torfi ossurarsonTorfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.   Torfi var skáld gott og liggja eftir hann ljóð af ýmsu tagi.  Hér minnist hann æskustöðvanna í ljóðum.

 

Torfi Össurarson:

Kollsvík.

Um æskubyggðina blærinn leikur
burstir, glugga og þil.
stæðilegar stéttarhellur
stráin, kletta og gil,
huldar vættir í hól og fjöllum
er hafa á öllu skil.

Æskuminningin út á hafið
æði mikið taldist þá,
þá var oft í ströngu staðið
stórum afla til að ná.
Í krónum þorskastaflar stóðu
en steinbíturinn hékk á rá.

Oft ég sá á sílarmar,
segl við hún sem áfram bar,
árabát með aflaföng,
eftir veiðibrögðin ströng.
Margan dag í meðvindi,
meður góða veiði,
rekka háði rólindi,
ef rann á jómfrú leiði.

Traustur fagur fjallahringur
faðmar land og sæ,
sumarfögur sveitin brosir
sögurík á hverjum bæ.
Þar sem góðir grannar unnu
gagnleg störf við land og sæ.

Blakkurinn brúnafagur
bendir í vesturátt.
Trumban á traustum fótum
talar við hafið blátt.
Núpurinn bak við bæinn
besta gefur skjól,
hann er svo herðabreiður
og horfir móti sól.

Berjadalur með brekkur
berjalyng og tjörn
þangað leituðum löngum,
léttfætt og glaðvær börn.
Hæðin með sína hjalla,
heldur er mjaðmabreið,
gróðursnauð, en Grænubrekku
get ég hér um leið.

Um Skörðin liggur leiðin
langt inn á Rauðasand
en Tunguheiðina tel ég
tæplega gróið land.
Stórfellið stæðilega
styður við Litlafell,
þau yfir foldum fagna,
sem fara þó stundum í svell.

Frá Litlafellinu liggja
lágreist klettabörð
en út við hafið Hnífar
sem halda þar tryggan vörð.
Ströndin við hafið stynur
við stormsins hörpuslátt
er holskefla hafsins drynur
með húfnum andardrátt.

En allt þegar lék í lyndi
og ládautt við strönd og mar
kom vorið með gnótt af gæðum
þann gula á miðin bar.

Þegar blessuð sumarsólin
signir mína æskusveit
finn ég vel hún faðminn breiðir
með fjöll og dali, gróðurreit.
geislum prýdd í græna kjólinn
gæfurík með fyrirheit.

Minningar frá æskuárum
eins og vinir kalla á mig
birtast mér í brosi og tárum
og biðja mig að nefna sig,
þar sem feðra moldir minna
á margt sem nú vill heilla mig.

Ennþá vill mín löngun leita
lags við mína æskusveit,
finna ennþá faðminn heita
fast við gróðurreit.
. . . .

Nú er hljótt í Víkuveri,
varla nokkurt spor í sandi,
báran enn mun brotna á skeri
en bátar engir koma að landi.

 

Bernskuminning.

Bjart var oft á bernskustöðvum
brosti land og sær.
þar sem bernskuvinir vaxa
vonin besta grær.

Fjarri þeim ég finn nú löngum
fylla huga minn,
minningar svo ljúfar, léttar
líkt og vorboðinn.

En minningarnar ljúfar líða,
löngum fram í huga mér,
þá hugsa ég um hópinn fríða
sem hjartanlega skemmti sér.

Þá var sjaldan ský á skjánum,
skúrir aðeins gróðrardögg,
þá var lengst af heiður himinn
þó hafið tæki á sig rögg.

Bernsku minnar gil og grundir,
Grænubrekka, Litlafell,
leit ég margar ljúfar stundir
læki, hóla, tjörn og svell.

Þá var hlaupið hart og stokkið
hringsnúist á skautunum,
líka þegar lítt var rokkið,
leikið á skíðabrautunum.

Bjart er því um bernskuvini,
bærist ástar gróin þökk,
til þeirra ég tíðum hugsa
tregalundin verður klökk.

Kveðju mína kæra sendi
Kryppukarli og Hempulág,
gott var oft í Gvendarbrunni
á Grænumýri og niður við sjá.

Bernskudagar löngu liðnir
líða eins og bros um kinn,
er ég hlýjum huga renni
heim í gamla bæinn minn.

 

Vetrargestur í Blakknum

Hörkufrost um fjöll og dal
færir líf í dróma,
hnípinn fugl í hamrasal
herpir magann tóma.

-  -  -  -

Glettin örlög ollu því
að eftir varð í fjalli,
gimbrarlamb sem gekk þar í
grónum hrygg með stalli.

Um hrygginn næðir norðanátt
nöpur kuldagjóla,
fyrir ofan fjallið hátt
fullt með klakadrjóla.

Hengiflug og hafið svalt
hafði gibba að fótum,
bólið hennar bert og kalt,
Blakks frá hjartarótum.

Fóður hennar fábreytt var,
fölnað gras og mosi,
sultur hana sárt oft skar
svell og kuldarosi.

Marga nótt í norðanbyl
nísti kuldinn hana,
klakabólgið klettaþil,
kallar „ þér skal bana“.

Kindarsálin særð og þreytt
segir „ég vil lifa“,
þrek og harka eru eitt
enginn má því bifa.

Allt var þarna undan sól
og í fjallsins skugga,
á hryggnum löngum lítið skjól
líka súld og mugga.

Tíminn líður, loksins þó
ljómar sól um hrygginn,
þar sem gibba grönn og mjó
gengur þó íbyggin.

Eftir kalda vetrarvist
varð nú gibba fegin,
en hvað hún var orðin þyrst,
öll svo veður slegin.

Svo kom vor og sólarsál
sendi geisla hlýja,
gróðurilm og græna nál
gerði hana nýja.

Þá komu líka lömb og ær
léttstígar í fjallið,
sumardagur sólin hlær
senn er búið spjallið.

Vel í kvíum gerði gagn,
Gibba langa ævi,
Kvíargötu og töðutopp
taldi sér við hæfi.

Torfi Össurarson frá Láganúpi