Hér segja Kollsvíkingar frá ýmsu sem á daga þeirra hefur drifið.  Hér er m.a. brugðið upp lifandi myndum af því samfélaginu í Kollsvík þegar fjölmennast var, á fyrri hluta 20.aldar.

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti).
Frásagnir Jónu Valgerðar Jónsdóttur  Fróðleg lýsing lífshátta og lífsbaráttu fyrir 1900.
Annir og eljusemi   Guðrún Össurardóttir fvar ung í Kollsvík 1910-1927.
Æskuminningar   Ingvar Guðbjartsson segir frá sinni æsku og búskap í Kollsvík; f 1925.
Bernskuminningar  Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir lýsir uppvextinum á Láganúpi; f 1928.
Vakandi æska   Einar Guðbjartsson ritaði þessa hugvekju í blað Umf Vestra 1930-40.
Veðmálið   Páll Guðbjartsson frá Láganúpi segir líflega frá metingi bænda haustið 1946.
Stöðvaðir af kafbáti  Sigurvin Össurarson frá Kollsvík lenti í ævintýrum stríðsins vorið 1941.
Bernskuminningar  Guðbjartur Össurarson frá Láganúpi lýsir æskuárum þar; f 1954.

 

Frásagnir Jónu Valgerðar Jónsdóttur

jona valgerdurHöfundurinn:  Jóna Valgerður Jónsdóttir (31.01.1878-31.03.1961) fæddist á Hnjóti; dóttir Jóns Torfasonar og Valgerðar Guðmundsdóttur.  Ellefu ára gömul fór hún að Kollsvík árið 1889, en síðar vann hún víða sem vinnukona, t.d. hjá Markúsi á Geirseyri; séra Þorvaldi í Sauðlauksdal; Gísla Guðbjartssyni á Grænumýri; Guðbjarti bróður sínum í Breiðuvík og hjá hjá Pétri Ólafssyni,  á Patreksfirði.  Hún giftist Jónasi Jónssyni og eignuðust þau 8 börn.  Valgerður fór í vinnumennsku til Flateyjar og Svefneyja; síðan aftur á Patreksfjörð, en árin 1914-1921 bjuggu þau Jónas á Hnjótshólum.  Árið 1921 flutti fjölskyldan að Keflavík og tveimur árum síðar að Dufansdal, Rauðsstöðum og Auðkúlu í Arnarfirði.  Jónína Hafsteinsdóttir skráði æviatriði Jónu Valgerðar í grein í Árbók Barðastrandasýslu árið 2018, undir heitinu "Sjálfsævisaga Jónu Valgerðar Jónsdóttur frá Hnjóti í Örlygshöfn". 
Hér er gripið niður í sjálfsævisögu Jónu Valgerðar árið 1889, þegar hún var 11 ára.  Þremur árum áður hafði faðir hennar selt Magnúsi Árnasyni og konu hans, Sigríði Sigurðardóttur hluta Hnjótsjarðarinnar.  Fór svo að Anna Guðrún, systir Jónu Valgerðar varð ólétt eftir Magnús, og var dóttir þeirra Hildur Magnúsdóttir, sem síðar giftist Guðbjarti Guðbjartssyni á Láganúpi.  Hefst frásögnin þar sem Jón Torfason hefur komist að framhjáhaldinu og er ekki blíður við Magnús:

Það var eina nótt um skammdegið, stuttu fyrir jólin, að ég vaknaði við mikinn hávaða. Það var myrkur í baðstofunni. Ég var afar hrædd. Ég heyrði að það var faðir minn sem ávarpaði einhvern og var mikið niðri fyrir, með þessum orðum: „Ef þú ferð ekki undir eins þá... –  eða viltu bíða að ég komi?“ Þá heyrði ég aðra rödd sem ég líka þekki. „Ég er að fara.“ Þá segir faðir minn: „Þér er það líka best og ef þú kemur aftur þá muntu muna eftir því“  og það vissi ég að hann sagði satt því hann var karlmenni mikið og þungur í skapi. Ég heyrði að hann var kominn fram úr en móðir mín vann hann með góðu að fara upp í aftur. Ég gat alls ekki sofnað aftur og ég hugsa enginn okkar. Svo nokkru síðar kom ég að þar sem þær móðir mín og systir voru á tali. Ekki heyrði ég hvað þær töluðu en Anna grét. Daginn eftir fór bróðir minn, Hákon, með bréf út að Breiðuvík til Guðbjartar bróður okkar, hann bjó þá þar. En yfir fjall varð að fara og kom hann aftur á öðrum degi frá.

Eftir það var afar fátt á milli nábúanna og fór mig nú að gruna hvað var að gerast og á skírdag þennan sama vetur fór systir mín alfarin að heiman til bróður síns í Breiðuvík. Móðir mín fylgdi henni á leið og lengi var hún og oft var ég búin að gá hvort hún kæmi ekki. Svo fór að skyggja og enn var hún ókomin. Þá sagði faðir minn mér að fara yfir á Kryppu, svo hét fell er skyggði á leiðina. Þar voru setin lömbin á sumrin. Þar var líka hústóft er við lékum okkur er  við börnin  vorum að sitja hjá. Í henni sat móðir mín. Ég gekk til hennar, lagði hendur um háls henni og beiddi hana að koma heim og sagði: „Þó Anna sé farin áttu þó mig eftir og ekki skal hann Magnús ná mér.“ Móðir mín var sein til svars. Í þá tíð var miklu meira veður gjört úr svona hneyksli en nú þó ekki séu nema 45 ár síðan þetta var og sumarið eftir átti systir mín stúlkubarn. Hún er enn á lífi, gift kona og á fjölda barna.

„Já“, ansar móðir mín, „nú vill faðir þinn ekki búa hér lengur í nábýli við þennan mann og nú höfum við verið hér 45 ár eða síðan ég var 20 ára og held mér leiðist að fara héðan og svo get ég ekki haft litla Bjarna með okkur.“ Ég sagði: „Því getum við það ekki, við eigum hann þó?“ Móðir mín sagði: „Ó, nei, við eigum hann ekki, hann Páll á hann og hann tekur við jörðinni hérna og hún gamla Þrúða, móðir hans.“  „En hvert eigum við þá að fara?“ sagði ég. „Hann bróðir þinn, Torfi, hefur boðið okkur til sín og þangað förum við í vor“.

Þetta sama vor í fardögum fluttum við frá Hnjóti alfarin að Kollsvík í sama hreppi til bróður míns, Torfa, er þar bjó með konu sinni, Guðbjörgu. Þau eignuðust 11 börn og svo dó hann; drukknaði á annan í páskum 1904 en í Kollsvík fluttum við 1889. Ég var þá tólf ára. Torfi sótti okkur á fjórum hestum. Eitthvað af dótinu fór sjóveg. Þrúður gamla og litli Bjarni fylgdu okkur út fyrir túngarð. Ég gekk alla leiðina en móðir mín reið á reiðveri en faðir minn var kominn út eftir fyrir fjórum vikum og var að byggja nýja baðstofu fyrir Torfa. Þegar við loks fórum að fara niður af heiðinni var komið fast að lágnætti og sólin að því komin að setjast í hafið og slá gullnum bjarma á hlíðar og háu klettana sem eru þar. Það kvöld sá ég með þeim fegurstu og mun seint því gleyma.

Bærinn, eða öllu heldur bæjartóttirnar, sem allar voru hlaðnar úr grjóti og torfi og mold, stóðu fast upp við hlíðina undir Núpnum og hrundi grjótið oft úr klettunum ofan að bænum, helst í leysingum.  Túnið var allt orðið grænt.  Fólkinu var öllu kasað saman í eitt hús.  Í því var loft og var sofið uppi og niðri í flatsængum meðan á byggingunni stóð, en karlmennirnir sváfu í búðum við sjóinn.  Þeir reru hvern dag er gaf; fjórir á hverjum báti.  Voru það árar og segl en ekki vélar (þær þekktust ekki) sem knúðu þá áfram, og veiðarfærin voru færi.  Stundum reru þar 15 bátar; komu víða að og gerðu sig út frá sumarmálum og til tólf vikur af sumri.  Þá fóru þeir heim til sín með harðfiskinn, en þorskur var saltaður og verkaður eins og enn (um 1930) gerist.  Einn maður sótti suður úr Hergilsey á fjögra manna fari og fór aftur eftir vorið með skreiðina suður fyrir Bjarg; allt í Eyjar. 

Um sláttarbyrjun var flutt í nýju baðstofuna.  Hún var portbyggð og sofið og setið uppi.  Hún var tíu álnir á lengd, en ekki nema fjórar á breidd og þrjár álnir í krossa undir loftinu.  Í þeim eina (vegg) sem sneri fram á hlaðið var þil og tveir fjögra rúða gluggar; annar uppi, hinn niðri.  Þar var þiljað hús, ætlað gestum.  Í hinum endanum var búr og eldavél; ein sú fyrsta þar í víkinni.  Líka var eldhús inn af göngum og var þar oft matarkyns á haustin.  Þar var soðið slátur á hlóðum; steiktar flatkökur og steikt hlóðabrauð undir potti og bakað við moð; soðinn hvalur og fleira.  Í rjáfrinu var rá og á hana var raðað lundaböggum og magálum.  Oft var þar reykur og svæla.  Frammi í göngunum stóð matkvörnin og stór steinn er barinn var á fiskur og öll bein handa kúm, fé og hestum. 

Í sjö ár var ég nú þarna hjá bróður mínum, Torfa; oft ekki nema ein vinnukona.  Reyndar var eitthvað gefið með mér fyrstu tvö árin, en úr því fór ég að fá kaup.  Ekki var það nú mikið.  Ungu stúlkunum nú myndi finnast það ósannindi, en satt var það nú samt:  Árið sem ég var fermd voru það þrjár krónur og árið eftir átta krónur, en svo komst það upp í 20 krónur.  Líka var alin fyrir mig ein kind, og svo sjö álnir vaðmáls og tvennir sokkar.  Ekki þurfti ég að leggja mér til skóleður.  Það var bara steinbítsroð, og mátti maður fá af því eftir vild.  Aðeins á jólum og páskum fékk maður skinnklæði.  Öll skinn voru höfð í sjóklæði, brækur og skinnstakka.  Þá þekktust ekki stígvél nema á mönnum sem voru á fiskiskútum á haldfæraveiðum og voru þá úr leðri; gúmmí þekktist ekki.  Útlenda skó eignaðist ég ekki fyrr en 22 ára.

Vinna mín þessi sjö ár var það helsta á sumrum smala, vor og sumar og haust; kvöld og morgna, því þá voru nú fráfærur.  Og svo öll sveitavinna eins og þá tíðkaðist.  Á vetrum hirti ég kýrnar; sótti vatn og malaði í handkvörninni allt útákast og korn í brauð.  Og á hverjum degi að berja bein í fullt trog fyrir kýrnar.  Alltaf sex steinbítshausa og mikið af þorskhausum.  Þess á milli að prjóna, kemba ull og spinna.

Mataræði á þeim árum var í mörgu öðruvísi en nú er.  Ég las nýlega (um 1930) í Hlín um mataræði í Mývatnssveit.  Nú ætla ég að setja hér um mataræði á Vesturlandi á þessum árum; í víkunum við Látrabjarg á árunum 1888 til 1887.  Á sumrin var skyr alltaf í morgunmat og áfir útá.  Þetta var skammtað í aska er tóku þrjár merkur fyrir kvenfólk, og fjórar merkur fyrir karlmenn.  Svo var kaffi um hádegi og nýr soðinn fiskur og flóuð undanrenning á kvöldin.  Á vetrum var bjargfugl saltaður, soðinn í súpu; eða steinbítur og kartöflur eða lýsi við.  Flóuð undanrenna á kvöldin og bygggrautur, en til miðdags harðfiskur, rúgbrauð og bræðingur; lýsi og smjör brætt saman.  Á hátíðum var betri matur, helst á nýári.  Þá var skammtað í stór mjólkurtrog og átti maður lengi bita af því til að grípa í.  Sumir voru svo sparsamir að það entist til þorrabyrjunar.

Um menntun mína og uppfræðslu á þeim árum get ég verið fáorð.  Eftir að ég varð tólf ára var ég hjá kennara; vanalega sex vikur á vetri.  Ég lærði Helgakver utan að, og Biblíusögur.  Líka að skrifa og reikna og lesa; annað var ekki kennt og annars ekki krafist í þá daga, og með það lagði ég út á lífsbraut mína til að byggja ofan á það er reynslan kenndi mér.

Annir og eljusemi

gudrun ossurard

Höfundurinn:  Guðrún Össurardóttir (16.08.1910-09.09.2003) fæddist og ólst upp í Kollsvík.  Dóttir hjónanna Önnu Guðrúnar Jónsdóttur og Össurar Antons Guðbjartssonar, bænda þar.  Fjölskyldan flutti að Mýrum í dýrafirði árið 1927.  Þar gekk hún í Núpsskóla og síðan í Húsmæðraskóla á Ísafirði.  Árið 1931 giftist hún Stefáni Rósinkrans Pálssyni söðlasmið (30.07.1895-17.01.1978), og bjuggu þau lengst af á Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði.  Þau eignuðust sex börn.  Á efri árum fluttu þau á höfuðborgarsvæðið, þar sem þau bjuggu til æviloka.  Guðrún mundi vel sínar æskustöðvar í Kollsvík og voru þessar hugleiðingar birtar á ættarmóti afkomenda hennar.

Móðir mín hét Anna Guðrún Jónsdóttir, fædd á Hnjóti í Örlygshöfn 22. maí 1872; dáin 2. maí 1967.  Foreldrar hennar voru Valgerður Guðmundsdóttir og Jón Torfason.  Systkini mömmu voru fimm:  Guðbjartur, giftur Sigríði Össurardóttur frá Hvallátrum; Kristrún, gift Pétri Hjálmarssyni; Torfi, giftur Guðbjörgu Guðbjartsdóttur; Hákon, giftur Málfríði Guðbjartsdóttur; og Jóna Valgerður, gift Jónasi Jónssyni.  Guðbjörg og Málfríður voru systur Össurar, þannig að þau þrjú systinin frá Kollsvík voru gift öðrum þremur systkinum frá Hnjóti.

Foreldrar mínir áttu saman 12 börn, en mamma átti auk þess dóttur; Hildi Magnúsdóttur, áður en hún giftist pabba.  17 ára að aldri fer mamma að heiman í fyrsta sinn til Guðbjartar bróður síns og Sigríðar konu hans í Breiðavík.  Þar fæddist Hildur, en faðirinn tók hana og var hún hjá honum og konu hans að Hnjóti rúmt ár.  Þetta var erfitt ár fyrir mömmu, og sagði hún síðar að þetta hefði verið erfiðasti kafli lífs síns; átti hún þó eftir að eiga margar erfiðar stundir.

Eftir þetta fer mamma til Torfa bróður síns og Guðbjargar konu hans, sem þá voru farin að búa á hálfri Kollsvík.  Að skömmum tíma liðnum giftust þau pabbi og mamma og tók hún þá Hildi til sín og ólst hún upp með okkur systkinunum upp frá því.  Pabbi var þá búinn að vera nokkur ár fyrir búi móður sinnar; Magðalenu, sem dó 1897.

Pabbi og mamma byrjuðu sinn búskap í gamla torfbænum hans afa, og fékk hann nokkuð af Kollsvíkurjörðinni til ábúðar.  Þar fæddumst við öll systkinin.  Pabbi stundaði sjóinn með búskapnum.  Hann átti bát sem hét Guðrún og fjögra manna far.  Einnig litla skektu sem hét Bára, er notuð var í stuttar sjóferðir.  Það þurfti nokkuð til að metta alla þessa munna, en aldrei heyrði ég pabba tala um að þetta hefði verið erfitt.

Á haustin, þegar búið var að flytja áburð á túnið, var tekið til við að elta skinn í sjóklæði, því allt var þetta heimagert í þá tíð.  Það þurfti að sinna skepnum; reka fé til beitar og eftir að snjóa festi var staðið yfir því fram á dal, meðan bjart var af degi.  Eftir áramót var strax farið að sauma sjóklæði og var það mikil vinna.  Pabbi spann hrosshár í reipi og fléttaði þau.  Um páska eða fyrr var farið að huga að því að lóðir og önnur veiðarfæri væru í lagi; tjarga báta og mála, sem og margt fleira er laut að sjóferðum.

Mér þótti vænt um umsögn Trausta Ólafssonar í Kollsvíkurætt, en þar segir hann svo:  „Össur var, sem margir fleiri, einyrki með stóran barnahóp, en fárra líki að þoli og kjarki við vinnu; jafnt á sjó og landi“.

Ég man ekki eftir pabba óvinnandi sex daga vikunnar, en á sunnudögum var ekki róið.  Kom hann þá heim, las húslesturinn og tók þá bók í hönd og las.  Þó kom það fyrir ef vel leit út með veður, að farið var með lóðir og þær lagðar.  Þegar landlegur voru var pabbi óðara kominn heim og farinn að vinna.  Stundum, þegar farið var að taka upp mó, kom hann með einn eða fleiri af hásetum sínum og var þá rifið upp af krafti.  Ef veðrið batnaði var svo rokið til sjávar; báturinn settur á flot og stefnt á sjóinn.

Mamma var að mínu mati fyrirmyndar húsmóðir.  Hún var nostursþrifin, hagsýn, nýtin og ekki síst var hún stjórnsöm og kjarkmikil með afbrigðum þegar á reyndi.  Eitt atriði vil ég minnast á um nýtni hennar.  Á vorin, þegar hrognkelsin fóru að veiðast, tók hún fallegustu grásleppuhrognin; þvoði þau vandlega; tók sterkustu himnuna utan af þeim; lét þau í stóran trédall; síðan máttum við krakkarnir sitja við með stóra trébullu; svipaða strokkbullu, en mikið styttri.  Við gátum setið við þetta, en helst mátti ekki sjást hrogn sem ekki var sprungið þegar hætt var. Þá síaði hún þetta á grisju og lét það gjarnan hanga yfir nóttina á köldum stað.  Síðan var þetta sett í pott og hitað að suðu, en þá hljóp það.  Þá var mysan síuð frá; osturinn settur í léreftspoka og pressaður undir fargi.  Þetta var fínn ostur ofan á brauð og borðuðum við hann með bestu lyst og varð gott af.  Ekki vissi ég um neina konu sem gerði þetta nema mömmu.

Dísa systir mín sagði mér frá öðru atviki.  Hún mundi svo margt frá löngu liðnum árum.  Á heimili mömmu var barnakennari sem kenndi eldri systkinum mínum og fleiri börnum.  Um mömmu sagði hann:  „Alveg er ég hissa á hvað hún Anna getur gert góðan mat úr litlum efnum“.

Mömmu féll aldrei verk úr hendi og ég get mér þess til að ekki hafi alltaf verið langur svefntíminn meðan eldri systkinin voru ung.  Þegar Valdimar, sem var elstur bræðranna, var 13 ára og Magðalena 14 ára fóru þau bæði til sjós með pabba og giltu þau bæði sem einn háseti til hlutar.

Mamma sagði mér eitt sinn frá því er ég var fullorðinn, þegar pabbi reri ásamt öðrum í Kollsvík í góðu veðri.  Þegar leið á daginn rauk upp með rok og vonskuveður.  Það voru allir bátar lentir nema pabbi, og þá var komið stórbrim og óttast var um hann.  Var þá ekki orðið lendandi í Kollsvík.  Í tvö dægur beið mamma milli vonar og ótta.  Eflaust hefur hún beðið marga bænina til himnaföðurins um hjálp þessi tvö dægur, enda var hún bænheyrð.  Þá lægði sjóinn og sást þá lítill bátur koma siglandi fyrir Blakkinn.  Auðvitað var það báturinn hans pabba.  Hann hafði séð þegar illviðrið skall á að hann myndi ekki ná landi í Kollsvík, og sigldi því undan veðri til Suðureyrar í Tálknafirði.  Ekki var hægt að láta vita um sig því enginn var síminn.  Það var tekið þarna við þeim tveimur höndum; þurrkuð föt þeirra og borinn fyrir þau matur.  Þarna var hvalstöð og pabbi þekkti þessa menn; flestir voru þeir Norðmenn.  Pabbi lét þá hafa fiskinn sem hann var með, en þeir fylltu bátinn af hvalkjöti og rengi.  Meira að segja tók hún Lena af sér svuntuna og fylltu þeir hana af brauði og kexi.  Og mikil var gleðin þegar heim var komið. 

Foreldrar mínir urðu fyrir þeirri miklu sorg að missa son sinn, Össur Anton, 3ja ára að aldri af slysförum.  Hann var fæddur 9. desember 1908 en dó 14. apríl 1911.  Vilborg Torfadóttir sagði mér frá honum á þessa leið:  „Hann var efnilegt barn; ljóshærður með sítt glóbjart hár og eins og engill; svo bjart var yfir honum.  Hann kom út í hús til okkar og fór með margar vísur sem hann kunni“. 

Með þessu ætla ég að hætta í þetta sinn.  Vonast til að geta bætt um betur seinna og bið ykkur vel að virða.

Æskuminningar

ingvar gIngvar Jón Guðbjartsson (31.05.1925 – 14.05.1999) fæddist á Grund í Kollsvík.  Var bóndi á Stekkjarmel frá 1953 til 1962, er hann flutti að Kollsvík þar sem hann stundaði búskap til 1971.  Þá fluttist hann í Kópavog og hóf vinnu hjá Jarðborunum ríkisins.  Kona Ingvars var Sigurlína Jóna Snæbjörnsdóttir frá Kvígindisdal, og eignuðust þau 5 börn.  Ingvar var flestum fróðari um sögu og staðhætti í Kollsvík, og góður sögumaður.  Þessi minningarbrot tók hann líklega saman á efri árum, og eru þau hluti af nokkru safni úr hans fórum.

Minningar um foreldra og systkini

Eitthvað minnisstæðasta um pabba er þegar hann tók okkur með oft á sunnudögum út að Litlavatni og heim Hnífa.  Sérstaklega var það seinnipart sumra til að skoða féð; hvaða kindur við sæjum og hvað lömbin höfðu stækkað.  Svo að vetrinum að fara í fjárhúsin niðri við sjó, og þá í leiðinni að ná i nokkra kubba; og þegar pabbi saumaði á mig brók. 

Minnisstæðasta atvik gagnvart mömmu er þegar ég fór mína fyrstu ferð úr víkinni.  Þá fór hún inn á Tóftir, en þar bjuggu, þá orðin gömul; Kristrún systir ömmu og Pétur, afi Kitta í Hænuvík.  Tóftirnar voru efst í túninu á Sellátranesi.  Við Össur fengum að fara með henni.  Farið var gangandi og gist á Tóftum, og svo var komið við í Hænuvík hjá Ólöfu systur mömmu á heimleiðinni.

Annað atvik var að vori.  Allir við róðra og við öll komin í rúmin, en mamma þurfti oft að vera á fótum fram á nótt.  Þegar hún ætlar að fara að sofa varð hún þess vör að kviknað var í þakinu á bænum út frá leirrörum sem voru frá eldavélinni.  Ég minnist þess mest hvað hún var róleg.  Fyrsta sem hún gerði var að senda okkur út í skemmu með sængurfötin okkar.  Svo fór hún að reyna að slökkva eldinn.  Svo vel vildi til að hún hafði sótt vatn út í brunnhús um kvöldið.  Það bar hún upp á bæinn og hellti niður með rörunum.  Rétt í þessu kom Júlli neðan af Rana, en hann hafði séð reykinn úr bænum.  Hann hjálpaði mömmu að slökkva í glóðunum í torfþakinu.

Ingveldur, en ég heiti eftir henni og manni hennar Jóni sem var dáinn, var hjá pabba og mömmu mörg sumur.  Hún hélt mikið upp á mig og sá um öll föt á mig fram yfir fermingu.  Henni þótti ég oft mikill sóði og jarðvöðull.  Hún sagði einusinni:  „Það er ég viss um að Ingvar lærir aldrei að halda sér uppúr skítnum.  Það er munur en hann Össur; það sér aldrei á honum“!  Hún mátti segja þetta, en aðrir hefðu fengið orð í eyra.

Tveimur atvikum ætla ég að segja frá; þegar ég gekk fram af nöfnu minni, eins og ég kallaði hana.  Eitt sinn var hún að þvo ullina, eins og hún gerði alltaf, norður við Torfalæk.  Ullin var þvegin úr keytu; þ.e. hlandi sem safnað var í tunnu og kom í stað sápu, og skoluð síðan í læknum.  Nú var ég orðinn votur yfir haus af að bera hreinu ullina upp á mel þar sem hún var þurrkuð.  Þá datt mér allt í einu í hug að best væri að fara í bað.  Ég lagðist í lækinn neðan við ullarþvæluna og veltist þarna í læknum.  Gamla konan varð svo hissa að hún sagði ekkert, en settist síðan á bakkann og veltist um af hlátri.  Í þetta skipti týndi ég fyrsta vasahnífnum sem ég eignaðist, og þó ég leitaði í mörg ár fann ég hann aldrei.

Annað sinn voru Gunna og nafna mín að raka fyrir ofan bæinn.  Við Össur áttum að bera heyið niður á sléttu.  Mér fannst þetta leiðinlegt og erfitt, svo ég fór að stinga mér kollhnís niður alla brekku með föngin.  En það vildi verða lítið eftir af heyi þegar niður kom, svo ég fékk lítið þakklæti fyrir hjá nöfnu.

Fríðu systur man ég ekkert eftir, enda ekki nema rúmlega tveggja ára þegar hún dó.

Einari man ég sérlega vel eftir; þegar hann kom heim af vertíð og færði mér fyrstu bókina sem ég eignaðist, en það voru Börnin frá Víðigerði.  Þá bók á ég enn.

Magga man ég hvað best þegar Palli fæddist, en þá svaf ég hjá honum niðri í stofu.  Þegar mamma var búin að eiga barnið og farin að hressast sótti Maggi mig út á tún og vildi að ég skoðaði þennan grip.  En ég hafði ekki áhuga og fór ekki nema upp í stigagatið og lét hlerann hvíla á mér og fór ekki lengra, þrátt fyrir fortölur.  Þá man ég vel þegar Maggi kom einusinni úr siglingu á Vatneyrartogaranum, að hann færði mér klofstígvél; en þá voru flestir vermenn enn í skinnklæðum.  Þetta þótti stór viðburður og allir strákarnir í Víkinni, en þeir voru nokkuð margir þá, þurftu að prófa; og auðvitað var farið uppfyrir.

Dóri hafði gaman af að gera at í okkur.  Hann átti tóma dós undan grammofónnálum og hafði ég mikinn áhuga á dósinni.  Hann gaf hana fala ef ég syngi fyrir hann.  Svo söng ég, en Dóri veltist um af hlátri.  Dósina fékk ég, en síðan hef ég ekki sungið nema ég væri kenndur eða einn uppi á fjalli.

Mörgum atvikum man ég eftir með Gunnu.  Eitt var það að ég átti stórt og þykkt súkkulaðistykki frá nöfnu minni, en frá henni kom eiginlega eina sælgætið sem kom á heimilið.  Gunna bað mig að sýna sér stykkið og ég varaðist ekkert en gerði það.  Allt í einu skellti hún skoltum á stykkið, og það undraði mig mest hvað hún náði stórum bita.  Ég man samt ekki til að ég reiddist.  Seinna skiptum við á stykkinu og góðri pennastöng, en hún ætlaði að hætta að skrifa eftir fermingu.

Það var verið að þurrka hey uppi á Hólum.  Mamma var með Össur, sem sat við flekkina.  Hann sótti í að éta sand og lambaspörð.  Ég átti að líta eftir honum, en mér fannst að hann mætti bara éta þetta ef honum finndist það gott!

Lífshlaupið í Kollsvík

Ég er fæddur að morgni hvítasunnudags 31.maí 1925, í blíðskaparveðri að því er mér er sagt.  Á móti mér tók Magdalena Össurardóttir móðursystir mín.  Þá bjuggu foreldrar mínir á Grund, sem er smá nýbýli úr Láganúpslandi sem Samúel Eggertsson skrautritari og kennari hafði stofnað og búið á í nokkur ár.  Þarna man ég ekki eftir mér.  Við fluttum að Láganúpi vorið 1927, þá var ég um það bil tveggja ára.  Í gamla bænum á Láganúpi átti ég heima fram á sumar 1934, en þá var flutt í hús sem flutt var af Rana og heim að Láganúpi.

Leikir okkar voru árstíðabundnir.  Veturnir voru einkum notaðir til að renna sér á sleðum eða skautum, en þeir voru úr tré með gjarðajárni að neðan og bundnir með snæri.  Skíði pantaði Einar frá Noregi; furuskíði, bindingalaus.  Þau kostuðu 5 krónur sem Ingveldur hafði gefið mér um jólin, en þá var ég níu ára.  Á vorin rerum við á járnbala í sandinum í Stóragilinu.  Fiskbein voru notuð fyrir fisk.  Einnig var leikið í hornabúi með horn og bein og byggingar yfir þau.  Inni var leikið með kuðunga og skeljar sem sótt var í fjöruna, en það var einnig mjög eftirsótt að ganga á reka.  Þá var stundum sigið í Hjöllunum af þeim sem því þorðu, en ég var notaður til að halda við bandið. 

Stundum var reynt að veiða rauðmaga í fjörupollunum.  Á sumrin var lítill frítími, en hann var notaður í brönduveiðar eða veiðar á vorseiðum í fjörupollunum.  Þegar kom fram í endaðan júlí var farið að athuga með berin.  Þá var líka tíðkað að fara í heimsóknir á aðra bæi; einnig að koma saman og fara í boltaleik og útilegumannaleik þegar fór að dimma.

Þegar voraði var nóg að gera.  Þá tók sauðburðurinn við og við urðum að smala út í Breiðavík, ekki sjaldnar en annanhvern dag.  Við vorum oftast hundlaus því Urta sem pabbi átti var bæði löt og svikótt.  Hún notaði fyrsta tækifæri til að svíkjast frá okkur, svo við urðum að gelta eins og hundar.  Það þurfti að hirða féð er því var sleppt og reka frá mýrunum kvölds og morgna.  Það eru mínar leiðustu minningar frá unglingsárunum.  Við vorum berlappaðir og rollurnar voru tregar til að hreyfa sig. 

Þá komu líka karlmenn í verið til róðra; venjulega í fyrstu viku sumars.  Þá var að fara með mat í verið; sækja fisk í soðið og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður og koma þeim í þurrk.  Þeir voru ýmist seldir eða bleyttir upp og barðir fyrir skepnurnar næsta vetur.  Þá var eitt skylduverkið að keyra fiskslorið í kerru úr Verinu og heim að Láganúpi.  Þar var það látið rotna í tunnu og síðan var það blandað með vatni og notað sem áburður.

Með haustinu komu göngur og slátrun og þá ný horn til að leika sér með.  Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag; sækja vatn bæði fyrir heimilið og kýrnar, eftir því sem geta og vilji náði, og fara með pabba að gefa fénu.  Það var í fjárhúsum við sjóinn til ársins 1941 þegar byggð voru fjárhús á Láganúpi.

Ég man ekki eftir neinum átökum við lestrarnám, en læs var ég þegar ég fór að heiman.  Það var frekar snemma eftir því sem þá tíðkaðist því kennt var á Rana og því stutt að fara, en kennt var að hálfu í Kollsvík og svo að Látrum.  Þrjá vetur fyrir fermingu fylgdi ég kennaranum að Látrum og var þá fyrri tvo hjá Guðbjarti Þorgrímssyni og Guðmundínu, en einn hjá Daníel og Önnu.  Alla barnafræðslu fékk ég hjá Kristjáni Júlíusi Kristjánssyni, sem var mjög góður kennari.

Á Hvítasunnudag vorið 1939 var ég fermdur í Sauðlauksdal, ásamt 5 öðrum börnum úr sveitinni; eftir viku dvöl og undirbúning hjá séra Þorsteini Kristjánssyni í Sauðlauksdal.  Eftir fermingu fór ég að róa með Einari bróður mínum og pabba, og rerum við vorið og sumarið.

Næsta vetur var ég í Vatnsdal hjá Ólafi Thoroddsen, en næsta vor var ég við róðra og síðan sumarið í kaupavinnu á Hnjóti hjá Ólafi Magnússyni móðurbróður mínum.

Næst var gerð tilraun til náms veturinn 1944-45 á Núpi í Dýrafirði, og gekk það sæmilega.  Um vorið byrjaði ég síðan róðra frá Gjögrum með Einari bróður, og byggði einnig húsið á Gjögrum, en um sumarið var ég í kaupavinnu á Hnjóti.  Næsta vetur var ég á Kirkjubóli íi Önundarfirði, hjá Stefáni Guðmundssyni.

Vorið 1947 lærði ég á bíl á Ísafirði.  Þessu næst sótti ég um vist í Samvinnuskólanum haustið 1947 en fékk aldrei svar við því.  Seinna kom í ljós að umsóknin komst aldrei til skila, og þar með var tilraunum mínum til mennta hætt að fullu; að umdanskildu því að ég tók meirapróf bifreiðarstjóra haustið 1947.

Ég reri um vorið með Einari og fór síðan einn túr á togaranum Gylfa frá Patreksfirði.  Líkaði mér það vel og ætlaði að vera áfram, en fékk brjósthimnubólgu og var frá vinnu um sumarið.  Fór til Reykjavíkur um haustið og vann í sælgætisgerðinni Víkingi um veturinn.  Var í smíðum um vorið og heyskap um sumarið í Saurbæ hjá Sigurvin Einarssyni.  Ég var á Patreksfirði frá áramótum 1947 til hausts í kaupfélaginu.  Ók þá steinbítshausum, afgreiddi í búðinni og gerði það sem til féll.

Síðan fór ég til Reykjavíkur um haustið; tók meirapróf og réðist til strætisvagna Reykjavíkur um áramót.  Þar var ég fram í byrjun maí, en þá kom verkfall.  Fór ég þá með Gunnari Össurarsyni austur í Laugarás og var við smíðar þar fram í endaðan júni, þegar ég fór á síld á Keflvíkingi og var þar til hausts.  Fór þá heim um haustið og var heima til vors.  Var í Saurbæ hjá Sigurvin vorið og sumarið.  Næsta vetur var ég í Reykjavík en sumarið eftir var ég aftur í Saurbæ.

Veturinn 1950-51 var ég á Láganúpi.  Þá vorum við fimm í víkinni; pabbi, mamma, Helgi, Sigrún og ég.  Í mars næsta vetur, árið 1952, kom Árni Helgason í heimsókn um helgi.  Þá fór ég að Kvígindisdal og við Jóna giftum okkur í Sauðlauksdal.  Séra Gísli Kolbeins gifti okkur í stofunni í gamla húsinu.  Viðstödd voru foreldrar Jónu; presthjónin og móðir frúarinnar.  Daginn eftir tók Pétur mjólkurpóstur okkur við Klettinn og flutti okkur út að Nesi, en þaðan löbbuðum við heim um kvöldið. 

Á Láganúpi vorum við til vors 1953, en þá fluttum við á Stekkjarmel.  Byggðum við þar fjárhús og hlöðu fyrir tæp 200 fjár og fjós fyrir 4 gripi og gerðum við íbúðarhúsið.

Vorið 1961 fluttum við að Kollsvík og bjuggum þar í 10 ár, til haustsins 1971, en þá fluttum við í Kópavog.  Síðan hef ég unnið við jarðboranir og tíminn hefur liðið án áfalla eða stórviðburða.

Bernskuminningar

frida gudbjartsdottir 2Höfundurinn:  Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir (13.12.1928-28.02.2008) fæddist og ólst upp á Láganúpi.  Hún gekk í kvennaskóla á Blönduósi; stundaði ýmis störf í Reykjavík, en fluttist 1957 að Kvígindisdal, er hún giftist Val Thoroddsen.  Þau eignuðust 5 börn; Sigurjón Hauk; Hildi; Snædísi; Önnu og Magnús, en fyrir átti Fríða dóttur; Eyrúnu. Fríða, sem af sumum kunnugum var kölluð Lilla, og Valur bjuggu lengst af í Kvígindisdal og höfðu þar búskap, en fluttu síðan í Borgarnes.  Endurminningar þessar ritaði hún til birtingar í Niðjatali Hildar og Guðbjartar á Láganúpi; foreldra sinna, en Eyrún dóttir hennar vann ötullega að útgáfu þeirrar bókar árið 1989.

Ég alein hef setið hér alllanga stund,
og upplifað bernskunnar daga.
Þá kom svo margt fram sem kætti lund;
þá kom þessi örstutta saga.
H.F.G. 

Við yngstu systkinin; bræður mínir þrír, Ingi, Öddi og Palli, og ég vorum oft að leika okkur úti í Gili, sem er örstutt frá húsinu hér á Láganúpi.  Þar var slétt ógróið svæði sem var tómur sandur; hvítur og hreinn.  Þetta höfðum við fyrir snjó.  Ég átti nú að heita húsmóðirin í Gilinu, en bræður mínir stunduðu þarna sjóinn af kappi.  Þeir bjuggu sér til báta úr spýtukubbum og ýmsu dóti, en fiskurinn sem þeir veiddu var aðallega fiskibein sem voru þarna á stöku stað í sandinum.  Þegar komið var að landi var aflinn borinn upp og saltaður með þurrum sandi, og farið að öllu eins og þeir fullorðnu gerðu í Verinu.  En þar vorum við að heita mátti daglega meðan róðrar stóðu yfir á vorin, því það þurfti að færa þeim mat sem voru á sjónum þegar þeir komu í land, og var það hlutverk okkar barnanna.  Ég ætla nú að rifja upp eina af mörgum slíkum ferðum er við fórum systkinin, á árunum kringum 1940.

Við áttum að fylgjast með ferðum bátanna, og þegar við sáum til þeirra á leið í land áttum við að fara af stað með matinn.  Við fórum norður Melarandir, eins og venja var þá.  Fyrsti farartálminn var Torfalækurinn, en það voru stillur í honum svo það var gott að komast yfir hann.  Síðan komum við að Miðlæknum; hann var nú svo lítill að þar gátum við stokkið yfir.  Nokkru fyrir norðan Miðlækinn var Áin.  Í henni voru líka stillur; tveir stórir steinar sem hægt var að stökkva á.  Í raun og veru voru þetta nú ekki miklir farartálmar að sumrinu, en gátu orðið það að  vetrinum.  Þegar við vorum komin yfir Ána þurftum við oftast að stansa til að fá okkur að drekka úr Mikkupytlunni, sem var lítil uppspretta norðan við Ána.  Í þessa lind sóttu þau alltaf vatn til heimilisnota; Mikkalína föðursystir okkar og Karl maður hennar, en þau bjuggu þá á Stekkjarmel.  Þegar við vorum búin að svala þorsta okkar var ferðinni haldið áfram og var farið fyrir neðan girðingu á Stekkjarmel, sem í daglegu tali var kallaður Kallamelur, utan í ábúandann.  Þar sem við lónuðum þarna norður með Stekkjarmelnum fórum við að svipast um, hvort gömlu hjónin væru sjáanleg nokkursstaðar utan dyra.  Það var föst venja hjá þeim, ef þau urðu vör við okkur fara hjá, að koma niður að girðingu til okkar og gefa okkur kandís, sykurmola eða rúsínur.  Þetta þáðum við náttúrulega með bestu þökkum, því það var nú ekki svo mikið um sælgæti í þá daga.  Ef þau voru ekki sjáanleg úti, þá tókum við það ráð að hósta eins hátt og við gátum og fórum þá ekki hratt yfir landið; ef vera mætti að þau veittu okkur athygli.  Oftast bar þetta tilætlaðan árangur, og kom þá gamla konan með eitthvað gott í svuntuvasa sínum og gaf okkur.  Þau hjónin voru mestu gæðasálir; bæði við börn og alla sem þau umgengust.

sg verid 2(Málverk Sigríðar Guðbjartsdóttur á Láganúpi af börnum á leið í Verið, að færa vermönnum mötuna).

Nú urðum við að halda áfram þennan stutta spotta sem eftir var í Verið, því bátarnir voru um það bil að lenda og ekki máttum við koma of seint með matinn til sjómannanna.  Bátarnir voru lentir og byrjað að setja þegar við komum í Verið, svo við flýttum okkur eins og við gátum, að koma matnum fyrir inni í verbúðinni sem pabbi og tveir eldri bræður okkar, Einar og Dóri, héldu til í á meðan róðrar stóðu yfir.  Svo var spretturinn tekinn niður í fjöru, þar sem þeir voru að setja bátinn; við gátum hjálpað til við að bera hlunna.  Áður en sjómennirnir fóru að gera að, fengu þeir sér að borða.  Oftast var soðinn nýr fiskur og lifur á prímus, sem þeir höfðu til að hita kaffi.  Við fengum alltaf að borða með þeim, og aldrei fannst mér fiskur og lifur betri en þegar ég borðaði í Verinu.  Við máttum oftast dvelja í Verinu meðan pabbi og bræður okkar voru að gera að og ganga frá fiskinum.  En að því loknu fóru þeir að þvo sér og svo að sofa, því þeir tóku daginn oftast snemma ef sjóveður var.  Við tókum saman ílát og annað sem við áttum að taka með okkur heim, og ekki máttum við gleyma fiskipokanum.  Þegar steinbíturinn var orðinn nógu harður fengum við alltaf nokkur strengsli með okkur.  Þau voru nú ekki alltaf heil þegar heim var komið, því við stóðumst ekki freistinguna að smakka þetta lostæti á leiðinni heim.

Já, það var oft ævintýri líkast að koma í Verið.  Þar hittum við börnin af hinum bæjunum í Víkinni, og gátum þá leikið okkur ef tími var til.  Á þessum tíma var búið á 6 bæjum í Kollsvíkinni, og nokkur börn voru á þeim flestum.

Þótt lífsafkoma Kollsvíkinga byggðist að miklu leyti á því að vel aflaðist á vorvertíðum, var þó búskapur stundaður á öllum bæjum.  Það var því hlutverk húsmæðra að sjá um búið; auk sinna vanalegu starfa, meðan róðrar stóðu yfir; frá sumarmálum og fram að slætti.  Þann tíma fluttu allir vinnufærir karlmenn í Verið, og komu ekki aftur heim nema á sunnudögum og ef landlegur voru.

Þau voru því mörg, störfin sem mamma þurfti að inna af hendi; ekki síst þegar þess er gætt að börnin voru mörg og með fárra ára millibili.  auk þeirra voru oftast eitt eða fleiri börn hjá þeim í sumardvöl.  Þá var svo margt sem þurfti að gera, sem nú er löngu lagt af.  Þegar hugsað er til baka og jafnframt hugsað til kvenna nútímans, með öll þau þægindi sem nú bjóðast, finnst manni næsta óskiljanlegt hvernig hún gat annað öllum sínum störfum og jafnframt veitt okkur börnunum þá athygli, ástúð og þolinmæði sem við nutum hjá henni.  Um þetta leyti var Gunna systir farin að heiman til vinnu annarsstaðar, en hún hafði verið aðalaðstoð mömmu frá því hún fór að geta unnið.

Vorið er aðalannatíminn í sveitum, og svo  var einnig þegar ég var að alast upp.  Um sauðburðinn þurfti að smala á hverjum degi, og jafnframt vitja fjárins að nóttu.  Mótekja fór fram að vori; það var erfitt og tímafrekt starf.  Þá þurfti að vinna kartöflugarðana og setja niður; vinna á túnum og hreinsa þau.  Keppst var við að vera búinn að smala til aftektar og ganga frá ullinni fyrir slátt.  Oftast var reynt að nota landlegudaga til smalamennsku og aftektar.  Ingveldur Ívarsdóttir frá Hænuvík, sem bjó á Stekkum á Patreksfirði, kom alltaf úteftir og sá um ullarþvottinn fyrir mömmu; mörg sumur var hún einnig við heyskapinn.  Aðra utanaðkomandi hjálp man ég ekki eftir að hún fengi.  Ullarþotturinn fór fram við Torfalækinn.  Vatn var hitað upp að suðu, á hlóðum í stórum potti; í það var blandað keytu, en hún var notuð í staðinn fyrir sápu.  Þá var ullin sett í pottinn og þvæld í nokkurn tíma; síðan tekin upp í körfu og skoluð vel í læknum.  Að því loknu var hún borin upp á Torfamel og breidd þar til þerris.  Þegar ullin var orðin þurr var valið úr henni til heimilisnota, og hin hreinsuð og látin í poka til sölu.  Ullarþvottinn þurfti að vinna af mikilli vandvirkni.  Oftast vorum við krakkarnir að reyna að aðstoða Ingveldi, aðallega við að bera ullina upp á þurrkvöll.  Mamma þurfti að hafa til mat og föt á hverjum degi til að senda sjómönnunum í Verið, þegar þeir komu í land.  Þá þekktist ekki annað en að baka öll brauð og kökur heima.  Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í mat.  Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni.  Áfunum sem komu þegar strokkað var, og mysunni af skyrinu, var safnað í tunnu og látið súrna.  Af áfunum kom þykk hvít sýra.  Í smástraum var hún við botn tunnnnar, en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið.  Var hún höfð til matar; ein sér eða höfð út á graut.  Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda.

Allan þvott þurfti að þvo á bretti; bera svo í körfu út í brunnhús og skola hann þar og vinda í höndum.  Má nærri geta að það var ekki lítið verk, á svo fjölmennu heimili.  Síðast en ekki síst þurfti hún að annast barnahópinn sinn; sjá þeim fyrir fæði, gera þeim skó, prjóna sokka og sauma allar flíkur.  Og ekki var alltaf úr miklu að spila, hvorki til matar né fatagerðar.  Fyrir ein jól man ég eftir að hún saumaði mér kjól úr peysufatasvuntunni sinni.  Ég minnist þess að hún talaði um hvað þeir Maggi og Einar væru oft búnir að borga sér, með hjálpsemi og gjöfum, klæðispilsið sitt, sem hún tók eitt sinn fyrir jól til að gera þeim úr buxur.

Já, það var oft langur vinnudagurinn hjá elsku mömmu minni, en ekki man ég eftir að hafa heyrt hana kvarta um erfiðan né langan vinnudag.  Hún vann öll sín verk, hvor sem það var úti eða inni, af alúð og samviskusemi.  Hún fór fyrst á fætur á morgnana og síðust í rúm að kveldi, svo maður getur rétt ímyndað sér að hún hefur oft lagst þreytt til svefns.  Og oft kom fyrir að hún var við störf fram á nætur.  Ég man eftir að ég vildi helst ekki fara að sofa fyrr en um leið og mamma.  Ég mátti helst aldrei af henni sjá, þegar ég var lítil og fram á unglingsár.  Því fannst mér það mikið mótlæti við mig, þá tíu eða ellefu ára gamla, eitt sinn er ég fékk ekki að fara með henni norður í Tröð, en hún fór þangað oft að heimsækja Sigrúnu systur sína sem bjó þar.  Með þeim systrum var alla tíð mjög kært, og mikill samgangur á milli heimila þeirra.

Hún sagði svo vel frá að maður gleymdi stund og stað, og lifði sig inn í ævintýrin sem hún var að segja okkur.  Pabbi las líka oft sögur fyrir okkur á kvöldin, þegar við vorum lítil.  Hann las svo skemmtilega að það var ekki hægt annað en taka eftir hverju orði.  Honum þótti mjög gaman að lesa upphátt.  Ég man eftir að hann las stundum fyrir mömmu, þegar hún var að spinna eða prjóna á kvöldin að vetrinum.  Þeim þótti báðum gaman að lesa góðar bækur, og ég held að þau hafi sjaldan farið að sofa á kvöldin án þess að líta í bók, þegar þau voru lögst á koddann; þótt langt væri liðið á kvöld, og þau þreytt eftir erfiði og önn dagsins.

Það sem ég hef sett hér á blað er ekki nema smá brot af öllum þeim góðu og skemmtilegu minningum sem ég á frá minni yndislegu æsku, og um okkar ástkæru foreldra.

Vakandi æska

einar gEinar Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) var fæddur Láganúpi í Kollsvík og ólst þar upp.  Stundaði búskap  og sjómennsku með foreldrum sínum og systkinum, og var öflugur drifkraftur í því mikla félagslífi sem þá var á svæðinu.  Hann var um skeið kaupfélagsstjóri á Gjögrum og vann eftir það við kaupfélög víða um land; síðast lengi við Kaupfélag Borgnesinga og bjó í Borgarnesi ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Kollsvík, og dóttur, Maríu Jónu Einarsdóttur. 

Ritgerð þessi er skrifuð af Einari á þeim árum sem drift var í ungmennafélögum; e.t.v. til birtingar í Geisla, sem var blað Umf Vestra í Útvíkum.  Vera kann að ritgerðin hafi átt að vera lengri, um það verður ekki sagt nú.  Einar flíkaði ekki sínum verkum, jafnvel ekki hinum afbragðsgóða kveðskap.  Ekki verður sagt um ritunartímann, en eftir efninu gæti hann verið milli 1930 og 1940.  Hér er um hugvekju að ræða, sem lýsir líklega mjög vel andblæ og kjarna umgmennafélaganna; einlægni og bjartsýni sem þar ríkti; trú á fólkið og framtíðina.  Sannleik sem ekki er síðri í dag en á fyrri tímum.   (VÖ)  

Ekkert er jafn óstöðvandi og tíminn.  Með ómælanlegum hraða fleygist hann áfram og gerir það gamalt sem einu sinni var ungt.  Breytingar breytast.  Maður tekur við af manni; kynslóð af kynslóð.  Skyldur ráðandi kynslóðar hljóta að vera þær að varðveita hið besta úr arfi liðinna kynslóða og auka þar við nýjum verðmætum.  Með því einu getur þróun átt sér stað.  En að þróun sé höfuðtilgangur jarðlífsins sannar mannkynssagan, og þau brot úr sögu jarðlífsins sem við þekkjum 

En saga mannkyns sýnir okkur, að þó að heildarútkoman sé þróun þá hafa mörg víxlspor verið stigin í baráttu þess upp á við, gegnum aldirnar.  Hin neikvæðu öfl sem allstaðar eru að verki til að tefja framsóknarbaráttuna, hafa dregið þjóðir sem hæst stóðu í menningu niður í vesaldóm og spillingu.  Hvað veldur þessu?  Liggur ekki beinast við að álykta að sú kynslóð sem við átti að taka hafi ekki reynst fær um að ávaxta og bæta þau verðmæti sem feður hennar höfðu aflað?  Hvernig hljóðar saga okkar þjóðar í þessu efni?  Í fyrstu nokkrir herskáir víkingar, sem engin lög eða réttlæti þekktu nema hnefaréttinn.  Næsta kynslóð fann gallana sem þessu fylgdi og myndaði lýðræði; sem að vísu hafði sína galla, en þó miklu meiri yfirburði.

Og kynslóð þeirri sem lýðveldið myndaði leið vel, og með henni þróuðust listir og bókmenntir.  En svo gerðist hin gamla harmsaga:  Seinni kynslóðir kunnu ekki að meta það sem fólst í verkum hinna eldri; og í stað þess að bæta hið gamla skipulag, urðu gallar þess hinu unga lýðveldi að falli.  Og nú hófst hin langa harmsaga íslensku þjóðarinnar, sem ykkur er kunn og verður ekki rakin hér.

En góðir félagar; það hefur litla þýðingu að fella harða dóma yfir löngu liðnum feðrum okkar.  Á okkur hvílir síst minni ábyrgð en þeim.  Við höfum aftur fengið lýðræði, sem er á ábyrgð komandi kynslóða að gæta.  Og við höfum fengið tækni sem færir oss nær umheiminum.  Gegnum útvarpið heyrum við bergmál af hjartaslögum þjóðanna, og baráttu hinna bestu manna fyrir viðhaldi og aukning sameiginlegra menningarverðmæta alheimsins.  Hér er því þörf fyrir æskumanninn að vera vakandi.  Ekki aðeins í innanlandsbaráttunni fyrir frelsi og lýðræði; heldur og í baráttu allra jarðarbúa fram til þróunar, verður honum falið hlutverk að vinna.  Og undir framkvæmd þess hlutverks, hversu smátt sem það kann að vera, er það komið hvort við „göngum til góðs, götuna fram eftir veg“. 

Við megum því ekki láta matarstritið beygja okkur, þó það með köflum kunni að reynast erfitt, svo að við fyrir þá sök gleymum því sem æðra er; og ekki heldur glápa út í loftið á eitthvað óhlutrænt, sem við vitum ekki hvað er. 

Nei:  Vakandi æska býr sig ótrauð berjast með þeim mönnum sem vilja gera bestu hugsjón mannkynsins að veruleika.  Ekki með gjálfri fallegra orða; heldur með aðstoð anda og handa.  Og það ber þess ljósastan vottinn að ungmennafélögin eru vakandi æskulýðsfélagsskapur, að samband þeirra hefur tekið til meðferðar mál sem frekast krefja æskumanninn um aðstoð sína.

Veðmálið

pall gudbjartssonKnútur Páll Guðbjartsson (04.08.1931-08.06.2007) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk framhaldsprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík og frekara námi í Stokkhólmi.  Vann ýmis verslunar- og skrifstofustörf; var kennari við Samvinnuskólann á Bifröst og aðalbókari við Kaupfélag Borgfirðinga.  Framkvæmdastjóri Vírnets í Borgarnesi frá 1972.  Páll var giftur Herdísi Guðmundsdóttur; þau bjuggu í Borgarnesi og eignuðust tvö börn, en fyrir átti Herdís eina dóttur.  Páll bar sterkar taugar til bernskustöðvanna og kom þar gjarnan í sínum fríum.  Þessa frásögn skrásetti Páll árið 2003, um það leyti sem hann lauk námskeiði fyrir leiðsögumenn.  Hún lýsir sönnum atburðum í Rauðasandshreppi rúmum 50 árum áður.

Fyrir ríflega hálfri öld gerðist við Breiðavíkurrétt í Rauðasandshreppi atvik það sem ég ætla að rifja hér upp.  Þetta mun hafa verið í fyrstu rétt haustið 1946, en þá var byggðin í nefndum hreppi lítið farin að grisjast frá því sem verið hafði um aldir.  Ennþá fór gangnaseðillinn rétta boðleið um hreppinn í tuttugustu viku sumars, og gangna- og réttardagur til fyrstu réttar var mánudagurinn í tuttugustu og annarri viku viku.  Breiðavíkurrétt var skilarétt fyrir utanverðan Rauðasandshrepp; það er Örlygshöfn, Hænuvík, Útvíkur og Keflavík.  Heimalönd annarra en Breiðvíkinga voru smöluð sunnudaginn fyrir gangnadaginn og óskilafé rekið til skilaréttar að Breiðuvík.  Jafnframt smöluðu Kollsvíkingar Breiðavíkurháls og norðanverða Breiðuvík á leið sinni til réttar.  Látramenn og Breiðvíkingar smöluðu hinsvegar sunnanverða Breiðuvík og Látramenn smöluðu Bjargið.  Sú leit hefur eflaust verið erfiðust, því að enda þótt lagt væri af stað fyrir allar aldir komu leitarmenn af Bjarginu oftast seinastir til réttar.  Í Bjargleitina þurfti að velja menn sem ekki veigruðu sér við að fara niður fyrir bjargbrún á þeim stöðum sem voru vel gengir bandlausum manni; svo sem á Stíginn, í Saxagjá og fleiri staði.  Í Látrabjargi var afar gott haglendi, þar sem það á annað borð var grasi gróið; enda var það ríkulega áborið af fugladriti.  Þaðan skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk.

Einn þeirra manna sem þóttu nánast ómissandi í Bjargleitina var Hafliði Halldórsson á Miðbæ á Látrum, eða Liði eins og hann var kallaður á heimaslóðum.  Liði var með hærri mönnum á vöxt og þrekinn; hæglátur í fasi en gat verið glettinn og spaugsamur.  Hann var annar aðilinn að veðmálinu, en hinn var réttarbóndinn; Guðmundur Kristjánsson í Breiðuvík, oftast kallaður Gummi og stundum Gvendur.  Gummi var lægri og grennri maður en Liði, en kvikur á fæti, ákafa- og dugnaðarmaður, fljóthuga og gat átt það til að vera dálítið fljótfær.  Eins og aðrir sveitungar mínir á þessum tíma voru þeir Gummi og Liði ágætir vinir og lögðu gjarnan hart að sér til að gera öðrum greiða.  Það hindraði þá hinsvegar ekki í góðlátlegum glettum hvors á annars kostnað.

Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu.  Þetta hlé var kærkomið til mannlegra samskipta.  Spurt var almæltra tíðinda, kastast á glensi og gamanmálum og sumir huguðu að afrakstri sumarsins sem birtist í föngulegum og lagðprúðum haustlömbum.  Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum:   „Heyrðu Gummi!  Komdu og líttu á þennan:  Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“?

Það var Liði sem kallaði, þaðan sem hann stóð í almenningnum og hélt í hornið á þokkalegu hrútlambi.  Á augabragði var Gummi kominn að hlið hans.  „Nei fari það í helvíti.  Það kemur ekki til mála að þessi kettlingur hafi 35 punda skrokk.  Það þori ég að veðja um“!

„Jæja“ sagði Liði.  „Viltu samt ekki prófa að taka á kettlingnum og taka hann upp áður en þú veðjar“?  „Ég þarf þess ekki“ svaraði Gummi.  „Ég skal lofa þér fallegustu lífgimbrinni minni í haust hafir þú rétt fyrir þér; og ég skal meira að segja leggja til skotið“!

Þessi orðaskipti höfðu nú vakið athygli þeirra sem næst stóðu, og þar sem allt benti til að þetta væri upphafið að skemmtilegum orðahnippingum þá þyrptust nú flestir réttarmenn að þeim félögum.  Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri.  Upphófst nú mikið skvaldur og voru uppi deildar meiningar um ágreiningsefnið.  Nú hafði mönnum hlaupið kapp í kinn og margir skoruðu á þá Liða og Gumma að ljúka veðmálinu, en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn.  Gummi hafði þegar sett fram hluta af skilmálunum og bætti nú við:  „Ég er tilbúinn að standa við það sem ég sagði áðan, en hafi ég rétt fyrir mér fæ ég skrokkinn af þínu lambi“.

„Ég tek þessum skilmálum“ sagði Liði, og þar með var veðmálið ákveðið.  Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína; hníf, reislu og önnur nauðsynleg áhöld.  Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til.  Þegar því lauk stóð Bjarni í Hænuvík með reisluna; tilbúinn að vigta skrokkinn.  Helgi í Tröð og fleiri lásu á hana og staðfestu þar með að Liði hefði unnið veðmálið, þar sem reislan sýndi ríflega 17,5 kg.

Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður.  Í lok þeirra sagði Gummi; svona til réttlætingar því hann varð undir í þetta skiptið:  „Hefði ég vitað að lambið hafði gengið á Stígnum, þá hefði ég hugsað mig betur um“.

Þegar kom að því að gera upp veðmálið var ekki viðhöfð nein smámunasemi.  Liði kærði sig að minnsta kosti ekki um að taka lambskrokkinn með sér heim að Látrum og varð að samkomulagi að Gummi nýtti hann.  Líklegt tel ég hinsvegar að Liði hafi fengið fallega lífgimbur hjá Gumma um haustið, en um það er mér ekki fullkunnugt.

Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru.  Enn í dag hafa menn gaman af að rifja það upp, og fylgir þá gjarnan dálítill eftirmáli sem veðmálið hafði:

Kristján Júlíus, eða Júlli í Tungu eins og hann var kallaður meðal sveitunga, var einn af eldri bræðrum Gumma.  Júlli naut mikillar virðingar meðal sveitunga sinna, enda var hann hinn ágætasti maður og var valinn til ýmissa trúnaðarstarfa fyrir sveitunga sína.  Gummi var á æskuárum sínum nokkuð baldinn eins og títt er um fjörmikla krakka, og á þeim tíma tók Júlli að sjálfsögðu þátt í uppeldi litla bróður síns.  Síðar þótti því bregða fyrir, þegar báðir komust á fullorðinsár, að Júlli hefði ekki vaxið uppúr hlutverki uppalandans gagnvart Gumma.  Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því.  Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu.  Gummi kærði sig kollóttan og lét þetta ekkert á sér festa.

Á þessum tíma voru tvö samvinnufélög starfandi í Rauðasandshreppi og hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur, og hafði verslunarbúð sína og einnig sláturhús að Gjögrum í Örlygshöfn.  Víknamenn; þ.e. bændur úr Útvíkum að meðtöldum Breiðvíkingum, voru flestir með viðskipti sín hjá Sláturfélaginu og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall og til slátrunar á Gjögrum.  Lömbin voru rekin til réttar við sláturhúsið, þar sem þau hvíldust eftir reksturinn og biðu slátrunar sem fór fram hinn næsta dag.  Við slátrunina unnu eingöngu bændur af félagssvæðinu og þeirra heimafólk, og meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu; aðrir en Örlygshafnarbúar sem fóru hver heim til sín.  Þeir sem voru lengra að komnir höfðu með sér nesti og bjuggu við skrínukost, enda var mötuneytisaðstaða engin.

Nú er Gummi kominn á Gjögra og hefur komið lömbum sínum í réttina og er þá sest að snæðingi í kofanum, eins og torfhúsið var oftast kallað.  Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu.  Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa.  Þar sem þetta var í byrjun sláturtíðar þetta haustið, gekk dagsverkið heldur hægar en áætlað hafði verið og voru menn bæði þreyttir og svangir að því loknu.  Þannig hagaði til að Júlli var með þeim fyrstu til að ljúka dagsverki sínu og var þá fljótur til að komast út úr húsi og undir bert loft.  Nú er hann svangur og lúinn að loknu löngu dagsverki og matarlaus, en á eftir að rölta heim til sín um það bil hálftímagang.  Hvíslar þá ekki freistarinn í eyra honum að líklega eigi Gummi bróðir eitthvað ætilegt í skrínu sinni.  Röltir nú Júlli út í kofa; finnur skrínu bróður síns og opnar hana.  Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni; greip einn bitann og skar sér með vasahnífnum vænan munnbita.  Nú voru vinnufélagarnir hins vegar hver af öðrum að losna frá verkum sínum og næsti maður til að opna kofahurðina var einmitt Gummi í Breiðuvík.  Einmitt þegar Júlli hafði stungið upp í sig fyrsta bitanum og tuggði með velþóknun.

Það var haft eftir Gumma að aldrei hefði hann séð eftir bita eða sopa ofan í nokkurn mann, en sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum sem hann hefði áður áfellst sig fyrir að þiggja af Hafliða vini sínum. 

Stöðvaðir af kafbáti

Kollsvíkingar lenda í ýmsum ævintýrum, jafnt á heimaslóðum sem á fjarlægum slóðum.  Hér segir Sigurvin Össurarson frá atviki úr síðari heimstyrjöld í viðtali við Þjóðviljann í mars 1941.

sigurvinSigurvin Bjarni Össurarson (28.03.1907-05.02.1989) fæddist í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar bónda þar og konu hans Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Þau fluttu að Láganúpi 1914 og bjuggu þar til 1927 er þau fluttu að Mýrum í Dýrafirði.  Skólagangan fólst í þriggja vikna farkennslu hjá séra Þorvaldi í Sauðlauksdal, en Sigurvin aflaði sér yfirgripsmikillar þekkingar á eigin spýtur; einkum var málakunnáttu hans við brugðið. Sigurvin flutti til Reykjavíkur 1930 og vann í fyrstu ýmis störf í landi.  Var síðan 10 ár á togaranum Geir, þar sem það atvik gerðist sem hér er lýst.  Sigurvin gerðist róttækur og öflugur félagi í Kommúnistaflokki Íslands.  Ásamt öðrum stóð hann fyrir stofnun Pöntunarfélags Skildinganess árið 1933 og var fyrsti stjórnandi þess.  Hann var vörubílstjóri á stríðsárunum og gerði auk þess út á hrognkelsi.  Á sjötta áratugnum stofnaði hann ásamt fleirum fyrirtækið Ístorg, sem flutti inn vörur m.a. frá Sovétríkjunum og Kína.  Síðar hafði hann lengi umboð fyrir Hellesen rafhlöður á vegum fyrirtækis síns Hnitbergs.  Fyrri kona Sigurvins var Guðrún Helga Kristjánsdóttir frá Grundum í Kollsvík, og eignuðust þau sex börn; en Guðrún lést 1967.  Síðari kona Sigurvins var Zíta Benediktsdóttir og eignuðust þau þrjú börn.  Síðustu ár sín dvaldi Sigurvin löngum að Ási í Örlygshöfn, sem hann eignaðist eftir Gunnar bróður sinn; nærri sínum bernskuslóðum. Þar gerði hann m.a. út á hrognkelsi.

Þjóðviljinn; frétt 21.03.1941: 

Togarinn Geir kom hingað úr Englandsför í fyrrakvöld. Höfðu skipverjar þá sögu að segja að þeir höfðu verið stöðvaðir og skipið rannsakað af brezkum kafbát. Gaf hinn brezki kafbátsforingi þá skýringu á þessu, að hann hefði daginn áður rekizt á þýzkan togara, alvopnaðan, sem hefði verið búinn íslenzkum hlutleysiseinkennum. Hefði togara þessum verið sökkt. Sigurvin Össurarson háseti á togaranum Geir, skýrði Þjóðviljanum frá þessum atburði á þessa leið: 


„Ég átti tal við foringja þann, sem rannsakaði Geir og sagði hann mér alla söguna um þýzka togarann. Síðastliðinn sunnudag, hinn 16. þ. m. vorum við staddir um það bil 30 sjómílur norður af Barrahead á Skotlandi. Veður var gott, mistur í lofti og skyggni slæmt. Þetta var á fimmta tímanum. Um kl. 4,35 sáum við kafbát, sem kom á móti okkur og stefndi á bakborðskinnung. Hann var í lítilli fjarlægð. Við sem á vakt vorum gerðum skipstjóra aðvart og fyrirskipaði hann að allir skyldu vera viðbúnir að fara í bátana. Eftir skamma stund var báturinn þvert af okkur. Hann hélt ferðinni áfram, en er hann var kominn nokkuð aftur fyrir okkur nam hann staðar og hélt kyrru fyrir í nokkrar mínútur.  Síðan sneri hann við og stefndi í áttina til okkar á mikilli ferð, tók hann þá að senda út mors-merki, en þau voru undir sól að sjá frá okkur og gátum við ekki greint annað af merkjunum, en fyrirskipun um stöðvun, og var henni tafarlaust hlýtt.  Þegar báturinn var kominn í kallfæri, heyrðum við að kallað var frá honum: Út með bátana. Var þeirri skipun einnig hlýtt tafarlaust. 
Kafbáturinn var undir brezkum fána, en við töldum víst að hanm væri þýzkur, en sigldi undir fölskum fána. Við töldum víst að togaranum yrði sökkt og ætluðum að róa aftur fyrir bátinn, til þess að verja okkur sprengjubrotum, en þá var gefið merki um að við skyldum hafa samband við bátinn og reri þá bátur skipstjóra til hans. Voru þá tveir kafbátsverjar sendir um borð í Geir. Rannsökuðu þeir skipsskjölin, kváðu þeir að allt væri með feldu og að við mættum fara okkar leið. Kafbátsskipstjórinn og liðsforingi sá, sem rannsakaði skipið, skýrðu þennan atburð hvor í sínu lagi á þessa leið: Daginn áður þ. 15. þ. m. hafði kafbátur þessi hitt togara á þessum slóðum. Togarinn var líkur Geir búinn öllum íslenzkum hlutleysiseinkennum, þar á meðal nýmáluðum fánum á síður.
Þegar betur var að gáð kom í ljós að þetta var þýzur togari vopnaður 2 fallbyssum, djúpsprengjum og tundurduflum. Togara þessum var sökkt. Kafbátsmenn kvöddu okkur með virktum og buðu okkur kaðal til að gera að bátatalíum skipsins og jafnvel mat. Um klukkan 4,55 var þessu ævintýri lokið og við héldum okkar leið og bar ekkert til tíðinda á ferð okkar eftir það. Það er hart að ekki einu sinni hin vopnlausa íslenzka smáþjóð skuli fá að hafa óblettaðan fána sinn í friði án þess að reynt sé að skýla illvirkjunum á hafinu með honum“.

Botnvörpungurinn Geir RE 241 var smíðaður 1912 en gerður út frá Reykjavík milli 1920 og 1946.  Síðan gerður út frá Færeyjum þar til hann var seldur í brotajárn 1952.  Hann var 306 brl, með 550 ha 3ja þrepa gufuvél.

 

Bernskuminningar

___________________________________________________________________________________

GudbjarturOssurarsonGuðbjartur Össurarson er fæddur 16.02.1954 á Láganúpi og ólst þar upp.  Lauk prófi og framhaldsnámi frá Samvinnuskólanum Bifröst og fékkst við skrifstofustörf, m.a. hjá Kaupfélagi A-Skaftfellinga á Höfn.  Stofnaði síðan bókhaldsstofu á Höfn í Hornafirði og rekur hana með konu sinni; Agnesi Ingvarsdóttur, sem þaðan er ættuð.  Um tíma var hann sveitarstjóri á Hornafirði.  Guðbjartur er ljóðskáld gott og hefur verið afkastamikill á því sviði, þó lítt hafi hann flíkað því opinberlega.  Ættfræði kann hann einnig betri skil á en margir aðrir. Þessi minningabrot setti hann á blað í tilefni ættarmóts Kollsvíkinga 2002, eins og fram kemur í upphafi.  

_______________________________________________________________________________________

Páll frændi minn bað mig að bregða hér upp nokkrum minningarbrotum frá bernsku minni í Kollsvíkinni.  Palli á marga greiða inni hjá mér ef út í slíkt er farið og því ekki auðvelt að neita bón hans.  Ég settist því niður og reyndi að draga fram úr djúpi hugans eitthvað sem frásagnarvert væri.

Mín fyrsta bernskuminning – þrátt fyrir að ýmsir hafi orðið til að draga í efa hversu langminnugur ég er – tel ég að sé frá frumbernsku.  Ég lá í rúmi mínu og drakk í rólegheitum úr pela mínum.  Einhver óheppileg viðbrögð urðu til þess að ég missti pelann og hann rann frá mér niður á gólf.  Ég tel mig muna eins og gerst hafi í gær að ég lá þarna í rúminu og hugleiddi hve bjargarlaus mannskepnan væri á þessu stigi tilveru sinnar.  Hversu hún væri upp á aðra komin með alla hluti, því ég var þegar þarna var komið sögu ekki farinn að geta hreyft mig verulega; hvað þá gengið.

Ég ólst upp á Láganúpi, vestasta bænum af þremur sem þá voru í byggð í Kollsvíkinni.  „Fyrir handan“ eins og þarna er málvenja.  Stekkjarmelur var síðan í miðri víkinni, en Kollsvík nyrst, eða „fyrir norðan“ eins og sagt er.  Auk foreldra minna, Össurar Guðbjartssonar og Sigríðar Guðbjartsdóttur, var Guðbjartur Guðbjartsson, föðurafi minn á heimilinu.  Ég man aðeins eftir Hildi ömmu minni Magnúsdóttur á heimilinu, áður en hún veiktist.  Þessi minning mín er svolítið í móðu, enda var ég mjög ungur þegar hún fékk áfall og lamaðist að verulegu leyti.  Ég man þó hversu létt hún var á fæti og fínleg kona og afskaplega góð við mig, eins og hún mun hafa verið við alla aðra.  Þá man ég eftir að þær mæðgur, Lilla föðursystir mín og Eyrún dóttir hennar, dvöldust stundum á heimilinu.  Þótti mér að því mikill fengur, því á okkur Eyrúnu var lítill aldursmunur og lékum við okkur mikið saman.  Fljótlega eftir að ég fór að muna vel eftir mér kom móðuramma mín, Halldóra Kristjánsdóttir inn í heimilið og var hjá okkur í allmörg ár, þar til hún fluttist til Patreksfjarðar.  Hún var fædd og uppalin á Grundum, bæ í víkinni sem kominn var í eyði, en hafði búið á Lambavatni á Rauðasandi öll sín búskaparár.  Auk heimilisfólks voru alltaf börn og unglingar á heimilinu yfir sumartímann, flest þeirra skyld okkur eða tengd. 
Auðvitað naut ég þess að allir stjönuðu við mig þessi fyrstu ár, meðan ég var einn heimilisfastra barna á Láganúpi.  En smám saman fjölgaði okkur bræðrum og ég sat ekki lengur einn að þessum forréttindum.

Á Stekkjarmel bjuggu þau Ingvar föðurbróðir minn og Jóna Snæbjörnsdóttir kona hans.  Við Snæbjörn Ingvarsson erum jafnaldra, en Rut systir hans aðeins eldri, en þó nóg til þess að telja sig sjálfkjörinn fyrirliða okkar.  Ég vorkenndi Snæbirni að eiga þessa eldri systur, því hún ráðskaðist þó bara með mig í sameiginlegum leikjum, en Snæbjörn greyið hafði hana yfir sér allan sólarhringinn.  Ég verð þó að viðurkenna, Rut til hróss, að hún hefur alltaf verið ræktarleg við þennan frænda sinn og fylgdi þar þeirri reglu að „öllu valdi fylgir nokkur ábyrgð“. 

Þá er Kollsvíkurheimilið ótalið.  Þar bjuggu Ólafur Guðbjartsson frændi minn og kona hans, Sólrún Jónsdóttur.  Þau voru nýlega flutt í víkina frá Raykjavík þegar ég man fyrst eftir mér, og áttu mörg börn.  Flest voru þau eldri en ég, en þó tóku Anna og nafni minn stundum þátt í leikjum med okkur yngri krökkunum, auk Trausta sem er aðeins yngri en ég. Þessi fjölskylda bar andblæ borgarmenningarinnar með sér inn i Kollsvíkina, en samlagaðist þó vel sveitungunum. Óli var íhaldsmaður, sem ekki var algengt í víkinni og fyrir milligöngu hans var blaðið Ísafold og Vörður sent til afa. Ekki held ég að það hafi miklu breytt um stjórnmálaskoðanir gamla mannsins, en var ágætis viðbót við Timann sem að sjálfsögðu var aðalblaðið. Óli og Sólrún fluttu síðar til Patreksfjarðar.  Keyptu þau Ingi og Jóna þá Kollsvíkurjörðina og bjuggu þar í mörg ár, eða þar til þau fluttu suður í Kópavog.

Guðbjartur afi minn var einn af föstu punktunum í bernskutilveru minni.  Rúmið hans stóð alltaf á sama stað í gamla húsinu, í fremra herberginu uppi á lofti.  Ekki hafði hann mikið umleikis, koffortið hans stóð til hliðar við rúmið og bókaskápurinn andspænis því.  Koppurinn var undir rúminu og neftóbakspontan og vasaklúturinn alltaf við höndina.  Sömuleiðis stafirnir hans sem við fengum reyndar lánaða á vorin þegar ná þurfti óþægum lömbum.  Sérdeilis þægilegir til að krækja fram fyrir þau og grípa síðan í þau.
Afi var ekki margmáll við okkur krakkana, en sinnti okkur þó oft á sinn hátt.  Hann hafði alltaf gaman af spilum og þó hann nyti sín best í góðra vina hópi að spila vist, þá hafði hann gaman af að spila við ungviðið.  Hann kenndi mér kasínu og marjas, en útreikningurinn vildi stundum vefjast fyrir mér.  Í koffortinu sínu geymdi hann spilin, auk þess sem hann átti þar oft ýmislegt góðgæti sem honum áskotnaðist og gaukaði að okkur krökkunum.  Ég hef grun um að ég hafi notið nafns og því búið við meira eftirlæti af hálfu afa míns en hinir krakkarnir.  Þó fékk ég oft að heyra það þegar ég kom inn til hans og hann spurði hvaða átt væri úti, hvort blika væri til sjávarins eða um skyjafarið og fékk dræm svör.  Á veðurfarinu hafði allt hans líf byggst til lands og sjávar og því ekki von að hann skildi kæruleysið hjá stráknum, sem gleymdi sér í leikjum og ærslum og gaf engan gaum að veðurútlitinu.  Afi las mikið og var minnisgóður með afbrigðum.  Hann gat til dæmis rakið ættir manna í sveitinni og langt út fyrir hana í marga ættliði aftur í tímann og var hafsjór af þjóðlegum fróðleik.  Skáldsögur las hann hins vegar ekki, sagðist ekki hafa nokkurn áhuga á „lygasögum“ eins og hann kallaði þær.  Afi var með afbrigðum fjárglöggur og hafði gaman af fé.  Hins vegar áttu hans hugmyndir um búskap og sauðfjárhald rætur að rekja til gamla tímans og áttu ekki samhljóm í kenningum ráðunauta og nútíma kenningasmiða.  Honum var fremur illa við tvílembur, taldi einlembur heppilegri, því hann vildi hafa lömbin stór og væn.  Sömuleiðis var hann ekki hrifinn af mjallhvítu fé og kollóttu.  Hann vildi halda fé til beitar og stóðum við stundum saman yfir fé að vetrinum.  Í Vatnadalnum, á Hnífunum, eða niðri við sjó þegar fjörubeit var.

Með mínum fyrstu minningum eru gönguferðir með afa.  Hann gekk yfirleitt við tvo stafi, en átti til að sleppa þeim þegar honum var mikið í hug.  Hann hafði mjög gaman af að hlaða úr grjóti, eins og miklar garðhleðslur á Láganúpi, Tröðinni og víðar bera vitni.  Á þessum efri árum hans beindist áhuginn aðallega að vörðuhleðslu, en ófáar þeirra standa enn óhaggaðar, enda var hann góður hleðslumaður.  Þá leyfði hann mér oft að koma með sér og hlaða litla vörðu til hliðar við sína vörðu.  Má finna slíkar „tvíburavörður“ á fleiri en einum stað, sem vitna um þessar framkvæmdir okkar afa.  Þá tók afi sig til á efri árum, endurbyggði gamla tóft niður við sjóinn og setti torfþak yfir.  Þangað voru færð rekatré, sem gamli maðurinn fletti niður í borðvið.  Á þessum árum hafði hann brennandi áhuga á endurbyggingu „Rutar“ sem var gamli báturinn hans og ég hygg að hann hafi hugsað sér að nota borðin í því skyni.  Þarna í „Afakofa“ eins og við kölluðum hann, átti ég margar seturnar á meðan afi puðaði með langviðarsög sína og tréfleyga.

Eitt af fyrstu brotunum í mínu minningasafni er frá deginum þegar komið var heim með Valda bróður minn, nýfæddan.  Lilla frænka mín sá um heimilishaldið í fjarveru mömmu og að sjálfsögðu var Eyrún með henni.  Við vorum hinir mestu mátar og dunduðum margt saman, ýmist tvö ein eða með þeim Rut og Snæbirni.  En þennan umrædda dag löbbuðum við Eyrún upp á gamla túnið og auðvitað þurftum við að vaða út í Sefið – svona rétt til að sulla svolítið.  En Eyrún festist.  Í mikilli skelfingu hljóp ég heim, fór til afa og bað hann aðstoðar.  Hann hefur sennilega haldið að stórslys hafi orðið, en dreif sig með mér og losaði Eyrúnu.  Reyndar var það bara annað stígvélið sem fast var, en við vorum bæði á nýjum stígvélum sem okkur var næstum jafnannt um og okkur sjálf.
Og síðar sama daginn renndi Árni í Tungu í hlaðið á rauða rússajeppanum sínum.  Með honum kom mamma og hafði meðferðis bláa burðartösku.  Mér var leyft að gægjast ofaní töskuna og viti menn – þarna var pínulítið kríli sem öskraði eins og það ætti lífið að leysa.  Nú var ég ekki lengur sá yngsti á heimilinu, sem allrar athygli naut.  Valdi bróðir hafði bæst í hópinn.  Síðan komu þeir hver af öðrum, Hilmar, Egill og Kári yngstur.

Í leikjum okkar krakkanna blandaðist gamli og nýi tíminn.  Þar söfnuðum við að okkur bústofni, horn af lambhrútum voru að sjálfsögðu höfð fyrir hrúta og gimbrarhornin fyrir kindur.  Leggirnir urðu að hestum og kjálkar að mjólkurkúm.  Í melaskörðum í Ytra-Gilinu áttum við svo önnur bú, þar sem skeljar af ýmsum stærðum og gerðum gegndu sömu hlutverkum, þó að ég sé nú farinn að ryðga í hlutverkaskiptingunni.  Í kringum hornabúið var yfirleitt öflugra starf.  Nútíminn birtist þar með tilkomu heimasmíðaðra traktora, vegalagninga og öflugra girðinga, þar sem bandspottar úr áburðarpokum voru hafðir í stað gaddavírs, og staurar gerðir úr tréspýtum.  Klambrað var saman húsum yfir búfénaðinn, hann rekinn á fjall að morgni og sóttur að kveldi og húsaður.  Þarna var heilu dögunum eytt, á milli þess að við vorum kallaðir til smásnúninga, sem fóru vaxandi með auknum aldri.
Í Gilinu var þessi fíni sandur, sem nú er reyndar að verða uppgróinn að mestu.  Gilið hafði jafnframt þann kost að vera rétt hjá bænum.  Þar var yfirleitt ekki haft hornabú, en þeim mun meira unnið að vegagerð og öðrum verklegum framkvæmdum.  Skeljasandurinn var fínn til þeirra verka og ef hann var hæfilega blautur mátti byggja úr honum heilu húsin.  Ef okkur áskotnuðust leikfangabílar, gröfur eða önnur nýmóðins leikföng, voru þau gjarnan notuð í Gilinu og áttu þá stundum til að týnast í sandinn.
Yfir vetrartímann fækkaði leikfélögum, þegar sumarbörn hurfu aftur til heimila sinna og skólagöngu.  Snjór lagðist yfir hornabúið og sandurinn í Gilinu fraus.  En ýmislegt mátti gera í snjónum.  Renna sér á sleða og búa til snjóhús, nú eða fara í snjókast.  Kollsvíkin er ekki snjóþung og við öfunduðum oft krakkana sem áttu heima á bæjum í Patreksfirðinum, þar sem oft urðu til hinir myndarlegustu skaflar.  En þegar ekki fundust nógu stórir skaflar til að grafa sig inní, varð bara að sneiða harðfennið niður í hæfilega bita og hlaða sín snjóhús að hætti eskimóa.

Á mínum bernskuárum voru búskaparhættir í víkinni að breytast óðum.  Ég hygg að tæknibúskapur hafi byrjað þar með tilkomu gamla Farmalsins, sem var í frumbernsku minni ennþá eina dráttarvélin.  Ég hygg að Farmallinn hafi verið keyptur árið 1945 af þeim bændum sem þá bjuggu í Kollsvíkinni.  Sennilega hefur hann komið ósamsettur að verulegu leyti, því fyrst þegar ég man eftir voru enn til trékassar, sem sagðir voru undan pörtum í hann. 
Hann var þó ekki notaður til sláttar, þegar ég fyrst man eftir, en aðallega til dráttar og flutninga.  Enn var slegið með orfi og ljá og rifjað og rakað með hrífum.  Fljótlega kom þó gamla „Bambford“ rakstrarvélin og sömuleiðis var útbúin sláttuvél við Farmalinn, enda var þá byrjað að grafa skurði og færa út tún með nýræktum.  Afkastameiri vinnubrögð urðu að koma til og gamla lagið að víkja.
En þeir sem höfðu alla sína búskapartíð vanist hirðusemi með hvert strá sem jörðin gaf áttu bágt með að horfa á brekkurnar undir Hjöllunum leggjast í sinu, þó að grýttar væru og ekki véltækar.  Það var meira en afi gat þolað.  Hann tók því orf sitt og ljá og pjakkaði með því margar stundir.  Hann lét ekki þar við sitja, heldur tók gamalt orf, stytti það og lagfærði og stytti jafnframt gamlan ljá.  Settist við gamla hverfisteininn sinn, lagði á ljáina og tók mig síðan með sér í sláttumennskuna.
Ég þóttist heldur maður með mönnum.  Komst fljótlega upp á lag með sláttulagið, en auðvitað varð ég sjálfur að brýna ljáinn – annað þótti mér ótækt.  Enn þann dag í dag ber ég merki þess á fingrum mér, hversu brýnið gat verið hvikult og runnið til á egginni.
Afraksturinn eftir þennan orfaslátt okkar afa bárum við niður á nýslegið túnið í smáflekki sem afi kallaði „pentur“ og rifjuðum þá með gamla laginu.  Eitt sem fór afskaplega í taugarnar á afa voru „slæðurnar“ sem rakstrarvélin skildi eftir.  Hann var reyndar ekki einn um það, það fór í taugarnar á pabba og öðrum af hans kynslóð að sjá heytuggurnar liggja vítt og breitt um túnin.  Meðal verka okkar strákanna var að raka þær upp og koma í flekkinn.

Reyndar var fleira en Farmalinn gamli sem tækniöldin hafði breytt í víkinni þegar ég man fyrst eftir mér.  Gamla „Onan“ bensínvélin, sem framleiddi 12 volta rafmagn til ljósa fyrir heimilið var komin til sögunnar, en ekki veit ég hvaða ár hún kom að Láganúpi.  Í dag þætti víst lítið að hafa aðeins ljóstýru í íbúðarhúsinu, ekkert rafmagn til að knýja heimilistæki eða fyrir ljós í útihúsum.  Ég hef sennilega verið orðinn 11-12 ára þegar fyrsta Listerdísilvélin kom til sögunnar og ríkisrafmagnið kom ekki fyrr en um það leyti sem ég fór að heiman.
En þessi ljóstýra dugði til lestar og það þótti manni nú afbragð í skammdeginu, enda legið í bókum þegar nokkur næðisstund gafst.  Í útihúsum voru fyrst notaðar olíuluktir, síðan komu gasluktirnar og þóttu geysileg tækniframför.  Enda gaf birtan frá þeim rafmagnsljósum ekkert eftir.
Meðal notalegustu minninga minna frá bernskuárunum eru frá skammdegiskvöldum – snjór á jörðu og logn.  Að rölta norður á Mel, í fjárhúsin sem pabbi eignaðist þegar Ingi flutti að Kollsvík.  Pabbi hélt á gasluktinni, sem varpaði birtu yfir umhverfið.  Oft var hrútur leiddur með okkur norður og síðan aftur til baka – eftir að hans embættisfærslu var lokið á Melnum.
Kyrrðin var algjör, pabbi niðursokkinn í sinn hugarheim eins og hans var vandi og jafnvel stríðnisglettur okkar bræðra lágu niðri.  Sömuleiðis á ég góðar minningar frá hvíldarstundum eftir gegningar á veturna, þegar sest var á jötubandið, pabbi reykti pípu sína og kindurnar jórtruðu töðuna.

Eins og ég áður hef getið, kom Halldóra móðuramma mín í heimilið á mínum fyrstu árum, eftir að hún og synir hennar höfðu hætt búskap á Lambavatni.  Hún þjáðist af liðagigt á tímbili og bar þess síðan menjar.  Hún gekk þó til allra verka sem getan leyfði, enda afskaplega dugleg og hörð af sér.  Hún var mjög góð okkur bræðrum og öðrum börnum sem á heimilinu dvöldu, en las okkur þó hikstalaust pistilinn þegar óþekktin keyrði úr hófi.  Eða þegar við æddum beint inn í húsið eftir velheppnaða veiðiferð og sull í skurðum og rauðamýrarkeldum.  Rak okkur þá úr „böslunum“ eins og hún kallaði drullug fötin og þvoði okkur með slíkri ákveðni að eyru og nef ætluðu að losna af.  Hún kunni ótölulegan fjölda kvæða og sálma og hafði góða söngrödd, eins og reyndar fleiri systkini hennar.  Sat hún gjarnan með þá yngstu okkar á hverjum tíma í kjöltu sinni, reri með þá og söng eða raulaði.

Gamla íbúðarhúsið á Láganúpi, sem ég ólst upp í, átti sér merkilega sögu.  Það var upphaflega byggt á Grundum af Júlíusi ömmubróður mínum og Dagbjörtu konu hans.  Þegar þau fluttu að Efri-Tungu og Grundir lögðust í eyði keyptu afi og elstu synir hans húsið og síðan var það dregið heim að Láganúpi, meira en hálfs kílómetra leið.  Gamli bærinn á Láganúpi hafði um aldir staðið á bæjarhólnum uppi við Hjalla, en ákveðið var að færa bæjarstæðið og var húsið frá Grundum því sett neðst á Flötina.  Þar með gafst færi á sjálfrennandi vatni, sem ekki var mögulegt á bæjarhólnum.
Húsið var upphaflega bárujárnsklætt timburhús, en í bernsku minni var ákveðið að „forskala“ það og til þess fenginn Jón Hákonarson á Hnjóti.  Man ég vel eftir Jónsa við þessa iðju, með múrbrettið í hendinni og svarta „hreppstjórahúfu“ á höfði.
Skúr var byggður við húsið eftir að það var flutt, þar sem upphaflega var smíðahús og geymsla, en samtímis því að húsið var forskalað var innréttað klósett og búr í skúrnum.  Með tilkomu vatnsklósettsins var aflagður gamli kamarinn framan við húsið, en þaðan á ég ágætar minningar.  Trébekkurinn sem setið var á, var að vísu þægindalítill.  En þarna var ágætis lesefni, bæði Tíminn og Ísafold og Vörður, til að stytta sér stundir við, áður en það var haft til annarra nota.  Á vorin losaði afi síðan hlemminn á steinþrónni undir kamrinum og ók skarninu á tún í gömlu hjólbörunum.  Engin ástæða til að láta kraftmikinn áburð fara til spillis.  Þó að íslenski bóndinn á liðnum öldum hefði aldrei heyrt nefnda „lífræna ræktun“ og „sjálfbæra þróun“ var hann sá sem næst hefur komist fullkomnun á því sviði.

En snúum okkur aftur að gamla húsinu.  Þegar komið var inn úr forstofunni var komið inn í ganginn, og beint innaf honum var eldhúsið.  Fyrst þegar ég man eftir mér, stóð þar eldavél sem brenndi mó og viði, en fljótlega kom stærri eldavél sem brenndi hráolíu.  Stóð hún þar þangað til flutt var úr húsinu.  Þessi vél og eldhúsið var einskonar sál hússins.  Á henni var að sjálfsögðu eldað allt sem elda þurfti og hitað vatn í kaffi.  Á koparröri, sem fest var við brún hennar voru þurrkuð sokkaplögg og vettlingar og þegar flest var af börnum í heimilinu var oft þéttraðað þar.  Þá var eldavélin hitagjafi hússins, en hún hitaði allt vatn á ofna þess.  Síðar útbjó Gylfi frændi minn hitakút við miðstöðvarkerfið og þá fyrst streymdi heitt vatn úr krönum.
Mamma réði ríkjum í eldhúsinu og reyndar réði hún að mestu leyti ríkjum innanhúss.  Ef ekki beint, þá allavega sem einskonar hæstiréttur, sem deilumálum var skotið til af þeim sem halloka þóttust fara.
Áður en ég skil við eldhúsið verður að geta þess, að það var jafnframt baðherbergi þar til heita vatnið kom og sett var upp bað í skúrnum.  Vatn var hitað á eldavélinni og hellt í þvottabala á gólfinu miðju.  Okkur bræðrum síðan stungið í balann og skrúbbaðir hátt og lágt, oft við hávær mótmæli þegar sápan fór í augu og eyru eða hárflókinn greiddur ótæpilega.  Ekki veit ég hvort því megi kenna um, að þessi hárflóki okkar bræðra hefur þynnst verulega á þeim árum sem síðan hafa liðið.

Til vinstri á ganginum var hurð inn í stofuna.  Ekki þætti stofan stór á mælikvarða nútímans, en oft var þar mannmargt og gaman þætti mér að vita hversu margir hafa drukkið þar kaffisopa um dagana.  Því oft var gestkvæmt á heimilinu, þrátt fyrir að afskekkt sé.  Í stofunni var matast á tyllidögum, þar var spiluð vist, þar var hlustað á útvarpið og þar fór jóla- og annað hátíðahald fram.  Alltaf var reynt að halda stofunni í þokkalegu ástandi og ærslum og leikjum okkar krakkanna því fremur beint upp á loft.  Innaf stofunni var herbergi sem Halldóra amma hafði fyrir sig á meðan hún bjó hjá okkur, en var síðan tengt stofunni.  Þar var bókaskápurinn og þar stóð líka dívan, sem næturgestir höfðu til afnota eftir að amma flutti þaðan.

Úti á ganginum lá stigi upp á loft, en undir honum var afþiljuð geymslukompa.  Stiginn er sennilega það eina sem enn er í notkun af föstum innréttingum gamla hússins, en Hilmar bróðir minn setti hann upp í Kollsvík, þegar hann flutti þangað.  Við þennan stiga tengist ein af bernskuminningum mínum.  Valdi bróðir var þá tveggja-þriggja ára gamall.  Kvöld eitt sat hann í þrepi ofantil í stiganum.  Ég stóð andspænis honum í næsta þrepi fyrir neðan og var eitthvað að stríða honum, eins og gjarnan bar við.  Honum leiddist þófið og stjakaði við mér með þeim afleiðingum að ég steyptist á hausinn niður stigann. Hausinn rakst í ofninn til hliðar við útidyrnar.  Ég fékk skurð á ennið, sem enn má sjá merki eftir.  Þessu fylgdu að sjálfsögðu ógurleg hljóðafæri.  Valdi, sem hefur sennilega talið sig bera nokkra ábyrgð á atvikinu, kom trítlandi með gólftuskuna í eftirdragi og vildi þurrka með henni blóðið.  Þessi aðstoð var ekki þegin, en ekið með mig á Patreksfjörð, þar sem skurðurinn var saumaður.
Við loftbrúnina var hleri á lömum, sem leggja mátti yfir loftgatið og var það yfirleitt gert á kvöldin til að fyrirbyggja að smáfólkið færi sér að voða.  Bakvið lofthlerann var geymsluskot fyrir hitt og þetta smálegt.  Uppi á lofti voru tvö rúmgóð herbergi undir súð.  Annað þeirra var herbergi pabba og mömmu, þar sem jafnframt voru tvær kojur fyrir yngstu bræðurna á hverjum tíma.  Á því herbergi var gluggi sem sneri út að Brunnsbrekku.  Hitt herbergið var afa-herbergi, þar sem jafnframt sváfu eldri bræðurnir og sumardvalarbörnin.  Glugginn þar vissi fram í víkina.  Þegar íbúar í herberginu voru sem flestir vildi fjörið og lætin stundum keyra úr hófi að mati afa.  Þá átti hann stundum til að rísa upp við dogg úr rúmi sínu og hasta á liðið með nokkrum vel völdum orðum.  Færðist þá yfirleitt kyrrð yfir.

Af þeim sumarbörnum sem dvöldust á Láganúpi í æsku minni urðum við Maggi frændi minn Halldórsson mestu mátarnir, enda jafnaldra.  Maggi var, og er reyndar enn, hinn mesti fjörkálfur og æringi.  Þegar við lögðum saman í púkk og stundum Snæbjörn frændi okkar með okkur, gátum við fundið upp á ótrúlegustu hlutum.  Um okkar prakkarastrik og hrekki ætla ég sosum ekki að fjölyrða mikið, en aðeins að geta eins sem er mér minnisstætt.  Þá höfðu mamma og pabbi skroppið í heimsókn norður í Hjarðardal í Dýrafirði, til þess meðal annars að heimsækja langömmu mína háaldraða.  Valdi bróðir fór með þeim í ferðina, en Hilmar varð eftir heima, smápjakkur.  Aðrir á heimilinu voru við Maggi, afi og Halldóra amma.  Við Maggi tókum tvær olíutunnur, smíðuðum ramma sem féll utan um tunnurnar og á milli þeirra – mjög haganleg hönnun þó að ég segi sjálfur frá.  Við bösluðumst með tunnurnar og trérammann niður að sjó, ásamt tveim löngum bambusstöngum.  Síðan ýttum við frá landi í blíðskaparveðri, stukkum báðir um borð og stjökuðum okkur frá fjörusandinum með bambusstöngunum.  Hilmar varð eftir í landi, öskrandi af óánægju með að vera skilinn eftir.  En við töldum sjóferð þessa ekki fyrir börn.  Fljótlega fór dýpið að aukast, svo bambusstengurnar botnuðu varla.  Sem betur fer var veður gott eins og áður sagði, þannig að eftir nokkurt basl og vandræðagang tókst okkur að krafsa okkur aftur í land.  Ingi frændi hafði haft veður af einhverjum framkvæmdum niðri í fjörunni, ef til vill hefur amma hringt í hann, því hann var á leiðinni til okkar þegar landi var náð.  Einhver vel valin orð mun hann hafa talað yfir hausamótunum á okkur þegar hann kom til okkar.  Svo mikið er víst að tunnurnar voru teknar úr okkar vörslu og tréramminn tekinn í sundur.  Og þegar foreldrar mínir komu til baka úr ferðalagi sínu voru umvandanir áréttaðar þannig að vel skildist.
Mörg önnur börn dvöldust fleiri eða færri sumur hjá okkur á Láganúpi á mínum bernskuárum.  Hrönn, frænka Magga, var þar lengi og síðan afkomendur hennar mann fram af manni og margra annarra mætti geta þó ekki verði gert hér.

Meðal þeirra atburða bernskunnar sem mikil tilhlökkun fylgdi voru hinar árlegu heimsóknir föðursystkina minna og fjölskyldna þeirra.  Bæði fylgdu þeim nýir leikfélagar og svo önnur tilbreyting í „annríki fábreyttra daga“.  Að fara á „skytterí“ niður að Görðum var fastur liður í heimsóknum þeirra Einars og Páls.  Þá var mikið sport að fá að fara með.  Veiðiskilyrði voru best þegar vindur var hæfilegur og mávurinn flaug lágt með fjörunni og yfir Garðana.  Strax og einhver „datt“ þaut einhver okkar strákanna af stað til að sækja fenginn.  Ef fuglinn var ekki dauðskotinn, þá var honum slegið við stein, þannig að hann rotaðist.  Síðan voru þeir fuglar sem veiddir höfðu verið breiddir út umhverfis skotbyrgið til þess að félagar þeirra færðu sig nær til að skoða þá og kæmu í dauðafæri.  Oft veiddist vel og fengurinn síðan borinn heim og borðaður með bestu lyst enda mávsungi ágætis matur.

Í þessum heimsóknum frænda minna var gjarnan farið í sjóferð ef veður var gott.  Vonin, bátur þeirra pabba og Inga var yfirleitt geymdur á hvolfi í Kollsvíkurveri.  Honum var ýtt niður sandinn á hlunnum.  Þegar hann flaut stóðu þeir bræður í klofstígvélum og rauðum sjóstökkum og studdu við á meðan þeim af ungviðinu sem pláss var fyrir var skutlað um borð.  Síðan var vélin gangsett og haldið út á miðin, sem voru skammt undan landi.  Mig minnir að Ingi hafi yfirleitt séð um vélina þegar hann var með í för, en hún var orðin gömul og ekki alltaf gangviss.  Þegar þeim bræðrum þótti orðið veiðilegt, þá var vélin stöðvuð og færum rennt og keipað, þar til tók í færið.  Á bátnum voru að því mig minnir þrjár rúllur fyrir færi.  En þegar veiði var góð var gjarnan rennt út aukafærum án nokkurra hjálpartækja.  Fyrir kom að svo mikið fiskaðist, að „seilað“ var, eða fiskurinn dreginn upp á línu, allri kippunni síðan varpað í sjóinn en tryggilega fest við bátinn og síðan dregin að landi.  Hin besta skemmtun var að fara með í slíkar sjóferðir, þó að fyrir kæmi að einhver ókyrrð kæmist á innyflin.  Slíkt varð að harka af sér, því hneisa var að þykja ósjófær vegna sjóveiki.  Aflinn úr þessum veiðiferðum var ágæt búbót fyrir heimilin í víkinni, auk þeirrar skemmtunar og tilbreytingar sem þeim fylgdi.
Síðar smíðaði Óli á Nesi nýjan og stærri bát fyrir pabba og Inga, sem þeir notuðu til grásleppuveiða frá Gjögrum, en þá var ég farinn að vaxa úr grasi og fjalla því ekki um það hér.

Auk föðursystkina minna þótti okkur fengur að ýmsum öðrum sumargestum.  Í þeim hópi voru Pálmi móðurbróðir minn, Gunnar Össurarson, frændi okkar og margir fleiri, bæði úr frændgarði og kunningjahópi fjölskyldunnar.  Þeir Pálmi og Gunnsi voru báðir sannfærðir kommúnistar og var umræðan oft lífleg á meðan þeir dvöldu, ekki sízt höfðu þeir pabbi og Pálmi gaman af að takast á um þjóðfélagsmálin.
Sú veiðináttúra sem hjá föðurbræðrum mínum fékk útrás í fuglaskytteríi og handfæraveiðum, birtist hjá móðurbræðrum mínum í áhuga á bjargsigi og eggjatöku.  Þessum áhuga deildum við strákarnir heilshugar með þeim.  Bein þátttaka var hins vegar ýmsum vandkvæðum bundin og jafnvel haft á okkur sérstakt eftirlit á eggtíðinni.  En „freistingarnar biðu okkar næstum allsstaðar“ segir einhversstaðar í dægurlagatexta.  Sama var hjá okkur, norður í Hryggjum og úti á Hnífum var fýllinn að verpa á vorin og erfitt að stilla sig.  Svo heppilega vildi til að eggtíðina bar upp á þann tíma þegar sauðburður stóð sem hæst á vorin.  Kindur báru yfirleitt utanhúss og var gengið um svæðið innan túngirðingar með vissu millibili allan sólarhringinn, jafnt á nóttu sem degi.  Nú var bara að bjóðast til að taka vaktina síðla nætur, ganga út skugga um að allt væri í lagi með sauðburðinn og taka síðan stefnuna út í Breið.  Hlaupa við fót til að vera fljótur í ferðum.  Taka síðan strikið upp Grenjalág og þaðan út á Breiðsbrún, en nokkra hugmynd hafði maður um hvar venja var að fara niður.  Enginn spotti með, en hægt að klöngrast laus niður í efstu hillu.  Þaðan var síðan hægt að skjótast í ýmsar áttir – um að gera að vera fljótur og tína í skyndi saman það sem við hendina var.  Síðan að koma sér aftur til baka.  En nú var þrautin þyngri, þegar vega átti sig af hillunni upp á brún var lengdin á bjargmanninum ekki nægileg.  Nú varð ég virkilega áhyggjufullur – sök sér að vera fastur á hillunni, ef einhver í heiminum vissi hvar kappinn væri niðurkominn.  En nú varð að bjarga sér einhvernveginn.  Þrautaráðið var að tína saman alla finnanlega steina sem á hillunni lágu og hlaða úr þeim upphækkun, sem loks dugði til að bjargmaðurinn kæmist upp.  Nú var sól farin að rísa og brýnt að hraða sér heim, áður en heimilisfólkið færi almennt á stjá.  Mikil var ánægjan þegar heim var komið að sjá engan kominn á fætur og geta stungið fengnum úr bjargferðinni saman við egg sem eldri og reyndari menn höfðu áður borið í bú. 

Ekki get ég alveg skilið við þessar bernskuminningar mínar án þess að minnast á þá móðurbræður mína sem bjuggu á Patreksfirði, Svavar og Gylfa.  Þeir voru og eru enn smiðir góðir, eins og reyndar fleiri af þeirri ætt.  Til þeirra var jafnan leitað þegar mikils þurfti við, svo sem þegar vélar og önnur tæki biluðu þegar síst skyldi, svo sem þegar heyskapur stóð sem hæst.  Auk þess var gaman að fá þá í heimsókn, Svavar hinn mesti æringi og Gylfi, þó hægar færi, hafði gaman af smástríðni og snöggum tilsvörum okkar stráklinganna.  Handtök þessara frænda minna í þágu Láganúpsheimilisins eru orðin mörg í áranna rás.

Já, ágætu Kollsvíkingar sem hér eru staddir.  Það var gaman að vera strákur í Kollsvíkinni á þessum árum.  Ég hefði ekki viljað alast upp annarsstaðar.  Ég hefði getað rifjað margt fleira upp frá þessum árum, en þetta er nú þegar orðið alltof langt hjá mér.  Allt sem á vantar verður því að bíða.  Vil ég að lokum óska þess, að velvild og ræktarsemi skyldra og óskyldra í garð Kollsvíkurinnar verði óbreytt áfram, þó að nú ljúki að sinni samfelldri búsetu í víkinni, allt frá Kolli landnámsmanni.                   Skráð 8. til 11. júlí 2002.   Guðbjartur Össurarson