Þó langt sé síðan útgerð lagðist af úr Kollsvíkurveri og vermenn allir komnir undir græna torfu er enn ýmislegt sem minnir á þá tíma. Greinilegastar eru tóftir og fiskireitir á staðnum og sögur sem varðveist hafa. Bátar sem þar sigldu stafnháir úr vör að morgni og komu drekkhlaðnir til lands að kveldi eru þó flestir gengnir til báls eða moldar.
Einn öldungur er enn við lýði sem varðveist hefur og talar sínu máli um liðna tíð. Þetta er árabáturinn Svalan sem nú er varðveitt á Hnjóti, ásamt fleiri gömlum fleytum. Sögu þessa báts hefur ekki verið haldið sérstaklega til haga, en honum bregður þó fyrir á stöku stað í frásögnum þeirra sem til þekktu. Svalan var ekki einungis atvinnutæki og aflaskip heldur einnig happafleyta í sjávarháska og svaðilförum. Hér verður gluggað í þessi minningabrot og velt upp möguleikum á uppruna Svölunnar.
Myndirnar sem hér sjást eru fengnar af vefsíðu Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti, en Egill bjargaði bátnum frá brennu eða annarri eyðileggingu, líkt og fleiri bátum og mörgum öðrum gripum frá fyrri tíð. Kristinn sonur Egils standsetti bátinn lítillega fyrir sýningu. Svalan er nú í geymslu í „Vatnagarðaskýlinu“ á Hnjóti. Á efstu myndinni sést að skutstefni Svölunnar er illa farið. Á næstu sést fram í stafn; hálsrúm og barki, en aftur í skut á þeirri neðstu.
Lýsing:
Svalan er súðbyrtur fjórróinn bátur; all lotaður til stafna. Mesta lengd er 6,05 metrar; mesta breidd 1,7 metrar og dýpt 58 cm. Hann er opinn alveg fram í barka og aftur í skut. Virðist einatt hafa verið róið og siglt, en aldrei með vél. Báturinn hefur verið sterkbyggður. Bönd eru sver og blaðskeytt, þannig að hvert band er í heilum sveig; síðubönd og bunkastokkur; holröng við borðstokk. Stafnlok er ekkert, en krappar við stafna. Þóftur eru þrjár, sitja á langýsum; snældur og fiskifjalir undir þeim. Kollharðar við borðstokk. Á bátnum er tolluræði; tollur eru fjórar, ein á hverju ræði. Þær eru úr járni og með járnþrælku. Borð (skíði) eru átta eins og oftast tíðkaðist. Samkvæmt frásögn Sigurðar Sigurðssonar Breiðvíkings voru nöfn þeirra þessi, talið frá kjalsíðu: Farborð – fráskotsborð – undirúfur – yfirúfur – hrefna – sjóborð – sólborð – rimaborð. Á rimaborðið innanvert er borðstokkurinn festur. Engir plittar eru í bátnum núna, en þeir kunna þó að hafa verið fyrrum. Farviðir eru engir í bátnum, að frátöldu árarbroti sem óvíst er að hafi fylgt honum. Stýri og stýrissveif hefur orðið viðskila við bátinn, e.t.v. eftir að afturstefni eyðilagðist. Engin sigla fylgir, en að öllum líkindum var bátnum siglt.
Báturinn er ekki verr farinn en svo að vel mætti gera hann upp til varðveislu og sýninga, þó vart verði hann sjóhæfur framar.
Einn elsti bátur landsins
Samkvæmt sjávarútvegsskýrslu Guðbjartar Guðbjartssonar árið 1943 er Svalan smíðuð árið 1905. Hann er því meðal elstu varðveittra báta landsins af þessari stærð.
Hver var smiðurinn
Ekki er ljóst hver smíðaði Svöluna eða fyrir hvern. Nokkru má þó velta fyrir sér í þeim efnum.
Á þessum árum var fallinn frá Sigurður Sigurðsson Breiðvíkingur, sem var helsti bátasmiður svæðisins um sína daga, en hann andaðist 1885 í hárri elli. Hafði þá lengst af búið á Neðri-Vaðli, en einnig á Fífustöðum og í Flatey.
Tvo bátasmiði má hér nefna sem vel gætu komið til greina.
Annar þeirra er Gísli Jóhannsson bátasmiður á Bíldudal. Hann var fæddur í Holti á Barðaströnd. Ólst upp í fátækt og fékk litla menntun, en nokkra tilsögn í bátasmíði hjá Snæbirni Kristjánssyni í Hergilsey. Sjómaður 1903-4 hjá Pétri J. Thorsteinssyni, en hóf bátasmíði 1905; fyrst opna árabáta en síðan allmörg þilskip á árunum 1915-1934. Byggði sér smíðahús 1915 og stækkaði það 1920. Árið 1939 hafði Gísli smíðað yfir 350 báta. Fljótastur var hann eitt sinn er hann við annan mann smíðaði fjögurra manna far á hálfum þriðja degi. Vann um árabil með Hirti bróður sínum. (Byggt á grein Ingivaldar Nikulássonar í Alþýðublaðið 27.01.1939). Hafi Gísli smíðað Svöluna hefur hún verið meðal fyrstu báta hans.
Hinn smiðurinn var hinsvegar gamalreyndur þegar hér kemur sögu: Sturla Einarsson (1830-1922), sem þá bjó á Brekkuvelli. Hann fékkst mikið við húsa- og bátasmíðar og var m.a. að endurgera Kollsvíkurhúsið er þar féll mannskætt snjóflóð 1857. Sturla var ættaður úr Kollsvík; sonur Einars Einarssonar; Jónssonar bónda í Kollsvík og ættföður Kollsvíkurættar. Ekki er ólíklegt að Sturla hafi verið beðinn um þessa smíði af frændum sínum í Kollsvík, og þá líklega smíðað bátinn á Brekkuvelli.
Bátaskrá Kollsvíkurvers (KJK)
Kristján Júlíus Kristjánsson (12.07.1896-09.10.1970) ólst upp á Grundum í Kollsvík og bjó þar til 1934 er hann flutti að Efri-Tungu og bjó þar síðan. Giftur Dagbjörtu Torfadóttur frá Kollsvík, en hún og Valdimar Össurarson voru systkinabörn. Júlíus var formaður í Kollsvíkurveri í 27 ár og þekkr þar vel til. Hann ritaði í Árbók Barðastrandasýslu ítarlegustu lýsingu á Kollsvíkurveri sem nú er til. Aftast í henni er skrá yfir báta sem þaðan reru og formenn þeirra. 5. liður í skránni er svohljóðandi: „Valdimar Össurarson, búlaus í Kollsvík: Svala“. Þetta er óyggjandi vottur um formann og eiganda þó nákvæma dagsetningu skorti.
Fyrri eigandi: Valdimar Össurarson (eldri) eða faðir hans
Fyrst er vitað um bátinn undir stjórn Valdimars Össurarsonar, kringum 1920. Valdimar fæddist í Kollsvík 01.05.1896, sonur Össurar A. Guðbjartssonar og Önnu G. Jónsdóttur sem bjuggu fyrst í Kollsvík en síðar á Láganúpi, og fluttu í Dýrafjörð 1927. Báturinn kann að hafa verið smíðaður fyrir Össur, þó síðar hafi Valdimar róið honum og jafnvel átt hann. Valdimar þótti snemma röskur til vinnu og mikill hugsjóna- og félagsmálamaður. Uppúr aldamótunum 1900 var aftur komin upp öflug útgerð í Kollsvíkinni sem styrkti mjög búskapinn og ýtti undir fólksfjölgun. Bátum fjölgaði í Kollsvíkurveri ár frá ári; urðu flestir 26. Mest voru það aðkomubátar en einnig fjöldi heimabáta, enda urðu býli aldrei fleiri í víkinni en á þessum tíma. Árið 1910 voru íbúar í Kollsvík 89, eða jafn margir og í öllum hinum nýstofnaða Patrekshreppi fáum árum fyrr. Eru þá ótaldir vermenn sem þar dvöldu frá sumarmálum til Maríumessu, svo að í Kollsvík hafa verið vel á annað hundrað manns um vertímann. Guðmundur Hjaltason (langafi Guðna forseta) kom í Kollsvík á vegum Ungmennafélags Íslands og segir svo frá í blaðinu Lögréttu: „Þar eru 8 búendur alls, en vermenn koma þangað á vorin. Vorið 1913 sá jeg um 18 róðrarbáta þar skammt frá landi“. Í þessu iðandi mannlífi var góður jarðvegur fyrir röskan félagsmálamann eins og Valdimar. Hann var ein helsta driffjöðrin í stofnun Ungmennafélagsins Vestra, sem náði um allar Útvíkur, ásamt stofnun Lestrarfélags og Tóbaksvarnarfélags. Ungur hóf hann að kenna sund í Kollsvík, en varð síðan brautryðjandi í sundkennslu um alla sýsluna.
Valdimar byrjaði snemma að róa úr Kollsvíkurveri, en þá var ekki óalgengt að strákar byrjuðu barnungir að fara á sjó og urðu hlutgengir eftir fermingu. Kollsvíkurheimilið var barnmargt og allir urðu að leggja sig fram. Líklegt er að svo drífandi ungmenni reyndi að útvega sér bát og stofna eigin útgerð um leið og unnt var. Þó ekki verði um það fullyrt má ætla að Valdimar hafi verið ungur þegar hann fékk sinn eigin bát. Sá bátur var Svalan, sem hér um ræðir. Árið 1913 er hann háseti hjá Árna Árnasyni (sjá hér í lokin). Árið 1918 rær hann á bátnum Báru, samkvæmt lista Fiskifélags Íslands. En árið 1920 er hann formaður á Svölu, samkvæmt skrá Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar.
Á bátnum reri Valdimar með lóðir fram á lóðamiðin frammi á sunnanverðri Kollsvíkinni, auk skakróðra, Eyrarferða og annarra nota. Heimamenn í Kollsvík höfðu aðstöðu í Heimamannabúð; ofarlega fyrir miðri lendingunni í Kollsvíkurveri. Dvaldi Kollsvíkurbóndi þar ásamt áhöfn sinni, enda þó stutt væri frá bæ. Menn máttu ekki binda sig við búskapinn þann tíma sem sjór var stundaður af kappi, þó auðvitað væri farið heim í landlegum. Ekki verður sagt hvort Valdimar dvaldi í Verinu eða heimavið. Fiskinn báru menn af bátunum upp í ruðninga þar sem hann gert var að honum og hann saltaður í krær hjá Búðarlæknum. Eftir fyrstu söltun var hann rifinn upp og þurrkaður á reitum. Steinbítur var hertur á steinbítsgörðum, en lúða og annað hengt upp í hjalla.
Valdimar sneri sér að barnakennslu árið 1921 og árið 1927 flytur faðir hans með sína fjölskyldu til Dýrafjarðar. Lengstan hluta starfsævi sinnar var Valdimar kennari og skólastjóri í Sandgerði. Kona hans var Jóna Bjarney Jónsdóttir, og eignuðust þau 3 börn. Þau urðu örlög Valdimars að hinn 29.06.1956 varð hann fyrir bíl í Reykjavík og beið bana.
Svalan er því líklega um 10 ára þegar Valdimar fær hana; sem gæti verið nálægt 1915. Eftir 1920 snýr hann sér alfarið að barnakennslu. Samkvæmt frásögn Kristjáns hér á eftir hefur hann þó átt bátinn a.m.k. til 1923 og róið úr Verinu á vertíðum. Eftir það eignast Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi Svöluna.
Síðari eigandi: Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi
Guðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879 – 01.10.1970) fæddist i Kollsvík; yngstur 19 alsystkina. Þar ólst hann upp, en föður sinn missti hann ungur. 1909 giftist Guðbjartur konu sinni, Hildi Magnúsdóttur, hálfsystur Valdimars, sem ólst að mestu upp á Kollsvíkurheimilinu. Þau hófu búskap í Tröð; voru um tíma á Hnjóti og hjáleigunni Grund í Kollsvík, en 1927 fengu þau jörðina Láganúp til ábúðar,og bjuggu þar síðan. Þó Guðbjartur stundaði allmikið sjósókn og væri talinn afbragðs formaður var hann fyrst og fremst bóndi; annálaður fyrir natni sína við skepnur og fjárglöggur með afbrigðum. Hann var afkastamikill grjóthleðslumaður og víða standa enn hleðslur hans.
Líklegt er að Guðbjartur hafi keypt Svöluna af Valdimar eða föður hans eftir 1921, en þá flyst hann aftur út í Kollsvík eftir að hafa í eitt ár aðstoðað ekkjuna Málfríði, föðursystur sína sem bjó á Hnjóti. Þau Hildur settust þá að um tíma á Grund (síðar nefnt Júllamelur), en frá 1927 bjuggu þau á Láganúpi.
Guðbjartur reri Svölunni frá Kollsvíkurveri en átti einnig, í félagi við Ólaf Halldórsson frænda sinn á Gundum, annan bát nokkuð stærri sem hét Rut og var smíðaður 1898. Segir svo í Niðjatali Hildar og Guðbjartar (útg.1989): „Ungur að aldri byrjaði Guðbjartur að sækja sjó og lengi hafði hann félagsútgerð með frænda sínum, Ólafi Halldórssyni á Grundum. Þeir áttu lengst af bátinn Rut, eða þar til um 1925 að Guðbjartur keypti hlut Ólafs í útgerðinni. Eftir það gerði hann út í félagi við syni sína fram undir 1940. Oft mun það hafa verið í búskap Guðbjartar og Hildar, að sjósóknin hafi vegið þyngra en landbúnaðurinn í öflun lífsbjargar“.
Guðbjartur þótti afbragðs sjómaður. Dæmi um það er frásögn í Niðjatalinu um sjóferð frá Eyrum út í Kollsvík í allmiklum vestansjó. Ólafur Guðmundsson frá Breiðuvík reri sumarið 1937 með Guðbjarti og sonum hans frá Kollsvíkurveri og hefur orð á því í æviminningum sínum að einungis í þeim róðrum hafi hann verið laus við sjóveiki.
Guðbjartur átti Svöluna áfram, ásamt Rutinni, og var hún jafnan nefnd „litla skektan“. Árið 1938 er gerð ítarleg skrá yfir eignir Láganúpsbúsins. Þar er nefndur vélbátur, Rut; metin á kr 500, en vél var sett í Rutina 1943. Einnig er nefndur "opinn bátur", sem líklega er Svalan; metin á kr 50. Hún er hinsvegar metin á 200 kr í skýrslu 1943.
Það ár virðist Einar Guðbjartsson hafa hugleitt að setja vél í Svöluna og gerði um það kostnaðaráætlun: Eik í stefni o.fl. 32,95 kr; vinna við vél 188,55; vinna við smíði 51,25; viðgerð 7; lykill (sveif) 2,55; áætluð vinna GG o.fl. 70; vél (upphafl. verð) 400; kostnaður við borðhækkun 40; upphaflegt verð báts 200. (Samkvæmt minnisblöðum Einars; ekki er fullvíst að eigi við Svöluna).
Svalan fýkur
Hilmar Össurarson hefur það eftir föður sínum, Össuri Guðbjartssyni á Láganúpi að Svalan hafi verið á Gjögrum í Örlygshöfn, en fokið þar í ofsaroki og afturstefnið þá skemmst mikið. Töldu menn bátinn varla viðgerðarhæfan og beið hans ekkert nema brennan. Egill á Hnjóti mun þá hafa falað bátinn og fengið; taldi þetta merkisgrip. Skrásetjari telur sig muna eftir skektunni á hvolftrjám í Kollsvíkurveri fyrir þennan tíma, líklega um 1963, en það kann að vera misminni.
Egill Ólafsson á Hnjóti forðaði Svölunni því efalítið frá glötun. Kristinn sonur hans standsetti hana lítilsháttar fyrir sýningu, en þörf væri á meiri viðgerðum eins og myndirnar sýna.
Ljóst má vera af framansögðu að báturinn er kominn vel yfir tíræðisaldur og líklega meðal elstu báta landsins af þessari stærð.
Hér á eftir verða raktar tvær frásagnir af tvísýnni lendingu báts í Kollsvík. Ekki er útilokað að þar sé um Svöluna að ræða, þó sögunum beri ekki alveg saman.
Brimlending við Þórðarklett
Frásögn Kristjáns Ólafssonar. Sá sem hér segir fyrr frá er Kristján Ólafsson (18.10.1899-02.01.1983), sem fæddur var í Ytri-Miðhlíð á Barðaströnd; bjó fyrst á Brekkuvelli en síðan á Patreksfirði. Hann reri fyrst í Kollsvíkurveri á 1914 sem hálfdrættingur á fermingarári sínu. Síðar keypti Kristján sinn eigin vélbát; nýsmíði frá Gísla Jóhannssyni sem hér var sagt frá, og reri honum ásamt bræðrum sínum úr Kollsvíkurveri sumrin 1923-25. Atburðurinn sem hann segir hér frá hefur gerst á eitthverri þeirri vertíð. Frásagnir Kristjáns birtust í Árbók Barðastrandasýslu árið 2016; búnar til prentunar af Ingimundi Andréssyni.
„Það var einn morgun á sjóróðrartíma að formönnum þótti ekki útlit sem best vegna brims, en þó varð það úr að allir réru, og lögðu lóðir sínar eins og vant var. Drógu og beittu út aftur, farið í land til að borða um fjöruna, og var þá minna í sjóinn en um morguninn, eins og venja er til um lágsjóað. Nú fara menn að tínast á sjóinn aftur, og er þá sjáanlegt að brim er að aukast að miklum mun, og farið að falla að. Þegar menn koma fram til lóða sinna, draga allir inn en beita ekki út aftur, eins og venja er þegar allt er með felldu. Menn vita að brimið er ekkert leikfang, og því best að hafa hraðann á og koma sér í land, áður en allt yrði ófært. Því fljótlega brimaði í Kollsvík þegar því er að skipta; sem eðlilegt er, þetta er fyrir opnu hafi.
Nú komu bátarnir einn af öðrum í land, og var nú komið talsvert brim. Og urðu allir að seila út á laginu og lenda á streng. Brimið jókst meir og meir eftir því sem féll að. Nú tóku menn eftir því að einn bát vantaði, og var þá farið að kíkja eftir hvort hann sæist. Jú hann var þá hinn rólegasti fram á miðum, og var að beita út. Þá var kominn strekkingsvindur af norðri, eða norðaustan, og alltaf jókst brimið í landi. Þessi formaður, sem hét Valdimar Össurarson, virtist ekki taka eftir því. Hann réri venjulega á lítilli skektu, sem hann átti sjálfur og voru þrír á. En í þetta skipti eða þennan morgun fékk Valdimar lánaðan bát hjá föður sínum og einn háseta frá honum, því hann réri ekki sjálfur þennan dag. Háseti þessi var Gunnlaugur Kristófersson mágur minn, hann var duglegur sjómaður og lét ekki allt fyrir brjósti brenna. Hann var vanur sjómaður frá Snæbirni í Hergilsey, og hefur að líkindum einhvern tíma séð sitt af hvoru hjá honum, eftir því sem sagan segir af siglingum hans á Breiðafirði.
En það er af Valdimar að segja, að hann beitti út alla línuna og hagaði sér eins og venjulega, en virtist ekki taka eftir brimi í landi. Hann hefur að líkindum talið sig vera kominn á hafskip, miðað við litlu skektuna sína, því þessi bátur sem hann var á nú, var stórt fjögurra manna far. Nú var komið undir flæði, og þá voru þeir sem í landi voru búnir að aðgæta hvort nokkurn staðar væri lendandi í Kollsvík. Búið að fara suður á Rif og norður með öllu, en hvergi virtist lendandi fyrir nokkurn bát.
Nú var kominn uggur í mannskapinn, og töldu allir að koma þyrfti til kraftaverk, ef nokkur þessara manna sem á bátnum voru kæmu lifandi í land. Nú var búið að athuga allstaðar um lendingarstað og virtist allt ófært, en þó þótti kunnugum mönnum líklegast að reyna lendingu upp á sandinn fyrir norðan Verið. Þar var aldrei lent, en þar sýndust nú ólög helst liggja niðri. Nú var báturinn að koma, og stefndi upp undir vanalegan lendingarstað, en þar var allur mannskapurinn úr verinu samankominn. Og var það ráð tekið að allir skyldu ganga í hóp norður eftir, þangað sem líklegast var að lenda. Og sáu þá bátverjar hvað menn í landi vildu, og fóru eftir því.
Nú var valið gott lag og þeim bent að taka brimróðurinn upp á líf og dauða. Þetta lánaðist betur en nokkrum hafði dottið í hug. Þarna var nógur mannskapur í landi og tóku hraustlega á móti bátnum. Enda varð ekkert að nema lítils háttar skemmdir á bátnum; engan mannanna sakaði neitt og mátti það teljast kraftaverk.“
Frásögn Torfa Össurarsonar. Hér fer á eftir önnur frásögn sem nær örugglega er af sama atburði, þó nokkrum atriðum beri ekki saman. Sá sem hér segir frá er Torfi Össurarson (28.02.1904-11.09.1993), bróðir Valdimars. Hann ólst upp í Kollsvík en flutti með foreldrum sínum í Dýrafjörð og bjó síðar að Felli í Mýrahreppi ásamt konu sinni, Helgu S. Jónsdóttur. Torfi var skáldmæltur ágætlega og skrifaði allmikinn fróðleik um lífið í Kollsvík á uppvaxtarárum sínum. Hann reri með Valdimar bróður sínum úr Kollsvíkurveri og var með honum í þessari svaðilför. Ætti hann því gjörla að vita um atburði, en hinsvegar kann minni að hafa brugðist öðrum hvorum, þar sem langt var liðið frá atburðum til ritunar. Torfi segir svo frá þessari brimlendingu í viðtali við Hallfreð Örn Eiríksson, en upptakan er varðveitt á Ísmús og m.a. birt á vefnum kollsvik.is:
„Ég skal segja þér þegar við lentum í briminu mikla. Það var fyrsti róðrardagur báta í Kollsvík fram á lóðamiðin. Það fóru nokkrir bátar minnir mig, en aðeins tveir skildu eftir lóðirnar; annar þeirra var Valdimar bróðir minn. Þeir fara fram um fjöruna til að sækja lóðirnar. Annar báturinn tekur upp sínar lóðir og fer strax í land. En Valdimar bróðir minn var ekkert að flýta sér að því, heldur fór að beita aftur út eins og vant var. Nema það, að lóðirnar festust í grunni og tafðist að ná þeim upp.
Var komið hátt undir flæði er við komum uppundir land. Þá sáum við að öll ströndin rauk af brimi. Og þegar við komum upp undir Klakkana sáum við að stór hópur manna stóð á Klettshorninu sem kallað var, en þar sást vel til bátsferða. Við sjáum að þeir hlaupa allir norður með sjó og skildum að þeir vildu vísa okkur frá lendingunni. Það gerum við og fylgjum þeir eftir. Við sjáum þá stoppa norðan við svokallaðan Þórðarklett sem er þarna norðan lendingarinnar. Og þar vísuðu þeir okkur á lendingu. Þórðarsker er þar að norðanverðu; há hlein sem stendur þar uppúr sjó um háfjöru, en nú var hálffallið. Þarna biðum við stund eftir lagi en svo rerum við upp. Það tókst alveg ágætlega og það kom ekki dropi í bátinn. En eitthvað hafði nú hællinn komið við hlein, því dragið straukst undan honum.
Ég man eftir því hvað ég var undrandi þegar við vorum komnir á land og sá hvað brimið var mikið. Ég bjóst aldrei við að það væri svo ljótt. Það hefði líklega verið erfitt að ná lendingu annarsstaðar. En það var gamall frændi okkar, Gísli Guðbjartsson sem vísaði til lendingar á þessum stað; þarna myndi vera líkleg lending. Þetta var vestanbrim, en aðalkraftinn braut úr briminu á svokölluðum Bjarnarklakk. Þegar komið var norður fyrir klettinn var allur krafturin úr því og því fengum við svo að segja slétt upp þó yfir hlein væri að fara, en djúpt var á hana. En seinna veit ég til þess að bátar hafa lent mikið norðar í víkinni; norður undir svokallaðri Gvendarhlein, þegar ófært var orðið í venjulegri lendingu“.
Ekki er vitað til að lent hafi verið þarna við Þórðarklettinn, utan þessa eina skiptis, og eru því allar líkur á að báðar sögurnar lýsi sama viðburði. Nokkrum atriðum ber þó ekki saman:
Kristján nefnir strekkingsvind af norðri eða norðaustri en Torfi talar um vestanbrim. Kristján telur að allir hafi farið eftir hádegið eftir hádegið og tekið upp lóðir, en enginn beitt út aftur nema Valdimar; Torfi segir að einungis tveir bátar hafi farið fram eftir hádegið, en Valdimar lagt aftur.
Þá er það báturinn sem Valdimar var á: Kristján segir að Valdimar hafi átt „litla skektu sem voru þrír á“, en þennan dag hafi hann róið á báti í eigu föður síns. Össur faðir hans átti tvo báta. Hét sá stærri Guðrún og var fjögra manna far, en minni skektan hét Bára og var notuð í stuttar sjóferðir. Samkvæmt frásögn Kristjáns má ætla að um Guðrúnu gæti verið að ræða. Torfi nefnir ekki bátinn. Ekki nefnir hann aðra háseta, en oft voru þrír eða fjórir á. Hugsanlegt er að með þeim Valdimar og Torfa hafi verið Gunnlaugur Kristófersson, sem Kristján getur um.
Það sem m.a. vekur nokkra athygli í sögu Torfa er að báturinn rekur hælinn svo harkalega niður í landtökunni að dragið fer undan. Ekki er óhugsandi að festing stefnisins hafi einnig eitthvað bilað við höggið, þó e.t.v. hafi báturinn verið sjófær lengi enn. Má vera að það hafi átt þátt í skaða þeim sem síðar varð við fokið. Er það kannski vísbending um að sagan eigi við Svöluna? Meti það hver fyrir sig.
Torfi segir að "eitthvað hafi hællinn komið við stein, þar sem dragið straukst undan honum". Hugsanlega er það tilefni þess að í viðskiptayfirliti Guðbjartar Guðbjartssonar árið 1932 hjá verslun Ó. Jóhannessonar Vatneyri má sjá "6,6 kg drag", úttekið 4.maí.
Eins og áður sagði fékkst Valdimar Össurarson nokkuð við ljóðagerð og má t.d. sjá ættjarðarljóð hans á vefsíðunni kollsvik.is. Árið 1955 kom út lítið hefti eftir hann með þremur barnasögum um hvali. Myndir í heftinu teiknaði Halldór Pétursson. Í upphafi fyrstu sögunnar, sem nefnist „Stökkullinn“, nefnir hann Báruna; bát föður síns. Sagan byrjar svona:
„Pabbi minn átti lítinn sumarbát sem hét bára. Það var norsk skekta, blámáluð utan nema botninn; hann var tjargaður. Þá voru engar vélar í bátum. Við rerum henni stundum tveir, bræðurnir. Sjóveður var gott á sumrin, enda sóttum við ekki sjó nema í góðu veðri.
Við fórum einu sinni sem oftar í róður. Veðrið var gott, sólskin og logn, og engin alda eða bára hreyfði sjávarflötinn. Við rerum á litlar árar, en höfðum alltaf segl, sem notað var ef nokkur vindkaldi var.
Það var norðurfall. Við renndum færum og fengum fisk, en kipptum hvað eftir annað; dýpra og dýpra. Straumurinn bar okkur alla leið norður í Flóa. Þar var leirbotn og fengum við þar ýsu og lóur. Við kölluðum smálúðuna lóu.
Við vorum búnir að fiska vel, enda var þetta orðinn langur róður, og mátti kallast langróið fyrir ekki meira lið. Við vorum langt frá landi og enn lengra frá lendingu. Við urðum að bíða eftir suðurfalli til þess að létta okkur róðurinn í land, því að ennþá var logn. En oft fékk maður leiði seinni hluta dagsins; alla leið norðan úr Flóa og heim í lendingu. Við litum oft til lands, ekki síst bróðir minn sem var bara barn að aldri, og þótti róðurinn orðinn fulllangur og leiðin til lands heldur löng.
Allt í einu sáum við báðir í senn eitthvað ferlíki skutlast upp úr sjónum langt frá okkur, grunns til við bátinn, og skella svo niður í sjóinn með miklum gusulátum og voða skvampi. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum……"
Ævintýri á sjó virðast nokkuð hafa sótt að Valdimar. Árið 1913, er hann var 17 ára og enn ekki búinn að eignast Svölu sína, var hann á báti með Árna Árnasyni. Árni bjó um tíma á Grundum en síðan á Hvallátrum og fórst undan Hvallátrum 1921. Þeir voru fjórir á, líklega á bát Árna sem hét Ester, og var þetta fyrsti róður; 10. apríl árið 1913. Torfi Össurarson segir svo frá að á þá hafi sett suðaustan moldbyl og hvassviðri. Vonlaust var að ná landi í Kollsvík, og tekið það ráð að hleypa undan, í þeirri von að komast norður í Kóp. Þeir sjá þá enskan togara og sigldu að honum. Togarinn tók menn og bát um borð og sigldi með þá inn á Gjögra, en þaðan gengu þeir heimyfir Tunguheiði. Árni birti síðar þakkarávarp í blaðinu Ísafold til skipstjóra togarans, sem var Chieftain frá Hull. Sami togari hafði áður komið við sögu á svæðinu, er hann var að ólöglegum veiðum í Breiðafirði. Guðmundur Björnsson sýslumaður Barðstrendinga og Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri í Hergilsey fóru um borð og hugðust færa togarann til hafnar, en þeim var þá rænt og siglt með þá til Englands.
En hér er sagan komin fyrir borðstokk Svölunnar og því rétt að setja amen á eftir efninu
Febrúar 2020
Valdimar Össurarson (yngri) frá Láganúpi