Sumarið 2022 var unnið að viðamiklu og margþættu verkefni í Kollsvík, til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðafólk, eins og lýst er í síðustu frétt.  koluskel led3
Meðal áætlaðra þátta þessa verkefnis var að koma upp lýsingu inni í Hesthúsinu á Hólum, sem orðið er vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Þetta 370 ára gamla hús hefur ávallt verið gluggalaust, eftir því sem best er vitað, og var það látið óbreytt í nýlegum viðgerðum. Þar er því nær niðamyrkur innan við þröng dyragöngin, sem spillir upplifun þeirra fjölmörgu gesta sem þarna koma. Hinsvegar virtust úrbætur ekki augljósar, bæði vegna aldurs og verndar hússins og vegna fjarlægðar þess frá rafkerfum.
Verkefnistjóra, sem sá um lagfæringar hesthússins fyrir nokkrum árum, rak þá minni til þess að í gömlum veggfyllingum hússins höfði komið í ljós nokkrar krákuskeljar, en þær virtust fullar af einhverju feitmeti sem líklega var tólg, lýsi eða grútur. Við eftirgrennslan kom í ljós að sá siður hafði þekkst fyrrum að nota skeljar sem kolur í útihúsum, eins og heimildir hér á eftir greina.
Líklegt er að skeljarnar í veggfyllingunni hafi verið koluskeljar; líklega þá skeljar sem ekki höfðu enn verið notaðar, heldur stungið í veggjarholu til geymslu en týnst inn í vegginn. Til lýsingar hafa skeljarnar líklega verið settar á til þess teglda spýtu, sem stungið hefur verið í veggjarholu. Fífukveikur hefur e.t.v. verið látinn í skelmunnann, og nærði lýsið logann.
Þótti því einboðið að reyna að hanna lýsingu hússins út frá þessari gömlu aðferð. Til rafmagnsöflunar var sett upp lítil sólsella skammt frá húsinu; sambyggð upplýHesthúslýsing3singaskilti sem þar er fyrir. Rafgeymir er þar í kassa, til orkujöfnunar. Grönn taug liggur neðanjarðar frá henni, inn undir vegghellu í vesturhorni hússins. Útbúin voru sköft eða „koluhaldarar“ úr tré til að halda skeljunum; lík sleifum í laginu. Tekið er grunnt sæti fremst, fyrir skelina, en afturhlutinn er skaft sem rekið er í veggjarholu. Skelin er gegnumboruð í botninn, og þar um liggur raflögnin í litla led-peru í vör skeljarinnar. Skelin er síðan fyllt af kertavaxi til að fela tengingar, og fest niður á skaftið með kítti. Nokkrar „koluskeljar“ voru útbúnar; flestar úr öðuskel og ein úr kúfskel. Rafleiðslan liggur falin aftanvið vegglægju; tengd földum hreyfiskynjara. Skynjarinn kveikir lýsinguna um leið og manneskja opnar dyrnar; heldur kveiktu meðan hún er í húsinu og nokkru eftir það. Gefur þetta all góða lýsingu, en þó ekki um of.  Sett verður upp lítið borð með gestabók.

Leita