Fóstbræðurnir Kollur og Örlygur voru fyrstu trúboðar á Íslandi og líklega lærðustu landnámsmennirnir. Hver var Kollur? Reisti hann fyrstu kirkju landsins í Kollsvík? Hvað geymir Biskupsþúfa? Í þessum hugleiðingum VÖ er rýnt í Landnámabók, örnefni og fleira.
Kollsvíkingar hafa löngum velt fyrir sér atburðum sem urðu í upphafi landnáms og lítillega er drepið á í Landnámabók. Ég er þarna uppalinn og þekki staðhætti ágætlega. Útfrá þeirri þekkingu og tiltækum fróðleik set ég fram þær tilgátur sem hér fara á eftir; fremur af forvitni um raunveruleikann en trúaráhuga. Hafa þarf í huga takmörk þekkingar um þessi efni og um leið það sem Ari fróði sagði forðum: „hafa skal það sem sannara reynist“. -VÖ-
Heimildir um Koll og landnám hans.
Frá landnámi Kollsvíkur segir annarsvegar í Landnámabók (Sturlubók og Hauksbók) en hinsvegar í Hellismanna sögu, og eru sagnirnar nánast samhljóða. Kjalnesinga saga getur einnig um Örlyg, en er um margt ósamhljóða Landnámu. Hún er rituð miklu síðar; er fyrst og fremst skáldsaga og ekki talin mjög trúverðug heimild. Í Hauksbók Landnámabókar segir af Örlygi Hrappssyni, sem var af mikilli ætt landnámsmanna. Í nokkuð styttri útgáfu er frásögnin á þessa leið
- „Örlygr hét son Hrapps Bjarnasonar bunu; hann var at fóstri með Patreki byskupi hinum helga í Suðureyjum. Hann fýstist að fara til Íslands ok bað að byskup sæi um með honum. Byskup fékk honum kirkjuvið ok bað hann hafa með sér ok plenárium járnklukku ok gullpenning ok mold vígða, at hann skyldi leggja undir hornstafi ok hafa þat fyrir vígslu, ok skyldi hann helga Kolumkilla“.
Biskup sagði honum hvar land skyldi taka, en þar er lýst staðháttum á Kjalarnesi. Þar skyldi hann byggja kirkju og helga heilögum Kólumba (Kólumkilla). Síðan segir í Sturlubók Landnámu:
- „Örlygr lét í haf ok sá maðr á öðru skipi er Kollr hét, fóstbróðir hans; þeir höfðu samflot. Á skipi með Örlygi var sá maðr er hét Þórólfr spörr, annarr Þorbjörn tálkni, Þriðji Þorbjörn skúma; þeir váru synir Böðvars blöðruskalla. En er þeir kómu í landván, gerði að þeim storm mikinn, og rak þá vestr um Ísland. Þá hét Örlygr á Patrek byskup, fóstra sinn, til landtöku þeim, og skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir váru þaðan skamma hríð, áðr en þeir sá land. Hann kom skipi sínu í Örlygshöfn, og af því kallaði hann fjörðinn Patreksfjörð. En Kollr hét á Þór; þá skilði í storminum, og kom hann þar sem Kollsvík heitir, ok braut hann þar skip sitt. Þar váru þeir um vetrinn; hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
En um várit bjó Örlygr skip sitt og sigldi brott með allt sitt; ok er hann kom suðr fyrir Faxaós, þar kenndi hann fjöll þau er honum var til vísat. Þar féll útbyrðis járnklokkan ok sökk niðr, en þeir sigldu inneftir firði ok tóku þar land sem nú heitir Sandvík á Kjalarnesi; þar lá þá járnklokkan í þarabrúki. Hann byggði undir Esjubergi at ráði Helga bjólu frænda síns og nam land millim Mógilsár ok Ósvífurslækjar; hann gerði kirkju at Esjubergi, sem honum var boðit“ (Hauksbók Landnámu).
Hin reyfarakennda Kjalnesingasaga nefnir Örlyg án þess að geta um viðkomu hans á Vestfjörðum. Kjalnesingasaga bætir hinsvegar þessu við varðandi kirkju Örlygs:
- „Helga Þorgrímsdóttir bjó at Esjubergi með börnum þeirra Búa. Þá stóð enn kirkja sú at Esjubergi er Örlygr hafði látit gera. Gaf þá engi maðr gaum at henni. En með því at Búi var skírðr maðr, en blótaði aldri, þá lét Helga grafa hann undir kirkjuveggnum inum syðra ok leggja ekki fémætt hjá honum nema vápn hans. Sú in sama járnklukka hekk þá fyrir kirkjunni á Esjubergi, er Árni byskup réð fyrir stað, Þorláksson, ok Nikulás Pétrson bjóat Hofi, ok var þá slitin af ryði. Árni byskup lét ok þann sama plenarium fara suðr í Skálholt ok lét búa ok líma öll blöðin í kjölinn, ok er írskt letr á“ (Kjalnesinga saga).
Þessir þrír sagnakaflar frá fyrstu tímum eru tilefni þeirra hugleiðinga sem hér fara á eftir. Hin knappa frásögn Landnámu er eina ritheimildin um landnám Kollsvíkur og tilvist Kolls. Hann er nánast nefndur í framhjáhlaupi sem fóstbróðir Kolls. Líklegt er þó að saga hans hafi verið engu viðaminni en annarra landnámsmanna, en að hún hafi ekki verið þeim tiltæk sem festu landnámið á bókfell, um 250 árum eftir atburðina.
Þessu til viðbótar er rétt að nefna þrjár munnmælasögur hafa lifað í Kollsvík, sem allar tengja Koll við örnefni í víkinni:
- Arnarboði nefnist sker stutt undan landi við Grundabakka, sem kemur úr sjó um fjöru en þó ekki vætt sundið. Sagt er að hann heiti utaní Örn, sem hafi verið stýrimaður Kolls.
- Biskupsþúfa nefnist þúfa í Kollsvíkurtúni; milli gamla bæjarhólsins og núverandi bæjar. Þúfan er sögð draga nafn af því að þar hafi Guðmundur biskup góði áð á leið sinni til að blessa Gvendarbrunn. Undir þúfunni á Kollur landnámsmaður að hafa fólgið gull sitt (sumir segja vopn sín). Boðar ógæfu ef því er hreyft.
- Kollsleiði nefnist þúst uppi á Blakknesnibbu. Þar er Kollur landnámsmaður sagður heygður. Þar hefur hann sýn yfir landnám sitt og þaðan er sjónlína að Biskupsþúfu. Þúfan var sögð greinanleg framum 1900 en er það ekki lengur.
Annað er ekki að hafa frá fyrri tíð um Koll landnámsmann. En af þessum fáu orðum má þó meira ráða en berum orðum er sagt. Hér verður rýnt örlítið í þessar heimildir og hvað raunverulega mætti lesa útúr þeim, með tilliti til annarra þátta.
Tímastetning landnáms Kollsvíkur; líklega 880-890.
Út frá ættingjum Örlygs og fleiru má ætlast á um tímasetningu landnáms í Kollsvík.
- Ingólfur Arnarson er talinn hafa numið hér land fyrstur, til varanlegrar búsetu. Venja er að miða við árið 874, en líklega hefur það verið nokkrum árum fyrr. Ingólfur og Örlygur voru komnir af Birni bunu; Örlygur í þriðja lið en Ingólfur í fjórða lið. Má því ætla að Örlygur hafi verið eldri, þó um það verði ekki fullyrt. Ingólfur var ekki barnungur er hann nam hér land, en hann hafði verið í hernaði áður. Þessar líkur hníga til þess að Kollsvík hafi verið numin fljótlega eftir landnám Ingólfs.
- Bróðir Örlygs var Þórður Skeggi sem fyrst nam land í Lóni austur en flutti svo til frænda sinna á Kjalarnesi og nam þar sem öndvegissúlur hans hafði rekið og bjó að Skeggjastöðum. Land sitt í Lóni seldi hann Úlfljóti, þeim sem síðan flutti hin fyrstu lög til landsins líklega árið 921. Má ætla að sigling Örlygs og Kolls til Íslands hafi orðið allnokkru fyrir þann tíma.
- Örlygur nam land undir Esju að ráði Helga bjólu Ketilssonar, frænda síns, en þeir Helgi og Ingólfur voru bræðrasynir. Helgi kom frá Suðureyjum eins og Örlygur, en Ketill flatnefur faðir hans hafði verið sendur af Haraldi hárfagra til að brjóta eyjarnar undir konung snemma á 9.öld. Má ætla að sú herför skýri veru Örlygs og Kolls á Suðureyjum.
Háskólanám Kolls við Kólumbusarklaustrið á Iona.
Landnáma hermir að Örlygur hafi verið „að fóstri með hinum helga Patreki byskupi í Suðureyjum“. Líklegt er að þar hafi einnig verið fóstbróðir hans Kollur; hvort sem þeir kynntust þar eða fyrr. Vart er nema um einn stað að ræða á þessum tíma: Benediktinaklaustur heilags Kólumba á eynni Iona í Suðureyjum. Það var stofnað af hinum írska Kólumkilla (Kólumba) sem sagt er að hafi kristnað Suðureyjar og Skotland kringum 560. Klaustrið varð virtasta menntastofnun vestanverðrar Evrópu og þangað fóru margir norskir höfðingjasynir til menntunar, sem að sjálfsögðu var í kristnum anda.
Suðureyjar sluppu ekki við yfirgang víkinga, fremur en önnur landsvæði Bretlandseyja. Eftir að Haraldur hárfagri sigraði sína fjendur í Hafursfjarðarorrustu árið 872 lagði hann leið sína til Suðureyja og lagði þær undir sig. Landstjóri hans á svæðinu varð Ketill flatnefur, föðurbróðir Örlygs Hrappssonar. Örlygur hefur sennilega verið í liði frænda síns á eyjunum, og þá líklega einnig Kollur fóstbróðir hans, sem við vitum annars engin deili á.
Þeir fóstbræður ákveða svo að nota tækifærið og setjast til mennta í hinu virta Kólumusarklausri. Þó vitað sé að nokkrir landnámsmenn komu frá Suðureyjum á þessum tíma eru þeir einu tilgreindu nemendur þessarar virtustu menntastofnunar vesturlanda; og því líklega hinir lærðustu í hópi fyrstu landnámsmannanna.
Hver var "Patrekur biskup"?
Eitthvað hefur skolast til um Patrek þann sem Landnáma segir hafa verið fóstra Örlygs. Tvennt kemur helst til greina. Í fyrra lagi það að hér sé um misskilning að ræða, sem orðið hefur til á þeim 250 árum sem liðu frá atburðum til ritunar Landnámu. Heilagur Patrekur var uppi á 5.öld; hann var trúboðsbiskup á Írlandi og þjóðardýrlingur þar, ásamt Kólumba þeim sem klaustrið stofnaði og kristnaði Skota. Hinn möguleikinn er þó e.t.v. nærtækari: Frá árinu 865 var klaustrið á Iona nefnilega undir stjórn ábóta sem hét Federach mac Cormaic, en hann lést árið 880. Nafnið Federach gæti sem best hafa orðið Patrekur í munni norðmanns. Tímasetningin passar ágætlega við það sem hér var fyrr sagt um siglingu fóstbræðranna.
Sú frásögn Landnámu er mjög sennileg að þeir fóstbræður hafi, að loknu námi, hugað á ferð til Íslands í kjölfar frænda sinna. Sömuleiðis er líklega rétt að þeir hafi; vel skólaðir í kristnum fræðum, boðist til að byggja kirkju og halda uppi kristniboði meðal frumbyggjanna. Eðlilegt er að þeir fengju einnig leiðsögn hjá hinum hálærðu landfræðingum sem kenndu við skólann. Þeir gefa lærimeisturum sínum það loforð að gera nöfn dýrlinganna tveggja, Patreks og Kólumba, ódauðlegt með nafngiftum á hinu nýja landi, enda er það ágæt aðferð til að vekja áhuga á trúnni. Í móti fá þeir kirkjuvið og messugögn, s.s. kirkjuklukku, guðsorðabók og vígða mold til að auka helgi kirkjunnar.
Kollur var kristinn.
Allar líkur benda til þess að Kollur hafi verið að námi með Örlygi fóstbróður sínum í klaustri heilags Kólumba. Þeir voru fóstbræður að sögn Landnámu. Til þess þurftu þeir að „ganga undir jarðarmen“, sem var heiðinn siður og hlýtur að hafa átt sér stað áður en þeir tóku kristni. Tilhneyging hefur verið til þess að telja Koll heiðinn, þar sem hann blótaði Þór í nauðum sínum að sögn Landnámu. Sú ályktun er fráleit. Annarsvegar vegna þess að vel kann að vera að menn hrópi eitt og annað upp víð slík tækifæri. T.d. verður mörgum það á að blóta hressilega þegar mikið gengur á, án þess að vera djöflatrúar. Einnig þarf hér að hafa í huga það sem Landnámabók segir um aðra merka landnámsmenn; t.d. Þórólf mostraskegg og Helga magra. Báðir völdu þeir það sem þeim fannst henta úr báðum trúarheimum.
Annar vinkill er íhugunurverður á þessum lítt þekkta Kolli. Sá var siður keltneskra munka að raka höfuð sitt á ákveðinn hátt; að „láta gera sér koll“ eins og það var nefnt. Af því voru þeir nefndir „kollar“. Þessi siður hefur eflaust tíðkast í Kólumbusarklaustrinu á Iona. Því má velta því fyrir sér hvort nafnið Kollur hefur upphaflega verið viðurnefni þess landnámsmanns, en það hafi lifað lengur í munni manna en skírnarnafn hans. Um þetta skal ekki fullyrt hér, en sé þessi tilgáta rétt er hún um leið sönnun þess að Kollur var kristinn.
Kollur og Örlygur voru fyrstu trúboðar á Íslandi
Kollur og Örygur voru fyrstu menn til að fara í sérstakan trúboðsleiðangur til Íslands, svo staðfestar heimildir hermi. Ekki fer á milli mála að með því að reisa kirkju að boði kristilegra yfirvalda var þeim ætlað að breiða hér út kristna trú meðal þeirra mörgu landnámsmanna sem enn voru heiðnir, ásamt því að halda hinum kristnu við efnið. Það er því vart annað en sögufölsun sem haldið er að m.a. skólabörnum samtímans, að fyrstu trúboðar hérlendis hafi verið Þorvaldur víðförli eða Þangbrandur, sem báðir voru ofstopamenn. Þegar hinn annars ágæti vísindavefur HÍ var inntur eftir sannleikanum í þessu efni árið 2018 varð fátt um skynsamleg svör. Niðurstaðan er því sú að þessir fóstbræður hafi fyrstir manna boðað kristna trú hérlendis.
Kollur reisti fyrstu kirkju landsins í Kollsvík
Þessi fyrirsögn kann að virðast nokkuð djörf, í ljósi þeirrar viðteknu skoðunar að Örlygur hafi reist fyrstu kirkjuna að Esjubergi, eins og ætla mætti af ummælum Landnámu og Kjalnesingasögu sem hér var vitnað til í upphafi. En varðandi þá frásögn þurfum við fyrst að athuga heimildir sagnanna.
Þegar Ari fróði ritaði frumlandnámu kringum 1130, sem núverandi eftirritanir eru taldar byggja á, var hann líklega búsettur á Suðurlandi en hugsanlega að Staðarstað á Snæfellsnesi. Helstu heimildarmenn hans voru að öllum líkindum höfðingjar, prestar, biskupar og fræðimenn af blómlegum sveitum sunnan og norðanlands og úr landnámi Ingólfs. Landnáma ber það með sér að heimildir eru strjálli úr fjarlægari byggðum, svo sem af útnesjum Vsetfjarða. Örlygur hinn gamli varð ættstór mjög, eins og Landnáma rekur, og líklegt er að frá afkomendum hans hafi greiðlega komið upplýsingar til Ara fróða. Kirkjubyggingar voru í miklum móð á þessum fyrstu öldum kristni í landinu. Menn kepptust við að sýna trúarhollustu sína og höfðingsskap með slíku, eins og sjá má af hinum mikla fjölda bænhúsa og kirkna sem spratt upp fljótlega eftir kristnitökuna. Afkomendum Örlygs hefur því verið mikið í mun að koma því til skrásetjarans Ara fróða að þeirra forfaðir hafi verið á undan sinni samtíð í kirkjubyggingum. Og þar sem Kollur var ekki til varnar; afkomendur hans víðsfjarri vestur á annnesjum og farið að fyrnast yfir fóstbræðraböndin, þá sakaði kannski ekki að hagræða því dálítið hvernig fyrstu kirkjubyggingu landsins bar að höndum.
Þegar Kollur og Örlygur bjuggu skip sín til Íslandsfarar frá Suðureyjum er líklegt að þeir hafi skipt með sér farmi og áhöfn. Þar með er líklegt að þeir hafi skipt kirkjuviðnum áðurnefnda, líkt og öðru byggingarefni; verkfærum; veiðarfærum; búsáhöldum; vistum; búsmala; fóðri; farviðum og fólki. Þeir fóstbræður hrepptu „harða útivist“ og lentu í hafvillum. Þegar þeir greindu land voru þeir komnir „vestr um landit“. Líklega hafa þeir komið uppundir Látrabjarg eða núpana þar norðuraf. Þeir sigla norðurmeð ströndinni en ekki er viðlit að lenda í Útvíkum. Straumnesröstin stendur uppi en Örlygur bjargast inn á fjörð sem hann nefndi Patreksfjörð, til fyllingar loforði sínu við klausturhaldarana; hann kemur skipi sínu í Örlygshöfn. Kollur er e.t.v. nokkru á eftir eða á minna skipi. Hann snýr frá Straumnesröstinni (Blakknesröst) sem honum líst ófær; siglir grunnt með ströndum Kollsvíkur í leit að heppilegri landtöku, en lendir í strandi á Arnarboða. Um strandið vitum við litið, en þar sem Kollur bjargaðist ásamt öðrum landnámsmönnum svæðisins er ekki óeðlilegt að álíta að hann hafi komið knerri sínum löskuðum, ásamt eftirbáti, yfir sundið ofan Arnarboða og upp í Grjótin. Þar er farmur borinn af í skyndi, áður en aftur fellur að með brimi og knörrinn eyðileggst.
Eftir björgunina og fyrstu guðsþakkir lá næst fyrir að átta sig á aðstæðum og búa sér skjól. Forlagatrú var allsráðandi í hugum fólks á þessum tíma. Augljóst var að í þessari vík höfðu forlögin ætlað Kolli að setjast að; hér skyldi hann tigna guð sinn og verndardýrlinga, með þakklæti fyrir björgunina. Í byrjun er e.t.v. hrófað upp tjaldi úr stórsegli skipsins, en síðan svipast Kollur um eftir stað til búsetu. Hann ákveður að reisa sér bústað á skjólsælasta stað Kollsvíkur; norður undir Núpnum þegar búið væri að koma fólkinu í skjól. Ekki alleina það; heldur liggur það beint við að nýta klausturviðinn til kirkjubyggingar í Kollsvík til dýrðar heilögum Kólumba sem haldið hafði verndarhendi yfir honum í slysinu.
Miklar líkur eru á því að Kollur hafi byggt sinn skála þar sem síðar hlóðst upp bæjarhóllinn í Kollsvík, þó auðvitað verði ekki um það fullyrt nema með rannsóknum. Um 50 metrum sunnan bæjarhólsins er annar hóll, nokkru lægri, þar sem í kaþólskri tíð stóð hálfkirkja og kirkjugarður en nú sjást aðeins rústir útihúsa. Mannabein hafa þar iðulega komið úr jörðu við rask. Ætla má að þar hafi Kollur reist kirkju sína, til dýrðar Kólumba. Það styður þessa ályktun að Kollsvíkurbærinn nefndist fyrrum Kirkjuból, eins og síðar greinir. Ekkert er sennilegra en að kirkja Kolls hafi verið forveri þeirrar hálfkirkju sem síðar stóð þar framum siðaskipti.
Örlygur lét það líklega verða sitt fyrsta verk þegar veðrinu slotaði að leita uppi fóstbróður sinn; hvort sem hann hefur farið sjóveg eða fjallveg. Ráða má af frásögn Landnámu að báðir hafi þeir haft vetursetu í Kollsvík, enda skynsamlegt að þeir hjálpuðust að við að koma upp einum sæmilegum skála en tveimur. Knörr sinn hefur Örlygur sennilega dregið upp í Örlygshafnarvaðal og sett í vetrarskorður annaðhvort á Hrófeyri eða Neteyri. Ekki verður fullyrt hvað þeim fóstbræðrum fór á milli, en margt bendir til að þeir hafi ákveðið að byggja hvor sinn staðinn. Kollur ákveður að láta skeika að sköpuðu; vera um kyrrt þar sem forrlög höfðu búið honum stað; nema land á þessum búsældarlega stað og reisa kirkju til guðsþakkar. Örlygur vill halda suður á Kjalarnes; bæði til að uppfylla loforð um trúboð þar, og til að vera návistum við ættmenn sína.
Ákveða þeir að byggja sína kirkjuna hvor af klausturviðnum; aðra í Kollsvík og hina á Kjalarnesi. Í Kollsvík er líklega. nýtt til húsagerðar brakið úr knerri Kolls ásamt rekaviði. Ekki er ólíklegt að bygging hennar og bæjarhúsanna hafi verið hafin þá um veturinn og kláruð um vorið, um það leyti sem Örlygur sigldi suður. Kollur hefur þá orðið fyrri til að klára sína kirkju og hefja guðsþjónustur en Örlygur, sem síðar byggði sinn bæ og sína kirkju að Esjubergi. Báðar kirkjurnar voru líklega hegaðar heilögum Kólumba. Fyrsta kirkja landsins reis því að öllum líkindum í Kollsvík og sú næsta á Kjalarnesi. Má ætla að síðari tíma fornleifarannsóknir skjóti stoðum undir þessa tilgátu.
Nafnið Kirkjuból.
Hér skal skotið inn örlitlu um bæjarnafnið Kirkjuból. Alls finnast heimildir um 26 slík bæjarheiti á landinu öllu; þar af 17 á Vestfjörðum. Talið er að heitið hafi senmma komið til og vísi til kirkjustaðar. Því til stuðnings má benda á ákvæði í kristinrétti Grágásar, skráð í Staðarhólsbók: „Ef maðr byr a kirkioboli, þa scal hann þar hallda husum oc gördum sva land spilliz eigi…“. Heitið Kirkjubólsstaður finnst á Hjaltlandi (Kirkabister) og í Orkneyjum (Kirbister), auk þess sem byggðin Kirkja í Færeyjum mun að fornu hafa heitið Kirkjubólsstaður. Líklega er Kirkjuból í Kollsvík elst slíkra bæjarnafna hérlendis; hin komu til eftir kristnitöku. Gegnum aldir koma bæði nöfn jarðarinnar fyrir; Kirkjuból og Kollsvík. Það síðarnefnda nær yfirhöndinni á 18.öld, en á fyrrihluta 20.aldar var árangurslaust gerð tilraun til að taka Kirkjubólsnafnið upp aftur. Kirkjubólsnafnið bendir þannig til að kirkja hafi staðið í Kollsvík frá fyrstu tíð.
Kirkjuklukka í þarabrúkinu
Landnáma segir í tilvitnunni hér í byrjun að þeir fóstbræður hafi, auk kirkjuviðarins, fengið meðferðis kirkjuklukku af járni ásamt öðrum kirkjugripum. Ekki er það ósennilegt, í ljósi þess að hér var um trúboðsleiðangur að ræða og keltneska kirkjan lagði mikið upp úr klukkum og krossum. Ótrúlegri er lygasagan um það að þessi kirkjuklukka hafi fallið útbyrðis af skipi Örlygs í Faxaflóanum og fundist rekin í Sandvík er hann lenti þar. Hefur þetta eflaust átt að skilja sem hverja aðra jarteinasögn. Hinsvegar kann að vera flugufótur fyrir þessari sögn, líkt og öðru í Landnámu og hún kann að geyma minni um tilvik sem bæði voru fyrnd og skrumskæld í frásögn heimildarmanna.
Sagan verður skiljanlegri ef hún er sett í samhengi við strand Kolls. Hafi klukkan verið á skipi Kolls er ekki ólíklegt að hún hafi fallið fyrir borð og týnst í Grjótunum þegar í ofboði var borið af skipinu eftir strandið. Framarlega í Grjótunum er mikill þaragróður á steinum og klöppum, og lítil bjalla getur hæglega týnst í honum. Eftir ákafa leit finnst loks þessi helgigripur „í þarabrúki“. Líklegt er að sá fundur hafi átt sér stað áður en Örlygur sigldi suður um vorið og ákveðið hafi verið að hann fái klukkuna og guðsorðabókina (plenarium) í sína fyrirhuguðu kirkju sem laun fyrir aðstoðina við húsbyggingar í Kollsvík.
Frásögn Kjalnesingasögu af kirkju og klukku Örlygs kann því að vera réttari en annað í þeim reyfara.
Biskupsþúfa. Um 50 metrum neðan gamla bæjarhólsins í Kollsvík er Biskupsþúfa; sem í raun er stór grasi gróinn steinn. Eins og áður sagði tengjast henni þau munnmæli annarsvegar að undir henni hafi Kollur fólgið gull sitt og hinsvegar að þar hafi Guðmundur góði Hólabiskup hvílt lúin bein þegar hann vígði Gvendarbrunn, nokkru norðar. Þúfan er nokkurnvegin í vestur frá kirkjuhólnum í Kollsvík. Sá var siður í keltneskri kristni, þeirri sem kennd var í klaustrinu á Iona, að krossar voru ekki reistir á kirkjum heldur nokkuð frá. Við klaustrið á Iona stendur enn 14 feta hár keltneskur steinkross heilags Marteins sem þar stóð á námsárum Kolls og Örlygs ( sjá mynd). Hafi Kollur reist kirkju á þessum hól í Kollsvík munu dyr hennar eflaust hafa snúið í vestur, sem þá var alsiða eins og nú. Þá er alls ekki ólíklegt að í sjónhendingu frá kirkjudyrum til vesturs hafi Kollur reist einhverskonar keltneskan kross á þessari áberandi þúfu. Kross sem um leið er áberandi af hafi, og er við sjávargötuna niður í Kollsvíkurlendingu. Krossinn hefur Kollur e.t.v. tileinkað Patreki biskupi; dýrðlingi sínum frá Suðureyjum; nefnt hann „Kross Patreks biskups“. Eftir daga Kolls hefur krossinn eyðilagst og týnst. Í staðinn er eftir þúfa sem tekur við nafninu; Biskupsþúfa. Vel má vera að Guðmundur góði hafi tyllt sínum sitjanda á þúfuna 300 árum síðar; þó ekki væri nema til að virða nafnið. Hafi nafngift Biskupsþúfu verið samkvæmt þessari tilgátu er líklegt að munnmæli um tengsl Kolls við þúfuna hafi lifað nokkrar aldir í munni íbúa. Smám saman hefur krossinn gleymst en í staðinn verður til munnmælasagan um gersemar sem Kollur hafi falið undir þúfunni. Einhverja ástæðu þurfti að hafa fyrir helgi hennar. Hér er vitaskuld um tilgátu að ræða, en líkurnar eru skoðunar virði.
Fyrsti prestur á Íslandi
Hafi Kollur reist hina fyrstu íslensku kirkju í Kollsvík hefur hann jafnframt orðið fyrsti þjónandi presturinn á Íslandi. Í kjölfar þeirra Kolls og Örlygs, en þó einkanlega eftir kristnitökuna árið 1000, reistu ýmsir höfðingjar landsins sér kirkjur og helguðu hinum ýmsu dýrlingum. Þetta voru hinar fyrstu bændakirkjur. Þær voru eign höfðingjanna sem þær reistu og sú trú var ríkjandi að sá sem reisti sér kirkju fengi svo fjölmennt lið í Himnaríki sem rúmaðist í kirkjunni. Kirkjueigendur þjónuðu gjarnan sjálfir sem prestar; a.m.k. þeir sem höfðu numið einhver kristin fræði. Líklega hefur enginn samtímamanna verið lærðari á Íslandi þegar Kollur og Örlygur komu út hingað. Þeir höfðu numið við virtustu menntastofnun Evrópu og hlotið brautskráningu klausturhaldaranna til trúboðs og kirkjuverka. Sjá má af landnámu og Kjalnesingasögu að kirkjuklukkan góða fór suður með Örlygi ásamt einhverju af kirkjuviðnum og helgisiðabókinni (plenarium), en líklega hefur Kollur fengið eitthvað af hinni vígðu mold til að setja undir stoðir í kirkju sinni. Spurning er um afdrif gullpeninganna sem getið er í Hauksbók Landnámu. Er e.t.v. gull að finna í Grundagrjótum? Ekki verður rennt grun í söfnuð Kollskirkju en e.t.v. má ætla að heimilisfólk Kolls hafi verið kristið. Einnig er fremur líklegt að þeir landnámsmenn hafi verið kristnir sem komu út með Kolli og Örlygi, þar sem um slíkan trúboðsleiðangur var að ræða. Hafi svo verið hefur sóknin verið all víðfeðm.
Kelstnesk kirkja en ekki rómversk.
Í þann tíð sem Kollur og Örlygur námu við Iona-klaustur var nokkur aðskilnaður milli þeirrar keltnesk-kaþólsku trúar sem stunduð var á kristna hluta Bretlandseyja og rómversk-kaþólskrar trúar sunnar í Evrópu. Það eru því keltneskar kirkjur sem rísa í Kollsvík og á Esjubergi, og verður því að leita í þann sið þegar menn velta fyrir sér kirkjustarfi sem þar var iðkað.
Keltneska kirkjan á Bretlandseyjum, sem upphófst fyrir trúboð heilags Patreks og Kólumba kringum 350, hafði að nokkru leyti einangrast frá rómarkirkjunni vegna þess að heiðin ríki Engilsaxa og Franka torvelduðu samgang þar á milli. Höfuðmunur keltneskrar kristni og rómverskrar var líklega sá að keltar sáu guð fyrst og fremst í sköpunarverkinu sjálfu; náttúrunni og lífinu, meðan rómverskir kennimenn einblíndu meira á biblíutexta og helgisiði. Er freistandi að álíta slíka náttúrudýrkun mikilvægan þátt í því að Kollur kýs að setjast um kyrrt í Kollsvík. Annað sem einkenndi keltneskt kristnihald var mikil áhersla á klausturlíf; mildilegar var tekið á kvennamálum kirkjunnar manna en í rómversku kirkjunni; rökun höfuðkolls á munkum; einkennandi siður varðandi ákvörðun páskadags og yfirbót fyrir syndir. Upphaflega voru keltnesk sóknarbörn ekki skyldug til messusóknar heldur fóru munkar og prestar um og predikuðu. Kirkjur voru þó augljóslega farnar að byggjast í tíð Kolls, eins og frásögn Landnámu sýnir.
Líklegt er að hin keltneska kirkja hafi áfram staðið í Kollsvík, eða Kirkjubóli, eftir daga Kolls. Hún hafi síðan orðið hálfkirkja eftir að Saurbæjarkirkja tók við sem höfuðkirkja, en þá í þeim rómverska sið sem hafði rutt sér til rúms. Kirkjubólskirkja hefur því verið yfir 650 ára þegar hún var lögð niður í kjölfar siðaskipta árið 1550.
Minnsta landnám Íslands
Kollsvík var minnsta landnám sem um getur á Íslandi; a.m.k. hvað varðar frumlandnám; þar sem enginn hafði numið fyrr. Landnám Kolls er um 25 km² að flatarmáli, meðan landnám Þórólfs sparrar nágranna hans og liðsfélaga er um 220 km² og landnám Ingólfs Arnarsonar nær yfir 2.500 km², eða hundraðfalt landnám Kolls. Ástæðan fyrir þessari nægjusemi Kolls gæti verið af ýmsum toga, þó ekkert verði um það fullyrt. Líklegasta skýringin gæti tengst tilgangi leiðangursins. Kollur og Örlygur voru komnir til landsins í trúarlegum erindum, til að reisa kirkju og starfrækja hana, en ekki í auðgunarskyni og líklega ekki á hrakningum undan Haraldi hárfagra eins og margir aðrir landnámsmenn. Nú höfðu forlögin kastað Kolli á land í þessari vík og það hlaut að vera honum vísbending um landnámið. Kollur hefur eflaust verið fljótur að átta sig á landkostunum. Hér var allt til alls í einni vík; hann þurfti ekki meira fyrir sig og sitt fólk. Eins og áður segir var það kjarni keltneskrar kristni að guð byggi í sköpunarverkinu en ekki í guðsorði á bók. Hvergi var Kollur því nær guði sínum en í þessari vík; nema ef vera skyldi í haug sínum fremst á Straumnesnibbu. Hann nemur því einungis það land sem þarf til hagabeitar sínu sauðfé. Líklega hefur eftirbáturinn bjargast úr skipbrotinu; að öðrum kosti hefur ný fleyta brátt verið smíðuð. Menn voru færir skipasmiðir á þessum tímum. Því verður fljótt ljóst að stutt er til miða og gnægð fiskjar. Lendingaraðstaða er hin ákjósanlegasta beint niðurundan bænum og ekki nema fáein áratog í spriklandi fisk. Ekki er ólíklegt að þá hafi fiskur verið í vötnum, t.d. Stóravatni og stærra Kjóavatninu. Lyng og kjarr hefur eflaust náð langt niður í víkina, einkum norðanverða, þó skeljasandur við sjóinn hafi verið litlu minni en nú. Rastir af rekaviði hafa eflaust verið á fjörum og líklega hvalhræ, bæði ný og rotnuð. Kollur er því lentur í mesta gnægtastað sem hugsast getur og ekki að undra að hann geti verið nægjusamur um landstærð.
Önnur ástæða fyrir misjafnri stærð landnáma gæti tengst fjármögnun leiðangursins. Landnáma er fámál um leiðangursfélagana en getur þriggja auk Kolls og Örlygs: Ýmist er að því látið að því liggja að þeir hafi verið á skipi Kolls…: „En Kollr hét á Þór; þá skilði í storminum, og kom hann þar sem Kollsvík heitir, ok braut hann þar skip sitt. Þar váru þeir um vetrinn; hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða“. … Eða þeir eru taldir vera á skipi Örlygs: „ Þórólfur spörr kom út með Örlygi ok nam Patreksfjörð fyrir vestan og Víkr fyrir vestan Barð (Látrabjarg) nema Kollsvík. Þar bjó Kollr fóstbróðir Örlygs. Þórólfr nam ok Keflavík fyrir sunnan Barð ok bjó at Hvallátrum“. Enn segir: „Þorbjörn tálkni ok Þorbjörn Skúma, synir Böðvars blöðruskalla, kómu út með Örlygi. Þeir námu Patreksfjörð hálfan ok Tálknafjörð allan til Kópaness“. Þessir þrír fá því langstærstu landnámin meðan Örlygur siglir suður og Kollur lætur sér nægja eina vík. Má af því ráða að þeir hafi komið til landsins í þeim tilgangi að nema land, meðan fóstbræðurnir komu í trúboðserindum. Þá er einnig mögulegt að þeir hafi átt knerrina, eða mikinn hlut í þeim, og hafi þótt réttmætt að fá stór landnám fyrir tjónið sem varð við strand Kolls. Knerrir voru dýr hafskip.
Hvað hét landnámsmaður Kollsvíkur?
Landnáma segir að fóstbróðir Örlygs og landnámsmaður Kollsvíkur hafi heitið Kollur, án þess að gera frekari grein fyrir honum. Það nafn hefur verið notað af íbúum víkurinnar og öðrum allar götur síðan. En e.t.v. er nokkur ástæða til efasemda:
Þar er fyrst til að nefna munnmælasöguna sem fylgir nafni Arnarboða. Sagan segir að þar hafi skip Kolls strandað og stýrimaður hans hafi heitið Örn. Á þessum tímum var stýrimaður æðsti stjórnandi skips; heitið skipstjóri var ekki til. Líkur eru á að Kollur hafi verið stjórnandi skipsins, annars hefði ekki verið til þess tekið í Landnámu að hann blótaði í hafnauð sinni. Því er freistandi að álykta að landnámsmaðurinn sem þarna stýrði skipi til brots hafi í raun heitið Örn. En þá situr eftir spurningin um nafnið „Kollur“.
Í seinni tíð hafa komið fram efasemdir um sannleiksgildi Landnámu varðandi staðaheiti, þrátt fyrir að hún sé enn talin trúverðug um meginþætti landnámsins. Sumt er reyndar mjög augljóst, t.d. það að Rauðisandur hlýtur að draga nafn af hinum áberandi rauða sandi en ekki viðurnefni Ármóðs hins Þorbjarnarsonar, sem Landnáma gefur viðurnefnið „rauði“. Þar virðist Landnámuhöfundur í fljótu bragði hafa tekið sér skáldaleyfi til nafnskýringar; en svo þarf reyndar ekki að vera. Þá, eins og nú, voru menn iðulega kenndir við stað sinn. Vera kann að Landnámsmaðurinn hafi verið kenndur við Rauðasand. „Rauði“ er enn notað í mæltu máli sem stytting á „mýrarrauði“, og gæti einnig hafa verið notað um hinn rauða sand. Þeim sem hugar að nafngiftum helstu fjalla og kennileita með ströndinni verður fljótt ljóst að þau voru gjarnan nefnd eftir því sem helst einkennir þau, svo sem Reykjavík vegna gufustróka úr Laugardal; þó sumir staðir heiti utaní landnámsmenn og ábúendur. Örnefnin vísa gjarnan til einkenna af hafi séð; enda voru skip einu samgöngutækin í upphafi byggðar og kennileitin þurftu að hafa lýsandi heiti til leiðsagnar sjófarendum.
Núparnir norðan Látrabjargs hafa þau einkenni sem þarf til að kallast núpur; sléttir að ofan en bratt bjarg og skriður sjávarmegin. Líklega hafa þeir allir haft endinguna „núpur“, þó hún hafi sumsstaðar fallið niður með tímanum. Talið frá Bjargtöngum hafa nöfnin sennilega verið: Brunnanúpur; Bjarnarnúpur; Breiðinúpur; Láganúpur (eða Láginúpur); Kollnúpur og Straumnes. Ending Straumness skýrist af því að nes er tiltölulega mjótt svæði sem gengur langt fram í sjó. Allir draga núparnir nöfn af því sem helst einkennir þá; séð af hafi. Með tímanum breyttist nafn Breiðanúps; líklega fyrst í „Breiði“, sem Breiðavík dregur nafn af, en síðar í „Breiður“. Bær var byggður sunnantil í Kollsvík sem nefndur var Láganúpur eftir klettunum, en nafnið færðist svo alfarið á bæinn og klettarnir fengu nafnið Hnífar. Kollnúpur er það nafn sem aðkomumanni hefði fyrst dottið í hug að gefa því fjalli sem nú heitir Núpur; þar sem lögun hans er áberandi kúptari en allra annarra núpa og minnir á mannskoll. Hann er um leið einkennandi fyrir þessa vík; t.d. þegar henni er lýst fyrir þeim sem síðar hyggjast sigla til landsins.
Þegar landnámsmaðurinn byggir undir þessu fjalli nefnir hann víkina „Kollsvík“ eftir einkennum fjallsins, en til þægindaauka sleppir hann núpsendingunni. Hann tekur síðan viðurnefnið „kollur“ af fjallinu eða víkinni. Gæti því hafa nefnst „Örn kollur“, sé fyrrnefnd tilgáta rétt. Þegar Landnáma er skrifuð lengst suður á landi og 250 árum síðar hefur raunverulegt nafn fallið niður, enda er viðurnefnið reisulegra og sérstæðara og hefur því lifað lengur í munni fólks.
Allt eru þetta tilgátur, þó ýmis rök kunni að hníga að þeim. Eina enn mætti nefna, varðandi nöfn landnámsmannsins og víkurinnar. Norrænir menn nefndu írska munka kolla, þar sem þeir létu „gera sér koll“; þ.e. raka á sér hvirfilinn, sem ekki voru náttúrulega sköllóttir. Má ætla að sá hafi verið siður munka við Kólumbaklaustrið mikla á Iona, þar sem Kollur og Örlygur námu. Uppruna Kolls er ekki getið í Landnámu. Hugsanlegt er að hann hafi um tíma verið munkur við klaustrið og þá vel þjálfaður í helgisiðum sem til þurfti í hinni nýju kirkju sem reisa skyldi á Íslandi. Meðal leiðangursmanna hafi hann verið nefndur Kollur þó nafnið hafi verið annað; t.d. Örn. Það sem helst mælir gegn þessari tilgátu er það að munkur hefði varla undirgengist þá heiðnu athöfn að sverjast í fóstbræðralag að norrænum sið. En þá er spurning um það annarsvegar hvort sá svardagi hafi orðið áður en hann gekk í klaustrið, eða hinsvegar að ekki hafi verið um norrænt fóstbræðralag að ræða milli Kolls og Örlygs, heldur hafi þeir verið reglubræður úr klaustri Kólumba.
„Fjölmiðlafulltrúa“ vantaði
Þannig má velta einu og öðru fyrir sér í viðleitni við að fylla í eyður Landnámu. Hverjum er frjálst að hafa sína skoðun á því, en því verður ekki breytt héðanaf sem fyrrum var fest á bókfell. Landnámabók er talin rituð af Ara fróða Þorgilssyni, a.m.k. að miklum hluta. Ari fæddist á Helgafelli en var ungum komið í fóstur í Haukadal. Þar nam hann m.a. af Halli spaka Þórarinssyni og Teiti Ísleifssyni Gissurarsonar biskups, áður en hann (líklega) gerðist prestur að Stað á Ölduhrygg. Hafi Landnámabók verið rituð þar, eftir 1100, þá er ekki einungis langur tími frá landnámi Kollsvíkur eða yfir 200 ár; heldur er ritarinn langt frá sögustaðnum og þeim sem helst hafa haldið minningu Kolls á lofti. Hinsvegar voru afkomendur Örlygs fóstbróður hans fjölmennir og mun nærtækari, eins og fyrr segir. Ekki er ólíklegt að frá þeim sé kominn fróðleikur til Ara eða annarra skrásetjara, um landnám Kollsvíkur og nágrennis. Landið var alkristið á ritunartímanum. Betri bændur kepptust við að koma sér upp kirkjum og sýna rétttrúnað sinn. Því er ekki ólíklegt að afkomendur Örlygs hafi viljað undirstrika frumkvæði forföður síns í þeim efnum: Hann hafi reist fyrstu kirkju landsins að Esjubergi en fóstbróðir hans orðið skipreika; hann var jú sá sem blótaði Þór í röstinni! Ekki er því tryggt að Kollur hafi notið sannmælis af þeim heimildarmönnum. Á nútímamáli má orða það svo að hann hafi skort fjölmiðlafulltrúa til að halda sínum hlut í frásögnum mála. Munnleg geymd á heimaslóðum hefur lasnað mun hraðar en Landnáma og eftirgerðir hennar, sem allt veldur því að heimildir um Koll eru fáar og óáreiðanlegar.
Grafstæði Kolls
Munnmælasögurnar tvær um Kollsleiði og Biskupsþúfu, sem getið var í byrjun, eru eina vísbendingin um greftrunarstað Kolls. Samkvæmt þeim á Kollur að hafa fólgið fé sitt (eða vopn) undir Biskupsþúfu fyrir dauða sinn, en fyrirskipað að hann sjálfur yrði heygður fremst á Blakknesi; þar sem bæði er sjónlína á Biskupsþúfu og víð sýn yfir nánast allt landnám hans. Vissulega hníga nokkur skynsamleg rök til þess; hvort heldur er gengið er útfrá því að Kollur hafi verið heiðinn eða kristinn.
Því var trúað í heiðni að þó haugbúar færu til Heljar þá gætu þeir haft nokkra viðveru í haugum sínum, þó þeir færu sjaldnast úr þeim. Því var vandað til staðsetningar, bæði með tilliti til útsýnis og einnig að sá látni gæti fylgst með mannaferðum. Haugar hafa gjarnan fundist þar sem sér til bæjar og/eða við þjóðleið. Vopn hins látna voru lögð í hauginn; skotsilfur; gjarnan hestur og jafnvel hundur; allt gæti það nýst handanmegin. Samkvæmt munnmælunum hefur Kollur talið sig nægilega ferðafæran eftir dauðann til að fara úr haugnum á Blakknesnibbu og vitja eigna sinna undir Biskupsþúfunni þegar hann þurfti á þeim að halda. En vissara taldi hann að hafa auga með gersemunum og setti áskilnað um að kveikja í bænum ef einhver hefði hönd á.
Arfsögnin er skemmtileg og sýnir umfram allt hve kynslóðir fyrri alda hafa metið fegurð Kollsvíkur mikils; enginn getur efast um að frumbýlingur Kollsvíkur velji sér slíkt augnakonfekt til eilífðar. Fram á 20.öld töldu menn sig sjá leifar haugsins á Blakknesnibbu, eða eins og segir í örnefnaskrá Kollsvíkur: „Á Blakknesnibbu er Kollsleiði; smáhæð eða þústa. Þar á Kollur sem nam land í Kollsvík að vera grafinn. Þaðan sést á Biskupsþúfu, en þar á hann að hafa fólgið fé sitt“. Greinarhöfundur gerði nokkra leit að leiðinu sumarið 2017 í tengslum við kortsetningu örnefna. Ekkert slíkt er að sjá í sjónlínu við Biskupsþúfu. Af fremstu nibbu Blakksins sést ekki heim að þúfunni en þar er á a.m.k. einum stað eitthvað sem gæti verið leifar af hleðslu; þó fremur vegg en leiði. Hugsanlega er þar um að ræða skjólgarð í tengslum við nytjar Blakksins til eggja- eða fuglatöku. Eða frá þeim tíma að sauðum var slakað niður í Sighvatsstóð í klettunum til fitubeitar. Einnig kemur upp í hugann Vopnadómurinn sem Magnús prúði sýslumaður í Saurbæ kvað upp í Tungu árið 1581; í kjölfar ránsins á Eggert tengdaföður sínum. Með dómnum voru bændur m.a. skyldaðir til þess annarsvegar að eiga vopn og hinsvegar að viðhalda bálköstum á stöðum þar sem vel sást milli byggðarlaga, svo fljótgert væri að láta vita af sjóræningjum og safna liði. Blakknesnibba er ákjósanlegur staður í því tilliti, og vel má ímynda sér að þarna hafi verið hlaðinn skjólgarður til varnar eldiviðarkesti, því þarna getur orðið ofsarok. Forvitnilegt væri að skera úr um aldur hleðslnanna með greiningu á jurtaleifum undir þeim. Nokkuð austur af Nibbunni má sjá háa og myndarlega grjótrúst, en þar er um að ræða landmælingavörðu, einungis aldargamla.
Sé sú kenning rétt sem brúað var á hér að framan; að Kollur hafi verið kristinn menntamaður eru e.t.v. minni líkur á því að hann hafi verið heygður á Blakknesnibbu. Hafi hann reist kirkju í Kollsvík mætti ætla að hann hefði látið jarða sig við hana. Hér þarf þó að hafa í huga áðurnefndan skilning Kelta á guðdómi náttúrunnar. Kollur gæti vel hafa talið sig vera næstan guði þar sem vel sér yfir eina mestu dýrð sköpunarverksins og að hinum helga krossi á Biskupsþúfu.
Allar virðast því þessar arfsagnir; bæði frásögn Landnámu og munnmælasögur örnefna, styðja þá hugleiðingu sem hér er sett fram varðandi kristni og kirkju Kolls. Endanleg staðfesting fæst þó vart héðan af, nema hugsanlega með fornleifarannsóknum.
Þróun kirkjumála eftir daga Kolls
Fáum sögum fer af skipan kirkjumála í Rauðasandshreppi í nokkurn tíma eftir að Kollur var allur. Hafi hann átt afkomendur er líklegt að þeir hafi verið kristnir og haldið kirkju hans við. Kirkjan var líklega sú eina í hreppnum fram til kristnitöku árið 1000. Engar heimildir er að hafa um þennan tíma; þar verða menn að leiða líkum að, þar til fornleifarannsóknir kunna að leiða meira í ljós.
Fljótt fjölgaði á svæðinu, enda telur Ari fróði að landið allt hafi verið fullnumið kringum 930. Hreppar mótuðust snemma og byggðin fékk fljótlega nafnið Rauðasandshreppur. Það bendir til þess að veldi bænda á Rauðasandi hafi vaxið skjótt; enda er þar gott undir bú. Helstu jarðir hreppsins hafa líklega fljótt skipst út úr stóru frumlandnámunum, og verða hér nendar þær sem fullyrða má að hafi mjög snemma byggst, þó þær kunni að hafa verið fleiri. Ármóður Þorbjarnarson hinn rauði hefur líklega setið í Saurbæ, en úr landnámi hans skiptust Melanes, Stakkar og Lambavatn. Þórólfur spörr sat á Hvallátrum en úr landnámi hans byggðust Keflavík, Hænuvík, Tunga og Sauðlauksdalur. Vesturbotn byggðist úr landnámi Þorbjarnarbræðra ásamt Geirseyri. Úr landnámi Kolls byggðist Láganúpur vafalítið mjög snemma.
Með kristnitökunni var upp tekin hinn rómverski siður kaþólskrar kristni. Keltneskur siður Kolls og Örlygs hlaut að víkja, og má vera að það hafi átt þátt í að kirkjur þeirra urðu ekki lengur höfuðkirkjur í héraði: Kirkja Örlygs hrörnaði í sinnuleysi, eins og Kjalnesingasaga greinir frá, en kirkja Kolls varð hálfkirkja undir höfuðkirkju að Saurbæ á Rauðasandi.
Þó enn væru margir heiðnir við landnám var krisni mjög að ryðja sér til rúms; um það vitna fleiri heimildir en Landnámabók. Forvitnilegt dæmi um þennan „blendna“ tíðaranda er bátskuml sem fannst 1964 í Vatnsdal, þar sem heygður hafði verið hópur 7 ungmenna á landnámstíð. Meðal haugfjár var lítill þórshamar sem bendir til heiðni, en einnig met með krossmarki. Tveggja trúarbragða gætti því í Rauðasandshreppi á þessum tíma.
Eftir að kristni var upp tekin upphófst allmikil uppbygging guðshúsa; bæði bænhúsa sem kirkna. Virðist mönnum hafa verið það metnaðarmál að bæta guðshúsi við húsakost sinn, þó ekki skuli trúarsannfæringin vanmetin. Stöndugir bændur gátu byggt veglegri kirkjur, en lítil bænhús virðast hafa komist upp á flestum, ef ekki öllum bæjum hreppsins eftir kristnitöku. Ekki eru heimildir um þau öll, en undarlegt má heita ef t.d. ekkert guðshús hefur verið í Örlygshöfn þegar þau voru í hverri Útvík auk Hænuvíkur.
Prestþjónusta við Kollsvíkurkirkju
Tíundarlög voru samþykkt á Alþingi 1097-97, sem tryggðu þeim kirkjum allnokkrar skatttekjur sem höfðu þjónandi presta. Með þeim var í raun skotið stoðum undir uppgang höfðingjaveldis og ójöfnuðar, þrátt fyrir að einnig hafi tíundarlög stuðlað að velferð þurfamanna. Prestþjónandi kirkjur voru jafnan á stærstu höfuðbólunum og þangað tók nú að safnast aukinn auður með kirkjutíund og preststíund. Með tíundinni urðu skilin æ gleggri milli tekjulausra bænhúsa og hálfkirkna annarsvegar og alkirkna hinsvegar, sem höfðu þjónandi presta og volduga bakhjarla.
Telja verður ólíklegt að Kirkjubólskirkja í Kollsvík hafi nokkurntíma haft lærðan prest á eigin vegum eftir að Kollur leið. Séu framangreindar kenningar réttar varðandi frumkirkju í Kollsvík er líklegt að þjónustu við hana hafi verið sinnt í hjáverkum með bústörfum og sjósókn. Því nýtur hún ekki tíundar, heldur verða Kollsvíkingar líkt og aðrir hreppsbændur að greiða tíund af sínum eignum til Saurbæjarkirkju, sem þá var komin á koppinn. Með því er Saurbæjarkirkja alfarið tekin við sem höfuðkirkja í hreppnum. Kirkjubólskirkja í Kollsvík; fyrsta kirkja á Íslandi, verður uppfrá því hálfkirkja sem þjónað er af prestum Saurbæjar, og leggst svo af eftir siðaskipti; meira en 650 árum frá stofnsetningu.
Hér skal í lokin lítillega hugað að öðrum guðshúsum í hreppnum, eftir því sem heimildir greina:
Saurbær á Rauðasandi er frá náttúrunnar hendi ein af búsældarlegri jörðum í hreppnum, og þar komst eflaust fljótt á fót umfangsmikill búrekstur. Líklegt er að fljótlega eftir kristnitöku hafi kirkja risið í Saurbæ. Hefur metnaður eflaust ráðið þar miklu, en einnig nauðsyn. Jarða þurfti hina látnu í vígðri mold í stað þess að heygja þá uppá heiðna vísu. Umhendis hefur verið að koma líkunum út í Kollsvík, þó þar hafi líklega verið grafreitur á þeim tíma.
Fyrsta skráða heimild um kirkju í hreppnum er Hrafns saga Sveinbjarnarsonar, en hún greinir frá því að á síðari hluta 12. aldar hafi höfðingi búið í Saurbæ að nafni Markús Gíslason. Markús var þingmaður Jóns Loftssonar í Odda, en ekki goðorðsmaður sjálfur. Hvergi var betur húsað býli á Vestfjörðum á þeim tíma. Markús fór utan og lét höggva kirkjuvið í Noregi; hefur eflaust ætlað að byggja veglega kirkju í Saurbæ. Hann kom að landi á Austfjörðum og af einhverjum ástæðum gaf hann kirkjuviðinn, sem síðan var nýttur til kirkjubyggingar á Valþjófsstað. Eftir andlát konu sinnar fór Markús aftur til Noregs og lét höggva sér við til kirkjubyggingar í Saurbæ. Hann lagði einnig leið sína suður í Róm og kom við í Englandi á bakaleiðinni þar sem hann fékk kirkjuklukkur góðar. Síðan segir: „Og er hann kom út hingað lét hann gera kirkju göfuglega á Rauðasandi og til þeirrar kirkju gaf hann klukkurnar og Ólafsskrín er hann hafði út haft. Sú kirkja var síðan vígð guði almáttugum og heilagri Máríu drottningu“.
Hér hafði hinn víðförli Saurbæjarbóndi vel búið að virðingu sinni; tekjustofnum og sálarheill. Hér eftir skyldi enginn fara í grafgötur um það hver væri höfuðkirkja Rauðasandshrepps. Kólumbakirkjan í Kollsvík bliknaði líklega í samjöfnuði við hið nýsmíðaða stórhýsi, sem átti skrín með lífsýnum Ólafs helga; var helguð Guði almáttugum og sælli Máríu; og var ráðandi skattkirkja á svæðinu. Saurbær hafði skapað sér stöðu sem stjórnunarmiðstöð á sunnanverðum Vestfjörðum; jafnt í kirkjulegum sem veraldlegum efnum.
Ástæða þess að Hrafns saga getur ekki um aðrar kirkjur í hreppnum á sama tíma er líklega öðrum þræði sú að meginkjarni frásagnarinnar snýr að mannvígum; kirkjubyggingar Markúsar er getið til að varpa ljósi á vígaferlin sem síðar urðu. Markús var veginn 1196 og Gísli sonur hans átti síðar í mannskæðum deilum við Eyjólf Kárason á Stökkum, þar sem kirkjan kom víð sögu. Hin ástæðan er sú að þá þegar hefur Kirkjubólskirkja verið orðin hálfkirkja. Það sannast í næstu ritheimild um kirkjur í Rauðasandshreppi sem er kirknatal Páls Jónssonar Skálholtsbiskup árið 1203. Þar nefnir Páll ekki aðrar en skattkirkjur, og nefnir Bæjarkirkju eina kirkna í Rauðasandshreppi. Reyndar er einnig nefnd „kirkja í dal“ en fræðimenn telja að það sé líklega síðari tíma innskot.
Þróunin verður þannig sú að kirkja Kolls verður hálfkirkja undir Saurbæjarkirkju; að öllum líkindum á 11.öld; fljótlega eftir kristnitöku og setningu tíundarlaga. Ekki er ólíklegt að áfram hafi verndardýrlingur hennar verið heilagur Kólumbi, en um það finnast ekki heimildir. Greftrun hefur líklega verið við Kirkjubólskirkju frá upphafi, og svo hélst framum siðaskipti er kirkjan var lögð niður. Ekki verður sagt hvernig prestþjónustu við hana hefur verið háttað frá dögum Kolls fram til þess að prestar Saurbæjar leggja leið sína út um Víknafjall.
Saurbær efldist eftir því sem aldirnar liðu og varð eitt helsta höfuðbólið á Vestfjörðum. Þar sátu útsjónarsamir höfðingjar sem oftar en ekki höfðu mikil ítök í landsstjórninni og kunnu að koma ár sinni vel fyrir borð. Safnaðist þeim æ meiri auður, m.a. í formi bújarða. Flestar jarðir í Rauðasandshreppi féllu í þetta svarthol auðsöfnunar og hreppsbúar urðu flestir ánauðugir landsetar höfðingjanna. Verður hér fáu bætt við það sem um það hefur verið skrifað, en glögg heimild er m.a. skrif Árna Magnússonar í Jarðabók sína árið 1703. Um kirkju í Saurbæ hafa m.a. ritað ágætlega Ari Ívarsson frá Rauðasandi og Kjartan Ólafsson sagnfræðingur.
Láganúpur féll undir Bæjareignir; líklega á 14. öld, þegar skreiðarsala varð arðbær, og hélst þannig fram á þá 20. Hinsvegar virðist Kirkjuból í Kollsvík hafa staðið utan þeirrar eignafléttu. Því hefur líklega ráðið það annarsvegar að Bæjarhöfðingjar höfðu þar valdatauma í gegnum þjónustu við hálfkirkjuna og hinsvegar að í Láganúplandi reis upp útgerðarstaðurinn sem malaði Bæjarveldinu gull í formi skreiðar. Útræði úr Kollsvíkurveri hófst miklu síðar.
Fjöldi guðshúsa í Rauðasandshreppi. Sennilega var kirkja Kolls á Kirkjubóli eina kirkja hreppsins á „heiðnum tíma“. Þar verður mikil breyting á eftir kristnitökuna árið 1000. Þá upphófst mikil bylgja bænhúsabygginga, en talið er að á landinu öllu hafi orðið hátt á annað þúsund bænhús og kirkjur. Bænhús voru reist á nokkrum jörðum í Rauðasandshreppi, en öðrum ekki. Sum komu snemma, eins og á Hvalskeri og e.t.v. víðar, en önnur síðar, svo sem í Breiðavík. Ekki er fullljóst hvað réði bænhúsabyggingum. Líklega var það fremur metnaður og trúarhiti ábúenda en fjarlægðin frá kirkjustað, en einnig kann fjölskyldustærð og samkomulag milli bæja að hafa ráðið nokkru varðandi samnýtingu. Hér verður lauslega minnst á bænhús sem einhverjar heimildir greina frá í Rauðasandshreppi. Þau kunna þó að hafa verið víðar.
- Melanes. Árið 1514 setti Stefán Jónsson biskup á stofn bænhús á Melanesi, sem stóð til siðaskipta. Líkt og í Breiðavík kann þar að hafa verið bænhús í upphafi kristni.
- Saurbær. Alkirkja frá upphafi; sóknarkirja og lengst af höfuðkirkja á sínu svæði.
- Hvallátrar. Þar var bænhús sem var „fyrir löngum tíma affelt“ segir Jarðabók Árna Magnússonar. Bænhúshóll er þar örnefni. Þar stóð hús sem eftir siðaskipti var lengi notað sem geymsla, segir í örnefnaskrá, en síðast rifið og á rústunum byggt íbúðarhús. Stærð þess er tiltekin 8 x 4 álnir.
- Breiðavík. Bænhús var stofnsett í Breiðavík árið 1431 afi Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi, og skyldi það eiga tíu hundruð í heimalandi. Ætla má þó að bænhús hafi verið þar fyrr, eins og áður segir, þó það kunni að hafa aflagst um tíma. Jarðabókin segir að 1703 sé þar hálfkirkja þar sem embættað er tvisvar á ári. Í árslok 1824 var hún gerð að sóknarkirkju með konungsbréfi. Um leið var stofnuð þriðja sóknin í Rauðasandshreppi; Breiðavíkursókn sem náði yfir Útvíkur og Keflavík. Prestssetur hefur ekki verið í Breiðavík, heldur var kirkjunni þjónað frá Sauðlauksdal og síðan Patreksfirði.
- Kollsvík. Að líkindum fyrsta kirkja landsins. Síðar hálfkirkja fram um siðaskipti.
- Hænuvík. Ekki er vitað hvenær þar var reist bænhús, en að öllum líkindum hefur það verið lagt niður um siðaskipti eins og önnur slík. Þar eru örnefnin Hoftóft og Blótkelda stutt frá bæ, sem gætu bent til heiðinna tíma.
- Sauðlauksdalur. Þar var bænhús sem verulega auðgaðist árið 1499 þegar ábúandinn, Jón Íslendingur, gaf því skóg í Trostansfirði en síðar fékk það fleiri gjafir og ítök. Árið 1505 var leyfð þar greftrun og aðrar meiriháttar athafnir, og 1512 setti Stefán Jónson biskup alkirkju í Sauðlauksdal. Með þessu var Saurbæjarsókn skipt í tvennt, og til Sauðlauksdalssóknar heyrðu nú allir bæir við Patreksfjörð.
- Hvalsker. Þar reis bænhús líklega mjög snemma. Þess er getið í áðurnefndri sögu Hrafns Sveinbjarnarsonar að deilur hafi risið milli Inga Magnússonar bónda á Hvalskeri og Markúsar Gíslasonar í Saurbæ, vegna viðhalds á bænhúsinu á Hvalskeri sem þá var fallið í tóft. Urðu lyktir þær að Ingi veitti Markúsi banasár á bæjarhlaðinu í Saurbæ árið 1196. Þorlákur biskup helgi hafði skipað svo fyrir, til að tryggja vihald bænhúsa, að ef bænhús félli í tóft skyldi staðarhaldari gjalda sex aura til grafarkirkjunnar sem bænhúsið lá undir. Hefur Markús eflaust verið að innheimta þá sekt hjá hinum viðskotailla Skersbónda. Má af þessu ráða að bænhúsið hefur verið orðið fornt árið 1196 og hefur því e.t.v. risið fljótlega eftir kristnitöku.
- Vesturbotn. Þar var bænhús var í á kaþólskri tíð, „en fyrir lángri æfi affallið“ segir í Jarðabók Á.M.
- Geirseyri. Þar stóð bænhús, að því er Árni Magnússon segir í Jarðabókinni, en þá fyrir löngu eyðilagt.
Eins og fyrr segir er líklegt að bænhús hafi verið regla fremur en undantekning á öllum byggðum bólum í kjölfar siðaskipta. Sóknir urðu ekki til fyrr en á 14. öld; fram að þeim tíma var þjónustusvæði höfuðkirkju nefnt þing. Til viðbótar þeim 10 guðshúsum sem hér um getur er því ekki ólíklegt að 5-7 hafi byggst í Saurbæjarþingi, þó þau hafi ekki ratað í heimildir. Hafa menn líklega lagt áherslu á að eyða þeim eftir að Þorlákur biskup setti áðurnefnt sektarákvæði varðandi viðhald þeirra og prestar trénuðust við þjónustu í þeim. Guðshúsum á landinu er talið hafa fækkað mjög eftir 1100, hver sem ástæðan var.
Hefur það verið allmikið verk hjá Saurbæjarprestum að þjónusta þegar guðshús voru flest. Í höfuðkirkjunni í Saurbæ þurfti að messa alla sunnudaga og aðra helgidaga; í hálfkirkjunni á Kirkjubóli var messað annan hvern helgan dag og í bænhúsunum var ætlast til messu mánaðarlega, þó líklega hafi það verið sjaldnar í reynd. Hagsýnn kirkjuhaldari í Saurbæ hefur eflaust séð það í hendi sér að hagkvæmt myndi að minnka vinnu sinna presta en láta fremur sóknarbörnin um skóslitið, með kirkjusókn að Saurbæ. E.t.v. hafa bænhúsin í víkunum lengur haldist við, þar sem unnt var að nýta messuferðir presta til aðdrátta á fiskifangi.
Niðurstöður:
Hér hefur verið hugleidd þróun kirkjumála í Rauðasandshreppi til forna; einkum fyrst eftir landnám. Heimildir eru fáar og hefur því nokkuð verið stuðst við helstu líkindi. Samkvæmt þessum niðurstöðum gæti saga kirkjuhalds í Rauðasandshreppi verið svona í stórum dráttum:
- Kollur og Örlygur voru fyrstu trúboðar á Íslandi og byggðu hvor sína kirkju.
- Kollur nam minnsta frumlandnám á Íslandi og stundaði helgihald ásamt búskap og útgerð.
- Fyrsta kirkja á Íslandi var keltnesk-kristin og byggð á Kirkjubóli í Kollsvík fyrir árið 900.
- Kollur var fyrsti þjónandi kirkjuprestur á Íslandi. Hann var jarðsettur á Blakknesnibbu.
- Saurbæjarkirkja byggðist sem rómversk-kristin alkirkja á Saurbæ um kristnitöku.
- Um leið verður Kirkjubólskirkja hálfkirkja og bænhús rís á nánast hverju bóli.
- Saurbæjarveldið eflist, m.a. með upptöku tíundar; bænhúsum fækkar.
- Kirkjubólskirkja heldur sínu fram yfir siðaskipti, sem hálfkirkja og grafarkirkja.
- Sauðlauksdalssókn er stofnuð út úr Saurbæjarsókn árið 1512 og nær yfir Patreksfjörð.
- Kirkjubólskirkja leggst af um siðaskipti, ásamt þeim bænhúsum sem þá eruvið lýði.
- Breiðavíkursókn er stofnuð úr Saurbæjarsókn árið 1824.
Ritað í apríl-nóv 2018
Valdimar Össurarson frá Láganúpi