sportittlingurNú í júní 2023 sást sportittlingur í Kollsvík í fyrsta sinn, að því að best er vitað.  Þrír fuglar; líklega allt karlfuglar, sáust á Svarðarholtinu, nálægt Ánni.  Sportittlingur; Calcarius lapponicus, telst til fargesta hér en varpstöðvar hans eru m.a. á Grænlandi.  Varp hefur reyndar verið staðfest á Látrabjargi sumurin 2007 og 2009 og vel má vera að hann verpi einnig í Kollsvík.  Hefur sést víða um land.  Fuglinn líkist snjótittlingi í stærð og háttum.  Karlfuglinn er skrautlegur á vorin, með dökkt höfuð, ljósa bringu, rauðleitan hnakka og gult nef.  Kvenfuglinn er brúnni, en með hvítt kögur á fjöðrum.  

-VÖ-

 

Í janúar 2023 var lokið við síðari hluta sjóvarnargarðs í Grundafjöru í Kollsvík.  Þar með er tryggt að ekki verður meiri eyðilegging hinna fornu og merku minja Láganúpsverssjovarnargardur en þegar hafði orðið af völdum sjávarágangs.  Landeigendur í Kollsvík hafa háð langa baráttu fyrir fjárveitingum í þessa framkvæmd.  Fjárveiting fékkst til að hefja framkvæmdir árið 2020, en hún dugði ekki nema til hálfs.  Aftur hófst baráttan, sem nú hefur skilað fullbúinni sjóvörn.  

Alls er sjóvarnargarðurinn um 150 metra langur.  Hann liggur meðfram sjávarbökkunum, þar sem í jörðu eru rústir hins forna Láganúpsvers.  Garðurinn er byggður úr stórgrýti sem flutt var um þvera Kollsvík, norðan úr Hæðinni ofan við Tröð.  Í honum er kjarni úr fínna efni.  Garðurinn er sverastur í vesturendann, þar sem álag sjógangs er mest, en mjórri austar.  Vegagerðin sá um hönnun og verkstjórn, en verktaki var Lás ehf á Bíldudal.  Efni þurfti að aka í frosti, þar sem fara þurfti um viðkvæmt land.  Er ekki annað að sjá en vel hafi tekist til, bæði varðandi lágmörkun umhverfisáhrifa og gagnsemi framkvæmdarinnar.

Láganúpsver á sér merkilega og langa sögu.  Þar var líklega hafin stórfelld skreiðarverkun til útflutnings um eða uppúr 1300.  Árið 1446 var Láganúpsjörðin í eigu Guðmundar ríka í Saurbæ, sem var hallur undir verslun við Englendinga, þó illa væri séð af Danakóngi.  Síðar komst Saurbæjarveldið og þessi verslun í hendur Eggerts Hannessonar og afkomenda hans.  Hann hafði sterk viðskiptasambönd í Þýskalandi og var útgerð og skreiðarverkun í Láganúpsveri mikilvæg stoð undir hans viðskiptaveldi.  Kringum útgerðina risu upp kot og þurrabúðir, s.s. Grundir og Hólar.  Útgerð í Láganúpsveri dróst mjög saman á 18.öld, en í lok 19. aldar upphófst hún af miklum krafti aftur.  Þá byggðist verstöðin upp í Kollsvíkurveri, nokkru norðar, og verkaður var saltfiskur.  

Engar verbúðir standa lengur uppi í Láganúpsveri; tóftir sem þar sjást tilheyra búskap á Láganúpi, Grundum og Grundabökkum.  Enn má þó sjá firnamikinn garð uppi á Bökkunum vestanverðum, en ætla má að á elsta hluta hans hafi skreið verið þurrkuð.  Örnefni minna einnig á liðna tíð, s.s. Búðalág og Lögmannslág.  

Eftir 1980 upphófst mikið rof af völdum sjávarágangs í hinum fornu bökkum, sem staðið höfðu óhaggaðir um aldir.  Þessar hamfarir gengu ekki einungis yfir Kollsvík, heldur hafa orðið stórfelldar og óafturkræfar skemmdir á flestum hinna fornu verstöðva allt í kringum landið.  Svo virðist að stjórnvöld hafi verið algerlega grandalaus og látið sér að mestu í léttu rúmi liggja þó þar með hyrfi ómetanlegur menningararfur þjóðarinnar.  Engu fé var bætt til sjóvarna; engin áætlun hefur verið gerð um varnir og ekkert hefur verið gert til að rannsaka orsakir og afleiðingar þessara hamfara.  

Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson hefur líklega sett fram einu heildstæðu kenninguna um orsakir þessa sjávarrofs, en hún er byggð á rannsóknum vísindamanna víða um heim.  Nánar er orsakasamhenginu lýst hér annarsstaðar á síðunni og í Náttúrufræðingnum 2018, en það er í stórum dráttum þannig að vegna fjöldadauða krossfisks verður offjölgun í stofni ígulkersins skollakopps.  Hann lifir á þara og gengur svo nærri þaraskógum á grunnsævi að þeir nánast hverfa.  Þarinn gegnir þar með ekki lengur því hlutverki að draga úr afli brimbárunnar, sem þá gengur óbrotin upp á ströndina; langtum ofar en áður, og brýtur niður bakka og fornar verstöðvar í þeim.  Önnur afleiðing þessa er mikill landburður af sandi af grunnsævi, sem veldur sandfoki og jarðvegseyðingu, líkt og nú gengur yfir Kollsvíkina.

Gerð sjóvarnargarðsins í Grundafjöru var í samráði við Minjastofnun, líkt og aðrar framkvæmdir Kollsvíkinga í minjavernd.  Er þeim og öðrum sem að framkvæmdinni komu hér með þakkað fyrir samstarfið.

Sumarið 2022 var unnið að viðamiklu og margþættu verkefni í Kollsvík, til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðafólk, eins og lýst er í síðustu frétt.  koluskel led3
Meðal áætlaðra þátta þessa verkefnis var að koma upp lýsingu inni í Hesthúsinu á Hólum, sem orðið er vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Þetta 370 ára gamla hús hefur ávallt verið gluggalaust, eftir því sem best er vitað, og var það látið óbreytt í nýlegum viðgerðum. Þar er því nær niðamyrkur innan við þröng dyragöngin, sem spillir upplifun þeirra fjölmörgu gesta sem þarna koma. Hinsvegar virtust úrbætur ekki augljósar, bæði vegna aldurs og verndar hússins og vegna fjarlægðar þess frá rafkerfum.
Verkefnistjóra, sem sá um lagfæringar hesthússins fyrir nokkrum árum, rak þá minni til þess að í gömlum veggfyllingum hússins höfði komið í ljós nokkrar krákuskeljar, en þær virtust fullar af einhverju feitmeti sem líklega var tólg, lýsi eða grútur. Við eftirgrennslan kom í ljós að sá siður hafði þekkst fyrrum að nota skeljar sem kolur í útihúsum, eins og heimildir hér á eftir greina.
Líklegt er að skeljarnar í veggfyllingunni hafi verið koluskeljar; líklega þá skeljar sem ekki höfðu enn verið notaðar, heldur stungið í veggjarholu til geymslu en týnst inn í vegginn. Til lýsingar hafa skeljarnar líklega verið settar á til þess teglda spýtu, sem stungið hefur verið í veggjarholu. Fífukveikur hefur e.t.v. verið látinn í skelmunnann, og nærði lýsið logann.
Þótti því einboðið að reyna að hanna lýsingu hússins út frá þessari gömlu aðferð. Til rafmagnsöflunar var sett upp lítil sólsella skammt frá húsinu; sambyggð upplýHesthúslýsing3singaskilti sem þar er fyrir. Rafgeymir er þar í kassa, til orkujöfnunar. Grönn taug liggur neðanjarðar frá henni, inn undir vegghellu í vesturhorni hússins. Útbúin voru sköft eða „koluhaldarar“ úr tré til að halda skeljunum; lík sleifum í laginu. Tekið er grunnt sæti fremst, fyrir skelina, en afturhlutinn er skaft sem rekið er í veggjarholu. Skelin er gegnumboruð í botninn, og þar um liggur raflögnin í litla led-peru í vör skeljarinnar. Skelin er síðan fyllt af kertavaxi til að fela tengingar, og fest niður á skaftið með kítti. Nokkrar „koluskeljar“ voru útbúnar; flestar úr öðuskel og ein úr kúfskel. Rafleiðslan liggur falin aftanvið vegglægju; tengd földum hreyfiskynjara. Skynjarinn kveikir lýsinguna um leið og manneskja opnar dyrnar; heldur kveiktu meðan hún er í húsinu og nokkru eftir það. Gefur þetta all góða lýsingu, en þó ekki um of.  Sett verður upp lítið borð með gestabók.

Sífellt fjölgar þeim ferðamönnum sem heimsækja Kollsvík.  Margir koma til að njóta hinnar einstöku náttúrufegurðar, en einnig til að sjá hvernig fyrri kynslóðir bjuggu, enda óvíða jafn gott aðgengi að verstöðvum og gömlum húsum.  Alltaf er líka eitthvað um að ættingjar komi til að leita að sínm rótum, enda er Kollsvíkurætt orðin fjölmenn og dreifð um nær allar heimsálfur.  Kollsvíkingar hafa enn ekki tekið upp þann "sið" að reyna að græða á þessum gestakomum, heldur hafa reynt að taka sem best á móti sínum gestum.  Mikilla úrbóta var orðin þörf og því var leitað eftir stuðningi Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um stuðning við þær.  Verkefni Kollsvíkinga fékk næsthæsta styrk sem veittur var til Vestjarða og heimamenn brettu upp ermar.  Sumarið 2022 var unnið að ýmsum verkefnum til að bæta aðstöðu og upplifun ferðamanna í Kollsvík.  Þrátt fyrir umfang verkefnisins lauk því að fullu haustið 2022.  Eftirfarandi verkþættir voru þar helstir:

1.  Bygging vandaðs salernishúss við bílastæðið á Láganúpi.  Þetta er 9 fermetra bjálkabyggt hús með tveimur vatnssalernum.  Þar verða einnig sorptunnur.salernishus

2.  Merkt gönguleið í Grundafjöru endurnýjuð.  Lagt er upp frá bílastæðinu við Láganúp; gengið um Grundir, Grundabakka, Brunnsbrekku og að upphafsstað.

3.  Merkt gönguleið upp að hesthúsinu á Hólum endurnýjuð.  Frá bílastæði við Láganúp.

4.  Merkt gönguleið upp Mýrar, á gömlu þjóðleiðirnar um Tunguheiði og Víknafjall.  Ætlunin er að merkja einnig gönguleiðina niður að Efri-Tungu í samráði við bónda.  

5.  Göngubrýr settar á læki; annarsvegar á Miðlæk við tóftir að býlinu Grund, en hinsvegar yfir Búðalæk í Kollsvíkurveri.

6.  Tveir nýir skiltastandar við Tröð.  Annarsvegar var endurnýjað stórt skilti með korti og meginupplýsingum en hinsvegar 4 hallandi fræðsluskilti um Kollsvík og Tröð.

7.  Fjórir skiltastandar í Kollsvíkurveri.  Einn við bílastæði; annar stór með korti og fróðleik hjá Heimamannabúð og tveir hallandi á Syðriklettum með gömlum myndum.

8.  Stór skiltastandur á Svarðarholti, við upphaf gönguleiðar um Tunguheiði og Víknafjall.  Kort og fróðleikur.skiltasmidi12

9.  Hallandi skiltastandur við kotbýlið Grund.  Sagt m.a. frá teiknaranum og kennaranum Samúel Eggertssyni; Umf Vöku, sundkennslu o.fl.

10.  Tveir hallandi skiltastandar við bílastæðin á Láganúpi endurnýjaðir.  Útsýnisteikning norður Kollsvík, gönguleiðarlýsing og fróðleikur.

11.  Tveir stórir skiltastandar á Grundabökkum.  Sagt frá Láganúpsveri, skreiðarverkun, Görðunum, landgræðslu, sjóvarnargörðum og stærsta fossi heims; Blakkfossi.

12.  Hallandi skiltastandur utan við Gilið á Láganúpi, við gönguleið að Hesthúsinu á Hólum.  Sagt frá Láganúpi og gömlum torfhúsum sem sjá má.

13.  Girt viðkvæmt uppblásturssvæði á Litlufit, til að vernda það fyrir ágangi ferðafólks

14.  Sett upp viðvörunarskilti í Kollsvíkurveri og Láganúpsfjöru, þar sem varað er við að ganga nærri ölduflani og synda í sjónum.  

15.  Lýsing sett í gamla Hesthúsið á Hólum, elsta útihús landsins.  Lýsingin er með "koluskeljum"; all sérstæð og er henni lýst hér í annarri frétt.

Að þessum aðgerðum loknum má fullyrða að hvergi á Vestfjörðum er betur tekið á móti ferðamönnum varðandi upplýsingagjöf en í Kollsvík.  Eins og áður segir er þar engin seld ferðaþjónusta, heldur vilja heimamenn með þessu búa vel að sínum gestum.  Á móti er þess vænst að ferðafólk gangi vel um jarðirnar og þær einstöku minjar og náttúrufyrirbæri sem þarna er að finna.  

Regína Hrönn Ragnarsdóttir hefur skrifað ferðablogg fyrir vefinn Guide to Iceland, þar sem erlendu ferðafólki er veitt vönduð leiðsögn um skoðunarverða staði víðsvegar um landið.  Hún var á ferð í Kollsvík og skrifaði ágætan pistil um staðinn með góðum myndum.  Takk fyrir það Regína Hrönn og vefstjórar.  Þar sem enn er ekki búið að skrifa erlenda síðu á kollsvíkurvefinn er rétt að benda enskumælandi fólki á þennan ágæta vef.  Slóðin er:

https://guidetoiceland.is/connect-with-locals/regina/a-visit-to-kollsvik-cove-in-the-westfjords-the-smallest-settlement-in-iceland-1

Above is a link to an interesting description i english, from a visitor to Kollsvik; Regina Hrönn Ragnarsdóttir.

Leita