Í janúar 2023 var lokið við síðari hluta sjóvarnargarðs í Grundafjöru í Kollsvík.  Þar með er tryggt að ekki verður meiri eyðilegging hinna fornu og merku minja Láganúpsverssjovarnargardur en þegar hafði orðið af völdum sjávarágangs.  Landeigendur í Kollsvík hafa háð langa baráttu fyrir fjárveitingum í þessa framkvæmd.  Fjárveiting fékkst til að hefja framkvæmdir árið 2020, en hún dugði ekki nema til hálfs.  Aftur hófst baráttan, sem nú hefur skilað fullbúinni sjóvörn.  

Alls er sjóvarnargarðurinn um 150 metra langur.  Hann liggur meðfram sjávarbökkunum, þar sem í jörðu eru rústir hins forna Láganúpsvers.  Garðurinn er byggður úr stórgrýti sem flutt var um þvera Kollsvík, norðan úr Hæðinni ofan við Tröð.  Í honum er kjarni úr fínna efni.  Garðurinn er sverastur í vesturendann, þar sem álag sjógangs er mest, en mjórri austar.  Vegagerðin sá um hönnun og verkstjórn, en verktaki var Lás ehf á Bíldudal.  Efni þurfti að aka í frosti, þar sem fara þurfti um viðkvæmt land.  Er ekki annað að sjá en vel hafi tekist til, bæði varðandi lágmörkun umhverfisáhrifa og gagnsemi framkvæmdarinnar.

Láganúpsver á sér merkilega og langa sögu.  Þar var líklega hafin stórfelld skreiðarverkun til útflutnings um eða uppúr 1300.  Árið 1446 var Láganúpsjörðin í eigu Guðmundar ríka í Saurbæ, sem var hallur undir verslun við Englendinga, þó illa væri séð af Danakóngi.  Síðar komst Saurbæjarveldið og þessi verslun í hendur Eggerts Hannessonar og afkomenda hans.  Hann hafði sterk viðskiptasambönd í Þýskalandi og var útgerð og skreiðarverkun í Láganúpsveri mikilvæg stoð undir hans viðskiptaveldi.  Kringum útgerðina risu upp kot og þurrabúðir, s.s. Grundir og Hólar.  Útgerð í Láganúpsveri dróst mjög saman á 18.öld, en í lok 19. aldar upphófst hún af miklum krafti aftur.  Þá byggðist verstöðin upp í Kollsvíkurveri, nokkru norðar, og verkaður var saltfiskur.  

Engar verbúðir standa lengur uppi í Láganúpsveri; tóftir sem þar sjást tilheyra búskap á Láganúpi, Grundum og Grundabökkum.  Enn má þó sjá firnamikinn garð uppi á Bökkunum vestanverðum, en ætla má að á elsta hluta hans hafi skreið verið þurrkuð.  Örnefni minna einnig á liðna tíð, s.s. Búðalág og Lögmannslág.  

Eftir 1980 upphófst mikið rof af völdum sjávarágangs í hinum fornu bökkum, sem staðið höfðu óhaggaðir um aldir.  Þessar hamfarir gengu ekki einungis yfir Kollsvík, heldur hafa orðið stórfelldar og óafturkræfar skemmdir á flestum hinna fornu verstöðva allt í kringum landið.  Svo virðist að stjórnvöld hafi verið algerlega grandalaus og látið sér að mestu í léttu rúmi liggja þó þar með hyrfi ómetanlegur menningararfur þjóðarinnar.  Engu fé var bætt til sjóvarna; engin áætlun hefur verið gerð um varnir og ekkert hefur verið gert til að rannsaka orsakir og afleiðingar þessara hamfara.  

Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson hefur líklega sett fram einu heildstæðu kenninguna um orsakir þessa sjávarrofs, en hún er byggð á rannsóknum vísindamanna víða um heim.  Nánar er orsakasamhenginu lýst hér annarsstaðar á síðunni og í Náttúrufræðingnum 2018, en það er í stórum dráttum þannig að vegna fjöldadauða krossfisks verður offjölgun í stofni ígulkersins skollakopps.  Hann lifir á þara og gengur svo nærri þaraskógum á grunnsævi að þeir nánast hverfa.  Þarinn gegnir þar með ekki lengur því hlutverki að draga úr afli brimbárunnar, sem þá gengur óbrotin upp á ströndina; langtum ofar en áður, og brýtur niður bakka og fornar verstöðvar í þeim.  Önnur afleiðing þessa er mikill landburður af sandi af grunnsævi, sem veldur sandfoki og jarðvegseyðingu, líkt og nú gengur yfir Kollsvíkina.

Gerð sjóvarnargarðsins í Grundafjöru var í samráði við Minjastofnun, líkt og aðrar framkvæmdir Kollsvíkinga í minjavernd.  Er þeim og öðrum sem að framkvæmdinni komu hér með þakkað fyrir samstarfið.

Leita