Gabba (s)  Plata; ginna; narra; blekkja.  „Þeir reyndu að gabba hann með því að setja sand undir í balann og fáeina fiska ofaná.  En hann var fljótur að sjá í gegnum það“.

Gadda hurðir (orðtak)  Læsa hurðum; slá fyrir loku/slagbrandi.  ...mátti ekki gadda bæjardyr að daglokum svo sem siður var.  Væri slagbrandur settur fyrir að kvöldi voru dyr brotnar inn að morgni...“  (MG; Látrabjarg).  Upprunaleg merking sagnarinnar að gadda var að negla eða seyma bát með gaddi (LK; Ísl.sjávarhættir II).

Gaddafjöl (n, kvk)  Naglaspýta.  „Varaðu þig á gaddafjölunum sem liggja eins og hráviði kringum bygginguna“.

Gaddaskata (n, kvk)  Tindabykkja; tindaskata; lórskata; Raja aculata.  Líklega hefur þessi fiskur helst gengið undir nöfnunum gaddaskata og tindaskata í munni vermanna í Kollsvík, en um það skal þó ekki fullyrt.

Gaddavír (n, kk)  Gaddavír varð vinsælt girðingarefni þegar hann barst til landsins í kjölfar heimsstyrjalda, enda ódýr og áhrifarík leið til að verja tún.  Í Kollsvík voru tún girt ýmist með gaddavír eða túnneti á síðari tímum.

Gaddfreðinn / Gaddfrosinn (l)  Gegnfrosinn; beinfrosinn.  „Fiskurinn er alveg gaddfreðinn eftir nóttina“.

Gaddfrost / Gaddafrost (n, hk)  Grimmdarfrost; hörkufrost.  „Féð helst lítið að beit í þessu gaddfrosti“.  Orðmyndin gaddafrost heyrðist sjaldnar, en hvorttveggja er líklega tilvísun í myndun grýlukerta.

Gaddharður (l)  Mjög ákveðinn; stífur á meiningunni; harður af sér.  „Hann er alveg gaddharður á þessu“.  Algengara var  „gallharður“ í sömu merkingu.  E.t.v. er það hljóðvilla/afleiðing af þessu orði, en þarf þó ekki að vera, þar sem það kann að vísa í hljóm þess sem er mjög hart, sbr. sögnin að „gella“.

Gaddhörkufrost (n, hk)  Mjög mikill kuldi.  „Féð er eirðarlaust í þessu gaddhörkufrosti, og beitir sér lítið“.

Gaddkuldi / Gaddnepja (n, kk)  Helkuldi;fimbulkuldi.  „Endilega settu upp vettlingana í þessum gaddkulda“.

Gaddur (n, kk)  A.  Hörkufrost.  „Það er bara búinn að vera stöðugur gaddur og tekið fyrir alla fjörubeit“.  Gaddfrost.  Sjá éta út á gaddinn og setja á guð og gaddinn.  B.  Frosin jörð; frostskán.  „Hafi hann lifað þarna af um veturinn; mest á mosa og grasstráum sem stóðu upp úr gaddinum“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).  C.  Nagli; oddhvass hlutur.  „Varaðu þig á gaddinum þarna í dyrakarminum“.  D.  Slagbrandur; hurðarloka.  „Hurðin er læst innanfrá með gaddi“.  E.  Tannsjúkdómur í fé sem bítur gras eftir öskufall úr eldfjalli; orsakast af flúor.

Gaffalsegl (n, hk)  Seglabúnaður báta, sem sumsstaðar var farið að nota hérlendis uppúr miðri 19. öld.  Munurinn á sprytsegli og gaffalsegli er sá að í því síðarnefnda er ekki sprytrá, heldur er rá yfir því sem nefnist gaffall.  Fremri endi hans er við sigluna; dreginn upp með klófal og stöðvast töluvert neðan siglutopp.  Annar falur; pikkfalurinn liggur um blökk í siglutoppi og festist við gaffalinn aftanvið miðju, en segl eru undin upp með þeim báðum.  Loggortusegl var um margt svipað gaffalsegli (sjá þar), og var notað á einhverjum stærri skipum í Útvíkum á seinnihelmingi 19.aldar; e.t.v. eldri Fönix og Kóp.

Gaffaltoppur (n, kk)  Lítið rásegl, fyrir ofan gaffalsegl á bát.  „Ég lét taka seglið saman að mastrinu, þannig að gaffaltoppurinn stóð óhreyfður„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Gaflhlað / Hálfgafl (n, hk)  Hluti húss; sá hluti gafls sem er yfir veggjahæð og upp í mæni.  Gaflhlöð gömlu steinhlöðnu húsanna voru ýmist hlaðin alla leið upp eða úr timbri og þá með vatnskæðningu eða klædd járni eða pappa.  Stundum var gluggi á þeim (t.d. mókofinn), en stundum ekki (t.d. hesthúsið).   „Voru þau í rúmi um þveran gafl yfir búrinu, en þar var skaflinn kominn upp á gaflhlað“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Gaflsperra (n, kvk)  Sperra í húsþaki sem gafl festist á.

Gaflveggur (n, kk)  Veggur húsgafls; gafl.  „...skemman var stækkuð inn í gaflvegginn“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Gagaraljóð (n, hk)  Bragarháttur ferskeytlu; stafhendu, þar sem allar ljóðlínur eru fjórir bragliðir og þeir öftustu stýfðir og víxlrímaðir.  Dæmi:  „Fugl á skilið lítið ljóð;/ líkkistu með stórum krans.!  Rann úr honum banablóð;/ blessuð sé því minning hans“.

Gagl (n, hk)  Gæluheiti á hænu.  „Skrepptu nú og gefðu göglunum.  Gáðu að eggjum í leiðinni“.

Gagnbitað (l)  Mark; biti báðumegin á sama eyra. 

Gagnger (l)  Alger; róttækur.  „Kollsvíkurver lagðist af þegar gagngerar breytingar urðu með vélvæðingu báta“.

Gagngert (ao)  Eingöngu; alfarið.  „Ég kom gagngert í þeim tilgangi að sækja þessar kindur“.

Gagnkunnugur (l)  Þekkir mjög vel til; þaulkunnugur.  „Þokan var svo dimm að um tíma var ég alls ekki viss um áttir, og er ég þó gagnkunnugur á þessum slóðum“.

Gagnkvæmur (l)  Gagnverkandi; hvor fyrir öðrum.  „Milli þeirra var gagnkvæm virðing og vinátta“.

Gagnlegt (l)  Nothæft; til nytja; árangursríkt.  „Þetta er afar gagnlegt verkfæri“.

Gagnmerkur (l)  Mjög merkilegur/athyglisverður.  „Verstaða í útvíkum er gagnmerkur þáttur í þjóðarsögunni“.

Gagnorður (l)  Hnitmiðaður í orðum.  „Össur var góður ræðumaður og þótti rökvís og gagnorður á fundum“.

Gagnólíkt (l)  Algerlega ólíkt; gerólíkt.  „Báðir voru þeir miklir sómamenn, en gagnólíkir um flest“.

Gagnrýnislaust (l)  Án vefengingar; efalaust.  „Það má ekki kyngja öllu því gagnrýnislaust sem stjórnin gerir“.

Gagnrýnisvert (l)  Vafasamt; orkar tvímælis.  „Það er mjög gagnrýnisvert hvernig haldið hefur verið á málinu“.

Gagnsamur (l)  A.  Gagnlegur; notadrjúgur.  „Kýr eru þar mjög gagnsamar… (PJ; Barðstrendingabók)

Gagnslaus (l)  Ónothæfur; tilgangslaus.  „Svona kjaftatík er algerlega gagnslaus í smalamennskum“.

Gagnslítill (l)  Kemur að litlu gagni/haldi; notast lítið.  „Hnífurinn er gagnslítill, svona bitlaus“.

Gagnstæður (l)  Hvor á móti öðrum.  „Vindurinn virtist koma á víxl úr gagnstæðum áttum“.

Gagnsær (l)  Gegnsær; glær; tær.  „Gluggarnir að norðanverðu voru varla gagnsæir fyrir seltu“.

Gagntekinn (l)  Hrifinn; hugfanginn.  „Við stútungarnir vorum svo gagnteknir af lygasögunum Arinbjarnar að við trúðum hverju orði.  Og daginn eftir fóru allir að leita að hausum marsbúanna í hrossastráunum“.

Gagnvart (fs)  A.  Gegn; andspænis; á móti.  „Gagnvart Neðri-hlöðunni sunnanverðri er Litla votheysgryfjan“.  B.  Með tilliti til.  „Síðar þótti því bregða fyrir, þegar báðir komust á fullorðinsár, að Júlli hefði ekki vaxið uppúr hlutverki uppalandans gagnvart Gumma“  (PG; Veðmálið). 

Gagnvegir liggja til góðs vinar (orðatiltæki)  Til góðs vinar er auðveld/bein leið; góðir vinir finna alltaf leiðir til að halda sambandi sín á milli.  „Athvarf mikit/ er til ills vinar/ þótt á brautu búi./  En til góðs vinar/ liggja gagnvegir/ þótt hann sé firr farinn“  (Hávamál).  Maður forðast óvin, jafnvel þó til hans séu greiðir vegir.  En maður leggur mikið á sig til að halda sambandi við góðan vin þó hann búi fjarri.

Galdrakukl (n, hk)  Fikt við galdra.  „Kollsvíkingar hafa aldrei verið orðaðir við galdrakukl svo vitað sé, og því sloppið við bálkestina.  Reyndar vilja sumir trúa því að Einar ættfaðir Jónsson í Kollsvík hafi átt galdrarit sem Fornótt nefndist og hafi sótt í hana kunnáttu í viðureign sinni við galdramanninn Benedikt Gabríel sem bjó í Arnarfirði.  Aðrir vilja meina að þessi bók hafi verið „Jakob og Fornuften“, sem var alls ekki galdrarit“.

Galdrameistari (n, kk)  Snjall galdramaður.  „Því má skjóta hér inn í að Benedikt var talinn einhver snjallasti galdrameistari sem sögur hafa farið af á þessum slóðum“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Galdraofsóknir (n, kvk, fto)  Sefasýki sem grípur um sig í illa upplýstum samfélögum sem gegnsýrð eru af tortryggni.  Einstaklingum er þá kennt  um óáran sem gengið hefur yfir eða krankleika annarra; og þeim refsað með píningum og dauða.  Galdraofsóknir upphófust í Evrópu seint á 15.öld en bárust hingað til lands um 1600.  Þá jókst ótti við galdra samtímis hreintrúarbylgju sem þá heltók þjóðina.  Klerkur gaf út rit gegn göldrum; Hugrás árið 1627 og Kristján kóngur birti tilskipun 1617 um refsingar galdramanna.  Fyrsti Íslendingurinn á bálið var J‘on Rögnvaldsson í Eyjafirði.  Valdsmenn, bæði klerkar og sýslumenn, gengu hart fram í galdraofsóknum.  Frægstur er Þorleifur Kortsson lögmaður sem lét brenna marga, einkum á Ströndum.  Einnig gengu rösklega fram bræðurnir séra Páll Björnsson í Selárdal og Eggert Björnsson sýslumaður Barðastrandasýslu.  Eggert átti þá m.a. Saurbæ og þar með allar jarðir í Láganúpslandi, og rak stórútgerð í Láganúpsveri, en Páll og sonur hans áttu Kollsvík.  Páll fékk Þorleif til að brenna sex menn vegna veikinda konu sinnar.  Talið er að 25 hafi verið brenndir hérlendis á þessum myrku tímum galdraofsókna, þar af 4 konur.  Alls komu upp um 120 galdramál.  Galdrabrennur voru aflagðar fyrir 1700 en enn eimdi eftir af rammri galdratrú framyfir 1720.  Af einhverjum orsökum urðu ofsóknirnar hatrammastar á Vestfjörðum, sem bendir líklega fremur til þess að þar hafi spenna verið mest í samfélögum en að þar hafi trúarhiti verið mestur.

Galdrar (n, kk, fto)  Fjölkynngi; töfrar; kukl; trú á að ein manneskja geti haft áhrif á aðra með særingarþulum, galdrastöfum, draugasendingum eða hugsunum sínum og serimoníum.  „Þótti þessi aburður með undarlegum hætti, og kenndu menn göldrum Benedikts Gabríels“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Galdraverkfæri (n, hk)  Töfratæki; þarfaþing.  „Þessi heytætla reyndist hið mesta galdraverkfæri í heyskap“.

Galeiðuþræll (n, kk)  Þræll á galeiðu.  „Ekki veit ég til hvers maður er að puða þetta eins og galeiðuþræll“!

Galfjöður (n, kvk)  Lengsta fjöðrin í stéli hanans.  Þjóðtrúin sagði að hann missti galið  ef hennar nyti ekki við.

Galgopaháttur (n, kk)  Kæruleysi; oflátungsháttur; glæfraskapur.  „Ég kann illa við svona galgopahátt“.

Galgopalega (ao)  Eins og galgopi.  „Farðu ekki svona galgopalega með flugbeittan hnífinn drengur“!

Galgopalegur (l)  Glannalegur; oflátungssamur; fiktasamur.  „Hann er stundum alltof galgopalegur í tali“.

Galgopi (n, kk)  Oflátungur; fiktsamur einstaklingur.  „Skelfingar galgopi er hann þarna í blábrúninni“!

Galinn (l)  Brjálaður; vitlaus.  „Ertu alveg galinn“?!  „Mér finnst það alveg galið að haga sér svona“!  „Það væri nú kannski ekki svo galið að rölta út í Bót“.

Gallagripur (n, kk)  Óvandaður maður; misheppnaður hlutur/vél.  „Vélin í bátnum var sá gallagripur að þegar dálítill austur var í kjalsoginu þá jós svinghjólið sjó upp á smellikveikjuna svo vélin drap á sér“.

Gallharður (l)  Harðákveðinn; ósveigjanlegur.  „Hann er gallharður á því að róa þó útlitið gæti verið betra“.

Galli (n, kk)  Vöntun/vankantur á einhverju; ófullkomleiki.  „Skoðunarmaður hugðist leita réttar síns, en sá það ekki fært vegna galla laganna; sem ekki skylda fjáreigendur að framvísa fé sínu til skoðunarmanns“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938). 

Galli á gjöf njarðar (orðtak)  Um galla sem fylgir því sem að öðru leyti er kærkomið.  „Þetta var ágætur bíll, en þó var sá galli á gjöf njarðar að stýrið var vitlausu megin“.  „Það var bara einn galli á gjöf njarðar; eggin voru orðin fjári mikið stropuð“.  Njörður var sjávarguð, og hugsanlega vísar líkingin til reka sem berst á fjörur, en nýtist ekki af einhverjum ástæðum.  Hugsanlega vísast til þess að veiða óæti í stað fisks.

Gallsúr (l)  Mjög súr.  „Þú þarft að setja meiri sykur í rabbabaragrautinn svo hann verði ekki svona gallsúr“.

Galopinn (l)  Opinn uppá gátt; alveg opinn  „Hlaðan er galopin“!  „Þeir skildu hliðið eftir galopið“.

Galsafullur / Galssamikill (l)  Ærslafullur; fjörugur.  „Hann var yfirleitt galsafullur og léttur í lund“.

Galsafenginn (l)  Ærslafullur; óstýrilátur.  „Það þarf að lempa krakkana til þegar þeir verða galsafengnir“.

Galsagangur / Galsalæti (n, kk)  Ærsl; ólæti.  „Stillið ykkur nú með þennan galsagang strákar“!

Galsast (s)  Ærslast; vera fjörugur.  „Kitti í Botni hafði gaman af að galsast við okkur krakkana“.

Galsi (n, kk)  Fjör; ærsl; löngun til leikja.  „Það er einhver galsi í kálfastóðinu núna“.

Galskapur (n, kk)  Flónska; fíflalæti.  „Þetta er bara óviljaverk; gert í einhverjum galskap“.

Galta (s)  Setja hey upp í galta; bera upp í galta.  „Hann er að ljókka; við ættum að galta það sem þurrt er“.

Galtabotn (n, kk)  Sátubotn; neðsta lag af heyi í galta/sátu.  Ef galtinn stóð á mólendi eða í langan tíma var hætt við að jarðraki drægist uppí þetta lag og það fruggaði.  Því var stundum hægt að hirða galtann beint í hlöðu, en galtabotninn þurfti oft að rífa vel í sundur og þurrka betur.

Galtað (l)  Um þurrhey; búið að bera upp í galta.  „Ég náði að galta þetta á Grundatúninu áður en fór að rigna“.

Galtafar (n, hk)  Gulnað far á túni eftir galta sem staðið hefur um tíma.  „Það grær upp úr galtaförunum“.  Notað töluvert í Kollsvík en sést ekki í orðabók.

Galtafjöldi / Galtaröð / Galtaskógur (n, kk/kvk)  Heiti yfir fjölda galta á sama svæði.  „Það er ekki lítill galtafjöldi á þeim bænum“!  „Á sléttunni voru fjórar galtaraðir“.  „Alltaf er búmannlegt að líta yfir vel slegin tún með svona þéttum og vel upp bornum galtaskógi“.

Galtahæra (n, kvk)  Hæra sem sett er yfir galta til að verja hann rigningu (sjá þar).

Galtakúra (n, kvk)  Gæluorð á galta; lítill galti; drýli.  „Við skulum reyna að koma þessu í einhverjar galtakúrur fyrir rigninguna; það skemmist þá síður“.

Galtanefna / Galtaómynd (n, kvk)  Illa upp settur/borinn galti. „Ég setti þetta upp í einhverjar galtanefnur; ég er ekki sérlega laginn við að bera upp í galta“.   „Hver setti nú upp þessa galtaómynd“?!

Galtastæði (n, hk)  Grunnur undir galta.  „Ef galtastæðið er faðmsbreidd má galtinn vera tveggja faðma hár“.

Galti (n, kk)  Sáta; lön.  Þurrt hey sem sett er upp á sérstakan hátt í sátu til að verja það veðrum.  Fullstór galti var settur upp þannig: Eftir að flekkurinn hafði verið rakaður saman voru tekin föng, stundum söxuð, fjögur föng mynduðu botn galtans, sem ýmist var kringlóttur eða ferhyrndur, og síðan var hlaðið upp og þjappað vel; létt börn voru jafnvel látin troða.  Galtinn var látinn halla lítið að sér fyrst en síðan meira, og þegar komið var upp í mannhæð var hann orðinn svo aðdreginn að eitt gott fang dugði í kollinn.  Í það var saxað mjög vandlega, þar sem stráin þurfa að liggja sem mest út af galtanum svo síður drjúpi í þegar rignir.  Eftir uppsetninguna var rakað utanúr; strokið létt með hrífu niður galtann svo ekki fyki úr honum og vatn rynni vel af, og rakaðar slæðurnar í kring.  Þegar lokið hafði verið við að galta allt hey úr flekknum voru settar hærur á galtana; sett yfir.  Hærurnar voru ferhyrndar strigadulur með bandspotta í hverju horni.  Í hvert band var vafin visk af heyi og henni troðið vandlega inn í galtann, þannig að strekktist á hærunni.  Vel hlaðinn galti, þegar hann var að fullu siginn, gat staðið af sér hin verstu veður og í honum geymdist heyið furðu vel.  Stundum var heyið hirt beint úr göltum í hlöðu, en oftar voru þeir þó breiddir; heyinu kastað úr þeim í flekk til þurrks.  Þurfti þá að vel úr, ef tuggur voru samþjappaðar.  Eftir að vélvæðing hófst, og fljótlegra var að rifja heyið og koma því í hlöðu, lagðist þessi „galtamenning“ fljótlega niður.  Sjónarsviptir var að, þar sem galtar settu oft mikinn svip á túnin yfir heyskapartímann.  Mjög litlir galtar, eða illa uppsettar hrúgur, var nefnt drýli.  „Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi; í föng ef hey var blautt, annars lanir og að lokum galta; oftast kringlótta, þegar heyið var farið að þorna vel“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Það var hér galti við baðstofugaflinn.  Hann var eins og skorinn í sundur um miðjar hliðar, og stóðu eftir stúfarnir að neðan“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).  „Það var allt slegið með orfi og ljá og rifjað og rakað með hrífum.  Það var rakað saman og sett í galta að kvöldi og breitt úr þeim á höndum að morgni.  Þetta var mikið púl“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Galtómur (l)  Alveg tómur.  „Það er ómögulegt að byrja á erfiðisvinnu með galtóman maga“.

Galvaskur (l)  Mjög hress; ókvíðinn.  „Ef smala vantaði í göngur var hann ávallt mættur; galvaskur“.

Gamaldags (ao)  Úreltur; fornfálegur.  „Sumir kalla þetta gamaldags aðferðir, en þær hafa dugað hingaðtil“.

Gamalfugl (n, kk)  A.  Ekki ungfugl/ungi; fullorðinn fugl.  „Það er erfitt að ná máfnum í færi þegar gamalfuglinn er með í hópnum.  Hann er alltaf tortrygginn og heldur unganum í öruggri fjarlægð“.  B.  Bjargfugl; langvía, nefskeri og álka.  „Þessir fuglar voru einu nafi kallaðir gamalfugl við Látrabjarg“  (LK; Ísl.sjávarhættir V). 

Gamalgróinn (l)  Með mikla reynslu; hefðbundinn; hefur lengi verið.  „Þetta er gamalgróinn siður“.

Gamalkunnugur (l)  Þekktur frá fyrri reynslu; kunnugur um langan tíma.  „Var ætlunin í byrjun að fara út á Kollsvík, á gamalkunnug fiskimið þar“  (ÖG; Fiskiróður). 

Gamalkunnur (l)  Þekktur frá fyrri tíð/tima.  „Hann er þá lagstur í þennan gamalkunna útsynningsfjanda“.

Gamall í hettunni (orðtak)  Gamalreyndur; vanur.  „Ég lærði þetta af manni sem var orðinn gamall í hettunni“.  Líkast til er þarna vísað til munkahettu, en munkar voru mestir fræðimenn á sinni tíð; einkum hinir gömlu.

Gamall og elligrár/ellimóður / Gamall og fótfúinn / Gamall og lúinn / Gamall og stirður  (orðtök)  Lýsingar á ellihrumleika.  Gamall og lúinn er einnig notað um hlut; stundum þá haft „gamall og snjáður“.

Gamall og æruverðugur (orðtak)  Um gamlan hlut sem mælandi hefur dálæti á.  „Hesthúsið á Hólum er gamalt og æruverðugt dæmi þeirrar byggingalistar sem hér viðgekkst fyrir um 400 árum“.

Gamall sem á grönum má sjá (orðtak)  Gamall og skeggjaður/hrukkóttur/tannlaus.  „Ég er nú gamall sem á grönum má sjá; en aldrei hef ég orðið vitni að öðru eins“!

Gamallegur (l)  Ellilegur; ellihrumur.  „Mér sýnist þessi bátur vera orðinn töluvert gamallegur“.

Gamalmávur (n, kk)  Gamall mávur (hvítmávur eða svartbakur).  „Það er vonlaust að ná færi á unganum ef gamalmávur er með í hópnum; hann lokkar ungann frá byrginu“. 

Gamalreyndur (l)  Með mikla reynslu.  „Hann var gamalreyndur sjóhundur og hafði lent í ýmsu um ævina“.

Gamalsaldur (n, kk)  Elliár; elli.  „Hann er enn mjög vel ern þó kominn sé á gamalsaldur“.

Gamalvanur (l)  Löngu orðinn vanur; margreyndur.  „Maður er orðinn gamalvanur í þessum efnum“.

Gamalær (n, kvk, fto)  Öldruð/aflóga kind; afsláttarkind; stirð manneskja.  „Maður er stirðari en nokkur gamalær“.

Gamanlaust (l)  Grínlaust; alvarlegt.  „Það er gamanlaust ef íhaldið kemst aftur í stjórn næstu fjögur árin“.

Gamanleysa (n, kvk)  Alvara; ekki til að grínast með.  „Það hefði getað orðið gamanleysa ef fúaspottin hefði gefið sig þar sem gangurinn er tæpastur“.

Gamanmál (n, hk, fto)  Gamanyrði; spaug; grín.  „Spurt var almæltra tíðinda, kastast á glensi og gamanmálum og sumir huguðu að afrakstri sumarsins…“  (PG; Veðmálið). 

Gamansamt (l)  Erfitt; mikil áskorun.  „Kindin er úti í enda á sveltinu; það getur orðið gamansamt að ná henni til baka“.  „Það gæti orðið gamansamt að vitja um netin eftir þennan norðangarð“. 

Gamansamur (l)  Spaugsamur; gerir að gamni sínu.  „Hann þótti gamansamur og hrókur alls fagnaðar“.

Gamanspil (n, hk)  Gamanmál; grín.  „Það er bara hreint ekkert gamanspil ef manni skrikar fótur þarna“.

Gambanfyllerí (n, hk) Hrikalegur drykkjuskapur; sjóðandi túr.  „Þetta varð þvílíkt gmbanfyllerí að annað eins hefur ekki sést í háa herrans tíð“.

Gambri (n, kk)  Vín í bruggun, fyrir eimingu.  „Honum varð víst ekkert gott af að drekka fjárans gambrann“.

Gamburmosi (n, kk)  Grámosi; hraungambri; Racomitrium lanuginosum.  Algengur mosi til fjalla; myndar miklar og þykkar breiður víða á heiðum í Rauðasandshreppi, s.s. á Kóngshæð, Tunguheiði, Breið, Látraheiði og Látrabjargi.  Kann best við sig þar sem ekki verða miklar og langvarandi fannir.  Vex hægt í efri endann en dyr í þann neðri, þannig að undir myndast dýna úr dauðum mosa.  Þreytandi getur verið að ganga til lengdar í miklum mosa, eins og eggjaberar af Stíg hafa löngum kynnst á Geldingsskorardal.

Gamla brýnið (n, kk)  Gæluheiti á þeim sem kominn er yfir miðjan aldur/ eldri en annar.  Viðhaft um manneskju en einnig stundum um skepnu.  „Nú held ég að fari að draga að endalokunum hjá henni Pontu; skarninu atarna.  Hún er alveg að verða ónýt til gangs, gamla brýnið.

Gamla konan (orðtak)  Gælunafn á Látraröst.  „Nú er hún grettin, gamla konan“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Gamlaður (l)  Aldraður; gamall.  „Afi hélt lengi þeirri venju, þó gamlaður væri orðinn, að arka út á tún með orfið og slá þá toppa og skára sem óslegnir voru eftir sláttuvélina“. 

Gamlast (s)  Eldast; verða gamall.   „Hún er nú farin að gamlast blessunin“.

Gamli sáttmáli (n, kk)  Samningur Íslendinga við Noregskóng, sem fyrst var samþykktur 1262-1264, en síðan í fyllri gerð árið 1302.  Með honum urðu Íslendingar kóngsins þegnar og þjóðveldið var úr sögunni.  Helsta tilefni þessa valdaafsals hefur verið talið stjórnarfarslegs eðlis.  Goðaveldið virkaði ágætlega meðan hver virti annars rétt, en reyndist veikburða gagnvart valdagræðgi og samþjöppun valds.  Minnkandi siglingar til landsins áttu einnig sinn þátt, en ekki var sinnt endurnýjun hins mikla skipastóls sem hér var í upphafi byggðar.

Gamli seigur (orðtak)  Gæluheiti á manni sem þykir þolinn/úthaldsmikill/þrjóskur.

Gamli stíll (orðtak)  Gamalt heiti yfir júlíanska tímatalið (sjá þar).

Gamlingi (n, kk)  Aldraður einstaklingur; eldri borgari.  „Gamlingjarnir halda uppi öflugu félagslífi“.

Gammur (n, kk)  A.  Stór hvolflaga skápur í bjargi þar sem fá mátti mikið af fugli meðan hann var nytjaður. „Melagammur er fuglgammur niður úr Melalykkjunni, og eru 30 faðmar úr henni í gamminn“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).  „Út og uppaf Lambhöfða er gammur sem nefndur er Stórigammur.  Gammur er hvolf inn í bjargið; það slútir fram“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).  B.  Hræfugl; ránfugl.  C. Gæluorð/skáldaheiti um skip eða hest eða ágengan mann.  D.  Frekja; ágengur maður.  „Hann hagaði sér eins og gammur“.

Gammosía (n, kvk)  Aðfelldar buxur, vanalega úr prjónuðu efni og bornar innanundir ytri buxum.

Gamna sér (orðtak)  Skemmta sér; leika sér.  „Það gengur ekki að gamna sér yfir hábjargræðistímann“!

Gan (n, hk)  A.  Frumhlaup; an; stefnulaus/fljótræðisleg ferð.  „Svona gan með heyvagninn gengur ekki; það liggja sáturnar eftir við hverja holu“!  B.  Gláp/gón út í loftið.  „Hættu nú þessu gani og hugsaðu um námið“!

Gana (s)  A.  Æða; flumbrast.  „Þeim hefndist fyrir að gana í róður í þessu svikalogni“.  „Ég undrandi og hissa á viðtökunum varð/ og vildi í flýti þaðan burtu ganga./  En rétt í þeirri andrá ég gekk útfyrir garð/ og ganaði þá beina leið á Manga“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).  B.  Um bát/klettanef; trana/skaga fram; vera afturhlaðinn.  „Færum aðeins úr skutnum svo hann gani ekki svona mikið“.

Gandur (n, kk)  A.  Töfrastafur; töfrasproti.  B.  Heiti á hesti, einkum notað í skáldskap:  „Hetja vor að hófi loknu hröðum gandi/ ríður heim að Rauðasandi“  (JR; Rósarímur). 

Ganering (n, kvk)  Þilja; einkum notað um þiljur báta innaná stoðir og bönd, en einnig þiljur í húsum.  „Ég setti ganeringu innanum kartöflugryfjuna, og einangraði með reiðingi“.

Ganga (s)  A.  Koma sér um með fótaburði.  B.  Um vist búfjár; velja sér kjörlendi til beitar.  „Um sauðburðinn þurftum við að fara annan hvern dag út í Breiðavík, en þar gekk mikið af okkar fé“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).   „Nú gengur margt fé leyfislaust í sumarbeitilönd annarrar jarðar...“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).  „Þaðan skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk“…  „Hefði ég vitað að lambið hafði gengið á Stígnum, þá hefði ég hugsað mig betur um“  (PG; Veðmálið).  C.  Um nautgripi og sauðfé; beiða; vera blæsma/yxna.  „Mér sýnist að Búkolla gangi“.  D.  Um pest/tísku eða annað sem fer milli manna.  „Það er að ganga einhver lumbrufjandi“.  „Látiði súpuskálina ganga“.  E.  Viðgangast.  „Svona kjaftæði gengur ekki; maður verður að fara að drífa sig í verkið“.  F.  Um bát; hafa ferð á.  „Báturinn gengur hægt með þessa hleðslu“.  G.  Um vegg; ganga til; skekkjast; skríða undan þunga/frosti/sigi.  „Næst var að huga að búðunum sem búa átti í, vor og sumar.  Það þurfti að laga vegg sem var farinn að ganga; bera nýjan sand á gólfið; laga rúmstæði og fleira“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).   „Veggir í Hesthúsinu voru sumir farnir að ganga verulega“.  H.  Um fisk; ferðast um í miklu magni.  „Nú má búast við að grásleppan gangi í næsta stórstraum“.  I.  Um klukku/úr/vél.  „Nú er úrið mitt alveg hætt að ganga“.  J.  Um bát/bátaflota; róa til fiskjar.  „Að sögn Gísla Konráðssonar átti Einar Kollsvík með tollverum öllum; hafi þar að jafnaði gengið 11-12 skip, en 15 steinbítar goldnir fyrir hvern mann“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Gengu þaðan (úr Kollsvíkurveri) milli 20 og 30 bátar þegar mest var“  (HÖ; Fjaran). 

Ganga (n, kvk)  A.  Ferð/vegalengd sem gengin er.  „Þangað er um korters ganga“.  B.  Fiskiganga; fiskur sem kemur í miklu magni á mið. „Það hlýtur að hafa komið ný ganga“.  C.  Smölun fjár; einatt í fleirtölu; göngur. 

Ganga að (orðtak)  A.  Bjáta á; vera að meini.  „Hvað gengur nú að þér greyið mitt; afhverju ertu að skæla“?  B.  Um fullnustu eignarréttar; heimta sínar eignir frá öðrum. „Bankinn gengur að veðinu“.  C.  Samþykkja, t.d. skilmála, tilboð eða kaup.  „Ég geng að þessum skilmálum“.

Ganga að dauðum (orðtak)  Drepa; verða að aldurtila.  „Eftir að sendingin sem Benedikt Gabríel sendi Einari í Kollsvík hafði gengið að hesti hans dauðum... “  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ganga að mat sínaum / Ganga að matnum (orðtak)  Umgangast matinn; nýta mat sinn vel; viðhafa góða borðsiði.  „Skelfilegt er að sjá hvernig þú gengur að matnum strákur; hann er hálfétinn“!

Ganga að óskum (orðtak)  Ganga eins vel og á verður kosið.  „Gekk ferðin að óskum og vorum við mætt á tilsettum tíma í skólann“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Ganga að sem gefnu (orðtak)  Slá föstu; gera ráð fyrir; gefa sér.  „Við getum ekki gengið að því sem gefnu að sjóveðrið haldist alla vikuna“. „Við skulum ekki ganga að því sem gefnu að þetta sé fé frá okkur“. 

Ganga að (einhverju) vísu (orðtak) A.  Um það sem ávallt er á réttum stað; vita hvar eitthvað er.  „Það má alltaf ganga að henni vísri á Stígnum“.    „Settu hamarinn á sinn stað svo ég geti gengið að honum vísum á morgun“.  B.  Gera ráð fyrir; ganga að sem gefnu.  „Það er óvarlegt að ganga að því vísu að hann hafi munað eftir þessu“.

Ganga af (orðtak)  A.  Verða afgangs/eftir.  „Gefðu hundinum það sem af gengur“.  B.  Um vindátt; færast frá.  „Mér finnst hann loksins vera aðeins að ganga af þessum norðanbeljanda“.

Ganga af áttinni (orðtak)  Um vindátt; vinda úr annarri átt en verið hefur.  „Nú sýnist mér hann eitthvað vera að ganga af áttinni; það er ekki þessi eindregna norðanátt sem verið hefur“.

Ganga af dauðum (orðtak)  Drepa.  „Höfðu menn það fyrir satt að hann hefði sent Einari draug þann er ært hefði hestana og gengið af þeim dauðum að lyktum“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Ganga af göflunum / Ganga af vitinu (orðtak)  Verða æstur/vitlaus; ærast; steyta görn.  „Það er óþarfi að ganga af göflunum þó þessar kindur hafi sloppið!  Það er ekki um annað að gera en sækja þær aftur“.  „Það hvessti þann djöful að hér ætlaði allt af göflum að ganga“.

Ganga af sér (orðtak)  Ganga svo hratt að aðrir gefist upp, sem eru meðferðis.  „Pabba þótti ekki mikið mál að ganga langar vegalengdir, því hann var annálaður göngugarpur; bæði léttur á fæti og hljóp frekar en gekk.  Skemmti hann sér stundum við það að ganga þá af sér sem þyngri voru til göngu“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Ganga/rölta af sér spikið / Ganga/rölta sér til heilsubótar (orðtök)  Fara í gönguferð til að maður hlaupi ekki í spik/ til að viðhalda góðri heilsu/líkamsþyngd. 

Ganga af trúnni (orðtak)  Hætta að trúa á; snúast frá fyrri trú.  „Mér finnst að hann sé hérumbil að ganga af trúnni sem sjálfstæðismaður“.

Ganga aftur (orðtak)  Úr þjóðtrú um dauðan mann; rísa upp, gerast draugur og oftast valda einhverjum skaða.

Ganga allt í vil (orðtak)  Ganga allt í haginn; ganga að óskum.  „Ennþá gengur honum allt í vil með þetta“.

Ganga á (orðtak)  A.  Ganga/labba eftir.  „Mér þykir þú ganga gapalega á blábrúninni“.  B.  Rekast á á göngu.  „Tóbakssvælan var svo mikil að mér fannst ég ganga á vegg þegar ég kom inn í stofuna“.  C.  Saxast á; eyðast.  „Það er farið að ganga verulega á saltið; við þyrftum bráðum að fara á Eyrar“.  D.  Inna eftir; þrýsta á um svör.  „Hann játaði þetta þegar ég fekk á hann“.  E.  Heyrast/viðgangast læti. „Hvað í dauðanum gengur eiginlega hér á“?!

Ganga á góðmennsku (orðtak)  Notfæra sér velvild óhóflega.  „Ég þakka fyrir gott boð, en ég ætla nú ekki að ganga meira á góðmennsku þína en orðið er“.

Ganga á hluta/rétt (eonhvers) (orðtak)  Gera eitthvað sem skaðar annan, eða brýtur gegn hans rétti.  „Honum fannst allmikið gengið á sinn hluta með þessum skiptum“.  „Stjórnvöld hafa blygðunarlaust og bótalaust gengið á hinn ævaforna rétt sjávarjarða til sinna fiskimiða“. „ Hluti“ er eldri mynd orðsins „hlutur“.

Ganga á lagið (orðtak)  Nýta tækifæri; sýna ágengni.  „Það má ekki rétta skrattanum litlafingur; þá gengur hann á lagið og hirðir alla hendina“!  Vísar til þess að lag er nýtt til að hrinda bát á flot.

Ganga ekki andskotalaust (orðtak)  Ganga ekki vandræðalaust/ án erfiðleika.  „Það gekk ekki andskotalaust að fá hann til að skilja þetta“!

Ganga á (orðtak)  Gerast; láta illa.  „Hvað gengur eiginlega á“?  „Alltaf er hann tryggur; hvað sem á gengur“.

Ganga á (einhvern) (orðtak)  Inna eftir áliti/skýringu; þvinga til sagna.  „Daginn eftir fór bróðurdóttir hennar að ganga á betur á hana með hvað hún hefði orðið vör við...“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms). 

Ganga á afturfótunum (orðtak)  Ganga illa; mislánast.  „Það hefur allt gengið á afturfótunum í þessum rekstri“.  Líking við það að ferfætlingar gangi á afturfótunum, en hérlendum skepnum ferst það flestum illa.

Ganga á bak orða sinna (orðtak)  Svíkja það sem sagt/lofað hefur verið.  „Auðvitað stóð ég við þetta; ég er ekki vanur að ganga á bak minna orða“.

Ganga á eftir (einhverri/einhverjum) með grasið í skónum (orðtak)  Gera hosur sínar grænar fyrir; einkum notað um það þegar strákur er að reyna við stelpu eða öfugt.  Einnig þegar einhver væntir einhvers annars af öðrum.  Líklega vísar orðtakið til þess að sum grös áttu að vera árangursrík í þessu efni samkvæmt þjóðtrú; væru þau lögði í skó.

Ganga á grunn / Ganga á grunnmið / Ganga á lóðamið / Ganga á sandinn (orðtök) Um fisk; ganga í stórum göngum af djúpi upp á grunn, á hefðbundin fiskimið.  „Þetta var það snemma vors að steinbítur var ekki genginn á grunnmið“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).  „Eftir að fiskur gekk á grunnmið; lóðamiðin; „sandinn“ eins og það var kallað í Kollsvík, var venja að róa eftir því sem stóð á flóði eða fjöru, og aldrei öðruvísi“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Ganga á hljóðið/lyktina/ilminn (orðtak)  Ganga í þá átt sem hljóð/lykt berst úr.  „Það var vandalaust að finna þá í þokunni; ég gekk bara á hljóðið því þeir voru að þrátta eins og vanalega“.

Ganga á lagið (orðtak)  Nýta sér aðferð  (lag)sem áður hefur tekist.  „Ef maður byrjar að klóra heimalningnum þá gengur hann á lagið og heimtar klór við öll tækifæri“. 

Ganga á leið/veg með (orðtak)  Fylgja úr hlaði; fylgja áleiðis.  „Ég gekk á leið með honum norður að Torfalæk“.

Ganga á með éljum/skúrum/hvassviðri/byl/hryðjum (orðtak)  „Á vökunni gekk á með vestanéljum...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Voru hásetar ekki búnir að yfirgefa skipið er snögglega gekk á með vestan hvassviðri“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).  „Gekk þá á með norðaustan byl, svo ekki var hægt að veita þeim eftirför um kvöldið“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Ganga á merki (orðtak)  Sá löggerningur að sýslumaður, eða annar til þess bær valdsmaður, gengur eftir landamerkum jarða til að úrskurða hvar þau liggja, þegar um það er deilt.

Ganga á reka (orðtak)  Gá í fjöru hvort eitthvað hafi rekið.  Reki er hlunnindi í Kollsvík og nýttur á ýmsan hátt.  Því var það fastur liður að ganga á reka; finna það sem rekið er og bjarga því, enda óvíða góð festifjara.  „Inni var leikið með kuðunga og skeljar sem sótt var í fjöruna, en það var einnig mjög eftirsótt að ganga á reka“  (IG; Æskuminningar). 

Ganga á röðina (orðtak)  Gera í röð/ koll af kolli.  „Ég tyllti staurunum á sinn stað, en gekk svo á röðina og sló þá niður“.

Ganga á skjön/snið/svig við (orðtak)  Vera ekki í samræmi við; ganga gegn; hliðra hjá.  „Þessi fullyrðing gengur mjög á skjön við allt sem hann hefur áður sagt“.  „Ég ætla ekki að ganga á svig við mín loforð“.

Ganga álfreka (orðtak)  Ganga örna sinna; hægja sér; kúka; skíta.  Sjá álfreki.

Ganga álútur (orðtak)  Halla sér á móti veðrinu á göngu.  „Maður varð að ganga álútur í þessu hagli“.

Ganga berserksgang (orðtak)  Fá æðiskast; brjóta allt og bramla í kringum sig; láta mjög ófriðlega.  „Geymslan var útlits eins og heil herdeild hefði gengið þar berserksgang í fulla viku“!

Ganga/fara bónleiður til búðar (orðtak)  Fá ekki ætlunarverki/beiðni framgengt við einhvern.  „Ég er hræddur um að þeir sem ágirnast traktorinn hans fari allir bónleiðir til búðar“.

Ganga e-n ofan í jörðina (orðtak)  Ganga svo hratt að annar geti varla fylgt eftir.  Líking við það að fætur drauga eyddust á göngu; þeir gengu sig ofan í jörðina.  „Hægðu nú á þér drengur; ætlarðu alveg að ganga mig ofan í jörðina“?  Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Ganga eftir (orðtak)  A.  Rætast.  „Spáin virðist ætla að ganga eftir“  B.  Ítreka.  „Ég vil síður ganga eftir þér“.

Ganga eftir (einhverjum) með (eitthvað) (orðtak)  Gera tilraun til að fá einhvern til einhvers; fá einhvern til að gefa/láta/þiggja eitthvað.  „Hann um það ef hann þiggur ekki aðstoðina; ekki ætla ég að ganga eftir honum“!

Ganga eins og í sögu/lygasögu (orðtak)  Ganga mjög vel.  „Heimferðin gekk eins og í sögu“.  Stundum „ganga eins og í lygasögu“ þegar leggja skal áherslu á velgengnina.

Ganga ekki að því gruflandi (orðtak)  Vera meðvitaður/kunnugt um; vera þess ekki dulinn.  „Ég geng ekki að því gruflandi að þetta verður erfitt verkefni“.

Ganga ekki heill til skógar (orðtak)  Vera ekki heill heilsu.  „Allir vissu að hann gekk ekki heill til skógar“.  Líklega er upprunans að leita til þess tíma sem menn fóru til skógar að sækja við eða veiði, og lýsir áhyggjum af þeim sem fór heilsuveill í slíkar villur og hættur.

Ganga erinda sinna (orðtak)  Ganga örna sinna; flytja lögmann; ganga til sýslu; létta á sér; gera að buxum sínum; kúka.

Ganga fram (orðtak)  Fara af stöfnum; ganga fyrir sig; reiða af.  „Við skulum sjá hvernig málið gengur fram“.

Ganga fram af (orðtak)  Yfirganga; ofbjóða; ganga yfir.  „Nú gengur alveg fram af mér; haldiði ekki að strákurinn hafi látið klippa af sér bítlalufsurnar“!  „Klæðnaður unglinganna á ballinu gekk fram af eldra fólkinu“.  „Tveimur atvikum ætla ég að segja frá; þegar ég gekk fram af nöfnu minni, eins og ég kallaði hana“  (IG; Æskuminningar).

Ganga fram af (sér; mér; öðrum)  (orðtak)  Ofbjóða; misbjóða; ganga frá sér.  „Nú gengur alveg framaf mér:  Haldiði ekki að þessir bjöllusauðir hafi aftur lagt ofanyfir hjá okkur“!  „Honum líkaði það ekki illa að ganga framaf fólki með furðulegum uppátækjum sínum“.

Ganga framá (orðtak)  Finna eitthvað á göngu sinni.  „... og þarna geng ég fram á lík“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Ganga framhjá (orðtak)  Hundsa; vanvirða; taka ekki mark á.  „Einnig að Rafmagnsveitur ríkisins mundu ætla að ganga framhjá þeim möguleikum sem í Suðurfossá eru…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ganga (út)frá sem gefnu/vísu (orðtak)  Reikna með; telja öruggt/eðlilegt.  „Það má ekki ganga frá því sem gefnu að hann muni eftir þessu; það getur þurft að minna hann á það“.

Ganga frá sér (orðtak)  Ganga framaf sér; fara með sig; fara illa með sig.  „Gakktu nú ekki alveg frá þér með þessu púli“!

Ganga fyrir (orðtak)  A.  Ganga fremstur; ganga á undan.  B.  Hafa forgang.  „Lagði oddviti fram þá tillögu að símtöl sem færu fram innan sveitarinnar gegnum skiptiborð á Patreksfirði gengju fyrir samtölum innan hverrar línu“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ganga fyrir gafl (orðtak)  Fermast.  „Ætli þú verðir ekki að ganga fyrir gafl í vor“?

Ganga fyrir sig (orðtak)  Um málefni/feril/verk; hafa framgang; æxlast.  „Þetta gekk bara ágætlega fyrir sig“.

Ganga fyrir ætternisstapa (orðtak)  Deyja.  Sagt notað að fornu um þá sem fyrirfóru sér, en sú var aldrei merkingin á síðari tímum.  „Hann er þá genginn fyrir ætternisstapann, blessaður; búinn að liggja lengi í kör“.  Sumir vilja rekja uppruna orðtaksins til frásagnar í Gautreks sögu sem er ein af Fornaldarsögum Norðurlanda.  Þar segir Snotra bóndadóttir Gauta kóngi frá stapa sem nefnist Ætternisstapi, þar sem gamalmenni fyrirfari sér til að vera ekki afkomendum byrði.  Líklegt er þó að þessi saga sé búin til sem þjóðsöguskýring á orðtakinu; sem er líklega mun eldra.  Að öllum líkindum má rekja það til þess tíma sem fólk trúði á náttúruvætti (stokka og steina) og að fólk gengi í björg við andlát.  Hver ættbálkur dýrkaði því sinn ætternisstapa í sínu ættarhéraði.  Stapinn laukst upp fyrir þeim sem vildu í hann ganga; gengu fyrir hann.  Helguþúfa er líklega af sömu rót runnið, en margar Helguþúfur eru til sem örnefni í Rauðasandshreppi.  Kollsvíkingar eiga sér hvorki Helguþúfu né ætternisstapa; og þó:  Mætti ekki segja að Kollur hafi gengið fyrir ætternisstapa Kollsvíkinga þegar hann var heygður á Blakknesnibbu?

Ganga gegn (orðtak)  Gera öndvert við.  „Ég geng ekki gegn vilja meirihlutans i þessu máli“.

Ganga hart að (einhverjum) (orðtak)  Ganga nærri einhverjum; vera aðgangsharður/kröfuharður við einhvern.  „Hann upplýsti allt um málið þegar gengið var hart að honum“.

Ganga hart fram (orðtak)  Vera ákveðinn/ákafur við framkvæmd verks; vera harður í málarekstri.  „Ýmsum þótti hann ganga helst til hart fram í svo viðkvæmu máli“.

Ganga hjá (orðtak)  Um kýr; vera blæsma/yxna án þess að eftir sé tekið og því ekki haldið undir naut.  „Hún Sokka er fjári dulgeng; það þarf að passa að hún gangi ekki hjá í þetta skiptið“.

Ganga hægt um gleðinnar dyr (orðtak)  Stunda skemmtanir/vínneyslu í hófi.  „Ég held þeir ættu að ganga hægt um gleðinnar syr sem ekki kunna að fara með áfengi“.

Ganga í (orðtak)  A.  Um vind; snúast í.  „Ég gæti trúað að hann sé að ganga í austanátt“.  „En um lok sláturtíðar gekk hér í frost og snjókomu.  Töldu margir veðurfróðir að nú væri að ganga í einn hörkuveturinn. slíkur sem 1918, en hann byrjaði svipað; enda sundurskurður á miltum úr kúm og fleiri tákn staðfestu það“  (ÞJ; Árb.Barð 1968).  B.  Hefja verk; fara í verk.  „Þegar við fórum að draga lóðirnar var ágætur afli á þær og lét Guðmundur einn manninn strax ganga í að afhausa og slægja fiskinn“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Ganga í augun á (einhverjum) (orðtak)  Heilla einhvern með útliti.  „Hann keypti sér dýrindis drossíu til að ganga i augun á stelpunum“.

Ganga í berhögg við (eitthvað) (orðtak)  Ganga gegn; vera á móti /í andstöðu við; ganga augljóslega gegn vilja/fyrirmælum/lögum einhvers.  „Mér sýnist að þessi aðgerð gangi beinlínis í berhögg við loforð þeirra fyrir kosningarnar“.

Ganga í eina sæng (orðtak)  Giftast; hefja sambúð.  Sjá sæng.

Ganga í erfðir (orðtak)  Vera arfgengur; liggja í ættum.

Ganga í förin (orðtak)  Ganga í för þess sem gekk á undan.  Börn gerðu sér þetta oft að leik, og kölluðu þrautakóng.  Hinsvegar var þetta illa séð af eldra fólki, því þjóðtrúin segir að sá sem gengur í för annars manns, rétt á eftir honum, vilji hann feigan.

Ganga í garð (orðtak)  Koma; birtast.  „Senn gengur vorið í garð“.  Garður merkir þarna býli/bær/heimili.

Ganga í með oddi og egg / Vinna að með oddi og egg (orðtök)  Vinna ötullega/einarðlega að.  „Össur gekk í það með oddi og egg að koma Orkubúi Vestfjarða á laggirnar, og naut við það góðrar aðstoðar“.

Ganga í móti (orðtak)  Verða fyrir mótlæti.  „Mér gengur ýmislegt í móti þessa dagana“.

Ganga í sig (orðtak)  A.  Byrja að hægja vind/veður.  „Mér sýnist hann nú eitthvað vera að ganga í sig“.  B.  Hætta við áform; skipta um skoðun.  „Hann var ákveðinn í þessu, en ég held að hann sé eitthvað að ganga í sig með það; enda væri það algert tilgangsleysi“.  Eldri mynd er að „ganga í sjálfan sig“.

Ganga í skrokk á (orðtak)  Lumbra/lúskra á; berja; fara illa með.  „Vertu nú ekki að egna nautkálfinn.  hann gæti þá gengið í skrokk á þér seinna meir“.

Ganga í skúrir (orðtak)  Um veðurlag; breytast úr samfelldri rigningu í skúrir með uppstyttu á milli; skúra sig.

Ganga í strauminn (orðtak)  Um fiskigöngu; koma á grunnmið þegar stórstreymt verður.  „Hér er mikið af bjartri og bústinni grásleppu; hún hefur líklega gengið í strauminn“.

Ganga í sæng með (einhverjum/einhverri) (orðtak)  Samrekkja einhverjum/einhverri.

Ganga í takt (orðtak)  Ganga þannig að fótahreyfingar/skref séu í sama hrynjandi.

Ganga í veg fyrir (orðtak)  Ganga að þeim sem er á göngu/ferðalagi.  „Er við förum upp Skorarjaðarinn gengur konan í veg fyrir okkur og segir mér frá heimilisástæðum sínum…“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Ganga í verk annarra (orðtak)  Halda áfram með verk sem aðrir hafa verið að vinna.  „Mér er alltaf fremur illa við að ganga í verk annarra, því hver maður hefur sitt vinnulag“.

Ganga kaupum og sölum (orðtak)  Vera gjarnan seldur.  „Veiðiréttur sem ólöglega var svikinn af sjávarjörðum gengur nú kaupum og sölum milli sægreifa“.

Ganga kringum jólatré (orðtak)  Um jólasið; hópur fólks á öllum aldri helst í hendur og gengur kringum skreytt jólatré; syngjandi jólasöngva og e.t.v. fleiri lög.  „Gengið var kring um jólatréð og sungnir sálmar og ýmsir söngvar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Ganga ljósum logum (orðtak)  Breiðast hratt út; fara eyðandi um.  Oft notað þegar lýst er draugagangi, þar sem draugur er mjög virkur.  „Sendingin frá Benedikt Gabríel gekk ljósum logum í Kollsvík og olli ýmsum óskunda, þar til Einari tókst að koma á hana böndum; leiða hana inní Hænuvík og tjóðra við stein“.  „Þessi kjaftasaga gengur núna ljósum logum um allar sveitir“.

Ganga með (orðtak)  A.  Bera ófætt afkvæmi.  B.  Fara meðfram.  „Það þarf að ganga með girðingum og sjá hvar þessar túnrollur komast inná“.

Ganga með grasið í skónum (orðatiltæki)  Vera á biðilsbuxunum; leita eftir sambandi við mannsekju.  „Hann er búinn að ganga með grasið í skónum eftir henni í langan tíma, en hún virðist eitthvað erfið við hann“.

Ganga menntaveginn (orðtak)  Fara í skóla; stunda nám í skóla. 

Ganga milli bols og höfuðs á (orðtak)  Drepa; ráða af dögum.  Orðtakið er komið af þeirri ævafornu trú að koma megi í veg fyrir að dauður maður gangi aftur með því að taka haus frá bol og svo gangi sá þar í milli sem líklegast er að hinn dauði hefði ofsótt.  Aukið öryggi fékkst ef hausinn var jarðsetur við sitjandann á skrokknum.  Aðferðin mun ekki hafa verið notuð nýlega, þó orðtakið sé nýtt við ýmis tækifæri.

Ganga niður (orðtak)  Draga úr ríkjandi vindi; minnka sjógangur.  „Nú held ég að norðanþræsingurinn sé að ganga niður“.   „Ef norðanátt gekk skyndilega niður, en rauk aftur upp sama sólarhringinn; uppherðingur, boðaði það vaxandi norðanátt næstu dægur“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  Sjá einnig detta niður.

Ganga niður úr (skónum) (orðtak) Slíta skófatnaði mjögmikið.  „Þú þarft að fara að efna þér í nýja skó; þú ert eiginlega alveg genginn niður úr þessum“.

Ganga nærri (einhverjum) (orðtak)  Sýna einhverjum hörku; kúska/pína einhvern; fara illa með einhvern.  „Þótti sumum hann ganga nærri sínu vinnufólki með slíkri vinnuhörku“.

Ganga nærri sér (orðtak)  Reyna mjög á; gera úrvinda/örmagna/fátækan; nær lama.  „Þessi mikla vinna hefur gengið mjög nærri honum“.  „Gakktu ekki nærri þér með endurgreiðsluna; ég get alveg beðið“.

Ganga ríkt eftir (orðtak)  Þrýsta á um; gera mikla kröfu til.  „Ég gekk ríkt eftir því að hann stæði við þetta“.

Ganga rösklega/vasklega til verks (orðtak)  Vinna af dugnaði/krafti; láta verk ganga.  „Hér hefur heldur betur verið gengið rösklega til verks“!

Ganga seigt og fast (orðtak)  Ganga hægt en örugglega; ganga treglega.  „Það gekk seigt og fast að koma þessu í gegnum kerfið“.

Ganga/rölta sér til heilsubótar (orðtak)  Vísar til þess hve gönguferðir hafa bætandi áhrif á líðan og heilsu manns.  „Ég rölti mér til heilsubótar fram með Fellum“.

Ganga sér til húðar (orðtak)  Fara illa með sig; ganga nærri sjálfum sér; ganga framaf sér.  „Það er fjandi hart ef bændur þurfa að ganga sér til húðar, bara til að borga laun einhverra óþarfa blýantsnagara í Reykjavík“!  „Mér sýnist að þessar hjólbörur hafi gengið sér til húðar“.  Eiginleg merking er að fá fótsæri af göngu.

Ganga slyppur/tómhentur frá borði (orðtak)  Bera ekkert úr býtum; hafa ekkert upp úr krafsinu; vera hlunnfarinn; ganga bónleiður til búðar.  „Það er lítið réttlæti í því að þeir gangi slyppir frá borði sem mest hafa lagt á sig til að ná þessum árangri“!

Ganga staflaust (um sveitir) (orðtak)  Um orðróm; berast milli manna með kjaftasögum/slúðri.  „Það gegnur staflaust hér um allar sveitir að þau ætli að bregða búií haust“.  Staflaust = ekki skrifað.

Ganga suðurá (orðtak)  Um vindátt; snúast til sunnanáttar.  „Við þyrftum að ná að galta þetta hey áður en hann gengur suðurá með rigningu“.

Ganga til altaris (orðtak)  A.  Eiginleg merking; meðtaka kristileg sakramenti.  B.  Líkingamál;fara á fylleri; detta í það.  „Er hann strax byrjaður að ganga til altaris; og bara fimmtudagur enn“!

Ganga til atkvæða (orðtak)  Hefja atkvæðagreiðslu; greiða atkvæði.  „Var síðan gengið til atkvæða um þessa tillögu“.

Ganga til þurrðar (orðtak)  Verða að engu; minnka og hverfa.  „Fóðurbætirinn fer að ganga til þurrðar“.

Ganga upp (orðtak)  A.  Um veður; herða/auka vind; blása upp; hvessa.  „Hann er að ganga asskoti fljótt upp af norðan núna“.  B.  Um kind/kú; halda ekki fangi; beiða aftur.  „Fjári eru margar að ganga upp sem fengið hafa með þessum hrút“  C.  Takast; lánast.  „Mér sýnist að þetta ætli að ganga upp hjá okkur“.  D.  Um deilingu/reikningsdæmi/ fjölda.  „Ef við setjum þennan fjölda í kvern karm, þá gengur þetta upp“.

Ganga (einhverjum) úr greipum (orðtak)  Einhver nær ekki endanlegum tökum á því sem hann vill gripa/fá; einhver missir af því sem hann vill halda/fá.  „Þetta var fjandi svekkjandi; lúðan var kominn uppundir borðstokkinn og ég var að færa í hana þegar hún gekk okkur úr greipum.  Greipar merkir hendur; það sem gripið er með.  Sjá spenna greipar.

Ganga þannig/svona til (orðtak)  A.  Um frásögn/framgang í atburðarás:  „Þetta gekk þannig til að annar mokaði heyinu inn en hinn jafnaði og tróð í hlöðunni“.   B.  Merkingarlaus hiksetning:  „Það gengur svona til..., ójá; þannig er nú það og það er nú svo...“.  „Þótt hér hafi lítillega verið sagt frá einum bát og stjórn hans, þá mun þó svipað hafa gengið til hjá hinum“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Ganga þurrum fótum (orðtak)  Ganga án þess að blotna í fæturna.  „Á stórum fjörum er unnt að ganga þurrum fótum útá Breiðaskersklakk“.

Ganga til (orðtak)  A.  Ganga; gerast; ske.  „Þannig gengur þetta nú stundum til“.  B.  Ganga á stígvélum/skóm þar til þau falla vel að fæti; mýkja.  „Það var skaði að tapa skónum þegar ég var rétt búinn að ganga þá til“.

Ganga til altaris (orðtak)  Um kirkjusiði/helgisiði; fara upp að grátum í kirkju, krjúpa og þiggja sakramenti/náðarmeðul úr hendi prests.  Sjá sakramenti.

Ganga gott/illt til (orðtak)  Hafa gott/illt í hyggju.  „Mér gekk gott eitt til, með því að bjóða honum þetta“.

Ganga til búðar (orðtak)  Um vermenn; ganga í sína verbúð.  „Enn var gengið til búðar og neytt hressingar áður en byrjað var á síðari aðgerðinni, eða kannski aðgerð á öllum dagsaflanum, svo og beitningunni eins og fyrr segir“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ganga til hvílu/náða (orðtak)  Fara að sofa; fara í bólið; taka á sig náðir; draga sig í bælið/lúsina.  „Það gat tekið 4 – 6 tíma að ljúka aðgerð og ýmsu fleira sem sinna þurfti áður en gengið var til náða“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ganga til kosninga (orðtak)  Kjósa.  „Þá var gengið til kosninga í húsnefnd“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 12.03.1960; ritari ÖG). 

Ganga til prests / Ganga til spurninga (orðtök)  Vera undir handleiðslu prests til undirbúnings fermingar.

Ganga til sýslu (orðtak)  (orðtak)  Kúka; skíta; létta á sér; hægja sér; gera að buxum sínum; flytja lögmann.  „Sýsla var nefnt svæði það sem vermenn í Kollsvík notuðu til slíkra athafna, og þar réði sýslumaður“.

Ganga til viðar (orðtak)  Um sólargang; orðin lágt á lofti; hníga til viðar.  „Sól fer bráðum að ganga til viðar“.  Vísar til þess að sól sýnist lágt á lofti og hverfur á bak við við/skóg.

Ganga til þurrðar (orðtak)  Tæmast; verða uppurinn; fjara út.  „Saltið gengur hratt til þurrðar þessa dagana“.

Ganga um garð (orðtak)  Líða hjá; hverfa; hætta.  „Okkur sýndist mesta hættan af hruninu vera gengin um garð, og áræddum að hlaupa yfir skriðuna“.

Ganga undan (orðtak)  Vinnast vel; sýna dugnað.  „Það gengur skratti vel undan honum við fláninguna“.

Ganga undir (orðtak)  A.  Um lamb; vera með móður sinni,  eða annarri kind ef vanið var undir.  „Hún lítur bara fjári vel út blessunin, þó undir henni hafi gngið þrjú lömb í sumar“.  B.  Um sól; setjast.  „Við þurfum að klára að setja þetta upp í galta áður en sól gengur undir, til að fá ekki á það náttfall“. C.  Koma sér fyrir undir hlut, t.d. kinnung á bát, til að lyfta honum og færa til.  Sjá bera á endum.

Ganga undir jarðarmen (orðtak)  Heita órjúfanlegri tryggð.  „Ég hef aldrei gengist undir það jarðarmen að kjósa þennan flokk út ævina“!  Talið dregið af fornri athöfn þar sem bræðralag var staðfest með því að menn ristu sér blóð og gengu eða skriðu undir torfu sem skorin hafði verið af jörðinni og blóðið hafði dropið í.

Ganga upp (orðtak)  A.   Um veður; auka mjög vind, oft úr tiltekinni átt.  „Hann er að ganga upp með vestan sýnist mér“  (uppgangsveður).  B.  Um búfé; verða aftur blæsma (ganga) eftir að því hefur verið haldið (ám undir hrút;kúm undir naut).  „Hún Gráhetta er að ganga upp í annað sinn núna“.  C.  Takast; lánast.  „Mér sýnist að þetta muni ekki ganga upp hjá okkur“.  D.  Um reikningsdæmi; leysast.  „42 gengur upp í 168, fjórum sinnum“.  E.  Klárast; ganga til þurrðar.  „Frostaveturinn 1918 var mikið til af mó (í Vesturbotni) og kom fólk frá Patreksfirði til að fá mó og allt gekk upp, sem til var“  (Örnefnaskrá Vesturbotns; frás. Kristins Kristjánssonar frá Grundum og Ólafíu Ólafsdóttur).

Ganga upp og niður (orðtak)  Eiga misjöfnu gengi/láni að fagna; búa ýmist við velgengni eða andstreymi; ganga ýmist vel eða illa.  „Vertíðin hefur gengið upp og niður, en ég er ekki ósáttur við heildarveiðina“.

Ganga upp og niður af mæði (orðtak)  Vera mjög móður; mæðast svo að höfuðhreyfing fylgi öndun.  „Hann hafði kindina með þrjóskunni, en hann gekk upp og niður af mæði á eftir“.

Ganga upp í (orðtak)  Um fjárhæð; ganga til greiðslu á.  „Láttu þetta bara ganga uppí það sem ég skulda þér“.

Ganga úr greipum (orðtak)  Tapast; missast.  „Hann beið tilbúinn með ífæruna; ákveðinn í að þessi lúða skyldi ekki ganga þeim úr greipum“.

Ganga úr lagi / Ganga úr sér (orðtak)  Fara aflaga; bila; slitna.  „Hér er margt úr lagi gengið“.  „Þessar klippur eru farnar að ganga dálítið úr sér“.

Ganga úr rúmi/hvílu (orðtak)  Eftirláta öðrum sinn rúm.  „Stundum var þröngt í gamla bænum þegar gestakomur voru miklar.  Ekki var óalgengt að heimilisfólk gengi úr rúmum sínum fyrir gesti, og sváfu þá á gólfi, í flatsæng“.

Ganga úr sér (orðtak)  Verða lélegur af notkun/aldri.  „…viðhaldsfé væri svo lítið að vegirnir gengju stöðugt úr sér“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ganga úr skugga um (orðtak)  Sjá um að öruggtlega sé; fullvissa sig um.  „Ég gekk úr skugga um að festingin væri trygg, áður en ég renndi mér niður lásinn“.

Ganga/hrökkva úr skaftinu (orðtak)  Hætta við það sem áætlað var; heltast úr lestinni; gefast upp.  „Hann er alveg genginn úr skaftinu með þessi byggingaráform“.  „Ætli ég verði ekki að ganga úr skaftinu með þátttöku útaf þessari pest“.  „Ekki veit ég hvað verður eftir að hann er hrokkinn úr skaftinu“.  Líkingin er dregin af því að áhald losnar úr skafti sínu; t.d. axarblað, en það var fyrrum fest í klofa fremst á skaftinu.

Ganga/fara úr skorðum (orðtak)  Fara úrskeiðis; raskast.  „Hér hefur eitthvað gengið úr skorðum.  Líking við það að skorður losni undan bát, svo hann leggist á hliðina.

Ganga úr skugga um (orðtak)  Fullvissa sig um; aðgæta hvort öruggt sé.  „Ég gekk úr skugga um að kötturinn væri farinn úr blásaranum áður en ég setti í gang“.

Ganga úr vistinni (orðtak)  Fara þaðan sem maður hefur dvalið um langa hríð; hætta að búa/vinna hjá þeim húsbændum sem maður hefur haft.  „Þeir segja að vinnukonan sé gengin úr vistinni“.

Ganga útá/útí (s)  Vindátt snýst til vestanáttar.  „Hann er að ganga útí“.  Ef jók vestansjó voru líkur á að vestanátt fylgdi á eftir og síðan e.t.v. norðanátt með tilheyrandi þurrki og  jafnvel landlegum.

Ganga út á (orðtak)  Hafa þann tilgang; vera í því skyni gert/sagt.  „Spilið gengur útá það að ná sem flestum slögum“.

Ganga út í öfgar/æsar (orðtak)  Ganga of langt; verða um of; verða ýkjukennt.  „Hér held ég að sé nokkuð gengið útí öfgar“.  Æs er gamalt heiti á gati, einkum þvengjagati á skóm.  Þegar skórinn er slitinn að æsunum er hann „genginn út í æsar“; þ.e. nánast ónýtur.  „Æsar“ heyrist sjaldnar en „öfgar“ í þessu orðtaki.

Ganga útfrá (orðtak)  Telja öruggt/víst; slá föstu; hafa sem útgangspunkt.  „Ég geng þá útfrá því að þetta verði greitt, í síðasta lagi núna á föstudaginn“.

Ganga vel að mat sínum (orðtak)  Nýta mat sinn vel; borða skipulega/kurteislega; klára sinn mat og skilja snyrtilega við borðhaldið. 

Ganga vel/illa fram (orðtak)  Um holdafar búfjár eftir vetrareldi.  „Féð er allvel fram gengið þetta vorið“.

Ganga yfir (orðtak)  A.  Ganga fram af; ofbjóða.  „Nú gengur alveg yfir mig:  Haldiði ekki að kattarfjandinn sé að draga hingað heim steindauða önd“!  Af þessu er leitt orðið „yfirgengilegur“.  B.  Um sjógang; bárur hvolfast yfir fyrirstöðu.  „Sjór hafði gengið yfir Garðinn og rifið í hann skarð“.

Ganga þess ekki dulinn (orðtak)  Vera meðvitaður um; vita vel af.  „Hann bar sig vel, en enginn gekk þess samt dulinn að hann var veikur“.

Ganga örna sinna (orðtak)  Kúka; skíta; létta á sér; hægja sér; gera að buxum sínum; flytja lögmann; ganga til sýslu; ganga álfreka.  „Það var alltaf regla í Kollsvík að þeir sem reru þar í fyrsta skipti í þeirri verstöð áttu að glíma um sýsluna og sá sem féll var útnefndur sýslumaður.  Sýslan var fjaran frá flæðarmáli og upp í Syðrikletta sem kallaðir voru.  Það var eins og gerðist í þá daga; þá voru hvergi klósett.  Þetta svæði urðu menn að nota sem klósett.  Svona viðvaningar; nýliðar, þeir áttu að glíma um hver væri sýslumaðurinn; yfirmaðurinn á þessu svæði og annast þrif á því.  Innheimta síðan gjald fyrir hvern mann sem notaði svæðið; gengi þar örna sinna“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Var það ungur maður frá Grundum að ganga örna sinna í fjörugrjótinu, eins og alsiða var“  (HÖ; Fjaran).    Líklega er þetta upprunalega að „ganga örinda sinna“, sem er það sama og nú tíðkast; að ganga erinda sinna.

Gangandi peningur (n, kk)  Búpeningur; búfé.  „Gangandi peningur gaf eigendum sínum góðan arð.  Hrognkelsaveiði mjög góð, en selveiði br´st á Rauðasandi“  (ÞJ; Árb.Barð 1973).

Gangast fyrir (orðtak)  A.  Verða ellilegur/hrörlegur.  „Ósköp finnst mér karlinn vera farinn að gangast fyrir“.  B.  Standa fyrir; standa að.  „Félagið gekkst fyrir söfnun, ekkjunni til styrktar“.  C.  Langa í; lítast á.  „Fyrir hverju gangast karlmenn og kvenmenn, hvort hjá öðru“?  (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1919). 

Gangast inná (orðtak)  Samþykkja; fallast á; gútera.  „Lokst gekkst hann inná að greiða sinn hlut í þessu“.

Gangast undir (orðtak)  Skuldbinda sig til; vera tilbúinn í.  „Hann gekkst undir þessi skilyrði“.

Gangast upp í (orðtak)  Verða yfirlætislegur; taka hlutverk/upphefð helst til alvarlega; miklast af.  „Hann gengst víst mjög upp í sínu hlutverki sem réttarstjóri.  Þeir halda að hann fari bráðum að heimta borðalagt kaskeyti“!

Gangast við (orðtak)  Viðurkenna; meðganga.  „Ég gengst fúslega við því að hafa hent gúrkuskattanum“.

Gangberg (n, hk)  Bergtegund sem finnst í berggangi.  Bergganga má víða sjá í Kollvík, þar sem þeir ganga lóðrétt upp í gegnum berglagastafla í klettum; s.s. í Blakknum.  Gangberg er oftast dílótt, einkum í þykkum göngum.  Sumsstaðar er það mjög stuðlað, og inni í hverjum stuðli er kjarni með járnríku bergi, s.s. í Strengbergsgjá og Bekk.  Við jaðrana er gangbergið glerjað, og bergið í kring er stundum myndbreytt af hita.  Bergtegund gangbergs í blágrýtismynduninni nefnist díabas.  Það er millistig basalts og gabbrós og frumsteindir þess eru feldspat, ólivín, pýroxen og seguljárn.

Gangbretti (n, hk)  Bretti sem lagt er yfir torfæru sem braut til að auðveldara sé að komast.  „Við settum gangbetti yfir forina til að koma hjólbörunum út að haug þegar stungið var út úr fjárhúsunum“.

Gangdagar (n, kk, fto)  Dagarnir þrír á undan uppstigningardegi.  á gangdögum var gengið umhverfis tún í kaþólskum sið og beðið til árs og jarðargróða.  Annar dagur er gangdagurinn eini/mikli sem haldinn var hátíðlegur í pápískunni hinn 25. apríl.  Upphaflega var hann rómversk hátíð.

Gangdyr / Ganghurð (n, kvk)  Dyr/hurð innanvið anddyri og útihurð; innridyr/innrihurð.  „Lokaðu nú gangdyrunum; það er hálfgerður dragsúgur hér inni“.

Gangendi (n, kk)  Þrot; endi á gangi í klettum.  „Það eru tvö hreiður þarna í gangendanum“.

Gangfær (l)  Um traktor, bíl eða ljósavél; getur gengið/verið í gangi.  „Gráni er ekki gangfær í þessu ástandi“.

Gangfær (l)  A.  Um manneskju; getur gengið.  „Það heitir ekki að maður sé gangfær, þó maður staulist um húsið“.  B.  Um bíl/traktor/vél; fer í gang; getur gert sitt gagn. „Gamli Jobbi er ekki gangfær þessa stundina“.

Gangfæri/Göngufæri (n, hk)  Færð til að ganga.  „Ekkert sögulegt gerðist á leiðinni út á brúnina, enda veður gott og gangfæri með besta móti, þvi froststirðningur var svo uppi héldu þeir snjóskaflar sem á leið þeirra urðu“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Ganglúinn (l)  Þreyttur eftir göngu.  „Ertu ekki orðinn ganglúinn eftir þetta“?

Gangmál (n, hk)  Tími sem kýr ætti að verða yxna.  „Það er komið gangmál hjá Skjöldu.

Gangmikill / Ganglítill / Ganglaus (l)  Um hraða báta.  „Ég gæti trúað að þessi bátur sé nokkuð gangmikill, eftir laginu á hinum“.  „Þetta er viðtakamikill bátur en líklega fremur ganglítill“.

Gangnaboð (n, hk)  Fjallskilaseðill; boð um að fara í göngur.  „Ekki leysir það fjallskilaskyldan aðila frá gangnaskyldu þótt gangnaboð berist honum ekki í tíma áður en fjallgöngur hefjast“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Gangnadagur (n, kk)  Leitardagur; réttardagur; dagur að hausti þegar almennt skal smalað og rekið til réttar.  „Gangnadagur var ákveðinn með fjallskilaseðli og var, samkvæmt fjallskilareglugerð; mánudagur í 22. Viku sumars, sem er kringum 20. september.  Þá var oftast búið að smala heimalönd að mestu, en þennan dag ráku Kollsvíkingar, Látramenn og Breiðvíkingar til réttar í Breiðuvík.  Þar var dregið í sundur í dilka og síðan rak hver heim til sín.  Hafnarmenn og aðrir sóttu sitt fé, en lengra að komið flækingsfé var flutt á skilarétt í Bjarngötudal“.  Sjá réttardagur.  „Ennþá fór gangnaseðillinn rétta boðleið um hreppinn í tuttugustu viku sumars, og gangna- og réttardagur til fyrstu réttar var mánudagurinn í tuttugustu og annarri viku viku“  (PG; Veðmálið). 

Gangnahugur (n, kk)  Löngun til að komast í göngur.  „Kominn var gangnahugur í alla, nokkru fyrir réttardag“.

Gangnamenn (n, kk, fto)  Menn sem gera fjallskil; menn sem smala fé.  „Við stóðum fyrir á Brunnsbrekkunni, og eftir nokkra bið birtust gangnamenn með reksturinn á Hjallabrúninni“.

Gangnanesti (n, hk)  Nesti fyrir gangnamenn/ þá sem taka þátt í göngum/réttum.  „Á laugardag var slátrað lambi í gangnanestið og á sunnudag smalað heimalandið“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Gangnaseðill (n, kk)  Fjallskilaseðill.  „Gangnaseðillinn barst bæ frá bæ; kom að Láganúpi um hálfum mánuði fyrir göngur og þaðan varð pabbi að senda með hann út að Breiðavík.  Í honum var ákveðið hvað pabbi ætti að senda marga í göngur á Breiðavíkurrétt og hvort hann ætti að sækja fé á Skógarrétt“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Ennþá fór gangnaseðillinn rétta boðleið um hreppinn í tuttugustu viku sumars, og gangna- og réttardagur til fyrstu réttar var mánudagurinn í tuttugustu og annarri viku viku“  (PG; Veðmálið). 

Gangnaskylda (n, kvk)  Skylda til smölunar; fjallskilaskylda.  „Ekki leysir það fjallskilaskyldan aðila frá gangnaskyldu þótt gangnaboð berist honum ekki í tíma áður en fjallgöngur hefjast“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Gangnatími (n, kk)  Sá árstími sem göngur standa yfir.  „Hann er að gutla við heyskapinn framá gangnatíma“.

Gangnasvik (n, hk, fto)  Undanskot frá fjallskilum.  „Hann má ekki komast upp með þessi gangnasvik lengur“!

Gangnasvæði (n, hk)  Svæði sem fjallskil eru gerð á.  „Gangnasvæði Kollsvíkinga var allt Kollsvíkurland og Láganúpsland, ásamt norðari hluta Breiðavíkurlands til móts við Breiðvíkinga“.

Gangskip (n, hk)  Gangmikill bátur/skip.  „Hann er nú tæpast mikið gangskip með þessari vél“.

Gangslefra (n, kvk)  Mjög hallandi/afsleppur gangur í bjargi/klettum.  „Haltu í spottann yfir gangslefruna“.

Gangspil (n, hk)  Spil til að draga báta á land.  Það er með sverum lóðréttum ás; spilkarli, og er einni eða tveimur stöngum; vindutrjám, stungið í gegnum augu í efri enda hans; spilhausinn.  Spilkarlinn situr lóðréttur í grind, og gengur rúm möndulgjörð á henni utanum hann ofanverðan.  Tveir menn ganga svo með sinn hvorn enda stangarinnar, hring eftir hring og spila bátinn upp með spilvír sem vefst upp á ásinn en er krækt með járnkrók í járnlykkju á stefni bátsins; stafnlykkju.  Á meðan styður a.m.k. einn maður bátinn og annar ber hlunna og setur fyrir.  Ekki eru heimildir um upphaf gangspila í Kollsvík, en líklega hefur það verið nokkru eftir aldamótin 1900.  Tvö gangspil voru í Kollsvík framyfir 1960; annað í Kollsvíkurveri og hitt ofan við Láganúpslendinguna.  „Þá (þegar lent var) var venjulega búið að draga spilstrenginn fram í flæðarmál og bera niður hlunna.  Við lendingu er ár rennt út í skutnum, til að varna því að bátinn fletji, því skakkafall var oft með sandinum.  Króknum er krækt í stefnislykkjuna og gefið merki um að strekkja á spilstrengnum.  Þá eru settir hlunnar og einn maður þarf að styðja bátinn.  Það þarf að vera fljótur með hlunnana því margir eru á spilinu.  Þegar fáturinn er kominn upp á kamb er skorðað; oft var sagt:  „Skorðið skipsmenn; ábyrgist eigendur“ “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Ýmist var notað gangspil eða spil handsnúið með tveim sveifum (við plægingu kúfisks) “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Gangtími (n, kk)  Sá tími sem eðlilegt er að kyr beiði á eða beiði upp á.  „Það þarf að passa vel uppá gangtímann á henni Sokku; hún er svo dulgeng að hún hefur stundum gengið hjá“.

Gangur (n, kk)  A.  Ganga; gönguferð.  „Yfir Tunguheiði er um tveggja tíma rólegheita gangur“.  B.  Hilla í bjargi/klettum.  „Þarna má komast í lásum niður í þriðja gang, og fá sæmilegt af eggjum“.  C.  Það að kýr sé yxna; að kýr gangi.  „Nú sýnist mér að það sé gangur á Búkollu“.  D.  Það að vél sé í gangi.  „Því skyldi vera svona ójafn gangur í traktornum“?  „Það má fara að setja í gang“.  E.  Rými í húsi; inngangur.  “Skötuilminn leggur framá gang“.  F.  Göngulag.  „Ég er orðinn stirður til gangs“.  G.  Sigling/skrið báts.  „Það er góður gangur á honum á lensinu“.  H.  Framgangur.  „Þetta hefur sinn gang“.  „Undirbúningurinn er í fullum gangi“.  I.  Flokkur samstæðra hluta.  „Hér á ég einn gang af skeifum“.  J.  Berggangur; innskot.  „Strengbergsgjáin er mjög áberandi gangur í Blakknum“.  K.  Skipti; sinn.  „Vertu nú ekki að tyggja þessa vitleysu einn ganginn enn“!

Gangur á (orðtak)  Um sauðkind/kú; blæsma; eðlunarfús; vantar hrút/naut.  „Nú sýnist mér að sé gangur á henni Sokku.  Ætli við þurfum ekki að fara að mýla nautið“.

Gangvegur (n, kk)  Leið sem gengin er; gangur í húsi; stígur milli bæja.  „Liggðu nú ekki fyrir fólki í gangveginum drengur“!

Gangverð (n, hk)  Verð sem vara/mynt gengu/selst á hverju sinni.  „Gangverð á svona bílum hefur lækkað“.

Gangverk (n, hk)  Vélbúnaður; sigurverk (í klukku).  „Ég lét yfirfara og hreinsa gangverkið í klukkunni“.

Gangþýður (l)  Um vél/hest; gengur lipurlega/þýðlega.  „Mikið er Fergusoninn gangþýðari en Setorinn“.

Gantast (s)  Grínast; kankast; hafa í flimtingum.  „Þeir voru stundum að gantast með þessar rassbögur“.

Gapa (s)  A.  Gína; hafa munninn galopinn.  „Ég gapti af undrun yfir þessum aðförum“.  B.  Blaðra af litlu viti.  „Vertu nú ekki að gapa þetta um hluti sem þú hefur ekki hundsvit á“!

Gapa um (orðtak)  Geispa/fjasa/tala um.  „Árann er hann að gapa um það sem hann skilur ekki sjálfur“!

Gapaháttur (n, kk)  Glannaskapur; bjánagangur.  „Það væri gapaháttur að fara fram (á sjó) í þessu útliti“.

Gapafenginn (l)  Glannalegur; teflir á tvær hættur.  „Mér finnst hann alltof gapafenginn í klettum“.

Gapalega (ao)  Óvarlega; án varúðar.  „Farðu ekki svona gapalega með hnífinn“.  „Mér þótti hann fara gapalega þarna í ganginum“.

Gapalegur (l)  A.  Ógætinn.  „Ósköp finnst mér þú gapalegur með hnífinn“.  „Þetta var hin ánægjulegasta sjóferð, en um leið sú gapalegasta sem ég hef verið með…“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).  B.  Um steinbítsveiði; „Steinbíturinn var sagður gapalegur ef menn hlóðu á skammri stundu“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV;. ÓETh).

Gapandi hissa / Standandi hissa (orðtak)  Forviða.  „Ég var alveg gapandi hissa yfir þessum bjánagangi“.

Gapastokkur (n, kk)  Tæki til refsingar.  Með lögum var heimilt að nota gapastokk hérlendis frá 1685 til 1809, og var hann allmikið notaður; þó ekki jafn algengur og erlendis.  Útbúnaðurinn var margskonar, en algengast var að nota tvo stokka með grópum sem felldir voru utanum háls og stundum hendr/fætur sakamannsins.  Einnig lóðréttur staur með hálshring sem nefndist stjaki.  Gapastokkar voru á fjölförnum stöðum, þar sem hinn seki var hafður um tíma svo aðrir gætu hætt hann og smánað.  Hugmyndir hafa komið fram á síðari tímum að endurvekja þyrfti gapastokkinn; t.d. létu þær á sér kræla eftir efnahagshrunið 2008, þegar fjárglæframenn komu þjóðinni nánast á vonarvöl.  Má ætla að hann hefði mun meiri fælingarmátt en þeir silkihanskar sem brotamenn eru nú teknir.

Gaphús (n, hk)  Kjaftur.  „Það vantar ekki á hann gaphúsið þegar pólitík er annars vegar“.

Gaphyrnd (l)  Um hornalag kúa; stórhyrnd og með áberandi gleitt á milli horna.

Gapi (n, kk)  Sá sem fer óvarlega/glannalega/gapalega.  „Hann var vel fær en þótti mikill gapi í klettum“.

Gapuxi (n, kk)  Heimskur/kjöftugur maður.  „Það er nú lítið að marka þennan gapuxa rétt fyrir kosningar“.

Garanterað (s)  Tryggt; öruggt.  „Það er ekki alveg garanterað að af þessu verði, en ég reikna fastlega með því“.

Gardur (n, kk)  Garður með vestfirskum framburði.  Almennt notaður fyrrum, en síðastur til að nota hann að staðaldri í Kollsvík var Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi.  „Nær skyldi hann lina þennan gard“?

Garða (s)  Raka heyi saman í garða.  „Það gæti orðið náttfall; ég held við ættum að garða þetta fyrir nóttina“.

Garðadyr (n, kvk)  Dyr á garða í fjárhúsi, en Kollsvíkingar nefna garða það sem sumsstaðar annarsstaðar er nefnt „kró“.  „Vertu við garðadyrnar svo þær ryðjist ekki allar inn í einu“.

Garðafjöldi (n, kk)  Fjöldi garða í fjárhúsi.  „Garðafjöldi var misjafn í fjárhúsum.  Melsfjárhúsin voru með fjóra stóra garða, en Láganúpsfjárhúsin sex smærri, áður en tveimur þeirra var breytt í fjós“.

Garðahurð (n, kvk)  Hurð fyrir garðadyrum á fjárhúsi.  „Garðahurðin er snöruð að innanverðu“.

Garðaló (n, kvk)  Ullartásur sem losna af fé í fjárhúsum.  Hún var notuð m.a. til þéttingar á húsum, en einnig mun stundum hafa verið spunninn af henni samnefndur þráður.

Garðarolla (n, kvk)  Kind sem sækir mjög í að komast inn í jurtagarð og er þar yfirleitt óvelkomin.  „Einhverjir Patreksfirðingar voru orðnir fremur pirraðir á garðarollunum hans Fjella í Raknadal“.

Garðast (s)   Um hey; net eða annað efni; rúllast saman/upp.  „Það hvessti svo mikið þennan dag að heyið garðaðist upp í göndla; það sem ekki fauk í skurðina“.  „Þessi peysa er ómöguleg.  Hún garðast öll upp á bak þegar ég er að vinna“.  „Netið garðaðist allt í göndul í storminum; það sem ekki kjaftfylltist af þara“.

Garðhleðsla (n, kvk)  A.  Hlaðinn garður.  Garðhleðslur eru miklar og áberandi í Kollsvík, ekki síður en tóftir hlaðinna húsa.  Það kann að skýrast annarsvegar af því að nóg er hleðslugrjótið og grjóthlaðnir garðar endast um aldir meðan torfhlaðnir mást.  Hinsvegar er skýringin sú að í mörgum þessum görðum sjást handarverk mesta hleðslumanns sem uppi var í seinni tíð á þessu svæði og þó víðar væri leitað; Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi.  Ekki er víst að Kollsvíkingar hafi í gegnum tíðina hlýtt mjög grannt kóngs tilskipunum, en árið 1776 skipaði hann svo fyrir með gaðhleðslur:  „Hver einn skal skyldugur að hlaða árlega 6 faðma af steingarði eða 8 faðma af moldargarði fyrir sjálfan sig og eins mikið fyrir hvern verkfæran karlmann sem hann hefur til vinnu.  En ef hann hleður umfram þetta ákvarðaða mál skal hann af þeim höfuðstól og summu, sem vér viljum allranáðugast ætla til hér, fá til upphvatningar fyrir slíka sína vinnusemi, fyrir hvern faðm af steingarði 16 skildinga og af moldargarði með grassverði lögðum allt í kring 12 skildinga danska í kúrant, hver skenkur (framlag) þó einasta er handa bændastandinu og þeim af prestastandinu sem hafa þau allra fátæklegustu prestaköll  Fyrir annars slags garða af steini eða mold gefst enginn skenkur...“  (BH; Atli).  B.  Hleðsla garðs.  „Mun Kristján (Ásbjörnsson á Grundum) hafa varið landlegum til garðhleðslunnar og nýtt starfskrafta áhafnar sinnar, enda annálaður ákafa- og keppnismaður“  (HÖ; Fjaran). 

Garðhola (n, kvk)  Lítill garður/matjurtagarður.  „Fjelagið sá um að drengir innan 14 ára, sem í því voru, hafa komið sér upp garðholuog ræktað þar jarðepli og selt þau... “  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Garði (n, kk)  A.  Karmur; kró í fjárhúsi.  Garði var ekki notað um jötu fyrir vestan, eins og sumsstaðar var á landinu, heldur um stíurnar báðumegin við.  Oftar var þó notað heitið karmur um það sama í Kollsvík.  „Ég setti gemlingana í norðasta garðann“.  B.  Vitað var þó af notkun orðsins um kró/karm, enda var notað orðtakið að „gefa á garðann“.

Garðsendi (n, kk)  Endi á hlöðnum garði.  „Við röltum út Grundabakkana, útfyrir Garðsendann, og heim Brunnsbrekku“.  „Neðan við garðsendann er Garðsendadý, sem til skamms tíma var skæð drápskenda“.

Garðtraktor (n, kk)  Lítill traktor sem hentar til jarðvinnu í görðum.  „Sumir reyndu að létta sér sláttinn með garðtraktorum og komu fyrst tveir í Rauðasandshrepp, að Hvalskeri og Efra Lambavatni.  Þessi tæki hétu Rotortiller og voru með ábyggðan tætara að aftan en sláttuvélagreiðu þvert fyrir miðju að framan“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Garður (n, kk)  A.  Langvarandi hvassviðri, vanalega af norðri eða vestri.  „„... var þá kominn austnorðan garður með frosti“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).  B.  Kálgarður; kartöflugarður.  C.  Hlaðinn garður; túngarður; varnargarður.  „Skyldi þetta óveður vera um garð gengið“?  Sjá löggarður.  D.  Múgi af heyi sem rakað hefur verið saman.  „Þessi garður kemst allur á heyvagninn“.  Framburður var til skamms tíma upp á vestfirsku; „gardur“.  E.  Persóna einstaklings.  „Þeim sómir illa að vera með köpuryrði í hans garð“.  F.  Heimili; býli.  „Senn gengur Góa í garð“.  „Nú ber sjaldséðan gest að garði“.  „Nú þarf að búa þetta sem best úr garði“.

Garður er granna sættir (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að ef garður er hlaðinn á landamerkjum eru um leið settar niður landamerkjadeilur.  Landamerkjagarð skyldu báðir jarðeigendur vera sammála um og hlaða að jöfnu, samkvæmt gömlum lögbókum.

Garðyrkja (n, kvk)  Ræktun plantna í görðum, sem allajafna þrífast ekki eða verr utan þeirra, til nytja eða augnayndis.  Eitthvað hefur líklega verið um garðrækt frá landnámi, en þá nokkuð sérhæfða.  T.d. greina heimildir frá grasagörðum, bygggörðum, hvannagörðum og laukgörðum, einkum á helstu setrum s.s. biskupssetrum og klaustrum.  Gísli Magnússon, Vísi-Gísli, má teljast upphafsmaður nytjaræktunar í görðum á síðari tímum.  Á 17. Öld kom hann frá námi í Hollandi og sáði þá um 30 jurtategundum í garð sinn að Munkaþverá.  Hann hélt garðrækt sinni áfram að Hlíðarnenda og í Skálholti.  Ræktaði hann m.a. rúg, kál og rófur og reyndi fyrir sér um kartöflurækt.  Enginn hélt þó frumherjastarfi hans áfram.  Hastfer barón hóf að fikta við kartöfluræktun á Bessastöðum 1758.  Það var þó ekki fyrr en með starfi séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal að kartöfluræktun er talin hefjast fyrir alvöru.  Eftir hans daga hófst garðrækt í Rauðasandshreppi fyrir alvöru og varð mjög almenn á 19.öld.  Nánast hvert býli varð sjálfu sér nægt um kartöflur og ýmislegt fleira, s.s. rófur, kál, salat, rabbarbara, gulrætur, næpur og annað.  Þannig var um bæi í Kollsvík.  Sigríður Guðbjartsdóttir, sem síðust bjó samfellt í Kollsvík, var mikil garðæktarkona, og hélt glæsilegum garði við á Láganúpi þar til hún veiktist alvarlega árið 2011.  Jafnvel eftir það heimsótti hún garðinn í hjólastól sínum og hélt starfinu áfram fram að andláti sínu 5.júní 2017.

Garfa (s)  Verka/súta skinn til að verja það rotnun.  „Garfað skinn var notað í bókarspjöldin“.

Garfa í (orðtak)  Hugleiða; spá í; velta fyrir; grafast fyrir um.  „Ég hef mikið verið að garfa í þessum hlutum“.

Garg (n, hk)  Hrjúfur og hátóna hávaði; skrækir.  „Lokaðu nú fyrir þetta skollans garg í útvarpinu“.

Gargan (n, hk)  Skrapatól; ónýti.  „Þetta vaðhjól er nú að verða óttalegt gargan“.

Garmalegur (l)  Ótótlegur; tætingslegur; ræfilslegur.  „Skelfing er þessi úlpa orðin garmaleg“.

Garmaskarn / Garmaskinn (n, hk)  Gæluorð í vorkunnartón um dýr og fólk. 

Garmahró / Garmaskarn / Garmaskinn / Garmaskítti (n, hk)  Gæluorð í vorkunnartóni um manneskju eða skepnu.  „Hann er orðinn fjári lélegur til heilsu, garmahróið“.  „Varstu nú að meiða þig, garmaskinnið“? „Tíkin er farin að verða stirð, garmaskinnið“.

Garmur (n, kk)  A.  Lélegur hlutur; úr sér gengið hús/húsgagn/áhald o.fl.; hró.  „Dívaninn er orðinn hálfgerður garmur, en það má alveg sofa á honum enn“.  B.  Hró; Heilsulítill maður; ræfill.  Upphaflega hundsheiti en í seinni tíð gæluorð um dýr/fólk. „Hvað gerir nú garmurinn hann Ketill“?  „Nú er hann einn í kotinu, karlgarmurinn“. „Ég er enn hálfgerður garmur eftir þessa pest“. C.  Slitin föt; lélegt áhald/tæki o.fl.  „Þessi úlpa fer nú að verða hálfgerður garmur.  „Skelfingar garmur er þetta net“.

Garnagaul (n, hk)  Ólga/hljóð sem heyrist frá meltingarvegi.  „Óttalegt garnagaul er nú í manni“.

Garnmör (n, kk)  Mör/fita í görnum.  Garnmör úr sláturfé var notaður m.a. í bjúgu og lundabagga.  Eftir slátrun var garnmörinn kældur í þéttan skjöld og síðan var ristillinn rakinn úr honum.  Fara þurfti varlega við að rekja ristla, enda slæmt ef þeir slitnuðu og saurinn fór í mörinn.

Garpskapur (n, kk)  Áræði; hetjulund; karlmennska.  „Það er kannski ekki mikill garpskapur að fara í land þó goli eitthvað, en ég treysti því ekki hvernig hann verður í Varinu í aðtakinu“.

Garrafjandi (n, kk)  Vindasöm tíð; hvassviðri.  „Hann ætlar seint að linna þessum garrafjanda“!

Garragangur (n, kk)  A.  Um veður; rysjótt tíð; hvassviðri.  Um viðmót/hegðun; skammir; rifrildi; garralæti.  „Hættið nú þessum garragangi; báðir tveir“!

Garralegur (l)  A.  Tætingslegur; hvass vindur.  B.  Hranalegur maður.

Garralæti (n, hk, fto)  Skammir; offors.  „Það er tilgangslaust að vera með garralæti og ofstopa“!

Garri (n, kk)  Hvassviðri; rok.  „Það var um hausttíma...í vestangarra, svo undir flæðina urðumvið að setja bátana upp“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Gasa (s)  Blása.  „Hurðin í miðhúsinu er orðin fjári óþétt; þar gasar dálítið innmeð í norðanveðrum“.

Gasa með (orðtak)  Blása meðfram/innmeð.  „Hurðin var undin og gasaði með henni í efra horninu, svo þar átti skafmoldin greiða leið inn“.

Gasalegt (l)  Agalegt; afar.  „Gasaleg hitamolla getur þetta nú verið“!

Gasbindi (n, hk)  Sárabindi; grisja.  „Hún vafði fótbrotið á kindinni með gasbindi; setti við það grannar spelkur úr bambus og batt þétt utan um þær með snæri“.

Gaseldavél (n, kvk)  Eldavél sem notar gas.  „Gaseldavél kom á Láganúp, líklega uppúr 1960; með tveimur brennurum.  Enn var þó gamla olíuldavélin notuð um sinn.  Um svipað leyti var 220v rafmagn lagt í húsið og fyrsta lister ljósavélin kom.  Hún réði þó illa við kyndingu eða eldunartæki“.

Gaslukt (n, kvk)  Ein tegund af steinolíulukt sem algeng var á sveitabæjum vestra á síðari hluta 20. aldar.  Steinolíugeymir neðst í luktinni var „pumpaður upp“ svo olían spýttist undir þrýstingi út í pokalagaðan kveik (gaspoka) inni í glerhólk; og nærði bjarta glóð í pokanum.  Þessar gasluktir gáfu gríðarmikla birtu og töluverðan hita.  Fara mátti með þær í slæmum veðrum milli húsa og innandyra gáfu þær gott ljós.  Þær voru svo leystar af hólmi með endurbættum vasaljósum; ljóskösturum og rafljósum.  „Einar var svo heppinn að vera með gaslukt“  (Guðrún Grímsdóttir; Útkall við Látrabjarg).

Gaspoki (n, kk)  Pokalaga kveikur í gaslukt.

Gaspra (s)  Blaðra; tala ógætilega/heimskulega/af vanþekkingu.  „Ekki gaspra um það sem þú þekkir ekki“.

Gasprari (n, kk)  Bullukollur; blaðurskjóða.  „Skelfing fer þessi gasprari stundum í mig“.

Gaspur (n, hk)  Bull; marklaust hjal.  „Óttalegt gaspur er þetta; hver heldurðu að trúi þessu slúðri“? 

Gaspursháttur (n, kk)  Glæfralegt tal; glorraskapur; kjaftháttur.  „Mér finnst þessi gaspursháttur vera árans löstur á honum“.

Gaspurshjal (n, hk)  Gaspur; kjaftæði; bull.  „Hættum nú þessu árans gaspurshjali“.

Gassafenginn (l)  Með gassagang; óstýrilátur; glorralegur.  „Strákurinn er dálítið gassafenginn“.

Gassagangur (n, kk)  Glorragangur; fyrirgangur; læti.  „Ekki með þennan gassagang kringum féð“!

Gassalega (ao)  Með flumbrugangi/látum/hávaða.  „Það má ekki fara svona gassalega að lámbánum“!

Gassast (s)  Vera með læti/hávaða/fyrirgang.  „Reynið nú að gassast heldur úti krakkar“!

Gatatöng (n, kvk)  Töng til að gera göt á leður o.fl.; notuð til að gera göt í eyru búfjár svo unnt væri að setja í þau eyrnamerki.  „Mundu eftir gatatönginni þegar þú ferð að merkja og bólusetja lömbin“.

Gatklettur (n, kk)  Klettabrík með opi í gegn, en þær er víða að finna í sjávarklettum.  „Sífellt molnar úr undirstöðum Gatkletts undir Blakknum og því gæti þetta örnefni horfið á næstu árum“.

Gatslitinn (l)  Mikið slitinn; gauðslitinn.  „Mér sýnist að sokkarnir þínir séu orðnir gatslitnir“.

Gauð (n, hk)  Gufa, ónytjungur; mannleysa.  „Það er nú varla hægt að hafa svona gauð á bátnum“.

Gauðsháttur (n, kk)  Aumingjadómur; ræfildómur.  „Þú nærð aldrei árangri með svona gauðshætti“!

Gauðrifinn (l)  Flengrifinn; rifinn í tætlur.  „Tjaldið er ónothæft, svona gauðrifið“.

Gauðslitinn (l)  Mjög slitinn; gatslitinn.  „Þessi jakki er orðinn gauðslitinn og verður vara bættur meira“.

Gauf (n, hk)  Slór; hægagangur við vinnu.  „Ætlarðu að ver endalaust að þessu gaufi“?

Gaufa (s)  Hangsa; tefjast; fara sér hægt.  „Pabbi vakti mig um 7.30 þegar þeir fóru að vinna og svo var ég mest ein að gaufa á daginn...“  (SG;  Vegavinna; Þjhd.Þjms). 

Gaufa við (orðtak)  Hangsa; slóra.  „Skyldi hann ætla að gaufa við þetta allan daginn“?!

Gaufari (n, kk)  Sá sem gaufar/slórar við verk.  „Hann var af sumum kallaður gaufari“.

Gaufast (s)  Dunda; rolast; læpast; hangsa.  „Afskaplega voruð þið lengi að gaufast heim með kýrnar drengir“.

Gauka að (orðtak)  Gefa.  „Einn skipverja hafði gaukað sígarettupakka að Andrési“  (ÓS; Útkall við Látrabjarg).

Gaul (n, hk)  Óhljóð; gól; org; óþolandi músik.  „Lokaðu nú fyrir þetta andskotans gaul í útvarpinu“.

Gaula (s)  Baula; væla; syngja ámátlega/falskt.  „Gefðu nú kálfinum svo hann hætti að gaula þetta“.

Gaula garnir (orðtak)  Heyrist garnagaul/lofthljóð í meltingu.  „Eftir allt þetta puð var ég orðinn svo svangur að það gauluðu í mér garnirnar“.

Gaumgæfa (s)  Athuga/rannsaka mjög vel.  „Það er nú rétt að gaumgæfa þetta aðeins nánar“.

Gaumgæfilega (ao)  Mjög vel; ítarlega.  „Þú þarft að skoða gaumgæfilega hvort þetta sé mögulegt“.

Gaumgæfni (n, kvk)  Vandvirkni; mikil athygli/kostgæfni.  „Ég skoðaði sauminn af mikilli gaumgæfni og fann ekki að hann væri farinn að láta sig neitt“.

Gaupnir (n, kvk, fto)  Hendur; á einkum við um íhvolfan lófa.  „Farðu nú og þvoðu á þér gaupnirnar drengur, áður en þú sest við matborðið“.  Sjá blása/horfa í gaupnir sér.  Gaupn er líklega stofnskylt „gopa“ og „gap“.

Gauð (n, hk)  Rola; væskill; aumingi; rola.  „Það er ekki hægt að hafa svona gauð í vinnu“!

Gaur (n, kk)  A.  Stór nagli/saumur.  B.  Stórþorskur.  C.  Stórvaxinn maður; rumur; óþekkur drengur.

Gauragangur (n, kk)  Hávaði; læti.  „Skelfilegur gauragangur er þetta nú í ykkur strákar“!

Gá að (orðtak)  Athuga; skoða; huga að; líta til.  „Ég ætla að fara upp á Hjallana og gá að fénu“.

Gá að sér (orðtak)  Gæta sín; vara sig.  „Gáið að ykkur í fjörunni; það er fljótt að falla upp í forvaðann“.

Gá í dýin / Gá í mýrarnar / Gá í skurðina (orðtak)  Fara um mýrlendi til að athuga hvort fé hefur farið ofaní.

Ganga til (orðtak)  A.  Hafa sem tilgang/markmið.  „Ég veit ekki hvað honum gengur til með þessu“.  B.  Hreyfast; skekkjast.

Gá til berja/grasa (orðtök)  Fara til berja/grasa; fara að tína ber/fjallagrös. 

Gá til eggja (orðtak)  Huga að varpi bjargfugls/fýls; gá hvort tekur því að fara til eggja.

Gá til kinda (orðtak)  Huga að fé.  Oft notað annaðhvort um sauðburð, þegar huga þarf að lambám, eða þegar svipast þarf um eftir fé sem ekki hefur skilað sér úr högum.  „Ég ætla að rölta framum Fellin og gá til kinda“.

Gá til sjóar (orðtak)  Huga að sjóveðri; meta möguleika á róðri.  „Það þýðir lítið að gá til sjóar meðan hann liggur í þessari norðanátt“.

Gá til slægna (orðtak)  Huga að sprettunni; gá hvort nægilega sé sprottið til að unnt sé að slá.

Gá til veðurs / Líta til veðurs / Skyggnast til veðurs (orðtak)  Líta til veðurs og reyna að ráða í veðurhorfurnar.  „Það voru fyrstu morgunverk húsbænda fyrrum að ganga útfyrir hús; míga og gá til veðurs“.  „Það er kvöld; orðið lágskýjað, og hráslagalegur vindur slítur úr þeim skvettur og slengir framan í þann sem í heimsku sinni ætlar að gá til veðurs úti á hlaði“  (JB; Verstöðin Kollsvík).  „Vaknað er kl 6 og gáð til veðurs.  Það er hæg norðlæg átt og bárulaust; ákjósanlegt sjóveður“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Gá undir (orðtak)  A.  Hluti af hrútaskoðun/vali á lífhrút; gá hvort pungur og önnur tól séu eðlileg.  „Ertu búinn að gá undir hann“?  B.  Taka upp kartöflugras til að skoða sprettu.  C.  Fara undir bjarg til eggja.  „Hann er alveg að detta niður með sjóinn.  Við gætum kannski gáð undir á morgun“.  D.  Gá að varpi bjargfugla; skoða varp í hreiðrum múkka.  „Það mætti nú bráðum fara að gá undir múkkann“.

Gáðu að! / Gættu að!  Upphrópun til viðvörunar, t.d. á yfirvofandi hættu.  „Gættu að! Þarna er að losna steinn“!  „Nei, nei, nei...gáðu að;  það gleymdist að setja negluna í bátinn“!

Gá að fé / Gá til kinda (orðtak)  Huga að fé; gá hvort kindur sjást.  „Þessa leið fórum við ekki oft, en stundum ef við ætluðum að gá að fé í Vatnadalnum“  (IG; Sagt til vegar II). 

Gáðu að Guði! (orðtak)  Upphrópun sem heyrist lítt eða ekki nú, en var áður viðhöfð, af þeim sem þótti annar haga sér eða tala ókristilega.

Gáfaður (l)  Vel gefinn; vitur.  „Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Gáfnafar (n, hk)  Gáfur; atgervi.  „Hann er víst harðduglegur til vinnu, en minni sögum fer af gáfnafarinu“.

Gáfnaljós (n, hk)  Mjög greindur einstaklingur.  „Ég er kannski ekkert gáfnaljós, en ég botna ekkert í þessu“.

Gáfnamunur (n, kk)  Mismunur á gáfnafari milli manna.  „Mér finnst vera töluverður gáfnamunur á þeim“.

Gáfnasljór (l)  Treggáfaður; heimskur; hugsunarlaus.  „Varstu alveg sofandi, eða ertu virkilega svona gáfnasljór?!  Þú hleypur ekki frá bílnum í frígír og í halla án þess að setja hann í bremsu“!

Gáfulega/gáfumannlega mælt/sagt (orðtak)  Sagt af viti/hugsun.  „Mér þótti þetta gáfulega mælt hjá honum“.

Gáfumannsbragur (n, kk)  Gáfuleg framkvæmd/hugsun/tillaga.  „Mér fannst verulegur gáfumannsbragur á öllum hans hugmyndum í þessu efni“.  „Ekki get ég sagt að sé gáfumannsbragur á þessari ríkisstjórn“!

Gáfumannsenni (n, hk)  Hátt enni á manni, en það hefur þótt bera vott um miklar gáfur og/eða höfðingslund. 

Gáfumannslegur (l)  Gáfulegur; greindarlegur.  „Þú getur í það minnsta reynt að líta gáfumannslega út“!

Gáfumerki (n, hk, fto)  Vísdómsvottur; merki um mikið vit.  „Mér finnst það ekki mikil gáfumerki að leggja á fjallið á sléttum dekkjum og keðjulaus, í þessari færð“.  Þekkist annarsstaðar í fleirtölu; „gáfnamerki“.

Gálaust (ao)  Hugsunarlaust; óábyrgt.  „Það var auðvitað gálaust af mér að skilja föturnar eftir á brúninni í þessu veðri, án þess að setja stein í þær“.

Gáleysi (n, hk)  Hugsunarleysi; óvarkárni.  „Árans gáleysi var það að loka ekki hliðinu“!

Gáleysislega (ao)  Með óaðgætni/óvarkárni; gapalega.  „Farðu ekki svona gáleysislega með hnífinn“!

Gáleysislegt (l)  Gáleysi; óvarfærið.  „Það var gáleysislegt að gleyma að slökkva á kertinu í glugganum“.

Gálgafrestur (n, kk)  Stundarfriður; stuttur frestur á einhverju slæmu.  „Með þessu fékk hann gálgafrest“.

Gálgatimbur (n, hk)  Hrófatildur; skjágrind.  „Það er varla hægt að kalla þetta gálgatimbur húsgrind“.

Gáll (n, kk)  Stíll; bragur.  heyrðist einungis notað í samsetningu:  „Hann gat nú verið dálítið stríðinn ef sá gállinn var á honum“.  Strákurinn getur hlaupið alla af sér ef sá gállinn er á honum“. 

Gálmi (n, kk)  Snurða á þræði.  „Sagt var að gálmar væri á garni þegar það var illa tvinnað“.  Mjög sjaldgæft utan Kollsvíkur.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Gárungsháttur (n, kk)  Hrekkvísi; stríðni.  „Fram á gamalsaldur var stutt í gárungsháttinn hjá honum“.

Gárungur (n, kk)  Æringi; grínaktugur maður.  „Kitti í Botni gat verið óttalegur gárungur þegar hann fíflaðist í okkur krökkunum, en hann gat líka tekið þátt í rökræðum af mikilli alvöru; ekki síst um pólitík“.

Gáttaður (l)  Steinhissa; hlessa; í forundran.  „Maður er alveg gáttaður á svona háttalagi“.

Geðgóður (l)  Glaðsinna; jákvæður.  „Hann hefur alltaf þótt einstaklega geðgóður og mannblendinn“.

Geðslag (n, hk)  Skaplyndi; viðmót.  „Geðslagið skiptir verulegu máli hjá mjólkurkúm“.

Geðslegur (l)  Viðkunnanlegur; viðfelldinn.  „Ekki er það geðslegt sjóveðrið núna“!

Geðstillingarmaður (n, kk)  Maður sem sjaldan skiptir skapi/ reiðist; skaplaus maður.

Geðstirður  (l)  Þungur í skapi; viðskotaillur.  „Af hverju er karlinn svona geðstirður í dag; fór hann vitlausu megin framúr, eða hvað“?

Geðugur (l)  Viðkunnanlegur; viðfelldinn.  „Hann virðist allra geðugasti náungi við fyrstu sýn“.

Geðvondur (l)  Úrillur; snefsinn.  „Hann hafði fundið kind hrapaða frá tveimur og var frekar geðvondur“.

Geðvonska (n, kvk)  Skapstyggð; ergelsi.  „Í þinginu fá menn útrás fyrir alla sína geðvonsku“.

Geðvonskukast (n, hk)  Reiðikast; fýlukast; uppnám.  „Ég nennti ekki að tala við hann í þessu geðvonskukasti“.

Geðþekkur (l)  Viðkunnanlegur; vinalegur.  „Mér finnst hann afskaplega geðþekkur náungi“.

Geðþóknun (n, kvk)  Skaplyndi; vilji.  „Þar skammta menn sér líklega laun eftir eigin geðþóknun“.

Geðþóttaákvörðun (n, kvk)  Duttlungar; sérviska.  „Í þessu efni má ekki ráða nein geðþóttaákvörðun“.

Geðþótti (n, kk)  Það sem þóknast/hentar/vill hverju sinni.  „Hann getur ekki valið þetta að geðþótta“.

Gefa (einhverjum) að sök (orðtak)  Saka einhvern um; ásaka einhvern.  „Honum var gefið það að sök að hafa stolið mörnum“.

Gefa auga (orðtak)  Líta eftir; hafa gát á; hafa auga með.  „Gefðu því auga hvort sést til fjárflutningabílsins uppi í Kinninni, svo við verðum tilbúnir að setja á hann“.

Gefa á (orðtak)  Um siglingu; pusa; þegar sjólöður/skvettur skvettast úr öldum innyfir bátinn.  „Farðu í hlífar; það getur gefið á hér út fjörðinn á móti innlögninni“.

Gefa / Gefa á garðann (orðtak)  Gefa búfé hey.  Yfirleitt var látið nægja að nota fyrsta orðið, en oft að gefa kúnum; gefa fénu o.s.frv.  „Ég ætla að rölta norður í hús að láta inn og gefa“.  Stundum voru notuð önnur orð, s.s. kasta í; hára; fóðra; bera í; henda í; viska; gefa tugguna.  „Þangað til eftir hátíðar mátti heita að mjög lítið væri búið að gefa öllum útbeitarskepnum“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1925).  

Gefa (s)  A.  Gefa gjöf; fara að gjöf.  B.  Skipun í bjargsigi; slaka niður; láta sigara síga. „Gefa örlítið“!  „Gefa liðugt“!

Gefa (á sjó) (orðtak)  Gera sjóveður.  „Það hefur ekki gefið á sjó í langan tíma“.  Yfirleitt var þetta stytt: „Heldurðu að það gefi á morgun“?  „Ekki gaf að sækja líkin fyrr en á útmánuðum vegna veðra og sjógangs“  Frásögn GG um strand togarans Croupiers undir Blakk.  „Það var alltaf byrjað á einmánuði að þvo fisk frá haustinu áður, og um sumarmál að hvolfa upp bátunum og sjóbúa þá.  Róðrar hófust svo strax og gaf“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Gefa af sér (orðtak)  Búa til; skapa; skila arði/hagnaði.  „Fyrr á öldum lifði vel á annað hundrað manns á því sem landbúnaður og sjósókn í Kollsvík gaf af sér.  Því má spyrja hvort rétt sé að kalla „framfarir“ þær breytingar sem orðið hafa í atvinnu- og lífsháttum á síðari tímum“.

Gefa (einhverju) auga (orðtak)  Hafa auga með einhverju; gæta einhvers.  „Viltu gefa barninu auga meðan ég fer og hengi upp þvottinn“?

Gefa á / Gefa á bátinn (orðtak)  Um siglingu; gefa yfir; sjór skvettist inn í bát.  „Farðu í hlífar; það getur gefið á þegar við siglum á móti innlögninni“.

Gefa á að líta (orðtak)  Mega sjá; birtast; koma í ljós.  „Þarna útaf Blakknum gaf á að líta fannhvíta ísspöng sem náði eins langt til norðurs og séð varð, og langleiðina suður á Röst“.

Gefa á gaddinn (orðtak)  Um meðferð búfjár; gefa búfé fóður úti að vetrarlagi, þegar þústnar að.  „Ekki var til siðs að gefa á gaddinn í Kollsvík, a.m.k. ekki í seinni tíð.  Allar skepnur voru hýstar að vetri“.

Gefa á garðann (orðtak)  Gefa kindum fóður í jötu; gefa fénu; kasta í skepnurnar.  „Ég skal gefa á garðann ef þú leysir heyið“.  Þetta er líklega eina dæmi þess að orðið garði væri notað um jötu í Kollsvík, en annars var það einungis notað um kró; stað sem kindur eru í í fjárhúsi. 

Gefa á hann/kjammann/kjaftinn/lúðurinn (orðtak) Gefa/slá utanundir; gefa kjaftshögg. 

Gefa ádrátt um (orðtak)  Gefa fyrirheit/von um; láta í veðri vaka.  „Hann gaf mér nokkurn ádrátt um skipsrúm næsta sumar“.  „Ég vil ekki gefa neinn ádrátt um það; við sjáum hvað setur“.

Gefa brjóst (orðtak)  Um móður; leyfa barni að sjúga brjóst sitt.  „Eitthvað er hann að ambra; ætli ég þurfi ekki að fara að gefa honum brjóst“.

Gefa dauðann og djöfulinn í (orðtak)  Formæla; gefa skít í; fyrirlíta.  „Ef þeir ætla að fara svona að hlutunum þá gef ég dauðann og djöfulinn í þetta stjórnarfar“!

Gefa eftir (orðtak)  Slaka á; gefa laust.  „Haldið fast í vaðinn en gefið eftir þegar ég segi“.  „Hann stóð fast á sinni skoðun og gaf ekkert eftir“.

Gefa ekki mikið fyrir (orðtak)  Virða ekki mikils; hafa lítið álit á.  „Ég gef nú ekki mikið fyrir svona loforð“!

Gefa falt (orðtak)  Vera reiðubúinn að láta/gefa/selja.  „Hann átti tóma dós undan grammofónnálum og hafði ég mikinn áhuga á dósinni.  Hann gaf hana fala ef ég syngi fyrir hann“  (IG; Æskuminningar).

Gefa fénu (orðtak)  Færa búpeningi fóður; kasta í skepnurnar; gefa á garðann.  „Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag; sækja vatn bæði fyrir heimilið og kýrnar, eftir því sem geta og vilji náði, og fara með pabba að gefa fénu“  (IG; Æskuminningar). 

Gefa forskrift (orðtak)  Kennsla barna í skrift sem felst í því að sá sem er vel skrifandi ritar stafi sem nemandi æfir sig í að herma eftir, helst á tvístrikuðum línum.  „Viltu gefa mér forskrift“?

Gefa frat í / Gefa skít í (orðtök)  Fyrirlíta; virða að vettugi. 

Gefa frá sér (orðtak)  Afsala; hætta við; sækjast ekki eftir.  „Ég ætlaði að skjótast í Hnífana í egg seinnipartinn, en ég gef það alveg frá mér fyrst hann fór að rigna“.  „Hann gaf þetta nefndarstarf alfarið frá sér“.

Gefa (einhverjum) frjálsar hendur (orðtak)  Veita einhverjum heimild til að gera eins og hann vill.

Gefa færi (orðtak)  Um það þegar veiðibráð kemur í skotfæri.  „Þessi máfur ætlar að gefa færi; vertu klár“!

Gefa færi á sér (orðtak)  A.  Gefa höggstað á sér.  B.  Veita öðrum tækifæri til að tala við sig/ ná í sig.

Gefa gaum (orðtak)  Taka eftir; veita athygli.  „Formaður sá er seilaði fiskinn út virtist ekki gefa því gaum að hverju fór “  (KJK; Kollsvíkurver).  „Ég þetta þetta með öðru auganu, en gaf því engan sérstakan gaum“.

Gefa góða raun (orðtak)  Reynast vel; koma vel út.  „Það gaf góða raun að blanda dálitlu af steinolíu útí rússaolíuna; þá þykknaði hún síður í mestu frostunum“.

Gefa grið (orðtak)  Hlífa; þyrma.  „Halda mun ég gefin grið,/ gerða sátt og eiða,/ þótt mér skyggi í skapi við/ skilnað okkar leiða“ (JR; Rósarímur). 

Gefa gull við eiri (orðtak)  Gjalda ekki sannvirði fyrir; kaupa of dýru verði.  „Helvítis ónýti eru nú þessi verkfæri!  Þarna hef ég gefið gull við eiri og látið hafa mig að fífli“.  Vísar til misjafns verðgildis málma. 

Gefa gætur (orðtak)  Hafa gætur á; gefa auga.  „Það þarf að gefa því gætur hvar kindurnar komast inná“.

Gefa hornauga (orðtak)  Gjóa augum; horfa útundan sér; skjóta augum á skjálg.  „Gefðu barninu auga meðan ég sæki pelann“.

Gefa hýrt auga / Renna hýru auga til (orðtök)  Líta vonaraugum til; ágirnast; vilja fá/eignast.  „Ég sá að hann gaf tertunni hýrt auga, og rétti honum hana“.  „Hún hafði lengi rennt hýru auga til hnyðjunnar“.

Gefa höggstað á sér (orðtak)  Vísar til orrustu; gefa óvini færi á að höggva.  „Ég gætti þess vandlega að segja ekkert ógætilegt, til að gefa honum ekki höggstað á mér“.  Vísar til þess að glufa sé í vörnum manns í bardaga.  Sjá fá höggstað á (einhverjum).

Gefa (einhverju) illt auga (orðtak)  Líta illúðlega til; vera á varðbergi gagnvart.  „Ég gaf steininum í brúninni illt auga; hann þyrfti að fjarlægja áður en nokkur færi niður í bjargið“.

Gefa í guðskistuna (orðtak)  A  Gefa til samfélagsins/sáluhjálpar.  „Mikið asskoti hafa skattarnir hækkað núna.  Það er ekki lítið sem maður gefur í guðskistuna þetta árið“.  Fyrsti fiskur sem maður dró á ævi sinni nefndist Maríufiskur, og hann skyldi maður gefa í guðskistuna, sér til heilla.  „Ég verð var og fæ minn Maríufisk.  Hann á að gefa í Guðskistuna samkvæmt þjóðtrúnni.  Ég læt hann til hliðar.  Kannski gef ég kettinum hann, ef ég man“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður).  B  Afleidd merking, en meira notuð í seinni tíð; verða sjóveikur; æla í sjóinn.  „Ertu nú farinn að gefa í guðskistuna vinur“? 

Gefa í soðið (orðtak)  Gefa þeim veiði sem ekki hefur, t.d. fisk, fugl eða egg.  „Ég ætla að koma aðeins við og gefa þeim í soðið; þau eiga það margfaldlega skilið, og svo er ágætt að gefa fyrir sálu sinni“.

Gefa í skyn (orðtak)  Láta í veðri vaka; segja óbeinum orðum; láta á sér skiljast.  „Hann gaf ót´virætt í skyn að honum líkaði þetta miður“.

Gefa (einhverjum) í staupinu (orðtak)  Veita einhverjum áfengi; bjóða einhverjum snafs.

Gefa kost á / Gefa/gera þess kost (orðtak)  Veita möguleika á; gefa tækifæri til.  „Ég gaf honum kost á að greiða þetta í dag; annars færi það í innheimtu“.

Gefa kost á sér (orðtak)  Vera í framboði; heimila að maður sé kosinn.  „Formaður nefndarinnar Þórður Jónsson gaf ekki kost á sér, en hann hefur gegnt starfi frá upphafi“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Gera kost/kosti (orðtak)  Setja/veita valmöguleika.  „Hann gerði þess engan kost að koma með í ferðina“.  „Ég gerði honum tvo kosti; annaðhvort greiddi hann þetta í dag, eða fengi á sig lögfræðing á næstu dögum“.

Gefa langt nef (orðtak)  Sýna óvirðingu/fyrirlitningu.  Sé þetta gert á táknmáli eru hendur réttar upp með glenntum fingrum, þannig að þumalfingur annarrar handar nemur við nefbrodd geranda og þumalfingur fjærhandar nemur við litlafingur nærhandar.  Auka má í með því að reka útúr sér tunguna um leið; ulla.

Gefa (einhverju) lausan tauminn (orðtak)  Slaka á hömlum; halda ekki aftur af einhverju.  „Það tekur því ekki að gefa kætinni lausan tauminn fyrr en við erum komnir með þessar skröttur í rétt“!

Gefa liðlega (orðtak)  Um bjargsig; gefa/slaka sigara fljótt niður.  „Aðalsteinn gengur framaf brúninni... við gegum honum heldur liðlega; vonum allt það besta“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Gefa lítið fyrir (orðtak)  Fyrirlíta; virða lítils; hafa að engu.  „Ég gef nú lítið fyrir svona tal ef hugur fylgir ekki máli“.

Gefa merki (orðtak)  Gefa til kynna; láta vita, t.d. með handahreyfingu; kipp í vað eða öðru.

Gefa niður (orðtak)  Um bjargsig; slaka sigmanni niður í bjarg.  Niðurgjöfinni er stýrt af undirsetumönnum á bjargbrúninni.  „Gefiði liðlega niður þegar ég er kominn framaf; það er loft hérna undir“.

Gefa ordrur (orðtak)  Skipa fyrir.  „Við fengum skýrar ordrur um þetta“.

Gefa orðið frjálst (orðtak)  Um fundarsköp; leyfa hverjum sem er að biðja um orðið/ halda ræðu.  „Var orðið síðan gefið frjálst“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Gefa (eihverjum) selbita (orðtak)  Gefa ofurlítið skot með fingrum, á þann hátt að saman eru spenntir þumalfingur og langatöng (eða vísifingur); og síðan „hleypt af“ upp við þann sem skotið á að fá, þannig að langatöng lendir af dálitlu afli á húð hans án þess þó að meiða verulega.  Oftast smáhrekkir barna.

Gefa sér (góðan) tíma (orðtak)  Taka nægan tíma áður en verk er hafið/klárað, til að skoða allar kringumstæður/hugsa hvernig best sé að vinna verkið.

Gefa sér tíma til (orðtak)  Taka tíma í; gera.  „Sá flýtti för sinni svo að hann gaf sér ekki tíma til að fara af baki til að pissa“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Gefa sig (orðtak)  A.  Um hlut; láta undan; láta sig; brotna; bogna.  „Kanturinn á veginum gaf sig svo bíllinn fór að hallast“.  B.  Um manneskju; láta undan í deilumáli.  „Hann sat fastur við sinn keip og neitaði að gefa sig“.

Gefa sig að (orðtak)  Helga sig; snúa sér að; hefjast handa við; skipta sér af.  „Ætli sé ekki rétt að fara að gefa sig að þessu; ekki dugir að sitja allan daginn í kaffi“!  „Frúin hefur líka bannað henni að gefa sig að ókunnu fólki sem hún hittir á götunni“  (Bragi Ó Thoroddsen; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938). 

Gefa sig á tal við (orðtak)  Fara að tala við; yrða á.  „Ég gaf mig aðeins á tal við þessa ferðamenn“.

Gefa sig fram (orðtak)  Sýna sig; koma sér til skila.  „Ég fór úteftir öllum Stíg en þar vildi engin kind gefa sig fram“.

Gefa sig til / Gefa sig (orðtak)  Fara að fiskast.  „Við skulum láta reka hér norður á Hyrnurnar og sjá hvort hann gefur sig ekki til“.   „Sumir voru svo vaðglöggir að þeir urðu þess strax varir þegar fiskur fór að gefa sig til...“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  „Hann gæti farið að gefa sig í stórstrauminn“.  „Oft var þá góður haustafli þegar fiskur fór að gefa sig til“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Gefa sig upp (orðtak)  Segjast vera/gera.  „Þú hefur gefið þig upp sem meistaraskyttu; sýndu nú hvað í þér býr“.  „Hann gefur sig upp sem sjálfstæðismann, en mér er ekki grunlaust um að hann kjósi meira til vinstri“.

Gefa sig út fyrir (orðtak)  Þykjast/látast vera.  „Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera sérfræðingur um þetta“.

Gefa sig við (orðtak)  Sinna; hafa áhuga á.  „Ég setti fóðurbæti hjá tvílembunni, en hún gaf sig lítið við því“.

Gefa (einhverjum) sinn/sitt undir hvorn (orðtak)  Slá einhvern utanundir á báða kjálka.  „Þófið endaði með því aðkötturinn gaf hvolpinum sitt undir hvorn og gekk svo burt með stýrið upp í loftið“.

Gefa skít í (orðtak)  Láta sér það í léttu rúmi liggja; sýna því lítilsvirðingu.  „Ég gef nú bara skít í það, þó þessi stjórnvöld þykist núna ætla að styðja við dreifðar byggðir:  Hvar hafa þeir verið til þessa“?

Gefa (einhverjum) slakan tauminn (orðtak)  Reyna ekki að halda aftur af einhverjum; gefa frjálsar hendur.

Gefa svar (orðtak)  Svara; gefa til svars.  „Hann hefur ekki gefið mér neitt svar um þetta“.

Gefa til kynna (orðtak)  Tilkynna um; láta vita af; gefa merki um.  „Þú verður að gefa mér til kynna þegar nóg er komið“.

Gefa til leyfis (orðtak)  Leyfa; veita leyfi fyrir.  „Hann gaf það ekki til leyfis að tófa yrði skotin í sínu landi þetta árið“.  „Ekki var byrjað að draga fyrr en réttarstjóri gaf það til leyfis“.

Gefa til svars (orðtak)  Svara; bregðast við beiðni/spurningu.  „Hann gaf það til svars að sér kæmi ekki til hugar að róa í þessu veðurútliti“.

Gefa tóninn (orðtak)  A.  Láta kór eða meðsöngvara vita um tóntegund sem sungið er í, t.d. með því að syngja tón áður en söngur hefst eða hefja söng á undan hinum; vera forsöngvari.  B.  Líkingamál um að gefa fordæmi um eitthvað; segja fyrir um vinnulag eða annað.

Gefa (einhverju/einhverjum) undir fótinn (orðtak)  Láta í veðri vaka; ýta undir væntingar.  „Hann hefur gefið því undir fótinn að jörðin væri föl ef nógu hátt verð væri í boði“.  Óviss uppruni, en gæti átt rætur í þeirri þjóðtrú að væri brönugrasi/ástargrasi komið í skó einhvers fengi maður ást hans.  Eða í þeim sið að kona prjóni íleppa í skó þess sem hún vill sýna vináttu.  „Man ég er þú áður gafst mér undir fótinn/ skömmu eftir aldamótin“ (JR; Rósarímur). 

Gefa upp (orðtak)  A.  Segja frá; upplýsa.  „Veit ég vel hver gjörði, en ég gef það ekkert upp að sinni“.  B. Í spilum; gefa upp á nýtt; gefa aftur.

Gefa upp á bátinn (orðtak)  Gefa frá sér; hætta við; gefast upp á; afskrifa.  „En þar hafa mæst stálin stinn, því dóttirin neitaði að gefa unnustann upp á bátinn“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Gefa upp andann/öndina (orðtak)  Deyja; sálast; eyðileggjast; bila.  „Nú var blessaður gamli maðurinn að gefa upp öndina“.  „Mér sýnist að þessi bílskrjóður eiga lítið eftir annað en gefa upp öndina“.  Önd merkir andardráttur og að gefa upp merkir að hætta.

Gefa/slá utanundir (orðtak)  Slá á kjammann; gefa kjaftshögg.  „Það var eins og Rúnu hefði verið gefið utanundir“  (Bragi Ó Thoroddsen; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938). 

Gefa út (orðtak)  Láta festi/net/línu renna út/niður í sjó.  „Gefðu aðeins meira út af ankerisfestinni, þannig að stjórinn fái meira hald“.  „Þá varð mér litið upp í fjöruna.  Þar voru þeir búnir að binda einn mann í taug frá landi; sá maður hét Guðbjartur Torfason.  Ekki var talið óhætt að hann væði svo djúpt; kannske undir hendur eða axlir, án þess að hafa á honum taug.  Gáfu þeir hann út og hann óð eins langt og hann orkaði; þá var hann kominn í axlir“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Gefa út á (orðtak)  Segja um; tjá sig um.  „Hún var spurð hvað hún hefði séð en hún gaf ekkert út á það“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms).  „Kemur þá Hjálmar niður á stallinn til mín og ég spyr hann hvort hann vilji fara niður, en hann gefur ekkert út á það; segir hvorki já eða nei, en segir; „vilt þú ekki fara“ ?“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Gefa yfir (orðtak)  Um ágjöf; gusast/skvettast yfir.  „Við nálguðumst nú Röstina, og ég fót í stakkinn því viðbúið var að eitthvað myndi gefa yfir bátinn í veltingnum sem  þar var“.

Gefa það tröllunum (orðtak)  Gefa skít í það; finnast lítið til um það.  „Ég gef það tröllunum að ég fari að mæta á þessa samkundu.  Ég hef nóg annað að gera“.

Gefa þess engan kost (orðtak)  Gefa ekki kost á; láta ekki hafa tækifæri til; koma ekki til greina.  „Ég vildi kaupa af honum traktorinn, en hann gaf þess engan kost; sagðist þó geta lánað mér hann um tíma“.

Gefandi (l)  Þakklátt; gefur af sér.  „Kollsvíkin getur verið krefjandi en er þó án nokkrs vafa enn meira gefandi“.

Gefast (s)  A.  Fást.  „Það verður að grípa tækifærið þegar það gefst“.  „Undir Hreggnesa er sumsstaðar sæmileg festifjara fyrir reka ef gefst, en torvelt um björgun“  (HÖ; Fjaran).  B.  Vera gefin (t.d. sem skepnufóður).  „Þessi vetur er einhver sá besti er menn muna, en þó hafa hér á Sandinum gefist töluverð hey“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Gefast færi á (orðtak)  Fá tækifæri til; geta.  „Mér gafst ekki færi á að kveðja hann almennilega“.

Gefast illa/vel (orðtök)  Lánast illa/vel; verða til ills/góðs.  „Það gafst ágætlega að nota þessa beitu“.

Gefast upp (orðtak)  Verða örmagna; geta ekki haldið áfram.  „Elsta kindin gafst upp á miðri leið“. „Ég var nú svona í huganum hnuggin bæði og reið./  Hnjótsheiði ég lagði undir fótinn./  Ég vildi ekki gefast upp, þó grýtt væri mín leið/ því gatan stefndi beint á Örlygshnjótinn“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   

Gefast upp á (orðtak)  A.  Gefa upp á bátinn.  „Ég er alveg að gefast upp á þessum hávaða“.  B.  Um herslu; slakna á.  „Það þarf að herða þetta vel og helst hafa tvöfalda ró svo ekki gefist upp á boltanum“.

Gefast upp á miðri leið (orðtak)  Verða uppgefinn áður en ferðalaginu lýkur.

Gefinn (l)  Dýrmætur; fágætur.  „Ertu alveg frá þér að nota svona efni?!  Þessi harðviður er alltof gefinn til að nota hann sem hverja aðra þarfaspýtu í milligerðir“! 

Gefinn fyrir (orðtak)  Hefur áhuga á; sýnir áhuga.  „Ég er ekkert gefinn fyrir svona rómana, en ég er afskaplega mikið gefinn fyrir fróðleik af ymsu tagi“.  Oft einungis „fyrir“.

Gefinn fyrir sopann (orðtak)  Vínhneigður; þykja sopinn góður; þykja gott í staupinu.  „Þetta er öndvgisnáungi, en nokkuð gefinn fyrir sopann“.

Gefins (ao)  Að gjöf; frítt.  „Það er fátt gefins í þessum heimi“.

Gefið (l)  Dýrt/verðmætt.  „Ég fórna ekki harðviði í girðingarrenglu; hann er heldur gefinn í slíkt“.  „Ertu frá þér; að ætla að nota hamarshausinn í sökku!  Hann er heldur gefinn til þess“! 

Gefst í gjörðar spyrður / Gefur Guð í gjörðar spyrður (orðatiltæki)  Sú trú að fiskspyrða á hjalli dragi að sér meiri veiði. 

Gefur (s)  Unnt er að fara á sjó vegna veðurs og sjólags.  „Við róum í býtið ef gefur“.

Gefur að skilja (orðtak)  Skiljanlega.  „Eins og gefur að skilja er þetta alls ekki tæmandi skráning“.

Gefur auga leið (orðtak)  Liggur í augum uppi; er augljóst.  „Það gefur auga leið að svona getur þetta ekki gengið til lengdar“!

Gefur á / Gefur á bátinn (orðtak)  Skvettist sjór yfir og ofaní bát á siglingu í nokkrum/miklum sjógangi.  „Farðu í stakkinn; það getur gefið hressilega á í Röstinni“!

Gefur margur minna og sér eftir því (orðtak)  Um gjafmildi/þakklæti; ekki eru allir svo gjafmildir.  „Þakka þér kærlega fyrir hákrlinn; það gefur margur minna og sér eftir því“!

Geggjað (l)  Fráleitt; arfavitlaust; endemisvitlaust.  „Það er alveg geggjað að hugleiða ferðalag í þessu veðri“!

Geggjun (n, kvk)  Brjálæði; út í hött.  „Svona peningaaustur í óþarfa er algjör geggjun“.

Gegna (s)  A.  Sinna; þjóna.  „Hann er úti að gegna í húsunum“.  B.  Hlýða.  „Ætlarðu ekki að gegna strákur“!

Gegnblautur / Gegndrepa / Gegnvotur (l)  Blautur inn að skinni.  „Ég varð gegndrepa við að komast heim úr fjárhúsunum“.

Gegnblásinn (l)  Kaldur/hrakinn vegna hvassviðris.  „Ertu ekki gegnblásinn; svona illa búinn í þessu roki“?

Gegnd (n, kvk)  Það sem getur gagnast; hemja.  „Það er engin gegnd að bruðla með fé í svona óþarfa“.

Gegndarlaust (l)  Hömlulaust; viðstöðulaust.  „Er eitthvað vit í þessum gegndarlausa fjáraustri“?

Gegndrepa (l)  Blautur inn að skinni.  „Hann var gegndrepa og skjálfandi þegar hann kom heim“.

Gegnfreðinn  / Gegnfrosinn (l)  Frosinn í gegn.  „Settu nú á þig vettlinga áður en þú verður gegnfreðinn“.

Gegnfúinn (l)  Grautfúinn; fisfúinn; fúinn í gegn.  „Þessi grindarslá er alveg gegnfúin“.

Gegningamaður (n, kk)  Sá sem sér um skepnuhirðingar í útihúsum.  „Farið var á fætur kl 6 og aldrei seinna en kl 7.  Oftast var kveikt á morgnana og setið við vinnu.  Gegningamenn fóru út ekki seinna en kl 7 og fengu ekkert fyrr en þeir voru búnir að gefa búpeningnum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Gegningar (n, kvk, fto)  Dagleg sinning á búfénaði; hýsa; gefa; mjólka; stinga út o.fl.  „Gegningamenn fóru út klukkan 7 og fengu ekkert fyrr en þeir voru búnir að gefa búpeningnum“   (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  Gegningum gat fylgt barningur milli útihúsa í slæmum veðrum.

Gegningatími (n, kk) Tími fyrir daglegar gegningar búfjár að vetraralagi; gjafir, mokstur, mjaltir, fara með hrút o.fl.  Á Láganúpi hófust morgunmjaltir oft milli kl sjö og átta að morgni og þá var kúm gefið; mokaður flór;brynnt (áður en brynningarker komu) og mjólkað.  Fé var látið út eftir mjaltirnar.  Seinnipart dags var fé sett inn og því gefið og brynnt því fé sem var á innistöðu; hrútum og gemlingum.  Kvöldmjaltir hófust um sjö til áttaleytið á kvöldin; brynning, mokstur, gjafir og mjaltir.  Ýmis önnur störf þurfti að vinna samhliða reglulegum gegningum, s.s. fara með hrút; kemba kýr og klippa, dytta að grindum, halaböndum o.fl; bera út moð; leysa hey; klippa klaufir; bera undir kýr; stinga skánir af grindum; lagfæra jötubönd o.fl. 

Gegnir furðu (orðtak)  Er furðulegt/undarlegt.  „Þegar á allt þetta er litið gegnir nærri furðu að afkoma skuli vera jafn góð og skoðunarskýrslan sýnir…“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1937). 

Gegnir öðru máli (orðtak)  Gildir annað; er aðra sögu að segja.  „Um þá er sérstaklega fóðra vel, s.s. bændurna á Lambavatni, er öðru máli að gegna.  Þar verða lítil mistök; hvorki í heyverkun né peningshirðingu.  Er ekki annað hægt að segja en að afkoman þar sé í besta lagi; svo góð að þar er sú fyrirmynd sem vert er að fara eftir“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1933). 

Gegnkaldur (l)  Mjög kalt.  „Hann var þá orðinn gegnkaldur og hríðskalf“.  Einnig kaldur í gegn .

Gegnt (ao)  Á móti; andspænis.  „Eins og sagt hefur verið lá Kollsvíkin gegnt opnu hafi“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Við endann á Evu... var fiskhjallur kallaður Adam“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Gegnum þykkt og þunnt (orðtak)  Í mótlæti/erfiðleikum sem velgengni; í blíðu og stríðu.  „Fóstbræður stóðu saman gegnum þykkt og þunnt“.  „Alltaf heldur hann þessu jafnaðargeði, gegnum þykkt og þunnt“.

Gegnumdregin (l)  Um bók; innsigluð; boruð í gegn, þrædd og innsigluð af sýslumanni.  Þannig var háttað löggildingu mikilvægra opinberra bóka fyrr á tíð, s.s. sjóðbóka, gerðabóka, forðagæslubóka o.fl.  „Bók þessi, sem er 240 -tvö hundruð og fjörutíu- tölusettar blaðsíður; gegnum dregin og útbúin með innsigli Barðastrandasýslu, löggildist hér með til að vera forðagæslubók fyrir Rauðasandsumdæmi í Rauðasandshreppi.  Skrifstofu Barðastrandasýslu 12.desember 1946; Jóhann skptason, sýslumaður Barðastrandasýslu“.  (Forðagæslubók Rauðasands).

Gegnumsneitt (l)  Yfirhöfuð; að meðaltali; til jafnaðar.  „Þetta er þokkalegasti fiskur, svona gegnumsneitt“.

Gegnumtekt (n, kvk)  Betrumbætur; gagngerar endurbætur; alger hreinsun;/ yfirhalning.  „Skúrinn sem staðið hafði á Stekkjarmel var fluttur inn í Hænuvík.  Hann fékk góða gegnumtekt áður en hann hlaut nýtt hlutverk sem verkunarhús fyrir grásleppuútgerðir Kollsvíkinga og Hænvíkinga“. 

Gegnvotur (l)  Gegnblautur; innúr; blautur inn að skinni.  „Ertu ekki alveg gegnvotur“?

Geifla (s)  Aflaga; gretta.  „Vertu nú ekki að geifla þig eins og bjáni; þú fríkkar ekkert við það“!

Geiflur (n, kvk, fto  A.  Grettur; fettur í andliti.  B.  Tennur/tönnur.  „Ég var að fá mér falskar geiflur“.

Geiga (s)  Um skot; hitta ekki; fara framhjá skotmarki.  „Nei helvíti; nú geigaði illilega hjá mér“!

Geigur (n, kk)  Kvíði; hræðsla; uggur.  „Einhver geigur er nú í manni við þetta“.

Geigvænlega (ao)  Uggvænlega; hryllilega.  „Mér líst geigvænlega á stöðuna í byggðamálum“.

Geigvænlegur (l)  Skelfilegur; uggvænlegur.  „Þessi geigvænlega pólitíska spilling hefur orðið til þess að réttur sjávarjarða til nýtingar á eigin auðlindum er nú orðin einkaeign fárra fégráðugra kvótakónga“!

Geil (n, kvk)  Hola; gangur; vik.  „Leystu nú þannig úr heystabbanum að geilin verði bein og stálið lóðrétt“.  Þegar hey var leyst úr hlöðu var gerð geil inn frá fóðurdyrunum í jötuendanum, oft rétt yfir 1m á breidd og ekki margir metrar á lengd í byrjun.  Í henni var heyið leyst og gefið, alveg niður í hlöðugólf; og stálið (veggirnir) hafðir eins lóðréttir og unnt var.  Ýmist var stungið með heyskera, kroppað með heynál eða með berum höndum.  Heyið geymist betur ef ekki er of mikið yfirborð þess opið á sama tíma.  Í Laganúpshlöðunni var leitast við að gera fyrst geilar að töðugötunum, til að forða heyi frá skemmdum þar í rigningum; og yfir í gamla fjósið til að auðvelda umgang milli fjárhúss og fjóss.

Geipifé / Geipiverð (n, hk)  Mjög mikið fé; geysihá fjárhæð.  „Samningar tókust; en eignin fór fyrir geipifé“

Geipihár (l)  Gríðarlega hár; firnahár.  „Hann greiddi geipihátt fé fyrir bátinn“.

Geipilega (ao)  Gífurlega; óheyrilega.  „Þetta er geipilega hátt verð fyrir hrút“.

Geipilegur / Geipimikill (l)  Mjög mikill/stór; gríðarlegur.  „Það varð honum geipilegt áfall þegar þetta skeði“. „Það var geipimikill peningur á þeim tíma“.

Geipimargt (l)  Mjög/gríðarlega margt; fjölmargt.  „Það var að sjá geipimargt fé frammi í víkinni“.

Geipimunur (n, kk)  Firna/gríðarlegur munur.  „Á þessu tvennu er geipimunur“.

Geiri (n, kk)  Sneið; brot af flötu yfirborði.  „Það skarst dálítill geiri af sléttunni þegar skurðurinn var grafinn“.

Geirhynd (l)  Um horn sauðkindar; Tvennskonar skilningur hefur verið lagður í orðið: A.  Horn áberandi stutt og þrýhyrningslaga.  B.  Ljós horn með áberandi svörtum rákum/geirum.

Geisla (l)  Ljóma; skína.  „Það mynduðust tignarlegir sólstafir í frugguloftinu í hlöðunni þegar sólin náði að geisla í gegnum naglagötin í þakinu“.

Geislandi (l)  Um manneskju; ljómandi; brosmild  „Hún kom geislandi til mín og þakkaði fyrir gjöfina“

Geislungar (n, kk, fto)  Brjósktindar í barði skötu.  „Sumir borða geislungana með bestu lyst“.

Geislakrýndur (l)  Um fjall/landslag; nýtur sólarbirtu eftst en ekki neðar.  „Það er tignarlegt að líta til fjalla í Kollsvik þegar sól er að ganga til viðar og er farin af láglendi, en Blakkur, Núpur, Hæðir og Hjallar glóa geislakrýnd í roðasól kvöldsetursins“.

Geispa (s)  Gapa og draga andann djúpt þegar maður er syfjaður; rífa lönguhausa.  „Ætli maður fari ekki bara að draga sig í lúsina, í stað þess að sitja hérna geispandi og gapandi“.

Geispa golunni (orðtak)  Deyja; andast; gefa upp öndina.  „Þessu verki vil ég helst ljúka áður en ég geispa golunni“.

Geispa um (orðtak)  Gapa/tala um.  „Ég held hann ætti ekki að vera að geispa um það sem hann veit ekkert um“!

Geispandi og gapandi (orðtak)  Um það að geispa mikið og ítrekað.

Geispalangur (l)  Geispar langdregið.  „Fjári er maður orðinn þreyttur og geispalangur; ég ætti að fara að sofa“.

Geispandi (l)  A.  Með mikla/tíða geispa.  „Ekki dugir að sitja svona geispandi og gapandi; ég held ég fari bara að draga mig í lúsina“.  B.  Áhugalaus.  „Heldur var hann nú geispandi yfir þessu“.

Geitaskóf / Geitnaskóf (n, kvk)  Samheiti yfir hvítar skófir sem eru algengar á grjóti á fjöllum í kringum Kollsvík og nágrenni.  Skófir eru, líkt og fjallagrös og aðrar fléttur, sambýli svepps og þörungs.  Þær geta því komist af í umhverfi sem öðrum plöntum þykir næringarsnautt.  Víðast á óhreyfðu grjóti vaxa litskrúðugar skellur af skjannahvítum, gulleitum eða svörtum skófum; stundum í því magni að jörð virðist hulin snjó.  Málvenja var að nefna þær samheitinu geitaskóf, en síðari tíma plöntufræðingar kvitta ekki uppá það.  Geitaskóf er aðeins ein tegundin, en aðrar eru t.d. kragaskóf, skeljaskóf og engjaskóf.  Séra Björn nefnir ýmis not af geitaskóf.  „Bókbindaralím má af geitaskófinni fá...  Fátt held ég fljótar græði litla skinnsprettu en ullarlagður vættur í geitaskófarhlaupi og vel um búið...  Geitaskófnagrautur af mjólk kallast góð lækning brjóstveikum mönnum“  (BH; Grasnytjar).

Gelda (s)  A.  Vana; gera karlkyns skepnu ófrjóa.  „Ýmsar aðferðir hafa í gegnum tíðina verið notaðar til að gera sauð úr hrút og uxa úr nauti.  Um skeið var notuð til þess geldingatöng“.  B.  Hætta reglulegum mjöltum kýr fyrir burð.  „Það þarf að fara að gelda hana Dimmu; hún fer að nálgast burð“.  C.  Gera lens/uppiskroppa.  „Strákarnir eru alveg búnir að gelda mig með nagla“.  D.  Draga svo á einhvern með verk að hann hafi ekki undan.  „Þú verður að drífa þig að hausa; við erum alveg að gelda þig“.  „Það gengur svo vel fláningin að við erum alveg að gelda hæklarana“.  „Ég má herða mig með að saxa föng, þú ert svo röskur að setja upp galtann“.

Gelda upp (orðtak)  Um mjólkurkú; fá kýr til að hætta mjólkurframleiðslu fyrir burð, svo hún mjólki ekki af sér holdin og beini orkunni að því að þroska sitt fóstur.  Gert með því að mjólka hana sjaldnar og fóðra á lakara fóðri en mjólkurkýr.  Mjólk úr geldstöðukúm; geldmjólk, var ekki notuð til manneldis.

Gelddýr / Geldtófa (n, hk/kvk)  Hlaupadýr; ekki grentófa.  „Ég náði þar tveimur grentófum og einu gelddýri“.

Geldfé / Geldfénaður (n, hk)  Sauðfé sem ekki er/verður með lömbum að sumri; hrútar, gemlingar, sauðir og ær sem ekki er haldið undir hrút eða ganga upp.

Geldfugl (n, kk)  Fugl sem ekki hefur orpið og/eða fugl án maka, t.d. ungfugl, sem heldur sig saman í hópi.

Geldingahnappur / Geldingarknappur (n, kk) Armeria maritima; jurt sem algeng er í þurrlendum holtum, t.d. í grennd Kollsvíkur.  Vex í þúfukenndum brúski; mjó, striklaga blöð, en blómin eru sérkennilegir rósbleikir og kúlulaga knúppar.  Séra Björn segir að rótin hafi verið nefnd „harðsægjur“ og stundum verið soðin til matar.

Geldkálfur / Geldneyti (n, hk)  Stálpaður kálfur sem þó er ekki orðinn til nytja sem þarfanaut eða mjólkurkýr.

Geldmjólk (n, hk)  Mjólk úr kúm sem komnar eru að geldstöðu.

Geldneyti (n, hk)  Nautgripir sem hvorki eru mjólkurkýr né þarfanaut; oftast notað um stálpaða kálfa.  „Síðan ásetning lauk hefir sorðið sú breyting á að í Saurbæ hefir verið fargað og látið í burtu 3 kýr og 6 geldneyti, og hefir þetta bætt ásetninginn um 80m³“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1957). 

Geldpeningur (n, kk)  Búfénaður sem ekki er með afkvæmi og ekki er nytjaður til mjalta.  „Það má alveg nota þessar fyrningar fyrir geldpening“.

Geldrusl (n, hk)  Geldar kindur; kindur og gemlingar sem ekki eiga lömb að vori.  „Það þarf að fara að koma þessu geldrusli útaf; ástæðulaust að hafa það á túnum lengur“.

Geldstaða (n, kvk)  Tíminn sem kýr mjólka ekki, á síðasta hluta meðgöngu, en lengd hans er einstaklingsbundin.

Geldstirtla (n, kvk)  Niðrandi heiti um kýr eða ær sem ekki mun eiga afkvæmi á næstunni.

Geldstöðukýr (n, kvk)  Kýr sem er geld fyrir burð eða er að geldast. 

Geldstöðutími (n, kk)  Tími sem kýr stendur geld fyrir burð.

Geldur (l)  A.  Um kýr; kind og önnur kvenkyns spendýr; vera ekki mjólkandi.  „Það verður lítið um mjólk þegar báðar kýrnar verða geldar“.  B.  Um hrút; naut o.fl dýr; vanaður; hafa verið geltur og geta því ekki átt afkvæmi.  C.  Um fugla og önnur dýr; eiga ekki afkvæmi.  Sjá geldfugl.

Geldur hver heimsku sinnar (orðatiltæki)  Heimskuleg breytni getur komið manni í koll.

Gelgjubein (n, hk)  Baula; baulubein; prjónlaga kinnbein úr fiski.  Áður notað til að sauma saman sláturkeppi.

Gelgjuhimna (n, kvk)  Prjónahimna; himnulaga, flatt bein í þorskhaus; milli kerlingarprjónanna.

Gelgjuháttur (n, kk)  Ungæðingsháttur; heimóttaháttur.  „Skelfingar gelgjuháttur er þetta í þér krakki“.

Gelgjuskeið (n, hk)  Unglingsár; breytingatími barns/unglings á kynþroskaárunum.

Geljandi (n, kk)  Sveljandi; þræsingur; hvass vindur, oft norðanstæður.  „Skelfing ætlar hann að ver þrálátur í þessum norðan geljanda alla tíð“!

Gella (n, kvk)  Lubbi/kverksigi; pétursbeita; vöðvinn undir haus fisksins, milli kjálkanna.  Prýðisgóður matur. (frb lint).  „Við beitum lubba, en það er gellan á fiskinum“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Gella  (s)  Skera gellu af fiski.  Fljótlegasta aðferðin er að bregða gellunni á fastan, oddhvassan pinna/nagla; teygja hausinn frá og skera gelluna af.  „... þá var gellaður allur fiskur og tekið gellutal um leið og gert var að fiskinum“.   (ÓTG; Ágrip af æviferli).  „Líklegt er að gellun þorskhausa hafi ekki tíðkast hér fyrr en með komu þilskipanna á 18.öld.  Til að fylgjast með fiskatölu aflans á þilskipunum var hásetum gert að skyldu að gella hvern fisk sem þeir drógu.  Gengu skipstjórar ríkt eftir þessu, enda voru gellurnar aukahlutur þeirra.... Gellan var ýmist etin ný eða söltuð, eins og enn er siður.  Það þótti jafnan góð búbót að eiga mikið af gellum; þar var um að ræða beinlausan bita, þótt núorðið fylgi henni stundum nokkrir kerlingarprjónar.  Fyrrum þótti að því verksmán“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).

Gella við (orðtak)  Svara/tala hátt og snjallt.  „„Svara þú bara fyrir þig“! gall þá frúin við“.  (frb. hart)

Gelt (n, hk)  Hundsgá; glamur í hundi.  B.  Hlaup/sláttur í liðamótum vélar.  „Það er komið eitthvað gelt í hjólið á vagninum“.

Gelta (s)  Gefa frá sér gelt/hundsgá.  „Hún notaði fyrsta tækifæri til að svíkjast frá okkur, svo við urðum að gelta eins og hundar“  (IG; Æskuminningar). 

Geltinn (l)  Um hund; gjarn á að gelta um of.  „Ég myndi ekki vilja eiga svona geltinn hund“.

Geltinn hundur glefsar síst (orðatiltæki)  Ekki er þessi speki einhlít, en hún er oft viðhöfð.

Gemlingafjöldi / Gemlingahópur / Gemlingastóð (n, kk/hk)  Hópur af gemlingum.  „Þetta er svipaður gemlingafjöldi og í fyrra“.  „Hvar skyldi þetta gemlingastóð halda sig núna“?

Gemlingastía / Gemlingagarði / Gemlingakarmur (n, kvk/kk)  Stía/garði/karmur gemlinga í fjárhúsum.  „Ég setti fótbrotnu kindina í gemlingagarðann meðan hún er að jafna sig betur“.

Gemlingslamb (n, hk)  Lamb undan gemlingi.  „Þetta er furðu stór gimbur; af gemlingslambi að vera“.

Gemlingsræfill (n, kk)  Gæluorð um gemling; lélegur/horaður gemlingur.

Gemlingsvitleysingur (n, kk)  Niðrandi heiti um gemling, en þeir geta verið býsna erfiðir í smalamennskum ef fullorðnar kindur eru ekki nærri.  „Þetta var stakur gemlingsvitleysingur; alveg gjörsamlega spinnvitlaus“!

Gemlingur (n, kk) Gimbrarlamb á fyrsta vetri.  Gemlingar voru hafðir sér í fjárhúsi, oftast á innistöðu, og sjaldnast var hleypt til þeirra hrúti á fyrsta vetri áður fyrr.  Stafavíxlið gelmingur var ekki notað í Kollsvík.  „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi.  Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill.  Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið…„“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Gemsi (n, kk)  Stytting á gemlingur.  Notað í alls óskyldri merkingu á tölvuöld.

Gengd (n, kvk)  A.  Hóf; hófsemi.  „Skelfing geturðu étið af eggjunum; þetta er engin gengd“!  B.  Ganga af fiski.  „Ég er ekki frá því að það sé meiri gengd af grásleppu í fjörðinn nú en í fyrra“.  C.  Hlýðni.  „Hundurinn sýnir engum neina gengd nema sínum húsbónda“.

Gengdarlaus (l)  Viðstöðulaus; hömlulaus.  „Mér finnst þetta orðin nokkuð gengdarlaus fóðurbætisgjöf“.

Genginn (l)  A.  Farinn.  „Hann er bara nýlega genginn út“.  B.  Dáinn; látinn.  „Góður er sérhver genginn“.  C.  Fær; unnt að ganga.  „Í Bjargleitina þurfti að velja menn sem ekki veigruðu sér við að fara niður fyrir bjargbrún á þeim stöðum sem voru vel gengir bandlausum manni; svo sem á Stíginn, í Saxagjá og fleiri staði“  (PG; Veðmálið). 

Genginn í barndóm (orðtak)  Orðinn barn aftur; farinn að haga sér barnalega.  „Hann er úti á túni í kapphlaupi við krakkana.  Ég held að hann sé genginn í barndóm á gamals aldri“.

Genginn fyrir gafl (orðtak)  Fermdur; biskupaður.  „Ertu ekki ánægður með að vera loksins genginn fyrir gafl“?

Genginn upp að hnjám (orðtak)  Mjög þreyttur; búinn að ganga lengi.  „Ég held að maður sé nú bara genginn upp að hnjám eftir þetta ferðalag“!  Vísar til þjóðtrúar sem segir að draugur sem vakinn er upp endurnýi ekki sinn skrokk og því slitni fæturnir neðanfrá eftir því sem hann gengur lengur.  Sjá einnig; það kostar klof að ríða röftum.

Gengur (l)  Hægt að ganga.  „Gengir, snarbrattir brekkufláar eru þar ofantil...“  (MG; Látrabjarg).  „Þá er Hnífaflagan...líklega 18m há...  Þar er gengt í fjöru“   (Örnefnaskrá Láganúps).  „Fyrir kemur, en mjög sjaldan, að Helluvogur fyllist svo af sandi að gengt sé áfram norður fjöruna“  (HÖ; Fjaran). 

Gengur að óskum (orðtak)  Gengur eins og maður hefði helst viljað; gengur vel.  „Ferðin gekk að óskum“.

Gengur að sköpum / Gengur skaplega (orðtök)  Gengur eins og forlögin hafa ætlað því; gengur þokkalega. 

Gengur af sjálfu sér (orðtak)  Gengur án mikillar aðstoðar; gengur af vana/ sinn vanagang.  „Hann hefur þurft aðstoð með heyskap og smalamennskur, en annars gengur búskapurinn mikisttil af sjálfu sér“.

Gengur á afturfótunum (orðtak)  Gengur erfiðlega; er basl; mikið af mistökum.  „Það gekk allt á afturfótunum hjá okkur í dag.  Bauja slitin af; búið að leggja yfir og svo lentum við í erfiðri botnfestu“.

Gengur á með éljum/hryðjum/rokum/skúrum/stórviðri/stórgarð/stórsjó o.fl. (orðtök)  Um rysjótta tíð eða sjólag.  Setningin byrjar oft með „hann“. „Hann gengur á með sótsvörtum éljum en bjart á milli“.  „En um kvöldið gekk á með vestan stórgarð og gerði stórsjó“  (EÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi). 

Gengur á ýmsu (orðtak)  Skeður margt; gengur ýmist vel eða illa.  „Það hefur víst gengið á ýmsu í þeirra hjónabandi“.  „Það gekk á ýmsu í róðrinum.  Fyrst vildi vélarfjandinn ekki í gang; svo tapaðist hnífurinn í hafið.  Og til að kóróna allt urðum við bensínlausir og urðum að róa í hálftíma“!

Gengur eins og í sögu/lygasögu (orðtak)  Gengur mjög/ótrúlega vel.

Gengur ekki / Getur ekki gengið (orðtak)  Er óviðunandi/ómögulegt/óviðeigandi.  „Það gengur ekki að skilja svona við bátinn“!  „Það getur ekki gengið að hann komist ítrekað upp með svona slóðaskap“!

Gengur ekki andskotalaust (orðtak)  Gengur ekki mjög vel.  „Það ætlar ekki að ganga andskotalaust hjá þeim að berja saman þessi fjárlög frekar en fyrri daginn“.

Gengur ekki hljóðalaust /umyrðalaust (orðtak)  Hefst ekki án þess að kvartað sé.  „Það gekk ekki hljóðalaust að ná flísinni úr drengnum“.  „Hann samþykkir þetta ekki umyrðalaust, trúi ég“.

Gengur ekki hnífurinn á milli (einhverra) (orðtak)  Einhverjir eru óaðskiljanlegir/ góðir félagar/mátar/vinir.  „Annan daginn rífast þeir eins og hundur og köttur en hinn daginn gengur ekki hnífurinn á milli þeirra“!

Gengur fjöllunum hærra (orðtak)  Um orðróm; breiðist hratt út.  „Það gengur fjöllunum hærra að hann sé búinn að selja jörðina“.

Gengur hvorki né rekur (orðtak)  Miðar ekkert áfram.  „Það gengur hvorki né rekur að koma þessum málum áfram“.

Gengur/leggst í ættir (orðtak)  Erfast; algengara í einni ætt en annarri.  „Þessi sjúkdómur virðist ganga í ættir“.

Gengur maður undir manns hönd (orðtak)  Um hjálpsemi; hjálpar her sem betur getur; sameinast allir um aðstoð.  „Þessi bruni var mikið áfall fyrir þau, en hér gengur maður undir manns hönd við að aðstoða þau“.

Gengur og gerist (orðtak)  Almennt er/viðgengst; venjulegt er.  „Mér finnst tíðin ekkert verri en gengur og erist á þessum árstíma“.   Sjá eins og gengur og gerist.

Gengur seint og fast (orðtak)  Gengur hægt en örugglega.  „Okkur sóttist seint og fast að komast uppúr Skarðsbrekkunni; þar var töluverður þæfingur“.

Gengur sinn vanagang (orðtak)  Gengur/er samkvæmt venju.  „Hér gengur allt sinn vanagang“.

Gengur staflaust um (allar) sveitir (orðtak)  Um orðróm/slúður; breiðist hratt út.  „Það gengur víst staflaust um allar sveitir að karlinn eigi ekkert í þessu barni“.  Tvær upprunaskýringar eru hugsanlegar.  Annarsvegar líking við förumann sem ferðast staflaust.  Líklegri skýring er vísun til boða sem ganga um sveitir utan hins formlega boðkerfis að fornu, sem var axarboð/krossboð/örvarboð (sjá boðleið).  Þá var boði vafið um axarskaft, kross eða ör.  „Stafur“ í orðtakinu gæti annaðhvort merkt bókstafi á skjalinu eða öxin/örin/krossinn sem boðin eru vafin um.  Merkingin væri þá sú að orðrómur gengur meðal manna sem ekki hefur tákn valdhafanna til staðfestingar.

Gengur tisona/tilsvona (orðtak)  Gengur þannig; er á þann veg.  „Maður hefði kannski þegið það að hafa fæðst með silfurskeiðina í kjaftinum; en þetta gangur nú tilsvona; að maður verður víst að puða til að bjarga sér“!

Gengur undan (orðtak)  Afkastast; miðar.  „Það gengur aldeilis undan honum í söltuninni í dag“.

Geníalt (l)  Upplagt; kjörið; tilvalið.  „Það væri alveg geníalt að nýta þetta tækifæri“.

Genverðugheit (n, hk)  Fyrirtektarsemi; vandlæti.  „Genverðugheit eru munaður þeirra sem hafa það of gott“.

Genverðugur (l)  Vandlátur; fyrirtektasamur.  „Hann hefur alltaf verið genverðugur á signa grásleppu“.

Gepill (n, kk)  Ólíkindatól; fremur óvandaður/viðsjárverður náungi.  „Ég treysti illa á þann gepil“.  Einnig í samsetningum; hrútgepill; hver gepillinn.

Gepillinn (n, kk, m.gr)  Áhersluorð/milt blótsyrði; fjandinn.  „Gepillinn skyldi nú hafa orðið af gleraugunum mínum“?  Einnig oft hver gepillinn, og gat þá staðið sjálfstætt.

Ger (n, hk)  A.  Gjör; þéttur sveimur af fugli á flugi yfir sílatorfu; sjá gjör.  B.  Lyftiduft.

Gera (s)  Ýmis merking.  Ein var sú merking sem títt var viðhöfð meðal fjárbænda í Útvíkum, þ.e. koma á fót lömbum:  „Það er eftirsjón að þeirri kind; hún hefur gert afburðagóð lömb, alla sína tíð“. 

Gera að (orðtak)  A.  Verka fisk; einkum þá átt við að slægja.  „Lendingin var beint niður undan bæjunum og fiskurinn borinn á bakinu upp yfir Rifið, upp að naustum, þar sem að honum var gert“ (ÞJ; Örn.skrá Hvallátra).  „Áður en sjómennirnir fóru að gera að, fengu þeir sér að borða“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).   „Byrjað var að gera að á fjörunni“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).   B.  Framkvæma; láta verka.  „Eitthvað er bilað í stýrisvélinni.  Stýrið gerir ekkert að þó ég leggi alveg í borðið“.  C.  Klára verk; ganga frá.  „Hér hefur gleymst að gera að vélindanu; gorinn lekur útum allt“.  D.  Gera í málum; taka á sig sök.  „Ég get ekkert gert að því þó búkurinn leysi örlítinn vind“!

Gera að buxum sínum / Gera að brókum (orðtak)  Bjarga/bregða brókum; hægja sér; flytja lögmann ; ganga örna sinna.  „utanvert í túninu er önnur lág, Lögmannslág.  Dregur hún nafn af því að það var kallað að flytja lögmann er menn gerðu að buxum sínum“  (Örnefnaskrá Láganúps).

Gera að gamni sínu (orðtak)  Gera sér til skemmtunar; gera í tilgangsleysi.  „Við gerðum það stundum að gamni okkar að grípa bröndur í Ánni, en slepptum þeim oftast aftur“.  „Þetta var slys hjá honum; svonalagað gerir enginn að gamni sínu“.

Gera að skotspæni (orðtak)  Sjá gerður að skotspæni; hafa að skotspæni.

Gera að tillögu sinni (orðtak)  Leggja til; leggja fram tillögu um.  „Gerði oddviti það að tillögu sinni að öllum frekari ákvörðunum í málinu yrði frestað…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Gera að verkum (orðtak)  Verða valdandi; valda.  „Náttfallið hélst langt framá dag í logninu, sem gerði það að verkum að lítið var hægt að hreyfa heyi þann daginn“.

Gera að því skóna (orðtak) Sjá gera því skóna.

Gera aðsúg að (orðtak)  Gera atlögu að; veita atlögu; gera árás á.  „Það var nánast gerður aðsúgur að honum eftir framsöguræðuna“.  Sjá aðsúgur.

Gera af (orðtak)  Gera.  „Ég fór í egg á hverju vori áðurfyrr, þó ég geri minna af því í seinni tíð“. 

Gera af sér (orðtak)  A.  Gera eitthvað neikvætt; gera skammarstrik; brjóta af sér.  „Strákurinn var ekkert að gera af sér; hann sat bara við að telja á sér tærnar“.  B.  Dveljast; vera; gera.  „Ég veit ekki hvað maður ætti að gera af sér þarna fyrir sunnan; ætli maður verði ekki bara að fara á hótel“.

Gera afsökun sína (orðtak)  Gera eitthvað til siðasaka/ til að sýnast.  „Ætli maður verði nú ekki að mæta á kjörstað, svona til að gera afsökun sína“.

Gera (einhvern) afturreka (orðtak)  Reka einhvern til baka; láta fara aftur til síns heima; hafna beiðni.  „Hann var gerður afturreka með þessa umsókn, vegna formgalla“.

Gera alvöru úr (orðtak)  Koma í verk; láta verða af því sem sagt/lofað/hótað hefur verið.  „Hann mun aldrei gera alvöru úr þessum hótunum“.

Gera at í (orðtak)  Stríða; atast í; egna; espa.  „Dóri hafði gaman af að gera at í okkur“  (IG; Æskuminningar).

Gera atlögu að / leggja til atlögu (orðtak)  Gera gangskör að; gera árás á; ráðast í/að; einhenda sér í.  „Það þyrfti að gera gangskör að því að ná þessum útileguskjátum“.

Gera á hlut/hluta einhvers (orðtak)  Gera einhverjum miska/óleik.  „Ekki veit ég hversvegna hann er móðgaður út í mig; ég veit ekki til að ég hafi gert neitt á hlut hans“.  „Talinn var hann forn í skapi og fjölkunnugur, og ekki góður viðfangs ef á hluta hans var gert“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Gera á/í móti skapi (orðtak)  Gera til ergelsis; gera gegn vilja.  „Ég myndi aldrei gera honum það í móti skapi að fara án þess að kasta á hann kveðju“.

Gera á/í sig / Gera í buxurnar (orðtök)  Kúka/skíta í buxur sínar.  „Ég gæti trúað að sá stutti sé búinn að gera á sig“. 

Gera bilt/dauðbilt/hvekkt við (orðtak)  Láta bregða; hrekkja.  „Rosalega gerðirðu mér bilt við“! 

Gera boð á undan sér (orðtak)  Láta vita fyrirfram um ferðir sínar; segja að maður ætli að koma.  „Segðu honum að gera boð á undan sér þegar hann kemur í heimsókn, svo við séum örugglega viðlátin“.  Sjá gerir ekki boð á undan sér.

Gera bragð úr boðorðinu (orðtak)  Vera sniðugur; gera eitthvað óvænt.  „Ég hélt ég hefði króað rolluskrattann af þarna í ganginum, en hún gerði þá bragð úr boðorðinu og henti sér fram af og niður í hlíð“.

Gera eina ferð að / Gera einróið að (orðtak)  Klára í einni atrennu.  „Það er vafningaminna að gera eina ferð að því að ná þessum hópum báðum, heldur en að eyða tveimur dögum í smalamennskur“.  „Ég nenni varla að fara fyrir smáslatta í dag og annan á morgun.  Eigum við ekki bara að gera einróið að þessu á morgun“?

Gera (einhverjum) bjarnargreiða (orðtak)  Gera einhverjum vafasaman greiða; valda einhverjum skaða þegar ætlunin er að gera honum greiða. Um upprunann segir Guðrún Kvaran íslenskufræðingur svo á Vísindavef HÍ:  Orðatiltækið að gera einhverjum bjarnargreiða 'gera eitthvað í greiðaskyni við einhvern en það verður honum til skaða' er erlent að uppruna. Það hefur líklegast borist í íslensku úr dönsku, gøre nogen en bjørnetjeneste, en þar er það þekkt frá miðri 19.öld. Orðatiltækið er einnig til í þýsku, jemand einen Bährendienst erweisen.  Að baki liggur saga eftir franska rithöfundinn La Fontaine (1621-1695) um einsetumann sem átti taminn björn. Björninn mat húsbónda sinn mikils og vildi allt fyrir hann gera. Dag einn, þegar einsetumaðurinn hafði lagt sig, sóttu að honum flugur sem ónáðuðu hann í svefni. Björninn veitti þessu athygli og vildi bægja flugunum frá höfði húsbónda síns. Hann lamdi því á flugurnar með hrammi sínum en ekki fór betur en svo að hann malaði hauskúpuna.

Gera (einhverjum) boð / Gera (einhverjum) orð / Gera boð fyrir (einhvern) (orðtök)  Senda einhverjum orðsendingu/bréf/skeyti/skilaboð; láta liggja boð fyrir einhverjum.  „Ég gerði honum boð um að fundinum væri frestað“.  Orðtakið er af gömlum uppruna og vísar til þess að „skera upp boð“; þ.e. senda boð með boðöxi, en það var hin opinbera boðleið fyrrum.  Sjá þingboð.

Gera einhvernvegin og einhvernvegin (orðtak)  Um kæruleysisleg vinnubrögð; framkvæma/vinna með einhverju móti, en ekki endilega því rétta; beita ekki réttum vinnubrögðum; kasta höndum til.  „Þið verðið að vanda ykkur betur við fráganginn á þessu; það dugir ekki að gera þetta bara einhvernvegin og einhvernvegin“!  Sama orðtak var notað með ýmsum sagnorðum:  „Gakktu nú almennilega frá fötunum þínum, en kastaðu þeim ekki bara einhvernvegin og einhvernvegin“!

Gera einróið að (orðtak)  Vinna verk í einni lotu; klára verkefni í einni ferð/skorpu.  „Ætli ég geri ekki bara einróið að þessu; klára innkaupin um leið og ég fer á fundinn.  Mér leiðast þessar kaupstaðarferðir“.

Gera ekki endasleppt (orðtak)  Að vera dyggur/tryggur; halda sig vel að verki; linna ekki; gefast ekki upp.  .„Enn sendir hann okkur hákarlslykkju, blessaður; hann ætlar ekki að gera það endasleppt“!  „Hann ætlar ekki að gera það endasleppt með rigningarnar“!

Gera ekki flugu mein (orðtak)  Meiða/skaða engan; vera meinlaus.  „Þú þarft ekki að vera hræddur við nautið; það hefur aldrei gert flugu mein“.

Gera fast (orðtak)  Um band/vað; setja/hnýta fast; festa; binda.  „Gerðu þeir endann fastan, en landmenn strengdu síðan“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Gera fjallskil (orðtak)  Fara í göngur/smalamennskur; smala fé af landi.  „Síðan menn hættu almennt að gera fjallskil hefur allt komist í óefni með heimtur og útigangsfé hrakist ár eftir ár við slæmar aðstæður“.

Gera fleira en gott þykir (orðtak)  Gera einnig það sem síður er skemmtilegt.  „Þetta var bölvað basl; en það verður stundum að gera fleira en gott þykir“!

Gera fyrir (orðtak)  Ganga frá enda/opi.  „Það þarf að gera fyrir endann á vaðnum svo hann strúist ekki“.  „Hæklararnir gleymdu að gera fyrir vélindað svo gorinn rann út um allt þegar skrokkurinn kom á gálgann“.

Gera fyrir bónarstað (orðtak)  Gera vegna bónar/beiðnar; gera að beiðni.  „Ég ætlaði ekki að mæta, en gerði það fyrir hans bónastað“.

Gera fyrir sálu sinni (orðtak)  Vinna góðverk; sýna góðvild/miskunnsemi.  Alsiða var að þeir sem reru og öfluðu vel gæfu þeim í soðið sem ekki gátu sótt sjóinn af einhverjum orsökum.  Var það nefnt að gera fyrir sálu sinni, og talið að slíkt yrði launað á dómsdegi.  Siðurinn og orðtakið hélst framundir þennan dag.  Einnig notað um það fyrrum að menn gáfu jarðir eða annað til kirkna gegn aflausn synda.  Sjá aflausn.

Gera fyrir siðasakir (orðtak)  Gera af skyldurækni/til málamynda/af hefð.  „Ég læsti húsinu fyrir siðasakir, en annars hefur þess ekki gerst þörf hér um slóðir“.

Gera fyrirspurn um (orðtak)  Spyrja eftir/um; spyrjast fyrir.  „Ívar Ívarsson gerði fyrirspurn um það hvort kostnaður við breytingar á símalínum…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Gera gangskör að (orðtak)  Drífa í; hella sér í; hefjast handa.  „Það þyrfti að gera gangskör að allsherjar umbótum á þessu sviði“.  Gangskör í þessu sambandi merkir brú.  Orðtakið hefur því upphaflega merkt að brúa, sem vísar til þess að setja brú yfir vatnsfall.

Gera glatt/gramt í geði (orðtak)  Kæta/ergja skap.  „Svona heyskapatrtíð gerir öllum bændum glatt í geði“.  „Þessi árans marglytta hefur verið að gera okkur fremur gramt í geði uppá síðkastið“.

Gera gloríur (orðtak)  Gera mistök; fremja afglöp.  „Nú er maður farinn að gera eintómar gloríur af þreytu“.

Gera gott fyrir sér (orðatiltæki)  Koma sér í mjúkinn; blíðka; vinna af sér.  „Hann reynir nú að gera gott fyrir sér við formanninn til að eiga betri möguleika á skipsrúmi“.

Gera gott í magann (orðtak)  Um mat; vera hollur/ góður fyrir meltinguna. „Hákarlinn er herramannsmatur, og svo gerir hann líka býsna gott í magann“.

Gera góða lukku (orðtak)  Líka vel; vera vinsælt; tekið fagnandi.  „Leikritið gerði góða lukku og leikendur voru tvisvar klappaðir upp“.

Gera góðan róm að (orðtak)  Taka því vel sem sagt er; taka vel undir/ hrósa ræðu/frásögn.  „Var gerður góður rómur að ræðu hans“.

Gera (einhverjum) greiða (orðtak)  Veita einhverjum aðstoð; víkja í lið fyrir einhvern; gera einhverjum viðvik án þess að ætlast til endurgjalds.  „Eins og aðrir sveitungar mínir á þessum tíma voru þeir Gummi og Liði ágætir vinir og lögðu gjarnan hart að sér til að gera öðrum greiða“  (PG; Veðmálið). 

Gera greinarmun á (orðtak)  Leggja ekki að jöfnu; greina á milli.  „Ég geri mikinn greinarmun á því hvort ferðin er nauðsynleg eða hvort þetta er eingöng skemmtiferð“.

Gera (einhverjum) grikk (orðtak)  Hrekkja; gera skráveifu.  „Strákaskrattarnir gerðu mér bölvaðan grikk með þessu“.

Gera/henda grín/spaug að (orðtak)  Henda gaman að; glettast/grínast/spauga með.  „Þið skulið ekki gera grín að karlinum; hann er glúrnari en þið hafið hugmynd um“!

Gera gys að (orðtak)  Hafa að háði; gera grín að.  „Það er óþarfi að gera gys að þessu þó það sé óvenjulegt“.

Gera gæfumuninn (orðtak)  Skipta sköpum; skilja á milli velgengni og vandræða.  „Það gerði gæfumuninn að hafa svona unga og fríska smala með í hópnum“.

Gera (einhverju/einhverjum) hátt undir höfði (orðtak)  Upphefja; gera að meginatriði máls; gera vel við einhvern.  Góðum gesti eru færðir nægir koddar til að hann geti hagrætt sér fyrir svefn.

Gera heyrumkunnugt (orðtak)  Um málefni; gera opinbert; láta alla vita.  „Ýmsir vissu um þessa ákvörðun, þó hún hafi ekki verið gerður heyrumkunnug fyrr en nú“. 

Gera hosur sínar grænar fyrir (einhverjum) (orðtak)  Um tilhugalíf; halda sig til fyrir (einhverjum); vonast eftir nánum kynnum.  „Hann er farinn að gera hosur sínar grænar fyrir heimasætunni á næsta bæ“.

Gera hreint fyrir sínum dyrum (orðtak)  Notað í afleiddri merkingu um að útskýra vel sín mál, t.d. til að hreinsa af sér grun um eitthvað misjafnt.  „Hann þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum og útskýra þetta“.

Gera (einhverjum) hvekkt við (orðtak)  Bregða (einhverjum); gera bilt við.

Gera hvorki af né á / Gera hvorki til né frá (orðtak)  Breyta engu; hafa engin áhrif.  „Það gerir hvorki til né frá þó þú reynir að hafa áhrif á hann.  Hann kýs bara það sem hann hefur alltaf kosið“.

Gera illt verra (orðtak)  Valda enn meiri vandræðum/hættu.  „Ég át súrblöðkur og hvannir við þorstanum, en það gerði eiginlega illt verra“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Gera í blóðið sitt (orðtak)  Gefa vel af sér; sýna hagnað.   Upprunalega haft um vænt sláturlamb, þar sem mörinn úr því nægði til að gera góðan blóðmör úr blóðinu.

Gera í buxurnar / Gera í sig (orðtak)  Skíta á sig.  „Mér finnst á lyktinni að sá litli sé búinn að gera í buxur“.  „Honum brá svo mikið að hann gerði næstum í sig“.  Sjá einnig bremsufar og kríulöpp.

Gera/skíta í bælið sitt / Gera/skíta undir sig (orðtök)  Sjá skíta í bælið sitt.

Gera (einhvern) kjaftstopp/orðlausan (orðtak)  Þagga niður í einhverjum með snjöllu svari; Gera einhvern svo hugsi/undrandi að hann þagni.  „Hann gerði mig alveg kjaftstopp með þessum viðbrögðum“.

Gera klárt (orðtak)  Hafa reiðubúið; greiða úr flækju/óreiðu.  „Gerðu klárt til að láta bólið fara“!

Gera kleift (orðtak)  Gera mögulegt/framkvæmanlegt.  „Þetta fé gerði honum kleift að grynnka á skuldunum“.

Gera leit að (orðtak)  Leita að.  „Vertu ekki að gera mikla leit að þessu núna; þetta kemur í ljós síðar“.

Gera lífið leitt (orðtak)  Vera til ama/óþurftar.  „Oft hefur sandurinn gert mönnum lífið leitt, þegar allt er freðið og norðanstormur flæðir hann yfir allt og fyllir í lautir“  (IG; Sagt til vegar I).  

Gera lítið úr (orðtak)  A.  Vilja helst ekki ræða; tala úr.  „Hann gerði lítið úr sínum eigin afrekum“.  B.  Kasta rýrð á; niðurlægja; virða lítils.  „Við skulum ekki gera lítið úr honum þó þetta hafi ekki lánast“.

Gera lukku (orðtak)  Vekja ánægju; verða til gagns/gleði.  „Þessi gjöf gerði mikla lukku“.

Gera (sér) mannamun (orðtak)  Gera ekki öllum jafn hátt undir höfði; taka einn framyfir annan.  „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Gera með vilja (orðtak)  Gera viljandi; gera af ásetningi.  „Þetta var alls ekki óvart; hann gerði þetta með vilja“!

Gera/gjöra mein (orðtak)  Skaða; valda meini/sárum/skaða.  „Við þann stein bindur hann drauginn, og mælti svo um að hann skuli ekki gjöra sér eða sinni ætt mein framar; og hefur það þótt ásannast“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Gera meira gagn en ógagn (orðtak)  Vera fremur til bóta en skaða.  „Ekki veit ég hvort þetta gerir meira gagn en ógagn, en þetta er þó viðleitni“.

Gera niður (orðtak)  Hringa niður vað/færi/slöngu o.fl.  „Ætlar þú að gera niður varinn meðan ég geng frá kútunum“?

Gera (einhverjum) orð (orðtak)  Gera boð fyrir einhvern; senda orðsendingu.  „Ég náði ekki að hitta hann sjálfan, en ég gerði honum orð að koma við fyrsta tækifæri“.  „Hann gerði mér orð að hringja í sig“.

Gera orð á (orðtak)  Hafa á orði; segja.  „Var jafnvel orð á því gert, hve lítið svo stór atburður fékk á hana“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Gera (einhverjum) óleik (orðtak)  Gera erfitt fyrir; spilla fyrir.  „Hann gerði mér árans óleik með þessu“.

Gera (einhverjum) ónæði (orðtak)  Raska ró/næði einhvers.  Er ég ekki að gera ykkur ónæði með því að koma svona seint að degi“?

Gera óskunda (orðtak)  Vinna spjöll/skaða; vera til óþurftar.  „Hvaða óskunda var hundurinn nú að gera“.

Gera ráð fyrir (orðtak)  Búast við; ætla.  „Ég geri ráð fyrir að fara á Eyrar á morgn“.

Gera ráðstafanir til (orðtak)  Sjá til/um; skipuleggja; leggja drög að.  „Jón Hákonarson upplýsti að búið væri að gera ráðstafanir til að síminn komi aftur inn í húsið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Gera reka að (orðtak)  Framkvæma; koma í framkvæmd.  „Nú þurfum við að fara að gera einhvern reka að þessu eða láta það eiga sig með öllu“.

Gera (einhverjum) rúmrusk (orðtak)  Vekja.  „Það er leitt að gera ykkur rúmrusk svona seint að kvöldi“.

Gera sárt og klæja (orðtak)  Á báðum áttum; vilja annarsvegar stoppa/hætta af hræðslu við afleiðingar, en á hinn veginn langa til að halda áfram.  „Mig gerir dálítið sárt og klæjar með þetta; í aðra röndina langar mig að vera heima þegar hann kemur, en þá missi ég kannski af ferðinni hjá þeim“.

Gera (bæði) sárt og klæja (orðatiltæki)  Er hikandi; með hálfum huga.  „Mig langar að fara í réttirnar, en gerir þó sárt og klæjar, þar sem mig langar líka að heyra endinn á útvarpssögunni“.

Gera sér að góðu / Gera sig ánægðan með (orðtak)  Láta nægja/lynda; sætta sig við.  „Hann varð að gera sér að góðu að sofa í sófanum“.

Gera sér (það/eitthvað) að leik (orðtak)  Leika sér við eitthvað; stundum óæskilegt.  „Strákar í Verinu gerðu sér það meðal annars að leik að kasta skeljum í gaflinn á salthúsinu“.

Gera sér að venju (orðtak)  Venja sig á; hafa fyrir venju; gera sér far um.  „Eftir þetta gerði hann sér það að venju að gá sérstaklega í skurðinn tvisvar á dag yfir sumartímann“.

Gera sér dælt við (orðtak)  Vingast við; fara á fjörurnar við.  „Mér sýndist að hann væri að gera sér dælt við frúna á næsta bæ á þorrablótinu“.

Gera sér ekki hægara / ekki hægari hlut (orðtök)  Fara létt með.  „Ég geri mér ekki hægari hlut en að stökkva yfir þessa lækjarsprænu“.

Gera sér far um (orðtak)  Reyna; gera sér að venju; leitast við.  „Ég gerði mér far um að sinna þessu hlutverki eins vel og framast var mögulegt“.

Gera sér (sérstaka) ferð (orðtak)  Leggja á sig sérstakt ferðalag; fara ferð.  „Ég gleymdi veskinu í búðinni, og þurfti að gera mér ferð til að ná í það“.

Gera sér glaðan dag (orðtak)  Gera eitthvað til tilbreytingar; að gleðja sjálfan sig; halda veislu/samkvæmi/boð. 

Gera sér gott af (orðtak)  Njóta; hafa gott af; borða; éta.  „Ég skildi fiskinn eftir við dyrnar, en þegar ég kom aftur var kattarfjandinn mikistil búinn að gera sér gott af honum“.

Gera sér grein fyrir / Gera sér ljóst (orðtak)  Átta sig á; skilja; vakna til vitundar um.  „Það er þetta atriði sem allir þurfa að gera sjer rjetta grein fyrir, áður en farið er að fjalla um íþróttir“  (Guðbjartur Hákonarson; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938). 

Gera sér (engar) grillur (orðtak)  Gera sér (engar) vonir.  „Það þýðir víst ekki að gera sér nokkrar grillur um að finna þessa kind fyrir myrkur“.  „Ég geri mér engar grillur um að verðið lækki“.

Gera sér hægt um vik / gera sér lítið fyrir (orðtak)  Gera fyrirhafnarlaust/í fljótheitum.  „Þá gerði gamla konan sér lítið fyrir og bannaði prestum í nálægum sóknum að gefa þau saman“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  Sjá eiga ekki hægt um vik og eiga erfitt um vik.

Gera sér í hugarlund (orðtak)  Ímynda sér; setja sér fyrir hugskotssjónir; hugsa sér.  „Ég á erfitt með að gera mér í hugarlund hvernig nokkrum getur dottiið svona vitleysa í hug“!

Gera sér leik að / Gera sér það að leik (orðtak)  Gera sér til dundurs; leika sér að.  „Við gerðum okkur að leik að fleyta kerlingar á vatninu meðan við biðum“.  „Þið skuluð ekki gera ykkur það að leik að erta karlinn svona; hann getur verið þungur á bárunni þegar hann reiðist“.

Gera sér lítið fyrir (orðtak)  Gera með lítilli fyrirhöfn; framkvæma hiklaust.  „Ég gerði mér lítið fyrir og sigraði í langhlaupinu á sautjándajúníhátíðinni“.

Gera sér mannamun (orðtak)  Gera upp á milli manna; telja eina manneskju betri/mikilvægari en aðra.  „Heimalningurinn gerir sér verulegan mannamun“.

Gera sér mat úr (orðtak)  Notað í afleiddri merkingu um að nýta sér eitthvað eða gera meira úr málum en efni standa til.  „Blöðin voru fljót að gera sér mat úr þessum mistökum ráðherrans“.

Gera sér ómak (orðtak)  Leggja á sig; hafa fyrir.  „Blessaður vertu ekki að gera þér ómak mín vegna“!

Gera sér rellu útaf/vegna (orðtak)  Æsa sig yfir; fárast yfir; vera uppnæmur vegna.  „Hann gerði sér enga rellu útaf því að báturinn væri fokinn, en slæmt þótti honum að tapa neftóbakspontunni í lúkarnum“.

Gera sér til dundurs (orðtak)  Dunda sér við:  „Þeir gerðu sér það til dundurs í hjástöðunni að hlaða vörður“.

Gera sér til erindis (orðtak)  Hafa til yfirvarps; hafa sem tilgang ferðar.  „Strákurinn sótti í að hitta heimasætuna nágrannans og gerði sér hitt og þetta til erindis“.

Gera/finna sér til gamans/skemmtunar/upplyftingar (orðtök)  Skemmta sér við að gera; gera það sem er skemmtilegt.  „Alltaf var hægt að finna sér eitthvað til skemmtunar.  Ef ekki var hægt að vera úti var alltaf hægt að gera eitthvað innivið; t.d. spila, fara í leiki, kveðast á, segja sögur og margt annað“.

Gera sér títt við (orðtak)  Vingast við; sækjast eftir vináttu/nærveru við; eltast við.  „Hann er víst farinn að gera sér nokkuð títt við vinnukonuna á bænum; eða svo segir sagan“.

Gera sér upp (orðtak)  Vera með látalæti; þykjast.  „Ég held að hann sé að gera sér upp þessi veikindi til að sleppa við kirkjuferðina“.

Gera sér (góðar) vonir um (orðtak)  Vonast eftir; bera von í brjósti um.  „Ég gerði mér vonir um að veiðin væri betri nokkru dýpra“.

Gera sig að athlægi (orðtak)  Haga sér þannig að öðrum þyki hlægilegt/fráleitt/heimskulegt.  „Ég ætla ekki að fara að gera mig að athlægi með svona klæðaburði“!

Gera sig breiðan / Gera sig merkilegan (orðtök)  Vera montinn/yrirlætisfullur; sýnast meiri en maður er; setja sig á háan hest.  „Vertu bara ekkert að gera þig breiðan; ég sé ekki að þinn flokkur hafi riðið svo feitum hesti frá síðustu kosningum“!  „Hann ætlaði eitthvað að fara að gera sig merkilegan og neita mér um þetta, en ég minnti hann þá á það sem hann hafði áður sagt“.

Gera sig heilagan í andlitinu (orðtak)  Setja upp sakleysissvip.  „Svo þegar þessar þingmannanefnur eru búnar að gera í buxurnar í hverju málinu eftir annað þá koma þeir hingað á framboðsfundi; gera sig heilaga í andlitinu, og ætlast til að við kjósum þá áfram!  Fjandinn hossi þeim í minn stað“!

Gera sig heimakominn (orðtak)  Haga sér eins og heimamaður.  „Þar kom að sumum fannst gesturinn vera farinn að gera sig full heimakominn, auk þess sem þetta var mesti letihaugur“.

Gera sig kláran (orðtak)  Undirbúa sig; setja sig í stllingar; búast til.  „Ég gerði spottan kláran meðan sigarinn skoðaði aðstæður“.

Gera síg líklegan til (orðtak)  Búast til; undirbúa sig í.  „Hann gerði sig líklegan til að lása sig fram af brúninni, þegar ég minnti hann á að setja hjálminn á hausinn“.

Gera sig sekan um (orðtak)  Fremja brot; gera það sem maður telur allajafna vera rangt.  „Hann gerði sig sekan um bölvað gáleysi þegar hann gleymdi nestinu“.

Gera sitt besta (orðtak)  Leggja sig fram; reyna af alefli.  „Hann hefir lengst af verið formaður fjelagsins og viljað gera sitt besta til þess að fjelagsskapurinn gæti dafnað“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Gera (einhverju) (góð) skil (orðtak)  Fara með eitthvað eins og vera ber; borða eitthvað með góðri lyst; klára þann mat sem á diskinum er.

Gera (einhverju) skóna / Gera (einhverju) á fæturna (orðtak)  Sjá gera því skóna; gera því á fæturna.

Gera sér dælt við (einhvern) / Gera sér títt við (einhvern) (orðtak)  Sækja í samvistir við einhvern; vilja vera með einhverjum.  „Hann er víst farinn að gera sér nokkuð títt við heimasætuna á næsta bæ“.  „Þú skalt ekki gera þér of dælt við nautkálfinn; hann getur orðið skeinuhættur þegar hann stækkar meir“.

Gera sjóklárt (orðtak)  Sjóbúa bát/skip; tryggja að allir farviðir séu um borð ásamt öðrum nauðsynjum og að öllu sé tryggilega fest, einkum þegar von er á slæmu sjólagi. 

Gera skammarstrik (orðtak)  Gera það sem ekki má; brjóta af sér; brjóta reglur.  Oftast notað um minni háttar afbrot; stundum um hrekki.  „Passaðu nú að krakkinn geri ekki fleiri skammarstrik“!

Gera (einhverjum) skráveifu (orðtak)  Gera grikk; spilla fyrir; hrekkja.  „Þessi skúr gerði okkur bölvaða skráveifu“.  Líklega merkir skrá hér skinn, og gæti orðtakið átt uppruna í ævafornum galdri þar sem skinni var sveiflað til að senda einhverjum bölvun.  Sjá skráveifa.

Gera skurk/slag í (orðtak)  Drífa í; taka til við.  „Ég ætla að gera skurk í hreingerningum á laugardaginn“.  Einnig notað sem upphrópun/hneykslun:  „Sá held ég að geri slag í því, eða hitt þó heldur“!

Gera (einhverjum) skömm til (orðtak)  Skammfæra einhvern; gera eitthvað þannig að annar þurfi að skammast sín.  T.d. sigra í einhverskonar keppni.  „Strákurinn stóð sig bara ansi vel í smalamennskunum; ég er hræddur um að hann geri þeim mörgum skömm til sem eru eldri“!

Gera sprell (n, hk)  Ærslast; grínast; hrekkja.  „Nú hafa strákarnir gert eitthvað bölvað sprell í vélinni“!

Gera stórt / Gera stykkin sín / Gera þrekk (orðtak)  Skíta; kúka; hægja sér; flytja lögmann.  „Nú þarf ég að skreppa bak við stein og gera stórt“.  „Hefur nú kattaróbermið gert stykkin sín í heyið“?!

Gera strandhögg (orðtak)  Fara í ránsferð; sölsa eitthvað undir sig hjá öðrum.  Sjá strandhögg.

Gera/setja strik í reikninginn (orðtak)  Breyta því sem áætlað var; breyta niðurstöðunni.  „Ég er hræddur um að geri töluvert strik í reikninginn hvað hafa verið mikil afföll af fénu þetta árið“.  Vísar til þess að strikaður sé út hagnaður í reikningshaldi.

Gera stykkin sín (orðtak)  Kúka; skíta; ganga örna sinna; hægja sér.  „Hér hefur kattaróbermið gert stykkin sín í heyið“!  „Þessir túristar eru óþjóðalýður; vaðandi yfir tún og eigur manna og gerandi stykkin sín fyrir hunda og manna fótum“!

Gera til (orðtak)  A.  Skipta máli; vera til baga/skaða.  „Það hrundi niður í mógröfina, en það gerir ekkert til; ég ætlaði hvort sem er að moka ofaní hana“.  B.  Verka/gera að veiði/afla; verka veiði/afla þannig aðunnt sé að matbúa hana.  „Skatan var gerð til; börðin voru grafin í sand svona vikur til 10 daga, þá tekin og þvegin; söltuð dálítið og geymd sem vetrarforði“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“  (PG; Veðmálið). 

Gera (einhverjum) til ama/ergelsis (orðtök)  Skaprauna; fara í taugarnar á; pirra.  „Ég er viss um að hann er bara að gera þetta mér til ergelsis; hann veit hvað mér er illa við það“.

Gera (einhverjum) til eftirlætis/hæfis (orðtök)  Gera ánægðan; láta að óskum/duttlungum; láta undan.  „Hann lagði sig mjög fram um að gera henni til hæfis“.

Gera (einhverjum) til erfiðis (orðtak)  Auka erfiði einhvers; valda einhverjum fyrirhöfn.  „Þeir gerðu mér það til erfiðis að negla aftur kofadyrnar“.

Gera (einhverjum) til geðs (orðtak)  Þóknast; gera til að þóknast.  „Ætli verði ekki að gera þetta honum til geðs“?

Gera (einhverju) til góða (orðtak)  A.  Gera að afla; hausa, slægja og fletja.  B.  Bæta; bæta úr; laga; fegra; hlú að.  „Kofinn er að verða ári siginn í mæninn.  Það veitti ekki af að fara að gera honum eitthvað til góða“.

Gera (einhverjum) til háðungar/minnkunar/skammar/vanvirðingar (orðtök)  Gera það sem veldur einhverjum skömm/niðurlægingu/vanvirðingu; niðurlægja einhvern.  „Við gerðum þeim það til skammar að hnýta úldinn fisk á niðristöðuna; þeir leggja þá kannski ekki ofaní hjá okkur aftur á næstunni“!

Gera (einhverjum) til hæfis (orðtak)  Gera svo líki.  „Það er aldrei erfitt að gera þeim lítilláta til hæfis“.

Gera til kola (orðtak)  Gera viðarkol úr viðarkurli.  Járnframleiðsla var stunduð á landinu frá landnámi og til þess að það fór að flytjast inn.  Rauðablástur nefndist sú iðja að framleiða járn úr mýrarrauða, og Einar Jónsson bóndi í Kollsvík mun síðastur hafa stundað hana hérlendis.  Ekki verður núna sagt með vissu hvar hann náði í mýrarrauðann, en nóg er af honum í Kollsvíkurmýrum.  Ekki er ljóst hvar smiðja hans stóð, eða hvaða eldsmat hann notaði.  Þar er um þrennt að ræða:  Mó úr Kollsvíkurmýrum, en sérlega hitagæfur mór er t.d. í Harðatorfspytti.  Hann gæti hafa notað rekavið eða hrís, sem hvorttveggja var nýt sem eldsmatur.  Eða, sem e.t.v. er líklegt, hefur hann gert til kola einhversstaðar í skóglendi í hreppnum; e.t.v. í Vesturbotni eða við Suðurfossá.  Viðarkolagerð var mikið stunduð á landinu, enda nauðsynleg í járnsmíði og til dengingar á ljáum.  Þegar gert var til kola var viðurinn höggvinn; kvistaður og kurlaður.  Síðan var tekin kolagröf og kurlið látið glóðast í henni, án þess að logaði uppúr.   Sjá einnig rauðablástur.

Gera til meins (orðtak)  Skaða; valda tjóni.  „Ég vildi ekki gera honum það til meins að taka hnífinn, þó ég ætti hann sjálfur að réttu lagi“.

Gera til minnkunar (orðtak)  Verða til skammar/niðurlægingar/óvirðingar.  „Ég geri mér það ekki til minnkunar að gefast upp í fyrstu tilraun“.

Gera til skammar (orðtak)  Niðurlægja; verða til minnkunar.  „Við verðum að hanga á þessu dálítið lengur; við gerum okkur það ekki til skammar að koma í land með öngulinn í rassinum“!

Gera (einhverjum) til skapraunar (orðtak)  Skaprauna einhverjum; ergja einhvern; gera það sem fer í taugarnar á einhverjum.  „Hann virðist reyna að gera nágrannanum það til skapraunar sem mest hann má“.

Gera til þægðar (orðtak)  Gera greiða.  „Hann gerði það mér til þægðar að taka með sér úttekt í búðinni“.  „Kokkurinn var í hvítum slopp og gerði okkur allt til þægðar„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Gera tilkall til (orðtak)  Gera kröfu til; heimta.  „Hann sagðist ekkert tilkall ætla að gera til þessa eignarhluta“.

Gera um sig (orðtak)  Um sár; grafa; hlaupa slæmska í.  „Mér finnst að einhver árinn sé að gera um síg í sárinu“.

Gera undir (orðtak)  Kúka í rúmið.

Gera upp (orðtak)  A.  Greiða skuld. „Þegar kom að því að gera upp veðmálið var ekki viðhöfð nein smámunasemi“  (PG; Veðmálið).   B.  Hanka upp færi/vað/slöngu eða annað.  „... þá fer að kalda af norðri svo færin eru gerð upp og haldið í land“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Árni stöðvaði færið og fór að gera það upp“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Gera upp á milli (orðtak)  Velja einn fremur en annan; gera sér mannamun.  „Þeir eru báðir hörkugóðir smalar; ég geri ekki upp á milli þeirra“.  „Ég geri ekki upp á milli þessara hrúta hvað bygginguna varðar“.

Gera upp hug sinn (orðtak)  Ákveða sig; taka afstöðu/ákvörðun; mynda sér skoðun.  „Ég er enn ekki búinn að gera upp hug minn um þetta.  Maður hrasar ekki svona ákvörðun. 

Gera upp orð/ skoðanir (orðtak)  „Ég ætla ekki að gera honum upp orð, en ég held að meiningin hafi verið þessi“.  „Ég kann ekki við að mér séu gerðar upp skoðanir, eins og síðasti ræðumaður gerði“.

Gera upp reyk (orðtak)  Kveikja undir til reykingar í reykkofa.  „Rauðmaginn var etinn nýr; saltaður og reyktur. Einnig stundum bara hertur og borðaður einætur; helst ef lítið var af honum, svo ekki þótti taka því að gera upp reyk fyrir hann“  (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms). 

Gera upp við sig (orðtak)  Ákveða sig; taka afstöðu.  „Þórður Jónsson taldi höfuðatriði að menn gerðu upp við sig kosti og galla sameiningarinnar“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Gera uppá bak (orðtak)  Kúka svo rækilega í buxurnar/bleyjuna að hægðirnar fari uppeftir baki.  Stundum notað í líkingum um þann sem klúðrar málum rækilega.

Gera upptækt (orðtak)  Taka í sína vörslu; nema á brott; hirða; leggja hald á.

Gera um sig (orðtak)  Færast í aukana; grassera; gerjast; aukast.  „Lúpínan er fljót að gera um sig þar sem hún nær fótfestu; og gjörbreyta landslagi og lífríki.  Ég vona að sá skratti komi aldrei í Kollsvíkurland“!

Gera um/utanum (orðtak)  A.  Binda band tryggilega utanum netastein, oftast þá átt við endastein eða miðmætingsstein.  B.  Smíða/girða utanum.  „Ætli verði ekki eitthvað að ger utanum garðholuna, ef hún á að verða í friði“.

Gera/valda usla (orðtak)  Vera með átroðning; valda tjóni/skaða.  „Grasmaðkurinn gerði töluverðan usla“.

Gera úr garði (orðtak)  Útbúa; hafa til.  „Ég reyndi að gera þetta sem best úr garði“.  Upphaflega merkingin er að útbúa mann fyrir ferðalag, t.d. með nesti, fatnað o.fl.  Garður merkir þarna heimili.

Gera úlfalda úr mýflugu (orðtak)  Gera óþarflega mikið úr lítilfjörlegu málefni.  „Við skulum nú ekki gera úlfalda úr mýflugu; skaðinn er kannski ekki svona mikill“.  Líkingin á sennilega rætur í biblíunni, enda hafa úlfaldar ekki enn tekið land hér.  Þaðan er einnig spekin að „sía mýfluguna en svelgja úlfaldann“.

Gera út af örkinni (orðtak)  Senda einhvern í ákveðnum erindagjörðum.  „Hann var gerður út af örkinni með einhverja skoðanakönnun“.  „Ég var gerður út af örkinni til að sækja salt“.  Vísar til dúfu Nóa í Örkinni.

Gera út um (orðtak)  Um deilumál/sakir/skuld; ganga frá; semja; komast til botns í; jafna sakir.  „Þeir sömdu loks um að taka eina glímu til að gera út um það hvor væri liprari“.

Gera útrækan (orðtak)  Reka af/burt/frá/út.  „Hann heimtaði að nábúinn yrði gerður útrækur af jörðinni“.

Gera útslagið á (orðtak)  Ríða baggamuninn um; ráða úrslitum.  „Þessi harðindavetur gerði útslagið á það að hann ákvað að bregða búi, en lengi hafði það legið í loftinu“.  Sjá útslag.

Gera vel við (einhvern) (orðtak)  Vera einhverjum góður; veita einhverjum vel.  „Þau tóku á móti okkur og gerðu vel við okkur í alla staði“.

Gera vart við sig (orðtak)  Láta vita af sér; sýna að maður er kominn/mættur.  „Þeir komu hér heim á hlað og fóru aftur án þess að gera vart við sig“.

Gera/gjöra veður úr/útaf (orðtak)  Æsa sig vegna; fjargviðrast yfir.  „Ég nenni nú ekki að gera veður útaf því að menn stelist í fáeina eggjakoppa, svo lengi sem þeir slasa sig ekki á þessu fikti“.  „Í þá tíð var miklu meira veður gjört úr svona hneyksli“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Gera við (eitthvað) (orðtak)  A.  Lagfæra; laga.  „Það má gera við þessa skemmd“.  B.  Taka slag í spili (vist/bridds) sem síðastur í hringnum (íbakhönd).  „Ég ræð ekki við þetta; þú verður að gera við“.

Gera við (einhverju) (orðtak)  A. Fá rönd við reist; hindra framgang.  Stýrir þá alltaf þágufalli.  „Ömurlegt er að horfa uppá þessa landeyðingu, en það er víst lítið við þessu að gera“.  B. Búast við; gera ráð fyrir.  „Ég geri við að þeir fái einhverja fisktitti; allavega nóg í soðið í kvöld“.   „Hann gerði við því að verða kominn heim fyrir mjaltir“. 

Gera víðreist (orðtak)  Fara víða.  „Þú er víst búinn að gera víðreist síðan þú komst hérna síðast“?

Gera þarf fleira en gott þykir (orðatiltæki)  Vísar til þess að það er ekki alltaf skemmtilegt/vinsælt/þægilegt sem nauðsynlegt er að framkvæma.  „Ég nenni nú varla að fara á þennan fund; en það þarf víst að gera fleira en gott þykir“.

Gera þarfir sínar (orðtak)  A.  Gera það sem nauðsynlega þarf.  B.  (Algengara)  Hægja sér; leysa buxur; tefla við páfa; létta á sér; kúka o.fl.  „Nú eru þessir andskotans túristar farnir að gera þarfir sínar í réttarhorninu“!

Gera því skóna / Gera því á fæturna / Gera að því skóna/skæðin (orðtak)  Reikna með; slá föstu; ganga út frá því sem vísu.  „Ég bara geri því skóna að búið verði að opna veginn“.  „Ég ætla nú ekki að gera því á fæturna að þetta verði svona“.

Gerandi (l)  Gerlegt; framkvæmanlegt; mögulegt.  „Það er varla gerandi að koma bátnum í vagn, svona á háfjöru“.  „Heldurðu að það sé gerandi að draga eggin hérna upp“?

Gerbreyta (s)  Breyta algerlega( mjög mikið; gjörbreyta.  Eflaust er „gjörbreyta“ upprunalegra.

Gerð (n, kvk)  A.  Verknaður; framkvæmd.  „Mér var alltaf fremur illa við þessa gerð“.  „Söm er þín gerð“.  B.  Dómur; ákvörðun; fundarniðurstaða.  „Málið var lagt í gerð“.  „Gerðir stjórnar skal færa í gerðabók“.  C.  Gerjun.  „Gerðin í brauðinu verður til þess að það hefast“. D.  Tegund; fyrirkomulag.  „Þessi bíll var af annarri gerð“.  „Flestar voru verbúðirnar sömu gerðar“.

Gerðabók (n, kvk)  Fundagerðabók; bók sem ákvarðanir stjórna/funda eru færðar/ritaðar í.

Gerðarlegur (l)  Myndarlegur; viðkunnalegur.  „Mér sýndist þetta bara nokkuð gerðarlegur piltur“.

Gerði (n, hk)  Girðing; hólf; svæði afmarkað af hindrunum.  „Framanvið fjósið var úbúið kálfagerði“.

Gerðu/gjörðu svo vel (orðatiltæki)  Kurteisislegt ávarp sem venja er að viðhafa þegar maður býður öðrum manni eitthvað; hvort sem það er matur eða annað.  Sjá bjóða.

Gerður/hafður að skotspæni (orðtak)  Látinn taka á sig alla sök/ taka við öllum skömmum; skammaður; gagnrýndur.  „Fyrir þetta var hann ranglega hafður að skotspæni; allt þar til hið sanna upplýstist“.

Gerhugull (l)  Mjög athugull/skarpskyggn.  „Hann þótti með eindæmum gerhugull og ráðagóður“.

Gerir ekki boð á undan sér (orðtak)  Um það/þann sem birtist óvænt.  „Mundu eftir að setja frostlög á traktorinn.  Næturfrostið gerir ekki mikil boð á undan sér“.  Sjá gera boð á undan sér.

Gerir gott og klæjar (orðtak)  Finnst eitthvað vera í senn eftirsóknarvert og fráhrindandi.  „Víst er hann ánægður með að vera boðin formennska á bátnum.  En honum gerir gott og klæjar; hann er alltaf svo drullusjóveikur og var búinn að heita því að fara aldrei aftur á sjó“.  

Gerir hvorki til né frá (orðtak)  Skiptir engu; skiptir ekki máli.  „Mér finnst að það geri hvorki til né frá þó hann fái að hirða þessar spýtur“.

Gerjast (s)  Koma gerð í; gerlar farnir að umbreyta; verða áfengt.  „Ég er ekki frá því að þessi rabbabarasaft sé farin að gerjast töluvert“.

Gerkunnugur (l)  Mjög vel kunnugur; þekkir mjög vel til.  „Á þessum slóðum er ég gerkunnugur“  Upprunalegra er þó orðmyndin „gjörkunnugur“, og meira notuð í máli Kollsvíkinga.

Gerla / Gjörla (ao)  Ítarlega; alveg.  „Ég sé ekki gerla hvort þarna eru tvær kindur eða þrjár“.  Báðar orðmyndir heyrðust notaðar í Kollsvík, en þó mun þessi líklega vera þar eldri.  „Sést gerla fyrir hleðslu vegkantsins upp brekkuna í Kollsvík“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Gerlegt (l)  Gerandi; framkvæmanlegt.  „...ekki þótti gerlegt að draga mennina upp í svartamyrkri...“  (MG; Látrabjarg).

Gerningahávaði (n, kk)  Ærandi hávaði.  „Þá komu yfir okkur tvær orrustuþotur; skríðandi með jörðinni; með þessum ærandi djöfulsins gerningahávaða og látum að það söng og hvein í nálægum fjöllum.  Það er eins gott að hafa hlaðinn byssuhólkinn með í för, næst þegar maður fer í friðsamlegan spássérstúr“!

Gerningahríð (n, kvk)  Aftaka stórhríð/hriðarveður.  „Það gerði á okkur þvílíka gerningahríð að ég hef sjaldan lent í örðu eins“!

Gerningamyrkur (n, hk)  Niðamyrkur; óvænt myrkur.  „Maður sér ekki handaskil í þessu gerningamyrkri“!

Gerningaveður (n, hk)  Aftakaveður; óskiljanlega slæmt veður.  „Og á skömmum tíma hafði hann skipt úr stilltu veðri yfir í öskrandi byl og sannkallað gerningaveður“.

Gerningaþoka (n, kvk)  Mikil og óvænt/þykk þoka.  „Það er að leggja upp einhverja gerningaþoku.  Settu á þig vindáttina svo við náum til lands“.

Gernýta (s)  Nota til fulls/algerlega.  „Til að komast af fyrr á tíð þurfti að gernýta þá lífsbjörg sem í boði var“.

Gernýttur (l)  Notaður til fulls/upp til agna.  „Þar var hver einasti spýtubútur og bandspotti gernýttur“.

Gerólíkir (l)  Mjög ólíkir.  Eldra og algengara er þó „gjörólíkir“.

Gerónýtur (l)  Algerlega ónýtur; liðónýtur; handónýtur.  „Ég held að þessi blessaður mjaltastóll sé gerónýtur“.

Gerpi (n, hk)  Furðufyrirbæri; skrípi; gimpi; niðrandi orð um mann eða dýr.  „Burt með þetta gerpi“!

Gerringslegur (l)  Reigingslegur; montinn.  Heyrist ekki nú til dags.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Gerræði (n, hk)  Tilræði; glæpsamlegt ráðabrugg.  „Stefna stjórnvalda í byggða- og atvinnumálum, síðustu áratugina, hefur verið hreint gerræði við afkomumöguleika dreifbýlisins“!

Gersamlega (l)  Algerlega; alveg.  „Sandburður var svo mikill í Grundafjöru að Pallasteinn hvarf gersamlega“.

Gersemi (n, kvk)  Dýrgripur; djásn.  „Ætlarðu að tjasla við hrífufjandann eina ferðina enn?  Þetta er nú engin gersemi lengur“.

Gersneyddur (l)  Frábitinn; alveg laus við; auður.  „Ég er svo gersneyddur allri virðingu fyrir þessu pumpuliði“.

Gerspilltur (l)  Mjög óheiðarlegur/undirförull.  „Svona gerspillta kóna þarf að uppræta úr stjórnkerfi landsins“!

Gert er gert (orðatiltæki)  Því verður ekki breytt sem búið er að gera/framkvæma.

Gervallur (l)  Alveg/algerlega allur.  „Það er eins og gervallur fiskur sé horfinn eftir þennan óveðurskafla“.

Gervilegheit (n, hk, fto)  Prúðmennska; mannkostir.  „Þetta er bara gervilegheita kona sem hann hefur náð í“.

Gervilegur (l)  Myndarlegur; kostum búinn; gerðarlegur.  „Þótti skaði að missa svo gervilegan mann á besta aldri í þessu hörmulega slysi“.

Gervitennur / Gervitönnur (n, kvk, fto)  Falskar tennur; tanngarðar úr gerviefnum.  „Hvar laggdi ég nú gervitönnurnar mínar“

Gerþekkja (s)  Þekkja mjög vel; gjörþekkja.  „Ég gerþekki staðhætti þarna, ekki síður en lófann á mér“.

Gestakomur (n, kvk, fto)  Heimsóknir gesta.  „Gestakomur hafa alltaf verið tíðar í Kollsvík, einkum að sumarlagi.  Þó föst búseta sé þar minni nú en áður dregur síst úr traffikinni, þó færri líti í bæinn en áður“.

Gestalæti (n, hk, fto)  Feimni; óframfærni.  „Vertu ekki með þessi gestalæti; hagaðu þér eins og heimamaður“.

Gestaspjót (n, hk)  Um hegðun katta, sjá;  setja upp gestaspjót.

Gestir og gangandi (orðtak)  Fólk almennt; ferðafólk. „Alltaf er hún með tertur og kruðerí sem hún trakterar gesti og gangandi á“.  Sjá fyrir gesti og gangandi.

Gestkomandi (l)  Aðkomandi; staddur sem gestur.  „Einnig Gestur Jósefsson frá Kollsvík; hann var gestkomandi að Hvallátrum og reri þennan eina róður með Erlendi“  (ÖG; Þokuróður).

Gestkvæmt (l)  Mikið um gesti.  „Það var töluvert gestkvæmt hérna á síðustu helgi“.

Gestrisni (n, kvk)  Góð móttaka gesta; greiðasemi við gesti.  „Gestrisni var sjálfsagðari fyrrum en nú er“.

Geta (s)  A.  Vera fær um; afkasta; klára.  B.  Giska á; geta uppá.  „Sumsstaðar þarf að geta í eyðurnar“.  C.  Segja frá; nefna.  „Utantil í mýrinni er lækur; kvísl úr Melanesá er síðar getur“  (ÍH; Örn.skrá Melaness).  D. Eignast afkvæmi.  „Ég veit ekki til að þau hafi getið fleiri börn“.

Geta (n, kvk)  Færni; afköst.  „Það þýðir ekki að ætla sér meira en getan leyfir“.  „Þó hann sé að reyna þetta þá er það engin geta“. 

Geta (einhvers) að góðu einu (orðtak)  Tala einungis vel um einhvern en aldrei illa; minnast einhvers vegna þess sem hann gerði gott/jákvætt.

Geta/gefa að líta (orðtak)  Sjást; koma í ljós; unnt að sjá.  „Þarna gaf að líta stóran fjárhóp“.

Geta af sér (orðtak)  Fjölga sér; eignast afkomanda/afkvæmi; skapa.  „Þegar útgerðin fluttist úr Útvíkum á Eyrar gat hún af sér ýmsa þjónustustarfsemi, sem leiddi til þéttbýlismyndunar“.

Geta andað léttara (orðtak)  Losna við áhyggjur; laus við spennu/kvíða.  „Nú er mesti þurrheyskapurinn frá,og þá getum við farið að anda léttara“.

Geta átt það til (orðtak)  Henda/ske stundum.  „Það er vissara að hefta kúna, hún getur átt það til að sparka fötunni aftur í flór“.  „Gummi var lægri og grennri maður en Liði, en kvikur á fæti, ákafa- og dugnaðarmaður, fljóthuga og gat átt það til að vera dálítið fljótfær“  (PG; Veðmálið). 

Geta ekki að því gert (orðtak)  Geta engu um það ráðið; geta ekki breytt framgangi/niðurstöðu.  „Ég gat ekkert að því gert þó svona færi; þarna var engu hægt að breyta“.

Geta ekki á heilum sér tekið (orðtak)  Komast yfir.  „Ég get bara ekki á heilum mér tekið að hafa gert þessi mistök“.  „... en hún gat ekki á heilli sér tekið árum saman“  (SG; Læknisráð; Þjhd.Þjms).  

Geta ekki á sér setið (orðtak)  Ráða ekki við sig; láta eftir sér.  „Ég gat ekki á mér setið að stríða honum dálítið útaf þessu“.

Geta/fá ekki betur séð (orðtak)  Komast helst að þeirri niðurstöðu; sjá það helst.  „Ég get ekki betur séð en að kindin sé alveg búin að taka undirvaningnum“.

Geta ekki haldið aftur af sér / Geta ekki hamið/stillt sig (orðtak)  Láta eftir sér; láta flakka.  „Ég átti erfitt með að halda aftur af mér með hláturinn þegar ég sá svipinn á honum“.

Geta ekki litið réttu auga (orðtak)  Vera ekki sáttur við; vera í nöp við.  „Mér sárnaði mikið þessi orð, og ég hef ekki getað litið hann réttu auga síðan“.

Geta ekki orða bundist (orðtak)  Geta ekki þagað (lengur); finna sig knúinn til að tala.  „Mér ofbauð svo bullið í karlinum að ég gat ekki orða bundist“.

Geta ekki tára bundist / Geta ekki varist tárum (orðtak)  Geta ekki annað en tárast/grátið. 

Geta enga björg sér veitt (orðtak)  Vera hjálparlaus; geta ekki bjargað sér.  „Mennirnir í bátnum geta því enga björg sér veitt“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá björg.

Geta gátu (orðtak)  Ráða gátu.  Að geta gátur var vinsælt tómstundagaman á bæjum í Kollsvík meðan þar var nokkuð fjölmenni.  Slíkt lagðist nær alveg niður með tilkomu sjónvarps.

Geta hvorki hreyft legg né lið (orðtak)  Geta ekkert hreyft sig; vera þvingaður fastur.  „Ræsið var svo þröngt að ég hefði ekki getað hreyft legg né lið hefði ég reynt að skríða í gegnum það“.

Geta/giska í eyðurnar (orðtak)  Ráða í merkingu þess sem sagt er á óljósan hátt.

Geta í hvorugan fótinn stigið / Geta í hvoruga löppina stigið (orðtak)  Vera svo ánægður/glaður/montinn/spenntur að maður er á iði.  „Ég var yfir mig ánægður með þetta og gat í hvorugan fótinn stigið af eftirvæntingu“.  „Hann gat í hvorugan fótinn stigið af monti yfir þessum árangri“.

Geta (ekki) litið (einhvern) réttu auga (orðtak)  Sýna einhverjum tortryggni; vera einhverjum sár/móðgaður/reiður.  „Ég hef ekki fyllilega getað litið hann réttu auga síðan hann nappaði af mér hnífnum“.

Geta/fara nærri (orðtak)  Giska rétt; vita.  „Þú getur nærri um það, hvort ekki var farið að síga í mig“!

Geta sagt sér sjálfur (orðtak)  Geta ímyndað/hugsað sér; vita.  „Ég hefði svosem getað sagt mér það sjálfur að þetta gæti gerst“!  „Hann hefði nú alveg getað sagt sér þetta sjálfur; óttaleg skammsýni er þetta“!

Geta sér gott orð / Geta sér góðan orðstír (orðtak)  Vinna sig í álit; vinna sér til frægðar.  „Ungmennafélagið Von á Rauðasandi hafði getið sjer góðan orðstír og hafði hylli allra“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).  „Magnús Ólafsson frá Botni var lengi með þessa ýtu og gat sér gott orð fyrir afköst og verklagni“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Geta sér til um (orðtak)  Giska á.  „Það má svo reyna að geta sér til um hvernig Kollur hefur bjargast á land úr sínu strandi á Arnarboða forðum tíð“.

Geta sig hvergi hrært (orðtak)  Geta ekki hreyft sig; komast ekki áfram.  „Ég er hérna lokaður inni í horni og get mig hvergi hrært“.

Geta sjálfan sig séð (orðtak)  Geta litið í eigin barm; geta sett sig í sporin.  „Mér fannst slæmt að komast ekki með ykkur í róðurinn, en konan var lasin og enginn til að mjólka.  Það getur hver sjálfan sig séð í því“.

Geta sjálfum sér um kennt (orðtak)  Eiga sjálfur sök á.  „Hann getur sjálfum sér um kennt ef afföll verða af fénu þarna í Bjarginu; hann hefur alltaf sett öll lömb á af þessum slóðum“!

Geta trútt um talað (orðtak)  Geta tjáð sig af reynslu.  „Hann getur trútt um talað þegar hann varar við að fara þennan gang.  Þar hrundi undan honum í fyrra“.

Geta trútt um talað (orðtak)  Tala af reynslu.  „Það er best að hann segi þér frá þessu; hann ætti að geta trútt um talað, sem lenti sjálfur í þessu“.

Geta um (eitthvað) (orðtak)  Minnast á eitthvað; nefna eitthvað.  „Hann gat ekkert um þetta við mig“.

Geta um frjálst höfuð strokið (orðtak)  Vera frjáls/ laus við skyldur. 

Geta uppá (orðtak)  Giska á; ráða í.  „Þessu hefði ég aldrei getið uppá“.

Geta varla haldið vatni yfir (einhverju) (orðtak)  Vera eftirvæntingarfullur/óþreyjufullur.  Afbökun á orðtakinu mega varla/vart vatni halda.

Geta öngva björg sér veitt (orðtak)  Vera bjargarlaus/ósjálfbjarga.  „Ég sá að ég var kominn í sjáfheldu og myndi enga björg mér geta veitt, fyrr en þeir köstuðu til mín lásbandinu“.

Getast að (orðtak)  Líka við; falla við.  „Mér gest ekki alveg að þessum vinnubrögðum þingsins“.

Getgátur (n, kvk, fto)  Ágiskanir; tilgátur.  „Það voru uppi ýmsar getgátur um þetta“.

Getsakir (n, kvk, fto)  Rikti; ósönnuð sök; illt umtal. „Í Sjöundármálinu var fólk borið getsökum, að því er virðist, og rannsókn málsins hefði varla staðist nútíma kröfur um vndða málsmeðferð“.  „Ég ætla ekki að hafa uppi neinar getsakir um þetta“.

Getspakur (l)  Sannspár; getur rétt til.  „Hann reyndist nokkuð getspakur í þessum efnum“.

Gettu (nú/bara) hvað! (orðtak)  Stundum notað í byrjun setningar af þeim sem er íbygginn/ vill byggja upp spennu hjá viðmælanda.

Getulaus (l)  A.  Hefur ekki bolmagn/fjármuni.  „Hann reyndist alveg getulaus þegar gengið var eftir greiðslu“.  B.  Ekki fær um að geta börn.  „Karlinn var ekki alveg getulaus, þó kominn væri á efri ár“.

Getur brugðið í báðar áttir / Getur borið til beggja vona (orðtak)  Getur farið á báða vegu; getur versnað eða batnað.  „Hann er frekar að lagast eftir áfallið, en þeir segja þó að enn geti brugðið í báðar áttir með framhaldið“.  „Þegar veður var tvísýnt gat borið til beggja vona að dagurinn yrði til enda tryggur, en oftast þó sá róðurinn sem farinn var“  (KJK; Kollsvíkurver).

Getur hver sjálfan sig séð (í því) (orðtak)  Getur hver sett sig í þau spor; hægt að ímynda sér eigin viðbrögð.  „Þetta var alveg óþolandi aðstaða hjá honum; það getur hver sjálfan sig séð í því“.

Getur tekið af  gamanið (orðtak)  Getur orðið alvarlegt/slæmt.  „Það er ekkert að því að dóla hérna í röstinni í svona veðri, en ef hér stendur stíft fall undir hvassan norðanvind; þá getur nú tekið ef gamanið góði minn“! 

Getur trútt um talað (orðtak)  Sjá má trútt um tala.

Gey (n, hk)  Grey; gæluorð þegar talað er til barna.  „Komdu nú geyið mitt; þú þarft að fara að hátta“.

Geyma sér sjóveður (orðtak)  Draga það að fara á sjó þegar gefur.  Eftirfarandi heilræði er það sem hvað oftast er haft um hönd í Kollsvík:  „Það hefur aldrei þótt ráðlegt að geyma sér sjóveður“.

Geymdu ekki til morguns það sem þú getur gert í dag (orðatiltæki)  Auðskilin speki hins hagsýna, sem oft vill gleymast hinum værukæra.  Honum stendur e.t.v. nær önnur speki; frestur er á illu bestur.

Geymisskór (n, kk)  Pólskór; klemma, oft úr blýi eða kopar, til að festa rafleiðslu á pól rafgeymis.  „Geymaskór“ í fleirtölu.

Geymissýra (n, kvk)  Rafgeymasýra; blönduð brennisteinssýra sem notuð er á blýrafgeyma.  „Það hafði hellst geymissýra niður á mig þegar ég var að bera geymirinn.  Mig sakaði ekkert, en þegar ég háttaði sá ég að bómullarnærbuxurnar höfðu gufað upp að framanverðu.  Í raun höfðu þær breyst í sprengibómull, eins og notuð er í skotfæri“.

Geymslubragð (n, hk)  Fúkkabragð; óbragð.  „Árans geymslubragð er nú komið af þessu súkkulaði“.

Geymslukytra (n, kvk)  Lítil geymsla.  „Ekki voru húsakynnin stór; aðeins eldhús; lítið herbergi innaf því; auk geymslukytru“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Geymt en ekki gleymt (orðtak)  Verður munað/fest í minni til síðari tíma.  „Hann losaði stígvélið af króknum í rólegheitum; beitti hann og renndi aftur; þegjandi og hljóðalaust.  Þetta atvik var geymt en ekki gleymt“.

Geysa (s)  Þjóta; herja; dynja á.  „En svo er það hinn svipurinn.  Veður geysa af hafi.  Brimið er stórkostlegt“  (KJK; Kollsvíkurver).

Geysifjöldi (n, kk)  Mjög mikill fjöldi; akur; stappa.  „Það var geysifjöldi af netum innmeð öllum Hlíðunum“.

Geysiharður (l)  Um straum; hlut; vetur o.fl; mjög harður.  „Straumur getur orðið geysiharður útmeð öllu Bjarginu, en þó einkanlega fyrir Tangana“.

Geysilega (l)  Mjög; afar.  „Tengdamóðir mín sagði að hér í Kollsvík hefði verið geysilega mikið notað af fugli úr Bjarginu“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Geysilegur (l)  Mjög mikill.  „Báturinn reis að aftan og hallaðist mikið í bak, svo við lá að hann tæki sjó um bátsrúmið; svo tók hann geysilegt hlaup“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Geysimikill / Geysistór (l)  Mjög mikill/stór.  „Þetta er geysimikill bátur“.

Gifta (s)  Gefa mann og konu saman í hjónaband.  „Þá fór ég að Kvígindisdal og við Jóna giftum okkur í Sauðlauksdal.  Séra Gísli Kolbeins gifti okkur í stofunni í gamla húsinu“  (IG; Æskuminningar). 

Giftudrjúgur (l)  Til mikillar gæfu; bætir heppni/lán.  „Það hefur ekki reyns neinum giftudrjúgt að æða af stað án þess að gá til veðurs; hvorki til róðra né langferða“.

Giftur (l)  Gefinn maka með vígslu.  „Eitt sinn var ég giftur, og átti konu og bú/ á öllu slíku var þá mikill kraftur./  En fjandinn kom í spilið og farin er hún nú;/ ég fer víst ekki að byrja á slíku aftur“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Giftusamlega (l)  Farsællega; vel.  „Þá er þessari frásögn um björgunina að verða lokið.  Hér tókst giftusamlega til.  Enginn varð fyrir alvarlegu slysi, þó oft væri mjórra muna vant“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Giftusnauður (l)  Ólánssamur; ógæfusamur.  „Hann hefur verið frekar giftusanuður í kvennamálunum“.

Gikkfastur (l)  Alveg fastur; pikkfastur.  „Skotið sitursvo gikkfast í hlaupinu að ég næ því ekki úr“.  Líklega ekki gamalt í málnu.

Gigtarfjandi (n, kk)  Slæm gikt.  „Fallega lætur hún við mig núna, gigtarfjandinn“.

Gigtarflog / Gigtarkast / Gigtarstingur / Gigtartak  / Gigtarverkur / Gigtveiki .  Verkjakast vegna gigtar, en til gigtar var ýmislegt flokkað áður sem fengið hefur önnur nöfn nú, s.s. brjósklos og önnur hryggjarmein.  Margt af því skapaðist eflaust af vinnuhörku og misjöfnum rúmfletum; og ekki var vekjalyfjum fyrir að fara.

Gikksháttur (n, kk)  Sérviska; fyrirtektir.  „Vertu ekki með þennan gikkshátt og skelltu þessu í andlitið á þér“.

Gikkslegur (l)  Eins og gikkur/sérvitringur.  „Vertu nú ekki svona gikkslegur og smakkaðu á þessu“!

Gikkur (n, kk)  A.  Pinni til að hleypa skoti af byssu.  B.  Sérvitringur; vandlátur á mat.  „Þú ert óttalegur gikkur ef þú vilt ekki einusinni smakka signu grásleppuna“.  „Þetta er nú bara gikksháttur í honum“.

Gil  / Gilfarvegur (n, hk)  Djúp vatnsrás.  Frá fornu fari merkir orðið farveg sem vatn hefur skorið í umhverfi sitt; sbr Gilið á Láganúpi, sem stundum er nefnt Hólagil; Ytragil þar fyrir utan; Sandagil (Sangdgil) milli Blakks og Núps; Lynggil, neðan Keldeyrardals; Flókagil og Hafnargil í sunnanverðum Breið.

Gilbarmur (n, kk)  Bakkar gils.  „Kartöflugryfjan var grafin inn í gilbarminn“.

Gildi (n, hk)  A.  Verðmæti; merking; innihald.  „Svona loforð hefur lítið gildi ef efndirnar eru engar“.  „Þetta er það sam gefur lífinu gildi.  B.  Veisla.  Sbr gildaskáli; reisugildi.  C.  Félag iðnaðarmanna í Evrópu fyrrum.  Finnur Thorlacius frá Saurbæ var um tíma í gildi trésmíða meðan hann dvaldist þar sem farandsmiður.

Gilding (n, kvk)  Áfella/styrking; það sem sett er á hlut til að styrkja hann.  „Hvalbein voru eftirsótt í hlunna, enda renna bátar vel á þeim.  Þegar lítið var um hvalbein voru notaðir hlunnar úr tré, en ofaná þá var felld flís úr hvalbeini; svokölluð gilding.  Þá var stundum fellt hvalbein á þann hluta borðstokks sem árin lék á; einnig nefnt þrælka.

Gildingshlunnur (n, kk)  Hlunnur til sjósetingar á báti, gerður úr tré en með flis/stykki af hvalbeini á slitfletinum, til að auka endingu og til að báturinn renni betur á hlunninum.  „Þegar ég rótaði í sandfylltri tóft á bak við Afakofann í Láganúpsfjöru, kringum 1970, fann ég m.a. forna heimasmíðaða reislu úr járni; einn vaðarstein og einn gildingshlunn.  Líkast til allt frá Grími Árnasyni.  Reisluna fékk Guðrún Grímsdóttir; vaðarsteinninn er enn á Láganúpi, en hlunnurinn fór á Byggðasafnið á Hnjóti“ (VÖ).

Gildingsfiskur / Gildingur (n, kk) Fiskur af ákveðinni stærð/þyngd sem er gild verðeining í viðskiptum.  Geur verið eitt af eftirfarandi: A.   Flattur þorskur sem er alin að breidd um þunnildin.  B.  Þorskur sem  vegur 16 merkur hausskorinn og slægður.  C.  Þorskur sem vegur 4 merkur (1 kg) hertur.  „Sex fjórðungar af blautum hákarli í fjöru samsvöruðu tólf gildingsfiskum“ (LK; Ísl.sjávarhættir III). 

Gildingur (n, kk)  A.  Fleða/flís úr hvalbeini sem felld er á slitflöt til að varna sliti.  Slíkir gildingar voru notaðir m.a. á gildingshlunna og á steinbítsgogga.  B.  Gildingsfiskur (sjá þar).

Gildir einu (orðtak)  Skiptir ekki máli; kemur niður í sama stað.  „Það gildir mig einu hvort þú greiðir þetta með peningum eða ávísun“.

Gildir einu hvaðan gott kemur / Sama er hvaðan gott kemur ( orðatiltæki)  Maður tekur því góða, sama hver gefandinn er.

Gildleiki (n, kk)  Sverleiki; þykkt; þvermál.  „Rósinkrans sagði að álarnir á Rauðasandi væru að gildleika eins og mannshandleggur.  Kransi var mikill fræðimaður, en sumir hafa dregið þetta í efa“.

Gildna undir belti (orðtak)  Um kvenmann; verða ólétt.  „Hún er farin að gildna allmjög undir belti“.

Gildrag (n, hk)  Grunnt/stutt gil.  „Framanvið Startjarnir eru gildrög úr nokkrum áttum að dalbotninum“.

Gildrulagning (n, kvk)  Það að leggja gildrur fyrir veiðidýr/bráð.  „Músagangur var eilíft vandamál í Gjögraverslun.  Jónsi velti því stundum upp að kvikindin yrðu til úr engu; í þeim eina tilgangi að gera bölvun.  Það var eins og hvorkidygðu til eilífar viðgerðir og þéttingar á húsunum né sífelld gildrulagning“.

Gildur (l)  A.  Sver; mikill að þvermáli; gildvaxinn.  „Þetta er nokkuð gildur trjábolur“.  B.  Í gildi; að fullu marktækur; trúverðugur  „Þetta er fullgild kvittun“.  „Hann sagðist hafa góða og gilda afsökun“.  „Hver gildur bóndi þarf að leggja til mann í fjallgöngur“.

Gildur bóndi (n, kk)  Í dag er orðið notað yfir bónda sem er jarðeigandi og hefur nokkur umsvif.  Fyrr á tíð merkti orðið þingfararbónda.

Gildur fiskur (orðtak)  Verðeining fyrr á öldum.  Gildur fiskur er eitt kíló af skreið og tveir gildir fiskar jafngilda einni alin (sjá álnir vaðmáls/ búalög).

Gildvaxinn (l)  Þrekinn; feitur; í góðum holdum.  „Marinó í Tungu var nokkuð gildvaxinn og samanrekinn, en léttari mann hef ég ekki dregið í bjargsigi; kæmi hann fótum einhversstaðar við til að létta dráttinn“.

Gilja (s)  Sænga með; komast yfir; tæla.  „Hann sagðist hafa giljað þær ófáar, á sínum skólaárum“.

Giljóttur (l)  Með mörgum giljum.  „Tálkninn er sérkennilegur múli; giljóttur og gróðursnauður“.

Gillemoj (n, hk)  Safnorð með óvissan uppruna og aldur; notað um óskilgreindan hóp eða safn hluta.  „Túristaskrattarnir höfðu skilið hliðið eftir opið, og bæði kálfahyski og túnrollur voru ekki sein á sér að nýta það.  Ég hljóp til og rak allt heila helvítis gillemojið útaf með það sama; og túristahyskið með“!

Gimbrakofi (n, kk)  Hús/kofi fyrir gimbrarlömb/gemlinga.  „Fjárhúsin voru tvö, auk gimbrakofa, og stóðu þau niður við sjó“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Gimbur / Gimbrarlamb Lamb af kvenkyni.  „Venja er að tala um gimbur fram á næsta vetur eftir burð, en síðan gemling; veturgamla á eftir veturinn; tvævetlu eftir þann næsta og síðan þriggja vetra; fjögurra o.s.frv“.

Gimpi (n, hk)  Gerpi; auli; skrípi.  Stytting úr himpigimpi.  „Alltaf er hnn samur við sig, þetta gimpi“!

Gin (n, hk)  Kjaftur; hvoftur.  „Í hvert sinn þegar karlinn nálgaðist, opnaði hrúturinn ginið og beið þess að hann spýtti tóbaksslummunni í mark.  Líklega hefur hann verið háður nikótíninu, ekki síður en karlinn“.

Gina / Ginfjara (n, kvk)  Mjög stór fjara; stórstraumsfjara.  „Stærstar verða ginfjörur í góuginunum“.

Ginheilagt (l)  Alveg/mjög heilagt/ósnertanlegt.  „Tóbakspontan var honum ginheilög; hana lét hann aldrei frá sér nema hann hefði tóbaksdós í staðinn.  Vasahnífurinn var einnig fast fylgifé“.  Í Kollsvík var fremur notuð orðmyndin „ginheilagur“ en „ginnheilagur“ sem annarsstaðar tíðkaðist.  Hið einfalda „n“ er nokkuð örugglega upprunaleg mynd.  Orðið á líklega rætur aftur í ásatrú eða trú á náttúruvætti.  „Gin“ merkir það sem er mikið/mikilfenglegt, sbr nafnorðið „gin“ og sagnirnar að „gína yfir“; „gína við“, og „ginur“ sem eru miklar fjörur.  Ginhelgi er því mikil helgi.  Heilagir staðir voru ginheilagir, og goð ginheilög.  Staðir sem ekki voru viðurkenndir sem heilagir, þrátt fyrir vilja einhvers, voru skinheilagir/skinhelgir (sjá þar).

Ginhelgi (n, kvk)  Mikil helgi.  Sjá ginheilagt.  „Ég skil nú ekki að það sé svo mikil ginhelgi á þessu að engu megi breyta“!

Ginklofi (n, kk)  Ungbarnastífkrampi.  Sjúkdómur sem orsakast af gerli í jarðvegi og olli miklum barnadauða sumsstaðar á landinu áðurfyrr, þar sem ekki var sýnt nægt hreinlæti, einkum við fæðingar.  Var einkar skæður í Vestmannaeyjum fram á miðja 19. öld.  Veldur krampa og m.a. stífleika í kjlakaliðum dýra og manna og skemmdum á miðtaugakerfi.

Ginna (s)  Lokka; fá til með gilliboðum; tæla; beita brögðum; leika á.  „Mér tókst að ginna kálfinn innfyrir með ilmandi nýrri töðu“.

Ginningarfífl (n, hk)  Einfeldingur sem lætur ginnast.  „Ekki ætla ég að vera þeirra ginningarfífl“.

Ginnkeyptur (l)  Auðfenginn; áfjáður; áhugasamur.  „Ég er nú ekki ginnkeyptur fyrir þessháttar óþarfa“.

Girða af (orðtak)  Aðskilja með girðingu.  „Um miðja síðustu öld var reynt að girða Breiðinn af, þannig að sauðfé kæmist ekki í hann“  (HÖ; Fjaran).

Girða sig (orðtak)  Ganga þannig frá fötum að skyrta sé ofan í buxum; loka lokuð og axlabönd/belti fest á réttan hátt.  Í líkingum notað um að hverskonar frágang mála, og stundum bætt við „...í brók“.

Girði (n, hk)  Upprunaleg merking er viður sem notaður var í þunnum ræmum; sveigður utanum tunnur og önnur ílát til að halda þeim saman.  Síðari tíma merking er blikkræma sem gegnir sama tilgangi, auk annars.

Girðingalykkja (n, kvk)  Vírlykkja til að festa girðingarstreng á staur.  „Hér er pakki af girðingalykkjum“.

Girðingastaur (n, kk)  Staur til að halda uppi girðingu.  „Girðingastaurar eru af margvíslegu tagi.  Í Kollsvík er mikið notað af rekaviði; bæði grannar renglur í sínum sverleika og stærri tré sem eru þá klofin og söguð.  Einnig tilbúnir járnstaurar og, eftir tilkomu rafgirðingar, renglur úr plasti og tregleiðandi viði.  Í hornstaura þarf gilda boli og góðan frágang, en grennri staura má nota á milli.

Girðingarræfill (n, kk)  Léleg/ónýt girðing; slitu af girðingu.  „Kringum Sandahlíðina var lengi girðingarræfill“.

Girðingavinna (n, kvk)  Vinna við girðingar.  „Ætli við þurfum ekki að fara í einhvrja girðingavinnu þarna“?

Girni (n, hk)  Upprunaleg merking er þráður úr görnum, sem notaður var m.a. til sauma.  Á síðari tímum merkir orðið nælonþráð sem notaður er m.a. í veiðarfæri.

Gisbentur (l)  Um bát; langt á milli banda.  Bátar eru að jafnaði veikari eftir því sem þeir eru gisbentari, en um leið léttari.  Þetta fer þó eftir þykkt og efni bandanna.

Gishærður (l)  Þunnhærður.  „Maður er nú orðinn dálítið gishærður á hvirflinum“.

Gisinn (l)  Dreifður; strjáll; með bilum á milli.  „Báturinn er orðinn gisinn á að liggja svona lengi á þurru, en hann verður fljótur að þétta sig þegar hann kemur í sjó“.

Gisnegldur (l)  Um bát o.fl.; seymdur/negldur með nokkuð löngu millibili saums/nagla.

Gista (s)  Sofa; dvelja að næturlagi; vera yfir nótt.  „…meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu“  (PG; Veðmálið). 

Gistenntur (l)  A.  Um mann; bil á milli tanna eða tennur vantar.  B.  Um hrífu; langt á milli tinda, eða tinda vantar.  C.  Um sög; með fáar tennur á tommuna; búin að tapa tönnum; ekki þétttennt.

Gistipláss (n, hk)  Rúm/herbergi sem maður fær að gista í yfir nótt/nætur.  „Þegar þangað kom hafði skólastjórinn pantað gistipláss fyrir okkur“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Gífuryrði (n, hk, fto)  Heitingar; illmælgi; þungar ásakanir.  „Svona gífuryrði þjóna engum tilgangi“.

Gífuryrði (n, hk)  Stóryrði; heitingar; hótanir.  „Svona gífuryrði hefði betur verið ósögð“!

Gífuryrtur (l) notar stór/niðrandi orð.  „Ég gef skrattanum það að ég hafi verið óþarflega gífuryrtur“!

Gígdæld (n, kvk)  „Vatnasvæði frostgígs; oft dalur/dæld með víðum og hallalítilli botni; nokkru aðrennslissvæði og oft yfirfalli, þannig að vatnshæð verður takmörkuð í dældinni“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Gíll og úlfur (orðtak)  Ljósbrot á himni sem veldur því að við hlið sólar sjást stundum tvær aukasólir/hjásólir; sín hvorumegin.  Í Kollsvík var talað um að hann blési út sólir; að sólir væru á lofti, eða að sól væri í úlfakreppu.  Sú trú er ævaforn að dílarnir séu vættir sem vilja tortíma sólinni.   Í Gylfaginningu Snorra-Eddu segir að Úlfurinn Skoll renni á eftir sólu og muni gleypa hana, en Hati Hróðvinarson hlaupi fyrir og vilji gleypa tunglið.  Þessu tengist forspá um veður og annað:  „Eigi/sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“.

Gímald (n, hk)  Geymir; stórt rými.  „Töllkarlshellir er heljarstór gímald“.

Gína við (orðtak)  Vera ginnkeyptur fyrir; gleypa við; langa í.  „Það er varasamt að gína við gyllitilboðum“.

Gína yfir (orðtak)  Einoka; leggja undir sig.  „Það er nú óþarfi að gína einn yfir öllu sælgætinu“.

Gínandi (l)  Blasandi ógnandi/ógnvænlegt við.  „Við vorum að draga netin þarna úti í kantinum og þegar okkur varð litið upp var stefnið á þessum flutningadalli gínandi yfir okkur á öskrandi fleygiferð“!

Gínandi loft (orðtak)  Um bjargsig; húrrandi loft; loftsig á löngum kafla.  „Mér sýnist vera gínandi loft niður á þessa hillu, en þarna er líklega nokkuð þétt af eggjum“.

Gíra (s)  Aka bíl; aka á mikilli ferð.  Eitt af nýyrðum GJH, sem hafa síðan orðið hluti af mæltu máli í Rauðasandshreppi.  „Hvur skyldi nú vera að gíra á þessum tíma“?  Hús Jónsa á Hnjóti stóð þétt við þjóðveginn þar um.

Gírugur (l)  Gráðugur; lystarmikill; ákafur.  „Féð var gírugt í saltsíldina“. 

Gjafafang (n, hk)  Fang af heyi sem gengið er með framá jötu og gefið búfé. „Gjafaföng geta verið misjöfn að magni.  Ég tók stór föng og því dugðu tæp sex föng mín sem full gjöf, þar sem aðrir gáfu sjö“.

Gjafafé (n, hk)  A.  Sauðfé sem gefið er fóður í fjárhúsum; ekki fé sem mestmegnis er á útibeit.  B.  Verðmæti sem gefið er.  „Slysavarnaskýlið var byggt fyrir gjafafé“.

Gjafagrind (n, kvk)  Grind sem lögð er yfir hey í jötu til að kindur geti étið, en samt ekki slætt; þ.e. dregið heyið útúr jötunni og niður á grindur.  „Hilmar notaði gjafagrindur nokkuð, og taldi þær gagnast vel“.

Gjafalóa (n, kvk)  Hásetaspraka; lítil smálúða.  „Gjafalóur voru stofnaðar, sem kallað var; tekinn af þeim haus og sitt flakið hvoru megin af hrygg; þannig að hvorri kápu fylgdi sitt rafabeltið.  Kápurnar voru síðan ristar og hertar.  Var þeim skipt á milli hásetanna er öðrum afla hafði verið skipt“  (PJ; Barðstrendingabók).

Gjafalúga / Fóðurlúga (n, kvk)  Lúga ofanvið jötu hjá kúm eða sauðfé, en í gegnum hana er hey/fóður sett í jötuna.  „Gjafalúgur voru við tvær jötur af þremur í gamla fjósinu á Láganúpi, og mátti því gefa um þær beint úr hlöðunni.  Ingvar í Kollsvík smíðaði einnig fóðurlúgur í fjós sem hann gerði við Kollsvíkurbæinn“.

Gjafatími (n, kk)  Tími sem skepnur eru vanar að fá sína gjöf.  „Kýrnar standa á öskrum, enda komið töluvert umfram þeirra gjafatíma“.

Gjafmildur (l)  Á auðvelt með að gefa; nýtur þess að gefa.  „Mér þykir þú gjafmildur á annarra eigur“!

Gjaftollur (n, kk)  Skattur sem greiddur var í fríðu af lausafé; ekki af fasteign.  Hann var greiðsla fyrir minni háttar yfirsjónir og rann til presta og sýslumanna fyrir siðaskipti, en síðar til kóngs.  Lagður niður 1877.

Gjafverð (n, hk)  Mjög/óeðlilega lágt verð; mjög góð kaup.  „Ég fékk þessi stígvél á gjafverði“.

Gjalda gráu fyrir svart / Gjalda rauðan belg fyrir gráan (orðtak)  Hefna sín.  „Ég skal einhverntíma gjalda honum rauðan belg fyrir gráan, þó síðar verði“!

Gjalda heimsku sinnar (orðtak)  Hefnast fyrir heimskulega ákvörðun/ heimskulegan verknað.  Sjá geldur hver heimsku sinnar.

Gjalda í sömu mynt (orðtak)  Hefna sín á líkan hátt og misgert var.

Gjalda keisaranum það sem keisarans er (og guði það sem guðs er) (orðtak)  Greiða hverjum það sem hann á tilkall til.  Biblíutilvitnun.  „Alltaf hækka þeir skattana.  En ætli maður verði ekki bara að gjalda keisaranum það sem keisarans er og ríghalda kjafti eins og vanalega“!

Gjalda líku líkt (orðtak)  Launa í sömu mynt; hefna sín á sama hátt.  „Ég held að maður hjálpi honum nú aðeins við heyskapinn; hann er vís til að gjalda líku líkt þó síðar verði“.

Gjalda rauðan belg fyrir gráan (orðtak)  Hefna sín á einhverjum, jafnvel harðar en tilefni er til.  Ekki skal hér fullyrt með skýringu, en hugsanlega vísar þetta til þess að kæfa var geymd í belgjum.  Sé kæfan mygluð verður belgurinn grámyglaður utan, en þó má e.t.v. borða hana ef mikið liggur við.  Hafi innihaldið náð að úldna verður belgurinn rauður útlits og allt óætt sem í honum er.  Einnig hefur verið sett fram sú upprunaskýring að rauður belgur merki skinn sem litast hefur rautt af blóði.  Sé svo þá er líklegt að grár belgur merki skinn með marblettum og orðtakið vísi því til þess að barsmíða sé hefnt með blóðsúthellingum.

Gjalda skal gjöf við gjöf (en lausung við lygi) (orðatiltæki)  Vísar til þess að sá sem lýgur getur átt von á að því sé tekið með óhreinskilni og yfirdrepskap, fremur en hreinskilni og einlægni.  Tilvitnun í Hávamál:  „Vin sínum/ skal maður vinur vera/ og gjalda gjöf við gjöf./  Hlátur við hlátri/ skyli höldar taka/ lausung við lygi“  (Úr Hávamálum).  Maður skyldi vera góður og gjafmildur vinum sínum og eiga með þeim góðar stundir.  Lygi kallar á ótryggð.

Gjalda skal líku líkt (orðatiltæki)  Maður skyldi koma fram við aðra líkt og þeir koma fram við mann sjálfan.  Mildari og víðtækari útgáfa hins fornkveðna; auga fyrir auga; tönn fyrir tönn.

Gjalda torfalögin (orðtak)  Gera skyldu sína gagnvart þeim sem um er rætt.  Líklega á orðtakið rætur að rekja til þess að menn sórust í fóstbræðralag með því að láta blóð sitt drjúpa á/undir sömu torfu.  Milli fóstbræðra myndaðist sáttmáli, sem var jafngildur lögum, um gagnkvæma vernd og trúnað.  Að gjalda einhverjum torfalögin er því að gera skyldu sína vegna hans; t.d. með hefnd.

Gjalda varhug við (orðtak)  Sýna varkárni; vera á verði; gæta sín.  „Mér finnst rétt að gjalda varhug við öllum svona gylliboðum“.

Gjaldgengur (l)  A.  Um verðmæti; gildur sem greiðsla/greiðslumiðill.  B.  Um mann; fær/gildur í tiltekið verk/verkefni.  „Mestu tímamótin um ferminguna voru þau að þá taldist ég gjaldgengur í eggjaferðir“.

Gjalla (s) A.   Hrópa; tala/kalla hátt; gagga.  „Það voru tvær tófur gjallandi hér uppi á Hjöllunum í nótt“.  B.  Bera út slúður; segja frá.  „Þetta má satt vera, en það er óþarfi að gjalla það útum allar jarðir“!

Gjallandi (n, kk)  Hávaði; skræk og há rödd.  „Skelfilegur gjallandi er í þér drengur“!

Gjalt (n, hk)  Gjall; brunasori.  „Blý úr rafgeymum var brætt upp og mótað í netablý.  Þurfti að gæta þess vel að bræða við nógan hita til að gjaltið skildi sig vel frá, áður en hellt var í mótið“.

Gjamm (n, hk)  A.  Gelt/glamur í hundi.  „Það heyrðist ekki mannsins mál á réttunum fyrir gjammi í hundunum“.  B.  Hávært tal; kall.  „Ég tek ekkert mark á gjamminu í honum“!

Gjamma (s)  A.  Um hunda; gelta.  „Á hvað er tíkin nú að gjamma“.  B.  Um manneskjur; rífast; gjamma/kalla frammí; hrópa hátt.  „Ég hlustaði ekkert eftir því sem hann var að gjamma“!

Gjamma/kalla frammí (orðtak)  Grípa framí fyrir ræðumanni.  „Leyfið ræðumanninum að klára og hættið að gjamma frammí“!

Gjarðajárn (n, hk)  Girði; lélegt járn.  „Ekki veit ég hvurslags gjarðajárn þeir hafa í skóflur nú til dags“.  „Veturnir voru einkum notaðir til að renna sér á sleðum eða skautum, en þeir voru úr tré með gjarðajárni að neðan og bundnir með snæri“  (IG; Æskuminningar). 

Gjarn á (orðtak)  Hættir til; á vanda til.  „Farmallinn er einum of gjarn á að festast í fjórða gír“.

Gjarnan (ao)  Oft; iðulega; alveg.  „Þær komu gjarnan með götóttu pottana sína, kaffikönnurnar og katla og hann hnoðaði og lóðaði í götin og styrkti þetta á allan hátt, svo þær höfðu á orði að þetta væri sem nýtt“  (SG: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  „Var þá gjarnan skroppið innyfir háls að Hænuvík “  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).   „Þú mættir gjarnan sækja handa mér kaffisopa“.  „Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu“  (PG; Veðmálið). 

Gjáarbotn / Gjárbotn (n, kk)  Innsti hluti á gjá.  „Efri lásinn er farinn niður gjáarbotninn“.

Gjáarveggur (n, kk)  Hlið/klettaþil í gjá.  Öðrumegin í Strengbergsgjánni eru höfðar og gangaendar, en hinumegnin er gjáarveggurinn standberg; ofanfrá Blakkbrún og niður í Hryggi“.

Gjárhluti (n, kk)  Hluti af gjá.  „Hægt er að komast út í nefið á milli gjárhlutanna, sem nefnast þar Hreggshöfði“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Gjármót (n, hk)  Grunn/ógreinileg gjá í kletta.  „Dulan er ógreinilegt gjáarmót heiman Fjarðarhorns“.

Gjálfra / Gjálpa  (s)  A.  SkvettastM gutla.  „Það gjálpar aðeins við hleinina, en mér sýnist í lagi að leggja upp að henni“.  „Það gjálpaðist uppúr fleytifullum vatnsfötunum, svo buxurnar blotnuðu svolítið“. B.  Afleidd merking; sviðra; bulla.  „Honum hættir til að gjálfra um hluti sem hann þekkir lítið til“.

Gjálfur (n, hk)  Sviður; bull; endaleysa.  „Hverskonar bölvað gjálfur er þetta“!

Gjóa augum (orðtak)  Gjóta/renna augum; horfa útundan sér.  „Hann gjóaði augum öðru hvoru á klukkuna“.  Sjá gjóta augum.

Gjóla (n, kvk)  Vindur; stífur kaldi.  Stundum talað um hafgjólu ef vindur stóð af hafi.

Gjóla (s)  Gera gjólu; vinda.  „Eitthvað er hann byrjaður að gjóla af norðri“.

Gjólukaldi (n, kk)  Kaldi, en þó ekki verulega hvass.  „Hann er eitthvað að leggja að með gjólikalda“.

Gjólusláttur (n, kk)  Óstöðugur kaldi, stundum tvíátta.  „Hann er kominn með gjóluslátt fyrir Blakkinn“.

Gjósa (s)  Skvetta/þeyta samfellt um stund.  „Nú gýs upp í miðjar hlíðar á Bekknum í þessum vestansjó“.

Gjósta (s)  Vinda; þjóta.  „Það er farið að gjósta verulega af austri“.

Gjóstur (n, kk)  Kaldur þéttingsvindur; golukaldi.  Oftast í orðasambandinu kuldagjóstur, en einnig var talað um norðangjóst; vestangjóst; austangjóst og sunnangjóst.  „Það leggur einhvern kuldagjóst gegnum bæinn“.

Gjóta (n, kvk)  Lítil gjá; sprunga; bil milli stórra steina í urð.  „Þarna er gjóta sem hægt er að fara á brún, en það heitir að fara Dulu“  (IG; Sagt til vegar I).  

Gjóta augum (s)  Skondra/skjóta augum; líta útundansér; líta hornauga.  „Hann gaut augum á mig um leið og hann sagði þetta“.  Sjá gjóa augum.

Gjugga (s)  Hreyfa lítið fram og til baka; gjökta; liða.  „Þetta fellur saman ef þú gjuggar því aðeins til“.

Gjúðra (n, kvk)  Lítill poki.  „Gott er að hafa gjúðru í vasanum þegar eggjum er safnað saman í bjarginu, einkanlega í strjálum eggjum og miklum teygingum.  Þægilegra er að koma gjúðrunni með sér í þröngri aðstöðu en eggjafötu.  Í henni má líka koma stoppi á brún til frágangs á eggjum“. (VÖ) 

Gjúga (n, kvk)  A.  Kýli; lintroðinn poki.  „Troðið betur í ullarballana drengir; þetta eru bévítans gjúgur hjá ykkur“.  B.  Kaldi; kæla.  „Hann er að leggja upp einhverja gjúgu“.

Gjöf (n, kvk)  A.  Fóður fyrir búfé; glaðningur fyrir fólk.  „Féð verður á innistöðu og fullri gjöf í þessu veðri“.  „Mikinn þátt í þessu á góð og mikil gjöf, samfara góðri hirðingu o.fl. “  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).  B.  Það sem einhverjum er gefið; t.d. jólagjöf, afmælisgjöf, morgungjöf o.fl.

Gjöfull (l)  Gefur vel af sér.  „Lending er slæm í Kollsvíkurveri við brimasama strönd en stutt var á gjöful fiskimið“  (ÖG; minningargrein um AK).

Gjögur (n, hk)  Klettaskarð.  „Lending er þar (í Skor) að sumu leyti góð.  Henni er þannig háttað að mjótt gjögur skerst inn á milli tveggja hamraveggja.  Gjögur þetta heitir Skorarvogur“  (PJ; Barðstrendingabók). 

Gjökt (n, hk)  Sláttur; hlaup.  „Það er komið eitthvað gjökt í grindina á vagninum; það þyrfti að styrkja hana“.

Gjökta (s)  Skrölta, slást til.  „Stýrisendarnir á bílnum eru orðnir dálítið gjöktandi“.

Gjör (n, hk)  Fuglager; ger.  Um það þegar fuglar hópast saman í æti yfir seiða- eða sílavöðu í yfirborðinu.  „Það stendur uppi gjör frammi á miðri víkinni; ég held við ættum setja á flot og reyna að renna í það“.  Í seinni tíð var stundum notuð orðmyndin „ger“.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Gjör hönd (orðtak)  Hönd hagleiksmanns; vandvirkni.  „Hann lagði gjörva hönd á margt um sína daga“.

Gjöra (s)  Gera.  Fyrrum var orðmyndin oftar þessi, þó hún heyrist ekki nú á dögum.  „Í þá tíð var miklu meira veður gjört úr svona hneyksli en nú, þó ekki séu nema 45 ár síðan þetta var og sumarið eftir átti systir mín stúlkubarn“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   (Stúlkubarnið var Hildur Magnúsdóttir, síðar á Láganúpi).  „Almennt mátti ekki heita að skepnur kæmu á gjöf fyrr en um og eftir hátíðir, því kast það er gjörði snemma vetrar varð hér svo vægt að litlu sakaði“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Gjörbreyta/ Gjörbylta (s)  Breyta gjörsamlega/algerlega; umbylta.  „Skurðirnir gjörbreyttu landslaginu“.

Gjörbreyting / Gjörbylting (n, kvk)  Umskipti; mikil breyting.  „Gjörbreyting hefur orðið á atvinnuháttum á svæðinu“.  „Gjörbylting varð á útgerð með tilkomu vélbátanna“.

Gjörð (n, kvk)  A.  Hringur úr flötu efni, til að halda saman t.d. tunnu (tunnugjörð).  B.  Breið ól/ breiður borði sem liggur undir kvið hests og festir hnakk eða reiðing á baki hans.

Gjörðótt (l)  Litur á sauðfé og kúm; dökkt en með hvíta gjörð um miðjan bolinn. (GG afi nefndi það „gjördótt“).

Gjöreyða (s)  Leggja í eyði; útmá; eyðileggja með öllu.  „Tófu fjölgar ört þegar hún er ekki unnin.  Á nokkrum árum eftir 1990 gjöreyddi vargur múkka úr öllum efstu göngum í Blakk, Hnífum og Breið“.

Gjöreyðing (n, kvk)  Algjör eyðilegging.  „Gjöreyðing byggða utan höfuðborgarsvæðisins virðist hafa verið í forgangi í atvinnumálum stjórnvalda, a.m.k. síðusu hálfa öldina“.

Gjörkanna (s)  Kanna mjög vel; skoða ofaní kjölinn.  „Ég hef ekki gjörkannað allar heimildir í þessu efni“.

Gjörkunnugur (l)  Þekkir mjög vel til; mjög hagvanur.  „Á þessum slóðum er ég gjörkunnugur“.

Gjörla (ao)  Vel; ítarlega; ofan í kjölinn.  „Ég þekki þetta mál ekki svo gjörla, en hef heyrt af því“.

Gjörningamyrkur (n, hk)  Svartamyrkur; niðamyrkur.  „Þetta er ljóta gjörningamyrkrið; ertu með ljós“?

Gjörningaveður (n, hk)  Mikið og óvænt óveður.  „Þetta er nú meira gjörningaveðrið, uppúr þurru“.

Gjörningur (n, kk)  Gerð; verknaður; samningur.  „Ég held að þessi gjörningur hafi  verið ólöglegur“.

Gjörnýta (s)  Nýta til fulls/eins og kostur er.  „Sokkar voru gjörnýttir; stoppað var og stagað meðan unnt var“.

Gjörólíkur (l)  Mjög frábrugðinn; allt öðruvísi.  „Hann er gjörólíkur bróður sínum að þessu leiti“.

Gjörónýtur (l)  Alveg ónýtur; handónýtur.  „Bíllinn var gjörónýtur eftir veltuna“.

Gjörsamlega (l)  Algerlega; alveg.  „Það er gjörsamlega útilokað að ég komist í þetta verk á morgun“.  „Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður“  (PG; Veðmálið). 

Gjörsneyddur (l)  Algerlega laus við; rúinn.  „Hann er algerlega gjörsneyddur allri sómatilfinningu“!

Gjörspilltur (l)  Algerlega spilltur/samviskulaus/óheiðarlegur.  „Við þurfum að losna við gjörspillta embættismenn, sem eru orðnir svo mosavaxnir í sínum stólum að hvorki þeir né aðrir vita hvaða hlutverki þeir hafa að gegna eða hversvegna þeir voru ráðnir í byrjun“!

Gjörvulegur (l)  Myndarlegur; glæsilegur.  „Þetta er hinn gjörvulegasti piltur“.

Gjörþekkja (s)  Þekkja mjög vel; vita öll skil á.  „Hann gjörþekkir alla staðhætti þarna eins og lófa sína“.

Glaðasólskin (n, hk)  Mjög bjart sólskin.  „Það er bara komið glaðasólskin eftir þessa dembu“.

Glaðatunglskin (n, hk)  Bjart tungl og heiðríkt; mikil tunglbirta.  „Það var glaðatunglskin og gott göngufæri“.

Glaðbrosandi (l)  Gleiðbrosandi; glaður á svip.  „Pollinn sagði glaðbrosandi að nú væri komin fullorðinstönn“

Glaðhlakkalega (ao)  Með gleðisvip; glaður.  „Hún tilkynnti glaðhlakkalega að hún ætti von á pakka“.

Glaðhlakkalegur (l)  Kampakátur; glaðlegur.  „Hann var nokkuð glaðhlakkalegur yfir þessum málalokum“

Glaðlegur / Glaðlyndur / Glaðsinna (l)  Glaður í bragði; liggur vel á; léttur í lund að eðlisfari.

Glaðna fyrir sól (orðtak)  Móa fyrir sól; þegar sól byrjar að brjótast í gegnum skýjahulu/dimmviðri.  „Svei mér þá, ef hann er bara ekki farinn að glaðna fyrir sól“.

Glaðna til (orðtak)  Létta til/upp; birta eftir dimmviðri.  „Mér finnst að hann sé nú allur að glaðna til“ .

Glaðna yfir (orðtak)  A.  Um manneskju; gleðjast; verða kát.  B.  Um veðurlag; birta til; sól brýst fram.

Glaðningur (n, kk)  Gleðigjafi; gjöf.  „Við þurfum að fara með einhvern glaðning í afmælið“.

Glaðsinna / Glaðvær (l)  Geðgóður; léttur í lund.  „Hún er alltaf mjög glaðsinna og hefur góð áhrif á aðra“.

Glaður og reifur (orðtak)  Glaðvær; fjörugur; kátur; spilandi kátur.  „Flestir í samkvæminu voru orðnir glaðir og reifir, enginn þó leiðinlega ölvaður“.

Glaðvakandi (l)  Alveg/vel vakandi.  „Ég var glaðvakandi að horfa útum gluggann þegar ég sá þetta“.

Glaðvaknaður (l)  Alveg vaknaður.  „Ég var glaðvaknaður fyrir allar aldir og fór að hafa mig til á sjóinn“.

Glampandi logn (orðtak)  Svo mikið logn að glampar á sjó, eins og spegil; svartalogn.

Glampandi sól (orðtak)  Bjart sólskin; glaðasólskin.  „Þú skaðbrennur; svona ber í glampandi sólinni“

Glampandi tunglskin (orðtak)  Bjart tungl; glaðatunglskin.  „Það stirnir á Mýrarnar í glampandi tunglskininu“.

Glampi til hafsins (orðtak)  Glenna/ljós/hreinn/eyddur/bjartur til hafsins.  Norðanátt í aðsigi, sem lýsir sér fyrst með því að ský hverfa í norðri og heiðskír blettur sést fyrir Blakkinn, ofanvið hafsbrún.

Glamra (s)  A.  Skrölta; hristast með hávaða.  „Mér var orðið svo kalt að það glömruðu í mér tönnurnar“.  B.  Um hunda; gelta; hafa hávaða.  „Í hvað skyldi tíkin núvera að glamra“.

Glamur (n, hk)  A.  Hávaði; skrölt.  „Verið nú ekki með þetta glamur meðan fréttatíminn er, strákar“!  B.  Gelt í hundi.  „Hvaða glamur er nú í tíkinni“?  C.  Málæði; kjaftæði.  „Ég hlusta nú ekki á hvaða glamur sem er“!

Glannabirta (n, kvk)  Skær birta; ofbirta.  „Ég sé ekkert í þessari glannabirtu“.  Orðið „glan“ var þekkt annarsstaðar á landinu yfir mikla birtu í lofti.

Glannafenginn / Glannalegur (l)  Gapalegur; ógætinn.  „Mér finnst hann dálítið glannalegur í klettum“.

Glannakúnstugur (l)  Mjög skondinn/furðulegur.  „Það kom glannakúnstugur svipur á hann þegar hann áttaði sig á hrekknum“. 

Glannalega (ao)  Gapalega; óvarfærið.  „Farðu ekki svona glannalega með opinn hnífinn“!

Glannasólskin (n, hk)  Mjög bjart sólskin.  „Skelfing hitnar manni við puðið í þessu glannasólskini“.

Glannaskapur (n, kk)  Fyrirhyggjuleysi; ofdirfska.  „Hann fékk tiltal fyrir glannaskapinn; það væri ekki annað en bjánagangur og fífldirfska að fara niður á höfðann bandlaus“.

Glannatunglskin (n, hk)  Glampandi tunglskin; fullt tungl í heiðskýru veðri að nóttu.  „Það var glannatunglskin, og því enginn vandi að rekja slóðina“.

Glanni (n, kk)  Sá sem fer ógætilega; gapi.  „Mér þykir þú vera dálítill glanni með hnífinn“.

Glansandi sólskin (orðtak)  Mikið sólskin og heiðríkja.  „Maður sólbrennur dálítið í þessu glansandi sólskini“.

Glansderhúfa (n, kvk)  Derhúfa með glansandi deri; kaskeiti.  „Þarna var það sem Össur bróðir kastaði nýrri glansderhúfu fram af í misgripum fyrir stein, þegar hann var að grýta fé úr Breiðnum“  (IG; Sagt til vegar I).  

Glappaskot (n, hk)  A.  Mistök; afglöp.  „Þetta var ferlegt glappaskot að leggja stöguð net á þessum stað“!  B.  Skammarskot; skot sem missir marks.  „Nú eru komin alltof mörg glapparskot hjá mér; taktu nú við“.

Glappast á/til (s)  Ratast á; lukkast til.  „Ég glappaðist á rétta stefnu heim í þokunni“.  „Bara að hann gæti nú glappast til að muna eftir skólatöskunni með sér heim“!

Glapræði (n, hk)  Afglöp; afleitt úrræði; slys.  „Það væri hreint glapræði að fara á sjó þegar svona spáir“.

Glapstigur (n, kk)  Villigötur; röng leið.  „Þetta tal um Evrópusambandið finnst mér allt vera á glapstigum“.

Glaseygur (l)  Rangeygur; drukkinn.  „Karlinn var bara orðinn dálítið glaseygur eftir þorrablótið“.

Glassúr (n, kk)  Sykurbráð.  „Glassúrinn á snúðunum fór fyrir lítið í nestispokanum“.

Glata glórunni (orðtak)  Tapa vitinu; ganga af göflunum.  „Ertu nú gjörsamlega búinn að glata glórunni“?

Glatkista (n, kvk)  Glötun; gleymska.  „Ég er hræddur um að þetta sé nú komið í glatkistuna“.

Glatt/kátt á hjalla (orðtak)  Góð stemning; gleði/fjör í hóp/samkvæmi/veislu.  „Það var jafnan glatt á hjalla þegar Kollsvíkursystkinin komu saman.  Auk þess að ræða landsins gagn og nauðsynjar; pólitikina; fræðileg málefni og heimspeki voru sagðar sögur úr fortíð og samtíð; lognar og sannar.  Hávaðinn keyrði iðulega um þverbak og menn gátu aðra stundina lent í hörkustælum um eitthvað smáatriði eða hlegið og skrollað að öðru“.  Orðtakið vísar e.t.v. til fögnuðar þess sem ferðast hefur um fjöll en kemur fram á hjalla og veit þá að hann er að komast til byggða.  Þá var hóað til að láta vita af komu sinni.  Gesti var jafnan fagnað og gæti orðtakið átt við það að farið var á móti gestinum og glaðst með honum á hjallanum.

Glatt í sinni (orðtak)  Í góðu skapi.  „Mönnum var glatt í sinni á þessum hátíðisdegi“.

Glatta (s)  Slétta; gera glansandi.  „Það er til bóta, uppá þrifin að gera, að glatta geymslugólfið“.

Glámhvítur (l)  Um litarhátt á fé; notað um fé (albinóa) sem er skjannahvítt, með bleikar nasir og bleikt kringum augu.  Einnig notað um fólk sem er líkt í litarhætti og jafnvel fleiri skepnur.

Glámótt (l)  Um lit á sauðfé; svört með hvítan haus; andstaðan við helmótt.   Notað í Kollsvík í þessari merkingu en annarsstaðar landsins virðist það hafa verið notað yfir það sem Kollsvíkingar sögðu glámhvítt.

Glámskyggn (l)  Sést yfir; ófundvís; óglöggur.  „Óttalega ertu glámskyggn; sérð ekki bókina við nefið á þér“.

Glámskyggni (n, kvk)  Yfirsjón; ónóg leit.  „Dauðans glámskyggni er þetta; skærin voru fyrir augunum á þér“!

Glápa eins og naut á nývirki (orðtak)  Stara/einblína stíft/ í forundran.  Vísar til forvitni nauta.

Glápa (á eitthvað) eins og tröll á heiðríkju (orðtak)  Stara/einblína stíft/ í forundran, án þess að aðhafast.  „Þeir störðu allir á þetta tryllitæki eins og tröll á heiðríkju.  Vísar til þess hve tröll þola illa dagsljósið.

Glápa/horfa út í bláinn (orðtak)  Horfa á eitthvað langt í burtu; glápa ómarkvisst.  „Hvernig í ósköpunum gátu kindurnar farið framhjá ykkur?!  Þið hafið annaðhvort verið á kafi í berjum eða bara að glápa út í bláinn“!

Glás  (n, kvk)  Mikill fjöldi; gomma; hellingur.  „Hann á víst einhverja glás af peningum“.  Síðari tíma orð.

Gleðibragur (n, kk)  Glaðlegt yfirbragð.  „Ég var hundfúll yfir þessu fermingartilstandi, enda sýnir fermingarmyndin ágætlega þann gleðibrag.  Fúlli mannvera hefur líklega ekki verið fest á filmu“.

Gleðiefni (n, hk)  Ánægjulegt; gott; fagnaðarefni; skemmtiefni.  „Það er auðvitað gleðiefni að heimta þetta fé“.

Gleðifréttir / Gleðitíðindi (n, hk/kvk, fto)  Góðar fréttir; fagnaðarfréttir.  „Alltaf gott að fá svona gleðitíðindi“.

Gleðjast/kætast yfir óförum annarra (orðtak)  Um þórðargleði; nota ólán annarra sem skemmtiefni.  Einnig henda/hafa gaman að óförum annarra.

Gleðskaparmaður (n, kk)  Partíljón; hrókur alls fagnaðar.  „Ég hef aldrei talið mig mikinn gleðskaparmann“.

Glefsa (n, kvk)  Kafli úr frásögn; sögubrot.  „Ég náði ekki að heyra nema glefsu af því sem hann sagði“.

Glefsinn (l)  Um hund sem er á það til að bíta fólk eða skepnur.  „Varaðu þig á hundinum, hann er stundum glefsinn“.  „Það er ófært að hafa svona glefsinn hund í smalamennskur“.

Gleiðbrosandi (l)  Með miklu brosi.  „Hann játaði gleiðbrosandi að hafa farið bandlaus á stallinn og til baka“.

Gleiðgosi (n, kk)  Monthani; vindbelgur; kjaftfor maður.  „Það væri þörf á að stinga uppí þennan gleiðgosa“!

Gleiðglottulegur / Gleiðgosalegur (l)  Montinn; kjaftagleiður.  „Hversvegna ert þú svona gleiðglottulegur á svip“?  „Það er ekki víst að þú verðir svona geiðgosalegur á landleiðinni“!

Gleiður (l)  A.  Með miklu bili/opi.  „Mér finnst alltof gleitt á milli áma á þessari heykvísl“.  B.  Um þann sem stendur með langt bil á milli fóta.  „Þú þarft að standa gleiður og stíga ölduna“.  C.  Montinn; góður með sig.  „Hann var nokkuð gleiður yfir aflabrögðunum hingað til“.

Glenna (n, kvk)  A.  Upprof í ský; sólarglenna.  „Mér sýnist að það sé einhver glenna að myndast í vestrinu“.  B.  Skref.  „Þetta er lítill túnbleðill; varla nema örfáar glennur á kant“.  C. Skráveifa; hrekkur.  „Þeir voru einlægt að gera karlinum einhverja glennu“. 

Glenna gaupnir/greipar (orðtak)  Fórna höndum.  „Maður gat lítið annað gert en glenna gaupnir“.

Glenna sig (orðtak)  A.  Um manneskju; rífa kjaft; þusa.  B.  Um veðurlag; birta til.  „Mér sýnist hann eitthvað vera farinn að glenna sig; kannski hann fari að þurrka sig eitthvað“.

Glenna sig upp (fyrir allar aldir) (orðtak)  Fara mjög snemma á fætur; rífa sig upp.  „Við erum ekkert að glenna okkur upp fyrir allar aldir á morgun; hann spáir engu sjóveðri“.

Glenna til hafsins (orðtak)  Glampi/ljós/hreinn/eyddur/bjartur til hafsins.  Norðanátt í aðsigi, sem lýsir sér fyrst með því að ský hverfa í norðri og heiðskír blettur sést fyrir Blakkinn, ofanvið hafsbrún.

Glenna/sperra upp glugga (orðtak)  Skammaryrði um það að opna glugga; hafa opna glugga.  „Vertu nú ekki að sperra upp gluggana og hleypa hitanum úr húsinu“!

Glenntur (l)  Útsperrtur; með t.d. fingur, fætur í sundur.  „Ég stóð glenntur yfir læknum og vippaði yngri strákunum yfir“.

Glensfenginn (l)  Spaugsamur; gáskafullur.  „Hann gat líka verið glensfenginn ef sá gállinn var á honum“.

Glepja (s)  Villa um fyrir; blekkja.  „Sólin var að glepja mig svo ég sá ekki fjárans hleinina“.

Glepja (einhverjum) sýn (orðtak)  Villa um fyrir einhverjum.  „Sólin var í augun á mér og glapti mér sýn“.

Glepjast á / Glepjast til (orðtök)  Verða á mistök; glæpast á. „Ég glaptist á að kaupa þessa bók, en andskotakornið að það sé nokkuð varið í hana“!

Gler (n, hk)  Hált svell.  Einnig notað með áhersluviðbót; hálagler.  „Fitin er eitt samfellt gler núna“.

Gleraugnaglámur (n, kk)  Niðrandi heiti á þeim sem er með gleraugu.  „Nú er maður orðinn gleraugnaglámur“.

Glerfínn (l)  Mjög fínn/snyrtilegur.  „Þú ert alveg glerfínn í þessum nýju jakkafötum“.

Glerharður (l)  A.  Um hlut; mjög harður.  „Það þarf að berja þennan harðfisk mikið betur; það étur þetta enginn svona glerhart“!  B.  Harðákveðinn; járnharður; einþykkur.  „Hann var glerharður á því að róa, þrátt fyrir útlitið“.

Glerhákarl  (n, kk)  Kviðhákarl; kviðbeita; kviðlykkja; kæst stykki/beita úr kviði hákarlsins.  Glerhákarl er annars eðlis en búkhákarl/skyrhákarl.  Hann er yfirleitt brúnn eða hálf-glær áferðar og fremur þurr eða stökkur.

Glerhált (l)  Mjög sleipt; flughált.  „Gáðu að þér á leiðinni; það eru víða glerhálir svellblettir“.

Glerkúpill (n, kk)  Klerkúla; kúlulaga glerskermur.  „Í eldhúsið var sett rafljós með glerkúpli“.

Glerskeri (n, kk)  Áhald til að skera einfalt gler.  Stöng með litlu skerahjóli fremst, úr karbít.  Skorin er rispa í glerið í beinni línu; glerið spennt lítillega og dumpað á það þar til það brotnar um skersárið.

Gletta (n, kvk)  Hrekkur; baldni; óþægð.  „Það hindraði þá hinsvegar ekki í góðlátlegum glettum hvors á annars kostnað“  (PG; Veðmálið). 

Glettast við (orðtak)  Bregða á grín/leik við; stríða; bekkjast við; hrekkja.  „Þið skuluð nú ekki glettast of mikið við karlinn, strákar; hann kann alveg að launa fyrir sig“!  „Eftir að sendingin sem Benedikt Gabríel sendi Einari í Kollsvík hafði gengið að hesti hans dauðum, sem áður er greint frá, glettist hún við hann á ýmsan hátt á heimili hans og gerði þar margskonar glettingar“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Glettilega (ao)  Áhersluorð um magn/mælingu; all-; furðulega.  „Þeir voru glettilega fallegir skinnskórnir; svartir með hvítum bryddingum og rósaleppum“  ... „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar.  Jón Torfason afi minn smíðaði flest ílát í sveitinni.  það voru glettilega fallegir askarnir útskornir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Glettingar (n, kvk, fto)  Hrekkir; skráveifur.  Sjá glettast við.

Glettinn (l)  Hrekkjóttur; stríðinn; gamansamur.  „Kitti í Botni var alltaf hress í bragði og glettinn, bæði við börn og fullorðna“.  „Vélarfjandinn í bátnum var glettinn við okkur eins og stundum áður“. 

Glettni (n, kvk)  Gamansemi; gáski.  „Alltaf var stutt í glettnina hjá honum“.

Gleyma sér (orðtak)  A.  Gleyma að gera það sem ætlað var. „Þú hefur eitthvað gleymt þér með að setja fiskinn í útvötnun“.   B.  Vera annarshugar/í öðrum heimi.  „Fyrirgefðu að ég gleymdi mér og tók ekki eftir því sem þú sagðir“.   C.  Dotta; sofna smástund; detta útaf.  „Ætli ég hafi ekki gleymt mér yfir sjónvarpsfréttunum“. 

Gleymd er goldin/greidd skuld (orðatiltæki)  Ekki skal rifja upp gamlar skuldir/syndir/ávirðingar ef búið er að bæta fyrir þær.

Gleyminn (l)  Hættir til að gleyma; farinn að tapa minni.  „Maður er svo skratti gleyminn í seinni tíð“.

Gleymska (n, kvk)  Minnisleysi; það sem ekki er munað.  „Hætt er við að það falli í gleymsku sem ekki er skráð, þegar þeir eru fallnir frá sem vissu“.

Gleypa í sig (orðtak)  Borða í miklum flýti.  „Hann skrapp heim, rétt til að gleypa í sig“.

Gleypa sólina (orðtak)  Ofmetnast; færast of mikið í fang; ætla sér um of.  „Bíddu aðeins hægur; þú gleypir nú ekki sólina“!

Gleypa (gína) við (orðtak)  Trúa eins og nýju neti; trúa efasemdarlaust því sem sagt er; láta blekkjast.  „Kjósendur virðast hafa gleypt við þessu innihaldslausa skrumi, að venju“.

Gleypugangur (n, kk)  Græðgi; frekja.  „Ekki veit ég hvað svona gleypugangur á að fyrirstilla“.

Gleypur (l)  Gleypir í sig; hleypir í gegnum sig.  „Jarðvegurinn er þarna svo gleypur að vatnið hleypur í gegn“.

Glimrandi (l)  Frábært; afbragðs.  „Þetta eru glimrandi góðar kleinur“.

Glingra við (orðtak)  Dunda við; leika við.  „Ég skal glingra við strákinn meðan þú hellir uppá kaffi“.

Gliss (n, hk)  Glampi, glit.  „Mér sýndist vera eitthvað gliss inni í rafmagnstöflunni“.

Glitrandi (l)  Glampandi; sem stirnir á.  „Efst á gamla jólatrénu var glitrandi toppur“.

Glitský (n, hk)  Perlumóðurský; háský sem stundum sjást hátt á lofti við vissar aðstæður.  Þau eru mynduð úr ískristöllum ofan heiðhvolfsins, í 15-30 km hæð við 70-90°C frost.  Skýin geta verið fallega regnbogalituð vegna ljósbrots í kristöllum þeirra, en þeir eru ýmist úr saltpéturssýrusamböndum, brennisteinssýru eða ís.  Helst sjást glitský um eða eftir sólarlag, þegar dimmt hefur í neðri loftlögum.  Silfurský myndast mun ofar.

Glitta í (orðtak)  Sjást örlítið í; glampa á; móa fyrir.  „Mér sýnist glitta í augun á yrðlingnum inni í holunni“

Glík skulu gjöld gjöfum (orðatiltæki)  Sá sem fær gjöf leitast vanalega við að launa hana í sama verðmæti.

Glíma (n, kvk)  A.  Einvígi tveggja manna sem lýtur ákveðnum reglum; þjóðaríþrótt Íslendinga.  Hvor hefur tök á hinum á ákveðnum stöðum sem hann má ekki sleppa, og reynir að fella andstæðing sinn án þess að nota til þess óleyfilegar aðferðir.  Byggir á styrk, fimi og útsjónarsemi.  Viðurkennd brögð í glímu eru m.a. leggjarbragð; hnéhnykkur og lausamjöðm.  Glíma hefur líklega verið stunduð hérlendis frá landnámstíð, en er í dag skipuleg keppnisíþrótt.  Var t.d. þáttur ´starfi ungmennafélaganna, t.d. Vestra í Kollsvík.  B.  Heitið er notað um viðureignir af hverskonar tagi, þar sem ekki er tekist á með vopnum.

Glíma um sýsluna (orðtak)  Athöfn sem virðist hafa verið bundin við Kollsvík, en sennilega mjög gömul hefð þar.  „Það var alltaf regla í Kollsvík að þeir sem reru þar í fyrsta skipti í þeirri verstöð áttu að glíma um sýsluna og sá sem féll var útnefndur sýslumaður.  Sýslan var fjaran frá flæðarmáli og upp í Syðrikletta sem kallaðir voru.  Það var eins og gerðist í þá daga; þá voru hvergi klósett.  Þetta svæði urðu menn að nota sem klósett.  Svona viðvaningar; nýliðar, þeir áttu að glíma um hver væri sýslumaðurinn; yfirmaðurinn á þessu svæði og annast þrif á því.  Innheimta síðan gjald fyrir hvern mann sem notaði svæðið; gengi þar örna sinna“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Gljá (s)  Glampa; glóa.  „Þá sá mamma gljá á hringinn ofan á þúfunni....“  (Guðný Ólafsd. frá Láganúpi; upptaka Ísmús 1970; um huldufólk á Láganúpi).

Gljá (n, kvk)  A.  Slétt og víðáttumikið svell; miklir ísar.  „Fitin og Leirarnir eru ein samfelld gljá eftir hretið“.  „Gættu að þér þegar þu ekur um gljána í brekkunum“.  B.  Sandfláki á hafsbotni.  „Það voru ýmis mið, grynningar og hleinar, sem þótti best að þræða með.  Þeir sem lentu á miðjum sandi; „gljánni“, fengu minni fisk“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Gljáasvell (n, hk)  Mikil hálka; mikið og hált svell.  „Þarna er gljásvell, og nokkur halli í því“.

Gljái (n, kk)  A.  Glans.  „Það er nú fljótur að fara af þessu mesti gljáinn við notkun“.  B.  Svell; hálka.  „Vegurinn er þarna einn samfelldur gljá á löngum kafla“.

Gljáskúraður (l)  Þveginn/skúraður svo glansar.  „Þú veður ekki á skítugum skónum inn á gljáskúruð gólfin“!

Gljúpt (l)  Mjúkt; meyrt; sundurlaust.  „Það er stutt síðan frost fór úr jörð, og því getur verið gljúpt sumsstaðar“.

Gloppa /Glompa (n, kvk)  Gat; op.  „Túnrollurnar komast vel í gegnum þessa stóru gloppu á girðingunni“.  „Það er fjandi mikil glompa í netinu eftir hámerina“.

Gloppast (s)  Glutrast; glatast uppúr.  „Vasahnífurinn hlýtur að hafa gloppast uppúr vasanun hér inni“.  „Ég er hræddur um að leyndarmálið hafi óvart gloppast uppúr honum“.

Gloppóttur (l)  Götóttur; með miklum eyðum/götum. „Mitt minni er kannski orðið gloppótt í þessu efni“.

Glopra niður (orðtak)  Missa niður; glata.  „Hvar skyldi ég hafa gloprað niður vasahnífnum“?

Glopra út úr sér (orðtak)  Segja meira en ætlað/viðeigandi var.  „Ég glopraði því óvart út út mér“.

Glorhungraður / Glorsvangur / Glorsoltinn (l)  Sársvangur; banhungraður.  „Maður er glorsoltinn eftir sjóferðina“.

Gloría (n, kvk)  Mistök; afglöp.  „Hún fór kannski sæmilega af stað, þessi ríkisstjórn; en núna gerir hún hverja gloríuna á fætur annarri“!  Orðið var einatt notað í þessari merkingu vestra, en virðist þekkt annarsstaðar í merkingunni „dýrðarljómi“ eða „upphefð“.

Glorragangur (n, kk)  Fyrirgangur; hávaði; munnræpa.  „Ekki vantar glorraganginn í þennan sýslumann“.

Glorralegur (l)  Gassafenginn; með hávaða/læti.  „Skelfing getiði verið glorralegir strákar“!

Glorsoltinn (l)  Sársvangur; sársoltinn; banhungraður.  „Nú gæti ég þegið að fá nestið; ég er orðinn glorsoltinn“.

Glott (n, hk)  Háðslegt/yfirlætislegt/íbyggið bros.  „Hvaða glott er á þér núna“?

Glotta (s)  Brosa.  „Mér varð það á að glotta útí annað, og heldur æstist hann við það“.

Glottaralegur (l)  Kankvís; glottuleitur.  „Hann var heldur betur glottaralegur þegar hann sýndi hrútinn“.

Glotti (n, kk)  Svell.  Venjulega notað þegar svell var á afmörkuðum stað.  „Það var svellglotti undir klettinum í Hænuvíkurbrekkunum“.

Glottleitur / Glottuleitur (l)  Kankvís; brosleitur.  „Hann var heldur betur glottuleitur og hróðugur þegar hann kom með féð“.

Glóð (n, kvk)  Neisti; dulinn eldur.  „Það var enn dálítil glóð, þegar ég fór að kveikja undir í reykkofanum“.

Glóðvolgur (l)  Ylvolgur; skarpheitur; nýr.  „Það er sælgæðti að fá rúgbrauðið glóðvolgt úr boxinu“.

Glóðarhausvél (n, kvk)  Vélargerð sem algeng var í fyrstu trillum, mest milli 1920-30.  Einvirkar tvígengis- dísilvélar, 3-80 hö, með glóðarhaus sem þurfti að hita með prímuslampa fyrir gangsetningu.

Glóðarlampaútvarp (n, hk)  Útvarp sem nýtir glóðarlampa í stað transistora, en þau voru algeng á fyrstu dögum útvarps.  Glóðarlampaútvörp voru í notkun í Kollsvík framyfir 1960.

Glóheitur (l)  Sjóðandi heitur; mjög heitur.  „Passaðu þig á ofninum, hann er glóheitur“!

Glóhitna (s)  Hitna mikið.  „Það skíðlogaði uppúr torfinu og var farið að glóhitna í kofanum þegar ég opnaði“. 

Glópaháttur (n, kk) Glópska; bjánagangur; aulaskapur.  „Það var auðvitað hreinn glópaháttur í mér að gleyma bensínbrúsanum í landi“! 

Glópalán (n, hk)  Heppni.  „Eitthvað glópalán hefur verið yfir þeim, að lifa þetta af“.

Glópera (n, kvk)  Ljósapera með glóþræði úr wolfram.   Notaðar til lýsingar til 2015, þegar led-perur tóku við.

Glópska (n, kvk)  Aulagangur; rataháttur; heimska.  „Þetta er meira en lítil glópska“!

Glópur (n, kk)  Auli; bjáni.  „Stattu ekki þarna eins og glópur; reyndu að hjálpa aðeins til“!

Glóra (n, kvk)  A.  Skíma; ljós.  „Mér sýnist vera einhver glóra uppi á Núpnum“.  B.  Vit; skynsemi.  „Mér finnst ekki minnsta glóra að leggja af stað í þessu útliti“.

Glóra (s)  Grilla; sjást móta fyrir.  „Aðeins er að minnka bylurinn; það er farið að glóra í ljós norður í Kollsvík“.

Glórulaus (l)  A.  Sér ekki útúr augum fyrir hríðarbyl.  „Það er glórulaus bylur og varla hundi út sigandi“  B.  Vitlaust; heimskulegt.  „Þetta er gjörsamlega glórulaust, og engin fyrirhyggja“!

Glóruvottur (n, kk)  Vottur af skímu/ljósi.  „Það sést ekki glóruvottur út um glugga í þessu dimmviðri“ 

Glósur (n, kvk, fto)  Athugasemdir; rósamál; háðsyrði.  „Hann vildi ekki deila við verkstjórann en lét hann í þess stað heyra ýmiskonar glósur og meiningar við öll tækifæri“.

Gluða á (orðtak)  Maka á; dreifa ótæpilega á (t.d. málningu, olíu o.fl.).  „Ætli maður verði ekki að gluða einhverri málningu á þökin“.  E.t.v. nýlegt í málinu.

Glufa (n, kvk)  Bil; gjá; gjóta.  „Ég tróð torfi til bráðabirgða í glufuna við stafninn á kofanum“..

Glugga í (orðtak)  Skoða; rýna í.  „Gaman er oft að glugga í / gamlar fúnar skræður“.

Gluggabora (n, kvk)  Lítill gluggi.  Yfir hurðinni á framstafni Mókofans var gluggabora“.

Gluggafiskur (n, kk)  Búrfiskur; gatfiskur; fiskvöðvi í kinn þorskhauss (sjá þar).

Gluggasylla (n, kvk)  Sólbekkur; gluggabrík.  „Sagginn af rúðunni rann niður á gluggasylluna“.

Glundur (n, hk)  Þunnur vökvi; þunnt skyr.  „Mér líst ekkert á þetta glundur sem á að heita súpa“.

Glutra niður / Glotra niður (orðtak)  Týna; týna niður.  „Fljótt hallaði á verri veg eftir að skólinn glutraðist úr höndum hreppsbúa“.  „Vestfirðingum hefur tekist að glotra niður sínum kraftmikla og sérstæða framburði“.

Glúpna (s)  Guggna; gefa eftir; sýna veikleika.  „Hann glúpnaði og meðgekk hrekkinn þegar á hann var gengið

Glúrinn (l)  Séður; útsjónarsamur.  „Hann var skratti glúrinn að sjá bestu leiðirnar í bjarginu“.

Glúrni (n, kvk)  Útsjónarsemi; sjálfsbjargarviðleitni.  „Þessu náði hann fram með einstakri glúrni“.

Glymur/bylur hátt í tómri tunnu (orðatiltæki) Oftast viðhaft um gorgeir/mont; um þann sem talar mikið og/eða hátt um það sem hann hefur litið vit á.  Líkingin er auðskilin.  Stundum var „oft“ á undan.

Glyrna (n, kvk)  Niðrandi heiti á auga.  „Hvar höfðuð þið eiginlega glyrnurnar þegar kindurnar hlupu framhjá“?!

Glyrnótt (l)  Um lit á sauðfé; eyglótt; með dökkan blett í kringum auga.  Glyrnótt var yfirleitt notað ef blettur var á öðru auga, en eyglótt ef blettir voru á báðum augum.

Glysgjarn (l)  Gefinn fyrir marglitan/sundurleitan klæðaburð/ mikið skart.  „Hrafninn er glysgjarn og safnar oft í laupinn sinn öllu sem fallega glitrar eða hefur skæran lit“.

Glyss / Sólarglyss (n, hk)  Glampi; óþægileg birta; bjartur geisli í fjarska.  „Skelfing er erfitt að aka á móti þessu sólarglyssi“.  „Er einhver að kom innanað?  Mér sýndist ég sjá eitthvað gyss uppi á Jökladalshæð“.

Glýja (n, kvk)  A.  Ofbirta í augum.  „Órar greina annað fátt,/ augum hamlar glýja./  Sé ég þó í sólarátt/ siðinn þann hinn nýja“ (JR; Rósarímur).  B.  Um veðurfar; skammvinnur þurrkur; flæsa.  „Það gengur hægt að þurrka hey, þó að geri einhverja glýju inna milli skúra“.

Glýja yfir einhverju (orðtak) Hafa ágirnd á einhverju; sjá ofsjónum yfir einhverju.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). 

Glæða þurrk/vind/golu/gjólu (orðtök)  Auka vind, hreyfa vind.  „Hann er aðeins að byrja að glæða norðangjólu; kannski fari að hýrna eitthvað yfir þurrkinum eftir þessa mollu“.

Glæðast (s)  Aukast; hýrna; skána.  „Heldur hefur veiði verið að glæðast uppá síðkastið“.

Glæfraferð / Glæfraför (n, kvk)  Háskaleg/áhættusöm/fíflsdjörf ferð. Þótti mörgum það hin mesta glæfraför; ef hún lánaðist“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „Þegar í land kom var ég hinn roggnasti og lét í ljós við jafnaldra mína að þetta hefði verið hin mesta glæfraför“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Glæfralegt (l)  Hættulegt; glannalegt; kæruleysislegt.  „Mér fannst þetta afskaplega gæfralegt af honum“!

Glæfraskapur (n, kk)  Óvarkárni; hættuspil.  „Það er bara glæfraskapur að fara í kletta í svona votviðri“!

Glæfraspil / Glæfrafyrirtæki (n, hk)  Áhættusamt; teflt á tvær hættur.  „Það var glæfraspil að reyna lendingu“.

Glæja (s)  A. Móta fyrir; glitta í.  „Eitthvað er hann að létta þokunni; mér sýnist að þarna sé farið að glæja fyrir sólu“.  B.   Um það þegar glittir í sandbotn í grunnum sjó.  „Við leggjum þegar hættir að glæja á sandinn“.  C.  Oftast notað um það þegar straumur er svo mikill að færi/net liggur mjög út frá bátnum og þótti ekki mjög veiðilegt.  Þá „glæjar“ eða færið/strengurinn „liggur á glæ“.  „Þetta liggur allt á glæ hjá okkur“.  „Það þýðir ekkert að hanga á þessu þegar færinn eru farin að gljæja svona“.

Glæja fyrir (orðtak)  Móa fyrir; móta fyrir; sjást í gegn.  „Farðu ekki mikið nær landi; ég sé glæja fyrir Klakknum þarna gegnum þokuna“.

Glæjandi fall / Glæjandi straumur (orðtök)  Svo mikið fall að færi og net glæja.  „Það er komið glæjandi fall“.

Glænapalegur (l)  Illa klæddur; kuldalegur.  „Skelfing ertu glænapalegur; fáðu eitthvað utanyfir þig“.

Glænapast / Glænepjast (s)  Vera illa klæddur úti.  „Vertu nú ekki að glænapast úti svona úlpulaus“.

Glænapi (n, kvk)  Illa klæddur maður; kuldastrá.  „Farðu í úlpu drengur; þú ert alveg eins og glænapi“! Líklega hefur þetta heiti upprunalega átt við klökugan fjallstind/klettanef.

Glænýr (l)  Alveg nýr; ferskur.  „Mikið er gott að fá loksins glænýjan fisk“.

Glæpafyrirtæki (n, hk)  Óheiðarlegt fyritæki/stofnun.  „Ég kaupi ekkert frá því glæpafyrirtæki“

Glæpamennska (n, kvk)  Óheiðarlegar aðferðir.  „Þetta brask er náttúrulega glæpamennska og ekkert annað“!

Glæpast á (orðtak)  Slysast til; glepjast á.  „Ég glæptist á að kaupa mér þessa hrútleiðinlegu skáldsögu“.

Glær (n, kk)  Gamalt heiti um sjó.  Á síðari öldum þekkist það eingöngu í orðtökunum kasta á glæ og í veiðiskap um að standa á glæ.  Einnig í sögninni að glæja sömu merkingar“.

Glær (af kulda) (l)  Þegar húðin verður hvítleit af kulda. „Búðu þig betur barn, þú ert glær í gegn og skjálfandi!“

Glæra (n, kvk)  Klammi; klakabrynja; ísing.  Vegurinn er ein glæra alla leiðina; endilega gættu að þér“!

Glærahálka (n, kvk)  Mjög sleipt; slétt, sleipt svell.  „Gáðu að þér!  Það er glærahálka á leiðinni“.

Glærasandur (n, kk)  Sandlæna/sandblettur í grunnum sjó.  „Það þýðir ekki að leggja netin hér fram á glærasand; þau verða þá fljót að fyllast af drullu.  Við þurfum að stytta strenginn“.

Glæringar (n, kvk, fto)  Eldingar; ljósagangur.  „Það eru feikna glæringar að sjá innyfir hálsinn“.

Glæsibragur (n, kk)  Prúðmennska; viðhöfn; prjál.  „Mér fannst lítill glæsibragur á svona framkomu“.

Glæsikerra (n, kvk)  Glæsilegur/fínn bíll.  „Hafi þetta verið glæsikerra þá er það örugglega liðin tíð“.

Glæsilegur (l)  Mjög fallegur/virðulegur.  Oft í hæðnistóni eða neikværi merkingu:  „Þetta er glæsileg uppákoma, eða hitt þó heldur“!  „Mér fannst alveg hræðilegt að heyra þetta um Jón./  Ég hrifin var svo fjarskalega af honum./  Nei það var ekki glæsilegt að gera úr okkur hjón/ fyrst greyið hafði ofnæmi fyrir konum“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Glæta (n, kvk)  Skýjarof.  „Það er nú einhver glæta í norðrinu sýnist mér“.

Glætuvottur (n, kk)  Örlítill bjarmi; smá skíma.  „Einhver glætuvottur sýnist mér nú kominn til hafsins“.

Glöðum til gamans (orðtak) Skrattanum til skemmtunar; öfugmæli, til lítillar skemmtunar. „Í þriðja sinn grenjaði sig þarna tófa rétt fyrir aldamótin, en þágiltu önnur log og fjölskyldan var oll að velli lögð.  Sumt af dýrunum var þá farið að hafast við heima í húsum í Kvígindisdal, glöðum til gamans, því þar bjó þá fræg refaskytta“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Glögglega (ao)  Greinilega; skýrt.  „Mátti glögglega heyra að honum þótti þetta miður“.

Glöggskyggn (l)  Glöggur; skarpskyggn.  „Ansi varstu glöggskyggn að átta þig á þessu“.

Glöggskyggni (n, kvk)  Skarpskyggni; næmni.  „Það þarf enga glöggskyggni til að sjá hvert stefnir“.

Glöggt er gests augað (orðatiltæki)  Aðkomumaður sér oft hlutina á annan hátt og betur en sá er nær stendur og hefur þá einatt fyrir augum..

Glöggt er móðuraugað (orðatiltæki)  Enginn sér þarfir barnsins betur en móðir.  Einnig; þunnt er móðureyrað og milt er móðurhjartað.

Glöggt er smiðs augað (orðatiltæki)  Vanur smiður er fljótur að meta smíðisgrip og sjá á honum kosti og lesti.

Glöggur (l)  A.  Veðurglöggur, sem merkir skarpskyggn á veður.  Fólk var misjafnlega næmt á að lesa úr skýjafari og öðrum veðramerkjum og þannig spá fyrir um væntanleg veðrabrigði og tíðarfar.  Sú list hefur verulega tapast úr menningu Kollsvíkinga eftir tilkomu veðurspáa í fjölmiðlum.  B.  Sauðglöggur (sjá þar)

Glöggva sig á (orðtak)  Átta sig á; þekkja.  „Ég ætla að fara innan um féð og glöggva mig á hvað vantar“.  „Skyldi hann ekkert ætla að létta svo maður geti glöggvað sig á miðum“.

Glötun (n, kvk)  Tjón; eyðing; hvarf.  „Nauðsynlegt er að halda til haga hinu sérstæða fyrri tíðar málfari og lífsháttum og forða því frá glötun“.  „Endirinn verður því oft sá að þeir (drykkjumenn) verða algjörlega ósjálfstæðir fjárhagslega og glata þarafleiðandi frelsi sínu og leiða með því glötun og óhamingju yfir þá sem þeir hefðu átt að vera til aðstoðar og ánægju í lífinu“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938). 

Gnafinn (l)  Önugur; afundinn.  „Hann er eitthvað gnafinn yfir veðrinu þessa stundina“.

Gnauð (n, hk)  Þytur; vindhljóð.  „Lokaðu nú glugganum svo við loskum við þett leiðindagnauð“.

Gnauða (s)  Þjóta.  „Gat þá orðið all hávær söngur í bænum þegar vindurinn gnauðaði um símalínurnar“.

Gneip (n, kvk)  Hönd; hnefi.  „Það er ekki hægt að borða fuglinn með hníf og gaffli; taktu bara stykkið og stýfðu það úr gneipinni“.  „Hann sat bara niðurlútur og horfði í gneipar sér“.  „Ekki dugir að sitja bara og horfa í gneipar sér; við þurfum að drífa okkur í verkið“. 

Gneypur (l)  Álútur; boginn; beygður; niðurlútur.  „Fjallið gneypt sem guðvef sólar geisla vafið;/ firrðin dul og draumblátt hafið“  (JR; Rósarímur). 

Gníaraháttur (n, kk)  Okur; svindl.  „Svo virðist sem gnýaraháttur Bæjarhöfðinganna hafi verið takmarkalaus“.

Gníari (n, kk)  Þrjótur; okrari; svindlari.  „Hvað skyldi þessi bölvaður gníari ætla að ganga langt“?

Gnípa (n, kvk)  Bjargnibba; tindur; klettadrangur.  „Norður af Stapa gengur gnípa fram úr fjallinu; Söðull.  Þar er vegur inn í Skor“  (Guðm.Sig; Örn.skrá Rauðasandshr.).

Gnísta tönnum (orðtak)  Bíta/núa saman tönnum; oftast í reiði eða sársauka, en stundum í svefni. 

Gnoð (n, kvk)  Skip; bátur.  Oftast í virðulegri merkingu.  „Þar koma þeir að; og gnoðin drekkhlaðin að vanda“.  „Svipur formannsins var á þann veg, að nú skyldi hann og gnoðin sýna listir sínar til hins ýtrasta; enda sjáanlega ærið tilefni“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „Heilög goð er heitið á/ höldum stoð að veita;/ brugðið voðarbandi þá;/ brunar gnoðin landi frá“  (JR; Rósarímur).   „Helgi þegar hratt fram gnoð/ og hervæddist sinni brók,/ þá skalf hvert einasta sköturoð/ og skarkolinn andköf tók“  (ÖG; glefsur og minningabrot; formannsvísa um Helga Árnason í Tröð). 

Gnótt (n, kvk)  Nóg; yfirdrifið.  „Það var gnótt af snarvitlausum ufsafjanda, en fremur lítið af fiski“.

Gnýjari (n, kk)  Nirfill; maurapúki; okrari; sá sem þjarmar að.  „Ekki hefði ég ímyndað mér að hann væri þvílíkur gnýjari; að heimta full laun fyrir að bjarga manneskju í neyð“! 

Gnýr (n, kk)  Stöðugur og ærandi hávaði.  „Þú þarft að hlífa heyrninni við þessum gný“.

Gnæfa (s)  Skaga; gína; skaga.  „Skekin sævar svaka gný/ siglum gnæfa ofar;/ hrika-ræfur hátt við ský/ himinglævu borgum í“  (JR; Rósarímur). 

Gnæfandi (l)  Sá sem stöðugt gnæfir yfir.  „Enn stendur Blakkurinn tignarlegur og gnæfandi fram á röstina“.

Gnægð (n, kvk)  Yfrið nægt; yfirdrifið.  „Yfirleitt rak gnægð rekaviðar til þess sem þurfa þótti í Kollsvík, en athafnasamir bændur fyrri tíðar fóru þó stundum í rekaviðarferðir á Strandir“.

Gnægtabrunnur (n, kk)  Forðabúr; auðlind.  „Víða af landinu sóttu menn í gnægtabrunn Útvíknanna“.

Go / Gobara (uh)  Afbrigði af hikorðinu „sko“ og upphrópuninni„sko bara“.  Iðulega notað, þó áhöld kunni að vera um hvort þetta séu eiginleg og gild orð. „Go; ég skal segja þér…“.  „Gobara karlinn!  Þetta gat hann“!

Goðgá (n, kvk)  Firra; glapræði.  „Það er nú ekki goðgá þó við verðum á undan að leggja netin hérna einu sinni“.

Goðorð / Goðorðsmaður / Goði (n, hk/kk)  Stjórnsýslueining á þjóðveldisöld.  Þungamiðja hennar var höfðingi sem nefndur var goði.  Var hann leiðtogi íbúa í sínu goðorði og gætti hagsmuna þeirra, t.d. við uppkvaðningu dóma á héraðsþingum og síðar Alþingi.  Í fyrstu snerust goðorðin einkum um mannaforráð.  Bændur urðu að fylgja einhverjum goða en gátu valið sér hann; þeir voru þá nefndir þingmenn hans.  Síðar urðu þau svæði með landfræðileg mörk. Goðorð voru í fyrstu þrjú í hverri þinghá, en þrjú þing voru í hverjum landsfjórðungi; samtals 36 goðorð, en síðar var bætt þremur við í Norðlendingafjórðungi.  Goðinn gat krafist þess að níundi hver bóndi í goðorðinu fylgdi sér til þings; væri þingmaður hans.  Goðinn/goðorðsmaðurinn hafði framanaf það hlutverk að stýra blótum, en síðar varð hlutverk hans meira á sviði veraldlegrar stjórnsýslu.  Goðorðin voru persónuleg eign hvers goða; þau gengu í arf og gátu verið seld af hendi.  Með tímanum söfnuðust því mörg goðorð undir sama höfðingja.  Goðar hófu þá að innheimta skatta af þingmönnum sínum og skipulagið fór að líkjast um margt lénsskipulagi Evrópulanda.  Goðorð lögðust af þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd, en segja má að sýslumenn og sýslur hafi þá tekið við.  Goðorðsmenn eru í hópi forfeðra Kollsvíkinga.  T.d. feðgarnir í Odda, Jón Loftsson og Sæmundur sonur hans.  Jón var talinn valdamesti maður sinnar samtíðar.

Goðumlíkur (l)  Yfirnáttúrulegur; í guðatölu.  „Sumum þótti Jón Sigurðsson goðumlíkur“.

Gofótt (l)  Litur á sauðfé:  Dökkt á búk og haus en ljóst á kvið og framundir höku.

Gofr / Gofur (n, hk)  Hangs; gauf; dund.  „Ég nenni nú ekki þessu gofri lengur“.  „Óttalegt gofr er þetta; ætlið þið ekki að klára þetta fyrir kvöldið“?!  Báðar orðmyndir heyrðust notaðar, þó gofr væri algengara.

Gofra (n, kvk)  Rola; væfla.  „Hann stóð þarna eins og gofra og hafði ekki rænu á að stugga við fénu“!

Gofra / Gofrast (s)  Gaufa; hangsa.  „Þið eigið ekki að vera að gofra í lækjunum þegar þið sækið kýrnar, strákar“!  „Ætlarðu að vera að gofrast í allan dag við að fletja þennan eina fisktitt“?!

Gogg (n, hk)  Um slátt; snöp; sláttur þar sem lítið er að hafa/ erfitt er að slá.  „Afi hélt áfram sínu goggi þar sem hann sá vænlega grastoppa, þó synirnir væru farir að stunda stórtækari heyskap með vélum“.

Gogga (s)  A.  Um fugl; kroppa í.  B.  Um fiskveiðar; krækja í fisk með áhaldi, gogg, til að ná honum inn í bátinn.   C.  Um heyskap; slá gras með orfi og ljá; oft notað í niðrandi merkingu um lítil afköst, en stundum einnig í sömu merkingu og kroppa; þ.e. slá á aðþrengdum stöðum eða stöðum sem ekki voru grasgefnir.

Goggur (n, kk)  A.  Fuglsgoggur.  B.  Áhald til að færa í fisk og ná honum inní bát.  Helstu hlutar goggs eru goggskaft úr tré og oddhvasst goggjárn sem gengur þvert útúr framri enda skaftsins.  Sé goggurinn notaður við stinbítveiðar er einnig oft flís/gilding úr hvalbeini hinumegin á fremri endanum, og hann þar kylfulaga; notaður jafnframt til að rota steinbítinn.  Lengd goggs fer eftir stærð bátsins; á smábáti er hann oft um 40-60 cm.  Netagoggar eru stuttir; rétt þægilegir í greip á manni; notaðir til að greiða fisk úr netum.

Gola (n, kvk) Örlítið meiri vindur en andvari.

Gola (s)  Byrja að vinda í hæglæti; auka andvara.  „Það þýðir lítið að rjúka alltaf í land, þó aðeins goli“.

Golfranska (n, kvk)  Óskiljanlegt hrognamál; algjört rugl.  „Þetta hljómar eins og einhver bölvuð golfranska í mínum eyrum; reyndu að tala skiljanlegt mál drengur“!

Gollurshús (n, hk)  Himnu- og fitupoki utanum hjartað. 

Golsótt (l)  Litur á sauðfé:  Ljóst á búk en dökkt á kvið og haus.

Golukaldur (l)  Um vind/veðráttu; kaldur andvari.  „Þetta er ágætisveður, en nokkuð er hann samt golukaldur“.

Golukast (n, hk)  Gola um stundarsakir.  „Það var ágætis sjóveður, en gerði smá golukast um miðjan daginn“.

Golusteytingur (n, kk)  Kaldi; þéttingshvass vindur.  „Það verður árans golusteytingur norður yfir víkina“. 

Goluvottur (n, kk)  Lítilsháttar gola; andvari.  „Það var ekkert að veðri; smá goluvottur, en dauðasjólaust“.

Golþorskur (n, kk)  Stór þorskur; rígaþorskur.  „Var það einkum skata og lúða; stórir golþorskar og steinbítur, sem veiddist á haukalóð“  (KJK; Kollsvíkurver).

Gomma (n, kvk)  Glás; hellingur; mikill fjöldi.  „Þarna var gomma af fólki á ströndinni“.  Síðari tíma orð.

Gonna (n, kvk)  Smábátur; skekta.  „Mér finnst hann sækja nokkuð langt á gonnunni“.

Gopa (n, kvk)  Munnur; munngopa; gúll.  „Settu bara lýsið í gopuna á þér drengur, það drepur þig ekki“.

Gopast (s)  Flaka frá; gapa; pokast.  „Við þurfum að bera nægt grjót á jaðrana á yfirbreiðslunni svo hún gopist ekki upp“.  „Ullin er farin að gopast á bakinu á þessari; við þyrftum að losa hana við reyfið“.

Gopi (n, kk)  Lítilfjörlegur klæðnaður.  „Þessi kjólgopi hlífir þér nú lítið fyrir kulda“.

Goppast (s)  Skoppa; hrökkva til; detta.   „Hana!  Nú goppaðist hnykillin niður og eitthvað undir rúm“.  „Ég ætlaði ekki að segja þetta; það goppaðist bara óvart útúr mér“.

Goppast uppúr/útúr (orðtak)  Velta uppúr; sagt í ógáti. „Þetta goppaðist bara alveg óvart uppúr mér“.

Gorbragð (n, hk)  Keimur af gor (hálfmeltu grasi) í sláturafurðum, en það þykir merki um óvönduð vinnubrögð.

Gordíonshnútur (n, kk)  Erfitt/illleysanlegt vandamál.  „einhver verður að höggva á þennan gordíanshnút“.  Vísar til sögunnar um Alexander mikla, sem árið 333 f.Kr var í miðjum klíðum að leggja undir sig heiminn og kom til borgarinnar Gordíon í Litlu Asíu.  Þar höfðu menn lengi glímt átt við þá gestaþraut sem var óleysanlegur hnútur.  Alexander átti einfalt ráð við því, og hjó á hnútinn.

Gorgán (n, kk)  Þetta örnefni hefur orðið tilefni umræðna og telja sumir það merkja risa (e: gorgon = ófreskja).  Gorgán er nafn á höfða utanvið Keflavík við Bjarg.  „Gorgán er höfði og löng hlein fyrir framan.  Gangur er í Gorgán, en fáir eru sem fara hann“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).  Gorgán er einnig heiti á kletti úti í sjó í Breiðavíkurveri.  Aðalsteinn Sveinsson, áður bóndi í Breiðavík, nefnir aðra skýringu á heitinu:  „Þegar Gorgán stóð uppúr sat oft á honum svartbakur eða hvítmávur; má vera að hann hafi fengið nafnið af garginu í fuglinum“ (AS; Örn.skrá Breiðavíkur).

Gorgeir (n, kk)  Mont; raup; gort.  „Ekki vantar í hann gorgeirinn“!

Gorgeirsseggur (n, kk)  Monthani; vindbelgur.  „Ég var feginn að þurfa ekki að deila herbergi með þeim gorgeirssegg“.

Gorhljóð (í hrafni)  (n, hk)  Sérstakt krunk í hrafni, líkist fremur „klunk; klunk“.  Var talið vita á votviðri.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). 

Gorkátur (l)  Ánægður; montinn.  „Strákurinn var heldur betur gorkátur yfir nýju stígvélunum“.  Heyrist lítið núorðið en var almennt notað í Kollsvík til skamms tíma.  Vísar til ánægju hrafns sem kemst í hræ (gor).

Gorkúla (n, kk)  Belgsveppur (Lycoperdalae) sem algengur er í hæfilega þurru mólendi.  Verður hnöttóttur, á stærð við epli; hvítleitur í byrjun og gróin innaní þá eins og skyr.  Nefnist þá skyrsveppur eða merarostur.  Síðar verður innihaldið brúnleitt, líkt og ræpa eða gor, og nefnist sveppurinn þá gorkúla.  Enn síðar gránar hirslan að utan og gróin verða brún, þurr og rokgjörn.  Þá nefnist sveppurinn fýsisveppur eða kerlingareldur.  Sé hann sprengdur á því stigi dreifast gróin líkt og reykský. Algengasta heitið í Kollsvík er gorkúla. 

Gormánuður (n, kk)  Fyrsti mánuður vetrar að fornu tímatali; hófst fyrsta vetrardag og endaði í lok nóvember.  Gor er hálfmelt fæða í innyflum grasbíta, og vísar nafnið til sláturtíðar á þessum tíma, þegar gor var þveginn úr vömbum og litaði læki.

Gormur (n, kk)  A.  Görn úr steinbít þegar hún var höfð til beitu.  „Til beitu var notuð görnin úr steinbítnum sem kölluð er gormur; svo og lifrin“  (PJ; Barðstrendingabók).  „Að því búnu setti dráttarmaður hnífinn milli tanna sé meðan slógið var slitið úr steinbítnum, sem allt fór fyrir borð nema gormurinn“  (LK; Íls. sjávarhættir IV).  B.  Upphringuð fjaðrandi og margvafin lykkja  úr málmi eða öðru efni.  C.  Mýrarflói; starengi; forarteigur.  Algengt sem örnefni yfir slík landsvæði, t.d. Gormur sem er tjörn í Kollsvík.

Gormæltur (l)  Kverkmæltur; skrollar.  „Hann getur lítið gert að því þó hann sé gormæltur“.

Gornefur (n, kk)  Afæta; hrægammur; sá sem gerir sér mat úr óförum/bágindum annarra.  „Ekki stóð á því að sýslumaður mætti á staðinn með hamarinn.  Sá gornefur er ekki mikið í að leita sátta“!  Vísar líklega til hrafns sem leggst á kind sem er afvelta eða föst í dýi, en hann kroppar gjarnan fyrst gat á kvið og vömb, þannig að gor kemur á nef hans.

Gort (n, hk)  Mont; gorgeir; raup.  „Ég legg nú alveg til hliðar þetta bölvað gort í karlinum“!

Gorta (s)  Monta/stæra sig.  „Þetta er svosem ekki mikið til að gorta af“.

Gortari (n, kk)  Monthani; vindbelgur.  „Skelfilegur gortari geturðu nú verið“!

Gorvömb (n, kvk)  Vömb innanúr sláturgrip, full af gori.  „Gorvömbunum var kastað í kerruna“.

Goshlein (n, kvk)  Hlein fram í sjó með helli í og gati á þaki hans, þar sem sjór gýs upp við vissar aðstæður.  „Bekkur er goshlein er norðan við Straumskerið undir Blakknum.  Þar getur gosið upp í miðjar hlíðar um hálffallið, þegar vestanbrim er mikið.  Önnur goshlein er undir Sandhelli í Hnífunum“.

Gosi (n, kk)  Spjátrungur; monthani.  „Mér finnst hann fremur ómerkilegur gosi“.

Gosmistur (n, hk)  Þó Kollsvíkingar hafi ekki orðið fyrir barðinu á eldgorsum með beinum hætti, þá hafa þeir vafalaust orðið varir við afleiðingar þeirra með ýmsu móti.  Annarsvegar hefur straumur uppflosnaðs fólks án efa legið í verstöðvarnar í leit að lífsbjörg.  Hinsvegar hefur gosmistur frá stærstu eldgosum vafalítið náð til alls landsins með tilheyrandi óþægindum og kólnun í tíð.  Er þar skemmst að minnast að gosmengun frá Holuhraunsgosinu 2014-15 mældist á Vestfjörðum, og vikur frá Surtseyjargosinu lagðist í hrannir á Kollsvíkurfjörum.

Gossa (s)  Sturtast/hellast niður.  „Láttu þetta bara allt gossa í gjótuna“.

Gosull (n, kvk)  Glerull og steinull til einangrunar var í upphafi nefnd gosull.

Got (n, hk)  A.  Það þegar dýr eiga afkvæmi.  „Þetta er fyrsta gotið hjá tíkinni“.  B.  Lítill/ungur hákarl.

Gota (n, kvk)  Kýta; þorskhrogn (sjá þar).  „Gota úr þorski er sælkeramatur, einkum með góðri lifur“.

Gotfiskur (n, kk)  Fiskur sem orðinn er kynþroska; hrognafullur fiskur.

Gotinn (l)  Um fisk; búinn að gjóta.  „Margar af grásleppunum voru gotnar“.

Gotneskt letur (orðtak)  Oddbogaletur sem mikið var notað á síðmiðöldum.  Stafagerð er að sumu leyti frábrugðin latínuletri.  „Guðbjartur afi var vel læs á gotneskt letur og reyndi að kenna okkur strákunum“.

Gott betur (orðtak)  Meira en það; umfram.  „Hún náði lágmarkseinkun, og gott betur; fékk 9,5 á prófinu“.  „Hann aflaði gott betur en í fyrra.  Nú náði hann tólf tunnum af hrognum á vertíðinni“.

Gott ef ekki er (orðtak)  Andsvar til að taka undir fullyrðingu eða tilgátu.  „Heldurðu að kindin sé í ullarhafti?  Jú, gott ef ekki er; mér sýnist það líka“.

Gott er að eiga góða(n) að (orðatiltæki)  Gott er að eiga góða vini/nágranna/ættingja sem veita aðstoð þegar í nauðir rekur.  „Þakka þér kærlega fyrir hjálpina; það sannast hér sem oftar, að gott er að eiga góða að“!

Gott er að þiggja góðra manna ráð (orðatiltæki)  Gegnsæ speki og alloft vihöfð.

Gott er að eiga góða(n) að (orðatiltæki)  Gott er að eiga góða vini/ættingja þegar á móti blæs.

Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri (orðatiltæki)  Háðsk speki; manni getur vissulega þótt þægilegt að segja eitt við einn og annað við hinn, en hætt er við að slíkt komi manni í koll; fyrr eða síðar.

Gott/auðvelt/hægt er að vera vitur eftirá (orðatiltæki)  Þegar verki er lokið sést oft greinilega að betra hefði verið að standa öðruvísi að því eða fyrirbyggja það sem miður fór.  „Hefði ég vitað af lömbunum í hillunni hefði ég farið öðruvísi að; það er oft gott að vera vitur eftirá“!

Gott er (að hafa) barn til blóra (orðatiltæki)  Þægilegt er að kenna barninu um það sem miður fer, sem margur hefur eflaust freistast til þó ekki sé það alltaf sanngjarnt.  Þó óvitar geti vissulega valdið óhöppum óviljandi þá er þeim gjarnan einnig kennt um yfirsjónir hinna fullorðnu.

Gott er dyggum að duga (orðatiltæki)  Gott er að eiga tryggan vin og reynast honum vel.  Úr Hávamálum:  „Mildur að þurftum/ vertu í mörgum hlutum./  Gott er dyggum að duga“ (Hávamál).

Gott er góðum að líkjast (orðatiltæki)  Kostur að vera líkt við góðan mann.  „Hann hélt að ég hefði smíðað þetta; gott er góðum að líkjast“.

Gott er sjúkum að sofa (orðatiltæki)  Fátt er líklegra til heilsubótar en góður svefn, og til þess vísar þessi speki.

Gott og vel (orðtak)  Allt í lagi.  „Gott og vel; ég skal gera þetta“.  „Hann var ekkert að flýta sér að hjálpa þeim; honum þótti gott og vel að þeir bættu sjálfir fyrir sín eigin mistök“.

Gott leiði (orðtak)  Góður byr.  „Þeir fengu gott leiði suður fyrir Bjargtanga, en lentu þar í dálitlum mótvindi“.

Gott og blessað (orðtak)  Ágætt; mjög gott.  „Það er svosem gott og blessað að veiða, en hver á að verka aflann ef þið farið núna á eftir“?

Gott og vel (orðtak)  Gott; í góðu lagi; ágætt.  „Furðuleg eru þessi stjórnvöld!  Þeim finnst það bara gott og vel að leyfa fjárglæframönnum að hirða eignir af varnarlausum bændum, en banna þeim um leið að nýta fiskimiðin eins og þeir hafa gert frá því land byggðist“!

Gott undir bú (orðtak)  Góð búskaparskilyrði; vænlegt að hefja búskap.  „Kollur hefur fljótt séð að gott var undir bú í þeirri vík sem skip hans hafði brotið við land.  Gróðursæld og skógarkjarr; víðir bithagar; fiskur í vötnun; viðarreki á fjörum; hellutak; mótak; torfskurður; góð landtaka og gnægð fiskjar við landsteina“.

Gotterí (n, hk)  Sælgæti; nammi.  „Mest var um gotterí í víkinni fyrir jólin og þegar sumardvalarkrakkar birtust“.

Gotuhimna (n, kvk)  Greppur; himna sem er utan um gotu/hrogn.  „Sumir plokka gotuhimnuna af“.

Gotuskálm (n, kvk)  Gotuhelmingur.  Þorskhrogn líkjast buxum í laginu, með tveimur skálmum.

Góa var einn af gömlu íslensku mánuðunum og byrjar um 20. febrúar.  Henni fylgdi þjóðtrú varðandi veðurspádóma, sbr þuluna: „Grimmur skyldi Góudagur hinn fyrsti; annar og hinn þriðji; þá mun Góa öll góð verða“.   Góð góubyrjun var talin vita á slæma góu, og öfugt.  Nafnskýring er ekki augljós en ein kenning er að góa hafi verið nafn á snjóföl.  Líklegar er orðstofninn þó „góður“ og vísar til batnandi tíðar.

Góð kona er gulli betri (orðatiltæki)  Þarfnast ekki skýringar; a.m.k. ekki þeim sem vel hafa verið giftir.

Góð til áheita (orðtak)  Vænlegt að heita á.  „Breiðavíkurkirkja hefur oft reynst góð til áheita“.

Góða stund / Góðan tíma (orðtak)  Nokkuð lengi; drykklanga stund.  „Hinir sátu góða stund við kaffiborðið og ræddu landsins gagn og nauðsynjar“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Góðan kipp / Góðan spotta (orðtak)  Nokkra vegalengd; drjúgan spotta.  „Við eigum góðan kipp eftir enn“.

Góðbændur (n, kk, fto)  Gælunafn á góðum bændum.  „Þarna komu saman helstu góðbændur sveitarinnar“.

Góðfúslega (ao)  Í góðsemi; í góðu.  „Ég bað hann góðfúslega að útskýra þetta betur“.

Góðgerðir / Góðgjörðir (n, kvk, fto)  Veitingar; beini.  „Við erum vel búnir undir gönguferðina, eftir góðgerðir hjá bróður mínum og mágkonu, og með nestisbita í vasa“  (IG; Sagt til vegar I).  „Hann býður þó fátæka bóndanum að fá sér einhverjar góðgjörðir... “   (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Eftir að hafa fengið góðgerðir á öllum þremur bæjum í Kollsvík komum við í fyrirhugaðan dvalarstað...“  “  (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).  Einnig velgjörðir í sömu merkingu. 

Góðgjarn / Góðhjartaður  (l)  Vel meinandi; góðlátlegur; vingjarnlegur.  „Þau voru sérlega hlý og góðgjörn“.

Góðglaður (l)  Hreifur af víni; hífaður.  „Hann var orðinn nokkuð góðglaður og skemmti sér vel“.

Góðgæti / Góðmeti (n, hk)  Góður matur; kræsingar; góðmeti.  „Sigin grásleppa er algert góðgæti“.

Góðhjartaður (l)  Vel innrættur; góður í sér; vænn.

Góði (n, kk)  Sá sem góður er; það sem bætir. A.  Notað sérstætt sem stuttnefni/gælunafn/upphrópun.  „Réttu mér diskinn góði“.  Góði,  láttu ekki svona“!  B.  Í orðtökum:  Halda til góða; eiga til góða; gera til góða.

Góðir hlutir gerast hægt (orðatiltæki)  Oft er það svo; samanber sígandi lukka er best.

Góðkunnur (l)  Þekktur að góðu; vel kynntur.  „Hingað kom einn góðkunnur þingmaður“.

Góðlátlega (ao)  Í góðu; hlýlega.  „Hann bað okkur góðlátlega að láta sig vita fyrirfram í næsta skiptið“.

Góðlátlegur / Góðlegur / Góðsamur (l)  Vingjarnlegur; hlýlegur.  „Hann var góðlátlegur í bragði“.  „Það hindraði þá hinsvegar ekki í góðlátlegum glettum hvors á annars kostnað“  (PG; Veðmálið). 

Góðmenni (n, hk)  Góður maður; gæðasál.  „Hann var af öllum talinn hið mesta góðmenni“.

Góðmennska (n, kvk)  Umhyggja; vinsemd. „Af góðmennsku sinni gaf hann okkur fáeina eggjakoppa“.

Góðorður (l)  Hefur góð orð; gefur góðar vonir.  „Ég spurði hvort ég fengi far, og hann var góðorður um það“.

Góðra gjalda vert (orðtak)  Þakkarvert; verðskuldar viðurkenningu.  „Það ætti að vera góðra gjalda vert ef einhver sýnir áhuga á sinni heimabyggð og varðveitir sérstæða menningu sem einkenndi hana“.

Góðs viti (orðtak)  Veit á gott; góður fyrirboði.  „Það er góðs viti ef gjör eru farin að sjást á víkinni“.

Góðsemd / Góðsemi (n, kvk)  Góður vilji/hugur/ásetningur.  „Af góðsemd sinni gaf hún mér þessa vettlinga“.

Góðum gáfum gæddur (orðtak)  Skynsamur; greindur.  „Hann var mörgum góðum gáfum gæddur“.

Góður á jafnan góðs von (orðatiltæki)  Sé sem er öðrum góður, mætir oftast góðu af öðrum. Hinsvegar; illur á jafnan ills von.

Góður biti í hundskjaft (orðtak)  Sjá; þar fór góður biti í hundskjaft.

Góður er sérhver genginn (orðatiltæki)  Notað þegar látinn maður er lofaður látinn; meira en í lifanda lífi.  Vestra heyrðist ekki síðari hluti máltækisins; „illur aftur fenginn“.

Góður heim að sækja (orðtak)  Tekur vel á móti gestum; alþýðlegur.  „Þau eru bæði góð heim að sækja“.

Góður í sér (orðtak)  Vel innrættur; góðhjartaður; vænn.  „… en ljúfmenni var Jón (Thorberg) og góður í sér og fyrir það mun hann hafa liðið alla ævi“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Góður í sjó að leggja (orðtak)  Um bát; gott sjóskip; fer vel í sjó þó veltingur sé. 

Góður/drjúgur með sig (orðtak)  Drýldinn; sjálfhælinn; montinn.  „Hann er prýðis vinnumaður; en líka nokkuð góður með sig“.

Góður spotti/spölur/ kippur / Góð bæjarleið (orðtök)  Alllangur vegur; þónokkuð langt.  „Þetta var góðan spöl frá“.

Góður/ágætur/þénanlegur til síns brúks (orðtak)  Góður til þeirra nota sem hann er ætlaður til.  „Vasahnífurinn er þénanlegur til síns brúks, en hann hentar enganvegin til að hausa stórþorsk“!

Góður vinur er gulli betri (orðatiltæki)  Góð vinátta getur verið ómetanleg.

Góðverk (n, hk)  Verknaður af góðu tagi; það sem verður öðrum til góðs.  „Það væri bara góðverk að koma þessari ríkisstjórn frá; ekki hefur hún komið svo miklu í verk“!

Góðviðrakafli (n, kk)  Tímabil góðrar verðráttu.  „Það stóð heldur stutt þessi góðviðrakafli um sumarmálin“.

Góðviðri (n, hk)  Gott veðurlag.  „Það er bara sama góðviðrið, dag eftir dag“.

Góðviðrisdagur (n, kk)  Dagur með góðu veðri.  „Það komu nokkrir góðviðrisdagar í byrjun mánaðarins, en síðan hefur þetta verið leiðindatíð“.

Góðviðriskafli (n, kk)  Tímabil með góðri tíð.  „Þetta hefur verið ágætur góðviðriskafli“.

Góðviðrissumar (n, hk)  Sumar með góðri veðráttu.  „Þetta hefur nú verið einstakt góðviðrissumar“.

Góðviður (n, kk)  Góður viður; gott efni; kjörviður.  „Mér sýnist vera einhver góðviður í þessu tré“.

Góðvild landsdrottins (orðtak)  „Um aldamótin 1700 þurftu heimamenn í Kollsvík ekki að greiða uppsátursgjald.  sú venja hefur sjálfsagt verið gömul, enda í samræmi við það sem víða tíðkaðist vestanlands.  Aftur á móti varð þá hver viðlegumaður í veri að gjalda 2 fjórðunga í vertoll sem þó var, fyrir góðvild landsdrottins, stundum gefinn eftir.  Seint á 19. öld varð Kollsvík allstór verstöð, eftir að Kollsvíkurmenn höfðu reist allar búðirnar í verinu, áttu þær og leigðu.  Búðartollurinn varð þá 6 krónur og vertollurinn 6 krónur og samsvaraði því tollurinn af hverju skipi 60 hertum steinbítum (Frásögn GG o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir II).

Góðviljaður (l)  Velviljaður; með góðum hug.  „Vill ekki einhver góðviljaður skreppa eftir mjólk“?

Góðvilji (n, kk)  Velvilji; góður ásetningur.  „Góðviljann vantar ekki, en getan er öllu minni“.

Góðvinur (n, kk)  Góður vinur; vildarvinur.  „Hann er góðvinur minn frá skólaárunum“.

Góðæri (n, hk)  Tímabil velmegunar.  „Hér hefur verið góðæri til lands og sjávar í allt sumar“.

Gófla í sig (orðtak)  Eta af áfergju; gleypa.  „Hann góflaði í sig kræsingarnar“.

Gól (n, hk)  Væl; langdregið hátóna væl/grátur; grenjur.  „Um morguninn ég uppdagaði óttalega þraut;/ ég alsettur var heljarmiklum bólum./  Með þessar rosaskellur til Þóris læknis þaut,/ ég þreyttur var og linnti ekki gólum“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).    

Góla (s)  A.  Um hund; spangóla.  B.  Um barn; orga; skæla.  C.  Um söngvara; syngja illa.

Góletta (n, kvk)  Skonnorta sem Frakkar notuðu til fiskveiða sinna hér við land.  Sjá skonnorta.

Gólfkuldi (n, kk)  Kuldi á gólfum vegna ónógrar kyndingar, lélegrar einangrunar eða trekks.

Gólfskrúbbur (n, kk)  Bursti með stífum hárum og með skaftfestingu; ætlaður til að skúra/skrúbba gólf.

Gólftuska (n, kvk)  Gólfklútur; gólfþurrka; niðrandi orð um kúgaða manneskju.

Gólpa (s)  Gleypa; háma.  „Vertu nú ekki að þefa af matnum; gólpaðu þetta bara í þig“!

Góma (s)  A.  Grípa; ná tökum á; fingra.  „Þetta er nú svo lítið og óverulegt að það er varla hægt að góma það“.  B.  Fanga; handsama  „Það ætlar að reynast erfitt að góma þetta útigangsfé“.

Gómfylla (n, kvk)  Holdið efst í gómnum.  Sumum þykir gómfyllan besti bitinn á sviðakjammanum.  Sú var þjóðtrú að vanfær kona mætti ekki borða gómfyllu, því þá yrði barnið holgóma.

Gómstór blettur (orðtak)  Á stærð við fingurgóm.  „Það finnst varla gómstór blettur ígarðinum sem hænsnin eru ekki búin að krafsa upp“.

Góna (s)  Glápa; stara.  „Á hvað ert þú að góna“?

Góna (n,kvk)  Selshaus.  „Selurinn synti grunnt á Bótinni, með gónuna uppúr“.

Gósentími (n, kk)  Velsældartími; góðæri.  „Það eru ekki þeir gósentímar núna að verðbólgan greiði upp lánin“.

Góubyrjun (n, kvk)  Upphaf góu; fyrrihluti góu.  „Þótt veturinn hafi verið snjólaus hafa samt verið innistöður að mestu sökum illviðra fyrri hluta vetrarins, en kulda og storma með þurrkum eftir góubyrjun“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1942). 

Góuginur (n, kvk, fto)  Stærstu straumar ársins, en þeir verða á Góunni; eftir jafndægur.  Þá verður mest fjara.  „Um góuginur fellur svo mikið út að einungis mjór áll skilur Arnarboða frá ystu hleinum.  Minnir mig að um góuginur hafi ég eitt sinn komist um fjöruna frá Hreggnasa út undir Hnífaflögu“ (VÖ).

Góur (n, kk)  Góði; manni (gæluorð).  „Nú varstu smeykur góurinn“  (MG;  Látrabjarg).

Góutungl (n, hk)  Heiti þeirrar tunglkomu sem kemur næst á undan páskatungli.  Talinn marktækur um veðrabrigði fyrrum.

Góuþræll (n, kk)  Síðasti dagur góumánaðar.

Graðhestaskyr (n, hk)  Skyr sem hlaupið hefur, þannig að í því eru litlar örður þó hrært sé út (þynnt).  „Það má alveg sóða þessu í sig, þó það sé árans graðhestaskyr“.

Graðhestamúsik (n, kvk)    Hávær og pirrandi tónlist, með hröðum takti, sem ekki fellur að smekk.  „Lækkiði nú þessa andskotans graðhestamúsikk í útvarpinu; þetta gerir hvern mann vitlausan“!

Graðnaut (n, hk)  Þarfanaut; naut sem ekki er geltur uxi.  „Stundum þurfti að teyma kýr langar leiðir til að halda þeim undir naut, því ekki var graðnaut á hverjum bæ“.

Graðskata (n, kvk)  Karlkyns skata; mjög stór skata.

Graðýsa (n, kvk)  Stór en horuð/lausholda ýsa.  „Ekki finnst mér mikið varið í svona graðýsu“.

Grafa sig (orðtak)  Um siglingu báts; skrúfast niður að aftanverðu vegna sogs þegar mikið er siglt.

Grafa sig í fönn (orðtak)  Gera sér holu í snjóskafli og bíða í henni þar til óveðri slotar.  Mörg dæmi eru um að þannig hafi menn lifað af, þegar óveður gerði á þá á göngu milli staða“.

Grafa stríðsöxina (orðtak)  Hætta hernaði; semja frið.  Orðtakið á rætur í þeim ævaforna sið að til hernaðar var forðum boðað með því að senda öxi eftir fyrirfram ákveðinni boðleið, og giltu ströng lög um boðburðinn.  Boðið var skorið í skaft axar eða örvar eða ritað á lepp sem vafinn var um skaftið.  Þetta er hin eiginlega stríðsöxi.  Hún hefur líklega verið grafinn þegar hernaðinum lauk, til vitnis um stríðslok; um það vitnar þetta orðtak.  Þó þessi siður hafi löngu verið aflagður við landnám Íslands lifðu ákveðnar leifar hans lengi hérlendis, í svonefndum axarboðum.  Í stað stríðsaxar kom þingboðsöxi; líkan af öxi sem boð var vafið um og öxin borið um byggðina  eftir réttri boðleið til að boða hverskonar þing eða annað.  Enn eru varðveittar nokkrar þingboðsaxir, t.d. eftirlíking einnar í eigu þess sem þetta ritar, og hinar réttu boðleiðir voru notaðar framundir þennan dag til þess t.d. að koma fjallskilaseðlum til skila.

Grafa um sig (orðtak)  Festast í sessi; setjast að; verða að meini.  „Svona spillingu verður að uppræta tafarlaust, áður en hún grefur um sig og verður að þjóðarmeini“!

Grafalvarlegur (l)  Mjög alvarlegur; gamanlaus.  „Það er grafalvarlegt mál ef vegurinn er lengi lokaður“.

Grafarraust (n, kvk)  Dimm og alvöruþrungin rödd.  „Þá síast í gegnum mínar lokuðu hlustir dularfullar umræður utan úr horni sem bentu til að þar væru unnin myrkraverk:  „Ég ætla að eiga blóðið; þú mátt eiga ketið“, var sagt með grafarraust...“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).   

Grafast fyrir um (orðtak)  Forvitnast um; spyrjast fyrir um; leita að.  „Það þyrfti að grafast fyrir um það hver hefur tekið þessa bók af Bókasafninu án þess að skila henni“.  Vísar til þess að grafa þarf rætur trés upp, ef það á ekki að verða til vandræða við t.d. ræktun lands.  Einnig kann hér að vísast til þess að fyrr á öldum voru grafnir upp fauskar; þ.e. rætur löngu dauðra trjáa, til að nýta þá sem eldivið.

Grafalda (n, kvk)  Um sjólag; „Grafalda er svipuð undiröldu, en báturinn er þá eins og grafinn niður í öldudalinn“  (LK; Ísl. sjávarhættir III).

Grafalvarlegt (l)  Mjög alvarlegt/válegt.  „Þetta getur haft grafalvarlegar afleiðingar“!

Grafarraust (n, kvk)  Draugaleg/dimm rödd.  „Ég ætla að eiga blóðið; þú mátt eiga ketið“ var sagt með grafarraust“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Grafinn sjór (orðtak)  Úfinn sjór; allnokkur sjór.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Grafkyrr (l)  Alveg kyrr; hreyfingarlaus.  „Ég stóð grafkyrr og beið þess að tófan kæmi nær“.

Graftarbóla / Graftarkýli / Graftarmein Bóla/kýli vegna ígerðar.  „Þetta er að verða fjári mikið graftarkýli“.

Graftól (n, hk, fto)  Áhöld/amboð sem notuð eru til að taka gröf/ greftra.  Siður var að leggja þau í kross yfir gröfina fyrir og eftir greftrum.

Grallaraháttur (n, kk)  Ærsl; glens; hrekkvísi.  „Það ætlar seint að eldast af honum grallarahátturinn“!  Engin dæmi finnast um orðið í orðabókum.

Grallaralaus (l)  Gáttaður; ringlaður.  „Maður er bara aldeilis grallaralaus yfir svona háttalagi“.  Grallari var messusöngbók sem kom fyrst út árið 1594.  Sá sem ætlaði að taka undir í kirkjusöngnum gat verið nokkuð utangátta ef hann var grallaralaus.

Grallaralegur (l)  Kíminn; íbygginn; líklegur til hrekkja/gríns.  „Því ertu svona grallaralegur á svipinn“?

Grallaraspói (n, kk)  Grallari; ærslabelgur; hrekkjalómur.  „Þeir eru ferlegir grallaraspóar, báðir tveir“.

Grallari (n, kk)  A.  Ákveðin útgáfa messusöngbókar.  B. Stór þorskur þorskur; golþorskur.  C.  Koli.  Hann er algengur á miðum Víknamanna og veiðist stundum, ekki síst í net.  Áðurfyrr var hann einkum hertur til skepnufóðurs, en á síðari tímum hirtur til matar enda er feitur koli ágætur matfiskur.  D.  Hrekkjalómur; stríðnispúki; galgopi.

Grammófónn (n, kk)  Plötuspilari.  „Ingvar átti grammófón, sem lengi var á Stekkjarmel eftir að hann flutti í Kollsvík.  Fónninn var fyrir 78 snúninga lakkplötur; trekktur og notaði ekki rafmagn“.  „Svo voru húsakynni í Saurbæ rúmgóð, eins og fyrr segir, svo unga fólkið gat dregið sig nokkuð útúr eftir kaffidrykkju og jafnvel haft uppá grammófóngarmi og dansað stundarkorn“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Grammofónnál (n, kvk)  Nál í grammofón.  Elstu grammofónarnir voru með lausri málmnál í klemmu, sem unnt var að skipta um.  „Hann átti tóma dós undan grammofónnálum og hafði ég mikinn áhuga á dósinni“  (IG; Æskuminningar).

Grams (n, hk)  A.  Rót; rísl.  „Vertu nú ekki að þessu gramsi í kistunni“!.  B.  Ólíkar sortir; afgangar. 

Gramsa (s)  A.  Róta; hræra.  „Þú mátt ekki gramsa í kössunum nema að þú lagir til aftur“.  B.  Verka fisk; sundra innmat úr sláturdýri.  „Hann er duglegur að gramsa“.

Granabein / Kjaftabein (n, hk)  Beinin fremst í kjafti fisks, sem tanngarðar sitja í (sjá steinbítur).

Granda (s)  Eyða; tortíma.  „Þó hersveitir Norðra þér hyggist að granda/ þá hræðistu aldrei þá gráköldu fjanda“  (EG; Blakkurinn; Niðjatal HM/GG). 

Grandalaus (l)  Grunlaus; á sér einskis ills von.  „Ég var alveg grandalaus um að svona lagað gæti skeð“.  Grandi merkir íhugun/hugsun; samanber grandvar; grandskoða; skylt sögnunum að grunda og gruna.

Grandaleysi (n, hk)  Óaðgæsla; ugga ekki að sér; eiga sér ekki ills von.  „Ég var að rifja flekkinn í algjöru grandaleysi, þegar allt í einu gerði hellidembu úr heiðskíru lofti“.

Grandskoða (s)  Skoða gaumgæfilega/mjög vel.  „Hann þurfti að grandskoða þetta nýja tæki“.

Grandvar (l)  Heiðarlegur; hrekklaus.  „Ekki hef ég þekkt heilsteyptari eða grandvarari manneskju“.

Grannholda / Grannvaxinn (l)  Horaður; magur.  „Mér finnst kálfurinn vera grannholda eftir sumarið“.

Grannleitur (l)  Grannur í andliti; kinnfiskasoginn; þunnur á vangann

Grannhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með grönn/veikluleg horn.  „Taktu varlega í hornin á gimbrunum; sérílagi ef þær eru grannhyrndar“.

Grannt (l)  Vandlega; ítarlega.  „Ef grannt er skoðað má enn finna rústir verbúða í Láganúpsveri“.

Grannur (l)  Mjór; horaður.  „Af vel fóðruðu sauðfé með afburðum má nefna á báðum bæjum á Lambavatni, því fé er þar grannt að hausti til; enda eru þarna alltaf vel verkuð hey“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Grannþekkja (s)  Nauðþekkja; þekkja í smáatriðum.  „Ég tel mig grannþekkja þetta svæði“.

Grasaferð / Grasafjallaferð / Grasatínsla (n, kvk)  Ferð til að tína fjallagrös, en þau voru töluvert nytjuð fyrrum.  Einnig var talað um að „fara á grasafjall“ eða „fara til grasa“.  „Þetta var í grasafjallaferð, seint á sumri...“  (Davíð Davíðsson frá Kóngsengjum; upptaka á Ísmús; 1970; um huldufólk í Vestubotni).

Grasafólk (n, hk)  Fólk sem tínir fjallagrös/ fer til grasa.  „Líklegt er að grasafólk hafi farið þessar slóðir og þá sennilega komið grösunum á Grashjalla undir heimferð“  (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).

Grasagrautur (n, kk)  Fjallagrasagrautur; grautur úr fjallagrösum og vatni, stundum einnig mjöli.

Grasamjólk (n, kvk)  Mjólkurseyðingur af fjallagrösum.  „Fjallagrasamjólk er góð með púðursykri“.

Grasaseyði (n, hk)  Fjallagrasaseyði; seyði af fjallagrösum.  Notað sem lækningadrykkur, t.d. við kvefi.  Grösin eru þá soðin dágóða stund í vatni; síðan síuð frá og vökvinn drukkinn.  Oftast er bætt í þetta hvítum sykri eða púðursykri.  Einnig var elduð grasamjólk og með viðbót af mjöli var eldaður grasagrautur.

Grasasni (n, kk)  Erkihálfviti; alger bjáni.  „Óttalegir andskotans grasasnar geta þessir menn verið, alltaf hreint“!

Grasate (n, hk)  Te af fjallagrösum.  „Það var kveikt kl 6-7 (síðdegis); þá var miðdagsmatur.  Hafði þá ekkert verið borðað frá því kl 10 árdegis, en kl 12 á hádegi var kaffi fyrir fullorðna en grasate fyrir börn og unglinga“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   

Grasatevatn (n, hk)  Grasate. „Farið var til grasa á hverju vori eða sumri.  Fjallagrös voru notuð væði í brauð og grauta.  Það eru reglulega góð rúgbrauð blönduð með fjallagrösum.  Grasatevatn var búið til úr fjallagrösum og grasamjólk“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Grasár (n, hk)  Sprettuár; sumar þegar grasspretta r góð.  „Síðustu áratugina hafa yfir leitt verið góð grasár“.

Grasbali (n, kk)  Grasi vaxinn harðbali. „Utan við Stórhólinn taka við grasbalar sem heita Flatir “  (IG; Sagt til vegar I).  „Blaðkan úr Sefinu var þurrkuð á góðum grasbala, t.d. á Flötinni“.

Grasbeit (n, kvk)  Úthagi; hagabeit.  „Í Kollsvík er bæði góð grasbeit og fjörubeit, og því fóðurlétt fyrir fé“.

Grasbrestur (n, kk)  Sprettuleysi; ekki grasspretta til að næg hey fáist af túnum.  „Sumarið 1966 byrjaði grasbrestur, og hélst næstu sumur.  Urðu bændur að fækka búpeningi“ (MG; Árb.Barð 1959-67). 

Grasbýli (n, hk)  Býli/kot sem hefur túnskika til ábúðar (grasnytjar) en á ekki land.  „Nokkur grasbýli voru í Kollsvík, svo sem Grænamýri; Grundir; Grundabakkar og Hólar“. „Hér í Víkinni voru mörg grasbýli þar sem fólk lifði á sjávarfangi...“ (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).   „Kollsvík, Láginúpur og Grundir voru lögbýli í Kollsvík, en auk þeirra voru Bakkar þurrabúð; Grund líka þurrabúð, þar bjó Samúel Eggertsson.  Og Stekkjarmelur, þar var grasbýli og þar standa hús, því þar var búið til 1962“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Grasekkja (n, kvk)  Gift kona sem er ein um einhvern tíma vegna fjarvista eiginmanns.

Grasflá / Grasfles / Grasflesja / Grasflæmi (n, hk)  Gróið svæði í bjargi/klettum.  „Skjöldur er grasflæmi fyrir utan Forvaðagjótu og út að Skjaldsargjá“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).  „Undan Gvendarhelli er Sandhellissvelti; grasfles sem kindur gátu stokkið niðu í, en komust ekki upp aftur“  (HÖ; Fjaran). 

Grasflóki (n, kk)  Grastoppur; sinuflóki.  „... þegar hann ætlaði að horfa fram af bjarginu hafi hann stigið í holu sem var hulin í grasflókanum á bjargbrúninni... “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Grasfoldir (n, kvk, fto)  Þurrlent svæði  þar sem gróið er uppúr mosa.  „Það hagar þannig til á vjargbrúninni víðast hvar, að fyrst frá brúninni er töðugras og grafoldir sem við köllum; svo taka við mosaþembur“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Grasgangur / Grashilla (n, kk)  Gróinn gangur/sylla í klettum.  Virðist ekki þekkt annarsstaðar í þessari merkingu. „Melahvappshillur eru grasgangar og hægt að ganga á milli þeirra“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs). 

Grasgefið (l)  Um tún; gefur af sér mikið gras; gott til slægna.  „Gamla túnið var alltaf mjög grasgefið“.

Grasgræna (n, kvk)  Grænn litur úr grasi sem getur litað föt og annað.  „Þú ert með grasgrænu á hnjánum“.

Grasgræna (n, kvk)  Grænn litur úr gróðri sem sest á hluti, t.d. föt, sem nuddast við jörðina.  „Varstu nú að renna þér í bræjarhólnum strákur?  Það er grasgræna á buxunum“.

Grashilla (n, kvk)  Grasivaxinn gangur/hilla í klettum.  „Framan í Lambhöfða; yst og ofarlega, er grashilla sem heitir Svartakollshilla.  Upp af Lambhöfða er grashilla sem heitir Sinuhilla“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Grashnjúskur / Grashnúskur (n, kk)  Grashnaus; gróin jarðvegsfylla.  „Líklega hef ég aldrei verið hættara kominn í mínum mörgu bjargferðum en eitt sinn í Blakknesnibbu.  Þá hafði ég þokað mér eftir tæpum grasgangi; sótt egg og var að skríða yfir stóran grashnúsk.  Þá finn ég að hann losnar, og skiptir engum togum að hann þeytist niður hamravegginn um leið og ég næ að bjarga mér á fastan bakkann.  Gangurinn varð ófær á eftir“ (VÖ).  Báðar framburðarmyndir heyrast í Kollsvík og nágrenni, og báðar líklega jafnréttar; orðstofninn er annarsvegar hnúkur en hinsvegar hnjúkur.  Hnjúskur/hnúskur er minni þúst eða þúfa.

Grashöfði (n, kk)  Grasi vaxinn klettahöfði við sjó eða í klettum.  „Utan við Gat og Forvaða tekur við samskonar stórgrýtisfjara út að grashöfða sem heitir Lambhöfði“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Grasigróinn (l)  Uppgróinn; vaxinn grasi.  „Barðstrendingar geymdu báta sína fram að vertíð innst í Patreksfirði; við árósana á Skeiðseyri; sléttri grasigróinni eyri vestan fjarðarins, sem nú hefur að mestu verið tekin til ofaníburðar.  Þeir standsettu bátana áður en þeir komu í Verið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Þúfustekkur er, eins og hinir fyrrnefndu, í grasigróinni laut, samnefndri“  (HÖ; Fjaran).  „Í Látrabjargi var afar gott haglendi, þar sem það á annað borð var grasi gróið“  (PG; Veðmálið). 

Graslaut / Graslág / Grasbolli  (n, kvk/kk)  Gróin laut; gróinn bolli. 

Graslent (l)  Uppgróið; gróið.  „Stóra- og Litlató voru graslend drög niður af Holtum“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Grasleysi (n, hk)  Léleg grasspretta. „Árið 1918 var hjá bændum allmikið grasleysi vegna kals á túnum, eftir undangenginn frostavetur“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Grasnál (n, kvk)  Gæluheiti um gras, einkum fyrstu sprota þess.  „Það er farið að votta fyrir grasnál þar sem skjóls og vætu nýtur“.  Oftast var þó notað stuttheitið nál.

Grasnef (n, hk)  Gróið klettanef.  „Fyrst hafði hann komið niður á herðarnar, á grasnefinu í bjarginu; síðan tekið eitt kast og komið þá niður á grúfu og getað gripið í grasið og stöðvað sig“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Grasnyt (n, kvk)  Not af beitilandi og nytjajurtum.  „Húsmaður hjá Jóni (bónda í Kollsvík) er bróðir hans með konu sinni, sem forsorgar sig og hana á sjáfarafla og hefur hvorki grasnyt nje fyrirsvar, nema það sem bróðirinn ljær honum“  (AM/PV Jarðabók).  Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal skrifaði bókina Grsnytjar um það gagn sem hafa mætti af hverri jurt sem á landinu vex.

Grasrein (n, kvk)  Grasrönd/-rák.  „Enn má sjá grasreinar um Strympurnar þar sem Kollsvíkurbændur létu dreifa áburði með flugvél á 7. áratug síðustu aldar.

Grasrimi (n, kk)  Mjór láréttur grasteigur.  „Þegar gatan lá í fjöru var farið eftir grasrima.  Var hann og svæðið í kringum hann nefnt Sneiðingur“  (KJK; Örn.skrá Tungu).

Grasræktarland (n, hk)  Land sem hentar til ræktunar; ræktanlegt land.

Grassera (s)  Verkast; verka; ganga um; viðgangast; gera um sig.  „Það grasserar víst einhver flensufaraldur fyrir sunnan“.

Grasspretta (n, kvk)  Spretta túna.  „Grasspretta var mismunandi ár frá ári og tún voru misjafnlega grasgefin“.

Grastoddi / Grastotti (n, kk)  Toppur/visk af jarðföstu grasi.  „Þarna standa nokkrir grastottar uppúr, en annars hefur skafið sandi yfir allt“.

Grastó (n, kvk)  Gróinn teigur.  „Grastór eru sitthvorumegin í Dalnum; Breiðavíkurtó til vinstri og Hænuvíkurtó til hægri“  (IG; Sagt til vegar II). 

Grasvöxtur (n, kk)  Grasspretta.  „Stafar þetta af því að að frá lokum júlímánaðar 1936 var sumar afar votviðrasamt svo hefyfengur, þrátt fyrir góðan grasvöxt, varð með minna móti, og sumsstaðar ekki góð hey“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1935). 

Grasþurrt (l)  Það stig þurrkunar heys þegar grasið er orðið þurrt að utan en ennþá grænt.  „Meðan hey var fullþurrkað var það oft garðað þegar það var grasþurrt, einkum ef útlit var fyrir óþurrk.  Einnig var það sett í vothey grasþurrt og síðar í súgþurrkunNú til dags er til siðs að rúlla heyið grasþurrt; jafnvel beint af ljánum ef þurrt er í veðri“.

Grauta í (orðtak)  Athuga; skoða; læra.  „Ég er að grauta dálítið í ættfræðinni þessa dagana“.

Grauta saman (orðtak)  Rugla; hræra saman.  „Þú mátt ekki grauta saman gullauga og Látrakartöflum“!

Grautarausa (n, kvk)  Ausa til að færa graut eða annan spónamat upp úr potti.

Grautargerð (n, kvk) A.  Það að gera graut/súpu.  B.  Í líkingamáli: Samhræringur; sambræðingur; rugl.  „Þessar nútímabókmenntir eru ljóta grautargerðin“!

Grautarhaus (n, kk)  Vitleysingur; rugludallur.  „Skelfingar grautarhaus getur maðurinn verið, ef hann heldur að hann kom ist upp með svona endemis tiltektir“!

Grautarlap (n, hk)  Gæluorð um graut/ þunnan graut.  „Mikið þykir mér nú betra að fá rótsterkt kaffi á morgnana en eitthvað grautarlap“.

Grautarsleikja (n, kvk)  Lítill skammtur af graut; grautarspónn.  „Áttu svolitla grautarsleikju fyrir mig“?

Grautarspónn (n, kk)  Lítill skammtur af graut; grautarsleikja.  „Gefðu mér nú dálítinn grautarspón á diskinn“.

Grautfúinn (l)  Ónýtur af fúa.  „Við þurfum að skipta um slár undir grindunum.  Þær eru orðnar grautfúnar“.

Grautfúll (l)  Mjög vonsvikinn/leiður/niðurdreginn.  „Ég er grautfúll út í hann fyrir að standa ekki við sín orð“.

Grábölvað (l)  Slæmt; afleitt; óviðunandi.  „Það er alveg grábölvað að geta ekki notað þetta sjóveður“.  Sjá fari það bölvað/grábölvað.

Gráð (n, hk)  Sjólag; mjög fíngerð vindgára sem mattar yfirborðið þó ládautt sé að öðru leyti.  „Víkur hrollur, vænkast ráð,/ vættir hollar duga./  Bláum kolli lyftir láð/ leiðar yfir sollið gráð“  (JR; Rósarímur). 

Gráðugur (l)  Lystarmikill; sólginn í; gírugur.  „Féð er gráðugt í þarann næst sjónum“.

Gráflekkótt (l)  Um lit á sauðfé; hvítt með gráum flekkjum/litaskellum á bol, og oftast einnig á haus.

Grágás (n, kvk)  Safn íslenskra laga frá þjóðveldisöld (930-1262).  Um er að ræða safn rita úr ólíkum áttum og e.t.v. misgamalla.  Nafnið Grágás hefur verið notað um safnið frá miðri 16.öld og vísar líklega til þess að textinn er ritaður með fjaðurpenna.  Fyrstu lög Grágásar eru svonefnd Hafliðaskrá, frá 1117-18, en síðan voru gerð mörg lagahandrit.  Tvö þeirra hafa varðveist í skrautlegum og heillegum skinnhandritum; Konungsbók og Staðarhólsbók.  Grágás er eitt umfangsmesta lagasafn germanskrar þjóðar á eigin tungu.  Ný lögbók, Járnsíða, var lögtekin 1271-3 og byggði á norskum rétti.  Járnsíða þótti meingölluð og var óvinsæl, en við henni tók Jónsbók 1281 sem studdist meira við Grágásarlög.

Gráglettni (n, kvk)  Kaldhæðni; gálgahúmor.  „Ég missti fjárans refinn, en fyrir einhverja gráglettni rakst ég þarna á tvær útigangsær“.

Grágofótt (l) Um lit á sauðfé;  Grá ær með hvítan hvið, bringu og undir snoppu.

Grágolsótt (l)  Litur á sauðfé; ljóst yfir skrokkinn en grátt að neðanverðu, á fótum, kvið og haus.

Grágrýti (n, hk)  A.  Blágrýti sem er grátt að lit vegna skófa og mosa.  „Upp af Bugahjalla eru svo grágrýtisskriður, sem ná inn að svonefndum Smérteigum“ (Örn.skrá Geitagils; heim. Helgi Einarsson).  Ekki vitað um þessa merkingu annarsstaðar.  B.  Bergtegund; alm. merking.

Gráhálsótt (l)  Litur á sauðfé; ljóst yfir skrokkinn og á haus en með gráan hring um hálsinn.

Gráhöttótt (l)  Litur á sauðfé; Ljóst á skrokkinn en grátt yfir höfuðið, aftur á háls.

Grákápótt (l)  Litur á sauðfé; ljóst yfir skrokkinn og á haus en með gráa kápu um háls og framhluta.

Grákinnótt (l)  Litur á sauðfé; ljóst á skrokk og haus, en með grátt í öðrum eða báðum kjömmum.

Grákjálki (n, kk)  ....óviss merking....(líkl. gamall maður, en e.t.v. notað yfir steinbít) (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Grákrímótt / Grákolótt (l) Um lit á sauðfé;  Hvít ær, grá í framan og oftast einnig á fótum.

Grálega leikinn (orðtak)  Fær slæma útreið; illa farið með.  „Hann þóttist grálega leikinn að vera skilinn eftir“.

Gráleitur (l)  Með gráu yfirbragði.  „Nú þyrfti að fara að mála hurðina; hún er orðin ansi gráleit“.

Grályndur (l)  Styggur/viðskotaillur í skapi; illskeyttur.  „Hann sagðist aldrei ræða við þann grálynda gaur“.

Gráma (s)  Skíma; bjarma.  „Aðeins er að byrja að gráma af degi“.

Grámagi (n, kk)  Rauðmagi sem skortir rauða litinn og er því gráleitur á kvið (sjá hrognkelsi).

Grámáfur (n, kk)  Ungur hvítmáfur á fyrsta ári, en þá er hann grár með brúnleitum flikrum.  Þegar skotið var á fluginu í Kollsvík var hyllst til að ná grámáf eða svartbaksunga.

Grámi (n, kk)  Grár litur; fúi; blika.  „Þú þarft að mála hér er kominn grámi“.  Það er einhver grámi í vestrinu“.

Grámosi (n, kk)  Gamburmosi, sjá þar.

Grámóskulegur / Grámyglulegur (l)  A.  Um útlit á manni og veðurútlit:  fölur og tekinn í andliti; grár og gugginn.  „Óttalega ertu grámyglulegur; ertu veikur?“.  B.  Um veðurútlit; dimmt yfir, annaðhvort vegna þoku eða éljamuggu.  „Hann er ári eitthvað grámyglulegur í dag“.

Grámugga / Grámulla / Grámóska (n, kvk)  Grámi; dimmt veðurútlit vegna élja eða þokulofts.

Grámullulegur (l)  A.  Um útlit manns; gugginn; fölur; veiklulegur.  „Þú ert eitthvað grámullulegur í framan“.  B.  Um veður; þokuloft; mistur; dimmviðri.  „Það er rigningarlaust, en óttalega er hann grámullulegur“.

Grámulluþoka (n, kvk)  Þokuloft; mistur; þokusúld.  „Það er sama grámulluþokan og í gær“.

Grámyglaður / Grúmyglaður (l)  Grár af myglu; þakinn myglusvepp.  „Ég henti þessu harðfiskstrengsli; það var orðið grúmyglað“  Grú- er fjöldi, sbr grúi/aragrúi.

Grána gamanið (orðtak)  Versna ástandið; versna í því.  „Gamanið gránaði þegar stjakinn hætti skyndilega að ná til botns, og flekann tók að reka frá landi“.

Grána í fjöll / Grána niður í hlíðar / Grána uppi (orðtak)  Um snjóalög; snjóa lítillega til fjalla/ niður í hlíðar.

Grána í rót (orðtak)  Um snjóhulu; nægur snjór á jörð til að breyta lit á landslagi, en ekki svo að myndi hvíta snjóþekju.  „Mélhvilft er stór hvilft norðantil á Bjarnanúpnum, sem nær niður á klettabrún.  Nafnið gæti stafað af því að þar ber meira á snjó en umhverfis þegr lítill snjór fellur á auða jörð.  Gránar þá fljótt í rót í sjálfri hvilftinni“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Grár fyrir járnum (orðtak)  Þungvopnaður; vel vígbúinn/græjaður.  „Þeir eru mættir símakarlarnir, gráir fyrir járnum“.

Grár og gugginn (orðtak)  Grámyglulegur; fölur.  „Þú ættir að mæla þig; mér sýnist þú svo grár og gugginn“.

Grásleppa / Grásleppuveiðar (sjá hrognkelsi/hrognkelsaveiðar)

Grásleppudrífa (n, kvk)  Mjög stórgerð snjókoma í logni.  Líkingin á að leggja áherslu á kornastærð. 

Grásleppuganga (n, kvk)  Ganga/fylking grásleppu upp á veiðislóð.  „Það er vonandi að einhver grásleppuganga birtist í næsta straum; þetta er að verða ári skrælt“.

Grásleppuhrogn (n, hk, fto)  Hrogn grásleppu/hrognkelsis, verðmæt söluvara á síðari hluta 20 aldar.

Grásleppuhvelja (n, kvk)  Húð grásleppu.  „Grásleppuhvelja er ekki þykkari en roð þorskfiska; ekki hreistruð, en alsett göddum.  Hvelja á siginni grásleppu er borðuð með fiskinum, en stærstu gaddar tíndir af“.

Grásleppukambur (n, kk)  Efsti hluti grásleppuhvelju; kambur alsettur göddum sem skorinn er af áður en fiskurinn er verkaður.

Grásleppukvikindi (n, hk)  Gæluorð um grásleppu.  „Ekki var mikið úr þessum streng að hafa; upprúllaður af smáþorski og örfá grásleppukvikindi“!

Grásleppumið / Grásleppulagnir (n, hk,m fto)  Hrygningasvæði grásleppunnar.  Bestu grásleppumiðin eru í gróskumiklum þaragörðum.  Grásleppulagnir eru innmeð öllum Hænuvíkurhlíðum; utanfrá Þyrsklingahrygg og inná Hænuvík; frá Nesi inná Gjögra; í kantinum framundan Hænuvíkurhlíðum; í Bótinni í Kollsvík; undan Landamerkjahrygg og Fjarðarhorni og frá miðri Breiðavík suður á Kóra.

Grásleppunet / Gráslepputrossa (n, hk, fto)  Net til veiða á grásleppu.  Möskvastærð þeirra er 6“ leggur (4“ í rauðmaganetum) og hvert net er 30 faðmar á lengd.  Netin eru bundin enda í enda í gráslepputrossu eða streng.  Misjafnt er hve mörg eru í trossu; oft 4-6.  felling getur verið með ýmsu móti; nálarfelld eða bekkfelld; stöguð eða óstöguð. 

Grásleppurask / Grásleppuræksni / Grásleppuslang (n, hk, fto)  Slóg, hold og hvelja af grásleppu, stundum notað niðurskorið sem skepnufóður.  „Til fóðurdrýginda var fénu stundum gefin saltsíld eða grásleppuslang.  Meðan verstaða var í Kollsvík var því gefið fiskdálkar“.

Grásleppuspyrða (n, kvk)  Spyrða af grásleppu.  Alltaf var mikið tekið af vænni grásleppu til upphengingar meðan hún var veidd.  Haus og kviður var skorið frá í einu lagi og kamburinn af; innyfli og blóðlifrar hreinsuð úr; skorin þuma kviðmegin í stirtlu og annað þunnildi og síðan spyrtar fjórar grásleppur saman í spyrðu; með sporðana upp.  Látið var hanga í hjalli þar til var orðið vel skelþurrt utan, og jafnvel í gegn.

Grásleppuveiði (n, kvk)  Veiðar á grásleppu.  Grásleppueiði hefur lengi verið stunduð í Kollsvík. Fyrrum var sóst eftir grásleppu til matar; í beitu og til skepnufóðurs, en á síðari tímum eru hrognin helsta verðmætið.  „Árið 1966 hófust hrognkelsaveiðar í verulegum mæli í hreppnum, en þá var kominn markaður fyrir grásleppuhrogn.  Það ár stunduðu 6 bændur veiðarnar“ (MG; Árb.Barð 1959-67). 

Gráta (s)  Vola; skæla.  „Bjarni sagði á eftir að mikið hefði verið grátið yfir líkinu“  (IG; Sagt til vegar II). 

Gráta fögrum tárum yfir (einhverju) / Gráta (eitthvað) fögrum tárum (orðtak)  Gráta þannig að veki meðaumkun/vorkunnsemi annarra.  Getur merkt að gráta í mikilli einlægni, en stundum notað í merkingunni að gráta krókudílatárum,   Einnig í likingamáli:  „Maður grét það auðvitað fögrum tárum að missa lúðuna; en það verður víst að taka því eins og hverju öðru hundsbiti“.

Gráta hástöfum (orðtak)  Gráta/orga með miklum hávaða.  „Barnið er farið að gráta hástöfum úti í kerrunni“.

Gráta (eitthvað) þurrum tárum / Gráta þurrum tárum yfir (einhverju) (orðtak)  Láta sér í léttu rúmi liggja; vera ekki sorgmæddur yfir einhverju.  „Ég græt núþurrum tárum yfir því þó þessi ríkisstjórn leggi niður skottið; hún hefur ekki verið svo björguleg“.  Vísar til þess atviks í norrænni goðafræði að Baldur var drepinn.  Hel bauðst til að gefa honum aftur líf ef allir menn og allar vættir grétu hann.  Það gerðu allir nema gýgurin Þökk; hún neitaði að gráta og því lifnaði Baldur ekki aftur.

Gráta úr sér augun (orðtak)  Gráta svo mikið að manni daprist sjón/ að mann verki í augun. 

Grátbeiða / Grátbiðja / Grátbæna (s)  Biðja innilega/með tár í augum.  „Það stoðar víst lítið að grátbæna þingmenn um vegabætur“.  „Það er ekkert hlustað þó þetta landsbyggðarpakk grátbiðji um akfæra vegi, en í borginni þarf helst að sópa spegilslétt malbikið oft á dag“!

Grátbólginn (l)  Bóginn um hvarma af gráti.  „Hættu nú að vola; þú ert að verða grátbólginn“.

Grátbroslegt (l)  Broslegt atvik sem þó er sorglegt/slæmt.  „Það var dálítið grátbroslegt að sjá fötuna koma fjúkandi framaf klettunum, þegar ég var að koma upp og sækja hana“.

Gráti næst (orðtak)  Nærri grátandi; grátklökkur.  „Hann var gráti næst þegar hann sá eggjafötuna renna framaf brúninni“.

Grátklökkur (l)  Óstyrkur í röddinni af geðshræringu/gráti/ekka. 

Grátlegt (l)  Hörmulegt; mjög slæmt.  „Það var nú alveg grátlegt að missa þessa lúðu“.

Grátt gaman (orðtak)  Ekkert gamanmál; háskaleikur; mikil hætta.  „Gaman þetta gerist flátt;/ gráleg armaspenna./  Ungum manni orkufátt/ er við jötun þenna“ (JR; Rósarímur). 

Grátur (n, kk)  Það að gráta; vol; skælur.

Grátur (n, kvk, fto)  Í kirkju; grindverk með fjöl/planka ofaná í kringum altari og stæði prestsins framanvið það.  Fólk sem gengur til altaris krýpur við gráturnar og meðtekur sakramenti úr hendi prests.  Heitir líklega svo vegna þess að um leið skyldu menn gráta syndir sínar í iðrun.

Grátt að gjalda (orðtak)  Sjá eiga (einhverjum) grátt að gjalda.

Grátt leikinn (orðtak)  Hefur fengið slæma útreið.  „Honum þótti hann heldur grátt leikinn“.

Grátur og gnístran tanna (orðtak)  Mikil sorg/eftirsjá/hugarvíl.  „Það varð grátur og gnístran tanna hjá krökkunum þegar hann þurfti að fara“.  Notað fyrrum af prestum til að lýsa ástandinu í Helvíti, en sífellt þurfti að halda fáfróðum lýðnum í þrælsótta við verri staðinn.

Gráungað (l)  Um egg; með vel þroskuðum unga.  „Gráunguð egg þykja ekki góð söluvara“.

Gráupplagt (l)  Mjög vel til fundið; kjörið; tilvalið.  „Það væri gráupplagt ef þú gætir leyft mér að fljóta með“.

Grávara (n, kvk)  Skinnog húðir sem verslunarvarningur. 

Grefill (n, kk)  Áhald til jarðvinnu; blendingur skóflu og haka.  B.  Milt blótsyrði;  „Ja, hver grefillinn“.  „Grefils vandræði eru þetta“.  „Hvern grefilinn ætlarðu að gera við þetta“?

Greftra (s)  Jarða; veita útför.  „Þessir skipbrotsmenn voru greftraðir í Braiðavíkurkirkjugarði“.

Greftrun (n, kvk)  Jarðarför; útför.  „Greftrun hefur verið leyfð við hálfkirkjuna í Kollsvík um nokkurn tíma“.

Gregorískt tímatal  Nýi stíll; tímatal sem Gregoríus páfi 13. Innleiddi árið 1582 og leysti Júlíanska tímatalið af hólmi.  Það var orðið úr takti við árstíðirnar og til samræmingar var hlaupið yfir 11 daga þegar Gregoríska tímatalið var tekið upp.  Einnig var þá ákveðið að sleppa þremur hlaupárum á 400 ára fresti.  Nýi stíll var innleiddur á Íslandi árið 1700.

Greiða atkvæði (orðtak)  Segja sína skoðun í atkvæðagreiðslu, t.d. á atkvæðaseðli eða með handauppréttingu.

Greiða í fríðu (orðtak)  Merkti upphaflega að greiða milliliðalaust með fríðu/lifandi sauðfé, en fékk síðar merkinguna að greiða með vöruskiptum í stað peninga.  Er þó stundum notað um peningagreiðslur út í hönd.

Greiða/gjalda í sömu mynt (orðatiltæki)  Borga í sama verðmæti; launa greiða/atlögu á sama verðlagi.  Sjá líkt skal líku gjalda.

Greiða/taka úr (orðtak)  Um veiðar; greiða/ná fiski úr netum.  „Fyrst straumurinn liggur svona á þetta er best að ég dragi, en þú greiðir úr“.

Greiðasamur / Greiðvikinn (l)  Lipur; hjálpsamur.  „Hann hefur verið sérlega greiðasamur við okkur“.

Greiðasemi / Greiðvikni (n, kvk)  Greiðvikni; liðlegheit.  „Þau voru þekkt að greiðasemi, jafnt við sveitunga og aðra“.  „Það þykir nú sjálfsögð greiðvikni að gefa svöngum manni að éta“.

Greiðfært  (l)  Auðvelt yfirferðar/um að komast.  „Annars var túnið frekar greiðfært og því mikið hægt að slá múgaslátt“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Greiðgengt (l)  Vel fært; gott að komast.  „Geriðgengt er um Hryggina, sé fólk ekki mjög lofthrætt“.

Greiði kemur í greiða stað (orðatiltæki)  Menn fá oft þann greiða launaðan sem þeir gera öðrum; menn leitast við að launa greiða með öðrum eða með annarri velvild.  Einnig; oft sér greiði til greiða.

Greiðlega (ao)  Vel; án hindrana.  „Okkur gekk nokkuð greiðlega að ná lúðunni inní bátinn“.

Greiðstígur (l)  Hraðgengur; stórstígur.  „Hann er svo greiðstígur að maður á fullt í fangi með að fylgja eftir“!

Greiðubreidd / Greiðufar (n, hk)  Slegin rák í túni eftir greiðusláttuvél.  „Ég var búinn að slá nokkrar greiðubreiddir af sléttunni þegar hlaupastelpan brotnaði“.

Greiðusláttuvél (n, kvk)  Sláttuvél knúin af hesti eða traktor sem notuð er til að slá gras.  Greiðusláttuvél á traktor tók við hlutverki orfs og ljás í Kollsvík um og eftir miðja 20.öld.  Greiðan er löng og flöt og stendur þvert á akstursstefnuna.  Á henni eru greiðutindar og milli þeirra rennur blaðaður ljár fram og til baka; knúinn af afli traktorsins gegnum hjámiðjuhjól og hlaupastelpu.

Greiðutindur (n, kk)  Tindur úr járni í sláttuvélargreiðu, sem greiðir leið grassins að ljónum og heldur við meðan hann sker það.  Tveir tindar eru samfastir í einingu, en mynda allir heild í greiðunni.

Greikka sporið (orðtak)  Hraða göngunni.  „Fórum við þá af stað og greikkuðum sporið“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Greinarkorn (n, hk)  Lítil blaðagrein; bæklingur.  „Í þessu greinarkorni er ætlunin að gera fjörunni í Kollsvíkur- og Láganúpslandi nokkur skil“  (HÖ; Fjaran)

Greind (n, kvk)  Hyggjuvit; skynsemi; brjóstvit.  „Hann bar af öðrum um greind og skarphygli“.

Greindarskepna (n, kvk)  Skynsöm skepna; dýr sem sýnir meiri hugsun/greind en önnur.  „Hún er greindarskepna blessunin.  Alltaf virðist hún vita hvað til stendur“.

Greindarskortur (n, kk)  Heimska; vitleysa.  „Það ber vott um nokkurn greindarskort að klúðra þessu svona“.

Greindur nærri getur (en reyndur veit þó betur) (orðtak)  Skarpskyggn/greindur maður sér þetta auðveldlega.  „Greindur nærri getur; þetta var einmitt það sem ég hugsaði“!  Orðtakið er enn notað í þessari mynd í Kollvík (t.d. SG), en sumsstaðar var áður bætt við það  „ ...en reyndur veit þó betur“.

Gremjulegt (l)  Ergilegt; fer í taugarnar.  „Það er gremjulegt þegar svona fer, en við því er lítið að gera“.

Gren / Greni (n, hk)  Staður sem tófa leggur á eða flytur yrðlinga sína í; oftast holur í urð eða bökkum með mörgum útgöngum.  Málvenja var áðurfyrr að tala um gren, en í seinni tíð er oftast talað um greni.  „Suðvestan í Stakkahnjót er gamalt gren“  (Magnfríður Ívarsd.o.fl; Örn.skrá Skógs)

Grendýr / Grenlægja / Grentófa  Tófa sem lagt hefur í greni; grensmogin tófa; ekki hlaupadýr/geldtófa/gelddýr.  „Hann er búinn að skjóta þrjár grentófur og nokkur hlaupadýr“. 

Grenismunni / Grenisop (n, kk)  Inngangur í tófugreni.  Oftast eru inngangar að lágmarki tveir.

Grenja (s)  A.  Orga; skæla.  „Krakkinn var að grenja“.  B.  Brimhljóð.  „Boðinn grenjaði rétt hjá okkur“ (KÓ). 

Grenja sig (orðtak)  Um tófu; gera sér greni.  „Í þriðja sinn grenjaði sig þarna tófa rétt fyrir aldamótin, en þágiltu önnur log og fjölskyldan var oll að velli lögð“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Grenjaleit (n, kvk)  Leit að tófugreni/tórugrenjum.  „Það þyrfti að fara í grenjaleit þarna á dalnum“.

Grenjandi brot (orðtak)  Miklir brotsjóir; grynningar sem mjög brýtur á.  „Blessaður farðu aðeins dýpra; við erum hér uppi í grenjandi brotum“!

Grenjandi bylut/stórhríð/stórhríðarbylur (orðtök)  Mjög ákaft, hvasst og dimmt él.

Grenjandi rigning (orðtak)  Hellirigning.  „Það þýðir ekki að setja féð út í þessari grenjandi rigningu“.

Grenjaskytta (n, kvk)  Maður sem liggur á greni til að skjóta ref.  „Hann var talinn afbragðs grenjaskytta“.

Grenjasvæði (n, hk)  Svæði þar sem mikið er um tófugreni eða búast má við að leynist tófugreni.

Grenjatími (n, kk)  Tíminn sem tófa er á greni.  Oft er átt við tímann frá 1. maí til 1. ágúst., t.d. í lagaskilningi.

Grenjavinnsla / Grenvinnsla (n, kvk)  Skipulagðar aðgerðir til að halda tófugengd í skefjum.  Felst í því að halda skrá yfir greni og fá góðar grenjaskyttur til að vinna þau á hverju ári.  Tilskamms tíma eitt af verkefnum sveitarstjórna..  „Ég tók að mér grenjavinnslu í allmörg ár í Rauðasandshreppi... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Grenjur (n, kvk, fto)  Ákafur grátur; mikil org; hávær köll/öskur.  „Hættu nú þessum grenjum stubburinn minn; þessi rispa er nú ekki lífshættuleg“!  „Gafstu kúnum eitthvað annað fóður núna?  Þær standa á grenjum og hreyfa ekki við heyinu“.

Grenjuskjóða (n, kvk)  Vælukjói; sá/sú sem þykir oft gráta af litlu tilefni.

Grenlega (n, kvk)  Það að liggja á greni; liggja og reyna að ná grentófum og yrðlingum þeirra.

Grennd (n, kvk)  Nánd; nálægð.  „Gáðu hvort hann er hér einhversstaðar í grenndinni“.

Grennslast fyrir / Grennslast eftir (orðtak)  Leita að; spyrjast fyrir um; gá að.  „Það þarf að fara að grennslast fyrir um þá“.  „Hann kemur að máli við mig eitt kvöld; hvort ég sé nú ekki fáanlegur til þess að fara út í sveit og grennslast eftir því hvort einhver væri nú ekki fáanlegur til að kaupa kvígukvikindið“  (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).

Grensmogin (l)  Um tófu; hefur verið á greni; býr í greni.  „Þetta er grensmogin tófa“.

Grenstæði (n, hk)  Staður sem tófa velur fyrir greni.  „Grenstæði þarf að uppfylla ýmsar þarfir tófunnar, s.s. að þar sé þurrt og helst sólríkt; víðsýnt; öryggi fyrir helsta óvininum (manninum); hæfilega nálægt fæðusvæðum o.fl.  Algengt er að tófa flytji fjölskyldu sína nær veiðisvæðum þegar yrðlingar stálpast.  Þá er algengt að sama grenstæði sé notað ár eftir ár, og jafnvel öldum saman af mörgum kynslóðum“.

Grentófa  Grendýr; tófa sem er með greni.  „Hann er búinn að skjóta þrjár grentófur og nokkur hlaupadýr“. 

Greppitrýn (n, hk)  Ófrýn persóna; krumpufés.  „Uppnefni voru mörg; greppitrýn; þrjótur og þaðan af verra“.

Greppur (n, kk)  A.  Gotuhimna; himnan sem er utanum gotu/hrogn fisks.  B.  Gæluheiti á gömlum manni.

Grettistak (n, hk)  A.  Stórir steinar sem víða er að finna og sagt er að Grettir sterki Ásmundarson hafi lyft.  Fullyrða má þó að flestar þær sagnir eru ósannar, hvað sem líður sannleiksgildi Grettissögu.  B.  Almennt heiti á stórum staksteinum/steinatökum sem víða sjást; sem ísaldarjökullinn hefur flutt að og skilið eftir.

Grey (n, hk)  A.  Tík; hundur.  B.  Oftast notað í líkingamáli um þann sem vorkennt er:  „Mér fannst alveg hræðilegt að heyra þetta um Jón./  Ég hrifin var svo fjarskalega af honum./  Nei það var ekki glæsilegt að gera úr okkur hjón/ fyrst greyið hafði ofnæmi fyrir konum“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Greykivikindi / Greyskarn / Greyskinn / Greyskömm (n, hk)  Kvikindisgrey; gæluorð í vorkunnartóni um dýr.  „Vertu nú ekki að skamma greykvikindið; hundræfillinn reyndi eins og hann gat að komast fyrir kinduranr“.

Gribba (n, kvk)  Skass; frenja; bryðja.  „Hún er víst óttaleg gribba við karlinn ef hann fær sér í tána“.

Grið (n, hk, fto)  Vægð; miskunn.  „Rituðu margir riðuspá/ og reistu siðaboðin há./  /Engum griðum ærnar ná;/ úti er friður bændum hjá“  (ÖG; glefsur og minningabrot; ort þegar riðufé í Tálkna var skotið).  Sjá biðja (einhverjum) griða.

Griðastaður / Griðland (n, kk)  Var; skjól; öruggur staður.  „Kollsvíkin er griðastaður fyrir rjúpur og aðra smáfugla“.  „Einhversstaðar þurfa þessi kvikindi að eiga griðland“.

Griður (n, kk)  Friður; lífgjöf; uppgjöf saka.  „Þingmönnum sem svona haga sér verður enginn griður gefinn í næstu kosningum“!

Grikkur (n, kk)  Hrekkur; bragð; óleikur.  „Nú gerði hann mér ferlegan grikk“!

Grilla (s)  Sjá eitthvað ógreinilega.  „Ég rétt grillti í Kollsvíkurbæinn í kafaldinu“.  (Harður framb.).  „Grillti hann þá í ljós á skipi sem honum virtist vera rétt fyrir framan bryggjna á Gjögrum“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Grillur (n, kvk, fto)  Falsvonir; óraunhæfar væntingar.  „Þú skalt ekki gera þér neinar grillur um að þeir ætli að standa við sín loforð í þessu efni“. (Harður framb.)

Grimmdarél / Grimmdarhríð (n, hk/kvk)  Hörkuél; hvöss stórhríð.  „Hann brast fyrirvaralaust á með grimmdaréli“.

Grimmdarfrost / Grimmdargaddur / Grimmdarkuldi Frosthörkur; mikið frost.  „Það frusu allir lækir í þessu grimmdarfrosti“.

Grimmdarnorðanbál (n, hk)  Hvass og frostkaldur norðansveljandi.  „Enn er sama grimmdarnorðanbálið“!

Grimmilega (ao)  Illilega.  „Það hefnir sín grimmilega ef þú gleymir að setja frostlög á vélina“.

Grind (n, kvk)  Rist; ýmis merking.  A.  Hliðgrind.  B. Grind í fjárhúsi.  Undir hverjum fjárhúskarmi var í seinni tíð skítakjallari með grindum yfir, stundum vélgengur eftir að tækni kallaði á það.  Yfir kjallaranum voru grindur úr tré sem samanstóðu úr slám sem hvíldu á stöllum báðumegin kjallarans, og grindaspelum sem negldir voru á slárnar.  Grindurnar voru hafðar hæfilega léttar til að unnt væri að lyfta þeim upp til að stinga út úr fjárhúsunum, væru þau ekki vélgeng.  Þá var mokað upp í hjólbörur og skítnum ekið út á haug eða í skítadreifara.  Gat þurft að stinga út oftar en einusinni yfir árið ef innistaða var mikil á fé.  C.  Grindhvalur.

Grinda (s)  Raða einhverju upp til þurrks, t.d. viði eða mó.  „Það þarf að grinda timbrinu svo það þorni“.

Grindahús (n, hk)  Fjárhús þar sem féð er á grindum en ekki á taði.

Grindaskítur (n, kk)  Skítur úr fé sem haft er á grindum í fjárhúsi, til aðgreiningar frá taði/skán.  „Gindaskítur er hinn besti áburður, en hann er ónothæfur til að reykja við“.

Grindarslá (n, kvk)  Burðarbiti undir fjárhúsgrind yrir áburðarkjallara.

Grindarspelur (n, kk)  Mjó fjöl í grind í fjárhúsum.  „Það mætti alveg saga þennan batting í grindaspeli“.

Grindasög (n, kvk)  Sög af sérstakri gerð.  Má líkja henni við stórt og ofurbreitt „H“ og er mjótt sagarblaðið strengt í annað bil þess en í hinu bilinu er snæri sem strekkt er á með snarvöndli.

Grindhoraður (l)  Mjög mjósleginn/grannur.  „Ærin var orðin gindhoruð í sveltinu og stóð varla á löppunum“.

Grindhvalur (n, kk)  Sjá marsvín.

Gripagirðing / Nautagirðing (n, kvk)  Girðing sem ætluð er til að geyma nautgripi. 

Gripinn glóðvolgur (orðtak)  Náður/gripinn meðan verknaður er framinn/ þegar tækifæri gefst.  „Þarna kemur hann, þá gríp ég hann glóðvolgan og spyr hann sjálfan að þessu“.

Gripla (s)  Stela; bísa.  „Nú hefur einhver griplað húfuna mína“.

Gripsvit (n, hk)  Vit á við skepnu/nautgrip.  „Ég hef nú hingað til talið að menn þyrftu að hafa nokkuð meira en gripsvit til að geta orðið ráðherrar“!

Gripur (n, kk)  A.  Hlutur; munur, t.d. dýrgripur.  B.  Stórt húsdýr, s.s. nautgripur; stórgripur.  C.  Gæluheiti um mann/manneskju.  „Þegar mamma var búin að eiga barnið og farin að hressast sótti Maggi mig út á tún og vildi að ég skoðaði þennan grip“  (IG; Æskuminningar).

Grisja (s)  Draga úr þéttleika.  „Hér þyrfti að grisja rófuplönturnar dálítið“.

Grisjast (s)  Verða dreifðari.  „Þetta mun hafa verið í fyrstu rétt haustið 1946, en þá var byggðin í nefndum hreppi lítið farin að grisjast frá því sem verið hafði um aldir“  (PG; Veðmálið). 

Grisjusía (n, kvk)  Sía úr grisju/ fínofnu efni til að sía t.d. hrogn fyrir söltun eða berjahrat fyrir söftun.  „Í upphafi grásleppuveiða notuðu menn grisjusíur til að sía vökva úr hrognunum, eftir að himnur höfðu verið skildar frá í grófsigti. Síurnar voru gerðar úr sama efni og barnableyjur sem þá tíðkuðust“.

Gripsvit (n, hk)  Lítið vit.  „Ekki skil ég þegar fjölmiðlafólk er að fjalla um hluti sem það hefur ekki gripsvit á“!

Gríðarharður (l)  Afar/mjög harður.  „Veturinn var gríðarharður um þetta leyti“.

Gríðarhávaði (l)  Mjög mikill hávaði.  „Bjargið splundraðist á hleininni með gríðarhávaða“.

Gríðarhraustur / Gríðarsterkur (l)  Kraftamikill; mjög sterkur.  „Hann er gríðarhraustur drengurinn; hann lét sig ekki muna um að lyfta Júdasi uppí kjöltu og kom Brynjólfstakinu vel á loft“.

Gríðarmikill / Gríðarstór  (l)  Mjög stór/mikill.  „Það hefur komið gríðarstór steinn á Fjörurnar“.

Grímótt (l)  Með snjó- eða klakagrímu í andlitinu.  „Féð er allt grímótt eftir að standa úti í élinu“.

Grímubúningur (n, kk)  Búningur sem fólk klæddist til hátíðabrigða og skemmtunar á áramótum.  „Stundum á áramótum bjuggu menn sig í grímubúninga og gengu um með kyndla.  Það var aðeins fullorðið fólk; unglingar máttu ekki taka þátt í því.  Svo var spilað“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Grímulaust (l)  Umbúðalaust; án dulbúnings/fegrunar.  „Þetta er auðvitað grímulaus árás á landsbyggðarfólk“!

Grína (s)  A.  Píra augun; rýna í.  „Þú skemmir augun ef þú ert að grína í bók í þessu myrkri“.  B.  Gera grín.  Ýmist með eða án „st“ viðbótar.  „Maður grínar nú ekki með svona hluti“.  „Ertu að grínast“?

Grínaktugur (l)  Gamansamur; fyndinn.  „Hann átti það til að vera grínaktugur og jafnvel hinn mesti æringi“.

Grínaktugheit (n, hk, fto)  Gamansemi; grallaraháttur.  „Hann gerði þetta stundum af sínum grínaktugheitum“.

Grínast við (orðtak)  Gera að gamni sínu við.  „Ég hélt fyrst að hann væri að grínast við mig“.

Grípa (s)  A.  Taka; ná taki á.  „Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni; greip einn bitann og skar sér með vasahnífnum vænan munnbita“  (PG; Veðmálið).  B.  Fanga; taka föstum tökum.  „Meðal helstu skemmtana okkar strákanna var að sniglast um bakka á skurðum og lækjum og grípa bröndur“.

Grípa andann á lofti (orðtak)  Anda snöggt/djúpt að sér, stundum í undrun, hræðslu eða þegar óvænt gerist.

Grípa bröndur (orðtak)  Veiða bröndur/smásilung í lækjum og skurðum með berum höndum.  Bröndur liggja gjarnan í felum undir holbökkum og steinum.  Með lagni má stundum lauma hendi að þeim; grípa þær og koma þeim uppá bakkann.  Minni bröndum var sleppt, en þær stærri hirtar og matreiddar.

Grípa/taka feginshendi (orðtak)  Þiggja með þökkum; taka fagnandi; þiggja.  „Ég var fremur illa búinn og greip því feginshendi þegar hún bauðst til að lána mér húfu og vettlinga“.

Grípa (einhvern) glóðvolgan (orðtak)  Góma einhvern; ná tali af einhverjum strax.  „Þarna koma þeir; ég ætla að grípa hann glóðvolgan“.  Vísar til þess að fá mat/köku, t.d. flatköku/hveitiköku, nýbakaða og borða volga.

Grípa gæsina (meðan/þegar hún gefst) (orðtak)  Nota tækifærið meðan í boði er; nota/nýta byrinn þegar hann býðst. „Þarna kemur mávahópur amlandi með Görðunum.  Nú er að grípa gæsina meðan hún gefst“.  Vísar til þess þegar gæsir voru eltar uppi og gripnar meðan þær voru í sárum.

Grípa inní (orðtak)  Skipta sér af; hafa áhrif á framvindu; bjarga; stýra.  „Ég greip inní og afstýrði því að strákarnir færu að fljúgast á“.

Grípa í (orðtak)  Um störf; sinna stundum/stopult.  „Hreinsun túna og garðvinna voru að mestu störf kvenna og barna; karlmenn gripu í það í landlegum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Grípa í afturendann á / Grípa í skottið á (orðtak)  Ná á einhvern; ná einhverjum til viðtals.  „Ég þarf að grípa í skottið á honum áður en hann fer, og biðja hann fyrir pakkann“.

Grípa í endann á deginum (orðtak)  Nota það sem eftir lifir dags.  „Ansi er hann að ljókka hratt; við megum grípa í endann á deginum og hnoða einhverju upp í galta“!

Grípa/taka í spil (orðtak)  Fara að spila á spil.  „Á jólum áðurfyrr fóru fjölskyldur í heimsóknir milli bæja.  Iðulega kom frændfólk t.d. úr Efri-Tungu eða Kvígindisdal ásamt fólki af öðrum bæjum í Víkinni.  Þá þótti sjálfsagt að grípa í spil; oftast vist, en einnig manna eða marías.  Menn skiptust á fréttum og gamanmálum yfir spilum, en létu líka álit sitt hreinskilnislega í ljós ef mótspilarinn stóð sig ekki eða mönnum voru gefnir „handónýtir hundar sem ekki var viðlit að segja neitt á af viti“! (VÖ).

Grípa í taumana (orðtak)  Hindra að illa fari; hægja á ferðinni; koma stjórn á.  „Nú þurfa stjórnvöld að fara að grípa i taumana og snúa þessari byggðaeyðingu við“.

Grípa í tómt (orðtak)  Finna ekki það sem ætlað var; koma að tómum kofanum.  „Ég ætlaði að sækja pakkann en greip í tómt; annar hafði orðið fyrri til“.

Grípa niður (orðtak)  Um sauðfé; bíta stutta stund án þess að staðnæmast lengi.  „Það er nánast orðið haglaust.  Féð grípur lítið niður þó því sé beitt út“.

Grípa ofaní (orðtak)  A.  Um skoðun sauðfjár; þukla hrygginn til að finna holdafar og byggingu.  „Gríptu aðeins ofaní hrygginn á þessum lambhrút þarna; mér sýnist hann ári lífvænlegur“.  B.  Lesa lauslega/lítillega í bók/riti.  „Ég greip aðeins ofaní lærdómsbækurnar meðan ég beið“.

Grípa til sinna/minna ráða (orðtak)  Gera það sem mér/honum/henni finnst réttast.  „Þegar ég sá að allt stefndi í óefni og féð væri að sleppa um efri ganginn þá tók ég bara til minna ráða og ruddi grjóti niður klettana“.

Grípa til varna / Grípa til vopna (orðtök)  Taka vopn sín og verjast; verjast árás.  „Ætli maður verði ekki að grípa til varna ef á mann er ráðist“. 

Grípa/nota/nýta tækifærið (orðtak)  Hagnýta sér aðstæður sem skapast.

Grísir gjalda það er gömul svín valda (orðatiltæki)  Þeir sem eru ungir/nýliðar og saklausir þurfa oft að gjalda fyrir mistök eða misgjörðir þeirra sem fyrr hafa klúðrað/misgert. 

Grjónagrautur / Grjónavellingur (n, kk)  Hrísgrjónagrautur.  Hann var töluvert etinn; ýmist með rúsínum eða án, en alltaf með kanilsykri útá.  Sumum þykir lítt sem ekki varið í hann nema slátur sé með.  „Þykkur og skjólgóður grjónavellingur með gallsúru slátri er algjört sælgæti“.

Grjótfall (n, hk)  Grjóthrun; hrun.  „Skriðuhætt mjög, og grjótfall sífellt á vetur (um Kollsvíkurtún og bæjarstæði“  (AM/PV Jarðabók). 

Grjótflug (n, hk)  Þegar veðurhæð er svo mikil að þeytir grjóti, t.d. úr vegköntum yfir vegfarendur.  „Það var bálhvasst þarna í Skarðinu og grjótflug“.  Orðið var ekki notað vestra yfir hrun úr klettum.

Grjótgarður (n, kk)  Garður, hlaðinn úr grjóti.  „Meðal annars hlóð Guðbjartur mikinn grjótgarð kringum túnið í Tröðinni, sem enn er eitt tilkomumesta mannvirkið sem sést þegar komið er niður Hæðina“.

Grjóthalda/ríghalda kjafti (orðtak)  Steinþegja; þegja eins og steinn.  „Mér tókst að gjóthalda kjafti yfir þessu“.

Grjótharður (l)  Mjög harður.  „Þú hefur ekki barið fiskinn nógu vel; hann er enn grjótharður“.

Grjóthlaðinn (l)  Hlaðinn úr grjóti.  „Stíflan sem Ingvar gerði í Ánni var allmikið mannvirki; grjóthlaðin að neðanverðu en steinsteypt það byrðið sem vissi inn í lónið og í yfirfallinu.

Grjóthólmi (n, kk)  Hólmi í vatni, gerður úr grjóti.  „Úti í Litlavatni ofanverðu mátti til skamms tíma sjá móta fyrir grjóthólma.  Hann gerðu Einar, Halldór og þeir Láganúpsbræður með því að draga grjót á sleða út á ísinn að vetrarlagi.  Var ætlunin að þar kæmist upp varp.  Lítið varð þó úr því, og ís hefur nú borið þetta að mestu í burtu“.

Grjóthreinsa (s)  A.  Hreinsa grjót úr túnum og túnstæðum.  „Á sumum bæjum hafa bændur lagt verulega vinnu í grjóthreinsun túna.  Má þar nefna vinnu Ingvars á Stekkjarmel við hreinsun sléttunnar á Svaðrarholti og Ólafs á Nesi við ruðning og gjóthreinsun sléttu undir Hænuvíkurnúp“.  B.  Hreinsun hrungrjóts af vegum. 

Grjóthrun (n, hk)  Þegar grjót hrynur úr fjalli.  „Alltaf er eitthvað grjóthrun á Fjörurnar, einkum að vorlagi“.

Grjóthröngl (n, hk)  Dreifðir steinar.  „Það er töluvert grjóthröngl á veginum eftir hrunið“.

Grjótkast (n, hk)  Það að kasta/grýta grjóti.  „Eftir mikið grjótkast valt tófan niður í Sandahlíð og sótti ég hana þangað“  (IG; Sagt til vegar I).  „Þeir gátu stöðugt búist við grjótkasti úr Bjarginu, og vissu í rauninni ekki hvort þeir gætu haldist þarna við“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Grjótnógur / Grjótnægur (l)  Yfirdrifinn; meira en nægilegur.  „Mér sýnist að við höfum grjótnóg efni í þetta“.  „Það er grjótnóg af fiski uppi í harðalandi, en auðvitað þarf að bera sig eftir björginni“.  „Og með þessari vinnu hef ég grjótnægan tíma fyrir tamninga og hestamennsku“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Grjótpúkk (n, hk)  Grjótfylling; grjóthaugur.  „Grjótpúkk var sett í fjárhúskjallarann og á það steypt fjósgólfið“.

Grjótrif (n, hk)  Mön úr grjóti.  „Grjótrif er ofan sandrifsins neðanvið Fit og Leira.  Þar eru tóftir, svonefndar Oddatóftir; líklega leifar verbúða frá gamalli tíð“.

Grjótrúst (n, kvk)  Haugur/hrúga af grjóti.  „Í sumarbyrjun mátti fyrrum sjá grjótrúst við hverja votheysgryfju.  Þá tíðkaðist að fergja heyið þegar gryfjan var full; til að byrgja hitamyndun niðri í heyinu og forða efsta laginu frá skemmdum.  Síðar gegndu plast og sandpokar þessu hlutverki, og að lokum tóku rúllurnar við“.

Grjótsofa (s)  Steinsofa; sofa djúpt.  „Ég varð ekkert var við þetta í nótt; ég bara grjótsvaf eins og ég er vanur“.

Grjótsofandi (l)  Steinsofandi; sefur djúpum svefni; rotaður.  „Er hann ennþá grjótsofandi“?!

Grjótsofna (s)  Sofna mjög fast/fljótt.  „Ég held ég hafi bara grjótsofnað“.

Grjótsofnaður (l)  Sofnaður mjög fast/ djúpum svefni.  „Hann er grjótsofnaður þarna í lautinni“.

Grjótsvefn (n, kk)  Djúpur svefn; rotsvefn.  „Það er nú alveg orðið tímabært að vekja manninn.  Þvílíkan grjótsvefn hef ég sjaldað vitað“!

Grjótskriða (n, kvk)  Skriða úr þursabergi/ lausu grjóti.  „Við förum varlega hér yfir grjótskriðuna“.

Grjóttangi (n, kk)  Grýttur tangi/skagi.  „Merkin eru um grjóttanga miðja vegu á brún upp af Gorgán“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs)

Grobb (n, hk)  Mont; raup.  „Hlustaðu nu ekki á bölvað grobbið í karlinum“!

Grobba (s)  Stæra sig; monta sig; raupa.  „Hann stóðst ekki mátið að grobba örlítið af þessu“.

Grobbinn (l)  Montinn; raupsamur.  „Mér finnst hann helst til grobbinn“.

Groddafjandi / Groddaskratti (n, kk)  A.  Efni, verkfæri, efni og annað sem þykir mjög gróft.  „Vegslóðinn er varla ökufær; þetta er groddaskratti“.  B.  Drykkur, súpa sem þykir ólystugt.  „Ekki veit ég hvað var í þessu, en þetta var alger groddafjandi og algerlega ódrekkandi“!

Groddalega (ao)  Gróflega; ruddalega; með grófum hætti.  „Farðu nú ekki svona groddalega að þessu“!

Groddalegur (l)  Grófgerður; hrikalegur.  „Þessi pensill er nú dálítið groddalegur fyrir fínheitin“.

Groddasmíði (n, kvk)  Groddalega/gróflega smíðað; óvandað.  „Skelfingar groddasmíði er á þessu“!

Groddaverkfæri (n, kk)  Heldur grófgert verkfæri fyrir verkefnið.  „Þetta getur illa lánast með svona groddaverkfæri; áttu enga almennilega skrúfsíu“?

Groddi (n, kk)  Rumur; heiti á því sem er of gróft og stórt fyrir það sem við á.  „Það þýðir nú ekkert að nota svona hnífgrodda við þetta“.  „Þetta garn er nú óttalegur groddi“.

Grogg (n, hk)  Botnfall; útfelling.  „Þegar vatnið hafði staðið um stund í glasinu var sest töluvert grogg á botninn“.  Virðist óþekkt í þeirri merkingu utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Orðið er annars notað um vatnsblandað romm.

Groms (n, hk)  Korgur; botnfall; grotti.  T.d. notað yfir botnfall af sjálfrunnu lýsi og kaffikorg.

Groppa (n, kvk)  Hrjónungur; gropinn snjór/jarðvegur/viður.  „Það er leiðinlegt göngufæri; þunnur skari yfir, en undir er bara groppa; sundurétin eftir hlýindakaflann“.

Groppulegur (l)  Laus í sér; tætingslegur; fúinn.  „Fjári er viðurinn orðinn groppulegur í neðri falsinum“.

Grotna (s)  Molna; eyðast; rotna.  „Bergið er alltaf að grotna niður og sama er lausagrjótið og fyrr..“ (MG; Látrabjarg).

Grotnaður (l)  Orðinn sundurlaus/morkinn/molnaður.  „Kassinn var grotnaður af fúa“.

Grotti (n, kk)  Groms; botnfall undan sjálfrunnu lýsi.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Gróa inn (orðtak)  Vaxa inn í húð/líkama.  „Það þarf að skella af hornunum á hrútnúm áður en þau gróa inn“. 

Gróa sára sinna (orðtak)  Verða heill af sárum/meiðslum.  „Hann var varla gróinn sára sinna þegar hann skurslaði sig aftur; og nú í hina hendina“!

Gróa um heilt (orðtak)  Vingast aftur.  „Það greri aldrei um heilt með þeim eftir þessar deilur“.

Gróandi (n, kk)  A.  Spretta gróðurs.  „Lömbin eru fljót að braggast á gróandanum“.  B.  Bati sárs.   „Mér sýnist að það sé góður gróandi í handarmeininu“.

Gróðabrask (n, hk)  Vafasamir viðskiptahættir; auðsöfnun.  „Hér eru menn ekki vanir neinu gróðabraski“.

Gróðavegur (n, kk)  Tekjulind.  „Það hefur nú aldrei talist neinn veraldlegur gróðavegur að stunda búskap“

Gróðavon (n, kvk)  Von um gróða/arð.  „Alltaf er hann þar kominn sem einhver gróðavon er“!

Gróðavænlegt (l)  Líklegt til að skila gróða/arði.  „Ekki held ég að svona fyrirtæki geti verið gróðavænlegt“.

Gróði (n, kk)  A.  Arður; hagnaður; eftirtekja.  „Heldurðu að þetta geti komið út í gróða“?  B.  Gróður; frjósemi jarðar.  Lítið notað á þann hátt í gróðaþjóðfélagi samtímans; helst þó í skáldamáli.

Gróðrarskúr (n, kvk)  Rigningarskúr, einkum í hlýindum að vori. „Mér sýnist að túnunum hafi farið mikið fram, bara við að fá þessar fáu gróðrarskúrir í gær“.

Gróðrarstía (n, kvk)  A.  Upprunaleg merking; gróðurreitur/afmarkað ræktunarhólf.  B.  Ýmis afleidd merking.  „Svona óþrif eru gróðrarstía fyrir bakteríur“.  „Pólitík er stundum gróðrarstía valdagræðginnar“.

Gróðureyðing (n, kvk)  Uppblástur og önnur eyðing gróðurþekju.  „Síðustu árin hefur gróðureyðingin gengið óhugnanlega hratt á jarðvegstorfuna á Litlufitinni“.

Gróðurhús (n, hk)  Lítið hús, þakið gluggum, ætlað til jurtaræktunar.  „Sigríður á Láganúpi er mikil ræktunarkona.  Hún fékk draum sinn um gróðurhús uppfylltan þegar Láganúpshúsið nýja var byggt.  Þá voru í fyrsta sinn ræktaðar ýmsar ávaxta- og berjategundir í Kollsvík, s.s. stikilsber “.

Gróðurilmur (n, kk)  Sterk lykt af gróðri, einkum greinileg í sprettutíð.  „Nú er gróðurilmur og vor í lofti“.

Gróðurlítill (l)  „Fyrst eru gróðurlitlir hryggir niður á sjóarkletta“  (IG; Sagt til vegar I).  

Gróðurnál (n, kvk)  Byrjun gróanda að vori; lítlsháttar gróður.  „Einhver gróðurnál kemur fljótlega í svona miklum hlýindum“.  „Það er farin að sjást nál um leið og snjór fer af“.

Gróðurrýr (l)  Með gisnum/óburðugum gróðri.  „Melarnir voru yfirleitt þurrir, harðir og gróðurrýrir“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Gróðursetja (s)  Um plöntu/jurt; planta út/niður; setja niður.  „Páll gróðursetti nokkrar trjáplöntur í reit sem hann gerði heimanvið Litlavatn.  Féð sá um að gera þær tilraunir að engu á nokkrum árum“.

Gróðurskáli (n, kk)  Bjart rými í íbúðarhúsi, þar sem ræktaðar eru plöntur.  „Í nýja Láganúpshúsinu fékk Sigríður uppfylltan sinn draum um gróðurskála.  Þar ræktaði hún m.a. ýmsar rósir, vínber o.fl.“.

Gróðursæld (n, kvk)  Gróska; góð gróðrarskilyrði.  „Gróðursæld er mikil þar sem skjóls nýtur í Kollsvík“.

Gróðursæll (l)  Gróskumikill; góð skilyrði til sprettu.  „Víkin sjálf var einnig fögur, þótt ekki væri hún ýkja gróðursæl“  (KJK; Kollsvíkurver).

Gróðurtó (n, kvk)  Gróinn teigur innan um hrjóstugara land.  „Í Vatnadal framanverðum eru tvær langar og áberandi gróðurtór, Kollsvíkurtó og Hænuvíkurtó; hjá lækjarsytrum  sem  allajafna eru þó ekki sýnilegar.

Gróf (n, kvk)  Kröpp laut; jarðfall; víð hola.  „Örnefnið Gróf er á utanverðum Hnífunum; rétt utanvið Stórhól.  Þar hefur myndast sérkennileg djúp laut; e.t.v. þar sem ísaldarjökull hefur brotið niður þak hellis, enda gengur grunnur hellir inn af grófinni.  Í henni eru holur sem greinilega eru mót eftir trjáboli frá því blágrýtislagið rann.  Í Grófinni hefur verið stekkur; Grófarstekkur, og sjást hleðslurnar greinilega“.

Grófgerður (l)  A.  Um hlut/grip; óvandaður; ekki fínlegur.  B.  Um mann; hrjúfur í viðmóti.

Grófriðið (l)  Um net; með stórum möskvum.  „Þetta net er of grófriðið fyrir silung“.

Grófhreinsa (s)  A.  Hreinsa mesta skítinn/hroðann.  „Við grófhreinsum netin núna og sjáum hvað skolast úr þangað til við vitjum næst“.  B.  Grófsmala; hreinsa fé að mestu af svæði.

Gróflega (ao)  Með stórbrotnum hætti; mikið.  „Honum þótti gróflega á sér brotið“.

Grófsigti (n, hk)  Sigti til verkunar á grásleppuhrognum.  Í því voru himnur skildar frá með því að hrognunum var nuddað með hrognaspaða/hræl niður í gegnum sigtið, en himnurnar sátu eftir.

Grófsmalað (l)  Um svæði; smalað að mestu leyti; grófhreinsað.  „Það má segja að búið sé að grófsmala Bjargið.  Enn er eftir að smala Stíginn og gá hvað getur leynst víðar niðri“.

Grófur (l)  A.  Um hlut/efni; óvandað að smíði; hrjúft á yfirborði; stórgert í áferð; svert.  B.  Um mann; ókurteis í orðum; ruddalegur; klunnalegur; klúr.  C.  Um sjólag; allmikill sjór; grafinn sjór.

Gróinn (l)  A.  Um meiðsli; heil; lokuð.  „Mér sýnist að fótbrotið á kindinni sé nokkuð vel gróið“.  B.  Um landsvæði/spildu; með miklum gróðri.  „Gilið, þar sem maður lék sér í ægisandi sem barn, en nú alveg gróið“.  C.  Um veðurlag; skýjað í lofti; rigningarlegt.  „Ári er hann að verða gróinn í suðurloftinu“.  D.  Um efnahag manns; ríkur.  „Hann er víst orðinn ágætlega gróinn á þessum viðskiptum“.  E.  Um vanafestu/sið; djúpstæð  „Milli þessara heimila ríkti einatt gróin vinátta“.

Gróinn sára sinna (orðtak)  Sár gróið/gróin á einhverjum.  „Hann er að mestu gróinn sára sinna eftir hrapið“.

Gróm (n, hk)  Óhreinindi; kusk; „Eitthvað gróm flýtur ofaná vatninu“.  „Ég þurrkaði mesta grómið af þessu“.

Grómtekinn (l)  Ataður af óhreinindum.  „Þú ert grómtekinn af skít; ég held þér veiti ekki af góðu þrifabaði“.

Gróp (n, kvk)  Fals; far; rispa; skurður.  „Tappinn þarf að falla vel inní grópina“. „Vaðurinn liggur í gróp um brúnahjólið“.   Stundum haft í hvorugkyni.

Grópa (s)  Búa til gróp/rás; fella saman með tappa og gróp.  „Loftbitarnir eru grópaðir saman“.

Gróska (n, kvk)  Gróðursæld; mikið líf í gróðri.  „Það er gróska í túnum í svona veðurfari“.

Gróskumikill (l)  Um gróður; í mikilli sókn; líflegur.  „Melurinn er orðinn helst til gróskumikill hérna“.

Gróusaga (n, kvk)  Slúður; lygasaga.  „Ég hef ekki lagt það í vana minn að bera út bölvaðar gróusögurnar; þær dafna alveg nógu vel fyrir því“!  Vísar líklega til Gróu á Leiti í sögunni „Maður og kona“ en er e.t.v. eldra.

Grufl (n, hk)  A.  Gröftur; rót.  „Vegagerðin mætti víða ganga betur frá gruflinu sínu“.  B.  Umhugsunarefni; heilabrot.  „Hættum nú þessu grufli og förum að gera eitthvað af viti“.

Grufla (s)  A.  Gramsa; krafla; róta í.  „Vertu nú ekki að grufla berhentur í þessum óþverra“.  B.  Athuga; rannsaka; hugsa djúpt; rifja upp.  „Ég hef dálítið verið að grufla í þessum málum“.

Grufla upp (orðtak)  Rifja upp; grafast fyrir um; rísla í.  „Ég man þetta ekki í svipinn, en ég skal reyna að grufla það upp“.

Grugg (n, hk)  Sýnilegur sori/óhreinindi í vatni/vökva.  „Við biðum með að drekka þar til gruggið sest“.

Grugga / Grugga upp (s/orðtak)  Þyrla upp óhreinindum í vatni/vökva.  „Það má ekki grugga upp í skurðinum fyrir ofan brunnhúsið meðan saltfiskurinn er þar í afvötnun“.

Gruggglas / Gruggkúla (n, hk/kvk)  Ílát sem eldsneyti vélar fer um frá eldsneytistanki, og hefur það hlutverk að safna vatni/óhreinindum sem kunna að vera í eldsneytinu.  „Það er að verða full gruggkúlan á Farmalnum“.

Gruggugt (l)  A.  Um vatn/vökva; með miklu gruggi.  „Vertu nú ekki að drekka vatnið svona gruggugt“!  B.  Um málefni/ástand; óljóst; tortryggilegt.  „Mér finnst eitthað gruggugt við þessi kosningaloforð“.

Gruna um græsku (orðtak)  Um álit á manni; hafa grunaðan um undirferli/óheilindi.  „Þetta hljómaði allt vel sem hann sagði, en ég grunaði hann strax um einhverja græsku“. 

Grunaði ekki Gvend! (orðatiltæki)  Datt mér ekki í hug; eins og mig grunaði.  „Grunaði ekki Gvend; þið fóruð semsé að grípa bröndur þegar þið áttuð að reka útaf og koma strax til baka“!

Grunda (s) Íhuga; hugsa af rökfestu, færa rök fyrir.  „Mér finnst að þetta mál sé fremur illa grundað“.

Grundvallaratriði (n, hk)  Meginforsenda; sem allt byggir á.  „Hér er um grundvallaratrið að ræða“.

Grundvöllur (n, kk)  Grunnur; það sem byggt er á.  „Eftir niðurlagningu mjólkursvinnslu á Patreksfirði var ljóst að ekki væri grundvöllur fyrir mjólkurframleiðslu í Kollsvík að óbreyttu“.

Grunlaus (l)  Óraði ekki fyrir; grunaði ekki.  „Ég var alveg grunlaus um að svona lagað gæti skeð“.

Grunn (n, hk)  Hafsvæði sem er tiltölulega grunnt.  „Þarna í marbakkanum snarhallar af grunninu niður í dýpið“.  „Borgarísjakarnir stóðu grunn hér langt frammi á víkinni“.

Grunnbauja / Grunnbelgur / Grunnból / Djúpból (ao)  Mismunandi heiti á bóli (floti) á neti eftir því hvort var nær eða fjær landi.  Á sama hátt var rætt um grunnmegin og djúpmegin.  „Það er komið norðurfall og því var ekki rétt af okkur að fara djúpmegin í strenginn.  Við tókum grunnbólið í næsta streng“.  Einnig notað grunnendi og djúpendi.

Grunnbára / Grunnrið / Grunnskafl (n, kvk)  Brimalda sem nær til botns.  „Er þá einkar áríðandi fyrir stjórnandann að hann sé svo viss í stjórninni að láta grunnbáruna koma beint aftan á skutinn á skipinu til að grunnriðið renni því beint í land.  Komi grunnskaflinn öðrumegin á kinnung skipsins snýst það í sama vetfangi og verður flatt.  Er þá mikil hætta búin“   (HE; Barðstrendingabók)

Grunnboði (n, kk)  Blindboði; boði sem ekki kemur uppúr sjó en stendur þó svo grunnt að á honum brotnar.

Grunnborði (n, kk)  Sú hlið báts sem snýr að landi.  „Láttu stjórann fara á grunnborða“.

Grunnbrot / Grunnrið (n, hk)  Mikil alda sem hækkar og brotnar þegar hún kemur að landi og nær í sjávarbotn.  „Helstu boðarnir eru Djúpboði og Leiðarboðar.  Setið var á sjó þó á þeim félli grunnbrot um fjöru“  ...  „Veður geysa af hafi.  Brimið er stórkostlegt; tröllaukin grunnbrot sem hóta tortímingu því nær öllu lífi; jafnvel sjávargróðri“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Við áttum nokkurn spöl eftir ófarinn að Blakknum, þegar stórt og víðáttumikið grunnbrot kom æðandi á móti okkur.  „Hver dj..., það er grunnbrot á Þembunni...  „ ...  Ljótt var að sjá upp í Verið; þar virtist grunnbrot yfir allt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Grunnendi / Djúpendi (n, kk)  Endar nets/línu eftir því hvor er nær landi.  Sjá grunnból/djúpból.

Grunnfesta (n, kvk)  Um það þegar færi festist í botni/grunni.  „Hér er oft góð veiði, en hætt við grunnfestum“.

Grunnfiskur (n, kk)  Fiskur sem fæst á grunnmiðum; oft þaraþyrsklingur og frekar smár. 

Grunnhygginn (l)  Einfaldur; hugsunarlítill.  „Þetta er ágætur karl, en fremur grunnhygginn“.

Grunnhyggni (n, kvk)  Einfeldni; hugsunarleysi.  „Skyldi þetta vera af illvilja eða bara grunnhyggni“?

Grunnleið (n, kvk)  Siglingaleið sem liggur grynnra en aðrar leiðir, en getur verið betri við vissar aðstæður.  „Grunnleið fyrir Blakk er fyrir ofan Blakknesboða, sem er blindboði“.  „Miðið í sundið milli Blakknesboðans og lands er að halda Bræðragjám þar til Tálkni kemur framundan“.  (Landamerkjalýsing Kollsvíkur).

Grunnmál (n, hk)  Fjarlægð sökku frá botni á skakveiðum.  „Mikilvægt er að taka gott grunnmál þar sem hætta er á festu“.  „... grunnmál (á steinbítsveiðum) var tvö til þrjú handtök“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).

Grunnmið (n, hk, fto)  Fiskimið á grunnslóð.  „Venjan áður var að koma í verið strax um sumarmál, en svo hætti fiskur að ganga svo snemma á grunnmið, ekki fyrr en komið var fram í maí“  ... „Færu menn í róður áður en fiskur gekk á grunnmið var róið djúpt og verið tvö sjávarföll í róðrinum, eða 12 tíma.   Eftir að fiskur gekk á grunnmið; lóðamiðin; á sandinn, eins og það var kallað í Kollsvík, var venja að róa eftir því sem stóð á flóði eða fjöru, og aldrei öðruvísi“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Grunnrek (n, hk) .....(óviss skýring en þrennt virðist einkum koma til greina;  rek af þara sem veltist eftir botninum og sest í net; fínt rek sem ekki verður vart nema færi liggi í botni eða rek uppi á grunni meðan þess gætir ekki dýpra frá landi) (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Grunnskafl (n, kk)  Um sjólag; stórt brot í grunnum sjó; grunnbrot.  „Í sverum sjó má sjá grunnskafla taka sig upp lengst frammi á víkinni; ekki alleina á þekktum boðum, heldur líka á milli þeirra“.

Grunnskreiður / Grunnristur (l)  Um bát; nær ekki langt niður í sjó; kemst nálægt landi án þess að taka niðri.  „Miklu skiptir við lendingar í fjöru, líkt og í Kollsvík, að bátar séu bæði grunnskreiðir og léttir á höndum“.

Grunnslóð (n, kvk)  Landgrunn; svæðið næst ströndum.  „Nú fer grásleppan að ganga á gunnslóð“.

Grunnstingull (n, kk)  Frost við botn en ekki við yfirborð.  Getur helst myndast í ám og lækjum í miklu frosti; þegar ísnálar myndast í vatninu; það nær ekki að frjósa á yfirborði vegna straums og iðukasta en nálarnar verða að íshellu við botninn þar sem straumur er hægari.

Grunnsævi (n, hk)  Grunnt hafsvæði; grunnur sjór.  „Það er orðið minna um grásleppu upp á grunnsævinu“.

Grunnt / Djúpt (l)  Um fjarlægð á sjó frá landi.  „Við rerum norður á Bætur, svokallaðar.  Það var norðurundir Blakknesinu; grunnt nokkuð, og þar var tekið til að skaka“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Grunnt á því góða (orðtak)  Stutt í illindi/misklíð; um viðsjár/tortryggni milli manna.  „Mér kemur þetta rifrildi ekki á óvart; það hefur löngum verið grunnt á því góða á milli þeirra“.

Grunsamlega (l)  Furðulega; undarlega.  „Mér finnst vera grunsamlega lítið eftir í kökuboxinu“.

Grunsemdir (n, kvk, fto)  Grunur; hugboð.  „Ég veit þetta ekki fyrir víst, en ég hef ákveðnar grunsemdir“.

Grúa (s)  Mora; vera mikið/býsn af.  „Þorskhræið er grúandi í marfló“.

Grúeygt (l)  Um þroska eggs; komin greinileg augu í stropann og e.t.v. einnig goggur.  „Ég hafði ekki lyst á þessu; ég ét það ekki grúeygt eins og þú“.  Sjá eygt og koleygt.

Grúfa (s)  A.  Gnæfa; þrúga. „Hér hefur grúft yfir niðaþoka í allan dag“.  B.  Um leiki; halda fyrir augu eða snúa sér undan meðan aðrir fela sig.  „Nú átt þú að grúfa“.

Grúi (n, kk)  Mikið notuð stytting úr aragrúi.

Grúmaðkaður (l)  Mjög maðkaður; iðandi í maðki; maðkaveita.  „Fiskurinn var grúmaðkaður innan, þó ekki sæist á honum að utanverðu“.  Forskeytið líklega komið af grúa.

Grúnsa (s)  Pussa; slægja steinbít (sjá steinbítur).

Grúsk (n, hk)  Það að grúska/gramsa/leita, gjarnan þá þess sem sjaldan er leitað.  „Hann er eilíflega að einhverju grúski.  Nú er það málfar fólks sem flest er látið; úr byggðum sem að mestu eru komnar í eyði“!

Grúska (s)  A.  Lesa og leita upplýsinga í ritum; iðka bókleg fræði; sökkva sér í lestur og úrvinnslu rita.  „Ár og síð menn segja hann kafinn sínum fræðum;/ grúskandi í gömlum skræðum“  (JR; Rósarímur).   B.  Grufla í; grandskoða; sökkva sér niður í verkefni. 

Grúskítugur / Grútskítugur (l)  Mjög skítugur.  „Farðu nú úr útigallanum áður en þú kemur inn; þú ert grútskítugur“!  „Þetta er enginn þvottur; þú ert ennþá grúskítugur í framan“!  Grú- er skylt grúi/aragrúi.  Báðar orðmyndir voru notaðar í Kollsvík.

Grútarbiblía (n, kvk)  Uppnefni sem festist við þá útgáfu Biblíunnar á íslensku sem Ebenezer Henderson stóð fyrir árið 1813 og náði víðtækri dreifingu.  Almennt talin dálítið misheppnuð útgáfa.  Nafngiftin er tilkomin vegna þess að Harmaljóðin eru í þessari bók misrituð „Harmagrútur Jeremiae“, auk þess sem orðið harmagrútur kemur víðar fyrir.  Má nærri geta hve slíkt hefur kætt ókristilega þenkjandi sálir, en enn skippuðust Kollsvíkingar með þetta og annað guðsorðastagl að áliðinni 20. öld.

Grútarháleistur (n, kk)  Drullusokkur; óvandaður maður.  „Þarna er þessi grútarháleistur ljóslifandi kominn“!

Grútarháttur (n, kk)  Nirfilsháttur; níska.  „Skelfingar grútarháttur er þetta í honum“!

Grútartunna (n, kvk)  Tunna með lýsi/grút.  „Meðan lýsi var algengur ljósgjafi var grútartunna eða grútarkaggi til á hverju heimili.  Sennilega hefur aldrei orðið skortur á því ljósmeti í Kollsvík“.

Grútlinur / Grútmáttlaus / Grútslappur (l)  Mjög kraftlaus/linur/aflvana.  „Hann ræður ekkert við þetta; hann er svo grútlinur“!  „Maður verður svo grútmáttlaus í þessari árans pest“.

Grútsyfjaður (l)  Mjög syfjaður.  „Ég er grútsyfjaður eftir að vaka yfir lambfénu í alla nótt“.

Grútarsál (n, kk)  Nirfill; nískupúki; grútur.

Grútartýra (n, kvk)  Óvirðulegt heiti á lýsislampa/grútarlampa; einu helsta ljósfæri fyrri alda.

Grútleiðinlegur (l)  mjög leiðinlegur.  „Grútleiðinlegri bók hef ég ekki lesið“!

Grútskítugur / Grútdrullugur (l)  Mjög skítugur; haugdrullugur; útataður.  „Farðu nú úr böslunum úti; þú ert gútskítugur“!

Grútsyfjaður (l)  Mjög syfjaður/svefnþurfi.  „Blessaður farðu nú í háttinn; þú ert orðinn grútsyfjaður“!

Grútur (n, kk)  A.  Lýsi; lýsisbrækja.  B.  Nirfill.  „Karlinn var sagður forríkur en algjör grútur“.

Gryfjuplast (n. hk)  Þolplast; gluggaplast; þykkt plast sem á tímabili var notað ofaná votheysgryfjur til að koma í veg fyrir að hiti hlypi uppúr og skemmdi þannig heyið.  Sandpokum var raðað með veggjum á jaðrana.

Grynna á sér (orðtak)  Um veiðiskap; fara að veiða nær landi.  „Það er að detta undan hérna núna; ég legg til að við grynnum aðeins á okkur“.

Grynningafláki (n, kk)  Svæði í sjó þar sem eru miklar grynningar og hættulegt að sigla um.  „Nær samfelldur grynningafláki er frá heimanverðri Vatnadalsbót norðurfyrir Grundagrjót.  Þarf að sigla framanvið hann þegar farið er milli Breiðavíkur og Kollsvíkur; einkum ef lágsjávað er og ylgja í sjó“.

Grynni (n, hk)  Grunnsvæði; grunnboði.  „Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Grynningar (n, kvk, fto)  Svæði sjávar þar sem jafnan er mjög grunnt.  „Segja má að Kollsvíkin sé öll grynningar, en einkum er þó grunnt á hleinar og boða sunnantil.  Í miklum sjó eru grunnbrot á allri víkinni“.

Grynnka á (orðtak)  Minnka magn/umfang; létta á.  „Hann sagðist heldur hafa grynnkað á skuldunum“.

Grynnka á sér (orðtak)  Um sjómennsku; færa sig á minna dýpi.  „Ég held að við ættum að grynnka á okkur með þennan streng; hér erum við úti á sandbletti“.  „Við skulum kippa og grynnka dálítið á okkur“.

Grýla (n, kvk, sérn)  Tröllskessa úr þjóðsögum.  „Eins og víðar voru börnum í Kollsvík sagðar sögur af Grýlu til að halda þeim á mottunni.  Í seinni tíð var Láganúpsbörnum sagt að hennar hellir væri gjótan í Efri-Hjöllum; rétt framan við Hádegisskarð.  Gilitrutt, lagskona hennar, átti þá heima í klettinum í Gilinu“.

Grýlupoki (n, kk)  Poki Grýlu; sem hún safnaði óþægum börnum í.  „Í gegnum tíðina hefur grýlupokinn líklega notast á sama hátt gagnvart börnum og helvíti gagnvart fullorðnum.  Þetta voru „verri staðirnir“ sem stuggur stóð af og enginn vildi lenda í.  Annað var byggt á þjóðtrú úr grárri forneskju og hitt á kristnidómnum“.

Grýlukerti (n, hk)  Klakastykki sem verða til við rennsli og fall vatnsdropa í frosti, t.d. niður úr þakskeggjum húsa.  Þjóðtrú segir að þetta séu kerti Grýlu.

Grýta (n, kvk)  Lítill pottur; almennt (niðrandi) um lítið ílát.  „Það komast ekki margar kartöflur í þessa grýtu“.

Grýta (s)  Kasta grjóti.  „Þegar farið var að smala fé heim Láganúpsfé eftir sláturtíð fóru oft tveir framí Vatnadal en einn útá Breið.  Hann gáði á Sanddalinn og leit niður í Fjarðarhorn.  Fór síðan heim Breiðsbrún, en oftar voru einhverjar kindur í Breiðnum.  Þeim smalaði hann heim hlíðina með því að grýta steinum ofanaf brúninni.  Dugði það oftast.  Rekið var heim að Láganúpi“.

Grýttur (l)  Um jarðveg/landslag; með miklu grjóti í yfirborði.  „ Tún sendið og grýtt (í Kollsvík)“  (AM/PV Jarðabók).  „Túnshalinn var mjög illslægur; þýfður og grýttur og því oft látinn bíða, ásamt Brekkunni og Urðunum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Græddur er geymdur eyrir ( orðatiltæki)  Speki þess sem kann að spara og safna.  Ef hinu smáa verðmæti er haldið saman verður það að nothæfum sjóði.  Mjög skiptir í tvö horn með skilning manna á þessu, en sumir virða e.t.v. meira orðatiltækið „eyrir er einskis virði“. Hinu má ekki gleyma að margur verður af aurum api.

Græða sig (orðtak)  Um kýr; ná upp góðri nyt.  „Hún var dálítið lengi að koma til eftir burðinn, en nú er hún óðum að græða sig, eftir að fór að koma smá beit úti“.

Græðiduft (n, hk)  Duft sem stráð er í sár til að þerra það og sótthreinsa.  „Ingvar í Kollsvík var laginn við dýralækningar og átti í sínum meðalaskáp m.a. lítinn bauk með græðidufti.  Þetta var nefnt pensilínduft og var úðað yfir sár gegnum lítinn stút á plastglasinu, og síðan var bundið um.  Virtist það virka mjög vel“.

Græðifingur (m, kk)  Baugfingur; næsti fingur við litlafingur. 

Græn grös (orðtak)  Gras í sprettu.  „Kálfarnir eru fljótir að slást við þegar þeir komast á græn grös“.

Grængolandi (sjór) (l)  A. Um sjó; hyldjúpur; grænleitur vegna dýpis. „Mér verður fyrst litið frameftir bátnum, sé ekkert annað en grængolandi sjó og álít að hann sé að sökkva“ (ÁE; Ljós við Látraröst). „Árni var í essinu sínu og spýtti af mikilli leikni og ánægju út í grængolandi öldurnar, þegar hann hafði snúið þær af sér “  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   B.  Áhersluorð með blótsyrðum.  „Farið það nú í hurðarlaust, grængolandi, sjóðbullandi helvíti!  Gleymdist nú ífæran í landi; ég er þá hræddur um að þessi lúða kveðji við borðstokkinn“! 

Grænhöfði / Grænhöfðaönd / Gráönd (n, kk/kvk)  Önnur heiti á stokkönd/vatnsönd sem stundum voru notuð í Kollsvík og víðar.

Græningi (n, kk)  Heimskingi; sá sem þekkir ekki til.  „Ég er alger græningi í þessum efnum“.

Grænjaxl (n, kk)  A.  Vísir að krækiberi.  B.  Aumingi; amlóði.  „Hann er bara óharðnaður grænjaxl ennþá“.

Grænka (s)  Um gróður; gróa; lifna við; taka lit.  „Tún eru fljót að grænka eftir svona mikinn snjóavetur“.

Grænka (n, kvk)  Grænn litur á jörð/gróðri.  „Það er strax komin grænka í allar lautir þegar hlýnar“.

Grænlendingur (n, kk)  A.  Þarlendir íbúar; eskimóar og aðrir.  B.  Flökkusteinn sem víða finnst á fjörum, t.d. í Kollsvík, af allt öðru bergi en þar er.  Þetta er grjót sem grænlenskir skriðjöklar hafa skafið úr berggrunni þar og síðan borist neðan í borgarís sem bráðnað hefur á fjörum í Kollsvík“.  Orðið virðist óþekkt annarsstaðar í þessari merkingu, en var notað þannig í Kollsvík.

Grænmeti (n, hk)  Það úr jurtaríkinu sem haft er til matar.  Grænmeti þykir í dag bráðnauðsynlegt í daglegri neyslu fólks, en svo hefur ekki alltaf verið.  „Auðvitað má segja að þetta (hundasúrur og himinnjóli) hafi verið grænmeti og kannski hef ég náð þessum aldri vegna þess.  Annars þekktist ekki grænmeti, enda þótti það ekki mannamatur“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Grænmosi (n, kk)  Dýjamosi; Philonotis fontana); ljósgrænn mosi sem gjarnan vex í votlendi og flýtur oft í breiðum ofaná uppsprettuaugum og drápsdýjum.  Sígrænn, enda frýs sjaldan í rót í kaldavermslum.

Grænstur kostur (orðtak)  Vænstur kostur; besti kostur; skársta úrræðið.  „Ég taldi þann kost grænstan í stöðunni að láta þá kasta til mín spotta og feta mig svo varlega yfir hrunið í ganginum“.

Græskulaust gaman (orðtak)  Skemmtun/ góðlátlegir hrekkir án þess að illt búi undir.  „Rökræður Kollsvíkurbræðra gátu virst ókunnugum sem hávaðarifrildi, en í þeirra augum var þetta oftast græskulaust gaman; glíma í mælskulist, rökvísi og vísdómi sem löngum hefur tíðkast í Kollsvík“.

Græta (s)  Koma einhverjum til að gráta.  „Vertu nú ekki að græta barnið með þessum óhemjugangi“.

Grætilegt (l)  Hörmulegt; sorglegt.  „Það væri grætilegt ef þetta tækifæri glataðist af tómum klaufaskap“.

Gröftur (n, kk)  A.  Það að grafa.  „Það kostaði allmikinn gröft að ræsa fram dýið“.  B.  Vilsa sem safnast í graftarkýli/graftarbólu.  „Það þarf að kreista gröftinn sem best úr þessu“.

Grön (n, kvk)  Svæðið kringum munn; efri vör.  „Skafðu nú þennan óræktarhýjung af gröninni á þér“!

Grönótt (l)  Um lit á sauðfé; dökkt um granir en hvítt að öðru leyti.  „Grön fékk nafn af því hún var grönótt“.

Grösugur (l)  Grasi vaxinn; vel sprottinn.  „Utan við Strengbergið taka við grösugar lautir sem heita Kálfalágar“  (IG; Sagt til vegar I).   „Blakkurinn er grösugur sunnantil, enda sólríkt og nægur áburður“.

Gubba (s)  Æla; selja upp; (á sjó:) ræða við Jónas; skila matnum. 

Gubbupest (n, kvk)  Ælupest; spýjupest; veikindi með uppgangi.  „Það er að ganga einhver árans gubbupest“.

Guð forði... (orðtak)  Upphrópun.  „Guð forði þér frá því að koma með rjúpu í þetta hús“.  Áhersla á „forði“.   Sjá forði mér frá.

Guð gefi... (orðtak)  A.  Byrjun á kveðju.  „Guð gefi þér góða nótt“.  B.  Um væntingar:  „Ég vona nú að guð gefi það að við þurftum ekki að horfa uppá þjóðina missa sjálfstæðið aftur“.

Guð gefur björg með barni (orðatiltæki)  Sú trú að einhver bjargráð verði þó fjölgi í fátækum fjölskyldum.

Guð bjargar/hjálpar þeim sem bjargar/hjálpar sér sjálfur (orðatiltæki)   Þessi speki hefur löngum verið í hávegum höfð í Kollsvík, og eflaust viðar þar sem menn hafa þurft að hafa fyrir lífsbjörginni.  Hún er i ætt við aðra speki, s.s. að „fiskurinn syndi ekki upp í pottinn“.   Sjómenn í Kollsvíkurveri vissu að þeir þyrftu sjálfir að hafa fyrir veiðum, en væntu þess eflaust að Guð sendi þeim fisk á mið og sæmilegt sjóveður.

Guð launar fyrir hrafninn (orðatiltæki)  Notað bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.  Talið er að Guð launi þeim með einhverju happi sem víkur mat að hröfnum í harðindum.  Sama orðatiltæki var notað ef mönnum áskotnaðist gjöf eða greiði úr óvæntri átt.  „Kærar þakkir  fyrir hákarlslykkjuna; það er geymt en ekki gleymt og Guð launar vafalaust fyrir hrafninn“.

Guð láti gott á vita (orðatiltæki)  Von um að tiltekinn viðburður verði til happs, eða breyti gangi máls sem stefnir í óefni.  „Er kominn nýr sýslumaður?  Já Guð láti þá gott á vita að hann verði röggsamari en sá fyrri“!

Guð leggur björg með barni (orðatiltæki)  Eflaust mikið notað máltæki áðurfyrr, er trúaðir foreldrar höfðu litla vissu um lífsbjörgina þegar nýr einstaklingur bættist í fjölskylduna.

Guð má vita / Guð einn veit (orðtak)  Enginn veit; ekki er gott að segja um; ég veit ekki.  „Einhvernvegin komst hann upp á brún, en guð má vita hvernig“.  „Guð má vita hvenær þeir koma“.  „Einhversstaðar lét ég þetta; en hvar; það má guð vita“!  „Guð einn veit hvenær við losnum við þessa ríkisstjórn“!

Guð náði þig! (orðtak)  Guð hjálpi þér.  Stundum viðhaft; einkum af fyrri tíðar fólki, þegar þeim vannst einhver vera ógætilegur í orðum eða þegar einhver hnerraði.

Guð sé oss næstur! (orðtak)  Upphrópun þegar einhverjum ofbýður eða honum bregður mikið.

Guða á glugga (orðtak)  Um fyrritíðar sið.  Sá sem var seint gestkomandi að bæ átti að fara nærri glugga og kalla „hér sé guð“.  Þá var svarað að innan; „guð veri með þér; hver er kominn“?  Sjá berja að dyrum.

Guði sé lof (og prís)! (orðatiltæki)  Upphrópun sem oft er viðhöfð þegar eitthvað gengur í haginn eða lánast, ekki síst ef illa hefur horft með það áður.

Guðaveigar (n, kvk, fto)  Gæluorð um drykki, oftast vín.  „Það gengur hægt á guðaveigarnar í þessu húsi“.

Guðdómur (n, kk)  Heilagleiki; dýrð guðs.  „Því má velta fyrir sér hvort Kollsvíkingum hafi ekki þótt skaði að missa sitt guðshús þegar hálfkirkjan í Kollsvík lagðist af.  E.t.v. hefur þó hinum sívinnandi, og stundum orðljótu, útvegsbændum þótt ágætt í aðra röndina að hafa guðdóm og guðsorðastagl í hæfilegri fjarlægð“.

Guðfaðir / Guðmóðir (n, kk/kvk)  Sjá skírnarvottar.

Guði sé lof! (orðtak)  Upphrópun/áherslusetning, sem oftast er notuð án þeirrar trúarjátningar sem í setningunni liggur.  „Guði sé lof að þeir náðu landi í þessu veðri“. 

Guðlaun fyrir mig / Guðlaun fyrir matinn / Guð launi fyrir matinn/mig (orðtak)  Þakkarávarp eftir þeginn mat, húsaskjól, gjöf eða annan greiða.  Orðalag í þessum efnum hefur verið misjafnt gegnum tíðina, og frá einum manni til annars.  Eftir miðja 20. öld mátti heyra framangreint af munni eldra fólks, en einnig „Guðlaun fyrir matinn“; „Guð launi þér fyrir mig“;  einungis „Guðlaun“; „innilegar þakkir...“; „bestu þakkir...“; „ástarþakkir...“; „hjartans þakkir...“ og fleiri orð voru til.  Andsvar gestgjafa/veitanda var einnig margbreytilegt:  „Verði þér að góðu“; „haltu til haga“; „ekkert að þakka“; „Guðvelkomið“;  „nýtist/verði þér vel“ o.fl.  Sá sem kom að borðhaldi sem hafið var sagði gjarnan; „verði ykkur að góðu“ eða „blessist ykkur vel/maturinn“.  Slík ávörp voru og eru jafn ófrávíkjanleg í siðum Útvíknafólks og það að bjóða hver öðrum góðan dag að morgni; góða nótt að kveldi; heilsast og kveðjast.

Guðrækilegar hugsanir (orðtak)  Hugleiðing um guðdóminn; djúpt hugsi.  „Vertu ekki að trufla hann:  Hann er niðursokkinn í guðrækilegar hugsanir“.  Þannig tilsvar heyrðist og ekki er örgrannt um að í því gætti stundum einhverrar kaldhæðni, enda gátu hugleiðingarnar verið misjafnlega guðrækilegar.

Guðrækilegur á svipinn (orðtak)  Sakleysislegur; einlægur.  „Ekki sá ég þegar þetta skeði, en kötturinn sat á borðinu, guðrækilegur á svipinn, og brotin skálin á gólfinu þar undir“.

Guðsbarnalega (ao)  Eins og guðs börn; skikkanlega; vel.  „Hættið nú þessum fjárans látum strákar og reynið að haga ykkur guðsbarnalega“!

Guðsblessun (n, kvk)  Hamingja; happ.  „Mikil Guðsblessun er það að vera laus við þessa ríkisstjórn“. 

Guðsfeginn / Guðslifandifeginn (l)  Mjög feginn/ánægður/létt.  „ég yrði svo guðsligandifeginn  ef þetta gæti gengið“.  Síðarnefnda orðið er mun algengara í seinni tíð.

Guðsgafflar (n, kk, fto)  Fingurnir.  Orðið virðist hafa verið bundið við Vestfirði, og eingöngu notað um það hvernig matast var.  „Vertu nú ekki að potast þetta með hníf og gaffli; það er langbest að taka þetta með guðsgöfflunum og stýfa úr hnefa“!

Guðsgræn jörð (orðtak)  Gróin jörð. „Klósett segirðu; geturðu ekki bara migið á guðsgræna jörðina?

Guðsgræn náttúra (orðtak)  Náttúran; umhverfið til sveita.  „Fátt veit ég betra en vera einn með sjálfum sér í guðsgrænni náttúrunni, og láta hugann reika“.

Guðskapartíð (n, kvk)  Blíðutíð; einmunatíð.  „Maður getur ekki treyst á að þessi guðskapartíð haldis endalaust“.   Orðið gæti hafa orðið til sem afleiðing af „guðskaparveður“.

Guðsbarnablíða / Guðsbarnaveður  / Guðskaparveður (n, hk)  Algjört logn; stafalogn; rjómalogn.  „Það er sama guðsbarnablíðan, dag eftir dag“!  „Nú er hann bara dottinn niður og komið guðskaparveður; ætli maður hleypi þá ekki skjátunum aðeins út“. 

Guðsgræn jörð / Guðsgræn náttúra (orðtök)  Jörð/náttúra sköpuð af guði.  Notað til áherslu:  „Ég held bara að annar eins bjálfi hafi ekki gengið um guðsgræna jörð“!  „Mikið líður manni alltaf vel úti í guðsgrænni náttúrunni“!

Guðslangan daginn (orðtak)  Liðlangan daginn; mjög lengi.  Áhersluorð um það sem þykir taka langan tíma.  „Ætlarðu að dunda við þetta allan guðslangan daginn?“

Guðslifandi feginn (orðtak)  Mjög feginn.  „Síðan varð að koma Bretunum öllum í rúm og gefa þeim að drekka.  Mennirnir voru allir guðslifandi fegnir og sofnuðu vel“  (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Guðsmildi (n, kvk)  Sérstakt lán; heppni.  „Það verður að teljast mesta guðsmildi að ekki fór verr“.

Guðsnáð (n, kvk)  Það sem drottinn gerir/vill; guðs vilji.  „Hann var leikari af guðsnáð“.

Guðsorð (n, hk)  Trúarlegt tal; bænir; signingar; predikanir.  „Ég held þú ættir að drífa þig meðokkur til kirkju; það skemmir þig ekkert að heyra guðsorð stöku sinnum“!  „Eitthvað tautaði hann yfir hausamótunum á hrekkjalómunum, og ég held það hafi ekki allt verið guðsorð“.

Guðsorðastagl (n, hk)  Sífellt klif biblíutilvitnana og guðsákalla; skinhelgi.  „Þó ekkert verði dregið í efa um einlægan kristindóm Kollsvíkinga og hollustu þeirra við sinnar tíðar lög og siði, þá má leiða að því líkum að í hinni krefjandi lífsbaráttu á þessum útkjálka hafi minna verið lagt uppúr skinhelgi, yfirborðsmennsku og prjáli sem einkenndi kristindóminn nærri höfðingjum og þvílíku slekti.  Um leið og Kollsvíkingar héldu manna lengst í heiðri hina aldagömlu hefð einlægrar sjóferðabænar ,geymdu með sér orðið „guðsorðastagl““.

Guðsvolaður (l)  Aumur; vesæll.  „Ekki getur maður verið slíkur guðsvolaður aumingi að maður reyni ekki að bjarga sér eftir bestu getu“.

Guðsþakkarvert (l)  Greiði við alla.  „Mikið væri það nú guðsþakkarvert ef þessi ríkisstjórn færi frá“.

Guðsþjónusta (n, kvk)  Messa; kirkjuleg athöfn.  „Nokkrum skemmtiferðum, að sumrinu, hefur fjelagið staðið fyrir; einni í Skor.  Var þar haldin guðsþjónusta undir beru lofti og fyrirlestur um Eggert Ólafsson“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Guðvelkomið (l)  Sjálfsagt; endilega.  „Þér er guðvelkomið að gista yfir nóttina ef þú vilt“.

Gufa (n, kvk)  A.  Eimur af sjóðandi vatni.  B.  Sjóreykur; brimreykur.  C.  Gauð; ónytjungur.  „Óttaleg gufa geturðu verið við róðurinn“. 

Gufubrim (n, hk)  Svo mikið brim að mikill sjóreykur myndast.  „Hann er kominn með svern vestansjó; það er gufubrim norðurundir“.

Gufurok (n, hk)  Mikið rok, þannig að sjór rýkur hátt upp.  „Það er að sjá gufurok norður yfir víkina“.

Gufuruglaður (l)  Utan við sig; mjög órökvís.  „Mér finnst karlinn vera orðinn gufurruglaður í seinni tíð“.

Gugginn (l)  Veiklulegur; framúrlegur; slappur.  „Maður er skelfing gugginn og slappur eftir pestina“.

Gugginn og grár (orðtak)  Fölur og veiklulegur.  „Hann varð sjóveikur, strákgreyið; allur gugginn og grár“.

Guggna (s)  Gefast upp; missa móðinn; fallast hendur.  „Það þýðir ekkert að guggna þegar á hólminn er komið“!

Guggna á (einhverju) (orðtak)  Gefast upp við eitthvað.  „Mér sýnist hann alveg vera að guggna á þessum fyrirætlunum; enda var ekki minnsta vit í þessu“!

Gugta við (orðtak)  Sýsla við; fást við; hangsa við.  „Síðar unnu á þessari vél til dæmis Gunnar Gíslason frá Hvammi á Barðaströnd; Þórir Stefánsson á Hvalskeri; Svavar Guðbjartsson á Lambavatni og undirritaður var einhverntíma að gugta við hana; en frekar var það lítið“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Gulhnökkuð (l)  Um lit á sauðfé; með áberandi gulan hnakka.  „Hvaða mark er á þessari gulhnökkuðu þarna“?

Gulhyrnd / Gulkollótt (l)  Auðkenni sauðfjár; með gul horn/gulan ennisbrúsk/andlit.  „Gáðu að markinu á þeirri gulkollóttu fyrir mig“.

Gull af manni (orðtak)  Hrósyrði um mjög góða/vandaða/alúðlega manneskju.  „Hann er kannski ekki allra, og fremur fráhrindandi í útliti, en hann er gull af manni þegar maður nær að kynnast honum“.

Gullauga (n, hk)  Kartöflutegund, gul, hnöttótt og með bleikum lit í augum.  Geymist vel og er bragðgóð.  Mikið ræktuð í Kollsvík, enda hentar hún vel fyrir skilyrði þar.

Gulleit (l)  A.  Um lit á sauðfé; hvít en með all gulum blæ á ull, og gul á haus.  Þó ekki mógul.

Gullfallegur (l)  Mjög fallegur; afbragðsfallegur.  „Pabbi fékk gullfallega rekaspíru hjá afa þínum til að nota í spruð á Kóp“.

Gullhamrar (n, kk, fto)  Skjall; smjaður; hrós í óhófi.  Sjá slá gullhamra.

Gulrófa (n, kvk)  Rófa; Brassica napus; Tvíær rótarávöxtur af krossblómaætt sem lengi hefur verið ræktaður til matar.  Upphaflega kynblendingur hvítkáls og næpu.  Í Kollsvík kom rófan líklega snemma á 19. öld, enda hefur þar löngum verið mikill áhugi fyrir garðrækt.  Rófur eru yfirleitt uppskornar á fyrsta ári og þeirra neytt sem meðlætis.  Þær þykja góðar soðnar með nýju keti, t.d. ketsúpu; og saltketi.  Ekki var til siðs í Kollsvík að borða rófur með fiski, eins og sumsstaðar annarsstaðar var.  Rófur eru einnig borðaðar nýjar, t.d. saxaðar eða raspaðar niður í salat.  Siður var í mínu ungdæmi að skera rófu i tvennt; skafa innanúr henni með borðhníf og borða beint af hnífnum.  Þegar búið var að skafa allt innanúr berkinum var stundum settur kandísmoli í rófuna og látinn bráðna í henni yfir nótt.  Þótti sá elexír góður við kvefi og lumbru.  Rófur voru geymdar í kartöflugryfju, en þær þola vel kulda.  Sé rófa höfð í mold annað árið, ber hún fræ; erður frærófa.  Þannig var unnt að eiga nægt heimafengið fræ, en gott var þó að fá meira að til kynbóta.  Kál af rófum er vel ætt, en var þó aldrei nýtt nema til kúafóðurs.  Þóttu þær græða sig vel af því. 

Gulrót (n, kvk)  Daucus carota; rótargrænmeti af svipjurtaætt.  Hefur líklega borist til ræktunar á svipuðum tíma og gulrófa.  Tvíær eins og rófan og er þá fræmyndandi síðara árið, en uppskorin til neyslu á því fyrra.  Gulrætur eru m.a. mjög auðugar afbeta-karóteni, eða A-vítamíni, sem er m.a. mikilvægt fyrir sjónina. 

Gulsnoppótt (l)  Um lit á sauðfé; með áberandi gula snoppu.  „Sérðu nokkursstaðar þá gulsnoppóttu“?

Gulur (l)  A.  Litur af gulum blæ.  B.  Móleitur litur á sauðfé, jafnvel svo að fætur og snoppa sé ljósbrúnt.  Flestum bændum er það kappsmál að rækta skjannahvítt fé vegna ullargæða, auk þess að hafa það kollótt og lágfætt.  En því var öfugt farið með Guðbjart Guðbjartsson á Láganúpi, þann glögga fjárbónda; hann var hrifnastur af hyrndu, gulu og háfættu fé.  Það taldi hann hraustast og mest sjálfbjarga.

Guma (s)  Hreykja sér; státa; monta sig.  „Það er nú ekkert til að guma af þó þú hafir rekið við í messunni“!

Gumpur (n, kk)  Rass; sitjandi; óæðri endi.  „Þér liggur ekkert á; sestu á gumpinn og fáðu þér kaffi“.  „Leysir hann þá niður brækur sínar og snýr gumpinum fram móti þaim Jóni“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Gums (n, hk)  Hrærigrautur; innvols; blanda.  „Það er ómögulegt að vita hvaða gums er í þessum pylsum“.

Gunguháttur (n, kk)  Heigulsháttur; roluháttur; ninnuhræðsla.  „Vertu ekki með þennan gunguhátt!  Horfðu bara á hvar þú gengur og vertu ekki að góna framaf og niður í fjöru“.

Gusta (s)  Vinda.  „Það var farið að gusta hressilega um okkur við eggjatökuna“.

Gustmikill (l)  Fasmikill; mikilúðlegur; þjóstugur.  „Heldur þótti mér hann gustmikill á fundinum“.

Gustuk (n, kvk)  Góðverk; guðsþakkarverk.  „Það er nú ekki gustuk að fara í heimsóknir með þessa pest“.

Gustukasemi (n, kvk)  Meðaumkvun; þegnskylda.  „Maður gerir nú svona lagað fremur af gustukasemi en að maður hafi hag af því“.

Gustukaverk (n, hk)  Gustuk; guðsþakkarverk.  „Það væri nú bara gustukaverk að tína grjótið af Fjörunum“.

Gustar af (orðtak)  Er valdsmannlegur í fasi/ ábúðarmikill/vargur.  „Það gat gustað ansi hressilega af kerlingunni ef hún taldi á sig hallað“.

Gustur (n, kk)  A.  Vindur; vindhviða.  „Það er töluverður gustur þarna uppi á fjallinu“.  B.  Stirt skap; hvefsinn.  „Það var bara þó nokkur gustur í frúnni þegar karlinn kom draugfullur heim um nóttina“.

Gusugangur (n, kk)  Busl; skvettur.  „Kallarðu þennan gusugang róður“?

Gutl (n, hk)  A.  Um sjólag; veltingur.  „Við förum nú að fara í land ef hann eykur þetta gutl“.  B.  Vökvi; blanda; slæmur/þunnur drykkur. „Hann var með eitthvað bölvað gutl á flösku“.  C.  Dund; vinna sem skilar litlu.  „Ég nenni ekki svona gutli; annaðhvort gerum við þetta almennilega eða ekki neitt“!

Gutla við (orðtak)  Bauka; dunda; vinna í rólegheitum.  „Alltaf er hann eitthvað að gutla við bílskrjóðinn“.

Gutlandi (n, kk)  Allnokkur sjór.  „Mér sýnist að við róum ekki í dag ef hann heldur þessum gutlanda“.

Gutlari (n, kk)  Afkastalítill maður; dundari.  „Hann getur verið skelfilegur gutlari“.

Guttur í (einhverjum) (orðtak)  Einhver er með fýlu/ólund; það er stutt í einhverjum.  „Mér fannst vera einhver guttur í honum þegar við hittumst síðast“.

Gúlfylli (n, kvk)  Fullur munnur af mat.  „Hann spýtti gúlfyllinni aftur þegar hann fann hvítlauksbragðið“.

Gúll (n, kk)  Munnhol; munngopa; kjaftur.  „Vertu nú ekki að tala með fullan munnin krakki“!

Gúlpa (s)  Um lögun hlutar/íláts; poka; mynda kúlu.  „Þarna er dekkið farið að gúlpa hættulega mikið“.

Gúlpur (n, kk)  A.  Þræsingur; langvarandi hvassviðri.  „Skyldi hann ekkert ætla að lægja þennan norðangúlp“?  B.  Um sjólag;  óregluleg straumkvika sem lítið brýtur.  (ÞJ Látrum; LK;  Ísl. sjávarhættir III).

Gúlsopi (n, kk)  Munnsopi; munnfylli af vökva.  „Hann fékk sér gúlsopa af sjálfrunnu lýsi“.

Gúmmilaði (n, hk)  Ógeðslegur hrærigrautur; óþverri.  „Daginn eftir þorrablótið þurfti að ganga frá áður en kennsla gæti hafist í félagsheimilinu.  Meðal annars þrífa gúmmilaði af gólfum og sópa upp gleri“.

Gúmmískór (n, kk, fto)  Þó gúmmískór þyki ekki fótaskart nú á tímum þá olli tilkoma þeirra um seinna stríð byltingu í sveitum.  Þeir leystu af hólmi skinn- og roðskó fyrri tíma og veittu mun betri vatnsvörn.  Í fyrstu buðust einungis alsvartir skór, ófóðraðir, en síðar komu skór með hvítri rönd; strigafóðraðir; með innleggi og betur lagaðir.  Um svipað leyti ruddu gúmmístígvél sér rúms, sem enn frekar tryggðu þurra fætur.  Strigaskór léttu tilveruna fyrir smala og bjargmenn:  Þá var byltingin fullkomnuð varðandi fótabúnað sveitafólks.

Gúmmítuðra (n, kvk)  Gúmmíbátur; gúmbátur.  „Við fórum á gúmmítuðru frá Keflavík út á Langurðir“.

Gúmoren (n, hk)  Upphaflega dönsk kveðja „god morgen“, en varmeira  notað sem gæluorð á kjaftshöggi.  „Vertu bara ekkert að rífa þig, ef þú vilt ekki fá einn hressilegan gúmoren“!

Gúndapottur (n, kk)  Eldunartæki sem var nokkuð vinsælt og til á mörgum bæjum í Rauðasandshreppi í kringum 1965-75.  Kringlóttur, tiltölulega flatur pottur eða panna úr blikki, með rafhitaelementi í botni og djúpu, kúptu loki með litlum glerglugga.  Í þessum potti mátti sjóða; baka og hita.  Á fyrstu árum rafvæðingar var þetta því notadrjúgt tæki, en þótti fljótt úrelt þegar ofneldavélar, mínútugrill og annað kom til.

Gúrka (n, kvk)  Agúrka; ílangur grænn ávöxtur klifurjurtar.  Af einhverjum ástæðum, sem skrásetjara eru óskiljanlegar, hafa Íslendingar tekið slíku ástfóstri við þetta vatnsbjúga að hjá sumum nálgast tilbeiðslu.

Gútera (s)  Samþykkja; gangast inná; meðtaka.  „Ég er nú ekki alveg búin að gútera það að þetta sé vonlaust“.

Gvendarber (n, hk)  Ber sem vaxa neðanjarðar, á rótum elftingarjurtar.  Þau geta orðið um 5mm í þvermál; með svörtu hýði en hvít innaní.  Vel æt og hafa líklega verið nokkuð nýtt í hallæri, samanber nafnið sultarber sem haft var yfir þau í einhverjum landshlutum.  Sjá nánar undir elftingarte.

Gvendarbrunnsvatn (n, hk)  Vatn úr Gvendarbrunni í Kollsvík.  Gvendarbrunnur er uppspretta heimanundir Sandahlíð í Núpnum; efst á Sandflötum.  „Hafði Guðmundur góði vígt hann á yfirreiðum sínum, enda er í honum afbragðsgott vatn er gjarnan var sótt handa sjúklingum og sængurkonum.  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Sagt er að þegar Guðbjartur Ólafsson í Kollsvík lá banaleguna (d. 1879) hafi hann látið sækja sér vatn úr Gvendarbrunni í norðanverðu Kolsvíkurtúni.  Er það til marks um þann átrúnað er menn höfðu á verkum Guðmundar“  (IG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)  „Þegar skírnir fóru fram í Kollsvík var einatt sótt Gvendarbrunnsvatn“.  „Þegar vatn er í Gvendarbrunni (á Látraheiði) er það heilagt vatn og gerir sitt gagn, bæði innvortis og útvortis; hvort sem það er magakveisa eða skalli; augnverkur eða náttúruleysi; allt batnar þetta með inntöku eða áburði ef menn hafa þolinmæði til að bíða eftir því“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Gvendardagur (n, kk)  16. mars; dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskups, sem deyði árið 1237.  Undarlegt er að hann skuli ekki almennt haldinn hátíðlegur, í ljósi þess hve Gvendur góði er enn í minnum hafður fyrir vígslur sínar og ströggl gegn höfðingjaveldinu.

Gyðingslegur (l)  Nískur; nirfilslegur.  „Skelfing geturðu verið gyðingslegur við hann bróður þinn; að gefa honum ekki með þér af þessu“! 

Gyðingur (n, kk)  A.  Sá sem er af gyðingaþjóð.  B.  Nirfill; aðhaldssamur maður.  Óvíst um uppruna þess, en e.t.v. af sömu rótum og áróður gegn gyðingum hefur stundum byggst á. „Óttalegur gyðingur geturðu verið“!

Gylliboð (n, hk)  Yfirboð; ginning; tálar.  „Nú dynja yfir gylliboð í allskonar verðlistum“.

Gyllinital (n, hk)  Tímatalsútreikningur sem notaður var til að finna réttan páskadag.  Gyllinital hvers árs segir hvar það stendur í tunglöldinni, og má finna út með því að deila í ártalið með 19.  Afgangurinn er þá einum lægri en gyllinitalið.

Gyllivonir (n, kvk, fto)  Tálvonir; of miklar væntingar.  „Ég geri mér engar gyllivonir um að þær kindur finnist“.

Gyrða sig í brók (orðtak)  Hysja uppum sig; koma sínum málum í betra lag.  „Þeim ferst að tala um aðra!  Ég held að þeir ættu að girða sig í brók sem eiga fé á útigangi um hávetur“.

Gyrtur (l)  Búinn að gyrða sig; með buxur uppum sig og skyrtu girta niður í þær.  „Nú ertu eitthvað illa girtur drengur;komdu og láttu mig laga þetta“.

Gýgjarpus (n, hk)  Tegund af sæsvepp, oft bleikur að lit eða hvítleitur.  Kemur stundum upp á krókum neti eða rekur á fjörur.  Ekki þekkt annarsstaðar með þessum framburði/rithætti.

Gýll (n, kk)  Dreki í þjóðtrú.  Heyrðist í seinni tíð oftast nefndur í veðurspádómnum „sjaldan er gýll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“.  Sjá blæs út sólir.

Gæða sér á (orðtak)  Borða; fá sér að borða/éta.  „Mér sýnist hrafninn vera að gæða sér á kjötinu“.

Gæða sér í mat (og drykk) (orðtak)  Fá sér betri mat til tilbreytingar. 

Gæðablóð / Gæðakarl / Gæðakona / Gæðamaður / Gæðaskinn / Gæðasál (n, kvk)  Góðmenni; góð manneskja.  „Þau hjónin voru mestu gæðasálir; bæði við börn og alla sem þau umgengust“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Gæðaskepna (n, kvk)  Stólpagripur; gott dýr.  „Hún Nótt var mesta gæðaskepna“.

Gæfa (n, kvk)  Lán; velgengni; hamingja.  „Þetta varð honum til lítillar gæfu“.

Gæflega/ Gæfulega / Gæfusamlega (ao)  Vel; gæfulega; farsællega.  Oft notað í öfugri merkingu í seinni tíð:  „Það fór nú svo gæflega þessi smölun; ég missti allan hópinn þegar kom niðurundir túnið“!  „Tapaði ég nú slóðanum“!  Það byrjar þá gæfulega þessi sjóferðin“!

Gæflyndisgrey / Gæflyndismaður (n, kk)  Hæglátur/vingjarnlegur maður.  „Þetta er nú gæflyndisgrey, þó hann stígi kannski ekki í vitið“.  „Mér fannst hann vera gæflyndismaður í viðmóti“.

Gæflyndiskvikindi  / Gæflyndisskepna (n, hk/kvk)  Stillt/róleg/gæf skepna.  „Hrafninn var orðinn mesta gæflyndiskvikindi og hræddist menn lítið“.  „Alltaf er Gibba sama gæflyndisskepnan“.

Gæflyndisveður (n, hk)  Meinhægt veður; stillt veður.  „Mér heyrist á spánni að það verði bara gæflyndisveður næstu daga“. 

Gæftakafli (n, kk)  Tímabil ágætra gæfta /góðs sjóveðurs.

Gæftaleysi (n, hk)  Stopul/engin sjósókn; rosi; rosatíð.  „Það var algert gæftaleysi framan af sumri“.

Gæftalítið (l)  Litlar gæftir; sjaldan sjóveður.  „Heldur hefur verið gæftalítið í þessum mánuði“.

Gæftir (n, kvk, fto)  Sjóveður; þegar gefur á sjó í einhvern tíma.  „Heimamenn (í Kollsvík) fluttu einnig í sínar verbúðir; fannst meira næði þar en heima á bæjunum, því oft var róið jafnt á nóttunni og menn lögðu sig þá að deginum, en fast var sótt ef gæftir voru“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).   Einnig er talað um hið gagnstæða; ógæftir.  „Það hafa verið stöðugar ógæftir í langan tíma“. 

Gæfulaus / Gæfulítill (l)  Lánlaus; óheppinn; utangarðs.  „Margt gæfulítið fólk hefur eflaust sótt í verin“.

Gæfulega (ao)  Lánlega; vel.  „Þessi vertíð ætlar ekki að byrja gæfulega“!

Gæfulegur (l)  Lánlegur; ber með sér gæfu/velferð/hamingju.  „Ekki sýndist mér þetta gæfulegur búnaður á piltinum“.

Gæfur (l)  Spakur; stilltur; ekki mannfælinn.  „Blikinn varð fljótt mjög gæfur og taldi sig jafnan einn af heimilisfólkinu“.

Gæfusamlega (ao)  Vel; æskilega; lánlega.  „Þetta endaði þó ekki gæfusamlega“.

Gæfuspor (n, hk)  Gagnleg/heillavænleg gerð.  „Taldi hann að stigið hefði verið mikið gæfuspor er ráðist var í þessa framkvæmd (skólabyggingu)“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Gægingur (n, kk)  Hótfyndni; kaldhæðni.  „Hann er með einhvern gæging eins og vant er“. 

Gægjumaður (n, kk)  Brúnamaður; vaðbergsmaður; maður við bjargsig sem hefur það hlutverk að fylgjast með sigaranum.  Gægjumaður kemur sér fyrir á snös þar sem sér til sigarans og lætur dráttarmenn vita hvernig honum gengur.  Í drætti og sigi situr hann framan við dráttarmenn; hefur hann hönd á vaðnum og greinir merki sigarans.  Mikilvægt er að gægjumaður sé vel vaðglöggur.  „Vaðbergsmaður/gægjumaður er kominn á sinn stað…“  (MG; Látrabjarg). 

Gægjur (n, kvk, fto)  Gát; eftirlit; það að fylgjast meðsvo lítið beri á.  „Ég ætla að hagræða máfunum sem eru komnir; vertu á gægjum á meðan“.

Gægsni (n, hk)  Hró; garmur.  Þessi kofi er nú orðinn hálfgert gægsni og rétt að rífa hann“.

Gægsnislegur (l)  Hrörlegur; hrumur; lélegur.  „Skelfing er nú bílgarmurinn að verða gægsnislegur“.

Gæla við (orðtak)  A.  Láta vel að; strjúka.  „Það er tvíeggjað að vera að gæla við nautkálfinn“.  B.  Um hugmynd/fyrirætlun; velta fyrir sér; kallsa við.  „Ég er að gæla við það að skreppa suður á næstunni“.  „Hann sagðist stundum gæla við þá hugsun að hætta þessu búskaparbasli“.

Gæluheiti og viðurnefni voru gjarnan notuð um fólk, líkt og viðgengst líklega í fámennari byggðarlögum.  Það sem hér er átt við með gæluheiti er þrennt.  Í fyrsta lagi eru það almenn orð sem hafa mjög óljósa skírskotun til viðkomandi persónu, ef þá nokkra, og lýsa e.t.v. meira viðhorfi þess sem ummælin viðhefur.  Oftast voru þessi ummæli í góðgjörnum tón; til áhersluauka  og mótunar fremur en annað.  Algeng voru heiti sem bættust í enda setningar sem fjallaði um viðkomandi:  Karlhólkurinn; ræfillinn; ræfilstuskan; karlgreyið; larfurinn; karluglan; kerlingargreyið; kerlingarálftin; besefinn; jálkurinn; áransbeinið; jaskurinn; fauskurinn; ræfilstuskan o.fl..  „Alltaf er hún jafn artarleg í sér, ræfilstuskan“.  „Ekki veit ég hvað hann ætlast fyrir með þessu, karlfauskurinn“.  „Hann er nú víst farinn að berja í nestið sitt, ræfillinn“.
Í öðru lagi voru það uppnefnin sem fámennissamfélögin hengdu á einstakar persónur.  Í flestum tilfellum var þeim ekki heldur ætlað að vera niðrandi, heldur var um nokkurskonar stuttheiti að ræða, með tilvísun í það sem einkenndi viðkomandi persónu; gjarnan nafngift sem hún gat sjálf sætt sig við.  Á fyrri hluta 20 aldar var þessi tilhneyging til uppnefna mjög áberandi Patreksfjarðarkauptúni, og mátti heita að hver hreppsbúi bæri viðurnefni, þó flest þeirra séu nú gleymd.  Viðurnefnin fékk fólk t.d. af útliti sínu eða hæfileikum, s.s. Jói einhenti, Jói á löppinni eða Geiri mátulegi, sem var hinn eini í hópi starfsfélaga nógu mjór til að komast inn í kyndingarhólf gufutogara þegar þau þurfti að hreinsa:  Af starfsheiti sínu, s.s.  Gvendur grútlari sem fékkst við grútarbræðslu og Siggi meistari sem var vélsmíðameistari; eða af bústað sínum, s.s. Gummi í Hliðskjálf og Jón við Ána.  Önnur viðurnefni gátu átt langsóttari skýringar, s.s. atvik, sögur eða orðatiltæki.  Í sveitum Rauðasandshrepps var þessi tilhneyging til viðurnefna ekki eins mikil, e.t.v. vegna fámennisins þar sem ekki var sama þörf á aðgreiningu.  Helst var það að starfsheiti eða staða einstaklings festist við hann og var þá gjarnan notuð í stað nafns.   Þar má t.d. nefna Kristinn Ólafsson í Hænuvík, sem lengi gegndi starfi landpósts af stakri skyldurækni og samviskusemi, en gekk í daglegu tali undir heitunum Kitti í Hænuvík; Kitti póstur eða bara pósturinn.  Þeir sem gegndu starfi hreppstjóra voru stundum einungis nefndir starfsheitinu, og sama var um aðra í einstökum störfum, s.s. faktorinn.  Oft gengu menn undir heiti sinna bújarða, s.s. Gilsbóndinn eða Hnjótsbóndinn.
Í þriðja lagi er svo stytting nafna, sem viðhöfð var til hægðarauka.  Þau eru þó ekki alltaf til styttingar heldur miða meira að þægilegu tveggja atkvæða orði.  Þessi tegund gæluheita lifir góðu lífi enn í dag, þó áðurnefnd viðurnefni séu orðin fátíðari.  Oftast fær fólk sín stuttheiti strax á barnsaldri og þau fylgja því gjarnan óbreytt alla ævi.  Þannig er Guðmundur oft stytt í Gummi eða Mundi; Guðbjartur í Bjartur; Magnús í Maggi og Björn í Bjössi.  Meiri fjölbreytni er þó til, og stafar oft af bjöguðum framburði barna sem festist við á unga aldri.

Gæra / Fláning / Gæruslöltun verkun og notkun sauðskinns Aðferðir við fláningu og verkun gæra hefur tekið miklum breytingum.  Fyrri tíðar aðferðir voru í stórum dráttum þannig:  „Gærurnar voru rakaðar, fljótlega eftir að fénu hafði verið lógað.  Stundum voru þær rakaðar samdægurs að kvöldi, eftir að slátrun var lokið.  Í Búalögum er það talið meðalmannsverkslátra 10 sauðum og raka gærurnar að kvöldi.  Notaður var flugbeittur hnífur úr ljáblaði til að raka gæruna.  Margir gerðu það á beru hnénu.  Sagt var að fljótustu menn væru stundarfjórðung að raka eina gæru.  Stundum var flegið þannig að skinnið var látið halda sér sem heill belgur að sem mestu leyti.  Þegar búið var að raka voru belgirnir fylltir með heyi og hengdir upp í eldhúsi.  Þar voru þeir látnir hanga og þorna.  Síðan voru þeir teknir niður og eltir.  Þegar þurrkað skinn var elt var það núið og hreyft milli handa sér eða undir fótunum.  Þá komu fljótlega brot í það þar sem skinnið var að verða mjúkt.  Þá var haldið áfram að núa, böggla, snúa, vinda og teygja skinnið, þangað til hvergi var orðinn eftir harður blettur og allt skinnið var orðið lungamjúkt.  Það hét eltiskinnSkinnbelgir voru notaðir mikið undir mat; bæði kæfu, smjör, tólg og fleira.  (Einnig í baujur/belgi).  Eltiskinn var haft í karlmannabuxur á 17. og 18. öld.  Það var líka notað í skjóður og í skinnþvengi í skó og bryddingar á skó.  Annars voru skinn af sauðkindum, sauðskinn, notuð í skó eins og þau komu fyrir, en sauðskinnsskór voru mikið notaðir áður fyrr og langt fram á 20. öld.  Annars var skinn til skógerðar, sem hét skæðaskinn, oft blásteinslitað á síðustu áratugum, en til þess var notaður blásteinn (koparsúlfat) uppleystur í vatni.  Sjóklæðnaður var allur úr sauðskinni áður fyrr (sjá skinnklæði).  Skinn í sjóklæði og annan skinn fatnað voru verkuð með því að bera í þau lýsi, hangikjötsflot eða kúarjóma meðan verið var að elta þau.  Lykt var af lýsisbornu skinnunum, en ekki af þeim sem flotið og rjóminn var borið í.  Þvengjaskinn var búið til úr þunnum skinnum; yfirleitt lélugustu bjórunum.  Þvengjaskinnið var stundum rakað en oftar var ullin rotuð af því  með því að láta það liggja í hlýju í nokkra daga.  Þá losnaði ullin af því og engin hnífsför komu í það, eins og stundum gerðist við raksturinn.  Þvengjaskinnið var alltaf strekkt á sléttum fleti og neglt niður á öllum jöðrum.  Það hét að spýta skinnið.  Þá varð það rennislétt og hart þegar það þornaði og var geymt þannig.  Mjóar ræmur voru ristar af skinninu og þær bleyttar og teygðar.  Þannig voru þvengirnir búnir til. 
Sauðskinnsskór og annar skinnfatnaður var saumaður með togþræði.  Sauðskinnsskórnir vour stundum verptir, en þá var skinnþvengur dreginn kringum allt opið á skónum og dregið saman með þvengnum, sem lá yfir jaðar skóvarpsins milli hverra tveggja gata.  Verptir skór voru með hælþvengjum og ristarböndum.  Oft voru menn á skinnleistum innan í skónum til að verjast bleytu.  Á ferðalögum voru menn stundum í belgjum af veturgömlum kindum; sínum á hvorum fæti, og leðurskór saumaðir neðan á belgina.  Spariskór voru gerðir úr sortulituðu sauðskinni og bryddað kringum opið með hvítum eltiskinnsbryddingum.  Þessir skór voru með hvítum hælþvengjum.  Sauðskinnsskór fóru vel á fæti, en endingin var stutt.  Þeir urðu harðir og flughálir á grasi í þurrkum, og voru þá látnir liggja í bleyti yfir nóttina.  Skóþvengir urðu að vera sterkir, því mikið reyndi á þá þegar fast var spyrnt við fæti. 
Hrútspungar undan fullorðnum hrútum voru oft skornir af þannig að mikið skinn af kviðnum var látið fylgja pungnum.  Pungurinn var síðan rakaður; tekið innan úr honum og hann troðinn út með heyi.  Um leið og troðið var í hann var hann teygður og lagaður til, eins og hann átti að verða.  Síðan var hann þurrkaður, þangað til skinnið var orðið glerhart og glært, en að því búnu eltur vel og lengi, þangað til hann var orðinn mjúkur.  Þá var komin skinnskjóða sem var til margra hluta nytsamleg.  Margir höfðu hann undir neftóbak, og var hann þá brotinn saman í opið og vafinn upp til að loka honum.  Stundum var dreginn þvengur í opið á pungnum og hann notaðu undir peninga og ýmsa smáhluti.  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  Sjá einnig flá; flá í belg; skinn; skinnklæði; skinnstakkur; bryddur.

Gæra (n, kvk)  Um sjólag; hvítur sjór af roki.  „Aðlögnin getur orðið svo snögg og stíf að innanvið Blakknesið verði sjór eins og gæra á stóru svæði“.  Sjá eins og hvít gæra.

Gæruhvítur sjór (orðtak)  Sjór í svo miklu roki að yfirborðið rýkur og verður eins og hvít, kemd sauðagæra.  „Fram af Blakknum var stólparok og gæruhvítur sjór“.

Gærurok (n, hk)  Svo mikið rok að sjór rýkur/ verður hvítur.  „Hann er að spæna upp norðan gærurok“.

Gæta bús og barna (orðtak)  Sinna um heimilishald og búskap.  „Hann var heima og gætti bús og barna meðan hún fór í orlofsferðina“.

Gæta eins og sjáaldurs augna sinna (orðtak)  Gæta/varðveita mjög vel.  „Þú verður að gæta þessa erfðagrips eins og sjáaldurs augna þinna“!  Sjá sjáaldur.

Gæta straums (orðtak)  Straums verður vart.  „Þegar ládautt var eða lítil ylgja var um flóð róið suður með landi, fast með landsteinum og ofan skerja....Þar gætti minna straums; norðurfallsins....“  (KJK; Kollsvíkurver)

Gæt´ég (samrunnið orðtak)  Algengt var að slá saman orðunum „gæti“ og „ég“ í slíkan sambræðing.  „Hann lægir með kvöldinu gæt´ég trúað“.  „Þarna leynist eitthvað fé, gæt´ég ímyndað mér“.

Gæti átt til (orðtak)  Gæti hugsanlega gert; er vís til.  „Passaðu þig á nautkálfinum; hann getur átt það til að setja undirsig hausinn og vilja leggja í þig“.  „Hafðu alla fingur sömumegin á sveifinni; vélin getur átt það til að slá“.  „Hann gæti átt til að rigna úr þessu útliti“.

Gætilega (ao)  Með varúð; varlega.  „Farið nú gætilega ef þið eruð að þessu príli“!

Gætinn (l)  Athugull; fer gætilega.  „Hann er mjög grandvar og gætinn, jafnt í fjármálum sem öðru“.

Gætni (n, kvk)  Varúð; aðgæsla.  „Þú verður að laumast ofanvið kindurnar með mikilli gætni“.

Gætt (n, kvk)  Op/dyr á húsi.  „Meðan Ólafur gegndi safnvörslu á Hnjóti stóð hann yfirleitt í gættinni og veifaði þeim sem framhjá fóru, væri hann ekki upptekinn í öðru“.

Gættu að! / Gættað! (orðtak)  Aðvörun; „passaðu þig“; „gáðu hvað þú gerir“!  Var iðulega sagt þegar vekja þurfti athygli á einhverju, og þá yfirleitt án þess að bæta neinu öðru við til skýringar: „Nei gætið nú að“! „Gættað!  Þú ert nærri brúninni“.  Sjá aðgæsla.

Gögl (n, hk, fto)  Hænsni; oft í niðrandi merkingu.  „Fjárans göglin eru að verða búin að róta upp garðinum“!

Göltra / Göltrast (s)  Skrölta; rölta.  „Ég ætla að göltra hér út í Bót og gá til reka“. 

Göltun (n, kvk)  Það að setja hey upp í galta.  „Göltun á heyi lagðist af með tilkomu öflugra tækja.  Þá varð unnt að raka hálfþurrt hey upp í svera garða og hirða þurrt hey strax í hlöðu á fljótlegan hátt.  Hey var þó galtað á Láganúpi að einhverju marki framyfir 1970“.

Göltra (s)  Gaufa; þvælast.  „Ekki skil ég hvernig þú nennir að göltra svona frameftir á kvöldin“! Kvöldgöltur.

Göltur (n, hk)  Þvælingur; flakk; gauf.  „Hvaða göltur er á honum frammi á Umvarpi“?  Einnig næturgöltur.

Gömul saga og ný (orðtak)  Um það sem einatt er viðvarandi.  „Svona mistök geta alla hent; það er gömul saga og ný“.

Göndlast (s)  A.  Bauka; bardúsa.  „Hann er nú eitthvað að göndlast í þessu, en árangurinn er ekki mikill“. B.  Vefjast upp; garðast í göndla.  „Heyið göndlaðist upp í rokinu“. 

Göndull (n, kk)  Vafningur; strangi.  „Heyið vill hlaupa í göndla þegar því er ýtt með greipinni“.

Göngubjart (l)  Nægilega bjart til að ganga; ratljóst.  „Við förum af stað þegar orðið er göngubjart“.  „Ratljóst“ var þó meira notað.

Göngufiskur (n, kk)  Fiskur sem gengur á grunnmið en er þar ekki að staðaldri; vanalega ljósari, stærri og vænni en þyrsklingar sem halda þar til að staðaldri. 

Göngufært (l)  Fært gangandi manni; unnt að ganga um.  „Um gilið er göngufær leið, og er fjaran fær þónokkurn spöl norðurfyrir Hnífaflögu…“  (HÖ; Fjaran).  

Göngufæri (n, hk)  Færð til gönguferðar.  Einkum notað þegar snjór var á jörðu, en þá gat göngufæri verið misgott.  „Það er fínasta göngufæri núna; rifahjarn yfir allan Hálsinn“.

Göngugarpur / Gönguhrólfur (n, kk)  Mikill göngumaður; eljusamur á göngu.  „Pabba þótit ekki mikið mál að ganga langar vegalengdir, því hann var annálaður göngugarpur; bæði léttur á fæti og hljóp frekar en gekk.  Skemmti hann sér stundum við það að ganga þá af sér sem þyngri voru til göngu“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Gönguleið (n, kvk)  Leið sem unnt er að ganga; leið þar sem margt er að sjá.  „Í Kollsvík eru fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir, með hinni fjölbreytilegustu upplifun“.

Göngulúinn / Göngumóður (l)  Þreyttur eftir göngu.  „Hvíldu þig nú.  Þú hlýtur að vera göngulúinn“.  „Inni trölla arni hjá/ eftir málsverð góðan;/ svefn og þreyta sækir á/ segginn göngumóðan“  (JR; Rósarímur).

Göngumannaleið / Göngumannavegur (n, kk)  Göngustígur; leið sem fær er gangandi fólki en hvorki hestum né bílum.  „Í Bæjargjá er Göngumannavegur yfir fjallið; oftast fært að vetrinum“  (PJ; Örn.skrá Rauðasands).  „Um Lambahlíðarskarð liggur göngumannaleið úr Breuðuvík í Lambahlíð“ (Guðm. Sigurðss; Örn.skrá Rauðasandshrepps).

Göngur (n, kvk, fto)  Smalamennskur að hausti; fjallgöngur; fjallskil.  „Göngur fóru fram samkvæmt fjallskilaseðli“.  „Tvennar skulu fjallgöngur á hausti.  Fyrri leitardagur skal vera mánudagur í 22. viku sumars; síðari leitardagur tveimur vikum seinna“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).
„Allir sem eiga fé að einhverju marki eru skyldugir að inna af hendi ákveðinn fjölda dagsverka við að smala fé úr afréttum og heimalöndum og koma því til réttar.  Gangnakvöðinni má líkja við herútboð.  Allir eru skyldugir að hlýða kallinu og enginn getur skorast undan“  (Stefán Aðalst.son; Sauðkindin, landið og þjóðin).   „Með haustinu komu göngur og slátrun og þá ný horn til að leika sér með“  (IG; Æskuminningar). 

Göngustafur (n, kk)  Stafur til að létta göngu.  „Sumir nota göngustaf en öðrum þykir hann þvælast fyrir“.

Göngutúr (n, kvk)  Ferð á fæti/fótgangandi.  „Ég ætla að fá mér göngutúr norður á Stekkjarmel“.

Gönguveður (n, hk)  Veður til gönguferða.  „Við fengum ágætt gönguveður; hlýtt og sólarlaust“.

Gönuhlaup (n, hk)  Frumhlaup; ótímabær aðgerð.  „Það borgaði sig illa þetta gönuhlaup“.

Gönur (n, kvk, fto)  Æðiskast; stefnulaust rás.  „Kýrnar tóku allskonar gönur þegar þeim var sleppt út“.

Göróttur (l)  Varasamur; eitraður; viðsjárverður.  „Hún reyndi að bjóða mér eitthvað görótt gúrkusalat“.

Göslari (n, kk)   Sá sem göslast/brauðhófast/ganar/brussast.  „Hann er ferlegur göslari“.

Gösla / Göslast (s)  Gana; brussast; brauðhófast.  „Það þýðir lítið að göslast áfram svona fyrirhyggjulaust“.

Leita