Það (ao)  A.  Hvorugkyns staðgengilsorð þess sem um er rætt.  „Enn ríkir sama fegurðin í Kollsvík; það hefur ekki breyst“.  B.  Svo.  „... og oft urðu hestagöturnar það djúpar að ríðandi maður rak fæturna í grjót í götuköntunum.  .... en þeir urðu að vera orðnir það vel að manni að þeir gætu tekið ofan klyfjar“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Ég er ekki það vitlaus að ég leggi trúnað á svona lygasögur“!  Báðar nýtingar koma fyrir í þessari setningu:  „Enn var það lágsjávað að báturinn tók sem sagt allur jafnt niðri, og dró það úr högginu“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Það allra heilagasta (otðtak)  Forboðnasti/mest verndaði staðurinn.  „Aðeins fáir útvaldir fengu að koma inn í það allra heilagasta, þar sem hann geymdi sínar gersemar“.  Runnið frá skipulagi helgistaða, s.s. musteris eða hofs; rými sem einungis æðsti trúarhöfðingi/prestur/goði mátti koma inní.

Það á ekki af ... að ganga! (orðatiltæki)  Vandræði hans/hennar/þess virðast endalaus.  „Nú er hann kominn með krabba karlanginn; og nýbúinn að missa konuna.  Það á ekki af honum að ganga“.

Það á ekki úr að aka! (orðtak)  Upphrópunarsetning sem oft er notuð til að lýsa undrun yfir t.d. sífelldri óheppni.  „Er sprungið hinumegin líka?!  Það á ekki úr að aka með þessa dekkjaræfla“!

Það á nú við lífið hans Láka! (orðatiltæki)  Upphrópun sem notuð er til að lýsa því að einstaklingur finni sig í einhverju/ þyki sérlega gaman að einhverju.  Ekki vitað um upprunann, en láki var oft gæluheiti á hákarli.  Því getur þetta vísað til þess þegar mistekst að drepa hákarl, svo úr verða mikil sporðaköst.

Það bíður betri/síns tíma / Það bíður sinnar stundar  (orðtak)  Það bíður þar til tímabært er að það komi fram/nýtist; það verður gert síðar.  Sjá allt bíður síns tíma; allt bíður sinnar stundar.

Það blæs ekki byrlega  Það lítur ekki vel út; því gengur ekki í haginn.  „Það blæs ekki byrlega fyrir þeim sem vilja hefja búskap nú á tímum“.

Það bregst mér ekki (orðtak)  Áherslusetning, notuð til að fylgja eftir áliti/grun.  „Fjári eru þeir lengi í ferðinni.  Nú hefur sprungið hjá þeim og þeir verið varadekkslausir; það bregst mér ekki“.

Það eina er (orðtak)   Um fryrivara; það er aðeins eitt atriði; það þarf samt að athuga.  „Ég get sem best setið yfir kindinn þar til hún er borin.  Það eina er að ég átti eftir að láta lambið sjúga, í stíunni“.

Það er af sem af er / Það er búið sem búið er (orðatiltæki)  Ekki er eftir það sem af er; því er lokið sem unnið hefur verið. 

Það er af sem áður var (orðtak)  Tímarnir eru breyttir; breyst hefur til verri vegar.  „Nú er offitan helsti ógnvaldur landsmanna.  Það er af sem áður var, þegar þeir drógust með erfiðismunum út í verin í þeirri von að seðja sárasta hungrið“!  Einnig orðað af er (það) sem áður var.

Það er aldeilis! (orðtak)  Upphrópun til áhersluauka/ til að býsnast yfir.  „Það er aldeilis þoka, þetta; maður sér varla niður á tærnar á sér“!

Það er aldrei! (orðatiltæki)  Upphrópun; ósköp/firn eru þetta.  „Það er aldrei!  Hundurinn liggur í rúminu mínu“!

Það er (nú) alleina það (orðtak)  Hikorð eða undirtektir á því sem sagt hefur verið.  „Það er nú alleina það með þessa þingmenn; þeim hættir til að segja eitt fyrir kosningar og annað að þeim loknum“.

Það er borin von (orðtak)  Það er vonlaust/útilokað.  „Það er borin von að finna neitt af þessum kindum aftur“.

Það er ekki úr að aka (orðatiltæki)  Verður ekki breytt/hnikað/hjá komist; er í gadda slegið.  „Það er ekki úr að aka með þessa Vegagerð.  Ætli maður verði ekki að handmoka hálsinn þennan veturinn“.

Það er ekkert lýsigull í því (orðtak)  Notað til að lýsa óvönduðu efni/grip.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Það er hægurinn hjá (orðtak)  Það er handhægt/auðvelt.  „Ég býð honum far með mér; það er hægurinn hjá, þar sem ég bý í næsta húsi“.

Það er (nú) líkast til! (ortðtak)  Upphrópun til áréttingar/staðfestingar á því sem sagt er.  „Var hann að heimta spyrð þú.  Það er nú líkast til!  Hann fékk tvær útigengnar; báðar með tveimur“!

Það er nefnilega það / Það er nebblega það  (orðtak)  Merkingarlaus setning sem notuð er til andsvars; sem staðfesting eða undirtektir á orðum viðmælanda eða upphrópun/undrunarviðbragð.

Það er (nú/þá) nýtt! (orðtak)  Upphrópun, töluvert viðhöfð í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar; andsvar við einhveru sem gengur framaf manni.  Áherslan var einatt á síðasta orði, og það haft í lægri tóntegund en hin.  „Já datt hann í það á helginni?  Það er þá nýtt! Og hvern þurfti hann að heimsækja núna“?

Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn (orðatiltæki)  Sjá eins og að pissa í skóinn sinn.

Það er svo margt í mörgu í maganum á Ingibjörgu (orðatiltæki)  Hiksetning sem í raun er merkingarlaus, en var allnokkuð viðhöfð framundir það síðasta af vissum mönnum í Útvíkum.  Ekki ljóst hvort hún vísar til tiltekinnar Ingibjargar, eða hvort hún er þarna einungis sem rímorð.

Það er/væri synd að segja (orðtak)  Það væru öfugmæli; það væri orðum aukið.  „Það væri synd að segja að hann ynni ekki að mat sínum; beinin eru bleik og skinin eftir að hann hefur farið um þau vasahnífnum“!

Það eru ekki hundrað í hættunni (orðatiltæki).  Það er ekki svo mikill skaði; það gerir ekki svo mikið til.  „Það eru nú ekki hundrað í hættunni þó ekki náist að koma öllu heyinu í hlöðu í dag, eins og veðurútlitið er“.

Það/að ég (best) veit (orðtak)  Eftir minni bestu vitneskju; að því er ég best veit

Það grær áður en þú giftir þig (orðtatiltæki)  Meiðslin gróa fljótt.  „Vertu ekki að vola yfir þessu anginn minn; þessi skinnspretta grær áður en þú giftir þig“.

Það held ég (nú) (orðtak)  E.t.v. algengasta hikorðið sem notað var í Kollsvík á síðari hluta 20.aldar og e.t.v. fyrr.  Yfirleitt notað milli setninga eða í lokin; eins og til að halda samfellu í frásögn/samræðum.  Oft dreginn seymurinn töluvert á fyrsta orðinu.  Önnur hikorð voru t.d. „Það er nú svo“; það er nú alltsvo“; það er nú það“; það er þannin; „það er einmitt“, eða einungis „einmitt“.

Það lóar ekki við stein (orðtak)  Það er algjörlega lágdauður sjór.

Það er af sem af er / Það er búið sem búið er (orðatiltæki)  Auðskilin speki sem oft er notuð, einkum þegar menn vinna seinlegt verk sem lítið virðist miða.  „Ég er feginn því að að við gátum klárað að hreinsa strengina á Hænuvíkinni í dag; það er þá búið sem búið er; við eigum það þá ekki eftir á morgun“.

Það er af sem áður var (orðatiltæki)  Breyting er á orðin.  Oft viðhaft þegar menn minnast horfinna góðra siða/venja/hefða/tíma, gjarnan með söknuði.  Einnig; af er það sem áður var.

Það er aldeilis! (orðatiltæki)  Það munar ekki um það; fyrr má nú vera; fyrr má rota en dauðrota; eitthvað má nú á milli vera!  Orðatiltæki þegar mælandi býsnast yfir einhverju.

Það er aldrei að vita (orðatiltæki)  Það gæti vel svo farið; ekki er ólíklegt; kannski.  „Veðurspáinn er nokkuð sæmileg; það er aldrei að vita nema við skellum okkur í róður á morgun“.

Það er alltaf búningsbót að bera sig karlmannlega ( orðatiltæki)  Alltaf er það til bóta að bera sig vel, hversu slæmar sem aðstæður eru.  Úr kvæði:  „Við skulum ekki víla hót;/ vart það léttir trega./  Það er þó alltaf búningsbót/ að bera sig karlmannlega“ (Kristján Fjallaskáld).

Það er auman (orðtak)  Upphrópun í vandlætingu/vanþóknun yfir getuleysi/aumingjadómi/klaufaskap.  „Það er meiri auman að geta ekki litið eftir kúnum eitt augnablik; þær voru allar komnar í galtana“!

Það er búið og gert (orðatiltæki)  Því er aflokið; það hefur verið framkvæmt. 

Það er (þá/þó) búið sem búið er (orðatiltæki)  Sú vinna er ekki eftir sem lokið er. 

Það er (ekki) efnilegt (orðtak)  Upphrópun/áherslusetning.  „Já nú er það efnilegt:  Ég var að heyra að þeir ætli að hækka bensínið eina ferðina enn“.  „Það er ekki efnilegt að heyra þetta með brunann“.

Það er (þá) eins og vant er! (orðatiltæki)  Upphrópun/andsvar í vandlætingu.  „Nennti hann ekki að koma með; það er þá eins og vant er!  Þetta þarf að sofa framá miðjan dag allatíð!

Það er/var ekkert annað! (orðatiltæki)  Upphrópun sem oft er notuð sjálfstæð sem andsvar við því sem manni finnst yfirgengilegt/hneykslanlegt/tilkomumikið/aðdáunarvert.

Það er eins og einhver sé að draga á eftir sér járnplötu (eftir grjótinu) (orðatiltæki)  Viðhaft um mikinn/óþolandi hávaða, en þó oftar um hræðilega/óþolandi tónlist.  Mun vera tilvitnun í ónefndan Rauðasandshreppsbúa sem nú er genginn, en töluvert notað almennt í Rauðasandshreppi.

Það er ekki að undra þó/þótt / Það skyldi engan undra þótt (orðtak)  Ekki er undarlegt að; ekki er kyn þó að.  „Það er ekki að undra þó ég verði ekki var; færið var alls ekki komið í botn“! 

Það er/verður ekki aftur tekið (orðtak)  Sjá ekki aftur tekið.

Það er ekki búmaður sem ekki kann að berja sér ( orðatiltæki)  Enginn er búmaður nema kunna að berja sér.

Það er ekki gaman að því! (orðatiltæki)  Viðkvæði þegar eitthvað gengur miður eða slæm tíðindi eru sögð.

Það er ekki laust sem skrattinn heldur (orðatiltæki)  Notað þegar eitthvað stendur fast/næst ekki, án augljóra ástæðna eða fyrirséð að beita þarf miklum fortölum/aðgerðum.  „Hornstaurinn er ekkert á því að koma upp ennþá þó búið sé að grafa frá honum; það er ekki laust sem skrattinn heldur“!

Það er ekki matur; músin steikt (og maðkur uppúr rjóma) (orðatiltæki)  Mús getur ekki talist mannamatur, jafnvel ekki þó steikt sé.  Sama gildir um maðkinn, þó í rjóma sé etinn.  Viðhaft þegar eitthvað er á borðum sem ekki líkar.  Telja sumir þar undir falla hvítlauk og gúrku.

Það er ekki nema tvennt til (í því) (orðatiltæki)  Ekki nema tveit kostir í stöðunni.  „Nú þarf annaðhvort að drífa í þessu strax eða láta það bíða til morguns; það er ekki nema tvennt til“.

Það er heila málið (orðtak)  Um það snýst þetta; þar liggur hundurinn grafinn. 

Það er helst! / Það er þá helst! (orðtök)  Upphrópanir sem notuð eru í fyirlitningartón (í nútíð eða þátíð) þegar fullyrðing gengur framaf manni/ hljómar mjög fáránlega.  „Er hann þreyttur segirðu?  Það er þá helst!; ég veit ekki til að hann hafi lyft litlafingri til að hjálpa okkur við þetta verk“!

Það er lítið sem göngumann munar ekki um (orðatiltæki)  Gangandi mann munar um alla byrði, einkum ef um langveg er að fara.

Það er margt í mörgu (orðtak)  Meiningarlítið orðatiltæki sem oft var sagt sem andsvar við; eða í kjölfar meiri tíðinda, eða einungis sem hikorð.

Það er meira blóð í kúnni (orðtak)  Meira er til; ekki er allt búið enn.  „Ég hélt að nú væri allt búið, en það var sko meira blóð í kúnni“!

Það er munur að vara maður og míga standandi! (orðatiltæki)  Yfirlýsing um manndóm/getu/sjálfstæði.  Oft notað í háði um þann sem ber sig vel; er jafnvel montinn.  „Asskoti varstu heppinn að eignast þetta lamb drengur; bara kominn í tölu gildra bænda! Já það er aldeilis munur að vera maður og míga standandi!

Það er naumast! (orðatiltæki)  Upphrópun þegar býsnast er yfir einhverju; gjarnan fyrirgangi eða hneykslunarefni.  „Það er naumast!  Farið þið nú að hætta þessum gauragangi strákar áður en einhver meiðir sig“.

Það er nefnilega það! (orðatiltæki)  Upphrópun/hiksetning sem andsvar við því sem sagt hefur verið.  Merkingin fer oft eftir tóntegundinni, en gjarnan er þetta notað til að ljúka samtali að sinni.

Það er nú eitt! / Eitt er nú það! / Svo er nú það/þetta! (orðatiltæki)  Vel á minnst; það er þarft umræðuefni; það er tiltökumál.  „Já, það er nú eitt!  Hann er sífellt að baknaga aðra til að upphefja sjálfan sig“.  Nokkuð notað af sumum, og þá jafnan í vanþóknunar- eða hneykslunartón.

Það er nú sér og sitthvað (orðatiltæki)  Það eru algerlega óskyld mál/óskyldir hlutir; það er ekki það sama. 

Það er nú tisona (orðatiltæki)  Það er nú svo; það gengur svona til.  Hikorð í byrjun efnislegrar setningar.  Sagt þannig, en „tisona“ er líklega upprunalega „til svona“.  „Það er nú tisona; einhver verður að byrja“.

Það er nú svo / Það er nú það / Það er nú (bara) þannig/þannin / Það gengur (nú) svona til (orðatiltæki)  Hikorð án sérstakrar merkingar.  Oft notuð til að undirstrika það sem sagt hefur verið eða brúa þagnir.

Það er nú öðru nær (orðatiltæki)  Því fer fjarri; það er alrangt.  „Þú heldur að þetta sé búið?  Það er nú einhverju öðru nær; nú eigum við eftir að gera að aflanum og salta“!

Það er (nú/þá) nýtt! (orðatiltæki)  Upphrópun; viðbragð sem oft heyrðist meðal Útvíknamanna þegar þeir heyrðu um heimskupör, einkum það sem alls ekki var nýtt; eitthvað sem var neikvætt en síendurtekið.  „Er nú aftur verið að auglýsa hann til uppboðs; það er þá nýtt“!

Það er nýtt sem sjaldan skeður (orðtatiltæki)  Það má teljast nýtt/viðburður sem ekki verður/skeður nema í undantekningartilvikum.  „Það er nýtt sem sjaldan skeður; nú hafa þeir mokað yfir Hænuvíkurhálsinn“!

Það er of seint að iðrast eftir dauðann / Það er of seint að iðrast þegar kúkurinn er kominn í buxurnar (orðatiltæki)  Auðskilin speki, en er oft viðhöfð þegar menn sjá að glappaskot hefur átt sér stað; skaðinn er skeður.

Það er passinn (orðatiltæki)  Það passar; alveg eins og vænta má.  „Rölta þurfti um nokkurn spöl upp í Túnshalann til að mjólka.  Og alltaf var það passinn að fyrstu tvær kýrnar voru búnar að stilla sér upp í sín stæði þegar við vorum komin.  Nákvæmari skepnur finnast ekki á jarðríki“.  Einnig til áherlslu þegar hneykslast er:  „Þeir voru þá að hækka tóbakið eina ferðina enn!  Það er passinn; rétt þegar kjarasamningum er lokið“!

Það er sama hvar dáðlaus drattar (orðatiltæki)  Ekki skiptir máli hvar sá heldur sig sem ekkert gagn er að; hinn lati má vera hvar sem er.  „Ég fór í skemmtiferð erlendis meðan ég var að jafna mig í hendinni; enda er víst sama hvar dáðlaus drattar“.

Það er sami rassinn undir þessu (orðtak)  Þeir eru allir eins; ég geri ekki greinarmun á þeim.  „Ég sé ekki að skipti miklu máli hvort ég kýs íhaldið eða Framsókn; það er sami rassinn undir þessu þegar upp er staðið“!

Það er (nú) sitthvað; Jón eða séra Jón (orðatiltæki)  Viðhaft þegar freklega þykir gert upp á milli manna/ þegar gerður er mannamunur t.d. vegna virðingar.  „Þeir eru ekki að heimsækja okkur smælingjana þessir þingmenn; það nú sitthvað; Jón eða Sérajón“!  Sjá sitthvað er Jón og séra Jón og ekki eru allir Jónar jafnir.

Það er skammgóður vermir að pissa/(míga í skóinn sinn (orðatiltæki)  Notað um bráðabirgðareddingar af ýmsu tagi, sem ekki eru bjargráð til langframa; fremur en það sem lýst er. 

Það er smátt sem hundstungan finnur ekki (orðatiltæki)  Um fundvísi á munum eða göllum manna.  „Enn eru þeir að grafa upp einhvern ósóma um karlgreyið; það er smátt sem hundstungan finnur ekki“.

Það er undir hælinn lagt (orðatiltæki)  Það er tilviljunum háð/óvíst.  „Það er alveg undir hælinn lagt hvort þeir gefa sér tíma til að borða meðan þessi vinnutörn gengur yfir“.

Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn (orðatiltæki)  Líkingin er gjarnan viðhöfð þegar ætlunin er að beita ónógum skammtímalausnum á vandamál sem krefst raunhæfari úrræða.  Sjá skammgóður vermir.

Það er smátt sem hundstungan finnur ekki (orðtatiltæki)  Þefskyn hunds er þúsundfalt á við mann og því finnur hann margt.  Viðhaft um það þegar menn finna og nýta sér smávægilega hluti, jafnvel til verulegs ávinnings.

Það er spursmál (orðtak)  Það er spurning; áhöld gætu verið um það; það er ekki víst.  „Það er spursmál hvernig þeim gengur að koma fénu í rétt; svona fáliðuðum“.  Einnig algengt sem viðkvæði þega svar er óvíst.

Það er svo eiðfært (orðtak)  Það er algert; það er staðreynd/dagsatt; það skortir algerlega.  „Það er svo eiðfært með það að ég finni nokkursstaðar eldspýtur“!

Það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast (orðatiltæki)  Mönnum er gjarnt að nefna það oft sem þeim stendur næst; áhugamálið ber gjarnan á góma. 

Það er valt á því völubeininu (orðatiltæki)  Erfitt er að treysta á það; það er tæplega; getur brugðið til beggja átta.  „Hann ætlar að reyna að ná fluginu suður, en það er valt á því völubeininu að hann nái því“.

Það er ýmist af eða á! / Það er ýmist úr eða í! (orðtök)  Upphrópanir þess sem finnst annr vera óákveðinn/flöktandi í skoðunum.  „Það er ýmist úr eða í; mikið vildi ég að hann segði hreint út um þetta“.  Hið fyrra er e.t.v. komið úr lagamáli, þar sem ýmist er reynt að koma sök af manni eða á hann.

Það er (ekki) (ekki nema) von (orðtak)  Þess/annars er (ekki) að vænta.  „Það er ekki von að þú vitir þetta; þú varst ekki fæddur þegar það skeði“.  „Það er ekki nema von að sjór sé í bátnum; neglan er farin úr“!  „Það er von að barnið segi þetta.  Það endurtekur bara það sem fyrir því er haft“!

Það er (aldeilis) uppi á honum typpið! (orðatiltæki)  Hann er heldur betur uppástöndugur; það er mikill hroki í honum.  E.t.v. eiginleg merking, en sumir telja að typpi vísi til masturs á báti eða topphúfu.

Það er vandlifað í veröldinni / Það er vandlifað í henni versu (orðatiltæki)  Tilveran er erfið.  „Nú má helst ekki róa til fiskjar á eigin mið til að bjarga sér um soðmat.  Ja það er vandlifað í veröldinni“!    Sjá vandlifað í veröldinni.

Það eru ekki alltaf jólin (orðatiltæki)  Viðhaft um mótlæti/barning/vonbrigði.  „Hér er allur fiskur jafn steindauður í dag eins og hann var viljugur í gær.  En það eru víst ekki alltaf jólin“!

Það gagnast lítið að geyma sér sjóveður (máltæki)   Þessi augljósu sannindi hafa eflaust um langan aldur verið töm á tungu í Kollsvíkurveri, líklega með ýmsu orðalagi.  Boðskapurinn er augljós; sá sem vill afla þarf að róa þegar gefur.  Boðorðið hefur verið viðhaft um ýmis önnur tilefni, jafnvel í kvennamálum, en hefur ekki heyrst í þessum búningi utan svæðisins.

Það gat nú verið! (orðtak)  Upphrópun, vanalega merki um mikil vonbrigði eða staðfestingu á illum grun.  „Það gat nú verið!  Karlinn lokaði ekki hliðinu og allt heila helvítis pakkið komið inná“!

Það gengur á ýmsu / Ýmist gengur með eða móti (orðatiltæki)  Velgengnin er misjöfn.

Það get ég sagt þér (orðtak)  Áherslusetning; oftast fylgjandi fullyrðingu:  „Þeir eiga eftir að klúðra þessu; það get ég alveg sagt þér“!  Getur þó verið sjálfstæð setning og í eiginlegri merkingu.

Það getur hver maður sjálfan sig séð í því (orðtak)  Sérhver maður getur ímyndað sér sjálfan sig í þeirri stöðu.  „Eflaust hefði maður gert eins og hann í þessu tilfelli; það getur hver maður sjálfan sig séð í því“!

Það gildir einu (orðtak)  Ekki skiptir máli; sama er.  „Það gildir einu hvernig veðrið er; alltaf fer hann sína gönguferð niður að sjó á sama tíma“.  „Það gildir mig einu hvernig þetta er framkvæmt“.

Það grær áður en þú giftir þig (orðatiltæki)  Speki sem viðhöfð er stundum ef börn kvarta undan smáskeinu.

Það grær sem girt er (orðatiltæki)  Gömul speki sem undirstrikar mikilvægi þess að vernda tún gegn beit.  Sögnin að „girða“ er eldri en vírgirðingar samtímans; hún átti við um grjót- og torfhlaðna garða fyrri tíðar.

Það gæti hent sig (orðtak)  Hugsanlegt er; ef til vill; kannski.  „Ég ætla að rölta aftur fram í Dalbotn; það gæti hent sig að rollukvikindin hefðu legið þar í laut þegar smalað var“.

Það hefði einhverntíma þótt fyrirsögn ef...  (orðtak)  Um það sem erfitt hefði verið að spá fyrir um.  „Það hefði einhverntíma þótt fyrirsögn að Kollsvíkin skuli nú vera komin í eyði“.  Fyrirsögn merkir þarna „forspá“.

Það hefði ég haldið (orðtak)  Ég held það; ég býst við því.  Orðalagið var oft viðhaft og er sérkennilegt fyrir það að þarna eru höfð fleiri orð um en þörf er á; líklega til hiks eða mildunar.

Það heitir ekki/varla (orðtak)  Varla verður sagt/ er hægt að segja.  „Það heitir varla að þar sé báti ýtt úr vör; aðeins fiskjað til soðmatar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Það hlaut að koma að því/þessu (orðtak)  Þetta varð að gerast; í þetta stefndi.  „Það hlaut að koma að því að rolluskrattinn gæfist upp; ekki ætlaði ég að gera það“!

Það hlaut að vera / Það varð að vera / Það gat nú verið (orðtök)  Upphrópanir þess sem skyndilega skilur samhengi/ rennur upp ljós fyrir/ sér orsök.  „Það er komið annað lamb hjá Gibbu.  Það hlaut að vera; hún hefur aldrei verið einlembd“.  „Er hann farinn niður að Görðum á skytterí?  Það varð að vera; ekki getur hann sleppt því“.  „Gáðu!  Rollufjandinn er undireins komin inná aftur.  Það gat nú verið“!

Það hlægir mig (orðtak)  Það kætir mig; það veldur mér hlátri.  „Það hlægir mig óneitanlega dálítið að hann skuli verða fyrstur til að framkvæma það sem hann bannaði öðrum að gera“.

Það kemur dagur efir þennan dag (orðatiltæki)  Ekki er öll von úti þó ekki klárist allt fyrir kvöldið; á morgun kemur annar dagur.

Það kemur/ber allt að einu / Það kemur í sama stað niður / Það kemur út í eitt (orðtök)  Niðurstaðan verður sú sama; hver/hvor kosturinn sem er valinn.  „Það kemur alveg út í eitt fyrir mig, hvor leiðin er farin“.

Það kemur fram í seinna verkinu (sem gert er í því fyrra) (orðatiltæki)  Auðveldara er að vinna verk sem vel hefur verið undirbúið/forunnið, en það sem illa er staðið að.  Oftast heyrðist aðeins fyrri parturinn viðhafður í Kollsvík í seinni tíð:  „Það má ekkert flaustra við fellinguna á netunum; það kemur bara fram í seinna verkinu, þegar þau eru komin í sjóinn“.

Það kostar klof að ríða röftum (orðatiltæki)  Mikil athafnasemi getur verið kostnaðarsöm.  Líkingin vísar líklega til þeirrar áráttu drauga að ríða röftum; þ.e. sitja á bæjarburst og láta öllum illum látum.  Líkami drauga endurnýjast ekki, og því slitnar klof þeirra óhjákvæmilega með þessu móti; og það sem í því er.  Má í því efni nefna orðtakið að vera genginn upp að hnjám.

Það lafir meðan ég lifi (orðatiltæki)  Um viðgerð/verk; það dugir mína lífstíð.  „Þetta verður að duga; það lafir kannski meðan ég lifi“.

Það lá að! (orðtak)  Upphrópun, sem oftast er notuð til að lýsa mikilli vandlætingu á því sem við blasir eða sagt hefur verið.  „Það lá að; eru nú ekki kálfaskrattarnir komnir inn í rabbabaragarðinn“!

Það lifir lengst sem lýðum er leiðast (orðatiltæki)  Upphaflega mun þetta hafa verið „hjúum“ í stað „lýðum“ sem almælt var í Kollsvík í seinni tíð.  Vísar orðatiltækið til þess að hinir kúgandi höfðingjar og slekti þeirra lifði yfirleitt lengra lífi en þrautpíndir og langsoltnir landsetar og vinnulýður þeirra.  Þó kann málshátturinn einnig að vísa til þess að t.d. fátækt og hungur eru jafnan lífseigari en fólkið.  Stundum sagt þannig: þeir lifa lengst sem lýðum eru leiðastir.

Það líður tíminn! (orðtak)  Algengt orðtak áðurfyrr, til að minna mælanda og áheyrendur á þá gullvægu reglu að aldrei má sitja iðjulaus og ónotaður tími er glataður tími.  „Það dugir ekki að sitja í kaffi endalaust og kjafta; það líður tíminn“!

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft (orðatiltæki)  Það nema börn sem á bæ er títt.  Auðskilin speki og sígild; börn mótast að sjálfsögðu af uppeldinu og því sem þau venjast og sjá í uppvextinum.

Það má einu gilda (orðtak)  Það gildir einu; skiptir ekki máli; sama er.  „Það má þá einu gilda hvernig kosningaúrslitin eru, fyrst stjórnin er fallin“.

Það má drottinn/guð vita (orðtak)  Ég veit það alls ekki; ég hef enga hugmund um það; Mér er það hulin ráðgáta.  Andsvar þegar maður hefur alls engin svör.  Sjá einn er það sem allt veit.

Það má ekki rétta skrattanum litlafingur/litlaputta (þá hirðir/tekur hann alla hendina) (orðatiltæki)  Líking sem gjarnan er viðhöfð um þá sem eru gjarnir á að misnota góðvild/greiðvikni annarra sér til hagsbóta.  „Það má ekki rétta skrattanum litlaputtann; nú vilja þeir fá mig til að smala alla jörðina“!

Það má fjandinn/andskotinn/skrattinn/ljótikarlinn vita (orðtak)  Ég hef enga hugmynd / veit ekkert um það.  „Það má fjandinn vita hvað orðið hefur um þessar tvær sem sluppu“.

Það má hver varast er hann veit (orðatiltæki)  Maður hlýtur að varast þá hættu sem maður veit af.

Það má merkilegt heita ef ... (orðtak)  Það verður að teljast undarlegt ef...  „Bölvaður norðangarður er þetta!  Það má merkilegt heita ef ystu netin verða ekki kjaftfull af skít í næstu vitjun“.

Það má mikið vera (ef ekki er) (orðtak)  Líklegt er; það eru mestar líkur á; þori að hengja mig uppá.  „Það má mikið vera ef ekki er lúða á hjá mér núna“.  „Honum sýndist að það væri kind þarna norður í Höfðum, og það má mikið vera ef ekki er“.

Það má til sanns vegar færa (orðtak)  Það kann að vera /er líklega rétt. 

Það máttu bóka (orðatiltæki)  Þú getur verið viss um það; það er öruggt; þú mátt hengja þig uppá það.

Það munar ekki um það! (orðatiltæki)  Það er aldeilis!  Upphrópun þegar mælanda þykir mikið til koma.

Það mætti segja mér (orðtak)  Ég gæti vel trúað; líklegt er.  „Ekki hef ér séð strákana, en það mætti segja mér að þeir væru á tunnubátum norður á Torfalæk“.

Það nema börn sem á bæ er títt (orðatiltæki)  Það læra börnin sem fyrir þeim er haft, var algengari útfærsla þessarar speki í Kollsvík.

Það rennur nú flotið af þessu yfir jólin (orðatiltæki)  ...óviss merking... (e.t.v. að nýjabrumið fari fljótlega af; eða að mestu gæðin rýrni fljótlega; VÖ).  Orðatiltækið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Það ræðir ekki um það (orðtak)  Ekki þýðir að fást um það; tilgangslaust að ræða það.  „Mikið hefði nú verið gaman ef upptökur hefðu verið til af samtölum afa og jafnaldra hans sem komu í heimsókn á Láganúp.  En það ræðir víst ekki um það; fyrst enginn hafði sinningu á því á sínum tíma“.

Það segi ég satt! (orðatiltæki)  Upphrópun til áhersluauka; oftast í lok setningar og gjarnan til að fylgja eftir áliti.  „Mikið vildi ég vera laus við þessar nefntóbaksdreifar af gólfunum; það segi ég satt“.

Það segir sig sjálft (orðtak)  Það er auðvitað/aðséð; þarflaust er að segja; auðvitað.  „Það segir sjálft að svona getur þetta ekki gengið lengur“.

Það sem af er (orðtak) Það sem liðið er (af umræddum tíma).  „Veturinn hefur verið afskaplega mildur það sem af er“.  Einnig „hvað af er“ í sömu merkingu.

Það sem eftir er / Það sem lifir (orðtak)  A.  Það sem enn er ólokið.  „Þú mátt eiga það sem eftir er í pakkanum“.  B.  Tíminn sem enn er ólokið af tímabili.  „Það sem eftir lifði dags sat hann við að hreinsa skít úr netum“.

Það sem ég vildi sagt hafa (orðtak)  Hiksetning, oft höfð í upphafi máls þegar maður er að reyna að muna og finna því stað sem maður hafði ætlað sér að segja.

Það sem hendi er nærri/næst (orðtak)  Það sem tiltækt er; hvað sem vera skal.

Það sem meira/verra/lakara er (orðtak)  Hiksetning, viðhöfð þegar bæta á við fullyrðingu sem kom á undan; oftast henni til staðfestu eða aukningar.  „Fari það nú í...!  Við gleymdum aukaslóðunum í landi, og það sem verra er; nestið gleymdist líka“!

Það sem sínkur samandregur kemur ósínkur og eyðir (orðatiltæki)  Oft er það svo að hinn eyðslusami er fljótur að eyða því sem sá aðhaldssami hefur nurlað saman; oft á löngum tíma og með mikilli fyrirhöfn.

Það sem til fellur (orðtak)  Það sem fyrir hendi er; það sem þarf.  „Ég var á Patreksfirði frá áramótum 1947 til hausts í kaupfélaginu.  Ók þá steinbítshausum, afgreiddi í búðinni og gerði það sem til féll“  (IG; Æskuminningar). 

Það sér á (orðtak)  Það sést; vel má sjá.  „Það sér á að nýir bændur eru komnir á býlið; þvílík framför“!

Það sér ekki á svörtu (orðtak)  Þetta getur ekki orðið skítugra; það er lítil hætta á að sjái á þessu.  „Komdu bara inn á skónum; það sér ekki á svörtu þegar strákarnir eru rápandi út og inn allan daginn“.

Það sjá augun síst sem nefinu er næst (orðatiltæki)  Menn koma stundum síst auga á það sem nærri þeim stendur/ er dagleg sýn. 

Það skal aldrei verða (orðtak)  Heiting sem stundum fylgir neitun.  „Það má vel vera að ég láti þetta afkiptalaust, en að ég styðji þessa bölvaða vitleysu; það skal aldrei verða“!

Það skal ég hengja mig uppá! (orðtak)  Áherslusetning, notuð með fullyrðingu sem lýsir sannfæringu manns.  „Nú hafa strákarnir farið í brönduveiðar og gleymt að reka útaf; það skal ég hengja mig uppá“!

Það skal nú úr því teygjan! (orðtak)  Hótun um það að maður ætli að vera harður á sinni skoðun/ sínum rétti og ekki gefa eftir fyrr en í fulla hnefana.  Vísar til þess að þegar t.d. á að toga í stórgrip með bandi þá tognar á því áður en gripurinn dregst af stað. „Það skal nú úr því teygjan áður en hann fær mitt atkvæði“!

Það skal nú úr því teygjan! (orðtak)  Nú skal sverfa til stáls; nú verður barist.  „Það skal nú úr því teygjan ef þeir ætla enn og aftur að svikja okkur um mokstur!  Það gæti þá verið úti friðurinn hjá þingmönnunum“!

Það skaltu/máttu reyna (orðtak)  Láttu sjá; vittu til.  Áherslusetning, notuð til að fylgja eftir áliti/spádómum.  „Ef þú lánar honum vasahnífinn þá færðu hann aldrei aftur; það skaltu reyna“!

Það skartar mest sem skitnast er (orðatiltæki)  Þeir eru oftast fínastir, t.d. í klæðnaði, sem mestir eru þrjótar.  Gjarnan notað um prúðbúið höfðingjaslekti og fyrirfólk sem heimtar virðingu, jafnvel af tötraklæddu almúgafólkinu sem heldur því uppi með sköttum eða leigugjöldum.

Það skyldi þó aldrei vera (orðatiltæki)  Líklegt er;  það má mikið vera.  „Eru strákarnir ekki komnir með kýrnar enn?  Það skyldi þó aldrei vera að þeir séu á brönduveiðum eina ferðina enn“!

Það slampast (orðatiltæki)  Það bjargast/hefst/tekst/gengur.  „Ekki er það velgott, en það slampast“.

Það tekur enginn sem ekki er til (orðatiltæki)  Auðskilið og alloft notað orðatiltæki.

Það tekur því ekki (orðtak)  Það er ekki ómaksins virði; það borgar sig ekki; það er of mikil fyrirhöfn/ of stuttur tími.  „Það tekur því ekki hjá þér að fara út núna; það er alveg að koma að kaffi“.

Það tré er betra sem bognar en hitt sem brestur (orðatiltæki)  Sjá betra er að bogna en bresta.

Það ungur nemur; gamall temur (orðatiltæki)  Hinn yngri lærir/nemur af hinum eldri.

Það vantar ekki! (orðtak)  Upphrópun sem stundum er notuð til að fylgja eftir einhverri hneykslan eða ofboði.  „Ekki eru þeir að flýta sér að greiða út inneignirnar hjá skattinum.  Þeir eru alltaf tindilfættari við rukkanirnar ef menn skulda; það vantar ekki“!

Það vantar ekki sem fengið er / Ekki vantar það sem fengið er (orðatiltæki)  Auðskilin speki.

Það var/er aldrei! (orðatiltæki)  Upphrópun sem notuð var til að lýsa fyrirlitningu eða vanþóknun.  „Hvað segirðu?  Er hún Gunna orðin ólétt enn einusinni?  Það var aldrei!  Eins og ómegðin sé ekki nóg þar á bæ“!  Einnig mikið notuð upphróunin „það var/er naumast“! í svipaðri merkingu.

Það var eins og við manninn mælt (orðatiltæki)  Um leið; samstundis; sem bein afleiðing.  „Ég tók inn eitt skeiðarblað af þessum andskotans hryllingi, og það var eins og við manninn mælt; ég varð strax svo hress að ég þurfti alls ekki meira“!

Það var/er heldur! (orðatiltæki)  Upphrópun til að lýsa aðdáun; stundum þó í háði.  „Það var heldur, múnderingin á sýslumanninum á manntalsþinginu!  Borðalagður og með kaskeyti“.

Það var/er laglegt! (orðtak)  Upphrópun sem ýmist er notuð í aðdáunar- eða hneykslunartón.

Það var/er mikið! (orðatiltæki)  Loksins!  Upphrópun til að lýsa óþolinmæði eða vanþóknun á töfum sem orðið hafa.  „Það var mikið að þið skilið ykkur loksins með kýrnar! Var verið að slóra við brönduveiði enn einusinni“?

Það var (nú) ekki! (orðtak)  Upphrópun; andsvar til að taka undir lýsingu á atviki/magni.  „Það var nú ekki!  Þessi lúða var ekki tommunni styttri en þú sjálfur!  Helvítis klaufaskapur að slíta úr henni“!

Það var hans/hennar von og vísa (orðtak)  Það var eftir honum/henni; við því mátti búast af honum/henni.

Það var og (orðtak)  Það var þannig; svona var það.  Vanalegast notað sem andsvar við fullyrðingu/frásögn, jafnvel í forundran eða vanþóknun.  Stundum notað í upphafi setningar af því tagi.  „Það var og; þessu hefði ég ekki trúað uppá hann að óreyndu“!

Það var/er ogsvo! (orðatiltæki)  Það var og; Jæja?  Upphrópun, oft til að lýsa undrun eða vanþóknun á ýkjum eða gorgeir viðmælanda.  Einnig sem hiksetning milli umræðuefna.

Það var stutt gaman og skemmtilegt (orðatiltæki)  Viðhaft í kaldhæðni um það sem fær snöggan endi eftir styttri endingu en ætlað var.  „Ballið var rétt að byrja þegar gólfbitinn gaf sig: Stutt gaman og skemmtilegt“.

Það var vit hans meira (orðtak)  Það var skynsamlegra af honum; hann gerði rétt í því.  „Ég sé að hann hefur hætt við að róa.  Það var vit hans meira; spáin er vægast sagt ískyggileg“.

Það var þá! (orðatiltæki)  Upphrópun til að lýsa vanþóknun/fyrirlitningu á því sem kom fram í því sem sagt var.  Mikil áhersla á hvert orð; einkum miðorðið.

Það var þá (helst) þörfin á! / Það var þá gustukin á!  (orðatiltæki)  Upphrópun sem viðhöfð er þegar óþarfar athafnir ganga framaf manni.  „Fóru þau til útlanda um háheyskapartímann?  Það var þá helst þörfin á“!  Ég held honum hefði verið skammarnær að fara að ná einhverjum stráum í hlöðu“!  „Gafstu hundinum steikarbitann?  Það var þá gustunin á“!

Það varð/hlaut að vera! (orðtak)  Upphrópun, viðhöfð þegar samhengi verður ljóst eða ástæða kemur í ljós, eftir að mikið hefur verið hugsað/rætt um mál.

Það veður á honum (orðtak)  Hann er óðamála; hann samkjaftar ekki.

Það veit guð og lukkan (orðtak)  Það veit enginn; það verður að vona það besta.  „Það veit guð og lukkan hvar þetta endar með tíðarfarið“.

Það veit trúa mín! (orðtak)  Áherslusetning þess sem vill sýna einlægni sína og sannfæringu.  „Það veit trúa mín að ég hef ekki snert á þínum vasahníf“!

Það verður að fara eins og fara vill (með það) ( orðatiltæki)  Ekki er hægt að hafa áhrif á framvindu/niðurstöðu.  „Það er ekkert annað að gera en reyna þetta; það verður þá að fara eins og fara vill með það“.  Sjá allt fer það einhvernvegin.

Það verður (þá/bara) að hafa það (orðtak)  Upphrópun sem táknar viðurkenningu á ástandi sem þó er ekki gott.  „Ég held ég verði að fara að slá restina af túninu þó veðurspáin sé ekki góð.  Það verður þá bara að hafa það ef það rignir flatt í byrjun; einhverntíma styttir hann upp“!

Það verður ekki af (einhverjum) skafið / Það verður ekki frá (einhverjum) tekið (orðtak)  Það verður ekki annað sagt en; því verður ekki í móti mælt; (einhver) má eiga það.  „Hann mætti vissulega vera hirðusamari um sig og sína umgengni, en það verður ekki af honum skafið að stundvís er hann og samviskusamur fram í fingurgóma“.

Það verður ekki aftur tekið / Því verður ekki breytt (héðanaf) (orðatiltæki)  Of seint er að breyta því sem er búið og gert; gerðir verða ekki endurkallaðar.

Það verður ekki á allt kosið (orðatiltæki) Ekki er unnt að fá allt sem maður óskar. Sjá ekki verður á allt kosið.

Það verður fram að koma sem ætlað er (orðatiltæki)  Svo verður sem forlögin ákveða; enginn má sköpum renna.  Upprunnið í forlagatrú fyrri tíma.  Sjá forlög/örlög

Það verður hver að vera eins og hann er skaptur/skapaður (orðatiltæki)  Menn geta ekki breytt sínu útliti; sinni getu eða sínu áskapaða eðli. 

Það verður (víst) svo að vera! (orðtak)  Það þarf víst að una því; það er líklega ekki unnt að breyta því.  „Fyrst hann sagði það þá verður það víst svo að vera, en ekki er ég vel sáttur við það“!

Það væri alveg/rétt eftir honum (orðtak)  Það væri honum líkt; hann er líklegur til þess.  „Það væri alveg eftir honum að róa í dag; fyrst aðrir telja það ófært“!

Það þarf ekkert að segja mér (um) það! (orðatiltæki)  Upphrópun/yfirlýsing þegar maður er viss í sinni sök, hvað sem aðrir kunna að segja  Oft sagt í miklum hneykslunartón.  „Sagði hann að þetta væri harðviður?!  Það þarf nú ekkert að segja mér um það!  Ég sé ekki betur en þetta sé helvítis hlandfura; og hananú“!

Það þarf sterk bein til að þola góða daga (orðatiltæki)  Líklega vísar þessi speki til langrar reynslu þjóðarinnar af fátækt og sulti; einkum í byggðum fjarri sjávarfangi.  Þegar betur áraði eftir harðindi var mikilvægt að eitthvað þrek væri eftir svo unnt væri að nýta góðærið.

Það þykir svöngum sætt sem söddum þykir óætt (orðatiltæki)  Auðskilin speki um svengd.

Þaðanaf (ao)  A.  Frá því; uppfrá því; frá þeim tíma; síðan.  „Hann hefur ekki borið sitt barr þaðanaf“.    B.  Til áhersluaukningar lýsingarorða:  „Hafi fyrri lúðan verið stór þá var þessi þaðanaf stærri“!  „Þetta var eintómt smámosk; bútungskvikindi og þaðanaf minna“!

Þaðanafsíður (ao)  Enn síður; miklu minna/síður.  „Mér líst ekkert á að þið séuð að príla þarna í klettunum, og þaðanafsíður að þið séuð bandlausir“.  Sjá því síður.

Þaðanífrá (ao)  Frá því; frá þeim stað/tíma.  „Þaðanífrá hefur jörðin verið í eigu ábúenda“.

Þagga niður (orðtak)  Kæfa umræðu um málefni.  „Þetta mál var þaggað niður í skyndi“.

Þagga niður í (einhverjum) (orðtak)  Láta einhvern þegja; sussa á einhvern.  „Þeir geta reynt að þagga niður í mér; þeir gera þá ekki annað á meðan“!

Þagmælska (n, kvk) Leynd; það að segja ekki frá því sem vitað er/trúað er fyrir.

Þagmælskur / Þagmáll (l)  Segir ekki frá því sem honum er trúað fyrir; ekki kjöftugur; þegjandalegur.

Þagna (s)  Hætta að gefa frá sér hljóð; hætta að tala.  „Ætlar karlskrattinn aldrei að þagna“?!       

Þagnarheit (orðtak)  Loforð um að þegja yfir einhverju tilteknu.  „Hann vann þagnarheit að þessu“.

Þagnarrúm (n, hk)  Staður þar sem þögn ríkir.  Eingöngu notað í dag í málshættinum liggja í þagnarrúmi.  „Ég legg til að við látum þetta mál í þagnarrúmi liggja; það er enginn bættari með að smjatta lengur á því“!  Vísar e.t.v. til rúms í báti þar sem lítið er talað.

Þak (n, hk)  Efsti hluti byggingar, sem lokar henni að ofan; þekja.

Þaka (n, kvk)  Þunn grastorfa sem notuð er t.d. til að þekja hús með.

Þakinn (l)  Hulinn; með breitt yfir.  „Það má segja að lautin hafi verið þakin stórum berjum“.

Þakka fyrir komuna (orðtak)  Þakka gesti fyrir heimsókn.  „Oddviti þakkaði síðan fundarmönnum nokkrum orðum komuna á fundinn og góða fundarsetu“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Þakka fyrir seinast/síðast (orðtak)  Oft hluti af kveðju, stutt upprifjun varðandi ánægjulega síðustu samverustund.  „Komdu nú sæll og blessaður, og þakka þér fyrir síðast“.

Þakka hlýtur sá er þiggur (orðatiltæki)  Sá þakkar fyrir sig sem fær, annað væru ekki mannasiðir.

Þakka mikið vel (orðtak)  Þakka mjög mikið; mjög þakklátur.  „Ég þakka þér nú mikið vel fyrir hákarlinn“.

Þakka sínum sæla (orðtak)  Hrósa happi.  „...og máttu þakka sínum sæla fyrir að sleppa ómeiddir til sama lands“  (MG; Látrabjarg).

Þakka skyldi honum!  (orðatiltæki)  Upphrópun til að lýsa lítilsvirðingu á gerðum þess sem um er rætt.  „Sótti hann útigangsféð segirðu?  Þakka skyldi honum; ætli það væri þarna ef hann hefði smalað eins og maður!

Þakka þér fyrir síðast (orðtak)  Kveðjuávarp þegar maður hittir annan og rifjar um leið upp síðustu góð kynni.

Þakkarvert (l)  Góðra gjalda vert; ástæða til að þakka fyrir.  „Þetta er mjög þakkarvert góðverk“.

Þakklippur / Þakjárnsklippur (n, kvk, fto)  Klippur/skæri til að klippa blikk, t.d. þakjárn.  „Hvar hafa nú þakklippurnar verið settar“?

Þakklátur (l)  Með þakkartilfinningu; í þakkarskuld við.

Þakklæti (n, hk)  Það að vera þakklátur; þakkir. 

Þakkústur / Þakpensill (n, kk)  Breiður málningarpensill með löngum hárum, sem hentar til að mála bárujárn; kalkkústur.  „Ég fékk tvo nýja þakkústa, ef svo slægist að við færum í þakið á næstunni“.

Þakskegg (n, hk)  Neðri hluti þaks, sem gengur útfyrir veggi.

Þamb (n, hk)  Það að teiga/ drekka af áfergju.

Þamba (s)  Drekka af mikilli áfergju.  Menn geta orðið mjög þyrstir af erfiðri göngu eða bjargklifri, jafnvel í miklum hitum.  „Ég vissi af vatnspolli, lagðist áfram og þambaði vatnið.. “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Þang (n, hk)  Fucaceae.  Samheiti stórra brúnþörunga sem vaxa í fjörum og tilheyra þangættinni.  Þeim er sameiginlegt að festa sig við botn með skífulaga fæti, en uppaf honum kvíslast plantan, sem ýmist er blaðlaga með miðstreng eða þykk og sporöskulaga í þverskurð.  Situr gjarnan þar á klöppum og öðru föstu undirlagi sem brim er ekki of mikið.  Mikið er af þangi í Kollsvík og öðrum Útvíkum, t.d. á skerjum sem koma uppúr á fjöru.  Mest ber þar á bóluþangi (F. vesiculosus), Skúfaþangi (F. distichus) og klóþangi (F. nodosum).  Fé sækir í þang til beitar, en einnig var það notað fyrrum til eldiviðar.

Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur (orðatiltæki) Gamalt máltæki sem ekki er líklega vísindalega sannað, en oft notað um þá þversögn að menn(og e.t.v. klárar) leita stundum til þeirra sem fara verst með þá.  Kemur fyrir í Örvar-Odds sögu.

Þangað leitar svangur sem saðningar er von (orðatiltæki)  Gegnsætt og auðskilið.  Viðhaft í Kollsvík, enda voru mýmörg dæmi þess frá fyrri öldum að illa statt fólk leitaði í verin í leit að matbjörg þegar hallæri sóttu að.

Þangað sækir auðurinn sem hann er fyrir / Þangað vill fé sem fé er fyrir (orðatiltæki)  Gömul og ný sannindi; að þeir ríku hafa tilhneygingu til að verða enn ríkari.

Þangað sækir músin sem matur er fyrir (orðatiltæki)  Músin leitar þangað sem hún finnur mat.  Eins leitar maður þangað sem hann finnur eitthvað eftirsóknarvert.

Þangað vill veiði sem vanin er (orðatiltæki)  Veiðibráðin kemur á hefðbundinn veiðistað.  Í þessu er sannleikskorn, því þó sama veiðidýr veiðist ekki aftur þá er gjarnan eitthvað við staðinn sem bráðin sækir í.  Þannig sækir fiskur á mið þar sem fæði er og/eða mishæðir á botninum; máfur flýgur gjarnan sömu leið í ætisleit meðfram fjöru þegar vindátt er svipuð; tófa leitar á niðurburð við tófuhús og stundum var borið niður fyrir hákarl til að hann sækti á vissa veiðislóð.

Þangbreiða / Þangfláki / Þangflekkur (n, kvk/kk)  Breiða/flekkur af þangi, annaðhvort í fjöru eða fljótandi á sjó.

Þangfluga (n, kvk) Coelopa frigida.  Lítil fluga sem lifir í rotnandi þangi.  Algeng í Kollsvíkurfjöru.  Flugan er á ferli allt árið þar sem gerjun í þarabunkum heldur þeim frostlausum að vetrarlagi.  Mikilvæg fæða fyrir smáfugla, s.s. vaðfugla og spörfugla.

Þangkló (n, kvk)  Bútur af þurrkuðu þangi, sem oft líkist kræklóttum klóm. 

Þanglús (n, kvk)  Isopoda; jafnfætlur.  Lítil krabbadýr, skyld marflóm, kröbbum og rækjum, sem algeng eru á og í þangi og þara.  Aflangar og flatvaxnar með tvö fálmarapör á höfði.  Búkurinn er í sjö liðum með jafnmörgum fótaprum; sundblöðkur undir halanum.  Sumar þanglýs lifa í ferskvatni eða röku lofti, s.s. grápöddur sem fundist hafa í húsum. 

Þangrusl (n, hk)  Dreifar af lausu þangi á fjöru, á sjó eða í netum.

Þangskurður (n, kk)  Nýting þangs t.d. til eldiviðar og rétturinn til þess.

Þaninn (l)  Strengdur.  „Talaðu varlega við hann; hann er eins og þaninn strengur nú þegar“!

Þanir (n, kvk, fto)  Fanir; tálknfanir; tálkn á fiski (sjá þorskhaus).  Orðtakið „að vera á þönum“, um þann sem er á eilífri hreyfingu, vísar til þess að fiskurinn hreyfir án afláts tálkn sín til að fá straum í gegnum þau.

Þankagangur (n, kk)  Hugsunarháttur.  „Það er furðulegur þankagangur að láta sér detta svona lagað í hug“.

Þankastrik (n, hk)  Lárétt stutt strik milli orða eða setningarhluta í ritmáli.  Notað til að tákna bið/hik í lestri.

Þankaþungur (l)  Djúpt hugsi; í þungum þönkum.  „Ósköp ertu þankaþungur þessa stundina“.

Þanki (n, kk)  Hugsun.  „Sá þanki hefur aldrei hvarflað að mér“.

Þanneginn / Þannin / Þannveg (ao)  Svoleiðis; þannig; ég skil.  Stundum sagt sem sérstætt andsvar en stundum í stað orðsins„þannig“  og er líklega upprunaleg mynd á því. Einnig heyrðist orðmyndin „þvannin“.

Þannig að mannsbragur sé að (orðtak)  Á virðulegan/hraustlegan/afgerandi hátt.  „Endemis pussuhnútur er þetta hjá þér!  Eigum við nú ekki heldur að ganga þannig frá þessu að mannsbragur sé að“?

Þannig af guði gerður (orðtak)  Á þann veg skapaður.  „Ég er þannig af guði gerður að mér er illa við að láta nokkurn mann synjandi frá mér fara“.  Sjá á þann veg/ illa/svo/vel af guði gerður.

Þannig er mál með vexti (orðtak)  Málin eru þannig vaxin; þannig liggur í málunum.

Þannig er nú það (orðtak)  Merkingarlaus hiksetning.  Oft notuð til að undirstrika það sem sagt hefur verið eða brúa þagnir.

Þannig fór um sjóferð þá! (orðatiltæki)  Upphrópun, viðhöfð þegar verk hefur farið úrskeiðis eða ferð endað illa.  Augljóslega líking við sjóferð/firkiróður sem fær slæman endi eða lítið hefst uppúr.

Þannig gerast kaupin á eyrinni (orðatiltæki)  Svoleiðis eru verlunarhættir; þannig gengur þetta fyrir sig. 

Þannig í pottinn búið (orðtak)  Þannig liggur í málunum; mál eru með þeim hætti.  „Ég var ekkert að skipta mér af þessu fyrst þannig var í pottinn búið“.

Þannig í sveit settur (orðtak)  Býr við þannig aðstæður; hagar þannig til; hefur það val.  „Ég er þannig í sveit settur að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum málum“.

Þannig (er það) lagað og litt / Þannig liggur í málunum/því / Þannig er mál með vexti / Þannig er málum háttað / Þannig eru málin vaxin (orðtök)  Málavextir/staðreyndir eru þannig; svo er. 

Þannig/svo úr garði gerður (orðtak)  Þannig frágenginn/útbúinn/smíðaður.  „Ég er nú svo úr garði gerður að ég kippi mér helst ekki upp við smámuni“.

Þanniglagað (l)  Svona; þannig; svoddan; slíkt.  „Það þýðir ekkert að bjóða mér karamellu; ég er ekkert fyrir þanniglagað“.  Einnig notað sérstætt sem andsvar/undirtektir við fullyrðingu/frétt.  Sjá svonalagað.

Þansprettur / Þanstökk (n, kk/hk)  Hratt hlaup; loftköst.  „Hann hljóp í þanspretti norður að hliði og komst fyrir kindurnar“.

Þar að auki (orðtak)  Því til viðbótar; ennfremur; í ofanálag.  „Það er ekkert sjóveður, og þar að auki höfum við engan tíma til róðra í dag“.

Þar að lútandi (orðtak)  Sem því við kemur; sem það snertir.  „Ég sá um afgreiðsluna, en Jónsi sá um innkaup, bókhald og annað þar að lútandi“.

Þar af leiðandi / Þar af (orðtök)  Vegna þess; af þeirri ástæðu.  „Þar af leiðandi varð þetta fé eftir“.  „Heyin voru hjá öllum mjög vel þurrkuð, en þar af leiðandi fremur laus“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1925).  

Þar á ofan / Þar að auki / Því til viðbótar (orðtak)  Í ofnálag; ofaní kaupið; til viðbótar.  „Ekki nóg með að maður væri búinn að éta sér til óbóta af þessum veislumat, heldur kom ekki annað til greina en að bæta á sig kúfaðri skál af ís þar á ofan“!

Þar eð / Þar sem (orðtak)  Vegna þess að; af þeim orsökum að.  „Bað hann um aðstoð svo fljótt sem hægt væri, þar eð þeir væru orðnir þjakaðir og of fáliðaðir... “  (ÞJ; Sargon strandi; Árb.Barð 1949).  „Þar sem þetta var í byrjun sláturtíðar þetta haustið, gekk dagsverkið heldur hægar en áætlað hafði verið“  (PG; Veðmálið). 

Þar er lús sem leitað er (orðatiltæki)  Svo lengi má leita að hið óæskilega/neikvæða finnist að lokum. 

Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn (orðtatiltæki)  Speki sem oft er viðhöfð þegar eitthvað er gert til lausnar á vandamáli sem ekki leysir það í raun, heldur er einungis sýndaraðgerð.

Þar er úlfsins von sem eyrun sjást (orðatiltæki)  Þar má búast við illu sem váboðar eru.  „Ekki líst mér á þessa ríkisstjórn með þennan skúnk innanborðs; þar er úlfsins von sem eyrun sjást“!

Þar er veiði sem vanin er (orðatiltæki)  Best veiðist á hefðbundnum veiðistöðum/miðum.  Líklega er spekin sprottin af þeirri trú að fiskurinn leiti á staðina þar sem hann hefur verið veiddur; enda höfðu menn reynslu fyrir því að þar veiddist best.  Gæti því átt rætur í forlagatrú eða guðlegri fyrirhyggju.  Vísindalega skýringin er þó sú að á hefðbundnum miðum eru aðstæður sem laða fiskinn að, t.d. hólar eða gróður í botni. 

Þar er við stóran að deila (orðatiltæki)  Orðalag sem oft er notað þegar eitthvað steðjar að sem ómögulegt er að breyta, t.d. tengt veðurfari eða sjólagi.

Þar fór góður biti í hundskjaft (orðatiltæki).  Þar glataðist tækifæri.  „Ég beið lengi með að kaupa þennan bát; en svo hann var seldur norður á firði fyrir smáaura.  Þar fór góður biti í hundskjaft“.

Þar/nú/hér fór í verra / Þar/nú fór verr en skyldi / Þar fór illa (orðtök)  Upphrópanir sem viðhafðar eru þegar eitthvað hefur gengið miður.  „Þar fór í verra; haldiði ekki að kaffið hafi orði eftir í landi“!

Þar frameftir götunum (orðtak)  Svo framvegis; þannig mætti áfram telja.  „Á mínum ungdóms- og uppvaxtarárum var mikið talað um huldufólk.  Margir höfðu séð það við heyskap; konur koma með mjólkurfötur af stöðli; búferlaflutningar áttu sér stað, og þar frameftir götunum“  (Ívar Ívarsson Kirkjuhvammi; Hvatt bæði; grein í Lesbók Tímans 1964).

Þar fyrir (orðtak)  Vegna þess.  „Heyin kunna að vera ekki góð sökum óþurrks undanfarið sumar, og verða þar fyrir mikilgæfari„“   (ÍÍ;  Forðagæslubók Rauðasands 1944).  

Þar fyrir utan / Þar hjá (orðtak)  Auk þess; að auki; óskylt því.  „Ég held að við náum ekki að smala meira fyrir dimminguna.  Þar fyrir utan er ég orðinn þreyttur eftir daginn“. 

Þar grær grasið sem vel er girt (orðtak)  Áminning um mikilvægi verndar.  Notað í líkingamáli um gott eða illt sem þrífs í skjóli þess sem verndar.

Þar hitti fjandinn/skrattinn ömmu sína (orðatiltæki)  Þar hittust tveir jafn slæmir; þar mætti hann ofjarli sínum.  „Hann hélt að hann gæti kúskað þennan vinnumann eins og hina, en þar hitti skrattinn ömmu sína“.

Þar hjá (orðtak)  Þar að auki; auk þess; til viðbótar.  „Þar hjá ætti hann að skammast sín fyrir þetta“!

Þar kom að því (orðtak)  Þá gerðist það; það hlaut að koma að þessu.  „Þar kom að því; nú er vélarrokkurinn bensínlaus“!

Þar kom vendin/vendirinn á það (orðtak)  Þar kom skýringin; þannig liggur í því; þar lá hundurinn grafinn.   Algengt í máli sumra Kollsvíkinga en heyrist ekki annars.  Vend er snúningur.  Vendir er karlkynsmynd þess sem vanalega er nefnt vending í siglingu skipa; þ.e. þegar krusað er í mótvindi og seglum hagrætt til að taka nýjan bóg/legg.

Þar komst hnífurinn í feitt (orðatiltæki)  Þar hljóp á snærið; þar græddist.  „Svo komst hnífur hans aldeilis í feitt þegar hann tók saman við þessa forríku ekkju“.

Þar lá að !  (orðtak)  Upphrópun; einmitt; það hlaut að vera; það gat nú verið!  „Fóru þeir út á Hnífa með spotta?  Þar lá að!  Þeim hefði verið nær að laga girðinguna heldren vera að þessu eggjasnagi“.

Þar lá fiskur undir steini! (orðtak)  Þar kom það í ljós sem menn grunaði; þar kom það sem vantaði; þar lá að! 

Þar liggur hundurinn grafinn (orðatiltæki)  Einmitt; sú er ástæðan.  „Þú segir að bættar samgöngur hafi orðið til a efla byggðirnar.  En þar liggur hundurinn kannski grafinn;  þá fyrst gat fólkið flutt burt“!

Þar með (orðtak)  Með því; þannig.  „„Ég tek þessum skilmálum“ sagði Liði, og þar með var veðmálið ákveðið“  (PG; Veðmálið). 

Þar mætast stálin stinn / Þar mætast tveir góðir/seigir (orðatiltæki)  Um það þegar tveir takast hressilega á í orðum eða með kröftum.  Vísar til bardaga með vopnum úr hertu stáli. Sjá mætast stálin stinn.

Þar næst / þessu/því næst (orðtök)  Næst á eftir; síðan.  „Þar næst fórum við að skipta aflanum“.

Þar og þar (orðtak)  Hér og þar; víða.  „Það eru stöku skaflar þar og þar, en ekki samfelldur snjór“.

Þar skall hurð nærri hælum (orðatiltæki)  Þar munaði mjóu; naumlega sloppið.  „Ég rétt náði að kasta mér upp á stallinn áður en torfan hrundi, en þarna skall hurð nærri hælum“.

Þar skildi milli feigs og ófeigs (orðatiltæki)  Um ástæður þess að hluti manna nær árangri/takmarki en ekki aðrir.  Oft um líf og dauða en stundum í óeiginlegri merkingu:  „Við ákváðum að reyna að fara um Gatið í Forvaðanum (undir Brekkuhlíð), en þar skildi milli feigs og ófeigs; þeir sverari urðu frá að hverfa“.

Þar stendur hnífurinn í kúnni (orðatiltæki)  Á því strandar; þar er hængur á.  „Hann taldi sig hafa umboð hreppsnefndar til grenjavinnslu á jörðinni, en þar stóð hnífurinn í kúnni; jarðeigandi bannaði alla skotveiði“.  Vísar e.t.v. til þess að mistakist að slátra kú með hálsskurði, eins og fyrrum var gert.

Þar um bil / Þar um (orðtak)  Nálægt því; um það bil; hér um bil.  „Ætli þetta sé ekki eitt tonn, eða þar um bil“.

Þar var komið sögu (orðtak)  Þar var statt í frásögninni.  „Þegar þar var komið sögu hafði veðrið versnað“.

Þar varstu vitlaus/ógáfaður (orðtak)  Nú gerðirðu mistök/feil.  „Þar varstu vitlaus; þú áttir strax að taka þessu boði“!

Þar við situr (orðtak)  Þannig er staðan og hún breytist ekki.  „Hreppsnefndin ákvað þetta og þar við situr ennþá; þó ekki séu allir ánægðir með það“.

Þarf ekki vitnanna við / Þarf ekki frekari blöðum um það að fletta / Þarf ekki neitt um það að rjá (orðtök)  Óþarfi að efast; fer ekki á milli mála; liggur ljóst fyrir.

Þarabeit (n, kvk)  Beit sauðfjár í þara; fjörubeit; bitfjara.

Þarabelti (n, hk)  Svæði yst á fjöru og þar fyrir utan, þar sem mikið vex af þara.  „Fyrir utan þarabeltið er sandfláki úr, en einnig eru þar hleinar sem þurfti að gæt sín á“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Þarabingur / Þarabunki / Þaradyngja (n, kk)  „Eftir langvarandi brim sitja oft uppi mannhæðarháir þarabunkar í fjörunni“.

Þarablað (n, hk)  Blað af þara; ögn af þara.  „Það er ekki eitt einasta þarablað eftir í Bótinni eftir brimið“.

Þarabrúk / Þarabunki / Þaradyngja (n, hk)  haugar af þara í fjöru.  „Lá þar kirkjuklukkan í þarabrúki“ segir í Landnámu um kirkjuklukku Örlygs Hrappssonar, fóstbróður Kolls.

Þaraðauki / Þaráofan (ao)  Í ofanálag; til viðbótar; einnig.  „Þaraðauki er ég ekkert hrifinn af þessu“!  „Hann sporðrenndi þessu öllusaman; kúfuðum grautardisk á eftir og hálfu harðfiskstrensli þaráofan“!

Þaradrulla / Þaraskítur (n, kvk/kk)  Niðrandi heiti á þara í netum, en hann er alltaf óvelkominn.  Grásleppu- og rauðmaganet sem lögð eru á grunnu vatni í þaragarð, jafnvel fyrir opnu hafi, eru fljót að fyllast af þara ef gerir einhvern velting; hvað þá ef þau liggja yfir langvarandi stórsjó.  Oftast er einhver hreinsun í hverri vitjun, en eftir margra daga legu í slíkum sjó voru þau oft kjaftfull af þaradrullu og úldinni veiði.  Tekur oft marga daga að fara yfir allan netafjölda einnar útgerðar, og þarf stundum að taka í land.  Í verstu tilfellum þarf að skera af; þ.e. skera netin frá teinunum og fella ný net á þá aftur.

Þarafleiðandi (ao)  Sem leiðir/orsakast af því.  „Endirinn verður því oft sá að þeir (drykkjumenn) verða algjörlega ósjálfstæðir fjárhagslega og glata þarafleiðandi frelsi sínu og leiða með því glötun og óhamingju yfir þá sem þeir hefðu átt að vera til aðstoðar og ánægju í lífinu“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938). 

Þaragarður / Þaraskógur (n, kk)  Gróðurbelti þara í grunnum sjó.  „Grásleppan heldur sig í þaragarðinum“.  „Byrjað var að skaka fyrir smáfisk uppi í þaragarði“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Þarakló (n, kvk)  Kló/krækla/visk af þara.

Þaraleggur (n, kk)  Leggur af stórþara/þöngli/hrossaþara.  „Í hjástöðunni dundaði maður sér stundum við að skera út báta eða annað í þaraleggi.  Þeir voru þó fremur endingarlitlir“.

Þaramosk  / Þararusl (n, hk)  Lítilsháttar af þara/þaraklóm.  „Það var árans þaramosk í grunnendunum“.

Þaranet / Þarastrengur (n, hk)  Net sem mikið af þara og e.t.v. þursa, slýi og öðru rusli hefur ánetjast í; strengur margra neta sem þannig skítur er í.  „Ég fer að verka hrognin ef þú dregur þaranetin upp í kerruna“.  „Þarastrengirnir voru dregnir út á Fitinni“.

Þararek (n, hk)  Þari á reki; rekinn þari.  „Það er ansi mikið þararek eftir svona brim“.

Þaraskógur (n, kk)  Mikill/þéttur þaragróður á sjávarbotni.  „Miklir þaraskógar eru á norðanverðri víkinni“.

Þarasæld (n, kvk)  Um stað/jörð; jafnan mikil not af þara, t.d. til beitar.  „Þarasæld er mikil í Útvíkum og gegnum tíðina hafa bændur mjög treyst á fjörubeit  til að létta á fóðrum fyrir sauðfé“.  „ftur á móti var þarasæld á Naustabrekku, sem sennilega hefur hjálpað bóndanum þar úr miklum vanda“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1937). 

Þaraþyrsklingur (n, kk)  Þorskur, venjulega fremur smávaxinn, sem legið hefur lengi á þarabotni og er orðinn samlitur honum; brúnleitur að lit.  Í þeim er tíðum mikið af hringormi og oft eru þeir horaðir.  Því þykja þeir ekki jafn eftirsótt veiði og annar þorskur.  „Hann var ári tregur; við slitum upp einn og einn þaraþyrskling“.

Þarf ekki að spyrja að leikslokum (orðtak)  Augljóst að illa fer.  „Hann missti frá sér aðra árina í lendingunni, og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum.  Fyrir mestu er að hann bjargaðist sjálfur, þó báturinn skemmdist“.

Þarf ekki (frekari) vitnanna við (orðtak)  Þarf ekki að inna meira eftir því; þarf ekki að skoða það frekar; málið liggur ljóst fyrir.  „Slapp Móra útaf.  Þá verður hún komin útí Lambahlíð á morgun; það þarf ekki frekari vitnanna við; láttu bara sjá“!

Þarf lítið útaf að bera (orðtak)  Sjá má lítið útaf bera.

Þarfaband / Þarfaspotti (n, hk/kk)  Bandspotti sem nýta má á ýmsan hátt, t.d. í múl eða til festinga.  „Hentu ekki endanum; það má örugglega nota þetta sem þarfaband einhverntíma“. 

Þarfablöð (n, hk, fto)  Skeinispappír; dagblað sem nota má í skeini á kamri.  „Hafðu með þér Tímann frá síðustu viku; það fer að vanta þarfablöð þarna á kamrinum“.

Þarfagangur (n, kk)  Endaþarmur; rass; endagörn; skeifugörn. 

Þarfagripur / Þarfaverkfæri / Þarfaþing (n, kk/hk)  Nytsamt áhald/verkfæri.  „Þetta er mikill þarfagripur“.

Þarfaklútur / Þarfarýja / Þarfatuska (n, kvk)  Tuska/klútur eða efni í tusku sem má nota til ýmislegra verka, s.s. til þurrkunar.  „Ekki henda þessari skyrtu; það má kannski nota hana í þarfarýjur síðarmeir“.

Þarfaþing (n, hk)  Þarfur/nauðsynlegur hlutur; þing.  Þetta var nefnilega flautuketill; mesta þing“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).

Þarfanaut (n, hk)  Naut sem þarf að hafa til að halda kúm.  „Þarfanaut voru á mörgum bæjum, en sumir völdu þó fremur leggja á sig langar göngur milli bæja, jafnvel yfir langa fjallvegi, til að halda kú undir naut“.

Þarfasnæri / Þarfaspotti (n, hk/kk)  Snærisspotti sem getur nýst í ýmsum tilgangi.  Snæri var forðum meðal þess dýrmætara í sveitum, enda gátu menn verið illa staddir ef band vantaði.  Það var t.d. notað til að halda uppi fatnaði, loka hliðum og hurðum; binda fé, nautgripi og hesta; til bjargferða; í færi, lóðir, seglabúnað, stjóra, seilar, spyrðubönd og annað til sjávar og fjöldamargra annarra hluta.  Snæri var torfengið og því dýrmætt.  Snæraþjófnaður var litinn alvarlegum augum og harðlega fyrir hann refsað.

Þarfaspýta (n, kvk)  Fjöl/viður/spýta sem nota má í það sem þarf að smíða.  „Ekki henda þessum kassafjölum; það má vel nota þær sem þarfaspýtur, til dæmis í milligerðir“.

Þarfasti þjónninn (orðtak)  Hestur.  Hestar voru notaðir í Kollsvík, en nýttust þó ekki jafn vel og annarstaðar þar sem engjaheyskapur var meiri og land greiðfærara t.d. til smalamennsku.  Segja má að þeir hafi alfarið verið leystir þar af hólmi með tilkomu traktora og bíla. Á Rauðasandi og við Patrkesfjörð nýttust hestar betur.  „Pabbi smíðaði ... aktygi, beisli, hestakerrur og allt sem við kom þarfasta þjóninum, svo sem skeifur undir flesta hesta í sýslunni“  (SG; Handverk og smíði; Þjhd.Þjms). 

Þarfaverk (n, hk)  Verk sem vinna þarf; nauðsynjaverk.  „Það væri mesta þarfaverk að hlaða upp Mókofann og aðrar minjar sem nýlega hafa fallið, meðan enn er vitað hvernig þær litu út“.

Þarfaþing (n, hk)  Þarfur hlutur; nauðsynjagripur.  „Þessi töng er mesta þarfaþing“.

Þarfi (n, kk)  Þörf; nauðsyn.  „Ég sé nú ekki mikinn þarfa á þessu“.

Þarflaust (l)  Ónauðsynlegt; gagnslaust.  „Þetta er auðvitað alveg þarflaust, enda mest til gamans gert“.

Þarflegt (l)  Sem þörf er á; nauðsynlegt.  „Það rekur oft ýmislegt þarflegt á fjörurnar“.

Þarfleysa (n, kvk)  Það sem ekki er nauðsynlegt; tilgangsleysi.  „Ég sé ekki ástæðu til að kvarta í þarfleysu“.

Þarflítið (l)  Lítil þörf á.  „Mér finnst þarflítið að mæta á þessa samkomu“.

Þarfnast (s)  Þurfa; verða að hafa.  „Gróðurinn er farinn að þarfnast vökvunar“.

Þarfur (l)  Nauðsynlegur; mikilvægur; brúklegur; gagnlegur.  „Þetta er þarft verkfæri“.

Þarfyrir (ao)  Því; þess vegna; auk þess.  „Ég ætla að gefa honum þennan brodd áður en hann skemmist; þarfyrir veit ég að hann kann vel að meta þetta“.  „Ég held að ég hafi ekki tíma til að koma með ykkur í egg núna; ekki þarfyrir, að það væri vissulega mjög gaman“.

Þari (n, kk)  Samheiti nokkurra brúnþörunga af ættbálkinum Laminariales.  Þarinn er með haus/þöngulhaus sem hann notar til að festa sig við botninn; stilk/þöngul og á enda hans þarablað/þarablöðku.  Þarar eru fjölbreyttastir allra brúnþörunga og verða þeirra stærstir.  Mynda oft þétta og hávaxna þaraskóga, t.d. á Kollsvíkinni norðanverðri.  Á þarablöðunum er oft mjög fjölbreytt lífríki ásætna, auk þess sem fiskar og önnur dýr nýta þaraskóga til skjóls og fæðu.  Algengustu tegundir við Ísland, þar með á Kollsvík, eru stórþari (L.hyperborea); hrossaþari (L.digitata), beltisþari (L.saccharina) og Marinkjarni (Alaria esculenta).  Ýmsar nytjar haf verið af þara, m.a. til fjárbeitar, manneldis og eldiviðar.  Lengi hefur verið þekkt samspil í sveiflum stofnstærðar þara og ígulkersins skollakopps, sem lifir á þara og getur eytt honum á stórum svæðum.  Það var hinsvegar Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson sem fyrstur sýndi framá þau áhrif sem eyðing þaraskóganna af þessum völdum hefur á aukið afl brimöldu, með ýmsum afleiðingum á ströndinni.  Þaraskógarnir draga mjög úr afli brimbárunnar á grunnsævi.  Þegar þeirra nýtur ekki lengur við æða brimbrotin uppá land; eyða sjávarbökkum og fornum verminjum í þeim; brjóta niður mannvirki (Garðana); flytja óhemju magn af sandi uppí fjöruna, sem aftur orsakar óvenju mikið sandfok.  Auk þess eyðileggjast fiskimið, s.s. hrognkelsalagnir.  Slík ofbeit þaraskóga átti sér stað á síðustu áratugum 20.aldar, þegar þaraskógar hurfu af stórum svæðum allt í kringum land, þar á meðal í Kollsvík.

Þarlendur (l)  Sem býr í því landi.

Þarmaflóra (n, kvk)  Samheiti yfir mikinn fjölda örvera sem lifa í þörmum manna og dýra og gegna þar mikilvægu hlutverki við niðurbrot og úrvinnslu fæðunnar.

Þarmagas (n, hk)  Loft það sem útleysist í viðrekstri/freti.  „Hver var að losa þetta fúla þarmagas“?

Þarmar (n, kk, fto)  Garnir.

Þarna er hann lifandi kominn! / Þarna er honum/henni rétt lýst (orðtak)  Við þessu mátti búast af honum; þetta eru hans ær og kýr.  „Þarna er honum rétt lýst; mætir til vinnu rétt fyrir hádegismat“!

Þartilbær (l)  Hæfur í því efni; hæfur til að gera/dæma.  „Þetta verður metið af þartilbærum mönnum“.

Þartilgerður (l)  Um hlut; gerður til þess.  „Plastmerkinu var smellt í eyrað með þartilgerðri töng“.

Þarumbil (ao)  Um það bil; nærri því.  „Við fengum 100 fiska, eða þarumbil“.  „Gryfjan er full, eða þarumbil“.  Orðið er mikið notað vestra en finnst ekki í orðabókum.

Þaul (n, kvk)  Orðskýring óljós; eingöngu notað nútildags í samsettum orðum, s.s. þaullesinn; þaulæfður, og í orðtökum, s.s. spyrja í þaula.

Þaulbeita (s)  Nauðbeita; beita of mörgu fé á lítið beitiland.  „Ég held að það sé ekki rétt að þaulbeita sléttuna svona lengi.  Hún þarf að jafna sig yfir sumarið“.

Þaulhugsað (l)  Hugsað til enda; vandlega ígrundað.  „Þetta hefur örugglega ekki verið þaulhugsað hjá honum“.

Þaulkunnugur (l)  Ratvís; þekkir svæðið mjög vel.  „...hann var þarna á heimaslóðum og þaulkunnugur“   (MG; Látrabjarg).

Þaulleita (s)  Leita mjög ítarlega; lúsarleita.  „Lykillinn finnst alls ekki þó búið sé að þaulleita í öllu húsinu“.  Orðið finnst ekki órðabókum en er nokkuð notað vestra.

Þaullesa (s)  Lesa mjög vandlega/ ítrekað. 

Þaullærður / Þaulmenntaður (l)  Mjög lærður/kunnugur; búinn að læra mjög vel.

Þaulreyndur (l)  Hefur mjög mikla reynslu; þrælvanur.  „Ég var svo lánsamur að læra klettaklifur hjá þaulreyndum og gætnum bjargmönnum“.

Þaulseta (n, kvk)  Langdvöl; löng viðstaða.  „Enn hangir hann þarna á boðanum; skárri er það nú þaulsetan!  Eitthvað hlýtur hann að vera að veiða“.

Þaulspyrja (s)  Þráspyrja; spyrja ítarlega/ítrekað.

Þaulsætinn (l)  A.  Gestur sem dvelur of lengi/kemur helstil oft.  „Húsbóndanum fannst nóg um hve hann var þaulsætinn hjá frúnni“.  B.  Skipstjóri sem er of lengi að veiðum þó veður hafi versnað.  „Sumum hásetum þótti karlinn stundum þaulsætinn, þó aðrir væru komnir á landleið“.

Þaulvanur / Þaulæfður (l)  Mjög vanur; fúlbefarinn.  „Ég er þaulvanur þessari leið og þekki þar hvert spor“.

Þá ein báran rís er önnur vís (orðatiltæki)  Speki sjómannsins; sjaldan er ein báran stök.  Bárur eru sjaldnast einar á ferð.  Undantekning á því eru flóðbylgjur af völdum jarðskjálfta eða skriðufalla í sjó, en þær hafa ekki komið í Kollsvík í manna minnum.

Þá einum er kennt er öðrum bent (orðatiltæki)  Þegar einn fær kennslu/leiðbeiningar/tilsögn mega aðrir af því læra.  Í lögfræðinni er þetta nefnt „dómafordæmi“.

Þá er að… (orðtak)  Þá þarf að.  „Þá var að fara með mat í verið; sækja fisk í soðið og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður…“  (IG; Æskuminningar). 

Þá er (bara) að taka því (orðtak)  Það verður svo að vera; það verður að sætta sig við það.  „Það má vel vera að hann neiti okkur um aðstoð; nú þá er bara að taka því“.

Þá er að því að gá (orðtak)  Þá er rétt að hafa í huga; þá þarf að skoða.  „Okkur þykir kjánalegt að nokkur skuli villast þarna, en þá er að því að gá að hann þekkti sig ekkert á þessum slóðum“.

Þá er björninn unninn (orðtak)  Þá hefur verið sigrast á erfiðleikunum; þá er það versta að baki.  „Ef við náum að koma trénu uppfyrir stóra steininn þá er björninn unninn; það flýtur ekki strax út þaðan“.

Þá er búið að segja frá því! (orðtak)  Þá er engin von um það meir; þá er það ónýtt/vonlaust; þá gengur það ekki lengur.  Notað í tvennskonar tilefnum, og þá mikill munur á áhersluorðum.  Áherslan er jafnan á fyrsta orðinu „þá“ef orðtakið er notað inni í setningu eða í lok setningar, sem skýring á málalokum.  „Ef maður missir fótanna í þræðingnum þá er búið að segja frá því“.  Orðtakið er stundum sérstætt sem nokkurskonar upphrópun eða viðbragð, og er þá áherslan á síðasta orðið „því“:  „Voru kálfarnir komnir inn í rófugarðinn?  Þá er nú búið að segja frá því“!

Þá er (fyrst/nú) fokið í flest skjól (orðatiltæki)  Þá eru flest/öll sund lokuð; þá eru fá góð úrræði eftir.  „Mér líst ekki á ef þeir ætla að fara að loka mjólkurstöðinni.  Þá er nú held ég fokið í flest skjól“!

Þá er jafnt er á hvorugan hallast (orðatiltæki)  Viðhaft þegar jafnræði er með mönnum/ þegar báðir hafa náð sínu í deilumáli.  Sjá hallast á.

Þá er mér að mæta (orðtak)  Þá kem ég að málunum; þá bregst ég við.  „Ef hann vogar sér að halda þessari þvælu fram einusinni enn þá er mér að mæta“!

Þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut (orðatiltæki)  Gömul speki úr þjóðtrúnni, en þegar heyrist til spóans vella má ætla að vor sé komið og hagar farnir að taka við sér.

Þá og þá (orðtak)  Í það skiptið; í hvert skipti; þegar við á.  „Lndsvæðið meðfram Fljotinu, alla leið frá Skaufhól og að Bæjarodda er nefnt Fit....  Þessi Fit er svo kennd við bæina sem hún liggur í þá og þá“  (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).

Þá og þegar (orðtak)  Á hverri stundu.  „Drífum heyið í hlöðuna; hann getur farið að rigna þá og þegar“.

Þá skal nú teygjan úr! (orðatiltæki)  Þá verður þolinmæðin búin/ gálgafresturinn ekki lengri; þá skal gripið til aðgerða.  „Ég hef þagað yfir þessu háttalagi hingað til, en ef þeir ætla að fara að færa sig uppá skaftið þá skal nú teygjan úr“!  Vísar til þess að band teygist allajafna eitthvað áður en það slitnar.

Þá tekur (nú) fyrst steininn úr (orðtak)  Viðhaft þegar eitthvað eykst/versnar svo um munar.  „Hann hafði alltaf værukær verið, en þá tók nú fyrst steininn úr þegar konan var ekki lengur ti að stjórna honum“!

Þá var það (orðtak)  Þá gerðist það.  Orðalag sem oft er notað í frásögn.  „Síðan gerðist ekkert sögulegt fram að jólafríi.  Þá var það að flesta langaði að komast heim um jólin“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Þá var öldin önnur (orðtak)  Þá voru aðrir tímar; þá var allt öðruvísi.  „Þá var öldin önnur, þegar allir á svæðinu sáu hagkvæmni þess að vinna saman í félagsskap; hvort sem það var í sameiginlegum innkaupum eða góðgerðarmálum“.

Þá það (orðtak)  Það verður þá svo að vera.  „Þá það!  Ég skal halda á þessu fyrst þú nennir því ekki“.

Þálifandi (l)  Sem þá var/voru á lífi.  „Þessi saga var alkunn meðal þálifandi manna“.

Þáorðið (ao)  Orðið þá/ í þann tíð/ á þeim tíma.  „Þáorðið voru traktorar komnir á hvern bæ og þetta mikið léttara við að eiga“.  „Þáorðið var hægt að fá þetta í mörgum verslunum“.

Þáttaskil (n, hk, fto)  Mörk á milli; kaflaskil; breyting; umskipti.  „Þáttaskil urðu í landbúnaði með tilkomu vélaaflsins“.

Þátttaka (n, kvk)  Það að taka þátt/ vera með; liðveisla. 

Þáttur (n, kk)  A.  Þráður í bandi/kaðli/vað.  „Við splæsingu eru þættir gagnstæðra enda lagðir á misvíxl eftir ákveðnu mynstri“.  B.  Kafli í t.d. riti, leikverki eða öðru.  C.  Liður/hluti af einhverju.  „Sjósókn var mikilvægur þáttur í lífsbaráttu Kollsvíkinga fyrr á tímum“.  Taka/eiga þátt í.

Þefa (s)  Finna lykt; hnusa.

Þefa uppi (orðtak)  Finna með þefvísi.  „Tófunni veittist létt að þefa rústina uppi“.

Þefja (s)  Lykta; finnast lykt af.  „Eitthvað er nú fiskurinn farinn að þefja öðruvísi“.

Þefjandi (l)  Lyktandi; ilmandi.  „Fjandi er þetta illa þefjandi viðrekstur; hvað léstu eiginlega ofaní þig“?

Þefur (n, kk)  Lykt.  „Asskoti er nú sterkur þefur af þessu“!

Þefvís (l)  Lyktnæmur; með næmt lyktarskyn.  „Hundurinn er þúsundfalt þefvísari en maðurinn“.

Þefvísi (n, kvk)  Lyktnæmi; lyktarskyn.  „Hann sagði að þefvísi sín væri svo góð að hann hefði vitað það niðri á Dýpri-Skeggja að það yrðu nýjar kleinur með kaffinu þegar hann kæmi í land“!

Þegar (ao)  Er; þá; um leið; strax.  „Hann stökk í land þegar stefnið nam í sandinn“.  „Gummi hafði þegar sett fram hluta af skilmálunum og bætti nú við…“  (PG; Veðmálið).  „Ákveðum við þá að halda þegar af stað í land og var nú haldið af stað með stefnu á Blakknestá“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Þegar allt kemur til alls (orðtak)  Þegar upp er staðið; þegar gert er upp; í heildina litið; þegar öllu er á botninn hvolft; þegar öll kurl koma til grafar.  „Þegar allt kom til alls voru þetta prýðisnáungar, þó vissulega hefðu þeir sína breyskleika eins og aðrir“.

Þegar á bjátar / Þegar í móti blæs (orðtök)  Þegar maður verður fyrir mótlæti; þegar eitthvað gengur manni í móti.

Þegar á daginn líður (orðtak)  Þegar kemur fram á daginn.  „Veðrið batnaði þegar á daginn leið“.

Þegar á herðir /Þegar á reynir (orðtök)  Þegar í harðbakkann slær; í erfiðleikum/neyð.  „Þegar á átti að herða hætti hann við kaupin“.  „Þetta kemur í ljós þegar á reynir“.

Þegar á hólminn er komið / Þegar á hólminn kemur (orðtak)  Þegar komið er á vettvang/staðinn.  „Við hnýtum niðristöðurnar á, þegar á hólminn er komið“.  Vísar til hólmgöngu/einvígis.

Þegar á móti blæs (orðtak)  Þegar í harðbakkann slær; þegar eitthvað gengur manni öndvert.  „Ég er þannig gerður að ég herðist allur upp þegar á móti blæs“.

Þegar á reynir (orðtak)  Þegar erfiðleikar steðja að; þegar á móti blæs; þegar átök hefjast.  „Þó hann virðist hálfgert gauð, þá er hann ansi seigur þegar á reynir“.

Þegar/ef á þarf að halda (orðtak)  Þegar/ef þurfa þykir; eftir þörfum.  „Hann er boðinn og búinn að hjálpa til þegar á þarf að halda“.

Þegar best lætur (orðtak)  Í besta falli; þegar best gengur.  „Bátar koma hlaðnir á lista þegar best lætur“.

Þegar betur var að gáð (orðtak)  Þegar nánar var athugað; við nánari skoðun.  „Þetta reyndust bara vera steinar þegar betur var að gáð, en ekki kindur“.

Þegar ein báran rís er önnur vís (orðatiltæki)  Líkingin er oft notuð um það þegar eitt ólánið eltir annað, en vísar til þess að sjaldan er ein báran stök; ólög í brimi koma oftast mörg saman.

Þegar ein beljan/kýrin mígur verður annarri mál (orðatiltæki)  Þessi sannindi eru nokkur staðreynd.  Notað sem líking um hjarðhegðun mannfólksins, t.d. varðandi tísku eða almenningsálit.

Þegar fram í sækir / Þegar fram líða stundir/tímar (orðtak)  Þegar til lengdar lætur; í framtíðinni; síðar.  „Aflinn kemst í miðrúmið ennþá, en við þurfum kannski að setja eitthvað í framrúmið þegar fram í sækir“.  „Þá er fram liðu stundir kom í ljós að fóðurvöntun var almennt meiri en álitið var skoðunardagana“   (ÓHE;  Forðagæslubók Rauðasands 1920).  

Þegar/er frá líður (orðtak)  Eftir dálítinn tíma; þegar líður frá stundinni sem nú er.  „Þó nú sé lítil athafnasemi í Kollsvikinni, má öruggt telja að úr því rætist þegar frá líður.  Slíkir landkostir verða ekki ónotaðir um langa framtíð“.  „Þar óx hvítt hár í staðinn, sem úr urðu hvítir blettir er frá leið“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Þegar hæst stendur (í stönginni) (orðtak)  Þegar mest er umleikis/ að gerast.  Vísar til þess að segl séu við sigluhún á skipi.

Þegar í harðbakkann slær / Þegar harðnar á dalnum (orðtak)  Þegar í nauðirnar rekur; þegar á móti blæs.  „Það getur verið gott að eiga fyrningar þegar í harðbakkann slær“.  „Hann leitaði stundum til mín með lítilsháttar lán þegar harðnaði á dalnum hjá honum“.

Þegar/ef í nauðirnar rekur (orðtak)  Þegar harðnar á dalnum; í erfiðleikum; þegar útaf ber.  „Þetta úrræði hefur reynst mér vel þegar í nauðirnar rekur“.

Þegar í stað (orðtak)  Strax; samstundis; núna.  „Það verður að byrja á þessu þegar í stað“!  „Ákveðum við þá að halda þegar í stað í land og var nú haldið af stað með stefnu á Blakknestá“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Þegar kallið kemur (orðtak)  Þegar maður deyr.  „Ætli maður verði verði ekki bara að gegna þegar kallið kemur, líkt og aðrir“.

Þegar mikið liggur við (orðtak)  Þegar áríðandi er; þegar mikið er í húfi/hættu.  „Þú mátt kalla í mig þegar mikið liggur við“.

Þegar minnst varir (orðtak)  Öllum að óvörum; þegar enginn uggir að sér.  „...  en þegar minnst varði hvarf seglið“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Þegar neyðin er stærst er (oft) hjálpin/(náðin) næst (orðatiltæki)   Oft berst hjálp/ koma bjargráð þegar mikið liggur við.

Þegar nær dregur / Þegar þar að kemur (orðtak)  Þegar líður nær; þegar stundin nálgast.  „Ég ræði betur við þig þegar nær dregur“.  „Það má skoða þetta þegar þar að kemur; ekkert liggur á ennþá“.

Þegar sá gállinn er á honum (orðtak)  Þegar þannig liggur á honum.  „Hann er þegjandalegur að eðlisfari en getur verið hrókur alls fagnaðar þegar sá gállinn er á honum“.

Þegar/ef svo ber undir (orðtak)  Þegar/ef mál æxlast þannig; þegar/ef svo vill til.  „Hann átti það til að snöggreiðast þegar svo bar undir“.

Þegar til kastanna/stykkisins/alvörunnar kemur (orðtak)  Þegar á reynir; þegar að því kemur; þegar kemur að því að skipta fengnum.  „Hann sagðist gefa dauðann og djöfulinn í að hann færi nokkuð að smala.  Við skulum sjá hvað verður þegar til kastanna kemur“.  Orðalagið á líklega rætur í því að skipta afla í hrúgur; svonefnd köst.  Það er all liklegt, þegar óvanaleg veiði er dregin; að þá vilji menn „láta sjá hvað verður þegar til kastanna kemur“; þ.e. þegar skipt verður.  Ólíklegri er sú skýring sumra málfræðinga að hér sé vísað til teningakasts í spilum.

Þegar til lengdar lætur (orðtak)  Þegar fram í sækir; í framtíðinni; síðar.  „Það er kærkomið að fá þessa gróðrarskúr núna, en rigningin getur orðið leiðigjörn þegar til lengdar lætur“.

Þegar tími/tóm er til / Þegar tími/tækifæri gefst (orðtök)  Þegar unnt er vegna anna/vinnu.

Þegar um hægist (orðtak)  Þegar minna verður að gera; þegar róast.  „Við þurfum að skipta um olíu á vélinni þegar um hægist“.

Þegar upp er staðið / Þegar öllu er á botninn hvolft (orðtak)  Þegar allt kemur til alls; á endanum; þegar niðurstaða fæst.  „Það kemur út á eitt þegar upp er staðið; hvort úttektin er skrifuð á mig eða konuna“.

Þegar/ef þurfa þykir (orðtak)  Þegar/ef á þarf að halda; ef með þarf.  „Það er gripið í þetta ef þurfa þykir“.

Þegar því er að skipta (orðtak)  Þegar þannig háttar til.  „... og því best að hafa hraðann á og koma sér í land, áður en allt yrði ófært, því fljótlega brimaði í Kollsvík þegar því er að skipta, sem eðlilegt er; þetta er fyrir opnu hafi“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Þegar öll kurl koma til grafar (orðtak)  Þegar allt kemur til alls; að leikslokum; þegar öllu er á botninn hvolft.  „Þegar öll kurl koma til grafar sjá menn fljótt að það voru reginmistök að leggja þessar byggðir í eyði“.  Orðtakið er komið frá viðarkolagerð.  Viðurinn var kurlaður í smátt og fluttur til kolagrafarinnar, stundum úr mörgum áttum.  Þó lítið kæmi úr hverjum stað, gat hrúgan orðið all myndarleg þegar öll kurl voru komin til grafar.

Þegar öllu er á botning hvolft (orðtak)  Þegar allt kemur til alls; þegar öll kurl koma til grafar.  „Spurningin er hvort þjóðfélagið væri ekki, þegar öllu er á botninn hvolft; betur sett með að halda öllu landinu í byggð, en að hrúga öllum á einn hlandkollublett við Reykjavíkurtjörn“. 

Þegið (l)  Meðtekið; tekið á móti.  „Ég vissi að það yrði vel þegið á þeim bæ að fá fisk í soðið“.

Þegja eins og steinn (orðtak)  Steinþegja; þegja alveg; segja ekkert.  „Nú þegir hann eins og steinn, þegar hann er orðinn alveg rökþrota“!

Þegja í hel (orðtak)  Um málefni; láta fara hljótt; þagga niður.

Þegja yfir (orðtak)  Tala ekki um.  „Hann getur aldrei þagað yfir nokkrum hlut“!

Þegja þunnu hljóði (orðtak)  Halda sér saman; þegja þegar síst skyldi.  „Þeir þögðu þunnu hljóði í stað þess að viðurkenna verknaðinn“.  Vísar til hljóðs sem heyrist jafnvel ekki gegnum þunna veggi.

Þegjandalegur (l)  Orðfár; sagnafár; fálátur.  „Ósköp eru búinn að vera þegjandalegur.  Er eitthvað að“?

Þegjandagangur / Þegjandaháttur (n, kk)  Drumbsháttur; þumbaraháttur; fámæli; fýla.  „Svona þegjandagangur dugir ekki; þú verður að svara þessu“.  „Hann tók því með þumbarahætti“.

Þegjandi gengur þorskur í ála (orðatiltæki)  Menn verða oft ekki varir við breytingar sem verða á möguleikum þeirra til að komast af.  Enginn veit um fiskigengd á miðum fyrr en róið er.

Þegjandi hás (orðtak)  Svo hás að erfitt er að greina orðaskil.

Þegjandi og hljóðalaust (orðtak)  Án þess að tala/mótmæla.  „Annaðhvort gerirðu þetta þegjandi og hljóðalaust eða lætur það vera!  Ég nenni ekki að hlusta á þetta múður“.

Þegjandi samkomulag (orðtak)  Gagnkvæmur skilningur milli manna; sameiginlegt viðhorf án þess að gerður sé skriflegur samningur.  „Um þessa tilhögun hefur alltaf ríkt þegjandi samkomulag“.

Þegn (n, kk)  Borgari; meðlimur í samfélagi/þjóðfélagi; undirsáti. 

Þegnréttur (n, kk)  Borgaraleg réttindi; réttur þegns í ríki.

Þegnskylda (n, kvk)  Skylda borgara/þegns í ríki/samfélagi.

Þegnskylduvinna (n, kvk)  Skylda þegns/borgara til að vinna launalaust í þágu samfélagsins; samfélagsvinna.  Fyrr á tímum var orðið meira notað, enda töldu menn ýmsa samfélagsvinnu sjálfsagða; t.d. þeir sem störfuðu í ungmennafélögum og kaupfélögum.  Nú á tímum eiga þær hugmyndir mun minna fylgi.

Þeim/honum kemur í koll (sem kastar steini í loft upp) (orðtak)  Sjá honum kemur í koll.

Þeim lata eru allir dagar jafn helgir (orðatiltæki)  Sá lati sleppir erfiðisvinnu, hvort sem er á virkum eða helgum degi.   Einnig lötum eru allir dagar jafn helgir.

Þeim skall skömm sem skyldi (orðatiltæki)  Sá fékk skömmina sem hana átti með réttu. 

Þeim verður að sinnast sem saman búa (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að aldrei er sambúð svo fullkomin að ekki verði einhverntíman meiningarmunur/ágreiningur/deilur.

Þeir fiska sem róa (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að menn fá ekkert nema bera sig efir því.

Þeir lifa lengst sem lýðum eru leiðastir (orðatiltæki)  Stundum var gripið til þessa orðatiltækis ef t.d. þingmaður náði endurkjöri sem ekki þótti þess verðugur.  Líklega útúrsnúningur á öðru orðatiltæki:  það lifir lengst sem lýðum er leiðast.

Þeir (mega) sletta skyrinu sem eiga það (orðatiltæki)  Þeir ríku geta sóað sínu fé að vild.  „Þeir sletta skyrinu sem eiga það:  Þeir voru víst að fá sér nýjann traktor á stórbúinu, og hann ekki af minni gerðinni“.

Þeir hljóta/verða að missa sem eiga (orðatiltæki)  Sá sem eitthvað á getur orðið fyrir skaða, ólíkt þeim sem ekkert á. 

Þekja (n, kvk)  Þak; efsta lag einhvers.  „Hann var eins og hann væri úti á þekju“.

Þekkilegur (l)  Viðkunnanlegur; geðþekkur.  „Hann var hinn þekkilegasti maður í allri viðkynningu“.

Þekking (n, kvk)  Vitneskja; fróðleikur; kunnátta.  „Bóklestur er ágæt leið til að afla sér þekkingar“.

Þekkingarleit (n, kvk)  Leit manneskju að fróðleik/sannindum/vísdómi/þekkingu.  „Þjóðfélagið stefnir hraðbyri inn á þær villigötur blekkinga, að þekking fáist einvörðungu með setu á skólabekk og söfnun prófgráða.  Mestu hugsuðir og vísindamenn samfélagsins eru oft þeir sem afla þekkingar af eigin hvötum og á sinn eigin hátt.  Það eru gjarnan einnig þeir sem feta nýjar slóðir og sanna sína þekkingu með tilraunum og reynslu.  Þeir stunda þekkingarleit af eigin hvötum en taka ekki við ítroðslu hins kassalaga og takmarkaða menntakerfis“.

Þekkingarleysi / Þekkingarskortur (n, hk)  Skortur á þekkingu/vitneskju/fróðleik; kunnáttuleysi. 

Þekkingarsamfélag (n, hk)  Samfélag sem stöðugt leitar nýrrar þekkingar og býr að miklum fróðleik.  „Fullyrða má að í Kollvík og nágrenni hafi á margan hátt þrifist einstakt þekkingarsamfélag, eins og oft vill verða þar sem menn sitja að meira nægtaborði en almennt er.  Um leið og menn urðu að stunda vel sína frumframleiðslu með sjómennsku  og búskap, þá mátti yfirleitt ganga útfrá því að auðlindir fisks og beitar væru til staðar.  Með skipulegri vinnu gafst fólki því tími til að sækja sér þekkingu, og það var hiklaust gert.  Óvíða hefur t.d. verið meiri bókakostur á heimilum en á Kollsvíkurbæjum, og bóklestur var mjög almennur.  Rökræðulist er Kollsvíkingum í blóð borin, og var ein grunnstoð gróskumikilla ungmennafélaga.  Margir Kollsvíkingar sem fluttust burt urðu færir fræðimenn; aðrir náðu langt í viðskiptalífi og til var það að menn fóru inn á nýjar slóðir uppgötvana.  Væri í raun þarft rannsóknarefni að gera samanburðarrannsókn í þessu efni.  Hún gæti e.t.v. breytt þeirri ímynd að fólk í fjarlægustu byggðum standi borgarbúum eitthvað að baki í þekkingarlegum efnum“ (VÖ).

Þekkist ekki annað (orðtak)  Ekki annað stundað/þekkt.  „Þá þekktist ekki annað en að baka öll brauð og kökur heima“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Þekkja hvorki haus né sporð á (orðtak)  Skilja ekki; kunna ekki á; þekkja ekki til.  „Ég þekkti hvorki haus né sporð á þessum manni, en hann virtiest eitthvað kannast við mig“.

Þekkja af afspurn (orðtak)  Hafa heyrt talað um en ekki séð sjálfur.  „Þegar litið er til fyrsta tugar tuttugustu aldar má segja að Rauðsendingar hafi ekki þekkt hjólið nema af afspurn“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Þekkja hvorki haus né sporð á (einhverju) (orðtak)  Kunna lítil skil á; kannast ekkert við.  „Ég þekki hvorki haus né sporð á þessum ám; þær eru lengra aðkomnar“.  Líking úr veiðimannamáli; þekkja fiskegund hvorki af höfuðlagi né sporðinum.

Þekkja (einhvern) í sjón (orðtak)  Þekkja einhvern þegar maður sér hann.  „Það heitir ekki að ég sé honum kunnugur, en ég þekki hann í sjón“.

Þekkja í sundur (orðtak)  Greina að; greina hvor er hvor.  „Ég er loksins farinn að þekkja tviburana í sundur“.

Þekkja má refinn af rófunni/skottinu / Þekkja má úlfinn af eyrunum (orðatiltæki)  Notað í líkingum um mann sem ekki fær leynt sínum eiginleikum eða uppruna.  Refur var talinn vísa til slægðar/undirferla/svika, en úlfur vísar til grimmdar/ófyrirleitni.

Þekkja sig (orðtak)  Kannast við sig; átta sig á því hvar maður er; þekkja kennileiti.  „Það þýðir ekkert að láta menn vera að smala á stöðum þar sem þeir þekkja sig ekki“.  „Með í för voru tveir nemendur úr Arnarfirði, sem þekktu sig nokkuð á heiðinni“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Þekkja sinn vitjunartíma (orðtak)  A.  Vita hvenær dauðastundin rennur upp; vita hvenær dauðinn kemur að vitja manns.  B.  Vita almennt um tímamót í lífi sínu; vita hvenær skyldan kallar.  Sjá vitjunartími.

Þekkja til hlítar (orðtak)  Þekkja mjög vel.  „Þessa leið þekki ég til hlítar; svo oft hef ég farið þarna um“.

Þekkjanlegur (l)  Hægt að þekkja.  „Þú ert varla þekkjanlegur eftir að þú fórst að safna skeggi“.

Þekktur (l)  Kunnur; frægur.  „Margir Kollsvíkingar hafa orðið þekktir fyrir sín störf“.

Þekktur að (orðtak)  Frægur/kunnur fyrir.   „Hann er þekktur að vandvirkni í öllum sínum störfum“.

Þel / Þelull (n, hk)  Innra lag ullar/reyfis af sauðkind.  Ullin er samsett af tvennskonar hárum; togi og þeli.  „Toghárin eru löng, með litlar bylgjur; fremur gróf og oft vel gljáandi.  Þelhárin eru fremur stutt; mjög fín og létt; óreglulega liðuð, fjaðurmögnuð og mjúk viðkomu.  Auk þessa eru svokallaðar illhærur stundum í uppinni.  Þær eru mjög gróf hár; oftast rauðgular á litinn“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin landið og þjóðin). 

Þelband (n, hk)  Garn sem unnið er úr þeli/fínustu ullinni.  „Þelband var mest notað í nærföt, einspinna í nærskyrtur, allt frá ungbarnaskyrtur og upp í kven- og karlmannaskyrtur og nærbuxur á yngstu börnin (bleyjubuxur).  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Þeli (n, kk)  A.  Klaki.  Einkum átt við frost í jörðu.  „Það er hálf skóflustunga niður á þelann þarna“.  B.  Andúð; kali.  „Milli þeirra hefur verið einhver þeli upp á síðkastið“.  Sjá bera kala/þela til.

Þelingar (n, kk, fto)  Thalliophyta; lágplöntur.  Frumstæður en víðfeðmur flokkur plönturíkisins, en til þelinga heyra þörungar, sveppir, fléttur, skófir og sumir gerlar.  Líkaminn „þal“ er einfaldur vefur sem skortir oftast rót, stöngul, blöð og annað sem einkennir háplöntur.  Fjallagrös eru dæmigerðir þelingar.

Þemba (n, kvk)  A.  Útþensla af einhverju tagi; hrossasótt.  Oft notað um loftverki í maga.  B.  Mosaþúfa; dyngja af mosa. 

Þemba (s)  Þenja út.  „Maður hreyfir sig ekki strax eftir að vera búinn að þemba sig upp af ketsúpu“.

Þembdur (l)  Þaninn.  „Hann segist vera svo þembdur að hann vilji ekkert kaffi á eftir matnum“.

Þenja (s)  Strekkja; gera þanið/strekkt.  „Náum við ekki að þenja seglið yfir alla hrúguna“?

Þenja gúl/túla (orðtak)  Rífa kjaft; rífast.  „Maður á ekki að þenja gúl um það sem maður hefur ekki hundsvit á“.  „Vertu bara ekkert að þenja þinn túla; ég veit alveg hvað rétt er í þessu máli“!

Þenja sig (orðtak)  A.  Hlaupa eins hratt og maður getur.  „Þú verður að þenja þig ef þú ætlar að hafa hana“ (komast fyrir kindina).  B.  Rífa kjaft; rífast.  „Hvað ert þú að þenja þig“!  Sjá þön og á þönum.

Þenja vömbina (orðtak)  Steyta vömbina; troða sig út; borða í óhófi; eta umfram þarfir.

Þenkja (s)  Hugsa; íhuga.  „Það mætti alveg þenkja þetta“.

Þenkjandi (l)  Hugsandi; íhugandi, innrættur.  „Þetta ætti nú allir vel þenkjandi menn að hafa í huga“.  „Ekki dettur mér í hug að menn hafi verið svona illa þenkjandi; þetta eru auðvitað mistök“.

Þensla (n, kvk)  Troðsla; það að þenja út/yfir.  „Belgurinn þolir varla meiri þenslu“.

Þerna (n, kvk)  A.  Kría.  B.  Stytting á landþerna, þ.e. siglingaljós á skipi.  C.  Þjónustustúlka.

Þerra (s)  Þurrka.

Þerriblástur / Þerrigola / Þerrivindur (n, kk/kvk)  Gola/vindur í þurrki.  „Þetta þornar fljótt eftir að hann kom með þennan þerriblástur“.

Þerrihjallur / Þurrkhjallur (n, kk)  Hjallur til að þurrka í; bæði fatnað og matvæli. 

Þerripappír (n, kk)  Þykkur pappír sem dregur vel í sig vætu.  Mikið notaður fyrrum, meðan blekpennar/líndarpennar/stangarpennar voru notaðir, en þá þurfti iðulega að þerra umframblek svo það yrði ekki að klessu á skrifuðu blaðinu.  Því er líkingin; þurrt eins og þerripappír.

Þerrir (n, kk)  Þurrkur; þurrt tíðarfar.  „Ekki veit ég hvað þessi þerrir endist“.  Sjá hengja til þerris.

Þerrivöllur (n, kk)  Þurr harðbali sem gott er að þurrka hey á.  Hey var stundum flutt á þerrivöll af mýrlendi, til þurrkunar.

Þess efnis (orðtak)  Sem varðar það; með því innihaldi.  „Þá kom fram tillaga frá sr. Grími Grímssyni þess efnis að fækka kjördeildum úr fjórum í eina“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 12.03.1960; ritari ÖG). 

Þess heldur (orðtak)  Vegna þess; því meir.  „Þú segir að kartöflurnar séu á þrotum; þess heldur er ástæða til að þiggja þetta boð hjá honum“.

Þess í stað (orðtak)  Í staðinn fyrir það; heldur.  „Hann fór ekki hefðbundna leið yfir hálsinn.  Þess í stað kaus hann að fara um hlíðina“.

Þess sér stað (orðtak)  Sjá má; greinilegt er.  „Þess sér víða stað að menn hafa lengi reynt að sporna við uppblæstri í Kollsvík.

Þess utan (orðtak)  Þar að auki; auk þess.  „Nú sýnist mér að landsliðið sé eina ferðina enn að verða sér til skammar í boltanum; þess utan hef ég aldrei skilið til hvers menn eru að standa í þessari vitleysu“.

Þess verður (orðtak)  Verðskuldar það; þess virði.  „Er það ekki vel þess vert að samtök verði hafin um að byggja upp eina verbúð, er látin sé geyma það sem til næst af gömlum munum og minjum úr Verinu? “  (KJK; Kollsvíkurver).

Þess virði (orðtak)  Vert; ómaksins vert; borgar sig.  „Það var alveg þess virði að fara í róður fyrir svona afla“.

Þess þá heldur (orðtak)  Þeim mun meiri ástæða er þá til; þeim mun frekar.  Oft stytt í „þess heldur“.

Þessa dagana (orðtak)  Á þeim dögum sem nú eru að líða; um þessar mundir.  „Ég er með einhvern kverkaskít þessa dagana, og bara drulluslappur“.

Þessa stundina (orðtak)  Núna; á þessum tíma.  „Hann hangir uppi þessa stundina“.  Ertu upptekinn þessa stundina“?

Þessháttar / Þesskonar / Þess háttar (ao)  Þannig; slíkur.  „Ekki finnast nein dæmi um þessháttar orðalag“.  „Einnig var farið í leiki, svo sem að segja Spánarkonung dauðan o.fl. þess háttar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Þessi líka... (orðtak)  Upphrópun sem alltaf er höfð á undan lýsingarorði í aðdraganda nafnorðs.  „Ærin komst loksins frá lambinu.  Þetta var stærðar hrútlamb með þessar líka litlu hornakylfur“!

Þessir háu herrar (orðtak)  Skammaryrði um ráðamenn; gjarnan notað um yfirvöld eða Reykjavíkurvaldið, en einnig um stjórnendur heima í héraði.  „Ég held að þessir háu herrar ættu nú að reyna að taka niður silkihanskana og gera þetta sjálfir“!

Þesskyns (l)  Af því tagi; þesslags; þessháttar.  „Ég er lítið fyrir þesskyns fæðu“.

Þesslegur (l)  Slíkur; þannig.  „Mér fannst hann ekki þesslegur að hann væri á leið í kirkju; enn í skítagallanum“.

Þesslags (l)  Slíkt; þannig; líkt.  „Ég lagði ekki orð í belg um þetta; mér líkar ekki þesslags umræða“.

Þessu næst (orðtak)  Síðan; þar á eftir.  „Þessu næst tók hann glasið og svolgraði úr því í einum teyg“.

Þetta (fn)  A.  Venjuleg notkun fornafnsins:  „Þetta er góður matur“.  B.  Svona.  „Ég ræð ekki einn við þetta þungan stein“.  „Við fengum þetta tuttugu, þrjátíu fiska“.  „Er hann virkilega orðinn þetta gamall“.

Þetta er nú enginn ástvinamissir Orðatiltæki sem upprunnið er í Rauðasandshreppi og er enn notað þar  „Það stoðar lítið að syrgja Helgi minn; þetta er nú enginn ástvinamissir“ var haft eftir Manga á Hlaðseyri þegar Blöndal hellti niður heimaframleiðslunni.  Vísar til bændanna Magnúsar Jónssonar á Hlaðseyri og Helga Fjeldsted í Raknadal, en báðir voru oft orðheppnir og úrræðagóðir.

Þetta er nú matur og músin steikt (og maðkur uppúr sjóma)! (orðatiltæki)  Nú þykir mér vera afbragðsgóður matur á borðum; þetta eru heldur betur kræsingar.  Iðulega viðhaft þegar maður vill hrósa mat sem fram er borinn, þó þeir súpi stundum hveljur sem ekki þekkja málsháttinn eða er klígjugjarnt.  Síðari hluti hans var ekki viðhafður vestra í seinni tíð, en mun hafa þekkst annarsstaðar á landinu.  Hinsvegar kom stundum þessi viðbót; „þetta er nú matur og músin steikt, sagði kötturinn og þurrkaði sér um munninn“.  Ekki skal fullyrt hvaða saga liggur þarna að baki.

Þetta er ungt og leikur sér (orðatiltæki)  Umburðarlyndi hinna eldri gagnvart ærslum hinna yngri.

Þetta grær áður en þú giftir þig (orðatiltæki)  Þetta batnar fljótt; verður fljótt að gróa.  Gjarnan sagt við börn.

Þetta jafnar sig (með tímanum) / Þetta lerar sig (orðatiltæki)  Þetta verður í lagi; úr þessu greiðist.

Þetta litla (orðtak)  A.  Áhersluauki með lýsingarorðum. „Hann var þetta litla kátur yfir að fá að fara með“.  B.  Einnig notað sérstætt sem andsvar/undirtekt við fullyrðingu viðmælanda; jafnvel með hneykslunartón eða fyrirlitningu, þannig að ekki verður misskilið að merkingin er gagnstæð.

Þetta sér hver heilvita/sjáandi maður! (orðatiltæki)  Upphrópun sem oft var notuð í vandlætingarskyni yfir yfirsjón/glópsku annars manns.

Þetta slampast einhvernveginn (orðatiltæki)  Kæruleysislegt viðkvæði; þetta bjargast á einn eða annan hátt.  „Það er kannski enginn dans á rósum, en einhvernvegin slampast þetta“.  Einnig það slampast.

Þettað (fn)  Fornafnið „þetta“ var iðulega borið fram með „ð“ í enda í máli Kollsvíkinga; allt frameftir 20. öld.  Mest bar á þessu þegar orðið var notað sem sjálfstætt svar; þegar svarandi vildi taka undir fullyrðingu eða spurningu í hneykslunar- eða upphrópunartón.  Var þá áherslan ýmist á seinna atkvæði eða báðum.

Þeyr (n, kk)  Blær; hlýr hægur vindur.  „Það máir fljótt af holtum í þeynum“.

Þeybitra (n, kvk)  Biturt frost í logni, áður en hlýnar (skýr.Orðab.Mennsj).  (Orðasafn IG).

Þeysa (s)  A.  Ríða hratt; hleypa.  B.  Gusa; æla.  „Hann lagðist útyfir borðstokkinn og þeysti úr sér feiknamikilli ælu“.

Þeysisprettur / Þeytingssprettur / Þeytisprettur  (n, kk)  Hratt hlaup; loftköst.  „Hann kom hlaupandi á þeytingsspretti“.  „Ég endasentist á þeytispretti fram með Hjöllunum og náði að komast fyrir kindurnar við Hafnargilið“.

Þeyta (n, kvk)  Hræringur; það sem þeytt hefur verið.  T.d. eggjaþeyta.

Þeyta (s)  A.  Kasta af miklum krafti.  B.  Píska rjóma svo hann verði stífur/þeyttur.  C.  Blása í hljóðfæri.

Þeytari (n, kk)  Eldhúsáhald til að þeyta t.d. rjóma.

Þeytingur (n, kk)  Þeytingssprettur; mjög hratt hlaup.  „Hvaða þeytingur er á þér“?

Þeytispjald (n, hk)  A.  Spjald sem kastað er á loft með snúningi og getur svifið mjög langt.  B.  Sjald sem band er þrætt í gegnum og látið snúast svo þytur heyrist.  C.  Líkingamál; manneskja sem er mikið á ferðinni.

Þéna (s)  A.  Þjóna.  „Þessi hnífur er búinn að þéna mér vel og lengi“.  B.  Henta.  „Tvíálma kvísl þénar illa í svona fíngert hey“.  C.  Græða; vinna sér inn fé.  „Hann ku þéna ágætlega í þessu starfi“.

Þénanlegur (l)   Góður; brúklegur; þægilegur.  „Þetta er bara hinn þénanlegasti hnífur“.

Þénusta (n, kvk)  A.  Vinnulaun; kaup.  „Hann er víst í rokna þénustu þarna“.  B.  Þjónusta.  Eldri merking.

Þénustusamlega (ao)  Af auðmýkt/þjónustulund.  Í seinni tíð einum notað í háði.  „Ég bað hann þénustusamlega að halda sig við staðreyndir eftirleiðis“!

Þér (fn)  Þú.  Þéringar voru mikið notaðar fyrrum, í hinu stéttaskipta samfélagi; einkum þegar „virðingarmenn“ voru ávarpaðir, en einnig nær undantekningarlaust í skrifuðu máli.  Lagðist snemma af meðal Kollsvíkinga.

Þér er ekki sjálfrátt! /orðtak)  Upphrópun sem lýsir vanþóknun á því sem gert er, og efasemdum um að það sé gert af vitund og vilja gerandans.  „Óðstu uppfyrir stígvélin?  Þér er ekki sjálfrátt drengur“!

Þér ferst! (orðtak)  Þér væri nær að líta í eigin barm; þú hefur ekki efni á að segja þetta. 

Þér gott af! (orðtak)  Upphrópun notuð í vandlætingartón þegar einhverjum verður hált á uppátækjum sínum.  „Brotnuðu eggin í húfunni?  Þér gott af; að hafa ekki fötuna meðferðis eins og ég benti þér á“!

Þér var nær! (orðtak)  Skammaryrði; þarna sérðu!; þú hefðir átt að breyta öðruvísi.  „Þér var nær!  Ég var búinn að segja þér að ísinn á tjörninni væri ótraustur“!

Þéranir / Þéringar (n, kvk)  Þéringar (þér, vér, yður o.s.frv.) voru nánast horfnar úr mæltu máli í Rauðasandshreppi eftir miðja 20. öld.  Þó mátti heyra þær þegar þingmenn og aðrir „fyrirmenn“ heimsóttu bændur sem töldu sig vanda að virðingu; einnig í hátíðarræðum.  Lengi eimdi þó eftir af þeim í bréfaskriftum, einkum þegar opinberir aðilar áttu í hlut; hérumbil út 20. öldina.  Til voru þeir sem aldrei báru þéringar við og höfðu á þeim hina megnustu skömm, líkt og öðru snobbi.  Fremur var talað um „þéringar“ en „þéranir“.

Þétt setinn bekkurinn (orðtak)  Þröng á þingi; mikill fjöldi.  „Mér sýnist þétt setinn bekkurinn niðri á þessum langvíupalli.  Ættum við ekki að reyna að komast þarna niður“?  Líkingin er dregin af seti/bekk í húsi, en upphafleg sæti í húsum virðast hafa verið bekkir með hliðum þess, ekki fjarri eldi til hitunar.  Sjá bekkur; setinn bekkurinn, færa sig upp í bekkinn og skörin færist upp í bekkinn.

Þétta (s) Gera þétt.  „Mér tókst að þétta lekann á þakinu“.

Þéttast (s)  Verða þéttari.  „Tunnan er strax farin að þéttast, en það er rétt að vatna hana til morguns“.

Þéttbýli (n, hk)  Byggð þar sem stutt er milli íbúðarhúsa. 

Þéttbýlt (l)  Bæir standa þétt saman.  Segja má að um tíma í byrjun 20.aldar hafi verið nokkuð þéttbýlt í Kollsvík.  Þá var búið á hinum fornu býlum; Láganúpi og Kollsvík (tvíbýli), en einnig á Grundum (tvíbýli); Grundabökkum (tvíbýli); Grund (Júllamel/Torfamel); Stekkjarmel; Nýlendu; Strákamel; Grænumýri; Tröð og Bergjum.  Þá var fyrir löngu aflögð hjáleigan Hólar og á þeim tíma bjó enginn í verbúðum Kollsvíkurvers, þó slíkt hefði fyrrum tíðkast.

Þéttholda (l)  Feitlaginn; þrýstinn.  „Ansi er hann að verða þéttholda í seinni tíð“!

Þétthærður (l)  Með þétt hár; ekki gishærður.

Þétti (n, kk)  Fullgert skyr sem notað er til að hleypa með annað skyr.

Þétting (n, kvk)  A.  Það sem notað er til að þétta með.  B.  Það að þétta.

Þéttingsfast (l)  Mjög fast/ákveðið.  „...ekki virtist hann veita árinni neina athygli fyrr en henni var ýtt þéttingsfast í brjóst hans“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Þéttingsgola / Þéttingsvindur/ Þéttingskaldi  (n, kvk)  Stíf gola; golukaldi.  „Hann er farinn að leggja upp einhverja þéttingsgolu“.

Þéttingshvasst (l)  Allhvasst; nokkur vindur.

Þéttingshátt (l)  Allhávær; fremur hátt.  „Sönghóll heitir hár hóll heiman við Hrísmúlann.  Gamlar og nýjar sagnir eru um að þarna hafi heyrst söngur, buldur þéttingshátt, og sumir segja allhávær bassasöngur.  Þetta var sett í samband við tröllabyggð og hamrabúa ferlega, en ekki við vatnsrennsli neðanjarðar“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Þéttingshvass (l)  Allhvass; stormur.  „Það er bara orðið þéttingshvasst“.

Þéttingsvindur (n, kk)  Hvassviðri; jafnvel rok.  „Þarna uppi var þéttingsvindur og erfitt að athafna sig“.

Þéttingsþrengsli (n, kvk, fto)  Mikil þrengsli; örtröð.  „Það eru að verða þéttingsþrengsli í stíunni; það þýðir ekkert að bæta fleira fé í hana“!

Þéttingsþröngt (l)  All þröngt; mikil þrengsli.  „Nú er orðið þéttingsþröngt í þessum dilk“.

Þéttkenndur (l)  Allnokkuð ölvaður/ við skál.  „Þeir voru allir þéttkenndir og sungu hástöfum“.

Þéttlokaður (l)  Lokaður alveg þétt.  „Hafðu dyrnar ekki alveg þéttlokaðar í þessari mollu“.

Þéttnærri (ao)  Mjög nálægt; hérumbil; hartnær; hartnærri.  „Þettan verður líklega þéttnærri því að fylla tunnuna“.  „Ekki er þetta nú alveg nóg; en þéttnærri því“.

Þéttseymdur / Gisseymdur (l)  Um bátssmíði; stutt eða langt á milli saums í byrðingi.

Þétttent (l)  Einkum notað um sög; með þéttar tennur/ margar tennur á hverja tommu; ekki gistennt.

Þéttraðað (l)  Raðað mjög þétt.  „Ansi er þéttraðað á jötuna þarna fremst“.

Þéttriðið (l)  Um net; með litlum/fíngerðum möskva. 

Þétttroðinn (l)  Troðinn út þéttingsfast.  „Þétttroðnir ullarballarnir voru gott tveggja manna tak“.

Þéttsetinn / Þéttskipað (l)  Verið mjög þétt.  „Þarna er þéttsetið á höfðanum“.  „Heldur finnst mér þéttskipað í þennan garða“.

Þéttseymdur (l)  Um bát; þétt negld súð.

Þétttroðinn (l)  Troðinn mjög þétt.  „Þetta kalla ég þétttroðinn ullarballa“!

Þéttur (l)  A.  Þar sem hlutar/þræðir liggja þétt.  B.  Vatnsheldur.  C.  Óhagganlegur.  D.  Drukkinn.

Þéttur undir hönd (orðtak)  Vöðvastæltur; þéttur á velli.  „Hann hét Gestur Jósepsson, og var síðar þurrabúðarmaður í Kollsvík (að Gestarmel).  Gestur var lágur maður vexti, en þéttur undir hönd“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Þéttvafinn (l)  Vafinn þétt.  „Teinninn var þéttvafinn utanum endasteininn“.

Þéttvaxinn (l)  Feitlaginn.

Þið skuluð bara sjá til / Þið skuluð reyna/sannreyna það (orðtök)  Viðhaft drýgindalega af þeim sem þykist vita betur en aðrir um málalok/lyktir þess sem um er rætt. 

Þiðna (s)  Verða þíður; slakna.  „Ég setti vatnsslönguna inní fjós til að láta þiðna úr henni“.

Þiggja (s)  Taka við; veita viðtöku að gjöf.  „Það var haft eftir Gumma að …sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum sem hann hefði áður áfellst sig fyrir að þiggja af Hafliða vini sínum“  (PG; Veðmálið). 

Þiggja að gjöf/launum (orðtak)  Fá í gjöf/laun; vera gefið; vera launað með. 

Þiggja af sveit (orðtak)  Fá framfærslu frá hreppssjóði eða vera hjá fjölskyldu sem fær meðlag frá hreppssjóði.  Sjá fara á sveitina.

Þiggja góðgerðir (orðtak)  Um gesti; þiggja mat af gestgjöfum.  „Viltu ekki koma innfyrir og þiggja einhverjar góðgerðir“?

Þiggja með þökkum (orðtak)  Taka við með ánægju; vera ánægður yfir að fá.  „Þau buðu mér gistingu, sem ég þáði með þökkum; enda orðinn ferðlúinn“. 

Þil (n, hk)  Þilja; klæðning innaná vegg, oft úr timbri; skilrúm milli rýma/herbergja í húsi.

Þilfar (n, hk)  Dekk; lyfting; lárétt timburklæðning ofantil í skipi, sem lokar af rýmið í bol þess og eykur flothæfni með því að skila ágjöf útfyrir borðstokka en heldur þurru því sem er neðan þilfars.  Þilfar getur verið í hluta skips en oftar er það í því öllu.  Í stórum skipum eru þau fleiri en eitt, hvert uppaf öðru.

Þilja (n, kvk)  A.  Þil í húsi.  B.  Dekk/þilfar í dekkbát/þilskipi.  Sjá neðan þilja.  C.  Sumsstaðar á landinu voru plittar í bát nefndar þiljur, svo var þó aldrei í Kollsvík í seinni tíð.

Þilja (n, kvk)  Setja þil í t.d. hús.

Þilja af (orðtak)  Setja skilrúm í hús, þannig að úr verið herbergi/rými; stía af; stúka af.  Sjá afstíaður.

Þiljaður (l)  Um hús o.fl.; klætt timbri eða öðru efni.  „Annaðhvort voru búðirnar þiljaðar innan, eða hessíanstrigi strengdur á veggina“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Þilofn (n, kk)  Ofn sem hengdur er á vegg en stendur ekki úti á gólfi.

Þilskip (n, hk)  Dekkbátur; dekkuð skúta; skip með dekki/þiljum sem lokar því og ver fyrir ágjöf.  „Er mælt að þilskip eitt sæi það að Gísli færist í Látraröst með öllum hásetum sínum“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).  Segja má að knerrir landnámsmanna hafi verið þilskip.  Eftir að þeir liðu undir lok var hérlendis lítil sem engin þilskipaútgerð þar til skútuöldin hófst, og togaraöld í framhaldi af henni.  Einar Jónsson í Kollsvík var meðal fyrstu þilskipseigenda á landinu, en hann átti hlut í skútunni „Delphin“.  Sjá skútueigandi.

Þina (s)  Mæla lengd lóðar/netateins.  „Áður en lóðin var sett upp var algengt að greiða hana fyrst úr hönkinni og þina hana síðan; mæla í föðmum“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Þind (n, kvk)  Vöðvaveggur milli brjósth0ls og kviðarhols.

Þindarlaus (l)  Með mikið úthald, einkum til hlaupa.  „Maður gat hlaupið alveg þindarlaust á yngri árum; langar vegalengdir án hvíldar“.  „Hann hljóp þindarlaust í einum spretti til að ná á klósettið í tæka tíð“.

Þing (n, hk)  A.  Fundur manna; mannamót; samkoma.  Oft notað um formlegar og lögbundnar samkomur, s.s. alþing, leiðarþing og manntalsþing.  Þing hafa tíðkast frá grárri forneskju meðal germanskra þjóða; bæði dómþing og löggjafaþing.  Þau voru algeng víða um Evrópu fyrir landnám hérlendis og fluttu landnámsmenn með sér siði sem þau varðar.  Hinsvegar vilja Íslendingar halda því á lofti að hér hafi löggjafarþing starfað lengur samfellt en annarsstaðar, þó það sé reyndar umdeilanlegt.  Fyrstu þing hérlendis voru vorþing, en Alþingi var stofnað 930 (sjá Úlfljótslög) og síðan leiðarþing
Þingstaðurinn í Rauðasandshreppi var Tunga, og hafði svo verið öldum saman.  Þar kvað t.d. Magnús prúði upp hinn fræga vopnadóm 1581.  Síðustu þing í Rauðasandshreppi voru manntalsþing sem haldin voru í félagsheimilinu Fagrahvammi í Tungulandi framundir 1980.  B.  Umdæmi; svæði.  Landinu var að fornu skipt upp í svæði sem hvert um sig átti sitt svæðisþing.  Á Vestfjörðum voru þau tvö; Dýrafjarðarþing og Þorskafjarðarþing.  Þingstaður Þorskafjarðarþings var að Kollabúðum í Þorskafirði.  C.  Stytting úr þarfaþing; þarfur nytjahlutur.  „Þetta var nefnilega flautuketill; mesta þing“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).

Þinga (einhvern) um (orðtak)  Yfirheyra um; reyna að afla tiltekinna upplýsinga um hjá þeim sem um er rætt.  „Hann svaraði fáu þegar ég þingaði hann um ástæður fyrir þessu“.  Allmikið notað í Rauðasandshreppi en heyrist lítt utan svæðisins.  Vísar líklega til yfirheyrslu á dómþingi áðurfyrr.

Þinga um (orðtak)  Halda þing um; hafa að fundatefni; ræða.  „Karlarnir þinguðu þarna á réttarveggnum um markið á lambinu, en niðurstaðan varð sú að athuga hvort einhver ær vildi helga sér það“.

Þingboð (n, hk)  Boð sem sent er um byggðir á sérstakan hátt, með þingboðsöxi.  Efni boðsins getur verið fyrirmæli um um að mæta á samkomu; stefna til dóms; fjallskilaseðill eða annað.  Um þingboð giltu reglur sem að stofni til eru ævafornar.  Sjá þingboðsöxi, axarboð, boðleið, rétt boðleið, skera upp herör, stríðsöxi; gera (einhverjum) boð; láta boð út ganga; láta boð liggja fyrir (einhverjum).

Þingboðsöxi (n, kvk)  Lítið líkneski af öxi sem notað var fyrrum til að senda opinber boð um svæði rétta boðleið Giltu um það strangar reglur aftan úr grárri forneskju, sem fluttust hingað með landnámi.  Ekki er vitað hvað varð um síðustu þingboðsaxir í Rauðasandshreppi, en þar hafa þær eflaust verið notaðar eins og annarsstaðar.  Hinsvegar fékk höfundur (VÖ) listakonuna Siggu á Grund til að skera út fyrir sig eftirlíkingu boðaxar úr Villingaholtshreppi, en frumgerðin er á Þjóðminjasafni ásamt fáeinum öðrum.  Sjá axarboð, boðleið, rétt boðleið, skera upp herör; stríðsöxi.

Þingbóndi (n, kk)  Bóndi sem skyldur er til mætingar á þingi. 

Þingfararkaupsbóndi / Þingfararkaup (n, kk/hk)  Þingfararkaupsbóndi var sá bóndi fyrrum sem átti skuldlaust a.m.k. eitt kúgildi (sex ær) eða eitt hundrað vaðmáls fyrir hvern heimilismann; net og skip og akneyti, uxa eða hross og alla nauðsynlega búshluti.  Einyrkjar skyldu eiga að lágmarki tvö kúgildi fyrir hvert skuldahjú sitt.  Þingfararkaupsbóndi var skyldugur til að fylgja goða sínum til þings, en goði gat kvatt níunda hvern slíkra bænda til farar á vorþing.  Þeir sem ekki voru tilkvaddir greiddu þingfararkaup til goðans, sem aftur greiddi þeim sem með honum riðu til þings.  Þingfararkaupsbændur voru kjarni þjóðveldisins.  Þeir nutu fulls þegnréttar; voru í raun ráðandi stétt og yfirstétt landsins að frátöldum goðum.  Heitið þingfararkaupsbóndi var við lýði fram á 19.öld, og enn eru laun þingmanna nefnd þingfararkaup.

Þinggjöld (n, hk)  Skattar sem hið opinbera innheimtir til að standa undir velferðarmálum.  Þinggjöld voru innheimt á manntalsþingum.

Þinggrið / Þinghelgi (n, hk, fto/ kvk)  Friðhelgi á þingi.  Þingstaður var helgur.  Þar mátti enginn raska friði og þar áttu allir að geta verið öruggir um sig meðan þing stóð.

Þinghús (n, hk)  Hús þar sem þing eru haldin.  Þinghús Rauðasandshrepps stóð um tíma á Leiti í Tungulandi.

Þinglýsa (s)  Lýsa eigendaskiptum eignar á manntalsþingi og skrá þau í þinglýsingabækur sýslumannsembætta.  Eftir að manntalsþing liðu undir lok er einungis um opinbera skráningu að ræða. 

Þinglýstur eigandi (orðtak)  Sá sem hefur eignarhald á fasteign samkvæmt skráningum í þinglýsingabók.

Þingmaður (n, kk)  Sá sem kjörinn er til þingsetu fyrir hönd íbúa svæðis/kjördæmis.  Gat fyrrum átt við fylgismann tiltekins goða.

Þingmannaleið (n, kvk)  Mælieining vegalengda að fornu; 5 mílur; 37,5 km; rúml. 4 vikur sjávar; sú vegalengd sem þótti hæfileg reiðleið á einum degi, t.d. fyrir þá sem sóttu þing.  „Þingmannaleið var talin frá Helguþúfu að Skaufhól á Rauðasandi“  (DE; Örn.skrá Hvallátra).  „Kirkjuvegur (frá Láganúpi) yfir þingmannaleið; yfir fjall að fara, til Saurbæjar“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Þingmannsnefna (n, kvk)  Óvirðingarheiti á þingmanni.  „Skyldu þessar þingmannsnefnur ekki ætla að opna sinn kjaft um ástandið á vegunum hérna“?!

Þingmaríumessa (n, kvk)  Einn af mörgum messudögum Maríu meyjar (sjá Maríumessa); 2. Júlí; vitjunardagur Maríu.  Upp tekinn hérlendis á 15. öld og nafnið tengt því að Alþingi var haldið um þetta leyti árs.  „Heimræði er þar (frá Láganúpsveri) ár um kring, en á vorið er þar vertíð frá sumarmálum til þingmaríumessu“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Þingrof (n, hk)  Það að leysa upp þing og boða til nýrra kosninga áður en kjörtímabili lýkur.

Þingræði (n, hk)  Það fyrirkomulag í lýðræðisríki að meirihluti þings ráði og skipi ráðherra í ríkisstjórn til að fara með framkvæmdavald ríkisins.  Ráðherrar eru ábyrgir fyrir þinginu.  Meirihlutinn fer frá völdum ef hann missir meirihlutastuðning sinn. 

Þingsköp (n, hk, fto)  Fundareglur þings.

Þingvikur (n, kvk, fto)  Þingtíminn til forna.  Í fyrstu stóð alþingi sléttar tvær vikur, en díðar styttist þingtíminn í eina viku.  Til ársins 999 háfst þinghald með 10.viku sumars, en eftir það viku seinna.  Árið 1262 fluttist þingbyrjun til 28.júní og breyttist það ekki fyrr en aldamótin 1700.

Þinur / Þinull (n, kk)  Netateinn.  „Tveir þinir eru á neti; fláaþinur ofan og steinaþinur neðan“.  Stundum eru þinir einungis tveir grannir strengir, sinn á hvorum jaðar netsins og eru þá benslaðir við fláa- og steinatein.  Netateinar hafa í seinni tíð hafa fengið nöfnin flotteinn og blýteinn vegna nýrra efna.

Þíða / Þíðviðri (n, kvk)  Bloti; hlýindi; hláka.  „Það leggur oft sérstaka moldarlykt úr Mýrunum í þíðunni“.

Þíða (s)  Ná frosti úr; lina frost.  „Hann hefur náð að þíða skaflana úr efstu lautunum“.

Þíða upp (orðtak)  Um matvæli; láta frost fara úr.  „Það þarf að þíða fiskinn upp áður en hann er soðinn“.

Þíðukafli (n, kk)  Tímabil þíðviðris/þíðu með frosti á undan og eftir.  „Það kom þíðukafli rétt yfir jólin“.

Þíður (l)  Þiðnaður; frostlaus; ófrosinn.  „Ég held að jörð sé víðast orðin þíð“.

Þíðviðri (n, hk)  Hlý veðrátta; hlýindi; hláka.  „Hvað skyldi þetta þýðviðri endast“?

Þjaka (s)  Pína; leggja álögur/áþján á; þjá; kvelja.  „Eitthvað er þessi pest enn að þjaka mann“.

Þjakaður (l)  Kvalinn; illa haldinn.  „Hún er búin að vera þjökuð af þessari pest um nokkurn tíma“.  „Gekk vel að koma mönnum til bæja, þar sem þeir voru lítt þjakaðir“  (EÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).  „Bað hann um aðstoð svo fljótt sem hægt væri, þar eð þeir væru orðnir þjakaðir og of fáliðaðir... “  (ÞJ; Sargon strandi; Árb.Barð 1949). 

Þjalargarmur / Þjalarspík / Þjalarspækja (n, kk/kvk)  Gæluheiti á þjöl.  „Var ekki einhver þjalarspík að flækjast hérna“?  „Hvar skyldi ég hafa lagt þjalarspækjuna“?

Þjappa (s)  Þrýsta saman; þétta; hnalla. 

Þjalartangi (n, kk)  Sá hluti þjalar sem gengur upp í skaftið til festingar við það.

Þjark (n, kvk)  Þref; rifrildi; deila; jag; þref.  „Þeir stóðu í einhverju þjarki og þrefi útaf þessum málum“.

Þjarka (s)  Deila; rexa; rífast.  „Ég nenni varla að fara þjarka við þá, en mér finnst þetta óréttlátt“.

Þjarkduglegur / Þjarkur duglegur (l)  Hörkuduglegur; mjög röskur/öflugur.  „Hann er þjarkduglegur drengurinn“.  „Hann er þungur af stað, en svo getur hann verið þjarkur duglegur til flestra verka“.

Þjarkur (n, kk)  Dugnaðarforkur; sá sem ekki hlífir sér til vinnu; öflugur vinnumaður.

Þjarma að (orðtak)  Þrúga; pressa/þrýsta á; veita ráðningu.  „Nú eru gömlu hrútarnir heldur betur búnir að þjarma að lambhrútnum“.  Ekki hefur fundist viðhlítandi upprunaskýring orðsins „þjarma“.

Þjáður (l)  Kvalinn; sem finnur til sársauka; þjakaður.  „Ég er ekkert þjáður útaf þessu“.

Þjálfa (s)  Æfa; temja.

Þjáll (l)  A.  Um efni; mjúkt; sveigjanlegt; sem auðvelt er að hnoða/móta.  „Steypuna þarf að hræra þar til hún er vel þjál“.  B.  Um manneskju; þægilegur viðureignar; sem unnt er að semja/ræða við.  „Hann er ekki alltaf sérlega þjáll viðskiptis“.

Þjáning (n, kvk)  Kvöl; sársauki; verkir.  „Ég læt hverjum degi nægja sína þjáningu“.

Þjáningabróðir (n, kk)  Sá sem þjáist með manni; sá sem líður eins illa.

Þjáningafullt (l)  Kvalafullt; sem sársauki fylgir. 

Þjáningalaus / Þjáningalítill (l)  Líður engar/ekki miklar kvalir.  „Hann segist vera þjáningalítill núna“.

Þjáningasvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir sársauka.  „Hvaða þjáningasvipur er þetta“?

Þjó (á ljá) (n, hk)  A.  Aftasti hlutinn á ljá; þar sem hann er beygður í vinkil og gengur upp í orfhólkana.   (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  B.  Rass.

Þjóð veit þá þrír vita (orðtatiltæki)  Gamalreynd speki um vandann við að halda trúnað.  Upprunalega úr Hávamálum:  „Fregna og segja/ skal fróðra hver,/ sá er vill heitinn horskur./  Einn vita/ né annar ska,/ þjóð veit ef þrír eru“  (úr Hávamálum).  Visku aflar maður með því að spyrja og ræðast við.  Best er þó hóf í þessu; maður skyldi ekki skolta með það sem manni er trúað fyrir.

Þjóðareign (n, kvk)  Það sem talin er sameign þjóðarinnar.  Til óáþreifanlegra þjóðareigna telst m.a. menningin, tungumálið og sagan.  Til hinna áþreifanlegu teljast náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign, þar með talið þjóðlendur, þjóðgarðar, orkuauðlindir flestar og óveiddir fiskistofnar í okkar lögsögu.  Reyndar hefur lögspekingum veist furðu létt að snúa útúr eignarrétti þjóðarinnar þegar einkaaðilar gera kröfu í þær, eins og gerst hefur með fiskistofnana, hvað varðar rétt til veiða og arðsemi.

Þjóðarmein / Þjóðarskömm (n, hk)  Annmarki/hegðun sem virðist skaða alla þjóðina eða vera henni til minnkunar.

Þjóðarsorg (n, kvk)  Samhugur heillar þjóðar vegna atburðar sem almenningi finnst að snerti sig, eða yfirvöld telja að eigi að snerta alla.  Getur t.d. verið fráfall þjóðhöfðingja eða stórslys.

Þjóðarvilji (n, kk)  Það sem fólk í landinu vill almennt eða einhver telur fólki trú um að það vilji.

Þjóðbraut (n, kvk)  Alfaraleið; vegur sem almennt er farinn; þjóðvegur.  Bæir liggja misjafnlega vel við samgöngum, og þeir eru sagðir vera í þjóðbraut sem liggja nærri alfaraleið. Sjá um þjóðbraut þvera.

Þjóðerni (n, hk)  Uppruni manns; sú þjóð sem manneskja/hópur/annað tilheyrir.  „Telja má líklegt að á Kollsvíkinni hafi veitt skip af ýmsu þjóðerni gegnum aldirnar; Norðmenn, Danir; Færeyingar; Bretar; Hollendingar og jafnvel fleiri“.

Þjóðernissinni (n, kk)  A.  Sá sem hefur mikla þjóðerniskennd og vill landi sínu og þjóð allt það besta.  B.  Orðið fékk mjög neikvæða merkingu í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar í huga meirihluta almennings, sem það hefur enn ekki losnað undan.  Þá var það notað um þá sem aðhylltust stefnu Adolfs Hitlers og Nasistaflokks hans, sem í beinni þýðingu nefndist reyndar „þjóðernisflokkurinn“.  Þó sú stefna byggði vissulega m.a. á þjóðhollustu þá var útfærslan með þeim hætti að til ófriðar hlaut að draga.

Þjóðfélag (n, hk)  Fólk sem telst tilheyra einni þjóð og tilheyrir sama ríki. 

Þjóðflokkur (n, kk)  Hópur fólks sem í megindráttum hefur sömu siði og talar sama tungumál.  Skilgreiningin getur verið misjafnlega þröng.  Stundum eru Íslendingar taldir einn þjóðflokkur, en stundum er talað um fólk í byggðarlagi sem þjóðflokk.  Þannig hætti t.d. Útvíknamönnum til að tala um Rauðsendinga, Hafnarbúa, Patreksfirðinga og Barðstrendinga sem þjóðflokka; og hefur líklega verið gagnkvæmt.

Þjóðhagi (n, kk)  Sá sem er þjóðhagur.

Þjóðhagur (l)  Mjög laginn handverksmaður; snillingur í smíðum og handverki.  Þjóðhagir menn voru mikils metnir í sínum byggðarlögum, enda leituðu menn gjarnan til þeirra með hvaðeina sem þurfti að fá smíðað eða lagfært, auk þess sem eftir marga þeirra liggja snilldarverk.  Dæmi um þjóðaha menn í Rauðasandshreppi voru Guðbjartur Egilsson á Lambavatni og síðar dóttir hans Sigríður á Láganúpi.  Einnig Ólafur Sveinsson á Sellátranesi, sem t.d. fyrir eigin rammleik náði betri tökum á rafeindatækni en þeir sem hálærðir teljast.

Þjóðhátíðardagurinn (n, kk, m.gr)  17.júní; fæðingardagur Jóns Sigurðssonar sem nefndur hefur verið forseti; stofndagur lýðveldisins Íslands á Þingvöllum 1944. 

Þjóðhættir (n, kk, fto)  Siðir og venjur sem almennt tíðkast hjá þjóð eða í byggðarlagi. 

Þjóðir (n, kvk, fto)  Erlendir menn.  Í Kollsvík hefur lifað framundir þennan dag hugtakið að „versla við þjóðir“; Mun það líklega vísa til þess tíma þegar erlendar duggur komu upp á Útvíkur, t.d. á ensku öldinni, og menn áttu við skipverja milliliðalaus viðskipti.  Sjá verslunarstaður.

Þjóðlegur (l)  A.  Föðurlandshollur; sem hefur skírskotun í þjóðarmenningu.  „Lagði hann til að töðugjöldin væru látin falla niður (í Fagrahvammi), vegna þess að öðrum kosti félli sá þjóðlegi siður niður á heimilunum“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 30.03.1963; ritari ÖG).   B.  Alþýðlegur; mannblendinn.  „Hann var hinn þjóðlegasti í viðmóti“.

Þjóðkunnur (l)  Þekktur á landsvísu/ meðal þjóðar.  Margir Kollsvíkingar hafa orðið þjóðkunnir.  Má þar t.d. nefna Samúel Eggertsson teiknara og landfræðing sem bjó á Grund/Torfamel.

Þjóðleið (n, kvk)  Alfaravegur; leið sem almennt/mikið er farin.  „Leiðin Gjögrar yfir Örlygshöfn nálægt sjó að þjóðveginum við Hafnarmúla var um skeið talin annaðtveggja; sýsluvegur eða þjóðleið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Þjóðmál (n, hk, fto)  Málefni sem snerta fólk almennt.  Oft notað um stjórnmálaumræðu.  „Þeir sátu lengi og ræddu þjóðmálin“.

Þjóðnýting (n, kvk)  Hugtak sem notað hefur verið um þann verknað ráðamanna að taka mikil verðmæti í einkaeigu og leggja þau undir þjóðina eða ríkisvaldið án fullra bóta.  Er því víðtækara en eignarnám, sem leggur eignir undir einstakar stofnanir eða fyrirtæki sem oft eru í almannaeigu.  Hugtakið hefur stundum verið notað um kvótasetningu íslenskra stjórnvalda í sjávarútvegi.  Í raun varð framkvæmdin sú að fáeinum útvegsmönnum, svonefndum kvótakóngum, var afhent þessi sameiginlega auðlind þjóðarinnar á silfurfati.  Önnur dæmi um þjóðnýtingu hérlendis er þjóðnýting Íslandsbanka; fyrst 1930 þegar gjaldþrot hans blasti við, og síðar 2008 þegar hann (hét þá Glitnir) hafði snarast á hausinn í bankahruninu.

Þjóðráð (n, hk)  Snjallræði; gott úrræði.  „Þetta reyndist hið mesta þjóðráð“.

Þjóðrækinn (l)  Um þann sem sýnir umhyggju fyrir sinni þjóð.

Þjóðsaga (n, kvk)  A.  Sögn sem gengið hefur manna á meðal svo lengi sem elstu menn muna.  Á seinni öldum var safnað sögum sem verið höfðu í munnlegri geymd, og þær skráðar, t.d. af Jóni Árnasyni.  B.  Slanguryrði um lygasögu/slúður.  „Þetta hlýtur að vera einhver þjóðsaga; ég legg nú lítinn trúnað á það“!

Þjóðtrú (n, kvk)  Alþýðutrú; trú almennings á ýmislegt það sem ekki styðst við „viðurkennd vísindi“, heldur er annaðhvort talið hagnýt þekking byggð á reynslu eða skýring á náttúrfyrirbæri sem oftast hefur einnig skemmtanagildi.  Þjóðtrú hefur, líkt og þjóðsögur, varðveist í munnlegri geymd.  Þjóðtrú getur t.d. lotið að skýringu náttúrufyrirbæra, veðurspám eða öðru.

Þjóðvegur (n, kk)  Alfaraleið; þjóðbraut; fjölfarinn vegur; vegur sem er í umsjá samfélagsins en er ekki einkavegur.

Þjóðveldi / Þjóðveldisöld (n, hk/kvk)  Heiti sem notuð eru um stjórnarfar þjóðarinnar frá því að landnámsmenn gerðust Íslendingar til þess að þjóðin gekkst undir vald Noregskonungs árið 1262.  Upphafið er þó oftast miðað við stofnun Alþingis árið 930.  Segja má að þetta hafi verið eini tíminn í sögu þjóðarinnar sem hún var algerlega frjáls að því að skipa sínum málum og byggja upp eigið stjórnkerfi án erlendra afskipta.  Það frelsi fékkst ekki aftur þó þjóðin losnaði undan kóngsvaldi, þar sem hún var eftir það bundin af alþjóðasamningum; hersetu og ýmsum kerfum sem komin voru á í heimsmálum.  Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu framseldu íslensk stjórnvöld verulegan hluta löggjafarvalds til stofnana í Evrópu fyrir verslunarkjör.  Það fullveldi hefur því í raun aldrei fengist aftur sem var á dögum þjóðveldisins.  Þar með er ekki sagt að þjóðveldið hefði getað staðist tímans tönn lengur en það gerði.  Íslendingar hljóta alltaf að þurfa að sækja ýmislegt til annarra þjóða, og líklega varð skortur á viðhaldi skipastólsins, ásamt veikburða stjórnkerfi og samþjöppun valds, helst til þess að þjóðveldið féll.
Þjóðveldið skiptist í goðorð sem öll voru í upphafi jafn rétthá.  Fyrir hverju réð goði sem hafði trúnað sinna þegna; var lögspekingur og jafnan vel ættaður.  Þegar tollar og tíundir komu til á 12.öld óx tilhneyging til samþjöppunar valds.  Sex ættir eignuðust öll g0ðorð landsins og milli þeirra hófst valdabarátta.  Leitað vat fulltingis kóngsins, sem endaði með hruni þjóðveldisins og undirritun Gamla sáttmála 1262.

Þjóðvísa (n, kvk)  Stutt vísa sem varðveist hefur í munnlegri geymd og enginn veit höfund að.

Þjóðþing (n, hk)  Samkoma og samráð nokkurra manneskja sem teljast vera fulltrúar þjóðarinnar; á seinni tímum valdir með lýðræðislegri kosningu.  Hlutverk þjóðþings er að setja þjóðinni lög og leggja línur um framkvæmd ríkisvalds.  Alþingi Íslendinga er stundum talið elsta þjóðþing heims, þó ekki hafi það starfað samfellt frá stofnun árið 930.

Þjóðþrifamál / Þjóðþrifaverk (n, hk)  Málefni/verkefni sem er þjóðlífi til framdráttar.  „Margir töldu það þjóðþrifamál að koma erlendum togurum af Íslandsmiðum“.

Þjófabálkur (n, kk)  Kafli í lögbókum um þjófnað og viðurlög við honum.  Sjá tekur útyfir allan þjófabálk.

Þjófgefinn (l)  Stelsjúkur; hneygður til þjófnaðar.  „Vinnumaðurinn var sagður bæði latur og þjófgefinn“.

Þjófkenna (einhvern) (s)  Saka einhvern um þjófnað.  „Það þýðir ekkert að þjófkenna mig; þú tókst sjálfur við vasahnífnum aftur“!

Þjófnaður (n, kk)  Stuldur; hnupl; rán.  „Þetta er bara hreinn og klár þjófnaður og ekkert annað“!

Þjófstolinn (l)  Um hlut; stolinn.  „Hann sagðist ekki hafa haft grun um að hnífurinn væri þjófstolinn“.

Þjófur (n, kk)  A.  Sá sem stelur.  B.  Spil, oftast spilað af tveimur.  Hvor spilari fær fjögur spil á hendi; fjögur spil eru lögð uppíloft í borðið og stokkurinn til hliðar.  Tilgangurinn er að fá sem flest spil.  Ef maður á spil jafnhátt því/þeim sem eru í borði þá tekur maður þau og leggur samstæðuna í stokk uppíloft fyrir framan sig, eð að öðrum kosti leggur hann í borðið.  Mótspilarinn getur stolið bunka andstæðingsins eigi hann það spil sem stokkurinn sýnir.  C.  Þjófur eða Þjófalautir er nafn á lautasvæði í Láganúpslandi, milli Sandslágar, Vatnadals og Orma.  Nafnið er eflaust dregið af því að þar geta auðveldlega leynst kindur þegar smalað er.

Þjóhnappur (n, kk)  Rasskinn.  „Ég kalla þetta nú ekki úlpu; sem nær ekki niðurfyrir þjóhnappa“!

Þjóna (s)  Gegna hlutverki; veita þjónustu.  „Hann þjónaði þar um tíma sem prestur“.  „Á þessum tíma voru tvö samvinnufélög starfandi í Rauðasandshreppi og hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur“  (PG; Veðmálið). 

Þjóna hagsmunum (einhvers) (orðtak)  Vinna að bættum hag einhvers.  „Ekki veit ég hverra hagsmunum þessi ákvörðun þjónar; mér finnst hún arfavitlaus“!

Þjóna lund sinni (orðtak)  Þóknast sjálfum sér; gera eins og manni þóknast/sýnist; taka lítið tillit til annarra.  „Mér finnst að hann sé fremur að þjóna lund sinni með þessu en að hann beri mikla umhyggju fyrir öðrum“.

Þjóna (einhverjum) til borðs (orðtak)  Bera einhverjum mat og aðstoða á annan hátt við borðhald.

Þjóna (einhverjum) til sængur (orðtak)  A.  Aðstoða einhvern við að hátta og undirbúa rúm hans.  B.  Samrekkja einhverjum.  Síðari merkingin einkum tilkomin á síðari tímum; með aukinni lausung.

Þjóna tilgangi (orðtak)  Vera til gagns.  „Það þjónar engum tilgangi að hreyfa heyinu í rigningu“. 

Þjónkun (n, kvk)  Þjónusta; húsbóndahollusta.  „Kollsvíkingum hefur líklega alltaf reynst fremur erfið öll þjónkun við sjónarmið annarra.  Þeim er tamara að leysa úr málum útfrá eigin skynsemi“.

Þjór (n, kk)  Eldra orð yfir naut.

Þjóra (s)  Drekka áfengi í óhófi; stunda drykkjuskap.

Þjósa (n, kvk)  Stykki af hákarl eða hval.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Þjóstugur (l)  Höstugur; með reiðitóni.  „Það þýðir ekkert að vera svona þjóstugur við strákagarmana“.

Þjóstur (n, kk)  Höstugleiki; reiðitónn.  „Hann spurði með nokkrum þjósti hvar við hefðum fengið þessi egg“.  „Er þá sagt að Benedikt hafi mælt af þjósti til Einars:  „Illa er það farið, ef þú lætur flytja heim stolinn hval á hestum þínum Einar, á næsta sumri“ “  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Þjóstyrði (n, hk)  Skammaryrði; skammir; það sem sagt er í höstugum tón.

Þjóta (s)  A.  Gnauða; gjósta.  „Vindhviður þjóta um hlaðið og þyrla upp lausamjöllinni“.  B.  Fara í skyndingu; hlaupa hratt.

Þjóta á (orðtak)  Heyrast vindur á, t.d. húsum.  „Það þaut svo á þarna um miðnættið að varla var svefnfriður“.

Þjóta í (einhverjum) / Þjóta í nösunum/tálknunum á (einhverjum) (orðtak)  Einhver skammast.  „Það þaut dálítið í tálknunum á kerlingunni út af því hvað við skiluðum okkur seint í kvöldmatinn“. 

Þjóta upp / Þjóta upp eins og naðra (orðtök)  A.  Reiðast skyndilega; snöggreiðast.  „Ekki hafði ég fyrr sagt þetta en hann þaut upp með óbótaskammir“.  B.  Um útbrot/bólur; koma skyndilega.  „Ég er allur að þjóta upp í bólum á þessu svæði“.

Þjóta/hlaupa upp til handa og fóta (orðtak)  Fyllast æsingi; taka skyndilegt viðbragð.  „Það er óþarfi að hlaupa upp til handa og fóta þó hundurinn sé að gelta.  Það er trúlega í hrafninn eins og vant er“.

Þjótta (n, kvk)  A.  Seigt kjöt, t.d. sumt hvalket.  B.  Harðbali; erfiður til heyskapar.  (Orðasafn Ingvars Guðbj.).

Þjöl (n, kvk)  Raspur; verkfæri úr hertu stáli, með ýfðum fleti.  Notað til að sverfa/raspa efni.

Þjösnaháttur / Þjösnaskapur (n, kk)  Hrotaskapur; harka; það að gera ekki af lipurð/lagni.  „Svona þjösnaháttur gengur ekki þegar þú ert að reka kýrnar; þær verða sjálfar að ráða sínum hraða“!

Þjösnalega (ao)  Af hörku; harkalega; hrottalega; hryssingslega.

Þjösnalegur (l)  Harkalegur; hrottalegur.

Þjösnast (s)  Fara illa/harkalega/þjösnalega með; níðast á.  „Það gengur ekki að þjösnast svona á söginni“!

Þoka (n, kvk)  Mistur/skýjahula við yfirborð jarðar, sem byrgir sýn.  „Ef þokuslitur voru í miðjum hlíðum Blakkness, Tálkna og Kóps var vestan eða norðvestanátt í vændum“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Þoka (s)  Mjaka; mutra; hreyfa hægt.  „Okkur tókst að þoka trénu uppfyrir flæðarmál“.

Þokast áfram/áleiðis (orðtak)  Fara hægt áfram; miða lítið áfram.

Þokkabót (n, kvk)  Viðbót.  „Kálfurinn hefur vaðið upp allt beðið og brotið staurinn í þokkabót“.

Þokkagripur / Þokkapiltur (n, kk)  Háðsyrði um þann sem þykir slæmur/viðsjárverður.  „Þetta er þokkagripur“!

Þokkalega (ao)  Sæmilega; vel; bærilega.  „Þetta gengur bara þokkalega“.

Þokkalegur (l)  Vel sæmilegur; ágætur; góður.  „Það var Liði sem kallaði, þaðan sem hann stóð í almenningnum og hélt í hornið á þokkalegu hrútlambi“  (PG; Veðmálið). 

Þokkalegheit (n, hk, fto)  Það sem er sæmilegt/viðunandi/skaðlaust.  „Það er komið þokkalegheita veður“.  „Það var skafl í Jökladalshæðinni, en annars þokkalegheita færð yfir Hálsinn“.

Þokubakki (n, kk)  Dökkur skýjabakki sem sést við hafsbrún.  „Til hafsins var svartur þokubakki sem virtist færast hægt nær“  (ÖG; Þokuróður).  „... en hár og fjarlægur þokubakki til hafsins; logn og sjólaust að heita mátti“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Þokubelti / Þokurönd (n, hk)  Þoka sem liggur í þunnu lagi og afmarkað utan í fjalli.  „Oft má sjá þokubelti í Blakknum, einkum í röku lofti og aðlögn“.

Þokubik (n, hk)  Mjög dimm þoka.  „Veður var gott, nema hvað þokubikið var slíkt að ekki sást nema fáar bátslengdir frá bátnum“ (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum).  Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur.

Þokubreiða (n, kvk)  Lágþoka; þoka sem fyllir vík/fjörð, líkt og teppi séð ofan af aðliggjandi fjalli.

Þokubrækja (n, kvk)  Þokufýla; þokuslæða; þokudumbungur; þoka.

Þokudrungi (n, kk)  Þokuruddi; þokufýla; þétt þoka í logni.  „Skelfing leiðist mér þessi þokudrungi“!

Þokudumbungur (n, kk)  Dimmt í lofti af þoku.  „Enn heldur hann þessum þokudumbungi hér yfir“.

Þokufýla (n, kvk)  Þétt þoka, oft með ýringi.  „Það er hráslagalegt í svona þokufýlu“.

Þokuhnoðri (n, kk)  Mjög staðbundin þoka.  „Hann er að bræða þetta af sér; það eru bara eftir fáeinir þokuhnoðrar hér norður í víkinni“.

Þokuhula (n, kvk)  Þokuslæða; lágþoka sem hylur dal- eða víkurbotn.

Þokukargi (n, kk)  Þokuruddi; þokuruðningur; þoka sem er mismnandi að þéttleika.

Þokukóf (n, hk)  Kafþoka; dimm þoka.  „Það er borin von að við finnum féð í þessu þokukófi“.

Þokulaust (l)  Án þoku.  „Það er líklega þokulaust frammi í dalnum“.

Þokulefsa (n, kvk)  Þokuslitra; staðbundin þoka.  „Það eru einhverjar þokulefsur hér suðurum sýnist mér, en ég held að hann bræði þetta af sér jafnóðum“.

Þokuloft (n, hk)  Gisin þoka.  „...birtutíminn er stuttur í því þokulofti sem nú grúfir yfir öllu“ (ÁE; Ljós við Látraröst).

Þokulúður (n, kk)  Lúður í skipi eða vita sem blásið er í til viðvörunar öðrum skipum í þoku.  „Áður en ratsjár urðu algengar í skipum mátti oft heyra þokulúðra gjalla frammmi á víkinni“.

Þokulæða / Þokulæðingur (n, kvk/kk)  Lágþoka; þoka sem fer með jörðu, t.d. frá sjó innyfir land.

Þokumistur / Þokumugga / Þokumygla (n, hk)  Gisin/létt þoka.  „Það dregur nokkuð úr þurrkinum þetta þokumistur“.  „Enn var hvítalogn, en þokumistur að færast upp í Kópinn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Þokumolla (n, kvk)  Þoka sem hangir yfir í hægviðri, en blæs fljótt burtu þegar vindar.

Þokumyrkur / Þokumökkur (n, hk)  Niðadimm þoka.  „Ekki sáu menn á Guðbjörgu neinn af hinum bátunum vegna þokumyrkurs“   (ÖG; Þokuróður).

Þokunepja (n, kvk)  Kuldi í þoku.  „Mikið er gott að komast upp úr þokunepjunni niðri í dalnum“!

Þokurubbi (n, kk)  Þokuruðningur.  „...það var þokurubbi á bjargbrúninni“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Þokuruddi (n, kk)  Dimm þoka; þokuruðningur.  „Hann er eittvað að byrja að blása í þennan þokurudda“.

Þokuruðningur (n, kk)  Þykk þoka, en með glöggum mörkum.  „Hann er að setja einhvern þokuruðning hér upp á víkina“.

Þokurubbi (n, kk)  Þokuruðningur.  „...það var þokurubbi á bjargbrúninni“ (KJK).  Finnst ekki í orðabókum.

Þokuruddi (n, kk)  Þokuruðningur.  „Það er líklega rétt að sigla gætilega í þessum þokurudda“.

Þokuslá (s)  Um það þegar dregur úr rigningu og í stað hennar kemur þoka, ein og oft vill verða í skilum misheitra loftmassa.  Alltaf notað með „sig“ á eftir.  „Hann er eitthvað farinn að draga úr þessu úrhelli og þokuslá sig“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en er Kollsvíkingum tamt á tungu.

Þokuslitur / Þokuslitrur  / Þokuslæðingur (n, hk, fto)  Slitrur/hnoðrar af þoku; gisin þoka.  „Ef þokuslitur voru í miðjum hlíðum Blakkness, Tálkna og Kóps bar vestan- eða norðvestanátt í vændum“  (ÓETh o.fl.  LK; Íslsjávarhættir III).

Þokuslæða (n, kvk)  Staðbundin þoka sem oft leggst eins og þunn slæða uppmeð Blakknum og innyfir Melarandir og Litlufit, án þess að koma ofar að deginum.

Þokusuddi / Þokusúld / Þokuýringur (n, kvk/kk)  Fínn rigningarúði í þoku.  „Maður verður fljótt blautur í þessari þokusúld“.

Þokusvæla (n, kvk)  Þykk þoka, gjarnan í afmörkuðum bólstrum líkt og reykur.  „Hann er að leggja upp einhverja þokusvælu“.

Þokuveggur / Þokuþykkni (n, kk)  Þoka getur orðið mjög þétt og skörp skil geta orðið við þokujaðarinn.

Þol (n, hk)  Seigla; úthald; mótstöðuafl. 

Þola (s)  Halda út; umbera; una við. 

Þola blítt og strítt / Þola súrt og sætt með (einhverjum) (orðtak)  Vera með einhverjum gegnum erfiðleika/ gegnum þykkt og þunnt.  „Hún sagðist hafa þolað súrt og sætt með karli sínum, en ætti samt einungis góðar minningar um hann“.

Þola ekki við (orðtak)  Afbera ekki; líða illa af verkjum eða öðru; geta ekki verið/setið/legið kyrr af einhverri ástæðu.  „Hættu nú að reka svona fúlt við; maður hættir að þola við hér í stofunni bráðum“!

Þola enga bið (orðtak)  Geta ekki beðið.  „Þetta mál þolir enga bið“!

Þolandi / Þolanlegur (l)  Sem unnt er að umbera/þola/ una við.  „Svona háttalag er bara alls ekki þolandi“!  „Það er bara að koma þolanlegt veður“.

Þolanlega (ao)  Sæmilega; bærilega; þokkalega.  „Mér er farið að líða þolanlega núna“.

Þolgóður / Þolinn / Þolmikill (l)  Úthaldsmikill; seigur; þrekmikill.  „Heldur þykir mér strákurinn þolgóður; að hlaupa svona viðstöðulaust upp brekkuna“!  „Hann var ótrúlega þolinn á hlaupum“.

Þolgæði (n, hk, fto)  Úthald; dugur.  „Iðni og þolgæði“ (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1918). 

Þolinmóður (n, kk)  Stuttur ás sem einhver hlutur leikur um.  Getur t.d. verið pinni í skærum, pinni í gleraugnasöng o.fl.  „Klembrur voru heimasmíði; annaðhvort úr hvalbeini eða kindarleggjum.  Tvær hvalbeinsflísar voru tengdar með þolinmóði í annan endann“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Þolinmóður (l)  Sem hefur rósemd til að bíða.  „Þú verður bara að bíða þolinmóður.  Tófan hlýtur að láta sjá sig fyrr eða síðar“.

Þolinmæðin þrautir vinnur allar (orðatiltæki)  Með þolinmæði er unnt að sigrast á flestum fyrirstöðum.  Þessi gunnfáni þverhausanna hefur löngum verið Kollsvíkingum leiðarstef í torsóttum verkefnum.

Þolinmæðisverk / Þolinmæðisvinna (n, hk/kvk)  Verk/vinna sem krefst þolinmæði.

Þollur (n, kk)  Hæll; lágur staur sem rekinn er í jörðu.  „Þegar við Svavar komum að Gorgánshillunni fundum við þar gamlan þoll í jörðinni sem Júlli í Tungu hafði líklega skilið eftir.  Hann fór alltaf einn á hilluna til eggja; og brá þá lásbandi á hælinni.  Mikið er fyrir þessum eggjum haft, þar sem plampa þarf með þau upp alla hlíðina; upp Lambagang og í bíl við Leifsgjá; sé ekki farið á báti“ (VÖ).  „Í Gvendarbrunni var afvatnaður fugl frá öllum bæjunum; hengdi hver sína kippu á þoll“  (DE; Örn.skrá Hvallátra).

Þolraun (n, kvk)  Atvik/verk sem reynir verulega á getu/úthald manns.  „Ég kalla það gott hjá honum að standast þessa þolraun“!

Þor (n, hk)  Dirfska; áræðni; framhleypni.  „Það þarf allmikið þor til að leggja í þetta klifur, bandlaus“.

Þora (s)  Hætta á; hafa kjark/þor til.  „Ég þori ekki að leggja að hleininni í þessum súgi“.

Þora ekki fyrir sitt litla líf (orðtak)  Þora alls ekki; leggja alls ekki í.  „Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að snerta á þessu fyrr en hann hefur gefið sitt leyfi til þess“.

Þora ekki/varla um þvert hús að ganga (orðtak)  Vera mjög smeykur/kvíðafullur/kúgaður.  „Reglugerðafarganið kringum þetta er orðið svo mikið að menn þora varla lengur um þvert hús að ganga“.

Þorandi (l)  Hættandi á; vogandi.  „Ég held að það sé ekki þorandi að skilja bátinn eftir við þennan stjóra“.

Þori að hengja mig uppá / þori að veðja (orðtak)  Er svo sannfærður að ég þori að leggja undir við þann sem er á annarri skoðun.  „„Nei fari það í helvíti.  Það kemur ekki til mála að þessi kettlingur hafi 35 punda skrokk.  Það þori ég að veðja um“!   (PG; Veðmálið).  „Ég þori að hengja mig uppá að þetta er rétt“!  Sjá skal hengja mig uppá.

Þorir hvorki að æmta né skræmta (orðtak)  Þorir ekki að segja neitt/mótmæla/gefa frá sér hljóð.

Þorláksmessa (n, kvk)  A.  Messudagur 23. desember frá kaþólskum sið; helgaður Þorláki biskupi helga, Þórhallssyni.  Hann andaðist 23. desember 1193, en messan var lögleidd 1199.  Þorláksmessa hefur haft sérstöðu um margt, einkum í matsiðum, en mismunandi eftir landshlutum.  „Hangikjöt var alltaf soðið fyrir hátíðirnar.  Á Þorláksmessukvöld var skata og reyktar bringur, og kaffi og lummur á eftir.  Og svo var spilað, á Þorláksmessukvöld“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   „Þeim sið hefur alltaf verið haldið í Kollsvík að snæða reykta bringukolla á Þorláksmessu.  Var jafnvel lagt meira uppúr því en skötunni; hún var þá hádegismatur, en bringurnar kvöldmatur.  Hver heimilismaður fékk einn heilan bringukoll sem hann byrjaði á að merkja sér en vann sér svo til matar með sínum vasahníf.  Það af bringunni sem ekki kláraðist á Þorláksmessu var geymt til annars í jólum; þá hélt hver áfram með sína bringu.  Sá siður að snæða bringukolla á Þorláksmessu er ekki útbreiddur, og ég hef ekki haft spurnir af honum annarsstaðar.  Svo virðist að hann sé eitt þeirra menningarsérkenna frá gamalli tíð sem lengst héldust í Kollsvík.  Nú til dags tíðkast það að saga bringuna í tvennt í stað þess að hún var áður tekin heil; sagað báðumegin við“  (VÖ).  „Fyrrum var siður vestra að sjóða Þorláksmessuskötuna í hangikjötssoðinu.  Með stöppunni höfðu ýmsir, feitar, reyktar bringur og rúgkökur.  Einnig var skatan upp úr soðinu snædd með reyktum eða óreyktum bringum; hangiflot haft sem viðbit og á eftir drukkið kaffi með lummum“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; GG). 
B.  Þorláksmessa á sumri er 20. júlí.  Hún var lögleidd 1237 í minningu þess að bein Þorláks helga Þórhallssonar Skálholtsbiskups voru upp tekin þann dag árið 1198.  „Á Þorláksmessukvöld var skata og reyktar bringur og kaffi; og svo var spilað á Þorláksmessukvöld“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Þorn (n, hk)  A.  Gaddur; horn.  Einkum notað um gadd í sylgju, t.d. í belti.  B.  Bókstafur.

Þorna (s)  A.  Verða þurr.  „Héldu teinarnir flakinu opnu svo það þornaði á skömmum tíma“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Minnka/lækka verulega að vatnsmagni.  „Aldrei þornar sundið á milli lands og Arnarboða“  (HÖ; Fjaran). 

Þorna af / Þorna af sér (orðtök)  Um það þegar yfirborð þornar á þurrkvelli; þegar dögg þornar.  „Það þornar fljótt af í morgunsólinni“.  „Ég held þetta sé nú að þorna nægilega af sér til að hægt sé að fara að rifja“.

Þorna af steini / Þorna af grasi / Þorna af jörð / Þorna af strái (orðtak)  Mikið notuð hugtök um stigvaxandi þornun jarðar eftir rigningu eða að morgni eftir náttfall.  Menn litu ekki að heyskap meðan ekki þornaði af steini.  Slegið var þó ekki þornaði af grasi; jafnvel þótti betra að slá í rekju en þurrki, og ef mikið lá við var unnt að bæta á votheysgryfjur þó ekki væri grasþurrt.  Hinsvegar var ekki litið að þurrheyskap fyrr en orðið var vel þurrt á jörð.  Til að sannreyna það er besta ráðið að strjúka handarbaki við hæfilega loðna jörð.

Þorna til (orðtak)  Um veðurlag; stytta upp; hætta að rigna; gera þurrk.  „Eitthvað er hann að snúa sér og ganga útá; ég gæti trúað að hann færi að þorna til“.

Þorna upp (orðtak)  Hætta að rigna.  „Nú gæti ég trúað að hann fari að þorna upp.  Eitthvað er að birta til“.  „Lækurinn er þornaður upp í hitunum“.

Þornabök (n, hk, fto)  Smátennur/nabbar á börðum skötu.  „Stykkið allt; bak, kviður og hali, sem losað var, hét einu nafni hlaunir/skötuhlaunir/sköturass.  Í hlaununum eru tól graðskötunnar, en á börðum hennar eru smátennur; þornabök“  (LK; Ísl. sjávarhættir, heim; RÍ Kirkjuhvammi).

Þornar á ljánum (orðtak)  Um góðan þurrk/ brakandi þurrk/ skarpan þurrk.  Sagt er að grasið þorni á ljánum þegar þurrkur er svo góður að það nær að verða stökkt af þurrki samdægurs.

Þorp (n, hk)  Þyrping húsa; þéttbýll staður; lítið kauptún.  Fyrri merking orðsins er urð eða hrjóstugur staður.

Þorpari (n, kk)  Þrjótur; rusti; ribbaldi.  Upphafleg merking er „maður úr þorpi“, sem vísar líklega til þess að margir komu fyrrum ölvaðir úr kaupstað eftir vínverslun eða heimsóknir.

Þorraþræll (n, kk)  Síðasti dagur Þorra; laugardagurinn fyrir Góubyrjun.

Þorrablót (n, hk)  Sá ævaforni siður að halda þorra hátíðlegan einn dag í þorra með einhverri tilbreytingu í mat og e.t.v. fleiru.  Þorrablót á rætur í heiðni og mun upprunalega helst hafa verið haldið á bóndadegi; þ.e. fyrsta dag þorra.  Líklega hefur upprunalegur tilgangur blótsins verið sá að reyna að milda skap Þorra, sem í fornri trú var einn þeirra náttúruvætta sem réði fyrir tíðarfari.  Blótin lögðust af um langan tíma eftir kristnitökuna árið 1000, en voru endurvakin snemma á 19.öld.  Ekki skal fullyrt hvenær farið var að halda þau aftur í Rauðasandshreppi.  Þar voru þau ein mesta sameiginlega skemmtun hreppsbúa töluvert framyfir stofnun Vesturbyggðar eða þar til það sveitarfélag seldi félagsheimilið Fagrahvamm sem íbúar Rauðasandshrepps höfðu byggt að mestu í sjálfboðavinnu.
Undirbúningur þorrablóta í Fagrahvammi var á hendi þorrablótsnefndar, en hreppnum var skipt í fjögur svæði sem héldu blótið sitt árið hver.  Svæðin voru; Víknamenn, þ.e. Útvíkur og Bæir (Hænuvík og Sellátranes); Hafnarmenn, þ.e. bæirnir í Örlygshöfn; Innfjarðarmenn, þ.e. bæirnir innmeð Patreksfirði beggja vegna ásamt fjáreigendum á Patreksfirði; og Rauðsendingar, þ.e. fólk á Rauðasandi.  Mikil vinna var lögð í undirbúninginn; bæði verkun matar t.d. í súr, reyk og herslu, sem og samningu frumsaminna söngva, skáldverka og leikverka sem flutt voru; oftast í revíustíl.  Komu þar fram mikil skáld- og leikarar, sem sómt hefðu sér vel sem atvinnulistamenn.  Að loknu borðhaldi og skemmtiatriðum var dansleikur frameftir nóttu; fyrrum með harmonikkuundirleik en síðar hljómsveitum.

Þorraþræll (n, kk)  Síðasti dagur þorra; dagurinn fyrir konudag. 

Þorri (n, kk)  A.  Einn af gömlu íslensku mánuðunum; byrjar vanalega í kringum 20. janúar.  Því var trúað að væri hann stilltur og frostasamur myndi vel vora; sbr vísuna:  „Þurr skyldi Þorri;/ þeysin Góa;/ votur Einmánuður;/ þá mun vel vora“.  Sagt var að þorri yrði góður ef hann byrjaði illa.  Þorri var í fornri trú sagður sonur Snæs Jökulssonar og systkini hans voru Fönn, Drífa og Mjöll.  Þorri er fyrrum sagður hafa ráðið fyrir Gotlandi, Kænlandi og Finnlandi, og blótuðu Kænir hann til þess að snjóa gerði og gott færi. Börn Þorra voru Nórr, Górr og Gói.  (Fornaldarsögur Norðurlanda).  B.  Megnið/meginhlutinn af einhverju.  „Við erum búnir að vitja um þorrann af netunum“.

Þorrinn (l)  Búinn; upp urinn.  Stofnmyndin er sögnin að „þverra“.  „Mér sýnist að aflinn sé alveg þorrinn á grunnmiðum þetta árið“.

Þorskafli (n, kk)  Veiði/afli af þorski.  „Þegar líða tók á vertíðina, að áliðnum júnímánuði, var farið að hugsa um að verka þorskaflann; þvo hann og þurrka, til að reyna að fá meira fyrir hann en ef hann var seldur uppúr salti“  (KJK; Kollsvíkurver).

Þorskalifur (n, kvk)  Lifur var alltaf hirt úr þorski, og er að mestu enn.  Helsta nýting hennar áðurfyrr var til ljósa.  Þá var lýsið/ljósmetið látið renna af henni og notað á lýsislampa, kolur, pönnur og tírur.  Einnig var hún soðin ný til matar; notuð sem skepnufóður; sem meðal og sem eldsmatur.   Þegar lýsi rennur af lifur verður eftir grútur/grotti/fótur.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Þorskalýsi (n, hk)  Lýsi úr þorsklifur.  „Fátt finnst mér betra en sjálfrunnið þorskalýsi úr nýrri lifur“.

Þorskastríð (n, hk)  Landhelgisdeila Íslendinga við aðrar þjóðir vegna útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu.  Útlendingar hafa lengi sótt á Íslandsmið, eða frá því að Englendingar fóru að koma á skútum sínum á ensku öldinni.  Smám saman urðu skip og veiðarfæri öflugri og stórt stökk var tekið í þeim efnum þegar togarar komu til, á 20.öldinni.  Veiðar Íslendinga og annarra þjóða jukust svo mikið að fiskistofnum var stefnt í hættu.  Sýnt var að ekki tækist að stýra sókninni meðan útlendingar veiddu óheft og því var landhelgin færð út í nokkrum þrepum:  Fyrst úr 4 sjómílum í 12 1958-61; síðan í 50 mílur 1972 og síðast í 200 mílur 1975.  Allar þessar útfærslur kostuðu mikil átök við aðrar þjóðir; einkum við Breta sem áttu mikilla hagsmuna að gæta og höfðu lengi byggt atvinnu heilla bæja á sókn á þessi mið.  Átökin urðu bæði póltitísk og einnig kom til ásiglinga og aðvörunarskota á miðunum.  Þrátt fyrir að Bretar sendu flota sinn til vettvang kom það fyrir ekki.  Íslensk varðskip beittu því sem nefnt var „leynivopnið“ en það var einfaldur útbúnaður sem klippti á togvíra togara og hindraði veiðar. 

Þorskhaus (n, kk)  Hausar af þorskum voru mikilvæg matvara fyrrum.  „“Yfirleitt voru allir hausar af málfiski hirtir til herslu...Elsta gerð af hertum þorskhaus, og sú algengasta, var kringluhaus.  Ef ekki hafði verið varkjaftað var byrjað á því að skera sem næst tungubeinshnúð svo að sem mestur hluti kverksigans/gellunnar fylgdi kjálkanum.  Síðan var skorið í hálfhring niðurmeð kjálkabörðunum og að því búnu var hausinn rifinn upp... Síðan var skorið meðfram fleygbeini beggja vegna og sundur granabein og kjaftabein.  Síðan var hníf brugðið upp í tálknin og kverksiginn skorinn sundur um miðju langseftir...Það síðasta var að brjóta hausinn út, sem kallað var, og var fólgið í því að grípa sinni hendinni um hvora kinn og sveigja þær frá fleygbeininu.  Hausar voru þvegnir vandlega úr sjó fyrir herslu.  Fyrrum var algengast að herða kringluhausa á möl, klöppum eða fiskgörðum.  Þeir voru þá fyrst roðbreiddir, en eftir að hafa spýtt sjónum og visast eilítið var þeim snúið.  Meðan þeir voru að skelja var það gert hvað eftir annað, og ekki hreyfðir úr breiðunni nema von væri á rigningu, en þá voru þeir settir upp í smálaupa/hrúgur; roðið látið snúa upp, og úr þeim síðan breitt í uppstyttuna.  Gat þetta oft endurtekið sig í vætutíð, uns hausarnir voru orðnir það vel skeljaðir að óhætt væri að hlaða þeim í stakk, þar sem þeir gátu varið sig og fullharðnað... Venja var á Vestfjörðum, þegar þorskhausar voru hertir á möl, að láta tálknið snúa til sjávar en trantinn á land upp.  Með þessu lagi áttu hausarnir að draga að afla... Ef hausar voru hertir á rám í hjöllum voru þeir venjulega teknir af þeim til að rýma fyrir nýjum.  Hálfhertir hausar voru kippaðir upp; stungið þræddri hausanál í gegnum augað og þræddir um 60 hausar upp á þorskhausaband og hnýtt að.  Hausanálin var úr hvalbeini; lík seilarnál en allmiklu minni; um 20 cm á lengd.  Þær tíðkuðust ekki nema á Vestfjörðum. .. Sumir höfðu fyrir venju að höggva upp kringluhausa meðan þeir voru í verkun, en ekki fyrr en þeir voru orðnir sæmilega harðir.  Ýmist voru þeir kinnklofnir eða krummaklofnir.  Til þess var notuð heimasmíðuð skaröxi/hausaexi... Stöku sinnum voru þorskhausar hertir án þess að rífa þá upp, að öðru leyti en því að taka úr þeim tálknið.  Þesskonar hausar nefndust heiðingjar.  Ennfremur voru hausar hertir óupprifnir með tálkninu óhreyfðu; bumlungar  Þessi heiti munu ekki hafa þekkst nema á Vestfjörðum.  Aðallega voru þetta litlir hausar og jafnan hertir á möl.  Þeir voru helst ætlaðir skepnum, en þó kom fyrir að heiðingjar væru rifnir til átu eins og kringluhausar, en sú gerð var algengust um Vestfjörðu“  “  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Hertir þorskhausar voru mikilvægur hluti í mataræði landsmanna áðurfyrr.  Leiða má líkur að því að þeir hafi þó verið mikilvægari fyrir sveitir sem síður lágu að sjó, en að í verstöðvum eins og  Kollsvík og öðrum Útvíkum hafi fremur verið gnægð aðgengilegra fiskmetis.  Það kann að skýra það að í hinu mikla riti Íslenskum sjávarháttum er ekki a finna miklar heimildir um hausarif á þessum slóðum.  Hausarnir hafa trúlega að mestu verið fluttir/seldir annað.  Hér á eftir verður vitnað í þessa stórmerku bók, og þá einkum til að sýna hinn gríðarlega fjölda heita á hinum ýmsu hlutum þorskhaussins.  Endursögnin er mjög stytt:
„Almennt var byrjað á að rífa þoskhaus með því að skera eða rífa tálknið frá vanga eða vöngum.. Síðan var tálknið rifið niður frá krummanum og fylgdi þá fleygbeinshimsnan/augnkylfuhimnan.  Tálkn í heilu lagi var stöku sinnum nefnt kló.  Eftgir að baulubeinum og kerlingarprjónum hafði verið lyft upp frá tálknbogum báðumegin nefndu sumir þau vængjabein.  Þar sem baulubeinin koma ssaman að ofan kallast baulubeinshnúður eða tungubeinshnúður, en hann er hin eiginlega haka fisksins.  Undir vængjaroði á baulu og kerlingarprjónum er himna; bauluhimna/hafrabeinshimna.  Himnan milli kerlingarprjónanna nefnist gelgjuhimna/ hafrahimna/nálahimna/prjónahimna.  Baulan kallast einnig baukur/baulubein/gelgjubein/ hafrabein/ hafur/kerling/kerlingarbaukur.  Áfast við bauluna, á mótum rótar lengsta prjónsins, er lítið bein sem heitir strokkur.  Á prjónunum eru ellefu nöfn.  Þeirra algengust; kerlingaprjónar/bauluprjónar/hafrar, en einnig gelgjur/gelgjugeislungar/karlprjónar/klær/nálar/nálbein og prjónar.  Oft höfðu menn á orði að þetta eða hitt beinið hefði verið hrellt, en það merkti ætið að af því hefði verið tekið allt ætilegt.  Því næst voru skornar burtu þanir af tálknbogabeini.  Tálknþanir hétu einnig; kögur; tálknblöð/tálknfanir/þanir/fanir.  Að ofan sameinast tálknbogarnir eða tálknbogabeinin tungubeini og efra-kokbeini, sem í raun eru eitt bein og á því eru smáoddar, kallaðir kisuklær/klær.  Innan á hverjum boga eru beinharðar körtur eða broddar; svonefndir tálknbogatindar.  Kisan er næst losuð af tálknbogaendum og heitir eftir það kisukall; fer stærð hans eftir því hvort varkjaftað hefur verið.  Vængjaroðið/gelgjuroðið/hafraroðið/kúaroðið er stærsta roðið á þorskhausnum og var að sjálfsögðu etið sem önnur roð, en gagnaðist að auki sem umbúðir.  Næst á eftir tálkninu var byrjað að rífa aðra kinnina/kjammann/vangann.  Granabeilurnar voru rifnar burt í heilu lagi og þar með var kinnin laus.  Roðið á kinninni nefnist kinnfiskroð/kinnroð/kjammaroð/vangaroð.  Ef lánaðist að rífa það í heilu lagi nefndist það „að rífa í þilju/bagga“.  Byrjað var að rista kjaftólina frá kjaftabeini/kjálka;farið undir roðið fremst á kjálkanum; það rifið aftur að liðamótum; plógbein ásamt roði greitt frá bógnum og því flett jafnlagt aftur.  Loks er roðið losað frá kerlingarspaðanum og rifið fram endilangan kjammann kjálkamegin, en það var ýmist kallað kjálki; langroð eða langaroð.  Ef augað var áfast við kinnina fylgdi augnhimnan oftast vangaroðinu og hét þá augnpungur.  Sá hluti vangaroðsins sem næstur er auganu og er yfir augnfiskinum nefnist augnhringur.  Innan við hann eru brjóskkennd bein áföst roðinu og fylgdu því ef það var sett í skyr og súr.  Þessi bein eru öll föst saman og er plógbeinið efst; þvínæst björn og neðst veiðimaður.  Himna er milli vangaroðs, bógfisks og kinnfisks.  Á henni eru ellefu nöfn; brúðarsvunta/hænusvunta/kerlingarsvinta; kerlingarsvunta/maðkasvunta/maríusvunta/meyjarsvunta/silkisvunta/spákerling/spákerlingarsvunta og þerrisvunta.  Af þessum heitum var kerlingarsvunta algengast. Svuntan var notuð sem veðurtákn á þann hátt að kerlingarspón var haldið milli vísifingurs og þumalfingurs; svuntunni stungið í munn sér og spurt um leið um vindátt daginn eftir.  Ef svuntan stóð bein eftir að henni hafði verið brugðið í munninn spáði hún logni og þurrviðri, en ef hana lagði undir átti það að vita á storm úr þeirri átt, og hann þeim mun stríðari sem svuntu lagði meir.  Í annan stað var einkum tekið mark á henni varðandi þurrviðri eða regn.  Svuntan var einnig óskaboði.  Þegar hún stóð bein er hún var dregin út úr munninum mátti sá sem á henni hélt bera fram þrjár óskir í hljóði.  En ef hana lagði varð hlutaðeigandi óskmissa.  Eftir að vanginn hafði verið roð- og himnurifinn á ytra borði var losað um kjálkann; vanganum snúið við; losað um gómhimnu að neðan; hún rifin úr; skorið fyrir búrfiskinum; hluti pétursbeitunnar skorinn úr og loks kjaftafiskurinn numinn úr kjálkabeininu.  Gómhimnan er einnig kölluð gómfilla og gómroð.  Neðst á henni er dökkur blettur; hælroði/illa/ónæmisblettur/skollablettur/skollaskyrpa eða spítalski blettur.  Sagt var að hann væri eftir kló skrattans, eða hráka hans.  Himnan var talin óæt og jafnvel sögð valda holdsveiki eða vitglöpum.  Utan á kjálkafiskinum er himna, nefnd gómskella/kjálkafilla.  Fiskurinn á kjálkanum nefndist hanafiskur/kjaftafiskur/kjálkafiskur/kýr/kýrfiskur/skeiðarfiskur/skærafiskur/sonarfiskur eða sveinafiskur.  Neðst á kjálkafiskinum innanverðum er lítið oddmyndað bein sem heitir banabein/manndrápsbein/morðbein.  Það var numið burt úr kjálkafiskinum, en væri það ekki gert átti sá hluti sem beinið var í að valda dauða þess sem á, og því nefnt banabiti.  Vanganum var nú snúið við aftur, þannig að bógur og kjálki vissu upp.  Var þá farið undir bógfiskinn og hann rifinn frá bógbeininu.  Ásamt kinnfiski er bógfiskur talinn matarmesti biti í hasunum, en hann ber að auki þessi nofn; bjalla/bjöllufiskur/bógur/drangafiskur/hæna/hænufiskur/ langfiskur/langiljufiskur og skjaldfiskur.  Með öðru hnífsbragði var losað um kinnfiskinn/kerlingarfiskinn/kjammafiskinn/kjannafiskinn/vangafiskinn og hann rifinn frá beinum.  Sá hluti hans sem er á kinnbeininu er örþunnur og heitir heimska/kerlingarbarð/lúsarbarð/ lygabarð/lygafön/skrökbarð/svikabarð/ og þrjóskubarð.  Var því trúað að menn yrðu heimskir, lúsugir og lygnir ef þess væri neytt.  Því var því hent.  Loks var koddafiskurinn stundum tekinn úr í þessari lotu.  Af innanverðri kinninni var því næst rifinn gómfiskur/innfiskur/lagfiskur/millifiskur/undirfiskur/uppískera.  Þessu næst var tekinn augnfiskur/bjalla/bjöllufiskur/bugfiskur/drangfiskur/hani/karlfiskur/.  Þá var hillufiskur/karlfiskur/koddafiskur/koddi/litlifiskur/steðji/viðarfiskur rifinn af hillu/koddabeini.  Að síðustu var búrfiskur/gatfiskur/gluggafiskur/lúrfiskur/nál/nálfiskur/Maríufiskur/pokafiskur kroppaður af kinninni, en fylgdi annars oft kinnfiskinum.  Hann situr í gati í kinninni sem nefnist gluggi/hola/nálhús og er á milli þriggja beina; skjaldar, koddabeins og kjammabeins.  Til að kinnin væri fullhrelld var nú einungis eftir að skafa beinin, og það helst svo vendilega að engin matarögn yrði eftir á þeim.  Þá var næst að kroppa krummann/kúpuna/hnakkann, en aftasti hluti hans nefnist drambur/hnakkakambur.  Þegar augun höfðu verið numin burt var rifið af honum roðið og byrjað fremst; á krummanefinu/krummabeinsnefi/sáldbeini/nefbeini.  Hnakkafiskur/hnakki/krummafiskur/ kúla/kúlufiskur er losaður úr.  Efsti hluti hans nefnist leynihnakki/þjófasnepill.  Þvínæst var losað um búrfiskinn/barnið/holubarnið/holufiskinn, sem er í lítilli dæld sem nefnd er búr/hola.  Þar undir, sín hvorumegin á krummanum, eru kvarnirnar.  Undir hnakkaroði yst á krummanum er brjóskkennd himna; hausskella/lúsarhimna.  Fremst á krummanefinu er kúlulaga brjósk; björn/nefbrjósk.  áfast við það er annað lengra; geitnefur/heimskubrjósk/lús/lúsarefur/refur/sjómaður/ veiðimaður.  Talið var að menn yrðu lúsugir ef þeir ætu lúsabrjóskið/ heimskir af að eta heimskubrjóskið.  Fyrir framan hnakkfiskholurnar er ennisbein, en fyrir aftan það kambur/krummakambur/kúpubein /yfirhnakkabein.  Krummanum er nú snúið við.  Fleygbeinsfiskarnir/augnkylfufiskar/neffiskar eru teknir.  Að síðustu er hausmergurinn/hausasmjör/kerlingasmjör/lúsasmjör tekinn úr heilabúinu.  Með því var lokið að rífa þorskhausinn“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Fyrir utan fiskinn sjálfan sem hrelldur var úr hertum þorskhausum mátti hafa af þeim ýmis önnur not.  Í fátækt mun hafa verið gerður beinastrjúgur úr þorskbeinum með því að mauksjóða þau og setja í sýru.  Bein voru einnig gefin búpeningi eftir að þau höfðu verið barin.  Bauluprjónar voru þá tíndir frá.  Kvarnir úr þorshausum voru notaðar muldar til lækninga, t.d. á þvagteppu/steinsótt.  Kerlingaprjónar voru notaðir sem pútengjaspýtur til að festa niður jaðra á skinnum þegar þau voru spýtt.  Þeir voru einnig notaðir í snælduhnokka og til að loka með sláturskeppum, kútmögum og bjúgum.  Í vökustaura/augnteprur munu hafa verið notuð baulu- eða gelgjubein.  Þá voru beinin notuð sem leikföng barna.  Kvarnir voru notaðar sem spilapeningar og í getleiki, s.s. „legg í lófa karls karls“.
Hin gríðarmörgu heiti sem þorskhausum tengjast hafa orðið efni í þulur og þjóðsagnir.  Í Kollsvíkurveri var þekkt þessi þorskhausaþula, sem eflaust er gömul:  „Rífðu fyrir mig kinnina mína/ en skilaðu mér svo:/ kinnfiski/ kjálkafiski/ langfiski/ drangfiski/ holufiski/ hillufiski/ hnakkafiski/ gluggafiski/ og eigðu svo það sem afgangs verður“  (LK. Ísl. sjávarhættir IV; heimild KJK). 

Þorskhausaband (n, hk)  Kippa af hertum þorskhausum (sjá þorskhaus).

Þorskhausakvörn (n, kvk)  Kvörn í/úr þorskhaus.  Mikið féll til af þorskhausakvörnum í verstöðvum eins og í Kollsvík.  Þær voru notaðar af börnum í ýmsa leiki og sem gjaldmiðill í spilum.  Þá var það sagt gamalt læknisráð gegn steinsótt að drekka muldar þorskhausakvarnir í víni.  „Við spiluðum mikið á veturna; sátum á gólfinu uppi á lofti og spiluðum Lander, Stopp, Treykort, Hjónasæng o.fl.  Fyrir gjald notuðum við þorskhausakvarnir sem nóg var til af“  (DÓ; Að vaka og vinna). 

Þorskhrogn (n, hk, fti)  Gota; kýta.  Hrogn voru mestmegnis soðin ný og etin með lifur.  Heill nefnist hrognabelgurinn brók/hrognabrók, en hvor helmingur nefnist skálm.  Áðurfyrr voru stundum búnir til hrognaklattar/kýtuklattar, og var þá hrognunum hrært samanvið hveiti.  Einnig var stundum hrært í þau rúgmjöli og búnar til hrognakökur sem soðnar voru í vatni eða sýrublöndu.  Einnig voru hrogn sumsstaðar hert.  Ekki er þó vitað til að það hafi verið gert í Útvíkum.  Á seinni hluta 18. aldar urði hrogn útflutningsvara að ráði, og hafa verið það síðan.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Þorskroð (n, hk)  Róð á þorski.  Þorskroð er með fíngerðu hreistri og var jafnan borðað með nýjum fiski áðurfyrr, þó nú sé það yfirleitt hreinsað af.  Roð af hertum þorski var gjarnan snúið í vöndul og glóðað til átu, eða gefið hundum.  Þar af er orðtakið eins og snúið roð í hundskjaft.

Þorskur (n, kk)  A.  Fiskur af ætt þorskfiska.  Sú tegund sem hér við land hefur frá upphafi vega verið mikilvægastur matfiska er Atlantshafsþorskur; Gadus morhua.  Hann getur orðið allt að 2 metrar að lengd; gulur á hliðina og hvítur á kviðinn.  Getur þó tekið lit af umhverfinu, og þorskur sem lengi hefur verið á þarabotni verður rauðleitur á litinn; nefnist þá þaraþyrsklingur.  Skeggþráður er á höku sem fiskurinn notar til leitar að fæðu á botninum.  Bakuggar þorsks eru þrír og raufaruggar tveir.  Eyruggar eru stórir og greinileg rák er eftir endilöngum fiskinu.  Þorskurinn er lifir á landgrunninu á 100-400 metra dýpi, en gengur þó enn grynnra að sumarlagi.  Þá er sagt að hann gangi á grunnmið, og eru mörg góð þorskmið á Útvíkum og Flóa.  Ókynþroska fiskur er mest norðvestan-, norðan- og austantil við landið en stærri fiskur er frekar sunnan og suðvestanlands.  Helstu hrygningarsvæði hér við land eru á grunnum undan Suðurlandi, frá Reykjanesi austur í Meðallandsbug.  Hrygning hefst síðari hluta mars hérlendis og lýkur í maí, og hrygnir hrygnan miðsævis.  Þear seyðin eru 5-8 cm löng leita þeu til botns.  Þorskur verður kynþroska þegar hann er um 50 cm lengd.  Fæða þorsks er margvísleg.  Smáfiskur étur mikið af ljósátu, marflóm og rækju.  Stærri fiskur er ránfiskur á smáfiska og seiði annarra fiska.  Þorskur er mikilvægasti veiðistofninn hér við land.  Auk mannsins er mikið afrán af sel, hvölum og hákarli. 
Í Kollsvík hefur þorskur líklega verið veiddur allt frá landnámi Kolls.  Þar eru lóðamiðin suður eftir Gljánni og ýmis fengsæl mið á boðum og grynningum.  Undan Kollsvík er Víkuráll; ein fengsælustu línumið við landið; líklega kenndur við Kollsvík.
B.  Líkingamál; maður sem þykir heimskur.  „Bannsettur þorskur getur maðurinn verið“!

Þorstaukandi (l)  Sem eykur þorsta.  „Ansi er nú saltketið þorstaukandi“.  Borið þannig fram, en rökrétt samsetning væri „þorstaaukandi“.

Þorsti (n, kk)  Það að vera þyrstur; löngun í eitthvað að drekka.  „Nú er þorstinn alveg að drepa mig“!

Þorstlátur (l)  Um þann sem verður þyrstur; það sem kallar fram þorsta/ er þorstaukandi.  „Hann þykir dálítið þorstlátur á helgidögum“.  „Maður er svolítið þorstlátur af öllu harðfiskátinu“.  „Nokkuð er hann þorstlátur, harðfiskurinn“.

Þota (n, kvk)  A.  Öflug vindhviða.  „Nokkrar skarpar vindþotur gengu enn yfir og svo var lognið búið, en á samri stundu komið hvassviðrið“.  (ÞJ“Brimlending“ Sjóm.blaðið Víkingur 1957).   „Þetta er nú bara þota hérna ofan af Látravíkinni“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  B.  Flugvél með þotuhreyfla.

Þotuhreyfill (n, kk)  Hreyfill sem dregur inní sig loft; blandar það eldsneyti og nýtir þenslu sem verður við bruna þess til að snúa innri skrúfuhverflum um leið og það þeytist afturúr hreyflinum og knýr áfram flugvél eða annað farartæki.  Afl sumra þotuhreyfla er þó nýtt til að snúa drifsköftum vélbúnaðar, s.s. í þyrlum.

Þotuhætt (l)  Hætt við sterkum vindhviðum/þotum.  „Þarna er oftast skjól, en þó þotuhætt í vissum áttum“.

Þó / Þóað / Þósvoað (st)  Samt; þrátt fyrir.  „Enginn er verri þó hann vökni“.  Stundum notað sem hikorð eða til að auka hljómfall setningar:  „Mikill þó andskotinn“!  „Þó“ tekur oft með sér smáorðið „að“ í sama tilgangi:  „Það væru þá ekki hundrað í hættunni þó að svo færi“.  Stundum eru þessi tvö smáorð notuð og framborin sem eitt.  Stundum eru þau einnig svo nátengd smáorðinu „svo“ að þessi þrjú eru notuð sem eitt.  „Ég er sprettharðari; þósvoað hann sé eldri og hærri“.

Þó ekki sé/væri nema (fyrir)… (orðtak)  Að minnsta kosti.  Orðalag sem stundum er notað í röksemdafærslu.  „Ég bjóst við að hann hlyti að koma, þó ekki væri nema fyrir það að hann gleymdi hérna vasahnífnum“.

Þó (nú) ekki væri! (orðatiltæki)  Upphrópun sem oftast er andsvar, gjarnan í hneykslunartón.  „Sagðist hann ætla að sækja kindina?  Þó nú ekki væri!  Það er nú nóg að vera búinn að eltast við þetta og koma því í hús, þó maður fari nú ekki líka að færa honum þetta uppí hendurnar“!  „Nú“ er stundum í enda.

Þó líf lægi við / Þó lifið ætti að leysa (orðtak)  Þó mjög mikið væri í húfi; hvað sem kostaði.  „Ég held ég gæti ekki munað þetta þó lífið lægi við“.  „Þennan fjanda myndi ég aldrei borða; þó ég ætti lífið að leysa“!

Þó nokkur (orðtak)  Nokkuð mikill; all verulegur.  „Bóndi minn las yfir þessar línur...  Faðir hans og eldri systir fóru á Þingvöll 17. júní 1944 og það hefur verið þó nokkuð ferðalag á þeim tíma“  (SG; Lýðveldisstofnunin 1944; Þjhd.Þjms).   „Ég heyrði Vigdísi fóstru mína tala um þessi mál við aðra gamla konu úr ættinni.  Þær voru þó nokkuð trúaðar á svona“.  (EG; viðtal á Ísmús 1968).

Þó skömm sé frá að segja (orðtak)  Þó ekki sé til frægðar fallið; þó erfitt sé að viðurkenna.  „Þó skömm sé frá að segja átti ég víst einhverja sök á þessu líka“.

Þó svo (orðtak)  Þó.  „Svo“ er oft notað þannig til að auka sýnileika smáorðsins „þó“:  Hann er furðu öflugur; þó svo hann sé ekki hár í loftinu“.

Þó svo sé/færi/væri (orðtak)  Þó þannig sé/væri málum háttað; þó þau yrðu málalok. 

Þó það nú væri! (orðtak)  Upphrópun; auðvitað; sjálfsagt.  „Auðvitað mæti ég í afmælið; þó það nú væri“!

Þóf (n, hk)  A.  Það að þæfa ull.  Sjá tóvinna.  B.  Deilur; jag; nudd.  „Mér leiddist þetta þóf og gekk burt“.

Þófari (n, kk)  Sá sem þæfir ull.

Þófi (n, kk)  A.  Samanþjappaður flóki í ull eða hári; vöndull.  „Ætli maður verði ekki eitthvað að greiða á sér þófann“.  B.  Ullarflóki notaður sem reiðver eða undir hnakk.  C.  Púði undir fæti/loppu sumra dýra, sem gerir gang mýkri og hljóðlátari. 

Þófinn (l)  Þæfður.  „Asskoti er lubbinn á þér að verða þófinn; þú þyrftir að fara í klippingu drengur“!

Þófna (s)  Um ullarfatnað; verða þæfður/þófinn; þæfast.  „... þeir þykkustu voru sjóvettlingar.  Þeir þófnuðu gjarnan á árinni og voru þá kallaðir rónir“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Þófta (n, kvk)  Setfjöl í báti, sem nær milli borða; þófta.  Þóftur hafa sérnöfn eftir því hvar þær eru í bátnum.  „ ....  en þá átti ég að andæfa á tvær árar á hálsþóftunni“  „Svo fengum við aðra báru og þá kom talsvert mikið í, og flutu upp plittarnir og svona hálfa leið í þóftur, sjórinn“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).  Bil milli þófta er 77-94cm og nefnist rúm.  Hver þófta og rúm hefur sitt heiti.  Á fjögurra manna fari í Kollsvík voru þóftur 3:  Aftan við barka er andófsþófta; aftan við andófsrúm/fyrirrúm er miðskipsþófta; aftan við austurrúm er bitaþófta og aftan við hana er skutur. 

Þóftuband (n, kvk)  Þófturöng; band undir þóftu í báti.

Þóftufullur (l)  Um hleðslu á báti; fullur upp að þóftum í einu eða fleiri rúmum.  Einnig var talað um ef bátur lenti í áfalli að hann væri þóftufullur, eða að hann hefði þóttufyllt, ef sjór náði uppá þóftur.

Þóftufylla (s)  Um bát; verða þóftufullur.  „Þeir fengu brot yfir sig í lendingunni, svo þóftufyllti“.

Þóftukné (n, hk)  Þóftuhné; þóftukrappi; stykki í báti, milli þóftuenda og borðstokks, líkt og hné í laginu. 

Þóftunautur (n, kk)  Sá sem situr með öðrum á þóftu, t.d. þegar þeir róa sinn á hvort borð.   

Þókna (s)  Gera svo líki.  „Ég hef reynt að þókna honum í þessu sem öðru, en hann er ekkert nema vanþakklætið“!  Stofninn er að „þakka“, og eru því rök fyrir því að rita orðið með „kk“.

Þóknanlegt (l)  Við hæfi; sem þóknast.  „Ætli ég verði ekki að greiða það sem honum þykir þóknanlegt“.

Þóknast (einhverjum) (s)  Gera einhverjum til hæfis; láta að vilja einhvers.  „Hvernig má ég þóknast þér að þjóri Braga;/ drottning minna ljóða og laga“ (JR; Rósarímur). 

Þóknun (n, kvk)  Greiðsla/gjald/laun fyrir eitthvað.  „Einhverja þóknun fékk hann fyrir þetta“.

Þónokkur (fn)  Allmikill; verulegur.  „Þetta var þónokkur afli“.  „Við fengum þarna þónokkra góða fiska“.  „Um gilið er göngufær leið, og er fjaran fær þónokkurn spöl norðurfyrir Hnífaflögu…“  (HÖ; Fjaran).  

Þór (n, kk)  Nafn á einu höfuðgoðinu í norrænni goðafræði; einnig nefndur Ása-Þór eða Öku-Þór.  Þór er guð þrumunnar og eldingarinnar, enda er nafn hans að fornu „Donar“, sem er sama orðið og dunur.  Þrumur eru enn nefndar Þórdunur (á ensku „thunder“).  Helsta verkfæri og tákn Þórs er hamarinn Mjölnir, og verða þrumur þegar honum er sveiflað.  Hamarinn smíðuðu dvergarnir Eitri og Brokkur.  Þór ekur um loftin í vagni sem dreginn er af höfrunum Tanngrisnir og Tanngnjóstur.  Þeir eru einnig nesti Þórs á ferðalögum, því að kvöldi slátraði hann þeim og át en væru beinin sett heil í gæruna voru hafrarnir alheilir að morgni.  Aðrir gripir Þórs eru megingjörð (belti), járnglófar og stafurinn Gríðarvölur.  Þór er sagður sonur Óðins og Jarðar; vendari manna og Miðgarðs (Jarðar).  Kona hans er Sif og börn þeirra eru Þrúður og Móði.  Í framhjáhaldi með Járnöxu eignaðist hann soninn Magna.  Þór og Sif búa í höllinni Bilskírni, í því ríki sem Þrúðvangur nefnist.  Í Bilskírni eru 640 herbergi og er það stærst allra húsa.  Daglegur starfi Þórs felst í því að berja á jötnum, og ríður hann vagni sínum í þá vinnu. 
Vísbendingar eru um að á landnámsöld hafi dýrkun Þórs verið mun meiri en dýrkun Óðins eða annarra fornra guða.  Margir staðir á landinu bera nafn Þórs og dýrkunar hans er víða getið í Íslendingasögum, en ekkert slíkt minnir á Óðin ef frá er talin Snorra-Edda.  Má því heita öruggt að Þór hafi verið talinn máttkastur guða á þeim tíma.  Honum var einkaður Þórsdagur, sem Jón biskup Ögmundsson breytti í fimmtudag.  Enn lifir nafn Þórs í fjölmörgum mannanöfnum.
Til marks um það hve Þór var landnámsmönnum ofarlega í huga má benda á Koll í Kollsvík.  Hann kom til landsins með Örlygi fóstbróður sínum í kristniboðserindum, en saman höfðu þeir dvalið í Kolumbusarklaustrinu á Iona í Suðureyjum.  Telja má því víst að Kollur hafi verið sannkristinn.  Engu að síður verður honum það að þrautaráði þegar hann lenti í sjávarháska í Blakknesröstinni, að ákalla Þór sér til hjálpar.  Sú frásögn Landnámu hefur orðið sumum tilefni til að telja hann heiðinn.  Það er þó líklega fjarri sanni, enda verður mörgum það á enn í dag að ákalla þá sem síst skyldi þegar mikið gengur á; jafnvel þann sem í neðra býr.  Einnig má vel vera að frásögn Landnámu sé uppspuni einn, hvað þetta varðar; í þeim tilgangi að skýra skipbrot Kolls, sem síðar er sagt frá, útfrá kristilegri kenningu.
Merki Þórs, Þórshamarinn, var gjarnan borið sem skartgripur um háls heiðinna manna og hefur fundist í kumlum.  Einn slíkur fannst í Vatnsdalskumlinu.

Þórduna (n, kvk)  Þruma; skrugga.  „Einhverjar Þórdunur heyrðust mér vera þarna í suðrinu“.

Þórðargleði (n, kvk)  Ánægja yfir óförum/óláni annarra en sjálfs sín.  Nýyrði sem virðist vísun í ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar, sem Þórbergur Þórðarson skráði.  Árni segir þar frá Þórði bónda á Snæfellsnesi sem gladdist yfir óþurrki norðlenskra bænda meðan hann sjálfur fékk góða heyskapartíð.  Taldi prófastur að orð vantaði yfir danska orðið „skadefryd“ og vildi með þessu bæta úr því.

Þórsdagur (n, kk)  Svo var fimmtudagur nefndur í heiðni.  Dagurinn heldur enn því nafni í ýmsum málum, s.s. ensku og Norðurlandamálum, en hérlendis framdi Jón biskup Ögmundsson (1052-1121) þó ósvinnu að breyta rótgrónum daganöfnum eftir sínu höfði.

Þórshamar (n, kk)  A.  Hamar guðsins Þórs var eitt helsta helgitákn norrænna manna í heiðnum sið.  Var hann oft borinn sem verndargripur og hefur fundist í kumlum, s.s. Vatnsdalskumlinu.  B.  Galdrastafur af vissri gerð.

Þótt (st)  Þó; þó að; þrátt fyrir.  „Hann sullaði þessu í sig, þótt honum þætti það alls ekki gott“.

Þótta (n, kvk)  Þófta.  Oft ritað þannig, þó sennilega sé orðstofninn að „þæfa“, og þófta því réttara.

Þóttafullur (l)  Hrokafullur; þvermóðskufullur.

Þóttasvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir þvermóðsku eða hroka.  „Mér sýndist af þóttasvipnum á kerlingunni að ekki myndi þýða að ræða þessi mál frekar“.

Þótti (n, kk)  A.  Vilji; hugur.  „Þú gerir þetta bara að þínum eigin þótta og spyrð engan um aðferð“!  B.  Hroki; þvermóðska. 

Þramm (n, hk)  Plamp; erfið ganga; þyngslalegt göngulag.  „Áfram héldum við okkar þrammi“.

Þramma (s)  Ganga þunglamalega.  „Þyrfti að sækja lækni á vetrum varð að fara landveg; þramma yfir fjöllin, og þótti þá gott að fá bát í Hænuvík eða Gjögrabót eða Sandodda.  En stundum var það fært og stundum ófært vegna brims og roks; þá varð að þramma áfram.  Það voru tímafrekar og óskaplega erfiðar ferðir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Þras (n, hk)  Rifrildi; deilur; karp; þjark.  „Skelfing leiðist mér þrasið í karlinum“!

Þrasa (s)  Deila; rífast; karpa.  „Skyldi það hafa nokkuð uppá sig að þrasa lengur um þetta“?

Þrasari (n, kk)  Sá sem er þrasgjarn; sá sem þrasar.

Þrasgjarn /Þrasgefinn (l)  Um mann sem sækist eftir rifrildi/rökræðum.  „Sagt var að Mangi væri stífur á meiningunni þegar hann hefði bitið eitthvað í sig; væri jafnvel dálítið þrasgjarn“.

Þrasgirni (n, kvk)  Árátta að þrasa/deila/rökræða.  „Hann gat ekki stillt sig um að andmæla, af tómri þrasgirni“.

Þrauka (s)  Halda út; þola.  „Við skulum reyna að þrauka dálítið lengur; hann gæti gefið sig til um snúninginn“.

Þraut (n, kvk)  A.  Endir; lok.  Eingöngu notað núna í þeirri merkingu í orðtakinu til þrautar; t.d. reyna til þrautar; berjast til þrautar.  Sennilega þó upphafleg merking orðsins, þar sem það er stofnskylt „þrot“.  B.  Erfitt úrlausnarefni; ráðgáta; erfiðleikar.  „Það verður þrautin þyngri að koma þessum styggðarrófum til byggða“.  C.  Verkur; eymsli.  „Hefuðu miklar þrautir í meiðslunum“?

Þrautalaus / Þrautalítill (l)  Án erfiðis/þjáninga.  „Það gekk ekki þrautalaust að koma nautinu upp á bílpallinn“.  „Ég er ekki orðin góður í handleggnum, en þó nokkurnvegin þrautalaus“.

Þrautaleið (n, kvk)  Eina færa leiðin, þó e.t.v. sé slæm.  „Þrautaleið var að fara um fjöruna, en ekki var fært nema um lágsjávað“  (MG; Látrabjarg).

Þrautalending (n, kvk)  Staður sem nota mátti til landtöku ef ólendandi varð í hefðbundinni lendingu, þó þar væri að öllu jöfnu óhægara um vik og erfitt að hafa báta til lengdar.  Þannig var Snorralending þrautalending í Kollsvík í vestansjó.  „Önnur skip er þarna voru á sjó þennan dag lentu í Fjarðarhorni í Breiðavík.  Fjarðarhorn er þrautalending í Útvíkum í norðanátt“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Þrautaráð / Þrautaúrræði (n, hk)  Lokaúrræði; neyðarúrræði.  „Það varð svo þrautaráðið að leita aðstoðar á næsta bæ“.

Þrautatími (n, kk)  Tími þrenginga/harðræðis/þjáninga. 

Þrautgóður (l)  Ráðagóður; útsjónasamur; finnur bjargráð.  „Þarna varstu fjandi þrautgóður og snöggur“!

Þrauthugsa (s)  Hugsa/íhuga til enda/þrautar.  „Ég hafði nú ekki þrauthugsað þetta“.

Þrautin þyngri (orðtak)  Erfitt viðfangsefni; erfiðleikar.  „Það reyndist okkur þrautin þyngri að mutra trénu uppfyrir flæðarmál“.

Þrautkunnugur (l)  Gjörkunnugur; þaulkunnugur; þekkir í hörgul.  „Á þessum slóðum er ég þrautkunnugur“.

Þrautleiðinlegur (l)  Yfirmáta leiðinlegur; illþolanlegur.  „Hann er svo þrautleiðinlegur; ég tala ekki við hann“.

Þrautleiður á (einhverju) (orðtak)  Mjög leiður á einhverju.  „Mikið er maður orðinn þrautleiður á þessu innihaldslausa gaspri pólitíkusa fyrir kosningarnar“!

Þrautpíndur (l)  Sætir mjög slæmri meðferð; kvalinn.  „Það er ekki bara það að öryrkjar fái skammarlegar bætur, heldur eru þeir líka þrautpíndir af skattinum í ofanálag“!

Þrautreyna (s)  Reyna til þrautar; reyna að fullu.  „Ég hef þrautreynt þessa aðferð“.

Þrautreyndur (l)  Vel prófaður; mjög vanur.  „Þessi aðferð er þrautreynd og þrælörugg“.

Þrautseigja (n, kvk)  Seigla; úthald.  „Ekki spyr ég að þrautseigjunni í honum“!       

Þrautseigur (l)  Úthaldsmikill; þolinn; þrjóskur; sterkur.  „Hann er ótrúlega þrautseigur þegar á reynir“.

Þrautþjálfaður / Þrautæfður (l)  Mjög vel þjálfaður/æfður; í mjög góðu formi; búinn að æfa vel.

Þrá (n, kvk)  Sterk löngun. 

Þráafýla / Þráalykt / Þráaþefur (n, kvk/kk)  Þræsin lykt af feitum mat. 

Þráabragð / Þráakeimur (n, hk)  Þræsið geymslubragð af feitum mat.  „Eitthvað þráabragð er nú af lúðunni“.

Þráabrækja / Þráadrulla / Þráagrútur / Þráaskítur (n, kvk/kk)  Áhersluheiti á þráum mat.  „Ég skar mestu þráabrækjuna frá,og þá kannski má sóða þessu í sig“.  „Ekki skil ég hvernig fólk getur étið þessa flökuðu signu grásleppu; þetta er ekkert nema þráadrulla og hveljuskæni“!

Þráafýla / Þráalykt / Þráastækja (n, kvk)  Sterk lykt af því sem er þrátt.  „Árans þráastækja er af hvalhræinu“!

Þráast/þrjóskast við (orðtök)  Sýna seiglu/andstöðu; standa fast á sínu; láta ekki vaða yfir sig; móast við.  „Ætli maður reyni nú ekki eitthvað að þráast við ef þeir ætla að beita svona ranglæti“.

Þrábeðinn (l)  Beðinn ítrekað/oft.  „Alltaf gleymdi hann þessu, þó hann væri þrábeðinn um það“.

Þrábeiðni (n, kvk)  Ítrekuð beiðni; það sem beðið er um oft og ítrekað.  „Hann gerði þetta fyrir mína þrábeiðni“.

Þrábiðja (s)  Biðja oft/ítrekað.  „Ég þrábað hann um þetta, en fékk aldrei ákveðið svar“.

Þráðarleggur (n, kk)  Leggur úr sauðkind sem þráður er undinn uppá.  „Fótleggir úr kindum voru notaðir til að vinda uppá þráð, sérstaklega togþráð.  Stundum var undið uppá legginn með sérstöku lagi, og var kallaður læstur þráðarleggur“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).

Þráðarspotti (n, kk)  Stutt mjótt band; stuttur þráður.  „Hann batt þráðarspotta utanum böggulinn“.

Þráðbeinn (l)  Alveg beinn.  Líkingin er dregin af þræði sem er lóðréttur vegna þess að eitthvað hangir í honum.

Þráðmjór (l)  Mjór eins og þráður.  „Hann sigldi af öryggi gegnum þráðmjótt sundið“.

Þráðormur (n, kk)  Flokkur hreyggleysingja af tegundinni Nematoda sem telur um 95 þúsund tegundir.  Sumir lifa í jarðvegi, aðrir í vatni og enn aðrir sem sníklar í mönnum eða dýrum.  Þráðormar valda m.a. ormaveiki í ýmsum dýrum.  Njálgur, sem lifir í þörmum manna, er ein tegund þráðorma.  Einnig hringormur sem lifir í holdi fiska og annarra dýrategunda.

Þráðsef (n, hk)  Juncus filiformis.  Fremur hávaxið sef sem myndar þéttar breiður í grónum votlendistorfum, s.s. á dýjum.  Gott dæmi um það er Sefið, neðanvið gamla Láganúpstúnið, sem vaxið var þráðsefi, hófsóley og mosa áður en það var ræst fram.  Þráðsef verður um 20-40 cm á hæð; með grönnum sívölum stráum og löngu stoðblaði.  Blómgast í júní-júlí.

Þráður (n, kk)  Eitthvað það sem er langt og mjótt.  Oftast er átt við bandþráð, tvinnaþráð eða slíkt, en orðið getur einnig táknað t.d. mjóa siglingaleið.  Þráður nefndist mjó innsigling á lægið í Breiðavík.

Þráfaldlega / Þrálátlega / Þrásinnis (ao)  Oft; iðulega.  „Ég er þráfaldlega búinn að banna honum þetta“.

Þráhyggja (n, kvk)  Manía; hugsun sem ítrekað ásækir mann; ranghugmynd sem maður er haldinn. 

Þrái (n, kk)  A.  Mótþrói; kerskni.  „Þráinn er svo mikill í honum að hann tekur engum sönsum“.  B.  Þræsingur sem kemur í feit matvæli við geymslu með slæmri lykt, óbragði og brækju.

Þrákálfur (n, kk)  A. Kálfur sem sýnir mótþróa við teymingu/drykkju.  B.  Í líkingamáli um þrjóska manneskju.

Þrákelkinn (l)  Þrjóskur; þvermóðskufullur; þver. 

Þrákelkni (n, kvk)  Þrjóska; þvermóðska; þverska; stífni.  „Skelfingar þrákelkni er þetta í karlinum“!

Þrákjálki (n, kk)  Þrjósk/þvermóðskufull manneskja; þrákálfur.  „Skelfilegur þrákjálki geturðu verið“!

Þráklifa á / Þrástagast á / Þrástaglast á (orðtök)  Klifa á; síendurtaka.  „Vertu nú ekki alltaf að þrástagast á þessu drengur“!

Þrálátur (l)  Endurtekinn; ítrekaður.  „Skrambi er þetta þrálátur hósti í þér geyið mitt“.

Þrályndur (l)  Þrjóskur; þvermóðskufullur.  „Mörgum þykir hann ansi þrályndur í sinni sérvisku“.

Þrána (s)  Um feitan mat; verða þrár/þræsinn.  „Ekki skil ég þá sem flaka og kúla grásleppuna fyrir signingu; bara til að láta hana rýrna og þrána“!

Þrándur í Götu (orðtak)  Notað um þann sem leggst þvert gegn því sem almennt er talið rétt.  Orðtakið vísar til persónu í Færeyingasögu; þætti Ólafs sögu helga.  Þrándur Þorbjarnarson götuskeggs bjó á bænum Götu í Færeyjum kringum árið 1000 og beitti sér einarðlega gegn skattlagningu Ólafs konungs helga.  Þrándur átti í útistöðum við Sigmund Brestisson frænda sinn.

Þrár (l)  A.  Þrjóskur; þver; stífur; þvermóðskufullur; þrályndur.  „Mikið andskoti geturðu verið þrár og vitlaus“!  B.  Með þráabragði; þræsinn á bragðið.

Þrásinnis (ao)  Oft; ítrekað.  „Ég spurði hann þrásinnis um þetta en fékk engin svör“.

Þráskák / Þrátefli (n, kvk/hk)  Sú staða í skák að annar keppandinn getur ítrekað skákað hinum.

Þráspyrja (s)  Klifa á; spyrja í þaula/endurtekið.  „Ég þráspurði hann um þetta en hann þvertók fyrir það“.

Þrátt fyrir (orðtak)  Þó; þótt; samt.  „Hann skaut á tófuna, þrátt fyrir að færið væri alltof langt“.

Þrátta / Þrefa (s)  Deila; rífast; jagast.  „Þeir þráttuðu um þetta afturábak og áfram, en hvorugur vildi gefa sig“.

Þráttgjarn / Þrefgjarn (l)  Deilinn; þrasgjarn.  „Hann þótti þrefgjarn, og naut þess að vera á öndverðum meiði við aðra“.

Þráttsinnis (ao)  Oft; ítrekað.  „Hann hefur þráttsinnis neitað þessu“.

Þráviðri (n, hk)  Þræsingur; vindasamt af sömu áttum  um langan tíma.  „Hvað skyldi þetta þráviðri endast“?

Þref (n, hk)  Þras; deila; rifrildi.  „Ég nenni ekki að standa í einhverju þrefi útaf svona smáskítiríi“.

Þrefa (s)  Deila; þrasa; rífast.  „Það er sama hvort þrefað er um þetta lengur eða skemur; niðurstaðan verður alltaf sú sama“!

Þrefari (n, kk) Þrasari; sá sem er þrasgjarn.  „Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við þann þrefara“!

Þreifa (s)  Þukla; handfara; fara höndum um.  „Ég þarf nú að þreifa á því áður en ég trúi“!

Þreifa á (orðtak)  Þukla á grasi til að finna hvort þurrtaf eða hvort raki/vætaí rót.  Oftast gert með því að stjúka handarbaki yfir jörð, þar sem það er næmast fyrir raka.

Þreifa eftir (orðtak)  Reyna að finna með því að þreifa/þukla.  „Ég þreifaði eftir slökkvaranum í myrkrinu“.

Þreifa fyrir sér (orðtak)  A.  Þreifa eftir; reyna að finna með snertingu.  B.  Líkingamál; reyna að skynja stöðu máls; athuga hvað maður kemst langt með málefni. 

Þreifandi bylur/él/öskubylur/skafmoldarbylur/myrkur/þoka (orðtak)  Mjög dimmt, svo menn þurfa nær því að þreifa sig áfram.

Þreifari (n, kk)  Fálmari; útstæður skynjari á t.d. skordýri.

Þreifingar (n, kvk, fto)  Kannanir; viðræður.  „Einhverjar þreifingar hafa verið milli þeirra um verðið“.

Þrek (n, hk)  Úthald; dugur; afl; seigla.  „Mönnum þótti Andrés sýna með þessu ótrúlegt þrek“.

Þrekaður (l)  Máttfarinn; uppgefinn; aðframkominn.  „Var hann þá þrekaður mjög og naut hjálpar til að komast yfir ána og heim til sín“    (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).    „Þeim er bjargað.  En sem vonlegt er eru þeir þrekaðir af þreytu, vosbúð og kulda, svo þeir þurfa aðstoðar til að komast hver til síns heima“.  (KJK; Kollsvíkurver).

Þrekinn / Þrekvaxinn (l)  Þreklega/kraftalega vaxinn; gildur; herðamikill.  „Svona þrekvaxinn maður kemst ekki í þetta“.  „Liði var með hærri mönnum á vöxt og þrekinn…“  (PG; Veðmálið). 

Þrekkur (n, kk)  Lortur; skítur; saur.  „Sýslumaður hafði það hlutverk meðal annars að líta eftir að gengið væri sómasamlega um „sýsluna“, og þar með að hver maður gengi frá þrekk sínum“.

Þreklaus / Þreklítill (l)  Málllaus/máttlítill; ekki sterkur; skortir þrek/afl/úthald.

Þreklega vaxinn (orðtak)  Þrekvaxinn; þrekinn.

Þreklegur (l)  Sterklegur; kraftalegur.  „Ég hélt nú að svona þreklegur maður væri sterkari en þetta“.

Þreklítill (l)  Með lítið þrek/úthald; máttlítill.  „Hann sagðist vera orðinn gamall og þreklítill í seinni tíð“.

Þrekmaður / Þrekmenni (n, kk)  Maður með mikið úthald/ vel á sig kominn; harðjaxl.  „Guðbjartur hresstist vonum fyrr.  Var hann þrekmaður með afbrigðum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Þrekraun / Þrekvirki (n, kvk)  Lífshættulegt atvik; aðstæður sem krefjast krafta/lagni og góðra úrræða; hetjudáð.  „Þó fáum sögum fari af þrekraunum hinna fjölmörgu sjómanna sem róið hafa úr Kollsvík, þarf ekki mikla glöggskyggni til að sjá hve glíman við sjósókn á opið haf frá hafnlausri strönd hlýtur að hafa verið erfið; einkanlega á þeim kænum sem algengastar voru, og án þess öryggisbúnaðar sem nú er sjálfsagður“.

Þrekskrokkur (n, kk)  Þrekmaður; þreklega vaxinn maður.  „Það vildi honum til að þetta er þrekskrokkur“.

Þrekvirki (n, hk)  Erfitt verk sem unnið er; afrek.  „Þótti þetta vel gert, og var oft vitnað til þessa þrekvirkis síðar“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Þremenningar (n, kk, fto)  Um skyldleika; þeir/þær/þau sem eiga sameiginlegan langafa eða langömmu.

Þremillinn (n, kk, m.gr)  Skrattinn; árinn; andskotinn.  Eitt af mörgum „vægari blótsyrðum“ sem notuð voru í máli Kollsvíkinga og nábúa.  Oftast í upphrópuninni „hver þremillinn“!, en einnig þar fyrir utan;  „Þremilinn sjálfan hef ég nú gert af vasahnífnum mínum“.  Stofninn líklega sá sami og „þramma“ og e.t.v. „þruma“.

Þrenging (n, kvk)  Það sem þrengir.

Þrengingar (n, kvk, fto)  Harðindi; kreppa; mannraunir; fátækt.  „Oft þurftu landsmenn að þola þrengingar fyrr á tíð“.

Þrengingatími (n, kk)  Tími þrenginga/harðinda/fátæktar. 

Þrengja (s)  Gera þrengri/erfiðari; þrýsta á. 

Þrengja að (orðtak)  Herða tök; gera þrengra/erfiðara; aukast harðindi/fátækt; þústna að

Þrengjast í búi (orðtak)  Verða færra/minna til neyslu/nota; sverfa/sverfa að; verða þröngt í búi.

Þrengsli (n, hk, fto)  Þröng; skortur á plássi/rými.  „Það eru alltof mikil þrengsli í þessari stíu“.

Þrenningargras / Þrenningarfjóla (n, kvk)  Viola tricolor.  Blóm af fjóluætt sem ber þrílit blóm; fjólublá, gul og hvít.  Blómin eru 1,5-2,5 cm að lengd; fjólublá en hvítleit eða gul í miðju, með dökkar æðar; bikarblöð dökkgræn; í hverju blómi 5 fræflar; blöð öfugegglaga efst en nær kringlótt neðst.  Blómið verður 10-20 cm hátt.  Einær eða fjölær planta sem vex gjarnan í brekkum og þurrum söndum.  Algengt norðantil á landinu; finnst í Kollsvík.  Fyrrum var jurtin notuð til lækninga á astma, húðsjúksdómum og flogaveiki.

Þrennur (l)  Þrefaldur; það sem er í þremur eintökum.  „Ég setti þrenna sokka í töskuna“.  „Allt er þá þrennt er“.

Þrep (n, hk)  A.  Uppstig/ástig í tröppu/stiga; stallur sem stigið er á.  „Síminn var rétt innanvið stofudyrnar og snúran í tólinu hæfilega löng til þess að unnt var að sitja í neðstu þrepum stigans sem lá uppá loftið, meðan talað var í það“.  B.  Skref; stig á hverskonar kvarða eða í framgangi.  „Næsta þrep er að hita þetta í vatni“.

Þrepskjöldur (n, kk)  Dyrahella; grjóthella í dyrum hlaðinna bæja.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Þrepstallur (n, kk)  Stallur í klettum, sem unnt er að standa á eða leggja frá sér t.d. eggjaílát.  „Lásinn er brattur, en í honum miðjum er þrepstallur þar sem maður getur hvílst“.

Þreskja (s)  Losa korn af stöngum eftir að það hefur verið slegið og þurrkað, og hreinsa það frá hálminum.

Þrettándinn (n, kk)  Þrettándi dagur jóla; 6. janúar.  Áður mikill helgidagur, tengdur sögunni um vitringana þrjá er fundu Krist.  Á þrettándanum er talið að álfar og huldufólk stundi sínar skemmtanir og sé mikið á ferli.  Því til heiðurs eru haldnar álfabrennur.  Venja var í Kollsvík að halda stóra brennu á hverjum bæ á gamlárskvöld, og stundum aðra minni á þrettándakvöldið. 

Þrevetla (n, kvk)  Kind sem lifað hefur þrjá vetur.  „Mikið eru þetta fallegir tvílembingar hjá þrevetlunni“.

Þrevetra / Þriggjavetra (l)  Maður, dýr eða annað sem lifað/verið hefur þrjá vetur.  „Mér finnst þetta vel gert af þriggjavetra kind; að skila svona feikivænum þrílembingum að hausti“.

Þrevetur (l)  Þriggja vetra; þriggja ára; þrevetra; þriggjavetra.

Þreyja (n, kvk)  Biðlund; þolinmæði.  „Ég hef voða litla þreyju til að hanga svona“!

Þreyja (s)  Þrauka; bíða með þrá.  „Við urðum að þreyja af okkur mesta élið áður en við gátum lagt af stað yfir með hrútinn“.

Þreyja þorrann og góuna (orðatiltæki)  Halda út; þrauka.  „Það er víst ekkert annað að gera en þreyja þorrann og góuna og vona að þessari ótíð fari að linna“.

Þreyta (n, kvk)  Lúi; það að vera þreyttur.  „Ertu ekkert farinn að finna til þreytu ennþá“?

Þreyta (s)  Keppa við; etja kappi við.  „Það kannast allir við sundgarpinn Kjartan Ólafsson sem þreytti sund við Ólaf konumg Tryggvason“  (Guðmundur Hákonarson; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938). 

Þreyta með sér (orðtak)  Reyna með sér; keppa; fara í kapp

Þreyttur (l)  Lúinn; útkeyrður; hvíldarþurfi.  „…gekk dagsverkið heldur hægar en áætlað hafði verið og voru menn bæði þreyttir og svangir að því loknu“  (PG; Veðmálið). 

Þreytudrungi / Þreytutilfinning (n, kk/kvk)  Mikil þreyta.

Þreytulegur (l)  Eins og sé þreyttur.  „Mér fannst hann afskaplega þreytulegur“.

Þriðji í jólum / Þriðji jóladagur / Þriðji dagur jóla (orðtök)  Þriðji dagur jólahátíðar, sem talin er byrja með jóladegi þó í raun sé aðalviðburðurinn á aðfangadagskvöldið.  „Á þriðja dag jóla þurftum við svo að fara af stað aftur inn á Eyrar til þess að ná strandferðaskipinu Súðinni, sem svo átti leið norður á firði“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Þriðjipartur / Þriðjungur (n, kk)  Einn þriðji hluti af einhverju.  „Hann lét mig hafa þriðjapartinn af öllum fengnum“.

Þrif (n, kvk, fto)  A.  Það að þrífa; þvottur; umhirða.  „Þetta drullumall kostar allnokkur þrif“!  B.  Gott ásigkomulag skepnu/manneskju; góð hold.  „Það voru bara þokkaleg þrif á fénu eftir veturinn“.

Þrifabað (n, hk)  Bað; böðun; þvottur.  „Ég held að þér sé ekki vanþörf á að fara í þrifabað eftir þetta“.

Þrifalega (ao)  Með hreinlæti/þrifum.  „Við skulum reyna að ganga þrifalega um“.

Þrifaverk (n, hk)  Verk hreinsunar/þrifnaðar.  „Það væri þrifaverk að koma þessari ríkisstjórn frá“!

Þrifinn (l)  Hreinlátur; gengur þrifalega um sig og annað.  Sjá kattþrifinn.

Þriflegur (l)  A.  Hreinn; hreinlátur.  „Þið eruð nú ekki þriflegir eftir drullumallið strákar“.  B.  Vænn; vel í holdum.  „Tvílembingarnir eru ansi þriflegir“.  C. Í skammaryrðum:  „Þetta er þriflegur fjandi“!

Þrifnaður (n, kk)  Hreinlæti; velfarnaður.  „Þetta gæti orðið félaginu til mikils þrifnaðar“.

Þriggja manna far (orðtak/heiti)  Bátur sem róinn er af þremur mönnum og oftast með fjóra í áhöfn.  Þetta er sú bátastærð sem algengust var í Kollsvíkurveri á 19. og 20. öld, og líklega svo lengi sem þar hefur verið útgerð.  Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín heimsóttu Láganúp árið 1703 voru gerð út 4 þriggjamannaför í Láganúpsveri.   Þau voru mun fleiri á síðari tímum.  Líkast til hafa þau tíðast verið um og undir 6m að lengd.  „Stærð þeirra flestra var um 1 ¼ - 1 ½ tonn, og oft var mál þetta skorið á hálsþóftuna“  (KJK; Kollsvíkurver).  Þriggja manna för voru minni bátar en víða annarsstaðar voru notaðir, en hafa hentað best í Kollsvík þar sem stutt var á mið og þeir voru tiltölulega léttir á höndum í setningu.  Ekki var þörf á meiri burðargetu þar sem í aflahrotum og gæftum mátti róa upp í fjóra róðra á sama degi.

Þriggjanátta (orðtak)  Um legu línu/nets í sjó; hefur legið í þrjár nætur.  „Þetta er bara ansi góð veiði eftir þriggjanátta legu“!

Þrinna (s)  Spinna saman þrjá þræði í band; þrefalda þráð.  „Línan var þrinnuð og auðvelt að  splæsa hana“.

Þristur (n, kk)  A.  Spil í spilum sem er þrír að gildi.  B.  Gæluheiti á þriggja manna fari/bát.

Þríálma / Þriggja álma (l/orðtak)  Um heykvísl; með þremur álmum/tindum.

Þríburi (n, kk)  Eitt af þremur börnum úr sömu fæðingu.

Þríbýli / Þríbýlt (n, hk/ l)  Þrjú býli á sama bæ.  „Á Hvallátrum var lengst af þríbýlt og jafnvel fjórbýlt.  Á síðari tímum hefur búskapur liðið undir lok, en upp er risið mikið hverfi sumarhúsa“.

Þríeinn (l)  Lýsingarorð sem guðspekingar nota stundum til að lýsa því sem þeir kalla eðli guðdómsins.  Með því vísa þeir til þess að Guð sé ekki einn heldur samsettur úr Guði, heilögum anda og Jesúkristi.  Dæmi um þær ógöngur sem menn lenda í þegar reynt er að skýra trú með rökum.

Þrífa (s)  A.  Grípa snöggt til; ná/taka í.  „Ég náði að þrífa í fötuna áður en hún fyki framaf brúninni“.  B.  Gera hreint; þvo.  „Ég er búinn að þrífa mestu múkkaæluna úr úlpunni“. 

Þrífa upp (orðtak)  Hreinsa; taka upp það sem t.d. hefur farið á gólf. 

Þrífa til ára (orðtak)  Grípa til ára; róa kröftuglega.  „Þeir sem lentu á miðjum sandi; „gljánni“, fengu minni fisk.  Oft var því þrifið til ára til að ná bestu miðunum.  Sumir voru lagnir á að vera árrisulli en hinir, og fljótir út“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Þrífasa/þriggjafasa rafmagn (orðtak)  Riðstraumur neysluveitu sem leiddur er milli notenda í þremur aðskildum leiðurum, þar sem sveiflurnar eru ekki í fasa þ.e. ekki á sama tíma.  Riðstraumur er eftirsóttur fyrir stærri mótora, þar sem með honum fæst segulsvið með snúningi, sem unnt er að nýta með ódýrum mótorum.  Sveitir Rauðasandshrepps fengu einfasa rafmagn frá samveitu uppúr 1970, en hafa enn (2018) ekki fengið þrífasa rafmagn þó það sé komið til nágrannabyggða.

Þrífast (s)  Tímgast; dafna; vaxa vel; hafast við.  „Trjágróður þrífst yfirleitt illa í selturokinu“.

Þríforkur (n, kk)  Þriggja álma gaffall/kvísl.  Oftast nefndur um leið og Satan sjálfur, en þríforkurinn er sagður hans einkennisverkfæri.  Má vera að það sé til höfuðs hinum þríeina Guði.  Þríforkurinn var einnig talinn tákn hins gríska sjávarguðs Póseidons og hins rómverska Neptúnusar.

Þrífornt hey  (orðtak)  Hey sem fyrnt hefur verið yfir tvö sumur. 

Þrífosfat (n, hk)  A.  Túnáburður af sérstakri gerð, sem inniheldur töluvert af fosfór sem gróðrinum er nauðsynlegur.  B.  Efnasambandið adenósin triphosphate (ATP), sem fyrirfinnst í öllum frumum og inniheldur mikla orku.  Stundum nefnt orkuefni líkamans eða orkukorn. 

Þrífótur (n, kk)  Það sem er með þremur fótum, t.d. þrífættur stóll eða steingálgi. 

Þrífætt (l)  Það sem er á þremur fótum.  Oft notað t.d. um skepnu sem fótbrotin er á einum fæti.

Þríheilagt (l)  Um hátíðisdaga; þrír helgidagar stórhátíðar í röð.  T.d. þegar þrír jóladagar eru haldnir hátíðlegir.

Þríhenda / Þríhenduljóð (n, kvk/hk)  Kvæði með þremur ljóðlínum.  Dæmi:  „Lífsins megn er lagt í dróma, landið sefur./  Einn þó snusar úti refur;/ ekkert skjól á fjöllum hefur“.

Þríhita (s)  Hita þrisvar upp.  Oftast notað um ketsúpu.  „Það sakar ekkert að þríhita ketsúpuna; bara til bóta“.

Þríhitaður (l)  Hitaður þrisvar.  Oftast um ketsúpu.  „Alltaf er hún nú betri ketsúpan ef hún er að minnsta kosti tvíhituð; jafnvel þríhituð“.

Þríhlaða (s)  Róa þrisvar sama dag og koma með fullfermi úr öllum róðrum.  Fádæma gott fiskirí.

Þríhyrna (n, kvk)  Segl, dúkur, slæða eða sjal með þremur hornum/hliðum.

Þríhyrndur (l)  Með þremur hornum. 

Þríhyrningamæling (n, kvk)  Aðferð til mælinga vegalengda og/eða staðsetninga.  Byggt er á þeirri reglu að til að þekkja lengdir allra hliða þríhyrnings nægir að vita þrjár stærðir hans; lengd einnar hliðar og gráður tveggja horna eða hliðar og horns.  Á 19.öld var Ísland mælt með þannig aðferðum og í þeim tilgangi voru byggðar stórar landmælingavörður á víðsýnum stöðum, sem enn má sjá.  Ein slík varða er t.d. fremst á Blakknesi; önnur á Kóngshæð og enn önnur á Brunnahæð.

Þríkantur (n, kk)  Þrístrendingur; hlutur sem hefur þrjár brúnir langsum.

Þríkrækja (n, kvk)  Öngull með þremur krókum.  Stundum er þríkrækja höfð neðst á sökku/pilk í þeim tilgangi að húkka fisk um leið og dregið er.

Þríleiðari (n, kk)  Rafmagnsleiðsla með þremur aðskildum/einangruðum vírum/leiðurum.

Þrílemba (n, kvk) Kind sem ber þremur lömbum í sama burði.  „Við höfum þrílembuna á húsi fyrsta kastið“.

Þrílembd (l)  Hefur borið þremur lömbum í sama burði.  „Ég gæti trúað hún yrði þrílembd þetta vorið“.

Þrílembingur (n, kk)  Lamb; eitt þriggja systkina úr sama burði.  „Þrílembingurinn er að jafna sig núna“.

Þríliða (n, kvk)  Hlutfallareikningur.  Nefndur svo vegna þess að einni tölu er deilt upp í aðra og sú þriðja er útkoman.  Með þeirri aðferð má lýsa hlutföllum sem eru föst en þannig að breyting einnar stærðar hefur áhrif á aðra.

Þrílit kýr (orðtak)  Kýr sem hefur þrjá liti í sínum flekkjum.  Þjóðtrúin segir að mjólk slíkra kúa sé vörn gegn ýmsu eitri, sé hún drukkin spenvolg.  Sömuleiðis átti líknarbelgurinn að vera vörn gegn sendingum.  „Á Fjóstungunni eru víða tóttarbrot.  Þar var mér sagt að fjós það er flutt var í tíð Jóns Íslendings hafi staðið, en þangað sótti skosk kona mjólk í þrílita kú um árabil, að þjóðsagan segir, eða þar til fjósið var flutt á annan stað“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Þrímjalta (l)  Um kýr; vera mjólkuð þrisvar sama daginn. 

Þríneita (s)  Neita þrisvar.  „Það er alveg sama þó hann tví- og þríneiti því; svona var þetta samt“!

Þrírenndur (l)  Um hlut; með þrjá kanta/ þrjár brúnir.  „Fyrirseyman var með fjöðrum eða þrírennd, svo að hún skæri lítið eitt frá sér, en hin var sívöl; nokkuð sverari um miðjan legg“ (KJK; Kollsvíkurver). Sjá skinnklæði.

Þrírifa (s)  Um siglingu skips; binda segl upp um þrjú rif vegna hvassviðris. 

Þríróa (s)  Róa þrisvar yfir sama daginn.  „Stundum var þríróið; sérstaklega undir hvíldardag“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Þrísiglt (l)  Um skip; með þremur möstrum/siglutrjám.

Þrísjóa (l)  Um sjólag; öldur koma úr þremur áttum í senn.  Slíkt getur skeð t.d. í röstum.

Þrískiptur (l)  Sem skipt er í þrennt.

Þrískær (l)  Sem unnt er að skera með þremur skurðum í fjóra bita; t.d. fiskur.

Þríslá (s)  Um tún; slá þrisvar á sama sumri.  „Hann sagði að þar væru öll tún tvíslegin og sum þríslegin“.

Þrístrendingsþjöl / Þrístrend þjöl (n, kvk)  Þjöl með þremur flötum/hliðum, m.a. notuð til að skerpa sagir; skerpiþjöl.  „Sæktu fyrir mig þrístrendingsþjölina út í mókofa; ég ætla að reyna að fá betra bit í sögina“.

Þrítengibeisli (n, hk)  Beisli aftaná traktor með þremur festipunktum, tengt vökvakerfi þannig að unnt er að lyfta tæki sem á það er sett; t.d. plóg eða heyvinnutæki.

Þrítelja (s)  Telja þrisvar.  „Nú er ég búinn að þrítelja í dilknum með sömu niðurstöðu; hér vantar eina“.

Þrítugt (l)  Um dýpi; þrjátíu faðmar að dýpt.

Þríþenslugufuvél (n, kvk)  Gufuvél sem nýtir gufuna þrisvar, með mismunandi þrýstingi í hverju þrepi.                                                                                  Togararnir sem strönduðu sinnhvorsvegar við Kollsvík voru með þannig gufuvélar.

Þríþættur (l)  Með þremur þáttum, t.d. band/lína/vaður.

Þrjóska (n, kvk)  Þvermóðska; þverska; stífni.  „Oft hef ég kynnst þrjósku, en þvílíkan andskotans þverhausahátt hef ég aldrei vitað“!

Þrjóskari/Þverari en andskotinn (orðtak)  Mjög þrautseigur/þvermóðskufullur.

Þrjóskast við (s)  Þumbast við; sýna mótþróa/þversku/stífni. 

Þrjóskukast (n, hk)  Þvermóðskukast; fyrirtekt.  „Hann var í einhverju þrjóskukasti og gaf dauðann og djöfulinn í að hann færi að kjósa; þetta væri allt sama andskotans pumpuliðið“!

Þrjóskur (l)  Þver; sýnir mótþróa; stífur.  „Þrjóskari getur enginn verið“!

Þrjóta (s)  Þverra; hætta; ljúka.  „Nú fer okkur að þrjóta skotfæri“.

Þrjóta örendið (orðtak)  Hafa ekki meira úthald/getu.  „Hann át tólf stórfuglsegg áður en hann þraut örendið“.

Þrjótur (n, kk)  A. (Hefðbundin merking)  Fantur; óvandaður maður.  B.  Svæði milli gamla Láganúpsbæjarins og Gilsins (Hólagils) sem slegið var.  Þar eru staksteinar, sumir grasi huldir, sem hafa verið skæðir ljánum og af því kann nafnið að vera dregið.

Þrot (n, hk)  A.  Gangendi; endi á gangi í klettum/bjargi, þar sem ekki verður lengra gengið.  „Kindin er komin á þrot“.  „Þessi hilla liggur bara á þrot, hér handanvið nefið“.  B.  Bjargarskortur; allsleysi; peningaleysi.  „Þú mátt ekki alveg setja þig í þrot með þessum fjárfestingum“.  

Þrotgangur / Þrothilla (n, kk/kvk)  Gangur/hilla í bjargi/klettum sem endar í þroti.  Það er þýðingarlaust að fara þessa leið; þetta er bara þrotgangur.  Við þurfum að fara í efri ganginn“.

Þrotabú (n, hk)  A.  Bú sem á ekki fyrir eignum; bú gjaldþrota manns.  B.  Líkingamál um að hörgull sé á einhverju.  „Þetta er nú orðið hálfgert þrotabú hjá mér ef kaffið fer að vanta“!

Þroski (n, kk)  Reynsla; gáfur; vit; hæfileikar; það að fullorðnast.

Þroti (n, kk)  Bólga; roði.  „Það er kominn dálítill þroti kringum sárið“.

Þrotinn að kröftum (orðtak)  Örmagna; örþreyttur.  „En þá var Jón svo þrekaður orðinn og þrotinn að kroftum að hann missti takið örskömmu síðar og sökk þegar“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Þrotlaus / Þrotlítill (orðtak)  Linnulaus/linnulítill; án þess að stoppa.  „Þetta hafðist með þrotlausri vinnu“.

Þró (n, kvk)  Ker; gryfja.  „Fremst í jötuna var steypt þró, þar sem fé var baðað við fjárkláða“.

Þróa (s)  Þroska; fullkomna.  „Fyrsti íslenski sjávarfallahverfillinn var þróaður af Kollvíkingi“.

Þróttlaus / Þróttlítill / Þróttlinur (l)  Máttlaus; magnlaus.  „Ég er fjári eitthvað þróttlaus enn eftir þessi veikindi“.

Þróttleysi (n, hk)  Magnleysi; máttleysi; linka.  „Enn hrjáir mann bölvað þróttleysi eftir þessi veikindi“.

Þróttmikill (l)  Kraftmikill; öflugur; sterkur.  „Um margra ára skeið vann Vestri þróttmikið starf“.

Þróttur (n, kk)  Dugur; kraftur; afl; styrkur. 

Þróun (n, kvk)  Ferill til fullkomnunar/þroska.  „Mikil þróun hefur orðið í þessari tækni“.

Þrugl (n, hk)  Rugl; bull.  „Þetta er ekkert nema bölvað þrugl og kjaftæði“.

Þrugla (s)  Rugla; bulla.  „Vertu nú ekki að þrugla þessa vitleysu; þú veist betur en þetta“!

Þruglari (n, kk)  Sá sem hefur uppi þrugl/rugl/bull.  „Að þessi þruglari og staglari hafi verið kosinn formaður!  Hann á þá ekki langt eftir þessi flokkur“!

Þruma (n, kvk)  Skrugga; hávær brestur sem heyrist þegar neisti eldingar fer um loft.  Unnt er að áætla fjarlægð eldingar frá heyranda þar sem hraði hljóðs er um 344 m/sek í lofti en glampi eldingarinnar berst nær samtímis.  „Þrumur og eldingar verða oft í Kollsvík, en þó er algengara að eldingum slái niður á fjöllum án þess að menn verði varir við.  Ummerki þess eru m.a. klofnir raflínustaurar og bræddar símalínur“.  Fyrrum voru þrumur sagðar merki þess að þrumuguðinn Þór hefði sveiflað hamrinum Mjölni í höfuð jötuns.

Þruma (s)  A.  Tala hátt.  „Eftir að karlinn hafði þrumað yfir þeim sína skammarræðu gekk hann snúðugt út“.  B.  Sitja kyrr; bíða þegjandi.  „Blakkurinn þrumir fram í sína röst, hvað sem líður byggð í Kollsvíkinni“.

Þrumari (n, kk)  Síðari tíma gæluorð um rúgbrauð.  Vísun í þau áhrif að kalla fram viðrekstra.

Þrumu lostinn (orðtak)  Steinhissa; mjög brugðið.  „Ég var þrumu lostinn yfir þessum tíðindum“.

Þrumuraust (n, kvk)  Sterk og hljómmikil rödd.  „Með þrumuraust skipaði hann þeim að koma strax“.

Þrumuský (n, hk)  A.  Dökkur og hár skýjaklakkur með þrumuveðri.  B.  Líking um gimmdarsvip manns.

Þrunginn (l)  Bólginn; þrútinn.  „Hann sagði ekkert, en ég sá að hann var reiðiþrunginn á svip“.

Þrusk (n, hk)  Hljóð sem framkallast við hreyfingu.  „Hvað þrusk er þarna í skotinu“?

Þruska (n, kvk)  A.  Blaut tugga í þurrheyi; slyndra í hrognum.  „Það er dálítið um þruskur í galtabotnunum“.  B.  Munnangur; munnskóf.

Þruska (s)  Róta; ruska; skarka.  „Verið ekki að þruska í verkfærunum nema að laga til eftir ykkur, strákar“.

Þrúga (n, kvk)  A.  Snjóskór; breið grind sem sett er undir fót til að maður sökkvi síður í lausan snjó.  B. Vínber.

Þrúga (s)  Þvinga; ýta.  (Stýrir þágufalli)  „Nautið er sífellt að þrúga kálfinum í girðingunni“.  „Öldurnar þrúgast inn í voga og skúta, og valda tignarlegum sprengingum og sjávargosum“.

Þrúgusykur (n, kk)  Glúkósi; kolvetni/sykra sem frumur nota til öndunar.  Þrúgusykur er einsykra sem frásogast auðveldlega í meltingarvegi manna og dýra og hækkar blóðsykur.  Gegn því þarf líkaminn að vega með insúlíni frá brisi, en jafnvægi í blóðsykri er mikilvægt.  Mikil neysla þrúgusykurs er talin heilsuspillandi.

Þrúkka (s)  Þrasa; prútta.  „Ég ætla nú ekki lengi að þrúkka um verðið á hrútnum“.

Þrútinn (l)  Bólginn; uppþembdur.  „Ansi er augað að verða þrútið; mér líst ekkert á þetta“.

Þrútna (s)  Belgjast/blásast út; bólgna.  „Fóturinn hafið þrútnað svo í blautu stígvélinu að ég ætlaði ekki að ná því af mér“.  „Áin hafði þrútnað í leysingunum og var ekki árennileg yfirferðar“.

Þrykkja (s)  Þrýsta; ýta.  „Það var á mörkunum að við næðum að þrykkja ullarballanum útum dyrnar“.

Þrymlar (n, kk, fto)  Strimlar; upphleyptar rákir; ör.  „Mér finnst eins og séu þrymlar hérna í skinninu“.

Þrýsta (s)  Ýta.  „Ég ætla ekki að þrýsta á þig með þetta; þú ræður því alveg sjálfur“.

Þrýstiloftsflugvél / Þrýstiloftsþota (n, kvk)  Heiti sem notað var um fyrstu farþegaþoturnar.  Oft má sjá rákir eftir þær; hátt í lofti yfir Kollsvík.  „Þarna er rák eftir þrýstiloftsflugvél“.

Þrýstingur (n, kk)  Þjöppun; pressa; álag. 

Þræða (s)  A.  Setja þráð, t.d. í gegnum nálarauga eða spyrðuband í gegnum þumu.  B.  Fara eftir tiltekinni leið.  „Unnt er að þræða sundið grunnmegin við Blakknesboðann ef fylgt er réttum miðum“.  C.  Þræða tré til sögunar; strengja sótaðan þráð eftir endilöngu tré og smella honum á það, til að marka beina línu.

Þræðingur (n, kk)  Gangur í bjargi; oftast manngengur og gjarnan varpsvæði.  „Hér var mikið af fugli á þræðingum“  Frásögn DE (MG;  Látrabjarg).

Þræla (s)  Vinna mikið; puða eins og þræll; púla. 

Þræla (einhverjum) út (orðtak)  Níðast á einhverjum með vinnuálagi.  „Það þýðir ekkert að þræla mönnum svo út að þeir verði gagnslausir næsta dag“!

Þrælahald (n, hk)  Það að hafa þræla í erfiðisvinnu.  „Ég sagði þeim að ég sætti mig ekki við neitt þrælahald; ég ætlaði að ráða mínum vinnutíma sjálfur en ég skyldi skila öllu því verki sem mér bæri“.

Þrælavinna (n, kvk)  Puð; strit; mjög erfið vinna.  „Það hlýtur að hafa verið þrælavinna að taka upp mó, þar sem keppast þurfti við að kasta uppúr mógröfunum áður en vatnselgurinn fyllti þær“.  „Vindurnar sem áður voru nefndar voru erfið dráttartæki.  Á þeim var notaður dráttarstrengur úr „manillu“; brugðið tveim brögðum strengsins á vinduásinn, en síðan einn maður settur í það að draga af vindunni jafnóðum og strengurinn kom inn.  Segja mætti að þetta væri þrælavinna, enda lagðist hún fljótt niður“  (KJK; Kollsvíkurver).

Þrælbein (n, hk)  Óhræsi; skúrkur; djöflamergur.  „Ég vona að hann fái maklega ráðningu, þrælbeinið atarna“.

Þrælbinda (s)  Súrra; binda rækilega.  „Það þýðir ekki að þrælbinda þetta svo að það taki allan daginn að losa“!

Þrælbundinn (l)  Mjög rammlega bundinn.  „Báturinn fýkur ekki neitt; hann er þrælbundinn niður“.

Þrældómur (n, kk)  Puð; erfiði.  „Það var bölvaður þrældómur að lyfta sláturlömbum á bíl áður en rennan var sett upp“.

Þrældómspuð / Þrældómsvinna (n, hk/kvk)  Mjög erfið vinna; argasta púl.  „Það hefur verið mikið þrældómspuð að ryðja veginn upp Vörðubrekkuna í Vatnadalnum“.

Þrælduglegur (l)  Harðduglegur; mjög duglegur/vinnusamur.  „Strákurinn er ágætis grey í umgengni og þræduglegur til allra verka“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en var mönnum mjög tiltækt vestra.

Þrælerfiður (l)  Mjög erfiður/strembinn; svínslega erfiður.  „Ég náði prófinu, þó það væri þrælerfitt“.

Þrælfastur (l)  Alveg fastur; gikkfastur; pikkfastur.  „Bíllinn flaut lengi vel ofaná skaflinum, en þarna datt hann niður og situr þar; alveg þrælfastur“.

Þrælka (n, kvk)  Hluti ræðis á báti; flatt járn sem fest er á borðstokk um tolluna, og árin liggur á þegar róið er.  Fyrrum voru þrælkur stundum úr hvalbeini.

Þrælka (s)  Láta vinna eins og þræl; ofbjóða með vinnu; undiroka. 

Þrælkvefaður (l)  Með mikið kvef; stoppaður af kvefi.  „Maður er þrælkvefaður ennþá“.

Þræll (n, kk)  A.  Sá maður sem er undirokaður af öðrum og kúgaður t.d. til vinnu; ófrjáls maður.  B.  Fantur; óþokki; ruddi. 

Þrælmengaður (l)  Mengaður/blandaður mikilli óhollustu.  „Þeir reka öflugan áróður fyrir inngöngu í Evrópusambandið og innflutningi á þrælmenguðu keti“ (ÖG; minningabrot).

Þrælmenni (n, hk)  Ruddi; þrjótur; óþokki; fantur.

Þrælmúraður (l)  Mjög vel efnaður; forríkur.  „Hann er þrælmúraður og hefur vel efni á þessu“.

Þrælslega erfitt / Þrælslegt (orðtak/l)  Mjög erfitt; níðþungt.  „Prófið var bara þrælslega erfitt“.

Þrælslompaður (l)  Mjög ölvaður; kengfullur; rallhálfur; útúrdrukkinn.  „Hann var orðinn þrælslompaður“.

Þrælslund (n, kvk)  Algjör undirgefni/þjónkun við aðra.  „Þrælslundin hefur aldrei verið mín sterka hlið“.

Þrælsótti (n, kk)  Hræðsla/ótti við ógnvald/yfirboðara; hlýðni sem stafar af slíkum ótta.

Þrælsterkur (l)  Nautsterkur; rammur að afli.  „Hann er þrælsterkur strákurinn“.

Þrælstíflaður (l)  Alveg stíflaður.  „Vatnslögnin var alveg þrælstífluð“.

Þrælvanur (l)  Þaulvanur; mjög vanur; þrautreyndur.  „Okkur vildi til happs að hann var þrælvanur lendingum á þessum stað og gjörþekkti allar aðstæður“.

Þrælþungur (l)  Mjög þungur.  „Ég skal hjálpa þér að lyfta keðjukassanum; hann er þrælþungur“.

Þræsingskuldi (n, kk)  Kuldaþræsingur; kaldur og hvass vindur; þræsingssveljandi.

Þræsingssveljandi (n, kk)   Mikill og þrálátur vindur.  „Hann ætlar að halda enn þessum þræsingssveljanda“!

Þræsingur (n, kk) Þráviðri; slæm tíð; langvarandi hvassviðri af norðri eða vestri.

Þræsinn (l)  A.  Um veður; sjólag; vindátt; lagvarandi og leiðigjörn; viðvarandi.  B.  Um lykt; þráakennd; fúl.

Þræta (n, kvk)  Deila; rifrildi; karp.  „Karlinn varð eitt sælubros þegar hann sá framá ánægjulega þrætu“.

Þræta (s)  Rífast; deila; karpa.  „Fundu þeir sér nú eitthvað nýtt til að þræta um“!

Þræta fyrir (orðtak)  Harðneita að hafa gert.  „Hann þrætir fyrir það að hafa gleymt að loka hliðinu“.

Þrætinn (l)  Þrætugjarn.  „Það má deila um það hvort Magnús hafi verið sérlega þrætinn, en fátt var honum meira gleðiefni en þegar einhver var á öndverðri skoðun við hans framúrstefnulegu hugmyndir......“.

Þrætubók (n, kvk)  Orðið mun vera vísun í latneska heitið „dialectica“ sem merkir samræðulist eða rökfræði.  Stundum notað um rit sem veldur deilum, eða jafnvel um þrætugirni.  „Kemur hann með sína þrætubók“!

Þrætubókarlist (n, kvk)  Rökræðulist.  „...og engir stóðust Magnúsi snúning í þrætubókarlistinni“.

Þrætuefni (n, hk)  Deiluefni; tilefni þrætu.  „Alltaf fundu þeir sér eitthvað nýtt þrætuefni, sér til ánægju“.

Þrætugjarn (l)  Þrasgjarn; fundvís á tilefni til deilna.  „Sumir sögðu Magnús nokkuð þrætugjarnan“.

Þrætulamb (n, hk)  Lamb sem deilt er um, t.d. varðandi eignarrétt eða vænleika.

Þröm (n, kvk)  Gamalt heiti á brún/nöf.  Nú einungis notað í orðasamböndum og endingum, s.s. á heljarþröm.

Þröng (n, kvk)  Troðningur; þrengsli.  „Hann var kominn í þröng fjárhagslega“.

Þröng á þingi / Þröngt/þétt setinn bekkurinn (orðtak)  Fjölmennt; margir viðstaddir.  „Það var þröng á þingi í litla herberginu“.

Þröngt í búi (orðtak)  Lítið eftir til neyslu/nota; lítið matarkyns;: fátækt.  „Mér þykir orðið fremur þröngt í búi hjá honum ef hann getur ekki greitt svona lítilræði“.

Þröngt í húsum (orðtak)  Húsþröngt; farið að þrengja að gestum/fé í húsum. 

Þröngsýni (n, kvk)  Skortur á yfirsýn/víðsýni/skilningi.  „Þetta ber vott um skelfilega þröngsýni“.

Þröngsýnn (l)  Sem skortir víðsýni/skilning.  „Hann getur stundum verið svo andskoti þröngsýnn“!

Þröngur (l)  Plásslítill; ekki rúmgóður.  „Ansi finnst mér peysan þröng í hálsmálið“.

Þröngt í búi (orðtak)  Lítið til neyslu; erfitt að framfleyta búi/heimili.  „Ég þyrfti óðara að komast í verslun.  Það fer að verða þróngt í búi varðandi ýmislegt“.

Þröngt mega sáttir sitja (orðatiltæki)  Þeir menn sem eru sáttir þola mikla nánd.  „Þröngt hefur verið í Grundabænum sem ekki var stór, en fólk var allsstaðar vant smáum húsakynnum og þröngt mega sáttir sitja“  (S.G: Bréf til mömmu).

Þröngva (einhverjum) til (orðtak)  Neyða einhvern til.  „Bankinn þröngvaði honum til að selja jörðina á undirverði“.

Þröskuldur (n, kk)  A.  Fjöl/planki í gólfi, milli dyrastafa.  B.  Hindrun í vegi einhvers. 

Þukl (n, hk)  Þreifing; snerting.  „Svona þukl er vita gagnslaust; þú þarft að læra að handfara líflamb“.

Þukla (s)  Þreifa; handfara.  „Lofðu mér að þukla aðeins á þessu hrútlambi þarna“.

Þula (n, kvk)  A.  Kvæðaform sem algengara var áðúr fyrr.  Ekki eru skil milli erinda.  B.  Romsa; mikill orðaflaumur.  „Þessa þulu hef ég nú heyrt áður“!

Þulur (n, kk)   A.  Sagnamaður; vitringur; sá sem er sérlega fróður og getur þulið upp margan fróðleik sem aðrir þekkja síður.   B.  Kynnir dagskrárliða í útvarpi/sjónvarpi.  Síðar kvenkynsorðið „þula“ um hið sama.

Þuma (n, kvk)  Æsa; bandhald; rauf sem skorin er í sporð fisks, fiskstykki eða í hákarlsþjósu til upphengingar.

Þuma (s)  A.  Fálma; þreifa eftir.  B.  Skera þumu í eitthvað.

Þumalfingur / Þumalputti (n, kk)  Þumall; stuttur og sver fingur sem grípur á móti 0ðrum fingrum sömu handar.

Þumall (n, kk)  A.  Þumalfingur.  B.  Þumall á vettlingi.  „Sandhellir er töluvert stór þegar inn er komið; svipaður sjóvettling í laginu, með einum þumli; og heitir Þumall.  Inn af honum er hola sem á að vera inngangur huldufólksins í Stórhólinn“  (IG; Sagt til vegar I).  

Þumbaragangur / Þumbaraháttur (n, kk)  Þverska; stífni.  „Skelfingar þumbaragangur er þetta í manninum“!  „Farðu nú að láta af þessum þumbarahætti og drífðu í að kjósa“.

Þumbaralegur (l)  Þóttalegur; fýlulegur; þegjandalegur.  „Mér fannst hann skelfing þumbaralegur í viðmóti“.

Þumbari (n, kk)  Sá sem sýnir tortryggni og andstöðu við það sem aðrir leggja til/ vilja; sá sem er tregur í taumi.  „Hann gat verið óttalegur þumbari, væri ekki farið rétt að honum“.

Þumbast / Þumbast við (s, orðtak)  Þráast/móast/tregðast við; þvælast fyrir málum; standa fast á sínu.   „Sumir þumbuðust við og héldu tryggð við sína heimahaga þó aðrir væru fljótir að gleypa tækifærin á nýjum stöðum“.

Þumlunga (s)  Mæla í þumlungum/tommum.

Þumlungast áfram (orðtak)  Þokast mjög hægt áfram.  „Við gerðum ekki mikið meira en þumlungast áfram í mótvindinum, þó víð rerum af öllum kröftum“.

Þumlungsþykkur (l)  Einnar tommu/eins þumlungs þykkur.  „Það er kominn þumlungsþykkur ís á vatnið“.

Þumlungur (n, kk)  Lengdareining; ein tomma; miðuð að fornu við lengd fremsta kögguls vísifingurs á meðalmanni; ensk-bandarískur þumlungur (sem nú er miðað við) er 2,54 cm.  Í sama kerfi eru 12 tommur í hverju feti, sem þá er 30,48 cm.  Danskt fet er 31,39 cm og tvö slík eru í hverri danskri alin.

Þungamiðja (n, kvk)  Miðpunktur; miðja þess sem um ræðir. 

Þungbrýndur / Þungbrýnn (l)  Brúnaþungur; þungur á brún; reiðilegur.  „Hann varð sífellt þungbrýnni undir ræðunni“.

Þungbúinn (l)  A.  Rigningarlegt veðurútlit.  „Ári er hann að verða þungbúinn“.  B.  Þungur á brún; yggldur.  „Hreppstjórinn horfði á hann þungbúinn en sagði ekki orð“.

Þungbærra/þyngra/sárara en tárum taki (orðtak)  Tekur meir á einhvern andlega en þolað verður; andlega mjög erfitt.  „Það er mér þungbærra en tárum taki að láta frá mér þennan kostagrip“.

Þungbært (l)  Erfitt að afbera; sorglegt.  „Fráfall sonarins varð þeim mjög þungbært“.

Þungfermdur (l)  Með þungfermi.

Þungfermi (n, hk)  Þungur farmur á farartæki.  „Ef hey var vel þurrt var oftast reynt að hlaða eins miklu á hvern heyvagn og mögulega var unnt, en það var hérumbil það sem fullorðinn maður náði upp með heykvísl.  Einn var þá á vagninum að laga til og troða.  Vagninn var þá þungfermdur, og var Farmallinn fullhertur með hann í lægsta gír, t.d. upp aflíðandi og stuttar brekkurnar frá Grundatúninu heim að hlöðu“.

Þungfær (l)  A.  Silalegur; þyngslalegur.  „Maður er nú orðinn dálítið þungfær á seinni árum“.  B.  Um færð; erfið færð; ófær.  „Ég er hræddur um að Hálsinn verði þungfær eftir þetta áhlaup“.

Þunghentur (l)  Harðhentur; beitir of miklum átökum; tekur heldur fast á.  „Fyrr á tímum þótt það ekki tiltökumál þó húsbændur væru þunghentir á því vinnuhyski sínu sem þeim þótt latt til vinnu“.

Þunghlaðinn (l)  Með mikinn farm/þungfermi.  „Kerran er ansi þunghlaðin“.

Þungi (n, kk)  A.  Þyngd; hlass; farg.  „Gættu þess að þunginn hvíli ekki mikið á torfunni þegar þú ferð um ganginn; mér sýnist hún ekki vera trygg“.  B.  Ólétta konu.  „Veit nokkur hver á þungann með henni“?  C.  Festa/höstugleiki í tali.  „Hann sagði með þunga að þetta kæmi sér bara ekkert við“.

Þungklyfjaður (l)  Með þungar byrðar.  „Maður kom stundum þungklyfjaður úr eggjaferð í Breiðinn.  Eitt sinn kom ég heim með 100 egg í kút á bakinu; sama fjölda í kút í annarri hendi og 50 egg í fötu í hinni hendinni.  Auk þess var ég með 20 faðma vað og háf.  Þetta plampaði ég með niður Grenjalág og heimyfir Strympur.  En mikið andskoti var maður lúinn þegar heim kom“ (VÖ).

Þunglamalega (ao)  Óliðlega; með erfiðismunum; silalega.  „Hann gekk þunglamalega frá brúninni og fleygði sér í lautina; alveg örmagna“.

Þunglamalegur (l)  Þungur á fæti; þungfær.  „Sumum fannst kannski Marinó í Tungu vera þéttur á velli og þunglamalegur til gangs.  En fimari mann í klettum hef ég sjaldan séð, nú dregið léttari mann í spotta“ (VÖ).

Þunglega (ao)   Um horfur/útlit; illa; ekki vel.  „Mér finnst þunglega horfa með sprettu þetta árið“.

Þunglyndi (n, hk)  Depurð; svartsýni; ógleði.  „Afi glímdi stundum langtímum saman við þunglyndi.  Það mun iðulega hafa háð honum við vinnu og því verið fjölmennu heimili þungt í skauti“.

Þunglyndiskast (n, hk)  Tímaskeið þunglyndis.

Þunglyndur (l)  Það að vera haldinn þunglyndi.  „Maður verður bara þunglyndur af tilhugsuninni“!

Þungmelt / Þungt í maga (l/orðtak)  Tormelt.  „Trúað gæti ég að kálfinum verði plastið fremur þungmelt“.

Þungorður (l)  Ávítandi/reiðilegur í tali; skömmóttur; notar skammaryrði/blótsyrði/ávítur/illmælgi.  „Hann var þungorður í garð fráfarandi ríkisstjórnar“.  „Heldur þótti mér hann þungorður í garð hreppsnefndarinnar“.

Þungróið (l)  Erfitt að róa.  „Þungróið var á móti fallinu, en um skamma leið að fara“.

Þungstígur (l)  Þunglamalegur; þungur á fæti; stígur þungt til jarðar.

Þungsvæfur (l)  Sem sefur djúpt; sem hrýtur mikið. 

Þungt á metunum (orðtak)  Hefur mikið vægi; er mikilvægt.  „Hans meðmæli geta verið þung á metunum þegar þeir velja í starfið“.  Metaskálar var einföld vog; mikilvæg í viðskiptum fyrr á tíð; met voru lóðin.

Þungt færi (orðtak)  Þungfært; erfið færð.  „Færið er fremur þungt á háfjallinu“.

Þungt fyrir brjósti (orðtak)  Með brjóstverk/brjóstþyngsli; á erfitt með andardrátt.  „Mér varð eitthvað svo þungt fyrir brjósti, svo ég lagði mig smástund“.

Þungt haldinn (orðtak)  Mjög veikur; illa haldinn; hrjáður; langt leiddur.  .  „Hann var þungt haldinn í tvo daga, en þá fór að rjátlast af honum“.

Þungt heimili (orðtak)  Fjölmennt heimili; heimili þar sem mikið þarf til framfærslu. 

Þungt hugsi / Þungt hugsandi  (orðtak)  Í ungum þönkum; djúpt hugsandi; svo mikið að hugsa að ekki tekur mikið eftir því sem fram fer.

Þungt í huga / Þungt í skapi / Þungt undirniðri (orðtök)  Í slæmu skapi; liggur illa á; reiður; móðgaður; sár.  „Mér var fremur þungt í skapi eftir að hafa lesið þetta bréf“.

Þungt í lofti / Þungur í lofti (orðtök)  Þungbúinn; lágskýjað; alskýjað; dimmt yfir.  „Ansi er hann orðinn þungur í lofti; við þurfum að drífa þetta í hlöðu sem fyrst“.

Þungt í maga (orðtak)  Þungmelt; um mat sem fer ekki vel í maga.  „Hangiketið er alltof þungt í maga þegar maður er með svona pest“.

Þungt í vöfum (orðtak)  Erfitt viðureignar; þungt að bera.  Sjá vaf.

Þungu fargi af létt (orðtak)  Laus við miklar áhyggjur; getur andað léttara.  „Það var þungu fargi af mér létt þegar fjárhópurinn var loks kominn í réttina“.

Þungur matur (orðtak)  Matur sem er þungmeltur.

Þunguð (l)  Ólétt; barnshafandi; með barni.

Þungur (l)  A.  Sem vegur mikið.  B.  Sem er erfiður/torsóttur.  „Ansi finnst mér þetta þungt námsefni fyrir smábörn“.  „Færðin er þung á háfjallinu“.  „Þetta er dálítið þungt í maga“.

Þungur á bárunni (orðtak)  A.  Um bát; lyftir sér seint eða illa upp á báruna, t.d. vegna hleðslu.  B.  Líkingamál um mann; ákveðinn; líklegur til að koma sínu fram.  „Hann getur verið ansi þungur á bárunni þegar hann beitir sér“.  Líking við bát sem klýfur öldurnar í stað þess að skoppa á þeim.  Sjá léttur á bárunni.

Þungur á brá/brún/svip (orðtak)  Brúnaþungur; þungbrýnn.  „Hversvegna ertu svona þungur á brúnina“?

Þungur á fæti (orðtak)  Þungstígur; á erfitt með gang; latur til gangs.  „Ég held maður verði nú dálítið þungur á fæti að smala aftur fyrir karlinn, ef hann er ekkert nema vanþakklætið“!

Þungur á höndum (orðtak)  A.  Þungur að bera; sígur í.  „Eggjakútarnir reyndust nokkuð þungir á höndum, og þurftum við oft að hvíla okkur á leiðinni upp dalinn“.  B.  Um sigmann í klettum; þungur í vaðnum; ekki léttur í vað.  „Hann var ekki þyngri á höndum en það að ég dró hann auðveldlega einn uppaf Höfðanum“.

Þungur á sér (orðtak)  Þunglamalegur; feitur.  „Heldur var hann þungur á sér upp hlíðina“.

Þungur/erfiður eftirróðurinn (orðtak)  Eftirróður er það að róa á eftir öðrum bát, en kjalsogið getur torveldað hann.  Notað í líkingamáli um erfiðleika við að vinna mál/ ná markmiðum eftirá.

Þungur í sér (orðtak)  Eðlisþungur; þéttur.  „Ansi er votheyið þungt í sér, svona rennblautt“.

Þungur í skapi (orðtak)  Skapmikill; fljótillur; bráður.  „Og það vissi ég að hann sagði satt því hann var karlmenni mikið og þungur í skapi“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Þungur róður (orðtak)  A.  Erfiður róður, t.d. vegna mótvinds eða andstreymis.  B.  Líkingamál um erfitt verkefni.  „Það verður þungur róðurinn fyrir þá að sannfæra hann um þetta“.

Þungur sjór (orðtak)  Mikill sjór; allnokkuð brim.  „Ferðin til Breiðavíkur gekk vel, en þegar lagt var af stað þaðan var þungur sjór, en heita mátti logn“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Þungur til gangs / Þungur til verks/vinnu (orðtök)  Seinfær; latur; þungur á fæti; á erfitt með hreyfingar.

Þunnar kveðjur/þakkir (orðtök)  Lítil kurteisi; vanþakklæti; lítilsvirðing.  „Þótti honum þetta fremur þunnar þakkir fyrir allt sem hann hafði á sig lagt“.

Þunnar veitingar/trakteringar (orðtök)  Slæmur viðurgerningur.  „Honum þótti það þunnar veitingar að fá aðeins berrassað kaffi“.  „Landsbyggðin mun ekki sætta sig við svona þunnar trakteringar“.

Þunnholda (l)  Í lélegum holdum; horaður.  „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi.  Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill.  Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið…„“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Þunnhærður (l)  Með gisið/þunnt hár; hárlítill; nær sköllóttur.  „Maður gerist fremur þunnhærður í hvirfilinn á síðari árum“.

Þunnildi (n, hk)  A.  Kviðveggur á fiski, kviðfiskur, oftast verkaður til matar.  Þunnildi af steinbít nefnast kisur/kerlingar.  Dökka himnan innan á þunnildi þorsks nefnist óminnishimna.  Fremst í þunnildunum eru angiljubein/klumbubein, aftanvið þau eyruggarnir.  „Fátt  finnst mér betra en vel saltað og þunnildi af stórþorski; helst ef það er orðið tvífornt“.  B.  Líkingamál um heimska manneskju; þynnka; bjálfi.  „Hún er kannski dálítið þunnildi kerlingin, en mesta gæðasál“.

Þunnmeti (n, hk)  Þunnfljótandi matur.  „Ég er lítið fyrir súpugutl og annað þunnmeti“.

Þunnskipað lið (orðtak)  Fámennt.  „Heldur þótti honum liðið þunnskipað fyrir þessa smalamennsku“.

Þunnt/þykkt á (orðtak)  Þunnt/þykkt lag af heyi á jörð / smjöri/kæfu á brauðsneið o.fl.  „Það þyrfti að örlítið úr mestu hrúgunum þar sem þykkast er á þegar búið er að breiða galtann“. „Sléttan var mjög misjafnlega sprottin.  Sumsstaðar er óttalega þunnt á“.

Þunnt er móðureyrað (orðatiltæki)  Móðir skynjar þarfir síns barns betur og næmar en nokkur annar.  Einnig; glöggt er móðuraugað.

Þunnt svar (orðtak)  Svar sem segir lítið.  „Heldur þótti honum svörin þunn“.

Þunnur (l)  A.  Ekki þykkur; stutt í gegn.  „Þunnar fjalir voru notaðar í þiljuna“.  B.  Ekki þéttur.  „Hárið er farið að þynnast í hvirfilinn“.  C.  Lélegur; vitgrannur; heimskur.  „Andskoti geturðu verið þunnur ef þú skilur þetta ekki“!

Þunnur á vangann (orðtak)  Horaður/grannleitur í andliti; kinnfiskasoginn.  „Heldur fannst mér hann vera orðinn fyrirgengilegur og þunnur á vangann“.

Þunnur í roðinu (orðtak)  A.  Um fisk; horaður.  B. Oftar notað í líkingum um mann sem þykir heimskur/ einfelding.  „Nokkuð þótti mér þessi nýi frambjóðandi vera þunnur í roðinu“.

Þunnur þrettándi (orðtak)  Lélegar veitingar/trakteringar.  „Það er eitthvað almennilegt með kaffinu á þessum bæ.  Mér fannst það fjári þunnur þrettándi á hinum bænum; bara berrassað kaffi, og  molalaust“!

Þunnvangi (n, kk)  Gagnauga.  „Það er vont að fá svona högg á þunnvangann“.

Þurfa (s)  Þarfnast; vanta; skorta.

Þurfa mann á móti sér (orðtak)  Þurfa öflugan mann sér til aðstoðar.  „Ég er hræddur um að þú þurfir mann á móti þér ef þú ætlar að hreyfa þessum steini, góði minn“!

Þurfa (einhvers) með (orðtak)  Þarfnast einhvers; vera í þörf fyrir eitthvað.  „Ég bað hann um aðstoð en sá svo að ég þurfti hennar ekki með“.

Þurfa vitnanna við (orðtak)  Sjá ekki þarf (frekari) vitnanna við.

Þurfalingur (n, kk)  Sá sem þarf að vera upp á aðra kominn með framfærslu; beiningamaður; ómagi.

Þurfamannatíund (n, kvk)  Sá hluti tíundar sem rann til þurfamanna/fátæklinga.  Annarsvegar var hún fjórðungur skiptanlegrar tíundar og hinsvegar öll tíund eigna undir fimm hundruðum.

Þurfandi (l)  Með þörf fyrir.  „Það ætla að fara að hleypa fénu út.  Það er líklega orðið þurfandi fyrir vatn“.  „Gefðu sktráknum einhvern bita; ég er ekki eins þurfandi“.

Þurftafrekur (l)  Með miklar þarfir.  „Ljósavélin er orðin ári þurftafrek á smurolíu í seinni tíð“.

Þurftalítill / Þurftasmár (l)  Með litlar þarfir.  „Það má lengi komast af með lítið ef maður er þurftalítill og nægjusamur“.  „Ég er fremur þurftasmár í þessum efnum“.

Þurr  (l)  A.  Ekki blautur.  „...og bera hreinan og þurran skeljasand á gólfin“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Án viðbits.  „Ætlarðu að borða brauðið svona þurrt“?  C.  Harður í viðmóti; þegjandalegur; stuttur í spuna.  „Heldur fannst mér hún þurr við karlinn“.

Þurr á manninn (orðtak)  Um framkomu; fáorður; stuttur í spuna; afundinn.  „Ég var að reyna að æra eitthvað uppúr honum, en mér fannst hann frekar þurr á manninn; eins og honum þætti eitthvað við mig“.

Þurr fiskur / Þurrfiskur (orðtak/ n, kk)  Harðfiskur; skreið; þurrkaður fiskur. 

Þurr lesning (orðtak)  Lesefni sem þykir ekki áhugavert; tyrfin lesning.  „Skýrslan er ansi þurr lesning“.

Þurrabú (n, hk)  Heimili þar sem matur er þrotinn.  „Ég held að við þurfum bráðum að komast í búð; þetta er að verða hálfgert þurrabú“.  Virðist ekki þekkjast annarsstaðar.

Þurrabúð / Þurramannsbýli (n, kvk/hk)  A.  Bústaður eða verbúð þar sem menn eru árið um kring án þess að hafa búskap; tómthús.  Áður fyrr lifðu þurrabúðarmenn oftast af útræði í nálægu veri eða vinnumennsku á nærliggjandi bæ.  Þurrabúðir í Útvíkum tengdust flestar útræði. „Upp af þessari tungu var þurrabúð sem hét Strákamelur“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Kollsvík, Láginúpur og Grundir voru lögbýli í Kollsvík, en auk þeirra voru Bakkar þurrabúð; Grund líka þurrabúð, þar bjó Samúel Eggertsson“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).  „Seinna var Evu breytt í þurramannsbýli:  Magnús Jónsson, ættaður úr Tálknafirði, og Guðrún Jónsdóttir, ættuð úr Rauðasandshreppi, áttu heima þar“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  B.  Líkingamál á síðari tímum; skortur á matvöru í búi.  „Þetta fer nú að verða hálfgerð þurrabúð hjá mér ef ég kemst ekki fljótlega í verslun“.

Þurrabúðafólk (n, hk)  Fólk sem býr í þurrabúð.  „Þó kom það fyrir að þurrabúðarfólk hafðist þar við með fáeinar kindur, en treysti að öðru leyti á sjávargagn sér til framfærslu“  (HÖ; Fjaran). 

Þurrabúðarmaður (n, kk)  Búðsetumaður; sá sem býr í þurrabúð.  „Erlendur á Hvallátrum sendi einn af vinnumönnum sínum eftir koffortinu.  Hann hét Gestur Jósepsson, og var síðar þurrabúðarmaður í Kollsvík (að Gestarmel) “  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).  Sjá búðsetumaður.

Þurrabúðarkot (n, hk)  Smábýli þurrabúðar.

Þurrafúi (n, kk)  Fúi í viði af völdum sveppagróðurs, jafnvel á þurrm stöðum; t.d. í húsum og bátum.

Þurrahósti (n, kk)  Hósti án þess að slím komi upp.  „Skelfilegt er að heyra þennan þurrahósta í þér drengur“.

Þurrausa (s)  Um austur/dælingu úr bát; klára alveg að ausa.  „Við gátum þó þurrausið þegar við komum á lygnan sjó, fyrir innan Þyrsklingahrygg “  (ÖG; Þokuróður).  „Gæta þurfti þess að ausa skektuna til að svinghjólið á vélartíkinn næði ekki að ausa sjó uppá kveikjuna.  Helst þurfti að þurrausa hana“.

Þurrausinn (l)  Búið að þurrausa; alveg ausinn.  „Báturinn var þurrausinn í bili“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Þurrbatterí (n, hk)  Rafhlaða sem ekki inniheldur rennandi sýru.

Þurrbrjósta (l)  Án drykkjar; vatnslaus.  „Það gengur ekki að vera þurrbrjósta á sjó í heilan dag“.

Þurrð (n, kvk)  Skortur.  „Sykurinn fer bráðum að ganga til þurrðar“.

Þurrfóður (n, hk)  Fóður á þurru formi, t.d. fóðurbætir eða refafóður.

Þurrhey (n, hk)  Gras sem þurrkað hefur verið eftir slátt.  Þurrhey hefur í gegnum aldirnar verið uppistaðan í skepnufóðri bænda til vetrarins, enda var ekki farið að verka í vothey að ráði fyrr en á 20.öld.  Þurrheysverkun er allmjög háð veðri, og eftir óþurrkasumur voru bændur oft illa staddir með hey.  Þar sem góður útigangur var fyrir sauðfé; þ.e. næg hagabeit og/eða fjörubeit, var fullorðnu fé ekki ætlað hey nema í löngum innistöðum.  Þannig var í Kollsvík.  Kýr þurfa alltaf innistöðufóðrun að vetri, og mjólka þeim mun betur sem hey eru meiri og betri.  Hlöður voru fátíðar fyrrum, heldur var borið upp í hey; oft nærri skepnuhúsum.  Fé var oft í kofum hist og her um landareignina, og þurfti oft að bera heyið í pokum.  „Nær eingöngu var heyjað í þurrhey á þeim tíma; þó þekktist votheysgerð í smáum stíl“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Þurrheyshlaða (n, kvk)  Hlaða fyrir þurrhey.  „Við fjárhúsin var byggð þurrheyshlaða með votheysgryfjum í enda“.

Þurrheyskapur (n, kk)  Þurrheysverkun; fengur þurrheys; magn þurrheys sem náðst hefur.  „Þurrheyskapur er lítill orðinn, eftir að rúlluheyskapurinn kom til“.

Þurrheysstabbi (n, kk)  Stabbi/stallur/hlaði í hlöðu af þurrheyi.  „Ég veit ekki hvort þessi þurrheysstabbi dugi honum framúr; en ég stórefa það“.

Þurrheystugga (n, kvk)  Tugga/visk af þurrheyi.  „Það verður að gefa einhverja þurrheystuggu með votheyinu“.

Þurrheysvagn (n, kk)  Heyvagn fullur af þurrheyi.  „Við náðum tveimur þurrheysvögnum áður en hann fór að rigna“.

Þurrheysverkun (n, kvk)  Verkun þurrheys; þurrkun grass

Þurrka (n, kvk)  Það sem notað er til að þurrka vökva; t.d. tuska eða bréfþurrka.

Þurrka hey (orðtak)  Verka gras í þurrhey.  „Það var verið að þurrka hey uppi á Hólum“  (IG; Æskuminningar).

Þurrka sig (orðtak)  A.  Þurrka líkama sinn.  B.  Um veðurlag; stytta upp; hætta að rigna.  „Mér finnst að hann sé að byrja að þurrka sig“.

Þurrka út (orðtak)  Afmá; strjúka af; láta hverfa.  „Þessa ósiði þarf að þurrka út með öllu“!

Þurrkar / Þurrkatíð (n, kk/kvk)  Tíðarfar mikilla þurrka; þurrviðrasöm tíð.  „Árnapostilla var einn illslægasti blettur í Sauðlauksdalstúni í þurrkatíð“.  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).  „Þótt veturinn hafi verið snjólaus hafa samt verið innistöður að mestu sökum illviðra fyrri hluta vetrarins, en kulda og storma með þurrkum eftir góubyrjun“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1942). 

Þurrkdagur (n, kk)  Dagur með góðum þurrki.  „Þurrkdagar hafa enn verið fáir í þessum mánuði“.

Þurrfrosta (l)  Veðrátta með frosti án úrkomu. „Það er í lagi meðan hann helst svona þurrfrosta, en ég býð ekki í það ef hann færi að rigna ofaní þetta“!

Þurrfættur (l)  Ekki votur í fæturna.  „Ég komst þurrfættur yfir seilina“.

Þurrkdagur (n, kk)  Dagur sem nýtist vel til heyþurrkunar.  „Við náðum að klára heyskapinn þessa þurrkdaga“.

Þurrkdeyfa (n, kvk)  Daufur þurrkur; lítill þurrkur þó hann hangi þurr.  „Árans þurrkdeyfa er þetta; dag eftir dag“!

Þurrkflæsa (n, kvk)  Góður þurrkur um stund; flæsa.  „Það er mikilvægt að nota vel þessa þurrkflæsu“.

Þurrkhjallur (n, kk)  Hjallur; sérstök tegund byggingar sem ætluð er til þurrkunar/herslu, einkum á fiski en einnig keti og þvotti.  Hjallar geta verið af margvíslegri gerð, en þessi tíðkaðist í Kollsvíkurveri á fyrrihluta 19. aldar:  „Venjulega voru fisk-, þ.e. steinbítshjallarnir, þannig gerðir að hlaðnir voru fjórir steinstólpar með stuttu millibili, er mynduðu ferhyrning.  Á hverja tvo voru síðan lögð allsver tré, hjalltré, og náðu endarnir oftast nokkuð útfyrir stólpana.  Á hjalltrén voru síðan lagðar rár með hæfilegu millibili, er steinbíturinn var hengdur á.  Best var að endar ránna næðu útfyrir hjalltrén, til þess að allur þunginn sem látinn var á rána lægi ekki á miðjunni“  (KJK; Kollsvíkurver).  Á síðari tímum eru hjallar byggðir sem stór timburhús, bárujárnklædd að frátöldum neðrihluta veggja.  Mikilvægt er að velja þeim stað þar þurrt er og mikill blástur.

Þurrklegur (l)  Útlit fyrir góðan þurrk.  „Hann er ekki þurrklegur þessa stundina.  Ég held ég fari að raka upp“.

Þurrkleysa (n, kvk)  Lítill eða enginn þurrkur.  „Það er búin að vera ótíð og þurrkleysa allan mánuðinn“.

Þurrkreitur (n, kk)  Fiskreitur; grjótreitur þar sem fiskur var þurrkaður með fyrri tíðar verkunaraðferðum.  „Fiskreitir voru lagðir úr grjóti og þurfti jafnan að rífa þá upp á hverju vori, því sandur barst í þá að vetrinum“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þorskur var þurrkaður á grjótreitum en hákarl, riklingur og rafabelti í hjöllum“   (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  Steinbítur var þurrkaður á steinbítsgörðum og hrýgjugörðum.

Þurrkspá (n, kvk)  Veðurspá um þurra/rigningarlausa tíð.  „Ætli maður verði ekki að treysta þessari þurrkspá og fara að breiða“.

Þurrktíð (n, kvk)  Tímabil þurrka.  „Þessi þurrktíð nýttist nokkuð vel; ég er kominn fyrir vind með heyskapinn“.

Þurrkun (n, kvk)  Það að þurrka.

Þurrkun mýra/mýrlendis (orðtök)  Framræsla mýrlendis; skurðgröftur.

Þurrkur (n, kk)  Veður til að þurrka hey; þurrviðri.  „Það hefur verið hinn ágætasti þurrkur alla vikuna“.  „Heldur finnst mér þetta daufur þurrkur“!

Þurrkvöllur (n, kk)  Þurr staður þar sem unnt var að þurrka mó, en hann kom blautur úr mógröfunum.  Hey var einnig flutt á þurrkvöll af votlendum stöðum.  „Síðan var mórinn keyrður á þurrkvöll sem var við Grástein, ýmist á hestakerru eða hjólbörum..“  (ÖG; Niðjatal HM/GG).  „  Oftast vorum við krakkarnir að reyna að aðstoða Ingveldi, aðallega við að bera ullina upp á þurrkvöll“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).

Þurrlega (ao)  Með þykkju/reiðitón; af þunga; reiðilega; fálega.  „Hann heilsaði okkur fremur þurrlega og var greinilega ekki í góðu skapi“.

Þurrlegur (l)  Stuttur í spuna; afundinn.  „Lengi eftir þessa hrekki var hann fremur þurrlegur við strákana“.

Þurrlendi (n, hk)  Þurrt landsvæði.  „Ofanvið Mýrarnar er þurrlendi.

Þurrlendisbali (n, kk)  Þurr börð/holt.  „Handantil í víkinni eru melaskörð og þurrlendisbalar með sendnum jarðvegi“.

Þurrlendisgróður (n, kk)  Gróður á þurrlendi. 

Þurrlent (l)  Þurrt land; þurr jörð.  „Mýrar heitir mikið votlendi í miðri víkinni, en kringum þær er þurrlent“.

Þurrmeti (n, hk)  A.  Þurrkaður/hertur/siginn matur; kornmeti; brauð og annar þurr matur. „Það verður að hafa smér með þessu þurrmeti“.   B.  Í líkingum; torskildar/óspennandi bókmenntir og annað ritmál.

Þurrmjólka (s)  Mjólka kú þar til öll mjólk hefur náðst úr júgrum.  „Ekki þurrmjólka nýbæruna alveg“.

Þurrpurpa (n, kvk)  A.  Þurr rýja/tuska; hrjúfur þurrkblettur á húð; húðflaga.  „Hér er eins og einhver þurrpurrpa á handleggnum“.  B.  Líking; manneskja sem er þurr á manninn/fámál.

Þurrpurpulegur (l)  Fúll; fámáll; þurr á manninn.  „Hversvegna ertu svona anskoti þurrpurpulegur í dag“?

Þurrsalta (s)  Salta matvæli (fisk eða kjöt) í stæðu en ekki í pekil.  „Best er að þurrsalta kjötið volgt“.

Þurrsjúga (s)  Sjúga alla mjólk úr júgri.

Þurrsogin (l)  Búið að sjúga alla mjólk úr júgri.  „Ærin var þurrsogin öðrumegin en lambið hafði ekki snert hitt júgrið“.

Þurrsöltun (n, kvk)  Söltun matvæla í stæðu en ekki í pekil.  „Þurrsöltun er ágæt í sjálfu sér, en vanda þarf vel til verka, svo saltist sem jafnast.  Best er að umstafla a.m.k. einu sinni og snúa þá stykkjunum“.

Þurrt af / Þurrt á / Þurrt á jörð / Þurrt á steinum (orðtök)  Um gras/jörð; þurrt viðkomu; nægilega þurrt til að hefja heyvinnu.  „Það var ekki orðið vel þurrt af fyrr en undir hádegi“.  „Heldurðu að það sé orðið nægilega þurrt á“?  Fyrsta morgunverk bónda var ávallt að fara útfyrir húshorn; gá til veðurs og sjávar og kasta af sér vatni.  Næsta verk, meðan heyskapur stóð, var að þreifa á; þ.e. strjúka handarbaki yfir jörð til að kanna hve þurrt er á; þ.e hvort unnt væri að hefja vinnu við þurrkun á heyi, t.d. breiða galta/garða; rifja eða hirða.  Ekki þýðir að byrja slíkt ef raki/væta er í rót; ef ekki var vel þurrt af. 

Þurrt brauð (orðtak)  Ósmurt brauð.  „Það er ekki hægt að éta brauðið þurrt“.

Þurrtotta / Þurrþutla (s)  Þurrnjólka; mjólka alla mjólk úr spenum.

Þurrviðrasamt (l)  Með tímabili þurrka.  „Júnímánuður var fremur þurrviðrasamur“.

Þurrviðri (n, hk)  Þurrt í veðri; þurrkatíð.  „Það fer kannski að styttast í þessu þurrviðri, samkvæmt spánni“.

Þurrviðristíð (n, kvk)  Þurrviðri um nokkurn tíma; þurrkatíð.  „Enn virðist ekkert lát á þessri þurrviðristíð“.

Þurrætur (l)  Þurr matur.  „Fiskurinn er nú hálf þurrætur nema að hafa eitthvað útálát“.  „Skyrið er skolli þurrætt þegar mjólkina vantar“.

Þurs (n, kk) A.   Tröll; óvættur. B. Líking; óheflaður/ótótlegur/illa tilhafður maður. „Þú ert eins og þurs“.

Þursaberg (n, hk)  Urð/skriða grjóthnullunga úr óslípuðu brotabergi, án fínna fyllingarefnis og því oft erfið og hættuleg yfirferðar.

Þursabit (n, kk)  Tak; slæmur bakverkur; vont giktarkast í baki.  „Ég fékk svo ofboðslegt þursabit að ég gat ekki rétt úr mér allan daginn“.

Þursaháttur (n, kk)  Þjösnaskapur; óhefluð framkoma.  „Svona þursaháttur er engum til framdráttar“.

Þursalegur (l)  Eins og þurs í háttum; heimskulegur; ruddalegur.

Þursaskegg (n, kk)  Í huga og munni Kollsvíkinga og annarra Útvíknamanna er þursaskegg sjávargróður sem oft kemur í net og rekur á fjörur (A).  Einnig nefna þeir þursaskegg þræði þá sem kræklingurinn notar til festingar (B).  En samkvæmt skilgreiningu plöntufræðinga og sumra annarra er þursaskegg starartegund sem vex á þurru landi (C).  Að sjálfsögðu hafa Kollsvíkingar rétt fyrir sér í þessu sem öðru, en fyrir kurteisissakir verður beggja skýringa getið hér. 
A.  Demestica aculeata.  Kerlingarhár; öðru nafni þursaskegg eða þursi.  Brúnþörungur; oft 30-70 cm að hæð en getur orðið allt að 2 m.  Festir sig við klappir og steina með öflugri festiflögu og uppaf henni er sívalur stilkur.  Uppaf stilknum greinist plantan á óreglulegan hátt, og eru greinarnar stinnar, grannar og flatvaxnar.  Snemma á vorin myndast ljósbrúnir, fíngerðir og greinóttir hárskúfar á greinunum sem detta aftur af í byrun sumars.  Kerlingahár/þursaskegg er dökkbrúnt á litinn og getur orðið rauðbrúnt á haustin.  Fullsprottið í byrjun sumars, en á haustin slitna greinarnar af svo eftir stendur stilkurinn.  Algengt allt í kringum landið, frá neðri fjörumörkum niður á 20-30 metra dýpi.  Getur lifað í 3-4 ár.  Festir sig á steina, þaraleggi o.fl; rekur iðulega á fjörur og kemur sem skítur í net.   „Þetta þangkyn má brúkast eins og marþráður og þar að auki gjöra nokkrir af því viskur að sópa með borð“  (BH; Grasnytjar).  Norðmenn nefna þörunginn „rosstagl“ eða hrossatagl.
B.  Brúskur kviðmegin á kræklingsskel; brúnir festiþræðir sem skelfiskurinn notar til festingar.
C.  Kobresia myosuroides.  Fjölær jurt af stararætt.  Vex á þurrum stöðum, þúfnatoppum, börðum, brekkum og þúfum; frá láglendi upp á fjöll.  Stráin eru í þéttum toppum með þéttstæðum ljósbrúnum 3cm löngum slíðrum neðst.  Blómin nakin í 1,5-2cm löngu axi á stráendanum.  Aldinið er ljósbrúnt, gljándi með stuttri trjónu.  Blöðin þráðmjó; sívöl utan en grópuð.  Vex um allt land; m.a. í Kollsvík.

Þursaskítur (n, kk)  Niðrandi heiti á þursaskeggi, en það þykir hvimleitt þegar mikið af því rekur í net.  „Þar sem netin höfðu lent á sandbletti voru þau upprúlluð að þursaskít og öðrum óþverra“.

Þursi (n, kk)  A.  Jötunn; tröll.  B.  Þursaskegg.  „Fjári er mikið af þursa í netunum núna“!  C.  Þurs; ruddi; rustalegur maður.  „En þursinn heimskur þegja hlýtur/ sem þrjóskast við að læra“. (HP; Heilræðavísur).

Þus (n, hk)  Blaður; fjargviðri; skammir; aðfinnslur.  „Hann sagðist lítið hlusta á þusið í nágrannanum“.

Þusa (s)  Masa; fjargviðrast; skammast.  „Það þýðir ekkert að þusa um þetta; öllum geta orðið á mistök“!

Þú lýgur eins og þú ert langur til (orðtak)  Þú lýgur þessu öllu; þetta er helber lygi. Sjá ljúga eins og (einhver) er langur til.

Þú mátt hengja þig uppá það (orðatiltæki)  Þú getur treyst því; það er öruggt; það máttu bóka.

Þú nýtur þess guð að ég næ ekki til þín (orðatiltæki)  Stundum viðhaft þegar manni finnst allt andsnúið sem við er að fást, og kennir þeim um sem öllu stýrir.  Tilvitnun í þjóðsögu um kerlingu í koti sem fékk ofaní þegar hæst stóð heyskapurinn.

Þúa (s)  Nota ávarpsorðið „þú“ sem annarrarpersónufornafn, en ekki „þér“.  Sjá þéringar.

Þúfa (n, kvk)  Gróin upphækkun í votlendismóa/mýrlendi, sem orðið hefur til vegna frostlyftingar í jarðvegi.  Fyrrum þótti bændum ágætt að tún væru þýfð, þar sem meira yfirborð gaf meiri hey, auk þess sem þægilegt var að klína skít á þúfnakollana til áburðar.  Eftir tilkomu véla til sláttar var þúfum sagt stríð á hendur, enda illa hægt að slá þýfð tún með greiðusláttuvél.  Mýrlendi í Kollsvík er mjög þýft að eðlisfari, þó mikið af því hafi verið ræst fram og sléttað.

Þúfnakraðak / Þúfnakargi (n, kk)  Mjög þýft landslag.  „Það er vonlaust að slá þetta þúfnakraðak með vél“.

Þúfnakollur (n, kk)  Efri hlutinn á þúfu.  „Gamla túnið sléttuðu bræðurnir með því að skera ofan af þúfnakollunum og fylla í skvompurnar“.

Þúfnasléttun (n, kvk)  Það að slétta þýft land.  Fyrstu túnin voru sléttuð með handverkfærum.

Þúfnavag (n, hk)  Sérstakt göngulag sem hendaði ágætlega við göngu í þýfðu landi og stórgrýttu.  Bandaríkjamenn gengu þannig þeir lentu á tunglinu, en Kollsvíkingar hafa notað þessa aðferð all lengi.

Þúfótt /  Þýft (l)  Landslag með miklu af þúfum.  Báðar orðmyndir heyrðust notaðar í Kollsvík.

Þúfusteinbrjótur  Saxifraga caespitosa.  Algeng jurt af steinbrjótsætt; finnst m.a. víða í Kollsvík; vex á melum, í giljum, skriðum og fjalllendi.  Fjölær lágvaxin jurt með þéttar stofnlægar blaðhvirfingar.  Blómin eru fimmdeild; 8-12 mm í þvermál; krónublöðin hvít eða rjómagul.  Laufblöðin er 3-sepótt að framanog blaðsprotarnir mynda oft þéttar smáþúfur.

Þúfutittlingur (n, kk)  Anthus pratensis.  Grátittlingur; lítill spörfugl af erluætt.  Algengur farfugl um allt land, m.a. í Kollsvík.  Brúngulur; um 15 cm að lengd; 25-25 grömm og vænghaf 22-25 cm.  Verpur 5-6 eggjum í holum, urðum eða glufum, í vandaða hreiðurkörfu; oft tvisvar á sumri.

Þúst (n, kvk)  Þúfa; upphækkun; ójafna. 

Þústa (n, kvk)  Þúst; stór þúfa; lítil hæð.  „Mér sýndist tófan leggjast niður á bakvið þústina þarna“.

Þústna (s)  Um samkomulag/sambúð; versna.  „Eitthvað er nú farið að þústna samkomulagið milli bæjanna“.

Þústa/þústna að (orðtak)  Harðna á dalnum; þrengja í bú; knífa að.  „Það er gott að eiga fyrningar þegar þústnar að“.

Þúsundþjalasmiður (n, kk)  Sá sem þykir einstaklega handlaginn; sá sem þykir mjög útsjónasamur, listrænn og fær í öllu handverki.

Þvaðra (s)  Blaðra; bulla; segja vitleysu.  „Um hvað var hann eiginlega að þvaðra“?

Þvaður (n, hk)  Blaður; bull; kjaftæði.  „Óttalegt þvaður er oft í þessum þingmönnum“.

Þvag (n, hk)  Hland.  „Kasta þvagi“ merkir að pissa.

Þvaga (n, kvk)  A.  Óreglulegur þéttur hópur; öngþveiti; mergð.  B.  Eldra heiti á gólftusku/þvegli; því sem þvegið er með.

Þvagl og stagl (orðtak)  Bull; þvæla; rugl; blaður.  „Hann sagði mest lítið af viti; mestmegnis þvagl og stagl“!

Þvagteppa (n, kvk)  Eldra heiti á því sem nú er nefnt þvagfærasýking.

Þvagla (s)  Þvæla; stagla; bulla; þvaðra.  „Hann var að þvagla með hinar ótrúlegustu afsakanir“!

Þvali (n, kk)  Raki, einkum á yfirborði.  „Einhver þvali er enn á jörðu“.

Þvalur (l)  Rakur; lítillega blautur.  „Það er dálítið þvalt ennþá á jörðu“.  „Þú ert þvalur í lófunum“.

Þvara (n, kvk)  Sleif; spaði til að hræra með. 

Þvarg (n, hk)  Þras; rifrildi; hávaði.  „Fundurinn leystist upp í óstjórn og þvarg“.

Þvarga / Þvargast (s)  Jagast; rífast; þrasa.  „Hættið nú að þvarga um þetta; það var engum að kenna að lúðan slapp“!  „Ég nenni nú ekki að þvargast lengur í þessu“.

Þvegin fjara (orðtak)  Enginn þari til fjörubeitar.  „Það er gjörsamlega þvegin fjaran eftir brimið í gær“.

Þveginn og kembdur (orðtak)  Þveginn og greiddur.  „Ég ætlaði ekki að þekkja hann; svona þveginn og kembdan“!

Þvengja (s)  Sauma/festa þveng í skó.  „Tvær gerðir voru af roðskóm.  Á annarri voru þeir saumaðir saman í tá og hæl, en á hinni var aðeins saumur á tánni, en þvengjað í hæl, og var það algengara“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild GG o.fl.). 

Þvengjalengja (n, kvk)  Áberandi há og horuð manneskja; það sem er mjög langt og mjótt.  „Óttaleg þvengjalengja ertu orðin stelpa!  Þú þarft að fara að fá eitthvað utaná beinin“.

Þvengjanál (n, kvk)  Nál til að varpa með skinnskó og roðskó (sjá þar).

Þvengjaskinn (n, hk)  Gæra /skinn sem notað er í þvengi/ólar; sjá gæra.

Þvengmjór (l)  Mjög grannur; mjósleginn.  „Sumir strákarnir voru svo þvengmjóir að þeir gátu skriðið gegnum örþröngt opið í jötuendanum“.

Þvengur (n, kk)  Ól; skinnþráður.  Áður en bönd úr hampi og gerviefnum urðu algeng gengdu þvengir mikilvægu hlutverki.  T.d. voru þeir notaðir sem skóreimar. „Gærurnar voru rakaðar, fljótlega eftir að fénu hafði verið lógað.  Stundum voru þær rakaðar samdægurs að kvöldi, eftir að slátrun var lokið.  Í Búalögum er það talið meðalmannsverkslátra 10 sauðum og raka gærurnar að kvöldi.  Notaður var flugbeittur hnífur úr ljáblaði til að raka gæruna.  Margir gerðu það á beru hnénu.  Sagt var að fljótustu menn væru stundarfjórðung að raka eina gæru.  Stundum var flegið þannig að skinnið var látið halda sér sem heill belgur að sem mestu leyti.  Þegar búið var að raka voru belgirnir fylltir með heyi og hengdir upp í eldhúsi.  Þar voru þeir látnir hanga og þorna.  Síðan voru þeir teknir niður og eltir.  Þegar þurrkað skinn var elt var það núið og hreyft milli handa sér eða undir fótunum.  Þá komu fljótlega brot í það þar sem skinnið var að verða mjúkt.  Þá var haldið áfram að núa, böggla, snúa, vinda og teygja skinnið, þangað til hvergi var orðinn eftir harður blettur og allt skinnið var orðið lungamjúkt.  Það hét eltiskinnSkinnbelgir voru notaðir mikið undir mat; bæði kæfu, smjör, tólg og fleira.  (Einnig í baujur/belgi).  Eltiskinn var haft í karlmannabuxur á 17. og 18. öld.  Það var líka notað í skjóður og í skinnþvengi í skó og bryddingar á skó.  Annars voru skinn af sauðkindum, sauðskinn, notuð í skó eins og þau komu fyrir, en sauðskinnsskór voru mikið notaðir áður fyrr og langt fram á 20. öld.  Annars var skinn til skógerðar, sem hét skæðaskinn, oft blásteinslitað á síðustu áratugum, en til þess var notaður blásteinn (koparsúlfat) uppleystur í vatni.  Sjóklæðnaður var allur úr sauðskinni áður fyrr (sjá skinnklæði).  Skinn í sjóklæði og annan skinn fatnað voru verkuð með því að bera í þau lýsi, hangikjötsflot eða kúarjóma meðan verið var að elta þau.  Lykt var af lýsisbornu skinnunum, en ekki af þeim sem flotið og rjóminn var borið í.  Þvengjaskinn var búið til úr þunnum skinnum; yfirleitt lélugustu bjórunum.  Þvengjaskinnið var stundum rakað en oftar var ullin rotuð af því  með því að láta það liggja í hlýju í nokkra daga.  Þá losnaði ullin af því og engin hnífsför komu í það, eins og stundum gerðist við raksturinn.  Þvengjaskinnið var alltaf strekkt á sléttum fleti og neglt niður á öllum jöðrum.  Það hét að spýta skinnið.  Þá varð það rennislétt og hart þegar það þornaði og var geymt þannig.  Mjóar ræmur voru ristar af skinninu og þær bleyttar og teygðar.  Þannig voru þvengirnir búnir til. 
Sauðskinnsskór og annar skinnfatnaður var saumaður með togþræði (sjá tóvinna).  Sauðskinnsskórnir vour stundum verptir, en þá var skinnþvengur dreginn kringum allt opið á skónum og dregið saman með þvengnum, sem lá yfir jaðar skóvarpsins milli hverra tveggja gata.  Verptir skór voru með hælþvengjum og ristarböndum.  Oft voru menn á skinnleistum innan í skónum til að verjast bleytu.  Á ferðalögum voru menn stundum í belgjum af veturgömlum kindum; sínum á hvorum fæti, og leðurskór saumaðir neðan á belgina.  Spariskór voru gerðir úr sortulituðu sauðskinni og bryddað kringum opið með hvítum eltiskinnsbryddingum.  Þessir skór voru með hvítum hælþvengjum.  Sauðskinnsskór fóru vel á fæti, en endingin var stutt.  Þeir urðu harðir og flughálir á grasi í þurrkum, og voru þá látnir liggja í bleyti yfir nóttina.  Skóþvengir urðu að vera sterkir, því mikið reyndi á þá þegar fast var spyrnt við fæti. 
Hrútspungar undan fullorðnum hrútum voru oft skornir af þannig að mikið skinn af kviðnum var látið fylgja pungnum.  Pungurinn var síðan rakaður; tekið innan úr honum og hann troðinn út með heyi.  Um leið og troðið var í hann var hann teygður og lagaður til, eins og hann átti að verða.  Síðan var hann þurrkaður, þangað til skinnið var orðið glerhart og glært, en að því búnu eltur vel og lengi, þangað til hann var orðinn mjúkur.  Þá var komin skinnskjóða sem var til margra hluta nytsamleg.  Margir höfðu hann undir neftóbak, og var hann þá brotinn saman í opið og vafinn upp til að loka honum.  Stundum var dreginn þvengur í opið á pungnum og hann notaðu undir peninga og ýmsa smáhluti.  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).

Þver (l)  A.  Sem er þvert yfir.  „Hópurinn hljóp yfir þveran dalinn“.  B.  Öndverður; þversum; einþykkur; þrjóskur.  „Það er erfitt að kenna þér ef þú ert svona þver“.

Þver fyrir (orðtak)  Stífur á móti; leggst gegn.  „Hann er þver fyrir í þessu máli“.

Þver og endilangur (orðtak)  Útum allt.  „Við flengdum um víkina þvera og endilanga án þess að verða varir“.

Þverari en andskotinn (orðtak)  Mjög þrjóskur; framúr hófi þver.  „Það er bara tímasóun að tala um fyrir honum; hann er þverari en andskotinn“.

Þverband (n, hk)  Band í báti; viðarrenningur til styrkingar sem liggur innaná súðinni og þvert á hana.

Þverbiti (n, kk)  Þverslá; biti sem liggur láréttur/þversum, t.d. sem burðarviður í húsi.

Þverbrestur (n, kk)  A.  Sprunga sem liggur þvert í gegnum viðinn.  B.  Líking; galli/rökleysa í málflutningi/félagsskap, veila í manneskju.  „Alltaf virðast einhverjir þverbrestir vera í borgarsamfélögum“.

Þverbrjóta (s)  A.  Brjóta eitthvað þversum.  B.  Brjóta algerlega.  „Hér hafa reglur verið þverbrotnar“!

Þverfingur (n, kk)  Lengdareining; um 17-20 mm; heyrðist eingöngu notað á seinni árum um millibil milli spela í grindum fjárhúsa. 

Þverfirðis (ao)  Þvert yfir fjörð.  „Mun fljótlegra hefur oft verið áður fyrr að komast í kaupstað á Eyrum með því að sigla á báti fyrir Blakk og síðan þverfirðis, í stað þess að fara landleið yfir Háls og fyrir Fjörð“.

Þverfóta (s)  Feta sig út á hlið eftir mjórri syllu í klettum eða eftir tæpri götu í brattri hlíð.

Þverfótarbreiður (l)  Eins og þver fótur að breidd.  „Þarna er fremur tæp hilla í bjarginu, varla meira en þverfótarbreið á kafla.  En bergið er öruggt  og góðar handfestur“.

Þvergarður (n, kk)  A.  Hlaðinn garður sem liggur þvert á aðra garða.  B.  Líking; þverhaus; þvergirðingur.  „Hann getur verið bölvaður þvergarður í svona málum“.

Þvergata (n, kvk)  Gata sem liggur þvert á aðra.

Þvergeil (n, kvk)  Geil, t.d. í heystabba í hlöðu, sem liggur þvert á megingeilina. 

Þvergil (n, hk)  Gil sem gengur þvert á lægð/dal.  Þvergil er örnefni á gili í Vörðubrekku í landi Geitagils.

Þvergirða (s)  Girða þversum/ þvert yfir.  „Ég neyddist til að þvergirða í gjána til að fé færi ekki í svelti“.

Þvergirðingur (n, kk)  A.  Þvermóðskufullur maður; þverhaus.  „Hann hefur þótt óttalegur þvergirðingur í þessum málum“.  B.  Þverhausaháttur; þvergirðingsháttur.  „Með þessum þvergirðingi þokast lítið áleiðis“.

Þvergirðingsháttur  (n, kk)  Þverhausaháttur; þverska.  „Málið komst ekkert áfram vegna þvergirðingsháttar stjórnarandstöðunnar“.

Þvergirðingslegur (l)  Eins og þvergirðingur.  „Vertu nú ekki svona skratti þvegirðingslegur.  Það sakar ekki að lána honum bílinn í dagstund“.

Þvergirt fyrir (orðtak)  Kom ekki til greina/mála; ófær leið; synjað fyrir.  „Er alveg þvergirt fyrir að þú getir komið svona einföldum hlut inn í þinn þykka haus“?!

Þverhandarbreidd (n, kvk)  Lengdarmál; jafn breitt og þver hönd með fingur saman; 10-12 cm.  „Um þverhandarbreið rifa var höfð milli stafs og hurðar“.

Þverhandarbreiður / Þverhandarþykkur (l)  Þverhönd að breidd/þykkt.  „Stallurinn er varla meira en þverhandarbreiður“.

Þverhandarvíður (l)  Sem þverhönd á vídd.  „Hákarlasókn var um þverhönd að vídd, við agnhaldið“.

Þverhandarþykkt (n, kvk)  Jafn þykkt og mannshönd er breið; þverhandarbreidd að þykkt.

Þverhaus (n, kk)  Þvergirðingur; niðrandi heiti annarra á þeim sem stendur fast á sínum skoðunum.  „Mér er slétt sama um að vera kallaður þverhaus; ég samþykki bara ekki hvaða staðleysu sem er“!

Þverhausaháttur (n, kk)  Þverska; þumbaraháttur.  „Svona þverhausaháttur kemur þér bara í vandræði“.  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Þverhausast (s)  Þverskallast; sýna þvermóðsku/þvergirðingshátt; vera þver/þrákelkinn/stífur.  „Hann ætlar enn að þverhausast í þessu máli“!

Þverhnípi (n, hk)  Standberg; lóðrétt bjarg, án verulegra ganga/hillna.  „Þarna er þverhnípi af brún í fjöru“.

Þverhníptur (l)  Um bjarg/berg/klett; nánast lóðréttur og án mikilla stalla.  „Heitir þar Strengberg, enda eru Hnífarnir þar þverhníptir af brún í sjó“  (HÖ; Fjaran).  

Þverhnútur (n, kk)  Réttur hnútur.  Getur merkt einfaldan hnút á einum legg eða tvöfalt rétt bragð þegar tveir endar eru hnýttir saman.

Þverhnýta (s)  Hnýta þverhnút.  „Ég þverhnýtti teinana saman, til bráðabirgða“.

Þverhönd (n, kvk)  Gróf mælieining; þvermál mannshandar.  U.þ.b. 10-12 cm.

Þverkálfur (n, kk)  Þverhaus; þvergirðingur; þrákálfur.  Kálfar eru oft tregir í taumi.

Þverkrækja (s)  Um fiskveiðar; þverhúkka fisk á færi.  „Þarna tókst mér að þverkrækja þaraþyrskling“!

Þverkræktur (l)  Þverhúkkaður; kræktur í bol en ekki kjaft. 

Þverkubbast (s)  Brotna þversum.  „Snjóþunginn var svo mikill að sperrurnar þverkubbuðust í sundur“.

Þverlundaður (l)  Með aðrar skoðanir en aðrir; óþjáll í samskiptum.

Þvermál (n, hk)  Lengd þvert yfir.

Þvermið (n, hk)  Mið sem er þvert á aðalmið, en í skurðpunkti þessara hugsuðu lína er mið; fiskimið.

Þvermóðska (n, kvk)  Andstaða/andóf við því sem aðrir ætlast til.  „Vertu nú ekki með þessa þvermóðsku drengur;  þú ferð í sparifötin ef þú ætlar á samkomuna“!

Þvermóðskufullur (l)  Þvergirðingslegur; þver; andsnúinn; situr fast við sinn keip

Þvermóðskulega (ao)  Með þvermósku; þrákelknislega.

Þverneita (s)  Neita alfarið; viðurkenna alls ekki.  „Hann þverneitaði að hafa stolið vasahnífnum“.

Þverpoki (n, kk)  Poki sem lagður er þvert yfir hestbak til flutninga.  Eingöngu notað núorðið í orðtakinu að reiða ekki vitið í þverpokum; sjá þar.

Þverpóstur (n, kk)  þverslá í glugga; láréttur gluggapóstur.

Þverra (s)  Ganga til þurrðar; minnka.  „Heldur þverr úthaldið með aldrinum“.  „Vatnið þvarr úr brunninum“.

Þverreisa (s)  Reisa siglu og draga upp þversegl á báti.  „Það var ekkert annað en fara að ausa upp á kraft og leggja upp árar og þverreisa sem kallað var, en það var að reisa mastrið og draga upp þversegl sem var í þá daga í flestum bátum í Kollsvík“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).

Þverrifa (orðtak)  Gæluorð yfir munn.  „Ég held að þessi fýr ætti nú bara að loka á sér þverrifunni“!

Þvers (ao)  Þversum; þvert yfir.  „Það passar að saga fjölina þvers, nálægt miðju“.

Þvers og kruss (orðtak)  Í allar áttir; útum allt.  „Við sigldum þvers og kruss um svæðið en baujan fannst ekki“.  „Sunnanvert í holtinu milli Breiðalækjar og Steingrímslækjar eru áberandi grjótgarðar þvers og kruss“  (HÖ; Fjaran). 

Þvers yfir (orðtak)  Þvert yfir; þversum.  „Við lögðum slá þvers yfir bátinn og settum sig í hana báðumegin“.

Þversagnakennt (l)  Sem stangast á.  „Heldur fannst mér frásögnin af þessu þversagnakennd“.

Þversegl (n, hk)  Segl sem er hérumbil þversum á bátlengdina, en þó hægt að hagræða því til beggja handa.  „Það var ekkert annað en fara að ausa upp á kraft og leggja upp árar og þverreisa sem kallað var, en það var að reisa mastrið og draga upp þversegl sem var í þá daga í flestum bátum í Kollsvík“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). (Sjá sigling, segl og sprytsegl).  Þversegl var á skipum landnámsmanna og um allar miðaldir.  Það var ekki fyrr en á 18.öld að annar seglabúnaður ruddi sér verulega til rúms.

Þverska (n, kvk) Þverhausaháttur; þumbaraháttur; mótþrói.  „Árans þverskan í karlinum; hann neitar að koma“.

Þverskallast við (orðtak)  Neita að hlýða beiðni/fyrirmælum; gera öfugt við það sem ætlast er til; móast/þráast við; standa fast á sínu.  „Það þýðir víst ekkert að þverskallast við því sem yfirvaldið býður“.

Þverskast (s)  Þráast; sýna mótþróa; vera mjög stífur á meiningunni.  „Mér þýddi ekkert að þverskast lengur eftir að meirihluti varð ljós fyrir þessu“.

Þverskerasög / Þverskeri (n, kk)  Sög sem hentar til að saga við þversum á æðar/ saga boli þvert yfir.  Þverskeri er með tönnum þvert útúr blaðinu; sem mikið er lagt til hliða og skerptar báðumegin í eggina.  Þær eru misjafnlega þétttenntar/gistenntar/grófar, og henta því misjafnlega á einstakar efnisgerðir og -þykktir. 

Þverskips (ao)  Þversum yfir skip/bát.  „Hnísan var greidd úr netunum og henni komið fyrir þverskips“.

Þverskorinn (l)  Skorinn þversum.  „Alltaf er nú gott að fá þverskorinn bútung“!

Þverskublaður / Þverskuhjal / Þverskukjaftæði / Þverskuraus (n, hk)  Tal sem þykir lýsa þversku/þvergirðingshætti/þvermóðsku/einþykkju/sérvisku.  „ég nenni ekki lengur að hlusta á þverskuhjalið í honum“!  „Þetta er ekkert nema þverskukjaftæði í þér; reyndu nú að taka einhverjum sönsum“!

Þverskufullur / Þverskur (l)  Þvermóðskufullur; þráast við; situr við sinn keip; ekki tilbúinn að samþykkja skoðanir/vilja annarra átakalaust.  „Helvíti geturðu nú alltaf verið þverskur!  Sérðu ekki að það er bæði styttra og auðveldara að fara hina leiðina“?!

Þverskuhaus (n, kk)  Þverhaus; þvergirðingur; mjög þrjóskur/þver maður.  „Ég reyni ekki lengur að þrasa við þann þverskuhaus“!

Þverskurður / Þversnið (n, kk)  Snið tekið þvert yfir.

Þverslá (n, kvk)  Þverbiti; slá/biti sem liggur þversum/lárétt í t.d. grind/gólfi/lofti húsbyggingar.

Þverstykkja (l)  Hluta í sundur á þverveginn.  „Alltaf finnst mér nýr fiskur bestur þverstykkjaður í pottinn“.

Þverstöðuhverfill (n, kk)  Nýyrði, smíðað af Valdimar Össurarsyni frá Láganúpi um þá grein orkutækni sem uppfinning hans heyrir til; hverfill sem hefur meginás þvert á straumstefnu og stór blöð sem nýta straumþungann til orkuvinnslu.  Sjávarorkutækni er ný tæknigrein á Íslandi og því vantar mörg nýyrði.

Þversum / Þvertum (ao)  A.  Þvert yfir; hornrétt.  Þvertum var oftar notað áður, en heyrist sjaldnar nú.  „Kassinn með dráttarvélinni var það langur að hafa var hann þversum yfir bátinn“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  B.  Þrjóskur/stífur í skoðunum/afstöðu.  „Hann er ekki alltaf sammála öðrum í stjórninni og getur verið afskaplega þversum“.  „Það voru tvö rúm á loftinu þvertum, og þil á milli rúmanna“  (Sturla Einarsson; um snjóflóðið í Kollsvík  3.des. 1857).

Þversögn (n, kvk)  Þverstæða; mótsögn; fullyrðing sem stenst illa í öðru tilliti.  „Í þessu felst þversögn“.

Þvert á (orðtak)  A.  Þversum; hornrétt á.  „Vindurinn stóð þvert á garðinn og tætti úr heyinu“.  B.  Öfugt við.  „Þeir ætla að hækka skattinn árans þrælbeinin; þvert á kosningaloforðin“.

Þvert á móti (orðtak)  Alveg í hina áttina; alveg andstætt.  „Þetta þótti honum ekki leiðinlegt; þvert á móti naut hann þess greinilega af öllu hjarta“.

Þvert með (orðtak)  Þvert á/yfir.  „Þessi kraftur fór þvert með vindátt.  Það sást á brakinu úr húsunun, sem hafði fokið allt að 200 faðma frá bænum“  (Sturla Einarsson; um snjóflóðið í Kollsvík  3.des. 1857).

Þvert ofaní (orðtak)  Algerlega gegn.  „Hann byrjaði strax að vinna; þvert ofaní ráðleggingar lækna“.

Þvert tekið (orðtak)  Neitað.  „Ég bauð honum fylgd en því boði var þvert tekið“.

Þvert nei (orðtak)  Alger neitun/synjun.  „Ég fékk bara þvert nei þegar ég bað hann leyfis“.

Þvert um geð (orðtak)  Á móti skapi.  „Ég féllst á þetta, þó mér væri það eiginlega þvert um geð“.

Þvertaka fyrir (orðtak)  Synja/neita algerlega; gefa engan kost á.  „Hann þvertók fyrir að hann ætti kindina“.

Þvertré (n, hk)  A.  Slá sem liggur þvert á aðrar.  „Þvertréð er ofarlega á krossinum, og þar á kristlíkneski“.  B.  Þverbiti; þverslá; máttarviður sem liggur lárétt í t.d. húsbyggingu. C.  Þvert á æðar/trefjar í viði. „Það getur verið erfitt að skera þvertré með bitlitlum hníf“.

Þvertum (ao)  Þversum.  „Það voru tvö rúm á loftinu; þvertum, og hátt þil á milli rúmanna“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Þverúð (n, kvk)  Þvermóðska; þverska; mótþrói.  „Bölvuð þverúð er þetta í karlinum“!

Þverveggur (n, kk)  Veggur sem liggur þversum í byggingu.

Þveröfugt (l)  Alveg á hinn veginn; öndvert við.  „Hann er vís til að gera þveröfugt við það sem honum er sagt“!

Þvesti (n, hk)  Magurt hvalkjöt; ketið innst af hval, innanvið húð, spik, undanfláttu og rengi.

Þvinga (n, kvk)  Áhald til að klemma/þvinga hluti saman; klemma. 

Þvinga (s)  Neyða; knýja; þjarma.  „Ég læt engan þvinga mig til að skipta um skoðun í þessu efni“!

Þvinga um (orðtak)  Legga að einhverjum að gera eitthvað; pína til; heimta af.  „Ég er hræddur um að fljótlega þurfi ég að þvinga þig um svör“.  Ég vil ekki vera að þvinga hann um bókina meðan hún er ólesin“.

Þvingun (n, kvk)  Nauðung.  „Mér fannst dálítil þvingun að þessari árans slaufu“.

Því? (fn)  Hví?; hversvegna.  „Því skyldi hundurinn vera að gelta“?  „Því ertu nú að þessu veseni“?  Mikið notað af eldri kynslóð Kollsvíkinga á síðari hluta 20. aldar.

Því (fn)  Þeim mun; sem því munar.  „…allir munu geta haldið skepnum sínum í sæmilegu standi, verði tíð ekki því lakari“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Því er (nú) (fjandans) verr og miður / Því miður / Því er (nú) verr (orðtök)  Það er ekki svo gott; mér þykir fyrir því en… „Ég knúði þar nú dyra og komst þar óðar inn,/ erindi mitt faktornum ég sagði./  „Því er nú verr og miður, ég verð ei bóndi þinn“./  „Hvað veldur því“? ég segi nú að bragði“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   „Ég er alveg búinn að steingleyma þessari sögu; því er nú fjandans verr og miður“.

Því fyrr því betra (orðtak)  Betra eftir því sem fyrr er.  „Komdu þegar þú getur; því fyrr því betra“.

Því marki brenndur (orðtak)  Hefur þann ágalla/ósið.  „Hann var manna duglegastur við vinnu, en var þó því marki brenndur að geta ómögulega vaknað á sama tíma og aðrir“.  Vísar til brennimerkinga á reka eða fé.

Því máttu trúa (orðatiltæki)  Það er satt; þú þarft ekki að efast um það.  „Hafi hann sagt þetta þá stendur hann við það; því máttu trúa“!

Því sem næst (orðtak)  Hér um bil; nærri því; má heita; nærri lagi.  „Plógurinn gróf sig því sem næst á kaf í botninn“.

Því/þaðanaf síður (orðtak)  Enn síður.  „Maður var svo fárveikur að maður reisti varla haus frá kodda, og því síður að maður kæmist til gegninga“.

Því um líkt (orðtak)  Svoleiðis; þannig.  „Þarna var nóg af þaraþyrsklingi, ufsatittum, marhnút og því um líku; en ekkert af góðum fiski“.

Því verður ekki í móti mælt (orðtak)  Ekki er hægt að mótmæla því; það eru sannindi. 

Því verr duga/gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman (orðatiltæki)  Speki sem, samkvæmt Laxdælu, er sögð af Ólafi Höskuldssyni sem var ekki sammála meirihluta skipshafnar.  Hann mælti þetta við Örn stýrimann, og e.t.v. er það meira en tilviljun að stýrimaður Kolls hét sama nafni samkvæmt munnmælum um Arnarboða.  Töluvert var gripið til þessara gömlu sanninda í Kollsvík; enda alltaf í fullu gildi.  Það er með mestu ólíkindum hvílík vitleysa getur orðið til þegar margt annars skynsamt fólk kemur saman; byrjar að setja saman lausn/niðurstöðu sem hefur einhvern meingalla; vindur sífellt uppá vitleysuna án þess að nokkur finni að; og endar með fáránlegheitum.

Þvílík verkun! (orðtak)  Upphrópun þess sem ofbýður umgengni/viðskilnaður/útgangur. 

Þvílíkur (l)  Slíkur; viðlíka; álíka.  „Þvílíkur andskotans aulaháttur er þetta“!  Ég hef nú bara aldrei séð slíkt og þvílíkt á minni lífsfæddri ævi“!  „Þessi vetur var með afbrigðum góður, svo elstu menn muna vart annan þvílíkan“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Þvínær (ao)  Nærri því.  „Þegar plógurinn kom til botns og farið var að draga hann gróf hann sig strax þvínær á kaf í sand...“   (KJK; Kollsvíkurver).

Þvísemnæst (ao)  Mjög nærri því; hérumbil.  „Tunnan er þvísemnæst full“. Snjór er alveg horfinn, eða þvísemnæst“.  Notkun og áherslur þessa samsetta orðs eu með þeim hætti að á það verður að líta sem eitt orð, líkt og t.d. „þvílíkur“; „þvínær“ o.fl. slík

Þvíumlíkt (l)  Slíkt; þvílíkt.  „Þetta eru meiri stillurnar dag eftir dag; ég man bara ekki neitt þvíumlíkt“.

Þvo (s)  Þrífa uppúr vatni.  „Þvoðirðu þér örugglega bakvið eyrun“?

Þvo hendur sínar af (einhverju) (orðtak)  Hreinsa sig af einhverju málefni; fría sig af afskiptum.  Vísar til frásagnar biblíunnar af því að Pontíus Pílatus þvoði hendur sínar og sagðist „sýkn af blóði“ Jesú krists.

Þvo innanúr (orðtak)  Þvo innmat úr skepnu; t.d. vambir. 

Þvo sér í framan (orðtak)  Þvo andlit sitt.

Þvo sér um hendur (orðtak)  Þvo hendur sínar.

Þvo upp (orðtak)  Þvo leirtau/matarílát. 

Þvo/skola úr (orðtak)  Skola; þvo.  „Það veitti ekki af að skola aðeins úr húfunni minni“.        

Þvogl (n, hk)  Ógreinilegt tal; þvaður.

Þvogla (s)  Tala ógreinilega/bælt; þvaðra.  „Ég heyri ekkrt hvað þú ert að þvogla; talaðu skýrar“!

Þvoglumæltur (l)  Óskýr í tali; drafandi.

Þvottabali (n, kk)  Stórt ílát sem tau, ull, fólk og fleira var þvegið í fyrrum.  „Allt hafði verið undirbúið undir komu skipbrotsmannanna; þeir voru settir í heitt vað í stórum þvottabala, því ekki voru baðker almennt á bæjum í þá daga“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Þvottabretti (n, hk)  Flatt áhald til að þvo föt, meðan þvegið var í höndum.  Brettinu var stungið hallandi ofaní þvottabalann og þvottinum nuddað við rifflur þess, til að ná óhreinindum úr.  „Allan þvott þurfti að þvo á bretti; bera svo í körfu út í brunnhús og skola hann þar og vinda í höndum“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Auðvitað þurfti að þvo þvottinn á bretti inni í eldhúsi, og sjóða hvíta tauið á eldavélinni.  Skola svo þvottinn úti í læk, og gat það verið kaldsamt á vetrum“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Þvottahjallur (n, kk)  Hjallur þar sem þvottur er hengdur upp til þerris.  Þvottahjallar voru nánast á hverjum bæ fyrir daga rafmagnsþurrkara.  Auk þvotta var þar hengdur upp fiskur og gráspeppa.

Þvottakeppur (n, kk)  Klappa; áhald til þvotta, einkum til að þvo sokka.  Tréspaði með handfangi í enda.

Þvottapottur (n, kk)  Stór pottur til þvotta á fötum, ull o.fl.  „Þegar búið var að byggja verkfærahúsið fór ég með pabba að sækja þvottapott sem hann fékk hjá Manga og Guðnýju á Hlaðseyri.  Pottinum var komið fyrir í þvottahúsinu og hjá honum var kolabingur.  Kol og eldiviður var sett í eldhólfið og hitað vatn sem borið var innanúr bæ.  Potturinn nýttist á haustin til suðu á sláturmat sem síðan fór í súr, og til fataþvotta, en einnig var hitað í honum baðvatn fyrir heimilisfólkið.  Því var hellt yfir í steypta þró í hinu horni þvottahússins.  Þó þetta væri mikil framför frá hinum hefðbundna þvotti úr vaskafati, þá var óneitanlega kalsamt stundum að koma uppúr baðinu á frostköldum vetrardegi, og mikilvægt að þurrka sig fljótt og hlaupa inn í bæ“ (VÖ).

Þvottar  „Allan þvott þurfti að þvo á bretti og bera svo í körfu út í brunnhús og skola hann þar og vinda í höndunum.  Má nærri geta að það var ekki svo lítið verk á svo fjölmennu heimili“  (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG)

Þvottatuska / Þvottaklútur (n, kvk)  Mjaltaklútur; klútur sem notaður er til að þvo júgur kúa fyrir mjaltir.  Mikilvægt er að vanda júgurþvott, bæði vegna hreinlætis og til að kýrnar selji betur; þ.e. séu lausmilkari

Þvottavinda (n, kvk) Tæki til að ná mestu bleytunni úr þvotti.  „Handsnúnar þvottavindur voru á hverjum bæ áður en þeytivindur þvottavéla komu til sögunnar.  Á Láganúpi var ein slík, og var henni fest á þvertré við símastaur á hlaðinu.  Oft vorum við strákarnir fengnir til að fara út með þvottinn.  Annar renndi þá hverju stykkinu eftir annað í gegnum vinduna meðan hinn sneri.  Þurfti að gæta sín að puttar lentu ekki á milli valsanna; það var vont.  Síðan var þvotturinn hengdur út í hjall eða á útisnúrur“ (VÖ).

Þvottur (n, kk)  A.  Það að þvo/lauga.  „Þvottur uppá gamla mátann var oft argasta púlvinna“.  B.  Það sem þvegið er.  „Viltu fara og hengja þvottinn út á snúru“?

Þvæla (n, kvk)  Bull; kjaftæði; staðlausir stafir.  „Ég hef sjaldan heyrt álíka andskotans þvælu“!

Þvæla (s)  A.  Þvo óhreinindi úr, með því að gutla ull/efni fram og tilbaka í vatni/sjó/keytu.  „Á þessum böndum var pokanum þvælt sitt á hvað í sjónum, til þess að skola burt leir og sand.  Að því búnu var pokanum lyft og steypt úr honum skelinni inn í bátinn“  (KJK; Kollsvíkurver).   „Þá var ullin sett í pottinn og þvæld í nokkurn tíma; síðan tekin upp í körfu og skoluð vel í læknum“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).   B.  Bulla; rugla.  „Hann var að þvæla um eitthvað sem ekkert kom málinu við“.

Þvælast (s)  Flækjast; ráfa.  „Þarna sigu þeir Aðalsteinn í Breiðuvík og Júlíus á Grundum niður fyrir miðja kletta; að ná í lamb sem þvælst hafði þarna niður“  (IG; Sagt til vegar I).  

Þvælast fyrir (orðtak)  Vera í vegi einhvers.

Þvældur (l)  Sjúskaður; þreyttur; útkeyrður.  „Bretarnir voru kaldir, hraktir, þvældir og sumir mjög blautir...“  Frásögn ÁH   (ÓS; Útkall við Látrabjarg).

Þvæli (n, hk)  A.  Keyta sem ull er þvegin úr.  B.  Ull sem þvegin er úr keitu.

Þvælið (l)  Erfitt; kostar umstang; flókið.  „Það gæti orðið dálítið þvælið að eiga við þetta“.

Þvælingur (n, kk)  Flakk; flækingur.  „Það er töluverður þvælingur á fénu að reka það þessa leið“.

Þvælinn (l)  Flókinn; erfiður viðfangs.  „Svona stærðfræði fannst mér alltaf ansi þvælin“.

Þvælukjaftæði (n, hk)  Algert bull; endaleysa.  „Þvílíkt þvælukjaftæði hef ég sjaldan heyrt“!

Þvættingur (n, kk)  Bull; þvæla; rugl.  „Þetta er bara algjör þvættingur“!

Þybbast við (orðtak)  Þrjóskast við; andmæla; standa í móti. 

Þybbinn (l)  Þéttholda; feitlaginn.  „Maður er að verða alltof þybbinn“.

Þyngra/þungbærara/sorglegra en tárum taki (orðtak)  Sorglegra en orð fá lýst; mjög þungbært.  „Mér fellur það þyngra en tárum taki að flokkstjórnin skuli hafa tekið þessa ákvörðun“!

Þykir ekki góð latína (orðtak)  Telst ekki vera til fyrirmyndar; er ekki vinsælt.  „Hann fór að agnúast út í hersetuna, en það þykir ekki góð latína á þessum bæ“.  Komið frá þeim tíma að latína var kennd í æðri skólum hérlendis, en misjafnt var hve menn náðu góðum tökum á henni.

Þykir ekki trútt/örgrannt um (orðtak)  Grunur leikur á; líkur benda til.  „Ekki þykir alveg trútt um að þarna hafi nokkuð verið smalað á þessu hausti“.  „Ekki þótti örgrannt um að hann væri öfundaður af þessu“.

Þykir gott (orðtak)  Er talið heppni/velgengni.  „Það þykir gott ef menn ná einhverri tuggu í hús í þessari tíð“.

Þykja (s)  A.  Finnast; álíta.  „Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu“  (PG; Veðmálið).   B.  Fyrtast; þykja miður.  „Hún sagði ekki orð en kunnugir sáu að henni þótti“.

Þykja (margt) að (orðtak)  Finnast rangt/skakkt/óréttlátt við.  „Hvað með það þó ríkisstjórnin falli?  Mér þykir allavegana ekki margt að því“!

Þykja bregða fyrir (orðtak)  Sýnast/ virðast stundum vera.  „Síðar þótti því bregða fyrir, þegar báðir komust á fullorðinsár, að Júlli hefði ekki vaxið uppúr hlutverki uppalandans gagnvart Gumma“  (PG; Veðmálið). 

Þykja ekki eins leitt og lætur (orðtak)  Láta í ljós mikla reiði/eftirsjá/ mikil vonbrigði, án þess að mikið búi að baki.  „Hann skammaði okkur fyrir að hrekkja karlinn, en glöggt mátti greina að honum var ekki eins leitt og hann lét.  Enda gat karlinn sjálfum sér um kennt“.

Þykja ekki með öllu óleitt (orðtak)  Hafa gaman af; skemmta sér við.  „Honum þótti það ekki með öllu óleitt að yfirvaldið gramsaði í fjósum og forarpyttum; hann vissi að bruggtækin væru óhult á sínum stað“.

Þykja fyrir / Þykja miður (orðtak)  Falla þungt; vera hnugginn vegna; þykja slæmt.  „Mér þykir fyrir því ef þetta hefur sært þig, og biðst afsökunar á því“.  „Þetta þótti mér mjög miður“.

Þykja fyrirsögn (orðtak)  Þykja merkilegt; þykja boða feigð.  „Það hefði nú þótt fyrirsögn ef hann afi hefði fengist til að smakka þessa nýmóðins súsírétti; hráan fisk og þang“!  Sjá; segja fyrir.

Þykja gott í staupinu / Þykja góður sopinn / Vera gefinn fyrir sopann (orðtök)  Vera vínhneygður; þykja gott að smakka áfengi.  „Þetta var fínasti karl, en dálítið þótti honum gott í staupinu“.

Þykja gott og vel (orðtak)  Vera sáttur við/ ánægður með.  „Auðvitað þykir honum það gott og vel meðan aðrir greiða þennan kostnað fyrir hann“!

Þykja hart (orðtak)  Finnast illt við að búa; finnast erfitt að taka einhverju.  „Mér þykir það ansi hart ef þeir ætla ekkert að hefla veginn meira á þessu sumri“.

Þykja mergur/slægur/varið í (orðtak)  Vera hrifinn af; meta mikils; álíta innihaldsríkt/eftirsóknarvert.  „Honum þótti ekki mikill mergur í þessum nýmóðins kenningum“.  „Ekki þykir mér mikill slægur í þessum tittum sem hann var að sarga upp“.  „Það er nú ekki mikið varið í svona berrassað kaffi“!

Þykja mikið í munni (orðtak)  Hljóma virðulega/mikilfenglega.  „Nú titlar hann sig hreppsjóra; honum þykir það líklegast meira í munni en að heita bara bóndi“.

Þykja nóg um (orðtak)  Vera nóg boðið; ofbjóða; vilja ekki meira af slíku.  „Mér þótti nóg um þetta þus og bað hann að hafa sig hægan“.

Þykja nóg komið / Þykja nóg um (orðtök)  Vera búinn að fá/sjá/heyra nóg; vera misboðið/ofboðið.  „Þegar prestur hótaði því úr ræðustólnum að helvítisógnir biðu þeirra sem hima sætu, þótti mönnum  nóg um“.

Þykja skömm til koma (orðtak)  „Skammast sín fyrir; vera miður sín yfir.  „Hann stærði sig lítið af þessari smalamennsku; þótti skömm til koma að hafa ekki náð öllu fénu“.

Þykja súrt í brotið (orðtak)  Þykja ósanngjarnt/óréttlátt; vera vonsvikinn.  „Mér þótti nokkuð súrt í brotið að fá ekki að fara með þeim“. Sjá súrt í brotið.

Þykja (mikið/lítið) til koma/um (orðtak)  Þykja mikilfenglegt (lítilfjörlegt).  „Ég sá þarna þyrlu í fyrsta skipti, og þótti allnokkuð til koma“.  „Ekki fannst mér mikið til höfuðborgarinnar koma“.  „Honum fannst lítið til um þetta tildur“.

Þykja tíðindum sæta (orðtak)  Finnast fréttnæmt.  „Þetta hefði einhverntíma þótt tíðindum sæta“.

Þykja varið í (orðtak)  Finnast gott/eftirsóknarvert/mikilfenglegt; kunna að meta.  „Ég valdi úr spýtuhaugnum það sem mér þótti eitthvað varið í, en hjó hitt í brenni“.  „Það þarf að halda vel að rekstrinum neðanvert; það er lítið varið í að það hlaupi niður í ganga“.

Þykja vænt um (orðtak)  Bera hlýhug til; vera kært.  „Að frátöldu sínu nánasta fólki þykir manni um fátt eins vænt og sinn heimastað“.

Þykjast góður (orðtak)  Prísa sig sælan; telja sig hólpinn/heppinn.  „Skítt með eggjafötuna; þú mátt þykjast góður að hafa sloppið sjálfur þegar syllan hrundi“.

Þykjast (heldur) af (orðtak)  Hreykja sér af; vera upp með sér yfir.  „Hann sagði drýgindalega frá þessu og þóttist heldur af“.

Þykjast fær í flestan sjó (orðtak)  Telja sig alls búinn; þykjast reiðubúinn til að takast á við hvað sem er.  „Strákur var kominn í strigaskóna og þóttist fær í flestan sjó“.  Sjá fær í flestan sjó.

Þykjast góðu bættur (orðtak)  Telja að tjón hafi bætt verið að fullu; telja sig hafa fengið bætur fyrir það sem var gott en tapaðist/skaðaðist.  „Ég þóttist góðu bættur þegar hann gaf mér nýjan hníf fyrir þann sem hann týndi“.

Þykjast hafa himinhöndum tekið (orðtak)  Telja sig mjög heppinn; vera mjög hamingjusamur/ánægður með.  „Karlinn var yfir sig hrifinn að hafa heimt kindurnar, og þóttist hafa himinhöndum tekið“.

Þykjast maður að meiri (orðtak)  Telja sig meiri mann/ virðulegri/göfurgri.  „Ég þóttist heldur en ekki maður að meiri eftir að hafa farið niður á höfðann“.

Þykjast (vera) maður með mönnum (orðtak)  Líta stórt á sig; vera upp með sér; vera upplitsdjarfur.  „Strákurinn þykist heldur betur vera maður með mönnum eftir að hann fékk bílpróf“.

Þykjusta (n, kvk)  Það að þykjast/látast/leika.  „Strákurinn sagði að í þykjustunni væri hann kóngur“.

Þykjustuleikur (n, kk)  Leikur barna í ímynduðum heimi.  „Hafiði nú aðeins lægra í ykkar þykjustuleik“!

Þykkhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með áberandi sver horn.

Þykkildi (n, hk)  Þykkur klumpur, t.d. í skinni.  „Ekki veit ég hvaða þykkildi þetta er á handleggnum á mér“.

Þykkja (n, kvk)  Þungur hugur; reiði.  „… en þó kom það fyrir að honum rann í skap; og sat þá oft lengi í honum þykkjan“  (GiG; Frá ystu nesjum).

Þykkja (s)  Gera þykkari.  „Hér þyrfti að þykkja vegginn dálítið“.

Þykkjulaust (l)  Án þykkju/reiði/móðgunar; reiðilaust.  „Þetta er þykkjulaust að minni hálfu“.

Þykkjusvipur (n, kk)  Reiðisvipur; svipbragð móðgunar/reiði.

Þykkjuyrði (n, hk)  Þung orð; skammaryrði; reiðilestur.

Þykkjuþungur (l)  Þungt í skapi; reiður.  „Sumum þótti hann nokkuð þykkjuþungur í sinni ræðu“.

Þykkna (s)  Verða þykkari/þéttari; þéttast; stirðna; gildna.

Þykkna í (orðtak)  Um skaplyndi; verða reiður/fúll.  „Nú var farið að þykkna all verulega í honum“.

Þykkna í lofti (orðtak)  Dimma í lofti; verða þungskýjað; verða rigningarlegt.

Þykkna/gildna undir belti (orðtak)  Verða barnshafandi/ólétt; vera með barni.

Þykkna upp (s)  Þegar dregur ský upp á himinn.  „Hann er að þykkna upp; best að drífa saman heyið“.

Þykkni (n, hk)  A.  Það sem er þykkt; hlaup; jukk; sulta.  B.  Lágský/skúraský á lofti.  „Árans  þykkni er hann að draga upp í suðrinu núna“!

Þykkskýjað (l)  Þungt/þykkt í lofti; alskýjað.

Þykkt (n, kvk)  A.  Mælistefna efnis milli gagnstæðra flata. B.  Ólétta; bumba vegna þungunar.  „... lá Malla þá upp í loft og lá langband yfir brjóstið á henni, fyrir ofan þykktina; því hún ól barnið eftir nýárið og mátti ekki seinna vera að bjarga lífi hennar“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Þykkt á (orðtak)  Þykkt lag af heyi eða öðru.  „Þið verðið að breiða galtana betur.  Þetta þornar ekki ef svona þykkt er á“.  „Hann smurði kæfunni á brauðið og hafði vel þykkt á“.

Þykkt í lofti (orðtak)  Skýjað; þungbúið veður.  „Ekki líkar mér hvað er orðið þykkt í lofti“.

Þykkur (l)  A.  Á þykktina.  „Veggurinn er þykkur á þessum kafla“.  B.  Þéttur.  „Hárið var þykkt og mikið“.

Þykkur um bóginn/hrygginn/lendina/sig (orðtök)  Lýsing á vaxtarlagi.

Þykkvalúra (n, kvk)  Sólkoli, sjá þar.

Þykkvalæri (n, hk)  Ofarlega á læri.  „Eitthvað hefðu kerlingarnar hneykslast í eina tíð hefðu þær séð kventískuna í dag; hálsmálið gapandi niður á nafla og pilsfaldar allir uppi á þykkvalæri“.

Þykkviðri (n, hk)  Dimmt veðurútlit; þoka; dimmviðri.  „Útsýni var ekki mikið í rigningunni og þykkviðrinu“.

Þylja (s)  Romsa; tala samfellt.  „Hann þuldi alla ferðasöguna og dró ekkert undan“.

Þylja upp (orðtak)  Lesa upp /fara með í síbylju.  „Hann gat þulið upp úrslit allra kosninga frá lýðveldisstofnun“.

Þyngdarlögmál (n, hk)  Reglan um fall hluta.  „Þessi bjáni sleppti bara fötunni; það var eins og hann hefði steingleymt þyngdarlögmálinu“!

Þyngdarsvið (n, hk)  Sú algilda regla að massi dregur að sér annan massa í hlutfalli við fjarlægð milli þeirra.  Þannig helst tunglið á sinni braut þar sem það er innan þyngdarsviða jarðar og tungls, og vegna hraða síns.

Þyngja (s)  A.  Verða þyngri.  „Mér fannst um tíma eins og eitthvað þyngdi á færinu“.  B.  Verða veikari; elna sótt.  „Hann var hressri um tíma í gærmorgun, en svo þyngdi honum aftur“.  C.  Auka sjó.  „Heldur finnst mér hann vera farinn að þyngja þennan norðanvelting“.

Þyngja á (orðtak)  A.  Um úrkomu; bætast við; rigna/snjóa meira.  „Hann er lítið að stytta upp; heldur þykir mér hann þyngja á, ef eitthvað er“.  B.  Um skakveiðar; þyngjast í skaki/drætti.  „Nú þyngir rogamikið á allt í einu; skyldi lúða hafa hlaupið á snærið“?

Þyngra en tárum taki (orðtak)  Sjá þungbærra en tárum taki.

Þyngslabrim / Þyngslasjór / Þyngslanorðansjór / Þyngslavestansjór (n, hk/kk)  Mikill sjógangur.

Þyngslafærð (n, kvk)  Þung/slæm færð; illfært.  „Það er orðin þyngslafærð inn Fjörurnar“.

Þyngslahósti (n, kk)  Djúpur/þungur hósti.

Þyngslarigning (n, kvk)  Úrhellisrigning; mikil rigning.  „Það er ennþá þyngslarigning“.

Þyngslaskúr (n, kvk)  Rigningarskúr með mikilli/þéttri rigningu.  „Það var útsynningur með þyngslaskúrum, svo við urðum að hlaupa í skjól öðru hvoru“.

Þyngsli (n, hk, fto)  A.  Þungi.  „Þetta eru herjans þyngsli“!  B.  Verkur.  „Ég fékk einhver þyngsli fyrir brjóstið og þurfti bara að hvíla mig“.

Þynna (n, kvk)  Blað; skífa; það sem er þunnt. 

Þynna (s)  Gera þunnt.  „Þú mátt ekki þynna eggina of mikið“.  „Það mætti þynna grautinn aðeins“.

Þynnka (n, kvk)  A.  Of þunnur grautur, sulta eða annar matur.  „Þessi grautur varð nú hálfgerð þynnka hjá mér“.   B.  Þunnt skötubarð.  „Það þynnsta af skötubarðinu; þynnkan/skötuþynnkan, var sett í súr eins og hún kom fyrir; ósoðin, og etin á sumrin til svala“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  C.  Manneskja sem ekki þykir stíga í vitið; þunnildi; bjálfi.  „Hún er nú óttaleg þynnka blessunin, en afskaplega góð sál“.

Þyrill (n, kk)  Áhald sem fyrrum var notað til að þeyta mjólk og rjóma, t.d. í flautir.  Af því er dreigið heitið flautaþyrill.  Heitið er á síðari tímum notað um þyrluspaða.

Þyrla (n, kvk)  Flugvél sem helst á lofti með skrúfuhverfli en ekki vængjum.

Þyrla (s)  Þeyta; kasta.  „Þú mátt ekki þyrla heyinu útum öll gólf“! 

Þyrla/kasta ryki í augu (einhvers) (orðtak)  Blekkja einhvern.

Þyrla upp moldviðri (orðtak)  Blása upp málefni að ástæðulausu; gera úlfalda úr mýflugu.  „Honum tókst að þyrla upp miklu moldviðri um þetta smámál, og gera það tortryggilegt“.

Þyrma (s)  Hlífa; eira; drepa ekki; taka til ölslu; setja á

Þyrmir yfir (einhvern) (orðtak)  Einhver er borinn ofurliði; einhver fær snögg veikindi/höfuðþyngsli.  „Það þyrmdi svo yfir mig þegar ég ætlaði að standa upp“.

Þyrnir í augum (orðtak)  Um það sem manni er illa við/ það sem maður kann illa að meta.  „Þessi ryðgaða drusla hefur löngum verið mér nokkur þyrnir í augum“.

Þyrnum stráð (orðtak)  Með hindrunum.  „Vegur dyggðarinnar er oft þyrnum stráður“.

Þyrpast að/saman (orðtak)  Þjappa sér í kringum; hópast að.  „Þessi orðaskipti höfðu nú vakið athygli þeirra sem næst stóðu, og þar sem allt benti til að þetta væri upphafið að skemmtilegum orðahnippingum þá þyrptust nú flestir réttarmenn að þeim félögum“  (PG; Veðmálið). 

Þyrping (n, kvk)  Hópur; þétt byggð.  „Þarna stóðu nokkur hús í þyrpingu“. 

Þyrrkingslegur (l)  Uppþornaður; skorpinn.  „Óttalega er gróðurinn að verða þyrrkingslegur í þurrkunum“.

Þyrringur / Þyrrkingur (n, kk)  A.  Uppþornun; skorpnun.  „Það er að verða þyrrkingur í öllum gróðri í þessum langvarandi þurrkum“.  „Einhver þyrrkingur er í hálsinum á mér“.  B.  Fálæti.  „Einhver þyrringur er þar milli bæja“

Þyrsklingur / Þyrsklingskvikindi (n, kk/hk)  Lítill þorskur, oft undir 30-40 cm; kóð; smælki.  „Þeir fengu á færi sín smáufsa, þyrskling, sandkola og skarkola“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  „Við fengum bara nokkur þyrsklingskvikindi þarna“. Liggi þyrsklingur lengi í þara verður hann rauður, og nefnist þá þaraþyrsklingur.

Þyrsta (s)  Verða þyrstur.  „Nú er mig farið að þyrsta allverulega“.

Þyrstur (l)  Langar í vatn; þarf að drekka.  „Mikið ansvíti var ég orðinn þyrstur eftir puðið“.

Þys (n, kk)  Læti; kliður; hávaði.  Sjá ys og þys.

Þysja (s)  Þjóta; æða; ana.  Undantekningarlítið einungis notað í þátíð:  „Við þustum niður í fjöru til að taka á móti bátnum í lendingunni“.

Þytur (n, kk)  Hvinur; suða.  „Hnegg hrossagauksins er þytur í stélfjöðrum hans“.

Þý (n, hk)  A.  Ófrjálst fólk; vinnufólk.  B.  Illþýði; óaldalýður.

Þýða (n, kvk)  Blíða; vinahót.  Dregið af orðstofninum „þú“.  Þíða í merkingunni hlýindi er með einföldu í

Þýða (s)  A.  Gera skiljanlegt; útskýra.  „Hann þýddi fyrir okkur það sem hún sagði“.  B.  Hafa merkingu.  „Veistu hvað þetta þýðir“?  C.  Hafa tilgang; stoða.  „Það þýðir ekkert að reyna lendingu í svona veltingi“. 

Þýðast (einhvern) (orðtak)  Láta að vilja einhvers; vera einhverjum eftirlát(ur); taka blíðuhótum.  „Vinnukonan vildi víst ekkert þýðast hann“.

Þýðgengur (l)  A.  Um hest; hefur mjúkt göngulag.  B.  Um vél; er hljóðlát í gangi; hefur jafnan gang.

Þýðing (n, kvk)  A.  Skýring; merking.  „Þannig hljóðar þetta í íslenskri þýðingu“.  B.  Tilgangur; mikilvægi; gildi.  „Ég held að þetta hafi takmarkaða þýðingu“.

Þýðingarlaust / Þýðingarlítið (l)  Tilgangslaust/tilgangslítið; hefur enga/litla þýðingu/engan tilgang.  „Það er alveg þýðingarlaust að reyna að ná kindunum fyrr en þær hafa róast aðeins“.

Þýðingarleysi (n, hk)  Tilgangsleysi; óþarfi.

Þýðingarlítið (l)  Hefur litla þýðingu; er tilgangslítið.  „Mér finnst voða þýðingarlítið að mótmæla þessu“.

Þýðingarmikill (l)  Mikilvægur; áríðandi; þarfur.  „Þetta er þýðingarmikill áfangi“.

Þýðir ekki (orðtak)  Er tilgangslaust; hefur ekkert uppá sig.  „Það þýðir ekkert að reyna þetta“.

Þýðlega (ao)  Með hægð/rólegheitum/blíðu. 

Þýðlyndur (l)  Ljúfur/vingjarnlegur í lund; skapgóður.

Þýður (l)  Mjúkur; blíður; lipur.

Þýður á manninn (orðtak)  Mildur í máli; mjúkmáll.  „Hann var nokkru þýðari á manninn að þessu sinni“.

Þýfður (l)  Svæði með mikið af þúfum.  „Túnið var áður mjög þýft en það var sléttað með handverkfærum“.  Orðið virðist bundið við svæðið; annarsstaðar er tíðara að nota „þýfinn“ eða „þúfóttur“ í sömu merkingu.  „Túnshalinn var mjög illslægur; þýfður og grýttur og því oft látinn bíða, ásamt Brekkunni og Urðunum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Þýfga (s)  A.  Þjófkenna.  B.  Spyrja í þaula; ganga eftir svörum.  „Hann er alltaf að þýfga mig um upplýsingar“.

Þýfi (n, hk)  A.  Þýft land; mikið af þúfum.  B.  Stolinn varningur; ránsfengur.

Þýft (l)  Um landslag; með þéttum þúfum/miklu þýfi.  „Þarna er þýft og útilokað að slá með vél“.

Þýlyndi (n, hk)  Þrælslund; undirgefni; undirlægjuháttur.  „Mér er ekki tamt að sýna þannig þýlyndi“.

Þýlyndur (l)  Sem sýnir þýlyndi.

Þýtur í tálknunum á (orðtak)  Um manneskju sem skammast/þusar á áberandi hátt.  „Það hvein víst heldur betur í tálknunum á kerlu þegar karlinn datt draugfullur innúr dyrunum“.

Þæfa (s)  A.  Hnoða; nudda; núa.  „Nauðsynlegt er að þæfa ullarföt til að þau verði þéttari og skýli betur“.  „Þegar búið var að vefa eða prjóna voð eða flík þurfti að þæfa hana.  Við þófið varð flíkin þétt í sér, þykk, skjólgóð og entist betur.  Það sem átti að þæfa var þvegið úr keytu og síðan undin úr því mesta bleytan áður en þófið hófst.  Sokkar og vettlingar voru þæfðir í höndum sér, en peysur, pils og brækur voru þæfð í trogum.  Vaðmálsvoð var oft þæfð undir fótum sér, en til var það að tveir menn þæfðu vaðmál á milli sín í tunnu sem lá á hliðinni og var opin í báða enda.  Þá spyrntu þeir voðinni á milli sín innan í tunnunni“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).   Sjá tóvinna.  B.  Um málefni; jagast; nudda; deila; þjarka.  „Ætla þeir endalaust að þæfa þetta mál“?

Þæfingsfærð  / Þæfingsófærð / Þæfingssnjór Töluverð ófærð af snjó.  „Það er komin þæfingsófærð í Skarðsbrekkuna“.

Þæfingur (n, kk)  A.  Ófærð; mikill snjór á vegi.  „Það er töluverður þæfingur víða yfir Hænuvíkurhálsinn“.  B.  Nafn á sögufrægum hval sem Einar í Kollsvík lét sækja á haf út og tók viku að róa til lands.  „Má segja að eftir atvikum hafi nafn það sem hvalnum var gefið átt vel við, en hann var nefndur Þæfingur“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Þæfið (l)  Erfitt; veitir fyrirstöðu.  „Það er enn dálítið þæfið færi uppi á háfjallinu“.

Þægð (n, kvk)  Greiði; það sem kemur sér vel fyrir annan.  „Mér er engin þægð í því að þessir túristar traðki niður grasið í óslægjunni“!

Þægðargrey / Þægðarkvikindi / Þægðarskepna / Þægðarskinn (n, hk)  Þæg/róleg skepna.  „Ég get teymt nautið einn hérna á milli bæjanna.  Þetta er hið mesta þægðarkvikindi“.

Þægilega (ao)  Á þægilegan/lipurlegan hátt.  „Þetta kemur þægilega á óvart“.

Þægilegheit (n, hk, fto)  Þægindi; makindi.  „Ég legg til að við drögum þennan skítastreng bara upp og hreinsum hann í þægilegheitum í landi, heldur en að hanga á honum í þessum veltingi“.

Þægilegur (l)  Lipurlegur; hentugur; hagfelldur.  „Ansi hreint er þetta þægilegur sófi“.

Þægindalítill / Þægindasnauður (l)  Sem ekki er þægilegur; ekki með miklum þægindum.  „Tófuhúsin voru þröng, köld og þægindalítil“.

Þægindi (n, hk, fto)  Hagræði; hentugleiki; gæði.  „Það geta stundum verið þægindi að því að hafa staf“.

Þægur (l)  Auðsvipur; auðveldur viðfangs.  „Ekki voru þær þægari en vanalega, þessar bykjur“!

Þægur í gang (orðtak)  Um vél; auðveld í gangsetningu.  „Farmallinn var misjafnlega þægur í gang“.

Þætta saman (orðtak)  Splæsa/snúa þræði/þætti saman í band/kaðal.

Þætta sundur (orðtak)  Snúa ofanaf/ rekja upp band/kaðal í einþáttung/einþáttunga/þætti.

Þöggun (n, kvk)  Það að þagga niður umræðu um málefni. 

Þögn (n, kvk)  Hljóðleysi.

Þögn er betri en þarflaus ræða / Þögn er betri en þarflaust hjal (orðatiltæki)  Auðskilin sannindi.

Þögn er heimskum hollust (orðatiltæki)  Gagnsæ speki sem alltof sjaldan heyrist nú á dögum.

Þögn er sama og samþykki (orðatiltæki)  Sú túlkun að sá sem ekki neitar sé samþykkur því sem um er rætt/ að er spurt.  Reynist þó ekki algilt.

Þögull (l)  Þegjandi; sem talar fátt.  „Hann var þögull um þetta atriði“.

Þögull sem gröfin (orðtak)  Segir ekkert, fremur en dauður væri.

Þökk (n, kvk)  Þakklæti.  „Hafðu bestu þakkir fyrir þetta“!

Þökuskeri (n, kk)  Ristuspaði.  „Þetta áhald er oftast nefnt ristuspaði en stundum þökuskeri“.

Þön (n, kvk)  Það sem notað er til að þenja/glenna út.  Notað t.d. um grind sem skinn er strekkt á.  Einnig notað um tálk fisks.  Sjá vera á þönum.

Þönglabakki / Þönglabunki (n, kk)  Bakki/bunki af þönglum í fjöru.  „Það eru fjallháir þönglabakkar í fjörunni eftir brimið“.

Þöngulhaus (n, kk)  A.  Haus/festing á þöngli/stórþara.  B.  Líking; heimskur maður; bjálfi.

Þöngull (n, kk)  Leggur þara sem slitnað hefur upp og rekið á fjöru eða komið í net; oft með áföstum þöngulhaus.  Oft er þar áberandi leggur Laminaria hyperboria; stórþara, en einnig aðrar tegundir.   „Við strákarnir gerðum okkur það stundum að leik að slást með þönglum“.

Þörf (n, kvk)  Nauðsyn; það sem maður þarfnast; löngunartilfinning.  „Ég hef enga þörf fyrir þetta“. 

Leita