Hér verður litið til ýmissa þátta í náttúrufari Kollsvíkur.
Efni: (Flýtival með smelli á kaflaheiti)
Fjaran (HÖ). Um strandlengjuna fyrir Kollsvíkur- og Láganúpsjörðum; náttúru, skipsströnd, reka og annað.
Fuglalíf (EG o.fl). Fuglaathuganir og fuglamerkingar hafa lengi verið stundaðar í Kollsvík.
Vötn og tjarnir (VÖ) Nokkur vötn af ýmsum stærðum leynast í nágrenni Kollsvíkur.
Frostgígar og myndun þeirra (VÖ) Hér er í fyrsta sinn útskýrð myndun hinna fjölmörgu gíglaga pytta í hálendinu kringum Kollsvík og víðar.
Skollakoppur og landrof (VÖ) Hér er sett fram tilgáta um samhengið milli afráns ígulkerja á þaraskógum og jarðvegsrofs á landi.
Höfundurinn: Hilmar Össurarson er fæddur 1960 og ólst upp á Láganúpi. Að loknu búfræðinámi festi hann kaup á jörðinni Kollsvík, ásamt Hólmfríði Steinunni Sveinsdóttur konu sinni. Þar bjuggu þau til 2002 er þau brugðu búi og fluttu suður ásamt 5 börnum. Þar með lauk samfelldri sögu landbúnaðar í Kollsvík; a.m.k. að sinni. Hilmar hefur síðan unnið m.a. í Húsdýragarðinum í Reykjavík og við Tilraunastöðina á Keldum. Hann er gjörkunnugur Kollsvík og Láganúpi, og lýsir hér staðháttum meðfram ströndinni; frá Landamerkjahrygg suðurundir Breið; að Þyrsklingahrygg norðanvert við Blakk.
Í þessu greinarkorni er ætlunin að gera fjörunni í Kollsvíkur-og Láganúpslandi nokkur skil. Hér verða rakin örnefni í fjörunni og nágrenni hennar og sagnir þeim tengdar. Frjálslega verður farið með fjörumörk og mun verða getið staðhátta og sagna jafnvel nokkuð hundruð metra frá fjörunni, allt eftir geðþótta undirritaðs.
Allan þann tíma frá því að ég man eftir mér snemma á 7. áratug síðustu aldar og fram yfir aldamót var fjaran endalaus og dularfull uppspretta tilbreytinga. Hún er á köflum síbreytileg þar sem skeljasandur er, og getur gjörbreytt um svip á fáeinum klukkustundum í stórstraum og vetrarbrimi. Þá geta klappir og stórgrýti skotið upp kollinum þar sem áður var rennislétt sandfjara, á meðan annars staðar kaffærðist kunnuglegt fjörulandslag undir nokkra metra þykku sandlagi. Hér er að sjálfsögðu átt við hinn gula skeljasand sem einkennir fjöruna á löngum köflum og gefur henni yfirbragð af sólskini og sumri, jafnvel um hávetur. Svartur fjörusandur er hvergi til á þessum fjörum. Malarfjara er naumast til heldur, en þó glyttir í möl á fáeinum stöðum þegar sandinn tekur út. Fjöruborðið samanstendur því í stórum dráttum af skeljasandi, stórgrýti mjög brimnúðu, og klöppum og hleinum sem einnig eru slípaðar og núðar af stöðugu brimi í árþúsundir.
Kollsvík liggur fyrir opnu hafi þar sem brimskaflar verða hvað hæstir við Ísland, svo og sjávarstraumar mjög harðir. Af því leiðir að aldrei er algjörlega lágdautt eða bárulaust í þessari fjöru. Oft brýtur á boðum frammi á víkinni, og fyrir kemur, t.d. í vestan- eða norðanrosa, að víkin er samfellt hvítfyssandi grunnbrot, þar sem brimskaflar byrgja hafsýn af láglendi og ganga uppfyrir vanaleg fjörumörk. Þó getur í langvarandi stillum í veðri, einkum að sumarlagi, verið nánast spegilsléttur sjór eða ölduhæð uppá fáeina tugi cm, jafnvel svo dögum skipti. Slíkt verður þó að teljast fremur fátítt, en í máli Kollsvíkinga var þetta nefnt svartalogn, stafalogn, koppalogn, kjör eða stillur. Á þessum slóðum er land að síga í sæ þó að hægt fari, og eins telja menn vetrarveður með tilheyrandi brimróti ofsafengnari en áður var, þó erfitt sé að fullyrða um slíkt. Hvað sem því líður er rof umtalsvert á þeim svæðum fjörunnar sem viðkvæmust eru, og mun verða fjallað nánar um það síðar í þessum pistli. Eins og áður hefur komið fram á þessari heimasíðu var sjórinn lífgjafi fólksins sem byggði Kollsvík lengst af. Því var fjaran í senn vinnustaður fólks, einkum karlmanna, og leikvangur barna. Í fjörunni var, og gæti verið enn, rekin skóli í líffræði, haffræði, veðurfræði og stjörnufræði. Í fjöruna fóru börn með eldri systkinum eða foreldrum strax og þau byrjuðu að ganga og voru þar síðan í öllum frístundum sínum og námu fræðin af hinum fullorðnu. Þessi skóli rann svo saman við fullorðinsárin átakalaust, þar sem menn hófu feril sinn hásetar og urðu síðar sumir formenn á áraskipum þeirra tíma. Engin dæmi þekki ég um barnsfæðingar í fjörunni í Kollsvík en aftur á móti eru þeir allnokkrir sem hafa endað sína ævidaga í þeirri fjöru í aldanna rás. Allmargir þeirra sem ólust upp í víkinni á síðustu áratugum heilsársbyggðar hafa gert sjómennsku að ævistarfi sínu að nokkru eða öllu leyti.
Nauðsynlegt er að gefa nokkrar orðskýringar þar sem ég kýs að nota það tungutak sem ég ólst upp við á Láganúpi. A) heimantil og heimeftir, þýðir nær bæjum í sjálfri víkinni B) Utantil og úteftir, þýðir suður eða suðvestur frá Kollsvík C) handantil og fyrir handan, merkir sunnanmegin í Kollsvík D) Norðantil og norðastur merkir í norðvestur, norður eða norðaustur. Orðmyndin nyrstur sem viðtekin er í íslensku nútímamáli var ekki notuð í Kollsvík.
Ég vel að hefja förina við suðvesturlandamerki Láganúps við Breiðavík og enda förina í Patreksfirði á landamerkjum Kollsvíkur og Hænuvíkur. Landamerkjahlein markar landamerki Láganúps og Breiðavíkur, er það klettahlein fremur lág og löng sem liggur fram undan fjallsnúpnum Breið u.þ.b. miðjum. Ofan við sjávarklettana í hlíðinni er áberandi hryggur, Landamerkjahryggur, sem afmarkar landsmerki upp undir kletta. Á brún Breiðsins þar upp af er klettanef með áberandi stórum steinum á brúninni og heitir Steinanef . Hlíðin framan í Breiðnum er mjög grösug einkum Breiðavíkurmegin við Landmerkjahrygg. Þar er hún samt mun brattari en Láganúpsmegin. Meðan sauðfé var í Kollsvík sótti það mjög í Breiðinn, enda kjarnmesta beitiland með stöðugum áburði af fugli á vorin og sumrin. Vegna brattans var þetta svæði óskaplega vanhaldasamt fyrir sauðfé. Ekki var óalgengt að 40-60% þess fjár sem þarna gekk heimtist ekki að hausti. Um miðja síðustu öld var reynt að girða Breiðinn af þannig að sauðfé kæmist ekki í hann. Var það gert með fyrirhleðslu í þrjá ganga Breiðavíkurmegin, sem var tiltölulega einfalt, og u.m.b. 100 m langri girðingu Láganúpsmegin; á Urðarhrygg sem er norðast í Breiðnum. Vegna grjóthruns og framskriðs reyndist ókleyft að halda girðingunni á Urðarhrygg fjárheldri. Útslægjur voru stundaðar í Breiðnum áðurfyrr. Síðastur mun hafa slegið þar Ólafur Halldórsson á Grundum, og bar hann heyið í poka heim á Bakkana . Í klettunum í Breiðnum hefur lengi verið allmikið fýlavarp. Hefur það reyndar nánast horfið á síðustu áratugum eins og öll slík vörp á þessum slóðum. Eftir miðja síðustu öld var það hins vegar allmikið nytjað. Voru þar tekin nokkur hundruð egg á hverju vori. Virtist það lítil áhrif hafa á stofnstærð múkkans. Það var ekki fyrr en nokkrum áratugum eftir að nytjar lögðust af að hnignun varpsins hófst í stórum stíl. Í sjávarklettum undir Landamerkjahrygg er svonefnt Lundafles. Þar mun ekki hafa orpið lundi í seinni tíð, en áðurfyrr var sigið í flesið eftir múkkaeggjum; 12 faðma sig. Á milli Urðarhryggs og Landamerkjahryggs er Skútahryggur. Sunnanvert í honum er hvapp allstórt, en það orð er notað yfir lautir í miklum bratta á þessu svæði. Þetta hvapp er nánast klettum girt nema á einum stað sem komast ná niður í það. Norðanvert í hvappinu er hellisskúti tæplega mannhæðarhár og ekki djúpur. Mjög safnaðist í hann sauðatað þar sem kindurnar notuðu hann óspart sem afdrep í hrakvirðum, eins og aðra slíka skúta sem þær komast í. Í klettunum ofan Skútahryggs er Flesið; snarbratt grasflæmi sem fé leitaði stundum uppí. Norðanvert við Skútahrygg er Skriðan, aurskriða sem nær frá efri klettum niður niður á sjávarkletta. Hún er mjög brött þannig að hún er vanalega ógróin með öllu. Er hún töluverður faratálmi göngufólki og sá mesti Láganúpsmegin í Breiðnum. Annars er Breiðurinn allur sæbrattur mjög og þó sýnu brattari Breiðavíkurmegin. Þar er Breiðshlíðin svo brött á löngum kafla að fólki skal eindregið ráðið frá gönguferðum þar. Aftur á móti er fær leið þó brött sé, í neðsta gangi í efri klettum til Breiðavíkur. Eftir að fé hvarf úr Breiðnum eru kindagötur orðnar ógreinilegar, og því sumsstaðar vandratað fyrir ókunnuga. Ekki þarf að taka það fram að fólki sem haldið er lofhræðslu skal alfarið ráðlagt frá gönguferðum á öllum þessum stöðum. Hægt er að ganga fjöruna fyrir Breið um stórar fjörur, en hún er afar stórgrýtt og torfær á löngum köflum, með flæðihættu. Greiðfærara er Láganúpsmegin út á Landamerkjahlein og lítið eitt lengra. Þá er farið niður sjávarklettana í Vatnadalsbót annað hvort í Árdalnum (gilinu) eða niður klettanef norðan við Árdalinn – hvorutveggja dálítið klöngur. Best er að sæta sjávaföllum svo hægt sé að velja sér skástu leiðirnar á fjörunni. Einnig er best að fara snemma vors áður en slý og þörungagróður þekur fjöruna en slíkt gerist snemmsumars vegna mikils og nær samfellds vatnsaga úr sjávarklettunum. Utanvert í Vatnadalsbótinni eru margir fagrir smáfossar sem koma þar beint út úr klettunum og falla í fjöruna. Norðast í Urðarhrygg neðarlega er lítill hjalli sem heitir Blettahjalli. Voru miðaðir við hann svokallaðir Blettir sem eru fiskimið þarna framundan.
Þar sem Breiðnum sleppir taka við tiltölulega láréttir bakkar og nokkuð grösugir og heita Hústóftarbakkar. Draga þeir nafn af tóft sem á þeim er, mjög vallgróin og ógreinileg. Ekki er vitað til hvers hún hefur verið notuð en til greina kemur stekkur eða heytóft, því graslendi er þó nokkuð á Bökkunum, og vitað er að þeir voru slegnir líklega fram yfir aldamótin 1900. Hins vegar er heybandsvegur hvorki langur né erfiður að Láganúpi. Sé um að ræða stekkjarrúst er hún mikið eldri en stekkjarústir sem eru mjög greinilegar á Hnífunum, þ.e. sjávarklettunum sem liggja milli Vatnadals og Kollsvíkur. Stekkirnir voru nýttir fram eftir 19. Öldinni. Engar slíkar sagnir eru um tóftina á Hústóftarbökkum. Bakkana klýfur gil nokkuð djúpt og heitir Árdalur. Vanalega er Árdalurinn þurr nema í vorleysingum og mikilli bleytutíð á öðrum ársstíðum. Árdalurinn er affall Vatnadals sem er 10 km langur og 1-2 km breiður og gengur suðaustur í hálendið sunnan við Kollsvík og Hænuvík. Þetta leiðir hugann að hinum sérkennilega vatnsbúskap alls þessa skaga sunnan Patreksfjarðar. Þó svæðið teljist mjög úrkomusamt virðist öll sú úrkoma hverfa jafnhraðann niður í jökulurðina sem er nánast allsráðandi í landslagi ofan við c.a. 100 m hæðarmörk. Þeir lækir og smáár sem eru á þessu svæði spretta flest upp í mesta lagi fáeina tugi metra yfir sjó. Annað sem veldur furðu í þessum sérkennilega vatnsbúskap er að vatnsmagn eykst lítt eða ekkert þrátt fyrir að votviðri gangi jafnvel vikum saman. Hæsta uppspretta sem vitað er um á þessu svæði er líklega uppi á Breiðnum, þar sem heitir Breiðvatn; kippkorn frá brún. Það er mest um 260 m langt og 140 m breitt, en líklega ekki mjög djúpt. Í því er eflaust uppspretta, því það þornar aldrei upp. Áður en skilist er við Breiðinn skal getið um sérkennilegt tófugreni sem er í klettanefi nærri brún sjávarklettana. Það er myndað ef mörgum smáholum í berginu sem líklega hafa myndast þegar glóandi hraun rann yfir skóglendi og trjábolirnir skildu eftir sig holur er hraunið kólnaði fyrir 16-18 milljónum ára. Slíkar holur má víða sjá á þessu svæði. Í sumum þeirra má enn sjá steingerða búta þessara trjáa.
Ofan við Hústóftarbakka rís mikið malarholt, Breiðsholt, sem má segja að þveri mynni Vatnadals. Breiðsholt er líklega forn jökulruðningur frá síðasta jökulskeiði en einnig mótað af sjávarrofi við hærri sjávarstöðu en nú er. Breiðsholtið klýfur Árdalur nokkurn vegin í miðjum dal og er hann 20-30 m djúpur þar sem holtið er þykkast. Er ísaldarjökulinn tók að bráðna fyrir 10-20.000 árum hefur eflaust vatnsmikið jökulfljót beljað eftir Árdal og mótað hann í þá mynd sem hann er í dag. Einhverntíma á því mótunnarferli hefur þó vatnsvegur legið meðfram hlíðarrótum Breiðsins þar sem er annað gil við syðri enda Breiðsholts og heitir Grenjalág. Eins og nafnið bendir til eru grenstæði refsins á nokkrum stöðum í Grenjalág allt niður á Hústóftarbakka. Gönguleið út að Breiðavík er samnefnd Grenjalág upp á Breiðinn að norðanverðu þar sem klettunum sleppir.
Hverfum nú aftur að sjónum. Lágir sjávarklettar eru neðan Hústóftarbakka, og einu færu leiðirnar ofan í fjöru á þessum slóðum eru í og við Árdal eins og áður er getið. Framundan Vatnadal er breið og grunn vík sem heitir Vatnadalsbót og hefur fjaran þar sama nafn. Öll er sú fjara stórgrýtt að jafnaði sem aðrar fjörur þarna. Þó kemur fyrir, sérstaklega í langvarandi norðanátt á sumrin, að allbreið skeljasandsfjara myndast . Ef síðan gerir Vestanbrim hverfur allur sandur jafnvel á einni flæði. Fyrir kemur að trjáreki er undir Breið eða í Vatnadalsbót. Mjög erfitt er að bjarga reka undan sjó á þeim stöðum þar sem brim gengur viðast hvar í kletta sem eru nokkrir tugir metra á hæð. Þó minnist ég þess að hafa náð 2 rekatrjám í böndum með traktor ásamt föður mínum á 8. áratug síðustu aldar. Í malarfjöru í Bótinni og víðar á þessum slóðum má stundum sjá hnullunga af graníti, kvartsi og öðru bergi sem ekki finnst í berggrunninum hér um slóðir. Þetta eru flökkusteinar sem setið hafa neðan í borgarís frá Grænlandi. Best er að leyfa þessum langförlu gestum að liggja áfram á sínum stað, líkt og öðrum fáséðum náttúrugersemum.
Nyrst og efst á Hústóftarbökkum er gróið slétt svæði sem nefnist Flatir, en norðan við þær breytir landslagið mjög um svip. Sjávarklettarnir hækka töluvert en eru mjög sundurskornir af lautum og smádölum, jafnvel giljum. Klettarnir frá Bökkunum og að Kollsvíkinni heita einu nafni Hnífar. Mjög fallegt landslag er á Hnífunum þar sem skiptast á skjólsælar lautir og svipmiklir höfðar og hólar. Samkvæmt þjóðtrúnni er þétt byggð vætta á Hnífunum. Höfuðból huldufólksins er í Stórhól, sem er stór urðarhóll þar sem Bökkunum sleppir. Því hefur ávallt verið bann við öllum hávaða og ærslum í nágrenni við hólinn. Af Hnífunum má oft sjá lognrákir á sjónum, en þær voru sagðar vera eftir báta huldufólksins. Af því að dæma er hér enn stundað verulegt útræði. Niður undan Stórhól eru hellar tveir í klettunum. Sandhellir er nokkuð djúpur með litlum afhelli er heitir Þumall. Göng eru sögð vera milli Stórhóls og Sandhellis, þó dauðlegum mönnum hafi ekki tekist að finna þau. Ekki er erfitt að fara í Sandhelli ef menn þekkja leiðina. Norðar og neðar er Gvendarhellir; mun minni en Sandhellir og erfiðari í að komast. Munni Gvendarhellis er ekki stærri en svo að meðalmaður getur skriðið þar inn, en nokkuð rúmgóð hvelfing er þar innanvið. Neðanvið hann er Sandhellissvelti, grasfles sem kindur gátu stokkið niður í en komust ekki upp aftur. Eitt dæmi veit ég um að kind með lamb hafi komist úr Sandhellissvelti niður í fjöru í Vatnadalsbót. Fjaran fram undan Sandhellinum breytir nokkuð um svip. Í stað stórgrýtisfjörunnar í Vatnadalsbót taka við langar klettahleinar sumar frálausar við land með vogum á milli. Er slíkt fjörulandslag alsráðandi undir öllum Hnífunum allt að Grundargrjótum í Kollsvík. Öll er sú fjara ógreiðfær og Sandhellisvogur, undir Sandhelli, er oftast ófær með öllu. Hleinarnar frá Sandhelli að Hnífaflögu, sem er klettanes er skagar í vestur frá miðjum Hnífunum, heita einu nafni Sveinaflögur . Fram undan Sandhelli, þó lítið eitt vestar, er sker með gati í, þ.e. sjávargöng eru inn í skerið sem opnast svo uppúr því miðju. Í vestanbrimi og hæfilega föllnum sjó má sjá þar tignarleg sjógos, stundum tugi metra í loft upp. Alltaf er töluvert af sel á Vatnadalsbót og við Sveinaflögur. Einkum er það útselur en hann kæpir á Landamerkjahlein. Heimanvið Stórhól og Sandhelli er djúp og nokkuð breið laut niður í Hnífana. Heitir hún Undirlendi. Upp af Undirlendi austanverðu er önnur minni hringlaga laut sem heitir Grófarstekkur. Í henni er gömul stekkjarrúst, og þar má sjá holu eftir trjábol í berginu. Austan í Grófarstekk er grunnur hellisskúti sem í eru gamlar hleðslur, og hefur hann vafalaust verið notaður sem stekkur meðan fært var frá lambám. Á þessi svæði er nokkur smá klettanef sem skaga fram í sjávarklettana með lautum á milli. Heita þau einu nafni Grófarnef. Þar sem Grófarnefin rísa hæst er Tröllkarlshellir niðri í klettunum. Er hann allhár en ekki djúpur. Torvelt er að komast í hann og nær útilokað að finna hann fyrir aðra en staðkunnuga. Ekki er langt frá Tröllkarlshelli í Stórhól, og því virðast tröll og huldufólk hér eiga gott sambýli. Vestan við Grófarnefin beygja Hnífarnir nokkuð til norðurs. Þar er í klettunum allstór laut eða hvapp, hömrum girt, en hægt er að komast í það á tveim stöðum. Þetta er Ytri Lambhagi. Þar voru fráfærulömb geymd yfir stekkjartímann. Hætt er við að þeim hafi alltaf fækkað nokkuð þar sem háir sjávarklettar eru undir. Síðast var fært frá á Láganúpi árið 1934. Norðan við Ytri Lambhagann tekur við nokkuð djúpt klettagil sem nær niður í fjöru. Um það er göngufær leið og fjaran nær þónokkurn spöl norður fyrir Hnífaflögu sem skagar vestur úr Hnífunum. Á stórstraumsfjöru og ládeyðu má komast fjöruna úr
Gilinu og út í Vatnadalsbót. Allar eru þessar leiðir stórgrýttar og torfærar mjög. Lautirnar upp af Gilinu heita Kálfalágar. Þegar hér er komið við sögu lækka Hnífarnir mjög á svonefndri Hnífaflögu, þannig að yst á Flögunni eru þeir naumast meira en 3-4 mannhæðir. Yst á klettanefi Flögunnar má komast niður í fjöru með dálitlu klifri.
Á Hnífaflögu varð það slys 9. apríl 1888 að tuttugu og þriggja ára bóndasonur frá Láganúpi, Helgi Ásbjörnsson drukknaði. Skór hans og byssan fundust upp á Flögunni en líkið fannst aldrei. Talið var að hann hafi skotið sel skammt frá landi og ætlað að vaða eða synda eftir honum.
Framundan flögunni skagar lág klettahlein út í sjóinn nefnd Flöguhlein. Í hana hefur brimið sorfið ýmiskonar skorur og holur svo vestanbrim getur orðið tilkomumikið þar eins og víða á þessum slóðum. Uppá klettunum á Flögunnni eru víða holumyndannir í klöppum og steinum líkt og í osti. Líklega hafa þær orðið til vegna aðstæðna við storknun bergsins. Í því eru misharðar æðar og e.t.v. loftbólur, og vindur, selta, frost og væta hafa síðan hjálpað til við smíðina síðustu 16-18 milljón árin.
Svæðið upp af Hnífunum nefnist einu nafni Strympur, það er víðáttumikið og bunguvaxið malar og aurholt lítt gróið, með lágum klettarana efst. Er nær dregur Láganúpi tekur við vel gróið flatlendi sem heita Flatir. En færum okkur aftur að sjónum. Norðan við Flöguna taka við nokkuð háar klettahleinar með alldjúpum vogum á milli. Norðanvið Flögu er stór hellir í miðjum klettunum, þó fremur grunnur. Heitir hann Álkuskúti. Ekkert álkuvarp er í þessum skúta nú á dögum en töluvert lundavarp. Ófært er með öllu í Álkuskúta. Ofar og norðar er klettastallur; Lundafles, og niður á hann tíu faðma sig. Þar verpur einnig nokkuð af lunda, en þessir tveir staðir eru líklega eina lundavarpið í Hnífum nú á dögum. Norðar hækka Hnífarnir enn. Þá er djúp laut niður í þá sem heitir Eyvararstekkur með samnefndum stekkjarrústum, líklega nefndur eftir mjaltakonu einhvern tímann í fyrndinni. Norðan við Eyvararstekk rísa Hnífarnir hæstir á nokkuð hundruð metra kafla. Heitir það Strengberg enda eru Hnífarnir þar þverhníptir af brún í sjó. Ekki er fær leið að jafnaði undir Strengbergi. Þó er vitað um a.m.k. tvo menn, þá Einar Guðbjartsson frá Láganúpi og seinna Valdimar Össurarson frá sama bæ, sem komist hafa þessa leið á stórstraumsfjöru og í ládeyðu.
Neðarlega í Strengberginu er áberandi hilla; Strengbergshilla. Þangað var sigið af brún til múkkaeggja á síðustu öld. Strengbergshlein gengur þar framaf. Við hana strandaði togarinn British Empire H908 í árslok 1913, í suðvestan blindbyl. Mannbjörg varð og gátu skipverjar allir með tölu stokkið yfir á næstu hlein. Að öllum líkindum hefur veður og sjólag verið með skárra móti. Skipverjar komumst heimyfir fjörugrjótið og gengu síðan að næsta bæ sem þeir sáu, sem var Grundir í Kollsvík. Þeir sjá mann á ferð þar í stórgrýttri fjörunni og stefna til hans. Var það ungur maður frá Grundum komin í fjöruna þeirra erinda að ganga örna sinna eins og alsiða var í fjörugrjótinu. Gengur hin enska togaraskipshöfn fram á hann við þessar aðstæður. Nærri má geta undrun hans er margir útlendir menn standa yfir honum við að gyrða sig. Það kom sér vel að þessi maður kunni nokkuð í ensku og gat því fengið skýringar á komu þeirra þarna. Togarinn brotnaði fljótt í spón, en enn má sjá stykki úr honum í Láganúpsfjöru.
En stefnum nú aftur út á Hnífa. Norðan við Strengbergið er allstórt hvapp eða hlíðarslakki ofantil í Hnífunum með lágum klettum fyrir ofan. Heitir þar Heimari Lambhagi. Nokkuð auðvelt er að komast í Heimari Lambhagann, sé fólk ekki lofthrætt. Hvergi sést að ráði í Heimari Lambhagann af brún þannig að algengt var og er að kindur verði þar eftir eða feli sig við smölun. Í klettunum heiman við Heimari Lambhagann er þröngur hellisskúti sem heitir Smérhellir. Í honum er skuggsælt og oft ís langt framá sumar. Smérhellir hefur því, eins og nafnið bendir til, verið notaður til geymslu á sauðasméri. Bendir það einnig til a.m.k nokkurrar fullvinnslu á fráfærutímanum. Undir Smérhelli er lítill stallur; Smérhellissvelti, þar sem kindur komust stundum í sjálfheldu, og utan hans var unnt að klöngrast í Smérhellisfles eftir múkkaeggjum. Nokkru heimar en Heimari Lambhaginn er svipaður hlíðarslakki sem heitir Undirhlíð. Auðveldlega er gengt í Undirhlíð um Undirhlíðarnef, af Brunnsbrekku í Kollsvík þar sem Hnífunum sleppir. Neðan við Undirhlíð er Undirhlíðarfles, hvapp eða laut sem ekki er fært í nema í lás, þ.e. með stuðning af bandi, niður rúmlega mannhæðar háann klett. Nokkurt múkkavarp var í Undirhlíðarflesi áður en múkkastofninn hrundi. Norðast í Hnífunum þar sem þeir lækka um 2/3 er hellisskúti nokkuð hár en grunnur, heitir hann Kofuhellir. Enginn lundi verpir í honum þrátt fyrir að nafnið bendi til annars, og hefur ekki gerst frá því sögur hófust. Vilja sumir nefna hellinn Kofahelli, með vísan til lögunar hans. Gengt er í Kofuhelli eftir tæpum þræðingi. Þar undir er annar þræðingur sem farið var í með lásum, til múkkaeggja. Í þaki Kofuhellis er hrafnslaupur.
Hverfum nú um stund upp á brún Hnífanna þar sem við vorum síðast í Eyvararstekk. Norðan hans tekur við Strengberg sem áður er getið. Á brún Strengbergs er rúst af skothúsi frá því að vetrarveiðar voru stundaðar á ref. Á Strengberginu heimanverðu er áberandi varða sem heitir Stekkavarða. Við hana var miðað fiskimiðið Stekkar og átti hana þá að bera milli Hauganna sem eru tvö áberandi urðarfell á fjalllendinu milli Kollsvíkur og Vatnadals. Neðan og heiman Stekkavörðu er Katrínarstekkur í lítilli lág. Ekki er kunnugt um nafngjafa hans fremur en Eyvararstekks, en líklega voru þær búkonur á Grundum eða Láganúpi. Jökulnúnar klappir eru áberandi víða á Hnífunum. Þegar halla fer heim af Hnífunum verður fyrir síðasti stekkurinn á þessum slóðum, Þúfustekkur. Er hann eins og hinir fyrri í grasigróinni laut, samnefndri. Stekkjarústir eru á tveimur stöðum rétt heimar, og má ætla að þær tilheyri einnig Þúfustekk, en séu e.t.v. eldri. Við Þúfustekk snarbeygir brúnin til austurs eða suðausturs, og við taka Hjallar eða Láganúpshjallar. Þar er Undirhlíðarnef framan í klettunum, sem markar suðvesturhorn hinnar eiginlegu Kollsvíkur. Stuttan spöl austur frá Þúfustekk er Nónvarða mjög áberandi frá Grundum og Láganúpi og er eyktarmark frá Grundum. Niður undan Þúfustekk er sérkennilegt vik eða skarð í hjallanum, nánast ferhyrnt að lögun, og heitir Klettakví. Niður frá Þúfustekk og Nónvörðu er breið og löng en hallalítil brekka sem heitir Brunnsbrekka. Alsett stórgrýti en gróin inná milli. Nær hún að túngirðingu á Láganúpi og endar við Grundamýri. Lækurinn Kaldibrunnur rennur með Brekkurótunum og gefur Brunnsbrekku nafn. Vesturmörk Brunnsbrekku er Hreggnesi, lágir sjávarklettar sem hverfa alveg nokkuð utan Grundatúns. Grýtt gönguleið er töluverðan spöl eftir fjörunni undir Hreggnesa langleiðina út undir Strengberg. Þar er sumsstaðar sæmileg festifjara fyrir reka ef gefst, en torvelt um björgun. Í fjörunni utan við Kofuhelli er áberandi stór steinn í fjörunni, sem nefnist Skarfasteinn. Á honum situr oft skarfur, en skarfar eiga iðulega hreiður í klettarótum Hnífanna. Undir Hreggnesa strandaði vélbáturinn Garðar 16. Okt 1999 með tveggja manna áhöfn. Mannbjörg varð enda veður gott. Báturinn eyðilagðist á strandsstað en nokkru tókst að bjarga m.a. vél bátsins. Þar sem Hreggnesa sleppir kallast fjaran Grundagrjót í hvorugkyni fleirtölu. Nokkra tugi metra frá Grundargrjótum er sker sem kemur nánast uppúr á hverri fjöru. Heitir það Arnarboði og er lágt og breitt. Aldrei þornar sundið á milli lands og Arnarboða. Munnmæli herma að Örn, samferðamaður Kolls þess er nam Kollsvík, hafði brotið skip sitt á Arnarboða á landnámsöld og dragi boðinn þar nafn sitt. Landnáma segir að Kollur hafi brotið skip sitt við Kollsvík eftir að hann varð viðskila við Örlyg fóstbróður sinn í sjóhrakningum. Björgun Kolls og áhafnar hans við Arnarboða er líklega fyrsta skráða sjóbjörgun við Ísland.
Grundagrjót ná allt norður að Rifi eða því skeljasandsrifi sem einkennir síðan mestalla fjöru Kollsvíkur allt að Blakk. Á Bökkunum meðfram öllum Grundagrjótum er túngarður grjóthlaðinn furðu heill, þó staðið hafi viðhaldslaus í mannsaldur. Þessi garður er í núverandi mynd verk Kristjáns Ásbjörnssonar, næstsíðasta bónda á Grundum og bróðir Helga þess er fórst við Hnífaflögu, og skipshafnar hans. Var hann áratugum saman formaður í Kollsvíkurveri. Mun hann hafa varið landlegum til garðhleðslunnar og nýtt strarfskrafta áhafnar sinnar enda annálaður ákafa og keppnismaður. Garðurinn er nokkur hundruð metra langur og eru áfastir honum matjurtargarðar nokkuð stórir, einnig handverk Kristjáns. Garðarnir eru þó, að stofni til, taldir mun eldri. Að sögn voru þeir hlaðnir í landlegum af vermönnum í Láganúpsveri fyrr á öldum. Við norðari enda Garðanna er hlaðið byrgi, þar sem legið var fyrir mávi og hann skotinn til matar, er hann flögraði með Bökkunum í fæðuleit. Ofan garðanna er túnið á Grundum sem taldist allstórt á fyrri tíma mælikvarða. Hluti þess er vel sléttur og var nýttur fram yfir aldamótin 2000. Grundir, sem fóru í eyði í seinna stríði, töldust sæmileg bújörð. Upphaflega voru Grundir hjáleiga frá Láganúpi, stofnuð um 1650, en töldust seinna sjálfstæð jörð með sameigilegan úthaga með Láganúpi. Norðast á Grundabökkum var samnefnd þurrabúð; oft í daglegu tali einungis nefnd Bakkar. Bakkar fara í eyði litlu fyrr en Grundir. Töluverðar tóftarrústir eru norðast á Bökkunum; mjög sandorpnar. Eru sumar þeirra leifar húsa frá Bökkum eða Grundum en aðrar eiga uppruna sinn frá því að Láganúpsver var starfsrækt fyrr á öldum. Láganúpsver var að öllum líkindum meðal stærstu verstöðva á sunnanverðum Vestfjörðum í margar aldir. Þangað komu vermenn úr nærliggjandi fjörðum og innanúr Breiðafirði til útróðra; enda eru þar gjöful fiskimið á grunnslóð. Blómatími Láganúpsvers var líklega á tíma mestu skreiðarsölu landsmanna, eða í kringum siðaskiptin. Um 1700 hafði mjög dregið þar úr útgerð, og einungis nýttar 4 verbúðir af þeim 18 sem menn mundu þá eftir. Lending þótti þá oftast slæm eða ófær með öllu á þessum stað. Orsakir þess að róið var frá Láganúpi eru líklega einkum þær að á þeim tíma og lengi síðan var Láganúpsjörðin í eigu Saurbæjarkirkju á Rauðasandi. Á þessum tíma var Kollsvíkurjörðin í eigu ýmissa annara, m.a.klerka í Selárdal í Arnarfirði. Vel má ímynda sér að stórbokkarnir í Saurbæ hafi neytt allra bragða til að komast hjá að borga eigendum Kollsvíkur vertolla, en gjarnan vilja láta landseta sína sunnantil í víkinni nýta hin gjöfugu fiskimið á víkinni.
Umfang Láganúpsverstöðvar hefur á síðari árum orðið mönnum nokkuð ljósara en áður, við það að sjór hefur rofið mjög Grundabakkana. Þar, á rösklega 200 metra kafla, má sjá margföld lög af fornum hleðslum, gólfskánum og beinaleifum. Mikilvægt er að glöggva sig á þeirri sögu sem þarna birtist, áður en hraðfara sjávarrofið eyðir henni að fullu, og eru rannsóknir þegar hafnar.
Ofan Garðanna, sunnarlega í Grundatúni, er lægð sem á síðari árum hefur breyst í lítið stöðuvatn með miklu fuglalífi. Nafn hennar er Lögmannslág, og er sagt komið af því að í lágina gengu vermenn Láganúpsvers örna sinna. Sérstakur umsjónarmaður; nefndur lögmaður, sá um að vel væri um gengið. Sama stjórnsýsla var viðhöfð í Kollsvíkurveri meðan þar stóð útgerð. Önnur lægð er norðar í Grundatúni; Búðalág, sem dregur nafn af búðum í Láganúpsveri.
Grundagarðar. Blakkur og Kollsvíkurnúpur í baksýn. Í fjörunni eru leifar af gufukatli togarans sem strandaði undir Hnífunum, sem brimið hefur með tímanum hnoðað hingað heim.
Ennþá sjást ruddar varir í fjörugrjótinu á Láganúpsbótinni í lágsjávuðu. Sú yngri og norðari er í svonefndri Klauf og var rudd á öndverðri 20. öld, en hin syðri er mun eldri. Annars mun bátum iðulega hafa verið brýnt í fjörugrjótið fyrr á tíð, ekki síður en sléttan sand, að sögn þeirra sem rannsakað hafa fornar verstöðvar. Þar sem mætast Grundagrjót og Rifið fellur Áin oft til sjávar. Það er að vísu mjög breytilegt því ós hennar færist stöðugt til eftir straumnum og brimi sérstaklega að vetrarlagi. Á þessi, sem myndi víða teljast lækur, er ekki stór en þó stærsta vatnsfall í Kollsvíkur og Láganúpslöndum. Fellur hún eftir miðri víkinni og markar landamerki jarðanna Kollsvíkur og Láganúps, nema í fjörunni þar sem hún markar ekki mörk á reka vegna fyrrnefnds hverfulleika síns. Sandrifið gengur fram í totu, svonefndan Odda, nokkru norðan Árinnar. Ofan hans eru fornar verbúðartóftir; Oddatóftir, ásamt görðum til fiskverkunar. Fram af Oddanum er Breiðasker, langt og breitt. Fremst á Breiðaskeri er nokkru hærri klapparhnúta sem heitir Breiðaskersklakkur. Sunnan við Breiðasker er Láganúpsbótin. Í henni miðri er langt en fremur mjótt og lágt sker sem heitir Langitangi, en hann markar landa- og rekamörk í fjörunni. Norðast í Grundagrjótum má finna á fjörunni, stóran nokkuð áberandi stein sem klappað er á ártalið 1950. Það er verk Páls Guðbjartssonar sem þá var bóndasonur á Láganúpi. Einnig má finna í vegg í fjárhústóft á Grundabökkum ártalið 1911. Það er verk Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar sem þá átti heima á Grundum. Fjárhús voru einatt við sjóinn í Útvíkum, til að nýta sem best fjörubeitina. Þau voru gjarnan notuð sem verbúðir á vorvertíð, meðan þar var útræði. Norðan fjárhúsanna má sjá leifar sjávarhúss sem Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi reisti um miðja 20. öld, til geymslu á veiðarfærum og sögunar á stórviði. Tóftirnar á Grundarbökkum liggja nú mjög undir skemmdum vegna sjávarágangs, sem og ýmsar mannvistarleifar sem þarna eru. Ofan við rifið syðst er c.a. 200 metra langur garður sem ýtt var upp seint á 20. öld. Meiningin var að mynda uppistöðulón ofan hans með vatni lækjanna Torfalækjar og Miðlækjar. Var þetta tilraun til að stemma sandfok það sem sífellt ógnar Lágnúpsjörðinni. Einnig gerðu menn það sér vonir um að koma mætti æðarvarpi til við þetta lón. Garður þessi er úr sandi, sem reyndist þarna svikull eins og oft áður, og hafa vorleysingar leikið garðinn grátt.
Norðan við ána sem fyrr er nefnd tekur við allstór og rennisléttur sandflóki sem nefnist Leirar í karlkyni fleirtölu. Ofan við Leirana er bærinn Stekkjarmelur og tún þau sem honum tilheyrðu. Stekkjarmelur var hjáleiga úr landi Kollsvíkur. Háir sandbakkar eru ofan við Leirana sem heita Melarandir. Þær ná frá norðari bakka árinnar og norður í Kollsvíkurver. Leirarnir eru mjög blautir og á þeim sífelldur vatnsagi, sérstaklega upp við Melarandir. Þar eru jafnvel dýjapyttir í sandinum. Víða á Leirunum eru ekki nema ca. 30 cm niður á mó eða moldarlag. Það gæti annaðhvort bent til þess að fyrr á tímum hafi verið gróin mýri þar Leirarnir eru nú eða að þangað hafi borist mikið af þara. Vegna hins mikla vatnsaga verða mikil svellalög á Leirunum á veturna. Vegna þess þrífst þar engin gróður. Einnig hefur mikil veðrun af sandfoki þar eflaust áhrif. Sandfok hefur löngum ógnað jörðum í sunnanverðri Kollsvík. Í miklu norðanroki drífur mikinn sand af Rifinu og úr fjörunni upp yfir Leirana og setjast stundum í þykka sandskafla á Láganúpsjörðinni. Í verstu veðrum berst sandfokið jafnvel útyfir Hnífa og Breið. Landgræðsla ríkisins veitti bændum áðurfyrr nokkra aðstoð til að verjast þessari ógn, en sinnir nú lítið sínu hlutverki á þessum slóðum. Neðan við Leirana er landið lítið eitt hærra og nokkuð grýtt. Það heitir Grjótrif og er ofan við hið eiginlega Rif. Norðast á Grótrifinu standa tvær áberandi vörður hvor upp af annarri. Þær heita Snorravörður og lending í fjörunni neðan þeirra Snorralending, en þar var talin þrautalending í vestansjó. Í Snorralendingu fórst bóndinn í Kollsvík Torfi Jónsson 5. Apríl 1904. Var hann að koma af Eyrum (Patreksfirði) með hlaðið skip af timbri. Ekki mun hafa verið mjög mikið brim miðað við það sem menn voru vanir, en við lendinguna hlekktist skipinu á og mun timburfarmurinn hafa losnað og planki slegist í höfuð Torfa. Snorralending var talin erfiðari lending en í sjálfu Kollsvíkurverinu. E.t.v. hefur einhverju ráðið um val Torfa á Snorralendingu að hún er auðveldari aðkomu af hafi á þunghlöðnum bát, sérstaklega á flæði. Nokkuð norðan við Snorralendingu breytir fjaran nokkuð um svip. Þar eru tvö allhá klapparholt ofan við fjöruna. Heitir hið syðra Syðriklettar og hið norðara Norðariklettar. Milli þessara kletta var aðal uppsátur skipa sem gengu úr Kollsvíkurveri sem starfrækt var frameftir 4 áratug 20.aldar. Gengu þaðan milli 20 og 30 bátar þegar mest var. Eins og fram kemur annarsstaðar á þessari heimasíðu er lending oft erfið í Kollsvíkurveri og oft alófært svo dögum og vikum skiptir. Það sem olli vinsældum þessarar verstöðvar var nálægðin við gjöful fiskimið sem sjaldan brugðust. Tvær hleinar afmarka lendinguna í verinu. Að suðvestanverðu eru Selkollshleinar, lágur en breiður skerjaflóki sem dregur nafn sitt af kúlulaga hnútum sem standa uppúr skerinu og geta líkst selshausum í ládauðum sjó. Að norðanverðu er skerjabálkur sem kallast Bjarnarklakkar. Þeir koma ekki upp úr nema um stórstraumsfjöru en deyfa töluvert norðanbrim þegar lágsjávað er. Á flæði er lítið skjól að þessum hleinum og er því oft stórbrim í Kollsvíkurveri. Framundan Verinu er svonefnt Lægi, en það er nokkuð var fyrir úthafsbárunni vegna þriggja skerja þar fyrir framan. Þau eru: Selkollur syðstur; Miðklakkur og Bjarnarklakkur nyrstur. Leiðirnar inná Lægið eru Syðstaleið, Miðleið og Grynnstasund. Var síðan bátunum lent við syðri enda Norðari kletta. Ef von var á stórbrimi varð að setja bátana upp í vikið milli Syðri kletta og Norðari kletta alveg upp að verbúðunum sem þar stóðu. Meira en 20 verbúðir voru voru í Verinu og sér enn móta fyrir flestum þeirra þó þær séu mjög orpnar sandi. Stærstu búðirnar voru utan í og á bristinu sem rís upp frá vikinu milli Syðrikletta og Norðari kletta. Einnig voru búðir á Norðari klettum. Í þeim voru frekar þeir sem voru lengra aðkomnir í verið, eða frá Rauðasandi eða Barðaströnd. Til er allnákvæmt kort af verinu með upplýsingum um eigendur eða umráðamenn hverrar búðar á blómatíma versins upp úr aldamótunum 1900. Ekki var óalgengt að 80-90 sjómenn væru í verinu á vorvertíð. Lækur rennur til sjávar gegn um verið. Heitir hann Búðalækur og var hann nýttur til fiskiþvottar og sem neysluvatn. Enn sér móta fyrir grjóthlöðnum stokk þar sem mynduð var uppistaða til fiskþvottar. Við lækinn höfðu áhafnirnar sína ruðninga og saltkrær. Ruðningur var nafnið á aðgerðaraðstöðunni, og samanstóð af þró sem aflinn var borinn í frá bát; flatningsborði úr steinhellu eða tré, og þvottakassa. Eftir þvott í læknum var þorskur saltaður í þró og síðan þurrkaður á steinreitum, en steinbítur borinn til herslu á steinhlöðnum þurrkgörðum. Þó það sé samdóma álit eldra fólks úr Kollsvík að sandburður hafi aukist mjög í Kollsvíkurveri á síðari áratugum er ekki ótrúlegt að neytendur saltfisksins úr Kollsvíkurveri hafi stöku sinnum brutt eitt og eitt sandkorn. Eflaust hafa dauðaslys orðið við brimlendingar í Kollsvíkurveri sem ekki hafa verið skráð í annála. Þau verða þó að teljast furðu fá á sögulegum tíma miðað við hve verstöðin var fjölmenn. Má það eflaust þakka gætni samfara útsjónarsemi hjá þeim formönnum sem þaðan réru. Síðasta banaslys í Kollsvíkurveri varð þann 1. Apríl 1919. Þar fórst 18. ára piltur, Guðmundur Össurarson, systursonur Torfa þess sem fórst í Snorralendingu 15 árum fyrr. Það er til marks um þau verðmæti sem dregin hafa verið að landi í Kollsvíkurveri að stórfyrirtækið Islandshandels og Fiskerikompani lét reisa salthús í Kollsvíkurveri þar sem sjómenn fengu útvigtað salt gegn viðskiptum við I.H.F. Ekki var föst búseta í verinu árið um kring að jafnaði. Þó kom fyrir að þurrabúðar fólk hafðist þar við með fáeinar kindur en treysti að öðru leyti á sjávargagn sér til framfærslu.
Fyrrum mun einkum hafa verið veitt á handfæri frá Láganúps- og Kollsvíkurverum. Rétt fyrir aldamótin 1900 hófust veiðar á lóðir, og voru lóðamiðin frá miðri Víkinni suður undir Hnífaflögu. Tvíróið var að jafnaði hvern dag sem gaf, og einkum beitt kúfiski sem tekinn var inni í Patreksfirði, í Skersbug. Má enn sjá hauga af kúskel í Verinu frá þeim tíma. Bátar voru flestir smáir; tveggja, þriggja og fjögurramannaför. Þó var í Kollsvíkurveri stór vélbátur til flutninga; nefndur Fönix. Bar hann sama nafn og hið fornfræga hákarlaskip Kollsvíkinga, sem nú þá var nefndur Gamli Fönix. Tóft Fönixarnausts má enn sjá, fyrir miðju Kollsvíkurveri.
Búðir í Kollsvíkurveri báru ýmis nöfn; t.d. Norðurpóll, Napi, Klettabúð, Grundabúð, Meinþröng, Heimamannabúð, Jerúsalem, Jeríkó, Sódóma, Eva og Adam.
Við Norðari enda Norðari kletta rennur lækur til sjávar til sjávar. Sameinar hann nokkrar lindir í Kollsvíkurtúni og bæjarlækinn í Kollsvík. Nefnist hann Breiðilækur þarna við sjóinn. Norðan Breiðalækjar rís dökkur og áberandi klettur upp úr sandrifinu. Heitir hann Þórðarklettur. Framundan honum eru sker nokkuð há og breið og heita Þórðarsker. Nokkru norðan við Þórðarsker rennur Steingrímslækur til sjávar. Sunnanvert í holtinu milli Breiðalækjar og Steingrímslækjar eru áberandi grjótgarðar þvers og kruss. Sumir eru einhlaðnir og á þeim var fiskurinn hertur. Aðrir eru tvíhlaðnir; svonefndir hrýgjugarðar, en á þá var fiskinum safnað þegar hann hafði náð að skelja. Allur fiskur var þurrkaður fyrir tíma saltfiskverkunar, en einkum steinbítur og lúða á síðari tímum verstöðunnar. Náttmálaholt nefnist holtið norðan Steingrímslækjar, og á því stórir steinar; Náttmálasteinar, sem voru eyktamark frá Kollsvíkurbænum. Nokkru norðan við Steingrímslæk breytir fjaran um svip. Þar rísa u.þ.b. 10 m háir klettar upp úr sandrifinu. Heita þeir Melsendaklettar. Við Melsendakletta þrýtur undirlendi í Kollsvík og við taka brattar fjallshlíðar. Ofan Melsendakletta er brött hlíð, sandorpin og mjög gróðursnauð, og heitir Sandahlíð. Nær hún að norðan frá Sandagili og heim undir tún í Kollsvík. Engin lækur er jafnaðarlega í Sandagili en í vorleysingum rennur eftir því leysingavatn af Sanddal ofan fjallbrúnar. Hlein nokkur gengur í sjó fram sunnan Sandagils, heitir hún Gvendarhlein. Í lítilli sandvík sem er milli Gvendarhleinar og Melsendakletta er stundum nokkur trjáreki. Líklega er rekasæld þar hin mesta í Kollsvíkur og Láganúpslandi. Norðan Sandagils og Sanddals er fjallið Blakkur eða Blakknes. Rís það bratt úr sjó í norðvestur. Sunnan þess er Kollsvíkin en norðan þess er Patreksfjarðarflói. Líkt og flest önnur annes á þessum stöðum er Blakkurinn heflaðir að ofan af ísaldarjöklum. Að frátöldu dalnum Sanddal sem markar suðurmörk Blakksins, og Gjárdal sem markar austurmörk hans , er hann ógróinn að heita má uppá fjallinu sjálfu. Er þar víðast gróf jökulurð. Blakkurinn hét Straumnes fyrr á öldum, og líklega er núverandi nafn komið frá breskum togarasjómönnum. Af sjó séð er Blakkurinn mjög dökkur í samanburði við Núpinn með sinni lýsandi Sandahlíð.
En hverfum aftur til sjávar við Sandagil. Norðan þess byrja sjávarklettar misháir, er ná allt að landamerkjum Kollsvíkur á Hænuvíkurhlíðum. Ofan þeirra er mjög grösug hlíð upp undir efri kletta. Til skamms tíma var mikið fýlavarp í öllum klettum í Blakknum. Eins og áður hefur verið drepið á varðandi Breiðinn, hefur því varpi hrakað mjög. Eggjataka í Blakknum var mun meira nýtt en í Breiðnum, einkum vegna auðveldara aðgengis. Jeppaslóði var lagður af bílveginum á Kollsvíkurnúp norður á Blakk á sjötta áratug 20 aldar. Fjaran breytir mikið um svip við Sandagil. Norðan þess er oft lítinn sem engan sand að finna en þess í stað tekur við stórgrýtt fjara, mjög lík þeirri sem áður er lýst undir Breið og Hnífunum. Fjaran er þó fær sæmilega fótvissu fólki norður að Helluvogi sem er nokkuð norðarlega undir Blakknum. Ég vel þá leið að lýsa fyrst fjörunni og sjávarklettunum og örnefnum þar, og síðan hlíðinni og þeim örnefnum sem ég þekki í efri klettunum. Stuttan spöl norðan Sandagils er Gataklettur, klettahöfði sem gengur fram í fjöruna og eru í honum tvö göt, bæði manngeng. Haftið milli gatanna hefur mjög eyðst hin síðari ár vegna sjávarrofs og er alls ekki víst að kletturinn standi það af sér að klettahaftið rofni að fullu. Norðan Gatakletts hækka sjávarklettar allmikið en lækka fljótlega aftur þar sem klettaraninn Forvaði gengur fram í fjöruna. Ekki er hægt að komast fyrir Forvaða nema um hálffalinn sjó. Norðan Forvaða gerist fjaran stórgrýttari og erfiðari yfirferðar. Er þar á nokkrum stöðum mögulegt að komast upp í hlíðina, enda er það óumflýjanlegt nokkru norðar, þar sem sjávarklettarnir heita Bekkur og ganga fram í sjó á nokkuð breiðum kafla. Þar er fyrst komið að berggangi miklum, með litskrúðugu stuðlabergi. Hann er beint niður af stærstu gjánni í Blakknum; Strengbergsgjá, sem sker alla efri klettana. Á einum stað í Bekknum hefur brimið sorfið gat uppúr helli í klettunum, svo gengt er á steinbrú fyrir framan það. Hafaldan gengur inn í hellinn á flæðum, og í miklum vestansjó þrýstist hún af ógnarafli upp um gatið. Geta þá orðið sjávargos þarna undir Hryggjunum sem gefa hinum fræga Geysi ekkert eftir að mikilfengleik, og sjást langt að. Fyrir norðann Bekkinn er sérkennileg gjóta með gulum og rauðum millilögum í klettunum. Nefnist gjótan Pallanáma og munu hinir litríku steinar hennar hafa verið muldir út í fernisolíu og notað sem málning á báta í Kollsvík fyrr á tíð. Ekki er mér kunnugt um gæði eða endingu þeirrar málningar. Unnt er að tálga út úr þessu rauða bergi, en það molnar fljótt við þornun. Stuttan spöl norðan Pallanámu er hægt að komast aftur niður í fjöru. Þar norður af tekur við mjög breitt sker sem nær langt fram í fjöruna en er fremur lágt. Nefnist það Straumsker. Mest allt Straumsker fer í kaf á hverri flæði. Norðan Straumskers taka við djúpir vogar með háum hleinum á milli. Dýpstur og lengstur þeirra er Helluvogur sem endar í miklum sjávarhelli sem gengur innundir sjávarklettana. Tilkomumikið er að sitja upp í hlíðinni ofan Helluvogar í miklu vestanbrimi og hlusta á gnýinn og finna titringinn er brimaldan skellur inn í hellinn og myndar þar lofttappa sem sprengir báruna til baka á móti þeirri næstu. Við Blakknes hefur ölduhæð mælst hvað hæðst við Ísland, þannig að vetrarbrim verður oft tignarlegt þessum slóðum. Fyrir kemur, en mjög sjaldgæft, að Helluvogur fyllist af sandi þannig að gengt sé áfram norður fjöruna. Nokkurn spöl norðan við Helluvog er vogur allstór sem heitir Tjónsvík. Líklega dregur hún nafn sitt af sjóslysi. Nafn víkurinnar er þó eldra en sjóslys sem þarna varð 2. febrúar 1921. Þá strandaði breski togarinn Croupier frá Grimsby á Blakknesboða, sem þarna er um 200 metra frá landi. Suðvestan hæglætisveður var, en dimmt kafaldskóf. Heimamenn í Kollsvík brugðu þegar við og vildu reyna björgun. Ófært var á sjó vegna brims, og hlíðin reyndist einnig ófær vegna snjóa og ísingar. Næsta dag tókst fjölmennum flokki manna að komast norðuryfir Tjónsvík og sigu nokkrir 25 faðma niður í Tjónsvík. Þarna var ömurleg aðkoma; lík skipverja dreifð um fjöruna og ljóst að áhöfnin hafði öll farist; 12 manns. Líkunum var safnað saman í skyndi og búið að þeim í helli, norðanvert í víkinni. Ætlunin var að sækja þau næsta færan dag, en ekki viðraði til þess fyrr en á útmánuðum. Þau voru þá dregin fram í bát á vaðdrætti og flutt á Patreksfjörð. Togarinn brotnaði strax á skerinu, og í dag sést ekkert eftir af honum nema gufuketillinn; örlar á hann frammi á Tjónsvíkinni á stærstu fjörum. Munu Kollsvíkingar hafa lagt sig í mikla hættu við þessar björgunaraðgerðir, þar sem fara þurfti norður Hryggi en svo nefnist suðvesturhlíð Blakksins og er hún sæbrött mjög og torfær í hálku um hávetur. Norðanvert í Tjónsvík opnast hellir allmikill. Norðari endi hans opnast svo í miðjum sjávarklettum framan í Syðstu-Trumbu sem er voldugur klettahryggur sem jafnframt er ysta tota Blakksins. Mjög er hlíðin sæbrött í Trumbunum en þær eru þrjár: Syðsta-Trumba, Miðtrumba og Norðastatrumba. Nöfn þeirra eru e.t.v.t orðin til vegna þess slagverks sem sífellt brim myndar á þeim voldugu hleinum og djúpu vogum sem einkenna fjöruna, sem er ófær á þessum slóðum. Hugsanlega er þó nafnið skylt orðinu „trýni“, en trýnið á hákarli nefnist trumba. Komast má úr Hryggjunum norður Trumbur og Tjónsvík með því að fara um mjóan gang í svonefndum Takakletti, eins og síðar er vikið að.
En víkjum nú aftur heim að Sandagili og fylgjum nú hlíðinni norður Blakkinn. Því má skjóta inn í að Blakkurinn er oftast nefndur með greini svo sem til að undirstrika að í veröldinni er aðeins til þessi eini Blakkur. Eins og áður er getið heitir öll suðvesturhlíð Blakksins, Hryggir. Hryggirnir skiptast síðan í fleiri staði með sínum sérstöku örnefnum sem hér verða talin. Norðan Sandagils eru Völlur; grasigróin hlíð frá efri klettum niður á sjávarkletta, þar sem heita Vallabakkar. Nafnið Völlur er í þessu tilviki í kvenkyni fleirtölu. Ofan við Völlurnar er Vallagjá þar sem auðveldlega má komast upp á Blakk, sá eini staður sem slíkt er hægt norðan Sandagils. Norður úr Völlunum er Vallafles. Algengt var að sauðfé hrapaði úr Vallaflesi. Vallaskúti nefnist lítill hellir efst og heimast í Völlunum. Þar leituðu kindur oft skjóls, enda er hann mjög smækkaður af taði. Vallaskriðuhryggur er nyrst í Völlunum. Norðan við þær taka við Smáhryggir, en heimastur þeirra er Brattihryggur; þar sem sjávarklettarnir eru hæstir. Nafnið Smáhryggir lýsir vel landslaginu þar sem skiptast á klettanef og grösugar lautir. Gjá ofan Smáhryggja heitir Nafargjá. Smáhryggir enda í áðurnefndri Strengbergsgjá, sem er tilkomumesta gjáin í sunnanverðum Blakknum. Dregur hún nafn sitt af tvöföldum lóðréttum berggangi sem nær allt frá brún og niður í hlíð og heitir Strengberg. Einnig sést vel í þennan berggang í fjörunni sunnan við Bekkinn og eru í honum sérkennilegar járnútfellingar. Nyrstur Smáhryggja er Stórihryggur. Framundan honum er Stórahryggshlein í sjó fram, en þar gat orðið flæðihætta fyrir sauðfé. Norðan Strengbergsgjár er Klofahryggur, sem skiptist í tvennt neðantil. Allnokkurn spöl norðan Strengbergsgjár gerast Hryggirnir brattir mjög. Heita þar Höfðar, enda eru þar svipmiklir bergstandar í hlíðinni. Úr Höfðum er stutt í Takaklett en það er hilla þar sem gengt er norður í Trumbur og áfram inn á Hænuvíkurhlíðar. Hilla þessi er um 2 m. breið þar sem mjóst er og lætur nærri að efri og neðri klettar nái saman þarna. Nafnið Takaklettur er dregið af því að þessum slóðum voru tæpar og hættulegar leiðir í klettunum oft kallaðar Tök. Eftir að komið er norður fyrir Takaklett er stutt í Syðstutrumbu sem áður er getið. Þrátt fyrir að leiðin fyrir Takaklett sé brött og tæp og einungis á færi fólks sem ekki þjáist af lofthræðslu, var að honum nokkurt hagræði í smalamennskum. Frá ómunatíð höfðu bændur í Kollsvík og Hænuvík með sér samkomulag með að girða fyrir sauðfé undir Takakletti. Þannig afmörkuðust afréttarlönd Hænvíkinga á Hænuvíkurhlíðum og Kollsvíkinga í Hryggjum. Þó leiðin sunnanfrá að ganginum í Takakletti sé nokkuð augljós, gegnir öðru máli í hina áttina. Vafist getur fyrir ókunnugum að rata á hana norðanfrá; sér í lagi eftir að umferð fjár minnkaði. Innantil í sjávarklettum Miðtrumbu er Trumbufles, en í það var stundum farið til múkkaeggja. Var þá báti lagt við hlein undir Þyrsklingahrygg; gengið uppá Trumbuna og einn fór niður í lás meðan annar sat að fyrir ofan.
Ýmis örnefni eru í efri klettum i Blakknum, mörg tengd eggjatöku eða nöfn á stöðum þar sem sauðfé fór í svelti og sjálfheldu. Má þar nefna Jónshöfða, Árnastaði og Sighvatsslóð sem er allstórt fles norðast í Blakknum í miðjum efri klettum. Norðan við Sighvatsslóð og upp af Trumbunum er annað allstórt fles sem heita Flár í kvenkyni fleirtölu. Sauðfé kemst upp og niður úr Flám tæpa götu enda töldust Flárnar mikið vanhaldapláss. Eftir að komið er norður fyrir Norðustu Trumbu sveigir hlíðin til suðausturs inn með Patreksfirði. Þar er Þysklingahryggur, geysistór og breiður hryggur sem nær frá efri klettum og niður á sjávarkletta, sem eru lágir á þessum slóðum. Það var mál manna fyrr á tíð að aldrei yrði jarðlaust, þ.e. tæki fyrir beit, fyrir útigöngufé í Þysklingahrygg. Sama hversu snjólög væru mikil þá væri alltaf einhversstaðar beit á honum. Raunar er sauðfjárbeit báðum megin í Blakknum afskaplega góð þó vanhöld hafi alltaf verið töluverð vegna brattans. Stuttan spöl innan við Þysklingahrygg er Sölmundargjá en þar eru landamerki Hænuvíkur og Kollsvíkur. Í Sölmundargjá eru háir berggangar, líklega sömu ættar og strengbergið í Strengbergsgjá sunnanvert í Blakknum. Um nafn Sölmundargjár er þjóðsaga að strákur að nafni Sölmundur hafi naumlega sloppið frá fransmönnum sem hugðust nota hann í hákarlabeitu. Á hann að hafa komist í land úr skútu og klifið Sölmundargjá á brún og borgið þar með lífi sínu. Ofan brúnar kring um Sölmundargjá er brött brekka upp á hábungu Blakksins. Nefnist brekka þessi Kjammi. Í fjörunni milli Sölmundargjár og Þysklingjahryggjar er vogur sem heitir Bellubás eftir færeyskri skútu sem þar strandaði seint á 19. Öld. Hafði hún legið fyrir stjóra í miklu norðanverði á Aðalvík á Hornströndum í norðan stórviðri, en slitnað upp og rekið stjórnlaust suður með Vestfjörðum uns hún strandaði þarna. Einingis eitt lík mun hafa fundist í flakinu og hafði sá maður bundið sig fastann við siglutréð.
Í lok þessa leiðangurs um fjöruslóðir í Kollsvík og nágrenni skulum við fylgja efri klettum í Blakknum, og e.t.v. litast aðeins um á brúninni. Blakkurinn er rösklega 280 m hár þar sem hann er hæstur fremst; þar sem heitir Nibba. Þar skammt frá brún er landmælingavarða, en spöl frá henni er lítt áberandi þúst; Kollsleiði. Munnmæli herma að þar sé heygður Kollur landnámsmaður. Sagt var að vopn sín og verðmæti hafi hann fólgið undir Biskupsþúfu í Kollsvíkurtúni, en hún er í sjónlínu frá leiðinu, og lagt svo á að illt skyldi af hljótast ef við þúfunni yrði hreyft. Stutt sunnan Nibbu skerst Nibbugjá inn í klettana ofanverða. Sighvatsstóð nefnist mikið skriðuflæmi í miðjum klettum sunnan Nibbugjár. Dregur það nafn af því að samnefndur bóndi í Kollsvík hafi slakað þangað niður sauði til fitubeitar. Mikið múkkavarp var í Sighvatsstóðum til skamms tíma, eins og víðast annarsstaðar í Blakknum, en langt sig þangað niður. Því var það ekki fyrr en á 9. áratug síðustu aldar að farið var í stóðin á seinni tíð. Valdimar Össurarson fór þá í lás niður Nibbugjótu og í öðrum löngum lás niður í Stóðin, nokkru sunnar. Eftir það voru Stóðin nýtt í nokkur ár og egg tekin upp með vaðdrætti, beint á brún. Ofanvið Stóðin heimanverð er Sveltisgangur í brúninni; neðan við Svelti, þar sem fé komst stundum í sjálfheldu. Um Sveltisgang mátti áðurfyrr ganga eftir löngum og tæpum gangi suðurávið, til að komast í annað stórt eggjapláss; Mávakamba. Nú er sú leið lokuð vegna hruns. Einnig var sigið af brún, loftsig beint ofaná Höfða sem er ofan Mávakambanna. Úr þessum flæmum var tekið nokkuð magn af eggjum fyrrum, en víða þurfti að lása sig á milli ganga. Heimantil við Strengbergsgjá má á tveimur stöðum fara í lásum niður í sæmileg eggpláss sem nefnast Norðari og Heimari Árnastaðir. Þar heimanvið er Jónshöfði niðri í klettum, en komast má á hann í lás. Þar mátti taka nokkuð af eggjum, auk þess sem nyrst mátti síga niður á annan höfða með þéttu varpi. Heimanvið Jónshöfða var strjálla varp, enda klettarnir betur grónir og þurrari; en múkkanum líkar best að vera á hæfilega rökum og gróðursnauðum stöllum. Þó var fékkst nokkuð af eggjum við svonefnda Gjá, niðurundan vegslóðanum á Blakknum. Heimanvið hana er Vallargjá, sem áður er nefnd, og þar endar allt múkkavarp.
Hér hefur verið minnst lítillega á múkkaeggjatekju í Blakknum, en hún var allnokkur frá því að múkka tók að fjölga í upphafi togaraútgerðar, og þar til honum fækkaði mjög með fullvinnslu afla undir lok 20. aldar. Múkkinn var eini fuglinn sem nytjaður var með bjargferðum í Kollsvíkur- og Láganúpslöndum. Þar varp enginn svartfugl ef frá er talið lítilsháttar lundavarp í Hnífunum. Hinsvegar fóru Kollsvíkingar til eggja í Látrabjarg, en það er önnur saga. Múkkinn var eingöngu nytjaður til eggjatöku á seinni tímum, en fyrrum mun fýlsungi nokkuð hafa verið tekinn til átu.
Um Vallargjá má ganga úr Völlunum upp á Blakk, og er hún neðst á hinum mikla Sanddal. Reyndar skiptist Sanddalur í Efri- og Neðri-Sanddal, um urðarbrún nokkra. Milli Sanddals og Gjárdals er Gjárdalsskarð. Við það stendur Grynnstasundsvarða, en við hana var miðað er siglt var um Grynnstasund inn á Kollsvíkurver. Grímssonalág nefnist laut stuttu ofan Vallargjár, en ekki er vitað um nafngjafana. Unnt er að komast af Sanddal niður í Sandahlíð um svonefndar Skekkingar, en það eru klettaslefrur.
Lýk ég hér með þessum hugleiðingum um fjöruna í Kollsvík og nágrenni.
Einar T. Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) var fæddur Láganúpi í Kollsvík og ólst þar upp. Stundaði hann búskap og sjómennsku með foreldrum sínum og systkinum, og var öflugur drifkraftur í því mikla félagslífi sem þá var á svæðinu. Hann var um skeið kaupfélagsstjóri á Gjögrum og vann eftir það við kaupfélög víða um land. Síðast starfaði hann lengi við Kaupfélag Borgnesinga og bjó í Borgarnesi ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Kollsvík, og dóttur, Maríu Jónu Einarsdóttur.
Samantekt þessi um fugla í Kollsvík er skrifuð af Einari 1938. Fannst hún í stílabók í gömlum skjölum á háalofti Stekkjarmels. Í stílabókinni er einnig að finna hugvekju Einars; „Vakandi æska“. Einar og bræður hans voru miklir áhugamenn um náttúru svæðisins. Fuglamerkingar voru stundaðar í Kollsvík í samstarfi við Náttúrufræðistofnunina framyfir 1970. Skrá Einars lýsir næmni og eftirtekt náttúruunnanda og vísindamanns sem bjó í þessum atorkusama sveitamanni .
Tegundirnar eru teknar eftir sömu röð og í skrá yfir slenska fugla eftir Magnús Björnsson (Nfr. 9-10.tbl 3.árg. 1933); sömuleiðis latnesk nöfn.
- Hrafn (Corvus corax tibetanus). Verpir í klettum og hömrum rétt fyrir sumarmál. Fer fjölgandi hér og gerir talsverðan skaða á fýlavarpi; virðist lifa nær eingöngu á eggjum meðan þau eru að fá.
- Bláhrafn (Corvus fugilegus frugilegus). Haustið 1932 sáust hér nokkrir litlir hrafnar. Einn var skotinn; var hann á stærð við ritu og bláleitur á litinn. Þessir hrafnar hurfu stuttu síðar og vitum við ekki til þess að hann hafi sést hér fyrr eða síðar. Líklegt þótti okkur að þetta væri bláhrafn, eða e.t.v. færeyjahrafn (Corvus cornix cornix).
- Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis insulae). Algengur staðfugl; verpir hér víða í þúfum og skorningum.
- Maríuerla (Motacilla alba alba). Algengur farfugl. Kemur hingað seinni hluta apríl. Verpir oftast í garðveggjum eða húsveggjum, og stundum inni í útihúsum. Virðist mjög trygglynd við varpstöðvar og verpir í sama hreiður ár eftir ár. d. urpu maríuerlur hér í útihúsi um fimmtán ár stöðugt, og síðustu árin tvenn hjón. En loks eyðilagði kötturinn hreiðrið og hafa þau ekki orpið þar síðan. Ekki verður með vissu sagt hvort þetta hafa verið sömu fuglar, en munu annars hafa verið afkomendur þeirra fyrstu.
- Þúfutittlingur (Anthus pratensis). Algengur farfugl. Kemur hingað um miðjan apríl eða fyrr. Verpir víða um hagana; oftast í þúfum eða í holum undir steinum.
- Skógarþröstur (Turdus musicus coburni). Algengur á vori og hausti, en verpir hér ekki, svo vitað sé. Kemur oft snemma í apríl eða síðari hluta mars. Sést hér oft langt fram á vetur.
- Gráþröstur (Turdus pilaris). Á síðastliðnum vetri (1937) sáust hér nokkrir óþekktir fuglar. Einn þessara fugla var skotinn og sendur Dr. Finni Guðmundssyni; reyndist það vera gráþröstur. Vera má að þessi fugl hafi komið hér áður, þó að við vitum ekki til þess, því algengt er að fuglar sjáist sem ekki þekkjast.
- Svartþröstur (Turdus merula merula). Er all algengur farandfugl hér að vetrarlagi, einkum á síðustu árum. Seinni hluta vetrar hverfur hann alltaf. Einn hefur náðst hér inni í húsi og var sett á hann merki náttúrugripasafnsins í Reykjavík.
- Steindepill (Oenanthe oenanthe schoeleri). Algengur farfugl. Kemur seint í apríl. Verpur á svipuðum stöðum og maríuerlan, en er þó styggari og ekki eins nærgöngull manninum og hún. Heldur ár eftir ár tryggð við sama varpstað.
- Músarrindill (Troglodytes trolodytes islandicus). Algengur staðfugl. Heldur sig að vetrinum meðfram sjónum. Aðeins einusinni höfum við fundið rindilshreiður. Það mun hafa verið um miðjan júlí; við vorum á ferð undir sjávarklettum og sáum við þá músarrindil koma, eins og út úr klettinum. Svo kom annar, og hver af öðrum; töldum við 7 sem út komu. Við nánari athugun sáum við þarna mjög haglega gert hreiður í svolítilli holu í berginu. Var það gert úr stráum undir og yfir, og aðeins dyr hæfilegar fyrir fuglinn til að fljúga inn um . Hvort þetta hefur verið öll fjölskyldan, eða aðeins ungarnir, getum við ekki sagt. Hið fyrra er þó líklegra, því enga fugla sáum við þarna nærri, og allir fuglarnir voru á stærð sem fullorðnir.
- Ugla. fyrir nokkrum árum náðist hér fugl að vetri til, sem allir er sáu töldu vera uglu. Hefur þetta eflaust verið einhver af þeim uglutegundum sem flækst hafa hingað til lands, þó enginn þekkti skil á hvaða tegund það væri.
- Haförn (Haliaetus albicilla). Mjög sjaldgæf; hefur ekki sést hér fyrr en á síðustu árum, einstöku sinnum; einn fugl á flakki hér um. Verpir hvergi hér í hreppnum svo vitað sé. Á síðasta ári sást hér enginn fugl.
- Fálki (Falco rusticolus islandus). Algengur staðfugl. Fer ört fjölgandi á síðustu árum. Verpir hér víða í hömrum.
- Smyrill (Falco columbarius subaesalon). Allalgengur að sumri; sjaldgæfari að vetrum. Verpir hér eflaust, þó hreiður hans hafi ekki fundist, því dæmi eru til að köttur hafi drepið smyrilsunga.
- Dílaskarfur (Phalacrocorax carbo carbo). Algengur staðfugl hér; verpur víða í holum í sjávarhömrum, og er bústaður hans auðþekktur á dritinu sem gengur eins og hvítur foss niður frá bæli hans.
- Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis aristotelis). Hefur verið skotinn hér einu sinni svo við vitum, en verpir hér varla.
- Súla (Sula bassana bassana). Algeng fyrir ströndinni að sumarlagi, en sjaldgæf að vetri til. Verpur hér ekki.
- Stóra grágæs (Anser anser). Sést hér oft að vor- og haustlagi sem farandfugl. Verpir hér ekki.
- Helsingi (Branta leucopsis). Allalgengur sem farandfugl að vor- og haustlagi, eins og grágæsin.
- Álft (Cygnus cygnus islandicus)
Hér endar skrá Einars, en ætla má að hann hafi fyrirhugað að bæta meiru við. Álftin er t.d. algeng í Kollsvík, og eftir er að ræða aðra fugla s.s. endur og múkka, en ekki síst máfana. Máfar voru iðulega skotnir á flugi í Kollsvík í sérstöku byrgi við sjóinn, og var Einar áhugasamastur í því,þó bræður hans gæfu honum lítið eftir. Máfurinn var hafður til matar í Kollsvík, enda er unginn herramannsmatur. Varp múkka (fýls) var vaxandi í klettum kringum Kollsvík á þessum árum, og voru egg hans mikið nýtt til matar. Áhugavert hefði verið að heyra frásögn Einars af þessum fuglum, ekki síður en þeim sem skráðir eru. Eftirfarandi færslur er þó að finna aftar í bók hans; líklega vísi að dagbók um fugla:
Úr fuglalífinu 1942
- febr. Sáum við örn einn á flugi yfir Hænuvíkurhálsi; hafði sést þá um nokkra undanfarna daga í Hænuvík.
11.-14. mars Sást vepja hér í Kollsvík.
- s.m. Sá Ingvar svartþröst á Hvallátrum.
Valdimar Össurarson tók efnið saman, samkvæmt heimildum í örnefnaskrám og fleiru.
Vatnadalur (90). Mikill dalur milli Kollsvíkur og Breiðs. Nær frá Kóngshæð til sjávar í Vatnadalsbót, eða meira en 6 km vegalengd. Í honum eru nokkur vötn; stærst þeirra Stóravatn og Litlavatn, og eftir honum endilöngum rennur Vatnadalsá, sem þó er oft þurr. Í Vatnadal er góð sauðfjárbeit, og þar er skjólsælt. Neðst eru grösugir Húsabakkar og Flatir, upp að aurlendi í Strympuormi og Breiðsholti, en einnig heiman Litlavatns. Fram allan dalinn eru síðan grastóar; lyngi- og mosavaxnar lautir og mildur hlíðarslakki til norðurs; meðan Breiðurinn gnæfir að sunnanverðu með lítt slitnu hamrabelti og bröttum grjótskriðum. Fremst í dalbotninum er lágvaxið kjarr af víði og fjalldrapa í Víðilækjunum. Eflaust hefur það gróðurfar náð lengra niður um dalinn fyrr á tíð; fram á Hnífa og jafnvel niður um Kollsvíkina. Löng búseta og útgerð í Kollsvíkinni hefur gengið nærri þessu gróðurfari sem, ásamt rekaviði, taði, þara og mó, hefur verið lífgjafi íbúanna gegnum aldirnar.
Litlavatn (91). Neðsta vatnið í Vatnadal; ofan Breiðsholts; milli Breiðs og Orma. Litlavatn er um 300m langt og 240m breitt og dýpi er mest rúmir 2m. Mikið er þar af hornsíli. Gerð var tilraun með að sleppa þar bleikju eftir 1970 og lifði hún þar nokkur ár og dafnaði vel. Hún fjölgaði sér þó ekki og dó að lokum út. Álft og himbrimi hafa iðulega orpið í tanganum við vatnið. Um miðja 20. öld var grjót dregið á ís út á vatnið og þar gerður varphólmi, sem þó gegndi aldrei því hlutverki. Lagnaðarís hefur síðan séð um að má hann út. Í grónum hvammi heiman við vatnið gerði Páll Guðbjartsson tilraun með trjárækt eftir miðja 20. öld. Þar í greri vel í lækjum og skjóli, en fé komst í girðinguna og batt enda á þá tilraun. Víða er gott berjaland utan við Litlavatn.
Ormatjarnir Heimri- og Ytri (93 og 94). Tvær litlar tjarnir fremst á Ormum; rétt framan við hestaveginn til Breiðuvíkur; heiman við Pálslaut. Ytri tjörnin þornar iðulega í þurrkum, en vatn helst jafnan í þeirri heimari.
Langisjór (86). Tjörn ofanvert á Strympum, löng, mjó, grunn og vaxin broki (stör). Stutt neðan hestavegarins til Breiðuvíkur. „Ef heyskapur gekk vel var farið í útslægjur sem kallað var. Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó. einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal. Síðast var farið í útslægju um 1940. Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum. Þetta var harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“ (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).
Sandslág (95). Allmikil lægð sunnan Axlarhjalla en heiman Vatnadals; austan Orma og Flata en vestan Litlafells. Í lægðinni er Sandslágarvatn og heim úr henni heitir Sandslágarkjaftur.
Sandslágarvatn (96). Vatn í Sandslág; um 100m langt og 70m breitt, líklega um 2m að dýpt þar sem mest er. Í því eru hornsíli. Tilraun til að sleppa í það silungi báru ekki árangur. Vinsælt var hjá börnum að fara út að Sandslágarvatni til að sigla litlum bátum. „Í laut vestan við Litlafellið er Sandslágarvatn. Það er ekki stórt en það var eitt uppáhalds leiksvæði stráka í Kollsvík með báta og skútur; láta skipin sigla beitivind eða lensa með fast stýri yfir vatnið. Stundum var heppnin með, bátum hvolfdi og farmur losnaði og þá flaut skipið upp og rak að landi. Oft var gerð varúðarráðstöfun ef það brygðist. Þá voru sett upp mið sem hægt var að átta sig á hvar skipið lægi. Þá var að bíða þess að glær ís kæmi á vatnið: Ef heppnin var með var hægt að krækja skipið upp“ (IG; Sagt til vegar).
Gormur (107). Lítil tjörn, í krók milli Litlafells (103) og Stórafells (109). Tjörnin er grunn, með moldarbotni og í henni vex brok.
Kjóavötn (108). Tvö stöðuvötn; sunnan Litlafells en vestan Stórafells. Vestara vatnið stendur lægra og er mun stærra, eða 160m langt og um 60m breitt. Minna vatnið stendur ofar og er mun minna; um 40m á mestu lengd og breidd. Í því vex töluvert af broki, sem áðurfyrri var slegið. Þriðja vatnið er þarna reyndar einnig; nær Litlafelli, en það er yfirleitt þurrt nema í leysingum; einungis djúp skál í gróna grasflötina.
Smávötn (110). Klasi lítilla tjarna í Vatnadal; milli Litlavatns og Stóravatns; framan Vörðubrekku. Oftast eru þessar tjarnir þurrar, t.d. í þurrkatíð á sumrum, en í leysingum fyllast þær af rennsli Vatnadalsár.
Stóravatn (112). Stærsta vatnið í Vatnadal; fyrir framan Smávötn og Stórahnjót. Um 550m langt og 230m breitt; mesta dýpt ca 4m. Neðantil í því ganga fram tangar og í mikilli þurrkatíð lækkar svo í því að þar verður sérstakur pollur. Í Stóravatn var sleppt Þingvallableikju líkl. eftir 1970 og dafnaði hún þar mjög vel í mörg ár. Hún var lítllega veidd í net og var þá stundum svo sílspikuð að fellingar voru í hnakkanum, líkt og á vænum hrút. En silungurinn virtist ekki fjölga sér, auk þess sem eitthvað tapaðist niður ána í leysingum, og að lokum hætti hann að veiðast.“Við settum einu sinni nokkur hundruð seyði af bleykju í vatnið. Hún óx mjög vel en klak virtist ekki takast. Aldrei tók hún þó á stöng, en síðustu fiskarnir sem við veiddum í net voru 9,5 pund, þá 8 ára“ (IG; Sagt til vegar). Mikið er af hornsílum í Stóravatni, líkt og öðrum stöðuvötnum í Láganúpslandi.
Startjarnir (117). Nokkrar litlar tjarnir á Startjarnareyrum; fremst í Vatnadal. Allar eru frekar grunnar og sumar þorna upp í þurrkum, en ekki allar. Þarna er mikið af broki sem stundum var slegið áðurfyrri. Í Startjörnum hefur stundum verið töluvert varp hettumáfs. „Ef heyskapur gekk vel var farið í útslægjur sem kallað var. Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó. einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal. Síðast var farið í útslægju um 1940. Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum. Þetta var harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“ (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).
Breiðsvatn (13l). Stöðuvatn uppi á Breið; nokkru ofan við Grenjalág en í Láganúpslandi; í 200 metra hæð. Það er mest 260m langt og 140m breitt. Þarna virðist vera uppspretta á fjallinu, því Breiðsvatn þornar aldrei upp.
Hér birtist fyrsta lýsing á landmótun sem nefnd er frostgígar. Nafnið vísar annarsvegar til eins áhrifaþáttarins og hinsvegar til líkinda við eldgos. Myndunarferlið er enn í gangi og í nágrenni Kollsvíkur má sjá mörg dæmi þess. Valdimar Össurarson frá Láganúpi hefur fylgst með þessu ferli og borið undir ýmsa sérfræðinga; innanlands sem utan. Enginn þeirra kannast við að það hafi verið rannsakað en flestir telja fulla þörf á því.
Ítarlegri lýsingu má nálgast í pdf hér
Hér verður lýst fyrirbærum í landslagi sem eru nokkuð algeng á mínum heimaslóðum, Kollsvík í hinum forna Rauðasandshreppi. Ég kýs að nefna þetta hér „frostgíga“, en í máli heimamanna hafa þau gengið undir ýmsum nöfnum, s.s. „pyttir“, „augu“ eða „þurr vötn“; enda hefur myndunarferli þeirra ekki verið lýst til þessa, svo vitað sé. Ég álít að hér sé um að ræða ákveðið ferli frostmyndunar sem vert er að lýsa nánar. Ég hef ekki séð þessu lýst áður, og hef þó gluggað víða sem áhugamaður um jarðfræði og jarðsögu. Ég hef innt eftir áliti margra jarðfræðinga á þessu fyrirbæri; hvort þessar kenningar standist og sé svo; hvort þetta sé útbreitt fyrirbæri hér á Íslandi eða annarsstaðar. Svo virðist sem þessu hafi ekki verið gefinn neinn sérstakur gaumur hér, og jafnvel okkar færustu sérfræðingar á sviði jarðvegsfræði hafa ekki getað veitt mér mikið ítarlegri upplýsingar en ég hef sjálfur aflað. Niðurstaða mín er því sú að setja fram tilgátu um ferlið, en fyrst nokkuð um staðhætti. ( Mynd: frostgígur í Kjóavötnum).
1.1. Staðarlýsing
Kollsvík er hin nyrsta af svonefndum Útvíkum, sem eru þrjár víkur, yst á skaganum milli Breiðafjarðar og Patreksfjarðar. Blakknes skilur Kollsvík frá Patreksfirði en að sunnanverðu skilur múlinn Breiður hana frá Breiðavík. Frá fornu fari hafa í Kollsvík verið tvær jarðir; Kollsvík og Láganúpur, en fjölmörg smærri býli hafa byggst út úr þeim um tíma. Þarna var um margra alda skeið ein stærsta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum og uppúr aldamótum 1900 var þar nær 100 manna byggð, auk vermanna. Búskapur hefur ekki verið í Kollsvík um nokkurra ára skeið, en þangað sækir sívaxandi fjöldi ferðafólks að sumrum. Heimamenn halda tryggð við staðinn og sækja margir í Kollsvík árlega, enda er Kollsvíkurætt orðin fjölmenn hérlendis og í flestum heimsálfum. Heimamenn hafa sett upp fræðsluskilti, lagt gönguleiðir; unnið að ýmiskonar heimildasöfnun og verið er að setja upp kynningar- og átthagasíðuna kollsvik.is, með margháttuðum fróðleik. Hugleiðingar mínar varðandi frostgíga eru nú fyrst festar á blað sem liður í þessari fróðleikssöfnun, en kenningin hefur verið að veltast í mínum huga um allnokkurn tíma.
Kollsvík er, líkt og hinar Útvíkurnar, með allmiklu láglendi sem skiptist í tún, mýrarflæmi, holt og harðbala, en í fjöru eru mikil skeljasandsflæmi og hefur sandfok stundum gengið nærri Láganúpsjörðinni. Kringum víkina eru hálsar og hjallar með daldrögum, lautum, fellum og allmörgum litlum stöðuvötnum. Sunnanvið vikina, norðan Breiðs, gengur niður allmikill dalur niður; Vatnadalur, en Keldeyradalur, Hvolf og Hafnardalir að austanverðu. Ofanvið láglendið er ekki samfelld gróðurþekja þó grösugir dalir og lautir séu inná milli grýttra hæða.
Landslag á þessum slóðum er mótað af ísaldarjökli sem hefur heflað og skorið sig niður í stafla brágýtislaga. Firðir og víkur sýna skriðstefnu jökulsins, sem í megindráttum hefur verið til norðvesturs. Hæðir og dalir sýna þó frávik frá meginstefnunni, e.t.v. vegna mismunandi fyrirstöðu jarðlaga eða annars. Landslag er því nokkuð fjölbreytt á þessum slóðum.
Pyttir í landslagi. Víða hagar svo til að skálar eru í landslaginu og í sumum þeirra sitja uppi lítil stöðuvötn, eins og áður sagði. Í sumum þessara skála er þó ekki stöðuvatn, en í botni skálarinnar; nákvæmlega þar sem lægst er, er djúpur pyttur. Slíka pytti má sjá t.d. í Kjóavötnum; í Keldeyrardal; í Hvolfum; í Smávötnum og líklega mun víðar. Engu líkara er en þar hafi verið vatn sem þurrt er að sumarlagi. Ekki er því að undra að menn hafi slegið því föstu að pyttirnir væru myndaðir á sama hátt og önnur vötn. Pyttirnir eru þó oft þurrir að sumarlagi, sem bendir til að dýpt þeirra nái ekki niðurfyrir jarðvatnsborð; að botn þeirra sé of óþéttur til að halda vatni og að þeir hafi ekki nægt innrennsli til að vega á móti uppgufun og leka.
Við nánari skoðun kemur í ljós nokkur munur á lagi pyttanna og vatnanna. Meðan vötnin eru að jafnaði með aflíðandi bökkum ofan af jaðarurð sinni eða bakka, niður á dýpsta punkt, eru pyttirnir flestir með snarbröttum bökkum og tiltölulega flötum botni. Þessi munur hefur valdið mér nokkrum heilabrotum. Hér á eftir munu þessir pyttir verða nefndir frostgígar, og set ég hér fram mína kenningu um myndun þeirra. Fyrir henni þykir mér vera allmiklar sannanir, eins og sýnt verður framá með mælingum og myndum. Sé þessi kenning röng væri full þörf á að skýra þessi fyrirbæri með öðru móti. Sé hún rétt er þörf á að fræðimenn rannsaki fyrirbærið eftir viðurkenndum aðferðum og niðurstöðum sé komið á framfæri, þannig að skilningur á jarðsögu verði fyllri í þessum efnum.
- Tilgáta um myndun frostgíga
2.1. Skilyrði til myndunar frostgígs.
Til myndunar frostgígs þurfa eftirfarandi skilyrði að vera fyrir hendi. a) Grunn skál í landslaginu; laut, dalbotn eða annað; hér nefnt „gígdæld“ (sjá orðasafn). b) Ekki séu aðstæður til að djúpt stöðuvatn myndist. Gígdældin má því ekki ná verulega niðurfyrir jarðvatnsborð og botn má ekki vera of þéttur. c) Laus jarðvegur þarf að vera í botni gígdældar; t.d. leir/aur, gróðurþekja/mold, möl/hnullungssteinar o.fl; helst ekki mjög grunnt niður á fasta klöpp. d) Hæfilegur halli þarf að vera í gígdældinni, frá efsta borði uppistöðuvatns (frálagssvæðis), niður í lægsta punkt. Sýnist mér á myndunarstöðum, að þessi halli sé frá fáeinum gráðum upp í um 20°. e) Veðurfarsskilyrði séu umhleypingasöm að vorlagi; þar sem skiptast á kröftugar vorleysingar/rigningar og hörkufrost sem nægir til að tjarnir botnfrjósi. Þessu til viðbótar má benda á að gígdældir með frostgígum nærri Kollsvík hafa flestar afrennsli, eða yfirfall, þar sem vatn getur leitað burt ef mjög hækkar í þeim. Ekki er ljóst hvort slíkt er skilyrði gígmyndunar eða einungis tilviljun.
Ísaldarjökullinn virðist hafa skapað fjölmarga slíka kjörstaði í grennd við Kollsvík og á svæðinu í kring. Nokkra þeirra skoðaði ég nánar sumarið 2015, eins og síðar verður rakið. Þær athuganir renndu soðum undir mínar ályktanir og á tveimur stöðum fann ég skýr ummerki um nýmyndun frá vetrinum áður.
2.2. Myndunarferli frostgígs
Hér er gert ráð fyrir að staðhættir séu þeir sem hér er lýst að framan, og einkenna þá frostgíga sem sjáanlegir eru í Kollsvík og nágrenni. Grunn skál í landslaginu; hér nefnd gígdæld; gjarnan með dálítið afrennslissvæði í kringum sig; nær ekki mikið niðurfyrir jarðvatnsborð. Í botni er laus jarðvegur, t.d. vegna þess að safnast hefur ísaldarset og síðan gróðurjarðvegur í lautarbotninn.
Fyrsta stig; vatn í gígdældinni botnfrýs. Upphafið getur verið það að í gígdældinni safnast dálítill pollur, t.d. í hlýindakasti síðla vetrar. Næst þegar frystir, botnfrýs vatnið, og rúmlega það; þannig að nokkuð af jarðveginum undir verður samfrosta ísnum. Ekki þarf þó undanfarinn að vera bloti; heldur nægir að skafl vetrarins nái að umbreytast í ís á lautarbotninum, og frjósa fastur við sitt undirlag.
Annað stig; fleyting; ísferjur færa flökkuefni úr stað. Hlýinda-/rigningaskeið kemur, með miklu vatni; t.d. vorleysingar. Ísinn á frosnum pollinum fer í kaf og vatnsborð stendur fljótt allhátt yfir honum. Ísinn brotnar sundur og lyftist; flekarnir/ísferjurnar fljóta uppá yfirborðið og neðan í þeim situr flökkuefnið sem samfrosið var. Ríkjandi vindátt ber þennan ísferjuna til hliðar, þar til hún nemur við botn; uppi á bakkanum, sem hér er nefndur frálagssvæði. Hér þarf þó að hafa í huga að vatnsborð verður ekki alltaf nægilega hátt til að fleyta flökkuefni uppúr gígskálinni þó það losni frá botni; heldur kann það að setjast aftur einhversstaðar í gígnum.
Þriðja stig; vatnið sjatnar og ísinn bráðnar á frálagssvæði. Vatnavextir ná hámarki og vatnsborð fellur, m.a. vegna gleypni jarðvegsins. Á frálagssvæðinu fjarar vatnið undan ísferjunni og ísinn bráðnar. Flökkuefnið á ekki afturkvæmt á sinn stað, heldur situr eftir á strandstaðnum; á frálagssvæði eða gígbotni Eftir verður sár í botni gígdældarinnar.
Fjórða stig; endurtekning myndar frostgíg
Séu aðstæður til þess fallnar, mun þessi atburðarás endurtaka sig; ítrekað botnfrýs vatn í lautar-/gryfjubotninum; hækkað vatnsyfirborð í leysingum/stórrigningum fleytir ísferjum með sinn farm upp á frálagssvæðið, þar sem ísinn bráðnar. Við endurtekninguna er óhjákvæmilegt að gígurinn dýpki. Jarðvegsyfirborð frálagssvæðis ætti jafnframt að hækka sem því nemur, en þar sem mikið af flökkuefninu er mjög fíngert þá veðrast það burt með vindum og vatni, en það sem eftir situr veldur enn meiri hæðarmun lautarbotns og gígbotns. Jarðvegsþykknun á frálagssvæðinu verður að jafnaði mest þeim megin gígsins sem veit undan ríkjandi vindátt í vorhlýindum. Frostgígurinn sem myndast við ferlið er með flötum, ógrónum botni; bröttum bökkum; jafnan vatnslaus eða með mjög grunnu vatni að sumarlagi, nema e.t.v. í mestu rigningum. Botninn nær líklega ekki að þéttast þar sem fínasta efnið berst burt með ísferjum.
Augljóst er að dýpt gígsins getur ekki orðið meiri en sem nemur þykkt þess jarðvegs sem ísinn ræður við að fleyta uppúr gígbotninum. Þegar kemur niður á klöpp eða stórgrýti stöðvast myndunin. Gígmyndun getur heldur ekki orðið nema vatnsdýpi verði svo mikið í gígdæld að ísferjur nái að fljóta upp og til hliðar. Gangi myndunin óhindrað áfram verður gígurinn með einkennandi sléttum botni og bröttum hliðum, en þannig eru t.d. frostgígarnir í Kjóavötnum, Hvolfum, Smávötnum og Keldeyrardal.
- Athuganir á frostgígum í Kollsvík og nágrenni
3.1. Lögmannslág; nýmyndun frostgígs
Fyrir nokkurm árum mátti sjá nýmyndun frostgígs í svonefndri Lögmannslág í Grundatúni, neðan Láganúps. Lögmannslágin var þurr stór laut þegar ég man fyrst eftir henni eftir 1960; nefnd svo vegna þess að þar gengu vermenn í Láganúpsveri örna sinna forðum (fluttu lögmann). Lágin var þurr til skamms tíma, en þó kann að hafa verið þar vatn fyrrum; áður en framræsla hófst í mýrunum ofan hennar. Faðir minn lét grafa skurð, um 1970, til að veita svonefndum Kaldabrunnslæk í Grundamýri, sem er sunnan Lögmannslágar. Var ætlunin að gera þar tjörn með æðarvarpi, en tófa og fleira kom í veg fyrir það. Grundatjörnin, sem við þetta myndaðist, hafði afrennsli í Lögmannslágina í vatnavöxtum. Eitt vorið hagaði þannig til að pollur sem var í botni Lögmannslágar fraus að vorlagi, en síðan gerði asahláku og leysingar. Þegar vatnið sjatnaði blasti við sú sjón sem lýst var hér að framan varðandi frostgíga: Allstórar torfur lágu í lautarbörmunum vestanverðum en í lautarbotninum var svöðusár; í heildina jafnstórt. Neðaní torfunum var sjávarmöl (þar í fann ég grænlenskan flökkusteina). Heyskapur í Lögmannslág lagðist af stuttu eftir þetta. Eg fylgdist ekki grannt með þróuninni ár frá ári, en um skeið víkkaði holan í Lögmannslánni. Reyndar kom þar annað til; Grundatjörnin fylltist af sandi og Kaldabrunnslækurinn fór að renna stöðugt í Lögmannslág. Hvorttveggja olli því að nú (2015) er Lögmannslágin ekki lengur grasigróin og aflíðandi laut, heldur er þar lítið stöðuvatn með grónum bröttum bökkum og nokkru fuglalífi. Frostgígsmyndunar varð þó einungis í byrjun. Í dag sjást þar ekki ummerki flökkuefnis, en sé meðfylgjandi loftmynd skoðuð grannt, má sjá upprunalegan frostgíg í miðju vatnsins.
3.2. Hvolfatjörn; ummerki um virkni vorið 2015
Sumarið 2015 skoðaði ég nokkra staði í grennd við Kollsvík, í því skyni að kanna réttmæti minna kenninga um frostgíga. Einn þessara staða var Hvolfatjörn, en staðsetning hennar er merkt á kortið hér síðar. Hvolfatjörn er áhugaverð í þessu tilliti, vegna aðstæðna sem þar eru.
Hvolf er dæld, ca 400m í mesta þvermál; skálarlaga í nokkuð reglulegum hring; opnast til vesturs en hærri brekkur í aðrar áttir. Eitthvað aðrennsli kann að verða í mestu leysingum úr Hafnardölum ofanvið Hvolfin, en örugglega lítið, enda eru farvegir mjög ógreinilegir.
Í Hvolfum miðjum er Hvolfatjörn, um 45 m í þvermál og 4-5 m á dýpt, sem hefur greinilegt yfirbragð frostgígs samkvæmt framansögðu. Kringum tjörnina, sem er vatnslaus að sumarlagi, er ágætlega gróið svæði, sem stingur nokkuð í stúf við lyngbrekkurnar ofar. Tjörnin hefur yfirfall til vesturs, og þar er ógreinilegur vatnsfarvegur niður í Víkurbotninn.
Þegar umhverfi Hvolfatjarnar var kannað komu í ljós greinileg ummerki frostgígsmyndunar frá síðastliðnum vetri. Aurhrúgur lágu ofaná sinu fyrra árs, eins og e.t.v. má greina t.v. á myndinni hér að ofan; hnullungssteinn, ca 20 kg að þyngd, er þar hjá; sömuleiðis nýlega fluttur, og t.h. má sjábotnrof í vatnsbotninum; gloppur þar sem efnið hefur rifnað upp.
Fleiri dæmi mátti sjá um flökkuefni við Hvolfatjörn. Myndarleg flagmeri var nýlega kominn á þennan stað; líklega vorið 2015, en gæti þó verið frá árinu á undan. Torfan er um 50 cm í þvermál og um 12 cm á þykkt. Hefur því þurft all myndarlega ísferju til að fleyta henni upp á frálagssvæðið. Ekki fer á milli mála að torfan er aðflutt, og er nærtækast að leita skýringa í framangreindri kenningu.
3.3. Smávötn; margvísleg frostvirkni
Sumarið 2015 skoðaði ég Smávötn í Vatnadal; sunnan Kollsvíkur. Vatnadalurinn er löng lægð norðan fjallsins Breiðs, en lágir ásar skilja hann frá Kollsvík. Í Vatnadal eru tvö stöðuvötn; Stóravatn og Litlavatn, og nokkur gróðursælla en þar sem hærra ber. Niður dalinn liggur farvegur Vatnadalsár, en hún er oftast þurr nema í vorleysingum. Þá ryðst þar fram mikill flaumur, enda vatnasvæði allmikið og stundum snjóþungt. Milli Stóravatns og Litlavatns eru Smávötn; klasi af pyttum sem margir hafa yfirbragð frostgíga. Smávötn in eru í víðri skál sem markast af Smávatnabrekkum norðantil; Stórahnjóti að austan og Breið að sunnan. Vatnsrennsli er í vorleysingum ofan úr Stóravatni; í gegnum Smávötnin; áfram niður í Litlavatn og þaðan til sjávar. Rennslið veldur því að frostgígamyndun verður tæpast á sama hátt og í Hvolfum, en engu að síður eru þarna ummerki sem benda í sömu átt.
Í þessari athugun minni kom ýmislegt forvitnilegt í ljós. Sumt af því má skýra með þeirri frostgígavirkni sem hér hefur verið lýst, en annað á sér aðrar skýringar sem ég ætla ekki að kveða uppúr með.
3.4. Keldeyradalsvötn; dæmigerðir frostgígar
Keldeyradalur er austanvið Kollsvík; til norðurs frá Hvolfum og aðskilin frá þeim af grýttum ási. Dalurinn er dæmigerð gígdæld, og í botni hans eru nokkrar dældir; Keldeyradalsvötn, sem bera öll svipmót frostgíga. Dældin afmarkast að austan af hárri brekku; Stórubrekku, en yfirfall hafa vötnin til vesturs; fram af Lynggiljahjalla. Ekkert sýnilegt aðrennsli er í í vötnin ofanjarðar, en ógreinilegur árfarvegur að þeim bendir til aðrennslis í leysingum. Vötnin þorna í miklum þurrkum á sumrin, en oft er þó vatn í tveimur þeim stærstu.
Ég skoðaði vötnin í júlí 2015, i leit að ummerkjum um frostgígamyndun. Vötnin bera öll einkenni slíkrar myndunar, þó ekki fyndust ummerki frá síðastliðnum vetri, líkt og í Hvolfum.
3.5. Þurra Kjóavatnið
Kjóavötn nefnast einu nafni þrjú vötn milli Kollsvíkur og Vatnadals. Í raun eru þó ekki nema tvö þeirra stöðuvötn. Hið þriðja er oftast þurrt að sumarlagi, og því stundum nefnt „þurra Kjóavatnið“ til aðgreiningar. Áhugavert er að bera saman myndun og umhverfi söðuvatnanna og frostgígsins sem þarna eru í nábýli og bera sama nafn, en eru þó gerólík að eðli og uppruna.
Þurra Kjóavatniðer greinilegt dæmi um frostgíg. Gígdældin er ekki stór, eða um 150 m í þvermál, og gígurinn um 35 m í þvermál; líklega nær 2m að dýpt. Brattar hliðar og flatur botn einkenna þessa myndun, eins og aðra frostgíga, meðan hin Kjóavötnin bera einkenni stöðuvatna; með aflíðandi halla frá bökkum niður á mesta dýpi. Ekki sáust ummerki nýmyndunar við þennan fostgíg sumarið 2015, en á frálagssvæðinu umhverfis eru greinilegar menjar flökkuefnis frá fyrri tímum.
- Orðasafn
Til að lýsa frostgígamyndun er heppilegt að grípa til lýsandi orða sem sum hver eru ýmist sjaldan notuð eða ekki annarsstaðar í íslensku máli, enda hefur þessu myndunarferli ekki áður verið lýst svo vitað sé.
Botnrof Skerðing botns frostgígs við það að ísferja hrífur með sér flökkuefni. Botnrof birtist t.d. sem gloppur í annars sléttum botni, þar sem vöntun er á efni; barmar óreglulegir og dýpt rofsins nokkuð jöfn í því öllu.
Gígdæld Vatnasvæði frostgígs; oft dalur/dæld með víðum og hallalítilli botni; nokkru aðrennslissvæði og oft yfirfalli, þannig að vatnshæð verður takmörkuð í dældinni.
Fleyting Tilfærsla flökkuefnis sem frosið er fast neðan í fljótandi ís. Uppdrift/flotmagn íss í vatni (vegna mismunandi eðlisþyngdar þessara fasa) nægir til að ferja nokkuð magn af flökkuefni sem er mun eðlisþyngra.
Flökkuefni / Flökkusteinn / Flökkuaur / Flökkutorfa / Flagmeri Efni sem ís fleytir/ hefur fleytt úr botni frostgígs upp á frálagssvæði. Efnið getur verið af ýmsu tagi; frá aur og leir upp í allnokkra hnullugssteina og frá moldarhnúskum uppí allstórar torfur. Orðið „flökkusteinn“ hefur lengi verið notað um grjót á fjörum sem borgarís hefur borið frá Grænlandi, m.a. upp á Kollsvíkurfjörur, og einnig gengur undir heitinu „grænlendingur“. . Segja má að hér sé um það sama að ræða; enda er flutningsmátinn um margt líkur þó uppruni sé annar. Flagmeri er gamalt orð yfir torfu. Fyrrum oft notað um torfu sem sneiddist stundum ofanaf þúfnakollum þegar slegið var, eða sat eftir í unnu flagi (smærri slíkar torfur nefndust ljámýs). Einnig sumsstaðar notað yfir fyrstu torfu í torfskurði. Notað hér í sömu merkingu og flökkurtorfa.
Frálagssvæði Svæði í gígdæld, uppi á bökkum frostgígs, þar sem flökkuefni sest eftir að hafa flotið með ís úr gígnum. Frálagssvæðið er það svæði sem ís getur flotið um í mestu vatnshæð, samfrosinn flökkuefni.
Frostgígur Áberandi trog í botni gígdældar, sem myndað er við sérstakar aðstæður; þannig að ís fleytir efni úr botninum upp á bakkana/frálagssvæðið. Nafnið „frostgígur“ er valið fremur en „frostpyttur“, þar sem hið síðarnefnda vísar fremur til þess þegar kviksyndi verður til við það að frost fer úr jörð. Samlíkingin við gosgíg er ekki með öllu fráleit; við báðar myndanir flyst efni til hliðar, og eftir er oftast hola í jörðina, þó flest annað sé ólíkt í ferlinu.
Ísferja Ísklumpur sem samfrosinn er flökkuefni og laus frá botni. Getur bæði átt við þá myndunarsögu frostgíga sem hér er lýst, sem og borgarís sem flytur flökkusteina t.d. úr berggrunni Grænlands upp á landgrunn og fjörur Íslands.
Melaugu Sérkennilegar holur í malarholt, sem fundust í barmi frostgíganna Smávatna í Vatnadal í júlí 2015. Sjá mynd og texta hér að framan.
Samfrosinn / Samfrosta Frosinn saman T.d. þegar ís botnfrýs og verður samfrosta við jarðveginn undir.
- Nokkur áhugaverð náttúrufyrirbæri í Kollsvík
Hér hefur verið minnst á einn þátt í hinni fjölbreyttu náttúru Kollsvíkur, og velt upp skýringum á honum. Fleiri náttúrufyrirbæri er þar að finna sem verð eru sérstakrar skoðunar. Má þar til nefna:
Ummerki trjáa í blágrýtislögum. Í jarðlagastöflunum í nágrenni Kollsvíkur er að finna lög, þar sem mikið er um holur eftir trjáboli. Eitt lag er sérlega áberandi í þessu efni, en það sést m.a. neðarlega í lágum sjávarklettum í Vatnadalsbót; gengur þar hallandi til norðurs og sést í Grófarstekk. Líklega er það sama lagið og kemur fram í Núpnum í Kollsvík. Á öllum stöðunum eru holur inn í bergið eftir liggjandi trjástofna, sem fallið hafa í hrauflóði. Í einni af mörgum holum í Bót er að finna bergmola sem bera þess merki að hraun hefur runnið í brotsár á trjábol og tekið af honum afsteypu; m.a. má greina árhringi. Svipað finnst í holu í Núpnum.
Gasuppstreymi í lindum. Neðanvið Láganúpsbæinn, þar sem byrjar svokölluð Fit, eru tvö lindaraugu. Þau voru allajafna full af vatni þar til fyrir tveimur árum, að sandfok fyllti þau; en líklega hefur uppsprettuvatnið þá leitað annarra leiða undir yfirborði. Í þessum augum var jafnan uppstreymi af einhverri lofttegund, en hún hefur aldrei verið greind. Loftið steig upp öðru hvoru í loftbólum, en væri stappað á bakkann kom upp loftbóluhrina. Jarðvegur á Fitinni er skeljasandur, sem nær nokkurri dýpt eins og kom í ljós þegar skurður var grafinn þar. Hugsanlegt er að undir sandinum séu mólög, og að bólurnar séu mýrarloft úr þeim. Fyrr á tímum, eftir lok ísaldar, má ætla að í víkinni hafi um tíma verið stórt lón sem náði að rótum Brunnsbrekku. Þá hafi myndast mólög í bökkunum, sem nú streymir gas úr, en skammt frá eru Þórarinsmógrafir, þar sem stunginn var upp mór á síðustu öld.
Grænlenskir flökkusteinar. Töluvert er um að grænlenskir flökkusteinar finnist innanum sjávarmöl, bæði undir Hryggjum í Blakk og í Vatnadalsbót. Fyrrum töldu menn þetta vera ballest úr erlendum skipum, en það fær ekki staðist. Augljósasta skýringin er sú að hér sé komið berg sem setið hefur í borgarís frá Grænlandi, en hann hefur iðulega þiðnað á fjörum í Kollsvík sem annarsstaðar norðan Látrarastar. Síðast kom borgarís uppá Kollsvík ísaveturinn 1967-68. Stærsti steinninn sem ég hef séð af þessu tagi var um 50cm í þvermál og líklega á annað hundrað kíló að þyngd; ljósrauðleitt kvarz, heimantil við Bekk, undir Blakknesi. Steinarnir eru allir jökulnúnir og af margvíslegum bergtegundum; granít, gabbró, gneiss, kvarz, málmgrýti o.fl. Á mínum steinasöfnunarárum bar ég mikið af þessum steinum heim, sem með réttu hefðu átt að fá að liggja og sýna fjölbreytileika náttúrunnar á þessum slóðum.
Sjávargos. Brim getur orðið gríðarlega öflugt í Kollsvík. Í verstu aftökum; í norðan húðveltubimi, er víkin öll eitt hvítfyssandi grunnbrot. Þar sem brimið lemst uppí kletta sverfur það út ýmiskonar myndanir; stapa; göt og hella. Á tveimur stöðum í Kollsvík hafa skapast aðstæður fyrir gos sem gefa hinum frægu Geysisgosum lítið eftir að glæsileika. Undir Blakknesi hefur brimið holað út allmikinn helli í klöpp, svokallaðan Bekk, í flæðarmálinu, og er gat uppúr hellisþakinu. Í miklu vestanbrimi, og meira en hálfföllnum sjó, gengur aldan inní hellinn, sem verkar eins og trekt. Sjórinn spýtist svo af miklum krafti lóðrétt uppum gatið. Séð frá Láganúpi, sem er í 2,5 km fjarlægð, ná hæstu gosin uppí miðjar hlíðar á Blakknum, eða yfir 20 metra hæð. Hinn staðurinn er undir Hnífum sunnanvið Kollsvík; framundan Sandhelli sem er allnokkur skúti sem vel er gengt í. Þar gengur Sandhellisvogur inní klapparfláka. Fellur útaf klöppinni um hálffallið, en aldrei útúr vognum. Inní klöppina hefur holast nokkuð langur hellir sem vísar nánast til norðurs, og uppúr enda hans er gat. Þegar fallið er útaf klöppinni í miklum norðansjó spýtist sjór hátt í loft uppum gatið. Er tignarlegt að sitja í stúku í Sandhellinum og fylgjast með, en spýjurnar ná stundum í svipaða hæð, eða um 15 metra.
Holugrjót. Á afmörkuðum stöðum víða um land má finna blágrýti sem er af einhverjum ástæðum misjafnt að hörku; þannig að veðrun holar í það skápa og göt en harðari æðar standa eftir. Virðist þessi veðrun hröðust þar sem saman vinna vindur, frostveðrum og sjávarselta. Hvergi hef ég þó séð ákafari veðrun í þessu efni, né flóknari listaverk, en á Hnífum, sunnan Kollsvíkur. Segja má að svæðið í kringum Hnífaflögu, Undirlendi og Grófarstekk sé samfellt listaverkagallerí, þar sem náttúran reynir ítrekað að skara framúr sjálfri sér í fjölbreytileikanum. Þar má sjá fágæt víravirki; skápa með leynihólfum; koppa; kirnur; bala og búmannshúfur; portrett og pírumpár af öllu tagi. Sumt er mótað í framhlið klappa en annað hefur losnað frá og liggur í urðum. Athyglisvert er að þessi myndun tekur yfir nokkur lög í jarðlagastaflanum, sem gefur til kynna að á þessu svæði hafi verið sérstakar aðstæður þegar hraunið rann.
Þykk gjóskulög og berggangur. Í fremri hluta Blakkness, í sjávarklettum norðan Víkur og uppí Höfða, má sjá gjóskulög sem eru mun þykkari en almennt gerist í þessum annars reglulega jarðlagastafla; líklega vel yfir 10m að þykkt. Svo virðist sem þar nálægt hafi verið virk eldstöð. Í túffinu er ýmiskonar gjóska, allt frá glerjaðri rauðleitri ösku upp í hnullunga, nokkra tugi cm í þvermál. Gjóskulögin eru veikari en berglögin í kring, og fyrir nokkrum árum varð þarna allmikið hrun af þeim orsökum. Rétt sunnanvið gjóskulögin gengur allmikill lóðréttur berggangur uppígegnum öll berglög Blakksins; uppá brún þar sem heitir Strengbergsgjá. Gangurinn er nokkra metra á þykkt og nær í gegnum Blakkinn; kemur út þar sem heitir Sölmundargjá Patreksfjarðarmegin. Í kringum hann er bergið rauðleitt og myndbreytt af hita, og gangbergið er sumsstaðar mikið stuðlað; hver stuðull með járnríkum hnöttóttum kjarna. Spurning er hvort samhengi er á milli þessa mikla gangs og hinna miklu gjóskulaga stutt frá honum, en augljóslega er gangurinn mikið yngri, þar sem hann sker öll yngri jarðlögin ofaná gjóskulaginu. Þó Strengbergsgjá-Sölmundargjá sé langmesti berggangur sem sjáanlegur er í Kollsvík er þar mikið um lóðrétta ganga sem sýnilegir eru í klettum. Má þar nefna Bræðragjár í Núpnum; Nafargjá og Nibbugjá í Blakk.
Hringrásir sandburðar í Kollsvík. Skeljasandur er allmikill á fjörum í öllum Útvíkum og hefur sandfok valdið búsifjum gegnum aldirnar. Svo virðist sem í Kollsvík megi greina a.m.k. þrjá ferla sem ráða sandburðinum. Í fyrsta lagi er þar um að ræða iðustraum úr Látraröstinni. Hún ber sand af helstu myndunarsvæðum hans í Breiðafirði og Sandsbugt og þeytir honum vesturfyrir. Af því hvernig sand leggur á fjörur má ráða að hringiða frá röstinni liggi uppá Kollsvík; misjafnlega virk eftir vindáttum. Önnur kenningin leitast við að skýra uppblásturinn úr fjörunni og hvað hamlar honum. Koma þar við sögu margir þættir, s.s. vindur, frost, jarðvatnsstaða, hækkun gróðurþekju og lækirnir í víkinni. Þriðja hringrásarkenningin leitast við að skýra hvernig Sandahlíðin í Núpnum helst við. Sandahlíðin er eitt helsta kennileiti af sjó á þessum slóðum, enda lýsir hún eins og risastór ljósviti langt út í Víkurál; jafnvel í dimmviðri. Snarbrött hlíð Núpsins er þakin ljósum skeljasandi sem aldrei nær að gróa, neðan ákveðinnar hæðarlínu; þrátt fyrir að allar aðrar fjallshlíðar á þessum slóðum séu vel grónar. Í þessu efni hef ég velt upp kenningu um samspil vinds, sands og stórgrýtisins sem grillir í uppúr sandbreiðunni. Þessu hef ég lýst annarsstaðar, enda ekki viðfangsefni þessa pistils.
- ágúst 2015 Valdimar Össurarson frá Láganúpi
Í Kollsvík og annarsstaðar við Íslandsstrendur hefur á síðustu áratugum orðið óvanalega mikið rof af völdum sjávargangs. Gömlu verstöðvarnar eru að hverfa í hafið og með þeim ómetanlegar heimildir. Hér eru í fyrsta sinn settar fram heildstæðar skýringar á þessu rofi.
Höfundurinn: Valdimar Össurarson er fæddur 1956. Hann ólst upp á Láganúpi; lauk rafvirkjanámi í Iðnskóla Patreksfjarðar og námskeiðum af ýmsu tagi. Hann hefur fengist við ýmis störf, m.a. kennslu; sjómennsku; gæðastjórnun; ferðaþjónustu o.fl. Frá 2008 hefur hann unnið að þróun eigin uppfinningar; sjávarfallahverfils til nýtingar í hægum straumi. Valdimar er áhugamaður m.a. á sviði náttúruvísinda og sagnfræði og sjálfmenntaður í þeim efnum.
Breytingar í náttúrufari
Á síðustu áratugum 20. aldar tók að bera á auknu strandrofi í Kollsvík í Rauðasandshreppi og á sama tíma jókst þar til muna uppblástur skeljasands úr fjörum. Um svipað leyti varð hrun í grásleppuveiðum á svæðinu sem skýrðist af því að þaraskógar við ströndina, hrygningarsvæði grásleppunnar, voru á hröðu undanhaldi og hurfu jafnvel sums staðar. Þessari eyðingu olli gríðarleg fjölgun ígulkersins skollakopps sem át upp þaraskógana á stuttum tíma. Hér er leitað svara við því hvort sameiginleg ástæða kunni að vera fyrir auknu magni skeljasands á fjörum og stórauknum ágangi sjávar í Kollsvík annars vegar og eyðingar þaraskóganna af völdum ígulkerja hins vegar.
Viðfangsefni og tilgáta
Hér er leitað lausnar á nokkrum ráðgátum sem hrannast hafa upp varðandi breytingar á náttúrufari í Kollsvík og e.t.v. víðar um land. Tekið skal fram að þær breytingar sem hér um ræðir hafa ekki verið mældar með vísindalegum aðferðum; hér eru á ferðinni athuganir alþýðufræðimanns, byggðar á þeirri þekkingu sem lífsbaráttan og reynslan af umgengni við íslenska náttúru hefur skilað. Ráðgáturnar má setja fram í spurningaformi og eru hér afmarkaðar við Kollsvík:
- Hver er skýringin á hinu aukna magni skeljasands á sandfjörur í Kollsvík?
- Hvers vegna berst skeljasandur nú upp á fjörur þar sem hann hefur aldrei verið?
- Hvers vegna sjást miklir þarabakkar nær aldrei í fjörum, en voru algengir fyrrum?
- Hvers vegna ganga brimhnútar nú á land og valda spjöllum, en ekki fyrrum?
Svör við þessum spurningum munu einnig skýra að verulegu leyti alvarlegar afleiðingar þessara breytinga sem eru annars vegar stóraukinn uppblástur fjörusands á gróður, sem valdið hefur jarðvegseyðingu, einkum neðarlega í landi Láganúps í Kollsvík (sjá 2. mynd) og hins vegar þau uggvænlegu spjöll sem eru að verða á fornminjum á og í Grundabökkum (sbr. 7. mynd). Þar er hin forna og mikla verstöð, Grundir, óðum að hverfa í hafið vegna svörfunar úr bökknum, auk þess sem brimskaflar hafa ætt á land og brotið skörð í hina miklu og fornu Garða, nokkru sunnar (sbr. 8. mynd). Hugsanlegt er að með þessu megi einnig skýra aukinn sjávarágang víðar um land, t.d. í nærliggjandi fornum verstöðvum; Breiðavíkurveri og Brunnum í Látravík.
Tilgáta mín er sú að setja megi þessar breytingar í samhengi við gríðarlega fjölgun ígulkersins skollakopps. Fjölgunin leiddi til þess að þaraskógar eyddust, sem áður drógu verulega úr orku brimöldu. Afleiðingar þess eru annars vegar stóraukinn sandburður á fjörur með tilheyrandi uppblæstri, og hins vegar rof sjávarbakka í áður óþekktum mæli. Hugsanlegt er að þetta orsakasamhengi í Kollsvík megi yfirfæra á aðra staði þar sem slíkt rof hefur átt sér stað.
Offjölgun skollakopps
Á síðari áratugum 20. aldar fór að bera á því aukna rofi sem að ofan greinir; einkum varðandi rof sjávarbakkanna neðan Grunda. Slíkt rof var reyndar nánast óþekkt í öllum mínum uppvexti í Kollsvík þar til eftir 1980. Uppblástur sands jókst einnig um það leyti, en það er e.t.v. ekki eins góður mælikvarði um tíma; bæði vegna þess að inngrip með áburðargjöf höfðu staðið um nokkurn tíma á undan og svo eru veruleg áraskipti að því hve mikið fýkur upp af sandi. Þó var þar greinileg aukning líka; t.d. hefur oftar þurft að moka sandsköflum frá húsum og görðum eftir 1980 en fyrir.
Svo vill til að á þessum tíma, eða milli 1970 og 1990, stóð blómatímabil grásleppuútgerðar í Rauðasandshreppi. Grásleppusjómenn, en ég var þá þeirra á meðal, urðu óþyrmilega varir við það þegar kom fram á 9. áratug síðustu aldar að víða var að hverfa hinn mikli þaraskógur sem er hrygningarsvæði grásleppunnar, en á meðfylgjandi korti má sjá helstu veiðislóðirnar; í Patreksfirði og Útvíkum. Á örfáum árum eyðilögðust grásleppumið við ströndina; þar sem áður höfðu verið þéttpökkuð net af grásleppu varð eyðimörk og auðn. Í stað bústinnar grásleppu kom úr sjó urmull af grænleitum ígulkerjum, svo net voru víða upprúlluð og samanhnýtt af þeim óþverra. Einnig dauðum þaradræsum og dauðum svampvöxnum þönglaræflum; ásamt krabba og sæbjúgum sem sólgin eru í ýlduna. Um sama leyti bárust fréttir af sama ástandi víðar um land: Skollakoppi virtist hafa fjölgað óeðlilega mikið af einhverjum orsökum og hann var að éta upp þaraskógana, líkt og engispretta leggst á akur. Þessu ígulkerjafári var ekki mikill gaumur gefinn á þeim tíma, nema hvað menn hörmuðu horfin grásleppumið og ræddu sín á milli um orsakir plágunnar. Hverjar sem orsakir eru fyrir þessari gríðarlegu fjölgun ígulkerjanna þá er það staðreynd að þegar ég var síðast á grásleppuveiðum í Útvíkum og sunnanverðum Patreksfirði, árið 1990, höfðu mikil svæði eyðst af þara, og sú eyðing var þá enn í sókn. Hröðust var eyðingin á grunnum sandbotni; t.d. undan Urðavelli á Gjögramiðum; við Selsker utantil við Hænuvík; í Kollsvík og undan miðri Breiðavík, en á öllum þessum miðum var ég með net ásamt hásetum mínum. Þessi mið öll urðu ónothæf á 2–3 árum. Þar sem þaraskógurinn var þéttari; líklega þar sem minna var af sandi í botninum og skjólsælla, virtist ígulkerjaplágan ekki ná sér á strik. Af svæðum sem sluppu má nefna mið á Hænuvík, bæði undan Klakk og Bökkum; svæðið undan Helmum, Láturdal, Bænagjótu og Kofuhleinum við Hænuvíkurhlíðar; frammí í suðurkanti Patreksfjarðarflóa; undan Krossadal í Kóp; undan Landamerkjahlein við Breið og hinn mikli þaragarður undan Breiðavík sunnanverðri; sunnan Kumbaravogs.
Afleiðingar í Kollsvík
Eftir 1980 urðu þær breytingar að sandur barst í mun meira magni upp í fjörur, en þaradyngjur minnkuðu smám saman, og eru nú sjaldséðar. Á sama tíma varð sífellt erfiðara að stunda netaveiði á víkinni: Netum hætti oftar til að fyllast af rekþara, og skollakoppi í netum fjölgaði stórum. Sandur í fjöru jókst stórum, þar sem meira barst upp í hafáttum en gutlaðist aftur út á milli. Kringum aldamótin 2000 fór þeim tilfellum fjölgandi að brimhnútar æddu hátt í fjöru; brutu niður Bakkana og rufu skörð í hina fornu Garða. Slíkt hafði ekki skeð áður í manna minnum. Á meðfylgjandi korti eru helstu þarasvæðin í Kollsvík römmuð með grænu, en sandflákarnir sunnar með gulu.
Orsakasamhengi
Ég set fram þá tilgátu að vensl séu milli offjölgunar skollakopps á grunnmiðum í Kollsvík, og þeirra breytinga sem orðið hafa í landi; annarsvegar aukins uppblásturs skeljasands úr fjöru og hinsvegar rofs sjávarbakka og mannvirkja ofan stórstraumsflæðarmáls. Tilgátan byggir á því að þaraskógur á grynningum í Kollsvík dragi mjög úr afli brims af hafáttum. Orsakasamhengið er þá eftirfarandi:
- Skollakoppi fjölgar gríðarlega eftir 1980 og hann útrýmir þaraskógi af grunnsævi Kollsvíkur að verulegu leyti; einkum af miðri víkinni en síður inni í Bótinni.
- Þaraskógurinn hefur dregið stórlega úr orku brimskafla í mestu sjóum, þegar grunnbrot eru langt framan af vík upp í fjöru. Nú skella skaflarnir af fullri orku á ströndina og þar sem hnútar myndast, æða þeir langt uppfyrir venjulegt sjávarmál í verstu veðrum. M.a. valda þeir rofi í hinum fornu og miklu Görðum, sem aldrei fyrr hefur gerst.
- 3. Sandskaflarnir frammi á víkinni, sem vanalega liggja í dældum og lænum, rótast nú upp. Brimið ber þá að landi og hleður þeim í gríðarmikil sandrif. Fyrri sandrif stækka að miklum mun og ný myndast; jafnvel á svæðum þar sem jafnan er malar- og
- hleinafjara. Af þessum nýju sanddyngjum verður stóraukið sandfok frá því sem áður var. Sandskaflar myndast í lautum og skjólum upp um allt Láganúpsland; jafnvel úti á Hnífum, 3–4 km frá Rifinu.
- 4. Brimið grefur undan sjávarbökkum Láganúpsverstöðvar, sem hrynja niður í stórum torfum og menningarverðmæti tapast. Slíkt hefur líklega ekki gerst frá landnámsbyggð; en Láganúpsverstöð er talin hafa staðið a.m.k frá því um 1400 og fram undir 1700.
- Brimskaflar sameinast og mynda öfluga hnúta sem ganga á land þar sem Bakkarnir eru lægri, og rjúfa skörð í hina fornu og miklu Garða. Neðan þeirra er stórgrýtt fjara og þar framundan hleinagarður sem áður náði að dempa brimið nægilega til að hindra að slíkt gerðist áðurfyrr.
Í norðan hvassviðri verður gríðarlegt sandfok af hinu aukna skeljasandsrifi; allt frá Melsendaklettum suðurundir Grundabakka. Sandfok hefur alla tíð verið viðvarandi í Kollsvík, en á síðustu áratugum hefur keyrt um þverbak. Stórar spildur kaffærast svo í sandi að vart nær að gróa uppúr yfir sumarið; sandskaflar myndast í lægðum uppum allt Láganúpsland, og sandi blæs í norðanhvassviðri suður á hálendið; skaflar af skeljasandi setjast að í lautum á Hnífum í 3–4 km fjarlægð, og jafnvel í tvöfalt meiri fjarlægð í Sanddal á Breiðnum; hálfa leið suður að Breiðavík. Nafn dalsins gefur þó til kynna að svona ástand hafi komið upp fyrr á öldum. E.t.v. er slík offjölgun ígulkerja einhver náttúruleg sveifla sem verður með árhundraða millibili.
Um ígulker og átvenjur skollakopps
Örstutt um ígulker; gripið úr útgefnu efni af ýmsu tagi. Ígulker (Echinodea) eru af fylkingu skrápdýra, líkt og krossfiskar sæbjúgu o.fl. dýrategundir í sjó. Þekktar eru um 12 tegundir ígulkerja við Ísland. Öll eru þau svipuð í lögun og megingerð; kúlulaga kalkskel byggð upp af litlum kalkflögum. Kalkskelin er alsett nálarlaga göddum; mismunandi að lengd og sveigjanleika. Dýrið getur sveigt gaddana til og snúið þeim í átt að áreiti til varnar.
Tvær tegundir ígulkerja eru mest áberandi á þeim slóðum sem hér er um fjallað. Sú stórvaxnari er marígull (Echinus esculentus). Hann er rauðleitur; oft yfir í fjólublátt; með kúpta skel og verður allt að 15 cm að stærð á þessum slóðum. Algengt er að einn og einn marígull komi upp með grásleppunetum vestra, en ekki er vitað til að miklar sveiflur séu í stofnstærð hans.
Öðru máli gegnir um hina tegund ígulkerja sem þarna er algeng á grunnsævi. Skollakoppur Strongylocentrotus droebachiensis er mun minni og flatari en maríugull, og verður sjaldan stærri en 7 cm í þvermál. Hann er grænleitur að lit og gaddarnir eru misstórir. Auk gadda hafa ígulker einskonar klípur til að verja sig með, og sogfætur í röðum frá endaþarmi á hvirfli dýrsins niður að munni neðan á því. Þau hreyfa sig með vökvaþrýstingi; taka sjó inn um einskonar sigti ofan á bolnum og dæla honum um gangakerfi sem tengist sogfótunum. Á enda hvers sogfótar er sogblaðka sem snertir undirlagið; framkallar lím og myndar undirþrýsting. Dýrið hefur því allgóða möguleika á að komast sinna ferða þó hægt fari.
Skollakoppur lifir einkum á þara og öðrum þörungum í þaraskógum, en er einnig sólginn í hræ og fastsitjandi smádýr. Undir venjulegum kringumstæðum lifir skollakoppur innan um botnþörunga í nokkurskonar jafnvægi við fæðuframboðið. Af og til verður offjölgun í stofninum, og þá leiðir ofbeit hans til eyðingar þaraskóga, jafnvel á stórum svæðum. Eini gróðurinn sem þá verður eftir eru þunnir rauðþörungar sem mynda skorpur á steinum.
Hér verður vitnað lauslega í forvitnilega ritgerð eftir Karl Gunnarsson, Sophie Hall-Aspland og Öivind Kaasa sem lýsir niðurstöðum tilrauna og athugana þeirra um 1996, og nefnist „Fæðuval og fæðunám skollakopps“. Gerð var tilraun með að leyfa skollakoppi úr Eyjafirði að velja á milli fimm algengra þörungategunda í tilraunakeri. Í ljós kom að uppáhaldsfæðan var marinkjarni (Alaria esculenta), næstbestur var stórþari (Laminaria hyperborea), þá beltisþari (L. Saccarina), fiðurþari (Ptilota gunneri) og sístur kerlingarhár (Desmarestia aculeata). Skollakoppurinn át að meðaltali um 1,5 g á sólarhring af stórþara, beltisþara og fiðurþara, en 0,5 g af kerlingarhári og marinkjarna. Áthraði skollakopps í tilrauninni reyndist svipaður og át hans í jaðri þaraskógarins í náttúrunni.
Eyðing þaraskóga af völdum skollakopps þekkist víðar en á Íslandi. Munur er á hegðun dýranna við beit á þara í Noregi og Kanada. Við austurströnd Kanada er er beltisþari og hrossaþari ríkjandi. Þar éta ígulkerin þaraskóginn utanfrá; mynda fylkingu við ytri jaðar skógarins og éta sig í átt að landi. Í Noregi er stórþari ríkjandi á grunnsævi. Ígulkerin þar mynda ekki fylkingu, en dreifa sér inn í skóginn; éta undirgróðurinn og þaraungviði og koma þannig í veg fyrir nýliðun þarans, sem með tímanum hverfur. Munur virðist vera á fæðuvali ígulkerjanna milli landa.
Við Ísland er stórþari ríkjandi á grunnsævi. Hér hegðar skollakoppur sér eins og í Kanada; þ.e. étur þarann utanfrá, og sárafá ígulker eru inni í skóginum. Þessi munur ígulkerjanna hér og í Noregi gæti stafað af því að fæðuval dýranna er annað en í Noregi. Í niðurlagi ritgerðar sinnar nefna höfundar að hér á landi hafi fyrst orðið vart við eyðingu þaraskógar af völdum skollakopps í Garðsvík á Eyjafirði á árinu 1993. Líklegt sé að áköf beit hafi byrjað á svæðinu nokkrum árum áður. „Síðan 1994 hefur verið fylgst með skollakoppnum í Garðsvík og eyðingu þaraskógarins þar. Þéttsetið er af skollakopp á þriggja til fimm metra breiðu belti við ytri jaðar þaraskógarins og hefur þéttleiki hans mælst hæst um 120 dýr á fermetra. Nær engin ígulker eru í skóginum en utar á berangrinum er þéttleiki skollakopps um það bil 10 á hvern fermetra. Allt frá upphafi athugananna hefur hraði eyðingar á þaraskóginum verið á bilinu 2,5 til 3,0 m á mánuði. Lífmassi þara mældist að meðaltali um 8,5 kg á hvern fermetra. Auk þess er nokkuð magn af öðrum þörungum sem vaxa innan um þarann, en samanlagt magn þeirra er að jafnaði um 0,5 kg á hvern fermetra. Má því gera ráð fyrir að 270 til 320 tonn af þörungum hverfi á ári vegna beitar skollakopps miðað við hvern kílómetra strandlengju. Í ígulkerjafylkingunni í þarajaðrinum eru um 400–500 dýr á hvern metra af ströndinni. Hvert ígulker gæti étið samkvæmt þeim útreikningum um 1,5 til 2,2 g af þörungum á sólarhring. Þetta er svipað át og niðurstöður úr tilraunum í eldisstöðinni sýna, en þar átu ígulkerin að meðaltali um 1,5 g af þara á sólarhring“.
Hin merkilega rannsókn og ritgerð þessara sérfræðinga varpar nokkru ljósi á eyðingu þaraskóga í Kollsvík af völdum skollakopps. Gera má ráð fyrir að þar fari eyðingin fram með svipuðum hætti og í Garðsvík í Eyjafirði. Stórþari er að öllum líkindum ríkjandi í þaraskógum á Kollsvík; eins og sjá má bæði í þarabunkum á landi og af þarareki í hrognkelsanet. Einnig er allnokkuð um beltisþara. Þar hefur því verið ákjósanlegt beitarland fyrir skollakopp.
Sérfræðingarnir nefna að þeir hafi fyrst vitað af stórfelldri eyðingu þaraskóga hérlendis árið 1993, sem þá hafi líklega verið hafin nokkrum árum áður. Víst er, eins og áður er rakið, að eyðing þaraskóga í Patreksfirði og á Útvíkum var hafin allnokkru fyrr, eða þegar uppúr 1980. Um það get ég vitnað sjálfur, sem grásleppusjómaður á þessum árum, en eflaust muna það fleiri.
Hafi skollakoppur náð að éta 3 hektara á ári af þaragarði á Kollsvík (10 m inn í 3ja km langan jaðar af þaraskógi), og ef þaraskógurinn í heild hefur verið 2 ferkílómetrar (200 hektarar), þá klárast meira en helmingur þaraskógarins á fimmtán árum, eða frá 1980 til 1995. Sá helmingur hefur einkum horfið af því svæði sem veit til vesturs, en síður það sem veit í austur, eða inn í Bótina, þar sem lygnast er og skógurinn þéttastur.
Með eyðingu þaraskógarins varð hafsbotninn opin eyðimörk. Stormar af norðri, með rótarbrimi sem náði til botns, komu nú hreyfingu á sandinn sem legið hafði óhreyfður í lænum á botninum í skjóli af þaranum. Stórar öldurnar sem ná til botns, þurftu nú ekki lengur að róta þaranum til, með því mikla viðnámi og afltapi sem því fylgdi, heldur æddu af fullu afli uppyfir grynningarnar upp í fjöru; flytjandi gríðarlegt magn af skeljasandi í fjöruna. Fjallháir brimhnútar urðu til við ströndina sem æddu upp á land og rifu niður sjávarbakka ofan hæstu flæðarmarka, og geystust uppá bakkana sunnar og brutu niður mannvirki sem hingaðtil höfðu notið verndar þaraskógarins frammi á víkinni.
Áhrif þaraskóga á afl grunnbrota
Sú ályktun mín að þaraskógurinn í Kollsvík, sem og annarsstaðar við svipaðar aðstæður, dragi mjög úr orku brimöldu var í upphafi einungis hugboð byggt á skynsamlegri rökleiðslu. Eftir að hafa innt hinn fjölfróða „Google“ um málið komst ég að því að eitthvað hefur þetta verið rannsakað af fræðimönnum.
Árið 1996 birti norski haffræðingurinn Martin Mork ritgerð: „The effect of kelp in wave damping“, þar sem hann fjallar um þetta viðfangsefni. Eftirfarandi er brot úr heildarniðurstöðum ritgerðarinnar:
„Wave attenuation by kelp forests in shallow waters has been substantiated by measurements at Hustadvika at a site which is strongly exposed to waves from the open ocean. The reduction of wave energy from the outer to inner part of kelp belt over a distance of 258 m was 70–85% with highest value at low tide. Velocity measurements at two levels, above and below canopy, reveal almost identical results. This remarkable documentation contradicts earlier assumptions and findings concerning sheltering effect of kelp, i.e. ECKMAN & al. (1989). The working hypothesis of the present analysis is that the viscous drag of the kelp fronds is the dominating factor. The results from the corresponding mathematical model are in good agreement with observations. The wave conditions in a kelp forest have been measured and modelled. The results of the experiment provide a good basis for evaluation of wave damping effects and may be compared with laboratory experiments and field investigations after harvesting“.
Þá má benda á niðurstöður annarrar forvitnilegrar rannsóknar Kevin Bradley og Chris Houser; „Relative velocity of seagrass blades: Implications for wave attenuation in low-energy environment“, sem birtar voru 2009: Þar segir m.a.:
„While the ability of subaquatic vegetation to attenuate wave energy is well recognized in general, there is a paucity of data from the field to describe the rate and mechanisms of wave decay, particularly with respect to the relative motion of the vegetation. The purpose of this study was to quantify the attenuation of incident wave height through a seagrass meadow and characterize the blade movement under oscillatory flow under the low-energy conditions characteristic of fetch-limited and sheltered environments. The horizontal motion of the seagrass blades and the velocity just above the seagrass canopy were measured using a digital video camera and an acoustic Doppler velicometer (ADV) respectively in order to refine the estimates of the drag coefficient based on the relative velocity. Significant wave heights (Hs) were observed to increase by ca 0.02 m (ca 20%) through the first 5 m of the seagrass bed but subsequently decrease exponentially over the remainder of the bed. The exponential decay coefficient varied in response to the Reynolds number calculated using blade width (as the length scale) and the oscillatory velocity measured immediately above the canopy. The ability of the seagrass to attenuate wave energy decreases as incident wave heights increase and conditions become more turbulent. Estimates of the time-averaged canopy height and the calculated hydraulic roughness suggest that, as the oscillatory velocity increases, the seagrass becomes fully extended and leans in the direction of flow for a longer part of the wave cycle. The relationship between the drag coefficient and the Reynolds number further suggests that the vegetation is swaying (going with the flow) at low-energy conditions but becomes increasingly rigid as oscillatory velocities increase over the limited range of the conditions observed (200 < Re < 800). In addition to the changing behavior of the seagrass motion, the attenuation was not uniform with wave frequency, and waves at a secondary frequency of 0.38 Hz (2.6 s) appeared to be unaffected by the seagrass. Cospectral analysis between the oscillatory and blade velocity suggests that the seagrass was moving in phase with the current at the (lower) secondary frequency and out of phase at the (higher) peak frequency. In this respect, seagrass is not only an attenuator of wave energy but also serves as a low-pass filter; higher frequencies in the spectra tend to be more attenuated“.
Mér sýnist að rannsóknir og niðurstöður þessara fræðimanna staðfesti í raun það sem ég hef haldið fram hér að framan; að þaraskógur dragi verulega úr afli grunnbrota sem ná niður í hann að ráði. Bein ályktun í framhaldi af því er að aukinn kraftur grunnbrota valdi þeim breytingum á landi sem nefndar hafa verið: A) Hann róti upp og færi til sand sem annars liggur í lænum og í þaraskóginum og skoli honum upp á fjörur í meira mæli en áður gerðist. B) Hann valdi því að grunnbrot flana langtum hærra uppfyrir stórstraumsfjöruborð en áður gerðist og nagar undan sjávarbökkum, sem síðan hrynja. C) Hann veldur báruhnútum sem hlaupa hátt á land upp og ryðja þá úr vegi mannvirkjum sem áður stóðu óhreyfð um aldaraðir. Afleiðing af eyðingu þaraskóganna er svo sú sem lýsa má í atriði D), að þarabunkar á fjörum eru nær hættir að sjást, en voru áður mjög algengir.
Þörf er á frekari rannsóknum
Hér hef ég sett á blað í stórum dráttum sitthvað um þær breytingar sem greinilega hafa orðið í náttúrufari í Kollsvík og nágrenni á síðustu áratugum; hugleiðingar mínar um orsakasamhengi milli þeirra og eyðingar þaraskóga á grunnsævi víkurinnar af völdum skollakopps, og hrafl af tilvitnunum í fræðimenn sem mér finnst staðfesta mínar hugmyndir.
Eflaust er hér um flóknara ferli að ræða en svo að þessi einfalda kenning skýri þetta til hlítar. Hér er t.d. ekki gerð grein fyrir þeim hringrásum sands sem ég tel augljóst að viðgangist á svæðinu. Því hef ég lýst á öðrum stað hvernig ég tel samhengi vera á milli sterkra strauma í Látraröst, iðustrauma upp á Útvíkur og sandmagns á grunnsævi; hver eru tengsl vinds, grunnvatsstöðu, upphleðslu og framburðar sands, og hver sé skýringin á Sandahlíðinni í Kollsvíkurnúpnum. Þau ferli kunna að tengjast framanskrifuðu en hafa líklega ekki afgerandi áhrif, og því læt ég þau liggja hér á milli hluta.
Þó hér hafi aðeins verið lýst ferlinu í Kollsvík; einfaldlega af þeirri ástæðu að þar þekki ég best til á sjó og á landi, má leiða að því líkum að sama ferli eigi sér stað allvíða við strendur landsins. Vitað er að skollakoppi fjölgaði mjög mikið víða við land undir lok síðustu aldar. Um og eftir aldamótin fóru menn að taka eftir stórfelldri eyðingu sjávarbakka á öllu Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestanverðu. Nánast allsstaðar á þessum landshelmingi voru minjar um hinar fornu verstöðvar að hverfa í hafið. Stórfelldur skaði á menningarminjum blasir við; í vissum skilningi ekki minni en bruninn forðum í handritasafni Árna Magnússonar.
Minjastofnun hefur nú brugðist við með því að ráða starfsmann, Guðmund Stefán Sigurðarson til að gera úttekt á þessum stöðum og gera tillögur um aðgerðir. Hann hefur þegar litið á landbrotið í Kollsvík og öðrum Útvíkum. Augljóslega þarf víða að leggja í kostnaðarsamar aðgerðir til að verja minjar fyrir frekari skaða. Þá hafa heimamenn í Kollsvík ráðist í viðamikið landgræðsluverkefni í samstarfi við Landgræðsluna. Það verkefni mun einnig verða kostnaðarsamt ef árangur á að nást. Til viðbótar kemur ýmis kostnaður og óþægindi vegna sandburðar upp á tún og mannvirki. Og þetta er einungis viðkomandi Kollsvík. Kostnaður og spjöll varðandi landið allt er auðvitað margfalt meiri.
Er þá ekki ástæða til að skoða vandlega þær orsakir sem líklegar eru fyrir þessum vandamálum ? Að verja til þess hluta þess fjár sem fyrirsjáanlega fer í að takast á við afleiðingarnar ? Í mínum huga er það engin spurning. Margt óþarfara hefur verið gert í rannsóknum.
Tillaga um rannsóknarverkefni
Ég legg það til að komið verði á fót rannsóknarverkefni sem hafi það að markmiði að skoða þau vensl sem hér hafa verið rakin; á milli ofbeitar þaraskóga af völdum skollakopps og beytinga í landi; rofs sjávarbakka með eyðingu menningarminja og aukins sandburðar á fjörur með þeirri landeyðingu sem honum fylgir.
Eðlilegt þætti mér að um þetta verkefni væri efnt til samstarfs nokkurra aðila:
- Hafrannsóknastofnun. Stofnunin kæmi að verkefninu með sérfræðiþekkingu á sviði sjávarlíffræði varðandi þara, ígulker og annað sem máli skiptir, ásamt þekkingu á strauma- og ölduhegðun. Ég hef þegar átt góð samtöl tvo ágæta sérfræðinga stofnunarinnar; Karl Gunnarsson og Guðrúnu Þórarinsdóttur. Þekking sem hugsanlega fengist með verkefninu kæmi áreiðanlega að góðum notum í ýmsum öðrum verkefnum stofnunarinnar.
- Minjastofnun. Stofnunin vinnur að minjavernd, en liður í henni er vernd hinna mörgu fornu verstöðva víða um land. Verkefnið er að hefjast núna, með ráðningu sérstaks verkefnisstjóra um strandminjar. Könnun á stöðunni er mjög umfangsmikið verkefni, en þó barnaleikur á við þann kostnað og þá fyrirhöfn sem fylgir því að verja minjar sem ákveðið verður að venda. Vart er vit í slíku án þess að vita sem best hverjar eru orsakir eyðingarinnar.
- Landgræðslan. Stofnunin hefur það verkefni að vinna að uppgræðslu þar sem gróðureyðing ógnar landi. Óvíða í byggð er eyðingin hraðari núna en í Kollsvík. Landgræðsluverkefnið þar er rétt að hefjast, en eigi það að verða markvisst er nauðsynlegt að vita sem best um orsakirnar. Þekking sem með verkefninu fæst mun koma stofnuninni að notum við önnur og síðari verkefni þar sem þessi þróun á hlut að máli.
Vera kann að fleiri opinberar stofnanir þurfi að koma að verkefninu. T.d. hefur Vegagerðin það hlutverk með höndum að verja strandir fyrir rofi, og á að njóta framlaga af fjárlögum í því skyni; Veðurstofan fylgist með þróun og áhrifum veðurfars, og háskólarnir hafa hlutverki að gegna í rannsóknastarfsemi. Einnig gætu einkaaðilar e.t.v. komið að þessu verkefni, t.d.:
- Valorka ehf. Þetta er mitt einkahlutafélag, sem í átta ár hefur fengist við þróun hverfils til nýtingar á orku hægstrauma, s.s. sjávarfallastrauma. Ég er tilbúinn að koma að þessu með hverju þeim hætti sem þurfa þykir, enda fellur margt í þessum rannsóknum að því sem Valorka fæst við. T.d. liggur fyrir að Valorka þarf að mæla strauma í röstum vegna fyrirhugaðra prófana hverfilsins í sjó; e.t.v. strax á næsta sumri. Valorka á handhægan straumhraðamæli (skrúfumæli) og einnig annan stærri dopplermæli sem gæti nýst til botnmælinga ásamt straumamælingum. Einnig slöngubát og annað sem nýst gæti.
Leita þarf fjár til verkefnisins sérstaklega, enda eru þær stofnanir sem hér um ræðir vart aflögufærar. Huga þarf að því hvað vænlegast sé í þeim efnum, en innanlands eru það líklega Rannís-sjóðir. Ekki væri úr vegi að efna til alþjóðlegs samstarfs, enda er vandamálið líklega til staðar erlendis. Þá kæmu til greina t.d. Horizon-sjóðir ESB. Allt kostar þetta þó vinnu og skipulagningu, en orð eru til alls fyrst.
Ég slæ þessari tillögu hér með fram frá mínu brjósti, án þess að hafa fyrr fært hana í tal við nokkurn mann. Læt hana fylgja þessari ritgerð þangað sem hún ratar, í þeirri von að einhver taki hana upp á sína arma í einhverju formi. Má vera að ég fylgi þessu eftir við forráðamenn viðkomandi stofnana og/eða stjórnvöld, en fyrir kemur að ráðherrar og þingmenn verða á vegi mínum.
Eftirmáli
Framangreindar hugleiðingar voru festar á blað í árslok 2016. Síðar þann vetur gerðist atvik sem rétt er að greina frá í þessu samhengi og kann að tengjast því sem hér hefur verið lýst. Þá tók að reka á fjörur í Kollsvík gríðarlegt magn þess sem heimamenn töldu í fyrstu vera smágerða svamptegund. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar greindu sýni, sem reyndist vera mosategundin Flustra foliacea. Hún mun vera nokkuð algeng hér við land á grunnsævi, en sérfræðingarnir vissu ekki til að hana hefði rekið á land í viðlíka magni og þarna var. Heimamenn rekur heldur ekki minni til að slíkt sé algengt, en þó gerðist það einu sinni áður á því tímabili sem hér um ræðir; líklega síðvetrar kringum 2010. Mosinn var í miklu magni á fjörum; þvældur innanum rekþara sem þá var byrjaður að sjást í auknum mæli. Nokkuð af honum hafði fokið upp í norðanveðri og lá um tún og grundir eins og skæðadrífa.
Umhugsunarvert er hvernig stendur á þessu. Mér finnst óyggjandi að viðburðurinn tengist offjölgun skollakoppsins og hnignun þaraskóganna, en hinsvegar er óljóst hvort um er að ræða mikla fjölgun Flustra folicea á svæðinu í kjölfar hnignunar þarans, eða hvort brimið hefur náð að róta mosanum á land vegna aukins rofkrafts. Þar sem mosinn þarf helst berar klappir til festingar er ekki ólíklegt að honum hafi boðist gott kjörlendi þegar aukið brimrót sópaði skeljasandi úr botni Kollsvíkur, og þá náð að fjölga sér verulega. Sýnist sú fjölgun því falla vel að framangreindri tilgátu.
Helstu heimildir
Bradley, K. & Houser, C. 2009. Relative velocity of seagrass blades: Implications for wave attenuation in low-energy environments. Journal of Geophysical Research 114, F01004, doi:10.1029/2007JF000951
Eckman, J.E., Duggins, D.O. & Sewell, A.T. 1989. Ecology of under story kelp environments. I. Effects of kelps on flow and particle transport near the bottom. Ecology 129 (2). 173-187.
Jón Már Halldórsson 2003. Hvað er skollakoppur? Vísindavefurinn, 16. september 2003. Sótt 11. desember 2017. http://visindavefur.is/svar.php?id=3734.
Karl Gunnarsson, Kaasa, O. & Einar Hjörleifsson 1977. Samspil ígulkera og þara. Lesbók Morgunblaðsins. 25. janúar 1977, bls. 15.
Karl Gunnarsson, Hall-Aspland, S. & Kaasa, Ö. 1997. Fæðuval og fæðunám skollakopps (Strongylocentrodus droebachiensis¬ (Müller)). Í Fjölstofnarannsóknir 1992-1995. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit 57. 157–164
Mork, M. 1996. The effect of kelp in wave damping. Sarsia 80. 323-327.
Valdimar Össurarson 2017. Ofbeit í sjó veldur spjöllum á landi. Bændablaðið, Lesendabásinn 6. mars 2017. Sótt 11. desember 2017. http://www.bbl.is/frettir/skodun/lesendabasinn/ofbeit-i-sjo-veldur-spjollum-a-landi/16579/