Félagslíf var blómlegt í Rauðasandshreppi á 20.öld, meðan þar var enn fjölmennt byggðarlag.  Ekki störfuðu færri en fjögur ungmennafélög, auk lestrarfélaga, leikfélags, saumaklúbbs, bindindisfélags og fjölda annarra félaga.  Hér er lýst ungmennafélögum, lestrarfélagi og tóbaksvarnarfélagi.

Hér fer á eftir frásögn Valdimars Össurarsonar (eldri) frá Kollsvík, sem hann ritaði árið 1927 til að lýsa stofnun ungmennafélaganna Baldurs og Vestra í utanverðum Rauðasandshreppi.  Síðar er lýsing Eyjólfs Sveinssonar á Ungmennafélaginu Von á Rauðasandi og Dagbjargar Ólafsdóttur frá Hænuvík á Ungmennafélaginu Smára í Sauðlauksdalssókn.  Þar á eftir fylgja lög Tóbaksbindindisfélags Rauðasandshrepps og Lestrarfélagsins Bernskunnar.

Ungmennafjelagið Baldur

„Sunnudaginn 21. febr. 1909 komu menn saman til þess að stofna fjelag í þeim tilgangi að efla mentun og íþróttir, og til að binda unga menn saman og venja þá á að beita kröftum sínum í sameiningu í þarfir einhvers málefnis“.  Þannig byrjar fyrsta fundargerð elsta ungmennafjelagsins í Rauðasandshreppi.  Á þessum fyrsta fundi var fjelaginu gefið nafn og látið heita „Baldur“, eftir goðinu Baldur.  Einnig var þá kosin 3 manna nefnd til þess að semja frumvarp til laga fyrir fjelagið.

Fyrsti aðalfundur var svo haldinn í Örlygshöfn, í þinghúsi hreppsins, 28. febr. 1909.  „Tilgangur fjelagsins er að efla mentun og íþróttir“.  Með þessum orðum fjelagslaganna markar félagið stefnu sína. 

Fjelagið náði yfir allan hreppinn nema Rauðasand, og voru kraftarnir því dreifðir; enda kom það fljótt á daginn að ógerningur var að halda fjelaginu saman til langframa.  Fyrstu fundirnir voru ágætlega sóttir og fjelögum fjölgaði.  Á fyrsta aðalfundi gerðust 33 fjelagar, alt karlmenn; enda átti fjelagið að starfa mest sem íþróttafjelag, þótt það þegar á fyrsta ári (31. okt 1909) sniði skuldbindingu sína eftir skuldbindingarskrá U.M.F.Í.

Á fyrsta aðalfundi var samt samþykt svohljóðandi viðbót við lagafrumvapið:  „Fundurinn samþykkir að þeir meðlimir fjelagsins sem eigi hafa neytt tóbaks né áfengis, skuldbindi sig hjer með til þess að neyta þess ekki eftirleiðis“.

Aðalhvatamaður félagsstofnunarinnar var Sigurður A. Guðmundsson, en fyrsti formaður fjelagsins var Finnbogi R. Þorvaldsson.  Þeir fóru báðir að heiman haustið 1909 og sögðu sig þá úr fjelaginu.  Fjelagið stóð þá eftir eins og höfuðlaus her.  Þeir sem í því voru, voru lítt kunnir fjelagsstarfsemi.  Sigurður A. Guðmundsson hafði verið í glímufjelaginu Ármann í Reykjavík; þaðan var hreyfingin runnin.  En brátt bættust í fjelagið menn sem kunnir voru fjelagsstarfsemi U.M.F.Í. og breytti það stefnu og anda fjelagsskaparins, smátt og smátt.  Í nokkur ár gaf fjelagið út handritað blað sem hjet Bernskan.  Fjelaginu var skift í tvær deildir 12. nóv 1910.  Önnur deildin var í innfirðinum (Patreksfirði) en hin náði yfir Örlygshöfn, Hænuvík og Víkurnar.

Aðalþrekvirki fjelagsins var að byrja á og vinna að veglagningu uppi í skriðunum milli Örlygshafnar og Sellátraness.  Vegurinn lá áður niður í fjöru, en eyðilagðist árlega af brimi og varð oft ófær að vetrinum fyrir skepnur, vegna klaka.  Nokkur hluti vegarins liggur gegnum stórgrýtisurð.  Á þessari leið byrjuðu 8 ungmennafjelagar, en brátt bættust fleiri í hópinn; bæði utanfjelags og innan.  Hreppurinn kostaði ofaníburð og ljet ljúka við veginn.  Hreppsnefndin hafði áður álitið ókleyft að leggja þarna veg vegna kostnaðar.  Helgi Árnason í Kollsvík var fyrsti hvatamaður þessa verks í Baldri.  Vegur þessi mun halda nafni fjelagsins í minnum manna meðan skriður eru farnar milli Sellátraness og Örlygshafnar.

Sundlaug bygði fjelagið á Rauðasandi í samvinnu við ungmennafjelagið Von, en sund var ekki kent þar nema eitt sumar.  Formaður fjelagsins, Ármann Guðfreðsson úr Sauðlauksdal, leiðbeindi nokkrum unglingum í sundi, er landlegur voru í Kollsvíkurveri, og lærðu þeir þannig að fleyta sjer.  Þá lærði Valdimar Össurarson fyrst að fleyta sjer, en hann kendi seinna sund í Kollsvík og víðar.

Árið 1914 hætti félagið alveg að starfa um 4 ára skeið.  Vinsældir hafði félagið ekki hjá fjöldanum.  Prestur sveitarinnar, síra Þorvaldur Jakobsson, var fjelaginu mjög hlyntur, og örfaði fjelaga til framkvæmda.

Baldur var „heimtur úr helju“ aftur sjálfstæðisárið 8. des. 1918.  Þá gengu í fjelagið bæði konur og karlar; ungir og gamlir.  Hugsunarháttur manna hafði breyst.  Ungmennafélagið Von á Rauðasandi hafði getið sjer góðan orðstír og hafði hylli allra, yngri og eldri á Rauðasandi, frá því það var stofnað 30. des. 1910.  Formaður þess, Eyjólfur Sveinsson, hafði verið á lýðháskóla í Noregi og kynnst ungmennafjelögum í Reykjavík og Hafnarfirði.

Samvinna hefir verið milli fjelaganna Baldurs, Vonar og Vestra um ýmis mál, eins og leikmót, skemtiferðir, heimilisiðnaðarsýningu og hjálp til fátækra.  Von hefur bygt sér fundarhús úr steinsteypu, 12 x 8 álnir, sem er nú nærri skuldlaus eign fjelagsins.  Útlitið um framtíð Vonar er gott, þótt fjelögunum hafi fækkað, en Baldri var slitið að fullu og öllu haustið 1926 á fundi í Örlygshöfn.  Hann hefir lokið hlutverki sínu í menningarsögu Rauðasandshrepps.  Hann hefir átt við ramman reip að draga; strjálbýli og samtakaleysi.  En alda sú sem hann vakti hefir vakið aðrar nýjar.  Þeir sem stofnuðu Umf. Vestra og urðu forgöngumenn þess, lærðu fyrst að starfa í fjelagi í Baldri, og beita þar kröftum sínum.

Ármann Guðfreðsson er sá eini sem stöðugt hefir verið félagi Baldurs, frá því hann var stofnaður og þangað til honum var slitið.  Hann hefir lengst af verið formaður fjelagsins og viljað gera sitt besta til þess að fjelagsskapurinn gæti dafnað.  En þegar Ármann flutti burt úr sveitinni var fjelaginu slitið.

 

Ungmennafjelagið Vestri

Sunnudaginn 17. seft. 1916 var fundur settur og haldinn að Láganúpi í Kollsvík, samkvæmt umtali ungra manna og kvenna í Kollsvík 10. sama mánaðar.  Tuttugu og sex ungmenni mættu á fundinum, og lofuðu 20 þeirra að verða fjelagar í hinu fyrirhugaða fjelagi.  Stofnfundur var haldinn í Kollsvík 1. okt 1916, og mættu 24 á honum.  En á fyrsta starfsári urðu fjelagar 33.  á þessum fundi voru lög fjelagsins samþykt, og voru þau sniðin eftir lögum U.M.F.Í.  Stefnuskrá og skuldbindingarskrá sú sama.  Fjelagið var látið heita „Vestri“ af því að það er vestasta ungmennafjelag í Evrópu.  Félagssvæðið var ákveðið Víkurnar, þ.e.: Kollsvík, Breiðavík og Látrar; einnig Hænuvík og Keflavík.  Í stjórn þess voru kosnir Helgi Árnason (form), Valdimar Össurarson (ritari) og Þeódór Kristjánsson (gjaldkeri). 

Sama ár og fjelagið var stofnað var stofnaður tóbaksbindindisflokkur í Vestra og gengu allir fjelagar í hann, sem ekki neyttu tóbaks.  Einnig var tóbaksneysla bönnuð á fundum fjelagsins og samkomum.  Brot á reglum flokksins hentu varla meðan hann starfaði.  Nú hefur „Tóbaksbindindisfjelag Rauðasandshrepps“, sem einn af fjelögum í Vestra stofnaði, leyst hann af hólmi.  Tóbaksnautn meðal yngri manna, upp undir þrítugt, er engin á fjelagssvæðinu, og má þakka það fjarstöðu hjeraðsins við kaupstað, tóbaksbindindisstarfsemi og áhrifum barnakennara í tuttugu ár.  Í Rauðasandshreppi neytir nú (í mars 1927) hér um bil 10. hver íbúi tóbaks, en ekki nema einn fyrir innan tvítugt og 3 milli 20 og 30 ára.

Árið 1917 gekk Vestri í Bandalag U.M.F. Vestfjarða fyrir flutning Valdimars Össurarsonar, sem dvalið hafði þá á Ungmennaskólanum að Núpi í Dýrafirði.  Sama ár varð Kristján Júlíus Kristjánsson formaður fjelagsins og hefur verið það óslitið síðan.  Fjelagið byrjaði þá að gefa út handritað blað; „Geisli“, og var einn maður ritstjóri þess, en seinna urðu þeir þrír.  Þeir skrifuðu blaðið til skiftis, en fjelögum var skift í ritnefndir.  Blaðið hefir komið út óslitið, oftast á öðrum hvorum fundi.  En fundir hafa verið haldnir að forfallalausu annanhvern sunnudag að vetrinum.

Íþróttaflokkur hefir starfað innan fjelagsins.  Þótt hann hafi ekki verið afkastamikill hefir hann þó verið til bóta.  Mest hafa fjelagsmenn iðkað sund, glímu og skíða- og skautaferðir um eitt skeið.  Leikmót hefir fjelagið haft tvisvar í Kollsvík, í sambandi við sundpróf.  Á fyrra mótinu veitti það öllum ókeypis mjólk, kaffi og með því.

Sundkensla hefir farið fram í Kollsvík á vegum fjelagsins í 5 sumur; hálfsmánaðar tíma.  Fjelagið bygði upp sundtjörnina, en sýslusjóður hefir launað kennaranum.  Allir karlmenn í fjelaginu kunna sund.  Vonandi hefir fjelagið unnið þar til mikillar blessunar, því að eigi hefir það ósjaldan hent, að menn hafi drukknað nærri landi í Víkum; þar er brimasamt.

Fjelagið hefir bygt hafnarmörk á Miðleiðinni í Kollsvík og hlaðið upp gömul hafnarmörk á svokallaðri Snorralendingu.  Veg hefir það lagt upp gil; Flosagil, á milli Breiðavíkur og Kollsvíkur, og tók verkið 40-50 dagsverk.  Gilið var fjölfarnast af kirkjufólki og var illfært fyrir gamalmenni, sem hjeldu þeim sið að fara til kirkju, þótt fæturnir væru farnir að fúna.  Gamalmennin munu ekki síst ganga þenna veg með hlýjum huga til fjelagsins.

Kálgarð byrjaði fjelagið að byggja 1925, og hefir verið sáð í hann og fengist uppskera til muna, þott hann sje ekki fullgerður.  Borið hefur við að fjelagar nokkrir hafa farið laugardagsróður fyrir fjelagið, og eitt vor höfðu fjelagar sinn öngulinn hver fyrir það.  Safnaðarsöngur í Breiðuvíkursókn hefir verið á vegum fjelagsins síðan 1917 og taka því allir fjelagar þátt í kirkjusöngnum.  Söngæfingar hefir fjelagið haft nokkrar, sum árin.

Jólaskemmtun og jólatrje fyrir börn í Kollsvík hefir fjelagið á hverjum jólum.  Einnig hafði það kortakassa á jólunum um eitt skeið.  Almennar skemmtisamkomur hafa verið fátíðar í fjelaginu; ein og eingin á vetri, og hefir húsleysi valdið því.  En útileikir hafa verið iðkaðir, bæði vetur og sumar.  Eina skemtiferð hafa fjelagar farið á sjó; út á Bjargtanga til þess að skoða Bjargtangavitann, og aðra inn að Vestur-Botni í Patreksfirði til þess að skoða skógarleifarnar og skemta sjer.  Fjelagar í Von komu þangað líka sama dag.  Sumarið 1926 gekkst Von fyrir skemtiferð í Skor.  Þar var haldin guðsþjónusta undir beru lofti í Skorarvogi í rigningu og fyrirlestur um Eggert Ólafsson.  Fáeinir fjelagar í Vestra, sem höfðu hest, fóru þá inn í Skor.  Fleiri myndu hafa kosið að fara.

Einu sinni tók Vestri þátt í iðnsýningu á Rauðasandi með fjelögum í Von og Baldri.  Von var aðalþátttakandinn og gekst fyrir sýningunni.  Tvisvar hefir fjelagið selt bögla; öðru sinni fyrir sig sjálft, en hitt skiftið til ágóða fyrir Íþróttaskólann í Reykjavík.  Samskota hefir það leitað, bæði utan fjelagsins og innan, til lýðskóla Vestfjarða; til ekkna og til fátækra barna; fatagjafir fyrir jólin.  Alls hefir fjelagið sent frá sjer samskotafje að upphæð um 700 krónur.

Tvö síðustu árin hefir nokkuð dofnað yfir fjelagsstarfseminni.  Fjelögum hefir fækkað, einkum að vetrinum.  Flestir hafa fjelagar orðið 40 1918, en er fjelagið varð 10 ára 1926 voru þeir ekki nema 27, og líkur eru til þess að þeim fækki meira.  Fundi hefir fjelagið haldið á bæjunum; þriðja hvern fund í Breiðavík.  Talað hefir verið um að byggja fundarhús, en ekki byrjað á því enn.  Í 10 ár hefir fjelagið haldið 110 fundi alls; 18 flesta á ári 1918 en 7 fæsta 1925.  Þrisvar hefir það átt mann á Bandalagsþingi Vestfjarða, og hefir það mikið örfað fjelagsstarfsemina.

Í fjelaginu hafa verið rædd alls 166 málefni (í 10 ár), auk ýmsra spurninga.  Flest þeirra hafa verið siðferðis- og menningarmál; bæði einstaklingsins, sveitarinnar og þjóðfjelagsins.  Allir fjelagar hafa lagt eitthvað til málanna.  Stundum hafa verið teknir menn úr Íslendinga- eða mannkynssögunni til athugunar og rætt um þá.  Hefir það vel gefist.

Vestri hefir átt almennum vinsældum að fagna, bæði á fjelagssvæðinu og utan þess.  Og þótt fjelögum fækki nú ótt, þá vona ég að hann haldi í horfinu.  Unga kynslóðin sem hóf fjelagsstarfsemina er nú komin til manns.  Sumir hafa flutt burt af fjelagssvæðinu; þeir hefðu hvort sem er ekki rúmast þar allir, en í skarðið hafa ekki vaxið upp jafn margir.

Fjelagsskapurinn hefir verið æskunni hollur skóli; glætt fjelagsanda og löngun til þess að vinna í fjelagi að framfaramálum lands og lýðs.  Margur mun búa æfilangt að þeim áhrifum sem hann hefir orðið fyrir í ungmennafjelagi í æsku sinni.  „Smekkur sem að kemst í ker; keiminn lengi eftir ber“.

Núpi 27. mars 1927

Valdimar Össurarson (eldri), frá Kollsvík

 

Eyjólfur Sveinsson:

Ungmennafélagið Von, Rauðasandi

Eftir að jeg kom heim frá Norvegi 1910, og hafði kynnst þar og í Reykjavík og Hafnarfirði ungmennafjelögunum, hafði jeg löngun til þess að koma á fót félagi á Rauðasandi.  Þá höfðu hugsjónir félagsskaparins þar töluvert fylgi.  Var haldinn undirbúningsfundur í nóvember til að ræða um fjelagsstofnun.  Voru á þeim fundi valdir til þess að semja lög fyrir fjelagið; Ólafur Sveinsson, Guðjón Bjarnason og Eyjólfur Sveinsson.  Sökum veikinda varð ekki af að haldinn yrði stofnfundur fyrr en 30. des. 1910.  Var þá ungmennafjelagið Von stofnað.  Báðir þessir fundir voru haldnir í Króki.

Vinsældir fjelagsins frá því fyrsta hafa verið mjög góðar, bæði hjá yngri og eldri mönnum, og því til sönnunar má geta þess að tveir rosknir bændur gengu í fjelagið þegar það var stofnað.  Álit þess og vinsældir hafa alla tíð verið hið besta, þó það sé nú búið að starfa nær 16 ár.  Formaður þess hefur lengst af verið Eyjólfur, eða í 13 ár; Bergþór Ívarsson 2 ár og Ólafur Sveinsson 1 ár.  Flestir hafa fjelagarnir verið 28, en nú eru þeir 17.  Hefur þeim fækkað í líku hlutfalli og íbúunum á Rauðasandi. 

Fyrstu árin voru allir fundir og innisamkomur haldnar á þeim heimilum sem best höfðu húsakynni, og lágu næst miðju fjelagssvæðinu.  Húslán og öll hjálp við samkomurnar var ætíð velkomin, og án alls endurgjalds.  Öllum hefur verið heimill ókeypis aðgangur að skemtunum fjelagsins og aldrei hefur það tekið borgun fyrir veitingar.  Fundi hefur það haldið 8-10 á vetri.  Á þeim hafa verið rædd málefni, lesið upp, sagðar sögur og sungið.  „Dvergur“, hið skrifaða blað fjelagsins, hefur komið út á hverjum fundi.  Fyrstu árin var ein ritnefnd yfir veturinn, en svo var komið á flokkaritnefnd og gafst það vel að sumu leiti.  Dvergur hefur veitt mikla leikni og æfingu í að rita.  Mállýtanefnd hefur starfað flesta veturnar.  Póstkassa um hátíðarnar hefur fjelagið haft, og séð um að bera út brjef úr honum.

Síðan það eignaðist sjálft hús hefur það haft á hverjum jólum; skemmtun og jólatré fyrir börn.  Einu sinni veitti það stúlkum í félaginu viðurkenningu fyrir handavinnu.  Eina eða tvær dansskemmtanir hefur það haft á vetri.  Oft hefur það staðið fyrir álfadansi og blysför, og nokkra smá-sjónleiki hefur það sýnt.  Glímur og skautahlaup hafa margir fjelagar æft, suma veturnar.  Tvisvar hefur það staðið fyrir og gefið fátækum börnum fatnað á jólum; einnig gefið og safnað gjöfum til Vífilstaðahælis og Landspítalans.  Fjelagið sá um að drengir innan 14 ára, sem í því voru, hafa komið sér upp garðholu og ræktað þar jarðepli og selt þau, en fengið sér útsögunartæki og efni fyrir andvirðið.  Einn dag á sumri, í tvö sumur, hefur það unnið að heyskap fyrir sjúkan einyrkja.  Tvisvar hefur það staðið fyrir kappslætti, með góðum árangri.  Lítilsháttar hefur fjelagið unnið að grisjun skógar, í svokallaðri Skrúðtungu.  Jarðeplagarð hefur það átt í mörg ár.  Einu sinni útvegaði fjelagið blómfræ og útbýtti því milli fjelaganna.  Árið 1911 fjekk það nokkrar trjáplöntur frá Norvegi og 1912 fjekk það 3000 plöntur; birki og reyni, úr Fnjóskadal.  Var þeim skift milli fjelagsmanna og fleiri, en nokkuð gróðursett í reit sem fjelagið girti.  Trjáræktin hefur lánast illa vegna ágangs búfjár og ónógrar girðingar. 

Fjelagið hefur reist hús; er það úr steinsteypu, 12x8 álnir, með járnþaki.  Er það nú fundar- og samkomuhús Rauðsendinga.  Öll vinna við að reisa húsið hefur verið unnin ókeypis, bæði af fjelags- og utanfjelagsmönnum.  Sundlaug ljet fjelagið gera, en sund var ekki kennt þar nema eitt sumar, af sjerstökum ástæðum.  Nokkrum skemmtiferðum, að sumrinu, hefur fjelagið staðið fyrir; einni í Skor.  Var þar haldin guðsþjónusta undir beru lofti og fyrirlestur um Eggert Ólafsson.  Margir fyrirlestrar hafa verið haldnir í fjelaginu af utanfjelagsmönnum.   Eignir fjelagsins eru um kr 2000, hús og munir, en skuld kr 140. 

Oft hefur virst, einkum að vetrinum, að fjelagið væri nauðsynlegur þáttur í hinu kyrrláta lífi byggðarinnar; til að auka fjör og glæða samhug manna.  Útlitið um framtíð þess er gott; það starfar af  hugsjón og treystir á sigurkraft góðs málefnis. 

(Handrit frá 1926; með skrift Valdimars Össurarsonar eldri, uppskrifað hér 2015 af Valdimar Össurarsyni yngri, en báðir voru frá Láganúpi)

 

Dagbjörg Ólafsdóttir frá Hænuvík:

Ungmennafélagið Smári

Um 1935 var stofnað Ungmennafélagið Smári, en það félag starfaði í Sauðlauksdalssókn (sem nær til bæja Rauðasandshrepps við Patreksfjörð). Sigurbjörn (Guðjónsson í Hænuvík) var mikill hvatamaður að stofnun þess félags; sem og Thoroddsens fólkið í Vatnsdal.  Það félag starfaði lengi af fullum krafti.  Svo var annað ungmennafélag í Breiðavíkursókn sem hét Vestri, og á Rauðasandi var félag sem hét Von.  Þá var margt fólk í öllum sóknunum (líklega um 300 manns í öllum Rauðasandshreppi).

Þar voru haldnir mánaðarlegir málfundir og einnig voru haldin böll.  Þar var Sigurbjörn fremstur í flokki.  Á þeim árum var líka farið að tala um að byggja félagsheimili í Örlygshöfn, en fram að því hafði verið notast við gamla þinghúsið, sem einnig var samkomuhús.  Það var óttalega lítið og hálfgerður hjallur, en samt voru haldin böll þarna.

Böllin í gamla þinghúsinu byrjuðu alltaf kl 22.  Kristinn bróðir var harmónikkuskpilarinn, og ef hann þurfti að hvíla sig var ekkert verið að sitja eða hanga úti í hornum.  Heldur var farið í hringleiki eins og „Halur hjarðar gáði“; „Meyjanna mesta yndi“; „Í heiðardalnum er heimabyggð mín“ ofl. o.fl.  Böllin stóðu til kl 5-6 næsta morgun; samt var brennivín ekki haft um hönd.  Fólk fór venjulega seint í gegningr þegar heim var komið, sumir kannski orðnir þreyttir og syfjaðir.  Því fór illa fyrir einum stráknum sem þurfti út í fjós að mjólka kýrnar; hann sofnaði undir einni kúnni og vaknaði þegar hendurnar duttu ofan í mjólkurfötuna.

Seinna var farið að huga að byggingu nýs og stærra samkomuhúss, en ekki voru allir sáttir við það tal og spurt hvað menn ætluðu eiginlega að gera veð hús sem tæki 90 manns í sæti.  Húsið var samt byggt í Örlygshöfn og stendur enn og hlaut nafnið Fagrihvammur.  Það var vígt 1955.  Er það nú (2015) nýtt undir hótelrekstur í Örlygshöfn.

Eftir að Thoroddsenfólkið flutti burt úr Vatnsdalnum (1944) fór að dofna yfir Ungmennafélaginu Smára.  Endaði svo með því að starfsemi félagsins lognaðist alveg útaf. 

(Frásögn Dagbjargar Ólafsdóttur í bókinni „Að vaka og vinna; ýmislegt af Hænuvíkurhjónunum Ólafíu Magnúsdóttur og Sigurbirni Guðjónssyni“ sem út kom árið 2015).

 

Hér á eftir er lýst starfsemi Tóbaksbindindisfélags Rauðasandshrepps, en helsti hvatamaður að því var áðurnefndur Valdimar Össurarson (eldri).  Síðan er lýst reglum Lestrarfélagsins Bernskunnar í Rauðasandshreppi, sem hann stóð fyrir ásamt öðrum öflugum félagsmálafrömuði; Eyjólfi Sveinssyni á Lambavatni.

Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps 

Einkunnarorð:  Til þess að útrýma tóbaksnautninni alveg, þurfa að fylgjast að einhuga; skynsöm börn, vitrir foreldrar og kennarar sem ekki neyta tóbaks.

  1. gr. Fjelagið heitir Tóbaksbindindisfjelag Rauðasandshrepps, og nær yfir hreppinn.
  2. gr. Tilgangur fjelagsins er að útrýma tóbaksnautn úr hreppnum.

3.gr.  Tilgangi sínum vill fjelagið ná með þessu:

  1. Að öll börn í hreppnum á aldrinum 12-14 ára gangi í fjelagið; einnig unglingar og eldri menn.
  2. Að brýnt sje fyrir börnum með dæmum úr viðskiftalífinu, hve tóbaksnautn sje mikil heimska frá fjárhagslegu sjónarmiði; ræni heilsu manna og sje til óþrifa.
  3. Að fá tóbaksmenn og aðra eldri menn il þess að vara unglinga við tóbaksnautn, einkum að varast að bjóða þeim tóbak.
  4. Að þeir sem í fjelaginu eru sæti þeim dómi sem lög fjelagsins ákveða í 6.gr.
  5. gr. Þeir sem ganga í fjelagið skulu teljast í því æfilangt.
  6. gr. Kennari hreppsins skal vera formaður fjelagsins og hafa á hendi starfrækslu þess. Hann skal gefa skýrslu um ástand þess árlega á almennum hreppsfundi.  Formaður fræðslunefndar sjer um fjelagið meðan kennaralaust er.
  7. gr. a. Ef einhver fjelagsmaður neytir tóbaks skal formaður fjelagsins, eða annar sem hann tilnefnir, vanda um við hann; fá hann til að hætta og hvetja hann til stöðuglyndis.
  8. Brjóti nokkur þrisvar á ári getur hann sýknað sig sjálfur með því að skrifa fjelaginu afsökunarbrjef; en geri hann það ekki, eða brjóti oftar, skal hann skráður í „tölu hinna seku“ sem auglýsa skal árlega á kirkjustað í sókn þeirra.
  9. Ef sekur verður ekki brotlegur heilt ár, þá skal má nafn hans úr “tölu hinna seku“.
  10. gr. Hver fjelagsmaður skal hafa eitt eintak af lögum fjelagsins. Sá sem vill verða fjelagsmaður skal skrifa nafn sitt undir lög þessi og breyta eftir þeim.  Formaður ritar nafn sitt einnig undir hvert eintak. 

Fjelagshugsjónin er þessi:  Árið tvö þúsund eftir Krists burð neytir enginn tóbaks í sveitinni okkar, sem í henni er fæddur og uppalinn, ef fjelagið heldur áfram að starfa og hver fjelagsmaður er sjálfum sjer trúr; sveitinni sinni og þessari fjarlægu hugsjón.

Vertu trúr yfir litlu. 

Fjelagið var stofnað 16. mars 1923

Valdimar Össurarson, kennari.

 

 

Reglur Lestrarfjelagsins „Bernskan“ í Rauðasandshreppi

  1. gr.

Fjelagið heitir „Bernskan“ og nær yfir Rauðasandshrepp

  1. gr.

Tilgangur fjelagsins er að veita börnum og unglingum hægan og ódýran aðgang að bókum við þeirra hæfi.

  1. gr.

Fjelagar geta orðið þeir er greiða árstillag, minnst eina krónu, fyrir 1. mars ár hvert.

  1. gr.

Í stjórn fjelagsins er kennari hreppsins, og velur hann einn mann með sjer.  Stjórnin skal annast bókakaup og útlán bóka, og allan hag fjelagsins.

  1. gr.

Fjelagið skiftist í þrjár deildir eftir sóknarskiftingu hreppsins, og getur hver deild fengið bækur að láni átta vikna tíma í einu, og skulu þær ganga á milli fjelaganna í deildinni.

- - - - - - - - -

Reglur þessar voru samdar að Lambavatni 20. nóv. 1921

Valdimar Össurarson

Eyjólfur Sveinsson 

Nöfn félaga:  Eyjólfur Sveinsson, Valdimar Össurarson, Kristján Júlíus Kristjánsson, Guðbj. Jónína Kristjánsdóttir, Guðm. Jóh. Kristjánsson, Ingólfur Jón Þórarinsson, Bjarni S. Össursson, Guðrún Össurardóttir, Gunnar Össurarson, Marta Össurardóttir, ónefndur, H. Jóna Jónsdótir, Þórður Jónsson, Þ. Margrét Guðbj.dóttir, Kristján Erlendsson, Guðbjartur G. Egilsson, Fríða Guðbjartsdóttir, Guðmundur Ó Bæringsson, Bjarni Bæringsson, Hermann Bæringsson, Tryggvi Hjálmarsson, Eiríkur Á. Hjálmarsson, Jóna S.H. Hjálmarsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Þorvaldur Ólafsson, Svava Ólafsdóttir, Trausti Jónsson, Guðmunda Jónsdóttir, Guðrún Halldórsdóttir, Benjamín Júlíusson, Árni J. I. Egilsson.

Skrá yfir barnabækur í Lestrarfj. Bernskan í Rh:  Ný lesbók kennarask.fj.Ak, Dæmisögur eftir Æsóp, Ævintýri Bj.Bj, Sögur Z.T, Sögur og kvæði H.J, Viðlegan á Felli, Helgi í Hlíð, Sextíu leikir, Sella síðstakkur, Samtíningur J. Sigf, Föðurást, Þrautir Heraklesar, Hjálpaðu þjer sjálfur, Sparsemi, Æfisaga B. Franklín, Bernskan I og II, Vitrun, Bók náttúrunnar, Gullastokkurinn, Leikjabók; innileikir, Garibaldi, Jólabókin 1920-1922, Skuggsjáin, Róbinson Krúsóe, Ferðin á heimsenda, Sóleyjar, Smásögur P.P, Dýravinurinn, Fjórar sögur Bj.Bj, För Gúllivers, Kátur piltur, Kátir piltar, Ævisaga asnans, Grimms ævintýri, Refurinn hrekkvísi, Barnasögur H.J, Englabörnin, Barnasaga frá Vallandi, Ný lesbók handa börnum, Nonni, Gosi, Tumi þumall, Borgin við sundið, Ferðir Munchausens, Fornsöguþættir I-IV, Seytján ævintýri, Tröllasögur, Uppvakningar og fylgjur, Útilegumannasögur, Huldufólkssögur, Mjallhvít, Rauðhetta, Hans og Gréta, Barnasögur Th.Þ.H, Ljósberinn I-V. ár, Kvæði og leikir H.B, 25 æfintýri og sögur, Hlyni kóngsson, Karlinn frá Hringaríki, Óli Hálendingur, Sólskinsdagar, Daglæti, Tíbrá, Nonni og Manni, Samlestrarbók, Í föðurleit, Kóngurinn í Gullá, Hrói höttur, Barnagull, Barnagaman með myndum, Barndómssaga Jesú, Bláskjár, Dvergurinn í sykurhúsinu, Litli sögumaðurinn, Þulur Th. Thoroddsen, Góða stúlkan, Handavana, Smælingjar, Búkolla, Piltur og stúlka, Maður og kona, Fanney; barnablað, Unga Ísland; barnablað, Æskan; barnablað, Lesarkasafn, Knútur frá Álmvík, Egill frá Bakka.

Eftirmáli

Ungmennafélagsstarfsemi í Rauðasandshreppi var öflug á fyrri hluta 20. aldar, eins og sjá má á framanskrifuðum heimildum.  Þó starfsemi félaganna lyki voru áhrifin þó mun langvinnari.  Í raun má segja að einungis hafi verið um formbreytingu að ræða, því þau voru undanfarar gróskumikillar félagastarfsemi sem entist þar til fjara tók undan byggð í Rauðasandshreppi á síðustu áratugum 20. aldar og byrjun þeirrar næstu.  Þegar Slysavarnadeildin Bræðrabandið var stofnuð varð starfsemi þess strax mjög öflug, og að sumu leyti varð það arftaki ungmennafélaganna, t.d. varðandi samkomuhald í hreppnum.  Þá má líta á lestrarfélögin sem grein á ungmennafélögunum sem lifði lengur en þau, en lestrarfélag var starfandi í hverri hinna þriggja sókna Rauðasandshrepps.  Saumaklúbburinn Stautur starfaði í Rauðasandshreppi framundir aldamótin 2000, og spilakvöld voru haldin reglulega í Fagrahvammi.  Kaupfélagastarfsemi, búnaðarfélög og sparisjóður nutu öll góðs af ungmennafélögunum og var t.d. hin fyrstnefnda öflug meðan næg byggð var til að halda uppi verslun og sameiginlegri búfjárslátrun.  Ungmennafélagshugsjónin um sameinað átak til verka átti eftir að koma í ljós síðar, t.d. þegar stofnuð var félag nokkurra hreppsbúa um rekstur vinnuvéla, og aftur þegar stofnað var almenningshlutafélag í hreppnum um rekstur byggingarfélags.  Þannig mætti áfram telja upp þá arfleifðsem ungmennafélaög Rauðasandshrepps skildu eftir sig.  Fullyrða má að án þeirra hefði hnignun byggðar orðið mun fyrr og alvarlegri en þó varð raunin.  Einnig má fullyrða að án þeirra hefði ekki varðveist svo mög minni um hina horfnu menningarþætti og raun hefur orðið á.