Hér lýsir Hilmar Össurarson strandlengjunni í Láganúps- og Kollsvíkurlandi. Ströndin er um margt sérstæð, bæði varðandi náttúru og sögu.
Hilmar Össurarson er fæddur 1960 og ólst upp á Láganúpi. Að loknu búfræðinámi festi hann kaup á jörðinni Kollsvík, ásamt Hólmfríði Steinunni Sveinsdóttur konu sinni. Þar bjuggu þau til 2002 er þau brugðu búi og fluttu suður ásamt 5 börnum. Þar með lauk samfelldri sögu landbúnaðar í Kollsvík; a.m.k. að sinni. Hilmar hefur síðan unnið m.a. í Húsdýragarðinum í Reykjavík og við Tilraunastöðina á Keldum. Hann er gjörkunnugur Kollsvík og Láganúpi, og lýsir hér staðháttum meðfram ströndinni; frá Landamerkjahrygg suðurundir Breið; að Þyrsklingahrygg norðanvert við Blakk.
Í þessu greinarkorni er ætlunin að gera fjörunni í Kollsvíkur-og Láganúpslandi nokkur skil. Hér verða rakin örnefni í fjörunni og nágrenni hennar og sagnir þeim tengdar. Frjálslega verður farið með fjörumörk og mun verða getið staðhátta og sagna jafnvel nokkuð hundruð metra frá fjörunni, allt eftir geðþótta undirritaðs.
Allan þann tíma frá því að ég man eftir mér snemma á 7. áratug síðustu aldar og fram yfir aldamót var fjaran endalaus og dularfull uppspretta tilbreytinga. Hún er á köflum síbreytileg þar sem skeljasandur er, og getur gjörbreytt um svip á fáeinum klukkustundum í stórstraum og vetrarbrimi. Þá geta klappir og stórgrýti skotið upp kollinum þar sem áður var rennislétt sandfjara, á meðan annars staðar kaffærðist kunnuglegt fjörulandslag undir nokkra metra þykku sandlagi. Hér er að sjálfsögðu átt við hinn gula skeljasand sem einkennir fjöruna á löngum köflum og gefur henni yfirbragð af sólskini og sumri, jafnvel um hávetur. Svartur fjörusandur er hvergi til á þessum fjörum. Malarfjara er naumast til heldur, en þó glyttir í möl á fáeinum stöðum þegar sandinn tekur út. Fjöruborðið samanstendur því í stórum dráttum af skeljasandi, stórgrýti mjög brimnúðu, og klöppum og hleinum sem einnig eru slípaðar og núðar af stöðugu brimi í árþúsundir.
Kollsvík liggur fyrir opnu hafi þar sem brimskaflar verða hvað hæstir við Ísland, svo og sjávarstraumar mjög harðir. Af því leiðir að aldrei er algjörlega lágdautt eða bárulaust í þessari fjöru. Oft brýtur á boðum frammi á víkinni, og fyrir kemur, t.d. í vestan- eða norðanrosa, að víkin er samfellt hvítfyssandi grunnbrot, þar sem brimskaflar byrgja hafsýn af láglendi og ganga uppfyrir vanaleg fjörumörk. Þó getur í langvarandi stillum í veðri, einkum að sumarlagi, verið nánast spegilsléttur sjór eða ölduhæð uppá fáeina tugi cm, jafnvel svo dögum skipti. Slíkt verður þó að teljast fremur fátítt, en í máli Kollsvíkinga var þetta nefnt svartalogn, stafalogn, koppalogn, kjör eða stillur. Á þessum slóðum er land að síga í sæ þó að hægt fari, og eins telja menn vetrarveður með tilheyrandi brimróti ofsafengnari en áður var, þó erfitt sé að fullyrða um slíkt. Hvað sem því líður er rof umtalsvert á þeim svæðum fjörunnar sem viðkvæmust eru, og mun verða fjallað nánar um það síðar í þessum pistli. Eins og áður hefur komið fram á þessari heimasíðu var sjórinn lífgjafi fólksins sem byggði Kollsvík lengst af. Því var fjaran í senn vinnustaður fólks, einkum karlmanna, og leikvangur barna. Í fjörunni var, og gæti verið enn, rekin skóli í líffræði, haffræði, veðurfræði og stjörnufræði. Í fjöruna fóru börn með eldri systkinum eða foreldrum strax og þau byrjuðu að ganga og voru þar síðan í öllum frístundum sínum og námu fræðin af hinum fullorðnu. Þessi skóli rann svo saman við fullorðinsárin átakalaust, þar sem menn hófu feril sinn hásetar og urðu síðar sumir formenn á áraskipum þeirra tíma. Engin dæmi þekki ég um barnsfæðingar í fjörunni í Kollsvík en aftur á móti eru þeir allnokkrir sem hafa endað sína ævidaga í þeirri fjöru í aldanna rás. Allmargir þeirra sem ólust upp í víkinni á síðustu áratugum heilsársbyggðar hafa gert sjómennsku að ævistarfi sínu að nokkru eða öllu leyti.
Nauðsynlegt er að gefa nokkrar orðskýringar þar sem ég kýs að nota það tungutak sem ég ólst upp við á Láganúpi. A) heimantil og heimeftir, þýðir nær bæjum í sjálfri víkinni B) Utantil og úteftir, þýðir suður eða suðvestur frá Kollsvík C) handantil og fyrir handan, merkir sunnanmegin í Kollsvík D) Norðantil og norðastur merkir í norðvestur, norður eða norðaustur. Orðmyndin nyrstur sem viðtekin er í íslensku nútímamáli var ekki notuð í Kollsvík.
Ég vel að hefja förina við suðvesturlandamerki Láganúps við Breiðavík og enda förina í Patreksfirði á landamerkjum Kollsvíkur og Hænuvíkur. Landamerkjahlein markar landamerki Láganúps og Breiðavíkur, er það klettahlein fremur lág og löng sem liggur fram undan fjallsnúpnum Breið u.þ.b. miðjum. Ofan við sjávarklettana í hlíðinni er áberandi hryggur, Landamerkjahryggur, sem afmarkar landsmerki upp undir kletta. Á brún Breiðsins þar upp af er klettanef með áberandi stórum steinum á brúninni og heitir Steinanef . Hlíðin framan í Breiðnum er mjög grösug einkum Breiðavíkurmegin við Landmerkjahrygg. Þar er hún samt mun brattari en Láganúpsmegin. Meðan sauðfé var í Kollsvík sótti það mjög í Breiðinn, enda kjarnmesta beitiland með stöðugum áburði af fugli á vorin og sumrin. Vegna brattans var þetta svæði óskaplega vanhaldasamt fyrir sauðfé. Ekki var óalgengt að 40-60% þess fjár sem þarna gekk heimtist ekki að hausti. Um miðja síðustu öld var reynt að girða Breiðinn af þannig að sauðfé kæmist ekki í hann. Var það gert með fyrirhleðslu í þrjá ganga Breiðavíkurmegin, sem var tiltölulega einfalt, og u.m.b. 100 m langri girðingu Láganúpsmegin; á Urðarhrygg sem er norðast í Breiðnum. Vegna grjóthruns og framskriðs reyndist ókleyft að halda girðingunni á Urðarhrygg fjárheldri. Útslægjur voru stundaðar í Breiðnum áðurfyrr. Síðastur mun hafa slegið þar Ólafur Halldórsson á Grundum, og bar hann heyið í poka heim á Bakkana . Í klettunum í Breiðnum hefur lengi verið allmikið fýlavarp. Hefur það reyndar nánast horfið á síðustu áratugum eins og öll slík vörp á þessum slóðum. Eftir miðja síðustu öld var það hins vegar allmikið nytjað. Voru þar tekin nokkur hundruð egg á hverju vori. Virtist það lítil áhrif hafa á stofnstærð múkkans. Það var ekki fyrr en nokkrum áratugum eftir að nytjar lögðust af að hnignun varpsins hófst í stórum stíl. Í sjávarklettum undir Landamerkjahrygg er svonefnt Lundafles. Þar mun ekki hafa orpið lundi í seinni tíð, en áðurfyrr var sigið í flesið eftir múkkaeggjum; 12 faðma sig. Á milli Urðarhryggs og Landamerkjahryggs er Skútahryggur. Sunnanvert í honum er hvapp allstórt, en það orð er notað yfir lautir í miklum bratta á þessu svæði. Þetta hvapp er nánast klettum girt nema á einum stað sem komast ná niður í það. Norðanvert í hvappinu er hellisskúti tæplega mannhæðarhár og ekki djúpur. Mjög safnaðist í hann sauðatað þar sem kindurnar notuðu hann óspart sem afdrep í hrakvirðum, eins og aðra slíka skúta sem þær komast í. Í klettunum ofan Skútahryggs er Flesið; snarbratt grasflæmi sem fé leitaði stundum uppí. Norðanvert við Skútahrygg er Skriðan, aurskriða sem nær frá efri klettum niður niður á sjávarkletta. Hún er mjög brött þannig að hún er vanalega ógróin með öllu. Er hún töluverður faratálmi göngufólki og sá mesti Láganúpsmegin í Breiðnum. Annars er Breiðurinn allur sæbrattur mjög og þó sýnu brattari Breiðavíkurmegin. Þar er Breiðshlíðin svo brött á löngum kafla að fólki skal eindregið ráðið frá gönguferðum þar. Aftur á móti er fær leið þó brött sé, í neðsta gangi í efri klettum til Breiðavíkur. Eftir að fé hvarf úr Breiðnum eru kindagötur orðnar ógreinilegar, og því sumsstaðar vandratað fyrir ókunnuga. Ekki þarf að taka það fram að fólki sem haldið er lofhræðslu skal alfarið ráðlagt frá gönguferðum á öllum þessum stöðum. Hægt er að ganga fjöruna fyrir Breið um stórar fjörur, en hún er afar stórgrýtt og torfær á löngum köflum, með flæðihættu. Greiðfærara er Láganúpsmegin út á Landamerkjahlein og lítið eitt lengra. Þá er farið niður sjávarklettana í Vatnadalsbót annað hvort í Árdalnum (gilinu) eða niður klettanef norðan við Árdalinn – hvorutveggja dálítið klöngur. Best er að sæta sjávaföllum svo hægt sé að velja sér skástu leiðirnar á fjörunni. Einnig er best að fara snemma vors áður en slý og þörungagróður þekur fjöruna en slíkt gerist snemmsumars vegna mikils og nær samfellds vatnsaga úr sjávarklettunum. Utanvert í Vatnadalsbótinni eru margir fagrir smáfossar sem koma þar beint út úr klettunum og falla í fjöruna. Norðast í Urðarhrygg neðarlega er lítill hjalli sem heitir Blettahjalli. Voru miðaðir við hann svokallaðir Blettir sem eru fiskimið þarna framundan.
Þar sem Breiðnum sleppir taka við tiltölulega láréttir bakkar og nokkuð grösugir og heita Hústóftarbakkar. Draga þeir nafn af tóft sem á þeim er, mjög vallgróin og ógreinileg. Ekki er vitað til hvers hún hefur verið notuð en til greina kemur stekkur eða heytóft, því graslendi er þó nokkuð á Bökkunum, og vitað er að þeir voru slegnir líklega fram yfir aldamótin 1900. Hins vegar er heybandsvegur hvorki langur né erfiður að Láganúpi. Sé um að ræða stekkjarrúst er hún mikið eldri en stekkjarústir sem eru mjög greinilegar á Hnífunum, þ.e. sjávarklettunum sem liggja milli Vatnadals og Kollsvíkur. Stekkirnir voru nýttir fram eftir 19. Öldinni. Engar slíkar sagnir eru um tóftina á Hústóftarbökkum. Bakkana klýfur gil nokkuð djúpt og heitir Árdalur. Vanalega er Árdalurinn þurr nema í vorleysingum og mikilli bleytutíð á öðrum ársstíðum. Árdalurinn er affall Vatnadals sem er 10 km langur og 1-2 km breiður og gengur suðaustur í hálendið sunnan við Kollsvík og Hænuvík. Þetta leiðir hugann að hinum sérkennilega vatnsbúskap alls þessa skaga sunnan Patreksfjarðar. Þó svæðið teljist mjög úrkomusamt virðist öll sú úrkoma hverfa jafnhraðann niður í jökulurðina sem er nánast allsráðandi í landslagi ofan við c.a. 100 m hæðarmörk. Þeir lækir og smáár sem eru á þessu svæði spretta flest upp í mesta lagi fáeina tugi metra yfir sjó. Annað sem veldur furðu í þessum sérkennilega vatnsbúskap er að vatnsmagn eykst lítt eða ekkert þrátt fyrir að votviðri gangi jafnvel vikum saman. Hæsta uppspretta sem vitað er um á þessu svæði er líklega uppi á Breiðnum, þar sem heitir Breiðvatn; kippkorn frá brún. Það er mest um 260 m langt og 140 m breitt, en líklega ekki mjög djúpt. Í því er eflaust uppspretta, því það þornar aldrei upp. Áður en skilist er við Breiðinn skal getið um sérkennilegt tófugreni sem er í klettanefi nærri brún sjávarklettana. Það er myndað ef mörgum smáholum í berginu sem líklega hafa myndast þegar glóandi hraun rann yfir skóglendi og trjábolirnir skildu eftir sig holur er hraunið kólnaði fyrir 16-18 milljónum ára. Slíkar holur má víða sjá á þessu svæði. Í sumum þeirra má enn sjá steingerða búta þessara trjáa.
Ofan við Hústóftarbakka rís mikið malarholt, Breiðsholt, sem má segja að þveri mynni Vatnadals. Breiðsholt er líklega forn jökulruðningur frá síðasta jökulskeiði en einnig mótað af sjávarrofi við hærri sjávarstöðu en nú er. Breiðsholtið klýfur Árdalur nokkurn vegin í miðjum dal og er hann 20-30 m djúpur þar sem holtið er þykkast. Er ísaldarjökulinn tók að bráðna fyrir 10-20.000 árum hefur eflaust vatnsmikið jökulfljót beljað eftir Árdal og mótað hann í þá mynd sem hann er í dag. Einhverntíma á því mótunnarferli hefur þó vatnsvegur legið meðfram hlíðarrótum Breiðsins þar sem er annað gil við syðri enda Breiðsholts og heitir Grenjalág. Eins og nafnið bendir til eru grenstæði refsins á nokkrum stöðum í Grenjalág allt niður á Hústóftarbakka. Gönguleið út að Breiðavík er samnefnd Grenjalág upp á Breiðinn að norðanverðu þar sem klettunum sleppir.
Hverfum nú aftur að sjónum. Lágir sjávarklettar eru neðan Hústóftarbakka, og einu færu leiðirnar ofan í fjöru á þessum slóðum eru í og við Árdal eins og áður er getið. Framundan Vatnadal er breið og grunn vík sem heitir Vatnadalsbót og hefur fjaran þar sama nafn. Öll er sú fjara stórgrýtt að jafnaði sem aðrar fjörur þarna. Þó kemur fyrir, sérstaklega í langvarandi norðanátt á sumrin, að allbreið skeljasandsfjara myndast . Ef síðan gerir Vestanbrim hverfur allur sandur jafnvel á einni flæði. Fyrir kemur að trjáreki er undir Breið eða í Vatnadalsbót. Mjög erfitt er að bjarga reka undan sjó á þeim stöðum þar sem brim gengur viðast hvar í kletta sem eru nokkrir tugir metra á hæð. Þó minnist ég þess að hafa náð 2 rekatrjám í böndum með traktor ásamt föður mínum á 8. áratug síðustu aldar. Í malarfjöru í Bótinni og víðar á þessum slóðum má stundum sjá hnullunga af graníti, kvartsi og öðru bergi sem ekki finnst í berggrunninum hér um slóðir. Þetta eru flökkusteinar sem setið hafa neðan í borgarís frá Grænlandi. Best er að leyfa þessum langförlu gestum að liggja áfram á sínum stað, líkt og öðrum fáséðum náttúrugersemum.
Nyrst og efst á Hústóftarbökkum er gróið slétt svæði sem nefnist Flatir, en norðan við þær breytir landslagið mjög um svip. Sjávarklettarnir hækka töluvert en eru mjög sundurskornir af lautum og smádölum, jafnvel giljum. Klettarnir frá Bökkunum og að Kollsvíkinni heita einu nafni Hnífar. Mjög fallegt landslag er á Hnífunum þar sem skiptast á skjólsælar lautir og svipmiklir höfðar og hólar. Samkvæmt þjóðtrúnni er þétt byggð vætta á Hnífunum. Höfuðból huldufólksins er í Stórhól, sem er stór urðarhóll þar sem Bökkunum sleppir. Því hefur ávallt verið bann við öllum hávaða og ærslum í nágrenni við hólinn. Af Hnífunum má oft sjá lognrákir á sjónum, en þær voru sagðar vera eftir báta huldufólksins. Af því að dæma er hér enn stundað verulegt útræði. Niður undan Stórhól eru hellar tveir í klettunum. Sandhellir er nokkuð djúpur með litlum afhelli er heitir Þumall. Göng eru sögð vera milli Stórhóls og Sandhellis, þó dauðlegum mönnum hafi ekki tekist að finna þau. Ekki er erfitt að fara í Sandhelli ef menn þekkja leiðina. Norðar og neðar er Gvendarhellir; mun minni en Sandhellir og erfiðari í að komast. Munni Gvendarhellis er ekki stærri en svo að meðalmaður getur skriðið þar inn, en nokkuð rúmgóð hvelfing er þar innanvið. Neðanvið hann er Sandhellissvelti, grasfles sem kindur gátu stokkið niður í en komust ekki upp aftur. Eitt dæmi veit ég um að kind með lamb hafi komist úr Sandhellissvelti niður í fjöru í Vatnadalsbót. Fjaran fram undan Sandhellinum breytir nokkuð um svip. Í stað stórgrýtisfjörunnar í Vatnadalsbót taka við langar klettahleinar sumar frálausar við land með vogum á milli. Er slíkt fjörulandslag alsráðandi undir öllum Hnífunum allt að Grundargrjótum í Kollsvík. Öll er sú fjara ógreiðfær og Sandhellisvogur, undir Sandhelli, er oftast ófær með öllu. Hleinarnar frá Sandhelli að Hnífaflögu, sem er klettanes er skagar í vestur frá miðjum Hnífunum, heita einu nafni Sveinaflögur . Fram undan Sandhelli, þó lítið eitt vestar, er sker með gati í, þ.e. sjávargöng eru inn í skerið sem opnast svo uppúr því miðju. Í vestanbrimi og hæfilega föllnum sjó má sjá þar tignarleg sjógos, stundum tugi metra í loft upp. Alltaf er töluvert af sel á Vatnadalsbót og við Sveinaflögur. Einkum er það útselur en hann kæpir á Landamerkjahlein. Heimanvið Stórhól og Sandhelli er djúp og nokkuð breið laut niður í Hnífana. Heitir hún Undirlendi. Upp af Undirlendi austanverðu er önnur minni hringlaga laut sem heitir Grófarstekkur. Í henni er gömul stekkjarrúst, og þar má sjá holu eftir trjábol í berginu. Austan í Grófarstekk er grunnur hellisskúti sem í eru gamlar hleðslur, og hefur hann vafalaust verið notaður sem stekkur meðan fært var frá lambám. Á þessi svæði er nokkur smá klettanef sem skaga fram í sjávarklettana með lautum á milli. Heita þau einu nafni Grófarnef. Þar sem Grófarnefin rísa hæst er Tröllkarlshellir niðri í klettunum. Er hann allhár en ekki djúpur. Torvelt er að komast í hann og nær útilokað að finna hann fyrir aðra en staðkunnuga. Ekki er langt frá Tröllkarlshelli í Stórhól, og því virðast tröll og huldufólk hér eiga gott sambýli. Vestan við Grófarnefin beygja Hnífarnir nokkuð til norðurs. Þar er í klettunum allstór laut eða hvapp, hömrum girt, en hægt er að komast í það á tveim stöðum. Þetta er Ytri Lambhagi. Þar voru fráfærulömb geymd yfir stekkjartímann. Hætt er við að þeim hafi alltaf fækkað nokkuð þar sem háir sjávarklettar eru undir. Síðast var fært frá á Láganúpi árið 1934. Norðan við Ytri Lambhagann tekur við nokkuð djúpt klettagil sem nær niður í fjöru. Um það er göngufær leið og fjaran nær þónokkurn spöl norður fyrir Hnífaflögu sem skagar vestur úr Hnífunum. Á stórstraumsfjöru og ládeyðu má komast fjöruna úr Gilinu og út í Vatnadalsbót. Allar eru þessar leiðir stórgrýttar og torfærar mjög. Lautirnar upp af Gilinu heita Kálfalágar. Þegar hér er komið við sögu lækka Hnífarnir mjög á svonefndri Hnífaflögu, þannig að yst á Flögunni eru þeir naumast meira en 3-4 mannhæðir. Yst á klettanefi Flögunnar má komast niður í fjöru með dálitlu klifri.
Á Hnífaflögu varð það slys 9. apríl 1888 að tuttugu og þriggja ára bóndasonur frá Láganúpi, Helgi Ásbjörnsson drukknaði. Skór hans og byssan fundust upp á Flögunni en líkið fannst aldrei. Talið var að hann hafi skotið sel skammt frá landi og ætlað að vaða eða synda eftir honum.
Framundan flögunni skagar lág klettahlein út í sjóinn nefnd Flöguhlein. Í hana hefur brimið sorfið ýmiskonar skorur og holur svo vestanbrim getur orðið tilkomumikið þar eins og víða á þessum slóðum. Uppá klettunum á Flögunnni eru víða holumyndannir í klöppum og steinum líkt og í osti. Líklega hafa þær orðið til vegna aðstæðna við storknun bergsins. Í því eru misharðar æðar og e.t.v. loftbólur, og vindur, selta, frost og væta hafa síðan hjálpað til við smíðina síðustu 16-18 milljón árin.
Svæðið upp af Hnífunum nefnist einu nafni Strympur, það er víðáttumikið og bunguvaxið malar og aurholt lítt gróið, með lágum klettarana efst. Er nær dregur Láganúpi tekur við vel gróið flatlendi sem heita Flatir. En færum okkur aftur að sjónum. Norðan við Flöguna taka við nokkuð háar klettahleinar með alldjúpum vogum á milli. Norðanvið Flögu er stór hellir í miðjum klettunum, þó fremur grunnur. Heitir hann Álkuskúti. Ekkert álkuvarp er í þessum skúta nú á dögum en töluvert lundavarp. Ófært er með öllu í Álkuskúta. Ofar og norðar er klettastallur; Lundafles, og niður á hann tíu faðma sig. Þar verpur einnig nokkuð af lunda, en þessir tveir staðir eru líklega eina lundavarpið í Hnífum nú á dögum. Norðar hækka Hnífarnir enn. Þá er djúp laut niður í þá sem heitir Eyvararstekkur með samnefndum stekkjarrústum, líklega nefndur eftir mjaltakonu einhvern tímann í fyrndinni. Norðan við Eyvararstekk rísa Hnífarnir hæstir á nokkuð hundruð metra kafla. Heitir það Strengberg enda eru Hnífarnir þar þverhníptir af brún í sjó. Ekki er fær leið að jafnaði undir Strengbergi. Þó er vitað um a.m.k. tvo menn, þá Einar Guðbjartsson frá Láganúpi og seinna Valdimar Össurarson frá sama bæ, sem komist hafa þessa leið á stórstraumsfjöru og í ládeyðu.
Neðarlega í Strengberginu er áberandi hilla; Strengbergshilla. Þangað var sigið af brún til múkkaeggja á síðustu öld. Strengbergshlein gengur þar framaf. Við hana strandaði togarinn British Empire H908 í árslok 1913, í suðvestan blindbyl. Mannbjörg varð og gátu skipverjar allir með tölu stokkið yfir á næstu hlein. Að öllum líkindum hefur veður og sjólag verið með skárra móti. Skipverjar komumst heimyfir fjörugrjótið og gengu síðan að næsta bæ sem þeir sáu, sem var Grundir í Kollsvík. Þeir sjá mann á ferð þar í stórgrýttri fjörunni og stefna til hans. Var það ungur maður frá Grundum komin í fjöruna þeirra erinda að ganga örna sinna eins og alsiða var í fjörugrjótinu. Gengur hin enska togaraskipshöfn fram á hann við þessar aðstæður. Nærri má geta undrun hans er margir útlendir menn standa yfir honum við að gyrða sig. Það kom sér vel að þessi maður kunni nokkuð í ensku og gat því fengið skýringar á komu þeirra þarna. Togarinn brotnaði fljótt í spón, en enn má sjá stykki úr honum í Láganúpsfjöru.
En stefnum nú aftur út á Hnífa. Norðan við Strengbergið er allstórt hvapp eða hlíðarslakki ofantil í Hnífunum með lágum klettum fyrir ofan. Heitir þar Heimari Lambhagi. Nokkuð auðvelt er að komast í Heimari Lambhagann, sé fólk ekki lofthrætt. Hvergi sést að ráði í Heimari Lambhagann af brún þannig að algengt var og er að kindur verði þar eftir eða feli sig við smölun. Í klettunum heiman við Heimari Lambhagann er þröngur hellisskúti sem heitir Smérhellir. Í honum er skuggsælt og oft ís langt framá sumar. Smérhellir hefur því, eins og nafnið bendir til, verið notaður til geymslu á sauðasméri. Bendir það einnig til a.m.k nokkurrar fullvinnslu á fráfærutímanum. Undir Smérhelli er lítill stallur; Smérhellissvelti, þar sem kindur komust stundum í sjálfheldu, og utan hans var unnt að klöngrast í Smérhellisfles eftir múkkaeggjum. Nokkru heimar en Heimari Lambhaginn er svipaður hlíðarslakki sem heitir Undirhlíð. Auðveldlega er gengt í Undirhlíð um Undirhlíðarnef, af Brunnsbrekku í Kollsvík þar sem Hnífunum sleppir. Neðan við Undirhlíð er Undirhlíðarfles, hvapp eða laut sem ekki er fært í nema í lás, þ.e. með stuðning af bandi, niður rúmlega mannhæðar háann klett. Nokkurt múkkavarp var í Undirhlíðarflesi áður en múkkastofninn hrundi. Norðast í Hnífunum þar sem þeir lækka um 2/3 er hellisskúti nokkuð hár en grunnur, heitir hann Kofuhellir. Enginn lundi verpir í honum þrátt fyrir að nafnið bendi til annars, og hefur ekki gerst frá því sögur hófust. Vilja sumir nefna hellinn Kofahelli, með vísan til lögunar hans. Gengt er í Kofuhelli eftir tæpum þræðingi. Þar undir er annar þræðingur sem farið var í með lásum, til múkkaeggja. Í þaki Kofuhellis er hrafnslaupur.
Hverfum nú um stund upp á brún Hnífanna þar sem við vorum síðast í Eyvararstekk. Norðan hans tekur við Strengberg sem áður er getið. Á brún Strengbergs er rúst af skothúsi frá því að vetrarveiðar voru stundaðar á ref. Á Strengberginu heimanverðu er áberandi varða sem heitir Stekkavarða. Við hana var miðað fiskimiðið Stekkar og átti hana þá að bera milli Hauganna sem eru tvö áberandi urðarfell á fjalllendinu milli Kollsvíkur og Vatnadals. Neðan og heiman Stekkavörðu er Katrínarstekkur í lítilli lág. Ekki er kunnugt um nafngjafa hans fremur en Eyvararstekks, en líklega voru þær búkonur á Grundum eða Láganúpi. Jökulnúnar klappir eru áberandi víða á Hnífunum. Þegar halla fer heim af Hnífunum verður fyrir síðasti stekkurinn á þessum slóðum, Þúfustekkur. Er hann eins og hinir fyrri í grasigróinni laut, samnefndri. Stekkjarústir eru á tveimur stöðum rétt heimar, og má ætla að þær tilheyri einnig Þúfustekk, en séu e.t.v. eldri. Við Þúfustekk snarbeygir brúnin til austurs eða suðausturs, og við taka Hjallar eða Láganúpshjallar. Þar er Undirhlíðarnef framan í klettunum, sem markar suðvesturhorn hinnar eiginlegu Kollsvíkur. Stuttan spöl austur frá Þúfustekk er Nónvarða mjög áberandi frá Grundum og Láganúpi og er eyktarmark frá Grundum. Niður undan Þúfustekk er sérkennilegt vik eða skarð í hjallanum, nánast ferhyrnt að lögun, og heitir Klettakví. Niður frá Þúfustekk og Nónvörðu er breið og löng en hallalítil brekka sem heitir Brunnsbrekka. Alsett stórgrýti en gróin inná milli. Nær hún að túngirðingu á Láganúpi og endar við Grundamýri. Lækurinn Kaldibrunnur rennur með Brekkurótunum og gefur Brunnsbrekku nafn. Vesturmörk Brunnsbrekku er Hreggnesi, lágir sjávarklettar sem hverfa alveg nokkuð utan Grundatúns. Grýtt gönguleið er töluverðan spöl eftir fjörunni undir Hreggnesa langleiðina út undir Strengberg. Þar er sumsstaðar sæmileg festifjara fyrir reka ef gefst, en torvelt um björgun. Í fjörunni utan við Kofuhelli er áberandi stór steinn í fjörunni, sem nefnist Skarfasteinn. Á honum situr oft skarfur, en skarfar eiga iðulega hreiður í klettarótum Hnífanna. Undir Hreggnesa strandaði vélbáturinn Garðar 16. Okt 1999 með tveggja manna áhöfn. Mannbjörg varð enda veður gott. Báturinn eyðilagðist á strandsstað en nokkru tókst að bjarga m.a. vél bátsins. Þar sem Hreggnesa sleppir kallast fjaran Grundagrjót í hvorugkyni fleirtölu. Nokkra tugi metra frá Grundargrjótum er sker sem kemur nánast uppúr á hverri fjöru. Heitir það Arnarboði og er lágt og breitt. Aldrei þornar sundið á milli lands og Arnarboða. Munnmæli herma að Örn, samferðamaður Kolls þess er nam Kollsvík, hafði brotið skip sitt á Arnarboða á landnámsöld og dragi boðinn þar nafn sitt. Landnáma segir að Kollur hafi brotið skip sitt við Kollsvík eftir að hann varð viðskila við Örlyg fóstbróður sinn í sjóhrakningum. Björgun Kolls og áhafnar hans við Arnarboða er líklega fyrsta skráða sjóbjörgun við Ísland.
Grundagrjót ná allt norður að Rifi eða því skeljasandsrifi sem einkennir síðan mestalla fjöru Kollsvíkur allt að Blakk. Á Bökkunum meðfram öllum Grundagrjótum er túngarður grjóthlaðinn furðu heill, þó staðið hafi viðhaldslaus í mannsaldur. Þessi garður er í núverandi mynd verk Kristjáns Ásbjörnssonar, næstsíðasta bónda á Grundum og bróðir Helga þess er fórst við Hnífaflögu, og skipshafnar hans. Var hann áratugum saman formaður í Kollsvíkurveri. Mun hann hafa varið landlegum til garðhleðslunnar og nýtt strarfskrafta áhafnar sinnar enda annálaður ákafa og keppnismaður. Garðurinn er nokkur hundruð metra langur og eru áfastir honum matjurtargarðar nokkuð stórir, einnig handverk Kristjáns. Garðarnir eru þó, að stofni til, taldir mun eldri. Að sögn voru þeir hlaðnir í landlegum af vermönnum í Láganúpsveri fyrr á öldum. Við norðari enda Garðanna er hlaðið byrgi, þar sem legið var fyrir mávi og hann skotinn til matar, er hann flögraði með Bökkunum í fæðuleit. Ofan garðanna er túnið á Grundum sem taldist allstórt á fyrri tíma mælikvarða. Hluti þess er vel sléttur og var nýttur fram yfir aldamótin 2000. Grundir, sem fóru í eyði í seinna stríði, töldust sæmileg bújörð. Upphaflega voru Grundir hjáleiga frá Láganúpi, stofnuð um 1650, en töldust seinna sjálfstæð jörð með sameigilegan úthaga með Láganúpi. Norðast á Grundabökkum var samnefnd þurrabúð; oft í daglegu tali einungis nefnd Bakkar. Bakkar fara í eyði litlu fyrr en Grundir. Töluverðar tóftarrústir eru norðast á Bökkunum; mjög sandorpnar. Eru sumar þeirra leifar húsa frá Bökkum eða Grundum en aðrar eiga uppruna sinn frá því að Láganúpsver var starfsrækt fyrr á öldum. Láganúpsver var að öllum líkindum meðal stærstu verstöðva á sunnanverðum Vestfjörðum í margar aldir. Þangað komu vermenn úr nærliggjandi fjörðum og innanúr Breiðafirði til útróðra; enda eru þar gjöful fiskimið á grunnslóð. Blómatími Láganúpsvers var líklega á tíma mestu skreiðarsölu landsmanna, eða í kringum siðaskiptin. Um 1700 hafði mjög dregið þar úr útgerð, og einungis nýttar 4 verbúðir af þeim 18 sem menn mundu þá eftir. Lending þótti þá oftast slæm eða ófær með öllu á þessum stað. Orsakir þess að róið var frá Láganúpi eru líklega einkum þær að á þeim tíma og lengi síðan var Láganúpsjörðin í eigu Saurbæjarkirkju á Rauðasandi. Á þessum tíma var Kollsvíkurjörðin í eigu ýmissa annara, m.a.klerka í Selárdal í Arnarfirði. Vel má ímynda sér að stórbokkarnir í Saurbæ hafi neytt allra bragða til að komast hjá að borga eigendum Kollsvíkur vertolla, en gjarnan vilja láta landseta sína sunnantil í víkinni nýta hin gjöfugu fiskimið á víkinni.
Umfang Láganúpsverstöðvar hefur á síðari árum orðið mönnum nokkuð ljósara en áður, við það að sjór hefur rofið mjög Grundabakkana. Þar, á rösklega 200 metra kafla, má sjá margföld lög af fornum hleðslum, gólfskánum og beinaleifum. Mikilvægt er að glöggva sig á þeirri sögu sem þarna birtist, áður en hraðfara sjávarrofið eyðir henni að fullu, og eru rannsóknir þegar hafnar.
Ofan Garðanna, sunnarlega í Grundatúni, er lægð sem á síðari árum hefur breyst í lítið stöðuvatn með miklu fuglalífi. Nafn hennar er Lögmannslág, og er sagt komið af því að í lágina gengu vermenn Láganúpsvers örna sinna. Sérstakur umsjónarmaður; nefndur lögmaður, sá um að vel væri um gengið. Sama stjórnsýsla var viðhöfð í Kollsvíkurveri meðan þar stóð útgerð. Önnur lægð er norðar í Grundatúni; Búðalág, sem dregur nafn af búðum í Láganúpsveri.
Grundagarðar. Blakkur og Kollsvíkurnúpur í baksýn. Í fjörunni eru leifar af gufukatli togarans sem strandaði undir Hnífunum, sem brimið hefur með tímanum hnoðað hingað heim.
Ennþá sjást ruddar varir í fjörugrjótinu á Láganúpsbótinni í lágsjávuðu. Sú yngri og norðari er í svonefndri Klauf og var rudd á öndverðri 20. öld, en hin syðri er mun eldri. Annars mun bátum iðulega hafa verið brýnt í fjörugrjótið fyrr á tíð, ekki síður en sléttan sand, að sögn þeirra sem rannsakað hafa fornar verstöðvar. Þar sem mætast Grundagrjót og Rifið fellur Áin oft til sjávar. Það er að vísu mjög breytilegt því ós hennar færist stöðugt til eftir straumnum og brimi sérstaklega að vetrarlagi. Á þessi, sem myndi víða teljast lækur, er ekki stór en þó stærsta vatnsfall í Kollsvíkur og Láganúpslöndum. Fellur hún eftir miðri víkinni og markar landamerki jarðanna Kollsvíkur og Láganúps, nema í fjörunni þar sem hún markar ekki mörk á reka vegna fyrrnefnds hverfulleika síns. Sandrifið gengur fram í totu, svonefndan Odda, nokkru norðan Árinnar. Ofan hans eru fornar verbúðartóftir; Oddatóftir, ásamt görðum til fiskverkunar. Fram af Oddanum er Breiðasker, langt og breitt. Fremst á Breiðaskeri er nokkru hærri klapparhnúta sem heitir Breiðaskersklakkur. Sunnan við Breiðasker er Láganúpsbótin. Í henni miðri er langt en fremur mjótt og lágt sker sem heitir Langitangi, en hann markar landa- og rekamörk í fjörunni. Norðast í Grundagrjótum má finna á fjörunni, stóran nokkuð áberandi stein sem klappað er á ártalið 1950. Það er verk Páls Guðbjartssonar sem þá var bóndasonur á Láganúpi. Einnig má finna í vegg í fjárhústóft á Grundabökkum ártalið 1911. Það er verk Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar sem þá átti heima á Grundum. Fjárhús voru einatt við sjóinn í Útvíkum, til að nýta sem best fjörubeitina. Þau voru gjarnan notuð sem verbúðir á vorvertíð, meðan þar var útræði. Norðan fjárhúsanna má sjá leifar sjávarhúss sem Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi reisti um miðja 20. öld, til geymslu á veiðarfærum og sögunar á stórviði. Tóftirnar á Grundarbökkum liggja nú mjög undir skemmdum vegna sjávarágangs, sem og ýmsar mannvistarleifar sem þarna eru. Ofan við rifið syðst er c.a. 200 metra langur garður sem ýtt var upp seint á 20. öld. Meiningin var að mynda uppistöðulón ofan hans með vatni lækjanna Torfalækjar og Miðlækjar. Var þetta tilraun til að stemma sandfok það sem sífellt ógnar Lágnúpsjörðinni. Einnig gerðu menn það sér vonir um að koma mætti æðarvarpi til við þetta lón. Garður þessi er úr sandi, sem reyndist þarna svikull eins og oft áður, og hafa vorleysingar leikið garðinn grátt.
Norðan við ána sem fyrr er nefnd tekur við allstór og rennisléttur sandflóki sem nefnist Leirar í karlkyni fleirtölu. Ofan við Leirana er bærinn Stekkjarmelur og tún þau sem honum tilheyrðu. Stekkjarmelur var hjáleiga úr landi Kollsvíkur. Háir sandbakkar eru ofan við Leirana sem heita Melarandir. Þær ná frá norðari bakka árinnar og norður í Kollsvíkurver. Leirarnir eru mjög blautir og á þeim sífelldur vatnsagi, sérstaklega upp við Melarandir. Þar eru jafnvel dýjapyttir í sandinum. Víða á Leirunum eru ekki nema ca. 30 cm niður á mó eða moldarlag. Það gæti annaðhvort bent til þess að fyrr á tímum hafi verið gróin mýri þar Leirarnir eru nú eða að þangað hafi borist mikið af þara. Vegna hins mikla vatnsaga verða mikil svellalög á Leirunum á veturna. Vegna þess þrífst þar engin gróður. Einnig hefur mikil veðrun af sandfoki þar eflaust áhrif. Sandfok hefur löngum ógnað jörðum í sunnanverðri Kollsvík. Í miklu norðanroki drífur mikinn sand af Rifinu og úr fjörunni upp yfir Leirana og setjast stundum í þykka sandskafla á Láganúpsjörðinni. Í verstu veðrum berst sandfokið jafnvel útyfir Hnífa og Breið. Landgræðsla ríkisins veitti bændum áðurfyrr nokkra aðstoð til að verjast þessari ógn, en sinnir nú lítið sínu hlutverki á þessum slóðum. Neðan við Leirana er landið lítið eitt hærra og nokkuð grýtt. Það heitir Grjótrif og er ofan við hið eiginlega Rif. Norðast á Grótrifinu standa tvær áberandi vörður hvor upp af annarri. Þær heita Snorravörður og lending í fjörunni neðan þeirra Snorralending, en þar var talin þrautalending í vestansjó. Í Snorralendingu fórst bóndinn í Kollsvík Torfi Jónsson 5. Apríl 1904. Var hann að koma af Eyrum (Patreksfirði) með hlaðið skip af timbri. Ekki mun hafa verið mjög mikið brim miðað við það sem menn voru vanir, en við lendinguna hlekktist skipinu á og mun timburfarmurinn hafa losnað og planki slegist í höfuð Torfa. Snorralending var talin erfiðari lending en í sjálfu Kollsvíkurverinu. E.t.v. hefur einhverju ráðið um val Torfa á Snorralendingu að hún er auðveldari aðkomu af hafi á þunghlöðnum bát, sérstaklega á flæði. Nokkuð norðan við Snorralendingu breytir fjaran nokkuð um svip. Þar eru tvö allhá klapparholt ofan við fjöruna. Heitir hið syðra Syðriklettar og hið norðara Norðariklettar. Milli þessara kletta var aðal uppsátur skipa sem gengu úr Kollsvíkurveri sem starfrækt var frameftir 4 áratug 20.aldar. Gengu þaðan milli 20 og 30 bátar þegar mest var. Eins og fram kemur annarsstaðar á þessari heimasíðu er lending oft erfið í Kollsvíkurveri og oft alófært svo dögum og vikum skiptir. Það sem olli vinsældum þessarar verstöðvar var nálægðin við gjöful fiskimið sem sjaldan brugðust. Tvær hleinar afmarka lendinguna í verinu. Að suðvestanverðu eru Selkollshleinar, lágur en breiður skerjaflóki sem dregur nafn sitt af kúlulaga hnútum sem standa uppúr skerinu og geta líkst selshausum í ládauðum sjó. Að norðanverðu er skerjabálkur sem kallast Bjarnarklakkar. Þeir koma ekki upp úr nema um stórstraumsfjöru en deyfa töluvert norðanbrim þegar lágsjávað er. Á flæði er lítið skjól að þessum hleinum og er því oft stórbrim í Kollsvíkurveri. Framundan Verinu er svonefnt Lægi, en það er nokkuð var fyrir úthafsbárunni vegna þriggja skerja þar fyrir framan. Þau eru: Selkollur syðstur; Miðklakkur og Bjarnarklakkur nyrstur. Leiðirnar inná Lægið eru Syðstaleið, Miðleið og Grynnstasund. Var síðan bátunum lent við syðri enda Norðari kletta. Ef von var á stórbrimi varð að setja bátana upp í vikið milli Syðri kletta og Norðari kletta alveg upp að verbúðunum sem þar stóðu. Meira en 20 verbúðir voru voru í Verinu og sér enn móta fyrir flestum þeirra þó þær séu mjög orpnar sandi. Stærstu búðirnar voru utan í og á bristinu sem rís upp frá vikinu milli Syðrikletta og Norðari kletta. Einnig voru búðir á Norðari klettum. Í þeim voru frekar þeir sem voru lengra aðkomnir í verið, eða frá Rauðasandi eða Barðaströnd. Til er allnákvæmt kort af verinu með upplýsingum um eigendur eða umráðamenn hverrar búðar á blómatíma versins upp úr aldamótunum 1900. Ekki var óalgengt að 80-90 sjómenn væru í verinu á vorvertíð. Lækur rennur til sjávar gegn um verið. Heitir hann Búðalækur og var hann nýttur til fiskiþvottar og sem neysluvatn. Enn sér móta fyrir grjóthlöðnum stokk þar sem mynduð var uppistaða til fiskþvottar. Við lækinn höfðu áhafnirnar sína ruðninga og saltkrær. Ruðningur var nafnið á aðgerðaraðstöðunni, og samanstóð af þró sem aflinn var borinn í frá bát; flatningsborði úr steinhellu eða tré, og þvottakassa. Eftir þvott í læknum var þorskur saltaður í þró og síðan þurrkaður á steinreitum, en steinbítur borinn til herslu á steinhlöðnum þurrkgörðum. Þó það sé samdóma álit eldra fólks úr Kollsvík að sandburður hafi aukist mjög í Kollsvíkurveri á síðari áratugum er ekki ótrúlegt að neytendur saltfisksins úr Kollsvíkurveri hafi stöku sinnum brutt eitt og eitt sandkorn. Eflaust hafa dauðaslys orðið við brimlendingar í Kollsvíkurveri sem ekki hafa verið skráð í annála. Þau verða þó að teljast furðu fá á sögulegum tíma miðað við hve verstöðin var fjölmenn. Má það eflaust þakka gætni samfara útsjónarsemi hjá þeim formönnum sem þaðan réru. Síðasta banaslys í Kollsvíkurveri varð þann 1. Apríl 1919. Þar fórst 18. ára piltur, Guðmundur Össurarson, systursonur Torfa þess sem fórst í Snorralendingu 15 árum fyrr. Það er til marks um þau verðmæti sem dregin hafa verið að landi í Kollsvíkurveri að stórfyrirtækið Islandshandels og Fiskerikompani lét reisa salthús í Kollsvíkurveri þar sem sjómenn fengu útvigtað salt gegn viðskiptum við I.H.F. Ekki var föst búseta í verinu árið um kring að jafnaði. Þó kom fyrir að þurrabúðar fólk hafðist þar við með fáeinar kindur en treysti að öðru leyti á sjávargagn sér til framfærslu.
Fyrrum mun einkum hafa verið veitt á handfæri frá Láganúps- og Kollsvíkurverum. Rétt fyrir aldamótin 1900 hófust veiðar á lóðir, og voru lóðamiðin frá miðri Víkinni suður undir Hnífaflögu. Tvíróið var að jafnaði hvern dag sem gaf, og einkum beitt kúfiski sem tekinn var inni í Patreksfirði, í Skersbug. Má enn sjá hauga af kúskel í Verinu frá þeim tíma. Bátar voru flestir smáir; tveggja, þriggja og fjögurramannaför. Þó var í Kollsvíkurveri stór vélbátur til flutninga; nefndur Fönix. Bar hann sama nafn og hið fornfræga hákarlaskip Kollsvíkinga, sem nú þá var nefndur Gamli Fönix. Tóft Fönixarnausts má enn sjá, fyrir miðju Kollsvíkurveri.
Búðir í Kollsvíkurveri báru ýmis nöfn; t.d. Norðurpóll, Napi, Klettabúð, Grundabúð, Meinþröng, Heimamannabúð, Jerúsalem, Jeríkó, Sódóma, Eva og Adam.
Við Norðari enda Norðari kletta rennur lækur til sjávar til sjávar. Sameinar hann nokkrar lindir í Kollsvíkurtúni og bæjarlækinn í Kollsvík. Nefnist hann Breiðilækur þarna við sjóinn. Norðan Breiðalækjar rís dökkur og áberandi klettur upp úr sandrifinu. Heitir hann Þórðarklettur. Framundan honum eru sker nokkuð há og breið og heita Þórðarsker. Nokkru norðan við Þórðarsker rennur Steingrímslækur til sjávar. Sunnanvert í holtinu milli Breiðalækjar og Steingrímslækjar eru áberandi grjótgarðar þvers og kruss. Sumir eru einhlaðnir og á þeim var fiskurinn hertur. Aðrir eru tvíhlaðnir; svonefndir hrýgjugarðar, en á þá var fiskinum safnað þegar hann hafði náð að skelja. Allur fiskur var þurrkaður fyrir tíma saltfiskverkunar, en einkum steinbítur og lúða á síðari tímum verstöðunnar. Náttmálaholt nefnist holtið norðan Steingrímslækjar, og á því stórir steinar; Náttmálasteinar, sem voru eyktamark frá Kollsvíkurbænum. Nokkru norðan við Steingrímslæk breytir fjaran um svip. Þar rísa u.þ.b. 10 m háir klettar upp úr sandrifinu. Heita þeir Melsendaklettar. Við Melsendakletta þrýtur undirlendi í Kollsvík og við taka brattar fjallshlíðar. Ofan Melsendakletta er brött hlíð, sandorpin og mjög gróðursnauð, og heitir Sandahlíð. Nær hún að norðan frá Sandagili og heim undir tún í Kollsvík. Engin lækur er jafnaðarlega í Sandagili en í vorleysingum rennur eftir því leysingavatn af Sanddal ofan fjallbrúnar. Hlein nokkur gengur í sjó fram sunnan Sandagils, heitir hún Gvendarhlein. Í lítilli sandvík sem er milli Gvendarhleinar og Melsendakletta er stundum nokkur trjáreki. Líklega er rekasæld þar hin mesta í Kollsvíkur og Láganúpslandi. Norðan Sandagils og Sanddals er fjallið Blakkur eða Blakknes. Rís það bratt úr sjó í norðvestur. Sunnan þess er Kollsvíkin en norðan þess er Patreksfjarðarflói. Líkt og flest önnur annes á þessum stöðum er Blakkurinn heflaðir að ofan af ísaldarjöklum. Að frátöldu dalnum Sanddal sem markar suðurmörk Blakksins, og Gjárdal sem markar austurmörk hans , er hann ógróinn að heita má uppá fjallinu sjálfu. Er þar víðast gróf jökulurð. Blakkurinn hét Straumnes fyrr á öldum, og líklega er núverandi nafn komið frá breskum togarasjómönnum. Af sjó séð er Blakkurinn mjög dökkur í samanburði við Núpinn með sinni lýsandi Sandahlíð.
En hverfum aftur til sjávar við Sandagil. Norðan þess byrja sjávarklettar misháir, er ná allt að landamerkjum Kollsvíkur á Hænuvíkurhlíðum. Ofan þeirra er mjög grösug hlíð upp undir efri kletta. Til skamms tíma var mikið fýlavarp í öllum klettum í Blakknum. Eins og áður hefur verið drepið á varðandi Breiðinn, hefur því varpi hrakað mjög. Eggjataka í Blakknum var mun meira nýtt en í Breiðnum, einkum vegna auðveldara aðgengis. Jeppaslóði var lagður af bílveginum á Kollsvíkurnúp norður á Blakk á sjötta áratug 20 aldar. Fjaran breytir mikið um svip við Sandagil. Norðan þess er oft lítinn sem engan sand að finna en þess í stað tekur við stórgrýtt fjara, mjög lík þeirri sem áður er lýst undir Breið og Hnífunum. Fjaran er þó fær sæmilega fótvissu fólki norður að Helluvogi sem er nokkuð norðarlega undir Blakknum. Ég vel þá leið að lýsa fyrst fjörunni og sjávarklettunum og örnefnum þar, og síðan hlíðinni og þeim örnefnum sem ég þekki í efri klettunum. Stuttan spöl norðan Sandagils er Gataklettur, klettahöfði sem gengur fram í fjöruna og eru í honum tvö göt, bæði manngeng. Haftið milli gatanna hefur mjög eyðst hin síðari ár vegna sjávarrofs og er alls ekki víst að kletturinn standi það af sér að klettahaftið rofni að fullu. Norðan Gatakletts hækka sjávarklettar allmikið en lækka fljótlega aftur þar sem klettaraninn Forvaði gengur fram í fjöruna. Ekki er hægt að komast fyrir Forvaða nema um hálffalinn sjó. Norðan Forvaða gerist fjaran stórgrýttari og erfiðari yfirferðar. Er þar á nokkrum stöðum mögulegt að komast upp í hlíðina, enda er það óumflýjanlegt nokkru norðar, þar sem sjávarklettarnir heita Bekkur og ganga fram í sjó á nokkuð breiðum kafla. Þar er fyrst komið að berggangi miklum, með litskrúðugu stuðlabergi. Hann er beint niður af stærstu gjánni í Blakknum; Strengbergsgjá, sem sker alla efri klettana. Á einum stað í Bekknum hefur brimið sorfið gat uppúr helli í klettunum, svo gengt er á steinbrú fyrir framan það. Hafaldan gengur inn í hellinn á flæðum, og í miklum vestansjó þrýstist hún af ógnarafli upp um gatið. Geta þá orðið sjávargos þarna undir Hryggjunum sem gefa hinum fræga Geysi ekkert eftir að mikilfengleik, og sjást langt að. Fyrir norðann Bekkinn er sérkennileg gjóta með gulum og rauðum millilögum í klettunum. Nefnist gjótan Pallanáma og munu hinir litríku steinar hennar hafa verið muldir út í fernisolíu og notað sem málning á báta í Kollsvík fyrr á tíð. Ekki er mér kunnugt um gæði eða endingu þeirrar málningar. Unnt er að tálga út úr þessu rauða bergi, en það molnar fljótt við þornun. Stuttan spöl norðan Pallanámu er hægt að komast aftur niður í fjöru. Þar norður af tekur við mjög breitt sker sem nær langt fram í fjöruna en er fremur lágt. Nefnist það Straumsker. Mest allt Straumsker fer í kaf á hverri flæði. Norðan Straumskers taka við djúpir vogar með háum hleinum á milli. Dýpstur og lengstur þeirra er Helluvogur sem endar í miklum sjávarhelli sem gengur innundir sjávarklettana. Tilkomumikið er að sitja upp í hlíðinni ofan Helluvogar í miklu vestanbrimi og hlusta á gnýinn og finna titringinn er brimaldan skellur inn í hellinn og myndar þar lofttappa sem sprengir báruna til baka á móti þeirri næstu. Við Blakknes hefur ölduhæð mælst hvað hæðst við Ísland, þannig að vetrarbrim verður oft tignarlegt þessum slóðum. Fyrir kemur, en mjög sjaldgæft, að Helluvogur fyllist af sandi þannig að gengt sé áfram norður fjöruna. Nokkurn spöl norðan við Helluvog er vogur allstór sem heitir Tjónsvík. Líklega dregur hún nafn sitt af sjóslysi. Nafn víkurinnar er þó eldra en sjóslys sem þarna varð 2. febrúar 1921. Þá strandaði breski togarinn Croupier frá Grimsby á Blakknesboða, sem þarna er um 200 metra frá landi. Suðvestan hæglætisveður var, en dimmt kafaldskóf. Heimamenn í Kollsvík brugðu þegar við og vildu reyna björgun. Ófært var á sjó vegna brims, og hlíðin reyndist einnig ófær vegna snjóa og ísingar. Næsta dag tókst fjölmennum flokki manna að komast norðuryfir Tjónsvík og sigu nokkrir 25 faðma niður í Tjónsvík. Þarna var ömurleg aðkoma; lík skipverja dreifð um fjöruna og ljóst að áhöfnin hafði öll farist; 12 manns. Líkunum var safnað saman í skyndi og búið að þeim í helli, norðanvert í víkinni. Ætlunin var að sækja þau næsta færan dag, en ekki viðraði til þess fyrr en á útmánuðum. Þau voru þá dregin fram í bát á vaðdrætti og flutt á Patreksfjörð. Togarinn brotnaði strax á skerinu, og í dag sést ekkert eftir af honum nema gufuketillinn; örlar á hann frammi á Tjónsvíkinni á stærstu fjörum. Munu Kollsvíkingar hafa lagt sig í mikla hættu við þessar björgunaraðgerðir, þar sem fara þurfti norður Hryggi en svo nefnist suðvesturhlíð Blakksins og er hún sæbrött mjög og torfær í hálku um hávetur. Norðanvert í Tjónsvík opnast hellir allmikill. Norðari endi hans opnast svo í miðjum sjávarklettum framan í Syðstu-Trumbu sem er voldugur klettahryggur sem jafnframt er ysta tota Blakksins. Mjög er hlíðin sæbrött í Trumbunum en þær eru þrjár: Syðsta-Trumba, Miðtrumba og Norðastatrumba. Nöfn þeirra eru e.t.v.t orðin til vegna þess slagverks sem sífellt brim myndar á þeim voldugu hleinum og djúpu vogum sem einkenna fjöruna, sem er ófær á þessum slóðum. Hugsanlega er þó nafnið skylt orðinu „trýni“, en trýnið á hákarli nefnist trumba. Komast má úr Hryggjunum norður Trumbur og Tjónsvík með því að fara um mjóan gang í svonefndum Takakletti, eins og síðar er vikið að.
En víkjum nú aftur heim að Sandagili og fylgjum nú hlíðinni norður Blakkinn. Því má skjóta inn í að Blakkurinn er oftast nefndur með greini svo sem til að undirstrika að í veröldinni er aðeins til þessi eini Blakkur. Eins og áður er getið heitir öll suðvesturhlíð Blakksins, Hryggir. Hryggirnir skiptast síðan í fleiri staði með sínum sérstöku örnefnum sem hér verða talin. Norðan Sandagils eru Völlur; grasigróin hlíð frá efri klettum niður á sjávarkletta, þar sem heita Vallabakkar. Nafnið Völlur er í þessu tilviki í kvenkyni fleirtölu. Ofan við Völlurnar er Vallagjá þar sem auðveldlega má komast upp á Blakk, sá eini staður sem slíkt er hægt norðan Sandagils. Norður úr Völlunum er Vallafles. Algengt var að sauðfé hrapaði úr Vallaflesi. Vallaskúti nefnist lítill hellir efst og heimast í Völlunum. Þar leituðu kindur oft skjóls, enda er hann mjög smækkaður af taði. Vallaskriðuhryggur er nyrst í Völlunum. Norðan við þær taka við Smáhryggir, en heimastur þeirra er Brattihryggur; þar sem sjávarklettarnir eru hæstir. Nafnið Smáhryggir lýsir vel landslaginu þar sem skiptast á klettanef og grösugar lautir. Gjá ofan Smáhryggja heitir Nafargjá. Smáhryggir enda í áðurnefndri Strengbergsgjá, sem er tilkomumesta gjáin í sunnanverðum Blakknum. Dregur hún nafn sitt af tvöföldum lóðréttum berggangi sem nær allt frá brún og niður í hlíð og heitir Strengberg. Einnig sést vel í þennan berggang í fjörunni sunnan við Bekkinn og eru í honum sérkennilegar járnútfellingar. Nyrstur Smáhryggja er Stórihryggur. Framundan honum er Stórahryggshlein í sjó fram, en þar gat orðið flæðihætta fyrir sauðfé. Norðan Strengbergsgjár er Klofahryggur, sem skiptist í tvennt neðantil. Allnokkurn spöl norðan Strengbergsgjár gerast Hryggirnir brattir mjög. Heita þar Höfðar, enda eru þar svipmiklir bergstandar í hlíðinni. Úr Höfðum er stutt í Takaklett en það er hilla þar sem gengt er norður í Trumbur og áfram inn á Hænuvíkurhlíðar. Hilla þessi er um 2 m. breið þar sem mjóst er og lætur nærri að efri og neðri klettar nái saman þarna. Nafnið Takaklettur er dregið af því að þessum slóðum voru tæpar og hættulegar leiðir í klettunum oft kallaðar Tök. Eftir að komið er norður fyrir Takaklett er stutt í Syðstutrumbu sem áður er getið. Þrátt fyrir að leiðin fyrir Takaklett sé brött og tæp og einungis á færi fólks sem ekki þjáist af lofthræðslu, var að honum nokkurt hagræði í smalamennskum. Frá ómunatíð höfðu bændur í Kollsvík og Hænuvík með sér samkomulag með að girða fyrir sauðfé undir Takakletti. Þannig afmörkuðust afréttarlönd Hænvíkinga á Hænuvíkurhlíðum og Kollsvíkinga í Hryggjum. Þó leiðin sunnanfrá að ganginum í Takakletti sé nokkuð augljós, gegnir öðru máli í hina áttina. Vafist getur fyrir ókunnugum að rata á hana norðanfrá; sér í lagi eftir að umferð fjár minnkaði. Innantil í sjávarklettum Miðtrumbu er Trumbufles, en í það var stundum farið til múkkaeggja. Var þá báti lagt við hlein undir Þyrsklingahrygg; gengið uppá Trumbuna og einn fór niður í lás meðan annar sat að fyrir ofan.
Ýmis örnefni eru í efri klettum i Blakknum, mörg tengd eggjatöku eða nöfn á stöðum þar sem sauðfé fór í svelti og sjálfheldu. Má þar nefna Jónshöfða, Árnastaði og Sighvatsslóð sem er allstórt fles norðast í Blakknum í miðjum efri klettum. Norðan við Sighvatsslóð og upp af Trumbunum er annað allstórt fles sem heita Flár í kvenkyni fleirtölu. Sauðfé kemst upp og niður úr Flám tæpa götu enda töldust Flárnar mikið vanhaldapláss. Eftir að komið er norður fyrir Norðustu Trumbu sveigir hlíðin til suðausturs inn með Patreksfirði. Þar er Þysklingahryggur, geysistór og breiður hryggur sem nær frá efri klettum og niður á sjávarkletta, sem eru lágir á þessum slóðum. Það var mál manna fyrr á tíð að aldrei yrði jarðlaust, þ.e. tæki fyrir beit, fyrir útigöngufé í Þysklingahrygg. Sama hversu snjólög væru mikil þá væri alltaf einhversstaðar beit á honum. Raunar er sauðfjárbeit báðum megin í Blakknum afskaplega góð þó vanhöld hafi alltaf verið töluverð vegna brattans. Stuttan spöl innan við Þysklingahrygg er Sölmundargjá en þar eru landamerki Hænuvíkur og Kollsvíkur. Í Sölmundargjá eru háir berggangar, líklega sömu ættar og strengbergið í Strengbergsgjá sunnanvert í Blakknum. Um nafn Sölmundargjár er þjóðsaga að strákur að nafni Sölmundur hafi naumlega sloppið frá fransmönnum sem hugðust nota hann í hákarlabeitu. Á hann að hafa komist í land úr skútu og klifið Sölmundargjá á brún og borgið þar með lífi sínu. Ofan brúnar kring um Sölmundargjá er brött brekka upp á hábungu Blakksins. Nefnist brekka þessi Kjammi. Í fjörunni milli Sölmundargjár og Þysklingjahryggjar er vogur sem heitir Bellubás eftir færeyskri skútu sem þar strandaði seint á 19. Öld. Hafði hún legið fyrir stjóra í miklu norðanverði á Aðalvík á Hornströndum í norðan stórviðri, en slitnað upp og rekið stjórnlaust suður með Vestfjörðum uns hún strandaði þarna. Einingis eitt lík mun hafa fundist í flakinu og hafði sá maður bundið sig fastann við siglutréð.
Í lok þessa leiðangurs um fjöruslóðir í Kollsvík og nágrenni skulum við fylgja efri klettum í Blakknum, og e.t.v. litast aðeins um á brúninni. Blakkurinn er rösklega 280 m hár þar sem hann er hæstur fremst; þar sem heitir Nibba. Þar skammt frá brún er landmælingavarða, en spöl frá henni er lítt áberandi þúst; Kollsleiði. Munnmæli herma að þar sé heygður Kollur landnámsmaður. Sagt var að vopn sín og verðmæti hafi hann fólgið undir Biskupsþúfu í Kollsvíkurtúni, en hún er í sjónlínu frá leiðinu, og lagt svo á að illt skyldi af hljótast ef við þúfunni yrði hreyft. Stutt sunnan Nibbu skerst Nibbugjá inn í klettana ofanverða. Sighvatsstóð nefnist mikið skriðuflæmi í miðjum klettum sunnan Nibbugjár. Dregur það nafn af því að samnefndur bóndi í Kollsvík hafi slakað þangað niður sauði til fitubeitar. Mikið múkkavarp var í Sighvatsstóðum til skamms tíma, eins og víðast annarsstaðar í Blakknum, en langt sig þangað niður. Því var það ekki fyrr en á 9. áratug síðustu aldar að farið var í stóðin á seinni tíð. Valdimar Össurarson fór þá í lás niður Nibbugjótu og í öðrum löngum lás niður í Stóðin, nokkru sunnar. Eftir það voru Stóðin nýtt í nokkur ár og egg tekin upp með vaðdrætti, beint á brún. Ofanvið Stóðin heimanverð er Sveltisgangur í brúninni; neðan við Svelti, þar sem fé komst stundum í sjálfheldu. Um Sveltisgang mátti áðurfyrr ganga eftir löngum og tæpum gangi suðurávið, til að komast í annað stórt eggjapláss; Mávakamba. Nú er sú leið lokuð vegna hruns. Einnig var sigið af brún, loftsig beint ofaná Höfða sem er ofan Mávakambanna. Úr þessum flæmum var tekið nokkuð magn af eggjum fyrrum, en víða þurfti að lása sig á milli ganga. Heimantil við Strengbergsgjá má á tveimur stöðum fara í lásum niður í sæmileg eggpláss sem nefnast Norðari og Heimari Árnastaðir. Þar heimanvið er Jónshöfði niðri í klettum, en komast má á hann í lás. Þar mátti taka nokkuð af eggjum, auk þess sem nyrst mátti síga niður á annan höfða með þéttu varpi. Heimanvið Jónshöfða var strjálla varp, enda klettarnir betur grónir og þurrari; en múkkanum líkar best að vera á hæfilega rökum og gróðursnauðum stöllum. Þó var fékkst nokkuð af eggjum við svonefnda Gjá, niðurundan vegslóðanum á Blakknum. Heimanvið hana er Vallargjá, sem áður er nefnd, og þar endar allt múkkavarp.
Hér hefur verið minnst lítillega á múkkaeggjatekju í Blakknum, en hún var allnokkur frá því að múkka tók að fjölga í upphafi togaraútgerðar, og þar til honum fækkaði mjög með fullvinnslu afla undir lok 20. aldar. Múkkinn var eini fuglinn sem nytjaður var með bjargferðum í Kollsvíkur- og Láganúpslöndum. Þar varp enginn svartfugl ef frá er talið lítilsháttar lundavarp í Hnífunum. Hinsvegar fóru Kollsvíkingar til eggja í Látrabjarg, en það er önnur saga. Múkkinn var eingöngu nytjaður til eggjatöku á seinni tímum, en fyrrum mun fýlsungi nokkuð hafa verið tekinn til átu.
Um Vallargjá má ganga úr Völlunum upp á Blakk, og er hún neðst á hinum mikla Sanddal. Reyndar skiptist Sanddalur í Efri- og Neðri-Sanddal, um urðarbrún nokkra. Milli Sanddals og Gjárdals er Gjárdalsskarð. Við það stendur Grynnstasundsvarða, en við hana var miðað er siglt var um Grynnstasund inn á Kollsvíkurver. Grímssonalág nefnist laut stuttu ofan Vallargjár, en ekki er vitað um nafngjafana. Unnt er að komast af Sanddal niður í Sandahlíð um svonefndar Skekkingar, en það eru klettaslefrur.
Lýk ég hér með þessum hugleiðingum um fjöruna í Kollsvík og nágrenni.
HÖ