Rauðasandshreppur er í ýmsu tilliti vagga kristni í landinu. Hingað komu fyrstu kristnu trúboðarnir; í Kollsvík reis að líkindum fyrsta kirkja landsins með fyrsta starfandi presti landsins. Rauðasandshreppur, eða a.m.k. hlutar hans, er að líkindum eina landsvæðið sem fullurða má að alltaf hafi verið kristið. Í Útvíkum hélst lengst haldist sú venja að biðja sjóferðabænir. Helguþúfur eru margar á svæðinu og hér verður hugleitt hlutverk þeirra. Þá er í þessum kafla fjallað um ferðir og vígslur Guðmundar góða. Ekki er með þessu sagt að helgihald hafi yfirskyggt allt mannlíf í hreppnum því vel kunnu menn einnig að nota kjarngóð blótsyrði; líkt og Kollur í Blakknesröstinni forðum.
Efni: (Flýtival með smelli á kaflaheiti).
Kollur og kirkja hans Hugleiðingar VÖ um Koll, sem líklega reisti fyrstu kirkju landsins í Kollsvík. Hann nam við Kólumbusarklaustrið á Iona; sem þá var æðstur skóla.
Guðmundur góði á ferð Gvendur biskup góði fór um svæðið og launaði greiða með vígslum. Reynt er að korleggja ferðir hans.
Bænhús og kirkjur Í hreppnum var fjöldi bænhúsa. Hér er gluggað í kirkjusögu svæðisins.
Helguþúfur og beiðslustaðir Helguþúfur eru fjölmargar í hreppnum. Líkur benda til að þær hafi verið beiðslustaðir.
Kirkjur og áheit Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi fjallar um þessi efni.
Valdimar Össurarson frá Láganúpi tók saman og leitaði í ýmsar heimildir.
Fóstbræðurnir Kollur og Örlygur voru fyrstu trúboðar á Íslandi og líklega lærðustu landnámsmennirnir. Hver var Kollur? Reisti hann fyrstu kirkju landsins í Kollsvík? Hvað geymir Biskupsþúfa? Í þessum hugleiðingum VÖ er rýnt í Landnámabók, örnefni og fleira.
Kollsvíkingar hafa löngum velt fyrir sér atburðum sem urðu í upphafi landnáms og lítillega er drepið á í Landnámabók. Ég er þarna uppalinn og þekki staðhætti ágætlega. Útfrá þeirri þekkingu og tiltækum fróðleik set ég fram þær tilgátur sem hér fara á eftir; fremur af forvitni um raunveruleikann en trúaráhuga. Hafa þarf í huga takmörk þekkingar um þessi efni og um leið það sem Ari fróði sagði forðum: „hafa skal það sem sannara reynist“. -VÖ-
Heimildir um Koll og landnám hans.
Frá landnámi Kollsvíkur segir annarsvegar í Landnámabók (Sturlubók og Hauksbók) en hinsvegar í Hellismanna sögu, og eru sagnirnar nánast samhljóða. Kjalnesinga saga getur einnig um Örlyg, en er um margt ósamhljóða Landnámu. Hún er rituð miklu síðar; er fyrst og fremst skáldsaga og ekki talin mjög trúverðug heimild. Í Hauksbók Landnámabókar segir af Örlygi Hrappssyni, sem var af mikilli ætt landnámsmanna. Í nokkuð styttri útgáfu er frásögnin á þessa leið
1. „Örlygr hét son Hrapps Bjarnasonar bunu; hann var at fóstri með Patreki byskupi hinum helga í Suðureyjum. Hann fýstist að fara til Íslands ok bað að byskup sæi um með honum. Byskup fékk honum kirkjuvið ok bað hann hafa með sér ok plenárium járnklukku ok gullpenning ok mold vígða, at hann skyldi leggja undir hornstafi ok hafa þat fyrir vígslu, ok skyldi hann helga Kolumkilla“.
Biskup sagði honum hvar land skyldi taka, en þar er lýst staðháttum á Kjalarnesi. Þar skyldi hann byggja kirkju og helga heilögum Kólumba (Kólumkilla). Síðan segir í Sturlubók Landnámu:
2. „Örlygr lét í haf ok sá maðr á öðru skipi er Kollr hét, fóstbróðir hans; þeir höfðu samflot. Á skipi með Örlygi var sá maðr er hét Þórólfr spörr, annarr Þorbjörn tálkni, Þriðji Þorbjörn skúma; þeir váru synir Böðvars blöðruskalla. En er þeir kómu í landván, gerði að þeim storm mikinn, og rak þá vestr um Ísland. Þá hét Örlygr á Patrek byskup, fóstra sinn, til landtöku þeim, og skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir váru þaðan skamma hríð, áðr en þeir sá land. Hann kom skipi sínu í Örlygshöfn, og af því kallaði hann fjörðinn Patreksfjörð. En Kollr hét á Þór; þá skilði í storminum, og kom hann þar sem Kollsvík heitir, ok braut hann þar skip sitt. Þar váru þeir um vetrinn; hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
3. En um várit bjó Örlygr skip sitt og sigldi brott með allt sitt; ok er hann kom suðr fyrir Faxaós, þar kenndi hann fjöll þau er honum var til vísat. Þar féll útbyrðis járnklokkan ok sökk niðr, en þeir sigldu inneftir firði ok tóku þar land sem nú heitir Sandvík á Kjalarnesi; þar lá þá járnklokkan í þarabrúki. Hann byggði undir Esjubergi at ráði Helga bjólu frænda síns og nam land millim Mógilsár ok Ósvífurslækjar; hann gerði kirkju at Esjubergi, sem honum var boðit“ (Hauksbók Landnámu).
Hin reyfarakennda Kjalnesingasaga nefnir Örlyg án þess að geta um viðkomu hans á Vestfjörðum. Kjalnesingasaga bætir hinsvegar þessu við varðandi kirkju Örlygs:
4. „Helga Þorgrímsdóttir bjó at Esjubergi með börnum þeirra Búa. Þá stóð enn kirkja sú at Esjubergi er Örlygr hafði látit gera. Gaf þá engi maðr gaum at henni. En með því at Búi var skírðr maðr, en blótaði aldri, þá lét Helga grafa hann undir kirkjuveggnum inum syðra ok leggja ekki fémætt hjá honum nema vápn hans. Sú in sama járnklukka hekk þá fyrir kirkjunni á Esjubergi, er Árni byskup réð fyrir stað, Þorláksson, ok Nikulás Pétrson bjóat Hofi, ok var þá slitin af ryði. Árni byskup lét ok þann sama plenarium fara suðr í Skálholt ok lét búa ok líma öll blöðin í kjölinn, ok er írskt letr á“ (Kjalnesinga saga).
Þessir þrír sagnakaflar frá fyrstu tímum eru tilefni þeirra hugleiðinga sem hér fara á eftir. Hin knappa frásögn Landnámu er eina ritheimildin um landnám Kollsvíkur og tilvist Kolls. Hann er nánast nefndur í framhjáhlaupi sem fóstbróðir Kolls. Líklegt er þó að saga hans hafi verið engu viðaminni en annarra landnámsmanna, en að hún hafi ekki verið þeim tiltæk sem festu landnámið á bókfell, um 250 árum eftir atburðina.
Þessu til viðbótar er rétt að nefna þrjár munnmælasögur hafa lifað í Kollsvík, sem allar tengja Koll við örnefni í víkinni:
- Arnarboði nefnist sker stutt undan landi við Grundabakka, sem kemur úr sjó um fjöru en þó ekki vætt sundið. Sagt er að hann heiti utaní Örn, sem hafi verið stýrimaður Kolls.
- Biskupsþúfa nefnist þúfa í Kollsvíkurtúni; milli gamla bæjarhólsins og núverandi bæjar. Þúfan er sögð draga nafn af því að þar hafi Guðmundur biskup góði áð á leið sinni til að blessa Gvendarbrunn. Undir þúfunni á Kollur landnámsmaður að hafa fólgið gull sitt (sumir segja vopn sín). Boðar ógæfu ef því er hreyft.
- Kollsleiði nefnist þúst uppi á Blakknesnibbu. Þar er Kollur landnámsmaður sagður heygður. Þar hefur hann sýn yfir landnám sitt og þaðan er sjónlína að Biskupsþúfu. Þúfan var sögð greinanleg framum 1900 en er það ekki lengur.
Annað er ekki að hafa frá fyrri tíð um Koll landnámsmann. En af þessum fáu orðum má þó meira ráða en berum orðum er sagt. Hér verður rýnt örlítið í þessar heimildir og hvað raunverulega mætti lesa útúr þeim, með tilliti til annarra þátta.
Tímastetning landnáms Kollsvíkur; líklega 880-890.
Út frá ættingjum Örlygs og fleiru má ætlast á um tímasetningu landnáms í Kollsvík.
- Ingólfur Arnarson er talinn hafa numið hér land fyrstur, til varanlegrar búsetu. Venja er að miða við árið 874, en líklega hefur það verið nokkrum árum fyrr. Ingólfur og Örlygur voru komnir af Birni bunu; Örlygur í þriðja lið en Ingólfur í fjórða lið. Má því ætla að Örlygur hafi verið eldri, þó um það verði ekki fullyrt. Ingólfur var ekki barnungur er hann nam hér land, en hann hafði verið í hernaði áður. Þessar líkur hníga til þess að Kollsvík hafi verið numin fljótlega eftir landnám Ingólfs.
- Bróðir Örlygs var Þórður Skeggi sem fyrst nam land í Lóni austur en flutti svo til frænda sinna á Kjalarnesi og nam þar sem öndvegissúlur hans hafði rekið og bjó að Skeggjastöðum. Land sitt í Lóni seldi hann Úlfljóti, þeim sem síðan flutti hin fyrstu lög til landsins líklega árið 921. Má ætla að sigling Örlygs og Kolls til Íslands hafi orðið allnokkru fyrir þann tíma.
- Örlygur nam land undir Esju að ráði Helga bjólu Ketilssonar, frænda síns, en þeir Helgi og Ingólfur voru bræðrasynir. Helgi kom frá Suðureyjum eins og Örlygur, en Ketill flatnefur faðir hans hafði verið sendur af Haraldi hárfagra til að brjóta eyjarnar undir konung snemma á 9.öld. Má ætla að sú herför skýri veru Örlygs og Kolls á Suðureyjum.
Háskólanám Kolls við Kólumbusarklaustrið á Iona.
Landnáma hermir að Örlygur hafi verið „að fóstri með hinum helga Patreki byskupi í Suðureyjum“. Líklegt er að þar hafi einnig verið fóstbróðir hans Kollur; hvort sem þeir kynntust þar eða fyrr. Vart er nema um einn stað að ræða á þessum tíma: Benediktinaklaustur heilags Kólumba á eynni Iona í Suðureyjum. Það var stofnað af hinum írska Kólumkilla (Kólumba) sem sagt er að hafi kristnað Suðureyjar og Skotland kringum 560. Klaustrið varð virtasta menntastofnun vestanverðrar Evrópu og þangað fóru margir norskir höfðingjasynir til menntunar, sem að sjálfsögðu var í kristnum anda.
Suðureyjar sluppu ekki við yfirgang víkinga, fremur en önnur landsvæði Bretlandseyja. Eftir að Haraldur hárfagri sigraði sína fjendur í Hafursfjarðarorrustu árið 872 lagði hann leið sína til Suðureyja og lagði þær undir sig. Landstjóri hans á svæðinu varð Ketill flatnefur, föðurbróðir Örlygs Hrappssonar. Örlygur hefur sennilega verið í liði frænda síns á eyjunum, og þá líklega einnig Kollur fóstbróðir hans, sem við vitum annars engin deili á.
Þeir fóstbræður ákveða svo að nota tækifærið og setjast til mennta í hinu virta Kólumusarklausri. Þó vitað sé að nokkrir landnámsmenn komu frá Suðureyjum á þessum tíma eru þeir einu tilgreindu nemendur þessarar virtustu menntastofnunar vesturlanda; og því líklega hinir lærðustu í hópi fyrstu landnámsmannanna.
Hver var "Patrekur biskup"?
Eitthvað hefur skolast til um Patrek þann sem Landnáma segir hafa verið fóstra Örlygs. Tvennt kemur helst til greina. Í fyrra lagi það að hér sé um misskilning að ræða, sem orðið hefur til á þeim 250 árum sem liðu frá atburðum til ritunar Landnámu. Heilagur Patrekur var uppi á 5.öld; hann var trúboðsbiskup á Írlandi og þjóðardýrlingur þar, ásamt Kólumba þeim sem klaustrið stofnaði og kristnaði Skota. Hinn möguleikinn er þó e.t.v. nærtækari: Frá árinu 865 var klaustrið á Iona nefnilega undir stjórn ábóta sem hét Federach mac Cormaic, en hann lést árið 880. Nafnið Federach gæti sem best hafa orðið Patrekur í munni norðmanns. Tímasetningin passar ágætlega við það sem hér var fyrr sagt um siglingu fóstbræðranna.
Sú frásögn Landnámu er mjög sennileg að þeir fóstbræður hafi, að loknu námi, hugað á ferð til Íslands í kjölfar frænda sinna. Sömuleiðis er líklega rétt að þeir hafi; vel skólaðir í kristnum fræðum, boðist til að byggja kirkju og halda uppi kristniboði meðal frumbyggjanna. Eðlilegt er að þeir fengju einnig leiðsögn hjá hinum hálærðu landfræðingum sem kenndu við skólann. Þeir gefa lærimeisturum sínum það loforð að gera nöfn dýrlinganna tveggja, Patreks og Kólumba, ódauðlegt með nafngiftum á hinu nýja landi, enda er það ágæt aðferð til að vekja áhuga á trúnni. Í móti fá þeir kirkjuvið og messugögn, s.s. kirkjuklukku, guðsorðabók og vígða mold til að auka helgi kirkjunnar.
Kollur var kristinn.
Allar líkur benda til þess að Kollur hafi verið að námi með Örlygi fóstbróður sínum í klaustri heilags Kólumba. Þeir voru fóstbræður að sögn Landnámu. Til þess þurftu þeir að „ganga undir jarðarmen“, sem var heiðinn siður og hlýtur að hafa átt sér stað áður en þeir tóku kristni. Tilhneyging hefur verið til þess að telja Koll heiðinn, þar sem hann blótaði Þór í nauðum sínum að sögn Landnámu. Sú ályktun er fráleit. Annarsvegar vegna þess að vel kann að vera að menn hrópi eitt og annað upp víð slík tækifæri. T.d. verður mörgum það á að blóta hressilega þegar mikið gengur á, án þess að vera djöflatrúar. Einnig þarf hér að hafa í huga það sem Landnámabók segir um aðra merka landnámsmenn; t.d. Þórólf mostraskegg og Helga magra. Báðir völdu þeir það sem þeim fannst henta úr báðum trúarheimum.
Annar vinkill er íhugunurverður á þessum lítt þekkta Kolli. Sá var siður keltneskra munka að raka höfuð sitt á ákveðinn hátt; að „láta gera sér koll“ eins og það var nefnt. Af því voru þeir nefndir „kollar“. Þessi siður hefur eflaust tíðkast í Kólumbusarklaustrinu á Iona. Því má velta því fyrir sér hvort nafnið Kollur hefur upphaflega verið viðurnefni þess landnámsmanns, en það hafi lifað lengur í munni manna en skírnarnafn hans. Um þetta skal ekki fullyrt hér, en sé þessi tilgáta rétt er hún um leið sönnun þess að Kollur var kristinn.
Kollur og Örlygur voru fyrstu trúboðar á Íslandi
Kollur og Örygur voru fyrstu menn til að fara í sérstakan trúboðsleiðangur til Íslands, svo staðfestar heimildir hermi. Ekki fer á milli mála að með því að reisa kirkju að boði kristilegra yfirvalda var þeim ætlað að breiða hér út kristna trú meðal þeirra mörgu landnámsmanna sem enn voru heiðnir, ásamt því að halda hinum kristnu við efnið. Það er því vart annað en sögufölsun sem haldið er að m.a. skólabörnum samtímans, að fyrstu trúboðar hérlendis hafi verið Þorvaldur víðförli eða Þangbrandur, sem báðir voru ofstopamenn. Þegar hinn annars ágæti vísindavefur HÍ var inntur eftir sannleikanum í þessu efni árið 2018 varð fátt um skynsamleg svör. Niðurstaðan er því sú að þessir fóstbræður hafi fyrstir manna boðað kristna trú hérlendis.
Kollur reisti fyrstu kirkju landsins í Kollsvík
Þessi fyrirsögn kann að virðast nokkuð djörf, í ljósi þeirrar viðteknu skoðunar að Örlygur hafi reist fyrstu kirkjuna að Esjubergi, eins og ætla mætti af ummælum Landnámu og Kjalnesingasögu sem hér var vitnað til í upphafi. En varðandi þá frásögn þurfum við fyrst að athuga heimildir sagnanna.
Þegar Ari fróði ritaði frumlandnámu kringum 1130, sem núverandi eftirritanir eru taldar byggja á, var hann líklega búsettur á Suðurlandi en hugsanlega að Staðarstað á Snæfellsnesi. Helstu heimildarmenn hans voru að öllum líkindum höfðingjar, prestar, biskupar og fræðimenn af blómlegum sveitum sunnan og norðanlands og úr landnámi Ingólfs. Landnáma ber það með sér að heimildir eru strjálli úr fjarlægari byggðum, svo sem af útnesjum Vsetfjarða. Örlygur hinn gamli varð ættstór mjög, eins og Landnáma rekur, og líklegt er að frá afkomendum hans hafi greiðlega komið upplýsingar til Ara fróða. Kirkjubyggingar voru í miklum móð á þessum fyrstu öldum kristni í landinu. Menn kepptust við að sýna trúarhollustu sína og höfðingsskap með slíku, eins og sjá má af hinum mikla fjölda bænhúsa og kirkna sem spratt upp fljótlega eftir kristnitökuna. Afkomendum Örlygs hefur því verið mikið í mun að koma því til skrásetjarans Ara fróða að þeirra forfaðir hafi verið á undan sinni samtíð í kirkjubyggingum. Og þar sem Kollur var ekki til varnar; afkomendur hans víðsfjarri vestur á annnesjum og farið að fyrnast yfir fóstbræðraböndin, þá sakaði kannski ekki að hagræða því dálítið hvernig fyrstu kirkjubyggingu landsins bar að höndum.
Þegar Kollur og Örlygur bjuggu skip sín til Íslandsfarar frá Suðureyjum er líklegt að þeir hafi skipt með sér farmi og áhöfn. Þar með er líklegt að þeir hafi skipt kirkjuviðnum áðurnefnda, líkt og öðru byggingarefni; verkfærum; veiðarfærum; búsáhöldum; vistum; búsmala; fóðri; farviðum og fólki. Þeir fóstbræður hrepptu „harða útivist“ og lentu í hafvillum. Þegar þeir greindu land voru þeir komnir „vestr um landit“. Líklega hafa þeir komið uppundir Látrabjarg eða núpana þar norðuraf. Þeir sigla norðurmeð ströndinni en ekki er viðlit að lenda í Útvíkum. Straumnesröstin stendur uppi en Örlygur bjargast inn á fjörð sem hann nefndi Patreksfjörð, til fyllingar loforði sínu við klausturhaldarana; hann kemur skipi sínu í Örlygshöfn. Kollur er e.t.v. nokkru á eftir eða á minna skipi. Hann snýr frá Straumnesröstinni (Blakknesröst) sem honum líst ófær; siglir grunnt með ströndum Kollsvíkur í leit að heppilegri landtöku, en lendir í strandi á Arnarboða. Um strandið vitum við litið, en þar sem Kollur bjargaðist ásamt öðrum landnámsmönnum svæðisins er ekki óeðlilegt að álíta að hann hafi komið knerri sínum löskuðum, ásamt eftirbáti, yfir sundið ofan Arnarboða og upp í Grjótin. Þar er farmur borinn af í skyndi, áður en aftur fellur að með brimi og knörrinn eyðileggst.
Eftir björgunina og fyrstu guðsþakkir lá næst fyrir að átta sig á aðstæðum og búa sér skjól. Forlagatrú var allsráðandi í hugum fólks á þessum tíma. Augljóst var að í þessari vík höfðu forlögin ætlað Kolli að setjast að; hér skyldi hann tigna guð sinn og verndardýrlinga, með þakklæti fyrir björgunina. Í byrjun er e.t.v. hrófað upp tjaldi úr stórsegli skipsins, en síðan svipast Kollur um eftir stað til búsetu. Hann ákveður að reisa sér bústað á skjólsælasta stað Kollsvíkur; norður undir Núpnum þegar búið væri að koma fólkinu í skjól. Ekki alleina það; heldur liggur það beint við að nýta klausturviðinn til kirkjubyggingar í Kollsvík til dýrðar heilögum Kólumba sem haldið hafði verndarhendi yfir honum í slysinu.
Miklar líkur eru á því að Kollur hafi byggt sinn skála þar sem síðar hlóðst upp bæjarhóllinn í Kollsvík, þó auðvitað verði ekki um það fullyrt nema með rannsóknum. Um 50 metrum sunnan bæjarhólsins er annar hóll, nokkru lægri, þar sem í kaþólskri tíð stóð hálfkirkja og kirkjugarður en nú sjást aðeins rústir útihúsa. Mannabein hafa þar iðulega komið úr jörðu við rask. Ætla má að þar hafi Kollur reist kirkju sína, til dýrðar Kólumba. Það styður þessa ályktun að Kollsvíkurbærinn nefndist fyrrum Kirkjuból, eins og síðar greinir. Ekkert er sennilegra en að kirkja Kolls hafi verið forveri þeirrar hálfkirkju sem síðar stóð þar framum siðaskipti.
Örlygur lét það líklega verða sitt fyrsta verk þegar veðrinu slotaði að leita uppi fóstbróður sinn; hvort sem hann hefur farið sjóveg eða fjallveg. Ráða má af frásögn Landnámu að báðir hafi þeir haft vetursetu í Kollsvík, enda skynsamlegt að þeir hjálpuðust að við að koma upp einum sæmilegum skála en tveimur. Knörr sinn hefur Örlygur sennilega dregið upp í Örlygshafnarvaðal og sett í vetrarskorður annaðhvort á Hrófeyri eða Neteyri. Ekki verður fullyrt hvað þeim fóstbræðrum fór á milli, en margt bendir til að þeir hafi ákveðið að byggja hvor sinn staðinn. Kollur ákveður að láta skeika að sköpuðu; vera um kyrrt þar sem forrlög höfðu búið honum stað; nema land á þessum búsældarlega stað og reisa kirkju til guðsþakkar. Örlygur vill halda suður á Kjalarnes; bæði til að uppfylla loforð um trúboð þar, og til að vera návistum við ættmenn sína.
Ákveða þeir að byggja sína kirkjuna hvor af klausturviðnum; aðra í Kollsvík og hina á Kjalarnesi. Í Kollsvík er líklega. nýtt til húsagerðar brakið úr knerri Kolls ásamt rekaviði. Ekki er ólíklegt að bygging hennar og bæjarhúsanna hafi verið hafin þá um veturinn og kláruð um vorið, um það leyti sem Örlygur sigldi suður. Kollur hefur þá orðið fyrri til að klára sína kirkju og hefja guðsþjónustur en Örlygur, sem síðar byggði sinn bæ og sína kirkju að Esjubergi. Báðar kirkjurnar voru líklega hegaðar heilögum Kólumba. Fyrsta kirkja landsins reis því að öllum líkindum í Kollsvík og sú næsta á Kjalarnesi. Má ætla að síðari tíma fornleifarannsóknir skjóti stoðum undir þessa tilgátu.
Nafnið Kirkjuból.
Hér skal skotið inn örlitlu um bæjarnafnið Kirkjuból. Alls finnast heimildir um 26 slík bæjarheiti á landinu öllu; þar af 17 á Vestfjörðum. Talið er að heitið hafi senmma komið til og vísi til kirkjustaðar. Því til stuðnings má benda á ákvæði í kristinrétti Grágásar, skráð í Staðarhólsbók: „Ef maðr byr a kirkioboli, þa scal hann þar hallda husum oc gördum sva land spilliz eigi…“. Heitið Kirkjubólsstaður finnst á Hjaltlandi (Kirkabister) og í Orkneyjum (Kirbister), auk þess sem byggðin Kirkja í Færeyjum mun að fornu hafa heitið Kirkjubólsstaður. Líklega er Kirkjuból í Kollsvík elst slíkra bæjarnafna hérlendis; hin komu til eftir kristnitöku. Gegnum aldir koma bæði nöfn jarðarinnar fyrir; Kirkjuból og Kollsvík. Það síðarnefnda nær yfirhöndinni á 18.öld, en á fyrrihluta 20.aldar var árangurslaust gerð tilraun til að taka Kirkjubólsnafnið upp aftur. Kirkjubólsnafnið bendir þannig til að kirkja hafi staðið í Kollsvík frá fyrstu tíð.
Kirkjuklukka í þarabrúkinu
Landnáma segir í tilvitnunni hér í byrjun að þeir fóstbræður hafi, auk kirkjuviðarins, fengið meðferðis kirkjuklukku af járni ásamt öðrum kirkjugripum. Ekki er það ósennilegt, í ljósi þess að hér var um trúboðsleiðangur að ræða og keltneska kirkjan lagði mikið upp úr klukkum og krossum. Ótrúlegri er lygasagan um það að þessi kirkjuklukka hafi fallið útbyrðis af skipi Örlygs í Faxaflóanum og fundist rekin í Sandvík er hann lenti þar. Hefur þetta eflaust átt að skilja sem hverja aðra jarteinasögn. Hinsvegar kann að vera flugufótur fyrir þessari sögn, líkt og öðru í Landnámu og hún kann að geyma minni um tilvik sem bæði voru fyrnd og skrumskæld í frásögn heimildarmanna.
Sagan verður skiljanlegri ef hún er sett í samhengi við strand Kolls. Hafi klukkan verið á skipi Kolls er ekki ólíklegt að hún hafi fallið fyrir borð og týnst í Grjótunum þegar í ofboði var borið af skipinu eftir strandið. Framarlega í Grjótunum er mikill þaragróður á steinum og klöppum, og lítil bjalla getur hæglega týnst í honum. Eftir ákafa leit finnst loks þessi helgigripur „í þarabrúki“. Líklegt er að sá fundur hafi átt sér stað áður en Örlygur sigldi suður um vorið og ákveðið hafi verið að hann fái klukkuna og guðsorðabókina (plenarium) í sína fyrirhuguðu kirkju sem laun fyrir aðstoðina við húsbyggingar í Kollsvík.
Frásögn Kjalnesingasögu af kirkju og klukku Örlygs kann því að vera réttari en annað í þeim reyfara.
Biskupsþúfa. Um 50 metrum neðan gamla bæjarhólsins í Kollsvík er Biskupsþúfa; sem í raun er stór grasi gróinn steinn. Eins og áður sagði tengjast henni þau munnmæli annarsvegar að undir henni hafi Kollur fólgið gull sitt og hinsvegar að þar hafi Guðmundur góði Hólabiskup hvílt lúin bein þegar hann vígði Gvendarbrunn, nokkru norðar. Þúfan er nokkurnvegin í vestur frá kirkjuhólnum í Kollsvík. Sá var siður í keltneskri kristni, þeirri sem kennd var í klaustrinu á Iona, að krossar voru ekki reistir á kirkjum heldur nokkuð frá. Við klaustrið á Iona stendur enn 14 feta hár keltneskur steinkross heilags Marteins sem þar stóð á námsárum Kolls og Örlygs ( sjá mynd). Hafi Kollur reist kirkju á þessum hól í Kollsvík munu dyr hennar eflaust hafa snúið í vestur, sem þá var alsiða eins og nú. Þá er alls ekki ólíklegt að í sjónhendingu frá kirkjudyrum til vesturs hafi Kollur reist einhverskonar keltneskan kross á þessari áberandi þúfu. Kross sem um leið er áberandi af hafi, og er við sjávargötuna niður í Kollsvíkurlendingu. Krossinn hefur Kollur e.t.v. tileinkað Patreki biskupi; dýrðlingi sínum frá Suðureyjum; nefnt hann „Kross Patreks biskups“. Eftir daga Kolls hefur krossinn eyðilagst og týnst. Í staðinn er eftir þúfa sem tekur við nafninu; Biskupsþúfa. Vel má vera að Guðmundur góði hafi tyllt sínum sitjanda á þúfuna 300 árum síðar; þó ekki væri nema til að virða nafnið. Hafi nafngift Biskupsþúfu verið samkvæmt þessari tilgátu er líklegt að munnmæli um tengsl Kolls við þúfuna hafi lifað nokkrar aldir í munni íbúa. Smám saman hefur krossinn gleymst en í staðinn verður til munnmælasagan um gersemar sem Kollur hafi falið undir þúfunni. Einhverja ástæðu þurfti að hafa fyrir helgi hennar. Hér er vitaskuld um tilgátu að ræða, en líkurnar eru skoðunar virði.
Fyrsti prestur á Íslandi
Hafi Kollur reist hina fyrstu íslensku kirkju í Kollsvík hefur hann jafnframt orðið fyrsti þjónandi presturinn á Íslandi. Í kjölfar þeirra Kolls og Örlygs, en þó einkanlega eftir kristnitökuna árið 1000, reistu ýmsir höfðingjar landsins sér kirkjur og helguðu hinum ýmsu dýrlingum. Þetta voru hinar fyrstu bændakirkjur. Þær voru eign höfðingjanna sem þær reistu og sú trú var ríkjandi að sá sem reisti sér kirkju fengi svo fjölmennt lið í Himnaríki sem rúmaðist í kirkjunni. Kirkjueigendur þjónuðu gjarnan sjálfir sem prestar; a.m.k. þeir sem höfðu numið einhver kristin fræði. Líklega hefur enginn samtímamanna verið lærðari á Íslandi þegar Kollur og Örlygur komu út hingað. Þeir höfðu numið við virtustu menntastofnun Evrópu og hlotið brautskráningu klausturhaldaranna til trúboðs og kirkjuverka. Sjá má af landnámu og Kjalnesingasögu að kirkjuklukkan góða fór suður með Örlygi ásamt einhverju af kirkjuviðnum og helgisiðabókinni (plenarium), en líklega hefur Kollur fengið eitthvað af hinni vígðu mold til að setja undir stoðir í kirkju sinni. Spurning er um afdrif gullpeninganna sem getið er í Hauksbók Landnámu. Er e.t.v. gull að finna í Grundagrjótum? Ekki verður rennt grun í söfnuð Kollskirkju en e.t.v. má ætla að heimilisfólk Kolls hafi verið kristið. Einnig er fremur líklegt að þeir landnámsmenn hafi verið kristnir sem komu út með Kolli og Örlygi, þar sem um slíkan trúboðsleiðangur var að ræða. Hafi svo verið hefur sóknin verið all víðfeðm.
Kelstnesk kirkja en ekki rómversk.
Í þann tíð sem Kollur og Örlygur námu við Iona-klaustur var nokkur aðskilnaður milli þeirrar keltnesk-kaþólsku trúar sem stunduð var á kristna hluta Bretlandseyja og rómversk-kaþólskrar trúar sunnar í Evrópu. Það eru því keltneskar kirkjur sem rísa í Kollsvík og á Esjubergi, og verður því að leita í þann sið þegar menn velta fyrir sér kirkjustarfi sem þar var iðkað.
Keltneska kirkjan á Bretlandseyjum, sem upphófst fyrir trúboð heilags Patreks og Kólumba kringum 350, hafði að nokkru leyti einangrast frá rómarkirkjunni vegna þess að heiðin ríki Engilsaxa og Franka torvelduðu samgang þar á milli. Höfuðmunur keltneskrar kristni og rómverskrar var líklega sá að keltar sáu guð fyrst og fremst í sköpunarverkinu sjálfu; náttúrunni og lífinu, meðan rómverskir kennimenn einblíndu meira á biblíutexta og helgisiði. Er freistandi að álíta slíka náttúrudýrkun mikilvægan þátt í því að Kollur kýs að setjast um kyrrt í Kollsvík. Annað sem einkenndi keltneskt kristnihald var mikil áhersla á klausturlíf; mildilegar var tekið á kvennamálum kirkjunnar manna en í rómversku kirkjunni; rökun höfuðkolls á munkum; einkennandi siður varðandi ákvörðun páskadags og yfirbót fyrir syndir. Upphaflega voru keltnesk sóknarbörn ekki skyldug til messusóknar heldur fóru munkar og prestar um og predikuðu. Kirkjur voru þó augljóslega farnar að byggjast í tíð Kolls, eins og frásögn Landnámu sýnir.
Líklegt er að hin keltneska kirkja hafi áfram staðið í Kollsvík, eða Kirkjubóli, eftir daga Kolls. Hún hafi síðan orðið hálfkirkja eftir að Saurbæjarkirkja tók við sem höfuðkirkja, en þá í þeim rómverska sið sem hafði rutt sér til rúms. Kirkjubólskirkja hefur því verið yfir 650 ára þegar hún var lögð niður í kjölfar siðaskipta árið 1550.
Minnsta landnám Íslands
Kollsvík var minnsta landnám sem um getur á Íslandi; a.m.k. hvað varðar frumlandnám; þar sem enginn hafði numið fyrr. Landnám Kolls er um 25 km² að flatarmáli, meðan landnám Þórólfs sparrar nágranna hans og liðsfélaga er um 220 km² og landnám Ingólfs Arnarsonar nær yfir 2.500 km², eða hundraðfalt landnám Kolls. Ástæðan fyrir þessari nægjusemi Kolls gæti verið af ýmsum toga, þó ekkert verði um það fullyrt. Líklegasta skýringin gæti tengst tilgangi leiðangursins. Kollur og Örlygur voru komnir til landsins í trúarlegum erindum, til að reisa kirkju og starfrækja hana, en ekki í auðgunarskyni og líklega ekki á hrakningum undan Haraldi hárfagra eins og margir aðrir landnámsmenn. Nú höfðu forlögin kastað Kolli á land í þessari vík og það hlaut að vera honum vísbending um landnámið. Kollur hefur eflaust verið fljótur að átta sig á landkostunum. Hér var allt til alls í einni vík; hann þurfti ekki meira fyrir sig og sitt fólk. Eins og áður segir var það kjarni keltneskrar kristni að guð byggi í sköpunarverkinu en ekki í guðsorði á bók. Hvergi var Kollur því nær guði sínum en í þessari vík; nema ef vera skyldi í haug sínum fremst á Straumnesnibbu. Hann nemur því einungis það land sem þarf til hagabeitar sínu sauðfé. Líklega hefur eftirbáturinn bjargast úr skipbrotinu; að öðrum kosti hefur ný fleyta brátt verið smíðuð. Menn voru færir skipasmiðir á þessum tímum. Því verður fljótt ljóst að stutt er til miða og gnægð fiskjar. Lendingaraðstaða er hin ákjósanlegasta beint niðurundan bænum og ekki nema fáein áratog í spriklandi fisk. Ekki er ólíklegt að þá hafi fiskur verið í vötnum, t.d. Stóravatni og stærra Kjóavatninu. Lyng og kjarr hefur eflaust náð langt niður í víkina, einkum norðanverða, þó skeljasandur við sjóinn hafi verið litlu minni en nú. Rastir af rekaviði hafa eflaust verið á fjörum og líklega hvalhræ, bæði ný og rotnuð. Kollur er því lentur í mesta gnægtastað sem hugsast getur og ekki að undra að hann geti verið nægjusamur um landstærð.
Önnur ástæða fyrir misjafnri stærð landnáma gæti tengst fjármögnun leiðangursins. Landnáma er fámál um leiðangursfélagana en getur þriggja auk Kolls og Örlygs: Ýmist er að því látið að því liggja að þeir hafi verið á skipi Kolls…: „En Kollr hét á Þór; þá skilði í storminum, og kom hann þar sem Kollsvík heitir, ok braut hann þar skip sitt. Þar váru þeir um vetrinn; hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða“. … Eða þeir eru taldir vera á skipi Örlygs: „ Þórólfur spörr kom út með Örlygi ok nam Patreksfjörð fyrir vestan og Víkr fyrir vestan Barð (Látrabjarg) nema Kollsvík. Þar bjó Kollr fóstbróðir Örlygs. Þórólfr nam ok Keflavík fyrir sunnan Barð ok bjó at Hvallátrum“. Enn segir: „Þorbjörn tálkni ok Þorbjörn Skúma, synir Böðvars blöðruskalla, kómu út með Örlygi. Þeir námu Patreksfjörð hálfan ok Tálknafjörð allan til Kópaness“. Þessir þrír fá því langstærstu landnámin meðan Örlygur siglir suður og Kollur lætur sér nægja eina vík. Má af því ráða að þeir hafi komið til landsins í þeim tilgangi að nema land, meðan fóstbræðurnir komu í trúboðserindum. Þá er einnig mögulegt að þeir hafi átt knerrina, eða mikinn hlut í þeim, og hafi þótt réttmætt að fá stór landnám fyrir tjónið sem varð við strand Kolls. Knerrir voru dýr hafskip.
Hvað hét landnámsmaður Kollsvíkur?
Landnáma segir að fóstbróðir Örlygs og landnámsmaður Kollsvíkur hafi heitið Kollur, án þess að gera frekari grein fyrir honum. Það nafn hefur verið notað af íbúum víkurinnar og öðrum allar götur síðan. En e.t.v. er nokkur ástæða til efasemda:
Þar er fyrst til að nefna munnmælasöguna sem fylgir nafni Arnarboða. Sagan segir að þar hafi skip Kolls strandað og stýrimaður hans hafi heitið Örn. Á þessum tímum var stýrimaður æðsti stjórnandi skips; heitið skipstjóri var ekki til. Líkur eru á að Kollur hafi verið stjórnandi skipsins, annars hefði ekki verið til þess tekið í Landnámu að hann blótaði í hafnauð sinni. Því er freistandi að álykta að landnámsmaðurinn sem þarna stýrði skipi til brots hafi í raun heitið Örn. En þá situr eftir spurningin um nafnið „Kollur“.
Í seinni tíð hafa komið fram efasemdir um sannleiksgildi Landnámu varðandi staðaheiti, þrátt fyrir að hún sé enn talin trúverðug um meginþætti landnámsins. Sumt er reyndar mjög augljóst, t.d. það að Rauðisandur hlýtur að draga nafn af hinum áberandi rauða sandi en ekki viðurnefni Ármóðs hins Þorbjarnarsonar, sem Landnáma gefur viðurnefnið „rauði“. Þar virðist Landnámuhöfundur í fljótu bragði hafa tekið sér skáldaleyfi til nafnskýringar; en svo þarf reyndar ekki að vera. Þá, eins og nú, voru menn iðulega kenndir við stað sinn. Vera kann að Landnámsmaðurinn hafi verið kenndur við Rauðasand. „Rauði“ er enn notað í mæltu máli sem stytting á „mýrarrauði“, og gæti einnig hafa verið notað um hinn rauða sand. Þeim sem hugar að nafngiftum helstu fjalla og kennileita með ströndinni verður fljótt ljóst að þau voru gjarnan nefnd eftir því sem helst einkennir þau, svo sem Reykjavík vegna gufustróka úr Laugardal; þó sumir staðir heiti utaní landnámsmenn og ábúendur. Örnefnin vísa gjarnan til einkenna af hafi séð; enda voru skip einu samgöngutækin í upphafi byggðar og kennileitin þurftu að hafa lýsandi heiti til leiðsagnar sjófarendum.
Núparnir norðan Látrabjargs hafa þau einkenni sem þarf til að kallast núpur; sléttir að ofan en bratt bjarg og skriður sjávarmegin. Líklega hafa þeir allir haft endinguna „núpur“, þó hún hafi sumsstaðar fallið niður með tímanum. Talið frá Bjargtöngum hafa nöfnin sennilega verið: Brunnanúpur; Bjarnarnúpur; Breiðinúpur; Láganúpur (eða Láginúpur); Kollnúpur og Straumnes. Ending Straumness skýrist af því að nes er tiltölulega mjótt svæði sem gengur langt fram í sjó. Allir draga núparnir nöfn af því sem helst einkennir þá; séð af hafi. Með tímanum breyttist nafn Breiðanúps; líklega fyrst í „Breiði“, sem Breiðavík dregur nafn af, en síðar í „Breiður“. Bær var byggður sunnantil í Kollsvík sem nefndur var Láganúpur eftir klettunum, en nafnið færðist svo alfarið á bæinn og klettarnir fengu nafnið Hnífar. Kollnúpur er það nafn sem aðkomumanni hefði fyrst dottið í hug að gefa því fjalli sem nú heitir Núpur; þar sem lögun hans er áberandi kúptari en allra annarra núpa og minnir á mannskoll. Hann er um leið einkennandi fyrir þessa vík; t.d. þegar henni er lýst fyrir þeim sem síðar hyggjast sigla til landsins.
Þegar landnámsmaðurinn byggir undir þessu fjalli nefnir hann víkina „Kollsvík“ eftir einkennum fjallsins, en til þægindaauka sleppir hann núpsendingunni. Hann tekur síðan viðurnefnið „kollur“ af fjallinu eða víkinni. Gæti því hafa nefnst „Örn kollur“, sé fyrrnefnd tilgáta rétt. Þegar Landnáma er skrifuð lengst suður á landi og 250 árum síðar hefur raunverulegt nafn fallið niður, enda er viðurnefnið reisulegra og sérstæðara og hefur því lifað lengur í munni fólks.
Allt eru þetta tilgátur, þó ýmis rök kunni að hníga að þeim. Eina enn mætti nefna, varðandi nöfn landnámsmannsins og víkurinnar. Norrænir menn nefndu írska munka kolla, þar sem þeir létu „gera sér koll“; þ.e. raka á sér hvirfilinn, sem ekki voru náttúrulega sköllóttir. Má ætla að sá hafi verið siður munka við Kólumbaklaustrið mikla á Iona, þar sem Kollur og Örlygur námu. Uppruna Kolls er ekki getið í Landnámu. Hugsanlegt er að hann hafi um tíma verið munkur við klaustrið og þá vel þjálfaður í helgisiðum sem til þurfti í hinni nýju kirkju sem reisa skyldi á Íslandi. Meðal leiðangursmanna hafi hann verið nefndur Kollur þó nafnið hafi verið annað; t.d. Örn. Það sem helst mælir gegn þessari tilgátu er það að munkur hefði varla undirgengist þá heiðnu athöfn að sverjast í fóstbræðralag að norrænum sið. En þá er spurning um það annarsvegar hvort sá svardagi hafi orðið áður en hann gekk í klaustrið, eða hinsvegar að ekki hafi verið um norrænt fóstbræðralag að ræða milli Kolls og Örlygs, heldur hafi þeir verið reglubræður úr klaustri Kólumba.
„Fjölmiðlafulltrúa“ vantaði
Þannig má velta einu og öðru fyrir sér í viðleitni við að fylla í eyður Landnámu. Hverjum er frjálst að hafa sína skoðun á því, en því verður ekki breytt héðanaf sem fyrrum var fest á bókfell. Landnámabók er talin rituð af Ara fróða Þorgilssyni, a.m.k. að miklum hluta. Ari fæddist á Helgafelli en var ungum komið í fóstur í Haukadal. Þar nam hann m.a. af Halli spaka Þórarinssyni og Teiti Ísleifssyni Gissurarsonar biskups, áður en hann (líklega) gerðist prestur að Stað á Ölduhrygg. Hafi Landnámabók verið rituð þar, eftir 1100, þá er ekki einungis langur tími frá landnámi Kollsvíkur eða yfir 200 ár; heldur er ritarinn langt frá sögustaðnum og þeim sem helst hafa haldið minningu Kolls á lofti. Hinsvegar voru afkomendur Örlygs fóstbróður hans fjölmennir og mun nærtækari, eins og fyrr segir. Ekki er ólíklegt að frá þeim sé kominn fróðleikur til Ara eða annarra skrásetjara, um landnám Kollsvíkur og nágrennis. Landið var alkristið á ritunartímanum. Betri bændur kepptust við að koma sér upp kirkjum og sýna rétttrúnað sinn. Því er ekki ólíklegt að afkomendur Örlygs hafi viljað undirstrika frumkvæði forföður síns í þeim efnum: Hann hafi reist fyrstu kirkju landsins að Esjubergi en fóstbróðir hans orðið skipreika; hann var jú sá sem blótaði Þór í röstinni! Ekki er því tryggt að Kollur hafi notið sannmælis af þeim heimildarmönnum. Á nútímamáli má orða það svo að hann hafi skort fjölmiðlafulltrúa til að halda sínum hlut í frásögnum mála. Munnleg geymd á heimaslóðum hefur lasnað mun hraðar en Landnáma og eftirgerðir hennar, sem allt veldur því að heimildir um Koll eru fáar og óáreiðanlegar.
Grafstæði Kolls
Munnmælasögurnar tvær um Kollsleiði og Biskupsþúfu, sem getið var í byrjun, eru eina vísbendingin um greftrunarstað Kolls. Samkvæmt þeim á Kollur að hafa fólgið fé sitt (eða vopn) undir Biskupsþúfu fyrir dauða sinn, en fyrirskipað að hann sjálfur yrði heygður fremst á Blakknesi; þar sem bæði er sjónlína á Biskupsþúfu og víð sýn yfir nánast allt landnám hans. Vissulega hníga nokkur skynsamleg rök til þess; hvort heldur er gengið er útfrá því að Kollur hafi verið heiðinn eða kristinn.
Því var trúað í heiðni að þó haugbúar færu til Heljar þá gætu þeir haft nokkra viðveru í haugum sínum, þó þeir færu sjaldnast úr þeim. Því var vandað til staðsetningar, bæði með tilliti til útsýnis og einnig að sá látni gæti fylgst með mannaferðum. Haugar hafa gjarnan fundist þar sem sér til bæjar og/eða við þjóðleið. Vopn hins látna voru lögð í hauginn; skotsilfur; gjarnan hestur og jafnvel hundur; allt gæti það nýst handanmegin. Samkvæmt munnmælunum hefur Kollur talið sig nægilega ferðafæran eftir dauðann til að fara úr haugnum á Blakknesnibbu og vitja eigna sinna undir Biskupsþúfunni þegar hann þurfti á þeim að halda. En vissara taldi hann að hafa auga með gersemunum og setti áskilnað um að kveikja í bænum ef einhver hefði hönd á.
Arfsögnin er skemmtileg og sýnir umfram allt hve kynslóðir fyrri alda hafa metið fegurð Kollsvíkur mikils; enginn getur efast um að frumbýlingur Kollsvíkur velji sér slíkt augnakonfekt til eilífðar. Fram á 20.öld töldu menn sig sjá leifar haugsins á Blakknesnibbu, eða eins og segir í örnefnaskrá Kollsvíkur: „Á Blakknesnibbu er Kollsleiði; smáhæð eða þústa. Þar á Kollur sem nam land í Kollsvík að vera grafinn. Þaðan sést á Biskupsþúfu, en þar á hann að hafa fólgið fé sitt“. Greinarhöfundur gerði nokkra leit að leiðinu sumarið 2017 í tengslum við kortsetningu örnefna. Ekkert slíkt er að sjá í sjónlínu við Biskupsþúfu. Af fremstu nibbu Blakksins sést ekki heim að þúfunni en þar er á a.m.k. einum stað eitthvað sem gæti verið leifar af hleðslu; þó fremur vegg en leiði. Hugsanlega er þar um að ræða skjólgarð í tengslum við nytjar Blakksins til eggja- eða fuglatöku. Eða frá þeim tíma að sauðum var slakað niður í Sighvatsstóð í klettunum til fitubeitar. Einnig kemur upp í hugann Vopnadómurinn sem Magnús prúði sýslumaður í Saurbæ kvað upp í Tungu árið 1581; í kjölfar ránsins á Eggert tengdaföður sínum. Með dómnum voru bændur m.a. skyldaðir til þess annarsvegar að eiga vopn og hinsvegar að viðhalda bálköstum á stöðum þar sem vel sást milli byggðarlaga, svo fljótgert væri að láta vita af sjóræningjum og safna liði. Blakknesnibba er ákjósanlegur staður í því tilliti, og vel má ímynda sér að þarna hafi verið hlaðinn skjólgarður til varnar eldiviðarkesti, því þarna getur orðið ofsarok. Forvitnilegt væri að skera úr um aldur hleðslnanna með greiningu á jurtaleifum undir þeim. Nokkuð austur af Nibbunni má sjá háa og myndarlega grjótrúst, en þar er um að ræða landmælingavörðu, einungis aldargamla.
Sé sú kenning rétt sem brúað var á hér að framan; að Kollur hafi verið kristinn menntamaður eru e.t.v. minni líkur á því að hann hafi verið heygður á Blakknesnibbu. Hafi hann reist kirkju í Kollsvík mætti ætla að hann hefði látið jarða sig við hana. Hér þarf þó að hafa í huga áðurnefndan skilning Kelta á guðdómi náttúrunnar. Kollur gæti vel hafa talið sig vera næstan guði þar sem vel sér yfir eina mestu dýrð sköpunarverksins og að hinum helga krossi á Biskupsþúfu.
Allar virðast því þessar arfsagnir; bæði frásögn Landnámu og munnmælasögur örnefna, styðja þá hugleiðingu sem hér er sett fram varðandi kristni og kirkju Kolls. Endanleg staðfesting fæst þó vart héðan af, nema hugsanlega með fornleifarannsóknum.
Þróun kirkjumála eftir daga Kolls
Fáum sögum fer af skipan kirkjumála í Rauðasandshreppi í nokkurn tíma eftir að Kollur var allur. Hafi hann átt afkomendur er líklegt að þeir hafi verið kristnir og haldið kirkju hans við. Kirkjan var líklega sú eina í hreppnum fram til kristnitöku árið 1000. Engar heimildir er að hafa um þennan tíma; þar verða menn að leiða líkum að, þar til fornleifarannsóknir kunna að leiða meira í ljós.
Fljótt fjölgaði á svæðinu, enda telur Ari fróði að landið allt hafi verið fullnumið kringum 930. Hreppar mótuðust snemma og byggðin fékk fljótlega nafnið Rauðasandshreppur. Það bendir til þess að veldi bænda á Rauðasandi hafi vaxið skjótt; enda er þar gott undir bú. Helstu jarðir hreppsins hafa líklega fljótt skipst út úr stóru frumlandnámunum, og verða hér nendar þær sem fullyrða má að hafi mjög snemma byggst, þó þær kunni að hafa verið fleiri. Ármóður Þorbjarnarson hinn rauði hefur líklega setið í Saurbæ, en úr landnámi hans skiptust Melanes, Stakkar og Lambavatn. Þórólfur spörr sat á Hvallátrum en úr landnámi hans byggðust Keflavík, Hænuvík, Tunga og Sauðlauksdalur. Vesturbotn byggðist úr landnámi Þorbjarnarbræðra ásamt Geirseyri. Úr landnámi Kolls byggðist Láganúpur vafalítið mjög snemma.
Með kristnitökunni var upp tekin hinn rómverski siður kaþólskrar kristni. Keltneskur siður Kolls og Örlygs hlaut að víkja, og má vera að það hafi átt þátt í að kirkjur þeirra urðu ekki lengur höfuðkirkjur í héraði: Kirkja Örlygs hrörnaði í sinnuleysi, eins og Kjalnesingasaga greinir frá, en kirkja Kolls varð hálfkirkja undir höfuðkirkju að Saurbæ á Rauðasandi.
Þó enn væru margir heiðnir við landnám var krisni mjög að ryðja sér til rúms; um það vitna fleiri heimildir en Landnámabók. Forvitnilegt dæmi um þennan „blendna“ tíðaranda er bátskuml sem fannst 1964 í Vatnsdal, þar sem heygður hafði verið hópur 7 ungmenna á landnámstíð. Meðal haugfjár var lítill þórshamar sem bendir til heiðni, en einnig met með krossmarki. Tveggja trúarbragða gætti því í Rauðasandshreppi á þessum tíma.
Eftir að kristni var upp tekin upphófst allmikil uppbygging guðshúsa; bæði bænhúsa sem kirkna. Virðist mönnum hafa verið það metnaðarmál að bæta guðshúsi við húsakost sinn, þó ekki skuli trúarsannfæringin vanmetin. Stöndugir bændur gátu byggt veglegri kirkjur, en lítil bænhús virðast hafa komist upp á flestum, ef ekki öllum bæjum hreppsins eftir kristnitöku. Ekki eru heimildir um þau öll, en undarlegt má heita ef t.d. ekkert guðshús hefur verið í Örlygshöfn þegar þau voru í hverri Útvík auk Hænuvíkur.
Prestþjónusta við Kollsvíkurkirkju
Tíundarlög voru samþykkt á Alþingi 1097-97, sem tryggðu þeim kirkjum allnokkrar skatttekjur sem höfðu þjónandi presta. Með þeim var í raun skotið stoðum undir uppgang höfðingjaveldis og ójöfnuðar, þrátt fyrir að einnig hafi tíundarlög stuðlað að velferð þurfamanna. Prestþjónandi kirkjur voru jafnan á stærstu höfuðbólunum og þangað tók nú að safnast aukinn auður með kirkjutíund og preststíund. Með tíundinni urðu skilin æ gleggri milli tekjulausra bænhúsa og hálfkirkna annarsvegar og alkirkna hinsvegar, sem höfðu þjónandi presta og volduga bakhjarla.
Telja verður ólíklegt að Kirkjubólskirkja í Kollsvík hafi nokkurntíma haft lærðan prest á eigin vegum eftir að Kollur leið. Séu framangreindar kenningar réttar varðandi frumkirkju í Kollsvík er líklegt að þjónustu við hana hafi verið sinnt í hjáverkum með bústörfum og sjósókn. Því nýtur hún ekki tíundar, heldur verða Kollsvíkingar líkt og aðrir hreppsbændur að greiða tíund af sínum eignum til Saurbæjarkirkju, sem þá var komin á koppinn. Með því er Saurbæjarkirkja alfarið tekin við sem höfuðkirkja í hreppnum. Kirkjubólskirkja í Kollsvík; fyrsta kirkja á Íslandi, verður uppfrá því hálfkirkja sem þjónað er af prestum Saurbæjar, og leggst svo af eftir siðaskipti; meira en 650 árum frá stofnsetningu.
Hér skal í lokin lítillega hugað að öðrum guðshúsum í hreppnum, eftir því sem heimildir greina:
Saurbær á Rauðasandi er frá náttúrunnar hendi ein af búsældarlegri jörðum í hreppnum, og þar komst eflaust fljótt á fót umfangsmikill búrekstur. Líklegt er að fljótlega eftir kristnitöku hafi kirkja risið í Saurbæ. Hefur metnaður eflaust ráðið þar miklu, en einnig nauðsyn. Jarða þurfti hina látnu í vígðri mold í stað þess að heygja þá uppá heiðna vísu. Umhendis hefur verið að koma líkunum út í Kollsvík, þó þar hafi líklega verið grafreitur á þeim tíma.
Fyrsta skráða heimild um kirkju í hreppnum er Hrafns saga Sveinbjarnarsonar, en hún greinir frá því að á síðari hluta 12. aldar hafi höfðingi búið í Saurbæ að nafni Markús Gíslason. Markús var þingmaður Jóns Loftssonar í Odda, en ekki goðorðsmaður sjálfur. Hvergi var betur húsað býli á Vestfjörðum á þeim tíma. Markús fór utan og lét höggva kirkjuvið í Noregi; hefur eflaust ætlað að byggja veglega kirkju í Saurbæ. Hann kom að landi á Austfjörðum og af einhverjum ástæðum gaf hann kirkjuviðinn, sem síðan var nýttur til kirkjubyggingar á Valþjófsstað. Eftir andlát konu sinnar fór Markús aftur til Noregs og lét höggva sér við til kirkjubyggingar í Saurbæ. Hann lagði einnig leið sína suður í Róm og kom við í Englandi á bakaleiðinni þar sem hann fékk kirkjuklukkur góðar. Síðan segir: „Og er hann kom út hingað lét hann gera kirkju göfuglega á Rauðasandi og til þeirrar kirkju gaf hann klukkurnar og Ólafsskrín er hann hafði út haft. Sú kirkja var síðan vígð guði almáttugum og heilagri Máríu drottningu“.
Hér hafði hinn víðförli Saurbæjarbóndi vel búið að virðingu sinni; tekjustofnum og sálarheill. Hér eftir skyldi enginn fara í grafgötur um það hver væri höfuðkirkja Rauðasandshrepps. Kólumbakirkjan í Kollsvík bliknaði líklega í samjöfnuði við hið nýsmíðaða stórhýsi, sem átti skrín með lífsýnum Ólafs helga; var helguð Guði almáttugum og sælli Máríu; og var ráðandi skattkirkja á svæðinu. Saurbær hafði skapað sér stöðu sem stjórnunarmiðstöð á sunnanverðum Vestfjörðum; jafnt í kirkjulegum sem veraldlegum efnum.
Ástæða þess að Hrafns saga getur ekki um aðrar kirkjur í hreppnum á sama tíma er líklega öðrum þræði sú að meginkjarni frásagnarinnar snýr að mannvígum; kirkjubyggingar Markúsar er getið til að varpa ljósi á vígaferlin sem síðar urðu. Markús var veginn 1196 og Gísli sonur hans átti síðar í mannskæðum deilum við Eyjólf Kárason á Stökkum, þar sem kirkjan kom víð sögu. Hin ástæðan er sú að þá þegar hefur Kirkjubólskirkja verið orðin hálfkirkja. Það sannast í næstu ritheimild um kirkjur í Rauðasandshreppi sem er kirknatal Páls Jónssonar Skálholtsbiskup árið 1203. Þar nefnir Páll ekki aðrar en skattkirkjur, og nefnir Bæjarkirkju eina kirkna í Rauðasandshreppi. Reyndar er einnig nefnd „kirkja í dal“ en fræðimenn telja að það sé líklega síðari tíma innskot.
Þróunin verður þannig sú að kirkja Kolls verður hálfkirkja undir Saurbæjarkirkju; að öllum líkindum á 11.öld; fljótlega eftir kristnitöku og setningu tíundarlaga. Ekki er ólíklegt að áfram hafi verndardýrlingur hennar verið heilagur Kólumbi, en um það finnast ekki heimildir. Greftrun hefur líklega verið við Kirkjubólskirkju frá upphafi, og svo hélst framum siðaskipti er kirkjan var lögð niður. Ekki verður sagt hvernig prestþjónustu við hana hefur verið háttað frá dögum Kolls fram til þess að prestar Saurbæjar leggja leið sína út um Víknafjall.
Saurbær efldist eftir því sem aldirnar liðu og varð eitt helsta höfuðbólið á Vestfjörðum. Þar sátu útsjónarsamir höfðingjar sem oftar en ekki höfðu mikil ítök í landsstjórninni og kunnu að koma ár sinni vel fyrir borð. Safnaðist þeim æ meiri auður, m.a. í formi bújarða. Flestar jarðir í Rauðasandshreppi féllu í þetta svarthol auðsöfnunar og hreppsbúar urðu flestir ánauðugir landsetar höfðingjanna. Verður hér fáu bætt við það sem um það hefur verið skrifað, en glögg heimild er m.a. skrif Árna Magnússonar í Jarðabók sína árið 1703. Um kirkju í Saurbæ hafa m.a. ritað ágætlega Ari Ívarsson frá Rauðasandi og Kjartan Ólafsson sagnfræðingur.
Láganúpur féll undir Bæjareignir; líklega á 14. öld, þegar skreiðarsala varð arðbær, og hélst þannig fram á þá 20. Hinsvegar virðist Kirkjuból í Kollsvík hafa staðið utan þeirrar eignafléttu. Því hefur líklega ráðið það annarsvegar að Bæjarhöfðingjar höfðu þar valdatauma í gegnum þjónustu við hálfkirkjuna og hinsvegar að í Láganúplandi reis upp útgerðarstaðurinn sem malaði Bæjarveldinu gull í formi skreiðar. Útræði úr Kollsvíkurveri hófst miklu síðar.
Fjöldi guðshúsa í Rauðasandshreppi. Sennilega var kirkja Kolls á Kirkjubóli eina kirkja hreppsins á „heiðnum tíma“. Þar verður mikil breyting á eftir kristnitökuna árið 1000. Þá upphófst mikil bylgja bænhúsabygginga, en talið er að á landinu öllu hafi orðið hátt á annað þúsund bænhús og kirkjur. Bænhús voru reist á nokkrum jörðum í Rauðasandshreppi, en öðrum ekki. Sum komu snemma, eins og á Hvalskeri og e.t.v. víðar, en önnur síðar, svo sem í Breiðavík. Ekki er fullljóst hvað réði bænhúsabyggingum. Líklega var það fremur metnaður og trúarhiti ábúenda en fjarlægðin frá kirkjustað, en einnig kann fjölskyldustærð og samkomulag milli bæja að hafa ráðið nokkru varðandi samnýtingu. Hér verður lauslega minnst á bænhús sem einhverjar heimildir greina frá í Rauðasandshreppi. Þau kunna þó að hafa verið víðar.
- Melanes. Árið 1514 setti Stefán Jónsson biskup á stofn bænhús á Melanesi, sem stóð til siðaskipta. Líkt og í Breiðavík kann þar að hafa verið bænhús í upphafi kristni.
- Saurbær. Alkirkja frá upphafi; sóknarkirja og lengst af höfuðkirkja á sínu svæði.
- Hvallátrar. Þar var bænhús sem var „fyrir löngum tíma affelt“ segir Jarðabók Árna Magnússonar. Bænhúshóll er þar örnefni. Þar stóð hús sem eftir siðaskipti var lengi notað sem geymsla, segir í örnefnaskrá, en síðast rifið og á rústunum byggt íbúðarhús. Stærð þess er tiltekin 8 x 4 álnir.
- Breiðavík. Bænhús var stofnsett í Breiðavík árið 1431 afi Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi, og skyldi það eiga tíu hundruð í heimalandi. Ætla má þó að bænhús hafi verið þar fyrr, eins og áður segir, þó það kunni að hafa aflagst um tíma. Jarðabókin segir að 1703 sé þar hálfkirkja þar sem embættað er tvisvar á ári. Í árslok 1824 var hún gerð að sóknarkirkju með konungsbréfi. Um leið var stofnuð þriðja sóknin í Rauðasandshreppi; Breiðavíkursókn sem náði yfir Útvíkur og Keflavík. Prestssetur hefur ekki verið í Breiðavík, heldur var kirkjunni þjónað frá Sauðlauksdal og síðan Patreksfirði.
- Kollsvík. Að líkindum fyrsta kirkja landsins. Síðar hálfkirkja fram um siðaskipti.
- Hænuvík. Ekki er vitað hvenær þar var reist bænhús, en að öllum líkindum hefur það verið lagt niður um siðaskipti eins og önnur slík. Þar eru örnefnin Hoftóft og Blótkelda stutt frá bæ, sem gætu bent til heiðinna tíma.
- Sauðlauksdalur. Þar var bænhús sem verulega auðgaðist árið 1499 þegar ábúandinn, Jón Íslendingur, gaf því skóg í Trostansfirði en síðar fékk það fleiri gjafir og ítök. Árið 1505 var leyfð þar greftrun og aðrar meiriháttar athafnir, og 1512 setti Stefán Jónson biskup alkirkju í Sauðlauksdal. Með þessu var Saurbæjarsókn skipt í tvennt, og til Sauðlauksdalssóknar heyrðu nú allir bæir við Patreksfjörð.
- Hvalsker. Þar reis bænhús líklega mjög snemma. Þess er getið í áðurnefndri sögu Hrafns Sveinbjarnarsonar að deilur hafi risið milli Inga Magnússonar bónda á Hvalskeri og Markúsar Gíslasonar í Saurbæ, vegna viðhalds á bænhúsinu á Hvalskeri sem þá var fallið í tóft. Urðu lyktir þær að Ingi veitti Markúsi banasár á bæjarhlaðinu í Saurbæ árið 1196. Þorlákur biskup helgi hafði skipað svo fyrir, til að tryggja vihald bænhúsa, að ef bænhús félli í tóft skyldi staðarhaldari gjalda sex aura til grafarkirkjunnar sem bænhúsið lá undir. Hefur Markús eflaust verið að innheimta þá sekt hjá hinum viðskotailla Skersbónda. Má af þessu ráða að bænhúsið hefur verið orðið fornt árið 1196 og hefur því e.t.v. risið fljótlega eftir kristnitöku.
- Vesturbotn. Þar var bænhús var í á kaþólskri tíð, „en fyrir lángri æfi affallið“ segir í Jarðabók Á.M.
- Geirseyri. Þar stóð bænhús, að því er Árni Magnússon segir í Jarðabókinni, en þá fyrir löngu eyðilagt.
Eins og fyrr segir er líklegt að bænhús hafi verið regla fremur en undantekning á öllum byggðum bólum í kjölfar siðaskipta. Sóknir urðu ekki til fyrr en á 14. öld; fram að þeim tíma var þjónustusvæði höfuðkirkju nefnt þing. Til viðbótar þeim 10 guðshúsum sem hér um getur er því ekki ólíklegt að 5-7 hafi byggst í Saurbæjarþingi, þó þau hafi ekki ratað í heimildir. Hafa menn líklega lagt áherslu á að eyða þeim eftir að Þorlákur biskup setti áðurnefnt sektarákvæði varðandi viðhald þeirra og prestar trénuðust við þjónustu í þeim. Guðshúsum á landinu er talið hafa fækkað mjög eftir 1100, hver sem ástæðan var.
Hefur það verið allmikið verk hjá Saurbæjarprestum að þjónusta þegar guðshús voru flest. Í höfuðkirkjunni í Saurbæ þurfti að messa alla sunnudaga og aðra helgidaga; í hálfkirkjunni á Kirkjubóli var messað annan hvern helgan dag og í bænhúsunum var ætlast til messu mánaðarlega, þó líklega hafi það verið sjaldnar í reynd. Hagsýnn kirkjuhaldari í Saurbæ hefur eflaust séð það í hendi sér að hagkvæmt myndi að minnka vinnu sinna presta en láta fremur sóknarbörnin um skóslitið, með kirkjusókn að Saurbæ. E.t.v. hafa bænhúsin í víkunum lengur haldist við, þar sem unnt var að nýta messuferðir presta til aðdrátta á fiskifangi.
Niðurstöður:
Hér hefur verið hugleidd þróun kirkjumála í Rauðasandshreppi til forna; einkum fyrst eftir landnám. Heimildir eru fáar og hefur því nokkuð verið stuðst við helstu líkindi. Samkvæmt þessum niðurstöðum gæti saga kirkjuhalds í Rauðasandshreppi verið svona í stórum dráttum:
- Kollur og Örlygur voru fyrstu trúboðar á Íslandi og byggðu hvor sína kirkju.
- Kollur nam minnsta frumlandnám á Íslandi og stundaði helgihald ásamt búskap og útgerð.
- Fyrsta kirkja á Íslandi var keltnesk-kristin og byggð á Kirkjubóli í Kollsvík fyrir árið 900.
- Kollur var fyrsti þjónandi kirkjuprestur á Íslandi. Hann var jarðsettur á Blakknesnibbu.
- Saurbæjarkirkja byggðist sem rómversk-kristin alkirkja á Saurbæ um kristnitöku.
- Um leið verður Kirkjubólskirkja hálfkirkja og bænhús rís á nánast hverju bóli.
- Saurbæjarveldið eflist, m.a. með upptöku tíundar; bænhúsum fækkar.
- Kirkjubólskirkja heldur sínu fram yfir siðaskipti, sem hálfkirkja og grafarkirkja.
- Sauðlauksdalssókn er stofnuð út úr Saurbæjarsókn árið 1512 og nær yfir Patreksfjörð.
- Kirkjubólskirkja leggst af um siðaskipti, ásamt þeim bænhúsum sem þá eruvið lýði.
- Breiðavíkursókn er stofnuð úr Saurbæjarsókn árið 1824.
Ritað í apríl-nóv 2018
Valdimar Össurarson tók saman og leitaði í ýmsar heimildir.
Enginn verður óbarinn biskup.
Guðmundur Arason (f.1161-d.1237) var biskup á Hólum frá 1203 til 1237. Fæddur var hann utan hjónabands og ólst upp við hörð kjör hjá ættingjum; var barinn til bókar, eins og kallað var. Um 1180 ætlaði hann utan, en skipið strandaði við Hornstrandir þar sem Guðmundur slasaðist á fæti og átti lengi í þeim meiðslum. Hann gerðist þá mikill trúmaður og lifði meinlætalífi. Hann vígðist til prests 1185; var prestur í Skagafirði og Svarfaðardal. Fór þá af honum orð fyrir trúarhita, líknsemi við lítilmagnann og að hann gæti gert kraftaverk, undursamlegar lækningar, og rekið út illa anda. Varð hann af því feikna vinsæll meðal almennings jafnt sem höfðingja. Vegna þess, og vegna skyldleika við konu Kolbeins Tumasonar höfðingja Ásbirninga, vildu höfðingjar fá hann til biskups þegar Brandur Hólabiskup lést. Guðmundur var tregur til, en lét þó undan.
Hann fór til biskupsvígslu árið 1202 í fylgd Hrafns Sveinbjarnarsonar læknis á Eyri, og tók vígslu í Niðarósi. Eftir heimkomuna dró fljótlega til sundurþykkju með honum og Kolbeini, sem hafði vænst þess að stjórna biskupsstólnum. Guðmundur sýndi fulla einurð gegn yfirgangi höfðingjaveldisins og vildi efla kirkjuvaldið. Kom að lokum til bardaga í Víðinesi árið 1208, þar sem Kolbeinn féll. Eftir sigurinn gekk Guðmundur fram af fullum þunga gagnvart höfðingjum; studdur af hirð þeirri sem nú hafði safnast kringum hann af flækingum og fátæklingum. Voru þar innanum ýmsir sem lent höfðu upp á kant við höfðingjaveldið og landsins lög. Almennir bændur gerðust uggandi um sinn hag og döluðu vinsældir biskups allnokkuð norðanlands eftir Víðinesbardaga.
Næstu árin átti Guðmundur í erjum við Arnór Tumason, bróður Kolbeins, og höfðingja landsins, aðra en fornvin sinn Hrafn Sveinbjarnarson og Snorra Sturluson sem voru honum hliðhollir. Arnór hrakti Guðmund frá Hólum árið 1209 og næstu árin flakkaði hann um landið; mest á Vestfjörðum. Árið 1214 fór hann út og aflaði sér atfylgis erkibiskups til að ná biskupsstólnum aftur, og honum hélt hann um tíma. Haustið 1218 veitti Arnór honum þó aftur yfirgang; leysti upp skóla hans og flutti hann fanginn suður á Hvítárvelli. Þar var hann frelsaður af Eyjólfi Kárssyni, sem fyrrum var bóndi á Stökkum á Rauðasandi og hafði aflað sér þar óvildar Saurbæjarbænda vegna mannvíga (sjá kaflann um Saurbæjarkirkju og Markús Gíslason). Eyjólfur fór með biskup heim til sín í Flatey um vorið eða sumarið 1219, og er líklegt að þaðan hafi hann flandrað vestur Barðastrandasýslu; alla leið í Rauðasandshrepp.
Tvívegis lenti Guðmundur biskup enn í bardögum við fjendur sína; fyrst Helgastaðabardaga 1220 og síðan Grímseyjarbardaga 1222. Í þeim síðarnefnda laut hann í lægra haldi fyrir Sighvati Sturlusyni og Sturlu syni hans. Eftir þetta þyngdist enn róðurinn hjá Guðmundi. Hann hraktist til Noregs, þar sem máli hans var skotið til páfans í Róm án skýrrar niðurstöðu. Árið 1230 var Guðmundur svo formlega sviptur embætti vegna andstöðu óvildarmanna sinna. Honum leyfðist þó að sitja Hólastól til dauðadags 1237; enda orðinn gamall og blindur og ógnaði höfðingjaveldinu ekki eins og fyrrum.
Alþýðudýrðlingur og kraftaverkamaður, en þungur á fóðrum.
Guðmundur Arason hefur notið meiri hylli alþýðu eftir sinn dag en nokkur annar kirkjunnar maður. Þó aldrei hafi hann formlega verið tekinn í dýrðlinga tölu hefur hann notið meiri átrúnaðar hérlendis en þeir allir. Hann fékk fljótlega viðurnefnið „hinn góði“, og honum eru eignuð margvísleg kraftaverk; öll í þágu almennings og lítilmagnans.
Guðmundur flakkaði víða um land með lið sitt. Að frátöldum trúar- og kirkjulegum tilgangi var það einkum tvennt sem réði ferðum hans: Annarsvegar verndin sem hinir fáu vinveittu valdamenn gátu veitt honum og hinsvegar matbjörg fyrir hið fjölmenna fylgdarlið. Útilokað var að setjast upp með þann flokk á venjulegum sveitabæ til lengdar. Helstu úrlausnina var að fá í verstöðvunum við sjávarsíðuna. Þar voru þær matarkistur nærindis sem síður tæmdust.
Gjaldmiðill biskups fyrir þessa greiðasemi er enn að miklu leyti sýnilegur, bæði í stöðum og sögnum. Þá þegar var orðinn svo mikill átrúnaður á kraftaverk hans og vígslur að bændur töldu ekki eftir einhverja fisktitti eða eggjakoppa fyrir aukna möguleika á himnaríkissælu; endalausan mátt lækningalinda; slysavarnir í björgum og á hættulegum þjóðleiðum. Sjaldan hefur orðsins máttur orðið dýrmætari söluvara en á þeim tímum.
Tilgangur vígslna Guðmundar góða hefur einkum verið sá að tryggja velferð manna. Hann vígir brunna við bæi til að tryggja mönnum heilnæmt neysluvatn; hann vígir Gvendarbrunn á Látraheiði til að tryggja ferðalöngum og hestum svölun á löngum fjallvegi; hann vígir Látrabjarg til að tryggja öryggi manna við öflun fugls og eggja og hann vígir steina og hóla við upphaf hættulegra leiða til að tryggja fararheill. Allt er það af nauðsyn gert, og hvorki hefur hinn mikla guðsmann skort einlægni og trúarsannfæringu né tiltrú heimamanna.
Rauðasandshreppur um 1220.
Árið 1220 voru liðin nær 450 ár frá fyrsta landnámi Rauðasandshrepps. Hreppurinn var all þéttbýll, og helstu býli þá orðin rótgróin. Rauðasandshreppur hefur þá þegar verið stofnaður sem stjórnsýslusvæði, með kosnum hreppstjórum (hreppsnefnd), hreppsþingum og náði yfir svæðið frá Stálfjalli fram á Tálkna. Þingstaðurinn var í Tungu, eins og lengst af hefur verið.
Búskapur var undirstaða lífsafkomu, líkt og annarsstaðar á landinu. Að auki höfðu menn verulega lífsbjörg af sjávarfangi, þar sem fiskimið eru grunnt undan landi; einkum í Útvíkunum; Látravík; Breiðuvík og Kollsvík, en einnig í Patreksfirði og undan Keflavík og Rauðasandi. Þó útræði væri á þessum tíma mun minna en síðar varð; eftir að skreiðarsala hófst á erlenda markaði, var það verulega stundað; bæði af heimabændum og fólki úr grannbyggðum. Fuglabjörg voru gríðarleg hlunnindi, með eggja- og fuglatöku. Að auki var selveiði eflaust verulega stunduð; einkum á Rauðasandi, en kann þá einnig að hafa verið meiri annarsstaðar en síðar varð. Líklega hefur þá fyrir nokkru verið búið að útrýma rostungi, en ekki er ólíklegt að hvalveiði hafi nokkur verið í Patreksfirði, líkt og lengur entist í Arnarfirði. Mikið gagn var eflaust að reka og skelfisktekju, og gnægð var af fiski í vötnum. Hér var því fleiri lífsbjargir að finna en víða annarsstaðar á landinu. Á móti kom að hreppurinn er sundurskorinn af háum grýttum hálsum. Vafalaust hefur þá verið búið að ryðja grjóti úr vegi milli helstu staða, en víða voru háskalegar og langar leiðir milli byggða. Menn hafa nokkuð notað báta til milliferða og flutninga, en tvær hættulegar rastir eru þó verulegir farartálmar. Fólk þurfti að vera sjálfbjarga um alla hluti; ekki einvörðungu mataröflun heldur einnig járnvinnslu, vefnað, viðarvinnslu og vopnagerð. Menntun sína og fróðleik hafði hver kynslóð frá hinni fyrri. Mannabústaðir hafa þá líklega enn verið stórir skálar með langeldum á gólfi, en líklega. hafa smærri stofur þá verið farnar að tíðkast. Skóglendi var þá enn ekki farið að ganga eins til þurrðar og síðar varð. Má t.d. ætla að í öllum Útvíkum hafi einhver skógur verið; í Hænuvík, Örlygshöfn, Vatnsdal, Skeri, Skápadal en að sjálfsögðu mestur í Botni og á Rauðasandi.
Efni bænda hafa að líkindum verið misjöfn. Þeir efnuðustu og voldugustu bjuggu á bestu og landmestu jörðunum; Saurbæ; Stökkum; Tungu; Sauðlauksdal; Vesturbotni og e.t.v. nokkrum öðrum; auk þess sem útvegsbændurnir í Útvíkum komust vel af. Saurbæjarbændur hafa örugglega snemma tekið forystu í hreppnum, þar sem sú jörð hafði mesta möguleika til að auðgast. Má jafnvel ætla að þar hafi fyrst hafist mannabyggð í hreppnum, er Ármóður rauði settist að á Rauðasandi til rostungsveiða. Sú er líklega ástæða þess að Þórólfur spörr nam ekki Rauðasand er hann sló eign sinni á Rauðasandshrepp, að frátöldu landnámi síns leiðangursstjóra; Kolls í Kollsvík.
Þegar hér var komið sögu var kristni komin vel á koppinn í Rauðasandshreppi eins og víðar. Má reyndar ætla að aldrei hafi heiðinn maður þrifist í landnámi Kolls og skipverja hans; Þorbjarnanna og Þórólfs sparrar. Kollur var kristinn og líklega einnig þeir sem í áhöfn hans voru. Í kaflanum hér að framan var fjallað um hina keltnesku kirkju Kolls í Kollsvík, sem áreiðanlega var búinn að kristna alla hreppsbúa fyrir formlega töku rómversk-kristni árið 1000. Þá þegar hefur líklega verið komin upp kirkja hjá höfðingjanum í Saurbæ. Hún verður svo líklega helsta kirkja hreppsins í hinum nýja sið. Þegar tíundalög voru lögleidd um 1097 sáu margir bændur að vænlegra myndi fyrir þá að koma sér upp eigin guðshúsum og ánafna þeim hluta eigna sinna í stað þess að þurfa að greiða tíund af þeim til annarra kirkna. Því sprettur á stuttum tíma upp fjöldi lítilla kirkna um allan hrepp; sem síðar voru nefnd bænhús til aðgreiningar frá stærri kirkjum. Vart hefur verið viðlit að fá presta til þjónustu í öllum þessum guðshúsum, enda mikil prestekla í landinu á fyrstu tímum kristnitöku. Má vera að það hafi skapað þeim heitið „bænhús“, þar sem helsta þjónustugerðin fólst í bænastundum heimilisfólksins sjálfs. Þegar Þorlákur Þórhallsson var Skálholtsbiskup 1178-1193 vann hann einarðlega að því að kirkjan fengi sjálfstæði frá höfðingjaveldinu. Liður í því var m.a. að breyta tíundarlögum á þann veg að ekki varð lengur jafn eftirsóknarvert að halda bænhús. Þau féllu því hvert eftir annað úr notkun. Engu að síður skyldaði Þorlákur kirkjubændur til að viðhalda bænhúsum sem byggð hefðu verið og eigi afhelguð. Þessi skylda leiddi til mestu vígaferla sem orðið hafa í Rauðasandshreppi, og frá segir í „Hrafns sögu hinni sérstöku“. Málsatvik voru þau að Ingi Magnússon bóndi á Hvalskeri, sem sagður var nokkuð ofstopafenginn, hafði látið undir höfuð leggjast að viðhalda bænhúsi sínu og var það fallið í tóft. Ekki hafði hann heldur greitt af því lögskylda sex aura til graftarkirkju, sem var Saurbæjarkirkja. Kirkjuhöfðingi í Saurbæ var þá Markús Gíslason, einn auðugasti maður landsins, sem hafði byggt mikla kirkju í Saurbæ og sótt við til hennar frá Noregi. Af þessari þversku Inga á Skeri urði mikil málaferli, sem leiddu til þess að Markús var veginn á hlaðinu í Saurbæ árið 1196.
Gísli sonur Markúsar var þá ungur, en hann tók síðan við búi í Saurbæ. Nágranni hans var Eyjólfur nokkur Kársson, bóndi á Stökkum; upprunninn í Miðfirði og tengdasonur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri í Arnarfirði. Þeim Gísla og Eyjólfi varð margt að deiluefni, t.d. fjárbeit og áleitni manna Eyjólfs við kvenfólk í Saurbæ. Dró til tíðinda er Eyjólfur sótti jólamessu í Saurbæjarkirkju með fólki sínu, en þá veittist Gísli að þeim og drap einhverja, en Eyjólfur komst undan í kastala sinn á Stökkum. Stuttu síðar fór Eyjólfur að Gísla og settist um virki hans í Saurbæ. Fór hinsvegar svo að þar var hálfbróðir Eyjólfs veginn. Ejólfur fluttist eftir þetta til Flateyjar árið 1217 og segir ekki af erjum þeirra eftir það. Gísli var dyggur stuðningsmaður Sturlunga og barðist m.a. með þeim í Örlygsstaðabardaga. Eyjólfur var hinsvegar einn dyggasti stuðningsmaður Guðmunar biskups Arasonar, ásamt Hrafni Sveinbjarnarsyni tengdaföður sínum og Snorra Sturlusyni.
Þannig var hið pólitíska landslag í Rauðasandshreppi fyrir komu Guðmundar góða Hólabiskups, samkvæmt því sem best verður vitað. Gísli Markússon var stórbóndi í Saurbæ og líklega helsti höfðingi sveitarinnar. Hann var óvinveittur Eyjólfi Kárssyni, og hefur þá líklega einnig haft horn í síðu Guðmundar biskups, líkt og vinir hans Sturlungar. Hinsvegar er líklegt að aðrir bændur í Rauðasandshreppi hafi lítið viljað skipta sér af þessum landsmálum og ekki látið Gísla segja sér fyrir verkum. Þetta má álykta út frá því hve víða Guðmundur fór óáreittur um hreppinn, ásamt því að vart hefði Eyjólfur komið með hann vestur ef hann hefði ekki talið hann velkominn hjá flestum. Þetta þarf að hafa í huga þegar við núna reynum að átta okkur á ferðum Guðmundar um Rauðasandshrepp.
Ferð Guðmundar góða um Rauðasandshrepp
Ferðir Guðmundar góða um Rauðasandshrepp eru hvergi skráðar beinum orðum í fyrri tíma heimildum; að frátaldri vígslu Sauðlauksdalsvatns. Verður því að ráða af líkum hvenær hann var þar á ferð. Nokkrar tímasetningar koma þar gil greina:
- Árið 1199 er Guðmundur á heimleið frá Þingvöllum. Þá fer hann um Borgarfjörð og „vígir þar brunna víða“; er við brúðkaup Snorra Sturlusonar að Hvammi í Dölum; fer á Reykjanes og vígði brunn (sem síðar var þó vanhelgaður með hlandmigum) og endaði hjá Kolveini Tumasyni á Víðimýri, sem þá var enn í vinfengi við hann. Sú ferð er vel skráð í Guðmundar sögu, og ólíklegt er að hann hafi þá farið vestar.
- Árið 1200, er Guðmundur var til Alþingis, bjóða Vestfirðingar honum heim. Hann fer þá til Borgarfjarðar, Breiðafjarðareyja og í Dýrafjörð. Þar er hans getið í Keldudal, Haukadal, Mýrum, Ingjaldssangi. Hann fer síðan í Önundarfjörð og Ísafjarðardjúp. Þaðan að Broddanesi og yfir únaflóa H´ til Miðfjarðar. „Þeir Vestfirðingar felldu svá mikla ást til hans ok kenninga hans at sá þótti best hafa er meira mátti gott til hans gera; bæði í fégjögum ok öðrum hlutum góðum“. Þegar á þessum tíma er helgi Guðmundar orðin meiri á Vestfjörðum en annarsstaðar, þó enn væri hann ekki orðinn biskup. Hér er þess ekki getið, í annars vel skráðri ferð, að hann hafi lagt leið sína á suðurfirði Vestfjarða. Árni Hjartarson jarðfræðingur hefur mikið rannsakað ferðir Guðmundar og segir svo í pósti til skrásetjara; „Árið 1200 ferðaðist hann um Barðaströnd og Vestfirði, fór til Flateyjar frá Reykhólum og svo í Sauðlauksdal”. Í þeirri ferð gæti Guðmundur hafa vígt Sauðlauksdalsvatn, en ekki segir af vígslum hans það sinnið.
- Vorið 1209 gerðu fjendur Guðmundar aðför að honum á Hólum, í kjölfar Víðinessbardaga og dráps Kolbeins Tumasonar. Biskup fór þá að Reykholti til Snorra Sturlusonar og var þar næsta vetur. Hugðist hann fara til Hóla að vori, en Arnór Tumason varnaði honum staðarins. „Þetta sumar fór Guðmundur byskup um Vestfjörðu, en um veturinn var hann í Steingrímsfirði…“. Vel er líklegt að þetta sumar hafi Guðmundur komið í Rauðasandshrepp. Þetta er nokkru áður en Eyjólfur Kársson flytur að Stökkum, en hann fær jörðina í með Herdísi konu sinni; Hrafsdóttur Sveinbjarnarsonar og flytur þangað 1216. Ekki er því upp komin óvild Eyjólfs og Gísla Markússonar í Saurbæ, en líklegt er að Markús hafi samt haft þykkju til Guðmundar, líkt og aðrir stuðningsmenn Sturlunga.
- Það var svo haustið 1218 sem Arnór Tumason handtók Guðmund biskup á Hólum og hneppti í varðhald. Þá um vorið 1219 lét hann draga biskup á börum suður á Hvítárvelli. Þetta frétti Eyjólfur Kársson frá Stökkum; vinur Guðmundar. Hann var þá nýlega fluttur í Flatey, að ráði Snorra Sturlusonar eftir rósturnar á Rauðasandi. Eyjólfur brá skjótt við; fór að Hvítárvöllum með lið manna; frelsaði biskup með ævintýralegum hætti og hafði hann heim með sér, til Flateyjar. Þar var lagt á ráðin um næstu skref. Ekki var biskupi stætt á að nálgast sinn biskupsstól á næstunni. Bændur norðanlands höfðu fengið sig fullsadda á því að sitja uppi með biskup og hans fjölmenna lið, sem ekki var allt þekkt að háttprýði eða frómheitum. Hann ílentist því um tíma vestra. „Þeir váru þar litla hríð áðr en þeir fóru inn í Kerlingarfjörð ok lágu þar í skógum er þeir spurðu at engi varð eftirleit þeirra Arnórs“…. „Guðmundr byskup var í Kerlingarfirði um hríð“, en fór til Flateyjar og var þar um veturinn með mikið fjölmenni. Sumarið 1220 er biskup aftur kominn á Norðurland, þar sem bændur stynja þungan undan átroðslu manna hans. Sögur greina ekki að Guðmundur hafi farið vestur í Rauðasandshrepp í þessari vesturferð sinni. Hinsvegar er ekki útilokað að svo hafi verið, sumarið 1219.
Af þessum ártölum koma tvö einkum til greina: c) sumarið 1209 eða d) sumarið 1219.
Ejólfur Kársson bjó á Breiðabólstað í Vatnsdal til 1216; á Stökkumá Rauðasandi til 1218 en síðan í Flatey. „Hann var inn mesti vinr Guðmundar byskups“. Líklega hefur það verið að ráði Eyjólfs; Hrafns Sveinbjarnarsonar (veginn 1213) og Snorra Sturlusonar, sem allir þekktu vel matarkistur Rauðasandshrepps, að afráðið er að biskup fari þangað vestur með lið sitt. Þeir vissu sem var, að þar vestra væri biskup og lið hans nær matbjörgum en víða annarsstaðar. Útræði á þeim árum var líklega ekki orðið nándar nærri eins mikið og síðar varð, eftir að skreið varð veruleg úrflutningsvara. Engu að síður hefur áreiðanlega verið allmikið útræði úr Útvíkum, þar sem fólk af svæðinu sótti sjó sér til matar. Þar hafa verið verbúðir, naust og skepnuhús við sjóinn sem biskupsmenn gátu notað og þeim hefur boðist skiprúm eða bátleiga. Eflaust hafa sumir í liði biskups reynst matvinnungar. Að auki var selveiði í Bæjarós; silungur í vötnum; skel í Skersbug og gnægð fugls og eggja í Látrabjargi.
Óþarft er að draga í efa þær sagnir sem fylgja örnefnum um komu Guðmundar, þó vissulega hafi atburðarásin fengið á sig ævintýrablæ á þeim langa tíma sem um er liðinn. Þó er einnig varasamt að eigna honum öll örnefni með forskeytið „Gvendar“, þar sem um fleiri nafngjafa getur verið að ræða.
Vert er að hafa í huga að fram að þessum tíma hafði fjöldi guðshúsa verið hinn mesti sem orðið hefur í Rauðasandshreppi, eins og kemur fram í kaflanum um bænhús og kirkjur. Bænhús voru á öllum betri bæjum; hálfkirkja í Kollsvík og kirkja í Saurbæ. Allt auðvitað upp á kaþólskan máta. Sennilegt er að biskup hafi reynt að heimsækja sem flest guðshúsanna. Ólíklegt er þó að hann hafi verið velkominn að Saurbæ og næstu bæjum, enda bjó þar Gísli Markússon; sem eftir 1218 var höfuðóvinur Eyjólfs Kárssonar, verndara biskups. Má enda sjá að á öllum Rauðasandi utan Hrauna er ekkert örnefni honum tengt.
Hér verður getið nokkurra líklegra viðkomustaða Gvendar og teiknuð hugsanleg leið, sem þó gæti allt eins verið önnur. Númer viðkomustaða vísa til texans á eftir. Varðandi bænhús og kirkjur vísast til kaflans hér á undan. Sumum kann að virðast hér nokkuð bratt farið í ályktanir, í ljósi fátæklegra sannana. Hins vegar eru þess dæmi; jafnvel í alvarlegustu sakamálum, að dæmt sé samkvæmt líkum. Menn komast lítið áfram í skilningi á okkar sögu ef ekki er reynt að fylla í eyðurnar.
Biskup kann að hafa komið út Barðaströnd; um Sandsheiði í Skógardal á Rauðasandi. Þar vígir hann Gvendarstein (1); beiðslustað þeirra sem halda á Sandsheiði. Hann fer því næst að Melanesi; messar í bænhúsinu (2) þar og fær e.t.v. sel úr Bæjarós til saðningar liði sínu. Sem þökk vígir hann þar annan Gvendarstein (3); beiðslustað þeirra sem leggja í Suðurfossá. Biskup hraðar nú för sinni áður en Gísli í Saurbæ fær njósn af honum; og í stað þess að halda út Rauðasand framhjá Saurbæ fer hann upp Bjarngötudal og yfir í Patreksfjörð um Dalsfjall og niður með Hagagili. Næst segir af ferðum hans í Sauðlauksdal, þar sem hann heldur guðsþjónustu í bænhúsinu (4) og vígir Sauðlauksdalsvatn (5); eflaust fullur þakklætis fyrir góða silungsveislu til handa liði sínu. Biskup heldur síðan með lið sitt út með firði. Í Vatnsdal vígir hann lindina Gvendarbrunn (6) neðan við Krossfles í Vatnsdalsnúp; þar sem menn biðjast fyrir áður en haldið er fyrir hinn hættulega Hafnarmúla. Liðið kemst fyrir Múlann, og á Hnjóti vígir biskup Gvendarbrunn (7). Enn er haldið á; í Hænuvík messar Guðmundur í bænhúsinu (8) og vígir Gvendarstein (9) áður en hann heldur yfir Hænuvíkurháls til Kollsvíkur. Þar í Útvíkum er hann kominn í það fyrirheitna land sem Eyjólfur hafði á vísað; ver við sjávarsíðuna með nægum spriklandi fiski stutt undan landi; viðlegupláss í naustum og fjárhúsum og trúaða bændur sem voru vildu allt fyrir sinn biskup gera. Guðmundur dvelur líklega góðan tíma í Kollsvík og þjónar hálfkirkjunni (10) þar með messur og jafnvel jarðarfarir, en þar var kirkjugarður. Kross Kolls gæti enn hafa staðið á Biskupsþúfu (11); í minningu Patreks Suðureyjabiskups. Þar situr biskup löngum og predikar yfir hirð sinni og íbúunum í túnbrekkunni, um leið og hann hvílir sinn bæklaða fót. Hann vígir Gvendarbrunn (12), sem er steinsnar norðar, og notar hið heilnæma vatn sem messuvín er hann tekur fólkið til aflausnar. Biskupsþúfa er stuttu neðanvið bæjarhólinn, en ætla má að biskupi hafi boðist gisting heima, þó lið hans hafi hvílt í sjávarhúsum. Ekki er ólíklegt að hann hafi rölt enn norðar og vígt Gvendarhlein (13); þar sem þeir skyldu biðjast verndar sem smala þyrftu Hryggi og Hlíðar fyrir Blakk. E.t.v. hefur hann um leið blessað fiskimiðin þar á Bótinni. Sendiboði kemur frá Hvallátrum með boð Látramanna um að honum sé velkomin vist þar og vænt þætti mönnum um að hann í leiðinni aflétti þeirri bölvun af Látrabjargi sem löngum hefur kostað frækna sigmenn lífið. Biskup leggur því af stað með lið sitt. Í Vatnadal áir hann og vígir Gvendarstein (14), þar sem menn bæna sig áður en haldið er á Víknafjall, sem er sjö roðskóa heiði. Biskup sveigir þó af þeirri leið; fer niður Stæðaveg og kemur við í bænhúsinu (15) í Breiðuvík. Hann dvelur síðan á Hvallátrum í góðu yfirlæti og messar þar í bænhúsinu (16). Sjálfur nýtur hann gistingar á Látrum og vígir í þakklætisskyni Gvendarbrunn (17) hjá bændum, en lið hans gistir í verinu á Brunnum; rær á bátum og fær í staðinn fiskmeti, egg og fugl. Loks kemur að því að biskup fýsir að vitja um stól sinn á Hólum. Látramenn fylgja honum inn eftir Látrabjargi (18), því nú skal stugga við óvættum. Um hábjargið; á Hvanngjárfjalli, kemur biskup sér fyrir og þrumar sína blessun yfir bjargið meðan menn standa álengdar í lotningu. Eftirá greinir biskup þeim frá hvernig hann stefndi fyrir sig vættunum og kom þeim fyrir í Heiðnabjargi. Þar bannar hann bændum að síga, en segist telja þeim óhættara annarsstaðar en áður var; sé varlega farið. Síðan heldur hann inn Látraheiði. Á háheiðinni vígir hann Gvendarbrunn (19) og mælir svo um að þar muni ávallt verða vatn til svölunar ferðalöngum á þessari löngu og villugjörnu heiði. Síðan leggur biskup sína leið inn Dalverpi; yfir Sauðlauksdal inn að Hvalskeri, þar sem messað er hjá bænhústóftunum (20) sem Ingi Skersbóndi neitaði að byggja upp (sjá Saurbæjarkirkja, hér annarsstaðar). Þó Inga sé lýst sem leiðum og fráhrindandi náunga í Hrafns sögu hefur hann líklega tekið vel á móti biskupi; enda vinveittur Eyjólfi Kárssyni. Ekki er ólíklegt að Ingi bóndi bjóði liðinu skelfisk úr Bugnum og ferskan fjarðarfisk. Síðan ferjar hann líklega liðið yfir fjörðinn, að Hlaðseyri. Þar bænir biskup sig við Helguþúfu (21). Síðan er e.t.v. farin fjallasýn út á Geirseyri. Þar er bænhús (22) sem messað er á. Biskup er þar beðinn að blessa beiðslustað við hina háskalegu Raknadalshlíð. Það gerir hann með því að vígja steinaltari neðan Altarisbergs (23) og, eftir að hafa fetað sig inn hlíðina; messar hann í bænhúsinu (24) í Vesturbotni Því næst hraðar hann sér inn yfir Kleifaheiði og inn Barðaströnd, til fundar við Eyjólf Kársson, hafi hann ekki verið í för með biskupi. Saman fara þeir norður í land og gera atlögu að höfðingjaveldinu í Helgastaðabardaga. Ekki eru neinar sagnir um að Guðmundur góði hafi komið að Saurbæ í sinni reisu; þrátt fyrir að þar hafi þá líklega þegar verið höfuðkirkja svæðisins. Þetta er ósköp skiljanlegt, í ljósi illdeilna Eyjólfs Kárssonar vinar hans við Gísla Markússon kirkjubónda í Saurbæ. Því eru allar þessar ímynduðu leiðir Guðmundar látanr liggja þar hjá garði.
Sú sviðsmynd sem hér var dregin upp byggir auðvitað á getgátum. Vel má vera að atburðir hafi gerst með öðrum hætti; t.d. að biskup hafi komið á öðrum tíma eða farið aðrar leiðir. En hér er þó allavega gerð tilraun til rökréttra skýringa.
Hér verður stuttlega drepið á örnefni og munnmæli sem tengjast Guðmundi góða í Rauðasandshreppi:
Melanes „Efst á Langholti (milli Suðurfossár og Melanesbæjar) er stór steinn sem heitir Gvendarsteinn (3)“ (Örn,skrá; Ívar Halldórsson). Ekki er meira sagt um steininn, en í ljósi þess að bænhús var á Melanesi í kaþólskri tíð má ætla að Gvendur góði hafi lagt þangað leið sína og hugsanlega áð við steininn (VÖ).
Skógur „Er nú haldið inn með hlíð (austan Skógar; við Sandsheiðarveg, milli Þvermýra og Steikarhlíðar) og er þá komið að steini, nokkuð ílöngum með allmikilli grjóthrúgu hjá. Heitir hann Gvendarsteinn (1). Er það þafn Guðmundar biskups hins góða. Hver sem fór í fyrsta sinn um Sandsheiði skyldi láta þar þrjá steina svo hann villtist ekki. Var það góð trygginr um villugjarna slóð“ (Örn.skrá; Magnfríður Ívarsdóttir o.fl.). Í mynni Skógardals er Hoffmannaflöt og annað gamalt örnefni sem er Steikarhlíð. Ætla má að bæði tengist þau langferðum höfðingjanna sem fyrrum sátu löngum að Saurbæ. Skammt frá Hoffmannaflöt er stór steinn, flatur að ofan, og heitir sá Gvendarsteinn. Hyggilegt var talið að hver sem var að hefja sína fyrstu ferð á Sandshreiði legði eina steinvölu á Gvendarstein. Þannig tryggðu menn sér fararheill um ókomna framtíð í ferðum yfir heiðina. (Ari Ívarsson; Árbók Barð).
Breiðavík – Hvallátrar - Keflavík „Alveg við veginn (yfir Látraheiði, á Brunnahæð) er Gvendarbrunnur (19); uppspretta sem á að vera vígð af Guðmundi góða. Þetta er lítil skál sem aldrei þrýtur vatn í, en ekkert vatn er sjáanlegt ofanjarðar þar í kring. Skyldi hver maður hlaða þar vörðu í fyrsta sinn er hann færi þar, til þess að villast ekki. Talið er nóg að setja þrjá steina saman. Er mikill fjöldi af vörðum þarna í kring, og staðurinn því auðfundinn. (HH telur að Gvendarbrunnur tilheyri Breiðavíkurlandi)“ (Örn.skrá Keflavíkur; Hafliði Halldórsson).
Gvendarbrunnur þornaði aldrei fyrrum, þó hann geri það stundum í seinni tíð. (Hafliði Halldórsson; fráögn á Ísmús).
Hvallátrar „Í Flöt (neðan Bænhúshóls) eru tveir brunnar. Annar er djúpur brunnur; grafinn og hlaðinn að innan; nefndur Heimabæjarbrunnur. Hann var fyrir Heimabæ og Miðbæ. Hinn er uppsprettulind, nefndur Gvendarbrunnur (17) (mynd). Brunnhús var byggt yfir hann. Þarna var afvatnaður fugl frá öllum bæjunum; hengdi hver sína kippu á þoll. Um túnið rennur lækur frá Gvendarbrunni“ (Örn.skrá; Daníel Eggertsson).
Guðmundur biskup góði vígði Látrabjarg (18) og stofnsetti fjölskipað borgríki óvætta og jötna í Heiðnabjargi. Frá því segir nánar í kaflanum um tröll og tröllskessur.
Kollsvík „Norðan til í túninu (í Kollsvík) er uppspretta í sandmelaskarði sem heitir Gvendarbrunnur (12), en þeir voru margir í minni sveit. Sagt er að Guðmundur biskup góði hafi vígt þessa brunna þegar hann var á flótta og hrakningum um landið. Vatnið þótti mjög gott og talið hafa lækningamátt. Á milli brunnsins og bæjarins er stór þúfa með steini í hæfilegt sæti og slétt að ofan. Hún heitir Biskupsþúfa (11). Giskað höfum við á að Guðmundur góði hafi sest á þúfuna til að hvíla sig, og þá hafi hún fengið þetta nafn. En þúfan á sér eldri sögu og er hún á þessa leið: Kollur hét landnámsmaður sá er nam land í Kollsvík… Þegar Kollur fann dauða sinn nálgast gróf hann fémæti sitt undir þessari þúfu og fyrirskipaði að hann skyldi grafinn norður á Blakknesnibbu, en þaðan sér til þúfunnar; og viðurlög voru við því að hrófla við fénu. Sögur heyrði ég um tilraunir til að ná fénu, en engan árangur báru þær. Annaðhvort sýndust bæirnir brenna eða gott sjóveður gerði og því slepptu menn ekki. Þegar ég bjó í Kollsvík lét ég slétta með ýtu umhverfis þúfuna og ýtustjóri lagði að mér að skoða nú undir þúfuna; en ég vildi heldur eiga örnefnið og sögurnar. Þess vegna er Biskupsþúfa enn með sömu ummerkjum norðan við íbúðarhúsið í Kollsvík“ (Ingvar Guðbjartsson; Sumarliði póstur).
„Heiman við Sandgil (sem skilur að Blakknes og Núp) er hlein fram í sjó sem heitir Gvendarhlein (13). Ekki er vitað við hvern hún er kennd“ (Örn.skrá; Guðmundur Torfason; Vilborg Torfadóttir). Án ábyrgðar má velta því upp hvort Guðmundur góði hafi lagt þangað sína leið er hann dvaldi í Kollsvík. Þar hafi hann blessað þá sem smöluðu hina hættulegu leið um Hryggi og Hlíðar, en e.t.v. einnig fiskimiðin á Kollsvíkurbótinni.
„Talsvert fram af Kollsvíkurtó (við Víknafjallsveg framarlega í Vatnadal) er steinn með mörgum smásteinum á. Hann heitir Gvendarsteinn (14) (mynd) og er kenndur við Guðmund góða. Átti að láta stein á Gvendarstein þegar gengið var hjá“ (Örn.skrá; Guðmundur Torfason; Vilborg Torfadóttir). Gvendarsteinn er þar sem lagt er á hina löngu og villugjörnu heiði Víknafjall; eftir að leiðir sameinast frá norðan- og handanbæjum í Kollsvík. Líklegt er að þar hafi menn gert bænir sínar áður en lagt var á Víknafjall, t.d. meðan Kollsvík átti kirkjusókn að Saurbæ (VÖ).
Hænuvík „Ofan við Brunnalág (vestast í Hænuvík, nærri sjó) er gras og móar sem nefnt er Stekkatún. Neðan við það er í brekkurótunum steinn sem heitir Gvendarsteinn (9). Næst heiman við Stekkatún er lækur sem heitir Hestlækur “ (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson). Ekki er ólíklegt að steinninn sé einn af mörgum ætluðum áningarstöðum Guðmundar góða, þó sú saga fylgi honum ekki lengur. Steinninn er ekki langt þar frá sem hestavegurinn kemur niður af Hænuvíkurhálsi. Gvendur kann því að hafa áð þarna á leið sinni til eða frá Kollsvík, og jafnvel vígt hann eins og fleiri slíka við upphaf fjallvega. Hálfkirkja var í Kollsvík og bænhús í Hænuvík, en hvorutveggju hefur Gvendur eflaust sinnt á sinni yfirreið (VÖ).
Hnjótur „Sagnir eru til af því að Guðmundur góði hafi vígt Gvendarbrunn í Vatnsdalsnúpi, en fleiri Gvendarbrunnar eru í hreppnum, til dæmis á Hnjóti (7)“ (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen). Ekki er getið um Gvendarbrunn í örnefnalýsingu Hnjóts (VÖ).
Vatnsdalur „Í bökkunum utantil við Skútavík (undir Vatnsdalsnúp, milli Mosdals og Vatnsdals) er uppspretta sem heitir Gvendarbrunnur (6). Innar er gamall vörslugarður sem nefndur er Mosdalsgarður… Fremsti hluti Vatnsdalsnúps heitir Láginúpur. Þar sem hann hækkar heitir framan í honum Krossfles. Það er brekka eins og kross í laginu upp undir endann á efri klettunum. Stigi heitir sjávarmegin við Krossfles; einsog tilhöggvinn stigi í klettunum neðan frá og upp á Láganúp“ (Örn.skrá; Ólafur E. Thoroddsen). Velta má því upp hvort helgi hefur verið á þessum stað fyrrum; jafnvel bænastaður, þar sem hann er á fjölfarinni leið, rétt áður en lagt er í hættulega göngu fyrir Hafnarmúlann. Ekki er ólíklegt að Gvendur góði hafi af því tilefni vígt vatnsból það sem þarna er (VÖ). „Það eru til sagnir af því að Guðmundur góði hafi vígt Gvendarbrunn. Fleiri Gvendarbrunnar eru í hreppnum, til dæmis á Hnjóti“ (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen). Ekki er getið um Gvendarbrunn í Örnefnalýsingu Hnjóts (VÖ).
Sauðlauksdalur Guðmundur biskup góði vígði Dalsvatn (5) (Sauðlauksdalsvatn) í ferðum sínum. Segir svo í Biskupasögum: „Þaðan fer Guðmundur prestur vestur í Fjörðu og verða þar margir merkilegir hlutir í stórum jarteinum þótt vér munum fátt af. En er hann var í Sauðlausdal þá vígði hann þar vatn og bar þar kona heim í húfu sinni því að hún hafði ekki ílátið til vatnsins og var húfan þurr á utan en vatnið var í húfunni.
Þá fer maður einn hver um fjall eitt bratt með vatnið í byttu og setti niður hjá sér er hann batt skó sinn. En þá stekkur byttan ofan fyrir fjallið og hleypur stein af steini uns hún kom á jöfnu. Þá þótti honum saki að mikill um vatnið og fór hann ofan af fjallinu og þar til, er byttan stóð, og var hún heil og enginn dropi úr“. (Biskupasögur). Mun það hafa verið árið 1220 sem Guðmundur vígði vatnið.
Ekki varði þó vígsla Guðmundar góða að eilífu. Hinn 13.des 1774, í tíð séra Björns Halldórssonar, féllu tveir skólapiltar í Sauðlauksdal niður um ís á vatninu og drukknuðu.
Geirseyri Altarisberg nefnist sá staður í klettaveggnum ofan Raknadalshlíðar þar sem klettarnir ná lengst niður í hlíðina; stutt innan Þúfneyrar. Þar eru jarðamörk Raknadals og Geirseyrar og um tíma á 20.öld voru þar hreppamörk Rauðasandshrepps og Patrekshrepps. „Það vond þótti leiðin um Raknadalshlíð að sagt er að nafnið Altarisberg sé til komið vegna þess að þar vígði Guðmundur góði hlíðina og setti altari, þar sem menn gátu beðið um fararheill á leiðinni. (Ari Ívarsson; Árbók Barð).
Hér má til viðbótar benda á að ofan Tunguhlíðar, milli Tungu og Geitagils, heitir Gvendarhjalli. Í Vandardal, framan Hjóts eru Lægri- og Hærri-Gvendarhjalli. Kunna þessi örnefni auðvitað að vera kennd við aðra en Gvend góða, en þeim fylgja núna engar skýringar.
Hugleiðingar um tíðaranda
Forvitnilegt er að íhuga afstöðu fólks í Rauðasandshreppi til ferða Guðmundar góða og liðs hans. Hér annarsstaðar eru færðar allsterkar líkur til þess að hvergi hafi kristni átt lengri sögu í landinu, þar sem landnámsmenn svæðisins voru kristnir og líklega menntaðir í kristnum fræðum frá helsta háskóla Vesturlanda. Má ætla að trú hafi verið all sterk á svæðinu enn, þó nær 450 ár hafi verið liðin frá fyrstu byggð. Enn hafa lifað meðal fólks sagnir um helgihald Kolls. Guðmundur góði var á þessum tíma orðinn þekktur um allt land sem helgur maður; meinlætamaður og kraftaverkamaður. Þegar það spurðist um hreppinn að von væri á heimsókn hans, og að hann væri jafnvel hjálpar þurfi vegna yfirgangs norðlenskra höfðingja, má ætla að heppsbúar hyggðu flestir gott til glóðarinnar. Hér bjuggu menn við miklar hættur til sjós og lands sem nú yrði e.t.v. ráðin einhver bót á, um leið og íbúar kæmust í meiri nánd við sinn almáttuga guð en þeim gæti aftur boðist í sínu guðsvolaða jarðlífi.
Má vera að orðrómur hafi verið á sveimi um sveitarþyngsli af fylgdarliði biskups og misjöfn frómheit safnaðarmeðlima hans, en bæði var að á þeirri tíð var erfitt að dæma hvað satt var í slíku og hér höfðu menn ýmsa möguleika til að fóðra aukamunna um nokkurn tíma, t.d. af sjávarfangi og bjargnytjum. Það mætti vafalítið láta liðið vinna fyrir sér á einhvern hátt, auk blessana biskups.
Ætla má að Gísli Markússon í Saurbæ hafi ekki verið sáttur við komu biskups, enda hafði hann átt í erjum við Eyjólf Kársson, sem átti veg og vanda að leiðangrinum og var e.t.v. fylgdarmaður biskups. Svo er hinsvegar að sjá, ef marka má ætlaða viðkomustaði biskups; að Gísli hafi ekki haft marga sveitunga á sínu bandi í andstöðu sinni. Þá, líkt og endranær, var alþýðufólki fremur í nöp við höfðingjaveldi og yfirstétt. Eyjólfur virðist hafa verið betur liðinn í sveitinni á þessum tíma og kann að hafa átt samúð manna eftir aðför Gísla að honum í Saurbæjarkirkju.
Guðmundur góði fær því líklega betri viðtökur í Rauðasandshreppi en víða annarsstaðar á sínum ferðum. Má því ætla að honum hafi dvalist nokkuð; einkum í nægtabúri Útvíkna. Þar eru enda flestar vígslur hans, samkvæmt örnefnum og munnmælum. Biskup stóð undir væntingum hreppsbúa um vígslur brunna og bænastaða. Og hann gerði gott betur er hann vígði staði sem menn sóttu sér lífsbjargir í, t.d. Látrabjarg, Sauðlauksdalsvatn og líklega einnig fiskimiðin (sbr Gvendarhlein í Kollsvík). Menn biskups hafa líklega unnið eitthvað fyrir mat sínum, t.d. með róðri á bátum; fjárgæslu; smíðum; skógarhöggi; kolagerð og ruðningi vega, þó líklega væru þeir misjafnlega til vinnu fallnir.
Eitt er víst; að í Rauðasandshreppi voru verk Guðmundar góða metin að verðleikum og í heiðri höfð allt til þessa dags. Hér voru þess ekki dæmi að vígðum brunnum væri spillt eða í þá migið, líkt og mun verið hafa sumsstaðar nær biskupsstólnum.
Valdimar Össurarson tók saman og leitaði í ýmsar heimildir.
Upphaf kirkjustarfs á Íslandi
Hér verða taldir upp þeir kirkjustaðir sem einhverjar heimildir eru fyrir í Rauðasandshreppi. Margt er þó óljóst um það á fyrstu öldum byggðar. Þó engar beinar heimildir séu því til stuðnings er rökrétt að álykta að fyrsta kirkja hreppsins; og jafnvel landsins alls, hafi verið í Kollsvík, eins og rökstutt er hér á eftir í kaflanum hana. Kollur nam í Kólumbusarklaustrinu á Iona í Suðureyjum, ásamt Örlygi fóstbróður sínum; var sendur hingað til trúboðs og hefur efalítið fljótlega komið sér upp guðshúsi á sinni jörð. Hefur hann þá um leið verið fyrsti starfandi prestur hreppsins; og þá líklega alls landsins.
Kirkja á hverjum bæ
Eftir kristnitökuna árið 1000 breytist hin keltneska kirkja Kolls í rómversk-kaþólska kirkju. Þá upphefst einnig mikil uppbygging kirkna. Svo virðist að hverjum málsmetandi bónda hafi þótt nauðsynlegt að koma sér upp kirkju; e.t.v. að hluta til að sýna tryggð sína við hinn nýja sið, og um leið vald sitt, en vafalítið einnig til að eiga rétt á kirkju- og preststíund sem upp voru teknar með tíundarlögunum 1097. Kirkjur risu á öllum „betri bæjum“. Því kvað hafa verið trúað að bændur fengju vist fyrir jafn marga í himnaríki og kirkja þeirra rúmaði. Ekki er furða þó margar kirkjur risu. Enn voru þetta allt kirkjur; hugtökin bænhús, hálfkirkja og aðalkirkja voru enn ekki til og sóknir óljóst skilgreindar.
Vafalítið skortir okkur heimildir um allar kirkjur sem þá risu í Rauðasandshreppi, en undarlegt má heita ef t.d. ekkert guðshús hefur verið í Örlygshöfn þegar þau voru í hverri Útvík auk Hænuvíkur og innfjarðarbæja. Kirkjur voru auðvitað misjafnlega veglegar, eftir efnum bónda, og sama var um guðs þjónustu í þeim. Efnuðustu höfðingjar gátu byggt veglegast og haft prest í sinni þjónustu, en aðrir byggðu hóflegar og keyptu þjónustu af höfðingjum. Reyndar háði prestekla kirkjustarfi verulega í upphafi kristni. Nokkuð var um að höfðingjar tækju sjálfir prestvígslu og gerðust kirkjugoðar.
Þorlákur Þórhallsson, Skálholtsbiskup 1178-1193, vann ötullega að sjálfstæðisbaráttu kirkjunnar frá höfðingjaveldinu. Kirkjur skyldu heyra undir páfa og biskup en ekki höfðingjana; kirkjutíundir skyldu renna til kirkjunnar en ekki í vasa höfðingja og kirkjubændum var gert skylt að viðhalda guðshúsum á sinni jörð. Má ætla að þetta hafi leitt til þess að mörg bænhús í Rauðasandshreppi voru aflögð. Viðhaldsleysi bænhússins á Hvalskeri leiddi til mestu mannvíga í sögu hreppsins, eins og frá greinir hér á eftir.
Höfuðkirkja í skjóli höfðingja
Vænlegasta bújörðin í Rauðasandshreppi, og e.t.v. sú elsta; Saurbær á Rauðasandi, varð fljótlega eftir siðaskipti leiðandi í kirkjulegum efnum á svæðinu. (Myndin er af núverandi kirkju í Saurbæ).
Kirkjan í Kollsvík breyttist í kaþólska; þar var áfram greftrun, en Saurbær varð höfuðkirkja. Fyrst greinir frá kirkju þar í Hrafns sögu hinni sérstöku, þar sem segir af Markúsi Gíslasyni sem sótti kirkjuvið til Noregs og byggði veglega kirkju að Saurbæ. Þar segir einnig af illdeilum hans við Inga bónda á Hvalskeri, vegna þess að Ingi vildi ekki greiða afgjald af bænhúsinu á Hvalskeri sem þá var fallið í tóft. Enduðu þau viðskipti þannig að Markús var veginn í Saurbæ 1196. Bænhúsið á Skeri hefur því að öllum líkindum verið byggt eigi síðar en snemma á 11. öld, og kirkja hefur að öllum líkindum verið enn eldri í Saurbæ þegar Markús endurnýjaði hana.
Það er svo á 13. eða 14.öld að kirkjur eru flokkaðar í bænhús; hálfkirkjur og alkirkjur. Þá er alkirkja skilgreind í Saurbæ; hálfkirkja í Kollsvík, en önnur guðshús flokkast sem bænhús. Í alkirkjunni í Saurbæ var messað hvern helgan dag. Í hálfkirkjunni í Kollsvík var messað annan hvern helgidag og hún var útkirkja frá Saurbæ og þjónað þaðan. Prestar voru í fyrstu af þrennum toga. Sumir höfðingjar tóku sjálfir prestvígslu og þjónuðu sínum kirkjum sem kirkjugoðar. Af þeim toga var líklega áðurnefndur Markús í Saurbæ, en hann gekk m.a. til Rómar á páfa fund. Þá voru það svonefndir þingaprestar, en þeir voru leigðir til þjónustu kirkna. Þriðja stéttin voru prestar sem kostaðir voru til náms af höfðingjum og því hluti af vinnufólki þeirra.
Bænhúsin virðast hafa fengið misjafnt viðhald í kaþólskri tíð, eins og ráða má af munnmælum og ofangreindri Hrafns sögu. Um siðaskiptin leggjast þau af sem enn voru til staðar, ásamt hálfkirkjunni í Kollsvík. Þá hafði kirkja verið stofnuð í Sauðlauksdal og þessar tvær kirkjur þjónuðu síðan hreppnum í lútherskum sið þar til Breiðavíkurkirkja er stofnuð, löngu síðar.
Verður hér vikið að þeim guðshúsum Rauðasandshrepps sem heimildir ná til:
Melanes Bænhús í kaþólskri tíð. Árið 1514 setti Stefán Jónsson biskup á stofn bænhús á Melanesi, en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir að það hafi verið tekið af strax við siðaskipti. (Lýður Björnsson; Ársrit Sögufél. Ísfirðinga. Jarðabók ÁM/PV).
„Á Melanesi var bænhús. Þann 26. september 1514, á Stað í Reykjanesi, skipar Stefán biskup í Skálholti ævinlega bænhússkyld á Melanesi á Rauðasandi og leggur Ari bóndi Andrésson fé þar til. Var það helgað Guði, jómfrú Maríu og öllum Guði helgum mönnum; einkum Magnúsi Eyjajarli. Skyldi bænhúsið eiga þrjú málnytju kúgildi; Maríulíkneski og vígða klukku. Þar skyldi syngja 12 messur og gjalda presti kaup 6 aura“ (Rósinkrans Ívarsson; Árbók Barð; tilvitnun í Fornbréf VIII).
Ekki er ólíklegt að bænhús hafi verið stofnsett á Melanesi fljótlega eftir kristnitöku, þó það hafi aflagst um tíma, fram til 1514.
Saurbær Höfuðkirkja frá kristnitöku. Í Saurbæ hefur verið kirkja frá fyrstu öldum kristni í landinu. Saurbær er besta bújörðin á Rauðasandi og líklega hafa héraðshöfðingjar setið jörðina frá upphafi byggðar. Má því ætla að þar hafi um leið verið trúarmiðstöð svæðisins; jafnt í heiðni sem kristni. Ætla má að fyrsta kirkjan í Rauðasandshreppi; jafnvel á landinu öllu, hafi verið kirkja Kolls í Kollsvík (sjá þar), en að fljótlega hafi höfðinginn í Saurbæ einnig komið sér upp kirkju; jafnvel fyrir árið 1000, sem fljótlega varð höfuðkirkja byggðarinnar. Í kaþólskri tíð var kirkjan í Saurbæ helguð heilagri Maríu og Jóni (Jóhannesi) postula. Saurbæjarsókn náði yfir allan Rauðasandshrepp allt til 1512, að kirkja var stofnsett í Sauðlauksdal. Undir Saurbæjarprest heyrði hálfkirkjan í Kollsvík og öll bænhúsin í hreppnum. Frá 1512 til 1824 náði Saurbæjarsókn frá Stálfjalli að Blakknesi. Eftir að Breiðavíkurkirkja var stofnuð 1824 náði sóknin einungis yfir Rauðasand og Keflavík. Eftir 1600 sátu sóknarprestar yfirleitt ekki í Saurbæ, þó á því væru undantekningar. Síðasti presturinn sem bjó í Bæ var séra Eyjólfur Kolbeinsson; þá aðstoðarprestur séra Jóns Ormssonar Sauðlauksdalsprests.
Kirkjur hafa efalaust verið veglegar í Saurbæ meðan þar sátu auðugustu höfðingjar landsins. Í lok 12.aldar bjó höfðinginn Markús Gíslason í Bæ.; einn voldugasti höfðingi landsins. Hann fór tvær ferðir til Noregs til kaupa á viðum til kirkjugerðar. Fyrri viðina gaf hann til byggingar Valþjófsstaðakirkju en af hinum síðari var byggð Saubæjarkirkja; báðar stórar stafkirkjur. Af fyrrnefndu kirkjunni hefur varðveist hin víðfræga Valþjófsstaðahurð. Kirkja Markúsar stóð sennilega í Saurbæ framyfir 1600. Veðravíti getur orðið í Saurbæ og a.m.k. tvisvar hafa fokið þar kirkjur. Kirkjan í Saurbæ fauk í ársbyrjun 1966, en síðar var reist þar kirkja sem áður stóð á Reykhólum; hún var vígð 1982 og stendur enn. Marga góða gripi hefur Bæjarkirkja átt. Einn dýrmætasti gripurinn á Þjóðminjasafninu er fagurlega útskorinn predikunarstóll; skorinn um 1600 af Jóni Greipssyni er bjó á Auðshaugi. Í kirkjunni er ljósahjálmur sem talinn er vera frá 1570, og kirkjuklukkurnar sem Eggert lögmaður Hannesson (1515-1583) lét steypa af enn eldri klukkum frá Bæ. Þar er einnig minningartafla sem Guðrún ríka Eggertsdóttir lét gera til minningar um sig og Björn Gíslason sýslumann, en hún er talin máluð af séra Hjalta Þorsteinssyni í Vatnsfirði sem var færasti myndlistamaður landsins á sinni tíð.
Kirkjan í Saurbæ var bændakirkja; þ.e. hún var í eigu staðarbónda, sem stóð undir byggingu og viðhaldi hennar; ásamt prestþjónustu, en fékk í staðinn tíundarhlut kirkjunnar. Saurbæjarkirkja var áfram bændakirkja eftir staðarmálin 1179-1297 og höfðingjar allsráðir um prestráðningar fram á 17.öld, er söfnuðir taka að kjósa sér presta. Á 19. og 20.öld voru flestar bændakirkjur afhentar viðkomandi söfnuðum til eignar og umsjónar. Það voru því nokkrir hugsjónamenn í og úr Saurbæjarsókn sem stóðu fyrir endurbyggingu kirkjunnar kringum 1980. Saurbæjarkirkja og Bæjarhöfðingjar áttu miklar jarðeignir fyrir utan heimalandið í Saurbæ. Á tímabili má segja að flestar jarðir í Rauðasandshreppi og margar utan hans hafi verið í eigu höfðingja og kirkju í Saurbæ, ásamt atvinnurekstri s.s. verstöðu og hlunnindum s.s. fuglabjörgum og reka. Mjög gekk á þessar eignir eftir því sem höfðingjaveldinu hnignaði. Til skammst tíma átti þó Saurbær ýmsa skika frá þessum tíma, s.s. Bæjarbjarg. (Ýmsar heimildir; m.a. Ari Ívarsson; Sveitin vestur lengst í sjá).
Stakkar Bænhús í kaþólskri tíð. Talið er að bænhús hafi verið á Stökkum endur fyrir löngu; en mjög langt síðan. (Örn.skrá; Ívar Ívarsson). „Bænhús var á Stökkum fyrir siðaskipti en síðast mun þess getið svo kunnugt sé árið 1509“. (Jarðabók ÁM/PV).
Hvallátrar Bænhús í kaþólskri tíð. Á Hvallátrum stóð bænhús í kaþólskri tíð „fyrir löngum tíma affelt“ (Jarðabók ÁM/PV). „Austnorður af Stórugróf er Bænhúshóll. Þar neðan við, á Heimabæjartúni, var Bænhús; síðast notað sem geymsla. Er mjög langt síðan það var aflagt sem bænhús. Bænhúsið var að lokum rifið og byggt íbúðarhús á rústunum (Gimli). Bænhúsið var lítið torfhús. Höfðu veggirnir að innan verið hlaðnir úr völdu grjóti. Húsið var um átta álnir að lengd og fjórar á breidd. Enginn man hvenær það var gert“. (Örn.skrá; Daníel Eggertsson).
Bænhúsið á Látrum er því það sem lengst hefur staðið í Rauðasandshreppi með því nafni; þó hlutverk þess hafi verið annað á síðustu öldum.
Séra Filippus Jónsson bjó á Hvallátrum á fyrri hluta 16.aldar; eini presturinn sem vitað er til að þar hafi búið. Filippus var sonur Jóns Jónssonar íslendings; þess er gaf Sauðlauksdal undir kirkju, og má ætla að Filippus hafi einnig þjónað henni. Filippusar er m.a. minnst fyrir það að hann fór á skipi norður að Núpi og nam þaðan á brott unga stúlku af vestfirskum höfðingjaættum; Solveigu Bjarnadóttur. Þá var hann talinn manna skurðhagastur og sagt að hann hafi skorið annan tveggja lúðra sem Ögmundur biskup Pálsson hafði með sér á konungsfund er hann tók biskupsvígslu 1521. (Ísl. æviskrár). Má ætla að lúður þann hafi Filippus skorið í rostungstönn. Leiðir það hugann að merkum grip sem fannst í Kollsvík um 1900 og er ein helsta gersemin á Þjóðminjasafninu; taflmanni úr tönn sem skorinn er í líkingu Magnúsar prúða sem var samtíðarmaður Filippusar. Má vel vera að sá gripur sé skorinn af Filippusi.
Breiðavík Bænhús, síðan hálfkirkja og kirkja. Bænhús var stofnsett í Breiðavík árið 1431 af Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi, og skyldi það eiga tíu hundruð í heimalandi. Mun sú eign einkum hafa verið Breiðavíkurbjarg, sem er hluti úr innanverðu Látrabjargi. Ætla má þó að bænhús hafi verið þar fyrr þó það kunni að hafa aflagst um tíma. Jarðabókin segir að 1703 sé þar hálfkirkja, þar sem embættað er tvisvar á ári. Hinn 30. desember 1824 var hún gerð að sóknarkirkju með konungsbréfi. Um leið var stofnuð þriðja sóknin í Rauðasandshreppi; Breiðavíkursókn sem náði yfir Útvíkur og Keflavík. Prestssetur hefur ekki verið í Breiðuvík, heldur var kirkjunni þjónað frá Sauðlauksdal og síðan Patreksfirði. Bænhúsið í Breiðuvík mun hafa staðið við austurgafl núverandi hótelsamstæðu. Kirkja og kirkjugarður stóð hinsvegar allnokkru vestar um langan tíma. Þegar ný steinsteypt kirkja var vígð árið 1964 hafði henni verið valinn staður ofan hótels og fjárréttar, en kirkjugarður er á sama stað og áður.
Kollsvík Keltnesk kirkja á landnámsöld; hálfkirkja í kaþólskri tíð. Í Kollsvík stóð hálfkirkja fram um siðaskipti. Miklar líkur eru á að strax á landnámstíð hafi þar risið keltnesk kirkja, og að hún hafi verið fyrsta kirkjan á Íslandi. Að því hníga eftirfarandi vísbendingar Landnámabókar: Fóstbræðurnir Örlygur Hrappsson og Kollur voru „að fóstri með Patreki hinum helga í Suðureyjum“. Örlygur var bróðursonur Ketils flatnefs sem var landstjóri Haraldar hárfagra á Suðureyjum; Örlygur og Ingólfur Arnarson voru einnig náfrændur. Helsta menntastofnun vesturlanda var klaustur heilags Kólumbusar á Iona í Suðureyjum, og hafa þeir Kollur efalítið stundað þar nám. Enginn Patrekur biskup var þar uppi á þeim tíma, en hinsvegar var Federach Mac Cormaigh ábóti Iona klausturs á árunum fyrir 880; og skírnarnafn hans gat auðveldlega breyst í Patrek í munni norrænna manna. Örlygur „fýstist að fara ti Íslands og bað að biskup sæi um með honum“. Biskup lét þá hafa kirkjuvið og messugögn og sagði þeim til vegar að Kjalarnesi; sem ætt Örlygs hafði numið. Var því hér á ferð fyrsti trúboðsleiðangurinn til Íslands, en í förinni voru einnig Þórólfur spörr og Þorbirnir tveir. Þeir hrepptu óveður við Ísland og hröktust vesturfyrir Látrabjarg. Örlygur bjargaðist inn á fjörð sem hann nefndi í höfuð ábótanum; Patreksfjörð, og hafði vetursetu í Örlygshöfn. Kollur lenti hinsvegar í því að brjóta knörr sinn í Kollsvík; þar sem heitir Arnarboði vestantil í víkinni. Hann ákvað að setjast að í víkinni og nema þar land; enda landkostir miklir. Varð það langminnsta landnám Íslands. Skipverjar hans námu hinsvegar víð lönd í vestursýslunni; Þórólfur spörr og Þorbirnir tveir.
Talið er líklegt að Kollur hafi valið sér bústað í Kollsvík; undir Núpnum þar sem síðan stóðu Kollsvíkurbæir öldum saman. Stuttu sunnan bæjarhólsins er lágur hóll, þar sem í kaþólskri tíð stóð kirkja og kirkjugarður en nú eru rústir af fjósi og hlöðum. Miklar líkur eru á að trúboðinn Kollur hafi, samtímis því að koma sér upp bústað, viljað reisa kirkju til dýrðar sínum guði og dýrðlingum þeim sem björguðu honum úr skipbrotinu. Hann var keltneskrar trúar, en í þeirri trú er mikil áhersla lögð á tignun náttúrunnar sjálfrar. Hér skorti ekki mikilfenglega náttúru; stórbrotin fjöll og víð sjávarsýn. Ekki er ólíklegt að á skipi Kolls hafi verið hluti kirkjuviðar Patreks biskups, sem rekið hefur upp í Grundagrjót eftir strandið; ótvírætt tákn um að hér skyldi kirkja reist. Líklegt er einnig að þeir fóstbræður hafi hjálpast að við bæjar- og kirkjubyggingu Kolls þann vetur sem Örlygur dvaldi vestra. Kirkja Kolls hafi því risið fyrr en kirkjan sem Örlygur reisti síðar að Esjubergi á Kjalarnesi, og jafnan er talin fyrsta kirkja landsins án þess að fyrir því sé annað en orð afkomenda Örlygs.
Það styrkir þessa kennngu verulega að norðari jörðin í Kollsvík hét í upphafi Kirkjuból. Upphafleg merking þess heitis er einfaldlega kirkjujörð; kirkjustaður. Fyrir því eru m.a. ákvæði Grágásar. Kirkjubólsnafnið var notað af og til fram á 16.öld og síðar reynt að endurvekja það á fyrrihluta 20.aldar, en Kollsvíkurnafnið er jafnan notað núna.
Stuttu vestan við kirkjuhólinn í Kollsvík; neðar í túnbrekkunni, er áberandi þúfa með steini í sem nefnist Biskupsþúfa. Henni fylgja tvennskonar munnmæli. Þar á Kollur að hafa fólgið fémæti sitt áður en hann, eftir dauðann, lét dysja sig uppi á Blakknesnibbu, þar sem hann hefur útsýni til bæjar og þúfunnar. Hinsvegar á þúfan að draga nafn af því að á henni hafi Guðmundur góði hvílst á leið sinni til vígslu Gvendarbrunnar, stuttu norðar. Sjá nánar um hann í næsta kafla. Þó sú áning Guðmundar góða sé ekki ósennileg, þá er líklegra að þúfan heiti í höfuð áðurnefndum Patreki Suðureyjabiskupi. Krossar keltneskra kirkna voru ekki á kirkjunum sjálfum heldur kippkorn frá þeim. Dæmi um það má sjá hjá rústum klaustursins á Iona, en þar stendur enn hinn 4,5 metra hái kross heilags Marteins sem þar stóð á námsárum Kolls. Kollur hefur því mjög líklega reist einhverskonar kross á þessari þúfu, við sjávargötuna frá Kollsvík. Ekki er ólíklegt að Kollur hafi nefnt krossinn „Kross Patreks biskups“ til heiðurs lærimeistara sínum, en biskupsheitið hafi síðan færst á þúfuna þegar krossinn færðist inn í kirkjugarðinn til samræmis við aðrar kirkjur eftir kristnitökuna.
Með kristnitökunni var upp tekin hinn rómverski siður kaþólskrar kristni. Keltneskur siður Kolls og Örlygs hlaut að víkja, og má vera að það hafi átt þátt í að kirkjur þeirra urðu ekki lengur höfuðkirkjur í héraði: Kirkja Örlygs hrörnaði í sinnuleysi, eins og Kjalnesingasaga greinir frá, en kirkja Kolls færðist undir höfuðkirkju að Saurbæ á Rauðasandi.
Kirkjan í Kollsvík varð hálfkirkja í kaþólskum sið. Hálfkirkjur voru heldur veglegri guðshús en bænhús en þó með minni þjónustuskyldur en alkirkjur. Þar skyldi messað að jafnaði annan hvern löghelgan messudag. Til hálfkirkna gengu preststíundir og ljóstollar. Við kirkjuna í Kollsvík var leyfð greftrun, sem þó var ekki algilt um hálfkirkjur. Það gæti bent til þess að greftrun hafi tíðkast þar frá landnámi; frá því að Kollur stofnsetti sína kirkju. Sannanir í þeim efnum fást væntanlega þegar bein verða rannsökuð í kirkjugarðinum.
Mannabein hafa iðulega komið úr jörðu í kirkjuhólnum. Þegar grafið var fyrir votheysgryfju þar fyrir 1960 kom upp allnokkuð af beinum. Sagði bóndi að hann hafi þá fengið vitjun eigenda þeirra í draumi. Hann setti beinin í poka og gróf niðurmeð gryfjuveggnum. Síðar komu öðru hvoru upp mannabein meðan kartöflugarður var vestan í hólnum. Stór steinn í hólnum er sagður hluti af hlöðnum garði kringum kirkjuna. Sagt er að þegar eftir siðaskipti hafi fjós verið reist á hólnum, til óvirðingar við hinn pápíska tíma. Líklegra er þó að ástæðan sé hæfileg fjarlægð hólsins frá bæ, og aðgangur að hleðslugrjóti úr garði og kirkju. Fjósið var í notkun framyfir 1960. Hlaða var þar einnig; nefndist Langahlaða á fyrrihluta 20.aldar en Jónshlaða eftir að Jón Torfason endurbyggði hana. Þar er einnig áðurnefnd steinsteypt votheysgryfja.
Uppi í hlíðinni ofan kirkjuhólsins er laut sem nefnist Hempulág. Hún er sögð draga nafn af því að prestur nokkur átti þar náin kynni við heimasætu sem fylgdi honum úr hlaði, og kostuðu hann hempuna er af þeim hlaust barneign.
Suður í víkinni, þar sem byrjar vegurinn um Víknafjall, er steinn sem nefnist Líksteinn. Það nafn hefur hann fengið eftir að hætt var greftrun í Kollsvík og menn áðu þar á leið með lík til greftrunar í Saurbæ.
Hænuvík Bænhús í kaþólskri tíð. Bænhús var í Hænuvík, en aflagt um siðaskipti. Engar heimildir virðast vera til um það núna og ekki verður séð af örnefnaskrám hvar það stóð. Hinsvegar eru nærri bæjum örnefnin Hoftóft og Blótkelda, sem gætu bent til heiðinna tíma.
Sauðlauksdalur Þar var bænhús sem verulega auðgaðist árið 1499 þegar ábúandinn, Jón Jónsson Íslendingur, gaf því skóg í Trostansfirði en síðar fékk það fleiri gjafir og ítök. Jörðina hafði hann fengið með öðrum eignum konu sinnar; Dýrfinnu Gísladóttur; mókolls í Haga. Árið 1505 var leyfð þar greftrun og aðrar meiriháttar athafnir, og 1512 setti Stefán Jónson biskup alkirkju í Sauðlauksdal. Kirkjuvígsla og máldagi er dagsett 15. september 1515. Með þessu var Saurbæjarsókn skipt í tvennt, og til Sauðlauksdalssóknar heyrðu nú allir bæir við Patreksfjörð. Ári fyrr hafði Jón Íslendingur gefið Sauðlauksdalskirkju sex hundruð í heimalandi og fylgdu þar með fjölmargar aðrar gjafir. Meðal þeirra var ítak í Látrabjargi, 60 sauða beit á Hvallátrum og 6 manna sölvafjara þar, sjötti hluti reka í Keflavík austan Látrabjargs og réttur til að gera út teinæring frá Látrum án greiðslu vertolla. Einnig gáfu þau hjón kirkjunni 6 hundruð í Sauðlauksdal. Næstu tvær aldir var prestakallið þingabrauð og sátu prestar þá á ýmsum jörðum, flestir þó framan af í Saurbæ en eftir 1600 í Sauðlauksdal. Fyrsti prestur sem um er vitað að setið hafi í Sauðlauksdal er séra Björn Bjarnason. Hann fékk kallið árið 1602 og þjónaði í sextán ár. Björn hrapaði til bana í Klifhyrnu, eins og hér segir á öðrum stað. Fram til 1724 átti kirkjan aðeins sex hundruð í heimajörðinni í Sauðlauksdal en á árunum 1724 til 1728 gáfu Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ og systur hennar Sauðlauksdalskirkju allt sem þær áttu í Sauðlauksdal og var kirkjan þar með orðin eigandi allrar jarðarinnar. Þar með var Sauðlauksdalur orðinn staður og upp frá því var hér fast prestssetur. Tvær sóknir voru í Sauðlauksdalsprestakalli til ársins 1824 en urðu þá þrjár er Saurbæjarsókn var skipt og Breiðavíkurkirkja gerð að sóknarkirkju. Með landshöfðingjabréfi frá 22. júní 1903 var leyft að byggja kirkju á Geirseyri og var þá hluti af Sauðlauksdalssókn lagður til hennar, það er þorpið á Patreksfirði og býlin við fjörðinn norðanverðan. Sauðlauksdalskirkja var torfkirkja frá upphafi og til ársins 1863, er núverandi timburkirkja var byggð, í tíð séra Magnúsar Gíslasonar. Kunnastur Sauðlauksdalspresta er eflaust séra Björn Halldórsson; upphafsmaður kartöfluræktunar; búnaðarfrömuður og einn helsti náttúrufræðingur sinnar samtíðar. Séra Björn lét endurbyggja torfkirkjuna í sinni tíð og gerði á henni ýmsar breytingar. Sóknarmenn fengu þá sæti eftir virðingu og stöðu hvers og eins. Hélst sú sætaskipan til aldamótanna 1900, en þá lét séra Þorvaldur Jakobsson gera ýmsar breytingar. T.d. urðu þá einungis tvö sæti eftir sem minntu á hið gamla fyrirkomulag. Séra Björn kom einnig upp gapastokk við Sauðlauksdalskirkju, í anda strangtrúnaðar þess tíma. Þar voru þeir látnir dúsa yfir messu tíma, sem hrasað höfðu lítillega í trúarlegum efnum; t.d. forsómað að halda hvíldardaginn heilagann; gleymt hinu eilífa bænastagli; látið blótsyrði fjúka í almannaheyrn eða neitað að þræla kauplaust við byggingu Rangláts.
Meðal gripa kirkjunnar er predikunarstóll sem hjónin Ólafur Gunnlaugsson og Ragnhildur Sigurðardóttir, foreldrar Eggerts Ólafssonar, gáfu kirkjunni. Einnig var hér lengi hökull sem Ingibjörg Guðmundsdóttir, brúður Eggerts, saumaði feigum fingrum veturinn eina sem hún dvaldist í Sauðlauksdal. Hökullinn er nú á Þjóminjasafni.
Hvalsker Þar reis bænhús líklega mjög snemma. Þess er getið í sögu Hrafns Sveinbjarnarsonar að deilur hafi risið milli Inga Magnússonar bónda á Hvalskeri og Markúsar Gíslasonar í Saurbæ, vegna viðhalds á bænhúsinu á Hvalskeri sem þá var fallið í tóft. Urðu lyktir þær að Ingi veitti Markúsi banasár á bæjarhlaðinu í Saurbæ árið 1196. Þorlákur biskup helgi hafði skipað svo fyrir, til að tryggja viðhald bænhúsa, að ef bænhús félli í tóft skyldi staðarhaldari gjalda sex aura til grafarkirkjunnar sem bænhúsið lá undir. Hefur Markús eflaust verið að innheimta þá sekt hjá hinum viðskotailla Skersbónda. Má af þessu ráða að bænhúsið hefur verið orðið fornt árið 1196 og hefur því e.t.v. risið fljótlega eftir kristnitöku.
Vesturbotn Þar var bænhús var í á kaþólskri tíð, „en fyrir lángri æfi affallið“ segir í Jarðabók Á.M.
Geirseyri Þar stóð bænhús, að því er Árni Magnússon segir í Jarðabókinni 1703, en þá fyrir löngu eyðilagt.
Eins og fyrr segir er líklegt að bænhús hafi verið regla fremur en undantekning á öllum byggðum bólum í kjölfar siðaskipta. Sóknir urðu ekki til fyrr en á 14. öld; fram að þeim tíma var þjónustusvæði höfuðkirkju nefnt þing. Til viðbótar þeim 10 guðshúsum sem hér um getur er því ekki ólíklegt að 5-7 hafi byggst í Saurbæjarþingi, þó þau hafi ekki ratað í heimildir. Hinsvegar virðist mesti ljóminn hafa farið af bænahúsaeign á 12.öld; líklega m.a. fyrir þær sakir að Þorlákur biskup setti sektarákvæði varðandi viðhald þeirra og prestar trénuðust við þjónustu í þeim. Guðshúsum á landinu er talið hafa fækkað mjög eftir 1100, hver sem ástæðan var.
Hefur það verið allmikið verk hjá Saurbæjarprestum að þjónusta þegar guðshús voru flest. Í höfuðkirkjunni í Saurbæ þurfti að messa alla sunnudaga og aðra helgidaga; í hálfkirkjunni á Kirkjubóli var messað annan hvern helgan dag og í bænhúsunum var ætlast til messu mánaðarlega, þó líklega hafi það verið sjaldnar í reynd. Hagsýnn kirkjuhaldari í Saurbæ hefur eflaust séð það í hendi sér að hagkvæmt myndi að minnka vinnu sinna presta en láta fremur sóknarbörnin um skóslitið, með kirkjusókn að Saurbæ. E.t.v. hafa bænhúsin í víkunum lengur haldist við, þar sem unnt var að nýta messuferðir presta til aðdrátta á fiskifangi.
Valdimar Össurarson tók saman, samkvæmt ýmsum heimildum.
Bæn til fararheilla
Hér er fjallað lítillega um einkar forvitnilegt efni sem lítið hefur verið í umræðu; efni sem ekki hvað síst varð skrásetjara hvatning til að taka saman efni um staðbundna vætti og átrúnað í Rauðasandshreppi. Við fljótlega skoðun á örnefnaskrám svæðisins kemur nefnilega í ljós ótrúlegur fjöldi staða sem byrja á „Helgi-„, oftast nafnið „Helguþúfa“. Það er ekki einungis fjöldinn sem er forvitnilegur heldur ekki síður afstaða staðanna til nálægra mannabústaða annarsvegar og hættulegra og langra leiða hinsvegar.
Ekki er einfalt fyrir nútímamanninn að setja sig inn í hugarheim fyrri tíðar fólks. Um aldir var trúin svo samofin allri hugsun og öllum gerðum fólks að segja má að hún hafi verið hluti alls daglegs lífs. Helstu lífsgildin voru ekki einvörðungu þau að komast lífs af með sig og sína í harðneskjulegum aðstæðum; heldur ekki síður að sálarheillinni væri borgið eftir dauðann. Prestar og kirkja nýttu sér fáfræði, neyð og trúgirni fólks til hins ítrasta og voru ósparir að minna á hreinsunareldinn, djöfulsins vélabrögð og kvalræði helvítis við hvert tækifæri. Og tækifærin voru lögð þeim í hendur með lagaskyldu til kirkjusóknar, helgisiða og bænahalds.
Bænir og signingar voru jafn samofin daglegu lífi fyrri tíðar fólks og matur og vatn. Aðeins með stöðugri bænagerð og signingum gátu menn vænst þess að halda lífi sínu og andlegri velferð. Því tókust menn aldrei neitt tvísýnt eða krefjandi á hendur án þess að bæna sig og signa. Með því fólu menn sig guðlegri forsjá; ef eitthvað fór úrskeiðis var með því aukinn möguleiki á himneskri sæluvist. Enn eimdi eftir af þessum siðum frameftir 20. öld, eins og sjá má t.d. af eftirfarandi lýsingu Vilborgar Torfadóttur (f.1896-d.1987) sem uppalin var í Kollsvík en bjó á Lambavatni:
„Ferðabænir voru einatt viðhafðar þegar menn héldu í langferð. Ein þeirra hefst svona: „Ég byrja reisu mín/ Jesú í nafni þín./ Höndin þín helg mig leiði/ frá allri hættu greiði./ Jesú mér fylg í friði/ með fögru englaliði. (Ekki viss hvort þetta sé byrjunin á bæninni eða innan úr henni.) Ávallt þegar lagt var í róður eða kaupstaðarferð var byrjað á því þegar bátur var kominn á flot að menn leggðu upp árar, tækju ofan höfuðfötin og færu með sjóferðabæn“. (Vilborg Torfadóttir á Lambavatni; frásögn á Ísmús).
Ferðabæna var beðið þegar lagt var upp frá bæ. Þær voru lesnar þegar menn voru búnir að búa sig til ferðalags; búnir að kveðja allt heimilisfólk með kossi og komnir svo langt af stað að öruggt þótti að áfram yrði haldið. Því bændu menn sig ekki á bæjarhlaði, heldur þegar komið var útfyrir traðirnar; þar sem menn gátu átt sitt eintal við guð ótruflaðir. Gjarnan var það við kennileiti í landslaginu, svo sem hól eða klett. Má vera að þessi siður ferðabæna sé svo gamall að menn hafi trúað því að verndarvættur bæjarins byggi í hólnum sem þyrfti að kveðja ekki síður en heimilisfólk. Til þess benda álög og huldufólkstrú sem fylgir sumum Helguþúfum. Hagnýt hlið þessarar bænagerðar er sú að þarna gafst tími til að íhuga hvort eitthvað hefði gleymst til fararinnar; gá til veðurs og átta; enn var tækifæri til að snúa við.
Á kortinu hér að ofan hafa nokkrar helstu landleiðir fornar verið teiknaðar gróflega inn á kort.
Helguþúfur eða aðrir slíkir beiðslustaðir hafa líkast til verið nærri hverjum bæ fyrr á tíð, þó nú séu slíkir staðir færri. Helguþúfur eru enn til örnefni í Kirkjuhvammi; Keflavík; Hvallátrum; Hnjóti og Vesturbotni. Á öllum þessum fimm stöðum eru þær í svipaðri fjarlægð frá bæ og við upphaf hættulegra leiða. Á nokkrum bæjum eru staðir sem ætla má að hafi gegnt sama hlutverki beiðslustaða, þó þeir beri önnur örnefni: Fornmaður nærri Láganúpi; Bælishóll nærri Kollsvík; Gullhóll í Hænuvík og Altarisberg við Geirseyri. Skrásetjari er ekki nægilega staðkunnugur á öllum bæjum til að hafa uppi miklar getgátur um horfna beiðslustaði. En án ábyrgðar má velta upp örnefnum, s.s. Rexhöfði í Skor; Hólarnir utan Sjöundár; Leiti utan Melaness; Merkjasteinn utan Móbergs; Sjónhóll utan við Saurbæ; Napi innan við Stakka; Grátsteinn eða Stakkhóll utan við Stakka; Gildruhóll eða Skaufhóll utan við Lambavatn; Hesthúshóll utan Naustabrekkubæjar; Stöðulholt framan Breiðavíkurbæjar; Hreinlætissteinn eða Leiti neðan Tungu; Hestskrokkur ofan Tungu; Hlaðshóll framan Geitagils; Hnjótshólar neðan Hnjóts; Krossfles og Gvendarbrunnur utan Vatnsdals; Reiðholt innan Vatnsdals; Stekkur utan Kvígindisdals; Leiti framan Kvígindisdals; Sönghóll framan Sauðlauksdals; Hreggnes innan Hvalskers. Skal svo ekki fabúlerað meira um það að sinni, en verðugt væri að gera rannsókn á þessu.
Nú á tímum biðja menn líkast til aldrei ferðabænar; a.m.k. ekki af sömu trúarsannfæringu og áður var. Líklega hefur slíkt lagst alfarið af með bílaöld, en hefur líklega verið farið að dofna yfir því fyrr, eftir því sem trúarhiti minnkaði; kirkjuvaldi hnignaði og helvítistrú lagðist af.
Sjóferðabænir er önnur grein af sama meiði sem lifði mun lengur. Undantekningarlaust báðu menn sjóferðabæn og signdu sig áður en lagt var í róður. Þessi siður var landlægur fyrr á tíð, en lét undan síga með vélbátaöld. Hvergi á landinu virðist þessi siður hafa lifað jafn lengi og í verstöðvum Úvíkna: „Einna lengst var þessum sið haldið í verstöðvunum norðan Látrabjargs“ (Lúðvík Kristjánsson; Ísl.sjávarhættir III). Skrásetjari var t.d. vaninn á það sem drengur, að áður en haldið var í fiskiróður frá Kollsvíkurveri voru árar undantekningarlaust lagðar upp á Læginu; höfuðfötin tekin niður og hver bændi sig í hljóði, áður en stýri var hjarað og tekið til við að gangsetja vélarrokkinn. Enn (2019) er þessum sið haldið í Kollsvík; þá sjaldan að róið er þaðan til fiskjar. Þar sem Kollur landnámsmaður var kristinn trúboði má ætla að siðurinn hafi þar viðhaldist í meira en 1100 ár, og sé hvergi á landinu eldri.
Tvenns konar háttur virðist hafa verið á bænagjörð í upphafi róðra. Annars vegar sá sem lýst var hér að ofan; að árar séu lagðar upp þegar búið er að fleyta báti en áður en róið er til miða. Hinsvegar sá að höfuðföt séu tekin ofan þegar bát hefur verið fleytt; árar síðan lagðar út og róið í rólegheitum til miða meðan hver fer með sína bæn. Bæninni skyldi þá lokið áður en komið var að vissu kennileiti; þá voru höfuðföt sett upp og tekið betur á við róðurinn.
Aðeins eitt örnefni í Rauðasandshreppi verður með öruggum hætti kennt við þennan sið, en það er Bænagjóta; utan Láturdals, sem hér er sagt frá. Hún er kippkorn utan við Láturdalinn, og eru Klaufartangar á milli. Allt bendir til að þar hafi síðarnefndi hátturinn verið hafður á við bænalestur: Hásetar skyldu hafa lokið bænalestri og setja upp höfuðfötin undan Bænagjótu. Á tveimur stöðum hefur skrásetjari heyrt um samskonar viðmið. Annarsvegar skyldu vermenn frá Gjögrum hafa lokið bænalestri við Grímssonatanga utan Gjögra, en hinsvegar skyldu sjómenn í Kollsvíkurveri hafa lokið bænagjörð við Breiðasker. Allt eru þetta sambærilegar vegalengdir; um 300-400 metrar.
Signingar voru almennt stundaðar fyrr á tíð þegar menn tókust á hendur ýmis verk; einkum þau sem hættuleg þóttu. Skrásetjari man þá tíð að sumir sigarar signdu sig áður en þeir héldu í bjargsig. Einnig voru börn ávallt látin fara með bænir og signa sig fyrir svefninn. Hinsvegar var þá aflagt t.d. að signa fjósdyr að loknum mjöltum og signa húsdyr áður en gengið var til náða.
Verður hér litið á nokkur örnefni sem nokkuð öruggt má telja að hafi verið bæna- og signingarstaðir,en eins og sjá má á kortinu hér að ofan eru þeir víða um hreppinn:
Kirkjuhvammur „Út af henni (Bjarnanesmýri) er melhóll sem heitir Helguþúfa, og er við endann á Hrauninu“ (Örn.skrá Ívar Ívarsson). „Utanvert við Nýjugötu er smáspræna sem heitir Helgulind“ (Örn.skrá Ívar Ívarsson).
Keflavík „Á enda hjallans Klyfberabrjóts (sem er ofan bæjarins, þar sem farið er upp á Kerlingarháls) er Helguþúfa. Hún er grasi vaxin; sker sig úr umhverfinu og ber mikið á henni. Engin sögn er um hana. Vegurinn liggur rétt fyrir framan Þrotið og upp á Helguþúfuna. Þegar komið er niður úr brekkunum sem heita Skekkingar er komið að Helguþúfu, og liggur Klyfberabrjótur þaðan og fram að Dalverpi“ (Örn.skrá; Hafliði Halldórsson).
Hvallátrar „Helguþúfa er stór hóll efst í túni (Heimabæjar), við veginn upp til heiðarinnar (Látraheiðar). Ekki er kunn sögn um nafnið. Frá túninu liggja smágrasblettir suður með holtunum fyrir ofan túnið og að Helguþúfu. Þingmannaleið var talin frá Helguþúfu að Skaufhól á Rauðasandi“ (Örn.skrá; Daníel Eggertsson). Sennilegt er að huldufólk búi í Helguþúfu. (Daníel Eggertsson; frásögn á Ísmús).
Láganúpur Fremri endi Hjallanna ofan og framan Láganúpsbæjar nefnist Öxl eða Axlarhjallar. Undir Öxlinni er kvos og í henni aflangur hóll sem heitir Fornmaður. „Þar á að vera haugur, en er leitað var kom aðeins kletturinn í ljós“ (Örn.skrá; Guðbjartur Guðbjartsson). „Undir Öxlinni er aflangur hóll, ca 10m langur og 5m beriður, sem heitir Fornmaður“ (Örn.skrá; Össur Guðbjartsson). „Sagt var að þarna hefði verið grafið skip, en oft hefur verið grafið í; er bara klettur“ (Örn.skrá; Ingvar Guðbjartsson). Ekki er ólíklegt að Fornmaðurinn hafi gegnt sama hlutverki og Helguþúfurnar annarsstaðar; verið staður þar sem menn bændu sig áður en lagt var í langferð, en gengið var með Fornmanni þegar farið var frá Láganúpi inn Tunguheiði eða um Víknafjall til Rauðasands.
Kollsvík Í Kollsvík, nánar tiltekið rétt framanvið túngarðinn í Tröð, er hóll sem nefnist Bælishóll. Í honum átti að vera fólgið gull og honum hvíldi sú helgi að bannað var að grafa í hann. Átti þá að kvikna í bænum eða gera svo ómótstæðilegt sjóveður að menn tækju róður framyfir gröftinn. Spyrja má hvort Bælishóll hafi e.t.v. fyrrum heitið „Bænahóll“, og þar hafi menn bænt sig áður en haldið var í ferðalag. Hóllinn er við þjóðleið frá Kollsvíkurbænum; hvort sem lagt var á Tunguheiði; Víknafjall eða yfir Breið. Hann var því í svipaðri afstöðu frá bænum og helguþúfurnar sem hér er um rætt.
Í Kollsvík er annar hóll nokkru neðar; Breiðuseilarhóll. Honum fylgdu samskonar munnmæli um víti við því að hrófla við honum. Þessi hóll fór undir þjóðveginn, þar sem hann liggur niður yfir slétturnar í Kollsvík. Ekki er ólíklegt að hann hafi gegnt sama hlutverki og Bælishóllinn, þó líklega ekki á sama tíma. Kostur þess að bæna sig fremur við Breiðuseilarhól er sá að þá var forðast að styggja fé sem oft var á beit undir Hæðinni, eða kýr á Stöðlinum. Vegurinn fram með Hæðinni hefur þá líklega legið um holtið neðanvið Heimadý (Buga); yfir Breiðuseil og upp Nautholtagötur.
Hænuvík „Föst við Völluna er gjóta í klettana sem heitir Bænagjóta. Dró hún nafn af því að þangað náði sjóferðabænin úr Láturdal, en þar var róið fram undir síðustu aldamót“ (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson). Reyndar var líklega síðast róið úr Láturdal árið 1908, sbr frásögn Jochums Eggertssonar af Trýnaveðri. Mér var sagt, þegar ég var þarna undir á grásleppuveiðum með föður mínum og föðurbróður, að sjómenn í Láturdal hafi ekki mátt setja upp höfuðfötin fyrr en bænagjörð var lokið við Bænagjótu (VÖ).
Stutt frá bæjum í Hænuvík er Gullhóll. Þar, líkt og í Bælishól í Kollsvík, átti að vera fólgið gull en víti við ef eftir því var grafið. Íhugunarvert er hvort hóllinn hefur gegnt sama hlutverki og helguþúfurnar: Þar hafi menn bænt sig áður en haldið var í ferð; hvort sem hún lá útum háls til Kollsvíkur; innyfir Víknafjall; inn með firði eða í sjóróður.
Hnjótur „Gamla bæjarstæðið er vestan við lækinn úr Vandardal í 16 m hæð. Þar handan lækjarins og við hann nyrst í túni er Helguþúfa… Utast neðan Bergjahóls, niður að Helguþúfu, hét Traðir“ (Örn.skrá; Ólafur Magnússon). „Helguþúfa er við Krókinn og er hún strýtumyndaður grashóll sem kerling ein sat á með prjóna sína“ (Örn.skrá; Ólafía Magnúsdóttir).
Vesturbotn „Fyrir utan Stöð (utan Höfðans í Vestubotni) er Holt upp frá sjónum, og langur tangi eða hleinar fram í sjó sem heitir Langitangi. Beint upp af Langatanga er Helguþúfa; strýtumynduð og klettur að framan. Enginn veit af hverju nafnið er dregið. Munnmæli eru um að göng eigi að vera upp í Helguþúfu úr fjörunni. Sagt er að á henni eigi að vera þrír krossar sprungnir í grasið, en þúfan er algróin ofan. Helguþúfa er mjög einkennilegur staður. Þar utar við ána eru Seljadalseyrar við sjóinn“ (Örn.skrá; Ólafía Ólafsdóttir o.fl). „Helguþúfa er rétt fyrir innan Seljadalsána, fyrir ofan veg; nokkuð há og eru í henni þrír ógrónir krossar, annars grasþúfa. Sú sögn er til að Helga hefði farið niður úr þúfunni; um göng og út um helli sem eru í fjörunni undir veginum“ (Örn.skrá Hlaðseyrar; Magnús Jónsson).
Geirseyri Altarisberg nefnist sá staður klettabeltisins ofan Raknadalshlíðar sem teygist lengst niður í hlíðina, stuttu innanvið Þúfneyri. Sagt er að Guðmundur góði hafi vígt þar altari, til heilla þeim sem áttu leið um þennan hættulega veg. Líklegt er að þar hafi verið bænastaður í upphafi ferðar, líkt og við helguþúfurnar; hvað sem til er í sögunni um vígslu Guðmundar.
Höfundurinn: Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp. Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni. Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land. Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja. Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1992.
Kirkjur voru oftast byggðar á grunni gömlu kirkjunnar í miðjum kirkjugarðinum a.m.k. til sveita. Kirkja var byggð í Breiðavík um 1960, vígð 1964 en hún var byggð á brekkubrún ofan við aðrar byggingar en ekki í kirkjugarðinum. Þar stóð eldri kirkja, timburkirkja, orðin gisin nokkuð en lítið fúin og vildi helmingur safnaðarins gera hana upp en nýbyggingarmenn höfðu betur enda staðurinn í uppbyggingu sem ríkisstofnun. Saurbæjarkirkja og Sauðlaksdalskirkja eru í kirkjugörðunum.
Kirkjur voru oft ólæstar áður, en ég held að hætt sé að hafa þær ólæstar nema þar sem fólk er á staðnum sem hefur góða gát á að þær verði ekki rændar, þar sem óaldarlýður er víða á ferð. Ekki hefur komið til hér að leggja niður kirkjur fyrr en þá núna, þar sem Breiðavíkurkirkja stendur frammi fyrir vandamálum vegna fækkunar í söfnuðinum í 4. Ég held að fólk hafi orðið nokkuð frjálslyndara gagnvart kirkjunni, t.d. að í lagi sé að hafa þar ýmsar uppákomur, söng og hljóðfæraleik af veraldlegra tagi en áður þótti við hæfi. Líka þótti ekki viðeigandi að klappa eða hlæja í kirkju sem nú hneykslar engan. Viðhorf fólks til guðsþjónustunnar var og er mjög misjafnt. Sumum finnst engu skipta hvort þeir sæki kirkju til að ræða við guð sinn en öðrum finnst þeir ná meira sambandi við guðdóminn í kirkjunni. Mörgum finnst hugarfró að sækja kirkju, sérstaklega þegar sorgir og erfiðleikar hins daglega lífs sækja að. Skírnarvatnið þótti hafa lækningamátt við sjóndepurð og annarri augnveiki. Gjafir voru kirkjum gefnar á stórafmælum þeirra af ýmsu tagi, t.d. altarisdúka, skírnarfont eða kertastjaka. Breiðavíkurkirkja fékk nokkuð sérstaka gjöf fyrir nokkrum árum. Það var áletraður kassi utan um grágrýtishellu sem organisti kirkjunnar til fjölda ára hafði í kirkjunni til að hækka sig í sessi en hann var lágvaxinn. Afkomendur hans gáfu þennan kassa og þótti mjög við hæfi.
Síðari tíma siður færist í vöxt að gifting fer fram undir beru lofti eða á undarlegustu stöðum. Sonardóttir mín giftist á Lögbergi 1. des. 2009 og það er sú eina gifting sem ég veit um svona persónulega. Hér í Rauðasandshreppi eru til tveir brunnar sagðir vígðir af Guðmundi góða. Annar er á Látraheiði og þótti ekki af veita þar sem það er eina vatnið sem ferðamenn áttu kost á alla leið yfir heiðina. Þó vildi lindin þorna í langvarandi þurrkum. Hin lindin er í Kollsvík og heitir einnig Gvendarbrunnur eins og hinn. Hann þornar aldrei og þótti hafa lækningamátt að drekka vatn þaðan. Ef fólk veiktist í Kollsvík þótti gott að sækja vatn úr brunninum; fram á 20. öld. Systur tvær fæddar og uppaldar í Kollsvík heimsóttu systur sína til Bandaríkjanna um 1980. Systirin hafði búið í N-Dakota frá því um 1920. Þær færðu henni vatn úr Gvendarbrunni sem Guðmundur góði vígði, einnig hluta úr Látrabjargi þar sem átti heima óvættur sem grandaði sigmönnum. Vorkenndi biskupinn óvættinum og skyldi eftir hluta bjargsins óvígt, því „Einhvernstaðar verða vondar kindur að vera“ eins og vætturinn sagði!
Áheit
Ég hef aldrei heitið á neitt mér til hjálpar en ég veit um fólk sem hefur gert það og talið sig fá umbeðna hjálp. Í þeim tilfellum var heitið á Breiðavíkurkirkju og varð hún vel við áheitum. Ekki man ég vel eftir tilefninu en mikið þótti við liggja. Ég held að það hafi ráðist af því að kvisaðist manna milli að þessi eða hin kirkjan hafi orðið vel við áheiti að fleiri fóru að heita á hana. Það sem ég veit um var peningaupphæð heitið en „gjalddagann“ veit ég ekki vel en þó mun hann stundum hafa dregist nokkuð en ég hygg að það hafi alltaf komið til skila. Ekki hef ég heyrt um viðurlög við vangoldnum áheitum. Ég held að oftast hafi menn ekki haft orð á áheitinu fyrr en ef það hreif.