ætli ég sé ekki að verða sjóveikur“. „Mig klígjar við tilhugsuninni ef þessi stjórn verður kosins aftur“.
Klígjugjarnt (l) Gjarn á að klígja; verða gjarnan sjóveikur. „Það vill til að þér er ekki klígjugjarnt“.
Klígjukast (n, hk) Hviða klígju/ógleði. „Ég held þetta klígjukast sé nú liðið hjá“.
Klígjulegt (l) Til þess fallið að vekja klígju/viðbjóð. „Skelfing er þetta klígjulegt gums“!
Klíka (n, kvk) Hópur manna, oft tiltölulega fámennur, sem gæta hagsmuna hvers annars á óeðlilegan hátt, þannig að veldur skaða/óánægju þeirra sem utan klíkunnar standa. „Mikið fer það í taugarnar á mér þegar flokksklíkan raðar tómum bjálfum í efstu sætin, án nokkurs samráðs við almenna flokksmenn“! Orðið á uppruna í franska orðin „clique“, sem merkir að klappa.
Klíkuskapur (n, kk) Sú árátta meðlima klíku að gæta hagsmuna hvors annars á óeðlilegan hátt.
Klína (s) A. Ata; klístra; smyrja á. „Ertu nú búinn að klína málningu í buxurnar þínar“?! B. Eitt af vorverkum fyrri tíma. Fólst það í að mykja var borin út á tún, og henni klínt á tún og þúfur sem áburði. Var það oft gert með sérstökum spaða; klíningsspaða.
Klíningsspaði (n, kk) Spaði til að klína mykju á þúfnakolla til áburðar og til þurrks sem eldiviðs.
Klíningur (n, kk) A. Skán af mykju sem smurð er á tún til áburðar. Klíningur var rakaður af túnum áður en gras var sprottið, og notaður til eldiviðar. B. Óþrif sem klínst hafa á óæskilegan stað. „Hvaða klíningur er þetta á buxnaskálminni á þér“?
Klípa (s) Þrengja að á tvo vegu, t.d. með fingrum eða töng. „Skatan var svo stæk að ég þurfti að klípa fyrir nefið meðan ég færði uppúr pottinum“.
Klípa (n, kvk) Þrengingar; ógöngur. „Hann var kominn í bölvaða klípu í þessu máli“.
Klípa af (orðtak) Ódrýgja; taka af. „Það tekur því ekki að klípa neitt af þessu; það er ekki svo mikið“.
Klípitöng (n, kvk) Eldra heiti á því sem nú kallast almennt töng.
Klístra (s) Klína; ata.
Klístraður (l) Klíndur; útataður. „Farðu úr vinnubuxunum úti; þú ert allur klístraður af þessum óverra“.
Klístur (n, hk) Klíningur; þekja óhreininda sem klínst hafa á óæskilegan stað.
Kljást við (orðtak) Fást við; slást við; eiga í útistöðum/illindum við. „Hann er enn að kljást við þessi veikindi“. „Það er dálítið umhendis fyrir mig að kljást við þessa bolabíta þarna fyrir sunnan“.
Kljásteinn (n, kk) A. Steinn sem notður er til að halda þræði/uppistöðu vefstóls strekktum. B. Netasteinn; steinn sem notaður var til að halda neti við botn (sjá netasteinn og hrognkelsi).
Kljúfa (s) A. Taka í sundur; skipta í tvennt. „Hausarnir voru klofnir í tvennt eftir að búið var að svíða þá“. B. Geta greitt; ráða við greiðslu. „Þetta verður líklega í lagi ef honum tekst að kljúfa útborgunina“.
Kljúfa eftir hrygg (orðtak) A. Um sögun ketskrokka; saga skrokk eða skrokkhluta í sundur eftir hryggnum miðjum. „Svo var framparturinn klofinn eftir hrygg og þá fór hann afi að nota tréþollana sína“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). B. Um aftekt kindar; byrja á að klippa reyfið eftir endilöngum hrygg áður en aftekt hefst. Með þessu er auðveldara að komast að, og því var þetta gert, einkanlega ef erfitt var að taka af kindinni, t.d. vegna slæmrar fyllingar eða hún var í tvennum reyfum, eða meðan ull var ekki í miklu verði. Einnig talað um að skipta eftir hrygg, um það sama.
Kljúfa/kurla í eldinn/eldivið (orðtök) Saga og höggva við, þannig að nýtist sem eldiviður í reykingu/eldavél/þvottapott eða hlóðaeld.
Kljúfa upp (orðtak) Skera fiskhaus/sviðahaus í tvennt, eða þarumbil. „Steinbítshausar voru klofnir upp og þeir síðan, ásamt hryggjunum, bornir til þurrks upp á reitina“ (KJK; Kollsvíkurver).
Klofa (s) Taka á milli fóta; setja annan fótinn fyrst yfir og svo hinn. „Geturðu klofað yfir girðinguna eða á ég að halda út fyrir þig“?
Klofakerling (n, kvk) Einföld þvinga til að halda saman borðum í súð báts, meðan hann er seymdur.
Klofavarða (n, kvk) Steinhlaðin varða sem að neðanverðu er klofin; þ.e. hvílir á tveimur undirstöðum. „Myndarlegasta klofavarða sem fyrirfinnst gæti verið varðan á Stórafellinu, sem hlaðin er af Guðbjarti Guðbjartssyni hleðslumeistara frá Láganúpi. Hún er mjög reglulega hlaðin; breið með ferstrendum súlum; þykkum bálki að ofan og manngengu gati sem vísar til Láganúpsvers og Grunda“. Orði finnst ekki í orðabókum en var almennt notað vestra. Klofavörður við þjóðvegi fengu oft það hlutverk að geyma kveðskap af misjöfnu tagi; sem gjarnan var stungið í sauðalegg. „Ein varðan er klofavarða, svo hægt er að skríða í gegnum hana“ (SJTh; Örnefnaskrá Kvígindisdals). Sjá beinakerling.
Klofblautur / Klofvotur (l) Blautur í fætur og upp í klof. „Stór alda reið undir bátinn; mér tókst að halda honum réttum við sandinn, en það kostaði það að ég varð klofblautur“.
Klofbragð (n, hk) Bragð í glímu. Sá sem beitir því beygir sig örlítið um annað hné; smeygir hinu milli fóta hins; innanvert undir lærið, og hefur hann á loft; heldur honum þétt að sér og varpar til jarðar með vindingi. Rétt klofbragð er tekið með vinstra fæti en öfugt með þeim hægri.
Klofdjúpur (l) Um snjódýpt; upp í klof. „Það er klofdjúpur snjór upp allt sniðið“.
Klofhár (l) Um sokka/stígvél; ná langleiðina upp í klof. „Hann var í olíustakki og klofháum stígvélum“.
Klofi (n, kk) Hvaðeina sem er klofið. „Þvertréð í hjallinum féll í klofa efst á stoðinni“.
Kloflangur (l) Leggjalangur; hár til klofsins/hnésins. „Hann var ekki hár í loftinu, en áberandi kloflangur“.
Klofningur (n, kk) Glufa/gjá/sundrung sem líkleg/orðin er. „Hér er að myndast klofningur í trénu“. „Ef svona tillaga kemur fram má telja víst að klofningur verði í flokknum“. Á síðari tímum heyrist „klofnun“ um sama.
Klofófærð / Klofskafl / Klofsnjór (n, kvk/kk) Um snjódýpt; snjór sem nær mönnum í klof.
Klofrifa (n, kvk) Rifa/saumspretta í klofi á buxum. „Farðu úr buxunum svo ég geti saumað þessa klofrifu“.
Klofrifna (s) Um buxur; rifna um saum í kofinu. „Buxurnar klofrifnuðu þegar ég glennti mig yfir lækinn“.
Klofrifinn (l) Rifinn í klofinu. „Skelfing er nú að sjá þig strákur; klofrifinn og grútskítugur“!
Klofrífa (s) Rífa um klofið. „Tókst þér nú að klofrífa buxurnar aftur“!
Klofsaumur (n, kk) Saumur buxna í klofi; klittnaspor.
Klofstígvél (n, hk, fto) Klofhá gúmmístígvél. Klofstígvél og sjóstakkar ollu nokkurri byltingu á síðustu árum verstöðu í Kollsvíkurveri, en sá búnaður tók við af skinnklæðum sem höfðu verið allsráðandi; líklega frá upphafi byggðar. Nýja búnaðinum voru menn fljótari að klæðast og afklæðast; en líklega hefur þó mestu munað um tímasparnaðinn við gerð skinnklæðanna. Klofstígvél voru í fyrstu há svört gúmmístígvél sem ofaná var límd upphækkun úr þykku rauðleitu gúmmíi; voru gjarnan „brotin niður“ þegar í land kom. Síðar komu klofstígvél úr næfurþunnu gúmmíi, sem áttu síðri vinsældum að fagna meðal sjómanna. „Þá man ég vel þegar Maggi kom einusinni úr siglingu á Vatneyrartogaranum, að hann færði mér klofstígvél; en þá voru flestir vermenn enn í skinnklæðum. Þetta þótti stór viðburður og allir strákarnir í Víkinni, en þeir voru nokkuð margir þá, þurftu að prófa; og auðvitað var farið uppfyrir“ (IG; Æskuminningar).
Klofstuttur (l) Fótstuttur; stuttur til klofsins. „Menn eru misjafnir að vaxtarlagi; sumir eru kloflangir en aðrir áberandi klofstuttir, í hlutfalli við skrokkstærð“.
Klofvega (ao) Með fótinn sitthvorumegin. „Annar sat klofvega á húddinu meðan hinn ók traktornum“.
Kloss (ao) Þétt; þröngt; klesst. „Ég rak staurinn niður kloss við vegginn“.
Klossaður (l) Þunglamalegur; luralegur; samanrekinn. „Skelfing finnst mér þetta klossaður bíll“.
Klossfastur (l) Alveg fastur; rígfastur. „Traktorinn sökk í pyttinn og sat klossfastur“.
Klossi (n, kk) Klampi; kubbur; bútur. „Sæktu einhvern klossa til að hafa undir tjakknum“.
Kló (n, kvk) A. Kló á ketti, hundi eða öðru dýri. „Var nú kötturinn að slæma klónni í þig litli stubbur“? B. Grein á lyngi; lyngkló. C. Efra horn segls á bát. Úr klónni liggur klófalur um trissu efst í mastri, niður til stjórnandans, sem getur strengt og slakað á klónni. D. Búnaður á enda rafleiðslu til að stinga henni í tengil.
Klóakul (n, hk) Ofkæling/kuldadofi hunda á fótum, hliðstæð naglakuli á mannfólki. „Ósköp þarf tíkin að sleikja á sér lappirnar. Ætli hún sé ekki með klóakul, skarnið“.
Klófalur (n, kk) Um seglabúnað báts; band sem liggur úr kló segls, um blökk/trissu/húnboru ofantil í mastri og kom neðri endi niður í hendur formanns, eða honum var brugðið undir röng í bátnum.
Klófesta (s) Krækja í; ná í. „Enn hefur engum tekist að klófesta fjörulalla svo vitað sé“.
Klókaldur (l) Kaldur á nöglunum; kaldur á klónum; með naglakul. „Ertu orðinn dálítið klókaldur stubburinn minn? Þér hefði verið nær að þiggja vettlingana“!
Klókheit / Klókindabragð / Klókindi / Klókskapur (n, hk, fto) Sniðug/lúmsk áætlun; hyggindi; fyrirhyggja. „Þetta fannst mér mikil klókheit hjá karlinum“. „Þarna beitti hann miklum klókindum“. „Þetta gerði hann af klókskap sínum“.
Klókindalega (ao) Lævíslega; á sniðugan hátt. „Það þarf að fara klókindalega að þessu“.
Klókindalegur (l) Sem beitir klókindum/klókindabrögðum. „Hann var klókindalegur í þessum viðskiptum“.
Klókt (l) Gáfulegt; sniðugt. „Mér fannst það klókt hjá honum að skipta um vél í bátnum“.
Klókur (l) Sniðugur; séður; lunkinn; laginn. „Hann er ári klókur í viðskiptum“.
Klór (n, hk) Það sem klórað hefur verið. A. Rifur eftir klær. „Er þett klór eftir köttinn“? B. Slæm skrift. „Hver á að geta lesið þetta klór“?! C. Efnið klór; Cl, eða blanda af því; klórblanda.
Klóra (s) A. Krafsa; rífa. „Við þurfum að klóra mesta klakann af þessu“. „Var kötturinn að klóra þig“? B. Nudda húð vegna kláða. „Fénu þykir gott að klóra sér utaní stögin“. C. Skrifa ógreinilega/illa. „Ætli ég veriði ekki að klóra nafnið mitt hér undir“. D. Há; koma sér illa. „Þessi gamla skuld er enn að klóra honum“.
Klóra í bakkann (orðtak) Gera tilraun/atrennu; reyna að bjarga sér. „Hann segist ætla að klóra eitthvað í bakkann með þessa skuld“. Líklega líking við að skepna reyni að bjargast úr skurði eða slíku.
Klóra sér í kollinum/hausnum yfir (orðtak) Undrast; skilja ekkert í. „Menn klóra sér í kollinum yfir því hvernig þetta gat gerst“.
Klórast (s) Krafla sig; klöngrast; skriflast. „Ég náði að klórast upp í næsta gang og komst þaðan upp á brún“.
Klósett (n, hk) Salerni. Klósett inni í húsum urðu ekki algeng fyrr en um og eftir miðja 20. öld í Rauðasandshreppi, og svo var um orð sem tengdust því. Kamrar voru í notkun á Láganúpi og Stekkjarmel framyfir 1960, en vatnsklósett var komið fyrr í Kollsvíkurhúsið.
Klósigi (n, kk) Þunnt tjásulegt háský, sem getur verið undanfari þess að þykkni upp, þó ekki sé það einhlítt.
Klóþang (n, hk) Ascophyllum nodosum; algengasta þarategundin á útfiri í Kollsvík og víðar. Það er með loftfylltar bólur til að halda sér réttu í sjónum, eins og bóluþang; ólífugrænt á litinn og verður um 50-100 cm að lengd. Rifnar oft upp í brimi og berst þá upp á fjörur og hættir til að setjast í veiðarfæri. Fyrrum var klóþang stundum notað til matar í miklum hallærum. Það var þá saxað niður og soðinn af því grautur í vatni og sýru, ásamt einhverju méli.
Kluftatunga (n, kvk) Húðsepi í kluftum á klaufdýrum.
Kluftir (n, kvk, fto) Efst í bili milli klaufa sama fótar á klaufdýri, s.s. sauðkind og nautgrip. „Það er afskaplega snjólétt; varla upp í kluftir á fénu“.
Klukka (n, kvk) A. Stór bjalla; kirkjuklukka. B. Tímamælir, oftast átt við veggklukku í húsi. „Nú þarf að vinda klukkuna“. Stundum þó um úr á hendi; „ertu með klukku“? eða sem hugtak; „hvað skyldi klukkan vera orðin“?
Klukkaður (l) Um leiki: Eltingaleikur sem gengur út á það að einn á að elta hina og, þegar hann nær einum, að snerta hann og segja „klukk“. Þá er sá „klukkaður“ og tekur við hlutverkinu að elta.
Klukkulaus (l) Ekki með úr/klukku; úrlaus. „Skelfing er maður hálfvitalegur svona klukkulaus, núorðið“.
Klukkulykill (n, kk) Lykill til að trekkja/vinda upp klukku. „Hvar hefur klukkulykillinn verið settur“?
Klukkuprjón (n, hk) Sérstök prjónaaðferð: „Prjónaklukkur á stelpur voru úr hárfínu tvinnuðu bandi eða einspinnu; þær voru prjónaðar með klukkuprjóni“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Klukkustundargangur / Klukkutímaganga (n, kk) Vegur/vegalengd sem tekur klukkutíma að ganga. „Þetta er nú vel klukkustundargangur frá Saurbæ, þó enginn setti slíkan smáspotta fyrir sig“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). „Ég held það sé rösk klukkutímaganga frá Láganúpi framá Hauga“.
Klukkustrengur (n, kk) A. Eiginleg merking; spotti til að hringja klukkum, t.d. í kirkju. B. Ílangt klæði, mjög útsaumað; núorðið haft til punts og skreytinga en var áður hluti af bjöllukerfi yfirstéttarfólks (erlendis) til að kalla þjónaliðið.
Klumbubein (n, hk) Klumba; angiljubein; eyruggabein; stórt bein fremst í þunnildi fisks, aftan við tálknin. Klumbubein ýsu eru mjög efnismikil og sumir dunduðu sér við að skera úr þeim litlar dýra- eða fuglastyttur. Orðið klumba var þekkt annarsstaðar en ekki klumbubein svo vitað sé.
Klumbufótur (n, kk) Klunnalegur/vanskapaður fótur.
Klumbunef (n, hk) Stórt nef með háum krung/boga; kónganef. „Hann var með tilkomumikið klumbunef“.
Klumbunefja (n, kvk) Annað heiti á álku.
Klumsa (l) Eiga ekki til orð; kjaftstopp. „Henni brá svo við fréttirnar að hún varð alveg klumsa“. Upprunalega notað um ákveðna gerð stjarfa í hestum; „klums“.
Klungrast (s) Klifra með erfiðismunum; klórast. „Svo lögðum við af stað; klungruðumst eftir fljúgandi sleipum steinum og stórgrýti“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Klungur (n, hk) Illfær/grýtt leið; óárennilegt klifur. „Við þurfum að reka féð varlega yfir klungrið í urðinni“. „Vertu ekkert að fara niður í næsta gang; það er árans klungur“.
Klungurskafli (n, kk) Ógreiðfær hluti af leið. „Þegar lömb voru hæfilega stálpuð var valinn fjárhópur rekinn útyfir Hnífa; útí Breið, til hagagöngu. Fara þurfti varlega í stórgrýttum klungurskafla við Blettahjallann, en síðan var féð rekið útfyrir girðinguna í Urðarhryggnum, og hliðinu þar lokað“.
Klungursleið (n, kvk) Erfið/stórgrýtt/hættuleg leið, einkanlega notað um leiðir í klettum. „Prílaðirðu virkilega bandlaus upp þessa déskotans klungursleið“?!
Klunnafótur / Klunnalöpp (n, kk/kvk) Notað um það þegar maður hrasar fyrir klaufaskap. „Óttaleg klunnalöpp er nú á þér drengur; þú verður að gá niður fyrir tærnar á þér“!
Klunnalega (ao) Óhönduglega; klaufalega. „Honum fórst þetta frekar klunnalega úr hendi“.
Klunnalegur (l) Klaufalegur; ólaginn; grófur. „Ég er miklu klunnalegri við þetta en þú“. „Skelfing eru þetta klunnalegir skór“!
Klunnaskapur (n, kk) Klaufaskapur; óvandvirkni. „Bölvaður klunnaskapur er þetta“!
Klunni (n, kk) Klaufabárður; jarvöðull; ólaginn maður. „Skelfingar klunni geturðu verið við þetta“!
Kluss (n, hk) Gat á kinnungi báts sem akkerisfesti liggur um, oftast fóðrað eða varið á einhvern hátt.
Klúbbur (n, kk) Lítið félag; fremur þröngur hópur fólks. Orðið var líklega ekki notað vestra fyrr en stofnaður var saumaklúbbur, þar sem annarsstaðar á landinu á síðari hluta 20. aldar.
Klúðra (s) Gera mistök; flumbra. „Það gengur ekki að klúðra þessu bara einhvernveginn saman“!
Klúður (n, hk) Klaufaskapur; mistök. „Þetta er nú ljóta klúðrið“!
Klúðursbragur (n, kk) Klaufalegt yfirbragð. „Óttalegur klúðursbragur er á þessari viðgerð“.
Klúðurslega (ao) Klaufalega; illa. „Þessi viðgerð finnst mér vera klúðurslega unnin“.
Klúðurslegur (l) Illa/klaufalega unninn. „Frágangurinn var svo klúðurslegur að þetta var verra en ógert“.
Klúka (n, kvk) Lítil hrúga; lítill haugur/hnakkur. Orðið var þekkt en ekki mikið notað í Kollsvík í seinni tíð. Á Rauðasandi var eitt sinn kot með þessu nafni.
Klúr (l) A. Grófur/ruddalegur í orðum; klámfenginn. „Kveðskapurinn í verinu var með ýmsu móti; sumt voru prýðilega gerðar vísur, en annað hálfgerður barningur. Innanum voru klúr kvæði og jafnvel níðvísur“. B. Um hlut; illa/óhaganlega gerður; mjög af sér genginn og lélegur.
Klútgarmur / Klútræfill (n, kk) Gæluheiti á vasaklút. „Hvar laggði ég nú klútgarminn minn og pontuna“?
Klútshorn (n, hk) Horn á vasaklút. „Hann náði korninu úr auganu á mér með klútshorninu“.
Klútur (n, kk) A. Almennt um lítið stykki af taui/vefnaði; t.d. borðklútur; skýluklútur. B. Stytting á vasaklútur.
Klyfberi (n, kk) Grind/bogi til að leggja yfir hestbak og leggja á byrði/klyfjar/sátur. Á klyfberanum eru klakkar, og hann er lagður á reiðing; þ.e. mjúkt undirlag, og festur með gjörð undir kvið hestsins.
Klyfjaður (l) Hlaðinn; með fulla byrði. „Ég kom vel klyfjaður af eggjum úr Breiðnum þann daginn“.
Klyfjahestur (n, kk) Hestur með klyfjar. „Ég þarf að fara að éta minna; ég er að verða eins og klyfjahestur“!
Klyfjar (n, kvk, fto) Baggar; flutningur sem borinn er. „Algengt var, ekki síst að vetrarlagi, að menn báru þungar klyfjar á eigin herðumyfir Hænuvíkurháls“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG). Orðið er dregið af því að „kljúfa“; þ.e. skipta byrði þannig að hún leggist báðumegin og jafnt yfir herðar/hestbak.
Klyftir (n, kvk, fto) Klof. Oftast notað um dýpi í vatni/sjó/snjó. „Báturinn hafði flotið upp, og ég þurfti að vaða upp í klyftir til að ná honum“. „Þarna var snjór víða í klyftir“. „Kýrin sökk upp í klyftir í seilinni“.
Klýfir (n, kk) Um seglabúnað; brandaukasegl; þríhyrnt stagsegl, oftast framanvið fokkusegl; fest ofantil í siglu/framsiglu; framantil í bugspjót og aftantil út í borðstokk öðruhvorumegin.
Klæða (s) A. Um mann; fara í föt; koma öðrum í föt. B. Um hús o.fl.; setja þilju utan/innan á vegg.
Klæða illa/vel (orðtök) Notað til að lýsa því hvort fatnaður þyki fara manneskju vel eða illa.
Klæða sig uppá (orðtak) Fara í betri föt; vera fínn í tauinu. „Maður er nú ekki að klæða sig uppá fyrir þetta“.
Klæðalaus (l) Nakinn; strípaður. „Skelfing er að sjá manneskjuna nær klæðalausa í þessu veðri“!
Klæði (n, hk) Vefnaður; fatnaður. Eitt fárra orða sem breytir merkingu við það að skipta úr eintölu í fleirtölu. Í eintölu merkir það efni í klæði; tau, en í fleirtölu merkir það tilbúin föt; fatnað.
Klæðispils (n, hk) Pils úr klæði. „Ég minnist þess að hún talaði um hvað þeir Maggi og Einar væru oft búnir að borga sér, með hjálpsemi og gjöfum, klæðispilsið sitt sem hún tók eitt sinn fyrir jól til að gera þeim úr buxur“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Klæðlítill (l) Fáklæddur; illa búinn. „Þeir höfðu farið fremur illa búnir; nestislausir og klæðlitlir“.
Klæðnaður (n, kk) Búningur; fatnaður. „Skelfing líst mér ill á klæðnaðinn á þér drengur; farðu nú í peysu áður en þú ferð út“! „Það er víst gert ráð fyrir fínni klæðnaði í þessu samkvæmi“.
Klæðning (n, kvk) Þilja; byrði í smíði/byggingu. „Hann setti timburklæðningu utaná húsið“.
Klæja í lófana (orðtak) Langa mikið að gera/hefja. „Mig klæjar í lófana að geta byrjað á þessu“. Orðtakið mun tengjast þeirri hjátrú að kláði í lófana hafi spágildi. Klæjaði mann í hægri lófa myndi happ bera að höndum, en kláði í vinstri lófa boðaði verri tíðindi eða missi“.
Klæki (n, kvk) Kænska; klókindi; útsjónarsemi. „Hann þóttist vera sárasaklaus, en ég sá það strax af klæki minni að eitthvað var brogað við hans frásögn“.
Klækir (n, kk, fto) Lymskubrögð; undirferli; kænska; klókindi. „Hann ætlaði að hafa þetta útúr mér með klækjum, en ég sá við honum“. Orðið þekkist ekki í eintölu í karlkyni, en til er klæki í kvenkyni.
Klækjabragð (n, hk) Klókindi; hrekkjabragð. „Þeim hefndist fyrir þetta klækjabragð“.
Klækjarefur (n, kk) Ráðsnjall/slægvitur maður. Refurinn er talinn úrræðagóður með afbrigðum.
Klækjóttur (l) Brögðóttur; undirförull; slægvitur. „Hann var sagður nokkuð klækjóttur í viðskiptum“.
Klæmast (s) Viðhafa klám; vera klúr í orðum. „Vertu nú ekki að klæmast við stelpugreyin“!
Klæminn (l) Klúr/grófur í orðum/skáldskap/framkomu. „Hann gat gert ágætar vísur, en átti það til að vera nokkuð klæminn“.
Klögumál / Klögun (n, hk) Kvörtun. „Ég nenni ekki að hlusta á þessi klögumál allar stundir; reyniði nú að séttla málin ykkar á milli“!
Klögur (n, kvk, fto) Kvartanir; umkvörtunarefni. „Milli þeirra ganga klögurnar á víxl“. Ekki notað í eintölu.
Klökugur (l) Klakastokkinn; þakinn klaka. „Féð varð klökugt á að ösla frammi á útfiri í frostinu“. „Þarna var þá ekkert nema klökug brekkan“ (MG; Látrabjarg).
Klökkna (s) A. Þiðna; veikjast. „Ísinn er farinn að klökkna og verða ótraustur“. B. Bresta rödd; verða klökkur. „Hann klökknaði þegar hann talaði um konuna sína sálugu“.
Klökkur (l) A. Um manneskju; með tregatón/grátstaf/viðkvæmni í röddinni; hnípinn; beygður. „Hann var hálf klökkur þegar hann rifjaði þetta upp“. B. Um við eða annað efni; svagur; bognar auðveldlega. „Þessi fjöl er alltof klökk til að nota hana í stífu“.
Klökkvi (n, kk) Brostin rödd vegna sorgar/geðshræringar; gráthreimur í rödd; ekki. „Það gætti klökkva í röddinni þegar hann rifjaði upp þetta slys“.
Klökugur (l) Klakaður; ísaður; sílaður; klakabrynjaður. „Féð verður fljótt klökugt í fjörunni í þessu frosti“.
Klömbruhleðsla / Klömbruveggur (n, kvk) Sérstakt lag við hleðslu torfveggs; með því að nota klömbruhnaus. Klömbruhleðslur voru ekki viðhafðar vestra, a.m.k. ekki í seinni tíð; enda grjót nærtækt og grjótveggir standa betur en torfveggir.
Klömbruhnaus (n, kk) Hnaus sem stunginn er með sérstöku lagi úr jörð, þannig að vel henti í hleðslu torfveggs.
Klömbrur (n, kvk) A. Stytting á klömbruhnaus. B. Klembrur. Sjaldan framborið þannig.
Klömp (n, kvk) Klöpp. Heyrðist sjaldan notað þannig í Rauðasandshreppi í seinni tíð; en kann að hafa verið algengara áður: „Hellugötur eru berar klampir sem vegurinn lá eftir“ (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).
Klöngrast (s) Príla; klofa; fara með erfiðismunum. „Handan í gjánni voru nokkur múkkahreiður og ég gat klöngrast þangað með því að klofa yfir gjábotninn“. „Úr Smjörhellinum er svo hægt að klöngrast suður fyrir nefið, í Smjörhellisflesið, en það er tæp leið og laust í skriðunni handanvið“.
Klöngur (n, hk) Príl; tildur; erfitt/glannalegt klifur. „Þá er farið niður sjávarklettana í Vatnadalsbót, annaðhvort í Árdalnum (gilinu) eða niður klettanef norðan við Árdalinn; hvorutveggja dálítið klöngur“ (HÖ; Fjaran).
Klöpp (n, kvk) Jarðfastur berghleifur/bergeitill sem stendur oft lítið eitt hærra en yfirborðið, t.d. þar sem jökull eða sjór hefur sorfið lausara berg í burtu. Klappir sem skaga út í sjó eru nefndar hleinar.
Knall (n, hk) A. Hár hvellur; byssuskot. „Hundurinn varð dauðskelkaður við knallið og hljóp heim“. B. Slangurorð yfir skemmtun/dansleik/ fjöruga samkomu. „Þetta var heilmikið knall“.
Knalla (s) Skjóta. „Láttu það bara vera að knalla á hrafninn; það hefnir sín“.
Knalletta (n, kvk) Hvellhetta; lítil sprengja. A. Hvelletta í haglaskoti, sem bógurinn skellur á og kveikir í púðri skotsins. „Uppi á lofti í gamla Traðarhúsinu fundum við poka af knallettum og öðru til skotahleðslu“. B. Hreppstjórakúla (sjá þar). C. Hvelletta hvellhettubyssu/knallettubyssu. Oftast raðað á borða eða plasthring.
Knallettubyssa (n, kvk) Hvellhettubyssa; leikfang sem er eftirlíking skammbyssu; er með knallettum/hvellhettum með litlum púðurskammti sem gefa hvell þegar hamar skellur á þeim. Vinsælt leikfang sem barst í Kollsvíkina með Halldórssonum á 7. áratug 20. aldar.
Knallettutöng (n, kvk) Hvellhettutöng; töng til að þrykkja hvellhettu/knallettu í skothylki þegar það er hlaðið.
Knapi (n, kk) Reiðmaður hests. „Hryssan Stjarna, sem var brún að lit, var sett undir knapann sem sótti ljósmóðurina“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Knappella (n, kvk) Kappmella. Framburður sem sumir notuðu fremur.
Knapphelda (n, kvk) Hnapphelda (sjá þar).
Knapplega (ao) Varla; tæplega. „Leystu svolítið meira hey; þetta dugir knapplega sem komið er“.
Knapporður (l) Fáorður; segir mikið í stuttu máli. „Jarðabókin er knapporð um þetta, en segir þó margt“.
Knappt um (orðtak) Lítið um/af. „Er nokkuð orðið knappt um hey hjá þér“?
Knappur (l) Tæpur; naumur. „Hann fer nú að verða knappur með hey þegar kemur framá“. „Vogurinn er knappur, en ef um háfermdan bát er að ræða er aðstaðan ákjósanleg“ (KG; Frá Rauðasandi til Rússíá). „Neðst í mynni Bjrangötudals er knöpp brekka sem heitir Aurbrekka“ (PJ; Örn.skrá Rauðasands).
Knappur með hey (orðtak) Heytæpur; heyknappur; á tæplega næg hey fram á vor. „Heldurðu að hann sé að verða eitthvað knappur með hey“?
Knasa (s) Brjóta í smátt; mölbrjóta. „Þarna steig ég óvart ofaní hreiður og knasaði tvö egg“.
Knastás (n, kk) Ás með hjámiðjum til að stjórna ventlum í bílvél. „Knastásinn er keðjudrifinn og yfirliggjandi“.
Knattleikur / Knattspyrna (n, kk) Boltaleikur; fótbolti. Tilgangslaus og kjánaleg tímaeyðsla sem lítt eða ekki var stunduð í Kollsvík svo lengi sem sögur fara af.
Knálega (ao) Rösklega; duglega. „Þetta var ansi knálega gert af honum“.
Knálegur (l) Rösklegur; dugmikill. „Mér sýndist þetta vera nokkuð knálegur vinnumaður“.
Knár (l) Duglegur; dugmikill. „Hann var knár vel þó ekki væri nema 16 ára...“ (MG; Látrabjarg).
Knefi (n, kk) Hnefi. Í hinum harða vestfirska framburði sem áður tíðkaðist var samsetningin „hn“ oft framborin á þennan hátt. „Hann gaf ekkert eftir fyrr en í fulla knefana“.
Kneif /Kneifaröngull (n, kvk) Öngull með ásteyptri síld. Slíkir önglar tíðkuðust á tímabili uppúr 1900, og voru þá gjarnan með spaða í stað auga, og öngultaumur (hvippa) var benslaður á legginn. Fyrr mun kneif hafa verið notað um öngla yfirleitt.
Kneikja (s) Reigja; sveigja; beygja. „Þegar haus er skorinn af skepnu er hausinn kneiktur vel aftur, þannig að móti fyrir liðum. Síðan er skorið á milli banakringlu og kúpu“.
Knekti (n, hk) Vinkill eða annar efnisbútur til samfestinga í smíðum. „Sett voru knekti á hornin til styrktar“. „Undir hillunum eru sterk knekti“.
Kneppa (s) Hneppa. Vestfirskur ritháttur og framburður sem nú heyrist hvergi lengur. Sama gildir um aðrar hn/kn-samsetningar: knöttur; kné; knefi; knekkja; knyttinn; knútur; knýta. Framburðurinn hefur þó haldið sér í samsetningum, svo sem knésbót; knésetja o.fl.
Kneppi (n, hk) Skammtur af heyi; yfirleitt talið minna en fullt fang. „Það er hæfilegt að kasta einu kneppi fyrir hrútana í stíunni“. „Saxaðu svo dálítið kneppi til að setja í kollinn á hverjum galta“. Kneppi mun áður hafa verið mælieining fyrir hey, og var þá til jafns við einn meis.
Kneyfa (s) Drekka. Fornt orð sem stundum var viðhaft í seinni tíð. „Þetta var bragðvondur andskoti og reif niður í rassgat; en það þýddi ekkert annað en kneyfa þetta í sig ef maður ætlaði að ná heilsunni“.
Kné (n, hk) Eldri framburður á hné.
Knéfalla (s) Falla á hné/kné; krjúpa. „Ég ætla mér bara ekkert að knéfalla fyrir svona vindbelgjum“!
Knékrjúpa (s) A. Krjúpa á kné; liggja á hnjánum. „Maður verður stirður í fótum af að knékrjúpa svona lengi við arfareytingu“. B. Líkingamál; vera undirgefinn; sýna einhverjum auðmýkt. „Ég fer nú ekki að knékrjúpa fyrir þessum bjálfum til að fá það sem ég á fullan rétt á“!
Knérunnur (n, kk) Lágur runni; kjarr; grein. Oftast notað í líkingum, þar sem knérunnur merkir ættlið eða grein í ætt. Núorðið í orðtakinu að vega í sama knérunn; gera atlögu að sömu fjölskyldu/ sama málefni.
Knésetja (s) Koma á kné; sigra; hafa betur gegn. „Á endanum tókst stjórnvöldum að knésetja þessa byggð; einkum með heimskulegum og skammsýnum ákvörðunum um nýtingu sjávar- og landgæða“.
Knipla (s) Búa til kniplinga, sem er ákveðin gerð útsaums/skreytinga/kögurs. Nefnist athöfnin knipl.
Knippa (s) Binda í knippi/búnt. „Ég knippaði sprekið saman og bar það að reykkofanum“.
Knippi (n, hk) Búnt; það sem bundið er saman. „Vermenn höfðu frítt lyngrif í landi Láganúps. Sennilega hafa þeir rifið lyngið í landlegum; bundið það í knippi með færum sínum og borið á bakinu í búðirnar“.
Knífa að / Kneppa að / Kreppa að (orðtök) Kreppa; þrengja; þústna að. „Það fer nú að knífa að með fóðurbætinn“. „Það er gott að eiga þetta í bakhöndinni ef kneppir að“.
Knífa af (orðtak) Klípa af; neypa af; hrella af. „Þetta er nú svoddan óvera; það er varla hægt að vera að knífa af þessu hjá þér“.
Knífur (n, kk) Hnífur. Borið þannig fram með hinum upprunalega vestfirska framburði, t.d. alltaf af GG.
Knípa / Knípa af (s/ orðtak) Skerða; taka af. „Taktu bara stykkið allt; þetta er svo lítið að það tekur því ekki að knípa af þessu“. Stofnskylt orðinu hnífur/knífur.
Knosa (s) Kremja; merja.
Knurr (n, hk) Urr; murr; urgur; nöldur. „Knurr var komið í íbúana yfir þessum slóðaskap Vegagerðarinnar“.
Knurra (s) Urra; murra; rymja; nöldra. „Ætli það þýði nokkuð að knurra yfir þessum skatti fremur en öðrum“.
Knúður (n, kk) Hnúður; hnyðja. Vestfirskur framburður, t.d. GG. „Þarna er rekinn trollknúður“.
Knúinn (l) Rekinn; drifinn. „Eftir að bátar urðu almennt knúnir vélarafli var stutt í að útgerð leggðist af í útvíkum. Þá skipti vegalengdin til miða ekki eins miklu máli“.
Knúinn til (orðtak) Tilneyddur; rekinn til. „Ég fann mig knúinn til að biðja hann afsökunar“.
Knúppur (n, kk) Blómhnappur; kálhaus. „Það eru komnir knúppar á kálið“.
Knúsa (s) Eldri merking er sú sama og danski stofninn; brjóta; mölva. Yngri merking er að faðma þéttingsfast. „Það var í hitteðfyrra, ein stúlka kom á kreik,/ svo knúsandi og dásamleg að tarna./ Við þessa glöðu meyju ég fór í feluleik./ Hún faldi sig í rúminu mínu þarna“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Knútur (n, kk) A. Hnútur, eldri framburðarmáti sem lengi var við lýði í Kollsvík. B. Mannsnafn.
Knyttóttur (l) Pöróttur; viðsjárverður; hrekkjóttur; líklegur til skammarstrika. „Sagt var að strákarnir í Breiðuvík væru sumir æði knyttóttir, en aldrei sýndu þeir sig þó að því gagnvart heimamönnum“.
Knyttur (n, kk) Hrekkur; bragð; skammarstrik. „Fyrrum þótti ekki tiltökumál að flengja krakka fyrir slæma knytti. Nútímasamfélag bannar slíkt uppeldi, en hefur enn ekki fundið raunhæfari eða betri aðferðir“. Oft kom forskeytið ó fyrir framan til áheresluauka, og talað um óknytti.
Knýja á um / Knýja fram (orðtak) Fylgja máli eftir; þrýsta á. „Mjög var knúið á um að málið yrði samþykkt sem fyrst“. „Ef hann ætlar að knýja fast á um þetta þá er ekki um annað að gera en láta hart mæta hörðu“!
Knýja dyra (orðtak) Berja að dyrum; banka á dyr. „Hver knýr dyra á þessum tíma sólarhrings“? „Ég knúði þar nú dyra og komst þar óðar inn,/ erindi mitt faktornum ég sagði./ „Því er nú verr og miður, ég verð ei bóndi þinn“./ „Hvað veldur því“? ég segi nú að bragði“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Knýjandi nauðsyn/þörf (orðtak) Brýn nauðsyn; mjög nauðsynlegt.
Knýttur (l) Hnýttur; með hnút. „... ber ég þess menjar á sjálfum mér er ég kem við knýtt beinin í brjóstinu á mér, vinstra megin“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).
Knörr (n, kk) Stórt hafskip norrænna manna. Skipin voru þróuð í upphafi víkingaaldar og mjög notuð í siglingum norrænna manna milli landa. Knerrir hafa vafalítið verið helstu skip landnámsmanna. Þeir voru súðbyrtir; háir á byrðing og kjöl; með eitt mastur og þversegl; stýrið var stjórnborðsmegin framanvið skut. Þilfar var framan og aftan, en stórt flutningsrými miðskips. Knörrinn var dýrt skip, enda má víða sjá í fyrri sögnum, t.d. í Landnámabók, að sigling til Íslands var ekki möguleg nema að baki hennar stæðu vel efnaðir menn. Séu frásagnir réttar af strandi Kolls og félaga á Arnarboða í Kollsvík, má ætla að þar hafi orðið verulegt eignatjón þegar knörrinn eyðilagðist. Ein skýringin á hinu litla landnámi Kolls gæti verið sú að höfðingjasynirnir sem með honum voru á skipi, hafi hlotið sín víðfeðmu landnám sem bætur fyrir tjónið; Þórólfur Spörr sem nam allan Rauðasandshrepp utan Rauðasands og Kollsvíkur; Þorbjörn skúma og Þorbjörn tálkni sem námu Patreksfjörð að norðan og allan Tálknafjörð.
Í lok landnámsaldar er talið að hérlendis hafi verið til allnokkur skipastóll knarra, auk minni skipa. En líklega má kenna skógleysi að mestu um það að engin endurnýjun varð þegar þeir gengu úr sér. Fullyrða má að skipleysi þessarar eyþjóðar hafi í raun verið helsta orsök þess að Íslendingar neyddust til að selja sjálfstæði sitt Noregskóngi 1262, í skiptum fyrir ferðir milli landanna. Í þeim ferðum viku knerrir fyrir búsum: burðarmeiri skipum sem þróast höfðu við Miðjarðarhaf.
Knöttur (n, kk) Eldri famburðarmynd af hnöttur.
Kobbi (n, kk) Gæluorð um sel/selkóp. „Kobbi var forvitinn og synti alveg uppundir fjöruna“.
Koddableðill (n, kk) Lítill/þunnur koddi; gæluorð um kodda. „Hér hefurðu einhvern koddableðil“.
Koddahorn (n, hk) Horn á kodda; gæluorð um kodda. „Það er sagt að karlinn eigi töluvert fé undir koddahorninu“.
Koðna niður (orðtak) Leggjast niður; líða útaf. „Vegna fólksfæðar koðnaði félgasstarfið niður...“ (ÓG; Úr verbúðum í víking). „Skaflinn á veginum er að koðna niður í ekki neitt“.
Koðri (n, kk) Pungur.
Kofa (n, kvk) Lundaungi. Heitið mun einkum hafa verið notað á Vestfjörðum, en þar var aldrei notað heitið „pysja“, eins og t.d. í Vestmannaeyjum. Kofuhleinar eru utanvið Láturdal. Kofuhellir er heimast í Hnífum, en ekki er vitað um lundavarp þar í manna minnum. Hellirinn er af sumum nefndur Kofahellir, sem gæti vísað til lögunar hans.
Kofabygging (n, kvk) Kofi / gerð kofa, úr grjóti, torfi og timbri. „Kofabyggingar voru almennt notaðar í Kollsvík sem víðar fram á 20. öld, og enn eru nokkrir slíkir í notkun. Elsti kofi í Kollsvík, og líklega elsta torfhús á Íslandi sem ávallt hefur verið í notkun og undir þaki frá upphafi og er ekki er hluti bæjarbyggingar, er Hesthúsið á Hólum. Torfkofar stóðu vel í Kollsvík, væri vel vandað til þeirra í upphafi. Veggir voru hlaðnir af grjóti, sem stendur betur en torfveggir annarra landshluta; Timbur var yfirleitt úr rekaviði, sem er náttúrulega fúavarinn. Grjóthellur voru hafðar á þökum og þær skaraðar til að forðast leka. Undirstöðum á sandmelum og grjórholtum ganga ekki til. Vel loftar um. Hið eina sem e.t.v. var af meiri gæðum annarsstaðar var torf og reiðingur, en þó var torfrista í Kollsvík talin sæmileg“.
Kofadyr (n, kvk) Dyr á kofa. „Sandur hafði í áranna rás borist inn í Hesthúsið, bæði sem fok og eins með torfi sem eldur var hulinn með. Torfið brann en sandurinn varð eftir. Voru kofadyrnar á endanum svo lágar að menn urðu nánast að skríða á hnjánum til að komast inn göngin“.
Kofahurð (n, kvk) Hurð á kofa. „…næsti maður til að opna kofahurðina var einmitt Gummi í Breiðuvík“ (PG; Veðmálið).
Kofasalt (n, hk) Maurasúrt kalk; íblöndunarefni við votheysverkun. „Kofasalt var lítillega reynt við votheysverkun á síðustu árum heyverkunar í votheysgryfjur. Þó var mest notuð maurasýra“.
Koffort (n, hk) Hirsla; trékassi með vissu lagi, misjafn að stærð. Algengt var að koffort væri um 60cm að lengd og 40cm að breidd og hæð. Það var oftast smíðað úr sléttum borðum, gjarnan með geymslu í loki og handröðum. Höldur voru utan á göflum; oft skásettar með götum fyrir bönd til að þægilegt væri að binda upp á klyfjahest. Ýmist var á þeim innbyggð læsing eða hespa. „Erlendur á Látrum sendi einn af vinnumönnum sínum eftir koffortinu“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). „Rekkjufélagar sváfu andfæting og höfðu koffortin sín; skrínurnar, við höfðalagið“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Kofi (n, kk) A. Lágreist torfhús, gjarnan stakt eða með öðru en ekki bær. „Á gilbarminum stóðu Mókofinn og Hænsnakofinn hlið við hlið“. „Nú er Gummi kominn á Gjögra … og er þá sest að snæðingi í kofanum, eins og torfhúsið var oftast kallað“ (PG; Veðmálið). B. Niðrandi heiti á húsi.
Kofnafar (n, hk) Veiðiferð til að ná í kofu. Aflagt fyrir nokkru í Rauðasandshreppi. Mesta flæmi sem slíkt var stundað er Undirhlíð í Kristnukinn undan Djúpadal, þar sem er Bæjarbjarg.
Kogari (n, kk) A. Slanguryrði yfir brennsluspritt, stundum stytt í „koggi“. B. Lítil olíueldavél.
Koj (n, hk) Stytting á koja, og þá gjarnan notað um hvaða rúm sem er. „Ætli maður fari ekki bara að draga sig til kojs, hvað úr hverju“. „Þú ert að verða syfjaður; viltu ekki bara fara að ganga til kojs“?
Koja (n, kvk) Rúm af einfaldri gerð, þar sem eitt rúm er yfir öðru og e.t.v. fleiri á hæðina.
Kojustokkur (n, kk) Rúmstokkur/brík á koju. „Til að komast í efri kojuna klifraði maður upp á rúmgafl hjónarúmsins; seildist yfir nokkuð bil í kojustokkinn og óf sig upp um leið og stokkið var“.
Kokgleypa (s) A. Um fisk; gleypa egndan öngul ofaní kok. „Það er seinlegra að ná úr fiskinum ef hann kokgleypir“. B. Í líkingum þegar maður trúir einhverju í blindni.
Kokhljóð (n, hk, fto) A. Hljóð sem myndað er niðri í koki. B. Torkennilegt hljóð; furðuleg rödd. „Hann talaði með hinum furðulegustu kokhljóðum sem engin lifandis leið var að botna í“.
Kokhraustur (l) Bísperrtur; ber sig vel; talar fullum hálsi; kotroskinn; kjaftfor; yfirlýsingaglaður. „Þú ert kokhraustur núna; við skulum sjá hvaða upplit verður á þér þegar við komum að landi“!
Kokhreysti (n, kvk) Mont; yfirlýsingagleði. „Það er ekki alveg sama kokhreystin í honum núna“!
Kokka (s) Elda; hafa til mat. „Þá var skipt verkum; einn fór að kokk; annar að beita lóðina, og tveir að gera að aflanum og ganga frá honum að öllu leiti“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Kokkabækur (n, kvk, fto) Uppskriftabækur; reglur. „Þetta er nú ekki rétt, samkvæmt mínum kokkabókum“.
Kokkamennska (n, kvk) Gæluorð um eldamennsku/eldun/matargerð. „Ég er ólaginn við alla kokkamennsku“.
Kokkáll (n, kk) A. Maður konu sem heldur framhjá. B. Almennt niðrandi heiti á manni.
Kokkarí (n, hk) Eldamennska; matargerð. „Ráðskonan stendur sig bærilega í kokkaríinu“.
Kokkhús (n, hk) A. Eldra orð um eldhús. B. Í síðari tíð gæluorð um eldhús.
Kokkteilpartí (n, kvk) Niðrandi heiti á samkomum fyrirfólks; snobbsamkoma. „Ég hef lítið gaman af þessum yfirborðskenndu kokkteilpartíum“.
Kokmæltur (l) Gormæltur; skrollandi; kverkmæltur. „Hann var kokmæltur sem barn, en það vandist af“.
Kolabingur (n, kk) Haugur af kolum. „Kolabingur var í verkfærahúsinu; við hliðina á þvottapottinum“.
Kolagerð (n, kvk) Gerð viðarkola til eldsneytis. Þá er skógur höggvinn og viðurinn kurlaður. Kurlið er látið í gryfju og kveikt í því. Eldurinn er síðan byrgður, en við það glóðast viðurinn án þess að brenna upp. Eftir verða viðarkol, sem eru nokkuð hitagæfari en viðurinn, en samt mun lakari hitagjafi en steinkol, sem flutt voru inn á síðari öldum. Einkum voru viðarkol notuð til rauðablásturs, járnsmíða og dengingar ljáa. Viðarkolagerð var stunduð á landinu frá fyrstu tímum og sumsstaðar framá 20. öld; auðvitað einkum þar sem nægur skógur var. Hafa eflaust mjög eyðst skógar af þeirri iðju. Einar Jónsson í Kollsvík stundaði síðastur rauðablástur á landinu. Líklegt er að smiðja hans hafi verið í Kollsvík, þar sem nóg var um rauða, en kolagerð hefur hann líklega stundað í Vesturbotni. Þar hefur nýlega fundist staður með kolaleifum.
Kolaeldavél (n, kvk) Eldavél hituð með kolum. „Um tíma voru kolaeldavélar algengar á bæjum í Rauðasandshreppi sem víðar, en eftir miðja 20. öld höfðu þær flestar vikið fyrir olíukyntum vélum. Sumum kolaeldavélum var breytt, þannig að í þær var settur olíubrennari. Þannig var á bæjum í Kollsvík. Þar voru stórar eldavélar úr pottsteypu og var t.d. vélin á Láganúpi með þremur hringjasettum og í henni var miðstöðvarhitun.
Kolakarl (n, kk) Maður sem vinnur við kol, t.d. kolamokstur. „Við sögðum Össuri um hvarf kolakarlanna ...“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Kolakaup (n, hk, fto) Kaup á kolum til eldsmatar/járnsmíða. „Við sjóinn var illt að vera án viðarkola, t.d. við smíði öngla og bátasaums. Víða var því skipt á þeim og fiski... Í Reykhóla- og Gufudalssveitum var mikil kolagerð langt fram á 19. öld og kolin seld þaðan vestur á sveitir; á Rauðasand; í Víkur; á Patreksfjörð og Tálknafjörð. Kolahesturinn var látinn mæta 60 steinbítum, sem og var talinn hestburður ef hann var ekki fullþurr“ LK; Ísl. sjávarhættir IV; Heim; Barðstr.bók).
Kolalaus (l) Skorta kol. „Við sáum nú að við vorum að verða kolalausir“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Kolalok (n, hk) Gæluorð um lítinn skarkola. „Ég hirti nokkur kolalok sem komu í netin í dag“.
Kolamyrkur (n, hk) Algert myrkur. „Maður sér ekki handa sinna skil í þessu kolamyrkri“.
Kolaofn(n, kk) Ofn sem brennir kolum. „Einn kolaofn var í Kollsvíkurhúsinu, og var hann óspart notaður, því nógir voru kyndararnir“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Kolbikasvartur (l) Mjög dökkur; biksvartur. „Þvoðu þér nú um hendurnar fyrir matinn; þú ert kolbikasvartur“!
Kolbilað (l) Um veður; snarvitlaust; kolvitlaust. „Hann er að renna á með kolbilað veður,sýnist mér“.
Kolblár (l) Mjög dökkblár. „Þá kemur þriðja báran; hún reisir bátinn talsvert hátt; ég sé kolbláan krappan faldinn koma æðandi... „ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kolbrjálað veður / Kolvitlaust veður (orðtak) Snarvitlaust veður; aftakaveður; mjög vont veður. „Bölvuð vitleysan í honum að æða af stað í kolbrjáluðu veðri“!
Kolbrjóta (s) Um stórt brimbrot. „Svo rís bára undir bátnum; hann þýtur áfram, það kolbrýtur undir honum... „ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kolbrunnið (l) Kolað af hita. „Nærri hafði legið við íkveikju í hlöðunni, og var heyið sumsstaðar kolbrunnið“.
Koldimma (n, kvk) Mikið myrkur; niðamyrkur. „Maður sér ekki handaskil í þessari koldimmu“.
Koldimmt (l) Niðamyrkur; engin skíma. „Ég ætla að klára gjafir áður en það verður alveg koldimmt“.
Koleygt (l) Um þroska eggs; komin greinileg augu í stropann og e.t.v. einnig goggur. „Langvíueggin voru sum orðin koleygð, en álkueggin voru öll ný“. Sjá eygt og grúeygt.
Kolfastur (l) Pikkfastur; alveg fastur. „Bíllinn sat kolfastur í skaflinum“. Hrúturinn er kolfastur í grindunum“.
Kolfalla (s) Falla/hníga gjörsamlega. „Kartöflugrasið hefur allt kolfallið í næturfrostinu“.
Kolgrár (l) Dökkgrár. „Þarna sá ég eina hvíta hyrnda með tveimur; annað var hvítt en hitt kolgrátt“.
Kolgrímótt (l) Um lit á sauðfé; ljós á ull en áberandi dökk í andliti.
Kolgrönótt (l) Um lit á sauðfé; hvít með dökkan blett á nefi/grönum. „Kolgrön gamla skilaði vænum lömbum“.
Kolhertur (l) Um fisk eða brauðmeti; fullhertur. „Úr mjölinu voru gerðar næfurþunnar flatkökur og kolhertar, svo þær mygluðu ekki þótt lengi væru geymdar“ (PJ; Barðstrendingabók).
Koli (n, kk) Skarkoli; rauðspretta (sjá þar)
Kolkrímóttur (l) Mjög skáldaður/skítugur í framan; með dökkum skellum í andliti. Bæði um fé og menn. „Farðu nú og nuddaðu framanúr þér mesta skítinn; þú ert kolkrímóttur eins og sá svarti sjálfur“!
Koll af kolli (orðtak) Hver eftir annan. „Ég náði gemlingunum, koll af kolli, og las upp númerin“. Orðtakið kann að vísa til þess að fara um mýrlendi með því að stökkva af einum þúfnakolli á annan.
Kolla (n, kvk) A. Ílát (vanalega fremur lítið); kaffibolli; fóðurskál. B. Hlandkoppur; næturgagn. „Einu sinni var ég sendur með kolluna, sem þá var nefnd, að hella úr henni, en gleymst hafði að láta aftur um kvöldið“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). C. Í afleitri merkingu um bát: „Þetta er nú óttaleg veltikolla“. D. Æðarkolla. E. Húfa. Framborið hart.
Kolla (s) Afkolla; afhausa; taka haus af steinbít (sjá steinbítur).
Kollabúðafundir (n, kk, fto) Landshlutafundir íbúa af Vestfjörðum um ýmis þjóðmál, sem haldnir voru árlega í júní á hinum forna þingstað, Kollabúðaeyrum í Þorskafirði. Fyrsti Kollsabúðafundurinn hófst 18.júní 1849, líklega fyrir hvatningu Jóns Sigurðssonar. Þingmenn voru um 80. Hlaðin hafði verið um 30 álna löng búð og tjölduð með voðum. Fundir voru haldnir árlega til 1861, en tveir fundir voru síðar; 1891 og 1895. Kollabúðafundirnir áttu mikinn þátt í að móta þjóðfrelsiskröfur Íslendinga og studdu þar framtak Jóns Sigurðssonar forseta.
Kollarður (n, kk) Krappi; hnélisti; tréstykki í bát, á báðum endum þóftu, sem bindur hana við borðstokk. Kollarðar eru úr völdu efni; oft úr rótarhnyðju, og eru mikilvægir fyrir styrk bátsins. „Mastur og segl lágu þannig að masturstoppur nam við hnýfil, en masturshæll við kollharð á miðskipsþóftu bakborðsmegin“ (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III). Sjá sjósetja.
Kollblautur (l) Blautur á höfði; kollvotur. „Settu nú upp sjóhattinn; þú verður annars fljótt kollblautur í þessu pusi“. „Það ýrir drjúgt úr þokunni; ég er orðinn hálf kollblautur“.
Kollgáta (n, kvk) Lausn; rétt svar. „Þegar pakkinn var opnaður kom í ljós að hún átti kollgátuna“.
Kollhnís (n, kk) Sú hreyfing að endastingast um um höfuðið; yfirleitt framávið. Algeng íþrótt/leikur barna.
Kollhúfa (n, kvk) Einföld húfa sem aðeins hylur blákollinn. Sést sjaldan núorðið nema í trúarlegum tilgangi, eins og á páfans kolli. Sjá orðtakið leggja kollhúfur.
Kollkeyra sig / Kollsigla sig (orðtak) A. Um siglingu báts; sigla svo gáleysislega að bátnum hlekkist á. B. Í líkingamáli um framferði manns; fara svo geist í fjármálum/athöfnum/hlaupum að illa fari.
Kollsteypa / Kollvelta (s) Steypa/velta einhverju um koll; snúa á hvolf. „Hann kollsteyptist framaf barðinu“.
Kollsteypa (n, kvk) Umskipti; mikil breyting; fall. „Mér sýnist hann hafa tekið kollsteypu í þessu máli“.
Kollsvíkingamót (n, hk) Samkoma Kollsvíkinga. Nokkuð hefur verið um það í seinni tíð að Kollsvíkingar komi saman, sér til skemmtunar og til að halda kynnum. Þær samkomur eru ýmist haldnar í Kollsvík eða annarsstaðar. Með því eru um leið ræktuð tengsl fólks við Kollsvíkina og heiðruð minning forfeðra.
Kollsvíkingur (n, kk) Sá/sú sem á ættir og/eða búsetu að rekja til Kollsvíkur í Rauðaandshreppi. Misjafnt er hve hópurinn er skilgreindur þröngt. Þegar t.d. var rætt um Kollsvíkinga í daglegu tali hreppsbúa var einungis átt við þá sem bjuggu í Kollsvík. En þegar rætt er um almenn tengsl manna við staðinn, þá nær Kollsvíkingshugtakið yfir allt fólk af Kollsvíkurætt, auk þeirra sem þar hafa átt búsetu lengur eða skemur.
Kollsvíkurbóndi (n, kk) Búskapur hefur verið í Kollsvík frá landnámi, þó hann liggi nú niðri vegna markaðsaðstæðna. Kollsvíkurbændur fyrri alda stunduðu ekki einungis landbúnað heldur ekki síður sjávarútveg. Sauðland er mjög gott; vetrarbeit bæði í úthaga og fjöru og slægjulönd ágæt. Fiskimið eru oftast stutt undan landi og lending oftast góð fyrir þá báta sem áður tíðkuðust. Kollsvíkurbændur þurftu því að vera jafn hæfir sjóarar og bændur; eiga bústofn og bát. Auk eignarjarðanna sjálfra; Láganúps og Kollsvíkur byggust smærri býli um lengri eða skemmri tíma; bændur sem höfðu viðurværi af sjósókn en höfðu lítinn bústofn með, ásamt slægjulandi fyrir hann. Af þeim urðu Grundir og Stekkjarmelur einna mestar bújarðir, en einnig voru í byggð um tíma Tröð, Grænamýri, Gestarmelur, Grund, Grundarbakkar og Hólar.
Kollsvíkurhávaði (n, kk) Hugtak sem orðið hefur til í munni þeirra sem umgangast fólk af Kollsvíkurætt; einkum þá grein sem alist hefur upp á ættjörðinni í seinni tíð. Einkenni þessa hávaða eru sögð m.a. dynjandi hlátrasköll í góðra vina hópi; hávaðarifrildi ef mönnum þykir eitthvað.
Kollsvíkurmaður (n, kk) Kollsvíkingur er það heiti sem allajafna er notað um þetta sérstaka fólk, en þessu brá fyrir: „Annars skiptir það ekki mestu máli; heldur hitt að ég reyni að skrásetja merkilegan atburð úr sjálfsbjargarlífi Kollvíkurmanna, sem flest er úr minni liðið nú til dags“ (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). „Eins lentu Kollsvíkurmenn oft bátum sínum í Hænuvíkinni eftir siglingu frá Patreksfirði, ef vont var í sjóinn útifyrir; og gengu heim út yfir Hænuvíkurháls“ (DÓ; Að vaka og vinna). „Kollsvíkurmenn byggðu allar búðir; áttu þær og leigðu vermönnum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Kollsvíkurmegin (ao) Þeim megin landamerkja/Breiðs/Blakks sem Kollsvík er/ á land. „Alltaf finnst mér betra að fara Kollsvíkurmegin við Nibbuna en Hænuvíkurmegin; þar er bergið tæpara, blautara og lausara í sér“.
Kollsvíkurland (n, hk) Sú landareign sem tilheyrir Kollsvík. „Kollsvíkurland nær inn að Þyrsklingahrygg“.
Kollsvíkurver (sérnafn) Ein helsta verstöð á sunnanverðum Vestfjörðum framan af 20. öld. Lægið (sjá þar) myndast af þremur skerjum og skapar ákjósanlega lendingu við ýmis skilyrði. „Uppsátrið var einkum í allbreiðum bás milli...Syðri- og Norðari-kletta.... Upp af þessum sandbás stóð meginfjöldi verbúðanna, uppi á; og vestan og norðan í allstórum sandhól er þar hafði myndast. Ekki voru þær skipulega settar. Uppi á hólnum stóðu þrjár búðir í röð og sneru dyr mót vestri. Miðbúðin var Heimamannabúð; búð Kollsvíkurbónda. Þar stutt suður af var stök búð (Eva) og gegnt henni til vesturs var fiskhjallur/geymsluhús (Adam). Fjórar búðir stóru vestan í hólnum. Var að nokkru grafið fyrir þeim inn í hólinn. Vissu dyr á þeim einnig frá vestri. Norðanvert í hólnum stórðu fjórar verbúðir, tvær og tvær saman (ein þeirra hét Meinþröng), en milli þeirra var allstórt bátanaust. Þar hafði vetrarskjól Fönix, teinæringur allstór, sem var hákarlaskip Kollsvíkinga (sjá þar)... Tveir lækir féllu til sjávar milli klettanna; Syðsti-lækur, oftast nálægt eða fram með Syðri klettum en Búðarlækur meðfram Norðari klettum sunnanverðum. Sunnan við Syðri lækinn var ein verbúð og fjárkofi, sem einnig var notaður sem verbúð. Við lækinn sunnanverðan voru ruðningar, þar sem gert var að fiski, og fiskkrær, sem fiskurinn var saltaður í. Við þennan læk voru þó sjaldan meira en þrjár til fjórar skipshafnir. Stundum var lækurinn það vatnslítill að hann hvarf í sanddyngjur er lágu nær sjónum. Meðfram Búðarlæknum áttu allt að 14 skipshafnir ruðninga sína, og nokkrar þær efstu áttu yfirbyggðar söltunarkrær; voru það einkum heimamenn. Aðrir, sem neðar áttu ruðninga, söltuðu oftast fiskinn í stóra kassa, en þegar hann var rifinn upp og umsaltaður var hann borinn á öruggari stað, vegna flóða sem komið gátu ef brimaði um stórstreymi. Einkum var þarna engu vært þegar hausta tók að vetrinum. Syðst á Norðari klettum stóðu fjórar verbúðir og eitt fjárhús í hvirfingu. Á klettshorninu stóð fjárhúsið, en til hliðar við það á aðra hönd tvær verbúðir (Grundabúð og Klettabúð). Sneru dyr gegnt suðvestri, en skammt frá dyrum var brattur sand- og moldarbakki en hallaði niður að Búðarlæknum. Bak við fjárhúsið stóð verbúð; sneri hlið að gafli fjárhússins og dyrum gegnt norvestri. Fjórða verbúðin stóð bakvið hinar tvær fyrrnefndu búðir og sneri hlið að göflum þeirra og dyr gegnt suðaustri; stóð hún einnig nokkuð hærra en þær. Á norðurhorni Norðari kletta var enn ein verbúðarhvirfing; fjórar búðir. Ein allstór (Napi), sneri stöfnum í norðvestur og suðaustur en dyr á miðri hlið, gegnt suðvestri. Tvær búðir stóðu hlið við hlið meðfram suðausturenda hinnar fyrstnefndu og voru dyr á stöfnum þeirra er sneru í suðaustur. Var sú fjórða (Norðurpóllinn) staðsett þannig að annar hliðarveggur vissi að göflum hinna tveggja síðastnefndu, en gafl að norðvesturenda hinnar fyrstnefndu. Dyr þessarar búðar sneru í austnorður. Skipshafnir frá þessum verbúðum, sem voru 5, höfðu athafnasvæði...meðfram læk er var skamman spöl norðan við Norðari kletta og hét Breiðilækur. Lækirnir sem um hefur verið getið komu í góðar þarfir til uppþvottar á fiskifangi áður en sett var í verkun; salt eða herslu.....Nokkrar af búðunum höfðu ekki fast sérheiti heldur voru kenndar við þann formann sem húsum réði. Auk fyrrnefndra búða fengu fleiri sérheiti um stundarsakir sem ekki tolldu við þær nema skamma hríð. Má þar nefna heitin Jerúsalem; Jeríkó; Sódómu o.fl.“ (KJK; Kollsvíkurver).
„Lyng var víða rifið til eldunar... Greiðsla fyrir lyngtöku fólst alls staðar í uppsátursgjaldinu nema í Kollsvíkurveri, en þar var hún einn harður steinbítur frá hverjum manni; lyngsteinbítur. Auk eldiviðarlyngs máttu menn slíta þar svo mikið lyng að nægði í bálk eða rúm“ (LK; Ísl. sjávarhættir II).
Kollsvíkurætt (n, kvk) Mikil ættbálkur sem rakinn er frá Einari Jónssyni. Hann fæddist á Hallsteinsnesi við Þorskafjörð 1759; flutti að Vatneyri um 1790 og var bóndi í Kollsvík frá 1798 til dauðadags 1836. Afkomendur Einars hafa búið í Kollsvík frá þeim tíma, þó langflestir af ættinni búi vitaskuld annarsstaðar á landinu, og reyndar víðsvegar um heimininn. Reyndar á ættin eldri rætur í Kollsvíkinni, því forfeður Guðrúnar Jónsdóttur, konu Einars, bjuggu í Kollsvík uppúr 1700, t.d. bræðurnir Bjarni Jónsson í Kollsvík og Halldór Jónsson á Láganúpi; tveir hinna kunnu Sellátrabræðra frá Tálknafirði. Einar Jónsson var stórbóndi og virðingarmaður á sinni tíð; átti hlut í einni fyrstu skútu sem til landsins kom; stundaði síðastur Íslendinga járnvinnslu úr mýrarrauða; var sækjandi í Sjöundármálum; átti bókina Fornótt, sem sumir töldu galdraskræðu; átti í útistöðum við galdramann í Arnarfirði vegna hvalhlutar og kvað niður sendingar frá honum. Hann þótti fylginn sér í viðskiptum og lét ógjarnan hlut sinn fyrir öðrum, en um leið sanngjarn höfðingsmaður. Stundum er það sagt einkenna fólk af kollsvíkurætt að það sé stíft á meiningunni og sjálfstætt í hugsun, en um leið sanngjarnt og hjálpfúst. Sumir hafa verið nefndir þvergirðingar og sérvitringar en sumir þykja manna mestir sáttamenn og félagsmálafrömuðir. Nokkuð þykir skiptast í tvö horn hvað peningavit snertir; nokkrir helstu auðmanna landsins eru af Kollsvíkurætt meðan öðrum helst ekki á nokkurri krónu. Óvíst er hvorum hamingjan fylgir að málum; en flestir fara þarna meðalveginn. Bókvit og fróðleiksfýsn þykir fylgja ættinni, og þá er þar mikið um hagleiksfólk, listafólk og skáld. Kollsvíkingar þykja yfirleitt fremur skýrmæltir og háværir í tali og ófeimnir að segja sína skoðun. Er af því komið sérstakt hugtak; svonefndur kollsvíkurhávaði. Upp og ofan er hvað menn eru fjárglöggir og fisknir, eins og gengur, en til þess var tekið að Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi þekkti ekki einungis allar sínar kindur á langleið með nafni; heldur þekkti hann einnig allar kindur á nærliggjandi bæjum; þær sem á Breiðavíkurrétt komu. Lýkur hér palladómum um ættingjana, en um ættina má ýmislegt sjá í bók Trausta Ólafssonar; Kollsvíkurætt, sem út kom 1960, og í niðjatali Guðbjartar og Hildar frá Láganúpi sem út kom 1989.
Kolluband (n, hk) Hnýfilband; landfesti; spotti um hnýfil báts, t.d. til að hafa stjórn á honum í fjöru.
Kollublettur ( n, kk) Lítill blettur; svo lítið svæði að skvetta má yfir það úr hlandkollu. Sjá hlandkollublettur. „Það tekur því varla að slá þennan kollublett meðan nóg annað er til“.
Kollur (n, kk) A. Gæluorð um höfuð/mannshöfuð. „Kollurinn er enn klár, þó skrokkurinn sé orðinn lasinn að öðru leyti“. B. Lítill stóll, án baks; kollustóll. „Ég skal sitja á kollinum“.
Kollustóll (n, kk) Stóll án arma, oftast fremur lítill; kollur.
Kollvelta (s) Steypa um koll; velta. „Þessi staðreynd kollveltir öllum fyrri kenningum“.
Kollvelta (n, kvk) Bylta; fall; hrun; gjaldþrot. „Eitthvað hef ég skurslað mig á hendinni í þessari kollveltu“.
Kollvik (n, hk, fto) Um háralag manna; hárlausa svæðið upp af gagnauganu. „Hækkuð kollvik eru oft fyrirboði á meiri skallamyndun, eins og margir Kollsvíkingar hafa sannreynt“.
Kollvotur (l) Blautur á höfði; votur af ágjöf. „Sjódrífan var svo mikil að menn urðu kollvotir þarna í fjörunni“.
Kolmórauður (l) Mjög skítugur/jarðlitur/ dökkur að lit. Einkum notað um vatn. „Þarna hafði komið mikil skriða yfir veginn, og í jaðri hennar beljaði um tíma kolmórauð á“.
Kollvökna (s) Blotna á höfði. „Mér sýnist við gætum kollvöknað ef við reyndum að fara um röstina núna“.
Kolmórauður (l) Dökkmórauður. „Það er varla hægt að hanga hér á þessum þaraþyrsklingi öllu lengur; kolmórauðir tittafjandar og ekkert nema hringormaveita“!
Kolniðamyrkur (n, hk) Svartamyrkur; algert myrkur. „Það var kolniðamyrkur úti. Við heyrðum að fyrstu skipbrotsmennirnir voru að koma“ (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg).
Kolniðaþoka (n, kvk) Mjög dimm/þétt þoka. „Maður finnur illa bólin í þessari kolniðaþoku“.
Kolófær (l) Alls ekki fær; alveg ófær. „Hæðin er kolófær eftir áhlaupið“. „Sundið var orðið kolófært“.
Kolótt (l) Um lit á sauðfé; Dökkleit/grá í framan en hvít á lagðinn. Séu fætir einnig gráir er ærin golsótt. Einnig um mann sem mjög er skítugur í andliti.
Kolófær (l) Algerlega ófær. „Það er kolófært neðra sniðið“!
Kolófærð (n, kvk) Mikil ófærð vegna sjóa. „Við vorum innilokuð í nokkra dga í kolófærð og illviðri“.
Kolrangt (l) Algerlega rangt; út í hött; fjarstæða. „Þetta er kolrangt hjá honum; ég skal segja ykkur hvernig þetta gekk alltsaman til“.
Kolrugla (s) Rugla alveg; snarrugla; gera alveg ringlaðan. „Þetta kolruglar mann bara í ríminu“.
Kolruglaður (l) Snarruglaður; alveg ringlaður. „Ég hlusta ekki mikið á þann kolruglaða karlfausk“.
Kolryðga (s) Ryðga mjög mikið. „Járnið er fljótt að kolryðga, sé það ekki málað“.
Kolryðgaður (l) Mikið ryðgaður; haugryðgaður. „Í boxinu voru nokkrir koryðgaðir naglar“.
Kolstífla (s) Stífla/þétta gjörsamlega. „Settu ekki of mikinn pappír í klósettið; þá kolstíflast lagnirnar“.
Kolstíflaður (l) Alveg stíflaður. „Skurðurinn er samanfallinn á kafla, og kolstíflaður“.
Kolsvartabylur / Kolsvartaél (n, kk/hk) Mjög dimmur bylur; svartnættisbylur; svartaél. „Ekki léttir hann enn í þennan kolsvartabyl“. „Hann skall á með kolsvartaéli eins og hendi væri veifað“.
Kolsvartamyrkur (n, hk) Niðamyrkur; kolamyrkur; þreifandi myrkur. „Ég sé ekkert í þessu kolsvartamyrkri“!
Kolsvartur (l) Mjög dökkur/dimmur; alveg svartur. „Gimbrin er hvít en hrúturinn kolsvartur“.
Koltjara (n, kvk) Tjara sem unnin er með eimun kola. Hrátjara/viðartjara er hinsvegar unnin með eimun viðar. Bátar voru gjarnan bikaðir með koltjöru á tímum útgerðar í Kollsvíkurveri.
Kolunga (s) Um egg; verða mjög ungað. „Það þýðir ekkert að fara í egg eftir að þau eru farin að kolunga“.
Kolungað (l) Um egg; farið að unga mikið; kominn goggur, augu og e.t.v. fleira. „Þetta er orðið kolungað“.
Kolúrbræddur (l) Um vél; gjörsamlega úrbrædd; ónýtar vélalegur. „Hann gleymdi að athuga með smurolíuna, svo nú situr hann uppi með kolúrbrædda vél“!
Kolvitlaus (l) Snarvitlaus; alveg ær. „Þú stefnir beint á klakkinn; ertu alveg kolvitlaus maður“?!
Kolvitlaust veður (orðtak) Ofsaveður. „Stuttu síðar barst beiðnin um að við færum að bjarga skipbotsmönnunum (af Sargon). En veðrið var svo kolvitlaust að það þýddi ekkert að hreyfa sig af stað strax“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg).
Kom allt fyrir eitt/ekki (orðtök) Sama hvað var reynt; þrátt fyrir að allt væri reynt. „Við lögðumst allir í reipið, en það kom allt fyrir eitt; sama þó við toguðum af öllum kröftum. Tréð bifaðist ekki“.
Kom (einhver) fjandinn í spilið / Kom (eitthvað) uppá (orðtak) Fór eitthvað miður/úrskeiðis. „Eitt sinn var ég giftur, og átti konu og bú/ á öllu slíku var þá mikill kraftur./ En fjandinn kom í spilið og farin er hún nú;/ ég fer víst ekki að byrja á slíku aftur“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Kom vel á vondan (orðtak) Hitti þann fyrir sem réttmætt var; mátti eiga von á. „Hann þurfti að eltast við rollurnar sem sluppu út. Það kom vel á vondan; hann hafði sjálfur ekki gengið vel frá hliðgrindinni“!
Koma (n, kvk) Innlit; tilkoma. „Þú þarft að stoppa lengur í næsta skipti; þetta er engin koma hjá þér“! „Komu hans var mjög fagnað“.
Koma (s) A. Mæta á stað; nálgast. B. Setja. „Nú er Gummi kominn á Gjögra og hefur komið lömbum sínum í réttina“ (PG; Veðmálið).
Koma (einhverjum) (s) Vera (einhverjum) hagstætt/ í hag; henta. „Það kom honum heldur betur að hafa hana sér til aðstoðar“. „Það kemur mér ágætlega að hafa þetta svona“.
Koma að (orðtak) A. Verða; ske. „Þegar kom að því að gera upp veðmálið var ekki viðhöfð nein smámunasemi“ (PG; Veðmálið). B. Fá færi til að ræða. „Ég náði að koma því að í ræðunni að þingmenn mættu láta sjá sig endrum og eins“. C. Um róðra; koma í land; lenda. „Svo reri hann á tvær árar framí en sagði mér að vera í barkanum, sem er fremsta rúmið í bátnum, og kasta í land tauginni þegar að væri komið því nægur mannskapur var í fjörunni að taka á móti okkur“ (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). D. Ganga að; verða viðstaddur. „Húsið var opið þegar ég kom að því“.
Koma að notum (orðtak) Nýtast. „Sá hvalur kom þó að frekar litlum notum“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Koma að óvörum (orðtak) Birtast/koma óvænt/fyrirvaralaust. „Þessi tillaga kom fundarmönnum flestum að óvörum“. „Það kom mér að óvörum að hann skyldi nefna þetta“. Sjá að óvörum; óvar; koma á óvart.
Koma að sér (orðtak) Gera vinveitt. „Hún var einstaklega lagin við að koma að sér börnum“.
Koma (ekki) að sök (orðtak) Verða (ekki) til skaða; gera (ekki) til. „Engan hafði ég hnífinn en það kom ekki að sök. Ég náði þessu í sundur hníflaust“.
Koma (ekki) að tómum kofanum (hjá einhverjum) (orðtak) Fá (engar) upplýsingar hjá einhverjum; fá (ekkert) að vita hjá einhverjum. „Við spurðum gamla manninn, og þar komum við aldeilis ekki að tómum kofanum; hann gat sagt okkur margt og mikið um þessa hluti“.
Koma aðvífandi (orðtak) Bera að; koma að. „Hann kom aðvífandi, rétt í þann mund sem ég var að fara“.
Koma (einhverju) af stað (orðtak) Hefja eitthvað; setja eitthvað í gang. „Ekki veit ég hverjir hafa komið þessari kjaftasögu af stað“. „Hann kom ekki jeppanum af stað í brekku nema með því að setja fyrst steina fyrir hjólin“.
Koma afturábak/öfugt útúr (orðtak) Um illa orðaða setningu/ræðu. „Honum var svo mikið niðrifyrir að þetta kom allt afturábak útúr honum“.
Koma anstígandi (orðtak) Koma gangandi/ í rólegheitum. „Hann kemur þarna anstígandi; ég læt hann bara tala við þig sjálfan um þetta“.
Koma askvaðandi (orðtak) Koma með áberandi hætti; koma með fyrirgangi; birtast greinilega. „Hann kom askvaðandi þegar við ætluðum að ýta frá, og sagðist hafa gleymt sér dálítið“.
Koma auga á (orðtak) Sjá; reka augun í; uppgötva. „Við vorum að hætta að leita þegar hann kom auga á kindurnar uppi undir klettum“.
Koma á (orðtak) A. Gera að venju; innleiða. „Oddviti taldi einnig nauðsynlegt að koma á kennslu í söng og leikfimi“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). B. Um skytterí; hitta. „Ég sá ekki betur en kæmi á tófuna, en hún slapp niður í urðina“.
Koma á daginn (orðtak) Koma í ljós; sannreynast. „Síðar kom á daginn að ég hafði rétt fyrir mér“.
Koma (einhverju) á flot (orðtak) Koma af stað slúðursögu/lygasögu; bera út slúður. Líking við sjósetningu báts.
Koma á laggirnar / Koma á fót (orðtak) Stofnsetja; hefja. „Bændur komu á laggirnar sameiginlegu sláturhúsi“. Lögg er brún á tunnubotni, eða öllu heldur skoran í tunnustöfunum sem tunnubotninn situr í. Tunnu er komið á laggirnar þegar hún er sett saman og girt með gjörðum. Kind sem farið hefur afvelta er komið aftur á fót, en líkingin er einnig notuð þegar stofnað er til félags, rekstrar o.fl.
Koma (einhverju) á framfæri (orðtak) Koma til skila; bera skilaboð. „Ég kom því á framfæri við hann að honum væri heimilt að fara þarna í egg í vor; svo framarlega sem landshlut væri skilað“. „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri“ (PG; Veðmálið).
Koma á kaldan klaka (orðtak) Verða til vandræða; koma í vandræði/vanda; valda hörmungum/gjaldþroti/húsmissi. „Árans brennivísdrykkjan hefur komið mörgum á kaldan klaka“.
Koma (einhverjum) á kné (orðtak) Knésetja; bera sigurorð af; sigrast á. „Ellin kemur öllum á kné sem aldri ná“. Vísar til bardaga eða glímu.
Koma (einhverju) á laggirnar / Setja (eitthvað) á laggirnar (orðtök) Stofnsetja eitthvað, t.d. fyrirtæki eða félag. „Valdimar Össurarson eldri átti mestan þátt í að koma bindindisfélaginu á laggirnar“. Líking við það að reisa upp tunnu, en lögg getur bæði þýtt brún á tunnu, eða falsinn sem tunnulokið fellur í.
Koma á legg (orðtak) Setja á stofn; stofna; hefja rekstur; ala upp. „Bændur í Kollsvík komu á legg jarræktarfélagi þegar fyrsti traktorinn kom“.
Koma á óvart (orðtak) Koma að óvörum; koma fyrirvaralaust/óvænt. „Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður“ (PG; Veðmálið).
Koma á rekspöl (orðtak) Koma/setja af stað. „Gott að búið sé að koma þessu máli á rekspöl“. Rekspölur er sú vegalengd sem reka þarf fé til að það haldi áfram sjálfviljugt á hagabeit. Þegar fé var t.d. hleypt út úr fjárhúsi á Láganúpi var því annaðhvort komið á rekspöl niður að sjó, ef líkur voru á fjörubeit; framá Tún ef beita átti því t.d. á Foldunum; eða upp á Hjalla til beitar á Ormum, Flötum eða Hnífum. Sjá komast á rekspöl.
Koma á réttan kjöl (orðtak) Bæta það sem farið hefur úrskeiðis. „Reksturinn er óðum að komast aftur á réttan kjöl“. Dregið af því að hvolfa upp báti; annaðhvort í sjónum eftir óhapp, eða á landi eftir geymslu.
Koma (einhverjum) á sporið (orðtak) Hjálpa einhverjum í byrjun. „Ég kom honum aðeins á sporið í algebrunni“.
Koma (einhverju) á stofn (orðtak) Sjá setja á stofn.
Koma áleiðis (orðtak) Koma einhverju áfram; láta berast. „Ég skal koma þínu svari áleiðis til hans“.
Koma ár sinni (vel) fyrir borð (orðtak) Koma sér í góða aðstöðu; koma sínum málum áfram. „Þessum þrýstihópi hefur tekist vel að koma sinni ár fyrir borð“. Dregið af því að vel takist að leggja út ár á bát.
Koma blaðskellandi/ rassskellandi (orðtak) Koma með fyrirgangi/asa. „Hver kemur þarna blaðskellandi yfir víkina“? „Hversvegna kemur allur fjárhópurinn rassskellandi heim Fitina; er hundfjandinn að atast í þeim“?
Koma boðum til (einhvers) (orðtak) Senda einhverjum skilaboð; gera einhverjum boð/orð. „Við þurfum að koma boðum til hans um þessa niðurstöðu“.
Koma dagar/tímar - koma ráð (orðatiltæki) Viðhaft þegar upp koma vandamál sem ekki sést strax hvernig má leysa. Reynslan sýnir að lausnir finnast á öllum vandamálum þegar frá líður.
Koma einkennilega/undarlega fyrir sjónir (orðtak) Sýnast einkennilegt/undarlegt. „Það kemur mér einkennilega fyrir sjónir ef þetta er ógert; hann er vanur að standa við orð sín“. Sjá koma spánskt fyrir sjónir.
Koma ekki að tómum kofanum (orðtak) Geta ekki gert orðlausan/ svara vant. „Þeir komu ekki að tómum kofanum hjá honum þegar þeir spurðu frétta“.
Koma ekki dúr á auga / Koma ekki blundur á brá (orðtök) Vera andvaka; ná ekki að festa svefn. „Mér kom ekki dúr á auga af áhyggjum“. „Henni kom ekki blundur á brá þá nóttina“.
Koma ekki upp orði (orðtak) Verða orðfall; eiga ekki orð; ná ekki að tala. „Ég varð svo hissa að ég kom ekki upp nokkru orði“. „Hann kom ekki upp orði lengi vel, vegna mæði“.
Koma flatt uppá (orðtak) Koma á óvart; verða fyrir óvæntu atviki/ummælum. „Það kom alveg flatt uppá mig að hann væri látinn“. Líking við það að ólag komi á síðu báts, sem er hættulegra en komi það á stafninn.
Koma fram (orðtak) Birtast; koma í ljós. „Ýmislegt nýtt kom fram á fundinum“. „En báturinn kom aldrei fram, og ekki neitt sem honum tilheyrði“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Koma fram/niður í seinna verkinu (orðtak) Leiða til vandræða síðar; hafa slæmar afleiðingar. „Hertu vel að netasteinunum; það kemur bara fram í seinna verkinu ef þeir detta úr“.
Koma framá (orðtak) Verða áliðið vetrar. „Það ætti að létta nokkuð á fóðrum þegar kemur framá“.
Koma framá sjónarsviðið (orðtak) Verða sýnilegur; koma fyrir almenningssjónir.
Koma (einhverju) frá (orðtak) Ljúka við eitthvað verkefni, þannig að það tefji ekki fyrir öðru; klára; afljúka. „Ég hefði helst viljað koma þessari netahreinsun frá á morgun“.
Koma (einhverju) fyrir (orðtak) Finna einhverju pláss/stað. „Ingvar Guðbjartsson bar fram fyrirspurn um hvers vænta mætti um möguleika á því að koma börnum fyrir til dvalar til náms“ (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 30.03.1963; ritari ÖG).
Koma fyrir ekki / Koma fyrir eitt (orðtak) Vera árangurslaust; hafast ekki. „Hann virtist ekkert heyra, og kom fyrir eitt þó ég æpti af öllum lífs og sálar kröftum“. „Kom fyrir ekki þó allir tækju á; skipið haggaðist ekki“.
Koma (einhverju/einhverjum) fyrir kattarnef (orðtak) Drepa eitthvað/einhvern; spilla einhverju; eyðileggja. „Hann var fljótur að koma þessari hugmynd fyrir kattarnef, og færði fyrir því góð rök“.
Koma fyrir sjónir (orðtak) Sýnast; virðast. „Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir, þá verður ekki róið í dag“.
Koma/reka af höndum sér (orðtak) Koma einhverju úr sinni umsjón/ábyrgð. „Þegar Stína hafði komið fyrri hópnum af höndum, síðari hluta sumars, fór hún að verpa að venju...“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).
Koma fyrir sig (orðtak) A. Talað var um að „honum gangi illa að koma áttinni fyrir sig“ þegar vindátt varð ekki að vonum, t.d. varðandi þurrk eða sjóveður. B. Muna; þekkja; rifja upp í huganum. „Ég sá þarna mann sem ég kannaðist við, en kem því samt ekki fyrir mig hvað hann heitir“.
Koma hart niður (orðtak) A. Fara illa út úr veikindum/barnsburði. „Ég kom ári hart niður í flensunni“. B. Bitna illa á; mæða mikið á; leika grátt. „Snjóþyngslin komu harðast niður á þeim sem treyst höfðu á útibeit“. „Kom þetta mjög hart niður á útbeitarjörðum“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1937).
Koma höndum yfir (orðtak) Fá;eignast; ná í. „Mikið þætti mér varið í að koma höndum yfir þessa bók“.
Koma höggi á (orðtak) A. Bókstafl. merking: rota; lemja. „Loks kom að því að fyrsti steinbíturinn kom inn fyrir, og varð ég að elta hann lengi áður en ég gat komið höggi á hann“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). B. Afleidd merking; Skaða málstað andstæðings.
Koma höndum yfir (orðtak) Ná í; klófesta; handsama. „Mikið langar mig að koma höndum yfir þessa bók“.
Koma illa/bölvanlega/ágætlega/vel saman (orðtak) Lynda illa/vel; vera í slæmu/góðu samlyndi. „Hrútunum kom svo bölvanlega saman að ég þurfti að smíða aðra stíu“.
Koma inn hjá (orðtak) Telja trú um; sannfæra um; kenna. „Það hefir sagt mér togaramaður að Englengingar kalli Látrabjarg Stálbjarg. Ef svo er þyrfti að koma þeirri leiðréttingu inn hjá Englendingum að þetta séu tvö fjöll sem langt sé á milli“ (SbG; Að vaka og vinna).
Koma í bága við (orðtak) Stangast á við; brjóta gegn. „Ég hef þetta svona ef það kemur ekki í bága við þig“.
Koma (einhverjum) í bobba (orðtak) Koma í vandræði. „Nú komstu mér í dálítinn bobba“. Bobbi er kuðungur, og skiljanlega er sá nokkuð aðþrengdur sem settur er í kuðung.
Koma (beint) í flasið á (orðtak) Mæta einhverjum rakleiðis. „Kindin ætlaði að laumast óséð upp gjána, en kom þá beint í flasið á þeim sem gekk brúnirnar“.
Koma í góðar þarfir (orðtak) Koma sér vel; koma að góðum notum; gott að hafa.
Koma í hug / Koma til hugar (orðtök) Falla til hugar; detta í hug; láta sér til hugar koma. „Mér kom í hug að þetta væri ekki svo vitlaust“. „Þetta datt mér ekki í hug“!
Koma (einhverjum) í koll (orðtak) Hefnast fyrir; súpa seyðið af. „Það kemur okkur í koll síðar ef illa er splæst“. „Nú kom það honum í koll að hafa ekki nennt að smala þarna í haust“!
Koma í kring (orðtak) Ráðstafa; haga málum; fá fram niðurstöðu. „Ég kom því í kring að þeir sættust á að ræða málin“.
Koma í land með öngulinn í rassinum (orðtak) Koma úr róðri fisklaus/án nokkurrar veiði.
Koma í leitirnar (orðtak) Finnast. „Þetta kemur í leitirnar fyrr eða síðar; þegar huldufólkið skilar því“.
Koma í ljós (orðtak) Birtast; sýna sig. „Við rofið í Grundabökkum hafa komið í ljós þykk mannvistarlög“.
Koma í lóg (orðtak) Fyrirkoma; eyða; klára/nota/eta til fulls. „Það eru einhver ráð með að koma egginu í lóg“. Líking við að lóga/farga/drepa.
Koma í mýflugumynd (orðatiltæki) Myndlíking um þann sem hefur komið en staðið mjög stutt við. „Það er nú varla að ég hafi séð hann; hann kom hér í fyrradag í mýflugumynd og var rokinn um leið“.
Koma (einhverjum) í opna skjöldu (orðtak) Koma manni á óvart/ að óvörum. „Þessar upplýsingar koma mér algerlega í opna skjöldu“. Líking við bardaga; að manni gefist ekki ráðrúm til að bera skjöld fyrir atlögu, t.d. þegar óvinir koma aftanað í orrustu.
Koma í sama stað niður / Koma útá eitt (orðtak) Gilda einu. „Það kemur í sama stað niður hvort þú greiðir þetta núna eða í næstu viku“. „Það kemur útá eitt hvora leiðina við förum“.
Koma í salt / Koma í þurrk (orðtök) Um fiskverkun; salta fisk/ hengja fisk til þurrks, og gera þær ráðstafanir sem til þarf. „…og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður og koma þeim í þurrk“ (IG; Æskuminningar).
Koma í tal (orðtak) Berast í tal; bera á góma. „Aðeins kom þetta í tal hjá okkur, en við ræddum það lítið“.
Koma í veg fyrir (orðtak) Hindra; stöðva. „Ég reyndi að koma í veg fyrir þetta, án árangurs“.
Koma (einhverju/engu/litlu/miklu) í verk/framkvæmd (orðtak) Láta verða af; framkvæma; afkasta. „Ég kom því aldrei í verk að setja annað stag á staurinn. Því er girðingin svona slök“. „Ég kemur engu í verk ef þú ert alltaf að tefja mig“!
Koma kunnuglega fyrir sjónir (orðtak) Líta kunnuglega út; þekkjast. „Hann kom mér kunnuglega fyrir sjónir, en ekki kom samt ég nafni hans fyrir mig“.
Koma mjólk í mat (orðtak) Gera mat úr mjólk; verka mjólkina. „Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í mat. Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni. Áfunum sem komu þegar strokkað var og mysunni af skyrinu var safnað í tunnu og látið súrna. Af áfunum kom þykk hvít sýra. Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið. Var hún höfð til matar; ein sér, eða höfð út á graut. Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Koma niður á (orðtak) Bitna á; valda skaða á. „Það kemur niður á frjósemi og framgangi fjárins ef illa er fóðrað um veturinn“.
Koma orðum að (orðtak) Finna rétt orðalag. „Ég kom ekki orðum að því sem ég vildi segja“.
Koma óorði á (orðtak) Breiða út neikvæða umsögn; mynda andúð gegn. „Margir Kollsvíkingar töldu að þessi skrif Halldórs Laxness væru eingöngu í þeim tilgangi að koma óorði á sveitafólk og vermenn“.
Koma saman (orðtak) Um fólk; hittast. „Þá var líka tíðkað að fara í heimsóknir á aðra bæi; einnig að koma saman og fara í boltaleik og útilegumannaleik þegar fór að dimma“ (IG; Æskuminningar).
Koma saman um (orðtak) Verða sammála/einhuga um. „Okkur kom saman um að geyma þetta til morguns“.
Koma sér (af stað) (orðtak) Fara; fara af stað; halda/leggja af stað; halda í áttina. „Ætli það sé ekki best að fara að koma sér“.
Koma sér að (verki) (orðtak) Hefja verk; byrja á einhverju. „Það var dálítið erfitt að koma sér að þessu í byrjun“. „Ætli sé ekki best að fara að koma sér að verki“.
Koma sér í mjúkinn hjá (einhverjum) (orðtak) Sækjast eftir vináttu við; koma sér vel við / smjaðra fyrir. „Hann er að reyna að koma sér í mjúkinn hjá þingmanninum með þessu“.
Koma sér saman um (orðtak) Verða sammála um. „Þeir þurfa að koma sér saman um verðið“.
Koma sér út úr húsi (orðtak) Bíta af sér; verða óvinsæll. „Hann kemur sér allsstaðar út úr húsi með slúðrinu“.
Koma sér vel (orðtak) A. Um hlut/eiginleika/aðstöðu; koma í góðar þarfir; koma að notum. „Það getur oft komið sér vel að vera með vasahníf“. B. Um manneskju; vera velliðin/vinsæl. „Þau hafa komið sér mjög vel við alla í sveitinni“.
Koma sér vel við (orðtak) Verða vinur; vingast við; koma sér í mjúkinn hjá. „Hann hefur reynst ágætur nágranni og komið sér vel við alla í sveitinni“.
Koma sig (orðtak) Lagast; batna; koma til; jafna sig; hafast; nást. „Sárið er ekki gróið ennþá, en það er allt að koma sig“. „Ég er ekki alveg búinn með smíðisgripinn, en þetta er allt að koma sig“.
Koma skikkan/skikki á (orðtak) Koma skipulagi á; skipuleggja; laga það sem hefur verið í óreiðu. „Hans fyrsta verk var að reyna að koma einhverju skikki á hlutina“.
Koma skoti á (orðtak) Skjóta; nýta tækifæri til að skjóta. „Hópurinn renndi sér svo hratt og lágt yfir byrgið að ég náði ekki að koma skoti á einn einasta máf“!
Koma spánskt fyrir sjónir (orðtak) Virðast einkennilegt/furðulegt. „Það kemur mér spánskt fyrir sjónir ef bensínið er búið af vélinni; ég hélt ég hefði fyllt tankinn í gær“. Svipað orðtak þekkist í Þýskalandi, og hefur líkum verið leitt að því að það eigi rætur að rekja til valdatíma Karls Þýskalandskeisara (1500-1558). Hann lét taka upp ýmsa spænska siði sem lögðust illa í marga landsmenn.
Koma (einhverju/öngvu) tauti við (orðtak) Koma viti fyrir; sannfæra; leiða fyrir sjónir. „Ég reyndi að sýna honum framá ruglið í þessum ráðherra, en það var ekki neinu tauti við hann komandi; flokkurinn hefur alltaf rétt fyrir sér“! „Ég gat öngvu tauti komið við vélarfjandann“!
Koma til (orðtak) A. Jafna sig; bæta sig; koma í stand. „Ég held að kvefið sé að batna; ég er allur að koma til“. „Vélin var öll í lamasessi, en mér tókst að koma henni til“. B. Koma til greina/mála. „Ekki hefur komið til hér að leggja niður kirkjur, fyrr en þá núna..“ (SG; Kirkjur; Þjhd.Þjms).
Koma til álita / Koma til greina / Koma til mála (orðtök) Vera möguleiki; hugsanlegt; gæti verið. „Ég held að þessi aðferð komi varla til álita“. „Það kemur ekki til greina að þið farið af stað í svona tvísýnu veðri“! „Þetta kemur bara alls ekki til mála“!
Koma til dyrana eins og maður er klæddur (orðtak) Vera ekki með látalæti; vera hreinn og beinn; segja hlutina hreint út. Augljós líking.
Koma (einhverjum) til góða (orðtak) Gagnast einhverjum; verða til góðs. „Það kom mér til góða að vera sæmilegur í ensku“.
Koma til hugar (orðtak) Detta í hug; koma til greina. „Ég lét mér ekki til hugar koma að við næðum lúðunni um borð; bara tveir og ífærulausir“.
Koma til kasta (orðtak) Um framkvæmd/verk; koma röðin að. „Þá kom til kasta Borgu að aðstoða mág sinn við uppeldi barnanna... “ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Koma til leiðar (orðtak) Koma í kring; ráðstafa; haga. „Mér tókst að koma þessu til leiðar án vandræða“.
Koma til manns (orðtak) Ala til fullorðinsára með góðum árangri. „Heiður eiga þau skilinn, foreldrar okkar, fyrir að ala upp allan sinn stóra barnahóp og koma honum til manns; þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og kröpp kjör“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Koma til róðra (orðtak) Um menn sem koma frá öðrum bæjum/sveitum í ver. „Þá komu menn af Barðaströnd og víðar til róðra þar; flestir úr einu byggðarlagi voru af Barðaströnd“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Þá komu líka karlmenn í verið til róðra; venjulega í fyrstu viku sumars“ (IG; Æskuminningar).
Koma til skjalanna (orðtak) Koma til; skipta sér af; blanda sér í mál. „Eitthvað þurfti sýslumaður að koma til skjalanna í þessum málarekstri“.
Koma til sögunnar / Koma til skjalanna (orðtak) Koma til; koma að málum; láta til sín taka. „Heyskaparhættir beyttust mjög þegar vélar komu til sögunnar“. „Verkið hefur gengið mikið betur eftir að sá vinnuþjarkur kom til skjalanna“.
Koma til tals (orðtak) A. Berast í tal; bera á góma; verða að umræðuefni. „Aðeins kom þetta til tal hjá okkur, en við ræddum það ekkert“. B. Koma til greina/mála; vera möguleiki. „Þetta kemur bara alls ekki til tals“!
Koma tímar, koma ráð (orðatiltæki) Vísar til þess að oft sjást möguleikar til lausna á vandamálum ef mál eru hugsuð eða fá tíma til að þróast. Speki sem oft er viðhöfð þegar lausn liggjur ekki strax augljós fyrir. „Ég hef ekki efni á þessu alveg eins og stendur; en koma tímar, koma ráð“.
Koma tölu á (orðtak) Telja; átta sig á fjölda. „Ég held hann eigi meira fé en tölu verði á komið“!
Koma/forða undan sjó (orðtök) Koma því sem er í fjöru í var fyrir sjógangi. „Síðan lenda þeir sínum bátum og koma þeim undan sjó, ásamt afla“ (KJK; Kollsvíkurver).
Koma/ganga undan vetri (orðtak) Einkum um ástand búfjár eða jarðar að vori. „Mér sýnist að féð komi þokkalega undan vetri“. „Jörð kemur misjafnlega undan vetri eftir svellalögin“. „Skepnur gengu betur undan vetri en búist var við…“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1956).
Koma undir (orðtak) Um barn; verða getið. „Honum reiknast til að krakkinn hljóti að hafa komið undir meðan eiginmaðurinn var fyrir sunnan“.
Koma upp (orðtak) Koma á fót; stofna; efna til; byggja. „Hann þarf að koma upp húsi fyrir þetta“.
Koma (sér) upp (orðtak) Búa sér til; verða sér úti um. „Hann er búinn að koma sér upp ágætum fjárstofni“.
Koma uppað (orðtak) Koma að landi; leggja uppað. „Hann var orðinn steitingshvass þegar við komum uppað.
Koma uppá (orðtak) A. Vilja til; koma fyrir. „Ég stefni á að flytja inn á laugardaginn ef ekkert kemur uppá“. „Hann tók með sér nauðsynlegustu verkfæri í ferðina ef eitthvað myndi koma uppá“. B. Um róðra; koma upp á grunn við land. „Svo missir Björgvin út árina þegar við vorum komnir nokkuð grunnt uppá...“ (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). C. Venja á; gera vanan. „Ég ætla ekki að koma honum uppá það að þurfa ekki að hafa fyrir þessu sjálfur“. Einnig „koma uppá lagið með“.
Koma uppúr dúrnum / Koma uppúr kafinu (orðtak) Upplýsast; verða kunnugt. „Það kom svo uppúr dúrnum að hann vissi meira um málið en hann vildi vera láta“. Líking við það að maður tali uppúr svefni og upplýsi þá um það sem maður ætlaði ekki að segja frá.
Koma vel á vondan (orðtak) Vera einhverjum mátulegt/jafngott; einhverjum hefnist fyrir. „Það sprakk uppi á Hálsi og ég varð að ganga niður. Það kom vel á vondan, því ég hafði trassað að gera við varadekkið“.
Koma vel fyrir (orðtak) Líta vel út við fyrstu sýn. „Nýi kennarinn kemur vel fyrir; allavega í byrjun“.
Koma við (orðtak) A. Um hlut; snerta; vera viðkomandi. „Snertu ekki á þessu; það er nýmálað. B. Um málefni; snerta; vera viðkomandi; varða um. „Þetta mál kemur mér ekkert við“. C. Koma í stutta heimsókn; líta við; stoppa „Útgerðarmenn verkuðu sjálfir fyrstu árin mest allan fiskinn og um tíma komu skip Sameinaða félagsins við á Víkunum og tóku fiskinn til útflutnings“ (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). „Farið var gangandi og gist á Tóftum, og svo var komið við í Hænuvík hjá Ólöfu systur mömmu á heimleiðinni“ (IG; Æskuminningar). D. Geta gert; vera í færum til. „Ég veit ekki hvort ég kem þessu við á morgun, en ég reyni“. „Sökum anna gat ég ekki komið við að skoða heybirgðir á Sandinum í haust…“ (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1923).
Koma við kaunin á (einhverjum) (orðtak) Um það sem gert/sagt er gagnvart einhverjum; koma honum illa; særa. „Ég virðist eitthvað hafa komið við kaunin á honum með þessum athugasemdum“.
Koma við sögu (orðtak) Vera viðkomandi því sem sagt er frá. „Hann lánaði þeim bátinn, en kemur annars ekki við þessa sögu“.
Koma vitinu fyrir (orðtak) Leiða fyrir sjónir; fá ofanaf heimskulegum áformum. „Hann er ákveðinn í að róa; ég er búinn að reyna að koma vitinu fyrir hann en það er eins og að tala við stein“.
Koma víða við (orðtak) Nefna margt í frásögn/riti. „Hann rakti þessi mál í ræðunni, og kom víða við“.
Koma vöflur á (einhvern) (orðtak) Einhver er í vafa; verður hikandi. „Það komu nokkrar vöflur á hann þegar ég spurði hver ætti færið sem lúðan veiddist á“. Sjá vöflur.
Koma öfugt útúr (einhverjum) (orðtak) Um það sem sagt er; meining kemst ekki til skila. „Eitthvað kom þetta öfugt útúr honum; nema það að þeir misskildu þetta gjörsamlega“. Sjá allt kemur ögugt útúr.
Komandi (l/ n,kk) A. „Félagið verður stofnað í komandi mánuði“. B. „Hann byrjar í skóla á hausti komanda“.
Komast að (orðtak) Finna út; afla sér upplýsinga um. „Ég komst að því að hann hafði ekki sagt alveg satt“.
Komast að niðurstöðu (orðtak) Ná að útkljá álitamál/deilumál; fá niðurstöðu í skoðun/rannsókn/útreikning; sætta sjónarmið. „Við komumst að þeirri niðurstöðu að fresta róðrinum til morguns“.
Komast að raun um (orðtak) Uppgötva; sjá; finna út. „Ég komst að raun um að þetta var mjög erfitt verk“.
Komast að því fullkeyptu (orðtak) Fá refsingu; fá fyrir ferðina. „Hann á nú eftir að komast að því fullkeyptu ef hann stendur ekki við orð sín“!
Komast af (orðtak) A. Sleppa lifandi úr slysi. „Hann var víst sá eini sem komst af þegar bátnum hvolfdi“. B. Vera bjargálna/ nægilega efnaður til að framfleyta sér. „Við komumst sæmilega af, en ekkert framyfir það“.
Komast/geta af/fyrir eigin rammleik/ af sjálfsdáðum (orðatiltæki) Gera/komast sjálfur. „Ég held að kindin komist varla uppúr ganginum af eigin rammleik“.
Komast af með (orðtak) A. Geta bjargast við; láta sér nægja. „Það er erfitt að komast af með eina ár“. B. Geta afborið/þolað. „Það er alveg hægt að komast af með karlinn, ef maður kann á hann“.
Komast á bragðið (orðtak) Venjast á; fá forsmekkinn af. „Maður verður alveg sjúkur í þennan mat þegar maður kemst á bragðið“.
Komast á fullorðinsár (orðtak) Verða fullorðinn/fullvaxinn; fullorðnast. „Síðar þótti því bregða fyrir, þegar báðir komust á fullorðinsár, að Júlli hefði ekki vaxið uppúr hlutverki uppalandans gagnvart Gumma“ (PG; Veðmálið).
Komast á græn grös (orðtak) A. Um búfé; komast í kjarngóða bithaga. „Hún var orðin ansi horuð um vorið, en braggaðist fljótt þegar hún komst á græn grös“. B. Líkingamál um vaxandi velgengni manna.
Komast á kjöl (orðtak) Bjarga sér úr sjávarháska með því að komast á kjöl báts sem er á hvolfi. Þar gat skilið milli lífs og dauða á þeim tímum sem menn voru ósyndir. „Bátnum hvolfdi, en 5 mannanna komust á kjöl og var þeim bjargað úr landi“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). „Þeir komast á kjöl, því flestir kunnu eitthvað í sundi“ (KJK; Kollsvíkurver). „Komust fyrst allir á kjölinn nema sveinninn Einar, sem flaut fyrir aftan skipið“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).
Komast á koppinn (orðtak) Verða að veruleika; komast á legg; verða stofnað. „Félagið komst á koppinn, þrátt fyrir mikla byrjunarörðugleika“.
Komast á kreik (orðtak) A. Fara að hreyfa sig; fara á fætur. „Hann átti lengi í þessum veikindum, og komst ekki á kreik fyrr en eftir rúma viku“. B. Oftast nú til dags notað um söguburð. „Eftir þetta komust ýmsar kjaftasögur á kreik; misjafnlega fráleitar“. Sjá fara á kreik.
Komast á kvis (orðtak) Fréttast; spyrjast út; komast á kreik; fá fæturna. „Eitthvað komst á kvis um þetta“.
Komast á legg (orðtak) Vaxa úr grasi; ná unglings- eða fullorðinsaldri. „Eftir að ég komst á legg gat ég aðstoðað þau við búverkin“.
Komast á rekspöl (orðtak) Komast áfram/áleiðis; fá framgang. „Ég held að ég sé loksins að komast eitthvað á rekspöl með þessa ritgerð“. Sjá koma (einhverju) á rekspöl.
Komast á snoðir um (orðtak) Hafa veður af; fá nasasjón af; uppgötva. „Ég komst á snoðir um þeirra fyrirætlanir og tókst að koma í veg fyrir þessa vitleysu“. Snoðir merkir hér það sem þefað er uppi, og er stofnskylt orðinu að snuðra, en fjarskyldara orðinu snoð.
Komast á spena (orðtak) Um ungviði, t.d. lamb; finna móðurspena eftir fæðingu og fá næringu. „Það skiptir miklu máli að lömbin komist strax á spena í svona kalsaveðri“.
Komast á strik (orðtak) Komast á rétta stefnu/ í rétt horf. Strik merkir stefna, í máli sjómanna.
Komast á svig við (orðtak) Komast til hliðar við eða framfyrir, með því að fara bogadreginn feril. Einkum notað um smölun kinda. „Ég ætla að laumast með klettunum og reyna að komast á svig við hópinn“.
Komast á vonarvöl (orðtak) Verða öðrum háður; leggjast í betl/förumennsku; verða gjaldþrota. Sjá vonarvölur.
Komast ekki með tærnar þar sem (einhver) hefur hælana (orðtak) Standast ekki samjöfnuð við einhvern; standa öðrum að baki. „Á þessu sviði kemst strákurinn ekki með tærnar þar sem faðir hans hafði hælana.
Komast ekki upp með neinn moðreyk / Komast ekki uppfyrir moðreyk (orðtök) Moðreykur er gufan sem leggur upp af moðhaugi þegar í honum hitnar við gerjun (sjá þar). Fyrrnefnda orðtakið, sem almennt er notað í dag og merkir að ná ekki fram málefni sem þykir óþarft eða innantómt, er í raun afbökun á því síðara sem nú er dottið úr notkun, en merkti að koma málefni ekki áfram. Vísar það þá til þess að málflytjandinn villist í hinum lágreista moðreyk, sem þó sést ekki nema niðrivið moðbinginn.
Komast fram (orðtak) Komast í róður. „Nú verðum við að fara að komast fram, ef við eigum að ná snúningnum“. „Það er nú að gera þvílíkan gutlanda við landið að það er vafasamt að við komumst fram“.
Komast frá (orðtak) A. Geta yfirgefið stað/verk. „Skjóstu með þetta fyrir mig; ég kemst ekki frá í augnablikinu“. B. Geta klárað verk. „Mér sýnist að hann ætli ekki að komast frá því að hreinsa einn streng fyrir kvöldið“. C. Komast fjær landi. „Leggðu strax út; við þurfum að komast aðeins lengra frá“!
Komast fyrir (orðtak) Ná tökum á; uppræta; stöðva. „Ég held ég hafi komist fyrir þennan leka“.
Komast fyrir vindinn (vend) (orðtak) Sjá kominn fyrir vindinn.
Komast hvorki lönd né strönd (orðtak) Komast ekkert; vera bundinn/hindraður af einhverjum ástæðum. „Í heila viku vorum við innilokaðir vegna óveðursins, og komumst hvorki lönd né strönd“.
Komast í bobba (orðtak) Sjá kominn í bobba; bobbi.
Komast í (sitt) fyrra horf (orðtak) Komast í það lag sem áður var. Merkir í raun að komast aftur á sömu stefnu. Sjá horf; komast í gott horf; halda í horfinu.
Komast í gott horf (orðtak) Komast í gott lag; verða með ásættanlegu móti. „Reksturinn er kominn í gott horf“. Horf merkir stefnu í sjómannamáli. Bátur sem er kominn í gott horf er kominn á rétta stefnu. Sjá halda í horfinu.
Komast í hann krappan (orðtak) Lenda í háska/hættu. „Maður hefur oft komist í hann krappan á langri ævi; enda gjarnan gælt við hætturnar, t.d. í bjargi og á sjó“. Vísar til þess að vera í kröppum sjó.
Komast hvorki afturábak né áfram (orðtak) Vera fastur; geta sif ekki hreyft. „Hann spólaði þarna í skaflnum og komst hvorki afturábak né áfram“.
Komast (ekki) í hálfkvisti við (orðtak) Vera ekki hálft/hálfdrættingur á við; blikna í samanburði við. „Það er sæmilegur afli, þó hann komist ekki í hálfkvisti við uppgripin í fyrra“.
Koma í (einhvers) hlut (orðtak) Falla undir hlutverk (einhvers); koma (einhverjum) til eignar. „Það kom í minn hlut að tilkynna honum þessa niðurstöðu“. Líking við skipti á afla.
Komast í kynni við (orðtak) Kynnast; ná að þekkja; komast í tæri/snertingu við. „Ég komst þarna í kynni við mann sem reyndist mér mjög hjálplegur“.
Komast í samt lag (aftur) (orðtak) Jafna sig; verða eins og áður.
Komast í tæri við (orðtak) Komast nálægt; komast í snertingu við/ námunda við. „Hann var farinn í róður á undan okkur svo ég komst ekki í tæri við hann“. Tæri merkir þarna skýra sýn, þ.e. að maður sé kominn nógu nærri til að greina vel.
Komast (upp) í vana (orðtak) Verða að venju; verða rútína/ósjálfrátt. „Ég var ókunnugur þessu í fyrstu, en það komst fljótt upp í vana“.
Komast í verk (orðtak) Verða úr; verða unnið/framkvæmt; gerast. „Ef þetta er ekki gert núna, þegar góður tími er til þess, þá er ég smeykur um að það komist aldrei í verk“!
Komast leiðar sinnar (orðtak) Komast það sem ætlað er; komast áfram. „Bjargið þarf að fjarlægja af veginum til að bílar komist leiðar sinnar“.
Komast lífs af (orðtak) Sleppa lifandi úr slysi. „Þeir sem voru á hvalbaknum komust allir lífs af; hinir fórust“.
Komast með tærnar þar sem annar hefur hælana (orðtak) Ná að halda í við einhvern í frammistöðu, getu eða öðru. „Já mikið átt þú eftir Björgvin; mikið átt þú eftir að læra til að komast með tærnar þar sem faðir þinn hefur hælana í sjómennskunni“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Komast til botns í (orðtak) Botna í; ráða framúr; skilja til fulls. „Enn hef ég ekki komist til botns í þessu máli“.
Komast til metorða (orðtak) Komast í virðingarstöðu; ver virtur. „Hann komst víst til einhverra metorða þarna í félaginu“.
Komast/koma til sjálfs sín (orðtak) Ranka við sér; fá aftur fulla meðvitund; verða eðlilegur. „Ég hálf rotaðist við höggið, en þegar ég komst til sjálfs mín aftur voru þeir að stumra yfir mér“.
Komast til skila (orðtak) Vera skilað á réttan stað; komast til rétts viðtakanda. „Hann sagðist bera ábyrgð á því að pósturinn kæmist til skila á réttum tíma“. „Seinna kom í ljós að umsóknin komst aldrei til skila, og þar með var tilraunum mínum til mennta hætt að fullu; að umdanskildu því að ég tók meirapróf bifreiðarstjóra haustið 1947“ (IG; Æskuminningar).
Komast til vits og ára (orðtak) Verða fullorðinn; vaxa úr grasi. „Þú skilur þetta þegar þú kemst til vits og ára“.
Komast upp (orðtak) A. Komast á brún á klettum, fjalli eða öðru. B. Komast til fullorðinsára; vaxa úr grasi. „Ég er fæddur 12. júlí 1896 á Grundum; bænum sem var niðri við sjóinn; sunnantil í víkinni. Pabbi og mamma bjuggu þar, og einnig afi og amma. Við vorum 9 systkinin sem komumst upp“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Komast upp á kant við (orðtak) Verða ósammála; verða sundurorða við; eiga í útistöðum við. „Honum virtist nokkuð gjarnt að komast upp á kant við þá sem hann þyrfti mest á að halda“.
Komast uppá (orðtak) Venjast við; geta vanist. „Það má ekki láta túnrolluna komast uppá að stökkva yfir“.
Komast uppá lagið með (orðtak) Ná tökum á; verða laginn við. „Hann er að komast upp á lagið með þetta“.
Komast upp með (orðtak) Sleppa með án refsingar. „Þeir mega ekki komast upp með svona vinnubrögð“.
Komast (ekki/varla) úr sporunum (orðtak) Geta (ekki/varla) gengið/ komist áfram. „Ófærðin var svo mikil þarna í lautinni að féð komst varla úr sporunum“. „Hann var svo þreyttur að hann komst ekki úr sporunum“.
Komast við (orðtak) Vikna; fara að gráta; beygja af. „Maður kemst við, bara af tilhugsuninni um þetta slys“.
Komast yfir (orðtak) A. Geta farið yfir hindrun. „Ég komst yfir ána á vaðinu“. B. Fá í sínar hendur; ná að eignast. „Mig langar að komast yfir þessa bók“. C. Ná að samrekkja. „Hann var ágætlega giftur, en sögur gengu um að hann hefði komist yfir þær fleiri“.
Komdu (ævinlega) fagnandi (orðatiltæki) Ávarp þegar góðan gest ber að eða hann boðar komu sína.
Komið að leiðarlokum (orðtak) A. Komið á leiðarenda; komið í áfangastað. B. Oftast notað í afleiddri merkingu: Komið að endalokum/ævilokum; líftíminn liðinn. „Ég held að það sé hérumbil komið að leiðarlokum hjá þessum hjólbörugörmum“.
Komið annað hljóð í strokkinn (orðtak) Um breytt viðhorf/umtal. „Hann hefur verið á móti þessu hingaðtil, en nú finnst mér vera komið annað hljóð i storkkinn“. Hljóð breytist í strokki þegar smérið strokkast.
Komið á glæ (orðtak) Um færi; farið að liggja um of skáhallt útfrá bátnum vegna reks. „Það þýðir lítið að vera að þessu yfir harðasta fallið; færin eru öll komin á glæ og fiskurinn í botninn“. Sjá liggja á glæ.
Komið á rekspöl (orðtak) Komið áleiðis. „Víktu fénu upp á Hjallana. Þér er óhætt að koma heim þegar það er komið á rekspöl; það heldur áfram“. „Mér sýnist að þetta mál sé núna komið á nokkurn rekspöl“.
Komið framá (orðtak) Orðið áliðið; oftast notað þannig sérstætt um árstíðir. Framborið hart. „Það má búast við meiri óþurrkum þegar komið er svona framá“. „Hann var orðinn heylítill þegar kom framá“. „Þetta hafði gerst um miðjan vetur, eða þegar komið var framá“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Komið framá varir (einhvers) (orðtak) Einhver nærri búinn að segja. „Það var alveg komið framá varir mínar að segja honum að þegja þegar hún tók af mér ómakið“.
Komið fyrir vindinn (orðtak) Um framkvæmd/verk; komið svo langt að úr hættu sé; alveg að klárast. „Ég held að ég sé kominn fyrir vindinn með heyskapinn þetta sumarið“. Líking við vendingu seglskips“.
Komið í hús/höfn (orðtak) A. Bókstafleg merking. B. Búið að fá; klárað. „Ég held að málið sé alveg komið í höfn“.
Komið í óefni (orðtak) Kominn í klípu/vandræði. „Við uggðum ekki að okkur þegar bátinn rak að landi undan golunni, en hrukkum við þegar hann tók niðri í grjótinu“.
Komið vel á veg (orðtak) Um verk; langt komið. „Línulagningin er komin vel á veg“.
Komin að burði (orðtak) Um kú/kind; komin að því að bera. „Hún ætti að vera komin að burði núna; ef hún er þá ekki farin að hafa yfir“.
Komin augu (orðtak) Um þroskað egg; orðið eygt; farin að myndast augu í stropanum. „Þetta er orðið vel stropað, en samt ekki komin augu“.
Komin á steypirinn (orðtak) Um konu; komin nærri því að fæða barn; langt gengin með óléttu.
Komin úr barneign (orðtak) Um konu; komin framyfir barneignaaldur; hætt að geta getið börn.
Kominn að fótum fram (orðtak) Orðinn aldurhniginn; kominn á efri ár; kominn á grafarbakkann; gæti átt stutt eftir ólifað. „Það er erfitt fyrir hann að standa einn fyrir búinu; orðinn þetta aldraður og kominn að fótum fram“.
Kominn að niðurlotum (orðtak) Orðinn örþreyttur; örmagna; uppgefinn. „Ég var kominn að niðurlotum af mæði eftir öll hlaupin“.
Kominn á fallanda fót (orðtak) Orðinn framlágur/fyrirgengilegur/gamall/lélegur. „Flest húsin eru gömul og komin á fallanda fót“.
Kominn á fremsta hlunn með (eitthvað) (orðtak) Kominn alveg að einhverju; í tilferð með eitthvað. „Ég var kominn á fremsta hlunn með að segja honum frá þessu, en ákvað að láta það bíða“. Dregið af sjósetningu báts, sem er að renna af fremsta/síðasta hlunninum í sjóinn“.
Komin á tal (orðtak) Um kind; komin að burði; búin með meðgöngutímann. „Hún Mjallhvít hlýtur nú að fara að búast til. Hún er komin á tal fyrir nokkrum dögum og er ekki vön að hafa yfir.“.
Kominn á fallanda fót (orðtak) Orðinn veiklaður/lasburða/lélegur. „Hús eru þar flest komin á fallanda fót“.
Kominn á flugstig með (orðtak) Kominn á fremsta hlunn með; að því kominn að. „Hann var kominn á flugstig með að skjóta þegar hann mundi að byssan var óhlaðin“. Líking við það að fugl tekur flugið.
Kominn á fremsta hlunn með (orðtak) Kominn á flugstig með; að því kominn að. „Ég var kominn á fremsta hlunn með að henda pokanum þegar ég áttaði mig á að peysan var í honum“. Líking úr sjómannamáli: Formaður þarf að ákveða sjósetningu eftir að bátur er kominn á fremsta hlunn.
Kominn á grafarbakkann (orðtak) Orðinn mjög aldraður; kominn að fótum fram; gæti farið að deyja úr elli.
Kominn á kreik / Kominn á stjá (orðtök) Kominn á fætur; vaknaður og farinn að stússast. „Ég var kominn á kreik um sexleytið“.
Kominn (vel) á legg (orðtak) Orðinn fullvaxta/fullorðinn; orðið að verleika; farinn að standa sig vel.
Komin (langt) á leið (orðtak) Um konu; komin langt í meðgöngutíma barns. „Hún er komin svo langt á leið að hún treysti sér ekki í ferðalagið“.
Kominn á rausn (orðtak) Úr máli vermanna í Útvíkum; um þann sem á hákarlaskipi rær á lausaþóftu í barka. „Þegar róið var í steinbít í Víkum norðan Látrabjargs voru hákarlaskip endrum og sinnum mönnuð með tveimur áhöfnum venjulegra vertíðarbáta. Tveir unglingar voru þá oft látnir róa á lausaþóftu frammi í barka og við lausa keipa. Þessi lausaþófta kallaðist rausn. Lítil fremd þótti í að vera þar, enda tíðum sagt í niðrandi merkingu: „Hann er þá kominn á rausn““ (frás ÓETH; LK; Ísl. sjávarhættir.)
Kominn á steypirinn (orðtak) Líkingin er nú eingöngu notuð um að kona sé komin nálægt því að eignast barn. Var fyrrum víðtækara; notað um hvaðeina sem var nærri því að kollvarpast/umturnast. Steypir merkir einfaldlega það að missa jafnvægið; velta. Samanber það að skip steypir stömpum.
Kominn á straumana / Kominn á stjá / Kominn á stúfana (orðtök) Á ferðinni; kominn á þessar slóðir; kominn á fætur. „Ég sé ekki betur en veghefillinn sé kominn á straumana“. „Þú ert bara kominn á stjá svona snemma“. Hið fyrra er líklega upprunnið frá því að bátur væri kominn á fiskimið.
Kominn á tamp (orðtak) Kominn að endamörkum/takmarki. „Nú er búið að skrúfa upp í lampanum alveg á tamp. Ég held að við þurfum að skipta um kveik“. Tampur var festi til að festa veidda hákarla neðan á skip.
Kominn á vonarvöl (orðtak) Kominn á hrakhóla; kominn í þrot; flosnaður upp; orðinn bónbjargarmaður. Vonarvölur er fornt orð yfir betlistaf, og sá sem kominn er á vonarvöl er orðinn háður öðrum með ölmusu.
Kominn á þrot (orðtak) Kominn í enda á gangi í bjargi/klettum/fjallshlíð. „Ég fylgdi kindinni eftir þar til hún komst á þrot, en þar varð ég að skilja hana eftir“.
Kominn ferðahugur i (orðtak) Farinn að búast/hlakka til ferðar. „Er kominn ferðahugur í þig strax“?
Kominn fram á grafarbakkann / Kominn að fótum fram Á stutt eftir; kominn nærri andláti.
Kominn fyrir vindinn (vend) (orðtak) Um verk/athöfn; úr hættu; kominn á öruggari stað/leið. „Ég held að maður sé kominn fyrir vindinn (vend) með mesta heyskapinn, þetta sumarið“.
Kominn í bobba (orðtak) Kominn í vandræði; orðinn aðþrengdur/vandræðalegur. „Nú ertu kominn í dálítinn bobba. Eftir allar yfirlýsingarnar geturðu varla neitað þessu“! Bobbi er annað heiti á kuðungi, en merkir í þessu efni að vera kominn í keng. Sjá setja (einhvern) í bobba.
Kominn í hnapphelduna/knapphelduna (orðtak) Giftur; kominn í hjónaband.
Kominn í keng (orðtak) Orðinn krepptur; með líkamann krepptan í hnút. „Mér var orðið svo mál að pissa að ég var alveg komin í keng“!
Kominn í kippinn (orðtak) Orðinn kenndur/ölvaður. „Nú held ég að karlinn sé kominn allvel í kippinn“.
Kominn í (standandi) þrot/vandræði / Kominn í þröng (orðtak) A. Orðinn eignalaus/gjaldþrota/bónbjargarmaður. B. Orðinn uppiskroppa með eitthverjar nauðsynjar; orðinn orðlaus; á engan kost í leik. Önnur merking er í kominn á þrot.
Kominn köttur í ból bjarnar (orðtak) Hafa orðið umskipti; kominn staðgengill sem er allt annars eðlis. „Nú þykir mér köttur vera kominn í ból bjarnar; ég er ekki ánægður með að fá svona viðvaning í staðinn fyrir reyndan smalamann“!
Kominn langleiðina / Kominn langt/nokkuð á leið (orðtök) A. Kominn meginpartinn af leiðinni. „Ég var kominn langleiðina þegar þetta skeði“. B. Nærri búinn að ljúka við. „Ég er kominn langt á leið með skítmoksturinn“. C. Um meðgöngu. „Veistu hvað kýrin er komin langt á leið“?
Kominn til ára sinna (orðtak) Orðinn gamall/aldraður. „Hesthúsið er komið til ára sinna. Að öllum líkum hefur það verið byggt um 1650, sem þýðir að það er elsta skepnuhús landsins“.
Kominn til byggða/manna / Kominn til skila (orðtak) Kominn heim að byggðu bóli úr ferð/óbyggð; heimtur.
Kominn til með að segja (gera) (orðtak) Ætlar að /mun gera (segja). „Það er alveg óvíst hvað næsta ríkisstjórn kemur til með að gera í þessum málum“. „Það er enginn kominn til með að segja að þetta hafi gerst“.
Kominn til vits og ára (orðtak) Uppkominn; búinn að ná fullum þroska. „Þú skilur þetta kannski þegar þú kemst til vits og ára, stubbur minn“.
Kominn tími til (orðtak) Orðið tímabært; þarf að fara að gera. „Það er bráðum kominn tími til að hafa uppi og fara í land, ef við ætlum ekki að lenda í vandræðum á fjörunni“.
Kominn undir (orðtak) Um veiðiskap; fiskur kominn undir bátinn þegar fiskað er. „Mikilvægt er að hafa minnst eitt færi í sjó eftir að fiskur er kominn undir til að missa hann ekki undan. Ekki er gott að allir dragi samstundis.
Kominn undir græna torfu (orðtak) Búið að jarðsetja; látinn; búinn að vera. Vísar upphaflega til þess að einhver sé sálaður/látinn, en í seinni tíð notað um hvaðeina sem runnið hefur sitt skeið.
Kominn úr ábyrgð (orðtak) Um hertan fisk; farinn að þola flest veður og þurfa því ekki eins mikið eftirlit. „...en er steinbíturinn var hálfþurr orðinn var honum hrýgjað á hrýgjugarðana. Var hann þá að mestu kominn úr ábyrgð sem svo var nefnt“ (PJ; Barðstrendingabók). (Sjá hrýgjugarðar).
Komma (n, kvk) A. Greinarmerki í ritmáli, til að tákna skil/þagnir í setningum. B. Merki yfir breiðum sérhljóðum. C. Einn tíundi úr gráðu; einkum notað við mælingu líkamshita. „Ég er ekki með mikinn hita; bara örfáar kommur“. D. Komma mun einnig hafa merkt matarskál, en af því leifði í seinni tíð einungis orðið spilkomma (sjá þar).
Kommagrýla (n, kvk) Ógn sem hægrisinnuðu fólki finnst sér stafa af þeim eru vinstrisinnaðir; andúð á kommúistum. „Enn er Moggasnepillinn að magna upp kommagrýluna“.
Kommahyski / Kommalýður (n, hk/kk) Niðrandi heiti á fólki sem aðhyllist hugsjónir kommúnista og /eða vill efla réttindi þeirra sem minnst mega sín með félagslegri samstöðu. Oftast er heitið notað af þeim sem aðhyllast einstaklingsframtak og láta sig jöfn kjör litilu skipta. „Þegar Láganúpshúsið var í byggingu mun vel hafa verið fylgst með því af íhaldsklíkum syðra og leyniþjónustu Bandaríkjanna; enda hafði Gunnar Össurarason fengið til liðs við sig marga helstu vini sína, sem í þeirra augum töldust kjarni íslenska kommúnistahyskisins. Voru orrustuþotur af Keflavíkurvelli tíðir gestir yfir Kollsvík um þann tíma“.
Kommóða (n, kvk) Dragkista; hirsla með mörgum skúffum.
Kommóðuskúffa (n, kvk) Skúffa í kommóðu.
Kommúnisti (n, kk) Sá sem aðhyllist kenningar um að þeir sem verst eru settir í samfélaginu geti náð auknum jöfnuði með því að bindast samtökum og beita því valdi gegn kúgurum og forréttindastétt. Mjög bar á notkun orðsins á síðari helmingi 20. aldar, enda urðu hópar kommúnista þá fjölmennir. Eftir fall Sovétríkjanna hefur orðið sjaldnar heyrst. Til voru þeir í Rauðadsandshreppi sem kalla mátti kommúnista, og mest varð veldi þeirra þar þegar Gunnar Össurarson bjó vestra á síðustu æviárum sínum.
Kompa (n, kvk) A. Kames; lítið rými t.d. til greymslu. „Bárujárnsklæddur hjallur stóð lengi á Láganúpi, rétt heimanvið Gilið, og í honum var einkum þurrkaður þvottur. Í enda hans var lítil geymsla sem kölluð var Kompa og þar var m.a. lítil Onan-ljósavél sem um tíma var notuð til ljósa“.
Kompaní (n, hk) Félag; félgasskapur. „Þetta er kostulegt kompaní: Heimalningurinn heldur að hundurinn sé móðir sín, og gæsin má af hvorugu þeirra líta“!
Kompás (n, kk) Áttaviti. Kompásar voru töluvert notaðir í bátum í Kollsvíkurveri, a.m.k. undir lok verstöðu þar. Annars notuðu menn ýmis tákn til að átta sig þegar ekki sást til lands, s.s. sólarátt, sjólag, sjávarföll og fuglalíf, auk þess sem menn settu á sig vindáttir og siglingartíma.
Kompásnorður (n, hk) Segulnorður; norðurátt samkvæmt vísun kompáss. Leiðrétta þarf kompásnorður fyrir segulskekkju til að finna norðurátt samkvæmt korti/ rétt norður.
Kompásstefna (n, kvk) Stefna samkvæmt kompás. Leiðrétta þarf fyrir segulskekkju til að hún samræmist stefnu samkvæmt korti.
Kompásstokkur (n, kk) Kassi sem kompás báts er hafður í. Kompásinn er í ramböldum, þannig að hann getur verið nokkuð láréttur í veltingi, og er ysta hringnum fest í stokkinn innanverðan. Stokkurinn er hafður í barka bátsins, þar sem minnst hætta er á hnjaski í veiðiferð.
Komplíment (n, hk) Hrós; viðurkenning; gullhamrar. Sletta. „Ég fékk ágætis komplíment hjá honum fyrir frammistöðuna“.
Kompressa (n, kvk) Hluti sáraumbúða; böggull af samanbrotnum dúk/umbúðum sem lagður er á sár áður en það er vafið umbúðum/plástri; oftast til að stöðva blæðingu og/eða hemja bólgumyndun.
Komst (þá) upp um strákinn Tuma / Kemst nú upp um strákinn Tuma (orðatiltæki) Viðhaft þegar vitnast um eitthvað það í gerðum/fari mann sem hann vildi ekki flíka/ láta spyrjast út. „Komst þá upp um strákinn Tuma; þú segist ekki geta sungið eina rétta nótu en fórst svo á kostum á Þorrablótinu“! Ekki er vitað hvort þarna er vísað í sérnafn og þá e.t.v. söguna af Tuma þumli, eða hvort tumi merkir hrekkjóttan strák almennt.
Komumaður (n, kk) Aðkomumaður; gestur; sá sem kominn er. „Nú er liðið nærri miðjum degi./ Borð af gnægtum bíða enn/ búin fyrir komumenn“ (JR; Rósarímur).
Kontórstingur (n, kk) Sérstök tegund útsaums. „Stelpur voru látnar æfa sig í að sauma út, strax og þær gátu haldið á nál (ca 7-9 ára), og þá byrja að sauma kontorsting og gjarnan í svæfilver.. Svo var mikið saumað í punthandklæði oftast með kontorsting en ég á enn slitur af þannig handklæði sem mamma saumaði með feneyjarsaum og poka undir óhrein barnaföt í sama lit“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Konudagur (n, kk) Fyrsti dagur Góu. Sagt var að húsfreyjur ættu að fagna Góu þann dag, og að bændur hafi átt að gera húsfreyjum gott til.
Konugrey / Konuhró / Konukind (n, hk) Gæluorð um konu. „Konugreyið vissi ekki betur en þetta“.
Konungakyn / Konungaætt (n, hk/kvk) Ætt sem rakin er til konunga. Kollsvíkurætt hefur m. a. verið rakin til nokkurra Noregskonunga. Meðal annars má sjá í Kollsvíkurætt Trausta Ólafssonar að Einar Jónsson ættfaðir Kollsvíkurættarinnar var kominn af Haraldi gullskegg; konungi í Sogni; Hjör Jösurarsyni, Jösuri Ögvaldssyni og Ögvaldi konungum á Rogalandi; Þrándi Jarli í Þrándheimi og Haraldi Hávarðssyni tygil faðir hans; Hersir jarl Möndulssyni hinum gamla, jarl af Þrándheimi forföður þeirra. Auk þess standa að Kollsvíkurætt ýmis nafnkunn stórmenni s.s. Sæmundur fróði Sigfússon og hans ættmenni; Þorgeir ljósvetningagoði Þorkelsson; Guðmundur ríki Arason sem átti Saurbæjareignir og þar með Láganúp; Björn hirðstjóri Þorleifsson og Ólöf ríka; Ingólfur Arnarson, landnámsmaður Reykjavíkur; Galdra-Keli, prestur á Grenjaðarstað; Ari fróði Þorgilsson; Sturla Þórðarson, sagnaritari og lögsögumaður og ýmsir aðrir.
Konungsnef (n, hk) Hækilkúlan aftan á fæti búfjár. „Óbrigðult ráð er að grípa um konungsnefið til að fá kú til að hætta að sparka við mjaltir“.
Konur eru karla yndi (orðtatiltæki) Konur eru hamingjan í lífi karla; víf er vers yndi.
Konuríki (n, hk) Yfirráð konu á heimili; stjórnsemi eiginkonu. „Hann bjó alla tíð við mikið konuríki, og hefðu ekki allir látið það yfir sig ganga“.
Kopa (s) Há; vanta; draga úr. „Það kopaði honum við veiðiskapinn að báturinn var lítill“.
Kopareyra (n, hk) Eyra/hanki úr kopar á potti. „Konurnar ... komu töltandi til pabba ef gat kom á pott hjá þeim eða bilaði halda, og hann sauð í þetta. Smíðaði kannske ný kopareyru á þá“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Koparsmíði (n, kvk) Sumir þjóðhagasmiðir voru lagnari en aðrir að vinna úr kopar. Meðal þeirra var Guðbjartur Egilsson á Lambavatni, en eftir hann liggja ýmisr meistaralega gerðir gripir, s.s. lampar sem hanga í stofu á Láganúpi.
Koppagrundir (n, kvk, fto) Víðáttur; eingöngu notað í orðtakinu „út um allar koppagrundir“ sem var mikið notað vestra um það sem fór víða. Orðið er ekki að finna í orðabókum.
Koppalogn (n, hk) Algert logn á sjó. Líklega dregið af lygnu í hlandkoppi. „Það er blíða og koppalogn í dag“.
Korgleitur (l) Óhreinn/skáldaður í andliti/framan/útliti. „Skelfing ertu eitthvað korgleitur stubburinn minn; farðu nú og þvoðu þér í framan“!
Korgur (n, kk) A. Kaffikorgur; leifar malaðra kaffibauna sem búið er að laga kaffi úr. B. Sandur; skítur; efja.
Korkaflá / Korkateinn / Korkaþinur (n, kvk) Flotþinur; flotteinn efri þinurinn á neti; sem korkarnir (flotin) voru festir við; nú flotlína. „Hér hefur farið út flækja á korkaflánni“.
Korkaflækja / Kubbaflækja (n, kvk) Flækja í neti sem orðið hefur við það að komið hefur lykkja á korkatein/kubbatein í lagningu og einn eða fleiri korkar/kubbar slegist inn í netið við inníslátt.
Korkbauja / Korkplata (n, kvk) Korkur var áðurfyrr nýttur í baujur sem hafðar voru á línum, netum o.fl. Baujurnar voru samsettar af mörgum ferhyrndum korkplötum sem lagðar voru saman í búnt; stórar í miðju, en minni ofan- og neðaná. Tréstöng í miðju hélt þeim saman; í efri enda hennar var flagg en sakka í þeim neðri. Baujur, eða plötur úr þeim, ráku oft á fjörur í Kollsvík.
Korkkubbur (n, kk) Netakubbur/flotkubbur úr korki. Korkkubbar á net voru fyrrum kringlóttir með gati í miðju fyrir þininn, en síðar ílangir með rás eftir hliðum þar sem felldur var í taumur til festingar á þininn.
Korkur (n, kk) A. Ysta lagið á trjábol; létt og frauðkennt viðarlag. Korkur var notaður til margra hluta, m.a. sem flot á veiðarfæri og sem einangrun húsa. B. Korkkubbur; kubbur úr korki sem notaður er til að halda á floti veiðarfæri, t.d. flotþin nets. Orðið var stundum notað í hvorugkyni; talað um „korkið“, en mun sjaldnar.
Korn í nefið (orðtak) Dálítið af neftóbaki í nefið. „Komdu nú og fáðu korn í nefið“. „Viltu ekki korn í nefið“?
Kornabarn (n, hk) Smábarn; reifabarn; nýfætt barn.
Kornið sem fyllir mælinn/mælirinn (orðtak) Það sem að lokum verður til að óánægja/gremja/illindi fá útrás; eitt atriði af mörgum slæmum. „Hann var orðinn pirraður af þessari sífelldu stríðni, en þessi hrekkur var kornið sem fyllti mælirinn og strákarnir áttu fótum fjör að launa“.
Kornmylla (n, kvk) Kvörn/mylla til að mala korn. Korn hafa menn malað frá upphafi akuryrkju; fyrst með hnalli á steini, en síðar með því að snúa kringlóttum, láréttum steini ofaná öðrum, með kornið á milli. Síðar komust menn uppá lag með að nýta vatnsafl, vindafl og jafnvel sjávarföll til að knýja myllur þessar. Nokkrar vatnsknúnar myllur voru í Kollsvík á 19. öld; ein var í Myllulæknum í Kollsvík og tvær í Ánni. Þær munu hafa lagst af öðruhvorumegin við aldamótin 1900, og þeirra sjást nú engin merki.
Kornsúra (n, kvk) Bistorta vivipara; lágvaxin jurt sem algeng er á landinu; bæði á láglendi og til fjalla. Vex helst á þurrum melum og kann t.d. vel við sig á uppgrónum söndum í Kollsvík. Jurtin myndar smá stakstæð blóm á toppnum; blöð eru fremur fá og neðst á stilk, oft lensulaga; oftast hvít en stundum bleikleit; aldin eru áberandi undir blómi, þríhyrnd hneta. Á rótinni eru næringarríkir hnúðar, sem m.a. gæsir sækja í. Seyði kornsúru var talið blóðstillandi og geta læknað niðurgang. Var hún því stundum nefnd „kveisugras“. Æxliskornin voru sumstaðar höfð til matar; nefnd „vallarkorn“.
Korr (n, hk) Niðurbælt urr; hrygla; snörl. „Hann gerði sér upp korr og ræskingar og þóttist ekki ná andanum þegar skatan var borin á orð“.
Korra (s) Gefa frá sér korr. „Hann svaraði engu, en örlítið korraði í honum“.
Kort (n, hk) A. Uppdráttur/teikning af svæði. B. Spil til að spila á. „Eigum við nú ekki að taka í kort; við erum nógu margir í vist sýnist mér.
Kort (l) Lítið; þrotinn; á þrotum. „Ég er að verða ansi kort með kaffi og sykur“. Notað af sumum í Rauðasandshreppi framyfir 1970, t.d. GJH. Sjá einnig heykort.
Korta (s) Vanta; skorta. „Hér er nóg af fiski, það kortir ekkert uppá það. Þessi árans typpingur gæti þó dregið úr veiðinni“.
Kortateiknari (n, kk) Sá sem teiknar landakort. Einn færasti kortateiknari landsins bjó um tíma á Grund í Kollsvík; Samúel Eggertsson, en hann var bróðursonur Matthíasat Jochumssonar þjóðskálds.
Kortslútta (s) Um raflögn; skammhleypa; slá saman pólum/leiðurum. „Ég stakk strenginn í sundur með skóflunni, og kortslúttaði auðvitað í leiðinni, þannig að öryggið brann yfir“.
Kosningabær (l) Sem hefur rétt til þess að greiða atkvæði í kosningum.
Kosningar (n, kvk, fto) Lýðræðislegt val, t.d. á fulltrúum í hreppsnefnd, á Alþingi o.fl.
Koss „Að loknum lestri var þakkað fyrir hann og óskað gleðilegra jóla með kossi“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Kossaflens (n, hk) Niðrandi heiti á blíðuhótum/kossum. Eldra fólki hefur líklega á öllum tímum þótt yngri elskendur bera tilfinningar sínar helsti mikið á torg. „Ekkert skil ég í þessu kossaflensi síknt og heilagt“!
Kosta (s) A. Vera að verðmæti; vera virði. „Hveitipokinn kostar tíu krónur“. B. Bera kostnað af; greiða. „Hreppurinn kostaði ofaníburð og ljet ljúka við veginn“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). „Ívar Ívarsson bauðst til þess að kosta kjördeildina á Rauðasandi, fremur en hún yrði lögð niður“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Kosta kapps um (orðtak) Leggja áherslu á; sækja fast. „Við þurfum að kosta kapps um að koma því heyi í hlöu sem orðið er vel þurrt. Hitt setjum við í galta ef tími vinnst til“.
Kosta til / Kosta uppá (orðtak) Verja til; eyða í. „Þú verður að kosta allnokkru til, ef þú ætlar að lagfæra þetta“. „Ætli maður verði ekki að kosta uppá einhver ný net fyrir næstu vertíð“.
Kostabeit (n, kvk) Mjög góður bithagi; kjarnabeit. „Kostabeit er þarna á hlíðinni, en hætt við hrapi“.
Kostaboð (n, hk) Mjög gott/freistandi tilboð. „Ég var ekki seinn á mér að taka þessu kostaboði“.
Kostafæða (n, kvk) Mjög góður/hollur matur. „Nýorpin múkkaegg eru einhver mesta kostafæða sem til er“.
Kostagripur (n, kk) A. Kjörgripur; mjög góður/eigulegur hlutur. „Þessi bátur er mikill kostagripur“. B. Öndvegisskepna; efnisskepna. „Þessi lambhrútur virðist vera mesti kostagripur“.
Kostajörð (n, kvk) Góð bújörð; landkostajörð. „Hér hefur hver kostajörðin af annarri farið í eyði undanfarið“.
Kostakjör (n, hk, fto) Úrval góðra kosta; um margt að velja. „Mun nú tafin mjög þín för“,/ mælir pilsa-gerður;/ „bjóðast engi kostakjör/ kjósa samt þú verður“ (JR; Rósarímur).
Kostakona (n, kvk) Kona sem búin er miklum kostum; góður kvenkostur; gæðakona.
Kostaskepna (n, kvk) Góð/nytsöm skepna; frjósöm ær; vel byggður hrútur; nythá kýr; góður fjárhundur o.s.frv. „Það er eftirsjá að slíkri kostaskepnu sem Búkolla var“.
Kostgangari (n, kk) Manneskja sem er í fæði (kosti) hjá öðrum. „Þau eru komin með annan kostgangara“.
Kostgóður (l) Kostamikill; hefur góða kosti; gefur mikið af sér. „Í Smérteigum var talið kostgott fyrir rollurnar“ (Sigurbjörn Guðjónsson; Örn.lýsing Geitagils).
Kostgæfni (n, kvk) Alúð; vandvirkni; iðni. „Bréfið skreytti hún af mikilli kostgæfni“.
Kostnaðarsamt (l) Dýrt; útlátamikið. „Þeim fannst flutningurinn nokkuð kostnaðarsamur“.
Kostulega (ao) Einstaklega vel/einkennilega; með eftirtektarverðum hætti. „Honum tókst þetta alveg kostulega“. „Hann gat hermt alveg kostulega eftir öllum sveitungunum á þorrablótinu“.
Kostulegur (l) Furðulegur; hlægilegur. „Útgangurinn á þér er nú alveg kostulegur“.
Kostur (n, kk) A. Gæði; það sem betra er en annað. „Það er kostur við sandtúnin að þau blotna ekki upp, og á þeim þornar heyið fljótt“. B. Nesti; fæði. Einkum notað um nesti á stærri skipum. C. Stytting á valkostur; leið; úrræði. „… en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi…“ (PG; Veðmálið).
Kot (n, hk) A. Lítið býli; kotbýli; landlítil jörð; lítið hús; hreysi. Kot nefndist lítið býli innan við Hvalsker, og virðist ætíð hafa borið nafn með rentu. Um 1700 var það útjörð frá Skápadal, en er nú meðal Skerseigna. B. Skyrtubolur úr ull, bómull eða lérefti, sem hnepptur er aftan en með tölum neðst til að halda uppi teygjusokkaböndum. Algengt barnanærfat frameftir 20.öld.
Kotbóndi (n, kk) Bóndi á lítilli jörð /koti; bóndi með lítinn búskap.
Kotbragur / Kotbændabragur / Kotbændaháttur / Kotungsbragur (n, kk) Yfirbragð fátæktar/smábónda; fátækt; sparsemi. „Hann sýndi með þessu að enginn kotbændabragur var á þeim bæ“. „Það er enginn kotungsbragur á því býlinu“.
Kotbær / Kotjörð (n, kk) Kot; lítið býli; lítil bújörð.
Kotkarl (n, kk) Bóndi á litlu búi/ koti. „Þarna voru engir kotkarlar á ferð“. „Margur kotakarlinn rak upp kætihlátur/ þegar sá hann sínar skjátur“ (JR; Rósarímur).
Kotra (s) A. Smeygja; mjaka/þröngva inná milli. „Aldrei var svo þröngt af gestum í gamla bænum að ekki mætti kotra einum niður til viðbótar í flatsæng á gólfið“. B. Setja saman púsluspil. „Eigum við að kotra“?
Kotra (n, kvk) A. Kotruspil; sérstakt borðspil/teningaspil; e. „backgammon“. Kotruspil var ekki spilað í Kollsvík í seinni tíð, þó svo kunni að hafa verið fyrrum. Orðið var því alfarið notað um myndakotru. B. Púsluspil; myndakotra. Sjá púsluspil.
Kotroskinn (l) Hress; góður með sig; brattur. „Strákurinn er heldur betur kotroskinn“.
Kóð (n, hk) Smáfiskur; tittur; örnæli; síli; seyði. „Það var ekkert að hafa á grunninu nema bölvað kóð, svo ég sigldi dýpra í von um einhvern stórfisk“.
Kóf (n, hk) A. Mikill reykjarmökkur/gufumökkur. „Illa sást til í reykkofanum fyrir kófinu“. B. Skýjabakki; þoka; skýjakóf; þokukóf. „Öðruhvoru sást til lands gegnum kófið“. C. Svitakóf; svitabað. „Ég var í kófi við að moka á vagninn“.
Kófbylur / Kófhríð / Kófkafald (n, kk) Þéttur skafmoldarbylur. „Lagði ég á Hálfdán í kófbyl...“ (ÓG; Úr verbúðum í víking). „Var þá kominn norðaustan strekkingsvindur með kófbyl“ (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).
Kófdrukkinn (l) Mjög ölvaður/drukkinn; sauðdrukkinn; á skallanum/eyrunum.
Kófhiti (n, kk) Svo heitt að maður er mjög sveittur/ kófsveittur; baðhiti; molluhiti.
Kófsalli / Kófsnjór (n, kk) Mjög fínkornaður snjór, sem rýkur auðveldlega í minnsta vindi. „Stöðugt skóf kófsalla framaf brúninni“. „Þessi kófsnjór fer allur af stað ef eitthvað hreyfir vind“.
Kófsveittur (l) Mjög sveittur; í svitabaði. „Allir voru kófsveittir eftir að mokað hafði verið af heyvagninum“.
Kófsvitna (s) Svitna mjög mikið; pungsvitna. „Við kófsvitnuðum við eggjatínsluna, enda steikjandi sól“.
Kófþoka (n, kvk) Þykk þoka; svartaþoka. „Hann er að velta inn einhverri bölvaðri kófþoku; það er víst útséð með þurrk það sem eftir er dagsins“.
Kólfur (n, kk) A. Dymbill/dingull í klukku, t.d. kirkjuklukku. B. Kastspjót, ör. „Eins og kólfi væri skotið“. C. Vaxtarsproti jurtar; sver leggur/rót á jurt. D. Eistalykkja. E. Getnaðarlimur hests. F. Krassi; stöng til að þjappa púðri og forhlaði í framhlaðna byssu; byssukólfur. Orðið merkir það sem er sívalt eða kylfulaga.
Kólga (n, kk) A. Um sjólag; töluvert sver sjór; kólgusjór. „Það var nú kominn norðankaldi og allnokkur kólga“. B. Um veður; þungbúið veður; illviðri í aðsigi.
Kólgubakki (n, kk) Þoku- eða skýjabakki; talinn vita á illviðri. „Kólgubakkann klýfur geislinn“ (ÖG; úr afmæliskvæði til ÁE 1979).
Kólguloft (n, hk) Þungbúið veðurútlit; óveðursský á lofti. „Ekki veit ég hvað hann gerir í þetta kólguloft í vestrinu“.
Kólgusjór (n, kk) Sver sjór; allmikill sjór; kólga. „Hann er farinn að leggja upp vestan kólgusjó“.
Kólna (s) Verða kaldari. „Fjári er hann farinn að kólna þessa dagana“.
Kólna í tíðinni (orðtak) Verða kaldara tímabil. „Við þyrftum að ná þessu fé áður en kólnar meira í tíðinni“.
Kólumbusarmessa (n, kvk) 9. júní; messa í kaþólskum sið, til minningar um heilagan Kólumba (Kólumkilla), sem er einn þjóðardýrðlinga Íra og var kristniboði og klausturstofnandi á 6. öld. Líklegt er að þessi messa hafi verið einn mesti hátíðisdagurinn í Kollsvík fyrst eftir landnám. Allar líkur benda til þess að fóstbræðurnir Kollur og Örlygur hafi numið við Kólumbusarklaustrið á Iona á Suðureyjum kringum aldamótin 900. Klaustrið var mesta menningarstofnun vestanverðrar Evrópu; stofnað af heilögum Kólumba sem kom kristni á í Skotlandi og skosku eyjunum. Patrekur biskup, sem var þeirra helsti kennari, hvatti þá til að fara í trúboðsleiðangur til Íslands og lét þá hafa kirkjuvið, kirkjuklukku og fleira til helgihalds. Þeir hröktust hinsvegar vesturum land, þar sem Kollur braut knörr sinn í Kollsvík og ákvað að setjast þar um kyrrt, en Örlygur sigldi suður eftir vetursetu hjá honum. Allar líkur benda til þess að í Kollsvík hafi þeir byggt fyrstu kirkjuna á Íslandi og helgað hana heilögum Kólumbusi. Kollur hafi síðan þjónað þeirri kirkju sem fyrsti prestur landsins. Örlygur byggði aðra kirkju að Esjubergi syðra og hafði þar járnklukku Patreks. Það að kirkju Kolls er ekki getið í Landnámu skýrist sennilega af því að afkomendur Örlygs voru fjölmennir syðra og frá þeim hafði Ari fróði líklega sína vitneskju um kirkjurnar. Á ritunartímanum, um 1120, var afkomendum Örlygs trúlega mikið í mun að gera sem mest úr frumkvöðlahlutverki forföður síns, en enginn gætti hagsmuna Kolls. Kólumbusarkirkja hans komst því ekki á bókfell, en líkurnar á tilvist hennar eru yfirgnæfandi. Eflaust hefur þá hefur einnig verið þar tilstand á messudegi Kólumbusar.
Kómískur (l) Skrýtinn; skemmtilegur; fyndinn. „Svipuinn á honum varð dálítið kómísku þegar hann smakkaði matinn fyrst“. „Alveg er það kómískt hvað kötturinn hefur gaman af að ergja hundinn“.
Kómu (s, ft, fortíð) Komu. Eitt mikilvægt framburðareinkenni Kollsvíkinga var það að kringja o-hljóð í þátíðarmyndum sumra sagna. Segja t.d. „þeir kómu seint að“, eða „þeir vóru ekki lengi að finna féð“.
Kóngafæða (n, kvk) Kræsingar; mjög góður matur. „Ekki spillti fyrir að við fengum steiktan fugl með rúsínum og sveskjum. Þetta var kóngafæða og við langsoltnir tókum hressilega til matarins“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kóngakaffi (n, hk) Kaffi með vínsopa útí. Sumir áttu það til að bjóða góðum gestum uppá kóngakaffi. Þá var hellt í kaffið dálitlum sjúss af víni; líkleg oftast rommi, brennivíni eða koníaki. Ekki var þetta þó í boði á öllum bæjum.
Kóngalíf (n, hk) Sældarlíf; líf í allsnægtum/þægindum. „Ekki sagðist hann lifa neinu kóngalífi af þessum launum, en þetta dygði fyrir nauðþurftum“.
Kónganef (n, hk) Stórt nef með háum krung/boga; klumbunef. „Það komast firn af tóbaki í þetta kónganef“. Einnig var sagt um þann sem var með kónganef að hann væri söðulnefjaður.
Kóngaveisla (n, kvk) Veglegar veitingar; mikil veisla. „Hún sagðist ekki eiga mikið til; en innan stundar sátum við samt að þessari dýrindis kóngaveislu“.
Kóngsbænadagur (n, kk) 4. föstudagur eftir páska. Hann var áður almennur bænadagur; fyrst skipaður af Danakóngi árið 1686; lögtekin hérlendis 1702, en afnuminn sem helgidagur 1893. Enn er dagurinn haldinn hátíðlegur í Danmörku (store bededag) og Færeyjum (dýri biðidagur). Yfirleitt kunnu Íslendinga illa að meta þessa kóngsdýrkun, eins og kemur fram í húsganginum: „Innan sleiki ég askinn minn,/ ekki er saddur maginn./ Kannast ég við kreistinginn/ kóngs- á bænadaginn“. Sú var trú manna að ef gróður færi vel af stað í maí mætti vænta góðs af sumri; ekki síst ef þokusamt var. Þó gat þar orðið bakslag ef hret gerði á kóngsbænadaginn; kóngsbænadagshret. Það heiti var þó ekki mikið notað vestra í seinni tíð. „Laugardaginn fyrir kóngsbænadag reru allir bátar í sæmilegu veðri og fiskuðu vel“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).
Kóngshæð (n, kvk) Hæsta hæðin af þeim sem saman sjást. Kóngshæð nefnist hábunga fjallsins milli Kollsvíkur og Örlygshafnar; sunnan Tunguheiðarvegar. Nafnið hefur valdið mönnum heilabrotum, en beinast liggur við að álykta að nafnið sé dregið af hæð bungunnar. Frá Láganúpi séð ber hún hátt yfir aðrar nálægar.
Kóngsins befalingsmaður (orðtak) Sá sem hefur umboð kóngsins; æðsti valdsmaður. „Hann er bara akkúrat enginn kóngsins befalingsmaður í þessum málum“!
Kóngsins lausamaður (orðtak) A. Fyrr á tíð voru vinnumenn jafnan bundnir vistaböndum hjá einum vinnuveitanda milli fardaga. Þó var hægt að fá konungsleyfi fyrir lausamennsku; þ.e. að mega vinna að ákveðnum verkefnum um skamman tíma á hverjum stað. Slíkir farandverkamenn voru kóngsins lausamenn. B. Notað nú á tímum um hverskonar tímabundna launavinnu; sá sem ekki er ráðinn til langframa; sá sem ekki er háður einum vinnuveitanda.
Kóngsstóll (n, kk) Leikur barna fyrr á tíð. „Við lékum okkur mikið úti í góðu veðri eftir að fór að skyggja. Einn leikurinn hét Kóngsstóll. Þá var öllum raðað upp til að kjósa kónginn og einn benti á hópinn og fór þá með þessa þulu: „arka, barka, búninga, darka, ella, mella, milli, monn, sjonn, thonn, tjútla, bonn, issa, bissa, topp“. Sá síðasti var kóngurinn; þegar hann fór að grúfa sig fór hann með þessa þulu: „Fyrirbýð ér öllum, konum sem köllum, ungum sem gömlum, utanlands og innan, í minn konungsstól að koma og sá verður að ábyrgjast sig sem ekki er búinn að fela sig, og nú fer ég af stað“. Á meðan fóru allir að fela, og svo var keppikeflið að komast í kóngsstólinn án þess að kóngurinn sæi; og varð þá sá næsti kóngur“ (DÓ; Að vaka og vinna).
Kónguló (n, kvk) Könguló. Framburðurinn var yfirleitt með ó-hljóði áður fyrr, en nú oftast með ö-hljóði.
Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða (orðatiltæki) Menn eru tilneyddir að haga sér eftir aðstæðum, þó þeir vilji eitthvað annað.
Kóni (n, kk) Niðrandi heiti á manni; rusti; þrjótur; skálkur. „Ég ber nú litla virðingu fyrir þessháttar kónum“!
Kópaskinn (n, hk) Skinn/húð af selkóp. „Kópaskinn og tófuskinn voru í háu verði í kringum aldamótin 1900“.
Kór (n, kk) A. Innsti hluti kirkju, næst altari. B. Rúm fyrir miðjum gafli í verbúð. Ekki er þó víst hvort þetta heiti var notað í Útvíkum. En notað var það við Djúp, og þar hvíldi oft hálfdrættingur. C. Skúti/hellir í bergi. Kórar nefnist svæði utanvið Breiðavíkurver, þar sem nokkuð er um slíka skúta. D. Sönghópur, t.d. kirkjukór. E. Tónstokkur á harmónikku.
Kóróna (s) A. Setja kórónu á höfuð; krýna. B. Í líkingamáli; ganga eins langt og unnt er, oftast í neikvæðum athöfnum/verknaði; bíta höfðuðið af skömminni. „Eftir að hafa slugsað við moksturinn allan daginn, kórónaði hann svo alltsaman með því að brjóta skófluna“! „Þetta kórónar nú alla vitleysu“!
Kórrétt (l) Alveg rétt; eftir bókstafnum. „Ég veit ekki hvort ég fer alveg kórrétt með, en þetta var það sem hann sagði!. Líklega sletta úr danska orðinu „korrekt“.
Kórsöngur (n, kk) Fjöldasöngur; samhæfður söngur margra. „Kórsöngur var mjög stundaður í Kollsvík, ekki síst á tímum ungmennafélaganna. Enda voru þá miklar söngelskar ættir í víkinni, t.d. Grundafólk út af Kristjáni Ásbjörssyni og Traðarfólk útaf Helga Árnasyni.
Kórvilla (n, kvk) Meinloka; fáránleiki. „Svona staðhæfingar eru þvílík kórvilla að það er með endemum“!
Kósi / Kós (n, kk/kvk) Fóðring (oft úr málmi) um auga í efni eða lykkju í tóg. „Kósar eru í jaðri seglsins“.
Kós (n, kk) Stefna; kúrs. „Ég nennti ekki að halda áfram í þessum tittaslítingi og tók kósinn til hafs“.
Krabb / Krafl (n, hk) Slæm/illlæsileg skrift; klór. „Ég skil nú ekki allt þetta krabb; því skyldi hann aldrei geta vandað sig karlhólkurinn“?! „Hver á að skilja þett krafl“!
Krabba (s) Krafsa; klóra; skrifa. „Ætli ég verði ekki að krabba stafina mína á þessa kvittun“.
Krabbafjandi / Krabbaóþverri / Krabbaskratti / Krabbi (n, kk) Krabbamein. „Hann er vís orðinn alveg heltekinn af þessum krabbafjanda, og ógæfulegt með útlitið“. „Þessi krabbaóþverri spyr víst ekki að aldri“.
Krabbagangur (n, kk) A. Orðrétt skýring; gangur krabba er oft út á hlið eða óreglulegur. B. Óreglulegur gangur manneskju eða málefnis. „Málið hefur þokast áleiðis en með óttalegum krabbagangi“.
Krabbi (n, kk) Þrjár tegundir krabba hafa einkum lifað við Ísland til þessa; trjónukrabbi, bogkrabbi og kuðungakrabbi/einbúakrabbi, en fleiri tegundir berast nú hingað með hlýnandi sjó og kjölvatni skipa. Trjónukrabbi (Hyas araneus) er algengastur á grunnsjó við sunnanverða Vestfirði. Hann er auðþekktur á því að krabbaskelin á baki hans er dregin fram í trjónu Skelin getur orðið 8cm löng á karldýri. Augun standa á stuttum stilkum, sitt hvors vegar við trjónuna. Stuttir þreifarar koma útúr skelinni rétt við augun og ná framfyrir trjónuna. Undan skelinni að aftan kemur flatur hali sem liggur þétt frammeð kviðnum. Hann er hringlaga hjá kvendýri en hliðarlínur eru bogadregnar á karldýri. Trjónukrabbinn hefur fjögu pör af gangfótum sem eru lengri en skelin. Framan við ganglimina eru tvær sterkar gripklær. Bogkrabbinn (Carcinus menas) er sjaldgæfari á þessum slóðum, enda lifir hann jafnan á meira dýpi. Hann þekkist á bogadegnum skildi sem er breiðastur að framan. Þriðji krabbinn er kuðungakrabbi, eða einbúakrabbi. Hann er með mjúkan bol, og velur því að búa í kuðungum sem sniglar hafa yfirgefið. Fullorðnir sniglar nota kuðunga beitukóngs, en þeir minni nota minni kuðunga, eins og af þangdoppu. Allir eru þessir krabbar rándýr og hræætur. Gaddakrabbi hefur fundist við landið á síðustu árum, en ekki í miklu magni. Hann er líkur trjónukrabba í útliti, en alsettur göddum og getur skel hans orðið allt að 14 cm að stærð. Grjótkrabbi hefur fundist hér við land á síðustu árum, t.d. í Faxaflóa og Breiðafirði. Hann er líkur bogkrabba í útliti en verður stærri, eða allt að 14 cm yfir skelina. Kóngakrabbi hefur enn ekki numið land við Íslandsstrendur, en hann er kominn við Noreg og talið líklegt að hann berist hingað bráðlega. Hann ber nafn með rentu, því þessi kvikindi geta orðið allt að 10 kg að þyngd og 25 cm yfir skelina. Líkur er hann gaddakrabba í útliti. Upprunaleg heimkynni eru í norðanverðu Kyrrahafi, og er hann mikið veiddur til matar. Tröllakrabbi hefur veiðst við Ísland SA-vert. Hann er líkur bogkrabba í útliti, en verður mikið stærri, eða 3,2 kg og allt að 18cm yfir skelina.
Kraðak (n, hk) Stappa; þröng; óreiða; öngþveiti. „Það er komið kraðak af fé inn á túnið“.
Krafa (n, kvk) Áskilnaður; heimting; réttur. „Ég gerði kröfu um að fá það sem mér bar, samkvæmt samningi“.
Krafla (s) A. Klóra; grípa í. „Ég náði naumlega að krafla mig upp á brúnina“. B. Skrifa illa; krabba; krota. „Ég kraflaði þetta niður á blað í fljótheitum, til að gleyma því ekki“.
Krafla í (orðtak) Hræra í; krafsa í. „Vertu nú ekki að krafla í matnum með skítugum puttunum drengur“.
Krafla sig (orðtak) Klórast; komast. „Ég gat kraflað mig upp á brúnina“. „Hann kraflar sig í gegnum námið“.
Krafs (n, hk) A. Rót; gröftur. „Skelfingar krafs er þetta í Vegagerðinni út um allar trissur“! B. Leit sauðfjár eftir beit undir snjó. „Féð hefur ekki mikið uppúr þessu krafsi, svo það þarf töluverða gjöf“. C. Slæm skrift; slæm teikning; krabb. „Ég sé ekkert út úr þessu krafsi hjá listamanninum“.
Krafsa með öfugum klónum (orðtak) Um handarbakavinnubrögð; slæman frágang; vonda vinnu. „Kallarðu þessar ærhornarispur slátt? Það er eins og sjálfur skrattinn hafi krafsað þetta með öfugum klónum“!
Krafsa sér til beitar (orðtak) Um sauðfé; krafsa með fótum til að geta bitið, á jörð sem er hulin snjó“.
Krafsblað (n, hk) Blað sem nýtist til að rissa á/ teikna á/ krafsa á. „Er ekki eitthvað krafsblað við hendina, svo ég geti teiknað þetta upp fyrir þig“?
Krafshagi (n, kk) Krafsjörð; bithagi þar sem fé þarf að krafsa til beitar gegnum snjó.
Krafsjörð (n, kvk) Mjög var treyst á vetrarbeit fyrir sauðfé í Kollsvík og öðrum Útvíkum. Var því haldið til beitar daglega ef þess var nokkur kostur og þá oftast staðið yfir. Iðulega þurfti það að krafsa snjóinn ofan af til að komast að beitinni og þá var krafsjörð. „Ef féð fyllti sig vel á krafsjörð og fékk eitthvað í fjöru var ekkert hey gefið“. (ÖG; Niðjatal HM/GG).
Krafta (s) Drífa; hafa sig; orka. „Ég reyndi að velta trénu uppfyrir flæðarmál, en ég hreinlega kraftaði því ekki“. Orðið var stöku sinnum notað í Kollsvík áður fyrr en heyrist nú vart.
Kraftalega vaxinn (orðtak) Vöðvamikill; samanrekinn. „Hann var ekki hár, en mjög kraftalega vaxinn“.
Kraftalegur (l) Sterklegur; kraftalega vaxinn; vöðvamikill.
Kraftajötunn / Kraftakarl / Kraftamaður / Kraftamenni (n, kk) Mjög sterkur maður. „Ég er ekki sá kraftajötunn að ég valdi þessu stórgrýti“. „Fáa hef ég vitað álíka kraftakarla og hann“.
Kraftaskáld (n, hk) Ákvæðaskáld; sá sem getur ort kvæði sem virka/breyta. „Hann var talinn kraftaskáld, og þótti formanninum því fengur að fá af honum þessa vísu um veiðiskapinn“.
Kraftaverk (n, hk) Verk/framkvæmd sem ekki er unnt að skýra með eðlilegu móti. Oft notað í líkingum um það sem gerist á ótrúlegan hátt. „Það var talið kraftaverk að hann skyldi sleppa lifandi frá þessu slysi“.
Kraftaverkamaður (n, kk) Sá sem framkvæmir yfirskilvitlegan verknað. „Ekki er ég neinn kraftaverkamaður, en ég skal reyna hvað ég get með þetta“.
Kraftblökk / Krafttalía (n, kvk) Blökk/trissa sem notuð er til að auka átak, oft með mörgum hjólum (margskorin) og þá tvær samverkandi. „Kraftblökk var í þaki gömlu votheysgryfjunnar á Láganúpi“.
Kraftfóður (n, hk) Kjarnfóður; fóðurbætir fyrir búfé. „... var í því sambandi talið líklegt að ríkisstjórnin myndi styrkja bændur til kaupa á kraftfóðri og heyi... “ (SJTh; Árb.Barð 1955-56).
Kraftgott (l) Kjarngott; kraftmikið. Oftast notað um fóður/gras/hey. „Ég gef þeim vel af fóðurbæti með, því þetta er ekki mjög kraftgott hey“.
Kraftlaus / Kraftlítill (l) Ekki aflmikill/orkumikill. „Þó Farmallinn þætti afkastamikil vinnuvél á sínum tíma, þá var hann heldur kraftlaus með sín 16 hestöfl til að snúa nýrri vinnutækjum, s.s. blásara og sláttuþyrlu“.
Kraftmikill (l) Aflmikill; öflugur. Notað jafnt um traktora, bíla og manneskjur. „Ekki þótti mér hann mjög kraftmikill ræðumaður“.
Kraftsperra (n, kvk) Síðari tíma heiti á sperru sem er með áföstum þverbita. Eru sperrur og biti bundin saman með löskum á ákveðinn hátt, þannig að álag á sperrurnar dreifist jafnt og burðargeta er veruleg.
Kraftsúpa (n, kvk) Súpa sem elduð er af kjötkrafti, súputeniningum eða öðrum kjarna.
Krafttöng (n, kvk) Stillanleg töng af sérstakri gerð, sem unnt er að læsa saman og gefur mikið átak.
Kraftverk (n, hk) Heiti íbúa Rauðasandshrepps yfir virkjun/rafstöð; virðist ekki hafa verið notað annarsstaðar á landinu. „Á nokkrum bæjum í Rauðasandshreppi var komið upp litlum heimilisrafstöðvum löngu fyrir samveiturafmagnið, þær fyrstu fyrir 1930. Rafmagn frá þeim nægði fyrir ljós og eldavélar og sums staðar til upphitunar. .... „Ekki þjakaði minnimáttarkennd þá sem komu sér upp þessum örstöðvum því þeir kölluðu þetta „kraftverk“.Þó var til enn minna „kraftverk“ á Rauðasandi, það var pabbi minn sem kom sér því upp, það dugði fyrir útvarpsrafhlöður en ekki var það fyrirhafnarlaust. Pabbi tengdi dínamó við rennibekkinn sinn og svo var hægt að stíga bekkinn og hlaða batteríin en það tók langan tíma. Þarna voru hlaðnar útvarpsrafhlöður á Lambavatnsbæjunum og stundum fleiri. Annars fóru menn með rafhlöður í„kraftverkin“ bæði að Brekku og í stærri vatnsvirkjanir en þá var yfir fjöll að fara“ (SG; Rafvæðing; Þjhd.Þjms).
Kraga (s) Um ullarvöxt sauðfjár; ull farin að flaka frá í hálsinum.
Kragi (n, kk) A. Hvaðeina sem umkringir. „Skerin mynda kraga um Lægið, svo þar er oft kyrrara en úti fyrir“. B. Efsti hluti fatnaðar s.s. skyrtu, peysu o.fl. C. Rykktur hringur sem prestur hefur um háls við athöfn.
Kraka (n, kvk) Dreki; krípur; stjóri; áhald til botnfestingar á báti/neti/fiskilínu eða öðru. Stundum notuð til að slæða upp net eða línu þegar dufl hefur tapast. Kraka er oftast minni en akkeri og án stokks.
Kraka (s) Krækja; krækja/ná/grípa til/í. „Til allrar hamingju tókst mér að kraka árinni til mín með hinni“.
Kraka niður sólina (orðtak) Um róðrarlag; sveifla árinni óþarflega hátt uppúr sjó í róðri. Þykir hvorki fallegt né skynsamlegt róðrarlag.
Kraki (n, kk) Akkeri að fornri gerð. Hann var þannig gerður að plankar voru negldir í kross og mynduðu flaugar. Af miðjum hverjum armi kom hallandi planki og mættust þeir í toppinn, þar sem í var fest stjórfærið. Inn á milli þeirra var grjótfarg. Einnig nefnt krossflaugastjóri. Ekki er vitað hvort slíkur kraki var notaður í Útvíkum, þó það sé líklegt; eða hvaða nöfn tengdust honum.
Krakkaangi / Krakkagrey / Krakkakind / Krakkakvikindi / Krakkalóra / Krakkaormur / Krakkarófa / Krakkaræfill (n, hk) Gæluheiti um krakka. „Það er ekki hægt að ætlast til þess að krakkakvikindin hangi svona lengi í skólabílnum“. „Krakkalórurnar eru loksins komnar í háttinn“. „Hvað skyldu krakkarófurnar hafa gert af stungurekunni“?
Krakkaskari / Krakkastóð (n, kk/hk) Barnahópur. „Ég ætla að klára að steikja kleinurnar áður en krakkaskarinn kemur inn“. „Þessir leikir voru leiknir í frímínútum í skólanum, en einnig kom krakkastóðið oft saman á sunnudögum til leikja“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Krakkaskömm (n, kvk) Skammarheiti á barni/unglingi. „Hvert fór krakkaskömmin með hamarinn“?!
Kramarhús (n, hk) Keiluform, t.d. úr pappír, sem rúllað er upp svo oddmjótt verði í annan enda en svert op í hinn. Úr þessu verður ílát sem t.d. var áður fest með hanka á jólatré og í það sett sælgæti .
Kramarmaður (n, kk) Sjúklingur; sá sem býr við kröm/veikindi. „Ég er nú ekki sá kramarmaður að ég geti ekki kastað í féð, þó maður sé með einhvern pestarfjanda“.
Krambúð (n, kvk) Verslun með fjölbreyttu vöruvali. Sumir álíta að kram tengist vefnaði fremur en öðrum söluvarningi, en fyrir því er enginn fótur.
Krambúlera (s) Skemma; aflaga; meiða. „Þú mátt skoða þetta ef þú passar að krambúlera það ekki neitt“.
Krambúleraður (l) Brákaður; brotinn; slasaður. „Karlinn er töluvert krambúleraður eftir slysið“.
Kraminn (l) Klesstur; marinn. „Ég sat þarna í klemmu á kirkjubekknum; kraminn á milli tveggja boldangskerlinga og gat mig hvergi hreyft“.
Kramma og kreista (orðtak) Um blíðuhót; knúsa; faðma ákaft að sér.
Krampahrollur (n, kk) Skjálfti; hrollur. „Það setti að mér hálfgerðan krampahroll þegar ég kom inn úr kuldanum“.
Krampakippur / Krampateygja (n, kk/kvk) Ósjálfráður kippur. „Ég fæ stundum þessa krampakippi í hendina“. „Gættu þín á löppunum á nautinu; það geta enn komið krampateygjur í skrokkinn“.
Krampi (n, kk) Ósjálfráður samdráttur vöðva. „Syndið ekki langt út á vatnið strákar; það er ógaman að fá kannski krampa þegar komið er út á mikið dýpi“.
Kranakrans (n, kk) Handfang ofaná krana, til að skrúfa frá og fyrir vatn eða annað sem úr honum rennur.
Kranavatn (n, hk) Vatn sem kemur úr krana. „Það var ekki furða þó vélin þyldi ekki frostið; þeir höfðu sett á hana blátært kranavatn án þess að setja í það frostlög“!
Krangalegur (l) Renglulega vaxinn; renglulegur; tággrannur; horaður. „Skelfing ertu alltaf krangalegur; færðu ekkert að éta“?
Krangi (n, kk) A. Mjór háls á manni. Hafðu nú trefil um krangann ef þú ferð út“. B. Háls á fugli; hálsbiti. „Ketið af máfsunga er sælkeramatur; ekki síst af kranganum“.
Krani (n, kk) A. Lokubúnaður fyrir rennandi vökva. B. Hegri með vélbúnaði til að lyfta þungum hlutum.
Krankgjarn (l) Hætt við veikindum; sóttsækinn. „Hann sagðist vera orðinn svo krankgjarn í seinni tíð“.
Krankheit / Krankleiki (n, kk) Veila; veiki; bilun. „Einhver krankheit hafa hrjáð hann að undanförnu“. „Ekki veit ég hvaða krankleiki er nú kominn upp í jeppanum“.
Krankur (l) Veikur; heilsulaus. „Mikið lítur hann illa út upp á síðkastið; skyldi hann vera eitthvað krankur“?
Krans (n, kk) Hringur; sveigur. „Afi gekk á eftir sláttuvélinni og sló toppa sem hún skildi stundum eftir; manirnar á skurðbökkunum og kransa kringum símastaurana sem greiðan náði ekki til. Honum ofbauð alveg að láta allar þessar slægjur fara til spillis“.
Kransæðakítti (n, hk) Nýyrði/slanguryrði um mat sem mikið er í af óhollum efnasamböndum sem valdið geta kransæðastíflu. „Það má víst ekki éta eggin lengur; nú eru þau sögð versta kransæðakítti sem fyrirfinnst“!
Krap (n, hk) Krapi. Orðið var ýmist notað í hvorugkyni eða karlkyni, en þó einkum kk áðurfyrri.
Krapa (s) Um vatn/sjó; verða krapkenndur; frjósa að hluta á yfirborði; hlaupa í krap. „Sjórinn krapaði í þessu beinfrosti, og móður myndaðist við fjörur svo af tók alla fjörubeit“.
Krapableyta (n, kvk) Blautt krap; mikil bleyta í snjó. „Gættu þín í lautinni; þar gæti verið krapableyta“.
Krapabólginn (l) Uppbólginn/stíflaður af krapa. „Gilið getur orðið krapabólgið í miklum leysingum, og jafnvel stíflast, svo það hlaupi heimyfir alla Flötina“.
Krapaelgur (n, kk) Vatnssósa krap, jafnvel með vatnsrennsli. „Gilið er nær ófær krapaelgur“.
Krapaflóð / Krapahlaup / Krapasull (n, hk) Agi/flaumur af krapa og vatni. „Það hljóp ansi mikið krapaflóð niður Árnateiginn“. „Það er árans krapasull á jörð, en féð kannski nær einhverju á þúfnakollunum“.
Krapahríð / Krapaslydda (n, kvk) Slydduél. „Bölvuð krapahríð er þetta; maður verður innúr að fara rétt á milli húsa“!
Krapalækur (n, kk) Lækur sem rennur um krapaelg. „Á leiðinni vfann ég skyndilega að ég stóð upp í mitti í krapalæk, og varð strax ísköld og blaut“ (Ólöf Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg).
Krapaslabb / Krapasull / Krapavaðall (n, hk) Krapaelgur.
Krapastífla (n, kvk) Stífla af krapa. „Ég ætla að reyna að stinga gegnum krapastífluna í vatnsrásinni“.
Krapkenndur / Krapakenndur (l) Um snjó; svo frostlítill/blautur að nánast er krap; fremur blautur/linur. Sjá hnoðsnjór/troðslusnjór.
Krapi (n, kk) Krap. „Það er töluverður krapi á jörð“.
Krapphyrnd (l) Um hornalag á kind; með krappri sveigju. „Kreppa var áberandi krapphyrnd“.
Krappi (n, kk) Hluti í skipi; Vinkill úr öflugu tré sem annarsvegar er hafður til styrkingar þar sem mætast kjölur og stefni, og hinsvegar þar sem borðstokkar mætast við stefni. Krappi var gjarnan hafður úr völdum viði, helst úr rótarhnyðju, þar sem lega æðanna fylgir átaksstefnunni. Einnig var fremsta rúm í bát stundum nefnt krappi eða krapparúm, en oftast þó barki.
Krappur (l) Með þröngri sveigju / þröngu horni. „Fjarðarbáran getur orðið ansi k röpp og leiðinleg“.
Krappur sjór (orðtak) Mikill sjór/sjógangur með bröttum bárum og lítilli öldulengd. „Við lentum í ansi hreint kröppum sjó í röstinni“. „Úmsir krappan sækja sjá;/ sumir happi fagna./ Margur slappur þykir þá/ þegar kappann reynir á“ (JR; Rósarímur).
Krapsnjór (n, kk) Blautur snjór á jörð; krap.
Krassi (n, kk) A. Teinn/kólfur til að hlaða framhlaðning. B. Teinn til að hreinsa byssuhlaup. C. Teinn til að skjóta af rófubyssu.
Kratabjálfi / Kratakvikindi (n, kk/hk) Niðrandi heiti á stuðningsmanni Alþýðuflokksins. Á síðari hluta 20. aldar, og e.t.v. lengur, voru bændur í Rauðasandshreppi upp til hópa framsóknarmenn; enda beitti sá flokkur sér mjög í þeirra hagsmunamálum. Undantekningar voru þó á þessu, og á sumum bæjum naut t.d. sjálfstæðisflokkurinn stuðnings. Fáir, ef nokkrir, studdu Alþýðuflokkinn í Rauðasandshreppi, en vitað var af einstaka manni í næstu byggðarlögum sem það gerði. Það töldu framsóknarmenn hina örgustu villutrú og fundu þeim flokki allt til foráttu; töldu jafnvel íhaldsdindla og komma skömminni skárri.
Kratasnepill (n, kk) Niðrandi heiti á Alþýðublaðinu, en það var oft efnislítið. Sjá kratabjálfi um viðhorfin.
Kratíska (n, kvk) Viðhorf sem framsóknarmenn, og e.t.v. fleiri, töldu túlka stefnu Alþýðuflokksins. Sú stefna var af framsóknarmönnum talin mjög fjandsamleg bændum, og lýsa litlum skilningi á búskap. „Vertu nú ekki að koma með einhverja bölvaða kratísku“!
Krati (n, kk) Stytting á demókrati; maður sem styður hugsjónir jafnaðarmanna/demókrata/Alþýðuflokksins.
Krauma (s) Sjóða. „Ég lét ketið krauma dágóða stund í pottinum“.
Kraumgott (l) Mjög kjarnmikið/bragðsterkt. „Hún verður æði kraumgóð þessi ketsúpa“ Orðið heyrðist alloft í máli Kollsvíkinga. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). „Jón forni var furðu forvitinn á kveðskap sem hann kallaði kraumgóðar vísur, en það lýsingarorð kvaðst hann hafa lært af Vestfirðingunum“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).
Krákuskel (n,kvk) Kræklingsskel; kræklingur; bláskel. „Það voru miklar hrannir af krákuskel í fjörunni“.
Krákustígar (n, kk, fto) Hlykkjóttar leiðir. „Ég komst upp klettinn eftir miklum krákustígum“.
Krás (n, kvk) Veislumatur; mjög góður matur. „Svo settumst við að krásunum“.
Kredda (n, kvk) Kennisetning; umdeild kenning; trúarsetning. Stofnskyld „credo“ sem er latneskt heiti á trúarjátningunni.
Kreddufastur / Kreddufullur (l) Fastheldinn á sína trú; trúaður á kennisetningu/staðhæfingu. „Ég nenni ekki að rökræða við svona kreddufastan þverhaus; það er hreint ekki hægt“!
Kreddukóngur / Kreddupostuli (n, kk) Sá sem er mjög fastheldinn á sínar trúarsetningar/skoðanir, sem þykja kreddufullar. „Það er ekki lífsins leið að ræða nokkuð af viti við þann kreddupostula“!
Krefja / Krefjast (s) Heimta; biðja ákveðið. „Ég krafði hann um svör en fátt var um þau“. „Ólafur krafðist þess að jafnframt yrði skoðað féð á Stökkum, og var svo gert“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943).
Kreik (n, hk) Hægur/rólegur gangur; róleg hreyfing. Nú eingöngu í orðtökum; á kreiki; fara/komast á kreik.
Kreista (s) Kremja; þrýsta þétt saman t.d. í hnefa/neip/fangi sér.
Kreista (n, kvk) Aumingi; lítið og vesælt. „Óttalegar kreistur eru þessi lömb; úr svona stórri tvævetlu“.
Kreista kjúkur (orðtak) A. Nudda saman höndunum, annaðhvort í óróleika eða til að fá í þær hita. B. Kreppa hnefana í reiði. „Hann sagði ekki orð, en hleypti brúnum og kreisti kjúkur“.
Kreistingur (n, kk) Lítið/lélegt lamb; vesalingur; aumingi; aftanúrkreistingur. „Óttalegur kreistingur er þessi hrútkægill; en hann virðist ætla að spjara sig furðanlega“.
Kremja (s) Merja; þvinga saman. „Ég kramdi puttann á milli steina af tómum klaufaskap“.
Krepja (n, kvk) Krap; blautur snjór. „Bíllinn flýtur betur á snjónum eftir að komin er í hann dálítil krepja“.
Krepja (s) Um snjó; hlýna/þiðna svo að klessist. „Það var ólíkt betra göngufæri eftir að snjóinn krepjaði aðeins“.
Krepja (s) Lina frost í snjó; þiðna. „Færðin er mikið betri eftir að fór að krepja í þessu“.
Krepjuél / Krepjuhríð / Krepjukafald (n, hk/kvk) „Það var farið að hlýna í lofti, en þá skall yfir okkur ákaft krepjukafald, svo við urðum hundblautir inn að skinni á stuttum tíma“.
Krepjusnjór (n, kk) Krepja; fremur þýður snjór sem klessist. „Það er ágætt að aka í krepjusnjó; svo lengi sem hann verður ekki of þýður og hættir að halda bílnum á floti“.
Kreppa (n, kvk) A. Aðhald; þrenging. „Ég er kominn í hálfgerða kreppu með þetta verk“. B. Slæmt efnahagsástand. „Eftir bankahrunið spáðu margir langvarandi kreppu, sem þó ekki varð“.
Kreppa að (orðtak) Þrengja að. „Hann var ekki á því að gefast upp þó nokkuð kreppti að“.
Kriki (n, kk) Vik; skot; lokaður dalur. „Þarna í krikanum er haglendi með besta móti“. T.d. handarkriki.
Krikkja (n, kvk) A. Trjárót; sveigður rótarhluti. B. Hælkrappi; stykki sem festir og styrkir samskeyti kjalar og stefnis á báti. Oft smíðað úr sveigðri trjárót til að fá góðan styrk.
Krimta (s) Hlægja lágt og niðrí sig; umla. „Það krimti dálítið í karlinum þegar hann sagði frá þessu“.
Kringilfættur (l) Hjólbeinóttur. „Það háði honum nokkuð til gangs hvð hann var kringilfættur“.
Kringla (n, kvk) Það sem kringlótt er, og tiltölulega flatt. B. Haldabrauð; sérstök brauðtegund, í laginu annaðhvort sem hringur eða lík gleraugum. Nafnið er dregið af erlendum stofni.
Kringluhaus (n, kk) Algengasta verkunaraðferð þorskhausa var að herða þá sem kringluhausa (sjá þorskhaus).
Kringluleitur (l) Með nær kringlótt andlit.
Kringlumjólk / Kringlusúpa (n, kvk) Súpa sem gerð er með því að sjóða krinlur uppúr mjólk. Nokkuð algengur matur í Barnaskólanum í Örlygshöfn á fyrstu árum hans í Fagrahvammi.
Kringum (fs) Umhverfis. „Hnísurnar léku sér allt í kringum bátinn“. B. Um það bil; hérumbil. „Þetta eru eitthvað í kringum hundrað kíló“.
Kringumstæður (n, kvk, fto) Aðstæður; ástand; staða mála. „Það var lítið annað að gera við þessar kringumstæður en bíða eftir að veðrið lagaðist“.
Kristalgljáandi (l) Mjög gljáandi/skínandi. „Sum jakabrotin sem rak á fjöruna voru gegnsæ og kristalgljáandi“.
Kristaltær (l) Alveg tær/hreinn/glær. „Víða sprettur kristaltært vatn úr jörð í Kollsvíkinni, t.d. í Kaldabrunni á Láganúpi og Gvendarbrunni í Kollsvík“.
Kristfjárjörð (n, kvk) Jörð sem gefin er Jesú Kristi, í þeim tilgangi að arður hennar renni til framfærslu fátækra og sjúkra. Nokkuð var um slíkar gjafir á kaþólskum tímum, en umboðsmenn Jesú hérlendis; prestar, klaustur og biskupar, fóru með ráðstöfun og umsjón jarðanna. Fljótlega fóru gjafirnar að miða við framfærslu gefandans. Kóngur sölsaði undir sig þessar eignir um siðaskiptin, en lét margar þeirra aftur til kirkjunnar. Til skamms tíma voru nokkrar kristfjárjarðir til á Íslandi; allar undir stjórn sveitarfélaga.
Kristilega (ao) Rétt; eðlilega; tilhlýðilega. „Það var hlutverk formanns að gæta þess að sjóferðibænin væri kristilega beðin áður en lagt var frá landi“.
Kristilegur (l) Eðlilegur; tilhlýðilegur. „Ég var að koma úr moldarvinnunni og er kannski ekki alveg kristilegur til að setjast við veisluborð“. „Ekki var það kristilegur munnsöfnuður sem þá heyrðist“.
Kristilegt athæfi (orðtak) Siðlegt/ við hæfi að gera. Oftast notað með neitun, um vafasamar tiltektir/aðferðir. „Það er kannski ekki kristilegt athæfi að setja afolíu á vélina, en hún verðu nú bara að þola það þangað til ég sæki nýja á Gjögra á morgun“.
Kristilegur tími / ókristilegur tími (orðtök) Viðeigandi/háttvís tími. „Ég kann nú betur við að vera á kristilegum tíma þegar ég fer í heimsókn á aðra bæi“. „Hann ræsti alla á bænum á ókristilegum tíma“.
Kristindómur (n, kk) Kristin trú; kristinn siður; kristnihald. „Kristindómurinn hefur kannski alltaf verið mismunandi alvarlega tekinn eftir landshlutum, en fullyrða má að honum hefur hrakað mjög í senni tíð“.
Kristinn kjammi / Heiðinn kjammi Nöfn sem Útvíknamenn notuðu á hlutum flyðruhauss eftir að hann hafði verið klofinn upp. „Eftir að flyðruhausinn hafði verið klofinn upp voru höfuðkinnar nefndir kjammar eða vangar. Í Vestmannaeyjum var svarta kinnin nefnd dráttarkinn en sú hvíta ífærukinn. Í verstöðvum í nánd við Látrabjarg kallaðist hvíta kinnin heiðinn kjammi en sú svarta kristinn kjammi. Mikill matur var í höfuðkinnum af stórum flyðrum og þær voru því taldar afbragðs beinfeiti. Oftast voru þær soðnar nýjar; einnig visaðar eða saltaðar“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: Guðbj.Guðbjartsson Lágnúpi).
Kristna (s) A. Snúa til kristni. B. Ferma. C. Sannfæra; fá einhvern á ákveðna skoðun. „Ekki verit ég hvort þessum allaböllum tókst að kristna hann“. Heyrðist mest notað þannig í seinni tíð.
Kristniboð / Kristniboði (n, hk/kk) Það að boða þeim kristna trú sem ekki höfðu hana áður, og sá sem það gerir. Fyrstu kristniboðarnir sem sendir eru til Íslands eru óumdeilanlega Örlygur Hrappsson og Kollur fóstbróðir hans, sem stunduðu nám við Kólumbusarklaustrið á Iona í Suðureyjum. Segir í Landnámu að þá hafi langað til Íslands en Patrekur lærifaðir þeirra sagði þeim tl vegar; að þeir skyldu reisa kirkju á Kjalarnesi, sem þá var eflaust orðið nokkuð fjölmennt. Biskup hafi síðan látið þeim í té kirjuvið og messugögn. Hrakningar við Íslandsstrendur ollu því að Örlygur hafði vetursetu í Örlygshöfn áður en hann hélt suður og byggði fyrirhugaða kirkju að Esjubergi; en Kollur braut skip sitt í Kollsvík. Þó þess sé ekki getið beint í heimildum er líklegt að hann hafi byggt hina fyrstu kirkju á landnámsjörð sinni, Kollsvík. Til þess bendir m.a. heitið Kirkjuból (sjá kirjuból og kirkja).
Þeirri sögufölsun hefur verið haldið að skólabörnum og öðrum að fyrstu kristniboðarnir hafi verið aðrir, og eru þar nefndir m.a. Þorvaldur víðförli, Stefnir Þorgilsson, Þangbrandur og fleiri. Ekki er ljós tilgangurinn með slíkum þvættingi. Landnáma er óljúgfróð í þessum efnum.
Kristnihald (n, hk) Ástundun kristinna helgisiða og kristinnar trúar. Ekki er annað að sjá af heimildum en kristnihald í Kollsvík og öðrum Útvíkum hafi verið stundað með svipuðum hætti og annarsstaðar gerðist í gegnum tíðina. Enda gekk kirkjuvaldið mjög ríkt eftir því á meðan það hafði tögl og hagldir í landinu og gat notað refsivöndinn. Fram 20. öld paufuðust menn til kirkju um langan veg í misjöfnum veðrum; héldu hvíldardag heilagan þó annir væru miklar; lásu húslestra og bænir hvert kvöld og bænuðu sig fyrir sjóferðir, bjargferðir og önnur ferðalög. Eldra fólk, ekki síst kvenfólk, á síðari hluta 20. aldar var mjög trúað. Að hinu má leiða líkum, að vermannalífið hafi ekki alltaf verið mjög hliðhollt kristindómnum. Enda bera sögur þess tíðum vitni. Þar var líklega meira notað af ókristilegum munnsöfnuði, og ekki greinir frá húslestrum í verum. Það má því e.t.v. að jafnaði telja að útgerðarstaðir fyrri tíðar hafi verið fjarlægari kristindómnum en landluktar byggðir; ekki síst staðir sem voru jafn fjarri biskupsstólum og Kollsvík. Víst er um það að enn lifir þar dágóður orðaforði kenndur við hinn svarta sjálfan, eins og víða má sjá í þessari skrá.
Kristnitaka (n, kvk) Almennur snúningur fólks frá heiðni til kristinnar trúar. Ekki er núna vitað með vissu hvernig kristnitakan árið 1000 var innleidd í Kollsvík, fremur en annarsstaðar. Áhugavert er þó að velta því fyrir sér hvort Kollsvíkingar urðu ekki fyrri til en meirihluti landsmanna í þessari trúarbyltingu. Landnáma greinir frá því að fóstbræðurnir Kollur og Örlygur komu til landsins að ráði Suðureyjabiskups til trúboðs, og höfðu með sér kirkjuvið. Örlygur byggði fyrstu kirkjuna að Esjubergi. Kollur lenti í skipbroti í Kollsvík, og kann einnig að hafa byggt kirkju þar; af þeim viðum sem í hans skipi voru. Hann hefur eflaust haft kristna trú í heiðri; svo og hans afkomendur þar. Því kann að vera að aldrei hafi verið stundaður heiðinn siður í Kollsvík, heldur hafi þar rekið á land kristna trú með skipbrotsmanninum og trúboðanum Kolli. Gegn þessu má tefla því að munnmæli telja Koll heygðan á Blakknesnibbu; en þá skal í huga haft að kristnir menn héldu í heiðri marga fyrri siði. Af Blakknesnibbu sést ekki einungis til Biskupsþúfu, þar sem vopn hans og gersemar eiga að vera fólgnar; heldur einnig til kirkjustæðisins í Kollsvík, þar sem hann kann að hafa reist fyrstu kirkju landsins.
Kría (n, kvk) A. Sterna paradisaea. Fugl af þernuætt; fremur lítil eða um 38 cm að lengd og 100g að þyngd; hvít á kviði og stéli og undir væng; grá á baki og ofaná vængjum; með svartan koll og svarta vængbrodda; rauða fætur og rautt nef á sumrin (svart nef á veturna). Stélið er mjög klofið og vængir langir og hvassyddir, enda er krían rennileg og snör á flugi. Hún er síkvik og situr ekki lengi á sama stað; er af því dregið líkingin; „eins og kría sest á stein“. Krían er algengur varpfugl víða við sjó á Íslandi og verpir þá í þéttum vörpum, sem hún ver af miklu harðfylgi. Bæði ránfuglar sem skepnur og menn fá þá að kenna á oddhvössum goggi hennar, og njóta aðrir varpfuglar í grenndinni góðs af vörnum kríunnar. Eggin eru 1-2 í hreiðri, stundum 3, og útungunartíminn er um 16 dagar. Ungar verða fleygir á 3-4 vikum, en meðan þeir vaxa halda þeir sig gjarna nærri hreiðrinu og foreldrarnir færa þeim síli að éta. Fæða kríunnar er mestmegnis síli; einkum sandsíli, og sveiflast varp hennar og viðkoma nokkuð með aðgengi að því. Krían er farfugl, og talin langfleygasti fugl veraldar. Vetursetustöðvar hennar eru á suðurhluta Afríku og S-Ameríku, og á farfluginu flýgur hún um 300 km á dag.
Krían hefur verið fastur varpfugl í Kollsvík, eins og víðar við sjó í Rauðasandshreppi. Oft hafa verið tvær varpstöðvar í Kollsvík; sú stærri á Fitinni ofan Grunda og uppeftir Ytra-Gili og Þórarinsmógröfum, en sú minni á Náttmálaholtinu í Kollsvík. Á síðari áratugum hefur varpið átt erfitt uppdráttar, og í sumum árum mistekist alveg. Veldur því annarsvegar að göngur sandsíla við landið hafa brugðist, og hafa aðrir sjófuglar liðið fyrir það, s.s. lundinn. Hinsvegar hefur uppgangur minks og tófu orðið skefjalaus í seinni tíð; með minni áherslu á veiði þeirra og minnkandi búsetu á svæðinu. Greinilegt er að krían sækir nokkuð í að hafa varp sitt nærri mannabyggð; engu líkara en hún sjái í því vernd manna og hunda gegn ásókn minks og tófu. Meðan kríuvarp var með mestum blóma var eitthvað tínt af kríueggjum til matar, en þó meira til gamans og tilbreytni en þarfa; enda eru kríuegg matarlítil miðað við tiltæk egg múkka og svartfugls. Helst fóru krakkar í kríueggjaleit; oft búnir prikum og hjálmum til varnar og með litlar kríueggjafötur. Sumir átu þá eggin með skurninni, og þótti ekki taka því að leggja verk uppá að afskurma. Kríuvarp getur þó verið til ama þegar það er í túnum, þar sem sláttur drepur eða slasar unga og brýtur egg. Er því hyllst til að slá þau tún síðar, til að spilla ekki fyrir fuglinum.
B. Stuttur blundur; lúr. „Hann fékk sér stundum kríu eftir hádegið og hresstist mikið við það“.
Kría út (orðtak) Fá með fortölum; særa út. „Nauðsynjar úr búð voru keyptar fyrir veturinn, en sumir höfðu ekki efni á því og urðu að kría út lán þegar komið var fram á vetur“ (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).
Kríli (n, hk) A. Smábarn. „Litla krílið svaf vært í vöggu sinni“. B. Hvaðeina sem er mjög lítið; „Þú rærð ekki djúpt á þessu kríli“! C. Rauðáta; smávaxin sviflæg krabbadýr sem eru mikilvæg undirstöðufæða margra fiska og hvala.
Krímóttur / Krímugur (l) A. Með klakabrynju framan í sér eða í skeggi. B. Krímótt er litur á fé; dökkdílótt í framan, en það gat einnig orðið krímótt í framan af snjó og klaka ef það var úti í hríðarbyl og frosti.
Krímugur (l) Skítugur í framan; skáldaður af skít. „Þeir voru krímugir í framan og moldugir uppfyrir haus þegar þeir komu heim úr pælunni“.
Krípur (n, kk) Krossflaugadreki;algengur stjóri á bátum í Kollsvík þar til patentakkeri komu til.
Krípurhnakki (n, kk) Aftari/neðri endi á kríp. Á krípurhnakkann var stundum bundið færi, og við það fest flot/dufl. Var hægara að losa krípurinn úr botni með því að draga það færi samhliða festinni.
Krít (n, kvk) A. Hvítt kalkstykki sem notað er til að skrifa/merkja með. Einnig notað um rauða millibergið sem víða finnst, t.d. í Kollsvík, enda má vel kríta með því. B. Skuld. Orðið er leitt af því að kaupmaður merkti stundum við hjá sér með krít þegar einhver tók út vörur í skuld. Sjá uppá krít. C. Tímabil í lífssögu jarðar; krítartímabilið sem tók við af júratímabilinu.
Kríta (s) Merkja með krít/lit/túss; litamerkja. Einkum átt við að merkja líflömb til ásetnings eða gamalær/afsláttarkindur til slátrunar.
Kríta liðugt (ortak) Ljúga; skreyta frásögn með hálfsannleika. „Honum hættir dálítið til að kríta liðugt“.
Krítarpípa (n, kvk) Reykjarpípa gerð úr krítarsteini/ mjúkum tálgusteini. Brot úr krítarpípu fannst við fornleifauppgröft í Grundabökkum árið 2012 (Ragnar Edvardsson fornl.fræðingur); talin frá 16. öld.
Krítisera (s) Gagnrýna; setja útá. „Ekki hef ég nein efni á að krítisera þetta hjá þér“. Úr t.d. ensku; criticize.
Kríublundur (n, kk) Örstuttur svefn. Vísar til þess að krían er talin sofa mjög stutt í einu og er síkvik. „Ég fékk mér smá kríublund eftir matinn“.
Kríuger (n, hk) Mikill fjöldi af kríum á litlu svæði. „Mér sýnist á kríugerinu að þarna gæti tófa verið á ferð“.
Kríulöpp (n, kvk) A. Fótur á kríu. B. Í líkingamáli; bremsufar; gæluorð um það þegar einhver gerir lítillega í buxurnar/ skítur á sig. Stundum notað í stríðnistón þegar einhver hefur rekið hraustlega við; tekið hraustlega á eða orðið mjög hræddur. „Nú gæti ég trúað að hafi komið kríulöpp“!
Kríuvarp hefur verið í Kollsvík frá öndverðu, þó misjafnlega hafi það gengið. Tvö varpsvæði eru oft; annað í Kollsvíkurlandi, oftast á Náttmálaholtinu; hitt Láganúpsmegin var mjög breytilegt. Stundum er það á Grundatúni; stundum á Fitinni; Brunnsbrekku; Ytragili eða Gróumel.
Krjúfa til mergjar (orðtak) Rökræða; ræða til hlítar; komast að niðurstöðu. „Svo var á þessum málfundum pólitíkin krufin til mergjar“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Krjúpa (s) A. Leggjast niður á hnjé. „Ég kraup niður og reimaði skóinn“. B. Sýna lotningu með því að leggjast á hné. „Þau krupu við gráturnar og meðtóku sakramentið“. Sjá einnig knékrjúpa.
Krof (n, hk) Afturhluti af ketskrokk; lærin samhangandi ásamt hrygg og 2-4 öftustu rifjunum. „Tekið var í reyk helst geldfé; gjarnan valið vænt fé. Tekin voru krof af því; þ.e. skrokkurinn tekinn í sundur þvert aftan við bógana og læri, hryggur og síða saltað í heilu lagi“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kroftré (n, hk) Spýta sem rekin er í gegnum og milli hæklanna á krofi, sem síðan er hengt upp á rá til reykingar, og liggur þá kroftréð á ránni.
Kropp (n, hk) A. Nart (í mat/fæði/fóður/gras). „Það eru víða jarðbönn, en ég gæti trúað að féð fengi helst eitthvað kropp hér frammi á Foldunum“. „Vertu nú ekki að þessu kroppi í hryggjarliðinn; fáðu þér annan bita“. B. Lítill afli/fengur. „Hann var asskoti tregur í dag; við fengum smávegis kropp hér suðurundir Röstinni“. „Hann nurlaði í kýrfóðrið með þessu kroppi“.
Kroppa (s) A. Narta. „Hrafninn hafði kroppað úr henni augað þegar að var komið“. B. Slá. „Afi var furðu naskur að kroppa þarna í Urðunum, og ekki man ég til þess að egg hafi nokkurntíma numið við stein“. C. Veiða. „Eitthvað hafa þeir verið að kroppa hér á víkinn síðustu dagana“.
Kroppa til þrifa (orðtak) Vinna vel að beinum; nýta mat sinn vel, einkum með því að kroppa hverja einustu tutlu af beinum t.d. með vasahníf. „Skömm er að sjá hvernig þú gengur að matnum drengur! Hana; láttu mig sjá beinið; ég skal sýna þér hvernig á að kroppa það til þrifa“! Sjá éta til þrifa.
Kroppbeit / Kroppjörð (n, kvk) Kropp; lítilsháttar bithagi. „Víða er kroppbeit uppi á heiðunum, þó þar sé bert yfir að líta“. „Vísaðu fénu hér fram á Foldin; þar gæti helst verið einhver kroppjörð í þessum klamma“.
Kroppur (n, kk) Líkami. „Asskoti gerir það gott í kroppinn að fá ný múkkaegg“!
Kross (n, kk) A. Kristið tákn, sem sagt er byggja á því að Kristur hafi verið deyddur á krossi; lóðrétt slá/strik með styttri slá/striki þversum ofan miðju. B. X. Merki með tveimur strikum sem mynda um 90° horn hvort við annað. Kross með skástrikum er notaður til ýmiskonar merkinga, t.d. við nafn/framboðslista í kosningum. C. Þyngsli; byrði. Vísar e.t.v. til hins þunga kross Krists, en sagt er að hann hafi þurft að bera hann sjálfur til krossfestingarinnar. Af því er dregið heitið húskross. „Þetta varð honum þungur kross“.
Krossa (s) A. Gera krossmark; signa „Síðan gengu viðstaddir hjá kistunni og krossuðu yfir hana“. Hjátrúin segir að það geti veitt töluverða vörn gegn draugum og árum að krossa dyr eftir að þeim hefur verið lokað. B. Veita fálkaorðu eða annað heiðursmerki með krossmarki. Síðari tíma tal.
Krossa sig (orðtak) Signa sig; gera krossmark fyrir sér með hægri hönd. Signing byrjar með því að enni er snert með fingurgómum og sagt „Í nafni guðs föður“; síðan brjóst og sagt „sonar“ og síðan er hönd hreyfð frá vinstri til hægri þvert á þessa ímynduðu línu, og sagt „og heilags anda“. Oftast fylgir „amen“ á eftir. Menn krossuðu/signdu sig við ýmis tækifæri meðan trúarhiti var meiri í landinu en nú er; t.d. áður en haldið var á sjó eða í langferð eða bjargsig. Einnig að morgni; fyrir máltíðir og fyrir svefn.
Krossa sig í bak og fyrir (orðtak) Sverja af sér; sverja og sárt við leggja; verða mikið um atvik/frétt. „Hún krossaði sig í bak og fyrir og sagðist ekkert hafa heyrt af þessu“.
Krossband (n, hk) A. Band sem bundið er utanum hlut þannig að liggur í kross á einum eða tveimur stöðum. Krossband tíðkaðist mjög sem frágangur á póstsendingum áðurfyrr. B. Sinar í liðamótum, t.d. í hné.
Krossberi (n, kk) A. Annað heiti á Jesú Kristi; sá sem ber krossinn. B. Sá sem á bágt, og hefur því mikla erfiðleika að kljást við. „Það er nú ekki meira leggjandi á hann; þennan vesalings krossbera“.
Krossbinda (s) Binda þannig utanum hlut að böndin liggi í kross á tveimur gagnstæðum stöðum. Þannig var t.d. oft bundið á akkerissteina, netasteina o.fl.
Krossbit (l) Steinhissa; brugðið. Ég er nú alveg krossbit yfir þessari uppákomu“!
Krossbundinn (l) Það sem búið er að krossbinda. „Þessir steinar voru krossbundnir í endann á landtóginu...“ (Magnús á Skógi; Árb.Barð; 1959-67).
Krossbölva (s) Blóta samtvinnað/ljótt og af krafti. „Gunnsi krossbölvaði þegar hann sá steypuna í hjólbörunum og lét svo grjótinu rigna yfir þá sem stóðu við hrærivélina“.
Krossfiskur (n, kk) Asteroidea. Stjörnulaga sjávardýr af fylkingu skrápdýra. Rándýr sem nærast að mestu á botnföstum hryggleysingjum, þ.e. skelfiski. Þeir finnast í mörgum tegundum sem eru með mismunandi marga arma, þó oftast fimm; oftast rauðleitir eða gulleitir. Fjölgun getur bæði verið með kynæxlun og kynlausri æxlun. Í heiminum eru þekktar um 2000 tegundir krossfiska; allt frá grunnsævi niður að 6 km dýpi. Helstu líffæri eru í miðparti líkamans, en í hverjum armi er hol sem inniheldur meltingarkyrtla og kynkirtla. Ljósnæmur augnblettur er á enda hvers arms. Krossfiskar geta hreyft sig hægt með örmunum, en í þeim eru hólf sem fiskurinn fyllir eða tæmir til að stýra hreyfingum. Á örmunum eru sogskálar. Krossfiskar hafa einstaka hæfileika til að endurnýja líkama sinn. Ef armur er skorinn af getur annar vaxið í staðinn, auk þess sem sá afskorni getur orðið að öðrum krossfiski. Þeir geta hvolft út hluta magans þegar þeir nærast. Þeir eru snillingar í að opna skeljar með því að soga armana fasta við hvorn skelhelming og þvinga skelfiskinn til að opna þegar vöðvi hans þreytist.
Krossfiskur er algengur við Ísland. Engar nytjar hafa veerið af honum, en hann kemur oft upp t.d. í netum; einkum þar sem hræ hafa byrjað að rotna.
Krossflaugadreki (n, kk) Krípur; dreki/stjóri með fjórum flaugum. Notaður á bátum í Kollsvík og víðar. Orðabækur gefa upp „krossflaugastjóra“ o.fl. en þetta heiti var algengast í Kollsvík.
Krossfletta (s) Um sögun bolviðar; fletta trénu fyrst eftir miðju og svo aftur þvert á fyrri flettinguna; þannig að úr fáist fjórir svipaðir flettingar, þríhyrndir í þverskurð.
Krossflettingur (n, kk) Flettingur úr trjábol sem krossflett hefur verið.
Krossgötur (n, kvk, fto) Þar sem vegir/götur skerast. „Þar komum við á krossgötur sem koma þvert á okkar leið“ (IG; Sagt til vegar II).
Krosskönguló (n, kvk) Araneidae; ætt algengra köngulóa á Íslandi en hérlendis finnast af henni 5 tegundir; hin eiginlega krosskönguló, skartkönguló, sveipkönguló og maurkönguló. Krossköngulóin (Araneus diadematus) er með ljósbrúnan frambol, oftast með þremur dökkum langrákum og ljósbrúnan afturbol með hvíta bletti sem mynda kross. Hún er vefkönguló og spinnur gjarnan hjóllaga vef í klettasprungur, holur og víðar, og situr vanalega einhversstaðar í honum og hefur auga með veiðiskapnum. Ógæfumerki þykir að skemma vefinn og var börnum í Kollsvík ætíð kennt að bera virðingu fyrir köngulónni og vef hennar. á skjólsælum stöðum, t.d. á Hnífaflögu og Grófum, má að sumarlagi sjá stórfelldan veiðiskap krossköngulóa; vef í nánast hverri glufu. Krosskönguló getur bitið í gegnum húð á manni, en það er óalgengt.
Krossleggja barkann (orðtak) Leggja árar og/eða mastur í kross yfir barka báts. „Í Útvíkum báru hásetar farbúnað á skip meðan formaður naglfesti. Árar voru lagðar til lags; blöð andófsára lágu fram á söx en blöð miðskips- og austurúmsára aftur. Mastur og segl lágu þannig að masturstoppur nam við hnýfil, en masturshæll við kollharð á miðskipsþóftu bakborðsmegin. Aldrei mátti krossleggja barkann, sem kallað var; láta árar og mastur liggja í kross hvað ofan á öðru fram í barka“ (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III). Sjá sjósetja.
Krossmark (n, hk) Kross; teikning/eftirmynd af krossi. Skrásetjari þessa orðasafns fann, um árið 1969, lítinn stein úr sandsteini, við kartöfluupptöku stutt framanvið gamla bæjarhólinn á Láganúpi; uppi undir litlum hól sem þar er. Steinninn er greinilega brotinn, en á honum er kross á annarri hliðinni, en kringla með krossmarki á hinni; líklega keltnesku. Steininn gaf ÖG til Þjóðminjasafnsins, og þar er hann skráður sem steypumót. Ekkert verður þó sagt með vissu um notkun hans eða aldur. Sé um keltneskan kross að ræða gæti steinninn verið mjög gamall. Upp í hugann koma hugleiðingar um papa, sem að sögn Landnámu voru hér þegar landnámsmenn bar að garði. Einnig má hafa hugfast að Kollur og Örlygur voru á trúboðsskóla á Suðureyjum, og voru líklega í trúboðsleiðangri þegar þeir hröktust á þessar slóðir. Papar og Kollur höfðu keltneska krossa um hönd. Hafi Kollur byggt fyrstu kirkju landsins í Kollsvík, sem ekki er óhugsandi, má ætla að þangað hafi komið skipverjar hans, sem sumir námu land í Rauðasandshreppi og Tálknafirði. Menn kunna að hafa tálgað sér krossa með hinu helga krossmarki.
Annað má hafa íhuga: Hafi Kollur reist sér kirkju í Kollsvík, má ætla að þar hafi hann einnig reist kross; þá líklega keltneskan. Ekki er ólíklegt að sá kross hafi staðið beint vestur af kirkjudyrum; á steini þar í túninu, 60m frá kirkjuhólnum, sem Biskupsþúfa nefnist. Á steininum var nokkur bannhelgi, og segja munnmæli að við hann hafi Kollur grafið vopn sín og fjársjóði. Munnmælin segja einnig að steinninn beri nafn af því að þar hafi Guðmundur biskup góði áð (messað) á leið sinni til vígslu Gvendarbrunnsins stuttu norðar. En hlaut steinninn e.t.v. nafn sitt mun fyrr? Gæti hann ekki hafa heitið í höfuð Patreki Suðureyjabiskupi, sem gerði Koll og Örlyg út með kirkjuvið og vegvísa til að kristna landið? Hafi þar staðið krossmark, sér þess engan stað í dag; ekki fremur en annars sem á Koll minnir, að frátöldu lágreistu Kollsleiðinu fremst á Blakknesnibbu. Víst er um það að Kollsvíkurbærinn nefndist um langan aldur Kirkjuból, og að þar var lengi hálfkirkja í kaþólskum sið, þar sem leyfð var greftrun.
Karl Sigurbjörnsson biskup segir í Mbl í jan 1998: „Keltneski krossinn hefur frá fornu fari verið notaður sem verndartákn á Írlandi og Skotlandi. Hann var reistur á stöðum þar sem óhöpp hafa orðið og/eða við inngang að bæjum og þorpum. Þá hefur hann upphaflega verið yfirlýsing um að þarna búi kristið fólk“. Krossmark Kolls á Biskupsþúfu hefði blasað vel við frá sjó; reist í þakkarskyni við Patrek biskup og fyrir giftusamlega björgun Kolls úr fyrsta sjóslysinu við Íslandsstrendur; skipbrotinu á Arnarboða.
Krossmessa (n, kvk) Krossmessur voru tvær árlega í pápískunni. Hin fyrri er 3.maí; í minningu þess er kross Krists var fundinn árið 326. Sú krossmessa var einn af mestu átrúnaðardögum varðandi veðurfar. „Ætli hann breyti nú ekki um Krossmessuna“. Hin var „krossmessa á hausti“ 14, september, í minningu þess að Heraklíus keisari vann Jerúsalem og paufaðist með krossinn upp á Golgata.
Krosssaumsmynd (n, kvk) Mynd, saumuð út með krosssaumi. „Hinsvegar er til smáklútur sem amma mín saumaði í stafi og kynjadýr með krosssaum en hún var orðin fullorðin þegar hún var að æfa sig í þessu. ... Mér finnst bera meira á krosssaumsmyndum en áður var, og ég held að þar spili nokkuð inn í að húsmæðraskólar hafa verið lagðir niður“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Krosssprunginn (l) Sprunginn í kross. „Í frosthörkunum voru víða krossprungnir klakabólstrar á Mýrunum“.
Krosstré (n, hk) Líklega er hér átt við trékross eða við úr krossi. Orðið er ekki notað í seinni tíð nema í orðatiltækinu svo bregðast krosstré sem önnur tré. Orðið kann þó að tákna hið sama og krosssperra, sem er sperra á toppmynduðu þaki, s.s. á kirkju; enda voru krosssperrur mjög notaðar í kirkjuturna og hvelfingar. Ellegar hvað annað tré sem mislagt er til styrkingar.
Krossviður (n, kk) Viðarplata sem er samsett úr mörgum þunnum samlímdum viðarplötum, þar sem æðar liggja á víxl þversum og langsum. Krossviður er því mjög sterkur miðað við þykktina og annan við.
Kró (n, kvk) Tvenn merking. A. Stía í fjárhúsi, t.d. hrútakró; lambakró. B. Fiskistía í veri, en í þær var fiskurinn saltaður. „Við Syðrilækinn sunnanverðan voru ruðningar þar sem gert var að fiski og fiskkrær stóðu sem fiskurinn var saltaður í.... Meðfram Búðarlæknum áttu allt að 14 skipshafnir ruðninga sína og nokkrar þær efstu áttu yfirbyggðar söltunarkrær; voru það einkum heimamenn“ (KJK; Kollsvíkurver). „Lækur rann við endann á ruðningnum. Hann var stíflaður með hellu og flatti fiskurinn látinn detta af borðinu í stífluna. Þar taka strákar til við að þvo hann og koma inn í kró sem stóð hinumegin við lækinn. Þar er hann saltaður í stæður sem er umstaflað eftir 3-4 daga. Í þeim stóð fiskurinn þar til hann var vaskaður og þurrkaður“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Króa af / Króa inni (orðtök) Loka af; mynda aðhald/hindrun/vegg utanum; ná í aðhald. Orðið króa heyrist líklega eingöngu í þessum orðtökum nú, en var notað sérstætt áður, m.a. þegar gerðar voru stíur um fénað í fjárhúsum. „Ég náði að króa lambið af uppi við klettinn og marka það“. „Tófan var þarna króuð inni og komst hvergi“.
Krógi (n, kk) Krakki; barn (niðrandi merking). „“...Öðrum krógum gaf hann grút / gæi hann þeim að éta“ (GÖ; Hlekkir hugarfarsins).
Krókagötur / Krókavegur (n, kvk, fto/kk) Krákustígar; hlykkjótt gata; vegur sem liggur í mörgum sniðum í brekku. „Vegurinn liggur í krókagötum upp Vörðubrekkuna“.
Krókaleið (n, kvk) Krókagata; hlykkjótt leið. Nær eingöngu í orðtakinu „fara krókaleiðir að“.
Krókalítill (l) Um leið; tiltölulega bein; án verulegra króka. „Á þessum kafla er vegurinn nánast brekkulaus og krókalítill“.
Krókapar (n, hk) Tveir krókar á gagnstæðum stykkjum, t.d. klæðnaðar, til að krækja saman. Krókapör voru notuð áður en tölur og rennilásar leystu þau af hólmi. Sjást enn, einkum í upphlut þjóðbúninga.
Krókbekkur (n, kk) Bekkur fremst í kirkju, við kirkjudyr. Í hinum litlu torfkirkjum hefur hann líklega stundum verið lítið annað en fjöl sem felld var í hornið. Þar sat flökkufólk og aðrir sem minnstrar virðingar nutu.
Krókboginn (l) Boginn í sveig/krók. „Krókboginn stafinn notaði hann til að ná lömbunum“.
Krókfaldur (n, kk) Höfuðbúnaður kvenna, sem einkum var notaður við faldbúninginn, frá shl 17.aldar framá þá 18. Vafinn úr nokkrum tröfum þannig að hann mjókkaði upp og beygðist fram. Síðar var hann tekinn upp í nokkuð breyttri mynd og notaður við skautbúning Sigurðar Guðmundssonar.
Krókhaki (n, kk) Haki; stöng með járnkrók á enda. Notuð til sjós til að ná fiski sem laus er á línu eða dottið hefur af; og til að krækja í dufl og fleira. Stöngin oft úr bambus áðurfyrr, en nú oft úr áli.
Krókhyrnd (l) Um hornalag á sauðfé; með horn sem hafa áberandi krappa beygju í endann.
Krókloppinn (l) Loppinn; með fingur herpta úr kulda. „Ég varð að snúa myndavélinni við; krókloppinn á fingrunum varð ég að reyna að hitta á tippið“ (Óskar Gíslason kvikm.gerðarmaður um Sargon-strandið; Útkall við Látrabjarg). „... enda var hann krókloppinn og skjálfandi eins og fleiri“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Krókna úr kulda (orðtak) Í bókstaflegri merkingu þýðir það að frjósa í hel, en var hinsvegar mest notað í líkingamáli: „Ég er alveg að krókna úr kulda“.
Krókóttur (l) Sem liggur í hlykkjum/beygjum/krókum; sem ekki er nokkuð beinn. „Vegur um Fjörurnar er nokkuð krókóttur, og þykir sumum óvönum hann glæfralegur“.
Krókstafur (n, kk) Göngustafur sem boginn er í enda, þannig að þar myndast þægilegt handfang. „Á seinni árum sínum gekk afi við tvo krókstafi úr tré. Til spari hafði hann svartan staf, silfurbúinn og áletraðan“.
Krókstjaki (n, kk) Löng stöng, oft úr bambus, með krók/krókum á enda, sem notuð er til að krækja í eitthvað. Notuð m.a. til að ná baujum af sjó í bát. Krókstjakar tapast tíðum af bátum og reka iðulega á fjörur.
Krókur (n, kk) A. Það sem er krókbogið. B. Öngull. „Ég held bara að það sé fiskur á hverjum krók núna“! C. Stuttur og hallalítill lækur eða afkimi af vatni. Orðið var ekki notað þannig í Útvíkum í seinni tíð, en algengt á Rauðasandi, enda þar mikið um slík vötn. „Svo er annar krókur ofan undan Byttulæk er heitir Litlikrókur; svo er annar krókur nafnlaus; hann og Litlikrókur mynduðu sín á milli þríhyrnu... Þess skal geta að krókur er hér kallaður lækur með háum bökkum; lænur grafnar í leir og sand“ (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar). D. Vik/vík/vogur við strönd. „Innanvið Vatneyri nefndist Krókur þar sem eyrin var kröppust, og sama nafn var lengi á húsahverfinu þar ofanvið. Ytri endi Vatnsins á Vatneyri nefndist Vatnskrókur, og heitir svo enn, þó vatnið hafi breyst í höfn fyrir löngu síðan“. E. Leið sem ekki er bein/ liggur í boga/krók. „Ég fór frekar krókinn; það er auðveldari leið, þó lenri sé“. F. Leikur/keppni tveggja sem felst í því að krókbeygður er fingur annarrar handar, hinn sami hjá báðum, menn krækja saman og togast á uns annar vinnur. Stundum var farið í krumlu, en þá voru fjórir krókbeygðir fingur notaðir saman í stað eins.
Krókur á móti bragði (orðtak) Um það að beita úrræði gegn andstæðingi sem vegur að, sem hann átti ekki von á. „Ef hann er með leiðindi og bannar okkur eggjatöku, þá læt ég koma krók á móti bragði og sæki aftur heytætluna sem hann fékk lánaða hjá mér“. Orðtakið vísar líklega til glímubragða, þar sem sá neytir lags og beitir hælkrók sem beittur er klofbragði“.
Krubba (n, kvk) Stía eða hólf. „Lítil krubba var stúkuð af í húsinu og nefnd vinnustofa“.
Krubbulegur (l) Sóðalegur; óhreinn. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Kruð (n, hk) Kryddvörur. „Ætli við þurfum ekki að eiga eitthvað meira af kruði hér í kaupfélaginu fyrir frúrnar; þær eru alltaf að prófa nýjar uppskriftir“.
Kruðerí (n, hk) Sætar kökur; fínt meðlæti með kaffi. „Óþarfi að bera svona fínt kruðerí á borð fyrir mig“.
Kruður (n, kvk, fto) Tvíbökur. „Það er alveg ídíal að nota kruður útí rauðgrautinn“.
Krukk (n, hk) A. Kropp; nart; lítill skurður. B. Slæm skrift. „Ég veit ekki hvort þú skilur þetta krukk“.
Krukka í (orðtak) Eiga við; meðhöndla; skera/kroppa í. „Ég var ekkert að krukka í þetta hræ; ég urðaði það bara með öllu saman“.
Krukkspá (n, kvk) Spádómar frá 16. öld, sem eignaðir eru Jóni krukk sem sumir hafa talið vera Jón Guðmundsson lærði. Fræðimenn draga það þó mjög í efa. Hafa sumir talið sig sjá ýmislegt í spánni ganga eftir, en til þess þarf oftast mikinn velvilja í túlkunum, líkt og er t.d. um spár Nostradamusar og annarra. Aðrir telja spárnar kerlingabækur eintómar. Krukkspá kom út á prenti árið 1884.
Krull (n, hk, með hörðum framb) Rugl; hræringur; sull. „Nú er þetta allt komið í krull aftur sem ég var búinn að sortera með mikilli fyrirhöfn“!
Krulla (s, með hörðum framb) Rugla/hræra saman. „Nú er búið að krulla þessu öllu saman aftur“.
Krullur (n, kvk, fto, með linum famb) Krullað/hrokkið hár; lokkar; hárlokkar sem undnir eru upp í hringi/vöndla. „Krullurnar voru fljótar að hverfa eftir þetta“.
Krullóttur (l, með linum framb) Hrokkinhærður; krullhærður; með áberandi hringaða liði/lokka í hári. „Fáir trúa því núna að ég hafi verið ljóshærður og afskaplega krullóttur sem barn; enda fá líkindi með því og sléttum skalla og gráum hárkraga sem prýðir minn haus í dag“.
Krumla (n, kvk) A. Gæluorð um hönd/greip á manni. „Lofðu mér að koma krumlunum á helvítið; ég skal lækka aðeins í honum rostann“! B. Nafn á leik/aflraun tveggja, sem felst í því að menn krókbeygja alla fingur annarrar handar nema þumals; krækja þeim svo saman og togast á, uns annar réttir upp fingurna eða gefst upp.
Krummabein (n, hk) Beinkamburinn efst og aftast á þorskhausnum; einnig nefnt krummi og krummakambur.
Krummafiskur (n, kk) Hnakkafiskur; hnakkakúla; fiskholdið í hnakka fisksins, beggja megin við kambinn á krummanum/krummabeininu. „Ríkt var gengið eftir að krummafiskurinn fylgdi bolnum þegar hausað var, ef kviðfletja átti fiskinn og herða eða salta“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Krummafótur (n, kk) Víxlun skóa; hægri og vinstri; skór uppá öfugan fót. „Nú ertu með krummafót drengur“!
Krummakvikindið / Krummaskepnan / Krummatetrið Gæluorð um hrafninn. Heimilishrafnar voru álitnir heimilisvinir, og yfirleitt litið til þeirra með velþóknun þó útaf því gæti brugðið ef þeir lögðust á fé. Talið var gæfumerki að víkja einhverju æti að hrafninum: „Guð launar fyrir hrafninn“.
Krummi (n, kk) A. Annað nafn á hrafni. B. Stærsta hausbeinið í fiskhaus; krummabein. C. Hálft kast í aflaskiptum (sjá skipti).
Krumpassi (n, kk) Mælitæki til að mæla þykkt og sverleika efnis; einskonar stillanleg töng. Nokkuð notaður í rennismíði og járnsmíði áðurfyrr. Arftaki krumpassans er rennimálið/skíðmálið.
Krumtöng (n, kvk) Töng með kjaftinn í aðra stefnu en handföngin; vatnspumputöng.
Krungtappi / Krumtappi (n, kk) Sveifarás í sprengivél. Orðið er komið úr dönsku og vísar til þess að ásinn er með miklum hlykkjum. Í máli manna vestra þótti „krungtappi“ rökréttara og varð alfarið notað; enda merkir orðið „krungur“ það sem er bogið.
Krungur (n, kk) Kryppa; mishæð. „Skelfing er þetta lamb með mikinn krung á bakinu“.
Krunka sig saman (orðtak) Um tvær eða fleiri manneskjur; ná saman; ná sambandi hvor/hver við annan; ræða saman. „Menn eru eitthvað að krunka sig saman um sérframboð“. Dregið af hröfnum sem krunkast á.
Krunka utan í (orðtak) Tala við; eiga orðastað við. „ Þú verður að krunka utaní eigandann um þetta“.
Krunkast á (orðtak) Tala saman; ræðast við. „Gömlu karlarnir krunkuðust á og fengu sér í nefið“.
Krus / Kruss (n, hk) Um siglingu skips; leggur; slagur; sigling beitivinds.
Krusa (s) Slaga; sigla upp í beitivind með því að sigla á snið,sitt á hvað, upp í vindinn.
Krúkk (l) Blankur; peningalaus. „Ég var alveg að verða krúkk um mánaðarmótin“.
Krúna (n, kvk) A. Kóróna; konungdómur. B. Hvirfill; hæsti hluti höfuðs; hornstæði.
Krúnk (n, hk) Hljóð hrafnsins. Hljóðlíking.
Krúnka (s) Gefa frá sér krúnk.
Krúnótt (l) Litur á sauðfé. Dökkt, með hvítri blesu á kinn.
Krúnuraka (s) Raka koll/hvirfil á manni. Sá siður hefur löngum tíðkast meðal munka að krúnuraka á sér kollinn, til merkis um undirgefni við Guð og yfirboðara. Við uppgröft í Skriðuklaustri hefur fundist mikið af litlum hnífum til þessara nota. Talið er að írskir munkar hafi haft þann hátt á, og af því hafi þeir verið nefndir „kollar“. Spurning er hvort Kollur landnámsmaður Kollsvíkur hafi verið i þeirra hópi en hann, ásamt Örlygi fóstbróður sínum, hafði verið í trúboðsskóla Patreks biskups á Suðureyjum.
Krús (n, kvk) A. Ílát. Oftast er átt við ílát undir drykk eða til að drekka úr; drykkjarkrús. „Nú værigott að fá sér kaffisopa; er þetta ekki krúsin mín“? B. Efnisgryfja; malargryfja; staður þar sem jarðefni er numið. C. Fremsta rúm í teinæringi, sem myndast við það að í barka hans er sett lausaþófta fyrir skiphaldsmenn. Í krúsinni voru oft þrír menn við drátt; sá fremsti nefndist krúsarmaður eða krúsarhlunkur (heim: Ísl. Sjávarhættir II; Lúðvík Kristjánsson)
Krúsidúlla (n, kvk) Flókin skreyting; útflúr. „Bollana skreytti hún með allrahandanna krúsidúllum“.
Krydda (s) A. Setja krydd á mat til bragðbætis. B. Kríta liðugt; skálda; búa til fyllingu í frásögn til að hún verði áheyrilegri. „Eitthvað gæti ég trúað að þessi frétt sé dálítið krydduð“.
Kryfja (málin) til mergjar (orðtak) Skoða mál ofan í kjölinn; kafa djúpt ofan í mál. „Ég las þetta í fljótheitum en krufði það ekki til mergjar“. Líking við að brjóta bein til mergjar.
Krykkja (n, kvk) Rótarhnyðja; krappi. „Hér fann ég ansi myndarlega krykkju“.
Kryppa (n, kvk) A. Krungur; hóll; mishæð. Kryppa nefnist aflöng hæð í landi Hnjóts. B. Aflögun/vansköpun í hrygg manns sem veldur hnúð á baki og yfirleitt mikilli fötlun. C. Sveigja á baki kattar. Kettir setja/skjóta oft upp burst/kryppu þegar skyndileg hætta steðjar að, til að sýnast stórir og ógnvænlegir.
Kryppla / Krypplast (s) Krumpa; krumpast. „Passaðu að kryppla ekki teikninguna“! „Settu blaðið aftur inn í bókina svo það krypplist ekki“.
Krypplingur (n, kk) A. Maður með kryppu í baki. B. Fatlaður maður; örkumlamaður. „Hann fótbrotnaði illa, og var hálfgerður krypplingur uppfrá því“. C. Hvaðeina sem er rytjulegt/vanskapað/ófullburða. „Óttalegur krypplingur ætlar að verða úr öðrum tvílembingnum hjá henni“.
Krytja sér (orðtak) Afla sér; hygla sér; nappa. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Krytjur (n, kvk, fto) Litlir afgangar; molar; lítið magn. „Gáðu hvort einhverjar krytjur eru eftir af salti“.
Krytur (n, kk) Stagl; rifrildi; erjur. „Einhver krytur varð úr þessu á milli þeirra, en hann settlaðist fljótt“. Sérkennilegt er að orðið var notað nær jöfun höndum í kk og í kvk, ft (sjá hér næst).
Krytur (n, kvk, fto) Erjur; meiningamunur; rifrildi. „Nágrannakrytur voru ekki til milli Lambavatnsbæjanna en samvinna og aðstoð hvers við annan far óskráð regla sem höfð var í heiðri“. (ÓG; Úr verbúðum í víking). „Þessi lýsing á við um alla bæi í hinum ýmsu hlutum Rauðasandshrepps; yfirleitt því meir sem nábýlið var meira. Hljómar hún eins og eldra fólk lýsti nábýlinu þegar þéttbýlast var í Kollsvík. Hinsvegar má e.t.v. finna fleiri dæmi um ríg innan hreppsins eftir að fækka tók mjög íbúum“ (VÖ) .
Kræða (n, kvk) A. Almennt um jurt sem er lítil og kyrkingsleg. B. Fjallagrös sem ekki eru blaðmynduð, heldur einungis kræklur; voru ekki tínd til matar. C. Með bættri flokkun fléttna hefur kræða orðið heiti á flokki fléttutegunda, en innan hans eru t.d. klettakræða, skollakræða, flókakræða og surtarkræða.
Kræfur (l) Djarfur; frekur.; aðgangsharður „Mörgum þótti hann kræfur í viðskiptum, en þó aldrei ósvífinn“.
Krækiber (n, hk) Ber krækilings, sem mikið eru tínd og nýtt til matar. Einkum er gerð úr þeim krækiberjasaft.
Krækiberjalyng / Krækilyng (n, hk) Empetrum nigrum. Ein algengasta jurt landsins, einkum ofan mesta láglendisins. Harðgerð jurt sem kann betur við sig á berangri en skjólsælum stöðum, en er þó nær hvarvetna sem rótfestu er að fá. Tvær deilitegundir þekkjast á Íslandi, en mjög líkar þó önnur sé tvíkynja en hin einkynja. Blómin eru örsmá; þrídeild; umkringd nokkrum rauðum háblöðum. Krónublöð dökkrauð yfir móleitum bikarblöðum. Þrír fræflar eru í hverju blómi; dökkblárauðir og standa langt útúr blóminu. Ein fræva sem verður að beri með 6-9 litlum steinum/fræjum. Berið er í fyrstu grænt, og nefnist þá grænjaxl; síðan rautt, og að lokum svart þegar þa er þroskað; 5-8 mm í þvermál. Blöð lyngsins eru striklaga, snuppbótt; 4-6 mm á lengd; þykk og hol innan.
Krækiberjalyng vaxa allt í kringum Kollsvík, en þó ekki á láglendi í víkinni; neðan holta. Ekki heldur í klettum eða urðum þar sem jarðveg skortir. Mjög hefur tíðkast að fara til berja frá Kollsvík upp í Húsadal og Keldeyradal, eða fram með lynggiljum og Grænubrekku. Frá Láganúpi er farið upp á Axlarhjalla; upp að Sandslág; fram með Fellum; út í Vatnadal; í Smávatnabrekkur, Stóravatnsbrekkur eða Gálgasteinabrekkur; eða út að Litlavatni eða útundir Breiðsholt.
Í eina tíð hefur krækiberjalyng efalítið þakið allt svæðið neðantil í Vatnadal, niður á Strympur, Hnífa, Flatir og Hjalla; og niður alla Brunnsbrekku niðurundir sjó. Sömuleiðis niður alla Vík; niður Nautholt, Mýrar og Svarðarholt. Það hefur svo fyrr á öldum verið vægðarlaust nýtt til eldiviðar og í tróð; svo mikið að nefnd svæði hafa í seinni tíð verið nánast lynglaus. Hér hefur miklu ráðið að vermenn máttu rífa lyng sem þeim lysti án endurgjalds, og hefur það ósparlega verið nýtt til eldiviðar, ásamt öðru, t.d. þöngli og mori úr fjörunni. Umfang lyngrifsins má enn sjá og nota sem mælikvarða á þunga útgerðar í Útvíkum; mest virðist það hafa verið í Kollsvík. Á síðari árum; um og eftir aldamótin 2000 má sjá að lyng er aftur að vaxa á þessum stöðum; sönnun þess sem hér hefur verið sagt um ofnýtingu á fyrri tíð.
Krækiberjasaft (n, kvk) Saft, gerð út safa krækiberja. Berin eru marin og síað frá þeim hratið. Síðan er saftin blönduð með vatni, sykri og vínsýru. Krækiberjasaft má drekka sem svaladrykk eða hafa hana sem útálát á búðinga, hrísgrjónagraut, skyr og annað. Jafn sjálfsagt þótti að gera berjasaft; safta, á hverju heimili eins og að gera sultu úr rabbabara; að sulta, á hverju síðsumri.
Krækja (n, kvk) Krókur; krókhaki; krókstjaki.
Krækja af / Krækja úr (orðtak) Ná öngli/króki úr fiskkjafti. „Óskapa tíma tekur þetta hjá þer; þú þarft að vera fljótur að krækja úr og renna aftur“.
Krækja fyrir (orðtak) Taka á sig krók til að komast fyrir hindrun. „Gættu þess að krækja vel framfyrir Boðann þegar þú ferð fyrir Blakkinn“.
Krækja í (orðtak) Ná í; klófesta. „Hann er víst búinn að krækja í heimasætuna á stórbýlinu“.
Krækla (n, kvk) Það sem krókótt/hlykkjótt er. „Það er nú varla hægt að kalla þessar kræklur borðvið“!
Kræklingsfjara (n, kvk) Fjara þar sem tína má krækling til nytja. „Við fórum á kræklingsfjöru“.
Kræklingsnot (n, hk, fto) Nytjar kræklings til matar. „Ég heyrði ekki mikið um skelfisksneyslu áður fyrr, en þegar ég var að alast upp voru nokkur kræklingsnot á einum bæ í sveitinni; Hvalskeri“ (SG; Sjávar- og fjörunytjar; Þjhd.Þjms). Kræklingur var nokkuð nýttur í Kollsvík, þegar hann rak á fjörur í hausum hrossaþara.
Kræklingsskel (n, kvk) Skel af kræklingi. Kræklingsskeljar notuðu krakkar í leikjum áðurfyrr. Í kubbabúum var öðuskel hestur; kræklingsskel folald; kúskel kýr; hörpudiskur kálfur; beitukóngur hrútur; nákuðungur kind; meyjapöppur lömb; olnbogaskeljar hænsni o.s.frv.
Kræklingur (n, kvk/kk) Mytilus edulis; krákuskel; bláskel. Samloka sem algeng er á grunnsævi niður á um 40 m dýpi; ílöng samhverf skel og lágvaxin; bogamynduð í annan endann en trjónumynduð í hinn. Hann festir sig við fast undirlag eða annað með svonefndum byssuþráðum eða skeggi, og notar við það fót sem er undir möttlinum. Getur skelin hreyft sig með því að festa nýja þræði en sleppa öðrum. Fæðan er ýmis smádýr sem kræklingurinn síar úr sjónum. Lirfurnar eru sviflægar í nokkrar vikur, áður en fótur og spunaþræðir myndast og hún sest á botninn. Helstu ógnanir kræklings eru krabbar, krossfiskar, kuðungar, fiskar og æðarfugl.
Kræklingur er algengur á grunnsævi allt í kringum landið, nema við suðurströndina. Mikið er af honum í Kollsvík og í stórbrimi rekur oft upp mikið af þöngli með áföstum kræklingi. Var hann nokkuð tíndur til matar og þykir herramannsmatur. Kræklingur var þó ekki borðaður í þeim mánuðum sem ekki höfðu r í nafni sínu; þá getur hann verið eitraður. (Sjá skelfiskeitrun). Kræklingur verður að vera lifandi og með lokaða skel þegar hann er settur í pottinn. Gott er að setja hann í sjó fyrir suðu, svo hann fylli sig af sjó. Ekki er þörf á suðuvatni, heldur sýður skelin í eigin vökva, og er nægilega soðið þegar skelin hefur opnað sig. Sjá einnig aða; öðuskel.
Kræklóttur (l) Ekki beinn; hlykkjóttur; margvíslega boginn. „Renglan er helst til kræklótt fyrir staur“.
Kræla á (orðtak) Örla á; móta fyrir; sýna lífsmerki. „Við stóðum á klettinum í góða stund og mændum út á sjóinn, en beinhákarlinn lét ekki á sér kræla aftur“. Enn er ekkert farið að kræla á honum“.
Kræsilegur (l) Girnilegur; álitlegur. „Ekki voru veiðimenn kræsilegir á að líta er þeir komu upp úr bjarginu eftir dvölina þar“ (MG; Látrabjarg).
Kræsingar (n, kvk, fto) Veislukostur; góður matur; ljúfmeti. „Þar voru girnilegar kræsingar á borðum“.
Kræsinn (l) Gefinn fyrir munað; vandlátur; erfitt að gera til hæfis. „Ég er nú ekki svo kræsinn að geta ekki étið það sem á borðum er“.
Kræsni (n, kvk) Það að vera kræsinn; sérviska; fyrirtektir. „Hér gildir engin kræskni; nú étum við bara það sem á borð er borið“!
Kröftuglega (ao) Af krafti; hávært. „Ég mótmælti þessari svívirðu kröftuglega“.
Kröftuglegur / Kröftugur (l) Kraftalegur; öflugur; hávær; aflmikill. „Eftir kröftugleg mótmæli fundarmanna var fallið frá þessu“. „Ég veit ekki hvort vélin er nógu kröftug í þetta“.
Kröfubréf (n, hk) Bréfleg krafa; reikningur; póstkrafa. „Landpóstur hafði yfirleitt tvennt í sínum farangri: annað var vandaðan fínofinn strigapoki með fánarönd, en í honum voru flutt dagblöð og pinklar. Hitt var sjálf pósttaskan, sem í voru sendibréf, kröfubréf, frímerki, peningar og annað dýrmæti. Hvorttveggja passaði hann eins og sjáaldur auga síns; miklu fremur þó töskuna en pokann“.
Kröfuharður (l) Gerir miklar kröfur; gengur hart eftir réttindum/kröfum.
Kröggur (n, kvk, fto) Vandræði; klípa; erfiðleikar. „Hann var í hálfgerðum kröggum, svo ég lánaði honum fyrir þessu um tíma“.
Krökkur af (orðtak) Með miklum fjölda; þröng á þingi. „Maður tollir helst ekki í landi þegar sjórinn er krökkur af fiski og blankandi logn“. „Það er krökkt af berjum á Hústóftarbökkunum“.
Kröm (n, kvk) Alvarlegur lasleiki; mikil og langvarandi veikindi/bágindi. „Hann þurfti að búa við þessa kröm uppfrá því“.
Kröpp bára (orðtak) Há bára miðað við lengd. „En til marks um það hvað báran í Röstinni var kröpp, skal þess getið að þrjár bárur; hver eftir aðra, brutu á Ingvari við stýrið og hálffylltu bátinn“ (ÖG; Þokuróður).
Kröpp kjör (orðtak) Lítil efni; fátækt. „Heiður eiga þau skilinn, foreldrar okkar, fyrir að ala upp allan sinn stóra barnahóp og koma honum til manns; þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og kröpp kjör“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Ku (s) Kvað. Notað þegar vísað er til sögusagna: „Það ku vera þorrablót framundan“. „Svo ku vera sagt“.
Kubba (s) A. Sníða í kubba/búta. „Ég kubbaði sprekið niður, svo það passaði í eldstæðið“. B. Byggja úr kubbum. Einkum notað á seinni tímum.
Kubbast í sundur (orðtak) Brotna/slitna algerlega/skyndilega. „Dráttartaugin kubbaðist í sundur þegar átakið kom á hana“.
Kubbabú (n, hk) Leikur barna í Kollsvík að kuðungum og skeljum úr fjöru. Sett voru upp bú á völdum stað nærri bæ, t.d. í Ytragili á Láganúpi. Í þeim voru nákuðungar hafðir fyrir kindur og beitukóngar fyrir hrúta; kúfskeljar fyrir kýr og öðuskeljar fyrir hesta. Meyjapöppur voru lömbin; gimburskeljar kálfar; smyrslingsskeljar folöld og olnbogaskeljar hænsni. Hús voru af ýmsu tagi; hola í barð; beygðar járnplötur eða vandaðri smíði. Slíkur búskapur var nokkuð annarrar gerðar en hornabú, en gat verið rekinn samtímis.
Kubbateinn / Kubbaþinur (n, kk) Flotteinn/flotþinur/ efri þinur á neti. Fyrir daga gerviefna voru bútar úr viði eða korki festir á teininn til að halda honum frá botni og netinu opnu, og er nafnið af því dregið. „Hér hefur árans kubbaþinurinn slegist langt inní netið“!
Kubbi / Kubbur (n, kk) A. Bútur; afsag t.d. af tré/planka. Stuttur rekaviðarbútur „Hér er kubbi úr einhverjum eðalviði“. B. Flá/korkur/flot á netaþin/netateini/kubbateini. „Hér hefur brotnað kubbur í lagningunni“. C. Kuðungur. „Við söfnuðum saman kubbum sem tjaldurinn hafði borið upp úr fjörunni, til að nota í kubbabúið“. „Svo að vetrinum að fara í fjárhúsin niðri við sjó, og þá í leiðinni að ná i nokkra kubba…“ (IG; Æskuminningar).
Kubbslegur (l) Stuttur og sver; klunnalegur.
Kuðla (s) Hnoða; krumpa; vöðla. „Hann kuðlaði blaðinu saman og hentiþví út í horn“.
Kuðungur (n, kk) Kubbur. „Inni var leikið með kuðunga og skeljar sem sótt var í fjöruna, en það var einnig mjög eftirsótt að ganga á reka“ (IG; Æskuminningar).
Kufl (n, kk) Kápa; sloppur; síð yfirhöfn sem m.a. er borin af kirkjunnar þjónum, s.s. munkum.
Kuðungur (n, kk) A. Skel snigils; snigill með skel. Fjölmargar tegundir kuðunga lifa við Ísland, en þær sem eru mest áberandi við Kollsvík eru beitukóngur, nákuðungur og meyjapappa. B. Líffæri í innra eyra. C. Líkamsstaða sem minnir á kuðung af snigli; samkrepptur líkami. „Ég hrökk í kuðung við hávaðann“. Ekki tíðkaðist í Kollsvík síðari tíma að hafa f í stað ð í heitinu, eins og stundum var gert annarsstaðar.
Kuggur (n, kk) Skip. Stundum notað almennt um skip, en oftast um stór erlend farmskip frá síðmiðöldum.
Kukl (n, hk) Galdrar; særingar; fjölkyngi; spádómar. „Ekki er ég trúaður á svona kukl“!
Kukla (s) Stunda galdra/spádóma/særingar/fjölkyngi; hafa í frammi loddarabrögð; stunda sérhæfð verk án nægrar þekkingar. „Eitthvað hafði hann verið að kukla við lækningar, en með misjöfnum árangri“.
Kuklari (n, kk) Galdramaður; loddari; sá sem stundar sérhæfð verk án þekkingar. „Ég vil ekki sjá einhverja bölvaða kuklara í þessu; þá vil ég heldur borga fyrir almennilega vinnu“!
Kul (n, hk) A. Stífur goluvindur. „Er hann eitthvað að auka þetta kul, heldurðu“! B. Kaldur vindur. „Komdu innfyrir í staðinn fyrir að norpa svona úti í kulinu“!
Kula (s) A. Vinda lítillega. „Eitthvað er hann að byrja að kula núna“. „Um tvöleytið kulaði og þá fór fiskur að gefa sig..“ (Minning HB um AK, Mbl maí 1980). „Það var byrjað að kula af suðaustan og þá er hann fljótur að ná upp báru þarna við bjargið“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kulband (n, hk) Um seglabúnað; band sem liggur af seglrá, bakvið (hlemegin við) seglið og haldið við; til að hleypa vindi úr segli ef byr varð helsti mikill. „Seglið var alrifað og aukið við kulbandi; kallaður vaðburður“ (JE; Trýnaveður; Því gleymi ég aldrei).
Kulborð / Kulborði (n, hk/kk) Sú hlið (kinnungur) báts sem veit upp í vindátt. „Ef þú þarft að æla; reyndu þá að gera það á hléborðið fremur en kulborðið“.
Kuldaboli (n, kk) Ímynduð vera; persónugervingur kuldans í tali við börn. Kann að eiga dýpri rætur í heiðni. Þessi þjóðvísa er alþekkt, og á að minna á kuldabola: „Boli boli bankar á dyr/ með bandinu sínu langa./ Láttu ekki hann Hólsbola/ heyra til þín Manga“.
Kuldabólga (n, kvk) Bólgin húð vegna kulda/ofkælingar; undanfari kalskemmda. „Gamla fólkið kunni að segja frá kuldabólgu í útlimum í frostavetrum fyrri tíma, þegar hús og fatnaður var einfaldara en nú er“.
Kuldabólginn (l) Bólginn af kulda. „Farðu nú og reyndu að hlýja þér; þú ert allur kuldabólginn í framan“!
Kuldadofi (n, kk) Dofi vegna kulda, t.d. í höndum/fótum. „Ég sat í eldhúsinu meðan kuldadofinn fór úr“.
Kuldadofinn (l) Tilfinningalaus/dofinn vegna kulda. „Fingurnir voru að verða kuldadofnir“.
Kuldafýla (n, kvk) Kalt veður; nepja. „Bölvuð kuldafýla er í honum; maður hefði átt að búa sig betur“.
Kuldagarri / Kuldagjóla / Kuldagjóstur / Kuldagustur / Kuldanæðingur / Kuldaskítur / Kuldasveljandi (n, kk) Napur vindkaldi, einkum eftir hlýrri tíð. „Það er líkast til best að klæða sig almennilega. Það er kominn árans kuldagjóstur“.
Kuldaherkjur (n, kvk, fto) Kipringur/herkjur í andliti; einkum í kringum munn, vegna kulda. „Hann var skjálfandi og blár af kulda og gat varla talað fyrir kuldaherkjum“.
Kuldahrollur (n, kk) Kuldatilfinning; skjálfti vegna kælingar. Það er einhver árans kuldahrollur í mér“. „Votir voru þeir, og talsverður kuldahrollur í þeim“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Kuldahryssingur (n, kk) Kalt í veðri með allnokkrum vindi. „Bölvaður kuldahryssingur er þetta; eins og útlitið var nú gott í gær“.
Kuldakafli / Kuldakast (n, hk) Kalt tímabil, gjarnan óvænt eða á óheppilegum tíma. „Komi kuldakast eftir að fuglinn er kominn að, fer hann frá bjarginu þar til aftur hlýnar í veðri“ (ES; Barðstrendingabók).
Kuldahryssingur (n, kk) Kaldur næðingur; nepja. „Búðu þig vel; það er bölvaður kuldahryssingur“.
Kuldahúfa (n, kvk) Húfa sem ver gegn miklum kulda; loðhúfa; dembúll. „Hvar lét ég kuldahúfuna“?
Kuldakast (n, hk) Kalt tímabil; köld veðrátta um tíma. „Sprettu seinkaði verulega í kuldakastinu í vor“.
Kuldakreista (n, kvk) Manneskja sem heldur illa á sér hita/verður kalt. „Ég er svoddan kuldakreista“.
Kuldalega (ao) A. Án tilfinninga; kaldranalega; reiðilega. B. Eins og kalt sé. „Voða ertu kuldalega klæddur; ertu eitthvað veikur“?
Kuldalegur (l) Lítur út fyrir kulda. „Sú (búð) sem sneri dyrum til norðausturs hét Norðurpóllinn en hin...hét Napi, hvorttveggja heldur kuldaleg nöfn“ (KJK; Kollsvíkurver).
Kuldanepja (n, kvk) Kalt/napurt í veðri. Fyrri hluti orðsins í raun óþarfur en gefur þó aukinn þunga.
Kuldanæðingur / Kuldaskítur / Kuldaskítsnæðingur (n, kk) Nepja; skítakuldi; bitur kuldi. „Það er enn sami kuldaskíturinn og í gær“. „Ég hefði haft hina húfuna hefði ég áttað mig á þessum kuldaskítsnæðingi“.
Kuldapollur (n, kk) A. Frostsár á húð; drep; kal. B. Síðari tíma merking; svæði þar sem er mun kaldara en í nágrenni þess, af veðurfræðilegum eða landfræðilegum ástæðum.
Kuldaskítur (n, kk) Kalt í veðri; hrollkalt; kaldara en vænta mátti. „Bölvaður kuldaskítur er þetta“! Einnig oft notað skítakuldi.
Kuldaskjálfti (n, kk) Skjálfti í líkamanum vegna kulda; kuldahrollur.
Kuldaskræfa (n, kvk) Niðrandi heiti á þeim sem þolir illa kulda. „Þú ert nú meiri kuldaskræfan“!
Kuldastrá (n, hk) Eingöngu notað í líkingamáli; kulvís. „Þú ert nú meira kuldastráið greyið mitt“.
Kuldasúgur / Kuldatrekkur (n, kk) Kaldur súgur/gegnumtrekkur t.d. í húsi. „Hvaðan kemur þessi kuldatrekkur; er opin útihurðin“?
Kuldasveljandi / Kuldaþræsingur (n, kk) Kaldur og hvass vindur, oft um langani tíma; þræsingskuldi; þræsingssveljandi. „Það er sami kuldasveljandinn áfram“. „Skelfingar kuldaþræsingur er þetta“!
Kuldatíð / Kuldatíðarfar (n, kvk/hk) Tímabil kaldrar veðráttu. „Það er vonandi að nú sé að verða breyting á þessu kuldatíðarfari sem verið hefur“.
Kuldaveður (n, hk) Kalt veður; kalt í veðri. „Ég er ekkert að sleppa lambánum út í þetta kuldaveður“.
Kuldaþoka (n, kvk) Köld þoka. „Mikið var gott að koma úr þessari kuldaþoku í firðinum, í sólskinið í Kollsvíkinni“
Kuldi (n, kk) A. Lágt hitastig. „Ég er að drepast úr kulda“! B. Kalt veður; kaldur vindur. „Hann er frekar að lina þennan kulda, finnst mér“. C. Tilfinningalitið viðmót; andúð. „Það var kuldi í röddinni“.
Kulmegin (ao) Þeim megin báts/húss/fjalls sem vindur stendur uppá; á kulborða/kulborð; kulborðsmegin.
Kulna (s) Kólna; draga úr hita. „Heldur er farið að kulna í tíðinni“. „Glóðin var farin að kulna“.
Kulnar eldur nema kyntur sé ( orðatiltæki) Allir eldar brenna út um síðir, nema þeim sé við haldið og á þá bætt eldsmat. Á jafnt við í bókstaflegri merkingu sem t.d. í deilumálum.
Kulsækinn (l) A. Um mannesku; kulvís; viðkvæmur fyrir kulda. „Maður er að verða svo skratti kulvís með árunum“. B. Um húsnæði; heldur illa hita. „Fjósið þarna er orðið nokkuð gamalt og lilklega kulsækið. C. Ranglega notað í líffræði um þær lífverur sem lifa í köldu umhverfi. Réttara að segja þær „kuldakærar“.
Kulsæll (l) Um stað; kaldari en umhverfið. „Þetta var prýðileg kartöflugeymsla; kulsæl en þó vel frostfrí“.
Kulvís (l) Viðkvæmur fyrir kulda. „Hún er svo kulvís að hún fer ekki úlpulaus úr húsi“.
Kumbaldi (n, kk) Klunnalegur hlutur; oft notað um ólagleg hús. „Skelfilega finnst mér þetta nýja tónlistarhús vera ljótur kumbaldi“! Stofnskylt orðunum kumbl og kuml.
Kumbari (n, kk) Orðið hefur venjulega verið talið merkja skip, og þá helst kugg, kaupskip eða knörr. Nokkuð ljóst má vera að það er stofnskylt orðunum kumbur, sem merkir kubbur/viðarbútur/rekaviður, og kumbaldi sem er upphaflega svipaðrar merkingar. Mörg örnefni á landinu byrja á „Kumbara“-, og er þar nærtækastur Kumbari/Kumbaravík í Breiðavík. Hefur þetta verið talið merki um að þar hafi knerrir eða kaupskip athafnað sig, en gæti allteins merkt að þar hafi stórvið rekið á land, eða að þar sé rekasælt.
Kumbl / Kuml (n, hk) Haugur yfir látinn mann; dys; legstaður heiðingja. Þó í fornsögum sé talað um að „verpa haug“ að látnum mönnum, var þó ekki alltaf um sýnilegan haug að ræða eftir greftrun. Yfirleitt var grafin um 50 cm djúp gröf og hinn látni látinn liggja með höfuð móti vestri eða suðri. Í gröfina voru gjarnan látnir munir hins látna sem hann gæti hugsanlega notað í framhaldslífi sínu, og stundum hundur hans og/eða hestur. Fundist hafa kuml á yfir 160 stöðum á landinu. Eitt merkilegt kuml úr heiðni fannst í Rauðasandshreppi, en það var bátskumlið í Vatnsdal. „Kollsleiði er sagt vera kumbl landnámsmannsins“.
Kumpánalega (ao) Eins og í samræðum kumpána/kunningja; hressilega. „Hann heildaði mér kumpánalega“.
Kumpánalegur (l) Glaðlegur/hressilegur í viðmóti; vingjarnlegur.
Kumpáni (n, kk) A. Kunningi; vinur. B. Seinni tíðar merking er þrjótur; vafasamur náungi. „Ég skal tala við þessa kumpána með tveimur hrútshornum“!
Kunna að koma ull í fat og mjólk í mat (orðatiltæki) Kunna undirstöðuatriði bústarfa (kvenna) fyrr á tíð. Engin stúlka þótti vænlegur kvenkostur fyrr en hún kunni vel til tóvinnu, vefnaðar og matargerðar.
Kunna deili á (orðtak) Þekkja til; kannast við; kunna skil á. „Ég kunni engin deili á þessum manni“.
Kunna ekki að meta (orðtak) Vera vanþakklátur fyrir; líta ekki réttu auga; meta lítils. „Seinni kynslóðir kunnu ekki að meta það sem fólst í verkum hinna eldri“ (EG; Vakandi æska).
Kunna/sjá fótum sínum forráð (orðtak) Hafa vit á að fara varlega. „Það er vissara að kunna fótum sínum forráð; jafnt þegar fetaður er tæpur gangur í bjargi sem í fjárfestingum“. „Þau voru, sakir hæðarinnar, stórhættuleg ef hlass var komið á þau, og erfitt var að sjá „fótum sínum forráð“ þegar þurfti að horfa gegnum hlassið ef háfermi var sett í skúffuna“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Kunna gott að meta (orðtak) Vera þakklátur. „Borðarðu ekki signa grásleppu? Þú kannt ekki gott að meta“.
Kunna (einhverju) illa/vel / Kunna illa/vel við (orðtök) Vera illa/vel við; hafa andúð/velþóknun á.
Kunna sér ekki læti (orðtak) Ráða ekki við sig af gleði/kæti/ánægju. „Hundurinn kunni sér ekki læti yfir að vera búinn að fá húsbóndann heim aftur“.
Kunna sér hóf (orðtak) Vita sín takmörk; vera lítillátur/stilltur t.d. í að matast. „Vissulega langar mig í meira af þessum kræsingum, en maður verður nú líka að kunna sér hóf“.
Kunna sér magamál/hóf (orðtak) Kunna sér hóf í mat/neyslu; borða hæfilega. „Svona fretur er afleiðing þess að kunna sér ekki magamál“.
Kunna skil á (orðtak) Þekkja til; hafa þekking á; kunna á; kunna deili á. „Það þarf að kunna einhver skil á rafmagnsfræði til að geta gert við þetta“.
Kunna til verka / Kunna tökin á (orðtak) Kunna aðferð/lag við; kunna að meðhöndla.
Kunna/vita/þekkja uppá (sína) tíu fingur (orðtök) Kunna/vita/þekkja mjög vel/ til hlítar. „Hann er farinn að kunna margföldunartöfluna uppá sína tíu fingur“.
Kunna við (orðtak) A. Líka við. „Ég kann vel við þessa nýbreytni. B. Þykja viðeigandi. „Ég kunni ekki við að spyrja hann meira út í þessi viðkvæmu málefni“.
Kunna (vel) við sig (orðtak) Líka vel í vist/veru. „Ég kann ágætlega við mig þarna, þó ekkert jafnist á við heimahagana“.
Kunna (einhverjum) þakkir (orðtak) Vera þakklátur einhverjum. „Kann ég hinum mínar bestu þakkir fyrir“.
Kunningi (n, kk) Sá sem maður þekkir; vinur; náungi. „Þegar féð var komið í rétt og búið að ræða við kunningjana, var tekið til nestis; stundum undir réttarvegg, en oftast inni á bæjum“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Kumbaldi (n, kk) Það sem er luralegt/gróft/ofvaxið/ljótt. „Skelfilega er þetta hús ljótur kumbaldi“.
Kumbari (n, kk) Skip. Orðið er fallið úr notkun, en lifir í örnefnum; t.d. er Kumbravogur í Breiðuvíkurveri.
Kumr (n, hk) Sérstakt hljóð sem ær gefa frá sér við nýfædd lömb, og hrútur þegar hann leitar á kind; bælt kjöltur. Einnig notað um ræskingar.
Kumra (s) Gefa frá sér kumr; kjöltra; ræskja sig; muldra. „Það kumraði eitthvað í karlinum, en hann svaraði engu“.
Kunna að meta (orðtak) Þykja gott; líka við. „Svona mat kann ég vel að meta“! „Ég kann ekki almennilega að meta það að svona sé farið með gróðurinn“!
Kunna ekki góðri lukku að stýra (orðtak) Vita ekki á gott; vera/leiða ekki til góðs. „Það kann aldrei góðri lukku að stýra að huga ekki að veðurútliti áður en farið er í róður“.
Kunna fótum sínum forráð (orðtak) Vera varfærinn í gerðum/bjargferðum/viðskiptum o.fl. „Það þýðir ekkert fyrir menn að fara í kletta sem ekki kunna fótum sínum forráð“!
Kunna sér hóf (orðtak) Geta stillt sig, t.d. í neyslu, innkaupum o.fl. „Þú verður að kunna þér hóf, þó þér þyki gaman að úthúða þessum frambjóðendum“!
Kunna sér ekki læti (orðtak) Geta ekki hamið sig; sleppa sér. „Hann var svo kátur yfir þessum tíðindum að hann kunni sér hreint ekki læti“.
Kunna sér magamál (orðtak) Gæta hófs í áti; vita hvenær rétt sé að hætta að borða. „Maður kann sér bara ekki magamál þegar svona kræsingar eru á borðum“.
Kunna/vita/þekkja skil á (einhverju) (orðtök) Vita glöggt um eitthvað; hafa góða þekkingu á einhverju.
Kunna utanað / Kunna utanbókar (orðtök) Geta þulið upp/ lesið uppúr sér án þess að lesa af bók/blaði. „Hún kunni ógrynni af söngljóðum og sálmum utanað og var sísyngjandi“ „Ég lagði nokkuð á mig til að kunna ræðuna utanbókar“. Sjá læra utanað.
Kunna (ekki/vel/illa) við (orðtök) Líka ekki/vel/illa; falla ekki/vel/illa í geð. „Ég kann afskaplega illa við svona framkomu“! „Ég kann bara ágætlega við þennan nýja háseta“.
Kunnátta (n, kvk) Þekking; hæfni. „Ég hef litla kunnáttu í þessum efnum, en maður reynir að bjarga sér“.
Kunnáttulaus (l) Hefur ekki þekkingu. „Ég er fremur kunnáttulaus í þessum fræðum“.
Kunnáttuleysi (n, hk) Þekkingarleysi; vankunnátta. „Slysið má að hluta kenna kunnáttuleysi skipstjórans“.
Kunnáttulítill (l) Af lítilli þekkingu; þekkir lítið til. „Sumir eru að kulkla kunnátulítið í þessu“.
Kunnáttumaður (n, kk) Maður með þekkingu; sá sem kann. „Auðséð var að hér var kunnáttumaður á ferð“.
Kunnáttusamlega (ao) Af þekkingu/kunnáttu. „Hann gekk kunnáttusamlega frá öllum smáatriðum“.
Kunngera / Kunngjöra (s) Kynna; gera kunnugt. „Hann hefur ekkert kunngert sínar fyrirætlanir“.
Kunningi (n, kk) Sá sem maður þekkir vel, en ekki jafn náinn og vinur; félagi; náungi. „Við höfum verið kunningjar um allmörg ár“.
Kunningjafólk (n, hk) Hópur/fjölskylda kunningja. „Kunningjafólk okkar leit við í heimsókn“.
Kunningjahópur (n, kk) Þeir sem eru kunningjar; ópur/safn kunningja. „Enginn í mínum kunningjahópi hafði nokkrusinni heyrt af þessu“.
Kunningjakona (n, kvk) Kunningi af kvenkyni; kona sem vel er þekkt til.
Kunningjaspjall (n, hk) Tal/samræður þeirra sem vel þekkjast. „Við áttum ágætt kunningjaspjall um þessi mál, en ekki var þetta formlegur fundur“.
Kunningskapur (n, kk) Vinfengi; gott samband; kynni. „Milli okkar var ágætur kunningskapur“.
Kunnuglega (ao) Eins og þekkist/ sé kunnugt. „Þessi vasahnífur kemur mér kunnuglega fyrir sjónir“.
Kunnuglegur (l) Sem kannast er við; sem þekkist að einhverju marki. „Þarna sá ég strax nokkrar kunnglegar kindur í hópnum“.
Kunnugur (l) Þekkir vel til. „...en hann var kunnugur í Keflavík“ (ÖG; Þokuróður).
Kunnur (l) Þekktur. „Þarna var ég kominn á vel kunnar slóðir“. „Hann er öllum að góðu kunnur“.
Kunnusta (n, kvk) Þekking. „Við þetta kom kunnusta hans að góðu gagni“.
Kunnustusamlega (ao) Af kunnáttu/þekkingu. „Þetta leysti hann kunnustusamlega af hendi“.
Kurfsháttur (n, kk) Fautaháttur; ruddaskapur; leiðinleg framkoma. „Mér fannst þetta hálfgerður kurfsháttur í karlinum, gagnvart þeim sem hafa reynst honum vel“.
Kurfslegur (l) Kauðalegur; ruddalegur; óheflaður í framkomu. „Mér fannst þetta bara kurfslegt af honum“.
Kurfur (n, kk) Karlskarfur; leiðinlegur maður. „Og svo var þessi kurfur með leiðindaderring í ofanálag“.
Kurl (n, hk) Smælki; viður sem bútaður hefur verið niður áður en hann er sviðinn til viðarkola. Oftast notað núorðið í orðtökunum „þegar öll kurl koma til grafar“ eða „ekki eru öll kurl komin til grafar enn“.
Kurla (s) Höggva niður; höggva í smátt; búa til kurl. „Kirkjan fauk og kurlaðist í smátt“.
Kurr (n. hk) A. Murr; lágt og korrandi hljóð; hljóð sumra fugla s.s. dúfna og rjúpa. B. Líkingamál um óánægjuraddir; nöldur; mótmæli. „Það var kominn nokkur kurr í mannskapinn“.
Kurra (s) Gefa frá sér kurr; viðhafa mótmæli/nöldur.
Kurt (n, kvk) Kurteisi; siðaðra manna háttur. Heyrist sjaldan núorðið nema í orðtakinu kurt og pí.
Kurt og pí (orðtak) Glæsibragur. „Hann lauk verkinu með kurt og pí, svo sómi var að“. Vafist hefur fyrir mönnum að skýra síðari lið orðtaksins.
Kurteis (l) Sýna kurt; háttsamur; siðaður; fer að góðum siðum. „Mundu svo að vera kurteis í veislunni“!
Kurteisi (n, kvk) Háttsemi; siðleg/öguð framkoma; hófsemi í umgengni.
Kurteisishjal (n, hk) Tilgangslitlar/ómarkvissar samræður í góðsemi/kurteisi. „Mér þykir alltaf betra að koma beint að hlutunum, heldur en vera með eitthvað óþarfa kurteisishjal“.
Kurteisisvenja (n, kvk) Mannasiður; hefðbundin tillitssemi. „Það hefur alltaf þótt kurteisisvenja Útvíknamanna að heilsa hverjum gesti fyrir sig“.
Kurteisisvottur (n, kk) Sönnun fyrir kurteisi/mannasiðum. „Það er nú bara sjálfsagður kurteisisvottur að fylgja ykkur úr að hliðinu“.
Kurteislega (ao) Af kurteisi/háttvísi. „Ég reyndi að svara þessu eins kurteislega og ég gat“.
Kusa (n, kvk) Gæluorð um kú.
Kusi (n, kk) Gæluorð um kálf/nautkálf.
Kusk (n, hk) A. Ryk; óhreinindi. „Það er eitthvað kusk aftaná frakkanum þínum“. B. Lítill, laus og nýfallinn snjór. „Þetta er enginn snjór að ráði; bara eitthvað kusk“.
Kuskugur (l) Rykugur; ataður ryki; óhreinn. „Ári er nú hatturinn minn orðinn kuskugur“.
Kutta / Kútta (s) Skera sundur; höggva á. „Hér hefur lent ofaní hjá okkur; við verðum bara að kutta þetta og hnýta saman undir“. Kutta er eldra í málinu.
Kutti (n, kk) Lítill hnífur, stundum búinn til úr skeftum stúf af ljáblaði. Orðið virðist annarsstaðar hafa verið borið fram og ritað linara; „kuti“, en var alltaf framborið hart í Kollsvík. (Sjá einnig útbrotakutti).
Kúabeit / Kúahagi (n, kvk) Beit/haglendi fyrir kýr. „Ágæt kúabeit er á Nautholtinu og í Holtunum“.
Kúagata (n, kvk) Stígur sem myndast af endurtekum umgangi stórgripa. „Eftir sumarið hafði greinilegt vegakerfi af kúagötum myndast í kúahögum í Kollsvík, en þeir náðu yfir Mýrarnar og Holtin. Aðalgatan lá frá Túnshalanum í Láganúpi norður Umvarp; ofan Hestkeldu og Nautholts. Þetta var sú leið sem Láganúpskýrnar fóru norður undir Tröðina, en þar töldu þær best til beitar. Þetta var því nokkur vegur fyrir kúarektora; strákana sem höfðu það embætti að nudda þeim heim aftur. Þær ferðir gátu orðið úr hófi tafsamar, þar sem á leiðinni er girnilegir veiðistaðir bröndu og annað til að glepja.
Kúahagi (n, kk) Hagabeit fyrir kýr. Talað er um að kominn sé kúahagi þegar gróður er svo sprottinn að vori að beita megi kúm á hann.
Kúahey / Kúafóður (n, hk) Hey sem ætlað er mjólkurkúm. Jafnan besta heyið í hlöðunni; vel verkað og af góðum túnum.
Kúahland (n, hk) Hland úr kúm. „Hvaða sull er nú á pelanum hjá þér? Þetta líkist helst kúahlandi“!
Kúahlass / Kúalella / Kúaskítshlass / Kúaskán / Kúadella (n, kvk) Skítur úr nautgrip. Kúalella var oft notað fremur um linan kúaskít. „Það má oft finna maðk í beitu undir kúaskítshlassi“. „Kúaskán var notuð sem eldiviður“. „Steigstu í kúadellu“?
Kúakambur / Kúaklóra (n, kvk) Kambur/áhald til að kemba kúm / snyrta kýr.
Kúalabbi / Kúalubbi (n, kk) Uppnefni í niðrandi skyni. „Þú ert nú meiri árans kúalubbinn“!
Kúamykja / Kúaskítur (n, kvk/kk) Skítur úr kúm. „Það þyrfti að setja kúamykju í rabbabaragarðinn“.
Kúarekstur (n, kk) Rekstur kúa á beit eða úr haga til mjalta.
Kúarektor (n, kk) Sá sem rekur/sækir kýrnar. Stöðugildi yngri kynslóðanna að sumarlagi.
Kúastampur (n, kk) Drykkjarstampur hjá kúm; ílát sem haft er undir vatni hjá kúm. „Passaðu uppá að yfirfylla ekki kúastampinn“.
Kúbein (n, hk) Stangarlaga verkfæri úr stáli með klauf á öðrum enda og spíss á hinum. Notað til að draga nagla; rífa byggingaahluta o.fl. og sem vogastöng.
Kúbikalin / Kúbikmetri / Kúbikfet / Kúbikfaðmur Mælieiningar rúmmáls. Algengt áðurfyrr, en nú á dögum nota menn fremur forskeytið rúm-; t.d. rúmmetri.
Kúðalegur (l) A. Lítill; ræfilslegur; aumingjalegur. „Skelfing er kálfurinn kúðalegur; það er eins og hann nærist illa“. B. Niðrandi lýsing á manni; kauðslegur; lúalegur; ómerkilegur; sviksamur. Heyrist þó sjaldan.
Kúði (n, kk) A. Um það sem er smávaxið. „Hrútlambið er hálfgerður kúði“. Mun hafa verið notað um lítinn ask fyrrum. B. Stundum í niðrandi merkingunni auli; kauði. C. Skip; einkum heiti á skinnbátum sem írar notuðu mikið áðurfyrr, og talið er að papar hafi siglt á til Íslands. Sbr örnefnið Kúðafljót.
Kúfa (s) Kýfa; setja kúf/hrúgu á eitthvað. „Það þýðir ekki að kúfa fötuna svona; steypan lekur bara niður“!
Kúfaður / Kúffullur (l) Með kúf/hrúgu á. „Mér finnst hæfilegt að setja eina kúfaða sykurskeið í kaffið“. „Hafðu hjólbörurnar ekki svona kúffullar“!
Kúffylla (s) Fylla og setja kúf/hrúgu ofaná. „Þetta nægir til að kúffylla stampinn“.
Kúfiskbeita (n, kvk) Kúfiskur sem beita sjá þar.
Kúfiskfjara (n, kvk) Fjara þar sem tíndur er kúfiskur, t.d. til beitu. „Í kúfiskfjörunni var sullast fram á miðjan daginn eftir“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Kúfiskhnífur (n, kk) Beituhnífur; beitukutti; hnífur með stuttu oddlausu blaði, hentugur til að skera kúfirk úr skel til beitningar.
Kúfisklega (n, kvk) Mið þar sem kúfiskur er plægður upp. „Kúfisklegan undan Breiðavíkurrifi norðarlega. Þar var plægður upp kúfiskur þegar ég man fyrst eftir, en þótti erfið og ófengsæl beitutekja og lagðist þá niður“ (KJK; Kollsvíkurver).
Kúfiskplógur (n, kk) Tæki til veiða á kúskel, sjá þar.
Kúfiskpoki (n, kk) Poki sem kúfiskur er tíndur/geymdur í. Sjá kúfiskur.
Kúfiskur / Kúskel Arctica islandica; lindýr/skeldýr/samloka sem algeng er á grunnsævi á sand- og leirbotni við Ísland; mestmegnis á 5-10 m dýpi, en finnst niður á 2 km dýpi. Vöxtur kúskeljar er hægur, en hún getur náð hæstum aldri allra lífvera sem um er vitað; yfir 400 árum. Mesta lengd kúskeljar er um 11 cm. Hún hrygnir í oktober-nóvember. Skelin liggur yfirleitt niðurgrafin á sandbotni, þannig að aðeins rönd stendur uppúr, með inn og útstreymisopum. Fæðan er svifþörungar. Þorskur og fleiri fiskar lifa á ungri skel, en steinbítur getur brotið og étið stórar skeljar. Mikið af skeljasandi á þessu svæði er talið stafa af kúfiskáti steinbítsins. Rannsóknir á vaxtarhringjum kúskeljar geta gefið mikilvægar vísbendingar um ástand sjávar á hverju ári.
Kúskel er m.a. að finna fyrir öllum Útvíkum og í Patreksfirði. Hún er ekki í miklu magni á Kollsvík, en hinsvegar var hann helsta beitan á lóðir í Kollsvíkurveri á síðustu tímum útgerðar þaðan. Hann var einkum sóttur inn í Skersbug í Patreksfirði og er þeirri beituöflun lýst í ritgerð Kristjáns Júlíusar Krisjánssonar um Kollsvíkurver:
„Þegar byrjað var að leggja línuna þurfti beituöflun að hafa átt sér stað. Beita sú er nær einvörðungu var notuð var kúfiskur. Skeljarinnar var aflað með tvennu móti; annaðhvort var hún grafin upp með höndunum um stórstraumsfjöru inni í Skersbug, innan við Sandodda, eða hún var plægð upp á meira dýpi. Það var kallað að fara í Bug eða fara í beitufjöru, þegar grafið var eftir skelinni með berum höndum. Aðeins var hægt að taka skelina um stórstraumsfjörur, og gátu þær þó verið misjafnlega stórar. Best var að grafa ef lygnt var og sólfar. Birta og hlýja höfðu sitt að segja þegar grafa þurfti úr sjó er tók á miðjan upphandlegg, bæði þegar byrjað var og áður en hætt var; jafnvel þótt fjaran væri góð, en annars allan tímann í lakari fjörum. Eins varð það til baga ef vindur stóð á land; þá varð fjaran lakari. Það þótti dágóð eftirtekja ef einn maður gróf upp skel í tvo poka. Oft var það minna, en í bestu fjörum nokkru meira. Eins voru afköstin allmisjöfn hjá hverjum einstökum. Meðan bátar skriðu áfram aðeins með árum og segli var þarna um alllangan veg að sækja, eða um þrjár vikur sjávar. Fara varð af stað að morgninum, og lá þá oft lá þá oft landsynningskaldi út fjörðinn, eða logn þegar best var. Af áliðnum degi var svo komin innlögn í fjörðinn. Öll ferðin var því farin undir árum og róðurinn all erfiður á köflum. Eftir að vélbáturinn Fönix kom til sögunnar var hann notaður til þessara ferða. Fóru þá margar skipshafnir á honum inn í Bug. Grafið var eins lengi og fjara framast leyfði. Oft var meiri skel tekin en báturinn bar. Var þá hæfileg hleðsla skilin eftir í Bugnum, en farið með það sem umfram var út á Patreksfjörð/Eyrar; pokarnir látnir í sjó á útfiri og látnir geymast þar uns ferð var gerð eftir þeim. Síðan var farið aftur inn í Bug og báturinn hlaðinn með því sem eftir var skilið og þaðan haldið út í Kollsvíkurver....
Þegar skelin var plægð upp lögðu ávallt tvær skipshafnir saman til þeirrar beituöflunar. Það var allvíða sem kúfiskamið voru skammt undan landi, en aldrei féll útaf. Voru hin helstu þau sem hér verða nefnd; Kúfisklegan undan Breiðavíkurrifi norðarlega. Þar var plægður upp kúfiskur þegar ég man fyst eftir, en þótti erfið og ófengsæl beitutekja og lagðist þá niður. Þá var lengst af plægð upp skel undan Tungurifi í Örlygshöfn. Einnig framundan Vatnsdal og Kvígindisdal, einkum af heimabændum. Plægt var einnig undan Hvalskeri, svo og undan Tálknahlíðum; innanvið Hliðardal. Tæki til þessarar beitutekju voru allfrumstæð í fystu. Talið er að kúfiskplógurinn hafi verið fundinn upp og smíðaður af Einari Bogasyni í Hringsdal í Arnarfirði. Urðu síðar á honum nokkrar lagfæringar, enda gátu þeir verið misjafnir að gerð og gæðum. Við plóginn var festur netpoki, 1 ½ -2m á lengd. Þegar tveir bátar voru við plægingu var annar báturinn nefndur spilbátur en hinn plógbátur. Spilið (eða fyrst framanaf dráttarvindan) stóð á tveim þóftum bátsins og var rammlega njörfað fast við þær. Bátnum var síðan lagt við öruggan stjóra; nærri svæði því er vænlegt þótti til fengsællar skeltekju. Hæfilega langur strengur (vírstrengur) var undinn upp á spilið, en enda hans síðan fest með lás í trjónuna; framenda plógsins. Nú tók hinn báturinn plóginn, og með hann var síðan róið út uns strengurinn var kominn á enda. Þá var plógnum hleypt til botns á bandi, sem kallað var hnakkaband. Í enda þess var flotholt eða belgur, er þá var fleygt fyrir borð. Þá byrjuðu spilmenn að snúa spilinu og vinda strenginn upp á það. Það voru fjórir menn sem það gerðu. Stóðu tveir og tveir hvor andspænis öðrum við hvorn enda spilsins og höfðu aðra hönd hvor á spilsveifunum. Skipt var um, svo erfiðið kæmi á báðar hendurnar. Þegar plógurinn kom til botns og farið var að draga hann, gróf hann sig strax því sem næst á kaf í sand; losnaði um skelina í plógfarinu og bárust þær síðan aftur í pokann. Skelinni fylgdi oftast sandur, steinar og sitthvað annað ógagnlegt. Þegar búið var að draga plóginn nokkuð áleiðis heim að spilbátnum; allt að á miðja leið, þó nokkuð misjafnt; hrökk hann upp sem kallað var; þ.e. missti festu í sandinum. Var ásæðan ýmist sú að því nær sem dró bátnum lyftist plógnefið meira upp, eða að komið væri talsvert í pokann; eða í þriðja lagi að plógurinn hefði lent á steini. Það gat skeð að hann fengi festu aftur um stund. Annars fóru plógbátsmenn strax að hnakkabandinu og drógu plóginn upp. Stundum var það gert með handafli einu saman, en á síðari árum var það gert með vindu eða spili. Þegar plógurinn kom uppundir borð var honum snúið svo að tennurnar vissu frá súð bátsins. Þá var hann hækkaður svo að nefið kom allt uppúr sjó; þá tekið í það og plógurinn veginn innyfir borðstokkinn. Síðan var tekið í tvö bönd er lágu sitthvorumegin úr plógnum niður í horn pokans. Á þessum böndum var pokanum þvælt sitt á hvað í sjónum til þess að skola burtu leir og sand. Að því búnu var pokanum lyft og steypt úr honum skelinni inn í bátinn. Þá var plógurinn róinn út á ný nálægt, en þó ekki í sama plógfar. Þeir sem í plógbátnum voru létu nú skelina í poka en fleygðu ýmsu rusli eða úrgangi í sjóinn. Svona gekk þetta æ ogfan í æ; að draga plóginn og tæma pokana, uns sæmileg skeltekja var fengin og þreyta og svefnleysi fór að sækja á mannskapinn. Stundum þurfti að færa sig úr stað áður en nægjanleg kúfisktekja var fengin.
Enn var og sú aðferð við þessa beituöflun viðhöfð að spili; ýmist handsnúnu eða gangspili, var fest á landi og plógur fluttur út. Komist varð af með einn bát, plógbátinn, en ef til vill nokkru lengri lengri plógstreng. Þessi aðferð var einkum notuð í Vatnsdal og Kvígindisdal, og þá helst af heimabændum....
Línan var beitt í landi að kvöldi hvers dags sem róðið var og fyrir fyrsta róður. Var einn skipverja sem beitti, tók fiskinn úr skelinni og skar beituna. Hinir fóru í aðgerðina; þ.e. hausa, fletja, þvo og salta fiskinn....
Meðan legið var yfir línu var skorið úr skel og beita brytjuð... (KJK; Kollsvíkurver).
„Ekki virðist farið að nota kúfisk til beitu að neinu ráði fyrr en seint á 19. öld, og í því efni höfðu Vestfirðingar forystu. Í fyrstu var hann allur úr rekaskel... Í Patreksfirði var kúfiski fyrst beitt 1898.. Hvergi var kúfiskur vaðinn upp að neinu ráði nema í Skersbug við Patreksfjörð.. Þegar vaðið hafði verið svo langt að sást á kúfiskinn varð að fara með handlegginn upp að öxl niður í sjóinn, svo náð yrði til hans. Varð að gæta þess að bora fingrunum beggja megin við skelina og kippa henni snöggt upp, en varast að hitta á munninn, þar sem af slíku biti gat hlotist vont meiðsli. Eins og gefur að skilja rann ofan í brækurnar og yfir bakið þegar menn réttu sig upp eftir hverja seilingu svona langt niður. Flestir notuðu því hvorki brækur né sjóstígvél. Svipað er að segja um skinnstakkinn; í honum var sjaldan verið í logni og sólskini, en þegar hvasst var og kalt fóru menn í hann til að verjast næðingi, og má nærri geta hversu notaleg hlíf hann hefur verið; hildablautur í kalsaveðri. Stöku sinnum bar það við að menn fengu lungnabólgu uppúr þessum ferðum. Sjaldan var meiri skel en svo að hver maður næði í 1-2 poka í ferðinni. Beitutollur var 2 kr fyrir hvern mann yfir fjöruna“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimildir GG; KJK o.fl.)
„Minna var gert af því að plægja kúfisk eftir að síld varð almenn beita... Sumir geymdu kúskelina í pokunum þar sem féll yfir hana um hverja flæði. Skelin var tekin úr pokunum og skorið úr jafnóðum og beitt var. Hnífurinn/kúfiskhnífurinn var löngum heimasmíði; stuttblaða og oddlaus... Tvær til fjórar beitur fengust úr skelinni eftir stærð hennar“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
„Til forna var kúfiskneysla á þessum slóðum og þótti gott að fá hann til matar til tilbreytingar. Kúfiskurinn var etinn steiktur og súrsaður, eða bara soðinn og etinn með feitmeti. en hvernig hann var verkaður fyrir neysluna er mér ekki kunnugt. Skeldyngjurnar við flest byggð ból í Rauðasandshreppi sannar neysluna (og notkun til beitu). Vitað er að Sauðlauksdalskirkja verður mjög snemma eigandi að Hvalskeri og Skersbugnum og að þarna var mikið um að menn kæmu seinni hluta vetrar og að haustinu að afla sér þessarar bjargar. Skelfisksát var þá almennt um þessar slóðir. Til dæmis var sett bænhús í kaþólskum sið vergna þess fólks er þarna safnaðist saman vor og haust“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
„Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt ljósabeitu. Fljótlega var þó farið að nota kúfisk, og var hann tekinn inni í Bug, hjá Hvalskeri. Sá fyrsti sem notaði kúfisk til beitu mun hafa verið Þórarinn Thorlasíus, á Sveinseyri í Tálknafirði. Og þar sem þessi beita var miklu betri. Ekki er glöggt vitað hvenær byrjað var að nota kúfiskplóg, en Ólafur Magnússon minnist þess að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík hafi smíðað kúfiskplóg úr skeifnajárni. Með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi, en sú skel sem þar fékkst var mjög smá; aðallega rauðbarði (GG; Lóðir í Kollsvíkurveri; skrás EÓ)
„Það var oft erfitt fyrir viðvaninga; sjóveika í byrjun, og kvalræði að fara með kúfiskinn. Fyrst var farið í beitufjöru í Bugnum á Hvalskeri, og krafsað þar upp með höndunum kúfiskskeljarnar uppúr sandinum. Bugsferðir voru ávallt farnar um stórstrauminn. Skelin var svo geymd í pokum þar sem sjór féll á hana, en þegar þetta fór að eldast drapst skelin og þetta varð úldið og blátt. Varð þetta ekta sjóveikiefni, þegar lyktin af þessu blandaðist saman við þefinn af brókunum, sem voru verkaðar með lýsi eða grút“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Kúfisktekja (n, kvk) Veiði/afli/fengur af kúfisk. „Stundum þurfti að færa sig úr stað áður en nægjanleg kúfisktekja var fengin“ (KJK; Kollsvíkurver). Kúfiskveiði er yngra orð og var ekki notað.
Kúfurinn af (orðtak) Mest af; mestmegnis. „Kúfurinn af þjóðarskuldunum er vegna óspilunarsemi“.
Kúga (s) A. Neyða eða þvinga einhvern til einhvers. B. Tæma; teyga. „Hann kúgaði hvern dropa úr flöskunni án þess að depla auga“.
Kúga til síðasta dropa (orðtak) Um lög í íláti; klára algerlega; þurrka.
Kúgast (s) Æla; spúa; fá ælukrampa án þess að neitt komi upp. „Ég reyndi að plokka ýlduna úr netunum, milli þess að ég lagðist útyfir borðstokkinn og kúgaðist“.
Kúgi (n, kk) Dropi; smásopi. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). „Einhver kúgi er enn eftir í glasinu“.
Kúgildi / Kvígildi (n, hk) Verðgildiseining fyrri tíma. Kúgildi var verð einnar kýr og jafngilti einu hundraði á landsvísu eða 6 kindum, loðnum og lembdum. Kúgildi var einnig fylgifé leigujarðar, sem hver ábúandi varð að standa skil á til þess sem tók við af honum; eða greiða af þeim leigu til landsdrottins. Verðmæti kúgildis var dálítið misjafnt eftir tíma og landsvæðum. Um 1200 var kúgildi 3 vættir osts eða smjörs. Á 13. Öld var eitt kúgildi metið á hundrað álnir vaðmáls; þ.e. stórt hundrað = 120. Og á 15. öld 120 gildir fiskar; þ.e. 40 á 4 merkur og 80 á 5 merkur. Góður vinnumaður er talinn hafa haft sem svaraði einu kúgildi í laun á ári. Laun vinnukonu voru iðulega þriðjungur af þeim. „Leigukúgildi með Hólum 2 (1 kýr; 6 ær). Hjá Ólafi (á Hólum) eru nú lifandi, fyrir utan kvígildin, 3 gemlingar. …. Leigukúgildi (á Grundum) 3…. Kúna uppyngir landsdrottinn. Ærnar hefur leiguliði uppyngt, þó er það ei áskilið“ (ÁM/PV; Jarðabókin 1703).
Kúgun (n, kvk) Undirokun; áþján. „Um aldaraðir mátti Útvíknafólk búa við kúgun og arðrán af hendi höfðingjaveldisins; einkum landsdrottna í Saurbæ“.
Kúguppgefinn / Kúgþreyttur (l) Örþreyttur; alveg búinn. „Ég er alveg kúguppgefinn eftir að eltast við þessar skjátur“.
Kújón (n, kk) Skálkur; ómenni. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Kúka (s) Skíta; hafa hægðir; ganga örna sinna; flytja lögmann; gera þarfir sínar; gera að buxum; gera stórt“.
Kúkur (n, kk) Þrekkur; skítur; hægðir.
Kúla (s) Stykkja; skera í fisk (einkum steinbít) sem hengdur er upp, til að hann þorni fljótar og verði þægilegri til átu. „Steinbítur sem hengdur var upp til herslu í Kollsvík var kúlaður en aldrei var til siðs að kúla grásleppu sem látin var síga. Slíkt þótti valda óbragði og þráa“. „Steinbíturinn var einnig hausaður, flattur og kúlaður; þ.e. skornir þverskurðir yfir báða helminga“ (KJK; Kollsvíkurver). „Hann kom með þá tillögu að hver útgerðarmaður borgaði okkur einn steinbít; fullhertan, góðan, vel verkaðan harðsteinbít; kúlaðan“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Kúlda (s) Hafa í kúld/þröng/kuðung; kreppa/hnoða saman. „Það er óþarfi að kúlda féð lengur inni ef veðrið er að lagast“. Sögnin, líkt og samhljóða nafnorð, er eflaust stofnskyld orðinu kúla.
Kúlda / Steinbítskúlda (n, kvk) Kinnfiskur. „Kinnfiskurinn/ kúldan/steinbítskúldan var víða rifin til átu úr hörðum hausnum. Dálítið var á reiki með kúlduheitið. Það gat átt við kinnbeinið ásamt fiskinum og einnig allan hausinn. “ (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh).
Kúldaður (l) Krepptur inni í þrengslum. „Féð verður mikið frískara ef það fær sína útibeit, heldur en ef það er kúldað inni allan veturinn“.
Kúldra / Kúldrast (s) Híma; hafast við. „Ég er ekkert að kúldra féð lengur inni; fyrst veðrið er farið að lagast“. „Heldur var það nöturleg vist að kúldrast í þessum húshjalli“.
Kúlduleitur (l) Búlduleitur; með bústnar kinnar; fullur að vöngum.
Kúldur (n, hk) Innivera; það að hýrast inni í húsi. „Ég kann betur við að bjástra eitthvað útivið en endalaust kúldur inni í húsum“.
Kúlubyssa (n, kvk) Byssa til að skjóta einni kúlu; riffill eða fjárbyssa/skammbyssa. Til aðgreiningar frá haglabyssu og rotbyssu. „Yfirleitt var notuð rotbyssa á fé í sláturhúsinu, en þó kúlubyssa á fullorðna hrúta“.
Kúlun (n, kvk) Aðferð við fiskverkun; þegar fiskurinn (steinbítur, grásleppa eða annar) hefur verið flakaður eru skornir þverskurðir í fiskholdið til að flýta fyrir þurrkun og gera fiskinn aðgengilegri til átu. Hnífnum er þá hallað að aðgerðarmanni, þannig að kúlan verði bein þegar fiskurinn er siginn. Yfirleitt tíðkaðist ekki að kúla fisk í Kollsvíkurveri fyrr á tímum, að því best er vitað. Grásleppa var hvorki flökuð né kúluð í Kollsvík, heldur kviðskorin og látin síga heil. Feitum fiski hættir meira til að þrána sé hann kúlaður.
Kúluvembdur (l) Með ístru; feitlaginn; með áberandi maga. „Kindur eru kvikar vel og kúluvembdar;/ flestar eða allar lembdar“ (JR; Rósarímur).
Kúluvömb (n, kvk) Áberandi magi; sá/sú sem er feitlagin; ístrubelgur.
Kúmenkaffi (n, hk) Kaffi sem bragðbætt er með kúmenfræjum.
Kúmente (n, hk) Te sem lagað er úr kúmenfræjum eða bragðbætt með þeim. Kúmen (Carum carvi) vex ekki villt í Kollsvík, en þar eru hinsvegar breiður af vallhumal (Achillea millefolium) , sem tilsýndar er áþekk planta. Hann var stundum notaður í te, sem ýmist var nefnt vallhumalste eða kúmente.
Kúnst (n, kvk) List; vandaverk. „Það er töluverð kúnst að fá svona stein til að falla vel í hleðslu“.
Kúnstugheit (n, hk, fto) Skrípalæti; bellibrögð; listgerningur. „Ég er ekki nógu menningarlega þenkjandi til að botna í svona kúnstugheitum“.
Kúnstugur (l) Sniðugur; sérstakur. „Hann gat stundum verið dálítið kúnstugur í tilsvörum“. „Það er alveg kúnstugt að sjá aðfarnar hjá honum“.
Kúnstverk (n, hk) Listaverk. „Svona kúnstverk sér maður ekki á hverjum degi“.
Kúphyrnd (l) Hornalag á sauðkind; hornin fremur stutt, vaxin uppávið og í krappan hring. Sjá hringhyrnd; bjúghyrnd.
Kúpull (n, kk) Kúlulaga skermur utanum lampa/ljós.
Kúr (n, kk) A. Tímabil sem lyf er tekið eða fæði innbyrt eftir sérstakri tilskipun/forskrift. „Ég þurfti að fara á tíu daga pensillínkúr“. B. Lúr; blundur; stuttur svefn. „Hann fékk sér dálítinn kúr eftir matinn“.
Kúra (s) Lúra; blunda; sofa; halla sér. „Alltaf er nú best að kúra í sínu eigin rúmi“.
Kúrant (n, kk) Mynt; gjaldmiðill. Sletta af ensku; „current; currency“. Heyrist ekki í nútímamáli.
Kúreki (n, kk) A. Sá sem rekur kýr. Notað á síðari tímum í Kollsvík yfir þá sem ráku kýr til beitar og sóttu þær aftur til mjalta. B. Þýðing á ameríska heitinu „cowboy“, sem í upphafi merkti þá sem gæta mikilla nautahjarða og oftast ferðast á hestum, en hefur verið afskræmt í Hollywoodmyndum, eins og fleira.
Kúrs (n, kk) Stefna; átt sem farið er í. „Hafðu kúrsinn ljóst fyrir Háanesið til að byrja með“.
Kúska (s) Kúga; þvinga; fara illa með. „Þú verður að standa fast á þínu og ekki láta kúska þig“.
Kúska til (orðtak) Lumbra á; lemja. „Þeir króuðu hann af á þorrablótinu og ætluðu að kúska hann til“.
Kúskeljabingur / Kúskeljahaugur (n, kk) Haugur/hrúga/hóll af kúskeljum. „Lengi eftir að útgerð lauk úr Kollsvíkurveri mátti enn sjá kúskeljahauga, þar sem skorið hafði verið út til beitu. Einkum ofan Norðarikletta. Mikið af þessu hefur horfið við umferð ferðafólks“.
Kústa (s) Sópa með kústi. Talað var að „kústa gólfin“ eða „kústa yfir gólfin“; „kústa grindurnar/jötuna“ o.fl..
Kústaskápur (n, kk) Skápur til geymslu á sópum/kústum, gólfskrúbbum o.fl.
Kústur / Kústhaus / Kústskaft (n, kk/hk) Sópur og hlutar hans. Kústur var einnig notað um málningarpensil og þá talað um málningarkúst, eða kalkkúst ef hann var til að kalka veggi.
Kútaburður (n, kk) Burður eggjakúta frá eggjatökustað áleiðis heim. „Gott er að hafa létta yfir axlir til að auðvelda kútaburðinn þegar um langa leið er að fara, eins og af Breiðsbrún eða upp Geldingsskorardal“.
Kútaréttingar (n, kvk, fto) Handlöngun eggjakúta, t.d. á milli ganga í klettum eða af hlein í bát. „Það var munur að hafa svona öflugan mann í kútaréttingar, þó ekki væri hann mjög fær í klettum“.
Kútfylli (n, kvk) Fullur kútur. „Ég hafði kútfylli af höfðanum, og slatta í fötu í viðbót“.
Kúthald (n, hk) Hald/handfang á kút/eggjakút. „Árans kúthaldið gaf sig á leiðinni, svo þar fóru mörg egg“.
Kútmagi (n, kk) Maginn úr þorski. Hann var nýttur til matar, en að slíta hann og lifur og kýtu úr slógi nefndist að slíta slóg. Þar af málshátturinn; „sá þarf ekki að slíta slóg sem hefur nóg“. Kútmagi var skafinnog þveginn vandlega; himnudreginn, þveginn og þurrkaður á grjótgörðum. Harður var hann dreginn upp á band með fjaðra- eða beinnál. Eftir þurrkun var hleypt upp á honum og hann látinn í súr. Sá siður hefur tíðkast lengi í Kollsvík og víðar að eta kútmaga nýja og þá fyllta með lifur. Eftir að kútmaginn hefur verið þrifinn vandlega og himnudreginn er hann fylltur með lifur, sem stundum var drýgð með rúgmjöli; í garnaropið tekin tvö togþráðarspor eða dregið saman með bauluprjóni en reyrt að munnamaganum með seglgarni. Þannig matreiddur er kútmaginn herramannsmatur. (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Kútta (s) Skera á/sundur; kutta. B. Taka innanúr fiski; skera fyrir og fjarlægja ræksni.
Kúttaður (l) Um fisk; búið að kútta. „Fyrr á öldum mun ætíð hafa verið komið með fiskinn óslægæðan að landi, enda var ýmislegt af ræksnunum hirt til matar, s.s. kútmagi og lifur, en annað nýtt til áburðar á tún. Á fyrrihluta vélbátaútgerðar fór að tíðkast að kútta afla á sjó; sem varð múkkanum mikil búbót. Á síðustu árum eru skakbátar skyldaðir til að koma með allan afla ókúttaðan að landi, en vel ísaðan“.
Kútter (n, kk) Skúta; fremur lítið, þiljað seglskip (þó yfirleitt ekki notað um þau sem nota þversegl, og ekki um skonnortur). „Um skipsheitið kútter er það að segja að upphafleg merking þess mun vera skip með beinu framstefni; gagnstætt hinu trjónumyndaða skonnortulagi“ (GiG; Skútuöldin).
Kútur (n, kk) A. Ílát. Fyrrum var oftast átt við litla tunnu, t.d. áttung. Nú er oftast átt við ílát út gleri, blikki eða plasti; sbr brennivínskútur; eggjakútur. B. Hnipur; krepptur líkami. „Ég hrökk í kút við hvellinn“. C. Gæluorð um smástrák. „Komdu hérna kúturinn minn“. D. Vettlingur sem svo mikið er róinn/þæfður að hann er stífur og lagaður að hendinni. E. Mælieining fyrrum; 8 pottar.
Kútveltast (s) Velta stjórnlaust niður bratta. „Honum skrikaði fótur og svo kútveltist hann niður hlíðina“.
Kúvenda (s) A. Aðferð við að venda skipi. „Tvær voru aðferðir við að venda skipi. Mátti bæði stagvenda og hálsa, þ.e. kúvenda. Stagvending var miklu hentugri í alla staði og einatt viðhöfð þegar hægt var. En gangtreg skip neituðu stundum vendingu; fengust ekki til að falla yfir til annarrar hliðar þótt þeim væri beitt upp í vindinn. Þá neyddust menn til að beita hinni aðferðinni, að slá skipinu undan vindinum og sigla nær því í hring. Tafði það siglinguna og þótti verra í alla staði“ ( GiG; Skútuöldin) . B. Afleidd merking; skipta alveg um skoðun í afstöðu til máls. „Mér sýnist að flokkurinn sé búinn að kúvenda í þessu máli“.
Kúvending (n, kvk) Mikið breytt stefna, sjá kúvenda. Nú eingöngu notað í líkingum um málefni/skoðanir.
Kvabb (n, hk) Nöldur; bón; nudd. „Þú fyrirgefur þetta kvabb“ (Bréf AK til VÖe í júní 1941).
Kvabba á (orðtak) Biðja um greiða; ómaka. „Mætti ég nokkuð kvabba á þér með þetta einu sinni enn“?
Kvaðalaust (l) Án kvaða/skuldbindinga; skilyrðislaust. „Hann mátt eiga þetta kvaðalaust frá minni hendi“.
Kvaðir (n, kvk, fto) Vinnuskylda og framlög leiguliða í þágu laundeiganda fyrr á tíð, sem venjulega var tiltekið í leigumála jarðar. Kvaðir gátu t.d. verið dagsláttur; skipsáróður; hestlán og fóðrun fjár. Í jarðabókinni má sjá ýmsar kvaðir leiguliða á jörðum Saurbæjarhöfðingja, og höfðu þær verið áhvílandi á leigujörðunum um nokkrar aldir. Mikið er t.d. um að bændur á jörðum í Örlygshöfn, Patreksfirði og á Rauðasandi séu skyldaðir til áróðurs á skipum Saurbæjar í Láturdal, Kollsvík, Keflavík og Lambavatni
Kvaðning (n, kvk) Beiðni sem inniber skyldu til mætingar/verknaðar. „Ég fékk kvaðningu um að mæta á fundinn fyrir þeirra hönd“.
Kvaðrantur (n, kk) Áhald til að mæla sólarhæð, var notað áður en sexkantur kom fram. Til er lýsing á kvaðranti til þeirra nota í íslensku fræðiriti frá 13. öld. Nafnið er dregið af því að á tækinu er gráðubogi sem nær yfir fjórðung úr hring.
Kvaðrat (n, hk) A. Tala í öðru veldi; tala margfölduð með sjálfri sér. B. Flatarmál jafnhliða fernings með öll horn rétt. Stundum notað um ferninginn sjálfan. Kvaðrat er oft táknað með forskeytinu „fer-“ á undan mælieiningunni, sbr fermetri. (Áður var stundum talað um kvaðratmetra).
Kvaðratrót (n, kvk) Sú tala sem margfölduð með sjálfri sér gefur kvaðrat.
Kvak (n, hk) A. Hljóð fugla, oftast notað um hljóð anda, æðarfugla og svana. B. Kvabb; bón; beiðni. Sbr sálminn „Ástarfaðir himinhæða/ heyr þú barna þinna kvak“ (Steingrímur Thorsteinsson).
Kvaka um (orðtak) Hafa orð á; færa í tal. „Þú verður bara að kvaka um það ef þig vantar eitthvað“.
Kvalafullur (l) Sem kostar kvalir/þjáningar. „Í samfélagi bænda og veiðimanna hefur alltaf verið forðast að láta búsmala eða veiðidýr bíða kvalafullan dauðdaga“.
Kvalalaus / Kvalalítill (l) Laus við þjáningar; þjáningalítill. „Ég er mikið betri en í gær, en samt ekki alveg kvalalaus“.
Kvalastaður (n, kk) Annað nafn á Helvíti. Orðið er lítið notað nú á tímum, enda aflagður sá plagsiður kirkjuveldisins að halda trúgjörnu fólki í endalausum ótta við eilífðarkvalir í Helvíti eftir dauðann. Þó eru ekki mörg ár síðan prestur hótaði vítiskvölum úr ræðustól í Breiðavíkurkirkju; þeim sem ekki mættu í messu.
Kvalastillandi (l) Sem linar kvalir/þjáningar/verki. „Töflurnar verkuðu kvalastillandi í nokkurn tíma“.
Kvalinn (l) Þjáður. „Ertu mjög kvalinn“?
Kvalræðalaust / Kvalræðalítið (l) Án kvalræða; þjáningalítið. „Það er svosem kvalræðalaust að minni hálfu þó þessi háttur verði hafður á“. „Ætli það væri ekki kvalræðalítið fyrir ríkissjóð að láta hefla þennan vegspotta einusinni eða tvisvar á ári“?!
Kvalræði (n, hk) Kvöl; mjög átakanlegt. „Það var oft erfitt fyrir viðvaninga; sjóveikir í byrjun og kvalræði að fara með kúfiskinn“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Kvalræði/ kvöl/ skelfing er að heyra þetta! (orðtak) Upphrópun gagnvart ótíðindum.
Kvalræðisgrey / Kvalræðiskvikindi (n, hk) Vorkunnarorð um dýr eða vesælan mann. „Vertu nú ekki að skamma tíkina; hún gat ekki betur gert;kvalræðiskvikindið“!
Kvalræðislegt (l) Neyðarlegt; skammarlegt; átakanlegt. „Manni finnst það dálítið kvalræðislegt að horfa uppá þessa ráðherra kaupa bíl fyrir tugmilljónir undir rassinn á sér, en svo fær fatlað fólk enga ferðaþjónustu“!
Kvap / Kvapi (n, hk/kk) Spik. „Óttalegt kvap er nú sest framan á þig maður“.
Kvapaður / Kvapholda (l) Spikaður; feitur.
Kvarði (n, kk) A. Mælikvarði; stighækkandi einingalína til mælinga, t.d. tommustokkur eða hitamælir. B. Sérstök stika til mælinga á álnavöru.
Kvarnarhús (n, hk) Mylluhús; hús sem kornmylla er í. „Í Ánni voru tvö kvarnarhús“ (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur).
Kvarnarlækur (n, kk) Lækur sem í er mylla/kvörn. „Kvarnarlækur er í Kollsvík, sem öðru nafni nefndist Myllulækur og einnig Brúarlækur, þar sem yfir hann lá þykk steinhella; og síðast Bæjarnlækur eftir að byggt var núverandi íbúðarhús“.
Kvarnarsteinn (n, kk) Myllusteinn; kringlóttur steinn sem notaður var á móti öðrum slíkum til að mala korn. Ómalað kornið var sett niður í gat í miðjum efri steininum, sem síðan var snúið meðan neðri steinninn sat kyrr. Malað korn skilaði sér út við jaðrana, eftir rásum í steinunum.
Kvarnarstokkur (n, kk) Kassi utanum kornkvörn/kornmyllu, sem malað kornið safnast í.
Kvarnast úr (orðtak) Molna úr.
Kvart (n, hk) Fjórðungur; einn fjórði úr mælieiningu. „Hinir bátarnir voru frá einu og kvart til eins og hálfs tonns“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Kvarta (s) Bera sig upp; bera sig illa við einhvern, undan tilteknu vandamáli/ástandi.
Kvarta og kveina (orðtak) Bera sig illa/aumlega; vera síkvartandi. „Það þýðir lítið að kvarta og kveina; ástandið lagast lítið fyrir því“!
Kvarta sáran (orðtak) Kvarta mikið; kveinka sér illilega. „Útflytjendur kvarta sáran yfir gengi krónunnar“.
Kvartar hver þá kennir / Kvartar sá er kennir (orðatiltæki) Sá kvartar sem kennir til/ finnur til/ verður fyrir óréttlæti.
Kvartel / Kvartil (n, hk) A. Lítil tunna sem tekur ¼ löglegrar tunnu eða 30 lítra; 2 áttungar. B. Fylling tungls. Tungl er á 1. kvarteli þegar það er ljóst að ¼; á öðru þegar það er ½, og á síðasta kvarteli er það ljóst að ¾.
Kvartilaskipti tungls (orðtak) Tungl var mjög haft til viðmiðunar um tíma, meðan klukkur og dagatöl voru ekki til komin. Ferð tungls um himinhvolfið er mjög regluleg og áreiðanlegur tímamælir. Sól skín á tunglið og lýsir það upp, en vegna afstöðu þess við sól og jörð virðist ljósi hluti þess taka breytingum yfir fjögurra vikna tímabil; þá hefst aftur nákvæmlega eins skerðingarferill. Hinn upplýsti hluti tunglsins er því mælikvarði tíma, og er hlutfallið talið í fjórðungum ferilsins; jafnan nefnt „kvartil“. Tungl er vaxandi á fyrri tveimur kvartilum en minnkandi á hinum tveimur. Á fyrsta kvarteli er hægri helmingur tunglsins að lýsast upp; á hálfu tungli er síðari helmingur þess að lýsast upp, og eftir það er fullt tungl. Á þriðja kvarteli er hægri helmingur tunglsins að dökkna; á fjórða kvarteli dökknar einnig sá vinstri og á nýju tungli er tunglið án lýsingar sólar og virðist dökkt á himni. Síðan hefst sami fjögurra vikna ferill aftur.
Kvartilsbútur (n, kk) Bútur af einhverju, t.d. rjóli, sem er fjórðungur úr hring. „Árni seildist aftur niðurmeð rúmbríkinni; tók upp rjólbitann; dró úr honum tvo toppa; rakti utanaf honum kvartilsbút sem hann skar af og stakk í vasann“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Kvartsár (l) Gjarn á að kvarta; kvartar af litlu tilefni. „Vertu ekki svona kvartsár; hann gerði þetta óviljandi“.
Kvarttunna (n, kvk) Tunna sem full er að einum fjórða. „Það var lítið í netunum eftir bræluna, enda voru þau kökkuð af skít; ætli þetta hafi ekki verið kvarttunna af hrognum“.
Kveða (s) A. Kveða rímur; fara með rímur með sérstökum hætti af söng. „Alltaf (á kvöldvökum) var einn að lesa eða kveða rímur. Það voru lesnar Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Íslendingasögur, Fornaldarsögur Norðurlanda, skáldsögur o.fl. Kveðnar voru rímur af Þorsteini uxafæti, Hálfdáni Brönufóstra, Sörlarímur eftir Össur Össurarson á Látrum, rímur af Reimari og Fal. Það var einkum Össur Guðbjartsson (eldri) sem las; hann átti skrifaða bók af Maroni sterka“ (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). B. Ku (sjá þar).
Kveða (n, kvk) Atkvæði í kvæði/ljóði. Ákveðin hrynjandi/kveðandi er í hverju ljóði, þannig að ýmist eru atkvæði/kveður með áherslu eða án áherslu. Kveða með áherslu er hákveða, en hin lágkveða. Ljóðstafir (stuðlar og höfuðstafir) þurfa að vera í hákveðu, til að ljóðið sé áheyrilegt.
Kveða að (orðtak) A. Bera fram orð; oftast þá notað um það þegar barn er að byrja að læra lestur og getur lesið heil atkvæði. Orðið „atkvæði“ vísar til þessarar merkingar. Einnig er sagt að sá sem talar af þunga; skammast, kveði fast að orði. B. Vera áberandi/mikilvirkur í samfélaginu; vera „atkvæðamaður“. „Þótti mikið kveða að Einari bónda og hreppstjóra í Kollsvík“.
Kveða drundrímur (orðtak) Freta; reka við, oft og lengi. „Hættu nú að kveða þínar drundrímur; það er aðverða ólíft hér inni“!
Kveða fast að orði (orðtak) Leggja áherslu á það sem sagt er; taka sterkt til orða; nota sterkar lýsingar. „Honum lá stundum hátt rómur ef honum þótti, og kvað þá fast að orði“.
Kveða í kútinn (orðtak) A. Ljóða þannig á mann að hann geti ekki svarað fyrir sig þegar kveðist er á. B. Síðari notkun var líking af þeirri fyrri; sagt var að sá hefði kveðið annan í kútinn sem sagði eitthvað svo kröftugt eða rökfast að hinum varð svara vant. „Mér tókst að kveða hann í kútinn varðandi þessa vitleysu“.
Kveða dyra (orðtak) Knýja dyra; banka á hurð. „Klukkan sex um morguninn var harkalega kvatt dyra á Láganúpi“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Kveða sér hljóðs (orðtak) Fá aðra til að hlusta á sig; hækka röddina yfir klið annarra; byrja að tjá sig/ tala. „Hann kvaddi sér hljóðs eftir umræðurnar og sagði sig úr félaginu“.
Kveða sig fylgjandi (orðtak) Lýsa yfir stuðningi við; segjast vera sammála. „Kr. Júlíus Kristjánsson kvað sig málinu fylgjandi, enda þótt misjöfn reynsla hefði af því orðið áður“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Kveða uppúr með (orðtak) Leggja dóm á; segja sitt álit; úrskurða um. „Hann kvað uppúr með að þetta væri mark heimamanna, en það væri hroðvirknislega markað“.
Kveða við (orðtak) Heyrast í; taka undir í. „Ætlarðu ekki að hafa þig í að kveikja á prímusnum drengur; það er naumast að þú hefur sofnað“! kvað aftur við í formanninum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Kveða við raust (orðtak) Syngja/kveða upphátt/hátt. „Vel heyrðist til karlsins í logninu, þar sem hann kvað við raust á dráttarvélinni“.
Kveðandi (n, kvk) Hrynjandi í kveðskap; rím, kveður og annað sem gerir ljóð áheyrilegt.
Kveðast (s) Segjast; segja; halda fram. „Magðalena Össurardóttir var 3 vor í Verinu og kvaðst heldur vilja gera það en vinna bæjarverkin“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Kveðast á (orðtak) Tómstundagaman/íþrótt sem felst í því að tveir eða fleiri kveða vísur (oft stökur) til skiptis; á þann veg að næsti maður verður að byrja sína vísu á því orði sem síðasta vísa endar á. Reglur geta verið með ýmsu móti; stundum er einungis síðasti stafur síðustu vísu upptaktur að þeirri næstu; stundum eru vísurnar fyrri skáldverk en stundum frumsamdar, og reynir þá á skáldagáfuna. Menn gerðu mikið af því áðurfyrr að kveðast á, sér til dægrastyttingar. Á þann hátt þjálfuðust menn í kveðskap og urðu margir ágætlega skáldmæltir. Bæði var kveðist á með þekktum vísum og einnig frumsömdum, ef vel voru gerðar. Var íþrótt þessi mikið iðkuð á Kollsvíkurbæjum. Kunn var hagyrðingafjölskyldan í Vatnsdal, og þar mun þessi íþrótt einna síðust hafa verið stunduð að ráði í Rauðasandshreppi. Sjá botna; kasta fram vísu.
Kveðja (s) A Mæla kveðjuorð að skilnaði. B. Andast; skilja við; deyja. „Hún var þá að kveðja í gær blessuð gamla konan“. C. Kalla eftir.
Kveðja með virktum / Kveðja innvirðuglega (orðtaök) Kveðja alúðlega/ á innilegan hátt.
Kveðja til (orðtak) Kalla til; kalla eftir liðsinni; fá til verks. „Almennur hreppsfundur samþykkir að fela hreppsnefndinni að kveðja einn mann til þess að fara um og líta eftir hvernig fjallskil eru framkvæmd á hverjum stað í sveitinni“ (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 24.03.1962; ritari ÖG).
Kveðjustund (n, kvk) Tími fyrir kveðju; þegar kvatt er.
Kveðskapur (n, kk) Kvæði; ljóð; vísa; hvaðeina sem til ljóðlistar telst. „Ekki þótti honum mikið til kveðskaparins koma“.
Kveðskaparlist / Kvæðalist (n, kvk) Listin að kveða ljóð svo vel fari og áheyrilegt sé; hvort heldur er frumsamið eða eftir aðra. Sú list er ekki öllum gefin, og fellur ekki endilega saman við skáldskapargáfur.
Kveður við annan tón (orðtak) Öðruvísi viðbrögð; annað hljóð í strokknum. „Nú kveður við annan tón hjá honum, eftir að hann komst í hreppsnefndina“!
Kvefdrulla / Kveffjandi / Kvefskítur (n, kvk/kk) Óvirðulegt heiti á kvefi. „Ég held að ég gæti verið að fá einhvern bölvaðan kvefskít“. „Hún er þræsin í manni þessi kvefdrulla“.
Kvefpest (n, kvk) Kvef. „Ætli maður sé bara ekki kominn með þessa kvefpest sem er að ganga núna“.
Kvefsækinn (l) Gjarn á að fá kvef/kvefpest. „Maður er svo ansi kvefsækinn“.
Kveifarskapur (n, kk) Aumingjadómur; viðkvæmni. „Það þýðir ekkert að vera með kvefarskap í þessu“.
Kveif (n, kvk) Aumingi; vesalingur; heigull. „Baðvatnið er nú ekki svona kalt; vertu ekki þessi kveif“!
Kveifarháttur / kveifarskapur (n, kk) Heigulsháttur; aumingjadómur. „Skelfingar kveifarháttur er þetta; að þora ekki að taka kvikindið upp og fleygja því út“!
Kveifarlegur (ao) Aumingjalegur; ræfilslegur. „Mér fannst hann óttalega kveifarlegur þegar á reyndi“.
Kveiking (n, kvk) A. Kviknun tungls; byrjun á nýju tungli í tunglmánuði. Einnig stundum notað um það þegar straumur byrjar að stækka. B. Suða málms. C. Uppkveikja elds. „Nú er ég hræddur um að kveikingin hafi mistekist hjá mér í reykkofanum“.
Kveikja báru (orðtak) Byrja að auka sjógang. „Aðeins er hann byrjaður að kveikja báru. Ég er hræddur um að það verði ekki mikill friður þegar líður á daginn“.
Kveikja fall (orðtak) Byrja norður- eða suðurfall. „Hann er aðeins farinn að kveikja fallið, ég ætla að leggja út og snúa bátnum svo standi rétt á færin“.
Kveikja saman (orðtak) Lóða saman; bræða málma til að festa samskeyti. „Svo smíðaði hann pabbi olíulampa úr kopar, og ég á enn tvo af þeim. hann keypti á þá kransana sem glösin stóðu í , en kveikti saman olíuhaldarann og grind til að hengja hann upp“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kveikja straum (orðtak) Straumur byrjar að vaxa eftir smástreymi. „Hann er að byrja að kveikja nýjan straum“.
Kveikja tungl (orðtak) Tungl byrjar að lýsast eftir nýtt tungl. Tunglkviknun hafði verulega þýðingu í gamalli rímfræði.
Kveikja undir / Kveikja upp (orðtak) Kveikja eld í reykkofa og ganga frá honum. Mokað er ösku úr fyrri uppkveikju; nýju hæfilega kurluðu og þurru brenni grindað í eldstæðið; e.t.v. hellt örlitlu af steinolíu yfir til að örva eld í byrjun; þykku og hæfilega þurru torfi hagrætt yfir þegar vel logar, þannig að eldurinn kafni hæfilega mikið til að lifa en logi samt ekki uppúr. Takist uppkveikjan vel og ef brennið er gott, þá endist glóðin lengi og mikil og jöfn reykmyndun í verður í marga klukkutíma; jafnvel þar til kveikt er upp aftur“.
Kveina (s) A. Veina; æpa; reka upp sársaukaóp. B. Bera sig illa; kvarta. Kvarta og kveina.
Kveinka sér (orðtak) Bera sig illa; kvarta. „Þa þýðir ekkert að kveinka sér þó gefi á bátinn öðru hvoru“.
Keinstafir (n, kk, fto) Miklar kvartanir; bölmóður; vol; væl. „Vertu nú ekki með þessa kveinstafi yfir svona smámunum“.
Kveisa (n, kvk) A. Nokkuð langvarandi iðraverkir/magaverkir. „Ég hef haft bölvaða kveisu í maganum í allan dag“. B. Sníkjudýrið illa/tálknormur sem trúað var að gæti valdið kveisu (sjá þar). C. Stundum haft yfir hverskonar verkja-/veikindakast.
Kveisublað (n, hk) Blað/bók með galdrarúnum sem ætluð eru m.a. til að valda kveisu/veikindum annarra; galdrastafur á blaði sem laumað er í bæli manns til að valda honum veikindum/kveisu.
Kveisugras (n, hk) Jurt sem læknar kveisu/iðraverki/niðurgang. Ýmsar jurtategundir hafa á síðari tímum verið nefndar þessu nafni. Má þar nefna brjóstagras, horblöðku og maríuvönd. Má líklega rökstyðja virkni allra.
Kveisukast / Kveisustingur (n, hk) Magaverkur; niðurgangur; innantökur. „Ég fékk eitthvað árans kveisukast í gær, og enn er ég ekki laus við kveisustingi“.
Kveld (n, hk) Kvöld. Sjaldnar notað e í framburði nema í orðasambandinu dagur að kveldi kominn = framorðið.
Kvelda (s) Kvölda; verða kvöldsett. „Við förum að hætta þessu í dag; það fer senn að kvelda“.
Kvelja (s) Pína; valda sársauka/vanlíðan. „Það er ástæðulaust að kvelja sig á þessu lengur; nú fer ég og geri eitthvað í málunum“!
Kveljast (s) Líða mjög illa. „Maður kvaldist af sjóveikinni fyrstu dagana, en svo vandist það nú af“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Kvellisjúkur (l) Skyndilega og oft veikur. „Hann er nú ekki vanur að verða kvellisjúkur“.
Kven- Forskeyti sem kennir orð við konur eða kvenlegt. T.d. kvenfatnaður, kvendýr, kvenfélag, kvenfólk o.fl.
Kvennabósi (n, kk) Sá sem er kvensamur; sá sem gerir sér dælt við konur. „Skelfilegur kvennabósi er maðurinn! Getur hann ekki einusinni séð giftar konur í friði“?
Kvennakær (l) Kvensamur. „Gísli Konráðsson segir að Guðrún kona Einars bónda (Jónssonar ættföður Kollsvíkurættar), hafi þótt stórlynd, en mikilhæf í mörgu, og Einari hafi farist vel við hana, þótt jafnan héldi hann framhjá henni, eins og Gísli orðar það. Verður því sjálfsagt ekki neitað með rökum að Einar gamli hafi verið nokkuð kvennakær, því að hann á barn framhjá þegar hann er orðinn 65 ára gamall; með tvítugri stúlku“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Kvensamur (l) Sækir í kvenfólk; áhugamaður um konur. „Hann varð jafnvel enn kvensamari með víni“.
Kvenskur (l) Vinnur verk sem vanalega er unnið af kvenfólki. „Pabbi var í því sem öðru á undan sinni samtíð. Þá var fátítt að karlmenn ynnu kvenmannsverk, en það vafðist ekki fyrir honum eða Gunnlaugi bróður hans. Um þá bræður notaði Ella gamla í Neðribænum orð sem ég hef ekki heyrt annarsstaðar. Hún sagði að þeir væru kvenskir. Ekkert átti þetta skylt við kvensemi eða vera kvenlegir, heldur að geta unnið kvenmannsverk“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kver (n, hk) A. Lítil bók. B. Bókarhluti. Þegar skinn voru notuð í handrit voru þau fyrst verkuð eftir sérstökum reglum, og síðan brotin í arkir. Arkirnar voru síðan bundnar nokkrar saman í kver, sem síðan vor bundin saman, svo úr varð bók/handrit. Skipting bóka í kver hélst lengi eftir það. C. Guðsorðabók sem ungmenni lærðu fyrir fermingu áðurfyrr.
Kverk (n, kvk) A. Háls. Einkum er þá átt við framanveran hálsinn, þar sem hakan byrjar. B. Innhorn hlutar. T.d. innhorn þar sem mætist gólf og veggur í húsi. „Málaðu vel í kverkarnar“. C. Kriki/skot/vik í landslagi, þar sem nokkurskonar aðhald myndast vegna hækkunar lands.
Kverkaskítur (n, kk) Hálsbólga; kvef. „Einhver árans kverkaskítur fylgir þessari pest“.
Kverkatak (n, hk) A. Grip eins aðila utanum kverk annars aðila, einskonar hótun um kyrkingu eða krafa um undirgefni. B. Líkingamál um aðstöðu sem einn aðili skapar sér til kúgunar/yfirgangs gagnvart öðrum. „Með kvótasetningu alls sjávarafla hertu stjórnvöld kverkatak sitt á viðkvæmustu byggðum landsins“.
Kverkband / Kverkól (n, hk/kvk) Band/ól undir kverk á skepnu, sem fest er í múl og gegnir því hlutverki að hann smokkist síður uppaf hnakka skepnunnar.
Kverkmæli (n, hk) Mál þeirra sem eru kverkmæltir. „Þess eru mörg dæmi að kverkmæli barna eldist af“.
Kverkmæltur (l) Skrollandi í tali, einkum á stafnum r. Kverkmæltum gengur illa að bera þann staf fram með tannrótarhljóði eins og vanalega er gert, en leysa það oft með skrolli í ofanveðri kverkinni.
Kverksigi (n, kk) Gella; mjúkur, ætur hluti neðaná fiskhaus. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Kviða (n, kvk) Ljóðabálkur. Oft notað um söguljóð, sbr Hómerskviður.
Kviðaður / Kviðsettur (l) Kviðmikill. „Skelfing er maður að verða kviðaður með aldrinum“.
Kviðbeita (n, kvk) A. Ljósabeita sem skorin er af kviði fiskjar. Kvifiskur þótti girnilegasta ljósabeitan sem skorin var af þorski, og var best að hún væri sem hvítust og af glænýjum fiski. B. Kviðfletta; kviðhákarl.
Kviðblautur / Kviðvotur (l) Um sauðfé og aðrar skepnur; blautt undir kvið en þurrara efra. „Það er tvíeggjað að beita fénu í fjöru í þessu beinfrosti. Lausaþarinn er gaddfreðinn og hætt við að það verði kviðblautt ef það fer framá hleinar“. „Tíkin var kviðvot af áfallinu, þegar hún kom inn í morgun“.
Kviðdreginn (l) Horaður; með innfallinn kvið. „Ærin var orðin æði kviðdregin þegar hún náðist úr sveltinu“.
Kviðflak (n, hk) Einn hluta á flakaðri stórlúðu. „Af sexflöku voru tekin tvö kviðflök; tvö bakflök og tveir hnakkabútar“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Kviðflattur (l) Um fiskverkun; fiskur flattur frá kviði. Gagnstætt því er hnakkaflattur fiskur. Allur stór þorskur var kviðflattur á síðari tímum útgerðar í Kollsvík; saltaður í kró og síðan þurrkaður á reitum.
Kviðfletja (s) Fletja fisk frá kviði.
Kviðfletta / Kviðhákarl / Kviðlykkja (n, kvk/kk) Kviðbeita; glerhákarl; kæst stykki/beita úr kviði hákarlsins. Kviðhákarl er annars eðlis en búkhákarl/skyrhákarl. Hann er yfirleitt brúnn eða hálf-glær áferðar og fremur þurr eða stökkur.
Kviðfullur (l) Með fullan kvið. „Ég held að kindurnar hafi náð því að verða kviðfullar af hagabeitinni í dag, svo það þarf ekki að hára þeim mikið í viðbót“.
Kviðfylli (n, kvk) Mettun; saðning; vambarfylli. „Féð fær sæmilega kviðfylli af þessu heyi, en það er svo lélegt að ég gef töluvert af kjarnfóðri með“.
Kviðhákarl (n, kk) Glerhákarl; hákarlsstykki sem tekið er af kvið hákarlsins; ekki búkhákarl; skyrhákarl. Fremur var talað um glerhákarl í Kollsvík.
Kviðlaus / Kviðlítill (l) Með lítinn/innfallinn kvið. „Skolli finnst mér þetta lamb veiklulegt og kviðlítið; skyldi það ekki ná að sjúga“?
Kviðlingur (n, kk) Stutt kvæði; vísa. „Nú voru karlarnir komnir í formið og farnir að láta fjúka í kviðlingum“.
Kviðmikill (l) Með stóran/útstæðan maga. „Gamla rytjan er orðin stirð og kviðmikil með aldrinum“.
Kviðrúm (n, hk) Magapláss; pláss fyrir mat. „Gjarnan vildi ég borða meira, en nú skortir mig kviðrúm“.
Kviðsíður (l) Um skepnu; vambsíður; með mikinn kvið/ lágt undir kvið. „Búkolla er sein á fæti; orðin bæði gömul, kviðsíð og síðjúgra“.
Kviðskorinn (l) Skorinn á kvið. „Grásleppan var kviðskorin og hrognin tekin innanúr“.
Kviðslit (n, hk) Rof í kviðvöðvum, stundum svo mikið að innyfli fara útámilli, svo sýnileg bunga verður á kviði og veldur ýmiskonar erfiðleikum. „Árans kviðslitið hefur verið að taka sig upp aftur í seinni tíð“.
Kviðstofn (n, kk) Kviðhluti lúðu sem búið er að stofna.
Kviðuggi (n, kk) Uggi á kvið fisks, oftast tveir samstæðir, neðan eyrugganna; raufaruggi.
Kviðull (n, kvk) Ull á kviði sauðfjár. „Í seinni tíð lögðu menn ekki mikla áherslu á að hirða kviðull við aftekt“.
Kvika (n, kvk) A. Allmikill sjór; undiralda. „Það var komin töluverð kvika þegar við ákváðum að hafa uppi og halda í land“. „... fjörugrjót er þarna stórt og hált, en kvika var í sjóinn“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra). B. Lifandi hold. Oftast átt við holdið undir nöglum eða hófum/klaufum/klóm. „Mér sýndist að hún hefði brotið á sér klaufina, alveg upp í kviku“. C. Fljótandi hraun. D. Stuttyrði um sandkviku/sandbleytu.
Kvika (s) A. Hreyfast; iða. B. Hörfa. „Ég stó kyrr og kvikaði hvergi þó boli setti undir sig hausinn“.
Kvika við landið (orðtak) Nokkur sjór við ströndina, þó hans verði ekki mikið vart utar. „Við ættum nú að fara að hafa okkur í áttina; mér sýnist að hann sé að auka dálítið kvikuna við landið“.
Kvikfé / Kvikfénaður / Kvikpeningur (n, hk) Búfé; sauðfé, nautgripir, svín og önnur dýr sem búið er með.
Kvikindi (n, hk) A. Dýr. Á vanalega við allar lifandi verur. „Hvaða kvikindi er þetta í kjaftinum á þorskinum“? B. Niðrandi heiti á manneskju; ótugt; níðingur; ódó. „Vertu ekki svona mikið kvikindi við hann bróður þinn“! C. Gæluheiti á hundi. „Hversvegna er kvikindið að gelta“? Algengast þannig.
Kvikindisafmán / Kvikindisforsmán / Kvikindisgrey / Kvikindisræfill / Kvikindisskarn (n, hk) Greykivikindi; gæluorð um dýr. „Alltaf ertu jafn dugleg, kvikindisafmánin mín“. „Ekki vantar tryggðina í kvikindisgreyið“. „Hér kemur biti fyrir þig, kvikindisræfillinn“. „Það má ekki skamma hana, kvikindisskarnið; hún vildi nú bara hjálpa til“.
Kvikindisháttur / Kvikindisskapur (n, kk) Skepnuskapur; rótarháttur; grófir hrekkir. „Vermenn í Kollsvíkurveri stunduðu ýmsan kvikindisskap til dægrastyttingar ásamt öðrum íþróttum. Voru sumir orðlagðari í þessu en aðrir. Einn hrekkurinn var sá að binda stóran hlemm á færi lóðar, þannig að mjög tafsamt var að draga upp færið. Öðru sinni sneru þeir báti öfugt sem stóð í skorðum sínum, en slíkt þótti óvirðing við eigandann. Þá gerði einn það sér til dægrastyttingar, þegar félagi í næsta rúmi lá sofandi í rúmi sínu, að míga á prik og láta afurðina renna undir sængina. (Hlerað í samtölum þeirra sem til þekktu – VÖ).
Kvikindislega (ao) Lúalega; óþverralega; af hrekkjum. „Þetta fannst mér kvikindislega gert“!
Kvikindislegur (l) Meinstríðinn; óþverralegur. „Skelfing geturðu verið kvikindislegur við systur þína“.
Kviklyndur (l) Ístöðulítill; óákveðinn; áhrifagjarn. „Það er valt að treysta á svo kviklyndan mann“.
Kviklæst (l) Um hurð; illa læst/lokuð; getur hrokkið úr lás. „Hurðin hafði verið kviklæst og opnaðist“.
Kvikna (s) Vakna; byrja. A. Um eld/ljós. „Viðurinn var rakur og því vildi ekki kvikna í honum“. B. Um tungl; byrja fyrsta kvartel úr nýju tungli. „Nú fer að kvikna Góutunglið“. C. Um straum. „Ég hef trú á að fiskiríið lagis um leið og kviknar nýr stórstraumur“. D. Um sjávarfall. „Það kippti undan um leið og kviknaði norðurfallið“. E. Um sjólag; auka (sjó). „Það er ekki að marka þó ládautt sé við hleinina núna á fjörunni; það er hætt við að kvikni bára eitthvað í aðtakinu“. D. Um hugarfar. „Líklega hefur á þessu balli kviknað fyrsta ástin milli þeirra“.
Kviksaga (n, kvk) Slúðursaga; lygasaga; flugufregn. „Það eru ýmsar kviksögur á lofti um þessi mál“.
Kviksandur (n, kk) Sandkvika; sandbleyta. Kviksandur var mun sjaldnar notað í Kollsvík.
Kviksyndi (n, hk) Jarðvegur sem lætur auðveldlega undan þeim sem á honum ganga og sekkir þeim; botnlaust dý; sandkvika. „Gættu þess að féð fari ekki út í kviksyndið í Hestkeldunni“. Sjá foraðskviksyndi.
Kviksyndisdý (n, hk) Djúp dý; hættuleg fen. „Framan við Heimrimýrar eru kviksyndisdý sem heita Fljót, nánast í suður frá bæ“ (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).
Kviksyndisflói (n, kk) Stórt og hættulegt mýrarfen. „Sökkur er blautur kviksyndisflói“ (ÍH; Örn.skrá Melaness).
Kviktré (n, hk) Sjá drögur.
Kvikur (l) A. Sem hreyfist; iðandi. „Eitthvað kvikt er komið í mélstampinn“. „Mér fannst eitthvað kvikt koma við krókinn“. „Hér er allt kvikt af fiski“. B. Duglegur; iðinn; fljótur. „Strákurinn er ári kvikur við smalamennskurnar“. C. Lifandi; á lífi. Sbr. kvikfé. „Ég sá ekkert kvikt þarna frammi í dalnum“. „Skapt í kross og kvikt að sjá;/ klæðir belgur þunnur;/ finnast líka augu á,/ eyru nef og munnur“ (JR; Rósarímur).
Kvikur/léttur á fæti (orðtak) Hraðgengur; liðugur að hlaupa/ganga; liðugur í hreyfingum; á sífelldu iði. „Gummi var lægri og grennri maður en Liði, en kvikur á fæti, ákafa- og dugnaðarmaður, fljóthuga og gat átt það til að vera dálítið fljótfær“ (PG; Veðmálið).
Kvikusláttur (n, kk) Um sjólag; veltingur; ylgja. „Við fórum í land þegar jók kvikusláttinn“.
Kvikuvottur (n, kk) Um sjólag; nokkur kvika/undiralda. „Hann var lognhægur, en dálítill kvikuvottur sem jókst heldur þegar leið á daginn“.
Kvillalaus (l) Laus við sjúkdóma/veikindi. „Maður má þakka fyrir að vera þokkalega hraustur og kvillalaus“.
Kvilli (n, kk) Veikindi; sjúkdómur; lasleiki. „Þrátt fyrir langvinna innistöðu bar mjög lítið á kvillum í sauðfénaði. Munu hin ágætu hey eiga mikinn og góðan þátt í því“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).
Kvint (n, hk) A. Þyngdareining forn; 5 grömm; 1/100 pund. Hvert kvint skiptist svo í 10 ort. B. Verðmæti, með vísun í þyngd silfurs í kvintum: „Hann ætti ekki að fá kvint fyrir svona þjónustu“. C. Forliður með vísun í „quintus“ = fimm í latínu, t.d. kvintett = kór fimm manna.
Kvis (n, hk) Orðrómur; sögusagnir. „Eitthvað kvis heyrði ég um þetta“. Komast á kvis.
Kvisast (s) Fréttast; spyrjast út. „Eitthvað var farið að kvisast úr um þessar ófarir“.
Kvista (s) Höggva/saga greinar af tré/trjábol. „Ef þessi hnyðja er kvistuð mætti nota hana í hornstaur“.
Kvistalaust / Kvistalítið (l) Um efni/við; með engum/fáum kvistum.
Kvistafjöl / Kvistaspýta / Kvistaviður / Kvistatimbur (n, kvk/kk) Fjöl/viður/smíðaefni með mörgum kvistum. „Óttaleg kvistaspýta er þetta“! „Það er ekki hægt að kaupa svona kvistavið fullu verði“.
Kvistgat (n, kvk) Gat þar sem kvistur hefur farið úr efni/fjöl.
Kvistur (n, kk) A. Grein á tré; harður eitill í viði, þar sem grein hefur vaxið í trénu. Erfitt er að vinna mjög kvistótt timbur, auk þess sem kvistir veikja viðinn og geta dottið úr við þornn. B. Kjarr; hrís. „Féð kann vel við sig í kvistinum“. C. Ættkvísl garðjurta af rósaætt. D. Útskot/upphækkun í þaki húss, til að koma þar fyrir kvistglugga og/eða auka rými.
Kvittur (l) Skuldlaus; á sléttu; laus allra mála. „Ég tel þá að við séum kvittir eftir þessi býtti“.
Kvitta / Kvittera (s) A. Greiða/jafna skuld; kvitta fyrir. „Með þessu kvittaði ég skuldina við kaupfélagið“. B. Skrifa nafn sitt í staðfestingarskyni; skrifa/kvitta uppá. „Ég er búinn að kvitta í gestabókina“.
Kvittun/Kvittering / Kvittanaeyðublað / Kvittanahefti (n, kvk/hk) Kvittun/kvittering er skrifleg staðfesting á greiðslu; kvittanaeyðublað er sérstakt form kvittunar, og kvittanahefti er samanheft safn kvittana/kvittanaeyðublaða.
Kvittur (l) Laus við skuld; búinn að skuldajafna/greiða. „Með þessu erum við orðnir kvittir“.
Kvittur (n) Orðrómur; slúður. „Sögusmettur sveitarinnar voru fljótar að koma af stað rætnum kvitti um þetta“.
Kví (n, kvk) A. Kró; stía; hólf; rétt. Oftast er átt við hólf útivið, sem kindur eru reknar í til rögunar/aftektar/mjalta eða annars. B. Afmarkað hólf í landslagi eða öðru, sem minnir á kví fyrir kindur. T.d. Klettakví og skipakví.
Kvía (s) Loka inni í kví; reka í kví. „Ærnar voru kvíaðar á stekknum“. Sjá innidráp.
Kvía af (orðtak) Um fé/fugl; króa inni í kví. „Við skulum reyna að kvía kindurnar af þarna í krikanum og ná þeim“. „Kvíarhillur draga nafn af því að þar var fuglinn kvíaður, sem kallað var“ (DE; Örn.skrá Látrabjargs).
Kvíarhilla (n, kvk) Hilla í bjargi, þar sem fugl var áður kvíaður/ rekinn í kvíar til innidráps. „Neðarlega í Bjarginu (upp og útaf Stórurð) eru Kvíarhillur… Þær draga nafn af því að þar var fuglinn kvíaður, sem kallað var. Hlaðið var fyrir hillurnar og fuglinn tekinn fyrir innan“ (DE; Örefnaskrá Hvallátra).
Kvíarveggur (n, kk) Veggur kvíar/réttar. „Karlarnir stungu saman nefjum á kvíarveggnum; spáðu í veður og heimtur og þráttuðu um þyngd hrútlamba“.
Kvíaær (n, kvk) Kind sem lömb hafa verið færð frá, og mjólkuð er á stekk, meðan fráfærur voru stundaðar. „Hérna sat ég stundum yfir kvíaánum. Fært var frá einu sinni eftir að ég man eftir. Það var árið 1934. Lömbin voru rekin inn í Sauðlauksdal til sumargöngu“ (IG; Sagt til vegar I).
Kvíða / Kvíða fyrir (s/orðtak) Vera uggandi fyrirfram vegna einhvers. „Ég kvíði því ekki að ná heyjum í hús fyrir haustið“. „Þegar jólin voru að ganga í garð; allt öðruvísi en þau höfðu áður verið, þá kveið hún jafnvel fyrir þeim“ (Bragi Ó Thoroddsen; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938).
Kvíðafullur / Kvíðinn (l) Uggandi; hræddur; vex í augum. „Ég er dálítið kvíðinn vegna prófsins“.
Kvíðabeygur / Kvíðahrollur / Kvíði (n, kk) Uggur; beygur; angist.
Kvíðalaus (l) Laus við kvíða/ugg. „Ég er alveg kvíðalaus fyrir þessum niðurstöðum“.
Kvíðandi / Kvíðinn (l) Uggandi. „Ég er dálítið kvíðandi fyrir smalaveðrinu á morgun, eins og spáin er núna“.
Kvíðavænlegur / Kvíðvænlegur (l) Fyrirkvíðanlegur; ískyggilegur. „Þetta er heldur kvíðavænlegt útlit“.
Kvíga / Kvígukálfur (n, kvk) Kýr á kálfsaldri; kvenkyns afkvæmi nautgrips. Venja var að nefna kýr kvígu framyfir það að hún eignast sinn fyrsta kálf. Um það leyti nefnist hún fyrstakálfskvíga.
Kvígildi (n, hk) Kúgildi. Eldra heiti og ekki notað í dag.
Kvígukvikindi (n, hk) Gæluorð um kvígu. „Hann kemur að máli við mig eitt kvöld; hvort ég sé nú ekki fáanlegur til þess að fara út í sveit og grennslast eftir því hvort einhver væri nú ekki fáanlegur til að kaupa kvígukvikindið“ (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).
Kvísl (n, kvk) A. Amboð til að moka heyi, taði eða öðru. Sbr heykvísl, taðkvísl o.fl. B. Grein af meiði/stofni, t.d. lækur sem rennur úr stærra vatnsfalli. Einnig ættkvísl.
Kvíslarálma (n, kvk) Tindur/gaddur á heykvísl. „Kvíslarálman gekk á kaf í ökklann, og má enn sjá lítið ör eftir þá skeinu“.
Kvíslarskaft (n, hk) Skaft á heykvísl. „Þú mátt ekki taka svo vitlaust á kvíslarskaftinu að þú brjótir það“.
Kvíslarfótur / Kvíslarhnakkur (n, kk) Hlutar brókarkvíslar, sjá skinnklæði. „Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar. Þær voru í fjórum pörtum; kvíslarfótur rekinn ofan í jörðina; kvíslarhnakkur með hringlaga gati í miðjunni en tappi á fætinum gekk upp um. Önnur tvö göt voru á kvíslarhnakknum; sinn í hvorn enda frá hliðarfleti. Í þessi göt var skálmsprekum stungið og brókin færð á kvíslarnar. Ávallt snerust skálmarnar undan vindi og blés þá inn í brókina svo hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna“ (KJK; Kollsvíkurver).
Kvoðna niður (orðtak) Hjaðna; minnka; draga úr. „Skaflinn í Kinninni er alveg að kvoðna niður og verða að enguí hlýindunum“.
Kvonbænir (n, kvk, fto) Bónorð karls til konu. „Ekki fór hann langt til kvonbæna“.
Kvonfang (n, hk) Kvenfang; kvenkostur; kona til að eiga/giftast. „Kvonfangið fann hann á næsta bæ“.
Kvongast (s) Giftast. Heyrist sjaldan í seinni tíð, líkt og önnur orð með sama forskeyti.
Kvos (n, kvk) Laut; dæld; lægð/gróf í landslagi, með hækkun á allar hliðar. „Vatn er í miðri kvosinni“.
Kvótakerfi (n, hk) Fyrirkomulag við nýtingu verðmæta sem takmarkað magn er af, en mikil sókn er í. Á síðari hluta 20. aldar komu stjórnvöld á kvótakerfi fiskveiða við Ísland, enda sóknin þá orðin meiri en fiskstofnarnir þoldu með tilkomu öflugra togara. Svo óhönduglega tókst til við beitingu þessa stjórnkerfis að margar sjávarbyggðir misstu sín atvinnutækifæri og lögðust nánast í auðn. Sjávarjarðir voru sviptar rétti til að sækja björg á sín grunnmið. Upp risu útgerðarmenn sem urðu vellauðugir á hinu rangláta fyrirkomulagi; kvótakóngar. Pólitísk spilling hefur vaxið og dafnað í skjóli hinnar ranglátu skiptingar. Engu máli virðist skipta þó stjórnarskrá landsins segi að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar; þær eru nú formleg eign fárra auðmanna vegna misheppnaðra aðgerða stjórnmálamanna. Kvótakerfi hefur einnig verið komið á í landbúnaði, þó frábrugðið sé. Misheppnuð framkvæmd þess, ásamt öðru, hefur leitt til þess að margar sveitir hafa hrunið og nánast lagst í auðn, og er Rauðasandshreppur dæmi þessa stjórnleysis. Kvótkerfið hefur reynst hreppnum meiri plága en þær sem fyrr á öldum lögðu sveitir í auðn, s.s. Móðuharðindi, Svartidauði, Stórabóla og slík óáran. Eyðilegging Rauðasandshepps er að öllu leyti verk óhæfra stjórnvalda á síðari tímum.
Kvæðabálkur (n, kk) Langt ljóð sem samanstendur af mörgum kvæðum/erindum; stundum með ólíkum bragarháttum.
Kvæðalestur (n, kk) Lestur kvæða/ljóða. Fátítt er nú að heyra kvæði lesin upphátt, að frátöldum menningarsnobbsamkomum. Áðurfyrr þótti það hin besta skemmtun að hlusta á heimilismann lesa eða fara með kvæði; einkum þá sem vel fluttu og af innlifun. Sumir voru hafsjór kveðskapar, og kunnu ógrynni af kvæðum sem þeir þuldu af munni fram.
Kvæðamaður / Kvæðaþulur (n, kk) Sá sem kann mikið af kvæðum og flytur þau svo eftir sé tekið. Kvæðamaður er ekki alltaf sjálfur skáld, en oft fer það saman.
Kvæðasafn (n, hk) Safn kvæða/ljóða; ljóðasafn.
Kvæðavertíð (n, kvk) Vertíð þar sem mikið er kveðið af rímum í landlegum, einkum eftir Sigurð Breiðfjörð og Úlfarsrímur (sjá vermannaleikir).
Kvæði (n, hk) Ljóð sem fylgir reglum hrynjandi, ríms og ljóðstafa. Órímuð ljóð sem nú tíðkast geta því ekki kallast kvæði. Kvæði getur verið eitt ljóð/ ein vísa eða safn margra.
Kvæðiskorn (n, hk) Gæluorð um kvæði. „Mér dettur nú í hug kvæðiskorn af þessu tilefni…“.
Kvænast (s) Giftast; ganga í hjónaband.
Kvöð (n, kvk) Skylda; skuldbinding. „Það er engin kvöð á þér að mæta í þetta hverju sinni“. Sjá kvaðir.
Kvöl (n. kvk) Pína; sársauki; angist. „Það er manni bara kvöl að horfa uppá svona fáránleika“!
Kvöldblíða (n, kvk) Kyrrt og bjart veður að kvöldlagi. „Ég rölti niður að sjó í kvöldblíðunni“.
Kvöldblær / Kvöldgola / Kvöldgustur / Kvöldkul / Kvölkæla / Kvöldsvali (n, kk) Vindgola um kvöld.
Kvöldbæn (n, kvk) Bæn sem beðin er um kvöld. Alsiða var að börnum væri kennt að biðja bænir sínar til Guðs; fara með Faðirvorið og signa sig áður en lagst vr til svefns á kvöldin. Þeim barnsvana héldu margir alla ævina. Þessi siður virðist nú orðinn fátíður, þó enn sé vitað af slíku.
Kvölddroll / Kvöldgauf / Kvöldgöltur (n, hk) Gauf/droll/hangs þeirra sem nú eru nefndir „b-fólk“, langt framyfir venjulegan háttatíma annarra; seinlæti við að ganga til náða.
Kvölddrungi (n, kk) Illviðráðanleg svefnþörf á kvöldin; þungt yfir höfði að kvöldlagi.
Kvöldfegurð (n, kvk) Fegurð náttúrunnar að kvöldlagi, þegar sól er lágt á lofti, himininn logar í kvöldroða, oft stafalogn til sjóar og lands, fuglakliður í lofti o.þ.h. Hvergi verður kvöldfegurð meiri en í Kollsvík.
Kvöldflæði (n, kvk) Síðdegisflæði; flóð/aðfall sem verður seinnipart dags eða um kvöld. Sjá morgunflæði.
Kvöldgalsi (n, kk) Ærsl/grín/glettni sem höfð er uppi þegar kvöldsett er orðið og komið að háttatíma. „Nú er kominn kvöldgalsi í krakkana“.
Kvöldgestur (n, kk) Gestur sem kemur að kvöldlagi.
Kvöldgjöf (n, kvk) Fóðurgjöf búfjár síðdegis eða um kvöld. Kúm er gefið reglulega kvölds og morgna, fyrir mjaltir, enda eru þær mjög kröfuharðar um reglusemi og gjalda óreglu gjarnan með lágri nyt. Kindur eru ekki eins kræsnar á tímann, enda er oftast einmælt hjá þeim um vetrartímann.
Kvöldhiminn / Kvöldloft (n, kk) Himininn að kvöldlagi. Oft er þá vísað til mikils/fallegs kvöldroða.
Kvöldkyrrð (n, kvk) Sá tími að sumarkvöldi þegar fuglar, dýr og menn þagna um lágnættið.
Kvöldlag (n, hk) Kvöld; dagslok. „Ég nenni varla að fara til eggja að kvöldlagi núorðið“.
Kvöldlæða / Kvöldþoka (n, kvk) Lágþoka sem oft myndast að kvöldlagi, þegar kólnar við sólsetur.
Kvöldmatartími / Kvöldmatur / Kvöldverður (n, kk) Tími þegar snæddur er matur að kvöldi; matur sem snæddur er að kvöldlagi. „Heldurðu að við klárum þetta ekki fyrir kvöldmat“?
Kvöldmiga (n, kvk) Sú athöfn að kasta af sér vatni/ míga að kvöldlagi/ fyrir svefn. „Ég athuga hvrnig kýrin hefur það um leið og ég fer út í kvöldmiguna“.
Kvöldmjaltatími / Kvöldmjaltir (n, kk/kvk) Tími þegar kýr eru mjólkaðar að kvöldlagi. Kýr eru mjólkaðar tvisvar á dag; að morgni og kvöldi. Morgunmjaltir eru oft kringum kl 8, en kvöldmjaltir um 7.
Kvöldhúm / Kvöldmyrkur / Kvöldrökkur (n, hk) Dimma að kvöldi.
Kvöldroði (n, kk) Sólroði á himni undir sólsetur. Því var trúað að hann boðaði þurrk: „Kvöldroðminn bætir en morgunroðminn vætir“ (BH; Grasnytjar).
Kvöldroðinn bætir (en) morgunroðinn vætir (orðatiltæki) Sú trú að kvöldroði boði þurrk næsta dag en morgunroðinn boði dögg/vætu.
Kvöldróður (n, kk) Róður sem lagt er í að kvöldlagi.
Kvöldsett (l) Komið að kvöldi; áliðið dags. „Nú er orðið kvöldsett; ætli við förum ekki að hætta í dag“?
Kvöldskattur (n, kk) Máltíð að kvöldlagi fyrr á tímum, þegar venja var að heimilismönnum var skammtað.
Kvöldskuggi (n, kk) Skuggi af hlutum að kvöldlagi. Þá lengjast skuggar, þar sem sól er lægra á lofti.
Kvöldsól (n, kvk) Sól að kvöldlagi. „Víkin var böðuð mildri kvöldsól. Það voru að byrja að koma skuggar undir veggjunum sem enn standa, þar sem áður stóð bærinn Grundir“ (ÞB; Lesbók Þjóðv.) Um bjartar miðsumarnætur gengur sólin ekki undir sjóndeildarhring í Kollsvík. Frá Láganúpi séð hverfur hún aðeins í þá smástund sem hún lyftist bakvið Blakknibbuna í dagrenningu.
Kvöldstund / Kvöldtími (n, kvk) Tími að kvöldlagi. „Þeir sátu þarna kvöldstund með okkur“ (Anna Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg).
Kvöldsvalur (l) Um það þegar kólnar á kvöldin með hafgolu eftir hlýjan sumardag. „Hann er að verða dálítið kvöldsvalur“. Einnig var notað nafnorðið kvöldsvali.
Kvöldsvæfur (l) Sofnar að jafnaði snemma á kvöldin. Venja var að tala um kvöldsvæfar og morgunsvæfar manneskjur í Kollsvík, en viðtekin kjaftíska víða í dag er „A-manneskjur“ og B-manneskjur“.
Kvöldúlfur (n, kk) Stirt skap og stutt þolinmæði á kvöldin. „Nú er kominn kvöldúlfur í litla kútinn“.
Kvöldvaka (n, kvk) Daglegar samkomur heimilisfólks á vetrarkvöldum í fyrri tíð; fyrir daga nútíma afþreyingar. „Fyrst á haustin var setið í rökkrinu og prjónað. Þegar kom fram á skammdegið lagði eldra fólkið sig í rökkrinu. Kvöldvökur byrjuðu að lokinni sláturtíð, eða um veturnætur. Það var kveikt kl 6-7 (síðdegis); þá var miðdagsmatur. Hafði þá ekkert verið borðað frá því kl 10 árdegis, en kl 12 á hádegi var kaffi fyrir fullorðna en grasate fyrir börn og unglinga. Þegar lokið var við að borða og drekka var sest að ullarvinnu. Konur spunnu; karlmenn táðu, greiddu hrosshár og spunnu það á vinglu eða fléttuðu reipi og brugðu gjarðir. Mamma brá líka gjarðir, svo það voru karlmenn ekki einir um. Alltaf var einn að lesa eða kveða rímur. Það voru lesnar Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Íslendingasögur, Fornaldarsögur Norðurlanda, skáldsögur o.fl. Kveðnar voru rímur af Þorsteini uxafæti, Hálfdáni Brönufóstra, Sörlarímur eftir Össur Össurarson á Látrum, rímur af Reimari og Fal. Það var einkum Össur Guðbjartsson (eldri) sem las; hann átti skrifaða bók af Maroni sterka. Vakan var til kvöldmatar, klukkan 9. Það var oftast flautir og bygggrautur með fjallagrösum. Síðan var alltaf lesinn húslestur; sunginn sálmur og lesin bæn úr bænakveri Péturs biskups. Lesið var til um kl 10 og eftir það var farið að sofa. Þá máttu hjúin vinna eftirvinnu; þá máttu þau prjóna fyrir sjálf sig. En þau urðu að gera það í myrkrinu, því ljósmeti var ekkert eftir kl 10 á kvöldin. Hjú fengu einnig að vinna fyrir sig vikuna fyrir jólin“ (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964).
„Eitt sem dró okkur systkinin niður í Neðribæ (á Lambavatni) á vetrarkvöldum var að þar tíðkuðust kvöldvökur í því formi sem þær voru iðkaðar gegnum aldir á sveitabæjum; en voru, að ég held, víðast horfnar. Ekki voru þó kveðnar rímur, en stálpaðri börnin voru sett í að lesa fyrir heimilisfólkið, sem sat við sína handavinnu; að tæja ull, kemba, spinna, prjóna, sauma, fléttareipi og fleira sem til féll. Sumir föndruðu með vasahnífum við útskurð, sem mikið var gert á báðum bæjunum“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Kvöldverk (n, hk) Verk sem vinna þarf á kvöldin, s.s. kvöldmjaltir.
Kvölds og morgna (orðtak) Reglulega á hverju kvöldi og hverju kvöldi. „Það þurfti að hirða féð er því var sleppt og reka frá mýrunum kvölds og morgna“ (IG; Æskuminningar).
Kvörn (n, kvk) A. Mylla. Þrenns konar myllur voru algengar til sveita áðurfyrr: Kornkvarnir voru nokkrar í Kollsvík, bæði handknúnar og knúnar af vatnshjóli. Kaffikvörn var notuð til að mala brenndar kaffibaunir í kaffiduft, svo unnt væri að laga úr því kaffi. Taðkvörn var notuð til að mylja tað, svo það væri betri áburður á tún. B. Hart lítið bein í höfði fiska.
Kylja (n, kvk) Kæla; vindgola; kaldi. Fremur var notað kæla í Kollsvík, a.m.k. í seinni tíð.
Kylliflatur (n, kk) Alveg flatur; marflatur. „Ég hnaut um nibbu og datt kylliflatur“.
Kyllir (n, kk) A. Pungur. „Það þýðir ekki að setja þetta hrútlamb á; það er andskotann enginn kyllir á honum“. B. tóbakspungur; peningabudda; ráptuðra. „Réttu mér kyllirinn“.
Kyllra (s) Um fluglag fugla; þegar þeir hægja á sér í miklum vindi eða uppstreymi; reygja haus aftur og setja niður fætur og annaðhvort standa kyrrir í loftinu eða láta sig síga niður á við meðan þeir skoða eitthvað af forvitni, s.s. skotmenn í byrgi. „Máfurinn kyllraði sig rétt ofan við hausamótin á okkur og lá því vel við skoti“.
Kyn (n, hk) A. Tegund. Bæði um að ræða mismun innan tegundar, s.s. kvenkyn/karlkyn, og mismunandi stofna tegundar; t.d. mannkyn, kúakyn. B. Ættstofn. Kollsvíkurætt er kyn Einars Jónssonar í Kollsvík. „Honum kippir í kynið; listamaður eins og móðir hans“. C Undur; undrunarefni. „Ekki er kyn þó að keraldið leki, ef botninn er suður í Borgarfirði“.
Kynbótahrútur / Kynbótanaut / Kynbótaskepna (n, kk/kvk) „Grettir var einhver besti kynbótahrúturinn á sinni tíð“.
Kynbæta (s) Bæta eiginleika bústofns með kynbótum. Bændur í Rauðasandshreppi gerðu nokkuð mikið af því að fá valda hrúta hver hjá öðrum til að kynbæta sinn fjárstofn, og til að forðast ókosti einræktunar. Var val á lambhrútumí þessu skyni nokkuð líflegur þáttur í réttum, t.d. á Breiðavíkurrétt.
Kynbætur / Kynbótastarf (n, kvk, fto/ hk) Ræktun eftirsóknarverðra eiginleika í skepnu með því vali einstaklinga til pörunar. Kynbætur voru mjög stundaðar í Kollsvík, ekki síður en meðal annarra bænda. Áherslumunur getur verið meðal bænda um markmið kynbóta, eftir því hvað talið er æskilegt. T.d. lagði fjárræktarmaðurinn Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi áherslu á fá fram sterkt, háfætt, hyrnt og stórvaxið fé; hann var hrifnari af einlembingum en tvílembingum, og þótti ekki verra að fé væri gult í andliti og fótum eða mislitt. Þetta fór nokkuð gegn skoðunum ráðunauta á efri árum hans, sem vildu að lögð væri áhersla á frjósemi fjár; lága fætur; kollótt fé og snjakahvíta ull.
Kynda (s) Hita hús með kyndingu. Kynda undir; notað í óeiginlegri merkingu um það að auka deilur.
Kyndill (n, kk) Prik með eldi á efri enda, til að lýsa í myrkri. „Stundum á áramótum bjuggu menn sig í grímubúninga, og gengu um með kyndla. Það var aðeins fullorðið fólk; unglingar máttu ekki taka þátt í því“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). Nokkuð var um það á áramótum í seinni tíð að á áramótum væru kyndlar útbúnir með því að festa tóma niðursuðudós á prik; setja í hana dálítið af olíu og kveikja í.
Kyndilmessa er 2. febrúar; hreinsunardagur Maríu meyjar 40 dögum eftir fæðingu Krists, og er nafnið dregið af vígðum kertum sem borin voru í skrúðgöngu þennan dag. Kyndilmessa var mikill veðurspárdagur samkvæmt þjóðtrúnni. Framundir lok 20. aldar vitnuðu gamlir Rauðasandshreppsbúar í þessa vísu: „Ef í heiði sólin sést/ á sjálfa Kyndilmessu;/ vænta snjóa máttu mest/ maður upp frá þessu“.
Kynding (n, kvk) Kveiking; hitun. Oftast var átt við upphitun húss, eftir að miðstöðvarkerfi komu til sögunnar. „Ég jók aðeins við kyndinguna, því það hefur kólnað töluvert í veðri“.
Kyndugt (l) Furðulegt; skrýtið. „Það væri nú dálítið kyndugt ef hann byði sig aftur fram í vor“. „Mér fannst hann alltaf dálítið kyndugur karl“.
Kynfaðir / Kynmóðir / Kynforeldrar (n, kk/kvk) Eiginlegir foreldrar afkvæmis. Oftast notað þegar rætt er um kjörbörn/fósturbörn eða stjúpbörn.
Kynfylgja (n, kvk) Ættarfylgja; eiginleiki/sérkenni sem gengur í ættir. Oftast er átt við tilhneygingar, s.s. veikleiki fyrir áfengi, sálsýki eða annað. En einnig stundum erfðasjúkdóma eða önnur erfðaeinkenni.
Kyngja (n, kvk) Snjódyngja; stór skafl. „Það vorru þvílíkar kyngjur á veginum að hann var kolófær“. Kyngjulönd er örnefni; svæði milli Djúpadals og Geldingsskorardals; nær Látradal en bjargbrún.
Kyngja niður snjó (orðtak) Hlaða niður snjó: fenna drjúgt. Mest notað um þétta logndrífu. „Hann hefur kyngt niður snjó í logninu; látlaust í allan dag“.
Kynging (n, kvk) Það að renna niður/ kyngja fæðu eða vökva. „Votheysveikisrollan á erfitt með kyngingu“.
Kynja (s) Undra; furðast; koma á óvart. „Það er ekki að kynja þó fatan sé tóm; hér sé ég ryðgat á henni“. „Mig skal ekki kynja þó þú sért þreyttur; eins og þú ert búinn að hamast í dag“!
Kynjakvikindi / Kynjaskepna (n, hk/kvk) Furðudýr; einkennileg skepna. „Ég skal hengja mig uppá það að einhvert kynjakvikindi var að flækjast þarna á Rifinu í þokunni, þó þú hafir ekki séð það“!
Kynjamynd (n, kvk) Sérkennilegt útlit; torkennileg ímynd. „Sigríður á Láganúpi er líklega eini listamaðurinn á Íslandi sem málar á gróthellur. Hún er sérlega glúrin við að sjá út trölla- og kynjamyndir í landslagi og náttúru og nýta sköpulagið á þeim hellum sem málað er á“.
Kynjavera (n, kvk) Furðuskepna; furðudýr; kynjakvikindi. „Ég er ekki í nokkrum vafa um að þarna var einhver kynjavera á ferð sem ekki finnst í þeirri dýrafræði sem ég þekki“.
Kynjaveröld (n, kvk) Furðuheimur; framandi landslag. „Hnífaflagan og Grófirnar eru einstök kynjaveröld“.
Kynlega (ao) Undarlega; furðulega; sérkennilega. „Mér kemur þetta kynlega fyrir sjónir“.
Kynlegur kvistur (orðtak) Sérkennilegur maður; manneskja sem er öðruvísi en fólk er flest. Líking við sérkennilega grein á tré.
Kynngi / Kynngikraftur (n, kvk/kk) Töframáttur; töfrar; galdrar.
Kynngimagnaður (l) Stórfenglegur; yfirgengilegur. „Það var kynngimagnað að fylgjast með honum“.
Kynni (n, hk, fto) Kunningsskapur; vinátta; nánd.
Kynntur (l) Þekktur; umtalaður. „Hann var alltaf vel kynntur í sinni sveit“.
Kynstur (n, hk, fto) Ósköp; býsn; fæla; aragrúi; mjög mikið magn; mjög mikill fjöldi. „Ég hef sjaldan séð slík kynstur af eggjum á svo litlum palli“.
Kynsæll (l) Sem eignast marga afkomendur; sem margir eru komnir útaf.
Kynvillingur (n, kk) Sá/sú sem laðast að sama kyni til ásta, fremur eða til jafns við eigið kyn. Kynvilla hefur ávallt fylgt manninum sem öðrum dýrategundum, og verið misjafnlega umborin í samfélögum. Það er hinsvegar kolrangt sem kynvillingar samtímans vilja halda gjarnan á lofti, að þeir hafi alltaf sætt ofsóknum og fyrirlitningu hérlendis. Samfélagið lét sér slíkt að jafnaði í réttu rúmi liggja, svo fremi sem menn voru ekki að flíka sínu kynlífi um of; og gilti það jafnt um sam- sem gagnkynhneigða.
Kyrfilega (ao) Tryggilega; vel. „Þú þarft að passa að kyrfilega sé bundið á kútinn áður en við hífum hann“. Orðstofninn kann að vera sá sami og orðið „kurfur“ er komið af; þ.e. eitthvað sem er hnýtt/þvingað saman.
Kyrja (s) Kveða; þylja; fara með. „Ég nennti ekki að hlusta á karlinn kyrja rímuna til enda“.
Kyrking (n, kvk) Kæfing; það sem veldur köfnunardauða.
Kyrkingslegur (l) Oftast um gróður en stundum um skepnur; óræktarlegur; visinn. „... heimantil í Núpnum er nokkurt graslendi, en gróður kyrkingslegur“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Kyrkingur (n, kk) Vannæring, ofþornun eða annar skortur sem veldur uppdrætti/órækt/ódöngun í lífveru; krankleiki. „Það er einhver árans kyrkingur í kálfinum. Mér hefur þó sýnst hann nærast alveg eðlilega“.
Kyrkingslegur (l) Sem kyrkingur er í; ræfilslegur; rytjulegur; horaður. „Ansi eru lömbin hennar kyrkingsleg; skyldi hún ekki mjólka þeim nóg“?
Kyrna (n, kvk) Ílát. Oftast er átt við fötu eða skál af einhverju tagi. „Ertu búinn að hirða allar kyrnur undir egg? „Hann sótti alla nærtæka koppa og kyrnur til að setja undir lekann“.
Kyrrsetumaður (n, kk) Sá sem hefur hægt um sig; skrifstofumaður o.þ.h. „Hann var ekki kyrrsetumaður að elisfari; heldur þurfti sífellt að vera eitthvað að úðra“.
Kyrra (s) Stilla; hægja; lægja. „Óskandi væri að hann fari nú eitthvað að kyrra þennan belging“.
Kyrrð (n, kvk) Ró; friður; stilla; hæglæti. „Við grynnkuðum á okkur í þeirri von að meiri kyrr væri uppi á víkinni“.
Kyrrlátur (l) Hæglátur; hljóðlátur; æsingalaus. „Hann sat kyrrlátur og hljóður undir ræðunni“.
Kyrrseta (n, kvk) Það að hafa hægt um sig/ sitja aðgerðarlaus. „Kyrrsetan hefur aldrei átt vel við mig“.
Kyrrsetumaður (n, kk) Sá sem hefur hægt um sig/ situr löngum aðgerðarlaus. Kyrrsetur hafa líklega aldrei verið vandamál Kollsvíkinga, a.m.k. ekki fyrr á tímum.
Kyrrstaða (n, kvk) Hreyfingarleysi; aðgerðarleysi; engin hreyfing. „Í þessu máli ríkir núna kyrrstaða“.
Kyrrt veður / Kyrrviðri (orðtak/ n, hk) Hægviðri; rólegheita tíðarfar. „Það hefur verið kyrrviðri og ágætar gæftir það sem af er“.
Kyrrur (n, kvk, fto) Stillur; logn í veðri og sjólagi. Fremur var þó talað um stillur í Kollsvík.
Kyrrviðrisdagur (n, kk) Logndagur; dagur með kyrru veðri. „Við nýttum þessa kyrrviðrisdaga til að koma járninu á húsið“.
Kyrtill (n, kk) A. Síður fatnaður; hempa. T.d. fermingarkyrtill. B. Líffæri sem framleiðir tiltekið efni fyrir líkamsstarfsemi. T.d. svitakyrtill.
Kyssa á bágtið/meiddið (orðtök) Hughreystingarorð við barn; kyssa á stað sem það hefur meitt sig. „Hættu nú að vola yfir þessu smáræði ljúfur; mamma skal kyssa á meiddið“. „Hann rétti mér hendina svo ég gæti kysst á bágtið“.
Kyssa á vöndinn (orðtak) Láta gott koma á móti illu; sætta sig við ranglæti/ slæma framkomu. „Ég hef aldrei verið tiltakanlega mikið fyrir það að kyssa á vöndinn“.
Kytra (n, kvk) Lítið/þröngt rými/hús/herbergi. „Ég leigði þarna herbergiskytru um tíma“.
Kýfa (s) Setja kúf á. „Við þurfum að kýfa heyið nægilega til að ekki dropi í þegar það sígur“. „Það verður að kýfa sléttuna, þannig að vatn renni af henni í skurðina beggja vegna“.
Kýfður (l) Með kúf/hækkun í miðju. „Hann rogaðist heim með kýfða berjafötu“.
Kýla vömbina (orðtak) Borða sig fullsaddan og jafnvel meir en það. „Það þýðir nú lítið að sitja bara og kýla vömbina þegar komið er glampandi sjóveður og vaðandi fiskur uppi á grunni“.
Kýlapest (n, kvk) Smitandi veiki sem veldur miklum útbrotum/kýlum.
Kýldur (l) A. Kúlulaga. „Mér þykir báturinn helst til mikið kýldur á bóginn“. B. Um hrút/karl/naut; með stóran pung. „Hrúturinn er ágætlega byggður, en ekki þykir mér hann vel kýldur“.
Kýli (n, hk) Bólga í holdi, sem gröftur/vessi safnast í. „Er ekki rétt að stinga á þessu kýli“?
Kýll (n, kk) A. Fatnaður sem hylur kynfæri karla. B. Pungur.
Kýma (s) Brosa; glotta; vera hýr á svip. „Hann svaraði engu, en kýmdi kankvíslega“.
Kýmilegt (l) Skoplegt; broslegt; hlægilegt. „Það er dálítið kýmilegt hvernig þetta endaði“.
Kýmileitur (l) Brosleitur; hýr á brá. „Hann var dálítið kýmileitur þegar hann rétti mér pakkann“.
Kýminn (l) Brosleitur; brosandi; glaðhlakkalegur.
Kýmni (n, kvk) Gamansemi; grín. „Aldrei var kýmnin lagt undan þegar við hann var rætt“.
Kýmnisvipur (n, kk) Brosleitur svipur; glettnissvipur. „Hann sagði þetta af mikilli alvöru, en ég þóttist sjá af kýmnisvipnum að honum þætti ekki eins leitt og hann lét“.
Kýmnikvæði / Kýmnikveðskapur / Kýmnivísa (n, kvk) Gamanvísa. „Mikið var um kýmnikveðskap í verinu, þar sem menn ljóðuðu hver á annan“.
Kýr (n, kvk) Kvenkyns nautgripur. Oft er kýr þó samheiti yfir bæði kynin; t.d. er talað um kúabú, þó þar séu bæði naut og kýr. Fallbeygist í eintölu; kýr; um kú; frá kú; til kýr. Kýr hafa sennilega verið hluti bústofns í Kollsvík frá landnámsöld, þó ekki sé vitað hvort þær hafi synt til lands úr strandi Kolls landnámsmanns. Aldrei voru þó margar kýr á hverju býli; líklega 1-2 mjólkurkýr og þá sameiginlegt þarfanaut fyrir Kollsvíkina eða jafnvel stærra svæði. Það er fyrst á 8. áratug 20. aldar sem vikið er frá þessu. Þá hóf Össur Guðbjartsson á Láganúpi mjólkursölu til Patreksfjarðar. Urðu mjólkurkýr þar flestar 13 að tölu. Hilmar sonur hans tók við kúabúskapnum eftir veikindi og fráfall Össurar, en hætti mjólkurframleiðslu fyrir aldamótin 2000. Góðir kúahagar eru í Kollsvík að sumarlagi; norður um Umvarp, Holt og Mýrar. Að loknum slætti var kúm beitt á túnin. Að sumarlagi voru kýr mjólkaðar útivið á stöðli, en hafðar í fjósum heima við bæi á vetrum. Munnmæli herma að fjós hafi verið byggt á kirkjuhólnum í Kollsvík eftir siðaskiptin. Þá hafi hálfkirkju sem þar stóð verið breytt í fjós til að óvirða hinn gamla sið. Það kunna að vera ýkjur, en víst er að þar stóð Kollsvíkurfjósið frameftir 20. öld, hlaðið úr grjóti og með torfþaki. Sama byggingarefni er í elsta fjósi Íslands sem enn stendur; Hesthúsinu á Hólum, sem byggt var í kringum 1650. Mestan hluta sinnar löngu atvinnusögu gegndi það hlutverki fjóss á sumrin en hesthúss á veturna. Sú var notkunin árið 1703, þegar Árni Magnússon ritaði Jarðabók sína, og henni var fyrst hætt þegar Láganúpsbændur tóku í notkun steinsteypt fjós, fjárhús og hlöðu árið 1945. Stöðull til mjalta á Kollsvíkurbænum var framan (sunnan) við túngarð/túngirðingu þar. Á Stekkjarmel var stöðull ofan girðingar. Á Láganúpi var mjólkað í Túnshalanum allt framá 7. áratug 20. aldar. Einnig var mjólkað á Hólum, neðan Hesthússins, meðan það var sumarfjós.
Kýrauga (n, hk) Kringlóttur gluggi. Oftast er átt við glugga á skipi.
Kýrefni (n, hk) Um kvígu; efni í mjólkurkú. „Hann átti kvígu sem var mikið kýrefni, sem hann tímdi helst ekki að lóga...“ (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).
Kýrfóður (n, hk) Það sem ein kýr þarf til vetrarfóðurs. Heyforði var ýmist mældur í kýrfóðrum, hestum eða álnum. Eitt kýrfóður var talið vera 35-45 hestar/hestburðir af heyi. 3-6 álnir voru af heyi í kýrfóðri, eftir gæðum þess. Vetrungum, þ.e. veturgömlum kálfum, var ætlað hálft kýrfóður. Kúahey/kúafóður er það hey sem ætlað er kúm, og er jafnan besta heyið. „Það er gagnlegast hverjum manni að láta sér nægja það sem nóg er og viljir þú svo þá skal eg segja þér mína meining. Það er gamalt búmannalag hér á landi að hálfur annar eyrisvöllur gefi af sér kýrfóður. Er hann þá vel ræktaður og þó ekki í besta lagi. Nú er eyrisvöllur 30 faðmar á hvern jaðar af fjórum...“ (Björn Halldórsson; Atli).
Kýrfóðurstún / Kýrfóðursvöllur (n, hk/kk) Tún/völlur sem, sæmilega áborinn, er talinn gefa af sér eitt kýrfóður í slægju. Mjög er misjöfn eftirtekjan, en oft var miðað við „fjörutíu málfaðma“, eða ½ hektara; um 5.000 m². Kýrfóðursvöllur var 1 ½ eyrisvöllur.
Kýrmjaltir (n, kvk, fto) Mjaltir kúa; til aðgreiningar frá mjöltum fjár, meðan fráfærur voru stundaðar.
Kýrverð (n, hk) Verðgildi; verð á einni kú. „Kýrverð samsvaraði að fornu sex ám; loðnum og lembdum um fardaga“. Verðmætir gripir voru fyrrum metnir í kýrverðum, s.s. bátar og handrit.
Kýta (n, kvk) Vestfirskt heiti á þorskhrognum og steinbítshrognum. „Gott er að hafa nýja lifur við kýtunni“. Sjá hrognabrækur/hrognabuxur/skálm.
Kýta (s) A. Deila; jagast; munnhöggvast. „Æ, fyrir alla muni hættið nú að kýta um þessa smámuni strákar“! (Orðasafn Ingvars Guðbj.). B. Sveigja eitthvað í kút/saman. „Það þarf að fá stærra rúm fyrir strákinn. hann er farinn að sofa dálítið kýttur milli gaflanna“. Talað var um að fiskur væri kýttur þegar hann var kasaður (sjá skreið).
Kýtingur (n, kk) Jag; deilur; þræta. „Hættið nú þessum leiðinda kýtingi strákar“!
Kýttur (l) Hnipraður/hnoðaður saman; í kút/hnipri; mjög boginn í baki. „Hann var farinn að gangast mjög fyrir síðustu æviárin; orðinn kýttur og farlama“.
Kæfa (s) A. Skafa snjó í miklu magni. „Það kæfði mjög fljótt í rásina sem mokuð hafði verið“. Það kæfir drjúgt hér ofan af húsþökunum“. Eða þegar feykir kafaldskófi. „Það kæfir niður af þökum í vindhviðunum“. B. Drepa með því að hindra loftaðstreymi. „Sandinum frá ströndinni feykir langt á land upp, jafnvel kæfir gróður“ (KJK; Kollsvíkurver).
Kæfa (s) Um veðurlag; skafa fínum snjó framaf hengju, þaki eða öðru; fenna ákaft. „Það er meira hvað hann getur kæft í logninu“!
Kæfa/kyngja/setja/ryðja/hlaða niður snjó (orðtak) Snjóa mjög mikið og ákaft. „Hann er enn að hlaða niður“. Það verður fljótt ófært ef hann kæfir áfram niður“. „Enn hleður hann niður snjónum; ég veit ekki við hvað þetta ætlar eiginlega að lenda“! „Það verður ljótt þegar það fer af stað sem hann hefur kyngt niður“!
Kæfa (n, kvk) Mauksoðið kjöt, oft af gamalám; tekið af beinum og hrært saman við krydd; látið kólna og oftast borðað sem álegg. „Þegar faðir minn fór í Verið hafði hann með sér nesti í kistli. Hann hafði með sér kæfu; mjög feita, og var henni drepið í kassa. Inn á milli laga var drepið soðnum kjötbitum; feitum, og þótti það mjög gott. Kæfa var sett í skinnbelgi og hengd upp í reyk. Ég þekki einnig að setja kæfu í langa til geymslu“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms). „Einnig var að hausti gerð kæfa; sett í skinnbelg og pressuð. Oft var hún reykt eins og hangið kjöt og geymd þar til farið var í Verið“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Mat höfðu menn með sér heimanað í kofforti. Þá var kæfa brædd í annan endann á skrínunni og smjöri stungið í hinn endann“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Kæfandi (l) Um óloft; illþolandi; þungt. „Opnaðu nú gluggann; það er kæfandi hitasvækja hér inni“!
Kæfingur (n. kk) Mikill og þéttur skafrenningur. „Það er stöðugur kæfingur í Hyrnunni og verður líklega fljótt ófært“.
Kæfubelgur (n, kk) Skinnbelgur til að geyma kæfu í. Erfitt var að geyma kæfu án þess að hún skemmdist. Henni var áðurfyrr drepið í skinnbelgi; sett á hana farg og geymt á köldum stað. Dilkskrokkar voru flegnir á sérstakan hátt þegar skinnið var nýtt til slíkra belgja, og nefndist það að flá í belg (sjá þar).
Kæfubiti / Kæfusneið (n, kk/kvk) Biti/sneið af kæfu. Kæfa var áðurfyrr verkuð í belgjum eða öðrum stórum ílátum og síðan skorin niður í bita til að bera hana fram. Bitarnir voru skornir í sneiðar, ef nota átti þá sem álegg á brauð. Nú eru lítil plastílát orðin allsráðandi; sem kæfan er kroppuð uppúr; linari og mörminni en áður var.
Kæfubrauð (n, hk) Brauðsneið með kæfu sem álegg. „Ég setti fýlsegg og kæfubrauð í nestisboxið“.
Kæfukind / Kæfurolla (n, kvk) Kind sem ákveðið hefur verið að nýta til kæfugerðar eftir slátrun. Helst voru það gamlar kindur sem ekki þóttu nýtilegar á annan hátt. Þyrfti að slátra ungu og vænu fé var það nýtt fremur í hangiket.
Kægill (n, kk) A. Drykkjarkútur; gæluorð yfir lamb eða dreng. „Drykkjarílátið hafði ýmis nöfn...blöndukútur; kægill...“ (LK; Ísl. sjávarhættir II). B. Notað til þessa dags í Kollsvík í afleiddri merkingu: „Þetta hrútlamb er nú óttalegur kægill; óvíst að hann lifi til hausts“. „Skelfing er þessi lambkægill lengi að ná sér á strik“.
Kækur (n, kk) Ávani; ósjálfráð hreyfing, t.d. vegna tourette-sjúkdóms. „Það var kækur hans að banda hendinni framan í viðmælanda með glennta fingur þegar honum var mikið niðri fyrir“.
Kæla (n, kvk) Stífur goluvindur. „Hver kæla var notuð til að létta undir við róðurinn“ (KJK; Kollsvíkurver). „Hann er að leggja upp einhverja kælu“.
Kæla (s) A. Gera kaldara; draga úr hita. „Það er mikið atriði að kæla mjólkina sem fyrst eftir mjaltir“. B. Auka vind úr hæglæti upp í kælu/golu/kalda. „Hann er farinn að kæla dálítið upp á Víkina“.
Kælir (n, kk) Staður til að kæla matvöru. „Fyrir daga mjólkurtanka var gjarna útbúinn kælir fyrir mjólkurbrúsa í einhverju af hinum mörgu kaldavermslum í Kollsvík; t.d. í Brunnhússlæknum eða Kaldabrunni“.
Kælugutlandi (n, kk) Vindbára; fremur lág, stutt og ör bára sem ýfð er upp af vindi. Getur komið úr annarri átt en kvikan sem undir liggur. „Er hann eitthvað að auka þennan kælugutlanda“?
Kælukast (n, hk) Aukinn vindur um tíma; einkanlega á sjó. „Hann lagði eitthvað bölvað kælukast upp á víkina um tíma, en lægði það fljótlega aftur“.
Kæluskratti (n, kk) Stíf kæla sem orðin er til leiðinda við veiðar/róður eða annað verk; kaldi. „Mér sýnist að þessi kæluskratti sé að rífa upp bölvaðan gutlanda. Maður fer ekki að nenna að hanga á þessu lengur“.
Kælusláttur (n, kk) Vindur sem slær niður staðbundið/tímabundið, jafnvel úr fleiri en einni átt á víxl.
Kæluvottur (n, kk) Dálítil gola/kæla. „Einhver kæluvottur virðist vera hér suðurá“.
Kæna (n, kvk) Lítill bátur; bátshorn; smáfleyta. Sumsstaðar á landinu var orðið notað um austurstrog, en ekki er vitað um slíka orðnotkun í Kollsvík.
Kænlega (ao) Lævíslega; sniðuglega. „Honum tókst að koma orðum kænlega að þessu“.
Kænn (l) Sniðugur; lævís; undirförull; ráðagóður. „Hann er ótrúlega kænn í viðskiptum“.
Kænska (n, kvk) Sniðugheit; lymska; snjallræði. „Með kænsku og útsjónarsemi lánaðist honum að koma ár sinni vel fyrir borð“.
Kænskubragð (n, hk) Sniðurgheit; grikkur. „Ég þurfti að beita ýmsum kænskubrögðum til að fá hann með“.
Kæpa (n, kvk) A. Kvenkyns selur. B. Húfa. „Hvar er nú húfukæpan mín“?
Kæpa (s) Um sel; fæða kóp. „Alltaf er töluvert af sel á Vatnadalsbót og við Sveinaflögur. Einkum er það útselur, en hann kæpir á Landamerkjahlein“ (HÖ; Fjaran).
Kæra sig kollóttan (orðtak) Vera sama/fjandanssama; gefa skít í; leiða hjá sér. „Ég kæri mig alveg kollóttan þó hann sé eitthvað að belgja sig“. „Gummi kærði sig kollóttan og lét þetta ekkert á sér festa“ (PG; Veðmálið).
Kæra sig um (orðtak) Vilja hafa með að gera; vilja eiga; þykja vænt um. „Ég kæri mig lítið um að hundurinn sé að galsast í fénu“! „Liði kærði sig að minnsta kosti ekki um að taka lamsskrokkinn með sér heim að Látrum og varð að samkomulagi að Gummi nýtti hann“ (PG; Veðmálið).
Kæring (n, kvk) Sinna; umhirða; skeyting. „Hann hefur litla kæringu fyrir útlitinu“.
Kæringarlaus / Kærulaus (l) Hirðulaus; skeytingarlaus. „Skelfing ertu kæringarlaus um heimanámið“.
Kærinn (l) Hirðusamur; umhyggjusamur. „Þú ert ekki nógu kærinn með bækurnar; að láta þær liggja svona“!
Kærkominn (l) Vel þeginn; velkominn. „Alltaf er kaffisopinn jafn kærkominn eftir svona puð“. „Þetta hlé var kærkomið til mannlegra samskipta“ (PG; Veðmálið). „Var slíkt okkur krökkunum kærkomið tilefni til að hitta jafnaldra okkar á næstu bæjum“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku).
Kærlega (ao) Innilega; fagnandi; mjög vel. „Ég þakka kærlega fyrir mig“.
Kærleikur (n, kk) Vinátta; væntumþykja; innileiki. „Það hafa löngum verið litlir kærleikar á milli þeirra“.
Kært með (orðtak) Ást/vinátta milli. „Með þeim systrum var alla tíð mjög kært, og mikill samgangur á milli heimila þeirra“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Kærulaus (l) Hirðulaus; hugsunarlaus; ógætinn. „Mér þykir hann fremur kærulaus í þessum efnum“.
Kæruleysi (n, hk) Hirðuleysi; hugsunarleysi; ógætni. „Skelfingar kæruleysi er þetta“!
Kæruleysislega (l) Af kæruleysi/léttúð; óvarkærnislega. „Það var kæruleysislega að þessu staðið“.
Kæsa (s) Verka mat, einkum hákarl og skötu, á þann hátt að láta hann liggja í hrúgu/kös (sjá hákarl og skata).
Kæsing (n, kvk) Kösun; sú geymsluaðferð að kæsa mat. Kæsing er enn talsvert stunduð, þó völ sé öðrum úrræðum, sem sýnir hve hi sérstaka kæsingarbragð á djúpar rætur í þjóðmenningunni.
Kæstur (l) Búið að kæsa. „Fátt er betra en vel kæstur hákarl“.
Kæta (s) Gleðja; koma í gott skap. „Svona góðviðristíð kætir hvern mann“.
Kæti (n, kvk) Kátína; gott skap; gleði. „Gjörðu svo vel að ganga í bæinn; fáðu þér sæti og sýndu af þér kæti“!
Köflóttur (l) Með köflum; með mislitum reitum. „Ég á þessa köflóttu húfu“.
Kögglader (n, hk) Derhúfuder sem orðið er lúð og aflaga, þar sem styrking inni í því er sundurbrotin. Orðið gæti hafa orðið til í seinni tíð og gæti upprunans verið að leita hjá Jóni Hákonarsyni á Hnjóti sem var næmur og fundvís á hnitmiðaða orðasamsetningu. Orðið var þó almennt notað í utanverðum Rauðasndshreppi á síðustu áratugum 20. aldar. „Ekki lagaðist köggladerið hans Kitta við þessa samalamennsku“.
Kögglast við (orðtak) Bauka/myndast við að gera/vinna með höndum. „Ég er enginn snillingur í þessu, en ætli maður verði ekki að kögglast eitthvað við það, fyrst enginn annar er tiltækur“.
Köggulkvikur (l) Orðið hefur ekki verið í notkun í seinni tíð. Merkir líklega handfljótur. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Kögur (n, hk) Kragi; faldur; traf á klæðisfaldi.
Kökkur (n, kk) Hnaus; köggull. „Árans kekkir eru í áburðinum“.
Kökubleðill (n, kk) Þunn kaka, oftast átt við sneið af hveitiköku/rúgköku. „Réttu mér einn kökubleðil í viðbót“.
Kökubox (n, hk) Bodx/dós sem kökur eru geymdar í.
Köld eru kvenna ráð (orðatiltæki) Ekki er líklegt að spekin lýsi kvenfyrirlitningu; líklega vísar hún fremur til þess að konur geti verið körlum klókari í ráðabruggi og skipulagi.
Kölkun (n, kvk) A. Heilahrörnun; elliglöp; alzheimer-veiki. „Það er farið að bera dálítið á kölkun hja honum“.
Kölski (n, kk) Satan; sá vondi; óvinurinn. Þjóðsögur af kölska hafa verið þjóðinni afþreying í gegnum aldirnar; ekki síður en sagnir og rímur af fornköppum.
Könguló (n, kvk) Einnig skrifað og framborið kónguló, einkum áðurfyrr. (Araneae). Liðdýr af flokki áttfætla; með tvískiptan bol. Fætur eru átta, auk sérstakra munnlima. Augun eru oftast átta. Þau eru með einni linsu en ekki fjöllinsa, eins og í skordýrum. Köngulóm er oft skiptast eftir lifnaðarháttum í vefköngulær og föruköngulær. Vefköngulær spinna vef úr skilkiþræði til veiða, en föruköngulær elta bráðina uppi. Þær hafa þó einnig spunakirtla, og spinna m.a. hjúp um egg sín. Bolurinn er ýmist óskiptur eða tvískiptur. Þráðurinn kemur úr kirtlum í afturbolnum, og er margþættur. Silkið er fljótandi, en harðnar um leið og það kemur úr bolnum, og verður að þræði sem er margfalt sterkari en stál. Köngulær eru rándýr, og drepa bráðina með eitri sem kemur úr kirtlum í höfðinu og er sprautað úr oddi klóskæranna. Bráðin er ýmist drepin strax, eða pökkuð lifandi í þráð og étin síðar. Köngulóin er algeng hérlendis, og finnast hér af henni 84 tegundir. Í haga og klungri finnast oft hagaköngulær (gnaphosidae) af tveimur tegundum; hagakönguló og hrafnakönguló. Þær eru einlitar sprettharðar föruköngulær, sem elta bráðina uppi. Hagakönguló er oft mjög dökk; algeng á láglendi. Hrafnakönguló er með brúnleitan frambol og svarta skjaldarrönd; algeng. Hnoðaköngulær finnast í 5 tegundum. Hin eiginlega hnoðakönguló (Pardosa palustris) er líklega algengasta könguló landsins. Hún er förukönguló með brúnan, langröndóttan frambol; algeng bæði á láglendi og hálendi. Henni skyld og lík er mýrakönguló, sem finnst gjarnan í hrísmóum og mýrum. Einnig heiðakönguló, sem helst finnst á hálendinu og laugakönguló sem heldur sig oft á jarðhitasvæðum. Húsaköngulær finnast hér sem ein tegund (Tegenaria domestica); með grábrúnan frambol og ljósari afturbol. Hún er algengari á höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum og finnst eingöngu í húsum. Hún spinnur trektlaga voð í hornum, og situr í mjórri enda hennar meðan beðið er eftir bráð. Kambköngulær finnast einkum á Mývatnssvæðinu. Hinsvegar er krabbakönguló algeng um allt land. Hún er með tvö áberandi löng fremstu fótapör; brúnleitan frambol með hvítu v-laga mynstri. Hún veiðir ekki í vef, heldur situr í blómum og veiðir flugur. Spunakirtilinn notar karlinn m.a. til að binda kerlinguna meðan á mökun stendur, til að hann hafi tíma til að forða sér að henni lokinni. Krosskönguló (Araneidae) finnst hérlendis í 5 tegundum. Þær eru stórar þybbnar og spinna hjóllaga vefi í trjám, klettum og húsum. Þær geta bitið í gegnum húð, þó ekki sé það algengt. Eiginleg krosskönguló (Aranus diadematus) er ljósbrún á bol, með hvíta bletti á afturbol sem mynda kross. Finnst um allt land á láglendi, en er algengust á suður- og suðvesturlandi. Fremur hitakær, og algeng utaná húsveggjum og klettum sem vita í suðurátt. Skartkönguló er litfagurri, en sjaldgæf hérlednis. Sveipkönguló er algeng, einkum norðanlands; með brúnleitan bol og er afturbolur mjög munstraður. Heldur til í háu grasi og runnum og spinnur oft eggjabú í snarrótarpunti. Maurkönguló finnst einkum við Mývatn og annarsstaðar á norðurlandi. Ylkönguló hefur helst fundist í gróðurhúsum. Leggjaköngulær hafa áberandi langar lappir; sjaldgæfar hérlendis, og aðeins innanhúss. Randaköngulær eru staðbundnar. Hin eiginlega randakönguló finnst einkum í Þingeyjasýslum og kjarrkönguló einungis í Skaftafelli. Slútköngulær eru sömuleiðis mjög staðbundnar. Er þá komið að þeirri ætt köngulóa sem langsamlega er algengust hérlendis, en það eru voðköngulær (Linyphidae). Af þeim eru hér 61 tegund. Voðköngulær eru mun smávaxnari en þær tegundir sem nefndar hafa verið, og yfirleitt ver lítið á þeim. Á haustin skríða þær upp í strá eða greinar og spinna langan þráð, sem vindurinn grípur. Þannig svífur köngulóin oft langar leiðir. Þegar mikil brögð eru að þessu leggjast svifþræðirnir yfir gróið land eins og teppi sem vel er greinilegt. Er þetta nefnt vetrarkvíði, og þótti áðurfyrr boða harðan vetur. Hér skulu nefndar nokkrar algengar tegundir voðköngulóa: Hnyðjukönguló er fremur algeng víða um land, og sama má segja um brekkuló, roðaló, snoppuló, holtaló, móaló, sortuló, blökkuló, auðnuló, freraló, snæló, kompuló, randaló, ranaló, burstaló og finuló.
Ýmis þjóðtrú tengist köngulóm, og var hér fyrr getið um vetrarkvíðann. Talið var að könguló gæti vísað á berjamó. Þá var talið að köngulær vissu á sig veður. Sæjust þær með egg á baki væri von á jafnmörgum sólskinsdögum og eggin væru mörg. Ógæfu boðaði að spilla köngulóarvef viljandi.
Köngulóarvefur er algengur að sumarlagi, jafnt inni í húsum, þar sem ekki er oft þrifið, sem úti í urðum og klettum. Ólánsmerki var talið að rífa köngulóarvef eða hrekkja könguló á annan hátt.
Könnuábrystir (n, kvk) Ábrystir sem hitaðar eru í íláti sem sökkt er í sjóðandi vatn, þannig að þær hlaupi án þess að sjóða. Könnuábrystir eru með fínni og jafnari áferð en draflaábrystir.
Körfustrá (n, hk) Tág úr tágakörfu, eins og notuð var almennt til burðar á fiski og heyi áður fyrr. Börn gerðu það af fikti að skera bút af körfustrái og reykja eins og sígarettu, en reykurinn var býsna beiskur.
Köpuryrði (n, hk, fto) Illmælgi; stóryrði. „Hann hreytti í þá köpuryrðum og bað þá illa að þrífast“.
Kör (n, kvk) Sjúkrabeður aldraðrar manneskju.
Körun (n, kvk) Athöfnin að kara/ sleikja slor af afkvæmi. „Alltaf er körunin dálítið flaustursleg hjá henni Surtlu; hún má ekkert vera að því að sinna svoleiðis smáatriðum“.
Körrur (n, kvk, fto) Ullarkambar. „Körrur voru nauðsynlegar á hverjum bæ áður fyrri“.
Kös (n, kvk) Hrúga. Upphaflega var einkum átt við verkunaraðferð fisks, s.s. fisk sem staflað var á sérstakan hátt í hringlaga stafla áður en hann var þurrkaður í skreið (sjá þar). Einnig um skötu sem látin er ryðja sig/verkast í kös. „Meðan heitast er að sumrinu var skatan látin liggja vikur í kös..“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Af orðinu kös er dregin sögnin að kæsa.
Köstur (n, kk) Hlaði; haugur; hrúga; það sem kastað er saman. Sbr. bálköstur.
Kösun (n, kvk) Kæsing.
Köttfær / Köttliðugur (l) Mjög lipur í bjargi; vel bjargfær. „Ég hef sjaldan séð jafn köttliðugan mann í klettum“. Yfirleitt orðað þannig í Kollsvík þó sumir þættust leiðrétta það með kattliðugur. „Heyrt hefi ég þó að einn maður hafi klifið Skarfastapa... Hann var það sem kallað var köttfær (þ.e. fær sem köttur). Þykir það glæstast frægðarorð um klifurfærni vjargmanna“ (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).
Köttát (n, hk) Straumstillir fyrir rafal (dýnamó eða alternator) í bíl/traktor/báti. Úr ensku; „cut-out“. „Það getur stundum dugað að banka í köttátið til að koma hleðslunni aftur í gang“.
Köttur (n, kk) Algengt heimilisdýr. Köttur var af sumum talinn geta sagt til um veður, og tjáði það með sinni hegðun. Þannig spáir kötturinn hláku ef hann þvær sér uppfyrir eyrað á vetrardag. Endranær merkir það gestakomu, og því tignari eiga gestirnir að vera sem hann þvær sér hærra uppá hausinn. Ef hann teygir sig og hleypir klónum fram er sagt að hann hvessi klærnar eða taki í klærnar, og boði það storm. Sama getur þýtt ef hann leikur sér. Veður kemur úr þeirri átt sem kötturinn klórar sér í. Ef kettir rífa tré með klónum boðar það hrakviðri á sumrum, en stórhríð á vetrum. Kettir eru sagðir forðast þá sem eru feigir, og því er orðatiltækið sjaldan er köttur í feigs manns fleti. B. Spil sem víða var spilað fyrrum; líklega einnig í Kollsvík þó ekki verði um það fullyrt. „Köttur (lú; lúfa; lúfur) var líklega algengasta spilið. Væru sex sem spiluðu voru sex spil gefin hverjum. Sá sem gaf sló upp aukaspili. Það varð tromplitur og hlaut hann það sem eitt af sínum spilum. Þá var forhandarmanni heimilt að taka köttinn sem kallað var, en það voru sex næstu spilin í stokknum og varðhann neyddur til að spila á þau. Næði hann ekki slaf, þá var sagt“ hann á ekki bit á köttinn“. Væri spilað upp á peninga átti sá sem bit varð á köttinn að borga 3, 5 eða 6 aura. Spilið var þess vegna kallað þriggja, fimm eða sex aura köttur. Sjá vermannaleikir.
Köttur í bóli bjarnar (orðtak) Um mannaskipti til hins verra; þegar minni maður kemur í stað hins meiri. Sjá kominn köttur í ból bjarnar.