Æ / Æi / Æijæja (uh) Upphrópanir með ýmsa merkingu eftir því hvernig tónninn er. Æ getur þýtt að maður sé vonsvikinn; hafi fengið nóg; að maður finni til; að maður hafi gert mistök. Æijæja er oft notað sem andsvar í þeirri merkingu að manni komi það ekki á óvart sem sagt hefur verið. „Æ, ég veit það ekki“! „Æ, hvað ég er ánægður með þetta“! „Æ, teygðu þig nú í þetta fyrir mig“! Æ, hvað mér leiðist svona raus“!
Æ (ao) Ætíð; alltaf; sífellt. „Karlinn bölvaði æ hærra eftir hvert skammarskot“.
Æ betri (orðtak) Sífellt betri; batnandi. „Mér finnst hann verða æ betri með tímanum“.
Æ ofaní æ (orðtak) Sífellt; syngt og heilagt. „Hversvegna skyldu þeir alltaf gera sömu mistökin; æ ofaní æ“?!
Æ sér gjöf til gjalda (orðatiltæki) Vísar til þess að oft þarf að greiða í einhverju formi það sem gefið er. Æ merkir þarna einatt/ætíð/alltaf; sér = horfir.
Æð (n, kvk) A. Rás sem blóð fer um til líkamshluta og frá þeim. B. Hverskonar pípa eða rás, s.s. hitaveituæð; samgönguæð. C. Lag jarðefna, s.s. gullæð.
Æða (s) Ana; gana; þjóta; flaustra. „Hvert ert þú að æða“?
Æðaber (l) Sem æðar sjást greinilega á; sem ber greinilegar æðar.
Æðarbliki/bliki / Æðarkolla/kolla / Æðarhjón (n, kk) Karlkyns/kvenkyns æðarfugl / par æðarfugls.
Æðardúnn / Æðaregg (n, kk) Dúnn/egg æðarfugls. Æðarfugl hefur löngum verið hlunnindaskepna, enda var hvorttveggja nýtt.
Æðarfugl / Æður (n, kk/kvk) Somateria mollissima. Stjór andartegund sem lifir við sjó. Algengur á norðurslóðum og kringum allt Ísland. Verpur iðulega í Kollsvík en er þar mjög ofsóttur af ref, mink og vargfugli. Fullvaxinn fugl verður um 2 kg að þyngs; 50-71 cm að lengd og vænghafið 80-108 cm. Karlfuglinn/blikinn er mjög skrautlegur í varpbúningi; hvítur að ofan og svartur neðan; með svarta hettu; roðalitaða bringu og græna flekki í hnakka en vængir svartir með hvítum fjöðrum. Kvenfuglinn/kollan er brún að lit. Fuglinn er þungur á sér en góður sundfugl og kafari. Fæðan er kræklingur og önnur lindýr; einnig smásíli og marflær. Verpur nærri sjó; gjarnan í hólmum og grónum stöðum. Bændur sækjast eftir æðarvarpi enda geta þeir haft verulegar tekjur af dúntöku. Æðardúnn hefur gríðarlegt einangrunargildi. Til að laða fuglinn að eru gerð hreiðurstæði t.d. með kössum eða dekkjum og settar upp litríkar veifur og fuglahræður. Vakt þarf að hafa á varpinu til að halda vargi frá. Kollan verpur 4-6 eggjum í maí-júni. Hún fóðrar hreiðrið innan með æðardúni sem hún reytir af bringu sinni. Staðfugl á Íslandi; nær 10- 20 ára aldri.
Æðarhreiður / Æðarvarp / Æðarrækt (n, hk) Hreiður/varp/nytjar æðarfugls.
Æðarkóngur (n, kk) Somateria spectabilis. Stór andartegund sem um margt er lík æðarfugli en heldur minni og blikinn er öðruvísi að lit; þó jafnvel skrautlegri. Sést stundum sem flækingur með æðarfugli.
Æði (n, hk) A. Eðli, hegðun; háttalag. „Hann var talinn hinn vandaðasti maður til orðs og æðis“. B. Brjálsemi; vitfirring. „Það rann á hann eitthvert æði“.
Æði (ao) Mjög; afar. „Þetta er æði þungt“. Hann er að verða æði hvass“. „Sýna mun ég senn þess vott/ sveit í nýju ljósi“./ Að svo mæltu arkar brott/ æði snúðugt Rósi“ (JR; Rósarímur).
Æði ... (orðtak) Mjög ... Orðið æði var mikið notað til áhersluauka áðurfyrri meðal Kollsvíkinga og sveitunga þeirra, og í ýmsum samsetningum: Æðistór; æðilangur tími; æðitími; æðimikill sjór; æðimunur; æðimisjafnt; æðiseint; æðiþungt. „...það verður æði fámennt heima hjá okkur í vetur“ Frásögn Maríu Torfadóttur (ÓG; Úr verbúðum í víking). „Var Magnús að herfa svæði neðan hússins, en þá var æði rakt land þar“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). Orðið virðist hafa verið notað víða um land en sennilega lengur þarna en annarsstaðar.
Æðibratt (l) Mjög bratt. „Blessaður hafðu stuðning af vað þarna í flesinu; þetta er æðibratt og skriðurunnið“.
Æðibreiður (l) Mjög breður; allbreiður. „Mér fannst hrúturinn ansi rýr á lendina þó hann væri æðibreiður á herðakambinn“.
Æðibunugangur (n, kk) Asi; fyrirgangur; offors. „Hvaða æðibunugangur er nú í ykkur strákar“?
Æðdjúpt (l) Mjög djúpt. „Það er æðidjúpt þarna framanvið marbakkann“.
Æðierfitt (l) Mjög erfitt; illviðráðanlegt. „Það verður æðierfitt að koma fénu inn þar það þekkir sig ekki“.
Æðifallegur (l) Mjög fallegur. „Af Núpnum er æðifallegt útsýni yfir Kollsvíkina og suðureftir núpum“.
Æðifyrirtæki / Æðipuð / Æðiverk / Æðivinna (n, kk/hk/kvk) Viðamikið/erfitt verkefni; mikið brambolt/verk. „Það hefur verið æðifyrirtæki að flytja Láganúpshúsið frá Grundum“. „Þetta var æðipuð“. „Það verður æðiverk að klára þetta fyrir kvöldið“. „Það var æðivinna að ganga frá öllu slátrinu“.
Æðigamalt (l) Mjög gamalt; fornt. „Þetta orðatiltki er líklega æðigamalt í málinu“.
Æðiharður (l) Mjög/verulega harður. „Mánuðrinn var æðiharður, með snjóþyngslum og frosthörkum“.
Æðiheitt (l) Mjög heitt. „Það var orðið æðiheitt þarna í fjárhúsunum, og hálfgerð molla“.
Æðihátt (l) Mjög hátt; allthátt. „Bjargið er orðið æðihátt þegar kemur inná Hrútanef“.
Æðihratt (l) Mjög/verulega hratt. „Lægðin fer æðihratt yfir“.
Æðikippur / Æðiplamp / Æðispotti / Æðispölur / Æðivegur (n, kk) Töluvert löng leið; mikil vegaleng; löng ganga. „Það er æðikippur; héðan og á Ísafjörð“! „Þetta er æðiplamp“. „Það er æðispölur að fara með kúna til að halda henni undir naut“. „Eruði nógu vel skæddir og nestaðir? Það er nú æðivegur inn allt Víknafjall“!
Æðiilla (l) Mjög illa. „Hann kunni því æðiilla að menn væru að slúðra um málið á þennan hátt“.
Æðikaldur (l) Mjög kaldur; allkaldur. „Hann er orðinn æðikaldur“.
Æðilangt (l) Mjög langt; verulega langt. „Þetta er æðilangur spölur; ertu ekki orðinn þreyttur“?
Æðilengi (l) Mjög lengi. „Mér þykir þeim dveljast æðilengi“!
Æðimargt (l) Allmargt; mjög margt; fjöldamargt. „Ég get nefnt æðimargt sem betur mætti fara“.
Æðimikill (l) Allmikill; mjög mikill; ærinn. „Hann hefur rifið upp æðimikinn vestansjó“.
Æðimunur (n, kk) Mikill mismunur. „Mér finnst æðimunur á því hvað þessi net eru fisknari en hin; ég bara líki því ekki saman“!
Æðinapur (l) Allkalt; mikill kuldi. „Búðu þig almennilega; hann er æðinapur eftir að hann hvessti“.
Æðinotalegt (l) Mjög þægilegt/makindalegt. „Það var orðið æðinotalegt í skýlinu þegar logað hafði í kamínunni nokkra stund“.
Æðikollur (n, kk) Flautaþyrill; fljótfær maður; flumbrari. „Hann er alveg óútreiknanlegur æðikollur“.
Æðisgenginn (l) Vitfirrtur; æstur; ofsafenginn. „Þeir höguðu sér eins og æðisgengnir hálfvitar! Hafa þessir menn aldrei komið nálægt skepnum“? Á hippatímanum fékk orðið allt aðra og jákvæðari merkingu.
Æðiskast (n, hk) Tímabundin brjálsemi; tryllingur. „Það lá við að hún fengi æðiskast yfir þessu“.
Æðislega (ao) Stytting á brjálæðislega. Hefur á síðustu tímum fengið jákvæðari merkingu.
Æðislegur (l) Brjálæðislegur. Merkir „afburðagóður“ á síðustu árum.
Æðistund / Æðitími (n, kvk/kk) Langur tími; löng bið. „Það er orðin æðistund síðan þeir fóru; þeir hljóta nú að fara að koma“. „Það hefur æðitími farið í þetta“.
Æðisver (l) Allsver; mjög sver. „Tréð er æðisvert, þó það sé ekki langt“.
Æðiþungt (l) Allþungt; mikil þyngsli. „Ég vissi að honum féll þetta æðiþungt“. „Kassinn var æðiþungur“.
Æðrast (s) Missa móðinn; hugfallast; guggna. „Hann æðrast nú ekki yfir hverju sem er“.
Æðrulaus (l) Án þess að fara á taugum; óttalaus; með jafnaðargeði.
Æðruleysissvipur (n, kk) Rólyndissvipur; svipur sem lýsir jafnaðargeði. „Hann setti upp æðruleysissvip og sagði að hann hefði nú einhverntíma séð það svartara“.
Æðruorð (n, hk) Það sem sagt er í æsingi/hugarvíli; upphrópanir. „Hann tók þessu öllu með jafnaðargeði og aldrei heyrði ég hann mæla eitt æðruorð“.
Æðri (l) Tignari; hærra settur að virðingu/völdum; meiri. „Hann þykist öllum æðri í þessum efnum“!
Æðri máttarvöld (orðtak) Guðlegur máttur/kraftur; guð. „Þarna gripu æðri máttarvöld í taumana“.
Æðri menntun (orðtak) Sú villa að ein tegund menntunar sé mikilvægari en önnur. Oft notað um háskólanám.
Æfa (s) Þjálfa; temja. „Ég er ekki æfður í þessu“.
Æfa sig (orðtak) Þjálfa sig; temja sér; gera sér eðlislægt. „Við æfðum okkur í að taka í vörina og spýta“.
Æfareiður / Æfur (l) Mjög reiður; fokvondur; bálillur. „Hann varð æfareiður þegar hann heyrði af þessu“.
Æfing (n, kvk) Þjálfun; tamning. „Þetta puð var ágætis æfing fyrir morgundaginn“.
Æfingin skapar meistarann (orðatiltæki) Maður verður allajafna ekki framúrskarandi leikinn í neinu nema með þrotlausum æfingum. Viðhaft einnig um dagleg verk, sem verða mönnum auðveldari með æfingunni.
Æfur (l) Snarvitlaus/ frá sér af reiði/æsingi. „Hann varð víst alveg æfur þegar hann heyrði af þessu“.
Ægibirta (n, kvk) Skjannabirta; ofbirta; mikil birta. „Dragðu aðeinst fyrir gluggann; þessi ægibirta fer í höfuðið á mér“.
Ægikjör (n, hk, fto) Um sjóveður; renniblíða; pollslétt. „Flutningurinn var kominn vel á fjórða tonn og allt of mikill, nema í ægikjörum„ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Ægilega (ao) Mjög; afar. „Mér finnst þetta ægilega leiðinlegt að svona skuli fara“.
Ægilegur (l) Hrikalegur; skelfilegur. „Það getur verið ægilegur kraftur í brimöldunni“.
Ægir (n, kk) A. Sjór; haf. „Eins og sagt hefur verið lá Kollsvíkin gegnt opnu hafi. Svipmót hennar var bæði blítt og strítt. Lognkyrrir vordagar voru þar fagrir og unaðslegir, og þó einkum vorkvöldin fögru: Þegar sól var að síga í æginn og átti þar aðeins skamma dvöl, uns hún reis á ný úr djúpi, en hvarf svo um stund aftur undir Blakkinn“ (KJK; Kollsvíkurver). B. Heiti á galdrastaf sem, samkvæmt þjóðtrúnni, átti að geta komið upp um þjófa. Sjá ægishjálmur.
Ægir (öllu) saman (orðtak) Allt í bendu/haug/graut. „Það ægði öllu saman í gömlu sveitaverslununum, enda þurftu þær að bjóða fleiri vöruflokka en allar verslanir stórborgar í litlum húsakynnum“. Hefur líklega í upphafi verið „agar saman“, þ.e. rennur saman; líkingamál um rennandi læki sem sameinast.
Ægisandur (n, kk) Djúpur/mikill sandur; botnlaus sandur. „Það er best að hreyfa lítið við þessum ægisandi“.
Ægishjálmur (n, kk) A. Hjálmur sem vekur andstæðingum ótta. B. Töfratákn sem, samkvæmt þjóðtrúnni, átti að vera manni vörn. Sjá ægir.
Ægja (s) A. Af orðstofninum „ógur“; ógna; skelfa. „Mig ægir við þessari tilhugsun“. B. Af orðstofninum „aga“; blandast. „Í geymslunni ægði öllu saman“.
Ægja við (orðtak) Finnast ógnandi; vera hræddur við. „Mig ægir við þeirri tilhugsun að fara þetta aftur“.
Æja (s) A. Nema staðar um stund; hvíla sig á ferðalagi. „Við áðum stutta stund í Hafnarlautunum áður en við héldum áfram inn heiðina“. B. Segja æ; kveinka sér. „Það þýðir ekkert að æja undan þessu; þetta þurfum við að klára“.
Æjá / Æjú / Æjæja (u) Meiningarlausar upphrópanir/andsvör; stundum með i á eftir æinu. Oft áhersla á æið.
Æki (n, hk) Ökutæki; einkanlega átt við hlaðinn vagn. Lítið notað í Kollsvík.
Æla (n, kvk) Spýja; gubb; það sem kemur uppúr manni sem ælir. „Komdu nú ælunni útfyrir borðstokkinn“!
Æla (s) Spúa; gubba; leggja lóðir; tala við Jónas. „Þarftu eitthvað að æla? Þú mátt nota austurstrogið“.
Æla lifur og lungum / Æla eins og múkki (orðtak) Æla/spúa mikið/kröftuglega; kúgast mikið. „Maður varð oft drullusjóveikur í fyrsta róðrinum hvert sumar, jafnvel nokkrum þeim fyrstu, en jafnaði sig fljótt úr því. Einkum var klígjugjarnt í miklum ruglandaveltingi og þegar dregin voru legin net með mikilli ýldu“.
Ælingi (n, kk) A. Smáfiskur; kóð. B. Í líkingamáli; aumingi; afturúrkreistingur. „Þessi blessaður ælingi er ekki til erfiðisvinnu“. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). C. Á Ströndum mun orðið hafa merkt „gemlingur“ eða „vetrungur“. Í orðasafni sínu hefur Björn M. Ólsen eftir Jóhanni Jóhanssyni bónda á Gjögri, seint á 19.öld: „Hefurðu sjeð tvo ælingja; ýluspræklóttan og skjömpóttann, með klömponum“? Sem merkir: „Hefurðu séð tvo gemlinga; bíldóttan og flekkóttan, hjá klettunum“? Ekki var þetta að öllu samhljóða máli Kollsvíkinga, en þar er þó talað um ælingja í annarri merkingu; spræklóttur er til sem litarheiti og einnig skjömbóttur.
Ælufata / Ælustampur (n, kvk/kk) Ílát sem sá hefur hjá sér sem þarf að æla/ sem er óglatt. „Þú verður sjálfur að hreinsa ælustampinn“.
Æluföt / Ælugalli / Ælujakki / Æluhúfa / Æluskór Fatnaður sem notaður hefur verið til eggjaferða og orðið hafa fyrir múkkaælu. „Þessi ælugalli þyrfti að komast fljótlega í þvott“. „Ætlarðu að fara í þessa æluskó“?
Ælupest (n, kvk) Gubbupest; veikindi sem mikill uppgangur fylgir. „Ég fékk einhverja bölvaða ælupest“.
Ælutilfinning (n, kvk) Velgja; flökurleiki; viðbjóður. „Ég varð ekkert sjóveikur, en þegar ég fæ sjóriðu í landi fylgir því einhver ælutilfinning“.
Æmt (n, hk) Muml; lítið/bælt hljóð. „Ekki heyrðist æmt í honum þó naglinn stæði í gegnum ristina“.
Æmta (s) Gefa frá sér hljóð; veina. „Strákurinn æmti bara ekki neitt þegar hann fékk sprautuna“. „Það heyrist hvorki æmt né skræmt þegar nauðsynjar hækka en allt ætlar vitlaust að verða ef vínið er skattlagt örlítið“.
Æmta hvorki né skræmta (orðtak) Þegja; gfa ekki frá sér hljóð. „Þið megið hvorki æmta né skræmta ef tófan lætur sjá sig“!
Ænei (uh) Áhersluneitun. Stndum þó fremur haft til mildunar á neitun. „Ænei, ég nenni því ekki núna“.
Æpa (s) Hrópa/öskra hátt. „En þeir gömlu sögðu nú ýmislegt, og sérstaklega Gísli gamli. Hann kom æpandi á móti syni sínum og sagði: „Ja, þetta áttir þú ekki að gera: Þú áttir að sigla; halda á að sigla. Þá hefðir þú haft lagið upp“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Æpa hásan (orðtak) Kalla þar til maður verður hás. „Hvar í ósómanum varstu; ég er búinn að æpa mig hásan“.
Æpandi ósamræmi (orðtak) „Næst staðnæmumst við hjá Nónvörðu, en hún var eyktamark frá Grundum sem var býli niður við sjóinn. Þar standa hlið við hlið, gamli og nýi tíminn; varðan og sjónvarpsloftnet frá Láganúpi í æpandi ósamræmi“ (IG; Sagt til vegar I).
Ær (n, kvk) Sauðkind; rolla; kind. „Hann er með á annað hundrað ær“. „Ég sá hvíta kollótta á með tveimur, stuttu ofanvið veginn“. Í Rauðasandshreppi í lok 20.aldar var sjaldnar talað um „á“ en „kind“, þó því hafi líklega verið öfugt farið í flestum landshlutum. Sjá einnig gamalær. „Ám er gefið fram á burð allvíðast, og aldar inni frá því um hátíðar og framundir apríllok“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Ær (l) A. Brjálaður; óður; vitstola; frávita. „Hann var alveg að verða ær af óþolinmæði“. Við skulum ganga sæmilega frá þessu, svo verkstjórinn verði nú ekki alveg ær“. B. Síðari liður orða sem lýsa árafjölda, t.d. fjölær, tvíær, einær.
Ær og kýr (orðtak) Í mannlýsingum; gervallt; einkenni. „Iðjusemi og vandvirkni voru hans ær og kýr“.
Æra (n, kvk) Heiður; sómi; virðing; heiðarleiki. „Maður vill helst ekki missa æruna fyrir svona lítilræði“. Sjá lofa uppá æru og trú.
Æra (s) Gera brjálaðan/vitlausan/frávita. „Lækkaðu nú í útvarpinu; þetta bítlagarg er alveg að æra mig“!
Æra óstöðugan (orðtak) Um einhvern fáránleika/fjölda sem er óskaplega pirrandi. „Þetta eilífa slaður um boltaspark í öllum fjölmiðlum getur alveg nægt til að æra óstöðugan“. Sjá til að æra óstöðugan.
Æra uppúr (orðtak) Láta einhvern, e.t.v. með ögrunum og/eða glensi, segja hluti sem ekki væru annars sagðir. „Alltaf tekst þeim að æra einhverja heimskulega yfirlýsingu uppúr þessum pótintáta“.
Ærandi hávaði (orðtak) Mikill hávaði/skarkali. „Í salnum var orðinn slíkur ærandi hávaði að ekki heyrðist mannsins mál“.
Ærast (s) Verða brjálaður/ viti sínu fjær. „Næst gerist sá sögulegi atburður að hestar Einars í Kollsvík ærast eitt sinn, og hlaupa að heiman er verið var að reka þá að vatnsbóli heima í Kollsvík“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Ærbók (n, kvk) Ærtal; bók sem í er fært allt sem varðar einstakar kindur á sauðfjárbúi. Misjafnt var hve vel menn færðu sínar ærbækur; sumir höfðu hana einungis í sínu höfði og komust vel af með það. Þeir sem vildu stunda sauðfjárrækt af alvöru, til að rækta upp frjósaman og heilbrigðan bústofn og hámarka afrakstur búsins, héldu nákvæmar ærbækur. Fyrrum var fremur talað um ærtal en ærbók.
Ærblað (n,hk) Blað eða stílabók sem höfð var með í tilhleypingar að vetri, og fært inn hvaða og hvenær hrútur lembdi ær, og í merkingar lamba að vori til að bóka númer, móður, lit o.fl. Fært var úr ærblaði í ærbók/ærtal.
Ærfóður (n, hk) Fóður sem áætlað var hverri kind til vetrarfóðrunar, en það var mjög mismunandi eftir því hve vel jörðum nýttist haga- og fjörubeit að vetri. Því var venja við forðagæslu að hausti, að mæla fremur heyforða í kýrfóðrum og áætla síðan ásetning fjár eftir aðstæðum.
Ærgildi (n, hk) Virði hverrar kindar; mælieining fyrir framfærslugetu jarðar; eining í útreikningi afurðaverðs/ greiðslumarks/beingreiðslu. „Að fornu voru 6 ærgildi í kúgildinu, en nú eru þau talin 20“.
Ærhornarispur (n, kvk) Illa sleginn völlur þar sem mikið ber á stökum ljáförum með óslegnum toppum inn á milli.. „Hörmung er nú að sjá þessar ærhornarispur hjá þér“!
Ærið tilefni (orðtak) Næg/mikil ástæða. „Þetta væri honum líklega ærið tilefni til að fá sér í staupinu“!
Æringi (n, kk) Háðfugl; spilagosi. „Kitti í Botni var glaðlyndur karl og átti það til að vera hinn mesti æringi“.
Æringjaháttur / Æringsháttur (n, kk) Ærslagangur; grín; fíflagangur. „Alltaf er sami æringshátturinn í karlinum“.
Ærinn (l) Mikill; fullmikill; nægur. Mikið notað áhersluorð. „Svipur formannsins var á þann veg, að nú skyldi hann og gnoðin sýna listir sínar til hins ýtrasta; enda sjáanlega ærið tilefni“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „... sandságangur ærinn (i Kollvík) “ (AM/PV Jarðabók).
Ærket / Ærkjöt (n, hk) Ket af fullorðinni kind. „Ansi finnst mér verðið lágt á ærketinu núna“!
Ærlegheit (n, hk, fto) Heiðarleiki. „Hann sýndi þó þau ærlegheit að skila þessu“.
Ærlegur (l) A. Heiðarlegur. B. Mikill. Var algengara sem slíkt áhersluorð: „Hann fékk ærlegar skammir“.
Ærmiga (n, kvk) Þunnt kaffi. „Eitthvað er nú mislukkað kaffið hjá mér; þetta er hálfgerð ærmiga“.
Ærpeningur (n, kk) Sauðfé. „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi. Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill. Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið…„“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).
Ærskrokkur (n, kk) Kindarskrokkur; ketskrokkur af fullorðinni kind.
Ærsl (n, kk) Læti/atgangur. „Það þýðir ekkert að reka féð með þessum ærslum“.
Ærslabelgur / Ærslakálfur / Ærslaseggur (n, kk) Æringi; sá sem ærslast; sá sem lætur illa/ hefur hátt. „Strákurinn er mikill ærslabelgur“.
Ærslagangur (n, kk) Fíflalæti; fyrirgangur; skrípalæti. „Óskaplegur ærslagangur er í ykkur strákar“!
Ærslast (s) Fíflast; leika sér; hafa uppi ærslagang. „Farið út strákar ef þið þurfið að ærslast svona mikið“! „Oft og tíðum ærslast var/ upp við Smiðjukofa./ Á Steinbólinu stelpurnar/ Stínu létu sofa“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Ærtal (n, kvk) Ærbók; fjárbók. Bókhald yfir hverja ær; hvenær hún fékk; með hvaða hrúti; hvenær hún á tal; hvað hún síðan bar mörgum lömbum; kyn þeirra, litur og eyrnamerki. Ærtal er mikilvæg stoð í því kynbótastarfi sem góður fjárbóndi þarf að stunda til að hámarka afurðir og halda heilbrigðum fjárstofni.
Ærulaus (l) Sem misst hefur æruna eða verið sviptur henni.
Ærumeiðandi (l) Sem vegur að æru/heiðri manns.
Ærumeiðingar (n, kvk, fto) Það sem er ærumeiðandi. „Hættið nú þessi kífi, áður en þetta fer útí einhverjar ærumeiðingar eða slagsmál“!
Ærumissir (n, kk) Það að missa æruna; almennar efasemdir um heiðarleika. „Það verður þá að hafa það þó þetta verði mér til álitshnekkis og ærumissis; ég bara fylgi minni sannfæringu“!
Æruverðugur (l) Sá sem á virðingu skilið; virðulegur. „Þetta er gömul og æruverðug bók“.
Æs (n, kvk) Gat á skóm, sem reim eða þvengur er dregin um. Sjá ganga út í æsar.
Æsa / Æsa upp (s/orðtak) Espa; gera órólegan/skapvondan. „Það er óþarfi að æsa sig útaf þessu“! „Vertu nú ekki að æsa karlinn svona upp; er hann ekki alveg nógu ruglaður fyrir“?!
Æsa/egna (einhvern) upp á móti sér (orðtak) Egna einhvern; fá einhvern til að rífast við sig; vera í andstöðu við einhvern. „Það er engum hollt að egna hann um of uppá móti sér“.
Æsast leikar (orðtak) Atburðarás verður hraðari; mikið fer að ske. „Þá fóru nú heldur að æsast leikar“.
Æsandi (s) Sem veldur æsingi/spenningi; spennandi.
Æsibyr (n, kk) Mikill meðbyr. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Æsifrétt (n, kvk) Frétt sem sögð er til að valda spennu/æsingi, en er e.t.v. ekki alveg sönn.
Æsing (n, kvk) Uppnám; geðshræring; reiði. „Hann sagði þetta í æsingu og án þess að hugsa“.
Æsingafundur (n, kk) Fundur þar sem æsingur/hiti er í fundarmönnum og ákaft deilt.
Æsingalaust (l) Án uppnáms; rólega. „Hann ræddi æsingalaust og af yfirvegun um þetta mikla hitamál“.
Æsingarmaður (n, kk) Sá sem auðveldlega verður æstur. „Hann er enginn æsingarmaður; heldur gengur að öllu með hægð og jafnaðargeði“.
Æsingur (n, kk) Hiti; reiði; skiptar skoðanir. „Það er æsingur í mörgum útaf skólamálunum“.
Æsispennandi (l) Mjög spennandi/áhugaverður.
Æska (n, kvk) A. Það að vera ungur. „Ég var í æsku þegar þetta gerðist“. Sjá barnæska. B. Ungt fólk; börn. „Svo hleypur æskan unga/ óvissa dauðans leið/ …“ (HP; Um dauðans óvissa tíma).
Æskilegur (l) Sem óskað er eftir; velkominn; ákjósanlegur. „Þetta finnst mér ekki æskileg þróun“.
Æskja (s) Óska eftir; biðja um. „Þeir gera þá athugasemd sem þess æskja“.
Æskuár (n, hk, fto) Bernskutími; ungdómsár; yngri ár. „Gummi var á æskuárum sínum nokkuð baldinn, eins og títt er um fjörmikla krakka“ (PG; Veðmálið).
Æskublómi (n, kk) Ferskleiki og unglegt útlit sem fylgir því sem er á fyrra skeiði lífs síns.
Æskubrek (orðtak) Barnabrek; það sem menn kunna að brjóta/gera af sér á barnsaldri.
Æskufjör / Æskugleði (n, hk) Lífsgleði og hreyfiþörf á yngri árum.
Æskuheimili (n, hk) Það heimili sem maður elst upp á; heimili manns á barnsaldri.
Æskulýðsfélagsskapur (n, kk) Samfélag ungmenna; ungmennafélag. „Og það ber þess ljósastan vottinn að ungmennafélögin eru vakandi æskulýðsfélagsskapur, að samband þeirra hefur tekið til meðferðar mál sem frekast krefja æskumanninn um aðstoð sína“ (EG; Vakandi æska).
Æskulýðsmál / Æskulýðsstarf (n, hk) Málefni/starf ungs fólks/ barna; oft notað um málefni félagsstarfs ungmenna.
Æskulýður (n, kk) Ungt fólk yfirleitt; unglingar.
Æskumaður (n, kk) Ungmenni; ungur maður. „Stóðst það oft á endum að báðir komu jafnsnemma í Verið; bátsverjar og hinir fótfráu æskumenn, sem ekki víluðu fyrir sér að spretta úr spori undir leiðarlokin“ (KJK; Kollsvíkurver). „Hér er því þörf fyrir æskumanninn að vera vakandi“ (EG; Vakandi æska). „Eyra heillar æskumanns/ unnar strengjakliður;/ enda löngum liggur hans/ leið til strandar niður“ (JR; Rósarímur).
Æskuvinur / Æskuvinkona (n, kk/kvk) Vinur/vinkona frá barns- eða unglingsárum.
Æstur (l) Í uppnámi; reiður; skelfdur; skömmóttur. „Vertu ekki svona æstur; segðu mér bara hvað er að“!
Æti (n, hk) Matur; fæða; það sem unnt er að borða/éta. „Þarna komst hrafninn heldur betur í æti“.
Ætifífill (n, kk) Fífill, sjá þar.
Ætihvönn (n, kvk) Hvönn, sjá þar
Ætilegur (l) Ætur; sem unnt er að borða; girnilegur til matar. „Hvíslar þá ekki freistarinn í eyra honum að líklega eigi Gummi bróðir eitthvað ætilegt í skrínu sinni“ (PG; Veðmálið).
Ætisveppur (n, kk) A. Ætur sveppur; sveppur sem notaður er til matar. B. Agaricus bisporus; matkempa. Sveppur sem ræktaður er til matar og seldur í verslunum. Ræktaður hélendis en vex ekki í íslenskri náttúru.
Ætisögn (n, kvk) Ætileg arða; lítilsháttar af einhverju ætilegu. „Nú þyrftum við að fara að róa til fiskjar. Það verður að eiga einhverja ætisögn til vetrarins“.
Ætiþang / Ætiþari (n, hk/kk) Æt þangtegund; ætur þari. Nokkrar þangtegundir hafa verið nýttar til manneldis, s.s. söl og marínkjarni. Stundum er heitið notað yfir klóþang eða blöðruþang. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal nefnir reimaþara, kerlingareyra, marinkjarna og bjöllu, sem dæmi um ætiþara.
Ætíð (ao) Alltaf; sífellt. Þetta orð var að jafnaði notað í Kollsvík fyrrum, en samheitaorðið alltaf heyrðist sjaldnar. „... var þá skútan búin að losna fjórum sinnum yfir daginn, en ætíð þegar við ætluðum að fara að hífa inn, fattaði hún aftur“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). „Líði þér ætíð sem best“ (Bréf AK til VÖe í júní 1941).
Ætla (s) Ætlast/hyggjast fyrir. „Ég ætla að skreppa og sækja þetta“. B. Hyggja; ætlast til. „Ég ætla að þeir muni koma bráðlega“. C. Ráðstafa; gera ráð fyrir. „Það þarf að ætla þessum skepnum nægt fóður yfir veturinn“. „Ég ætla honum að sofa í betra rúminu“. „Afli þótti lítill og ætluðu menn á áhöfnin hefði viljað losna frá veiðunum“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). Fyrri tíma framburður var „attla“ og „öttluðu“, og var t.d. þannig í munni Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi og stundum barna hans einnig.
Ætla (einhverjum) (eitthvað) (orðtak) Telja/álíta að einhver muni gera eitthvað. „Ég ætla honum ekki þá heimsku að samþykkja svona lágt tilboð“.
Ætla á (orðtak) Treysta á; sjá fyrir; ímynda sér. „Það getur verið erfitt að ætla á hann; stundum kemur hann þegar maður á síst von á“.
Ætla sér (orðtak) Ætlast fyrir; áforma. „Ég ætla mér helst að ljúka þessu í dag“.
Ætla sér af (orðtak) Ofgera sér ekki; færast ekki of mikið í fang. „Hægðu nú á þér drengur! Þú verður að ætla þér af á úteftirleiðinni ef þú ætlar að reka féð aftur norður“.
Ætla sér borð fyrir báru (orðtak) Fara ekki í það ítrasta; gæta hófs; ætla sér af. Sjá hafa borð fyrir báru.
Ætla sér ekki dul (orðtak) Vilja ekki blekkja sjálfan sig; vilja ekki vera fávís. „Ég ætla mér ekki þá dul að hann reyni ekki að svara fyrir sig á einhvern hátt“.
Ætla sér um of (orðtak) Færast of mikið í fang; gleypa sólina; ætla að gera meira en raunhæft er.
Ætla skal borð fyrir báru / Ætíð skal ætla borð fyrir báru (orðatiltæki) Merkir bókstaflega að skynsamlegt sé að hlaða bát ekki meira en svo að hann hafi fríborð til að taka við öldu og veltingi. Notað í líkingum um það að hafa vaðið fyrir neðan sig; að t.d. eiga afgang/varasjóð til að mæta óvæntum útgjöldum. Sjá hafa borð fyrir báru.
Ætlar mig lifandi að drepa (orðtak) Er að fara með mig; er mér mjög erfitt. „Þessi flensufjandi ætlar mig lifandi að drepa“. „Hættið nú þessum hávaða strákar; þið eruð mig alveg lifandi að drepa“.
Ætlast ámeð/um (orðtak) Giska á; meta. „Það er ómögulegt að telja féð á þessum hlaupum; við verðum að ætlast eitthvað á um fjöldann“. „Þú þarft að ætlast eitthvað á þetta með tímann, svo ég geti látið hann vita“. „Það er dálítið erfitt á að ætlast með fjöldann“. „Er nokkuð á að ætlast hvenær þú kemur til baka“?
Ætlast fyrir (með) (orðtök) Hyggjast fyrir; meina. „Hvað skyldi hann ætlast fyrir með þennan bílskrjóð“?
Ætlast til (orðtak) Vænta; gera kröfu um. „Ég ætlas til að hann skili þessu“. „Þú ætlast þó ekki til að ég fari og sæki þetta fyrir þig“?!
Ætlast til mikils af (einhverjum) (orðtak) Vnta mikils af einhverjum. „Það er nú ekki hægt að ætlast til mikils af svona strákpjökkum“.
Ætlunarverk (n, hk) Það sem maður ætlar að gera.
Ætt (n, kvk) Kynstofn; hópur skyldra einstaklinga. Um getur verið að ræða ætt manna og kvenna sem eiga sameiginlegan förföður eða formóður, s.s. Kollsvíkurætt. Eða tegundir í lífríki sem eiga margt sameiginlegt líffræðilega. Eða tungumál sem eiga margt sameiginlegt/ sameiginlegan uppruna.
Ættaður (l) Kynjaður; af tiltekinni ætt; skyldur fólki á tilteknum stað. „Hann er ættaður af Ströndum“.
Ættarfylgja (n, kvk) Eign; kvilli; skapbrestur; draugur eða annað sem liggur í/fylgir ættum. Sjá kynfylgja.
Ættareinkenni (n, hk) Það sem þykir einkenna ætt/skyldmennahóp. Sjá ættarhávaði og ættarskalli.
Ættargripur / Ættargull (n, kk) Hlutur sem erfst hefur frá einu skyldmenni til annars í langan tíma.
Ættarhávaði (n, kk) Hugtak sem gjarnan þykir loða við margt fólk af Kollsvíkurætt og er þekkt innan ættarinnar sem Kollsvíkurhávaði, sjá þar.
Ættarhöfðingi (n, kk) Sá sem nýtur mestrar virðingar í ætt; talsmaður skyldmennahóps.
Ættarjörð / Ættaróðal / Ættarsetur (n, kvk) Jörð sem verið hefur í eigu sömu ættar um langan tíma. „Segja má að allar jarðir í Kollsvík séu ættarjarðir Kollsvíkurættar; sér í lagi höfuðbólið Kollsvík, sem verið hefur í eigu ættarinnar frá búsetu Einars Jónssonar, ættföður Kollsvíkurættarinnar“. Heitið ættaróðal er að því leyti frábrugðið að um erfðir og eignarhald óðalsjarða giltu um tíma sérstök lög.
Ættarmót (n, hk) A. Ættarsvipur; svipmót sem þykir einkenna skyldmennahóp/ætt. B. Samkoma/mót skyldmenna. „Höfundur þessarar samantektar kom á fót ættarmótaþjónustu við félagsheimilið Þjórsárver í Villingaholtshreppi; fyrstu þjónustustarfsemi af því tagi. Fullbókað var hvert sumar í áraraðir af slíku“.
Ættarnafn (n, hk) Sameiginlegt nafn sem einkennir skylda einstaklinga, oftast eftirnafn sem einhver tekur sér og aðrir tileinka sér. Þannig tók Jón Thoroddsen skáld frá Reykhólum fyrstur upp ættarnafn sitt sem fjölmenn ætt ber í dag; kenndi sig við föðurnafn föður síns, Þórðar Þóroddssonar beykis. Kollsvíkingar fyrr á tíð kenndu sig sumir við víkina og notuðu ættarnafnið Kolvíg. Enginn ber það í dag svo vitað sé.
Ættarskítur / Ættleri (n, kk) Sá sem er illa í ætt skotið/talinn lakari/óæðri en aðrir í hans ætt. „Ég ætla mig nú engan ættlera þó ég hætti að styðja þennan flokk“.
Ættarsómi (n, kk) Sá sem er sinni ætt til sóma/virðingar.
Ættarskalli / Ættarkollvik (n, kk/ hk, fto) Líkamseinkenni sem þykja prýða marga karlmenn af Kollsvíkurætt eru skallamyndun tiltölulega snemma á ævinni. Sumir nefna það há kollvik eða ættarkollvik, jafnvel eftir að flest hár eru horfin af hvirfli. Jafnan situr þó eftir kragi neðantil þó lítið fari fyrir ennistoppi. Undantekningar eru þó frá þessu einkenni.
Ættarskítur / Ættleri (n, kk) Sá sem er illa í ætt skotið/ til skammar fyrir ættina/ stingur í stúf í ættinni. „Mér er sama hvar menn eru í pólitík, en mér finns að sá sé árans ættarskítur sem hefur engar skoðanir á málum“!
Ættarsvipur /Ættareinkenni (n, hk) Einkenni/líkindi skyldmenna sömu ættar. „Sumir álíta að há kollvik, þykk neðrivör, töluverður hávaði og áberandi einþykkni sé ættareinkenni einhverra af Kollsvíkurætt“.
Ættartal / Ættartala / Ættbók (n, hk/kvk) Registur ættar; ættrakning. T.d. Kollsvíkurætt Trausta Ólafssonar.
Ættartengsl (n, hk, fto) Ættfræðileg tenging/vensl skyldfólks.
Ættbálkur (n, kk) Ætt; stórfjölskylda.
Ættbogi (n, kk) Ætt; ættartré. „Út af hænunni Stínu átti ég mikinn ættboga af hænsnum..“ (SG; Alifuglarækt).
Ætterni (n, hk) Ættfræðilegur uppruni; staðsetning í ættum. „Veistu eitthvað um hans ætterni“?
Ætternissvipur (n, kk) Svipmót sem þykir lýsa skyldleika við ætt.
Ættfaðir (n, kk) Sá sem ætt er rakin til. „Einar Jónsson er óumdeildur ættfaðir Kollsvíkurættarinnar“.
Ættfróður (l) Fróður um ætt; fær í að rekja ættir fólks.
Ættfræði (n, kvk) Það viðfangsefni að rekja ættir fólks. „Ekki get ég talist sterkur á svellinu í ættfræði“.
Ættfæra (s) Rekja ættir; staðsetja í ætt. „Hann var ekki lengi að ættfæra hana“.
Ættgengur (l) Sem gengur í ættum/ leggst í ættir. „Þetta mun vera ættgengur sjúkdómur“.
Ættgöfugur (l) Kominn af höfðingaætt/ virtu fólki. Notað með lotingu áðurfyrr, en nú fremur í háðstón.
Ætti ekki að opna munninn mikið / Ætti ekki að segja mikið (orðtök) Um það sem annar segir; ætti að þegja. „Ég held að hann ætti ekki að opna munninn mikið um sóðaskap hjá öðrum, fyrr en hann hefur lagað til í kringum sinn eigin bæ“.
Ættingi (n, kk) Skyldmenni; sá sem er af tiltekinni ætt. „Ég komst að því að hann er ættingi minn“.
Ættjarðarást (n, kvk) Væntumþykja í garð síns heimalands; ást á ættjörðini. Var mjög áberandi þegar sjálfstæðisbarátta Íslands stóð sem hæst; ekki síst í jarðvegi ungmennafélaganna og frumkvöðla þeirra. „Vaknaðu svanni og vaknaðu sveinn/ svo vormenn að megii ykkur kalla;/ hefjið upp fánann og heitið hver einn/ með honum að sigra eða falla./ Þá drengskap þið kveikið og ættjarðarást./ Sá eldlegi viti mun hvarvetna sjást“ (VÖe; Ísland).
Ættjarðarljóð (n, hk) Lofkvæði skálds til föðurlands síns eða heimaslóða.
Ættjörð (n, kvk) Heimaslóðir; heimaland; föðurland; föðurtún; móðurjörð.
Ættkvísl (n, kvk) Grein ættar.
Ættleiðing (n, kvk) Um það þegar foreldrar ganga barni í móður- og föðurstað og fá lagalegan rétt til þess.
Ættleri (n, kk) Svarti sauðurinn í ætt; sá sem þykir vera ætt sinni til minnkunar/skammar.
Ættliður (n, kk) Kynslóð; einstaklingar sömu ættar sem eru jafnlangt komnir frá ættföður/ættmóður, í kynslóðum talið.
Ættlægur (l) Sem liggur í ættum; sem einkennir ætt. T.d. erfðasjúkdómur.
Ættmenni (n, hk) Ættingi.
Ættmóðir (n, kvk) Kona sem ættir eru raktar til.
Ættrækinn (l) Sem heldur góðum samskiptum við skyldmenni sín.
Ætur (l) Sem unnt er að borða að skaðlausu. „Hvönnin er vel æt, en sumum finnst hún beisk á bragðið“.
Ætur biti (orðtak) Matarbiti. „Það er ár og dagur síðan ég smakkaði ætan bita“!
Ævagamall (l) Mjög gamall/forn; sem verið hefur marga mannsaldra.
Ævarandi (l) Sem varir að eilífu; sem alltaf er; sífelldur.
Ævareiður (l) Mjög reiður/illur/fúll. Merkir í raun að vera reiður alla ævi.
Ævi (n, kvk) Líftími; aldurskeið þess sem lifir. Orðstofnin er annarsvegar „æ“ sem merkir sífellt og hinsvegar „vara“ eða „vera“; semsé tíminn þegar maður er alltaf til.
Æviár (n, hk) Ár/hluti úr ævi/lífi einhvers.
Ævifélagi (n, kk) Félagsmaður í félagsskap um aldur og ævi. Það tíðkast í sumum félögum að valdir einstaklingar eru skráðir ævifélagar og þurfa þá e.t.v. ekki að greiða árgjöld eins og aðrir.
Ævikvöld (n, hk) Elli; efri ár; síðustu ár lífsins.
Ævilok (n, hk, fto) Dauði; andlát; endir ævinnar.
Æviminning / Ævisaga (n, kvk) Minning frá fyrri æviárum.
Ævinlega (ao) Alltaf, án undantekninga. „Milli jarðanna Kollsvíkur annars vegar og Grunda hins vegar skilur Áin, sem svo er ævinlega nefnd“ (Örnefnaskrá Kollsvíkur). Orðið var töluvert notað í máli Kolsvíkinga.
Ævintýr / Ævintýri (n, hk) A. Óvæntur/æsilegur atburður. „Við lentum þarna í nokkrum ævintýrum“. B. Smásaga með mjög lygilegum blæ. T.d. sögur sem Grimms bræður söfnuðu eða íslenskar þjóðsögur.
Ævintýralegur (l) Sem líkist ævintýri. „Vorum við svo öll mætt til skólans að loknu þessu ævintýralega jólafríi“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Æviskeið (n, hk) Hluti úr ævi.
Ævistarf / Ævistreð (n, kk) Vinna á lífsleiðinni. „Garðar, tóftir og tún vitna um ævistreð dugnaðarbænda fyrri tíðar. Slíkar minjar á að varðveita eins vel og unnt er“.
Æxla (s) Frjóvga; láta vaxa; auka; styrkja.
Æxlast (s) Þróast; vindur fram. „Hlutirnir æxluðust þannig að ég fór í smíðina en hann leysti mig af í bústörfum á meðan“.
Æxli (n, hk) Hnútur/kýli á/í líkama. Getur verið t.d. graftaræxli eða krabbameinsæxli.
Æxlun (n, kvk) Getnaður; fjölgun einstaklinga.
Æxlunarfæri (n, hk, fto) Kynfæri; þau líffæri sem þarf til æxlunar, oftast önnur hjá kvenkyni en karlkyni.