Í aðdraganda jóla 1857 dundu yfir Kollsvíkurbæinn mestu hamfarir sem þar hafa orðið á landi, þegar Kollsvíkurbærinn sundraðist og manntjón varð. Lengi var á huldu hvað gerst hafði.
(Myndin er af hellumálverki Sigríðar Guðbjartsdóttur Láganúpi, af Kollsvíkurbæ sem líklega var að mestu byggður eftir að þeir atburðir gerðust sem hér er lýst).
Eftirfarandi frásögn er skráð af Össuri Guðbjartssyni eftir lýsingu Sturlu Einarssonar, sem var sjónarvottur, og Guðbjartar Guðbjartssonar föður síns, sem kunnugur var fólki sem þarna átti um sárt að binda. Össur segir:
Það mun hafa verið 3. desember 1857 sem atburður sá gerðist er hér verður frá sagt. Honum er hér lýst af sjónarvotti er greinir allar aðstæður og atburðinn í heild, eins og hann var. Þessi sjónarvottur var, eins og undirskriftin ber með sér; Sturla Einarsson frá Brekkuvelli á Barðaströnd, sem þá er þetta gerðist var við smíðar í Kollsvík. Frásögn hans er hér látin halda sér orðrétt, en hún er enn til; skrifuð af honum sjálfum. Þar segir svo:
„Staddur í Kollsvík, að mig minnir 1855 eða -6. Ég var nýbyrjaður að smíða innanum stofuhús, er átti að verða. Það stóð fremst af húsum, og var gengið í endann á því úr göngum beint á móti eldhúsdyrunum. Búið var að leggja loftið í það. Þetta var fyrir jólaföstu og var nú fimmtudagsmorgun, en heilan sólarhring áður var að hlaða niður fönn í blæjalogni, svo ekki varð komist um jörðina fyrir djúpfenni. Átta manneskjur voru í baðstofunni, en annað fólk í fjósi og hlöðu og ég í þessu húsi með ljós. Var þá kominn austnorðan garður með frosti. Það voru kistur meðfram langveggnum, sem ég stóð upp á og var að negla lista kringum opið neðanundir loftinu.
Heyrði ég þá skruðning upp yfir mér. Það var hellurefti á húsinu. Það hljóp í mig kjöllur og ég hljóp eftir kistunum að gaflinum. Sá ég þar út og í dauðans ofboði þrengdi ég mér í glufuna. Þegar ég var kominn með höfuðið út fann ég að ég var að festast, en með Guðs aðstoð gat ég brotist út. Ég ætlaði að leita hælis í bænum og kasta mæði, en þegar ég kom í bæjardyrnar sá ég vegsummerkin. Var þá snjórinn langt fram í göngum.
Ég fór samt í eldhúsdyrnar að kasta mæði, en litlu seinna heyrði ég Halldóru gömlu (Tómasdóttur) vera að kalla á mig innan frá. Fór ég þá innar í bæinn. Hafði Halldóra verið í búrinu að matbúa þegar þetta skeði. Ekki stóð uppi af baðstofunni nema sláin yfir standþilinu fyrir framan búrið. Hafði loftið í búrinu sporðreist ofan á ílát við gaflinn, og var hún þar undir. Reif ég þá frá þilinu að ofanverðu til að brjóta það með hennar hjálp að innan; þá gat ég komið henni út. Kom þá Bjarni Bjarnason yngri, barnakennari, til mín. Hafði hann einn komist út úr baðstofunni þegar hún féll. Hann sat þá á stól undir efri hliðinni. Hann sagði að það hefði opnast með upsinni og hann komist þar út.
Það féll í slétt yfir allt í veðurofsanum og moldinni. Bað þá Halldóra okkur að leita eftir Magdalenu, því að hún vissi hvar hún sat á rúmi uppi yfir búrinu áður en þetta skeði. Við fórum að reyna að grafa þar niður, berhöfðaðir og berhentir, en jafnóðum fylltist þó allt. Á endanum gátum við komist að, þar sem hún var. Lá hún upp í loft og lá langband yfir brjóstið á henni, fyrir ofan þykktina því hún ól barnið skömmu eftir nýárið. Mátti ekki seinna vera að bjarga lífi hennar.
Var nú árangurslaust að leita, því að einlægt dreif slétt yfir, meir og meir, af veðrinu og moldinni; svo að ekki varð meira aðhafst þann dag. Ekki voru aðrir menn þarna (til leitarinnar) en við tveir að berjast úti. Guðbjartur (húsbóndinn) var út á Látrum.
Á föstudagsmorgun var (veðrið) vægara og moldarminna. Voru þá fengnir menn af hinum bæjunum (í Kollsvíkinni, til að leita í rústunum). Fundust þá systkinin þrjú; Gísli, Guðrún og Dagbjartur, og var mest af Dagbjarti dregið. Varð að bera hann (inn). Gísli var orðinn hálf stirðnaður upp að mitti. Var hann fastur milli viða, svo að það smá dró af honum. En aftur á móti réttist Dagbjartur heldur við. Var Gísli dáinn fyrir kvöld. Ekki fannst fleira þann dag.
Vantaði nú þrjár manneskjur; Ingibjörgu, konu Bjarna eldra; móður Bjarna yngra (Bjarnasonar barnakennara sem fyrr getur), og tvö börn; fósturdóttur Halldóru gömlu (Tómasdóttur, Þuríði Einarsdóttur) á áttunda ári, og Halldóru, dóttur Guðbjartar, á þriðja ári. Voru þau í rúmi um þveragafl yfir búrinu, en þar var skaflinn kominn upp á gaflhlað. Hugðu allir þær manneskjur liðnar.
Guðbjartur kom þá heim um kvöldið. En á laugardaginn var sent inn á Bæi (þ.e. Hænuvík) til þess að fá menn til að hjálpa, og komu þeir á sunnudagsmorgun. Þá var gott veður, og þegar hafist handa að grafa eftir börnunum. Komumst við að rúminu, og var það heilt og óbrotið, en sigið ofan með gaflinum sporðreista, sem fyrr um getur. Það voru tvö rúm á loftinu; þvertum, og hátt þil á milli rúmanna. Lágu þar viðir á, og var holt yfir rúminu. Þar voru bæði börnin; vel lifandi og ósködduð, utan yngra barnið var með hendina útundan (ábreiðunni eða sænginni) og af því missti hún af litla fingrinum. Nú vantaði Ingibjörgu, og á endanum fannst hún undir fönninni sem hafði þeyst fram í göngin í fyrstu. Auðséð var að hún hafði kafnað strax.
Það var hár galti við baðstofugaflinn. Hann var sem skorinn í sundur um miðjar hliðar, og stóð eftir stúfurinn að neðan. Þessi kraftur fór þvert með vind(átt); það sást á brakinu úr húsunum, sem hafði fokið allt að 200 faðma frá bænum. Þegar þetta skeði var Bjarni eldri á leiðinni úr hlöðunni heim að bænum og gekk við skákreku. Sagði hann okkur síðar frá því að þegar hann kom í miðja lágina, þar sem mest var fönnin, sýndist honum bregða sorta yfir. Og í sama vetfangi fór hann á kaf í fönnina og missti rekuna. Fannst hún ekki fyrr en upp leysti, og var þá niðri á Undirtúni (ca 200 faðma frá þeim stað sem Bjarni missti hana) í sömu stefnu og hitt brakið.
Þrem dögum eftir (slysið) fann ég hamarinn sem ég var að keyra naglann með þegar þetta skeði; inn í eldhúsdyrum. Hafði ég haft hann í hendinni er ég var að bjótast út, og ber ég þess menjar á sjálfum mér ennþá þegar ég kem við knýtt beinin í brjóstinu á mér vinstra megin. Þegar ég var búinn að smíða um manneskjurnar (sem dóu í slysinu) komst ég með naumindum heim til mín og lagðist (í rúmið). Þetta er mér allt í fersku minni, sem það hefði gerst í gær.
Ritað af Sturla Einarssyni sem staddur var í Kollsvík við smíðar þegar þetta gerðist“.
Heimilisfólk í Kollsvík, það er hér getur um að einhverju leiti, var sem hér segir:
Guðbjartur Ólafsson, húsbóndi
Magdalena Halldórsdóttir, kona hans
Halldóra Guðbjartsdóttir, barn þeirra hjóna
Halldóra Tómasdóttir, móðir Magdalenu
Þuríður Eiríksdóttir, fósturdóttir Halldóru Tómasdóttur, þá á 8. ári
Bjarni Bjarnason yngri, barnakennari
Bjarni Bjarnason eldri, faðir Bjarna Bjarnasonar yngri
Ingibjörg Bjarnadóttir, kona hans; dó í rústunum
Gísli Gíslason, piltur um tvítugt, dó einnig í rústunum
Guðrún Gísladóttir, systir Gísla.
Svo sem um getur í frásögn Sturlu voru tveir og hálfur sólarhringur liðnir frá því bærinn hrundi og þangað til búið var að finna allt fólkið. Á þessum tíma kólu þrír fingur af vinstri hendi Halldóru Guðbjartsdóttur, sem þá var á þriðja ári. Einnig kólu fjórir fingur að mestu af Guðrúnu.
Heimildarmaður minn að því sem hér er sagt, auk frá sagnar Sturlu, er faðir minn Guðbjartur Guðbjartsson.
Össur Guðbjartsson
Eftirmáli
Sturla Einarsson var af Kollsvíkurætt; barnabarn Einars Jónssonar sem ættin er rakin frá; sonur Einars Einarssonar bónda á Hnjóti. Í bókinni „Kollsvíkurætt“ lýsir Trausti Einarsson Sturlu svo: „Hann var fæddur á Hnjóti 4. mars 1830; dáinn á Brekkuvelli 22. apr. 1922. Bóndi í Vatnsdal 1852-1870. Stundaði smíðar jafnframt búskapnum; bæði húsa- og skipasmíðar. Meðal annars endursmíðaði hann hákarlaskipið Fönix (eldra Fönix) í Kollsvík. Fönix var sexæringur en Sturla stækkaði hann nokkuð. Eftir að hann hætti búskap í Vatnsdal mun hann aðallega hafa fengist við smíðar. Hann var að smíða stofuhús í Kollsvík þegar bærinn hrundi þar 3. des. 1857, og meiddist nokkuð á brjósti. Kona Sturlu var Hólmfríður Jónasdóttir“. Sturla eignaðist 6 börn og frá honum er allmikill ættleggur kominn.
Össur Guðbjartsson (faðir minn) ritaði upp frásögn Sturlu og gerði þær viðbætur til skýringa, sem hér eru skáletraðar. Handrit Sturlu er varðveitt á Láganúpi. Össur var einnig af Kollsvíkurætt og var, líkt og faðir hans, ævilangt bóndi á Láganúpi; fæddur að Grund í Kollsvík 19. febrúar 1927 og lést 30. apríl 1999. Össur var um margra ára skeið kennari í Rauðasandshreppi; hreppsnefndarmaður og oddviti, auk fjölda annarra trúnaðarstarfa, s.s. fulltrúi á búnaðarþingum og í Stéttarsambandi bænda. Össuri var hugleikin varðveisla menningar fyrri tíma, og beitti sér m.a. fyrir því að stofnað yrði héraðsskjalasafn á svæðinu.
Atburður sá sem hér er lýst hefur að vonum orðið Kollsvíkingum minnisstæður æ síðan. Ýmsu hefur verið velt upp um eðli þessara hamfara, og á tímabili var talið að þarna hefði skýstrokkur verið á ferð, eða að hlaðist hefðu þau ókjör af snjó á bæjarþökin að þau hafi gefið sig, með myndun mikillar þrýstibylgju.
Í ljósi nútíma veðurfræði og reynslu síðari tíma, má með nokkurri vissu álykta að þarna hafi fallið snjóflóð úr Núpnum; af þeirri gerð sem nefnd er „kófhlaup“. Þá ályktun má m.a. draga af því að laust fyrir aldamótin 2000, þegar Hilmar bróðir minn var bóndi í Kollsvík, kom snjóflóð niður á nákvæmlega sama stað; yfir tóftirnar á Bæjarhólnum þar sem bærinn stóð þegar atburðirnir gerðust. Af hinni nákvæmu lýsingu Sturlu má sjá ýmis einkenni slíks hlaups. „Heilan sólarhring áður var að hlaða niður fönn í blæjalogni, svo ekki varð komist um jörðina fyrir djúpfenni“ segir Sturla. Daginn sem flóðið féll gerði „austnorðan garð með frosti“. Við þá veðurstöðu kembir snjó sunnantil í Núpsbrúnina; beint yfir Bæjarhólnum og frostið sér um að festa snjóinn í gríðarmikla hengju. Þegar þyngslin verða yfirsterkari brunar þessi mikli massi niður Núpshlíðina á ógnarhraða; ofaná loftpúða. Sturla heyrir „skruðning yfir sér“; Bjarni eldri „sá sorta bregða yfir“ og flóðið þeytir skáreku úr hendi hans 200 faðma niðu á Undirtún“í sömu stefnu og hitt brakið“. Flóðið fer „þvert á vindátt“, en vind hefur þá lagt niðurmeð Vegghömrum og norðurmeð Urðunum. Flóðið kubbar í sundur hey sem stendur við baðstofugaflinn. Öll ummerki í rústunum líkjast því sem nú er þekkt eftir snjóflóð. Þrýstingurinn sprengir bæinn; snjófargið þéttist þegar loftið fer úr og örðugt reynist að grafa í gegnum það.
Í ljósi þeirra ógnarkrafta sem hér voru á ferð, og síðari reynslu af snjóflóðum, má teljast mesta mildi að manntjón skyldi ekki verða meira í Kollsvík þennan dag. Merkilegt er og að ekki skuli finnast sagnir af mannskaða á þessum stað frá fyrri tímum, en þarna hefur Kollsvíkurbærinn líklega staðið frá landnámstíð. Íbúðarhús var byggt nokkru neðar árið 1918, en þar er ekki hætta á snjóflóði úr Núpnum.
Valdimar Össurarson frá Láganúpi.
Frásögn Gísla Konráðssonar, endursögð af Rósinkrans Ívarssyni
Viðburður og tjón í Kollsvík: Sá atburður, varð í Kollsvík við Patreksfjörð, 3. des. 1857, að liðnum dagmálum, þá karlar voru farnir, að heygjöfum og fjármenn buggust sauða að gæta, en konur niðri að gegna búrverkum, en sum óklædd í rúmum sínum. Vindur var norðan, en eigi mjög hvass, en frost hart og kafald all mikið.
Allt í einu kom þytur á baðstofuna, er var 12 álna löng, svo að í sama vitfangi, fjell í grunn niður, og hver spýta mölbrotnaði. Þakið, sem var gaddfreðið, fjell niður með viðunum, en sumt inn í tóftina, og sumt hjá henni, og nokkur hluti þaksins, með viðarbrotunum, kastaðist 15 faðma, langt út á völl. Frami í bænum, var nýbyggt stofuhús, er búið var að leggja loft í, og var smiðurinn, Sturla Einarsson, bróðir Trausta á Vatneyri, í ferð að þilja, og var þar inni sjálfur, þá er bærinn brotnaði, og jafnskjótt braut hús þetta gjörsamlega, og var þó fremur rammgjört, og að mestu leyti byggt úr rekavið. Viðirnir voru þverkubbaðir í sundur, og er það sjaldsjeð, að seigur rekaviður brotni þannig. Því nær öll vinnuverkfæri, voru brotin í spón.
Heygalti stóð við norðurenda baðstofunnar, og fór hann, svo að sjá, sem skorinn væri hann við klakabrúnina.Tveir menn biðu dauða við bæjarhrun þetta. Gift kona, nær 6tugu er Ingibjörg hjet, Bjarnadóttir. Halda menn, að hún hafi strax dáið. Annar var sveinn einn er Gísli hjet, Gíslason, Einarssonar, bónda í Kollsvík, Jónssonar. Náðist hann upp úr bæjarrústunum kvöldið eftir. Var hann þá svo kalinn og hafði klemmst milli viðarbrotanna, að hann dó litlu síðar. Sveinn einn, 12 ára, náðist með lífsmarki, eftir sólarhring liðinn, að hann hrestist skjótt og varð heill.
Tvö börn, annað á öðru ári, en hitt nokkru eldra náðust ekki fyr en að 6 dögum liðnum, og voru þó lifandi, en kalin, svo að yngra barnið missti 3 fingur, af vinstri hendi, en hitt hið eldra, mey, á 8. ári, hafði alleina særst lítið á höfði.Til enn meiri örkumla, hafði kalið mey eina, tvítuga, systir Gísla þess er ljest, hjet hún Guðrún Gísladóttir, er náðist á 3. dægri, og var talið víst að húm missti fingur, af báðum höndum, húsfreyja var hjá rúmi sínu og barn hjá henni, er hrundi, en varð undir loftskúta, við baðstofugaflinn. Gat hún hrópað um hjálp og náðist hún með barninu og voru bæði jafngóð. Konan sjálf var þunguð.
Sturla smiðurinn komst með öllu óskemdur, upp með gafli stofuhúsins. Bjarni Bjarnason, maður Ingibjargar, sem dó, var á leið úr fjósinu og heim til bæjarins. Þóttist hann þá heyra þyt mikinn og strax kom yfir hann snjóroka mikil, svo afar hörð, að hún sló honum til jarðar. Örmagnaðist hann svo, að hjálpa varð honum inn í hús.
Í því húsin hrundu, kváðust heimamenn hafa heyrt líkast snjóflóði, meira gátu þeir ekki lýst. Hvergi sást á neinum viðarbrotum, að þau sviðnað hefðu, og ekki heldur á veðurvitastönginni, á bæjardyrunum, sem einnig hafði brotnað. Að ekki varð leitað fyr, að mönnum í bæjarrústunum, kom þar af, að veður herti mjög eftir hrunið og hjelt megn kafaldshríð, með frosti miklu, þar til kvöldið þess, 5. s.m.
Það hlífði mönnum og börnum, er um var getið, að svo furðu lengi lifði í rústunum, að loftið á einu stafgólfinu í suðurendanum, datt ekki undireins niður, og voru svo og önnur áhöld, þar á gólfinu, sem loftið lenti á, þegar það datt niður og urðu börnin þar undir. Framloftið fjell allt þegar á gólf niður. Guðbjartur bóndi Ólafsson var ekki heima er hrunið varð. Kom hann fyrst heim um kvöldið.
Frásögn Ólafs Sívertsen í Annálum 19. aldar:
„Þann 3. Desember árið 1857, í hálfbirtu um morguninn, sást svart ský yfir fjallsgnýpunni er skagar lengst í sjó fram fyrir sunnan Patreksfjörð. Heyrðist þá líka hastarlegur hvinur í fjallsyrnunni fyrir ofan og utan bæinn að Kollsvík; og í sama vetfangi skall bylur á bænum er braut hann þegar niður og þrúgaði baðstofunni svo niður og braut, að af viðum í henni fannst ei eftir nokkur spýta einni alin lengri.
Ein gift kona og eitt barn dóu strax undir rústunum en þrennt af heimilisfólkinu sem náðist brátt á eftir skaðaðist og lá síðan vikt. Eitt barn náðist á fjórða og annað á sjötta dægri seinna; bæði lifandi og ósködduð nema annað var kalið á hendinni. Allt innanbæjar; áhöld, verkfæri, kistur, matvæli, rúmföt, bækur ónýttust með öllu. Hálft hey sem stóð við bæinn þverkubbaðist sundur sem hnífskorið væri og í rústunum var allt í samblandaðri hrúgu; snjórinn, heyið, viðarbrotin, moldin og grjótið. Fjósið, hlaða og öll önnur útihús stóðu ósködduð. Þennan tjáðist að í Kollsvík hafi verið allgott veður; bæði fyrir og eftir, en í Flatey var stórviðri og kafald“.
Ólafur Sívertsen (24.05.1790-27.05.1860) var sem stúdent í þjónustu Guðmundar Shevings kaupmanns og útgerðarmanns í Flatey, og síðar Eiríks Kúld. Prestur í Flatey og síðar prófastur; stundaði einnig búskap. Stofnaði Framfarafélag Flateyjar 1821. Fékkst við lækningar. Alþingismaður Barðstrendinga 1852-1860.
Þjóðsaga verður til
Sögusagnir og getgátur eru jafnan fylgifiskur stóratburða, og atburðirnir í Kollsvík eru glöggt dæmi um það hvernig lífseigar þjóðsögur skapast á undraverðum hraða. Eftirfarandi saga er skráð í Vestfirskum sögnum, útg. 1949, og er þar höfð eftir „ýmsum samtímaheimildum“, en skrásett af Arngrími Fr. Bjarnasyni. Nefnist sögnin þar; „Gerningaveðrið í Kollsvík“.
„Í byrjun desembermánaðar 1857 bar svo til í Kollsvík vestan Patreksfjarðar, að hastarlegur veðurhvinur heyrðist í fjallshyrnunni fyrir utan og ofan bæinn í Kollsvík, og í sömu andrá skall svo mikill veðurofsi á bæjarhúsunum að hann braut þau svo og kurlaði að varla fannst þar eftir nokkur spýta, sem væri alin eða lengri. Heyi miklu hafði um sumarið verið hlaðið upp nálægt fjósi. Það þverkubbaðist sem hnífskorið væri. Í rústunum var allt samblandað; snjórinn, heyið, viðarbrotin, moldin og grjótið. Fjósið, hlaða og önnur útihús stóðu ósködduð.
Gift kona og eitt barn dóu strax undir rústunum, en þrennt af heimilisfólkinu náðist brátt á eftir, mikið meitt og varð að liggja alllengi. Eitt barnið náðist á fjórða degi úr rústunum og annað barn á sjötta degi. Þau voru bæði lifandi og ósködduð, nema annað barnið var kalið á hendinni.
Allgott veður var í Kollsvík umræddan dag; fyrir og eftir gerningaveður þetta, sem kennt var fítonsanda einum eða fleirum sem sendur var bóndanum í Kollsvík frá manni sem bóndi átti brösótt við. Hófust deilur þeirra á milli út af aflabrögðum á vorvertíð umrætt ár, og hótaði sá er fyrir barði varð að senda bónda sendingu er jafnaði metin milli þeirra“.
Orðið „fítonsandi“ er þannig skilgreint í Orðasjóði Kollsvíkinga: „Kröftug sending galdramanns til að gera óvini hans skaða. Forskeytið „Fítón“ á uppruna sinn í grísku goðafræðinni. Borgin Delfí nefndist áður Pýþó, og töldu forngrikkir hana miðju veraldar. Þar kom gufa upp úr holu, en nærri henni á að hafa hafst við gríðarstór eiturslanga (pýðonslanga) sem guðinn Appolló drap. Þar var síðan byggt Appollóhof mikið, en í því var svonefnd véfrétt; hofgyðja sem gat fallið í trans yfir gufuholunni og sagði þá spádóma um ókomna tíð. Fítónsandi merkir því upphaflega spádóm, en hefur í íslensku máli þróast í kraftmikla galdrasendingu. Heitið „fítonskraftur“ er notað sem líking um mikla eljusemi/starfsorku“.