Blakknesið er útvörður Kollsvíkur í norðri og eitt tignarlegasta fjall á jarðríki gervöllu. Nefndist fyrrum Straumnes. Hér ávarpar Einar T. Guðbjartsson frá Láganúpi Blakkinn í bundnu máli. Ljóðið birtist áður í Niðjatali Hildar og Guðbjartar foreldra hans, sem út kom 1989.
Blakkurinn
Þú gnæfir við himin í hrífandi fylling;
þinn hraunkambur ljómar við sólroðans gylling.
Og geislarnir skýra gamlar rúnir
sem Guð hefur meitlað, um stalla og brúnir.
Þú klæddur ert brynju úr köldu grjóti
og keikur þú stendur þótt byljirnir þjóti.
Þó hersveitir Norðra þér hyggist að granda
þá hræðistu aldrei þá gráköldu fjanda.
En dætur Ránar þér falla að fótum;
fjörugar, hvíslandi „lifum og njótum“.
En aldrei þú leist við því lokkandi hjali.
Þær líða í djúpið með sogþungu mali.
Þú stendur aleinn, sem ímynd hins fasta
og óskelfdur horfir á brimþunga rasta.
Þú geigvænna atburða vitni hefur verið;
válegra slysa við brimgnúið skerið.
En aldrei þú bliknar né hugdeigur hræðist,
þó hetjurnar deyi en bölþungi fæðist.
Þú knýrð mig til hrifningar hugsana og starfa
með hátignarsvip þínum, bjarta og djarfa.
Þú ert bústaður helgaður hetjunni fyrstu
sem hóf sitt landnám í víkinni ystu.
Frá þér hann horfir um hrjóstrugar lendur,
á heyskap á túnum og báta við strendur.
Einar Guðbjartsson