Laban (n, kk) Aumingi; ónytjungur; bjálfi. „Ég held að sá laban ætti að girða sig í brók og biðjast afsökunar“.
Labb (n, hk) Ganga; gönguferð. „Mikið verður gott að hvíla sig eftir labbið“.
Labba (s) Ganga; stika; dóla. „Það tekur því ekki að setja bílinn í gang; við löbbum bara þennan smáspotta“. „Daginn eftir tók Pétur mjólkurpóstur okkur við Klettinn og flutti okkur út að Nesi, en þaðan löbbuðum við heim um kvöldið“ (IG; Æskuminningar). „Mér leist nú ekki á blikuna, en labbaði þó af stað,/ því langt er orðið þarna á milli bæja./ Í Púdduvík þó loksins ég haltraði í hlað/ með hælsæri á löppunum; nú jæja“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Labbakútur (n, kk) A. Gæluorð um lítinn strák sem farinn er að ganga. „Ég var bara lítill labbakútur sem hefði gefið aleiguna fyrir að vera kominn heim“ (ÁE; Ljós við Látraröst). B. Niðrandi líking.
Labbitúr (n, kk) Stutt gönguferð; spásserstúr. „Það er bara stuttur labbitúr hérna norður á Mel“.
Labbrabbtæki / Labbrabbstöð (n, hk/kvk) Fyrstu handheldu talstöðvar til almenningsnota nefndust walkie-talkie á ensku, sem þýtt var sem labbrabb á íslensku, þó ekki festi það heiti lengi rætur. Einnig voru þær nefndar cb-stöðvar (citizen-band). Ólafur Sveinsson á Sellátranesi mun fyrstur hafa notað slíkar talstövar í Kollsvík, þegar hann var við mávaskytterí við Garðana kringum 1967. Lét hann stráka (þ.á.m. VÖ) fara út á Undirhlíðarnef með talstöð til að segja sér hvenær mávahópar leggðu þaðan af stað.
Labri (n, kk) Labradorfiskur; Ward-fiskur; fiskur sem flattur er á sérstakan hátt til útflutnings (sjá flatning). „Skömmu eftir síðustu aldamót byrjaði Englendingurinn Pike Ward að kaupa saltfisk sem mátti ekki vera stærri en 16-17 umlungar, en svo smár sem menn kusu. Fiskurinn átti að vera mænuflattur að aftari kviðugga, en þó ekki eins djúpt og venja var. Hann var ekki vaskaður eins vandlega og annar fiskur; ekki himnudreginn og ekki hreinsað hnakkablóð. Hann var álíka mikið þurrkaður og svokallaður Barcelonafiskur, þ.e. linþurrkaður“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Laða (s) Lokka; heilla; draga að. „Ég held að þessi tálbeita ætti að geta laðað að sér hvaða lúðu sem er“.
Lafa (s) Hanga. „Rakaðu utanúr vagninum stærstu tuggurnar sem lafa lausar“.
Lafhræddur (l) Mjög hræddur; skíthræddur. „Hundurinn er lafhræddur við lambána“.
Lafir/hangir (saman) á lyginni (orðtak) Tollir saman á óskiljanlegan hátt. „Gáðu að þér á steininum þarna í brúninni; mér sýnist hann lafa á lyginni“. „Stagið er alveg að fara í sundur; það rétt hangir saman á lyginni“.
Lafhræddur (l) Mjög hræddur/smeykur. „Við laumuðumst lafhræddir í gegnum nautagirðinguna“.
Lafhægt (l) A. Löturhægt; mjög rólega. B. Auðvelt; létt. „Þetta væri lafhægt með réttum áhöldum“.
Laflaust (l) Mjög laust. „Þú verður að herða betur; þetta er laflaust ennþá“.
Lafmóður / Lafuppgefinn / Lafþreyttur (l) Mjög móður; uppgefinn. „Ég var lafmóður eftir sprettinn“. Vísun til lafandi tungu hunds.
Lafrast (s) Hengslast; gaufa. „Ætlarðu að vera að lafrast við þetta í allan dag“.
Lafuppgefinn / Lafþreyttur (l) Örþreyttur. „Ég var lafuppgefinn eftir hlaupin“.
Lag (n, hk) A. Hlé milli ólaga; tækifæri til að ýta úr vör eða taka land. „Komið gat það fyrir að bátur var settur til sjávar og beðið lags með að ýta á flot; lags sem þó aldrei kom nægilega öruggt...“ (KJK; Kollsvíkurver). „Á sumum stöðum er langt á milli ólaga og þá um lagabrim að ræða. Þótti betra að reyna lendingu á síðustu báru þess en öftustu ólagsöldu í óðbærum sjó. Þessi var reynsla víða um Vestfirði“ (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III). „Gísli gamli kom æpandi á móti syni sínum og sagði: „Ja þetta áttir þú ekki að gera. Þú áttir að sigla; halda á að sigla. Þá hefðir þú haft lagið upp““ (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). B. Tækifæri. „Nú er lag til að skjótast í húsin, áður en næsta skúr skellur á“. C. Tónverk; söngur. „Nú kemur síðasta lagið á dansleiknum“. D. Aðferð. „Það er ekki sama hvaða lag er notað við þetta“. E. Lárétt innskot/umferð í stafla. „Í Bökkunum eru að koma í ljós mörg lög mannvistarleifa frá útgerð í Láganúpsveri“. F. Ástand. „Bíllinn er kominn í gott lag“.
Laga (s) A. Gera betra; lagfæra. „Ég er búinn að laga stólinn“. B. Hella uppá, t.d. kaffi; gera, t.d. te. „Hún sagðist ætla að laga kaffi fyrir okkur“. C. Renna. „Blóðið lagaði úr sárinu“.
Laga að (orðtak) Aðlaga; fella að. „Það þarf að laga fjárhúsin að því fé sem þar er hverju sinni“.
Laga til (orðtak) Stilla/raða betur upp; hagræða; gera fínt. „Lagið nú aðeins til hjá ykkur strákar“!
Lagaboð (n, hk, fto) Lög; fyrirmæli laga. „Ég tel þetta ekki rétt, þó ekki séu neín lagaboð gegn því“.
Lagaður (l) Í laginu; mótaður; tilhafður. „Skórinn þarf að vera vel lagaður að fætinum“.
Lagabókstafur (n, kk) Strangur lagaskilningur. „Menn hafa nú talið sig vita mun á réttu og röngu í þessu efni; hvað sem líður einhverjum lagabókstaf“.
Lagabrim (n, hk) Viss reglusemi aldna í brimi, þannig að á eftir nokkrum stórum bárum; ólögum, koma nokkrar aðrar minni; lög. „Á sumum stöðum er langt á milli ólaga og þá um lagabrim að ræða. Þótti betra að reyna lendingu á síðustu báru þess en öftustu ólagsöldu í óðbærum sjó. Þessi var reynsla víða um Vestfirði“ (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III).
Lagaflækjur / Lagakrókar (n, kvk/kk, fto) Ítrasti lagaskilningur, og stundum ímyndaður. „Við þetta ranglæti beittu þeir einhverjum lagakrókum og lagaflækjum sem útilokað er fyrir venjulegt fólk að skilja“.
Lagagildi (n, hk) Ígildi laga; gild lög. „Þetta er góð venja, þó hún hafi ekkert lagagildi“.
Lagaheimild (n, kvk) Heimild laga til aðgerðar. „Mér er það mjög til efs að stjórnvöld hafi haft nokkra lagaheimild til að sölsa útgerðarrétt sjávarjarða undir einhverja fjarlæga kvótakónga og góðvini sína“.
Lagalda (n, kvk) Um sjólag; alda sem síður brotnar en aðrar nærri henni. Því er sóst eftir að nýta lagið til landtöku. „Í heimild frá öndverðri 19. öld eru ólagsöldurnar þrjár, en lagöldurnar sex“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Lagboði (n, kk) Lag sem annar texti er sunginn við en sá upprunalegi/þekkti; lag sem fellur að texta.
Lagðmerkja (s) Lagða; merkja/auðkenna kind með ullarlagði af öðrum lit en hún sjálf ber. Gripið var til þess að lagðmerkja tímabundið, t.d. ómörkuð lömb í réttum sem mörkuð ær helgaði sér með réttu. Sé t.d. um hvítt lamb að ræða er skorinn lítill ullarlagður af mislitri kind og hann hnýttur í ull lambsins efst á herðakambi.
Lagðmerkt (l) Lagðað. Sauðfé sem þurft hefur að lagðmerkja. Lagður út (orðtak) Um lag á báti; hvernig breiddin heldur sér í átt að stöfnum. „Bátum er misjafnlega mikið lagt út til stafnanna, en það ræður miklu bæði um gang þeirra, sjóhæfni og burðargetu. Sumir eru ílagagóðir/ílagamiklir/viðtakamiklir, þ.e.þeim er mikið lagt út, og eru þá burðarmiklir og verja sig vel í báru, en ekki gangmiklir. Sé það á skutinn eru þeir stundum sagðir með drottningarskut/drottningarrass. Sé bátum lítið lagt út, þ.e. þeir eru viðtakalitlir, geta þeir verið gangmiklir en síðri í sjóhæfni og burði“.
Lagðprúður (l) Um sauðkind; falleg á lagðinn/ullina; með fallega ull. „.þ..og sumir huguðu að afrakstri sumarsins sem birtist í föngulegum og lagðprúðum haustlömbum“ (PG; Veðmálið).
Lagður (n, kk) Ull; tjása af ull. Sbr. ullarlagður.
Laggarskurður (n, kk) V-laga skurður/skora sem rist er í tré. „Frá hendi Jóns Íslendings var um aldir yfir bæjardyrum í Sauðlauksdal planki; ca 3 álnir á lengd, 5,5, tommur á breidd, 1,5 tomma á þykkt; útskorinn með rósaverki á endum og milli orða. En á milli skrautsins stóð skorið með sléttum laggarskurði og með latínuletri: „Allir góðir menn velkomnir“. Þessi fjöl var tekin ofan er séra Magnús Gíslason endurbyggði bæinn ca 1860 og var eftir það við skemmudyr framyfir 1890, en hverf þá, án þess menn viti hver olli hvarfinu. En böndin bárust að eldamennskukonum staðarins, en þeim var um það bil uppkveikjufátt, eins og gengur“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Lagfæra (s) Færa/koma í lag; laga; gera við. „Ég lagfærði jötufjölina eftir hrútinn“.
Lagfæring (n, kvk) Viðgerð; úrbót. „Þetta þarf einhverrar lagfæringar við“.
Laghentur (l) Handlaginn; fimur í höndum við verk. „Það eru ekki allir svona laghentir“.
Laginn (l) Laghentur; útsjónarsamur; slyngur. „Ég held að þú sért lagnari við þetta en ég“.
Lagklaufir (n, kvk, fto) Litlar klaufir/hornvörtur aftan á fótum klaufdýra. „Lagklaufir draga úr hættu á að dýrið sökkvi í votlendi“.
Laglaus (l) Gengur illa að halda réttum tóni í lagi/ finna réttan tón. „Hann segist vera laglaus, en ég veit betur“.
Laglega (ao) Fallega; vel; snyrtilega; með góðu lagi. „Mikið er þetta laglega gert“.
Laglegur (l) Fallegur; snyrtilegur; vel gerður/lagaður. „Laglegri fleyta fyrirfinnst varla“. „Heyrðu hérna lagsi, lýst þér ekki á mig?/ Lagleg er ég, sérstaklega í myrkri./ Ég fylgi þér í rúmið, þá fer svo vel um þig,/ og faðma þig með jómfrúrhendi styrkri“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Laglegheita- (n, hk, fto) Falleg; lagleg. „Þetta er bara laglegheita fleyta, þó ekki sé hún stór“.
Lagleysa (n, kvk) Óáheyrilegt lag; mislukkuð tónsmíð. „Skelfing fara svona lagleysur í taugarnar á mér“!
Lagnaðarís (n, kk) Ís sem myndast á vatni eða sjó sem leggur (frýs).
Lagnet (n, hk, fto) Net sem lögð eru í sjó eða vötn. Önnur netanotkun er dragnet, sem notuð eru til að draga á.
Lagni (n, kvk) Færni/snilld/fimi í framkvæmd tiltekins verks. „Þetta útheimtir verulega lagni“. „Hann fór að öllu með ítrustu lagni“.
Lagning (n, kvk) Það að leggja. „Margs er að gæta við lagningu neta á Kollsvíkinni. Ekki er ráðlegt að leggja of utarlega, þá er hætt við að fyllist af skít í hörðu falli. Sama gerist ef lagt er á sandbletti“.
Lagningarflækja (n, kvk) Flækja nets í lagningu; hnútur/innísláttur sem kemur þegar net forhalast í lagningu. Meiri hætta var á lagningarflækjum meðan enn voru notaðir netasteinar eða netablý, og meðan net voru róin út. Sjá netalagning.
Lagsi / Lagsmaður (n, kk) Rúmfélag; sá sem deilir rúmi „Einn bátur var um hverja búð; þrjú eða fjögur rúm gátu verið í hverri. Tveir voru saman í hverju rúmi. Voru þeir kallaðir lagsmenn“ (PJ; Barðstrendingbók). „Heyrðu hérna lagsi, lýst þér ekki á mig?/ Lagleg er ég, sérstaklega í myrkri./ Ég fylgi þér í rúmið, þá fer svo vel um þig,/ og faðma þig með jómfrúrhendi styrkri“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Lagtækur (l) Laginn; góður/snjall verkmaður; fingrafimur. „Hann er býsna lagtækur við þetta“.
Lagvaður (n, kk) Veiðarfæri til hákarlaveiða. Var hann allmikið útbreiddur í þeim þrem landshlutum sem einkum stunduðu hákarlaveiðar á 18. öld; Vestfjörðum, Skagafirði og Austfjörðum. Í stórum dráttum er lagvaðurinn þannig; tvær sóknir eru í öngultaumum úr keðju sín á hvorum enda á sterku tré; lagvaðsás. Hann situr þversum á stjórafæri; 11-12 fetum ofanvið stjórann sem lagt er á botn á allt að 60 faðma dýpi. Flot/uppihöld voru á yfirvarpinu, sem var 60-80 faðma langt. Dufl Vestfirðinga nefndust byður og voru mjó til beggja en skotin mjög út um miðju. Lagvaður var mikið notaður um skeið en sjaldan stundaður eingöngu. Vitjuðu menn hans að jafnaði einu sinni á dag, um leið og þeir fóru til fiskilóða eða renndu færum. Lagvaðir vildu ónýtast og týnast, auk þess sem veiddur hákarl var iðulega étinn af öðrum. Hann vék því mjög þegar kom framá 19. öld, einkum fyrir handvað. (Byggt á GG; Skútuöldin).
Lagviss (l) Heldur vel lagi; fer ekki út af laginu. „Hún er furðu lagviss stelpan, þó ekki sé hún eldri“.
Lak (n, hk) Þunn ábreiða sem höfð er á rúmi/dýnu, undir sofandi manni. Lök má núna fá tilsniðin í verslun, en voru áður seld af léreftströngum úr verslunum. Um og eftir miðja 20. Öld var algengt í Rauðasandshreppi að húsmæður nýttu hvítt léreft úr stórum hveitisekkjum. Sekkjunum var sprett í sundur og saumaðir aftur saman í lök. Svartir stafir voru þvegnir af með sterkri sápu.
Lakari (l) Verri; síðri. Eins var það til baga ef vindur stóð á land; þá varð fjaran lakari“ (KJK; Kollsvíkurver). „Ég hef verið lakari til heilsunnar upp á síðkastið“.
Laki (n, kk) Einn af fjórum mögum jórturdýra. Hinir eru vömb, keppur og vinstur.
Lakkera (s) Lakka. Eldri mynd, og heyrist ekki nú til dags.
Lakkrís (n, kk) Sælgætið lakkrís barst fyrst til Kollsvíkur á 7.áratug 20.aldar, með börnum semm komu í sumardvöl. Hann kom í rörum og rúllum, og stundum stórir sekkir; afskurður úr verksmiðju. Eldra fólk kunni ekki að meta þetta, og fékk það stundum heitið skíturinn úr skrattanum.
Laklega (ao) Fremur illa; ekki vel. „Mér þykir laklega horfa með þurrk á morgun, eins og hann er að ljókka“. „Það horfir laklega með heimtur“.
Laklegur / Lakur (l) Lélegur; slæmur; slakur. „Mér finnst sprettan vera laklegri en í fyrra“. „Þetta þykir mér fremur lakur afli“. Hjá allflestum munu hey vera lakari en í meðallagi, því sumarið var óþurrkasamt…“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1925).
Lall (n, hk) Rölt; hægur gangur; dól. „Við höldum ekki í við hina með svona lalli; drífðu þig nú“!
Lalla (s, harður frb) Ganga í rólegheitum; dóla; rölta. „Ég ætla að lalla hérna niður að sjó aðeins“.
Lalli (n, kk) A. Steinbítsbudda; kýta; magi úr steinbít. „Buddan var oft hirt; troðin út með þorskalifur og soðin; þótti matur góður og matarmeiri en kútmagi, enda þykkari, einkum í botninn. Efri hlutinn var nefndur gormur. Víða var steinbítsmaginn soðinn og látinn í súr“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). B. Stytting úr fjörulalli. „Mórar, slæðingar og lallar eru fyrirbæri sem sumir verða meira varir við en aðrir“. C. Niðrandi heiti um mann sem þykir latur/slóðalegur.
Lama (s) Gera óvirkt/óstarfhæft; eyðileggja hreyfigetu. „Sameining hreppanna reyndist það rothögg sem að lokum lamaði Rauðasandshrepp nær algerlega, þó ýmislegt hafi stjórnvöldum áður tekist að eyðileggja“.
Lamaður (l) A. Um mann eða skepnu; bagaður vegna lömunar. B. Um hurð/glugga/kistulok o.fl; hjararbrotinn; með brotna aðra eða báðar lamir. C. Um vél/hlut/stól o.fl; bilaður. „Gættu þín þegar þú sest í stólinn; hann er hálf lamaður“.
Lamamaður (n, kk) Sá sem er lamaður. „Hann hefur verið lamamaður eftir þetta slys“
Lamb (n, hk) Afkvæmi sauðkindar. Nefndust lömb frá burði og framá haust, en síðan gemlingar. Þó voru gemlingar stundum einnig nefndir lömb, frameftir vetri. „Tvílembum fjölgar og kjötþungi lambanna hefur aukist“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Lambablóðsótt (n, kvk) Sjúkdómur af völdum bakteríunnar Clostridium perfringes. Smituð lömb veikjast stuttu eftir fæðingu. Þau fá blóðlitan niðurgang og deyja fljótlega eftir miklar kvalir. Lömb voru um fjölda ára sprautuð gegn lambablóðsótt, en nú er farið að sprauta ærnar við henni fyrir burð.
Lambadauði / Lambalát (n, kk/hk) Lambadauði er það þegar lamb drepst í eða eftir fæðingu, en talað er um lambalát þegar kind lætur lambi/ missir fóstur á meðgöngu.
Lambadrottning (n, kvk) Fyrsta gimbrarlamb um sauðburðinn.
Lambagarði / Lambakarmur (n, kk) Garði/karmur í fjárhúsi sem líflömb voru sett í að hausti, þegar hýst var. Einnig nefndur gemlingagarður/gemlingakarmur, einkum þegar líða tók frá hausti og lömbin stálpuðust. Talað var um lambastíu eða gemlingastíu, ef þeim nægði hluti af garða/karmi.
Lambagras (n, hk) Silene aculis. Lítil jurt af hjartagrasaætt sem algeng er á melum, holtum og öðrum þurrum og sendnum jarðvegi. Myndar kúlulaga þúfur með þéttum löngum stönglum, sem bera 3-5 lauf á endanum og leifar eldri blaða neðar á stöngli. Þúfan er með eina stólparót, sem nefnist holtarót. Blómin eru lítil bleik eða hvít. Algengt á melum, holtum og aurum í Kollsvík og nágrenni. Í fljótu bragði er hægt að villast á lambagrasi og vetrarblómi (sem stundum er nefnt lambablóm), en munurinn sést vel ef grannnt er skoðað.
Lambajarm (n, hk) Jarm/hljóð í lömbum. Var oftast notað í hvorugkyni í Kollsvík, en ekki „lambajarmur“ eins og víðast virðist hafa tíðkast annarsstaðar.
Lambakefli (n, hk) Sívalningur úr tré með hnúð á hvorum enda og gaddi; settur þversum í munn lamba og fest með þræði aftur fyrir hnakka; ætlað til að þau gætu ekki sogið ærnar svo unnt væri að nýta mjólk úr þeim. „Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi skar út lambakefli af þessari gerð“. (Sjá kefli)
Lambaket (n, hk) Lambakjöt; ket af lambi; dilkaket. Dilkaket var fremur notað um þannig ket.
Lambakofi (n, kk) Kofi/hús sem lömb/gemlingar eru höfð í. „Tótt var í Ytragili af lambakofa. Hana hlóð ég upp; refti yfir með járnþaki og torfi og notaði sem reykkofa“.
Lambakóngur (n, kk) Fyrsta hrútlamb um sauðburðinn.
Lambakró (n, kvk) A. Lítill dilkur við hliðina á stekk. Sjá þar. B. Stía í fjárhúsi; lambagarði; lambakarmur.
Lambalát (n, hk) Dauði lamba á meðgöngu. Getur stafað af smitsjúkdómi eða alvarlegum næringarskorti.
Lambamerki (n, hk) Merki sem sett er í eyra lambs til að auðkenna það með bókfærðu númeri. Farið var að nota merki á 20. öld. Fyrst voru þau gerð úr áli; lítil lykkja sem smeygt var í gat í eyranu sem gert var með sérstakri gatatöng. Síðar komu til plastmerki sem þrykkt var í eyrað með öðruvísi töng.
Lambarekstur (n, kk) Rekstur lamba, t.d. rekstur stálpaðra lamba/gemlinga í haga. „Skömmu fyrir síðustu aldamót, seint á góu, fóru Breiðvíkingar með lambarekstur út á Lambahlíð í Látrabjargi“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Lambasprauta (n, kvk) Sprauta sem notuð er til bólusetningar nýfæddra lamba gegn lambablóðsótt, eftir að slík bólusetning var hafin. Í fyrstu voru sprautur úr málmi og gleri, en síðar varð sprautuhús og bulla úr plasti. „Settu lambasprautuna í merkjatöskuna þegar þú ert búin að hreinsa hana“.
Lambaspörð (n, hk, fto) Kindaskítur, en hann er oft reglulega kögglaður ef melting og fóður er í lagi“.
Lambfé (n, hk) Hópur kinda með lömbum. „Við þyrftum að sortera lambféð sem enn er inná; koma einlembunum útaf ef tvílembunum niður á Grundatún“.
Lambgota (n, kvk) Ær sem látið hefur lambi/borið dauðu lambi. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Lambhagi (n, kk) Beitiland fyrir lömb. Lambhagi er nafn á tveimur stöðum í Hnífum. Heimari Lambhagi er rétt utanvið Smérhelli. Hann er grösugur brekkubali stutt neðanvið brún, og vel gengt í hann. Líklegt er að í hann hafi lömb verið rekin þegar fært var frá á stekkunum ofanvið brúnina; Þúfustekk, Katrínarstekk og Eyvararstekk. Ytri Lambhagi er grösug kvos neðan brúnar rétt heimanvið Grófarnef, og er sömuleiðis vel gengt í hann í báða enda. Hleðslur eru í heimari endanum. Þar hafa líkleg veri setin þau lömb sem færð voru frá í Grófarstekk.
Lambhrútur (n, kk) Hrútlamb. Orðið lambhrútur var mun oftar notað í Kollsvík; bæði um nýfædd lömb sem veturgamla hrúta.
Lambhús (n, hk) Hús/kofi sem lömb/gemlingar eru hýst í að vetrinum. „Lömbin voru alin inni allan veturinn. Þau voru höfð í lambhúsi sem stóð uppi á Hólum“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Lambið mitt / Lambið gott (orðtök) Gæluorð við barn. „Kondu hérna lambið mitt og leyfðu mér að þurrka þér aðeins um gogginn“.
Lambkettlingur (n, kk) Lambkægill; lítið/ræfilslegt lamb. „Mér sýnist lítið lífsmark vera í þessum lambkettlingi“.
Lambkvikindi / Lambkægill (n, kk) Lambkettlingur; lítið/ræfilslegt lamb. „Ætli maður setji ekki þetta lambkvikindi á í vetur, fyrst það heimtist eftir slátrun“. „Hann er ekki dengilegur þessi lambkægill“.
Lambmóðir (n, kvk) Móðir lambs. Oftar notað í Kollsvík en lambsmóðir. Sjá undirvaningur.
Lambsfóður (n, hk) A. Fóður sem þarf til eldis hverju lambi yfir vetur. Talið var að lamb þyrfti 2,5 hestburði af heyi, meðan kind voru ætlaðir 3,9 og kúnni 30. B. Skattur sem lagður var á sóknarbarn til framfærslu prests. Skyldi hvert heimili taka lamb af presti til eldis yfir veturinn eða gjalda 24 skildinga að öðrum kosti.
Lambskinn (n, hk) Skinn/gæra/bjór af lambi. Notað m.a. í stakka skinnklæða. „Í skinnstakkinn fóru þrjú skinn, venjulega lamskinn“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lambskrokkur (n, kk) Skrokkur af dilk/lambi; dilkskrokkur. „Liði kærði sig að minnsta kosti ekki um að taka lambskrokkinn með sér heim að Látrum og varð að samkomulagi að Gummi nýtti hann“ (PG; Veðmálið).
Lambsmóðir (n, kvk) Móðir lambs. „Réttarstjóri skal annast um að ómörkuð lömb séu hirt á réttinni og dregin sér í dilk, svo eigendum gefist kostur á að láta lambsmæður helga sér þau....“ (Fjallskilareglugerð V-Barð).
Lambsogin (l) Um kind; sem lamb hefur nýlega sogið. „Það fer ekki á milli mála að útigangskindin er lambsogin. Spurning hvort hún hefur drepið undan sér eða hvort það er einhversstaðar að flækjast“.
Lambsverð (n, hk) Verð á lambi. Oftast er þá átt við verð á vænni lífgimbur að hausti. Í sjóðbók Rauðasandshrepps árið 1946 má sjá að Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi hefur greitt 50 krónur í lambsverð til hreppssjóðs; væntanlega fyrir óskilalamb.
Lambær (n, kvk) Ær/kind sem lamb gengur undir. „Við þurfum að fara að setja fyrstu lambærnar útfyrir“.
Lami (n, kk) Lélegur hlutur; leifar af einhverju. „Það liggur laminn af rollu hér frammi á Umvarpi; hún hefur trúlega farið afvelta“. „Lami af henni (jarðýtu Rauðasandshrepps) mun vera til á býli undir Akrafjalli“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). Stofnskylt sögnunum að lemja og lama.
Laminerað (l) Lagskipt; með millilagi. „Það var til mikilla bóta uppá öryggið, þegar farið var að nota laminerað perlugler í framrúður bíla“.
Lamma (s) Ganga í rólegheitum. „Ég lammaði norður fjöruna í góða veðrinu“. Stofnskylt sögninni að lemja.
Lamma sig (orðtak) Fara/koma í rólegheitum/með hægð. „Kýrnar eru að lamma sig hér heim á leið“.
Lampaglas (n, hk) Gler á olíulampa. „Lampaglös voru í nokkrum stærðum; 6, 8. 10 línu og jafnvel sverari“.
Lampahalda (n, kvk) Grind sem olíulampi er hengdur í upp á vegg.
Lampakrans (n, kk) Krans á olíulampa, sem kveikurinn gengur upp í gegnum. Á kransinum er vanalega hnappur sem snúið er til að hækka eða lækka kveikinn, og stilla með því birtuna.
Lampatæki / Lampaútvarp (n, hk) Glóðarlampaútvarp; útvarpsviðtæki frá fyrstu dögum útvarpsútsendinga, en þau notuðu glóðarlampa í stað transistora sem síðar urðu algengir. „Elsta lampaútvarpið í Kollsvík er gamalt Blaupunkt-tæki sem enn er til á Láganúpi. Við það þurfti bæði votabatterí og þurrabatterí“.
Landa (s) Bera af; koma afla úr báti upp á land. „Haltu í festina meðan ég landa aflandum“.
Landabréf (n, hk) Landakort. Eldra heiti sem hefur að mestu horfið úr málinu, en var algengt frameftir 20.öld.
Landabrugg / Landi (n, hk/kk) Framleiðsla sterks áfengs víns til sölu, í trássi við lög. Í byrjun 20. aldar hafði vínneysla aukist verulega hérlendis, með ört vaxandi þéttbýli, og varð það þjóðfélagslega vandamál sem hún hefur síðan verið. Þá spratt upp mikil andstaða við vínsölu; ekki síst með tilkomu og fyrir þrýsting bindindisfélaga og ungmennafélaga. Leiddi þetta til þess að sett voru svokölluð bannlög, þ.e. bann við innflutningi og framleiðslu áfengis. Það leiddi aftur á móti til þess að útsjónarsamir menn sáu sér hagnaðarvon í því að koma sér upp búnaði til að brugga vín og selja. Slíkt þurfti auðvitað að fara leynt fyrir yfirvöldum, og því voru fundin upp ýmis dulnefni, auk þess sem framleiðslunni var haldið vel leyndri. Eimað vín hlaut þannig nafnið landi, og framleiðsla þess landabrugg. Á endanum gáfust stjórnvöld þó upp á innflutningsbanninu og landabruggarar misstu spón úr sínum aski þegar frá leið.
Ekki fer sögum af miklu landabruggi í Rauðasandshreppi, ef frá eru taldir tveir grannar sem þá bjuggu í innanverðum Patreksfirði, norðantil: Helgi Fjeldsted í Raknadal og Magnús Jónsson á Hlaðseyri. Báðir voru bændur góðir, og útsjónarsamir við öflun aukatekna. Helgi mun hafa orðið allra bruggara frægastur um Vestfirði. Þeir félagar fengu oftar en einusinni heimsókn af sérstökum eftirlitsmönnum stjórnvalda með áfengisbanninu, og þrátt fyrir að þeir væru sniðugir að dyljast var stundum einhverju hellt niður hjá þeim. Þó almenningsálitið væri misjafnt á þessum iðnaði voru þeir margir sem glottu í kampinn og kunnu vel að meta sjálfsbjargarviðleitnina og pirring stjórnvalda. Af bruggurum spunnust ýmsar kjarngóðar sögur sem sumar lifa enn. (Stuðst við MG; Úr vesturbyggðum Barð.sýslu).
Landafjandi (n, kk) Um þann sem er mjög víðförull; flækist víða; ferðast mikið að óþörfu. „Það er ekki von að mikið gangi við heyskapinn ef hann er eins og landafjandi útum allar sveitir á góðviðrisdögum“! Sjá eins og landafjandi.
Landakaup (n, hk, fto) Jarðakaup; kaup á landskika.
Landamerki (n, hk) Auðkenni sem haft er til merkis um skil tveggja eða fleiri jarða í landamerkjalýsingu. „Landamerki Kollsvíkur- og Láganúpsjarða er Áin. Þegar henni sleppir efra eru merkin um gamla hestaveginn sem liggur fram Skarð; Vatnadal og inn Víknafjall. Í fjöru eru merkin um Langatanga. Víða eru kennileiti sem hafa landamerki í forskeyti nafna sinna. „Landamót“, „landamæti“, landamörk“, „landaskil“, „jarðaskil“ og „jarðamæti“ eru stundum höfð um landamerki, en „landamæri“ einungis um mæti ríkja.
Landamerkjalýsing / Landamerkjavitnisburður (n, kvk/kk) Lýsing, oftast forn, á landamerkjum. Fyrr á öldum var ekki óalgengt að eigendur jarða létu gera landamerkjavitnisburð um landamerki sinna jarða, og hann væri vottaður af mörgum trúverðugum mönnum sem til þekktu. Einkum voru það höfðingjar og stóreignamenn sem höfðu þennan hátt á. Til er t.d. landamerkjavitnisburður nokkurra manna frá árinu 1660, þar sem þeir árétta helstu landamerki jarða sem þá voru í eigu Saurbæjar. Hefst hann svo: „Öllum þeim mönnum sem þessi orð vor og eigin handskrift sjá eður heyra, sendum vér undirskrifaðir kveðju guðs og vora; hér með einum og sérhverjum auglýsandi þá sá heiðarlegi mann Eggert Björnsson hefur þess óskað þar um ljósa grein á gjöra með vorum sanninda vitnisburði hvað sannast vér vissum eður heyrt hefðum oss eldri mönnum, hvar landamerki væru og haldin hefðu verið að fornu og nýju á milli þessara eftirskrifaðra jarða, semm eru á milli Skorar og Sjöundár; Sjöndár og Melaness; Kirkjuhvamms og Bæjar og Stakka; og svo milli Stakka og Lambavatns og Keflavíkur…“ (Allt er þetta í einni setningu, og meira til). Um Láganúp segir: „Láganúps landamerki höfum vér heyrt og vitað haldin hafa verið úr því skeri sem liggur nær undan miðjum Breiðnum, og Landamerkjasker er kallað, og í Ána sem rennur milli Kollsvíkur og Láganúps“. Í lokaorðum segir: „… og vottum vér allir áðurskrifaðir menn að vér höfum um allar áðurgreindar eignar- og umboðsjarðir Eggerts Björnssonar þessi undirskrifuð landamerki bæði til lands og sjávar sögð og haldin hafa verið átölulaust væði fyrr og síðar; hvað vér með góðri samvisku megum meiri skýrslu og sannindi á gjöra ef þörf krefði og til fullkomlegrar staðfestu og sanninda við þennan vorn vitnisburð, þá skrifum vér vor skírnarnöfn með eigin höndum undir þetta vort vitnisburðarbréf; hvert skrifað var að Bæ á Rauðasandi árum eftir frelsarans fæðing 1660, 2. febrúraí“.
Landareign / Landeign (n, kvk) Jarðeign; eignarjörð. „Einar gamli hefur vafalaust ekki gert það viljandi að draga hvalinn á land skammt frá Kollsvíkurveri, sem var í hans landareign“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Landauðn (n, kvk) Landsvæði sem eyðst hefur/ sem fólk hefur flúið af. „Svo afgerandi voru þær breytingar sem gengu yfir þjóðina á 19. öld, og svo misheppnuð var byggðastefna stjórnvalda, að nærri lá að landauðn væri í Rauðasandshreppi um aldamótin 2000“.
Landauki (n, kk) Viðbót við þurrlendi. Sandur á fjörum í Kollsvík er mjög breytilegur, eftir samspili og styrk strauma og vindátta. Stundum berast slíkar dyngjur upp; jafnvel á einu sjávarfalli, að verulegur landauki er að sem staðið getur jafnvel um mörg misseri eða ár. Nái sá skeljasandur að þorna getur sandfok úr honum valdið gríðarlegum spjöllum.
Landaurar (n, kk, fto) A. Upphaflega persónuskattur á útflytjendur frá Noregi til Íslands á landnámsöld. Hver frjál og fullrétta karlmaður skyldi gjalda kóngi fimm aura silfurs. Skatturinn þróaðist út í það að vera nokkurskonar komugjald til Noregs, Eftir samkomulag við Ólaf kóng helga varð gjaldið sex vararfeldir og sex álnir vaðmáls eða fjórir aurar silfurs á hvert skip, sem samsvaraði einu kúgildi. B. Sú vara sem gjaldgeng var í viðskiptum, meðan vöruskiptaverslun var viðhöfð. Þar gat verið um að ræða smjör, vaðmál, harðfiskur o.fl. Landaurar urðu þannig gjaldmiðill hérlendis þar til peningar urðu algengari á 16.öld, en þeir voru ekki lögleiddir fyrr en 1776. „Ábúandi á Láganúpi er Halldór Jónsson. Landskuld hans er 6 vættir. Betalast í kaupmannsreikning so mikið sem verður, hitt í gildum landaurum“ (ÁM/PV Jarðabók).
Landaþræta (n, kvk) A. Jarðadeila. Deila jarðeigenda um landamerki og/eða tilkall til jarðar eða jarðarhluta. B. Deila ríkja um yfirráð landsvæða.
Landátt / Landgola / Landkul (n, kvk) Vindur af landi til hafs. „Ísspöngin þokaðist fjær í landáttinni“. „Okkur hefur rekið þónokkuð dýpra í landkulinu“. Sjá hafátt.
Landbára (n, kvk) Bára við strönd. Alda/bára getur borist langar leiðir um opið haf. Í henni er hringhreyfing massans, en þó á þann hátt að efni flyst ekki mikið til, heldur færist hreyfingin til hliðar. Þegar aldan kemur á grunn, rekst „neðri endi hringsins“ niður í botninn, þannig að efri lögin fá meiri hraða en þau neðri. Afleiðingin er sú að hringhreyfingin verður sífellt meira sporöskjulaga og hallandi til lands; báran mjókkar og rís og myndar foss (brot) landmegin í toppinn. Að lokum fellur/brotnar hún í átt til lands. Ef sjólítið er; þ.e. ölduhæð lítil, þá gerist þetta mjög nálægt landi. Sé ölduhæðin mikil í stórsjó, þá ná öldurnar stundum til botns langt undan landi. Því er það að í mesta stórsjó getur verið grunnbrot á allri Kollsvíkinni, en í ládauðu örlar varla á steini.
Landborð / Landborði (n, hk/kk) Það borð báts sem snýr að landi. Ekki eru heimildir fyrir því að orðið hafi verið notað í Kollsvík, þó það sé mjög líklegt eins og það var almennt um landið. Það heyrðist ekki í seinni tíð. Um bát sem sigldi nær landi var sagt á öðrum bát að hann sigldi landmeginn, en ekki á landborða.
Landbrot (n, hk) A. Eyðing/niðurbrot lands vegna t.d. sjávarágangs eða uppblásturs. Mikið landbrot hefur einatt verið sunnantil í Kollsvík vegna uppblásturs. Á síðustu árum hefur sjór tekið að brjóta úr sjávarbökkunum, þar sem miklar mijar eru um Láganúpsverstöð. B. Lækur sem rennur um land, svo meiri gróðursæld verður meðfram honum en í umhverfinu. C. Nýrækt; túnagerð.
Landbrú (n, kvk) Þurrlendi milli landa. Dæmi um landbrú er t.d. eyðið milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar, sem tengir afganginn af Íslandi við Vestfirði. En sumar landbrýr eru horfnar. Á síðustu árum hafa jarðfræðingar talið sig finna sífellt fleiri líkur/sannanir fyrir því að fyrir meira en 6-7 milljón árum hafi Ísland verið tengt Grænlandi og líklega einnig Færeyjum og Skotlandi með landbrúm. Ísland þess tíma var allt öðruvísi útlits en síðar varð. Síðan hefur það rekið mjög í báðar áttir og nýrra berg byggt upp miðhlutann, auk þess sem jökull mótaði mjög eldri jarðlög á yfirborði. Þó er sennilegt að neðstu sýnilegu jarðlög bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum séu frá þessum tíma landbrúar. Hafi lífverur borist um hana, er ekki útilokað að ummerki þeirra eigi eftir að finnast; e.t.v. í Kollsvík eða nágrenni.
Landburður af fiski (orðtak) Mjög gott fiskirí; afburðagóð veiði. „Þar ku hafa verið landburður af fiski“.
Landbúnaður / Landbúskapur (n, kk) Búskapur með búfé og aðra ræktun á landi, til aðgreiningar frá útgerð/útvegsbúskap. Undirstöðuatvinnuvegur Kollsvíkinga frá upphafi, þó sjávarútvegur hafi einnig skipað stóran sess. „Heimamenn í Kollsvík notuðu hverja stund til sjóferða, þrátt fyrir það að þeir hefðu landbúskap, enda var meiri mannafli þá en nú“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Landdraugur / Sjódraugur (n, kk) Tveir mismunandi stofnar drauga. Landdraugar eru afturgöngur manna sem sálast hafa á landi, en sjódraugar þeirra sem drukknað hafa í sjó. „Í Bjarnanesmýrinni eru tveir stórir steinar, nefndir Draugasteinar. Þeir eru yst í mýrinni. Þarna bjuggu til forna landdraugur og sjódraugur. Nú er gatan milli þeirra“ (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms). „Sagt var að ekki mætti fara á mili þeirra, því draugarnir ættust þar ill við“ (BÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).
Landeigandi (n, kk) Sá sem hefur eignarrétt á landi.
Landeyða (n, kvk) Letihaugur; letingi; vinnufælinn maður. „Skelfingar landeyða geturr hann verið“!
Landeyðuháttur (n, kk) Leti; ómennska; drullusokksháttur. „Skelfing er að heyra af svona landeyðuhætti“!
Landeyðulegt (l) Líkt landeyðu; letilegt. „Fjórir bæir bættust við á árinu með sjónvarpsgláp nú rétt fyrir jólin, með ærnum tilkostnaði umfram tækjakaupin. Fólk telur fénu ekki illa varið. En skelfing er það þó landeyðulegt að sjá sveitafólk sitja auðum höndum öll kvöld. En þetta kannske venst“ (ÞJ; Árb.Barð 1971).
Landafarsótt (n, kvk) Farsótt/smitsjúkdómur sem gengur yfir landið eða mikinn hluta þess. Í seinni tíð mest notað í líkingum. „Þessi fésbókarárátta er eins og einhver déskotans landfarsótt“!
Landfastur (l) Kominn að landi. „Árni sendi Guðjón strax og við vorum landfastir, inn að Kvígindisdal til að láta vita að við værum í Kollsvík“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Ekki er víst að hvalurinn hafi verið landfastur...“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Landferð (n, kvk) Landsigling; landróður; sigling í land úr róðri. „Fiskur var sæmilega ör, svo að ekki var hugsað til landferðar“ (ÖG; Þokuróður).
Landfesti (n, kvk) Hnýfilband; kolluband; festi á hnýfli báts sem notuð var m.a. til að halda í við sjósetningu. „Hann náði í taugina, landfestina, og þá var dregið í land. Þeir sem í landi voru drógu Guðbjart og hann dró Korkanesið. Við húktum bara þarna í hálffullum bátnum“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Landgrunn (n, hk) Grunnsævi útfrá landi. Í daglegu tali nú til dags merkir orðið þann berggrunn sem er allt í kringum Ísland og skilinn er frá úthafsbotninum með skörpum halla; landgrunnshalla.
Landgræðsla (n, kvk) Uppgræðsla lands. Oftast er þá átt við endurheimt gróðurlendis sem blásið hefur upp. Landgræðsla hefur verið viðvarandi verkefni bænda í Útvíkum svo lengi sem séð verður.
Landgæði / Landkostir (n, hk, fto) Jarðargæði; það sem jörð gefur af sér og gerir hana byggilega. „Um landgæði í Kollsvík verður ekki deilt; fáar jarðir eru kostameiri á öllum sviðum“. „Engin byggð hefur til langframa verið í Láturdal, enda landkostir afar rýrir“.
Landhalli (n, kk) Halli í landslagi; halli svæðis. „Túnið er þurrara ofantil; þar sem landhalli er meiri“.
Landhelgi (n, kvk) A. Nethelgi/netlög jarðar. Hverri jörð sem liggur að sjó fylgir umráð hafsvæðis innan línu sem dregin er 60 faðma frá stórstraumsfjöruborði. Þar má enginn veiða án leyfis landeiganda. Þó þetta séu hin lagalegu mörk á landhelgi jarðar þá má segja að hverri jörð hafi einnig tilheyrt þau fiskimið sem næst henni lágu; voru aðgengileg á árabátum og nýtt um aldaraðir. Þann hefðarétt hafa stjórnvöld á síðustu áratugum lítilsvirt með því að gefa vildarvinum annarsstaðar á landinu einkaleyfi til veiða. Slíkt er í raun ekki annað en veiðiþjófnaður. B. Fiskveiðilögsaga ríkis. Á síðari tímum hefur orðið einungis verið notað í þessari merkingu. Landhelgismörk voru færð utar nokkrum sinnum á 20. öld og eru nú við línu sem dregin er 200 sjómílur frá ystu nesjum.
Landhlaup (n, hk) Afbrigðileg hegðun sjávardýra, þannig að þau leita upp á þurrt land og drepast iðulega unnvörpum. Orsakir geta verið margar, og ekki alltaf þekktar. Landhlaup þekkist meðal hvala, en einnig hjá fiskum. Síld hefur t.d. hlaupið á land í stórum stíl, og einnig þorskur. Sjá einnig hlýrarek.
Landhreinsun (n, kvk) A. Upphaflega nafn á þeim hluta fjörbaugsgarðs að hinn seki þurfti að dveljast þrjú ár erlendis. B. Á síðari tímum táknar heitið það sem talið er til bóta fyrir landið/þjóðina. „Það væri mikil landhreinsun ef unnt væri að selja alla boltabjálfana til útlanda; ekki síst ef það væri með einhverjum hagnaði“!
Landi (n, kk) Gælunafn á heimabrugguðu brennivíni. Varð til á bannárunum, þegar búin voru til leyniorð um það sem yfirvöld máttu ekki vita af. Þó ekki væri bruggað í Kollsvík, svo sögur fari af, var vitað um slíka starfsemi annarsstaðar í hreppnum. „Gjörð er veisla gildum hal í góðu standi./ Dansað er og drukkinn landi“ (JR; Rósarímur).
Landkenning (n, kvk) Það að verða var við land; sjá til lands. „...var það ætlunin að sigla upp undir Bjargtanga og hafa þar landkenningu“ (ÖG; Þokuróður).
Landkostir (n, kk, fto) Kostir jarðar/svæðis til búsetu. „Kollur hefur verið fljótur að koma auga á landkosti víkurinnar, þó ekkert væri hafskipið lengur. Enda lét hann sér nægja minnsta landnám á Íslandi“.
Landkrabbi (n, kk) Niðrandi heiti á þeim sem ekki hafa mikið stundað sjó; notað af þeim sem telja sig sjóaðri. „Ekki veit ég hvað þessir landkrabbar eru að rífa sig, sem aldrei hafa migið í saltan sjó“.
Landlega (n, kvk) Þegar ekki gefur á sjó vegna veðurs eða sjólags. Landlegudagar. „Hreinsun túna og garðvinna voru að mestu störf barna og kvenna; karlmenn gripu í það í landlegum“ (ÖG; Niðjatal HM/GG). „Þegar landlegu lauk svo að helgarhvíld var í nánd voru oft teknir þrír eða fleiri róðrar í lotu til uppbótar á þeim tíma sem týndur var“ (KJK; Kollsvíkurver). Landlegur nefndust að fornu uppihöld. Vermenn voru ekki skyldugir til vinnu í landlegum, umfram það sem þurfti að sinna afla og útgerð. Þó þurftu þeir að afla eldiviðar, s.s. rífa lyng og safna þönglum. Nokkuð mun hafa verið um að þeir fengju rekavið og ynnu úr honum fyrir sig, rekaeigendur og aðra m.a. ílát og amboð. Vermenn á Brunnum, og e.t.v. víðar í Útvíkum, fengu leyfi til að fara í eggjatekju í björgum einusinni á hverrri vertíð, venjulega í 6. viku sumars. Vermenn í Láganúpsverstöð munu hafa hlaðið hina miklu Garða sem enn standa á Grundarbökkum, og unnið að því í landlegum. Hefur það verið allmikil vinna og vel vandað til verka. Garðarnir hafa nýst sem túngarðar og skjól Grundatúns, en e.t.v. hafa þeir einnig verið nýttir sem steinbíts- og hrýgjugarðar fyrir vermennina sjálfa. Vermenn fengust einnig við spil og leiki í landlegum (sjá vermannaleikir). (VÖ; m.a. skv munnlegum sögnum heimamanna og LK; Ísl sjávarhættir). „Hreinsun túna og garðvinna voru að mestu störf kvenna og barna; karlmenn gripu í það í landlegum“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). „Þann tíma fluttu allir vinnufærir karlmenn í Verið, og komu ekki aftur heim nema á sunnudögum og ef landlegur voru“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). „Á bæjum í Kollsvík var margt gert fyrir vermenn, m.a. bakaðar kökur og brauð. Þessi störf greiddu þeir með því að taka upp mó í landlegum fyrir heimabændur“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; GG). „Sauðfé smöluðu menn til rúnings í landlegum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
„Í landlegum vegna hvassviðris eða brims lá það fyrst fyrir að sofa út, væru menn þreyttir. Búðirnar urðu að geyma allan fjöldann ef vont var veður. Heimamenn fóru heim á bæina, og þá stundum til annarra starfa. Það var fátt um skemmtanir hjá aðkomumönnum. Hásetar hjá heimamönnum fóru oft heim með þeim á landlegudögum og unnu að móskurði. Oft gengu menn milli búða og þáðu kaffi hvor hjá öðrum. Oft kom það fyrir, þótt ekki væri err í mánuðinum, að menn tóku upp spil sér til dægrastyttingar. Aftur fóru ungu mennirnir út á slétta bala (þar af komið nafnið „Strákamelur“) og reyndu með sér, t.d. í glímu, eða fóru í handbolta og fótbolta. Það voru margir leiknir í handbolta; þeir þóttu bestir í hvoru liði sem voru leiknir að grípa. Það voru litlir boltar. Fótbolti var ekki nema seinustu árin. Einstöku menn kváðu rímur. Oft var sungið í búðunum. Dálítið hrafl höfðu menn með sér af bókum. Mörg vísan varð til í Verinu“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Landlegudagur (n, kk) Dagur sem verið er í landi vegna veðurs/sjólags. „Landlegudagarnir urðu mörgum langir og leiðir; ekki síst aðkomumönnum, sem svo langt áttu heim að sækja...“ (KJK; Kollsvíkurver). „Hásetar hjá heimamönnum fóru oft heim með þeim á landlegudögum og unnu að móskurði“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Landlegustund (n, kvk) Stund meðan landlega er. „Hver landlegustund var notuð við heimilisstörf. Stundum var karlmaður allt sumarið við heyvinnu og stundum var slegið niður róðri ef þurfti að þurrka mikið hey“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Landleið / Landstím (n, kvk) Leiðin til lands úr róðri. „Þó var bót í máli að það var að fara norður en okkar landleið var suður á við“ (VÖ eldri; Einn á bát 1955). „Við slægjum þetta á landleiðinni“.
Landlítill (l) Um jörð; sem lítið eignarland/nýtingarland tilheyrir. „Sellátranes er fremur landlítil jörð“.
Landlægur (l) Sem liggur í landi; sem tíðkast um allt land. „Þetta hvítlauksát er orðið landlægur fjandi“!
Landmegin (ao) Á þá hlið/síðu sem veit að landi. „Þeir sigldu framhjá; landmegin við okkar bát“.
Landmikill (l) Um jörð; sem mikið eignarland/nýtingaraland tilheyrir. „Melanes og Vesturbotn eru líklega einar landmestu jarðirnar í Rauðasandshreppi“.
Landmælingar (n, kvk) Mælingar landsvæðis, oftast í tengslum við kortagerð. Einn frumherja í landmælingum og kortagerð hérlendis var Samúel Eggertsson, sem fæddist á Melanesi á Rauðasandi 1864, sonur Eggerts Jochumssonar (bróður Matthíasar þjóðskálds) og Guðbjargar Ólafsdóttur. Hann lærði á bændaskólanum í Ólafdal, bæði búnaðarfræði og landmælingar. Árið 1903 stofnaði Samúel, ásamt Mörtu Stefánsdóttur kou sinni, kotbýlið Grund á Torfamel og bjó þar til 1908. Samúel var listaskrifari og -teiknari. Á búskaparárum sínum í Kollsvík vann hann mjög að kortagerð. Fór hann í þeim tilgangi víða um land og gerði mælingar. Til er merkur uppdráttur sem Samúel gerði af Rauðasandshreppi. Þar koma m.a. fram þjóðleiðir og siglingaleiðir; m.a. leiðir inn á Lægið í Kollsvíkurveri. Kortagerð sinni hélt Samúel áfram eftir að hann fluttist til Reykjavíkur, en stundaði auk þess kennslu, líkt og hann hafði gert í Kollsvík. Hann lést árið 1949.
Um það leyti sem Samúel vann sitt frumherjastarf fór fram mikil landmælingavinna á vegum danska herforingjaráðsins, hún stóð yfir milli 1900 og 1940. Menjar um þá vinnu eru hinar miklu landmælingavörður sem enn má víða sjá á hæstu fjallsbungum; t.d. á Blakk; Kóngshæð og Brunnahæð. Afurðir þessa verks voru hin Atlaskortin svonefndu, einnig nefnd herforingjaráðskort. Næsta átakið í landmælingum hófst 1955, og var á vegum Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO). Nú á dögum fara landmælingar einkum fram með gervitunglamyndum og GPS-mælingum, en einnig loftljósmyndun úr flugvél. Örnefni í Kollsvík voru kortsett árið 1915 af VÖ í samvinnu við Landmælingar Íslands og Loftmyndir hf.
Landnám (n, hk) Helgun manns á landi til eignar sér. Landnámi Kollsvíkur er lýst í frásögn Hellismannasögu. Í byrjun er þar sagt frá Örlygi Hrappssyni, fóstursyni Patreks biskups helga í Suðureyjum, sem vildi fara til Íslands. Hann fékk kirkjuvið, góð ráð og spásagnir hjá fóstra sínum. Síðan segir... „Örlygur lét í haf og með honum sá maður á öðru skipi er Kollur hét, fóstbróðir hans. Þeir höfðu samflot. Á skipi með Örlygi var ... Þorbjörn Spörr..., Þorbjörn tálkni... og Þorbjörn skúma. En er þeir komu að landinu gerði að þeim storm mikinn, og rak þá vestur um landið. Þá hét Örlygur á Patrek biskup, fóstra sinn, til landtöku og hann skyldi af hans nafni gefa örnefi þar sem hann tæki land, og voru þá komnir vestur um landið. Hann kom skipi sínu í Örlygshöfn, og þar inn kallaði hann Patreksfjörð. En Kollur hét á Þór. Þá skildi í storminum og kom hann þar er Kollsvík heitir og braut hann þar skip sitt. Þeir voru um veturinn og segir eigi meir af þeim í þessari sögu“
Landnámabók er fámálli, en þar segir m.a.... „Ármóður hinn rauði nam Rauðasand.... Þórólfur Spörr kom út með Örlygi og nam hann Patreksfjörð fyrir vestan og Víkur fyrir vestan Barð, nema Kollsvík. Þar bjó Kollur fóstbróðir Örlygs. Þórólfur nam og Keflavík fyrir sunnan Barð og bjó að Hvallátrum. Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma... námu Patreksfjörð hálfan og Tálknafjörð allan til Kópaness“.
Þetta eru elstu ritaðar heimildir um Kollsvík; um eignarhald jarða þar og í nágrenninu; um fyrstu nafngiftir á svæðinu; um trúarbrögð, veðurlýsingar, búsæld og hafnarskilyrði. Fjölmargt í þessum fáu orðum gefur tilefni til hugleiðinga. En hér þarf einnig að hafa í huga munnlega geymd í arfsögnum sem gengið hafa kynslóð fram af kynslóð, varðandi þennan fyrsta landnámsmann. Tvær arfsagnir hafa varðveist til þessa dags. Önnur er um skipbrot Kolls, og er því nánari útlistun á frásögn Hellismannasögu. Hún segir að Kollur hafi brotið skip sitt á Arnarboða, og að við stjórnvölinn hafi verið stýrimaður Kolls, sem Örn nefndist. Eftir honum var boðinn nefndur Arnarboði. Arnarboði er stutt undan Grundagrjótum; handantil í Kollsvík. Hann kemur uppúr um fjöru en verður þó aldrei landfastur. Aðstæður eru þannig að vel er mögulegt að skipi Kolls hafi verið siglt grunnt með landi til að skoða aðstæður eða leita vars. Einnig er vel hugsanlegt að menn geti bjargast í land á hundasundi eða hangandi á braki, eftir skipbrot á Arnarboða. Hér er um að ræða fyrsta skipbrot við Ísland sem skráð heimild er fyrir; og fyrstu björgun úr strandi við Ísland. Orðalag heimilda bendir til að á skipi Kolls hafi verið landnámsmenn allrar V-Barðastrandasýslu nema Barðastrandar og Rauðasands. Þó ekki sé það sagt berum orðum, má ætla að á þeim knerri hafi einnig verið bústofn til að hefja búskap og ræktun; eftirbátur og veiðarfæri sem dugðu til fyrstu veiðanna; og svo má ætla að á skipi Kolls hafi verið hluti kirkjuviðarins sem þeir fóstbræður voru beðnir fyrir af Patreki Suðureyjabiskupi. Kollur hefur án efa verið kristinn eins og Örlygur fóstbróðir hans; hvað sem líður heiðnum áheitum hans eða blótsyrðum í röstinni. Örlygur fór suður með kirkjuvið og byggði kirkju undir Esjubergi. Ekki er ólíklegt að Kollur hafi orðið fyrri til og byggt hina fyrstu kirkju landsins í Kollsvík, úr sínum hluta kirkjuviðarins. Bær hans hefur líklega staðið í skjólinu undir Núpnum, þar sem Kollsvíkurbær hefur staðið æ síðan. Kirkjan hefur þá líklega staðið á hólnum þar stutt frá; þar sem hálfkirkja stóð lengi síðar í kaþólskum sið. Kollsvík bar forðum heitið Kirkjuból, en það nafn bendir til kirkju frá fyrstu dögum byggðar (sjá kirkjuból). Ekki er ólíklegt að beint í vestur af kirkjudyrum hafi Kollur reist keltneskan kross á áberandi þúfu sem þar er, en hún ber örnefnið Biskupsþúfa. Krossinn hefði hann reist til guðsþakkar fyrir björgun sína úr strandinu, og helgað kirkju og kross Patreki biskupi, fóstra sínum. Kross Patreks biskups hafi síðar horfið en eftir stendur Biskupsþúfa. Mörgum öldum síðar settist annar biskup; Guðmundur hinn góði, á þessa sömu þúfu á leið sinni til vígslu Gvendarbrunns, og hefur þá líklega haldið tölu yfir liði sínu og heimamönnum; minnst Kolls og Patreks.
Hin arfsögnin er af dauða og útför Kolls. Hún segir að þegar Kollur fann dauðann nálgast hafi hann mælt svo fyrir að hann yrði heygður fremst uppi á Straumnesi (nú Blakknesi), þar sem útsýni er hvað best yfir hans landnám. Mælti hann einnig svo fyrir að vopn sín og fjársjóður skyldu grafin undir Biskupsþúfu, en hún er í Kollsvíkurtúni, stutt neðan gamla bæjarstæðisins. Viðurlög voru ef við þúfunni var hreyft; annaðhvort sýndust bæirnir brenna eða gott sjóveður gerði, og því slepptu menn ekki. Víst er víðsýnt af Blakknesnibbu, og þar sér yfir mestallt landnám Kolls. Þar var sögð sjást þúfa sem vera myndi leiði Kolls og þar er örnefnið Kollsleiði. Hinsvegar sér hvergi til hennar nú; grjótrúst sem þar er núna er leifar landmælingarvörðu. Gjalda veður þó fullan varhug við sannleiksgildi sögunnar um Kollsleiði. Annarsvegar eru allar líkur á að Kollur hafi verið vel kristinn og því frábitinn haugsetningu; auk þess sem hann kann sjálfur að hafa komið sér upp kirkju og greftrunarreit, eins og áður segir. Hinsvegar verður að telja slíka haugsetningu mikla sérvisku í Kolli ef satt væri, þar sem öll kuml sem nú hafa komið í ljós á landinu eru staðsett ýmist nær bæjum eða við fjölfarnar leiðir. En Kollur var um margt einstakur landnámsmaður, svo sem stærð landnámsins ber vitni um, og Kollsvíkingar hafa löngum farið sínar eigin leiðir í mörgu. Sögnin um fjársjóð Kolls gæti staðist fyrir þær sakir að þaðan er sjónhending upp á Blakknesnibbu. Hinsvegar virðist Biskupsþúfan vera grasi vaxið bjarg sem hrunið hefur úr Núpnum, og því ólíklegt að nokkur hafi komið munum þar undir. Auk þess er ólíklegt að allir hafi verið svo frómir gegnum tíðina að þeir hafi látið kerlingabækur og forboð stöðva sig í að ná í gull með lítilli fyrirhöfn. En sagan sjálf er gulls ígildi, og svo mikla virðingu báru menn fyrir henni að þúfan hefur verið látin í friði, þó allt í kringum hana sé nú véltækt tún.
Gegnum tíðina hafa Kollsvíkingar borið meiri virðingu fyrir frásögnum Landnámu og annarra Íslendingasagna en nokkrum öðrum heimildum, jafnvel að meðtöldum Biflíunni sjálfri og Kollsvíkurætt. Hinsvegar hafa þessar sagnir orðið tilefni mikilla vangaveltna, ekki síst á síðari tímum. Undirritaður tók þessa rökræðu inn með móðurmjólkinni og hefur einkum staðnæmst við tvennt. Annarsvegar virðist frásögn Landnámu vera trúverðug að stofni til; margt í aðstæðum styður hana, sem ekki verður orðlengt hér. Hinsvegar virðist sem skrásetjari sagnanna hafi liðið fyrir það annarsvegar að nokkur hundruð ár voru frá atburðum til skrásetningar og hinsvegar að hann virðist hafa gengið mjög langt til að sanna uppruna og eignarrétt á landi fyrir þeim sem bókin var ætluð. Um þetta hafa fræðimenn skrifað og vísa ég til þeirra. Því er það niðurstaða undirritaðs að í grunninn sé frásögnin rétt (a.m.k. þar til sannara reynist) en nöfn og hjátrú ekki. Engum sem íhugar örnefni getur dulist að staðir fá nöfn af því sem helst einkennir þá, en ekki af fólki. Svæði við ströndina fá einkum nöfn af því sem er greinilegast úr hafi, sem er skiljanlegt þegar haft er í huga að samgöngur milli landshluta voru í fyrstu einkum á sjó. Helsta einkenni Kollsvíkur af hafi er Núpurinn; með sínum ljósbjarta sandi; eins og sérkennilegur kollur í laginu og ólíkur nærliggjndi núpum. Ég tel því líklegast að Kollsvíkin dragi nafn af þessu sérkenni, en líklega hafi þá landnámsmaðurinn borið annað nafn. Arnarboði gæti heitið eftir manni, en einnig er hugsanlegt að meðan ernir voru algengari en nú er, hafi örn setið þar löngum á fjörunni og skimað eftir æti á grynningunum. Rauðisandur er svo augljóst heiti að það þarf verulegt hugmyndaflug til að kenna þann stað við mann. Hænir var sagður landnámsmaður Hænuvíkur, en ég tel líklegt að víkin dragi nafn af Hnjótnum inni í víkinni sem er áberandi mið af sjó, eða af Hænuvíkurnúpnum. Telja má næsta víst að Örlygshöfn dragi nafn af hinni einstaklega góðu höfn sem áður var fyrir grunnskreið skip, þar sem heitir Neteyri. Nafið gæti verið myndbreyting af „Örleikshöfn“, en örleikur var algengt orð; merkir sama og örlæti; eða af „Örlognshöfn“, en forskeyti „ör-„ gat merkt mikill. Tálkninn ber augljós einkenni fisktálkns, hvað sem líður Landnámu og Þorbirni Tálkna. Fleiri dæmi mætti til færa, en augljóslega er Landnáma ekki góð skýring á uppruna örnefna. Þar er nærtækast að leita skýringa í náttúrunni sjálfri og sérkennum hvers staðar (VÖ).
Landnámabók / Landnáma (n, kvk) Fornrit sem talið elsta heimildin um landnám Íslands. Þar er upptalning á landnámsmönnum; uppruna sumra þeirra; stærðir og mörk landnáma og hvernig landnám fór fram. Þar koma fyrir um 3.000 eiginnöfn manna og 1.400 örnefni, sem langflest eru þekkt enn í dag. Elsta gerð Landnámu er glötuð; þ.e. sú sem Styrmir fróði Kárason ritaði á 13.öld, en af þeim afritum sem varðveist hafa er Sturlubók elst; kennd við Sturlu Þórðarson sagnaritara. Varðveitt er eintak hennar afritað á 17.öld af séra Jóni Erlendssyni í Villingaholti. Önnur gerð er Hauksbók; enn önnur Melabók, sem talin er rituð um 1270 af Snorra lögmanni Magnússyni á Melum. Hún geymir hluta úr elstu gerð Landnámabókar. Tvær endurritanir eru enn; Skarðsárbók eftir Björn Jónsson á 17.öld, og Þórðarbók eftir Þórð Jónsson í Hítardal frá sama tíma. Landnáma hefur löngum verið talin óumdeilt grundvallarrit. Það er ekki fyrr en á síðustu tímum að ýmsir hafa haft uppi efasemdir um suma þætti, eftir því sem fornleifauppgreftri, aldursgreiningu og erfðafræði vindur fram og menn fá skýrari mynd af samfélögum og stjórnarháttum á Landnámstíma. Bent hefur verið á tilhneygingu Landnámu til að draga fram eignarhald og göfugar ættir, og jafnvel talið að það gæti tengst þörf einhverra á ritunartíma til að sanna tilkall til eigna eða skjóta stoðum undir uppruna sinn. Hafa verður í huga að Landnáma er rituð meira en 300 árum eftir að atburðir áttu sér stað sem þar er lýst. Þá er auðséð á Landnámu að heimildir eru mjög misjafnlega tiltækar höfundi/höfundum. Það sést t.d. glöggt af því hve lítið er þar fjallað um merkismanninn Koll í Kollsvík. Ekki er ólíklegt að það sem þar er sagt um hann sé haft eftir afkomendum Örlygs á Esjubergi, sem voru Landnámuhöfundi nærtækari en Kollsvíkingar. Afkomendur Örlygs hafa efalaust viljað halda heiðri síns forföður á lofti og því gert t.d. mikið úr því að Kolli varð á að nefna nafn Þórs í nauðum, en hann hefur að sjálfsögðu verið sannkristinn trúboði líkt og Örlygur fóstbróðir hans. Líkur benda einnig til að Kollur hafi byggt kirkju í Kollsvík og það jafnvel á undan fóstbróður sínum (sjá kirkjuból), en líklega myndu Örlygsafkomendur þegja yfir því við sagnaritara, heldur eigna sínni ætt þann heiður. Hugsanlega hafa þeir einnig gert minna úr landnámi Kolls en efni stóðu til; um það verður ekki fullyrt héðanaf.
Landnámsjörð (n, kvk) Jörð sem heimildir segja að landnámsmaður hafi búið á. Kollsvík er augljóslega landnámsjörð, samkvæmt frásögn Landnámu og annarra fornheimilda. Hinsvegar er forvitnilegt að velta fyrir sér samspili Kollsvíkurjarðarinnar og Láganúpsjarðarinnar. Hvenær varð Láganúpur sérstakt býli? Svo langt sem heimildir eygir hefur Láganúpur verið lögbýli, þó vissulega hafi jörðin verið í eigu höfðingjaveldis um aldaraðir, sem gróðavænleg verstöð. Sé frásögn Landnámu tekin góð og gild, mætti ímynda sér að Kollur hafi fljótlega veitt öðrum yfirráð yfir suðurhluta víkurinnar. En hér er rétt að staldra við bæjarnöfnin. Hvort sem víkin var nefnd utaní landnámsmanninn eða tók sitt nafn af náttúrulegum auðkennum, þá má ætla að ef tveir bæir hefðu verið í víkinni frá upphafi, þá hefði hvor þeirra fengið sitt sérstaka nafn sem ekki yrði ruglað saman við nafn víkurinnar. Svo var ekki: Allar líkur benda til þess að norðari jörðin hafi alla tíð borið sama nafn og víkin (burtséð frá Kirkjubólsnafninu um tíma). Líkur eru því á að aðeins hafi verið ein jörð í víkinni um nokkuð langan tíma; e.t.v. tvær til þrjár kynslóðir, áður en Láganúpur varð jörð. Því hafi ekki þótt þörf á sérstöku nafni til að greina bæinn frá víkinni. Þegar Láganúpur byggðist höfðu örnefni þegar mótast, og sá bær var einfaldlega nefndur utaní hinn lága núp, en Hnífarnir og landið uppaf þeim hefur nefnst Láganúpur, í stíl við núpanöfnin allt í kring. Það nafn færist svo alfarið yfir á bæinn. Kollsvík hélt velli sem heiti á bæði víkinni og landnámsjörðinni. Þetta er þó aðeins kenning til hugleiðingar; annað kann að koma á daginn síðar.
Landnámslagið (n, hk, m.gr) Gjóskulag frá eldgosi nálægt Torfajökli. Nákvæmar aldursgreiningar sýna að það féll árið 871, eða þremur árum áður en Ingólfur Arnarson nam land, að sögn Landnámabókar. Þar sem öskulagið finnst í jörð er því unnt að nota það til aldursgreiningar á fornleifum. Útbreiðsla þess er hinsvegar mest kringum sunnanvert miðhálendið; frá Hellisheiði og Borgarfirði í vestri til ofanverðs Fljótsdalshéraðs og Hornafjarðar í austri. Fíngert ryk hefur þó líklega borist með háloftavindum og fallið víða um land og jafnvel erlendis. Því kann að vera að landnámslagið eigi eftir að nýtast víðar um land með nákvæmari mælitækjum en nú eru tiltæk.
Landnámsmaður (n, kk) Fyrsta kynslóð innflytjenda hingað til lands eftir að landnám hófst með komu Ingólfs Arnarsonar árið 874 (samkvæmt Landnámu). Landnámsmönnum er oft skipt í nokkra flokka eftir eðli landnámsins. Í fyrsta flokknum eru svonefndir „frumlandnámsmenn“; þ.e. þeir sem fyrstir komu að ónumdu landi og eignuðu sér það fyrstir með einum eða öðrum hætti. Þau landnám eru oftast mjög víðfeðm og aðeins eitt sker sig þar úr; landnám Kolls í Kollsvík, en hann lét sér nægja eina vík og beitarlönd hennar. Sú vík er að vísu mjög kostarík og fullkomlega sjálfbær litlu samfélagi fólks sem kann að lifa af landsins gæðum. Velta má fyrir sér ástæðum þessa litla landnáms Kolls. Ein ástæðan kann að vera trúarlegs eðlis, en Kollur nam þau kristnu fræði í Kólumbusarklaustrinu á Iona að menn ættu að vera nægjusamir og tigna sinn guð. Önnur ástæða kann að vera að hann hafi slasast í skipbroti sínu á Arnarboða og ekki treyst sér til að annast stærra land. Þriðja hugsanlega ástæðan er að skipsnautar hans; Þórólfur spörr og Þorbirnir tveir, hafi átt verulegan hlut í hinum dýra knerri sem eyðilagðist á Arnarboða, og það orðið að samkomulagi við Koll að þeir fengju stór landnám kringum Kollsvík sem bætur. Kunna allar ástæður þessar að fléttast saman; og e.t.v. fleiri.
Í öðrum flokki landnámsmanna eru þeir sem námu land að ráði eða með leyfi frumlandnámsmanna. Í þennan flokk gætu fallið hásetar Kolls; þeir Þórólfur Spörr; Þorbjörn tálkni og Þorbjörn Skúma, samkvæmt framansögðu. Í þriðja flokknum eru svo þeir landnámsmenn sem þáðu land að gjöf sem áður var numið af öðrum, eða fengu það með bardögum.
Landnámabók greinir frá 430 landnámsmönnum; þar af 317 sem komu á eigin skipum og námu land í öndverðu; þ.e. þeir sem féllu í tvo fyrri flokkana hér að framan. Engar tölur eru vísar um heildarfjölda lansmanna eftir að landnámi taldist lokið kringum 1030, en giskað hefur verið á að þeir hafi verið um 20.000. Fáar, ef nokkrar, þjóðir eiga jafn góðar ritheimildir um uppruna sinn. Flestir landnámsmenn eru taldir hafa komið frá suðurhluta Vestur-Noregs; þ.e. frá Hörðalandi, Sogni og Fjörðum, en einnig margir frá Þrándheimi. Margir komu einnig frá Bretlandseyjum; einkum frá Írlandi og skosku eyjunum. Erfðafræðirannsóknir hafa staðfest upprunann að miklu leyti, en þó með því fráviki að meirihluti kvenna á landnámsöld virðist eiga sama uppruna og konur á Bretlandseyjum. Þykir þetta benda til þess að landnámsmenn hafi annaðhvort verið um tíma búsettir þar eða komið þar við og tekið með sér kvonfang og ambáttir.
Landnorðan (ao) Norðaustan.
Landnorður (n, hk) Norðaustur.
Landnot (n, hk, fto) Nytjar af landi í annarra eigu. „Um aldaraðir tíðkaðist það að Kollsvíkingar, einkum Láganúpsbændur, hefðu landnot af Breiðavíkinni norðanverðri til beitar. Snemma á 20. öld hafði Guðbjartur Guðbjartsson fé þar á vorin, og var gengið daglega yfir Breiðinn til að fylgjast með burði. Svo kann að hafa verið um langa tíð“.
Landnyrðingur (n, kk) „ Landnyrðingur (sunnanátt); útsynningur (suðvestanátt); hafnyrðingur (norðanátt); austnorðan (þegar áttin gengur frá austri til norðurs); og norðaustan (þegar áttin gengur frá norði til austurs)“ (LK; Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).
Landnytjar (n, kvk, fto) Not/gagn af landi til lífsframfæris/tekjuöflunar. „Hjáleigur höfðu vanalega sitt afmarkaða tún, en aðrar landnytjar, s.s. bithagi og bitfjara, voru óskipt frá eignarjörðinni“.
Landpósttaska (n, kvk) Taska landpóstsins. Landpóstur hafði vanalega tvo hluti í sínum farangri. Annað var vandaður stór strigapoki, þar sem í voru dagblöð, pinklar og annar fyrirferðarmikill flutningur. Hitt var sjálf landpósttaskan, en í henni voru sendibréf, kröfubréf, frímerki, peningar og annað fémæti. Þeirrar tösku gætti hann eins og sjáaldurs auga síns.
Landpóstur (n, kk) A. Embættismaður hins opinbera sem hafði það hlutverk að koma pósti milli manna og halda uppi póstferðum. Upphaf þeirra má rekja til tilskipunar frá 1776, en þá skyldu landpóstar fara þrisvar á ári milli Suðvesturlands, S-Múlasýslu, Þingeyjarsýslu og Ísafjarðarsýslu. Síðar var landpóstum og ferðum þeirra fjölgað. Hinir eiginlegu landpóstar luku ferðum sínum uppúr 1900, enda voru samgöngur þó breyttar. B. Nafnið var síðar notað á þá opinberu embættismenn sem sáu um að koma pósti til notenda frá póstmiðstöðvum/bréfhirðingum. Þetta var hlutastarf, en mjög krefjandi; einkum meðan samgöngur voru erfiðar. Kristinn Ólafsson (15.02.1913-19.01.2010) bóndi í Hænuvík var landpóstur í ytri hluta Rauðasandshrepps frá 1945 til 1985. Lengst af fór hann ferðirnar á hestum; síðar um tíma á traktor, en síðustu árin á bíl. Á undan honum var Dagbjartur Björgvin Gíslason frá Kollsvík landpóstur, en á eftir Kristni gegndu Guðni Jónasson frá Breiðavík og Egill Össurarson frá Láganúpi löngum þessu hlutverki.
Landráð (n, hk, fto) Föðurlandssvik. „Það væru nú engin landráð þó þú kæmir inn og fengir þér kaffisopa áður en þú skondrar á næsta bæ“!
Landrek (n, hk) Rek og afstöðubreytingar landa vegna hreyfinga jarðskorpufleka af völdum innri afla jarðar. Landrek hefur fylgt sögu jarðar um milljarða ára, eins og nú er þekkt og viðurkennt. Það er þó ekki nema öld síðan vísindaheimurinn tók því sem fjarstæðu. Alfred Wegener (1880-1930) setti fyrstur fram heilsteypta tilgátu um landrek, m.a. eftir rannsóknir sínar á Íslandi og Grænlandi. Hann taldi að núverandi meginlönd væru öll brot af einu meginlandi sem hann nefndi Pangaea. Síðar hefur þetta verið skýrt betur og rannsakað. Jarðskorpan skiptist upp í misstóra jarðskorpufleka, sem reka ýmist að eða frá hvor öðrum, ásamt löndum á flekunum vegna iðuhreyfinga í seigfljótandi möttlinum undir þeim. Eld- og/eða jarðskjálftavirkni er mikil á flekaskilunum. Flekaskil eru eftir Atlantshafinu, milli norður- og suðurhvels, og þar færist hraun jafnt og þétt upp á yfirborðið um leið og Ameríku og Evrópu/Afríku rekur í sundur. Á Íslandi koma skilin uppúr hafi. Ísland er líklega virkasti staður flekaskilanna í Atlantshafi, og jafnvel upphafsstaður þeirra. Sömu tegund gosbergs er að finna á Íslandi og Færeyjum og á stað á austurströnd Grænlands og stöðum í Skotlandi. Á milli þessara staða liggur hryggur í hafinu; þvert á flekaskilin, sem nefnist Færeyjahryggur. Sýnir hann hina miklu uppkomu efnis um leið og löndin rak í sundur. Landbrú var um hrygginn, milli Vestfjarða og Grænlands, þar til fyrir 6-7 milljónum ára, að því er jarðfræðingar telja nú. Flekaskilin liggja yfir Ísland í svonefndu gosbelti. Það nær frá Reykjanesi í suðri; austur um Heklu, Bárðarbungu og norðurfyrir land um Öskju. Rekhraðinn er ekki mikill; Austurland fjarlægist Vesturland um 19 mm á ári; rekur í ASA.
Hin forna Pangaea var alls ekki fyrsta landið sem brotnaði upp; meginlönd hafa rekið sundur og saman eins langt og unnt er að rekja jarðsöguna.
Landris (n,hk) Hækkun landsvæðis. Ýmis náttúruöfl geta valdið því að land ýmist rís eða sígur. Hið stöðuga landrek er þar einn orsakavaldurinn; kvikuinnskot undir yfirborði er annar og farg á yfirborði af völdum t.d. jökla er hinn þriðji. Á síðustu árum hefur orðið ört vaxandi rof við vestur- og norðurströnd Íslands. Má merkja það t.d. af því að á þessum svæðum eru nú að hverfa í sjó flestar hinna fornu verstöðva, en þær stóðu eðlilega á sjávarbökkum. Orsakir sjávarstöðubreytinganna virðast einkum vera tvær: Annarsvegar hin ógnvænlega hækkun sjávaryfirborðs vegna hlýnunar jarðar og bráðnunar jökla. Hinn þáttinn má einnig rekja til bráðnunar jökla, en vegna þess að meginjöklar á Íslandi bráðna og léttast, rís landið þar. Það landris veldur því að landið „sporðreisist“, svo fjarlægustu svæðin sökkva. Þriðji orsakavaldurinn er líklega hið eðlilega ferli í kringum flekaskil, en land sekkur í vissri fjarlægð frá skilunum vegna fergingar nær þeim.
Landróður (n, kk) Róður til lands. Enn er talað um landróður, þó vélar séu komnar í báta. Fremur er þó notað orðið landleið eða landstím nú til dags.
Landrými (n, hk) Pláss/rými til athafna á landareign. „Jörðina skorti landrými til aukinnar ræktunar“.
Landrækur (l) Sem rekinn er úr landi; sem ætti að reka úr landi. „Ætli maður verði ekki gerður landrækur einhvern daginn, fyrir kjafthátt í garð pótintátanna“?
Landsbyggð (n, kvk) Byggð í landi/ríki; dreifbýli. Orðið hefur á síðustu áratugum mótast svo í munni þéttbýlinga á höfuðborgarsvæðinu að það merki þann hluta þjóðarinnar sem ekki býr þar. Fjölmiðlar láta ekki sitt eftir liggja í þessum áróðri, og klifa sífellt á orðalaginu „höfuðborg og landsbyggð“. Staðreyndin er þó sú að Reykjavík var ekki nema ein af fjöldamörgum landnámsjörðum á Íslandi, og á engan hátt rétthærri en aðrar. Þannig gekk það til framá 20. öld, en í byrjun hennar var jafnvel meiri kotungsbragur á Reykjavík en mörgum öðrum uppgangsstöðum landsins. Þá tók Reykjavík að soga til sín aukin réttindi af öðrum byggðarlögum, um leið og þar varð fólksfjölgun og þangað fluttust allar valdastofnanir landsins. Afleiðing þessarar arfavitlausu byggðastefnu varð sú að meirihluti þjóðarinnar hefur safnast á einn hlandkollublett, í samfélag sem þó er ekki fjölmennara en gata í raunverulegri stórborg, með gríðarlegum samfélagslegum vandamálum og firringu. Eftir sitja mannlausar byggðir sem þó búa yfir ríkulegum auðlindum og eru ekki síður byggilegar í dag en fyrrum. Þeim er markvisst haldið niðri og sveltar um nauðsynleg gæði úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Samgöngur eru þar í lamasessi, og sömuleiðis öll félagsleg þjónusta; en alvarlegast er þó að hinn ævaforni réttur byggðarlaga og jarða til nýtingar sinna fiskimiða var gerður upptækur og hann færður örfáum borgarbúum að gjöf, svo þeir gætu braskað með arðinn af auðlindunum í eigin þágu. Byggðastefna stjórnvalda hefur þannig í reynd verið landeyðingarstefna.
Landselur (n, kk) Phoca vitulina. Algeng selategund við Ísland og víða um heim. Landselur er algengari en hin selategundin sem hér lifir einkum; útselurinn. Landselur er steingrár á lit, með brúnleitum blæ; dökkur á baki en ljósari á kvið; með svartar doppur. Litur er annars nokkuð árstíðabundinn. Hreifar eru fremur litlir og höfuðið stórt og hnöttótt, meðað við aðrar selategundir. Brimlar verða um 1,5-2m að lengd og vega um 100-150 kg; urturnar eru nokkuð minni. Landselur getur orðið allt að 35 ára.
Landselur er mjög algengur við strendur í Kollsvík og nágrenni. Hann liggur gjarnan uppi á hleinum á útfiri, en sést oft synda með landi. Hann er forvitinn og kemur oft mjög nærri landi til að skoða ferðalanga eða annað á ströndinni. Líklega kæpir landselur oft á Landamerkjahlein, og slíkum stöðum þar sem hann telur sig öruggan nærri sjó. Selur var nokkuð nytjaður áðurfyrr, og þótti selkjöt og selspik gott búsílag. Þá þóttu hreyfarnir herramannsmatur, sviðnir, soðnir og súrsaðir. Skinnið var eftirsótt, og löngum verðmæt söluvara. Í Útvíkum var selur stundum skotinn, en í Ósnum á Rauðasandi var hann veiddur í net.
Ýmis þjóðtrú tengdist selum. Þeir voru taldir vera þeir hermenn Faraós sem eltu Móse yfir Rauðahafið en lentu í sjónum þegar leiðin lokaðist, eins og lesa má í Biblíunni. Hundar þeirra urðu þá að steinbítum. Sagt var að selurinn hafi mannsaugu, og það styðji þessa tilgátu. Talið var að selir köstuðu hömum sínum og kæmu á land sem fólk um nýársnótt, til að dansa og skemmta sér. Þekkt er sagan af því þegar Kölski breytti sér í selslíki og bauð Sæmundi fróða far til Íslands. Sæmundur gerðist hinsvegar fyrsti „flugdólgur“ sem sögur fara af er hann sló fararstjórann í höfuðið og greiddi ekki fargjaldið. Talið var ólánsmerki ef selur synti þvert í veg fyrir bát sem var á leið í róður.
Landseti (n, kk) Sá sem dvelur/býr á annars manns landi/jörð.
Landsfaðir (n, kk) Þjóðhöfðingi. Var fyrrum notað um kónginn, en er í seinni tíð oftast notað í fleirtölu, og gjarnan háði, um „ráðamenn þjóðarinnar“, þ.e. þingmenn, ráðherra og aðra sem fara með stjórn landsins.
Landsfjórðungur (n, kk) A. Stjórnsýsluumdæmi sem Íslandi var skipt í árið 965 vegna þinghalds (fjórðungsþing) og dóma (fjórðungsþingdómar). Þannig náði Vestfirðingafjórðungur úr Hvalfirði í Hrútfjörð; Norðlendingafjórðungur þaðan og í Langanes; Austfirðingafjórðungur í Mýrdalsjökul og Sunnlendingafjórðungur í Hvalfjörð. Þrjú goðorð voru í hverjum landsfjórðungi. Eftir 1271 voru lögmenn settir yfir hvern fjórðung; yfirleitt einn norðan og vestan og annar sunnan og austan, þó stundum færi sinn með hvern fjórðung. Þegar Hólbiskupsdæmi var stofnað 1106, náði það yfir Norðlendingafjórðung, en Skálholtsbiskupsdæmi yfir hina fjórðungana þrjá. B. Í dag hafa fjórðungarnir minna vægi sem stjórnsýslueiningar, en enn eimir þó eftir af þeim þó mörkin séu breytt. Þannig nær Vestfirðingafjórðungur nú aðeins að línu milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar, en innan hans hafa t.d. sveitarfélögin með sér samstarf.
Landshluti (n, kk) Hluti lands; landsvæði. „Fólksfækkun varð meiri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum“.
Landshorn (n, hk) Útskagi; ysti staður lands. „Reykjavíkursvæðið hefur sogað að sér fólk af öllum landshornum, eftir því sem þar hefur fjölgað miðlægri stjórnun og stofnunum“.
Landshornaflakkari (n, kk) Sá sem fer/flækist víða um land. „Baldvin Kristjánsson sagðist vera orðinn hálfgerður landshornaflakkari eftir að hann gerðist erindreki tryggingafélagsins, en alltaf héldi hann mest upp á ættarstöðvarnar í Kollsvíkinni“.
Landshornaflandur (n, hk) Flækingur/flakk/ferðalög víða um land. „Ég skil nú ekkert í bændum sem liggja í einhverju bévítans landshornaflandri um hábjargræðistímann“!
Landshlutur (n, kk) Skiptahlutur sem landeigandi fær af feng sem fæst í hans landi. Landeigandi fær t.d. fullan hlut á við hvern bjargmann í eggjaferðum. Landshlut úr bjargi má skilja eftir á brún. Einn maður í bjargferð þarf ekki að standa skil á landshlut. Landshlut átti einnig að skila þegar hvalur var skorinn í fjöru: „Samkvæmt annarri frásögn átti eigandi Hænuvíkur, en þeirri jörð tilheyrir Láturdalur, að hafa gert kröfu til landshlutar“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Landsigling (n, kvk) Sigling til lands; landstím.
Landsins gagn og nauðsynjar (orðtak) Um umræðuefni; allt sem nöfnum tjáir að nefna/ allt milli himins og jarðar sem snertir; einkanlega viðfangsefni daglegs lífs, afkomu og kringumstæður. „Hinir sátu gjarnan góða stund við kaffiborðið og ræddu landsins gagn og nauðsynjar“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Landsímastöð (n, kvk) Símstöð á fyrstu árum símans, þar sem sinnt var afgreiðslu símtala frá öðrum bæjum. Sími var lagður að Kollsvík árið 1934, og var þá landsímastöð á Stekkjarmel; í umsjón Karls Kristjánssonar bónda þar. Í byrjun komu menn þangað af öðrum bæjum í Kollsvík til að komast í símasamband, en síðar komu línur að Láganúpi og Kollsvík. Símstöðvar í sveitunum voru lagðar niður, og um mörg ár var símstöð á Patreksfirði; eða þar til unnt var að velja símanúmer heima á bæjum, hvert á land sem var.
Landskiki / Landskækill / Landspilda / Landsvæði (n, kk) Jarðarpartur; lítið svæði af landi.
Landskuld / Landskyld (n, kvk) Leiga jarðar. Samkvæmt ákvæðum Grágásar og síðar Jónsbókar mátti leiga ekki fara yfir 10% af matsvirði eignarinnar. Á 14.öld var hlutfallið lækkað í 5-8%, og enn meira á 19.öld. Hinsvegar hækkuðu aðrar álögur; kvaðir. „Ábúandi á Láganúpi er Halldór Jónsson. Landskuld hans er 6 vættir. Betalast í kaupmannsreikning so mikið sem verður, hitt í gildum landaurum“ (ÁM/PV Jarðabók).
Landslýður (n, kk) Þjóð; landsbúar.
Landslög (n, hk, fto) Lög sem gilda í landinu. „Við skulum bara hafa þetta eins og landslög mæla fyrir um“.
Landsmál (n, hk, fto) Málefni sem í umræðunni eru, víða um land. „Á réttarveggnum ræddu menn jafnt heyskap, veðráttu og heimtur sem fallþyngd; sveitaslúðrið jafnt sem landsmálin og heimsmálin“.
Landspróf (n, hk) Skólastig sem um tíma var við lýði. Eftir barnaskóla (grunnskóla) bauðst börnum að velja á milli þess að taka gagnfræðapróf með tveggja ára námi eða landspróf með eins árs námi, til undirbúnings menntaskóla eða annarri framhaldsmenntun. Var landspróf talið nokkuð strembnara.
Landsteinar (n, kk, fto) Harðaland; ystu fjörumörk. „Það er ekki alltaf hægt að búast við kolvitlausum rígaþorski uppi í landsteinum“.
Landstím / Landleið (orðtak) Sigling báts/skips í land úr róðri. „Við gerum að aflanum á landstíminu“.
Landsuður (n, hk) Suðausturátt.
Landsunnan (ao) Suðaustan vindátt. „Magnús sútari reri þetta vor í Breiðavík. Var það einn morgun að stormur var landsunnan og vildi Magnús róa; kom svo að hann reri tvívegis en sneri aftur hvert sinn“ (TÓ, frás. Gísla Konráðssonar; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Landsynningur/ Landsynningskaldi (n, kk) Suðaustanátt. Þá gat verið ótryggur þurrkur í Kollsvík. „Farið var af stað síðari hluta dagsins þegar innlögn lá í fjörðinn, en komið út að nóttinni þegar lygnt hafði eða jafnvel var kominn landsynningskaldi“ (KJK; Kollsvíkurver).
Landsýn (n, kvk) Sýn til lands; landkenning. „Þið ættuð nú ekki að fara lengra frá en svo að þið hafið landsýn; mér sýnist að hann gæti lagt þokuna upp þegar líður á daginn“.
Landtaka (n, kvk) Aðkoma að landi; lending. „Mér sýnist að landtaka verði best þarna innan við hleinina“. „Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu; að minnsta kosti með landtöku í Kollsvíkurveri í huga“ (KJK Kollsvíkurver). „Ég held það sé öruggara að þú verðir við vélina Siggi, þegar til landtökunnar kemur“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Landvar (n, hk) Hlé við land í aflandsvindi. „Þeir báru í seglfestu, reru í landvari frá Bjargtöngum að Brunnum og lentu þar heilu og höldnu“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Landvegur (n, kk) Leið/ferðalag/vegur á landi; landleið. „Þyrfti að sækja lækni á vetrum varð að fara landveg; þramma yfir fjöllin... “ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Landverk (n, hk) Vinna við afla í landi. „Það verða drjúg hjá okkur landverkin, eftir svona góða veiði“. Samkvæmt dæmi orðabókar virðist orðið hafa annarsstaðar merkt venjuleg sveitastörf.
Landvinna / Sjóvinna (n, kvk) Vinna sem unnin er í landi/ á eða við sjó. „Hvort er skemtilegra; sjóvinna eða landvinna“? (Umræðuefni á 2. starfsári Umf Vöku, stofnað 1916).
Landvon (n, kvk) Von um að finna land/ná landi. „ Þá tóku þeir það ráð að sigla og ætluðu að reyna að hitta á Kópinn. Það var eina landvonin hjá þeim. En þegar þeir höfðu litla stund siglt þá sjá þeir enskan togara...“ (TÓ; upptaka á Íslmús 1978; um sjóhrakninga Valdimars bróður hans og þriggja annarra).
Landvættur (n, kk) Yfirnáttúruleg vera sem býr í landinu og verndar það. Af lýsingum frá landnámi Íslands má sjá að þá þegar hafa landnámsmenn trúað því að í hinu nýja landi byggu hulin verndaröfl, sem þeir kölluðu landvætti. Til að egna ekki þessi goðmögn á móti sér settu þeir þá reglu að ekki mætti sigla að landinu með gínandi trjónu; þ.e. með drekahöfuð eða aðra ógn í stafni. Voru þetta hin fyrstu lög sem sett voru varðandi Ísland, eins og segir í Þórðarbók Landnámu: „Það var upphaf hinna heiðnu laga að menn skyldu eigi hafa höfðuð skip í haf, en ef þeir hefðu þá skyldu þeir af taka höfuðið áður en þeir kæmu í landsýn, og sigla eigi að landi með gapandi höfðum né gínandi trjónu, svo landvættir fældust við“. Landvættir Íslands eru einkum taldir fjórir nú til dags, og tróna á skjaldarmerki ríkisins: Naut (griðungur) er fyrir Vestfirðingafjórðung; gammur fyrir Norðlendingafjórðung; dreki fyrir Austfirðingafjórðung og bergrisi fyrir Sunnlendingafjórðung. Vísa þeir til sagnar í Heimskringlu, þegar Ólafur konungur Tryggvason sendi spæjara til Íslands í hvalslíki til að kanna þar aðstæður. Sá sagði farir sínar ekki sléttar eftir að hafa séð þessa vætti, en ekki fór þó sögum af að þeir hefðu gert honum mein.
Landþerna (n, kvk) Litað ljós á hlið/borði skips til að unnt sé að átta sig á stöðu/stefnu þess í myrkri; hluti af siglingaljósum skips. Á stjórnborðshlið er landþernan með grænu ljósi, en bakborðsmegin er hún rauð. Landþerna skal lýsa með 135° ljósgeira sem nær 22,5° afturfyrir þvert. Sjá þerna; siglingaljós; sigluljós og skutljós.
Landþrengsli (n, hk, fto) Lítið jarðnæði/ræktarland. „Það há honum ekki landþrengslin á nýja staðnum“.
Lang- Forskeyti sem notað var á mörg lýsingarorð til að búa til stig sem var efra en efstastig, t.d. langbestur, langstærstur, langfljótastur o.fl. Þess í stað var stundum notað orðið langsamlega framanvið lýsingarorðið.
Langa (s) Þrá; vilja; dreyma um. „Mikið langar mig nú í feitan hangiketsbita og flotið með“!
Langa (n, kvk) Molva molva. Fiskur af þorskaætt; líkist þorski nokkuð í útliti, að öðru leyti en því að hún er með langan bol; getur orðið rúmir tveir metrar að lengd. Kjafturinn er einnig stærri en á þorski. Skeggþráður á höku; greinileg rák; augu fremur smá; bakuggar eru tveir, og er sá fremri mun styttri. Kviðuggar langir. Sporðblaðka bogadregin í enda. Langan er botnlægur ránfiskur; heldur sig oftast á 40-1000m dýpi, en ungfiskar veiðast stundum grynnra. Við Ísland hrygnir langan á Selvogsbanka. Hún veiðist stundum á grunnmiðum, t.d. á Útvíkum. Er ágætur matfiskur, en var ekki söluvara á tímum verstöðu heldur taldist tros.
Langabak (n, hk) Bak; eingöngu notað í orðtakinu að bera á langabaki.
Langafasta (n, kvk) Sjöviknafasta; páskafasta að fornu tímatali, byrjar sjö vikum fyrir páska og stóð í 40 virka daga; allt til páska. Strangt föstuhald byrjaði þó ekki fyrr en með öskudegi; í lönguföstunni og að loknum föstuinngangi. Ef sólskin var þrjá fyrstu daga hennar var talið að oft yrði sólskin á föstunni.
Langafi / Langamma (n, kk) Forfaðir/formóðir í þriðja lið. Langalangafi er forfaðir í fjórða lið, og þannig koll af kolli.
Langalengi (ao) Mjög lengi; heil eilífð. „Ég var búinn að bíða þarna langalengi eftir þeim“.
Langatöng (n, kvk) Miðfingur handarinnar; sá lengsti.
Langavitleysa (n, kvk) Spil sem spilað er með spilum. „Eitt spil er dregið úr stokknum og er það tromp. Því er stungið aftur í bunkann og honum síðan skipt jafnt milli spilaranna....Spilarar hafa sinn hvorn bunkann fyrir framan sig, á hvolfi.... Ekki má heldur stokka bunkann. Sá sem ekki gaf byrjar og leggur efsta spilið úr bunkanum sínum á borðið milli spilaranna, upp í loft. Leggur hinn spilarinn nú sitt efsta spil ofan á hitt og þannig koll af kolli þar til tromp kemur upp. Sá sem ekki átti trompið setur þá út fimm spil ef trompið var ás, fjórum ef það var kóngur, þremur ef það var drottning, tveimur ef það var gosi og einu ef það var lægra spil. Sá sem lagði út trompið í upphafi tekur nú öll spilin í kastbunkanum og stingur þeim á grúfu undir sinn eigin bunka. Svona gengur spilið þar til annar spilarinn er búinn með öll spilin sín og hefur hann þá tapað spilinu“ (spilareglur.is) „Afi spilaði gjarnan við okkur strákana; marías, manna og kasínu, en síður lönguvitleysu“.
Langband (n, hk) A. Hluti þakviða húss; fjöl sem liggur langsum etir húsi ofan á sperrunum og þvert á þær. Þekja (járn/hellur) klæðist á langböndin. „Í þakinu voru sperrur, og á þeim langbönd og ofan á þau skarað hellum og tyrft yfir “ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). B. Langýsa. Listi sem liggur langsum innan á síðu báts, innan á böndunum, bæði til styrktar og til að halda uppi þóftum (sbr. LK; Ísl. sjávarhættir II).
Langborð (n, hk) Langt matarborð/hlaðborð; mörgum borðum raðað enda í enda.
Langdrægur (l) Sem dregur/kemst/nær/kastast langt. „Byssan er furðu langdræg með þessum nýju skotum; hún fer líka svo þétt með“.
Langdvöl (n, kvk) Löng vera/viðstaða/dvöl; þaulseta. „Ég held að við höfum ekki langdvöl á þessum miðum ef hann ætlar ekkert að fara að gefa sig til“.
Langeltur (n, kvk, fto) Langar eltur; löng eftirför; langur eltingarleikur. „Ég lenti í fjandans langeltum við mórauðu tvævetluna; hún setti sig fram allan Dalinn þegar kom niðurúr Vörðubrekkunni“.
Langeygur (l) Að vera orðinn langeygur eftir einhverju þýðir að vera farið að lengja eftir því; að vera farinn að sakna þess. „Ég fer nú að verða langeygur eftir þeim með reksturinn“.
Langfeðgatal (n, hk) Framættir; ætt sem rakin er í karllegg til ákveðins manns. Sjá að langfeðgatali.
Langferðugur / Langförull (l) Sem fer/ferðast langt. „Það er naumast að hrútakvikindin hafa verið langferðugir; ef þeir eru komnir út í Breiðavíkurver“! „Hann varð nokkuð langförull á efri árum“. Langferðugur var jafnvel meira notað meðal Útvíknamanna.
Langfiskur (n, kk) Bógfiskur; bjöllufiskur; næst-matarmesti fiskvöðvinn í þorskhaus (sjá þar)
Langflaka (n, kvk) Um stærð á lúðu og skiptingu hennar í stykki. „Aftara flakið var látið halda fullri lengd á þeirri lúðustærð sem nefndar voru langflökur. Á stærri lúðum var þverbiti tekinn, jafnt vaðhornsskurði og þá voru þær kallaðar sexflakandi“ (KJK; Kollsvíkurver). (Sjá vaðhorn).
Langflestir (orðtak) Vel flestir; nær allir. „Langflestir staurarnir eru heilir“.
Langfreta (s) Leysa vind mjög langdregið; freta/prumpa lengi samfellt. „Það er ósiður að langfreta svona við matarborðið“!
Langfretur (n, kk) Óvenju langur fretur/viðrekstur; prump sem varir lengi. „Ekki var það nú langfreturinn!. Hvern fjárann varstu að éta“?
Langhefill (n, kk) Langur hefill, sem notaður er til að rétta viðinn af í sléttan og beinan flöt.
Langhelst (ao) Helst af öllu. „Langhelst hefði ég viljað klára þetta í dag“.
Langhlið (n, kvk) Hlið hlutar sem er lengri en einhverjar aðrar.
Langhryggja (s) Um siglingu báts; sigla þvert á stefnu öldunnar. „Það var árans veltingur; einkum þegar við þurftum að langhryggja þennan typping fyrir Blakkinn“.
Langhundur (n, kk) Langt samtal. „Við tókum þarna töluverðan langhund og gleymdum hvað tímanum leið“. Var áður nafn á spili ( e.t.v. sama og langavitleysa)
Langi (n, kk) Aftasti hluti meltingarfæranna. Langar voru mikilvægur hluti innmatar úr sauðfé og voru hirtir framundir lok 20. aldar. Þeir voru skafnir upp og hreisaðir vel, en síðan fylltir af hakki, mör og fleiru til að búa til bjúgur sem síðan voru reyktar.
Langintes (n, kk) Mjög hár maður. „Þetta er heljarinnar langintes, en óvíst hvað hann gagnast sem smali“. Stundum notað longintes í sömu merkingu, sem er líklega skylt latneska; „longinquitas“ sem merkir lengd.
Langisjór (n, kk) Langt og mjótt stöðuvatn. „Langisjór er stöðuvatn á Strympunum; heiman Vatnadals“.
Langkvalinn / Langþjáður (l) Búinn að kveljast/þjást lengi. „Ég hef verið langkvalinn af þessum árans tannverk“.
Langleginn (l) Forleginn; búinn að liggja yfir langan tíma. „Strengirnir á Breiðavíkinni eru orðin langlegnir“.
Langleið (n, kvk, m.gr.) Mestan part leiðar; nærri því alla leið. „Ég þekki þessa kind á langleið“. „Þegar hann er kominn langleiðina heim til sín að Geitagili mætir hann bróður sínum...“ (MG; Látrabjarg). Er hann var kominn langleiðina inn undir Hafnarmúla ... kom flugeldur svífandi á móti honum“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Langleiður (l) Leiður/pirraður/argur í langan tíma. „Ég fer nú að verða langleiður á þessu aðgerðarleysi“!
Langleitur (l) A. Eiginleg merking; með ílangan andlitssvip. B. Hissa; gapandi af undrun. „Hann varð dálítið langleitur þegar hann sá hvað gerst hafði“.
Langlífur (l) Sem lifir mjög lengi. „Kúskelin ku vera langlífasta skepnan á jarðríki“.
Langlína (n, kvk) Símalína sem tengdi saman tvær eða fleiri símstöðvar, meðan notendur voru tengdir handvirkt á símstöðvum.
Langlínusímtal (n, hk) Símtal um langlínu. Á fyrstu áratugum símans þurfti að panta langlínusímtal hjá símastúlku á símstöð, og stundum bíða nokkuð þar til lína losnaði. Mikill verðmunur var á svonefndum innansveitarsímtölum/innanbæjarsímtölum og langlínusímtölum.
Langloka (n, kvk) Langt mál; langdregin ræða; langt og leiðinlegt ritmál/kvæði. „Ég nennti ekki að hlusta á þessa langloku hjá honum; hún var ekki svo merkileg“.
Langlokukjaftæði / Langlokuþvæla (n, hk/kvk) Niðrandi heiti á langloku. „Skelfingar langlokukjaftæði er alltaf í þessum akademíupostulum“! „Þetta var bara innantóm langlokuþvæla, sem ekkert var á að græða!
Langlundargeð (n, hk) Þolinmæði; þrautseigja. „Nú fer óðara að styttast í mínu langlundargeði“.
Langlundargóður (l) Þolinmóður; geðgóður. „Mér þykir þú langlundargóður; að vera ekkert farinn að kvarta“!
Langlúinn (l) Hvíldarlaus í mikilli vinnu/á langri göngu. „Þú hlýtur að vera æði langlúinn eftir þetta ferðalag“.
Langlærður (l) Langskólagenginn; búinn að læra mikið/lengi. „Ég er ekki langlærður í þessum efnum“.
Langmið (n, hk) Nákvæmt mið á stað þarf að vera í tvær, nær þverstæðar áttir; langmið og þvemið. „Langmið fram af Blakknum nefnist Hyrnur, en þvermið á það eru dalir norðanvið Flóann“.
Langminnugur (l) Sem man langt aftur /lengi. „Furðulegt er hvað hún er langminnug“.
Langmæddur (l) Mæddur/þreyttur/vonsvikinn í langan tíma. „Ósköp er maður orðinn langmæddur á þessu aðgerðaleysi Vegagerðarinnar“.
Langorður (l) Hefur mörg orð um; segir í löngu máli. „Ég ætla ekki að vera langorður um þetta“.
Langreisa (n, kvk) Langferð; langt ferðalag. „Eg fór í heilmikla langreisu í fyrra“.
Langreyndur (l) Með mikla reynslu; hefur lengi sýslað. „Hann er langreyndur í svonalöguðu“.
Langróið (l) Lengi verið að róa; sem tekur langan tíma að róa. „Yfirleitt er ekki langróið á góð fiskimið á Kollsvíkinni. Því er ekki að undra að þar risi upp mikil verstöð“.
Langræði (n, hk) Langur róður; langt að róa. „Lending er góð í Örlygshöfn, en langræði á góð mið“.
Langrækinn (l) Hefnigjarn; minnugur á misgjörðir í sinn garð.
Langs (ao) Meðfram; langseftir. „Ég hljóp langs með vatninu og náði að komast fyrir kindurnar“. „Hann fetaði sig langs eftir húsmæninum“. „Seinlegra er að saga tréð langs en þvers“.
Langsamlega (ao) Áhersluorð með lýsingum. „Mér fannst hann standa sig langsamlega best“ Stundum var notað forskeytið lang- í stað langsamlega, á undan lýsingarorðinu.
Langseftir (ao) Langsum. „Síðan var sagað langseftir hryggnum á nautsskrokknum“.
Langsetis (ao) Langs eftir; langseftir; langsum eftir/meðfram. „Skurður var grafinn langsetis með holtarótunum til að þurrka svæðið þar neðanvið“.
Langsig (n, hk) Langt sig niður í bjarg. „Við þurfum lengri vað í svona langsig“.
Langsigling (n, kvk) Löng sigling. „Við tókum langan dag í hverri vitjun norðurundir Krossadal, til að þurfa ekki að leggja í slíka langsiglingu dag eftir dag“.
Langskeri / Langviðarsög (n,kk/ kvk) Sög til að saga tré langsum; flettisög; stór með mjög fram hallandi tönnum, sem var lagt eins lítið til hliðar og unnt var; mun minna en á þverskerasög, og skerptar aðeins öðru megin. „Guðbjartur á Láganúpi átti forláta langviðarsög og vann við það fram á gamalsaldur að fletta trjáviði“.
Langskólagenginn (orðtak) Búinn að eyða miklu af sinni ævi í skólagöngu; með háar menntagráður. „Ekki ætla ég að kasta rýrð á gildi menntunar; hún er nauðsynleg að vissu marki í nútímasamfélagi. Hinsvegar er sú menntadýrkun komin út í öfgar sem ávallt upphefur hinn langskólagengna umfram hinn sjálfmenntaða; burtséð frá raunverulegri hæfni. Menntadýrkandanum hættir einnig til að gleyma því að með sérhæfingunni afsala menn sér þeirri víðtæku þekkingarleit sem sá getur stundað sem eyðir minni tíma í skólagöngu“.
Langsoltinn / Langhungraður (l) Búinn að vera svangur lengi; banhungraður. „Þetta var kóngafæða og við langsoltnir tókum hressilega til matarins“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Langsótt (l) A. Það sem sækja þarf um langa vegu. B. Nær einungis notað í líkingum, um staðhæfingu/skýringu sem ekki hefur augljósan rökstuðning, heldur þarf langra útskýringa við. „Manni finnst það býsna langsótt nafnskýring hjá Landnámuhöfundi, að Rauðisandur dragi nafn af viðurnefni landnámsmanns. Ekki þarf annað en líta yfir sandinn til að sjá nærtækari nafngjafa“.
Langsplæs (n, hk) Sérstakur frágangur á splæsi; samsetningu á taug/vað/vír.
Langstykkjaður (l) Um fiskimið; þvermið í fjallgarði, eftir því sem hann birtist fyrir annað fjall; t.d. lóðamið í Kollsvík; Kópur fyrir Blakk: „Djúpmið; Krossinn. Þvermið; Þórðarklettur í gamla bæinn í Kollsvík. Þar byrjaði sandurinn og hægt að leggja 45 lóðir suður á Grjótholt í Fjarðarhorni; þá langstykkjaður Kópurinn“. (Blöð IG, Kollsvík).
Langsveltur (l) Búið að svelta lengi; ekki fengið mat/fóður lengi. „Það gengur ekki lengur að hafa féð langsvelt og vatnslaust í réttinni“!
Langsætinn (l) Um þann sem er lengi að veiðum á sjó þó aðrir séu farnir í land. „Andrés Karlsson þótti stundum hinn mesti sjóhundur og var yfirleitt langsætnari en aðrir, þó aldrei yrði það að slysum“. Orðið virðist ekki þekkt utan svæðisins.
Langt að kominn (orðtak) Kominn um langa leið; kominn úr fjarlægum stað. „Þeir sem voru lengra að komnir höfðu með sér nesti og bjuggu við skrínukost…“ (PG; Veðmálið).
Langt á milli bæja (orðtak) Löng leið á milli bæja/íbúðarhúsa. „Mér leist nú ekki á blikuna, en labbaði þó af stað,/ því langt er orðið þarna á milli bæja./ Í Púdduvík þó loksins ég haltraði í hlað/ með hælsæri á löppunum; nú jæja“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Langt er seilst (til loku) (orðtak) Menn teygja sig langt. „Honum þótti langt vera seilst þegar hann væri bendlaður við það sem forfeður hans kunni einhverntíma að hafa gert“. Síðasti liðurinn heyrðist nær aldrei í máli Kollsvíkinga á síðari tímum, en þannig mun orðtakið upphaflega hafa verið. Sjá einnig seilast um hurðarás til lokunar.
Langt finnst þeim sem vinar væntir (orðatiltæki) Sá er óþreyjufullur sem bíður góðs vinar/ástvinar eða er á leið til hans.
Langt frá því / Langt í frá (orðtak) Fjarlægt; fjarri því. „Aðeins hafa heimturnar skánað, en þær eru langtífrá viðunandi“. „… en það er langt frá því að íþróttirnar séu orðnar almennar, eins og þær þurfa að verða í framtíðinni“ (Guðmundur Hákonarson; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).
Langt kominn með (orðtak) Að verða búinn með; nærri búinn. „Ég er langt kominn með heyskapinn“.
Langt í land með (orðtak) Mikið eftir; hvergi nærri búið/lokið. „Ég átti nokkuð langt í land með að klára að slá stykkið þegar sláttuvélin bilaði“.
Langt leiddur (orðtak) Aðframkominn; í andarslitrunum; að dauða kominn. „Ég væri þá orðinn langt leiddur ef það færi eitthvað að hvarfla að mér að kjósa þann flokk“!
Langt liðið á dag (orðtak) Komið langt framá dag; orðið áliðið dags. „Skoðun fór engin fram hjá Ólafi Ólafssyni í Krókshúsum. Hann vissi að skoðunarmaður væri á leið frá Naustabrekku en vildi ekki halda fé inni vegna þess að langt væri liðið á dag, en klukkan var 10 f.h. er þeir skildu. Ekki vildi Ólafur heldur ná í féð, sem ekki var langt í burtu. Hafði hann heldur ósæmileg orð um skoðunarmann“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938).
Langt niðri (orðtak) Þunglyndur; mjög dapur; óþungt í skapi.
Langt seilast latir tveir (þó er sá latari sem lengra seilist) (orðatiltæki) Notað um þann sem ekki nennir að standa upp til að sækja sér það sem hann þarf; einnig almennt um merki leti. Gjarnan viðhaft um eigin leti. Oft var einungis fyrri hluti orðatiltækisins notaður.
Langt seilst (orðtak) Langt gengið. „Langt er seilst ef þeir ætla að fara að skattleggja ellistyrkinn“.
Langt til (orðtak) Mikis til; allt að; fast að; hátt í; nærfellt. „Klukkan er langt til gengin í tólf“. „Við ættum nú að vera langt til komnir að baujunni, en ég sé hana ekki ennþá“.
Langt tiljafnað (orðtak) Langt gengið í samanburði; langt seilst. „Lúðan var örugglega lengri en veiðimaðurinn, og er þá langt tiljafnað“!
Langt þykir þeim sem búinn bíður (orðatiltæki) Þeim þykir biðin löng sem er ferðbúinn/tilbúinn.
Langtgengin í (orðtak) Um klukku; nærri orðin. „Klukkan var langtgengin í átta þegar ég vaknaði“.
Langtímum saman (orðtak) Mjög lengi. „Sumir létu sér renna í brjóst meðan færið var að fara í botninn og þóttust ekki þurfa annan svefn langtímum saman“ (GG; Skútuöldin).
Langtré / Langviður (n, hk) A. Viður á langveginn; eftir æðum viðs. „Þú þarft að tálga sem mest eftir langtrénu; það er mikið erfiðara að tálga þvertréð“. B. Langbiti; biti/stokkur sem liggur langsum, t.d. í húsi/húsþaki.
Langttil (ao) Mikiðstil; nærri alveg. „Fóðurbætirinn er langttil búinn“. „Klukkan er langttil gengin í miðnættið“. „Við vorum langttil komnir alla leið þegar þetta skeði“.
Langtum (l) Miklu; miklum mun. „Þetta er langtum meiri afli en síðast“.
Langur/Stuttur til klofsins (orðtök) Um áberandi leggjalangt eða fótstutt fólk, en einnig var sagt um börn að þau væru „ennþá dálítið stutt til klofsins“ t.d. í umræðu um gönguferðir.
Langur vegur frá (orðtak) Fjarstæðukennt; fráleitt; alls ekki nálægt. „Það er langur vegur frá að þetta sé sami afli og náðist í fyrra“.
Langvarandi / Langær (l) Sem varir/er lengi. „Jörðin þolir illa langvarandi þurrka á þessum árstíma“. „Þessi velvilji þingmanna verður ekki langær; en kannski endist hann framyfir kosningar“.
Langvegur (n, kk) Langur vegur; löng leið. „Ég ætla ekki að fara um langveg til að hlusta á þessa fugla“!
Langveggur (n, kk) Langhlið í húsi. „Það voru kistur meðfram langveggnum, sem ég stóð upp á .... “ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).
Langvinnur (l) Sem stendur lengi; langvarandi. „Þrátt fyrir langvinna innistöðu bar mjög lítið á kvillum í sauðfénaði. Munu hin ágætu hey eiga mikinn og góðan þátt í því“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).
Langvía (n, kvk) Uria aalge. Einn svonefndra svartfugla/bjargfugla, sem byggja helstu fuglabjörg landsins. Meðalstór fugl; kringum 40 cma langur og kíló að þyngd, með fætur aftarlega, og situr því í reistri stöðu. Nef er svart, mjótt og oddhvasst; svartbrún á baki og haus, en hvít að neðan. Hvítir vangar að vetrarlagi. Tvö litarafbrigði; annað er með hvítan hring um augun og nefnist hringvía. Langvía er mjög lík nefskera (stuttnefju), en stutnefja er með hvíta rák í goggviki. Langvían verpir á berar syllur í bjargi, og getur varpið verið mjög þétt; allt að 70 fuglar á m². Fuglinn kemur í bjargið; „sest upp“, í febrúar-mars og yfirgefur það í ágúst. Varp er nokkuð dreift og háð veðráttu, en stendur yfir frá síðari hluta maí frameftir júní. Eggið er eitt hjá hverjum fugli, og nokkuð stórt miðað við hann; svart-brúndröfnótt á gráum eða grænum grunni. Það er oddhvasst í mjórri endann, svo það veltur fremur í hring en framaf syllunni. Ungarnir eru um þriggja vikna þegar þeir fara á sjóinn, og karlfuglinn hjálpar unganum við veiðar í byrjun. Langvían er þung á sér til flugs og notar hröð vængjatök. Hún er hinsvegr ágætur sundfugl og kafari, en fæðan er smár fiskur, síli, smokkfiskur, ljósáta og burstaormar.
Langvían hefur verið nytjuð frá fornu fari; bæði með snörun fullorðins fugls og eggjatöku. Framyfir 1920 var farið í fygling í helstu fuglabjörg Rauðasandshrepps; Látrabjarg, Breiðavíkurbjarg; Bæjarbjarg og Keflavíkurbjarg. Einnig verpur svartfugl í Bjarnarnúpi. Mesta tekjan var í Látrabjargi, en einnig mikil í Bæjarbjargi. Sigið var í festum, mislangt niður í bjargið, en lengst var farið á Miðlandahillu, sem er í miðju bjargi. Einnig var fugl tekinn sumsstaðar með innidrápi á kvíarhillum. Eggjaferðir voru farnar fyrr á vorin; einnig með sigum. Sjá bjargsig o.fl.
Langvíi (n, kk) Heitið langvía var oftast í kvenkyni á 20. öld, en stundum þó í karlkyni, og virðist það eldra. „Er langvíinn sestur upp“? Einnig var oft einfaldlega talað um „fugl“ í eintölu, og vissu heimamenn að þá var átt við langvíu fremur en aðra fugla, enda var hún algengasti svartfuglinn og helsti nytjafuglinn.
Langvíuegg (n, hk) Egg úr langvíu. „Langvíuegg er helst að finna í samfelldum breiðum á berum stöllum“.
Langvíugarg (n, hk) Hljóð langvíu, en það er gargandi/ropandi aaaa.
Langvíuhópur (n, kk) Hópur af langvíu. „Mér finnst óvanalega mikið af langvíuhópum á sjónum; það virðist vera mikið af síli á ferðinni núna“.
Langvíukvikindi (n, hk) Gæluorð um langvíu. Þó engin langvía verpi í Kollsvíkurlöndum, þá berast þær iðulega þar upp á fjörur, t.d. eftir að hafa lent í fitu-/olíubrák eða örmagna eftir brim. Stundum var þá reynt að hlú að þeim og koma þeim aftur á sjó. Langvía var heimilisdýr á Láganúpi um nokkuð langan tíma um 1970. Hún var alin á fiski sem skorinn var í lengjur, og undi sér vel meðal hunds og kattar og heimilisfólks, ýmist úti eða inni.
Langvíuflesja / Langvíupallur / Langvíustallur / Langvíuhilla (n, kvk) Stallur í bjargi með miklu af langvíu og langvíueggjum. „...sagt er að 70 egg séu á fermetra í langvíuflesjum“ (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).
Langýsa (n, kvk) Lárétt, mjótt borð innan á böndum báts; undir þóttum. „Stingtu goggnum bakvið langýsuna“.
Langþjakaður / Langþjáður (l) Sem lengi hefur þjáðst/liðið. „Fólk á þessum svæðum er langþjakað af sinnuleysi stjórnvalda í flestum efnum“.
Langþráður (l) Sem búið var að vonast lengi eftir. „Eftir þetta mikla hret kom langþráður góðviðriskafli“.
Langþreyttur (l) Mjög þreyttur; uppgefinn. „Maður fer nú að verða langþreyttur á þessum eilífa hávaða“.
Langþurfandi (l) Með langvarandi þörf fyrir. „Ég fer nú að verða langþurfandi fyrir þrifabað“.
Langþyrstur (l) Sem þyrst hefur lengi. „Ég var orðinn langþyrstur á göngunni, og þambaði stórum þegar ég kom að læknum“.
Lap / Lapi (n, hk/kk) Þunnur lögur/grautur/súpa; lélegt kaffi; lepja. „Grauturinn verður bara lap ef þú setur of mikla mjólk útá“. Stundum haft í karlkyni: „Þetta er fremur ólystugur lapi“.
Lappa sig (orðtak) Fóta sig; koma undir sig fótum. „Það er merkilegt hvað tófan nær að lappa sig í klettum“.
Lappa uppá/við (orðtak) Tjasla við; lagfæra. „Ég veit ekki hvort hægt er að lappa uppá þessar buxur lengur“.
Lappalangur (l) Með langa fætur; kloflangur. „Þú ert svo lappalangur; þú hlýtur að vera fljótur að hlaupa“.
Lappalaus (l) A. Án fóta. „Reyndu nú að hlaupa fyrir kindurnar drengur; ertu lappalaus eða hvað“? B. Mjög þreyttur/lúinn. „Ég er bara alveg orðinn lappalaus eftir þessa gönguferð“!
Lapparbrotinn (l) Fótbrotinn. „Það er best að hafa þá lapparbrotnu inni fyrsta kastið“.
Lapparbrotna (s) Brotna á fæti. „Kindum hættir til að festa sig í grindunum og lapparbrotna þegar spelirnir fara að slitna“.
Lapparskarn / Lapparskratti (n, hk/kk) Gæluheiti á fæti. „Tíkinni er eitthvað illt í lapparskarninu, sýnist mér“. „Þú verður fljótur að gefa fulla ferð strákur, þegar ég segi þér; og hafðu lapparskrattann á stillinum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Lappastór (l) Með stóra fætur/ stórar lappir. „Ég passa ekki í þín stígvél; ég er svo lappastór“. Vanalega er talað um fætur á fólki en lappir á skepnum. Þó er stundum útaf því brugðið í umræðu um sjálfan sig.
Lappi (n, kk) A. Bót; viðbót; stykki sem notað er til viðgerðar. „Ég setti lappa á þakið til bráðabirgða“. B. Gæluorð um bréf/blað/segl. C. Sami; einstaklingur af þjóðflokki sem byggir norðurhluta Skandinavíu.
Lapþunnur (l) Mjög þunnur; rennandi lepja. „Mér var nú bara boðið upp á lapþunnan velling þarna“.
Larfalega (ao) Druslulega; ótótlega. „Skelfing ertu larfalega klæddur; farðu nú í eitthvað skárra“.
Larfalegur (l) Druslulegur; ótótlegur í fatnaði. „Maður er nú kannski helsti larfalegur til að fara á mannamót“.
Larfar (n, kk, fto) Garmar; slitin föt. „Hann var í óttalegum lörfum“.
Larfur (n, kk) A. Óvandaður maður; ræfill. „Óttalegur larfur getur maðurinn verið“. B. Umkomilítill maður; aumingi. Oft notað í vorkunartón. „Hann er nú orðinn hálfgerður larfur, gamli maðurinn“. C. Léleg föt. „Þessi jakki fer nú að verða hálfgerður larfur“. „Það er best að fara að tína utan á sig larfana“.
Larmur (n, kk) Hávaði; ólæti; óhljóð. „Skelfilegur larmur er þetta; það heyrist ekki mannsins mál“!
Lasarus (n, kk) Veiklulegur einstaklingur; sjúklingur. „Æ hann er orðinn óttalegur lasarus í seinni tíð“.
Lasburða (l) Vesæll; ræfilslegur; aumur. „Hann er orðinn ansi lasburða, gamli maðurinn“. „Traktorinn var orðinn svo lasburða að honum var ekki treyst í þetta ferðalag“.
Lasinn (l) Veikur; veiklulegur; sloj. „Mér finnst eins og ég sé að verða eitthvað lasinn“.
Laskaður (l) Brotinn; skemmdur; bilaður. „Er báturinn eitthvað laskaður“?
Laski (n, kk) A. Efsti hluti vettlings. Sú aðferð tíðakðist við skiptingu á afla að leggja vettling milli hlutanna eftir skitpingu og spyrja einn, sem ekki sá til, hvort hann vildi „lófa eða laska“. B. Hluti af ermi skinnstakks sem sniðinn var með sérstakri aðferð; laskaskinnstakkur. C. Efnisbútur sem settur er yfir samskeyti, t.d. á loftbita eða jötubandi, til styrkingar; eða bætt við smíðisgrip til frágangs/skrauts. C. Fleygur úr appelsínu; bátur.
Laslegur (l) Veiklulegur; lasinn. „Hliðgrindin er að verða dálítið lasleg og á líklega stutt eftir“.
Lasleiki (n, kk) Væg veikindi; veiklun; hiti. „Einhver lasleiki er í manni ennþá“.
Lasna (s) Verða lasinn; veikjast; veiklast. „Ári er þessi hurð farin að lasna“.
Last / Lastmæli (n, hk) Rógur; níð; hallmæli; niðrandi ummæli. „Ég ætla ekki að segja neitt honum til lasts“.
Lasta / Lastyrða (s) Hallmæla; bera út níð/óhróður; niðra. „Það er óþarfi að lasta þetta á nokkurn hátt“.
Lastabæli (n, hk) Spillingarstaður; staður ómenningar og stjórnleysis.
Latína (n, kvk) A. Tungumál sem upphaflega var talað í héraðinu Latinum, í kringum Róm. Með uppgangi Rómaveldis varð latína ríkismál og breiddist mjög út. Öll rómönsk tungumál eiga rætur í latínu, en hinsvegar er latína ekki lengur töluð á því formi sem hún var forðum. Latína var mál stjórnmála, vísinda og trúar um langan tíma. Hún var mál lærðra manna hérlendis, og messur fóru lengi vel fram á latínu. B. Líkingamál um hvaðeina sem er óskiljanlegt. „Þetta hljómar eins og einhver latína í mínum eyrum“. Bergmál af óánægju almúgans með hina snobbuðu yfirstétt sem talaði óskiljanlegt mál. Talað er um að eitthvað þyki góð latína (eða ekki) ef það er til fyrirmyndar.
Latínuletur / Latneskt letur (n, hk/ orðtak) Það letur sem t.d. þessi texti er skrifaður með; letur flesttra vestrænna þjóða nú á tímum, til aðgreiningar frá t.d. arabisku letri; kínversku; japönsku, rúnaletri, myndletri og öðru. Íslendingar fóru líklega að nota latínuletur á 11. eða 12. öld, og á því letri eru langflestar okkar bókmenntir og önnur skrif.
Latlega (ao) Með hangandi hendi; á letilegan hátt. „Ósköp finnst mér latlega að þessu staðið“!
Latmælgi / Latmæli (n, kvk/hk) Óskýrmæli; það að segja orðin ekki öll heldur stytta þau og afbaka. „Ég kem á mikudag eða fösdag“. „Etta voru ala Reykingar og Keblingar“. „Skelfing leiðist mér þetta latmæli í unglingum nútildags; þetta nennir varla að opna kjaftinn til að tala“!
Latmæltur (l) Sem slengir saman og sleppir atkvæðum í tali; sem talar óskýrt. „Það væri nú sök sér ef hann væri bara latmæltur, en verra hvað hann er drumbsíður við alla vinnu“!
Latur (l) Óduglegur; seinn til vinnu; vill helst ekki vinna. „Við vorum oftast hundlaus því Urta sem pabbi átti var bæði löt og svikótt“ (IG; Æskuminningar).
Latur er sá sem lognið lastar (orðatiltæki) Það eru merki um mikla leti að nota ekki gott veður til útiverka eða róðra.
Latur til gangs (orðtak) Fótlatur; nennir ekki að ganga/fara. „Hann þykir latur til gangs en iðinn í höndum“.
Laufabrauð (n, hk) Þunn kaka sem oft er skorin með listilegu mynstri og síðan steikt í olíu og notuð sem hátíðamatur. „Fyrir jólin voru bakaðar lummur, laufabrauð, kleinur og stór kaka“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Lauf (n, hk) A. Laufblað/lauflöð trés. B. Litur í spilum. Í samsetningum ýmist með eða án „a“: „Er þetta lauftía hjá þér? Þá er minn laufagosi betri“!
Laufa (n, kvk) Lauf í spilum. „Nú spilum við laufu“. Oftast í hk en stundum svona; einnig stundum í kk; laufi.
Laufi (n, kk) Lauf í spilum. Stundum haft í karlkyni þó oftast væri í hvorugkyni. „Er ekki laufi tromp núna“?
Laufléttur (l) Mjög léttur; fisléttur. „Ég þarf enga aðstoð; þetta er svo lauflétt“.
Laufsög (n, kvk) Útsögunarsög; bogasög með mjóu blaði, ætluð til sögunar óreglulegra forma úr þunnum viði. „Við krakkarnir ... vorum ekki gömul þegar við fórum að saga út ýms muni. Laufsgir voru til 2-3 á bænum... Mynstur fengum við úr Familie Journalen og nokkur voru pöntuð beint frá Danmörku eins og útskurðarmynstrin. Svo söguðum við út dýr sem við fegnum t.d. úr Dýrafræðinni“ (SG; Handverk og smíði; Þjhd.Þjms).
Laugardagur til lukku (orðtak) Löngum hefur verið talið heppilegast að hefja árstíðabundnar vinnulotur, búsetu og fleira á laugardegi. Sá siður lifir enn góðu lífi. Enn flytur fólk t.d. inn á nýjan bústað á laugardegi. „Heyannir hófust oftast í 12. viku sumars emð því að „borið var út“, en svo var kallað þegar byrjað var að slá. Var það alltaf gert á laugardegi“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). Þjóðtrúin eignar öllum vikudögunum vissa eiginleika. Þannig var sunnudagur til sigurs/sælu; mánudagur til mæðu; þriðjudagur til þrautar; miðvikudagur til moldar; fimmtudagur til fjár; föstudagur til frægðar og laugardagur til lukku. Mest og lengst var tekið mark á lukku laugardagsins, og gera það sumir enn.
Laugardagshreingerning (n, kvk) Hreingerning á laugardegi. „Þeim forna sið var haldið í Kollsvík sem víðar að gera hverskonar hreingerningar allajafna á laugardegi; hvort heldur var húsþrif, böðun á fólki eða önnur tiltekt. Á sunnudögum skyldi sem flest vera hreint og í reiðu, enda var þá frídagur, öðrum dögum fremur“.
Laugardagsróður (n, kk) Róður á laugardegi. Í Kollsvíkurveri var sú regla, a.m.k. á síðustu árum verstöðu, að hásetar áttu sjálfir allan sinn afla úr laugardagsróðrum. „Svo tíðkaðist það á þessu vori að ýmsir unglingar fóru í laugardagsróður. Máttu þeir hirða það sem þeir drógu sjálfir, og leggja það inn á eigin reikning“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Borið hefur við að fjelagar nokkrir hafa farið laugardagsróður fyrir fjelagið (Vestra)... “ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Laukur (n, kk) A. Rótarávöxtur sem notaður er til bragðbætis. B. Kjarni; besti hluti. „Hann hefur nú alltaf verið talinn laukur ættarinnar“. C. Fita á fuglsskrokk, sem notuð er til ljósmetis. „Í 16.-17. viku sumars var farið í fýlunga og veiddist oft mikið... Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt. Laukurinn (fitan undir bumbnum) var bræddur til ljósmetis á kolur“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). „Pura var húð fuglsins undir fiðrinu kölluð, stundum líka laukur, og þótti lostæti“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Laukrétt (l) Hárrétt; alveg rétt. „Þetta er laukrétt hjá honum; svona vildi þetta til“.
Laukur (n, kk) A. Flokkur rótarjurta, sem margar eru nýttar til matar. B. Fitulag á fugli. Líkur benda til að orðið hafi upprunalega merkt „það sem lykur/hjúpar“, og hafi fljótlega farið að merkja fitulag á skepnum. Þannig hafi orðið „sauðlaukur“ orðið til sem fita á sauðum og af því dregið t.d. heitið Sauðlauksdalur. Sjá sauðlaukur.
Laukur ættarinnar (orðtak) Stundum notað um þann sem þykir vera ætt sinni til sóma, eða sem er í miklu uppáhaldi hjá öðrum í ættinni/fjölskyldunni. Sjá einn er laukur í ætt hverri.
Lauma (n, hk) Spil sem margir geta spilað í einu, og markmiðið er aðverða fyrstur til að safna fimm spilum í sama lit. Í upphafi er öllum gefin fimm spil á hendi. Síðan ákveður hver hvaða lit hannætlar að safna og samtímis laumar hver spilari einu spili til spilarans á vinstri hönd; oft sagt um leið „lauma“. Sá hefur unnið sem fyrstur verður til að fá öll spil sín í sama lit.
Lauma (s) Læða; setja hljóðlega/svo lítið beri á. „Hann laumaði súkkulaðsstykki í vasa minn“.
Lauma að (orðtak) Afhenda svo lítið beri á. „Amma laumaði að okkur brjóstsykri að skilnaði“.
Laumast (s) Fara leynilega/hljóðlega/huldu höfði. „Mér tókst að laumast út án þess að nokkur vaknaði“. „Hann laumaðist í konfektið, svo lítið bar á“.
Laumulega (ao) Í laumi; á laumulegan/leynilegan hátt. „Við fórum laumulega að þessu, enda var búið að margbanna okkur að stelast í klettana“.
Laumulegur (l) Um svip; leyndardómsfullur; undirfurðulegur. „Því ertu svona laumulegur á svipinn“?
Laumupúki (n, kk) Sá sem laumast/ fer leynt. „Hvaða laumupúkar eru þarna á ferð í myrkrinu“?
Laumupúkast (s) Læðupokast; stelast; laumast; fara huldu höfði. „Eitthvað voru strákarnir að laumupúkast þegar þeir komu heim úr Hryggjunum“.
Laumuspil (n, hk) Leynd; feluleikur; verknaður sem leynt er. „Hvaða laumuspil er nú í gangi“. Vísun til spilsins lauma.
Launa í sömu mynt (orðtak) Gjalda líku líkt; gera öðrum það sama og manni er sjálfum gert.
Launa lambið gráa (orðtak) Hefna sín; endurgjalda hrekk/misgjörðir. „Hann hugsaði sér að launa þeim lambið gráa fyrir þennan hrekk, þó síðar yrði. Þetta var geymt en ekki gleymt“.
Launbarn / Launsonur / Laundóttir (n, hk/kk/kvk) Barn sem þannig er fætt að réttu faðerni er leynt.
Launboði (n, kk) Boði/hlein sem er á kafi í sjó. Launboðar geta verið hættulegir, og jafnvel helst í annars sléttum sjó þegar brot taka sig upp á þeim öðru hvoru. „Launboði er boði sem ekki örlar á um fjöru“ (KJK; Kollsvíkurver).
Laundrjúgur (l) A. Drýgri/meiri en sýnist í fyrstu; leynir á sér. „Kaffibrúsinn er laundrjúgur þó hann sýnist lítill“. B. Montinn án þess að mikið beri á: „Strákurinn er ekki beint montinn, en laundrjúgur með sig“.
Laundrýldinn (l) Drjúgur með sig; montinn án þess að sýna það mikið. „Karlinn var laundrýldinn yfir sínum sniðugheitum“.
Laundrýldni (n, kvk) Mont sem þó er ekki mjög augljóst. „Ósköp þoli ég illa þessa laundrýldni í honum“!a
Launfyndinn (l) Fyndinn án þess að mikið beri á/ án þess að slá um sig. „Hann á það til að vera launfyndinn“.
Laungetinn (l) Um barn; sem réttu faðerni er leynt. „Hann var sagður laungetinn sonur prestsins“.
Launháðskur (l) Meinstríðinn; kaldhæðinn/stríðinn undir niðri. „Varaðu þig á að taka karlinn of alvarlega; hann er stundum launháðskur“.
Launhált (l) Um göngu-/ökufæri; sleipara/hálla en sýnist vera. „Ég varaði mig ekki á þessari launhálku“.
Launráð (n, hk, fto) Ráðabrugg sem haldið er leyndu. „Hvaða launráð skyldu þeir nú vera að brugga“?
Launsátur (n, hk) Felustaður; felur; fyrirsát. „Kötturinn lá í launsátri og einblíndi á fuglinn“.
Launsonur (n, kk) Sveinbarn sem getið er í framhjáhaldi og farið leynt með faðernið. „...Jón bóndi á Skálanesi, launsonur Einars yngri Sveinbjarnarsonar...“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Launung / Launungarmál (n, kvk) Leyndarmál; feimnismál. „Mér er engin launung á mínum skoðunum í þessu efni“. „Það er ekkert launungarmál að honum þótti sopinn góður“.
Launverslun (n, kvk) Verslun sem ekki er vel liðin af stjórnvöldum og þarf því að fara leynt. Englendingar áttu mikil viðskipti við landsmenn meðan þeir veiddu sem mest á Íslandsmiðum á ensku öldinni. Þeir hafa þá eflaust átt launverslun við Kollsvíkinga og aðra Víknamenn, enda fjölmennir á miðum þar útifyrir og þá stóð Láganúpsver í miklum blóma“.
Launþungt (l) Þyngra en gæti sýnst í fljótu bragði. „Ég skal halda undir með þér; þetta er launþungt“.
Laupur (n, kk) A. Fótur. „Ætli maður reyni ekki að staulast þetta, meðan lauparnir eru í lagi“. „Reyndu nú að hreyfa á þér árans laupana og hlauptu fyrir kindurnar“! Þessi notkun orðsins heyrðist notuð í Kollsvík og nágrenni, en hennar sér ekki stað annarsstaðar hérlendis og orðabækur kannast ekki við þetta. Hinsvegar er nokkur sönnun þessa t.d. í orðtakinu að leggja upp laupana. Líklegt er að orðið í þessari merkingu sé af sömu rót og sagnirnar að „hlaupa“ og „labba“; einnig orðið „labbakútur“, sem erfitt er að skýra á annan betri hátt. B. Ílát; meis; grindakassi; kláfur. Laupur er kassi, gerður þannig að tréspelir eru festir á hornstoðir og tappaðar í þær í endum. Helsta notkun hans var að bera heygjöf til kúnna. C. Hrafnshreiður. „Hrafninn er glúrinn að velja stað fyrir laupinn sem erfitt er að komast að“. D. Óáreiðanlegur maður; lygalaupur. E. Hrúga. „Væri von á rigningu voru kringluhausarnir settir upp í smáa laupa...“ (LK; Ísl sjávarhættir).
Laus (l) A. Ekki fastur. B. Um bjargferðir; án þess að bera bundinn í vað, en e.t.v. með stuðningi eða í lás. „“Farið er niður í Mela af Geldingsskorardal, venjulega í lás þó komast megi það laus“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Laus á (orðtak) Um fisk; situr ekki vel fastur á króknum þegar hann er dreginn; naumt krækt í. „Vertu klár með gogginn; sá stóri er fremur laus á, sýnist mér“.
Laus á kostunum (orðtak) Laus í rásinni. Yfirleitt notað um manneskju sem ekki er við eina fjölina felld í ástamálum; heldur jafnvel framhjá.
Laus höndin (orðtak) Áflogagjarn; illskeyttur. „Honum var stundum laus höndin þegar hann var kenndur“.
Laus í bandinu (orðtak) Um bók; farin að lasna og losna í sundur.
Laus í rásinni / Laus í skaftinu (orðtak) Ekki fastheldinn á stefnu; hleypur útundan sér. „Hann gæti verið liðtækur í hvaða vinnu sem er, ef hann væri ekki svona ári laus í rásinni“. Önnur likingin vísar til hests sem heldur illa sama gangi, en hin til hnífblaðs eða kústhauss sem er að losna af skaftinu. Sjá laust í reipunum.
Laus í sér (orðtak) A. Um fisk; lausholda; groppulegur. „Hentu eldri fiskinum; hann er orðinn laus í sér“. B. Um jarðveg o.fl; ekki þéttur. „Þurr sandurinn var laus í sér, svo traktorinn spólaði“.
Laus í skaftinu (orðtak) A. Um áhald, t.d. hamar eða öxi; farið að skrölta á skaftinu vegna t.d. rýrnunar í viðnum. B. Líkingamál um manneskju; laus á kostunum; flöktandi/óviss í skoðunum/viðhorfum. „Hann hefur alltaf verið framsóknarmaður, en sagt er að hann sé orðinn fremur laus í skaftinu í seinni tíð“.
Laus mála (orðtak) Laus saka; laus við skyldur/málarekstur/þras. „Ég var guðslifandi feginn að vera loksins laus allra mála í þessu kompaníi“.
Laus og liðugur (orðtak) Ekki bundinn af neinu; á lausu; ekki í föstu verki; ekki klyfjaður; ekki bundinn í vað. „Það er ástæðulaust að ég sé laus og liðugur en þú berir allar klyfjarnar“!
Laus saka (orðtak) Saklaus; laus við íþyngjandi skyldur. „Hann sagðist vera laus allra saka; hann ætti ekki að leggja til mann í smalamennskur á þessari jörð“.
Laust við (orðtak) Rétt hjá. „Laust við hlöðuna er steinsteypt votheysgryfja“.
Lausafé (n, hk) A. Lausir munir sem verðmæti er í. Oft notað til aðgreininga frá fasteign. „Hann seldi allt í einu lagi; bæði húseignir og lausafé“. Stundum er samtímis átt við búfé, en yfirleitt er það sérgreint. B. Handbærir peningar. Orðið heyrist mestmegnis notað í þessari merkingu í dag.
Lausafregn / Lausafrétt (n, kvk) Óstaðfest frétt/sögn; gróusaga. „Ég veit ekkert hvað er til í þessu en mér var sagt þetta sem hver önnur lausafrétt; og var ekki beðinn neitt sérstaklega fyrir það“.
Lausaganga (n, kvk) Frjáls ganga búfjár, án þess að kýr séu bundnar á bása eða fé haft í þröngum hólfum. „Garðeigendur í kaupstaðnum voru óhressir með lausagöngu kinda“.
Lausagrjót (n, hk) Lausir steinar á jörð eða í klettum. Lausagrjótið hefur verið útvíknamönnum bæði hlunnindi og skaðvaldur. Það hefur verið þeim hið þarfasta byggingarefni í hinar margvíslegustu hleðslur og þekjur; nýst sem sökkur á færi og net; dragsteinar á hurðir; til kornmölunar; fiskbarnings; sem hestasteinar og til að smala fé í hlíðum. Hinsvegar hefur það verið til óþurftar í slægjum; hrunið á hús; banað mönnum og fénaði í klettum; tafið menn á göngu og komið út mörgum svitadropum við hreinsun vega gegnum aldirnar. „Þú gætir þess í niðurleiðinni að hreinsa vel allt lausagrjót undan vaðnum“. „... helstu lagfæringar á þeim voru þær að lausagrjót var tínt úr götunni, en sjaldan var nokkuð borið ofan í hana“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Lausakaup (n, hk, fto) Lítið notað í dag, en var fyrrum haft yfir verslun sem ekki fór fram í gegnum viðskiptareikninga hjá kaupmönnum eða kaupfélögum.
Lausakaupmaður (n, kk) Kaupmaður, oftast íslenskur, sem veitti dönsku selstöðukaupmönnunum samkeppni eftir að verslun var gefin frjáls árið 1855. Selstöðukaupmenn voru þeir dönsku kaupmenn nefndir sem ráku verslun hérlendis eftir að einokunarversluninni lauk 1787, en þeir bjuggu jafnan i Danmörku og höfðu hér faktora til að sjá um verslunina fyrir sig. Með auknu verlunarfrelsi hófu íslenskir lausakaupmenn að veita þeim samkeppni. Meðal þeirra fyrstu var Ólafur Thorlacius á Bíldudal, en síðar Bjarni Sívertsen í Hafnarfirði og Guðmundur Scheving í Flatey. Guðmundur og frændi hans, Einar Jónsson í Kollsvík, áttu margvísleg samskipti, og ráku í félagi útgerð skútunnar Delphin, sem var eitt fyrsta þilskip Íslendinga.
Lausaleiksbarn (n, hk) Óskilgetið barn; barn sem getið er utan hjónabands. Orðið er lítið notað nútildags.
Lausamaður (n, kk) Sá sem vinnur tímabundið að verkefnum, en er ekki fastráðinn. Sjá kóngsins lausamaður.
Lausamennska (n, kvk) Vinna/vinnumennska án fastráðningar. „Hverjir eru kostir og ókostir lausamennsku“? (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1918).
Lausamjöll (n, kvk) Laus snjór; léttur og rokgjarn snjór. „Það verður blint þegar þessi lausamjöll fer af stað“.
Lausamunir (n, kk, fto) Hverskonar lausir munir; lausafé. Oft notað til aðgreiningar frá fasteign, bústofni o.fl.
Lausamöl (n, kvk) Möl sem er laus í sér. Oftast notað um laust/óbundið yfirborð vegar.
Lausarúm (n, hk) Rúm/flet sem slegið er upp til bráðabirgða. Fjárhús í Útvíkum stóðu oftast við sjóinn. Tilgangur með því var tvíþættur. Annarsvegar til að nýta sem best fjörubeit fyrir féð og hinsvegar til að unnt væri að nota húsin sem verbúðir yfir vertíðina. Í þeim tilgangi var slegið upp lausarúmum í garðana/krærnar. „Lausarúmum var slegið upp í krónum, en í garðanum (jötunni) geymdu menn verskrínurnar og annað lauslegt, sem þeir höfðu með sér“ (LK; Ísl.sjávarhættir II, um fjárhús á Látranesi).
Lausasandur (n, kk) Sandur sem er þurr og því laus í sér. Erfiðara er að ganga og aka í lausasandi, þar sem hann lætur undan.
Lausasnjór (n, kk) Lausamjöll (sjá þar).
Lausatök (n, hk, fto) A. Lausleg tök; lélegt tak/hald. „Það þýðir ekki að taka þetta neinum lausatökum; þetta er þrælþungt“. B. Í átökum/glímu; þegar tveir takast á, þannig að þeir taka hvor í upphandlegg eða axlir hins, og reyna þannig að fella andstæðinginn.
Lausavísa (n, kvk) Staka; einstakt kvæði en ekki hluti af ljóðabálki. „Það var íþrótt margra í Kollsvík að kasta fram lausavísu af ýmsu tilefni. Tilefnin voru mörg og kveðskapurinn misjafn“.
Lausaþang / Lausaþari (n, hk/kk) Rekþari; þari sem slitnað hefur upp og rekið upp í fjöru. Getur verið góð fjörubeit fyrir fé ef hann er nýr, en annars þótti best ef það komst í bitfjöru.
Lausaþófta (n, kvk) Laus þófta/fjöl sem unnt er að setja í bát eða fjarlægja eftir þörfum. Einkum var það í stærri bátum; sexæringum og áttæringum, og þá oftast í barka; stundum nefnd barkaþófta eða hálsþófta.
Lausaþykkni (n, hk) Skýjabólstur á fjallabrúnum, sem ekki hefur tengingu við önnur ský. Myndast einkum við brúnir áveðurs; þegar vindur stendur uppyfir brúnina. „Þegar ský setti á loft í Gilsfirði, en á Látrabjargi mynduðust hnoðrar eða lausaþykkni, var slíkt veður nefnt rá, eða hann væri að búa til rá“ (LK; Ísl.sjávarhættir III). Þetta er haft eftir breifirskum sjómönnum. Líkur eru á að orðið hafi verið notað í Útvíkum, þar sem þeir sóttu mikið þangað til útróðra.
Lausbeislaður (l) Um það/þann sem ekki er undir mikilli/tryggri stjórn; hömlulaus. Líking við hest sem er með tauminn lausan um hálsinn. „Stjórnunin á þessu félagi hefur verið helst til lausbeisluð“.
Lausbeltaður / Lausgirtur (l) A. Um hest; með illa herta gjörð, þannig að hnakkur/reiðingur er laus. B. Um mann; án beltis eða það illa hert, þannig að brækur hólkast niðurá mjaðmirnar. C. Um manneskju; lauslát.
Lausgopalegt (l) Laust í reipunum; illa frágengið. „Mér finnst þetta dálítið lausgopalegt hjá honum; það má mikið vera ef þetta fer ekki allt í veðrið“.
Lausgreiddur (l) Illa greiddur; ekki vandlega greiddur. „Mér finnst þú heldur lausgreiddur stubbur minn; lofðu mér að sjá lubbann á þér“.
Lausgrýtisskriða (n, kvk) Skriða með/úr lausu grjóti. „Gættu þín í lausgrýtisskriðunni þarna; hún er fjandi brött og getur öll farið af stað ef ekki er varlega farið“.
Lausheft (l) Um kú; ekki vel heft; laus í haftinu. „Kýrin var helst til lausheft, og náði að stíga í fötuna“.
Laushentur (l) Eyðslusamur; helst ekki vel á verðmætum. „Ég hef verið dálítið laushentur á bjargfuglseggin; ég á varla í soðið fyrir sjálfan mig“.
Lausholda (l) Um fisk; laus í sér; morkinn; sundurdrafaður. „Fjári er stórfiskurinn lausholda“.
Lausholt (n, hk) Vegglægja; sylla; biti sem liggur ofan á hlöðnum vegg og sperrufætur sitja á. „Verbúðir og aðrir kofar í Útvíkum voru oftast án lausholta; heldur sátu sperruendar á grjóthleðslunni sjálfri“.
Lauslega (ao) Ekki í föstum skorðum; óvandað. „Ég þýddi þetta lauslega fyrir hann“. „Hliðið var lauslega bundið“.
Lauslegur (l) Ekki í föstum skorðum; óvandaður; losaralegur. „Þetta var lauslegt yfirlit hjá mér“.
Lauslæti (n, hk) Frjálslyndi; lítil tryggð; losarabragur. Til skamms tíma var orðið einkum notað um manneskju sem ekki þótti sýna festu í ástamálum samkvæmt þeim púritönsku stöðlum sem áður giltu; einkum að hálfu kirkjunnar manna. Nú er það m.a. notað um þá sem halda illa tryggð við stjórnmálaflokka eða aðrar fyrri skoðanir sínar.
Lausmálgur / Lausmáll (l) Sem gengur illa að þegja yfir leyndarmálum; er sögusmetta/slúðurberi.
Lausmilk / Lausmjólka (l) Um kýr sem gott er að mjólka; gagnstætt við fastmjólka/fastmilk. Sjá handmjólka.
Lausmælgi (n, kvk) Tilhneyging til að tala af sér/ kjafta frá því sem leynt á að fara.
Lausnarorð (n, hk) Orð sem er samnefnari/tákn viðfangsefnis/umræðuefnis; orð sem passar í orðagátu/krossgátu.
Lausnarsteinn (n, kk) Steinn sem, samkvæmt þjóðrúnni, á að létta konum fæðingu sé hann lagður undir tunguræturnar. Talið er að það sem áður var talinn lausnarsteinn sé fræ hinnar suðrænu mímósu, sem stundum berst upp á fjörur hérlendis.
Lausnarstund (n, kvk) Tíminn þegar tiltekna lausn ber að höndum. „Það þýðir víst lítið að bíða eftir þeirri lausnarstund að Vegagerðinni þóknist að ryðja veginn. Ætli maður verði ekki að kasta úr skaflinum sjálfur“.
Lausríðandi (l) Sem er einhesta/ ekki með annan hest til reiðar eða undir trússi.
Laust eftir/fyrir (orðtök) Rétt fyrir/eftir. „Þetta mun hafa skeð laust fyrir aldamótin síðustu“. „Ég var kominn heim laust eftir miðnætti“.
Laust í (orðtak) A. Um heystabba í hlöðu; þægilegt að leysa. B. Um göngufæri í klettum/brattlendi; hættulega laust grjót eða jarðvegur. „Varaðu þig þegar þú ferð yfir skriðuna; mér sýnist dálítið laust í henni“.
Laust í hendi (orðtak) Ekki erfitt að fá til láns/kaups. „Ég fékk þetta sjálfur fyrir lítið, svo mér er það fremur laust í hendi“. Sjá fast í hendi.
Laust í reipunum (orðtak) Ekki/illa frágengið/ákveðið. „Öll lagasetning er laus í reipunum að þessu leyti, svo menn geta nánast haft þetta eins og þeir vilja“. Vísar til bindingu bagga uppá hest. Sjá laus í rásinni.
Laust mál (orðtak) Allt það mál sem ekki er bundið í ljóðform/ bundið mál.
Laust við (orðtak) Um siglingu; stefna rétt utanvið miðið. „Þegar þá er snúið við, er stefnan í fjörðinn; vel laust við Þyrsklingahrygginn“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lausung (n, kvk) Losarabragur; upplausn; léttúð; óhreinskilni. „Mér finnst vera helst til mikil lausung í stjórn þessara mála“. Sjá; gjalda lausung við lygi.
Lauta (s) Draga til lautar; dældast. „Það þarf að dæla í dekkið á traktornum; það er aðeins farið að lauta“.
Lautarbolli (n, kk) Fremur lítil og djúp laut, sem hallar inn á alla vegu. „Utanvið Grófarnef er djúpur lautarbolli; Grófarstekkur“.
Lautardrag (n, hk) Grunn laut; aðdragandi lautar. „Fé gæti leynst í lautardrögum uppi í hæðinni“.
Lautóttur (l) Með mörgum lautum. „Dalverpið er lautótt og getur Ódyggðahóll dregið nafn af því að fé hafi leynst þarna fyrir mönnum“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).
Laxera (s) Vera með mikinn niðurgang.
Laxveiði (n, kvk) Lax hefur ekki mikið verið veiddur í Kollsvík, en þó kemur fyrir að hann ánetjast í hrognkelsanet.
Lá (n, kvk) A. Brák á vatni/sjó, t.d. er oft marglit lá; járnlá, á járnríku mýrarvatni. Oftar þó nefnt brák í seinni tíð. B. Sjór sem fellur að strönd; allnokkur bára við land. „Brimið er að mestu dottið niður, en það er enn töluverð lá við sandinn“. Stundum þó notað um brim: „Yggldur breki, úfin lá/ ógna leku fari./ Guma hrekur geyst um sjá:/ gefa tekur bátinn á“ (JR; Rósarímur).
Lá (s) Álasa; ásaka. „Ég lái þér það ekki þó þú sért sár yfir þessu“. „Honum er ekki láandi þó hann hætti“. Uppruni orðsins er sagður óviss. Ekki er ólíklegt að hann tengist orðinu „lág“ í merkingunni laut..
Lá (einhverjum) ekki (orðtak) Ásaka einhvern ekki vegna þess sem gerst hefur eða vegna ástands/stöðu. „Ég lái honum það ekki þó hann sé orðinn þreyttur á ruglinu í kerlingunni“! „Það er ekki nokkrum manni láandi þó hann leggi ekki í ferðalög eins og veðurútlitið er núna“.
Láandi (l) Töluvert notað meðal Kollsvíkinga í orðtakinu ekki láandi (sjá þar).
Lábarinn (l) Um fjörustein; rúnnaður eftir brimrót við ströndina. „Í Görðunum er eingöngu lábarið grjót“.
Lábarið grjót (orðtak) Fjörugrjót; grjót sem sjór hefur núið og velt, svo það er oft nær hnöttótt eða egglaga. Lábarið grjót var mikið notað til hleðslu við sjó. T.d. eru Garðarnir á Grunabökkum úr fjörugrjóti.
Ládauður sjór (orðtak) Sléttur sjór; sjóleysa. „Í norðanátt getur verið ládauður sjór víða uppi við Bjargið, þó útifyrir sé öskrandi norðanbrim, og gæruhvítur sjór niðurúr dölunum“.
Ládautt (l) Sjólaust. „Sjaldan var svo ládautt við Nesið að ekki þyrfti að sæta lagi til að koma manni þar í land“ (PJ; Barðstrendingabók). „Þegar ládautt var, eða lítil ylgja, var um flóð róið suður með landi; fast með landsteinum og ofan skerja“ (KJK; Kollsvíkurver).
Ládeyða (n, kvk) Sjóleysa. „Má nærri geta að þar hafi brimasamt verið, jafnvel stundum skammt verið milli ládeyðu og tvísýnnar landtöku“ (KJK; Kollsvíkurver). „Einnig hafði sunnangoluna lægt og alveg var ládeyðu sjóleysa...“ (ÖG; Þokuróður).
Láð (n, hk) Land; þurrlendi. Einkum notað nútildags í skáldskap. „Víkur hrollur, vænkast ráð,/ vættir hollar duga./ Bláum kolli lyftir láð/ leiðar yfir sollið gráð“ (JR; Rósarímur).
Lág (n, kvk) Laut; lægð. „Laut eða lág þar á brún, upp af Vallargjá, er nefnd Grímssonalág...“ (Örnefnaskrá Kollsvíkur). „Utan við Strengbergið er...Eyvararstekkur... Þar utar eftir heita Kálfalágar“ (Örnefnaskrá Láganúps). Margir hafa talið að nafn Láganúps sé dregið af lautum þeim sem þar eru í kring, t.d. í Hnífunum. Má svo vera. Hinsvegar mætti velta fyrir sér orðalagi í Sýslulýsingum frá 1746, en þar skrifar Ólafur Árnason sýslumaður; „Udi Strömnæset ere de mærkværdige Klipper, Sandnupur og Lágur, derefter Kollsvig med en liden Aae udi, hvor ere de 2de Baier, Kirkebol og Lagenup...“ Með „Lágur“ er líklega átt við Traðarhæðina, en það heiti hefur hvorki heyrst né sést annarsstaðar. Hinsvegar gætu Hnífarnir (og e.t.v. Hjallarnir einnig) einhverntíma hafa borið það nafn sem bærinn hefur nú. Ekkert verður um það fullyrt. Einnig má hafa það í huga að víða í Láganúpslandi eru örnefni sem enda á „-lág“, s.s. Sandslág, Lögmannslág og Búðalág. Staðurinn kann því að draga nafn af mörgum lautum, lægðum og melaskörðum.
Láganúpsland (n, hk) Sú landareign sem tilheryrir Láganúpsjörðinni. „Láganúpsland nær frameftir Vatnadal, þar til kemur að veginum sem liggur frá Kollsvík inn Víknafjall“.
Láganúpsmegin (ao) Þeim megin landamerkja/Ár/Breiðs sem Láginúpur er/ á land. „Þar sem Landamerkjahlein er nokkru norðanvið þann stað sem Kjölurinn gengur framá Breiðsbrún, þá er var alltaf dálítið óljóst hvar landamerki lægju í klettum; þar sem er mesta eggjasvæðið í Breiðnum. Líkast til liggja þau þó stystu skálínu á milli; þannig að eggjasvæðið er að megninu til Láganúpsmegin“.
Lágarenningur (n, kk) Skafrenningur sem fer lágt með jörðu. Getur þó orsakað mikla skafla og ófærð ef hann stendur lengi.
Lágdrifskeyrsla / Lággírakeyrsla / Litlustangarakstur (n, kvk) Akstur ökutækis í lægra drifhlutfalli. Þegar jeppar urðu fyrst algengir á Íslandi voru þeir með milligír, þar sem velja mátti tvær hraðastillingar með sérstakri gírstöng, sem var mun minni en gírstöng aðalgírsins. Var keyrt í lága drifinu þegar þungt var fyrir; t.d. í ófærð, en venjulega í háa drifinu annars. „Það var bara lágadrifskeyrsla upp alla Skarðsbrekkuna“. „Nú sýnist mér að sé litlustangarakstur framundan“. „Þetta var lággírakeyrsla nánast alla leið“.
Lágfóta (n, kvk) Tófa; refur. „Hér hefur lágfóta verið á ferð“.
Lággír (n, kk) Lægri gírar á farartæki; lágt drifhlutfall; hæg ferð. „Það verður bara að fara þetta í lággírum“.
Lággíraður (l) Um farartæki; með lágt drifhlutfall; getur farið hægt.
Lággróður (n, kk) Gróður sem ekki vex hátt upp frá yfirborði.
Lágkúra / Lágkúruháttur (n, kvk) Það sem er skammarlegt/lítillækkandi/niðrandi. „Svona lágkúra er auðvitað ekki svaraverð“!
Lágkúrulegt (l) Til skammar/minnkunar; niðrandi; á lágu plani. „Skelfing finnst mér þetta lágkúrulegt af honum“!
Lágkveða (n, kvk) Um kveðskap/vísnagerð; atkvæði sem ekki er áhersla á. „Þetta er árans bragleysa; hér er höfuðstafur í lágkveðu“!
Láglendi (n, hk) Land sem liggur lágt. „Gróður er áberandi mestur niðri á láglendinu“.
Lágmark (n, hk) A. Neðri mörk; lægstu mörk. „Hitinn var í lágmarki snemma morguns“. B. Nokkuð notað sjálfstætt, og þá vísað til þess að áheyrendur viti viðfangið. „Það er lágmarkið að sýna almenna kurteisi“!
Lágmæltur / Lágróma (l) Liggur lágt rómur; talar ekki hátt. „Hann var svo lágmæltur að ég heyrði þetta ekki“.
Lágna (s) Um matvöru; slá í; úldna; skemmast; breyta bragði. „Mér fannst ekki frítt við að ketið sé farið að lágna aðeins“.
Lágnætti (n, hk) Miðnætti; sá tími sólarhrings sem sól er lægst á lofti. „Aðlögnin verður gengin niður fyrir lágnættið“. „Mig minnir að við værum komnir niður í þriðja gang um lágnættið þegar tími var kominn til þess að fara upp“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Þegar við loks fórum að fara niður af heiðinni (af Tunguheiði niður í Kollsvík) var komið fast að lágnætti og sólin að því komin að setjast í hafið og slá gullnum bjarma á hlíðar og háu klettana sem eru þar. Það kvöld sá ég með þeim fegurstu og mun seint því gleyma“ (JVJ; Nokkrir æviþættir).
Lágnættisbil (n, hk) Miðnætturleyti; kringum miðnætti.
Lágnættiskyrrð (n, kvk) Kyrrð sem jafnan kemur á náttúruna um miðnættið, þegar fuglar og aðrar skepnur kyrrast og sofna, og iðulega lægir vind.
Lágreistur (l) Með lágu risi; stendur lágt yfir jörðu. „Brunnhúsið var lágreist en vel manngengt“.
Lágróma (l) Liggur lágt rómur; ekki hávær.
Lágsjávað (l) Lág sjávarstaða; útfall. „Ekki er komist fyrir Forvaða nema um lágsjávað“ (Örnefnaskrá Kollsvíkur). „Um lágsjávað var lent upp í svonefnda Klauf í Kollsvíkurveri“. „Ennþá sést rudd vör í fjörugrjótinu á Láganúpsbótinni í lágsjávuðu“ (HÖ; Fjaran).
Lágskór (n, kk, fto) Lágir skór, s.s. lægri gerðin af strigaskóm; gúmmískór og blankskór. „Mér finnst ómögulegt að vera á lágskóm í klettum; þeir þurfa helst að ná vel uppfyrir ökkla“.
Lágský (n, hk) Ský sem er lægra á lofti en önnur.
Lágskýjað (l) Ský lágt á lofti; dumbungur. „Ansi er hann að verða lágskýjaður; það er ekki langt í rigninguna“.
Lágspil (n, hk) Hundur; spil sem ekki hefur mikið gildi í spilum, t.d. það sem er neðan við 7 eða 10.
Lágstígvél (n, hk, fto) Venjuleg stígvél (ekki klofstígvél). „Það er ómögulegt fyrir þig að vera í lágstígvélum við að bera aflann af bátnum í fjörunni“.
Lágt á lofti (orðtak) Um sól eða önnur himintungl; sýnist lágt á himninum. „Sól er lágt á lofti á þessum árstíma“.
Lágt risið á (einhverjum) (orðtak) Einhver er lúpulegur/skömmustulegur/orðfár. „Það var heldur lágt á okkur risið þegar við drögnuðumst heim; forblautir uppfyrir haus“. Líking við lágreistan húskofa.
Lágt undir sól (orðtak) Sól lágt á lofti; framorðið. „Við förum nú að halda heim á leið; það er orðið fremur lágt undir sól og ég er fjári kaffiþyrstur“.
Lágur á legginn / Lágur til hnésins (orðtak) Stuttfættur; hné stutt frá jörð. „Ég held að þú komist ekki með í svona langa göngu stubbur minn; ekki meðan þú ert enn svona lágur á legginn“. Hið síðara minna notað.
Lágvaxinn (l) Lágur vexti. „Hann var fremur lágvaxinn, en þéttur á velli“.
Lágvær (l) Heyrist ekki hátt í. „Þeir eru ekki alltaf lágværir Kollsvíkurbræður þegar þeir koma saman“!
Lágþoka (n, kvk) Þokuhula; þokuslæða; sjólæða; þoka sem liggur niðri við yfirborð jarðar eða sjávar, en nær ekki uppfyrir fjöll og hæðir.
Lágþokubakki (n, kk) Bakki/veggur af lágþoku. „Hann leggur þennan lágþokubakka upp með kvöldinu“.
Lágþokublettur (n, kk) Staðbundin lágþoka. „Það er að sjá lágþokubletti hér norðurum Flóann“.
Lái (einhverjum) það hver sem vill (orðtak) Það má ásaka einhvern um það að vild; einhver er sekur um það ef menn vilja. Alloft notað þegar menn útskýra það sem þurft hefur að gera til að bjargast úr aðstæðum; útskýra skapbrigði o.þ.h. „Þeir höguðu sér eins og glannar; með handónýtan og grautfúinn spottafjanda í þessu eggjasnagi. Lái mér það hver sem vill að ég fleygði spottanum framaf og lét þá alveg heyra mína meiningu“!
Lán (n, hk) A. Heppni; gæfa. „Það var lán að ég fann hnífinn aftur“. „Ég er svo lánsamur að hafa aldrei veikst alvarlega“. B. Peningar eða hlutur sem einhver fær léð af öðrum. „Ég er með þetta í láni“.
Lán í óláni (orðtak) Heppni að ekki fór verr; heppilegt að atriði fór ekki eins illa og annað. „Það var slæmt að missa lúðuna en þó lán í óláni að hún fór ekki með slóðann“.
Lánast (s) Heppnast; lukkast. „Hún var ljósa margra sem fæddust í Kollsvíkinni á hennar tíð, og lánaðist vel“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). „Hvort tveggja getur þó með Guðs hjálp á einhvern veginn lánast“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Lánið er valt (og lukkan hál) (orðatiltæki) Vel þekkt sannindi. Einnig; misskipt er mannanna láni.
Lánlaus (l) Ógæfusamur; óheppinn. „Karlinn var fremur lánlaus síðustu árin; missti bæði konu og heilsu“.
Lánlega / Lánsamlega (ao) Heppilega; gæfusamlega „Þetta tókst ekki beint lánlega hjá honum“. „Ég er nú svo lánsamlega laus við áhuga á íþróttum“.
Lánlegur (l) Heppilegur; giftusamlegur. „Ekki fannst mér hann mjög lánlegur sem smali“.
Lánleysi (n, hk) Óheppni; ógæfa. „Ekki ríður það við einteyming, lánleysið hjá þeim“!
Lánleysingi (n, kk) Ógæfumaður. „Ætli maður reyni ekki að aðstoða þennan blessaðan lánleysingja“.
Lánleysisbragur (n, kk) Yfirbragð óheppni/ógæfu. „Það hefur verið óttalegur lánleysisbragur á þeirra útgerð alveg frá byrjun, en þessi óheppni kórónar allt saman“.
Lánsamur (l) Heppinn; gæfusamur. „Ég var svo lánsamur að eignast þessa ágætu fjölskyldu“.
Lánsbátur (n, kk) Bátur sem fenginn er að láni hjá öðrum. „Ég gerði út á lánsbát þetta vor“.
Lánsmaður / Lánskona / Lánsmanneskja (n, kk/kvk) Sá/sú sem er heppin/lánsöm/gæfursöm.
Lápur (n, kk) A. Gæluheiti um hákarl eða annan fisk af háfakyni. B. Stór og horaður þorskur; slápur. C. Uppnefni á manni sem þykir luralegur.
Lár (n, kk) Rimlakassi sem lopi var lagður í eftir að búið var að lyppa hann. Sjá tóvinna.
Lás (n, kk) A. Handvaður. Sú aðferð til bjargferða að binda vað fastan uppi á brún og handstyrkja sig niður og upp klettana er nefnd „að fara í lás“. Vaðurinn (festin) nefnist þá lásband og lesa menn sig eftir honum. fyrir festu eru gjarnan notaðir stórir steinar eða klettanibbur, en sé ekki völ á þeim þá er vaðnum stundum brugðið utan um smærri, ílangan stein sem síðan er fergður með grjóti. Heppilegur festarhnútur er pelastikk. Hreinsa þarf vel lausagrjót undan vaðnum um leið og fyrst er farið niður og gæta þess að vaðurinn fari ekki á bendu, þ.e. að hann leggist ekki í vinkil fyrir nef sem hann getur síðan skroppið af. Í flesta eggjastaði í Blakk, Hnífum og Breið er farið í lás, en þó þarf að síga í suma, en þá er sigmaður látinn síga í sigvað. „Lás var sú sigleið kölluð er ekki var erfiðari en svo að sigmaður setti annan enda vaðsins fastan á brún og renndi sér svo eftir honum niður, þangað sem ferðinni var heitið“ (DE; Örn.skrá Hvallátra). Nafnorðið lás er af sama stofni og sögnin að „lesa“, sjá orðtökin að lesa sig/ handlesa sig. B. Læsing á rými, t.d. húsi, herbergi, kistu o.fl. C. Afhleypibúnaður á byssu.
Lása sig (orðtak) Fara í lásum. „Með því að fara fyrst niður Nafargjána í lás; fara síðan gang heimúr henni og setja þar fastan annan spotta, tókst mér að lása mig niður í Sighvatsstóðin; líklega fyrstum manna sem heimildir fara af“ (VÖ).
Lásagras (n, hk) Botrychium lunaria. Tungljurt; þjófagras. Fjögurra laufa smári sem, samkvæmt þjóðtrúnni, átti að geta lokið upp öllum læsingum. Öruggast þótti að varðveita grasið innanum hár af líki. Sjá tungljurt.
Lásasnag / Lásasnatt / Lásferð (n, hk) Bjargferð með notkun lása. „Þarna má ná allmiklu af eggjum með lásasnagi“. Þarna er ekki mikið samfellt eggland, en hægt að ná dálitlu með lásasnatti“. „Við töldum okkur ekki hafa mannskap í sig, og ákváðum að fara heldur lásferð í Brimnesgjótuna“.
Lásband / Lásspotti / Lásvaður (n, hk/kk) Band/vaður sem notað er til að fara í lás í klettum. „Mikið helvíti er þetta flott lásband“. „Ég skal bera lásspottann ef þú heldur á háfunum“. „Hreinsaðu vel undan lásvaðnum“.
Lásfesta (n, kvk) Festa fyrir lásband. Misjafnt er hvað notað er fyrir festu, og fór eftir því hvað tiltækt var þar sem leggja þurfti lásbandið. Stundum var brugðið um stórt grettistak á brúninni, eins og á Steinanefninu á Breiðnum. Stundum utanum stórt grasigróið klettanef, eins og ofanvið Gylfaganginn á Stígnum. Stundum á lítið nef niðri í klettum, eins og við neðri lásinn í Stóðunum. Stundum var brugðið utanum langan stein eða hellublað, og það svo rústað vel uppi á brúninni. Þannig var t.d. á öðrum Árnastaðnum. Stundum var rekinn niður hæll á brúninni og brugðið á, eins og við Gorgánsstallinn. Og stundum voru aðstæður þannig að ekki var völ á lásfestu, en þá þurfti undirsetumaður að halda við uppi á brúninni.
Lásganga (n, kvk) Leið í klettum/bjargi sem unnt er að komast með lás. „Niður úr Saxagjá liggja lásgöngur á Ytri Lundavelli; þar má síga í fjöru. Þarna er talin best aðlega undir Bjarginu“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur- og Saurbæjarbjargs).
Lásnæla (n, kvk) Öryggisnæla; sikringsnæla. Læst næla; notuð til að festa saman fataefni eða flíkur.
Láspinni (n, kk) Pinni í afhleypingarbúnaði byssu, sem skýst í hvellettuna þegar hleypt er af, sem sprengir skotið. „Nú skammfeilaði hjá mér; ég held að láspinninn hafi eitthvvað staðið á sér“.
Lát (n, hk) A. Linun; stöðvun; bilbugur. „Það ætlar ekki að verða neitt lát á rigningunni“! B. Andlát; dauði. „Ég frétti ekki af láti hans fyrr en nokkru síðar“. „Dálítið varþar um lambalát“.
Láta (s) Setja; gera; stjórna; sleppa; henta; þykjast. Sjá orðtök.
Láta (vel/illa) að (orðtak) A. Hegða sér; stjórnast. „Traktorinn var orðinn svo léttur að framan að hann lét illa að í beygjum“. B. Gera sér dælt við. „Hundurinn lætur vel að stráknum í von um að fá harðfiskbita“.
Láta að líkum (orðtak) Fara sem horfir; fara að vonum. „Ef að líkum lætur kem ég til baka á morgun“.
Láta að stjórn (orðtak) Gera það sem stjórnandi ætlast til; láta stýrast. „Báturinn lætur illa að stjórn, svona framhlaðinn“. „Strákurinn var ódæll og lét ekki vel að stjórn“.
Láta að vilja (einhvers) (orðtak) Gera það sem einhver vill.
Láta af (orðtak) Leggja af; leggja til hliðar; hætta einhverju (t.d. ósið) sem viðgengist hefur; gefa eftir; hætta við. „Þú verður að fara að láta af þessari áráttu; að gera hundinn kolvitlausan þegar hann sér hrafn“!
Láta (vel/illa) af (orðtak) A. Gera mikið úr; segja miklar sögur af. „Hann lét af því að þarna væri landmikið og kjarnabeit“. „Þeir láta vel af veiðinni norðanmegin í firðinum núna“. „Hann smakkaði þetta og lét fremur illa af“. B. Hætta; láta lokið. „Afi lét ekki af þeim sið að rölta til sjávar fyrr en hann flutti á sjúkrahús“.
Láta af hendi (rakna) (orðtak) Afhenda; láta laust. „Vasahnífinn læt ég ekki af hendi við hvern sem er“! Sjá reiða af hendi.
Láta afskiptalaust (orðtak) Skipta sér ekki af; sinna ekki; láta kjurrt. „Ég læt þessa deilu þeirra algerlega afskiptalausa; svo lengi sem hún beinist ekki að mér“.
Láta aftur (orðtak) Loka / halla aftur. Var notað jöfnum höndum um dyr, kistla, lofthlera o.fl: „Einu sinni var ég sendur með kolluna, sem þá var nefnd, að hella úr henni, en gleymst hafði að láta aftur um kvöldið“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). „Láttu nú aftur gluggann; það er farið að standa uppá hann“.
Láta auðnu ráða (sigri) (orðtak) Láta reyna á heppnina; treysta á heppni þegar lagt er í viðureign. „Það er ekki annað að gera en hella sér í röstina og láta auðnu ráða“!
Láta á (orðtak) Setja uppá; t.d. setja hey uppá heyvagn eða sláturlömb á bíl. „Ég skal láta á ef þú rakar“.
Láta á móti sér (orðtak) Gera sjálfum sér mótlæti; gera það sem maður vill síður. „Ég ætla nú ekki að láta það á móti mér núna að kjósa aftur þennan ósóma aftur“!
Láta (ekki/lítið) á sér kræla (orðtak) Láta (ekki/lítið) fara fyrir sér; hreyfa sig (ekki/lítið). „Eitthvað hefur flensan látið á sér kræla þarna fyrir sunnan“. „Ég lagðist niður bakvið steininn og lét ekki á mér kræla meðan tófan nálgaðist“.
Láta á sér skiljast (orðtak) Tala/láta þannig að áheyrendur skilji hvað við er átt, þó ekki sé sagt beinum orðum; gefa í skyn; láta í veðri vaka. „Hann lét á sér skiljast að þetta væri honum ekki á móti skapi“.
Láta á sig fá (orðtak) Verða uppnuminn yfir; hræðast; fyrtast; reiðast yfir. „Hann fékk hverja ágjöfina eftir aðra framan í sig, en lét það ekkert á sig fá“.
Láta á sinn stað (orðtak) Setja þar sem á að vera. „Mundu að láta bókina aftur á sinn stað“.
Láta á sjá (orðtak) Sýna skemmdir/slit; vera snjáð/lúið. „Bókarskræðan var gömul og marglesin, og farin að láta verulega á sjá“.
Láta boð út ganga (orðtak) Tilkynna öllum viðkomandi; senda út tikynningu. „Hann lét þau boð út ganga að hann tæki ekki endurkjöri“. Vísar til þess tíma að boð voru send rétta boðleið með þingboðsöxi.
Láta bugast (orðtak) Um sálarþrek manns; falla saman; örvænta; missa móðinn. „Þú þarft að herða þig upp og ekki láta bugast; það er enginn bættari að drekkja sér í sorg og víli“.
Láta burðarlega (s) Haga sér eins og hún ætli að fara að bera; vera komin að burði. „Nú er Srauta farin að láta burðarlega; hún ráfaði út í Gil og var þar að snúast í hringi“.
Láta damma (orðtak) Láta ráðast; láta eiga sig; hafa óbreytt. „Ekki gengur að láta þetta damma svona; einhverja stjórn verður að hafa á því“.
Láta danka (orðtak) Trassa að vinna verk; láta reka á reiðanum; láta sitja á hakanum. „Húsin eru fljót að eyðileggjast af viðhaldsleysi ef það er bara bara látið danka sem aflaga fer“.
Láta deigan síga (orðtak) Láta undan; gefa eftir; hörfa; hætta við. „Við megum ekki láta deigan síga ef við ætlum að ná heyinu inn áður en fer að rigna“.
Láta (ekki) dragast undan (orðtak) Gleyma; trassa; láta danka. „Það má ekki láta undan dragast að koma fiskinum í salt“.
Láta drjúgt/mikið yfir (orðtak) Segja ýkjusögur; bera sig vel; láta vel af. „Hann lét drjúgt yfir aflabrögðum“.
Láta dæluna ganga (orðtak) Tala í belg og biðu; tala stanslaust. „Hann lét dæluna ganga alveg látlaust; ég gat varla skotið inn orði“!
Láta eftir (orðtak) Láta undan þrábeiðni; gefa eftir; gera eins og um er beðið. „Hann var að nudda í mér með þetta, svo ég lét honum það eftir að lokum“. „Vertu nú ekki að láta eftir bölvaðri frekjunni í honum“!
Láta eftir sér (orðtak) Láta eftir eigin löngunum/tilfinningum. „Ég lét það eftir mér að setjast smástund“
Láta eftir sig (orðtak) Skilja eftir við dauða/fráfall. „Hann lætur eftir sig mikið og óeigingjarnt starf“.
Láta eiga sig (orðtak) Sinna ekki; láta kyrrt liggja; skipta sér ekki af. „Við skulum láta þessi egg eiga sig“.
Láta eins og bavían (orðtak) Haga sér illa/ófriðlega. „Það er nú óþarfi að haga sér eins og bavían“!
Láta eins og bestía (orðtak) Ólmast; láta öllum illum látum; sýna óhemjuskap. „Kvíguskrattinn lét eins og bestía; við þurftum að vera bæði við að mjólka hana“.
Láta eins og himinn og jörð séu að farast (orðtak) Fárast útaf smámunum; æsa sig útaf engu. „Láttu nú ekki eins og himinn og jörð séu að farast, þó ég klári úr kaffibollanum áður en ég fer í þetta“!
Láta (eitthvað) eins og /sem vind um eyrun þjóta (orðtak) Látast ekki heyra; skella skollaeyrum við. „Hann lét þessi varnaðarorð eins og vind um eyrun þjóta“.
Láta einskis ófreistað (orðtak) Reyna alla möguleika; leita allra leiða. „Ég læt einskis ófreistað til að ná fénu úr sveltinu“.
Láta ekkert á sér festa (orðtak) Kippa sér ekki upp við; láta ekki íþyngja sér; vera alveg sama. „Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu. Gummi kærði sig kollóttan og lét þetta ekkert á sér festa“ (PG; Veðmálið).
Láta ekki að sér hæða (orðtak) Standa fyrir sínu; vera sannur/raunverulegur/mikilfenglegur; standast gagnrýni. „Hann lætur ekki að sér hæða í þessum fræðum“. „Hún Nótt lætur ekki að sér hæða: Hún er lángsamlega nythæsta kýrin á samlagssvæðinu“!
Láta ekki á neinu/því bera (orðtak) Sýna ekki; láta ekki í ljósi. „Mér þótti þetta nokkuð súrt í brotið, en lét samt ekki á neinu bera“.
Láta ekki deigan síga (orðtak) Láta ekki hugfallast; gefa ekki eftir. „Hann lét aldrei deigan síga í baráttunni við þessa byggðaeyðingu“. Orðtakið hefur líklega áður verið lengra; t.d. „láta ekki deigan hug á sig síga“, og vísað þá til þess að sýna djörfung í bardaga, sjósókn eða öðru.
Láta ekki fara lengra (orðtak) Hafa fyrir leyndarmál; gæta þagmælsku. „Ég heyrði þetta á skotspónum, en þú lætur það ekki fara lengra“.
Láta ekki happ úr hendi sleppa (orðtak) Missa ekki af góðu tækifæri. „Er nú ekki hnísukvikindi þarna í netinu! Það er þá best að hirða úr henni mötuna; óþarfi að láta svona happ úr hendi sleppa“.
Láta ekki sitja við orðin tóm (orðtak) Gera það sem maður hefur sagst ætla að gera; standa við orð sín. „Hann lét ekki sitja við orðin tóm, heldur byrjaði strax á verkinu“.
Láta ekki sitt eftir liggja / Láta ekki standa á sér / Láta ekki standa uppá sig (orðtak) Hafa roð við öðrum í vinnu; svíkjast ekki um. „Ég var staðráðinn í að láta ekki mitt eftir liggja við snjómoksturinn“. Hið fyrstnefnda vísar e.t.v. til þess að hey er rakað af velli.
Láta ekki slá sig útaf laginu (orðtak) Halda sínu striki; láta aðra ekki hafa áhrif á sína fyrirætlun. „Þeir reyndu að leiða honum fyrir sjónir að þetta væri óraunhæft, en hann lét ekki slá sig útaf laginu“.
Láta ekki standa í sér (orðtak) Verða ekki svara vant; hafa svör á reiðum höndum; svara hiklaust fyrir sig. „Þeir helltu sér yfir hann margir í einu, með óbótaskömmum; en hann lét nú ekki standa í sér“.
Láta ekki vaða yfir sig (orðtak) Þráast/þrjóskast/móast við; standa fast á sínu; þumbast/þráast/þverskast/við. „Þú verður að hafa bein í nefinu og láta ekki vaða svona yfir þíg“!
Láta (einhvern) éta ofaní sig (orðtak) Fá einhvern til að taka orð sín aftur; reka ofaní einhvern. „Ég skal sko láta þennan kjaftask éta þetta allt ofan í sig“!
Láta falla (orðtak) Láta líka/semja við. „Hættið nú að rífast greyin mín, og látið ykkur falla“.
Láta fallast (orðak) Láta sig falla. „Við klifruðum uppá heyvagninn og létum fallast í heyið“.
Láta fallast á árar (orðtak) Taka til við róður. Notað í líkingamáli um það að hefja átak/vinnu. „Fleiri létu fallast á árar þegar þeir sáu að þetta var mögulegt“.
Láta fara (orðtak) A. Sleppa; láta detta. T.d. kallað þegar bjargbrún er hreinsuð af lausagrjóti fyrir bjargferð, eftir að búið er að fullvissa sig um að enginn sé undir. B. Skjóta úr byssu. „Máfurinn var kominn í dauðafæri, og ég ákvað að láta fara“.
Láta fara í ergelsið á sér (orðtak) Vera pirraður/ergilegur yfir; láta fara í taugarnar á sér. „Það þýðir víst ekkert að láta þetta fara í ergelsið á sér; ætli aumingjarnir verði ekki bara að taka kjafshöggunum eins og vant er“!
Láta fara sem/ eins og verkast vill (orðtak) Reyna ekki að breyta/ hafa áhrif á. „Hann reyndi ekkert að greiða netið í sjóinn þegar það var róið út, heldur lét það fara sem verkast vildi“.
Láta fá/sjá (orðtak) Afhenda; rétta. „Láttu hann fá þetta bréf frá mér“. „Láttu mig sjá blaðið aftur; ég átti eftir að lesa eina grein“. Orðtakið „láta sjá“ var meira notað áður í þessari merkingu, en heyrist vart nú.
Láta fá/hafa það óþvegið (orðtak) Láta heyra það; hella úr sér skömmum; skammast. „Ég lét hann fá það óþvegið fyrir þennan endemis bjánagang“!
Láta fjandann róa með sér (orðtak) Um róðrarlag á bát; hafa þau tök á árinni að endi árahlummans stendur verulega útaf. Mátti þá segja að maður ætlaði það pláss fjandanum og hefði hann þá sér til aðstoðar. Þótti ósiður og hefur eflaust þótt jaðra við kukl á fyrri tíð.
Láta fjara undan (orðtak) Um bát; sigla uppí fjöru, þannig að sitji á þurru þegar fjarar út. „Látið var fjara undan bátnum og kassanum, sem var aðalflutningurinn, var síðan rennt út á fjörusandinn“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Láta fjúka (orðtak) A. Hreyta útúr sér. „Hún á það til að láta ýmislegt fjúka blessunin“. B. Kasta; fleygja. Nú held ég að ég láti gömlu stígvélin bara fjúka; þau eru orðin handónýt“.
Láta fjúka í kviðlingum (orðtak) Kveðast á; flytja/yrkja kvæði á staðnum. „Karlarnir vour orðnir góðglaðir og farnir að láta fjúka í kviðlingum, þó ekki væru allir dýrt kveðnir“.
Láta flakka (orðtak) Sleppa lausu; láta róa/sigla sin sjó; kasta frá sér; segja/gera án þess að skeyta um afleiðingar. „Hann var vanur að láta allt flakka sem honum bjó í brjósti; við litla hrifningu sumra“. „Dróstu marhnútsfjanda; blessaður láttu hann flakka sem fyrst aftur“!
Láta fljóta (orðtak) Aka ökutæki þannig í snjó að það sökkvi ekki niður í snjóinn heldur troði hann undir sig og komist þannig áfram þó djúpur snjór sé undir. „Menn eru misjafnlega lagnir við að láta fljóta“.
Láta fokka (orðtak) Láta falla; fleygja. „Það var enginn niðri í klettum svo ég lét steininn fokka úr brúninni“.
Láta frá sér / Láta í burtu (orðtak) Gefa/selja burt; afhenda til eignar. „Enginn ætti að láta frá sér vasahnífinn eða klútinn“. „Síðan ásetning lauk hefir sorðið sú breyting á að í Saurbæ hefir verið fargað og látið í burtu 3 kýr og 6 geldneyti, og hefir þetta bætt ásetninginn um 80m³“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1957).
Láta fyrir (orðtak) Loka. „Ég lét fyrir töðugötin á hlöðunni; hann gæti farið að rigna í dag“.
Láta fyrirberast (orðtak) Dvelja; vera um kyrrt. „Ég lét fyrirberast þar um nóttina, meðan veðrið gekk niður“.
Láta gamminn geysa(orðtak) A. Ríða hratt á hesti. B. Láta móðan mása; bulla; tala mikið og tilgangslaust.
Láta glepjast (orðtak) Láta ginnast/plata sig/villa um fyrir sér. „Ég lét glepjast af þessu gylliboði eins og aðrir“.
Láta gossa / Láta fara / Láta vaða (orðtak) Láta eitthvað laust/detta; hleypa af skoti. „Við erum komnir á rétt mið; láttu niðristöðuna gossa“.
Láta gott af sér leiða (orðtak) Gera góðverk; gera það sem leiðir til góðs. „Einkennandi fyrir samfélag gömlu hreppanna var það að allir reyndu að hjálpast að og láta gott af sér leiða. Nokkuð sem minna fer fyrir í nútímasamfélagi“.
Láta gott heita (orðtak) Hætta; segja gott. „Ætli við látum þetta ekki gott heita í dag og förum að keyra í land“.
Láta greipar sópa (orðtak) Grípa allt sem hendi er nærri; stela öllu sem hönd á festir. „Harðfiskþjófarnir höfðu látið greipar sópa um hjallinn“. Greipar eru hendur. Sjá spenna greipar; ganga (einhverjum) úr greipum.
Láta grön sía (orðtak) Drekka te eða annað í gegnum yfirskegg sitt, þannig að fus og korn sem flýtur á vökvanum verði eftir í skegginu. „Þetta te er í góðu lagi; ég læt bara grön sía“. Kemur fyrir í Völsungasögu.
Láta hafa sig að fífli (orðtak) Láta plata sig; láta snúa á sig. „Ég fer nú ekki að láta hafa mig að fífli með því að mæta á svona bjánasamkomu“!
Láta hafa sig í / Láta kjafta sig í/til / Láta tilleiðast / Láta þvæla sér til (orðtak) Láta sig inní; gera/ taka þátt í fyrir orðastað annars manns. „Það þarf víst að gera eitthvað í málunum, fyrst maður lét hafa sig í þetta skítverk“. „Hann var svo ári ýtinn að á endanum lét ég tilleiðast að fara í þennan róður“.
Láta hafa sinn gang (orðtak) Láta afskiptalaust. „Áin var að byrja að rífa sig í gegnum Rifið á nýjum stað. Ég ákvað að láta það bara hafa sinn gang; hún finnur sinn fyrri farveg fljótlega aftur“.
Láta hafa það óþvegið / Láta heyra það (orðtak) Skamma óbótaskömmum. „Ég lét hann alveg hafa það óþvegið fyrir tiltækið“. „Ég skal svei mér láta hann heyra það, næst þegar ég hitti hann“!
Láta hart mæta hörðu (orðtak) Bregðast hart við þegar að er sótt; verjast af hörku. „Ef hann ætlar að knýja fast á um þetta þá er ekkert annað að gera en láta hart mæta hörðu“!
Láta hátt í (orðtak) Hafa hátt; vera með mikinn hávaða. „Ansi lætur hátt í traktornum, svona hljóðkútslausum“.
Láta hendingu/tilviljun ráða (orðtak) Láta kylfu ráða kasti.
Láta hendur skipta (orðtak) Slást; efna til handalögmála. „Við strákarnir létum stundum hendur skipta“.
Láta hjá líða (orðtak) Aðhafast ekki; láta undir höfuð leggjast; vanrækja. „Það má ekki láta hjá líða að hafa auga með árans túnrollunum“.
Láta horfa (orðtak) Láta bát stefna. „Þegar komið er siglandi vestan af fjörðum, eftir venjulegri skipaleið eða grynnra, og Skor kemur fram, er óhætt að beygja fyrir Bjargtanga og láta horfa inn á Breiðafjörð“ (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár). „Lét ég þá horfa beint í vind og báru, og þá stefnu standa þar til við vorum komnir út á Núpa„ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Láta hugfallast (orðtak) Gefast upp; renna af hólmi. „Ég var staðráðinn í að láta ekki hugfallast þó þetta hefði komið uppá“.
Láta hverjum degi nægja sína þjáningu (orðtak) Kvíða ekki fyrir framtíðinni/ löngu erfiðleikatímabili. „Það þýðir ekkert að mála skrattann á vegginn með framtíðina. Maður lætur bara hverjum degi nægja sína þjáningu“.
Láta illa (orðtak) Vera mjög órólegur; sýna slæma hegðun. „Ef þið ætlið að láta svona illa strákar, þá verðiði bara að fara útfyrir“!
Láta illa/bölvanlega að stjórn (orðtak) Taka illa/ekki þeim stjórnbrögðum sem beitt er. „Báturinn lætur bölvanlega að stjórn, svona framhlaðinn. Kastaðu nokkrum góðum fiskum í aftara rúmið“.
Láta illa af sér (orðtak) Bera sig illa; kvarta; vera óánægður. „Hann lét fremur illa af sér í vistinni“.
Láta illa/vel í eyrum (orðtök) Hljóma vel/illa. „Þetta tilboð lætur betur í eyrum en það fyrra“.
Láta illa í svefni (orðtak) Vera órór í svefni; hafa martröð.
Láta illa/vel við (orðtök) Taka vel/illa; fúlsa við/ gráðugt í. „Féð lætur illa við forna heyinu“.
Láta inn/út (orðtak) Setja fé inn í hús/ út úr húsi. „Hann er að herða élið; ég fer bara að láta inn“.
Láta/fara innum annað eyrað og útum hitt (orðtak) Þykjast ekki heyra.
Láta í (orðtak) A. Setja eitthvað í ílát. „Ég lét mislitu ullina í minni balla“. „Varstu búinn að láta votheyið í“? B. Loka hurð/hliði. „Gleymduð þið að láta í Hólahliðið“? „Láttu hurðina vel í á reykkofanum, svo ekki gasi út“. C. Líka við; þykja gott; sækjast eftir. „Ég læt nú ekkert í þetta hveitisull sem þeir kalla núðlur“.
Láta í friði; láta vera; láta kjurrt (orðtak) Sjá í friði; taka ekki. „Láttu hnífinn minn bara í friði“! „Ég kann að mjólka belju, ég kann að elda mat;/ konur þekkja enga mannasiði./ Ég kæri mig sko ekki um kvenmannsapparat,/ kom því brott og láttu mig í friði“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Láta í haf (orðtak) Sigla til hafs; leggja í langferð. „Faíð ykkur nú vel að borða áður en við látum í haf“.
Láta (eitthvað) í hendurnar/höndurnar á (einhverjum) (orðtak) Afhenda einhverjum eitthvað; láta einhvern hafa eitthvað. „Það er varla hægt að láta hníf í hendurnar á þér drengur; þú ert alltaf að skursla þig“!
Láta/setja í hliðið / Láta fyrir (orðtak) Loka hliðinu. „Nú hefur þessi nýi póstur aftur gleymt að láta í hliðið og túnrollufansinn allur kominn inná“! „Gleymdu ekki að láta fyrir uppi á Hjöllunum“.
Láta í ljós / Láta í ljósi (orðtak) Segja opinskátt; viðra skoðanir. „Hann lét í ljósi sitt álit á þessum uppskafningshætti“. „Þegar í land kom var ég hinn roggnasti og lét í ljós við jafnaldra mína að þetta hefði verið hin mesta glæfraför“ (ÖG; glefsur og fyrsti róður). Báðar myndir orðtaksins eru notaðar og réttar.
Láta í minni pokann (orðtak) Láta undan; gefast upp fyrir ofurefli. „Honum þótti hábölvað að þurfa að láta í minni pokann fyrir þessum stráklingi; nýskriðnum útúr barnaskóla“.
Láta í té (orðtak) Afhenda; láta hafa. „Hann er ekki tilbúinn að láta þetta öllum í té“. Sjá té.
Láta í veðri vaka / Láta í það skína (orðtak) Gefa í skyn; gefa undir fótinn; láta á sér skiljast. „Hann lætur í veðri vaka að þetta væri hugsanlegt“. „Hann lét í það skína að hann væri þessu samþykkur“. Upphaflega hafa menn látið t.d. fána í veðri vaka; þ.e. haft fána uppi, þannig að hann blaktir í vindinum.
Láta kjafta sig uppi (orðtak) Gleyma sér í samtali, þannig að lítið verði úr verki. „Maður klárar líklega ekki að moka út úr garðanum í dag. Það er svona; að láta kjafta sig uppi“!
Láta kjurrt/kyrrt / Láta liggja (orðtök) Láta vera; taka/snerta ekki; hreyfa ekki við. „Láttu þetta nú kjurrt drengur; skelfing ertu handóður“! „Við látum bara heyið liggja yfir nóttina; ég held hann ætli að hanga þurr framá morgundaginn“. „Láttu þetta kjurrt; ég á það“! Sjá einnig láta kyrrt liggja.
Láta kjurrt liggja (orðtak) Ekki vekja máls á; ekki ræða frekar. „Ég lét þetta kjurrt liggja til að halda friðinn“.
Láta kné fylgja kviði (orðtak) Fylgja eftir ávinningi/sigri. „Það var mikið að þær gáfu sig loksins þessar bykkjur! Nú þurfum við að láta kné fylgja kviði og drífa þær inn í réttina“. Vísar til þess að halda andstæðingi niðri og gera hann óvígan þegar hann fellur.
Láta koll fylgja kili (orðtak) Vinna mjög ötullega; taka hressilega á. Áðurfyrr notað um að róa bát svo ákaft að höfuð kom nærri kilinum í framslaginu, og er líkingin af því dregin.
Láta krók koma á móti bragði (orðtak) Vera jafn klókur í viðureign/viðskiptum og andstæðingurinn. „Hann fór að heimta landshlut, en ég lét krók koma á móti bragði og sagði að hann hefði verið skilinn eftir á brún, eins og lög gera ráð fyrir“. Vísar til glímubragða.
Láta kylfu ráða kasti (orðtak) Láta hendingu/tilviljun ráða; láta ráðast; taka því sem að höndum ber. „Ég vísaði fénu niður í fjöruna, og lét kylfu ráða kasti hvort það fór í bitþara eða snapaði í þarabunkunum“.
Láta kyrrt liggja (orðtak) Gera ekki málarekstur/vesen/rekistefnu vegna; láta viðgangast. „Sýslumaður vissi örugglega af þessu, en lét það kyrrt liggja; enda fór lítið af landanum í sölu“.
Láta lambi/kálfi (orðtak) Um skepnu; missa fóstur. „Það er ekki einleikið hve margar hafa látið lömbum“.
Láta laust (orðtak) Sleppa; láta af hendi. „Ég ætlaði að taka sokkinn af hundinum en hann vildi ekki láta laust“.
Láta liggja að / Láta að liggja (orðtak) „Hann lét að því liggja að hann gæti aðstoðað okkur við þetta á morgun“.
Láta (eitthvað) liggja á milli hluta / Láta (eitthvað) liggja í láginni (orðtak) Um umræðuefni/álitamál; láta kjurrt liggja; láta órætt. „Við skulum alveg láta það liggja á milli hluta hver átti sök á þessu“. Líking við hlutaskipti á afla; á líklega við um fisk sem ekki var skipt strax, eða átti að verða sameign hlutaeigenda. „Svona óréttlæti má auðvitað ekki liggja í láginni án þess að vera rætt til hlítar“. Lág merkir þarna laut.
Láta liggja boð fyrir (einhverjum) (orðtak) Senda einhverjum skilaboð/orðsendingu; gera einhverjum boð/orð. „Ég lét liggja boð fyrir honum í versluninni; að kaupa einn hveitisekk“. Orðtakið vísar til þess tíma að boð voru send með þingboðsöxi. Væri viðtakandi ekki heima var öxinni stundið á áberandi stað eftir ákveðnum reglum, og þar lágu boð fyrir honum. Sjá þingboð.
Láta lit (orðtak) Um hlut sem farinn er að missa sterkasta litinn. Einkum um fatnað sem missir lit við þvott og litar jafnvel annað sem er með í þvotti.
Láta líða úr sér (orðtak) Hvíla sig; slappa af. „Þarna er upplagt að fá sér bita og láta líða úr sér“ (IG; Sagt til vegar II).
Láta líðast/viðgangast (orðtak) Vita af án þess að hindra; horfa aðgerðalaus uppá. „Það er nú ekki hægt að láta svona hegðun líðast öllu lengur“. „Hvað ætla yfirvöld að láta svona skepnuskap viðgangast lengi“?
Láta lífið (orðtak) Deyja; andast; sálast. Oftast notað þegar menn deyja í stríði eða af slysförum.
Láta líkindalega/líklega yfir (orðtak) Vera jákvæður um; vera tilleiðanlegur með. „Ég spurði hvort hann ætlaði að koma á morgun og hann lét líklega yfir því“.
Láta lítið fyrir sér fara ((orðtak) Leynast; hafa hægt um sig. „Ég sat fyrir við enda gangsins, en lét lítið fyrir mér fara,svo féð fældist ekki“.
Láta lítið yfir sér (orðtak) Sýnast ekki mikilfenglegt; vera ekki áberandi.
Láta ljós sitt skína (orðtak) Sýna snilld/visku sína; þykjast fróður. „Hann lét ljós sitt skína á fundinum“. „Heldurðu að þú hafir lausn á þessu? Láttu þá ljós þitt skína“!
Láta (ekki) ljúga sig fullan (orðtak) Vera (ekki) trúgjarn; taka (ekki) allt bókstaflega/trúanlegt sem manni er sagt. „Hann lét þá ljúga sig fullan af einhverju bulli, sem hann hefur svo verið að bera út“.
Láta lönd og leið / Láta róa / Láta gossa / Láta fara (orðtök) Gefa upp á bátinn; kasta frá sér; hirða ekki um; leggja/kasta fyrir róða; láta af; láta sigla sinn sjó.
Láta með (orðtak) Dekra við; dádera; hafa í hávegum. „Það er hæpið að láta mikið með þessa yrðlinga. Þeir verða seinna að villidýrum þó þeir séu bangasalegir núna“.
Láta mikið (orðtak) Láta illa; vera á iði; hafa hátt. „Látið nú ekki svona mikið strákar; þið vekið barnið“!
Láta mikið/lítið/fátt yfir (orðtak) Gera mikið/lítið úr. „Hann lét fremur lítið yfir aflanum“. „Þeir láta mikið yfir því hvað varpið sé betra nú en í fyrra“.
Láta minna (orðak) Vera með minni læti. „Fékkstu skrámu; þér var nær! Þið hefðir átt að láta aðeins minna“!
Láta móðan mása (orðtak) Blaðra um lítilsverð málefni; hafa uppi málæði; bulla; láta gamminn geysa. „Hann sagði lítið af viti, heldur lét móðan mása um allt og ekki neitt“.
Láta mæta afgangi (orðtak) Láta sitja á hakanum; geyma þar til síðast; gera á eftir öðru.
Láta mætast (orðtak) Skuldajafna; láta eina inneign/skuld mæta annarri. „Vertu ekkert að borga mér fyrir þetta; þú gerðir mér mikinn greiða með þinni aðstoð um daginn. Við skulum bara láta það mætast“.
Láta nótt sem nemur (orðtak) Láta skeika að sköpuðu; það fer sem fara vill; láta staðar numið sem komið er. „Ég er búinn að leita að þessum rollurössum alveg fram í myrku, en nú læt ég nótt sem nemur; þær dóla kannski heim á morgun. Tilvitnun í sálm Hallgríms Péturssonar „Um dauðans óvissa tíma“: „Hvenær sem kallið kemur/ kaupir sig enginn frí./ Þar læt ég nótt sem nemur;/ neitt skal ei kvíða því“.
Láta nærri / Láta ekki fjarri (orðtak) Stappa nærri; vera nálægt/ í nánd við. „Það lætur nærri að þetta sé sami afli og í fyrra“. „Þessi fjöldi lætur sennilega ekki fjarri því að vera réttur“. „Mun láta nærri að hey nægi í innifóður; kúm í 35 vikur, hrossum og saufé í 20 vikur“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Láta/setja ofaní sig / Láta innfyrir sínar varir (orðtök) Borða; fá sig til að borða/smakka. „Þetta er nú það besta sem ég hef ofaní mig látið“! „Þennan gúrkufjanda ætla ég aldrei að láta innfyrir mínar varir“!
Láta óátalið (orðtak) Gera ekki athugasemdir við; segja ekkert við. „Ég lét það óátalið þó þeir tækju þetta“.
Láta ófriðlega (orðtak) Vera með ólæti; fara með ófriði. „Tuddinn lét ófriðlega þegar ég nálgaðist“.
Láta ógert (orðtak) Gera/vinna/framkvæma ekki. „Þeir geta alveg eins látið það ógert að smala þarna ef þeir skilja alltaf heminginn af fénu eftir“! „Láttu það ógert að hrekkja hrafninn; það getur hefnt sín“.
Láta ógetið (orðtak) Nefna ekki; orða ekki. „Hann lét þess ógetið við mig að hann væri hættur við“.
Láta ónýtt (orðtak) Nota/nýta ekki; láta framhjá sér fara. „Það má ekki láta svona tækifæri ónýtt“.
Láta ósagt (orðtak) Segja ekki eins mikið og maður veit. „Sumt er betur látið ósagt“. Ég læt það alveg ósagt“.
Láta ráðast (orðtak) Láta hendingu/tilviljun ráða; taka því sem að höndum ber. „Við verðum bara að láta það ráðast hvort þetta dugir; meira getum við ekki gert“.
Láta reka (orðtak) Leyfa báti að berast með straumi/sjávarfalli/vindum án þess að andæfa. „Við látum reka hérna yfir boðann og sjáum hvort hann gefur sig til“. „Er komið var að Látrabjargi segir formaður að nú sé ... best að leggja upp árar og láta reka út með Bjarginu“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). „Nafnið á miðinu er þannig til komið að menn létu reka þarna á skaki og fengu sæmilegt kennsli á þessum bletti“ (IG; Sagt til vegar I). „Vildin á fiskinum hélst og var því látið reka frá og suður, en suðurfall var á“ (ÖG; Þokuróður).
Láta reka á reiðanum (orðtak) A. Um siglingu skips; hafa siglutré og reiða uppi en engin segl, t.d. ef veður var orðið mjög slæmt. Oftast er þá átt við stjórnlaust skip, en sé það undir stjórn er það nefnt að sigla á reiðanum. B. Afleidd merking: Láta ráðast; reyna ekki að skipuleggja/hafa áhrif. „Það dugir lítið að láta reka á reiðanum með námið ef þú ætlar að ná prófinu í vor“.
Láta rigna flatt (orðtak) Um hey/ slegið gras. Fá ofaní; ná ekki að raka upp áður en fer að rigna.
Láta róa / Láta sigla sinn sjó (orðatiltæki) Líkingamál; láta eitthvað eiga sig; gefast upp á einhverju; láta flakka. „Ég gafst upp á að eltast við lömbin og ákvað að láta þau sigla sinn sjó í bili“. „Láttu þetta bara róa“.
Láta sem (orðtak) Haga sér eins og. „Ég lét sem ég sæi þetta ekki“.
Láta sem ekkert sé / Láta sér ekki bregða (orðtak) Þykjast ekki taka eftir; halda sínu striki. „Hann lét sem ekkert væri þó þeir létu skammirnar dynja á honum. Hann lét sér hvergi bregða við það“.
Láta sem/ eins og maður sjái ekki (orðtak) Þykjast ekki sjá; leiða hjá sér. „Hann var eitthvað að geifla sig, en ég lét sem ég sæi hann ekki“.
Láta sem sér komi ekki við (orðtak) Þykjast/vilja ekki vera aðili að máli/atviki; láta sér fátt um finnast; sýna fálæti.
Láta sem svo (orðtak) Láta þannig /á þann veg; virðast. „Hann lét sem svo að sér væri þetta ekki á móti skapi“
Láta (eitthvað) sem vind um eyru þjóta (orðtak) Um það sem sagt er, t.d. viðvaranir og athugasemdir; hlusta ekki á; taka ekki mark á; skella skollaeyrum við. „Ég skammirnar sem vind um eyrun þjóta, og hélt mínu striki“.
Láta sér að kenningu verða (orðtak) Læra af; gera ekki eins aftur. „Hundurinn lét sér þetta að kenningu verða og reyndi ekki aftur að hjálpa nokkurri kind að kara lambið sitt“.
Láta sér annt um (orðtak) Þykja vænt um; hafa taugar til; sýna kærleika. „Hún lét sér mjög annt um þennan gamla ættargrip“.
Láta sér ekki (allt) fyrir brjósti brenna (orðtak) Vera óhræddur/óragur; hræðast ekki. „Þórarinn Bjarnason, gamall og þekktur sjósóknari úr Kollsvík sem ekki lét sér allt fyrir brjósti brenna...“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). Orðtakið vísar líklega til þess að fá ekki hraðan hjartslátt vegna ótta. Sjá brjóst.
Láta sér ekki verk úr hendi falla (orðtak) Vera aldrei iðjulaus; vera sístarfandi/iðinn. „Hann var alltaf úðrandi, og lét sér aldrei verk úr hendi falla“.
Láta sér fátt/ekkert fyrir brjósti brenna (orðtak) Vera óhræddur við flest/allt; vera óragur/áræðinn.
Láta sér fátt um finnast (orðtak) Þykja lítið til koma; vera ekki uppnæmur/hrifinn. „Ég sýndi honum þetta, en hann lét sér fátt um finnast; þetta gæti verið betra“.
Láta sér falla (orðtak) Reyna að vera saman í friði; sitja á sátts höfði. „Greyin mín hættið nú að rífast og látið ykkur falla krakkar“!
Láta sér í léttu rúmi liggja (orðtak) Vera ekki uppnæmur fyrir; kippa sér ekki upp við. „Ég hef nú alltaf látið mér það í léttu rúmi liggja hvaða álit aðrir hafa á mínum gerðum“. Vísar líklega til þess rúms í báti sem afli er jafnaðarlega ekki settur í, en e.t.v. kastað þangað ýmsu lauslegu sem menn láta sér í léttu rúmi liggja.
Láta sér líða í brjóst (orðtak) Sofna lítillega/létt/stutt; fá sér blund/dúr/kríu. „Mikið væri nú gott að fleygja sér eftir matinn og láta sér aðeins líða í brjóst“! Sjá brjóst; líða í brjóst.
Láta sér lynda (orðtak) Sætta sig við; láta sér nægja; gera sér að góðu. „Ég varð að láta mér þetta svar lynda“.
Láta (sér) nægja (orðtak) Telja nægilegt (fyrir sig). „Ætli ég láti ekki þetta nægja að þessu sinni“.
Láta sér nægja/duga (orðtak) „Ætli maður verði ekki að láta sér nægja þetta í dag“.
Láta sér segjast (orðtak) Taka sönsum; láta að beiðnum/skipunum. „Hann lætur sér kannski segjast við þetta“.
Láta sér til hugar koma (orðtak) Hugleiða; íhuga; detta í hug; falla til hugar; koma í hug. „Láttu þér ekki til hugar koma að þú sjáir þessa gemlingafjanda aftur í dag; þeir eru komnir lengst inná fjöll“!
Láta sér til skaða (orðtak) Gefa/selja/láta svo mikið af því sem maður hefur að maður skaðist sjálfur. Ég myndi þiggja fáeinar grásleppur hjá þér; en fyrir alla muni ekki láta þér til skaða“!
Láta sér (víti) til varnaðar verða / Láta sér (eitthvað) verða víti til varnaðar (orðtak) Taka mark á; gæta sín betur eftirleiðis. „Ég vona nú að þeir láti sér þetta til varnaðar verða, og æði ekki aftur á fjöll í tvísýnu veðurútliti“!
Láta sér um munn fara (orðtak) Segja; orða; láta flakka. „Hvernig dettur honum í hug að láta slíka vitleysu sér um munn fara“!?
Láta sér vaxa í (eitthvað) augum (orðtak) Mikla eitthvað fyrir sér; þykja eitthvað óviðráðanlegt; vera smeykur við. „Það tekur því ekki að láta sér vaxa svona lítilræði í augum; við verðum fljótir að þessu“.
Láta sér vel líka / Láta sér vel tillíka (orðtak) Láta yfir sig ganga; láta sér standa á sama; láta sér í létu rúmi liggja. „Menn brugðust misjafnlega við þessari ræðu; sumir ruku á dyr en aðrir létu sér hún vel líka“. Oftar var notað orðtakið „láta sér vel tillíka“ í Kollsvík, en ekki sjást dæmi þess annarsstaðar.
Láta sér (eitthvað) verða víti til varnaðar (orðtak) Draga lærdóm af einhverju; hafa slæma reynslu í huga svo sömu mistök verði ekki aftur gerð. „Þú lætur þetta kannski verða þér víti til varnaðar; að erta ekki að tuddann meðan þú ert inni í girðingunni“!
Láta sig (orðtak) Gefa eftir; gefa sig; láta undan. „Hann lét sig ekki með þetta“. „Hurðin er farin að láta sig“.
Láta sig dreyma um (orðtak) Hafa mjög í huga; hugsa verulega um; láta sér til hugar koma. „Láttu þig ekki dreyma um að þú sjáir þessar kindur aftur á næstunni“!
Láta sig ekki fyrr en í fulla hnefana / Láta sig ekki fyrr en í síðustu lög (orðtök) Gefa ekki eftir fyrr en fullreynt er; viðurkenna ekki ósigur að óreyndu. Líklega er í báðum tilvikum vísað til hnefaleika. Hið síðara vísar e.t.v. til þess að lesa þarf keppnisreglur nokkrum sinnum yfir hinum sigraða til að hann játi tapið.
Láta sig hafa það (orðtak) Láta skeika að sköpuðu; láta það yfir sig ganga. „Einu sinni áður hef ég mótmælt gerðum stjórnvalda. Það var þegar stjórnvöld létu sig hafa það að brjóta stjórnarskrána með því að setja ekki EES-samninginn til þjóðaratkvæðagreiðslu“ (SG; Bankahrunið - búsáhaldabyltingin; Þjhd.Þjms).
Láta sig inní (orðtak) Taka þátt í; láta hafa sig í. „Mér var boðið að taka þátt í þessu, en ég hafði ekki tíma til að láta mig inní það“.
Láta sig langa í/til (orðtak) Langa til; láta eftir sér að dreyma um. „Maður er að láta sig langa í nýjan bíl, en það verður víst að bíða að sinni“.
Láta sig (ekki) muna um (orðtak) Finnast (ekki) íþyngjandi. „Í bakaleið bar ég einhvern varning; sitt lítið af hverju. Ekki tiltakanlega þunga byrði en Drési, sem var um þessar mundir að dytta að bát sínum fyrir vorið, lét sig ekki muna um að leggja á bakið nokkur borð af bátavið, sem hann bar í fötlum frá Gjögrum og út í Kollsvíkurver“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Láta sig rigna niður (orðtak) Verða votur í rigningu; standa úti í votviðri. „Komdu innfyrir; láttu þig ekki rigna niður hér utandyra“.
Láta sigla sinn sjó (orðtak) Láta fara; reyna ekki að elta; sinna ekki um. „Tvævetlan stakk af úr rekstrinum, en af því að hún var lamblaus ákvað ég að láta hana bara sigla sinn sjó“.
Láta sitja á hakanum (orðtak) Láta bíða framyfir annað viðfangsefni; láta danka; geyma sér að framkvæma. „Það gengur ekki endalaust að láta viðhaldið sitja á hakanum“. Sjá situr á hakanum.
Láta síga (orðtak) Hengja upp; hengja grásleppu til signingar (sjá þar).
Láta sjá / Láta sjá til (orðtak) Sjá til; bíða dálítinn tíma; bíða eftir að ástand lagast. „Við skulum láta sjá með að hleypa fénu út strax; leyfum élinu að ganga yfir fyrst“. „Látum okkur nú sjá“.
Láta sjá sig (orðtak) A. Sjást. „Nú fer að nálgast snúninginn; þá ætti nú stórþorskurinn að fara að láta sjá sig“. B. Koma í heimsókn. „Þú ættir nú að láta sjá þig einhverntíma við tækifæri“.
Láta skeika að sköpuðu (orðatiltæki) Leggja í eitthvað verk eða ferð án þess að sjá endalokin fyrir. „Við ákváðum nú að róa upp og láta skeika að sköpuðu um landtöku“. Vísar líklega til þeirrar heimspeki að mönnum séu sköpuð örlög fyrirfram.
Láta skína í (orðtak) Gefa í skyn; láta liggja að. „Hann lét skína í að hann myndi gefa kost á sér í starfið“.
Láta skína í tennur (orðtak) Um dýr; yggla sig; fitja upp a trýnið til ógnunar.
Láta skömm skella (orðtak) Láta skeika að sköpuðu; leggja í verk/ferð án þess að lokin séu fyrirséð; gera eitthvað vafasamt. „Við skulum þá bara láta skömm skella og hella okkur í þetta“. Meiningin er sú að taka afleiðingum, þó þær verði slæmar.
Láta slag standa (orðatiltæki) Sigla langa leið án þess að hagræða seglum. „Nú létum við slag standa alla leið upp undir lendingu“ (KÓ). Oftast notað nú í óeiginlegri merkingu: „Ætli ég láti ekki slag standa með þetta“. Merkir að sigla sama legginn á skipi án þess að venda.
Láta slæða / Láta skola (orðtak) Láta reka meðan skakað er með færi. „Það er komið drjúgt suðurfall; ætli við látum ekki slæða hér suður á Sandblettina meðan hann er ennþá við“. „Ég lét skola norður á Flóann“.
Láta (ekki) snúa á sig (orðtak) Láta (ekki) plata sig/ hafa sig að fífli. „Ég er ekkert fyrir það að láta snúa á mig í viðskiptum“.
Láta snúa vör í vind (orðtak) Um róður á bát; láta baki/hrygginn/vörina á árinni snúa í framstefnu bátsins þegar róið er. Árablaðið er slétt í afturstefnuna; .þ.e. þeim megin sem ýtt er móti sjónum, en bak þess er með burst sem á Vestfjörðum nefnist straumvör; stytt í vör. (heimild; ÓETh/Ísl.sjávarhættir).
Láta staðar numið (orðtak) Staðnæmast; hætta ferðalagi/lestri/tali. „Ég hefði getað haldið áfram að þylja þetta upp, en ákvað að láta hér staðar numið að sinni“.
Láta stillt (orðtak) Haga sér stillilega; vera til friðs. „Látiði nú stillt strákar; ég er að hlusta á fréttirnar“!
Láta sverfa til stáls (orðtak) Fullreyna; gera atlögu/árás/átak/skorpu þangað til sigrast eða tapast; láta reyna á. „Við verðum bara að setja fram okkar sjónarmið í málnu og láta sverfa til stáls um þær“. Orðtakið vísar upprunalega til smíða á sverðum/öxum. Mikla vinnu þarf að leggja í slípun/svörfun á blaðinu í lokin. Orðtakið hefur svo að öllum líkindum orðið að líkingamáli í orrustum áður en það komst í almenna notkun.
Láta svo lítið (orðtak) Gera að lágmarki; brjóta odd af oflæti. „Hann lét ekki svo lítið að þakka fyrir sig“!
Láta svo um mælt (orðtak) Viðhafa þau ummæli; segja svo; láta þess getið. „Hann lét svo ummælt að sér litist ekkert á útbúnaðinn hjá þeim“.
Láta svo vera (orðtak) Hafa með því móti; láta kyrrt liggja. „Ekki var hann ánægður, en lét þó svo vera“.
Láta synjandi frá sér fara (orðtak) Láta fara bónleiðan til búðar; láta þann fara tómhentan sem komið hefur til að biðja um aðstoð. „Ég er bara svo af guði skaptur að ég læt helst engan synjandi frá mér fara“.
Láta til (orðtak) Láta undan; gefa eftir. „Hann sótti þetta mjög fast, og á endanum lét ég það til“.
Láta til skarar skríða (orðtak) Hrinda í framkvæmd; ráðast í; láta verða af. „Nú læt ég til skarar skríða og segi mína meiningu við þessa vegagerðarfósa. Vegurinn er að verða gersamlega ófær vegna viðhaldsleysis“. Líkast til komið úr sjómannamáli um það að renna upp að borðstokk/skör annars skips í sjóorrustu. Þó getur skör þarna merkt land. Það má sjá í öðru orðtaki sem sjaldnar heyrðist í Kollsvík; að „skríða með skörum“. .Kenningar eru þó misvísandi um þetta (t.d. HH; Ísl. orðtakasafn)
Láta tilleiðast (orðtak) Fallast á; samþykkja með semingi. „Fyrir þrábeiðni lét ég tilleiðast að koma með“.
Láta turnast (orðtak) Taka sinnaskiptum í trú sinni eða grundvallarskoðunum. „Hann var sanntrúaður framsóknarmaður, en ég er hræddur um að hann hafi látið turnast og sé orðinn allaballi“.
Láta undan (síga) (orðtak) Gefa eftir; láta í minni pokann; leggja á flótta; hopa/flýja/renna af hólmi. „Ég ætla ekki að láta undan þessari frekju í honum“. „Fjárhópurinn stefndi allur á okkur og við létum dálítið undan síga, til að missa hann ekki“.
Láta undir höfuð leggjast (orðtak) Vanrækja; láta hjá líða. „Það má alls ekki láta þetta undir höfuð leggjast“! Vísar til þess að menn geymdu oft eitt og annað undir kodda sínum áðurfyrr, meðan skápar voru fáir í húsum. Sumt af því vildi þá gleymast, líkt og gerist í skápum fólks í dag.
Láta upp (orðtak) Opna. „Láttu aðeins upp gluggann. Það er í lagi að hafa hann opinn í svona góðu veðri“.
Láta uppi /uppskátt (orðtak) Segja frá; gera uppskátt; láta í ljósi. „Þeir létu ekkert uppi hvert ferðinni væri heitið“. Lýsingarorðið „uppskár“ er með sömu endingu og „opinskár“ og „herskár“, sem er af orðstofninum skora; skora á.
Láta út (orðtak) A. Um búfé; hleypa út; opna fyrir; hleypa á beit. „Þegar dúrar aðeins í élið þá þurfum við að láta féð aðeins út, þó það sé ekki nema til að vatna því“. „Heimakæri frændinn, hann rekur blómlegt bú;/ blessaður hann var að láta út kýrnar./ Ég flýtti mér þá til hans og sagði „sælinú/ ég sest hér að“; hann hvessti á mig brýrnar“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). B. Í spilum; setja út; láta spil af hendi í borðið. C. Greiða; borga. „Ég varð að láta út fyrir viðgerðinni“. Sbr útlát.
Láta/leggja út fyrir (orðtak) Greiða; borga úr eigin vasa. „Ég lagði út fyrir þessu, en hann endurgreiddi það“.
Láta úti með (orðtak) Greiða; láta af hendi. „Hann tapaði málinu og varð að láta úti með háar fjárhæðir“.
Láta útúr sér (orðtak) Segja; fullyrða; greina frá. „af hverju léstu það ekki útúr þér fyrr að þú hefðir séð kindurnar þarna“? „Ég ætla ekki að láta útúr mér það sem ég er að hugsa núna“.
Láta vaða (orðtak) Framkvæma/gera þó ekki sé fyllilega undirbúið eða árangur tryggður. „Það þýðir ekkert að hugsa þetta til eilífðarnóns, þú verður bara að láta vaða“.
Láta vaða á súðum (orðtak) Um frásögn/framkomu; vera frakkur; sjást lítið fyrir; vanda lítið. „Þú þarft að vanda þig betur við þetta; það dugir ekki að láta bara vaða á súðum og gera það bara einhvernvegin“! „Hann fór mikinn í frásögninni, og lét þá bara vaða á súðum og bætti í skörðin þegar minnið brást“. Líkingin vísar til þess að báti sé siglt óvarlega; þannig að hann hallast og sjór veður á efstu borðum/súðum. Sjá súð.
Láta vel að (orðtak) A. Vera góður/blíður við manneskju/skepnu. B. Um smíði; falla vel; ganga vel að seyma.
Láta vel af (orðtak) Bera vel söguna; lýsa á jákvæðan hátt. „Hann lét vel af skemmtuninni“.
Láta vel af sér (orðtak) Líka vel; vera ánægður. „Mér heyrðist að hann léti vel af sér á nýja staðnum“.
Láta vel í eyrum (orðtak) Hljóma vel; vera gott að heyra. „Þessi áætlun lætur nokkuð vel í mínum eyrum“.
Láta vel í munni (orðtak) Um orð/málfar; hljóma vel; vera þægilegt í framburði. „Jeppinn var kallaður“ Sigga dýra“. Það nafn kom með honum og átti sér nokkra forsögu, en lét svo vel í munni að það hélst áfram“.
Láta vel af/yfir sér (orðtak) Vera ánægður á tilteknum stað/ í vist. „Hann lætur bara vel af sér þarna í heimavistinni“. „Ég reyndi að láta vel yfir mér, en var þó með allmikla heimþrá“.
Láta vera (orðtak) Hreyfa ekki við; ekki snerta; láta liggja; láta kjurrt/kyrrt.
Láta (það) vera (orðtak) Láta liggja milli hluta; tjá sig ekki. Í seinni tíð oftast notað þegar gengur fram af einhverjum; „Ætlarðu berhöfðaður út í þetta veður? Ég læt það aldeilis vera“! Eða þegar gert er lítið úr einhverju; „Þú spyrð um uppskeruna. Ég læt það nú allt vera hvað hún er mikil þetta árið“. Oftast þung áhersla annaðhvort á „læt“ eða „það“.
Láta verða af (orðtak) Koma í verk/framkvæmd; láta til skarar skríða. „Aldrei lét ég verða af því að heimsækja þau þetta sumarið þó ég hafi lofað því“.
Láta viðgangast (orðtak) Leyfa tiltekinni athöfn/verknaði/broti að halda áfram; stöðva ekki; láta kyrrt liggja. „Hann sagðist ekki geta látið svona skussahátt viðgangast á sínu búi“.
Láta vita af sér (orðtak) Gera vart við sig; segja af sínum ferðum. „Hann lofaði að hringja og láta vita af sér þegar hann væri kominn á leiðarenda“.
Láta vorkennast / Leyfa að vorkennast (orðtak) Láta þann afskiptalausan sem er í slæmu skapi/ fúll/ harmar sitt hlutskipti. „Þetta var honum sjálfum að kenna, svo við látum hann bara vorkennast; hann verður sjálfur að bæta sín mistök.
Láta (vel/illa/fátt/mikið) yfir (orðtak) Bera vel/illa söguna. „Hann lét vel yfir aflabrögðum núna“.
Láta (lítið/mikið/vel/illa) yfir sér (orðtak) Vera áberandi. „Þetta er öndvegisnáungi, þó hann láti lítið yfir sér“. „Hann lætur bara vel yfir sér þarna á heimavistinni“.
Láta yfir sig ganga (orðtak) Leyfa átroðning/áníðslu annarra möglunarlaust; sýna ekki mótþróa. „Ætli maður verði ekki að láta þessa skattpiningu yfir sig ganga eins og annað hjá þessari ríkisstjórn“!
Láta ýmsu (orðtak) Vera með margvíslegu móti/ fjölbreytt/slæm. „Veðráttan hefur látið ýmsu undanfarið“.
Láta þar við sitja / Láta sitja við það (orðtak) Láta gott heita; gera sig ánægðan með; ganga ekki frekar eftir. „Við vorum komnir með nóg fyrir okkur og létum þar við sitja“.
Láta þess getið/tilgetið (orðtak) Geta þess; minnast á. „Hann afhenti gjöfina og lét þess tilgetið að hún væri frá öllum hreppsbúum“. „Þá vil ég láta þess getið að þeir Gísli Ó Thorlacius og Jón Pétursson hafa gefið ám, lömbum og hrossum nýja mjólkursýru með ágætum árangri“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Láta þung orð falla (orðtak) Vera harðorður. „Hann lét ýmis þung orð falla í garð forðagæslumanna“.
Láta öllum illum látum (orðtak) Haga sér framúr hófi illa; vera með djöfulgang/ mikil læti. „Vélarfjandinn hóstaði og sprengdi og lét öllum illum látum“! Vísar til hegðunar drauga og þeirra sem haldnir eru illum öndum. Sjá það kostar klof að ríða röftum.
Látalæti (n, hk, fto) Sýndarmennska; uppgerð. „Vertu nú ekki með þessi látalæti; þú ert með bullandi hita og átt að koma þér í bælið en ekki vera að vinna“!
Látbragð / Látæði (n, hk) Fas; hegðun; framganga. „Mér sá það strax á látbragði hans að eitthvað var að“.
Látinn (l) A. Liðinn; álitinn. „Hann er vel látinn í sinni vinnu“. B. Settur. „Það er mikilvægt að neglan sé alltaf látinn á sinn stað“. C. Dáinn; sálaður; andaður. „Hann er látinn fyrir nokkrum árum“. Sjá einnig vant við látinn.
Látlaust (l) A. Hóflegt; án íburðar; venjulegt. „Hún var í ósköp látlausum klæðnaði“. B. Linnulaust; án afláts; sífellt. „„Uppstigningardagsmessa“ byrjaði á uppstigningardag (fimmtudag) og var róið látlaust fram á laugardag“ (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).
Látramannabúnaður (n, kk) Notað (e.t.v. mjög tímabundið) um þann hátt að girða buxnaskálmar niður í ullarleista áður en haldið er í gönguferð, s.s. smalamennskur. Ekki notað í niðrandi merkingu, enda skynsamleg aðferð sem vafalítið hefur tíðkast víðar áðurfyrr. En orðið var notað af Kollsvíkingum á síðari hluta 20.aldar, þar sem þeim fannst smalabúningur Látramanna sérstakur að þessu leyti.
Láttu mig vita það (orðatiltæki) Viðhaft þegar einhver er viss í sinni sök; oft til að fylgja eftir fullyrðingu.
Láttu (bara) sjá (orðtak) Vittu til; það máttu reyna. Áherslusetning, notuð til að fylgja eftir áliti/spádómum. „Hann verður kominn á vestan í fyrramálið; láttu bara sjá“!
Látum okkur sjá (orðatiltæki) Bíðum við; sjáðu til. Hiksetning, oftast í byrjun lengra máls t.d. meðan rifjað er upp í huga eða á bók. „Látum okkur nú sjá; hér held ég að þetta sé einhversstaðar skrifað“.
Látún (n, hk) Messing; brass; málmblanda kopars og sinks. Blanda kopars og tins nefnist brons. Látún er hart og verðmætt efni til margskonar framleiðslu. Hlutfall málmanna er breytilegt, eftir því til hvers látúnið er ætlað. Alfa látún er með minna en 38% sink, og það má hamra til kalt. Beta látún hefur hærra sinkmagn og verður einungis hamrað heitt. Hvítt látún er með meira en 45% sink, og er brothættara.
Ledda (n, kvk) Sakka á færi. Eflaust dregið af enska heiti blýs; „led“.
Leðja (n, kvk) For; aur; vatnsblandað og seigfljótandi jarðefni. Orðstofninn sami og leður og liðugur.
Leðurhúfa (n, kvk) Dembúll; leðurklædd loðhúfa með eyrnaspeldum. „Hvar laggdi ég leðurhúfuna“?
Lefsa (n, kvk) Lufsa; tjása; klessa. „Hér fann ég lefsu úr gamalli bók“. „Einhverjar skúralefsur eru að slæðast hér frammi á víkinni, sýnist mér“.
Leg (n, hk) A. Stæði þar sem legið er; oftast er átt við gröf í kirkjugarði. „Hann hlaut leg í norðurenda kirkjugarðsins“. B. Líffæri í flestum spendýrategundum kvenkyns, sem ungviði byrjar þroska sinn í.
Lega (n, kvk) A. Lægi báta/skipa. „Legan er ekki orðin örugg, svo þeir halda áfram í sandinn. ... Okkur vantaði örstutt í boðann, þegar á honum reis stórbrot sem æddi hrynjandi yfir sundið og upp leguna“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). B. Hákarlalega. „Sigurður kvað þetta vera í fyrsta sinn sem óhapp hefði hent sig í hákarlalegu, og væri þetta fyrirboði þess að ekki færi hann fleiri legur á þessu skipi, og reyndist það svo“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Legáti (n, kk) A. Sendimaður páfa/konungs; legatus á latínu. Segja má að fyrsti legáti sem áhrif hafði hérlendis hafi verið Ansgar sá franski sem Grígoríus páfi IV vígði þrítugan árið 831 og sendi til Hamborgar í þeim tilgangi að kristna Norðurlönd. Hann var síðar nefndur „postuli Norðurlanda“. Áhrif þeirrar krisnunarbylgju urðu til þess að Íslendingar tóku upp kristinn sið árið 1000. B. Niðrandi uppnefni á manni. „Ég held að þessir legátar að sunnan ættu þá sjálfir að koma og sýna okkur réttu handtökin, ef þeir þykjast kunna betur til verka“!
Legg í lófa karls karls (orðtak) Orðaleikur sem vísar til getleiks. Hann felst í því að einn lokar augunum; réttir fram opinn lófann uppíloft og segir: ; „Legg í lófa karls karls, karl má ekki sjá“. Annar setur þá eitthvað í lófann og á hinn að giska á hvað það er án þess að gá, eða fjölda þess. Var þetta í mínu minni bæði notað sem dægrastytting en einnig til að koma litlum og óvæntum gjöfum/matarbitum/sælgæti til skila. Áður munu hafa verið notaðar kvarnir í þessum getleik. Öll mun vísan vera svona; „Legg í lófa karls karls/ karrl má ekki sjá./ Kæra mamma kökubita/ kýs ég mér að fá“ (VÖ).
Legging (n, kvk) Kögur; brydding; borðalagning. T.d. á flík eða klæði.
Leggja (s) A. Frjósa á yfirborði. „Það er svo kalt að sjóinn leggur“. „Vatnið hefur lagt í nótt“. Lagnaðarís. B. Um veður; ganga í garð. „„Fóðurbirgðir eru víðast hvar sæmilegar. Þó mun mörgum ekki veita af fóri ef leggði harðan vetur“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1944).
Leggja að (orðtak) A. Um það þegar gerir aðlögn eftir sólríkan dag. „Hann er farinn að leggja að“. B. Leggja upp að á báti; t.d. bryggju eða hlein. „Við lögðum upp að hleininni undir Vellinum“. C. Þvinga um; þrýsta á einhvern að gera eitthvað. „Ég lagði fast að honum að fara ekki í svona tvísýnu veðurútliti“.
Leggja að bryggju (orðtak) Um bát/skip; koma með síðuna upp að bryggju.
Leggja að jöfnu/líku (orðak) Meta jafn mikils; virða jafnt. „Ég legg það ekki að jöfnu hvað þessi lamhrútur er mikið meiri skepna en hinn“.
Leggja (hart) að sér (orðtak) Reyna mikið á sig við verk/vinnu; rembast; puða. „Hann úðraði í þessu, en ekki gat ég merkt að hann leggði mikið að sér“.
Leggja að veði (orðtak) Setja sem veð. „Ég skal leggja hausinn að veði fyrir því að nú er hann að ljúga“!
Leggja að velli (orðtak) Sigrast á; sigra; deyða; drepa; yfirbuga. „Þú leggur þennan risa ekki svo auðveldlega að velli“. Líking við að fella þannig að liggi á t.d. vígvelli.
Leggja af (orðtak) A. Horast; grennast. „Lömbin höfðu lagt töluvert af þegar þau náðust loks til byggða“. „Heybirgðir eru ekki eins miklar og hefði þurft að vera í jafnköldum vetri og nú er; enda er fé sumsstaðar að leggja af og kvillar í sauðfé að aukast með vorinu“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932). B. Hætta einhverju vanalegu; leggja niður notkun; láta af; leggja/kasta fyrir róða. „Þá var svo margt sem þurfti að gera, sem nú er löngu lagt af“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Leggja af sér (orðtak) A. Leggja frá sér yfirhöfn. „Komdu innfyrir; þú getur lagt af þér þarna á bekkinn“. B. Slægja fisk og farga slóginu. „Formennirnir á bátum þeim er legulóðir áttu úti í Patreksfirði, fyrir utan Tálkna, höfðu bundist samtökum um að slægja aldrei niður á lóðunum; heldur fara í land og leggja af sér“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Leggja af stað / Leggja á stað / Leggja á leið (orðtak) Hefja ferð; halda af stað; halda í áttina. „Oft er rigningasamt á haustin, og stundum fengu menn hin mestu hrakviðri; auk þess að ekki var hægt að leggja af stað fyrr en slátrun var lokið og því alltaf komið biksvart haustmyrkur áður en lagt var af stað“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG). Líklega er er upprunalegra að segja „leggja á stað“ eða „leggja á leið“, og var það fremur notað af eldra fólki í Kollsvík á síðari hluta 20. aldar. Notkun „á“ er þá hin sama og t.d. „leggja á fjall“ eða „leggja á haf“.
Leggja aftur (orðtak) Loka; halla aftur. „Leggðu aftur hurðina; það er hálfkalt hér inni“. „Ég sofnaði um leið og ég lagði aftur augun“.
Leggja á (orðtak) A. Leggja reiðtygi á hest. „Hjálpiði nú póstinum að leggja á, strákar“. B. Brýna eggjárn á hverfisteini. „Sæktu nú vatn á hverfisteininn; það þarf að leggja ljáinn á“. C. Leggja símtól á eftir símtal. „Það er ekki furða þó síminn hafi þagað í dag; tólið hefur ekki verið lagt vel á“. D. Auka erfiði. „Ég held að strákarnir eigi skilið að fá frí það sem eftir er dagsins; það er ekki hægt að leggja endalaust á þá af vinnu“. E. Um það þegar eykur vind. „Það var mjög tregt, og illt í sjóinn. Það lagði á norðanspænu með hálfgerðum brimhroða“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). F. Setja stýri á bát/bíl/traktor yfir í annað borðið; leggja í borð. „Leggðu á í bakborðið svo ég nái baujunni“. F. Binda í álög; mæla svo um. „Kollur er sagður hafa falið vopn sín og verðmæti undir Biskupsþúfu, en lagt það á hana að illa færi ef við þessu yrði hreyft“. „Þig að lokum legg ég á,/ lostin ástarbruna;/ meyju engri máttu hjá/ mennskri framar una“ (JR; Rósarímur). G. Hækka verð vöru. „Það verður að leggja á fyrir sláturkostnaðinum“.
Leggja á borð (orðtak) Setja borðbúnað á borð fyrir máltíð. „Ég lagði á borð fyrir fjóra en einn kom ekki“.
Leggja á borð með sér (orðtak) Leggja til í sameiginlegt; taka þátt í kostnaði/matföngum við matarboð eða annað sem manni er boðið í; koma með veisluföng með sér. „Ég bauð honum í mat og hann lagði rauðvínsflösku á borð með sér“.
Leggja á flótta (orðtak) Flýja; láta undan síga; hopa/renna/flýja af hólmi. „Hann lagði á flótta þegar tuddi kom bölvandi í áttina að okkur“.
Leggja á glæ (orðtak) Um veiðiskap; róa lóð svo hægt út að hún leggist í lykkjur og fljóti í stað þess að standa afturaf bátnum. Sjá standa á glæ.
Leggja á helming (orðtak) Um verkun fisks; para; leggja í bylming; leggja fiskhelmingana saman eftir að flatt hefur verið, og síðan annan samanlagðan fisk á móti í gagnstæða stefnu. Þannig er unnt að raða fiskinum reglulega meðan hann bíður frekari verkunar. “ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Leggja á hilluna (orðtak) Hætta við áform/verknað; fresta/ leggja af vinnu/sið o.sl. „Ég lagði þessi áform á hilluna í bili“.
Leggja á laupana (orðtak) Leggja af stað í göngu. „Ætli við þurfum ekki að fara að leggja á laupana ef við eigum að ná heim aftur fyrir myrkur“. Sjá leggja upp laupana.
Leggja á minnið (orðtak) Einbeita sér að reyna að muna; festa sér í minni. „Ég sé eftir að hafa ekki lagt á minnið það sem gömlu mennirnir sögðu um fiskimiðin á víkinni“.
Leggja á mis/misvíxl (orðtak) Leggja eitthvað niður þannig að (endar) víxlist sitt á hvað, eða gangi hvað meðfram öðru. „Vírendarnir eru lagðir á mis á minnst spannarlöngu bili, til að unnt sé að snúa þá tryggilega saman“.
Leggja á ráðin (orðtak) Ráðgera; skipuleggja; hugsa ráð til. „Nú þurftum við að leggja á ráðin um hefndir“.
Leggja á sig (orðtak) Erfiða; puða; takast á hendur. „Það hey þurfti að bera á bakinu um snarbratta hryggi, með hengiflug fyrir ofan og neðan. Þetta var mjög harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Leggja áherslu á (orðtak) Segja/gera af miklum þunga; segja vera aðalatriði; draga sérstaklega fram. „,,,væri því fremur ástæða til þess að leggja á þetta sérstaka áherslu þar sem von væri um aukna aðstoð hins opinbera að ræða“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Leggja árar í bát (orðtak) A. Hætta að róa; leggja upp árar. B. Líkingamál; gefast upp. „Hann leggur nú ekki árar í bát þó sýslumaður helli brugginu niður“.
Leggja (blátt) bann við (einhverju) (orðtak) Banna eitthvað algerlega; harðbanna. „Ég lagði blátt bann við því að þeir færu á sjó á þessu lekahripi“.
Leggja báru (orðtak) Gera/auka báru/öldu. „Samt lagði oft þá báru, að seila þurfti fiskinn á floti og láta seilarnar útbyrðis; jafnvel setja þær á streng, til þess að vera laus við þær meðan bátnum var brýnt úr sjó“ (KJK; Kollsvíkurver).
Leggja bót með böli (orðtak) Láta eitthvað jákvætt/bætandi fylgja hinu neikvæða/skemmandi. Sjá leggja líkn með/við þraut.
Leggja dóm á (orðtak) Dæma um; kveða uppúr með. „Ég ætla engan dóm að leggja á þetta“.
Leggja drög að (orðtak) Undirbúa; skipuleggja; áætla; gera ráðstafanir til. „Hann er farinn að leggja drög að næstu bók“. Vísar líklega til þess að byrja smíði báts, en drög hafa líklega verið slár sem síðar nefndust stokktré. Vera kann einnig að drag hafi merkt hlunnur, sem einnig er auðskilið.
Leggja eið að (orðtak) Sverja. „Ég skal leggja eið að því að þú fáir að koma með á sjóinn á morgun“!
Leggja fram (orðtak) Reiða fram; sýna; koma með; inna af hendi. „Hann lagði fram dágóða upphæð í söfnunina“.
Leggja fram hneifar (orðtak) Fara með haukalóð á sjó og leggja hana.
Leggja fyrir (orðtak) A. Leggja hlunna fyrir bát. „Ef þú ert orðinn nógu stór til að leggja fyrir, þá hlýturðu að geta komið með á sjóinn“. „Tveir settu bátinn niður en einn lagði fyrir“. B. Spara fé; koma sér upp varasjóði. „Það getur verið skynsamlegt að leggja fyrir, þegar maður hefur rúman fjárhag“. C. Leggja til við; skipa fyrir. „Þessi tillaga var lögð fyrir fundinn“. „Þeim var lagt fyrir að smala sitt land undanbragðalaust“. Sjá fyrirlagt.
Leggja fyrir róða (orðtak) Leggja af; hætta því sem tíðkast hefur; hætta notkun; láta lönd og leið. „Svona byggingarlag hefur, sem betur fer, verið lagt fyrir róða“.
Leggja fæð á (einhvern) (orðtak) Vera illa við einhvern; bera kala/þela/ þungan hug til einhvers; vera í nöp við einhvern; hata einhvern. Bókstafleg merking er að tala ekki við einhvern vegna misklíðar/ósættis. „Ég veit ekkert hversvegna hann hefur lagt þessa fæð á mig uppá síðkastið“.
Leggja (einhverjum) gott til (orðtak) Tala vel um; mæla með; skjalla; hæla. „Hún lagði honum gott til“.
Leggja hald á (orðtak) Taka í sína vörslu; gera upptækt; hirða; sölsa undir sig.
Leggja hart að sér (orðtak) Strita; reyna á sig. „Lífsbaráttan var ávallt hörð og menn urðu að leggja hart að sér til þess að sjá sér og sínum farborða“ (KJK; Kollsvíkurver). „Þær voru alla tíð erfiðar, bjargferðirnar, þótt ekki væri lagt jafnhart að sér og í þessari ferð“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Eins og aðrir sveitungar mínir á þessum tíma voru þeir Gummi og Liði ágætir vinir og lögðu gjarnan hart að sér til að gera öðrum greiða“ (PG; Veðmálið).
Leggja hausinn að veði (orðtak) Í svardögum/heitingum; leggja mikið undir. „Ég skal leggja hausinn að veði fyrir því að þessi kind verður komin inná Hlíðar strax á morgun, með bæði lömbin“!
Leggja hendur á (orðtak) Taka með valdi; beita valdi; taka höndum. „Ég legg ekki hendur á minnimáttar“!
Leggja höfuð að kodda (orðtak) Hvíla sig; sofa; ná hvíld; fá lúr. „Það hefur verið svo mikið að gera yfir sauðburðinn að ég hef varla lagt höfuð að kodda síðustu vikuna“.
Leggja höfuðið/heilann í bleyti (orðtak) Íhuga vandlega. „Ég þarf að leggja höfuðið í bleyti og reyna að rifja þetta upp“. Uppruni orðtaksins virðist byggja á misskildu dönsku orðtaki; „lægge sit hoved i blöd“, sem er notað í svipaðri merkingu en merkir að leggja höfuð á kodda; þ.e. sofa á vandamálinu.
Leggja hönd á plóg (orðtak) Veita aðstoð; leggja lið; leggja fram vinnu. „Þá vildi ég fórna þér afli og önd/ og aldregi horfa til baka./ En leggja á starfsplóginn haldgóða hönd/ og hugsa eki um annað en vaka./ Því miðnætursólin hún sefur ei blund/ þó svolítið noðni hún ægis við fund“ (VÖe; Ísland).
Leggja í (orðtak) A. Um saltfisk; leggja í bleyti; útvatna. „Farðu nú upp í brunnhús og leggðu í“. B. Áræða; þora. „Ég lagði bara ekki í að byrja einn á þessu verki“. „Eigum við að leggja í þetta“?
Leggja í borð (orðtak) Beita stýri báts/ökutækis til fulls á annan veginn. „Leggðu hart í stjórnborðið svo við fáum ekki færið í skrúfuna“!
Leggja í einelti (orðtak) Hafa útundan; níðast á umfram aðra. „Ég fann það vel á eigin skinni hvernig unnt er að brjóta börn niður með því að leggja þau í einelti í skóla. Sá glæpur varð þó ekki viðurkenndur fyrr en á síðari tímum; en jafnvel í dag virðast eineltisáætlanir og sálfræðiaðstoð ekki ná utanum vandann“.
Leggja í hann (orðtak) Leggja af stað; fara af stað í ferðalag. „Eigum við þá ekki bara að leggja í hann“?
Leggja í púkk (orðtak) Setja saman/ í sameiginlegan sjóð. „Mat var komið með af heimilunum og svo lagt í púkk; helst í trogum sem voru þá víðast til“ (SG; Þorrablót; Þjhd.Þjms). „Sjóðurinn verður auðvitað því stærri sem fleiri leggja í púkkið“.
Leggja í rúst (orðtak) Eyðileggja; brjóta niður; rústa. „Rokið hafði lagt þetta hrófatildur í rúst“.
Leggja í sölurnar (orðtak) Hætta til; leggja undir; stofna í hættu. „Ég ætla nú ekki að leggja lífið í sölurnar við að ná þessari fjallageit. Hún skilar sér sjálf heim ganginn ef við látum hana vera“.
Leggja í vana sinn (orðtak) Gera að vana sínum; hafa fyrir vana. „Ég legg það helst ekki í vana minn að munnhöggvast við svona þverhausa“!
Leggja/stofna/tefla í tvísýnu (orðtök) Tefla á tvær hættur; leggja í hættu. „Við erum ekkert að leggja í neina tvísýnu fyrir þessar skjátur. Þær verða þarna þegar veðrið lagast“.
Leggja kapal (orðtak) Spila einn á spil, þannig að þau eru lögð niður og færð eftir ákveðnum reglum.
Leggja kapp á (orðtak) Leggja áherslu á; einbeita sér að. „Við lögðum kapp á að ná öllu heyinu í galta“.
Leggja kisur (orðtak) Um veður; gera vindkviður. „Til hafsins er kominn norðan mökkur; og jafnsnemma leggur norðan kisur heim úr Blakknum og eykur norðan báru“ (KJK; Kollsvíkurver).
Leggja kollhúfur (orðtak) A. Um hegðun dýra; leggja eyrun aftur, til að sýna t.d. geðshræringu. B. Líkingamál um manneskju; þegja í stað þess að svara; sýna óánægju.
Leggja lag sitt við (orðtak) Vera í vinfengi við. „Ég hef sjaldan lagt mitt lag við þannig pótintáta“.
Leggja land undir fót (orðtak) Leggja af stað í ferðalag/langferð. „Ætli maður þurfi ekki að leggja land undir fót og leita að þessum rolluskjátum“. „Ég var nú svona í huganum hnuggin bæði og reið./ Hnjótsheiði ég lagði undir fótinn./ Ég vildi ekki gefast upp, þó grýtt væri mín leið/ því gatan stefndi beint á Örlygshnjótinn“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Leggja leið sína (orðtak) Fara; ganga. „Hvert skyldu kýrnar vera að leggja leið sína núna“?
Leggja lið (orðtak) Veita aðstoð/liðsinni; hjálpa; liggja ekki á liði sínu. „Ég vildi leggja honum lið í þessu, enda mjög þarft málefni“.
Leggja líf sitt við / Leggja lífið að veði fyrir (orðtök) Í heitingum/svardögum; setja lífið að veði oftast fyrir því að eitthvað standist/ sér rétt. „Ég skal leggja líf mitt við að þetta er dagsatt“!
Leggja (einhverjum) lífsreglurnar (orðtak) Skipa fyrir; segja fyrir um tilhögun; skipuleggja. „Ég er búinn að leggja honum lífsreglurnar um það sem til hans friðar heyrir“. „Vert þú bara ekkest að leggja mér lífsreglurnar á þessu sviði; ég var farinn að kunna á þessu tökin meðan þú varst enn í vöggu“!
Leggja líkn með/við þraut (orðtak) Lina þjáningar. „Skaparinn lagði þá líkn við þraut þeirra sem þyrstir flækjast um Stíginn í sólarbreyskju; að í Sniðunum er lindin Merarhola, með nægu og góðu drykkjarvatni“. Sjá leggja bót með böli.
Leggja lokahönd á (orðtak) Ljúka við verk/framkvæmd; gera síðustu handarvikin.
Leggja lóðir (orðtak) A. Bókstafleg merking; leggja lóðir í sjó til veiða; leggja snæri. B. Háðsyrði um sjóveiki; leggjast á borðstokkinn til að æla; kalla í Eyjólf; skila nestinu. „Hann var nú mestan part í að leggja lóðir í fyrsta róðrinum, strákgreyið“.
Leggja lykkju á leið sína (orðtak) Fara lengri leið en ætlað var. „Ég lagði lykkju á leið mína og leit við hjá gömlu hjónunum, fyrst ég var þarna í nágrenninu“.
Leggja mat á (orðtak) Meta; virða. „Það er ekki mitt að leggja mat á þetta“.
Leggja meiningu/merkingu í (orðtak) Skilja á ákveðinn veg. „Ég lagði nokkuð aðra meiningu í þessi orð en hann gerði“.
Leggja merki til (orðtak) Taka eftir; veita athygli. „Ekki gat ég lagt nein merki til þess að hann væri byrjaður á verkinu“. Úr dönsku: „lægge mærke til“.
Leggja niður (orðtak) A. Steina niður net í bát. Einnig var talað um að greiða niður í sömu merkingu. B. Hringa línu niður í bala eða á bjóð. C. Hætta. „Sú útgerð var lögð niður árið eftir“.
Leggja niður fyrir (orðtak) Skipuleggja; hugsa fram í tímann. „Ég hef nú ekki alveg lagt niður fyrir mér hvernig best sé að haga þessu verki“.
Leggja niður rófuna/skottið (orðtak) Gefast upp; hætta við; guggna á. Líking við hund sem sýnir auðmýkt.
Leggja nótt við dag (orðtak) Vinna samfellt, daga og nætur. „Hún lagði nótt við dag til að anna öllum sínum verkum... “ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Leggja ofaní (orðtak) Um veiðiskap; leggja yfir; leggja línu/net yfir veiðarfæri annars. „Það er á mörkunum að hér sé hægt að leggja án þess að leggja ofaní. Það er allavega eins gott að vera viss á falli og stefnu“.
Leggja ofurkapp á (orðtak) Leggja mikla áherslu á; einbeita sér að. „Hann lagði ofurkapp á að ná upp netunum á Kollvíkinni fyrir norðangarðinn“.
Leggja orð í belg / Leggja orð að/til / Leggja gott til (orðtök) Leggja til málanna; segja. „Ég vildi nú líka leggja eitthvað orð í belg í þessu máli“. „Þeir tóku tal saman; hvað gera skyldi, og fleiri lögðu orð til“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). Vísar e.t.v. til sögunnar af Ullarvindli í þjóðsögum, en hann skyldi fá kóngsdóttur ef hann gæti fylgt belg af orðum. Sjá einnig; tala í belg og biðu.
Leggja (einhverjum) orð í munn (orðtak) Hafa eitthvað það eftir öðrum sem vafasamt er hvort rétthermt er; hafa rangt eftir öðrum. „Ég er ekkert hrifinn af því að hann sé að leggja mér orð í munn“!
Leggja ríkt á við (orðtak) Leggja mikla áherslu á; biðja lengstra orða. „Ég lagði ríkt á við hann að þetta þyrfti að komast í lag á morgun“.
Leggja rækt við (orðtak) Stunda af alúð/kostgæfni; vera natinn við. „Þú þarft að leggja meiri rækt við námið“.
Leggja saman (orðtak) A. Í stærðfræði; sameina tvær eða fleri tölur í eina. B. Hjálpast að; samstilla krafta sína. „Þegar skelin var plægð upp lögðu ávallt tvær skipshafnir saman til þeirrar beituöflunar“ (KJK; Kollsvíkurver; sjá kúfiskur). C. Brjóta niður/saman. „Skriðan rann yfir kofann og lagði hann saman“.
Leggja sér til (orðtak) Koma með í sameiginlegt búshald/borðhald o.fl. „Égþurfti sjálfur að leggja mér til hlífðarföt og stígvél“.
Leggja sér til munns (orðtak) Borða/láta ofaní sig. „Hvítlaukur er nokkuð sem ég legg mér aldrei til munns. Enda er þetta innfluttur ósómi; ku vera notaður erlendis til að halda blóðsugum og öðrum púkum í skefjum“.
Leggja sig (orðtak) Leggjast niður; hvíla sig; sofa; halla sér; fleygja sér; fá sér blund/lúr/kríu. „Ég lagði mig aðeins eftir matinn“. Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum: „Heyrðu Gummi! Komdu og líttu á þennan: Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“? (PG; Veðmálið).
Leggja sig á (orðtak) Vera virtur á; vera að verðlagi; kosta. „Hver dilkur leggur sig á nokkur þúsund krónur“. „
Leggja sig eftir / Leggja sig í framkróka við / Leggja sig fram um (orðtak) Reyna sérstaklega / reyna eins mikið og hægt er; leggja mikið á sig fyrir. „Ég iðra þess núna að hafa ekki lagt mig betur eftir að meðtaka þann fróðleik sem hraut af vörum gömlu karlanna, þegar þeir hittust“. „Ég lagði mig í framkróka við að gera þeim til hæfis, en það var ekki mikils metið“.
Láta sig inní (orðtak) Blanda sér í; taka þátt í. „Ég hef ekkert verið að láta mig inní þennan félagsskap“.
Leggja sig fram (orðtak) Reyna mikið; taka á; vinna að. „Ég man vel að sjá roskna bændur ríghalda um „rattið“ og leggja sig fram um að ná árangri við stjórnina“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Leggja sig í framkróka (orðtak) Leggja sig fram: reyna mikið. „Ég lagði mig í framkróka við að sannfæra hann, en án árangurs“.
Leggja sig í líma við (orðtak) Leggja sig í framkróka; reyna mikið. „Hann lagði sig í líma við að fylgja öllum reglum“. Lími er sama og lim/trjágrein/vöndur. Orðtakið táknar þrautseigju, og líklega vísar það til þess að menn leggist í leyni í runna og bíði af þrautseigju eftir bráð eða óvinum. Um það skal þó ekki fullyrt.
Leggja sig niður við (orðtak) Láta svo lítið að; eyða tíma í; vanda sig við. „Ég hef ekkert verið að leggja mig sérstaklega niður við að læra þetta“.
Leggja sitt að mörkum (orðtak) Standa við sinn hlut; leggja sitt fram. „Hún lagði sitt að mörkum til verksins“. Upprunaleg merking er líklega sú regla sem haldist hefur frá grárri forneskju, að báðir jarðeigendur skulu girða á landamerkjum (mörkum jarða) þar sem þess er þörf. Þ.e. hvor þeirra skal „leggja sitt að mörkum“.
Leggja sitt lóð á vogaskálarnar (orðtak) Leggja sitt að mörkum. Dregið af því að auka vægi þegar hlutur er vigtaður.
Leggja snæri (orðtak) Leggja lóðir; leggja fiskilínu til veiða. Snæri var gælunafn á lóð, einkum lúðulóð/haukalóð.
Leggja snöru fyrir (orðtak) A. Veiða í snöru, t.d. fugl eða aðra bráð. B. Líkingamál; beita brögðum.
Leggja spilin á borðið (orðtak) Líkingamál um það að vera hreinskilin/ gera hreint fyrir sínum dyrum.
Leggja stein í götu (einhvers) (orðtak) Gera einhverjum erfitt fyrir; spilla fyrir einhverjum. „Ef þú ert ákveðinn í þessu þá ætla ég ekki að leggja stein í götu þína með það; en ekki er ég samt sáttur við það“.
Leggja stund á (orðtak) Læra; einbeita sér að; læra sem sérgrein. „Forfeður okkar; forn-Íslendingar, lögðu mikla stund á íþróttir“ (Guðmundur Hákonarson; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).
Leggja til (orðtak) A. Skaffa; færa í búið; gefa. „„Ég skal lofa þér fallegustu lífgimbrinni minni í haust hafir þú rétt fyrir þér; og ég skal meira að segja leggja til skotið“! (PG; Veðmálið). B. Koma með tillögu; stinga uppá. „Ég legg til að við kjósum um þetta mál“. C. Sameina svæði. „Rauðasandshreppur var lagður til Vesturbyggðar eftir kosningu“. D. Hagræða í liggjandi stöðu. „Hann fékk aðsvif, svo við studdum hann að dívaninum og lögðum hann til“. E. Segja um; hafa uppi; fullyrða um. „Aldrei lagði hún nokkrum manni til eitt einasta styggðarorð“.
Leggja til hafs (orðtak) Sigla/synda frá landi á haf út. „Lambið var orðið snarvitlaust; stökk í sjóinn og lagði til hafs. Kristján snaraði sér úr fötunum; skellti sér í sjóinn; tókst að synda það uppi og koma því til lands“.
Leggja til hliðar (orðtak) A. Leggja frá sér; hætta að gera/ vinna við. „Leggðu þetta til hliðar meðan þú stjórnar traktornum“. B. Trúa ekki því sem sagt er. „Ég heyrði þessa frétt, en ég legg nú svona slúður alveg til hliðar“. C. Spara; safna fé. „Það er óráð að eyða svo miklu að ekkert sé lagt til hliðar“.
Leggja til í göngur / Senda í göngur (orðtök) Hver landeigandi og hver fjáreigandi þarf að leggja til mann/menn í sameiginlegar göngur/leitir á haustin, samkvæmt fjallskilareglugerð. Hreppsnefndfjallskilanefnd ákvað fjölda hvers og eins áður en göngur hófust og gaf það út á fjallskilaseðli, ásamt fleiru um göngurnar, s.s. réttardaga. „Gangnaseðillinn sem barst bæ frá bæ, kom að Láganúpi um hálfum mánuði fyrir göngur og þaðan varð pabbi að senda með hann út að Breiðavík. Í honum var ákveðið hvað pabbi ætti að senda marga í göngur á Breiðavíkurrétt, og hvort hann ætti að sækja fé á Skógarrétt“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Leggja til lags (orðtak) Leggja upp árar; hagræða árum í bát að loknum róðri. „Í Útvíkum báru hásetar farbúnað á skip meðan formaður naglfesti. Árar voru lagðar til lags; blöð andófsára lágu fram á söx en blöð miðskips- og austurúmsára aftur. (ÓETh Vatnsdal; LK; Ísl. sjávarhættir III). Sjá sjósetja.
Leggja (einhverjum) til lasta (orðtak) Sjá það sem ókost við einhvern; leggja einkenni einhvers út á verri veg. „Sumir vildu leggja honum það til lasta að hann væri kjöftugur, en mér fannst hann bara hreinskilinn“.
Leggja til málanna (orðtak) Koma með tillögu/athugasemd; leggja til. „Hefur þú eitthvað til málanna að leggja“?
Leggja/leggjast til sunds (orðtak) Hefja sund; fara á sund. „Hrollkalt hefur það verið að leggja til sunds í köldu lóninu“.
Leggja trúnað á (orðtak) Trúa; taka fyrir satt; líta á sem sannleika. „Ég legg nú lítinn trúnað á það sem sá kjaftaskur segir“!
Leggja undir/við (orðtak) Um róðrarlag; hamla; andæfa; róa gegn reki. I Kollsvík var oftast notað að stinga við.
Leggja undir sig (orðtak) Sölsa undir sig; taka undir sín yfirráð. „Melurinn er búinn að leggja allt brystið undir sig“.
Leggja upp (orðtak) A. Um róðrarlag: Leggja árar upp í bát eftir róður; leggja árar í bát. Einnig sagt „leggja upp árar“. „Leggið upp drengir; ég set í gang vélina“. Eftir að vélar komu í báta sem róið var úr Útvíkum var venja að róa á árum fram úr lendingunni, þar til komið var nægilega djúpt til að skrúfu væri óhætt. B. Um veðurfar: Þegar herðir álandsvind. „Hann er að leggja þennan kalda upp á víkina núna, sem var hér útifyrir í morgun“. C. Fara af stað; hefja ferðalag. „Við lögðum upp frá Láganúpi snemma um morguninn“. D. Um málefni; reifa; hefja máls á; forma. „Mér leist ekkert á málið, eins og það var lagt upp fyrir mér“.
Leggja upp laupana (orðtak) Deyja; sálast; hætta. „Verslun í dreifbýlinu lagði víðast upp laupana þegar fólk gat með góðu móti farið að versla við lágverðsverslanir í höfuðborginni“. Sumir málfræðingar vilja skýra orðtakið með því að hér sé átt við ílátið laup, en það er fráleitt. Kollsvíkingar notuðu orðið „laupar“ yfir fætur (sjá laupur) og með því verður orðtakið auðskilið.
Leggja uppúr (orðtak) Meta mikils; leggja áherslu á. „Hann lagði mikið uppúr því að mæta stundvíslega“. „Ég legg ekki mikið uppúr þessu bulli fyrir kosningarnar. Það vill nú gleymast þegar á hólminn er komið“!
Leggja upp (orðtak) A. Taka upp/ herða álandsvind; ryðja upp þoku: „Þegar þoka var við hafsbrún var hann að leggja upp og boðaði það sterka innlögn; væga norðanátt sem þá hét stillt átt“ (LK; Ísl.sjávarhættir III). „Hann er að leggja upp þokufýlu“. B. Hætta að róa og leggja árar í bát: „Er komið var að Látrabjargi segir formaður að nú sé kominn útstraumur og best að leggja upp árar og láta reka út með Bjarginu“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). C. Landa afla að staðaldri. „Ég gerði út frá Gjögrum en lagði upp á Patró“. D. Skipuleggja; áætla. „Smölunin var þannig lögð upp að Breiðvíkingar og aðrir yrðu jafnsnemma komnir með féð framan úr Breiðuvík og Kollsvíkingar kæmu með reksturinn niður Hjallagötur og úr Fjarðarhorni.
Leggja upp árar (orðtak) Hætta að róa; leggja upp. „Það var ekkert annað en fara að ausa uppá karft; leggja upp árar og tréreisa sem kallað var... “ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Leggja upp í langferð (orðtak) Fara af stað í langa ferð. „Það er nú óþarfi að nesta sig eins og maður sé að leggja upp í langferð, þó maður rölti hér yfir hálsinn“!
Leggja upp laupana (orðtak) Deyja; gefast upp; ónýtast. „Ég er ansi hræddur um að nú hafi þessar hjólbörur endanlega lagt upp laupana“. Laupar merkir líklega fætur í þessu tilliti þó síðustu aldir hafi orðið merkt ílát af vissri gerð eða hrafnshreiður. Til fyrri merkingar bendir einnig orðtakið að „leggja á laupana“ sem stundum heyrðist í Kollsvík og merkir að leggja af stað í gönguferð“.
Leggja uppí (orðtak) Hagræða netum í bát á landi, áður en haldið er á sjó til að leggja þau; steina niður. Oftast voru tveir að verki, og sinn dró hvorn þininn í sitt rúm aftarlega í bátnum, líkt og gert var þegar þau voru dregin á sjó.
Leggja uppúr (orðtak) Sjá ávinning í; þykja varið í; leggja áherslu á. „Þrátt fyrir verri aðstæður á þeim tíma var alltaf lagt mikið uppúr hreinlætinu“. „Ég legg nú ekki mikið uppúr þessu sveitaslúðri“.
Leggja út / Leggja upp (orðtak) A. Um það annarsvegar að leggja árar út; koma þeim á tollurnar og gera sig kláran í að róa og hinsvegar að hætta að róa; kippa árum uppaf tollum og leggja þær til í bátnum. „„Það var ekkert annað en fara að ausa upp á kraft og leggja upp árar og þverreisa sem kallað var“ (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). „Bátnum er stjakað frá landi með ár og lagðar út árar meðan vélin er sett í gang“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). B. Greiða; punga út. „Ég legg út fyrir þessu“. Sjá útlagður kostnaður.
Leggja útaf (orðtak) A. Leggja niður; fella. „Nautið réðist á staurinn og lagði hann útaf“. B. Nota sem útgangspunkt í ræðu. „Presturinn lagði útaf dæmisögunni um týnda soninn“.
Leggja vangann við (orðtak) Hundsa það sem viðmælandi segir; vera ekki sammála viðmælanda; sýna þversku eða mótþróa. Vísar til þess að snúa ásjónu ekki að viðmælanda.
Leggja verk upp á (orðtak) Hafa fyrir; nenna að gera. „Stígvélin voru orðin svo slitin að ég lagði ekki verk uppá að bæta þau lengur, heldur fékk mér ný“.
Leggja við (orðtak) A. Leggja eitthvað við bólgu eða sár, t.d. kaldan bakstur. B. Beisla hest. C. Leggja báti/bíl uppað. „Það var sléttur sjór og hægt að leggja við hleinina“. D. Leggja hlunn fyrir bát; leggja fyrir.
Leggja við drengskap sinn (orðtak) Sverja við sinn heiður. Drengskaparloforð.
Leggja við hlustir (orðtak) Hlusta; reyna að hlusta eftir. „Ég lagði við hlustir, þegar ég þóttist þekkja rödd hans“.
Leggja við stjóra (orðtak) Um bát; leggja við akkeri; varpa akkeri. „Þegar Fönix er fullfermdur, er hann færður fram á Lægið og lagt við stjóra“ (KJK; Kollsvíkurver).
Leggja vindhviður/strokur (orðtak) Um það þegar einstökum vindhviðum slær niður á sjávarflötinn. „…er við fórum að huga að sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst, og er farið að leggja snarpar vindhviður á sjóinn“ (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).
Leggja yfir (orðtak) A. Um veiðiskap; leggja ofaní; leggja net/línu yfir annað sem fyrir er; oftast af gáleysi eða slysni. Nokkuð var um þetta t.d. þegar mest grásleppuútgerð var á árunum 1970-1995, en þá var þétt raðað strengjum frá Gjögrum út að Þyrsklingahrygg; á Kollsvík og í Breiðuvík. Menn voru misjafnlega lagnir og hugsunarsamir með að leggja. Þetta dró úr veiði hjá báðum og tafði drátt hjá þeim sem fyrir varð. Venja var að hann skæri í sundur aðkomustrenginn og hnýtti hann aftur saman með þverhnút undir sínum streng. Sumir hefndu sín þó með því að láta það ógert, þannig að netið flaksaðist sundurskorið fyrir straumnum“. B. Um siglingu skips; stagvenda; hagræða seglum til að sigla aðra stefnu. „Á Pálmasunnudagskvöld var skipinu lagt yfir, og lá þá frá landi; með vind á stjórnborðssíðu“ (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).
Leggja það til hliðar (orðtak) Sjá ég legg það (nú) (alveg) til hliðar.
Leggjalangur (l) Með langa fætur. „Þessi leggjalangi hlýtur að geta hlaupið uppi hvaða kind sem er“.
Leggjarbragð (n, hk) Bragð i glímu. Sækjandi bregður hægra fæti innanverðum fast og snögglega utan á vinstra jarka keppinautarins; lyftir honum lítið eitt og hnykkir af handafli til hliðar, um leið og hann kippir vinstra fæti hans til vinstri. Öfugt leggjarbragð er lagt með vinstra færi á hægri fót.
Leggjast (s) A. Um mann/dýr; leggja sig niður. B. Um hávaxið gras; leggjast flatt undan eigin þunga; spretta úr sér. „Túnið er farið að leggjast sumstaðar; það þyrfti nauðsynlega að fara að slá það“. C. Um veiðiskap; stöðva bát og hagræða honum ´vert á straum áður en veiðar eru hafnar. D. Um siglingu báts; varpa akkeri/stjóra. „...þeir hljóti að vera á rangri leið þar sem þeir séu ekki komnir að landi; best sé að leggjast“ (ÖG; Þokuróður).
Leggjast á árar/árina með (einhverjum) (orðtak) Aðstoða einhvern; hjálpa einhverjum við einhverja framkvæmd; taka undir málstað einhvers; hallast á sveif með einhverjum. Merkir upphaflega að stinga á; þ.e. að maður sem stendur framan við ræðara báts hj´lpi honum við róðurinn með því að ýta á árina.
Leggjast á eitt (orðtak) Vinna samtaka; beita sameiginlegu átaki. „Nú verða allir að leggjast á eitt ef þetta á að hafast“! Sjá allir leggjast á eitt.
Leggjast á lista (orðtak) Um bát; vera siglt þannig að sjór vaði uppundir skvettlista á borðstokk.
Leggjast/hallast á sveif með (orðtak) Hjálpa; létta undir með; aðstoða; styðja skoðun/álit. „Við verðum að allir að leggjast á sveifina ef þetta á að hafast“. „Ég hallast nú heldur á sveif með þessari kenningu“. Líklega vísar orðtakið til stýrissveifar á stórskipi sem stýrt er með ár, s.s. víkingaskipi; þegar hjálpa þarf til að stýra í slæmu veðri eða þegar hart þarf að beygja.
Leggjast á sæng (orðtak) Búast til að fæða barn. Sjá hinsvegar liggja á sóttarsæng.
Leggjast fyrir (orðtak) Leggjast í rúmið; leggjast til hvíldar; halla sér. „Ég ætla að leggjast fyrir í smástund“.
Leggjast gegn (orðtak) Vera á móti; sýna andstöðu; greiða mótatkvæði; þverskast/móast/þráast við.
Leggjast í (orðtak) A. Um veður; ganga í til nokkurrar frambúðar. „Ég er hræddur um að hann sé að leggjast í langvarandi óþurrk“. B. Um tilfinningu manns fyrir einhverju; finnast; þykja. „Þetta ferðalag leggst illa í mig; ég held að við ættum að fresta því til morguns“. „Breytingarar lögðust illa í hann“.
Leggjast í eymd og volæði (orðtak) Verða sinnulaus og vonlaus; leggjast í víl og vonleysi. „Hann lagðist alveg í eymd og volæði eftir að hún fór“.
Leggjast í kör (orðtak) Verða rúmliggjandi vegna elli. „Ég hef ekki hugsað mér að leggjast í kör alveg strax, þó ég hætti að vinna eins mikið“.
Leggjast í (vaðinn) (orðtak) Um það þegar sigari í bjargsigi hallar sér af fullum þunga afturávið, þannig að fullt átak verður á vaðnum. Vani er að leggjast í áður en sigari fer niðurfyrir brúnina, til að taka af allan slaka á vaðnum og tryggja hnúta. Einnig er það merki um að sigari vilji láta draga sig upp, þegar hann leggst í niðri í bjargi. Þá er það brúnamannsins að greina það merki frá öðrum athöfnum og merkjum sigmanns.
Leggjast lágt (orðtak) Gera lítið úr sér; sýna lítlmótlega hegðun; gera eitthvað skammarlegt/níðingslegt. „Ég myndi aldrei leggjast svo lágt að taka þetta ófrjálsri hendi“.
Leggjast til hvíldar/svefns (orðtak) Kasta sér; fá sér hvíld/lúr/kríu. „Þegar búið er að ganga frá aflanum er hitað kaffi og lagst til hvíldar, enda langur vinnudagur að baki“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa“ (PG; Veðmálið).
Leggjast út (orðtak) Gerast útilegumaður; fara í útilegu.
Leggjahross (n, kvk) Leikföng í hornabúi barna; stórgripaleggir notaðir fyrir hesta. „Ég átti hornabú sem svo kallaðist. Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn.“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Leggjalangur (l) Með langa fætur. „Af því þú ert svo lappalangur; skjóstu nú eftir mjólk í tankinn fyrir mig“.
Leggjast (s) A. Um bát; leggja fyrir akkeri. „Kallar Guðbjartur til Erlendar að ekki þýði að sigla lengur því að þeir hljóti að vera á rangri leið...;best sé að leggjast. Féllst hann á það en spyr um leið við hvað hann eigi að leggjast þar sem engin legufæri séu meðferðis“ (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum). „Svo þegar það var búið var lagst við stjóra, síðan dregið aftur og beitt út á sama hátt“ (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004). „Kom hann að þegar Árni var að leysa upp, og lagðist í sama pláss“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). B. Um bát; leggjast flatur fyrir vindi/straumi. „Bíddu með að renna meðan báturinn er að leggjast“. C. Um grassprettu. Þegar gras er orðið svo sprottið; jafnvel úr sér sprottið, að það leggst í beðju. „Það er farið að leggjast á sléttunni handanverðri og nauðsynlegt að fara að slá hana“.
Leggjast að (orðtak) A. Um veðurfar; koma; bresta á. „Við þurfum að klára þetta áður en frost leggst að“. B. Um skip; koma uppað bryggju/ öðru skipi. „Leggist þið nú að okkur smástund og segið eitthvað slúður meðan við fáum okkur nestið“.
Leggjast af (orðtak) Um það sem hefur verið regla/venja; hætta; leggjast niður. „Þegar vélar urðu algengar í bátum urðu þeir þungir í setningu. Þá lagðist útræði af þar sem hafnlaust var; s.s. í Kollsvíkurveri“.
Leggjast á árar með (orðtak) Hjálpa til með; aðstoða. „Ég lagðist á árarnar með honum í þessu máli“. Líkingin er dregin af því að þegar mikið liggur við hjá ræðara í báti; t.d. þegar róa þarf frá broti, hleypur oft annar til og ýtir á árarnar um leið og ræðari togar. Sá sem aðstoðar stendur og hallar sér á árahlummana í stefnu bátsins, með hverju áratogi. Þessi aðferð var notuð í Kollsvíkurveri framyfir 1970.
Leggjast á eitt (orðtak) Vinna að sama máli/verkefni. „Það er vandalaust að klára málið, ef allir leggjast á eitt“. Líkingin er dregin af sameiginlegu átaki margra, t.d. þegar margir toga í reipi í reiptogi; margir leggjast á vað í bjargsigi, eða margir taka á við að setja bát. Líklega hefur týnst aftan af orðtakinu; e.t.v. „átak“ eða „band“.
Leggjast á lista (orðtak) Um siglingu báts; hallast svo undan vindi í segl að sjór gutli uppundir lista hlémegin.
Leggjast eitthvað til (orðtak) Verða eitthvað til bjargar; verða fyrir happi. „Þetta lítur ekki vel út, en ég hef séð það svartara; ég er sannfærður um að mér leggst eitthvað til“.
Leggjast flatur (orðtak) Leggjast niður, þannig að allur líkami nemi við jörð. „Ég neyddist til að leggjast flatur í verstu kviðunum, til að fjúka ekki“.
Leggjast frá (orðtak) Um fiskigöngur; fara frá landinu. „Ansi er ég hræddur um að fiskur leggist frá í þessu óskapa brimi sem verið hefur undanfarið“.
Leggjast fyrir (orðtak) A. Um mann; halla sér; leggja sig; leggjast útaf. „Hann lagðist fyrir í sófann og sagðist ætla að láta líða úr sér“. B. Um skip; leggjast við legufæri. „Stjórafærinu var brugðið um strengjabitann er lagst var fyrir í hákarlalegum og var það kallað að liggja fyrir klofa“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). C. Verða um; verða örlög. „Fannst mörgum lítið leggjast fyrir kappann, að þurfa að lúta í lægra haldi fyrir nautkálfinum“.
Leggjast gegn (orðtak) Beita sér gegn; vera á móti. „Ég leggst alfarið gegn þessari arfavitlausu tillögu“!
Leggjast í (orðtak) A. Um veðurlag; ganga í; verða. „Ansi er ég hræddur um að nú sé hann að leggjast í rigningar“. „Það hefur lítið gefið á sjó eftir að hann lagðist í norðanátt“. „Hann er lagstur í þokurudda“. B. Um bjargsig; gera átak á vaðinn. „ Þegar sigari var kominn fram á brúnina var gefin fyrirskipuninn „Leggist í“, sem merkti að sigari átti að halla sér afturábak í vaðarlykkjuna og um leið hölluðu þeir sem voru á vaðnum sér í hina áttina til að halda við. Eins var það, að þegar sigari hafði bundið sig í vað niðri í bjarginu átti hann að leggjast í; þ.e. gera átak á vaðnum, sem vaðarmennirnir tóku sem merki um að draga hann upp“.
Leggjast í flakk/flandur (orðtök) Fara á flakk; þvælast langt í burtu. „Ég ætla að hafa Gránu inná svolítið lengur; ég er hræddur um að hún leggist strax í flakk ef henni er hleypt útaf svona snemma“.
Leggjast í sorg og sút (orðtak) Leggjast í hugarvíl/ mikla sorg; syrgja lengi. „Hann tók frá fráfall hennar mjög nærri sér og lagðist í sorg og sút um tíma“.
Leggjast lágt (orðtak) Vera lágkúrulegur/skammarlegur; neyta óþverrabragðs; viðhafa svik; ráðast á þá sem minna mega sín. „Ekki hélt ég að þeir leggðust svo lágt að svíkja fatlaða manneskju um hennar rétt“!
Leggjast niður (orðtak) A. Leggja sig útaf; kúra niður. „Tófan lagðist niður bakvið steininn, en ég sá eyrun vakandi uppaf honum öðruhvoru“. B. Leggjast af; hætta. „Þessi siður hefur alveg lagst niður“.
Leggjast sjúkur (orðtak) Verða veikur. „Það höfðu menn fyrir satt að draugurinn hafi losað sig skömmu síðar og farið heim til Benedikts og áreitt hann, því svo brá við að hann lagðist sjúkur og lá lengi“ (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Leggjast til (orðtak) Fá; öðlast. „Alltaf leggst honum eitthvað til, þó allt stefni í þrot aðra stundina“.
Leggjast uppá (orðtak) Verða byrði á. „Ég ætla ekki að leggjast uppá ykkur til langframa, en það væri ágætt að fá gistingu eina nótt“.
Leggjast út (orðtak) Verða útlagi; flýja til fjalla undan refsingu. „Engar sögur fara af því að neinn hafi lagst út í Rauðasandshreppi“.
Leggjast við stjóra (orðtak) Um siglingu báts; varpa akkeri/stjóra. „Svo þegar það var búið, var lagst við stjóra“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Leggjastoðir (n, kvk, fto) Gæluorð um fætur. „Hann sagðist ætla að staulast úteftir og standa fyrir, ef leggjastoðirnar svíkja hann ekki“.
Leggjatöng (n, kvk) Annað nafn á klembrum (sjá þar) til skinnklæðagerðar. Jafnan var notað heitið klembrur í Kollsvík, þó hitt væri þekkt. Leggjatangir eru gerðar úr tveimur afturfótaleggjum kindar, sem súrraðir eru saman með þveng á liðunum.
Leggsaumur (n, kk) Saumur á buxum/brók, upp legginn. „Var þá haldið áfram með leggsaum upp að klittnaspori“ (KJK; Kollsvíkurver). Sjá skinnklæði.
Leggst lítið fyrir kappann (orðtak) Sjá lítið leggst fyrir kappann.
Leginn (l) A. Um fisk; búinn að vera lengi á sömu slóð. „Þetta var mestmegnis legin grásleppa, en þó voru nokkrar bjartar og nýgengnar“. „Þessi steinbítur er hálfgert drasl; langleginn og grindhoraður slápur“. B. Um net/línu; búin að liggja lengi í sjó. „Strengirnir á Breiðuvíkinni eru orðnir nokkuð legnir hjá okkur“. C. Um hey; búið að liggja lengi flatt. „Flekkurinn var orðinn nokkuð leginn og heyið ýmist hvítt eða lýskrótt“.
Legíon (n, hk) Óskaplegur fjöldi; urmull. „Ég fékk ansi myndarlegan lax í netin, en þau voru orðin svo legin að þegar ég ætlaði að fara að gera að honum þá var ekki í honum fiskur heldur legíon af marfló“!
Legkaup / Legtollur (n, hk, fto/kk) Gjald sem áðurfyrr þurfti að greiða til að einhver fengist jarðaður í kirkjugarði. Með lögum um sóknargjöld árið 1909 urðu legkaup hluti af þeim, ásamt ljóstolli, lausamannagjaldi o.fl.
Legorð / Legorðssök (n, hk/kvk) Ólögleg mök manns og konu; framhjáhald. Framhjáhald þeirra sem giftir voru og lauslæti annarra var litið mjög alvarlegum augum af hinu strangtrúaða samfélagi fyrri tíma.
Legstaður (n, kk) Staður þar sem manneskja er jörðuð. „Hann kaus sér legstað í Breiðavíkurkirkjugarði“.
Legsteinn (n, kk) Bautasteinn; steinn sem settur á leiði manneskju í kirkjugarði til að merkja legstaðinn og til minningar um hana.
Legta (n, kvk) Láréttur burðarbiti, t.d. í húsi. „Ég valdi nokkra góða battinga til að nota í legturnar“.
Legubekkur (n, kk) Flet sem unnt er að liggja/sofa á. Til aðgreiningar frá setbekk, sem er mjór og einungis ætlaður til ásetu. Yfirleitt var orðið notað um óvandað flet; hin vandaðri voru rúm.
Leguferð (n, kvk) Sjóferð til hákarlalegu. „Nokkrir Kollsvíkingar höfðu fengið skiprúm í þá leguferð“ (KJK; Kollsvíkurver).
Legufesti / Legustrengur (n, kvk) Akkeristaug; hluti legufæra; festi úr akkeri í bát/ból. „Þegar kemur upp á Lægið er talið vissara að seila út, sem kallað er; það er að kasta ólunum út og binda þær í endann á legustrengnum; láta hann svo rekjast út um leið og lent er“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Legufæri (n, hk, fto) Ból; múrning. Búnaður til að leggja bát við akkeri; samanstendur oftast af akkeri og forhlaupara á botni; legufesti; bóli og tökubauju/stangarbauju.
Legulóð (n, kvk) Fiskilína/lóð sem liggur lengur í sjó en svo að beðið sé á báti yfir henni, t.d. yfir nótt. „Þá var mikill afli á legulóðir þegar á sjó gaf“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Legusár (n, hk) Sár sem myndast gjarnan á manneskju sem þarf að vera lengi rúmliggjandi, af núningi húðarinnar við rúmið/rúmfötin. Geta verið þrálát og erfið viðureignar.
Leguskip (n, hk) Hákarlaskip; skip notað í hákarlalegum. „... fékk lánað leguskip Látramanna sem Sigga hét....“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). „Í febrúar 1876 lentu tvö leguskip heilu og höldnu í Fjarðarhorni; annað úr Kollsvík en hitt úr Tálknafirði“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Legustrengur (n, kk) Stjórafesti; akkerisfesti. „Þegar þeir fóru yfir Blakknesröstina, kastaðist legustrengurinn á Búa útbyrðis, og fór í skrúfuna“ (ÖG; Þokuróður).
Legutími (n, kk) Tími sem legið er. Notað í ýmiskonar samböndum. En oftast er talað um legutíma lóðar eða neta í sjó, milli þess að lagt er og dregið aftur.
Leið (n, kvk) A. Á landi; vegur; það sem farið er. B. Á sjó; siglingaleið; það sem siglt er; innsigling. „Aðallega er um tvær leiðir að ræða upp í Verið; Miðleið og Syðstuleið“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). C. Afleidd merking; möguleiki. „Það var engin leið að sjá afleiðingarnar fyrir“.
Leiða (s) A. Halda í höndina á öðrum á göngu. „Viltu ekki að ég leiði þig stúfurinn minn“? B. Draga sigara viðstöðulaust og samfellt á brún, með því að undirsetufólk gengur í röð með tógið í stað þess að sitja og draga með rykkjóttum hreyfingum. Oft gert þegar nógur mannskapur er á brún og um mjög bratt sig eða loftsig að ræða. Þegar einn hefur leitt nokkra vegalengd sleppir hann og hleypur aftanvið þann síðasta í röðinni, og þannig koll af kolli. C. Setja bát viðstöðulaust en ekki með rykkjum. Er gert þegar nógu margir eru við setninguna.
Leiða að því líkum (orðtak) Rökstyðja; telja líklegt. Sjá leiða líkum að.
Leiða (eitthvað) auga (orðtak) Skoða eitthvað; virða fyrir sér; líta lauslega á eitthvað. „Mig langar dálítið að leiða auga þennan nýja bát sem hann var að fá“.
Leiða eins og lamb til slátrunar (orðtak) Likingamál um það þegar einhver er leiddur áfram mótþróalaust eða án þess að fá rönd við reist.
Leiða fyrir hugskotssjónir / Leiða fyrir sjónir / Leiða í ljós (orðtak) Sýna fram á; draga upp mynd af; gera grein fyrir; opna augu fyrir. „Það þyrfti að leiða þingmönnum fyrir hugkotssjónir hvernig þessum málum er í raun og veru háttað“. „Þetta leiddi mönnum fyrir sjónir hvaða hætta gæti skapast“. „Rannsóknin leiddi ekkert nýtt í ljós“.
Leiða getum að (orðtak) Giska á; renna grun í. „Ekkert vissu þeir félagar af hverju högg þetta mundi hafa stafað, og reyndu engum getum að því að leiða“ (ÖG; Þokuróður).
Leiða hjá (orðtak) Um rigningarskúrir/él; fara með framhjá. „Skyldi hann leiða hjá þessar skúrir norður í Víkinni? Við þyrftum að ná að galta heyið af þessum bletti“. Sjá leiða skúrir; skúraleiðingar.
Leiða hjá sér (orðtak) Láta sér fátt um finnast; láta sem maður sjái ekki; þykjast/vilja ekki heyra. „Ég ætla nú alveg að leiða hjá mér þeirra heilræði; þau hafa ekki verið svo heilladrjúg hingað til“!
Leiða hugann að (orðtak) Hugsa um; láta sér detta í hug; hugleiða. „Ég hef stundum leitt hugann að því hvernig þetta gat skeð“. „Hann sagðist ekki einusinni leitt hugann að því að róa í svona útliti“.
Leiða í ljós (orðtak) Sýna; kalla fram. „Það þarf að leiða sannleikann í ljós í þessu máli“.
Leiða í tal (orðtak) Færa í tal; láta talið berast að; hefja samtal um; fara framá. „Ég leiddi þetta aðeins í tal við hann, en fékk engar undirtektir“.
Leiða líkum að (orðtak) Telja líklegt; rökstyðja. „Það má leiða líkum að því að í Kollsvík hafi risið fyrsta kirkjan á Íslandi“.
Leiða rök að (orðtak) Færa rök fyrir; rökstyðja. „Hann leiddi að þessu nokkuð sannfærandi rök“.
Leiða saman hesta sína (orðtak) Keppa; eigast við. „Oft gat orðið líflegt þegar Kollsvíkingar leiddu saman hesta sína í rökræðum“. Líkingin er dregin af hestaati.
Leiða skúrir (orðtak) Um veður; koma með staðbundnar skúrir/ skúraleiðingar. „Hann er farinn að leiða skúrir heim með Blakknum; best að raka upp“. Sjá leiða hjá.
Leiða til lykta (orðtak) Fá niðurstöðu í; vinna til enda. „Þessi deila var reyndar aldrei leidd til lykta“.
Leiða til ófarnaðar (orðtak) Verða til ógæfu/vandræða. „Ég held að það leiði bara til ófarnaðar ef hann fær þessu framgengt“.
Leiða út (orðtak) A. Um sundfugl; fara með unga sína frá hreiðri í vatn/sjó. B. Um raflögn; fá skammhlaup yfir í jörð, lífveru eða leiðara með annarri spennu. „Gáðu að þér á kveikjuþræðinum; hann gæti leitt út“.
Leiðangur (n, kk) A. Ferðalag; langferð. „Við gerðum leiðangur útí Breið til að leita að rollukvikindunum, en þar var ekkert að sjá“. B. Hópur sem fer í langferð; ferðalangar. „Þarna er einhver leiðangur að koma norðanyfir Melarandir“.
Leiðarhnoða (n, kvk) Hnykill sem, samkvæmt þjóðtrúnni, rennur á undan mönnum og vísar rétta leið. Voru galdramenn sagðir nýta sér þannig vegvísa, löngu áður en nútíma gps-tækni hélt innreið sína. Notað í líkingum: „Tíkin rann á undan okkur eins og leiðarhnoða, og virtist handviss um leiðina þó ekki sæist útúr augum í kófinu“.
Leiðari (n, kk) A. Forystugrein í dagblaði. B. Legta; lárétt fjöl/biti sem heldur öðrum hlutum byggingar/grindar í réttum skorðum. C. Málmur sem notaður er til að leiða rafmagn.
Leiðarlok (n, hk, fto) Leiðarendi; endi á ferðalagi. „Stóðst það oft á endum að báðir komu jafnsnemma í Verið; bátsverjar og hinir fótfráu æskumenn, sem ekki víluðu fyrir sér að spretta úr spori undir leiðarlokin“ (KJK; Kollsvíkurver).
Leiðarmerki / Leiðarvarða (n, hk) Varða eða annað kennileiti sem tekið er mið af við siglingu, t.d. um sund eða inn á lendingu. „Snorravörður, nyrst á Leirunum, eru leiðarmerki fyrir Snorralendingu“.
Leiðarsteinn (n, kk) Steinn af steintegund sem rík er af segulmögnuðu járni, og notaður er fyrir áttavita; magnetít; seguljárnsteinn. Talið er líklegt að á miðöldum og jafnvel fyrr hafi norrænir sæfarar notað steina úr magnetíti til aðstoðar við að rata um úthaf. Grikkir í borginni Magnesíu uppgötvuðu magnetít árið 500 f.Kr. Einnig notuðu fyrri tíðar sæfarar sólarsteina, sem líklega voru kristallar sem skauta ljós, s.s. silfurberg.
Leiðarstjarna (n, kvk) A. Stjarna sem notuð er til að halda áttum/ rata leiðar sinnar. Oftast er átt við Pólstjórnuna, enda hefur hún þjónað þessum tilgangi frá því elstu heimildir greina. Pólstjarnan er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni, og er mjög nálægt því að sýnast vera yfir norðurskauti jarðar. Hún er þó í raun fjölstirni margra sólstjarna. B. Leiðarljós; fyrirmynd; það sem maður hefur sér til viðmiðunar.
Leiðarþing (n, hk) Ein grunnstoða íslensks samfélags frá upphafi þjóðveldis, um 930. Leiðarþing skyldi haldið af goðum sem áttu vorþing saman, á leið þeirra frá Alþingi, en einnig gat hver goði haldið sitt leiðarþing. Leiðarþing stóðu í 1-2 daga; hófust á sunnudegi í 15.-19. viku sumars. Þar var skýrt frá störfum Alþingis; birtar tilkynningar og sagt fyrir um tímatal. Þau voru þó ekki sóknarþing (fyrir dóms- eða löggjafarmál). Leiðarþing voru haldin í einni eða annarri mynd fram á 17. og 18. öld. Stjórnmálaflokkar og einstakir alþingismenn tóku nafnið upp á fundi sína á 19. og 20.öld.
Leiðbeina (s) Benda/beina á rétta leið; segja til vegar; segja til um framkvæmd verks.
Leiðast eftir (orðtak) Lengja eftir; vera leiður á að bíða eftir; sakna. „Mig fer nú að lengja eftir honum úr ferðinni; það fer að dimma og líður að gegningum“.
Leiðast til (orðtak) Hneygjast til; hallast að; fara útí. „Maður leiðist oft til að velta því fyrir sér hvað hefði skeð ef Arnarboðinn hefði ekki verið að þvælast í siglingaleiðinn hans Kolls“.
Leiði (n, hk) Byr. „En oft fékk maður leiði seinni hluta dagsins, alla leið norðan úr Flóa og heim í lendingu“ (VÖ eldri; Einn á bát 1955) „Þeir á Svaninum höfðu gott leiði inn flóann..“ (MG; Látrabjarg). „Ýlir reiði, ymur stoð;/ ólgar heiði laxa./ Alda freyðir undan gnoð;/ óskaleiði fyllir voð“ (JR; Rósarímur
Leiði / Leiðindi (n, kk/ hk, fto) Depurð; ami; sorg. „Það sækir að manni hálfgerður leiði í svona veðri, þegar ekkert er hægt að gera útivið þó nóg liggi fyrir“. „Ég er búinn að fá leiða á þessu selketi; dag eftir dag“.
Leiðigjarn (l) Veldur leiða; verður óspennandi. „Nýr rauðmagi finnst mér herramannsmatur, en til lengdar getur hann orðið leiðigjarn“.
Leiðinda- (l) Sem veldur leiða/ama/pirringi. Notað sérstætt eða sem viðskeyti margra orða.
Leiðindaaðstæður (n, kvk, fto) Leiðinlegar kringumstæður; slæm aðstaða. „Þetta voru leiðindaaðstæður; bleyta og dimmt, en frostlaust“ (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg).
Leiðindabarningur (n, kk) Leiðinleg sigling á móti veðri/ í veltingi. „Hann hafði aukið norðanáttina töluvert meðan við drógum á Breiðavíkinni, svo við fengum leiðindabarning norður Kollsvíkina“.
Leiðindaderringur (n, kk) Hvimleið uppsteit/áreitni; leiður yfirgangur/hroki. „Hann var með leiðindaderring og sýndarmennsku; aðallega til að ganga í augun á stelpunum, held ég“.
Leiðindafæri (n, hk) Slæmt göngufæri; slæm færð. „Það er að verða leiðindafæri þar sem mest er skafmoldin“.
Leiðindagangur (n, kk) A. Það sem gengur leiðinlega/ fremur illa. „Það er hálfgerður leiðindagangur í þessum málum“. B. Höktandi/ójafn gangur vélar. „Mér finnst enn vera leiðindagangur í vélinni; það verður að vona að hún kjafti alla leiðina í land“.
Leiðindagaur / Leiðindagepill / Leiðindagripur / Leiðindakurfur / Leiðindapési / Leiðindaseggur / Leiðindaskarfur (n, kk) Leiðinlegur maður; skítseiði. „Mér hefur alltaf fundist hann hálfgerður leiðindagaur“. „Það er nú meiri leiðindapésinn sem þarna hefur komist á þing“!
Leiðindamál (n, hk) Erfitt/slæmt mál. „Gott að lyktir eru komnar í þetta leiðindamál“.
Leiðindaveður (n, hk) Vont/leiðinlegt veður. „Það er komið hálfgert leiðindaveður“.
Leiðindatíð / Leiðindatíðarfar (n, kvk/hk) Tíðarfar/veðrátta sem veldur leiðindum/ergelsi, t.d. óþurrkur um heyskapartíð; ógæftir/veltingur um vertíð eða rigningar þegar smalað er. „Það er sama árans leiðindatíðin“!
Leiðindatuð / Leiðindarell / Leiðindarugl / Leiðindakjaftæði / Leiðindakjaftháttur / Leiðindakjaftavaðall / Leiðindastagl / Leiðindaþras / Leiðindaþvaður / Leiðindavaðall / Leiðindaþvarg / Leiðindaþvæla (n, hk/kk) Niðrandi heiti á tali/ræðu sem þykir leiðinleg/ fer í taugarnar/ veldur ergelsi. „Skelfing leiðist mér þetta leiðindarell alltaf hreint“! „Ég nenni nú ekki að hlusta á svona leiðindakjaftæði“! „Skelfing er það þreytandi svona leiðindaþvaður í fólki sem hefur ekki hundsvit á þessum málum“! Fleiri samsetningar heyrðust af þessu tagi.
Leiðindaveltingur (n, kk) Töluverður sjóveltingur, þannig að leiðinlegt er að vera að veiðum. „Við förum nú að fara í land ef hann ætlar að halda þessum leiðindaveltingi“.
Leiðinlegheit (n, hk, fto) Leiðindi; ami; pirrandi hegðun. „Vélin var með einhver leiðinlegheit um tíma“.
Leiðinlegur í tíðinni (orðtak) Slæmt tíðarfar; ótíð; óþurrkar; landlegur. Hóflegt orðalag um tíðarfar sem hindrar æskileg verk eða fer í pirrur; stundum með áherluskeyti framanvið, s.s. heldur, hundleiðin.egur, afspyrnuleiðinlegur o.fl. „Heldur er hann nú leiðinlegur í tíðinni þessa dagana“.
Leiðir af sjálfu sér (orðtak) Er óhjákvæmileg/sjálfsögð afleiðing. „Það leiðir af sjálfu sér að lömbin verða betri eftir því sem betur er vandað til ásetnings á hrútum“.
Leiðitamur (l) Þægilegur í taumi; lætur vel að stjórn; þægur. „Aðrir stjórnarmenn voru leiðitamari“.
Leiðsögn (n, kvk) Tilsögn; upplýsingagjöf; leiðbeiningar. „Ég fékk ágæta leiðsögn hjá honum um leiðina“.
Leiður (l) A. Leiðinlegur; óskemmtilegur. „Það eru mínar leiðustu minningar frá unglingsárunum“ (IG; Æskuminningar). B. Fráhrindandi; til ama; stríðinn. „Þeir lifa lengs sem lýðum eru leiðastir“.
Leiður er sá er lengi situr (orðatiltæki) Jafnvel góður gestur getur orðið þreytandi á heimili ef hann dvelur mjög lengi. Ættað úr Hávamálum: „Ganga skal,/ skala gestur vera/ ei í einum stað./ Ljúfur verður leiður/ ef lengi situr/ annars fletum á“.
Leifa eftir (orðtak) Sitja eftir sem leifar þess sem var. „Enn leifði ýmislegt eftir af gömlum búskaparháttum í mínu ungdæmi“.
Leiftra (s) Blossa; glampa í stuttan tíma; glitra. „Heldur leiftraði hann af eldingunum þarna áðan“.
Leiftrandi (l) A. Um augu; glitrandi; glaðleg. B. Um frásögn; lífleg; spennandi; hnyttin.
Leiftur (n, hk) Ljósblossi; elding. „Mér sýndist ég sjá eitthvað leiftur þarna uppi á Jökladalshæðinni“.
Leiftursnöggt (l) Eldsnöggt; á augabragði. „Þetta skeði leiftursnöggt; steinninn kom fljúgandi ofan í eggjakútinn; og hann framaf með það sama“. „Æðandi brotsjór kom á móti okkur og reis hátt. Bátnum var vikið leiftursnöggt“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Leiga (n, kvk) Samningsbundið afgjald fyrir afnot eignar. „Leiga fyrir Láganúpsjarðir var greidd með smjöri“
Leigujörð (n, kvk) Jörð sem eigandi leigir öðrum til ábúðar. „Láganúpur, ásamt Grundum og öðrum hjáleigum, voru leigujarðir í eigu Saurbæjar; líklega frá því á 13. eða 14. öld, til ársins 1930. Þá keyptu þær ábúendur; Láganúp fyrir 1700 kr og Grundir fyrir 1000 kr “.
Leigukúgildi (n, hk) Kvikfé sem fyrr á tímum fylgdi leigujörð og leiguliði var skyldur til að annast. Í raun var þetta viðbótarleiga, því auk jarðaleigunnar gat hann krafist leigu fyrir kúgildin, sem á þjóðveldisöld var um 10% en hækkaði í allt að 20% eftir 1400. Ligan var oftast greidd með tveimur fjórðungum smjörs (10kg eða 12 álnum) fyrir kúgildið. Því hlóðust upp grí8ðarlegar smjörbirgðir hjá landeigendum. Þrátt fyrir ákvæði Jónsbókar um að leiguliðum væri ekki skylt að endurnýja leigukúgildin, þá kröfðust margir landeigendur þess. Þannig má sjá í Jarðabókinni að Saurbæjareigandi hefur uppyngt leigukúgildi í nautgripum en leiguliðar í Útvíkum þurftu oft sjálfir að uppyngja kúgildi í sauðfé. Þannig segir um Láganúp: „Leigukúgildi 3. Leigur betalast með fiski á eyri. Kúna (hún er ein) uppyngir landsdrottinn. Ærnar hefur leiguliði uppyngt; þó er það ei á skilið“ (ÁM/PV; Jarðabókin). Jarðabókarhöfundar sendu kóngi ábendingu um réttarbætur í þessu efni, og brást hann við með tilskipun um að landsdottinn bætti gömul eða dauð leigukúgildi.
Leiguliði (n, kk) Leigjandi; sá sem leigir. Oftast er átt við ábúanda leigujarðar. Fyrrum nefndist leiguliði sá sem bjó á jörð í eigu sjálfseignarbónda og greiddi honum landskuld. Leiguliðar urðu mjög fjölmenn stétt manna þegar á þjóðveldisöld, 930-1262, þegar höfðingajaveldi, kirkjuveldi og klaustur urðu umfangsmeiri í eignahaldi jarða og ójöfnuður jókst. Þannig komust flestar jarðir í Rauðasandshreppi snemma í eigu höfðingjaveldisins í Saurbæ, líklega bæði ýmsum aðferðum; með valdbeitingu höfðingja á borð við Guðmund ríka; með yfirgangi kirkjuvalds og með óbærilegum álögum. Guðmundur ríki sölsaði t.d. undir sig Láganúp, sem var síðan leigujörð allt framá 20.öld.
Leika af sér (orðtak) Gera það sem kemur manni í koll síðar. Tilvísun í taflmennsku; afleikur leiðir til taps.
Leika á (orðtak) Blekkja; snúa á; spila með; beita brögðum; ginna. „Heldur lék nú sú gráa á karlinn. Fyrst þóttist hún ætla að setja sig framhjá honum um neðri ganginn, en þegar karl hafði brölt þangað niður, þá sá hann á eftir henni beina leið upp skriðuna og uppá brún“!
Leika á als oddi (orðtak) Vera í mjög góu skapi; leika við hvern sinn fingur. „Hann var með hressasta móti og lék á als oddi“. Alur/nafar er oddhvass bor, og líkingin vísar til þess að það sem látið er sitja á oddinum er aldrei kyrrt, heldur getur fallið í hvaða átt sem er.
Leika á reiðiskjálfi (orðtak) Hristast/skjálfa mjög mikið; hrikta í; vera gjöktandi/óstöðugt. „Gamla Láganúpshúsið var farið að verða feyskið, eikum austurgaflinn. Í miklum veðrum lék hann á reiðiskjálfi og hrikti í. Eftir að flutt var í nýja húsið féll austurgaflinn af, og stuttu síðar var húsið allt rifið og jarðað á sínum grunni“. „Það gerði þvílíka andskotans bylji að húsið lék á reiðiskjálfi“. Talið eiga rætur í heiðni; þegar Þór reið um loftin með þrumugný og jafnvel jarðskjálftum.
Leikur á ýmsu (orðtak) Gengur á ýmsu.
Leika (girndar)hugur á (orðtak) Ágirnast; langa í; hafa hug á. „Mér leikur mikill girndarhugur á þessari bók“.
Leika eftir (orðtak) Gera eins og sá á undan. „Hann kleif neðanfrá upp í Brimnesgjótuna. Ég held að einginn hafi leikið það eftir honum síðan“.
Leika (einhvern) grátt/illa (orðtak) Fara illa með; vera harðleikinn við; skemma; bitna á; mæða á. „Garður þessi er úr sandi, sem reyndist þarna svikull eins og oft áður, og hafa vorleysingar leikið garðinn grátt“ (HÖ; Fjaran).
Leika hugur á (orðtak) Langa til; hafa áhuga á. „Mér leikur hugur á að vita hvað er undir Biskupsþúfunni“.
Leika í lyndi (orðtak) Vera í góðu lagi; gott ástand; ganga vel. „Nú virðist allt leika í lyndi hjá þeim“.
Leika lausum hala (orðtak) Vera frjáls/lausbeislaður/ ekki bundinn. „... en Ægir konungur leikur lausum hala fyrir mynni Látravíkur og lætur stundum dólgslega“ (ÞJ; Örn.skrá Hvallátra). Líklega vísar orðtakið til þess að þegar hali er laus/óbundinn á kú meðan á mjöltum stendur, þá getur hún slegið honum um sig, og í andlit mjaltakonu/-manns. Hafi halinn legið í flórnum er slíkt fremur óþverralegt, eins og þeir vita sem reynt hafa. Þegar mjólkað var úti á stöðli voru kýr oftast heftar, og var þá halinn ýmist bundinn í haftendann eða hann dreginn milli júgurs og læris á kúnni.
Leika sér að einhverjum eins og köttur að mús (orðtak) Gegnsætt máltæki og nokkuð notað.
Leika tveimur skjöldum (orðtak) Vera tækifærissinni; styðja þann málstað sem hentar hvoru sinni; bera kápuna á báðum öxlum; vera beggja handa járn; leika tveimur skjöldum; vera tvöfaldur í roðinu. „Hann þykir leika tveimur skjöldum í pólitíkinni“. Líking við það þegar herlið eða liðsmaður á tvö skjaldarmerki og berst með þeim stríðsherranum sem honum þykir henta hverju sinni; eða þegar hann gerist liðhlaupi og snýr þar með skildi sínum að fyrri félögum, t.d. þegar hann sér að orrusta er að tapast.
Leika við (orðtak) A. Leika á móti; fara í leiki við. „Viltu koma og leika við mig“? B. Gera við; fara með. „Einar sagði draugnum að ef hann gæti losað sig frá steininum skyldi hann fara til þess sem sendi hann, og leika það sama við hann og hann hefði átt að leika við sig“ (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Leika við hvern sinn fingur (orðtak) Vera í mjög góðu skapi; leika á als oddi. „Nú getur hann leikið við hvern sinn fingur; búinn að alheimta“. Líking við fingraleiki.
Leikandi létt (orðtak) Auðveldlega; án allrar áreynslu; með léttum leik. „Hann lyfti bjarginu leikandi létt upp í hleðsluna, og blés ekki úr nös á eftir“!
Leikar fóru svo/þannig (orðtak) Niðurstaða keppni/viðureignar varð á þá leið. „Leikar fóru svo á endanum að tófuskrattinn slapp í þetta sinn“.
Leikaraskapur (n, kk) Látalæti; uppgerð. „Þessi veikindi eru bara leikaraskapur til að sleppa við að smala“.
Leikbróðir / Leiksystir / Leiksystkini Börn sem leika sér saman/ alast upp saman.
Leikfang (n, hk) Hlutur sem leikið er að/með. Oftast er átt við brúðu, bíl eða annað sem börn leika sér að. „Leikföngin voru önnur í Kollsvíkinni fyrr á tíð en nú er. Þá var hornabúið miðpunktur flestra leikja“.
Leikgleði (orðtak) Ánægja/fjör/innlifun í leik. „Leikgleðin var síst minni í hornabúinu en með nútíma plastleikföngum“.
Leikir barna í Kollsvík hafa verið af fjölbreyttu tagi. Hér verður litið til þess sem höfundur hefur helst reynslu af, en margt af því gæti átt við Kollsvíkurbörn á öðrum tímum. Lengst af var mjög fjölmennt í víkinni og því skorti börn ekki félagsskap jafnaldra. Landslagið sjálft býður upp á fjölmörg tækifæri til leikja: Hægt er að fara í fjölbreytilegustu gönguferðir; t.d.er örstutt til berja og fjallagrasa; fjaran er óþrjótandi ævintýri með sínum skeljasandsfjörum, reka, fjörupollum og lónum. Sífellt barst einhver óvæntur reki á land og því gat verið spennandi að ganga á reka. Á góðviðrisdögum var farið í lengri gönguferðir, s.s. út í Bót; norðurundir Hryggi eða fram með Fellum og út í Vatnadal; jafnvel innyfir Tunguheiði og út í Breiðuvík. Fullorðnir voru með í lengri ferðum og á leiðinni fékkst vanalega mikil fræðsla um náttúruna og staðhætti. Kríuvarp var dálítið nýtt meðan það var, og oft eggjaðist vel meðan mest var um kríu. Klettarnir heilluðu suma, og margir vildu reyna sig við fýlseggjatökur í brattlendi eins og þeir fullorðnu. Ef ekki fékkst leyfi var stundum laumast án þess, en e.t.v. farið enn varlegar fyrir vikið. Klifrað var í klettum og stórum steinum, með eða án bands, t.d. í Kryppukarli, Gilsklettinum og víðar. Sérstök upplifun var að fá að fara með í róðra í góðu veðri, ekki síst ef vel aflaðist. Bröndur voru veiddar í lækjunum, oftast með færi á stöng en stundum var útbúið net og sumsstaðar var hægt að grípa veiðina með höndum. Fyrrum þótti það ekki glæpur að börn væru látin vinna og er ekki vitað til að þau hafi skaðast á hóflegu vinnálagi, nema að síður sé. Heyskapurinn gat orðið hin besta skemmtun, einkum hirðing á vel þurru heyi. Sama var um sauðburð og smalamennskur. Önnur vinna var óvinsælli, t.d. að reka úr túninu og taka upp kartöflur. Stundum var farið í framkvæmdir, t.d. byggingu á kofum úr torfi, grjóti og því timbri sem fékkst. Þar var síðan útbúin eldunaraðstaða og mallað; t.d. blóðbergste, vallhumalste, rabbabaraseyði, lokasjóskássa, geldingahnappagrautur, elftingajafningur eða súrusúpa. Jafnvel voru þar reykt körfustrá í laumi. Yngri krakkar voru auðvitað sjálfskipuð tilraunadýr. Bátasmíði var í blóma. Smíðaðir voru litlir trébátar, stundum með aðstoð fullorðinna; einnig bátar úr brúsablikki, faldaðir í stafna og oft með þóftum og segli. Einnig voru smíðaðir leikfangabílar og –traktorar; kerrur og hús. Mannbærar hjólatíkur voru gerðar úr barnavögnum og hjólbörum og smíðaðir sleðar. Merk bátagerð þróaðist, sem voru tunnubátar og er þeim lýst hér sérstaklega. Eitt sinn var smíðaður tunnufleki með mörgum tunnum undir. Að vetrarlagi var snjórinn nýttur til að renna sér á sleða, t.d. á Hólunum eða Trantalabrekkunni; fara á skauta á Lögmannslá; fara í snjókast, þrautakóng eða grafa og byggja snjóhús. Sleðar voru heimasmíðaðir en fleira var notað til að renna sér, t.d. járnplötur og tómir áburðarbokar úr plasti. Rólur voru settar upp í snúrustaurum og sumir reyndu sig við að klifra upp símastaurana. Hér á öðrum stað er minnst á hornabúin, en sá þáttur tók mikinn tíma að sumrinu. Ekki má gleyma Gilinu, sunnan við Láganúpsbæinn. Þar var áður stórt ógróið svæði í botninum; með hreinum skeljasandi; vinsæll og risastór sandkassi. Krakkar fóru í hina ýmsu leiki sem nú eru margir fáséðir. Um suma er fjallað hér undir heitinu vermannaleikir. Innileikir voru fjölbreytilegir þegar ekki var unnt að vera úti. Sögur voru sagðar, misjafnlega trúverðugar, og mikið var teiknað. Borgarbörn í sumardvöl kunnu að segja frá sínum heimahögum og þannig blandaðist sveita- og borgarmenning í hugum barnanna. Sumir gátu slegið um sig með vísum og jafnvel gátum. Hinir fullorðnu gáfu sér oft tíma til að vera með börnunum; segja sögur og fræða, ekki síst afar og ömmur. Svo gat alltaf hugsast að eitthvað sælgæti leyndist í kistuhandraðanum. Alltaf var til gnægð leikfanga, en nokkur hluti þeirra var heimasmíðaður. Bóklestur var alltaf mikill hjá hinum stálpaðri. Mikill bókakostur var til á Kollsvíkurbæjum, auk þess sem öflug lestrarfélög voru starfandi í Breiðavíkursókn og Sauðlauksdalssókn.
Leikmót (n, hk) Íþróttamót; leikjamót. „Leikmót hefir fjelagið (Vestri) haft tvisvar í Kollsvík, í sambandi við sundpróf“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Leikni (n kvk) Lag; fimi; færni. „Hann sýndi mikla leikni í þessu klifri, en þótti fara heldur gapalega“.
Leiksoppur (n, kk) Leikfang. Soppur er gamalt heiti á bóli, bauju eða knetti. Soppleikur þekktist einhversstaðar sem heiti á knattleik.
Leikur einn (orðtak) Auðvelt verk; létt framkvæmd. „Eftir að féð var komið inn í girðinguna var leikur einn að ná því í réttina“.
Leikur orð á (orðtak) Fer sögum af; er sagt; gengur manna á milli. „Það leikur orð á að þau séu að skilja“.
Leikur á tveimur tungum með / Leikur á tvímælum með (orðtök) Er vafi á; ekki einsýnt með; fer tvennum sögum af. „Það leikur víst á tveimur tungum með faðernið, hvað sem kirkjubækurnar segja“.
Leikur vafi á um (orðtak) Eitthvað er vafasamt/óvíst. „Mér finnst enginn vafi leika á um þetta“.
Leirar (n, kk, fto) Örnefni í Kollsvík; stórt slétt og ógróið sandflæmi ofanvið Rifið, sem nær norðan frá Syðriklettum að Ánni. Yfirleitt er yfirborðið sandgljá, enda skefur sandinum burt í roki, niður að jarðvatnsborði. Þó er oft ofaná sandinum leirkennd seltuskán, og af henni draga Leirarnir sennilega nfn sitt.
Leirborinn / Leirkenndur (l) Sem inniheldur mikinn leir. Oft notað um jarðveg þar sem jökulaur er áberandi, en einnig t.d. um lélegan kveðskap. „Heldur þótti mér þetta nú leirborið hjá honum“.
Leirbotn (n, kk) Um botnlag á fiskimiðum. „Venjulega var farið þegar smástreymt var; keyrt á mið sem heitir Tálkni og Sandhóll; þegar Tálkni sást fyrir Blakkinn og Sandhóllinn í Breiðavík fyrir Breiðinn. Þar var leirbotn, og brást varla að fá skötu“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Leirburður / Leirhnoð (n, kk/hk) Lélegur skáldskapur; illa gerð vísa; hnoð; bragleysa. „Þetta er nú meiri andskotans leirburðurinn“! „Ég var að rembast við þennan fyrripart en úr því varð hálfgert leirhnoð“.
Leirrör (n, hk) Rör steypt úr leir. „Þegar hún ætlar að fara að sofa varð hún þess vör að kviknað var í þakinu á bænum út frá leirrörum sem voru frá eldavélinni“ (IG; Æskuminningar).
Leirtau (n, hk) Borðbúnaður úr leir. „Fariði varlega með leirtauið í uppvaskinu“.
Leirstorka (n, kvk) Klístur/skorpa sem situr eftir þegar leir þornar, t.d. eftir mikið sandfok. „Leirstorkan sat lengi áveðurs á girðingarstaurum næst Leirunum eftir áhlaupið“.
Leirtjörn (n, kvk) Tjörn með leirbotni, sem þornar upp að miklu leyti í þurrkum. Leirtjörn var örnefni slíkrar tjarnar rétt norðan fjóssins á Stekkjarmel, en hún fór undir nýrækt.
Leisti / Leistur (n, kk) A. Háleistur; sokkur sem nær rétt uppfyrir ökkla og er oft úr grófu bandi. B. Sá hluti sokks sem er fyrir framan og neðan ökkla. C. Fótlíkan sem skósmiður notar við iðn sína.
Leit (n, kvk) A. Það að leita/ gá að/ skima eftir. „Ég fann sokkinn eftir nokkra leit“. B. Smalamennska. „Sú leit hefur eflaust verið erfiðust, því að enda þótt lagt væri af stað fyrir allar aldir komu leitarmenn af Bjarginu oftast seinastir til réttar“ (PG; Veðmálið).
Leita (s) A. Skyggnast eftir; gá að; forvitnast um. B. Hafa tilhneygingu til að sveigja frá beinni stefnu. „Vatnið leitaði niður Flötina þegar krapastífla kom í Gilið“. „Báturinn leitar töluvert mikið þegar vélinni er gefið inn; það þarf að liggja dálítið í stýrinu“.
Leita af sér (allan) grun (orðtak) Ganga úr skugga um með leit; leita til fulls. „Ég leitaði af mér allan grun um að kindin hefði farið ofaní í Mýrnum“.
Leita atkvæða (orðtak) Bea undir atkvæði; fá fram skoðun meirihlutans með kosningu. „Ákveðið var að leita atkvæða fundarmanna um tillöguna, og var hún samþykkt samhljóða“.
Leita á náðir (einhvers) (orðtak) Biðja einhvern um aðstoð; leita skjóls hjá einhverjum. „Mér er illa við að leita á náðir hans í þessu efni“.
Leita ásjár (orðtak) Biðja um aðstoð/hjálp/húsaskjól. „Við þurftum að leita ásjár á næsta bæ til að fá lánaðan tjakk“.
Leita eftir (orðtak) A. Leita að. „Bað þá Halldóra okkur að leita eftir Magdalenu... “ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). B. Falast eftir. „Leitar hann nú eftir við bónda hvort hann vilji ekki greiða sér skotmannshlut af hvalnum. En því neitar Einar með öllu“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Leita hófanna um (orðtak) Þreifa fyrir sér; leita eftir; spyrjast fyrir um; fara þess á leit. „Ég hef verið að leita hófanna um styrki til þessa málefnis“. Uppruni orðtaksins er ekki augljós. Hugsanlegt er að vísað sé til ölmusumanns sem leitar til hirðar konungs (hof=hirð) í von um ásjá. Hugsanlegt er einnig að þarna sé vísað til þess að leita eftir millivegi; hvorki óhóflega lítið né mikið. Til er orðatiltækið „tvö eru hóf í hverju“ um það.
Leita í hverjum krók og kima (orðtak) Leita í öllum skúmaskotum/afviknum stöðum. „Þarna liggja þá klippurnar; ég var búinn að leita að þeim í hverjum krók og kima“!
Leita lags (orðtak) Reyna að finna tækifæri. Vísar til þess að formaður báts reynir að finna lag (óbrotinn sjó) til að taka landróðurinn.
Leita langt yfir skammt (orðtak) Leita að einhverju, eða sækja einhvað, sem er nærtækara en haldið var. „Vertu nú ekki að leita langt yfir skammt að vasahnífnum; þú lánaðir mér hann fyrr í dag“. Sjá eins og að sækja vatnið yfir lækinn.
Leita (allra) leiða (orðtak) Reyna að finna leiðir/aðferðir. „Ég leitaði allra leiða til að fá hann ofan af þessu“.
Leita (með) logandi ljósi (orðtak) Leita mjög vel. „Ég leitaði með logandi ljósi að þessum gemlingum“.
Leita réttar síns (orðtak) Ná réttlæti fyrir sig með tilvísun í lög, t.d. með kæru til yfirvalds. „Skoðunarmaður hugðist leita réttar síns, en sá það ekki fært vegna galla laganna; sem ekki skylda fjáreigendur að framvísa fé sínu til skoðunarmanns“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938).
Leita sér lúsa (orðtak) Leita að lúsum á skrokk sínum. Slík iðja var algeng meðan lús var landlæg. Samkvæmt þjóðtrúnni gat lús og lúsaleit komið að gagni á sjó: Til að auka meðbyr þótti áhrifaríkt að leita sér lúsa og fleygja þeirri veiði aftur af skipinu. Aðrir létu lúsina á þóftu og veittu athygli skriði hennar; átti byrinn að koma úr sömu átt. Loks létu sumir lúsina í seglið. Með þessum aðferðum vonuðust menn eftir lúsabyr...“ (LK; Ísl. sjávarhættir III; heimild; ÓETh).
Leita skjóls/vars (orðtök) A. Um fólk og fénað; fara í skjól undan slæmu veðri. B. Um bát/skip; fara í landvar undan miklum sjógangi/stormi.
Leitardagur (n, kk) Gangnadagur; réttardagur. Venja var í Kollsvík að tala fremur um gangnadag eða réttardag, sem var oftast það sama. Í fjallskilareglugerð V-Barðastrandasýslu frá 1982 segir; „Tvennar skulu fjallgöngur á hausti. Fyrri leitardagur skal vera mánudagur í 22. viku sumars; síðari leitardagur tveim vikum seinna“. Fyrri leitardagur/réttardagur var því alltaf mánudagur í kringum 20.september. Síðari leitir voru hinsvegar hafðar eftir því sem á stóð, enda slátrun þá í fullum gangi og annir miklar.
Leitarmaður (n, kk) Sá sem leitar; sá sem smalar fé. „Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu“ (PG; Veðmálið).
Leiti (n, hk) Aflíðandi hæð; bunga. „Þarna bar leiti á milli mín og kindanna“. Kotbýlið Leiti stóð neðanvið Neðri-tungu í Örlygshöfn.
Leitið og þér munuð finna (orðatiltæki) Biblíutilvitnun sem oft er viðhöfð, t.d. þegar einhver hefur fundið hlut sem annar hefur leitað hvað ákafast að. „Leitið og þér munuð finna. Hvað viltu gefa fyrir vasahníf“?
Leitir (n, kvk, fto) Smölun; göngur. „Að síðustu langar mig að minnast á leitirnar. Þó þær væru hvorki langar eða erfiðar heima, voru þær eitt mesta tilhlökkunarefni bæði barna og fullorðinna. Gangnaseðillinn sem barst bæ frá bæ, kom að Láganúpi um hálfum mánuði fyrir göngur... “ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Leitun (n, kvk) Vandfundinn. „Það er leitun að öðrum eins ágætismanni og hann var“. „Daníel Eggertsson sagði að leitun myndi vera á jafn góðum efnahag og í Rauðasandshreppi og taldi hann að ekki myndi verða sótt gull né grænir skógar með sameiningu við Patrekshrepp“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Leka sig (orðtak) Um kýr sem er með svo troðin júgur af mjólk að vöðvar í spenaopinu ná ekki að halda og mjólkin drýpur niður. Sama getur gerst ef kýrin stígur sig; þ.e. ef hún stígur á spenann svo vöðvinn meiðist. „Hún Búbót lekur sig dálítið enn; speninn hlýtur að fara að gróa“.
Lekabytta (n, kvk) A. Ílát sem haft er undir, til að taka við hverskonar leka, t.d. þakleka. B. Dallur sem hafður var undir krana á víntunnu, til að taka við því sem úr honum draup. Sumir sóttu mjög í að tæma lekabyttuna, og mun orðið „fyllibytta“ vera af því runnið. C. Stundum haft um lekan bát; lekahrip.
Lekahrip (n, hk) Óþéttur bátur. „Skektan var fremur gamalt lekahrip sem sífellt þurfti að ausa“.
Leki (n, kk) A. Það sem lekur um gat/skemmd o.fl. „Það kom allnokkur leki að bátnum við strandið“. B. Lögg; lítið eitt af vökva í íláti. „Hann átti einhvern leka eftir í flöskunni“.
Lekta (n, kvk) Láréttur burðarbiti, t.d. undir gólfi; í vegg eða undir sperrum.
Lekur (l) Sem leki hefur komið að vegna gats, skemmda o.fl. „Stígvélið er lekt í tánni“.
Lella (n, kvk) Leðja; for; efja. „Grindin brotnaði undan kálfunum svo þeir sátu í lellunni í kjallaranum“. Borið fram með hörðu elli.
Lellulegur (l) Líkur leðju/for/efju; seigfljótandi. „Hafragrauturinn verður svo leiðinlega lellulegur ef þú hrærir mjólkina útí“. Hart ell.
Lelluþunnur (l) Seigfljótandi; þunnur eins og lella/efja. „Settu ekki of mikið af vatni í steypuhræruna; þá verður hún svo lelluþunn og ónýt“.
Lemba (s) Sú athöfn hrúts að makast með ær. „Ekki veit ég hvað hrúturinn hefur náð að lemba margar þegar hann braut stíuna“.
Lembd (l) Um kind/á; með lambi. „Eitt kúgildi er jafngilt sex ám; loðnum og lembdum í fardaga“. „Kindur eru kvikar vel og kúluvembdar;/ flestar eða allar lembdar“ (JR; Rósarímur).
Lemjandi rigning / Lemjandi slagveður (orðtak) Mikil rigning í hvössum vindi. Mikið notað til áhersluauka. „Þegar við vorum að draga síðustu mennina upp á brún var komið lemjandi slagveður“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg).
Lempa (s) Laga til; hagræða; beita fortölum. „Ríkisstjórnin þarf nú eitthvað að lempa til í rekstrinum“. „Það var hægt að lempa hann þannig til að hann samþykkti að lokum“.
Lempilega (ao) Með lagni/gætni; sniðuglega. „Hann samþykkir þetta kannski ef þú ferð lempilega að honum“.
Lempinn (l) Fær í að hagræða; natinn við verk. „Hann er stundum lempnari við féð en mannfólkið“.
Lempni (n, kvk) Lagni; sniðugheit. „Með lempni og sannfæringarkrafti tóks mér að fá hann á mína skoðun“.
Lemstra (s) Slasa; meiða. „Ég náði lambinu af kindinni áður en hún náði að lemstra það“.
Lemstraður (l) Slasaður; marinn. „Eitthvað hefur hann lemstrast við byltuna“. „Ég var líkt og lemstraður eftir átökin“.
Lemstrun (n, kvk) Slys; meiðsli. „Þetta sýnist kannski ekki hátt, en samt er hverjum þeim dauði eða lemstrun búin sem hrapar á þessum stað“.
Lend (n, kvk) Neðanvert mitti á manneskju; aftari hluti baks á skepnu.
Lenda (s) Koma að; koma á báti í fjöru/ að bryggju. „Nú urðum við að halda áfram þennan stutta spotta sem eftir var í Verið, því bátarnir voru um það bil að lenda og ekki máttum við koma of seint með matinn til sjómannanna“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Lenda á streng (orðtak) Seila út; lenda bát í miklu brimi, á þann hátt að dreki/stjóri er lagður úti á læginu og haldið við taug úr honum í skutnum; til að halda bátnum réttum upp í ólögin. „Brimasamt var í Kollsvík og þurfti iðulega að seila úr allan aflann, og lenda á streng sem kallað var. ... Og urðu allir að seila út á laginu og lenda á streng“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Lenda fyrir flötu (orðtak) Lenda bát á síðu upp í fjöru; láta slá flötu. Yfirleitt forðast menn slíka lendingu vegna þeirrar hættu sem henni fylgir fyrir áhöfn og bát. Þó er þetta stundum gert, t.d. í blíðskaparveðri til að afferma bát. Knörrum landnámsaldar mun hafa verið alsiða að lenda fyrir flötu, til að auðvelt væri að bera af. Sjá mikið í húfi.
Lenda illa í því (orðtak) Verða fyrir óheppni. „Nú lentum við illa í því; heldurðu ekki að ífærufjandinn hafi orðið eftir í landi“!
Lenda í flæði (orðtak) Lenda þegar flóð er, og sjór því hátt í lendingunni. Slíkt sparaði mikla vinnu við burð á afla og setningu á báti. „Nú var lent í flæði en þá var, eins og áður er sagt, lítið var að klökkunum“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lenda í kröppum dansi (orðtak) Komast í hættulegar aðstæður, t.d. sjávarháska. „Við lentum í nokkuð kröppum dansi þegar við fórum frá urðinni, en þá bilaði vélin á bátnum“.
Lenda í ógöngum með (orðtak) Lenda í vanræðum með; komast í þrot með. „Nú förum við að lenda í árans ógöngum með saltið, ef pöntunin kemur ekki“.
Lenda í útideyfu (orðtak) Um verk sem verður útundan; tefjast úr hófi; verða að engu. „Það lenti í útideyfu hjá mér að mála þakið fyrir veturinn“. „Fjöldi mála á Alþingi lenti í útideyfu fyrir þinglokin“.
Lenda í villu (orðtak) Villast. „Niðaþoka var á, og náttmyrkur, og lentu þeir í villu á fjallinu“ (MG; Látrabjarg).
Lenda saman (orðtak) Takast á; lenda í áflogum. „Þeim lenti saman á þorrablótinu og voru báðir blóðugir eftir“.
Lenda utanhjá (orðtak) Um framkvæmd/verk; verða útundan; gleymast. „Þetta hefur alveg lent utanhjá; ég verð að drífa í því“!
Lenda úti á galeiðunni (orðtak) Lenda á villigötum; lenda í óreglu/rugli/ræsinu; lenda í slæmum félagsskap. „Mér skilst að hann hafi heldur betur lent úti á galeiðunni þarna syðra“. Sjá setja á galeiðuna.
Lenda við (orðtak) A. Bókstafleg merking; leggja bát upp að, t.d. hlein. B. Oftast notað í óeiginlegri merkingu; enda; verða málalok. „Enn rignir hann; ekki veit ég við hvað þetta lendir eiginlega“!
Lenda við það sama (orðtak) Koma í einn stað niður; koma út á eitt; gilda einu. „Þó við förum hina leiðina þá lendir alltaf við það sama; við losnum ekki við skaflinn“. „Við sama lendir hvernig við förum að þessu“.
Lendandi (l) Hægt að lenda. „Þegar þeir komu útfyrir Hænuvík hafði sjó aukið það mikið að vafasamt var orðið hvort lendandi væri í Kollsvík“ (Niðjatal HM/GG). „... Þó reri hann hið þriðja sinn, því lygndi, en þegar hljóp á útnyrðingur með ylgju mikili og ókyrrðist mjög sjór við það, svo illa lendandi var“ (TÓ, frás. Gísla Konráðssonar; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Lendast vel/illa (orðtak) Lánast vel/illa í lendingu. Oft má lítið útaf bera við lendingu í tvísýnu. „Honum lentist vel, og öllu var bjargað; bæði bát og afla“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lending (n, kvk) Staður á ströndinni þar sem allajafna er unnt að lenda. „Lending í Láganúpslandi er nærri ótæk sökum brims og grynninga. (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp). Þessi lýsing er þó hæpin sé litið til útgerðarminja í Grundarbökkum, en þar virðist hafa staðið ein mesta verstöð fyrri tíðar.
Lendingabætur (n, kvk, fto) Lagfæringar sem gerðar eru á lendingu til að hún sé aðgengilegri/öruggari. „Guðbjartur á Láganúpi réðst í allmiklar lendingabætur í Láganúpslendinug, ásamt sonum sínum. Var rudd feiknamikil vör stuttu utanvið Langatangann“.
Lendingarleið (n, kvk) Siglingaleið til lendingar. „Það eru sker fyrir utan, dálítið varasöm ef ekki er rétt farið, en lendingarleiðir voru farnar eftir því hvernig stóð á áttum“ (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).
Lendingarstaður (n, kk) Staður sem lent/lendandi er á. „Nú var búið að athuga allstaðar um lendingarstað og virtist allt ófært“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Lendir í sama stað / Lendir við það sama (orðtök) Kemur í sama stað niður; skiptir ekki máli; kemur út á eitt.
Lendur maður (orðtak) Á oftast við aðalsmann/höfðingja sem náð hefur undir sig miklum landsvæðum/jarðeignum, oftast með tilstuðlan eða vitund konungs eða þess stjórnarfars sem ríkjandi er. Má t.d. telja höfðingja á sturlungaöld lenda menn.
Lengi býr að fyrstu gerð (orðatiltæki) Vanalega er átt við að menn búa lengi að góðu uppeldi/atlæti í æsku.
Lengi er von á einum (orðatiltæki) Kemur einn enn; enn bætist við. Viðhaft t.d. um veiði.
Lengi getur fullur étið (og latur legið) ( orðatiltæki) Sumir virðast geta borðað endalaust, þó orðnir séu mettir.
Lengi getur latur legið ( orðatiltæki) Oft er gripið til þessarar speki þegar manni finnst gott að hvílast áfram, en þarf að sinna verkum. Fyrrum var það talin leti sem í dag er oft nefnt nauðsynleg hvíld.
Lengi getur vont versnað (orðatiltæki) Speki sem viðhöfð er um slæmt ástand sem fer enn versnandi. Oft notað í sömu tilefnum og að fara úr öskunni í eldinn.
Lengi getur þreyttur þraukað / Lengi má þreyttur þrauka (orðatiltæki) Maður getur stundum haldið út furðu lengi þó maður sé orðinn þreyttur, einkum þegar mikið liggur við.
Lengi lifir í gömlum glæðum (orðatiltæki) Lengi getur dugað/enst kærleikur/vinátta eða viðfangsefni/málefni/áhugamál/viðhorf o.fl.
Lengi man hvað ungur nam (orðtatiltæki) Það festist jafnan best í minni sem menn læra á unga aldri.
Lengi man til lítillar stundar (orðatiltæki) Maður getur lengi munað viss augnablik úr lífi sínu þó annað gleymist.
Lengi má deila um keisarans skegg (orðatiltæki) Um sumt er hægt að deila endalaust án niðurstöðu. „Ég er ekki hrifinn af þessum flokki, en það má svo sem lengi deila um keisarans skegg“. Deilt er um uppruna orðtaksins, en sumir telja það snúast um skegg eða skeggleysi Karls mikla; aðrir að það snústi um það sama hjá rómaverskum keisurum.
Lengi má gott bæta (orðatiltæki) Fátt er svo gott að ekki geti enn batnað.
Lengi má lags bíða (orðatiltæki) Oft þarf að bíða lengi eftir að lag gefist í brimi, til að taka landróðurinn. Einnig notað í líkingamáli þegar reynir á þolinmæðina.
Lengi má/skal manninn reyna (orðatiltæki) Seint koma í ljós allir kostir og ókostir manns; lengi getur maðurinn sýnt á sér nýjar hliðar. „Lengi má manninn reyna! Þessu hefði ég ekki búist við af honum, blessuðum“.
Lengi tekur sjórinn við (orðatiltæki) Spekin vísar til þess að eilíflega megi kasta í sjóinn; allt hverfi það. Notað um hvaðeina sem aldrei/seint mettast. Með vaxandi mengun, gerviefnaframleiðslu og umhverfisvitund taka fáir undir þessa gömlu speki nútildags.
Lengi væntir vonin (orðatiltæki) Menn geta lengi haldið í vonina um eitthvað.
Lengivel / Lengi vel (ao/orðtak) Löngum; um langan tíma. „Lengivel sást ekkert útúr augum, en svo fór aðeins að rofa til“. „Afi var lengi vel hress og vann mikið“ (S.G: Bréf til mömmu).
Lengja eftir / Lengjast biðin eftir (orðtak) Sakna; verða langeygur eftir. „Okkur var farið að lengja eftir mömmu, og þeim sem farið höfðu með vistirnar út á Bjarg“ (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg).
Lengjast um (orðtak) Lengja eftir; sakna. „Okkur var farið að lengjast um þá úr hákarlalegunni“. (ÓTG; Ágrip af æviferli).
Lengst af / Lengstaf (orðtak/ao) Mest af tímanum; mestallan tímann. „Hálsar geta verið lokaðir lengstaf vetrum í Útvíkum“. „Lengstaf sumrinu hefur verið sæmileg heyskapartíð“ „Veðrið var svo gott að þeir voru úlpulausir lengstaf“.
Lengstum (ao) Lengstaf; mestan tímann. „Þessir frændur mínir voru lengstum í sveit í Kollsvík öll sumur á sínum uppvaxtarárum og tóku þar þátt í leik og störfum eins og heimilisfólk“. (VÖ).
Lens / Lensvindur (n, hk) Meðbyr; undanhald undan vindi, einkum á siglingu. „Við fengum húrrandi lens fyrir víkina“. „Lensið þótti einna hættulegust sigling. Þá átti að varast að láta ölduna elta sig heldur til hliðar. Til þess að verja skipið áföllum var talið heppilegast að sigla talsvert skáhallt með vindi, einkum í spildusjó“ (LK; Ísl. sjávarhættir). „Hann taldi okkur ekki vera í vandræðum að koma skipinu suður í lensvindi. Ég kvaðst vita að það væri lens suður Breiðflóann, en það yrði ekki er kæmi fyrir Öndverðanes“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Lens (l) Uppiskroppa; búinn; þrotinn. „Ég er að verða lens með píputóbakið bráðum“.
Lensa (s) Sigla undan vindi. „Var nú lensað áleiðis til Keflavíkur“ (ÖG; Þokuróður). „Þá var dregið úr ferðinni, og lensað með hægri ferð“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Veðurhæð fór ört vaxandi er komið var út í Patreksfjarðarflóann, og var nú lensað suður fyrir Víkur; fyrir Bjargtanga og suður Breiðubugt“ (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna magnússonar).
Lensa (n, kvk) Drepur; tvíeggjað áhald sem notað var til að leggja hákarlinn með. „Drepirnir voru tvíeggjaðir stingir, hin biturlegustu vopn, með hálfrar alinar löngu blaði og fjögurra álna skafti. Á vestfirskum skipum tíðkuðust svipuð áhöld og kölluðust þar lensur. Drepirnir voru til þess notaðir að stinga í sundur mænu hákarlsins þegar hann kom uppúr sjónum“ (GG; Skútuöldin).
Lenska (n, kvk) Siður; hefð; regla; plagsiður. „Lengi var það lenska í Útvíkum að allir heilsuðust og kvöddu með kossi, og enn halda sumir þeim sið að nokkru. Þó ekki sé vafi að þetta hefur styrkt vinabönd og þjappað fólki saman, þá má einnig gera því skóna að það hafi hraðað útbreiðslu smitpesta. Legið hefur við fleiri slysum, svo sem þegar tveir Látramenn hittust á tófugöngu. Hafði annar í ógáti spennt byssu sína, sem lenti á milli mannanna og hljóp úr henni skot við kveðjukossinn. Ekkert varð þó að skaða utan smáskeina á tá“.
Lepja (s) A. Sleikja upp vökva; drykkjarháttur t.d. hunda og katta. B. Draga línu/færi með stuttum handahreyfingum. „Þú verður að draga dálítið rösklega strákur; það gengur ekkert að lepja færið eins og afgömul kerling“!
Lepja (n, kvk) Mjög þunnur/lapþunnur grautur eða skyr. „Mú hef ég þynnt skyrið of mikið, þetta er bara lepja“.
Lepja dauðann úr skel (orðtak) Búa við mikla fátækt. „Landsbyggðarfólk hefur löngum mátt lepja dauðann úr skel, meðan velsældin hleðst upp í höfuðborginni“. Vísast líklega til þess að þegar svo naumt var skammtað að komst fyrir í skel, þá var dauðinn á næstu grösum.
Lepja (upp) eftir (orðtak) Hafa/apa eftir; endurtaka; endursegja. „Ég nenni ekki að lepja eftir honum bölvaða þvæluna; þetta var svo heimskulegt“!
Lepja í (orðtak) Kjafta frá. „Hver skyldi hafið lapið þessu í hann“?
Lepjulegur (l) Slappur; linur; óhress. „Ég finn að ég er hálf lepjulegur ennþá eftir þessa óþverrapest“.
Leppagarmar / Leppatuskur / Leppar (n, kk/kvk, fto) Gæluorð um föt; fataleppar. „Farið nú að vakna og tína utaná ykkur leppana strákar. Þið þurfið að fá ykkur morgunmat áður en þið farið af stað“. „Áttu ekki einhverjar skárri leppatuskur til að fara í“?
Leppalítill (l) Fáklæddur; í fáum flíkum; klæðlítill. „Maður kófsvitnaði í sólarbeyskjunni, jafnvel þó maður væri orðinn leppalítill“.
Leppalúði (n, kk) A. Var upphaflega notað sem niðrandi heiti á tötralegum manni, og heyrist enn sem niðrandi uppnefni. B. Varð síðar heiti á tröllkarli sem um spunnust þjóðsögur. Á endanum mótaðist sagan um að hann væri eiginmaður skessunnar Grýlu; hann væri þriðji maður hennar; óttalegt letiblóð og faðir jólasveinanna.
Leppar (n, kk, fto) Stytting á fataleppar; gæluheiti á fatnaði.
Leppur (n, kk) A. Bót af efni; efnispjatla. „Peysan væri ágæt ef leppar væru settir á olnbogana“. B. Efnispjatla sem lögð er innan í botn á skó. Leppar í skinnskóm voru stundum listilega útsaumaðir og nefndust þá rósaleppar. „Börn lærðu fyrst að prjóna leppa (hér ekki illeppar) með garðaprjóni. Þá var fyrst prjónaður miðhlutinn þversum, svo teknir upp á prjón jaðrarnir og prjónaðar húfur á endana með úrtökum“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). C. Taflmaður sem valdar/ver annan í skák. D. Í seinni tíð; meistari sem ábyrgist verk ófaglærðs manns.
Lera til (orðtak) Laga til; tala til. „Eitthvað er nú hægt að lera þetta bílskrifli til, þannig að þú komist heim“. „Hann var alveg á móti málinu en með lempni tókst að lera hann til svo hann samþykkti að lokum“. Sögnin að lera var stundum einnig notuð sjálfstætt, en það var fátíðara. „Það þarf aðeins að lera hurðina svo hún falli að stöfum“.
Lera sig (til) (orðtak) Lagast; aðlagast. „Sumir voru ósáttir við þessa ákvörðun, en það lerar sig með tímanum“. „Netið var örlítið snúið þarna á kafla í lagningunni, en ég held að það leri sig til í sjónum“.
Lerkaður (l) Þreyttur; uppgefinn. „Þeir komu lerkaðir og forblautir úr leitinni“. „Magnús langafi minn … komst nokkuð lerkaður og móður undan fjörulallanum“ (MH; Mbl 04.01.2017).
Lesa á (orðtak) Sjá hvað stendur skrifað. „Helgi í Tröð og fleiri lásu á hana og staðfestu þar með að Liði hefði unnið veðmálið“ (PG; Veðmálið).
Lesa á hundavaði / Lesa í fljótheitum (orðtak) Lesa ekki orðrétt heldur í flýti, þannig að reynt sé að grípa aðalatriðin. „Ég las þetta plagg á hundavaði og þótti lítið til þess koma“.
Lesa á milli línanna (orðtak) Skilja það í texta/máli sem ekki er sagt beinum orðum. „Í bréfinu segist hann vera ánægður í vistinni, en þó mátti lesa á milli línanna að svo var ekki að öllu leyti“.
Lesa í hljóði / Lesa í lágum hljóðum (orðtak) Lesa með sjálfum sér, án þess að tala. „Geturðu ekki lesið þetta í hljóði? Ég er að reyna að hlusta á fréttirnar“. „Ég las fyrstu blaðsíðuna upphátt, en hitt las ég í lágum hljóðum, enda var stráksi þá sofnaður“.
Lesa (einhverjum) pistilinn/faðirvorið (orðtak) Skamma einhvern. „Ég las honum rækilega pistilinn fyrir þetta uppátæki“.
Lesa/skoða ofaní kjölinn (orðtak) Lesa gaumgæfilega; skoða til hlítar. Líking við að bók sé lesin öll, einnig það sem skrifað er innarlega á spássíu.
Lesa sér til (orðtak) Kynna sér með lestri; lesa sér til fróðleiks. „Nú þarf ég að lesa mér til í leiðarvísinum“.
Lesa sig upp (orðtak) Fara upp vað með því að grípa um hann með höndum til skiptis; handlesa sig; handstyrkja sig.
Lesa spjaldanna á milli (orðtak) Lesa bók/rit frá upphafi til enda.
Lesa upp / Lesa upphátt (orðtak) Lesa fyrir aðra; lesa þannig að heyrist. „Pabbi las líka oft sögur fyrir okkur á kvöldin, þegar við vorum lítil. Hann las svo skemmtilega að það var ekki hægt annað en taka eftir hverju orði. Honum þótti mjög gaman að lesa upphátt“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Lesast til (orðtak) Lesa; fá skilning í það sem skrifað er. „Mér last svo til í leiðbeiningunum að hér ætti allt að fylgja í pakkanum; verkfæri og annað“.
Lesa undir próf (orðtak) Rifja upp námsefni með yfirlestri stuttu áður en lokapróf fara fram.
Lesa útúr (orðtak) Ráða í skrift; reyna að lesa það sem skrifað/táknað er. „Fjandinn eigi það að ég geti nokkuð lesið útúr þessu hrafnasparki hjá honum“!
Lesa/tala yfir hausamótunum á (orðtak) Skamma; lesa pistilinn. „Ég las raækilega yfir hausamótunum á þeim fyrir þetta tiltæki“.
Lesandi (n, kk) Sá sem les. „Ég læt lesandanum eftir að meta verkið“.
Lesbirta (n, kvk) Birta til að lesa bók/blað. „Á kamrinum var næg lesbirta til að greina helstu fréttir í skeinibréfinu, sem vanalega var bændamálgagnið eina og sanna; Tíminn. Sjóngóðir gátu jafnvel rýnt í hitt áróðursritið nærindis; „Fakta om Sovietunionen“, en það var glansrit sem óhæft var til neðanbrúks“.
Lesbjart (l) Nægilega bjart til að unnt sé að lesa á bók. „Það er varla orðið lesbjart lengur. Ég ætla að skreppa og setja í gang vélina“.
Lesefni (n, hk) Ritmál sem unnt er að lesa. „Mjög mikið var lesið í Kollsvík, en þó varð þar aldrei skortur á lesefni. Taldist til nauðsynja að eiga lesefni við allra hæfi. Mikil bókasöfn voru á hverju heimili; töluvert keypt af blöðum og tímaritum og fjölbreytileikinn var í fyrirrúmi. Börn urðu læs stuttu eftir að þau urðu sæmilega talandi og fæstum féll bók úr hendi eftir það; eftir því sem frítími leyfði. Færi svo að einhver yrði leiður á því úrvali sem bauðst á heimilum var leitað í eitthvert hinna þriggja stöndugu bókasafna í Rauðasandshreppi. Vafasamt er að á nokkru byggðu bóli hafi boðist fjölbreyttara lesefni“ (VÖ).
Lesfróður (l) Fróður af lestri rita. „Hann er nokkuð lesfróður um þetta, en vantar sumsstaðar skilninginn“.
Lesinn (l) Fróður af bóklestri. „Er sagt að Einar (Jónsson ættfaðir í Kollsvík)hafi verið kallaður vitur maður og lesinn, og búhöldur mikill. Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt. En Gísi Konráðsson segir ennfremur að lítill mundi hann trúmaður, og læsi jafnan villurit það er kallast „Jesús og skynsemin“, og héldi mjög af því“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Leskingi (n, kk) Hlutur sem er laskaður; brotinn. Í seinni tíð oftast notað um egg. „Þeim eggjum sem brotin voru var safnað saman í fötur og kölluð leskingjar“ (MG; Látrabjarg).
Lesning (n, kvk) A. Texti almennt; einkum sá sem við á hverju sinni: „Líttu nú í lesninguna áður en þú tekur tækið í sundur“. B. Skammir. „Þessi jeppakarl fékk víst lesningu þegar landeigandinn náði á hann“.
Lest (n, kvk) A. Röð farartækja, fólks eða skepna; halarófa. „Féð rann í einni lest eftir hestaveginum“. T.d. hestalest; járnbrautarlest o.fl. B. Rými neðan þilfars í skipi, þar sem geyma má fisk eða annan flutning. C. Þyngdareining; tonn; 1000 kg. Að fornu var lest talin jafngilda 1200 fiskum (4 mörk hver) eða 30 vættum. Ein lest korns var talin 12 tunnur. D. Stærðareining báts/skips.
Lesta (s) A. Setja varning í lest á skipi. „Meðan Kollsvíkurver stóð með mestum blóma komu stundum flutningaskip uppundir Lægið, ef gott var í sjó, og lestuðu fisk til útflutnings“. B. Var fyrrum notað um það að skemma/lemstra, en slíkt heyrðist ekki í seinni tíð.
Lestarfjöl / Lestarplanki (n, kvk/kk) Þykkar fjalir sem um áratuga skeið rak iðulega á fjörur í Kollsvík og víðar. Notaðar sem skilrúm í lestum og á dekki togara áður en plastkassar og plastkör urðu algeng.
Lestargangur (n, kk) Hægur gangur; sá gönguhraði sem hæfir klyfjuðum hestum í lest. Stundum notað um áætlaða vegalengd milli staða. „Yfir Tunguheiði var um 4 tíma lestargangur“.
Lestrarfélag (n, hk) Félag sem hefur þann tilgang að eiga lesefni við smekk þeirra sem að því standa. Stofnað var Lestrarfélagið Bernskan í Rauðasandshreppi hinn 20.nóv 1921, en undir lög þess skrifa Valdimar Össurarson í Kollvík og Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni. Í Rauðasandshreppi voru framá síðari hluta 20.aldar starfandi 3 lestrarfélög með miklum glæsibrag: Lestrarfélag Rauðasands í Ungmennafélagshúsinu þar; Lestrarfélag Sauðlauksdalssóknar í Sauðlauksdal og Lestrarfélag Breiðavíkursóknar sem vistað var á Hvallátrum. Eftir byggingu barnaskólans í Fagrahvammi voru þessi söfn sameinuð þangað, við misjafnar undirtektir. Í söfnunum var fjölbreytt lesefni; sumt fágætt, og töluvert keypt inn árlega.
Lestrartilsögn (n, kvk) Tilsögn/leiðbeining fullorðinna við börn varðandi lestur; einkum í byrjun, meðan þau eru að ná tökum á að þekkja stafina; kveða að; stauta; lesa í samfellu og öðlast skilning á því sem lesið er. Einnig orðað að „láta stafa/stauta/eða lesa“. Sjá prófblað.
Lestur (n, kk) A. Tal eftir rituðum texta. B. Skammir. „Heldur fékk hann nú lesturinn fyrir að fara svona klaufalega að smöluninni“! C. Húslestur. „Allir sátu hljóðir meðan á lestrinum stóð“.
Leti og ómennska (orðtak) Einstakt bjargarleysi; hámark letinnar. „Ekki skil ég búskaparlagið hjá sumum bændum. Það þýðir nú lítið að liggja í ferðalögum eða í leti og ómennsku yfir heyskapartímann“!
Letin er lastanna móðir (orðatiltæki) Leti var jafnvel talin verri en aðrir lestir á þeim tímum sem vinnuharka var hvað mest.
Letibragur (n, kk) Yfirbragð leti/seinlætis. „Það er ekki letibragurinn á heyskapnum á þeim bæ“!
Letiblóð / Letingi / Letihaugur (n, hk/kk) Dratthali; maður sem ekki nennir að vinna. „Karlinn er bæði stórskrýtinn og ferlegt letiblóð“.
Letibykkja (n, kvk) Mjög löt/seinfær/hæglát skepna/manneskja. „Skelfingar letibykkja er nú þessi kind“!
Letilíf (n, hk) Aðgerðarleysi; dól; værðarháttur. „Ég kunni illa við þetta letilíf þarna fyrir sunnan“.
Letja (s) Draga úr; fá ofanaf. „Ég vil nú ekki letja þig að róa ef þú heldur að sjóveðrið haldist“.
Letja til (orðtak) Draga/telja úr; vera ekki hvetjandi. „Ekki ætla ég að letja þig til fararinnar, en viltu ekki bíða þar til birtir betur“?
Levkoj (n, hk) Nafn á skrautblómi því sem nú er nefnt sumarblóm, en var til skamms tíma nefnt uppá dönsku. Levkoj er af krossblómaætt; oft með stórum hvítleitum blómum; eftirsótt garðablóm með miklum ilmi.
Leyfisbréf (n, hk) Leyfi forseta Íslands sem um tíma þurfti; um að maður og kona megi ganga í hjónaband án þess að lýst sé með þeim í kirkju, líkt og löngum var siður.
Leyfir ekki af (orðtak) Veitir ekki af (sjá þar).
Leyfist mér að spyrja? (orðtak) Stundum látið fylgja ágengri spurningu, eins og til að auka áherslu hennar.
Leyfist kettinum að líta á kónginn (orðatiltæki) Hinn lægra setti/ óverðug telur sér heimilt að horfa á þann sem hærra er settur. Kollsvíkingum hættir þó til að gera meira og lenda stundum í stælum við kóngapakkið ef þurfa þykir.
Leyna (s) Fara leynt með; fela; dylja. „Biður hann menn sína að leyna því að járn hafi verið í hvalnum“ (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).
Leyndardómsfullur (l) Dularfullur; íbygginn; hulinn/sveipaður leynd. „Mér finnst þetta í meira lagi leyndardómsfullt“! „Hversvegna ert þú svona leyndardómsfullur á svipinn“?
Leyni (n, hk) Felur; felustaður. „Í Byrginu lágu skytturnar í leyni og biðu eftir máfahópunum“.
Leynir á sér (orðtak) Er meiri/stærri/dugmeiri en sést í fljótu bragði. „Sléttan er drjúgt stór; hún leynir á sér þar sem hún er kúpt um miðjuna“. „Ég hélt að þetta væri hálfgerður væskill, en hann leynir á sér drengurinn“.
Leynivaður (n, kk) Vaður/taug sem notaður er í bjargsigi; tildráttartaug: A. Vaður sem liggur niður þar sem verið er að láta mann síga; í þeim tilgangi að hann geti dregið sig upp á höndum og þannig létt dráttinn hjá brúnamönnum. B. Vaður sem bundinn er við sigara (eggjakút eða annað) og liggur niður; í þeim tilgangi að maður sem er fyrir neðan geti haft stjórn á sigaranum, t.d. í loftsigi. „Þó að við vissum að okkar menn niðri reyndu að stjórna Bretunum með leynivaðnum, þá máttum við ekki draga þá upp af sama krafti og maður dró vanan mann“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg). C. Taug sem notuð er til að ná aftur til sín vað, t.d. út í bát þegar seil hefur verið dregin til lands.
Leysa (s) A. Losa hnúta. „Hnúturinn var svo súrraður að ég ætlaði aldrei að geta leyst hann“. B. Fría; gera frjálsan. „Skrepptu inn í fjós og leystu kýrnar, ég skal víkja þeim norðurfyrir hliðið“. C. Losa hey í hlöðu/gryfju. „Ég er búinn að gefa kvöldgjöfina og leysa fyrir morgungjöfina“.
Leysa/inna af hendi (orðtök) Framkvæma; vinna; koma í verk. „Allt þetta leysti hann samviskusamlega af hendi“. „Ég innti af hendi tilfallandi störf sem þessu tengdust“.
Leysa af hólmi (orðtak) Koma í saðinn fyrir; taka við af. „Traktorinn leysti ýmis handverkfæri af hólmi“. Vísar til þess að hólmgöngumaður fái annan til að há einvígi í sinn stað.
Leysa brækur/buxur (orðtak) A. Gera þarfir sínar; kúka; bjarga/bregða brókum; hægja sér; létta á sér; flytja lögmann; tefla við páfa o.fl. B. Leysa niður um sig buxurnar. „Leysir hann þá niður brækur sínar og snýr gumpinum fram móti þaim Jóni“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Leysa frá skjóðunni (orðtak) Segja frá; rjúfa þagnarheit. „Löngu seinna leystum við frá skjóðunni um þetta“.
Leysa hey (orðtak) Losa hey úr stabba í hlöðu. Eitt af verkum við gegningar/gjafir er að leysa heyið, en það getur sigið mjög saman í hlöðunni. Venja var að taka aðeins lítið svæði undir í hlöðunni, og leysa þann stabba alveg niður í gólf, í stað þess að leysa ofanaf öllu heyinu. Var mikið lagt uppúr því að stálið (lóðrétti hluti stabbans) væri slétt og lóðrétt; annað var sóðaskapur í umgegni við heyið. Oftast var leyst með berum höndum, en stundum notuð heynál/stingur. Á síðari tímum var farið að stinga með stungureku eða heyskera.
Leysa/taka niðurum sig (orðtak) Losa buxur um mittið og draga þær niður lærin, t.d. til að hátta eða hægja sér.
Leysa sig úr (orðtak) Um sigara í bjargsigi; leysa sig úr vaðnum niðri í bjargi til að geta farið um svæðið.
Leysa upp (orðtak) Almennt um að losa frá;losa í sundur. A. Um bát; létta akkeri; fara úr hákarlalegu. „Kom hann þar að þegar Árni var að leysa upp og lagðist í sama pláss“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi). „Þá var farið að leysa. Var það seinlegt verk og erfitt, jafnvel þótt allir væru á þiljum“ (Um hákarlaskip; GG; Skútuöldin). B. Þýða snjóa/klaka. „Hann þyrfti að halda hlýindunum aðeins lengur, svo að leysi upp klakann af veginum“. C. Leysa upp frímerki; losa þau af pappirnum undir. D. Leysa upp hóp/slagsmál; skilja menn að.
Leysa úr (orðtak) Leysa vandamál; greiða flækju; losa úr bandi.
Leysa úr læðingi (orðtak) Losa/opna fyrir mikinn flaum, kalla fram. Orðtakið vísar til atviks í goðatrúnni; þegar Fenrisúlfur losnaði úr fjötrinum Læðingi, sem æsir lögðu hann í.
Leysa úr viðjum (orðtak) Leysa úr fjötrum/læðingi. Vísar e.t.v. til þess að forum hafi bandingjar/fangar verið fjötraðir með tágum.
Leysa vind (orðtak) Reka við; prumpa; freta. „Engin er það synd þó búkurinn leysi vind“. „Hver var að leysa vind með svona ferlegri fýlu“?
Leysingar / Leysingartíð (n, kvk, fto) Bráðnun snjóa; hláka.
Leysingavatn (n, hk) Bræðsluvatn úr snjóum og klaka í leysingum. „Áin í Vatnadalsbotninum er yfirleitt þurr, en í vorleysingum getur hún orðið illfær af gríðarmiklu leysingavatni sem kemur af þessu mikla vatnasviði“.
Leyti (n, hk) A. Hluti; tillit. „Að sumu leyti voru þeir nokkuð líkir“. B. Óviss tími. „Ég verð kominn um kvöldmatarleytið“.
Lélegur (l) Bágborinn; slitinn; lítilfjörlegur. „Hún hefur verið hálf léleg til heilsunnar uppá síðkastið“.
Lémagna (l) Máttlaus; lamaður; örmagna; uppgefinn; sprunginn; alveg búinn. „Hún sagðist hafa orðið lémagna af hræðslu þegar nautið kom æðandi“. „Hann var lémagna eftir hlaupin“.
Lémagnast (s) Gefast upp; örmagnast. „Ég er hræddur um að gamla rytjan sé alveg að lémagnast í rekstrinum“.
Lén (n, hk) A. Blað í skoskan ljá; lén; ljáblað. B. Hvaðeina sem veitt er að láni. C. Kirkjujörð sem var í eigu biskups en hann veitti presti til ábúðar og umsýslu. Slíkum jörðum fjölgaði á 12.og 13. öld, með eflingu kirkjuvaldsins. Má nefna jarðirnar Breiðabólstað, Odda, Grenjaðarstað og Hítardal. Jarðirnar urðu kóngseign um síðaskipti, en voru eftir 1907, flestar seldar ábúendum.
Léni (n, hk) Blað í skoskan ljá; lén. Líklega hefur verið algengara í Kollsvík að nota „i“í enda.
Léreft (n, hk) Dúkur/klæði/vefnaður úr líni eða hör. Forskeyti orða úr því efni.
Létt er þeim sem laus flakkar (orðatiltæki) Sá er léttur á fæti sem hefur ekki mikinn farangur. Vísar líklega til flökkufólks og förumanna sem fóru á milli bæja en voru eignarlausir og því léttklyfjaðir. Oft viðhaft á síðari tímum um þá sem báru litla eð enga byrði.
Létt í sér (orðtak) Um efni; með litla eðlisþyngd. „Er þetta ekki úr alúmíni? Mér finnst það of létt í sér til að geta verið úr járni“
Létt í vasa (orðtak) Lítilfjörlegt; lítils virði; ekki mikil verðmæti. „Ég þakka þér kærlega fyrir aðstoðina, þó það sé kannski létt í vasa“. „Heldur þykja mér létt i vasa þessi loforð ríkisstjórnarinnar“.
Létt um mál (orðtak) Auðvelt að tala. „Honum varð ekki létt um mál við þessar fréttir“.
Létt undir bú (orðtak) Um aðstæður á bújörð; búskapur auðveldur. T.d. vegna vetrarbeitar eða fjörubeitar.
Létt verk og löðurmannlegt (orðtak) Svo auðvelt í framkvæmd að það er niðurlægjandi. Gjarnan viðhaft um verkefni sem þykir vel viðráðanlegt. „Ertu eitthvað að vandræðast með þessar steinvölur? Það er nú bara létt verk og löðurmannlegt að henda þeim á stallinn“! „Það er bara létt verk og löðurmannlegt að sækja þessar rollur fyrir karlinn, en ég tek það ekki í mál að hann komi með sjálfur“!
Létta (s) A. Taka þyngsli af. „Við þurfum að létta bílinn til að hann fljóti á hjarninu“. B. Um veður; glaðna til; minnka skýjafar/úrkoma. „Nú vildi svo til að þokunni létti í bili, og sást þá til lands“ (ÖG; Þokuróður). „Ég held að hann sé eitthvað að létta“. C. Um skip; hífa upp akkeri/stjóra. „Vertu klár að keyra svo bátnum slái ekki flötum fyrir þegar við léttum“.
Létta á (orðtak) A. Gera léttara. „Við þurfum líklega að létta aðeins á kerrunni ef traktorskvikindið á að hafa hana upp þennan bratta“. B. Mjólka úr júgri/brjósti. „Ég létti aðeins á nýbærunni núna, til að gefa kálfinum; það þarf svo að mjólka hana betur í fyrramálið“.
Létta/minnka á fóðrum (orðtak) Fækka bústofni sem fóðraður er. Einnig notað í líkingamáli t.d. um uppsagnir manna hjá fyrirtæki.
Létta á sér (orðtak) (orðtak) A. Minnka byrði. „Á ég nú ekki að bera vaðinn smá stund og létta á þér upp brekkuna“? B. Kúka; skíta; hægja sér; gera að buxum sínum; flytja lögmann; ganga til sýslu. „Ég held nú bara að ég verði að setjast útyfir borðstokkinn og létta aðeins á mér“. C. Míga; kasta af sér vatni. „Mikið skrambi er gott að létta á sér eftir alla þessa kaffidrykkju“. „Hann gekk fyrir horn til að létta á sér“. D. Um bát; lyftast í sjó. „Ef hægt er að koma upp seglunum léttir báturinn strax á sér þegar hann fær skriðinn“ (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).
Létta í (orðtak) Um dimmviðri/rigningu/él; rofa til; stytta upp. „Skyldi hann ekkert fara að létta í þetta él“?
Létta stjóra (orðtak) Draga upp akkeri/stjóra/dreka. „Það er gefið merki til þeirra á Fönix að koma upp. Þeir eru viðbúnir, því skömmu áður var stjóra létt og teknir tveir eða fleiri hringir á Læginu undir vélarhreyfli“ “ (KJK; Kollsvíkurver). „Þegar veðrið gekk út í vestur léttu þeir stjóra og sigldu og reru í áttina norður fyrir Blakk“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Létta undir með (orðtak) Hjálpa; aðstoða. „Mesta erfiðið lendir á honum, en ég reyni að létta undir með honum eins og ég get“.
Létta upp (orðtak) Létta til; stytta upp; glaðna til. „Ég held að hann létti til um hádegið“.
Létta til (orðtak) Styttir upp; veður lagast. „Ég held að hann sé eitthvað að létta til“. Einnig oft notað stytt: „Hann fer nú líklega að létta bráðum“. „Þegar birtir undan þykkni í norðri, merkir að veður muni þorna. Sama merkir lítill skýjabakki í norðri og austri þegar loft er heiðbjart“ “ (BH; Grasnytjar).
Létta verkum/önnum af (einhverjum) (orðtak) Létta undir með einhverjum; aðstoða einhvern með verk.
Létta vetri (orðtak) Enda vetrartími/vetrarharðindi. „Margir voru orðnir fremur tæpir með hey þegar loksins létti vetri“.
Léttaband (n, hk) Létti.
Léttabátur (n, kk) Bátur sem hafður er á stóru skipi til þett t.d. að fara í land þar sem hafnlaust er, eða á milli skipa. „Líklegt er að Englendingar hafi iðulega siglt upp á Kollsvíkina á skútum sínum fyrr á öldum; komið á land í léttabátum og átt viðskipti við Kollsvíkinga“.
Léttadrengur / Léttapiltur / Léttastúlka (n, kk/kvk) Vikadrengur; snúningastrákur; snúningastúlka; ungur strákur/ unglingsstúlka sem vinnur ýmis verk og snúninga.
Léttavara (n, kvk) Léttur/meðfærilegur hlutur. „Hún er nú engin léttavara, þessi ferðataska“.
Léttaverk / Léttavinna (n, hk/kvk) Létt verk; auðveld vinna. „Það verður ekkert léttaverk að ná þessum gemlingum heim saftur“. „Ég skal glaður hafa verkabýtti við þig ef þú heldur að þetta sé einhver léttavinna“!
Léttbrýndur / Léttbrýnn (l) Glaðlegur á svip. „Hann var mun léttbrýndari þegar hann sá báða hrútana í réttinni“.
Léttbær (l) Ekki þungbær; sem auðvelt er að afbera. „Þessi skaði var engu léttbærari en hinn fyrri“.
Léttfættur (l) Léttur á fæti.
Léttgengur (l) Lipur/léttur á göngu; hraðstígur. Guðmundur var léttgengur og vildi alltaf hafa forystuna... “ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Létthlaðinn (l) Með litla hleðslu/ lítinn farm. „Báturinn lá nokkuð djúpt í sjó þó létthlaðinn væri“.
Létti (n, kk) A. Bardóna; band/ól yfir rúmi til að auðvelda fólki að hagræða sér. „Rúmið hennar stóð undir súð og var létti festur í súðina... svo hún gat sest upp“ (SG; Læknisráð; Þjhd.Þjms). B. Fatli; fetill; festi sem brugðið er yfir axlirnar og fest í byrðar sem bornar eru í höndum; til að létta burðinn. „Eggjakútar voru oft bornir sinn í hvorri hönd og létti hafður yfir axlir“.
Léttilega (ao) Með léttu lagi; á auðveldan hátt; auðveldlega. „Við ættum léttilega að geta klárað þetta í dag“.
Léttir (n, kk) Bætt geð/skap; þegar áhyggjum er aflétt. „... og ég man hve það var mikill léttir að heyra röddina hans pabba“ ( Ólöf Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg).
Léttir hagar (orðtak) Lélegir bithagar fyrir sauðfé; hagalétt. „ Þarna eru yfirleitt léttir hagar, en þó eru góðar lautir inná milli“.
Léttklyfjaður (l) Með létta byrði. „Láttu mig bera spottann; ég er léttklyfjaðri en þú“.
Léttklæddur (l) Ekki í miklu af fötum; fáklæddur. „Ég var bara léttklæddur, og mér kólnaði fljótt“.
Léttlyndi (n, hk) Léttúð; kæruleysi. „Mér finnst það nokkuð léttlyndi að vera ekki farinn að gá neitt að hrútum á þessum tíma hausts“!
Léttlyndur (l) Léttur í lund; glaðlyndur; kærulaus. „Hann var léttlyndur að vanda, og í sólskinsskapi“.
Léttmeti (n, hk) A. Matur sem ekki er þungur í maga; skyndimatur; snarl. „Nú væri gott að fá almennilegan mat; maður er orðinn þreyttur á þessu léttmeti“. B. Lítilsvert málefni; lélegar bókmenntir. „Það er ágætt að lesa svona léttmeti innámilli skólabókanna“.
Léttreyktur / Léttsaltaður (l) Lítið reyktur/saltaður matur. Þannig verkunaraðferðir fóru fyrst að tíðkast eftir að frysting matvæla varð möguleg.
Léttsinnaður (l) Léttúðugur; kærulaus; sinnulaus. „Mér finnst þið nokkuð léttsinnaðir ef þið ætlið að geyma það til morguns að sækja féð sem slapp“.
Léttskýjað (l) Lítið af skýjum á himni; nær heiðskírt. „Veður var með besta móti; léttskýjað og hæglæti“.
Léttstígur (l) Léttur á fæti; góður/frár göngumaður. „Hann var svo léttstígur að ég átti fullt í fangi með að fylgja honum eftir“.
Léttur á bárunni (orðtak) Léttur í lund; léttlyndur; kærulaus. Sjá þungur á bárunni.
Léttur á brún (orðtak) Glaður á svipinn.
Léttur á fæti / Léttur á sér / Léttur í spori (orðtak) Fótfrár; fljótur að hlaupa; þolinn á göngu; léttstígur. „Pabba þótit ekki mikið mál að ganga langar vegalengdir, því hann var annálaður göngugarpur; bæði léttur á fæti og hljóp frekar en gekk. Skemmti hann sér stundum við það að ganga þá af sér sem þyngri voru til göngu“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Léttur á höndum (orðtak) Létt byrði; léttur í meðförum. „Þó báturinn sé stór er hann furðu léttur á höndum“.
Léttur í bandi/drætti/spotta//vað (orðtök) Um sigara; létt fyrir undirsetumenn að draga upp bjargið. „Mjög er misjafnt hvað sigmenn eru þungir á höndum, og fer það sjaldnast eftir þyngd þeirra, heldur lipurð og dugnaði. Engan man ég léttari í spotta en Marinó Kristjánsson frá Efri-Tungu. Hann var nokkuð þéttvaxinn, en afburða lipur og færi í brattlendi. Oftar en einusinni sat ég; þá unglingsstrákur, einn undir vað meðan hann seig í kletta, en aldrei þurfti ég að beita verulegum átökum til að draga hann upp“.
Léttur í lund (orðtak) Geðgóður; hrókur alls fagnaðar. „Svo verkaði pabbi minn vel á fólk. Hann var alltaf léttur í lund, og kom gömlu konunni til að hlæja þó hún væri nú stundum döpur yfir sínu hlutskipti“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Léttur í máli (orðtak) Slær á létta strengi í samræðum; glettinn; skrafhreifur.
Léttur í spori (orðtak) Gengur greitt/hratt; léttur á sér í göngu. „Hann er grannur og léttur í spori“.
Léttúð (n kvk) Kæruleysi; hálfkæringur; sinnuleysi. „Það gengur ekki að taka á þessu máli af neinni léttúð“!
Léttúðlega (l) Af léttúð; kæruleysislega. „Mér finnst þú tala dálítið léttúðlega um svo alvarleg málefni“.
Léttúðugur (l) Kærulaus; sinnulaus; óvarkærinn. „Mér finnst þú of léttúðugur yfir heimaverkunum þínum“.
Léttvægur (l) Með lítið vægi/ lítinn þunga; lítilfjörlegur. „Mér finnst þetta heldur léttvæg rök“.
Lið (n, hk) Gagn; döngun. „Það er nú ósköp lítið lið að mér í smalamennskum; svona fótfúnum“.
Liðaður (l) A. Um hár; hrokkið; með bylgjur/liði. „Fyrir margt löngu var maður með þykkt og liðað hár, þó nú sé það hálfgerð eyðimörk“. B. Með mikinn mannskap/ marga aðstoðarmenn. „Hann sagðist vera heldur illa liðaður (fáliðaður) til að smala þetta upp á sitt eindæmi“.
Liðamótalaus (l) Um manneskju sem er mjög liðug og getur sett líkamann í hinar ólíklegustu stellingar.
Liðfár / Liðlaus / Liðlítill (l) Skortir aðstoðarfólk. „Hann sagðist vera fremur liðlítill í smalamennskunum þetta árið, svo ég lét tilleiðast að aðstoða eftir getu“.
Liðið lík (orðtak) Andvana manneskja. „Mjög dró af honum um nóttina og morguninn eftir var hann liðið lík“.
Liðinn (l) A. Um tíma; farinn; genginn hjá. B. Um samfélagsstöðu manns; þolaður; fær í umgengni. „Hann var almennt vel liðinn af sínum smstarfsmönnum“. C. Dáinn, látinn. „Hugðu allir þær manneskjur liðnar“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). „...það hefur litla þýðingu að fella harða dóma yfir löngu liðnum feðrum okkar“ (EG; Vakandi æska).
Liðka (til) fyrir / Liðka til (orðtak) Greiða fyrir; gera greiðara/aðgengilegra. „Standiði vel utanað fénu; ég ætla að liðka fyrir því í réttardyrunum“.
Liðka um fyrir (orðtak) Aðstoða; hlaupa undir bagga. „Mig grunar að sá gamli hafi aðeins liðkað um fyrir þeim við íbúðarkaupin“.
Liðkast um málbeinið (orðtak) Verða viljugri til að tala; verða kjöftugri/málugri. „Efti fyrsta staupið fór að liðkast um málbeinið á karli“.
Liðlangur (l) Áhersluorð; mjög lengi. „Ég skil ekki í fullfrískum mönnum sem geta leikið sér allan liðlangan daginn þegar nóg er að gera“! „Ég sat yfir kúnni alla liðlanga nóttina; hún bar ekki fyrr en undir morgun“. Einnig guðslangur í sömu merkingu.
Liðlega (ao) A. Rúmlega; meira en; rétt yfir. „Ég var rétt liðlega tvítugur þegar þetta skeði“. B. Greiðlega; með léttu lagi; fimlega. „Féð rann liðlega inn í réttina“.
Liðlegheit (n, hk, fto) Hjálpsemi; greiðvikni. „Hann hefur sýnt ómetanleg liðlegheit í þessum erfiðleikum“.
Liðleskja (n, kvk) Dratthali; sá sem ekkert/lítið gagn er að; ónytjungur; gauð; mannleysa. „Hvatti hún hann því oft til sjósóknar, og var það talinn óþarfi því maðurinn var engin liðleskja (GiG; Frá ystu nesjum).
Liðléttingur (n, kk) Sá sem getu aðstoðað en vinnur ekki fullt verk. „Það er ágætt að haf einhverja liðléttinga með í hópnum; þeir geta verið drjúgir“.
Liðléttur (l) Sem lítið lið/gagn er að; kemur að litlu gagni; veitir litla aðstoð. „Ég er ágætur í fyrirristu og hæklun, en ég er ósköp liðléttur við fláningu“.
Liðónýtur (l) Handónýtur; alveg ónýtur. „Ég var að kaupa þennan penna og hann er alveg geldur; þetta er liðónýtt drasl sem þeir eru að selja nú til dags“.
Liðsauki (n, kk) Viðbót af mannskap; aðstoð. „Okkur barst góður liðsauki þegar hann mætti á staðinn“.
Liðsinna (s) Aðstoða; hjálpa. „Nágrannarnir liðsinntu honum með að ná inn síðustu heyjunum“.
Liðsinni (n, hk) Aðstoð; hjálp. „Þegar þessu öllu er lokið, með liðsinni heimamanna, er kvaðst og þökkuð ágæt samskipti“ (KJK; Kollsvíkurver).
Liðstyrkur (n, kk) Stoð; hjálp. „Ég get komið með ykkur, ef þið teljið að sé einhver liðstyrkur að mér“.
Liðsöfnuður (n, kk) Samkoma; þétting í hóp. „Mér sýnist að þarna sé einhver liðsöfnuður í fjörunni; ætli þeir séu að fara á sjó“?
Liðtækur (l) Sem gagnlegur er til aðstoðar/ við verk. „Hann reyndist vel liðtækur í aðgerðinni“.
Liðugheit (n, hk, fto) Hjálpsemi; greiðvikni. „Þau sýndu okkur ýmis liðugheit, meðan við vorum að koma okkur fyrir á nýja staðnum“.
Liðuglega (ao) A. Rúmlega; umfram; liðlega. „Við fengum liðuglega hálfa tunnu úr þessum strengjum“. Oftar notað „liðlega“. B. Lipurlega; fimlega. „Hann vék sér liðuglega undan þegar steinn hrundi úr brúninni“.
Liðugt um málbeinið (orðtak) Málglaður; talar mikið. „Eftir glasið var honum orðið liðugra um málbeinið“.
Liðugur gangur (orðtak) Hraður/léttur gangur. „Leiðin yfir fjallið er talin tveggja tíma liðugur gangur“.
Liðugur vindur (orðtak) Um siglingu; að sigla liðugan vind er að sigla undan vindi í góðum byr; undanhald.
Liðveisla (n, kvk) Aðstoð; hjálp. „Ekki veit ég hvað mín liðveisla er mikils virði í þessu efni“.
Liðþægur (l) Viljugur/fús að veita aðstoð; bónþægur. „Hann hefur oft reynst mér mjög liðþægur“.
Lifa af (orðtak) Komast lifandi frá hremmingum/áfalli/slysi. „Ekki verður sagt nákvæmlega hvernig slysið bar að höndum, þar sem enginn lifði af til frásagnar“.
Lifa á bónbjörgum (orðtak) Lifa með því að betla/sníkja/ biðja um hjálp. „Í hallærum leitaði margt fólk í verin, sem flosnað hafði upp af búum sínum og lifði á bónbjörgum, í þeirri von að bjargast af sjávarfangi.
Lifa á munnvatninu (og guðs blessun) (orðtak) Vera matarlaus. „Ég gleymdi nestinu í landi, svo við urðum bara að lifa á munnvatninu og guðs blessun þennan róðurinn“.
Lifa á snöpum (orðtak) Lifa á betli; vera sífellt að biðja um aðstoð annarra. „Mér er illa við að lifa á snöpum, svo ég keypti mér þetta tæki sjálfur“.
Lifa eins og blóm/blómi í eggi (orðtak) Lifa mjög góðu lífi; hafa það mjög gott. Í Kollsvík var einatt sagt „blómi“ en víða er einungis sagt „blóm“. Blómi eggs er eggjarauðan, sem vernduð er inni í egginu af skurninni; líkt og unginn sem tryggur er með sína næringu þar til hann skríður úr egginu. Svipað orðtak er til í Danmörku og er það líklega fyrirmyndin.
Lifa í vellystingum (praktuglega) (orðtak) Lifa sældarlífi; berast mikið á; lifa í óhófi.
Lifa í voninni (orðtak) Vonast stöðugt eftir. „Enn lifa bændur í voninni um að áburðarverðið lækki“.
Lifa sig inní (orðtak) Sökkva sér svo niður í hlutverk/viðfangsefni/lesefni/myndefni að manni finnist maður vera á þeim staðnum; vera hugfanginn af.
Lifa spart (orðtak) Lifa ekki um efni fram; lifa ekki í óhófi; fara spart með; sýna búhyggindi.
Lifa um efni fram (orðtak) Láta meira eftir sér í útgjöldum en maður hefur efni á; setja sig á hausinn.
Lifandi kominn (orðtak) Rétt lýst. „Þarna ertu lifandi kominn; þetta hefði engum öðrum dottið í hug“!
Lifandi kvika (orðtak) Vindbára. „sjórinn var farinn að verða ískyggilega sver og lifandi bára farin að leika á bökum hinna sveru sjóa“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Lifandi kvika er mjó og verður þeim mun óðbærari og krappari sem veðrið færist nær. Hennar verður fyrst vart í logni, en því er hún sögð óðbær að stutt er á milli báranna“ (LK; Ísl.sjávarhættir III; heim; ÓETh).
Lifandi maður / Hver einasti/heilvita maður / Sérhver maður (orðtak) Hver maður. Stundum notað sem upphrópun eða til áherslu. „Hvernig á nokkur lifandi maður að skilja þetta bölvað rugl“! „Svonalagað getur ekki gengið; það sér hver heilvita maður“! „Það getur sérhver maður séð þetta í hendi sér“!
Lifandis (ao) Áhersluorð. Upprunni óviss, en vísar til lifandi manna. Notað sem áhersluorð í vissum setningum; fyrir lifandis löngu; ekki nokkur lifandis leið; lifandis ósköp.
Lifandis býsn / ósköp (orðtak) Mikil ósköp; ótrúlegt magn; fæla. „Mikil lifandis býsn eru komin af sandi í Grundagrjótin“. „Þarna á hillunni voru heil lifandis ósköp af eggjum“.
Lifandis skelfing (orðtak) Hræðilega; ógnar; hrikalega. „Mikið lifandis skelfing getur svona tíðarfar verið þreytandi til lengdar“!
Lifandislangt (l) Um tíma; mjög langt. „Það er svo lifandislangt síðan að ég er búinn að gleyma þessu“
Lifibrauð (n, hk) Lífsframfæri; starf; tekjur. „Sumir höfðu sitt helsta lifibrauð af grásleppuveiðunum, þegar best lét“.
Lifna yfir (orðtak) A. Um aflabrögð; byrja að fiskast/veiðast; fiskur farinn að ganga. „Heldur lifnaði yfir þessu þegar kom fram í mánuðinn“. B. Um manneskju; verða glaðari í bragði. C. Almennt um að ástand batni.
Lifnaðarháttur / Lifnaður (n, kk) Lífsháttur; lífsstíll. „Ekki er furða þó heilsan láti undan; eins og lifnaðurinn hefur verið á honum“.
Lifrarhlutur (n, kk) Hlutur af hákarlalifur eftir leguferð. „Nú voru Kollsvíkingar að sækja lifrarhlut sinn út í Breiðavíkurver“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lifrarmikill (l) Um fisk; með stóra lifur. „Fiskurinn er að jafnaði þeim mun lifrarmeiri sem hann er vænni“.
Lifrauður (l) Dökkrauður; rauðbrúnn; líkt og lifur að lit. Orðið heyrist lítið í dag, en var algengt frameftir 20. öld. „Karlarnir voru báðir lifrauðir í framan eftir rifrildið“.
Lifrarpylsa (n, kvk) Réttur sem búinn er til úr innmat sauðfjár; einn fárra innmatarrétta sem enn er búinn til, að mestu í sama formi og fyrr á öldum. Lifrarpylsa er að uppistöðu söxuð/hökkuð lifur; blönduð söxuðum mör; einnig oft blönduð söxuðum nýrum og hjörtum. Þessu er hrært samanvið mjöl (rúgmjöl, hveiti, haframjöl), e.t.v. blandað mjólk og salti, og fært upp í iður, sem áðurfyrr voru vambir en nú oft af öðrum efnum.
Lifur (n, kvk) Lifur var dýrmæt matvara áðurfyrr, bæði úr búfé og fiski, en einnig var lýsi úr fisklifur nýtt sem ljósmeti og áburður. „Hausar og hryggir voru einnig fóðurbætir bænda hér. Lifrin var líka oftast hirt á tunnur og látin renna sjálf. Var henni blandað í hey á veturna“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Liggja á (orðtak) A. Vera að flýta sér; vera á hraðferð. „Liggur þér svona mikið á“? B. Um hreiðurfugl/varphænu; sitja á eggjum til að unga þeim út. C. Láta ekki frá sér; draga mál sem unnt væri að afgreiða. „Hann liggur á vasahnífnum eins og ormur á gulli“. „Nefndin liggur á málinu“. D. Vera ofarlega í huga; hafa áhyggjur af. „Þetta hefur legið dálítið á mér að undanförnu“. Sjá liggja þungt á.
Liggja á bendu (orðtak) Um legu vaðar í klettum; sveigjast um klettanef. „Varaðu þig nú; vaðurinn er farinn að liggja á bendu. Reyndu að sveifla honum fyrir ef þú stendur vel að“.
Liggja á borðinu (orðtak) Vera augljóst; liggja í augum uppi; liggja fyrir; vera borðleggjandi. „Það liggur alveg á borðinu að hann mun aldrei ganga að þessum skilyrðum“.
Liggja á (einhverju) eins og ormur á gulli (orðtak) Láta alls ekki frá sér; varðveita mjög vel; vilja ekki lána. „Ég veit að hann á mjög gott tæki í þetta, en hann liggur á því eins og ormur á gulli“.
Liggja á glámbekk (orðtak) Vera í hirðuleysi/án eftirlits; liggja eins og hráviði. „Ég fann þessi gleraugu liggjandi á glámbekk úti í verkfærahúsi“.
Liggja/standa á glæ (orðtak) Um færi/fiskilínu/netastreng; liggja um of skáhallt útfrá bátnum vegna mikils reks, en ekki bratt niðurávið; glæja. Slíkt þykir ekki veiðilegt; einkum á skakveiðum. „Þetta liggur allt á glæ hjá okkur“.
Liggja á greni (orðtak) Bíða við greni eftir að ná tófum og yrðlingum þeirra. „Það getur tekið á þolinmæðina að liggja á greni, og nauðsynlegt að vera vel útbúinn“. Sjá grenlega.
Liggja á grúfu (orðtak) Liggja með andlitið niður; liggja á hvolfi.
Liggja á gægjum (orðtak) Gægjast; kíkja; horfa á í laumi. „Er burtu gekk ég þaðan þá sagði mér hann Sveinn;/ það sögðu líka menn á næstu bæjum:/ Í Hærri-Tungu væru þeir, heldur tveir en einn./ Að hugsa sér, og annar lá á gægjum! “ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Liggja (einhverjum) á hálsi (orðtak) Ásaka; álasa; bera sakir uppá. „Mér var legið það á hálsi að sitja of lengi á fjallskilaseðlinum“. „Honum verður seint legið það á hálsi að vera félagsskítur“. Vísar líklega til þess að ok var lagt á háls dráttardýra. Maður vill ekki liggja eins og ok á hálsi einhvers.
Liggja (eitthvað) á hjarta (orðtak) Þurfa að segja; vera að hugsa um. „Ég skildi þetta betur þegar hann hafði sagt mér það sem honum lá á hjarta“.
Liggja á hleri (orðtak) Hlera (sjá þar).
Liggja á lausu (orðtak) Vera til reiðu/tiltækt; standa til boða. „Eftir svona sumar liggur gott hey ekki á lausu“.
Liggja (ekki) á liði sínu (orðtak) Draga ekki af sér við hjálpsemina; veita rösklega/mikla aðstoð. „Sá stutti lá ekki á liði sínu við innreksturinn“.
Liggja á listum (orðtak) Um bát; vera hlaðinn/siglt þannig að sjór nemi uppundir skvettlista á borðstokki.
Liggja á meltunni orðtak) Liggja fyrir; hafa hægt um sig; hvílast eftir máltíð. „Það dugir víst ekki að liggja lengi á meltunni“.
Liggja á milli hluta (orðtak) Um málefni; vera kyrrt/óhreyft; vera ekki til umræðu. „Við skulum láta það liggja á milli hluta hver á sök á þessu“.
Liggja á móti (orðtak) Um stöðu vinds/straums miðað við stefnu báts. „Það tekur í að draga netin þegar þau eru kjaftfull af skít og liggur mikið á móti“.
Liggja á nösum (orðtak) Um hleðslu báts; vera mjög framhlaðinn. „Hlaðið ekki svona miklu í fremsta rúmið. Báturinn má ekki liggja mikið á nösunum í þessari ylgju“. Andstæðan er „sitja á rassgatinu“ eða „gana“.
Liggja á ská/snið (orðtak) Vera/liggja skáhallt. „Vegurinn liggur á snið upp brekkuna“.
Liggja á sóttarsæng / Liggja á sjúkrabeði / Liggja í rúminu / Liggja í pest / Liggja veikur (orðtak) Vera rúmliggjandi vegna veikinda eða slyss. „Hann liggur bara í pest og kemst ekki með okkur“.
Liggja á því lúalagi (orðtak) Hafa þann ósið; leggjast svo lágt. „Hann liggur á því lúalagi að láta sig hverfa þegar mest þarf á honum að halda“. Orðið lúalag er líklega háttalag hins þreytta, sem ekki er alltaf eins samviskusamur í vinnu sinni og aðrir. Er ekki notað í málinu að öðru leyti.
Liggja á skakk/snið (orðtök) Um legu vaðar í klettum. „Treystu varlega á endann; hann liggur mjög á skakk“!
Liggja á sæng (orðtak) Vera veikur; nálgast barneign.
Liggja á taði (s) Um sauðfé; vera í húsum þar sem ekki eru grindur í gólfum.
Liggja bakk (orðtak) Liggja óvígur/ósjálfbjarga. Oftast notað um hjálparleysi vegna slyss, veikinda eða offylli. „Hann fékk heiftarlega lungnabólgu og lá bakk í marga daga“. „Það þýðir ekki troða svo í sig að maður liggi bakk á eftir“!
Liggja beint við (orðtak) Vera augljóst; vera eðlilegt næsta skref/aðgerð; beint á að ganga. „Fyrst við vorum komnir svona langt niður klettana fannst okkur liggja beint við að fara alla leið niður í hlíðina“.
Liggja eins og lús við saum / með saumi (orðtak) A. Vera fastheldinn á; þráast við; liggja á eins og ormur á gulli. B. Í síðari tíma notað um bíl sem liggur vel á vegi; er góður í akstri.
Liggja eins og mara á (orðtak) Hvíla/liggja mjög þungt á, þrúga. „Mikið er gott að þetta er afstaðið; það hefur legið eins og mara á mér í langan tíma“. Mara var í þjóðtrúnni óvættur sem álitið var að ásækti fólk í svefni; leggðist ofaná fólk svo það ætti erfitt með andardrátt og/eða ylli martröðum. Líklega er þar komin alþýðuskýring á því sem nú er nefnt kæfisvefn.
Liggja eins og ormur á gulli (orðtak) Vilja ekki láta af hendi; vera sárt um. „Hann liggur á þessu eins og ormur á gulli“. Vísar til þjóðsögukvikindis. Ormar dafna ágætlega séu þeir lagðir á gull, og enda þá jafnvel sem eldspúandi drekar.
Liggja eins og slytti (orðtak) Liggja hreyfingarlítill. „Það dugir víst lítið að liggja eins og slytti inni í bæ í svona heyskaparveðri“.
Liggja ekki á liði sínu (orðtak) Vera viljugur að hjálpa; veita liðsinni. „Öllum lentist vel úr þessum róðri, en eins og endranær lá þar enginn á liði sínu að rétta öðrum hjálparhendur“. (KJK; Kollsvíkurver). Lið merkir þarna hjálp eða liðsauki.
Liggja framá lappir sínar (orðtak) Um dýr; liggja á kviðnum með hausinn ofaná framfótunum. „Þegar ég hafði gengið stuttan spöl á ég hvar tófan lá framá lappir sínar og var að leika sér að mús“ (Grein í Lilju, blaði Umf. Smára; jan 1938).
Liggja fyrir (orðtak) A. Vera ljóst; vera á hreinu. „Þetta mál liggur ljóst fyrir í mínum huga“. B. Liggja í hvíld. „Ég ætla að liggja fyrir smástund og sjá hvort verkurinn líður ekki hjá“. C. Liggja í leyni; veita fyrirsát. „Í þessum litlu tófuhúsum lágu menn fyrir tófunni næturlangt; oft í hörkufrosti“. D. Standa til; vera framundan í vinnu/verkum. „Það þarf að forgangsraða verkunum þegar svona mikið liggur fyrir“.
Liggja fyrir dauðanum (orðtak) Vera við dauðans dyr/ að dauða kominn; liggja banaleguna; liggja á banabeði.
Liggja fyrir (einhverjum) (orðtak) A. Vera framundan hjá einhverjum. „Það átti ekki fyrir honum að liggja að verða bóndi á ættaróðalinu“. B. Veitast auðvelt að læra. „Stærðfræðinámið lá vel fyrir honum“.
Liggja fyrir hunda og manna fótum (orðtak) Liggja á glámbekk; vera í hirðuleysi. „Gakktu betur frá hrífunni drengur; það dugir ekki að láta hana liggja hérna, fyrir hunda og manna fótum“!
Liggja fyrir klofa (orðtak) Um skip; liggja við legufæri sem bundið er í strengjabita. „Stjórafærinu var brugðið um strengjabitann er lagst var fyrir í hákarlalegum og var það kallað að liggja fyrir klofa“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Liggja fyrir tófu (orðtak) Bíða í tófuhúsi eftir að tófa gefi færi, svo unnt sé að skjóta hana. Algengt var að legið væri fyrir tófu á fyrri helmingi 20. aldar, eins og sjá má á fjölda tófuhúsa, t.d. í Kollsvík og grennd. „Magnús langafi minn var skytta, og til er saga af honum þar sem hann lá fyrir tófu og að honum sótti fjörulalli. Hann hlammaði á kvikindið og komst nokkuð lerkaður og móður undan honum“ (MH; Mbl 04.01.2017).
Liggja hátt/lágt rómur (orðtak) Vera hávær/lágvær í tali. „Honum lá vanalega hátt rómur, einkum þegar honum var mikið niðrifyrir, og kvað þá fast að orði“. „Sagt er að Kollsvikingum liggi stundum hátt rómur“.
Liggja inni (orðtak) Um sauðfé og annan búpening; vera á húsum; vera ekki á beit. „Það er held ég ástæðulaust að láta féð liggja inni lengur; það hefur dregið mikið úr veðrinu“.
Liggja illa/vel á (orðtök) Um viðmót/hugarástand; vera þungt/létt í sinni; vera dapur/glaður. „Það lá fremur illa á honum, enda hafði tíðin ekki verið góð“. „Það er naumast að það liggur vel á karlinum í dag“!
Liggja í (orðtak) A. Um aurbleytu sem mönnum, dýrum og bílum er hætt við að sökkva í og festast: „Hér þarf að sýna aðgæslu; það gæti legið í þarna í lautinni“. B. Um saltfisk; útvatnast. „Hann þarf að liggja í í tvo til þrjá daga til að vera hæfilegur“. C. Um stefnu æða í viði/tré. „áður en þú ferð að vinna fjölina þarftu að huga að því hvernig liggur í henni“. D. Vera háttað; vera raunin. „Svona liggur þá í þessum málum“. E. Nöldra/suða um; ganga eftir. „Ég nenni ekki að liggja lengur í honum með þetta“.
Liggja í augum uppi (orðtak) Vera augljóst/borðleggjandi; blasa við. „Mér finnst það liggja í augum uppi að svona heur þetta gerst, og ekki öðruvísi“.
Liggja í bleyti (orðtak) Liggja í vatni. T.d. er skítugur þvottur stundum lagður í bleyti til að losa um óhreinindi.
Liggja í blóði sínu (orðtak) Liggja slasaður og blæðandi.
Liggja í bæjaflakki/bæjaflandri (orðtak) Eyða miklum tíma í heimsóknir á aðra bæi. „Það vinnst lítið í heyskapnum ef maður þarf að liggja í eilífu bæjaflakki alla daga“!
Liggja í hlutarins eðli (orðtak) Vera eðlilegt í ljósi aðstæðna; vera sjálfsagt. „Sagði Þórður að það lægi í hlutarins eðli að hlutverk félagsheimilisins sem samkomustaðar væri nú minna sem slíkt, þar sem það væri nú leigt sem kennslustaður“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Liggja í landi (orðtak) A. Niðrandi orðalag um að fara ekki á sjó / að nýta ekki sjóveður. „Eigum við virkilega að liggja í landi í þessu dýrindis sjóveðri þegar vaðandi fiskur er á öllum miðum“? B. Vera landlægt/algengt. „Það hefur þótt liggja í landi á þeim bæ að bera ekki út fyrr en gras fer að skríða“. „Það lá í landi á báðum bæjunum að stunda smíðar af ýmsu tagi“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Liggja í láginni (orðtak) Liggja niðri/kyrrt; fara dult. Lág er laut, sbr Láganúpur. Fé dylst oft ef það liggur í láginni, og sama var með hóp vígamanna áður fyrr.
Liggja í leyni (orðtak) Veita fyrirsát; dyljast og fylgjast með. „Í tófuhúsinu lá skyttan í leyni og beið lágfótu“.
Liggja í leti (og ómennsku) (orðtak) Ástunda leti; nenna ekki að fara/gera það sem þörf er á. „Ætli maður verði ekki að drífa þetta af. Það gengur lítið að liggja í leti og ómennsku inni í bæ alla daga“!
Liggja í loftinu (orðtak) Vera augljóst/greinilegt/ til staðar þó ekki sé opinberað/sagt/sýnt. „Mér fannst það liggja í loftinu að menn vildu fá nýjan formann í hans stað“.
Liggja í málinu (orðtak) Þannig í pottinn búið; mál með þeim hætti. „Þegar ég sá hvernig í málinu lá þótti mér ástæðulaust að fetta fingur út í þetta.
Liggja í salti (orðtak) Í líkingamáli um málefni; vera óhreyft; vera í geymslu; liggja á milli hluta.
Liggja í sorg og sút (orðtak) Vera mjög niðurdreginn/beygður um tíma. „Það þýðir lítið að liggja lengi í sorg og sút yfir þessari lúðu, hún kemur víst ekki aftur með því“!
Liggja í túninu (orðtak) Um kindur; sækja mjög stíft og ítrekað í tún. „Það þarf að fara reka lengra frá þetta pakk sem liggur alltaf í túnunum“!
Liggja í þagnargildi / Liggja í þagnarrúmi (orðtak) Láta órætt/óumtalað. „Of lengi hafa þessi mál legið í þagnargildi“. „Ég held að þetta leiðindamál megi í þagnarrúmi liggja; allavegana frá minni hendi“. Þagnargildi er ígildi þagnar. Þagnarrúm er líklega ímyndað rúm í báti þar sem ekkert er talað.
Liggja í ætt (orðtak) Um eiginleika/sjúkdóm/fötlun sem erfist. „Þar virðist listfengið liggja í ættinni“.
Liggja lágt í sjó (orðtak) Um bát/skip; hafa lítið fríborð; vera þungt/hlaðið. „Báturinn hlýtur að vera klettþungur; mér finnst hann liggja svo lágt í sjónum“.
Liggja létt á tungu (orðtak) Eiga auðvelt með að segja/ tala um. „Árans danskan hefur aldrei legið mér létt á tungu; enda geta þessi kokhrygla, óhljóð og hálfyrði varla talist mannlegt tungumál“!
Liggja lífið á (orðtak) Liggja mjög mikið á; vera á mikilli hraðferð. „Liggur þér svona lífið á; að þú megir ekki vera að því að fá þér kaffisopa“?
Liggja með (orðtak) Um stöðu vinds/straums; liggja í siglingastefnu. „Ef straumur liggur með verðum við fljótir suður að Töngum“.
Liggja með þoku (orðtak) Um veðurlag; þoka liggur á tilteknum afmörkuðum stað. „Hann liggur enn með þoku uppundir Blakkinn“. „Hann liggur með þoku fram alla Breiðavík“.
Liggja milli hluta (orðtak) Liggja í þagnargildi; vera ekki að ræða það; taka ekki mark á því; þykja ekki til um það. „Það ganga hér ýmsar tröllasögur af þessum manni. Ég læt það nú allt liggja milli hluta“.
Liggja niðri (orðtak) A. Um annesjaröst; vera straumlaus/ekki úfin. „Gömlu mennirnir sem stunduðu fiskveiðar á árabátum sínum beggjavegna Rastarinnar sögðu að hún lægi niðri, sem þeir svo kölluðu, einstaka sinnum“ (MG; Látrabjarg). B. Um brim/brot á grynningum; vera lygnt um stund. „Árni virtist ætla mjög nærri boðanum, sem lá niðri augnablik “ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). C. Um veður/vind; vera hægur; dúra. „Hann liggur niðri eins og er, en ég gæti best trúað að hann hvessti úr hinni áttinni innan stundar“.
Liggja nærri (orðtak) A. Liggja við; vera nærri því að ske. „Það lá nærri ég hætti við ferðina þegar ég sá spána, en svo rættist vel úr veðrinu“. B. Um það bil. „Þessi tala gæti látið nærri hinu rétta“.
Liggja illa/vel orð til (einhvers) (orðtak) Tala jafnan illa/vel um einhvern; einhver er illa/vel liðinn af viðkomandi. „Mönnum liggur almennt vel orð til hans“. „Af einhverjum ástæðum lá henni einatt illa orð til hans“.
Liggja óbættur hjá garði (orðtak) Vera enn óbættur/ógreiddur; hafa ekki fengið viðeigandi sinningu/athygli/viðurkenningu. „Ekki er unnt að láta hina sérstæðu málmenningu Kollsvíkinga liggja óbætta hjá garði um alla eilífð“. Kann að eiga uppruna í því að ekki var hefnt fyrir víg manns, en þó óvíst.
Liggja /hátt/lágt) rómur (orðtök) Vera raddmikill/lágróma; tala hátt/lágt. „Honum hætti til að liggja hátt rómur þegar honum var mikið niðrifyrir“.
Liggja til drifs (orðtak) Um bát/skip; láta reka fyrir vindi. „Það var einhverju sinni í ofsaroki að skúta lá til drigs og var stormkýfir einn uppi“ (GG; Skútuöldin). „Ekki höfðum við lengi legið til drifs er skipið fór að leka all mikið“ (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).
Liggja undir (orðtak) Heyra til; vera undir yfirráðum. „Kirkjan í Kollsvík lá undir Saurbæjarkirkju á síðari öldum kaþólskrar tíðar. Ekki er þó útilokað að hin fyrrnefnda sé eldri“.
Liggja undir áföllum/ágjöfum (orðtök) Um bát; fá á sig mikla ágjöf; fá sjó yfir og inní bátinn. „Virðist svo sem báturinn hafi ekki skriðið nóg, því að brátt lá hann undir stórágjöfum“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Liggja undir skemmdum (orðtak) Vera í hættu með að skemmast. „... miklar lagfæringar gerðar við flugvöllinn, sem lá undir skemmdum frá sjó“ (ÞJ; Árb.Barð 1973).
Liggja uppi á (orðtak) Vera baggi á; dvelja í óþökk. „Ætli maður fari ekki á morgun; ég er búinn að liggja alltof lengi uppi á ykkur“.
Liggja uppíloft (orðtak) Liggja flatur með framhliðina upp. „Þú mátt aldrei láta hrífuna liggja svona uppíloft drengur; það er alveg ávísun á rigningu og óþurrk“!
Liggja úr sér (orðtak) Láta sér batna veiki/vesöld/pest/þreytu með því að liggja fyrir. „Einhver bölvuð lumbra er nú í mér; ég ætla að sjá hvort ég næ ekki að liggja þetta úr mér“.
Liggja úti (orðtak) A. Vera í útilegu. B. Liggja fyrir tófu að næturlagi. Meðan verð á tófuskinnum var sem hæst, framanaf 20.öld, lögðu menn ýmislegt á sig í þeim efnum. Sagnir lifa enn um menn sem eltu sömu tófuna um hálfan hreppinn. Í landi Láganúps og Kollsvíkur er mikill fjöldi tófuhúsa sem ber vitni um elju manna við að liggja úti/ liggja fyrir tófu. C. Til forna var það oft þrautalending brotamanna að liggja úti til að sleppa við refsingar; gerast útilegumenn.
Liggja vel á (orðtak) Vera í góðu skapi; vera glaður/kátur. „Það liggur auðvitað vel á öllum í svona veðurblíðu“.
Liggja vel á vegi (orðtak) Um ökutæki; vera góður í akstri. Síðari tíma tilbúningur.
Liggja vel við höggi (orðtak) Gefa höggstað / gott færi á sér; sýna óvarkárni.
Liggja við (orðtak) A. Leggjast í útilegu meðan unnið er að verkefni; stunda róðra í veri. „Vegavinnumenn lágu flestir við í tjöldum þegar fyrstu vegirnir voru ruddir í Rauðasandshreppi“. B. Stappa nærri; standa tæpt. „Það liggur við að þetta komist allt á einn heyvagn“. „Báturinn reis að aftan og hallaðist mikið í bak, svo við lá að hann tæki sjó um bátsrúmið “ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). Mun upphaflega hafa verið „liggja við sjálft“, en síðasta orðið fallið aftanaf. C. Eiga undir; vera í hættu. „Ég fer stundum og aðstoða þá í heyskapnum þegar mikið liggur við“. D. ( Stjórnar þolmynd) „Mér liggur við að halda að þetta hafi skeð fyrir aldamótin, fremur en eftir þau“.
Liggja við bauju/ból (orðtak) Um bát; vera festur fljótandi við bauju/ból/belg. „Við skulum leggja bátnum hér við djúpbólið meðan við fáum okkur nesti. Það er stutt í næsta streng“.
Liggja við borð / Liggja við sjálft (orðtak) Liggja við; stappa/vera nærri; jaðra við. „Ári er hann tregur hérna; það liggur við borð að maður keyri töluvert dýpra, fyrst veðurútlitið er svona gott“. „Það liggur við sjálft að maður nenni ekki að standa í þessu lengur“! Sjá liggur við borð.
Liggja við opið (orðtak) Um sauðfé; hafa frjálsan aðgang að fjárhúsi til skjóls, án þess að vera lokað inni. „Ég læt bara liggja við opið þegar komið er svona framá“.
Liggja við stafinn (orðtak) Um dyr; lokaðar en þó ekki harðlokaðar með læsingu, slagbrandi, spotta, hespu eða snara. „Ég hafði gleymt að hespa hurðina á karminum; hún lá bara við stafinn“.
Liggja yfir (orðtak) A. Bíða á veiðislóð þar til mál er að draga inn lóð. „Svo var legið yfir eftir að búið var að hleypa niður seinni drekanum, en drekar voru á báðum endum lóðanna. ... Legið var legið yfir fram yfir liggjandann, en það er skammur tími um fallaskiptin“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). B. Sökkva sér niður í viðfangsefni/lesefni. „Ekki gengur það að liggja yfir blaðalestri þegar heyskapurinn bíður“. C. Um veður; vera í lofti; ganga yfireftir. „Það þornar lítið af meðan þetta þokuþykkni liggur yfir öllu“. „Norðanstrengurinn liggur yfir víkina frá Blakknum, og skefur sandmóstunni uppyfir Láganúpstúnin“. D. Ganga/vera yfir. „Vegurinn út í Kollsvík liggur yfir Hænuvíkurháls“.
Liggja þar til (orðtak) Vera af þeirri ástæðu; ástæða þess er sú. „Grundir voru í raun tvöföld hjáleiga, og lá þar til að þær töldust hjáleiga Láganúps, en Láganúpur með sínum jörðum var eign Saurbæjar“.
Liggja þungt á (orðtak) Valda miklum áhyggjum; vera andleg byrði. „Þessi deila hefur legið þungt á mér“.
Liggja þungt í (orðtak) Um veiði á færi/ mann í bjargvað; veita mikið viðnám í drætti. „Fljótlega fór lóðin að þyngjast, því skatan lá þungt í“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Liggjandi (n, kk) Fallaskipti. „Suðurfallið var að deyja út og í hönd fór besti tíminn til fiskjar; liggjandinn, enda lét sá guli það á sér finna“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Var þá meðstraumur út með hlíðunum, liggjandi á Sandflóa og út með Bjarginu og norðurfallsupptaka er kom út að Töngum“ (PJ; Barðstrendingabók). „Niður af Bekk er Vínholubali og hjá honum uppspretta sem heitir Vínhola. Um liggjandann á þrettándakvöld breyttist innihald hennar í vín“ (Ók.höf; Örn.skrá Króks á Rauðasandi). „Formenn miðuðu róðrartíma við það að vera komnir til miða um liggjandann; þ.e. straumaskipti norður- og suðurfalls. Út af víkunum eru þau um 1 til 1 ½ klukkutíma eftir háflæði og háfjöru. Það er besti tími, og fiskur oft vel viljugur“ ... „Þar erum við um niðursláttinn á norðurfalli; liggjandann og upptöku á suðurfalli“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Liggur eins og hráviði (orðtak) Liggur dreift/ í óreiðu á víðavangi. „Tíniði nú saman leikföngin ykkar krakkar. Þetta liggur eins og hráviði hér um öll gólf“!
Liggur eins og lús með saum (orðatiltæki) Notað fyrrum um bát sem fer mjög vel í sjó; eltir báruna án þess að stiga sér í hana eða stökkva á henni. Líkingin er við lús sem leynist í fatnaði með því að læðast meðfram saumum. Síðar var líkingin notuð um bíla sem voru mjög þýðir á ósléttum vegi.
Liggur ekki lífið á (orðtak) Er ekki svo áríðandi að líf liggi við; hastar ekki mjög mikið. „Það liggur ekki svo lífið á að klára þetta í dag; ég held það liði ekki yfir það til morguns“.
Liggur fiskur undir steini (orðtak) Um dulinn tilgang/ dulda merkingu/ yfirvarp. „Hann sagðist vera með einhverja pest. Míg grunar að þarna liggi fiskur undir steini; að hann ætli að sleppa við kirkjuferðina“. Sjá þar lá fiskur undir steini!
Liggur fyrir hunda og manna fótum (orðtak) Liggur óvarið; er fyrir öllum. „Það þýðir ekki að skilja eggin eftir í hrúgu úti á túni; liggjandi fyrir hunda og manna fótum“!
Liggur í augum uppi (orðtak) Er augljóst; þarfnast ekki skýringa. „Það liggur í augum uppi að sérstæð menning jaðarbyggða mun glatast endanlega, verði ekkert gert til að halda henni til haga þegar byggðirnar leggjast í eyði“.
Liggur í hlutarins eðli (orðtak) Er eðlilegt; segir sig sjálft. „Það lá í hlutarins eðli að hann tæki við búinu, sem einkaerfingi þeirra“.
Liggur niðri (orðtak) Um straumröst; er slétt. „Gömlu mennirnir sem stunduðu fiskveiðar á árabátum sínum beggja vegna Rastarinnar sögðu að hún lægi niðri, sem þeir svo kölluðu, einstaka sinnum“ (MG; Látrabjarg).
Liggur nærri / liggur við (orðtök) Er nálægt; jaðrar við; stappar nærri. „Það liggur nærri að rúmið sé fullt“. „Það liggur við að ég sé búinn að alheimta“.
Liggur orð á (orðtak) Er kunnugt; er um rætt. „Það liggur orð á því að þessi bruni hafi verið af mannavöldum“. „Það orð lá á karlinum að hann kynni ýmislegt fyrir sér“.
Liggur i málinu/málunum / Liggur í því ; Um málefni; víkja við; sé staðreyndin. „Ég ætla að spyrja hann hvernig í málinu liggur“. „Þannig liggur þá í því“. „Ég geri enga athugasemd, fyrst svona liggur í málinu“.
Liggur mér við að halda/segja (orðtak) Er mér nær/næst að halda/segja; ég held/segi án þess að fullyrða. „Mér liggur næst að halda að þeir hafi róið norður á Flóa“. „Ekki skal ég fullyrða það, en þetta liggur mér næst að halda“.
Liggur/stendur undir bát/kjöl (orðtak) Um veiðarfæri; liggur frá borði og undir borð/kjöl bátsins vegna þess hvernig báturinn liggur við reki af völdum straums og vindstöðu. „Við hefðum frekar átt að fara í grunnendann á strengnum. Það er komið bullandi norðurfall, svo netið liggur allt undir kjöl“.
Liggur vel á (orðtak) Um mann; er glaður í sinni; í góðu skapi. „Mikið liggur vel á manni í svona veðri“!
Liggur við (orðtak) Stappar nærri; er nálægt; við liggur. „Það liggur við að ég hætti við þetta alltsaman“!
Liggur við að halda (orðtak) Held næstum því; er nærri því á þeirri skoðun. „Mér liggur við að halda að þarna sé útigengin kind í hópnum“.
Liggur við borð (orðtak) Liggur nærri; er nálægt; hér um bil; stappar nærri; jaðrar við. „Það liggur við borð að maður nennni ekki að draga hinn strenginn, fyrst svona lítið var í þennan“. Orðið vísar til þess að fiskur sé kominn uppundir borð á báti; einungis sé eftir að innbyrða hann. Sjá við borð liggur.
Lilla / Lilli (n, kvk/kk) Gæluheiti á börnum eða mjög smávöxnum manneskjum. „Ætlar þú að líta eftir lilla í smástund“? Gæluorð barna festast stundum við persónur framá fullorðinsár í munni hinna nánustu, og þannig var ein gæðakona frá Láganúpi nefnd Lilla af sumum sínum skyldmennum, alla sína ævi.
Lima í sundur (orðtak) Skipta í parta; skipta ketskrokki í föll/stykki. „Við lyftum nautsskrokknum upp með gálganum til að hægara væri að lima hann í sundur“. Sjá sundurlima.
Limaburður (n, kk) Hreyfingar/stellingar útlima; sá háttur sem menn hreyfa hendur og/eða fætur. „Mesta furða er hvað maðurinn er lipur í klettum; eins og hann virkar nú luralegur í limaburði“.
Limalangur (l) Handleggjalangur og háfættur. „Svona limalangur strákur gæti verið ágætur smali“.
Limlesta (s) Slasa mjög mikið; valda örkumlum. „Svona steinvala er kannski ekki þung, en hún nægir alveg til að limlesta mann ef hún kemur úr mikilli hæð“.
Limlestur (l) Stórslasaður; örkumla. „Það munaði engu að ég lægi limlestur eftir; bara tilviljun að steinninn lenti utaní nibbu ofanvið mig áður en hann kastaðist framhjá mér og niður í sjó“.
Limpa (n, kvk) Slappleiki; veiklun; lumbra. „Einhver limpa er í Dimmu núna. Skyldi hún vera að fá doða“?
Limpulegur (l) Slappur; veiklulegur; með hita. „Ósköp ertu eitthvað fölur og limpulegur. Þú ættir að mæla í þér hitann“.
Limra (n, kvk) Ljóðform með sérstökum einkennum. Það á uppruna á Bretlandseyjum á 19. öld; kennt við Limerick á Írlandi, en var fyrst kynnt verulega hérlendis af Þorsteini Valdimarssyni skáldi, sem gaf út samnefnda bók árið 1965. Þorsteinn heimsótti Sigríði og Össur á Láganúpi nokkru síðar og gaf þeim bókina áritaða. Hver limra er 5 braglínur. Í fyrstu línu eru stuðlar og í annarri höfuðstafur samsvarandi þeim. Þriðja og fjórða eiga sama stuðul hvor og sama endarím. Fimmta braglína er tvístuðluð og rímar í enda við fyrstu og aðra braglínu. Limrur eru oft notaðar fyrir gaman- eða kerskniskveðskap.
Limur (n, kk) A. Útlimur, s.s. hönd eða fótur. „Eftir höfðinu dansa limirnir“. B. Stytting á getnaðarlimur. C. Stytting á meðlimur; félagi. D. Óþokki; þrjótur; stytting á tukthúslimur. „Misstu þeir féð framhjá sér árans limirnir; hvar í ósköpunum höfðu þeir augun“?! E. Hluti af flakandi spröku sem skorin hefur verið til skipta.
Lin/stirð eru vettlingatökin (orðatiltæki) Vísar til þess að maður nær aldrei jafn góðri stjórn á hlutum er maður er í vettlingum. Viðhaft bæði í bókstaflegri merkingu og í líkingum, þegar verk þykir farast illa úr hendi.
Lina (s) Minnka; var notað jöfnum höndum um vindstyrk , sjávarföll/straumstyrk og hitastig. „Nú held ég að hann sé að lina þennan norðangarð“. „Hann hefur nú eitthvað linað gaddinn frá því í gær“. „Það var ekkert hægt að aðhafast (úti á miðunum) fyrr en fór að lina í strauminn. ... Það var beitt í landi og línan lögð undan straumi og legið yfir henni þangað til farið var að lina í fallinu“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Byrjað var að leggja norður eftir og byrjað að draga þegar fór að lina straum“ (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).
Linbakað (l) Um brauð/köku; ekki nægjanlega mikið/vel bakað. „Eitthvað er kakan linbökuð innaní“.
Lindalóð (n, kvk) Lóð þar sem lóðaþinurinn er spunninn úr togi. „... og þegar kaupmenn létu til lengdar vanta fiskilínur í verslanir sínar eða siglingar tepptust vegna styrjalda... létu vestfirskir bændur spinna lóðaþini úr togi, og voru slíkar lóðir nefndar lindalóðir“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).
Lindarpenni (n, kk) Penni sem algengur var til skrifta á tímabili, eftir daga pennastangar og áður en kúlupennar fóru að tíðkast; og eru að einhverju leiti í notkun enn. Lindarpenni er annaðhvort með skiptanlegu blekhylki eða blek er dregið upp í hann úr blekbyttu.
Lindarvatn (n, hk) Uppsprettuvatn; vatn sem kemur úr lind/uppsprettu en ekki af yfirborði.
Linfínn (l) Ekki vel til fara; lítur ekki glæsilega út. „Heldur fannst mér hann vera linfínn í tauinu. Það er auðséð að hann er í sjálfsmennsku meðan frúin liggur á sæng“. Sjá fínn í tauinu.
Lingeðja (l) Huglaus; ekki kjarkmikill/áræðinn. „Það dugir ekki að hafa svona lingeðja mann í forystu“.
Lingerður (l) Ekki harðgerður; lingeðja; lítill bógur. „Hann er alltof lingerður til að standa í þessum deilum“.
Lingreiddur (l) Með hárið illa greitt/ í flóka. „Ansi sýnist mér þú vera lingreiddur stubburinn minn; svo mættirðu lika þvo mestu móskuna úr andlitinu áður en þú ferð í kirkju“.
Linhertur (l) Ekki vel hertur. „Heldur er steinbíturinn linhertur enn“. „Eitthvað hefur boltinn verið linhertur, fyrst þetta losnaði“.
Linhreinn (l) Ekki vel hreinn; fremur óhreinn. „Nú þykir mér þú frekar linhreinn í framan stubburinn litli“.
Linja / Linka (n, kvk) Slappleiki; máttleysi. „Það er einhver linka í mér í dag, ég held ég verði bara heima“.
Linjulegur (l) Slappur; linkulegur; ekki hress. „Ég er óttalega linjulegur ennþá eftir pestina“.
Linjall (n, kk) Reglustrika; réttskeið. „Við skulum bera linjalinn á þetta og fá rétta línu“.
Linka (orðtak) Linmennska; slappleiki; slenja. „Það hefur verið einhver bölvuð linka í mér í dag“.
Linkind (n, kvk) Mildileiki; nærgætni; linka. „Það á ekki að sýna þeim neina linkind sem haga sér svona“!
Linkuháttur (n, kk) Linmennska; dugleysi. „Það dugir enginn linkuháttur í viðskiptum við þessar þjóðir“.
Linkulega (ao) Af linku. „Mér þótti hann taka heldur linkulega á þessum málum“.
Linkulegur (l) Slappur; máttlaus. „Maður er dálítið linkulegur meðan pestin er að ganga yfir“.
Linlega (ao) Tæplega; illa; treglega. „Tunnan er linlega full“. „Hann tók fremur linlega í þetta“.
Linna ekki látum (orðtak) Gefast ekki upp; gera ekki endasleppt. „Hún bauð okkur í bæinn og linnti ekki látum fyrr en við höfðum lofað að stoppa framyfir kvöldmatinn“.
Linmennska (n, kvk) Linkuháttur; dugleysi. „Skelfileg linmennska er það að liggja í landi í svona veðri“.
Linmæli (n, hk) Linur framburður á máli. „Vestfirðingar fyrri tíma verða seint sakaðir um linmæli“.
Linmæltur (l) Talar með linmæli; notar ógreinilegar áherslur og/eða linan framburð samhljóða. „Hann er svo linmæltur og óskýr í tali að ég næ stundum ekki öllu sem hann segir“.
Linna ekki látum (orðtak) Láta ekki af beiðnum/kröfum/aðgerðum. „Hún var nokkuð ágeng með þetta og linnti ekkil átum fyrr en ég féllst á að vera fjórði maður í spilinu“.
Linnulaus / Linnulítið (l) Sem ekki endar; eilífur. „Það er enn linnulaus stórhríð“. „Það hefur rignt linnulítið í þrjá daga“.
Linnulaust (l) Án afláts; án enda. „Ég man ekki hve marga daga stormurinn blés linnulaust, en loks þegar slota tók var farið að hyggja að farmi og bátum“ (KJK; Kollsvíkurver).
Linnumót / Linunarmót (n, hk) Um veðurlag; merki um að fari að draga úr (hvassviðri, frosti, úrkomu, byl, sjógangi o.fl.); vísbending um að sé að lagast/linast. „Það er lítið linunarmót á þessu bálviðri ennþá“. Ég sé ekkert linunarmót á þessari úrhellisrigningu“. „Ég sé bara ekkert linnumót á þessum rosa í bráðina“! „Það er bara ekki að sjá neitt linunarmót á þessum eilífa strambafjanda“! „Það er lítið linunarmót á þessu bálviðri ennþá“. „Það er ekkert linunarmót að sjá á þessari eilífu rigningartíð“!
Linsalta (s) Léttsalta; salta lítið. Oftar var talað um að léttsalta í Kollsvík.
Linsaltaður (l) Léttsaltaður; lítið saltaður. „Það dugir að linsalta fiskinn ef þú ætlar að frysta hann“.
Linsjóða (s) Um egg; sjóða þannig að aðeins stífni hvítan en ekki rauðan. „Ég ætla að biðja þig að linsjóða eggin fyrir mig. Þau fara betur í mig linsoðin en harðsoðin“.
Linsoðinn (l) Lítið soðinn; um egg; soðin þannig að rauðan sé enn lin. „Mér finnst eggin best linsoðin“.
Lintroðinn (l) Illa troðinn. A. Um hey: „Mér finnst frekar lintroðið í hornunum á gryfjunni strákar. Ég er hræddur um að það verkist ekki nægilega vel“. B. Um ullarsekk: „Þessi sekkur er alltof lintroðinn. Það verður að troða þetta mikið betur“.
Linun (n, kvk) Minnkun; draga úr. A. Um sjávarfall: Það er engin linun í norðurfallinu“. B. Um veðráttu: „Engin linun varð á frosthörkum yfir páskana“. B. Um heilsu: „Er einhver linun á höfuðverknum“?
Linur (l) A. Deigur; mjúkur. „Nú er smjörið hæfilega lint í deigið“. B. Um styrk/heilsu/framgöngu manns; slappur; aumur; vesæll. „Ég er eitthvað skratti linur ennþá eftir pestina“. C. Um framburð máls; ekki harður. D. Um straum/tíðarfar; hægur; rólegur; mildur. „Eitthvað er hann orðinn linari í tíðinni“.
Linur þurrkur (orðtak) Daufur þurrkur; ekki góður þurrkur. „Heldur finnst mér nú linur þurrkurinn“.
Linþurr (l) Illa þurr. „Það þýðir ekki að hirða heyið svona linþurrt; það bara hitnar í því í hlöðu“.
Linþveginn (l) Illa þveginn. „Heldur þykir mér þú vera linþveginn um hendurnar strákur; farðu nú og þvoðu þér betur fyrir matinn“.
Lipur (l) A. Liðugur; léttur í snúningum; fær í bjargi. „Hann er ári lipur, drengurinn“. B. Hjálpsamur. „Alltaf er hann lipur að sendast fyrir gömlu konuna“. C. Fær í klettum.
Lipurð (n, kvk) A. Greiðvikni; hjálpsemi. „Mikið þakk ég þína lipurð“. B. Fimi; léttleiki. „Ég hef sjaldan séð svona lipurð í klettum“.
Lipurlega (ao) Af lipurð; hnyttilega; léttilega. „Þetta þykir mér nokkuð lipurlega kveðið“.
Lipurmenni (n, hk) Sá sem er hjálpsamur. „Hann var lipurmenni sem kom sér vel við alla“.
Listafallegur (l) Mjög fallegur; aðdáunarverður. „Þetta er listafalleg smíði“.
Listagóður (l) A. Um mann; mjög góður/fær. „Hann er listagóður flatningsmaður“. B. Um mat; mjög bragðgóður. „Þetta er listagóður hákarl“!
Listagripur / Listasmíð (n, kvk) Mjög góður/fallegur smíðisgripur. „Menn voru á einu máli um að báturinn væri listasmíð“.
Listamaður (n, kk) Kollsvík hefur alið fjölmarga listamenn, þó margt fyrri tíðar fólk sé fallið í gleymskunnar dá. Af síðari tíma fólki má t.d. nefna Samúel Eggertsson, kennara, kortateiknara og listaksrifara sem bjó um tíma á Grund (Samúelsmel; Júllamel); Sigríði Guðbjartsdóttur listakonu sem t.d. hefur ein Íslendinga málað á grjóthellur og Guðbjart Össurarson ljóðskáld, son hennar“.
Listaskrifari (n, kk) Sá sem skrifar mjög vel; sá sem hefur góða rithönd; sá sem skrifar skrautskrift. „Össur á Láganúpi var orðlagður listaskrifari, og skrifaði mjög áferðarfallega rithönd. Skrift Sigríðar konu hans var einnig mjög skýr, en einnig var hún eftirsótt til hverskonar skrautskriftar“.
Listasmiður (n, kk) Mjög góður smiður; listfengur smiður. „Ólafur í Neðribænum var listasmiður á tré... “ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Listavel (l) Mjög/einstaklega vel. „Svo listavel var túnbletturinn sleginn að skárarnir minntu á skrautmynstur“.
Listilega (ao) Mjög vel; á snjallan/listrænan hátt. „Hann sveiflaði fullum slóðanum svo listilega uppí bátinn að hvorki snerti fiskur né pilkur borðstokkinn“.
Litast um (orðtak) Horfa/skoða í kringum sig; leita. „Ég ætla að skreppa fram í Vatnadal og litast um eftir þessum hrútum“.
Litamerkt (l) A. Hvaðeina sem merkt er með litum til aðgreininar. B. Um fé; krítað; merkt með krítarlit. Oftast var þetta gert í réttum á haustin, t.d. þegar líflömb voru valin eða þegar um ómerking var að ræða. Krítaður var blettur, oftast á ennið en stundum á snoppu eða á horn, með sérstakri fjárkrít, sem oftast var rauð en gat verið í öðrum litum. Áðurfyrr tíðkaðist stundum að setja blett af vatnsmálningu.
Litaraft / Litarfar / Litarhaft / Litbragð (n, hk) Litur; litblær. Einkum notað um litbragð í andliti manneskju. „Hann hafði áberandi dökkt litaraft“. „Hún (huldufólksstúlkan) er illa búin fötum; andlitið langt, þó nokkuð stórt, en litarfar mórautt og roðalaust“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).
Litbrigði (n, hk, fto) Skipting frá einum lit til annars; fjölbreyttir litir. „Mikið eru sérkennileg litbrigði í sólarlaginu núna“.
Litkast (s) Verða litaður; taka lit. „Tún eru rétt að byrja að litkast“.
Litlaus (l) A. Án litar; með daufum lit. B. Um frásögn/sögu/manneskju; ekki spennandi/athyglisverð. „Mér þótti þetta afskaplega litlaus samsetningur“.
Litlakasína (n, kvk) Spaðatvistur í spilinu kasínu.
Litlikall / Litlikútur (n, kk) Gæluheiti á smástrák.
Litlir katlar/pottar hafa líka eyru (orðtak) Líkingamál; áminning um að börn hlusta eftir því sem fullorðnir tala og geta munað það og endurtekið þegar síst skyldi.
Litlu betur settur / Litlu bættari (orðtak) Ekki í mikið betri stöðu. í lítið betri stöðu. „Ég er litlu bættari þó ég hafi hundinn; hann gagnast ekki mikið í svona smalamennskum“.
Litlu/engu/öngvu bættari (orðtak) Í lítið betri stöðu; bætir litið úr. „Bændur eru litlu bættari með sífelld loforð, þegar efndirnar fylgja aldrei á eftir“!
Litlu fyrr (orðtak) Nokkru fyrr; dálitlu áður. „Bakkar fara í eyði litlu fyrr en Grundir“ (HÖ; Fjaran).
Litlu munaði sagði músin er hún mé í sjóinn (orðatiltæki) Viðhaft þegar viðleitni skilar ekki sýnilegum árangri; það sé líkt og viðleitni músar til að hækka í heimshöfunum með því að míga í þau.
Litlu nær (orðtak) Skil lítið betur; hef ekki fengið nægar útskýringar. „Hann var að reyna að útskýra fyrir mér hvernig þetta er reiknað út, en ég verð að játa að ég var litlu nær á eftir“.
Litlu verður vöggur feginn (orðatiltæki) Ekki þarf mikið til að gleðja lítið barn; lítilþæg eru börnin. „Þegar sjónvarp náðist fyrst á Láganúpi, fyrir harðfylgi og snilld Óla á Nesi, var það ekki sérlega beysið: Svarthvít myndin var varla greinanleg fyrir „snjókomu“ og iðulega brenglsðist sendingin alveg vegna truflana norkrar stöðvar. En þetta þótti nokkuð framfaraskref, ekki síst fyrir ungviðið, og sannaði máltækið að litlu verður vöggur feginn“.
Litlustangir (n, kvk) Litlar gírstangir á flestum gerðum jeppa áðurfyrr. Önnur var til að skipta milli háa og lága drifsins og hin til að tengja eða aftengja framdrifið. „Nú þarftu að setja í litlustangirnar sýnist mér; þetta er að verða árans þæfingur“.
Litlustangaakstur / Litlustangaferð (n, kk/kvk) Akstur í þæfingsófærð, í lágdrifi og framdrifi. „Skyldi þetta verða litlustangaakstur alla leiðina“?! „Þetta var bara litlustangaferð inn allar Fjörurnar“.
Litlustangafærð (n, kvk) Erfið færð til aksturs; þörf á að aka í lága drifi og framdrifi. „Það var litlustangafærð yfir alla Aurtjörnina“.
Litmót (n, hk) Svipmót; vottur. „Mér sýnist lítið litmót á því að hann ætli að fara að drífa í þessu“.
Litunargrös / Litunarjurtir Ymsar jurtir voru nýttar til litunar á ullarvöru og vefnaði áðurfyrr. Einkum voru það fjallagrös og litunarjafni sem gáfu gulan lit, en hann fékkst einnig úr sóleyjum, muru og gulmöðru. Sortulyng gaf svartan lit, en hann fékkst einnig úr sorta. Grænt fékkst úr brenninetlu, ein einnig úr keitu ef hitað var í eirkatli, og úr geitaskóf. Blátt fékkst fyrrum úr storkablágresi en síðar úr blásteini. Rautt fékkst með því að láta efnið liggja í keitu, en einnig úr steinamosa. Fjöldi annarra jurta var nýttur til litunar.
Litunarjafni (n, kk) Diphasiastrum alpinum. Lágvaxin jurt af jafnaætt, með langa jarðlæga stöngla, marggreinda. Finnst víða í bollum og snjódældum, t.d. ofan láglendis í Kollsvík og nágrenni. Litunarjafni hefur verið notaður til litunar vefnaðar og ullar frá landnámstíð, eins og fornar heimildir greina.
Litunarmosi (n, kk) Svört flétta sem vex víða, og var notuð til litunar fyrrum.
Litur á jörð/túnum (orðtak) Jörð byrjar að grænka á vorin. „Það er kominn litur sumstaðar á jörð“.
Litverpur (l) Sem skipt hefur um lit; rauður í andliti. „Karlinn var orðinn litverpur í framan af vonsku“.
Líða (s) A. Um tíma; fara hjá; ganga yfir. „Við skulum láta daginn líða áður en við förum að hafa áhyggjur af honum“. B. Svífa áfram/yfir; berast. „Þokan líður þarna uppmeð hlíðinni“. C. Hafa það; vera; ganga. „Hvernig líður þér í fætinum í dag“? D. Þola; umbera. „Ég get með öngvu móti liðið neinum svona ferlegan yfirgang“!
Líða á (orðtak) Verða áliðið; ganga framá (um tíma). „Það fer nú að líða á daginn; ég held að við ættum að fara að hafa uppi og koma okkur í land bráðum“. „Veðrið versnaði eftir því sem á nóttina leið“.
Líða fram (tímar) (orðtak) Tími líður; áfram heldur. „Mér er illa við að svo líði fram tímar að ekkert gerist í þessu máli“.
Líða frá (orðtak) Um slæma líðan/ verk; minnka; hverfa. ´“g ætla að leggja mig aðeins og vita hvort takið líður ekki frá“.
Líða fyrir (orðtak) Þjást vegna; vera bagaður af. „… en ljúfmenni var Jón og góður í sér og fyrir það mun hann hafa liðið alla ævi“ (JVJ; Nokkrir æviþættir).
Líða fyrir hugskotssjónum (orðtak) Ímynda sér atburðarás; hugsa sér eitthvað gerast. „Mér líður það enn fyrir hugskotssjónum hvernig hann brást við“. Sjá standa fyrir hugskotssjónum.
Líða hálfilla / Líða hálfasnalega (orðtök) Vera ekki vel hress. „Mér hefur liðið hálfasnalega í dag. Það mætti segja mér að ég sé að smitast af þessari pest“.
Líða hjá (orðtak) Ganga um garð; hverfa. „Við skulum leyfa þessari skúr að líða hjá áður en við förum út“.
Líða hungur/nauð/skort (orðtak) Skorta; hafa ónógan mat/viðurgjörning. „Líklegt er að þeir sem sjóinn gátu stundað hafi aldrei þurft að líða skort; jafnvel ekki í mestu hallærum landsins“.
Líða í brjóst (orðtak) Sofna; dotta. „Ég lagði mig aðeins og svei mér þá ef mér hefur ekki eitthvað liðið í brjóst“. Sjá brjóst; láta sér líða í brjóst.
Líða skár (orðtak) Líða betur. „Mér líður ögn skár eftir að ég lagðist fyrir“.
Líða um (orðtak) Umbera; ekki ganga eftir (láni, skuld). „Heldurðu að þú getir liðið mig um þessar krónur fram í næstu viku“?
Líða undir lok (orðtak) Koma að endalokum; hætta; hverfa. „Útgerð úr Kollsvíkurveri leið undir lok þegar kom framá 20. öldina og vélar fóru að tíðkast í bátum“.
Líða uppaf (orðtak) Sálast; andast; gefa upp öndina. „Ég vona bara að það verði liðið uppaf mér áður en menn ráðast í svona heimskuverk“!
Líða úr minni (orðtak) Gleymast. „Þessi atburður líður mér seint úr minni“.
Líða útaf (orðtak) Sofna; falla í yfirlið. „Ég er svo þreyttur og syfjaður að ég er alveg að líða útaf“.
Líða yfir (orðtak) Hníga í ómegin; falla í yfirlið.
Líða önn fyrir (orðtak) Líða illa; taka út. „Honum gengur sjálfum ágætlega í náminu, en hann líður önn fyrir bróður sinn sem er óttalega hyskinn“. Orðtakið virðist óskiljanlegt í dag, en það skýrist þegar uppruninn er skoðaður. Í upphafi var það „þola/líða önd fyrir“. Önd merkir andardráttur, og „þola önd“ merkir að mæðast eða missa öndun vegna einhvers.
Líðan (n, kvk) Heilsa; tilfinning. „Hvernig er líðanin hjá þér núna“?
Líðandi (l) A. Þolandi; umberanlegt. „Það ætti ekki að vera nokkrum manni líðandi að aka utanvega“. B. Með mildum halla. C. Það sem er að líða. „Það dugir ekki að lifa bara fyrir líðandi stund“!
Líðast (s) Þolast; vera umborið. „Svona ruddaskapur á alls ekki að líðast“!
Líðilegt (l) Lítilmótlegt; lágkúrulegt; fyrirlitlegt. „Ósköp finnst mér líðilegt þegar menn gera svonalagað“?
Líðun (n, kvk) Umburðarlyndi; gjaldfrestur; bið. „Hann veitti mér líðun með greiðsluna framyfir sláturtíð“.
Líður ekki á löngu (orðtak) Líður ekki langur tími. „Ekki leið á löngu áður en fór að hellirigna“.
Líður ekki yfir (orðtak) Skeður ekkert slæmt þó bíði; liggur ekki á; hastar ekki. „Það líður ekki yfir þessa tuggu þó við komum henni ekki í hlöðu fyrr en á morgun“.
Líður og bíður (orðtak) Dvelst/bíður um langa stund. „Það leið og beið frá því fyrstu kindurnar komu á Hjallabrúnina þangað til smalarnir birtust með reksturinn“.
Líf í tuskunum (orðtak) Fjör; stuð; skemmtun. „Það var líf í tuskunum í Breiðavíkurrétt fyrrum“.
Líf liggur á/við (orðtak) Mjög áríðandi; lífinu er að skipta. „Það liggur ekki svo lífið á að klára þetta í dag; það má bíða til morguns“. „Ég gæti ekki munað þetta þó lífið lægi við“.
Lífakkeri (n, hk) A. Bókstafleg merking; traust akkeri á skipi. Til venjulegra nota voru notuð minni og meðfærilegri akkeri. B. Afleidd merking; kjölfesta;líftaug; það sem treyst er á.
Lífbein (n, hk) Bein sem á mönnum gengur framúr mjaðmarbeininu; framfyrir gallblöðruna, neðarlega á kvið.
Lífbelti (n, hk) A. Flotbelti; belti sem um tíma var notað sem öryggisbúnaður sjómanna. Gert úr korkum og jók flotmagn, en hefur nú vikið fyrir björgunarvestum og flotbúningum. B. Svæði í náttúrunni, þar sem ríkir sérstakt og fjölbreytt lífkerfi. C. Staður í himingeimnum þar sem líf getur hugsanlega þróast og þrifist vegna fjarlægðar frá sólstjörnu.
Líferni (n, hk) Líf; lífsstíll. „Hann lifir ekki beint heilsusamlegu líferni“.
Lífga uppá (orðtak) Glæða meira lífi; auka fjör/gleði/skemmtun. „Hann lífgaði alltaf uppá mannamótin“.
Lífga við (orðtak) Koma lífi í veikburða manneskju/skepnu. „Henni tókst að lífga lambkvikindið við með því að hafa það við ofninn; hnoða með handklæði og koma í það mjólkurdropa“.
Lífgimbur (n, kvk) Gimbrarlamb sem ætlað er til ásetnings (lífs). „„Ég skal lofa þér fallegustu lífgimbrinni minni í haust hafir þú rétt fyrir þér; og ég skal meira að segja leggja til skotið“! (PG; Veðmálið).
Lífgjafi (n, kk) Sá sem bjargar; sá sem veitir betra/lengra líf.
Lífgjöf (n, kvk) Björgun frá lífsháska. „Kindur höfðu sloppið inn í kofann við sjóinn. Einn gemlingur hafði fest hornin í neti sem hékk þar niðurúr sperru. Hann var hornbrotinn og orðinn veikburða, og vart hugað líf. Mér var heitið því að ég mætti eiga hann ef hann lifði. Það gerði hann, og var nefndur Lífgjöf. Þessa kind átti ég lengi. Hún var fremur smávaxin, en gerði einstaklega góð lömb; iðulega tvílembd. Svo var einnig um dóttur hennar Skrautu, og dótturdóttur Eyglu, sem Egill bróðir átti. Kom útaf þessu fé mikill fjárstofn, frjósamur, vel byggður og mikið um flekkótt“.
Lífgun (n, kvk) Aðgerð til að lífga.
Lífhrútur (n, kk) Hrútlamb til ásetnings (lífs) „Skrambi er þessi fallegur. Þetta verður líklega lífhrútur“.
Lífhræddur (l) Hræddur um lóf sitt; sótthræddur. „Karlinn var svo lífhræddur að hann þorði ekki að aka sjálfur í borgarumferðinni“.
Lífið gengur sinn vanagang (orðatiltæki) Speki sem oft er viðhöfð þegar eitthver frávik verða sem einhverjum finnst óskapleg og valda straumhvörfum; einnig þegar lýst er viðburðalitlu daglegu lífi.
Lífkálfur (n, kk) Kálfur sem ætlunin er að láta lifa, a.m.k. yfir vetur.
Líflamb (n, hk) Lamb sem ætlað er til ásetnings (lífs). „Við drögum líflömbin í þennan dilk og hleypum þeim út þegar síðasti sláturbíllinn er farinn“.
Líflaus / Líflítill / Lífvana (l) Ekki með lífsmarki; varla með lífsmarki. „Annað lambið var komið á spena en hitt var nær líflaust, en þó skrimtandi“.
Líflegur (l) Fjörlegur; skemmtilegur. „Af þessu spunnust oft líflegar umræður“.
Líflending (n, kvk) Lendingarstaður þar sem lenda mátti í nánast öllu sjólagi. „Brunnar eru norðanmegin í Brunnanúp...lending er þar allgóð, einkum í svonefndum Mjóavogi. Þar er talin því nær líflending“ (PJ; Barðstrendingabók).
Líflína (n, kvk) Öryggislína, t.d. fyrir mann sem veður útí sjó til að bjarga öðrum.
Lífoddi (n, kk) Haftið neðan á haus fisks; milli tálknopanna. Skorið er á lífoddann þegar fiskur er blóðgaður, og rist afturúr honum þegar fiskur er kúttaður til kviðflatningar. Lífoddinn var stundum nýttur sem ljósabeita. „Tekið er undir kjálkabarðið eða yfir það með vinstri hendinni, en með þeirri hægri er skorið á lífoddann og blæoðæðar í hálsinum; einkum á tálknaslagæðina“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Lífróður (n, kk) Röskur róður í yfirvofandi hættu. „... og svo var lagt af stað og róinn lífróður“ (FÓT; Smiður í fjórum löndum)
Lífs (ao) Lifandi; heill á húfi. „Vissi enginn á þeim tíma hvort hann var lífs eða liðinn“.
Lífsafkoma (n, kvk) Það sem þarf að lifa af; lífsskilyrði. „Þótt lífsafkoma Kollsvíkinga byggðist að miklu leyti á því að vel aflaðist á vorvertíðum, var þó búskapur stundaður á öllum bæjum“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Lífsandi (n, kk) Andardráttur. „Sveitaloftið við sjó er heilnæmast, öllu því sem lífsandann dregur“.
Lífsbarátta / Lífsbjörg (n, kvk) Það sem þarf til að lifa af; einkum átt við mataröflun. „Lífsbaráttan í Útvíkum snerist fyrst og fremst um það að afla matar; hafa í sig og á“. „Það hafði verið hefð svo langt aftur sem menn vissu að ekki þætti á það hættandi að fara í bjargið til lífsbjargar sér nema að þurrt væri um“.
Lífsbjörg (n, kvk) Það sem bjargar lífi. „Víst er að í harðindum fyrri alda hefur það orðið mörgum lífsbjörg að geta leitað í verin. Þó ekki væri á vísan að róa þá voru þar tíðum meiri líkur á matföngum en annarsstaðar“.
Lífseigur (l) Frekur til fjörsins; erfitt að drepa. „Állinn er líklega lífseigasta hryggdýrið sem finnst hérlendis“.
Lífsförunautur (n, kk) Maki. „Menn leituðu ekki alltaf langt eftir sínum lífsförunaut“.
Lífsgæfa / Lífshamingja / Lífslán (n, kvk/hk) Hamingja/velgengni sem manni hlotnast í lífinu. „Lífshamingjan er oft svipul“.
Lífsháski / Lífshætta (n, kk) Bráð hætta. „Sennilega er björgun Kolls og félaga eftir strandið á Arnarboða fyrsta skráða lýsingin á björgun manna úr lífsháska eftir skipbrot við Ísland“. „Það verður varla annað sagt en að þeir allir voru í mikilli lífshættu“ (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).
Lífshættir (n, kk, fto) Siðir og venjur fólks við líf og störf; aðferðir til að komast af. „Lífshættir Kollsvíkinga hafa að sjálfsögðu tekið breytingum í tímans rás, en grunnstefið var þó alltaf hið sama og mótaðist af náttúru og auðlindum staðarins. Undirstaða lífsafkomu var landgæði og fiskisæld, auk dugnaðar íbúanna“.
Lífshættuför (n, kvk) Stórhættulegt ferðalag; háskaför. „... en hvorttveggja var að það hefði verið lífshættuför, og auk þess fullyrti bátsmaðurinn að enginn væri eftir á lífi„ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Lífshættulegt (l) Mjög hættulegt. „Það er lífshættulegt að koma nálægt bjarginu í svona rigningu“.
Lífsins möguleiki (orðtak) aukin áhersla á orðið möguleiki. „Er ekki nokkur lífsins möguleiki að ég fái að hlusta á fréttirnar fyrir hávaðanum í ykkur strákar“?!
Lífsins ómögulegt (orðtak) Alveg útilokað/ómögulegt; get alls ekki. „Mér er lífsins ómögulegt að muna nafnið á honum“.
Lífskjör (n, hk, fto) Langvarandi gott sjóveður. „Þá var það í þetta sinn að við rerum allir eins og vant var í lífskjörum“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). Ekki finnast dæmi um þessa merkingu orðsins í orðabókum. Síðari tíma merking orðsins (aðstæður til afkomu) var ekki viðhöfð í Kollsvík fyrr en í seinni tíð.
Lífsmark (n, hk) Merki um líf. „Það var varla nokkuð lífsmark með kálfinum í byrjun, en eftir dálítið nudd fór hann að brölta“.
Lífsmáti (n, kk) Lífsháttur; lag við að komast af. „Hætt er við að erfitt yrði fyrir nútímafólk að temja sér lífsmáta fyrri tíðar fólks“.
Lífsnauðsyn (n, kvk) Forsenda þess að komast af; frumskilyrði. „Það er nú engin lífsnauðsyn að kaupa þetta“.
Lífsnauðsynlega (ao) Mjög nauðsynlega. „Ég þarf ekkert lífsnauðsynlega að fara þetta í dag; það má alveg eins bíða til morguns“.
Lífsnauðsynlegt (l) Mjög brýnt/nauðsynlegt. „Hann taldi það ekki svo lífsnauðsynlegt að skvampa í baði alla daga; jafnvel gæti það verið bölvuð óhollusta“.
Lífsneisti (n, kk) Vottur af lífi; lífsmark; kjarni lífs. „Hann sagðist ætla að halda sig við sinn flokk svo lengi sem nokkur lífsneisti væri í sínum æðum“.
Lífsómögulegt (l) Algerlega ómögulegt; útilokað. „Er þér alveg lífsómögulegt að hætta þessum ósið“?!
Lífsreglur (n, kvk, fto) Siðir; venjur; reglur sem lifað er eftir. „Þetta eru ófrávíkjanlegar lífsreglur í mínum huga“.
Lífsreynsla (n, kvk) A. Reynsla sem safnast upp á lífsleiðinni. B. Skelfilegt/hættulegt/óvenjulegt atvik. „Maður er varla enn búinn að jafna sig eftir þessa lífsreynslu“.
Lífsskilyrði / Lífsspursmál (n, hk) Skilyrði til að geta lifað /haft það bærilegt. „Það er algert lífsskilyrði að muna eftir nestinu og tóbakinu“. „Það er nú ekkert lífsspursmál að klára þetta endilega í dag“.
Lífstíð (n, kvk) Ævi; allt lífið. „Ég held að ég sé kominn með saltfisk uppá lífstíð; allavega er ég vel birgur framá næsta sumar“.
Lífsvart / Lífsvottur (l) Vart við líf í sjó; viljugur fiskur. „Við keyrðum hér suður um allt, en hvergi varð lífsvart“. „Fjárakornið að hér er nokkur lífsvottur“!
Lífsviðurværi (n, hk) Það sem haft er sér til matar/lífsbjargar. „Bændur í Útvíkum höfðu ekki síður sjósókn sér til lífsviðurværis en búskapinn“.
Lífsvon (n, kvk) Von um að lifa/ geta lifað. „Mennirnir ná í árina; það er komið á samband milli báts og lands. Lífsvonin tendrast á ný“ (KJK; Kollsvíkurver). „Hestarnir voru taldir hafa verið 3, og fundust 2 dauðir en einn var hjarandi; þó svo aðframkominn að honum var engin lífsvon“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Lífsþróttur (n, kk) Kraftur í líkama; fjör. „Á Strákamelnum fengu hinir yngri í hópi vermanna nokkra útrás fyrir lífsþrótt sinn og kapp“.
Líft (ao) Unnt að lifa/vera; vært. „Hættu nú þessum fúlu viðrekstrum; það er varla líft hér í húsum lengur“!
Líftóra (n, kvk) Líf; lífsandi. „Ég sé ekki að nokkur líftóra sé í þessum lambvesalingi lengur“. Sjá tóra.
Lífæð (n, kvk) Bjargráð; það sem verður til bjargar/lífs. „Sjórinn fyrir Látrabjargi og Víkunum var lífæð sveitarinnar“ (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).
Lík (n, hk) A. Líkami látins manns. T.d. liðið lík. B. Innri hlið fiskflaks. C. Jaðar segls á bát, eða ölluheldur borði sem saumaður er á hann til styrktar.
Lík börn leika best (orðatiltæki) Samlyndi er oft gott þegar jafnræði er með aðilum, og sömu áhugamál. Notað jafnt um börn sem fullorðna.
Líkamlega (ao) Að því er líkamann snertir. „Það er ekki nóg að vera líkamlega sterkur við svona aðstæður, ef menn eru ekki nógu kjarkaðir“.
Líkamskraftar (n, kk, fto) Líkamlegt afl; vöðvaafl. „Þetta voru einfaldlega verk sem þurftu að vinnast, og menn voru því vanari en nú er orðið, að þurfa að beita líkamskröftum sínum við vinnu“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Líkamslýti (n, hk, fto) Vansköpun eða önnur afbökun líkamans. „Þrátt fyrir sín líkamslýti stóð hann öðrum ekkert á sporði í dugnaði“.
Líkast til / Líkastil (orðtak/ao) A. Líklegast; að öllum líkindum. „Líkastil væri enn blómleg byggð í Kollsvík ef ekki væri fyrir vafasama stefnu og afskipti stjórnvalda“. „Mér skaut fljótt upp aftur, en þarna var alveg óstætt vatn; líkast til svona 10-15 faðma dýpi“ (Júl. Reynir Ívarsson; Maður og kindur í ísvök; Lesb.Tímans). B. Í upphrópun; ákveðið andsvar: „Það er nú líkast til“!
Líkfylgd (n, kvk) Hópur fólks sem fylgir ættingja/vini til grafar.
Líkindalega (ao) Kemur til greina/mála. „Hann lét nokkuð líkindalega yfir því að af þessu gæti orðið“.
Líkindi (n, hk, fto) Líkur; möguleikar. „Það eru engin líkindi til að veðrið verði neitt betra á morgun“.
Líkingamál (n, hk) Nokkuð var um notkun líkingamáls í Kollsvík. Þorskurinn var t.d. oft nefndur „sá guli“ og steinbíturinn stundum „sá blái“; hey var „tugga“ eða „strá“; að fara í róður var „að fara fram“; tær voru „bífur“; diskur var „platur“; hár var „strý“; kindur voru „skjátur“; úlpa var „bura“, o.s.frv.
Líkir mega líkt kál súpa / Líkum hæfir líkt kál (orðatiltæki) Þeir sem búa við sömu kjör borða gjarnan fæðu af sama tagi/ sömu gæðum.
Líkja eftir (orðtak) Herma eftir; apa: gera eins/svipað. „Það er ekki fallegt að vera að líkja eftir fólki“!
Líkja við (orðtak) Bera saman við; jafna til við. „Þetta er ágætur afli, þó ég líki hinum ekki við uppgripin í síðustu viku“.
Líklega (ao) Sennilega; að öllum líkindum. „Hvíslar þá ekki freistarinn í eyra honum að líklega eigi Gummi bróðir eitthvað ætilegt í skrínu sinni“ (PG; Veðmálið).
Líklegur (l) Trúlegur; sennilegur. „Hann er ekki líklegur til að muna eftir þessu“. „Mér finnst ekki líklegt að hann stytti upp fyrr en á morgun“. „Líklegt tel ég hinsvegar að Liði hafi fengið fallega lífgimbur hjá Gumma um haustið, en um það er mér ekki fullkunnugt“ (PG; Veðmálið).
Líkmaður (n, kk) Sá sem ber lík til grafar.
Líkn (n, kvk) Miskunnsemi; fróun; léttir. „Ég var alveg að farast úr þorsta þarna á fjallinu, en það var dálítil líkn að því að rekast á mýrarsitruna, þó ekki væri vatnið vel gott“.
Líkna (s) Lina þrautir/þjáningar; veita hjálp/lækningu. „Kindin var það illa farin eftir hrapið að henni varð ekki líknað nema á einn veg“.
Líknari (n, kk) Sá sem líknar. Stundum notað um Jesú Krist.
Líknarbelgur (n, kk) Fósturhimna; þunn, glær en sterk himna sem umlykur fóstur í móðurkviði. Líknarbelgur kinda og kúa var áðurfyrr þurrkaður og notaður í skjái húsa; utanum smjör; bundinn yfir ílát til að innihaldið þornaði ekki, eða til að gera að sárum. Hann var þá tekinn frá hildunum þegar eftir burð; þveginn; blásinn út og hengdur til þerris, oft í baðstofu.
Líkneski (n, hk) Myndastytta/skúlptúr af manneskju.
Líknsamlegur / Líknsamur (l) Miskunnsamur; hjálplegur. „Heldurðu að þú viljir ekki vera svo líknsamlegur vinur, að færa mér smá vatnsglas“.
Líkræða (n, kvk) Ræða prests við jarðarför/ yfir moldum manns. „Mér þótti líkræðan bara ágæt hjá honum“.
Líkt/jafnt á komið fyrir (einhverjum) (orðtak) Báðir í sömu stöðu; sömu aðstæður blasa við báðum. „Varstu að meiða þig í hendinni? Það er þá nokkuð jafnt á komið með okkur, því ég sneri mig á fæti í dag“.
Líkt/ólíkt farið (orðtök) Eins/mismunandi gjörðir; eru líkir/ólíkir. „Ólíkt er þeim farið bræðrunum; þessi er ekkert nema þolinmæðin, en hinn rýkur upp af minnsta tilefni“.
Líkt skal líku gjalda (orðatiltæki) Menn skulu leitast við að gjalda í sama verðmæti það sem keypt er; greiða í sömu mynt.
Líkur sækir líkan heim (orðatiltæki) Sækjast sér um líkir. Vísar til þess að maður velur sér gjarnan vini sem líkjast manni í einhverju efni.
Líkur til (orðtak) Líklegt; sennilegt. „Tvær ær; önnur á Lambavatni en hin í Gröf, eru ekki góðar og ef til vill að þær lifi ekki; því líkur eru til, að fengnum upplýsingum, að þær séu veikar“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1945).
Líkþorn (n, hk) Dauð og þurr húð/ sigg sem gjarnan safnast í þykkildi á fótum manna; einkanlega við miklar göngur og í óhentugum skóm. Líkþorn geta vaxið inn í fótinn og valdið óþægindum og jafnvel sári.
Líkþrár (l) Holdsveikur; sýktur af holdsveiki.
Límsvikinn (l) Um hlut sem bilar vegna þess að líming gefur sig. „Þessir skór eru nú meira andskotans ónýtið; límsviknir og með ónýtar reimar“!
Lína (n, kvk) A. Fiskilína; löng taug með mörgum krókum áföstum. B. Hverskonar taug, t.d. líflína í björgunartækjum eða tildráttarlína við bjargsig. C. Símalína. Lína nefndist samtenging nokkurra bæja með sameiginlega tengingu við símstöð; t.d. voru Kollsvík, Láganúpur, Stekkjarmelur, Breiðavík og Látrabæir á sömu línu. Sjá hlera. „Oddviti gat þess sem kunnugt er, að erfiðleikar væru á að ná símasambandi milli línanna“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). D. Lína á blaði, til að skrifa á. Einnig gæluorð um sendibréf. „Endilega sendu mér linu við tækifæri“. E. Lengdarmál fornt. Tíu línur eru í þumlungi/tommu. 1 lína er 2,18 millimetrar. Sverleiki lampaglasa gömlu olíulampanna var einatt mældur í línum. F. Stefna í málefni, t.d. flokkslína. G. Stef/braglína í ljóði; ljóðlína.
Línolíumdúkur (n, hk) Gólfdúkur, gerður úr dúk sem í er borin olía úr hörfræi.
Línuás (n, kk) Línuþinur; línan sjálf í fiskilínu; án króka, tauma uppistaðana og annars.
Línubátur (n, kk) Bátur sem einkum veiðir á línu. Aðrir eru t.d. skakbátar og netabátar.
Línubyssa (n, kvk) Byssa til að skjóta rakettu sem í er fest lína. Hluti af björgunartækjum til að bjarga skipverjum t.d. af strönduðu skipi.
Línufiskur (n, kk) Fiskur sem veiddur er á fiskilínu.
Línuflækja (n, kvk) Hnútur af flæktri línu; flækt fiskilína. „Línuflækjur rekur oft á fjörur í Kollsvík; líklega af veiðisvæðunum í Víkurál. Þykir sumum hið ágætasta tómstundagaman að greiða þær“.
Línuháls (n, kk) Endi á línuás. Venjulega er splæst á hann lykkja, til að auðvelda tengingu við næstu línu eða við uppistöðu, og er heitið þá notað yfir augað/lykkjuna.
Línulengd (n, kvk) Lengd á fiskilínu. „Venjan var að línulengdin væri ekki nema 10 lóðir, eða 60 faðmar hver lóð. Þá voru 2 álnir milli króka“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Línuspotti (n, kk) Bútur af fiskilínu eða öðru bandi af svipuðum sverleika.
Línusöngur (n, kk) Sónn sem símalínur á staurum framkalla, þegar vindur þýtur um þær. Línusöng má stundum heyra í grennd við línuna, en háværastur varð hann í húsum sem símalínan liggur í. Símalínan kom inn í Láganúpshúsið eldra á miðri efri hlið. Þar sem línan kom utanúr Breiðavík yfir Breið og Strympur, var oft mikið vindgnauð á henni. Það leiddi línan inn í bæinn, þar sem timburþilið magnaði það. Gat söngurinn stundum orðið jafn hávær og skipsflauta, en heimafólk kunni því yfirleitt ekki verr en öðrum vinalegum umhverfishljóðum.
Línuveiðar (n, kvk, fto) Veiðar á fiskilínu.
Líparít (n, hk) Ljósgrýti; rhyolit; tegund gosbergs með miklu innihaldi kísilsýru (yfir 67%). Oft ljósleit á lit, en getur tekið ýmsum litbrigðum. Líparít finnst yfirleitt ekki í tertíera jarðlagastaflanum sem er allsráðandi t.d. í grennd við Kollsvík. En í kringum 1970 fann höfundur þessa rits mikið af ljósu bergi á nokkurra fermetra bletti Vatnadalsmegin við Hauga; við hestaveginn. Var engu líkara en þar hefði komið niður loftsteinn. Sveinn Jakobsson jarðfræðingur rannsakaði sýni, og komst að því að það væri úr líparíti. Þarna virðist því hafa komið stór hnyðlingur upp með basaltkvikunni endur fyrir löngu.
Líri (n, kk) A. Gæluheiti á stórum þorski/ golþorski. „Þarna fékkstu heldur myndarlegan líra“! B. Stór/ruðamikill hlutur/trjábolur/staur/steinn/tuddi o.fl. „Þarna var rekinn heljarmikill líri“. Orðið var nokkuð notað í Kollsvík í þessari merkingu framundir 2000. Orðabækur telja að það hafi verið haft yfir skrofuunga, en svo var ekki í Kollsvík.
Líta að (orðtak) Huga að; athuga með; sinna. „Ætli við þurfum ekki að fara að líta að gegningunum“.
Líta af (orðtak) Hætta að horfa stöðugt á; snúa sér að öðru. „Hann er óskaplega hrifinn af heimasætunni og má helst ekki af henni líta“. „Það má helst ekki líta af honum, þá er hann lagstur í berjatínslu“!
Líta alvarlegum augum (orðtak) Vera ekki hrifinn af; vera mjög mótfallinn; taka hart á. „Hann sagðist líta það nokkuð alvarlegum augum ef menn færu í sitt land í leyfisleysi“.
Líta á (orðtak) Skoða; leiða auga; athuga. „Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum: „Heyrðu Gummi! Komdu og líttu á þennan: Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“? (PG; Veðmálið).
Líta eftir (orðtak) A. Gæta; passa; hafa eftirlit með. B. Leita að; skima eftir. „Líttu eftir þessum kindum hans Kitta, ef þú ferð eitthvað framí Gálgasteinabrekkur“.
Líta ekki björgulega út (orðtak) Líta ekki vel út; fremur slæmar horfur. „Það lítur ekki björgulega út með að við náum þessu öllu í hlöðu fyrir rigninguna. Ætli við verðum ekki að galta þetta á efstu sléttunni“.
Líta/horfa framhjá (einhverju) (orðtak) Þykjast ekki sjá eitthvað; láta eitthvað afskiptalaust. „Það er ekki hægt að líta framhjá því lengur hvernig topparnir í þjóðfélaginu misnota sína aðstöðu“!
Líta girndarauga (orðtak) Hafa ágirnd á;renna hýru auga til; ágirnast.
Líta/sjá (aldrei) glaðan dag (orðtak) Vera (aldrei) ánægður/sáttur með sína tilveru/ sitt hlutskipti. „Hann segist ekki hafa litið glaðan dag síðan hann missti konuna“.
Líta eftir (orðtak) Gæta; passa; fylgjast með. „Ég átti að líta eftir honum, en mér fannst að hann mætti bara éta þetta ef honum finndist það gott“ (IG; Æskuminningar).
Líta ekki réttu auga (orðtak) Sjá kostina; vera andúðugur; kunna ekki að meta. „Ég get ekki litið hann réttu auga eftir að ég fékk að vita um hans fortíð“.
Líta/renna/horfa hýru auga til (orðtök) Ágirnast; hafa áhuga/ágirnd á. „Ég hef verið að líta hýru auga til þessa lambhrúts sem hann nefndi við mig“.
Líta hornauga / Líta ekki réttu auga / Líta illu/óhýru auga (orðtök) Vera tortrygginn; gjalda varhug við. „Gamli maðurinn leit þessi nýju tæki miklu hornauga. Honum var svo nóg boðið þegar farið var að slá; þá gekk hann á eftir með orfið sitt og sló betur. Tautandi ljót orð um þessa afturför í búskaparháttum“. „Eftir þetta gat ég ekki litið þennan flokk réttu auga; fannst að honum væri ekki treystandi í svona málum“. „Þetta tiltæki okkar var litið fremur óhýru auga af foreldrunum“. „Það var litið fremur illu auga ef menn lögðu í hefðbundin netapláss heimamanna“.
Líta illa/vel út (orðtak) Vera illa/vel útlítandi; koma illa/vel fyrir. Oft notuð önnur lýsingarorð s.s. bölvanlega, skár, ógæfulega, bærilega o.fl.
Líta í bók (orðtak) Lesa. „Þeim þótti báðum gaman að lesa góðar bækur, og ég held að þau hafi sjaldan farið að sofa á kvöldin án þess að líta í bók, þegar þau voru lögst á koddann; þótt langt væri liðið á kvöld, og þau þreytt eftir erfiði og önn dagsins“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Líta í eigin barm (orðtak) Líta sér nær; skoða það sem að sjálfum sér lýtur fremur en gagnrýna aðra. „Ég held honum væri fjandans nær að líta í egin barm áður en hann gagnrýnir aðra fyrir svonalagað“! Sjá barmur.
Líta jákvæðum augum (orðtak) Vera jákvæður/velviljaður gagnvart. „Ég lít það fremur jákvæðum augum ef menn reyna að bjarga sér; meðan það er ekki á kostnað annarra“.
Líta niður (orðtak) Um sauðfé; beita sér; lúta höfði og bíta gras. „Ég vísaði þeim uppfyrir Hestkeldu, en þær komu fljótt heim aftur án þess að líta niður. Það þarf að gefa þeim aðeins minna núna“.
Líta niður á (orðtak) Telja sér óæðri; fyrirlíta. „Reykvíkingum hættir dálítið til að líta niður á landsbyggðarfólk, en átta sig þá ekki á sínum eigin uppruna“.
Líta (eitthvað/einhvern) réttu auga (orðtak) Vera jákvæður gagnvart; lítast vel á. „Ég hef ekki getað litið hann réttu auga frá því að hann sveik mig um þetta“. Sjá geta (ekki) litið (einhvern) réttu auga.
Líta sér nær (orðtak) Líta í eigin barm; athuga það sem að sjálfum snýr, fremur en gagnrýna aðra. „Hann ætti að líta sér nær; ætli hann sé nokkuð betri sjálfur í þessum efnum“?!
Líta stórt á sig (orðtak) Hafa mikið sjálfsálit; vera montinn/hrokafullur. „Hann lítur alltof stórt á sig til að blanda geði við okkur eymingjana“.
Líta til (orðtak) Horfa á; gá að. „Hann var að innbyrða fullan slóða af fiski í hvert sinn er ég leit til hans“.
Líta til lofts/veðurs (orðtak) Gá til veðurs. „Þegar út úr búðinni kom litu allir til lofts, svo sem venja er til“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Líta til með (orðtak) Hafa eftirlit með. „Líttu til með barninu meðan ég skrepp aðeins frá“.
Líta undan (orðtak) Líta frá; horfa/líta í hina áttina. „Sá var að hreinsa tófuskinn, en óðar undan leit/ og upphóf sína dóma þarna í hvelli./ „Þú ert alltof gömul; þú ert alltof feit;/ þú ert eins og belja á hálu svelli“!“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Líta upp (orðtak) A. Gefa sér tíma til hvíldar; taka frítíma/pásu. „Það gengur ekki að puða svo samfellt að maður líti ekki upp öðruhvoru“. B. Verða betur útlítandi. „Mikið hefur húsið litið upp við málninguna“.
Líta uppá (orðtak) Horfast í augu við. „Hann sagðist ekki geta litið uppá nokkurn mann framar ef hann sækti ekki aftur kindurnar sem hann missti“.
Líta upp til (orðtak) Sýna aðdáun; bera virðingu fyrir; telja sér meiri. „Ég leit alltaf mikið upp til eldri bróður míns, þó ég hefði aldrei viðurkennt það“.
Líta út (orðtak) A. Horfa út úr húsi. „Ég leit út og sá að það var hætt að rigna“. B. Vera útlítandi. „Ári fannst mér hann líta illa út“.
Líta út fyrir (að vera) (orðtak) Sýnast; virðast. „Kindin lítur ekki út fyrir að vera illa haldin eftir vistina í sveltinu“. „Þú ert ekki eins vitlaus og þú lítur út fyrir að vera“. „Það lítur út fyrir rigningu á morgun“.
Líta við (orðtak) A. Horfa til baka; horfa í aðra átt. „Tófan var horfin þegar ég leit við aftur“. B. Snerta við; horfa í átt til; hafa áhuga á; borða; éta. „Féð vill ekki líta við votheyinu þegar það á von á þurrheyi“. C. Koma í stutta heimsókn; koma við; reka nefið í gættina. „Endilega lítiði við þegar þið eruð á ferðinni“.
Líta yfir farinn veg (orðtak) Athuga það sem gert/starfað hefur verið; hugsa til baka. „Við þessi tímamót er rétt að staldra við og líta yfir farinn veg“.
Líta (eitthvað) öfundarauga (orðtak) Vera öfundsjúkur yfir einhverju: öfunda einhvern af einhverju. „Margir litu þessa miklu veiði öfundarauga, sem sjálfir voru hysknari við sjósóknina“.
Lítast á (orðtak) Þykja fallegt/gott/viðunandi. „Mér líst vel á þetta hjá þér“. „Heldur líst mér illa á veðurútlitið“. Oft notuð önnur lýsingarorð inná milli, s.s. bölvanlega, skár, ógæfulega, bærilega, dável o.fl.
Lítast ekki (vel) á blikuna / Lítast illa á blikuna (orðtak) Verða ekki um sel; lítast ekki á ástandið/útlitið. „Mér leist ekkert á blikuna þegar brotskaflarnir tóku sig upp hér frammi á boðanum“. Blika er háský sem getur boðað óveður. „Mér leist nú ekki á blikuna, en labbaði þó af stað,/ því langt er orðið þarna á milli bæja./ Í Púdduvík þó loksins ég haltraði í hlað/ með hælsæri á löppunum; nú jæja“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). Sjá blika; blikuský; blikur á lofti.
Líter (n, kk) Lagarmál; rúmmálseining vökva. Eitt lítri jafngildir teningi vökva sem er 10cm á kant eða þúsund rúmsentimetrar. Fremur var talað um „líter“ í Kollsvík en „lítra“. Sjálfskipaðir málhreinsunarmenn akademíunnar halda því fram að „lítri“ sé réttara; hitt sé dönskusletta. Þeir ágætu menn gleyma því þá að „lítri“ er frönskusletta! Orðsifjar eru ókunnar en líklega er upprunans að leita suður eða austur í löndum.
Lítið er betra en ekkert (orðatiltæki) Segir sig sjálft; allnokkuð mikið notað.
Lítið/mikið á munum (orðtak) Lítill/mikill mismunur. „Það er dálítið meira í þessu íláti, en það er ósköp lítið á munum“. „Hann dró meira en ég; þar var nokkuð mikið á mununum“.
Lítið eitt (orðtak) Dálítið; örlítið. „Frostið er lítið eitt minna í dag en í gær“.
Lítið er betra en ekkert/ ekki neitt (orðatiltæki) Betra er að fá lítið en ekki neitt; smátt er betra en ekki neitt. „Ekki skal það vanþakkað sem aflast; lítið er betra en ekkert“.
Lítið gagnast göngumanni göfug ætt (orðatiltæki) Flakkaranum er lítil stoð að því að vera vel ættaður.
Lítið gagnast/stoða orðin tóm (orðtatiltæki) Það þjónar litlum tilgangi að tala/áætla um hlutina ef ekki fylgja athafnir á eftir. Sjá láta ekki sitja við orðin tóm.
Lítið gefið um (orðtak) Ekki hrifinn af; þykir lítið varið í. „Mér er lítið gefið um að ókunnugt fólk sé að snuðra hér uppi í húsveggjum“!
Lítið í sjó (orðtak) Sjólítið. „Uppsátrið var einkum í allbreiðum bás milli tveggja kletta; Syðri- og Norðari kletta. Þó voru bátar oft látnir standa undir Norðari-klettum þegar lítið var í sjó eða smástreymt“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lítið kemur litlu í mót (orðatiltæki) Sá getur ekki vænst mikils sem lítið lætur af hendi sjálfur.
Lítið leggst fyrir kappann (orðtak) Um það sem verður manni til minnkunar; ekki eru afrekin mikil; ekki fær sá kappsami verðug verkefni. „Honum þótti lítið leggjast fyrir kappann, að fá ekki að fara niður í ganginn“.
Lítið sem ekkert (orðtak) Nær því ekki neitt. „Það fékkst lítið sem ekkert eftir fallaskiptin“.
Lítið tilreynt (orðtak) Ekki mikið verið reynt; lítil reynsla af. „Ég veit svosem ekki hvort fiskur er í vatninu; það hefur lítið verið tilreynt“.
Lítið var en lokið er (orðtak) Um það sem ekki er vel útilátið/ mikið, og klárast fljótt. Komið upphaflega úr vísu sem eignuð er Páli Vídalín en var notað í skáldverkinu Maður og kona eftir Jón Thoroddsen; viðkvæði Hjálmars Tudda yfir tómum askinum.
Lítil byrði er á löngum vegi þung (orðatiltæki) Það sem er létt að bera stuttan spöl getur sigið hressilega í þegar langt er borið.
Lítil eftirsjón að (orðtak) Lítill skaði þó glatist/skemmist. „Það er lítil eftirsjón að honum úr ráðherrastóli“.
Lítil hjálp í (orðtak) Enginn akkur að; lítil stoð. „Mér er lítil hjálp í smala sem liggur bara í berjum“!
Lítilfjörlegur (l) Lítill; ómerkilegur. „Engjar eru með Láganúpi sjálfum lítilfjörlegar. Með Hólum og Grundum engar“ (ÁM/PV Jarðabók). „Maður er orðinn hálf lítilfjörlegur til heilsunnar í seinni tíð“.
Lítill að burðum (orðtak) Aumur; kraftalítill; væskilslegur. „Hann var ekki mikill að burðum, en kvikur í hreyfingum og þolinn“. Sjá burður og mikill að burðum.
Lítill bógur / Ekki beysinn/mikill bógur (orðtak) Maður sem ekki er kjarkaður; hugleysingi; veiklulegur einstaklingur. „Hann er heldur lítill bógur til að standa í svona stórræðum“.
Lítill fyrir mann að sjá / Lítill fyrir sér / Lítill og pervisinn (orðtak) Um mann; smávaxinn/rýringslegur. „Óskóp fannst mér hann vera lítill og pervisinn, blessaður karlinn“.
Lítill í sér (orðtak) Ekki hugaður; kjarklaus; smeykur; gráti næst; illa fyrirkallaður. „Litli stubburinn er orðinn þreyttur, og þá verður hann svo lítill í sér“.
Lítilla sanda og lítilla sæva Sjá maður lítilla sanda og lítilla sæva.
Lítillátur (l) Sem sættir sig við lítið; hógvær; nægjusamur.
Lítillega (ao) Dálítið; lítið eitt. „Ég kynntist honum lítillega“.
Lítillækka (s) Gera lítið úr; lítilsvirða. „Honum fannst að verið væri að lítillækka sig með þesu“.
Lítillækkun (n, kvk) Lítilsvirðing; minnkun. „Það er engin lítillækkun að því að vera háseti hjá þeirri kempu“.
Lítillæti (n, kvk) Hógværð; undirgefni. „Mér hefur aldrei farið vel lítillætin í þessum efnum“.
Lítilmagni (n, kk) Minnimáttar; sá sem getur minna en aðrir. „Það er enginn sómi að því að níðast á lítilmagnanum“.
Lítilmannlega (ao) Svívirðilega; af virðingarleysi. „Mér finnst þau koma lítilmannlega fram við karlangann“.
Lítilmenni (n, hk) Fyrirlitlegur einstaklingur, dusilmenni. „Svona haga sér einungis lítilmenni“!
Lítilmennska (n, kvk) Vesaldómur; heigulsháttur; aumingjadómur. „Svona framkoma er nú bara lítilmennska“!
Lítilmótlega (ao) Fyrirlitlega; smánarlega. „Skelfing finnst mér hann haga sér lítilmótlega“!
Lítilmótlegur (l) Fyrirlitlegur; smánarlegur. „Svona lítilmótlegur auli á ekki upp á mitt pallborð“!
Lítilræði (n, hk) Óvera; lítilsháttar magn/fjöldi. „Mér finnst ekki taka því að rukka fyrir þetta lítilræði“.
Lítils í misst (orðtak) Ekki misst af miklu; ekki mikill skaði; bættur skaðinn. „Það var nú lítils í misst þó við næðum ekki hvalnum um borð. Ég held að hann hafi verið farinn að skemmast í netunum“.
Lítilsháttar (l) Smávegis; í litlu magni; dálítið. „Það var komin lítilsháttar gola“.
Lítilsigldur (l) Um mann; ómerkilegur; skortir áræði; metnaðarlítill. „Mér hefur alltaf þótt hann fremur lítilsigldur í sínum viðhorfum“. Vísar til siglingar báts þar sem stjórnandi þorir ekki að hafa uppi þau segl sem báturinn þolir. Síður líklegt að vísi til þess að hafa lítt farið erlendis; siglt.
Lítilsmetandi (l) Sem lítið mark er tekið á. „Ég hlusta ekki á kjaftæðið í þessum lítilsmetandi aulum, sem telja sig sérfræðinga eftir fáein ár á skólabekk“!
Lítilsverður (l) Sem ekki er mikils virði. „Svona óljósar upplýsingar eru harla lítilsverðar“.
Lítilsvirða (s) Virða lítils; bera litla virðingu/respekt fyrir. „Við skulum nú ekki lítilsvirða þá gömlu visku“.
Lítilsvirðandi (l) Meiðandi; niðrandi. „Ég þoli engum að fara lítilsvirðandi orðum um þessa hluti“!
Lítilsvirði (l) Ekki dýr/ mikils virði; lélegur; ómerkilegur. „Það væri ekki lítilsvirði að fá hann með okkur“.
Lítilsvirðing (n, kvk) Fordómar; fyrirlitning; vanmat. „Honum fannst sér lítilsvirðing sýnd með þessu“.
Lítilsvirðingartónn (n, kk) Tónn/hreimur lítilsvirðingar/virðingarleysis/fyrirlitningar. „Nokkuð fannst mér votta fyrir lítilsvirðingartóni í garð þingmanna þegar hann var að lýsa byggðaþróuninni“.
Lítilvægt (l) Ekki mikilvægt; léttvægt. „Þetta finnst mér bara lítilvægt atriði og ekki til að hafa áhyggjur af“.
Lítilþægur (l) Nægjusamur; kemst af með lítið. „Ég er fremur lítilþægur í þessum efnum“.
Lítilþæg/smáþæg eru börnin (orðatiltæki) Ekki þarf mikið til að gleðja barn, og því minna sem það er yngra. Sjá litlu verður vöggur feginn, sem var algengara í Kollsvík.
Lítri (n, kk) Sjá líter.
Líttreyndur (l) Með litla reynslu. „Hann er líttreyndur í smalamennskum, en ágætis hlaupari“.
Ljá (n, kvk) Nýslegið gras sem ekki er farið að rifja eða raka saman. „Sléttan liggur öll í ljá“.
Ljá (s) Lána. „Geturðu léð mér korn af salti framyfir helgina“? „Ljáðu mér aðeins hendi við þetta“.
Ljá eyra (orðtak) A. Fá áheyrn/hlustun, stundum í einrúmi. „Ljáðu mér eyra snöggvast; ég þarf að segja þér nokkuð“. Ég segi ykkur þetta, er sitjið hér í kring/ og sjáið mig og ljáið þessu eyra./ Mig svíður enn í hjartað og sáran hef ég sting./ Söguna þið fáið nú að heyra“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). B. Taka í mál; ljá máls á. „Ég ljái því ekki eyra að hróflað sé við þessu“!
Ljá máls á (orðtak) Taka í mál; leyfa að nefnt/orðað sé. „Hann hefur aldrei láð máls á að selja fyrr en nú“.
Ljábakki (n, kk) Sú brún á ljá sem egglaus er, og veit frá sláttumanni. Um tíma voru blöð og bakkar framleidd og seld sitt í hvoru lagi; svonefndir bakkaljáir.
Ljáband (n, hk) Band/ól sem fyrrum var notað til að festa ljáinn í orfið. Síðar komu orfhólkar til.
Ljábera (s) Bera ljá í (til sláttar). „Eftir að afi fór að stirðna við sláttinn hefur engum komið til hugar að ljábera Urðirnar. Enda er hætt við að þeim entist bitið ekki eins vel og þeim gamla“.
Ljáblað (n, hk) Blað í ljá; lén. Oftast er þá átt við blað í skoskan ljá, en það var hnoðað í bakkann og mátti dengja það kalt.
Ljábrot (n, hk) Brot af ljá. „Fyrrum voru ljábrot iðulega nýtt til að búa til hnífa“.
Ljábrýni (n, hk) Brýni sem hentar til að brýna ljái. „Ljábrýni voru nauðsynjavara í Gjögrabúð“.
Ljáfar (n, hk) Skári; slegið far eftir ljá í grasi/jörð.
Ljáhnoð (n, hk) Hnoð úr deigu járni. Í seinni tíð var átt við hnoð sem festu ljáblöð á bakka í greiðusláttuvél. Blöðin slitnuðu við notkun, en einnig brotnuðu þau þegar slegið var í malarbornu eða grýttu landi. Var þá greiðan oftast tekin undan og ljárinn úr henni; hnoðin boruð úr blaðbrotinu, og nýtt blað hnoðað á, með tveimur nýjum hnoðum.
Ljáir (n, kk, fto) Bein í sporði lúðu. „Beinin í sporði voru kallaðir ljáir“ (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms). „Geislarnir í sporðinum voru nefndir blökutindar, nema þeir ystu og gildustu sem kallaðir voru ljáir“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Ljámús (n, kvk) Torfusnepill sem losnar við að slegið er, t.d. í ósléttu túni. „Kastið ljámúsunum úr heyinu“.
Ljáspík (n, kvk) Ljár í orf; iðulega notað um slitinn/lúinn ljá. „Passaðu þig á ljáspíkinni; hún er flugbeitt“.
Ljóða á (orðtak) Yrkja til. Það var gömul íþrótt í Kollsvík og nágrenni að kasta fram kviðlingum og kveðast á. Gjarnan hófst það með því að einn ljóðaði á annan; gerði vísu sem varla var unnt að láta ósvarað.
Ljóðabréf (n, hk) Sendiréf í bundnu máli. Ekki var óalgengt að þeir sem hagmætir voru skiptust á þannig bréfum, fyrir tíma tölvupósta.
Ljóðskáld (n, hk) Skáld sem þykir meiri listamaður í ljóðagerð en hagyrðingar almennt. Oft er átt við þá sem ná betur að tjá tilfinningar af margvíslegu tagi í ljóðum en þeir sem helst fást við að setja saman tækifæriskveðskap.
Ljóðstafur (n, kk) Stuðlar og höfuðstafir í ljóði/kveðskap. Flestur kveðskapur lýtur ákveðnum bragreglum, sem tekur til hrynjandi í áherslum; lengd bragliða; ríms og ljóðstafa. Í ferskeytlu eru t.d. tveir stuðlar í fyrstu og þriðju braglínu; helst báðir í hákveðu, og önnur og fjórða lína byrja á höfuðstaf í hákveðu, og hefur hvor þeirra samsvörun við stuðlana í undanfarandi braglínu.
Ljóður (n, kk) Lýti; galli, ókostur, óráð. „Þarna þykir mér nokkur ljóður á“.
Ljóður á ráði (orðtak) Slæm breytni/gerð; galli á framgöngu/venju/vinnulagi. „Hann þótti duglegur og viðkunnanlegur í flesta staði. Þó var sá ljóður á ráði hans að hann þótti nokkuð hvinnskur“.
Ljókka (s) Um veðurútlit; versna; dimma yfir. „Hann er að ljókka mikið; við þurfum að fara að raka upp“. „Þegar þykkviðri birtir upp af suðri þá er von á vindi og regni úr þeirri átt. ... Þegar loft er rautt í suðri boðar regn, hvort sem það sést á nótt eða degi“ “ (BH; Grasnytjar).
Ljóma upp (orðtak) Lýsa upp; birta. „Það var glampandi tunglskin og norðurljósin ljómuðu upp himininn“.
Ljómandi gott (orðtak) Mjög gott; afbragðsgott. „Þetta er ljómandi góður hákarl“.
Ljómi (n, kk) Birta; ljós. „Mér sýnist einhver ljómi vera að myndast þarna í norðrinu“.
Ljón í veginum (orðtak) Fyrirstaða/hindrun á framgangi málefnis/verkefnis. „Þarna gætu orðið einhver ljón í veginum“.
Ljónagangur (n, kk) Ólæti; óskapagangur; brambolt; áflog. „Hættið nú þessum ljónagangi strákar“!
Ljónast (s) Láta ófriðlega; ærslast. „Veriði nú ekki að ljónast svona mikið uppi í sófanum strákar“!
Ljóngáfaður (l) Mjög greindur/ vel gefinn. „Hann var ljóngáfaður, en bagaður af skapgerðarbrestum“.
Ljónheppinn (l) Mjög heppinn; lúsheppinn; stálheppinn. „Ég var svo ljónheppinn að finna þarna rekinn olíubrúsa sem ég gat skorið ofanaf og safnað eggjunum í“.
Ljónslappi / Ljónslöpp (Alchemilla alpina). Algeng jurt af rósaætt. Vex á láglendi um allt land og kann vel við sig í hlíðum og skriðum, t.d. á Bekk í Núpnum. Lágvaxin jurt me gulgrænum blómum. Blöðin eru handskipt með tenntum endum og þéttu silfurkögri á brúnum og neðra borði. Minnir blaðið dálítið á loðna loppu ljónsins og dregur nafn af því. Ljónslappi var talinn gagnlegur við að græða sár og skurði; stöðva niðurgang og blóðrennsli. Hann var einnig nefndur kverkagras, því gott þótti að skola hálsinn með volgu seyði hans.
Ljónstygg (l) Mjög stygg (fælin) ær. „Þessar útigengnu kindur eru ljónstyggar og erfitt að eiga við þær“.
Ljónvitlaus (l) Kolvitlaus; snarvitlaus; mjög ólmur. „Það þarf minnsta kosti þrjá til að ná útigangskindinni; hún er ljónvitlaus af styggð“.
Ljóri (n, kk) Lítill gluggi; gægjugat; skjágluggi. „Ljóri var yfir fleti formannsins, á framvegg búðarinnar“.
Ljós (l) Um sjóleiðir og mið; sýnilegur fyrir eða yfir. „Þegar farið er fyrir Djúpboðann þurfa Skandardalstennur að vaka ljósar fyrir Blakk“. „Okkur hafði rekið norður á ljósar Hyrnurnar“.
Ljós í hafið (orðtak) Þegar skýjahulunni léttir í norðurátt. Gaf vonir um noranátt og þurrk. Einnig notað; ljós til hafsins. „Ég held það sé komið eitthvað ljós til hafsins; það gæti glaðnað til á morgun“.
Ljós í loftið (orðtak) Birta í himni; birta af degi. „Það er eitthvað farið að koma ljós í loftið; maður fer að sjá handaskil til að gera eitthvað útivið“.
Ljós í myrkrinu (orðtak) Líkingamál um málefni; jákvætt atriði innanum fleiri neikvæð; augljós kostur.
Ljós til hafsins (orðtak) Glenna/ljós/hreinn/eyddur/bjartur til hafsins. Norðanátt í aðsigi, sem lýsir sér fyrst með því að ský hverfa í norðri og heiðskír blettur sést fyrir Blakkinn, ofanvið hafsbrún.
Ljósa (n, kvk) Ljósmóðir. „Hún var ljósa margra sem fæddust í Kollsvíkinni á hennar tíð, og lánaðist vel“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Ljósabeita (n, kvk) Afskurður (vanalega kviðfiskur) fisks sem notaður er til beitu. Er þá skorinn í mjóa lengju. „Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi ásamt ljósabeitu“ (GG; Lóðir í Kollsvíkurveri). „Ljósabeita nefndist einu nafni lúða, steinbítur, þyrsklingur og aðrar fiskitegundir sem menn létu á öngla sína. Oft var það svo að hver fiskimaður tók tryggð við ákveðna beitutegund sem hann taldi reynast sér betur en aðrar. Margir höfðu trú á að beita lúðu, einkum stofnlóu sem Vestfirðingar kölluðu (5-15kg). Tóku þeir beituna aðallega af sporði“ (GG; Skútuöldin). „Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt ljósabeitu (GG; Lóðir í Kollsvíkurveri; skrás EÓ)
Ljósadúkur (n, kk) Lítill dúkur til að hafa á borðum, t.d. undir kertum. „Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka;bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum; löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi...“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms).
Ljósagangur (n, kk) Eldingar; þrumuveður. „Skruggunum fylgdi töluverður ljósagangur, svo birti til í Víkinni þó annars væri niðamyrkur“.
Ljósaskipti (n, hk, fto) Umskipti birtu frá degi til nætur (eða öfugt); einkum þegar bjart er í lofti en skuggsýnt við jörð. „Það er erfitt að greina það í ljósaskiptunum hvort þetta eru kindur“.
Ljósastæði (n, hk) Stæði fyrir ljós til lýsingar. „Fyrst eftir að rafmagn kom voru ljósastæði einföld; oftast föst perustæði með engum skermum. Svo fóru að koma lampar, bæði borðlampar og hangandi, einnig „hundar“. Útiljós og ljós í skepnuhús komu nokkuð seinna“ (SG; Rafvæðing; Þjhd.Þjms).
Ljósgeisli (n, kk) Geisli af ljósi; sólstafur. Stundum notað í líkingamáli: „Litli Bjartur ljósgeislinn/ lýsi jafnan veginn þinn,/ um hinn gullna gæfustig/ guð ég bið að leiða þig“ (ÖG; glefsur og minningabrot; ort við skírn sonarsonar).
Ljósglampi / Ljósglyss (n, hk) Snögg ljómun/lýsing. „Mér sýndist ég sjá ljósglampa þarna norður á Umvarpi“. „Öðruhvoru sást ljósglyss efst á Jökladalshæðinni, þar sem skrugguveðrið geisaði hvað harðast“.
Ljóslifandi kominn (orðtak) Rétt lýst; ær og kýr. Upphrópun, oftast notuð sem skammaryrði. „Er hann farinn? Þarna er hann ljóslifandi kominn; spyr ekki einusinni hvort ég vilji fá far“!
Ljósmeti (n, hk) Lýsi á lampa eða tólg í kerti var helsta ljósmetið á fyrri tíð. „Lesið var til um kl 10 og eftir það var farið að sofa. Þá máttu hjúin vinna eftirvinnu; þá máttu þau prjóna fyrir sjálf sig. En þau urðu að gera það í myrkrinu, því ljósmeti var ekkert eftir kl 10 á kvöldin. Ljós voru þá lýsislampar; eða þar til ég varð 10 ára. Fyrsti olíulampinn mun hafa komið í Kollsvíkina um aldamótin (1900). ... Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt. Laukurinn (fitan undir bumbunni) var bræddur til ljósmetis á kolur“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). „Þá þurfti líka að kaupa steinolíu til ljósmetis, og var hún venjulega flutt í 100 eða 200 lítra stáltunnum“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Ljósmóðir (n, kvk) Kona sem aðstoðar móður við að fæða barn; skilja á milli og hlú að því í byrjun. Ljósmæður voru víða í sveitum áður, þó nú hafi starf þeirra að mestu flust inná heilbrigðisstofnanir. Síðasta ljósmóðir sem starfaði í Rauðasandshreppi var Ólafía Egilsdóttir á Hnjóti (27.11.1894-20.09.1993).
Ljóst fyrir (orðtak) Um stefnu báts/ fiskimið; vel fyrir framan sjónlínu. „Þú þarft að stefna vel ljóst fyrir Blakkinn til að forðast Blakknesboðann“. „Við settum í snarvitlausan boltafisk þegar Breiðavíkurbærinn var kominn ljós fyrir Breiðinn“.
Ljósta á (orðtak) Um veður; bresta á; dynja yfir. „Þá laust á þessu grimmdaréli svo ekki sá útúr augum“.
Ljósta niður (orðtak) Slá niður. „Eldingunni laust niður í staurinn og klauf hann að endilöngu“.
Ljósta niður í hugann (orðtak) Fá skyndilega hugdettu. „Því laust allt í einu niður í huga minn að spyrja hann að þessu“.
Ljósta upp / Ljóstra upp (orðtak) Um leyndarmál; kjafta/segja frá; upplýsa. „Ég ætla ekki að ljósta neinu upp um þetta“. Hefur í seinni tíð verið framborið með „r“; „ljóstra“, og er t.d. „uppljóstrun“ nú almennt notað.
Ljóstíra (n, kvk) Lítið ljós. „Það er erfitt að vinna þegar maður hefur ekki eina einustu ljóstíru við höndina“.
Ljóstollur/ Lýsitollur (n, kk) Skattur sem greiddur var til kirkju fyrrum, og var lögboðinn í Kristinrétti árið 1275. Hver tíundarskyldur bóndi skyldi greiða hann graftarkirkju sinni; þ.e. þar sem hann átti von á að verða greftraður. Ljóstollur var greiddur til Kollsvíkurkirkju meðan hún stóð; enda voru hálfkirkjur skattkirkjur í þessu tilliti. Hver maður sem gjalda átti eina alin vaðmáls í tíund skyldi greiða í ljótoll tvo aura vax eða ígildi þess; 12 álnir vaðmáls. Frá 1782 varð skatturinn 8 mörk tólgar eða 26 aurar í reiðufé. Húsmenn greiddu hálfan ljóstoll, og svo var einnig um vinnuhjú frá 1817. Tollurinn var greiddur að hausti til kirkjuhaldara. Hann var afnuminn árið 1909 ásamt öðrum fornum sköttum kirkjunnar, en í stað þeirra kom sóknargjald.
Ljósviti (n, kk) Viti sem geislar ljósmerkjum til leiðbeiningar og varúðar sæfarendum. Þrír ljósvitar eru í Rauðasandshreppi, auk radíóvita á Bjargtöngum. Ljósviti var byggður 1913 á Bjargtöngum. Nýrri viti var byggður þar 1948, en sá eldri fluttur til Hvaleyrar. Gasljós var í vitanum til 1961, er hann var rafvæddur. Ólafsviti var byggður á Háanesi við Sellátranes árið 1943, í minningu Ólafs Jóhannessonar útgerðarmanns á Patreksfirði, og tekinn í notkun 1947. Raflýsing tók við af gaslýsingu árið 1978. Viti var byggður í Skor árið 1953, og gengur fyrir gasi.
Ljóta húfulagið (orðtak) Slæmt ástand; farið úrskeiðis. „Það er ljóta húfalagið á þessu sjónvarpi núna; ekkert nema kolruglaður nossari“! „Ljóta asskotans húfulagið á þessu; rollurnar hafa rutt úr hliðinu á Melnum“!
Ljótan (ao) Slæmt; illt í efni. „Það er ljótan ef við náum ekki strengjunum í land fyrir norðangarðinn“.
Ljóti karlinn (orðtak) Uppnefni á fjandanum/djöflinum; sá svarti. Á tímum rétttrúnaðar reyndu sumir með ýmsu móti að komast hjá því að hafa blótsyrði á vörum, og var þetta ein af mörgum aðferðum til þess. „Það má ljóti karlinn vita hvað varð af gemlingakvikindunum“.
Ljótorður / Ljótur í orðum (l/orðtak)) Kjarnyrtur; stórorður; sem notar ljót orð. „Ég var kannski heldur ljótorður í bréfinu, en það dettur nú kannski ekki úr þeim nytin við það, þeim háu herrum“!
Ljótt er að heyra lúsina hósta! (orðatiltæki) Upphrópun sem viðhöfð var í kaldhæðni eða hneykslun yfir gorti eða hástemmdum lýsingum viðmælanda. „Ljótt er nú að heyra lúsina hósta! Sagðist hann hafa staðið einn yfir öllu fénu fjögurra ára gamall“?
Ljótur (l) A. Ófagur. B. Slæmt veðurútlit. „Hann er fjandi ljótur í vestrinu, það þarf að drífa heyið inn“. C. Oft notað með nafnorði til áhersluauka: „Þetta var ljóta klúðrið“! „Það var ljóta vitleysan að raka ekki upp í gær“. „Það er ljóti samsetningurinn þetta bréf“! „Þetta er ljóta ástandið“!
Ljótur/ófagur munnsöfnuður (orðtök) Blótsyrði; ragn; bölbænir. „Það var ljótur munnsöfnuðurinn í honum þegar hann sá á eftir lúðunni“.
Ljótur til hafsins (orðtak) Slæmt veðurútlit í norðu- eða NV-átt; ruddi til hafsins. „Mér finnst hann vera orðinn ári ljótur til hafsins; hann leggur einhvern ófögnuð upp fljótlega gætég trúað“.
Ljótur til loftsins (orðtak) Dimmur í lofti; rigningarlegur. „Asskoti er hann að verða ljótur til loftsins núna“.
Ljúffengur (l) Um mat; gómsætur; mjög góður á bragðið. „Mikið er þetta ljúffeng skata“.
Ljúflega (ao) Greiðlega; liðlega; góðlátlega. „Ég skal ljúflega viðurkenna að þarna varð mér á í messunni“. „Eggin runnu ljúflega niður, þó eitthvað af þeim hafi kannski átt að vera landshlutur“.
Ljúflingsgrey / Ljúflingskvikindi (n, hk) Ljúflingur; meinleysingi. „Strákurinn er mesta ljúflingsgrey“. „Mér fannst þessi tuddi bara mesta ljúflingskvikindi; ég veit ekki hvað menn voru að hræðast hann“.
Ljúflingsnáungi / Ljúflingspiltur (n, kk) Viðkunnanlegur maður/strákur. „Mér fannst hann bara ljúflingsnáungi“. „Hann var ljúflingspiltur og kom sér vel við alla“.
Ljúflingur / Ljúfmenni (n, hk) Gæðablóð; góðmenni. „Hann var ljúfmenni sem aldrei féll styggðarorð af munni“.
Ljúfmannlega (ao) Af ljúfmennsku; innilega. „Hann tók okkur ljúfmannlega og bauð okkur til stofu“.
Ljúfmannlegur (l) Innilegur; blíður; vingjarnlegur. „Alltaf er hann jafn ljúfmannlegur í viðmóti“.
Ljúfmáll (l) Mjúkmáll; blíður í orðum. „Hann er nógu ljúfmáll þegar maður heyrir til, en árans eiturkjaftur í annarra manna hópi“.
Ljúfmenni (n, kk) Gæðablóð; mjög viðkunnanlegur maður. „Hann er mesta ljúfmenni inn við beinið, þó hann sýnist hrjúfur á yfirborðinu“.
Ljúfmennska (n, kvk) Gott/blítt viðmót; innileiki. „Hann kom fram við alla af stakri ljúfmennsku“.
Ljúfmeti (n, hk) Mjög góður matur; lostæti. „Þetta er eitt mesta ljúfmeti sem ég fæ“!
Ljúfur (l) A. Um mann/skepnu; Blíður; þægur; viðmótsþýður. „Karlinn var ljúfur í lund þá stundina“. B. Um vind/byr; jafn; hagstæður. „Við sigldum í ljúfum byr suður víkurnar“.
Ljúfur (n, kk) Gæluorð um krakka/mann. „Komdu hérna ljúfurinn minn og leyfðu mér að girða þig“.
Ljúfur verður leiður ef lengi situr (annars fleti á) (orðatiltæki) Þaulsætinn gestur getur reynt á gestrisni húsráðenda; jafnvel þó aufúsugestur sé. „Ganga skal;/ skal-a gestur vera/ ei í einum stað./ Ljúfur verður leiður/ ef lengi stitur/ annars fleti á“ (Hávamál).
Ljúga / Ljúga til um (s/orðtak) Skrökva; segja ósatt; fara með fleipur/ósannindi.
Ljúga án þess að blikna / Ljúga blákalt (orðtak) Ljúga án þess að hika eða skammast sín. „Hann laug þessu án þess að blikna“! „Þessu hefur hann logið blákalt í þig“!
Ljúga biti í eggina (orðtak) Brýna. „Þessi hnífbrók er vita bitlaus! Á ég nú ekki að reyna að ljúga einhverju biti í eggina fyrir þig“? Vísar til þeirrar þjóðtrúar að betur bíti ef lyginn brýnir.
Ljúga eins og (einhver) er langur til (orðtak) Ljúga frá rótum; ljúga að venjuu; ljúga algerlega. „Þessu lýgur þú eins og þú ert langur til“! „Sagði hann að ég hefði tekið þetta?! Hann bara lýgur því eins og hann er langur til“!
Ljúga eins og nefið snýr (orðtak) Vera afburða lyginn; ljúga fyrirhafnarlaust. „Þú skalt nú ekki taka mikið mark á þessu; hann er vanur að ljúga eins og nefið snýr“.
Ljúga frá rótum (orðtak) Um frásögn; skálda/ljúga að öllu leyti. „Það kom í ljós að hann hafði logið þessu öllu frá rótum; það var ekki flugufótur fyrir þessu“.
Ljúga fullan (orðtak) Ljúga miklu að; sannfæra um, þó ósatt sé. „Þeim tókst að ljúga hann fullan um að þarna væri hvalur á reki, og hann þyrfti að setja niður bátinn í hasti til að róa hann í land“.
Ljúga í eggina (orðtak) Tilvitnun í orðatiltækið lyginn maður brýnir best (sjá þar), sem oft var vitnað til. „Ætli maður þurfi ekki að fara að ljúga einhverju í eggina á þessari hnífbrók.
Ljúga sennilega (orðtak) Ljúga þannig að því verði gjarnan trúað. „… og það var talsverð íþrótt að ljúga einhverju nógu sennilega að póstinum og fá hann til að bera það á milli“ (MH; Mbl 04.01.2017).
Ljúga til um / Ljúga til nafns (orðtök) Segja ósatt um. „Ég held að hann hfai verið að ljúga til um að hann hafi farið þetta; þarna upp er engum manni fært“.
Ljúga upp (orðtak) Spinna upp; segja lygasögu; skálda. „Þú heldur þó ekki að ég sé að ljúga þessu upp“?!
Ljúga/skrökva upp á (einhvern) (orðtak) Bera einhvern röngum sökum. „Ég læt ekki ljúga þessu uppá mig alveg hljóðalaust“.
Ljúga upp í opið geð (orðtak) Ljúga að þeim sem trúa vill; ljúga blygðunarlaust.
Ljúka (s) Útkljá; enda; klára; fá botn í. „Nú hafði mönnum hlaupið kapp í kinn og margir skoruðu á þá Liða og Gumma að ljúka veðmálinu…“…. „Þegar því lauk stóð Bjarni í Hænuvík með reisluna; tilbúinn að vigta skrokkinn“ (PG; Veðmálið). „Hætt er við að þessum þurrkakafla fari bráðum að ljúka“.
Ljúka lofsorði á (orðtak) Hrósa; lofa. „Flestir luku lofsorði á hans ræðu“.
Ljúka sér af (orðtak) Ljúka við verk/viðfangsefni. „Það bíða fleiri eftir að komast á klósettið þegar þú ert búinn að ljúka þér af“.
Ljúka sundur munni/kjafti/tranti (orðtök) Segja; tala; mæla. „Hafi ég haft rangt fyrir mér um þetta skal ég ekki ljúka oftar upp mínum kjafti um það“.
Ljúka upp einum rómi (orðtak) Segja allir sem einn; vera sammála. „Allir sem hann þekktu luku upp einum rómi um færni hans á þessu sviði“.
Ljúka við kastið (orðtak) Ljúka við að leggja fiskilínu í sjó og bíða eftir að dráttur hefjist á ný. „Þegar lokið var við að draga línuna var bátnum fest við það stjórafæri þar sem drætti lauk. Þetta var kallað að „ljúka við kastið“. Þá var byrjað að blóðga þorskinn; slægja steinbítinn og skera beitu uppá næsta kast“ (KJK; Kollsvíkurver).
Ljúkast upp fyrir (orðtak) Renna upp fyrir; opinberast, vitrast; sjá; muna eftir. „Einhverntíma mun ljúkast upp fyrir mönnum hve fáránleg byggðastefnan hefur ríkt á síðustu áratugum; sem lagði sveitirnar í eyði“.
Loddaraskapur (n, kk) Ólíkindalæti; leikaraskapur; látalæti; fíflagangur. „Þetta var bara loddaraskapur í honum til að losna við verkið“.
Loddari (n, kk) Leikari; fífl; trúður. „Hver heldurðu að taki mark á svona ekkisen loddurum“?!
Loða (s) Tolla; vera saman. „Þeirra hjónaband loðir enn, þó hinir bræðurnir hafi skilið við sínar konur“.
Loða saman (orðtak) A. Loða; hanga/tolla saman. „Spilin voru orðin lúð og léleg og vildu loða saman“. B. Sagt í samhangandi skömmum/fúkyrðum. „Það loddi víst saman hjá honum þegar hann tók þá til bæna eftir verknaðinn“.
Loða uppi (orðtak) Um það sem ekki dettur/veltur niður af sjálfsdáðum. „Hérna í klettunum skaut ég fyrstu tófuna, en hún loddi uppi og ég þorði ekki að klifra og ná í hana“ (IG; Sagt til vegar I). „Þekjan á Fönixnaustinu loddi uppi framyfir 1970“.
Loða við (orðtak) A. Tolla við; vera fast við; hanga við. „Sandurinn loddi við skóna í bleytunni“. B. Líkingamál; vera fylgja einhvers. „Óheppnin þótti oft loða við hann“.
Loðband (n, hk) Ullarband; lopi. Sjaldan notað í seinni tíð, en heyrðist þó.
Loðbrýndur (l) Með loðnar augabrúnir. „Hann var áberandi loðbrýndur og oftast með mikið og úfið hár“.
Loðbandspeysa (n, kvk) Lopapeysa. Stundum notað sem gæluorð. „Ég var kappklæddur; í loðbandspeysu, föðurlandi og tvennum sokkum; með svellþykka vettlinga á höndum og dembúl á höfði“.
Loðdýrarækt (n, kvk) Eldi refa eða minka vegna sölu á feldum. Tvisvar var loðdýrarækt reynd í Kollsvík, og í bæði skiptin með ref. Á fyrrihluta 20.aldar hafði Einar Guðbjartsson íslenska refi í búrum ofantil á Gróumel á Láganúpi. Fóðurs aflaði hann einkum með því að skjóta fugl. Feðgarnir Össur Guðbjartsson á Láganúpi og Hilmar Össurarson í Kollsvík settu upp allstórt refabú í aflögðum fjárhúsum á Stekkjarmel á 9. áratug 20. aldar. Fóður fengu þeir einkum úr fóðurstöð sem þá starfaði í sláturhúsinu á Patreksfirði (sem síðar varð hótel). Verð á skinnum er mjög sveiflugjarnt og olli verðfall endalokum beggja þessara tilrauna.
Loðhúfa (n, kvk) Skinnhúfa; húfa sem loðin er, oftast að utanverðu. „Guðbjartur á Láganúpi átti á efri árum steingráa loðhúfu af þeirri gerð sem þá tíðkaðist, og líktist sívalningi; lokuðum að ofan“.
Loðinlubbi (n, kk) Úfið/sítt hár eða síðhærður maður. „Sestu þarna á stólinn; mér sýnist ekki vanþörf á að klippa dálítið af þessum loðinlubba“.
Loðinn um lófana (orðtak) Efnaður; ríkur; í góðum efnum. „Karlinn var sagður nokkuð loðinn um lófana, þó hann lifði eins og öreigamaður“. Vísar til þjóðtrúar um að fjáðir menn væru loðnir í lófunum. Sömuleiðis þótti það ávísun á auðsæld að vera loðinn um skrokkinn.
Loðmulla (n, kvk) Það sem er loðið eða óskýrt (harður framb.). Notað einkum um óefnislega hluti. „Ræðan var nú ekkert annað en loðmulla; ekkert sem hönd var á festandi“.
Loðmullulegur (l) Óskýr; loðinn. „Hann er dálítið loðmullulegur í vestrinu“ (dimmur þar yfir, eða skýjaflókar); „Mér finnst þetta dálítið loðmulluleg loforð“. Heyrist ekki utan Rauðasandshrepps.
Loðmæli (n, hk, fto) Óskýr orð; hálfkveðnar vísur. „Það þýðir ekkert að viðhafa nein loðmæli um það; þetta verður að vera alveg skýrt“!
Loðmæltur (l) Óskýr í máli; ekki skýrmæltur. „Hann var fremur loðmæltur um þetta atriði; eins og hann hefði ekki fulla þekkingu á því“.
Loðpurpa (n, kvk) Mygla. „Hér hefur keppur staðið uppúr sýrunni og komin einhver loðpurpa á hann“.
Loðskinn (n, hk) Órökuð gæra; skinn af ref/mink.
Loðslegið (l) Um slægju/gras; ekki slegið nálægt rót; illa slegið. „Afa fannst heldur loðslegið eftir fyrstu sláttuvélina sem í víkina kom; svo hann rölti iðulega á eftir með orfið og bætti um betur“.
Lof mér (orðtak) Lofaðu mér. Boðhátturinn af „lofa“ var oft í þessari stuttu mynd þegar um 1.persónu eintölu var að ræða en ekki í 2. eða 3.persónu. „Lof mér að þukla aðeins eyrun á þessu lambi; mér sýnist vera eitthvað ben þarna öðrumegin“. „Lofaðu nú bróður þínum að leika með þetta smástund“.
Lof og prís (orðtak) Upphrópun til að lýsa létti/fögnuði. „Guði sé lof og prís fyrir að tóbakið fannst“.
Lofa (s) A. Hrósa; bra lof á; skjalla. B. Leyfa. „Hann lofaði mér að reka hópinn í gegnum túnið“. C. Heita; gega loforð. „„Ég skal lofa þér fallegustu lífgimbrinni minni í haust hafir þú rétt fyrir þér; og ég skal meira að segja leggja til skotið“! (PG; Veðmálið).
Lofa bót og betrun (orðtak) Lofa að bæta sig/ haga sér betur; lofa öllu fögru. „Það er ekki mikið að marka það, þó þessi hrekkjalómur lofi bót og betrun“.
Lofa /einhverjum) að vera (orðtak) Bjóða einhverjum gistingu. „Þau layfðu mér að vera yfir nóttina“.
Lofa gulli og grænum skógum (orðtak) Gefa góð fyrirheit/loforð. „Hann lofaði mér gulli og grænum skógum ef ég vildi aðstoða hann við þetta“.
Lofa í hástert (orðtak) Hrósa mjög mikið; oflofa; gylla. „Mér er slétt sama þó aðrir lofi þetta í hástert“.
Lofa með (orðtak) Leyfa að koma/fara með. „Þegar hægt var að komast á sjó að prufukeyra, þá var strákunum venjulega lofað með“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Lofa uppí ermina á sér (orðtak) Lofa meiru en maður getur staðið við. Vísast e.t.v. í töfrabrögð, þar sem unnt er að hrista lygilegstu hluti fram úr erminni.
Lofa statt og stöðugt / Lofa upp á (sína) æru og trú (orðtak) Lofa tryggilega/hátíðlega/örugglega. „Hann lofaði því statt og stöðugt að aðstoða okkur við þessar smalamennskur“. „Ég lofa því upp á mína æru og trú að gera þetta aldrei aftur“!
Lofa öllu fögru (orðtak) Gefa loforð um eitthvað betra eða að standa sig betur; lofa bót og betrun. „Þeir lofa öllu fögru fyrir kosningarnar, en muna svo minnst af því seinna“!
Lofaður (l) A. Frátekinn; búið að ánafna/heita hann einhverjum. „Ég get ekki látið þig hafa þennan lambhrút; hann er þegar lofaður, en það má nú athuga með annan“. B. Stytting úr trúlofaður; búinn að heita einhverri gjaforði/giftingu. „Ósköp er að sjá hann fíflast svona í stelpunum; lofaður maðurinn“! C. Tilbeðinn. „Lofaður sé drottinn allsherjar; skapari himins og jarðar“. Eingöngu notað nútildags í kirkjulegu málfari.
Lofast til (orðtak) Lofa einhverjum að framkvæma/gera. „Ég lofaðist til að hjálpa honum með innreksturinn“. Er enn notað af Kollsvíkingum, en heyrist lítið þar fyrir utan.
Lofið þreyttum að sofa (orðatiltæki) Viðhaft þegar einhver þurfti að fá svefn meðan aðrir voru á fótum; annaðhvort af honum sjálfum eða öðrum.
Lofkvæði (n, hk) Kvæði sem einkum snýst um að dásama persónu eða verk hennar.
Loforðaflaumur (n, kk) Mikið af loforðum, sem ólíklegt er að staðið verði við. „Ekki vantar loforðaflauminn frá þessum frambjóðendum; það fer minna fyrir efndunum“!
Loforðagjálfur (n, kk) Mikið af loforðum; innantómt bjartsýnisraus. „Alltaf er það sama sagan með þessa þingmenn og samgöngumálin; ekkert nema innantómt loforðagjálfur“!
Lofrulla / Lofræða (n, kvk) Mikið hrós; væmið/óverðskuldað hól. „Heldur fannst mér þetta leiðinleg framboðsræða; mestmegnis lofrulla og málskrúð um eigið ágæti og ímynduð afrek flokksins“.
Lofsamlega (l) Blessunarlega; til allrar hamingju. „við erum svo lofsamlega laus við þessa pöbbamenningu“.
Lofsvert (l) Aðdáunarvert; verðugt að því sé hrósað. „Mér finnst þetta lofsvert framtak hjá honum“.
Lofsyngja (s) Hrósa; ljúka lofsorði á; mæra. „Þeir ættu að lofsyngja meira þessa ansvítans kvótakónga; svo flytur þetta bara af staðnum og tekur með sér alla lífsbjörg íbúanna“!
Lofsöngur (n, kk) A. Kvæði/söngur með miklu lofi/hrósi. B. Ákveðin tegund sálma, þar sem drottinn er lofaður. C. Líkingamál um lof/hrós í garð einhvers, sem þykir ekki verðskulda það.
Loft (n, hk) A. Andrúmsloftið sem menn anda að sér. B. Efri hæð í tvílyftu húsi. C. Loftsig; þær aðstæður í bjargi að það slútir framyfir sig, svo sigmaður er í lausu lofti. „Langleiðina niður í Jötunsaugun er loftsig“. D. Himinn. „Hann er að þykkna í lofti“. „Hann er að létta til í austurloftinu“.
Lofta (s) A. Lyfta; hefja á loft. „Það er nú ekki meira en svo að ég lofti þessari byrði“. B. Láta loft endurnýjast. „Það verður að lofta vel um fiskinn í hjallinum“.
Lofta út (orðtak) Endurnýja loft í húsi; loftræsa. „Hafðu dyrnar opnar smástund; það er ágætt að lofta út“.
Loftbiti (n, kk) Biti/slá sem heldur uppi lofti/hæð í húsi.
Loftgat / Loftsgat (n, hk) Op sem gengið var um upp á loft íbúðarhúss. „...var þá kerald látið standa við loftsgatið og hellt í það úr koppunum“. (ÓTG; Ágrip af æviferli).
Lofthjallur (n, kk) Stólpahjallur; hjallur sem ekki er yfirbyggður. Heitið var ekki mikið notað með þessu forskeyti í Kollsvík, þó þar hafi fiskhjallar í verum verið þessarar gerðar svo lengi sem heimildir eru um.
Lofthleri (n, kk) Hleri/hlemmur sem lokar loftsgati. „Láttu aftur lofthlerann þegar þú ert kominn upp“.
Lofthræddur (l) Hræðist við að horfa niður úr mikilli hæð. „Sumir eru lofthræddari en aðrir, og til eru þeir sem ekki þora að fara um brattar fjallshlíðar; jafnvel ekki þó þar sé greiðfær gata“.
Lofthræðsla (n, kvk) Hræðsla við að horfa niður af háum stað. „Mér leið alltaf vel þegar ég var kominn í vaðinn og niður fyrir brúnina; þó að það væri tæpt að fara fann ég ekki fyrir lofthræðslu“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg). „Ekki þarf að taka það fram að fólki sem haldið er lofthræðslu skal alfarið ráðlagt frá gönguferðum á öllum þessum stöðum“ (HÖ; Fjaran). Þjóðtrúin segir að ef þunguð kona hleypur mikið verði barnið lofthrætt. ( JÁ; Þjs).
Loftköst (n, hk, fto) Mikil og stór stökk; hratt hlaup. „Allt í einu sá ég stóran stein koma fljúgandi niður klettana. Hann fór síðan í loftköstum niður hlíðina og endaði langt frammi í sjó með miklum gusugangi“.
Loftlína (n, kvk) A. Bein lína milli staða, en ekki eftir t.d. vegi. „Stutt er milli Kollsvíkur og Breiðavíkur í loftlínu, en fara þarf inn í Örlygshöfn til að komast á milli á bíl“. B. Lína/leiðari sem liggur í lofti á milli staura. „Símasamband gat verið stopult í óveðrum meðan hann var tengdur gegnum loftlínur“.
Loftlítill (l) Um hjólbarða; með litlum loftþrýstingi. „Gekk svo lengi að vélarfjandinn tók ekki eitt einasta púst. „Þá sá ég hvað var að“, sagði bóndinn mér; „eitt hjólið var loftlítið. Ég dældi í það og sá grái rauk í gang“! “ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Loftsig (n, hk) Loft; innundir sig; þær aðstæður í bjargi að það slútir framyfir sig, svo sigmaður er í lausu lofti. „Loftsig er mestalla leiðina niður á Höfðann í Mávakömbunum, en aðseta er góð á brún“.
Loftslá (n, kvk) Skör; biti; slá í loftgati tvílyfts húss.
Loftsjónir (n, kvk, fto) Ljósfyrirbæri; e.t.v. urðarmáni og hrævareldur. „Engar loftsjónir hef ég séð í 21 ár sem ég hef hér verið“ (séra Gísli Ólafsson; Sóknarlýsingar 1840).
Loftskák / Loftskör / Loftslá / Slá (n, kvk) Bríkin við loftsgat/niðurgöngu af tvílyftu húsi, við efstu tröppu stiga. „„Ekki líst þér vel á hann í dag; það sé ég af tóbaksögninni“, sagði ég og skaut mér niður af loftskákinni“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Loftsteinn (n, kk) Geimsteinn; vígahnöttur. Hnullungar af ýmsum stæðrðum og ýmiskonar efni sem eru á ferð um himingeiminn; falla inn í aðdráttarafl jarðar og brenna flestir upp á leið sinni gegnum gufuhvolfið. Séð frá jörðu er eldglampinn sem þá myndast margfalt stærri en efni hnullungsins. T.d. getur loftsteinn sem er 1 gramm að þyngd myndað stjörnuhrap sem er jafn bjart algengum fastastjörnum. Talið er að nokkur tonn af loftsteinum falli til jarðar hvern sólarhring; flestir á stærð við rykkorn. Flestir falla þegar jörðin fer árlega í gegnum loftsteinasveima sem eru á braut hennar. Fyrir kemur að svo stórir loftsteinar falla að þeir brenna ekki upp í gufuhvolfinu. Frægastur þeirra er sá sem féll í grennd við núverandi Yukatan skaga fyrir um 68 milljónum ára og olli m.a. útrýmingu risaeðlanna. Annar frægur féll í Síberíu 1908 og stráfelldi skóg á víðlendu svæði. Stundum finnast loftsteinar, og er þeirra helst að leita þar sem yfirborð hefur lítið raskast um tugmilljónir ára, t.d. í Ástralíu. Margir eru með hátt málminnihald, einkum járns, en aðrir eru úr léttari bergtegundum. Víða um jörð finnast gígar eftir loftsteina. Ekki er unnt að alhæfa um uppruna loftsteina. Sumir eru án efa leifar þess efnis sem myndaði hnetti sólkerfisins; aðrir hafa flogið út í geim við árekstur loftsteina á reikistjórnur en enn aðrir kunna að vera ættaðir úr geimnum langt utan okkar sólkerfis. „Ekki er vitað óyggjandi til þess að loftsteinn hafi fallið í Kollsvíkurlöndum. Þó fann ég, kringum 1975, berg framan við Gálgasteinabrekkurí Vatnadal sem ekki líktist blágrýtinu í umhverfinu. Þar í kanti hestavegarins er lítil dæld full af brotum af þessari bergtegund, og virðast brotin hafa dreyfst út frá dældinni. Jarðfræðingur sem fékk sýni til skoðunar gat ekki áttað sig á þessu, en taldi það súra bergtegund; nokkuð sem er ekki í berggrunni svæðisins“ (VÖ).
Lofttappi (n, kk) Innilokað loft. „Tilkomumikið er að sitja uppi í hlíðinni ofan Helluvogar í miklu vestanbrimi og hlusta á gnýinn og finna titringinn er brimaldan skellur inn í hellinn og myndar þar lofttappa sem sprengir báruna til baka á móti þeirri næstu“ (HÖ; Fjaran).
Loftugur (l) Upplyftugur; hreykinn; upp með sér. „Hann var heldur loftugur yfir þessum árangri, sem von er“.
Loftvarnarmerki (n, hk) Sérstakt hljóð; hættumerki, sem hani gefur frá sér. „Ef hrafn eða fálki fljúga yfir gefur haninn alltaf loftvarnarmerki, sem er hvinur mikill. Stundum hafa krakkar gaman af að kasta upp spýtu eða öðru svo haninn gefi loftvarnarmerki“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).
Loftvog (n, kvk) Barómet; tæki til að mæla loftþrýsting og breytingar á honum vegna t.d. gangs hæða og lægða í lofthvolfi jarðar. Loftvog var mikilvægt tæki á heimilum til að sjá fyrir veðurbreytingar í vændum, fyrir daga veðurspádóma í útvarpi.
Loga (s) Sá siður er nú aflagður víðasthvar að tala um aðþað „logi“ á rafljósaperu; að rafljós sé „logandi“. Í staðinn er almælt að það „sé kveikt“ á ljósinu. Hið fyrrnefnda var notað í Kollsvík og nágrenni.
Loga í illdeilum (orðtak) Hver höndin upp á móti annarri; miklar deilur í hópi.
Loga uppúr (orðtak) Um það þegar eldur/glóð í eldstæði í reykhúsi brennur uppúr torfinu og verður að heitum og eyðandi eldi. Mikilvægt er að fyrirbyggja það þegar kveikt er upp, t.d. með því að velja torfið rétt.
Logagullinn / Logagylltur (l) Eldrauður; rauðgullinn. „Himinninn var tignarlega logagullinn þegar sólin sendi síðustu geislana yfir sjóndeildarhringinn“.
Logandi hræddur/smeykur (orðtök) Mjög hræddur; lafhræddur. „Ég er orðinn logandi smeykur um að ekkert verði af þessu“.
Loggorta (n, kvk) Lítið þrímastrað seglskip með loggortusiglingu. Nokkuð algeng í N-Frakklandi framá 20. öld, og notuð sem lítil fiskiskip og flutningaskip.
Loggortusegl (n, hk) Seglabúnaður báta, sem eitthvað var notaður á stærri bátum í Útvíkum á síðari hluta 19. aldar. Loggortusegl eru uppmjó, skáskorin rásegl og þykja sameina kosti langsegla og þversegla. „Hákarlaskip Vestfirðinga voru með einu þversegli. Á þeim þekktist reyndar loggortusigling, t.d. í Víkum norðan Látrabjargs, en þar var þó hinsvegar þversegl á öllum venjulegum fiskibátum; einnig færeyskum sem þangað voru keyptir og í Arnarfjörð“ (LK; Ísl. sjávarhættir II; heimild GG). Þetta kann að benda til þess að bæði eldri Fönix í Kollsvík og Kópur á Hvallátrum hafi haft loggortusegl. Loggortusegl var nokkuð áþekkt gaffalsegli (sjá þar).
Logn (n, hk) Enginn vindur. „Það var logn og svotil ládauður sjór en meinleysislegur skýjabakki yfir Snæfellsnesinu“ (ÁE; Ljós við Látraröst). „...lá þá oft landsynningskaldi út fjörðinn eða logn þegar best var“ (KJK; Kollsvíkurver). „Svo furðulegt sem það kann að þykja þá var reyndin sú að mönnum á seglskipum var engu síður illa við lognið heldur en nokkru sinni rokið“ (GG; Skútuöldin).
Logn og blíða (orðtak) Mikið notað til að lýsa algeru kyrrviðri og stillum. „Það er lognið og blíðan áfram“.
Lognast útaf (orðtak) Deyja útaf; verða að engu. „Þetta mál virðist alveg ætla að lognast útaf hljóðalaust“. Líking við að veður detti í logn.
Lognbára (n, kvk) Alda í logni; yfirleitt lágstemmd, en getur þó einnig verið þung undiralda.
Lognblettur (n, kk) Svæði á sjávarfleti þar sem ekki gætir vindbáru, þó hún sé í kringum það. „Þegar vindur stendur af háum fjöllum við sjó geta myndast lognblettir undir þeim, þó á milli þeirra rjúki hvítur sjór“.
Lognblíða (n, kvk) Áhersluorð um logn; stillilogn. Oftar var þó notað orðasambandið logn og blíða.
Lognblíða (n, kvk) Blíðalogn; logn og ládauður sjór. „Enn er sama lognblíðan og í gær“.
Logndagur (n, kk) Dagur með lygnu veðri. „Það má einhvernvegin róa í svona logndögum“!
Logndeyfa (n, kvk) Deyfa; þurrkleysa í logni. „Það þornar hægt heyið í þessari logndeyfu“.
Logndrífa / Lognél / Lognfjúk / Lognkóf / Lognmjöll / Lognmugga / Lognsnjór (n, kvk/hk) Snjókoma í logni. „Svo þétt var logndrífan að vart sá í næsta mann“. „Ég held það verði ekkert meira úr þessu lognfjúki“. Líklega hefur „lognsnjór“ oftast verið notað á síðari tímum.
Lognhægja (s) Hægja vind og stefna í lygnu. „Hann hefur lognhægt síðasta klukkutímann“.
Lognhægur (l) Um veður; fremur/mjög hægur vindur; nánast logn. „Það var aldrei að það urðu umskipti í veðrinu! Hann er bara orðinn lognhægur allt í einu. En þetta gæti svosem allt eins verið svikalogn“.
Lognið á undan storminum (orðatiltæki) Greint var á milli þess hvort um varanlega stillu var að ræða eða einungis logn í lægðarmiðju; til þess þurftu menn ekki veðurspá eða kort áður fyrr. „Þetta er nú bara lognið á undan storminum; mér sýnist að við róum ekkert í dag“.
Lognið er leiða best (orðatiltæki) Best sækist róðurinn í logni; jafnfljótt í allar áttir. „Hæfilegur vindkaldi er legði í segl, væri þó vel þeginn. En þetta er oft árla morguns og lygnasti tími sólarhringsins. Það er því bara logn og róður. Það hefur líka orðið að orðtaki: „Lognið er leiða best“. Undan því var sjaldan kvartað í fullri alvöru“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lognkvöld (n, hk) Stillur/logn að kvöldi. „Fátt er fallegra en lognkvöld í Kollsvík að sumarlagi“.
Lognkyrr (l) Lygn; friðsæll. „Eins og sagt hefur verið lá Kollsvíkin gegnt opnu hafi. Svipmót hennar var bæði blítt og strítt. Lognkyrrir vordagar voru þar fagrir og unaðslegir“ (KJK; Kollsvíkurver). „Blakkurinn speglaðist í lognkyrrum haffletinum “ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Lognkyrrð (n, kvk) Kyrrð í logni, svo hljóð getur heyrst lengra að en vant er. „Í lognkyrrð má stundum greina tal manna þvert yfir víkina“.
Lognmolla (n, kvk) A. Hægviðri og hlýtt í veðri. B. Rólegheit í mannlífi. „Það er nú ekki lengi lognmollan þar sem hann er“!
Lognmolludagur (n, kk) Dagur hægviðris og e.t.v. raka, þegar hey þornar seint. „Heyið þornar seint í svona tíð; hver lognmolludagurinn eftir annan og sólarlaust“.
Lognmóða (n, kvk) Staðbundið hitamistur sem myndast í kyrru veðri.
Lognrák (n, kvk) Rák á sjónum þar sem hann er sléttur, þó gáróttur sé beggja megin við; álfarák. „Oft sjást lognrákir á sjónum. Þær eru nefndar álfarákir, og var því trúað að þær væru kjölfar eftir báta huldufólksins sem farið hafði í róður“.
Lognrigning (n, kvk) Rigning í logni. „Lognrigning er sjaldgæf, en verður einna helst eftir sólríkan dag“.
Lognsléttur sjór (orðtak) Ládeyða og logn. „Það er nú hinsegin að vera sjóveikur í svona lognsléttum sjó“!
Lognstilla (n, kvk) Sjóleysa í logni um nokkurn tíma. „Ég man nú bara ekki álíka lognstillur yfir svona langan tíma“.
Lognsævi (n, hk) Logn/hæglæti á sjó. „Að hafa geiglausa og listilega stjórn á stýri, jafnt í lognsævi sem spildusjó og háaroki, var óvéfengjanleg íþrótt...“ „(LK; Ísl.sjávarhættir III; frásögn ÓETh).
Logsárt (l) Mjög sárt/viðkvæmt. „Hnéð var stokkbólgið og logsárt viðkomu“.
Logsviði (n, kk) Mjög sár sviði; sárir verkir. „Ég fann fyrir logsviða þar sem naglinn hafði stungist í mig“.
Logsvíða (s) Finna fyrir miklum sviða; verkja. „Mig logsvíður í sárið þegar saltið kemur í það“.
Lok (n, hk) A. Hlemmur sem lokar íláti. B. Endalok framvindu/máls. „Ætli það fari nú ekki að koma lokin í vertíðina hjá okkur bráðum“. C. Lítil lúða; smálúða; lóa.
Loka (n, kvk) A. Læsing/lokubúnaður á hurð eða loki. Loka á hurð getur verið af ýmsu tagi, t.d. slagbrandur, fleygur, klinka, hespa, binding eða annað. B. Spjald í vatnsrás, til að unnt sé að stöðva streymi eða koma því af stað. C. Klauf á buxum karlmanna, til að auðvelda þvaglát.
Loka að sér (orðtak) Loka/læsa dyrum á herbergi/rými sem maður er sjálfur í. „Þeir lokuðu að sér, til að geta rætt málin í ró og næði“.
Loka af (orðtak) Króa af/inni. „Í miklum snjóavetrum voru útvíknabæir stundum lokaðir af vikum saman“.
Loka fyrir (orðtak) A. Setja hindrun fyrir umgang. „Ég lokaði fyrir í Takaklettinum“. B. Skrúfa niður í útvarpi. „Ekki loka fyrir tækið strax; ég ætla að heyra veðurfréttirnar“.
Lokabardagi / Lokaorrusta / Lokasenna / Lokaslagur (n, kk/kvk) Úrslitabardagi; síðasti slagur. Notað í líkingamáli um baráttu sem ræður úrslitum í máli/verki. „Ætli þetta verði ekki lokasennan í þessu“.
Lokka (s) Ginna; laða að/til. „Okkur tókst að lokka yrðlingana út úr greninu“.
Lokkaprúður / Lokkasíður (l) Með sítt/ mikið vaxið hár. „Ári ert þú að verða lokkasíður; ég held þú ættir að biðja hana um að klippa þig á morgun“.
Lokræsi (n, hk) Lokaður stokkur neðanjarðar sem lagður er til að veita vatni. „Vatnsból í Sauðlauksdal var þó nokkuð langt frá núverandi bæjarstæði. Séra Björn Halldórsson réði bót á þessu. hann lét grafa skurð úr læk er féll fétt vestanvið hið forna bæjarstæði og lagði lækjarfarveginn niður á milli heimabæjanna. Þar byggði hann brunnhús og lokaði læknum alla leið ofan hlíðina, heim að brunnhúsinu. Um 1900 voru þessi lokræsi svo saman sigin og víða farnar að myndast fúauppistöður í læknum... „ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Loks / Loksins (ao) Að lokum. „Loks tókst okkur að losa færið úr botni“. „Loksins hafðist þetta“.
Loku fyrir það skotið (orðtak) Útilokað; engin von um. „Alltaf er það eins með þessa þingmenn! Skyldi vera loku fyrir það skotið að þeir hugsi útfyrir borgarmörkin endrum og eins“?! Vísar til loku á bæjarhurð.
Lokubuxur (n, kvk, fto) Hnésíðar vaðmálsbuuxur sem karlmenn klæddust á 18. Öld og fram á þá 20. Á þeim var fóðruð buxnaloka í stað buxnaklaufar, og klauf upp í buxnaskálmarnar utanfótar, hneppt með þremur hnöppum.
Lokubrók (n, kvk) Skinnklæði voru ýmist höfð með eða án loku. „Þær brækur þóttu fara betur er saumaðar voru með loku. Ennfremur þurfti nokkurt skinn í miðseymi; einkum notað úr gömlum skinnklæðum“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lon og don (orðtak) Tímunum saman; löngum; í langan tíma. „Stóð hann lon og don við færið... án þess að hvíla sig að heitið gæti“ (GG; Skútuöldin).
Lona við / Lóna við (orðtak) Tafsa/tefja/dóla við (verk). „Ég var ekkert að lona við þetta, heldur dreif mig í að klára aðgerðina“. „Sá er nú ekki aldeilis að lóna við hlutina“!
Lomber (n, hk) Þriggja manna spil, sem nokkuð var spilað í Kollsvík, a.m.k. um miðja 20.öld. Nafnið er líklega vísun í spænska orðið l´hombre, sem merkir maður, en spilið mun upprunnið á Spáni. Líkist bridge/vist að því leyti að það er sagnaspil. Þó margt ólíkt, s.s. að spaða- og laufás er alltaf tromp ef spilað er í litum; og áttur, níur og tíur eru teknar út áður en spilað er. Er stundum spilað upp á peninga eða annað. „Lomber gekk oft undir nafninu „heldrimannaspil“, sökum þess að það spiluðu upphaflega einungis embættis- og verslunarmenn. Fyrst varð það landleguspil við Djúp, en síðar í Víkum fyrir norðan Látrabjarg; á Hjallasandi og í Höskuldsey. Lomber tíðkaðist einnig í verstöðvum á Austfjörðum. Meðal vermanna var bit í lomber víðast og lengi mjög lítil eða 10-15 aurar. en komst á stöku stað í 25 aura, t.d. í Bolungarvík“ (LK; Ísl.sjávarhættir). „Var spiluð vist nær eingöngu; stundum lomber“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku).
Longintes (n, kk) Mjög hár maður. „Skárri er það nú longintesinn; og ekki fermdur ennþá“! Stundum notað langintes í sömu merkingu.
Loníettur (n, kvk, fto) Gleraugu; brillur. „Réttu mér loníetturnar mínar; þær eru á borðhorninu“.
Lonta (n, kvk) A. Branda; lækjasilungur; kóð. „Voruð þið að veiða lontur í Ánni drengir“? B. Nef. „Viltu ekki fá þér aðeins í lontuna“? „Snýttu nú á þér lontuna drengur; þú ert með horinn niður á höku“! Sést ekki annarsstaðar í síðarnefndu merkingunni.
Lontulegur (l) Slappur; linur; veikur. „Maður er enn fjandi lontulegur eftir pestina“.
Lopi (n, kk) Ull sem búið er að kemba en ekki spinna. Sjá tóvinna.
Loppa (n, kvk) Fótur þófdýra, s.s. katta og hunda, einkum fremri hluti fótar. „Mér sýnist tíkin eitthvað vera meidd á loppunni“.
Loppinn af kulda (orðtak) Í kulda herpast hendur ósjálfrátt og dofna svo ekki verður rétt úr þeim fyrr en hlýnar. Hét það að vera loppinn, og ef rammt kvað að urðu menn krókloppnir.
Lorta (s) Gera þarfir sínar; kúka. „Ég held ég verði að bregða mér á kamarinn og lorta“.
Lorta (n, kvk) Magaverkur; lasleiki í maga. „Það er einhver bölvuð lorta í mér núna“.
Lortur (n, kk) Kúkur; þrekkur. „Einhver hafði gert þarfir sínar við hestaveginn án þess að husla lortinn“.
Los (n, hk) A. Lausung; losarabragur. „Þegar fækkaði í sveitinni kom los á alla félagslega innviði“. B. Um fiskhold; missir þéttleika. „Fiskurinn þolir illa að geymast lengi í þessum hita. Þá er hætt við að í hann komi los og síðan ýlda“.
Losa svefn (orðtak) Sofa ekki eins fast og áður; vakna. „Ég var farinn að losa svefn um fimmleytið í nótt“.
Losa um (orðtak) Gera laust; ná úr festu. „Hann losaði um tréð með því að velta grjótinu frá“.
Losa úr botni (orðtak) Ná færi úr botnfestu. „Okkur tókst að losa úr botni með því að keyra uppí strauminn“.
Losa við (orðtak) Koma af sér; leggja frá sér. „Á ég ekki að losa þig við eitthvað af þinni byrði“? „Það gengur erfiðlega að losa sig við þessa kvefpest“.
Losarabragur (n, kk) Lausung; of mikið frjálsræði; lítil reglufesta. „Svona losarabragur getur ekki gengið“.
Losaralegt (l) Lauslegt; laust í reipunum; ekki í föstum skorðum. „Skelfing er þetta losaralegur frágangur“!
Losnar um málbeinið/tunguhaftið (orðtök) Fær málið; fer að tala. „Hann sat lengi og starði á þessar aðfarir þegjandi og í forundran, en þegar loksins losnaði um málbeinið á honum átti hann ekki til orð af hneykslun“. „Við þessa hótun losnaði um tunguhaftið hjá stráknum og hann játaði á sig hrekkinn“.
Lostæti (n, hk) Mjög girnilegur/góður matur. „... því við stóðumst ekki freistinguna að smakka þetta lostæti á leiðinni heim“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Lotaður (l) Um bát; lagður fram í ofanvert stefni; með hallandi stefni. „Færeysku bátarnir voru áberandi lotaðir“.
Lotinn (l) Um mann; áboginn. „Mikið er hann orðinn lotinn blessaður“.
Lotlegur (l) Framlágur; hokinn. „Ósköp er nú gamli maðurinn orðinn lotlegur“.
Lotning (n, kvk) Virðing; aðdáun. „Ég ber nú litla lotningu fyrir svona pótintátum“!
Lotterí (n, hk) Happdrætti; tilviljun. „Þessi veiðiskapur getur verið mikið lotterí“.
Lotulangur (l) Með löngum takti. Oft notað um andardrátt eða hrotur. „Hann var farinn að skera hrúta; heldur betur lotulangur og hávaðasamur“!
Ló (n, kvk) A. Upphnyklaðir þræðir og kusk, t.d. á fatnaði eða á gólfum. B. Trosnaðar viðartrefjar í sagarfari. B. Gisið hár á höfði eða skinni; gisið skegg. „Blessaður farðu nú að raka af þér þessa óhrjálegu ló“!
Lóa (n, kvk) A. Fugl; heiðlóa/sandlóa. B. Lítil lúða. Lúða hefur ýmis heiti eftir stærð. Hin minnsta er nefnd lúðulok; lóa er aðeins stærri en langflaka enn stærri og stærst flakandi lúða eða stórlúða.
Lóar ekki við stein (orðtak) Algerlega sjólaust. „Það lóaði ekki við stein þegar við lögðum að klöppinni“. Mikið notað orðtak í Kollsvík; fyrr og síðar.
Lóð (n, kvk) A. Fiskilína; færi sem egndum krókum er raðað á með vissu millibili og það lagt eftir hafsbotninum; með baujum og botnfestum í enda. Lóðir hafa að öllum líkindum verið notaðar í Kollsvík fyrr á öldum, en af einhverjum ástæðum lagðist sú notkun niður og um aldir var þar einungis veitt á handfæri. E.t.v. hefur það stafað af þeirri hjátrú að „lóðafar geri stóran skaða almúganum; helst um vertíð, þá menn helst vildu leita sér bjargar af sjónum“, eins og segir í kærubréfi frá öðru landshorni. En líklega er ástæðan fremur sú sem Jarðabókarhöfundar tilgreina í umsögn um Hænuvík: „Lóðir brúkast þar öngvar, síðan frá lagðist stórþorskur“. Og um Kollsvík segja þeir: „Lóðir kunna ei brúkast sökum strauma“ (AM/PV Jarðabók). Notkun lóða hefur því verið nokkuð útbreidd í Víkum áðurfyrr, en lagst af fyrir tímabundið fiskileysi og e.t.v. einnig vantrú. Það var ekki fyrr en 1894 sem lóðin var þar aftur kynnt til sögunnar í þessum miklu verstöðvum.
„Um 1400 eða litlu fyrr uppgötvuðu Englendingar fiskimiðin við Ísland og tóku að sigla þangað duggum sínum... Komu þeir brátt með allmerka nýjung sem lóðirnar voru. Hafa Íslendingar brátt farið að gefa þeirri veiðiaðferð gaum, enda verður lóða vart í íslenskri eign á síðari hluta 15. aldar“ (GG; Skútuöldin). „Í reikningakveri Eggerts Hannesonar (1570-1571) er fjórum sinnum getið lóða, og er líklegt að þær hafi verið notaðar í Víkurverstöðvunum. En um aldamótin 1700 er þar hvergi veitt með lóð. Þó er sagt um Hænuvík í jarðabók ÁM/PV; „öngvar lóðir síðan frá lagðist stórþorskur“. Í fyrrgreindum verstöðvum var allstaðar fiskað með lóð á seinustu öld, en þó byrjað á því mjög missnemma; t.d. ekki fyrr en 1894 í Kollsvíkurveri. Laust fyrir 1850 er í verstöðvum Tálkna- og Arnarfjarðar róið með töluvert langar lóðir og er líklegt að þær hafi þá þekkst lengi. Til þess gæti bent að verslunin á Patreksfirði og Bíldudal flytur inn efni í línu árið 1764“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
„Í Kollsvíkurveri varð sú breyting á, skömmu fyrir aldamótin 1900, að tekið var að nota lóðir (línu) við veiðarnar. Annarsstaðar mun sú veiðitækni hafa byrjað nokkru fyrr, t.d. við Ísafjarðardjúp og e.t.v. víðar. Fyrstur til að nota lóðir í Kollsvíkurveri var Hákon Jónsson, bóndi á Hnjóti. Ekki var línan löng sem lögð var hverju sinni, eða aðeins 800 – 1000 krókar með hverjum bát, en línan var dregin fjórum sinnum á dag“ (KJK; Kollsvíkurver).
„Lóðir voru fyrst notaðar í Kollsvík vorið 1894.... Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt ljósabeitu. Fljótlega var þó farið að nota kúfisk, og var hann tekinn inni í Bug, hjá Hvalskeri“ (GG; Lóðir í Kollsvíkurveri; skrás EÓ).
B. Lítill landskiki, oftast undir þurrabúð eða sumarbústað.
Lóð (n, hk) A. Sakka; vaðsteinn. „Hann dró letilega upp færið sitt; lét lóðið detta á plittinn“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). „Færi voru úr fimmpundalínum, frönskum; sökkur úr frönskum lóðum (sökkum) er skipt var í tvennt. Hæfileg þyngd á sökku var talin fjögur og hálft pund“ (GG; Kollsvíkurver). B. Málmstykki af mældri þyngd sem notað er til þyngdarmælinga með vog, reislu, metaskálum eða öðru. Notað t.d. í líkingunni „að leggja sitt lóð á vogaskálarnar“. C. Málmstykki neðan í lóðlínu, sem notað er til að finna hvenær hlutur er algerlega lóðréttur; t.d. við húsbyggingar. Talað um að hann sé „í lóði“.
Lóða (s) A. Um tík; beiða; leita karlhunds. „Það þýðir ekkert að taka tíkina með á réttirnar ef hún er að lóða“. B. Tina; festa málmhluti saman með því að bræða tin í samskeytin. C. Mæla sjávar- vatnsdýpi með lóði; mæla stærð fiskitorfu með bergmálsmælingum.
Lóðardræsa / Lóðarflækja (n, kvk) Flækt lóð sem rekur á fjörur. Slíkt skeður oft í Kollsvík, enda verður mikið eftir af lóðum á lóðamiðunum undan landi. Það er ein besta tómstundaskemmtun og gestaþraut margra að greiða slíkar flækjur, og hafa þannig orðið til mörg þarfabönd.
Lóðadufl (n, hk) Dufl/ból á lóð. „Sá Grímur eitthvað er hann hélt vera lóðadufl þeirra Látramanna og sinnti því ekki frekar“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Lóðafiskirí (n, hk) Fiskveiðar með lóð. „Upphafsmaður lóðafiskirís í Kollsvíkurveri var Þórður Gunnaugsson, þá nýfluttur frá Ísafjarðardjúpi og sestur að í Vatnsdal með fjölskyldu sína“ (GG; Kollsvíkurver).
Lóðaháls (n, kk) Endinn á fiskilóð. Þar er oft splæst á lykkja með sama heiti, til að auðvelda lóðamæti eða festingu við ból/dufl.
Lóðajárn (n, hk) Járn í teinum sem m.a. var höggvið niður og smíðaðir úr því önglar til fiskveiða. (Nánari skýringu skortir) „Önglar voru lóðajárn nr 7; 200 önglar á lóð“ (GG; Kollsvíkurver).
Lóðamið (n, hk, fto) Fiskimið þar sem hentugt er að veiða með lóðum/línu. „Skammt var að róa á lóðamiðin sem svo voru nefnd, en það var allmikill sandfláki fram undan víkinni, Hnífunum og nokkuð suður fyrir Hnífaflögu, en þrengdist nokkuð í syðri endann frá djúpi. Beita sú er nær eingöngu var notuð var kúfiskur.“ (KJK; Kollsvíkurver). „Fyrir utan þarabeltið er sandfláki út, en einnig eru þar hleinar sem þurfti að gæt sín á; bæði með veiðarfæri og eins braut á þeim þegar skyndilega brimaði. Það voru ýmis mið, grynningar og hleinar, sem þótti best að þræða með. Þeir sem lentu á miðjum sandi; „gljánni“, fengu minni fisk. Oft var því þrifið til ára til að ná bestu miðunum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Lóðamæti (n, hk, fto) Skilin þar sem tvær lóðir mætast. Þar er stundum sett milliból, en lóðahálsarnir hnýttir saman með flagghnút/línuhnút.
Lóðarí (n, hk) Leit tíkur eftir karlhundi til tímgunar. Algengt var að hundar færu langar leiðir ef þeir fengu veður af tík á lóðaríi. Þannig mættu hundar af Látrum, Breiðavík og Örlygshöfn iðulega að Láganúpi þegar tíkin þar var að lóða.
Lóðarteinn / Lóðastrengur / Lóðaþinur (n, kk) Þinur/teinn/ás á lóð. „Einnig þurfti að útbúa lóðir, meðan þær voru enn notaðar í Kollsvíkurveri. Trollgarn var notað í lóðaþininn“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Lóðastrengur var gerður úr tveimur þáttum franskrar línu, en franskar línur voru af þremur aðalþáttum“ (GG; Kollsvíkurver).
Lóðastokkur (n, kk) Önglastokkur; stokkur sem önglum á fiskilínu er raðað í; Tveir sívalir stautar og mjór spaði liggja samsíða en með millibili, og er kókunum raðað á stautana. Lóðastokkur var oftar notað.
Lóðbeint (ao) Beint upp/niður. „Ef þessi flokksnefna ætlar að samþykkja svona fáheyrða vitleysu þá má hún sigla lóðbeint til neðra, fyrir mína parta“!!
Lóðbretti (n, hk) Hallamál; áhald til að finna lóðrétta og lárétta stefnu. „Réttu mér lóðbrettið“. Nafnið er dregið af því að í stað lóðs í snúru, sem áður var notað til að taka lóðrétt, kemur dropi í lokuðu glasi.
Lóðlína (n, kvk) Þráður sem lóð er hengt neðaní, til að finna lóðrétta stefnu, t.d. við húsbyggingar o.fl.
Lóðning (n, kvk) Tinun; viðgerð/samsuða málms með þvi að lóða saman.
Lóðs (n, kk) Hafnsögumaður á bát. Notað í líkingum um leiðsögumann almennt.
Lóðsa (s) Lóssa; segja til vegar;leiðsegja. „Ég fór með honum, til að lóðsa hann á staðinn“.
Lóðtin (n, hk) Tin til að lóða með.
Lófabreiður / Lófastór (l) Viðmiðun/mæling; jafn breiður/stór og lófi á fullvöxnum meðalmanni. „Ég trúi varla að gemlingurinn hafi smogið útum þessa lófabreiðu rifu“! „Hún hlóð svo miklu af kökum og kruðeríi á borðið að varla var lófastór blettur auður“.
Lófaklapp (n, hk) Snöggt hljóð sem myndað er með því að skella lófum saman. Oft notað þegar hópur fólks fagnar samtímis, og verður þá að samfelldum klið. Einnig notað til að reka/smala fé.
Lófalestur (n, kk) Spádómur, þar sem rýnt er í línur í lófa manns og af þeim reynt að geta til um atriði í framtíð hans. E.t.v. ekki síðra kukl en bollaspádómar eða garnaspár, og gerðu sumir sér þetta til dundurs.
Lófi eða laski (orðtak) Viðhaft þegar afla var skipt (sjá skipti).
Lóga (s) Um skepnu; farga; aflífa. „Hrúturinn var svo illa farinn eftir afveltuna að ég varð að lóga honum“.
Lómur (n, kk) A. Fugl af brúsaætt; m.a. algengur í vötnum Vatnadals og Breiðs. B. Niðrandi heiti á manni; skúrkur. „Nú hefur bannsettur lómurinn sofið yfir sig eina ferðina enn“!
Lón (n, hk) Uppistaða vatns; stór pollur. „Lón myndast oft ofan við Rifið, bæði í Búðarlæknum og Ánni“.
Lóna (s) Þokast hægt; fara rólega. „Þar sem við lónuðum þarna norður með Stekkjarmelnum... “ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Lóra (n, kvk) Gæluorð um kisu eða stelpu. „Hversvegna ertu að skæla lóran litla“?
Lóssa (s) Lóðsa; vísa til vegar; fylgja. „Ég lóssaði hann niður Skekkingar, enda hefði hann varlað ratað öðruvísi“.
Lótaska / Lóskata (n, kvk) Önnur heiti á tindabykkju (sjá þar).
Lóuþræll (n, kk) Calidris alpina. Lítill vaðfugl af snípuætt. Nafnið er líklega dregið af því að hann velur sér sama varpsvæði og heiðlóan, en er mun minni. Hann er um 17-21cm að lengd fullorðinn; þyngd 50-100g. Í varpbúningi er hann með áberandi svartan blett á kviðnum; ljósleitur en með rauðbrúnar og svartar yrjur og skellur á höfði, baki og vængjum; hvítur undir vængjum og kvið. Fætur og goggur svartir. Litir daufari að vetri. Fæðan er ýmis smádýr sem fuglinn tínir með tíðum höfuðhreyfingum. Hann sést iðulega í Kollsvík; einkum í fjörunni, en einnug um úthaga, þar sem er hans varpland. Hreiðrið er grunn laut; gjarnan í eða nærri mýrlendi; eggin oftast fjögur, og liggja bæði kynin á til skiptis. Hinsvegar sinnir karlfuglinn oftast ungunum einn. Lóuþrællinn er farfugl á Íslandi, með vetursetu í Afríku.
Lubbalegur (l) Luralegur; úfinn; ótótlegur; óhrjálegur; ókurteis. „Skelfing fannst mér karlinn vera lubbalegur til fara núna“.
Lubbi (n, kk) A. Úfið/sítt/hirðulaust hár. B. Niðrandi heiti um sóðalegan/óprúttinn mann. C. Pétursbeita; kverksigi/gella á fiski. „Lubbi er hin mesta tálbeita sem hugsast getur“. „Við beitum lubba, en það er gellan á fiskinum“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Ludda / Luddast (s) Sniglast; lötra; ganga hægt. „Ætli ég reyni ekki að ludda á eftir fénu norðuyfir“. „Karlinn kom kjagandi eftir götunni, og hundurinn luddaði á eftir“. „Reyndu nú að luddast úr sporunum“!
Lufsa (n, kvk) A. Hárflóki; hárlokkur; úfið hár. B. Óvandaður maður. „Óttaleg lufsa getur hann verið“.
Lufsast (s) Hengslast; hreyfast letilega. „Hættu nú að lufsast þetta og reyndu að vinna eins og maður“! Einnig heitið lufsa; notað um væskilslegan mann.
Lufsulegur (l) Larfalegur; ótérlegur; druslulegur; veiklulegur; laslegur. „Óttalega fannst mér karlinn larfalegur í klæðnaði“.
Lukka (n, kvk) Hamingja; heppni.
Lukkast (s) Heppnast; lánast. „Í rauninni var með ólíkindum að þetta skyldi lukkast“ (ÁH; Útkall við Látrabjarg).
Lukkast til (orðtak) Vilja til; standa á. „Ekki skyldi svo lukkast til að þú sért með vasahníf á þér“? „Það skyldi þó ekki lukkast svo til að þú eigir leið á Eyrar á næstunni“?
Lukkulega / Lukkusamlega (ao) Lánlega; heppilega; vel; giftusamlega. „Þetta tókst lukkulega“. „Það var ekki síst honum að þakka hve þetta endaði alltsaman lukkusamlega“.
Lukkulegur (l) Hamingjusamur; ánægður. „Ertu ekki bara lukkulegur með nýja starfið“?
Lukkunnar pamfíll (orðtak) Heppinn maður; lukkudýr. Pamfíll er laufgosi í spilinu púkki.
Lukt (n, kvk) Handljós, þar sem ljósgjafa er skýlt með gleri. „Tvennskonar lugtir voru einkum í notkun á síðustu árum fyrir raflýsingu útihúsa. Annarsvegar steinolíuluktir með lampakveik sem dreginn var upp í krans, líkt og á steinolíulömpum. Hinsvegar gasluktir sem einnig brenndu steinolíu, en henni var ýrt undir þrýstingi á sérstaka grisju sem þá glóði og gaf mikla birtu. Þær síðarnefndu þurfti að handpumpa öðruhvoru. Þriðja gerð lukta var með kerti, en var lítið notuð. Einnig voru vasaljós og luktir með batteríum“ (VÖ).
Lukta (s) Lykta; finnast lykt af. „Blessaður fleygðu þessari ýldu útbyrðis; þetta luktar eins og andskotinn“! Sjá illa luktandi.
Luktargler (n, hk) Gler á lukt. Luktargler til vara þurftu að vera til á hverjum bæ.
Luktarljós (n, hk) Ljós af lukt. „Alltaf er nú betra að klára gegningar í dagsbirtu en þurfa þess við luktarljós“.
Luktur (l) Lokaður. „Hann sat með lukt augun og romsaði uppúr sér hverri sögunni á fætur annarri“.
Lull (n, hk) Hægagangur; dól; seinagangur. „Hann sagðist ekki nenna svona lulli, og fór á undan hópnum“.
Lulla (s) Fara mjög hægt; mjakast; dóla. „Það var ógangur í traktornum svo ég varð að lulla síðasta spölinn“.
Lullakstur / Lullkeyrsla (n, kk/kvk) Hægur akstur ökutækis. „Það var áans þæfingur yfir allan Hálsinn, og víða bara lullkeyrsla í lága drifinu“.
Lullferð (n, kvk) Hæg ferð. „Sigldu bara á lullferð hér uppundir; hér þarf dálítið að velja sér leiðir“.
Luma á (orðtak) Búa yfir; eiga í handraðanum. „Oft lumaði afi á suðusúkkulaði í kistuhandraðanum“.
Lumbra (n, kvk) A. Slappleiki; veikindi. „Það er einhver árans lumbra í mér núna; gæti trúað að ég sé með hita“. B. Sjóveiki; tilkenning að ælu. „Það er ekki laust við að maður finni til lumbru í fyrsta róðrinum“.
Lumbra/lúskra á (orðtak) Lúskra; lemja; láta fá til tevatnsins. „Það er óþarfi að lumbra á honum fyrir þetta“.
Lumbrufjandi / Lumbruskítur / Lumbruskratti / Lumbruskömm (n, kk) Pestarskítur; pestarfjandi; lumbra; veikindi. „Ég er enn með einhvern lumbrufjanda“. „Skyldi ég nú vera að fá þennan lumbruskít“?
Lumbruvottur (n, kk) Væg einkenni umburðarpestar/veikninda. „Mér finnst eins og í mér sé lumbruvottur“.
Lumma (n, kvk) A. Klatti (þykk, lítil pönnukaka). „Fyrir jólin voru bakaðar lummur, laufabrauð, kleinur og stór kaka“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). .B. Stórt stykki. „Hér hefur brotnað heilmikil lumma úr borðplötunni“.
Lummukaffi (n, hk) Kaffi með lummum sem meðlæti. „Það er ekki amalegt að fá lummukaffi“!
Lummustafli (n, kk) Stafli/hrúga af lummum. „Hún var búin að baka fjallháa lummustafla“.
Lumpa (n, kvk) Slappleiki; slen; veikindaeinkenni; máttleysi; sjóveiki; ógleði. „Er einhver lumpa í þér stubburinn minn“? „Maður fær oft einhverja lumpu í fyrstu sjóferðinni, sérstaklega í veltingi“.
Lumpast (s) Lyppast; slyttast. „Ég var svo uppgefinn að ég lumpaðist niður á réttarvegginn“.
Lumpinn (l) Smeykur; aumur. „Þú er grár og gugginn; ertu eitthvað lumpinn, greyið mitt“? „Sá er ekki lumpinn“! „Ég er bara ekkert lumpinn við að segja þessum háu herrum mína skoðun“!
Lumpulegur / Lympulegur (l) Veikur; slappur. „Mér fannst hann ennþá afskaplega lumpulegur“.
Lund (n, kvk) A. Skapgerð; skap; lundarfar; geðslag. „Við vorum léttir í lund og fullir tilhlökkunar“. B. Vöðvi innan hryggsins á húsdýrum. Mjúkur, og talinn eitt vesta stykkið til matar. C. Blóðmikill vöðvi beggjamegin innan hryggjar í fiski, sem nær framundir tálkn. Honum hættir til að úldna við geymslu, og er því fjarlægður við verkun.
Lundabaggi (n, kk) „Lundabaggar eru enn búnir til hér. Í þá eru notaðir ristlar, gollurshús, hjörtu og kjötbitar og þind þar utan um. Mjög er vandað til að hreinsa ristlana; þeir skafnir af sérstakri natni og sían hankaðir. Ekki þótti ráðlegt að leggja þá í bleyti; talið var hætt við að fitan rynni frekar úr í suðunni. Lundabaggarnir síðan soðnir; pressaðir létt á meðan þeir kólnuðu og settir í súr“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
„Ég held að lundabaggar úr ristlum hafi verið horfnir úr sláturgerðinni hér, áður en þorrablótin voru endurvakin; en ég man eftir þeim frá því ég var yngri. Við krakkarnir vorum látin halda í ristlana á meðan konurnar ristu og skófu. Síðan voru gerðir, og eru enn; lundabaggar með hálsæðum og sumstaðar gollurhúsum; saumaðar utan um það þindar. Stundum voru höfð hjörtu í lundabagga en þótti ekki heppilegt þar sem þau þurftu meiri suðu. Lundabaggar voru oft reyktir hér um slóðir“ (SG; Þorrablót; Þjhd.Þjms).
Lundagröftur (n, kk) A. Eiginleg merking; lundahola. B. Líking; óreglulegur gröftur/leit. „Ég er viss um að ég á þetta til einhversstaðar í verkfærahúsinu, en það gæti orðið lundagröftur að finna það“.
Lunderni (n, hk) Skapferli; skapgerð. „Þetta óstöðuga lunderni háir honum stundum í samskiptum“.
Lundagröftur (n, kk) A Eiginil. merking; vinna lunda við að grafa hreiðurholu. B. Mest notað í afleiddri merkingu um óhóflegan gröft eða umbyltingu á landi/jörð. „Þetta er nú meiri lundagröfturinn“!
Lundahola (n, kvk) Hola sem lundi grefur sér til að verpa í. Þar sem mikið er af lunda geta bjargbrúnir verið varasamar, þar sem þær eru útgrafnar af lundaholum sem geta gefið eftir þegar á þeim er gengið.
Lundakofa (n, kvk) Ungi lundans nefnist kofa, þó Vestmannaeyingar nefni hann pysju. Líklega stafar nafnið af líkingu bústaðarins við kofa. Kofa var mikið veidd og nytjuð til matar fyrrum, þar sem lundavarp var. Mesta lundavarp vestra er í Undirhlíð í Bæjarbjargi, en í Kollsvík hefur lundi lengi orpið í Lundaflesi og Álkuskúta í Hnífum og Lundaflesi í Landamerkjahrygg. Ekki eru heimildir um lundavarp eða kofnatekju í Kofahelli, þó nafnið gæti bent til þess.
Lundalús (n, kvk) Ixodes uriae. Mítill sem lifit á sjófuglum og nærist á blóði þeirra. Ávallt nefndur lundalús í Útvíkum, en nefnist lundamítill eða blóðmítill á fræðimáli. Skordýr; attfætla skyld skógarmítli. Munnlimirnir eru sérhæfðir til að stinga í húð og með hökum til að festast. Um leið gefur hún frá sér deyfandi efni, svo fórnarlambið verði síður vart bitsins. Aftanvið höfuðið er harður skjöldur, en annars er líkaminn linur og getur þanist gríðarlega út þegar dýrið drekkur blóð. Erfitt og óráðlegt er að losa lundalús með því að toga í hann, en algeng húsráð eru að fara í heitt bað eða bera steinolíu, spritt eða joð á hann og svæðið. Þá sleppir hann takinu og drepst. Í lundalús geta verið bakteríur af ættinni Borrelia. Því var trúað fyrrum að lundalús gæti grafið sig djúpt í líkama manna og jafnvel valdið dauða. Ekki er vitað um slík dauðsföll, en orðasafnari hefur sjálfur tvisvar orðið fyrir því að lús át sig grunnt undir hörundið og olli þar óþægindum. Lundalús hættir helst til að skríða á fólk þegar unnið er við plokkun eða aðgerð fugla eða þegar setið er undir vað í fuglabjargi í mikilli rekju.
Lundarfar / Lunderni (n, hk) Geðslag; eðli; upplag; skapferli. „Hann var mjög geðugur að lundarfari; traustur og hjálpsamur með afbrigðum“.
Lundatekja (n, kvk) Lundaveiði. „Í Undirhlíð var allmikil lundatekja“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur- og Saurbæjarbjargs).
Lundavarp (n, hk) „Lundi verpur einkum á tveimur stöðum í Kollsvíkurlöndum. Annarsvegar í Lundaflesi, neðan við Kálfalágar á Hnífunum og hinsvegar í Flesinu í Landsmerkjahryggnum“. „Ekkert álkuvarp er í Álkuskútanum nú á dögum, en töluvert lundavarp…“ (HÖ; Fjaran).
Lundaveiði (n, kvk) Veiði á lunda. Lundaveiði var ekki mikið stunduð í Kollsvík í seinni tíð, enda lítið lundavarp. Kollsvíkingar hafa þó líklega farið með öðrum í Undirhlíðina í Bæjarbjargi. Nokkuð var það tíðkað að fara frá Hnífaflögunni í fjöruna undir Álkuskúta og skjóta með riffli þá lunda sem sátu fremst á steinum í skútanum. Þeir ultu þá niður í fjöruna, og von bráðar birtist sá næsti á steininum.
Lundhægur / Lundprúður (l) Rólegur að eðlisfari/skapferli. „Hann var allajafna lundhægur, en gat þó reiðst heiftarlega“.
Lundi (n, kk) Fratercula arctica. Fugl af svartfuglaætt og ættkvísl lunda. Oft nefndur „prófastur“ vegna virðulegs útlits og hátta. Fætur eru aftarlega og því er hann í uppréttri stöðu. Fuglinn er svartur á baki; með hvíta bringu; grár í vöngum og með mikið og litskrúðugt klumbunef. Fullorðinn fugl vegur um h´lft kíló og er um 20 cm að hæð. Hvergi í heiminum er hann algengari en við Íslandsstrendur, um 10 milljónir, og er talið að um 60% alls lunda verpi hérlendis. Erlendis þekkjast tvær aðrar lundategundir. Mikið er af lunda í Látrabjargi; einkum í brúnum, grasvöllum og skriðum. Í grennd við Kollsvík verpur lundi á þremur stöðum; í Lundaflesi neðst í Landamerkjahrygg; í Lundaflesi undir Kálfalágum í Hnífunum, og í Álkuskúta þar skammt frá. Fuglinn grefur holur í jarðveginn og verpir innst í þeim. Varptíminn er frá seinnihluta maí fram í júní; einu eggi sem er um 60g að þyngd. Útungun tekur um 40 daga, og unginn, kofan, er í holunni rösklega þann tíma áður en hann heldur á haf til veiða. Talið er að lundapör haldi saman um lífstíð, og meðalaldur sé um 20-25 ár. Lundinn kemur að bjarginu í byrjun maí, en mestallt árið heldur hann sig á hafi fyrir sunnan og suðaustan land; þvælist þó suðurfyrir Grænland og jafnvel til Nýfundnalands. Fæða lundans er einkum smár fiskur; síli, loðna, seiði og smokkfiskur, en einnig krabbadýr og áta. Hann er góður sundfugl og getur kafað niður á 60m dýpi. Hann er laginn að raða mörgum fiskum þversum í gogginn; yfirleitt þannig að sporður og haus skiptast á, og kemur því miklu í hverri ferð til ungans. Góður flugfugl og nær 88 km/klst hraða, með allt að 400 vængjatökum á mínútu. Lundinn var mikið veiddur til matar áðurfyrr. Í Vestmannaeyjum var hann veiddur á flugi í háf, en ekki er vitað til að það hafi verið tíðkað vestra. Þar var hinsvegar töluvert tekið af kofu, og e.t.v. var fullorðin fugl einnig snaraður. Sjá kofa og lundaveiði. Í seinni tíð hefur orðið mikil fækkun í lundastofninum hérlendis vegna bágs ástands á fæðu hans, og hafa lundaveiðar verið mjög takmarkaðar. Af og til sjást litaafbrigði af lundanum. Albinói nefnist kóngur; lundi með búnan lit í stað þess svarta nefnist drottning, en flekkótu eða hvítdröfnóttur lundi nefnist prins. Lundalús sækir mjög á lundann.
Lundir (n, kvk, fto) A. Vöðvinn kviðmegin í hrygg sláturfjár. Lundirnar eru mjúkur vöðvi og afbragðs matur. B. Tveir blóðhlaupnir vöðvar í kviðarholi hrognkelsis, sinnhvorumegin við hrygginn. Mikilvægt er að fjarlægja þá áður en fiskurinn er hengdur til signingar eða saltaður (sjá hrognkelsi).
Lundstirður (l) Argur/úrillur í skapi. „Afskaplega getur maður orðið lundstirður í svona tíðarfari, þegar ekkert gengur með heyskapinn og varla hægt að komast útúr húsi“.
Lungamjúkur (l) Mjög mjúkur/linur; dúnamjúkur. „Þó skórnir séu óþjálir nýir þá verða þeir lungamjúkir þegar búið er að ganga þá til“.
Lunginn af/úr (orðtak) Meirihlutinn af; megnið af. „Þetta orðasafn er ekki annað en örlítið sýnishorn þess forða sem Kollsvíkingum var tiltækur; alls ekki lunginn úr honum“.
Lunginn úr deginum (orðtak) Meirihluti dagsins; mestallur dagurinn. „Ég vann við þetta lungann af deginum“. Uppruna orðtaksins mætti skýra á tvennan hátt. Annarsvegar þekkist annarsstaðar á landinu orðtakið „unginn úr deginum“, en það er e.t.v. tilkomið sem alþýðuskýring. Hinsvegar að hér sé um hljóðbreytingu að ræða á „langur“; að orðtakið hafi áður verið „langinn úr deginum“, sem er skiljanlegra.
Lunkinn (l) Laginn; lempinn. „Hann er furðu lunkinn við að halda vélinni gangandi“.
Lunkni / Lunkulegheit (n, kvk) Lempni; lagni; fortölur. „Þú gætir nú kannski fengið hann með þér í verkið, ef þú beitir dálitilli lunkni“. „Hér þurfum við að beita lunkulegheitum og þolinmæði“.
Lunkulega (l) Gætilega; með lagni/lemni. „Þú þarft að fara lunkulega að honum til að styggja hann ekki“
Lunkulegur (l) Lempinn; laginn. „Hann var nokkuð lunkulegur við þetta“.
Lunning (n, kvk) Borðstokkur á skipi. Oftar er talað um lunningu á stærri skipum en borðstokk á minni bátum.
Lunningafullur (n, kk) Um skip; fullt af sjó/fiski uppundir borðstokka.
Luntabyssa (n, kvk) Byssa/framhlaðningur af gamalli gerð, þar sem kveikt var í púðrinu með glóð í lunta, en það var glóandi vöndull. Þegar togað var í gikkinn skaust luntinn að lítilli púðurpönnu og þaðan fór glóðin um lítið gat inn í hlaupið, svo skotið hljóp af. Voru ekki áreiðanleg vopn. Árið 1581 kvað Magnús prúði, þá sýslumaður í Saurbæ, upp svonefndan vopnadóm á þáverandi þingstað; Tungu í Örlygshöfn. Í dómnum var m.a. kveðið á um að hver vopnfær maður skyldi eiga luntabyssu til varnar ef sjóræningjar gerðu árás. Auk þess skyldu hlaðnir bálkestir á háum fjöllum og nesjum, til að boð um árásina kæmust fljótt til skila og unnt væri að safna liði. Dómurinn var uppkveðinn í kjölfar ráns sjóræningja á Eggert Hannessyni í Saurbæ, tengdaföður Magnúsar prúða. Sendi kóngur til landsins vopn í allar sýslur landsins; átta spjót og sex luntabyssur. Vestfirðingar voru því sæmilega vopnum búnir þegar Spánverjavígin áttu sér stað árið 1615, en fyrir þeim stóð Ari Magnússon í Ögri; sonur Magnúsar prúða.
Luntalega (ao) Fýlulega; treglega; með semingi. „Hann svaraði þessu fremur luntalega“.
Luntalegur (l) Fýlulegur; hægur; letilegur. „Hversvegna ert þú svona luntalegur á svipinn núna“?
Luntaháttur / Luntaskapur (n, kk) Durtsháttur; fúllyndi; ókurteisi; leiðindi; fýla. „Hún á það síst skilið að þú sýnir henni þennan luntahátt“! „Hann sat heima af einskærum luntaskap“.
Luntasvipur (n, kk) Fýlusvipur. „Reyndu nú að ná af þér þessum árans luntasvip“!
Lunti (n, kk) A. Upprunaleg merking; blys; logandi drumbur; glóandi kólfur á byssu. B. Síðari tíma merking; fýla; þungur hugur; innibyrgð reiði. „Hann tók tapinu illa, og lak af honum luntinn í nokkra daga á eftir“.
Lunti í (orðtak) Fúll/afundinn/þegjandalegur; hundur í. „Einhver lunti er í honum síðan á fundinum“ „Það er hlaupinn einhver lunti í hana við karlinn“. Lunti var vöndull með glóð til að hleypa af byssum.
Luralega (ao) Þunglamalega; óliðlega. „Skelfing fer hann luralega að þessu“!
Luralegur (l) Þunglamalegur; klossaður; óliðlega byggður. „Það er undarlegt hvað svo luralegur maður getur verið liðugur í klettum“.
Lurast (s) Gera stirðlega/þunglamalega/óliðlega. „Ætli maður verði ekki að lurast til að rétta þeim hendi við þetta, þó ég hafi varla nokkurn tíma til þess“.
Lurða (n, kvk) Slappleiki; lasleiki; slen. „Það er einhver bölvuð lurða í mér í dag“.
Lurðast (s) Slæpast; hengslast; mjakast. „Reyndu nú að lurðast til að hreyfa þig drengur! Ætlarðu að láta kindurnar sleppa“?
Lurfa (n, kvk) A. Fatatuska; tila; drusla; larfur. „Farðu nú að koma þér í lurfurnar drengur“! B. Lítilmenni; rola; ræfill. „Ég er nú ekki sú bölvuð lurfa ennþá að ég láti svona athugasemdum ósvarað“!
Lurgur (n, kk) Hárbrúskur; hárlubbi. Oftast notað í líkingunni að taka í lurginn á einhverjum; þ.e. veita einhverjum ráðningu.
Lurkabrennari (n, kk) Lurkabrennsluofn; ofn til kyndingar, þar sem unnt er að brenna stórum lurkum/ grófkurluðum trjám. Lurkabrennarar eru í raun arftakar hlóða og kamína fyrri tíma, en urðu á ný algengir í lok 20. aldar, með hækkandi raforkuverði og tíðum línubilunum.
Lurkalag (n, hk) Lag í jarðvegi þar sem áberandi mikið er um lurka, sem eru leifar skógar frá fyrri tíma hlýskeiðum í jarðsögunni. Lurkalag er í Kollsvíkinni; sem t.d. kom í ljós við vegargerð neðantil á Svarðarholtinu norðara; norðan Miðlækjar. Lurkalagið eru leifar mikils birkiskógar sem þakti þessi svæði á hlýskeiði í lok ísaldar; líklega fyrir um 8.000 árum.
Lurkum laminn (orðtak) Aumur; stirður. „...vorum við þá sem lurkum lamdir eftir ganginn en náðum okkur fljótt“ Frásögn Jóns Guðjónssonar (ÓG; Úr verbúðum í víking). Likingin vísar til þess að tilfinningin sé svipuð og að hafa verið lamin með barefli.
Lurkur (n, kk) A. Sver en fremur stutt spýta; drumbur; kylfa. „Það má nota þessa lurka í brenni“. B. Gælunafn á manni. C. Sérnafn á einstaklega hörðum frostavetri árið 1601.
Lú (s) Fjarlægja illgresi úr görðum. Orðið var lítið notað í Kollsvík; fremur talað um að reyta arfa.
Lúabragð / Lúalag (n, hk) Óþokkabragð; óþverraskapur; klækir. „Maður varar sig ekki á svona lúabragði“! Sjá liggja á því lúalagi.
Lúalega (ao) Mjög illa; nöturlega; lítilmannlega. „Mér finnst þeir koma lúalega fram við gamala manninn“.
Lúalegur (l) Lítilmótlegur; fyrirlitlegur. „Mér fannst það lúalegt af honum að dreifa þessu slúðri út um allt“.
Lúamerki (n, kvk, fto) Merki um lúa/þreytu; þreytumerki. „Það voru engin lúamerki að sjá á honum, þrátt fyrir öll þessi hlaup“.
Lúbarinn (l) A. Um harðfisk; barinn þar til hann er mjúkur undir tönn. B. Almennt; laminn fast; sleginn mikið. „Það er meiri fyrirtaksstaðurinn þessi Hollívúdd í bíómyndunum; þar er maður bara nýr og betri maður eftir að hafa verið lúbarinn og skotinn í tætlur“! Sjá; eins og lúbarinn hundur.
Lúberja (s) Berja/lemja mikið; lemja í klessu/köku. „Ef þú reynir svona hrekki við mig aftur skal ég lúberja þig“!
Lúdó / Lúdóspil (n, hk) Borðspil með taflmönnum og teningi. Gengur útá það að koma sínum mönnum sem fyrst eftir ákveðinni braut í mark. Nokkuð spilað sem tómstundagaman í Kollsvík, ásamt t.d. myllu.
Lúða (n, kvk) Heilagfiski; spraka; gengur undir ýmsum nöfnum eftir stærð. Hin minnsta er nefnd lúðulok; lóa er aðeins stærri en langflaka enn stærri og stærst flakandi lúða eða stórlúða. „Um lúðuna veit ég ekki margt sjálf en hef spurt þá sem aldir voru upp í verstöðinni í Kollsvík. Heiti á lúðu sem hér tíðkuðust voru: Lok eða lúðulok var smálúða; lóa var einnig heldur smá; spraka, heilagfiski og flakandi lúða var það stór að hægt var að taka af henni rikling. Ekki treysti ég mér til að lýsa aðgerð á lúðu en nöfn hef ég heyrt á ýmsum hlutum hennar. Höfuðflak, hnakka(flak)stykki, vaðhorn (fremst á kviðflaki), spildingur (beinin sem fylgdu hrygg), rafabelti og riklingur. Lúðuriklingur var skorinn í strengsli og hert. Settir voru pinnar milli strengslanna svo að þau vefðust ekki upp. Sporðstykki var kallað strabbi. Beinin í sporði voru kölluð ljáir. Rafabelti voru oftast hert. Þau urðu reyndar aldrei hörð vegna þess hvað feit þau voru. Rafabeltin voru pækilsöltuð fyrst og síðan hert og borðuð þegar þau töldust orðin verkuð og kölluð einæt. Sú trú var að ef menn drógu lúðu þá væru líkur til að sá hinn sami ætti von á erfingja“ (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms). Helstu hlutar lúðunnar voru þessir (skv. LK; Ísl.sjávarhættir III): Höfuðkinn, vaðhorn, stakkur, hnakkaflak, kviðflak, hnakkabelti, kviðbelti, strabbi og blaka; hryggur með hryggtindum nefnist spildingur.. Þessi heiti miðast við breytandi lúðu og önnur nöfn voru til á einstökum hlutum hennar. „Þess voru dæmi að sá hluti fitleikans sem fylgdi bolnum þegar sporðurinn var skorinn frá, væri einungis nefndur brestur, en strabbi parturinn sem var áfastur blökunni“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heimild: Guðbj.Guðbjartsson). „Þessi lúðunöfn þekktust á Vestfjörðum: flyðra, lúða, spraka, þverflaka, merja, þrístykkja, lóa, skurfa, beitulok, stofnlok, lok, rennilok og beitulok“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heimildir: ÞJ Hvallátrum, GG Kollsvík, KJK E-Tungu, o.fl).
„Í róðrum þessum var það næsta algengt að fá lúður; oft eina eða fleiri á bát í róðri. Það þóttu jafnan hinir mestu happadrættir. Sá sem dró lúðu fékk alltaf af henni óskiptri vaðhornið og sporðinn. Þegar búið var að rista fyrir uggum, rafabeltunum, var rist eftir flökum, þannig að einn skurður var ristur eftir endilöngum hrygg; frá haus og aftur í þverskurð á sporði. Síðan var flakið rist um þvert, aftan við kviðarhol. Þessi biti beggja megin, með þunnildisbeini, var nefndur „vaðhorn“. Aftara flakið var látið halda fullri lengd á þeirri lúðustærð sem nefndar voru „langflökur“. Á stærri lúðum var þverbiti tekinn, jafnt vaðhornsskurði, og þá voru þær kallaðar „sexflakandi“. Riklingurinn, einkum af smærri lúðum, var venjulega þurrkaður. Flökin hengd upp og látin skelþorna; síðan voru þau rist þannig að skurður var skorinn inn í miðja fiskþykktina. Byrjað var að skera beggjamegin við augað sem hengt var upp á, en síðan mæst í einum skurði, rétt fyrir neðan augað. Síðan var fiskurinn flattur útundir jaðar, beggjamegin við skurðinn. Þá var flakið opnað og tveim trétinum stungið undir roðið; beggjamegin aftanfrá. Héldu þeir flakinu opnu, svo að það þornaði á skömmum tíma. Annars var riklingurinn líka saltaður; einkum af feitum lúðum. Var hann saltaður í pækil; sterkan saltlög, því annars vildi hann þrána. Saltað var í rafabeltin og þau látin liggja í salti í tvo daga og síðan hengd upp til þurrks. Þetta var kallað hátíðamatur, er þau höfðu hlotið verkun, enda þótt komið væri fram á næsta vetur“ (KJK; Kollsvíkurver). Þjóðtrúin segir að lúðan hafi í upphafi verið líkari öðrum fiskum. Eitt sinn gekk María mey með sjó og lúða skældi sig framan í hana. Lagði María þá svo á að þannig skyldi hún framvegis líta út; sem og varð. Ýmis hjátrú tengdist lúðunni, þó orsakir hennar séu ekki alltaf ljósar. T.d. átti hvíta hliðin alltaf að snúa niður í bát, en upp á landi. Það boðaði mótlæti að dreyma lúðu. Kvennagull áttu að vera fisknari en aðrir á lúðu, og búast mátti við því, ef ólofaður maður dró lúðu, að konur tækju að laðast að honum.
Lúðalarfar (n, kk, fto) Léleg föt; tötrar; druslur. „Farðu nú úr þessum lúðalörfum og í skárri föt“.
Lúðalegur (l) Undirförull; svikull; dusilmenni. „Skelfing getur hann verið lúðalegur að haga sér svona“!
Lúði / Lúðulaki (n, kk) Ómerkilegur maður; þrjótur; dusilmenni. „Sá lúði ætti nú bara að skammast sín“!
Lúðra (s) Lúta í lægra haldi; láta undan; skammast sín. „Kindin lúðraði heim á leið eftir að hún gafst upp“.
Lúðra (n, kvk) Aumingi; ónytjungur; heigull. „Ég ætla nú ekki að vera sú andskotans lúðra að ég taki svona svívirðingum þegjandi“!
Lúðrast (s) Vera niðurlútur/lúpulegur; lúta í lægra haldi. „Ríkisstjórnin lúðrast í hverju málinu á fætur öðru“. „Hundkvikindið lúðraðist heim og skammaðist sín fyrir að hafa hlaupið í féð“. Var notað eingöngu þannig í Kollsvík. Orðabækur nefna dæmu um að „lúðra“, en notað á annan hátt.
Lúðrablástur (n, kk) A. Eiginleg merking; lúðraþeyting. B. Fyrirgangur/sjónarspil til að vekja á sér athygli. „Ekki vantaði það að flokkurinn kynnti stefnuskrána með miklum lúðrablæstri fyrir kosningar. En þeir voru líka fljótir að brenna hana eftir kosningar“!
Lúðukeppur (n, kk) Kylfa/hnallur til að rota stórlúðu þegar hún er komin uppundir borðstokk, svo auðveldara sé að færa í hana og innbyrða. Í Kollsvík hafa líklega verið notaðir til þess steinbítskeppir.
Lúðulína (n, kvk) Fiskilína með stórum krókum, til lúðuveiða. Einatt nefnd haukalóð í Kollsvík.
Lúðulok (n, hk) tiltölulega lítil lúða, en lúða hefur ýmis heiti eftir stærð.. Hin minnsta er nefnd lúðulok; lóa er aðeins stærri en langflaka enn stærri og stærst flakandi lúða eða stórlúða.
Lúðumið (n, hk, fto) Fiskimið þar sem vænta má lúðuveiði. Flyðruhnjúkur á Breiðnum er dæmi um slíkt.
Lúffa (s) Gefa eftir; bakka. „Ég þori nú ekki annað en lúffa fyrir yfirvaldinu; hversu vitlaust sem það nú er“
Lúi (n, kk) Þreyta; uppgjöf. „Það sækir á mann lúi þegar maður sest niður, þó maður sé áður óþeyttur“. „Leifur hefur leyfi til á Leifum búa/ þar til hann er laus við lúa/ og lýðir gera að honum lúa“. Vísa, e.t.v. eftir Björn Halldórsson eða Eggert Ólafsson; byggingabréf Leifa nokkurs sem hafði lífstíðarábúð á hjáleigunni Leifum í Sauðlauksdalstúni.
Lúinn (l) Þreyttur. „Skelfing er ég lúinn eftir öll þessi hlaup“! „Nú er hann svangur og lúinn að loknu löngu dagsverki og matarlaus …“ (PG; Veðmálið). Sjá hvíla lúin bein.
Lúka (n, kvk) A. Lófi. B. Gróf mælieining; það sem kemst í eina lúku; lúkufylli. „Settu eina lúku af fóðurbæti út í blandið hjá kálfinum áður en þú réttir honum fötuna“.
Lúkar (n, kk) Lokað rými í barka, fremst í báti, til geymslu veiðarfæra, áhalda, farangurs o.fl; með lítilli lúgu að aftan. „Teygðu þig nú inn í lúkarinn og sæktu nestið okkar“.
Lúkning (n, kvk) Niðurstaða; uppgjör; lokafrágangur. „Þetta er þá lúkning þessarar skuldar“.
Lúkufylli (n, kvk) Gróf mælieining; full lúka. „Ég gaf hrútunum eina lúkufylli af fóðurbæti hverjum“.
Lúlla (s) Gæluorð um að sofa. Stundum sagt við börn.
Lúmskur (l) A. Um persónur: Slægvitur; undirförull; varasamur; viðsjárverður. „Varaðu þig í viðskiptum við karlinn; hann getur verið lúmskur“. „Hann er lúmskt hæðinn“. Um fyrirbæri: Viðsjárvert; leynir á sér. „Ísinn gæti verið lúmskur þó hann líti vel út; hann gaf sig undan einni kind áðan“. „Pestin virðist gengin yfir, en þetta er lúmskt og getur gosið upp aftur“. „Það er lúmskt kalt í dag, þó það sé sólskin“.
Lúpast (s) Vera skömmustulegur/niðurlútur; hengja haus. „Mér sýnist að þarna sé tíkin að lúpast heim á leið“.
Lúpa (s) Beygja sig niður; lúta; sýna undirgefni. „Maður verður víst að lúpa fyrir veðrinu“.
Lúpa (n, kvk) Lúðra; sneypa; aumingi. „Ég ætla ekkert að beygja mig fyrir þessum kónum eins og einhver lúpa; þeir skulu sjá að fleiri geta rifið kjaft“!
Lúpulegur (l) Skömmustulegur; niðurlútur. „Strákurinn var heldur lúpulegur og játaði á sig skammirnar“.“
Lúr (n, kk) Stuttur svefn; dúr; þreyta syfja. „Hann fékk sér dálítinn lúr eftir matinn“. „Það er kominn einhver lúr í litla karlinn sýnist mér“.
Lúra (s) Sofa stutt; kúra; fá sér kríu; fá sér blund/kríu/lúr; fleygja sér; leggja sig; blunda. „Hann ætlar að lúra aðeins lengur eftir vökurnar í nótt“.
Lúra á (orðtak) Luma á; búa yfir; eiga til. „Þeir segja að karlinn lúri á töluverðum sjóðum“.
Lúra/sofa frameftir (orðtak) Sofa lengur framá morgun en vanalegt er.
Lúrt (s) Neyðarlegt; kvikindislegt; súrt í brotið. „Mér þætti skratti lúrt að koma aftur í land með öngulinn í rassinum“. „Honum fannst það lúrt af karlinum að heimta heilan hlut fyrir bátlánið“. Orðið heyrðist einungis notað í þessari beygingarmynd. Líklega komið af d/e; „lure“. Orðabækur gefa upp stofnmyndina „lúra“, og að það væri í nefndum dæmum „lúrað“. Hér er því um sérstöðu að ræða hjá Kollsvíkingum, en orðið var og er enn mikið notað þar, þó ekki heyrist annarsstaðar.
Lús (n, kvk) A. Ættbálkur sníkjudýra (Phthiraptera). Naglýs eru smávaxin flatvaxin vængjalaus sníkjudýr á fuglum og spendýrum, af sama þróunarmeiði og ryklýs og náskyldar þeim. Þær eru sérhæfðar á hýsla; leggjast á eina tegund eða fáar náskyldar, og eiga sér oft kjórstað á hýslinum. Þær skiptast í þrjá undirættbálka;naglýs á fuglum ( Amblycera); naglýs á fuglum og spendýrum (Ischnocera) og soglýs á spendýrum (Anoplura) Naglýs lifa utaná hýslum sínum og naga fiður hár og húðflögur. Höfuðið er breitt með lítil eða engin augu; fálmarar stuttir og munnlimir sérhæfðir í að naga. Soglýs sjúga blóð úr spendýrum. Höfuðið er mjótt; lítil eða engin augu; fálmarar stuttir og munnlimir mótaðir til að sprengja húð og sjúga. Ein sterk kló er á hverjum fæti til að tryggja festingu. Í heiminum eru þekktar yfir 3000 tegundir lúsa; í Evrópu eru 17 ættir og á Íslandi finnast 9 ættir; 78 tegundir, auk undirtegunda. Langflestar eru naglýs á fuglum; 5 naglýs á spendýrum og 6 soglýs á spendýrum; þar af 2-3 á manninum. Höfuðlús (Pedivulus capitis) er útbreidd um heiminn, og skýtur enn upp kollinum hérlendis af og til. Þroskatími er skammur og tímgun því ör. Á rúmlega mánuði hefur kynþroska lús getið af sér nýja kynþroska einstaklinga. Ef sýking uppgötvast ekki fljótlega eftir smit getur hýsillinn orðið grálúsugur á skömmum tíma. Vendýrið festir nitina (eggin) neðarlega á hárið. Höfuðlús finnst einvörðungu í höfuðhári, og þá helst ofan og aftanvið eyru og í hnakkagróp. Kláði er oft fylgikvilli lýsar en hann stafar af ofnæmisviðbrögðum í húðinni. Lúsinni hættir til að stinga sér niður og breiðast út þar sem fólk kemur saman, eins og þegar krakkar í leik leggja höfuð hvort að öðru. Höfuðlús hefur eflaust fylgt Íslendingum frá landnámi, og óvíst að Kollur hafi losnað við sitt „gæludýr“ þegar hann lenti í sjónum við Arnarboða forðum. En lúsin var löngum talin merki um heilbrigði og hraustleika, hyrfi hún af manni mátti slá því föstu að hann væri bráðfeigur, sagði þjóðtrúin. Hún sagði líka að efla mætti sér byr með því að leita sér lúsa og fleygja afurðinni afturfyrir bátinn; ellegar láta lús í seglið. Sjá lúsabyr. Að dreyma mikið af lúsum var fyrir góðum afla. Önnur tegund lúsa sem algeng er hérlendis er veggjalús (Cimex lectularius). Hún finnst í öllum landshlutum, en ekki síst á Vestfjörðum. Kjörlendið er þurrt upphitað húsnæði. Hún nærist alfarið á blóði sem hún sýgur úr fórnarlömbum sínum, sem oftast er mannfólkið. Hungruð er hún flatvaxin, en getur á fáum mínútum sogið sjöfalda þyngd sína af blóði. Flatlús er sníkjudýr sem lifir á mönnum. Hún er gulgrá á lit, um 2-3 mm að stærð. Lifir helst á hárum á kynfærum mannfólks en getur breiðst út í annan hárvöxt. Smitast oftast við kynmök, en einnig af sængurfatnaði. Fjórar tegundir sérhæfðra sníkjudýra sauðfjár hafa fundist á Íslands. Þær eru fjárkláðamaurinn (Psoroptes ovis); fótakláðamaurinn (Chorioptes ovis); fellilúsin ((Bovicola ovis) og færilúsin (Melophagus ovinus). Allar hafa þær sennilega verið útbreiddir skaðvaldar hér fyrr á öldum, en fjárklauðamaurinn er þeirra skaðlegastur, og olli miklum búsifjum fyrir daga fjárböðunar. B. Eitthvað mjög lítið. „Áttu nokkuð lús af sykri útí kaffið“?
-lús (n, kvk, ending) -ögn; viðskeyti nafnorða til að lýsa litlu magni; sykurlús; kaffilús; tóbakslús; hungurlús. „Ég hélt ég ætti hérna einhverja kaffilús eftir“. „Gefðu mér nú örlitla sykurlús út í kaffið“.
Lúsabjart (l) Nægilega bjart til að unnt sé að leit sér lúsa.
Lúsablesi (n, kk) Niðrandi mannlýsing; þrjótur; durtur; skelmir; óþverri. „Ætlar hann að vera sá bölvaður lúsablesi að neita að greiða þetta“?!
Lúsabyr (n, kk) Um siglingu bát; byr sem framkallaður er með notkun lúsa. „Til að auka meðbyr þótti áhrifaríkt að leita sér lúsa og fleygja þeirri veiði aftur af skipinu. Aðrir létu lúsina á þóftu og veittu athygli skriði hennar; átti byrinn að koma úr sömu átt. Loks létu sumir lúsina í seglið. Með þessum aðferðum vonuðust menn eftir lúsabyr...“ (LK; Ísl. sjávarhættir III; heim; ÓETh).
Lúsaheppni / Lúsheppni (n, kvk) Heppni var gjarnan talin tengjast lúsum, sjá lúsheppinn. „Þvílík lúsaheppni var það að finna þennan eldspýtustokk“!
Lúsaleit (n, kvk) A. Sú athöfn að leita sér lúsa, rn hún var að sjálfsögðu nokkuð iðkuð fyrr á tíð. B. Líkingamál um smámunasama leit.
Lúsaletur (n, hk) Mjög smátt letur. „Ég næ ekkert að greina svona lúsaletur“!
Lúsamuðlingar (n, kk, fto) Rauð ber sortulyngsins. Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Lúsarlaun (n, hk, fto) Mjög lág vinnulaun. „ Ekki veit ég til hvers maður er að strita fyrir þessi lúsarlaun“!
Lúsarleita / Lúsleita (s) Þaulleita; leita mjög ítarlega. „Ekki veit ég hvar þessar kindur hafa getað verið; við vorum búnir að lúsarleita alla hlíðina“. „Ég lúsleitaði bréfið en fann enga villu í því“.
Lúsast (s) Fara lúshægt/löturhægt. „Ég þorði ekki öðru en lúsast yfir holurnar með svona háfermi“.
Lúsétinn (l) Um fisk hráétinn; skemmdur eftir hráa/marfló. „Þorskurinn var allur lúsétinn í netunum eftir þennan tíma“.
Lúsfiskinn (l) Mjög fiskinn; veiðir vel; bráðfiskinn. „Alltaf er hann jafn lúsfiskinn þó aðrir fái ekki bein úr sjó“! Heppni var oft talin tengjast lúsum, sjá lúsheppinn.
Lúsheppinn (l) Mjög heppinn/lánsamur stálheppinn. „Ég var lúsheppinn; að finna hnífinn aftur“. „Alltaf ertu jafn lúsheppinn; ertu aftur kominn með lúðu“? Þó lús væri hin mesta óværa á mönnum, þá var hún samt talin ómissandi og til gagns. M.a. boðaði hún heppni.
Lúshægt (l) Mjög hægt; löturhægt. „Þú þarft að fara lúshægt yfir óslétta kaflann í sléttunni“.
Lúsiðinn (l) Afburða duglegur; óþreytandi. „Drengurinn er lúsiðinn við að reyta úr netunum“.
Lúsifer (n, kk) A. Annað nafn á Satan/djöflinum. Orðið merkir ljósberi. Í rómverskri goðafærði var Lúsifer persónugervingur stjörnunnar Venusar; sonur Áróru sem var gyðja morgunroðans; systir sólar og mána. Kennimenn kirkjunnar á miðöldum fóru að líta svo á að Lúsifer væri fallinn engill, sem rekinn hefði verið úr himnaríki sökum drambsemi sinnar, og kastað til heljar. Segir sagan að fyrir fallið hafi Lúsifer verið æðsti erkiengill himnaríkis. Hann þyrsti í meiri völd og gerði uppreisn gegn guði, sem endaði með ósigri hans og engla sem honum fylgdu. Í helvíti hlaut hann nafnið Satan eða kölski og fékk æðstu völd í þeim stað. Englar hans urðu hinsvegar djöflar. (Fróðleikur af vísindavefnum, eins og fleira í þessari samantekt). B. Nafn á ófrýnilegum fiski sem lifir í myrkum undirdjúpunum; hefur ljósveiðarfæri á höfði og veiðist afar sjáldan.
Lúsíumessa (n, kvk) Messudagur 13. des. til minningar um meyna Lúsíu sem talið er að hafi látið lífið sem píslarvottur á Sikiley um 300 e. Kr.
Lúsheppinn (l) Mjög heppinn; stálheppinn; ljónheppinn. „Alltaf ertu jafn lúsheppinn; ertu aftur kominn með lúðu“? Orðið finnst ekki í orðabókum og virðist því vera einstakt fyrir svæðið. Einnig var notað skylt orð um heppna fiskimenn; lúsfiskinn.
Lúskra (s) Lemja; lumbra á. „Eldri strákurinn lúskraði honum rækilega fyrir stríðnina“. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Lúskrast (s) Fara í burt niðurlútur; láta sig hverfa. „Hundurinn lúskraðist heim eftir skammirnar“.
Lússpakur (l) Mjög gæfur/spakur. „Hrúturinn var svo lússpakur að ég gat gengið að honum hvar sem var“.
Lúsþýður (l) Um hest/bíl. „Hann er svo lúsþýður á vegi að þér finnst þú vera í sófanum heima“!
Lúta að (orðtak) Fjalla um; beinast að. „Hann hafði nef fyrir öllu sem laut að fjármálum“.
Lúta í lægra haldi (orðtak) Bíða ósigur; tapa; vera lagður að velli.
Lútsterkt kaffi (orðtak) Mjög sterkt/svart kaffi. „Nú þarf maður helst lútsterkt kaffi til að vakna almennilega“.
Lúxus (n, kk) Ofrausn; yfirdrifin gæði; flottheit. „Það þótti alger lúxus þegar fyrst fór að tíðkast að hafa heitan blástur upp á bílrúðurnar innanverðar“. „Það er alger lúxus að geta kveikt rafljós í fjárhúsunum“.
Lydda (n, kvk) Aumur/ragur maður; vesalmenni. „Ég er nú ekki enn sú andskotans lydda að ég geti ekki lyft svona lamkægil“!
Lydduskapur (n, kk) Ragmennska; aumingjadómur. „Mér finnst ástand veganna bara endurspeglalydduskap þingmannann okkar, og hananú“!
Lyfjaskápur (n, kk) Skápur þar sem lyf og önnur lækningagögn eru geymd. Lyfjaskápur eða lyfjakista var til á hverju heimili áðurfyrr, enda þurfti hver bóndi að vera sjálfum sér nægur að vissu marki, með lækningar á sínu fólki og skepnum.
Lyfta á (orðtak) Lyfta byrði upp á mann/hest. „Það þurfti einn eða tvo menn til að halda bátnum réttum við sandinn, og einn þurfti að vera í bátnum til að lyfta á“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Lyfta ekki litlafingri (orðtak) Líkingamál um aðgerðaleysi/leti. „Hann sá að ég var í basli með þetta, en fjandakornið að hann nennti að lyfta litlafingri mér til aðstoðar“!
Lyfta glösum (orðtak) Skála í víni.
Lyfta sér upp (orðtak) Skemmta sér; gleðjast.
Lyfta undir (orðtak) A. Létta á; lyfta upp. „Lyftu aðeins undir kassann með mér“. B. Létta upp þoku/dimmviðri. „Mér sýnist að aðeins sé farið að lyfta undir þokuskrattann“.
Lyfting (n, kvk) A. Brú á skipi; upphækkun á þilfari skips. B. Hefun á brauði vegna verkunar gers. C. Það að lyfta hlut, sbr kraftlyftingar.
Lygabarð (n, hk) Þynnsti hluti kinnfisks í þorskhaus (sjá þar). Með öðru hnífsbragði var losað um kinnfiskinn/kerlingarfiskinn/kjammafiskinn/kjannafiskinn/vangafiskinn og hann rifinn frá beinum. Sá hluti hans sem er á kinnbeininu er örþunnur og heitir heimska/kerlingarbarð/lúsarbarð/ lygabarð/lygafön/skrökbarð/svikabarð/ og þrjóskubarð. Var því trúað að menn yrðu heimskir, lúsugir og lygnir ef þess væri neytt. Því var því hent“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Lygabrigsl (n, hk, fto) Ásakanir um lygar/ósannindi. „Ég ætla ekki að sitja undir neinum lygabrigslum; hér eru fleiri sem geta staðfest þetta“! Sjá brigsl.
Lygahaugur / Lygahundur / Lygalaupur / Lygamörður / Lygari (n, kk) Mjög lyginn/hraðlyginn maður. „Endemis lygahaugur getur maðurinn verið; ég hef aldrei sagt neitt í þessa átt“! „Ég myndi nú ekki leggja of mikið uppúr því sem þessi bölvaður lygamörður lætur frá sér“!
Lygarugl / Lygaþvæla / Lygaþvættingur (n, kvk/kk) Mikil lygi; fráleit lygi. „Ég hlusta nú ekki á svona lygarugl“. „Hvar heyrðirðu þennan lygaþvætting“?
Lygasaga (n, kvk) Ósönn saga/frásögn; lygimál; skáldskapur. „Hvaða árans lygasögu ertu nú að segja“?!
Lygavefur (n, kk) Net af lygum; uppspuni. „Nú held ég að hann sé flæktur í sínum eigin lygavef“.
Lygi frá rótum (orðtak) Haugalygi; tóm þvæla; alger uppspuni. „Best trúi ég að þetta sé lygi frá rótum“!
Lygilaust (l) Ýkjulaust; frómt frá sagt. „Ég segi ykkur það alveg lygilaust; það var einhvert fjörulallakvikindi að flækjast þarna í þokunni! Það var sko engin venjuleg sauðkind“.
Lygilega (ao) Ekki sennilega; eins og lygi. „Það hljómar kannski lygilega, en ég náði að hlaupa tófuna uppi“.
Lygilegur (l) Eins og lygi; með ólíkindum. „Þetta var lygilegur afli, á ekki lengri tíma“.
Lygimál (n, hk) Lygar; ósannindi. „Og haldi einhver því fram að gúrkufjandinn sé hollur þá er það lygimál“.
Lyginn (l) Ósannsögull; ótraustur. „Sumir eru svo lygnir að þeir vita ekki sjálfir hvenær þeir segja satt“.
Lyginn maður brýnir best (bítur stolinn hnífur) (orðatiltæki) Því hefur löngum verið trúað að þeir sem eru lygnir eigi auðveldara en aðrir með að fá bit í eggjárn, þó orsakasamhengið sé óljóst. „Helvíti er hnífurinn að verða sljór; geturðu ekki logið einhverju í eggina fyrir mig“? heyrðist sagt. Sjá ljúga í eggina. Stundum var hnýtt öðru orðatiltæki aftan við þetta: „Lyginn maður brýnir best – bítur stolinn hnífur“, sem vísar til annarrar lífseigrar hjátrúar. Sú trú hefur verið lífseig að það sé manni ógæfumerki að fá hníf að gjöf; maður verði annaðhvort að greiða hann fullu verði eða stela honum. Þetta kann að eiga rætur í fornum sið að manni sé fenginn hnífur sem merki um að skora hann á hólm eða lýsa yfir stríði við hann.
Lyginni líkast (orðtak) Ótrúlegt; eins og lygasaga; eins og í lygasögu. „Alveg er það lyginni líkast hvað karlinn er fiskinn“.
Lygiorð (n, hk) Orð af lygi. „Svei mér þá alla daga ef í þessu var eitt lygiorð“! „Ég hef ekki sagt lygiorð í þessum efnum“.
Lygn (l) A. Um vind; hægur; logn. „Hæfilegur vindkaldi er legði í segl, væri þó vel þeginn. En þetta er oft árla morguns og lygnasti tími sólarhringsins“ (KJK; Kollsvíkurver). B. Um sjó/vatn; kyrr, öldulaus; sjólaus. „Samt hélt vélin áfram að kjafta, þar til við vorum komnir á lygnari sjó“ (ÖG; Þokuróður).
Lygna (s) Hægja; gera logn. „Farið var af stað síðari hluta dagsins þegar innlögn lá í fjörðinn, en komið út að nóttinni þegar lygnt hafði eða jafnvel var kominn landsynningskaldi“ (KJK; Kollsvíkurver).
Lygna (n, kvk) Logn; lognsvæði. „Við vorum fegnir að sleppa úr djöfulgangnum í Röstinni inn á lygnuna sunnan Blakksins“.
Lygna augunum (orðtak) Slaka á augnvöðvum, þannig að augnalok sígi og augu lokist, eða næstum því. Oft merki um vellíðan. „Gibba lygndi augunum þegar ég klóraði henni á bringunni“.
Lygnublettur / Lygnusvæði (n, kk/hk) Svæði þar sem lygnara er en umhverfis. „Í stífri norðanátt geta verið lygnusvæði með Bjarginu, þó stólparok sé útifyrir og framaf dölunum“.
Lykilatriði (n, hk) Aðalatriði; það mikilvægasta. „Það er lykilatriði að muna eftir hnífnum“.
Lykilskegg (n, hk) Sá hluti kistu-/skáplykils sem er á enda pípunnar og gengur inn í lásinn.
Lykkja (n, kvk) A. Bugt; hönk; slaki í taug. „Lykkja á vaðnum hakaðist um stein þegar við vorum að gefa hann niður“. B. Stykki af hákarli. Slík stykki voru nefnd lykkjur á Vestfjörðum, en beitur norðanlands.
Lykkjufall (n, hk) A. Lykkja í prjónlesi sem ekki hefur náð réttri festingu, og stendur því slök útúr efninu. B. Líkingamál um hnökra/frávik t.d. í samskiptum.
Lykta (s) Um mál; fá endi/niðurstöðu. „Ekki er ólíklegt að nokkur rekistefna hafi orðið út af landshlut í hvalnum, þó óvíst sé hvernig henni hefur lyktað“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Lyktargóður (l) Með góðri lykt; vel lyktandi. „Fiskurinn hafði legið óvarinn í sólarhitanum og var ekki orðinn mjög lyktargóður“.
Lyktir (n, kvk, fto) Endalok; niðurstaða. „Ég veit ekki hverjar urðu lyktir þeirrar deilu“.
Lyktnæmur (l) Næmur á lykt. „Tófan er mjög lyktnæm og því þarf að fara hlémegin að henni“
Lympa (n, kvk) Slappleiki, vesöld. „Það er einhver bölvuð lympa í mér í dag“.
Lympulegur (l) Slappur; vesæll, lumpinn. „Óttalega ertu lympulegur geyið mitt; heldurðu að þú sért með hita“? Líklega einstakt og bundið við svæðið; hefur ekki heyrst annarsstaðar.
Lympulegheit / Lymputilfinning (n, hk, kvk) Slappleiki; aðkenning að veikindum. „Einhver árans lympulegheit eru í mér“. „Ég fékk yfir mig eins og lymputilfinningu, en það er liðið hjá núna“.
Lymska (n, kvk) Undirferli; klækir; sniðugheit. „Mér hefur alltaf verið illa við svona lymsku“.
Lymskubragð (n, hk) Klókindi; sniðugheit. „Mér fannst þetta bölvað lymskubragð af honum“.
Lymskulega (ao) Með lymsku/klækjum/undirferli. „Honum þótti þarna vera lymskulega að farið“.
Lynda við (orðtak) Vera sáttur við; una; blanda geði við. „Mér finnst vandalaust að lynda við hann“.
Lyndiseinkunn (n, kvk) Skapgerð; eðli. Heyrist sjaldan notað nútildags.
Lyndishægur (l) Rólegur að eðlisfari; geðgóður. „Hann var afskaplega vel liðinn af öllum, enda hjálpsamur og lyndirhægur með afbrigðum“.
Lyngkló (n, kvk) Grein/brúskur af lyngi. „Gott væri nú að hafa einhverja lyngkló við hendina til að reykja við“.
Lyngormur (n, kk) Grasmaðkur; græn lirfa sem stundum finnst í lyngi. „Lyngormar eru þeirrar náttúru að ef þeir eru hafðir um tíma nálægt gulli þá vaxa þeir gríðarlega, og um leið vex gullið að jöfnu“.
Lyngrif (n, hk) Það að rífa upp lyng og mosa til eldiviðar og í rúmstæði. Hefur eflaust viðgengist lengi í Útvíkum, ekki síst í tengslum við verstöðu. Þetta má m.a. marka af því að þar sem lynglaust hefur verið á stórum svæðum næst bæjum er lyng nú óðum að sækja á aftur. „Til eldiviðar er svörður og lítilfjörlegt lyngrif“ Um Hænuvík (ÁM/PV; Jarðabók). „Hér í Kollsvík voru tvennar hlóðir. Eldavél kom þó hingað fyrir aldmót. Á haustin var farið til lyngrifs og rifið upp mikið af lyngi. Fyrir jólin var tekið allt gamalt lyng sem haft var í rúmbotnum og því brennt, en nýtt látið í staðinn“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). „Aðkomumenn komu heim á bæina til þess að fá lyng og hey til að mýkja rúmin með“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Lyngkló (n, kvk) Grein af lyngi. „Það er ágætt að hafa nokkrar lyngklær með þegar ket er reykt“.
Lyngsteinbítur (n, kk) „Lyng var víða rifið til eldunar... Greiðsla fyrir lyngtöku fólst alls staðar í uppsátursgjaldinu nema í Kollsvíkurveri, en þar var hún einn harður steinbítur frá hverjum manni; lyngsteinbítur. Auk eldiviðarlyngs máttu menn slíta þar svo mikið lyng að nægði í bálk eða rúm“ (LK; Ísl. sjávarhættir II).
Lyppa (s) Draga ull af kömbum eftir að búið er að kemba. Sjá tóvinna.
Lyppa (n, kvk) A. Ull sem búið er að kemba/tægja, þannig að hár vísa í sömu átt, en áður en búið er að spinna. B. Hönk af garni/bandi.
Lysta frá (orðtak) Um matarlyst; hafa ekki lyst á. „Ég fann á lyktinni að hangiketið dálítið var farið að slá í hangiketið og því lysti mig heldur frá því“.
Lystarlaus (l) Með enga/litla matarlyst. „Kýrin er enn hálf lystarlaus eftir doðakastið“.
Lystarleysi (n, hk) Engin/lítil lyst á mat; ólyst; átleysi. „Er eitthvað bölvað lystarleysi í þér“? „Ormaveikin hefur gjört vart við sig á stöku bæjum.. Ennfremur lystarleysi í ám og lömbum, þó orma hafi ekki orðið vart hjá þeim hinum sömu“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Lystarlítill (l) Hafa litla lyst á mat. „Maður verður hálf lystarlítill með þessa sjóveiki“.
Lystarmikill / Lystargóður (l) Svangur; gráðugur; með góða matarlyst. „Nú myndi ég þiggja að fara að huga að nestinu. Ég er alltaf fremur lystarmikill eftir svona puð“.
Lystiferð (n, kvk) Skemmtiferð. „Það er ágætt ef einhverjir hafa efni á svona óþarfa lystiferðum“.
Lystigarður (n, kk) Sólgarður; skjólsæll jurtagarður, gerður til að dvelja sér til skemmtunar. Líklega hefur fyrsti lystigarðurinn hérlendis verið í Sauðlauksdal, en þar kom séra Björn Halldórsson jarðræktarfrömuður sér upp miklum jurtagarði og nefndi Akurgerði. Þar var sólskáli, þar sem mágur hans; Eggert Ólafsson, orti kvæðið „undir bláum sólarsali….“.
Lystihús (n, hk) Garðhús/skrauthýsi sem byggt er til að geta þar hvílst og notið ánægju, t.d. af blómum eða öðru. Frægasta lystihúsið í Rauðasandshreppi er eflaust lystihús séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, sem mágur hans; Eggert Ólafsson kvað um; „Undir háum hamrasali, Sauðlauks uppi í litlum dali... o.s.frv. „Í miðju Akurgerði ofantil var nokkur upphækkun og á henni stóð lystihúsið sem Eggert Ólafsson kvað um“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals). Annað lystihús höfðingjaslektis var að finna í Saurbæ: „Beint upp af íbúðarhúsinu er Systrahól á Neðra-Virki, þar sem það er hæst. Þar er greinileg tóft, og er sagt að systur, e.t.v. Guðrún Eggertsdóttir og systir hennar, hefðu látið byggja sér þar lystihús“ (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).
Lystugur (l) A. Girnilegur. „Fiskurinn verður ekki mjög lystugur ef hann nær að hitna og moltna“. B. Með góða matarlyst. „Ég held ég afþakki matinn; ég er ekki vel lystugur núna“.
Lýðhjálp (n, kvk) Samfélagsaðstoð. Orðið var notað í Rauðasandshreppi og kemur m.a. nokkrum sinnum fyrir í gerðabókum hreppsins.
Lýðtryggingar (n, kvk, fto) Fyrra heiti á því sem síðar nefndist „almannatryggingar“; samfélagslegar bætur til þeirra sem minna mega sín, s.s. fatlaðra og eldra fólks. Kemur m.a. fyrir í sjóðbók Rauðasandshr. 1943.
Lýðilegt (l) Fyrirlitlegt; lúalegt; forkastanlegt. „Það er lýðilegur andskoti hvernig farið er með gamla fólkið“.
Lýður (n, kk) A. Fólk almennt. B. Skríll. „Ekki veit ég hvað þessi lýður er að álpast í upp á heiðar í erindisleysu og illa búinn“!
Lýgur því eins og er langur til (orðtak) Ásökun um ósannindi. „Þú lýgur því eins og þú ert langur til að ég hafi haft hönd á þínum vasahníf“! „Segir hann þetta? Já, hann lýgur því eins og hann er langur til“!
Lýgur eins og nefið snýr / Lýgur eins og vindurinn blæs / Lýgur án þess að roðna/blikna (orðtök) Um lygamörð; um það hve sumum veitist létt að skrökva. „Hann lýgur nú bara eins og nef hans snýr, og af því að það er skakkt þá er vonlaust að vita hvað satt er“!
Lýist fiskur ef lengi er barinn ( orðatiltæki) Svo lengi má berja harðasta harðfisk að hann verði mjúkur undir tönn. Einnig notað sem líkingamál um það að þreyta menn til hlýðni.
Lýja (n, kvk) Tjása; lagður af ull/hári o.fl. „Þú þyrftir að fá klippingu; lýjurnar eru farnar a ná niður á axlir“. „Einhverjar lýjur er hann byrjaður að draga upp í suðurloftið“.
Lýja (s) A. Þreyta; gera örmagna. „Mér tókst að lýja kindina svo á hlaupunum, að ég náði tökum á henni“. B. Slá járn til, og forma það; slíta fötum, leðri o.fl.
Lýjast (s) A. Þreytast. „Ertu ekkert farinn að lýjast á göngunni“? B. Um efni; slitna, verða lúið, slitið.
Lýjulegur (l) Þunnhærður; rytjulegur. „Hann var orðinn ósköp boginn og lýjulegur þegar ég sá hann“.
Lýr (n, kk) Pollachius pollachius. Fiskur af þorskaætt; af sömu ættkvísl og ufsi, enda tíðum flokkaður með honum. Finnst einkum í austanverðu Atlantshafi.
Lýsa af degi (orðtak) Birta af degi; roða af degi; koma morgunbirta. „Við héldum af stað þegar lýsa fór af degi“.
Lýsa frati á (orðtak) Sýna fyrirlitningu; vera mjög vantrúaður á; hafa skömm á. „Hann lýsti frati á sinn gamla flokk, og sagði að það væri ekki orð að marka hverju þessir vitleysingar lofuðu“.
Lýsa í hafið / Lýsa fyrir... (orðtök) Létta í hafið; birta/létta dimmviðri í norðurátt. Eitt merkið um að óþurrkasöm sunnan- og austanátt sé að láta undan fyrir norðankælu er að ljós rönd sést við hafsbrún, og þá fyrst fyrir Blakkinn. „Ég er ekki frá því að hann sé örlítið byrjaður að lýsa fyrir Blakkinn“.
Lýsa (einhverju) í hörgul / Lýsa (einhverju) í smáatriðum (orðtök) Lýsa einhverju nákvæmlega. Hörgull hefur verið talið merkja skortur/vöntun, og líkingin sú að einhverju sé lýst þar til frekari upplýsingar skortir. Orðið er talið skylt orðinu hörgur, sem merkir klettur/hjalli, og var notað um hof til forna, eða þann stað sem goðin stóðu á í hofunum.
Lýsa í loftið (orðtak) Birta af degi; skíma. „Ég er ekki frá því að hann sé aðeins farinn að lýsa í loftið“.
Lýsi (n, hk) Fita; notað einkum notað um fitu úr fisklifur. Lýsi var unnið úr lifrinni með því að láta hana standa, og var þá nefnt sjálfrunnið lýsi, eða með því að hita hana eða sjóða. Eins og nafnið bendir til, var lýsið notað sem ljósmeti á fyrri tíð, og þá brennt á lýsislömpum, kolum og öðru. Einnig var það notað til matargerðar, s.s. í bræðing; þess neytt sérstaklega eða það notað til að lýsisbera skinnfatnað (sjá gæra). Fyrrum var lýsi helst geymt í selsmaga. „Talsverð vinna fór í að bleyta, berja og höggva fiskibein, en þau voru eini fóðurbætirinn sem féð fékk, auk lýsis sem gefið var alla vetur“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Lýsisborinn (l) Ataður lýsi. Algengt var að lýsisbera skinnklæði til að vatnsverja þau. Sjá gæra.
Lýsisbrák (n, kvk) Brák af lýsi; lýsi sem flýtur á vatni. „Svo feitur varð silungurinn úr Stóravatni að þykk lýsisbrák sat eftir í pottinum þegar búið var að sjóða hann“. Finnst ekki í orðabókum; notað vestra.
Lýsislampi (n, kk) Lampi til lýsingar fyrrum tíð, þar sem eldsneytið var lýsi. Lýsislampinn var veglegasta ljósfæri fyrri tíma, en kolur og týrur voru óvandaðri. „Þá máttu hjúin vinna eftirvinnu; þá máttu þau prjóna fyrir sjálf sig. En þau urðu að gera það í myrkrinu, því ljósmeti var ekkert eftir kl 10 á kvöldin. Ljós voru þá lýsislampar; eða þar til ég varð 10 ára. Fyrsti olíulampinn mun hafa komið í Kollsvíkina um aldamótin (1900) “ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Lýskra (n, kvk) Blaut eða græn visk af heyi innanum þurrhey; getur valdið myglu eða hita í hlöðu. „Það eru bölvaðar lýskrur innan um heyið; þær hafa líklega komið upp úr galtabotnunum“.
Lýskrótt (l) Með lýskrum í. „Heyið í göltunum er fjári lýskrótt; við verðum að breiða þá fyrir hirðingu“.
Lýtalaus (l) Gallalaus; sem ekki er hægt að finna að. „Hann talaði nær lýtalausa íslensku“.
Lýti (n, hk) Galli; annmarki. „Mér finnst þetta dálítið lýti á þessu annars ágæta ljóði“.
Læða (s) Lauma. „Kúnstin var sú að læða öskupoka á bak einhverjum, án þess hann yrði þess var“.
Læða (n, kvk) A. Kvenkyns köttur/tík/tófa. B. Lágþoka. „Hann er að leggja upp einhverja læðu“.
Læðast eins og lús með saum (orðtak) Fara laumulega; gera eitthvað í kyrrþey. „Og svo var bara að læðast eins og lús með saum og laumast í eitthvað flesið í heimanverðum Hnífunum“.
Læðupokast (s) Fara laumulega; læðast. „Mér sýnist að það sé tófa að læðupokast hér úti á Brunnsbrekku“.
Læðupoki (n, kk) Sá sem fer laumulega; sá sem lítið ber á. „Hvaða læðupoki er þarna á ferð“?
Læðutjásur / Læðuþoka (n, kvk, fto/ kvk) Þokulæða; sjólæða. „Einhverjar læðutjásur eru að smeygja sér inn þarna norðurundir“.
Lægð (n, kvk) A. Laut í landslagi; lág; dæld. B. Lágþrýstisvæði í veðrahvolfi jarðar. C. Hvaðeina sem liggur lágt, t.d. lægð í skapferli manns, lægð í efnahag o.fl.
Lægðakraðak / Lægðaveita (n, hk/kvk) Um veðurfar; mikill lægðagangur; hver lægðin rekur aðra. „Það er ekki von á þurrki meðan þetta lægðakraðak gengur látlaust yfir“! „Það er bara engin linun á þessari eilífu lægðaveitu“!
Lægðardrag (n, hk) aflöng dæld/lægð fram úr annarri dýpri. „Keldeyrardalur nefnist lægðardrag suður af Efri Húsadal; bakvið Hæðina“.
Lægi (n, hk) Staður undan lendingu sem var sæmilega skýlt og bátar gátu legið þar til lent var. „Framundan Verinu er Lægi. Þar lágu bátar og biðu lags. Lægið myndast af þremur boðum framundan. Nyrstur þeirra er Bjarnarklakkur..., þá er Miðklakkur og syðstur Selkollur“ (Örnefnaskrá Kollsvíkur).
Lægja (s) Hægja vind eða straum. „“...var bátnum lagt við þann stjóra og beðið uns lægja tók strauminn“ (KJK; Kollsvíkurver) . „Morguninn eftir hafði veðrið lægt og fóru menn þá frá Hvallátrum og Breiðavík í leiðangur til að huga að strandinu“ (MG; Látrabjarg).
Lægja/lækka rostann i (orðtak) Stilla (þann sem fer offari); róa; veita tiltal. „Það þyrfti nú aðeins að lægja rostann í þessum vindbelg“.
Lækjalonta (n, kvk) Branda; lækjasilungur. „Oft voru veiddar bröndur eða lækjalontur í Torfalæk og Ánni niður í Vík... “ (IG; Sagt til vegar II).
Lækjardrag (n, hk) Laut sem lækur rennur um. „Kindin reyndi að leyna sér og lambinu í lækjardragi“.
Lækjarniður (n, kk) Kliður/hljóð í rennandi læk. „Í logninu mátti heyra lækjarniðinn þegar leysingavatnið fossaði niður Gilið“.
Lækjarskorningur (n, kk) Þröngur skorningur þar sem lækur hefur grafið sig niður.
Lækjarspræna / Lækjarsytra (n, kvk) Vatnslítill lækur. „... heim yfir Kollsvíkurtóna, en það er lækjarsytra og graslendi sem stundum var slegið“. (I.G. Sagt til vegar II).
Lækka rostann (orðtak) Minnka montið; slá á rembinginn. „Það þyrfti einhver að lækka í honum rostann“.
Lækka seglin (orðtak) Fara sér hægar; berast minna á. „Ætli maður þurfi ekki að lækka seglin í kreppunni“.
Lækna (s) A. Gera heilbrigðara; vinna á afleiðingum slyss/sjúkdóms. „Gvendarbrunni ei gleyma á/ hann geymir vatnið tæra./ Það lækna öll þín meinin má/ og mjög þig endurnæra“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). B. Lagfæra. „Það þarf víst eitthvað að lækna þetta net“.
Læknari (n, kk) Læknir; sá sem fæst við lækningar. „Læknarar eru hér engir og ekki heldur eisvarnar yfirsetukonur, en sjúkdómar eru mest Epidemie (landfarsótt) og kvefþyngsli vor og haust“ (Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal; sóknarlýsing 1840).
Lækningaaðferð (n, kvk) Aðferð til lækninga/heilsubótar. „Sú lækningaaferð er gömul að nota fjallagrasaseyði gegn kvefi og öðrum öndunarfærasjúkdómum, og hefur gefist vel“.
Læknisvitjun (n, kvk) Ferð læknis til sjúklings.
Læna (n, kvk) Áll; sund; renna. „Innsiglingin er um djúpa lænu milli grynninga og skerja“. „Víða á sjávarbotninum frammi á Kollsvík eru sandlænur inn á milli þarabakkanna“. „Fyrir ofan Rifið var sjólæna er náði oft yfir Rifið og upp í Lón...“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Læpa (n, kvk) A. Horaður steinbítur; nýgotin grásleppa. „Óttalega læpu varstu nú að innbyrða; hentu þessu í sjóinn“. „Það eru fáeinar vænar grásleppur í þessu; hitt eru mestmegnis læpur“. Læpa þekktist annarsstaðar sem heiti á horuðum sel eða kóp, en ekki á fiski. B. Í niðrandi merkingu um horaða kind.
Læpast (s) Sniglast; flækjast; rolast. „Mér sýnist hann vera að læpast þarna lengst frammi í dalnum í stað þess að standa fyrir á sínum stað“!
Læpuháttur (n, kk) Slóðaskapur; linka; aumingjadómur. „Svona læpuháttur gengur ekki í þessu máli“!
Læpulegur (l) Slappur; linur; máttlaus. „Ég er óttalega læpulegur í dag; sennilega kominn með þessa árans pest“. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Læpuþunnur (l) Mjög þunnur; aumingjalegur. „Mikið er grauturinn læpuþunnur“. Finnst ekki í orðabókum.
Læra á bíl (orðtak) Læra að aka bíl. „Vorið 1947 lærði ég á bíl á Ísafirði. … Síðan fór ég til Reykjavíkur um haustið; tók meirapróf og réðist til strætisvagna Reykjavíkur um áramót“ (IG; Æskuminningar).
Læra börn það á bæ er títt (orðatiltæki) Börn hafa þá siði sem þau alast upp við og gera það sem fyrir þeim er haft.
Læra utanað (orðtak) Læra svo vel að geti lesið orðrétt án þess að styðjast við ritmál. „Ég lærði ljóðið utanað“.
Lærdómsbók (n, kvk) Námsbók; skólabók. „Mundu nú að setja allar lærdómsbækurnar í töskuna“!
Læri (n, hk) A. Efri hluti fótar. B. Nám.
Lærifaðir / Lærimeistari (n, kk) Kennari. „Hann er minn lærifaðir í þessum fræðum“.
Lærvaður (n, kk) Um bjargferðir; að fara á lærvað hét það þegar bjargmaður fór niður klett með því móti að bregða vaðnum í klof sér; undir annað lærið og halda við hann utanvið lærið með höndinni þeim megin en halda með hinni höndinni um vaðinn fyrir ofan sig. Með því móti sat hann tryggilega í vaðnum og gat rennt sér niður á nokkurri ferð; stýrt sér með því að reka fætur í bergvegginn og stöðvað sig með því að herða tökin. Best er að hafa þunna vettlinga í höndum til að brenna sig ekki af vaðnum.
Læs / Læs á bók (l/orðtak) Bóklæs; getur lesið skammlaust. „Ég man ekki eftir neinum átökum við lestrarnám, en læs var ég þegar ég fór að heiman“ (IG; Æskuminningar). „Ég efast um að í þeim flokki sé nokkur almennilega læs á bók“!
Læsilegt (l) Unnt að lesa. „Þetta hrafnaspark er varla læsilegt“.
Læt ekkert í (orðtak) Líkar ekki; er ekkert gefinn fyrir; þykir ekki gott. „Mér þykir eplin ágæt, en ég læt ekkert í þessar appelsínur sem fást núna; þær eru ekkert nema sinar, og gallsúrar í þokkabót“!
Læti (n, hk, fto) Hávaði; ófriður; fyrirgangur. „Hættið nú þessum látum strákar“! „Það eru etthvað minni læti í veðrinu núna“.
Lævís (l) Undirförull; slyngur; sem erfitt er að vara sig á. „Þessi sjúkdómur er lævís, og fáar varnir gegn honum“.
Lævíslega (ao) Með undirferlum; svo lítið beri á; þannig að eitthvað búi undir. „Hann spurði mig lævíslega hvort mig vantaði ekki góðan bíl“.
Löber (n, kk) Fremur mjór en langur dúkur til að hafa á borðum; oft mikið skreyttur/ísaumaður. „Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum, löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi...“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms). Er ekki að finna í orðabókum með þessum rithætti, sem e.t.v. skýrist af því að hér er um danska slettu að ræða.
Löð (n, kvk) Gat á steðja eða öðru málmstykki, til þess t.d. að draga/hamra í gegn deigt járn til að forma nagla/saum eða annað.
Löðrandi (l) Atað; rjóðað; þakið. „Ég settist niður uppi á brúninni, móður másandi og löðrandi í svita“.
Löðrungur (n, kk) Kinnhestur; kjaftshögg. „Löðrungar og rassskellingar eru taldar úreltar uppeldisaðferðir nútildags, en voru almennt viðurkenndar fyrr á tímum þegar mikils þurfti með“.
Löður (n, hk) Skvettur; froða. „Þegar leið að flóði sleikti brimlöðrið steinana við fætur mannanna sem vörðinn stóðu; sjógangur fór vaxandi“ (MG; Látrabjarg). „Sjórinn var orðinn óskaplegur og fór versnandi. Löðrið gekk yfir bátinn öðru hvoru“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Löðurmannlega (ao) Lítilmannlega; illa; af ósanngirni. „Mér fannst þetta löðurmannlega gert af honum“.
Löðurmannlegt (l) Lítilmótlegt; lúalegt. „Afskaplega finnst mér þetta löðurmannleg framkoma“!
Löðurmenni (n, hk) Ræfill; aumingi; dusilmenni; þrjótur. „Ég gef lítið fyrir svona löðurmenni“!
Löðursveittur (l) Mjög sveittur. „Maður verður löðursveittur af því að vinna í svona hitasvækju“.
Lög eru bræðra sættir (orðatiltæki) Lög eru sett til að skapa sanngjarna reglu sem allir þurfa að þekkja, skilja og hlýða. Ef engin eru lögin, eða þau eru ekki nægilega skýr, er alltaf hætta á misklíð milli manna.
Lögband (n, hk) A. Tjóðurband nautgrips, þrætt í gegnum hesið. Aðferð sem ekki var notuð á síðari öldum. B. Löglegur hestburður af heyi; 120 kg; tvö lögklyf. Sjá einnig málband. C. Lögbönd eru lagalegar kvaðir á eignum.
Lögbýli (n, hk) Jörð sem nýtur vissrar réttarstöðu, sem byggist á aldagamalli hefð. Oftast er átt við bújörð sem stofnuð var um eða stuttu eftir landnám, þ.e. fyrir árið 1100. Þessar jarðir eru um 4000 á landinu, og urðu meginkjarni byggðarinnar. Hvert lögbýli var sjálfstæð bújörð með afmarkað landsvæði, ákveðinn heimabæ og fékk ákveðið verðmat í jarðarhundruðum; útfrá því hvað hún gat borið mikinn bústofn. Lögbýli skyldi hafa svonefnt fyrirsvar; þ.e. lögbýlisbóndi sá um boðburð og þurfamannaflutning innan hvers hrepps á móti öðrum lögbýlisbændum. Lögbýli gat ýmist verið í sjálfseignarábúð eða leiguábúð, en einnig gat verið um tví- eða fleirbýli að ræða. Á síðari hluta þjóðveldisaldar óx fjöldi leiguliða, með uppgangi kirkju-, klaustra- og höfðingjavalds. Ástæðan var stundum sú að leiguliði á lögbýli reyndi að létta á ánauð sinni með því að leigja útfrá sér, en einnig kom þarna til að höfðingjar vildu tryggja áhöfn á báta sína þar sem verstöðvar voru. Tvö lögbýli hafa verið í Kollsvík frá fornu fari; Kollsvík (Kirkjuból) og Láganúpur.
Lögeyrir (n, kk) Sá gjaldmiðill sem gjaldgengur er, og öllum er skylt að taka við sem greiðslu. Íslenska krónan er lögeyrir á Íslandi núna, en fyrri tíma gjaldmiðlar eru það ekki. Síðastir féllu aurar út sem lögeyrir.
Lögg (n, kvk) A. Lítið magn af vökva; sopi; dropi. „Það er örlítil lögg eftir í flöskunni“. B. Brún á botni tunnu eða annars íláts; skora við enda tunnustafa, sem botninn er felldur í. C. Fjármark. Ferkantaður biti sem tekinn úr hlið eyrans. D. Skora.
Löggarður (n, kk) Hlaðinn garður umhverfis tún eða lönd jarða, sem þarf að standast ákveðnar kröfur. Í lögbókinni Grágás frá þjóðveldistímanum eru ákvæði sem segja að lögggarður skuli vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öcl þeim manni af þrepi er bæði hefur gildar álnar og faðma“. Með því að hin forna alin er talin hafa verið 48 cm og fetið helmingur hennar eða 24 cm, þá þarf löggarður að vera 120 cm við jörð, 72 cm efst og 120 cm hár. Grágás segir ennfremur að þrír mánuðir sumarmisseris skuli vera „garðannir“, en þá skuli menn vinna að garðahleðslum. Þeir sem unnu að garðhleðslum voru nefndir „garðlagsmenn“. Í Jónsbók frá 1281 var hæðin ákveðin þrjár og hálf alin, eða 167 cm. Garðar eru víða um tún í Kollsvík, og þó enginn þeirra standist áðurnefnd mál í dag þá kunna sumir að hafa verið löggarður fyrrum. Heillegustu garðarnir eru Garðarnir á Grundabökkum, sem að stofni til eru líklega frá tímum Láganúpsverstöðvar; garðurinn kringum Traðartúnið, sem að mestu var hlaðinn af Guðbjarti Guðbjartssyni í byrjun 20. aldar, og garðurinn á Hjöllunum á Láganúpi sem sami maður hlóð í hjáverkum á tveimur vetrum nokkru síðar. Víða má finna fleiri leifar og garðbrot í Kollsvík, frá ýmsum tímum.
Löggilda / Löggilding (s/ n, kvk) Um sérstaka viðurkenningu af opinberu yfirvaldi. „Bók þessi, sem er 240 -tvö hundruð og fjörutíu- tölusettar blaðsíður; gegnum dregin og útbúin með innsigli Barðastrandasýslu, löggildist hér með til að vera forðagæslubók fyrir Rauðasandsumdæmi í Rauðasandshreppi. Skrifstofu Barðastrandasýslu 12.desember 1946; Jóhann Skaptason, sýslumaður Barðastrandasýslu“. (Forðagæslubók Rauðasands).
Löggirðing (n, kvk) Girðing sem stenst ákveðnar kröfur. Í lögum um skógrækt nr 3 frá 1955 er að finna eftirfarandi skilgreiningu löggirðingar: „Til þess að girðing um skógræktarsvæði megi teljast löggirðing, þ.e. að hún veiti örugga vörn gegn ágangi búfjár, skal hún vera minnst 105 cm á hæð og gerð með 7 strengjum gaddavírs eða úr öðru því efni sem sé ekki minni vörn; t.d. vírneti eða vírneti ásamt gaddavír og undirhleðslu þar sem þörf krefur. Bil milli jarðfastra staura má lengst vera 12 metrar og komi þrjár styttu þar á milli; eða 10 metrar og komi þá tvær styttur á milli. Hornstaurar skulu standa minnst 1,25 m í jörðu, nema unnt sé að festa þá í jarðfasta klöpp. Skulu þeir steyptir niður eða púkkaðir og styrktir með stögum. Hliðstaurar skulu festir á svipaðan hátt og hornstaurar“.
Löggjörningur (n, kk) Það sem löglega er gert, t.d. samningur milli manna.
Löghald (n, hk) Kyrrsetning; hald sem maður/aðili leggur á eignir annars aðila á löglegan hátt í þeim tilgangi að tryggja sinn rétt, t.d. til greiðslu skuldar. Sé haldlagning ekki rétt framkvæmd getur hún talist þjófnaður.
Lögheimili (n, hk) Sá staður sem telst heimili manns í lagalegum skilningi. Almenna reglan er sú að maður telst eiga þar lögheimili sem hann á sínar persónulegu eigur og heldur jafnaðarlega til, en frá því eru mörg frávik sem geta átt lögmætar ástæður.
Löghelsi (n, hk) Aðferð til að binda skepnur þannig að hvorki herðist að, né meiði. Hún er þannig að á mjúkan og hæfilega sveran og langan bandspotta er bundinn góður hnútur, utast á öðrum enda. Hæfilega langt frá honum er bundinn annar þverhnútur, án þess að herða strax. Festin er lögð um háls skepnunnar; endahnútinum brugðið í gegnum lausa hnútinn og hann hertur um festina; þannig að nægilega stór lykkja sé um hálsinn til að hvorki herði að né renni fram af hausnum. Kýr voru ætíð bundnar á bása með löghelsi; og hrútar í stíum. Einnig t.d. kálfar sem stagaðir voru á beit.
Lögklyf (n, kvk) Mælieining til forna; 12 fjórðungar; 240 merkur; hálft lögband.
Löglaus (l) Sem ekki styðst við lög. „Þetta var löglaus aðgerð, og siðlaus í ofanálag“!
Löglega afsakaður (orðtak) Með gilda afsökun/fjarvist; með fullgilda ástæðu til fjarvista. „Flestir mættu til kirkju, en ég var löglega afsakaður vegna minna veikinda“.
Lögleysa (n, kvk) Það sem er löglaust/ styðst ekki við lög.
Lögn (n, kvk) A. Stytting á neta- eða línulögn. „Þetta er dágóður afli í eina lögn“. B. Lagning t.d. strengs eða línu um land eða rafkerfi í húsi. „Það er nauðsynlegt að hafa góð öryggi á lögninni“.
Lögrétt (n, kvk) Skilarétt; fjárrétt sem er opinber staður til skila á fé sem kemur af fjalli. „Þegar byggja þarf lögrétt er landeigandi skyldur til að leggja til nauðsynlegt land undir hana; þó ekki tún eða engi“ (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).
Lögrétta (n, kvk) Æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld, með fjölþætt hlutverk. Lögrétta setti lög; skar úr lagadeilum o.fl. Lögrétta var stofnuð um leið og Alþingi, árið 930. Í henni sátu 39 goðar og 9 uppbótargoðar á miðpalli, en hver goði hafði tvo ráðgjafa með sér og sat annar fyrir framan hann og hinn fyrir aftan. Eftir stofnun biskupsstóla fengu biskupar einnig sæti í lögréttu. Lögsögumaður stýrði fundum, og kom Lögrétta saman báða sunnudagana sem þingið stóð; svo og síðasta daginn. Lögrétta var háð undir beru lofti og hefur verið hlaðin í hring eða ferhyrning. Allir máttu fylgjast með störfum hennar en ekki fara innfyrir vébönd sem voru umhverfis. Líklegt er að Lögrétta hafi verið á völlunum neðan Lögbergs á Þingvöllum. Eftir að Íslendingar gengu Noregskóngi á vald breyttist Lögrétta í það að vera fyrst og fremst dómstóll. Í stað goðanna komu lögréttumenn. Lögrétta var æðsti dómstóll landsins til stofnunar yfirréttar árið 1593. Árið 1594 var reist lítið hús fyrir starfsemi lögréttu, en árið 1798 var það orðið ónothæft og fluttist þinghaldið þá, og aflagt árið 1800.
Lögréttumaður (n, kk) Þeir menn fyrr á tíð sem sýslumenn eða sóknarmenn tilnefndu úr hópi betri bænda til að fara á Alþingi, en úr hópi þeirra alþingismanna voru menn valdir til dóms- og löggjafasatarfa. Lögréttumenn eru meðal forfeðra Kollsvíkurættar; t.d. Gísli Hákonarson, fæddur 1480, bóndi á Hafgrímsstöðum í Tungusveit í Skagafirði; og faðir hans Hákon Hallsson á Vindheimum í Eyjafirði. Annar var Þorleifur Guðmundsson í Þykkvaskógi í Miðdölum; lögréttumaður úr Þórsnesþingi (f.1485), og Andrés Guðmundsson launsonur Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum.
Lögræði (n, hk) Frelsi manneskju til að ráða sjálf sínum málefnum. Börn eru undir forræði foreldra sinna, en öðlast aukið sjálfræði eftir því sem þau fullorðnast. Lögræði má skipta í fjárræði og sjálfræði, en sjálfræði kemur til í nokkrum þrepum. Sakhæfisaldur er 15 ár. Leyfi til hjúskapar fæst við 18 ára aldur, og þá má taka bílpróf. Vopnaleyfi geta menn fengið 20 ára, og sömu mörk gilda um áfengiskaup. Ófrjósemisaðgerð má ekki framkvæma á manneskju undir 25 ára aldri.
Lögsagnarumdæmi (n, hk) Sýsla. Sýslur voru stofnsettar sem lögsagnarumdæmi á 12. öld og lengi vel skipaði kóngur sýslumenn yfir þær, uppá hlut af innheimtum sköttum. Sýslumenn sáu um löggæslu og sátu í dómi, en í seinni tíð, með aðskilnaði framkvæmdavalds og dómsvalds, var dómarahlutverk þeirra aflagt.
Lögskilnaður (n, kk) Skilnaður hjóna í réttarfarslegum skilningi, án tillits til sambúðar.
Lögskráning (n, kvk) Lögformleg skráning skipverja á skip, sem tryggir rétt hans til hlutar og annarra réttinda. Lögskráning fór lengi vel fram hjá lögreglustjórum, en hefur nú verið færð til útgerða og skipstjórnenda.
Lögsókn (n, kvk) Málsókn; kæra; málshöfðun á hendur manni/aðila, að lögum.
Lögsögumaður (n, kk) Forseti Alþingis á þjóðveldisöld, kjörinn til þriggja ára í Lögréttu. Lögsögumaður var eini veraldlegi embættismaðurinn á þjóðveldisöld, en meginhlutverk hans var að segja upp lög þjóðarinnar í heyranda hljóði frá Lögbergi á Þingvöllum, eða í kirkju ef veður var slæmt. Þriðjungur laganna var sagður upp á hverju þingi, en þingsköp öll árlega. Lögsögumaður gekk fyrstur til Lögbergs og skipaði sætum þar. Hann stjórnaði fundum Lögréttu og sat á miðpalli með atkvæðisrétt. Hann kvaddi til dóma. Til lögsögumanns valdist helst maður af stærstu höfðingjaættum landsins, en starfið féll niður þegar Járnsíða var lögtekin árið 1271. Meðal lögsögumanna var Þorsteinn Ingólfsson Arnarsonar í Reykjvík og sonur hans Þorkell máni, en þeir eru meðal forfeðra Kollsvíkurættar.
Lögulega (l) Snyrtilega; skipulega. „Mikilvægt er að gera þetta lögulega, svo sómi sé að“.
Lögulegur (l) Snyrtilegur; myndarlegur. „Þetta er hinn lögulegasti galti“.
Lögur (n, kk) Vökvi. „Hvaða lögur skyldi vera á þessari flösku“?
Löm (n, kvk) Hjör; liðamót hurðar/loks við staf, ásamt áföstum blöðum eða stafla. „Það er brotin efri lömin á fjárhúshurðinni í norðari miðhúskarminum“.
Lön (n, kvk) Uppsett hey, aflangt að lögun. Lön var stærri en fang, en minni en galti. „Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi; í föng ef hey var blautt, annars lanir og að lokum galta; oftast kringlótta, þegar heyið var farið að þorna vel“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Löndun (n, kvk) Uppskipun afla/farms úr bát/skipi á land; athöfnin að landa. Stutt er síðan þetta orð komst í notkun. Í Kollsvíkurverum var helst talað um að bera af; bera upp eða bera úr bátnum.
Löndunaraðstaða (n, kvk) Aðstaða til löndunar. Fyrst notað eftir að bryggjur fóru að tíðkast. Fyrrum þótti það sjálfsagt, og fylgja útgerðinni, að bera aflann á bakinu úr bát í lendingu upp í ruðning; ekki þurfti sérstakt orð um það.
Löng er bið þeim sem búinn bíður (orðatiltæki) Sá sem er tilbúinn í ferðalag verður leiður ef hann þarf að bíða lengi. „Halldóra amma var yfirleitt mjög þolinmóð miðað við mörg sín skyldmenni, en varð þó bráðlátari þegar hún eltist. Hún átti það tel þegar hún kom í heimsókn að Láganúpi, að setjast ferðbúin frammi við anddyri nokkrum mínútum eftir komuna og byrja að reka á eftir bílstjóranum“.
Löng eru (oft) hlaup fyrir lítið kaup (orðatiltæki) Ekki er alltaf mikil arðsemi/uppskera af því sem gert er með mikilli fyrirhöfn. „Löng eru hlaup fyrir lítið kaup; þarna var enga skepnu að sjá“.
Löngu búinn/byrjaður/farinn/gleymdur/kominn/liðinn/vaknaður o.fl. Atviksorðið löngu var, og er enn, notað með fjölmörgum lýsingarorðum til áhersluauka. „Hann var löngu vaknaður þegar ég kom á fætur“.
Löngum (ao) Oft á tíðum; iðulega; um langa hríð. „Það hefur löngum verið svo að hagsmunir þéttbýlisins ráða, í samskiptum við landsbyggðina“!
Löngum hlær lítið vit (orðatiltæki) Viðhaft um það þegar flissað/hlegið er af litlu eða engu tilefni, eða þegar það á alls ekki við. „Já hlæðu bara að þessu; löngum hlær lítið vit, eins og sagt er“!
Löngum og löngum (orðtak) Um langan tíma; um langar stundir; von úr viti. „Hann gat setið löngum og löngum og rætt pólitík“.
Löngunarauga (n, hk) Augnatillit löngunar. „Ég sá að karlinn renndi löngunarauga til hákarlsins og spurði hvort ekki mætti bjóða honum meira“.
Löpp (n, kvk) Fótur. Í Kollsvík var fyrrum undantekningarlítið talað um fætur á fólki en lappir á dýrum, húsgögnum og öðru. Nú er þjóðin málvillt í þessu sem ýmsu öðru. „Mér leist nú ekki á blikuna, en labbaði þó af stað,/ því langt er orðið þarna á milli bæja./ Í Púdduvík þó loksins ég haltraði í hlað/ með hælsæri á löppunum; nú jæja“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Löstur (n, kk) Galli; ókostur. „Mér finnst þessi gaspursháttur vera árans löstur á honum“.
Lötra (s) Lalla; lulla; ganga mjög hægt; fara fetið. „Ég lötraði á eftir kúnum yfir Umvarpið“.
Lötum eru allir dagar jafn helgir (orðatiltæki) Sjá þeim lata eru allir dagar jafn helgir.
Lötur (n, hk) Hægagangur; hægt rölt. „Við komumst lítið áfram með þessu lötri“!
Löturhægt (l) Mjög rólega. „Það varð að aka löturhægt með svo kúfaðan heyvagn svo ekkert félli af“.