Rauðasandshreppur er um margt erfiður í samgöngulegu tilliti.  Á landi eru einstakar byggðir aðskildar með háum heiðum og sæbröttum núpum, en á sjó tálma tvær öflugar rastir; Látraröst og Blakknsröst.  Snemma voru þó eflaust ruddir hestfærir vegir milli byggða, sem tóku stöðugum framförum allt til þess að bílfærir vegir voru ruddir eftir miðja 20. öld.  Hér segir kunnugt fólk frá samgöngum og samgöngubótum fyrr og nú.

Athugið:  Unnt er að stökkva beint í efniskafla með því að smella á þá hér í upphafi.
Samgöngur og flutningar (PG) - Vegagerð og vegir (TÖ) - Vegavinna á Skersfjalli (SG) - Rafvæðing (SG).

Samgöngur og flutningar

pall gudbjartsson
Höfundurinn:  Knútur Páll Guðbjartsson (04.08.1931-08.06.2007) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk framhaldsprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík og frekara námi í Stokkhólmi.  Vann ýmis verslunar- og skrifstofustörf; var kennari við Samvinnuskólann á Bifröst og aðalbókari við Kaupfélag Borgfirðinga.  Framkvæmdastjóri Vírnets í Borgarnesi frá 1972.  Páll var giftur Herdísi Guðmundsdóttur; þau bjuggu í Borgarnesi og eignuðust tvö börn, en fyrir átti Herdís eina dóttur.  Páll bar sterkar taugar til bernskustöðvanna og kom þar gjarnan í sínum fríum.  Pistil þennan tók Páll saman í tilefni af útgáfu Niðjatals Hildar og Guðbjartar, foreldra sinna, árið 1989.

Þegar ég var að alast upp í Kollsvík á fjórða og fimmta tug þessarar aldar, voru samgöngur á landi til og frá Víkinni óbreyttar frá því sem verið hafði frá landnámsöld.  Vegir voru ekki aðrir en gömlu þröngu hestagöturnar, sem enn má sjá móta fyrir á fjallvegum, en eru ekki lengur farnar.  Þessar götur voru svo þröngar að ekki gátu tveir menn gengið þær samsíða.  Þær voru niðurgrafnar, vegna þess að helstu lagfæringar á þeim voru þær að lausagrjót var tínt úr götunni, en sjaldan var nokkuð borið ofan í hana.  Stundum urðu þessar götur farvegir fyrir leysingavatn, sem gróf þær niður, og oft urðu þær það djúpar að ríðandi maður rak fæturna í grjót í götuköntunum.  Viðhald þessara vega var í því fólgið að á vorin voru menn fengnir til þess að hreinsa úr þeim lausagrjót og jafna þá, eftir því sem hægt var.  Í þessar vegabætur á hálsunum beggja megin Kollsvíkur var gjarnan varið tveim til fjórum dagsverkum á ári í hvorn háls, og verkfærin sem notuð voru til verksins voru oftast aðeins skófla og haki.

Af því ástandi vega sem hér hefur verið lýst, má ljóst vera að einu samgöngurnar á landi voru á hestum eð fótgangandi.  Og ekki var um aðra vöruflutninga á landi að ræða en á hestum, eða það sem menn báru á sjálfum sér.  Hér á ég við flutninga yfir hálsana beggja megin Kollsvíkur, en á flatlendinu innan Víkurinnar voru auk þess notaðir hestvanar til flutninga, þar til 1944 að dráttarvél sem keypt var í Víkina leysti þá af hólmi að mestu.  Þessi dráttarvél var sameign allra bænda í Víkinni.

Fjallvegasamgöngur við Kollsvíkinga héldust óbreyttar til ársins 1955, að lokið var við bílveg alla leið yfir Hænuvíkurháls.  Rúmum áratug áður hafði verið hafist handa um  lagningu akfærs vegar upp úr Kollsvík að norðanverðu, og mun Grímur Árnason á Grundum hafa verið hvatamaður að þeirri framkvæmd.  Þessum vegi var valið nýtt stæði, norðar yfir hálsinn og mun snjóléttara en þar sem hestavegurinn lá.  Ennþá er nokkuð eftir af þessum fyrsta akvegi yfir Hænuvíkurháls; aðallega í Kollvíkurbrekkunni og svo uppi á Jökladalshæð.  Þessi vegalagning hófst snemma á stríðsárunum, og verkstjóri við hana var Helgi Árnason í Tröð.  Unnið var eingöngu með handverkfærum; skóflum, hökum, járnkörlum, og einu ökutækin sem við varð komið voru hólbörur.  Að miklu leyti var þetta verk unnið í sjálfboðavinnu; þ.e.a.s. að menn afsöluðu sér ákveðnum hluta af launatöxtum.  Með þessum hætti var akfær vegur lagður inn að Aurtjörn á innanverðum hálsinum, að því undanteknu að upp Húsadalinn var vegurinn ekki fullgerður.  Þessi vegur hafði verið notaður sem hestavegur um nokkurra ára skeið, aður en bílfært varð yfir hálsinn; en þá nýttist hann á kaflanum úr Húsadal og inn að Aurtjörn sem bílvegur.

Eins og að líkum lætur voru vöruflutningar á reiðingshestum yfir fjallvegi seinlegir og ýmsum annmörkum háðir.  Það var til dæmis erfitt að búa þannig upp á reiðingshest að vel færi í brekkunum beggja megin í Hænuvíkurhálsi, en um þann háls lá fyrst og fremst leiðin til vöruaðdrátta.  Sérlega var erfitt að láta reiðing tolla sæmilega á hesti niður brekkur, þvi honum hætti alltaf til þess að síga fram á makkann, jafnvel þótt sett væri rófustag; þ.e. að kaðall væri bundinn í klyfberann og undir stert hestsins.  Eitt sinn minnist ég þess að hafa séð hest; Stroku sem Helgi í Tröð átti, láta sig falla á hné, neðst í Kolsvíkurbrekkunni og steypa klyfjum og reiðingi fram af sér.

Algengt var, ekki síst að vetrarlagi, að menn báru þungar klyfjar á eigin herðumyfir Hænuvíkurháls.  T.d. þegar komið var úr jólakaupstaðarferð, en jafnan var farið í kaupstað fyrir jólin og þá keyptur ýmis varningur til hátíðarhaldsins.  Eins var þá algengt á útmánuðum, að farið var að ganga á þá mjölvöru sem keypt hafði verið til vetrarins.  Var þá gjarnan skroppið innyfir háls að Hænuvík, meðan Sláturfélagið Örlygur hafði verslun þar; eða á Gjögra, eftir að félagsverslunin var flutt þangað.  Ekki þótti sérstakt tiltökumál fyrir fullfrískan karlmann að leggja á bakið fimmtíu kílóa byrði í slíkum ferðum.  Jafnan var borið í fötlum, sem kallað var.  Þá var kaðli brugðið í lykkju utanum byrðina; síðan handleggjunum stungið undir böndin, þannig að þau lágu sitt á hvorri öxl, en lykkjan ofaná byrðinni.  Lausu endana lagði maður svo fram yfir axlirnar og herti að með þeim; þannig að byrðin lagi hæfilega þétt að baki manns. 

Ég minnist einnar ferðar sem ég fór inn á Gjögra seinnipart vetrar, með Andrési Karlssyni frænda mínum á Stekkjarmel.  Í bakaleið bar ég einhvern varning; sitt lítið af hverju.  Ekki tiltakanlega þunga byrði en Drési, sem var um þessar mundir að dytta að bát sínum fyrir vorið, lét sig ekki muna um að leggja á bakið nokkur borð af bátavið, sem hann bar í fötlum frá Gjögrum og út í Kollsvíkurver.

Eina árvissa flutningaferð þurfti að fara á hverju  hausti, en það var heimflutningur á slátri frá sláturhúsinu á Gjögrum.  Féð var rekið til slátrunar inn í Örlygshöfn daginn fyrir slátrun; venjulega inn yfir Tunguheiði.  Síðan var lögð áhersla á að strax að kvöldi sláturdags væri slátrið búið uppá hesta og flutt heim.  Venjulega þurfti tvo hesta undir sláturflutninginn að Láganúpi.  Þar sem pabbi átti sjaldan nema einn hest, þurfti hann að fá annan lánaðan í þessa ferð.  Unglingar, einn eða tveir eftir atvikum, voru sendir í þessa ferð, en þeir urðu að vera orðnir það vel að manni að þeir gætu tekið ofan klyfjar, lagfært reiðing og látið upp aftur.  Heldur voru þessir sláturflutningar lítið vinsælar ferðir, því þær varð að fara; hvernig sem viðraði.  Oft er rigningasamt á haustin, og stundum fengu menn hin mestu hrakviðri; auk þess að ekki var hægt að leggja af stað fyrr en slátrun var lokið og því alltaf komið biksvart haustmyrkur áður en lagt var af stað, og ferðin frá Gjögrum að Láganúpi tók að minnsta kosti þrjá klukkutíma.

Enda þótt neysla manna á aðfluttum varningi á þessum tímum væri mun fábreyttari en nú er orðið, hefði orðið tafsamt að flytja allar aðfluttar vörur á hestum.  Var því mestur hluti þeirra fluttur sjóleiðina.  Venjulega voru farnar tvær meginaðdráttarferðir á ári.  Var önnur ferðin farin snemma vors og þá var aðflutningurinn tilbúinn túnáburður, auk ýmissar matvöru til heimilisþarfa.  Síðari ferðin var svo farin á haustin.  Var þá venjulega farið með ullina til innleggs; væri ekki búið að koma henni frá sér áður.  Heim var svo fluttur ýmiss konar varningur til vetrarins.  Matvara, svosem hveiti, sykur, haframjöl og rúgmjöl; allt í 50 kg pokum.  Fóðurbætir, aðallega fiskimjöl og síldarmjöl, var venjulega í 100 kg pokum.  Venjulega var tekið mað lítið eitt af kolum, sem þótti gott að geta gripið til ef sérlega þurfti að skerpa lítillega á eldi.  Annars var megineldsneytið mór, allt fram yfir 1950.  Þá þurfti líka að kaupa steinolíu til ljósmetis, og var hún venjulega flutt í 100 eða 200 lítra stáltunnum.  Oft voru þessar ferðir nokkuð erfiðar og hrakningssamar, sérstaklega haustferðirnar.  Tíðarfar ókyrrðist venjulega þegar leið að hausti, og lentu menn því oft í misjöfnum veðrum.  Það þótti ekki sérstakt tiltökumál þó að flestir sem unnu að uppskipun við þessar aðstæður kæmu frá því blautir uppí mitti eða undir hendur.  Þar slapp einna best sá sem var í bátnum og lyfti á, enda var oftast valinn til þess eldri maður, eða einhver sem ástæða þótti til að hlífa við vosinu.  Algengt var að höfð væri samvinna milli tveggja eða fleiri bæja um þessar aðdráttaferðir; enda unnust þær léttar ef nægilega margir hjálpuðust að.  Það þurfti einn eða tvo menn til að halda bátnum réttum við sandinn, og einn þurfti að vera í bátnum til að lyfta á; því fyrr gekk að bera farminn af  bátnum sem fleiri gátu verið við það.

Ekki minnist ég þess að menn fáruðust svo teljandi væri, um það hversu erfitt þeir ættu; að þurfa að sinna þessum verkum.  Þetta voru einfaldlega verk sem þurftu að vinnast, og menn voru því vanari en nú er orðið, að þurfa að beita líkamskröftum sínum við vinnu.  Jafnan var þess gætt heima, að ofbjóða ekki unglingum með erfiðisvinnu.  Hinsvegar þótti það sjálfsagt og eðlilegt að allir, jafnt yngri sem eldri, tækju  þátt í daglegum störfum; hver eftir sinni getu.  Ég man enn eftir sjálfsánægju minni, þegar mér var í fyrsta skipti treyst til að bera 200 punda síldarmjölspoka upp úr bát í Kollsvíkurveri.

Hér að framan hef ég talað um hina venjulegu búsaðdrætti Kollsvíkinga, og langar að lokum að segja lítillega frá því hvernig fyrsta dráttarvélin var flutt í Víkina.  Hún var keypt árið 1944, eða rúmum áratugi fyrr en fyrst akfært varð yfir Hænuvíkurháls.  Vélin var af gerðinni Farmal A, og er raunar til á Láganúpi enn (1989), en mun nú ógangfær.  Hún var keypt og flutt út í Kollsvík innpökkuð í stóran rammgerðan trékassa, og var að miklu leyti ósamansett.  Afturhjólin voru flutt laus, ásamt stærri fylgihlutum, s.s. plóg, herfi og sláttuvél sem keypt var með vélinni.  Ekki kom annað til greina en að flytja vélina sjóleiðis úteftir, en hinsvegar var enginn bátur í Kollsvík talinn nægilega stór eða stöðugur fyrir þann flutning.  Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík var því fenginn til að annast hann; enda var bátur hans nokkru stærri, og Bjarni sjálfur verklaginn og áræðinn að hverju sem hann gekk.

Þessi flutningur fór fram fyrri hluta sumars, og var valið stillt og gott veður.  Kassinn með dráttarvélinni var það langur að hafa var hann þversum yfir bátinn.  Stóð hann talsvert útaf á bæði borð, og var þó nokkuð háfermi.  Ekki veit ég hvernig farið var að því að koma kassanum um borð á Patreksfirði, en þegar úteftir kom var lent í Láganúps- og Grundalendingu um hálffallið út.  Látið var fjara undan bátnum og kassanum, sem var aðalflutningurinn, var síðan rennt út á fjörusandinn.  Timburplankar voru lagðir í braut upp á kambinn, og eftir þeirri braut var kassinn síðan dreginn með venjulegu bátaspili og látinn rúlla á sverum rörbútum sem lagðir voru þvert á plankabrautina.  Þegar kassinn var kominn vel undan sjó, var numið staðar.  Þar var síðan tekið utan af vélinni og hún sett saman í ökufært ástand.  Þessi flutningur tókst í alla staði vel, eins og til var stofnað, enda vel undirbúinn og unninn af gætnum mönnum. 

Hér að framan hef ég leitast við að segja frá því hvernig Kollsvíkingar unnu að því að flytja til sín  aðfengnar vörur, áður en akfært varð í Víkina.  Ég hef eflaust sleppt ýmsu sem frásagnarvert gæti talist, en von mín er sú að einhver kunni að hafa gaman af að lesa þessar línur.  Jafnvel að yngra fólk, sem ekki man þessa tíma, finni í þeim einhvern fróðleik.  Þá er tilganginum náð.

Vegagerð og vegir

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa gerði hann að beiðni Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1982.

Í Rauðasandshreppi var eiginlega engin þjóðleið nema aðeins við Vesturbotn, en þar lá hún niður af Kleifaheiði út á Patreksfjörð. Heimreiðir voru því óglöggar og engar traðir hlaðnar.  Bryggja eða göngugarðar þekktust ekki en stillur á læki og ár sem voru þá aðeins lækir nema í vorleysingum.  Ferðamannagötur eru æði víða í hreppnum; fyrst og fremst milli bæja og voru víða ruddir vegir og niðurtroðnir af hestum, vatni og mönnum. Þeir voru frá Kollsvík út að Breiðuvík, það var kirkjuleiðin okkar, og frá Breiðuvík út að Látrum. Gönguleið frá Látrum að Keflavík og þaðan inn á Rauðasand. Frá Kollsvík yfir Tunguheiði að Tungu í Örlygshöfn en þar var þingstaður hreppsins. Frá Kollsvík yfir Hænuvíkurháls, en leiðin lá inn með bæjum alla leið inn að Botni sem var þó lítið nema troðningur, en á þeirri leið var vaðall við Hnjót sem varð ófær um flóð. Úr Örlygshöfn var farið til kirkju að Sauðlauksdal og einnig frá Vatnsdal, Kvígindisdal og að innan frá Botni, Skápadal, Koti og Skeri að Hlaðseyri. Þessar leiðir voru allar farnar á hestum, aðeins ruddar skriður þar sem verst var.

Vöð voru á stöku stað, t.d. þurftum við að fara úr sokkum til að vaða yfir Breiðavíkurvaðal þegar við fórum til kirkju og bera kvenfólkið yfir, einkum að sumrinu. Lengsta ferðamannaleið í Rauðasandshreppi var úr Kollsvík og inn á Rauðasand, þá leið var farið oft að sumrinu með áburðarhesta og ríðandi, einkum voru það vermenn af Rauðasandi sem réru í Kollsvíkurveri. Þessi leið var farin gangandi á 3-4 klukkustundum frá Kollsvík að Naustabrekku. Kaupstaðarferðir voru til aðdráttar, aðallega farnar á sjó sérstaklega úr Útvíkunum, þá kom fyrir að matvöru til vetrarins o.fl. varð að flytja yfir Hænuvíkurháls á hestum og menn báru oft 50 kg á bakinu og er þó brött brekka upp á Hálsinn. Að vetrum var venjulega farið labbandi í Hænuvík eða að Gjögrum í Örlygshöfn og svo á sjó þaðan til Patreksfjarðar. Allt var farið á árabátum. Sjóleiðin úr Kollsvík til Patreksfjarðar var þriggja stunda róður af fjórum. Einu sinni vissi ég þó til að það tæki sjö klukkustundir á fjögurra manna fari að komast þessa leið í roki og náttmyrkri.

Varðaðir voru vegir, en þó lélega; áttamerki voru ekki. Leiðin yfir Skersfjall var kaupstaðarleiðin þeirra Rauðsendinga yfir að Skeri og þaðan sjóleið til Patreksfjaðar. Þessi vegur var allvel ruddur og varðaður enda fjölfarinn.  Viðhald á þessum vegum var lítið, einkum að kasta steini úr götu. Á Rauðasandi var stutt milli bæja og því aðeins troðningur eftir hesta og menn. Helst voru reiðhestar til á Rauðasandi og var góður reiðvegur þar meðfram sjónum, enda oft látið spretta úr spori.  Eina brúin sem ég man eftir var á Hænuvíkurvaðli. Hún var hestgeng, enda vatnsföll lítil.  Aflraunasteinar voru ekki við vegi í Rauðasandshreppi, en í Sauðlauksdal við hinn fræga "Ranglát" voru þeir og í verstöðinni á Brunnum á Látrum, heyrði ég talað um þá.  Sæluhús voru ekki til á þeim tíma en er nú komið í Keflavík.       

Sjóargata var frá öllum bæjum í Kollsvík og víðar.  Stekkjargötunni þar man ég eftir, og kúagötunni fram á stöðulinn sem var alllöng og svo voru kýrnar reknar áfram í haga.  Var ég víst ekki gamall er ég fylgdi kúnum í haga með öðrum nágranna á líkum aldri.       

Fyrsta vegagerð í Rauðasandshreppi mun vera sem Ungmennafélagið Baldur gekkst fyrir en það var að gera hestfæra urð milli Ness og Gjögra. Það var gert þannig að rutt var til grjóti og smærra grjóti fyllt í holurnar, síðan var borið á bakinu í pokum fínni möl, svo þetta varð dágóð göngugata fyrir menn og hesta, vegalengdin líklega nokkur hundruð metrar.  Næst gerir Ungmennafélagið Vestri hestfæran veg um svokallað Flosagil, en það er mjög bratt en var þó gengið einkum að sumri til. Þetta verk var sjálfboðavinna og var allmikið verk því hlaða þurfti allmikla grjóthleðslu. Ég tók þátt í þessari vegagerð ásamt félögum úr Kollsvík og Breiðuvík. Þá var alfaraleið úr Breiðavík inn í Örlygshöfn eitthvað rudd enda kaupstaðarleið þeirra úr Breiðavík og Látramanna. Einnig var gönguleið úr Kollsvík og Hænuvík í Láturdal, en þar var gömul verstöð.  Man ég eftir að þar voru nokkrir bátar að vorinu og þá voru 2 eða 3 verbúðir þar.  

Þá var gönguleið innst af Rauðasandi og inn á Barðaströnd, og að sjálfsögðu þjóðleiðin úr botni Patreksfjarðar inn á Barðaströnd.   Það var Kleifaheiði sem var vel vörðuð, einnig var nokkuð vörðuð leiðin frá Rauðasandi og inn á Barðaströnd, og eitthvað rudd gata með köflum. Við Naustabrekku voru brattar skriður á leiðinni upp á fjallið til Keflavíkur og til Kollsvíkur, í þessar skriður eru sniðgötur og þurftu oft árlegt viðhald.  Fyrsti akvegur í Rauðasandshreppi var yfir Skersfjall af Rauðasandi yfir að Skeri. Þessi vegur var ekki í neinu sambandi við gerða akvegi fyrr en að nokkrum árum liðnum er akvegur kom frá Skeri fyrir botn Patreksfjaðar út í kaupstaðinn. Var þessi vegur frá Rauðasandi að Skeri því aðallega farinn með hestakerrur til flutninga til að byrja með.      Við vegagerðina voru eingöngu notaðar hestakerrur við malarflutning og var svo víðar á Vestfjörðum. Þegar þessi vegagerð hófst í Rauðasandshreppi var ég löngu fluttur þaðan og hef því fátt frá að segja.      
 

Vegavinna á Skersfjalli

sg sg


Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1996.  

Ég hef frá litlu að segja um vegagerð. Þó er nú ekki örgrannt að ég hafi borið við að vinna við slíkt; þ.e.a.s. ég átti að heita ráðskona fáar vikur, sumarið 1945, þá fimmtán ára. Þetta var nú mest viðgerð á veginum yfir Skersfjall í Rauðasandshreppi.  Pabbi minn og bróðir voru þarna í vinnu og fleiri af bæjunum á Rauðasandi. Ekki voru nú komin stórvirk tæki þarna, en mest rekur og járnkarlar og hestar og kerrur til flutninga.

Þetta var mest að hlaða upp vegkanta og aka möl í holur. Flokkurinn var nú ekki fjölmennur; mig minnir 8-9 menn, og svo sannarlega ekki kröfuharðir í matarmálum!  Mest var mér ætlað að hafa nóg kaffi og kex (Sæmund) hafragraut á morgnanna og soðinn fisk eða kjöt. Pabbi vakti mig um 7.30 þegar þeir fóru að vinna og svo var ég mest ein að gaufa á daginn, nema þegar þeir unnu stutt frá tjöldunum að þeir komu heim í mat, annars höfðu þeir bita með sér og borðuðu á kvöldinn þegar hætt var. Sofið var í tjöldum og eitt tjaldið notað sem eldhús. Tvo prímusa hafði ég til eldamennsku. Tjöldin voru flutt eftir því sem viðgerðum á veginum miðaði, því seinlegt var að ganga langar leiðir í tjöldin. Lækjarsytrur eru þarna víða og var tjaldað nálægt læk og gjarnan sóst eftir að lautir væru eða stórir steinar í nágrenni tjaldanna, því ekki þótti taka því, þar sem verkið tók ekki langan tíma, að koma upp náðhúsi!

Um helgar fóru menn heim til sín enda tiltölulega stutt að fara.  Ekki var mikil umferð um þennan veg á þessum tíma enda var hann ekki í sambandi við vegakerfið fyrr en alllöngu síðar. Þó var þarna einn vörubíll; hann gamli Ford, sem nokkrir bændur áttu saman. Annars var þessi vegur mest notaður til flutninga á hestum, bæði kerrum og reiðingi og að sjálfsögðu ríðandi fólki. Þessi vegur yfir Skersfjall var raunar nokkuð merkilegt fyrirbæri þar sem þetta var einn fyrsti bílvegur hér um slóðir en ekki í sambandi við aðra vegi. Ég kann bara ekki nógu vel sögu þessa vegar en ég vona að hún sé einhversstaðar skráð.

Rafvæðing

Höfundur:  Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan). 

Ég sá fyrst rafljós á Patreksfirði og var þá það ung að ég hugsaði lítið út í það nema mér fannst þetta mikil birta.

Á nokkrum bæjum í Rauðasandshreppi var komið upp litlum heimilisrafstöðvum löngu fyrir samveiturafmagnið, þær fyrstu fyrir 1930. Rafmagn frá þeim nægði fyrir ljós og eldavélar og sums staðar til upphitunar. Á Rauðasandi hagar þannig til að lítið er um læki sem hægt er að fá fallhæð í, a.m.k. á Útsandinum enda engar vatnsrafstöðvar þar, nema ein smávirkjun í lækjarsprænu á Naustabrekku. Hún dugði bara til að hlaða útvarpsbatterí og einnig var þar til einn nokkuð stærri geymir sem var hlaðinn og farið með heim í bæ og tengt við hann fáar litlar perur. Ein önnur svona stöð var í sveitinni. Ekki þjakaði minnimáttarkennd þá sem komu sér upp þessum örstöðvum því þeir kölluðu þetta „kraftverk“.Þó var til enn minna „kraftverk“ á Rauðasandi, það var pabbi minn sem kom sér því upp, það dugði fyrir útvarpsrafhlöður en ekki var það fyrirhafnarlaust. Pabbi tengdi dínamó við rennibekkinn sinn og svo var hægt að stíga bekkinn og hlaða batteríin en það tók langan tíma. Þarna voru hlaðnar útvarpsrafhlöður á Lambavatnsbæjunum og stundum fleiri. Annars fóru menn með rafhlöður í„kraftverkin“ bæði að Brekku og í stærri vatnsvirkjanir en þá var yfir fjöll að fara.

En svo komu vindrafstöðvar. Að Lambavatni kom slík stöð upp úr 1940 og síðan á flesta bæi á Sandinum. Þetta var lítil 6 volta stöð og síðan kom önnur eins stöð heima. Þær voru notaðar báðar í nokkur ár. Þegar vindur var, hlóðu þær inn á nokkra geyma sem var svo hægt að hafa ljós frá, þegar logn var. Þá þurfti að spara ljósin en þessar stöðvar voru bara til ljósa. Á sumum bæjanna voru stærri stöðvar; 12 - 32 volta. Pabbi smíðaði túrbínu í litla virkjun í læki í Saurbæ sem hlóð bara inn á geyma. En svo fóru að koma litlar díeselvélar á bæina og leystu þær vindrafstöðvarnar af hólmi. Á Rauðasandi geta komið mikil rok og vildu þá spaðar fjúka af vindrafstöðvunum þótt á þeim væri útbúnaður til að stöðva þær í miklu hvassviðri. Svo gat lognið verið heldur lengi til að entist á geymunum. Samveiturafmagn kom ekki í Rauðasandshrepp fyrr en 1974 – 5; frá Orkubúi Vestfjarða. Baráttan um að fá hér rafmagn snérist mest um stofnun Orkubús Vestfjarða sem öll sveitarfélög á Vestfjörðum stóðu að. Að þessu var vitanlega talsverður aðdragandi en ég fylgdist nokkuð með þessu þar eð bóndi minn, Össur Guðbjartsson, var í fyrstu stjórn Orkubúsins og vann talsvert við undirbúning þess sem oddviti hér. Í nokkur ár fóru fram mælingar í Suðurfossá á Rauðasandi með virkjun í huga, en ekki var talið borga sig að virkja þar.

Ekki minnist ég sérstaks sparnaðar á rafmagni nema þegar logn var á vindrafstöðvarnar og notað var rafmagn af geymum. Reyndar var fólk vant að slökkva á olíulömpunum ef það var ekki að nota þá svo það hefur sjálfsagt verið gert með rafmagnið líka

Fyrst eftir að rafmagn kom voru ljósastæði einföld; oftast föst perustæði með engum skermum. Svo fóru að koma lampar, bæði borðlampar og hangandi, einnig „hundar“. Útiljós og ljós í skepnuhús komu nokkuð seinna.

Díeselvélar voru og eru á Patreksfirði og öðrum þéttbýlisstöðum og koma í notkun þegar veiturafmagn bregst, sem er ansi oft að línur bila. Þá getur þurft að skammta rafmagnið. Rafmagnið þótti dýrt og þykir ekki síður enn og er ekki að undra þegar borið er saman verð á rafmagni t.d. frá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitu Reykjavíkur eða landsbyggðarinnar yfirleitt og Reykjavíkursvæðisins.

Fyrir utan ljósin var fyrsta raftækið þvottavél.  Fyrsta rafmagnseldavélin hér á bæ var Ignisvél en hún kom ekki fyrr en 1975. Ég hef ekki átt Rafha eldavél en ég heyrði um konu sem var að kaupa eldavél í Bretlandi og spurði þar eftir í raftækjaverslun hvaða eldavélategund væri best. Henni var sagt að besta eldavél sem framleidd væri í heiminum væri framleidd á Íslandi og héti „Rafha“! 

Fyrsta rafmagnsstraujárn sem ér átti var gufulaust.  Fyrsta ramagnsþvottavélin var með spöðum í botni og rafmagnsvindu.

Rafmagn gerði auðvitað störfin auðveldari, t.d. betri lýsing og þægindi við þvotta og eldamennsku og slíkt.

Tvenns konar rafhlöður voru notaðar við útvörp, kallaðar þurrbattery og votabattery. Þurrbatteryin entust nokkuð lengi og síðan voru keypt ný. Þau líktust ofvöxnum vasaljósabatteryum. Votabatteryin eða rafgeymarnir tæmdust og þá þurfti að hlaða þá aftur. Var þá lagt af stað oft yfir langa fjallvegi á næsta bæ sem rafveita var á til að fá hleðslu. Tveir geymar þurftu að vera til svo sá sem fór með tóma geyminn gæti tekið hlaðna geyminn með sér heim. Sumir fengu að hlaða batteryin í rennibekknum hans pabba. Við hann var dýnamór og var svo hægt að stíga rennibekkinn (lengi!) og hlaða geyminn. (Skráð 1999).