Hér er fjallað um þá fjölbreyttu fylkingu vætta sem byggir Rauðasandshrepp, samkvæmt sögnum frá ýmsum tímum.  Þó frekar hafi fjarað út í mannheimum undanfarna öld eru engar heimildir um burtflutning þessara þjóðflokka.  Enn búa t.d. milljónir vætta í þeim skika Látrabjargs sem þeim var úthlutað af Guðmundi biskupi góða; enn býr huldufólk í nábýli við tröllkarlinn í Hnífunum og enn er Rauðasandshreppur sundurboraður af jarðgöngum trölla og furðukatta, eftir því sem best verður vitað.

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti).
Álagablettir og fólgið fé  Sagnir greina frá fjölda álagabletta í Rauðasandshreppi.
Huldufólk og álfar   Þessi hulduheimur er líklega enn jafn fjölmennur og fyrrum.
Tröll og tröllskessur Þessar sólfælnu verur eru fjölmennar í hreppnum.
Draugar, óvættir og skrímsli Vættatrúin er á undanhaldi, en enn verður drauga vart.
Huldufólk  Hér segir Sigríður Guðbjartsdóttir frá huldufólki sem býr í Kollsvík.

 

Álagablettir og fólgið fé

Valdimar Össurarson tók saman eftir ýmsum heimildum.

Uppruni og tilgangur álagabletta

Álagablettir virðast hafa fylgt hverri jörð fyrr á tíð.  Vart leikur vafi á því að átrúnaður á álagabletti fluttist til landsins þegar við landnám, enda er hann að finna í öllum grannlöndum okkar; a.m.k. þeim sem voru á norrænu áhrifasvæði, s.s. Skandinavíulöndum og Bretlandseyjum.  Um uppruna og ástæður þessa átrúnaðar verður lítið fullyrt en líklegt er að hann sé nátengdur vernd af einhverjum toga.  Frumstæðustu trúarbrögð mannsins eru trú á „stokka og steina“; þ.e. átrúnaður sem tengist sérkennum í nærumhverfinu, s.s. fjalli, hól, steini eða lind.  Hluti þess er trúin á að hver bær eigi sér einn eða fleiri verndarvætti.  Vafalítið má rekja flesta álagabletti til þess uppruna. 

Verndarvættinum bar að sýna tilhlýðilega virðingu og hann átti sinn rétt.  Því var bannað að nema grjót úr hól hans; bannað að slá tún hans og grugga vatnsból hans.  Væri þetta virt hélt hann áfram verndarhendi yfir bænum og fólkinu, en væri út af brugðið mátti vænta hefndar af einhverju tagi; hefndin var ráðandi lögmál samfélagsins fyrrum.  Með þetta í huga verður ýmislegt skiljanlegt sem varðar álagabletti.  Eflaust má tilfæra fleiri ástæður fyrir bannhelginni.  T.d. er ekki ólíklegt að sumir álagablettir séu fornar dysjar fólks eða jafnvel grafir gripa sem drepist hafa úr skæðum sjúkdómi s.s. miltisbrandi.  Þá kunna sumir blettir einfaldlega að vera „sýnd veiði en ekki gefin“; þ.e. að þeir t.d. virðist girnilegt slægjuland en hafi reynst óhagkvæmir til nytja t.d. vegna grjóts í jarðvegi eða annars.  Í þeim tilfellum eru því eldri kynslóðir að hafa vit fyrir hinum síðari.

Einhver ofanritaður uppruni gæti átt við þá 13 álagabletti sem hér eru skráðir í Rauðasandshreppi.  Á þeim öllum ríkir nýtingarbann, og liggur víti við ef út af er brugðið.  Sú refsing er frá því að vera í vægu formi, t.d. að sýnist kvikna í bæ eða geri ómótstæðilegt sjóveður; upp í verulegt tjón á skepnum eða líkamsmeiðingar.  Eflaust launar verndarvætturinn með lukku ef bannið er virt.  Ein forvitnileg undantekning er frá vítunum, sem er Þrælagróf á Hvallátrum.  Sé hún slegin verðlauna verndarvættir það með þurrki.  Á þremur álagastöðum er fólginn fjársjóður sem verndaður er með sömu vítum og álagablettir, og er uppruni slíks vafalítið sá sami og blettanna.  Lækningalindir eru þrjár hér skráðar; þar af ein sem er vígð af helgum manni; Guðmundi góða, eins og nánar greinir í kafla um hann.

==========================

Melanes  „Upp af Holtasundum og út af Stekk er Stórimór, og þar inn og upp af er Miðstekkur; álagablettir sem ekki má slá“  (Örnskrá; Ívar Halldórsson).
Ívar Halldórsson sló eitt sinn blettinn, þrátt fyrir viðvörun eldra fólks.  Þegar kom framundir veturnætur lá besti hestur heimilisins fótbrotinn á blettinum.  (Ívar Halldórsson; frásögn á Ísmús). 

Milli Mábergs og Skóga, í Mábergslandi, er Geitahvolf.  Þar má ekki slá.  Út af því var eitt sinn brugðið, en sá sem það gerði missti sitt fé í mýrina.  (Bjarni Ívarsson; frásögn á Ísmús).   Líklega á eftirfarandi við þennan blett:  „Álagablettur er þar í landinu; grösugur mjög, sem ekki má slá.  Þykir ekki góðri lukku stýra ef út af er brugðið“.  (Pétur Jónsson; Barðstrendingabók). 

Kirkjuhvammur  Sagt var að ekki mætti slá Löngutóarblett frammi í Hraununum, þá myndi einhver vildisgripur deyja.  Faðir Jónu sló blettinn eitt sinn og missti eftir það bestu kúna sína.  (Jóna Ívarsdóttir; frásögn á Ísmús).    

Stakkadalur  „Undan Sjónhól (á landamerkjum Stakkadals og Saurbæjar) kemur Engilækur.  Gamalt fólk trúði því að vatn úr honum hefði lækningamátt.  Hvað lítið sem krakkarnir urðu lasnir var alltaf sent eftir vatni úr honum“  (Örn.skrá; Sigurvin Einarsson). 
Eitt sinn var heyleysi hjá foreldrum Sigurvins.  Til að drýgja töðuna voru þau krakkarnir látnir reyta sinu, en víða er grasgefið í hólunum og lautunum.  Fóru þau út í svonefndar Kistur og fylltu þar poka sína.  Móðir þeirra spurði hvar þau hefðu fengið sinuna.  Þegar hún heyrði að það hefði verið í Kistum fengu þau nokkrar ávítur, því þarna væri álagablettur.  Ekki hlaust þó neitt tjón af í það skiptið.  (Sigurvin Einarsson; frásögn á Ísmús). 

Krókur  „Niður af Bekk (inn af Grýluurðum, neðan Krókshóls) er Vínholubali, og hjá honum er uppspretta sem heitir Vínhola.  Um liggjandann á þrettándakvöld breyttist innihald holunnar í vín.  Vínholulækur kemur úr holunni.  Inn af Vínholu er Kattarhvammur en í honum er uppspretta sem nefnist Kattarhola, oft þurr“  (Örn.skrá; Karl Guðmundsson o.fl.). 

Stakkar  „Í Stakkhól er grasi vaxin laut sem liggur niður hólinn.  Hana mátti ekki slá.  Ef hún var slegin átti að koma ólán fyrir búfé.  Hún ver einu sinni slegin af fólki utan úr Kollsvík sem þarna hafði slægjur.  Um veturinn drápust 12 eða 14 lömb af 30 sem þetta fólk hafði þarna og vissi enginn hvernig á því stóð.  Jón man vel eftir þessu; hann var þá heima í Króki“. 
„Í Álakeldu er mikil uppspretta af mýrargasi, þar sem keldan kemur upp úr mýrinni.  Gömul munnmæli sögðu að þar væri fólgið fé; líklega vegna þess að þar sáust vafurlogar.  Jón hefur séð slíkt fyrirbæri“  (Örn.skrá; Jón Guðmundsson frá Króki). 

Keflavík  „Milli Hólanna (austan ár og sunnan bæjar í Keflavík, en þó sýnilegir þaðan) er dý sem heitir Kötludý.  Þar á að vera grafinn ketill með peningum í.  Vatnið úr því rennur í Árgilið við Gunnuhyl.  Framan við Kötludý er álagablettur á engjunum.  Er það grasbrekka niður að ánni austanvert; neðan túns.  Var sagt að þetta væri hulduólksengi sem ekki mætti slá“  (Örn.skrá; Hafliði Halldórsson). 
Ásgeir á Látrum talaði um Gullsmýri, sem kann að vera sama dý, en það nafn kemur ekki fyrir í örnefnaskrá.  Sagði hann að einhver nurlari hefði grafið þar eirketil fullan af gulli; þó ekki stóran.  Einhver reyndi síðar að grafa ketilinn upp en hætti við er hann leit til bæjar og sýndist hann standa í björtu báli.  (Ásgeir Erlendsson; frásögn á Ísmús). 
Peningaketillinn í Gunnuhyl.  Foss niðri í Árgilinu heitir Gunnuhylur; rétt við Kötludý (er því hér vafalítið um sömu sögn að ræða og ofan greinir).  Fles liggur þvert í ána fyrir neðan og munnmæli herma að eiga að vera grafinn peningaketill þar í dý.  Aldrei sást þar kind og aldrei mátti slá það, að viðlögðum óhöppum.  Eitt árið slær bóndi þetta fles.  Hann missti tvær kýr og gemlingana sína, sem fóðraðir voru á heyinu.  Nokkru síðar er hann fluttur burtu úr Keflavík Dreymdi hann að álfkona kæmi til sín og segði að nú væri hún flutt þar burtu og fram í Klyfberabrjótsenda, sem er hjalli nokkru framar.  Ekki var talið ráðlegt að grafa eftir katlinum; þá ætti eitthvað óhapp að henda.  (Hafliði Halldórsson; frásögn á Ísmús). 

latravatnHvallátrar:  Álagahólmi í Látravatni.  Hólmi er í Látravatni, en hann má ekki slá; þá verða menn fyrir tjóni.  Bóndi einn (Eggert Eggertsson) hugðist slá hólmann, sem þá var vel sprottinn, og fá af honum svo sem eina sátu.  Eftir sláttinn er orðið skuggsýnt. Bóndi leggur af stað heim með sátuna og hafði þau ummæli að lítið væri að marka kerlingabækur um álög. Hann er þó varla búinn að sleppa orðinu þegr hann dettur og sker sig að beini á ljánum.  Var hann frá slætti um mánaðartíma á eftir.  (Ásgeir Erlendsson; frásögn á Ísmús; viðbætur Þórðar Jónssonar). 
Um Tröllhól á Hvallátrum er rætt í kaflanum um álfa.
Lágar nefnist svæði norðatil við Flagahlíðarvatn, upp undir Hvanngjárfjalli.  Þar vex nokkuð af stör, en þar eru slægjur huldufólks sem mennskir mega ekki nýta.  Bóndi á Látrum sló tjörnina en missti veturinn eftir hrút, kind og lamb sem hann taldi að stafaði af þessu.  (Arnfriður Erlendsdóttir; frásögn á Ísmús). 

Þrælagróf er hvilft í túninu, stutt frá Húsabæ á Látrum.  Þar börðust þrælar og voru rústaðir þar.  Ekki brást að þurrkur kom þegar Þrælagróf var slegin.  Eitt sinn hafði lengi rignt.  Bóndi var rétt byrjaður að slá Þrælagróf þegar hann þurfti nauðsynlega að bregða sér af bæ.  Engu að síður var kominn brakandi þurrkur þegar hann kom heim.  (Guðmunda Ólafsdóttir; frásögn á Ísmús).

Kollsvík  Á þremur stöðum í Kollsvíkurlandi eru álagablettir, og ein er þar lækningalind.  Öllum álagablettum fylgdu þau víti að ef við þeim væri hróflað ætti annaðhvort að virðast kvikna í bæjum eða gera ómótstæðilega gott sjóveður.  Einn þeirra er Biskupsþúfa, sem er stök þúfa með steinkjarna í túninu neðan gamla bæjarhólsins í Kollsvík.  Tvær sagnir tengjast þúfunni.  Önnur er sú að undir þúfunni eigi Kollur landnámsmaður að hafa fólgið fémæti sitt og vopn, en síðan mælt svo fyrir um að hann yrði dysjaður á Blakknesnibbu, þar sem sæist til þúfunnar.  Síðari sögnin er sú að þar hafi Guðmundur biskup góði hvílt lúin bein er hann var á leið til vígslu Gvendarbrunns, stuttu norðar.  Þúfunni var þyrmt þegar Ingvar Guðbjartsson lét slétta brekkuna fyrir árið 1970.  Á síðari árum hefur verið sett fram sú kenning (VÖ; Kirkja Kolls; kollsvik.is) að Kollur hafi reist fyrstu kirkju landsins kippkorn austanvið Biskupsþúfu, þar sem síðar stóð hálfkirkja á kaþólskri tíð, og að hann hafi þá reist keltneskan kross á þúfunni til dýrðar Patreki biskup (Federach Mac Cormaigh) sem sendi þá Örlyg til trúboðs hingað til lands. 
Annar álagastaður er Bælishóll, rétt framan við túnvegginn á Tröð.  Nafnið hafa menn talið dregið af því að þar hafi fé verið bælt.  Hinsvegar er íhugunarefni hvort það hafi gegnum tíðina brenglast úr „Bænahóll“, enda er hóllinn við upphaf þjóðleiðarinnar frá Kollsvík; hvort heldur var farin Tunguheiði; Víknafjall eða yfir Breið.  Helguþúfur virðast hafa verið í upphafi þjóðleiðar frá hverjum bæ fyrrum; sjá kaflann um þær. 
Þriðji álagabletturinn í Kollsvík með þessum vítum var Breiðuseilarhóll, en hann var kippkorn neðanvið Tröðina og fór alfarið undir veg og sléttur.  Ekki er þó kunnugt um óhöpp í tengslum við það, og því virðist huldufólk hafa sýnt framkvæmdinni fullan skilning.  Ein lækningalind er í Kollsvík, en það er Gvendarbrunnur, undir Sandahlíð Núpsins; norðan túns í Kollsvík.  Hann vígði Guðmundur biskup góði, sem líklega dvaldi með liði sínu í Kollsvík kringum 1220 og vígði ýmsa staði í hreppnum; sjá kaflann um hann.  Vatnið í Gvendarbrunni er talið einstaklega heilnæmt og hefur verið sent heimsálfa á milli í lækningaskyni.

Hænuvík  „Gullhóll er stór hóll (nærri bæ í Hænuvík) fast við ána.  Á honum eru greinileg merki hleðslu.  Þarna á gull að vera geymt.  Laut er í hann miðjan; eftir hvað sem hún svo er.  Einnig gæti þetta verið gamalt virki.  Rétt við hólinn en fast við ána ofan við fossinn er klettur sem heitir Maríuklettur.  Þar varp maríuerla einu sinni.  Niður af Gullhól eru Sjávarbalar.  Upp af þeim innan til við Gullhól er Reithóll; þar hafa verið fiskreitir og fjárrétt.  Upp af Gullhól og utan við bæ eru Hólar.  Í þeim er tóft sem heitir Hoftóft.  Hún er lítil en er utan í brattri brekku.  Niður af tóftinni eða við dyr hennar er í mýrinni Blótkelda“  (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson). 
„Gullhóll er kringlóttur hóll sem er eina kennileitið í ytra túninu sem fengið hefur að halda sinni upprunalegu mynd.  Þjóðsagan segir að í hólnum sé fólgið gull og hafi tilraunir verið gerðar til að ná því, en þá hafi bærinn sýnst standa í björtu báli og menn þá snúið frá gullgreftrinum…  Efst á Gullhól séstmóta fyrir hlöðnum hring.  Hóllinn er flatur að ofan allt út að hringnum, en utan hringsins hallar strax niður af honum.  Utan í hólnum, í átt að brúnni, var hrúgald sem stundum var trúað að væri leiði Hænis þess sem víkin átti að heita eftir.  Fyrir nokkrum árum var grafið í hrúgald þetta og reyndist það ekkert hafa að geyma.  Gæti þó hafa myndast af mannavöldum; e.t.v. þegar hóllinn var gerður flatur að ofan.  Engar sögur virðast hafa varðveist um jarðrask á eða utan í Gullhól, en fullyrða má að hendur manna hafa við honum hróflað á sögulegum tíma…  Þar neðst við Hólana er forblaut og botnlaus kelda; Blótkelda, og þar sem hún rann næst hólunum var skorin tóft inn í snarbratta brekku.  Fullyrti gamalt fólk að þarna hefði verið hof til forna.  Talað var um að úr hoftóft þessari hefðu legið göng inn í eða í gegn um Hólana, og krakkarnir sem hlupu um Hólana á þessum slóðum fyrst á öldinni töldu sig verða vara við tómahljóð eða undirgang þegar hlaupið var yfir þetta svæði; eins og holt væri undir“  (Örn.skrá; Sigurjón Bjarnason).  Íhugunarvert er hvort Gullhóll hefur fyrrum gegnt hlutverki bænastaðar, líkt og hinar fjölmörgu helguþúfur í hreppnum.  Slíkir staðir eru gjarnan við upphaf þjóðleiða.  (VÖ). 
„Á lendingunni eða verstöðinni í Láturdal hvíldu þau álög að allir ættu að vera komnir úr verinu um 12.helgina í sumri, annars átti illa að fara.  Ekki er vitað til að þetta hafi verið brotið“  (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson, athugasemdir). 

Hnjótur.  Álagabletturinn Vandardalsflói.  Í Vandardal (sunnan bæjar að Hnjóti) er broki vaxinn flóablettur sem nefnist Vandardalsflói.  Sú sögn fylgir honum að þetta sé huldufóksengi, og væru álög um það að ef þarna væri slegið hlytust af stór óhöpp á skepnum.  Níels Björnsson, sem bóndi var á Hnjóti 1908-1914.  Hann sló flóann eitt sumarið, en veturinn eftir missti hann báðar kýr sínar.  Nokkrum árum síðar sló Hákon Jónsson Vandardalsflóa og fékk þar mikið og gott hey.  Morgun einn veturinn eftir kemur hann að öllum lömbum sínum dauðum í lambakrónni.  Hafði jötubandið losnað og fallið niður er þau voru að éta kvöldgjöfina, og kæft þau.  Enn freistuðu hinar girnilegu slægjur í Vandardalsflóa.  Árni Magnússon bóndi á Hnjóti 1913-1931 var kominn á fremsta hlunn með að slá þar þegar aðrar slægjur þraut, en sá sig um hönd og hætti við það.  Um veturinn var hann orðinn tæpur með hey.  En þá dreymir hann eina nóttina að til hans komi álfkona.  Hún segist vilja launa honum það að hann hætti við að spilla slægjum hennar sumarið áður, og ráðlagði honum að beita fé sínu í Kálfadal.  Þar reyndust þá þokkalegir bithagar þó haglaust væri annarsstaðar, og bjargaðist fé hans til vors þó víða félli fé hjá öðrum.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Kvígindisdalur  Álagablettur er frammi á túninu, sem bannað er að hreyfa við.  Einhverntíma var það samt gert og sýndist þá húsið vera í björtu báli.  (Snæbjörn J Thoroddsen; frásögn á Ísmús). 

Raknadalur  Þar er Ragnarshaugur; grjótrúst inni í túninu sem bændur þorðu ekki að hreyfa við.  (Magnús Jónsson; frásögn á Ísmús). 

 

Huldufólk og álfar

Valdimar Össurarson tók saman eftir ýmsum heimildum.

Huldufólk, ljúflingar, landdísir eða álfar

Allt eru þetta sömu verur undir mismunandi heitum.  Álfaheitið virðist vera upprunalegast; t.d. er fólki tamara að nota það í örnefnalýsingum.  Huldufólksheitið er komið til á síðari öldum, og hin eru líklega yngst.  Ætíð var talað um huldufólk í Kollsvík, en í öðrum hlutum hreppsins virðist fólki hafa verið tamara að tala um álfa.  Litið var á huldufólkið sem venjulegt fólk að öðru leyti en því að það var ósýnilegt og átti bústað í náttúrufyrirbærum.  Þó hafði það ýmsa yfirnáttúrulega eiginleika.  Það gat komist gegnum það sem manninum er hindrun; það gat komist af við allar aðstæður; það virtist fastheldið á forna siði og verklag; það gat ráðið forlögum fólks og það gat komið inn í drauma fólks, svo eitthvað sé nefnt.  Sumt fólk var gleggra en annað á huldufólk og margir þóttust verða varir við það á einhvern hátt; til dæmis búferlaflutninga þess.  Berdreymnu og forspáu fólki veittist sérlega létt að dreyma og ráða í vilja huldufólks. Mikið hefur vafalítið fallið í gleymsku frá þeim tíma er huldufólk bjó nærri hverjum bæ, að heita mátti. 
Nær öruggt má telja að huldufólkstrú er leifar af gömlu vættatrúnni sem nefnd var í upphafi fyrri kafla.  Hún hefur flutt til landsins með landnámsfólki og vart hefur það verið búið að velja sér sjálfu bústað er það hóf að greina bústaði huldufólksins í grenndinni.  Allir bæir urðu að hafa þessa ljúflinga og verndarvætti nærri sér.
Hér eru sagnir af nær 40 huldufólksstöðum eða kynnum mannfólks af huldufólki.  Öruggt má telja að þær sögur og þeir staðir hafa skipt hundruðum í hreppnum fyrr á tíð. 

Er þörf á huldufólki?
Huldurfólkstrúin hefur verulega látið undan síga á síðustu öld.  Nokkrir óvættir nútímans hafa reynst huldufólkinu þungir í skauti.  Einn er fólksfækkun og brotthvarf fólks úr sveitunum.  Huldufólkið fær því aðeins þrifist að fólkið haldi arfsögninni við.  Annar er nútíma afþreyingartækni og tímaskortur sem tröllríður samtímanum.  Nútíma þjóðfélag, með sínu velferðarkerfi hefur verulega ógnað hefðbundnu hlutverki huldufólks.  Og svo eru það bannsett nútímavísindin með sínar röksemdir.  Sá hvítvoðungur þykist hafa aðrar og betri skýringar á verkum og bústöðum huldufólksins en óteljandi kynslóðir forfeðra.    Fari svo fram sem horfir stefnir í algera útrýmingu huldufólks.  Endurreisn trúar á þessa verndara lands og fólks kann að reynast þjóðfélaginu, jafnvel mannkyni öllu, mikilvægasta vopnið í baráttunni fyrir verndun umhverfisins; jafnt loftslags sem sjávar og jarðar.

Börn lærðu að virða huldufólk
Í bernsku skrásetjara var mikil áhersla lögð á það frá hendi eldra fólks í Kollsvík að segja börnum til örnefna og um leið voru sagðar sögur af vættum þar sem þá var að finna.  Börnum var kennt að bera virðingu fyrir huldufólki og þeirra bústöðum; „það myndi launa fyrir sig“.  Aldrei urðu menn t.d. svo æstir í smalamennsku eða leikjum að höfð væri háreisti við Stórhól eða aðra huldufólksbústaði.  Þegar sveitirnar tæmast er enginn lengur til að segja til; hvorku um örnefni né helga staði í landinu. 

Uppruni huldufólks

 Einhverju sinni kom guð almáttugur til Adams og Evu.  Fögnuðu þau honum vel og sýndu honum allt sem þau áttu innanstokks.  Þau sýndu honum líka börnin sín og þótti honum þau all efnileg.  Hann spurði Evu hvort hún ætti ekki fleiri börn en þau sem hann þegar sá.  En hún kvað nei við því.  Sannleikurinn var hinsvegar sá að börnin voru fleiri, en hún var ekki búin að þvo hinum.  Þetta vissi guð auðvitað og segir:  „Það sem hulið er mér nú skal ávallt verða hulið fyrir mönnum“. Því er það svo að síðan hefur huldufólk verið að jafnaði ósýnilegir mönnum og býr í leyndum stöðum, svo sem hólum, klettum og steinum.  (Þjóðs. J.Á.)

=======================

Sjöundá

 Hólar þrír eru neðan við túnið á Sjöundá.  Gott fólk býr í innsta hólnum en vont í þeim ysta.  Ekki fer sögum af íbúum miðhólsins.  (Ingibjörg Júlíusdóttir; fráögn á Ísmús). 

Kirkjuhvammur  

„Utan til upp af Stakkaleiti eru frálausar hólstrýtur sem heita Helguhólar.  Þarna er álfabústaður, eða var, og ekki hafa þeir tilkynnt flutninginn ennþá.  Mýri fyrir neðan hólana heiti Helguhólamýri.  Hún nær einnig framfyrir hólana.  Þar upp af mýrinni eru Helguhólaflatir“  (Örn.skrá; Ívar Ívarsson). 

Stekkadalur

 „Kistur heita tvær djúpar lautir niður í Hólana (utantil við Stekkadal), austan og ofan við Hlíðarhvamm.  Þar er mikið stórgrýti en gott gras á milli steinanna.  Þarna er logn í öllum veðrum.  Kisturnar eiga að vera gamalt aðsetur álfa, enda mátti ekki slá þar eða rífa sinu.  Kistusteinn er mikið stórgrýtisbjarg ofan við Kistur; ekki ósvipað kirkju (álfakirkju)“  (Örn.skrá; Sigurvin Einarsson). 

Lambavatn  Í Skaufhólnum á að vera huldufólk.  Þar á einnig að vera grafið víkingaskip á hvolfi, samkvæmt gamalli sögn.
„Úti á Leitinu er steinn með holu í.  Kona ein lét þar jafnan mjólk í, og var hún ávallt horfin að morgni.  Talið var að huldufólkið hafi þegið þennan glaðning“.  (Vilborg Torfadóttir; frásögn á Ísmús). 

Keflavík 

Villurnar á Látraheiði.  Vordag einn snemma á 20.öld fór vinnukona í Breiðuvík inn að Lambavatni til að heimsækja móður sína sem þar bjó.  Hún lagði af stað heimleiðis í mildu veðri morguninn eftir, út Víknafjallsveg, en blindþoka var á fjallið er komið var upp úr Keflavík.  Ekki skilaði stúlkan sér heim að Breiðavík um kvöldið, og var þá farið að óttast um hana.  Næsta morgun var farið að Keflavík, en þar hafði hún ekki komið.  Nú var safnað liði og leit hafin.  Leitað var stanslaust í tvo daga, án þess að tangur né tetur finndist af stúlkunni.  Á þriðja degi töldu menn fullleitað og var stúlkan talin af.  Töldu menn líklegast að hún hefði villst í þokunni; gengið fram af bjargbrúninni og hrapað í sjó.  Á fimmta degi frá hvarfi stúlkunnar létti loksins þokunni.  Snemma dags verður fólk í Keflavík vart við mannveru þokast niður ytri hlíðarnar í átt að bænum.  Þarna var þá komin stúlkan týnda, og mjög af henni dregið sem vonlegt var.  Hún hafði gengið niður úr sokkum og skóm en óslösuð var hún að öðru leyti.  Hún var þegar háttuð ofan í rúm og lá þar vikutíma.  Stúlkunni sagðist svo frá sínu ferðalagi að hún hefði lengi gengið í þokunni á fjallinu, en alltaf talið sig vera á réttri leið.  Loks varð hún þreytt mjög og eftir að hafa maulað nesti sitt lagðist hún til svefns.  Hana dreymir þá að til hennar kemur álfkona sem ráðlagði henni að hafa sokkaskipti fyrir svefninn og síðan aftur þegar hún vaknaði; þá væri hún alltaf í þurru á fótunum.  Varaði hún hana við að ganga á sjávarhljóð þó hún heyrði það.  Stúlkan fór að ráðum álfkonunnar það sem eftir var ferðalagsins.  Ekki áttaði hún sig þó á staðháttum fyrr en þokunni létti.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Álfkona launar greiða.  Hjón er eitt sinn bjuggu í Keflavík voru fátæk, en áttu eina kú og nokkrar kindur.  Eitt sinn undruðust þau það að kýrin fór að mjólka mun lakar um tíma.  En um veturinn dreymir hana að álfkona kemur til hennar með skál og segir að hún hafi mjókað kúna hennar daglega sem nam skálinni.  En hún muni reyna að launa henni það með því að hún muni líta eftir kindunum hennar næsta vor.  Reyndist það vor meira lán yfir kindunum en endranær, því hún missti ekki eina einustu kind og flestar urðu þær tvílemdar.  (Hafliði Halldórsson; frásögn á Ísmús).

 Í Svarthamragili býr huldufólk.  Huldufólksstúlka sem þar bjó leitaðist einhverntíma eftir því að fá mann með sér í klettinn.  (Kristján Júlíus Kristjánsson; frásögn á Ísmús). 

Hvallátrar 

Huldukonan á Selinu.  „Á Seljadal (ofan Látrabjargs) heitir Sel.  Þar eru tættur eftir sel sem notað var fram til 1893… Þrjár konur voru á selinu; ein frá hverju býli, en ekki annað fólk…  Sagt var að á selinu væri huldufólk.  Eitt sumar var það að önnur kýrin var alltaf þurr annars vegar.  Þegar ráðskonan (móðir Daníels) var komin heim dreymdi hana konu sem kvaðst hafa mjólkað kúna á móti henni um sumarið, því hún hafi verið mjólkurlaus.  Hún kvaðst að vísu vera fátæk og ekki geta launað henni í neinu, en skuli þó sjá til þess að hún verði ekki mjólkurlaus í sínum búskap; og gekk það eftir“  (Örn.skrá; Daníel Eggertsson).  Móðir Daníels Eggertssonar var síðasta selkonan. 
Gestur Össurarson nefndist maður sem fluttist að Látrum úr Breiðafjarðareyjum (líklega um eða fyrir 1900).  Hann giftist ekki en var vinnumaður á Húsabæ.  Eitt sinn er Gestur kemur í Selið sér hann að dyr eru hálfopnar, en venja var að binda þær aftur til að fé lokaðist ekki þar inni.  Bregður honum í brún er hann lítur inn, en ung og falleg kona liggur þar í fleti; klædd aðskornum fötum úr bláu efni.  Slæðu hafði hún fyrir andlitinu.  Hann trúði vart sínum augum; fer út en þegar hann lítur aftur inn liggur konan þar enn.  Er hann nálgast rúmið og hyggst snerta hana dregur úr honum allan mátt og honum finnst að sé að líða yfir sig.  Hljóp hann þá út undir bert loft og lagði ekki í að gá í þriðja sinnið.  Enginn kannaðist við mannaferðir á Selinu í þetta sinn, utan hann einan. (Arnfríður Erlendsdóttir; frásögn á Ísmús.  Einnig Ásgeir Erlendsson; Ljós við Látraröst). 
Illa átti að fara ef kýr voru ekki farnar af selinu áður en nítján vikur voru liðnar af sumri. 

„Í túni Húsabæjar er hvilft sem heitir Þrælagróf.  Liggur hún inn í svonefnda Bælabrekku.  Þar hrekst aldrei hey, en bóndinn verður að slá það sjálfur.  Bælabrekka er þvert yfir Bælið; liggur í norður-suður.  Bæli er slægjuland fyrir neðan Tröllhól.  Þar á að búa huldufólk. 

Tröllhóll er geysistór að ummáli.  Uppi á honum er sléttur blettur sem ekki má hreyfa“.  (Örn.skrá; Daníel Eggertsson). 
Ekki er vitað um nafngjafa Tröllhóls, en konu eina dreymdi að hann myndi heita eftir tröllskessu.  Jón Magnúson bóndi á Hvallátrum tók eitt sinn þökur á Tröllhólnum er hann var að gera séttur þar nærri.  Stuttu síðar missti hann tvo hesta.  Annar, foli sem Þórður sonur hans átti að fá í afmælisgjöf um vorið og gekk úti í Keflavík fótbrotnaði í urð en hinn fór framaf Bjarginu,  Einnig missti hann nokkrar kýr.  Taldi hann að þetta væri vegna torfskurðarins á Tröllhól og snerti hann ekki eftir það.  Berdreymna konu (Gróu) hafði dreymt álfkonu sem sagði að þarna hefði Jón farið illa að ráði sínu.  Hann hefði tekið torfið af þakinu og nú væri hús sitt farið að leka; hann væri ekki búinn að bíta úr nálinni með það.  (Ásgeir Erlendsson; frásögn á Ísmús). 

Álfkonan á Nesinu.  Þórður á Látrum sagði að eitt sinn er hann kom að fjárhúsunum á norður Nesinu ásamt fleira fólki kom þar út prúðbúin kona.  Þeim brá nokkuð við, því ekki þekktu þau hana.  Skyndilega leystist þessi sýn upp fyrir augunum á þeim og hvarf meðan fólkið horfðu á.  Þessi sama kona birtist Þórði stundum eftir þetta, einkum til að gera honum aðvart um hættur.  Í eitt sinn ætlaði Þórður í bjargsig til eggja, en nóttina áður dreymir hann huldukonuna, sem bað hann að fara varlega daginn eftir.  Þórður fór að því ráði og leysti sig ekki úr vaðnum í bjarginu þar sem þó var vani að gera það.  Svo vildi til er sigum var að ljúka að honum verður litið upp og sér þá stein falla og stefna niður með vaðnum.  Tókst honum með naumindum að forða sér, en taldi það hafa bjargað lífi sínu að hann var á verði vegna viðvarana álfkonunnar.  (Þórður Jónsson; frásögn á Ísmús).

Landdísarsteinn.  Á vef fornleifafræðingafélags Íslands ritar Gísli Már Gíslason þessa færslu 31.03.2012:   „Landdísarsteinn er á Hvallátrum. Hann er í gilinu sem vorleysingar mynda og liggur ofan af Látradal og niður í sjó. Þar sem göngubrúin liggur yfir gilið (fyrst reist á stríðsárunum) við Húsabæ (þar sem Þórður Jónsson á Látrum bjó), og er steinninn í norðanverðum bakkanum þar sem hann er brattastur. Hann er undir brúnni að utanverðu. Steinninn er eins og nokkur stór klettur, en lábarinn (búngar út úr stálinu), sennilega um 1,5 m í þvermál en gæti verið stærri, og sést aðeins í eina hlið.  Áður lá gönguleið fyrir neðan hann og síðan upp á bakkann þar sem hann er undir. Ekki vorum við krakkarnir hræddir við steininn, okkur skildist á fólki að landdís væri góður vættur“.  (Gísli Már Gíslason; vefur Fornleifafræðingafélags Íslands).

Breiðavík 

Heyskapur álfa.  Einhverju sinni sá kona í Breiðuvík heybandslest af hestum þokast upp Hjallagötuna, en svo heitir hestavegurinn upp á Breiðinn.  Þar kannaðist enginn við að mennskir menn hefðu verið á ferð.  (Vilborg Torfadóttir; frásögn á Ísmús). 

Láganúpur 

storholl

"Utan við Undirlendið í brún Hnífanna er Sandhellir, sem er dýsti hellirinn; 15-20 metrar inn.  Inn úr honum er afhellir, svo að þetta er líkast vettling með einum þumli, enda heitir afhellirinn Þumall…  Beint upp af Sandhelli er hóll, nokkuð frá brún.  Heitir hann Stórhóll.  Þar er álfabústaður, og samgangur mikill var talinn milli Sandhellis og Stórhóls…  Norður og niður undan Sandhelli er hellisskvompa sem nefnd er Gvendarhellir“  (Örn.skrá; Guðbjartur Guðbjartsson). 
Þarna á Hnífunum er all merkileg vættabyggð, sem eflaust helgast nokkuð af fjölbreytni landslags og jarðmyndana á svæðinu, auk vinalegs útsýnis um sjávarvoga og suðureftir núpum.  Lögun Stórhóls minnir mjög á kastala eða dómkirkju.  Frá honum eru fáeinar glennur fram á Hnífabrúnina, en efst í henni er Sandhellir; all djúpur og nokkuð víður, með löngum afhelli sem nefnist Þumall.  Í Sandhelli er 

sandhellirslétt gólf og þar inni sjást hleðslur, en hlutverk þeirra er ekki þekkt.  Framundan Sandhelli er hlein, og í henni hellar sem sjór gengur í og veldur tignarlegum sjávargosum við vissar aðstæður.  Stutt frá Sandhelli eru tveir hellar sem fært er í.  Annar er Gvendarhellir (líklega ekki kenndur við Guðmund góða) með svo þröngu opi að meðalmaður getur skriðið inn, en víðu hvolfi þegar inn er komið.  Hinn er Tröllkarlshellir sem um getur í næsta kafla.  Göng eru úr honum undir eða bakvið Kollsvíkina, í Tröllkonuhelli í innanverðum Blakk.  Tröllkarlinum nægir semsé ekki nábýlið við huldufólkið.  Ofan Trökkarlshellis er Grófarstekkur; fallegt gróið jarðfall með stekkjarhleðslum.  Allt bergið er holublásið á sérkennilegan hátt; með skápum, götum og sumt líkast fínriðnu víravirki.

grofarstekkurÚtför í Grófarstekk.  Grófarstekkur nefnist grösug kvos, stuttu heiman við Stórhól.  Í kvosinni er stekkur og þar er hellisskúti inn í bergið sem hlaðið er fyrir að hluta.  Jóhanna Ásbjörnsdóttir var þar að smala eitt sinn, ásamt annarri stúlku; Jónfríði Halldórsdóttur.  Þegar þær komu út á Grófarstekkinn heyrðu þær sunginn útfararsálm einhversstaðar nærri stekknum.  Stöldruðu þær um stund og hlýddu á eitt vers.  Var talið að þarna hefði farið fram útfararathöfn meðal huldufólks; e.t.v. íbúa Stórhóls.  (Frásögn Guðnýjar Ólafsdóttur á Ísmús). 

Strýtursteinn er allstór uppmjór seinn á miðri Brunnsbrekku, utanvert við Láganúpstún“  (Örn.skrá; Össur Guðbjartsson).strytusteinn naer  Alltaf var talið að Strýtusteinn væri aðsetur huldufólks.  Stuttu neðan steinsins var gerð fjárrétt á f.hl. 20.aldar og í notkun fram um 1970.  Var okkur krökkunum bannað að klórast upp á steininn og hafa þar óþarfa hávaða.  Annar stór steinn er þar nokkru heimar á Brunnsbrekkunni, svipaður að stærð.  Hann var einnig álitinn huldufólksbústaður. 

Þá var huldufólk talið búa í Grásteini á Torfamel (Júllamel/Samúelsmel), sem þar er sérkennilega strýtulagaður og stakur í miðju túni.  (VÖ). 

Huldustúlka falar mann til sjóróðra.  Ólafur Ásbjörnsson var bóndi á Láganúpi 1895-1914.  Eitt sinn dreymdi hann að huldustúlka kæmi til sín.  Spurði hún hvort hann myndi fáanlegur til að róa með föður sínum, svo hún þyrfti ekki að róa sjálf.  En hann vildi ekki gera það.  Þrjár nætur dreymdi hann stúlkuna; alltaf í sömu erindagjörðum.  Eftir þetta töldu menn sig sjá huldubát framundan Hnífunum, við fiskiróðra.  (Frásögn Guðnýjar Ólafsdóttur (Ásbjörnssonar) á Ísmús). 

Gullhringnum skilað.  Ólafur Ásbjörnsson var eitt sinn í grjótnámi ofan bæjarins á Láganúpi, en þar er þýft.  Þegar hann kastar einum steininum missir hann gullhring af fingri sér.  Hann sá á hvaða þúfu hann lenti og hugsaði sér að taka hann í lok verksins, en þá fannst hringurinn ekki; hvernig sem leitað var.  Það var svo árið eftir að kona hans er á gangi á þessum slóðum.  Sá hún þá glampa á hringinn á sömu þúfunni og bóndi hennar hafði þráfaldlega áður leitað.  (Frásögn Guðnýjar Ólafsdóttur (Ásbjörnssonar) á Ísmús). 
Svipuð atvik komu iðulega fyrir á Láganúpi.  T.d. kunni Sigríður Guðbjartsdóttir, sem síðar bjó á Láganúpi, að greina frá mörgum slíkum atvikum og sagðist alveg vera hætt að kippa sér upp við það að hlutir hyrfu.  Huldufólkið hefði einfaldlega þurft að fá þá lánaða; og aldrei brást að huldufólkið skilaði því að lokum; fyrr eða síðar.  Er það jafnan viðkvæði í Kollsvík þegar hlutir týnast, að „nú hafi huldufólkið þurft að fá þá lánaða“.

Álfkonan í Klettakví.  Bæirnir Grundir og Láganúpur áttu saman fjárrétt niðri við Garðana fyrir neðan Grundatúnið.  Það var eitt sumar að allt fólk af báðum bæjum eru í réttinni við aftekt.  Sér það þá hvar kona kemur gangandi utan af Hnífum, sem eru háir sjávarklettar vestur af Grundabænum. Þar er fjölbreytt landslag með bollum, lautum og klettanefjum í brúninni. Var þar talin huldufólksbyggð. Sá allt fólkið sem í réttinni var þessa konu og var hún nokkuð dökkklædd og stórvaxin. Hún hvarf svo fyrir augum þess, þar sem heitiðr Klettakví, og hefur ekki sést síðan.  Klettakví er áberandi ferhyrnt grasi gróið vik upp í klettana heiman Þúfustekks.  Var spurnum haldið um ferðir konu, en enginn kannaðist við mannaferðir á þessari leið þennan dag. Fá ár eru síðan frænka mín rifjaði upp þessa sögu en hún var unglingur þegar þetta var og sagðist hafa horft á þessa konu eins og aðrir og varð þetta minnisstætt. Hún hét Guðný Ólafsdóttir og dó fyrir örfáum árum. Fleiri höfðu sagt mér þetta af þeim sem sáu það.  (Sigríður Guðbjarsdóttir á Láganúpi; svör til þjóðhd. Þjóðminjasafnsins).

Kollsvík 

Árún og hvarf Gísla.  „Ofan við bæinn í Kollsvík er grasbrekka undir Núpnum sem heitir Bekkur.  Heimast á Bekknum er stór steinn sem nú er mikið siginn í jörð og sandur fokið að honum; hann heitir Árún.  Þar var sagt að byggi álfkona.  Sú saga var mér sögð að þegar Gísli bróir föður míns (f. 1863-d. 1948) var lítill drengur hafi hann týnst, en fannst fljótlega norður á Bekk og sagðist vera að fara á eftir grænklæddu konunni sem ætlaði að lána sér lyklana sína.  Gísli þótti ekki vera samt barn eftir þetta ævintýri “  (grein í Sumarliða pósti, Ingvar Guðbjartsson).   Sigríður Guðbjartsdóttir og fleiri hafa heyrt söguna þannig að Gísli hafi ekki fundist fyrr en eftir 2-3 daga.  Þá hefði sést til hans uppi á Gíslahillunni, sem er gangur neðst í Núpnum; ofan steinsins Árúnar. (Svör Sigríðar Guðbjartsdóttur til Þjóðh.deildar Þjóðm.safns). 

Bergin eru klettahöfðar með graslautum á milli, sunnan Kollsvíkurtúns og ofan Stöðuls; uppi undir hlíðinni undir Húsadal.  „Bergin eru grasi vaxin ofan.  Í Bergjunum átti að vera huldufólk.  Bergisurðir eru upp af Bergjunum; nær brekkunni“  (Örn.skrá; Guðmundur Torfason; Vilborg Torfadóttir). 
„Móðir mín sagði að bróðir sinn hefði einhverntíma hlaupið í átt að Bergjunum.  Hann sagði að stúlkan hefði verið að hringla lyklunum og vildi fá sig til sín.  Aðrir gátu öngva stúlku séð“.  (Vilborg Torfadóttir; frásögn á Ísmús). 

Rauðukususteinn nefnist stór steinn sem nú er í vegkantinum gegnt fjárréttinni hjá Tröð.  Í honum var talið búa huldufólk.  Steinninn stóð áður á litlum hól sem nefndist Gamlistöðull, en hann fór undir veginn.  Um leið var Rauðukususteinn færður lítið eitt úr stað, en þó reynt að gera það af fyllstu tillitssemi við huldufólkið.  Virðist það ekki hafa kippt sér upp við breytinguna; a.m.k. gekk vegagerðin áfallalaust (VÖ). 

Álfalænur (álfabrautir) sjást iðulega á sjó, í Útvíkum sem víðar.  Þetta eru sléttar rákir sem skera sig greinilega úr gáróttum sjó beggja vegna við.  Talið er að þetta séu kjölför eftir báta huldufólks/álfa.  Rákirnar koma iðulega frá landi og liggja til hafs; oft greinóttar.  Oft ber mest á þessu í flæði og virðist því sem huldufólk rói í flæðina, eins og vemönnum var títt.  Ekki fréttist af aflabrögðum þeirra, en gamla fólkinu varð stundum að orði er brautirnar sáust:  „Þeir eru þá rónir ljúflingarnir“.    (Gunnar Össurarson og Ásgeir Erlendsson; frásögn á Ísmús). 

Huldukona fær mjólk úr búri.  Einhverntíma á 19.öld skeði það að húsfreyja varð vör við að mjólk rýrnaði óeðlilega hverja nótt í búrinu.   Skildi hún ekki hvernig á þessu gæti staðið.  Hún bað vinnukonur sínar að vera viðstaddar þegar hún hnýtti aftur búrið.  Átjan hnúta hnýtti hún á snærið, en að morgni var hver einasti þeirra sundur skorinn.  Enn hélt rýrnunin áfram.  Sá húsfreyja þá ekki annan kost en þann að biðja bónda sinn að smíða lás fyrir búrið.  Því næst læsti hún því og gætti lykilsins vandlega yrir nóttina.  Brá þá svo við að lásinn var óhreyfður og engin rýrnun varð í búrinu.  En næstu nótt dreymir húsfreyju að til sín komi huldukona.  Segir hún: „Illa gerðir þú að læsa búrinu þínu.  Því bóndi minn var veikur og gaf ég honum mjólkina til að hann næði bata.  Þú hefðir fengið það borgað hefðir þú haft búrið áfram opið“.  Mikið sá húsfreyja eftir þessari lokun, en ekki urðu frekari eftirmál af henni af hendi huldufólksins.  (Frásögn Dagbjartar Torfadóttur á Ísmús).

Sellátranes 

Stúlka hverfur í Reimalág.  „Inn af Birgishjalla er stór steinn, Huldusteinn.  Er hann rétt ofan við fjárhúsin niður af Reimalág.  En Reimalág er talin draga nafn af því að hér týndist eitt sinn stúlka og fannst ekki neitt af henni nema reim ein í Reimalág“  (Örn.skrá; Sveinn Jónsson). 

Vatnsdalur  

Álfasteinar í Vatnsdal.  „Innan Grjótvarða, inn undir dalbotni (Vatnsdals) eru tveir stakir steinar sem nefndir eru Álfasteinar“  (Örn.skrá; Ólafur E. Thoroddsen).   „Þar búa álfar.  Börn báru virðingu fyrir steinunum; klifruðu ekki upp á þá og fóru ekki of nærri ef þau voru ein á ferð.  Á öðrum steininum er skráargat sem fullorðnu fólki finnst vera smáhola í steininn, en börn eru á öðru máli.  Þegar ég var kúasmali; 8-10 ára, gat ég ekki betur heyrt en það kæmu hljóð frá steininum“  (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen). 

Steinn er í Vatnsdal sem ekki má hreyfa.  Eitt sinn var það þó gert.  Vildu sumir setja drukknun tveggja ungmenna stuttu síðar í samband við það.  (Kristján Júlíus Kristjánsson; frásögn á Ísmús).  (Nefnir ekki nafn steinsins)

Sauðlauksdalur 

Sönghóll er grjóthóll, mikill álfabústaður, neðanvert við Hrísmúla (í Dalverpi), niður með ánni “  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).    

Grænafellshorn heitir austurendi Grænafellsins, á milli Steinbrekknanna og þar upp eftir.  Gamlar sagnir segja þar hulda vætti á ferð og ótrúlega margir hafa heyrt þar kallað til sín, hafi þeir farið ógætilega“ (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).

Steinarnir hlutlausu.  Þétt við heimastekkinn voru tveir steinar mjög stórir; heljarbjörg.  Þeir voru friðhelgir og skyldu látnir hlutlausir, því þeim fylgdu álög álfa og trölldóms langt aftan úr forneskju“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).    

Hvalsker 

Konungsstaðir er heiti á fornu býli í Hvalskers landi; nokkru innan Kots en utan Grænhóls; skammt ofan núverandi þjóðvegar.  Konungsstaðir eru taldir hafa farið í eyði um 1600 eða fyrr.  Árni Magnússon segir í Jarðabók sinni að býlið sé ýmist nefnt Konungsstaðir eða Konálsstaðir og „fabúlera menn að á Konálsstöðum hafi fólk horfið (burt heillast) og því hafi jörðin eyðilagst“.  (Jarðabók ÁM/PV). 

Grænhóll er stór hóll stuttu innan Konungsstaða; neðan vegar.  Munnmæli herma að í honum sé kaupskip á hvolfi og er trúlegt að lögun hólsins hafi kallað fram þá sögu.  Þar er líka sagt að stundum sæjust langeldar loga á fyrri tíð, er dimma tók.  (Þjósögur og þættir). 

Skápadalur 

Strokkað í Búverkahól.  „Utast á Breiðahjalla (ofarlega í hlíð milli Skápadals og Kots) á landamerkjum er Búverkahóll.  Sagt er að strokkhljóð hafi eitt sinn heyrst í honum (skrá Helga Guðmundssonar).  Upp af Búverkahól er blautt svæði sem heitir Búverkamýri“  (Örn.skrá; Ásbjörn Ólafsson o.fl).

Huldufólksslægur í Mórubletti.  Mórublettur nefnist slægjublettur á fjallinu fyrir ofan Slápadal.  Sú var trú manna að blett þennan mætti aldrei slá, og var hann eignaður huldufólki.  Bóndi einn í Skápadal réðst samt í að slá Mórublett þegar lítið var um gras.  Daginn eftir gerði fárveður og gengu þá hinar mestu þrumur og eldingar sem komið höfðu í manna minnum.  Heyið af Mórubletti fauk allt út á sjó og hefur bletturinn ekki verið sleginn síðan.  (Þjóðsögur og þættir).      

Vesturbotn  

Huldukýr.  Brynjólfur í Litlanesi kom sem gestur að Botni eitt sinn síðla um sumarkvöld og spurði Kristínu Magnúsdóttur húsfreyju hvort hún væri ekki enn búin að láta inn kýrnar sínar.  Hafði hann þá séð kýr í Suðurbrekku sem mjög líktust heimakúnum.  Kýr voru þá allar í fjósi, og þótti heimamönnum einsýnt að um huldukýr hefði verið að ræða.  (Guðný Ólafsdóttir í viðtali á Ísmús). 

Kubbi huldufólks.  Amma Guðnýjar Ólafsdóttur var eitt sinn að smala þar sem heitir Strengbergslautir, er hún gekk fram á „kubba“ (ask), fullan af áfum og með smjörklípu í.  Hún ætlaði að taka þetta með sér á bakaleiðinni, en þá var það horfið.  Var álitið að askurinn hefði tilheyrt huldufólki.  (Guðný Ólafsdóttir í viðtali á Ísmús). 
Frásögnin er til í öðrum búningi:  Stúlka sat hjá kvíarám frammi í Skógi.  Þar er gangur sem heitir Strengberg.  Hún fann þar ask með skyri og mjólk sem hún gerði sér gott af, enda mjög svöng orðin.  Talið var að þetta væri frá huldufólki komið en engin eftirmál urðu af þessu.  (Davíð Davíðsson; frásögn á Ísmús). 

Raknadalur 

Hella huldukonunnar.  Sel er utarlega á Raknadalshlíð, stuttu innan Altarisbergs sem þar er í efri klettum.  Búið var á Selinu eitt sinn.  „Draumur er til í sambandi við Selið.  Kristleif Björnsson dreymdi eitt sinn er hann hafði tekið hellu eina við Selið, að huldukona kom til hans og sagði; „Láttu vera kjura helluna mína eða þú skalt hafa verra af“ “  (Örn.skrá; Magnús Jónsson).    
„Bót fyrir utan túnið með fjörunni í Raknadal heitir Álfabót“  (Örn.skrá; Magnús Jónsson).   
 

Tröll og tröllskessur

Valdimar Össurarson tók saman eftir ýmsum heimildum.

Sálin í landinu

hella trollTröll hafa verið nátengd landinu og umhverfinu aftan úr grárri forneskju.  Upphaf þeirra má áreiðanlega rekja til náttúruvættatrúar frumstæðra þjóðflokka; löngu áður en huglægir guðir komu til sögunnar, t.d. norræn goð eða austurlensk eingyðistrú.  Það hefur eflaust helst haldið lífi í tröllum að þau eru hluti af landinu sjálfu, ásamt þeirri tilhneygingu mannsins að leita að persónueinkennum í öllum hlutum.  Klettadrangur kann að minna á mann, en er það þó ekki; hellisskúti kann að minna á mannabústað þó hann sé óvistlegur.  Stóreflis björg hljóta að hafa verið færð af tröllum; sauðfé sem hverfur á dularfullan hátt hefur orðið tröllum að bráð.  Og nærtækt er fyrir kófdrukkinn ferðalang að skýra útganginn á sér við heimkomuna á þann hátt að hann hafi naumlega bjargast frá tröllskessu.

 Tröll eru allt annars eðlis en huldufólk.  Þó þau beri nokkuð svipmót af mönnum og gangi á tveimur fótum eru lifnaðarhættir þeirra og innræti all frábrugðið.  Þau eru stór og grófgerð, bæði í útliti og hugsun.  Vitsmunir eru þeim ekki til trafala, eins og kemur fram í lýsingunni „tröllheimskur“, en trygg eru þau vinum sínum, eins og liggur í orðunum „trölltryggur“ og „tryggðartröll“.  Sjaldan koma þau fram sem verndarvættir, þó yfirleitt geri þau mönnum ekki mein.  Þeim er þó uppsigað á presta og einnig þá sem sýna náttúrunni yfirgang og óvirðingu.  Tröll eru næturgöltrarar og þola ekki dagsbirtu og sólskin.  Hinsvegar geta þau verið dugleg að bjarga sér, eins og Guðmundur góði fékk að vita er hann fékk framtal bjargbúans vegna lóðaúthlutunar í Látrabjargi.  Þau eru meistarar í jarðgangnagerð, eins og t.d. sést á því að göng liggja milli Tröllkonuhellis í innanverðum Blakk og Tröllkarlshellis í Hnífum; langtum eldri en Arnarnessgöng og umfangsmeiri en Dýrafjarðargöng.  Milli huldufólks og trölla ríkir ágæt sátt, eins og sést af nábýli þeirra í Hnífunum, en steinsnar er frá Tröllkarlshelli í huldufólkskirkjuna Stórhól. 

(Myndin er málverk sem Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi málaði á steinhellu, og sýnir tröll flýja náttúruhamfarir).

=======================

Rauðisandur  

Djúpir eru Íslands álar.  Sagt er að tröllkona nokkur hafi eitt sinn ætlað að vaða til Íslands frá Noregi.  Reyndar var henni það fullkunnugt, eins og öðrum, að milli landanna væru nokkuð hafdýpi.  En þegar grannskessa hennar vildi letja hana til fararinnar sagði hún:  „Djúpir eru Íslands álar, en víst munu þeir væðir vera“.  Þó taldi hún að einn állinn væri svo djúpur að þar gæti hún kollvöknað.  Eftir það lagði hún af stað.  Þegar hún kom að þessum djúpa ál hugðist hún ná í skip sem þar var á siglingu og styðjast við það yfir álinn.  En það skeði samtímis að hún missti skipsins og varð um leið fótaskortur.  Hún steyptist því í álinn og drukknaði.  Var það lík hennar sem rak á Rauðasandi hér eitt sinn; og var það svo stórt að ríðandi maður náði ekki með svipunni upp undir knésbótina kreppta, þar sem hún lá stirðnuð og dauð í fjörunni.  (Þjóðsögur Jóns Árnasonar). 

Melanes 

„Í Stóravatn renna þrír lækir sem allir eru nefndir Grýlufossar.  Um þann suðvestasta af þeim eru merkin móti Saurbæjarlandi“ (Örn.skrá; Ívar Halldórsson).  Engin frekari skýring er þekkt á nafninu.

Lambavatn 

Skessan í Síðaskeggi.  „Upp af Grjótrifinu (utan Skaufhóls)  er slétt brík sem heitir Síðaskegg.  ‚i því er gat upp við brún.  Úr Síðaskeggi kom skessan er elti séra Jón“  (Örn.skrá; Ólafur Sveinsson). 
Séra Jón Ólafsson (f.1640-d.1703) var prestur við Saurbæjarkirkju og bjó fyrst á Melanesi en lengst af á Lambavatni , eða frá 1679 til 1703. Eggert ríki Björnsson í Saurbæ kom honum til náms, en vígður var hann af Brynjólfi Sveinssyni Skálholtsbiskupi árið 1669. Frá dauða Jóns er nánar sagt hér síðar í kaflanum um örlagastaði, en hann varð bráðkvaddur á Krossholti á Hnjótsheiði.  Séra Jón var merkur fræðimaður og skáld og ýmislegt er til af ritum hans.  Aldrei sat hann kirkjustaðina, en bjó á Melanesi og Lambavatni og átti hlut í báðum jörðunum.  Ekki þótti hann drykkjumaður, þó ölvaður væri hann á dauðastundinni, eins og frá segir hér síðar í kaflanum um örlagastaði í Hnjótslandi. 

hella bidduminTröllskessa býr í Síðaskegginu.  Hún leitaði einatt færis á að ná í prest er hann átti leið þar framhjá.  Eitt sinn sér hún prest koma úr embættisferð utan úr sveitum.  Snarast hún þá út úr bústað sínum og fer stórstíg ofan hlíðina.  Jón sá til hennar og beið þá ekki boðanna. Skessan hlunkaðist hröðum skrefum á eftir Jóni og kallaði í sífellu: „Bíddu mín séra Jón“!  En hann hlýddi því ekki, heldur keyrði hest sinn sporum og reið sem mest hann mátti.   Hún nær aldrei nema í taglið á hestinum.  Þegar hann kemur að Saurbæ, stekkur hann af baki og hesturinn dettur samstundis niður dauður af mæði. Jón kemst síðan inn í sáluhliðið og hringir þar klukkunum sem mest hann mátti. 
Þegar skessan heyrði klukknahringingu Jóns snarstoppaði hún á hlaupunum og setti löppina svo fast í kirkjugarðinn að úr honum hrundi.  Mælti hún þá: „Stattu aldrei argur“, og reyndust það áhrínsorð.  Veggurinn stóð ávallt illa á þessum kafla; hvort sem það nú var álögum skessunnar að kenna eða mýrlendinu sem undir honum er.  (VÖ, eftir Sigríði móður sinni).  Sigríður á Láganúpi festi þetta ævintýri á málaða steinhellu, líkt og fleiri þjóðsögur; sjá hér til hliðar.

Sagan hefur einnig verið sögð með öðru upphafi:
„Hóll er á Rauðasandi sem er í laginu eins og skip á hvolfi og heitir hann Skaufhóll. Sagt var að öðrum megin í Skaufhól byggju góðar vættir en hinu megin slæmar. Séra Jón var eitt sinn að fara til að messa á Rauðasandi og reið þar framhjá. Um leið og hann reið framhjá verður honum að orði:  „Nú eru allar dísir dauðar“. Þá heyrir hann inni í hólnum:   „Ekki er nú víst að svo sé“.  (Guðrún Jóhannsdóttir; frásögn á Ísmús; einnig handrit GK.).  Á eftir fer fyrrgreind frásögn um eltingarleikinn að Saurbæjarkirkju.

„Þar uppi í klettunum (innan við Kambagil) er Karl og Kerling.  Þetta eru bríkur og gjótur á milli; frálausar í miðjum klettum“  (Örn.skrá; Ólafur Sveinsson). 

„Milli Ytra- og Heimraleitis er stór steinn sem kallaður var Álfa- eða Grýlusteinn.  E.t.v. er það nafn búið til af krökkum“  (Örn.skrá; Gylfi Guðbjartsson). 

Keflavíkur- og Breiðavíkurbjarg 

Gorgán eða Gorgánshlein nefnist hlein innan Lambahlíðar, en um hleinina eru landamerki Keflavíkur og Breiðavíkurbjargs.  Ofan hennar eru Gorgánsstallar, þar sem nokkuð verpur af svartfugli.  Gorgán er ekki algengt meðal íslenskra örnefna og er líklega ekki íslenskt að uppruna, þó sumir hafi velt því upp að það sé hljóðbreytt heiti af gargi fugla.  Gorgán er nafn óvætta í grískri goðafræði; þriggja systra sem breyttu öllum lífverum í stein sem mættu augnaráði þeirra.  Tvær voru taldar ódauðlegar; Stheno og Euryale, en ekki Medúsa sem Perseus drap.  „Gorgon“ er notað í enskri tungu sem heiti á óvættum eða tröllum.  Spurning er hvernig þetta erlenda óvættaheiti festist við hleinina undir Bjargi, sem vart getur talist ógnvænlegri en aðrar.  Hér er velt upp þeirri tilgátu að upphaflega hafi heitið verið notað um hinn sérstæða stapa frammi í sjó undan Skjaldargjá, sem nú heitir Hestur og boðana nærri honum sem nú heita Bátar og draga nafn af lögun.  Þær fara á kaf um stórar flæðar.  Hestur er í laginu eins og skip undir seglum, enda var sagt að hann væri ræningjaskip í álögum, en bátarnir liggja aftur af honum.  (Örn.skrá; Hafliði Halldórsson).  Hesturinn er hár sem þriggja til fjögurra hæða hús og situr fugl í honum.  Hægt er að ganga upp í hann eftir sorfnum þrepum frá hafi í röndinni.  Staparnir þrír eru stuttu innanvið Gorgánshlein, og vel má vera að heitið hafi færst á milli fyrr á öldum.  Varðandi nafngjafann má hafa það í huga að einn fyrsti landnámsmaður í þessum landshluta; Kollur í Kollsvík, var lærður í klaustrinu á Iona á Suðureyjum ásamt Örlygi fóstbróður sínum, en klaustrið var þá mesta menntastofnun vesturlanda.  Kolli hefur áreiðanlega verið kunnugt um vætti grískrar goðafræði og kann að hafa gefið stöpunum þetta nafn er hann sigldi fyrir Bjarg (þá nefnt Barð); e.t.v. til fundar við Ármóð rauða Þorbjarnarson sem nam Rauðasand (VÖ).

Látrabjarg 

Hvernig Jötunsugu urðu til.  „Niður af Lofthillu (vestan Kálfaskorar í Bjarginu) eru Jötunsaugu; 80-90 faðmar niður á þau.  Það eru allstórir strokklaga hellar eða skútar sem mjókka inn, með þunnum vegg á milli.  Er þar svo loftlaust að ekki er líft.  Hlaðið var fyrir skútana svo ekki er hægt að fara nema takmarkað inn.  Þetta blasir við af sjó; eins og augntóftir að sjá“  (Örn.skrá; Daníel Eggertsson).  

Eftirfarandi sögn er af tilurð Jötunsaugna:
„Fyrir löngu bjó jötunn einn ferlegur þarna í berginu um Miðlandahillu.  Hann var með stærstu jötnum á Íslandi; höfuðstór mjög, augnljótur og nefmikill.  Þegar aldur færðist yfir hann gerðist hann þungfær og stirður til að afla fugls og eggja sér til viðurværis, sem þó hafði verið honum leikur einn meðan hann var upp á sitt besta. Hann varð nú að láta sér nægja að skreiðast fram á Miðlandahilluna og láta greipar sópa um það sem næst var.  En er fram liðu stundir eyddist fugl í næsta nágrenni og karl fékk ekki lengur fylli sína.  Eina bjarta og hlýja vornótt, þegar sulturinn svarf sem fastast að honum fikraði hann sig upp á syllu rétt ofan við bæli sitt.  En þegar þangað var komið var hann orðinn svo þreyttur að hann settist niður; hallaði sér upp að berginu og ætlaði að hvíla sig um stund.  En hann sofnaði og svaf lengi.  Og þegar morgunsólin ljómaði um bjargvegginn steinrann tröllið og varð hluti af berginu; allt nema augun og heilabúið.  Fyrir löngu hafa augun að engu orðið en eftir standa augnatóftirnar og hol hauskúpan“  (Látrabjarg; Magnús Gestsson).
á seinni hluta 19.aldar sigu tveir fullhugar niður í Jötunsaugu; Árni Thoroddsen á Hvallátrum og Jón Jónsson frá Vatneyri.  Sigið var erfitt 80 faðma loftsig.  Fremst voru haugar af fugladriti og sáu þeir að gólfinu hallaði ofan í mikið gímald.  Vegna ljósleysis varð þó ekki meira úr könnunarleiðangri þeirra.  Þetta mun vera eina sigið sem vitað er um í Jötunsaugu; aðrar mannlegar heimsóknir hefur þessi mikli jötunn enn ekki fengið.

Tröllkonuvaður nefnist berggangur milli Barðs og Kálfaskorar (Ísl; sjávarhættir V; eftir frás. Jóhanns Skaptasonar í Árb.FÍ.  Örnefnið er ekki að finna í örnefnaskrá Hvallátra).

Guðmundur góði vígir Látrabjarg 

Um Djúpadal liggja mörk trölla og manna í Látrabjargi.  Heitir Heiðnakinn vestan (utan) Djúpadals en Kristnakinn er austan hans.  Í upphafi mannabyggðar á landinu var þessu öðruvísi farið.  Tröll höfðu setið ein að bjargnytjum frá örófi alda þegar menn hófu að sækja þangað fugl og egg.  Þau samskipti urðu all mannskæð, þar sem tröll vildu hafa sín matföng í friði og víluðu ekki fyrir sér að skera á vaði sigmanna og kasta í þá grjóti.   Kom iðulega fyrir, er sigamaður var niðri í bjargi, að skorið var á festina.  Þeir sem lifðu slíkt af sögðu að loppa (loðin hönd) latrabjargein mikil hefði verið rétt út úr bergstálinu og skorið á vaðinn.  Vaðir voru í þann tíð úr fléttuðum lengjum af rostungs- eða nautshúð.  Ein saga er til um slíkt tilvik á þeim tíma.  Þá var vaður skorinn svo í sundur að sigari treysti sér ekki í hann, heldur lét fyriberast á syllunni.  Heyrðist hann kveða þar: „Héðan kemst ég hvergi;/ halla ég mér að bergi“. 
Að ráði Látrabónda þess sem Gottskálk hét (að því er segir í Þjs.JÁ.) leituðu menn þá á náðir Guðmundar biskups góða er þá var þekktur af áhrifamiklum vígslum sínum; að hann veitti þeim lið er hann næst leggði leið sína í verstöðvar Útvíkna með lið sitt; á flótta sínum undan höfðingjaveldinu.  Guðmundur brást vel við, eins og endranær þegar bæta þurfti heilnæmi náttúrufyrirbæra og tryggja atvinnu- og umferðaröryggi.  Hann var bjargvígslum vanur og vílaði ekki fyrir sér að síga í tröllabjörg, eins og sannaðist í Drangey.  Hér lét hann sér þó nægja að fara á bjargbrún.  (MG telur í bók sinni Látrabjarg að þetta hafi gerst vorið 1220, en veturinn áður hafði biskup dvalið í Flatey á Breiðafirði).
Þegar á brúnina kom stefndi hann fyrir sig forsvarströlli bjargbúa og hótaði að flæma hann alfarið úr bjarginu með bænhita sínum.  Tröllið baðst vægðar og sagði:  „Einhvers staðar þurfa vondar kindur að vera“, en sama orðalag notuðu norðlensk tröll í Drangey.  Biskup sá á honum aumur og lét í veðri vaka að hæli gætu tröll fengið utan Djúpadals, þar sem mönnum er óhægast að nýta bjargið, en spurði hve mikið landrými hann þyrfti fyrir sitt hyski.  Því lýsti óvætturinn þannig:  „Tólf á ég skip fyrir landi; á hverju skipi eru tólf menn; hver maður hefur skutla tólf; fyrir hverjum skutli verða tólf selir; hvern sel sker ég niður í tólf lengjur; hverja lengju sker ég í tólf bita.  Verður þá eitt stykki á mann, og að auki tveir um totann.  Og teldu þar af herra“.  (Toti er annað heiti á trýni eða haus).  Biskup leysti þetta reikningsdæmi í skyndi og sá í hendi sér að heimiliströll á þeim bæ væru 2.987.714 tröll; hvorki fleiri né færri.  Þó allmiklu meira olnbogarými þurfi allajafna fyrir tröll en mann lét biskup nægja að úthluta öllum tröllaskaranum bjargið frá Saxagjá að utan; að Djúpadal að innan.  Spannar það tveggja kílómetra kafla af bjarginu þar sem það er hæst, og allt vestanvert kirkjubjarg Saurbæjar.  Er það vafalítið mesta þéttbýli sem sögur fara af á Íslandi.  Lagði biskup bann við því að nokkuð tröll færi útfyrir þetta svæði; Heiðnaberg, og sömuleiðis var mennskum mönnum ráðið frá því að nýta það.  Svæðið austanvið; Kristnukinn, gætu menn hinsvegar nýtt hér eftir með minni mannsköðum en áður (VÖ; stuðst við frásögn MG í Látrabjargi). 
„Löngu var það seinna en Guðmundur vígði Látrabjarg að fullhugi einn freistaði þess að fara í Heiðnabjarg; og var það á sjálfan Hvítasunnudag.  Var festin tólfþætt og hver strengur helgaður þeim ellefu postulum en hinn tólfti sankti Páli.  Þegar maðurinn var kominn ofan í festinni sást grá hönd koma út út berginu, sem skar á vaðinn svo allir fóru strengirnir í sundur; nema sá sem helgaður var sankti Páli; hann hélt.  Maðurinn kallaði til vaðarhaldaranna sem drógu hann upp heilu og höldnu.  En rétt í því að hann var kominn upp, hrundi bergið þar sem þeir stóðu“  (Látrabjarg; Magnús Gestsson eftir Þjóðs. JÁ).  Gísli Konráðsson segir frá sigara sem fór í Heiðnabjargið nokkur hundruð árum eftir sáttagerð Gvendar.  Brúnamenn urðu þess varir að festin varð allt í einu laus.  Er hún var upp dregin sást að í sundur voru allir þrír þættir hennar.  Vaðurinn var sýndur gömlum blindum manni á Látrum.  Eftir að hafa þefað af þáttunum kvað hann uppúr með það að tveir þeirra væru af óvætt sundur skornir en hinn þriðji af mennskum manni.  Að ráði hans var festi látin síga á sama stað ofan bjargið.  Þar niðri var maðurinn lifandi; hnýtti sig í vaðinn og bjargaðist á brún.  Sagðist hann hafa séð að festin myndi ekki þola þunga sinn eftir að óvætturinn skar tvo þætti, og skar því hinn síðasta sjálfur.   Tröllamergðinni í bjarginu virðist hafa hnignað allmikið gegnum aldirnar, því um aldamótin 1800 ákvað Björn Bjarnason bóndi á Látrum (f. 1766-d.1816) að hafa Gvendarsáttmála að engu.  Fór hann í Heiðnabjargið með sínum mönnum og varð ekki meint af.  (Þjóðsögur Jóns Árnasonar).  Sagt er að hann hafi kveðið eða látið kveða þakklætisálm til Drottins fyrir vernd hans eftir fyrstu ferðina.  (Vestf. Sagnir).  Eftir það hófust nytjar á þessum hluta bjargsins, en hann var þó alltaf talinn almenningur.  Nytjuðu menn t.d. svæðið inn af Saxagjá þar sem heitir Hælavöllur.  Einnig var farið ofanfrá í Hvanngjá og neðanfrá á Heiðnakast.  Nokkuð langt leið þó frá vígslum Guðmundar þar til menn áræddu að klífa á Heiðnakast sem er undir Heiðnukinn Djúpadals.  Fyrstur til þess mun hafa verið Jón Torfason á Hnjóti (d. 1901) sem var færasti bjargmaður sveitarinna á sinni tíð.  (Eyjólfur Sveinsson; Barðstrendingabók).  Geta menn svo velt því fyrir sér hvort þessi höfuðborg trölla á sunnanverðum Vestfjörðum muni aftur upp rísa, en vísast til verður það þó ekki fyrr en landslýður fer aftur að bera tilhlýðilega virðingu fyrir tröllum og þeirra tilveru.

Skessurnar á Djúpadal.  Einhverju sinni ráku sauðamenn tveir fé um vetur út á Djúpadal á Bjarginu.  Komu þar að skessur tvær og vildu grípa þá.  Þeir taka þá til fótanna og hlaupa í átt til Látrabæja.  Annar var frárri og komst fyrr til bæjar, en ekki vissi hann afdrif félaga síns.  Er hann var inntur fregna svaraði hann:  „Stóra Helga solið var,/ stáls er hniginn baldur./  Skelmisfullar skessurnar/ sköpuðu honum aldur“.  En Helgi hafði þó einnig sloppið frá skessunum og heyrðist nú kveða undir baðstofupallinum:  „Ýmist birtir eftir skúr;/ ýmsir fagna lýðir./  Heimtur tröllahöndum úr/ Helgi kom um síðir“.  (Látrabjarg; Magnús Gestsson eftir sögn Gísla Konráðssonar).

Skytta ein á Látrum hafði lengi stundað það að liggja fyrir refi út á Djúpadal, og var hann búinn að skjóta nítján.  Eitt sinn lá maðurinn í skothliðinu á dalnum og heyrði hann þá sagt í dimmri röddu Kristnukinninni:  „Skal hann lengi líðast“?  Þá er svarað í Heiðnukinninni:  „Látum hann fylla tuginn“.  Stökk skotmaður þá af stað og leist nú ekki á blikuna.  Fljótlega sér hann skessu ferlega á slóð sinni og fer hún mikinn.  Hann var klæddur kápu með silfurhnöppun.  Var það fangaráð mannsins að skera hnappana af kápunni; hlaða þeim í byssu sína og skjóta að flagðinu, sem fjarlægðist þá nokkuð.  En er saman dró skaut hann á ný, og átján skotum skaut hann að ófreskjunni; því síðasta við bænhúsið heima á velli.  Hikaði óvætturinn við hvert skot og slapp maðurinn við það að bænhúsið bar á milli.  (Látrabjarg; Magnús Gestsson eftir sögn Gísla Konráðssonar; og viðbætur Hafliða Halldórssonar; fráögn á Ísmús).   ).  Bænhúsið á Látrum stóð eflaust lengst hinna mörgu bænhúsa frá kaþólskum sið í Rauðasandshreppi.  Það var síðast notað sem geymsla, en ekki var lengra liðið frá niðurrifi þess en svo að menn um miðja 20. öld gátu lýst gerð þess og stærð.  Húsið var torfhús en veggir steinhlaðnir innan; lengd átta álnir en fjórar á breidd. 

Breiðavík 

Gorgán nefnist stór steinn í Kumbaranum nálægt Grásleppuvör (í Breiðavíkurveri).  Hann var að miklu leyti kominn í kaf í sand um 1950“  (Örn.skrá; Trausti Ólafsson).   „Þegar Gorgán stóð upp úr sat oft á honum svartbakur eða hvítmávur og má vera að hann hafi fengið nafn af garginu í fuglinum“  (Örn.skrá; Aðalsteinn Sveinsson).   „Sundið við Grásleppuvör var nefnt Gorgán.  Lítur út fyrir að Gorgán hafi upphaflega verið nafnið á hleininni fyrir framan vörina“  (Örn.skrá; Ólafur Þórarinsson).   Álykta má, hvort heldur það var steinninn eða hleinin sem nafnið bar; að það hafi verið skírt utan í hinn eiginlega Gorgán undir Keflavíkurbjargi (VÖ).

Láganúpur  

trollkarlshellirNábýli trölla og huldufólks á Hnífum.  „Niður og norður af Grófarstekk, eins og 10 metrum neðar, er Tröllkarlshellir.  Milli hans og Tröllkonuhellis í Hænuvíkurhlíðum átti að vera sambangur“  (Örn.skrá; Guðbjartur Guðbjartsson).  Vel er gengt fyrir brattgenga niður í Tröllkarlshelli.  Honum hallar niður og í honum er iðulega skafl svo ekki verður séð dýptin, en hæð munnans er um 10-12 metrar.  Ofan Tröllkarlshellis; lítið eitt utar, er Grófarstekkur og stuttu utar er huldufólkskirkjan Stórhóll; Sandhellir þar undir.  Hér er því mikið nábýli trölla og huldufólks, og verður ekki annað séð en vel fari á því.

Hænuvík: Karl og Kerling.  Tveir klettadrangar eru við fjöruborð undir Gjárdal á Hænuvíkurhlíðum og heita þeir Karl og Kerling.  Þau áttu að vera tröll sem dagað höfðu uppi.  Oft höfðu menn það sér til gamans þegar farið var framhjá Karli og Kerlingu, og þau bar hvort við annað eða þau áttu sína einu ástarfundi, að láta þá sem voru að fara sína fyrstu ferð framhjá taka ofan höfuðfat sitt.  Þótti það hneisa að láta plata sig til þessa og reynt að hefna sín seinna, til dæmis með því að segja; „Það skeit fugl á húfuna þína“.  Tröllkonuhellir er þar neðst í efri klettum og úr honum áttu að vera göng í Tröllkarlshelli sem er í Hnífum, vestan við Láganúp“  (grein í Sumarliða pósti; Ingvar Guðbjartsson).  „Næst innan við Kattarholu eru Kerlingar.  Það eru tveir drangar og fram af þeim stendur stór drangur fram í sjó sem heitir Karl“  (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson). 

Tunga 

Tröllin á Fjörunum.  „Innan við Míganda og hærra er grasrimi sem heitir Urðarvöllur.  Upp af Urðavöllum er hlíðin nefnd Urðavallahlíð.  Þar hærra eru Urðavallaklettar.  Í þeim eru alls kyns glufur og gjótur, og kynjamyndir sjást þar; tröll og forynjur; allt úr varanlegu efni“  (Örn.skrá; Kristján J. Kristjánsson). 

Vatnsdalur 

Tröll með gullkistu.  „Í fjörunni undan Básunum (við Vatnsdalsnes) er drangur sem heitir Tröllkarl, og er krækiberjalyng í toppnum á honum.  Úr vissri átt lítur svo út sem hann hafi kistil á baki; sumir segja gullkistu.  Sagnir eru um að Tröllkerling hafi verið klettur í sjó; ekki fjarri Tröllkarli, en hún sést ekki lengur“  (Örn.skrá; Ólafur E. Thoroddsen).   „Tröllkerling; neðsti hluti drangsins sést enn.  Í kring eru stórir steinar sem gætu verið úr efri hlutanum“  (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen). 

Sauðlauksdalur 

Söngur í jörðu.  „Sönghóll nefnist nokkuð hár hóll heiman við Hrísmúlann (frammi í Sauðlauksdal).  Milli hólsins og Hrísmúlans eru víða djúpar bergsprungur fullar af vatni, sem er á þó nokkurri hreyfingu.  Nefnast þessar sprungur Augun.  Ekki virðist þetta vatn koma fram í Sauðlauksdalsá þarna í Framdalnum, en einhverja leið á það til sjávar.  Gamlar og nýjar sagnir eru um að þarna hafi heyrst söngur, buldur þéttingshátt og sumir segja allhávær bassasöngur.  Þetta var áður fyrr sett í samband við tröllabyggð og hamrabúa ferlega, en ekki við vatnsrennsli neðanjarðar“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).    

Hvalsker  „Beint upp af bæ … á brún er Skriða.  Þar eru standar eða steinbríkur sem heita Karl og Kerling“  (Örn.skrá; Valborg Pétursdóttir).    

Hlaðseyri  „Kerling heitir stór steinn sérstakur í fjörunni; rétt fyrir innan Hlaðseyri“  (Örn.skrá; Magnús Jónsson).    

Draugar óvættir og skrímsli

Valdimar Össurarson tók saman eftir ýmsum heimildum.

Margt getur manninn hent

hella ovaetturHér er ýmsum sögnum steypt saman sem hugsanlega mætti greina í sérstaka flokka.  T.d. má til sanns vegar færa að draugur eigi lítið skylt við sæskrímsli.  Hinsvegar eru sumar þessar sagnir svo óljósar að flokkun verður vart við komið.  T.d. hefur fólk orðið fyrir árásum eða aðsókn ókinda sem það telur ekki vera venjulegt fólk eða dýr, en ekki verður ráðið af frásögninni hvað er.  Þá er notað samheitið „óvættur“ sem getur verið býsna víðfeðmt. 

(Myndin er af  skófum vaxinni hellu.  Listamannsauga Sigríðar Guðbjartsdóttur á Láganúpi sá að þarna var óvættur að elta pilsklædda konu; einungis þurfti að bæta við fáeinum útlínum og augum). 

Draugasögur hafa líklega fylgt Íslendingum frá upphafi vega, eins og sést t.d. af glímu Grettis við Glám.  Sést enda af erlendum sögnum og trúarbrögðum að sú trú er ævaforn að hinir framliðnu séu á ferli í mannheimum eftir dauðann.  Íslenskar draugasögur hafa tekið á sig nokkuð staðlað yfirbragð.  Þær eru blanda af kímnisögum; hetjusögum, kitlandi hrollvekjum og leið til að koma boðskap eða réttlætingu á framfæri.  Reyndar er einn tilgangur enn sem einkennir þær sumar, en það er afsökun fyrir eigin hrakföllum eða breyskleika.  T.d. getur það komið sér vel, er menn koma gauðrifnir og illa til reika úr kaupstaðarferð eða mann fagnaði, að spinna upp sögu af viðureign við draug eða óskilgreindan óvætt.  Eins getur það hentað að láta draug ganga stelandi um matbúrin þegar freistingin hefur borið þann ofurliði sem aðgang hefur.  Ekki skulu þó ósannindi eignuð nokkrum sögumanni; allt er þetta eflaust sannleikanum samkvæmt.   
Athygli vekur hve margar af draugasögum í Rauðasandshreppi eru nýlegar.  Flestar þeirra gerast á 19.öld og jafnvel inn á þá 20.  Það er þvi ekki að furða þó margir séu viðkvæmir fyrir þeim, jafnvel enn þann dag í dag, þar sem þær sneiða sumar nærri þekktu fólki; jafnvel látnum ástvinum sem verðskulda fulla virðingu.  Slíkar sögur eru einkar vandmeðfarnar.  Það er list að segja sögu af látnu fólki þannig að þær haldi fullu skemmtana-  og afþreyingargildi sínu án þess að særa.   Hér hefur verið reynt að þræða þetta viðsjárverða einstigi.   Fáar sögur bera það eins með sér og draugasögur að þær eru fyrst og fremst sagðar í skemmtana- og afþreyingaskyni.  Þær höfðu í raun sama tilgang og gaman- og hrollvekjumyndir nútimans til samans.  Íslenskir sagnamenn höfðu betra lag á að sameina þessa tvo þætti en allir meistarar Hollywood samanlagt.

Fullyrða má að sögur af sæskrímslum séu í mörgum tilvikum sagðar af einlægni.  Þær lýsa einfaldlega því sem fyrir augu bar, en sýnin kann að vera ógreinileg um leið og þekktar sagnir af skrímslum og forynjum eru sögumanni ofarlega í huga.  Flokkun og greining dýrategunda jarðar var ekki ýkja langt komin á veg á þessum tímum, og vissulega eru enn að finnast dýrategundir sem enginn vissi af.

Rauðisandur 

Sjóskrímsli á Rauðasandi.  Tvær telpur á Rauðasandi vöktu yfir túnum og sáu þá eitt sinn afarstórt skrímsli koma upp úr sjónum og þramma í átt til þeirra.  Þær völdu þann kost að fela sig í hesthúsi, sem var þeirra eina afdrep.  En þannig stóð á að engin var hurðin.  Dyrnar krepptu því að skrímslinu svo það stóð grafkyrrt fram undir morgun.  Þá gekk það í sjóinn aftur, en telpurnar voru orðnar örvita af hræðslu. (Ísl.sjávarhættir V; eftir frás. Sigurðar Kristófers Péturssonar).

Sjöundá 

Fjörulallinn á Sjöundá.    Neðan túns á Sjöundá er stutt vík; Bæjarvík, og fjárhúsin ofan hennar á grónum bökkum.  Egill Árnason bjó á Sjöundá frá 1893 til 1898.  Hann hafði stundum orð á því að ókennileg skepna héldi til í Bæjarvík, en ekki gerði hann sér meiri rellu af því en tófunni.  Eitt sinn um vetrartíma, þegar Egill kemur inn frá verkum sínum um kvöldið, eru dætur hans að leggja af stað í fjósið til mjalta.  Hann biður þær að hinkra örlitla stund því fjörulallinn sé núna í Steinabrekkunni sem er þar neðan bæjarins.  Betra muni að bíða þar til skolli þessi sé farinn.  Þær urðu skelkaðar við þetta og þorðu ekki til mjalta fyrr en undir miðnættið.  Taldi önnur þeirra sig sjá dökkt flykki í brekkunni er hún gáði út um rifu á hurðinni.  Ekki hefur fjörulallans orðið vart á síðari tímum, en byggð lagðist af á Sjöundá þegar Egill flutti þaðan með sitt fólk.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson). 

Kirkjuhvammur  

Landdraugur og sjódraugur í nábýli.  „Í Bjarnanesmýrinni eru tveir stórir steinar, nefndir Draugsteinar.  Þeir eru yst í mýrinni.  Þarna bjuggu til forna landdraugur og sjódrauggur.  Nú er gatan milli þeirra“  (Örn.skrá; Ívar Ívarsson).   
„Hjá Bjarnanesinu beygir vegurinn og liggur milli tveggja stórra steina.  Sagt er að í báðum búi draugar sem kallast geti á þegar kvölda tekur.  Efri steinninn eru uppmjór en hinn er flatur með hvolf í miðju.  En skýringin á henni er sögð sú að draugsi hafi það sér til dundurs að skríða undir og yfir steininn, og virðist grjótið vera gljúpara en kviðhúðin á kauða; því lautin leynir sér ekki.  (Magnús Jónsson frá Skógi; Árbók Barð). 
„Landdraugurinn og Sædraugurinn áttu í miklum illdeilum og var varasamt að eiga þar leið um meðan bardagi þeirra varaði“.  (Jóna Ívarsdóttir; frásögn á Ísmús).  

„Stór steinn er undir Bökkunum neðan undir túninu er heitir Draugssteinn, og dregur nafn af hve stór hann er“   (Örn.skrá; Ívar Ívarsson).  

Hjaltadraugurinn.   Hjalti Þorgeirsson (f.1840-d.1917) nefndist maður sem lengi var vinnumaður í Vatnsdal og víðar í Rauðasandshreppi.  Hann var heljarmenni að burðum og talinn tveggja manna maki.  Um tvítugt var hann vinnumaður á Barðaströnd, en fór til róðra undir Jökli.  Eitt sinn sem oftar í landlegum reyndu menn með sér í glímu.  Hjalta þótti maður nokkur fara illa með ungan pilt sem hann hafði haft undir.  Hjalti þjarmaði því nokkuð að manninum er hann glímdi við hann.  Hinn hafði þá í heitingum og sagðist skyldi jafna málin þó síðar yrði; hvort sem hann væri þá lífs eða liðinn.  Mörgum árum síðar var Hjalti fjármaður í Saurbæ.  Dag einn á jólaföstu var heimilisfólk allt í kaupstaðarferð á Vatneyri, nema konur og börn.  Ísrek var á Vaðlinum, og veitti húsfreyja því athygli að svört þúst var á einum jakanum.  Í sjónauka sýndist henni þetta vera maður, sem þar sæti á ísskörinni með fætur í sjónum.  Daginn eftir lét Hjalti féð út að vanda, og hugðist halda því til beitar í Bjarngötudal.  Á leið inn leirurnar, fyrir neðan Kirkjuhvamm, sýndist honum maður svartklæddur sitja undir steini.  Sá rís upp og ræðst að Hjalta.  Hjalti var með broddstaf mikinn, sem þó brotnaði í atganginum.  Sér hann að óvætturinn muni vilja hrekja sig í sjóinn.  Við það rann á hann berkserksgangur og tókst honum með herkjum að vinna bug á óvættinum.  Liðið var á morgun þegar hann kom heim með föt sín í henglum og illa útleikinn.  Eftir að hann hafði jafnað sig sagði hann að sá sem á sig réðist hafi verið hinn sami og heitaðist við hann undir Jökli.  Hefði hann líklega náð að drepa sig ef ekki hefði vantað á hann annan handlegginn.  Á útmánuðum fréttist að bátur hefði farist frá Dritvík.  Hjalti hélt til róðra í Kollsvíkurveri um vorið.  Þá fréttist að lík hefði rekið á Melanesi.  Var það af stórvöxnum manni og vantaði á það annan handlegginn.  Líkið var fært til greftrunar í Saurbæ og Hjalti var viðstaddur jarðarförina.  Þegar henni var lokið bað Hjalti um að dokað væri við áður en grafið væri yfir.  Hann sótti stein einn mikinn og setti þversum yfir kistuna.  Sagði hann að þetta ætti að duga til að hinn látni lægi kyrr.  Ekki varð draugsins vart eftir þetta.  (Úr vesturbyggðum Barðastr.sýslu; MG; stytt VÖ). 
Viðbætur Ívars Ívarssonar:  Glíma Hjalta mun hafa verið um 1865-1870.  Fjármaðurinn í Saurbæ varð fyrst var við þústina á jakanum og sagði húsfreyju frá.  Var jafnvel talið að hún hafi verið selur.  Morguninn sem Hjalti fór til að láta féð út um dagrenningu var Þorláksmessa, og hugðist hann reka féð fram á Part, neðan Bjarngötudals, og tók Kirkjuhvammsféð með.  Nokkru innan Kirkjuhvamms stoppar fjárhópurinn og hnappar sig.  Hjalti hottar því áfram, en þá ræðst á hann þessi maður (vera) og reynir að koma honum niður að Ósnum.  Hann kom heim sandorpinn, blautur og með sinn öfluga göngustaf í þrennu lagi.  Hann leggst upp í rúm, en þegar hann má mæla segir hann; „Ólafur bróðir minn er sennilega dauður“, en þeir bræður höfðu orðið ósáttir og ekki talast við lengi.  Á bátnum sem fórst undir Jökli voru feðgar; faðir með tveimur sonum.  Faðirinn var formaður og sá sem heitaðist við Hjalta; nefndist Jón.  Þrjú mannslík rak vestra síðar um veturinn.  Eitt í Keflavík; eitt að Saurbæ og eitt að Melanesi.  Á það síðastnefnda vantaði annan haldlegginn og höfuðið.  Sá sem það bjó til greftrunar kvartaði um reimleika mikinn kringum það.  Hjalti hafði aldri orð á þessu við nokkurn mann.  Ekki sagðist Ívar kunna þessa sögu lengri.  (Ívar Ívarsson; frásögn á Ísmús).   Guðmundur Einarsson, síðar bóndi á Brjánslæk, var með Hjalta á skútunni Pollux um 1907 og sagði að hann hafi brugðist reiður við, inntur eftir sögunni.  Sagði Hjalti þetta vera „eins og önnur haugalygin úr Rúnka skratta“!  (Líkl. Runólfur Brynjólfsson, Kirkjuhvammi)  (GE; Kalt er við kórbak).  

Rassbeltingur nefnist draugur eða fylgja sem upprunninn er á Rauðasandi.  Jóna í Kirkjuhvammi sagði hann fylgja sínu fólki.  (Jóna Ívarsdóttir; frásögn á Ísmús). 

„Erlendur Marteinsson hélt því fram (í byrjun 20.aldar) að tveir draugar fylgdu Hálfdáni (Árnasyni á Látrum.  Ekki man ég nafn á öðrum en hinn var sá frægi Rassbeltingur.   Eitt kvöld fór Elli að gefa hestum föður sín, en kom aftur hlaupandi í loftköstum til baka inn í baðstofu.  Hann kom ekki upp orði fyrst í stað, en sagði svo frá að þegar hann var búinn að gefa hestunum  og var að láta í meisana fyrir næsta mál hefði eitthvað lagst ofan á sig svo hann náði varla andanum.  Þetta sama kvöld fréttist lát Hálfdánar Árnasonar.  (Ásgeir Erlendsson; Ljós við Látraröst).  Sjá sögur af

Draugurinn Rassbeltingur gekk einnig undir nafninu Hringsdalsdraugur og Brjánslækjardraugur og var þannig til kominn:  Maður nokkur, nefndur Árni blóti, lagði á Þingmannaheiði á bleikri hryssu með brennivínskúta tvo.  Hann var varaður við veðurútliti en sinnti því engu; sagðist sennilega verða kominn til Vítis áður en dagur væri á enda.  Um vorið barst lík hans fram í Kjálkafjörð.  Einar bóndi á Auðshaugi vakti Árna upp og sendi hann til Hringsdals í Arnarfirði til að drepa Sturlu sem fengið hafði konu sem Einari var meinað að eiga.  Margir urðu draugsins varir og sögðu hann vera á mógrárri úlpu, með slapahatt á höfði og ólarbelti um sig; sigið mjög niður á rassinn.  Hlaut hann því nefnið Rassbeltingur.  Hann var skaðræðisgripur fyrst eftir vakninguna; drap fólk og fénað og gerði ýmsum skráveifur sem hann fylgdi.  Um tíma var hann á Brjánslæk og truflaði mjög prest í messugerðum, svo hann varð iðulega að þagna fyrir altarinu.  Löngu síðar var Bjarni skáld Þórðarson til grasa á Þingmannaheiði og fann þá stafi úr brennivínskútum Árna og beinagrind af merinni.  (Endurs. frás. í Vísi 146. tbl 1960).

Saurbær 

Rauðpilsa nefndist annar draugur sem var orðaður við að fylgja fólki í Rauðasandshreppi, þó ekki gangi miklar sögur af honum þar í sveit.  Hinsvegar fylgdi Rauðpilsa Ólafi Ó Thorlacius í Dufansdal; föður Ólafs Ó Thorlacius sem var stórbóndi í Saurbæ 1885-1920.  Tilurð Rauðpilsu var á þessa leið:  Einhverju sinni var Ólafur á ferð og kona ein með honum.  Þau komu á bæ og gistu, en um nóttina dreymir konuna að þau séu enn á ferð og staðnæmist við á nokkra.  Þá kemur hlaupandi að þeim stelpa ein; ljót og illileg.  Hún heimtaði af þeim hest til reiðar; því hún þyrfti að flýta sér heim til Ólafs og finna húsfreyju áður en þau kæmu heim.  Ólafur neitaði því, en þá stökk hún samt á bak einum hestinum og reið honum yfir ána.  Þar stökk hún af baki og tók sprettinn.  Sýndist eldur brenna undan fótum hennar.  Varð svo ekki draumur konunnar lengri, en þau halda heim um morguninn.  Þegar Ólafur kom heim til sín var kona hans orðin vitskert.  Sagði heimilisfólk að þetta hefði skeð mjög skyndilega og þóttist það samtímis hafa séð stelpu ganga ljósum logum um bæinn.  Sú var í rauðu pilsi.  Stelpa þessi virtist sækja ákaft að húsfreyju og versnaði henni þá æðið.  Draugurinn gerði Ólafi einnig ýmsar skráveifur; og drap m.a. fyrir honum fé.  Ekki var grunlaust um að hún hefði verið völd að dauða fyrri konu Ólafs.  Það urðu örlög Ólafs að hann varð fyrir voðaskoti á Bíldudal og lést af þess völdum stuttu síðar.  Einnig það vildu menn kenna Rauðpilsu.  (Byggt einkum á frásögn Einars Bogasonar í Hringsdal í Þjs. Ólafs Davíssonar).  Ekki fer sögum af neinum tiltektum Rauðpilsu í Saurbæ, en sumir töldu að hún væri ættarfylgja sem m.a. fylgdi Ólafi yngri sem þar bjó.

Stekkadalur  „Beint niður undan Flatasteini, austan við bæinn í túnjaðrinum þar sem mýrin byrjar, er steinn sem kallaður er Draugasteinn.  Hann er svo sem hálf önnur mannhæð og er mannsmynd á honum.  Krakkar léku sér á honum.  Steinninn er úr rauðu en linu bergi, og vill heldur molna úr honum“  (Örn.skrá; Sigurvin Einarsson).  Engar sögur hafa fundist um nafngjafann.

Krókur  „Út af Litla-Króki er nefnt Kvíarhólar.  Þar eru tveir balar með lægð á milli; var það nefnt Djöflaþúfur.  Þar er margt óhreint á ferðinni“   (Örn.skrá; Karl Guðmundsson o.fl.).  (Jón bróðir Karls telur í sínum athugasemdum útlit fyrir að einhver hafi verið grafinn við eða undir Djöflaþúfum).

Lambavatn  „Á Engi (innanvert við Skaufhól) er mórauður stakur steinn sem heitir Draugsteinn“  (Örn.skrá; Ólafur Sveinsson).  Engar skýringar fylgja nafninu.

Keflavík  

Reimleikar í Keflavík.  Stuttu eftir styrjaldarárin síðari var hafin bygging skipbrotsmannaskýlis í Keflavík.  Smiðirnir, sex að tölu, höfðu þá viðlegu í kofa við rústir bæjarhúsa í Keflavík, sem þá var komin í eyði.  Eina nóttina vaknar einn smiðanna við það að gengið er þungum skrefum upp á þakið.  Hann telur að kindur séu á þakinu og fer út til að reka frá.  En um leið er eins og einn mannanna fái flog.  Hann rís upp; kastast framyfir rúmstokkinn og korrar í honum.  Félagar hans stumra yfir honum, en í því kemur moldarhnaus fljúgandi inn um gluggann svo glerbrotum rigndi allt í kringum þá.  Tveir hlaupa út til að hafa hendur í hári spellvirkjans en grípa í tómt; þar er engan að sjá og engin spor sýnileg.  Þegar hinn sjúki hjarnar við segir hann að sig hafi dreymt að maður, stór og skuggalegur, kæmi að rúmi sínu; tæki til sín óþyrmilega og leitaðist við að draga sig framúr.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Sjóskrímsli í Keflavík.  Seint um vetur, rétt fyrir aldamótin 1900, töldu menn sig verða vara við sjóskrímsli í Keflavík.  Það var seint á vökunni að heimilisfólk heyrði mikinn umgang úti fyrir.  Taldi það fullvíst að ekki væri þarna fólk á ferð.  Nokkrum ugg sló á fólk og tveir menn hlóðu byssur sínar.  Tók það nokkra stund, því þetta voru framhlaðningar.  Þeir gengu síðan út með byssurnar skotklárar, en þar var þá ekkert að sjá.  Hinsvegar var mikið traðk í snjónum og greinileg slóð sem lá til sjávar; allt fram í fjöruborð.  Förin voru stór og hóflaga, en ekki eftir neina þekkta skepnu.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Annað sjóskrímsli í Keflavík.  Anna Jónsdóttir (f.1895-d.1987), ættuð úr Keflavík, sá sæskrýmsili í Stöð í Keflavík; ferlíki sem var stærra endstórgripur; ferfætt; slýgult; seint á fæti og lammaðist hægferða um á bægslum eða fótum.  Bar það sig allt öðruvísi en selur. Þegar það kom í sjóinn var það hraðskreiðara og fór um með boðaföllum.  Börn voru einatt vöruð við að fara sjávarmegin við fjörulalla og sæskrýmsli; fara heldur sveig vel uppfyrir slík kvikindi.  (Ásgeir Erlendsson; frásögn á Ísmús). 

Hvallátrar 

„Í Þrengslunum (í Látradal, framan Látravatns) er allstór steinn og gróið í kringum hann.  Hann heitir Útburðarsteinn.  Þar átti að hafa verið borðið út barn, og voru einhverjar sagnir um hljóð þar“  (Örn.skrá; Daníel Eggertsson). 

Jón frændi.  Á fyrri hluta 18. aldar bjó á Hvallátrum Jón Ólafsson sem kallaður var Jón frændi. Mikið galdraorð fór af Jóni og átti hann að hafa sagt kunningja sínum að sig vantaði aðeins einn staf til að geta hugsað mann dauðan og reyndar væri sá stafur á leiðinni.  Ýmsir töldu Jón frænda hafa sagnaranda og kæmu honum fáir hlutir á óvart. Til marks um þetta var haft að þótt Jón væri staddur í Haga á Barðaströnd gat hann séð er maður tók frá honum hefil heima á Látrum.

Lengi átti Jón frændi í væringum við Þormóð Eiríksson, skáld í Gvendareyjum á Breiðafirði, sem einnig var rammgöldróttur. Loks magnaði Þormóður mórauða tófu til að drepa frænda og sendi hana vestur á Látrabjarg. Jón frændi var þar við sig á Jónsmessunótt. Var hann vanur að fara óbundinn í festinni og láta höfuðið síga ofan á undan og þótti það fjölkynngisbragð hans.  Tófa Þormóðs kom á bjargbrúnina er frændi var staddur niðri á Slakkahillu. Þefaði dýrið af festinni og stakk sér síðan niður í bjargið. Við komu dýrsins steyptist Jón úr hillunni ofan í fjöruurðina og lá þar dauður. – Lík Jóns var flutt heim í lambhús og sagt var að vantaði í það hjartað. Reimt þótti í húsinu eftir. Þar heitir síðan Jónshald er hann hrapaði.

Það var um 1740 sem skolli Þormóðs grandaði Jóni frænda á Látrum. Ólafur Árnason sýslumaður skrifaðu upp bú Jóns og var eftir honum haft að oft hefði hann galdur séð en aldrei annan eins djöful.  Galdraskræður Jóns voru brenndar í melaskarði við Látralæk en Ólafur tók þó af þeim kver eitt og stakk hjá sér.  Skömmu eftir dauða Jóns frænda fannst þessi vísa í Klofavörðu; beinakerlingunni vestast á Látraheiði:  „Féll úr bjargi frægðar mann;/ fárleg voru þau dæmi./  Ólétt varð ég eftir hann,/ aldrei fram þó kæmi“.  (Magnús Gestsson; Látrabjarg).  Jón Ólafsson er ekki að finna í Ábúendatali TÓ, sem nær í stórum dráttum aftur til 1703.

Sendingin frá Breiðuvík.  Sigmundur Þórðarson bjó á Látrum á fyrri hluta 18.aldar, en sagt er að hann hafi átt Breiðuvík.  Þar var þá bóndi, Ólafur að nafni, sem talinn var fjölkunnugur nokkuð.  (Ekki sjást hans merki í Ábúendatali Rauðasandshrepps).  Nú vildi Sigmundur flytjast sjálfur á Breiðuvík og sagði Ólafi upp ábúðinni.  Heitaðist Ólafur þá við hann og stóð í deilu þessari með þeim um hríð.  Sigmundur stundaði mjög refaveiðar og hafði skothús úti undir brekkunum, þar sem Gamlistekkur heitir.  Var það nótt eina, er hann lá í skothúsinu, að þyngsli mikil lögðust ofan á húsið og um leið dimmdi mjög.  Greip hann þá til byssu sinnar sem hlaðin var, og vildi skjóta.  En enginn var kostur að eld tæki.  Sleit þá Sigmundur hálshnapp af silfri af skyrtu sinni og hafði að byssuhlaði.  Kveikti þá byssan og komst Sigmundur heim á leið.  En nú sér hann á milli sín og bæjarins folald sem var að hálfu flegið og dró á eftir sér húðina.  Sótti það þegar að Sigmundi, en hann varði sig með byssunni og skaut að því.  Hörfaði kvikindið við hvert skot, en leitaði jafnharðan á aftur.  18 skotum skaut Sigmundur áður en hann náði heim; því síðasta úr mýrinni neðan Heimabæjar. 
Það töldu menn einsýnt að Ólafur bóndi í Breiðuvík hefði sent þessa sendingu.  Þau urðu örlög Sigmundar að hann drukknaði um næstu sumarmál, ásamt tveimur bræðrum sínum; Páli og Jóni, á Illuflögu innan við Bjargtanga.  Náði Sigmundur að skríða upp á klöppina en var of velktur orðinn til að halda sér þar.  Töldu sumir að þar hefði Ólafur á endanum náð hefndum.  (Vestf. sagnir; handrit G.K.)

Fjölkynngi Bjarna á Látrum.  Svo er sagt að um eða fyrir miðja 18.öld hafi búið á Hvallátrum Bjarni nokkur Jónsson (hans er þó ekki getið í Ábúendatali T.Ó. á þeim tíma).  Bjarni var ódæll, illur viðskiptis og fjölkunnugur mjög, enda hreddust menn galdra hans.  Sagt var að peningamaður væri hann mikill, og færi hann aldrei svo til fuglaveiða að hann hefði ekki peninga mikla á sér.  Það var og annar siður hans að veiða sem mest á drottinsdögum og hátíðum.  Engum fátækum vildi Bjarni leyfa að síga í Bjargið eða snara þar fugl; kvaðst hann ei vilja að sá siður viðhéldist.
Á þessum árum rak eitt sinn tré eitt mikið í Básum, utan Brunnanúps.  Svo stórt var það að Látrabændur sáu þess enga kost að koma því heim.  Þeim var það því ekki fast í hendi þegar Bjarni falaði það af þeim fyrir lítið fé.  Morguninn eftir var tréð komið heim á hólinn Andra, á nesinu við fjárhúsin.  Fundu menn enga skýringu þar á, aðra en fjölkynngi Bjarna, en tréð hafði hann til fjárhúsa sinna.
Fátæk ekkja bjó þá í Stekkadal; Ingibjörg að nafni, með syni sínum sem hét Grímur Jónsson og var 17-18 vetra er hér kemur sögu.  (Samkvæmt Ábúendatali T.Ó. var Grímur Jónsson bóndi í Stekkadal, fæddur um 1735, dáinn holdsveikur í Stekkadal 1781).  Grímur biður Látramenn leyfis að mega fara með þeim í bjargið, og tóku flestir því vel.  Bjarni dró þó úr og vildi ei koma þeirri venju á að taka afbæjar fátæklinga í bjargferðir; hversu bágt sem þeir kynnu að eiga.  Grímur seig þar niður sem Kálfsskorarhilla heitir, en Bjarni sat undir vaðnum fremstur.  Þegar Grímur er komin fyrir brúnina hrækti Bjarni á eftir honum og tautaði eitthvað fyrir munni sér.  Þegar Grímur hafði leyst sig úr vaðnum ætlaði hann fyrir lítið nef, en missti fótanna; hrökk framaf og hrapaði þar niður sem heitir Nýjaurð.  Hann lifði fallið af, en lærbrotnaði.  Hinsvegar gerði nú viku storm, svo ófært var undir bjargið til að sækja hann.  Þegar loks gaf komu menn að honum nýdauðum.  En það dreymdi mann að Grímur segði sér að úr hungri hefði hann sálast, þar sem hann gat enga björg sér veitt vegna brotsins.  Mælt var að Ingibjörg móðir hans hefði beðið Guð að sjá mál sitt, er hún frétti dauða sonar síns.

Um sama leyti árið eftir fór Bjarni ásamt öðrum til rissuungaveiði út í Saxagjá.  Er þar farið í göngum og lásum.  Er Bjarni hugðist teygja sig eftir unga einum skipti engum togum að hann missti festuna; hraut framaf og hrapaði til dauðs í urðinni neðanundir.  Um leið féll skriða niðuryfir staðinn og færði hann á kaf.  Menn vildu samt freista þess að finna lík hans, en óðar en að var komið upphófst mikið grjótflug úr bjarginu fyrir ofan.  Björgunarmenn hörfuðu frá þar til óhætt virtist vera, en allt fór á sömu lund þegar þeir nálguðust slysstaðinn aftur. 

Bjarni gekk aftur og gerði mikinn usla.  Elti hann fénað og fólk með ópum og hrinum; ærði suma en tók öðrum kverkatak svo við manntjónum hélt.  Að lokum var sent til Latínu-Bjarna á Knerri; Jónssonar, og hann beðinn að koma draug þessum fyrir með kunnáttu sinni.  Latínu-Bjarni lét til leiðast og lagði af stað vestur.  En þegar hann kom vestur yfir Sandsheiði á Rauðasand var hesturinn drepinn undir honum.  Á Látrabjarg komst hann þó á endanum; og segir sagan að hann hafi setið í þrjú dægur samfellt á bjargbrúninni áður en hann fengi slævðan drauginn.  Fyrsta dægrið særði hann nafna sinn upp til sín, og birtist hann með grjótflugi miklu.  Annað dægrið gekk á með gólum, hrinum og ólátum, en hið þriðja sáust eldglæringar einar og síðan komst ró á. 

Ekki fundust bein Bjarna á Látrum og taldi Latínu-Bjarni að hann hefði tekið þau með sér, ásamt peningunum sem hann hefði haft á sér.  Hann hefði ekki náð að koma honum alveg fyrir, þó skaðlausari væri, og hefði hann peningana að leikföngum.  Eitthvað töldu menn sig verða vara við Bjarna á Látrum eftir þetta í Látrabjargi.  Víst er að enn gengur á með grjótkasti í Saxagjá, og má mikið vera ef ekki heyrist þar af og til hringla í peningum.  (Vestfirskar sagnir; handrit Gísla Konráðssonar).

Óvætturinn á Látraheiði (Látraheiðardraugurinn; Simbadýrið).  Sagnir eru um að óvættur nokkur gangi ljósum logum á Látrum og Látraheiði. 

„Elstu sagnir um óvættinn herma að eitt sinn hafi Ólafur Jónsson (bóndi á Látrum 1780-1808) verið á ferð yfir Látraheiði.  Þegar heim kemur hefur hann þau tíðindi að segja að hann hafi orðið fyrir reimleika á heiðinni.  En af því að Ólafur var ekki talinn sem sannorðastur vildu menn ekki leggja mikinn trúnað á sögu hans.  Björn Bjarnason (bóndi á Látrum 1800-1816) var sagður merkur maður, en dulur í skapi.  Eitt sinn verða nokkrar umræður á heimili Björns um þennan reimleika sem Ólafur segist hafa orðið fyrir á Látraheiði.  Segir þá einn heimamanna að saga Ólafs sé ótrúleg og muni varla sönn vera; enda sé líka margt ósatt annað sem Ólafur segi.  Þá segir Björn, sem situr við prjóna sína: „Hann Ólafur mun segja eitthvað ósannara en þetta“!  Þeir sem þekktu skaplyndi Björns töldu víst að hann sjálfur mundi hafa orðið einhvers var á þessum slóðum, því hafi hann látið sér þessi orð um munn fara“ (Hrefna Kristjánsdóttir; Árbók Barð; frás. Guðmundar Sigurðssonar eftir Árna J. Thoroddsen).

Einn af þeim sem fyrir óvættinum varð var Hálfdán nokkur Árnason (rokkadraujara á Lambavatni; f. 1852-d.1923).  Hann var þá vinnumaður hjá Össuri Össurarsyni hreppstjóra á Látrum.  Það var eitt sinn á jóladagsmorgni kringum 1870 að Hálfdán var á leið frá Látrum í heimsókn til fjölskyldu sinnar á Lambavatni, en þar ætlaði hann að vera yfir hátíðarnar.  Húsbóndi vildi að hann biði með brottför framyfir húslestur, en Hálfdán ákvað fremur að leggja snemma af stað til að nýta stutta dagsbirtu.  Þegar rökkva tekur síðar um daginn kemur Hálfdán óvænt hlaupandi til baka; þrútinn í andliti og því nær sprunginn af mæði.  Lagðist hann upp í rúm og lá þar það sem eftir var dags.  Örþreyttur var hann og vildi engar skýringar gefa á endurkomu sinni.  Hann sagði aldrei frá því sem fyrir hann kom, en þegar hann heyrði af árásinni á Sigurð Finnbogason síðar á sömu slóðum varð honum að orði að „fleiri hefðu þá orðið fyrir þessu en hann“.  Sagt var að Hálfdán hefði ekki orðið samur maður á eftir. (Byggt á frásögnum Helgu B.Á. Thoroddsen). 

Helgi Eiríksson var bóndi á Látrum frá 1877 til 1879, en áður var hann vinnumaður hjá Sigurði Finnbogasyni sem hér greinir næst frá, og giftist dóttur þeirra hjóna.  Á aðfangadags- eða jóladagsmorgun árið 1875 var Látrafénu haldið til beitar að venju, enda gott veður.  Síðdegis fór Helgi að leita að því, en þá hafði það leitað fram með Látravatni.  Hann var í sterkri, þykkri og þófinni ullarpeysu sem brydd var með sterku bandi um hálsmálið og striga um hnappagöt.  Þegar hann kemur fram með vatninu ræðst að honum svört flygsa.  Virðist honum þetta vera tvífætt skepna með stórar klær.  Hún nær að festa klærnar í peysu hans og rífur stykki úr henni.  Helgi riðar við en nær að verjast falli, enda hraustmenni mikið.  Eftir þetta hendist óvætturinn frá og hverfur.  Helgi hóar saman fénu og rekur heim að fjárhúsum, en nokkuð var honum brugðið.  (Byggt á frásögn Helgu B. Árnadóttur Thoroddsen, sem þá var unglingur á Látrum).

Næst var það haustið 1876 að Látramenn fóru að venju til kirkju í Breiðuvík.  Einn þeirra var Sigurður Finnbogason sem bóndi var á Miðbæ á Látrum frá 1860 til 1877.  Hann var stór maður vexti; mikill að burðum og hraustur.  Sigurður ákveður að verða eftir í Breiðuvík þennan sunnudag, en ætlaði að verða kominn í býtið næsta dag að Látrum, enda ætlaði hann þá í Eyrarferð á bát sínum.  Þegar líður á þann morgun er hann þó ókominn, og fóru menn að lokum í Breiðuvík að leita hans.  Samúel Breiðuvíkurbóndi segir þá að Sigurður sé fyrir allnokkru farinn, og hafi hann fylgt honum áleiðis þar sem hann var nokkuð við skál.  Er þeir koma aftur niður af Látrahálsi hinumegin sjá þeir að Sigurður heldur heim að bæ sínum.  Hann er dasaður, marinn og blár; með fötin í henglum.  Honum segist svo frá að þegar hann kom upp að vörðunni Steinku, sem þar er í hálsinum, hafi hann orðið fyrir árás og lent í átökum við ófreskju nokkra sem var sleip sem hvelja og erfitt að ná tökum á henni.  Hann sagðir hafa rifið grjót úr vörðunni og látið það dynja á óvættinum, sem við það lét undan síga.  Mátti sjá þessi ummerki á vörðunni er að var gáð.  (Byggt á frásögnum í Vestfirskum sögnum; að mestu eftir Helgu B.Á. Thoroddsen og Pétri Jónssyni á Stökkum).  Sigurður lýsti óvættinum svo:  „Ég sá að þetta var ekki maður en þó virtist mér það að nokkru leyti í mannsmynd. Það gekk eða öllu heldur hoppaði á afturfótum. Það virtist hafa meðalmanns hæð. Framlimi hafði það, sem líktust handleggjum. Í stað handa hafði það klær, sem það reif með. Mjótt var það um herðar eða bóga. Hausinn var eins og strýta eða keilumynduð hrúga upp úr herðunum. Andlitsmynd gerði ég mér enga grein fyrir. Kvikindi þetta rann á mig hvað eftir annað og hrifsaði í mig með klónum. En er ég vildi ná tökum á því og þreyta átök við það hrökk það jafnan undan. … Ég barði á því með hnefunum er ég komst í færi því að annað hafði ég ekki til vopna. Var þá sem ég berði á úfna pöru eða skráp“.  (Pétur Jónsson; Vestfirskar sagnir). 

Eftir þetta urðu fleiri varir við veru þessa.  Hún var í mannsmynd en með eina hönd fram úr miðju brjósti og eitt auga á miðju enni; viðkomu eins og slepjulegur skrápur.  Ályktuðu menn að þetta kæmi úr Bjarginu, enda helst von óvætta þaðan.  Fjósamaður á Látrum skilaði sér ekki heim á ætluðum tíma.  Fannst hann liggjandi nær dauður við fjósdyrnar, og hafði lent í átökum við skrímslið.  Sigurður Backmann var þá kaupmaður á Patreksfirði.  Bauð hann háa fjárupphæð hverjum þeim sem gæti handsamað skrímslið og fært sér.  Ekki varð hann þó krafinn um það fé, því eftir þetta fór litlum sögum af óvættinum. (Byggt á frásögnum í Látrabjargi Magnúsar Gestssonar).

Óvættur þessi réðist síðar á Sigmund Hjálmarsson sem bóndi var á Hvalskeri 1882-1902 og sagði hann sjálfur frá atburðum.  Sigmundur var maður fátækur og fór einhverju sinni fyrir aldamótin 1900 í Breiðuvíkurver, til að fá sér fisk í soðið.  Tvo hesta hafði hann og fór um Dalverpi; út Látraheiði og niður í Breiðavíkurver.  Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann er á bakaleið og kemur í Lambahlíðarskarð á Látraheiði.  Þetta er snemma morguns; molluveður en úrkomulaust.  Veit hann ekki fyrri til en hann heyrir þyt og sér einhverja flyksu svífa að sér.  Fer hún ýmist undir kvið eða yfir hestana.  Hann sleppir hestunum og flýr til byggða.  Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur í Breiðavíkurver; illa til reika og alblóðugur; fötin gauðrifin.  Menn grípa byssur sínar og hefja leit að óvættinum.  Hestarnir fundust á Látraheiði, ásamt fiskböggunum, en ekki tangur né tetur af óvættinum.  Sigmundur var sannsögull maður og ekki var talið að hann hefði skáldað söguna upp.  Töldu menn líklegt að á hann hefði ráðist annaðhvort örn eða selur.  Þetta var í síðasta skiptið sem menn urðu varir við Látraheiðardrauginn, eins og þetta var stundum nefnt.  Talið er að hann hafi lengi hrellt menn á heiðinni fyrr á tíð, og hafi jafnvel verið meginástæða þess að Guðmundur góði vígði Gvendarbrunn við þjóðleiðina.  (Ásgeir Erlendsson; frásögn á Ísmús). 

Draugurinn Eiríkur.  Nokkrir Rauðsendingar fóru til fyglinga undir Bjarg árið 1886, á svonefndar Langurðir sem tilheyra Bæjarbjargi.  Þegar þeir eru að búast til heimferðar rekast þeir á illa útleikið lík af manni, sem þar hafði rekið á urðirnar.  Ekki treystu þeir sér til að taka það með sér, heldur urðuðu það ofan sjávarmáls og gengu sumir óvirðulega að því.  Sammæltust þeir svo um að leyna líkfundinum er heim væri komið.  Konu eins þeirra dreymir hinsvegar að til hennar komi maður sem segir bjargmenn hafa farið illa með lík sitt og skuli þeir taka afleiðingum þess sem verst komu fram.  Líkfundurinn spurðist fljótt út, og sömuleiðis sögur um að hinn dauði myndi ekki liggja kyrr.  Virtist hann fylgja þeim sem líkið höfðu fundið.  Oft birtist hann hinni berdreymnu konu, og eitt sinn lét hann hana vita af mannskaða í bjarginu, en bjargmenn voru þá komnir á brún og viðvörunum varð ekki við komið.  Í annað sinn sagði hann henni drukknun sonar hennar sem hafði verið við róðra fjarri heimilinu.  Reimleikarnir birtust með ýmsu móti.  T.d. voru útidyr brotnar upp þó gaddaðar væru að kveldi.  Gerðust sumir æði myrkfælnir.  Sú frétt barst á Rauðasand að skúta frá Snæfellsnesi hefði komið undir Bjargið það sama vor og líkið fannst, og nokkrir hefðu mannað bát til eggjatöku á Urðunum.  Í þeirri ferð hefði einn maður týnst í sjóinn og ekki náðst.  Hét hann Eiríkur, og festist það nafn við drauginn á Rauðasandi.  Hann fylgdi gjarnan mönnum þeim sem fundið höfðu líkið, eða skyldmennum þeirra.  Smám saman hljóðnuðu þó sögur af draugagangi sem menn tengdu Eiríki, og hafa honum ekki verið eignaðir neinir óknyttir á síðari áratugum.  (Látrabjarg; MG; endursögn VÖ).
Þess má geta að er menn, síðar um vorið, gerðu út leiðangur til að sækja líkið til að jarða það fannst það hvergi.  (Ingibjörg Júlíusdóttir; fráögn á Ísmús).  Þá er þess að geta að Stefán Jónsson fréttamaður Ríkisútvarpsins átti leið um Rauðasand sumarið 1966.  Áði hann hjá bensíndælunni í Kirkjuhvammi og innti Jónu Ívarsdóttur eftir draugagangi á Sandinum meðan hún dældi á bílinn.  "Já þú átt náttúrulega við hann Eirik?  Það var vitanlega draugur.  Hann Hákon í Haga var einhverntíma að segja Stefáni fréttamanni frá þeim draugi í útvarpið.  Og það er satt; hann gekk hér aftur í minni tíð.  Ég heyrði nú ekki betur en faðir minn og bæður hefðu allir verið morðingjar og drepið manninn undir Látrabjargi, en það er ekki satt.  Hann var svo úldinn þegar þeir fundu hann undir bjarginu að hann var ekki tækur um borð í bát innanum fugl og fiska, svo þeir hlóðu að honum grjóti í urðinni".  "Og urðu margir varir við hann"?  "Hvort það urðu!  En það er orðið svo langt síðan.  Það er nefnilega svo merkilegt að Eiríkur fluttist burtu úr byggðarlaginu alfarinn með tengdafólki Stefáns fréttamanns.  Því fólki fylgdi hann fastast, og hér hefur hans ekki orðið vart síðan hann fór".  Stefán kynnti sig þá, og höfðu bæði gaman af þeirri tilviljun. (Stefán Jónsson; Gaddaskata).

Draugur fylgir hurð.  Þórður á Látrum var einhverju sinni að dytta að íbúðarhúsi sínu að Húsabæ, og vantaði þá nýja útidyrahurð.  Frétti hann að hurð hefði rekið á Rauðasandi og fékk hurðina, sem var úr skipi.  Ekki var hurðin fyrr komin fyrir bæinn en undarlegir hlutir fóru að ske.  Iðulega heyrðist barið að dyrum, en enginn var úti þegar gáð var.  Þórður tók þó fljótlega eftir því að þetta gerðist ekki nema hurðinni væri læst.  Væri hurðin ólæst var allt með felldu.  Þórður henti því lyklinum.  Á síðari tímum þorði hann þó ekki að hafa ólæst, enda iðulega með nokkuð fé geymt hjá sér í annarra eigu.  Ekki virtist þá fylgja hurðarinnar gera vart við sig, enda langt um liðið síðan hurðina rak á fjörur.  (Þórður Jónsson; frásögn á Ísmús).   

Breiðavík 

Sjóskrímsl og vættir í Lambahlíð.  „Össur bóndi Sigurðsson (bóndi í Breiðuvík 1806-1810) var þrekmenni mikið og ekki kallaður myrkhræðinn. Er það eitt til marks talið, að einn væri hann með lömb sin út á Bjargi á vetrum, þar Lambahlíð heitir, niður á sjávarklettum, og stendur þar enn svefnkofatoft hans.  En fáum hefur þar þótt dæl einveran, því jafnan hefur trúað verið, að vættir og sjóskrímsl væri þar á slæðingi.“ (Gísli Konráðsson; Látramanna- og Barðstrendingaþáttur). 

Sjóskrímslið í Fjarðarhorni.  Fé var jafnan haldið til beitar að vetrarlagi þar sem bithagi var, væri þess nokkur kostur.  Á síðari hluta 19.aldar hélt sauðamaðurinn í Breiðavík með fjárhóp sinn út í Fjarðarhorn sem er grösug og skjólsæl spilda út undir Breiðnum.  Þegar hann kom ekki heim er halla tók degi var farið að spipast um eftir honum.  Fannst hann þá dauður töluverðan spotta fyrir ofan fjöruborðið, illa útleikinn; marinn og brotinn.  Var greinilegt að hann hafði lent í viðureign við eitthvað sem hafði borið hann ofurliði.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Ókindin í Breiðavíkurveri.  Eitt sinn um miðja 20. öld þurfti Breiðavíkurbóndi að fara erinda sinna að Látrum.  Kona hans varð honum samferða út í Breiðavíkurver þar sem fjárhúsin voru.  Hleypti hún út fénu til að það gæti nýtt sér fjörubeitina.  Þegar hún hugðist setja það inn skömmu síðar tók hún eftir að aðkomuskepna var í hópnum; líkust svörtum kálfi til að sjá.  Ekki þorði hún að eiga frekar við féð heldur fór heim og hringdi í bónda sinn.  Hann hraðaði för sinni heim og fór í Verið með byssu sína.  Er hann nálgaðist fjárhópinn í fjörunni tók dýrið sig út úr hópnum; æddi niður fjöruna og steypti sér í sjóinn áður en bóndi fékk ráðrúm til að skjóta.  Varð þess ekki vart eftir þetta.  (Magnús Gestsson; Úr vesturbyggðum Barð.sýslu). 

Svipir fylgja bát.  Bræður frá Hnjóti drukknuðu í maí 1781.  Bát þeirra rak upp í Breiðuvík.  Það sögðu margir að fylgjur þeirra hefðu sést kringum skipið um sumarið, áður en það var rifið á Breiðavíkurfit.  (LK; Ísl.sjávarhættir IV).  Sjá nánar um slysið í sjóslysaannál Rauðasandshrepps.

Mannlaus bátur dreginn til sjávar.  Svo segja sagnir að árið 1781 hafi í Breiðavík rekið mannlausan róðrarbát. Var þetta að sumarlagi og björguðu heimamenn bátnum undan sjó. Var báturinn skorðaður hjá melþúfu ekki langt frá bænum, og stóð þar í hálfan mánuð.  Einn morgun er sláttumenn koma út bregður þeim í brún því að þá var báturinn horfinn. Sást þá að nýtt kjölfar lá frá þúfunni og beint til sjávar en engin sáust mannsspor.  Aldrei fréttu Breiðvíkingar framar til þessa kynjabáts. (Vestfirskar sagnir).  Nánari skil kunni Gísli Konráðsson á þessu:  Einar Magnússon á Hnjóti var einn hinna kunnu Hnjótsbræðra.  Hann var þá 38 ára; hafði smíðað sér tvo báta og reri þeim úr Láturdal.   Gísli segir svo frá:  „Einar reri nú um vorið, 19. maí, 1781, báðum skipum sínum til fiskjar og Þorgrímur Pjetursson sat nokkru utar á miði. Þótti honum veður farið að gerast heldur ískyggilegt. Tók þá líka að kvessa á norðann. Bjóst hann þá í land að halda og sigldi það næst tók vindi. Skreið þá þjett hjá skipi Einars, og sat hann þá að fiskdrætti. Kallaði þá Þorgrímur til Einars og mælti: „Nú lízt mjer ekki á veðrið og fylgdu mjer í land.“ Einar svaraði: "Lágt er enn í skutnum, því ekki er komið undir rangarhöldin.“ Fleira töluðust þeir ekki við.  Þorgrímur sigldi það aftók og náði landi með heilu og höldnu. Þá Þorgrímur var lentur, sýndist mönnum sjór ófær, því ofsaveður rak á, með kafaldi og stórsjó. Átta menn voru með Einari, 5 á stærra skipinu, og 3 á bátnum. Er meining manna, að þegar veðrið versnaði munu þeir allir farið hafa í stærra skipið. Það rak undir Tislingahrygg, norðan undir Straumnesi, og tveir strengjastubbar í röngunum, að aftan.  Hyggja menn því, að fyrst hafi Einar látið taka bátinn við sig, eður stærra skipið, en í röstinni fyrir Straumnesið, þar straumar eru stríðir og stórir sjóar, svo kalla má brimsæi eitt, mun hann hafa skorið bátinn frá sjer. Skipið rak síðan heilt á Breiðuvíkurrifi og var þar upp sett, lengra en sjór gengur. Var það þar um sumarið, þar til eina nótt á áliðnu sumri, í góðu veðri og logni, að það hvarf, og þóttust sumir sjá kjölfarið eftir, sem sett hafi verið til sævar, en ekkert af því hefur sjest síðan og má kalla þetta almenna sögn… Það sögðu margir, að fylgjur þættust þeir sjá um sumarið, kring um skipið, áður en það hvarf af Breiðuvíkurfit, ella rifi.“ (GK; Látramanna- og Barðstrendingaþáttur).   .

Viðureign Sigurður Breiðvíkings við Hellisandsdrauginn.  Í Þjósögum Jóns Árnasonar segir frá bræðrunum Þórði og Andrési úr Dölum, er þeir reru á Hjallasandi (Hellisandi) veturinn 1820.  Kemur við þessa sögu Sigurður nokkur Sigurðsson, úr Breiðuvík í Barðastrandasýslu; kraftamaður mikill og á síðari tímum ýmist nefndur „Sigurður Sterki“; „Sigurður bátasmiður“ eða „Sigurður Breiðvíkingur“.  Faðir Sigurðar var bóndi í Breiðuvík 1765-1806; gjarnan nefndur „Sigurður fljóti“, og til er saga af ótrúlegri jólaferð hans frá Breiðuvík á Eyrar og til baka; sem hann fór í ófærð á einum degi, með 50 punda byrði í bakaleiðinni.
Tildrög þessarar sögu voru þau að bræðurnir Þórður og Andrés Andréssynir úr Dölum fóru í ver út að Hjallasandi.  Báðir höfðu lagt hug á sömu stúlkuna, og hlaust af því mikill kali milli þeirra.  Snemma á vertíðinni týndist skip það er Andrés var á.  Eftir dauða bróður síns gerði Þórður sér enn dælla við stúlkuna, enda laus við samkeppnina.  Eitt kvöldið er hann var á leið í búð sína og kvöldsett var orðið sá hann hvar maður kom upp úr vörinni og sótti hratt að honum.  Draugurinn fylgdi honum eftir inn í búðina og urðu þar gríðarlegar stympingar.  Lauk þeim svo að Þórður lá rifinn og tættur og nær dauða en lífi í búðargöngunum.  Eftir þetta gerðist hann myrkfælinn mjög og taldi sig aldrei geta verið einan; einkum ekki í myrkri.  Næsta vetur réðust nýir menn til búðarvistar.  Einn þeirra var Sigurður Sigurðsson úr Breiðuvík í Barðastrandasýslu.  Hafði hann einn um tvítugt og var mjög þroskaður að vexti og afli.  Sigurður varð legunautur Þórðar, en þá var jafnan sofið andfæting; þ.e. tveir voru um hvert flet í búðinni.  Hvílir Sigurður við stokkinn en Þórður ofan hans við þilið.  En þegar þeir eru sofnaðir dreymir Sigurð að maður kemur að honum; ófrýnilegur í útliti, og segir:  „Ég skal launa þér að þú liggur fyrir framan bróður minn, svo ég kemst ekki að honum“.  „Hvað viltu honum“? þykist Sigurður spyrja.  „Ég vil drepa hann“, segir hinn.  „Já viltu honum ekki annað“, segir Sigurður.  Flýgur þá draugurinn á hann og þeir takast á.  Lauk þeim viðskiptum svo að draugsi féll, en er Sigurður vaknaði var hann á fjórum fótum framan við rúmið.  Næstu nótt dreymir Sigurð öldungis á sömu leið; nema nú var draugurinn hálfu verri viðfangs.  Vaknaði hann við það að félagar hans héldu honum frammi við lúkugatið á verbúðarloftinu.  Töldu þeir að hann hefði ætlað að æða út í óráði.  Þriðju nóttina þykir Sigurði sem draugurinn ráðist enn að sér, en að þá sé hann staddur niður við sjó, hjá bátunum.  Eftir harða viðureign þykir Sigurði hann bera hærri hlut og að hann felli drauginn.  Hann tekur þá sax í hönd og brytjaði drauginn í stykki.  Lauk aðsókn draugsins við þetta, og varð enginn hans var það sem eftir var vertíðarinnar; né heldur nokkru sinni síðar.  (Þjóðsögur Jóns Árnasonar). 

Kollsvík 

Kattarhola.  „Utan við Þyrsklingahrygg (sem er innan Blakkness og landamerki við Hænuvíkurland) er nafnlaus hlein og gengur inn í hana hola sem kölluð er Kattarhola.  Á köttur að hafa farið þar inn og komið út á Kattarholuvegi í Keflavík“  (Örn.skrá; Guðmundur Torfason; Vilborg Torfadóttir).    Engin hola er sjáanleg á þessum stað.  Mér þykir líklegast að þetta örnefni eigi við langan helli sem er í Tjónsvík inn í Syðstu-Trumbu og hefur ekki nafn í önefnaskrá, þrátt fyrir mikilleika sinn.  Hellirinn er vel manngengur lengst af; nær drjúgan spöl inn í Trumbuklettana; greinóttur og „gluggar“ í honum til sjávar.  Vel mætti ímynda sér að þar í víkinni hafi hafst við villiköttur sem stokkið hafi inn í hellinn þegar að var komið og horfið sjónum manna.  Kann síðan að hafa verið bendlaður við annað kvikindi sem sást í Keflavík.  Hinsvegar er örnefnið „Kattarholuveg“ ekki að finna í örnefnaskrá Keflavíkur.  (VÖ).  Nokkuð öðruvísi er frá holunni sagt í Örnefnaskrá Hænuvíkur:  „Í Smáhryggjum miðjum (innan Sölmundargjár) niður við sjó heitir Kattarhola.  Þar er standur frammi í sjó og gegnum hann er þessi hola.  Þar á kötturinn að hafa komið úr sem fór inn á Látraheiði“  (Örn.skrá Hænuvíkur; Sigurbjörn Guðjónsson). 

Skolladý nefnist foraðskelda, nokkru fyrir neðan Tröð í Kollsvík; neðst í dýjafláka sem fyrrum nefndist Heimadý en síðar Bugar.  Skolladý var fyrrum talið botnlaust og jafnvel að það næði niður í vatnsból sjálfs Kölska.  Í því var fyrrum drekkt hvolpum og kettlingum.  Dýið var ræst fram fyrir nokkru, en ekki fer sögum af vatnsgæðum Kölska eftir það (VÖ. 

Sendingar Benedikts Gabríels til Einars í Kollsvík.  Einar Jónsson bjó í Kollsvík á fyrri hluta 19. aldar; útvegsbóndi, hreppstjóri og forfaðir Kollsvíkurættar.  Nokkuð þótti hann mikill fyrir sér og jafnvel fjölkunnugur, en naut góðrar virðingar í sinni sveit.  Einhverju sinni fann smali Einars hval rekinn í Láturdal innan Blakkness.  Láturdalur er í eigu Hænuvíkur en engu að síður eignaði Einar sér hvalinn sem finnandi; lét skera hann og reiða heim á tveimur hestum sínum og einum lánshesti frá Láganúpi.  Í hvalnum fannst skutull merktur Benedikt Gabríel Jónssyni; hreppstjóra og hvalaskyttu í Arnarfirði; sem þá þótti öflugastur galdramanna á Vestfjörðum.  Einari bar að skila honum skotmannshlut af hvalnum en sinnti því engu heldur smíðaði skeifur undir hesta sína úr skutlinum.  Benedikt magnaði þá upp draug og sendi honum, en magnaði einnig galdur á hesta Einars.

Þegar leið að hátíðum kom smalamaður Einars með þær fréttir að forystusauður eða besti sauður Einars hafi fundist fótbrotinn og dauður, svo að ekki geti talist einleikið.  Var það í hellisskúta undir svonefndum Bergjum framan Kollsvíkurtúns.  Einar lét urða sauðinn svo örugglega sem kostur var á; en harðbannaði jafnframt að nokkur kæmi þar nálægt til þess að eiga við hræið. 

Dag einn á næsta þorra, í hörkufrosti en björtu veðri, voru hestar Einars reknir til brynningar að vatnsbóli, ásamt hestum af handanbæjunum í Kollsvík.  Skyndilega var sem hestar Einars væru gripnir æði og hlupu fram og til baka um víkina.  Hestarnir frá Láganúpi voru rólegri og náðust fljótt en hestar Einars hurfu á spretti fram á milli Fella ásamt Grundarhestinum fyrrnefnda.  Veður versnaði mjög í sama mund, og fóru menn því ekki til leitar fyrr en daginn eftir.  Þá sást ekki tangur né tetur af hestunum.  Spurðist það síðast til þeirra að þeir hefðu hlaupið sem óðir yfir Breiðuvík og innyfir Víknafjall.  Loks var leitinni hætt og hestarnir taldir hafa hrapað fyrir björg.  Á skírdag sást til hests á Brúnunum yfir Rauðasandi.  Reyndist þar vera á ferð Grundarhesturinn; aðframkominn af sulti.  Skammt frá honum fundust hestar Einars dauðir.

Sending Benedikts kom að Kollsvík í nautslíki og olli Einari margvíslegu tjóni og erfiðleikum.  Að lokum taldi hann að ekki mætti við svo búið una.  Hitti hann þá eitt sinn drauginn að kvöldlagi fyrir neðan bæ á túninu.  Einar var með reipi í hönd sér og fékk handsamað drauginn, sem var í nauts líki, og mýldi hann.  Hélt hann síðan af stað með drauginn í taumi sem leið liggur upp Húsadal og Steilur, inn yfir Hænuvíkurháls.  Þar batt hann drauginn við stóran stein og mælti svo um að ekki skyldi hann gera sér eða sinni ætt mein framar.  Hinsvegar skyldi hann, ef honum tækist að losna frá steininum; fara til baka til Benedikts og gera honum þá skráveifu sem Einari hefði verið ætluð.  Hvarf við þetta allur reimleiki í Kollsvík, en reimt þótti við steininn lengi eftir það, og djúp slóð kringum hann eftir drauginn.  Á endanum létti þó reimleika þar í Hænuvíkurskarðinu, en stuttu síðar bárust sögur af sjúkleika Benedikts Gabríels.  Hann átti þó að hafa beitt kunnáttu sinni og náð fullum bata.

Hænuvík 

Látrakarlinn í Láturdal.  „Sagt er að í Láturdal sé draugur sem heitir Látrakarl, en um hann vantar mig allar heimildir“  (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson).  „Sú sögn gekk að í Láturdal byggi svonefndur Láturdalskarl (Láturdalsdraugur) sem átti að vera einhvers konar forynja.  Ekkert hefur verið skráð um fyrirbrigði þetta, sem trúlega hefur verið búið til svo að yngri kynslóðin í Hænuvík væri ekki að flækjast of langt frá bæ, þar sem hún gat hæglega farið sér að voða“  (Örn.skrá; Sigurjón Bjarnason).

Sellátranes

Skotta.  Sögur komust á kreik á síðustu öld um dysjun líks á Sellátranesi og reimleika í kjölfar þess, í kjölfar sviplegs slyss í Hafnarmúla á 19.öld.  Tildrögin voru þau að vinnukona á Geitagili varð ófrísk og kenndi barnið bóndanum á bænum.  Sá var giftur og vísuðu hjónin vinnukonunni úr vistinni en héldu barninu hjá sér.  Hún fór í vist að Vatnsdal, en var jafnan hugsjúk mjög af söknuði eftir barninu.  Einn daginn hvarf hún meðan húslestur var lesinn, og fannst ekki þrátt fyrir mikla leit.  Hið eina sem fannst var skothúfa stúlkunnar, sem lá í fjörunni undir Hafnarmúla.  Töldu menn að hún hefði ætlað að Gili, en hrapað í Múlanum og drukknað.  Nokkru eftir þetta töldu menn sig verða vara við að einhver slæðingur í kvenmannslíki myndi fylgja öðrum bóndanum á Sellátranesi og hefði sú skotthúfu á höfði.  Var því kölluð Skotta.  Sú saga komst á kreik að lík stúlkunnar hefði fundist í fjörunni á Nesi, en verið urðað þar í stað þess að koma því til kirkju.  Fæstir vildu þó nokkurn trúnað leggja á þessar sögur, enda voru Sellátranesbændur hinir grandvörustu menn og vel liðnir í sinni sveit.  Ekki er vitað til þess að ætluð dys hafi fundist, og engan hefur Skotta angrað í seinni tíð. (Magnús Gestsson; Úr vesturbyggðum Barð). 

Nánari frásögn af þessum atburðum má sjá í skrifum Sigurjóns Bjarnasonar frá Hænuvík.  Hann grófst nokkuð fyrir um þessi mál, en Pétur Hjálmarsson var langafi hans; umræddur bóndi á Sellátranesi.  Vinnukonan hét Arngerður Pálsdóttir (f.1825-d.1886), sem bjó um nokkurn tíma á ýmsum bæjum í Rauðasandshreppi.  Hún var um tíma gift Jóhanni Jónssyni og áttu þau eitt barn sem dó ungt og soninn Kristján (mállausa, f.1856-d. eftir 1903).  Hugsanlega hefur hann, þá þrítugur, verið í vist í Örlygshöfn og Arngerður ætlað að vitja hans.  En sagan um lausaleiksbarn virðist ekki eiga sér stoð.  Síðla á 20.öld taldi kyggn kona sig hafa séð svip konu hverfa fyrir brún í Hafnarmúla; klædda að fyrri tíðar hætti og örvæntingarfulla á svip.  Verkamenn við byggingu Ólafsvita á Sellátranesi mörgum áratugum fyrr, töldu sig hafa dreymt konu sem væri grafin nærri tjaldstæði þeirra.  Vildi hún vera grafin upp og fá leg í vígðum reit.  Leit að dys á þessum slóðum hefur ekki borið árangur og enn leikur allt á huldu um þennan meinta líkfund. (Sigurjón Bjarnason; Vestfirðingaþættir, útg 2002).

Tunga 

„Neðan við götu, móts við íbúðarhúsið í Efri-Tungu, er þýft og grýtt stykki sem nefnt var Djöflareitur.  Má nokkuð skilja af nafninu hvernig var að slá þar “  (Örn.skrá; Kristján J. Kristjánsson).

Gjögradraugurinn.   Á síðari hluta 19.aldar byggði eldri maður sér kofa á Gjögrum og bjó þar um nokkur ár.  Það urðu svo örlög hans að drukkna af skútu sem fórst með allri áhöfn.  Kofi gamla mannsin var rifinn, en nokkru síðar var reist verbúð á tóftum hans, en þá var róið frá Gjögrum.  Ekki leið á löngu þar til sumir sem þar dvöldu urðu varir við reimleika, og var ætlað að sá gamli gæti illa skilist við fyrri bústað.  Einhverju sinni komu menn úr róðri og fór hinn elsti úr hópnum upp í verbúðina að hita kaffi meðan hinir gengu frá bát og afla, en svarta myrkur var komið á.  Ekki var þó kaffið lagað er þeir komu uppeftir, heldur sat maðurinn þar og starði í eldinn.  Hann var tregur til að greina frá atburðum, en greindi að lokum frá því að í þann mund sem vatnið fór að sjóða á olíueldavélinni hefði hurðinni verið hrundið upp og inn stigið maður; all hvatskeytislegur.  Illúðlegur var hann á svip, með hendur holdlausar og beinaberar.  Engu svaraði hann um sín erindi en gnísti tönnum og taldi hinn að hann ætlaði að bíta sig á barkann.  Hann tók þá það þrautaráð að horfa fast og ákveðið í augu draugsins, en við það sýnist honum draga úr honum máttinn.  Byrjar draugurinn þá að hverfa inn í búðarvegginn, og hvarf að lokum alveg. 
Nokkrum árum síðar (uppúr 1930) liggja þrír menn við á Gjögrum, en þá er verið að byggja þar sláturhús (hið eldra, sem var bárujárnsklætt tilburhús).  Tveir sváfu í umræddri verbúð, en einn í hálfbyggðu húsi (líklega því sem lengi var sölubúð og svefnbraggi, en síðar sumarbústaður).  Þegar myrkt var orðið datt þeim tveimur í hug að gera einbúanum grikk.  Þeir laumuðust með hlaðnar haglabyssur að húsabaki og hleyptu af samtímis; síðan hlupu þeir í spretti í búðina og í flet sín.  Ekki urðu þeir varir við félaga sinn eins og þeir höfðu vænst.  En eftir stuttan tíma upphefst mikill gauragangur við verbúðina.  Skruðningar heyrast á þakinu og barið er bymlingshögg á það.  Hurðinni er skellt upp með braki og brestum, þó hún hafi verið skálkuð innan.  Með hálfum huga gægðust þeir út og kölluðu hvort einhver væri þar.  Engu var svarað, en þunglega heyrðist þeim þrammað um þar í náttmyrkrinu.  Áfram héldu skriðningarnir og barsmíðarnar fram eftir nóttu, og varð þeim ekki svefnsamt.  Um morguninn fara þeir að huga að félaga sínum.  Hann var þá hinn rólegasti og sagðist hafa sofið vært alla nóttina.  Ekkert hafði hann orðið var við skothvellina eða annað óeðlilegt.
Öðru sinni var það að maður svaf einn í búðinni, en aðrir í bragganum.  Um lágnættið vaknar hann við þyngslalegt fótatak kringum kofann.  Svo virðist honum sem hurðin sé opnuð, þrátt fyrir að hún hafi verið gödduð innan um kvöldið; og maður standi á búðargólfinu og stari á hann.  Hann rýkur upp; fer í skó í skyndi; vöðlar saman svefnpoka sínum og hleypur út.  Eftir fáein skref finnur hann að togað er í böndin á svefnpokanum; og fer svo að þau eru rifin af.  Maðurinn komst skelkaður í hús hjá félögum sínum og harðneitaði að gista í búðinni framar. 
Búðin var skömmu síðar rifin, enda þá fullbyggður svefnbraggi við sölubúð Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum.  Tóft hennar má enn sjá við norðurenda sláturhússins (nýrra); rétt hjá raflínustaur sem þar er núna.  Ekki hafa menn þó orðið varir við slæðing þar á síðari árum.
Torfi Össurarson segir svo frá tilurð Gjögradragsins að hann hefði verið einn Barðstrendinga sem voru á leið í Kollvíkurver innan af Skeiðseyri, en hrepptu norðan ofsaveður og fórust allir nema einn.  Níels nokkur bjó í búðinni á Gjögrum meðan draugagangurinn stóð yfir.  Kona sem kom í búð hans hafði orð á megnri þaralykt, og sagði Níelst þá að draugurinn hafi oft vitjað sín í draumi.  (Torfi Össurarson; frásögn á Ísmús). 

Afturgangan í Tungu.  Franskar skútur sóttu mjög á Íslandsmið um miðja 18.öld.  Einhverju sinni lagðist ein slík grunnt undan Tungurifi.  Sáu heimamenn að báti er róið í land og skömmu síðar kemur styggð að fénu niðri á Litlufitinni.  Fransmenn náðu þar tveimur kindum og ýttu í skyndi frá landi.  Tungubændur þustu til; urðu höndum seinni að ná í bátinn en köstuðu grjóti í bátverja.  Sjá þeir að þegar báturinn leggst að skipshlið er einum dröslað rotuðum um borð.  Þegar dimma tók af nóttu urðu menn varir mikilla reimleika í Neðri-Tungu.  Þetta ágerðist svo að leitað var til bóndans í Breiðuvík, sem talinn var kunna ýmislegt fyrir sér.  Hann kom að Tungu og tókst með særingum og bænalestri að hrekja drauginn upp í gilskorning þann sem Strokkar nefnist, í Tunguá ofan bæjarins.  Aflétti þá draugagangi við bæinn, en lengi á eftir þótti reimt í Strokkum.  (Úr vesturbyggðum Barðastr.sýslu; MG; stytt VÖ). 

Niðrilegan í Patreksfirði.  Snemma á 20.öld bar sérkennilega sjón fyrir vinnumann í Efri-Tungu er hann kom út einn vormorgun í björtu veðri.  Þá sá hann sæskrímsli sem kallað er niðrilega; sunnantil í miðjum firðinum; Örlygshafnarmegin.  Þetta er gríðarstór skepna sem kemur upp á sjö ára fresti og er uppi í svona einn til tvo klukkutíma.  Hún getur verið hættuleg bátum, og munu vera dæmi þess að hún hafi ráðist á þá.  Vinnumaður horfir lengi á þetta, þar sem það svamlar í firðinum; um tuttugu faðmar á lengd; með tvo fjallhnúka uppúr, ekki ólíkt fjallinu Kryppu fremst í Örlygshöfn.  Liturinn var dökkur; næstum svartur og skrokkurinn að sjá þaravaxinn; úfinn og órhrjálegur.  Á að horfa eins og þaravaxin hlein.  Eftir um tvo tíma seig skepnan niður í sæinn og hvarf.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Geitagil 

„Framar í Mikladal (framan við Þvergil) eru nefnd Þrengsli.  Í þeim vestanverðum er laut sem heitir Djöflalaut.  Það er frekar nýtt nafn; þar fennti fé fyrir nokkrum árum“  (Örn.skrá; Helgi Einarsson).  Þúfnakargi var neðan Neðra-Geitagils sem nefndist Sálarháski, en hann fór undir bílveginn sem nú liggur þar fyrir kletthornið (sama heimild).

Hnjótur 

Skrímslið á Múlahlein.  Um aldamótin 1900 bjó á Hnjóti Magnús Árnason.  Eins og margir aðrir á þeim tíma fékkst hann nokkuð við tófuskytterí, enda var refaskinn þá í háu verði.  Tófuhúsi hafði hann komið sér upp undir Hafnarmúla, þar sem sjávarklettar enda og grasbalar taka við; og skaut þar margar tófur.  Eitt sinn er hann sat í tófuhúsi sínu varð Magnús var við að stór skepna skríður upp úr sjónum.  Þetta er stórt ferfætt dýr; mjög dökkt að lit og silalegt í hreyfingum.  Fljótlega er það komið upp á hleinina; nokkra faðma frá sjávarborðinu.  Samtímis verður Magnús var við að tófa stendur í fjárgötunni stuttu ofar.  Hann varð nú að ákveða hvora skepnuna hann ætlaði að skjóta, en ákveður svo að fella tófuna.  Hún steinlá í fyrsta skoti.  Hann sér nú að skrímslið þokast í átt að tófuhúsinu.  Bíður hann þá ekki boðanna heldur grípur tófuna og hraðar sér heim.  Hann lýsti skrýmsli þessu svo að það hefði verið á stærð við stóran vetrung; eins og þakið utan skeljum og hrúðurkörlum.  Og þó það sýndist þunglamalegt hefði það haft allnokkra ferð.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Drukknir draugar undir Hafnarmúla.  Margt er óhreint undir Múlanum, ef marka má sagnir.  Gísli Konráðsson segir svo:  Nú finnst það ritað, að árið 1756, 15. júlí, drukknaði sá maður er Guðmundur hjet, Torfason, og annar er Snjólfur hjet, Sveinbjörnsson. Það er mælt, að þessir tveir menn hafi farist er þeir komu úr kaupstað, til baka. Voru þeir þá komnir yfir undir land, fyrir utan Hafnarmúla. Áttu þeir heima á Hnjóti og sást til þeirra fyrir utan Hafnarmúla. Voru þeir báðir karlmenni mikil, og Snjólfur ekki skapgóður, og hafði smalinn frá Hnjóti sjeð og heyrt til þeirra. Voru báðir drukknir, að ætlað var, urðu missáttir og flugust á, og hvolfdi undir þeim. Þótti lengi all reimt eftir þá“  (Gísli Konráðsson; Látramanna- og Barðstrendingaþáttur). 

Vatnsdalur 

„Um reimleika í Mosdalsgili (frammi í Mosdal, neðan Litladals) er lítið hægt að segja.  Reimleiki sem talað er um er öllu meiri undir Hafnarmúla og með sjávarbökkunum inn að Mosdalsá.  Um reimleikann mundi ég vilja tala sérstaklega, því það yrði svo langt mál“  (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen).

Nennirinn í Mosdalsvötnum.  Eitt sinn voru tveir smaladrengir sendir frá Hnjóti upp á Lambadal og fram að Mosdalsvötnum til að leita kinda.  Þegar kemur fram á kvöld höfðu drengirnir ekki skilað sér og fer þá maður að leita þeirra.  Upp á fjalli mætir hann öðrum drengnum á hlaupum; nær örmagna og yfir sig hræddur.  Þegar hann mátti mæla sagði hann að þegar þeir komu að Mosdalsvötnum hafi þeir séð hest þar á bakkanum.  Töldu þeir hann vera innan af bæjunum og hugðust prófa að bregða sér á bak.  Þeir bundu snæristaum upp í hann og því næst var tvímennt.  En það var sama hvernig þeir hottuðu á hestinn; hann fékkst ekki úr sporunum.  Drengurinn segist þá hafa farið af baki og sagt við félaga sinn:  „Hann bara nennir ekki úr sporunum“.  Við það tók skepnan viðbragð og steypti sér í vatnið með hinn strákinn á bakinu.  Hurfu þeir báðir í vatnið og sáust ekki framar.  En nennar eru þeirrar náttúru að steypa sér í vatnið er þeir heyra nafn sitt nefnt.  (Magnús Gestsson; Úr vesturbyggðum Barð.sýslu). 

Múladraugurinn.  Reimleikar hafa löngum verið í Hafnarmúla, enda hafa fyrr á tíð orðið ýmis slys á þeim hættulega vegi, auk þess sem nokkrir fórust er togarinn Sargon strandaði undir Múlanum árið 1948.  Um slysfarirnar vitna t.d. nöfnin Þorsteinshvammur og Hergerðargjá, sem þarna eru.  Síðast varð Múladraugs vart árið 1960, er Hnjótsbændur áttu leið fyrir Múlann.  Þeir voru á jeppa, enda þá kominn bílvegur í stað hinna tæpu troðninga sem lágu í fjörunni.  Þegar þeir koma fyrir Hergerðargjána, þar sem vegurinn var breiðastur, sést hvar stór maður stendur á miðjum vegi.  Bílstjóranum tekst að sveigja framhjá manninum, en um leið berst stæk nálykt um bílinn.  Þegar þeir nema staðar og fara að huga að manninum er hann hvergi að sjá.  Enginn úr sveitinni kannaðist við að þarna hefði nokkur verið á ferð.  (Magnús Gestsson; Úr vesturbyggðum Barðastr.sýslu). 

Sæskrímsli í Mosdalsfjöru.   Guðmundur Jónsson (f.1856-d.1838) sagði frá eftirfarandi atburði.  Eitt sinn að vetrarlagi; í hláku og rigningu, var hann á ferð með Mosdalsbökkum, á leið út að Hnjóti.  Þá sér hann eitthvað á hreyfingu í fjörunni.  Þetta var stórt flykki sem nálgast hann heldur, og hringlar í því.  Þetta telur hann vera sjóskrýmsli.  Guðmundur felur sig nú bakvið stóran stein, en skrýmslið fór þar rétt fyrir neðan.  Alltaf hringlar í þessu, eins og skeljar eða kuðungar hangi utan á dýrinu, og þegar það nístir fjörugrjótið heyrist „slímkennt hljóð“.  Guðmundur sér að nú muni ekki vera um annað að gera en verja sig.  Hann er með stóran broddstaf sem hann rekur af alefli í það sem hann hyggur vera auggudmundur jonssona skrýmslisins.  Síðan tekur hann á rás upp bakkana, en skrýmslið stendur kyrrt og lætur hann afskiptalausan.  Guðmundur tekur síðan hvern steininn eftir annan og veltir þeim niður bakkana.  Við þann gauragang fælist skepnan til sjávar og steypist loks í sjóinn með boðaföllum og látum.  Guðmundur bar þessa lífsreynslu undir fróða menn, og var hald manna að hér hefði hann mætt fjörulalla.  (Magnús Gestsson; Úr vesturbyggðum Barðastr.sýslu).   Guðmundur var sonur Jóns yngra Einarssonar, Jónssonar í Kollsvík.  Fæddur í Kollsvík; vinnumaður í Hænuvík, Botni og Vatnsdal, en lengst af á Hnjóti.  Reri m.a. í Kollsvíkurveri.  Sagður greindur og mikið góðmenni en nokkuð sérlundaður.

Kvígindisdalur

Sendingin frá Litla-Króki.  Guðmundur Einarsson hét bóndi í Litla-Króki árið 1816.  (Hann sést þó ekki í ábúendatali Trausta Ólafssonar; hvorki þar né á öðrum Króksbæjum).  Hann var blóðtökumaður og nokkuð kenndur við kukl.  Frá viðskiptum hans við Guðbrand Jónsson í Kvígindisdal (bjó þar 1801-1808 skv skrá Trausta) segir svo í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: 
Guðmundur bjó að Litlakróki á Rauðasandi, en Guðbrandur bjó í Kvígindisdal. Voru þeir Guðmundur vinir og því fóstraði Guðbrandur Kristján son hans. En er Kristján var vaxinn orti hann nokkuð níðslega af gamni um Guðrúnu fóstru sína; konu Guðbrandar, og mundi hann þó lítt stökufær. Varð Guðbrandur þess var og barði á honum.  Var hann og maður svakalegur og lítt gætinn þegar hann reiddist, en Kristján kærði það fyrir föður sínum.
Lék síðan orð á að Guðmundur vekti upp svein einn úr Bæjarkirkjugarði og sendi hann Guðbrandi og Guðrúnu konu hans. Er það sagt að kvöld eitt þá er þau Guðbrandur sátu á palli inni sýndist þeim að flygsa ein lágvaxin sæktist að komast upp á pallstokkinn. Varð Guðrúnu bilt og bað fyrir sér en Guðbrandur brást reiður við og skipaði djöfli þeim í burt að dragast og sækja þar að er hann væri frá kominn, greip hlandkopp sinn og skvetti úr af pallinum fram, fór síðan út eftir flygsunni með bölvi og heitingum ef hún hlýddi ei skipan sinni. Hvarf hún síðan á brott og fann ei þau Guðbrand síðan. Þá er sagt að Gvöndur á Litlakróki yrði mállaus hið sama kvöld með flogi og fékk hann ei að gjört. Héldust þau við hann lengi, þó bötnuðu honum þau að lyktum.  (Þjóðsögur Jóns Árnasonar).  Meira segir af Guðbrandi í sögninni um Raknadalsdrauginn Mókoll, undir Raknadal hér síðar.

Sauðlauksdalur

 „Efst í hlíðinni (ofan við bæ í Sauðlauksdal) eru Bæjarklettar.  Þar er gjóta undir klettana, kölluð Kattargjóta.  Sagt var að þar hefði köttur farið niður í og gegnum fjallið… kom út í Gissurstúnum í Kvígindisdalsbotninum“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).    

Árnapostilla er nafn á bletti í Sauðlauksdalstúni.  Náði hann frá hlaðvarpanum í Dalshúsum að norðan; götunni heim túnið framan úr dalnum að vestan, en Tjarnarmýrinni og Stórudýjum að austan og sunnan.  Blettur þessi er ca 12-1300 ferfaðmar eða hálf önnur dagslátta að stærð og er einn illslægasti blettur af Sauðlauksdalstúni í þurrkatíð…  Tildrög nafnsins virðast vera þau að í tíð séra Gísla Ólafssonar (líklega 1827) var kaupamaður í Sauðlauksdal, kominn sunnan yfir Breiðafjörð, er bar nfnið Jón buri.  Manni þessum fylgdi sending (draugur) er nefnd var Barnið.  Sagan segir að séra Gísli hafi haft orð á því í Stykkishólmi að sér þætti daufleg vistin í Dal: „Þar skeður aldrei neitt.  Ég ætla að fá hann Jón bura með Barninu, svona til tilbreytingar í sumar“.  Þegar Jón kom í kaupavinnuna var honum úthlutað þetta stykki til sláttar.  Slátturinn gekk seint og illa, því Barnið tafði um fyrir honum.  Ekkert bætti það um þó Jón tæki með sér Biblíuna eða aðrar algengar guðsorðabækur í slægjuna.  Barnið kunni þetta allt og ónáðaði Jón við sláttinn.  En svo kom séra Gísli með flunkunýja húslestrarbók og fékk Jóni bura.  Þessa bók hafði Barnið aldrei séð, og Jón gat farið að slá og lauk stykkinu á sæmilegum tíma.  Bók þessi hét Árnapostilla; húslestrarbók Árna Helgasonar biskups.  En þessi vera Jóns bura í Sauðlauksdal dró þann draug á eftir sér að nærri öll börn séra Gísla ærðust.  Sagnir mynduðust um sendinguna og draug þar í dalnum er var nefndur Dalli, en það er önnur saga“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).    

Sagnir af Dalla

Dalli (Dalsmóri) er vafalítið einn af lífseigari draugum landsins.  Hefur hann fylgt afkomendum séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal, jafnvel allt fram undir þennan dag, en þeir eru orðnir all fjölmennir.  Hér verður sagt nokkuð af tiltektum Móra.  Eru sagnir frá fyrri tíð áður birtar í Vestfirskum sögnum, en hér endursagðar í ögn styttri útgáfu.  Fyrst er rétt að gera lítillega grein fyrir upprunanum:

Gísli Ólafsson (f.1777-d.1861) kom sem prestur að Sauðlauksdal árið 1820; kominn af fátæku fólki við Þorskafjörð, en vel gáfaður og hafði notið fósturs hjá Benedikt Pálssyni á Stað á Reykjanesi.   Var um tíma aðstoðarprestur á Helgafelli áður en hann vígðist til Sauðlauksdals.  Ekki verður annað séð en séra Gísli hafi verið vel liðinn af sínum söfnuði og góða dóma fékk hann fyrir prestverk sín.  Raddmaður var hann góður; ekki talinn andlitsfríður; fjörkálfur mikill og drykkjumaður úr hófi.  Hann var rammur að afli og hélt heilsu og kröftum fram á gamals aldur.  Magnús; einn 15 barna Gísla og Sigríðar Jónsdóttur konu hans, tók við prestsembætti í Sauðlauksdal eftir föður sinn, en veiktist eftir fáein ár og varð óvinnufær.  Gísli var þá sestur í helgan stein á hjáleigunni Efri-Dalshúsum þar í túninu, en dreif sig í hempuna aftur; 75 ára gamall, og þjónaði framundir andlátið. 

Sögur margar voru sagðar af Gísla.  Sambúð hans við Sæmund Hólm, aðalprestinn á Helgafelli, var stormasamt, og frægt varð dómsmál það sem nefnt var „Tíkarmál“, en þá kærði Sæmundur Gísla fyrir að hafa kastað framan í sig hundi.  Snúður hét hestur Gísla; smár vexti og dökkrauður, sem nokkrum sinnum bjargaði eigandanum kófdrukknum frá bráðum bana.  Eitt sinn var það, er Gísli hafði farið í vitjun, að fólk vaknar að nóttu við það að Snúður hneggjar á hlaðinu; knapalaus.  Var honum fylgt upp á Dalsfjall, þar sem prestur lá ósjálfbjarga.  Taldi hann að þar hefði Snúður bjargað lífi sínu, sem oftar.  Prestur átti í deilum við Jón Ísleifsson sem bjó í Saurbæ 1826-1848, um reka og önnur hlunnindi.  Eitt sinn eftir messu í Saurbæ býður Jón presti til stofu til að gera út um þessi mál, en læsir stofunni.  Er honum þykir Gísli tregur til samninga lætur hann tvo rummunga ráðast að honum.  Gísla tekst að rífa sig lausan; hleypur á hurðina og brýtur hana í spað.  Síðan tekur hann sprett að hestum sem stóðu þar í röð á hlaðinu.  Vindur hann sér í loftköstum yfir tvo hesta og lenti klofvega á sínum Snúð; leysir hann í snatri og hleypir af stað inn Hraun.  Rustarnir grípa sinn hvor hestinn og veita honum eftirför, en svo snar var Snúður að í Bjarngötudal gengur Gísli þeim úr greipum.  En það er af þrætumálum að segja að stuttu síðar gerir Gísli sér ferð að Saurbæ og tekur Jón á eintal.  Vissi enginn hvað þeim fór á milli, en eftir ferðina kom í ljós að Gísli var orðinn eigandi að Melanesi, sem Jón hafði áður átt.

Dag einn, er Gísli var aldraður orðinn, var hann að aka skarni á hóla.  Í þann mund voru út látin naut staðarins og unglingar ráku þau til haga.  Elsti griðungurinn var mannýgur og lét ófriðlega þó á hann væri hengt erði.  Fór svo að hann snerist bölvandi gegn strákunum, sem tóku til fótanna heim til bæjar.  Konur á bænum reyndu að hrekja nautið brott með bareflum en boli felldi þær allar; einnig séra Magnús, sem þó hafði járnkarl að vopni.  Þessu næst sneri hann sér að gamalmenninu Gísla með öskrum og jarðarplægingum.  Öldungurinn leggur frá sér hjólbörurnar með hægð, gengur móti bola; tekur um haus hans og granir og snýr hann niður, þannig að fætur allir vísa til himins.  Hann reis þó upp er prestur gekk frá og réðist gegn honum aftur; en aftur fór á sömu leið í það skiptið; sem og í það þriðja.  Eftir það bar boli slíka virðingu fyrir Gísla að hann einn gat vopnlaus rekið hann að vild.

Dalli kemur að Sauðlauksdal.   Ekki ber öllum sögum saman um uppruna Dalla, en flestar sagnir hníga að þeim sem hér verður rakinn.  Dalli mun upphaflega hafa verið sending frá Benedikt Gabríel, hinum alkunna galdramanni er bjó í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar frá 1819 til 1833. Segir sagan að séra Gísli í Sauðlauksdal hafi, í einni ferð sinni á Bíldudal, fengið nokkur selskinn hjá Benedikt, en hann var orðlagður sel- og hvalskutlari.  Þegar til greiðslunnar kom mun hann hinsvegar hafa neitað að borga Benedikt Gabríel það verð sem upp var sett.  Benedikt mun þá hafa látið orð falla um að hann gæti átt eftir að iðrast þess.

Þorláksmessuna næstu dregur svo til tíðinda.  Upphaf þeirra var það að sauðamaður í Botni í Patreksfirði stóð yfir fé á svonefndum Bruna, sem er upp af Ósafirði.  Sér hann þá eldhnött; svo stóran sem tungl í fyllingu, koma norðan af fjalli og velta áleiðis til sjávar; fyrir Ósafjörð og út með Skápadalshlíð, svo langt sem séð varð. 

Næst var það að fólk á Hvalskeri heyrði nautsöskur fyrir neðan túnið.  Þegar að er gáð sést skepna í nauts líki hlaupa út fjöruna; áleiðis til Sauðlauksdals.

Snemma morguns á Þorláksmessu leggur Gísli af stað til messu í Saurbæjarkirkju, en hugðist í leiðinni húsvitja á Rauðasandi.  Fara þeir um Dalverpi og Kerlingarháls, sem venja var.   Þegar þeir eru komnir áleiðis biður Gísli fylgdarmann sinn að halda einan áfram og bíða sín bak við hæð nokkra; en hann skuli ekki snúa við þó presti dveljist.  Eftir langa bið fór þó fylgdarmanni að leiðast og gægðist yfir hæðina.  Þá sá hann prest hamast þar í lautinni; líkt og væri hann í hörkuáflogum við eitthvað sem þó ekki sást.  Atgangurinn stöðvaðist þó skyndilega þegar Gísli sá samferðamann sinn.  Fékk sá miklar ákúrur fyrir óhlýðnina, og sagði Gísli að hennar vegna hefði hann ekki náð að hindra þá ógæfu sem á eftir myndi fylgja.

Áður en Gísli fór í ferð sína hafði hann lagt ríkt á það við heimilisfólk sitt að loka bænum um leið og útiverkum væri lokið; þar mætti enginn opna dyr þó vart yrði einkennilegra atvika úti.
En á aðfangadagskvöld í rökkrinu er sagt að smalamaður í Sauðlauksdal hafi heyrt nautsöskur fyrir handan vatnið en gefið því engan gaum.  Seinna um kvöldið þegar heimamenn eru allir inn komnir, að útiverkum afloknum, er bænum lokað og búist til jólagleði.  Ætlar maddama Sigríður að fara að skenkja kaffið.  Heyrist þá ógurlegt nautsöskur úti og í sömu svifum koma tvö geysimikil högg á stofuþilið en hræðslan grípur alla í baðstofunni.  Sigríður lítur út um glugga og biður guð að hjálpa sér en fyrirbýður að fara ofan og opna bæinn.  Þá segir fjósamaðurinn, Halldór Bjarnason: „Það er til skammar að opna ekki fyrir þeim, sem er að berja til dyra.”  Fer hann þá ofan og fram að dyrum og opnar bæjarhurðina en sér hvorki menn né naut úti né nokkuð óvenjulegt.  Ein af dætrum séra Gísla fer ofan á eftir Halldóri með ljós í hendi til að lýsa gestinum, sem allir héldu að kominn væri, og aðrar tvær fara líka ofan.  En jafnskjótt og Halldór opnar bæinn detta þær allar niður með froðufalli, ein í bæjardyrunum, önnur í göngunum og sú þriðja úr stiganum, þar sem hún var að fara ofan af loftinu.  Jafnframt kemur æði á frú Sigríði og börnin öll, sem heima voru, en heimamenn urðu allir sem þrumu lostnir við ósköp þessi.  Höfðu allir frá sama að segja, en það var að undireins og bærinn var opnaður hefðu börnin þrjú séð svartan hund með hvítan díl í rófunni koma til sín með dinglandi skottið og samstundis hefðu þau fengið aðsvifið.  Varð nú lítið úr allri jólagleði, og var til þess tekið hve þessi jól hefðu verið ömurleg í Sauðlauksdal. 

Sent var eftir Gísla, sem messað hafði í Saurbæ á jóladag.  Hann afþakkaði messukaffi og gistingu, en drífur sig heim.  Þar var döpur heimkoma; kona hans og börn nær brjáluð af hræðslu en aðrir heimamenn standa uppi ráðalausir.  Tekur hann þá til sinna ráða.  Lét hann fólk allt fara í bæinn, lokaði honum, fór einn út á móti sendingunni og var úti mestalla nóttina.  Eigi vissu menn gerla hvað hann starfaði en þó var talið að hann hafi verið með guðsorðalestri; skrýddur fullum messuskrúða og með kaleik í hendi, að eiga við drauginn.  Var í fyrstu talið að séra Gísla hefði tekist að koma sendingunni fyrir í dýi einu utan til í túninu í Sauðlauksdal.  Allt fór það þó á annan veg, þó hlé yrði á.  

Dalli hrellir fjölskyldu Gísla.  Eftir nokkurn tíma fer sendingin aftur að gera vart við sig.  Ásækir hann konu prests og börn hans, en honum sjálfum gat hún ekki mein gert.  Sáu börnin þá títt svarta hundinn með hvíta dílinn í rófunni, og sögðu þá gjarnan:  „Nú kemur hann héppi-hépp“.  Við þessar sýnir duttu þau niur með froðufalli eða fengu óstjórnleg æðisköst.  Reyndu þau þá að fyrirfara sér, og varð að hafa strangar gætur á þeim og halda þeim, svo þau færu sér ekki að voða.  Af þeim var Ólafur tápmestur og varð að gæta hans þegar köstin komu í hann, en þá vildi hann hlaupa út í bláinn.  Varð gæslumaður þá iðulega að elta hann upp á fjall eða út í Sauðlauksdalsvatn.

Dalli sást oft sem hundur, eins og fyrr er sagt, en einnig í kálfs- eða vetrungslíki.  Verður nú ásókn hans svo hörð að það ráð er tekið að koma börnunum fyrir á næstu bæjum.  Begður þá svo við að lítið eða ekkert ber á þeim meðan þau eru þar.  En undir eins og þau ætluðu að koma heim aftur og voru komin að landamerkjum Sauðlauksdals sáu þau hinumegin við þau annaðhvort kálfinn eða svarta hundinn, og fengu þá áðurnefnd köst.
Þegar sýnt þótti að í Sauðlauksdal gætu börnunum var ekki vært í Sauðlauksdal var þeim komið í langtímavist að heiman; sumum þeirra var komið burt úr landinu.  Þau voru þá komin úr mestu hættunni.  En Dalli fylgdi þeim og gerðist ættarfylgja þeirra.  Gerði hann oft vart við sig á undan þeim og skylduliði þeirra.  Kom það líka stundum fyrir að Dalli ásækti menn af þessari ætt; einkum ef þeir voru eitthvað veiklaðir.  En ekki urðu ásóknir þessar nú eins ákafar og meðan fjölskyldan var saman í Sauðlauksdal.
Það þótti einkennilegt að þó systkinin væru þannig aðskilin virtust þau sum vita þegar sótt var að öðru þeirra, þó langt væri á milli.   Einkum átti það við um Sæunni, sem oft fann á sér ef eitthvert systkina hennar varð fyrir áfalli af völdum Dalla, eða ef sendingin væri á leið til hennar.  Magnús, sonur Gísla er síðar varð prestur í Sauðlauksdal, fékk gjarnan æðið eins og hin systkinin.  En hann hafði þá þann sið að fara að barningasteininum og berja sleggjunni með ákafa ofan í hann, og batnaði honum þá ætíð.

Dalli fylgir Gísla.  Þó Dalli næði ekki að vinna Gísla mein fylgdi hann honum eftir og gerði vart við sig á bæjum áður en Gísli kom.  Séra Þórður Þorgrímsson, prestur í Otradal og á Brjánslæk, fór eitt sinn yfir Hálfdán í fylgd Gísla.  Sá þá séra Þórður Dalla í vetrungslíki fara á undan þeim yfir fjallið.  Var hann ávallt á öðru kennileitinu þegar prestarnir voru á hinu. 

Feluleikur í Dufansdal.  Einu sinni þegar Snæbjörn Pálsson bjó í Dufansdal voru börn í feluleik.  Torfi, sonur bónda, fer inn í fjárhús að fela sig.  Dimmt var inni, enda húsið gluggalaust.  Þegar honum leiðist biðin ætlar hann út, en mætir þá í dyrunum svörtum hundi með lafandi eyru og glóandi eldrauð augu.  Fannst honum hann þá missa allan mátt og var nærri hniginn niður.  En í þeim svifum kemur ein stelpnanna.  Hvarf sýnin við það og Torfi fékk máttinn aftur.  Töldu kunnugir að þarna hefði Dalli verið kominn.

Glímt við Dalla í Tungu.  Dótturdóttir Gísla, Sigríður Friðbertsdóttir, bjó í Tungu í Tálknafirði ásamt Þórði Jónssyni manni sínum.  Hjá þeim var vinnukona; Sigríður Jafetsdóttir.  Kálfur var alinn undir baðstofuloftinu í Tungu, en í þann tíð tíðkuðust fjósbaðstofur.  Kvöld eitt, er fólk var háttað, heyrist eitthvað brölt neðan úr fjósinu.  Sigríður tekur kolu í hönd sér og fer ofan.  Hún sér þá að kálfurinn stendur á afturfótunum, líkt og hann sé hengdur í hálsband sitt.  En í sama mund slökknar á kolunni.  Hún heyrir þó að korrar í kálfinum, líkt og hann sé í andarslitrunum.  Hrekkur henni þá af munni:  „Er andskotinn kominn í kálfinn?  Skyldi hann nú ætla að drepa hann“?  Við þessi orð brá svo að kálfurinn kyrrðist.  Kveikir Sigríður á kolunni og sér að ekkert er athugavert við kálfinn.  Ekki er hún þó fyrr lögst aftur í rúm sitt en bröltið og korrið í kálfinum upphefst á ný.  Rís þá Þórður úr sínu rúmi og fer ofan.  Hann var í þykkum nýþæfðum nærskornum prjónabuxum.  Ekki er hann fyrr kominn í fjósið en þaðan heyrast stympingar miklar, eins og verið sé að glíma af miklu kappi.  Þær ætla að færa honum ljós, en hann biður þær að halda sig uppi.  Þruskið berst svo fram eftir bæjargöngunum; fram að dyrum og út á hlað.  Að lokum kemur Þórður aftur í rekkju sína; all móður, en segir að nú muni friður haldast.  Hvorugur hafði skaða af þessum viðureignum; Þórður né kálfurinn, og ekki varð slíks vart aftur.  En talið var einsýnt að þarna hefði Dalli komið í heimsókn.

Dalli birtist í Vatnsdal.  Amalía nefndist dóttir Sæunnar; Gísladóttur prests Ólafssonar.  Hún var í vist að Vatnsdal.  Bar það oft við að óstjórnarköst komu í hana, án þess að fyrir þeim sæist ástæða.  Lýstu þau sér annaðhvort með hlátri miklum eða gráti.  Einu sinni sem oftar fær Amalía eitt kastanna.  Sigurbjörg Jónsdóttir var þá í Vatnsdal, er síðar var á Hvallátrum.  Hún á nú leið ofan af lofti og sér Dalla standa í stráks líki á milli hurðanna.  Sigurbjörgu verður ekki bilt við, heldur opnar útihurðina og rekur piltinn út.

Dalli fer til sjós.  Maður nokkur af Sauðlauksdalsættinni var eitt sinn sjómaður á þilskipi sem gekk til fiskveiða.  Eitt sinn liggur hann í hásetaklefanum og lætur mjög illa í svefninum.  Korraði í honum, eins og verið væri að kyrkja hann.  Annar maður sem var vakandi í klefanum heyrði svefnlæti þessi og sér nú að strákhnokki nokkur stendur á skuggalegum stað í lestinni og er að skæla sig og gretta í átt að sofandi manninum.  Telur hann strák þennan efalaust vera Dalla; tekur stóran hníf í hönd sér og veður með hann að draugsa.  Hann hörfar undan og eltir maðurinn hann aftur í lest, en þar hverfur draugurinn í myrkrinu.  Sá sem sofið hafði vaknar nú og segir sig hafa dreymt að Dalli hafi ætlað að kyrkja sig.

Höfuðhögg Dalla.  Árni hét maður; Bjarnason og bjó á Felli í Tálknafirði.  Hann átti son er Þorsteinn hét, og var á fermingaraldri er hér kemur sögu.  Þorsteinn fer eitt sinn ofan af baðstofuloftinu eftir að farið var að skyggja af degi.  Þegar hann er í stiganum sér hann strákhnokka með mórauða húfu standa hjá stiganum.  Þorsteini leist ekki vel á strák þennan og sparkar í höfuð hans með tréklossum sem hann hafði á fótum.  Fannst honum viðkoman líkust því að hann hefði sparkað í ullarþófa.  En stráknum bregður svo við að hann stingur sér á hausinn inn undir mölunarkvörn sem stóð undir stiganum; og hvarf þar niður í gólfið.  Sér Þorsteinn í iljar honum um leið og hann fer niður.  Þegar Þorsteinn kemur út á hlað er þar nýkominn gestur, og var hann af Sauðlauksdalsættinni.  Nóttina eftir þetta lætur einn heimamanna á Felli illa í svefni, en hann svaf á miðloftinu í baðstofunni.  Þegar hann vaknar segir hann frá því að sér hefði þótt Dalli koma og sagst þurfa að ná í strákskömmina hann Þorstein, en hann þyrði ekki að fara uppfyrir Árna.  Þorsteinn svaf þá fyrir ofan Árna föður sinn.

Hoppandi hauskúpa.  Þuríður dóttir séra Gísla giftist Sveini Gíslasyni, og bjuggu þau á Klúku í Fífustaðadal.  Dalli varð Sveini mjög fylgisamur og sást oft á undan honum, þó ekki sé getið um glettur við hann.  Eitt sinn kom gestur nokkur að Klúku snemma morguns í blíðskaparveðri.  Þegar hann kom að bænum sá hann að eitthvað sem líktist höfuðkúpu af manni var að skoppa þar um hlaðið.  Brá þessu sem snöggvast fyrir, en hvarf svo aftur sjónum hans.  Ekki fundu menn aðra skýringu á þessu en að þarna hefði Dalli verið á ferð.

Rauðleiti maðurinn.  Skammt frá Klúku er Öskubrekka, en þar bjó þá Helgi Arason.  Vorið 1891 reru þeir úr sömu verstöðinni; Helgi á Öskubrekku og Sveinn á Klúku.  Á Hvítasunnudagsmorgun fara tvær unglingsstúlkur frá Öskubrekku að smala.  Þegar þær koma fram á Ása líta þær til baka og sjá þá þrjá menn koma gangandi fram Eyrar.  Þær þykjast þekkja þar Helga og Svein, en átta sig ekki á hinum þriðja sem þeim sýnist rauðleitur.  Þær fylgjast með ferð þeirra er þeir ganga tveir heim á hlaðið í Öskubrekku, en sá rauðleiti staðnæmist undir bæjarhólnum og virðist bíða þar.  Eftir stundarkorn kemur annar maðurinn út aftur og heldur ofan túnið.  Rauðleiti maðurinn bíður hans ekki, heldur gengur á undan honum ofan Öskubrekkutún; yfir ána og heim Klúkutún.  Hann hverfur þeim svo þegar kemur heim í svonefndar Brunnhúsaþúfur, en hinn heldur heim að Klúku.  Var þar Sveinn á ferð, en talið var að þar hefði Dalli runnið á undan.

Búferlaflutningar Dalla.  Veturinn 1912-13 fluttist Sveinn frá Klúku til Magnúsar sonar síns á Neðrabæ í Selárdal.  Það bar til einn morgun þann vetur að smalinn á Fífustöðum gekk að vitja fjárins sem legið hafði úti á hlíðinni milli Fífustaða og Selárdals.  Þegar hann kom út á svonefndar Völlur sá hann spor í snjónum; í lögun líkt og mannsspor, en með undarlegu göngulagi.  Þau lágu í eilægum krákustígum, líkt og spor hunds sem fylgir göngumanni.  Stundum lágu þau kippkorn eftir veginum; síðan beygðu þau uppfyrir hann, nokkuð upp í hlíðina; komu því næst ofan aftur og lágu niðurfyrir veginn, og síðan uppfyrir hann aftur.  Þannig lágu þau óslitið í einlægum hlykkjum og krókum þessum; alla þá leið sem smalinn fór eftir veginum; frá Völlum og út fyrir Hraunhrygg, sem er um hálftíma gangur.  Þegar yfir hrygginn kom virtist slóðin stefna að Neðrabæ. 
Seinna þennan dag flytur sveinn sig alfarinn frá Klúku að Neðrabæ.  Fór hann sömu leiðina og hin krókótta slóð hafði legið, en fylgdi auðvitað ekki hlykkjunum.  Enginn kannaðist við eiganda þessara spora; enginn hafði farið þarna um þennan morgun á undan smalanum.  Var því nokkuð ljóst að slóðin væri eftir Dalla, sem þarna hefði flutt búferlum með Sveini. 

Mórauði hnoðrinn.  Ein sögn er enn af veru Dalla í Arnarfirði; þar sem hann þó átti sinn uppruna.  Einar Jóhannesson frá Melshúsum í Bakkadal var eitt sinn árið 1925 á leið inn á Bíldudal.  Þegar hann er kominn nokkuð innfyrir svonefndan Háf; innan Auðahrísdals, sér hann koma veltandi eftir götunni á móti sér rauðan hnoðra, á stærð við nokkuð stóran bandhnykil.  Einar heldur áfram göngunni, en áður en hann mætir hnoðranum beygir sá síðarnefndi út úr götunni og hverfur sjónum.  Ekki hafði Einar gengið langt er hann mætir manni á leið út í Dali, en sá var af Sauðlauksdalsætt.  Er þetta eina skiptið sem sögur fara af Dalla í slíkri hnoðramynd. 

Kálfurinn með hvíta hausinn.  Unglingsstrákur af ætt séra Gísla var um tíma fenginn til að hjálpa til í fjósi á bæ einum í Patreksfirði.  Morgun einn fór hann í fjósið og hugðist vatna kúnum.  Vatnið skyldi hann taka úr tunnu sem stóð í skoti í fjósinu.  Drengur kemur að vörmu spori aftur inn í bæ; móður og mæddur, og segist ekki vatna kúnum, því hann hafi séð kálf; rauðan með hvítan hausinn, í skotinu fyrir ofan tunnuna.  En þar átti þá ekkert að vera.  Fullorðin dóttir hjóna fór þá í fjósið með drengnum til að athuga þetta.  Enginn kálfur sást þá í horninu, en vatnsfatan var þar á botni tunnunnar, sem strákur hafði hlaupið frá í ofboði sínu.  Þennan sama dag kom bróðir drengsins úr nágrenninu til að finna hann.  Var talið víst að þetta hefði Dalli verið.

Hundar ærast í Raknadal.  Dalli gerði oft vart við sig á bæjum skömmu áður en fylgjendur hans bar að garði.  Sjaldnast olli hann miklu tjóni; miklu fremur var um smá óhöpp að ræða eða einkennileg fyrirbæri.  Einhverju sinni, milli 1910 og 1920 kom Kristján J. Kristjánsson í Efri-Tungu að Raknadal, á leið sinni á Eyrar, og þáði þar gistingu.  Um miðja nótt vaknar hann við það að þrammað er utan við gluggann og um leið taka hundarnir að gelta sem óðir væru.  Hann kallar þá til unglingspilts sem einnig svaf í stofunni og segir að nú sé líklega gestur kominn að húsinu.  Piltur fer að gá, en enginn er úti.  Síðar daginn eftir, er Tungubóndi kemur aftur við á leið sinni frá Eyrum, er honum tjáð að þá hafi litið við gestur af ætt þeirri er Dalli fylgir.

Dalla verður vart á Hvalskeri.  Á Hvalskeri varð Dalla stundum vart áður en fylgjendur hans bar að garði.  Stefán bóndi var eitt sinn að leysa hey í hlöðu þegar svartur hundur hleypur fyrir geilina.  Var þó enginn slíkur á bænum. Stuttu síðar sést til þeirra gesta sem vænta mátti.  Öðru sinni var Valborg að skúra gólf í stofunni og átti eftir að þurrka eina færuna, en gólffatan stóð með vatninu frammi í eldhúsi.  Skyndilega heyrir hún að fatan fer um koll með nokkrum látum og vatnið út um allt.  Þegar hún er búin að þurrka það upp og lítur aftur í stofuna er slóð hundspora sem liggur yfir nýskúrað gólfið.  Enginn hundur hafði þó komist í húsið.  Stuttu síðar hringir síminn og er þá verið að boða komu gesta sem Dalli fylgdi jafnan.  (Valborg Pétursdóttir; frásögn á Ísmús).    

Andskotast í kúm í Kollsvík.  Í Kollsvík gerði Dalli stundum vart við sig á undan gestum af þessari ætt.  Eitt sinn að haustlagi (kringum 1963) settu kúasmalar kýr í fjós um kvöld að vanda; bundu þær á bása sína og gengu frá halaböndum.  Um morguninn kemur í ljós að kýrnar hafa verið losaðar og eru komnar á ranga bása og halaböndin öll í flækju.  Um það leyti sem morgunmjöltum er að ljúka ber að garði gest sem Dalli er talinn fylgja. (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

Bílferð Dalla.  Nokkrum árum eftir þetta átti Jón Hákonarson kaupfélagsstjóri á Hnjóti leið að Kvígindisdal.  Lagði hann bíl sínum í brekkuna, en gekk úr skugga um að hann væri í bakkgír og handbremsu áður en hann drap á vél og fór inn.  Er hann hafði lokið erindum sínum og hugðist halda heimleiðis var engan bíl að sjá.  Hinsvegar mátti heyra dunandi danstónlist neðan úr árgilinu, langt neðan túnbrekkunnar.  Þegar menn gengu á hljóðið blasti bíllin við niðri í gilinu; á réttum kili og óskemmdur, en útvarpið á fullu.  Var mönnum það hulin ráðgáta hvernig hann hefði losnað úr gír og komist þessa leið án þess að velta.  Dalli var þegar grunaður um verknaðinn, enda gjarnan bendlaður við fólk þar á bæ. (VÖ).

Dalli á heimaslóð.  Árið 2017 var maður af sömu ætt á leið að sunnan vestur í Kollsvík á stórum sendiferðabíl.  Í leiðinni renndi hann upp að Sauðlauksdal til að hitta fólk sem þar dvaldi við vatnið, og hafði boðið honum silung í soðið.  Lagði hann bílnum á sléttri sandgrund þar sem enga hindrun var að sjá.  Er hann bakkaði bílnum til að snúa vildi þó ekki betur til en svo að trjáhnyðja ein mikil reis upp úr jörðinni undir bílnum, með þeim afleiðingum að undan bílnum slitnaði bremsubúnaður, olíutankur, bretti og annað.  Fór drjúgur tími í að gera bílinn ökuhæfan á ný.  Ekki þótti óhappið einleikið, enda rísa rekatré sjaldan úr jörð af sjálfsdáðum.  Þótti mönnum einsýnt að enn væri ekki allur kraftur úr Dalla. (VÖ).

Aðrar sagnir úr Sauðlauksdal

Móra skammtaður matur.  Móri nokkur var í Sauðlauksdal, en óljóst er þó hvort það var Dalsmóri.  Það var eftir aldamótin 1900 að Þorvaldur Kristjánsson var prestur í Sauðlauksdal.  Þá hafði Móri gengið þar ljósum logum, en þó verið til friðs ef honum var skammtaður matur.  Varð ætíð að skammta honum á hreinan disk; en væri það ekki gert fór hann í búrið og stal þaðan.  Var búrið ætið haft ólæst til að hann gæti nælt sér í bita þegar hungrið svarf að.  Þorvaldur hafði náð sér í hval frá hvalveiðistöðinni á Suðureyri í Tálknafirði, eins og margir gerðu í þann tíð, og súrsaði í tunnur.  Ekki var hann þó trúaður á tilvist Móra og harðlæsti búrinu.  Einnig var hætt að skammta Móra.  Ekki kunnið það góðri lukku að stýra.  Áfram var stolið úr búrinu, og nú hálfu meira.  Á endanum var horfið til fyrri hátta; að skammta Móra á tandurhreinan disk; og létti þá búrstuldinum.  Grunur lék þó á að hér hefði Móri notið aðstoðar tveggja hrekkjalóma.  Þeir sögðu frá því síðar að þeir hefðu náð sér í langan gaffal sem hafður var til að veiða mat úr hlóðapotti; settu á hann langt skaft; tóku tór (torfsnepla) úr veggnum og náðu að teygja sig gegnum gatið inn í búrið eftir mat, með gafflinum.  (Þórður Guðbjartsson; frásögn á Ísmús).   

Skötumóðirin í Dalverpi.   Skötutjarnir nefnast tjarnir tvær eru uppi á Dalverpi, en það er daldrag milli Sauðlauksdals og Keflavíkur.  Munnmæli segja að þarna á tjörnunum hafi útgerð mikil verið fyrr á tíð, og þá gert út á skötu í tjörnunum.  Sést þar enn móta fyrir rústum af verbúðum ef vel er gáð.  Þegar útgerð hafði satðið með blóma um langan aldur bar það við einn dag að menn drógu skötu eina með ódæmum stóra; meiri en svo að nokkur bátur bæri hana.  Var hún samt dregin til lands við illan leik.  En er menn hugðust taka til við skötuveiðar á næsta vori var öll skata horfin úr tjörnunum.  Hefur enginn maður orðið var við skötu eða annað kvikindi í þessum tjörnum síðan.  (Úr vesturbyggðum Barð.sýslu; Magnús Gestsson; stytt VÖ). 

„Ofan við brekkuna (í Sauðlauksdalstúni) stóð fyrr fjárhús; Akurgerðishúsið, líklega frá tíð Björns Halldórssonar.  Almennt var sagt að Sandvallahúsið hafi verið flutt þangað upp eftir vegna reimleika í tíð Gísla Ólafssonar, þegar allur dalurinn iðaði af draugagangi“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).    

Skápadalur 

Sæskrímslið á Skápadalshlíð.  Frá því segir Guðmundur Jónsson sem fæddur var 1856 en var á þessum árum vinnumaður í Vesturbotni; og frá segir hér framar.  Hann var eitt sinn sendur með kvígu fyrir fjörð, og fylgdi honum heimilistíkin.  Þegar kom út á miðja Skápadalshlíð varð tíkin skyndilega skelkuð mjög og skreið milli fóta Guðmundar.  Honum varð ekki um sel og hækkaði gönguna upp undir kletta.  Honum sagðist síðar svo frá:  „Þá fer ég nú að svipast um, og sé í fyrstunni ekki neitt.  En þegar ég fer nú að grína betur ofan í fjöruna sé ég einhverja bölvaða þúst; og það held ég vera skrímsli.  Jæja; ég tek þá upp stein; þennan líka litla!  Ég læt steininn fara og hann stefnir beint á það.  Og þegar það verdur vart við það að steinninn er að koma, þá stendur djöfull upp.  Og bölvuð sú lygin það er; þó ég ætti dauður niður að detta; að ég sá fjallsbrúnina hinum megin við fjördinn undir kviðinn á því!  Og það í sjóinn.  En buslugangurinn maður; út allan fjörd.  Og ekki komst hann í kaf fyrr en í Grænhólsdýpi“!
Önnur saga var sögð af sæskrímsli á Skápadalshlíð, en ósagt skal látið hvort það er sama skepnan.  Mun þetta hafa verið nokkru fyrr, eða á síðari hluta 19.aldar.  Þá var Björn bóndi í Skápadal að koma út Skápadalshlíð á hesti sínum.  Gatan liggur þar í sjávarmáli, og þar sem nú var lágsjávað var all langt útfiri.  Sér hann þá að nokkru utar í fjörunni er stór þúst; líkust stórum steini.  Þar átti þó enginn steinn að vera.  Er nær kemur sér hann að þarna liggur skepna; á stærð við stóra kú.  Rís nú skepna þessi á fætur og lítur í áttina til hans.  Bónda varð ekki um sel en ákveður þó að hleypa hesti sínum eftir götunni fyrir ofan dýrið.  Er honum varð litið við sá hann að skepnan er á haraspretti á eftir honum.  Hann knúði þá hest sinn harðar og slapp heim, undan ókindinni.  Lýsti bóndi þessu svo að það hefði verið dökkt að lit og óhrjálegt að sjá; luralegt og stirt í hreyfingum.  (Úr vesturbyggðum Barðastr.sýslu; MG; stytt VÖ). 

Raknadalur

Raknadalsdraugurinn Mókollur.  Ekki er einhlítt hvar staðsetja skal draug þennan; svo víðförull sem hann var, en við Raknadal var hann meðal annars kenndur. 
Þau eru tildrög Mókolls að Guðbrandur nokkur Jónsson bjó í Kvígindisdal í byrjun 19.aldar, en flutti síðar á Geirseyri.  Hann var þekktur fyrir galdrakukl en þótti einnig fégjarn.  Var sagt að hann hefði selt rauðhærðan son sinn til Hollendinga, sem vildu fá blóð hans til lækninga.  Í annan tíma átti hann í illdeilum við galdramanninn Guðmund í Litla-Króki á Rauðasandi (sést ekki í manntölum), og fékk sendingu frá honum (sjá Sendingin frá Litla-Króki; hér undir Kvígindisdal).

Þegar Guðbrandur bjó á Geirseyri vænti hann manns í vinnumennsku til sín sem hét Halldór Ólafsson.  Halldór var þá í vist hjá ekkju sem hét Helga og bjó á Hamri á Barðaströnd.  Þegar til kom vildi Halldót þó ekki fara frá ekkjunni, og skilja hana eftir með ómegð og á vonarvöl.  Líður svo nokkur tími, en þá fékk Halldór bréf frá Guðbrandi.  Gömul kona sem viðstödd var vildi fá að opna umslagið fyrir hann, en það aftók Halldór.  Sagði hún þá; „Sjá þú þá til Halldór minn; að betur fari“.  Þegar Halldór opnaði bréfið flaug upp úr því fluga: og beina leið ofan í hann.  Hann lagðist þegar veikur og sturlaður; og dó að fáum dögum liðnum.  Stuttu eftir að hann var jarðaður urðu menn varir við draug í líki unglingspilts, sem einkum gekk um á Hamri og næstu bæjum.  Var hann á mórauðum peysugarmi; svörtum buxnagörmum og með mórauða lambhúshettu tvíbrotna á höfði.  Var hann því nefndur Mókollur, en sumir kölluðu hann Móra.  Mókollur var ekki mjög magnaður draugur og frekar hafði hann við smáhrekki en að hann gerði mönnum mein.  Lá hann iðulega á húsþökum á Hamri og Vaðli og sóttu þá gjarnan veikindi að íbúum.  Þegar rökkva tók stóð hann oft í hornum og skúmaskotum og heyrðist þá í honum: „Hviss, hviss“.  Flugu þá frá honum eldglæringar, en þegar að var komið hvarf hann frá.  Hann átti það til að grípa utan um fólk eða taka í hendina á því, en frekar var það kraftlaust og meinlaust. 
Mókollur fylgdi Gunnlaugi Gíslasyni bónda í Raknadal.  (Bjó þar 1762-1780. Einhver skekkja er því í ártölum, en „góð saga má aldrei gjalda sannleikans“).  Var talið að einhverjir óvildarmenn hefðu magnað Mókoll og sent honum.  Mókollur fylgdi síðan Kristínu dóttur Gunnlaugs (f. 1765), sem var gift séra Jóni Vestmann f.1769-d.1869, presti í Flatey, Kálfafelli, Keldum og Vogsósum).  Þegar Gunnlaugur dó tók Kristín fásinnu mikla og óeirð.  Mátti hún ekki af manni sínum sjá er hann fór að heiman en lagði fæð á hann þess á milli.  Jóni varð skapraun að þessu og taldi Mókolli um að kenna.  Fékk hann hund; Skjamba að nafni, til að verjast draugsa.  Sást iðulega til hundsins þegar hann var úti; að hann stökk upp með urri og gelti og sýndist elta eitthvað í burtu.  Varð eitt barn þeirra sinnisveikt, og það talið af völdum Mókolls.  Þegar Jón fékk Kálfafellsbrauð fór Kristín um tíma til lækninga á Ísafjörð.  Þegar hún flutti aftur til manns síns.  Fylgdi Mókollur henni austur að Jökulsá á Sólheimasandi, en sneri þar aftur.  Varð hún þá albata er hún kom að Kálfafelli.
Guðmundur nokkur Jónsson, bóndi á Vaðli, átti oft að hafa séð Mókoll; sagði að hann gengi þar um bæi sem væri hann mennsur maður.  Guðmundur þessi var skyggn.  Einhverju sinni heyrðu menn Mókoll segja:  „Ég get hvergi verið fyrir bölvuðum glyrnunum í honum Vaðals-Gvendi; og henni Bergjakots-Imbu“!  Mókollur hélt þó áfram að ganga ljósum logum.  Er sagt að hann sæti um hádaga á rúmum eða kistum og berði fótarstokkana, en stundum heyrðist til hanns undir rúmunum.  Einu sinni atyrti bóndinn í Kollsvík hann, en rétt á eftir; þegar komið var til fjárins, var ein ærin dauð.  Hafði henni verið troðið niður í mjög þrönga sprungu í bergi einu.  (Þjóðsögur Jóns Árnasonar).   

Huldufólk

sg sg

Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1992. 

Kannski hef ég heldur lítið til mála að leggja um huldufólk og slíka vætti en frá því ég man eftir mér hefur mér þótt mesta mein að vera svona lítið skyggn á slíkt. Sem barn trúði ég þessu statt og stöðugt og sumu vil ég trúa enn.

sg atjanbarnafadir(Myndin er af steinhellu sem Sigríður málaði, og er tilvitnun í þjóðsöguna um átján barna föður í álfheimum.  Sigríður þróaði þá sérstæðu list að mála á steinhellur úr náttúrunni, og var sú list hennar eftirsótt.  Myndefnið vísar gjarnan til hugðarefna hennar, þjóðsagna og fyrri tíma.  T.d. viðaði hún að sér heimildum um fjölda gamalla bæja í Rauðasandshreppi og málaði þá á hellur). 

Ekki dettur mér í hug að bera brigður á skyggni fólks og þekki nokkra slíka sem ég veit að eru trúverðugir. Þegar ég var 3 - 4 ára kom á heimili mitt 8 ára telpa sem var þar heimilisföst fram yfir fermingu. Hún var rammskyggn og fleiri í hennar fjölskyldu (hún var af svokallaðri Krossætt en hún, sú ætt, hefur verið talsvert undir smásjá vegna þess að fólk af þeirri ætt dó margt um tvítugt í slagaveiki). Ekki veit ég til að skyggnt fólk sé talið öðruvísi að öðru leyti en fólk er flest. Þó var talið að það hefði oft undarlegt augnaráð sem ekki getur verið fráleitt þar sem það var oft að horfa á allt annað en annað fólk sá. Ekki hef ég heyrt um að skyggnt fólk sæi fremur huldufólk en aðrir en veit það þó ekki; helst var talið að skyggna fólkið sæi framliðið fólk.  Ég held að margt eldra fólk hafi trúað á huldufólk í mínum uppvexti; einkum konurnar. Karlarnir voru greinilega tortryggnari.

Reyndar þekkti ég eina gamla konu sem var skyggn bæði, að hún taldi, á huldufólk og framliðna. Ekki veit ég um hvað var með huldufólkstrúna hennar en ég heyrði sögu sem mér fannst sanna aðra skyggni. Móðir mín sagði mér hana eftir svilkonu sinni sem var bróðurdóttir þessarar gömlu konu sem hét Elín Benónísdóttir. Hún átti heima í Breiðuvík hjá bróður sínum, Sveini. Þessi gamla kona giftist ekki né átti börn og var talin heldur einföld. En svo hagaði til að fólkið bjó þarna í torfbæ og allir sváfu í baðstofu uppi á lofti og lá þangað stigi úr eldhúsi.  Kvöld eitt þegar fólk bjóst til að taka á sig náðir ætlaði Elín að bregða sér niður og opnar hlera sem var yfir loftsgatinu og fer niður tvö - þrjú þrep en stansar þá og lítur niður í eldhúsið. Bregður henni þá sýnilega og kemur aftur upp þrepin. Stendur þar stundarkorn eins og á báðum áttum en bítur svo á jaxlinn og fer niður og út. Kemur svo inn og fer upp og fer að hátta. Hún var spurð hvað hún hefði séð en hún gaf ekkert út á það. Daginn eftir fór bróðurdóttir hennar að ganga betur á hana með hvað hún hefði orðið vör við í eldhúsinu og sagði hún henni þá að hún hefði séð marga menn; alla blauta en bara þekkt tvo þeirra en það voru bræður sem bjuggu á hinum bænum í Breiðuvík en þar var tvíbýli. Þessir bræður voru þá á vertíð í Vestmannaeyjum. Um kvöldið komu svo boð um að báturinn sem þeir bræður voru á hefði farist með allri áhöfn.

Ekki heyrði ég frá því sagt að huldufólk væri hrekkjótt við fólk, nema hvað það ætti til að ásælast börn frá mennskum mönnum. Ég heyrði sögu af því að föðurbróðir mannsins míns hafi horfið þegar hann var smábarn (ca 2 ára). Var hann þá að dunda eitthvað út í Kollsvík en þar bjuggu foreldrar hans. Hans var leitað í 2 - 3 daga en á þriðja degi sást hvar hann sat uppi í smásyllu neðst í klettunum fyrir ofan bæinn sem heitir síðan Gíslahilla en drengurinn hét Gísli Guðbjartsson. Skammt þaðan er nokkuð stór steinn í hlíðinni sem heitir Árún.  Hét hann, að sögn, eftir álfkonu sem þar bjó og hét sama nafni og steinninn. Var talið að hún hefði náð barninu en skilað því aftur. Drengurinn var svolítið undarlegur upp frá þessu en varð gamall maður.  Manni gæti að vísu dottið í hug að barn sem væri týnt þennan tíma biði þess naumast bætur.

Best sannaða sagan sem ég þekki um huldufólk er saga sem ég heyrði frá nokkuð mörgum sem sáu þessa "manneskju". Bæirnir Grundir og Láganúpur áttu saman fjárrétt sem var niður við sjávarbakkana fyrir neðan Grundatúnið.  Á Grundum er móðir mín fædd og uppalin en hún mundi raunar ekki eftir þessu þar sem hún var smábarn. Svo var það eitt sumar að allt fólk af báðum þessum bæjum eru þarna í réttinni að taka af fénu (hér heitir það ekki að rýja). Sér það þá hvar kona kemur gangandi utan af Hnífum, sem eru háir sjávarklettar vestur af Grundabænum. Þar er nokkuð fjölbreytt landslag með bollum og lautum og klettanefjum í brúninni. Var þar talin huldufólksbyggð. Sá allt fólkið sem í réttinni var þessa konu og var hún nokkuð storholldökkklædd og stórvaxin. Hvarf hún svo fyrir klettanef en fólkið bjóst við að hún kæmi í ljós þegar hún hefði farið fyrir nefið. Er þar skemmst frá að segja að þessi kona hefur ekki sést síðan og var spurnum haldið um ferðir konu sem hlaut þá að hafa komið utan úr Breiðuvík. Enginn kannaðist við mannaferðir á þessari leið þennan dag. Fá ár eru síðan frænka mín rifjaði upp þessa sögu en hún var unglingur þegar þetta var og sagðist hafa horft á þessa konu eins og aðrir og varð þetta minnisstætt. Hún hét Guðný Ólafsdóttir og dó fyrir örfáum árum. Fleiri höfðu sagt mér þetta af þeim sem sáu það.

Huldufólk var talið búa í steinum, klettum og hólum. Þegar ég var að alast upp á Lambavatni þá vorum við krakkarnir varaðir við að vera með hávaða á Skaufhólnum sem er stór og sérkennilegur hóll milli Lambavatns og Naustabreku. Þar var sögð mikil huldufólksbyggð. Eins voru börn vöruð við hávaða við Stórhól sem er hóll úti á Hnífum.  Ekki heyrði ég um tegundir álfa en ég held ekki að gerður væri verulegur munur á álfum og huldufólki.

Hafi huldufólk verið verulega frábrugðið mannfólki þá heyrði ég ekki frá því sagt. En það var talið hefnigjarnt ef gert var á hlut þess.  Huldufólk var talið stunda svipaða atvinnu og mannfólkið þ.e. landbúnað og fiskveiðar en ekki heyrði ég mikið á það minnst nema að fólk taldi sig hafa orðið vart við lestarferðir huldufólks með hesta.  Ég heyrði helst talað um ferðalög á hestum og bátum. Helst hafði huldufólk bústaðaskipti um áramót eða um fardaga.  Eitthvað heyrði minnst á huldufé og jafnvel kýr. Þó var aðallega talað um sækýr en ég held að þær hafi verið annar stofn. Þessar sækýr voru gráar, ljósar með dekkri yrjum og það var talað um að sá litur væri arfur frá þannig ættuðum kúm. En til marks um sjóferðir huldufólks voru álfarákir sem sáust á sjó í stillum og næstum logni. Það eru lognrákir sem geta teygt sig býsna langt á sjó og enn eru nefndar svo.

Það var nokkuð almenn trú á að huldufólk fengi lánaða hluti hjá fólki en skilaði þeim alltaf aftur. Þó leið oft langur tími þar til hluturinn kom aftur fram. Eitt sinn þurfti ég að sækja eitthvað í skáp sem við eigum reyndar enn. Hann er með loki sem opnast ofan frá og hægt er að skrifa á lokinu en því er læst. Þegar ég er að róta í skápnum heyri ég að lyklarnir detta á gólfið úr skránni en held áfram með mitt erindi. Svo ætlaði ég að taka lyklana og læsa skápnum. En þá voru bara engir lyklar á gólfinu. Var þeirra leitað mikið enda gátu þeir raunar ekkert farið. Urðum við svo að gefast upp og útvega aðra lykla. Liðu svo nokkur ár en eitt sinn þurfti ég að fara í skápinn og þá lágu lyklarnir á blaðabunka fyrir innan hurðina. Var þá auðvitað margbúið að róta í blöðum í skápnum, taka sumt burt og bæta í öðrum á þessum árum svo alveg útilokað er að lyklarnir hafi verið í skápnum allan tímann. Sem sagt; enn segir maður ef eitthvað hverfur, að nú hafi huldufólkið þurft að fá þetta lánað.

Til er góð saga um skessu sem bjó í klettum á Rauðasandi og elti prestinn við Bæjarkirkju; sem var raunar forfaðir minn og bjó á Lambavatni um aldamótin 1700.  En þar er komið út í aðra sálma og því bíður hún betri tíma.