Hér segir frá Slysavarnadeildinni Bræðrabandið í Rauðasandshreppi, sem fræg varð á sínum tíma fyrir frækilegt björgunarafrek við Látrabjarg en starfar enn af fullum krafti, þrátt fyrir mikla fólksfækkun á starfssvæðinu.  

Um tvær sjálfstæðar frásagnir er að ræða.  Unnt er að komast beint í þá síðari með því að smella á kaflaheitið.
Össur Guðbjartsson:  Slysavarnardeildin Bræðrabandið
Gísli Már Gíslason:  Bræðrabandið 85 ára.

 

Slysavarnadeildin Bræðrabandið

ossurHöfundurinn:  Össur Guðbjartsson (19.02.1927-30.04.1999) fæddist á Grund og ólst upp á Láganúpi í Kollsvík.  Þar tók hann við búi árið 1953, ásamt konu sinni Sigríði Guðbjartsdóttur og bjó þar til æviloka.  Hann gegndi fjölmörgum félagsstörfum fyrir Rauðasandshrepps, var t.d. lengi oddviti hreppsnefndar, sýslunefndarmaður, búnaðarþingsfulltrúi, stéttasambandsfulltrúi, stjórnarmaður í kaupfélögum, Orkubúi og fleiri félögum.  Auk þess sinnti hann iðulega barnakennslu.  Össur veiktist árið 1987 og bjó við töluverða lömun síðari æviár sín.  Honum voru þó áfram hugleikin ýmis samfélagsmál, og ekki síst það sem snerti heimasveitina.  Grein þessa um Bræðrabandið tók hann saman eftir að hann veiktist.  Megnið af henni er ritað með hans hendi, en um sumt hefur hann notið aðstoðar Sigríðar konu sinnar.

Áhugi á slysavarnastarfi hefur löngum verið mikill og einlægur í Rauðasandshreppi, og enn starfar Bræðrabandið (árið 2015) þrátt fyrir að byggð í Rauðasandshreppi sé ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem gerðist á stofnárunum.  Í Kollsvík voru lengi geymd fluglínutæki, og höfðu Össur og bræður hans fengið tilsögn í notkun þeirra.  Hvorku þau né Bræðrabandið voru þó komin til þegar breski togarinn Croupier strandaði á Blakknesboða árið 1921; og allir 12 skipverjar fórust .                                                                  

Slysavarnadeildin Bræðrabandið var stofnuð 22. apríl 1933.  Stofnendur voru 62.  Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu séra Þorsteinn Kristjánsson, prestur í Sauðlauksdal; Ólafur E. Thoroddsen Vatnsdal og Snæbjörn Thoroddsen Kvígindisdal.  Fyrsti formaður var Ólafur E. Thoroddsen.  Fyrsti ævifélagi deildarinnar var Eyjólfur Sveinsson, Lambavatni. 

Eitt af því fyrsta sem stjórnin beitti sér fyrir var að halda skemmtun til fjáröflunar fyrir deildina.  Einnig voru samþykkt lög fyrir deildina á fyrsta aðalfundi.  Þá beitti stjórn deildarinnar sér fyrir því að sími væri lagður um sveitina.  Í fyrstu var hann lagður frá Kvígindisdal um Örlygshöfn að Breiðuvík og Hvallátrum.  Síðar var hann svo lagður frá Örlygshöfn að Hænuvík, og frá Breiðuvík að Kollsvík.  Naut deildin mjög aðstoðar Slysavarnafélags Íslands við þrýsting á stjórnvöld við að fá símalagningunni flýtt sem mest.  Þetta var mjög mikil framför til þess að fylgjast með skipaferðum, en hér fyrir Víkurnar var, og er enn, fjölfarin skipaleið.  Oft höfðu átt sér stað skipströnd þar á liðnum tíma.  Síðar var svo lagður sími á Rauðasand. 

Árið 1935 kemur fyrsti erindreki Slysavarnafélags Íslands og hittir stjórn deildarinnar í Kvígindisdal.  Stjórnin leggur fyrir hann helstu baráttumál sín, m.a. símamálin.  Einnig mun hann hafa rætt um það við stjórnina hvar helst þyrfti að vera staðsett fluglínutæki á félagssvæðinu, og tilnefndir menn á hverjum stað til umsjónar með þeim.  En slík tæki voru staðsett í Örlygshöfn, Kollsvík, Rauðasandi og Hvallátrum.  Kenndi erindrekinn ákveðnum mönnum á þessum stöðum meðferð þessara tækja.  Þau komu sér vel síðar þegar strönd og stórslys bar að höndum.

Framanaf var Ekkna- og munaðarleysingjasjóður í umsjá deildarinnar, og var sama stjórn hans og deildarinnar.  Á fyrri árum Bræðrabandsins var jafnan haldið leikmót einu sinni á sumri, til fjáröflunar fyrir deildina.  Voru þar ýms skemmtiatriði, t.d. hlaup, reiptog, pokahlaup o.fl; og síðan dans á danspalli sem deildin átti.

Árið 1942 er í fyrsta sinn kjörinn fulltrúi á landsþing SVFÍ.  Enginn mætti þó það ár né næstu ár.  Séra Þorsteinn Kristjánsson sem verið hafði í stjórn deildarinnar frá stofnun fórst með ms Þormóði.  Í stað hans var kjörinn í stjórnina Sigurbjörn Guðjónsson, Hænuvík.  Síðar komu í hana séra Trausti Pétursson og Jón Torfason, Vatnsdal.

Árið 1947 vann deildin það afrek að bjarga 12 skipbrotsmönnum af togaranum Dhoon sem strandaði undir Látrabjargi.  Er þetta þrekvirki jafnan síðan kallað Björgunarafrekið við Látrabjarg, og björgunarmenn voru heiðraðir á ýmsan hátt fyrir það.  Kvikmynd var gerð um þessa björgun af Óskari Gíslasyni, fyrir forgöngu þáverandi formanns deildarinnar; Þórðar Jónssonar á Látrum.  Þegar unnið var að gerð myndarinnar, í byrjun desember 1948, varð það slys að breski togarinn Sargon fórst undir Hafnarmúla.  Þá var mikill hluti félagsmanna Bræðrabandsins staddur í Kollsvík við myndatökuna.  Fóru þeir þá strax á staðinn og tókst að bjarga 6 mönnum af 17 manna áhöfn togarans.  Þar vann Óskar Gíslason einnig það afrek að festa á filmu björgunaraðgerðina, þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður.  Það er lang áhrifamesti hluti myndarinnar, og ber hana raunar uppi.

Þórður gegndi formennsku í deildinni frá árinu 1948 til dauðadags, og var þá á þeim tíma jafnan fulltrúi deildarinnar á landsþingum SVFÍ.  Þá var hann um árabil stjórnarmaður í stjórn SVFÍ.  Var hann þar forgöngumaður þess að tekin var upp tilkynningaskylda skipa, sem enn er í gildi.  Flutti hann á þessum tíma mörg merk mál um slysavarnir.  Þess væri vert að deildin hefði forystu um að þeim hjónum verði reistur minnisvarði á einn eða annan hátt.

Bræðrabandið 85 ára

gisli mar gislasonGísli Már Gíslason er fæddur 18.02.1950.  Hann ólst upp á Hvallátrum og hefur löngum dvalið þar. Hann er margfróður um sögu sinna heimaslóða, og hefur verið leiðsögumaður um þær.  Gísli er með B.S. próf í líffræði frá HÍ og doktorspróf í vatnalíffræði frá í Newcastleháskóla. Hann hefur verið háskólakennari og prófessor við HÍ síðan 1977 og stundað rannsóknir á náttúru Íslands. Auk þess hefur hann kennt í leiðsögumannanámskeiðum við Endurmenntunarstofnun HÍ og einnig í Leiðsögumannaskólanum í Kópavogi. Hann hefur lengi setið í stjórn Ferðafélags Íslands.

Engin íslensk björgunarsveit hefur orðið jafn þekkt hér á landi og í útlöndum eins og Slysavarnardeildin Bræðrabandið. Bræðrabandið var stofnað 27. mars 1933. Bræðrabandið er með elstu deildum Landsbjargar. Bræðrabandið varð 85 ára á árinu.

Aðdragandi að stofnun Slysavarnarfélags Íslands var nokkuð langur en á þessum tíma var ekki óalgengt að tugir sjómanna létu lífið í sjóslysum á ári hverju. Félagið var stofnað 29. janúar 1929 . Félaginu var ætlað það hlutverk að draga úr slysum á sjó og koma upp búnaði til björgunar. Á stofnfundinum gengu 200 manns í félagið.

Í kjölfar strands Jóns forseta við Stafnes aðfaranótt 27. febrúar 1928, þar sem 15 manns fórust en 10 var bjargað við erfiðar aðstæður, hófst stofnun slysavarnadeilda víðsvegar um landið. Fyrsta slysavarnadeildin var Sigurvon í Sandgerði, en rétt er að geta þess að Björgunarfélag Vestmannaeyja stofnað árið 1918 á undan Slysavarnarfélagi Íslands.

Ásamt stofnun slysavarnadeilda beitti Slysavarnafélagið sér fyrir útbreiðslu svokallaðra fluglínutækja til slysavarnadeildanna um landið, en fluglínutæki eru sérhæfður búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum. Fyrsta björgun með fluglínutækjum var þegar Slysavarnadeildinni Þorbirni í Grindavík auðnaðist sú mikla gæfa að bjarga 38 manna áhöfn franska síðutogarans Cap Fagnet frá Fécamp, sem strandaði í slæmu veðri við bæinn Hraun, austan Grindavíkur, aðfaranótt 24. mars 1931. Slysavarnadeildin Þorbjörn hafði verið stofnuð röskum 5 mánuðum áður eða þann 2. nóvember 1930. 

Á byrjanarárum Slysavarnarfélagins fór erindreki, Jón E. Bergsveinsson, á vegum félagsins um landið og hvatti til stofnunar slysavarnardeilda og kenndi meðferð línubyssu og björgunartóla. Eflaust hefur það haft áhrif á hve áhugi á stofnun slysavarnardeildar í Rauðasandshreppi var mikill að Sigurjón Á. Ólafsson alþingismaður og formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, sem fæddur var á Látrum 1884 var einn af hvatamönnum stofnunar Slysavarnarfélags Íslands og sat í fyrstu stjórnum þess. Rósinkrans Ívarsson frá Kirkjuhvammi var einnig í fyrstu varastjórn Slysavarnarfélagsins.

Bræðrabandið var stofnað 27. mars 1933 í Tungu í Örlygshöfn og var Ólafur E. Thoroddsen í Vatnsdal kosinn formaður á fyrsta stjórnarfundi þess 22. apríl sama ár í Kvíindisdal. Ólafur var reyndur sjómaður. Hann hóf sjómennsku 10 ára gamall á opnum bátum frá Látrum og Kollsvík og var lengi sjómaður og skipsstjóri á skútum frá Patreksfirði.  Aðrir í stjórn voru sr. Þorsteinn Jónsson í Sauðlauksdal, ritari og Snæbjörn Thoroddsen í Kvíindisdal, féhirðir. Á stofnfundinum voru 30 félagar, en mánuði síðar voru þeir orðnir 62, þar af einn ævifélagi, Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni. Sr. Trausti Pétursson í Sauðlauksdal virðist hafa tekið við formennsku 1944 þegar Ólafur E. Thoroddsen flutti frá Vatnsdal, en það er samt ekki alveg skýrt í fundargerðum deildarinnar. Á þessum tíma hófust aðalfundir á guðþjónustu og stjórnarfundum lauk með sálmasöng, sem bendir einnig til að sr. Trausti hafi verið formaður.  Þórður Jónsson á Látrum var kosinn formaður Bræðrabandsins 1948 og Jafnfram komu Daníel Eggertsson (féhirðir) og Ásgeir Erlendsson (ritari) á Látrum í stjórnina í stað Trausta, sr. Sveinbjarnar og Torfa Jónssonar í Vatnsdal. Þórður var formaður Bræðrabandsins til dauðadags, en hann lést 1987. Hann var jafnframt í stjórn Slysavarnarfélags Íslands 1952-1976‚ Ólafur K. Sveinsson á Nesi var tilnefndur til formanns í desember 1987 fram að kosningu á næsta aðalfundi. Tók við formennsku af Þórði og gegndi því starfi fram til 1989, en þá var Guðjón Bjarnason í Hænuvík kosinn formaður. Gegndi hann því til 2000. Keran St. Ólason tók við formennsku af Guðjóni og gegndi því til 2003. Núverandi formaður Eyjólfur Tryggvason frá Lambavatni tók þá við starfinu. Aðrir í stjórn með honum eru Keran St. Ólason og Sigurþór P. Þórisson.

Eitt mesta afrek Bræðrabandsins var björgun áhafnar breska togarans Dhoon frá Fleetwood, sem strandaði undir Geldingsskorardal í Látrabjargi 12. desember 1947. Þórður á Látrum stýrði björgunarstarfinu. Björguðust allir skipsbrotsmenn sem voru á lífi, 12 talsins, þegar björgunarmenn frá Látrum, Breiðuvík, Kollsvík og Hænuvík komu á strandstað, en þrír drukknuðu áður en björgunarmenn kom.  Síðan bættust við menn alls staðar úr Rauðasandshreppi og frá Patreksfirði í hóp björgunaranna og komu 30 manns beint að björguninni, sem stóð í þrjá sólahringa. Auk þess vann allt heimafólk á Látrum við að undirbúa komu skipsbrotsmanna og útbúa vistir og tína saman fatnað sem borinn var inn á Geldingsskorardal í dimmviðri og þoku. Var það mikið þrekvirki að ná mönnunu í land og draga þá upp á Flauganef, grasigróna syllu í miðju bjarginu, og síðan upp á brún í vonsku veðri og hálku í mesta skammdegi árisins. Óskar Gíslason kvikmyndaði heimildarmyndina Björgunarafrekið við Látrabjarg. Aðalhvatamaður að gerð myndarinnar var Þórður á Látrum og léku björgunarmenn sjálfa sig og skipbrotsmenn. Kvikmyndin var sýnd í Færeyjum, Danmörku, Englandi, í öllum slysavarnadeildum Noregs og eflaust fleiri löndum. Hún er núna (2018) sýnd á Minjasafni Egils Ólafssonar á Hnjóti í Örlygshöfn. Þegar unnið var að kvikmyndinni strandaði togarinn Sargon undir Hafnarmúla að kvöldi 1. desember 1948. Þá voru björgunarmenn við kvikmyndagerð í vonsku veðri í Kollsvík og hlupu með björgunarbúnað á slysstað. Um kvöldið þegar togarinn strandaði, höfðu björgunarmenn úr Örlygshöfn skotið línu út í togarann , en enginn úr áhöfn hans virðist hafa séð hana. Björgun hófst því um morguninn eftir þegar liðsauki bættist við. Sömu menn komu að björguninni og höfðu bjargað áhöfn Dhoons, en því miður voru margir úr áhöfn togarans látnir úr vosbúð þegar björgun barst og björguðust 6 skipverjar, en 11 fórust. Björgun skipsverjanna úr togaranum var kvikmynduð og er hluti af kvikmyndinni Björgunarafrekið við Látrabjarg.

Bræðrabandið reisti, undir stjórn Þórðar á Látrum, björgunarskýli í Keflavík sem var vígt við hátíðlega athöfn og mikið fjölmenni 26. júlí 1953. Bræðrabandi nefndi skýlið Guðrúnarbúð í höfuðið á Guðrúnu Jónsdóttur formanni kvennadeildar Slysavarnarfélagsins í Reykjavík, en skýlið er gjöf frá kvennadeildinni í Reykjavík. Var það hugsað sem skýli fyrir skipsbrotsmenn sem kæmust á land á þessum afskekta stað, en það hefur aðallega nýst hrökktum ferðamönnum á landi, sem hafa leitað þar skjóls. Það má einnig geta þess að íbúar Rauðasandshrepps voru fyrstir til að gefa eina krónu á ári fyrir hvern íbúa til Slysavarnarfélags Íslands, sem var mikill peningur 1953.

Slysavarnardeildin Bræðrabandið hefur komið að leitum og björgunarleiðangrum í gegnum árin og má þar nefna leit og fund flugvélar sem fórst með fjórum mönnum á Brunnahæð 15. júlí 1967. Einnig má nefna leitir í fjörum eftir skipsskaða við Vesturland og félagar úr Bræðrabandinu náðu líki þýska ferðamannsins sem hrapaði af brún Látrabjargs niður í fjöru 9. júní 2010 áður en sjór skolaði því af hleyninni sem það lenti á. Einnig leituðu félagar úr Bræðrabandinu lengi af öðrum ferðamanni sem líklega hrapaði af brún bjargsins í september 2014. Þá eru ótaldir björgunarleiðrangrar frá Látrum og Breiðuvík til að draga bíla ferðamanna, sem fasti eru í snjó á leiðinni út á Látrabjarg.

Stofnun Slysavarnardeildarinnar Bræðrabandsins árið 1933 var mikið gæfuspor. Bræðrabandið er  núna ein af björgunarsveitum Landsbjargar eftir sameiningu sveitanna 1991. Saga Bræðrabandsins hefur verið viðburðar- og gæfurík og er Bræðrabandið jafn nauðsynlegur hlekkur í björgunarstarf á Íslandi og það var við stofnun þess. Byggist það ekki síst að staðgóðri þekkingu félagsmanna á náttúru svæðisins.

Gísli Már Gíslason

Eyjólfur Tryggvason formaður Bræðrabandsins  og Borgar Þórisson frá Skeri voru mér innan handar um heimildir fyrir skrifin og fékk ég afrit af fundargerðum Bræðrabandsins hjá Eyjólfi.