Hinir fornu Garðar á Grundabökkum í Kollsvík eru áberandi minnisvarði um elju og verkhyggju genginna kynslóða; nokkurskonar "Kínamúr" Kollsvíkur.  Hér er gluggað í sögu þeirra og sagt frá viðhaldi á síðustu árum.

Fyllri lýsingu á Görðunum og viðhaldi þeirra má sjá í pdf-skjali hér. 

grundabakkar loftmyndGrundir nefnist neðsti hluti Láganúpslands, þar sem nú má sjá iðagræn tún og nokkrar húsarústir.  Þarna syðst í víkinni tekur grjótfjara við af skeljasandsfjörunni norðar.  Hleinar og tangar ná fram í sjó, en ofan þeirra er fjaran stórgrýtt í svonefndum Grjótum, með fínni möl ofar og grónum bökkum ofan flæðarmáls. 

Arnarboði og Kollur

arnarbodi vikingaskipÞarna utantil í Grjótunum steig maður fyrst fæti í Kollsvík, sé mark tekið á Landmælabók og munnmælum.  Arnarboði nefnist sker skammt undan landi sem kemur úr sjó á hálfföllnu.  Einhverntíma kringum árið 900 eftir Kristsburð kom seglskip öslandi í fárviðri suðurmeð ströndinni í leit að heppilegri landtöku.  Stýrimaðurinn; Örn að nafni, var ókunnugur á þessum slóðum.  Ekki vildi því betur til en að skipið strandaði á boðanum.  Við vitum fátt um þennan skiptapa í smærri atriðum, annað en það að leiðangursstjórinn bjargaðist í land ásamt a.m.k. miklum hluta skipverja sinna og líklega töluverðu af bústofni og farangri.  Þarna svam á land landnámsmaður Kollsvíkur sem Landnámabók nefnir Koll.  Einnig undu spjarir sínar á Grundarbökkum hásetar Kolls; þeir Þórólfur spörr, sem síðar nam mestan part Rauðasandshrepps; og bræðurnir og Þorbirnirnir skúma og tálkni, sem námu Tálknafjörð og hluta  Arnarfjarðar.  Kollur var hingað kominn ásamt Örlygi fóstbróður sínum, til að reisa kirkju og boða landnemunum Kriststrú.  Saman höfðu þeir numið við Kólumbusarklaustrið á Iona á Suðureyjum; mestu menningarstofnun Vesturlanda á sínum tíma, og voru líklega lærðastir allra landnámsmanna.  Kolli leist svo vel á sig á þeim kostaríka stað sem forlögin höfðu skolað honum á land, að hann stofnaði minnsta landnám landsins.  Líklega hefur hann reist bæ sinn norðantil í víkinni og byggt þar fyrstu kirkju landsins; enda nefndist bærinn Kirkjuból eftir því sem elstu heimildir herma, þó nú sé hann samnefndur víkinni.  En nóg um Koll; við höldum áfram að skoða umhverfi og sögu Garðanna.

Láganúpsver

Láganúpur hefur sennilega byggst sem jörð þegar á landnámsöld eða fljótlega eftir það.  Engar ritheimildir eru fyrir byggð þar fyrr en kemur fram á 15. öld.  Þá er orðinn góður markaður fyrir skreið erlendis og höfðingjaveldið er í óðakappi að koma sér vel fyrir við þá tekjulind.  Guðmundur ríki Arason á Reykhólum gerðist æði tilþrifamikill eftir að hann fékk Saurbæ á Rauðasandi með Helgu konu sinni.  Saurbæ fylgdu miklar jarðeignir, en Guðmundur sölsaði undir sig aðrar.  Vesturbotn tók hann undir sig vegna skógarnytja sem þar voru.  Í Kollsvík eygði hann mikla gróðavon til skreiðarverkunar, enda eru þar góð uppsátur og gjöful fiskimið við land.  Láganúpur færðist því undir góss hans.  Líklega hefur þá þegar verið stunduð allmikil útgerð í Kollsvík; það sést af laganver minjarþykkum beinalögum sem líklega ná afturfyrir árið 1200.  Saurbær efldi nú útgerð og skreiðarverkun í Kollsvík.  Sú aukning varð öll sunnantil; í Láganúpslandi, því Kollsvíkurjörðin var í annarra eigu.  Þar er að sönnu öruggari lending, en Bæjarhöfðinginn lét sig muna meira um uppsátursgjöld en líf leiguliða sem kvaðarbundnir voru til róðra hjá honum.

Þarna á Grundarbökkum reis því upp umgfangsmikil verstöð, sem líklega hefur að uppistöðu verið útgerð Saurbæjarveldisins.  Lengi hefur umfang hennar fyrr á tíð verið á huldu, en á síðari árum hefur landbrot í sjávarbökkunum gefið nokkra innsýn í það.  Á um 400 metra kafla má sjá þéttar og margra laga leifar af hleðslum; veggjum, görðum, gólfskánum, eldstæðum, munum og gríðarlegt magn af fiskbeinum.  Áður en Ægir kóngur veitti þessa söguskýringu var elsta heimild um Láganúpsver það sem Árni Magnússon ritaði árið 1703, er hann var þarna á ferð að viða að sér efni í Jarðabók sína.  Hann segir m.a um Láganúpsver:  "Verbúðir hafa þar tilforna verið 18.  Nú standa uppi fjórar...".  Saurbæjarútgerðin hefur þá líklega dregist allmjög saman; Guðrún Eggertsdóttir heldur ekki úti nema tveimur bátum að staðaldri og öðrum tveimur inntökubátum.  Láganúpsbóndi á einn bát og aðkomubátar aðrir eru þrír.  Aflabrestur hafði þá verið um langt skeið, svo "frá lagðist stórþorskur"(ÁM).  Þessi mikla verstöð leið að mestu undir lok fyrir 1800.  Það var ekki fyrr en seint á 19. öld að útgerð hófst aftur í Kollsvík, og þá norðantil; í Kollsvíkurveri.  Þar urðu bátar 26; verbúðir fjölmargar, og afurðin einkum saltfiskur.  Sú verstöð stóð framum 1930.  Verbúðir í Láganúpsveri hurfu ein af annarri.  Lengi hefur verið til siðs að endurnýta gott byggingargrjót, og því sjást engar búðir ofar moldum í Láganúpsveri í dag.

Grundir

Hverfum nú örlítið til baka.  Árið 1650 er Eggert Björnsson eigandi að Saurbæjareignum og sýslumaður.  Hann situr þó löngum á annarri eign sinni Skarði á Skarðsströnd.  Hann er afkomandi Magnúsar prúða í Saurbæ og bróðir séra Páls í Selárdal; mesta galdramannahrellis samtímans.  Páll er reyndar eigandi grannjarðarinnar; Kollsvíkur, ásamt Hænuvík.  Láganúpsverstöð er Eggert mikil tekjulind og hann vill efla hana og tryggja sjósókn.  Ekki var nóg að eiga góða báta; þarna þurfti formenn sem voru glöggir á mið og lendingar.  Eggert lætur því byggja upp tvær nýjar hjáleigur úr Láganúpsjörðinni til að tryggja sér formenn í þeirri samkeppni sem um þá var.  Önnur er Hólar, sem húsuð er frá grunni; þar með er byggt hesthúsið sem orðið hefur elst húsa á Íslandi.  Hin er Grundir, þar sem Eggert lætur byggja kot upp úr stekk sem þar hafði verið frá Láganúpi.  Kvöð leigjendanna er að þeir stýri bátum Bæjarbónda og leggi til segl á þá, auk þess að svara út landskuld og leigukúgildum.  Formannshluturinn eru hausar af aflanum.  Á báðum jörðum er líklega þegar orðið vel gróið tún, vegna þeirrar venju að bera raskið (slógið) af aflanum á tún; það sem ekki var brúkað til mann- eða skepnueldis.  Þar, eins og á Láganúpstúni, er því góður kúahagi, en fóðurlétt er fyrir sauðfé vegna góðra bithaga og fjörubeitar.  
En þessi grösugu tún eru freistandi fyrir sauðféð.  Fjárhúsin eru við sjóinn til að nýta fjörubeitina, en þegar féð er rekið á hagana, annaðhvort frammi í víkinni eða úti um Strympur og Hnífa, þá kostar það nokkur hlaup hjá smalanum að halda því frá túnunum.  Skósparnaður væri að því að vörslugarði.

Garðarnir

gardar bakkar nordurEkki verður fullyrt með nokkurri vissu hvenær Garðarnir á Grundabökkum byrjuðu að taka á sig mynd.  Ekki er órökrétt að álykta að fyrstu hleðslur þeirra megi rekja til þess tíma að skreiðarútgerð stóð með blóma í Láganúpsveri; e.t.v. einhverntíma milli 1400 til 1700.  Skreiðin var verkuð með nokkuð öðrum hætti en síðar varð.  Þörf var fyrir þurrkgarða við þá verkun og ekki síður til herslu á steinbít og öðrum afla.  Nyrsti hluti Garðanna er á svæði þar sem þykk fiskbeinalög eru í jörð, og því er ekki ólíklegt að sá hluti sé upprunalegastur.  Þeir hafi þar verið nýttir til þurrkunar afla og e.t.v. sem ruðningar, en svo nefndust aðgerðaborðin í verinu.  Á þeim mátti einnig þerra sjóklæðin og ofan þeirra hefur verið skjól fyrir norðannæðingnum, þar sem bátum var hvolft til vetrargeymslu.  Þá hafa þeir einnig nýst sem vörslugarðar, svo langt sem þeir náðu; til að verja Grundatúnið.  Grjót til hleðslu þeirra var nærtækt í fjörunni, en e.t.v. hefur einnig lagst til þeirra efni úr aflögðum búðum.  

Kristjáns þáttur Ásbjörnssonar

Líður svo ár og öld að við vitum lítið um verstöðina Láganúpsver; og þá ekki heldur um framvindu Garðanna.  Líklegt er þó að þeir hafi haldið áfram að lengjast til suðurs; enda kallaði túnið eftir vörslugarði þó umsvif minnkuðu í verstöðinni.  Rökrétt er að álíta að veggir ónotaðra verbúða hafi verið rifnir og grjót úr þeim nýtt til lengingar á Görðunum.  Freistandi er að álykta að sá hluti þeirra sem er neðan við Lögmannslág sé mjög gamall að stofni til; enda má e.t.v. greina mun á hleðslulagi og útliti þess hluta; samanborið við hinn syðri.  
Kemur þá til sögunnar Kristján Ásbjörnsson (25.08.1859-25.11.1926), sem var bóndi á Grundum í lok 19. aldar og fram á þá 20.  Kristján var af Kollsvíkurætt; langafabarn Einars í Kollsvík.  Kona hans, Guðrún Halldórsdóttir var af öðrum ættlegg Kollsvíkurættar, og saman eignuðust þau 11 börn.  Kristján var ekki einungis dugandi bóndi, heldur einnig kappsamur formaður og sjósóknari.  Iðjuleysi var eitur í hans beinum og enn ganga sögur um kappsemi hans.  Eitt sinn var ófært til róðra og Kristján nýtti tímann til húslestra, eins og þá var títt.  Þegar hæst stóð lesturinn varð honum litið út um gaflgluggann á Grundabænum og sá að veður hafði gengið niður.  Fleygði hann þá frá sér postillunni og kallaði til konu sinnar; "hér er bókin; hvar er brókin; amen"!  Önnur saga segir að hann hafi verið svo léttur á fæti að þegar hann fór að gá til kinda ásamt hundi sínum hafi hann verið svo hraðgengur að iðulega kom hann til baka berandi hundinn útkeyrðan undir hendinni.  Sjálfur hafi hann ekki blásið úr nös!  Bát átti Kristján sem Heppinn hét, og mun hann hafa staðið undir nafni.  Ekki hvarflaði að Kristjáni að láta húskarla sína og háseta sitja iðjulausa þó landlegur væri; og kemur þá að þeim þætti sem snertir Garðana.  Kristján sá strax hagkvæmnina í því að lengja Garðana til suðurs; bæði til að hægara væri að verja dýrmætt slægjulandið á Grundum og áveitur sem þá voru komnar í Grundamýrinni, en ekki síður til að betur gengi að reka féð frá fjárhúsunum til beitar út á Hnífa og Strympur; og heim aftur.  Þessi notkun Garðanna er ástæða þess að þeir eru ekki byggðir fremst á Bökkunum; heldur er vel gangfært framanvið þá.  Líklega er sama skýring á stuttum garðbút sem sjá má leifar af í svonefndri Undirhlíð, norðast í Hnífunum; hann hefur átt að halda að fé.  Kristján hefur haldið mönnum sínum vel að verki, því grjóthlaðinn garður hans er um 150 metrar, eða jafn langur og allur hinn eldri garður.  Ekki nóg með það heldur er um 200 metra langur torfhlaðinn garður til viðbótar að öllum líkindum frá tíð Kristjáns.  Leifar sjást víðar af garðahleðslum kringum Grundir, en ekki verður fullyrt um aldur þeirra.  Garðar Kristjáns eru reisulegir; grjótgarðarnir vel yfir metra á hæð; tvíhlaðnir með öflugum kjarna; torfgarðarnir núna mun lægri en hafa eflaust verið sama hæð áður en þeir tóku að síga.   

Matjurtagarðarnir

gardar matj sud2En Kristján lét hér ekki staðar numið.  Í hans tíð voru matjurtagarðar orðnir algengir við bæi og neysla kartaflna, rófna og kálmetis hafði stóraukist.  Kartöflugarður mikill er sunnanveggjar við Grundabæinn, eins og enn má sjá; en það dugði Kristjáni ekki.  Hann lét hlaða feiknamikil tvö garðhólf við Garðana; samanlagt um 450 fermetrar að flatarmáli, með þykkum háum veggjum.  Hvergi er skjólsælla í sunnanverðri Kollsvík og því hefur sprettan væntanlega verið góð.  Vera kann að á þessum tímum hafi Kristján notið aðstoðar stálpaðra barna sinna, sem öll urðu dugnaðarfólk, en eftir andlát hans 1926 tók Kristján Júlíus sonur hans við búskap á Grundum.

Byrgið

byrgidVið norðari enda Garðanna er mannvirki sem rétt er að gera dálitla grein fyrir.  Þarna er nokkurskonar tóft, sem þó er ekki hlaðin allan hringinn heldur einungis suðvestur- og norðvesturveggir.  Þetta er byrgi sem hlaðið var í þeim tilgangi að liggja fyrir máf sem iðulega flýgur norðurmeð Bökkunum í leit að fæði í fjörunni; og skjóta hann á fluginu.  Þessi iðja var allmikið stunduð í Kollsvík á 20. öld, sem liður í mataröflun til fjölmennra heimila.  Þegar sá sem þetta skrifar (VÖ) var að alast upp á 7. áratug 20. aldar var það ætíð tilhlökkunarefni drengja í Kollsvík að fá að fara með fullorðnum máfaskyttum niður að Görðum til að skjóta á fluginu.  Hlutverk okkar stútunganna var annarsvegar að veifa; þ.e. blaka afskornum máfsvængjum yfir byrgisveggnum til að hæna ungmáfa í byssufæri, en hinsvegar að hlaupa uppi og dauðrota máfa sem ekki drápust alveg við skotið.  Áhugasamastir í máfaskytteríinu voru föðurbræður mínir sem þá voru fluttir í Borgarnes; Einar og Páll Guðbjartssynir.  Miklir flokkar máfa komu iðulega með Bökkunum við góðar aðstæður; norðanvindi og háflæði, og var afraksturinn stundum hátt í hundrað máfa eftir daginn.  Það sem ekki var soðið strax af máfnum var saltað ofaní tunnur.  Máfaket er hátíðarmatur; og ekki er súpan síðri.

Görðunum hnignar

 Segja má að Garðarnir hafi borið aldurinn vel í heildina litið, og verið tignarlegt kennileyti í Láganúpslandi.  Undirlag þeirra er ákjósanlegt; frostfrír malarkambur með sendnum jarðvegi beggja vegna.  

Búið var á Grundum til 1945, og vafalaust hefur túngörðum verið vel við haldið meðan þeirra var þörf. Grundatún voru síðan nytjuð af Láganúpsbónda, sem stuttu síðar keypti jarðirnar undan Bæjareignum eftir margra alda leiguábúð.  Á Láganúpi bjó þá hinn kunni hleðslumaður Guðbjartur Guðbjartsson, og hefur hann eflaust séð til þess að halda hleðslum í góðu lagi meðan þeirra var þörf.  Eftir stríðsárin ruddi notkun vírgirðinga sér til rúms í Kollsvík sem annarsstaðar, og leysti vörslugirðingar af hólmi.  Þá kom fljótlega girðing um allt Láganúpstún, sem á endanum náði einnig í kringum Grundatúnið og leysti Garðana af hólmi. 

Eftir að Garðarnir voru komnir úr notkun tók þeim að hrörna.  Torfgarðarnir hafa eflaust fyrstir látið á sjá.  Grjótgarðarnir stóðu furðu vel en nokkrir þættir urðu þeim til skemmda:  Í fyrsta lagi var það hin fíngerða, rúnnaða og kvika fjörumöl sem notuð var sumsstaðar sem veggfylling.  Hún skreið smám saman útúr, en við það féll veggurinn saman á þeim stað, eða skekktist.  Í öðru lagi gilti það um þessar hleðslur sem aðrar að menn héldu þeim sið að endurnýta byggingarefni sem hætt var að nota.  Lítilsháttar var tekið úr Görðunum í aðrar hleðslur, en þó var það líklega mun minna en sumar aflagðar tóftir þurftu að þola.  Garðarnir hafa löngum sett mikinn svip á útsýnið frá Láganúpi og því vildu menn trauðlega breyta.  Hinsvegar voru á nokkrum stöðum rofin skörð í veggina til að fé ætti greiðari leið um Bakkana, og til að æðarfugl ætti auðveldara með að koma ungum til sjávar.  En um tíma var reynt að koma upp æðarvarpi í Grundamýrinni.  Þriðji helsti ógnvaldur Garðanna er ágangur sjávar þegar saman fer há sjávarstaða, álandsvindur og stólpabrim.  Aldrei varð þessa vart fyrr á árum svo heimildir séu um.  En um og eftir aldamótin 2000 urðu þau umskipti að hver skaðinn rak annan af þessu tagi. 

Fyrst í stað vildu menn kenna þetta hækkandi sjávarstöðu af völdum loftslagshlýnunar.  En snemma árs 2017 setti greinarhöfundur fram kenningu í þessu efni og studdi hana fræðilegum rökum og rannsóknum.  Vitað er að mikil offjölgun varð í stofni ígulkersins skollakopps kringum 1980-90.  Ofbeit hans leiddi til þess að þaraskógur nánast hvarf af grunnsævi víða við land; þar á meðal af Kollsvíkinni.  Sannað hefur verið að þaraskógur á grunnsævi dregur verulega úr afli brimbáru.  Því liggur beint við að álykta að rof það sem orðið hefur víða um land í sjávarbökkum, þar með talin spjöll á fornum verminjum, megi beinlínis rekja til þessara breytinga á lífríkinu á grunnsævi; miklu fremur en hækkaðrar sjávarstöðu.  Undir þessa kenningu hafa tekið okkar helstu sérfræðingar á sviði þara- og ígulkerarannsókna.  Greinargerð höfundar um þessi efni má lesa annarsstaðar á vefsíðunni. 

Skörð rofnuðu í Garðana utantil í Görðunum í versta sjóganginum, og nokkuð barst af möl og grjóti upp á Bakkana.  Þennan ógnvald er erfitt að stöðva, en e.t.v. mætti laga til neðan Bakkanna, þannig að viðstaða verði gegn óheftu flani bárunnar á land.  Það mætti gera með því að fara nett meðfram Bökkunum með gröfu eða lítilli jarðýtu og búa til stall neðan þeirra.  Best væri ef í leiðinni væri stillt upp stórgrýti í stallinn, svo ekki nagist úr honum.

Viðhald Garðanna

gardar fyrir vidgVinna við viðhald Garðanna hófst sumarið 2016.  Skýrsluhöfundur, sem jafnframt er verkefnisstjóri, vann verkið að mestu einn, en naut við það góðrar aðstoðar bræðra sinna, eftir því sem á þurfti að halda.  vinnan hefur þó verið stopul og bundin við sumarfrí, enda er verkefnisstjóri búsettur á öðru landshorni.  Minjastofnun hefur veitt nokkra styrki til verkefnisins, sem er mikilsverð viðurkenning á varðveisluþörf þessara merku minja.  

Ákveðið var að hefja verkið við Garðshornið; í SA-enda Garðanna.  Þar mætir torfgarður grjótgarði.  Skilinn var eftir kafli á þessum mótum, enda eru Garðarnir þar farnir að liggja frá sjónum; lítið eftir af þeim nema undirstaðan, og mikilvægt að eiga einhvern hluta grjóthleðslunnar ósnertan til hugsanlegra síðari tíma rannsókna og samanburðar.  Um beygjuna voru Garðarnir mjög illa farnir og þar vantaði mikið efni.  Ástæðan kann að hluta að vera sú að þarna myndast oft tjörn í lægðinni, en ísmyndun í henni veldur hreyfingu í efninu.  Grjót var sótt til viðbótar niðurá kambinn með traktor.

gardar logm nordurLeitast var við að endurhlaða veggina í svipuðum stíl og þeir voru, þar sem við þeim var hreyft.  Sú breyting var helst gerð að í stað fíngerðrar malar var notað kastgrjót í veggfyllinguna.  Var það gert til að ekki rynni úr þeim aftur.  Engin þörf er á því í slíkum vörslugarði að hafa veggi þétta, eins og í húsveggum; þvert á móti er það til bóta á allan hátt að vel lofti um hleðsluna.  Vegghalli var svipaður og verið hafði; e.t.v. ívið brattari sumsstaðar, ef gæði grjótsins leyfðu.  Stöðugleiki og breidd veggja leyfa víðast hvar að bæta aðeins við hæðina, sýnist mönnum svo.  Þó er ekki unnt að ábyrgjast stöðugleikann eins á þeim köflum öllum sem ekki voru endurbyggðir.  

Gerð voru þrjú upplýsingaskilti og sett upp á Grundabökkum:  Eitt þeirra er um Láganúpsver; annað um tvö togaraströnd við Kollsvík og hið þriðja um strand landnámsmannsins Kolls við Arnarboða undan Grundabökkum.  Það síðastnefnda var sett upp á Garðana gegnt boðanum; stutt norðan kálgarðanna.  Endurnýjaðar voru stikur við gönguleið sem liggur frá bílastæði neðan Láganúps; niður Grundir í Láganúpsver; síðan eftir Grundabökkum; meðfram Görðunum; útá Hreggnesa og heimyfir Brunnsbrekku hjá Kaldabrunni.  

Húsafriðunarsjóður Minjastofnunar veitti aftur styrk til viðgerða á Görðunum árið 2017.  Áætlað var að hefjast handa í júní, en þau plön breyttust við andlát Sigríðar Guðbjartsdóttur landeiganda Láganúps, sem verið hefur mjög áhugasöm um varðveislu menningarminja á staðnum.  Unnið var að hleðslum í júlí og ágúst og samtals gert við Garðana á um 130 metra kafla. 

gardar handastEins og fyrr segir bendir allt til þess að utari/vestari endi Garðanna sé einkanlega sá hluti sem hlaðinn var af Kristjáni Ásbjörssyni og hans mönnum, og því e.t.v. rösklega aldargamall.  Má álykta að Garðarnir norðan kálgarðanna séu mun eldri og hafi meira minjagildi.  Því var ákveðið að hrófla sem allra minnst við Görðunum norðan kálgarðanna.  Þar verður aðeins gert við hrun og verulegt samfall, en hvorki gerð tilraun til að hækka hleðsluna né rétta kilpa á vegglínu.  Garðurinn verður lagfærður og færður í þann þokkalega heildarsvip sem hann þar hefur.

Ekki var unnið að viðgerðum sumarið 2018, en þegar þetta er ritað, haustið 2018, er þess vænst að unnt verði að ljúka verkinu innan fárra missera; bæði lagfæringum á Görðunum sjálfum, auk upphleðslu á Byrginu og matjurtagörðunum.  

Þá er fyrirhugað að Vegagerðin láti gera fyrirhleðslur til varnar sjávarágangi á minjar í Grundabökkum.  Byrjað verður neðan við Byrgið, en vonandi næst að verja Bakkana eitthvað norðureftir, og koma þannig í veg fyrir frekara tjón á þeim miklu menningarminjum sem þarna leynast í jörð.  

nóv 2018
Valdimar Össurarson frá Láganúpi