Kollsvíkin hefur fóstrað fjöldamörg skáld og annað listafólk, þó hógværðin hafi haldið þeim um of frá frægðinni. Í þessum hópi var Valdimar Össurarson (eldri); félagsmálafrömuður og kennari. Hér er birt ágætt ættjarðarljóð eftir hann.
Valdimar Össurarson (01.05.1896- 29.06.1956) fæddist í Kollsvík, sonur Össurar Guðbjartssonar (eldri) og Önnu G. Jónsdóttur, sem fyrst bjuggu á Láganúpi en síðar í Dýrafirði. Stundaði barnakennslu frá 1921 og var frumherji í sundkennslu. Fyrstu fjögur árin var hann farkennari í Rauðasandshreppi, en fór þá til náms í Noregi. Næstu fjögur árin kenndi hann við Núpsskóla í Dýrafirði, en var eftir það skólastjóri í Sandgerði. Stundaði sjómennsku á sumrin, ásamt landbúnaðarstörfum. Valdimar var ötul driffjöður í starfi ungmennafélaga og bindindisstarfs, og fékkst nokkuð við ljóðagerð. Í skáldskap hans endurspeglast gjarnan einlægar hugsjónir hans og föðurlandsást..
Ísland
Ó landið mitt kalda, þinn kærleik ég fann
um kvöldin og heiðbjartar nætur;
er sólin við norðurpól roðnandi rann
en rauðgullið haf þér við fætur.
Þá bærðist í hjarta mér brennandi þrá
við brjóst þitt að lifa og falla í dá.
Þá vildi ég fórna þér afli og önd
og aldregi horfa til baka.
En leggja á starfsplóginn haldgóða hönd
og hugsa eki um annað en vaka.
Því miðnætursólin hún sefur ei blund
þó svolítið noðni hún ægis við fund.
Svo rís hún á fætur og roða slær fjöll
sá roðmi er skínandi fagur.
Og landið mitt verður að himneskri höll,
en hikandi um allt rennur dagur.
Þeim helgifrið raskað ei annar fær enn
en ástmögur sólar, er dag kalla menn.
Þá hellir hún geislum á fjallanna frón
þeir fossandi gullstrengir titra;
og knýr framúr þögninni töfrandi tón,
er túnin í sóleyjum glitra.
Nú rís eins og alda með ómþungum klið
iðandi lífið í straumhörðum klið.
Vaknaðu svanni og vaknaðu sveinn
svo vormenn að megii ykkur kalla;
hefjið upp fánann og heitið hver einn
með honum að sigra eða falla.
Þá drengskap þið kveikið og ættjarðarást.
Sá eldlegi viti mun hvarvetna sjást.
Og treystirðu Guði þá tekst þér um síð
það takmark er snemma þú settir.
En mundu að oft kemur yfir sú tíð
sem engu úr fyrir þér réttir.
Þá verðurðu að standa sem drengur á dröfn
og drengur að reynast uns kemurðu í höfn.
Félagskvæði
Við saman komum sátt og glöð
og syngjum skemmtilag;
og fylkjum okkur fast í röð
við fagnað hér í dag.
Við höfum gengið grýtta braut
en gleðjumst nú í hug.
Því sigur vannst í þungri þraut
og það gaf nýjan dug.
Við biðjum öllum blessunar
sem bræðra rétta hönd.
Og félagsskap til farsældar
sem fastast tengjum bönd.
Nú fögnum bræður fólksins hag
að feðra vorra reit.
Og bessist okkar byggðarlag
og blómgist okkar sveit.
U.M.F. Vestri
Þar sem víkin vestri móti
vænlega breiðir faðminn sinn
fremsta borgin gerð úr grjóti
gnæfir yfir hafflötinn.
Yfir hrjóstrug heimalöndin
hafsins niður þungur berst.
Fólkið, útrænt eins og ströndin,
öldugangi tímans verst.
Meðan Kollsvík sólin sendir
systurkveðju um júnínótt,
gæða hugann kærar kenndir;
kveikja í skapi tryggð og þrótt.
Þor skal kenna hug og höndum,
hærra að stefna, lengra að ná.
Fest og treyst af félagsböndum
framgjörn æskulýðsins þrá.
11-3-1932. Af blöðum úr fórum IG. Höf. ótilgreindur, en líklega VÖ.
Formannavísur
Andrés Svani siglir vel
sá er vanur flestu;
er á þani um ýsuhvel
oft á spani mestu.
Illugi sóma siglir byr,
síldar ljómi vellir.
Guðjón ljómi rekkarnir,
Rán þann dóminn fellir.
Helgi teitur höfnum frá
hranna beitir skafla.
Blakknes heitir bátur þá
ber oft reitur afla.
Birtist í Sjómannablaðinu Víkingi 4.tbl 1950.