Sífellt fjölgar þeim ferðamönnum sem heimsækja Kollsvík. Margir koma til að njóta hinnar einstöku náttúrufegurðar, en einnig til að sjá hvernig fyrri kynslóðir bjuggu, enda óvíða jafn gott aðgengi að verstöðvum og gömlum húsum. Alltaf er líka eitthvað um að ættingjar komi til að leita að sínm rótum, enda er Kollsvíkurætt orðin fjölmenn og dreifð um nær allar heimsálfur. Kollsvíkingar hafa enn ekki tekið upp þann "sið" að reyna að græða á þessum gestakomum, heldur hafa reynt að taka sem best á móti sínum gestum. Mikilla úrbóta var orðin þörf og því var leitað eftir stuðningi Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um stuðning við þær. Verkefni Kollsvíkinga fékk næsthæsta styrk sem veittur var til Vestjarða og heimamenn brettu upp ermar. Sumarið 2022 var unnið að ýmsum verkefnum til að bæta aðstöðu og upplifun ferðamanna í Kollsvík. Þrátt fyrir umfang verkefnisins lauk því að fullu haustið 2022. Eftirfarandi verkþættir voru þar helstir:
1. Bygging vandaðs salernishúss við bílastæðið á Láganúpi. Þetta er 9 fermetra bjálkabyggt hús með tveimur vatnssalernum. Þar verða einnig sorptunnur.
2. Merkt gönguleið í Grundafjöru endurnýjuð. Lagt er upp frá bílastæðinu við Láganúp; gengið um Grundir, Grundabakka, Brunnsbrekku og að upphafsstað.
3. Merkt gönguleið upp að hesthúsinu á Hólum endurnýjuð. Frá bílastæði við Láganúp.
4. Merkt gönguleið upp Mýrar, á gömlu þjóðleiðirnar um Tunguheiði og Víknafjall. Ætlunin er að merkja einnig gönguleiðina niður að Efri-Tungu í samráði við bónda.
5. Göngubrýr settar á læki; annarsvegar á Miðlæk við tóftir að býlinu Grund, en hinsvegar yfir Búðalæk í Kollsvíkurveri.
6. Tveir nýir skiltastandar við Tröð. Annarsvegar var endurnýjað stórt skilti með korti og meginupplýsingum en hinsvegar 4 hallandi fræðsluskilti um Kollsvík og Tröð.
7. Fjórir skiltastandar í Kollsvíkurveri. Einn við bílastæði; annar stór með korti og fróðleik hjá Heimamannabúð og tveir hallandi á Syðriklettum með gömlum myndum.
8. Stór skiltastandur á Svarðarholti, við upphaf gönguleiðar um Tunguheiði og Víknafjall. Kort og fróðleikur.
9. Hallandi skiltastandur við kotbýlið Grund. Sagt m.a. frá teiknaranum og kennaranum Samúel Eggertssyni; Umf Vöku, sundkennslu o.fl.
10. Tveir hallandi skiltastandar við bílastæðin á Láganúpi endurnýjaðir. Útsýnisteikning norður Kollsvík, gönguleiðarlýsing og fróðleikur.
11. Tveir stórir skiltastandar á Grundabökkum. Sagt frá Láganúpsveri, skreiðarverkun, Görðunum, landgræðslu, sjóvarnargörðum og stærsta fossi heims; Blakkfossi.
12. Hallandi skiltastandur utan við Gilið á Láganúpi, við gönguleið að Hesthúsinu á Hólum. Sagt frá Láganúpi og gömlum torfhúsum sem sjá má.
13. Girt viðkvæmt uppblásturssvæði á Litlufit, til að vernda það fyrir ágangi ferðafólks
14. Sett upp viðvörunarskilti í Kollsvíkurveri og Láganúpsfjöru, þar sem varað er við að ganga nærri ölduflani og synda í sjónum.
15. Lýsing sett í gamla Hesthúsið á Hólum, elsta útihús landsins. Lýsingin er með "koluskeljum"; all sérstæð og er henni lýst hér í annarri frétt.
Að þessum aðgerðum loknum má fullyrða að hvergi á Vestfjörðum er betur tekið á móti ferðamönnum varðandi upplýsingagjöf en í Kollsvík. Eins og áður segir er þar engin seld ferðaþjónusta, heldur vilja heimamenn með þessu búa vel að sínum gestum. Á móti er þess vænst að ferðafólk gangi vel um jarðirnar og þær einstöku minjar og náttúrufyrirbæri sem þarna er að finna.