Stutt yfirlit um staðhætti, náttúrufar og byggð.  Byggir að mestu á samantekt Hilmars Össurarsonar frá Kollsvík.

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti)
Náttúra  (staðsetning, veðurfar, jarðamörk).
Jarðfræði  (berggrunnur og jarðlög).
Dýralíf  (spendýr, fuglar og sjávardýr).
Saga  (landnám, ábúendur, landbúnaður og sjósókn).
Nútíminn  (byggð, samgöngur, félagslegir þættir)

hilmarHöfundurinn:  Hilmar Össurarson er fæddur 02.06.1960 á Láganúpi og ólst þar upp.  Hann nam búfræði á Hvanneyri og iðnnám í Iðnskólanum á Patreksfirði.  Var bóndi í Kollsvík til 2002; síðastur í óslitinni röð Kollsvíkurbænda frá landnámi.  Vann um tíma hjá Kerfóðrun í Straumsvík, en hefur í allmörg ár verið dýravörður í Húsdýragarðinum í Laugardal og síðar hjá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins á Keldnaholti.  Kona Hilmars er Hólmfríður Steinunn Sveinsdóttir; ættuð frá Lambavatni.  Þau eiga 5 börn.  Þessa lýsingu samdi Hilmar til birtingar á vefsíðunni kollsvik.is. 

Valdimar Össurarson gerði lítilsháttar viðbætur.

 

Náttúra

Hnattstaða Kollsvíkur er 65 gráður 36. mín norðlægrar breiddar og 24 gráður 18. mín vestlægrar lengdar.  
Hnattstaða hennar og lega gangvart hafstaumum og ríkjandi vindáttum valda votviðrasömu og vindasömu veðurfari.
Meðalhiti að vetri er fremur hár vegna hafstauma þar sem Golfstraumurinn ber með sér varma sunnan úr Karíbahafi.
Veðurfar.  Algengasta vindátt á Íslandi er A.N.A. átt og er sú átt eindregin landátt í Kollsvík. Af því leiðir að loft er tiltölulega þurrt og úrkomulítið úr þeirri átt.
Sökum þess að Kollsvíkin liggur yst í tiltölulega mjóum skaga og er þ.a.l. nánast umflotin sjó hefur hann yfirgnæfandi áhrif. Til að mynda er mjög þokuhætt þar á hitadögum á vorin og sumrin, þegar hið tiltölulega kalda loft yfir hafinu ryður hlýju lofti sem kemur af fjalllendinu í austri burt.
Af þessu leiðir að vetur eru mun mildari í Kollsvík og öðrum útvíkum en víðast annars staðar í nágreninu.

Kollsvík er framan í syðsta og vestasta skaga Vestfjarða sem skilur að Patreksfjörð og Breiðafjörð og liggur mót Grænlandshafi.
Stysta vegalend til Grænlands í norðvestur frá Kollsvík er 350 km. Þar er næsti nágranni Blosserville strönd sem einkennist af geysiháum fjöllum og löngum fjörðum ísilögðum stóran hluta ársins. Landamerki þess svæðis sem er til umfjöllunar á þessari heimasíðu er land jarðanna Kollsvíkur og Láganúps. Kollsvík á land að jörðunum Hænuvík, Tungu, Geitagili og Láganúpi en Láginúpur á land að jörðunum Breiðavík, Geitagili og Kollsvík.

Landamerki Kollsvíkur eru að norðan úr Sölmundargjá á Hænuvíkurhlíðum og þaðan stystu leið á vatnaskil. Síðan sem vötnum hallar um Hænuvíkurháls, Hænuvíkurskarð og Kóngshæð allt til fremstu draga Vatnadals þar sem mætast hestagata inn svo kallað Víknafjall og vatnaskil. Síðan um áðurenfnda hestagötu sem hún liggur um Vatnadal norðaustanverðan og um Kollsvíkurskarð og Hvolf þar sem gatan mætir efstu ármótum árinnar í Kollsvík og síðan eftir þeirri á all til sjávar.

Landamerki Láganúps eru eftir áðurnefndri á og hestagötu til vatnaskila fremst í Vatnadal. Þaðan eins og vötnum hallar niður Breið og Breiðavíkurháls allt á brún Breiðsins þar sem heitir Steinanef þar síðan í Landamerkjahrygg í Breiðnum og Landamerkjahlein í fjörunni undir Breiðnum.

Jarðfræði

Berggrunnur Kollsvíkur og fjöll þau sem umlykja hana eru basaltfjöll.

Blakkur, Breiður og Hnífar eru vafalaust með elstu fjöllum Íslands sem ofansjávar eru. Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þeirra en ætla má útfrá aldursgreiningu annara fjalla á Vestfjörðum að hann sé 16 – 18 milj. ár. Allar þær eldstöðvar sem brunnu þarna er land reis fyrst úr sjó hafa fyrir löngu tálgast og sorfist á jökulskeiðunum sem mynduðu þá firði, víkur og dali sem einkenna fjalllendi á Vestfjörðum og skriðjöklar runnu af hálendinu og jafnvel á haf út.

Næstu leifar eldstöðvar sem menn telja sig hafa fundið er fjallið Kópur sem er ysta fjall sunnan Arnarfjarðar.

Hlýlegt hefur verið um að litast milli goshrina á þessu svæði þegar það reis úr sjó. Samkvæmt rannsóknum á steingerðum gróðurleifum sem fundist hafa í Þórishlíðarfjalli við Selárdal var þar svipað gróðurfar og í suð-austanverðum Bandaríkjunum og á Miðjarðarhafströnd Frakklands nú á dögum.

Mjög víða í Breiðnum, Blakknum, Núpnum og Hnífunum er að finna steingerðar leifar trjábola eða holur eftir þá í millilögum hraunlaganna.

Berggangar.  Í landareign Láganúps og Kollsvíkur má á nokkrum stöðum sjá bergganga sem eru hugsanlega leifar gossprungna. Áberandi eru berggangar í Strengsbergsgjá sunnanvert í Blakknum og annar svipaður í Sólmundargjá á Hænuvíkurhlíðum. Ekki er ólíklegt að um sama gang sé að ræða sem gangur þá þvert í gengum Blakkinn.

Áhrif eldgosa.  Þó milljónir ára hafi liðið síðan síðast gaus í nágreni við Kollsvík hefur hún e.t.v. ekki verið með öllu án áhrifa af eldgosum síðustu árþúsundin. Öskufall hefur þó sennilega mjög sjaldan náð til Kollsvíkur frá stóru eldstöðvunum á gosbeltinu um miðbik landsins nema í undantekningartilvikum.  Hinsvegar hefur fljótandi vikur frá fjarlægum eldgosum iðulega rekið á fjörur í Kollsvík.  Það gerðist t.d. í Surtseyjargosinu; einkum í byrjun þess árið 1963.  Þá voru hrannir vikurs um allar fjörur í Kollsvík og nágrenni.

Það eldgos sem sennilega hefur haft nokkur áhrif í Kollsvík er stórgos er varð í Snæfellsjökli fyrir 1800 árum. Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur telur að gosefni frá þessu gosti hafi borist norðaustur yfir Breiðafjörð. Sá sem þetta skrifar telur sig reyndar sjá merki þess í fjallendinu á sunnanverðum Vestfjörðum í því að við innanverðan Breiðafjörð er jarðvegsþykkt víða töluverð til fjalla sem býr hverskonar gróðri ákjósanlegri vaxtarskilyrði. Þeir sem aka þjóðveginn vestur Barðastrandarsýslu sjá þess glögg merki að fjöll verða sífellt naktari og gróðurminni er vestar dregur. Það er a.m.k. tilgáta mín að gosmökkur Snæfellsjökuls fyrir 18. öldum hafi þarna enn úrslitaáhrif, en gaman væri að frétta af rannsóknum sem skera úr um þetta. Skýringa er a.m.k. ekki að leita í miklum mun á hitafari eða veðráttu, nema að litlu leyti. Rannsóknir jarðfræðinga á þessu svæði eru mér ekki kunnar að neinu marki. Árið 2002 fór rannsóknarhópur á vegum Háskóla Íslands hér um, en skildi einungis eftir sig skjannalegar merkingar á berglögum í Blakknum og Núpnum og hefur engum rannsóknarniðurstöðum skilað til heimamanna.  

Dýralíf

Landdýrafána Kollsvíkur verður að teljast nokkuð fjölbreytileg ef taldar eru með allar þær skordýrategundir sem byggja þetta svæði eins og önnur nærliggjandi. Ekki er velt svo við steini hvort sem er á þurrlendi eða votlendi að þar mori ekki allt í pöddum af ýmsum tegundum. Því miður brestur mig þekkingu til að lýsa þeim tengundum af nákvæmni utan þeirra sem maður lærði í æsku að þekkja s.s. fáeinar tegundir köngulóa ásamt ánamaðki svo og fjölda votlendisdýra í Mýrunum s.s. Brunnklukku o.fl.

Af villtum spendýrum eru í Kollsvík einungis heimskautarefur, hagamús, húsamús og svo minkur af og til.

Refur á sér 6 þekkt grenstæði á svæðinu, flest í Vatnadal í landi Laganúps. Líklega hefur refur alltaf verið tiltölulega algengur í Kollsvík miðað við aðra staði á landinu, þó stofnstærð hans þar hafi eflaust alltaf verið sveiflukend eins og annars staðar. Eina fæða refins að vetrarlagi er það sem hann finnur í fjörunni, fuglshræ, fiskræksni og skelfiskur. Víða í Kollsvík má sjá ummerki frá fyrri tíð um vetrarveiði á ref þar sem eru skothús eða tófuhús við þekktar leiðir tófunnar í fjöruna en þangað rennur hún ofan af fjalli um leið og fellur út. Að sumarlagi má segja að tófan sé í stöðugri veislu frá því að fugl fer að setjast upp og verpa í Blakknum, Hnífunum og Breiðnum snemma vors. Síðan bætist á matseðilin er farfuglar skila sér og fara að verpa. Þegar líður á vetur fjölgar tófum yfirleitt í Kollsvík og nálægum víkum. Það er vegna þess að þangað sækja refir innan úr fjörðum og þar annarsstaðar frá sem æti er minna eða ekkert harðasta veturinn, í hinar gjöfulu fjörur útvíknanna.

Refaveiðar hafa verið lengi stundaðar í Kollsvík eða allt frá upphafi skotvopna þar og jafnvel lengur (gildruveiði). Sérstaklega var stofnstærð refsins í skefjum á seinni helmingi 20. aldar þegar skiplögð grenjavinnsla var stunduð á vegum Rauðasandshrepps af þaulvönum veiðimönnum. Við sameiningu sveitfélaga nokkru fyrir aldamót dofanði þó mjög yfir áherslum á refaveiði en sum árin hafa þó hæfileika menn sinnt grenjavinnslu í Kollsvík.

Augljóst er að leggist refaveiðar af á þessi svæði mun það hafa afrifaríkar afleiðingar á stofnstærð marga fuglatengunda á svæðinu. Sú þróun hefur nú þegar hafist með mikilli fækkun á mófuglum s.s. stelk, hrossagauk, sandlóu o.fl. tengundum ásamt því að múkkavarp hefur hrunið í Blakknum, Breiðnum og Hnífunum þó fleiri þættir kunni að hafa haft áhrif þar á.

Minkurinn er nýlegur landnemi í Kollsvík. Er hann þar sami sakaðvaldurinn í lífríkinu eins og annars staðar á landi og hefur t.a.m. gereytt þeim stofni af silungsbröndum sem voru í Ánni og fleiri lækjum sem um víkina renna. Sjaldgæft er á seinni árum að finna ummerki um minkagren í Kollsvík. Hann heldur sig mest með sjónum enda er þar langmest um æti við hans hæfi. Mest er um mink seinni part vetrar og fram á vor. Á fengitímanum fara karldýrin venjulega á flakk og hafa þá mikla yfirferð. E.t.v. nýtur Kollsvíkin þess að hafa brimasamar fjörur báðum megin við sig þó slíkt haldi honum lítt frá ef æti er annars vegar. Ekkert er gert af hálfu samfélagsins til að hafa hemil á stofnstærð minks á þessu svæði sem þó væri að mörgu leyti tiltölulega auðvelt að útrýma að mestu.

Hagamýs hafa sennilega aldrei verið mjög algengar í Kollsvík enda skortir algerlega kjörlendi þeirra sem er skógur og kvistlendi. Þó virðist stofnstærð þeirra sveiflst mjög eftir áferði eins og algengt er um vilta nagdýrastofna.

Húsamús verður að teljast nokkuð algeng í Kollsvík og verður hennar sífellt vart þar þó heilsársbúseta hafi lagst þar af fyrir meir en áratug.

Fuglalíf verður að teljast fjölskrúðugt í Kollsvík. Þær sjófuglatengundir sem verpa þar eru fýll, svartbakur, hvítmáfur, hettumáfur, kría, lundi og kjói þó ekki teljist hann til bjargfugla.

Af spörfuglategundum verpa þar hrafn, snjótittlingur, músarindill, maríuerla, þúfutittlingur, steindepill og skógarþröstur.

Nokkrar andategundir og skyldir fuglar verpa þar s.s. stokkönd, æðarfugl, álft og himbrimi.

Af öðrum fuglategundum sem hafa þar stopula eða árstíðabundna viðdvöl má nafna hávellu, straumönd, grágæs, helsingja, fálka, örn, smyril og súlu.

Vaðfuglategundir sem verpa í Kollsvík eru: Spói, heiðlóa, stelkur, hrossagaukur, óðinshani, sandlóa, lóuþræll og sendlingur.

Sjávardýr.  Lífríki sjávarins fram undan Kollsvíkinni verður að teljast með því fjölbreytilegasta sem finnst við strendur Íslands. Órækastur vitnisburður þess eru hin gjöfulu fiskimið sem þar eru. Göngur hefðbundinna nytjafiska á grunnslóð eru þó mjög árstíðabundnar, sérstaklega að því er varðar steinbít og grásleppu og einning á það við um þorsk. Grundvöllurinn fyrir hinum ákjósanlegu skilyrðum til vaxtar fyrir sjávardýrastofan eru ekki síst að á víkunum norðan Látrabjargs mætast hlýir hafstraumar úr suðri og kaldar straumar norðan úr hafi. Órækasti vitnisburðurinn er þó hin þykku skeljasandslög sem þekja stóran hluta Kollsvíkurinnar þar sem hvert einasta skeljabrot hefur á einhverjum tíma verið skelfisks af einhverri tegund.

Nýting á þorsk og steinbít hefur í mörghundruð ár verið styrkasta stoðin undir búsetu í Kollsvík og líklega hefur sú nýting hafist fljótlega eftir landnám. Því til staðfestingar eru ýmsar fornminjar sem lúta að fiskverkun, sem og fjöldi örnenfa sem hafa skírskotun í sjósókn og fiskimið.  Kollsvík var fyrr á öldum ein stærsta og mikilvægasta verstöð sunnanverðra Vestfjarða; einkum á tímum skreiðarverkunar, frá því á 14. öld og fram eftir 17. öld.  Var þá einkum gert út úr Lágnúpsveri; sunnantil í víkinni, en Láganúpur var þá eign Saurbæjarveldisins.  Í lok 19. aldar hófst aftur mikil útgerð í Kollsvík, en að þessu sinni í Kollsvíkurveri, norðantil í víkinni, og var þorskur þá einkum verkaður í saltfisk.  Urðu bátar þá flestir 26 og má sjá miklar búðatóftir frá þeim tíma.  Með vélvæðingu báta urðu þeir þyngri og fluttist þá útgerð á Patreksfjörð.

 

Saga

Landnám.  Saga búsetu manna í Kollsvík er fyrst getið í heimildum í Hauksbók Landnámabókar þar sem segir frá landnámsmanninum Kolli sem var í för með Örlygi gamla sem nam Patreksfjörð og bjó í Örlygshöfn. Kollur braut skip sitt í Kollsvík og stofnaði þar minnsta landnám landsins.  Landnáma er að sumu leyti umdeild sem sagnfræðiheimild og er enda fáorð um marga landnámsmenn, þ.á.m. Koll. Um uppruna hans og bakrunn er lítt vitað, og hafa sumir t.d. efast um að hann hafi verið kristinn, þar sem Landnáma segir hann hafa heitið á Þór í sjávarháska.  Óumdeilt er þó að þeir fóstbræður komu hingað sem fyrstu trúboðar landsins, og ætti því ekki að þurfa að efast um trú Kolls.  Hér annarsstaðar á Kollsvíkurvefnum eru leiddar líkur að því að Kollur hafi reist fyrstu kirkju landsins í Kollsvík, en þar var lengi hálfkirkja í Kaþólskum sið.  Að sögn Landnámu kom Örlygur landnámsmaður beint frá Suðureyjum við Skotland úr fóstri frá Patreki biskup. Að öllum líkindum komu þeir frá klaustrinu á Iona, og "Patrekur biskup" er líklega "Federach mac Cormaigh", sem þar var ábóti milli 865 og 880.  Samkvæmt því hefur Kollur numið Kollsvík fyrir 880; á fyrstu árum landnámsaldar.  Með Kolli og Örlygi komu allir landnámsmenn í Rauðasandshreppi nema Ármóður rauði á Rauðasandi.  Gaman væri að vita hvort það brot af keltnesku kossmarki (eða sólarkrossi) sem fannst í jörð á Láganúpi um 1970 er úr fórum Kolls landnámsmanns. Þessi steinn sem nú er í vörslu Þjóðminjasafnsins hefur lítt verið rannsakaður og mætti e.t.v. komast nær sannleikanum um uppruna hans.  Umfjöllun er um steininn hér á vefnum undir "menning og minjar".  Þar er einnig fjallað um "Taflmanninn í Kollsvík"; merkan grip úr rostungstönn, sem fannst á bæjarhólnum í Kollsvík.

Ábúendur og Kollsvíkurætt.  Elsti forfaðir þess fólks sem kennir sig við s.k. Kollsvíkurætt og fjölmennust hefur verið í Kollsvík s.l. 100 ár og búið hefur í vikinni, var Halldór Jónsson sem talið er að búið hafi á Láganúpi frá því um 1690 – 1730. Var hann einn hinna svonefndu Sellátrabræðra sem nafntogaðir voru á sinni tíð og mikið lengur fyrir atorku og útsjónarsemi, þeir voru kenndir við bæinn Sellátra í Fálknafirði. Bjarni bróðir Halldórs bjó um sama leiti í Kollsvík. Hann var skipasmiður mikill og formaður, fór margar viðarferðir á strandir á teinæringi sem hann smíðaði sjálfur 19 ára gamall. Halldór á Láganúpi var langafi Guðrúnar Jónsdóttur konu Einars Jónssonar en við þessi hjón er Kollsvíkurætt kennd.

Fyrstu skráðar heimildir um ábúendur í Kollsvík eru um bónda á Láganúpi um 1570 sem Ari Ólafsson hefur heitið og geldur landeigandanum Eggert Hannessyni í Saurbæ afgjald af jörðinni.

Á sjálfri Kollsvíkurjörðinni eru um 1570 tveir bændur þeir Jón Skeggjason og Oddur Jónsson sem sömuleiðis gjalda Eggert Hannessyni landsskuld.

Í Kollsvíkinni hefur verið óslitin búseta sömu ættar frá um 1690 þar til 2002 er heilsársbúsetu lauk þar eða í 312 ár.

Búseta og afkoma manna í Kollsvík hefur frá öndverðu byggst á annars vegar landbúnaði og hins vegar sjósókn eins og víða annars staðar á landinu. Þó hafa Kollsvíkin og nálægar útvíkur alltaf haft sérstöðu að því leyti að sjósókn hefur lengst af haft þar mun meiri þýðingu fyrir afkomu manna en landbúnaður. Einnig hafa nytjar af bjargfugli  (egg og ungfugl) verið töluverður þáttur í afkomu fólksins. Það má segja að einungis 60 síðustu ár fastrar búsetu hafi íbúarnir haft yfirgnæfandi hluta tenka sinni af landbúnaði.

Lítum nú ögn nánar á hversu heppileg þessi vík er til afkomu. Ekki gengur að setja mælikvarða nútíma markaðslögmála á alla búsetusögu í Kollsvík.

Sjósókn úr Kollsvík hefur alltaf verið erfið sökum hafnleysis og hve berskjölduð víkin er fyrir brimöldunni hvort sem er úr vestri eða norðri. Hefur enda verið töluvert um sjóslys á sögulegum tíma. Aðal kostur jarðarinnar varðandi sjósókn er hins vegar hve stutt er í einhver gjöfustu fiskimið sem finnast við Ísland og þótt víðar væri leitað. Því gat afkoma manna vísast orðið þar allgóð ef gæfta - og eða fiskleysi hamlaði ekki. En sjósóknin krafðist áræðni dugnaðar og útsjónarsemi samfara gætni og ábyrgð. Þegar getið er fyrst um útræði í fornum heimildum er það aðallega staðsett sunnan til í vikinni nærri bænum Grundum. Staðsteningin þar hefur vafalaust stjórnast aðallega af eignarhaldi auðvaldsins í Saurbæ á Láganúpsjörðinni vegna þess að lending þeim megin í víkinni er mun hættulegri og erfiðari en í Kollsvíkurveri norðan til í víkinni en blómatími þess er á seinni helmingi 19 aldar og nokkuð fram á þá 20. Annars er útræði í Kollsvík gerð mun betri skil annarsstaðar á þessari heimasíðu.

Landbúnaður

Önnur megin stoðin undir tilveru fólks í Kollsvík var landbúnaður. Þar er þó líklegt að hann hafi skipt minna máli í afkomunni en sjóksóknin. Kostir landbúnaðarins voru að möuleikar hans voru e.t.v. fyrirsjáanlegari en í sjósókninni þar sem langvarandi gæftaleysi eða fiskigöngur brugðust. Landbúnaðurinn var þó allsráðandi í afkomu íbúanna síðustu 6 – 8 áratugina sem föst búseta var í víkinni. Alla tíð hafa nautgripatækt og sauðfjárrækt verið nánst einu greinar landbúnaðar í víkinni. Sagnir eða örnefni benda ekki til að akuryrkja eða geitfjárhald hafi verið stundað í Kollsvík svo nokkru nenni. Á nítjándu öldinni náði hins vegar sú vakning sem varð í ræktun matjurta s.s. kartaflan einnig í Kollsvíkina og eru m.a. leifar stórra kálgarða að finna í víkinni.

Frá náttúrunnar hendi er víkin sæmilega til landbúnaðar fallin. Kostir hennar til nautgriparæktar eru mikið og gott ræktunarland a.m.k. á verstfirskan mælikvarða. Þegar búskap lauk þar 2002 voru nytjaðir 32 – 34 ha af ræktuðu landi. Með skipulegri framræslu hefði mátt fjórfalda þá tölu.

Stærsti galli jarðarinnar til nautgriparæktar, og, raunar sá sem ásamt öðru hafði úrstlitaáhrif á að heilsársbúsetu lauk í víkinni, er hversu afskekkt hún er og samgöngur torveldar. Þessi staðsetning hafði síðan einning þau áhrif að ábúendur voru tregir til mikilla fjárfestinga enda mjólkframleiðsla kostnaðarsamur atvinnurekstur þó tekjur af henni geti verið allgóðar á jörðum sem til þess henta.

Varðandi sauðfjárframleiðslu hefur víkin verulega galla þó kostir séu einning nokkrir. Stærstu gallarnir felast í annars vegar tilölulega takmörkuðu beitilandi sem hentar vel fyrir sauðfé og hins vegar hve stór hluti þessa beitilands er áfallasamur og hættulegur fyrir fé. Besta fjárbeitin er í Blakknum og Breiðnum og á báðum stöðum voru alla tíð mikil vanhöld stundum svo skipti tugum prósenta af fé sem þar gekk. Heimabeitiland jarðanna er einkum á Mýrunum þar sem enn eru stórhættilegir dýjapyttir þrátt fyrir stórtækar tilraunir til framræslu þeirra upp úr miðri síðustu öld af þáverandi bændum. Það var einning reynsla bændanna að ef fénu fjölgaði verulega í þessu áfallasama sumarbeitilandi, þá keyrðu vanhöldin úr öllu hófi.

Seljabúskapur hefur enginn verið stundaður svo sögur fari af eða örnefni bendi til í Kollsvík. Það er athyglisvert í ljósi þess að í nágrannavíkunum, Breiðavík og Látrum, er skýr ummerki um seljabúskap. Aftur á móti eru víða stekkjarústir sem benda til umfangsmikilla fráfæra og þar með vinnslu á sauðamjólk.

Jarðvegur er mjög víða einkar hentugur til hverskonar ræktunar á láglendinu í víkinni sjálfri að frátöldum skeljasandsflákum sem eru með sjónum á nokkuð stóru svæði. Þó sandfok sé til nokkurs baga á takmörkuðum hluta túnanna er ekki á vafi á að skeljasandurinn hefur virkað jarðvegsbætandi með sitt kalkríka og basíska innihald á súrarn mýrajarðveginn framar (ofar) í víkinni.

Um hið víðáttumikla fjallendi sem liggur ofan víkinnar og stóran hluta Vatnadals (í landi Láganúps) er það að segja að þar er um að ræða gagnlítið land til landbúnaðar að frátöldum snjódældum sem vaxnar eru afar kjarnmiklum beitargróðri en mjög takmarkaðar að flatarmáli.

Enginn vafi er á að gróðurfar í Kollsvík hefur tekið umtalsverðum breytingum á þeim öldum sem mannvist hefur verið í víkinni. Á láglendi víkurinnar hefur fyrr á tímum verið birkikjarr a.m.k. á blettum. Óræk rönnun þess eru birkilurkar allt að 15 cm í þvermál sem komu af 1 – 2 m dýpi þegar Mýrarnar voru ræstar fram. Ekki er sanngjarnt í Kollsvík fremur en annars staðar á Íslandi að kenna forfeðrunum um skógaeyðinguna eingöngu. Þar hafa sveiflur í hitafari eflaust haft mikil áhrif. Engin örnefni í Kollsvík benda heldur til skóglendis þar í milklum mæli.

Athylgisvert er að gefa gaum að þeirri gróðurframvindu sem orðið hefur í víkinni á þeim rúma áratug sem liðinn er frá því hefðbundnum landbúnaði lauk þar. Skylt er að geta þess að upprekstur er leyfður þar frá Hænuvík en beitarálag miklu minna en var enda túngirðingar löngu hættar að vera fjárheldar. Þessi reynsla sýnir ótrúlega litla breytingu í gróðurfari.  Skeljarsandsvæði með fjörunni og í Sandahlíð í landi Kollsvíkur eru að segja má nákvæmlega eins. Reyndar virðist svo að áfok af skeljarsandi sé meira síðustu ár en áður var en þar er sjálfsagt um að kenna veðurfarsþáttum. Eina svæðið sem tekið hefur verulegum gróðurfarsbreytingum er í s.k. Víðilækjum framarlega í Vatnadal. Þar var beitarálag lítið mörg síðustu árin sem Kollsvík var í byggð en síðustu 12 ár nær ekkert. Gróðursamfélög í Víðilækjum eru nú mun gróskumeiri en áður var og eru blómplöntur og fjalldrapi í mikilli framför á því svæði.

 

Nútíminn

Ef nútíminn er skilgreindur sem s.l. 50 ár – þó um slíkt megi endalaust deila – má segja að mestu breytingar íbúanna hafi verið efnhagslegar og félagslegar. Á síðustu öld allri þokaði sjálfsþurftarsamfélag sjómennsku og landbúnaðar smám saman fyrir því samneysluþjóðfélagi sem hérlendis ríkir nú. Um aldamótin 1900 var íbúafjöldi Kollsvíkur hátt í hundrað manns og fór upp í töluvert á annað hundrað á vorvertíð. Vermenn sem flestir voru aðkomumenn tengdust margir heimfólki fjölskylduböndum. Þannig var Kollsvíkin á þeim tíma að mörgu leyti félagslega mjög sjálfbært samfélag og þar var aldursdreifing íbúanna ákjósanleg og fjöldi barna að alast upp en börn sem kunnugt er undirstaða sjálfbærra samfélaga. Frá 1920 – 1970 verða hinsvegar mannfjöldabreytingar sem sýna ótvíræða vísbendingu til þess er seinna varð.

Eftirfarandi yfirlit er yfir þau heimili sem fólk bjó á síðust ábúenda á 20. öldinni og hvenær þau fóru í eyði. Tekið skal fram að sum þessara heimila voru þurrabúðir þar sem heimilisfólkið byggði afkomu sína að langmestu leyti á sjávarafla.

Grænamýri   Gísli Guðbjartsson og Guðmundína Ólína Þorgrímsdóttir.  Fer í eyði 1920 – 1930

Kollsvík         Hilmar Össurarson og Hólmfríður Steinunn Sveinsdóttir.  Fer í eyði 2002

Tröð                Ásbjörn Helgi Árnason og Sigrún Össurardóttir.  Fer í eyði 1952

Stekkjarmelur Ingvar Guðbjartsson og Jóna Snæbjörnsdóttir.  Fer í eyði 1962

Grund             Kristján Júlíus Kristjánsson og Dagbjört Torfadóttir.  Fer í eyði 1939

Grundabakkar Þórarinn Bjarnason og Guðmundína Einarsdóttir.  Fer í eyði 1930

Grundir         Grímur Árnason og María Jónsdóttir.  Fer í eyði 1945

Láganúpur     Össur Guðbjartsson og Sigríður Guðbjartsdóttir.  Fer í eyði 2002.  Össur er langsíðasti bóndi í Kollsvíkinni sem á þar löghemili til dauðadags 1999

Samfélag

Kirkjan.  Um aldir var utanaðkomandi félagsleg þjónusta ákaflega takmörkuð enda hefur samfélagið í víkinni lagt sig fram um að vera sjálfbjarga um flest allt. Félagsleg þjónusta utanaðkomandi á fyrri öldum var nær eingöngu á vegum kirkjunnar og presta og taldist þjónusta þeirra nauðsynleg að því er varðaði skírnir, giftingar og greftranir og síðan fermingar á síðari tímum. Fyrir siðaskipti eru líkur á að þessum málum hafi verið þokkalegar fyrirkomið í Kollsvík. Þar var hálfkirkja með kirkjugarði. Prestar frá Saurbæ á Rauðasanda hafa eflaust veitt þjónustuna. Við siðaskitpti verður mikil afturför á þessum sviðum í öllum útvíkum. Þá eru afteknar allar hálfkirkjur og bænhús sem voru eitt í hverri vík áður. Með hinum nýja sið var íbúunum t.d. gert skylt að færa öll lík til greftrunar að Saurbæ óbærilega langan og erfiðan fjallaveg inn Víknafjall og oft á tíðum ófæran að vetrarlagi. Þetta breyttist ekki fyrr en 1824 er sóknarkirkja víknanna  var sett í Breiðavík sem enn er við lýði. Velta má fyrir sér hvort langur og örðugur vegur frá sóknarkirkju hafi haft áhrif á þá staðreynd að ótrúlega fáir afkomendur fyrrum íbúa Kollsvíkur hafa lagt fyrir sig guðfræði og prestskap. Ég veit þó fyrir víst að trúrækni og siðfræði biblíunnar var mjög í hávegum höfð af mörgum íbúum víkurinnar a.m.k. framan af 20. öldinni.

Verslun hefur allt frá upphafi verið mest sótt til Patreksfjarðar. Það hét reyndar í munni eldra fólks að fara á Eyrar og var þá átt við hina fornu verslunarstaði Vatneyri og Geirseyri þar sem nú er þorpið á Patreksfirði. Fyrr á tímum hefur eflaust verið lífleg vöruskiptaverslun við erlenda skútusjómenn sem verið hafa alltíðir gestir í Kollsvík. Á seinni hluta 20. starfaði svo með nokkrum blóma sláturfélagið Örlygur sem rak verslun og sláturhús á Gjögrum í Örlygshöfn. Var sú starfsemi til mikils hagræðis fyrir íbúa Kollsvíkur enda sumir þeirra atorkusamir í stafsemi sláturfélagsins

Akvegasamband komst á í Kollsvík 1956. Lengi vel var ekið milli bæja í Kollsvík um sandmelana neðan við mýranar. Enn má sjá ummerki (hjólför) þessarar leiðar á nokkrum stöðum í víkinni. Áberandi samgöngumannvirki í víkinni er sneiðingur upp frá Tröðinni upp á brún Húsadalsins. Þessi sneiðingur sem allur var gerður með handverkfærum ber vott um hvílíkt snilldarhandbragð var á hleðslum bændanna í Kollsvík um miðja síðustu öld. Það stóðst á endum er þeir luku við sneiðinginn að jarðýta birtist í Traðarhæðinni nokkru framar þar sem akvegurinn hefur síðan legið. Því hefur áðurnefndur sneiðingur aldrei þjónað sem akvegur en var þó notaður sem girðingastæði nokkrum áratugum síðar.

Vegurinn út yfir Hænuvíkurháls milli Kollsvíkur og Hænuvíkur er einning á margan hátt merkilegur. Hann liggur undantekningarlaust á holtum og bristum sem ávellt eru snjólaus nema í mestu snjóavetrum. Það er því að þakka að hann er hannaður og lagður af mönnum sem ölust upp við að fara þennan fjallveg fótgangandi sumar sem vetur. Þeir voru allir einstakir hagleiksmenn á vinnuvélar og reyndar flest annað handverk.

Þeir voru Magnús Ólafsson frá Vesturbotni sem fæddur var á Láganúpi, Marinó Kristjánsson sem líka var fæddur í Kollsvík og Bjarni Sigurbjörnsson bóndi í Hænuvík sem eyddi seinna ófáum vinnustundum á ýtu sinni við að endurbæta ýmsa staði á leiðinni þar sem snjósöfnunnar varð vart. Uppskeran varð sú að vegurinn yfir Hálsinn er sjaldan ófær -en verði hann það hafa venjulega allar leiðir á láglendi í sýslunni einning lokast meira og minna. Auðvitað ber vegurinn merki þess að hafa verið viðhaldslítill áratugum saman. Það er þó lán hans að hvergi er hann undir álagi af vatnsaga og er það ein snilldin í hönnun hans að hvergi þarf á hann ræsi utan eitt í Húsadal skammt ofan við Kollsvík.

Sími kom í Kollsvíkina 1930 og var símstöð á Stekkjarmel í miðri víkinni í áratugi. Var hún alla tíð í góðri umsjá Karls Kristjánsson, bónda þar. Löngu síðar kom svo sveitasími á hina bæina 2 sem þá voru í byggð í Kollsvík og Láganúp. Að síðustu kom svo sjálfvirkur sími að Láganúpi og Kollsvík 1984. Lengi framan af var sjálfvirki síminn bilanagjarn aðallega vegna eldinga á Hænvíkurhálsi. Þar er mjög hætt við eldingarveðrum að vetrinum í útsynningi í grodda tíðarfari. Geta má þess að á 9. áratug sl. aldar sprakk nýbyggt radíohús við mastur sem er á Hálsinum í eldingaveðri. Eftir að menn gáfust endanlega upp á jarðsíma á Hálsinum og örbylgjusamband komst á við Patreksfjörð um mastrið á Hálsinum hefur símasamband verið í þokkalegu standi.  GSM símar virkar víða vel í Kollsvík þó eru nokkur svæði norðantil í víkinni í “skugga” frá mastrinu á hálsinum.

Rafmagn.  Fyrstu tilraunir til rafvæðingar í Kollsvík hófust á stríðsárunum síðari með því að Andrés Karlsson á Stekkjarmel vikrjaði ána  í miðri víkinni til þess að hlaða útvarpsbatterí. Seinna setti Andrés einning upp vindrafstöð á Stekkjarmel til raflýsingar í bænum. Ingvar Guðbjartsson setti upp litla vatnsalfsvirkjun í bæjarlækinn í Kollsvík á 7. áratug sl. aldar. Allar þessar virkjanir gengu á lágspennu þ.e. 12 – 50 voltum. Díselrafstöðvar komu svo bæði að Kollsvík og Láganúpi á 7. áratug sl. aldar. Samveiturafmagn frá Orkubúi Vestfjarða kom svo í víkina 1974.

Ef tekin er saman þjónusta þessara félagslegu lífæða byggðanna í Kollsvík verður að segjast að þjónusta Orkubús Vestfjarða ber þar af. Þjónustulipurð starfsmanna þess allt þar til heilársbúsetu lauk var með eindæmum og oft langt fram yfir það sem hægt var að ætlast til í tvísýnum vetrarveðrum.  Nú er hins vegar raflínan yfir Hálsinn komin til ára sinna og styttist í mikið viðhald.

Póstþjónustu var alltaf vel sinnt í Kollsvík. Áratugum saman var Kristinn Ólafsson bóndi í Hænuvík póstur í utanverðum Rauðasandshreppi. Hann var þaulvanur og kappsamur ferðamaður sem vílaði ekki fyrir sér að fara póstferðir fótgangandi ef ófærð tafði för farartækja.

Framtíðin

Sú spurning er áleytin hvort Kollsvíkin muni verða heils árs heimili fólks að nýju. Sá sem þetta ritar efast ekki um það. Þar eru landkostir það ríkulegir einkum til landbúnaðar eins og reyndar allvíða í Rauðasandhreppi hinum forna að með aukinni fólksmergð í heiminum verður þörf fyrir slíka staði.