Skrá yfir jarðir í Rauðasandshreppi; ábúendur og heimilisfólk, eftir því sem heimildir herma. Valdimar Össurarson bjó til birtingar. Byggt að mestu á drögum og heimildasöfnun Trausta Ólafssonar prófessors og ættfræðings, sem m.a. skrifaði bókina "Kollsvíkurætt". Haraldur Þorsteinsson frá Patreksfirði sló þau gögn í tölvutækt form. Einnig eru tilvitnanir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703; Barðstrendingabók Péturs Jónssonar frá Stökkum og aðrar heimildir. Heimildir um síðustu áratugi eru einkum sóttar í rit Birgis Þórissonar; "Fólkið landið og sjórinn". Valdimar ritaði upphafsgreinar um landnám og byggðasvæði, auk hugleiðinga um nafnsifjar bæjaheita.
Efni: (Flýtival með smelli á kafla eða bæjarnafn).
Rauðasandshreppur Örstutt um hreppamörk, boðleiðir o.fl.
Landnámsmenn í Rauðasandshreppi Frásagnir Landnámu og hugleiðingar um þær.
Byggðasvæði Frá fornu fari hefur hreppurinn skipst í nokkur byggðasvæði.
Rauðisandur: - Skor / Völlur - Sjöundaá - Melanes - Skógur - Máberg - Bjarngötudalur - Dalshús - Kvernargrund) - Kirkjuhvammur - Saurbær - Traðir / Tóftavöllur - Brattahlíð - Stekkadalur - Hlíðarhvammur /Hlíðarhv.hólar - Gröf - Klúka - Litli Krókur - Krókur - Krókshús - Hesthús - Kvíarhólar - Stakkar - Lambavatn - Naustabrekka - Keflavík -
Útvíkur: Hvallátrar - Breiðavík - Stekkur (Urðarhvammur) - Láganúpur - Hólar - Grundir - Grundabakkar - Grund - Stekkjarmelur - Kollsvík - Tröð - Grænamýri - Berg - Strákamelur -
Bæir: Hænuvík - Láturdalur - Sellátranes /Tóftir -
Örlygshöfn: Gjögrar - Fagrihvammur - Miðgarður - Ás - Tunga - Leiti - Neðri-Tunga - Efri-Tunga - Kóngsengjar (Holt) - Geitagil - Hnjótur - Hnjótshólar - Kryppa -
Innfjörður/ Fjarðarbæir: Vatnsdalur - Kvígindisdalur - Sauðlauksdalur - Efri-Dalshús - Neðri-Dalshús -Ólafsvöllur - Hvalsker - Brandarstaðir - Kot - Konungstaðir - Skápadalur - Vestur-Botn - Hlaðseyri - Raknadalur -
Eyrar: Eyrar/Patreksfjörður - Geirseyri - Vatneyri
_________________________________________________________________
Hreppurinn nær, samkvæmt fornum mörkum, yfir Patreksfjörð og skagann milli hans og Breiðafjarðar. Norðari mörk eru um Tálknatá en innri mörk um Stálhlein, á mörkum Skorarhlíða og Sigluneshlíða. Þau mörk héldust til 1907, eins og síðar greinir. Rauðasandshreppur er rótgróin skilgreining á svæði; örnefni sem ber að varðveita og nota sem slíkt, hvað sem líður breytingum á stjórnskipulegum mörkum.
Hreppurinn er nokkuð skýrt afmarkaður af sjó annarsvegar og hálendiseggjum hinsvegar og nær yfir svipað búsetusvæði og hreppar almennt gerðu í upphafi þjóðveldisaldar (930-1262), en ætla má að þá hafi hreppar almennt myndast sem stjórnsýslueiningar. Helsti hvatinn að myndun hreppa var þörf á skipulagi sameiginlegra málefna íbúanna, s.s. framfærslu þurfalinga; skipulag sauðfjársmalana og úrlausn ýmiskonar deilumála. Í hverjum hreppi þurftu að búa a.m.k. 20 þingfararkaupsbændur, en svo voru þeir nefndir sem áttu tiltekna lágmarkseign. Í lögum Grágasar segir að kjósa skuli 5 sóknarmenn á einmánaðarsamkomu (síðari hluta mars) til að stjórna málefnum hreppsins og sækja til saka þá sem brjutu gegn samþykktum. Eftir gildistöku tíundarlaga árið 1097 nefndust sóknarmenn hreppstjórar, en það hlutverk varð síðar annars eðlis. Skylt var hreppsbúum að sækja samkomur þrisvar um árið; áðurnefnda einmánaðarsamkomu; vorsamkomu og haustsamkomu. Tíund skyldi greiða fyrir Marteinsmessu (11. nóv), en hreppurinn fékk allajafna fjórðung tíundar. Hreppsmenn gátu sjálfir kallað eftir hreppsfundum, t.d. ef á þá var settur ómagi ólöglega. Hreppsbændur sáu um fjallskil, fjármörk, réttir, eyðingu vargs, viðhald vega og ferjur. Yrði hreppsbóndi fyrir því óláni að missa fjórðung nautgripa sinna eða meira skyldu aðrir bæta að hálfu, en þó enginn meira en að 5/6 hluta eigna sinna. Fleiri tryggingaákvæði voru í Grágás: T.d. var stofa, eldhús, búr, kirkja og bænhús einnig í samtryggingu hreppsbúa, bæri eldsvoða að höndum. Með tilkomu Jónsbókar árið 1281 var sú hreppaskipan lögfest sem þá var orðin. Hreppssamkomur urðu tvær; vor og haust, og hver hreppur varð þinghá, þar sem sýslumaður eða umboðsmaður hans tilnefndi menn í dóma. Tunga varð því ekki einungis þingstaður heldur einnig dómsstaður Rauðasandshrepps. Eftir að sýslur festu sig í sessi urðu hreppstjórar umboðsmenn sýslumanna. Komst sú venja á að þeir væru valdir af sýslumönnum á manntalsþingum. Eftir 1809 var hreppstjórum fækkað í 1-2. Þeir urðu ríkisstarfsmenn skipaðir af amtmanni. En árið 1872 var vald í sveitarstjórnarmálum fengið kjörnum hreppsnefndum; embætti hreppstjóra var aðskilið sveitarstjórnarmálefnum og hann varð alfarið umboðsmaður ríkisvaldsins. Hreppsnefnd, sem a.m.k. á síðari tímum var einatt 3ja manna í Rauðasandshreppi, var kosin á 6 ára fresti til 1936, en fjögurra ára fresti eftir það.
Boðsendingar. Boð voru send um hreppinn með þingboðsöxi samkvæmt ævagömlum lögum og hefðum; líklega langt fram á 19.öld. Í hverjum hreppi var fyrirfram ákveðin leið sem boð skyldu fara; svonefnd “rétt boðleið”. Líklega hefur hún verið réttsælis með stöndinni um Rauðasandshrepp. Sá sem boð þurfti að senda; t.d. þegar hreppstjóri boðaði til vorþings eða sendi fjallskilaseðil, skrifaði það á seðil sem vafið var um skaftið á lítilli öxi og síðan kom sendiboði því á næsta bæ í boðleiðinni. Strangar reglur giltu, samkvæmt t.d. Grágásarlögum og síðar Jónsbókarlögum. Afhenda skyldi boðið húsbónda eða þeim sem næst honum réði. Boðið mátti aðeins vera á ferð að degi til, og þurfti móttakandi að koma af sér til næsta bæjar á boðleiðinni án tafa, að viðlagðri refsingu. Ef boða þyrfti til stríðs eða hervarna var “skorin upp herör”; þ.e. boðið var vafið um ör eða eftirlíkingu hennar, eins og Björn Halldórsson í Sauðlauksdal lýsir í fræðsluritinu Atla. Ekki er vitað hvenær boð voru síðast send með þingboðsöxi um Rauðasandshrepp, en vitað er að Jón Thoroddsen sýslumaður Barðstrendinga smíðaði þingboðsaxir á síðari hluta 19.aldar. Rétt boðleið hélst í Rauðasandshreppi, en tók þó mið af skipulagi póstsendinga þegar bréfhirðu var komið á. Fram á síðustu daga Rauðasandshrepps hélst í formála fjallskilaseðils þessi texti: “Berist bæ frá bæ, rétta boðleið frá…. til… “.
Landnámsmenn í Rauðasandshreppi voru í upphafi fjórir, samkvæmt Landnámabók. Í textanum hér á eftir eru beinar tilvitnanir í Landnámu skáletraðar. Tilgátur eru á ábyrgð VÖ.
I. Ármóður rauði Þorbjarnarson nam Rauðasand. Segir svo í Landnámabók: “Ármóðr inn rauði Þorbjarnarson, fóstbróðir Geirleifs, nam Rauðasand. Hans synir váru þeir Örnólfr ok Þorbjörn, faðir Hrólfs ins rauðsenska”. Geirleifur sem þarna um ræðir nam Barðaströnd frá Vatnsfirði til Berghlíða (Stálfjalls).
Ekki segir meira af Ármóði í heimildum, þó nokkuð sé rætt um afkomendur hans. Ekki er ólíklegt að hann hafi fyrstur numið land í Rauðasandshreppi; að hans landnám hafi takmarkað landnám Þórólfs sparrar, sem annars nam mestan hreppinn. Margt í niðurstöðum vísindamanna og fornleifafræðinga á síðustu árum bendir til þess að í árdaga landnámsaldar hafi verið hér veiðistöðvar án eiginlegs landnáms. Þar veiddu menn ekki síst rostunga, eða rosmhvali eins og þeir þá voru nefndir, einkum vegna grávöru (skinna) og tanna sem voru verðmæt söluvara. Er talið að hérlendis hafi þá verið sérstakur stofn rostunga sem nú er aldauða; einkum vestanlands. Í ljósi hins mikla skeldýralífs á Sandsbug má ætla að óvíða hafi verið blómlegri veiðilendur en þar. Því er ekki undarlegt að öflugur veiðimaður vilji helga sér það svæði umfram önnur. Sé þessi kenning rétt, má útfrá henni íhuga hvort Melanes sé ekki hentugra aðsetur en Saurbær, sem menn hafa hingað til talið líklegasta aðsetur Ármóðs: þar sem styttra er landveg að ósnum frá Melanesi en Saurbæ. Hér er um hugleiðingar að ræða, sem enn hafa ekki verið staðfestar t.d. með fornleifafundum. Annað sem styður það að Ármóður hafi fyrstur numið land í hreppnum er það að hreppurinn skuli draga nafn af Rauðasandi. Rauðisandur var stundum talinn draga nafn af viðurnefni landnámsmannsins. Flest bendir þó til að litur sandsins sé sjálfur eðlileg nafnskýring. Fremur væri líklegt að landnámsmaðurinn hafi hlotið nafnið af landnámi sínu; hann hafi e.t.v. heitið Ármóður rauðsenski, en viðurnefnið brenglast þegar Landnáma var rituð; löngu síðar.
II. Þórólfur spörr nam Rauðasandshrepp allan, að frátöldum landnámum Kolls og Ármóðar rauða. Hann kom til landsins í leiðangri fóstbræðranna Örlygs og Kolls (sjá Kollsvík), en ekki er skýrt á hvoru skipinu hann var. Þá er ekki fyllilega skýrt hvort hann var sonur Böðvars blöðruskalla og þar með bróðir Þorbjarnanna; tálkna og skúmu, þó sumir hafi slegið því föstu. Um landnám hans segir Landnáma: “Þórólfr spörr kom út með Örlygi og nam Patreksfjörð fyrir vestan og Víkr fyrir vestan Barð nema Kollsvík. Þar bjó Kollr, fóstbróðir Örlygs. Þórólfr nam ok Keflavík fyrir sunnan Barð og bjó at Hvallátrum”. Þórólfur hefur því fengið vítt landnám í sinn hlut, a.m.k. í samanburði við Koll, sem lét sér nægja Kollsvíkina eina. Hugsanlega liggja ástæður þess í fjármögnun leiðangursins, en skip Kolls hraktist til strands í Kollsvík og hefur e.t.v. eyðilagst. Annað umhugsunarefni er ástæða þess að Þórólfur velur sér búsetu á Hvallátrum. Víða er þó skjólsælla og búsældarlegra í hans landnámi. Í ljósi þeirrar kenningar sem hér var getið, um mikilvægi rostungaveiða í upphafi landnámsaldar, er líklegt að þarna hafi Þórólfur séð meiri veiðilendur en annarsstaðar; að frátöldum Rauðasandi sem þegar var veiðistöð Ármóðs. Framundan Útvíkum öllum er mikið um skelfisk, sem var eflaust aðalfæða íslenska rostungsins, líkt og eftirlifandi frænda hans. Bæjarnafnið sjálft vísar einnig til þessa, en Hvallátrar draga að öllum líkindum nafn af rosmhval, sem er eldra heiti á rostung. Ekki er heldur ólíklegt að Þórólfur hafi nýtt Bjargið til eggjatöku; auðug fiskimið eru fyrir landi og á Hvallátrum er góð haga- og fjörubeit.
III. Kollur nam Kollsvík. Kollur var fóstbróðir Örlygs Hrappssonar. Saman komu þeir til landsins í trúboðsleiðangur frá Kólumbusarklaustrinu á eyjunni Iona, sem er ein Suðureyja. Segir svo í Landnámabók: „Örlygr hét son Hrapps Bjarnasonar bunu; hann var at fóstri með Patreki byskupi hinum helga í Suðureyjum. Hann fýstist að fara til Íslands ok bað að byskup sæi um með honum. Byskup fékk honum kirkjuvið ok bað hann hafa með sér ok ok plenárium, járnklukku ok gullpenning ok mold vígða, at hann skyldi leggja undir hornstafi ok hafa þat fyrir vígslu, ok skyldi hann helga Kolumkilla“.
Á Iona í Suðureyjum var á þessum tíma helsta menntastofnun Vesturlanda; klaustur heilags Kólumbusar, sem líklega ræðir hér um. Ekki eru heimildir um Patrek biskup þar, en annaðhvort vísast hér til heilags Patreks (sem uppi var löngu fyrr), eða ábótans Federach mac Cormaic, sem stýrði klaustrinu 865-880. Ferð Kolls og Örlygs er fyrsti skráði trúboðsleiðangurinn til Íslands, og hefur líklega átt sér stað kringum 880. Landnáma segir að þeir hafi fengið fyrirmæli um það hvar land skyldi taka, en þar er lýst staðháttum á Kjalarnesi. Þar skyldi hann byggja kirkju og helga heilögum Kólumba (Kólumkilla). Síðan segir í Sturlubók Landnámu:
„Örlygr lét í haf ok sá maðr á öðru skipi er Kollr hét, fóstbróðir hans; þeir höfðu samflot. Á skipi með Örlygi var sá maðr er hét Þórólfr spörr, annarr Þorbjörn tálkni, Þriðji Þorbjörn skúma; þeir váru synir Böðvars blöðruskalla. En er þeir kómu í landván, gerði að þeim storm mikinn, og rak þá vestr um Ísland. Þá hét Örlygr á Patrek byskup, fóstra sinn, til landtöku þeim, og skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir váru þaðan skamma hríð, áðr en þeir sá land. Hann kom skipi sínu í Örlygshöfn, og af því kallaði hann fjörðinn Patreksfjörð. En Kollr hét á Þór; þá skilði í storminum, og kom hann þar sem Kollsvík heitir, ok braut hann þar skip sitt. Þar váru þeir um vetrinn; hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
En um várit bjó Örlygr skip sitt og sigldi brott með allt sitt; ok er hann kom suðr fyrir Faxaós, þar kenndi hann fjöll þau er honum var til vísat….Hann byggði undir Esjubergi at ráði Helga bjólu frænda síns og nam land millim Mógilsár ok Ósvífurslækjar; hann gerði kirkju at Esjubergi, sem honum var boðit“.
Einhverra hluta vegna nam Kollur einungis Kollsvík, sem var minnsta frumlandnám Íslands og verður að teljast lítið svæði í hlutfalli við landnám hásetanna Þórólfs og Þorbjarnanna. Velta má fyrir sér spurningum í því efni: Var þarna í Kollsvík slík gnægð landgæða að hann sóttist ekki eftir meiru? Þarna var líklega rostungsveiði; e.t.v. lítt síðri en á Hvallátrum og Rauðasandi. Þar eru góð fiskimið fyrir landi, stuttræði og góð landtaka; sauðland gott og önnur hlunnindi. Eða vildi Kollur fremur sinna drottni sinnum en veraldlegum gæðum? Nafn hans kann að vísa til þess að hann hafi verið krúnurakaður munkur. Var hann e.t.v. af því fjölmenna keltneska þjóðarbroti sem Keltar nefna „Gall-ghaidheil“ (erlendir keltar)? Þeir voru keltar sem snúist höfðu á sveif með víkingum; tileinkað sér trú þeirra og menningu að einhverju leyti. Hvað sem því líður má ætla að báðir hafi þeir Örlygur numið við klaustrið og áunnið sér trúnað ábóta. Tilgangur leiðangursins var trúboð og kirkjubygging. Ekki er ólíklegt að þeir Örlygur hafi hjálpast að við byggingu húsa; þar á meðal kirkju í Kollsvík þann vetur sem Örlygur dvaldi vestra, en kirkjubyggingunni hafi lítt verið haldið á lofti af afkomendum Örlygs sem eru líklegir heimildarmenn við ritun Landnámu. Kollsvíkurbærinn nefndist löngum Kirkjuból, eins og síðar verður vikið að. Ýmislegt bendir til þess að í Kollsvík hafi risið fyrsta kirkja á Íslandi.
IV. Þorbjörn tálkni nam norðurstönd Patreksfjarðar, ásamt Tálknafirði. Honum er lýst í texta Landnámu hér að ofan. Hann kom með bróður sínum og nafna í leiðangri Kolls og Örlygs, en þeir leituðu landnáms um Tálknafjörð og Arnarfjörð. Einnig þeirra landnám fellur ágætlega að kenningum um að rostungaveiði hafi öðru fremur mótað landámið á fyrstu stigum. Þannig mætti ætla að Þorbjörn Tálkni hafi helgað sér rostungalátur á Sellátrum í Tálknafirði, en bróðir hans hafi nýtt látrin í utanverðum Arnarfirði, t.d. Selárdal. Gætu þau staðarnöfn e.t.v. verið vísbending í þessu efni.
Byggðasvæði í Rauðasandshreppi:
A. Rauðisandur og Keflavík. Í daglegu tali heimamanna nær byggðin á Rauðasandi milli jarðanna Skorar og Naustabrekku, að þeim meðtöldum. Ekki er venja að telja Keflavík til Rauðasands, þó í nokkrum skilningi væri það eðlilegt, þar sem hún er Breiðafjarðarmegin eins og Rauðasandsbæir þó skilin sé frá þeim af brattri Brekkuhlíð. Rauðisandur er langt láglendissvæði neðan hárra skriðurunninna klettabelta. Þar eru sólríkar, gróðursælar og frjósamar jarðir efst en framanvið liggur mikið skeljasandsrif, um 12 km langt, og ofanvið það langt sjávarlón; Fjótið, sem hefur útfall um Bæjarós, framan Saurbæjar. Innan Rauðasands er hár fjallshryggur; Skarðabrún, sem skilur Rauðasandshrepp frá Barðaströnd og gengur sjávarmegin fram í hátt bjarg; Stálfjall. Utan Keflavíkur er Látrabjarg, sem innst nefnist Keflavíkurbjarg; þá Breiðavíkurbjarg; Bæjarbjarg og yst eiginlegt Látrabjarg, sem endar í Bjargtöngum; vestasta odda landsins og Evrópu. Bílvegur á Rauðasand er nú um Bjarngötudal og yfir Skersfjall til Patreksfjarðar. Fyrrum voru einnig meginleiðir innyfir Sandsheiði til Barðastrandar og út um Kerlingarháls til Keflavíkur. Útræði hefur ekki verið teljandi frá Rauðasandi; helst frá Skor og Naustabrekku, en mikil verstöð var í Keflavík. Landbúnaður hefur verið blómlegur á Rauðasandi gegnum tíðina, og mikil hlunnindi af selveiði í ósnum. Saurbær á Rauðasandi var lengi höfuðból og um langan aldur voru flestar jarðir í Rauðasandshreppi í eigu Bæjarhöfðingjanna
B. Útvíkur. Í Jarðabókinni nefndar Norðurvíkur. Venja er að telja til þeirra Hvallátra (Látravík), Breiðuvík og Kollsvík. Stundum er Seljavík við Bjargtanga talin með, þó þar séu fáar heimildir um byggð. Víkurnar þrjár eru um margt líkar; vita til norðvesturs, með allmiklu sandrifi við sjóinn en grösugu láglendi og daldrögum efra. Þær eru aðskildar af formförgum núpum; Brunnanúp milli Seljavíkur og Hvallátra; Bjarnarnúp milli Látra og Breiðavíkur; Breið og Hnífum milli Breiðavíkur og Kollsvíkur og Núp og Blakki milli Kollsvíkur og Patreksfjarðar. Bílvegur er úr Örlygshöfn, annarsvegar út að Breiðavík og Látrum, en hinsvegar út með Bæjum til Kollsvíkur. Hestavegir voru milli víknanna en frá Kollsvík um Hænuvíkurháls til Hænuvíkur; um Tunguheiði til Örlygshafnar og um Víknafjall til Keflavíkur og Rauðasands. Frá Breiðavík lá vegur um Hafnarfjall til Örlygshafnar og upp Stæður á Víknafjallsveginn. Frá Látrum var vegur um Látraheiði til Keflavíkur. Útræði hefur verið mikið úr öllum útvíkum; líklega frá fyrstu tíð. Á Hvallátrum voru tvær verstöðvar; á Brunnum og Látranesi. Í Breiðuvík var róið úr Verinu syðst, auk þess sem lending var í Fjarðarhorni, nyrst. Í Kollsvík var Láganúpsver sunnantil ein stærsta verstöð sunnarnverðra Vestfjarða um aldir, en orðin minni í byrjun 18.aldar. Seint á 19.öld hófst útræði í Kollsvíkurveri, norðar, sem stóð framyfir 1930. Látraröst, öflugasta sjávarröst landsins liggur framundan Útvíkum og skapar auðug fiskimið við landið. Haga- og fjörubeit er góð í Útvíkum.
C. Bæir. Svo eru nefndir bæirnir við Patreksfjörð sunnanverðan; utan Örlygshafnar. Á síðari árum hafa þar verið tveir bæir í byggð; Hænuvík utar en Sellátranes innar. Í Hænuvík var löngum margbýlt, eins og sjá má síðar, og á Sellátranesi var um tíma búið á Tóftum. Bílvegur er úr Örlygshöfn um Bæi og útyfir Hænuvíkurháls að Kollsvík. Hestaleiðin lá í stórum dráttum um sömu leið, en einnig var hestavegur fram Hænuvík á Víknafjallsveg eða Tunguheiði. Utan Hænuvíkur eru Hænuvíkurhlíðar, sem ná allt fram á Blakknestrumbu, en um þær miðjar gengur dalskora niður að sjónum, sem nefnist Láturdalur. Þar er lítið láglendi og hefur ekki verið búskapur, en þaðan var nokkuð útræði framyfir 1900. Milli Hænuvíkur og Sellátraness er Hænuvíkurnúpur, en innan Sellátraness er Neshyrna og brattar skriðuhlíðar sem nefnast Fjörur.
D. Örlygshöfn. Í daglegu tali nefnd Höfn. Mikill dalur sem opnast til norðausturs; þvert á Patreksfjörðinn. Í honum er Örlygshafnarvaðall, og gætir sjávarfalla í honum frameftir öllum dalnum. Fremst er Tungurif; mikið skeljasaldsrif, en ofar grösugar fitjar og gróin holt. Allmargir bæir hafa löngum verið í Örlygshöfn, eins og upp verður talið, og þar þótti gott undir bú. Þingstaður sveitarinnar var jafnan í Tungu og í Örlygshöfn reis í seinni tíð upp skóli, samkomuhús, verslun, sláturhús, verkstæði, minjasafn o.fl. Heimræði var eitthvað frá Hnjóti og Gjögrum fyrrum, en um tíma var allmikil grásleppuútgerð frá Gjögrum. Innan Örlygshafnar er Hafnarmúli. Fyrir hann liggur bílvegur inn með Patreskfirði. Frá Geitagili, innst í Örlygshöfn, liggur bílvegur upp Vörðubrekku til Breiðavíkur og Látra, en yst hjá Gjögrum liggur bílvegur til Bæja og Kollsvíkur. Fyrrum lá einnig hestavegur til Kollsvíkur upp frá Efri-Tungu um Tunguheiði, og frá Hnjóti til Keflavíkur og Rauðasands um Hnjótsheiði.
E. Innfjörður eða Fjarðarbæirnir. Bæirnir við Patreksfjörð beggja megin; innan Örlygshafnar. Dalir skerast niður í ströndina, misjafnlega stórir. Ystur sunnanmegin innan Hafnarmúla er Mosdalur; ógróinn og ætíð óbyggður. Næstur honum er Vatnsdalur, en hann er allvel gróinn og lengst af byggður. Innan hans er í Skriðunum Skolladalur; grunnur og óbyggður, en þar innar Kvígindisdalur, sem jafnan var byggður. Þar, líkt og í Vatnsdal, er ágætt sauðland og á báðum bæjum var heimræði. Innar er Sauðlauksdalur, með allmiklu dalverpi sem nær allt til Keflavíkur Breiðarfjarðarmegin. Þar er stórt veiðivatn, en sjávarmegin er mikið skeljasandsflæmi. Kirkjustaður. Innar eru bæirnir Hvalsker og Kot, þar sem gróið láglendi liggur fremur með ströndinni en inn til dala. Frá Hvalskeri liggur bílvegurinn suður yfir fjallið til Rauðasands, líkt og hestavegurinn áður. Hestavegur lá inn og upp hlíðina, um Hrossagötuskarð áleiðis til Barðastrandar. Patreksfjarðarbotninn er í raun tvískiptur og er syðri jörðin Skápadalur, en sú nyrðri Vestur-Botn. Í Vesturbotni er allmikið skógarkjarr og grösugar aflíðandi heiðar í átt til Tálknafjarðar. Þar liggur bílvegurinn uppfrá Ósunum á Kleifaheiði til Barðastrandar og út með firðinum beggja vegna. Utar er Hlaðseyri við sjóinn og Raknadalur, en ræktanlegt land er takmarkað á báðum jörðum. Þá taka við langar grýttar Raknadalshlíðar, sem voru mikill farartálmi út á Eyrar áður en þar kom góður bílvegur. Mikil malareyri gengur í sjó fram norðan fjarðarins; gegnt Kvígindisdal, Þar voru jarðirnar Geirseyri og Vatneyri. Þar er gott legupláss skipa frá náttúrunnar hendi, og því upphófst þar þilskipaútgerð á 19.öld. Sú útgerð kallaði á höfn. Um það leyti komu vélar í smábáta þá sem áður höfðu gert út úr verum í Útvíkum. Sú árabátaútgerð sem þar hafði verið fluttist nú á Eyrar og bátar stækkuðu.
Skipting og sameining sveitarfélaga.
Þéttbýli myndaðist á Eyrum, sem tók við af hefðbundnum búskap sem þar var, og nú er þarna helsti þéttbýlisstaður sunnanverðra Vestfjarða. Gekk lengi undir nafninu Eyrar eða Vatneyri, en síðar Patreksfjörður. Árið 1907 var slagsíða orðin svo mikil í íbúafjölda þessa hluta Rauðasandshrepps að rétt þótti að Eyrar yrðu sérstakt sveitarfélag. Voru hreppamörkin dregin um Altarisberg, sem er í klettabeltinu innan Þúfneyrar. Árið 1994 gekk þessi skipting til baka, þegar Rauðasandshreppur sameinaðist Patrekshreppi, Barðastrandahreppi og Bíldudalshreppi í sveitarfélagið Vesturbyggð. Allmikill samdráttur hafði þá orðið í byggð og íbúafjölda í hinum forna Rauðasandshreppi, og hefur sú þróun haldið áfram. Enn eru þó nokkrir sem viðhalda búskap og öðrum rekstri í hreppnum, auk þess sem hann er fjölsóttur bæði af fólki sem þar á sínar rætur og vaxandi ferðamannastraumi.
Landkostir eru miklir í Rauðasandshreppi og þó hann sé nú fámennur má öruggt telja að þar verður aftur blómstrandi byggð, þó líklega muni hún byggja á breyttum atvinnuháttum.
____________________________________________________________
Hér fer á eftir skrá Trausta Ólafssonar, með síðari viðbótum úr öðrum áttum.
Innst í Rauðasandshreppi; þar sem þverhnípi Stálfjalls tekur við austanvið Geirlaugarskriður, er gengt um klettabeltið þar sem heitir Ölduskarð. Neðan þess er snarbrött og há skriðurunnin hlíð og þar á uppi á sjávarbökkunum eru nokkrar grösugar flatir. Þarna eru grunnar húsa frá því á styrjaldarárunum fyrri, þegar gerð var tilraun til brúnkolavinnslu úr surtarbrandslögum sem eru í fjörunni nokkru innar. En á þessum afskekkta stað munu menn einnig hafa reynt að hokra með skepnur fyrr á tíð.
Þar mun hafa verið býli á 14. eða 15. öld. Þjóðsaga mun til um mál þar sem Geirlaug húsfreyja sá Bjarna bónda sinn farast á skeri nokkru. Mun vera til sker inn við Siglunes (frekar en Hreggstaði) sem ber nafn eftir bónda þessum.
Vellir er talið byggt ból í skrá frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar og metið á tvö og hálft jarðarhundrað.
Barðstrendingabók PJ “Talið er að þar hafi forðum verið býli og heitið Vellir. Sér þar votta fyrir skálatóft og hringlagaðri tóft, sem hefir að líkindum verið fjárborg. Hefir fé líklega aldrei verið hýst þar, heldur gefið á gadd í viðlögum, eins og víða átti sér stað við sjávarsíðuna fyrr á öldum… Óvistlegt hefur þar verið, og einmanalegt”.
Skor
Innsta býlið í Rauðasandshreppi sem verið hefur í byggð í nokkurn tíma, svo heimildir greini. Býlið er verulega afskekkt hvað samgöngur varðar. Þangað verður ekki komist landveg nema um brattar hlíðar, sem lokast gjarnan að vetrarlagi.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki er óviss, því Skor er ekki lögbýli, heldur fyrir 60 árum ongifer (hér um bil) fyrst bygð á eyðiplátsi, og tíundast ennú ekki, ei heldur er þar fyrirsvar. Eign Bæjarkirkju á Rauðasandi. Landskuld er 4 vættir (1 hdr = 6 vættir = 120 álnir). Betalast í öllum gjaldlegum aurum, so sem fiski, peningum með dönskum taxta, heim til Saurbæjar. Hefur eins verið í 20 ár eða lengur. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukúgildi 3. Hafa tilforna verið 4. Hefur húsbóndi (þ.e. landeigandi) fyrir 4-5 árum fækkað því eina vegna skriðufalls og heyleysis. Leigur betalast í smjöri, fiski eða peningum með dönskum taxta. Kvígildin (þaug tvö, sem eru ásauður) uppyngir leiguliði. Það eina (sem er kýr) uppyngir landsdrottinn. Kvaðir eru þar engar, fyrir utan að leiguliði er, ár um kring, formaður fyrir sínu og landsdrottins skipi (sem þau eiga til samans, sitt hálft hver). Item dagsláttur fyrir nautslán. Á jörðinni er nú lifandi: 2 kýr, 1 kvíga veturgömul, 26 ær, 18 sauðir geldir, 11 veturgamlir, hestur enginn. Þar kunna að fóðrast 2 kýr (fyrir harðindaárin fóðruðust 3 kýr), veturgamlir sauðir 8. Heimilismenn eru þar 8. Einnig húsmaður, sem í húsaleigu vinnur ábúanda handarvik og rær á skipi hans. Þar er flæðihætt mjög, og hefur oft allt fjeð drepið. Einnig fyrir skriðum og snjóflóðum hætt. Slæmur kirkjuvegur sökum tæprar ófæru. Eldiviðartak ekkert utan taðfall undan peningi. Stungu og ristulaust nema í túnfætinum. Landlítið mjög að sumri, svo leiguliði kaupir sumarhaga kúm sínum í næstu jarðar landi (Sjöundá). Heimræði er þar ár um kring, en vonsku lending, þröng og mannhætt. Þar er verstaða og sækja þangað af næstu bæjum bæjum um vorvertíð Rauðsendingar. Þar eru 3 vermannabúðir. Ein þar af nú í eyði (byggð fyrir 10 árum), en hinar tvær eru gamlar. Heita þær Borgarsbúð, Staðarmannabúð. Eyðibúðin heiti Smiðja. Búðirnar uppbyggir landsdrottinn. Í Skor ganga nú 3 skip. Aldrei hafa þar gengið yfir 4-5. Kunna og ei að ganga, sökum skipsuppsátursleysis. Eitt skipið er landsdrottins og leiguliða; lítill sexæringur. Annað er 4 manna far frá Sjöundá. Þriðja á Guðrún Eggertsdóttir og með því er ketill. Vertollur var ½ vætt af hverjum manni ( af skipum ekkert). Nema nú í þessum fiskleysisárum hefur landsdrottinn eftirgefið eftir hlutarhæð, so sumir hafa ei gefið nema 3 fjórðunga, sumir minna. Þessir hafa frí eldiviðartak af fjalldrapa í Söunda ár landi og Melaness skógi. Leiguliði fyrir sig og sín vinnuhjú hefur um nokkur ár vertollsfrí verið. Tilforna galt hann fyrir sig og sín hjú hálfan toll (þ.e. 2 fjórðunga). Vertíðin byrjast um sumarmál gömlu eður síðar, eftir veðurlagi; endast um þingmaríumessu. Þar er ei nema 1 skiphlutur. Lóðir brúkast þar ei. Menn beita þar ei nema fiski. Formannskaup er þar ordinaire 20 álnir. Annars hjá sumum höfuð og slóg af skiphlutnum. Segl brúkast þar, og leggur það skipeigandi til kauplaust. Hospitalsfiskar skiftast þar sem vera á, og taka hreppstjórar þá til hreppsmanna uppheldis”.
Barðstrendingabók PJ “Í Skor er allmikið graslendi. Sér þar fyrir bæjarrústum og fleiri tóftum. Hafa sumar þessar rústir að öllum líkindum verið hjallar eða fiskbyrgi, því að þaðan voru stundaðir róðrar, a.m.k. af heimamönnum, meðan þar var byggð. Lending er þar að sumu leyti góð… Fiskisæld mun fyrrum hafa verið á grunnmiðum og skammt til sóknar á þrjá vegu. Sá galli er á lendingunni að stórgrýtt urð er fyrir botni vogsins og illt að bjarga þar bátum... Skor var oft kærkominn áfanga- og hvíldarstaður sjóróðramönnum úr Breiðafjarðareyjum og austursveitum Barðastrandasýslu er þeir fluttu sig í ver vestra á vorum, og þaðan aftur með sjóföng sín að liðinni vertíð”.
1703
Guðmundur Jónsson. Bóndi í Skor 1703. F. um 1648.
K. Sigríður, f. um 1639 Þorvarðsdóttir. Börn þeirra 1703:
Þórunn 20 ára.
Þorbjörg 15 ára.
Móðir Guðmundar er Guðrún, f. um 1622 Hildibrandsdóttir. Annað heimilsfólk: Ólafur Gunnlaugsson vinnupiltur 17 ára, Sigríður Þorláksdóttir vinnukona 44 ára og Halldór Þorsteinsson húsmaður (Húnvetningur) 55 ára.
Eins og áður segir, hefur Skor átt að byggjast um 1640 og mun hafa verið í byggð eitthvað fram yfir 1700, en enginn bóndi er þar nefndur 1735 eða síðar.
Frá Skor lagði Eggert Ólafsson, varalögmaður, skáld og fræðimaður í sína hinstu för árið 1768, ásamt nýorðinni eiginkonu sinni; Ingibjörgu Guðmundsdóttur og öðru föruneyti, eftir heimsókn hjá mági sínum, Birni í Sauðlauksdal. Þau drukknuðu í Breiðafirði í vonskuveðri. Líklega hefur búskap líklega verið lokið í Skor, en enn var þaðan útræði. Slægjur voru nytjaðar í Skor til 1935.
Nafnið Oftast er nafnið ritað Sjöundá, en stundum Sjöundaá. Sagt er að það sé dregið af því að bærinn stendur við sjöundu ána á Rauðadandi, talið utanfrá. Það má e.t.v. til sanns vegar færa, en nafnskýringin er langsótt og mjög eru þær “ár” misstórar. Ekki er útilokað að bæjarnafnið hafi verið annað í upphafi, en tekið hljóðbreytingum í tímans rás. Má þar velta fyrir sér einhverju sem tengist ánni eða súganda við hleinar.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki 12 hdr. Kirkjueign frá Saurbæ á Rauðasandi. Ábúandi Jón Jónsson. Landsskuld 6 vættir (120 álnir). Betalasti í fiski, lýsi og í peningum með dönskum taxta, og öðrum góðum landaurum. Við til húsbygginga leggur landsdrottinn. Leigukvígildi 5 og hafa svo alltíð verið. Leigur betalast heim. Kvígildi uppyngir húsbóndi. Kvaðir öngar á skildar. Þar eru nú lifandi 3 kýr, 1 kvíga, 12 ær, veturgemlingar 4,3 geldir sauðir, hestar 2. Þar fæðast 3 kýr, 3 gemlingar. Sauðum og hestum ætlast útigangur, og er það upp á von bygt. Heimilismenn eru 9. Fjalldrapi er þar til eldingar ábúanda. Grastekja lítil, þó til gagns ábúanda. Reki var þar góður, meðan rak. Heimræði er þar stundum á sumar, þó svipult vegna brims. Á ábúandi eitt 4ra manna far. Sölvafjara er þar góð. Þari (fjara) er þar góð fyrir fje á vetur. Engar engjar, fyrir utan fjallslægjur nokkrar”.
Sjöundármálin Veturinn 1801—1802 var harðasti vetur í manna minnum og fékk nafnið Klaki í munni Vestfirðinga. Þá gerðust atburðir að Sjöundá sem urðu kveikjan að stærstu morðmálum sem sögur fara af í Rauðasandshreppi. Þá voru þau Steinunn Sveinsdóttir og Bjarni Bjarnason sökuð um „óeðlilegan samdrátt“ og að hafa orðið mökum sínum að bana. Annars vegar voru þau sökuð um að hafa drepið Jón Þorgrímsson, eiginmann Steinunnar, og varpað líkinu í sjóinn. Það rak síðar undir Bjarngötudal. Hinsvegar voru þau sökuð um að hafa myrt Guðrúnu Egilsdóttur, konu Bjarna, með eitri. Sögusagnir höfðu gengið um tíma á Rauðasandi um að ekki væri allt með felldu um heimilislíf á Sjöundá, en eftir dauða Guðrúnar hófust réttarhöld yfir Bjarna og Steinunni að Sauðlauksdal. Dómari var Guðmundur Scheving sýslumannsfulltrúi í Haga, en sækjandi í málinu var Einar Jónsson í Kollsvík. Af dómskjölum má ráða að dómarinn hefur frá upphafi verið sannfærður um sekt sakborninganna, og vart myndi málsmeðferðin vera taln sæmandi í dag. Þau voru dæmd til dauða og var sá dómur staðfestur í meginatriðum af Landsyfirrétti. Næsta vetur sátu Bjarni og Steinunn í haldi á Barðaströnd og ól Steinunn þar son þeirra. Bjarni slapp ú haldi í Haga, en náðist fljótlega vestur á Móbergi. Voru þau síðan flutt í Steininn í Reykjavík (núverandi Stjórnarráðshús). Bið varð á aftöku, enda erfitt að fá böðul. 1804 strauk Bjarni aftur, en náðist í Borgarfirði. Steinunn lést í tugthúsinu 31.ágúst 1805, og var sagt að hún hafi áður sætt illri meðferð. Hún var síðan dysjuð á Skólavörðuholtinu, en 1915; að lokinni rannsókn, voru bein hennar jarðsett í kyrrþey í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Tólf dögum eftir andlát Steinunnar var Bjarni fluttur til Kristiansand í Noregi, og þann 4.oktober 1805 var hann þar hálshöggvinn, en böðull fannst enginn til verksins í Danaveldi. Um Sjöundármálin skrifaði Gunnar Gunnarsson skáldsöguna Svartfugl. Sonur Bjarna og Steinunnar ólst upp með tilstuðlan tveggja hreppa og fékk af því nafnið Sýslu-Jón. Frá honum er komin nokkuð fjölmennur ættbogi.
Barðstrendingabók PJ Þessi jörð hefur verið í eyði síðan 1921. Fyrrum var þar vel búið, og um aldamótin 1800 var þar tvíbýli… Tún er lítið og grýtt á Sjöundá, en vel grasgefið. Útslægjur litlar og erfiðar. Fjárhirðing fremur erfið. Útbeit er ágæt og tekur sjaldan fyrir jörð; og fjörubeit góð. Reki er þar dálítill. Talið var heybirgt ef sáta var ætluð fyrir kind. Sauðum mun ekki hafa verið ætlað þar hey”.
1570
Guðmundur. Bóndi á Sjöundá 1570.
1703
Jón Jónsson. Bóndi á Sjöundá 1703. F. um 1650.
K. Guðrún Jónsdóttir, f. Um 1660. Börn þeirra
Agata 8 ára.
Snæbjörn 3 ára.
Jón 1 árs.
Jón var hreppstjóri. Ekki er kunnugt frekar um ætt eða afkomendur þessara hjóna. Tímans vegna hefði þetta getað verið Jón sonur Jóns Össurarsonar, sem ráðsmaður var á Bæ á Rauasandi og stundum lögsagnari. Sagt er að Jón Jónsson hafi verið í Haga og gat það staðizt, þótt ekki væri hann í Haga á Þessum tíma. Synir Jóns Össurssonar voru m.a., Þorsteinn Jónsson hrstj., b. Keflavík og Gunnlaugur lögréttumaður í Kvígindisdal.
1735
Oddur Aronsson. Bóndi á Sjöundá 1735. F. 1700 sonur Arons Snæbjörnssonar, sem er 40 ára, kv. vm. í Tungu 1703. Hjá honum er Oddur, en óvíst er um móður hans. Faðir Arons var Snæbjörn, hjáleigumaður á Rauðasandi, Snæbjörnssonar (Hagaætt). Kona Eyjólfs var Ólöf Þórðardóttir. Kona Snæbjörns sýslum. var Eyvör Sturludóttir í Laugardal í Tálknafirði Eyjólfssonar og Guðrúnar Gottskálksdóttur.
Sonur Odds á Sjöundá hefur líklega verið:
Bjarni, bóndi í Skápadal 1762.
1735
Jón Oddleifsson. Bóndi á Sjöundá 1735. Hann er 2. ára á Melanesi 1703, sonur Oddleifs bónda þar f. um 1670, Auðunnssonar og konu hans Guðrúnar f. um 1678 Greipsdóttur.
Ekki er kunnugt um afkomendur frá Jóni.
1762
Jón Bjarnason. Bóndi á Sjöundá 1762. Það mun vera hann, sem er bóndi í Saurbæ 1780. F. um 1712, d. 21, nóv. 1784.
K. Ástríður f. Um 1707, d. Milli 1786 og 1801, Sigmundsdóttir. Um Sigmund föður Ástríðar, er ekkert hægt að segja með vissu. Á manntali 1703 er aðeins einn Sigmundur, sem til mála kæmi og hefði hann þá verið nokkuð ungur, um tvítugt, það er Sigmundur Þórðarson á Látrum. Hann kvæntist Valgerði Loftsdóttur, sem fædd er um 1696 og hefur hún því a.m.k. ekki getað verið móðir Ástríðar. Ekki er heldur hægt að segja neitt ákveðið um Bjarna föður Jóns. Þó væri einn líklegastur Bjarni Jónsson, sem er á Melanesi 1703, 23. ára, sonur Þóru Björnsdóttur, sem er ekkja, búandi á Melanesi. Börn Jóns og Ástríðar:
Guðmundur bóndi á Sjöundá 1780, f. um 1744.
líklega Guðrún, f. um 1736, búandi á Melanesi 1780, ekkja Þorsteins Jónssonar.
Guðrún, f. 1753, sennilega sú Guðrún, sem er gift kona á Mábergi 1780, en dóttir hennar var Guðrún Jónsdóttir, fyrri kona Ólafs Sigmundssonar í Króki.
1762-1773
Þorsteinn Jónsson. Bóndi á Sjöundá frá því eftir 1762 og sennilega til dauðadags 1773. En hann virðist hafa verið á Sjöundá frá því að hann kvæntist 1757. Faðir Þorsteins hefur sennilega verið Jón Þorsteinsson bóndi í Saurbæ 1735, sonur Þorsteins Jónssonar bónda í Keflavík 1703. F.um 1729, d. (bráðkvaddur) 14. mars 1773, talinn eiga 5 börn á lífi.
K. 1757, Guðrún líklega dóttir fyrrnefnds Jóns Bjarnasonar bónda á Sjöundá, d. milli 1786 og 1801. Börn þeirra:
Helga, f. á Sjöundá í ág. 1760, Melanesi 1780, vk. á Vatneyri 1801 og í Kvígindisdal 1817, óg. og bl.
Jón, f. 1762 (ekki í kjb.), Melanesi 1780, ekki á manntali í Rauasandshr.
Guðmundur, f. 1763 (ekki í kjb.), Melanesi 1780, drukknaði frá Látrum 4. maí 1812, ókv. og bl.
Bjarni, f. 1765 (ekki í kjb.), d. 1882. Melanesi 1780, ekki á manntali í Rauðasandshr. 1801.
Ástríður, á Sjöundá 28. júlí 1768, kona Björns Bjarnasonar bónda á Látrum.
Sigríður, f. 21. sept. 1773, ekki í manntali 1780.
1780
Guðmundur Jónsson. Bóndi á Sjöundá 1780. F. um 1744 (mun vara sá G.J. sem fermdur er 1758, talinn 14 ára), d. milli 1786 og 1801. Hann hefur að líkndum búið á Sjöundá frá því hann kvæntist (1777) og til dauðadags. Faðir hans var Jón Bjarnason bóndi á Sjöundá og k. h. Ástríður Sigmundsdóttir.
K. 1777, Guðbjörg, f. um 1742 (fermd 1756, talin 14 ára), d. í Vatnsdal 19. apríl 1819, ljósmóðir, Mauritsdóttir Jónssonar. Hún var áður gift Þorsteini Einarssyni bónda í Hesthúsum á Rauðasandi (hjáleiga frá Stökkum). Börn þeirra:
Guðmundur, f. á Sjöundá 30. nóv. 1777, í Vatnsdal 1801 og 1808, bóndi á Hvalskeri 1817, d. 2. mars 1864 í Sauðlauksdal, kvæntist Guðrúnu yngri Þorgrímsdóttur frá Lambavatni, bl.
Jens, f. á Sjöundá 5. sept. 1779, á Vatneyri 1801 og 1808, Hlaðseyri 1817, ókv. og bl.
Andrés, f. á Sjöundá 26. mars 1781, í Vatnsdal 1801 og 1808, ekki á manntali í Rauðasandshr. 1817.
Soffía, á Sjöundá 27. ág. 1782, kona Guðbrandar Magnússonar bónda í Krókshúsum.
Jón, f. á Sjöundá 29. ág. 1885, vm. í Breiðavík 1801, ekki á manntali í Rauðasandshr. 1808 og 1817.
Maurits, f. á Sjöundá 1786, d. Í Keflavík 23. júní 1863, í Vatnsdal 1817. Vat tvíkvæntur. I 1824, Helga, f. í Hvammi á Barðaströnd 15. apríl 1787, d. á Sellátranesi 6. jan 1828 Einarsdóttir, bónda á Naustabrekku 1801, Ólafssonar og k.h. Guðrúnar Ólafsdóttur. Sonur þeirra var Jón, f. á Hvalskeri 7. nóv. 1824, er á Kirkjubóli í Gufudalssveit 1845. K. II 18. sept. 1830, Sigríður Hákonardóttir bónda á Sjöundá, Höskuldssonar og k.h. Ragnhildar Tómasdóttur Þorsteinssonar. Börn: Sigurlaug, f. á Sjöundá 13. maí 1833 og Magnús, f. 27. júlí 1834 í Sauðlauksdal, í Vatnsdal 1845.
um 1760-1765
Guðbrandur Þórðarson. Bóndi á Sjöundá um 1760-1765. Dó miðaldra 5. maí 1765.
K. 1753 (í Sauðlauksdalssókn), Sigríður Jónsdóttir, sem ekki er á manntali í Rauðasandshr. 1780, e.t.v. sú Sigríður Jónsdóttir, sem deyr 1771, aldur ekki tilgreindur. Börn þeirra:
Sigríður, f. 1755, hún er ekki á manntali í Rauðasandshr. 1780, en líklega sú S.G. sem er á Geriseyri 1801, hafði verið gift, en dæmd frá manni sínum fyrir hórbrot, vk. s.st. 1808.
Guðlaug, f. 1756, dó á 1. ári.
Þorgerður, f. 1759, ekki á manntali 1780 og ekkert um hana frekar í kjb.
Jón, f. 1761, d. 1762.
Jón, f. 1763, fermdur 1777, ekki á manntali 1780.
Guðrún, f. 1765, sést ekkert frekar um hana.
Fermd er í Sauðlauksdalssókn 1775 Þóra Guðbrandsdóttir, í Sauðlauksdal 1780, fæðing hennar ekki skráð í kjb. og því óvíst um ætt hennar.
1801
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Sjöundá 1801. Áður í Hrísnesi og Þverá á Barðaströnd. Hefur komið að Sjöundá nokkru fyrir 1800 og bjó þar þangað til 1802. F. í Saurbæjarsókn 11. jan. 1761, d. haustið 1805 (líflátinn). Foreldrar: Bjarni Bjarnason og Solveig Loftsdóttir. Hún er á Sjöundá 1801, sögð þá „dæmd frá manni sínum“. Bjarni var í Botni í Patreksfirði 1780.
K. um 1788, Guðrún, f. 16. maí 1765, myrt á Sjöundá 5. júní 1802. Verður sú saga ekki rakin hér. Foreldrar Guðrúnar voru Egill bóndi á Naustabrekku 1780, seinast í Raknadal Sigurðsson og kona hans Kristín Guðmundsdóttir, sem áður var gift Bjarna Bjarnasyni. Börn Bjarna og Guðrúnar voru:
Sigríður, f. í Raknadal 1789, á Sjöundá 1801, ekki í Rauðasandshr. 1808 eða 1817.
Guðrún, f. í Hrísnesi 1. sept. 1791. Hún var ekki hjá foreldrum sínum 1801.
Í sagnaþáttum Fjallkonunnar segir, að því mér virðist eftir málsskjölum, að börn Bjarna og Guðrúnar séu 2. Virðist það hafa átt að vera Gísli og Bjarni. Hefði Sigríður þá átt að deyja 1801-1802.
Gísli, f. á Þverá á Barðaströnd 29. febr. 1793, á Sjöundá 1801, en síðar á Barðaströnd. Hann varð seinna bóndi í Goðdal í Strs., d. 18. júní 1862.
Bjarni, f. á Sjöundá 1800, á Naustabrekku 1808 og 1817. Drukknaði með Árna Þóroddsyni frá Kvígindisdal 22. ágúst 1824, ókv. og bl.
Barn Bjarna Bjarnasonar og Steinunnar Sveinsdóttur var:
Jón, f. í Hrísnesi 21. mars 1803, d. 6. sept. 1882, um skeið bóndi í Krókshúsum á Rauðasandi.
1801-1802
Jón Þorgrímsson. Bóndi á Sjöundá 1801-1802. Áður bóndi í Skápadal, líkl. 1795-1801, í Hrísnesi 1793-1795. F. í Keflavík, Rauðasandshreppi 12. okt. 1761, myrtur á Sjöundá 1. apríl 1802. Foreldrar hans voru Þorgrímur Jónsson bóndi á Lambavatni 1780 og seinni k.h. Guðrún Helgadóttir.
K. um 1790, Steinunn, f. á Auðnum á Barðaströnd 1767, d. í fangelsi í Rvk. 31. ágúst 1805 Sveinsdóttir (f. 1741) bónda á Grænhól Jónssónar skóla, og kona Sveins Guðrún (f. 1724) Pálsdóttir, er Gísli Konráðsson telur systur Jóns Pálssonar í Bröttuhlíð og á Brekku. Börn þeirra:
Guðrún, f. á Hærri Vaðli á Barðaströnd 15. jan. 1791. Hún giftist Jóni Jónssyni, Þórðarsonar póst í Miðhlíð, Jónssónar, bjuggu í Hrísnesi.. Meðal barna þeirra var Árni bóndi á Lambavatni.
Sveinn, f. í Haga 30. ágúst 1792. Mun vera á Brjánslæk 1816 og ekki hafa eignast afkomendur.
Þorgrímur, f. í Hrísnesi 20. nóv. 1793, 1816 í Múla á Barðaströnd. Líklega sá Þ.J., sem drukknar með Gísla Ísleifssyni 1837, þó að aldur sé ekki talinn réttur.
Jón, f. í Skápadal 1795, mun ekki hafa átt afkomendur.
Ingveldur, f. í Skápadal 1797, kona Sigurðar Jónssonar bónda á Grundum o.v.
Ingibjörg, f. í Skápadal snemma árs 1801, áður en Jón fluttist að Sjöundá.
Skiptafundur í dánarbúi Jóns Þorgrímssonar er haldinn í Hrísnesi 16. nóv. 1802. Steinunn fékk í sinn hlut 27 rd. 46 sk. Bróðurhlutur var 4 rd. 21 sk. og systurhlutur var 2 rd. 11 sk. Börnin eru þá 6, svo sem að framan greinir. Ingibjörg er í Breiðavík 1808 hjá Össuri Sigurðssyni og Guðrúnu Þorgrímsdóttur, sem var systir Jóns á Sjöundá. Ingibjörg er ekki á manntali 1817. Það er líklega hún, sem deyr í Breiðavík 1812, aldur ekki nefndur.
1803-1822
Hákon Höskuldsson. Bóndi á Sjöundá líkl. 1803-1822. Áður á Barðaströnd (1801 á Þerá). F. um 1766, d. 29. jan 182?. Foreldrar: Höskuldur Loftsson bóndi á Kirkjubóli á Litlanesi í Múlasveit 1762 og fyrri k.h. Sigríður Tómasdóttir.
K. 9. sept. 1792 (í Múlasókn), Ragnhildur, f. í Gerði í Tálknafirði 1764 Tómasdóttir Þorsteinssonar og Helgu Jónsdóttur. Faðir Tómasar var Þorsteinn Jónsson, kvæntur Ragnhildi Tómasdóttur bónda í Krossadal, Jónssónar bónda á Sellátrum, Tómassonar. Börn:
Sigríður, f. á Haukabergi 10. okt. 1794, átti Árna Þorgrímsson bónda á Melanesi, en síðan Maurits Guðmundsson bónda á Sjöundá Jónssonar og Guðbjargar Mauritsdóttur.
Salóme, f. á Þverá 5. nóv. 1801, kona Jóns Jónssonar bónda á Sjöundá, d. 29. febr. 1832.
1822-1824
Ragnhildur Tómasdóttir. Búandi á Sjöundá 1822-1824 (eða 25). Ekkja Hákonar Höskuldssonar bónda á Sjöundá.
1821-1822
Árni Þorgrímsson. Bóndi á Sjöundá 1821-1822. Síðar bóndi á Melanesi, sjá þar.
1824-1835
Jón Jónsson. Bóndi á Sjöundá 1824-1835, kallaður Jón smiður. Fluttist þá í Tálknafjörð og bjó í Krossadal. F. í Botni í Patreksfirði 1790. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi í Botni og kona hans Elín Jónsdóttir bónda í Botni Guðmundssonar. Jón var tvíkvæntur.
K. I 17. sept. 1824, Salóme Hákonardóttir bónda á Sjöundá Höskuldssonar. Börn:
Hákon, f. 23. nóv. 1824.
Jón, f. 22. okt. 1825, d. 26. des. 1901 í Kanada.
Tómas, f. 26. apríl 1827, kv. Þóru, systur Guðrúnar Gísladóttur konu Ara Finnssonar í Saurbæ, dó í Vesturheimi. Tómas lærði trésmíði, var bóndi í Guðlaugsvík í Strs.
Sigríður, f. 29. maí 1828, giftist ekki en börn hennar með Einari voru: Jóhannes, sem átti Guðrúnu Jónsdóttur, móðir Halldórs Bjarnasonar bónda á Mábergi, Sigríður, ógift, en átti barn. Sonur Sigríðar og Bjarna Ingimundarsonar var Benjamín. Sigríður dó á Hóli í Tálknafirði hjá Jóhannesi syni sínum.
Kristín, f. 24. sept. 1829.
K II maí 1842, Ólöf Ólafsdóttir. Börn þerra voru:
Ingimundur, f. 1842.
Ólafur, f. 1843.
Jón, f. 1846, kallaður Tálknfirðingur, drukknaði er Vigga fórst 1. maí 1897. Kvæntur Ragnhildi Axelsdóttur Þorgrímsssonar, eignuðust 6 börn.
Kristín, f. 1848.
Valgerður, f. 1850.
Guðrún, f. 26. ágúst 1854 í Krossadal, móðir Halldórs á Mábergi.
Dóttir Jóns smiðs á Sjöundá, áður en hann kvæntist (móðir ókunn):
Guðrún, f. 1819, á Sjöundá 1830, dó fjörgömul í Saurbæ á Rauðasandi 12. mars 1910. Hún giftis ekki, en dætur hennar og Jóns Bjarnasonar, sem þá var kvæntur bóndi á Grundum, síðar í Hænuvík, voru: Sigríður, f. 1845, kona Guðmundar Hjálmarssonar bónda á Geitagili og Kristín, f. 1848, kona Jóhannesar Jónssonar bónda í Krókshúsum.
Önnur laundóttir Jóns smiðs var:
Ingibjörg, móðir Ólafs Péturssonar kaupmanns á Ísafirði.
Dóttir Salóme Hákonardóttur, áður en hún giftist, með Konráði Jónssyni b. á Mábergi 1801 Ísleifssonar. Konráð drukknaði í Breiðavíkurlendingu með Magnúsi sútara 12. maí 1829. dóttir þerra var:
María , f. 1821, d. 1829.
Magnús Guðmundsson?
1833-1837
Hjálmar Sigmundsson. Bóndi á Sjöundá 1833-1837. Síðar bóndi á Skógi, sjá einnig þar. F. á Stökkum 1809, d. á Skógi 15. febr. 1856. Foreldrar: Sigmundur Jónssón bóndi á Stökkum og k.h. Björg Helgadóttir. Hjálmar var tvíkvæntur.
K. I 29. sept. 1832, Svanhildur, f. í Stekkadal 1798, d. á Hnjóti 2. sept. 1843, Jóndóttir bónda í Stekkadal, Jónssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur. Börn:
Engilbert, f. í Króki 27. júní 1832, d. á Hnjóti 8.apríl 1841.
Björg, f. á Sjöundá 15. sept. 1833, kona Jóhannesar Jónssonar bónda á Geitagili.
Guðrún, f. á Sjöundá 24. jan. 1836, fyrri kona Ívars Jónssonar, fyrrum bónda á Sellátranesi, síðar í Hænuvík.
Jón, f. á Hnjóti 20. júní 1840, d. 21. júlí sama ár.
K. II, Guðrún Lýðsdóttir, sjá Skógur.
1835-1837
Ólafur Sigmundsson. Bóndi á Króki hafði afnot af nokkrum hdr, í Sjöundá 1835-1837.
1837-1846
Brynjólfur Eggertsson. Bóndi á Sjöundá 1837-1846, á Melanesi 1846-1853 og í Kirkjuhvammi 1853-1854. Hann fluttist þá norður að Djúpi. F. á Heggstöðum í Miðfirði 1816, d. í Gjörfidal 24. mars 1872. Foreldrar: Eggert Pálsson bóndi á Heggstöðum og k.h. Þuríður Eggertsdóttir bónda í Saurbæ Eggertssonar og Arnfríðar Brynjólfsdóttur frá Fagradal. Eggert og Þuríður giftust í Saurbæ 1810, um leið og þau giftust, Þórarinn Þórarinsson, síðar bóndi í Saurbæ og Jóhanna systir Þuríðar.
K. 18. sept. 1835, Helga, f. í Gufudal 23. febr. 1806, d. á Eyri við Ísafjörð 30. nóv. 1863, Runólfsdóttir síðar prests á Brjánslæk, Erlendssonar og fyrri konu hans Kristínar Þorláksdóttur (þau voru systkinabörn). Börn:
Runólfur, f. í Saurbæ 27. sept. 1836, bóndi í Kirkjuhvammi.
Þuríður, f. á Sjöundá 16. des. 1837, d. 28. okt. 1839.
Guðbjartur, f. á Sjöundá 1. mái 1839, bóndi í Auðahrísdal í Arnarfirði, kv. 10. okt. 1886, Guðrúnu Guðmundsdóttur. Börn þeirra: Þórður, Guðbjartur, Guðmundur, Guðrún Bryndís Helga, Kristín Bjarney og andvana sveinbarn.
Brynjólfur, f. á Sjöundá 31. mái 1841, d. 16. júní sama ár.
Þorlákur, f. á Sjöundá 11. okt. 1842, bóndi að Kleifarkoti í Nauteyrarhreppi 1880, kv. Arnfríði Bjarnadóttur. Börn: Evlalía, f. 1870 og Bjarni Aron, f. 1876, gifturs, Elín og Bjarni dóu ungbörn.
Jórunn, f. á Melanesi 1. jan. 1847, d. 1. febr. sama ár.
Sigurður, f. á Melanesi 5. okt. 1851, árið 1870 í Gjörfidal.
Arnfríður, f. á Sjöundá 5. júní 1840, í Saurbæ 1850.
1846-1850
Guðmundur Magnússon. Bóndi á Sjöundá 1846-1850, á Melanesi 1840-1845, sjá þar, á Lambavatni?
1846-1849
Þorsteinn Jónsson. Bóndi á Sjöundá 1846-1849. Bóndi í Kvígindisdal 1845-1846, sjá þar.
1849-1856
Þórður Jónsson. Bóndi á Sjöundá 1849-1856, í Kirkjuhvammi 1839-1844, Gröf 1844-1849?, á Lambavatni 1856-1863. Fluttist frá Siglunesi á Barðaströnd 1839 áður bóndi þar. Einnig í Múla og Holti á Barðaströnd. Árin 1856-1858 nytjaði Þórður hálfa Sjöundá með hluta af Lambavatni. F. á Hreggstöðum 10. júní 1798, d. á Vatneyri 30. des. 1877. Foreldrar: Jón Einarsson bóndi á Hreggstöðum og k.h. Ástríður Bjarnadóttir, bónda á Arnarstapa í Tálknafirði, Jónssonar og Sigurfljóðar Bjarnadóttur. Þórður var tvíkvæntur.
K.I 27. nóv. 1825 (í Flatey), Svanborg, d. að Þingvöllum í Helgafellssveit 26. jan. 1850, talin 58 ára, Helgadóttir Ólafssonar og Kristínar Jónsdóttur. Þau skildu um 1845, munu þó hafa slitið sambúð 1842 eða 43. Þórður þó talinn giftur maður haustið 1845. Börn:
Kristín, f. í Flatey 26. sept. 1824, vk. í Skáleyjum.
Þorbjörg, f. í Flatey 24. maí 1826, dó ungbarn á Barðaströnd.
Þorbergur, f. í Múla 14. okt. 1827, d. 14. sept. 1828.
Þorgerður, f. í Múla 28. júní 1829, kona Einars Einarssonar bónda á Lambavatni.
Gestur, f. í Holti 30. júní 1830, d. 5. júlí sama ár.
Gestur, f. 13. okt.(12.3.) 1830 í Holti, bóndi á Skógi.
Dóttir Þórðar og Guðrúnar Einarsdóttur Bjarnasonar og k.h. Guðrúnar Jóhannesd. var:
Júlíana, f. á Siglunesi 25. des. 1838, móðir Guðbjartar Þorgrímssonar bónda á Látrum.
Svanborg var áður gift Steini Sveinssyni formanni, sem drukknaði frá Stykkishólmi 1831. Þau skildu um 1820. Sonur þeirra var talinn Pétur bóndi í Skáleyjum kvæntur Ólöfu Guðmundsdóttur. Steinn kvæntist aftur Eiðvöru Sveinsdóttur frá Hergilsey, sonur þeirra: Ari, kunnur hagyrðingur, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur bónda að Barmi í Gufudalssveit 1845, Jónssonar.
K. II 25. okt. 1851, Guðríður Torfadóttir bónda á Naustabrekku, Bjarnasonar, áður gift Þórði Bjarnasyni bónda á Lambavatni og var seinni kona hans. Guðríður dó á Patreksfirði. Börn:
Jón, f. á Sjöundá 8. júní 1851, kvæntist Guðnýju Jónsdóttur, ekkju Magnúsar Einarssonar, seinast bónda í Breiðavík. Þar bjó Jón í 2 ár, var síðan í húsmennsku á Grundum, en fluttist 1890 norður í Dýrafjörð og drukknaði þar 1899.
Gestur, f. á Sjöundá 1. nóv. 1852, d. 6. sama mán.
Solveig, f. á Sjöundá 14. jan. 1855, fluttist þá til Dýrafjarðar og átti (1891) Jóhannes Guðmundsson, þá í Meira Garði. Hann drukknaði 10. okt. 1899, í sama sinn og Jón Þórðarson. Solveig og Jóhannes áttu 3 börn, meðal þeirra Ingimar kennara í Rvík.
Sigríður, f. á Lambavatni 14. apríl 1861. Fluttist til Dýrafjarðar og giftist Kristjáni Júlíussyni Ólafssonar.
1852-1860
Ólafur Magnússon. Bóndi á Sjöundá 1852-1860 (Kjhv 1849-50-52?, á Melanesi 1848-1849) f. 1821, d. fyrir 1868, Margrét þá sögð ekkja, en ekki sést hvar eða hvenær hann hefur látist. Foreldrar: Magnús Halldórsson bóndi á Melanesi og k.h. Kristín Jónsdóttir.
K. 21. sept. 1844, Helga, f. 1818 Þorláksdóttir bónda á Láganúpi Þorlákssonar og k.h. Margrétar Ólafsdóttur. Börn:
Sigríður, f. á Sjöundá 1. júní 1845, d. 10. júlí sama ár.
Margrét, f. á Melanesi 19. okt. 1846, kona Davíðs Davíðssonar bónda í Tungu í Tálknafirði, er einnig var um skeið búsettur á Patreksfirði.
Sigríður, f. í Krókshúsum 11. febr. 1848. Hún átti dóttur á Ísafirði, Maríu að nafni (f. 10. jan. 1880), var hálfsystir, samfeðra, Ásgeirs konsúsls Sigurðssonar. María fluttist til Kaupmannahafnar 1898.
Magdalena, f. í Kirkjuhvammi 12. júní 1850. Fluttist frá Vatneyri að Hegilsey 1868. Með Kristjáni, föður Snæbjarnar í Hegilsey, átti hún dóttur sem Kristín hét, sem giftist Sigurmundi bónda á Fossá á Hjarðarnesi.
1858-1859
Ari Finnsson bóndi í Saurbæ hafði afnot af nokkrum hluta Sjöundár árin 1858-1859 og 1883-1884.
1860-1883
Jón Ólafsson. Bóndi á Sjöundá 1860-1883, Melanesi 1854-1860. F. í Króki 12. ágúst 1833, d. þar 30. sept. 1893. Foreldrar: Ólafur Sigmundsson bóndi í Króki og Helga Jónsdóttir bónda í Botni Jónssonar, systir Jóns smiðs, bónda á Sjöundá. Helga dó ógift í Króki 1838.
K. 30. sept. 1853, Guðbjörg, d. 11. maí 1905, Magnúsdóttir bónda á Hvalskeri, Einarssonar og k.h. Guðrúnar Bjarnadóttur frá Hnjóti. Börn:
Helga, f. 5. okt. 1852, d. 8. sama mán.
Ólafur bóndi í Króki.
Guðrún, f. í Króki 20. des. 1854, kona Víglundar Ólafssonar bónda í Króki.
Guðríður, f. 1. jan. 1857.
Sigurbjörg, f. 10. maí 1858.
Dóttir Jóns á Sjöundá með Steinunni systur Guðbjargar konu Jóns:
Dómhildur, f. 27. nóv. 1865, dó óg. og bl 27. júlí 1928. Faðir hennar var upphaflega skrifaður Jón yngri, hálfbróðir Jóns á Sjöundá.
Önnur dóttir Jóns á Sjöundá, með Guðbjörgu Ólafsdóttur bónda á Grundum Þorgrímssonar:
Guðrún, d. óg. og bl. 20. ágúst 1905 á Patreksfirði.
1883-1892
Guðbrandur Eiríksson. Bóndi á Sjöundá 1883-1892, á Melanesi 1880-1884. Bjó á Melanesi hálfu og hafði samtímis seinasta árið 2.8 hdr. af Sjöundá. Fluttist frá Sjöundá að Hvalskeri, en þaðan á Patreksfjörð. Stundaði smíðar. Foreldrar Eiríkur Magnússon á Mábergi og k.h. Sigríður Guðbrandsdóttir.
K. 5. okt. 1876, Veronika Árnadóttir bónda á Lambavatni, Jónssonar. Börn þeirra:
Sigurður, f. í Króki 16. okt. 1876, d. 15. des. 1877.
Halldóra, f. á Mábergi 27. sept. 1878, d. á Patreksfirði 7. okt. 1937, kona Hallgríms járnsmiðs Jónssonar.
Sesselja, f. á Mábergi 9. apríl 1880, d. í febr. 1942, kona Jóns bónda í Hvestu, Jónssonar.
Helgi, f. á Melanesi 16. júní 1881, d. á Patreksfirði 2. okt. 1911, smiður.
Ingibjörg, f. á Sjöundá 6. jan 1855, átti Skúla Hjartarson sjómann á Patreksfirði.
Sigþrúður, f. á Sjöundá 1. júlí 1887, d. í Tungu 20. júní 1935, átti Pétur Guðmundsson bónda í Tungu.
Kristján, f. á Sjöundá 27. mars 1891, smðiður á Patreksfirði, átti Sigríði Þórarinsdóttur, Árnasonar.
Guðbjörg, f. á Hvalskeri 1. des. 1892 óg. og bl.
1885-1887
Ketill Þorsteinsson, bóndi á Melanesi nytjaði lítinn hluta (1,4 hdr.) af Sjöundá árin 1885-1887.
1892-1893
Jón Árnason. Bóndi á Sjöundá (3,4 hdr.) 1892-1893. Síðar bóndi í Krókshúsum, sjá þar.
1892-1893
Ólafur Thorlacius, bóndi í Saurbæ nytjaði 4 hdr. af Sjöundá árið 1892-1893.
1893-1898
Egill Árnason. Bóndi á Sjöundá 1893-1898 og 1903-1921, á Mábergi 1898-1903. F. á Lambavatni 1. júní 1862, d. á Hnjóti 7. maí 1932. Foreldrar Árni Jónsson bóndi á Lambavatni og k.h. Halldóra Ólafsdóttir frá Stökkum.
K. 25. okt. 1890, Jónína Helga, f. í Haga 13. des. 1862, d. á Hnjóti 15. júní 1930 Gísladóttir, Þorgeirssonar á Krossi, Sigurðssonar. Föðurbróðir Jónínu var Hjalti bóndi í Krókshúsum. Börn:
Guðbjartur, f. 14. ágúst 1891, d. 26. sept. 1902.
Gíslína (Guðrún), f. 23. okt. 1892, d. í Hafnarfirði 1954, átti Henrik Andrésson Hansen.
Egill, f. 24. sept. 1893 bóndi í Tungu.
Árni, f. 27. mars 1896, trésmiður í Reykjavík.
Bergsveinn, f. 19. maí 1897, d. 3. sept. Sama ár.
Bergþóra, f. 17. sept. 1898, átti Jón Torfason bónda í Kollsvík.
Guðbjartur Gísli, f. 16. apríl 1905, verzlunarmaður í Reykjavík, átti Bryndísi Guðjónsdóttur frá Geitagili.
Ólafía, f. 27. nóv. 1894, ljósmóðir, átti Ólaf Magnússon bónda á Hnjóti.
1898-1902
Júlíus Halldórsson. Bóndi á Sjöundá 1898-1902. Síðar bóndi á Melanesi, sjá þar.
Síðan Egill Árnason fór frá Sjöundá hefur enginn búið þar. Jörðin mun eingöngu hafa verið notuð sem beitiland, fyrst og fremst frá Melanesi, enda hefur bóndinn þar átt báðar jarðirnar um nokkurt skeið.
Jarðabókin 1703 „Sagt verið hafa Bænhús, en aflagt aldeilis með reformatione (siðbót). Jarðardýrleiki er 20 hdr. Eigandi Guðrún Eggertsdóttir að Saurbæ á Rauðasandi. Ábúandinn Oddleifur Auðunarson, býr á 6 hdr og 5 aurum. Annar Snorri Jónsson á 8,5 hdr, þriðji Þórður Ólafsson á 6 hdr og 5 aurum. Landsskyld af allri jörðinni 1 hdr. og 40 álnir (þ.e. 160 álnir)… Við til húsbótar leggur landeigandi. Leigukúgildi með allri jörðinni 8… Kvaðir eru skipsáróður af sérhvörjum ábúanda. Leysist með 20 ánum í landaurum ef maður vill á sínu eigin skipi róa. Hestlán fyrir bón þá með þarf, er ei áskilið og betalast ongvu þó bregðist. Ef landsetar eru formenn á skipum eiganda, þá kvittast mannslán, og gefur eigandi 20 álnir aðrar í formannskaul af sexæringi, en ella fimtán af smæri skipum. Hríshestur af hvörjum ábúanda hefur verið að fornu, en nú aflagt. Engjar alls öngvar. Erfitt mjög til útbeitar fyrir vegalengd. … Rifhrís á jörðinni í heimahögum, sem brúkað er til eldiviðar og kolgjörðar. Heimræði er aldrei nema með stórstraumi um hásumar. Silungsveiði hefur áður verið í ánni millum Skógs og Melaness, en er nú að mestu aflögð. Grasatekja á fjallinu mjög lítil. Selveiði góð, ef iðkuð er, og þó hafa lagnir gamlar spilst mjög af sjóargangi, sem borið hefur sand til meina. Húsatorf og heytorf hefur jörðin ekkert, en það tilleggur Guðrún Eggertsdóttir frí í staðarins landi“.
Barðstrendingabók PJ Tún er allstórt og grasgefið, en grýtt og vont að slá það. Útengjar eru litlar og reytingslegar, á brokmýrum. Beitiland er ágætt fyrir sauðfé, sumar og vetur, og tekur sjaldan fyrir jörð, kvistbeit og skógarkjarr. Fjörubeit nokkur. Kópalagnir að austanverðu í Bæjarósi fylgja jörðinni. Mótak ágætt.
Selveiði Mikið er um sel í Bæjarvaðli. Var hann þar nýttur fram á 20. öld og taldist til hlunninda. Þrjár jarðir eiga selalagnir í vaðlinum; Saurbær, Kirkjuhvammur og Melanes. Frá Saurbæ og Kirkjuhvammi voru félagslagnir, og átti Kirkjuhvammur einn sjötta. Vorkópaveiði var allmikil fyrrum; stundum á annað hundrað kópa. Skinnin voru verslunarvara, en spikið og ketið gott búsílag. Taldist það kvenmannsverk að vitja lagnanna, enda fóru karlmenn flestir í ver frá sumarmálum til messudaga. Stundum var dregið fyrir Bæjarós með selanótum á öndverðum slætti, þegar urturnar voru lagstar frá en brimlar lágu uppi. Net riðuðu menn sjálfir.
1570
Samkvæmt reikningum Eggerts Hannessonar virðast bændur á Melanesi 1570 hafa verið:
Guðmundur Jónsson, sem einnig er á staðnum 1571 og
Eyjólfur yngri, sem kominn er að Rekstöðum 1571.
1669-1680
Jón Ólafsson prestur. Bóndi á Melanesi 1669-1680. Síðar bóndi á Lambavatni, sjá þar.
1703
Þórður Jónsson. Bóndi á Melanesi við manntal 1703. F. um 1658.
K. Hallbjörg, f. um 1648 Jónsdóttir. Þau eru aðeins tvö í heimili. Ekkert kunnugt um börn þeirra eða neina afkomendur síðar. Þórður hefur látið af búskap vorið 1703 (líkl. þó ekki, sjá síðar).
1703
Oddleifur Auðunarson. Bóndi á Melanesi 1703. F. um 1670.
K. Guðrún, f. um 1678 Greipsdóttir. Börn:
Auðunn 3 ára.
Jón 2 ára, bóndi á Sjöundá 1735.
1703
Þóra Björnsdóttir. Ekkja búandi á Melanesi við manntal 1703. F. um 1644. Hefur látið af búskap vorið 1703. Börn hennar eru:
Jón Jónsson 25 ára.
Bjarni Jónsson 23 ára.
Sigríður Jónsdóttir 20 ára.
Í jarðabókinni, sem skrifuð er vorið 1703, er einn bóndinn á Melanesi nefndur Þórður Ólafsson og tvennt í heimili, eins og hjá Þórði Jónssyni, þegar manntalið er tekið seint um veturinn. E.t.v. kynni þarna að vera um misritun að ræða.
1703
Snorri Jónsson. Bóndi á Melanesi frá fardögum 1703. Við manntalið er hann í Hlíðarhvammi, sem jarðabókin nefnir Hlíðarhvamm. F. um 1662.
K. Sigríður, f. um 1671 Jónsdóttir. Faðir: Jón Þórðarson 62 ára. Börn þeirra 1703:
Jón eldri 7 ára.
Jón yngri 4 ára.
Vigdís 1 árs.
1735
Grímur Aronsson. Bóndi á Melanesi 1735. Hann er akki á manntali í Rauðasandhreppi 1703 og ekki heldur í nærliggjandi hreppum. Hann virðist því vera fæddur rétt eftir 1703, deyr 1754 og er þá sagður magur og „gamall“. Faðir hans hefur líklega verið Aron Snæbjörnsson kv. vm. í Tungu 1703 (bróðir Jóns á Stökkum). Á þá, Odd 3 ára, en ekki sést, hver kona Arons hefur verið.
1735
Þorbjörn Bjarnason. Bóndi á Melanesi 1735. Ekkert kunnugt um hann. En 1757 deyr Bjarni Þorbjörnsson, líkþrár, aldur eigi tilgreindur.
1754-um 1760
Ormur Jónsson. Bóndi á hálfu Melanesi, líklega 1754- um 1760. Bóndi á (?) 1762, sjá þar.
1762
Þórður Bjarnason. Bóndi á Melanesi 1762. Hefur líklega komið á eftir Ormi Jónssyni.
um 1753-1762
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Melanesi fyrir 1762. Hann deyr miðaldra í ágúst 1762. Það er ekki ólíklegt að hann hafi búið á Melanesi frá því að hann kom í Saurbæjarsókn um 1753 og til dauðadags, með því að ekkja hans býr þar 1762.
K. 1750, Kristín Guðmundsdóttir, sem síðar átti Egil Sigurðsson. Börn Bjarna og Kristínar voru:
Guðrún, f. í Sauðlauksdalssókn 1752, líklega fermd 1766 og á Vatneyri 1780.
Árni, f. í Saurbæjarsókn 15. febr. 1754, d. 12. nóv. Sama ár.
Guðrún, f. 1858, líklega fermd 1773 og á skógi 1780, Stökkum 1801, gift Þorkeli Þórðarsyni.
Bjarni, f. 1760, í Keflavík 1780 síðar bóndi á Lambavatni og Brekku.
1762-1763
Kristín Guðmundsdóttir. Búandi á Melanesi 1762-1763. Ekkja fyrrnefnds Bjarna Bjarnasonar á Melanesi. F. um 1728, ekkja á Lambavatni 1801, d. fyrir 1808.
1763-
Egill Sigurðsson. Bóndi á Melanesi frá 1763, þá kvæntist hann fyrrnefndri Kristínu Guðmundsdóttur. Hann mun hafa búið nokkur ár á Melanesi, en fluttist síðar að Naustabrekku og býr þar fram yfir 1782, sjá þar.
1780
Guðrun Jónsdóttir. Búandi á Melanesi 1780. Kynni að hafa verið þar frá því um 1773. Hún er húskona á Stökkum 1782. F. um 1736, d. fyrir 1801. Ekkja Þorsteins Jónssonar bónda á Sjöundá, sjá þar.
1780
Jón Jónsson. Bóndi á Melanesi 1780, Lambavatni 1782, Naustabrekku 1783, Kirkjuhvammi 1785. F. um 1750 og virðist hafa dáið milli 1786 og 1801.
K. 1786 (í Sauðlauksdalssókn), Helga, f. 1751, d. líklega milli 1786 og 1801, Þórarinsdóttir bónda á Hlaðseyri, Sigurðssonar. Börn þeirra:
Jón, f. 1776, d. í Kirkjuhvammi í febr. 1785.
Guðbjörg, f. 1777 í Sauðlauksdalssókn, vk. í Botni 1801, Sauðlauksdal 1808, vantar 1817.
Össur, f. á Lambavatni í júlí 1781, d. sama ár.
Össur, f. á Brekku í ágúst1783, ekki á manntali 1801 eða síðar.
Þórarinn, f. í Kirkjuhvammi í des. 1784, d. í júlí 1785.
Árið 1861 er fermdur í Saurbæjarsókn Jón Jónsson 14 ára og 1863 í sömu sókn Jón Jónsson 16 ára. Fyrrnefndur Jón kynni að var annarhvor þessara Jóna, þó aldur virðist ekki vera nákvæmur. Annar þessara Jóna er væntanlega J.J. sem býr á Mábergi 1780, 33 ára.
1781-1783
Björn Össurarson. Bóndi á Melanesi 1781-1783. D. 1. nóv. 1783 á Melanesi, áður bóndi í Breiðavík, sjá þar.
1780
Hallur Loftsson. Bóndi á Melanesi 1780, en ekki 1782. F. um 1734, virðist hafa dáið milli 1786 og 1801. Bjó ókv. 1780,
Bústýra. Halldóra, f. 1759 Þorláksdóttir bónda á Geitagili Loftssonar. Hún átti Gísla Bjarnason í Skápadal og var hann f.m. Halldóru. Seinni maður hennar var Ísleifur Jónsson (sonur þeirra Jón í Bæ). Ekki er ólíklegt að Hallur hafi verið föðurbróðir Halldóru.
1801
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Melanesi 1801. Hann virðist hafa verið í Krókshúsum 1798. Hefur flutzt að Skógi líkl. 1802 (ef ekki 1801) og dó þar 1803, með því að skiftafundur var haldinn 30. júlí um sumarið. F. 1756 og hefur líklega verið bróðir Gísla, sem næst verður nefndur og bjó einnig á Melanesi 1801. Einnig hygg ég að bróðir þeirra hafi verið Gísli Bjarnason í Skápadal (d. 1788). Að Hjöllum í Þorskafirði búa 1762 Bjarni Rögnvaldsson 37 ára og k.h. Steinunn Jónsdóttir 26 ára. Þau eiga þá 4 börn: Bjarna 6, Gísla 5, Guðmund 3 og Þórkötlu 2 ára. Þetta hygg ég að séu fyrrnefndur Bjarni og Gísli í Skápadal. Gísli yngri er f. um 1764 í Fjarðarhorni í Gufudalssveit, en eldri börnin líklega að Hjöllum.
K. Björg, f. um 1768 Einarsdóttir. Þau hafa verið í Tálknafirði um 1785 og líkl. komið þaðan á Rauðasand, en ekki er vitað, hvaða ár það hefur verið. Börn þeirra:
Ragnhildur, f. um 1785 í Krossadal, 1808 í Kollsvík, 1817 á Skeri.
Jónas, f. um 1788, mun vera sá J.B. sem drukknaði frá Látrum 1812.
Ingveldur, f. um 1790.
Benjamín, f. um 1791.
Oddgeir, f. um 1795, d. í Raknadal 1811.
Guðmundur, f. 1796.
Halldór, f. 1798 í Krókshúsum, í Saurbæ 1808 og 1817, bjargaðist er Eggert í Bæ drukkn. 1822.
Ekki er kunnugt um afkomendur þessa fólks í Rauðasandshreppi.
1801
Gísli Bjarnason. Bóndi á Melansi 1801. með því að eitt barna hans er talið fætt í skápadal 1798, hefur hann varla getað verið meira en svo sem 3 ár á Melanesi (1798-1801), því hann mun hafa farið að Skápadal, þegar Jón Þorgrímsson fluttist þaðan. Áður og síðar bóndi í Skápadal, sjá þar.
1808
Bjarni Stefánsson. Bóndi á Melanesi 1808. Hefur að öllum líkindum komið þangað vorið 1801 (er í Sperlahlíð í Arnarfirði, þegar manntal er tekið í ársbirjun 1801) og verið þar þangað til um 1810 (líkl. farið að Breiðavík, þegar Össur Sigurðsson fór að Stekkadal), sjá Breiðavík.
1813-1821
Magnús Halldórsson. Bóndi á Melanesi 1817. Áður bóndi á Hvalskeri (líkl. um 1805-1813). Hefur líklega búið á Melanesi 1813-1821. Seinast bóndi á Mábergi, sjá þar.
1818-1819
Gunnlaugur Jónsson (úr Bjarneyjum) Bóndi á Melanesi 1818-1819 (eða1820), síðan á Mábergi til 1821. F. um 1787, d. 22. maí 1821. Drukknaði í hákarlalegu frá Brunnum. Hann er ekki í Rauðasandshreppi 1801?, 1808 eða 1817. ekki með vissu kunnugt um, hverra manna hann var.
K. 21. sept. 1818 (er þá talinn b. á Melanesi), Ólöf Jónsdóttir bónda á Skógi, Bjarnasonar. Sonur þeirra var:
Jón, f. 30. júlí 1819.
Jón og Ólöf fluttust suður í Eyjar 1831? Ólöf var í Fagurey, er unnusti hennar Kristján Pálsson skipari drukknaði og Jón sonur hennar komst af (sjá Brf. sjómenn bls. 405). Jón drukknaði síðar við Snæfjallaströnd. Um drukknun Gunnlaugs Jónssonar, sjá Brf. sjóm. bls. 712.1821-1822
Bjarni Magnússon. Bóndi á Melanesi 1821-1822. F. um 1791, drukknaði 13. maí 1822 (með Eggert í Bæ, frá Brunnum, sjá Brf. sjóm. bls. 715). Bjarni er sagður sonur Magnúsar, f. 1763, d. 23. júní 1840, seinast bónda að Laugum í Hvammssveit, rímnaskálds, Jónssonar og fyrstu konu hans Sigríðar Jónsdóttur.
Ráðskona. Karitas Loftsdóttir bónda í Gröf Magnússonar. Börn þeirra:
Bjarni, f. á Látrum 9. sept 1820, d. 14. sama mán.
Hólmfríður, f. á Melanesi 1. jan. 1822, d. 6. sama mán.
Þegar Bjarni drukknaði var hann kominn í vist að Gröf.
1823-1825
Árni Þorgrímsson. Bóndi á Melanesi 1823-1825. Áður mun hann hafa búið 2 ár á Sjöundá. F. í Dalshúsum í Sauðlauksdal 1785. Foreldrar: Þorgrímur Pétursson bóndi í Dalshúsum, seinast í Breiðavík og k.h. Þórkatla Eyjólfsdóttir.
K. 21. ágúst 1821, Sigríður Hákonardóttir bónda á Sjöundá, Höskuldssonar (hún átti 1830 Maurits Guðmundsson frá Sjöundá). Börn þeirra:
Bergþóra, f. á Sjöundá 5. júlí 1822, átti Guðmund Jónsson bónda á Arnórsstöðum.
Jósúa, f. 19. ágúst 1823, dó barn að aldri.
1825-1826
Magnús Árnason. Bóndi á Melanesi 1825-1826, áður bóndi í Keflavík, sjá þar.
1823-1826
Jón Bjarnason. Bóndi á Melanesi 1823-1826, áður bóndi í Skógi, sjá þar, seinast í Litla Króki.
1826-1832
Páll Pálsson. Bóndi á Melanesi 1826-1832, fluttist þá að Söndum í Dýrafirði, áður bóndi á Skógi (1823-1826). F. á Kirkjubóli á Bæjarnesi í Gufudalssveit 1795, d. á Söndum 28. júlí 1834. Foreldrar: Páll Sæmundsson bóndi á Kirkjubóli og k.h. Málfríður Jónsdóttir á Skerðingsstöðum, Hákonarsonar.
K. 1823, Bergljót, f. 1791 á Patreksfirði, Jónsdóttir verzlunarstjóra Thorbergs og k.h. Sigríðar Þóroddsdóttur beykis á Vatneyri, Þóroddssonar. Sigríður átti síðar séra Daða Jónsson prest í Sauðlauksdal, Ormssonar (sjá Geirseyri). Börn Páls og Bergljótar:
Guðbjörg, f. 1822, átti Helga Jónsson í Valþjófsdal.
Davíð, f. 1823 bóndi á Vöðlum í Önundarfirði, átti frændkonu sína Ragnheiði Hallgrímsdóttur (dóttur Guðrúnar Jónsdóttur Thorbergs).
Guðlaug, f. 1827, átti Rósinkranz Kjartansson bónda í Tröð í Önundarfirði.
Sonur Páls á Melanesi (með Helgu Jónsdóttur ættaðri af Snæfellsnesi) var:
Árni bóndi í Hænuvík.
Bergljót átti síðar (1835) Kjartani Ólafssyni bónda í Tröð, bl.
1833-1835
Gísli Bjarnason. Bóndi á Melanesi 1833-1835. F. í Tungu 1802. Foreldrar: Bjarni Bjarnason bóndi í Keflavík og k.h. Guðbjörg Þórðardóttir.
K. 29. sept. 1830, Ingveldur Gísladóttir bónda í Skápadal, Bjarnasonar og k.h. Jarðþrúðar Jónsdóttur. Börn:
Sumarliði, f. 18. okt. 1830 í Kvígindisdal.
Guðbjartur, f. í Krókshúsum 2. okt. 1832.
Jón, f. á Melanesi 10. mars 1834, bóndi í Keflavík.
Guðbjörg, f. á Kvígindisfelli í Tálknafirði, d. í Breiðavík 9. ágúst 1924. Guðbjörg giftist ekki , en átti tvíbura sem dóu.
1833-1842
Jón Loftsson. Bóndi á Melanesi 1833-1842. F. 1795, d. á Melanesi 13. maí 1842. Foreldrar: Loftur Magnússon bóndi í Gröf og k.h. Helga Helgadóttir frá Gröf.
K. 182?, Guðrún, f. 1803, d. í Kirkjuhvammi 29. nóv. 1863 Einarsdóttir bónda á Hlaðseyri 1808, Þórarinssonar og k.h. Þóru Jónsdóttur, Þorvaldssonar. Börn:
Jón, f. á Látrum 4. jan. 1822.
Helga, f. á Látrum 30. ágúst 1823.
Helga, f. í Krókshúsum 26. apríl 1827.
Kristín, f. í Krókshúsum 5. nóv. 1832.
Helgi, f. á Melanesi 27. júlí 1834.
Jóhanna, f. á Melanesi 19. maí 1842.
1835-1836
Bjarni Sigurðsson. Bóndi á Melanesi 1835- 1836. Hann býr þá á Skógi, en hefur haft afnot af einhverjum hluta Melaness.
1840-1845
Guðmundur Magnússon. Bóndi á Melanesi 1840-1845, á Sjöundá 1846-1849, á Lambavatni 1849-1850. F. á Melanesi 1816, d. á Lambavatni 6. sept. 1851. Foreldrar: Magnús Halldórsson senast bóndi á Mábergi og k.h. Kristín Jónsdóttir.
K. 24. okt. 1842, Kristín, f. líkl. í Múla í Kollafirði í Gufudalssveit 1804, Jónsdóttir bónda í Múla 1801, Jónssonar og seinni k.h. Ingibjargar Einarsdóttur. Kristín mun því hafa veið hálfsystir Sigríðar móður Þorbjargar Jónsdóttur konu Þorsteins Jónssonar bónda í Kvígindisdal 1845. Börn Guðmundar og Kristínar voru:
Jóhanna, f. á Melanesi 6. júní 1842, giftist ekki, sonur hennar og Eggerts Eggertssonar bónda á Látrum var Sigurður skipstjóri, d. í Rvík. 6. júní 1922.
Ingimundur, f. á Mábergi 22. jan 1846, fluttist með móður sinni inn í Gufudalssveit 1860.
1843-1846
Jón Ólafsson. Bóndi á Melanesi 1843-18446, áður bóndi á Skógi (1838-1839) og Mábergi 1846-1851), sjá þar.
1846-1853
Brynjólfur Eggertsson. Bóndi á Melanesi 1846-1853 og nytjaði þar 10 hdr. 1842-1843, áður bóndi á Sjöundá (1837-1846), sjá þar.
1848-1849
Ólafur Magnússon. Bóndi á Melanesi 1848-1849, síðar bóndi á Sjöundá (1852-1860), sjá þar.
1852-1853
Ólafur Sigmundsson, bóndi í Króki nytjaði 5 hdr. af Melanesi 1852-1853.
1853-1854
Þórður Jónsson, bóndi á Sjöundá nytjaði 10 hdr. af Melanesi 1852-1854.
1853-1854
Hjálmar Sigmundsson. Bóndi á Melanesi (10 hdr.) 1853-1854. Áður bóndi á Skógi, sjá þar.
1854-1855
Jón Gíslason. Bóndi á Melanesi (10 hdr.) 1854-1855. Áður bóndi á Lambavatni (1852-1854), sjá þar.
1854-1860
Jón Ólafsson. Bóndi á Melanesi 1854-1860, síðar bóndi á Sjöundá, sjá þar. Bjó fyrsta árið á jörðinni hálfri, en síðan allri.
1860-1862
Sigmundur Ólafsson. Bóndi á Melanesi 1860-1862, áður bóndi í Krókshúsum, sjá þar. Bjó á hálfri jörðinni (10 hdr.).
1860-1862
Ari Finnsson, bóndi í Saurbæ, nytjaði hálft Melanes árin 1860-1862.
1862-1867
Eggert Jochumsson. Bóndi á Melanesi 1862-1867. Hann kom að Melanesi frá Haga með konu og tvö börn:
Þóra Sumarlína 4 ára.
Ólafur Sveinn 3 ára.
En á Melanesi fæddust:
Guðbert, f. 12. ágúst 1862.
Samúel, f. 25. maí 1864.
Matthías, f. 15. júní 1865, prestur í Grímsey.
Frá Melanesi fluttist Eggert inn í Reykhólasveit og eru þá með þeim hjónum; Ólafur, Guðbert og Matthías, en 1865 flytjast þau þangað frá Melanesi Þóra og Samúel. Eggert er f. í Skógum í Þorsksfirði 15. júlí 1833, d. 27. júní 1911 á Ísafirði. Foreldrar: Jochum, f. í Skógum1806, Magnússon og k.h. Þóra, f. í Skáleyjum 1807, Einarsdóttir, Ólafssonar.
K. I 1857, Guðbjörg Ólafsdóttir bónda á Rauðamýri, Bjarnasonar. Börn þeirra voru áður nefnd.
K. II Guðrún Kristjánsdóttir í Gullbringu, Jónssonar. Börn þeirra voru:
Kristján, kennari og skrifstofumaður.
Helga, seinni kona L. Kaaber bankastjóra.
Anna Kristjana, kona Sigmundar læknis Sigurðssonar.
Jochum, rithöfundur.
Ástríður.
1867-1872
Gunnlaugur Jónsson. Bóndi á Melanesi 1867-1872, síðar bóndi á Lambavatni, sjá þar.
1872-1889
Ketill Þorsteinsson. Bóndi á Melanesi 1872-1889. F. á Haukabergi á Barðaströnd 18. okt. 1829, d. í Gröf 10. júní 1907. Foreldrar: Þorsteinn, f. 31. júlí 1802 á Brekkuvelli, Þorsteinsson bóndi á Haukabergi Jónssoanar og k.h. Ólöf, f. í Haga 21. jan. 1805, d. á Haukabergi 18. ágúst 1846, Ketilsdóttir. Systir Ólafar var Rósa föðurmóðir Ólínu Andrésdóttur í Vatnsdal. Föðurmóðir Ketils Þorsteinssonar var Guðrún Arngrímsdóttir bónda á Skjaldvararfossi, Ólafssonar, en hun var systir Halldórs bónda í Hænuvík, afa Guðbjartar Ólafssonar í Kollsvík.
K. 27. okt. 1866, Magnfríður, f. 25. ágúst 1837, d. í Gröf 18. des. 1920, Ólafsdóttir frá Bröttuhlíð, Gunnarssonar og k.h. Sesselju Einarsdóttur bónda á Hlaðseyri, Þórarinssonar. Börn þeirra:
Sigurbjörg, f. á Stökkum 7. okt 1866, kona Dagbjartar Einarssonar bónda í Gröf.
Guðrún, f. á Stökkum 18. apríl 1871, d. á Melanesi 8. maí 1871.
Guðmundur, f. 12. jan. 1874, d. 14. ágúst sama ár.
1873-1880
Magnús Jónsson. Bóndi á Melanesi 1873- 1880 og 1891-1897, á Lambavatni 1880-1884, 1888 húsmaður á Brekki, 1890 húsmaður á Melanesi. Fluttist 1897 ap Geirseyri og var þar til dauðadags (verkstjóri og frystihússtjóri). F. í Kollsvík 24. nóv. 1844, d. á Geirseyri 5. mars 1919. Foreldrar: Jón, f. 1799 á Hnjóti, d. 1859 á Grundum, Þórðarson bónda á Hnjóti Gunnlaugssonar og k.h. Þóra, f. á Melanesi 1817, d. 23. apríl 1866 á Láganúpi Magnúsdóttir seinast bónda á Mábergi, Halldórssonar.
K. 10. nóv. 1872, Sigurlaug, f. 1840 í Bröttuhlíð, Þorleifssonar og k.h. Margrétar Þórðardóttur. Börn:
Kristín, f. í Saurbæ 19. apríl 1865, kona Jóns Runólfssonar bónda á Skógi.
Margrét, f. á Brekku 1866, d. á 1. ári.
Magnfríður, f. í Vatnsdal 22. júlí 1870, kona Brynjólfs verkamanns á Geirseyri, Runólfssonar.
Jóhannes, f. á Melanesi 1873, d. 3. ára.
María, f. 1876, d. á 1. ári.
Jóhannes, f. 1879, d. 17 ára.
Pétur, f. á Lambavatni 1882, dó ársgamall.
Sigríður, f. í Sauðlauksdal, fermd á Geirseyri 1901, dó ?
1880-1884
Guðbrandur Eiríksson. Bóndi á Melanesi 1880-1884. Síðar bóndi á Sjöundá, sjá þar.
1884-1890
Guðjón Halldórsson. Bóndi á Melanesi 1884-1890, áður bóndi í Breiðavík (1878-1884). Fluttist frá Melanesi að Hvallátrum og var þar húsmaður til dauðadags. F. í Breiðavík 10. ágúst 1850, d. á Látrum 3. apríl 1918. Foreldrar: Halldór Þorgrímsson bóndi á Láganúpi og k.h. Ingunn Jónsdóttir frá Geitagili.
K. 4. okt. 1876, Þórunn Ólöf, f. á Hrauni í Dýrafirði 29. júlí 1855, d. á Látrum 2. sept. 1925, Guðmundsdóttir Brandssonar og k.h. Þorbjargara Jónsdóttur. Þær mæðgurnar fluttust að Breiðavík 1871 með Samúel Guðmundssyni bónda í Breiðuvík. Þorbjörg fluttist aftur norður nálægt 1890, frá Melanesi. Börn Guðjóns og Þórunnar voru:
Guðmunda, f. 1878 í Breiðavík, d. 1881.
Jón, f. í Breiðavík 19. nóv. 1880, d. á Patreksfirði 6. febr. 1949, formaður ókv. og bl.
Guðmunda, f. 1882, dó á 1. ári.
Ingimundur, f. á Melanesi 5. jan. 1885, d. á Patreksfirði 1954, kv. Svanborgu Árnadóttur, ekkju Hálfdáns Árnasonar á Látrum, missti hana eftir eins árs sambúð 1928, bl.
Guðmundur, f. 1888, d. á 1. ári.
Þorbjörg Ágústa, f. á Hvallátrum 12. ágúst 1897, gift Árna Árnasyni, sem drukknaði 27. maí 1921. Átti síðar Finnboga Lárusson bónda í Hvammi í Dýrafirði.
Dóttir Guðjóns með Magdalenu Magnúsdóttur var:
Halldóra, f. í Breiðavík 20. des. 1873, d. óg. og bl. 1904.
Enn var dóttir Guðjóns með Þóru Bjarnadóttur frá Lambavatni:
Þórey, f. á Láganúpi 20. ágúst 1874, d. óg. og bl. um 1914. Var búsett á Ísafirði og bjó með Bjarna Helgasyni, en mun hafa dáið norður í Húnavatnssýslu.
1890-1902
Jón Runólfsson. Bóndi á Melanesi 1890-1902. Fluttist þá að Skógi, sjá þar.
1889-1891
Ingimundur Guðmundsson bóndi á Naustabrekku um og eftir 1890, áður bóndi í Breiðavík, hafði afnot af hálfu Melanesi árin 1889-1891.
1902-1907
Kristján Ólafsson. Bóndi á Melanesi 1902-1907. Áður bóndi í Bröttuhlíð, sjá þar.
1907-1912
Guðjón Brynjólfsson. Bóndi á Melanesi 1907-1912, fluttist að Vatnsdal og var húsmaður þar þangað til 1920. Í Gullbr. 1955. Var í húsmennsku á ýmsum stöðum í Múlasveit og á Hjarðarnesi svo bóndi á Auðnum og Hrísnesi á Barðaströnd. Kom þaðan að Melanesi. F. á Hellu í Kaldrananessókn Strs. 11. (kjb. 16.) ágúst 1861, d. 1956 í Ytri Njarðvík. Foreldrar: Brynjólfur Jónsson, f. á Ormsstöðum í Dagverðarsókn 25. ágúst 1832, d. í Bjarneyjum 1. ágúst 1873 og Þórdís, f. í Króksfjarðarnesi 26. okt. 1831, d. á Ballará 21. júlí 1894 Hjaltadóttir Bjarnasonar og k.h. Kristínar Ólafsdóttur bónda á Látrum vestra, Jónssonar. Brynjólfur og Þórdís ógift.
K. 12. júní 1892, Guðrún, f. 20. júlí 1855 Jósepsdóttir bónda á Hamri á Hjarðarnesi Bjarnasonar og k.h. Helgu Jónsdóttur frá Hvammi á Barðaströnd. Börn þeirra:
Helgi, f. á Auðshaugi 18. apríl 1890, d. í Reykjavík 1927.
Guðrún, f. á Suður-Hamri 3. júlí 1891, d. í Hafnarfirði, átti Guðmund Júlíusson bónda á Melanesi Halldórssonar.
Bryndís, f. á Firði í Múlasveit 1892, átti Bjarna Guðmundsson bónda á Efra-Seli Hrmhr., síðar á Galtafelli (til 1930), fluttist þá til Reykjavíkur.
Jósep Víglundur, f. á Firði 17. des. 1893, áttir Guðbjörgu Þórðardóttur, Gunnlaugssonar bónda í Bröttuhlíð, Þorleifssonar.
Bjarney Sigríður, f. á Deildará 5. des. 1894, átti Hildigunnar Árnason.
Halldór Hallgrímur, f. í Skálmardal 30. apríl 1896, fórst með togaranum Robertsson 1925, átti Sigríði Magnúsdóttur frá hnjóti.
Böðvar, f. á Auðnum 18. júlí 1901, bóndi í Tungumúla. Fyrri kona hans var: Ólafía Sigrún Þorláksdóttir frá Hellissandi, seinni kona: Björg Þórðardóttir bónda í Múla á Barðaströnd, Ólafssonar.
1912-1922
Júlíus Halldórsson. Bóndi á Melanesi 1912-1922, á (Mábergi) Sjöundá 1898-1902. Árin 1902-1912 húsmaður og vinnumaður (Saurbæ, Hvallátrum, Melanesi). F. á Láganúpi 10. sept. 1861, d. á Melanesi 19. des. 1944. Foreldrar: Halldór Þorgrímsson bóndi á Láganúpi og k.h. Ingunn Jónsdóttir. Albróðir Guðjóns, sjá hér að framan.
K. 20. okt. 1894, Sesselja Benjamínsdóttir (07.12.1865-20.04.1952) bónda í Bröttuhlíð Magnússonar og k.h. Ingibjargar Bjarnadóttur bónda á Hnjóti, seinast í Hænuvík, Halldórssonar. Börn þeirra:
Guðmundur, f. í Saurbæ 24. sept. 1892, drukknaði er togarinn Sviði fórst, 2. des. 1941, átti Guðrúnu Brynjólfsdóttur bónda á Melanesi. 6 börn.
Ari Guðmundur, f. á Hvallátrum 7. maí 1904, d. í Hafnarfirði 6. mars 1930, ókv. og bl.
Benjamín (19.07.1908-08.10.1996), ókv. og bl.
1922-1926
Halldór Júlíusson. Bóndi á Melanesi 1922-1926. F. í Saurbæ 11. sept. 1895, sonur Júlíusar Halldórssonar bónda á Melanesi. Halldór, ókv. og bl.
1926-1975
Ívar Rósinkrans Halldórsson (30.07.1904-21.11.1978). Bóndi á Melanesi 1926-1975. Hafði einnig afnot, til beitar, af landi Sjöundár og nytjað eitt ár (1951-1952) Skóg og Máberg með Melanesi. F. á Mábergi; foreldrar: Halldór Bjarnason bóndi á Mábergi og k.h. Magnfríður Ívarsdóttir bónda í Kirkjuhvammi, Magnússonar.
K. 23. maí 1926, Ingibjörg Júlíusdóttir (16.07.1900-11.05.1975) bónda á Melanesi, Halldórssonar. Sesselja móðir Ingibjargar og Rósa móðurmóðir Ívars voru systur. Börn þeirra:
Júlíus Reynir (23.04.1927-23.04.2011), bóndi á Mábergi (sjá þar).
Ari Guðmundur, f. 21. júlí 1931. Ýtustjóri, verkstjóri og fræðimaður. Arnfríður (Ásta) Stefánsdóttir frá Hvalskeri. 3 börn.
Halldór Bragi (23.06.1933-28.02.2000). Bóndi á Melanesi (sjá næst)
Hörður, f. 19. júní 1935. Skipstjóri. Erla Kristófersdóttir. 2 börn.
Rósa Magnfríður, f. 16. júní 1940. Bóndi á Brjánslæk. Ragnar Guðmundsson. 5 börn.
Erla Fanney, f. á Patreksfirði 26. mars 1944. Ferðaþjónustubóndi. Barn með Elíasi Bjarna Elíassyni. Gísli Kjartan Kjartansson. 1 barn.
1959-1981
Bragi Ívarsson og Vigdís Þorvaldsdóttir. Halldór Bragi Ívarsson (26.03.1933-28.02.2000); sonur Ívars Rósinkrans Halldórssonar og Ingibjargar Júlíusdóttur (hér að framan). Bóndi fyrst með föður sínum og áfram eftir hans dag, eða til 1981 er þau fluttu á Patreksfjörð. Vann þar við fiskvinnslu til dánardags. Vigdís Þórey Þorvaldsdóttir er fædd í Holti á Barðaströnd 02.05.1930, dóttir Þorvaldar Bjarnasonar og Ólafar Dagbjartsdóttur, sem síðan bjuggu að Gröf (sjá síðar). Bragi og Vigdís voru barnlaus, en dóttir Vigdísar og Matthíasar Kristjánssonar; Ólöf Matthíasdóttir tók síðan við búi ásamt manni sínum.
1981-2007
Ólöf Matthíasdóttir og Skúli Hjartarson. Ólöf Matthíasdóttir (f 07.11.1953) er dóttir Vigdísar Þorvaldsdóttur (sjá hér síðast). Hún tók við búi 1981 ásamt manni sínum, Skúla Sigurjóni Hjartarsyni (29.11.49-10.07.2015). Foreldrar hans voru Hjörtur Skúlason og Jónína Ingvarsdóttir (sjá Stakka og Sauðlauksdal). Ólöf og Skúli bjuggu fyrst með foreldrum hans í Sauðlauksdal og á Stökkum. Eftir að þau hófu búskap á Melanesi höfðu þau kúabú á Stökkum frá 1987 til 2009. Börn þeirra:
Bjarney Valgerður f 14.05.1971; sambýlismaður Magnús Mörður Gunnbjörnsson; 2 börn. Þau hófu búskap að Stökkum 2010.
Ástþór f 20.07.1973; bóndi á Melanesi (sjá síðar)
Hjörtur Matthías f 07.06.1979.
Halldóra Braga f 19.03.1984.
Ólöf Ásta f 31.01.1990.
2007-
Ástþór Skúlason og Sigríður María Sigurðardóttir. Ástþór er sonur Ólafar og Skúla (sjá hér að ofan). Hann bjó með foreldrum sínum, en tók formlega við búinu árið 2007. Hann lenti í alvarlegu umferðarslysi og lamaðist neðan mittis en af einstakri þrautseigju hefur honum tekist að halda áfram búskap og á flestan hátt að komast af líkt og ófatlaður væri. Sigríður María Sigurðardóttir er f 13.09.1985; for; Sigurður Páll Pálsson og Ólína einarsdóttir. Áður bjó Ástþór um skeið með Margréti Fanneyju, alsystur Sigríðar Maríu.
Jarðabókin 1703 „Skógur er gamalt býli og man enginn þess uppruna. Hjáleiga í Bæjarlandi og er þar fyrir dýrleiki óviss, því þar er ekkert fyrirsvar uppá tíund eða hreppamannaeldi… Landsskuld er 4 vættur (80 álnir)… Leigukvígildi 4… Kvaðir eru þar: Skipsáróður eða 20 álnir þar fyrir. Hestlán þegar um ef beðið, en það meir fyrir bón en skyldu. Dagsláttur fyrir nautslán… Þar fóðrast í meðallagi 3 kýr, 1 ungneyti, lömb 6. Ásauð er útigangur ætlaður, sem þar góður er. Ei heldur hestum… Skógur fylgir þessari hjáleigu, hæfur til eldingar og kola. Silungsveiði nokkur, sem ábúandi nýtir. Guðrún Eggertsdóttir hefur fjárhús nærri Skógi og liggur smalinn í Skógs bæ, kauplaust, en hún fæðir hann”.
Barðstrendingabók PJ “Skógur er lítil jörð; tún fremur lélegt og engjar fremur lítlar og votar. Vetrarbeit er ágæt, kvistbeit, landrými mikið. Sumarhagar eru góðir fyrir sauðfé. Lágvaxið skógarkjarr er mikið í landinu, frammi í Skógardal”.
Í reikningum Eggerts Hannessonar fyrir árið 1870 og 71 eru nefndir nokkrir bændur, sem virðast vera fyrir innan Saurbæ á Sandinum. Sjöundá er tilgreind, en hinir bæirnir ekki. Á Skógi kynni að hafa verið Bjarni Sveinsson eða Skúli. Einnig er nefndur Þorgeirsson fátæki.
1703
Snorri Bjarnason. Bóndi á Skógi 1703. F. um 1664.
K. Björg, f. um 1659, Árnadóttir. Börn þeirra:
Páll 14 ára.
Jón 11 ára (1755 deyr J. Sn., gamall og magur, annaðhvot þessi Jón eða J. Sn. Í Hlíðarhvammi 1703).
Bjarni 9 ára.
Borgar 8 ára (d. 1855 miðaldra).
Ekki er með vissu kunnugt um neina afkomendur þessa fólks.
1735
Bjarni Snorrason. Bóndi á Skógi 1735. Þetta er vafalaust sonur fyrrnefnds Snorra.
Árið 1762 er enginn bóndi talinn á Skógi.
1780
Guðmundur Ólafsson. Bóndi á Skógi 1780, en fluttist þaðan að Hvalskeri 1781 og hefur búið þar eitthvað, en er dáinn 1801 (horfinn af manntali fyrir 1794). F. um 1728. ekki kunnugt um foreldra hans.
K. 1761 (í Saurbæjarsókn), Helga, f. um 1728 Nikulásdóttir (Er í Haga 1794; 66 ára) Einkadóttir þeirra virðist vera:
Guðríður, f. um 1758. Fæðingar hennar ekki getið í kjb. kallsins. Hún giftist Þorgrími Jónssyni bónda á Hvalskeri. Utan hjónabands átti Guðríður son Bjarna að nafni, f. 1779, bónda á Hnjóti o.v. Faðir hans var Halldór, f. um 1728 húsmaður í Gröf 1780, Jónsson. Það er ekki ólíklegt að hann hafi verið bróðir Helga Jónssonar bónda í Gröf 1780. En þetta kynnu að hafa verið sonarsynir Helga Jónssonar bónda á Tóftarvelli 1703. Átti hann tvo syni, er hétu Jón. Frá Bjarna Halldórssyni var komin fjölmenn ætt í Rauðasandshreppi.
1801
Rögnvaldur Ólafsson. Bóndi á Skógi í ársbyrjun 1801. Hefur verið í Kvígindisdal um 1787, í Bröttuhlíð um 1790, en kominn að Skógi um 1796. Hefur svo farið þaðan að Krókshúsum vorið 1801 eða 1802. F. um 1753, d. milli 1801 og 1808. Foreldrar: Ólafur, f. um 1715, ekkjum., bóndi í Bæ á Bæjarnesi í Gufudalsveit 1762, Rögnvaldsson (líkl. Sigmundssonar) og k.h. Ingibjörg Brandsdóttir úr Skáleyjum, Brandssonar og k.h. Kristínar Nikulásdóttur prests í Flatey, Guðmundssonar.
K. Ingibjörg Egilsdóttir, f. 1759, d. 1836, síðar bónda á Naustabrekku Sigurðssonar og Ingibjargar Jónsdóttur I.E. var laundóttir Egils. Móðir hennar var f. um 1721, í Kvígindisdal 1780, d. milli 1786 og 1801. Börn þeirra:
Ólafur, f. í Kvígindisdal um 1787, bóndi á Stökkum.
Ingibjörg, f. í Bröttuhlíð um 1790, ógift á Geirseyri 1817.
Magnús, f. á Skógi um 1796, kvæntist ekki.
1781
Eyjólfur Árnason. Bóndi á Skógi líklega frá fardögum 1781, áður bóndi á Hvalskeri. Í Kollsvík 1801, d. fyrir 1808, f. um 1735.
K. 1774, Helga, f. um 1743, d. af barnsförum 1778 Þorláksdóttir. Þau virðast ekki hafa átt nein börn sem lifðu.
Börn Eyjólfs utan hjónabands voru:
Árni, f. 1760, bóndi á Láganúpi 1801, í Breiðavík 1808. Móðir hans var Kristín Jónsdóttir, líklega sú Kristín, sem er óg. vk. á Sellátranesi 1780. Það mun einnig vera hún, sem á dóttur að nafni Guðný með Jóni síðar bónda í Botni, Jónssyni.
Guðrún, f. í Sauðlauksdalssókn 1768. Móðir hennar var Margrét Bjarnadóttir. Guðrún er á Skeri 1780 og á Skógi 1782, ekki á manntali 1801.
Sigríður, f. í Sauðlauksdalssókn 1773, ekki í manntali 1780 eða 1801. Móðir hennar var Margrét Pétursdóttir, sem 1774 Jóni Gunnlaugssyni bónda í Krókshúsum 1780 ?
Eyjólfur, f. í Sauðlauksdalssókn 1773, d. 1774. Móðir hans var Hlaðgerður Einarsdóttir (Sellátranesi 1780, 30 ára).
1801-1803
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Skógi 1801 (eða 1802)-1803. Áður bóndi á Melanesi, sjá þar.
1804-1823
Jón Bjarnason. Bóndi á Skógi líklega frá 1804-1823 á Melanesi 1823-1825 og loks í Litla Króki 1825-1827. Árið 1801 bjó hann á Vattarnesi, áður í Kvígindisfirði, en fyrst á Firði í Múlasveit. F. á Arnarstapa í Tálknafirði 1758, d. í Litla Króki 3. maí 1827. Foreldrar: Bjarni, f. um 1718 bóndi í Tungu í Tálknafirði 1762, Jónsson og k.h. (gift 19. mars 1758 í Laugardalssókn) Sigurfljóð, f. um 1728 Bjarnadóttir (í ættartölum og sumum sögnum er Sigurfljóð sögð kona Bjarna Guðmundssonar, sem bjó á Skjaldvararfossi á Barðaströnd 1735 og kallaður var kórgikkur eða kóri. Einnig mun það ruglingur, sem sagt er um ætt Bjarna kóra frá Axlar-Birni, þótt ekki sé unnt að gera nánari grein fyrir því hér).
K. Margrét, f. á Skjaldvararfossi um 1752, d. á Melanesi 18. apríl 1825, Þórðardóttir seinast bónda á Firði, Eiríkssonar og k.h. Vigdísar Tómasdóttur. Margrét var systir Bjarna skálds á Siglunesi. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. um 1780, átti Brand Einarsson.
Bjarni, f. um 1782.
Jón, f. 1787.
Þórður, f. 10. des. 1790, d. á Skógi 1816, átti Guðrúnu Jónsdóttur. Dætur þeirra Margrét kona Gunnlaugs bónda í Bröttuhlíð, Þorleifssonar og Þórar kona Ólafs Þorgrímssonar bónda á Grundum.
Ólöf, f. 10. des. 1790, tvíburi við Þórð, d. á barnsaldri.
Ólöf, f. í Kvígindisfirði 10. apríl 1798, kona Gunnlaugs bónda á Melanesi, Jónssonar.
Systir Jóns á Skógi var Ástríður, f. í Tálknafirði 1761 kona Jóns Einarssonar á Hreggstöðum og Katrín, f. 1765 kona Jóns Jónssonar í Kvígindisfirði. Börn Bjarna Guðmunddonar á Skjaldvararfossi voru: Einar, Bjarni og Salbjörg. Móðir þeirra hét Sesselja Jónsdóttir bónda í Tungumúla 1703, Þorlákssonar og k.h. Salbjargar Pétursdóttur.
1823-1825
Páll Pálsson. Bóndi á Skógi 1823-1826. Fluttust síðan á Melanesi, sjá þar.
1826-1829
Magnús Árnason, sútari. Bóndi á Skógi 1826-1829. Áður bóndi í Keflavík, sjá þar, o.v.
Anna Guðmundsdóttir, ekkja Magnúsar, hefur flutt frá Skógi a.m.k. áður en manntal var tekið 1830, því að þá er hún til heimilis í Keikjuhvammi?
Dánarbú Magnúsar er virt 25. jan 1830 og var að frádregnum skuldum 250 rd.
1830-1837
Bjarni Sigurðsson. Bóndi á Skógi 1830-1837. Bóndi í Raknadal 1821-1828, sjá þar, mun hafa búið í Kirkjuhvammi 1828-1830. Bjarni var einn þeirra sem drukknuðu með Gísla íslaifssyni vorið 1837 (frá Brunnum). Ingibjörg Gísladóttir, ekkja Bjarna mun hafa búið áfram á Skógi til næsta vors.
1838-1839
Jón Ólafsson. Bóndi á Skógi 1838-1839. Seinast bóndi á Mábergi, sjá þar. Jón fluttist að Skógi frá Miðhlíð á Barðaströnd. Í apríl 1840 var Jón vm. á Sjöundá og er þar næstu ár. Bjó 3 ár á Melanesi áður en hann fór að Mábergi. Mér er ekki kunnugt um neinn bónda á Skógi 1839-1840, e.t.v. hefur jörðin verið nytjuð af einhverjum bónda þar í grennd.
1840-1845
Jón Jónsson. Bóndi á Skógi 1840-1845, vefari, lét þá sjáfur af búskap og fór að Saurbæ, en kona hans varð eftir á skógi ásamt dóttur þeirra og tengdasyni. Jón fluttist með fjölskyldu sína frá Gerði á Barðaströnd að Skógi. Hann var fæddur í Staðarsókn á Reykjanesi um 1786, en dó í Saurbæ 11. des 1858, kallaður þá vefari, en á Barðaströnd var hann nefndur vefari og smiður.
K. Sigríður, f. um 1728, 6 ára hjá foreldrum sínum, Hamri á Barðaströnd 1788, d. í Höfðadal í Tálknafirði 14. nóv. 1848, Oddsdóttir bónda í Moshlíð o.v. Jónssonar og k.h. Ingibjargar Ólafsdóttur. Ekki hef ég athugað um börn Jóns og Sigríðar, en dóttir þeirra var:
Sigþrúður, f. um 1816, sem fluttist með þeim að Skógi, kona Árna Jónssonar (frá Hlíð í Þorskafirði), sem einnig fluttist að Skógi og bjó í Skápadal 1846-1848.
1845-1846
Sigríður Oddsdóttir. Bóndi á Skógi 1845-1846. Kona fyrrnesfnds Jóns vefara Jónssonar, um skeið bónda á Skógi. Sigríður fluttist frá Skógi að skápadal með Árna tendasyni sínum, var þar í tvö ár, en fór þá að Höfðadal 1848. Þar var hún vk. hjá Kára Sigmundssyni, sem ættaður var af Barðaströnd, giftist á Rauðasandi og bjó þar seinast á Naustabrekku, en fór þaðan að Höfðadal einmitt vorið 1848. Sigríður dó, sem fyrr segir, næsta haust.
1846-1856
Hjálmar Sigmundsson. Bóndi á Skógi 1846-1856. Bóndi á Sjöundá 1833-37, í Kirkjuhvammi 1837-1838, á Hjóti 1840-1844 á 6 hdr. F. á Stökkum 1809, d. á Skógi 15. ágúst 1856. Foreldrar: Sigmundur Jónsson á Stökkum og seinni k.h. Björg Helgadóttir frá Gröf. Hjálmar var tvíkvæntur.
K. I, 29. sept. 1832, Svanhildur, f. á Sjöundá 1798, d. á Hnjóti 2. sept. 1843, Jónsdóttir bónda í Stekkadal 1801 Jónssonar oh k.h. Guðrúnar jónsdóttur. Börn þeirra:
Engilbert, f. í Króki 27. júní 1832, d. á Hnjóti 8.apríl 1841.
Björg, f. á Sjöundá 15. sept. 1833, kona Jóhannesar Jónssonar bónda á Geitagili.
Guðrún, f. á Sjöundá 24. jan. 1836, fyrri kona Ívars Jónssonar, fyrrum bónda á Sellátranesi, síðar í Hænuvík.
Jón, f. á Hnjóti 20. júní 1840, d. 21. júlí sama ár.
K. II, 18. okt. 1846, Guðrún, f. á Þverá á Barðaströnd1814, d. á Geitagili 10. okt. 1890, Lýðsdóttir bónda á Þverá Guðmundssonar oh k.h. Rósu Jóhannsdóttur Oddssonar. Lýður dó 1821 á ferð yfir Sandsheiði, en Guðrún og Rósa fluttust af Barðaströnd að Lambavatni 1837. Börn Hjálmars og Guðrúnar voru:
Guðmundur, f. á Skógi14. sept. 1846 bóndi í Hænuvík og Botni.
Svanhildur, f. á Skógi 11. des. 1848, d. 1851.
Helga, f. á Skógi 29. júlí 1850, d. í Saurbæ 5. jan 1921 giftist ekki, en dóttir hennar og Ingimundar Guðmundssonar bónda í Breiðavík var Briet (Birgit?) gift Sighvati Árnasyni verkamanni á Patreksfirði.
Sigmundur, f. á Skógi 5. okt. 1851 bóndi á Hvalskeri.
Jón, f. á Skógi 16. des. 1852 bóndi á Geitagili.
1856-1857
Jón Ísleifsson. Bóndi á Skógi 1856-1857. Áður bóndi í Saubæ. Hann hefur vafalaust verið búsettur í Saurbæ, en nýtjað jörðina á Skógi. Árið 1860-61 er hann einnig talinn hafa 1/3 af Skógi.
1857-1860
Björn Bjarnason. Bóndi á Skógi 1857-1860, á Lambavatni 1854-1858. Fluttist 1861 í Tálknafjörð og bjó þar á Eysteinseyri til dauðadags. Svo er að sjá, að Björn hafi ekki flutt að Skógi fyrr en 1858, en nýtjað jörðina frá Lambavatni ári áður. F. á Látrum 15. jan 1824, d. á Eysteinseyri 5. sept. 1871. Foreldrar: Bjarni Björnsson bóndi á Látrum, síðar í Keflavík og fyrri k.h. Guðrún Ólafsdóttir frá Látrum.
K. Herdís, f. 26. júlí 1824, d. 9. júlí 1900 Jónsdóttir bónda í Hokinsdal í Arnarfirði, síðar í Tálknafirði, Ólafssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur. Herdís var systir Teits, sem kvæntur var Önnu Magnúsdóttur frá Keflavík. Börn Björns og Herdísar voru:
Kristín dó nýfædd 1854.
Ólafur einhenti, f. 17. júní 1858 á skógi, d. á Sellátranesi13. nóv. 1937 búsettur í Tálknafirði.
Helga dó nýfædd á Eysteinseyri 1860
Herdís fluttist frá Skógi að Eysteinseyri 1860 með Ólaf son þeirra Björns. Þau eru þá talin skilin að borði og sæng. En þegar Björn kom í Tálknafjörð hafa þau tekið saman á ný.
1860-1861
Ari Finnsson. Bóndi á Skógi 1860-1861. Hann var bóndi í Saurbæ, en er talinn hafa 2/3 hl. af Skógi. Jón Ísleifsson í Bæ hafði 1/3.
1861-1863
Gunnar Jónsson. Bóndi á Skógi 1861-1863. Árið 1862 er heimilisfólkið talið: G.J. 29 ára, Guðrún Guðmundsdóttir móir hans 51 árs, Guðrún Jónsdóttir dóttir hennar 12 ára, Gísli Bjarnason léttadrengur 16 ára.
1863-1869
Gestur Þórðarson. Bóndi á Skógi 1863-1869. Hann kom frá Skáleyjum 1863 ásamt konu (H.J. 30 ára) og Sveinbirni (2 ára). Fór frá Skógi í Svefneyjar, þaðan að Látrum og loks í Bjarneyjar. F. í Holti á Barðaströnd 30. júní 1830, d. í Bjarneyjum 27. júlí 1914. Foreldrar: Þórður Jónsson bóndi á Sjöundá og fyrri k.h. Svanborg Helgadóttir.
K. 8. okt. 1858 (í Skáleyjum), Helga, f. að Gróunesi 21. maí 1832, d. í Bjarneyjum 23. maí 1908 Jónsdóttir bónda á Gróunesi 1835, Barmi 1845, Jónssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur (systir Helgu var Guðrún kona Ara skálds Steinssonar). Börn:
Sveinbjörn, f. í Skáleyjum 31. des. 1860 kvæntur Ólöfu Sigurðardóttur.
Guðjón, f. í Skáleyjum 27. maí 1862, d. þar 1. júlí sama ár.
Þórður, f. á Skógi 1863, d. sama ár.
Pétur, f. á Skógi 1. jan. 1865, d. vikugamall.
Guðjón, f. á Skógi 25. des. 1865, í Bjarneyjum 1881.
Svanborg, f. í Svefneyjum 13. júlí 1869 fór frá Bjarneyjum í Rauðseyjar 1888.
Rannveig, f. í Látrum 11. des. 1872, í Bjarneyjum 1890.
Guðrún móðir Helgu Jónsdóttur var dóttir Jóns bónda á Skálanesi Einarssonar Sveinbjörnssonar.
1868-1879
Jón Jónsson. Bóndi á Skógi 1868-1879, fyrsta árið í sambýli við Gest Þórðarson, sem hafði þá aðeins rúm 2 hdr. Jón fluttist síðar að Krókshúsum og bjó þar til vorsins 1884. F á Látrum 8. ágúst 1829, d. 1. júlí 1884. Foreldrar: Jón Arngrímsson Guðmundssonar og Sólrún Jónsdóttir Loftssonar (ógift). Sólrún var seinni kona Einars Þorvaldssonar bónda á Lambavatni (komin af Barðaströnd). Móðir Jóns var Soffía Guðmundsdóttir bónda á Sjöundá Jónssonar. Hún átti fyrst Arngrím, en síðar Guðbrand Magnússon bónda í Krókshúsum og var dóttir þeirra Sigríður kona Eiríks Magnússonar á Mábergi.
K. 29. apríl 1864, Gróa, f. í Látrum á Breiðafirði 16. jan. 1843, d. á Látrum í Rauðasandshreppi 28. júlí 1928 Össurardóttir bónda á Látrum Össurarsonar og fyrri k.h. Valgerðar Gísladóttur prests í Sauðlauksdal Ólafssonar. Gróa giftist síðar Sæmundi Sæmundssyni á Hlaðseyri Einarssonar, bl. Börn Jóns og Gróu voru:
Valgerður, f. á Hvallátrum 11. nóv. 1865, d. s.st. 9. febr. 1893, óg. og bl.
Guðrún, f. á Skógi 25. sept. 1870 kona Níelsar Björnssonar bónda á Naustabrekku.
Sigríður, f. á Skógi 3. jan. 1875, d. á Látrum 27. febr. 1903, óg. og bl.
Gestur Ingimar, f. í Krókshúsum 27. sept. 1883 lengst húsmaður á Látrum, seinast bóndi á Sellátranesi.
1879-1889
Ívar Magnússon. Bóndi á Skógi 1879-1889. Fluttist þá að Kirkjuhvammi, sjá þar.
1889-1893
Ólafur Ó Thorlacius bóndi í Saurbæ. Hann er talinn bóndi í Skógi 1889-1893, en enginn ábúandi er talinn árin 1893-1902. Líklegt er þó, að einnig þau ár hafi jörðin verið nytjuð að einhverju leyti frá Saurbæ.
1902-1927
Jón Runólfsson. Bóndi á Skógi 1902-1927. Áður bóndi á Melanesi (1890-1902). F. í Saurbæ 24. ágúst 1858, d. í Reykjavík 21. apríl 1935. Foreldrar: Runólfur Brynjólfsson bóndi í Kirkjuhvammi og k.h. Guðrún Gunnlaugsdóttir frá Bröttuhlíð.
K. 20. okt. 1894, Kristín, f. 19. apríl 1865, d. á Skógi 2. febr. 1926 Magnúsdóttir bónda á Melanesi Jónssonar og k.h. Sigurlaugar Gunnlaugsdóttur. Jón og Kristín voru systrabörn. Börn þeirra:
Guðbjartur, f. í Saurbæ (10.01.1893-20.02.1986), húsasmíðameistari í Reykjavík.
Runólfur Jón, f. á Melanesi (13.01.1895-11.02.1984), sjómaður í Reykjavík.
Hermann Guðmundur, f. á Melanesi (26.06.1896-15.01.1932), ókv. og bl.
Jóhanna, f. á Melanesi (16.10.1898-26.08.1991), ógift og bl. í Reykjavík.
Sigurður, f. á Melanesi (16.10.1898, d. af slysfjörum í Kvígindisdal 18. júní 1948 ókv. og bl. Bóndi á Skógi 1931-1932.
Baldvin, f. á Melanesi (21.01.1900-16.05.1983), sjómaður, síðar starfsmaður í Kassagerð Reykjavíkur, kvæntur Torfhildi Jónsdóttur, bl.
Þórarinn, tvíburi við Baldvin, f. á Melanesi 21. jan. 1900, d. 18. júní 1900.
Gunnlaugur, f. á Melanesi (03.08.1901-24.08.1982), bóndi á Skógi og Mábergi.
Guðbjörg Bryndís, f. á skógi (30.05.1903-29.04.1977) gift Ágústi Jónssyni verkamanni á Patreksfirði.
Halldór, f. á Skógi (25.01.1905-29.08.1998), smiður í Reykjavík.
Trausti, f. á Skógi (26.10.1907-17.05.1994), smiður í Sandgerði, kvæntur Dagbjörgu Jónsdóttur frá Hvalsnesi (eignuðust 10 börn).
Guðmunda Sigríður, f. á Skógi (15.10.1908-25.10.1982), verkakona í Reykjavík, ógift, en hefur eignast 4 börn.
Þorbjörg Valgerður, f. á Skógi 26. júní 1911, gift Kristjáni Jakobssyni sjómanni á Patreksfirði. Sonur þeirra Jakob Vignir járnsmiður á Patreksfirði. Húsfr. á Skógi.
Dóttir Jóns Runólfssonar utan hjónabands, með Guðbjörgu Ólafsdsóttur bónda á Grundum Þorgrímassonar, var:
Ólína, f. á Sjöundá (13.07.1885-11.05.1969), gift Daníel Jónssyni skósmið. Hafa lengst verið búsett á Ísafirði og eignast 8 börn.
1927-1931
Gunnlaugur Jónsson (03.08.1901-24.08.1982). Bóndi á Skógi 1927-1931. Hafði Máberg með Skógi 19292-1931, en fluttist að Mábergi og bjó þar 1931-1933. Fluttist síðan frá Mábergi til Reykjavíkur og hefur verið þar síðan, bifreiðabólstrari. F. á Melanesi; foreldrar: Jón Runólfsson seinast bóndi á Skógi og k.h. Kristín Magnúsdóttir.
K. I 1934, Málfríður Einarsdóttir, skildu. Börn þeirra:
Jóna, f. í Reykjavík 09.10.1935. 4 börn.
Gyða, f. í Reykjavík 4. okt. 1936. Hörður Gísli Pétursson. 2 börn.
K. II 1945, Guðfinna Benediktsdóttir frá Erpsstöðum í Dalasýslu. Kjörbarn:
Móeiður Sigurrós f. 04.09.1949. 3 börn.
1931-1932
Sigurður Jónsson. Bóndi á Skógi 1931-1932. F. á Melanesi 16. okt. 1898, d. af slysförum í Kvígindisdal 18. júní 1948, ókv. og bl. Albróðir Gunnlaugs sem að framan getur.
1932-1934
Kristján Vigfús Jakobsson (07.05.1898-10.09.1990). Bóndi á Skógi 1932-1934. Fluttist til Patreksfjarðar og hefur búið þar síðan. F. að Rima í Dalahreppi í Arnarfirði; foreldrar Jakob Kristjánsson um skeið búsettur í Vatnskrók á Patreksfirði og k.h.
K. 20. sept. 1930, Þorbjörg Valgerður Jónsdóttir bónda á Skógi Runólfssonar. Einkabarn þeirra:
Jakob Vignir, f. á Patreksfirði (foreldrar þá húshjón á Mábergi) 5. mars 1932, járnsmiður á Patreksfirði, kvæntur Guðrúnu Gestsdóttur.
1934-1939
Magnús Jónsson (12.07.1905-30.04.1975). Bóndi á Skógi 1934-1939. Síðar póstþjónn í Reykjavík. F. á Vatneyri; ólst upp í Kirkjuhvammi. Foreldrar: Jón Bjarnason fyrrum bóndi í Holtsfit á Barðaströnd, síðar á Patreksfirði og k.h. Þórdís Jónsdóttir.
K. 29. okt. 1931, Pálína Rebekka, f. í Flatey 4. febr. 1909, Halldórsdóttir bónda á Mábergi Sveinssonar. Þau skildu. Magnús átti 4 börn með öðrum konum.
Nafnið Máberg er sú mynd nafnsins sem oftast er notuð og talin rétt á síðari tímum. Sagt vísa til þess að máfar séu gjarnan á flugi með fjallinu og sitji þar á holtum. Ritunin “Móberg” hefur einnig sést (sbr Jarðabók og Barðstrendingabók) og er fullkomlega rökrétt, með vísun til dökks litar fjallsins Móbergshyrnu. Hann orsakast af vatnsrennsli úr Mábergsfossi sem þar fellur af brún. Í örnefnaskrá má sjá forliði með báðum ritháttum. Elsta skjal með nafninu er frá 1480, og er þar ritunin “Máfaberg” (BÞ).
Jarðabókin 1703 „Milli Skógs og Bjarngötudals (sem eru tvær hjáleigur í Saurbæjar landi á Rauðasandi) liggur eitt eyðipláts, hvar í sér fyrir túnstæði og bæjartóftum. Heitir Máberg (aðrir kalla það Móberg), er kóngseign og fylgir Barðastrandarsýslu, hefur langvaranlega í eyði verið, so enginn nú lifandi veit neitt til nær það muni í eyði lagst hafa. Er lítilfjörlegt land, og kann ei að byggjast, sökum landþrengsla, liggur og undir skriðu úr einu stóru gili á aðra síðuna. Barðastrandar sýslumaður burtleigir þetta pláts nú til Guðrúnar Eggertsdóttur, sem á löndin alt um kring. Og geldur hún þar eftir eina vætt, sn þykir stórum ofdýrt leigt, og leigir Guðrún þennan part til að varast pretensioner af misgöngum peninga, en fyrir gagnsemdar skuld. Landamerki Mábergs segja menn verið hafa Geitá fyrir innan, en Silungalæk fyrir utan. Dýrleika þess pláts veit enginn. Virðist sumum muni 6 hdr. verið hafa áður en af skriðunni fordjarfaðist, hvað eyðileggingunni meinast ollið hafa. Hlunnindi eru þar engin fyrir utan lítilfjörlega silungsveiði í Suðurfossá.“
Barðstrendingabók PJ Móberg er lítil jörð skammt fyrir utan Skóg. Tún er fremur lítið, og allmikið af því þýft. Engjaslægjur litlar og ekki grasgóðar. Landkreppa er mikil”.
Um miðja 15.öld var búið á Mábergi og jörðin var þá í eigu Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum er þá var eigandi Saurbæjar.
Árin 1703, 1735 og 1762 hefur enginn búið á Mábergi.
Jörðin var konungseign til 1847, en um aldamótin 1900 átti Rauðasandshreppur hana að 2/3 en Ari Finnsson í Saurbæ þriðjung. Um 1930 komst jörðin í eigu ábúanda. 1952 var hún sameinuð Skógi af þáverandi ábúendum Júlíusi Reyni og Jóhönnu (sjá þar).
1780 og 1782
Jón Jónsson. Bóndi á Mábergi 1780 og 1782, en hefur vafalaust búið þar eitthvað fyrir og eftir þann tíma. F. um 1747, d. milli 1786 og 1801. Ekki kunnugt um foreldra hans.
K. 1772 (í Saurbæjarsókn), Guðrún, f. 1753, d. milli 1801 og 1808, ekkja búandi í Stekkadal 1801, Jónsdóttir Bjarnasonar bónda í Saurbæ 1780 og k.h. Ástríðar Sigmundsdóttur. Börn:
Guðrún, f. á Melanesi 28. júní 1772, átti Jón Jónsson bónda í Stekkadal 1801, en síðar Ólaf Sigmundsson bónda í Króki (fyrri kona hans).
Jón, f. á Melanesi 31. júlí 1773, bóndi á Mábergi 1817.
Þorsteinn, f. á Melanesi 20. maí 1775, ókv. vm. á Hvallátrum 1808 og 1817., hjá Birni Bjarnasyni og Ástríðar Þorsteinsdóttur. Þorsteinn faðir Ástríðar og Guðrún móðir Þorsteins munu hafa verið systkini.
1801-1806
Jón Ísleifsson. Bóndi á Mábergi 1801 (-1806 a.m.k. en farinn þaðan 1808 þá húsmaður í Krókshúsum) Jón hefur ekki verið kominn að Mábergi 1794, því dóttir hans sem, fædd er það ár, er sögð f. á Melanesi. Jón bjó (var húsmaður) í Krókshúsum 1808. F. um 1759 á Barðaströnd, d. milli 1808 og 1817. Foreldrar: Ísleifur, f. um 1729, bóndi í Litluhlíð 1762, Þorvaldsson bónda í Miðhlíð, Einarssonar og k.h. f. um 1721 í Litluhlíð, en nafn hennar er ekki þekkt.
K. (á Barðaströnd), Guðrún, f. um 1761, d. milli 1808 og 1817, er a.m.k. ekki á manntali í Rauðasandshreppi 1817, Jónsdóttir. Börn:
Konráð, f. 26. maí 1787 í Miðhlíð, drukknaði í Breiðavíkurlendingu með Magnúsi sútara 12. maí 1829. dóttir hans með Salóme Hákonardóttur á Sjöundá var María, f. á Sjöundá 19. ágúst 1820, d. þar 183?.
Gísli, f. um 1790, líkl. d. fyrir 1808.
Guðrún, f. á Melanesi 1794, mábergi 1817.
Guðmundur, f. 1798, Grundum 1808, ekki á manntali 1817.
1808
Þorleifur Guðmundsson. Bóndi á Mábergi 1808, í Krókshúsum okt 1805 og 1817. F. um 1770, d. í Krókshúsum líkl. 1819. Hann var aðkominn í Rauðasandshrepp og ókunnugt um foreldra hans. Gæti e.t.v. verið sá Þorl. Guðm., sem talinn er til húsa í Trostansfirði 1787, 16 ára. Þeesi aldur er þó heldur lægri, en talið er 1801 (34 ára). Þá er Þorl. á Láganúpi.
K. Sigríður Bjarnadóttir bónda í Keflavík 1780, Jónssonar og k.h. Ingunnar Þórðardóttur. Sonur þeirra var:
Bjarni, f. 12. okt. 1806, virðist hafa dáið fyrir 1817.
Árið 1817 eiga þau Bjarna talinn 5 ára, sem deyr 20. ágúst 1818:
Bjarni, f. á Lambavatni um 1812, d. sem áður segir.
Sigríður, dó.
Áður en Þorleifur kvæntist átti hann:
Gunnlaugur, f. á Geitagili 1798, bóndi í Bröttuhlíð. Móðir hans var Guðrún Gunnlaugsdóttir, Þorbjörnssonar.
1817
Jón Jónsson. Bóndi á Mábergi 1817. Kvæntur vinnumaður á Látrum 1808, vm. á Stökkum 1801. F. á Melanesi 31. júlí 1773. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi á Mábergi 1780 og k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 12. okt. 1806, Guðrún yngri Sigurðardóttir, bónda í Breiðavík Jónssonar og fyrri k.h. Solveigar Össurardóttur. Einkasonur þeirra mun hafa verið:
Jón, f. á Látrum 13. sept. 1809, d. fyrir 1817.
1819-1821
Gunnlaugur Jónsson. Bóndi á Mábergi líkl. 1819-1821. Áður bóndi á Melanesi, sjá þar.
1821-1836
Magnús Halldórsson. Bóndi á Mábergi 1821-1836. Bóndi á Melanesi 1817 (líkl. um 1813-1821), á Hvalskeri 1808 (líkl. um 1805-1813). F. á Geitagili 16. des. 1774, d. á Mábergi 14. des. 1836. Foreldrar: Halldór Magnússon, seinast bóndi í Hænuvík og k.h. Sigríður Ólafsdóttir.
K. um 1798, Kristín, f. í Botni 22. des. 1776, d. á Melanesi 17. febr. 1843 Jónsdóttir bónda í Botni Jónssonar og k.h. Elínar Jónsdóttur frá Botni. Börn þeirra:
Halldór, f. á Hlaðseyri 1799, drukknaði með Gunnlaugi Jónssyni, þá bónda á Mábergi, 1821.
Jón, f. í Botni 1803, á Melanesi 1817.
Helga, f. á Hvalskeri 19. des.1807.
Guðrún, f. 1809.
Gísli, f. 5. maí 1811.
Einar, f. 5. nóv. 1812, seinasta barnið sem fæðist á Hvalskeri.
Sigríður, f. á Melanesi 1815.
Guðmundur, f. á Melanesi 1816, bóndi á Melanesi.
Þóra, f. á Melanesi 6. júní 1817, átti Jón Þórðarson. Sonur þeirra var Magnús bóndi á Melanesi.
Ólafur, f. á Melanesi 1818, bóndi á Sjöundá.
Utan hjónabands átti Magnús Halldórsson:
Guðbrandur, f. í Hænuvík 1794, bóndi í Krókshúsum. Móðir hans var Guðrún Björnsdóttir, f. á Bakka í Tálknafirði 1761. Hún átti síðar Guðmund Ólafsson bónda í Keflavík 1817.
1836-1838
Kristín Jónsdóttir. Búandi á Mábergi 1836-1838, ekkja fyrrnefnds Magnúsar Halldórssonar bónda á Mábergi.
1838-1846
Jónas Jónsson. Bóndi á Mábergi 1838-1846. Fluttist frá Haukabergi á Barðaströnd að Mábergi. Bóndi á Hlaðseyri 1846-1851, í Vatnsdal 1856-1862. F. í Holti á Barðaströnd 18. júlí 1800. Foreldrar: Jón Jónsson og Hólmfríður, f. um 1775 Jónsdóttir..
K. Björg, f. 13. jan. 1795, d. í Vatnsdal 1872 Einarsdóttir bónda á Litlanesi í Múlasveit Þorleifssonar og k.h. Jórunnar Jónsdóttur. Dóttir þeirra var:
Hólmfríður, f. á Siglunesi 3. jan. 1831, d. á Brekkuvelli 2. febr. 1893 kona Sturlu Einarssonar bónda í Vatnsdal.
1846-1851
Jón Ólafsson. Bóndi á Mábergi 1846-1851, á Melanesi 1843-1846, á Skógi 1838-1839. Vinnumaður á Sjöundá 1840-1843. Eftir 1851 í Króki. Jón fluttist frá Miðhlíð á Barðaströnd að Skógi 1838 ásamt fjölskyldu sinni. F. á Miðjanesi í Reykhólasveit 1783?, d. í Litla Króki 5. maí 1855. Foreldrar: Sennilega Ólafur Hallsson bóndi í Miðhúsum í Reykhólasveit 1795-1801 (en ekki síðar og óvíst hvert fjölskyldan fór) og k.h. Ingveldur Þórðardóttir Einarssonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Jón mun hafa komið á Barðaströnd 1808.
K. I 1809 (á Barðaströnd) Sigríður Þorvaldsdóttir frá Skriðnafelli, sem dó 1816. Þau áttu:
Sigríður.
Ólafur.
K. II Hallbjörg, f. í Gerði á Barðaströnd 26. júní 1794, d. í Króki 29. júní 1863 Jónsdóttir Helgasonar og Valgerðar Þórðardóttur pósts í Miðhlíð Jónssonar. Börn þeirra, sem með þeim fluttust á Rauðasand voru:
Guðrún 18 ára, varð seinni kona Ólafs Sigmundssonar í Króki.
Jón 15 ára, d. 8. febr. 1847.
Ingibjörg 14 ára, ógift á Melanesi 1845.
Ólafur 11 ára, á Melanesi.
Þórður, sem er hjá foreldrum sínum á Melanesi 1845, 16 ára.
1851-1884
Eiríkur Magnússon. Bóndi á Mábergi 1851-1884, fluttist þá að Efri-Tungu með Eiríki syni sínum, sem byrjaði búskap þar. F. í Keflavík 20. ágúst 1821, d. í Tungu 27. apríl 1894. Foreldrar: Magnús Árnason bóndi í Keflavík og víðar og seinni k.h. Anna Guðmundsdóttir frá Hellu á Selströnd.
K. 30. sept. 1848, Sigríður, f. í Krókshúsum 24. apríl 1823, d. á Mábergi 27. maí 1882 Guðbrandsdóttir Magnússonar og k.h. Soffíu Guðmundsdóttur bónda á Sjöundá, Jónssonar. Börn þeirra:
Guðbrandur, f. á Hvallátrum 23. apríl 1849, bóndi á Sjöundá, seinast smiður á Patreksfirði.
Jarðþrúður, f. á Hvallátrum 16. mars 1851, d. í Tungu 28. nóv. 1886.
Eiríkur, f. á Mábergi 29. okt. 1855, bóndi í Efri-Tungu.
Guðmundur, f. á Mábergi 17. sept. 1857, d. í Tungu 15. júní 1885, sjúklingur.
Soffía, f. á Mábergi 1. des. 1861, d. 13. des. sama ár.
Guðbjartur, f. á Mábergi 21. okt. 1862, d. 30. sama mán.
Soffía, f. á Mábergi1. jan. 1866, d. í Tungu 19. ágúst 1886.
Sonur Eiríks utan hjónabands var:
Helgi, f. á Hvallátrum 8. des. 1844, bóndi á Hvallátrum. Móðir hans var Guðbjörg Bjarnadóttir bónda í Breiðavík Sigurðssonar og k.h. Þórkötlu Leifsdóttur.
1884-1896
Einar Jónsson. Bóndi á Mábergi 1884-1896. Áður bóndi í Efri-Tungu (1877-1884). Hann hefur flust að Mábergi, þegar Eiríkur gerðist bóndi í Tungu. F. á Geitagili 23. jan. 1834, d. s.st. 27. jan. 1898.
K. 11. nóv. 1888, Guðríður Ólafsdóttir, ekkja Jóns yngri Einarssonar bónda í Breiðavík um 1850, sjá þar. Þau barnlaus.
Synir Einars utan hjónabands voru:
Jón, f. á Grundum 14. des. 1862, drukknaði í Bæjarvaðli á Rauðasandi 26. júní 1904, ókv. og bl.
Dagbjartur, f. í Breiðavík 2. jan. 1866, bóndi í Gröf.
Móðir Jóns og Dagbjartar var Þóra Bjarnadóttir bónda á Lambavatni Ólafssonar og k.h. Ingibjargar Þórðardóttur frá Lambavatni.
1896-1898
Júlíus Halldórsson. Bóndi á Mábergi 1896-1898. Síðar bóndi á Sjöundá og seinast á Melanesi, sjá þar.
1898-1903
Egill Árnason. Bóndi á Mábergi 1898-1903. Áður og eftir bóndi á Sjöundá, sjá þar.
1904-1922
Halldór Bjarnason. Bóndi á Mábergi 1904-1922, fluttist þá að Gröf og bjó þar til dauðadags. F. í Tungu í Tálknafirði 15. nóv. 1874, d. á Patreksfirði 9. mái 1924. Foreldrar: Bjarni, f. á Láganúpi 11. júlí 1850, drukknaði í Hænuvíkurlendingu, með Bárði Bjarnasyni, 29. júní 1879 Einarsson, Einarssonar bónda í Vatnsdal, Einarssonar og Guðrún, f. í Krossadal 26. ágúst 1854, d. í Gröf 11. sept 1949 Jónsdóttir bónda á Sjöundá, síðar í Krossadal, Jónssonar. Bjarni og Guðrún voru ógift.
K. 3. nóv. 1900 (í Tálknafirði), Magnfríður Ívarsdóttir (25.11.1875-13.01.1958) bónda í Kirkjuhvammi, Magnússonar og k.h. Rósu Benjamínsdóttur. Halldór og Magnfríður fóru úr Tálknafirði að Reykjarfirði í Suðurfjörðum og voru þar í húsmennsku, en fluttust þaðan að Mábergi. Börn þeirra:
Guðmundur Jóhannes, f. á Þinghóli í Tálknafirði (08.07.1901-19.03.1995), lengi bóndi í Króki, en búsettur í Gröf hjá móður sinni. Ókv. og bl.
Jónína Begþóra, f. í Reykjarfirði 8. júlí 1903, d. 4 ágúst sama ár.
Ívar Rósinkrans, f. á Mábergi (30.07.1904-21.11.1978), bóndi Melanesi (sjá þar).
Bjarni Trausti, f. á Mábergi (01.10.1906-05.02.1975), ókv. og bl.
Guðrún, f. á Mábergi (24.04.1908-13.08.2001), gift Jens Árnasyni vélsmið á Patreksfirði, síðar í Reykjavík. 5 börn.
Ingimundur Benjamín, f. á Mábergi (16.11.1910-15.03.1998), kv. Jóhönnu Breiðfjörð Þórarinsdóttur. 5 börn. (Sjá Naustabrekku)
Sigurður Breiðfjörð, f. á Mábergi (13.05.1914-16.04.2006), kvæntur Marie Jacobsen frá Færeyjum. 4 börn.
Sigríður, f. á Mábergi (30.12.1915-23.05.1977), gift Kristni Jónssyni bónda í Keflavík Jónssonar. 6 börn.
Halldór Kristinn, f. á Mábergi 4. júní 1918, bóndi á Mábergi, kvæntur Sesselju Kristínu Halldórsdóttur bónda á Mábergi Sveinssonar. (Sjá hér á eftir)
Ólafur Halldór, f. á Mábergi (01.06.192-13.04.2000), kvæntur Sigríði Hálfdánardóttur frá Valdárseli í Víðidal.
1922-1928
Frá 1922-1928 mun enginn hafa haft aðsetur á Mábergi.
1928-1929
Níels Björnsson. Bóndi á Mábergi 1928-1929. Fyrrum bóndi á Naustabrekku og víðar. Þegar hér var komið og jafnvel áður mun Níels hafa verið einyrki. (Sjá Naustabrekku).
1931-1933
Gunnlaugur Jónsson. Bóndi á Mábergi 1931-1933. Áður bóndi á Skógi, sjá þar. Hafði þá Máberg með Skógi 1929-1931.
1933-1934
Arinbjörn Guðbjartsson (01.07.1891-18.04.1970). Bóndi á Mábergi 1933-1934. Bóndi á Bakka í Arnarfirði 1919-1920, í Rauðsdal 1920-1931-2. Vorið 1943 hafði Arinbjörn fengið jörðina Sellátranes, en missti þá dóttur sína og fluttist aldrei að Nesi. Arinbjörn var f. í Breiðavík 1. júlí 1891, sonur Guðbjartar bónda þar Jónssonar og k.h. Sigríðar Össurardóttur frá Látrum. Hann fluttist til Kanada með móður sinni og systkinum 1911, en kom heim aftur haustið 1916.
K. 30. des. 1917, Ágústa, f. 27. ágúst 1891, d. á Mábergi 8. okt. 1933 Sæmundsdóttir bónda á Krossi á Barðaströnd Jóhannessonar og Emilíu Andrésdóttur, sem dó 1955, 102 ára gömul. Börn þeirra:
Hulda, f. á Krossi 29. okt. 1918, d. á Patreksfirði 18. júní 1937.
Sigríður, f. á Bakka haustið 1919, d. í Reykjavík vorið 1938.
Heiða, f. í Rauðsdal 1922, d. á Patreksfirði 8. mars 1943.
Þráinn, f. í Rauðsdal (24.12.1923-27.06.2006), kvæntur Ragnheiði Jóhannesdóttur, búsettur í Reykjavík. 3 börn.
Emilía, f. í Rauðsdal 1925, d. í Reykjavík um 1948, gift Magnúsi Þórðarsyni, þau barnlaus.
1934-1949
Halldór Sveinsson (22.09.1877-22.09.1964). Bóndi á Mábergi 1934-1949. Fluttist að Mábergi frá Svínanesi í Múlasveit. Foreldrar: Sveinn Pétursson og Pálína Tómasdóttir.
K. Guðrún Þórðardóttir (15.08.1878-29.06.1965). Börn þeirra:
Pálína Rebekka f 04.02.1909. Ljósmóðir og húsfreyja í Skógi (sjá þar).
Ingibjörg (28.03.1912-31.08.2000). Kristján Jónsson.
Þórður Einar (11.01.1917-31.07.2004). sigríður Kristín Guðmundsdóttir. 1 barn.
Sesselja Kristín f. 28.08.1920. M. Halldór Halldórsson (sjá hér næst).
1949-1951
Halldór Kristinn Halldórsson (04.06.1918-05.12.2005). Bóndi á Mábergi 1949-1951. Bóndi í Skápadal 1951-1953, fluttist þá á Patreksfjörð? F. á Mábergi, sonur Halldórs bónda þar Bjarnasonar og k.h. Magnfríðar Ívarsdóttur.
K, 10. des. 1939, Sesselja Kristín, f. á Svínanesi í Gufudalssveit 28.08.1920 Halldórsdóttir seinast bónda á Mábergi Sveinssonar. Dóttir þeirra:
Rósa Kristín, f. í Kirkjuhvammi 13. ágúst 1940. I Ingimar Guðjónsson. M.II Ragnar Kristinn Hjaltason.
1951-1952
Ívar Halldórsson bóndi á Melanesi nytjaði Máberg 1951-1952.
1952-1995
Júlíus Reynir Ívarsson (23.04.1927-23.04.2011). Bóndi á Mábergi frá 1952 til 1995, en flutti þá til Reykjavíkur. Nytjaði einnig Skóg, sem er skammt frá Mábergi. Sonur Ívars bónda á Melanesi Halldórssonar og k.h. Ingibjargar Júlíusdóttur.
K. 23. mars 1953, Jóhanna, f. að Bakkakoti í Víðidalstungu 22. febr. 1924 Gunnlaugsdóttir. Börn þeirra:
Haukur, f. á Patreksfirði 20. júlí 1950. Verktaki og safnamaður á Hvanneyri. Ingibjörg Jónasdóttir. 5 börn.
Gunnlaugur Auðunn, f. á Patreksfirði 8. sept. 1952. Búnaðarhagfræðingur, sveitarstjóri og langhlaupari. Sigrún Sveinsdóttir. 3 börn.
Ingibjörg, f 08.04.1955. Barn með Hirti Frioðrikssyni. Bragi Guðjónsson. 1 barn.
Anna Guðrún, f 25.05.1959.
Eftir að búskap Reynis og Jóhönnu lauk hefur Móberg verið í eyði, en íbúðarhúsið er nýtt af afkomendum þeirra.
Bjarngötudalur (Dalshús, Kvarnargrund)
Nafnið Bjarngötudalur er djúpur dalur vestan Móbergshyrnu. Um hann hefur löngum legið vegurinn af Skersfjalli, milli Rauðasands og Patreksfjarðar. Eftir að bílvegur kom, og nokkru fyrr, gekk gatan undir sama heiti og dalurinn, en hafa áður nefnst Bjarngötur eða Bjarna(r)götur. Undir Bjarngötudal gengur lítið nes fram í Bæjarvaðalinn sem nefnist Bjarnanes og líklegt er að annað dragi nafn af hinu. Dæmi þekkjast um að heitið bjarnargata hafi fyrrum verið notað um tæpa stíga í hlíðum og tilgreinir Ólafur Þórarinsson frá Saurbæ (1894-1974) slík dæmi frá norðanverðum Vestfjörðum í örnefnaskrá Kirkjuhvamms. Bjarnargata er heiti á tæpri götu nærri Hólmsá í Skaftafellssýslu. Kotið Bjarngötudalur stóð neðan dalsins og tók nafn af honum.
“Í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar frá árinu 1840 er nefnd Kvennagrund þegar taldar eru upp eyðijarðir frá fornöld í Rauðasandshreppi. Telja má líklegt að Kvennagrund og Kvarnargrund sé sama kotið og vel má vera að þarna hafi konur verið látnar snúa kvörninni og mala korn fyrir Saurbæjarhöfðingja en fengið í staðinn að hírast á blettinum”. (KÓ).
Jarðabókin 1703 “Bjarngötudalur: Nýlenda, bygð sumpart af Kirkjuhvammslandi, sumpart af því landi kirkjustaðarins Saurbæjar, sem kallað er Sléttuteigar, og liggur næst við þá kóngs eyðijörð, sem Máberg heitir. Hefur verið bygð ongifer (um) 50 ár. Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum. Eigandinn er kirkjan að Saurbæ á Rauasandi og hústrúin Guðrún Eggertsdóttir. Ábúandinn Jón Ólafsson, býr á allri. Landskyld 40 álnir. Var í fyrstu 20 álnir, síðan 30 álnir, eftir því, sem ræktast hefur. Betalast hálf í fiski í kaupstað eður heim. Bregðist fiskur, þá í öðrum gildum landaurum, þó eftir fiskireikningi í kaupstað. En hálf með 20 álna fóðri. Leysist eins og hinn helmingur ef fóður bregst. Fið til húsa leggur landsdrottinn. Kúgildi 2 ½. Leigur betalast í smjöri heim til eiganda, eður leysast með fiski. Kúgildi uppyngir eigandinn Guðrún Eggertsdóttir. Kvaðir eru skipsáróður. Engjar mjög litlar eður öngvar að kalla. Kvikfjenaður er 1 kýr, 2 ær. Þar kann að fæðast 1 kýr, 3 lömb. Heimilismenn 4. Hrísrif til eldiviðar, sem þessi nýlenda á ekkert, leyfir eigandinn á sinni jörð. Item (einnig) leyfir hún selveiði fyrir Bæjarlandi, með því móti, að ábúandinn í Bjarngötudal eigi sjálfur nótina, og hafi hálfa veiðina og hún hálfa. En ef hún á nótina, þá hefur veiðandinn þriðjúng, en hún tvo hluti. Brynningar um vetur mjög erfiðar fyrir fannalögum og svellagángi”.
Barðstrendingabók PJ Skammt fyrir neðan Bjarngötudal eru tvö forn eyðibýli; Kvernargrund fyrir innan ána, og Dalshús fyrir utan hana. Talið er að Grænahjalli hafi líka verið býli fyrir utan Móberg. Allt hafa þetta verið örreytiskot eða húsmannabýli”.
Örnefnaskrá Kirkjuhvamms (Ívar Ívarsson) “Við austurenda Hraunsins eru Dalstóftir. Þar var gamalt býli sem hét Dalshús. Er talið sama og Bjarngötudalur… Sagt er að veiðistöð hafi verið við Bjarnanes og mikið er af báthrófum utan við nesið”.
1703
Jón Ólafsson. Bóndi í Bjarngötudal 1703. F. um 1664.
K. Valgerður, f. um 1658 Erlendsdóttir. Börn þeirra eru:
a) Katrín 12 ára.
b) Ólafur 6 ára. Bóndi í Kirkjuhvammi 1735.
Annað heimilisfólk ekki.
Nafnið Vísar vafalaust til Saurbæjarkirkju.
Jarðabókin 1703 „Jarðardýrleiki 20 hdr. Tíundast 4 tíundum. Eigandi kirkjan að Saurbæ á Rauðasandi… Landskyld af allri jörðinni 1 hdr… Leigukúgildi með allri jörðinni 6, þrjú hjá hvörjum (þ.e. búanda, en þeir voru tveir). Item að auki byggingarhestur frá landsdrottni með kúgildisleigi hjá hvörjum þeirra. Kúgildafjöldi hefur so verið langvarandi. En hestarnir eru síðar innkomnir fyrir bón leiguliða… Kúgildin uppyngir landsdrottinn, og tekur heim eða gefur uppbót. Kvaðir eru skipsáróður af hvörjum ábúendanna. Item hestlán, en þó kemur þar í móti góðvilji. Töðuvöllur mjög lítill, so ei fellur alls af hreinatöðu meir en fjórir hestar á hvörjum helmingi jarðarinnar. Engi lítið og lakligt… Til eldiviðar brúkast svörður og tað. Heimræði aldrei nema um stórstraum á sumrum.“
Barðstrendingabók PJ Kirkjuhvammur er smájörð og stendur bærinn á dálitlum bakka fast við Vaðalinn. Tún er lítið og votlent og landrými lítið, eins og á flestum bæjum á Sandinum, því að hver bærinn er að kalla má við annan”.
1703
Tómas Jónsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1703. F. um 1670.
K. Kristín, f. um 1672 Jónsdóttir. Þau eiga son:
Helgi 1 árs. Þetta er líklega sá Helgi Tómasson, sem bjó á Brekkuvelli á Barðaströnd á dögum Ólafs sýslumanns Árnasonar og átti í erjum við hann. Haldinn fjölkunnugur, segir Gísli Konráðsson, líklega af því að hann hefur staðið upp í hárinu á sýslumanni og ekki borið lægri hlut. Dóttir þess helga var Guðrún sinni kona Þorgríms Jónssonar á Lambavatni 1780.
Móðir Kristínar var Guðrún Skaftadóttir, 66 ára gömul í Kirkjuhvammi 1703.
1703
Þorsteinn Bjarnason. Bóndi í Kirkjuhvammi 1703. F. um 1951.
K. Guðlaug, f. um 1667 Ólafasdóttir (f. um 1633, í Kirkjuhvammi 1703) Jónssonar. Barn þeirra er:
Bjarni 5 ára.
1735
Torfi Borgarsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1735. Hann var í Vatnsdal 1703, 17 ára, d. 31. maí 1758, giftur maður, gamall. Hann hefur líklega verið sonur Borgars Torfasonar, sem er vm. í Breiðavík 1703, 61 árs, en foreldrar hans hafa verið Torfi Andrésson (afkomandi Guðrúnar yngri Björnsdóttur Guðnasonar) og Sesselja Borgarsdóttir bónda í Breiðavík Gunnarssonar, Borgarssonar (sjá ættartölum Espólíns bls. 2230og síðar).
1735
Ólafur Jónsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1735. Þetta gæti verið Ólafur, sem er 6 ára 1703, sonur Jóns Ólafssonar bónda í Bjarngötudal.
um 1760
Jón Helgi í Kirkjuhvammi um 1760.
1762
Ekki eru neinir ábúendur nefndir í Kirkjuhvammi 1762. Líklega hafa bændurnir í Saurbæ, sem þá eru taldir 3, haft afnot af jörðinni með Bæ.
1780
Eiríkur Hallsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1780. F. um 1628, d. 19. maí 1781. Drukknaði með þeim Hnjótsbræðrum.
K. 1771, Gunnhildur, f. um 1725 Ólafsdóttir, á lífi að öllum líkindum 1786, en ekki á manntali 1801. þau virðast hafa verið barnlaus. Eiríkur er á líkum aldri og Gunnar Hallsson í Hænuvík. Mjög líklegt er að þeir hafi verið bræður.
1780
Sigríður Loftsdóttir. Búandi í Kirkjuhvammi 1780, en hefur látið af búskap annaðhvot það ár eða 1781. F. um 1735, ekki á manntali 1801. Hún var ekkja:
M. 1766, Einar, f. um 1734, d. 5. okt. 1774 (drukknaði með Ásbirni Jónssyni við Rauðasand) Ketilsson, sem ætla má að hafi verið bóndi í Kirkjuhvammi, er hann lézt og ekkjan haldi jörðinni áfram. Hún hefur vafalaust aðeins haft lítinn skika af jörðinni, því hú er ein með dóttur sína Helgu 7 ára. Börn þeirra:
Ingiríður, f. um 1767?, fermd 1781 14 ára.
Guðríður, f. 1768, d. á 1. ári.
Gísli, f. 1772, d. á 2. ári 1773.
Helga, f. 9. des. 1773, ekki á manntali 1801 eða síðar.
Einar hefði getað verið bróðir Guðrúnar Ketilsdóttur fyrri konu Ólafs Jónssonar á Látrum.
1780
Ingibjörg Sigmundsdóttir. Búandi í Kirkjuhvammi 1780. Hún er 44 ára gömul og ein í heimili. Ekki er sjáanlegt, að hún hafi verið gift.
1782
Ólafur Sigurðsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1782. Hann hefur komið þangað annaðhvort 1780 eða 81, en fer að Saurbæ 1783. Bóndi á Lambavatni 1801, sjá þar.
1782
Tómas Ólafsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1782. Hann hefur líklega komið að Kirkjuhvammi 1781, en hefur a.m.k. ekki verið þar lengur en til 1784. Þá er hann kominn á Barðaströnd. F. um 173?. Foreldrar: Ólafur Bjarnason og Steinunn Gunnarsdóttir bónda á Haugi á Hjarðarnesi 1703, Jónssonar. Tómas var albróðir Eggerts í Hergilsey.
K. Halldóra, f. um 1728, d. 2. sept. 1784 á Barðaströnd Þórðardóttir. Börn:
María, f. um 1769, d. í Skáleyjum 1. apríl 1861, átti Guðbrand, f. um 1777, d. í Látrum. febr. 1835 Jónsson, Einarssonar, og Valgerðar Bjarnadóttur, Narfasonar.
Guðrún.
1801-1808
Þorbergur Illugason. Bóndi í Kirkjuhvammi 1801 og 1808. Talið er að Þorbergur hafi komið í Rauðasandshrepp úr Flatey. Hann hefur verið kominn að Kirkjuhvammi a.m.k. um 1794, því þar er talin fædd dóttir hans, sem er 7 ára 1801. Líklegt er að Þorbergur hafi búið í Kirkjuhvammi til dauðadags. F. um 1748, d. milli 1808 og 1817, a.m.k. er hann ekki á manntali í Rauðasandshreppi 1817. Foreldrar: Illugi smiður og bóndi að Laugum í Hvammssveit Þorbergsson prests í Bitruþingum Illugasonar og k.h. Þorbjörg Magnúsdóttir (bónda í Snóksdal) Jónssonar.
K. Guðrún, f. um 1765, ekkja í Saurbæ 1817 Höskuldsdóttir Loftssonar, systir Hákonar bónda á Sjöundá og Gunnars bónda í Bröttuhlíð. Börn:
Guðrún, f. 1794 í Kirkjuhvammi, í Krókshúsum 1817.
Halldór, f. um 1795, vantar 1808 og 1817.
Snjólfur, f. 1797, vantar 1808 og 1817.
Margrét, f. 1800, á Sjöundá 1817.
1817
Sigurður Pétursson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1817. Bóndi í Raknadal 1808, líklega komið að Kirkjuhvammi um 1810 og býr þar til 1818. F. í Dalshúsum 4. apríl 1765, d. í Flatey (Fluttist þangað frá Skápadal 1836). Foreldrar: Pétur bóndi í Dalshúsum 1780 Jónsson og k.h. Guðrún Sigurðardóttir.
K. Kristín, f. í Saurbæjarsókn 25. des. 1777, d. í Flatey 5. jan. 1856 Þórólfsdóttir (Tálknfirðings) Jónssonar og Ingibjargar Gísladóttur (síðar konu Ólafs Sigurðssonar á Lambavatni). Börn þeirra:
Davíð, f. í Raknadal 25. des. 1807, drukknaði frá Flatey 26. apríl 1847.
Pétur smiður og vefari, f. í Raknadal 18. nóv. 1808, drukknaði við Flatey 1856.
1818-1827
Guðmundur Einarsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1818-1827. Bóndi í Gröf 1808 (ókv. þá), á Lambavatni hefur hann verið um 1812, en er kominn að Litla Króki 1814 og býr þar 1817, bóndi í Raknadal 1828 (e.t.v. 1827) -1840. F. að Saurum í Vindhælishreppi um 1767. Óvíst um foreldra Guðmundar.
K. (líkl. 1809), Kristín, f. í Rauðsdal 1788 Bjarnadóttir bónda í Rauðsdal 1788 Helgasonar og Elínar Eiríksdóttur. Börn þeirra:
Helgi, f. í Gröf 1809, Litla Króki 1817.
Hrólfur, f. á Lambavatni, f. 1812, Litla Króki 1817.
Guðrún, f. í Litla Króki 1814, s.st. 1817.
Þórunn, f. 1816 í Litla Króki.
andvana sveinbarn, f. í Kirkjuhvammi 30. maí 1818.
Soffía, f. 23. júlí 1820.
Elín, f. 27. apríl 1822, í Dufansdal 1850.
Ingibjörg, f. 18. júlí 1823, kona Þorsteins Þorsteinssonar bónda á Hlaðseyri 1845.
Guðrún, f. 22. apríl 1825.
Guðmundur, f. 13. júlí 1826.
1828-1830
Bjarni Sigurðsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1828ö1830. Fluttist þá að Skógi, sjá þar.
1830-1834
Einar Guðmundsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1830-1834. F. um 1802, drukknaði með Gísla Ísleifssyni 26. maí 1837. Foreldrar: Guðmundur bóndi á Deildará Magnússon „votalærs“ á Laugabóli í Ísafirði og Helgu Einarsdóttur Bjarnasonar „kórgikks“ bónda á Skjaldvararfossi Guðmundssonar.
Einar var ekki hjónabandsbarn. Magnús bjó fyrst í Gjörfidal í Nauteyrarhreppi og missti þar fyrri konu sína, Karitas. Síðar átti hann Kristínu Guðbrandsdóttur. Sonarsonur Guðmundar og Karitasar var Jón Jóhannesson í Sauðeyjum, er drukknaði 1861.
K. 29. sept. 1830, Guðrún Sigmundsdóttir bónda á Stökkum, Jónssonar og seinni k.h. Bjargar Helgadóttur frá Gröf. Börn:
Einar, f. í Króki 11. febr. 1829.
Kristín, f. í Kirkjuhvammi 9. ágúst 1831, átti Ásgeir Eiríksson á Selskerjum, Ásgeirssonar.
Guðrún átti síðar Jón Bjarnason bónda í Krókshúsum.
1834-1837
Gísli Ísleifsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1834-1837. Fluttist þá að Tungu í Örlygshöfn en drukknaði um vorið 26. maí í róðri frá Brunnum. F. á Geirseyri 1806. Foreldrar: Ísleifur Jónsson og Halldóra Þorláksdóttir. Albróðir Jóns Ísleifssonar í Saurbæ. Halldóra var áður gift Gísla Bjarnasyni bónda í Skápadal og var dóttir þeirra Ingibjörg kona Bjarna Sigurðssonar bónda í Raknadal.
K. 6. sept. 1832, Ingibjörg Runólfsdóttir seinast prests á Brjánslæk. Ingibjörg var alsystir Helgu konu Brynjólfs Eggertssonar á Sjöundá. Hún átti síðar Guðmund Guðmundsson seinast bónda á Vattarnesi. Þau bjuggu fyrst í Tungu og þar hafði Ingibjörg búið eftir að hún varð ekkja, sjá þar. Börn þeirra Gísla og Ingibjargar voru:
Kristín f. í Kirkjuhvammi 1833.
Gísli, f. í Kirkjuhvammi 1835.
1837-1838
Hjálmar Sigmundsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1837-1838. Áður bóndi á Sjöundá, síðar á Hnjóti og Skógi, sjá þar.
1839-1844
Þórður Jónsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1839-1844. Síðar bóndi í Gröf, á Sjöundá (sjá þar) og Lambavatni.
1844-1850
Gísli Magnússon. Bóndi í Kirkjuhvammi 1844-1850. F. á Hvalskeri 5. maí 1811. Foreldrar Magnús Halldórsson seinast bóndi á Mábergi og k.h. Kristín Jónsdóttir.
K. Guðbjörg Þormarsdóttir Magnússonar og Kristínar Jónsdóttur. F. 15. júli 1800. (?) í Feigsdal Sonur þeirra:
Magnús, f. 20. nóv, 1838.
1847-1849
Einar Þorvaldsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1847-1849, áður bóndi á Lambavatni, sjá þar.
1849-1851
Ólafur Magnússon. Bóndi í Kirkjuhvammi 1849-1851, síðar bóndi á Sjöundá, sjá þar. Bjó á hálfri jörðinni, en hinn helminginn hafði Jón Ísleifsson í Saurbæ.
1850-1851
Jón Ísleifsson bóndi í Saurbæ. Hann er skrifaður fyrir hálfum Kirkjuhvammi árin 1850-1851 og 1852-1853 og sama hefur líklega verið 1851-1852, en þá er enginn ábúandi tilgreindur.
1852-1853
Guðrún Gísladóttir ekkja Eggerts Eggertssonar í Bæ er talin hafa hálfan Kirkjuhvamm 1852-1853 og líklega hefur hún haft það sama 1851-1852.
1853-1854
Brynjólfur Eggertsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1853-1854. Áður bóndi á Sjöundá, sjá þar.
1854-1863
Bjarni Ólafsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1854-1863. Áður bóndi á Lambavatni, sjá þar. Bjarni bjó á 13 hdr. en hinn hlutann hafði Ari Finnsson í Bæ.
1854-1863
Ari Finnsson bóndi í Saurbæ nytjaði með Saurbæ 7 hdr. í Kirkjuhvammi árin 1854-1863.
1863-1889
Runólfur Brynjólfsson. Bóndi í Kirkjuhvammi 1863-1889. F. í Saurbæ 27. sept. 1836, d. á Geirseyri 22. des. 1911. Foreldrar: Brynjólfur Eggertsson bóndi á Melanesi og k.h. Helga Runólfsdóttir seinast prests á Brjánslæk, Erlendssonar.
K. 4. okt. 1861, Guðrún Gunnlaugsdóttir bónda í Bröttuhlíð Þorleifssonar. Börn þeirra:
Jón bóndi í Skógi, f. í Saurbæ 24. ágúst 1858.
Helga, f. í Saurbæ 5. febr. 1862, d. í Króki 4. júlí 1862.
Brynjólfur, f. í Saurbæ 9. febr. 1863, d. á Patreksfirði 18. sept. 1854, verkamaur á Patreksfirði kvæntur Sigurlaugu Gunnlaugsdóttur, systur Guðrúnar konu Runólfs.
Ingibjörg, f. í Kirkjuhvammi 14. febr. 1865, d. á Patreksfirði 28. ágúst 1944, átti Gest Jósepsson, sem fæddur var á Hamri í Múlasveit 19. ágúst 1866, d. 29. ágúst 1946. Sonur þeirra var Helgi bóndi í Kollsvík, síðar húsasmíðameistari á Patreksfirði og Guðmundur kvæntur Jóhönnu Björnsdóttur, búsett á Patreksfirði.
andvana meybarn, f. 25. sept. 1879.
andvana sveinbarn, f. 8. jan. 1881
1889-1930
Ívar Magnússon. Bóndi í Kirkjuhvammi 1889-1930. Áður bóndi í Krókshúsum (1876-1879) og á Skógi (1879-1889). F. á Hvalskeri 21. ágúst 1844, d. í Kirkjuhvammi 18. jan. 1930. Foreldrar: Magnús Einarsson bóndi á Hvalskeri og k.h. Guðríður Bjarnadóttir frá Hnjóti.
K. 5. sept. 1874, Rósa Benjamínsdóttir bónda í Bröttuhlíð Magnússonar og k.h. Ingibjargar Bjarnadóttur frá Hænuvík. Börn þeirra:
Halldór, f. í Króki 23. sept. 1873, d. 23. maí 1894, féll úr reiða á fiskiskipi á Þingeyrarhöfn.
Magnfríður, f. í Króki 25. nóv. 1875, kona Halldórs Bjarnasonar á Mábergi.
Árni, f. í Krókshúsum, f. 26. júlí 1878, d. á Skógi 15. jan. 1880.
Kristján, f. á Skógi 10. ágúst 1879, d. 16. sama mán.
Bergsveinn, f. á skógi 10. ágúst 1879, dó samdægurs.
Rósinkrans Árni, f. á Skógi (20.09.1880-26.09.1965) ókv. og bl. Sjómaður og fræðimaður.
Kristín Haflína, f. á Skógi 14.04.1886, d. í sjúkrahúsi á Patreksfirði 26. sept. 1951, óg. og bl.
Ívar, f. í Kirkjuhvammi (25.09.1889-10.09.1974), bóndi í Kirkjuhvammi, sjá næst.
Bergþór, f. í Kirkjuhvammi (10.10.1890-24.03.1969). K Þórdís Guðmundsdóttir. Búsett í Reykjavík bl.
Halldóra Jóna, f. í Kirkjuhvammi (18.01.1895-25.05.1976), alla ævi búsett í Kirkjuhvammi, óg og bl.
1930-1975
Ívar Ívarsson, Kristín Ívarsdóttir og Jóna Ívarsdóttir. Foreldrar þeirra voru Ívar Magnússon bóndi í Kirkjuhvammi og k.h. Rósa Benjamínsdóttir. Ívar Ívarsson (25.09.1889-10.09.1974) var bóndi í Kirkjuhvammi og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Rauðasands frá 1943 til dauðadags; ókv. og bl. Gegndi auk þess fjölmörgum trúnaðarstörfum; var t.d. hreppsnefndarmaður lengi; umboðsmaður Brunabótafélags Íslands o.fl. Einnig var Ívar mikil driffjöður í félagsmálum á Rauðasandi; sá t.d. lengi um Lestrarfélag Rauðsendinga; var meðhjálpari við Saurbæjarkirkju og tók öflugan þátt í starfi ungmennafélagsins Vonar. Kristín Ívarsdóttir (14.05.1886-26.09.1951). Jóna Ívarsdóttir (18.01.1895-25.05.1976). Öll voru þau systkin margfróð, minnug og vel lesin. Bróðir þeirra var Rósinkrans Ívarsson, fæddur 1880. Hann fór snemma að heiman og var lengi skútusjómaður; í stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur og meðal stofnenda Alþýðusambands Íslands. Róttækur sósíalisti og einn stofnenda Kommúnistaflokksins 1930, en stundaði fræðagrúsk á efri árum. Um hann kvað Jón Rafnsson Rósarímur. Þau systkini voru barnlaus en að Kirkjuhvammi ólust upp hjá þeim tvö fósturbörn:
Magnús Jónsson bóndi á Skógi (sjá þar).
Halldór Kristinn Halldórsson bóndi á Mábergi (sjá þar)
Ennfremur dvaldi hjá þeim lengst af ævi sinni sem vinnumaður; Andrés Helgason f. 1904 d. líkl fyrir 1980
Búskapur lagðist af í Kirkjuhvammi 1975, og keypti Júlíus Reynir á Mábergi jörðina. Eftir að hann brá búi keypti jörðina Kjartan Gunnarsson framkv.stjóri og eigandi Saurbæjar. Hann kom þar á fót kaffihúsi fyrir ferðamenn sem rekið er yfir sumarið, og reisti bústað fyrir starfsmann í landi Kirkjuhvamms.
Nafnið Saurbæir eru til fleiri á landinu. Líkleg er sú skýring sem t.d. er svo orðuð á vísindavef HÍ af Svavari Sigmundssyni á Örnefnastofnun (bróður Ragnheiðar sem bjó í Saurbæ um 1980): “Um orðið saur í til dæmis Saurbæ og Saurum er það að segja, að talið hefur verið að það gæti merkt „bleytu, vætu“. Það er skylt lýsingarorðinu súr. Í norskum mállýskum er lýsingarorðið sur haft um „blautan jarðveg“. Saurar geta því merkt „votlendi“, samanber seyra „kelda, dý, lækjarsytra“. Sé þessi kenning rétt þarf ekki langt að leita nafngjafans, sem eru leirur á útfiri í Vaðlinum framundan bænum.
Bæjarheitið hefur gjarnan verið stytt í Bær.
Saurbær var eitt helsta höfuðból sunnanverðra Vestfjarða um aldir. Hefur það höfðingjaveldi líklega upp hafist þegar eftir kristnitöku. Þar hafa löngum setið ættstórir og valdamiklir höfðingjar sem á tímum hafa átt meirihluta jarðeigna í Rauðsasandshreppi og víðar, og haft mikil umsvif. T.d. stunduðu Saurbæjarhöfðingjar allmikla útgerð í Útvíkum og í Keflavík. Ekki er ólíklegt að bústaður landnámsmanns Rauðasands hafi staðið að Saurbæ; hvort sem hann hét Ármóður rauði eða annað.
Jarðabókin 1703 „Þar er kirkja, til hverrar Sækja Rauðsendingar, og allt að Kollsvík inclusive (Streumnes skilur sóknirnar). Jarðardýrleiki er, með hjáleigunum 50 hdr. Kirkjan á ekkert í heimalandi. Eigandi er Guðrún Eggertsdóttir. Ábúandi sama. Landsskuldarhæð eður kvígildafjölda er hér ei að skrifa, því eignarmenn hafa þar setið eður bú haft nærri i 150 ár. Á jörðinni er nú lifandi kýr 19, 9 kvígur, geldneyti 5, ær 63, geldir sauðir 8, gemlingar 12, hestar 10, hross 7. Þar voru í haust eð var (1703) undir 30 faðma heys fornt. Þar fóðrast kýr 12, ásauður 30, lömb 10, hestar 10, ungneyti 8. Heimilismenn eru, gamlir og ungir, 25.
Hlunnindi jarðar eru: Hrísrif til eldiviðar nokkuð. Silungsveiði nokkur, hefur fyrrum meiri verið. Grastekja nokkur á fjöllum. Selveiði að gagni. Reki góður. Sölvafjara undir Naustabrekku. Heimræði á sumrum, þá fiskur er fyrir og vegna brims gefur. Hjáleigur vide alibi.
Stórveður granda þar oft húsum og heyjum. Stórflæðar ganga á engjar og taka hey burt ósjaldan. Skriður falla úr fjallinu á landið (tún og engjar eru mest frí). Sand ber sjórinn á stundum upp á engjarnar. Kirkjan á bjarg fyrir innan Látrabjarg. Þar í fuglaveiði með mannhættu, og hvanntekja í meira lagi“.
Barðstrendingabók PJ Saurbær (Bær á Rauðasandi) hefir jafnan verið talinn ágætt höfuðból. Hafa þar setið auðugir höfðingjar. Þar bjó guðmundur Arason ríki; Eggert Hannesson hirðstjóri; Magnús prúði; Eggert Björnsson og fleiri. Á seinni árum bjuggu þar Ari Finnsson og Ólafur Thorlacius, hinir mætustu menn.
Tún er allstórt í Bæ og grasgefið, en út frá túni eru áveitur og flæðiengjar miklar og véltækar og hey nautgæft af þeim. Má heyja 1200-1300 hesta í Bæ. Garðrækt er þar mikil, eins og víðast á Rauðasandi og gæti þó verið enn meiri… Í túnjaðri Saurbæjar eru eyðihjáleigurnar Brattahlíð og Tóftavöllur. Hin fyrrnefnda fór í eyði um síðustu aldamót (1900), en hin um aldamótin 1800. Hurðarbak og Traðir eru líka fornar hjáleigur í túninu”.
Ránið í Saurbæ 1579 Árið 1579 var framið sögufrægt rán í Saurbæ, þegar vopnaðir sjóræningjar brutust þar inn í hús; rændu öllu fémætu og höfðu á brott með sér Eggert Hannesson hirðstjóra; einn valdamesta mann landsins á þeim tíma.
Tildrögin voru þau að Eggert hafði lent upp á kant við fálkafangarann Jón fálka nokkru áður. Að undirlagi Jóns gerði sjóræningi nokkur, William Smidt, aðför að Eggert ásamt mönnum sínum. Skip þeirra lagðist við akkeri á Hænuvík og neyddu þeir bóndann þar til að vísa sér leið yfir fjallið til Saurbæjar; sextíu mönnum. Þar brutu þeir upp bæ og kirkju; nauðguðu konum og rændu öllu fémætu sem þeir fundu. Eggert sjálfur var flettur klæðum; settur nakinn upp á hest og fluttur um hálsa og heiðar til skips í Hænuvík. Sigldu ræningjarnir síðan til Vatneyrar. Þar var Eggert neyddur til að skrifa undir beiðni um lausnargjald. Sigldu þeir norður með Vestfjörðum, rænandi og ruplandi. Ragnheiður dóttir Eggerts og Magnús prúði maður hennar bjuggu þá í Ögri. Þeim tókst að skrapa saman allmiklu lausnargjaldi, og að lokum fór svo að Eggert var sleppt eftir mánaðar fangavist. Sigldu ræningjarnir á brott með óheyrileg verðmæti og rændu í leiðinni tvö skip. Þrátt fyrir hótanir og bönn ræningjanna fór Eggert með mál sitt fyrir kóng; fór eftir þeim til Hollands og linnti ekki látum fyrr en þeir höfðu allir verið hengdir. Hann undi þó ekki í Saurbæ eftir þetta. Hann átti miklar eignir í Hamborg og þangað fór hann alfarinn árið 1580. Magnús prúði Jónsson, tengdasonur Eggerts, tók við umsýslu í Saurbæ og sýsluvöldum. Í kjölfar þessa ráns kvað hann upp vopnadóminn í Tungu árið 1581; eina merkustu herkvaðningu í Íslandssögunni (sjá Tunga).
Árið 1703 voru taldar þessar hjáleigur í Bæjar landi: Traðir, Tóptavöllur, Stekkadalur, Hlíðarhvammur (Hlíðarhvammshólar). Auk þess voru Skógur og Bjarngötudalur byggð í Bæjar landi.
- öld.
Markús Gíslason. Bóndi í Saurbæ á seinni hluta 12. Aldar; þingmaður Jóns Loftssonar í Odda á Rangárvöllum. Veginn 3. nóv. 1196 af Inga Magnússyni á Hvalskeri (sjá þar). Foreldrar: Gísli Þórðarson og k.h. Guðríður Steingrímsdóttir. Faðir Gísla var Þórður Úlfsson. Þórður er sagður kominn úr Austfjörðum, en ekki er nein vissa fyrir því, að þeir feðgar hafi búið í Saurbæ. Ætt þeirra er rakin til Miðfjarðar-Skeggja, en faðir hans var Skinna-Björn, farmaður mikill, sem nam Miðfjörð og Línakradal. Faðir Björns var Skútaðar-Skeggi, ágætur maður í Noregi. Líklega hefur Markús ekki kvænzt fyr en um 1180, því að synir hans voru ungir, er hann lést og tók ekki við búi fyrr en nokkrum árum síðar. Er því sanni næst, að Markús hafi eigi verið fæddur öllu fyrr en um 1150. Móðir Þórðar Úlfssonar var Helga Eyjólfsdóttir Snorrasonar goða á Helgafelli, Þorgrímssonar. Í Sturlungu segir að Markús hafi flutt sig frá Söndum að Saurbæ og verður það að skiljast þannig, að hann hafi búið eitthvað á Söndum.
K. Ingibjörg Oddsdóttir á Söndum í Dýrafirði Álasonar, en móðir hennar og kona Odds var Steinunn Hrafnsdóttir á Hrafnseyri Sveinbjarnarsonar. Börn þeirra:
Gísli Bóndi í Saurbæ.
Magnús, sem fór til Grænlands.
Hallbera, er átti Víga-Hauk son Orms Fornasonar. Hann var í vist hjá Lofti Markússyni (sjá síðar) og fór með honum að Mýrum, en síðan fóru þau hjón til Noregs og svo til Grænlands.
Sonur Markúsar laungetinn var:
Loftur. Móðir hans hét Ragnheiður Bjarnadóttir
Ingibjörg kona Markúsar var látin nokkrum árum a.m.k. áður en Markús var veginn. Eftir það fór hann af landi brott og suður til Rómar, keypti kirkjuvið í Noregi. Reisti hann mikla kirkju í Saurbæ, er heim kom. Markús var eigi goðorðsmaður, en naut mikillar virðingar og var „ríkur í héraði sínu“.
1196-1202
Loftur Markússon. Bóndi í Saurbæ 1196-1202. Þá tók við Saurbæ Gísli bróðir Lofts. Loftur fór þá norður á Mýrar í Dýrafirði, keypti þá jörð og mun hafa átt hana fáein ár, en varð að flýja þaðan vegna óeirað, átti þá í deilum við Þorvald Vatnsfirðing. Þá keypti hann Stakka á Rauðasandi og bjó þar nokkur ár að líkindum. Loftur stóð fyrir því að vega mann, er Guðmundur hét, þar á Rauðasandi, og var það ekki alveg að ósekju, en gerður var hann þó brott af Vestfjörðum og fór suður á land til tengdaföður síns Eyjólfs í Eystra-Skarði Þorsteinssonar. Þar var hann lengi „undir traust Oddverja“.
K. Álfdís Eyjólfsdóttir. Eigi er getið barna þeirra, nema:
Snorri, sem Sturla Sighvatsson lét taka af lífi (Safn I 118).
1202-1258
Gísli Markússon. Bóndi í Saurbæ 1202-1258. Hann er talinn barn að aldri, þegar faðir hans er veginn, en 1202 tók hann við búinu af Lofti hálfbróður sínum, sem ekki var skilgetinn. Þá hefur Gísli sennilega verið kominn um tvítugt og hefði því átt að vera fæddur upp úr 1180, d. 15. júní 1258. Foreldrar: Fyrrnefndur Markús Gíslason og k.h. Ingibjörg Oddsdóttir. Sumarið 1239 gerði Snorri Sturluson Gísla á Rauðasandi sekan skógarmann, þar eð Gísli og hans sveitungar neituðu einir manna að sættast á gerð Snorra í málum þeirra er fylgt höfðu Sturlu í Bæjarbardaga tveimur árum fyrr. Gísli fór þó síðar í misheppnaðan leiðangur suður í Skálholt með Órækju Snorrasyni, í þeim tilgangi að taka gissur Þorvaldsson af lífi. Eftir að Gissur var orðinn nánast einvaldur í landinu neitaði Gísli, einn allra höfðingja, að sverja honum hollustueið; þá aldraður orðinn.
K. Þórdís Gellisdóttir Þorsteinssonar, d. 1190, Gyðusonar úr Flatey en kona Gellis var Vigdís Sturludóttir í Hvammi, Þórðarsonar. Meðal sona þerra voru:
Loftur bóndi í Saurbæ.
Árið 1258 er getið sona Gísla er þá fóru utan:
Magnús.
Einar
Talið er að Gísli hafi átt marga launsyni. Hann var harðfengur og mikill fylgismaður Sturlunga. Er hans getið við marga stóra atburði. „Þorðu engir á hann að leita, enda var hann svo í sveit settur, að hann varð trauðlega sóktur“ (Sturlunga). Meðal launsona Gísla var:
Teitur (í Skálholtsbardaga).
Árið 1244, er Þórður Kakali kom til Vestfjarða, er sagt að synir Gísla hinir skilgetnu, hafi verið lítt á legg komnir, en laungetna syni hafi hann átt marga, er þá voru fullorðnir. Eftir því að dæma, hefur Gísli ekki kvænzt fyrr en hann var roðinn roskinn maður. Loftur Gíslason, sjá hér á eftir.
1258-1302
Loftur Gíslason. Bóndi í Saurbæ líklega frá því faðir hans dó og til æviloka (1258-1302). Hann hefur vafalaust verið einn af hinum skilgetnu sonum Gísla Markússonar og Þórdísar Gellisdóttur. Talið er að Lofts sé fyrst getið 1263 (í liðveizlu við Hrafn Oddsson). Hann dó 7. okt. 1302 og hefur þá að öllum líkindum verið milli sextugs og sjötugs.
Filippus Loftsson. Bóndi í Saurbæ (og Haga ?). Hann kom út á Gullskónum 1300. D. 1326. Faðir hans var fyrrnefndur Loftur Gíslason. Filippus hefur líklega tekið við búið í Saurbæ eftir föður sinn.
Loftur Filippusson. Bóndi í Saurbæ. D. 1377. Faðir hans var Filippus Loftsson fyrrnefndur bóndi í Saurbæ. Synir Lofts:
Ketill
Þorlákur.
Svartur
Guðmundur.
Þeir drukknuðu allir 1377. E.t.v. hefur Loftur orðið bóndi í Saurbæ, þegar faðir hans dó, en ekki er hægt að segja um það með vissu. Bróðir Lofts var Gísli í Haga sem gifti 1330 Katrínu systur sína. Hún drukknaði ásamt Þórði syni sínum og þremur öðrum 1363. Bróðir Gísla var einnig Jón d. 5. mars 1327.
1377-um 1397
Filippus Loftsson. Bóndi í Saurbæ, sonur fyrrnefnds Lofts Filippussonar. Hann var lifandi fram yfir 1397, og hefur getað búið í Saurbæ um 1377-um 1397.
1397 1410
Svartur Filippusson, sonur fyrrnefnds Filippusar Loftssonar. Hann hefur búið í Saurbæ um 1400 (e.t.v. 1397-1410).
um 1400
Þórður Svartsson. Hann er talinn hafa búið í Saurbæ á tímabilinu 1397-1410, en ekki sagt nákvæmlega um ártal. Kemur við bréf 1411. Hann var sonur Svarts Loftssonar sem drukknaði 1377.
um 1411-um 1419
Þorsteinn Sigurðsson. Hann hefur verið bóndi í Saurbæ um 1411- líklega 1719.
K. Helga Þórðardóttir Svartssonar, sjá hér að framan.
Þau seldu Saurbæ 11. júlí 1418 Þorleifi Árnasyni í Vatnsfirði og var tilskilið, að þau mættu búa í Bæ 1 eða 2 ár, ef þau vildu. Jörðin skyldi vera eign Þorleifs frá næstu fardögum. Þorsteinn kemur við bréf 1423, einnig 1423, og segir þar að Þorleifur Árnason hafi goldið þeim Þorsteini og Helgu jörðina Laugardal fyrir 36 hdr. upp í verð fyrir Bæ á Rauasandi. Ekkert mun kunnugt um börn Þorsteins og Helgu. Sinni maður hennar var Eyjólfur mókollur Magnússon. Sonur Eyjólfs (en ekki Helgu) var Sigmundu, faðir Páls, fóður Jóns (bróðir Jóns var Sigmundur faðir Páls bónda á Geirseyri 1570), föður Vigfúsar sýslumanns á Kalastöðum (Blanda VII 197).
1419-1423
Þorleifur Árnason bóndi í Vatnsfirði. Hann eignaðist eins og áður segir Bæ á Rauðasandi 1419 og hefur líklega haft þar bú fáein ár, eða þar til tengdasonur hans Guðmundur Arason fékk jörðina 1423, er hann kvæntist í Vatnsfirði Helgu Þorleifsdóttur.
1423-1446
Guðmundur Arason á Reykhólum. Hann fékk Saurbæ með Helgu, d. 1437, konu sinni, dóttur Þorleifs Árnasonar og k.h. Kristínar, sem jafnan var nefnd Vatnsfjarðar-Kristín, Björnsdóttir Jórsalafara, Einarssonar. Guðmundur var einhver mesti auðmaður, sem sögur fara af hér á landi, en varð að hröklast frá öllu (1446) af landi brott (þá eða litlu síðar).
Um bú hans segir Björn Th. Björnsson í „Brotasilfur“(1955). „Enn vestar er hans fjórða höfuðból. Það er Saurbær á Rauðasandi. Hér eru 45 kýr í fjósi, uxar 41 og kálfar 25, hestar 26, og sauðfé er tali hálft sjötta hundrað. Hér eru og 27 svín á jötu. Saurbær á Rauðasandi hefur verið eftirlætisbú Guðmundar Arasonar, auk Reykhóla. Hér hélt hann margar stórveislur sínar, brúðkaup mágkonu sinnar og hið mikla brúðkaup systurdóttur sinnar, Ingibjargar Halldórsdóttur Jónssonar og Oddfríðar Aradóttur, hinn 27. nóv. 1439. Okkur þarf því ekki að undra þótt hér sé ríkmannlegt innangátta.“ Síðan er sagt frá því, er var innanstokks og var það eigi smáræði (sjá I.F. IV 683-694).
Foreldrar: Ari Guðmundsson á Reykhólum og k,h. (1394) Ólöf Þórðardóttir að Núpi í Dýrafirði, Sigmundssonar. Samkvæmt frá sögn hefur Guðmundur vafalaust haft bú í Saurbæ 1423-1446.
1446-1467
Björn ríki Þorleifsson. Hann hefur vafalaust búið í Saurbæ eftir að Guðmundur Arason varð á brott þaðan. Hann dó 1467, vegin á Rifi undir Jökli, f. um 1408. Foreldrar hans voru Þorleifur Árnason að Auðbrekku og k.h. Kristín Björnsdóttir Jórsalafara, Einarssonar (köllurð Vatnsfjarðar-Kristín).
K. Ólöf ríka Loftsdóttir, Guttormssonar. Börn þeirra:
Þorleifur hirðstjóri.
Solveig bjó að Hóli í Bolungarvík og átti börn með Jóni Þorlákssyni, en giftist síðan Páli Jónssyni að Skarði.
Einar
Árni, sem var hermaður og féll við Brunkaberg 1471.
Launbörn Björns, og e.t.v. fl., voru:
Jón Dan.
Þóra átti Guðna sýslumann Jónssona á Kirkjubóli.
Þuríður átti Narfa Þorvaldsson á Narfeyri (Geirröðareyri)
1467-um 1480
Ólöf ríka Loftsdóttir. Hún hefur haft umráð yfir Saurbæ eftir lát Björns Þoleifssonar. Foreldrar: Loftur ríki á Möðruvöllum í Eyjafirði, Guttormsson og k.h. Ingibjörg Pálsdóttir á Eiðum Þorvarðssonar.
1480-1481
Bjarni Þórarinsson á Brjánslæk. Hann náði Saurbæ á sitt vald 1480 og sat þar 1 ár. Fluttist aftur að Brjánslæk, en átti þá skammt eftir ólifað. Foreldrar: Þórarinn Ásbjarnarson (Bjarnason) og k.h. Guðrún Þorsteinsdóttir að Arnarstapa.
K. Solveig Guðmundsdóttir ríka, Arasonar. Þau bl.
Bróðir Solveigar (laungetinn) var Andrés Guðmundsson að Felli í Kollafirði. Bjarni er talinn hafa fengið eitthvað af eignum Guðmundar Arasonar úr höndum Þorleifs Björnssonar (Brjánslæk ? og tilheyrandi jarðir), en var óánægður og fór utan. Hann kom aftur til landisins 1480 og hafði meðferðis skjal, er tryggði Solveigu mestan hluta af eigum föður hennar. Eftir að Bjarni var kominn að Saurbæ gerði Einar Björnsson ut leiðangur og lenti í skor. Bjarni kom þar að þeim félögum óvörum og slapp Einar nauðlega. En þess hefndi hann með því að koma síðar um nótt að Brjánslæk og lét þá taka Bjarna af lífi (4. des. 1481). Prestsdómur gekk um aftöku Bjarna (24. okt. 1482) og segir að Einar og hans menn hafi Bjarna að ófyrirsynju í hel slegið. Voru þeim gerðar fjársektir og dæmdir til að taka lausn og skriftir af heilagri kirkju.
Einar Björnsson ríka Þorleifssonar og Ólafar ríku Loftsdóttur. Í skrá sem verið hefur í höndum eigenda Saurbæjar, er talið að Einar hafi verið búandi um tíma í Saurbæ, en annars er hann jafnan talinn hafa búið á Skarði á Skarðsströnd (fyrst á Auðkúlu). Víst er um það, að Einar hefur um tíma ráðið yfir Saurbæ (eftir 1482). Hann var ókv. og bl. D. 1494, erlendis að talið er. Árið 1491 beiddist Alþingi þess, að hann yrði gerður hirðstjóri á íslandi, en ekki hefur það orðið.
Björn Þorleifsson á Reykhólum. Virðist vera á lífi 1554. Foreldrar: Þorleifur Björnsson hirðstjóri, bóndi á Reykhólum og k.h. Ingveldur Helgadóttir lögmanns á Ökrum, Guðnasonar.
K. Ingibjörg Pálsdóttir, Jónssonar. Börn þeirra:
Séra Þorleifur í Gufudal.
Jón í Flatey.
Margrét átti Jón Einarsson á Melgraseyri.
Ólöf átti Bjarna Guðmundsson á Dunki (af þeim komnir Sellátrabræður).
Andrés.
Eftir að Einar Björnsson lézt eða fyrr, hefur Björn ráðið yfir Saurbæ og vafalaust haft þar bú. Sjálfur bjó hann á Reykhólum. Árið 1498 lauk loks, í bili, deilum þeim, sem staðið höfðu um Saurbæ og aðrar eignir Guðmundar ríka Arasonar, með því að Björn á Reykhólum afhenti Andrési Guðmundssyni á Felli og sonum hans Guðmundi og Ara, þrjú af höfuðbólum Guðmundar ríka: Bæ, Núp og Kaldrananes.
Sögur eru um það, að deila hafi risið milli þeirra bræðranna, Ara og Guðmundar, um Saurbæ, en Ari hafði fengið hann með vissum skilmálum.
um 1500 ?
Andrés Guðmundsson. Bóndi í Saurbæ fyrir og eftir 1500, enn á lífi 1507. Hann bjó áður lengst á Felli í Kollafirði.
K. 1462, Þorbjörg Ólafsdóttir tóna yngri, Geirmundssonar. Börn þeirra:
Guðmundur á Felli.
Ari í Bæ á Rauðasandi.
Bjarni að Brjánslæk.
Sigríður, átti Helga Gíslason, Filippussinar.
Ólöf, átti launbarn með síra Halli skáldi Ögmundssyni.
Andrés varð auðmaður. Átti í deilum Þoleif hirðstjóra Björnsson. Hann tók Reykhóla og settist þar að veturinn 1482-83 (var þá enn að Felli). Sumir telja að Andrés hafi verið sýslumaður í Strandasýslu. Hann mun ekki hafa komið að Bæ fyrr en um 1498.
1498-1536
Ari Andrésson. Bóndi í Saurbæ 1498-1536. D. 1536. Ara er fyrst getið í bréfum 1495.
K. 15. febr. 1495, Þórdís Gísladóttir sýslumanns í Haga Filippussonar. Þau voru barnlaus.
Launsonur Ara:
Andrés. Honum gaf Ari jarðirnar Melanes og Raknadal. Hann varð velmetinn maður. Bjó í Sauðlauksdal og kemur talsvert við bréf og gerninga. Átti Guðrúnu yngri dóttur Björns sýslumanns í Ögri, Guðnasonar, hafði áður átt Konráð Jónsson Íslendings bónda í Sauðlauksdal, Jónssonar.
Ari varð auðugur og all ágengur var hann. Átti í deilum við Hannes hirðstjóra Eggertsson. Þegar Ari dó hafði Saurbær tilheyrt ætt Guðmundar ríka Arasnar að mestu í liðug hundrað ár. Ögmundur biskup í Skálholti eignaðist Bæ, er Ari lézt (frá Sigríði systur Ara, sem hafði erft bróður sinn). En ári síðar (1537) seldi biskup sveini sínum, Sigurði Ormssyni jörðina. Hann seldi hana svo aftur mági sínum, Erlingi Gíslasyni í Haga (1541). Árið 1554 keypti svo Eggert lögmaður Hannesson Bæ af Jóni, syni Erlings. Þá var komin til valda í Saurbæ ný ætt, er sat þar um langan aldur.
1537-1541
Sigurður Ormsson.
1541-1545
Erlingur Gíslason.
1545-1554
Björn Hannesson. Bóndi í Saurbæ um 1550. Hann ætlaði að flytjast frá Saurbæ að Nesi við Seltjörn árið 1554, en drukknaði á leiðinni ásamt konu sinni. Foreldrar: Hannes hirðstjóri Eggertsson og k.h. Guðrún eldri Björnsdóttir í Ögri, Guðnasonar.
K. 1545, Þórunn Daðadóttir sýslumanns í Snóksdal, Guðmundssonar. Börn þeirra:
Hannes lrm. Í Snóksdal.
Hallbjörg átti Þorleif Jónsson að Múla á Skálmarnesi.
Anna átti Árna Björnsson prests á Mel (Jónssonar biskups Arasonar), síðar síðar Jón Vigfússon í Miðdalaþingum.
Björn var umboðsmaður Eggerts bróður síns vestra.
1554-1580
Eggert Hannesson. Bóndi í Saurbæ 1554-1580. Lögmaður og hirðstjóri. F. um 1515, d. um 1583 (í Hamborg). Foreldrar: Hannes hirðstjóri Eggertsson og k.h. Guðrún eldri Björnsdóttir sýslumanns í Ögri, Guðnasonar. Hann var harðsnúinn og átti í deilum við ýmsa. (Eggert varð fyrir því árið 1579 að ræningjar brutust rænandi inn í bæinn og höfðu hann á brott með sér til skips þeirra, sem lá í Hænuvík. Var hann ekki látinn laus fyrr en reitt hafði verið fram hátt lausnargjald. -VÖ- ). Fluttist alfarinn til Hamborgar og dó þar. Var þríkvæntur.
K. I 1551, Sigríður Þorleifsdóttir sýslumanns á Möðruvöllum, Grímssonar. Hún dó 1554 og síðan börn þeirra, sem Eggert erfði.
K. II Sesselja Jónsdóttir á Sæbóli í Dýrafirði Þorbjarnarsonar. Hún hafði verið hjákona hans áður en hann gekk að eiga hana (á banasæng hennar, að talið var). Börn þerra:
Björn, fórst af voðaskoti, ókv., en átti launson, er Ólafur hét. Hann var bóndi í Tálknafirði, faðir Ólafar, f. um 1654, konu Arngríms Jónssonar á Lambeyri (1703).
Þorleifur fór ungur utan og mun hafa týnzt með skipi því, er hann fór á.
Jón kallaður murti, fór til Hamborgar um 1570 og átti afkomendur þar.
Ragnheiður kona Magnúsar sýslumanns Jónssonar hins prúða.
K. III (konungsleyfi, 1563), Steinunn Jónsdóttir lrm. á Svalbarði, Magnússonar (hafði áður fylgt séra Birni Jónssyni á Mel og síðan átt Ólaf Jónsson að Hofi í Vatnsdal). Þau bl. og skildu.
Laundóttir Eggerts var:
Sesselja, sem átti Bjarna á Brjánslæk Björnsson, stjúpson Eggerts.
1580-1591
Magnús Jónsson sýslumaður, prúði. Bóndi í Saurbæ 1580-1591. F. um 1525, d. 1591 í Saurbæ. Foreldrar: Jón lögréttumaður Magnússon að Svalbarði og f.k.h. Ragnheiður (á rauðum sokkum) Pétursdóttir lögréttumanns í Djúpadal í Eyjafirði, Loftssonar. Var lögsagnari í Þingeyjarþingi og hélt það að fullu 1556-1563, bjó að Skriðu (Rauðuskriðu), fluttist vestur að Ögri 1565 og var lögsagnari þar, en hélt síðan Barðastrandarsýslu til æviloka. Hann var mikilmenni, skörungur í héraðsstjórn. Þjóðhollur mannkostamaður, vitur, ágætur lagamaður og skáldmæltur.
Magnús prúði kvað upp svonefndan vopnadóm í Tungu árið 1581, þar sem kveðið er á um að “allir menn hér á landi skyldu eiga vopn og verjur eftir fjárupphæð”. Auk þess skyldu reistir bálkestir á fjallstindum til að fljótt mætti bregðast við árás á landið. Er þetta líklega það sem næst hefur komist almennri herkvaðningu hérlendis. Viðurnefni sitt fékk hann af því að hann klæddist gjarnan aðalsmannsbúningi og hafði vopnað lið með sér er hann reið til Alþingis. Hann fékkst nokkuð við fræðimennsku og skáldskap, auk þess að vera einn lögfróðasti maður sinnar samtíðar. Meðal skáldverka hans eru Pontusrímur. (VÖ).
K. I 1550, Elín, d. 1654 Jónsdóttir í Dunhaga, Sturlusonar. Ekkert barn komst upp.
K. II 22. sept. 1565, Ragnheiður, f. um 1550, d. 6. ágúst 1642 Eggertsdóttir lögmanns Hannessonar. Hún var talin ein ríkasta kona sinnar samtíðar á landinu. Eftir lát Magnúsar flutti hún að Sauðlauksdal. Börn þeirra, sem upp komust:
Jón eldri sýslumaður í Dalasýslu.
Ari sýslumaður í Ögri.
Jón yngri dan á Eyri í Seyðisfirði.
Björn sýslumaður í Bæ á Rauðasandi.
Þorleifur sýslumaður á Hlíðarenda.
Elín átti Sæmund sýslumann Árnason á Hóli í Bolungarvík.
Guðrún átti Henrik sýslumann Gíslason að Hólmi.
Katrín átti fyrr Bjarna Hákonarsona í Klofa.
Sesselja átti Ísleif Eyjólfsson í Saurbæ á Kjalarnesi (hún átti áður Guðleifu og Önnu með séra Sigurði Einarssyni presti í Saurbæ).
Ragnheiður átti Einar sýslumann Hákonarson í Árnesþingi.
Launsonur Magnúsar og Steinunnar Eyjólfsdóttur:
Eyjólfur.
1591-1598
Ragnheiður Eggertsdóttir. Búandi í Saurbæ eftir lát manns síns (Magnúsar prúða) 1591-1998 ?. Í Sýslumannsævum II bls. 56 segir að Ragnheiður hafi við dauða Magnúsar flutt að Sauðlauksdal og dáið þar. En á bls. 87 segir um Björn: „ ...tók Barðastrandarsýslu 1598 eftir Ara bróður sinn; fór að búa í Bæ, er honum var gefinn í tannfé af Eggert lögmanni .... , en Ragnheiður móðir Björns mun um það leyti hafa flutt að Dal,“ (þ.e. Sauðlauksdal). Er það líklegra að Ragnheiður hafi ekki flutt að Dal fyr en Björn fékk sýsluna og fór að búa í Bæ.
1598-1635
Björn Magnússon, sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Bóndi í Saurbæ 1598-1635. F. í Ögri, d. í Saurbæ 1635. Tók við sýslunni eftir Ara bróður sinn. Foreldrar: Magnús sýslumaður hinn prúði og k.h. Ragheiður Eggertsdóttir. „Hann var talinn maður góðviljaður, stöðuglyndur og óásælinn, stóð sig vel í embætti sínu og var í tölu hinna auðugri manna“.
K. I 1609, Sigríður Daðadóttir að Skarði á Skarðsströnd, Bjarnasonar. Sonur þeirra:
Eggert sýslumaður ríki á Skarði.
K. II 1617, Helga, f. 1599, d. 1646 Arngrímsdóttir prests lærða, Jónssonar. Börn þeirra:
Séra Páll í Selárdal.
Sigríður átti séra Þorleif Jónsson í Odda.
Helga átti síðar séra Þorbjörn Einarsson í Kvígindisdal. Þau barnlaus. Björn var eigandi Saurbæjar, að gjöf Eggerts móðurföður síns.
1636-1645
Eggert Björnsson sýslumaður, lengstum á Skarði á Skarðsströnd. Bóndi í Saurbæ 1636 1645. Fluttist þá aftur að Skarði, en hafði bú í Bæ þar til 1645 og var þá ráðsmaður hans Ólafur Ásbjörnsson, sjá hér á eftir, og síðar 1662-1675. F. 1612, d. 14. júní 1681. Foreldrar: Björn sýslumaður Magnússon í Saurbæ og f.k.h. Sigríður Daðadóttir.
K. 1633, Valgerður, d. 1702 Gísladóttir lögmanns Hákonarsonar. Börn þeirra, er upp komust:
Guðrún eldri átti Björn sýslumann Gíslason í Saurbæ.
Arnfríður átti Þorstein á Skarði Þórðarson prests í Hítardal.
Helga eldri, d. 27. okt. 1729, óg. og bl.
Helga yngri, d. 1729 77 ára, átti 1687 Guðmund Þorleifsson ríka í Brokey.
Guðrún yngri, d. 1746, átti 1689 Guðmund í Álftanesi Sigurðsson lögmanns í Einarsnesi, Jónssonar.
1648-1662
Ólafur Ásbjörnsson. Bóndi í Saurbæ 1648-1662. F. um 1605, d. 1662. Foreldrar: Ásbjörn Ólafsson bóndi í Raknadal og s.k.h. Ragnhildur Ólfsdóttir. Ragnhildur var systir Gunnhildar, móður Bjarna á Nauteyri, Sigurðssonar. Ólafur, faðir Ásbjörns var Guðmundsson Sigurðssonar prests á Grenjaðarstað Jónssonar biskups Arasonar. Guðmundur talinn launsonur Sigurðar.
K. Halla Jónsdóttir á Minni-Ökrum í Blönduhlíð, Ólafssonar og Guðrúnar Pálsdóttur. Börn þeirra:
Jón eldri bóndi á Melanesi.
Jón yngri prestur, bóndi á Lambavatni.
Ólafur var hreppstjóri. Til er skráð sögn um það, að hann hafi orðið bráðkvaddur á Hnjótsheiði og verið þá ölvaður. Átti þar að hafa verið reistur kross á holti einu, er síðar hét Krossholt. Fylgdi það sögunni, að Jón sonur hans, síðar prestur, hafi verið með föður sínum og þá ungur og verið yfir honum til morguns, en haldið þá til byggða. En séra Jón var fullorðinn og kominn úr skóla, er þetta gerðist og mun þá hafa verið í þjónustu Eggerts Björnssonar á Skarði, sem kostaði hann í skóla. Sama sögn er um séra Jón, að hann hafi dáið ölvaður á Hnjótsheiði og sonur hans verið með honum. Líklegt er, að þessi sögn eigi frekar við Ólaf föður séra Jóns. Það fylgir einnig sögunni, að kona þess, sem bráðkvaddur varð, hefði misst fyrri mann sinn, er hann var á ferðalagi, en Halla kona Ólafs var einmitt gift áður, en um Ragnheið konu séra Jóns, er það eigi kunnugt, svo öruggt sé (en Gísli Konráðsson telur svo, gat hafa ruglast á þeim feðgum).
1675-1679
Björn Gíslason sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Bóndi í Saurbæ 1675-1679. F. 12. apríl 1650, d. í ágúst 1679. Foreldrar: Gísli sýslumaður Magnússon að Hlíðarenda og k.h. Þrúður Þorleifsdóttir sýslumanns að Hlíðarenda, Magnússonar.
K. 7. sept. 1675, Guðrún, f. 1637, d. 1724 Eggertsdóttir sýslumanns ríka að Skarði, Björnssonar. Börn þeirra dóu nýfædd.
„Þókti líklegur til höfðingja, en mjög harðdrægur og þau hjón bæði.“ Talið er að Björn muni hafa dáið af sárasótt. Guðrún varð blind í veikindum manns síns.
1679-1724
Guðrún Eggertsdóttir. Búandi í Saurbæ 1679-1724. Ekkja fyrrnefnds Björns sýslumanns Gíslasonar. Guðrún er í manntali 1703 talin 66 ára gömul. Umsjónarmaður búa hennar í Bæ var Þorvarður Magnússon síðar prestur í Sauðlauksdal. Heimilisfólk er þá 21 að tölu.
Eins og fyrr sagði varð Guðrún blind; líklega vegna þeirrar sárasóttar er leiddi mann hennar til dauða. Má vera að það, ásamt því að missa öll börn sín, hafi valdið þeirri beiskju og harðdrægni sem henni er eignuð í heimildum. Árni Magnússon skrifaði á þessum árum Jarðabók sína og þar má víða sjá athugasemdir hans um þessa hörku hennar við landseta og háseta sína. Guðrún fékk, líkt og margir Bæjarhöfðingjar, viðurnefnið “hin ríka”, og ekki að ástæðulausu. T.d. átti hún allar þær nítján jarðir sem þá voru í ábúð á Rauðasandi, að frátöldum jarðarparti á Lambavatni. Einnig átti hún 9 af öðrum 24 jörðum og hjáleigum sem í byggð voru í Rauðasandshreppi, en nokkrar hinna voru í eigu frændfólks hennar. (VÖ).
1725-1728
Ormur Daðason. Bóndi í Saurbæ 1725-1728. Sýslumaður, fyrst í Strandasýslu, síðast settur í Barðastrandarsýslu 1723-1724, en í Dalasýslu frá 1728 til æviloka. F. í ágúst 1684, d. í júní 1744. Foreldrar: Séra Daði Steingrímsson prestur í Otradal og k.h. Jóhanna Jónsdóttir prests að Kvennabrekku, Ormssonar.
K. 20. okt. 1715, Ragnheiður, f. 1679, d. 26. okt. 1748 Þorsteinsdóttir að Skarði á Skarðsströnd, Þórðarsonar. Börn þeirra, sem upp komust:
Séra Eggert í Selárdal, sjá hér á eftir.
Jóhanna óg. átti laundóttur með Jóni Sveinssyni í Tjaldanesi.
Almennt er talið, að launsonur Orms Daðasonar með Katrínu Hafliðadóttur prests í Hrepphólum, Bergsveinssonar, væri séra Jón Ormsson í Sauðlauksdal (hann var kenndur öðrum Ormi, syni Jóns Þorsteinssonar bónda í Saurbæ 1735).
1735
Jón Þorsteinsson. Bóndi í Saurbæ 1735. Þetta mun vera Jón Þorsteinsson frá Keflavík. F. um 1685, sonur Þorsteins bónda í Keflavík Jónssonar og k.h. Hólmfríðar Halldórsdóttur. Ekki er kunnugt um konu hans og ekki fullvíst um börn. Líklega hefur verið sonur hans:
Þorsteinn Jónsson bóndi á Sjöundá um 1770.
Einnig mun hafa verið dóttir hans:
Bergljót Jónsdóttir, sem er húskona í Múla á Barðaströnd 1788, 56 ára gömul og á dóttur 13 ára, er Hólmfríður hét, Jónsdóttir. Hún var móðir Jónasar Jónssonar bónda á Mábergi um 1840. Dóttir hans var Hólmfríður kona Sturlu Einarssonar bónda í Vatnsdal.
Þá var og sonur Jóns:
Ormur, síðar bóndi á Geirseyri. Hann var í Fagradal hjá Ormi sýslumanni Daðasyni og var skrifaður faðir séra Jóns Ormassonar í Sauðlauksdal.
1735
Þórður Arason. Bóndi í Saurbæ 1735. F. eftir 1703, d. líklega fyrir eða um 1750. Foreldrar hans munu hafa verið: Ari bóndi á Hnjóti 1703 Gíslason og k.h. Guðrún Ívarsdóttir (bæði f. 1664). Ekki kunnugt um nafn konu Þórðar, en sonur hans var:
Sigmundur, sem kvæntist í Rauðasandshreppi 1757 Guðrúnu Sigurðardóttur en fluttist á Barðaströnd. Synir þeirra hjóna voru: Guðmundur, f. í Saurbæjarsókn 1. júní 1759 bóndi í (Miðhlíð) Litluhlíð og Guðmundur yngri bóndi á Vaðli.
um 1737-1741
Ólafur Árnason, f. um 1707, d. 20. sept. 1754 á Vatneyri. Sýslumaður í Haga, bjó fyrst að Saurbæ á Rauðasandi, sjá við Haga. HÞ
1745-1750
Séra Eggert Ormsson í Selárdal. Bóndi í Saurbæ 1745-1750. F. 1718, d. 27. maí 1788. Foreldrar: Fyrrnefndur Ormur Daðason sýslumaður og k.h. Ragnheiður Þorsteinsdóttir frá Skarði.
K. 29. sept. 1745, Þorbjörg, d. 1809, 89 ára, Bjarnadóttir sýslumanns hins ríka á Skarði, Péturssonar. Þau voru systrabörn (konungsleyfi 18. apríl 1744). Börn þeirra, er upp komust:
Eggert bóndi í Saurbæ, sjá síðar.
Ragnheiður, kona séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal.
séra Torfi aðstoðarprestur í Flatey.
séra Bjarni aðstoðarprestur föður síns.
Eggert var vígður aðstoðarprestur séra Þorvarðar Magnússonar í Sauðlauksdal haustið 1744, þjónaði Saurbæjarsókn og bjó í Bæ sem var eignarjörð hans. E.t.v. má telja hann bónda frá 1744. Hann fékk veitingu fyrir Selárdal 1749, en fluttist þangað ekki fyrr en næsta vor. Fluttist 1786 að Sauðlauksdal og dó þar.
1753-1762
Davíð Hansson Scheving sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Bóndi í Saurbæ a.m.k. 1753-1762. F. í apríl 1732, d. 24. ágúst 1815. Foreldrar: Hans Lárusson Scheving klausturhaldari á Möðruvöllum og k.h. Guðrún Vigfúsdóttir að Hofi á Höfðaströnd, Gíslasonar. Settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu 1752, sagði henni lausri 1781. Fluttist frá Saurbæ að Haga, en 1808 að Hamri á Barðaströnd og dó þar.
K. 1757, Þóra, d. 9. febr. 1784, 51 árs, Eggertsdóttir í Álftanesi, Guðmundssonar. Dóttir þeirra:
Ragnheiður, f. í Saurbæ 15. jan. 1759, átti fyrr Bjarna sýslumann Einarsson bónda í Kollsvík o.v., Bjarnasonar, síðar Þorkel sýslumann Gunnlaugsson.
1762
Bjarni Diðriksson. Bóndi í Saurbæ 1762. F. um 1728, d. 21. júní 1778, um 50 ára. Faðir hans hefur sennilega verið Diðrik Jónsson elsta Diðrikssonar, sem er 15 ára á Naustabrekku 1703.
K. 1757, Sigríður Þorsteinsdóttir, sem er ekkja í Breiðavík 1780 með son sinn Einar 4 ára. Bjarni var talinn eiga 4 börn, er hann dó. Börn þeirra:
Þuríður, f. 1760, á Látrum 1780, vantar 1801 og síðar.
Steinunn, f. 1762, dó á 1. ári.
Kristbjörg, f. 1764, í Kollsvík 1780, Breiðavík 1801, vantar 1808.
Guðrún, f. 1768, d. 1770.
Guðrún, f. 1771, 1772.
Einar, f. 1776, vantar 1801.
Ekki virðast nema 3 börn Bjarna lifa í Rauðasandshreppi 1780, og ekki kunnurgt um neina afkomendur þeirra.
1762
Loftur Sigmundsson. Bóndi í Saurbæ 1762. F. á Látrum um 1718, drukknaði frá Látrum 16. febr. 1778 (ekki getið fleiri drukknaðra þá). Foreldrar: Sigmundur Þórðarson bóndiá Látrum og k.h. Valgerður Loftsdóttir.
K. 1750, Jarðþrúður Björnsdóttir frá Látrum, segir Gísli Konráðsson, líklega systir Bjarna, sem átti Sigríði systur Lofts. Jarðþrúður dó af barnsförum 5. ágúst 1767. Börn öll fædd í Saurbæjarsókn:
Sigmundur, f. 1750, bóndi á Látrum.
Jón, f. 1752, d. 1806, blindur.
andvana barn, f. 1753.
Halldór, f. 1755, d. 1757.
Halldór, f. 1757, dó nýfæddur.
Guðrún, f. 1759, á Látrum 1780, vantar 1801.
Jón, f. 1761, d. 1799, á Skógi 1801, fluttist á Barðaströnd og bjó í Hvammi, kvæntur Helgu Þorkelsdóttir. Meðal barna þeirra var Sólrún, seinni kona Einar Þorvaldssonar bónda á Lambavatni.
Halldór, f. 1763, á Látrum 1780, vantar 1801.
Björn, f. 1765, d. 1766.
K. II 1770, Guðrún Eyjólfsdóttir búandi á Látrum 1780, sjá þar.
Loftur bjó á Hvallátrum 2 eða 3 seinustu árin, er hann lifði. Hann hefur líklega látið af búskap í Saurbæ eftir að hann missti fyrri konu sína, en í Saurbæjarsókn kvæntist hann þó í 2. sinn 1770. Hinsvegar er hann í okt. 1772 kominn í Sauðlauksdalssókn og þar er hann enn í apríl 1775. Gísli Konráðsson segir að Loftur hafi búið á Geitagili, ef þar er þá ekki ruglað saman við annan Loft, sem þar mun hafa verið alllöngu áður. En Loftur hafði samkvæmt framansögðu getað verið bóndi á Gili 1770-1775 (eða 76).
1780
Jón Bjarnason. Bóndi í Saurbæ 1780, húsmður á Mábergi 1782. Áður bóndi á Sjöundá, sjá þar.
1782-1785
Ólafur Sigurðsson. Bóndi í Saurbæ líklega 1782-1785, virðist þá hafa farið að Stekkadal og verið þar 1-2 ár, síðan á Stökkum, en á Lambavatni 1801, sjá þar.
um 1774-1783
Eggert Eggertsson. Bóndi í Saurbæ upp úr 1774-1783. F. um 1648, d. 9. maí 1783. Foreldrar: Séra Eggert Ormsson í Selárdal og k.h. Þorbjörg Bjarnadóttir sýslumanns hins ríka að Skarði, Péturssonar.
K. Arnfríður, f. um 1742 í Tjaldanesi í Dalasýslu, d. í Saurbæ 1832 Brynjólfsdóttir í Fagradal Bjarnasonar á Skarði, Péturssonar. Þau hjón voru því systkinabörn. Börn þeirra:
Þorvarður, f. í Saurbæ 22. sept. 1774, dó ókv. og bl.
Þuríður, f. í Saurbæ 24. des. 1775, átti Eggert bónda á Hreggstöðum, Pálsson. Þuríður giftist um leið og Jóhanna systir hennar. Sonur þeirra var Brynjólfur bóndi á Sjöundá.
Þorbjörg, f. í Saurbæ 23. okt. 1778, í Sauðlauksdal 1801 hjá Þorbjörgu ömmu sinni.
Jóhanna, f. 4. maí 1780, síðar húsfreyja í Saurbæ, þrígift.
Eggert, f. 1782, d. 1783.
1811-1814
Séra Eyjólfur Kolbeinsson, 1811-1814 (ath: skrifað inná). HÞ
1783-1810
Arnfríður Brynjólfsdóttir. Búandi í Saurbæ 1783-1810. Ekkja fyrrnefnds Eggerts Eggertssonar bónda í Saurbæ.
1810-1815
Þórarinn Þórarinsson. Bóndi í Saurbæ 1810-1815 (eða 16). F. um 17??, d. 1815 eða 16. Hann var frá Rauðamel, sonur Þórarins Bergssonar, Magnússonar og k.h. Ingiríðar Pálsdóttur lrm. á Broddanesi, Markússonar. Þórarinn bjó í Ólafsdal 1801, ókvæntur.
K. 3. maí 1810, Jóhanna Eggertsdóttir bónda í Saurbæ, Eggertssonar. Börn þeirra, dóu öll ung. Árið 1817 eru þau:
Guðbjartur, d. 13. maí 1819.
Sumarliði, d. 22. maí 1819.
Þórunn, d. 20. mái 1819.
um 1815-1819
Jóhanna Eggertsdóttir. Búandi í Saurbæ um 1815-1819, þá ekkja eftir 1. mann sinn, Þórarin. 1822-1826, þá ekkja eftir 2. mann sinn, Eggert Eggertsson (líkl. Jónsson). Þriðji maður hennar var Jón Ísleifsson.
1817
Sigmundur Jónsson. Bóndi í Saurbæ 1817. Áður bóndi á Stökkum, sjá þar. Sigmundur hefur búið fáein ár í Saurbæ eftir að hann varð ekkjumaður í 2. sinn, líklega frá því um 1816, er Ólafur Rögnvaldsson tengdasonur hans tók við búi á Stökkum og þar til Eggert kvæntist Jóhönnu (1819). Sigmundur dó í Litla-Króki 24. sept. 1825.
1819-1822
Eggert Jónsson. Bóndi í Saurbæ 1819-1822. F. í Sauðlauksdal 1786, d. 13. maí 1822, drukknaði skammt frá Brunnum (Hvallátrum). Foreldrar: Séra Jón Ormsson í Sauðlauksdal og k.h. Ragnheiður Eggertsdóttir prests í Selárdal, Ormssonar.
K. í sept. 1819, Jóhanna Eggertsdóttir í Saurbæ, ekkja Þórarins Þórarinssonar. Einkasonur þeirra var:
Eggert bóndi í Saurbæ.
1826-1848
Jón Ísleifsson. Bóndi í Saurbæ 1826-1848. F. á Geirseyri 1796, d. í Saurbæ 15. mars 1870. Foreldrar: Ísleifur Jónsson og Halldóra Þorláksdóttir bónda á Gili Loftssonar. Halldóra var áður gift Gísla Bjarnasyni bónda í Skápadal. Dóttir þeirra var Ingibjörg kona Bjarna Sigurðssonar bónda í Raknadal. Ísleifur var fæddur í Litla-Laugardal í Tálknafirði fyrri hluta árs, 1770 (fermdur 1786, 16 ára, en bróðir hans Jón er fæddur 20. júlí 1771). Foreldrar: Jón Þorvaldsson bónda í Miðhlíð á Barðaströnd, Einarssonar og Guðrún, f. um 1731, d. 1799 í Tungu í Tálknafirði, Ísleifsdóttir. Þorvaldur faðir Jóns fluttist, svo sem kunnugt er, að Laugardal er hann hafði kvænst Halldóru Teitsdóttur ekkju Ólafs sýslumanns Árnasonar. En Þorvaldur fór aftur á Barðaströnd, er hin miklu efni þeirra hjóna gengu til þurrðar og dó þar 1785. Ísleifur er kvæntur vinnumaður á Geirseyri 1801, en 1817 í Sauðlauksdal.
K. 26. okt. 1826, Jóhanna Eggertsdóttir bónda í Saurbæ, Eggertssonar. Þau barnlaus.
Með Elínu Bjarnadóttur ekkju Jóns Einarssonar, síðar konu Magnúsar Ólafssonar bónda í Gröf, átti Jón Ísleifsson son:
Jónas, f. 183?, dó ungbarn.
1848-1850
Eggert Eggertsson. Bóndi í Saurbæ 1848-1850. F. í Saurbæ 1822, d. s.st. 22. des. 1850. Foreldrar: Eggert Jónsson bóndi í Saurbæ og k.h. Jóhanna Eggertsdóttir.
K. 15. okt. 1846, Guðrún, f. 1822, d. 9. nóv. 1902 Gísladóttir hins auðga bóndi í Bæ á Selströnd, Sigurðssonar bónda á Kollabúðum, Jónssonar. Börn þeirra:
Gísli, f. 12. mars 1849, hrapaði til bana í Kristnukinn í Látrabjargi 11. júní 1869, ókv. og bl.
Jóhanna, f. 31. maí eða 1. júní 1850, kona Sigurðar Bachmanns kaupmanns á Vatneyri.
1850-1854
Guðrún Gísladóttir. Búandi í Saurbæ 1850-1854. Ekkja Eggerts Eggertssonar bónda í Saurbæ. Átti síðar Ara Finnsson, sjá síðar.
1851-1854
Eggert Magnússon. Bóndi í Saurbæ 1851-1854 (á 30 hdr.). F. í Keflavík 28. okt. 1822, d. í Krossadal í Tálknafirði 4. des. 1897. Foreldrar: Magnús Árnason bóndi í Keflavík o.v. og s.k.h. Anna Guðmundsdóttir. Hann fluttist frá Bæ að Botni í Tálknafirði og bjó síðan þar og víðar í firðinum. Hann var tvíkvæntur.
K. I 8. okt. 1849, Steinunn, f. 10. júní 1821, d. 19. mars 1862 Finnbogadóttir bónda á Siglunesi Sigurðssonar (alsystir Sigurðar Finnbogasonar bónda á Hvallátrum). Börn þeirra:
Finnbogi, f. 12. júní 1850, d. 24. apríl 1867.
Guðmundur, f. 25. ágúst 1852, d. í Krossadal 14. okt. 1901, afkomendur hans margir.
Daníel, f. 30. ágúst 1853, drukknaði í fiskiróðri frá Bolungarvík 26. jan. 1887, kvæntur og átti son (Þorleif), sem fór til Vesturheims ásamt móður sinni (Kristínu Örnólfsdóttur).
Anna, f. í Botni (Tálknaf) 6. okt. 1857, átti Einar Guðmundsson, sonur þeirra Árni dó nýfæddur 1882.
K. II 21. okt. 1862, Rannveig, f. í Hrísnesi 5. febr. 1829, d. í Krossadal 15. júlí 1886, alsystir Árna bónda á Lambavatni. Börn þeirra:
Guðrún, f. í Botni 24. okt. 1863, átti Árna Guðmundsson fiskimatsmann á Bíldudal, bl.
Jón, f. í Tungu í Tálknafirði 18. sept. 1865, drukknaði er Þráinn frá Ísafirði fórst 1. maí 1897, átti Guðrúnu Sigurðardóttur. Einkadóttir þeirra var Anna kona Daníels bónda Eggertssonar á Látrum.
Utan hjónabands átti Eggert Magnússon þessi börn:
Eggert, f. á Stökkum 10. júlí 1845, bóndi á Hvallátrum.
Rannveigu, f. á Skeiði í Selárdal 6.júní 1891, átti Klæng Jónsson járnsmið á Bíldudal.
1854-1866
Jón Magnússon. Bóndi í Surbæ 1854-1866. Síðar bóndi á Naustabrekku. Hann fluttist að Saurbæ frá Þverfelli í Saurbæ í Dalasýslu. Foreldrar: Magnús Gíslason bóndi í Hvítadal og k.h. Ingveldur Magnúsdóttir. Hann var albróðir Magnúsar bónda í Raknadal.
K. Þorgerður Gunnarsdóttir. Þau voru barnlaus.
1866-1869
Gísli Gíslason. Bóndi í Saurbæ 1866-1869 (á þriðja hluta jarðarinnar).
1854-1891
Ari Finnsson. Bóndi í Saurbæ 1854-1891 (frá 1885 á nokkrum hluta jarðarinnar). F. 1818, d. 25. ágúst 1901. Foreldrar: Finnur Arason bóndi á Eyri í Kollafirði og k.h. Halldóra Gísladóttir bónda á Brekku í Gufudalssveit Jónssonar bónda seinast í Gröf í Þorskafirði, Jónssonar. Faðir Finns var Ari Magnússon á Eyri kvæntur Helgu Jónsdóttur frá Gröf. Helga og Gísli faðir Halldóru voru systkini. Albróðir þeirra var Einar Jónsson í Kollsvík.
Ari Finnsson efnaðist vel í Saurbæ og Um segir Lúðvík Kristjánsson svo í Vestlendingum: “Enginn maður í alþýðustétt setti öndverðlega fram eins glöggar og rökstuddar skoðanir um þá þjónustu er alþýða ætlaðist til af þingmönnum, sem Ari Finnsson” Með því að Ari sest að í Saurbæ lýkur um þriggja alda eignarhaldi þeirrar ættar sem upphófst þar með Eggert Hannessyni og lauk með Eggert Eggertssyni og hans fjölskyldu. (VÖ).
K. 30. okt. 1854, Guðrún Gísladóttir, ekkja Eggerts Eggertssonar í Bæ. Börn þeirra:
Halldóra, f. 9. des. 1855, kona Ólafs Ó. Thorlaciusar bónda í Saurbæ.
Solveig, f. 14. maí 1858, dó fjörgömul í Reykjavík, óg. og bl.
Ari fluttist frá Eyri í Kollafirði 1852.
1885-1920
Ólafur Ó. Thorlacius. Bóndi í Saurbæ 1885-1920. F. á Bíldudal 25. apríl 1851, d. í Saurbæ 22. ágúst 1920. Foreldrar: Ólafur Ó. Thorlacius bóndi á Geirseyri um 1860, síðar lengst í Dufansdal og f.k.h. Steinunn Ólafsdóttir prests í Otradal Pálssonar. Seinni kona Ólafs í Dufansdal var Filippía alsystir Steinunnar. Meðal barna þeirra var Steinunn kona Erlendar Kristjánssonar á Látrum.
K. 11. okt. 1878, Halldóra, f. 26. mars 1920 Aradóttir bónda í Saurbæ, Finnssonar. Börn þeirra:
Guðrún Ragnheiður (08.10.1879-13.07.1964), óg. og bl.
Ólafur (yngri) (22.10.1881-07.04.1929), kvæntur Jóhönnu E. Thoroddsen frá Vatnsdal. Þau barnlaus.
Finnur (16.11.1883-26.12.1974), byggingameistari í Reykjavík kvæntur Þórönnu Erlendsdóttur frá Látrum; skildu. 6 börn.
Steinunn, f. 17. mars 1889, átti Egil Egilsson. (sjá N-Tungu)
Ari (14.03.1891-18.02.1981), endurskoðandi í Reykjavík kvæntur Soffíu Jónsdóttur frá Álftanesi á Mýrum, barnlaus.
Gísli, f. 1. sept. 1893, búandi í Saurbæ.
1920-1945
Gísli Ó. Thorlacius (01.09.1893-21.12.1956). Bóndi í Saurbæ 1920-1945. Foreldrar: Ólafur Ó. Thorlacius bóndi í Saurbæ og k.h. Halldóra Aradóttir. Hreppstjóri í Rauðasandshreppi 1930-1945.
K. 13. okt. 1922, Hólmfríður Theodóra (10.10.1895-01.02.1977), Pétursdóttir bónda á Stökkum Jónssonar og k.h. Pálínu Þórðardóttur. Einkadóttur þeirra:
Guðrún Ragnheiður (17.10.1923-26.06.2014), giftist Ingibergi Grímssyni bifreiðarstjóra í Reykjavík. 5 börn.
Gísli Thorlacius fluttist frá Saurbæ til Reykjavíkur.
1845-1949
Anna Torfadóttir. Búandi í Saurbæ 1945-1949. Hún er ekkja Ólafs Einarssonar bónda í Stekkadal, sjá þar.
Fluttist frá Saurbæ til Reykjavíkur, ásamt uppkomnum börnum. Árin 1945-1947 bjó Anna í félagi við Valborgu Pétursdóttur þá einnig búandi á Hvalskeri og búsett þar. Árin 1947-1949 bjó Anna í félagi við jarðeigandann, Sigurvin Einarsson.
1945-1947
Valborg Pétursdóttir. Búandi í Saurbæ 1945-1947 í félagi (að jöfnu) við Önnu Torfadóttur. Valborg var búsett og búandi á Hvalskeri, sjá þar, ekkja Stefáns Ólafssonar, sem bóndi var á Hvalskeri.
1947-1952
Sigurvin Einarsson (30.10.1899-23.03.1989), forstjóri í Reykjavík, áður barnakennari þar og í Ólafsvík. Bóndi í Saurbæ 1947-1952 og alþingismaður Barðastrandasýslu um skeið.
K. 27. sept. 1923, Jörína Guðríður Jónsdóttir (30.09.1900-04.09.2001). Kennari. Börn þeirra:
Rafn (14.03.1924-13.01.1996). 3 börn
Einar (06.07.1927-31.05.2007) um skeið bóndi í Saurbæ; sjá hér á eftir.
Sigurður Jón (16.08.1931-11.05.1946).
Ólafur (05.07.1935-27.07.2007). Um skeið bóndi í Saurbæ, sjá hér á eftir.
Elín f. 21.10.1937. Sigurður Eggertsson. 3 börn.
Björg Steinunn f. 31.01.1939. Kristján Steinar Kristjánsson; skildu. 3 börn.
Kolfinna f. 25.04.1944. M: Sverrir Már Sverrisson. 3 börn.
Þeir bræðurnir Sigurvin og Kristján forstjóri í Reykjavík keyptu Saurbæ 1945 af Gísla Ó Thorlaciusi (svo og systkinum hans o.fl. eigendum, er hann fluttist þaðan til Reykjavíkur. En frá 1948 var Sigurvin einn eigandi Bæjar (með Bröttuhlíð).
Árin 1947-1949 bjó Sigurvin í félagi við mágkonu sína, Önnu Torfadóttur, sjá hér að framan. Árin 1949-1951 var Jón A. Magnússon ráðsmaður á búinu. Hann var kvæntur Elínu Ólafsdóttur bónda í Stekkadal Einarssonar og fyrrnefndrar Önnu Torfadóttur, er hún bjó í Stekkadal, eftir lát manns síns. Foreldrar Sigurvins: Einar Sigfreðsson bóndi í Stekkadal og k.h. Elín Ólafsdóttir frá Naustabrekku.
1952-1954
Halldór B. Jónatansson (19.04.1928-14.07.1980). Bóndi í Saurbæ 1952-1954 ásamt konu sinni Önnu Stefánsdóttur (14.06.1926-). Börn þeirra:
Birgir Jónatan f 04.03.1950.
Stefán Þröstur f 06.04.1951. 1 barn
Steinar f 03.07.1960. 3 börn
1954-1957
Einar Sigurvinsson (06.07.1927-31.05.2007) og Sigrún Lárusdóttir (f 1.04.1929), bændur í Saurbæ. Einar var sonur Sigurvins Einarssonar. Börn þeirra:
- Lárus f 07.01.1953. sólveig Þórhallsdóttir 6 börn.
- Sigurvin f 15.02.1954. K. Kristín Helga Reimarsdóttir.
- Magnús Geir f 30.09.1956. K. Friðbjörg einarsdóttir. 3 börn.
- Kristján Einar f 29.04.1958. K. Ruth Melsted; skildu. 2 börn.
- Auður f 03.11.1963. M. Gunnar Þór Grétarsson. 2 börn.
- Arnar f 23.06.1968.
1957-1961
Sigursveinn Tómasson (12.08.1927-02.01.2001) og Hulda Hrefna Jóhannesdóttir (12.08.1924-26.03.2000); bændur í Saurbæ. Börn þeirra:
Jóhannes Tómas f 02.07.1956. K Þóra Þorvaldsdóttir. 2 börn.
Jóna Guðlaug f 26.05.1960. M. Þórhallur Helgi Óskarsson. 3 börn.
K.II Anna Hjördís Jónsdóttir. Þau bl.
Saurbær var í eyði 1961-1964
1964-1965
Ólafur Sigurvinsson (05.07.1935-27.07.2007) og Þórunn Sigurveig Sigríðardóttir f 13.01.1934. Þeirra börn:
Ólafur f 04.03.1955. Haflína Breiðfjörð Sigvaldadóttir. 2 börn.
Sigríður f 29.03.1956. M. Þorvaldur Þór Maríuson. 5 börn.
Sigurður f 16.08.1958. 6 börn.
Þór f 13.07.1960. K. Stefanía María Jónsdóttir. 3 börn.
Atli f 20.12.1961.
Elín f 04.06.1964. 1 barn.
Aðalsteinn f 06.09.1972. 1 barn.
Berglind f 22.12.1975.
Saurbær er aftur í eyði 1965-1972
1972-1986
Árni Vestergaard Jóhannesson (18.08.1939-17.12.2014) og Ragnheiður Sigmundsdóttir f 23.04.1946. Þau skildu. Árni var Færeyingur að uppruna. Barn hans með Báru Halldórsdóttur:
Guðmundur Friðgeir Árnason f 11.09.1969. 7 börn.
1986-1995
Albert Gíslason f 21.07.1961 og Ólöf Ólafsdóttir f 12.01.1963. Þeirra börn:
- Vilborg Lilja f 09.07.1983. 1 barn.
- Ólafur Gísli f 18.05.1987.
- Arndís Björg f 01.11.1991.
1995-1999
Guðjón Benediktsson f 26.12.1960 og Ásta Björk Arnardóttir f 01.10.1971. Börn þeirra:
Finnur Snær f 09.12.1991.
Ingvar Már f 18.03.1993.
Gerður Arna f 12.04.1997.
Kolbeinn Benedikt 15.10.2001.
2000-
Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri og Sigríður Snævarr fv sendiherra eru eigendur jarðarinnar og dvelja þar löngum, en enginn búskapur hefur verið í Saurbæ frá því að Guðjón og Ásta Björk fluttu. 1 barn.
Jarðabókin 1703 “Hjáleiga í Bæjar heimalandi. Þetta býli skal vera yfir 60 ára gamalt. Dýrleiki er óviss, því þessi hjáleiga hefur ekkert fyrirsvar né tíundargjald. Ábúandinn er Bjarni Bjarnason. Landsskuld 3 vættir. Betalast með 20 álna fóðri og hitt í gildum landaurum. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukúgildi 3. Leigur betalast í smjöri heim. Kvígildin uppyngir leiguliði uppbótalaust. Kvaðir eru skipsáróður, hestlán þegar um er beðið og það á stundum oftar en einu sinni. Þó það meir fyrir viljasemi en áskilið sje. Dagsláttur einn fyrir nautslán. Kvikfénaður er þar 2 kýr, 1 kvíga, 7 ær, 5 veturgemlingar, 1 geldur sauður, 1 hestur. Þar kann að fóðrast: 2 kýr, 4 lömb, 6 ær. Hitt er uppá útigang að byggja, sem þó lítill er. Heimilismenn eru 6. Eldiviðartak er þar ekkert, en leiguliði brennir kúataði, nema þá landsdrottinn leyfi honum hríshögg í öðrum sínum löndum, kauplaust. Þar er fyrir skriðum hætt bæði mönnum og fje. Stungu og ristulaust er þar, en leiguliði nýtur ristu og stungu annarstaðar í Bæjarlandi. Hlunnindi engin”.
Í skrá yfir byggð býli á Rauðasandi frá árinu 1746 eru Traðir ekki nefndar og munu hafa farið í eyði á fyrri hluta 18. aldar og líklega aldrei byggst á ný. Manntöl, sem könnuð hafa verið frá fyrri hluta 19. aldar sýna að þá var ekki búið á Tröðum (KÓ).
1703
Bjarni Bjarnason. Bóndi í Tröðum 1703. F. um 1655.
K. Þorbjörg, f. um 1659 Rafnsdóttir. Börn þeirra:
Guðrún 14 ára.
Árni 11 ára.
Bjarni 8 ára.
Vinnukona er Halldóra Jónsdóttir 30 ára. Ekki kunnugt síðar um búanda í Tröðum.
Tóftavöllur
Jarðabókin 1703 “Hjáleiga (nálægt túninu í Bæ á Rauðasandi) í Bæjarlandi fyrir utan bæinn. Var til forna geldneytisfjósstæði frá Bæ, en er orðið býli fyrir um 60 árum. Dýrleiki er óviss, eins og um hinar hjáleigurnar tíundar- og fyrirsvarslausar. Ábúandinn er Helgi Jónsson. Landskuld 3 vættir. Betalast með 20 álna fóðri og gildum landaurum. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukúgildi 2. Leigur betalast heim í smjöri. Kýr uppyngir landsdrottinn, ær leiguliði. Kvaðir eru: Skipsáróður eða 20 álnir þar fyrir, sem þó aldrei hefur skeð, að áróðurinn brugðist hafi. Hestlán, þá húsbóndi með þurfti, so lengi leiguliði hest átti. Nú á leiguliði engan hest, en legi hest (gamlan) af Guðrúnu, og geldur þar fyrir 1 vætt. Hefði þó mátt leigja hann af öðrum, ef getað hefði. Dagsláttur fyrir nautslán. Kvikfénaður er 2 kýr, 1 kvíga, 6 ær, 7 gemlingar, 1 sauður tvævetur. Þar kann að fóðrast: 2 kýr, 1 hestur, 6 lömb, 6 ær (þar fóðrast kvígildin og dregst af þeim fyrir skyldufóðrið). Heimilismenn eru 6. Eldiviðartak hefur leiguliði í Bæjarlandi. Einnig stungu og ristu. Hlunnindi engin”.
Pétur Jónsson segir Tóftavöll hafa farið í eyði um aldamótin 1800 en ekki er hann nefndur 1746 (KÓ).
1703
Helgi Jónsson. Bóndi á Tóftavelli 1703. F. um 1659.
K. Jórunn, f. um 1660 Gunnlaugsdóttir. Börn þeirra:
Jón eldri 17 ára.
Jón yngri 13 ára.
Helga 6 ára.
Finnbogi 5 ára.
1780
Svartur Erlendsson. Bóndi á Tóftavelli 1780. F. um 1630.
K. 1751, Ragnheiður, f. um 1635 Bjarnadóttir. Börn þeirra, Einar 23 ára, Guðríður 15 ára, Guðrún 12 ára. Þau giftust í Saurbæjarsókn 1751 (líklega er aldur Ragnheiðar því talinn full lágur). Börn:
Árni, f. 1752, líkl. dáið ungbarn.
Guðrún, f. 1753, líkl. dáið ungbarn.
Erlendur, líkl. f. 1756, d. í sept. 1756, ungbarn.
Einar, f. 1757 í des., ókv. vm. í Breiðavík 1801, Láganúpi 1808, d. 1811.
Jón, f. 1761, d. sama ár.
Jón, f 1763, hefur dáið ungb.
Guðríður, f. 26. júlí 1765, í Breiðavík 1801, d. 25. maí 1808 (brjóstveiki).
Guðrún, f. í júní 1769, á Hnjóti óg. vk. 1808, ekki á manntali 1817.
Svartur dó 25. febr. 1785 og var þá á Tóftavelli. Líklega hefur hann búið þar lengi. Ragnheiður mun hafa dáið milli 1785 og 1801. Hún kann að hafa verið eitthvað á Tóftavelli eftir lát manns síns, með því að hún átti uppkominn son og dætur, en úr því hefur þetta býli sennilega lagst niður.
Jörðin var í túnjaðrinum utan og ofan við Saurbæ. Hún var 6 hdr. að fornu en 3,89 hdr. að nýju mati. Brattahlíð er ekki talin býli 1703, 1736 eða 1762. Þar er búið 1780 og síðan janfnan til 1902, er Kristján Ólafsson fluttist þaðan.
Jörðin var þá nytjuð út af fyrir sig nokkru lengur, en telst nú aftur til Bæjarlands.
1799-1781
Bjarni Guðmundsson. Bóndi í Bröttuhlíð 1799-1781, en hefur vafalaust búið þar áður e.t.v. frá því hann kvæntist 1767. F. um 1736, d. í Brattahlíð 24. júní 1781.
K. 1767, Guðrún, f. um 1740, í Brattahlíð 1780 og 1782, d. fyrir 1801 Snæbjörnsdóttir. Börn þeirra:
Guðrún, f. 1768, óg. á Látrum 1801, ekki á manntali síðar.
Sigríður, f. 1769, á Brekku 1801, óg. á Láganúpi 1808, vantar 1817.
Árni, f. 1771, á Látrum 1801 og 1808, ókv. í Gröf 1817.
Snæbjörn, f. 1773.
Etilríður, f. 1775.
Jón, f. 1777.
Þrjú síðasttöldu dóu öll ungbörn. Ekki kunnugt um afkomendur þessa fólks.
1781
Guðrún Snæbjörnsdóttir. Búandi í Bröttuhlíð nokkurn hluta árs 1781.
1781-1783
Bjarni Þorleifsson. Bóndi í Bröttuhlíð frá því fyrir áramót 1781-1783 eða 84. F. um 1748, varð bráðkvaddur á Breiðavíkurfjalli (frá Dalverpi og út í Breiðavík) 5. mars 1785, þá talinn bóndi á Naustabrekku og hefur farið þangað frá Brattahlíð. Hefur verið þar tvö ár eða svo. Bjarni kvæntist Guðrúnu ekkju Bjarna Guðmundssonar, talin hafa gifst sama ár og Bj.G. dó.
K. 1781, Guðrún Snæbjörnsdóttir, sjá hér að framan. Dóttir þeirra var:
Ingveldur, f. 28. nóv. 1782, dó á 1. ári.
Það sést ekki að Bjarni Þorleifsson hafi verið fermdur í Rauðaneshreppi og hann er þar ekki heldur á manntali 1780. Virðist hann því hafa verið aðkominn. Guðrún hefur líklega verið dóttir Snæbjörns Sigurðssonar bónda á Stökkum 1735.
Magnús Björnsson, áður bóndi í Króki. Hann virðist hafa komið að Bröttuhlíð þegar Bjarni Þorleifsson fór þaðan, en ekki er hægt að segja með vissu, hve lengi hann hefur búið þar. Hann býr 1780 í Króki, en er kominn að Breiðavík við manntal 1782 (líklega í ársbyrjun). Hann missti 5 börn sín árið 1780 og hefur líklega hætt búskap í bili næsta ár, en farið svo að Bröttuhlíð eftir 2-3 ár.
Hinn 29. apríl 1785 deyr Guðrún Magnúsdóttir, bónda í Bröttuhlíð, 4 ára. Fæðing þessarar telpu er ekki nefnd í kirkjubókum, en ég get ekki fundið neitt líklegra en að hér sé um barn Magnúsar Björnssonar að ræða, enda er Guðrún Magnúsdóttir 1 árs á manntali í Breiðavík 1782, þar sem Magnús er vinnumaður. Kona hans er þar einnig og 2 börn þeirra, sem eftir lifðu auk Guðrúnar af 11 börnum þeirra hjóna.
Þess má geta að Þórlaug kona Magnúsar Björnssonar og Jón, sem bjó í Bröttuhlíð 1801 voru systkini.
um 1790
Rögnvaldur Ólafsson, síðar bóndi á Skógi, sjá þar. Hann hefur líklega verið bóndi í Bröttuhlíð um 1790, því þar er dóttir hans Ingibjörg talin fædd. Hún er á Geirseyri 1817. Hinsvegar hefur Rögnvaldur verið í Kvígindisdal um 1787, en ekki er víst hvort hann hefur verið bóndi þar.
1801
Jón Jónsson. Bóndi í Bröttuhlíð 1801. Áður bóndi á Láganúpi, sjá þar. Hann hefur líklega komið að Brattahlíð eftir Rögnvald Ólafsson, sem hefur verið þar um 1790 en farin þaðan a.m.k. um 1796 (kominn að Skógi). Jón er sveitaómagi í Vatnsdal 1808.
1808
Árið 1808 býr enginn í Brattahlíð.
um 1813-1836
Gunnar Höskuldsson. Bóndi í Bröttuhlíð um 1813-1836. Bjó í Keflavík 1801 og 1808. Hefur líklega komið þangað skömmu fyrir 1800, en farið þaðan um 1810, að Sjöundá, því að þar er Evlalía dóttir hans fædd 1811. En Magnús Gunnarsson fæðist í Bröttuhlíð snemma árs 1814 og hafa foreldrar hans þá komið þangað í síðasta lagi vorið áður. F. um 1770, óvíst hvar, d. 26. maí 1837, drukknaði með Gísla Ísleifssyni (sjá í Kirkjuhvammi). Faðir Gunnars var Höskuldur Loftsson bóndi á Kirkjubóli í Múlasveit 1762, þá kvæntur fyrri konu sinni Sigríði Tómasdóttur (systur Vigdísar móður Bjarna skálds á Siglunesi og Margrétar konu Jóns Bjarnasonar á Skógi). Höskuldur hefur skilið við hana fyrir 1770, því að þá fæðist Gunnar og Gísli Konráðsson telur hann launson Höskuldar. Ókunnugt er um móður Gunnars. Seinni kona föður hans var Ragnheiður Bjarnadóttir systir Magnúsar á Selskerjum. Synir þeirra voru Jón, sem drukknaði á Látrum 1812 og Teitur faðir Vilborgar, er var seinni kona Einars Árnasonar bónda í Tungu. Gunnar var tvíkvæntur:
K. I, Guðrún eldri, f. 13. okt. 1771, d. í Keflavík um 1804 Sigurðardóttir bónda í Breiðavík Jónssonar og k.h. Solveigar Össurardóttur. Þau barnlaus, a.m.k. hefur ekkert barn þeirra lifað. Áður en Guðrún giftist hefur hún átt son, er Jón hét. Faðir hans var Árni Eyjólfsson bóndi í Breðavík 1808, sjá þar. E.t.v. hefur Guðrún einnig var barn Árna utan hjónabands. Ingibjörg sú átti Ásbjörn Þórðarson á Lambavatni, en síðan Bjarna Halldórsson, þá bónda í Hænuvík (áður á Hnjóti).
K. II, Sigríður Ólafsdóttir bónda á Lambavatni Sigurðssonar og k.h. Ingibjargar Gísladóttur. Börn þeirra:
Ólafur, f. í Keflavík 29. júní 1807, drukknaði í sama sinn og faðir hans. Hann var faðir Sigfreðs í Stekkadal og Ólafs á Stökkum.
Evlalía, f. á Sjöundá 1811. Hún átti Ólaf Magnússon bónda í Trostansfirði, sonur þeirra var Kristján bóndi í Bröttuhlíð, sjá síðar.
Magnús, f. í Bröttuhlíð 17. apríl 1814, drukknaði samtímis föður sínum.
1836-1837
Einar Guðmundsson. Bóndi í Bröttuhlíð 1836-1837. Áður bóndi í Kirkjuhvammi, sjá þar.
1837-1856
Gunnlaugur Þorleifsson. Bóndi í Bröttuhlíð 1837-1856. Við manntal 1. okt. 1855 er Gunnlaugur og k.h. ásamt Sigríði dóttur þeirra talin vinnuhjú Jóns Magnússonar bónda í Saurbæ, en jörðin virðist þó talin á vegum Gunnlaugs til vors 1856 (samkv. þingbók). Foreldrar Gunnlaugs voru: Þorleifur Guðmundsson bóni í Krókshúsum 1817 og Guðrún Gunnlaugsdóttir bónda á Naustabrekku Þorbjörnssonar. Þorleifur átti Gunnlaug áður en hann kvæntist (kona: Sigríur Bjarnadóttir frá Keflavík).
K. (sennilega 1836, ekki í kjb.), Margrét, f. á Skógi 1815, d. í Breiðavík 15. okt. 1896 Þórðardóttir Jónssonar bónda á Skógi Bjarnasonar og k.h. Guðrúnar talin f, á Láganúpi 1786, d. í Keflavík 9. des. 1858 Jónsdóttir (ekki kunnugt með neinni vissu um foreldra hennar). Áður en Guðrún giftist Þórði Jónssyni (árið 1814) hafði hún átt dóttur með Jóni Einarssyni frá Kollsvík, síðar bónda á Geitagili. Það var Guðrún, sem vatrð kona Gísla Einarssonar bónda í Kollsvík. Þórður maður Guðrúnar hefur dáið 1815 eða 16. Guðrún ekkja hans giftist 1836 Bjarna Gíslasyni bónda í ?? Bjarnasonar. Hann dó 1. júlí 1847 (hrapaði úr Látrabjargi). Börn Gunnlaugs og Margrétar voru (öll fædd í Bröttuhlíð nema Guðrún):
Guðrún, f. í Kirkjuhvammi 10. febr. 1837, kona Runólfs Brynjólfssonar bónda í Kirkjuhvammi.
Sigurlaug, f. 3. júní 1840, kona Magnúsar Jónssonar bónda á Melanesi.
Þórður, f. 6. maí 1842, drukknaði á Gjögrum 1. maí 1897, átti Helgu Guðmundsdóttur frá Vattarnesi. Meðal barna þeirra voru þeir Jón skipstjóri á Patreksfirði og Guðmundur á Hóli s.st.
Sigríður, f. 11. nóv. 1843, d. 16. sama mán.
Sigríður, f. 2. júní 1845, d. í Breiðavík 18. maí 1915, kona Trausta Einarssonar smiðs á Patreksfirði, seinast í Breiðavík.
Bjarni, f. 8. mars 1848, d. á Borðeyri 9. ágúst 1921, bóndi í Breiðavík, lengst húsmaður í Tröð i Kollsvík.
1855-1860
Benjamín Magnússon. Bóndi í Bröttuhlíð 1855-1860 og 1863 1868. F. í Saurbæ á Rauðasandi 3. júní 1822, d. í Lirkjuhvammi 8. apríl 1897. Foreldrar: Magnús Bjarnason síðar bóndi í Stekkadal og Sesselja Þórðardóttir bónda í Miðhlið, Jónssonar. Sesselja var ekkja Einars Jónssonar bónda á Láganúpi, Jónssonar. Einar mun hafa dáið í Sauðlauksdal 1. febr. 1812, en Sesselja dór 9. ágúst 1853 í Saurbæ, 73 ára gömul.
K. 2. okt. 1851, Ingibjörg Bjarnadóttir bónda á Hnjóti, síðast í Hænuvík, Halldórssonar og þriðju k.h. Kristínar Ásbjörnsdóttur. Börn þeirra:
Rósa, f. í Sauðlauksdal 9. sept. 1851, kona Ívars bónda í Kirkjuhvammi Magnússonar.
Halldór, f. í Sauðlauksdal 16. jan. 1853, bóndi í Keflavík.
Benjamín, f. í Bröttuhlíð 1. apríl 1856, d. þar 14. sept. 1862.
Hafliði, f. í Bröttuhlíð 27. apríl 1862, d. í Botni í Geirþjófsfirði 13. febr. 1884.
Jón tvíburi við Hafliða, d. 7. ágúst 1862.
Sesselja, f. í Bröttuhlíð 7. des. 1865, kona Júlíusar Halldórssonar á Melanesi.
Eftir að Benjamín varð ekkjumaður átti hann 4 börn með Gunnhildi Ólafsdóttur bónda á Grundum Þorgrímassonar og Þóru Þórðardóttur, sem var systir Margrétar konu Gunnalugs í Bröttuhlíð.
Ólöf Þóra, f. í Saurbæ (07.09 1875-04.09.1963), kona Guðbjarts Einarssonar í Laugardal.
Magnfríður, f. í Stekkadal (09.10 1876-28.04.1959), giftist norður á Þingeyri Magnúsi (G.H.) Þorleifssyni.
Benjamín, f. á Melanesi 10. júlí 1878, d. á Látrum 7. okt. 1879.
Ingimundur, f. í Sauðlauksdal 5. okt. 1882, fórst í snjóflóði í Hnífsdal 18. febr. 1910.
Meðal afkomenda Þórðar (pósts) í Miðhlíð, fóður Sesselju, voru þeir Gunnlaugur og Árni Jónssynir á Lambavatni, Þóra móðir Jóhanns Magnússonar í Hænuvík og Rannveig seinni kona Eggerts Magnússonar bónda í Saurbæ.
1860-1863
Magnús Magnússon. Bóndi í Bröttuhlíð 1860-1863. Hann var albróðir fyrrnefnds Benjamíns bónda í Bröttuhlíð. F. í Saurbæ 12. júní 1824, d. s.st. 3. nóv. 1876.
K. 20. sept. 1856, Halldóra, d. í Saurbæ 2. febr. 1897 Jónssonar nónda á Geitagili Einarssonar. Börn:
Ása, d. nýfædd 9. júlí 1858.
Sesselja, d. á 3. ári 4. sept. 1862.
Baldvin, d. tæpl. 2. mán. 23. nóv. 1861.
1868-1891
Árin 1868-1891 var Brattahlíð nytjuð frá Saurbæ.
1891-1895
Ólafur Árnason. Bóndi í Bröttuhlíð 1891-1895. Fluttist frá Bröttuhlíð til Bolungarvíkur og dó þar. F. 7. maí 1855. Foreldrar: Árni Jónsson, seinast bóndi á Lambavatni og k.h. Halldóra Ólafsdóttir frá Stökkum, Rögnvaldssonar.
K. 15. okt. 1882, Þórdís Eylína Þorláksdóttir bónda í Hvítanesi í Ögursveit Hjaltasonar og k.h. Sigurborgar Guðmundsdóttur frá Hvítanesi. Börn:
Kristján Árni, f. í Gerði á Barðaströnd 28. sept. 1883, tók út af togaranum Jóni forseta, búsettur í Reykjavík, átti 2 börn?
Guðmundur Valdimar (Valgeir?), á Lambavatni 8. sept 1896, dó nýf.
Þorlákur, f. á Lambavatni (27.05.1890-21.01.1925), kvæntist í Bolungarvík.
Solveig Guðbjörg, f. í Bröttuhlíð 31. mars 1894?
Valdimar, 19 ára hjá foreldrum sínum í Bolungarvík 1917.
1895-1902
Kristján Ólafsson. Bóndi í Bröttuhlíð 1895-1902. Fluttist þá að Melanesi og bjó þar til 1907. Bóndi á 3 hdr. í Sauðlauksdal 1883-1886, húsmaður þar 1881-1883 og 1886- ?? Bóndi í Trostansfirði 1879-1881. F. í Trostansfirði 31. mars 1845, d. á Vatneyri 23. okt. 1912. Foreldrar: Ólafur Magnússon bóndi í Trostansfirði og k.h. Evlalía Gunnarsdóttir bónda í Bröttuhlíð Höskuldssonar. Faðir Ólafs í Trostansfirði var Magnús bóndi í Tungu í Tálknafirði Ólafsson bóndi s.st. Þóroddssonar (Thoroddsen).
K. 15. okt. 1878, Guðbjörg, f. á Stökkum 20. sept. 1853, d. í Sauðlauksdal 5. okt. 1890 Árnadóttir bónda á Lambavatni Jónssonar. Guðbjörg var því systir fyrrnefnds ólafs Árnasonar bónda í Bröttuhlíð. Börn þeirra:
Evlalía, f. á Lambavatni (30.03.1879-13.11.1962), átti Kristján Benediktsson og með honum 5 börn, síðan Kristján Jónsson, þau bl.
Guðmundur, f. í Trostansfirði 20. maí 1881, d. í Reykjavík 18. maí 1944, úrsmiður ókv. og bl.
Rögnvaldur, f. í Sauðlauksdal 20. júlí 1882, dó á 1. ári.
Þórarinn, f. í Sauðlauksdal 20. apríl 1884, fluttist ungur, um 1900, til Noregs og varð vélstjóri, kvæntur, búsettur í Drammen, lengi í útlandasiglingum.
Áður en Kristján kvæntist átti hann dóttur:
Pálína, f. 1876?, d. að Fossi í Suðurfjörðum 29. mars 1908. Talið mun hafa verið, að réttur faðir Pálínu væri Ólafur Ó. Thorlacius bóndi í Dufansdal. Pálína giftist ekki, en átti 2 börn: 1) með Kristni Benediktssyni, sem síðar átti Evlalíu Kristjánsdóttur, Sigríði, f. í Bröttuhlíð 20. des. 1900. Hún giftist 1929 Finnboga Kristjánssyni á Hellissandi. 2) með Júlíusi Tómassyni frá Dufansdal Konráð bónda í Tungu í Örlygshöfn.
1906-
Sigurður Bachmann kaupmaður á Patreksfirði átti Bröttuhlíð og nytjaði jörðina í allmörg ár eftir 1906.
Þórður Ó Thorlacius, búfræðingur og barnakennari. Hann var ókvæntur, búsettur í Saurbæ, en hafði búskap í Bröttuhlíð í allmörg ár.
Nafnið Jörðin byggðist upp úr stekk kringum 1650, eins og fram kemur í Jarðabókinni. Mikill fjöldi af þannig hjáleigum spratt upp um það leyti á jörðum Bæjarhöfðingjans, sem þá var Eggert Björnsson. Virðist hann hafa séð í þessu nokkra tekjulind. Jörðin var af sumum nefnd Stakkadalur.
Jarðabókin 1703 “Hjáleiga í Bæjar landi. Skal vera vel 50 ára gömul, en ei til forna byggð. Var til forna stekkur frá Bæ. Dýrleiki er óviss, því þar er hvorki fyrirsvar nje tíundargjörð. Ábúandinn Guðmundur Ögmundsson. Landskuld 3 vættir. Betalast með 20 álna fóðri og góðum landaurum. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukúgildi 3. Leigur betalast heim í smjöri. Þessi bóndi klagar að kýrin sú eina (þær eru tvær) sje vanmeta og nytlítil, en segist ei koma henni af sjer. Hin sje gömul; þó segist hann vera fornægðari með hana. Vonar hann í so máta varla uppbótar. Kvaðir eru: Skipsáróður (annars ætti hann að gjalda 20 álnir). Dagsláttur fyrir nautslán. Klagar þó leiguliði að tarfurinn hafi spilt aftur kúnum og hafi það so verið í nokkur ár, þar samgángur nautanna er frá staðnum (Bæ) og kotunum um kring. Þessi bóndi á engan hest, og leigir engan, og er í so máta ófær. Kvikfénaður er 2 kýr, 1 kvíga, 3 ær, gemlingar 3. Þar fóðrast 2 kýr, 6 ær. Hitt er bygt upp á útigang. Svörð til eldiviðar sker leiguliði í Bæjarlandi. Þar hefur hann og stungu og ristu. Hlunnindi engin”.
1703
Guðmundur Ögmundsson. Bóndi í Stekkadal 1703. F. um 1658.
K. Margrét Sighvatsdóttir, f. um 1658. þau voru barnlaus, en Margrét á 2 börn úr f. hjb.: Kristbjörgu Einarsdóttur 11 og Sighvat Einarssonar 8 ára. Ekki er neitt frekar kunnugt um þetta fólk eða neina afkomendur þess.
Árin 1735 og 1762 er enginn bóndi talinn í Stekkadal.
1780
Grímur Jónsson. Bóndi í Stekkadal 1780. F. um 1735 (fermdur 1751 og talinn 16 ára), d. í Stekkadal 25. des. 1781, holdsveikur. Árið 1780 er Grímur talinn 43 ára. Hann hefði getað verið sonarsonur Gríms Jónssonar, sem er 31 árs á Lambavatni 1703, kvæntur Þuríði, f. um 1679 Jónsdóttur prests á Lambavatni, Ólafssonar.
K. 1765, Guðrún, f. um 1743, fermd 1757, d. 30. mái 1784 Gunnlaugsdóttir bónda á Naustabrekku 1762, Þorbjörnssonar. Börn:
Margrét, f. 1766, Tungu 1801 og 1808, d. þar 2. maí 1810, gift Guðmundi Þórðarsyni.
Ólafur , f. 1767, vantar 1801 og síðar.
Guðrún, f. 1770 í Stekkadal, og. vk. í Botni 1817.
Guðbjörg, f. 1775 á Stökkum, tökubarn á Melanesi 1780, Geirseyri 1801 ógift, ekkja í Kirkjuhvammi 1817. Óvíst er um mann hennar og hvort hún hefur átt nokkurt barn.
Ekki er ólíklegt að Grímur hafi alltaf búið í Stekkadal, frá því um 1765. Guðbjörg dóttir hans, f. 1775, er að vísu talin fædd á Stökkum, en hún virðist ekki hafa alist upp hjá foreldrum sínum, e.t.v. vegna veikinda föður hennar, kynni að hafa farið til annara nýfædd svo að ruglast hafi um fæðingarstað.
1782
Guðrún Gunnlaugsdóttir, ekkja Gríms Jónssonar. Hún hefur búið í Stekkadal eftir lát manns síns og dáið þar. Er í Stekkadal við manntalið 1782 (líklega í ársbyrjun) og þrjú börn hennar.
1784-1785
Jón Jónsson. Bóndi í Stekkadal 1784-1785. Hann kynni að hafa verið bróðir fyrrnefnds Gríms Jónssonar. F. um 1738, d. í Stekkadal 2. mars 1785, sagður fyrirvinna barnanna í Stekkadal. Það er varla vafamál, að þetta eru börn þeirra Gríms og Guðrúnar. Jón var vinnumaður í Stekkadal 1780. Hann hefur síðan verið hjá Guðrúnu ekkju Gríms og tekið að sér börnin, þegar þau urðu foreldralaus.
1785
Ólafur Sigurðsson. Bóndi í Stekkadal 1785. Hann hefur komið þangað þá um vorið og verið 1 eða 2 ár, því Gísli sonur hans (f. 1787) er sagður fæddur á Stökkum. Hinsvegar er Ólafur talinn vera í Saurbæ, þegar Guðrún dóttir hans fæðist 25. ágúst 1784. Hún deyr svo í Stekkadal 26. nóv. 1785. Ólafur er bóndi á Lambavatni 1801, sjá þar.
1801 og 1808
Jón Jónsson. Bóndi í Stekkadal 1801 og 1808. F. um 1766, finnst þó ekki kjb., d. líkl. um 1810. Hefur líklega búið í Stekkadal frá 1800 til dauðadags.
K. Guðrún, f. á Melanesi 28. júní 1772 Jónsdóttir bóndi á Mábergi 1780 og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur bónda í Saurbæ 1780, Bjarnasonar. Guðrún giftist síðar Ólafi Sigmundssyni bónda í Króki, var þá komin um fimmtugt og þau því barnlaus. Börn Jóns og Guðrúnar:
Svanhildur, f. 1798 í Gröf, átti Hjálmar Sigmundsson bónda í Skógi.
Guðrún, f. á Sjöundá, í Stekkadal 1808 og 1817, átti Magnús Bjarnason bónda í Stekkadal.
Sigujrður, d. 1802, í Stekkadal 1808, vantar 1817.
Jón, f. 1805, í Stekkadal 1808, Saurbæ með móður sinni 1817, síðar bóndi í Breiðuvík, kvæntur Ingibjörgu Ólafsdóttur frá Króki.
Ástríður, f. í Stekkadal 1. júní 1807, átti Guðmund Össurarson, sjá síðar.
um 1810-1812
Össur Sigurðsson. Bóndi í Stekkadal um 18140-1821. Áður bóndi í Breiðuvík, sjá þar. Meðal barna Össurs var Guðmundur, sem átti fyrrnefnda Ástríði Jónsdóttur. Annar sonur Össurs var Össur hreppstjóri á Látrum.
1821-1822-3
Kristín Ólafsdóttir. Búandi í Stekkadal 1821-1822 eða 23. Hún var ekkja Jóns Þórðarsonar, sem bjó í Litla Króki, fluttist að Stekkadal vorið 1821, en drukknaði þá um vorið 22. maí. Þann 24. apríl um veturinn hafði Össur bóndi í Stekkadal látist. Sennilega hefur Kristín aðeins búið til næsta vors og farið þá að Látrum. Hún var fædd þar 1765, en dó á Ingunnarstöðum í Geiradal 1862. Hún var dóttir Ólafs Jónssonar bónda á Látrum og seinni k.h. hans, sem óvíst er hver var. Kristín fluttist frá Látrum suður í Reykhólasveit 182? og giftist þar í 2. sinn Hjalta Bjarnasyni, að honum látnum kölluð Hjalta-Kristín. „Fróð kona og minnug“ segir Gísli Konráðsson. Er margt í þætti Látramanna- og Barðstrendinga haft eftir Kristínu. Árið 1835 eiga Hjalti og Kristín:
Sólrúnu.
Dóttir þeirra var:
Þórdís, f. í Króksfjarðarnesi 26. okt. 1831, d. á Ballará 21. júlí 1894 Hjaltadóttir, móðir Guðjóns Brynjólfssonar bónda á Melanesi.
Milli manna átti Kristín tvær dætur með Þorsteini Þorsteinssyni síðar bónda á Hlaðseyri:
Margrét, f. á Látrum 15. febr. 1827.
1822-1824
Guðrún Þorgrímsdóttir, ekkja Össurs Sigurðssonar bónda í Stekkadal. Hún hefur verið búandi í Stekkadal líkl. 1822-1824. Hún er komin að Melanesi við manntal fyrri hluta árs 1826, í Krókshúsum 1828, Botni 1832, Sauðlauksdal 1834, Breiðavík 1836. Fer þaðan 1839 til Össurs sonar síns, sem bjó í Hvallátrum á Breiðafirði og dó þar 7. ágúst 1843. Guðrún hefur hætt búskap í 1 ár, eftir að maður hennar dó, en tekið þá aftur við Stekkadal.
1824-1826
Guðbrandur Magnússon. Hann hefur líklega búið í Stekkadal 1824-1826, áður bóndi í Krókshúsum, sjá þar. Virðist hafa farið að Skógi vorið 1826, því þar dó Guðrún dóttir hans í október um haustið. Við manntal f.hl. árs 1826 er Guðbrandur í Stekkadal.
1826-1828
Guðmundur Einarsson. Bóndi í Stekkadal 1826-1828. Áður bóndi í Kirkjuhvammi, sjá þar, síðar í Raknadal (1828-1840).
1828-1863
Magnús Bjarnason. Bóndi í Stekkadal 1828-1863. F. að Hyrningsstöðum í Reykhólasveit 31. maí 1791, d. í Saurbæ 1969. Foreldrar: Bjarni, f. 29. maí 1792, 29 ára, Bjarnason og k.h.Ásta, f. 15. sept. 1752 að Tindum á Skarðsströnd, Magnúsdóttir Sigurðssonar og k.h. Solveigar Jónsdóttur. Magnús kom á Rauðasand frá Seljalandi í Gufudalssveit 1821. Hann var tvíkvæntur.
K. I 25. okt. 1828, Guðrún Jónsdóttir, d. 17. jan. 1939, bónda í Stekkadal Jónssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur. Börn:
Kristín, f. 14. febr. 1829, d. 25. maí 1829.
Jón, f. 3. júlí 1830, í Stekkadal 1845.
Kristín, f. 23. des. 1831, átti Gísla Bjarnason bónda á Sellátranesi.
K. II 13. okt. 1839, Guðrún, f. í Breiðavík 1801, d. í Saurbæ 25. jan. 1880, Ólafsdóttir bónda á Látrum Jónssonar og Guðrúnar yngri Þorgrímsdóttur frá Lambavatni. Börn:
Bjarni, 18. júní 1840, d. 21. júlí sama ár.
Guðrún, 30. okt. 1841, d. 10. nóv. sama ár.
Börn Magnúsar Bjarnasonar utan hjónabands voru:
Benjamín, f. 3. júní 1822, bóndi í Bröttuhlíð og Stekkadal.
Magnús, f. 12. júní 1824, einnig bóndi í Bröttuhlíð.
Móðir þeirra Bemjamíns og Magnúsar var Sesselja Þórðardóttir pósts í Miðhlíð, Jónssonar. Afkomendur Þórðar í Miðhlið voru þeir Lambavatnsbræður Árni og Gunnlaugur Jónssynir og Guðrún Jónsdóttir seinni kona Ólafs Sigmundssonar í Króki.
Dóttir Guðrúnar Jónsdóttur seinni kona Magnúsar og Bjarna Guðmundssonar var:
Margrét, f. á Látrum 1835, d. í Stekkadal 11. des. 1855.
1857-1860
Magnús Magnússon. Bóndi í Stekkadal, ásamt föður sínum, 1857-1860. Bóndi í Bröttuhlíð 1860-1863, sjá þar.
1863-1895
Sigfreður Ólafsson. Bóndi í Stekkadal 1863-1895. F. í Gröf 19. júlí 1836, d. í Króki 23. jan. 1909. Foreldrar: Ólafur Gunnarsson bónda í Bröttuhlíð Höskuldssonar og k.h. Sesselju Einarsdóttur bónda á Hlaðseyri Þórarinssonar. Ólafur drukknaði 11837 ásamt föður sínum og bróður. Mun áður hafa búið 2 ár í Gröf.
K. 25. sept. 1862, Kristín, f. 10. des. 1827, d. í Króki 21. sept. 1912 Magnúsdóttirbónda á Hvalskeri Einarssonar og k.h. Guðrúnar Bjarnadóttur frá Hnjóti. Börn þeirra:
Einar, f. á Stökkum 30. sept. 1862, bóndi í Stekkadal.
Sólrún, f. í Stekkadal 3. apríl 1864, d. s.st. 4. apríl 1883.
Guðríður, f. 16. júní 1866, d. 28. okt. sama ár.
Guðmundur, f. 14. mái 1868, bóndi í Króki.
Sigríður, f. 15. okt. 1870, d. um 1950, giftist í Bolungarvík 24. okt. 1908, Guðmundi Salómoni Jónssyni, dætur þeirra Sigfríður, Kristín og Rannveig.
1895-1925
Einar Sigfreðsson. Bóndi í Stekkadal 1895-1925. F. á Stökkum 30. sept. 1862, d. í Stekkadal 3. júní 1925. Foreldrar: Sigfreður Ólafsson bóndi í Stekkadal og k.h. Kristín Magnúsdóttir frá hvalskeri.
K. 9. okt. 1886, Elín, f. 11. des. 1857, d. í Reykjavík 16. sept. 1949, jarðsett í Saurbæ Ólafsdóttir bónda á Naustabrekku Magnússonar og k.h. Guðrúnar Einarsdóttur. Börn:
Sólrún, f. á Stökkum 15. jan. 1886, d. á sjúkrahúsi á Blönduósi 12. okt. 1935. Börn hennar og Jóns Bjarnaonar voru Magnús Ólafur (dó af slysförum 1949) og Kristín húsfreyja á Söndum í Miðfirði.
Guðmundína, f. í Stekkadal 7. júní 1887, kona Þórarins Bjarnasonar lengi húsmanns á Bökkum (Grundum) í Kollsvík, síðar fiskmatsmanns á Patreksfirði, bónda á Hlið, Álftanesi, seinast í Reykjavík.
Ólafur Sveinn, f. 29. júní 1890, d. 5. júlí sama ár.
Ólafur Hermann, f. 27. sept. 1891, bóndi í Stekkadal.
Kristján, f. 1. júlí 893, forstjóri í Reykjavík kvæntur Ingunni Árnadóttur prests á Stóra-Hrauni, Þórarinssonar.
Guðbjört, f. 18. sept. 1896, kona Jóns skipstjóra Eiríkssonar bónda í Tungu Eiríkssonar.
Sigurvin, f. 30. okt. 1899, kennari í Ólafsvík og í Reykjavík, síðar forstjóri og verksmiðjueigandi í Reykjavík, bóndi í Saurbæ.
Magnús, f. 13. jan. 1901 vélstjóri, síðar forstjóri og verksmiðjueigandi í Reykjavík kvæntur Önnu Magnussen frá Suðurey í Færeyjum.
1925-1936
Ólafur Hermann Einarsson. Bóndi í Stekkadal 1925-1936. F. í Stekkadal 27. sept. 1891, d. 25. maí 1936. Foreldrar: Einar Sigfreðsson bóndi í Stekkadal og k.h. Elín Ólafsdóttir.
K. 15. júní 1918, Anna Guðrún Torfadóttir bónda í Kollsvík Jónssonar og k.h. Guðbjargar Guðbjartsdóttur. Börn þeirra:
Torfi, f. í Stekkadal (26.05.1919-21.03.2014), bankagjaldkeri í Reykjavík. Jóhanna Gunnarsdóttir; skildu. 3 börn.
Guðbjörg Ólína, f. í Stekkadal (28.12.1921-13.07.1998) M. Benedikt Kristjánsson. 3 börn..
Elín Erna, f. í Stekkadal f.11.12.1925 gift Jóni Arnari Magnússyni sjá Saurbær.
Halldóra Guðrún (12.02.192903.11.1997). 1 barn.
María (27.11.1931-13.05.2006). M. Guðmann Einar Bergmann Magnússon. 6 börn.
Kristín (21.06. 1935-21.10.1975). Barn með Ólafi Randver Jóhannssyni. Stefán Kristjánsson. 2 börn.
Valgerður, f. 21. júní 1935. M. Sigurður Magnússon; skildu. 5 börn. Sambýlismaður Arnór Guðjón Ólafsson.
1936-1945
Anna Guðrún Torfadóttir. Búandi í Stekkadal 1936-1945. Fluttist þá að Saurbæ og bjó þar til 1949, er hún fluttist til Reykjavíkur. Ekkja Ólafs Einarssonar bónda í Stekkadal. Halldór Júlíusson (sjá Melanes) var ráðsmaður hjá henni þessi ár, en hann hafði lofað Ólafi að sjá um fjölskylduna eftir að sá síðarnefndi veiktist af berklum.
Síðan 1945 hefur Stekkadalur verið nytjaður með Saurbæ og enginn verið búsettur þar.
Hlíðarhvammur; Hlíðarhvammshólar
Jarðabókin 1703 “Hjáleigur í Bæjar landi. Dýrleiki er óviss, því þar er ekkert fyrirsvar eða tíundargjörð. Hlíðarhvammshólar voru fyrir nærri 30 árum fjárhús frá Hlíðarhvammi. Var svo Hlíðarhvammsbær fluttur þángað. Nokkrum árum síðar voru Hlíðarhvammshólar forlagðir og búið í Hlíðarhvammi. Í fyrra (1702) var búið í hvörutveggja kotinu, en nú er aftir Hlíðarhvammur eyðilagður, og býr ábúandinn, Jón Diðriksson, nú í Hlíðarhvammshólum, og hefur beggja þessara smábýla land. Þetta býli er fyrir manna minni uppbygt. Landskuld af þessu samanlögðu býli 4 vættir. Geldst í öllum gagnlegum aurum. Fóðurs vonar leiguliði í haust (hann kom þángað í fardögum síðst). Leigukúgildi 3 ½ (þegar bæði býlin voru við magt voru sín 2 kvíkildi með hverjum parti). Leigur betalast heim ísmjöri. Hest leigir og leiguliði (því hann á engan sjálfur) af landsdrottni, fyrir 1 vætt. Kvaðir eru skipsár´ður. Dagsláttur fyrir nautslán. Kvikfjenaður er þar nú 3 kýr, 13 ær, hestur 1 (sc. leiguhesturinn). Á jörðunni kann að fóðrast; 3 kýr, 6 ær, 6 lömb. Heimilismenn eru 5. Þar er brent svörð, sem skerst þar. Hlunnindi engin”.
Á eignaskrá Guðmundar Arasonar ríka frá árinu 1446 er Hlíðarhvammur sagður sex hundraða jörð. Má ætla að hann hafi verið elsta hjáleigan í heimalandi Saurbæjar því að ekki eru aðrar nefndar á eignaskrá Guðmundar. Fyrsta manntalið sem hér var tekið er frá árinu 1703 og þá býr fólk enn í Hlíðarhvammi en í Jarðabók Árna og Páls kemur fram að á því ári hefur kotið farið í eyði. Ekki er vitað um byggð þar síðar (KÓ).
1703
Snorri Jónsson. Bóndi í Hlíðarhvammi, þegar manntalið er tekið, seint á vetri 1703. F. um 1662.
K. Sigríður, f. um 1671 Jónsdóttir. Börn þeirra 1703:
Jón eldri 7 ára.
Jón yngri 4 ára.
Vigdís 1 árs.
Þá er á heimilinu Jón Þórðarson faðir Sigríðar 62 ára gamall. Í fardögum 1703 fluttist Snorri að Melanesi, sjá þar.
1703
Jón Þorkelsson. Bóndi í Hlíðarhvammshólum, þegar manntalið er tekið 1703, en hefur farið þaðan í fardögum 1703, eins og að framan greinir. Jón virðist ekki vera í bænda tölu, þegar jarðabókin er samin vorið 1703. F. um 1660.
K. Ingiríður, f. um 1672 Pálsdóttir. Dóttir þeirra:
Sesselja 6 ára.
Ekki annað heimilisfólk.
1703
Jón Diðriksson. Bóndi í Hlíðarhvammi og Hlíðarhvammshólum frá fardögum 1703. Hann var bóndi í Keflavík, þegar manntalið var tekið, sjá þar. Ekki er hægt að segja neitt með vissu hve lengi Jón hefur búið á þessum stað, en það er sá J.D., sem talinn er búa á Hnjóti 1735. Jón var síðasti bóndinn, sem um er vitað í Hlíðarhvammi.
Jarðabókin 1703 „Klúka og Gröf. Eyðiland kónginum tilheyrandi. Er fyrir löngu eyðilagt, að enginn man þar neitt til bygðar. Gamlir menn þykjast heyrt hafa, að Gröf hafi í fyrstu bærinn verið, síðan hafi landið komið í bræðraskifti, og so Klúka úr Grafar stekk uppbyggð verið, nærri við landamerkin. Til tófta sjer hvörutveggja plátsinu. Landamerki þessa eyðilands halda menn vera á eina síðu lækinn, sem rennur alla götu við Klúku, en á aðra síðuna garðinn milli Grafar og Stakka (þeirrar jarðar) landareign, og sjónhending þaðan sem garðurinn sleppur ofan í Djúpavað. Að neðanverðu endi landið reiðgöturnar, sem ganga út eftir fitinni, so þetta kóngsland hafi aldri sjónum náð. Milli Klúku og Grafar er einn lítill hvammur, sem kallast Grafardalur, er hann af gömlum og nýjum skriðum skemmdur. So er og Grafarland af fjallskriðum fordjarfað. Dýrleika þessa lands veit enginn. Það kann og ei byggjast sökum túnstæðisleysis, því Grafartún er af skriðum fordjarfað, en hjá Klúku sýnist aldrei túnlegt verið hafa.
Þetta eyðiland fylgir Barðastrandarsýslu. Leigir það Guðrún Eggertsdóttir af sýslumanni fyrir 1 vætt í kaupmannsreikning, og það fyrir sömu orsök sem sagt er um Máberg. Hlunnindi eru þar öldúngis engin, og landsins gagn bestendur í litlum mýraslægjum”.
Barðstrendingabók PJ “Klúka er gamalt eyðikot milli Stekkadals og Grafar, ennfremur Hlíðarhvammur, en óvíst er að Stekkadalur hafi þá verið byggður”.
1703 1735 1762
Eins og að framan segir var Gröf í eyði 1703. Þar er ekki heldur búið 1735 og 1762.
1780 1782
Helgi Jónsson. Bóndi í Gröf 1780 og 1782. F. um 1736, d. 17. jan. 1785 og er þá bóndi í Gröf. Hann kvæntist 1766 í Sauðlauksdalssókn. Fyrsta barn hans fæðist í Saurbæjarsókn 1768, en ekki er vitað um bústað hans þá. Í apríl 1775 hefur hann verið á Melanesi og hefur hann því í fyrsta lagi komið að Gröf vorið 1775. Ekki eru til heimildir um foreldra Helga, en ekki væri fjarri sanni, að hann hefði verið sonarsonur Helga Jónssonar bónda á Tóftavelli 1703, en synir hans þá eru Jónar tveir, 17 og 13 ára og dóttir á hann sem Helga heitir. Eru þetta hin sömu nöfn og hér koma fram.
K. 1766, Guðrún, f. um 1734, d. milli 1801 og 1808, í Gröf 1801, Bjarnadóttir. Börn:
Björg, f. 12. júní 1768, seinni kona Sigmundar Jónssonar á Stökkum, dáin fyrir 1817.
Jón, f. 4. mars 1770, í Gröf 1780, vantar 1801 og síðar.
Margrét, f. 8. okt. 1773, d. 7. nóv. sama ár.
Helga, f. á Melanesi 17. apríl 1775 kona Lofts Magnússonar bónda í Gröf 1801.
Guðrún Bjarnadóttir, ekkja Helga Jónssonar. Hún hefur vafalaust verið búandi í Gröf, eftir lát manns síns og e.t.v. haldið jörðinni þar til Loftur, tengdasonur hennar, tók við.
um 1795- 1808-8
Loftur Magnússon. Bóndi í Gröf sennileg frá því um 1795 og þar til hann lést milli 1801 og 1808. F. um 1754 (ekki í Rauðasandshreppi), d. milli 1801 og 1808 og mun þá enn hafa verið bóndi í Gröf. Foreldrar: Magnús Björnsson bóndi í Króki 1780 og (að öllum líkindum) fyrri k.h., sem annars er ókunnugt um. Magnús kynni að hafa verið á Barðaströnd áður en hann kom í Rauðasandshrepp og kvæntist þar 2. sinn (1763). Loftur var tvíkvæntur.
K. I 1774, Steinunn, f. um 1740, d. eftir 1785 Bjarnadóttir. Þau eru hjú í Saurbæ 1780. Barn:
andvana, f. 1775.
K. II um 1795, Helga Helgadóttir bónda í Gröf Jónssonar, sjá hér að framan. Helga er vk. á Látrum 1808 með dóttur sína Karitas og sömul. 1817. Börn:
Jón, f. í Gröf 1795, í Saurbæ 1817, síðar bóndi á Melanesi.
Guðrún, f. í Gröf 1797, átti Ólaf Ólafsson bónda í Hænuví Þórðarsonar sjá þar.
Karitas, f. 1800, átti börn með Bjarna Magnússyni bónda á Melanesi 1821-1822, sjá þar.
Helga Helgadóttir, ekkja Lofts Magnússonar. Hún hefur sennilega búið eitthvað í Gröf eftir lát manns síns, sem ekki er óliklegt að hafi dáið skömmu eftir 1801. Eins og áður segir var Helga komin að Látrum 1808. Guðrún dóttir hennar er þá á Lambavatni, Karitas á Látrum, en Jón virðist ekki vera í Rauðasandshreppi a.m.k. er hann ekki í manntali þar.
1803-1808
Guðmundur Guðmundsson. Bóndi í Gröf 1808 (líklega frá 1803).
K. 29. sept. 1802, Elín Eiríksdóttir, f. um 1763. þau eru barnlaus. Móðir Elínar, Halldóra Ólafsdóttir, f. um 1739 er hjá þeim hjónum, systir Eggerts Ólafssonar í Hergilsey. Guðmundur og Elína giftust á Barðaströnd 29. sept. 1802. Þau búa á Arnórsstöðum f.hl. árs 1803, en ekki 1804, munu þá hafa verið komin að Gröf. Elín var áður gift Bjarna. Dóttir þeirra var Kristín, f. 1788 kona Guðmundar Einarssonar bónda í Gröf og víðar, sjá hér á eftir.
1808
Guðmundur Einarsson. Bóndi í Gröf 1808, í sambýli við Guðmund Guðmundsson, sem var stjúpfaðir Kristínar knu Guðmundar Einarssonar. Guðmundur bjó í Litla-Króki 1817, síðar í Kirkjuhvammi, sjá þar.
um 1809-1935
Halldór Jónsson. Bóndi í Gröf um 1809-1835. F. um 1775 (ekki kjb. Rauðasandshrepps), d. fyrir 1845. Hann er ekki á manntali í Rauasandshreppi 1780 en vm. á Hlaðseyri 1801. Bóndi á Lambavatni 1808 og hefur komið þangað 1806 eða fyrr. Hefur svo farið frá Lambavatni að Gröf. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi á Geitagili 1782 f. um 1736 og k.h. Kristrún Eyjólfsdóttir, sem hefði getað verið dóttir Eyjólfs Jónssonar bónda á Grundum 1762. Þau hjónin eru ekki á manntali í Rauasandhreppi 1780, gifting þeirra ekki í kjb. þar eða fæðing Halldórs og Magnúsar. Bróðir Halldórs í Gröf var Magnús, sem hefur verið yngri en Halldór. Hann er aðeins á manntali í Rauðasandshreppi 1782, vantar 1801 og síðar.
K. (líkl. 1801), Rósa, f. 16. mars 1773 Þorsteinsdóttir bónda í Hesthúsum Einarssonar og k.h. Guðbjargar Márusdóttur. Börn Halldórs og Rósu eru talin:
Kristín, f. 1798, vantar á manntalið 1801 og 1817, en á Lambavatni 1808. Hún virðist því hafa fæðst áður en foreldrar hennar giftust.
Magdalena, f. í Kvígindisdal 1802, í Gröf 1817.
Guðrún, f. á Lambavatni 7. maí 1806, dóttir hennar og Magnúsar Bjarnasonar var Magdalena, f. 1834, móðir Halldóru Guðjónsdóttur Halldórssonar.
Magnús, f. í Gröf 1809, bóndi á Hvallátrum.
Jón, f. eftir 1809, í Gröf 1817, en aldur vantar.
1835-1837
Ólafur Gunnarsson. Bóndi í Gröf 1835-1837. F. í Keflavík 29. júní 1807, drukknaði með Gísla Ísleifssyni 26. maí 1837 (ásamt föður sínum og bróður). Foreldrar: Gunnar Höskuldsson bóndi í Bröttuhlíð o.v. og seinni k.h. Sigríður Ólafsdóttir bónda á Lambavatni, Sigurðssonar.
K. 22. okt. 1830, Sesselja, f. í Breiðavík1796, d. á Stökkum 14. okt. 1873 Einarsdóttir bónda á Hlaðseyri 1808, Þórarinssonar og k.h. Þóru Jónsdóttur. Börn:
Ólafur, f. í Bröttuhlíð20. maí 1830, bóndi á Stökkum.
Sigurður, f. í Bröttuhlíð 23. júní 1833, kvæntist Vigdísi Bjarnadóttur bónda í Kvígindisdal Bjarnasonar. Dóttir þeirra Sigríður átti Guðjón Magnússon skósmið í Reykjavík.
Sigfreður, f. í Gröf 19. júlí 1836, bóndi í Stekkadal.
Magnfríður, f. í Gröf 25. ágúst 1837, kona Ketils Þorsteinssonar bónda á Melanesi.
1837-1839
Jón Jónsson. Bóndi í Gröf 1837-1839, áður bóndi í Breiðavík, sjá þar.
1839-1842
Ingibjörg Ólafsdóttir, ekkja fyrrnefnds Jóns Jónssonar. Búandi í Gröf 1839-1842.
1842-1844
Kári Sigmundsson. Bóndi í Gröf 1842-1844. Bóndi á Naustabrekku 1844-1848, fluttist þá að Höfðadal í Tálknafirði. F. í Hvammi á Barðaströnd 11. sept. 1815. Foreldrar: Sigmundur, f. um 1786 í Múlasókn Sigmundsson og k.h. Ingibjörg, f. um 1778 í Brjánslækjarsókn Helgadóttir. Sigmundur var nefndur „drottinskarl“.
K. 21. sept. 1842, Ingibjörg Ólafsdóttir fyrrnefnd ekkja búandi í Gröf. Börn þeirra:
Davíð, f. 7. nóv. 1842, d. 14. sama mán.
Þuríður, f. 9. okt. 1843, d. 10. sama mán.
Kári, f. á Naustabrekku 6. ágúst 1847, d. 10. mars 1848.
Kári hefur verið hraustmenni. Um hann er þetta kveðið eftir að hann kom í Tálknafjörð:
Kára held ég hraustan mann
Höfða- býr í dalnum
Á einu kvöldi afrek vann
einn rassskellti hreppstjórann.
1844-1848
Þórður Jónsson. Bóndi í Gröf 1844-1848. Síðar bóndi á Sjöundá, sjá þar.
1848-1858
Magnús Ólafsson. Bóndi í Gröf 1844-1858. F. á Brekkuvelli á Barðaströnd 3. maí 1822, d. í Gröf 11. febr. 1858. Ólst upp í Sauðeyjum hjá Guðrúnu Eggertsdóttur frá Hergilsey og manni hennar Jóni Jónssyni. Guðrún var hálfsystir Steinunnar móður Magnúsar. Foreldrar: Ólafur Einarsson bóndi á Fossi og k.h. Ingibjörg Sveinsdóttir bónda í Hergilsey, Einarssonar bónda á Hreggstöðum. Sveinn Einarsson drukknaði 1801 með mörgu fólki úr Hergilsey (í kirkjuferð). Magnús kom á Rauðasand 1844.
K. 24. jan. 1845, Elín Bjarnadóttir bónda á Lambavatni 1780, Pálssonar og seinni k.h. ? Guðrúnar Björnsdóttur. Börn þeirra:
Jónas, f. í Saurbæ 7. febr. 1845, d. 12. febr. 1847.
Guðrún, f. í Gröf 18. maí 1848, d. 25. sama mán.
Sveinn, f. í Gröf 28. júlí 1848, bóndi á Lambavatni.
Guðrún, f. í Gröf 1. okt. 1850, 10. sama mán.
Elín, f. í Gröf 9. febr. 1852, d. óg. og bl. í Sauðlauksdal 22. júlí 1882.
Magnús, f. í Gröf 1. mars 1853, þar 27. júlí 1881, ókv. og bl.
Elín Bjarnadóttir var áður gift Jóni Einarssyni, sem hrapaði til bana á Skorarhlíðum (skömmu eftir giftingu þeirra) 23. des. 1833, sjá hér á eftir um Benóný Ólafsson.
1858-1861
Elín Bjarnadóttir, ekkja fyrrnefnds Magnúsar Ólafssonar. Hún var búandi í Gröf 1858-1861.
1861-1885
Benóný Ólafsson. Bóndi í Gröf 1861-1885. F. í Króki 1. mars 1842, d. á Lambavatni 6. sept. 1898. Hann var sonur Ólafs Sigmundssonar bónda í Króki og Guðrúnar Jónsdóttur, sem síðar varð seinni kona Ólafs.
K. 1. okt. 1861, Jóhanna Ektalína, f. í Saurbæ 25. ágúst 1834, d. í Breiðavík 29. apríl 1917 Jónsdóttir Einarssonar og k.h. Elínar Bjarnadóttur, sem síðar átti Magnús bónda í Gröf, Ólafssonar. Foreldrar Einars afa Jóhönnu voru Jón Jónsson bóndi á Láganúpi og k.h. Anna Þorvaldsdóttir. En kona Einars var Sesselja Þórðardóttir frá Miðhlíð (sjá Benjamín Magnússon b. í Bröttuhlíð). Jón og Elín giftust 30. sept. 1833 og höfðu því aðeins verið tæpa þrjá mánuði í hjónabandi þegar Jón lézt af slysförum. Börn Benónýs og Jóhönnu voru:
Ólína Jóhanna, f. 27.mars 1863, d. 2. júlí 1899, gift Jóni Árnasyni bónda í Krókshúsum.
Guðrún Sesselja, f. 4. apríl 1864, d. í Gröf 26. júní 1888, óg. og bl.
Elín, f. 2. júní 1870, d. á Lambavatni 8. febr. 1952, og. og bl.
Eggert, f. 8. júlí 1872, d. 15. sama mán.
Jón, f. 16. júní 1874, d. 7. júlí sama ár.
Sveinn, f. 21. jan 1876, d. í Breiðavík 8. nóv. 1946, bóndi í Breiðavík.
1855-1895
Magnús Oddgeirsson. Bóndi í Gröf 1885-1895. F. í Flatey á Breiðafirði 26. ágúst 1842, drukknaði sumarið 1898, er fiskiskipið Komet fórst fyrir Hornströndum. Foreldrar: Oddgeir Jónsson bóndi í Vatnsdal og k.h. Þuríður Nikulásdóttir. Magnús fluttist með foreldrum sínum frá Flatey að Vatneyri árið 1849. Var síðan í Rauðasandshreppi þar til hann fluttist til Reykjavíkur vorið 1898. Var seinustu árin húsmaður á Gjögrum í Örlygshöfn.
K. 3. okt. 1879, Björg, d. í Reykjavík 19. sept. 1939 Ólafsdóttir bónda í Króki Sigmundssonar. Börn þeirra:
Oddgeir skipstjóri, f. á Sjöundá 16. maí 1873, var skipstjóri á Komet, er fórst með allri áhöfn 1898. Kona hans var Þóra Vigfúsdóttir, er síðar átti Magnús Jóhannsson, skósmið og kaupmann á Patreksfirði. Dóttir Oddgeris og Þóru var Oddgerður, f. í Bakkakoti á Seltjarnarnesi 8. sept. 1898.
Guðbjörg, f. á Sjöundá 26. júli 1881, d. þar 9. des. sama ár.
Guðbjörg Ólafía, f. í Gröf 13. febr. 1890, átti Bárð Sigurðsson, Hafliðasonar. Þau voru fyrst búsett í Bolungarvík, en fluttust til Reykjavíkur 1913 og þar dó Bárður 1921. Eignuðust 9 börn. Sonur Guðbjargar eftir að hún varð ekkja: Þorsteinn Sigurðsson kennari í Reykjavík.
1895-1898
Bjarni Ebenesersson. Bóndi í Gröf 1895-1898.
1898-1922
Dagbjartur Einarsson. Bóndi í Gröf 1898-1922. F. í Breiðavík 2. jan. 1866, d. í Reykjavík 3. febr. 1940. Foreldrar: Einar Jónsson bóndi á Mábergi og Þóra Bjarnadóttir bónda á Lambavatni, Ólafssonar. Þau voru ógift, en Einar átti síðar Guðríði Ólafsdóttur.
K. 16. okt. 1892, Sigurbjörg, d. í Gröf 14. mars 1914 Ketilsdóttir bónda á Melanesi, Þorsteinssonar og k.h. Magnfríðar Ólafsdóttur. Börn þeirra:
Sigurbjörg Vigdís, f. á Mábergi 21. sept. 1891, d. 1932 á Kópavogshæli.
Bjarnveig, f. á Mábergi (25.09.1892-11.07.1983), átti 1921 Þórð Ólafsson frá Múla í Gufudalssveit, bjuggu á Borg í Arnarfirði. 6 börn.
Ólöf, f. á Mábegi 3. ágúst 1894, átti Þorvald Bjarnason Ebeneserssonar. Bóndi í Gröf, sjá hér neðar.
Ketilfríður, f. í Gröf (03.06.1897-31.05.1988), átti Guðjón skósmið í Reykjavík Magnússon ljósmyndara í Reykjavík Ólafssonar. Guðjón var áður giftur Sigríði Sigurðardóttur (sjá ólaf Gunnarsson bónda í Gröf). 1 barn.
Valdimar Lúðvík (07.11.1899-08.12.1979), kvæntur Sigríð Oddsdóttur bónda í Laugardal, Magnússonar. 1 barn.
Hólmfríður, f. 23. sept. 1901, d. 13. des. 1913.
Ingunn Kristín (23.12.1903-18.06.1993). Ógift.
Ingibjörg Þórarna (16.05.1905-24.04.1970), átti Björn Erlendsson bónda á Breiðabólsstað á Alftanesi. 3 börn.
Einar Júlíus (22.07.1907-03.10.1958), tvíkvæntur, barnlaus.
Þorsteinn (22.07.1910-03.12.1995), kvæntur Sigrúnu Rakel Tryggvadóttur. 3 börn.
Halldór (04.11.1911-31.12.1986), tvíkvæntur. 6 börn.
1922-1924
Halldór Bjarnason og Magnfríður Ívarsdóttir; bændur í Gröf 1922-1924. Áður á Mábergi, sjá þar.
1924-1954
Magnfríður Ívarsdóttir, ekkja fyrrnefnds Halldórs Bjarnasonar. Búandi í Gröf 1924-1954. Fluttist þá til Reykjavíkur og var á heimili Ólafs sonar síns. Hún lést 13. jan. 1958.
1955-1978
Þorvaldur Bjarnason (25.09.1893-09.11.1979) og Ólöf Dagbjartsdóttir (03.08.1894-04.05.1986). Ólöf var dóttir Dagbjarts Einarssonar og Sigurbjargar Ketilsdóttur fyrri bænda í Gröf (sjá framar). Börn þeirra:
Ásta Guðrún (02.06.1923-09.03.1989).
Bjarney Jóhanna (19.01.1926-07.08.1979)
Ketill Bergur f 23.09.1927
Vigdís Þórey f 02.05.1930
Bjarni f 03.07.1931
Atli (18.02.1936-19.02.1936)
Börn Ólafar með Friðlaugi Einarssyni:
Friðmundur (13.04.1911-20.12.1937)
Steingrímur Hannes (22.11.1912-15.09.1998)
Friðlaugur (01.02.1915-18.11.1927).
Gröf fór í eyði 1978, þegar Þorvaldur og Ólöf fóru að Melanesi til Vigdísar dóttur þeirra.
Jarðabókin 1703 “Hjáleigur af allri jörðinni Stökkum eru fyrst Litli Krókur. Lengi bygð hjáleiga. Jarðardýrleiki er áður talinn í aðaljarðarinnar (Stakka) dýrleika og tíundast þetta kot öngvum. Ábúandinn er Þorvaldur Bjarnason. Landskyld 60 álnir og hefur so verið það menn til muna. Betalast í fiski, ef til er, ella ut supra (þ. e. í landaurum öllu), heim til eigndans Guðrúnar Eggertsdóttur. Við til húsa leggur landsdrottinn. Kúgildi 2, hafa áður verið 3. Leigur betalast í smjöri, ef til er, heim til landsdrottins. En bregðist það, þá í fóðri, fiski eður öðru gjaldgengu. Kúgildin uppbætir eigandi. Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfjenaður er 1 kýr 2 ær og 1 hestur. Fóðrast kann þar 1 kýr, 6 ær. Heimilismenn 6 (4 börn og hjónin bæði; elsta barnið er 10 vetra)”.
1703
Þorvaldur Bjarnason. Bóndi í Litla Króki 1703. F. um 1660.
K. Guðrún, f. um 1672 Sölmundardóttir. Börn þeirra:
Sigríður 9 ára.
Jón 3 ára.
Margrét 1 árs.
Ekki víst um neina afkomendur.
1735
Árið 1735 er ekki víst hver hefur verið í Litla Króki, en ekki er ólíklegt að einhver þeirra 7 búenda, sem taldi eru á Stökkum, sé í Litla Króki, sjá Stakka.
um 1760
Páll Pálsson. Bóndi í Litla Króki um 1760. Ókunnugt er um aldur hans, en það mun vara hann, sem dó 13. ágúst 1771.
K. 1753, Þórdís Pálsdóttir, sjá síðar. Börn þeirra:
Elín, f. 1754, d. 1755
Páll, f. 6. júní 1756, í Litla Króki 1780, drukknaði með Hnjótsbræðrum 19. mai 1781.
Þórður, f. 9. okt. 1757, d. 30. sama mán.
Elín, f. 9. okt. 1757, d. 30. sama mán.
Jón, f. 27. des. 1760 í Litla Króki, segir í manntali 1817, en þá er hann bóndi í Kirkjuhvammi.
Páll, f. 1762, 1763.
Páll, f. 1764, d. 1767.
Páll, f. 31. mars 1768, d. í Kirkjuhvammi 1785, sveitarómagi, aldrei fengið fullt vit.
Gísli Konráðsson segir að þeir hafi verið bræður Jón Pálsson í Bröttuhlíð og Bjarni Pálsson á Brekku. Hér er vart um annan Bjarna að ræða, en Bjarna Pálsson á Lambavatni, seinast í Króki. Hann er f. um 1747, 5 árum áður en þau giftast Páll Pálsson og Þórdís og er 12 árum eldri en Jón. Enn er þess að geta, að Guðrún Pálsdóttir kona Þórðar Hafliðasonar í Tungu er sögð f. í Litla Króki um 1744. það er því ástæða til að ætla, að Páll Pálsson hafi verið ekkjumaður, er hann átti Þórdísi og að börn hans úr f.hjb. hafi verið þau Guðrún í Tungu og Bjarni á Lambavatni. Hitt kemur heim, sem Gísli Konráðsson segir einnig, að Guðrún Pálsdóttir, f. um 1724, d. 1815 kona Sveins Jónssonar á Vaðli (en þau voru foreldrar Steinunnar á Sjöundá) hafi verið systir Jóns Pálssonar (sem Gísli telur í Bröttuhlíð). Miklu líklegra er, að hún hafi verið föðursystir þeirra.
1780 og 1782
Þórdís Jónsdóttir, ekkja Páls Pálssonar. Hún er búandi í Litla Króki 1780 og 1782. Hefur væntanlega búið þar frá því að maður hennar lest, en óvíst er hve lengi hún hefur buið eftir 1782. Hún var f. um 1728, d. milli 1785 og 1801.
1801 og 1808
Árin 1801 og 1808 er enginn búandi í Litla Króki.
1819-1821
Jón Þórðarson. Bóndi í Litla Króki 1819-1821. Fór þá um vorið að Stekkadal, en drukknaði frá Brunnum með Gunnlaugi Jónssyni 22. maí 1821. F. um 1792, sonur Þórðar Bjarnasonar bónda á Stökkum og k.h. Guðlaugar Jósdóttur bónda á Stökkum, Magnússonar.
K. 6. sept. 1818, Kristín, f. 1795 Ólafsdóttir bónda á Látrum Jónssonar og seinni k.h hans, sem ekki er vitað hver var. Barn þeirra:
Guðríður, f. í Keflavík 16. ágúst 1818.
Kristín fluttist úr Rauðasandshreppi að ?? í Geiradal. Þar giftist hún Hjalta Bjarnasyni og var að honum látnum kölluð Hjalta-Kristín. Dóttir þeirra var Þórdís móðir Guðjóns Brynjólfssonar bónda á Melanesi.
Kristín átti tvö launbörn með Þorsteini Þorsteinssyni bónda á Hlaðseyri.
1825-1827
Jón Bjarnason. Bóndi í Litla Króki 1825-1827, áður bóndi í Skógi, sjá þar.
1827-1829
Guðrún Jónsdóttir. Búandi í Litla Króki 1827-1829. Hún var tengdadóttir fyrrnefnds Jóns Bjarnasonar. Hún var f. á Láganúpi 1786, en ekki er hægt að segja með neinni vissu um foreldra hennar. D. í Keflavík 9. des. 1858.
M. I 1814, Þórður, f. á Firði í Múlasveit 10. des. 1790, d. á Skógi 1816, Jónssyni bónda á Skógi Bjarnasonar og k.h. Margrétar Þórðardóttur. Dætur þeirra voru:
Margrét, f. 1815, átti Gunnlaug bónda í Bröttuhlíð, Þorleifsson.
Þóra, f. á skógi 1816, átti Ólaf Þorgrímsson bónda á Grundum.
M. II 10. sept. 1836, Bjarni Gíslason, f. í Skápadal 1809. Hann dó 1847 (hrapaði úr Bjargi), þau barnlaus.
Áður en Guðrún giftist hafði hún átt dóttur:
Guðrún, f. 1809, átti Gísla Einarsson bónda í Kollsvík. Faðir hennar var Jón Einarsson, síðar bóndi á Gili.
Jarðabókin 1703 „Store Krokur, áður talinn í dýrleika sjálfrar jarðarinnar Stakka, er býli út af 12 hdr. Ábúandinn Oddur Einarson býr á 6 hdr. Landsskyld 50 álnir. Betalast í fiski ef til er, ella í landaurum heim til eiganda, aldeilis ut supra. Við til húsbótar leggur eigandi. Kúgildi 3 og hafa lengi so verið… Kúgildi uppyngir eigandi, ef landseti beiðist. Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfjenaður Odds er 2 kýr, 1 kvíga að fyrsta kálfi, 1 ær, 1 hross, Fóðrast kann 2 kýr, 3 lömb. Heimilismenn 7.
Annar ábúandi þar, Jón Jónsson, býr á 6 hdr. Landskyld 40 álnir, hefur fyr verið 50 álnir, áður en tún spiltist af skriðu… Við til húsbótar leggur leggur eigandi.. Kúgildi 2 fylgja jörðinni og þriðja í fyrra við aukið fyrir bón leiguliða, voru og 3 áður skriðan spilti... Kúgildi uppbætir eigandi. Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfénaður 2 kýr og 3 ær og 1 gemlingur og einn hestur, sem ábúandinn hefur til leigu af landsdrottni og geldur í leigu 20 álnir í einhvörju gildu. Fóðrast kann á þessum parti 2 kýr og ekki meira. Heimilismenn Jóns Jónssonar eru 3“.
Eigandi jarðarinnar (og alls hins forna Stakka lands) var Guðrún Eggertsdóttir í Saurbæ”.
“Krókur var upphaflega hjáleiga frá Stökkum, oftast reiknuð fjórðungur jarðarinnar, Stakkar voru þá 48 hundruð, og Krókur reiknaður 12 hundruð. Á 19. öld var mat Stakka lækkað í 40 hundruð, og var jörðinni þá skipt í 3 jafnstóra parta; Krók, Krókshús og Stakka, með útskiptum slægjum, en öðru sameiginlegu… 1901 var Krókur eign Saurbæjarkirkju, sem fékk hana og Gröf í skiptum fyrir Fífustaði í Arnarfirði 1890” (BÞ)
1570 og 1571
Hallur. Bóndi í Króki 1570 og 71.
1570 og 1571
Brandur. Bóndií Króki 1570 og 71. Samkvæmt reikningum Eggerts Hannessonar þessi ár.
1703
Oddur Einarsson. Bóndi á hálfum Króki 1703. F. um 1652.
K. Guðrún, f. um 1656 Árnadóttir. Börn þeirra:
Árni 16 ára.
Kristín 12 ára.
Einar 7 ára.
Sigríður 4 ára.
Auk þess er á heimilinu 1 vk. Guðrún, f. um 1660 systir Odds.
1703
Jón Jónsson. Bóndi í Króki 1703. F. um 1664.
K. María, f. um 1668 Sigmundsdóttir. Dóttir þeirra:
Margrét 4 ára.
Árin 1735 og 1762 eru allir bændur á hinum forna Stakka landi taldir í einu lagi, svo ekki verður með vissu séð, hver býr á hvaða jörð. En hér sett það sem líklegast þykir.
1735
Snæbjörn Sigurðsson. Bóndi í Króki 1735. Hann hefur líklega verið dóttursonur Jóns Snæbjörnssonar (Skagfirðings), sem er vinnumaður á Stökkum 1703; aldur ekki tilgreindur.
1735
Jón Diðriksson. Bóndi í Króki 1735. Hann hefur líklega verið sonur Diðriks Jónssonar, sem er 15 ára á Naustabrekku 1703 og kynni að hafa verið sonur Jóns elsta Diðrikssonar bónda á Láganúpi 1703, e.t.v. áður en hann kvæntist.
1762
Guðrún Bjarnadóttir. Líklega búandi í Króki 1762 og sennilega ekkja. Ekki er kunnugt um, hver þessi Guðrún hefur verið. Í Saurbæ er 1780 G.Bj. í Litla Króki 45 ára.
1780
Magnús Björnsson. Bóndi í Króki 1780. F. um 1732, d. 13. des. 1807. Hann er í Gröf 1801, ekkjum. úr 2. hjb. Þar býr þá Loftur sonur hans væntanlega úr fyrra hjónabandi Magnúsar, en ekki er kunnugt um móðir Lofts. Loftur mun hafa búið á Rauðasandi og e.t.v. í Króki, frá því hann kvæntist (1763) og til vors 1781 (eða 80). Þá hefur hann látið af búskap í bili, enda hafði hann þá misst 5 börn á einu ári og farið að Breiðavík, er þar vinnumaður 1782 (líkl í ársbyrjun). En 1784 hefur hann komið að Bröttuhlíð og búið þar nokkur ár, sjá þar.
Ekki er víst um ætterni Magnúsar, en hann kynni að hafa verið sonur Björns Magnússonar, sem bjó í Breiðavík um 1730 og þar hafði þá Magnús verið fæddur. Björn er að vísu talinn hafa átt fyrir son Magnús vefara í Skálholtskoti í Reykjavík, en vel gat hann átt annan son með því nafni, sem fallið hefði úr barnatölunni. Þó er þetta vitanlega getgáta.
K. 1763, Þórlaug, f. um 1741, d. milli 1786 og 1801 Jónsdóttir Ólafssonar og k.h. Guðrúnar Barndsdóttur. Þórlaug var systir Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík (ættuð úr Dalasýslu). Börn þeirra:
Jón, f. 1764, d. 1765.
Karitas, f. 1766, ógift vinnukona á Stökkum 1801, ekki á manntali 1808 eða síðar.
Jón, f. 1767, 1780.
Ingibjörg, f. 1769, d. 1778.
Magnús, f. 1770, vantar 1801, líkl. dáið milli 1786 og 1801.
Elín, f. 1772, d. 1780.
Steinunn, f. 1773, í Gröf 1780, líkl. dáið milli 1786 og 1801.
Guðrún, f. 1775, d. 1780.
Jón, f. 1777, d. 1780.
Ingibjörg, f. 1778, d. 1780.
Guðrún, f. 1781, d. í Bröttuhlíð í apríl 1785.
1781
Bjarni Pálsson. Bóndi í Króki 1781 og síðar, e.t.v. þar til tendasonur hans Ólafur Arngrímsson hefur tekið við (um 1796). Áður bóndi á Lambavatni, sjá þar. Bjarni er í Króki 1801 kallaður bóndi, jarðnæðislaus. Árið 1808 er hann þar ekkjumaður. Bústýra tendasonar hans, Ólafs Arngrímssonar, sem einnig var orðinn ekkjumaður, var:
K. Guðrún Björnsdóttir bónda í Breiðavík, Össurarsonar. Með henni hafði Bjarni átt son:
Páll, f. 25. des. 1807.
Svo virðist sem Bjarni og Guðrún hafi gifst, því Guðrún er ekkja 1817 í Sauðlauksdal, en dóttir hennar:
Elín Bjarnadóttir, er í Raknadal, 7 ára gömul og f. í Króki. Þetta var Elín kona Magnúsar Ólafssonar bónda í Gröf, sjá þar.
um 1796-1808
Ólafur Arngrímsson. Bóndi í Króki líklega um 1796-1808 og lengur, en ekki er víst um dánarár hans. Hann er þó ekki á manntali 1817. F. 1762, kynni að hafa dáið um eða skömmu eftir 1810. Foreldrar: Arngrímur Sigmundsson, f. um 1732, d. 1783 og er þá vm. í Kollsvík og k.h. Guðrún Magnúsdóttir, f. um 1717, í Kollsvík 1784. Þau hjónin hafa komið í Rauðasandshrepp vorið 1781, ásamt sonum sínum, Agrippa, f. 1761 eða 60 og Ólafi. Þau hjónin eru með þessa syni sína að Barmi í Gufudalssveit 1762. Aldur þeirra er þá talinn: Arngrímur 30, Guðrún 35, Agrippa 2 og Ólafur 1 árs. Aldur þeirra eftir að þau koma í Rauðasandshrepp víkur nokkuð frá þessu. Það hlýtur að vera á misskilningi byggt, sem sést hefur, að telja Ólaf í Króki bróður Halldórs í Hænuvík og þá báða syni Arngríms Ólafssonar á Skjaldvararfossi.
K. Elín, f. 10. ágúst 1772, d. líkl. í ársbyrjun 1804, skiptafundur 27. febr. það ár, Bjarnadóttir bónda á Lambavatni Pálssonar og k.h. Ingibjargar Guðmundsdóttur (sjá einnig hér að framan). Börn þeirra:
Kristín, f. 1797, Króki 1801 og 1808.
Gísli, f. 1798, Látrum 1817.
Bjarni, f. 1799, bóndi á Lambavatni.
Ingibjörg, f. 1800, kona Jóns Jónssonar bónda í Breiðavík, síðar í Gröf, átti svo Kára Sigmundsson bónda í Gröf og á Naustabrekku.
Áður en Elín giftist hefur hún átt dóttur:
Guðrún Jónsdóttir, f. 1794 í Króki, d. í Breiðavík 5. sept. 1855. Hún átti Ólaf Þorgrímsson frá Hvalskeri. Dóttir þeirra var Guðríður kona Jóns yngri Einarssonar frá Kollsvík (sjá einnig Breiðavík).
1817
Magnús Árnason (sútari). Bóndi í Króki 1817. Hann hefur sennilega komið þangað eftir Ólaf Arngrímsson (líklega um eða skömmu eftir 1810) og er þar til 1820, er hann flyzt að Keflavík, sjá þar. Magnús var ekkjumaður, er hann bjó í Króki, en kvæntist aftur er hann kom að Keflavík. Bústýra hans 1817 var Sigríður Þorkelsdóttir 61 árs, f. á Bíldudalseyri í Otradalssókn. Hann átti tvær dætur með fyrri konu sinni og eru þær báðar hjá honum í Króki:
Sigríður, f. 1807.
Kristín, f. 1809.
1820-1869
Ólafur Sigmundsson. Bóndi í Króki 1820-1869. F. 1797, d. í Króki 13. febr. 1873. Foreldrar: Sigmundur Jónsson bóndi á Stökkum og seinni k.h. Björg Helgadóttir frá Fröf. Ólafur var tvíkvæntur.
K. I 12. okt. 1820, Guðrún Jónsdóttir ekkja Jóns Jónssonar bónda í Stekkadal. Hún var komin nálægt fimmtugu, er þau giftust og voru þau barnlaus. Guðrún dó 14. júní 1849.
K. II 2. okt. 1849, Guðrún, f. á Brekkuvelli á Barðaströnd 5. apríl 1819, d. í Króki 24. júní 1869 Jónsdóttir bónda á Melanesi Ólafssonar og k.h. Hallbjargar Jónsdóttur. Börn þeirra:
Benóný, f. í Króki 1. mars 1842, bóndi í Gröf. Faðir Benónýs var upphaflega skrifaður Ólafur Magnússon, er mun vera Ól. Magn. síðar bóndi á Naustabrekku.
Jón, f. í Króki 19. ágúst 1848, bóndi í Króki. Faðir hans var upphaflega skrifaður Sigurður nokkur Eiríksson.
Guðmundur, f. í Króki 9. apríl 1850, bóndi í Krókshúsum.
Björg, f. í Króki 12. ágúst 1851, kona Magnúsar Oddgeirssonar í Gröf.
Víglundur, f. í Króki 7. júní 1855, bóndi í Króki.
Ragnheiður, f. í Króki 19. des. 1858, átti 22. okt. 1882 Þórð Þorsteinsson bónda í Sperðlahlíð. Meðal barna þeirra var Ólafur skipstjóri í Hafnarfirði.
Sigmundur, f. 8. ágúst 1862, dó ungbarn.
Eins og sjá má á framangreindu átti Ólafur tvö börn með Guðrúnu, sem varð seinni kona hans, meðan hann var í fyrra hjónabandi. Áður hafði hann átt 2 syni með öðrum konum, eftir að hann kvæntist:
Ólafur, f. 1825. Móðir hans var Ingibjörg Árnadóttir ekkja Ásbjarnar Þórðarsonar á Lambavatni. Hún varð skömmu síðar miðkona Bjarna Halldórssonar, sem þá bjó í Hænuvík, fyrrum á Hnjóti.
Jón, f. í Króki 2. ágúst 1833, bóndi á Sjöundá. Móðir hans var Helga Jónsdóttir bónda í Botni Jónssonar og k.h. Elínar Jónsdóttur. Helga dó í Króki.
1869-1880
Jón Ólafsson. Bóndi í Króki 1869-1880. Fluttist að Dufansdal og var þar nokkur ár, en fór síðan að Tungu í Skutulsfirði. F. í Króki 19. ágúst 1848, d. í Tungu í Skututlsfirði. 18. des. 1907. Foreldrar: Ólafur Sigmundsson bóndi í Króki og seinni k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 8. nóv. 1869, Sigríður, f. 9. júní 1843, d. 20. sept. 1925. Foreldrar: Halldór Bjarnason, f. 1799, d. 1. jan 1863, fyrst vinnumaður í Hnífsdal, bjó síðar á Gili í Bolungarvík og k.h. (15. sept. 1833) Margrét Halldórsdóttir, f. 4. des. 1817, d. 29. nóv. 1892 Börn þeirra:
Guðrún, f. 27. febr. 1870, d. 22. júní 1879.
Halldór, f. 15. jan. 1871, d. í Dufansdal 17. des. 1883.
Magnús, f. 25. maí 1872, d. 8. júní sama ár.
Margrét, f. 28. apríl 1873. Átti Vilhjálm Bessa, d. í Tungu í Skutulsfirði 12. júní 1915 Pálsson bónda í Tungu. Margrét var á lífi hjá dóttur sinni búsettri í Noregi 1954. Meðal barna þeirra var Ólafur maður Oddgerðar Oddgeirsdóttur (sjá Magnús Oddgeirsson í Gröf) og Marta kona Ásbjörns Ólafssonar í Skápadal.
Ólafur, f. 1. sept. 1874, fórst með Komet fyrir Hornströndum 1898.
Davíð, f. 5. okt. 1877, fórst einnig með Komet.
Pálína, f. 27. okt. 1878, átti 1913 Ólaf Á Johnsen frá Suðureyri, sem áður var kvæntur Guðbjörgu Víglundsdóttur frændkonu Pálínu.
Andvana barn, f. í Króki 1879.
Guðmundur, f. í Dufansdal 1881, d. í Reykjavík 1953, skipstjóri (Freyju).
1880-1885
Víglundur Jón Ólafsson. Bóndi í Króki 1880-1885. Síðar verkstjóri á Vatneyri hjá Ólafi kaupmanni Jóhannessyni. F. í Króki 7. júní 1855, d. á Vatneyri 8. apríl 1921. Foreldrar: Ólafur Sigmundsson bóndi í Króki og seinni k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 4. okt. 1878, Guðrún, í Króki 20. des. 1854, d. á Patreksfirði 12. júlí 1850 Jónsdóttir bónda á Sjöundá Ólafssonar. Víglundur var hálfbróðir Jóns, föður Guðrúnar. Börn þeirra:
Margrét, f. á Sjöundá 2. júlí 1875 – skv. kjb., átti Björn Olsen kaupmann á Patreksfiðri.
Guðbjörg, f. á Sjöundá 23. ápríl 1879, d. á Patreksfirði 27. ágúst 1911, átti Ólaf Á Johnsen frá Suðureyri. Þau barnlaus.
Dóttir Víglundar og Steinunnar Magnúsdóttur er síðar átti Gunnlaug Jónsson bónda á Lambavatni:
Guðríður, f. f. í Króki 8. júlí 1873.
1885-1894 -?
Ólafur Jónsson. Bóndi í Króki 1885-1894. Var oddviti í Rauðasandshreppi og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. F. í Krókshúsum 26. des. 1853, d. á Hvalskeri 19. febr. 1947. Foreldrar: Jón Ólafsson bóndi á Sjöundá og k.h. Guðbjörg Magnúsdóttir frá Hvalskeri.
K. 10. okt. 1879, Guðbjörg, f. í Kvígindisdal 9. júlí 1858, d. í Króki 31. júlí 1892 Árnadóttir Thoroddsen bónda í Kvígindisdal. Börn þeirra:
Jón Sigmundur, f. á Sjöundá 9. sept. 1880, d. 14. ágúst 1882.
Guðbjörg, f. á Sjöundá 9. júlí 1882, d. á Látrum 28. apríl 1883.
Sigríður, f. á Látrum 18. nóv. 1883, d. þar 28. apríl 1884.
Sigurjón Árni, f. á Látrum 29. okt. 1884, d. í Reykjavík í apríl 1954, skipstjóri, alþingismaður, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur. 5. okt. 1912, Guðlaug Gísladóttir, d. í Reykjavík 5. nóv. 1951. Þau eignuðust 13 börn.
Ólafía, f. í Króki 12. nóv. 1885, kona Stefáns Baldvinssonar bónda í Stakkahlíð í Loðmundarfirði, fyrrum kennara á Hvanneyri. Eignuðust 7 börn.
Stefán, f. í Króki 10. jan. 1891, bónda á Hvalskeri.
Sigríður Snæbjörg, f. í Króki 11. jan. 189?, átti Stefán Magnússon trésmið í Reykjavík. Eiga 1 son.
1894-1930
Guðmundur Sigfreðsson (14.05.1868-03.08.1963). Bóndi í Króki 1894-1930. Búfræðingur frá Ólafsdal, hreppstjóri í Rauðasandshreppi 1920-1930. Lét af búskap 1930 og fluttist að Lögmannshlíð í Glæsibæjarhreppi. Þar átti bú dr. Kristinn menntaskólakennari á Akureyri, sonum Guðmundar. Síðar tók þar við búi Sigfreður Guðmundsson og þar hefur Guðmundur lengstum dvalið.
K. 25. okt. 1895, Guðrún Júlíana, f. í Vatnsdal 10. sept. 1871, d. í Lögmannshlíð 194? Einarsdóttir bónda í Vatnsdal Thoroddsen og seinni k.h. Sigríðar Ólafsdóttur frá Sviðnum í Breiðafirði. Börn þeirra:
Jón (18.08.1896-08.06.1988), rafvirkjameistari í Reykjavík kvæntur a) Guðnýju Jónsdóttur frá Galtafelli, skildu. 1 barn. b) Laufeyju Gísladóttur. 7 börn.
Kristinn, f. í Króki (14.10.1897-30.04.1982), hagfræðingur, menntaskólakennari á Akureyri og síðar skattstjóri þar, utanríkisráðherra 1954-56. 1927, Elsa Alma Kalbaow, f. í Þýskalandi.
Karl, f. í Króki (30.12.1898-15.04.1977), rafvirkjameistari í Reykjavík, sýningarstjóri í Nýja Bíói og Tjarnarbíói, kvæntur Margréti Tómasdóttur. 9 börn.
Sigfreður, f. í Króki 14. nóv. 1906, bóndi í Efri-Tungu í Örlygshöfn (sjá þar), svo í Lögmannshlíð.
Einar, f. í Króki 26. maí 1910, d. 12. maí 1912.
Einar Thoroddsen, f. í Króki (15.11.1913-03.04.1975), héraðslæknir á Bíldudal, kvæntur Ölmu Sövrine Tynes. 6 börn.
Torfi, f. í Króki (25.08.1915-03.11.1949), kvæntur Daney Benediktsdóttur. 2 börn.
1930-1955
Jóhannes Halldórsson. Bóndi á hálfum Króki 1930-1955. F. á Þinghóli í Tálknafirði 8. júlí 1901. Foreldrar: Halldór Bjarnason bóndi á Mábergi síðast í Gröf og k.h. Magnfríður Ívarsdóttir frá Kirkjuhvammi. Ókvæntur og barnlaus. Hefur aðsetur í Gröf, sem er skammt fyrir innan Krók, en þar hefur móðir hans búið síðan hún varð ekkja 1924.
“Krókur fór í raun í eyði 1930. Guðmundur Sigfreðsson var þá búinn að eignast hálfan Krók, (hlut Sigurðar Bachmann) og keypti Jón Pétursson á Stökkum hann, og hefur sá hluti síðan fylgt Stökkum. Jóhannes Halldórsson eignaðist hinn helminginn (sem nefndur var Litli-Krókur) og var skráður ábúandi á honum, en bjó með móður sinni í Gröf…" (BÞ)
Jarðabókin 1703 „Krokshuus, áður reiknuð í dýrleika sjálfrar jarðarinnar Stakka, en nú býli út af 12 hdr. Ábúandinn Högni Jónsson, býr á 6 hdr. Landsskyld 50 álnir... Leigukúgildi 3. Hafa so lengi verið, og stundum 2 ½. Leigur gjaldast heim í smjörum ef til eru, ella etc. Item hefur hann til láns af landsdrottni hross, sem hann á að gjalda leigu af, 15 álnir í einhvörju gjaldgengu. Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfénaður er 2 kýr, 4 ær, 1 hross. Fóðrast kann þar 2 kýr, 6 ær. Annar ábúandi er J.G., býr á 3 hdr. Landsskyld er 25 álnir… Við til húsabóta leggur landsdrottinn. Leigukúgildi 1 kýr, 2 ær. Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfénaður Jóns 1 kýr, 4 ær. Fóðrast kann þar 1 kýr, 3 ær… Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfjenaður Jóns er 1 kýr, 4 ær. Fóðrast kann þar 1 kýr, 3 ær… Þriðji maður E.E., ábúandinn á heimajörðinni Stökkum, hefur af þessum Krókshúsum 3 hdr. og er landskyldin af þeim 25 álnir. Reiknað áður. Item kvikfjenaður sem núer með þeim að telja, og hálft kúgildi, sem þessum parti fylgir. Fóðrast kann þar 1 kýr, 3 ær.“
“Þótt Krókshús hafi átt að vera þriðjungur Stakka þá sýnir nýja matið að þessi partur hefur verið sínu rýrastur. 1916 var landið metið á 1200 krónur. Það var talið fóðra 2 kýr, 2 hross og 30 fjár. Heyfengur 100 hestar taða og 100 af heyi. Sérlegir ókostir að vatnsból var mjög erfitt og leigupeningur enginn” (BÞ).
1570
Árið 1570 eru Krókshús ekki nefnd í reikningum Eggerts Hannessonar, en hinsvegar Krókur. Lítur því út fyrir að þá hafi Krókshús ekki enn verið aðgreind frá Stökkum.
1703
Högni Jónsson. Bóndi í Krókshúsum 1703. F. um 1672.
K. Kristbjörg, f. um 1658 Guðbrandsdóttir. Börn þeirra:
Andrés 4 ára.
Jón 2 ára, sem mun vera bóndi í Krókshúsum 1735.
Högni er þá (1735) bóndi í Króki. Högni býr á 6 hdr.
1703
Oddur Þorgrímsson. Bóndi í Krókshúsum 1703, þegar manntali er tekið, en hefur hætt búskað um vorið, enda orðinn gamall. F. um 1643. Er ekkjumaður og á dóttur:
Þuríður 18 ára.
Fleira er heimilisfólkið ekki.
1703
Jón Guðmundsson. Bóndi í Krókshúsum frá fardögum 1703. Hann býr aðeins á 3 hdr. og hefur vafalaust tekið við af fyrrnefndum Oddi Þorgrímssyni. Jón er 20 ára gamall ókvæntur. Á heimilinu er aðeins auk hans móðir hans Þuríður Erlendsdóttir 60 ára. Þau eru á Stökkum um veturinn, þegar manntalið er tekið. Hún talin búandi þar.
1703
Eyjólfur Erlendsson. Bóndi í Krókshúsum 1703. Hann býr þá á Stökkum, hefur 12 hdr. af þeirri jörð, en að auki 3 hdr. af Króknum.
1735
Jón Högnason. Bóndi í Krókshúsum 1735. Þetta er vafalaust sonur Högna bónda í Krókshúsum 1703, sjá hér að framan. F. 1701. Hann er ekki bóndi 1762 og hans verður ekki vart í kirkjubók eftir að hún byrjar 1750.
1735
Jón Þórðarson. Bóndi í Krókshúsum 1735. Þetta gæti verið annað hvort Jón eldri, f. um 1684 eða Jón yngri, f. um 1686, en þeir eru á Látrum 1703, synir Þórðar bónda þar, Jónssonar. Annar þeirra er bóndi á Látrum 1736 og mun hafa drukknað skömmu síðar með Sigmundi bróður sínum, sem einnig var bóndi á látrum.
1762
Gunnlaugur Þórðarson. Hann hefur líklega búið í Krókshúsum 1762 (Stakkar, Krókur og Krókshús eru ekki aðgreind þá og auk þess gat raunar verið um að ræða hjáleigurnar Hesthús og Litlakrók, sjá þar). Ekki er vitað um aldur Gunnlaugs, en hann d. 26. des. 1769.
K. 1756 (í Saurbæjarsókn), Steinunn Bjarnadóttir, f. um 1740 samkv. aldri hennar 1780, en þá er hún talin 40 ára, sem virðist vera heldur lágt, miðað við giftingarár hennar. Hún átti síðar Loft Magnússon bónda í Gröf 1801, sjá þar. Börn Gunnlaugs og Steinunnar, öll fædd í Saurbæjarsókn, voru:
Guðrún, f. 1758, líklega d. 1766.
Cecilía, f. 1759, vantar 1780.
Ragnheiður, f. 1761, dór 1762.
Guðmundur, f. 1763, líklea d. 1766.
Jón, f. 1765, í Hænuvík 1780, Lambavatni 1801, Naustabrekku 1817, ókv.
Guðmundur, f. 1768, d. sama ár.
Gunnlaugur, f. 1770, d. 1785 á Láganúpi.
1780
Jón Gunnlaugsson. Bóndi í Krókshúsum 1780. F. um 1747, d. 2. maí 1780. Foreldrar: Gunnlaugur Þorbjörnsson bóni á Naustabrekku 1762 og k.h. Dýrvin Jónsdóttir. Jón var tvíkvæntur.
K. I 1769 (í Saurbæjarsókn) Helga Björnsdóttir, f. um 1738, d. 11. júní 1773. Sonur þeirra var:
Þorbjörn, f. 18. mars 1770, d. 4. maí 1812, var á skipi Sigríðar Magnúsdóttur á Látrum, sem fórst í fiskiróðri, ókv. og bl.
K. II 1774, Margrét, f. um 1747, d. milli 1785 og 1801 Pétursdóttir. Börn þeirra:
Helga, f. í Saurbæjarsókn 8. nóv. 1775, d. í Sauðlauksdal 1785.
Dýrfinna, f. í Saurbæjarsókn 8. nóv. 1775, vantar 1801.
Pétur, f. í Sauðlauksdalssókn 22. des. 1776, á Geirseyri 1801, vantar 1808 og 1817.
Bjarni, f. í Saurbæjarsókn 27. mars 1778, líklega í Krókshúsum, d. sama ár.
Bjarni, f. 30. maí 1779, vantar 1801.
Guðrún, sem er 8 ára í Krókshúsum 1780 og talin barn Jóns og Margrétar, finnst ekki í kjb., vantar 1801.
Þann 9. apríl 1773 fæðist Sigríður, dóttir Árna Eyjólfssonar og Margrétar Pétursdóttur. Þetta getur vart verið önnur Margrét en sú, sem varð kona J.G. Ef fyrrnefnd Guðrún hefði verið dóttir Margrétar, varð hún að fæðast 1771 eða snemma árs 1772 og er það fremur ólíklegt. Sennilegra væri að Guðrún hafi verið barn Jóns og fyrri konu hans. Slíkur ruglingur er alltíður og sannanlegur.
Helga fyrri kona Jóns var áður (1764 í Saurbæjarsókn) gift Tómasi Márussyni, sem dó 14. sept. 1766. Börn þeirra voru:
Brynhildur, f. 9. ágúst 1764, sem ekki er á manntali 1801 eða síðar.
Þá mun vera sonur Helgu og Bjarna Pálssonar:
Jón (óskilg.), f. 1768, virðist hafa dáið fyrir 1780, en á lífi, er móðir hans dó.
Margrét Pétursdóttir, ekkja J. Gunnl. Hún kann að hafa búið eitthvað í Krókshúsum eftir lát manns síns, þó ekki hafi verið nema til næsta árs (1781).
1782-1784
Einar Guðmundsson. Bóndi í Krókshúsum 1782. Bóndi á lambavatni 1780, sjá þar. Hann hefur líklega komið að Krókshúsum 1781 og verið þar til 1784. þau hjónin eru í Keflavík í okt. 1785. Bóndi?
1784
Þórður Bjarnason. Áður bóndi á Stökkum. Hann hefur líklega verið eitt ár í Krókshúsum og sennilega komið þangað 1784 eða þegar Einar Guðmundsson fór þaðan að Keflavík. Ég dreg þetta af því, að Ásbjörn sonur Þórðar er í kjb. sagður f. á Geitagili í mars 1784, en 1817 er hann sagður f. í Krókshúsum. Þetta gæti skeð, ef hann hefði verið ungbarn, er hann kom að Krókshúsum.
1785
Jón Pálsson. Bóndi í Keflavík 1801. Það er lílegast að hann hafi búið eitthvað í Krókshúsum og komið þangað 1785, með því að Guðrún dóttir hans er samkv. kirkjubók f. þann 18. jan. 1786. Þaðan hefur jón líklega farið að Keflavík, er bóndi þar 1801, sjá nánar þar.
1801
Þorkell Þórðarson. Bóndi í Krókshúsum fyrir og eftir 1801. F. 24. maí 1761 í Saurbæjarsókn, d. líkl. í Saurbæ 6. apríl 1817. Foreldrar: Þórður Þorkelsson og Cecelía Kolbeinsdóttir. Þau giftust (eftir 24. maí) 1761. Þorkell virðist hafa verið einasta barn þeirra f. í Rauðasandshreppi a.m.k. og ekki sést hvað af þeim hefur orðið. Þorkell er ekki heldur á manntali 1780.
K. Guðrún Bjarnadóttir (líklega Bj. Bjarnasonar bónda á Melanesi um 1762). F. 17. sept. 1758, d. milli 1801 og 1808. Börn:
Kristín, f. í Dalshúsum 1796, á Sjöundá 1801, vk. í Gröf 1817.
Þórður, f. líkl. í Krókshúsum 1799, í Saurbæ með föður sínum 1808, ekki á manntali 1817.
1817
Þorleifur Guðmundsson. Bóndi í Krókshúsum fyrir og eftir 1817, bjó á Mábergi 1808, sjá þar. Hann hefur líklega dáið 1819. Dánardagur hanns finnst ekki í kjb., en hún er ófullkomin um þetta leyti.
1819-1924
Guðbrandur Magnússon. Bóndi í Krókshúsum 1819-1924. Bóndi í Stekkadal 1824-1826. F. í Hænuvík 1794, d. á Látrum 30. ágúst 1842, er vinnumaður þar. Foreldrar: Magnús halldórsson bóndi á Mábergi og Guðríður Björnsdóttir, sem síðar átti Guðmund Ólafsson bónda í Keflavík 1817, sjá þar.
K. 30. sept. 1820, Soffía Guðmundsdóttir bónda á Sjöundá 1780 Jónssonar og k.h. Guðbjargar Márusdóttur. Soffía var fædd á Sjöundá 27. ágúst 1882, d. á Mábergi 18. okt. 1856. Börn þeirra:
Sigríður, f. í Krókshúsum 16. júlí 1820, dó samdægurs.
Guðrún, f. 20. ágúst 1821, d. á Skógi 22. okt. 1826.
Sigríður, f. í Krókshúsum 24. apríl 1823, átti Eirík Magnússon bónda á Mábergi.
1824-1833
Jón Loftsson. Bóndi í Krókshúsum líklega 1824-1833. Síðar bóndi á Melanesi, sjá þar.
1833-1840
Guðmundur Guðmundsson. Bóndi í Krókshúsum 1833-1840, bóndi á Hvalskeri, sjá þar.
1840-1842
Friðbert Guðmundsson. Bóndi í Krókshúsum 1840-1842. Síðar bóndi á Geitagili, sjá þar.
1842-1850
Jón Bjarnason. Bóndi í Krókshúsum 1842-1850. Fluttist þá á Barðaströnd. F. í Hrísnesi 21. mars 1803, d. á Grænhól 6. sept. 1882. Foreldrar: Bjarni Bjarnason bóndi á Sjöundá 1801 og Steinunn Sveinsdóttir, sem var kona Jóns, d. á Sjöundá 1. apríl 1802 Þorgrímssonar. Þetta eru þau Bjarni og Steinunn, sem kunn eru af morðmálum á Sjöundá. Jón ólst up á Barðaströnd á kostnað sýslunnar og var af því nefndur sýslu Jón.
K. 10. okt. 1840, Guðrún, f. 9. júní 1806, d. á Brekkuvelli 4. ágúst 1871 Sigmundsdóttir bónda á Stökkum, Jónssonar og seinni k.h. Bjargar Helgadóttur. Börn þeirra:
Júlíana, f. í Krókshúsum 7. febr. 1842, d. á Hallbjarnareyri 26. mars 1886, var seinni kona Péturs Guðmundssonar bónda á Haukabergi o.v. Börn þeirra dóu öll ung, nema Ingimundur, sem varð skipstjóri í Reykjavík, kvæntur Þórunni Magnúsdóttur.
Guðbjartur, f. 18. júní 1846, d. 26. sama mán.
Sigurbjörg, f. í Krókshúsum 14. maí 1848, d. á Látrum 20. sept. 1940, giftist ekki en átti mörg börn, 4 með Guðna Þórarinssyni bónda á Fæti á Barðaströnd ( Þórarinn og Guðný dóu ungbörn, Sigríður giftist ekki, María giftist á Bíldudal 1902 Sigurði Bjarnasyni), en síðar 5 með Ólafi Ólafssyni bónda á Stökkum sjá þar.
Barn Jóns Bjarnasonar og Guðrúnar Ólafsdóttur var:
Krístín, f. á Hreggstöðum 21. okt. 1863. Hún giftist en var barnalus.
1850-1860
Sigmundur Ólafsson. Bóndi í Krókshúsum 1850-1860, á Melanesi 1860-1862. F. á Stökkum 24. ágúst 1817, d. í Breiðavík 4. okt. 1880. Foreldrar: Ólafur Rögnvaldsson bóndi á Stökkum og k.h. Etilríður Sigmundsdóttir.
K. 16. okt. 1848, Guðrún, f. á Rauðasandi 22. ágúst 1819, d. á Látrum 1. jan. 1901 Jónsdóttir Árnasonar bónda í Breiðavík Eyjólfssonar og Bergljótar Þórðardóttur bónda á Stökkum, Bjarnasonar. Börn þeirra:
Ólafur, f. á Stökkum 7. nóv. 1848, d. 8. sama mán.
Ingimundur, f. á Stökkum 4. nóv. 1849, bóndi á Hvallátrum.
Þorgerður, f. í Krókshúsum 5. ágúst 1851, átti Bjarna Gunnlaugsson bónda í Breiðavík.
1850-1852
Ólafur Sigmundsson bóndi í Króki. Hann mun hafa haft að auki 3 hdr. af Krókshúsum 1850-1852 og 1859-1863, en 1863-1869 tæplega 2 hdr.
1852-1859
Árni Jónsson bóndi á Stökkum. Hann mun hafa haft að auki 3 hdr. í Krókshúsum árin 1852-1859.
1859-1860
Jón Gíslason bóndi í Keflavík. Hann virðist hafa haft 11/2 hdr. af Krókshúsum árið 1859-1860.
1859-1860
Jón Bjarnason bóndi í Keflavík. Hann mun hafa haft, eins og Jón Gíslason 11/2 hdr. af Krókshúsum 1859-1860.
1860-1876
Guðmundur Ólafsson. Bóndi í Krókshúsum 1860-1876. Hann kvæntist í Tálknafirði og var þar til ársins 1856, er hann fluttist aftur á Rauðasand. F. á Stökkum 13. des. 1819, d. í Vatnsdal 8. ágúst 1882. Foreldrar: Ólafur Rögnvaldsson bóndi á Stökkum og k.h. Etilríður Sigmundsdóttir. Hann var því albróðir fyrrnefnds Sigmundar Ólafssonar og Halldóru konu Árna Jónssonar á Lambavatni.
K. 1848, Herdís, f. í Laugardalssókn líklega ´jan. 1783 Bjarnasonar og Ragnheiðar, f. 1789 Pálsdóttur bónda á Borg í Arnarfirði 1801, Pálssonar. Um Pál á Borg eru ýmsar sagnir, sjá Blöndu V bls. 71. Börn Guðmundar og Herdísar voru:
Ólafur, f. á Rima í Tálknafirði 30. apríl 1849, drukknarði, er Vatnsdalsskipin fórust á Látrum 15. febr. 1876.
Jón, f. á Rima 22. mars 1850, d. í Krókshúsum 17. júní 1863.
Petra, f. á Rima, f. 27. apríl 1851, fluttist um 1880 norður að Djúpi.
Gísli, f. í Laugardal 4. des. 1852, var á unglingsárum í Skápadal hjá Jóni Jónssyni, fluttist til Vesturheims.
Guðrún, f. í Laugardal 4. des. 1853, átti börn með Ólafi Ólafssyni bónda á Stökkum og Gesti Gestssyni á Hvalskeri.
Etilríður, f. í Laugardal 16. ágúst 1855, d. 1881, kona Hjalta Þorgeirssonar bónda í Krókshúsum.
Guðmundur, f. á Stökkum 11. ágúst 1856, d. á Melanesi 27. febr. 1859.
Guðbjörg, f. í Krókshúsum 12. febr. 1862, d. á Hreggstöðum 22. ágúst 1890, átti Guðmund Jónsson frá Hreggstöðum. Dóttir þeirra var Etilríður, sem átti Vigfús Finnsson (Patrekfirði).
1876-1882
Hjalti Þorgeirsson. Bóndi í Krókshúsum 1876-1882. F. á Krossi á Barðaströnd 30. apríl 1840, d. á Sjöundá 14. okt. 1917. Foreldrar: Þorgeir Sigurðsson bóndi á Krossi, meðhjálpari og k.h. Rósa Magnúsdóttir.
K. 24. sept. 1874, Etilríður Guðmundsdóttir bónda í Krókshúsum Ólafssonar og k.h. Herdísar Pétursdóttur. Börn þeirra:
Ólöf, f. í Krókshúsum 30. jan. 1877, kona Guðmundar Guðmundssonar í Tungu.
Elías, f. í Krókshúsum 28. okt. 1878, fór til Færeyja.
Jóna, f. í Krókshúsum 6. sept. 1881, d. 8. nóv. sama ár.
Önnur börn Hjalta voru þessi:
Etilríður, f. á Naustabrekku 1. júlí 1886, d. 7. sama mánaðar. Móðir hennar var Jónína Dagbjört, d. á Patreksfirði 19?? Ólafsdóttir bónda á Brekku Magnússonar. Jónína var síðan í Tálknafirði og giftist þar Ingimundi Gíslasyni. Dóttir þeirra Jónína giftist í Vesturheimi.
Etilríður Marta, f. í Hænuvík (16.11.1894-10.12.1970), giftist 1923 Jakobi Narfasyni (búsett í Mosfellsveit).
1876-1879
Ívar Magnússon. Bóndi í Krókshúsum 1876-1879, síðar bóndi á Skógi, svo í Kirkjuhvammi, sjá þar.
1879-1884
Jón Jónsson. Bóndi í Krókshúsum 1879-1884, áður bóndi á Skógi, sjá þar.
1884-1885
Gróa Össurardóttir, ekkja fyrrnefnds Jón Jónssonar. Búandi í Krókshúsum 1884-1885. Hún giftist síðar Sæmundi Sæmundssyni, sjá Hlaðseyri. Gróa var síðan lengst á Látrum og dó þar 28. júlí 1928, hafði þá verið ekkja í 30 ár og misst öll börn sín, en þau voru öll barnlaus.
1882-1887
Jóhann Jónsson. Bóndi í Krókshúsum 1882-1887. Síðar bóndi á Hnjóti, sjá einnig þar. F. í Tungu 15. ágúst 1845, d. á Hnjóti 15. júlí 1897. Foreldrar: Jón Jónsson (ættaður úr Önundarfirði), f. 1803, d. 1. maí 1857 og Guðrún Guðmundsdóttir bónda á Geitagili Hákonarsonar. Jón og Guðrún giftust ekki. Alsystir Jóhanns var; Guðrún, f. 8. des. 1846, d. 29. jan. 1847. Hálfsystir Jóhanns var; Þuríður, f. á Látrum 28. nóv. 1836, dó samdægurs Ólafsdóttir Einarssonar.
K. 16. okt. 1878, Kristín Jónsdóttir bónda í Hænuvík Bjarnasonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Börn þeirra:
Guðbjartur, f. í Tungu 11. nóv. 1875, d. að Deild á Álftanesi um 1935?, ókv. og bl.
Ingveldur, f. í Tungu 25. okt. 1879, d. 31. sama mán.
Jónfríður, f. í Tungu 27. mars 1881, átti Guðjón Halldórsson frá Reykjadalskoti í Hrunamannahreppi.
Jóna, f. í Krókshúsum 14. okt. 1884, átti Svein Jónsson, búsett í Reykjavík.
Guðrún Sigríður, f. á Stökkum 15. jan 1891, átti Kolbein Högnason bónda í Kollafirði, skildu. Guðrún er barnakennari í Reykjavík.
Kristín kona Jóhanns dó í Sauðlauksdal 22. ágúst 1892.
II 2. nóv. 1895, Sigþrúður Einarsdóttir á Hnjóti, áður kona Brands Árnasonar. F. 30. maí 1855 í Sauðlauksdal, d. 12. júlí 1922 á Hnjóti. Dóttir þeirra:
Kristín, f. á Hnjóti 1. maí 1894, d. á Akureyri 15. okt. 1959. Gift, 29. okt. 1921, Helga Tryggvasyni forstjóra bifreiðastöðvarinnar Bifrastar á Akureyri.
1885-1893
Guðmundur Ólafsson. Bóndi í Krókshúsum 1885-1893. F. í Króki 9. apríl? 1850, d. 23. jan. 1907, varð bráðkvaddur á Hafnarfjalli í póstferð til Breiðavíkur. Foreldrar: Ólafur Sigmundsson bóndi í Króki og seinni k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 5. okt. 1876, Sigríður, d. í Saurbæ 15. mái 1898 Halldórsdóttir bónda í Raknadal Ólafssonar og k.h. Guðrúnar Ásbjörnsdóttur. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. í Króki 9. sept. 1876, d. í Reykjavík um 1940, óg. og bl.
Guðrún, f. í Krókshúsum 24. maí 1890, d. í Reykjavík í des. 1948, átti Albert Ólafsson verslunarmann í Reykjavík. Guðrún var skólastjóri barnaskólans í Arnardal við Ísafjörð um skeið, en stundaði síðan verslunarstörf í Reykjavík og giftist þar.
1893-1900
Jón Árnason. Bóndi í Krókshúsum 1893-1900. F. á Stökkum 12. mars 1857, d. í Reykjavík 2. maí 1940. Foreldrar: Árni Jónsson bóndi á Lambavatni og k.h. Halldóra Ólafsdóttir.
K. 18. okt. 1889, Ólína Jóhanna, f. 27. mars 1863, d. í Krókshúsum 2. júlí 1899, 36 ára gömul, Benónýsdóttir bónda í Gröf Ólafssonar og k.h. Jóhönnu Jónsdóttur. Börn þeirra:
Árni, f. á Látrum 11. ágúst 1889, d. 25. júlí 1921, ókv. og bl.
Jóhannes, f. á Sjöundá (22.07.1891-08.07.1975), trésmiður í Reykjavík kvæntur Sólveigu Árnadóttur.
María, f. á Sjöundá 11. apríl 1893, d. í sjúkrahúsi á Patreksfirði 1. nóv. 1946, kona Gríms Árnasonar bónda á Grundum.
Valdimar, f. í Krókshúsum 20. apríl 1894, d. 29. sama mán.
Valgerður Þorbjörg, f. í Krókshúsum 31. júlí 1895, d. í Reykjavík 28. des. 1944, gift Vilmundi Ásmundssyni.
Jón, f. í Krókshúsum (24.08.1896-03.01.1969), byggingameistari í Reykjavík, kvæntur Vilhelmínu Kristjánsdóttur.
Kristbjörg, f. í Króki (11.01.1898-07.03.1977), átti Guðbjörn Ásmundsson.
Ólafur, f. í Króki 19. júní 1899, drukknaði er togarinn Leifur heppni fórst 8. febr. 1925, ókv. og bl.
1903-1930
Guðmundur Sigfreðsson bóndi i Króki keypti og nytjaði helming Krókshúsa með Króki árin 1903-1930. Gunnlaugur Egilsson (sjá síðar) keypti þann hluta Krókshúsa er Guðmundur fluttist frá Króki.
1903-um 1913
Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík (sjá þar) keypti helming Krókshúsa ári 1903 og nytjaði þann hluta meðan hann lifði og Guðbjörg Guðbjartsdóttir ekkja Torfa eftir hans dag þar til um 1913. Þá keypti þann hluta Karl Þórður Thorlasius í Saurbæ. Af honum keyptu þann hluta 1920 þau Stakkasystkinin Jón Pétursson og Kristín Pétursdóttir.
1930-1933
Gunnlaugur Aðalsteinn Egilsson (12.04.1900-16.06.1978). Bóndi á hálfum Krókshúsum 1930-1933. Foreldrar: Egill Gunnlaugsson bóndi á Lambavatni og k.h. Rebekka Gísladóttir.
K. 20. okt. 1928, Sigríður Guðrún, f. í Breiðavík 1901, d. á Lambavatni 31. mars 1932 Sveinsdóttir bónda í Breiðavík og k.h. Ingibjargar Bjarnadóttur. Dóttir þeirra:
Inga Guðrún, f. á Lambavatni 07.11.1930-14.09.2015). M. Sigurjón Hreiðar Gestsson. 3 börn.
Gunnlaugur flutti á Patreksfjörð og 1946 til Reykjavíkur.
1933-1936
Ólafur Einarsson bóndi í Stekkadal nytjaði nokkurn hluta af Krókshúsum 1933-1936.
1936-1946
Ólafur Ólafsson. Bóndi á nokkrum hluta Krókshúsa 1936-1946. Áður bóndi á Naustabrekku, sjá þar.
Innáskrift:
Árið 1946 seldi G.E. .Sigríði Ólafsdóttur á St. sinn hluta í Krókshúsum. Nú eiga Stakkahjón öll Krókshús.
Nafnið gefur til kynna að hjáleigan hafi byggst upp þar sem áður stóð hesthús frá Stökkum. Byggt á þeim tíma sem Eggert Björnsson í Bæ lét byggja fjölda af hjáleigum á jörðum sínum. Margar byggðust upp úr stekk eða öðrum útihúsum, líklega til að nýta byggingarefni þeirra og grænkuna umhverfis þau.
Jarðabókin 1703 “Þriðja hjáleiga (í Stakkalandi), Hesthús, byggð innan 60 ára. Dýrleiki talinn í heimajörðinni sjálfri, en tíundast öngvum. Ábúandinn Guðmundur Halldórsson, hann sami, sem af heimajörðinni Stökkum hefur 4 hdr ut supra. Landskyld af þessu koti 20 álnir, hefur áður verið 30 álnir. Betalast heim til Landsdrottins, í fiski, ef til er, ella í öðrum aurum ut supra. Við til húsa leggur landsdrottinn. Kvaðir með þessari hjáleigu og heimapartinum er eitt mannslán (skipsáróður). Kvikfjenaður er þar skrifaður. Fóðrast kann á þessari hjáleigu 1 kýr. Heimilismenn Guðmundar eru 4”.
1703
Guðmundur Halldórsson. Bóndi í Hesthúsum 1703. Hafði einnig sem að ofan greinir, 4 hdr. af heimajörðinni. F. um 1667.
K. Arnfríður, f. um 1665 Jónsdóttir. Dóttir þeirra:
Valgerður 4 ár.
Vinnupiltur Bjarni Hallsson 12 ára.
1735 og 1762
Árin 1735 og 1762 er ekki tilgreindur neinn búandi í Hesthúsum (sbr. Litli-Krókur).
1765-1772
Þorsteinn Einarsson. Bóndi í Hesthúsum 1765-1772. D. í Hesthúsum (sennilega) 24. des. 1772 (roskinn giftur). Hefur líklega ekki verið f. síðar en 1720.
K. I Sæborg Jónsdóttir, d. 1762. dottir þeirra:
Elín, f. um 1748, kona Jóns Bjarnasonar í Kollsvík 1780.
?? Vera má að þau hafi einnig verið foreldrar Steins Þorsteinssonar bónda á Grundum.
Guðmundur, f. í Saurbæjarsókn 1752, hefur líklega dáið ungbarn.
K. II 1765, Guðbjörg Márusdóttir, er síðar átti Guðmund Jónsson bónda á Sjöundá, sjá þar. Börn þeirra:
Guðmundur, f. í Hesthúsum 25. febr. 1765, bóndi á Geitagili.
Kristín, f. í Hesthúsum 28. mars 1766, ógift vk. í Vatnsdal 1817.
Márus, f. í Hesthúsum 26. ágúst 1770, kvæntist Helgu Þórólfsdóttur bónda á Tóftavelli 1759, í Hesthúsum 1780. Þau eru á Látrum 1808 og 1817 og Márus er ekkjumaður þar 1845. þau munu hafa verið bl.
Rósa, f. í Hesthúsum 16. mars 1773, átti Halldór Jónsson bónda í Gröf.
Guðbjörg Márusdóttir hefur líklega búið eitthvað í Hesthúsum eftir lát Þorsteins, en hún giftist aftur 1777.
1780
Þórólfur Bjarnason. Bóndi í Hesthúsum 1780. Hann virðist hafa búið á Tóftavelli um 1760, en líklega farið að Hesthúsum þegar Guðbjörg Márusdóttir fluttist þaðan. Þórólfur er f. um 1729, d. 4. des. 1780. Hann hefur því verið aðeins nokkur ár á þessu býli.
K. 1756, Guðrún, f. um 1735 Þórðardóttir e.t.v. Eyjólfssonar bónda á Stökkum 1735, ekki á manntali 1801. Börn þeirra:
Þóra, f. 1757, d. sama ár.
Helga, f. 1759, átti Márus Þorsteinsson, sjá hér að framan.
Steinunn, f. 1760, á Vatneyri 1780, ekki á manntali 1801 eða 1808.
Þóra, f. 1763, d. 1764.
Sveinn, f. 1765, 1766.
Ólafur, f. 1766, í Hesthúsum 1780, ekki á manntali síðar.
Guðrún, f. 1768, d. sama ár.
Guðrún, f. 1769, í Hesthúsum 1780, ekki á manntali síðar.
Sveinn, f. 1771, í Hesthúsum 1780, Kollsvík 1801, Hænuvík 1808. Kvæntist 1809 Dýrfinnu Guðmundsdóttur, þau bl. Sveinn varð brákvaddur 1811, á Sellátranesi.
Ragnheiður, f. 1772, d. 1773.
Margrét, f. 1775, d. sama ár.
Guðrún, f. 1777, d. 1778.
1782
Halldór Jónsson. Bóndi í Hesthúsum 1782. Vinnumaður í Gröf 1780. F. um 1728. Virðist hafa dáið milli 1785 og 1801. Hann kvæntist ekki, en sonur hans var Bjarni Halldórsson bóndi á Hnjóti og víðar.
Eftir 1800 mun enginn hafa búið í Hesthúsum.
Jarðabókin 1703 “Önnur hjáleiga (þ.e. í landi Stakka) Qviar hoolar, bygð fyrir 40 árum ongefer (þ.e. h.u.b.). Jarðardýrleiki er reiknaður í aðaljarðarinnar dýrleika, en tíund teldst engum. Áðbúandinn Bjarni Andresson. Landsskyld 30 álnir, hefur jafnan svo verið. Betalast með fiski, ef til er, heim til landsdrottins, ella með vallarslætti, eyrisvöllur 10 álnir og fæðir sig sjálfur, sá er vinnur. Item stundum með fóðri fyrir 20 álnir. Við til húsa leggur landsdrottinn. Kúgildi 1 og ei hafa fleiri verið. Leigur gjaldast heim til eigandans í smjöri. Kúgildi uppbætir landsdrottinn. Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfénaður Bjarna 1 kýr. Fóðrast kann þar 1 kýr. Heimilismenn eru 6; fjögur börn og hjónin”.
1703
Bjarni Andrésson. Bóndi í Kvíarhólum 1703, bæði við manntal og þegar jarðabók var samin. F. um 1650.
K. Guðríður, f. um 1658 Snæbjörnsdóttir. Börn þeirra:
Ingibjörg 18 ára.
Margrét 16 ára.
Guðrún 10 ára.
Kristín 5 ára.
Ekki er hægt að sjá að síðar hafi veri búið í Kvíarhólum. En eins og segir í sambandi við Litla-Krók og Hesthús, er ekki unnt að sjá örugglega, hvar þeir 7 bændur, sem á Stökkum eru taldir 1735, hafa búið. Hinsvegar eru þar ekki nema 5 bændur 1762. Er þá líklegt að rýrari hjáleigurnar hafi orðið útundan , en þá virðist um það leyti vera búið í Hesthúsum. Hesthús hafði lagst til Krókshúsa á 19. öld.
Nafnið Líklegt er að Stakkar dragi nafn af hæðum ofan klettabúnar, s.s. Stakkafelli. Af hafi eru þau áberandi einkenni ofan bæjarins; stakkar að lögun. Líkur eru á að á fyrstu öldum byggðar; meðan nafnið var að festast í sessi, hafi verið siglt um Bæjarós.
Stakkar hafa vafalaust byggst mjög snemma; e.t.v. um svipað leyti og Saurbær, og voru önnur dýrasta jörð hreppsins að Saurbæ frátöldum; 48 hundruð.
Árið 1703 eru Krókur og Krókshús orðnar sjáfstæðar jarðir, samtals 24 hdr. og var þá heimajörðin (með hjáleigunum Litla Króki, Kvíarhólum og Hesthúsum) 24 hdr. Á 19. öld höfðu hjáleigurnar Litli-Krókur og Kvíarhólar lagst til Króks og Hesthús til Krókshúsa, og var þá Stökkum skipt í þrjá nokkuð jafna parta. Á 20 öld lögðust svo öll Krókshús og hálfur Krókur aftur undir Stakka, þannig að 1033 hafa Stakkar náð yfir 5/6 af hinu forna Stakkalandi.
Jarðarinnar er fyrst getið í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar hinni sérstöku, í tengslum við deilur og vígaferli milli Eyjólfs Kárssonar á Stökkum og Gísla Markússonar í Saurbæ á fyrrihluta 13. aldar. Eyjólfur var í miklu vinfengi við Guðmund biskup góða, og er líklegt að hann hafi greitt fyrir ferðum biskups um Rauðasandshrepp ásamt Snorra Sturlusyni, góðvini þeirra beggja. Örnefni tengd Gvendi góða er víða að finna í hreppnum, en þó engin á Rauðasandi utan Bjarngötudals; líklega vegna óvildar Gísla í Saurbæi í garð þeirra.
Einna nafnkunnastur síðari tíma ábúenda á Stökkum var Pétur Jónsson fræðimaður, sem þar bjó frá 1903 til dauðadags 1946. Meðal verka hans eru Strandamannabók og ýmislegt efni í Barðstrendingabók (sem hér er víða vitnað til).
Jarðabókin 1703 „Þar hefur til forna bænahús verið, en fyrir löngu fallið og aflagt, meina sumir fyrir reformationen (siðaskiftin). Jörðin öll er að dýrleika 48 hdr. að fornu. Eigandinn Guðrún Eggertsdóttir að Bæ á Rauðasandi. Nú er jörðinni skift í býli, so að heimajörðin er 24 hdr. Ábúandinn Eyjólfur Erlendsson býr á 12 hdr. heimajarðarinnar og hefur að auki 3 hdr. af Krókshúsa parti. Landsskyld af þeim parti og þeim 3 hdr., sem hann hefur af Krókshúsum 125 álnir. Betalast í öllum gildum aurum, fiski, kviku, steinbít etc. Og það heim til eiganda. Hefur so verið langar stundir. Húsavið tilleggur landsdrottinn. Kúgildi með þessum parti 51/2. Hálft er fyrir bón landseta nýliga komið. Leigur gjaldast í smjörum heim til eiganda. Bresti smjör, þá í peningum upp á danskan taxta. Kúgildi uppbæti eigandi, eður tekur heim og setur ung í staðinn. Kvaðir eru skipsáróður. Útigangur mjög lakur, fyrir sauðfé. Kvikfénaður er kýr 3, 1 kvíga, uxi þrevetur , ær 15, geldur sauður tvævetur, gemlingar 8, hestar 2, hross 1. Fóðrast kann á þessum parti 3 kýr, 6 ær, 6 lömb. Heimilismenn Eyjólfs 8.
Annar ábúandi heima, Jón Snæbjörnsson, á 8 hdr. Landskyld 66 5/8 álnir. Betalast heim í fiski, lýsi, steinbít, kviku og jafnan fóður 20 álnir þá mögulegt er og hvörju gildu, sem búandi megnar og hefur so goldist yfir 20 ár. Áður meðan vel fiskaðist galst í alla landsskyld fiskur í kaupstað. Við til húsa leggur jarðeigandi. Kúgildi 3 og hross að auk, og hafa lengi so mörg verið, nema hross í átta ár. Leigur gjaldast í smjörum heim til eiganda, nema eftir hrossið geldst 15 álnir í einhverju gildu. Kvaðir eru skipsáróður. Engi, sem þessum parti fylgir er nýlega fordjarfað af skriðu til stórskaða. Útigangur lakur mjög, sem á hinum partinum. Kvikfénaður er 2 kýr, 4 ær, 3 gemlingar, tveir sauðir þrevetrir, 1 hross. Fóðrast kann 2 kýr, 6 ær.
Þriðji maður, Guðmundur Halldórsson, sem þó býr á hjáleigunni Hesthúsum, hefur af heimajörðinni 4 hdr. Landskyld af þeim 4 hdr. 33 og 3/8 álnir. Betalast með sömu kjörum sem um hina er sagt, nema að þessi maður hefur ei fóður utan sjaldan og um stutta stund, so sem hans efnum haga kann. Hann hefur og í þrjú ár slegið fimm aura völl fyrir 5 aura. Leigukúgildi með þessum parti eru 1 1/2. Leigur betalast í smjörum heim til eiganda. Kúgildi uppyngir eigndi. Kvaðir eru skipsáróður. Kvikfénaður með því, sem í Hesthúsum er til, er 2 kýr, 1 ær, 2 gemlingar, 1 hross. Fóðrast kann á þessum parti 1 kýr”.
Barðstrendingabók PJ Stakkar. Um þá jörð er að mestu leyti hið sama að segja sem hinar fyrrnefndu, að því er til landsnytja kemur. Bæirnir Krókur, Krókshús og Stakkar höfðu áður óskiptar landssnytjar, aðrar en heyskap, eru þær kallaðar Miðsandur; er það hið forna höfuðból Stakkar, sem getið er í Sturlungasögu. Litli-Krókur, Kvíarhólar og Hesthús eru forn eyðikot á þessum slóðum”.
1703
Eyjólfur Erlendsson. Bóndi á 12 hdr. Stakka 1703. Hafði auk þess 3 hdr. í Krókshúsum. F. um 1652.
K. Ingunn Ketilsdóttir, f. um 1641. Börn þerra heima:
Herdís, f. um 1681.
Ingibjörg, f. um 1684.
Guðrún, f. um 1686.
Ekki kunnugt með vissu um afkomendur þessa fólks. Fósturbarn er Eyjólfur Jónsson 9 ára, líklega bóndi í Keflavík 1735.
1703
Jón Snæbjörnsson. Bóndí á 8 hdr. Stakka 1703. F. um 1653.
K. Guðrún Guðmundsdóttir, f. um 1650. Dætur þeirra:
Ingibjörg, f. um 1687.
Þorgerður, f. um 1691.
Ekki kunnugt um afkomendur.
1703
Þrúður Erlendsdóttir, ekkja. Búandi á 4 hdr. Stakka 1703. F. um 1643. Sonur hennar og fyrirvinna:
Jón Guðmundsson, f. um 1683.
Ekkert annað fólk á heimilinu. Þrúður hefur látið af búskap vorið 1703.
1703
Guðmundur Halldórsson, bóndi í Hesthúsum. Hann hefur í fardögum 1703 tekið við þeim 4 hdr. sem Þrúður hafði áður og hefur þau með Hesthúsum.
1735
Þórður Eyjólfsson. Bóndi á Stökkum 1735. Þetta er líklega sá Þ.E., sem dó 60 ára 1769. Hann kann að hafa verið sonur fyrrnefnd Eyjólfs Erlendssonar úr seinna hjónabandi.
K. Ingibjörg Árnadóttir, sem dó í Keflavík 1786. Börn þeirra:
Ingunn, f. um 1734, kona Bjarna Jónssonar í Keflavík.
Margrét, f. um 1745, kona Jón Pálssonar bónda í Keflavík 1801.
Cecelía, f. um 1751.
1735
Einar Oddson. Bóndi á Stökkum 1735. Þetta er vafalaust sá E.O., sem er 7 ára í Heimakróki 1703, sonur Odds Einarssonar bónda þar og k.h. Guðrúnar Árnadóttur. Ekki kunnugt um afkomendur hans.
1735
Högni Jónsson. Hann bjó í Krókshúsum 1703 og hefur annað hvort búið þar einnig 1735 með syni sínum J.H. eða búið á einhverjum hluta heimajarðarinnar. Um þetta er ekki gott að segja með vissu, því að 1735 eru ekki aðgreind býlin Stakkar, Krókshús, Krókur og hjáleigurnar Hesthús og Litli Krókur, sem líklega hafa einnig verið byggðar. Ábúendur voru alls 7 og er ekki unnt að segja um það með vissu, hvernig þeir hafa skiptst á fyrrnefnd býli. Svipað er að segja um árið 1762, en þá eru búendur ekki nema 5. Af þeim hafa væntanlega 2 verið á Stökkum, 1 á Króki, 1 í Krókshúsum og 1 í Litla Króki. En nokkru eftir þann tíma hafa svo Hesthús verið tekin til ábúðar (Þorsteinn Einarsson og Guðbjörg Márusdóttir).
1762
Jón Jónsson. Bóndi á Stökkum 1762. Um ætt hans og afkomendur er víst ekki hægt að segja neitt með vissu.
1762
Úlfur Diðriksson. Bóndi á Stökkum 1762. D. 12. júní 1763. Nafn hans er ekki áður að finna í kjb. og hann er ekki meðal bænda 1735. Ekkert mun því hægt að segja frekar um hann með vissu.
um 1780-1788
Jón Magnússon. Bóndi á Stökkum líklega löngu fyrir 1780-1788. F. um 1723, d. 1788 (skiftafundur þeirra hjóna haldinn 6. ágúst 1788 og hafa þau því líklega bæði dáið á því ári). Faðir Jón hefur sennilega verið Magnús Jónsson bóni á Sellátranesi 1735. það er líkl. sá M.J., sem er kvæntur maður í Sauðlauksdalssókn um 1750. Kona hana er Ingibjörg Þorsteinsdóttir. Sonur þeirra Þórður fæðist 1750 og Jón 1752. Þó að þetta kynni að vera faðir Jóns á Stökkum þá er það a.m.k. á takmörkum að Ingibjörg þessi gæti verið móðir Jóns, sem er, f. um 1923. En þetta hefði getað verið seinni kona Magnúsar.
K. Guðrún, f. um 1722 Guðmundsdóttir. Börn þeirra voru mörg og öll dáin nema 2 á undan foreldrum sínum. Þau voru:
Guðlaug, f. á Geitagili um 1754 (ekki í kjb.), kona Þórðar Bjarnasonar bónda á Stökkum 1801.
Sigmundur, f. í Kirkjuhvammi 8. maí 1759.
Ísleifur, f. 1755, d. sama ár.
Þórdís, f. 1757, d. sama ár.
andvana barn, f. 1961.
Þórdís, f. 1762, d. 1779.
Þuríður, f. 1763, d. 1764
Svo er að sjá, að Jón Magnússon hafi verið á Gili eftir að hann kvæntist og e.t.v. hefur hann búið eitthvað þar. Um 1760 hefur hann verið í Kirkjuhvammi og kann að hafa verið kominn þangað í okt. 1755, því að Ísleifur sonur hans fæðist í Saurbæjarsókn eins og öll börnin eftir það. Jón kynni að hafa flutt frá Kirkjuhvammi að Stökkum, þegar Úlfur Diðriksson féll frá eða upp úr því.
1781-
Jón Jónsson. Bóndi á Stökkum 1781 og síðar, áður bóndi á Láganúpi, sjá þar, bóndi í Bröttuhlíð 1801.
um 1787
Ólafur Sigurðsson. Hann virðist hafa verið á Stökkum og þá líklega bóndi um 1787, því að þar er sagður fæddur:
Gísli Ólafsson vm. á Sjöundá 1817, en það mun vera sonur Ólafs og fyrri konu hans.
K. Ingibjörg Gísladóttir.
Ólafur er á Lambavatni 1801, sjá þar.
-1780
Guðmundur Pálsson. Bóndi á Stökkum fyrir og fram að 1780. F. um 1716, d. 18. júlí 1780. Faðir hans hefur líklega verið Páll Magnússon bóndi á Geitagili 1735.
K. Katrín, f. um 1721, d. 5. jan. 1782 í Saurbæ. Börn þeirra:
Sigurður, f. 1753, bóndi á Geitagili 1801.
Þorgrímur, f. 1754, bóndi á Hlaðseyri 1782, á Stökkum 1780.
Dýrunn, f. 29. des. 1757, d. 5. júní 1758.
Ingibjörg, f. 29. des. 1757, d. 12. mars 1758.
Guðmundur bjó á Geitagili 1762, sjá einnig þar.
1788-1816
Sigmundur Jónsson. Bóndi á Stökkum a.m.k. frá 1788- líklega 1816. Fluttist þá að Saurbæ og býr þar 1817 og sennilega 1819, er Jóhanna Eggertsdóttir giftist í 2. sinn. F. í Kirkjuhvammi 8. maí 1759, d. í Litla-Króki 24. sept. 1825. Foreldrar: Jón Magnússon bóndi á Stökkum og k.h. Guðrún Guðmundsdóttir. Sigmundur var tvíkvæntur.
K. I 1768?, Kristín Jónsdóttir, ekki kunnugt um neitt barn úr því hjónabandi.
K. II Björg, f. 12. júní 1768, d. milli 1808 og 1817 Helgadóttir bónda í Gröf Jónssonar og k.h. Guðrúnar Bjarnadóttur. Börn þeirra:
Etilríður, f. 1799, kona Ólafs Rögnvaldssonar á Stökkum.
Kristín, f. 1794, móðir Ólafs Magnússonar bónda á Naustabrekku.
Guðrún, f. 1795, d. milli 1801 og 1808.
Ólafur, f. 1797, bóndi á Króki.
Jón, f. 1800, d. fyrir 1808.
Bjarni, f. 1802, í Saurbæ 1817.
Guðrún, f. 9. júní 1806, kona Einars Guðmundssonar bónda í Kirkjuhvammi.
Hjálmar, f. 1809, bóndi á Skógi.
Kristín Sigmundsdóttir giftist ekki, en börn hennar voru: a) Ólafur, fyrrnefndur. b) Guðrún, f. á Látrum 3. jan. 1829, giftist ekki. Faðir þeirra var Magnús Ólafsson ættaður af Barðaströnd, vm. á og í húsmennsku á ýmsum stöðum í Rauðasandshreppi, átti fyrst Guðnýju Bjarnadóttur en síðan Þórunni Gísladóttur. c) Guðmundur, f. á Látrum 12. júlí 1834. Faðir hans var Ólafur Þórðarson bóndi í Tungu, Hafliðasonar.
-1801-
Þórður Bjarnason. Bóndi á Stökkum fyrir og eftir 1801. Líklega bóndi í Krókshúsum frá 1784 og þar til hann fór að Lambavatni, sem óvíst er hvenær verið hefur, en tvö börn hans eru f. á Lambavatni um og eftir 1790, svo að þá hefur hann verið kominn þangað. Eins og að framan greinir mun Ólafur Sigurðsson hafa verið á Stökkum fyrir 1790, og hafa þeir líklega skift um bústað hann og Þórður, eftir 1792. Þórður virðist hafa verið á Geitagili áður en hann kom að Krókshúsum og kann að hafa byrjað búskap þar. Hann er ókv. vm. á Sellátranesi 1780. Hann kvæntist í Saurbæjarsókn 1781, en vm. í Kollsvík þegar manntalið er tekið 1782 (sem mun hafa verið á fyrri hluta árs). Guðlaug kona Þórðar er þá á Stökkum. Þau hafa því í mesta lagi getað verið á Gili 1782-1784. Þórður var f. um 1749, d. milli 1801 og 1808. Þórður var fermdur í Saurbæjarsókn 1766 en óvíst er um foreldra hans. Um og eftir 1850 er kvæntur maður í Sauðlauksdalssókn, sem Bjarni heitir og er Þórðarson, drukknaði 1758. Kona hans hét Hólmfríður Jónsdóttir (hún kynni að hafa veri dóttir Jón Þorsteinssonar bónda í Saurbæ 1735). Þetta hefðu getað verið foreldrar Þórðar, og ekki ólíklegt að svo hafi verið.
K. 1781, Guðlaug Jónsdóttir bónda á Stökkum Magnússonar. Börn þeirra:
Ásbjörn, f. á Sellátranesi 1779, d. í febr. 1780.
Ásbjörn, f. á Geitagili (al. Krókshúsum) 23. mars 1784, bóndi á Lambavatni.
Bergljót, f. á Lambavatni um 1790, giftist ekki en dóttir hennar (og Jóns Árnasonar bónda í Breiðavík, Eyjólfssonar) var Guðrún kona Sigmundar Ólafssonar bónda í Krókshúsum.
Jón, f. á Lambavatni um 1792 bóndi á Litla-Króki um 1820, drukknaði 1821 með Gunnlaugi á Mábegi.
1816-1862
Ólafur Rögnvaldsson. Bóndi á Stökkum líklega 1816-1862. Bjó einn á jörðinni til 1849, en úr því á henni hálfri. F. í Kvígindisdal 1787, d. á Stökkum 9. júlí 1862. Foreldrar: Rögnvaldur Ólafsson bóndi á Skógi og k.h. Ingibjörg Egilsdóttir.
K. Etilríður, f. 1793, d. 15. ágúst 1846, hafði verið veik og rúmliggjandi um 20 ár, segir í dagbók Árna Sigurðssonar í Flatey. Börn þeirra:
Sigmundur, f. 24. ágúst 1817, bóndi í Krókshúsum.
Halldóra, f. 17. nóv. 1818, kona Árna Jónssonar bónda á Lambavatni.
Guðmundur, f. 1819, bóndi í Krókshúsum.
Jón, f. dó á 1. ári 1823.
Egill dó á 1. ári 1830.
1849-1959
Árni Jónsson. Bóndi á hálfum Stökkum 1849-1859, síðar bóndi á Lambavatni, sjá þar. Tengdasonur Ólafs Rögnvaldssonar.
1859-1893
Ólafur Ólafsson. Bóndi á Stökkum 1859-1893. Hann hefur einnig í fáein ár (um 1869-1876) um 2 hdr. af landi Krókshúsa. F. í Bröttuhlíð 20. maí 1830, d. á Stökkum 10. maí 1893. Foreldrar: Ólafur Gunnarsson bóndi í Gröf 1835-1837 og k.h. Sesselja Einarsdóttir Þórarinssonar bónda á Hlaðseyri.
K. 10. nóv. 1857, Guðbjörg, f. 26. jan. 1824, d. á Stökkum 25. apríl 1889 Guðmundsdóttir bónda á Gileyri, Hákonarsonar og k.h. Önnu Jónsdóttur Thorbergs. Börn þeirra:
Sigríður, f. í Króki 29. mars 1857, d. þar um ½ mán., skýrð 11. apríl, grafin 16. apríl 1857, úr barnakröm.
Guðmundur, f. á Stökkum 10. apríl 1859, drukknaði með Keflavíkurbræðrum 29. júní 1886, ókv. og bl.
Sólrún, f. á Stökkum 30. maí 1860, d. 6. júní sama ár.
Sigurbjörg, f. á Stökkum 18. nóv. 1861, d. 6. júní 1863.
Börn Ólafs á Stökkum og Guðrúnar Guðmundsdóttur bónda í Krókshúsum Ólafssonar voru:
Ólafur skipstjóri á Vatneyri, f. á Stökkum 6. okt. 1875, d. á Vatneyri 6. febr. 1951, kvæntur Halldóru Halldórsdóttur frá Grundum.
Sigríður, f. í Krókshúsum 17. maí 1878, d. á Patreksfirði., átti Friðrik Þórðarsonar kaupmann á Patreksfirði.
Guðmundur, f. á Hvalskeri 13. apríl 1879, d. 1. okt. sama ár.
Börn Ólafs á Stökkum og Sigurbjargar Jónsdóttur bónda í Krókshúsum Bjarnasonar voru:
Guðjón, f. á Stökkum 2. jan. 1882, drukknaði við Mýrar í Faxaflóa 7. apríl 1906.
Sigurbjörg, f. í Vatnsdal 18. nóv. 1883, d. 19. sama mán.
Sigurður, f. í Hænuvík, f. 13. júní 1886, 29. maí 1887.
Guðmundína, f. á Stökkum 17. júní 1889, kona Guðbjartar Þorgrímssonar bónda á Hvallátrum.
Ólína Guðbjörg, f. á Stökkum 28. okt. 1890, kona Guðmundar Jónssonar skrifstofustjóra hjá Timurversluninni Völundi í Reykjavík.
1849-1903
Samúel Eggertsson. Bóndi á Stökkum 1894-1903. Búfræðingur frá Ólafsdal, barnakennari, skrautritari, hreppsnefndarmaður og oddviti í Rauðasandshreppi í 6 ár. Húsmaður í Kollsvík 1903-1908, síðan við lyfjaafgreiðslu á Ísafirði í 2 ár, en fluttist þá til Reykjavíkur. Vann á Veðurstofu Íslands, mældi kaupstaði og kauptún og gerði kort af þeim. Foreldrar: Eggert jochumson bóndi um skeið á Melanesi og f.k.h. Guðbjörg Ólafsdóttir. F. á Melanesi 25. maí 1864, d. í Reykjavík 7. mars 1949.
K. 20. okt. 1892, Marta Elísabet, f. 5. júní 1858 að Hítarneskoti, d. í Reykjavík, Stefánsdóttir gullsmiðs í Höll í Þverárhlíð Jónssonar og k.h. Guðrúnar Vigfúsdóttur. Börn þeirra:
Helgi, f. í Flatey 6. okt. 1893, d. á Stökkum 7. maí 1896.
Halldóra (09.10.1897-10.05.1979), kona Péturs Guðmundssonar kaupmanns í Reykjavík, þau skildu. 4 börn.
Jóhanna Margrét (30.10.1901-06.12.1989), átti Jón gullsmið Dalmannsson í Reykjavík. 3 börn.
1903-1920
Pétur Jónsson. Bóndi á Stökkum 1903-1920, á Hvalskeri samhliða Stökkum 1907-1920. Áður bóndi á Þórisstöðum í Þorskafirði (1888-1893), Barmi í Gufudalssveit (1893-1894), Fossá á Hjarðarnesi (1899-1900), Auðshaugi (1900-1903). Hagyrðingur og fræðimaður. Safnaðarfulltrúi nokkur ár, sáttanefndarmaður lengi. F. í Skáleyjum 6. nóv. 1864, d. að Reykjahóli, Sauðárkróki 26. mars 1946. Átti heimili á Stökkum. Foreldrar: Jón verslunarmaður á Geirseyri, f. í Skáleyjum 12. sept. 1837, d. 4. febr. 1902, Pétursson bónda í Skáleyjum Jónssonar og Guðrún, f. 8. okt. 1834, d. 23. okt. 1916 Guðmundsdóttir bónda í Bjarneyjum, Guðmundssonar.
K. 9. okt. 1884, Pálína, f. 2. febr. 1865 á Þórisstöðum, d. á Stökkum 22. mars 1955, Þórðardóttir, f. um 1816 bónda í Djúpadal Þorsteinssonar og Sigríðar Pálínu, f. í Fremri-Gufudal 22. júlí 1837 Bjarnadóttur. Börn þeirra:
Þórdís (20.11.1887-30.10.1945), gift Daníel Daníelssyni í Valdarási. 3 börn. 1 barn áður.
Guðjón (28.09.1889-03.11.1982), sjómaður kvæntur Kristínu Stefánsdóttur frá Teigi í Vopnafirði. 2 börn.
Kristín (20.11.1891-11.05.1960), ógift, bl.
Valborg (08.01.1893-19*.07.1975), kona Stefáns Ólafssonar bónda á Hvalskeri (sjá þar).
Hólmfríður Theodóra (10.10.1895-01.02.1977), kona Gísla Ó. Thorlaciusar bónda í Saurbæ (sjá þar).
Jón, f. 1. febr. (kjb. 31. jan.) 1897, bóndi á Stökkumm, sjá hér næst.
1920-1943
Jón Pétursson. Bóndi á Stökkum 1920-1943. F. á Fossá 31. jan. (skv. kjb.) 1897, d. á Stökkum 21. júní 1943. Foreldrar: Pétur Jónsson bóndi á Stökkum og k.h. Pálína Þórðardóttir.
K. haustið 1936, Halldóra Sigríður, f. á Seljalandi í Gufudalssveit (10.04.1908-20.12.1998) Ólafsdóttir bónda á Naustabrekku Ólafssonar og k.h. Sigurborgar V. Jónsdóttur. Börn þeirra:
Guðrún, f. á Stökkum 18. des. 1936. M. Sigmundur Birgir Guðmundsson. 3 börn.
Pétur, f. á Stökkum 13. nóv. 1937. K. Sveinbjörg Svanbjört Lárskóg (Lára) Pétursdóttir. 5 börn.
1920-1936 1944-1955
Kristín Pétursdóttir (22.11.1981-11.05.1960). Systir Jóns (sjá hér að ofan). Jón og Kristín keyptu 1920 hálfa Stakka og hálf Krókshús og bjuggu í fjelagi þar til Jón kvæntist Halldóru Sigríði Ólafsdóttur 1936. Þá flutti Kristín, ásamt Pálínu móður þeirra, að Saurbæ, til Hólmfríðar, systur þeirra Jóns. Þegar Hólmfríður flutti suður fóru þær aftur að Stökkum. Eftir andlát Pálínu 1955 flutti Kristín til Reykjavíkur. Þá skipti hún á hluta sínum í Krókshúsum og hlut Jóns bróður hennar í Stökkum, og átti Kristín þá hálfa Stakka. Arfleiddi hún börn Jóns bróður síns og Hólmfríðar systur sinnar að þeim, og eiga þau enn hálfa Stakkajörðina.
1944-1957
Halldóra Sigríður Ólafsdóttir og Jón Katarínusson. Halldóra Sigríður Ólafsdóttir, ekkja fyrrnefns Jóns Péturssonar bónda á Stökkum, giftist 26.09.1949 Jóni Katarínussyni sem komið hafði til hennar sem ráðsmaður 1944. Áður en þau fluttu suður 1957 keyptu þau hálfa Stakka af erfingjum Erlendar Kristjánssonar á Látrum.
Jón Jóhann Katarínusson var fæddur að Fremri Húsum í Arnardal Ísaf. 18. jan. 1898; dáinn 11.12.1987. Hann var áður giftur Guðjónu Jóhannesdóttur og áttu þau 11 börn.
- 26. sept. 1949, Halldóra Sigríður Ólafsdóttir ekkja Jóns Péturssonar bónda á Stökum. Jón og Halldóra Sigríður voru barnlaus.
(Athugasemdir Trausta Ólafssonar: ½ Stakka áttu efingjar Erlends Kristjánssonar á Látrum, en hinn helminginn Kristín Pétursdóttir frá Stökkum. Hún fékk þann hlut sem Jón bróðir hennar átti upphaflega fyrir sinn hlut í Krh. Sigríður ekkja Jóns Péturssonar keypti hluta G.E. í Krh. Og áttu þau Stakkahjón ein öll Krókshús og hálfan Krók. Sig. Bachmann átti ½ Stakka og af honum keypti Erlendur Kristjánsson á Látrum. Erfingjar Erlends eiga þennan hluta enn (1956). Einhver á Bíldudal átti ½ Stakka, er Þórður Thorlacius keypti. Af honum keyptu Jón Pétursson á Stökkum og Kristín systir hans 1920 og byrjuðu þá búskap á Stökkum. Einnig keyptu þau þá ½ Krókshús af Þórði Thorlacius, en hann hafði keypt af erfingjum Torfa Jónssonar í Kollsvík (um 19136). Torfi hafði keypt ½ Krókshús 1903, en ½ keypti Guðm. Sigfreðsson í Króki. Þann hluta keypti svo 1930 Gunnlaugur Egilsson á Lambavatni sem seldi hann 1934 Ólafi V. Ólafssyni. Erlendur Kristjánsson keypti líka Lambavatn af Sigurði Bachmann”.)
1957-1964
Ólafur Lárusson (15.09.1934-05.11.1982) og Frúgit S. Thoroddsen (29.09.1938-17.04.2014). Þau keyptu af Jóni og Sigríði hálfa Stakka, Krókshús og hálfan Krók og bjuggu á öllum Stökkum. Börn þeirra:
Sveinn Lárus f 17.01.1957. Barn með Guðnýju gestdóttur. Ólína Alda Karlsdóttir. 2 börn.
Snæbjörn Þór f 20.02.1958. K. Sigríður Kristín Pálsdóttir. 2 börn.
Karl Knútur f 05.03.1960. Margrét Helma Karlsdóttir. 4 börn.
Sigurður Árni f 18.07.1961. Barn með Björk Ólafsdóttur. Lilja Þorsteinsdóttir. 3 börn.
Guðný f 30.07.1967. M. Hermann Guðjónsson. 3 börn.
Þröstur f 17.10.1963. K. Eydís Rebekka Björgvinsdóttir. 4 börn.
1966-1975
Jón Hannesson (14.11.1913-21.02.2012). Jón keypti af Ólafi og Frúgit Krókshús, hálfan Krók og hálfa Stakka, en bjó á allri jörðinni. Var fyrst skráður sem bóndi á Krókshúsum. Jón var frá Núpsstað í V-Skaftafellssýslu og var, þrátt fyrir aldurinn, afburða fær bjargmaður. Gerðist trúboði í Swasilandi þegar hann fór frá Stökkum.
1975-1987
Hjörtur Skúlason (11.09.1917-12.07.1998), Ásta Jónína Ingvarsdóttir (06.11.1926-28.08.2016) og synir þeirra. Hjörtur og Jónína bjuggu á Geitagili efra frá 1950-1959; á Patreksfirði til 1968 og síðan í Sauðlauksdal til 1975 er þau fluttu að Stökkum. Skúli sonur þeirra var talinn fyrir búi í Sauðlauksdal. Á Stökkum voru ýmist þau eða synir þeirra skráð fyrir búi. Frá 1987 var jörðin skráð í eyði, en Skúli og kona hans Ólöf Matthíasdóttir bjuggu þá á Melanesi og nytjuðu Stakka fyrir kúabú til 2009, ásamt skyldmennum sínum. Börn þeirra:
Skúli Sigurjón (29.11.1949-10.07.2015) Sjá hér síðar og á Melanesi.
Ingvar Bragi f 26.09.1951. Sjá hér næst.
Ingibjörg Bjarney Karen f 06.05.1962. M: Helgi Haraldsson. 4 börn.
1985-1987
Ingvar Bragi Hjartarson f 26.09.1951 og Anna Kristín Jakobsdóttir f 18.08.1956. Börn þeirra:
Ásta Jónína f 09.03.1984. M. Ismet Yildiz. 1 barn.
Berglind Karen f 01.04.1985.
1987-2010
Skúli Hjartarson (29.11.1949-10.07.2015) og Ólöf Matthíasdóttir f 07.11.1953. Sjá einnig Melanes.
2010-
Bjarney Valgerður Skúladóttir f 14.05.1971 og Magnús Mörður Gunnbjörnsson f 04.02.1968. Börn þeirra:
Gunnbjörn Skúli f 28.09.1990.
Margrét Hólmfríður f 04.12.1991.
Nafnið Bærinn dregur nafn af stórri tjörn þar nærri bæjum.
Jarðardýrleiki var að fornu (1703) 30 hdr. og er þá hjáleigan Naustabrekka meðtalin, en hún var að nýju mati (1861) talin 8,7 hdr. og að fornu 6 hdr., svo að Lambavatn sjálft var þá 24 hdr. , en að nýju mati aðeins 15,5 hdr. Árið 1703 eru 3 ábúendur á Lambavatni en einn á Naustabrekku, sem hefur 21/2 hdr. af heimajörðinni.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki 30 hdr. Eignarmaðurinn Guðrún Eggertsdóttir að Bæ á Rauðasandi. Ábúandinn er sr Jón Ólafsson á 7 hdr. Landskuld 52 ½ alin. Betalast í prestskyldum sem honum ber af eigandanum og kirkjunni. Hefur fyr en hann bjó þar goldist í fiski heim til eiganda, eður, ef fiskur brást, þá í örðum aurum. Við til húsa leggur eigandinn. Kúgildi þar með eru 2, hafa verið 2 ½. Leigur betalast í prestskyldum. Kúgildi uppbætir landsdrottinn. Kvaðir öngvar, en þó síðan presturinn átti ekkert skip, hefur hans maður róið að skipum landsdrottins. Kvikfénaður 2 kýr, 2 ær, geldir sauðir 8 og 7 gemlingar, hestar 3 og hross eitt. Fóðrast kann á þessum parti 1 kýr, 3 ær. Heimilismenn prestsins 5, og eitt hjú að hálfu.
Annar ábúandi, Grímur Jónsson, á 7 ½ hdr. Landskyld 57 ½. Betalast með fiski og fiskiföngum ef til eru, ella með landaurum. Legikúgildi 3. Leigur betalast í smjöri heim til landsdrottins, eður eftir hans tilsögn til prestsins. Kvaðir eru formennska, og fær hann þó 20 ánir í formannskaup. Kvikfjenaður 2 kýr, 8 ær, 5 gemlingar, 4 sauðir geldir, 1 hross þrevett. Fóðrast kann 1 kýr, 3 ær. Heimilismenn 4 og hjú að hálfu.
Þriðji ábúandi, Árni Jónsson, býr á 12 ½ hdr. Landskyld 87 ½ alin. Betalast í fiski og fríðum peningum eður steinbíti og landaurum ut supra. Leigukúgildi 5. Leigur gjaldast heim til eiganda eður til prests, í smjörum, eður fiski ef smjör brestur. Kvaðir eru formennska, og fær hann 20 álnir so sem hinn. Kvikfjenaður er 4 kýr og 1 kvíga tvævetur, 9 ær, 6 gemlingar, 1 sauður gamall, 1 hestur, 2 hross. Fóðrast kann á þessum parti 3 kýr, 6 ær. Heimilismenn Árna 8.
Fjórði maður, ábúandi á Naustabrekku, Jón Jónsson, hefur af þessari jörðu 2 ½ hdr. Landskyld þar af er 17 ½ alin. Betalast heim til eiganda í fiski. Leigukúgildi með þessum parti 1 kýr. Leigur gjaldast heim í smjöri. Kvöð hjer af og Naustabrekku til samans; einn skipsáróður. Kvikfjenað vide Naustabrekku. Öllum búendum leggur landsdrottinn við til húsabótar.
Jörðin á torfskurð, sem brúka má til eldiviðar ef vildi, en elt er taði og svörði. Heimræði um hásumar í góðviðrum. Sölvafjara til gagns fyrir þá jörð eina. Ábúendur eiga engi skip, en um sumar gengur skip landsdrottins, fram til höfuðdags. Jörðin hefur verið grasgefin, en landþröng. Nú spillist það af sandfjúki, so engjar eru mjög so nær ónýtar. Skriður hafa tekið úr grasið í hlíðinni, og hrynur oft grjót á túnið. Vatnsbrestur er þar á vetrum til stórmeina, og þarf það á sleðum og mönnum heim að bera”.
Lambavatn skiptist í tvær jafnstórar jarðir; Lambavatn efra og Lambavatn neðra, og hélst tvíbýlið til 1958. Formlega er Lambavatn enn tvær jarðir. 1901 átti efri jörðina Guðrún Gísladóttir, ekkja í Saurbæ. Jóhanna Bachmann dóttir hennar hefur erft jörðina, því Sigurður Bachmann maður hennar seldi Erlendi Kristjánssyni á Látrum, en af erfingjum hans keypti Tryggvi Eyjólfsson hana eftir að hún fór í eyði. 1901 átti neðri jörðina Guðmundur Bárðarson lausamaður á Vatneyri. Af honum keypti Eyjólfur Sveinsson 1927.
1570
Jón. Bóndi á Lambavatni 1870.
1570
Bjarni. Bóndi á Lambavatni 1570.
-1678
Jón eldri Ólafsson. Bóndi á Lambavatni fyrir og fram til 1678. Hann var bróðir séra Jóns Ólafssonar á Lambavatni. Gísli Konráðsson segir svo í þætti Látramanna og Barðstrendinga: „Jón eldri Ólafsson. Hann drukknaði 1678 með Ásbirni syni sínum og 4 öðrum mönnum, ætlaði til vers og lagði út úr Bæjarós, en drukknaði þar úti fyrir Patreksfirði 17. apríl. Átti eftir 6 börn.“
- Guðrún, systir Ragnheiðar konu séra Jóns. „Bjuggu þau Jón prestur fyrst 9 ár á Melanesi, til þess Jón bróðir hans drukknaði, er búið hafði á Lambavatni. Flutti Jón prestur þá þangað, ári síðar en Jón bróðir hans dó og bjó þar síðan alla æfi, en að Melanesi fluttist hann, er hann fékk þingin.“ Ekki væri ólíklegt að eitthvert þessara barna Jóns og Guðrúnar hafi verið á lífi 1703, en ekkert verður um það sagt með vissu.
1679-1703
Jón Ólafsson prestur. Bóndi á Lambavatni 1679-1703. Áður bóndi á Melanesi (1669-1679). F. um 1640, d. seinni hluta árs 1703. Foreldrar: Ólafur Ásbjörnsson bóndi í Saurbæ og k.h. Halla Jónsdóttir. Séra Jón lærði í Hólaskóla, en var síðan í þjónustu Eggerts Björnssonar ríka á Skarði. Vígðist að Saurbæ 1669 og bjó fyrst á Melanesi.
- 1669, Ragnheiður, f. um 1642, enn á lífi 1716, Þorláksdóttir bónda í Tungu í Tálknafirði Bjarnasonar prests í Selárdal Halldórssonar s.st. Einarssonar, Sigvaldasonar langlífs. Börn þeirra: ??
1703
Árni Jónsson. Bóndi á Lambavatni 1703. F. um 1659.
K. Sesselja Jónsdóttir, f. um 1664. Börn þeirra 1703 eru:
Þóra 11 ára.
Guðrún 10 ára.
Margrét 4 ára.
Árið 1735 eru taldir 5 bændur á Lambavatni. Einn þeirra er liklega bóndi á Brekku.
1735
Einar Steinsson. Bóndi á Lambavatni 1735. Hann er 12 ára vinnupiltur í Saurbæ 1703.
1735
Skeggi Jónsson. Bóndi á Lambavatni 1735. Hann er 11 ára í Hænuvík 1703, sonur Jóns Helgasonar bónda þar.
1735
Jón Árnason. Bóndi á Lambavatni 1735. Ekki er ólíklegt að hann hafi verið sonur Árna Jónssonar bónda s.st. 1703.
1735
Þorsteinn Einarsson. Bóndi á Lambavatni 1735. Þetta er sennilega sá Þorsteinn Einarsson, sem síðar kvæntist Guðbjörgu Márusdóttur og bjó í Hesthúsum, sjá þar.
K. I, Sæborg Jónsdóttir, d. 1762 (gift kona hefur legið veik 3 ár). Börn þeirra hafa verið:
Elín, f. um 1748, kona Jóns Bjarnasonar bónda í Kollsvík 1780.
Guðmundur, f. 1752 í Saubæjarsókn.
Sonur þeirra mun einnig hafa verið:
Steinn bóndi á Grundum, f. um 1742.
Ennfremur hefður getað verið dætur þeirra:
Ólöf, f. um 1741, fermd 1756.
Guðrún, f. um 1744, fermd 1759.
1735
Árni Pálsson. Bóndi á Lambavatni 1735. D. 17. júní 1771 62 ára.
1780
Bjarni Pálsson. Bóndi á Lambavatni 1780. Hann er bóndi í Króki fyrri hluta ársins 1782 og hefur líklega búið þar þangað til Ólafur Arngrímsson tengdasonur hans tók við, að því er ætla mætti um 1796. Hann kvæntist 1769 og er sennilegt að hann hafi um það leyti gerst bóndi á Lambavatni. F. um 1748, d. milli 1810 og 1817. ekki er víst um foreldra hans.
K. 1769, Ingibjörg, f. um 1749, d. milli 1801 og 1808 Guðmundsdóttir. Börn þeirra:
Guðrún, f. 13. okt. 1770, virðist ekki vera í hreppnum 1801.
Elín, f. 8. okt. 1772, kona Ólafs Arngrímssonar bónda í Króki.
Valgerður, f. 1779, d. á 1. ári.
Ingunn, fæðingur hennar vantar í kjb., en hún er talin 3 ára í Króki 1782, er ekki á manntali í hreppnum 1801.
1780-1781
Þorgrímur Jónsson. Bóndi á Lambavatni 1780 og til dánardægurs 1781. F. 1703 eða 1704. Bóndi í Keflavík 1762, og hefur sennilega flust þaðan að Lambavatni. Foreldrar: Jón Diðriksson yngsti bóndi í Keflavík 1703, þegar manntalið er tekið, en kominn þá um vorið að Hlíðarhvammshólum á Rauðasandi. En það mun vera hann sem er á Hnjóti 1735. Þorgrímur var tvíkvæntur.
K. I Helga Pálsdóttir, d. 23. sept. 1753. Dætur þeirra ?:
Þorbjörg, f. 1751, líklega dáið ungbarn.
Guðríður, f. 1753, d. 1755.
Í Saurbæjarsókn er fermd 1759 (14 ára):
Guðrún Þorgrímsdóttir, á Hnjóti 1780 ógift.
1762 deyr:
Anna Þorgrímsdóttir 14 ára í Saurbæjarsókn.
Þetta hefðu getað verið dætur Þorgríms og Helgu.
K. II 1760, Guðrún, f. um 1731, d. milli 1785 og 1801 Helgadóttir bónda á Brekkuvelli Tómassonar (líklega þess, sem er 1 árs í Kirkjuhvammi 1703 hjá foreldrum sínum búandi þar). Börn þeirra:
Kristín, f. 1759, fluttist á Barðaströnd og átti son, er Magnús hét, með Magnúsi Erlendssyni síðar bónda á Auðshaugi. Dóttursonur Magnúsar Magnússonar var Indriði Indriðason bóndi á Naustabrekku. Önnur dóttir Magnúsar var móðir Ingibjargar Einarssdóttur konu Sigmundar bónda á Hvalskeri, Hjálmarssonar.
Jón, f. 1761, bóndi á Sjöundá, er myrtur var 1801.
andvana barn, f. 1763
Gunnhildur, f. 1764, seinni kona Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík.
Vigdís, f. 1766, giftist Magnúsi Eyjólfssyni bónda í Flatey, sjá Breiðf. sjómenn bls. 427.
Guðrún eldri, f. 1771, kona Össurs Sigurðssonar bónda í Breiðavík, síðar í Stekkadal.
Helgi, f. 1773, dó sama ár.
Guðrún yngri, f. 1774, kona Guðmundar bónda á Hvalskeri 1817 Guðmundssonar bónda á Sjöundá, Jónssonar.
Frá Þorgrími og seinni konu hans er mikill ættbálkur kominn.
1780
Einar Guðmundsson. Bóndi á Lambavatni 1780. Bóndi í Krókshúsum 1782 (hefur líklega farið þangað 1781) en kominn að Keflavík í okt. 1785 og mun hafa búið eitthvað þar. F. um 1750.
K. 1774, Ragnhildur Guðmundsdóttir, f. um 1742. Hvorugt þeirra hjóna er á manntali í Rauðasandshreppi 1801 og eigi heldur dætur þeirra. Börn þeirra:
Helga, f. í Saurbæjarsókn 1775.
Steinunn, f. 1776.
Þuríður, f. 14. febr. 1780.
1782
Eyjólfur Guðmundsson. Bóndi á Lambavatni 1782. Bóndi á Leifum í Sauðlauksdal 1780, sjá þar.
1782
Jón Jónsson. Bóndi á Lambavatni 1782. Bóndi á Melanesi 1780, sjá þar.
1801
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Lambavatni 1801, á Naustabrekku 1808 og 1817, en fyrst í Keflavík, sjá þar.
1801-1816
Ólafur Sigurðsson. Bóndi á Lambavatni fyrir 1801- líklega 1816. (1801 hreppstjóri og meðhjálpari). Bóndi í Kirkjuhvammi 1 eða 2 ár (1780 eða 81-1782), í Saurbæ 1782-1785. Bóndi í Stekkadal 1 eða 2 ár frá 1785, en síðan hefur hann verið á Stökkum og líklega farið þaðan að Lambavatni. F. 20. apríl 1756, d. á Látrum 1. apríl 1823. Foreldrar: Sigurður Pálsson bóndi á Látrum og k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. I 1778 (í Saurbæjarsókn), Ingibjörg, f. um 1747, d. fyrir 1801 Gísladóttir (systir Þórðar bónda á Hnjóti). Börn þeirra:
Sigríður, f. í Saurbæ 29. des. 1782, varð seinna kona Gunnars Höskuldssonar bónda í Bröttuhlíð.
Guðrún, f. í Saurbæ 25. ágúst 1784, d. í Stekkadal 26. nóv. 1785.
Guðrún, f. í Stekkadal eða á Stökkum 1786, átti Þórð Bjarnason bónda á Lambavatni.
Gísli, f. á Stökkum 1787, á Sjöundá 1817, dóttir hans var Margrét, f. um 1810, í Saurbæ 1817.
K. II Margrét Guðmundsdóttir, sem áður mun hafa verið gift Jóni Helgasyni, sem bóndi var um skeið í Keflavík. Af manntalinu 1801 mætti skilja að fyrrnefnd börn væru eftir s.k. Ólafs, en svo er ekki.
Dóttir Ingibjargar f.k. (Þórðar) Ólafs og Þórólfs Jónssonar Tálknfirðings var:
Kristín, f. 25. des. 1777. Hún átti Sigurð Pétursson frá Dalshúsum bónda í Kirkjuhvammi 1817.
um 1804-um1809
Halldór Jónsson. Bóndi á Lambavatni um 1804- um 1809, fluttist þá að Gröf, sjá þar.
1812-1821
Ásbjörn Þórðarson. Bóndi á Lambavatni 1812 (eða síðar) -1821. Hann mun ekki hafa búið annarsstaðar. F. 23. mars 1784 á Geitagili skv. kirkjubók, en 1817 segir í Krókshúsum. Hefur líklega komið þangað ungbarn. Drukknaði með Gunnlaugi Jónssyni, þá bónda á Mábergi, 22. mars 1821. Foreldrar: Þórður bóndi á Stökkum (1801) Bjarnason og k.h. Guðlaug Jónsdóttir frá Stökkum.
K. 6. okt. 1811, Ingibjörg (síðar miðkona Bjarna Halldórssonar þá bónda í Hænuvík) Árnadóttir bónda í Breiðavík, Eyjólfssonar. Börn þeirra:
Guðrún, f. í Breiðavík 20. ágúst 1811, átti Ólaf Halldórsson bónda í Raknadal.
Elísabet, f. á Lambavatni 12. des. 1817. Hún giftist ekki, en sonur hennar og Sturlu Einarssonar bónda í Vatnsdal var Elías, f. 19. des. 1849, kvæntur Guðnýju Ólafsdóttur frá Brekku.
Gísli, d. 9. maí 1839.
Áður en Ásbjörn kvæntist átti hann dóttur:
Kristín, f. á Hnjóti 9. nóv. 1810. Móðir hennar var Kristín Björnsdóttir bónda í Breiðavík Össurssonar. Kristín Björnsdóttir, d. 10. apríl 1811, varð bráðkvödd. Kristín Ásbjörnsdóttir varð 3. kona fyrrnefnd Bjarna Halldórssonar, sem áður var kvæntur Ingibjörgu stjúpmóður Kristínar. Talið var, að réttur faðir Kristínar Ásbjörnsdóttur hefði verið séra Eyjólfur Kolbeinsson, aðstoðarprestur í Sauðlauksdal.
Milli manna átti Ingibjörg Árnadóttir son:
Ólafur, f. í Skápadal 23. sept. 1827, með Ólafi Sigmundssyni þá kvæntum bónda í Króki.
um 1816-1937
Þórður Bjarnason. Bóndi á Lambavatni um 1816-1937 og síðan 1843-1849? Áður en Þórður fór að Lambavatni var hann búsettur á Naustabrekku, en ekki verðu um það sagt, hvort hann hefur talist búandi þar samtímis föður sínum. Hann hefur eflaust tekið við Lambavatni eftir Ólaf tengdaföður sinn. F. í Keflavík 1787, d. á Lambavatni 17? okt. 1850. Foreldrar: Bjarni Bjarnason bóndi í Keflavík og víðar og k.h. Guðrún Bjarnadóttir bónda í Keflavík Jónssonar. Þórður var tvíkvæntur.
K. I (líklega 1810), Guðrún, f. í Stekkadal eða á Stökkum 1786, d. á Lambavatni 17. maí 1817 Ólafsdóttir bónda á Lambavatni Sigurðssonar og k.h. Ingibjargar Gísladóttur. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. á Naustabrekku 1811, kona Bjarna Ólafssonar bónda á Lambavatni.
Ingunn, f. á Naustabrekku 1813, fór til Flateyjar og dó þar ógift? og bl.
Jón, f. á Naustabrekku 1815. Hann fluttist til Flateyjar og stundaði þar sjómennsku.
K. II 1841, Guðríður, f. í Breiðavík 25. sept. 1818, d. á Vatneyri, Torfadóttir bónda á Naustabrekku Bjarnasonar og k.h. Solveigar Bjarnadóttur. Börn þeirra:
Þorkatla, f. á Lambavaatni 27. des. 1841, d. á Koti 2. júlí 1944, átti Tómas Sigmundsson bónda í Dufansdal.
Níels, f. á Lambavatni 1843, drukknaði vorið 1908 frá Tálknafirði, ókv. og bl.
Bergljót, f. á Lambavatni 1846, átti Gísla Snæbjörnsson bónda á Skrinafelli. Bergljót hafði áður átt 2 syni með Sveini Magnússyni síðar bónda á Lambavatni.
Guðbjartur, f. 13. jan. 1849, d. 20. sama mánaðar.
1837-1844
Einar Þorvaldsson. Bóndi á Lambavatni 1837-1844. Í Kirkjuhvammi 1847-1849. Fluttist að Lambavatni frá Auðshaugi á Hjarðarnesi. F. 16. mars 1790 á Skriðnafelli, d. á Naustabrekku 10. nóv. 1856. (57?)
K. I, Guðrún Einarsdóttir Þorleifssonar og Margrétar Jónsdóttir frá Gröf í Þorskafirði. Hún hefur dáið 1825 á Auðshaugi. Dóttir þeirra og eiknkabarn var:
Guðrún kona Ólafs Magnússonar bónda á Nauustabrekku.
K. II, Sólrún Jónsdóttir bónda í Hvammi á Barðaströnd, Loftssonar og k.h. Helgu Þorkelsdóttur. Faðir Jóns var Loftur Sigmundsson bóndi í Saurbæ 1762. Jón og Sólrún áttu tvær dætur:
Rannveig, f. 24 ágúst 1837 á Lambavatni, dó ungbarn.
Helga, f. 24. ágúst 1837 á Lambavatni, dó ungbarn.
Einar hafði átt son:
Jón, f. um 1822. Hann fluttist með föður sínum að Lambavatni, hrapaði í Keflavíkurbjargi 1852, ókv. og bl.
Sonur Sólrúnar og Jóns Arngrímssonar var:
Jón bóndi á Skógi fyrri maður Gróu Össurardóttur.
Sólrún dó í Kvígindisdal 24. sept. 1855. Hún var á Látrum 1850 (gift kona) og 1851, þá sögð skilin við mann sinn.
1834-1854
Bjarni Ólafsson. Bóndi á Lambavatni 1834-1854, í Kirkjuhvammi 1854-1863. F. 1799, d. á hnjóti 15. nóv. 1875. Foreldrar: Ólafur Arngrímsson bóndi í Króki og k.h. Elín Bjarnadóttir frá Lambavatni.
K. 1832, Ingibjörg, f. 1811, d. í Kirkjuhvammi 2. júlí 1862 Þórðardóttir bónda á Lambavatni Bjarnasonar og k.h. Guðrúnar Ólafsdóttur. Þau eignuðust 14 börn, er flest dóu kornung. Til fullorðinsár komust:
Þóra, f. 27. júlí 1833 móðir Dagbjartar Einarssonar bónda í Gröf.
Guðbjartur fyrri maður Rebekku Gísladóttur (er síðar átti Egil Gunnlaugsson bónda á Lambavatni), þau barnlaus.
1849-1859
Bjarni Torfason. Bóndi á Lambavatni 1849-1859. Hafði áður búið á Hnjóti, líklega 1 ár, en fluttist frá Lambavatni í Tálknafjörð og bjó þar. F. í Breiðavík 15. mars 1822, d. á Bakka í Tálknafirði 17. júní 1873. Foreldrar: Torfi Bjarnason bóndi á Naustabrekku og k.h. Solveig Bjarnadóttir.
K. 1848, Sigríður Bjarnadóttir bónda í Keflavík Björnssonar og f.k.h. Guðrúnar Ólafsdóttur frá Látrum. Börn þeirra:
Torfi, dó ungbarn 1848.
Guðmundur Torfi, d. 11 ára 1864.
Sigríður, f. 27. ágúst 1852, d. 31. jan. 1921, kona Jóns Hjálmarssonar bónda á Geitagili.
Kristín, f. 27. okt. 1856, átti (1878) Guðmund Sörensson bónda í Botni í Tálknafirði.
Guðbjörg, dó ungbarn 1859 á Lambavatni.
Guðbjartur, d. 17 ára 1879.
Guðbjörg, d. 20 ára 1886.
1835-1837
Magnús Halldórsson. Bóndi á Lambavatni 1835-1837. Síðar bóndi á Hvallátrum, sjá þar.
1849-1850
Guðmundur Magnússon. Bóndi á Lambavatni 1849-1850, á Melanesi 1840-1845, sjá þar.
1854-1858
Björn Bjarnason. Bóndi á Lambavatni 1854-1858, en talinn bóndi á Skógi frá 1857-1860. Það lítur því út fyrir að hann hafi haft jarðarafnot á báðum stöðunum 1857-1858. Hann fluttist 1861 í Tálknafjörð og bjó á Eysteinseyri. F. á Hvallátrum 15. jan. 1824, d. á Eysteinseyri 5. sept. 1871. Foreldrar: Bjarni Björnsson bóndi í Keflavík, áður á Látrum og f.k.h. Guðrún Ólafsdóttir. Alsystur hans voru þær Sigríður fyrrnefnd kona Torfa Bjarnasonar, Ástríður kona Jóns Gíslasonar í Keflavík og Bríet kona Ólafs Magnússonar í Breiðavík.
K. um 1853, Herdís, f. 26. júlí 1824, d. 9. júlí 1900 Jónsdóttir bónda í Hokinsdal (síðar í Tálknafirði) Ólafssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur. Herdís var systir Teits, er kvæntist Önnu Magnúsdóttur frá Keflavík. Börn Björns og Herdísar voru:
Kristín dó nýfædd 1854.
Ólafur, f. á Skógi 17. júní 1858, d. á Sellátranesi 13. nóv. 1937. Hann var búsettur í Tálknafirði (Ólafur einhenti).
Helga, dó nýfædd á Eysteineyri 1860.
Herdís hafði farið þangað 1860 og voru þau hjónin þá talin skilin að borði og sæng. Það hefur lagfærst því að þau bjuggu síðar saman á Eysteinseyri.
1856-1863
Þórður Jónsson. Bóndi á Lambavatni 1856-1863. Áður bóndi á Sjöundá, sjá þar. Þórður virðist hafa nytjað hálfa Sjöundá með 9 hdr. af Lambavatni árin 1856-1858.
1852-1854
Jón Gíslason. Bóndi á Lambavatni 1852-1854 og bóndi á hálfu Melanesi 1854-1855. Fluttist 1855 að Litlueyri í Bíldudal. F. á Hreggstöðum 13. júní 1822, sonur Gísla Einarssonar bónda þar og k.h. Sigríðar Jónsdóttur.
K. Guðbjörg Bjarnadóttir bónda í Breiðavík Sigurðssonar og k.h. Þórkötlu Leifsdóttur. Þau skildu fyrir 1860. Dóttir þeirra:
Sigríður, f. á Lambavatni 27. ágúst 1852.
Bórn Guðbjargar áður en hún giftist voru:
Solveig Magnúsdóttir Bjarnasonar, f. á Hvallátrum 16. okt. 1937, átti Sölva Jafetsson í Tálknafirði, meðal barna þeirra var Magnús bóndi í Botni.
Árni, f. á Hvallátrum 10. okt. 1842, bóndi í Krossadal í Tálknafirði Ólafsson, Einarssonar bónda á Hlaðseyri, Þórarinssonar.
Helgi, f. á Hvallátrum 8. des. 1844 bóndi þar Eiríksson bónda á Mábergi Magnússonar.
Guðbjörg var f, 27. nóv. 1813, vk. í Krossadal 1873.
1859-1878
Árni Jónsson. Bóndi á Lambavatni 1859-1878 (9?). Bóndi á hálfum Stökkum 1849-1859 og hafði einnig 3hdr. í Krókshúsum 1853-1859. F. í Miðhlíð á Barðaströnd 3. nóv. 1824, d. á Lambavatni 9. des. 1887. Alkunnur rokkasmiður. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi í Miðhlíð og k.h. Guðrún Jónsdóttir bónda á Sjöundá Þorgrímssonar.
K. 1848, Halldóra Ólafsdóttir bónda á Stökkum Rögnvaldssonar og k.h. Etilríðar Sigmundsdóttur. Börn þeirra:
Veronika, f. 12. des. 1849, kona Guðbrandar Eiríkssonar bónda á Sjöundá.
Ingibjörg, f. 9. jan. 1851, d. 15. ágúst 1882, átti tvö börn með Halldóri Benjamínssyni, síðar bónda í Keflavík.
Hálfdán, f. 14. sept. 1852, húsmaður á Hvallátrum átti Svanborgu Árnadóttur.
Guðbjörg, f. 20. sept. 1853, átti Kristján Ólafsson bónda í Bröttuhlíð.
Ólafur, f. 7. maí 1855 bóndi í Bröttuhlíð.
Jón, f. 12. mars 1857 bóndi í Krókshúsum.
Guðmundur, f. 17. nóv. 1860, drukknaði í Hænuvíkurlendingu 29. júní 1879.
Egill, f. 1. júní 1862, bóndi á Sjöundá.
1861-1880
Einar Einarsson. Bóndi á Lambavatni 1861-1880. Fluttist þá á Vatneyri og dó þar. F. 30. maí 1838. Foreldrar: Einar Árnason bóndi í Tungu og k.h. Dómhildur Sigurðardóttir.
K. 1858, Þorgerður, d. á Vatneyri, Þórðardóttir bónda á Sjöundá og f.k.h. Svanborgar Helgadóttur. Börn þeirra:
Svanborg, f. á Geitagili 25. sept. 1858, giftist 1891 Guðmundi Guðmundssyni bónda í Laugardal í Tálknafirði.
Jón, f. á Geitagili 3. mái 1860, dó ungbarn.
Ástríður, f. á Lambavatni 5. okt. 1861, d. á Patreksfirði 20. júlí 1948, óg. og bl.
Einar, f. 3. sept. 1864, 1880 vm. á Geirseyri.
Árni, f. 19. febr. 1866.
Guðbjartur, f. 17. ágúst 1867, kvæntist í Tálknafirði 1902 Ólöfu Þóru Benjmínsdóttur bónda í Bröttuhlið, Magnússonar.
Rannveig, f. 17. júní 1869.
Kristín, f. 2. nóv. 1870.
María, f. 17. apríl 1872.
Jóhannes, f. 3. jan. 1875, d. í Vestmannaeyjum, kv. Steinunni.
Guðrún, f. 29. jan. 1876.
1876-1898
Gunnlaugur Jónsson. Bóndi á Lambavatni 1876-1898. Bóndi á Melanesi 1867-1873, í Krókshúsum 1876-1876. F. í Hrísnesi 3. okt. 1831, d. á Lambavatni. Albróðir Árna bónda á Lambavatni, sjá hér að framan. Hann var tvíkvæntur.
K. I 1865, Steinunn, d. á Melanesi 3. júní 1871 Þorsteinsdóttir síðar bónda á Hlaðseyri, Þorsteinssonar og Sigríðar Bjarnadóttur bónda í Breiðavík Sigurðssonar. Sonur þeirra:
Jónas, f. 26. júlí 1866, dó ungbarn.
K. II 25. sept. 1874, Steinunn, f. 21. jan. 1835, d. á Lambavatni 19. jan. 1909, Magnúsdóttir bónda á Hvalskeri Einarssonar. Sonur þeirra:
Egill bóndi á Lambavatni, f. í Króki 7. nóv. 1874.
Dóttir Steinunnar og Jóns Ólafssonar bónda á Sjöundá:
Dómhildur, f. 27. nóv. 1865
Jón var Kvæntur Guðbjörgu systur Steinunnar og var Jón yngri, hálfbróðir Jóns á Sjöundá, skrifaður faðir Dómhildar.
Dóttir Steinunnar og Víglundar Ólafssonar bónda í Króki var:
Guðríður, f. í Króki 8. júlí 1873.
Víglundur var albróðir fyrrnefnds Jóns bónda í Króki og því hálfbróðir Jóns á Sjöundá.
1880-1884
Magnús Jónsson. Bóndi á Lambavatni neðra 1880-1884. Síðar bóndi á Melanesi, sjá þar.
1884-1928
Sveinn Magnússon. Bóndi á Lambavatni 1884-1928. Smáskammtalæknir og hagleiksmaður. F. í Gröf 28. júlí 1849, d. á Lambavatni 10. jan. 1929. Foreldrar: Magnús Ólafsson bóndi í Gröf og k.h. Elín Bjarnadóttir.
K. 14. nóv. 1881, Halldóra, f. í Sviðnum 5. maí 1845, d. á Lambavatni 26. jan. 1905 Ólafsdóttir bónda í Sviðnum Teitssonar og k.h. Bjargar Eyjólfsdóttur dbrm. Í Svefneyjum, Einarssonar. Alsystir Sigríðar s.k. Einars J. Thoroddsens bónda í Vatnsdal. Börn þeirra:
Ólafur bóndi á Lambavatni (sjá hér á eftir).
Eyjólfur, f. 14. nóv. 1884, d. 25. febr. 1885.
Sveinn Eyjólfur, f. barnakennari, f. 14. okt. 1885, d. á Lambavatni 8. febr. 1941, kvæntur Vilborgu Torfadóttur bónda í Kollsvík, Jónssonar.
Magnús Elías (10.11.1887-10.05.1958), ókv. og bl.
Önnur börn Sveins Magnússonar á Lambavatni voru þessi:
Magnús, f. í Gröf 28. ágúst 1868, hrapaði í Hvannagjá í Látrabjargi 20. júlí 1888, ókv. og bl.
Ólafur, f. í Gröf 28. okt. 1871, dó ungbarn,
Móðir þeirra var Bergljót Þórðardóttir bónda á Lambavatni Bjarnasonar og s.k.h. Guðríðar Torfadóttur. Bergljót giftist síðar Gísla Snæbjörnssyni bónda á Skriðnafelli á Barðaströnd.
Helga (03.03.1899-23.07.1984) kona Þórðar Þorsteinssonar hreppstjóra í Kópavogi. Móðir hennar var fyrrnefnd Guðríður Víglundsdóttir bónda í Króki og Steinunnar Magnúsdóttur, er síðar átti Gunnlaug Jónsson á Lambavatni.
1898-1899
Steinunn Magnúsdóttir, ekkja eftir Gunnlaug Jónsson á Lambavatni efra, var búandi þar 1898-1899.
1899-1937
Egill Gunnlaugsson. Bóndi á Lambavatni efra 1899-1937. F. í Króki 7. nóv. 1874, d. 17. apríl 1952 á Lambavatni. Foreldrar: Gunnlaugur Jónsson bóndi á Lambavatni og k.h. Steinunn Magnúsdóttir.
K. 24. sept. 1897, Valgerður Rebekka, f. á hnjóti 29. sept. 1864, d. á Lambavatni 23. maí 1942 Gísladóttir bónda í Hænuvík, Sigurðssonar og k.h. Jarþrúðar Einarsdóttur bónda í Tungu, Árnasonar. Börn þeirra:
Guðbjartur Gísli bóndi á Lambavatni, f. 25. febr. 1898. Sjá hér á eftir.
Gunnlaugur Aðalsteinn bóndi í Krókshúsum (sjá þar), f. 12. apríl 1900.
Egill Valdimar vélsmiður í Reykjavík (07.03.1902-08.01.1968), kv. Guðríði Þorsteinsdóttur frá hóli í Gnjúpverjahreppi. 1 kjörbarn.
Árni Jón Ingjaldur, f. 1. júlí 1908, sjúklingur á Kleppi, d. 1955.
1929-1958
Lambavatn neðra. Ólafur Sveinsson (04.07.1882-28.08.1969), sonur Sveins Magnússonar bónda þar og k.h. Halldóru Ólafsdóttir frá Sviðnum. Ólafur var hagleiksmaður eins og faðir hans. Hann var talinn fyrir búinu, en í raun var búrekstur jafnframt í umsjón Magnúsar bróður hans og Vilborgar móður þeirra, ásamt Eyjólfi, sem þó var tíðum fjarri vegna kennslustarfa.
K. 22. okt. 1921, Halldóra, d. í Reykjavík 31. ágúst 1928 Torfadóttir bónda í Kollsvík, Jónssonar og k.h. Guðbjargar Guðbjartsdóttur. Börn þeirra:
Magnús Torfi blaðamaður og síðar alþingismaður og ráðherra (05.05.1923-03.11.1998), kv. Hinriku Kristjánsdóttur. 3 börn.
Sveinn tréskurðarmeistari í Reykjavík (27.04.1925-20.05.2010). K. Jóna Gíslunn Árnadóttir. 3 börn.
Halldóra Sigrún (14.05.1926-06.02.2007), kennslukona. M. Halldór Viðar Pétursson. 5 börn.
Eyjólfur bróðir Ólafs keypti Lambavatn 1927 af Guðmundi Bárðarsyni á Vatneyri.
1928-1933
Lambavatn efra. Gunnlaugur Egilsson (13.04.1900-16.06.1978) og Sigríður Sveinsdóttir (28.10.1901-01.04.1932). Skráð bændur á hálfum Krókshúsum 1930-1933, en voru búsett á Lambavatni efra. Gunnlaugur flutti þaðan með Ingu dóttur sína, fyrst til Breiðavíkur; síðan Patreksfjarðar og þaðan til Reykjavíkur fyrir stríð. Dóttir þeirra:
Inga Guðrún (07.11.1930-14.09.2015)
1937-1952
Guðbjartur Gísli Egilsson. Bóndi á Lambavatni efra 1937-1952. F. á Lambavatni 25. febr. 1898, d. á sjúkrahúsi í Reykjavík 23. júní 1952. Foreldrar: Egill Gunnlaugsson bóndi á Lambavatni og k.h. Rebekka Gísladóttir. Guðbjartur Gísli var listagóður smiður; hagur á tré, járn og annað. Hann var þjóðhagasmiður Rauðsendinga meðan hans naut við og eftir hann liggja nokkur listaverk.
K. 19. okt. 1929, Halldóra Mikkalína Kristjánsdóttir bónda á Grundum, Ásbjörnssonar og k.h. Guðbjargar Halldórsdóttur bónda á s.st., Ólafssonar. Börn þeirra:
Sigríður (05.08.1930-06.06.2017). Listakona og bóndi, gift Össuri Guðbjartssyni á Láganúpi (19.02.1927-30.04.1999). 5 börn.
Pálmi Kristján (09.04.1933-21.10.1974). Óg, bl. Vélsmiður; bjó lengst af í Reykjavík.
Svavar (08.09.1934-15.06.2004). Óg, bl. Vélsmiður; bjó á Patreksfirði og um tíma í Miðgarði í Örlygshöfn (sjá þar).
Gylfi f 29.06.1940. Óg, bl. Vélsmiður; hefur búið á Patreksfirði.
1958-1970
Tryggvi Eyjólfsson (19.09.1927-30.07.2017) bóndi á Lambavatni neðra ásamt móður sinni Vilborgu Torfadóttur (05.06.1896-12.09.1987). Barnsmóðir Tryggva var Lydía Berta Schneider Jörgensen. Þeirra barn:
Guðrún Barbara f 15.02.1958. M. Guðjón Ólafur Sigurbjartsson. 2 börn.
1952-1958
Halldóra Kristjánsdóttir (02.03.1904-03.05.1986), ekkja Guðbjartar Egilssonar bjó á Lambavatni efra með aðstoð barna sinna eftir lát manns síns. Börn þeirra; sjá hér að framan. Eftir að hún flutti burt keypti Tryggvi Eyjólfsson jörðina 1964 af erfingjum Erlendar Kristjánssonar á Látrum.
1970-
Tryggvi Eyjólfsson býr á Lambavatni neðra, og síðar báðum bæjum ásamt konu sinni Erlu Þorsteinsdóttur f 08.08.1945 og sonum þeirra:
Þorsteinn Gunnar f 21.05.1971. Bóndi á Lambavatni öllu.
Sveinn Eyjólfur f 26.05.1972. Rafvirki á Patreksfirði. K. Margrét Brynjólfsdóttir. 3 börn.
Fyrir átti Erla dóttur:
Hrefna Clausen f 09.09.1964. 1 barn.
Eftir fráfall Tryggva er búreksturinn að mestu í höndum Þorsteins. Hann nýtur aðstoðar Eyjólfs bróður síns, sem býr á Patreksfirði.
Nafnið Nafnið bendir til þess að þarna hafi snemma verið naust. Aðstæður til fiskveiða á árabátum eru um margt ákjósanlegar á Brekku, eins og sést í lýsingu Péturs Jónssonar í Barðstrendingabók. Í daglegu tali er bærinn oft nefndur Brekka.
Jarðabókin 1703 “Hjáleiga frá Lambavatni, og áður reiknað í hennar dýrleika. Tíundast öngvum. Ábúandinn Jón Jónsson (sjá einnig Lambavatn). Landskyld 60 álnir. Betalasti í fiski heim til landsdrottins. Landsdrottinn leggur við til húsa. Leigukúgildi nep hjáleigunni 3. Leigur gjaldast í smjöri heim til eiganda. Kúgildi uppyngir eigandi. Kvöð ein; skipsáróður ut supra á Lambavatni. Kvikfjenaður er 3 kýr, 7 ær, 2 sauðir, 2 gemlingar. Fóðrast kann þar 2 kýr og ekki meira. Heimilismenn eru 4. Engjar alls öngvar. Haga og sölvafjöru, item torfristu, hefir ábúandinn af Lambavatni. Hætt er mjög á vetur í úthaga fyrir snjóflóðum”.
Barðstrendingabók PJ Naustabrekka er ysti bær á Rauðasandi. Er bærinn fyrir utan Brekkusanda, en engjarnar inni í Sandfit. Graslendi er ekki heima, annað en túnið, og dálítill bithagi. Er túnið fremur hart og greiðfært. Mótak er þar ekkert, en reki bætir úr. Fjörubeit er góð og sauðbeit á Brekkuhlíð, en ærið er hún sæbrött. Vestan við túnið eru hafmrar og gjögur, ehitir þar Básar, er þar góð lending í norðan- og norðvestanátt, og fiskur oft skammt undan. Annars er engin lending á öllum Rauðasandi, en farið á sjó stöku sinnum á sumrin af Rifinu ef ládautt er. Reki er allmikill á Naustabrekku, eins og víðar á Rauðasandi.
1703
Jón Jónsson. Bóndi á Naustabrekku 1703 Hafði einnig 2 ½ hdr. af heimajörðinni Lambavatni. F. um 1658, ókv. en systir hans, Guðrún 43 ára er bústýra hans. Á heimilinu eru: Úlfur Diðriksson 44 ára, Diðrik Jónsson, fósturpiltur 15 ára og vinnustúlka Guðrún Bjarnadóttir 19 ára.
1735
Árið 1735 er enginn bóndi talinn á Naustabrekku. En þá eru taldar 5 búendur á Lambavatni og hefur einn þeirra eða fleiri vafalaust nytjað Brekku.
1762
Gunnlaugur Þorbjörnsson. Bóndi á Naustabrekku 1762. Í Krókshúsum hjá Jóni syni sínum 1780, 66 ára, örvasa. F. um 1741, d. á milli 1785 og 1801. Foreldrar: Þorbjörn Pálsson bóndi í Kvígindisdal 1703, en fluttist þá um vorið að Geitagili og að því er ætla verður k.h. Guðrún Gunnlaugsdóttir bónda í Kvígindisdal, Jónssonar. Þau eru í Kvígindisdal 1703 og eiga dóttur 4 ára. Í ættartölum er sagt að kona Þorbjarnar hafi verið Guðrún dóttir Jóns Ólafssonar prests á Lambavatni, hafi hann verið fyrri maður Guðrúnar, en síðan hafi hún átt Jón Gunnlaugsson, er var bróðir fyrrnefndrar konu Þorbjarnar. Í Lbs. 652 4to, líkræðum eftir séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, er nefnd Guðrún, f. um 1710, d. 1776, sem var dóttir Jóns Gunnalugssonar og Guðrúnar dóttur séra Jóns á Lambavatni Ólafssonar. Samkvæmt kirkjubók 1785 var bróðir Guðrúnar Jón Jónsson (bóndi á Láganúpi 1780, kvæntur Giríði Jónsdóttur) fæddur um 1713. Guðrún dóttir séra Jóns hefur því verið gift Jóni Gunnlaugssyni um eða fyrir 1710, en það er vafalaust sá Jón, sem bóndi er í Kvígindisdal 1735. Af þessu virðist auðsætt, að fyrrnefnd Guðrún Jónsdóttir hafi ekki getað verið kona Þorbjarnar í Kvígindisdal, nema þá að þau hafi verið stutt í hjb. og skilið. Þorbjörn hefði þá þurft að vera ekkjumaður eftir 1703, kvænst Guðrúnu, skilja við hana og hún síðan að vera gift á nýjan leik fyrir 1710.
K. (líkl. um 1740), Dýrfinna Jónsdóttir e.t.v. Þórðarsonar bónda á Hvallátrum 1703 Jónssonar. Hún dó 11. febr. 1777 (gift kona, líkþrá, margra barna móðir móðir, segir í kjb.). Ekki verður sagt um börn þessi með vissu, en þau hafa líklega verið þessi og e.t.v. fleiri:
Ingveldur, f. um 1740, d. milli 1801 og 1808, giftist 1766 (í Saurbæjarsókn) Jóni Jónssyni. Hann var búsettur á Hnjóti, en dó í Sbs. 5. sept. 1773.
Guðrún, f. um 1743, giftist Grími Jónssyni bónda í Stekkadal 1780.
Jón, f. um 1747 bóndi í Krókshúsum 1780.
Þorbjörn, f. 1757, d. í ársbyrjun 1758.
Halldóra fermd í Sauðlauksdalssókn 1762.
Þessi voru einnig börn Gunnlaugs Þorbjörnssonar:
Guðrún, f. í Saurbæjarsókn 29. mars 1767. Móðir hennar var Sesselja Jónsdóttir. Guðrún dó barnlaus.
Guðrún, f. í Sauðlauksdalssókn 17. júlí 1775. Móðir hennar var Guðrún Þórarinsdóttir bónda á Hlaðseyri 1780 Sigurðar Ella bónda á Geirseyri 1735, Jónssonar. Sonur Guðrúnar Gunnlaugsdóttur var Gunnlaugur Þorleifsson bóndi í Bröttuhlíð. Guðrún móðir hennar giftist síðar Einari Eyjólfssyni bónda í Tungu 1780.
1780 og 1782
Egill Sigurðsson. Bóndi á Naustabrekku 1780 og 1782. Hann fluttist að Raknadal og dó þar 24. júlí 1785. F. um 1733. Líklega hefur hann komið að Naustabrekku, er Gunnlaugur fluttist þaðan, en það hefur getað verið um eða eftir 1770 og í seinasta lagi 1777, er hann var orðinn ekkjumaður, enda talinn örvasa 1780. Ekki er kunnugt um foreldra Egils.
K. 1763, Kristín, f. um 1728, d. milli 1801 og 1808, Guðmundsdóttir, áður gift Bjarna Bjarnasyni, sem bóndi hefur verið á Melanesi. Þar hefur Egill líka verið eftir að hann kvæntist. Börn þeirra:
Bjarni, f. 2. apríl 1764, á Brekku 1780, vantar 1801.
Guðrún, f. 16. maí 1765 kona Bjarna Bjarnasonar á Sjöundá, myrt þar 1802.
Helga, f. 13. des. 1768, á Brekku 1780, vantar 1801.
Guðrún, f. 2. júlí 1770, d. 29. des. 1780.
Sigríður, d. barn 29. apríl 1774.
Afkomendur eru frá Guðrúnu og Bjarna á Sjöundá.
1782-1784
Jón Jónsson. Líklega bóndi á Naustabrekku 1782 eða 83-1784. áður bóndi á Melanesi, sjá þar.
1784-1785
Bjarni Þorleifsson. Bóndi á Naustabrekku 1784-1785. Hann hefur komið þangað eftir Jón Jónsson. Varð bráðkvaddur á Breiðavíkurfjalli 5. mars 1785. áður bóndi í Bröttuhlíð, sjá þar.
1801
Einar Þorsteinsson. Bóndi á Naustabrekku 1801. Hann hefur komið þangað 1794 eða fyrr og býr til 1804. Hann bjó á Brekkuvelli á Barðaströnd 1788. F. um 1748, d. 1804 (skiptafundur 13, mars 1804).
K. Guðrún, f. um 1748 Ólafsdóttir. Börn þeirra 1801:
Ólafur 16 ára.
Þuríður 12 ára.
Sigríður 7 ára (í Gröf 1817, f. á Brekku).
Sveinn 6 ára.
Auk þess var dóttir þeirra hjóna:
Helga, f. í Hvammi á Barðaströnd 1787. Hún giftist 1824 Márusi Guðmundssyni bónda á Sjöundá 1780 Jónssonar og Guðbjargar Márusdóttur.
1804-1818
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Naustabrekku 1804-1818. Áður bóndi í Keflavík, sjá þar og á Lambavatni.
1818-1822
Guðrún Bjarnadóttir, ekkja fyrrnefnds Bjarna Bjarnasonar. Búandi á Naustabrekku 1818-1822.
1822-1844
Torfi Bjarnason. Bóndi á Naustabrekku 1822-1844. Fluttist þá að Hnjóti og bjó þar aðeins í 1 ár. F. á Lambeyri í Tálknafirði 17. mái 1787, d. á Hnjóti 26. júlí 1845. Foreldrar: Bjarni Jónsson bóndi á Lambeyri og k.h. Sigríður Þorkelsdóttir. Torfi er vinnumaður í Breiðavík 1817.
K. 20. júní 1818, Solveig, f. 1796, d. á Hnjóti 18. des. 1857 Bjarnadóttir bóndi í Breiðavík, Sigurðssonar. Börn þeirra:
Guðríður, f. í Breiðavík 25. des. 1818, s.k. Þórðar Bjarasonar á Lambavatni og síðar Þórðar Jónssonar á Sjöundá.
Kristrún, f. í Breiðavík 18. okt. 1819, hefur dáið ungbarn.
Kristrún, f. í Breiðavík 1821, d. á Hnjóti 17. apríl 1851, óg. og bl.
Bjarni, f. í Breiðavík 15. mars 1822, bóndi á Lambavatni.
Björn, f. á Brekku20. nóv. 1823, vinnumaður í Gröf 1845.
Jón, f. á Brekku 20. jan. 1825, bóndi á Hnjóti.
Magnús, f. á Brekku 23. ágúst 1826, hefur dáið ungbarn.
1844-1848
Kári Sigmundsson. Bóndi á Naustabrekku 1844-1848. Áður bóndi í Gröf, sjá þar.
1849-1865
Ólafur Magnússon. Bóndi á Naustabrekku 1849-1865. F. á Stökkum 7. ágúst 1823, d. 8. júlí 1868, varð fyrir steini í Látrabjargi. Foreldrar: Magnús, f. á Brjánslæk 16. febr. 1792, d. í Sauðlauksdal 16. des. 1869, Ólafsson bónda í Rauðsdal og víðar, Einarssonar og k.h. Guðrúnar Arngrímsdóttur bónda í Miðhlíð, Teitssonar og Kristín Sigmundsdóttir bónda á Stökkum Jónssonar. Ólafur og Kristín voru ógift. Þau áttu síðar dóttur, Guðrúnu að nafni, f. á Lambavatni 3. jan. 1829. Hún var vinnukona í Breiðavík 1862, dó ógift og barnlaus. Hálfsystir Ólafs var Anna, f. 1830, átti Teit Jónsson, þau búsett í Tálknafirði. Móðir Önnu var Anna Guðmundsdóttir, þá ekkja Magnúsar Árnasonar bónda í Keflavík. Síðar átti Magnús Guðnýju Bjarnadóttur, d. á Geirseyri 14. sept. 1850 (52 ára gömul). Sonur þeirra Jónas dó 1835 3 ára gamall. Seinni kona Magnúsar var Þórunn Gísladóttir frá Hreggstöðum, systir Jóns Gíslasonar bónda á Lambavatni 1852-1854. Þau voru barnlaus.
K. 13. okt. 1849, Guðrún, f. 1825, d. í Stekkadal 6. ágúst 1893 Einarsdóttir bónda á Auðshaugi bónda á Auðshaugi, síðar á Lambavatni Þorvaldssonar og k.h. Guðrúnar, f. í Gröf í Þorskafirði 1792, d. á Auðshaugi 1825 Einarsdóttir bónda á Litlanesi í Múlasveit Þorleifssonar og Margrétar Jónsdóttur frá Gröf. Börn þeirra:
Kristín, f. á Hvallátrum 1. jan. 1849, d. á Vatneyri 28. júlí 1901. Hún giftist 4. okt. 1884 Ólafi (Arnfjörð) Jónssyni, sem drukknaði í Gjögrabót 1. mái 1897. þau voru bl. Dóttir Kristínar og Ólafs Ásbjörnssonar bónda í Tungu, Einarssonar var Sigríður, f. 20. júlí 1774 á Hlaðseyri. Börn hennar eru Kristmundur Björnsson og Jóhanna Kr. Kristjánsdóttir.
Guðrún, f. 21. mars 1850.
Guðný, f. 16. nóv. 1851.
Jónína Dagbjört, f. 25. maí 1853, d. á Patreksfirði, giftist 1891 Ingimundi Gíslasyni bónda í Höfðadal, Magnússonar. Með Hjalta Þorgeirssyni bónda í Krókshúsum átti Jónína dóttur, er Etilríður hét, dó ungbarn 1886.
Mikkalína, f. 29. sept. 1854, d. 11. jan. 1855.
Anna, f. 16. maí 1856, d. 16. des. sama ár.
Elín, f. 11. des. 1857, kona Einars Sigfreðssonar bónda í Stekkadal.
Ólína, f 8. ágúst 1859, d. 18. sama mán.
Kristbjörg, f. 1. nóv. 1861, d. 2. sama mán.
Guðný Mikkalína, f. 28. sept. 1865, d. í Hafnarfirði 4. nóv. 1951, átti Elías Sturluson bónda í Vatnsdal, Einarssonar og með honum 4 börn. Börn Guðnýjar utan hjónabands voru: Magnús Kjartansson málarameistari í Hafnarfirði og Markúsína Markúsdóttir kona Guðfinns Einarssonar smiðs á Patreksfirði. Elías Sturluson fórst með Viggu 1. maí 1897.
Barn Ólafs Magnússonar á Brekku og Bergljótar Jónsdóttur bónda á Geitagili, Einarssonar var:
Bergsveinn, f. 26. okt. 1854 í Saurbæ, drukknaði með Dagbjarti Gíslasyni á Látrum 2. maí 1888, ókv. og bl.
1856-1880
Jón Magnússon. Bóndi á Naustabrekku 1856-1880. Áður bóndi í Saurbæ, sjá þar. Jón virðist ekki hafa flutt að Brekku fyrr en 1866, en haft afnot hálfrar jarðarinnar, en hinn helminginn hafði Jón Gíslason bóndi í Keflavík.
1882-1886
Indriði Indriðason. Bóndi á Naustabrekku 1882-1886. F. í Trostansfirði 2. jan. 1850, drukknaði með Keflavíkurbræðrum 29. júní 1886 (fram af Brunnanúp á Látrum). Foreldrar: Indriði Pétursson, Indriðasonar og k.h. Margrét Magnúsdóttir Magnússonar bónda á Auðahaugi, Erlanessonar. Móðir Magnúsar Magnússonar var Kristín Þorgrímsdóttir bónda á Lambavatni, Jónssonar, en móðir Margrétar Magnúsdóttur var var Guðrún Einarsdóttir, er síðar átti Einar Þorvaldsson bónda á Auðshaugi, seinna á Lambavatni. Margrét móðir Indriða á Brekku og Elín kona Einars í Stekkadal voru því hálfsystur, sammæðra.
K. 18. okt. 1878, Guðrún, f. 8. júní 1853, d. á Suðureyri í Tálknafirði 25. ágúst 1942 Magnúsdóttir bónda í Raknadal Magnússonar og k.h. Helgu Einarsdóttur. Börn þeirra:
Gróa, f. 13. ágúst 1879, átti (1899) Jón Jónsson bónda á Suðureyri í Tálknafirði.
Ólafía Kristín, f. 25. (24.?) sept. 1880, átti (1908) Þorstein Guðmundsson bónda á Hrauni í Tálknafirði.
Jón, f. 25. jan. 1882, d. 7. maí sama ár.
Jón Indriðason sjómaður og skósmiður á Patreksfirði, f. 20. maí 1884, átti (1905) Jónínu Guðrúnu Jónsdóttur verkstjóra á Geirseyri Kristjánssonar.
Indriðína, f. 23. jan. 1887, átti Þórð Guðmundsson í Bessatungu í Saurbæ, Dalasýslu.
Barnabörn Indriða á Brekku og Guðrúnar munu a.m.k. hafa orðið 33 að tölu.
1886-1889
Guðrún Magnúsdóttir, ekkja Indriða Indriðasonar. Búandi á Naustabrekku 1886-1889. Þá giftist hún Ingimundi Guðmundssyni, sjá síðar. Bjó að honum látnum enn á Brekku 1896-1897, fluttist þá um haustið með börn sín að Suðureyri í Tálknafirði.
1889-1896
Ingimundur Guðmundsson. Bóndi á Naustabrekku 1889-1896. Áður bóndi í Breiðavík, sjá einnig þar. F. á Geitagili 13. ágúst 1841, d. á Naustabrekku 13. okt. 1896. Hann var áður kvæntur:
K. I, Bríet Bjarnadóttir, ekkja Ólafs Magnússonar bónda í Breiðavík.
K. II 17. okt. 1889, Guðrún Magnúsdóttir. Sonur þeirra:
Samúel, f. 24. mars 1890, d. í Noregi um það bil tvítugur að aldri, ókv. og bl.
1898-1907
Níels Kristján Adolf Kryger Björnsson. Bóndi á Naustabrekku 1898-1907, á Hnjóti 1908-1914, síðar húsmaður í Efri-Tungu, bjó í Keflavík 1920-1921, á Geitagili 1927-1928 og á Mábergi 1928-1929. Mun hafa verið einn við búskapinn eftir að hann varð ekkjumaður. Níels var vel hagmæltur. F. í Flatey 20. mars 1866, d. í Tungu í Tálknafirði 13. júlí 1937. Foreldrar: Níels Björnsen danskur smiður frá Reykjavík og (var hætt við lýsingar, segir í kjb.) Valgerður, f. 25. júlí 1831 á Stað á Reykjanesi, d. 22. maí 1908 í Bæ á Rauðasandi, Friðriksdóttir prests á Stað, Jónssonar og k.h. Valgerðar Pálsdóttur. Hún var alsystir Hjálmars Friðrikssonar bónda á Auðnum og Soffíu konu Eggerts Magnússonar bónda á Fossá.
K. 14. febr. 1897, Guðrún Jónsdóttir, f. á Skógi 25. sept. 1870, d. í Tungu í Örlygshöfn 19. maí 1917. For.: Jón Jónsson, bóndi á Skógi og k.h. Gróa Össurardóttir, barnlaus.
1907-1919
Gísli Finnsson. Bóndi á Naustabrekku 1907-1919. F. að Skollhóli (1703 Skjaldarhóll, síðar Skollhóll) í Miðdalahreppi 17. júní 1882. Foreldrar: Finnur, f. um 1850 Einarsson og k.h. Guðbjörg Gísladóttir, d. 18. sept. 1882. Finnur bjó á Skollhóli þar til 1902. Albróðir Gísla var Einar bóndi á Naustabrekku 1922-1923, sjá síðar. Hálfsystir þeirra var Guðbjörg, f. á Skollhóli (virðist einnig hafa verið nefndur Hvítskjaldarhóll) 23. apríl 1886. Móðir hennar hér Guðrún Jónasdóttir, sem var þá bústýra Finns. Gísli hefur líklega farið vestur í Arnarfjörð 1902 samtímis Einari bróður sínum, a.m.k. fer hann þá af heimili föður síns. En 1904 flyzt hann frá Bíldudal að neðri Uppsölum í Selárdal. 1907 flyst hann svo að Brekku, ásamt Kristínu, er síðar varð k.h. Hann keypti jörðina af Níels Björnssyni. Árið 1919 fór hann að Hóli í Bíldudal, en frá 1929 bjó hann á Fossi í Suðurfjörðum og býr þar enn 1954.
K. 12. nóv. 1911, Kristín Elínborg, f. á Suður-Hamri 16. des. 1863, d. á Hóli 26. des. 1920 Jónsdóttir Jónssonar og k.h. Guðbjargar (talin 83 ára 1907) Bjarnadóttur. Þau barnlaus.
Kristín var áður gift Ólafi Helga Helgasyni, sem drukknaði, er mannskaðinn mikli varð í Arnarfirði 20. sept. 1900. Synir þeirra voru:
Þórarinn smiður í Keflavík.
Jón, sem drukknaði á Industry 1910.
Börn Gísla Finssonar og Maríu Finnbogadóttur í Krossadal Guðmundssonar voru:
Guðfinnur Kristberg, f. 1925 á Hóli í Bíldudal.
Guðrún, f. 1928 á Hóli í Bíldudal.
Ólafur, f. 1931.
Guðbjörg Júlíana Esther, f. 1936.
1919-1922
Magnús Pétursson. Bóndi á Naustabrekku 1919-1922. F. að Selskerjum 6. mars 1884, á lífi í Reykjavík 1956. Foreldrar: Pétur, f. 11. sept. 1853, d. á Selskerjum 2. jan. 1907 bóndi á Selskerjum Þorkelsson bónda á s.st. Eiríkssonar fyrst bónda á Vattarnesi, en síðar á Selskerjum, þar til Þorkell tók við jörðinni, og k.h. Sigríður Bjarnadóttir Rafnssonar, fædd norður við Djúp, en ólst upp á Svínanesi. Magnús bjó á Selskerjum eftir föður sinn en fluttist þaðan að Brekku. Fór að Innri-Bakka í Tálknafirði frá Brekku, en fluttist þaðan til Reykjavíkur 1935.
K. 191?, Björg ljósmóðir, f. í Arnkötludal 23. júní 1885, á lífi í Reykjavík1956, Guðmundsdóttir, f. 1. apríl 1863, d. í Reykjavík 1951 bónda í Aratungu, síðar í Berufirði í Reykhólasveit, Jónssonar Eyjólfssonar og k.h. Guðrúnar, d. 1922, 63 ára Ólafsdóttur. Börn þeirra:
Pétur rafvirki í Reykjavík, f. 3. júlí 1916, kv. Ragheiði Hallgrímsdóttur.
Guðmundur skrifstofustjóri í Reykjavík, f. 24. júní 1917.
Kristján, f. 1920, d. á 3. ári.
Gunnar skipstjóri, f. 18. júní 1922, kv. Guðrúnu Gunnarsdóttur úr Grindavík.
Kristján húsasmiður í Reykjavaík, f. 20. nóv. 1923, kv. Gyðu Jóhannsdóttur Guðmundsdóttur (ættuð úr Hreppum).
drengur dó óskírður 1924.
Jakob fiskifræðingur, f. 26. júlí 1926.
Sigríður, f. 23. apríl 1928 gift Stefáni Kárasyni póstmanni í Reykjavík.
Magnús keypti Brekku af Gísla Finnssyni fyrrnefndum. Hann bjó eitt eða tvö ár á Svínanesiáður en hann tók við Selskerjum.
1922-1923
Einar Finnsson. Bóndi á Naustabrekku 1922-1923. F. að Fremri-Hundadal í Miðdölum (Dalas.) 6. mars 1875 (skv. kjb.). D. á Patreksfirði 24. ágúst 1951. Albróðir Gísla Finnssonar fyrrnefnds bónda á Naustabrekku. Einar fluttist frá Skollhóli í Miðdölum 1902 að Kletti í Ketildalahreppi í Arnarfirði. Úr Dalahreppi fluttist hann að Innri-Bakka í Tálknafirði (er þar 1920), en þaðan að Brekku. Frá Brekku flytur hann svo að Húsum í Selárdal, þaðan (1926) að Hólum í Tálknafirði, keypti síðan Ytri-Bakka í Tálknafirði og bjó þar þangað til hann fluttist á Patreksfjörð.
K. 27. des. 1902, Solveig, f. í Hvammi á Barðaströnd jan. 1864, d. á Patreksfirði 1946 Einarsdóttir. Einkadóttir þeirra var:
Guðrún Andrea, f. að Uppsölum í Selárdal 19. sept. 1904, átti Hermann (fisksala, síðar útgerðarmann í Reykjavík) Kristjánsson.
Einar keypti Naustabrekku af Magnúsi Péturssyni, en seldi hana Einari Jónssyni sýslumanni á Patreksfirði.
1923-1934
Ólafur Valdimar Oddgeir Ólafsson. Bóndi á Naustabrekku 1923-1934. Árið 1934-1935 leigði hann Brekku til slægna, en var hjá bræðrum sínum í Arnarfirði, aðallega hjá Þórarni á Rauðsstöðum. Þá fluttit Þórarinn að Brekku, eins og síðar segir og var Ólafur þar í húsmennsku 1935-1936, er hann fer að Krókshúsum, sjá þar (1936-1946). Hann bjó áður á Múla í Kollafirði og fluttist þaðan að Naustabrekku. Ólafur keypti Brekku á uppboði eftir að Einar sýslumaður varð að láta af embætti. Af Ólafi keypti jörðina Þórarinn bróðir hans árið 1936. Ólafur var fæddur í Arnardal í Ísafjarðarsýslu. 2. febr. 1879, á lífi í Reykjavík 1956. Faðir hans var Ólafur Kristjánsson síðar bóndi í Múla í Kollafirði og Guðríður Sveinbjarnardóttir. Ólafur átti mörg hálfsystkini, meðal þeirra var Þórarinn, sem um getur síðar.
K. 23.sept. 1904, Sigurborg Valgerður, f. að Undirtúni, sem var hjáleiga Helgafells, 23. nóv. 1876, á lífi í Reykjavík 1956, Jónsdóttir bónda þar Oddssonar og k.h. Jóhönnu Sveinbjörnsdóttur. Börn þeirra:
Arndís, f. í Múla (10.08.1904-29.01.1960), óg, bl.
Ósk, f. að Seljalandi 20. nóv. 1905, d. í Múla 10. febr. 1920. Varð úti.
Sigríður Halldóra, f. á Seljalandi 10. apríl 1908, kona Jóns Péturssonar bónda á Stökkum (sjá þar).
Friðgeir, f. á Seljalandi 7. maí 1909, d. 15. ágúst sama ár.
Ólafur Friðgeir, f. á Seljalandi (19.04.1911-01.09.1978), forstjóri í Reykjavík, tvíkvæntur. 4 börn.
Baldvin, f. í Múla (05.06.1913-28.02.2003), smiður í Reykjavík. Oddfríður Erlendsdóttir.
Guðrún (01.09.1914-24.11.1914).
Jón, f. í Múla (18.04.1916-13.02.1992), vann í ullarveksmiðju í Reykjavík. Bjarney Ingveldur Guðmundsdóttir. 3 börn.
Jóhanna, f. í Múla 14. ágúst 1917, d. 04.12.1937.
telpa dó í fæðingu, eða andvana fædd.
Ósk, f. í Múla 1920 eða síðar, fór til Vesturheims og giftist þar. Mansfield Ohio 1956 (Ósk Bardon?).
1935-1946
Þórarinn Kristján Ólafsson (25.07.1885-11.04.1959). Bóndi á Naustabrekku 1935-1946. Fluttist þá til Patreksfjarðar og bjó þar síðan. Bjó áður á Rauðsstöðum í Arnarfirði og fluttist þaðan að Brekku. Hann flyst frá Reykjavík að Rauðsstöðum 1917 og er þá fjölskylda hans þessi: Þórarinn Ólafsson (f. 25. júlí 1885) 32 ára, Sigurrós Guðmundsdóttir (f. 11. des. 1875) 39 ára, Gunnar 3 ára, Jóhanna 2 og Ólafur 1 árs. Foreldrar: Ólafur Kristjánsson bóndi á Múla í Gufudalssveit og k.h. Guðrún Aradóttir (af Grafarætt). Þórarinn var fæddur í Trostansfirði 188?. Systkini hans voru mörg, m.a. Þórður bóndi á Borg í Arnarfirði kv. Bjarnveigu Dagbjartsdóttur frá Gröf á Rauðasandi. Þórarinn mun hafa kvænst í Reykjavík.
K. 1913, Guðmundína Sigurrós Guðmundsdóttir (11.12.1878-12.03.1979) bónda í Sauðeyjum Oddgeirssonar. Börn þeirra:
Gunnar Breiðfjörð (20.081914-18.08.1989), togaraskipstjóri í Reykjavík. K. Lilja Kristbjörnsdóttir. 5 börn. 1 barn þess utan.
Jóhanna Friðrikka Breiðfjörð (25.091915-08.09.1999), gift Ingimundi Benjamín Halldórssyni bónda á Mábergi Halldórssonar. 5 börn.
Ólafur Breiðfjörð (11.101916-26.01.1974), kvæntur Jóhönnu Björg Ingimundardóttur, f. 10. jan. 1921 í Gerði á Barðaströnd. 5 börn.
Valborg Elísabet (22.05.1919-06.05.1998), gift Ólafi Kristni, f. 14. okt. 1917 á Hvammeyri í Tálknafirði, d. 29. jan. 1950, fórst með togaranum Verði frá Patreksfirði, Jóhannessyni. 1 barn. II Indriði Einarsson. 4 börn.
Utan hjónabands átti Þórarinn nokkur börn:
Kristján Karl (20.11 1913-11.07.1990), móðir hans var Jóna Sigríður Guðjónsdóttir, f. 11. júli 1894. K. Bergljót Snorradóttir. 3 börn.
Hjördís (30.05.1918-28.12.1997), móðir hennar var Kristín Albertína Jónsdóttir, f. 21. maí 1896. (Sjá Sellátranes)
Elís Björgvin Jóhann (09.11.1927-15.07.1955), móðir hans var Magnea Símonardóttir, f. 16. nóv. 1905 á Kirkjubóli í Mosdal í Arnarfirði. Guðlaug Ósk Fjeldsted. Sjá Raknadalur.
Steinberg (29.05 1929-25.09.1976), albróðir Björgvins hér að framan. Steinberg var alinn upp á Svalvogum við Dýrafjörð hjá Þorvaldi Kristjánssyni vitaverði þar og k.h. Sólborgu Matthíasdóttur. Sigríður Siggeirsdóttir. 3 börn.
Síðan Þórarinn og Sigurrós fóru frá Naustabrekku hefur jörðin verið nytjuð af Lambavatnsbændum. Núverandi eigendur eru báðir ættaðir frá Lambavatni og hefur annar þeirra; Gylfi Guðbjartsson (sjá Lambavatn) byggt sér snotran sumarbústað og komið sér upp lítilli vatnsaflsvirkjun á Brekku.
Nafnið Víkin er kennd við hina miklu rekasæld sem þar er (kefli = trjábolur).
Jarðabókin 1703 “12 hdr. Eigandi er Guðrún Eggertsdóttir. Ábúendur þar; Þorsteinn Jónsson á 8 hdr; Sigurður Vigfússon á 4 hdr. Landskuld á allri jörðunni 6 vættir; 4 á Þorsteins parti; 2 á Sigurðar. Betalast til forna með fiski á eyri. Nú, síðan fiskleysið tiltók, betalast landskuld í öllum gildum aurum, svo sem peningum með dönskum taxta, steinbít, fríðu. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukúgildi 6 á allri jörðinni. Kvígildin uppyngir landsdrottinn. Kvaðir eru á parti Þorsteins formennska fyrir skipi landsdrottins. Þar á móti uppber Þorsteinn 20 álnir, sem er almennilegt formannskaup þar um pláss. Sigurður býst við skipsáróðri í kvöð (hann kom þángað í vor). (Kvikfénaður alls: 5 kýr, 22 ær, 2 geldir sauðir, 15 gemlingar, 1 hestur og 1 hross. Húskona ein hafði að auki 2 ær, 1 gemling og 1 sauð). Fóðrast kann: 3 kýr, 9 lömb. Öðru sauðfé ætlast eigi fóður, því útigangur er það í besta lagi, þar um pláss… Lyngrif á jörðin, sem vermenn brúka til eldiviðar. Grasatekja er þar á fjalli, lítilfjörleg. Hvannir eru þar í bjarginu, en hætt og erfitt eftir að fara. Fuglatekja er þar í meira lagi í bjargi, og er sigið eftir og gengið með vogun. Lángvía er þessi fugl. Egg undan þessum fuglum eru og í bjarginu. Þessara hlunninda njóta leiguliðar. Reki var þar í besta lagi meðan rak, nú minnkar hann mjög. Sölvatekja lítil, fyrir leiguliða. Þar er brennt taði, lyngi og svörð. Item þangi. Þar er heimræði á vor og sumar.
Verstaða er þar, og sækja þangað Rauðsendingar til fiskjar. Þurrar búðir eru þar engar. Vermannsbúðir eru nú 7. Hafa stundum verið færri, stundum og 8. Þar liggja við vermenn um vorvertíð, sem byrjast með sumri eður seinna (eftir því sem árar), og endat nú um Maríumessu (þingmaríumessu), tilforna jónsmessu, og gefa þeir í toll til landsdrottins ½ vætt pro persona. (NB; þá lítið fiskast hefur landsdrottinn við suma tilhliðrað, so þeir hafa minna goldið; sumir 3 fjórðunga, sumir 2 ½ fjórðung), sem tekst þar af þeim er það vilja heldur in loco útiláta en heim færa til Bæjar. Af skipinu gelst ekkert. Leiguliðar hafa tilforna fyrir nokkurum árum goldið hálfan toll (þ.e. 2 fjórðunga), en nú eru þeir tollfríir, fyrir sig og sín hjú. Á móti þessum tolli njóta róðrarmenn lýngrifs í Keflavíkurlandi, sem landsdrottinn þeim leyfir. Landsdrottinn leggur og við til verbúðanna.
Þar ganga nú: 2 áttæringar, 2 sexæringar, 3 fimmmannaför. Engin fleiri skip um vertíð. Öll þessi skip á Guðrún Eggertsdóttir. (ÁM ritar sér til minnis á þýsku: Enda má enginn nema hún láta þar ganga fiskibáta um vertíð. Á sumrin mega bændurnir láta báta sína ganga, ef þeir hafa svo margt vinnufólk að þeir geti komið því í verk). Þorsteinn á lítinn bát sem gengur þar á sumar. Með hverju skipi fylgir ketill sem skipeigandinn (Guðrún) ljær allri skipshöfninni til ísoðningar. Og geldur þar fyrir hver róðrarmanna (so vel formaður semhásetar) 1 fjórðung til leigu. Leverar formaður ketilinn frá sjer að vertíðarlokum. Eru það flestalt katlar, nokkrir pottar í bland. Þar er engin skipleiga. 1 skiphlutur. Allur fengur skiftist ex æpvo (til jafnaðar), þegar skift verður. Segl brúkast þar ekki. Væri þó langtum betra, en skipseigandi vill það ei til láta. Lóðir brúkast ei, kunna og ei að brúkast sökum strauma og hrauna. Seilastrengi (fimmtugur eða sextugur snærisstrengur, eða og af vað sem menn binda við seilarólarnar þá menn seila út fiskinn, sem jafnlega verður að vera í þessu veri) og seilarólar (það sem fiskurinn er festur uppá, er 2-3 faðmar) leggur skipseigandi til með skipi kauplaust. Menn beita þar heilafiski og steinbít. Langræði er þar almennilegt. Lending er þar brimasöm, þó sækjandi. Uppsátur er þröngt mjög í aðallendingunni; ei nema fyrir 3 – 4 skip. Í öðrum stað er fýmra uppsátur (fyrir 12 skip eður fleiri), en þar er hætt lending þá illt er í sjóinn, og öngvir reitir til að leggja fisk á; verða og ei vel gjörðir, sökum grjótsins stærðar og óhentugleika. Manntalsfiskar takast hér engir. Hospitalsfiskur er skiftur þar, daginn eftir Hallvarðsmessu, þann sem róið er (tilforna var það deginum eftir krossmessu). Taka hann hreppstjórar og skifta með sveitarómögum. Hefur það so verið frá því fyrsta menn muna”.
Barðstrendingabók PJ “Í Keflavík var fyrrum veiðistöð, allt fram um miðja 19.öld. Vestanvert í víkinni eru háir bakkar framan undir svonefndu Hlunkurholti, sem er sléttur hár malarflötur, útstæður frá bænum og skyggir að nokkru fyrir útsýn til sjávar. Heita þar Fransar. Er mælt að franskir ræningjar hafi verið dysjaðir þar. Utanvert við holtið rennur lækur sem heiti Ormalækur. Má þar enn sjá rústir af verbúðum. Einnig voru verbúðir í svonefndri Stöð; fyrir miðjum víkurbotninum. Frá Keflavík voru jöfnum höndum stundaðir sjóróðrar og bjargferðir í Látrabjarg, bæði til fuglveiða og eggja. Er austasti hluti Látrabjargs kenndur við Keflavík. Lending er góð í Keflavík í norðan og austan átt, en brimasamt í allri hafátt. Var þar oft fiskisælt og skammt til sóknar, út með Látrabjargi. Veiðistöð í Keflavík mun að mestu hafa lagst af þegar saltfiskverkun hófst í nálægum verstöðvum, eftir 1870. Er mjög erfitt um flutninga í Keflavík, bæði á salti og fiski. Keflavík mun löngum hafa verið talin notasæl jörð, þótt ekki sé þar heyskapur mikill, hvorki á túni né utan túns. Sauðland er kjarngott, bæði sumar og vetur. Fjörusæld er mikil og veðursæd í öllum áttum. Trjáreki er þar allmikill og bjargið gagnsamt þeim sem færir eru og nytjað geta”.
1570 og 1571
Erlingur heitir bóndi í Keflavík 1570 og 71.
1570 og 1571
Oddur Jónsson er bóndi í Keflavík 1570 og 71. Hann er kallaður prestsson og hefur faðir hans verið séra Jón Erlingsson prestur í Rauðasandsþingum, sem bjó að sögn í Hænuvík. Séra Jón kemur seinast við skjöl 1552 ásamt Oddi syni sínum. En fyrst kemur hann við skjöl 1513.
1703
Þorsteinn Jónsson. Bóndi í Keflavík 1703, hreppstjóri. F. um 1641. Foreldrar: Jón Össursson lögsagnara Jónssonar, ráðsmaður í Saurbæ á Rauasandi og k.h. Ingveldar, f. um 1610 Gunnlaugsdóttur bónda í Keflavík Hafliðasonar. Össur er sagðurkominn austan af Langanesi í Skagafjörð. Bjó þar á Framnesi og Þverá. Kona Halldóra Jónsdóttir í Reykjadal Pálssonar sm. á Holtastöðum, Grímssonar sm. á Möðruvöllum, Pálssonar. Úr Skagafirði fór Össur vestur í Barðastrandarsýslu og var í Saurbæ. Jón var einn af sonum hans með því nafni og yngstur þeirra. Bróðir Þorsteins í Keflavík var Gunnlaugur lögréttumaður í Kvígindisdal og Grímur fálkafangari í Brokey (1703). Margt manna í Rauasandshreppi hefur verið komið af Jóni Ormssyni. Sjá um Sigurð Jónsson bónda í Breiðavík o.fl.
K. Hólmfríður, f. um 1635, d. eftir 1703, Halldórsdóttir prests á Kálfafellsstað, Ketilssonar prests s.st. Ólafssonar skálds og prests í Sauðanesi Guðmundssonar. Kona Ketils var Anna Einarsdóttir prests og skálsds í Heydölum sigurðssonar. Börn þeirra:
Ingveldur, f. um 1680.
Margrét, f. um 1684, í Breiðuvík 1703, kona Böðvars Einarssonar (líklega í Kollsvík 1703), síðan Tómasar Bjarnasonar bóndaí Holti á Barðaströnd 1735. Dóttir þeirra var Vigdís kona Þórðar Eiríkssonar bónda á Firði, en dóttir þeirra var Margrét kona Jóns Bjarnasonar bónda á Skógi fyrir og eftir 1817.
Jón, f. um 1685, líklega bóndií Saurbæ 1735.
1703
Jón Diðriksson. Bóndi í Keflavík til vors 1703. Jón er bóndi í Keflavík þegar manntal er tekið s.hl. vetrar 1703, en farinn þaðan um vorið (þegar jarðabók er gerð) og kominn að Hlíðarhvammshólum á Rauðasandi. Það er talinn vera þessi Jón, sem er bóndi á Hnjóti 1735. Hann var einn þriggja bræðra með þessu nafni. Jón elsti býr á Láganúpi, en sá þriðji í Sauðlauksdal. F. um 1669, d. eftir 1735. Foreldrar: Diðrik Jakobsson, d. fyrir 1703 og k.h. Guðrún Jakobsdóttir, f. um 1643, ekkja búandi á Grundum 1703.
K. Þuríður Jónsdóttir, f. um 1677. Meðal barna þeirra:
Steinunn 2 ára í Keflavík 1703.
Þorgrímur, f. á Rauðasandi um 1704, bóndi á Lambavatni 1780, Keflavík 1762, faðir Jóns, sem myrtur var á Sjöundá.
1703
Sigurður Vigfússon. Bóndi í Keflavík frá fardögum 1703. Þegar manntalið er tekið er hann á Látrum, sjá þar, en kominn um vorið að Keflavík.
1735
Bjarni Grímsson. Bóndi í Keflvík 1735. Líklega sá, sem er 18 ára í Botni 1703. Foreldrar: Grímur Ketilsson bóndi í Botni og k.h. ólöf Oddsdóttir. Ekki kunnugt um konu eða afkomendur.
1735
Eyjólfur Jónsson. Bóndi í Keflavík 1735. það mun vera hann ,sem er 9 ára á Stökkum 1703 fóstursonur Eyjólfs Erlendssonar bónda þar. D. 1770, 79 ára, ekkjumaður valinkunnur. Bóndi á Grundum 1735. Konu ekki getið eða barna, en dóttir hans hefði getað verið:
Guðrún, f. 1738, fermd 22 ára 1760 í Sauðaluksdalssókn, s.k. Lofts Sigmundssonar, síðast bóndi á Látrum.
Einnig:
Kristrún, f. um 1740, kona Jóns bónda á Geitagili Jónssonar.
1762
Þorgrímur Jónsson. Bóndi í Keflavík 1762, á Lambavatni 1780, sjá þar.
1780 og 1782
Bjarni Jónsson. Bóndi í Keflavík 1780 og 1782. Hvergi talinn bóndi 1762, en hefur líklega komið að Keflavík, Þegar Þorgrímur Jónsson flutti þaðan að Lambavatni, gæti hafa verið um 1770, er kominn þangað 1775, þegar Sigríður dóttir hans fæðist. Hvorki hann né kona hans eru á manntali 1801, hafa dáið eftir 1785. Ekki kunnugt um foreldra Bjarna.
K. 1756, Ingunn, f. um 1734, líklega dóttir Þórðar Eyjólfssonar bónda á Lambavatni 1735. Börn þeirra:
Ólafur, f. 1757, d. 1758.
Guðrún, f. 1759, átti Bjarna Bjarnason bónda á Lambavatni 1801.
Ingibjörg, f. 1761.
Jón, f. 1765.
Jón, f. 1767.
Jón, f. 1769.
Ingibjörg, f. 1771, óg. á Naustabrekku 1808, vantar 1817.
Sigríður, f. 3. okt. 1775, kona Þorleifs Guðmundssonar bónda í Krókshúsum 1817
Afkomendur aðeins frá Guðrúnu. Sonur hennar og Bjarna; Þórður bóndi á Lambavatni. Þau c) og d) eru bæði dáin 1766, en e) og f) eru báðir dánir 1769.
1780 og 1782
Jón Loftsson. Bóndi í Keflavík 1780 og 1782. F. um 1741, d. 11. ágúst 1806, 1801 í Kollsvík.
K. 1776 (Sauðaluksdalssókn), Steinunn, f. 1751 Gunnarsdóttir bónda í Kvígindisdal Hallssonar, dáin fyrir 1801. Börn þeirra:
Jón 5 ára 1780.
Þórunn 2 ára.
Ekki sést hvar þau eru fædd og ekki virðast þau vera í Rauðasandshreppi, eftir 1801.
um 1783-um 1790
Bjarni Bjarnason. Bóndi í Keflavík líklega um 1783-um 1790. Mun hafa flust þaðan að Lambavatni og er kominn þangað fyrir 1798, er þar 1801, en kominn að Naustabrekku 1808 og er þar til ????? F. 25. maí 1760, d. ? Foreldrar: Bjarni Bjarnason, sem mun hafa búið á Melanesi og k.h. Kristín Guðmundsdóttir, sem síðar átti Egil Sigurðsson bónda á Naustabrekku. Þau giftust 1750 og eru þá í Sauðlauksdalssókn.
K. 1782, Guðrún Bjarnadóttir bónda í Keflavík Jónssonar og k.h. Ingunnar Þórðardóttur. Bj. Bj. er vm. í Keflavík 1780 og 1782, en hefur væntanlega byrjað búskap eftir að hann kvænist. Börn, sem kunnugt er um að lifað hafi:
Þórður, f. í Keflavík 1787, bóndi á Lambavatni.
Bjarni, f. á Lambavatni 1798, á Brekku, d. 26. des. 1818?
um 1790
Jón Helgason. Bóndi í Keflavík líklega um og eftir 1790, en ekki fram yfir 1800. F. um 1745. Mun hafa alist upp á Barðaströnd og verið a.m.k. eitthvað í Hvammi. Fór ungur í Tálknafjörð og kvæntist þar.
K. 30. ágúst 1772, Margrét Guðmundsdóttir. Dóttir þeirra:
Ólöf, f. 19. júlí 1772, miðkona Jóns Pálssonar bónda í Keflavík.
Árið 1786 eru þau á Suðureyri í Tálknafirði: Jón 41 árs, Margrét 32 og Ólöf 14 ára. Þar eru þau einnig næsta ár, en 1788 virðast þau vera farin úr Tálknafirði og væntanlega verið komin þá í Rauðasandshrepp. Um þetta leyti munu þau Jón og Margrét hafa skilið og upp úr því hefur hún gifst Ólafi Sigurðssyni bónda á Lambavatni og varð s.k. hans. En Jón hefur þá búið eitthvað í Keflavík. Sagt er, að hann hafi farið til útlanda, en komið aftur, róið oft á Brunnum og dáið á Látrum. Hann er ekki á manntali 1801 og 1808. Hann kann að hafa verið erlendis 1801, komið heim upp úr því og dáið fyrir 1808, enda þá kominn á sjötugs aldur. Jón var skáldmæltur og eru nokkrar vísur hans og sagnir um hann að finna í Látramanna- og Barðstrendingaþætti Gísla Konráðssonar. Þar á meðal þessi vísa:
Látradalur leiðist mér,
lengd með allri sinni,
en heiðina sjálfa höldum vér,
helft úr eilífðinni.
Einnig vísa úr ljóðabréfi, sem sannar veru Jóns í Keflavík, en hún er þannig:
Alls hins besta óskar þér með elsku hóti,
Keflvíkur karlinn ljóti.
Hjá G.K. virðist gæta nokkurs tímatalsruglings. Einnig segir að Margrét kona hans hafi verið systir Halldóru ríku á Felli, en það er ekki rétt, með því að Margrét hefur verið á aldur við foreldra Halldóru.
1801
Jón Pálsson. Bóndi í Keflavík 1801. Bóndi í Kirkjuhvammi 1817. Jón hefur líklega búið í Krókshúsum um 1786, því að þar er Guðrún dóttir hans sögð fædd, talin 15 ára 1801. Þá segir í Látramanna- og Barðastrendingaþætti Gísla Konráðssonar frá Jóni Pálssyni bónda í Bröttuhlíð vorið 1802, þegar Sjöundármálið er á döfinni, og mun ekki vera um annan að ræða, en þennan Jón. Hefði hann því átt að flytjast frá Keflavík að Bröttuhlíð vorið 1801 eða 1802 (manntalið 1801 er tekið í febrúar). Jón var f. 27. des. 1760 í Litla-Króki, d. eftir 1827, því þá koma þau Ragnhildur, þ.k.h. úr Flatey í Rauðasandshrepp. Foreldrar: Páll Pálsson bóndi á Litla-Króki og k.h. Þórdís Jónsdóttir. Jón var þríkvæntur, svo sem fyrr segir.
K. I 1782, Margrét, f. um 1747, fermd 13 ára 1760, Þórðardóttir, líklega bónda á Stökkum 1735 Eyjólfssonar (sbr. B.J. b. í Keflavík 1780). Börn þeirra:
Magnús, f. í Saurbæ 1782, er þar 1801, en finnst ekki síðar.
Jón, f. 1783 einnig í Saurbæ, í Keflavík 1801, en óvíst um hann eftir það.
Guðrún, f. 18. jan. 1786 í Krókshúsum, í Keflavík 1801, 1801 (1808?) líklega á Vatneyri, en 1817 ekkja í Kirkjuhvammi, barnlaus að því er virðist. Ókunnugt er um mann hennar.
K. II, líklega 1801, Ólöf Jónsdóttir bónda í Keflavík Helgasonar og k.h. Margrétar Guðmundsdóttur. Ekki er kunnugt um nein börn þeirra. Gísli Konráðsson segir Ólöfu hafa verið röskleikakonu, en dáið á besta aldri úr sýki þeirri, er „afbendi“ var kölluð.
K. III 1814 (í Rauðasandshreppi), Ragnhildur Ólafsdóttir bónda í Svefneyjum, Sveinssonar og k.h. Sesselju Bjarnadóttur. Það mun vera sú Ragnhildur Ólafsdóttir (sem vestur fór með Eyjólfi Kolbeinssyni (1892)) sem er í Sauðlauksdal 1808. Ekki er kunnugt um nein börn þeirra.
1801 og 1808
Gunnar Höskuldsson. Bóndi í Keflavík 1801 og 1808, síðar bóndi í Bröttuhlíð, sjá þar.
1808
Bjarni Bjarnason. Bóndi í Keflavík 1808, mun ekki hafa búið annarsstaðar. Hann var vinnumaður í Kvígindisdal 1801, en virðist hafa flust það ár að Tungu og þaðan líklega fljótlega að Keflavík. Býr þar allmörg ár samtímis Gunnari Höskuldssyni. F. 6. mars 1777 í Sauðlauksdal, d. í Keflavík milli 1808 og 1817. Foreldrar líkl.: Bjarni Guðmundsson, sem bráðkvaddur verður 3. febr. 1777 og Þuríður Gísladóttir, f. um 1737. Ekki kemur það fram, að Bjarni sé óskilgetinn, en hinsvegar er Bjarna Guðmundssonar og Þuríðar Gísladóttur hvergi annarsstaðar getið í kirkjubók. Þuríður er með Bjarna á Vatneyri 1780 og 1782, nefnd vinnukona en eigi ekkja. Síðar hefur hún gifst Hákoni Guðmundssyni, föður Guðmundar bónda á Geitagili, sem f. var á Aushaugi 1784, vafalaust eftir f.k. Hákonar, því hann er talinn ekkjumaður í 2. sinn 1801, þá á Vatneyri. Hákon er í Keflavík 1808, sagður stjúpfaðir húsbónda.
K. (líklega 1801), Guðbjörg, f. 28. jan. 1768, d. 31. maí 1823 Þórðardóttir bónda í Tungu Hafliðasonar og k.h. Guðrúnar Pálsdóttur, f. í Litla-Króki um 1744. Börn þeirra:
Gísi, f. í Tungu 1802, bóndi á Melanesi 1833-1835, faðir Jóns bónda í Keflavík.
Þuríður, f. í Keflavík 1805
Bæði börnin á Sellátranesi 1817, hjá móður sinni, sem er þar bústýra hjá Guðmundi bróður sínum, en hann er ekkjumaður.
1817
Guðmundur Ólafsson. Bóndi í Keflavík 1817. Hann hefði getað komið að Keflavík, þegar Gunnar Höskuldsson fór þaðan, sem virðist hafa verið um 1810. En hann kann líka að hafa komið þangað, þegar Bjarni Bjarnason dó, sem sennilega hefur verið eftir 1810, þó að um það verði ekkert fullyrt. Mun hafa búið í Keflavík til 1820. F. í Sauðlauksdalssókn 19. mars 1777 (1817 er hann talinn f. á Látrum, hefur augljóslega komið þangað ungbarn). Foreldrar: Ólafur Jónsson bóndi á Hvallátrum 1780 og fram yfir 1808 og k.h. Guðrún Ketilsdóttir. Guðmundur virðist hafa verið alla tíð á Látrum hjá föður sínum, þar hann fór að Keflavík.
K. eftir 1808, Guðríður, f. á Bakka í Tálknafirði 1761 Björnsdóttir Jónssonar. Guðríður var í Tálknafirði fram undir 1790, en:
1794 fæðist í Hænuvík Guðbrandur, sonur Guðríðar og Magnúsar Halldórssonar síðar bónda á Melanesi. Þau voru ógift. Dóttir Guðbrandar, sem bóndi var í Krókshúsum, var Sigríður kona Eiríks Magnússonar á Mábergi.
Guðríður kom að Látrum 1801, er þar bústýra Ólafs, föður Guðmundar, sem orðinn var þá ekkjumaður í 2. sinn. Ekki hafa þau Guðmundur og Guðríður átt nein börn, enda hefur Guðríður verið um fimmtugt, er hún giftist. Meðan hún er í Rauðasandshreppi er hún annars lengi talin 10 árum yngri en rétt er. D. 7. ágúst 1834 á Saurbæ, 79 ára.
1820-1825
Magnús Árnason. Bóndi í Keflavík 1820-1825, hreppstjóri. Bjó í Króki 1817 og hefur farið þaðan að Keflavík. Ekki er víst, hvort Magnús hefur búið á Rauðasandi áður en hann fór að Króki, en þá var hann orðinn ekkjumaður. Hann kvæntist á Siglunesi en mun hafa komið að Sjöundá 1808. Þar dó f.k.h. vorið 1809. Þegar Magnús frá Keflavík fór hann að Melanesi og var þar 1825-1826, en fór þá að Skógi og var þar til dauðadags 1829. F. að Tungufelli í Borgarfirði 1782, d. 12. maí 1829, drukknaði í lendingu í Breiðavík. Fluttist um fermingaraldur vestur á Barðaströnd, að Siglunesi, og nam þar sútaraiðn hjá Bjarna skáldi Þórðarsyni, sem lært hafði í Danmörku. Magnús var líka kallaður sútari. Foreldrar: Árni Eyjólfsson Árnasonar lrm. á Grund í Skorradal Sigurðssonar lrm. í Leirárgörðum Árnasonar lögm. Oddssonar og Sigríðar Eiríksdóttur lrm. í Tungufelli Hafliðasonar prest í Hrepphólum, Bergsveinssonar. Þau voru ógift.
K. I 8. nóv. 1807 (Siglunesi), Anna Jóhanna, f. í Rauðasandshreppi 10. júlí 1785, d. 16. maí 1808 Jónsdóttir verslunarstjóri á Patreksfirði Thorbergs og Steinunnar Arngrímsdóttur bónda í Miðhlíð Teitssonar. Börn þeira:
Sigríður, f. á Siglunesi 25. júlí 1807, kona Sigurðar Finnbogasonar bónda á Hvallátrum.
Kristín, f. á Sjöundá 12. maí 1808, giftist 1840 Ebeneser Jónssyni. Þau áttu son er Guðmundur hét, f. að Garði í Mýrarsókn í Dýrafirði 1842. Dóttir hans var Aðalheiður kona Guðmundar Björnssonar kaupmanns á Ísafirði.
K. II 6. okt. 1820, Anna, f. að Hellu á Selströnd 15. maí 1792 Guðmundsdóttir, stúdents, bónda þar Péturssonar og k.h. Jarþrúðar Ólafsdóttur prófasts á Ballará Einarssonar bónda í Kollsvík Bjarnasonar. Börn þeirra:
Eiríkur, f. 20. ágúst 1821, bóndi á Mábergi.
Eggert, f. 28. okt. 1822, bóndi í Saurbæ.
Guðmundur, f. 27. febr. 1824, bóndi í Keflavík.
Ólafur, f. á Melanesi 23. júlí 1825, bóndi í Breiðavík.
Anna Jóhanna, d. á 2. ári 4. okt. 1829 á Lambavatni.
Anna Guðmundsdóttir átti síðar Bjarna Björnsson bónda í Keflavík og var s.k.h. Milli manna átti hún dóttur:
Anna, f. 1830, átti Teit Jónsson. Þau fluttust í Tálknafjörð. Faðir Önnu var Magnús Ólafsson, faðir Ólafs bónda á Naustabrekku.
1825-1855
Bjarni Björnsson. Bóndi í Keflavík 1825-1855. Bóndi á Hvallátrum 1820-1825. F. á Lambavatni 1799, d. í Kefalavík 11. maí 1855. Er hjá foreldrum sínum á Látrum 1801 og síðan, þar til hann byrjar þar búskap. Foreldrar: Björn Bjarnason bóndi á Látrum og k.h. Ástríður Þorsteinsdóttir bónda á Sjöundá Jónssonar.
K. I 25. sept. 1820, Guðrún Ólafsdóttir bónda á Látrum Bjarnasonar, d. í des. 1829, þau bræðrabörn. Börn þeirra:
Sigríður, f. 7. ágúst 1822, kona Bjarna Torfasonar bónda á Naustabrekku.
Björn, f. 15. jan. 1824, bóndi á Skógi.
Ástríður, f. 18. des. 1825, kona Guðmundar Magnússonar bónda í Keflavík og síðar Jóns Gíslasonar bónda s.st.
Bríet, f. 8. mars 1829, kona Ólafs Magnússonar bónda í Breiðavík
K. II 10. okt. 1833, Anna Guðmundsdóttir ekkja Magnúsar sútara Árnasonar, bónda í Keflavík. Einkasonur þeirra:
Jón Bjarnason bóndi í Keflavík eftir föður sinn.
Bjarni var foringi farar til þess að vinna bjarndýr undir Látrabjargi ísaárið 1848. Hann skaut birnu, en húnn hennar náðist lifandi. Sögn er um það, að Bjarni hafi eitt sinn unnið bjarndýr í Keflavíkurlandi og enn er sögn um það, að bjarndýr hafi sótt í fiskhjall á Látrum meðan Björn var þar, en ekki var það skotið. Lítur út fyrir, að ekki hafi þá verið handbært skotvopn. Ekki var neinn annar bóndi í Keflavík í tíð Bjarna Björnssonar.
1855-1857
Guðmundur Magnússon. Bóndi í Keflavík 1855-1857, áður bóndi í Breiðavík, sjá þar. D. 25. júní 1857, sonur Magnúsar Árnasonar bónda í Kefalavík og stjúpsonur fyrrnefnds Bjarna Björnssonar, sem var seinni maður móður hans og jafnframt tengdafaðir Guðmundar, er átti Ástríði dóttur Bjarna úr fyrra hjónabandi. Ólafur bóndi í Breiðavík, albróðir Guðmundar, átti Bríeti systur Ástríðar.
1857-1858
Ástríður Bjarnadóttir. Búandi i Keflavík 1857-1858. Hún var ekkja fyrrnefnds Guðmundar Magnússonar. Hún giftist aftur
M. 21. sept. 1858, Jón Gíslason, sem þá tók við búi í Keflavík. Ástríður dó 8. okt. 1905.
1856-1866
Jón Bjarnason. Bóndi í Keflavík 1856-1866. F. 14. apríl 1836, d. í Keflavík 2. sept. 1866. Foreldrar: Bjarni Björnsson bóndií Keflavík og s.k.h. Anna Guðmundsdóttir.
K. 26. sept. 1857, Kristín, f. í Dufansdal 10. maí 1836, d. á Lambeyri ??, Snæbjörnsdóttir bónda í Dufansdal Pálssonar og k.h. Kristínar Nikulásdóttur frá Orrahóli á Fellsströnd. Kristín var systir Guðrúnar konu Össurs á Látrum, Sigríðar konu Árna í Kvígindisdal og Markúsar kaupmanns á Geirseyri. Börn þeirra:
Jón Bjarni, f. 23. okt. 1866, drukknaði, er fiskiskipið Vigga fórst 1. maí 1897, átti Guðbjörgu Össursdóttur bónda á Látrum Össurssonar, þau systrabörn. Dóttir þeirra Valgerður gift Haraldi Nordahl tollþjóni í Reykjavík.
Bjarni, f. 11. maí 1858, dó 3 mánaða.
Kristín Bjarnveig, f. 27. júní 1851, kona Ólafs Bjarnasonar á Hvammeyri í Tálknafirði.
Anna, f. 21. ágúst 1862, kona Ólafs (einhenta) á Lambeyri í Tálknafirði Björnssonar bónda á Skógi Bjarnasonar bónda í Keflavík Björnssonar. Jón faðir Önnu og Björn faðir Ólafs einhenta voru hálfbræður samfeðra.
1858-1897
Jón Gíslason. Bóndi í Keflavík 1857-1897. Bjó hvergi annarstaðar. F. á Melanesi 10. mars 1834, d. í Keflavík 5. sept. 1908. Foreldrar: Gísli Bjarnason bóndi á Melanesi og k.h. Ingveldur Gísladóttir bónda á Melanesi Bjarnasonar og k.h. Jarðþrúðar Jónsdóttur. Gísli faðir Ingveldar var aðkominn í Rauðasandshrepp, f. í Fjarðarhorni í Gufudalssveit.
K. 1858, Ástríður Bjarnadóttir, fyrrnefnd. Börn þeirra:
Guðrún, f. 20. febr. 1859, d. 28. ágúst 1861.
Guðrún Haflína, f. 13. mai 1862, kona Ólafs Guðbjartssonar bónda í Hænuvík.
Anna, f. 13. maí 1862, kona Halldórs Benjamínssonar bónda í Keflavík.
Hafliði, f. 21. júlí 1864, d. 29. júní 1886, fórst á siglingu fram af Brunnanúp, ásamt hálfbróður sínum Andrési Guðmundssyni, Indriða Indriðasyni bónda á Naustabrekku og tveim öðrum. Allir ókvæntir nema Indriði.
Með Þórkötlu Þórðardóttur bónda á Lambavatni Bjarnasonar átti Jón Gíslason tvíbura. Tveir drengir:
andvana drengur, f. á Látrum 21. febr. 1877.
Guðmundur, f. á Látrum 21. febr. 1877, dó nokkurra ára gamall.
1889-1897
Ólafur Guðbjartsson. Bóndi í Keflavík 1889-1897, samtímis Jóni Gíslasyni, tendaföður Ólafs. Síðan bjó Ólafur í Hænuvík, sjá þar.
1897-1905
Halldór Benjamínsson. Bóndi í Keflavík 1897-1905. Bjó ekki annarsstaðar. F. í Sauðlauksdal 16. jan. 1853, d. í Keflavík 16. okt. 1905. Foreldrar: Benjamín Magnússon, síðar bóndi í Bröttuhlíð og k.h. Ingibjörg Bjarnadóttir bónda á Hnjóti Halldórssonar.
K. 16. okt. 1892, Anna Jónsdóttir bónda í Keflavík Gíslasonar og k.h. Ástríðar Bjarnadóttur, d. 13.maí 1924 á Hvallátrum. Börn þeirra:
andvana telpa, f. 1892.
Ólafur Halldór, f. 1. sept. 1893, bóndi á Hvallátrum.
Áslaug Ingileif, f. 11. jan. 1898, búsett í Reykjavík og á börn.
Hafliði, f. 6. sept. 1899, bóndi á Hvallátrum.
Guðbjörg Ingveldur, f. 9. des. 1901, d. um 1923?
1905-1908
Anna Jónsdóttir. Búandi í Keflavík 1905-1908. Ekkja Halldórs Benjamínssonar.
1906-1918
Sumarliði Bjarnason. Bóndi í Keflavík 1906-1918, áður húsmaður í Breiðavík og Kollsvík. Veiktist og fór frá Keflavík á Laugarnesspítala sumarið 1917. Kom aftur vestur og var í Kvígindisdal 1919, en fór svo aftur á sjúkrahúsið 1920. Dó þar 4. apríl 1935. F. á Hvallátrum 8. sept. 1873. Foreldrar: Bjarni Bjarnason bóndi á Grundum og k.h. Anna Jóhanna Sigurðardóttir.
K. 22. ágúst 1896 (Breiðavík), Guðrún, f. í Breiðavík (27.03.1875-10.11.1965), Ingimundardóttir bónda þar Guðmundssonar og Þorgerðar Sigmundsdóttur bónda í Krókshúsum Ólafssonar. Börn þeirra:
Ingimundur Þorgeir, f. í Breiðavík 17. nóv. 1897, drukknaði af mótorbát í Faxaflóa 24. mars 1916.
Anna Jóhanna, f. í Kollsvík (16.09.1900-05.07.1997), kona Guðmundar Halldórssonar bónda að Sandhólaferju í Rangárvallasýslu. 8 börn.
Ólafía, f. í Kollsvík (15.01.1905-06.07.1987), kona Jóns Ársæls Jónssonar bifvélavirkja í Reykjavík. 4 börn.
Daníel, f. í Keflavík 23. júní 1908, d. 6. júní 1950 bifreiðak. í Reykjavík. K. I Sigurlína Guðjónsdóttir, K. II Nína Thyra Þórðardóttir læknis Sveinssonar.
Jón Ásmundur, f. í Keflavík (20.06.1915-07.05.1976), bifreiðaeftirlitsmaður í Reykjavík, K. I Lára Einarsdóttir. II Hrefna Ólafsdóttir. 3 börn.
Guðrún Ingimundardóttir var í Keflavík til vors 1918, en fór þá með Daníel og Jón að Kvígindisdal og var þar til 1920. Fór þá til Hafnarfjarðar, en skömmu síðar til Reykjavíkur og er þar á lífi 1960.
1908-1920
Bæring Bjarnason. Bóndi í Keflavík 1908-1920, fluttist þá að Efri-Tungu og þaðan á Patreksfjörð 1930. F. á Hvallátrum 7. sept. 1875, d. á Patreksfirði 22. des. 1943. Albróðir Sumarliða Bjarnasonar bónda í Keflavík.
K. 18. nóv. 1904 (Kollsvík), Jóhanna Árnadóttir (20.05.1885-09.10.1966) Árnasonar og k.h. Dómhildar Ásbjörnsdóttur bónda á Láganúpi Ólafssonar. Börn þeirra:
Guðmundur Óskar, f. í Kollsvík (25.06.1905-23.09.1962), skipstjóri í Reykjavík, kona Ingigerður, f. að Selhaga í Bólstaðarhlíðarhreppi Danivalsdóttir. 2 börn.
Bjarni, f. í Kollsvík 12. sept. 1906, d. 5. nóv. 1949, seinast búsettur á Drangsnesi í Strandasýslu, kona Anna, f. á Vindheimum í Tálknafirði Ólafsdóttir bónda þar Kolbeinssonar og Jónu Gísladóttur bónda á Hreggstöðum á Barðaströnd Snæbjörnssonar. Gísli var bróðir Kristínar konu Jóns Bjarnasonarbónda í Keflavík.
Hermann, f. í Keflavík (02.12.1908-22.02.1988), vélstjóri hjá „Eimskip“, kona Ragna Eiríksdóttir. 3 börn.
Hjörtur, f. í Keflavík (07.01.1911-31.12.1970), sjúklingur.
Árni, f í Keflavík (26.01.1913-21.05.1986), búsettur á Patreksfirði, kona Jóna Jóhanna Þórðardóttir bónda í Múla á Barðaströnd Ólafssonar. 8 börn.
Ástbjörg Dómhildur, f. í Keflavík (26.06.1917-26.11.1964), gift Halldóri Guðjónssyni frá Ísafirði. 3 börn.
Árný Anna Jóhanna, f. í Tungu (21.01.1921-15.04.1992), bjó með Halldóri Árnasyni, sem drukknaði af togaranum Verði 29. jan. 1950, áttu 3 börn.
Sigurjón, f. í Tungu (01.11.1923-23.01.2006).
Ólafur, f. í Tungu (02.05.1927-12.07.1988). Verktaki á Patreksfirði. K. Hrafnhildur Ágústsdóttir. 3 börn.
Jóhanna Árnadóttir kona Bærings var alsystir Helga Árnasonar bónda í Kollsvík og hálfsystir Gríms Árnasonar bónda á Grundum. Albróðir hennar var einnig Árni, sem drukknaði frá Látrum 27. maí 1921, kv. Ágústu Guðjónsdóttur Halldórssonar. Árni faðir þeirra systkina var f. í Keflavík undir Jökli 18. maí 1862. Var á bát sem hraktist úr Eyjum vestur undir Rauðasand 1878?, barst þar upp í Bæjarós, svo að allir björguðust. Eftir það var Árni mestmegnis í Rauðasandshreppi og dó þar. Seinni k.h. var Hallgerður Grímsdóttir, sjá Grímur Árnason, Grundum.
1921-1923
Jónas Jónsson (15.12.1875-22.02.1965). Bóndi í Keflavík 1921-1923. Áður húsmaður á Hnjótshólum í Örlygshöfn (1914-1921), enn áður á Patreksfirði, og fluttist þangað aftur frá Keflavík.
K. (Svefneyjum), Jóna Valgerður, (31.01.1878-31.03.1961) Jónsdóttir bónda á Hnjóti Torfasonar og k.h. Valgerðar “yngri” Guðmundsdóttur. Börn þeirra:
Guðmundur (23.05.1903-06.12.1903)
Guðjón, f. í Svefneyjum (29.07.1904-19.09.1981), varð s.m. Júlíönu Ásgeirsdóttur Ólafssonar, búsett á Patreksfirði, bl.
Kristín (22.08.1907-18.03.1970). Ormur Grímsson. 10 börn.
Valgerður Ingigunnur (03.05.1910-18.06.1995). Barn með Þórði Guðna Guðmundssyni. Sigurjón Jóhannsson. 4 börn.
Kristinn (12.10.1912-01.08.1974). Sigríður Halldórsdóttir. 5 börn. Sjá Gröf.
Guðbjartur (28.09.1913-05.þ08.1958). Verslunarmaður á Bíldudal.
Sölvi (11.05.2016-19.06.2014). Guðný Sigrún Jónsdóttir. 1 barn. Bjuggu í Neðrabæ.
Lára (30.10.1919-08.02.1941).
1918-1919
Hafliði Ólafsson. Bóndi í Keflavík 1918-1919 og 1920-1934. F. í Keflavík (12.10.1887-15.09.1962), sonur Ólafs Guðbjartssonar bónda í Hænuvík og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur bónda í Keflavík Gíslasonar. Ókv. og bl.
1920-1921
Níels Björnsson. Bóndi í Keflavík 1920-1921. Bjó á nokkrum hluta af eign Erlendar Kristjánssonar á Látrum. Fyrrum bóndi á Naustabrekku, sjá þar. Var orðinn ekkjumaður, þegar hér var komið og að mestu eða öllu einyrki.
1923-1930
Ingvar Þ. Ásgeirsson (30.03.1890-11.12.1977). Bóndi í Keflavík 1923-1930, tók við af Jónasi Jónssyni. Fluttist úr Keflavík að Geitagili og bjó þar síðan.
1931-1934
Einar G Sigurðsson. Bóndi í Keflavík 1931-1934. Fluttist þá að Sellátranesi, sjá þar.
Frá 1934 hefur Keflavík verið í eyði. Íbúðarhúsið í Keflavík brann og flýtti það fyrir því að jörðin færi í eyði. Þó var Ingimundur B. Halldórsson með fé í Keflavík framan af vetri um 1940, en hann átti þá heimili á Brekku, hjá tengdaforeldrum.
Nafnið Látur merkir stað þar sem selir eða hvalir ala upp ungviði sitt. Þó hvalir hafi líklega verið mun algengari nærri ströndum fyrr á tíð er fremur ólíklegt að þarna hafi verið uppeldisstöð þeirra, þó það sé alls ekki útilokað. Mikið selalátur er á Tangahleinum, en vafasamt að það sé heldur nafngjafinn á bænum. Nafnskýringar er líklega að leita á fyrstu öldum Íslandsbyggðar; jafnvel fyrsta landnámi. Þórólfur spörr kom út með Örlygi og Kolli, og nam Rauðasandshrepp allan sunnan Patreksfjarðarbotns, að frátaldri Kollsvík og Rauðasandi. Hann valdi sér Hvallátra til búsetu, þó í dag þættu aðrar jarðir búsældarlegri í landnáminu. Ástæða þess er líklega að verða ljós með nýjustu rannsóknum í fornleifafræði og líffræði. Vísindamenn telja að fram á landnámsöld hafi hérlendis lifað sérstök tegund rostungs, sem þeir nefna Íslandsrostung; einkum vestanlands. Landnámsmenn veiddu þessa skepnu grimmt, vegna skinna og tanna og e.t.v. einnig til átu, og svo fór að henni var algerlega útrýmt. Ýmsar vísbendingar eru um að veiðstöðvar rostungs hafi verið hér fyrir eiginlegt landnám; t.d. í Höfnum. Í munni landnámsmanna hét dýrið rosmhvalur, eins og t.d. örnefnið Rosmhvalanes bendir til. Við strendur í Rauðasandshreppi hafa að öllum líkindum verið miklar byggðir rosmhvals, og gæti það varpað ljósi á þróun byggðar á fyrstu öldum. Þórólfur spörr velur sér búsetu við stærstu rosmhvalabyggðina í hans landnámi. Kollur, sem þó er annar leiðangursstjórinn, lætur sér nægja Kollsvíkina; líklega m.a. vegna rosmhvalaveiði sem þar var. Ármóður á Rauðasandi stundaði þá að líkindum rosmhvalaveiðar þar í ósnum. Örnefni frá þessum tímum eru líklega Hvallátrar og Hvalsker (sjá þar), en e.t.v. einnig Sellátranes.
Nafnið Hvallátrar er núna haft í fleirtölu en kann að hafa verið eintala í upphafi, líkt og samnefnd eyja í Breiðafirði (sem líklega hefur sömu nafnskýringu). Sá munur er á notkun þessara staðaheita að með Hvallátrum við Bjarg er notuð forsetningin “á” en með Hvallátrum í Breiðafirði er forsetningin “í”.
Nafnið er oftast stytt í “Látrar” í munni heimamanna.
Jarðabókin 1703 “Þar hefur verið bænhús, sem fyrir löngum tíma er affellt. Jarðarinnar dýrleiki er 30 hdr. Eigandi er Helga Eggertsdóttir á Skarði. Ábúendur Guðmundur Guðmundsson á 15 hdr, Þórður Jónsson á 10 hdr, Jón Diðriksson á 5 hdr. Landskupd Guðmundar er 9 vættir, Betalast með fiski á eyri, og sumpart til Bæjar á Rauðasandi. Fóður er þar ekkert. Leigukúgildi 6 ½. Leigur betalast í smjöri heim til Bæjar, eða með fisk á eyri. Ásauðarkvígildin (þaug eru 3 ½) hefur leiguliði uppyngt. Kýrnar húsbóndi. Kvaðir engar.
Landskuld Þórðar er 6 vættir. Betalaðist tilforna með fiski á eyri. Nú með steinbít og fiski á eyri, eftir því sem leiguliði komið við getur. Fóður ekkert er þar. Leigukúgildi 5 og 1 ær um fram. Var fyrir nokkrum árum 5 ½ kvígildi. Leigur betalast með fisk á eyri og þá það ei verður, með smjöri heim til Bæjar. Kýrnar hefur húsbóndi uppýngt; ærnar leiguliði. Þær eru 13, og eru þær allar með marki leiguliða. Kvaðir öngvar.
Landskuld Jóns Diðrikssonar eru 3 vættir. Betalast með fiski á eyri, eða heim til Bæjar á Rauðasandi. Leigukúgildi 2 ½ kúgildi. Leigur betalast heim til Bæjar. Kvaðir engar.
(Kvikfénaður var alls: 9 kýr (líkl.), 1 naut, 1 kvíga, 57 ær (líkl.), um 20 gemlingar, 1 hestur, 2 hross. Tveir synir eins bóndans áttu auk þess: 2 hross, 4 ær, 5 sauði og 4 gemlinga. Hjá einum ábúanda er aðeins sagt að hann hafi kvígildin (21/2), og er það talið 1 kýr og 9 ær. Sagt er að fóðrast kunni á allri jörðinni 6 kýr og 18 lömb). Fullorðnu fé er alltíð útigangur ætlaður, sem þar góður er í fjöru. Heimilismenn hjá Guðmundi 11, hjá Þórði 10, hjá Jóni Diðrikssyni 4.
Hlunnindi eru þar: Eggver og fuglaveiði í Látrabjargi og Látranúp (alias Bjarnarnúp), sem er á milli Látra og Breiðavíkur, óþrjótandi, en verður eftir að síga og er mannhætta. Selfengur alleina með því að skjóta þá, því lagnir eru þar engar. Uppidráp hefur þar og verið, og kynni enn að vera, þegar svo fjelli. Þó hefur það lítilfjörlegt verið. Sölvafjara hefur góð verið, en rjenar. Hrognkelsafjara hefur þar góð verið, en minnkar mjög. Fjörugrös kunna þar að fást, ef vill. Útigangur í fjöru er þar í besta lagi og er þar uppá byggt um fullorðið fje. Allra þessara hlunninda njóta leiguliðar tolllaust. Engjar á Látrum eru öldungis engar. Kirkjuvegur til Bæjar, meir en þingmannaleið. Hreppamannaflutningur erfiður yfir hálsa á tvo vegu. Stunga og rista er þar ónýt. Tún og hagi fordjarfast af sandfjúki úr sjó. Vatnsból þrýtur þar á vetur. Fjörufall (bráðasótt í fjöru) grandar þar sauðfé oft. Reki hefur þar nokkur verið, meðan rak. Þó hefur Látraröst hann alltíð stórum frádregið. Heimræði er þar í betra lagi. Lending góð. En sandur fýkur á og skemmir aflann.
Þar hefur verstaða verið tilforna, bæði heima við Látur og so að Brunnumí Látra landi. Segja gamlir menn þar verið hafa til vers 20 skip eða þar um. Heima við Látur kynni vera verstaða enn, ef menn vildi heldur þar róa en heima hjá sjer. En á Brunnum er allt eyðilagt af sandi og vatnsleysi, og er það yfir 80 ár að þar ekkert skip róið hefur. Til þessarar Brunna verstöðu skulu tilforna hafa sókt Dýrfirðingar, Arnfirðingar, Tálknfirðingar, og það íbland vegna þess að þeir hafa per conniventiam (með því að eigendur hafa látið sem þeir sæju ekki) haft fuglaveiði og egg úr Látrabjargi, tolllaust sem menn meina. Álftamýrarbúð skal heita á Brunnum, eyðilögð af sandi með hinum. Skal hafa verið eign Álftamýrarkirkju (í Arnarfirði).
Verbúðir eru nú engar á Látrum. Þar ganga nú 3 skip ár um kring: 1) Guðmundar Guðmundssonar 3ja manna far. 2) Þriggjamanna far hjá Þórði jónssyni. Það á hann hálft, en húsbóndi hálft. Þriðja á landsdrottinn; er tveggjamanna far. (Hér skýtur ÁM inn á þýsku: “Svo virðist sem þessir litlu bátar sjeu fundnir upp til þess að fá sem flesta skipshluti. En bændurnir segja; sem líka virðist vera satt, að sexæringar eða áttæringar væru miklu heppilegri til að sækja þeim mun lengra út á sjóinn og mætti vel svo verða lendingarinnar vegna”). Fyrir landsdrottins skipi er Jón Diðriksson formaður. H´setar á þessum skipum eru heimilismenn búendanna, og gefa búendurnir landeigenda tveggja fjórðunga toll fyrir hvern þann mann (formenn og háseta) er á skipunum róa. Lóðir kunna þar ei að brúkast sökum strauma. Þar er beitt fiski og maðki á sumur, þá smáfiski að gengur. Hospitalsfiskar skiptast þar, og afhendast hreppstjórum. Þar er einn skiphlutur. Skipleiga engin”.
Barðstrendingabók PJ “Á Hvallátrum hefir um langan aldur verið margbýli og mikil búpeningsáhöfn, einkum sauðfé. Nú (um 1940) eru þar átta búendur. Tún eru þar stór, greiðfær, sendin og nokkuð harðlend. Kartöflugarðar eru þar ágætir og allmiklir. Engjar eru mjög litlar, aðeins valllendisblettir á bjargbrúninni. Fjörubeit er mikil og útigangur fyrir sauðfé mikill, svo að lömb eru eigi tekin í hús fyrr en á þorra, og sleppt með einmánuði. Hefir vetrarbeit löngum þótt gagnsöm og kjarngóð á Látrabjargi, en mörg kindin hefir þar hrapað. Þar á Sauðlauksdalur 60 sauða göngu á vetrum, eftir fornum máldögum, þótt eigi hafi verið notað um langa hríð…. Veiðiskapur hefir mjög verið stundaður á Hvallátrum, bæði á sjó og landi. Útræði er þar ágætt, eggjatekja og fuglatekja í Bjarginu. Eru dæmi þess að 36 þúsund af fugli hafi veiðst í Látrabjargi á einu vori… Loks hafa refaveiðar jafnan verið stundaðar þar af miklu kappi… Fram til 1890 var sótt mjög að Hvallátrum til sjóróðra á vorvertíð sunnan úr sýslunni, einkum úr Múlasveit, Flateyjarhreppi og af Barðaströnd; og svo af Rauðasandi. Var þá mest róið á steinbít. Vorið 1882 var þar fyrst verkaður saltfiskur til verslunarvöru. Það vor gengu þar 15 bátar til fiskjar”.
1703
Guðmundur Guðmundsson. Bóndi á Hvallátrum 1703. F. um 1750.
K. Kristín, f. um 1648 Björnsdóttir. Börn þeirra 1703:
Ásbjörn, f. 1679, bóndi í Tungu.
Ólafur, f. 1681.
Jón, f. 1689.
Guðrún elsta „krenkt“, f. 1972.
Guðrún, f. 1678.
Guðrún yngsta „krenkt“, f. 1683.
1703
Þórður Jónsson. Bóndi á Hvallátrum 1703. F. um 1647.
K. Dýrfinna Guðmundsdóttir, f. um 1646, e.t.v. systir fyrrnefnds Guðm. Guðm. Börn:
Jón elsti, f. 1682.
Jón yngsti, f. 1686.
Sigmundur, f. 1687, bóndi á Látrum.
Guðrún „krenkt“, f. 1680
Sigmundur var bóndi á Látrum 1735 og annar Jónanna.
1703
Sigurður Vigfússon. Bóndi á Hvallátrum til vors 1703, fluttist þá að Keflavík. F. um 1643.
K. Halldóra, f. um 1652 Eiríksdóttir. Dóttir þeirra:
Þorbjörg, f. 1680.
1735
Sigmundur Þórðarson. Bóndi á Hvallátrum 1735. F. 1687, d. líklega 1737. Drukknaði við Bjargtanga ásamt Jóni og Páli bræðrum sínum, að sögn Gísla Konráðssonar. Enginn Páll bróðir Sigmundar, er á manntali í hreppnum 1703. Sigmundur hefur vafalaust búið allan sinn búskap á Látrum.
K. skömmu fyrir 170, Valgerður Loftsdóttir, f. 1696, d. á Látrum 16. okt. 1776. Þetta er vafalaust sú Valgerður Loftsdóttir, sem er í Höfðadal í Tálknafirði 1703, ásamt móður sinni Guðrúnu Sigurðardóttur 35 ára. Gísli Konráðsson segir Valgerði konu Sigmundar hafa verið dóttur Lofts Höskuldssonar, en það er rangt. Sá Loftur var á Vattarnesi 1703 og er aðeins 7 árum eldri en Valgerður. Börn Þeirra:
Loftur bóndií Saurbæ 1762, f. 1718, d. 1778.
Sigríður, f. 1732, átti Bjarna Björnsson bónda á Látrum.
1735
Jón Þórðarson. Bóndi á Hvallátrum 1735 og hefur varla búið annarsstaðar en þar. F. nokkru eftir 1680, er annaðhvort Jón elsti eða Jóns yngsti Þórðarson bónda á látrum Jónssonar. Dó um leið og Sigmundur bróðir hans, sjá að framan. Kona hans er ókunn, en hugsanlegt er, að meðal barna hans hafi verið:
Dýrfinna, kona Gunnlaugs Þorbjörnssonar bónda á Naustabrekku 1762.
Helga, kona Þórarins Sigurðssonar bónda á Hlaðseyri 1780 (Þórarinn á dóttur sem Dýrfinna heitir).
Guðrún, kona Sigurðar Pálssonar bónda á Látrum 1762.
1735
Guðmundur Jónsson. Bóndi á Hvallátrum 1735. Ekki er kunnugt um ætt hans, konu eða börn. Er því tilgangslítið, að geta sér nokkuð til um foreldra hans.
um 1737-1762
Valgerður Loftsdóttir. Búandi á Hvallátrum frá því er Sigmundur maður hennar drukknaði (1737?) og fram yfir 1762 a.m.k. Hún var ekkja Sigmundar Þórðarsonar fyrrnefnds. Af börnum þeirra hjóna, Lofti og Sigríði er komið margt manna.
um 1735-um 1800
Bjarni Björnsson. Bóndi á Hvallátrum 1762, hefur búið þar frá því um 1735 og fram undir 1800. F. um 1726, d. 23. jan. 1808. ókunnugt um foreldra hans.
K. 1754, Sigríður, d. 6. júní 1780, Sigmundsdóttir bónda á Látrum Þórðarsonar. Börn þeirra:
Guðrún, f. 10. des. 1760, d. 27. des. 1760.
Björn bóndi á Látrum, f. 26. mars 1766.
Elín, f. 26. mars 1766, d. 22. nóv. 1766.
Ólafur bóndi á Látrum, f. 1767.
um 1750-um 1770
Sigurður Pálsson. Bóndi á Hvallátrum 1762 (líklega um 1752 og fram undir 1770). Hvorki Sigurður né k.h. Guðrún Jónsdóttir eru á manntali 1780 og lát þeirra finnst ekki heldur í kjb. En þau hafa gifzt fyrir 1750 og eignast seinast barn 27. apríl 1766. Alls eru börn þeirra 8, sem sjást tilgreind í kjb. Þar af dóu 6 ung en hið elsta:
Jón, er e.t.v. sá J.S., sem fermdur er 1766, aldur ekki nefndur og ekkert frekar um hann kunnugt.
Eina barnið, sem síðar kemur við sögu er:
Ólafur, lengi bóndi á Lambavatni.
Faðir Sigurðar hefði getað verið Páll Magnússon bóndi á Geitagili 1735, í Sauðlauksdal 1703, 18 ára, hjá móður sinni Margréti Jónsdóttur sem er ekkja búandi þar. Systir Sigurðar hefur þá sennilega verið Ingibjörg Pálsdóttir kona Þorláks Loftssonar bónda á Geitagili 1762 og bróðir Guðmundar Pálssonar bónda á s.st. 1762.
um 1780-1808
Ólafur Jónsson. Bóndi á Hvallátrum fyrir 1780 og fram yfir 1808. Fluttist að Keflavík með Guðmundi syni sínum, sem býr þar 1817. F. í Sauðlauksdalssókn 16. jan. 1754. Foreldrar: Jón Ólafsson, f. um 1724 húsmaður á Látrum 1780 og Guðlaug Jónsdóttir, d. 3. nóv. 1756. Giftust 1754.
K. I 1777, Guðrún, f. 1748, d. milli 1786 og 1793 Ketilsdóttir, f. 1710, á Látrum 1782, d. í júlí 1784 Jónssonar og Guðrúnar, f. um 1714, á Látrum 1782, d. fyrir 1801 Jónsdóttur. Systir Guðrúnar Ketilsdóttur var Jóhanna kona Jóns Ólafssonar bónda á Geirseyri 1780. Börn þeirra:
Guðmundur bóndi í Keflavík 1817.
Margrét kona Þorláks Þorlákssonar bónda á Láganúpi 1817.
K. II 1794, nafn hennar ekki kunnugt, d. fyrir 1801. Börn þeirra:
Birgitta (Bríet), f. á Hnjóti 1774, kona Ólafs Bjarnasonar bónda á Látrum.
Ingibjörg, f. á Látrum 1787, kona Árna Þóroddssonar bónda í Kvígindisdal, svo Einars Guðmundssonar s.st., síðar bónda í Hergilsey, fluttist þangað 1829.
Kristín, f. um 1795, átti fyrst Jón Þórðarson bónda í Litla-Króki um 1820, sjá þar. Seinni maður Kristínar var Hjalti Bjarnason og var hún eftir lát hans kölluð Hjalta-Kristín. Áttu heima í Reykhólasveit.
Ólafur hefur líklega búið á Hnjóti í 4 ár eða svo, fluttizt að Geitagili, þegar Einar Magnússon kvæntist 1775. Ekki er þó hægt um þetta að segja með vissu.
Börn Ólafs utan hjónabands voru:
Rósa, dó mánaðargömul 1783, móðir hennar var Guðrún Jónsdóttir.
Guðrún, f. 1801, átti Magnús Bjarnson bónda í Stekkadal, s.k.h. Móðir hennar var Guðrún yngri Þorgrímsdóttir bónda á Lambavatni Jónssonar.
1776-1778
Loftur Sigmundsson. Bónd á Hvallátrum sennilega 1776 (5 eða 6)- dauaðadags 1778. Bóndi í Saurbæ 1762, sjá þar.
1778-1783
Sigmundur Loftsson. Bóndi á Hvallátrum um 1778-1783. F. 1750, d. 15. júní 1783, hrapaði syðst í Bæjarnúp (Sigmundarkór). Foreldrar: Loftur Sigmundsson bóndi í Saurbæ 1762 og f.k.h. Jarðþrúður Björnsdóttir.
K. 1773, Ragnhildur, f. um 1741 Sigurðardóttir, ekkja í Raknadal 1801, líklega d. fyrir 1808. Hún er sögð hafa verið systir Eyjólfs á Kálfatörn í Selárdal. Börn þeirra:
Þorgerður, f. í Saurbæjarsókn 7. mars 1773, látrum 1780, ekki á manntali 1801 í Rauðasandshreppi.
Jón, f. í Sauðlauksdalssókn 13. sept. 1774, d. 25. mars 1785, Látrum 1780.
Sigríður, f. í Saurbæjarsókn 18. apríl 1779, d. 5. sept. sama ár.
Og líklega:
Sigríður, barn sem dó í Sauðlauksdalssókn 9. nóv. 1777.
Ekki kunnugt um neina afkomendur Sigmundar.
1778-1780
Guðrún Eyjólfsdóttir. Búandi á Hvallátrum 1778-1780 (gat verið til 1781). Vinnukona á Hnjóti með Bjarna son sinn 1782. Ekkja Lofts Sigmundssonar, sjá hér á undan, var s.k.h. F. um 1738. Líklega dóttir Eyjólfs Jónssonar bónda í Keflavík 1735, Grundum 1762, d. 79 ára 15. nóv. 1770, (fósturbarn á Stökkum 1703, 9 ára) valinkunnur sæmdarmaður.
M. 1770 (í Saurbæjarsókn), Loftur Guðmundsson, sjá héra að framan. Börn þeirra:
Jarðþrúður, f. 1772, vk. í Tungu 1801, vantar 1808 1817.
Guðrún, f. 1775, d. 1776.
Bjarni, f. á Látrum 13. apríl 1777, vm. á Sellátranesi 1801 fluttist úr hreppnum og varð bóndi í Drápuhlíð á Snæfellsnesi, d. 1838. Afkomendur hans margir.
1780-
Ólafur Erlingsson. Bóndi á Hvallátrum 1780 (eða 1781)- dauðadags milli 1786 og 1801. Áður bóndi á Geitagili og líklega fyrst á Hnjóti. F. um 1733. Foreldrar: Erlingur Bjarnasonbóndi í Breiðavík 1735 og k.h. Ingunn Guðmundsdóttir.
K. 1771, Sigríður Magnúsdóttir bónda á Hnjóti Þorvarðssonar og k.h. Vigdísar Þórðardóttur. Börn þeirra:
Birgitta Bríet, f. á hnjóti 1774, kona Ólafs Bjarnasonar bónda á Látrum.
Ingibjörg, f. á Látrum 1787, kona Árna Þórodssonar bónda í Kvígindisdal, svo Einars Guðmundssonar s.st., síðar bónda í Hergilsey, fluttist þangað 1829.
Ólafur hefur líklega búið á Hnjóti í 4 ár eða svo, fluttizt að Geitagili, þegar Einar Magnússon kvæntist 1775. Ekki er þó hægt um þetta að segja með vissu.
-1812
Sigríður Magnúsdóttir. Búandi á Hvallátrum frá því að Ólafur Erlingsson, maður hennar, dó og til 1812. Hún hefur getað verið ekkja 15-20 ár, eða svo. F. á Hnjóti 1749, d. á Geirseyri? 15. ágúst 1812. Skip, sem hún átti fórst í fiskiróðri frá Látrum vorið 1812 og fékk það mjög á hana. Hún er sögð hafa dáið hjá Daða Jónssyni á Vatneyri, en hann virðist hafa búið á Geirseyri?
1781
Bjarni Oddsson. Bóndi á Hvallátrum 1781- (óvíst hve lengi). F. um 1727. Vinnumaður á Hvalskeri 1780 með konu og dóttur.
K. 1775, Guðríður Jónsdóttir, f. um 1741. Börn þeirra:
Kristín, f. 4. apríl 1776 í Saurbæjarsókn, gift vk. í Sauðlauksdal 1801 og vk. s.st. 1808, en vantar eftir það á manntöl. Maður hennar Guðmundur Einarsson, f. 1764 er í Sauðlauksdal 1801, en síðar ekki á manntali í Rauðasandshreppi. Engin börn þeirra finnanleg.
Elín, f. 1777, d. 1778.
Hvorki Bjarni né Guðríður eru á manntali 1801.
um 1800-1816
Björn Bjarnason. Bóndi á Hvallátrum um 1800-1816. F. 26. mars 1766, d. 7. ágúst 1816. Foreldrar: Bjarni Björnsson bóndi á Hvallátrum og k.h. Sigríður Sigmundsdóttir.
K. um 1798, Ástríður Þorsteinsdóttir bónda á Sjöundá Jónssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur. Einkasonur þeirra:
Bjarni Björnsson, fyrst bóndi á Látrum en lengst í Keflavík.
1816-1820
Ástríður Þorsteinsdóttir, ekkja Björns Bjarnasonar. Búandi á Hvallátrum 1816-1820. F. á Sjöundá 27. ágúst 1768, d. í Keflavík 16. júní 1825. Móðir hennar Guðrún er ekkja 1780. Býr þá á Melanesi.
um 1800-1843
Ólafur Bjarnason. Bóndi á Hvallátrum um 1800-1843. F. 10. des. 1767, d. 18. júní 1843. Albróðir Björns bónda á Látrum, sjá hér að framan.
K. um 1799, Bríet Ólafsdóttir bónda á Hvallátrum Erlendssonar og k.h. Sigríður Magnúsdóttir. Börn þeirra:
Guðrún, f. 1800, átti Bjarna Björnsson bónda í Keflavík, var f.k.h. þau bræðrabörn.
Sigríður, f. 1801, átti Bjarna Jónsson bónda á Hvallátrum.
Ólafur var beykir. Hann var blindur, en fór þó sjálfur í kaupstaðaferðir. Honum til aðstoðar var þá Guðrún Össursdóttir, móðir Vigdísar konu Gísla Ólafssonar bónda á Sellátranesi. Guðrún hafði komið til þeirra hjóna, þegar hún var ? ára gömul og var síðan lengi á heimili þeirra.
1843-1844
Bríet Ólafsdóttir, ekkja Ólafs Bjarnasonar. Búandi á Hvallátrum 1843-1844. Hún fluttist 1847 suður í Hergilsey til Ingibjargar systur sinnar, er gift var Einari Guðmundssyni bónda þar (sjá Kvígindisdal). Þaðan fór Bríet með þeim hjónum að Auðsahugi á Hjarðarnesi og dó þar 30. apríl 1860.
1820-1825
Bjarni Björnsson. Bóndi á Hvallátrum 1820-1825. Fluttist þá að Keflavík og bjó þar til dauðadags 1855, sjá þar.
1823-1839
Bjarni Jónsson. Bóndi á Hvallátrum 1823-1839. F. í Gufudal 1787, d. 8. sept. 1839. Foreldrar: Jón Bjarnason úr Bæ á Bæjarnesi Jónssonar (sjá Sm.II 389, Æviskrár III bls. 417) og Margrét Magnúsdóttir prests í Gufudal 1781-1791 Einarssonar sm. í Strs. Magnússonar. Bjarni er í Gufudal 1801 hjá föðurbróður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, vinnumanni á Látrum 1817.
K. 26. sept. 1820, Sigríður Ólafsdóttir bónda á Látrum Bjarnasonar, dáin 22. des. 1836. Börn þeirra:
Sigríður, f. 25. mars 1822, d. í Ólafsvík 16. jan. 1907. Fluttist til Hergilseyjar 1840, giftist þar 1847 Ásgeiri Jónssyni, síðar bónda í Innri Bug í Fróðársókn. Hann drukknaði nóv. 1856 á uppsiglingu úr fiskiróðri frá Ólafsvík. Áttu mörg börn, en flest dóu ung. S.m. Sigríðar var Jósep Sigurðsson. Sonur þeirra Guðmundur búsettur í Ólafsvík. Börn hans: Steinunn, Ágústa og Trausti.
Guðrún, f. 13. okt. 1835, kona Friðriks Þorgrímssonar bónda á Kvígindisfelli í Tálknafirði. Meðal barna þeirra var Bjarni faðir Viktoríu, er átti Sigurgarð Sturluson kennar, bónda á Eysteinseyri í Tálknafirði.
1825-1854
Jón Þóroddson (Thoroddsen). Bóndi á Hvallátrum 1825-1854. Áður bóndi á Hvalskeri (1820-1825). F. á Vatneyri 1775, d. 29. jan. 1854. Foreldrar: Þóroddur beykir, bóndi á Vatneyri, Þóroddson og k.h. Bergljót Einarsdóttir.
K. 8. okt. 1824, Guðrún (Hallsteinsnesi 1793/Látrum 3. des. 1852) Arnfinnsdóttir bónda á Hallsteinsnesi Jónssonar bónda á s.st., síðar í Gröf í Þorskafirði Jónssonar. Börn þeirra:
Árni bóndi á Látrum og í Kvígindisdal.
Einar bóndi á Látrum og í Vatnsdal.
1839-1840
Þórunn Jóhannsdóttir. Búandi á Hvallátrum 1839-1840. Ekkja Bjarna Jónssonar bónda á Látrum. F. á Brjánslæk 6. mars 1795, d. á Lambeyri í Tálknafirði 3. sept. 1853. Foreldrar: Séra Jóhann Bergsveinsson prestur á Brjánslæk og þ.k.h. Steinunn Þorsteinsdóttir, Guðbrandssonar.
M. I 7. okt. 1838, Bjarni bóndi á Látrum.
M. II Jón Jónsson bóndi á Látrum.
Áður en Þórunn giftist átti hún, með Sturlaugi Einarssyni í Rauðseyjum, son:
Guðrandur, síðar bóndi í Hvítadal.
1840-1850
Jón Jónsson. Bóndi á Hvallátrum 1840-1850. F. 26. apríl 1808, d. 19. sept. 1881. Foreldrar: Jón ríki Þórðarson bóndi á Kvígindisfelli í Tálknafirði og k.h. Halldóra Guðmundsdóttir. Jón var þríkvæntur.
K. I 27. sept. 1840, Þórunn Jóhannsdóttir, þau bl.
K. II 8. okt. 1854, Monika Magnúsdóttir, d. 6. mars 1874, þau einnig bl.
K. III 27. okt. 1875, Kristín Snæbjörnsdóttir, ekkja Jóns Bjarnasonar bónda í Keflavík. Sonur þeirra:
Jón Snæbjörn, f. 4. apríl 1876. Almennt talið að Jón væri ekki faðir hans.
Jón fluttist frá Látrum að Lambeyri. Með þeim hjónum fluttust til Tálknafjarðar þau Guðrún, sem síðar átti Friðrik Þorgrímsson, sjá að framan og Árni, síðar bóndi í Krossadal, Ólafsson (afi Árna Friðrikssonar fiskifræðings).
1849-1874
Össur Össursson. Bóndi á Hvallátrum 1849-1874. Hreppstjóri, skáld. Áður bóndi í Hvallátrum í Breiðafirði. F. í Breiðavík 21. okt. 1808, d. 11. júní 1874. Foreldrar: Össur Sigurðsson bóndi í Breiðavík, seinast í Stekkadal, sjá þar og k.h. Guðrún Þorgrímsdóttir bónda á Lambavatni Jónssonar.
K. I 26. sept. 1833, Valgerður Gísladóttir prests í Sauðlauksdal Ólafssonar, d. í Hvallátrum á Breiðafirði 9. apríl 18446. Börn þeirra:
Guðmundur, f. 1834, d. 1912, ókv. og bl.
Ingveldur, f. 1836, d. í Flatey 1873, óg. og bl.
Gísli Guðbjartur, f. 1838, 1840.
Guðbrandur, f. 1839, d. 1840.
Gróa, f. 1843, kona Jóns Jónssonar bónda á Skógi.
Gestur, f. 1844, d. 30. maí 1825, bóndi á Hvallátrum, ókv. og bl.
Af þessum systkinum varð Gróu einni barna auðið, en þau dóu öll barnlaus.
K. II 9. sept. 1849, Guðrún Snæbjörnsdóttir bónda í Dufansdal Pálssonar. F. 29. sept. 1827, d. á Látrum 28. apríl 1894. Hún var alsystir Sigríðar konu Árna bónda í Kvígindisdal, Kristínar konu Jóns Bjarnasonar í Keflavík og Markúsar kaupmanns á Geirseyri. Kona Snæbjarnar Pálssonar var Kristín Nikulásdóttir frá Orrahóli. Börn 10 alls, fædd á Látrum:
Egill, f. 8. águst 1850, fór til Noregs og dó þar ungur.
Guðrún Valgerður, f. 27. sept. 1891, átti Ingimund Sigmundsson bónda á Látrum.
Kristín, f. 27. mars 1854, dó sama ár.
Sigríður, f. 8. okt. 1857, átti Guðbjart Jónssona bónda í Breiðavík.
Snæbjörn, f. 6. mars 1859, dó sama ár.
Kristjana, f. 19. apríl 1861, fór til Winnipeg og giftist þar Jóni Sauðeyingi Jónssyni, þau bl.
Guðbjörg, f. 8. apríl 1864, átti Jón Bjarna Jónsson frá Keflavík, sem drukknði er Vigga fórst 1. mai 1897, þá búsett á Lambeyri, síðan Ingva Einarsson bónda á Koti.
Össur, f. 17. nóv. 1865, dó sama ár.
Nikulás, f. 18. nóv. 1867, fluttist til Kanada og kvæntist þar, lögregluþjónn.
Ólöf, f. 3. sept. 1872, átti Jóhann Magnússon bónda í Hænuvík.
1851-1856
Magnús Halldórsson. Bóndi á Hvallátrum 1851-1856. Fluttist þá að Breiðavík. F. 1809. Foreldrar: Halldór Jónsson bóndi í Gröf 1817 og k.h. Rósa Þorsteinsdóttir.
K. 25. sept. 1833, Margrét Jónsdóttir bónda í Kvígindisdal 1808 Þórólfssonar og k.h. Þuríður Steinsdóttir. Þau voru bl.
1854-1870
Einar J. Thoroddsen. Bóndi á Hvallátrum 1854-1870. Fluttist þá að Vatnsdal. F. 15. maí 1827, d. 21. apríl 1907. Foreldrar: Jón Þóroddson (Thoroddsen) bóndi á Hvallátrum og k.h. Guðrún Arnfinnsdóttir.
K. I (Stóholti í Saurbæjarhr., Dal.) Klásína Pálsdóttir verzlunarmaður í Ólafsvík ólafssonar og k.h. Hómfríðar Ólafsdóttur. Börn þeirra:
Ólafur Hólm, f. á Látrum 19. sept. 1853, d. 23. apríl 1911, kennari.
Guðrún, f. 26. okt. 1854, dó sama ár.
Jóna Bergljót, f. 29. mars 1857, kona Eiríks Eiríkssonar bónda í Tungu.
Þóra, f. 3. júlí 1858, d. tæplega ársgömul.
Pálína, f. 27. ágúst 1860, kona Jóns Magnússonar bónda í Raknadal.
Þóra, f. 25. des. 1861, d. 1. jan. 1862.
Jóhannes Október, f. 10. okt. 1864, d. í apríl 1865.
Kláus, f. 15. júní 1866, d. 6. júlí 1866.
Klásína, d. 21. júní 1866.
K. II 24. okt. 1870, Sigríður Ólafsdóttir bónda í Sviðnum Teitssonar. Þau bjuggu í Vatnsdal, sjá þar.
1856-1859
Ásbjörn Bjarnason. Bóndi á Hvallátrum 1856-1859. Bjó hvergi annarsstaðar. F. á Sellátranesi 23. júní 1815, d. 1859. Foreldrar: Bjarni Halldórsson bóndi á Sellátranesi og k.h. Vigdísar Pétursdóttur.
K. 26. sept. 1846, Guðrún Össurardóttir bónda í Stakkadal Sigurðssonar og k.h. Guðrúnar Þorgrímsdóttur, dáin á Sellátranesi 6. mars 1879. Einasta barn þerra var:
Vigdís, f. á Látrum 25. okt. 1849, kona Gísla Ólafssonar bónda á Sellátranesi. Þegar Vigdís var jarðsett kallaði presturinn hana Gísladóttur. Þótti það tíðindum sæta, þó almennt væri hún talin dóttir séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal.
1860-1877
Sigurður Finnbogason. Bóndi á Hvallátrum 1860-1877. Áður bóndi á Siglunesi á Barðaströnd. F. í Múla á Barðaströnd 3. ágúst 1818, d. í Arnardal við Ísafjarðardjúp 1. apríl 1891, fluttist þangað 1879. Foreldrar: Finnbogi Sigurðsson og k.h. Þóra Þorkelsdóttir. Þau bjuggu á Siglunesi.
K. 29. sept. 1838, Sigríður Magnúsdóttir bónda í Keflavík Árnasonar og f.k.h. Önnu Jóhönnu Jónsdóttir Thorberg. Sigríður hafði áður verið gift Davíð Teitssyni bónda í Hvammi á Barðaströnd Jónssonar. Þau bl. Áður en Sigríður giftist átti hún dóttur með Kára Sigmundssyni, síðar bónda á Naustabrekku, svo í Höfðadal. Hún hét:
Kristín, f. 20. okt. 1834, d. í Flatey 16. des. 1913, óg. og bl. Faðir hennar var Kári Sigmundsson, síðar bóni í Naustabrekku, svo í Höfðadal.
Börn Sigurðar og Sigríðar voru:
Finnbogi, f. á Siglunesi17. sept. 1839, d. á Deildará í Múlasveit 19. mars 1902, kv. Ketílríði Jónsdóttur.
Anna Jóhanna, f. á Siglunesi 23. apríl 1841, kona Bjarna Bjarnasonar bónda á Grundum.
Magnús, f. á Siglunesi 18. maí 1842, bóndi á Geitagili.
Sólborg, f. á Siglunesi 25. júní 1843, átti Jens G. Jónsson bónda í Arnardal.
Hafliði, f. í Gerði 4. júlí 1846, d. sama ár.
Sigríður, f. á Siglunesi 15. júní 1851, d. á Ísafirði 24. nóv. 1918. Átti fyrst Helga Eiríksson bónda á Látrum, sjá þar., síðan Benedikt Rögnvaldsson.
1877-1879
Helgi Eiríksson. Bóndi á Hvallátrum 1877-1879. F. á Látrum 8. des. 1844, d. á s.st. 1. des. 1879. Foreldrar: Eiríkur Magnússon, þá ókv. vm. á Látrum, síðar bóndi á Mábergi (hann var hálfbróðir Sigríðar konu Sigurðar Finnbogasonar) og Guðbjörg Bjarnadóttir bónda í Breiðavík, Sigurðssonar.
K. 2. okt. 1873, Sigríður Sigurðardóttir bónda á Látrum Finnbogasonar. Einkadóttir þeirra var:
Sólborg, f. 27. des. 27. des. 1873, d. í Kaupmannahöfn 10. júlí 1950, giftist Ara Hallvarðssyni, trésmíðameistara. Dóttir þeirra Sigríður giftist í Kaupmannahöfn.
1874-1894
Guðrún Snæbjörnsdottir. Búandi á Hvallátrum 1874-1894. Ekkja Össurs bónda á Látrum Össurssonar.
1854-1855
Árni J. Thoroddsen. Bóndi á Hvallátrum 1854-1855 og 1870-1889. Bóndi í Kvígindisdal 1855-1870, sjá þar.
1880-1919
Eggert Eggertsson. Bóndi á Hvallátrum 1880-1919. F. á Stökkum 10. júlí 1845, d. á Látrum 17. júní 1931. Foreldrar: Eggert Magnússon bóndi í Keflavík Árnasonar, þá ókv. vm. í Keflavík, síðar bóndi í Saurbæ og Halldóra Ólafsdóttir bónda á Stökkum Rögnvaldssonar, síðar kona Árna bónda Jónssonar á Lambavatni.
K. 9. okt. 1880, Halldóra, f. á Sellátranesi 9. jan. 1862, d. á Látrum 17. mars 1950 Gísladóttir bónda á Sellátranesi Bjarnasonar og k.h. Kristínar Magnúsdóttur bónda í Stekkadal Bjarnasonar. Börn þeirra:
Gísli, f. 11. okt. 1881, d. nýf.
Ingibjörg, f. 16. sept. 1883, d. nýf.
Ólöf, f. 2. okt. 1885, d. 1886.
Ólöf Haflína (25.08.1889-07.06.1960), kona Ingimundar Halldórssonar bónda á Látrum.
Daníel Óskar (10.09.1890-07.02.1984), bóndi á Látrum.
Anna (15.04.1894-16.05.1961), kona Ólafs Halldórssonar bónda í Keflavík Benjamínssonar.
Sigríður (12.12.1900-17.11.1981), kona Kristjáns Sigmundssonar bónda á Látrum.
1883-1884
Ólafur Jónsson. Bóndi á Hvallátrum 1883-1884. Síðar bóndi í Króki, sjá þar.
1887-1897
Guðmundur Sigurðsson. Bóndi á Hvallátrum 1887-1897. Síðar bóndi í Vatnsdal, sjá þar, Hnjóti.
1889-1894
Ingimundur Sigmundsson. Bóndi á Hvallátrum 1889-1894. Bjó ekki annars staðar. F. á Stökkum 4. nóv. 1849, d. á Látrum 2. apríl 1894. Foreldrar: Sigmundur Ólafsson bóndi í Krókshúsum og k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 17.okt. 1889, Guðrún, f. á Látrum 27. sept. 1851, d. í Winnipeg 4. des. 1913 Össursdóttir bónda á Látrum Össurssonar og s.k.h. Guðrúnar Snæbjörnsdóttur. Einkasonur þeirra var:
Þorsteinn, f. 6. apríl 1891, fluttisti til Kanada 1911 ásamt móður sinni og mörgu skyldfólki þeirra, ókv. og bl.
Fyrir 1890-1923
Hálfdán Árnason (14.09.1852-25.03.1923), sonur Árna “rokkadraujara” Jónssonar á Lambavatni og Halldóru Ólafsdóttur. Hálfdán bjó á þurrabúð sem fylgdi Heimabæ, ásamt konu sinni Svanborgu Árnadóttur (11.07.1868-17.11.1928), dóttur Árna Thoroddsen bónda í Kvígindisdal og Júlíönu Þórðardóttur vinnukonu í Breiðuvík. Seinni maður Svanborgar var Ingimundur Guðjónsson (sjá hér á eftir). Sonur Hálfdáns og Svanborgar var:
Árni Júlíus Helgi (29.12.1901-04.07.1980)
Með Sigríði Össurardóttur (sjá Breiðavík) átti Hálfdán:
Guðmundínu Kristjönu (08.04.1876-28.08.1953).
1890-1918
Guðjón Halldórsson (23.07.1849-03.04.1918) bjó á þurrabúð sem fylgdi Miðbæ. Hann var sonur Halldórs Þorgrímssonar bónda á Láganúpi og Ingunnar Jónsdóttur.
K. Þórunn Ólöf Guðmundsdóttir (29.07.1855-02.09.1925). Börn þeirra:
Guðmundína (21.07.1878-02.02.1881)
Jón (19.11.1880-06.02.1949)
Guðmunda (10.04.1882-10.07.1882)
Ingimundur (05.01.1885-09.08.1952)
Guðmundur (26.11.1888-03.03.1889)
Þorbjörg Ágústa (12.08.1897-22.09.1972). gift Árna Árnasyni (sjá hér á eftir).
Guðjón átti einnig dóttur með Þóru Bjarnadóttur (27.07.1883-12.02.1929):
Þórey (17.04.1871-um 1914)
Þá átti hann einnig dóttur með Magdalenu Magnúsdóttur (17.09.1834-25.07.1882):
Halldóra (20.12.1873-17.01.1904)
1894-1913
Gestur Össursson. Bóndi á Hvallátrum 1894-1913? Gestur tók við þriðja hluta af Látrum eftir Guðrúnu Snæbjörnsdóttur og Ingimund Sigmundsson. Árið 1903 tók Jón Magnússon 7 hundr. (að nýju mati) eða helming af Húsum. Gestur var eftir það með aðeins tæð 3 hndr., sf því að Erlendur Kristjánsson keypti þá 4,3 hndr. Af Húsum. Árið 1911 hafði Gestur ákveðið að fara til Kanada með ýmsu skildfólki sínu, en hætti við það. Var Guðbjartur Þorgrímsson þá búinn að fá loforð fyrir jarðarhluta Gests og fékk helminginn 1911, en hitt 1913. Gestur var sonur Össurs bónda á Látrum Össurssonar og f.k.h. Valgerðar Gísladóttur. Hann var ókv., en ráðskona var á heimilinu Guðrún systir Gests, þar til hún fluttist til Vesturheims 1911.
1896-1935
Erlendur Kristjánsson (13.09.1862-20.05.1938). Bóndi á Hvallátrum (Miðbæ) 1896-1935. Fluttist þangað frá Siglunesi, svo sem Sigurður Finnbogason hafði áður gert 1860. Hann bjó á Miðbæ, sem var 14 hndr. að nýju mati, eða þriðjungur Látra. Heimabær var einnig 14 hndr., en hús 14,1 hndr. Frá 1903 hafði Erlendur 18.3 hndr. (eða 13 hndr. að fornu mati, en þá voru Hvallátur 30 hndr.). F. á Hamri á Barðaströnd 13. sept. 1862, d. á sjúkrahúsinu á Patreksfirði 20. maí 1938. Foreldrar: Kristján Jónsson bóndi á Hamri og k.h. Valgerður Jónsdóttir. Kristján var 2. maður hennar. Fyrsti var Erlendur Runólfsson prests á Brjánslæk, en sá þriðji var Jón Guðmundsson. Þau skildu og var Jón þá nokkur ár á Látrum hjá Erlendi stjúpsyni sínum. Jón var skáldmæltur vel. Áttust þeir við í ljóðum hann og Jakop Aþanasson í Gerði á Barðaströnd og var sumt það ófagurt.
K. 17. okt. 1884 Steinunn Ólafsdóttir bónda á Geirseyri Ólafssonar bónda í Dufansdal Thorlacíusar. F. á Geirseyri 14. des. 1859, d. á Látrum 12. jan. 1941. Hún var hálfsystir Ólafs bónda í Saurbæ, en mæður þeirra voru systur . Börn þeirra:
Arnfríður Thorlacíus, f. á Siglunesi 20. apríl 1885. Tvígift. Fyrri maður hennar var Trausti Traustason (bróðir Sigríðar í Breiðavík), dóttir þeirra Sigríður Steinunn kona Aðalsteins Sveinssonar bónda í Breiðavík. Seinni maður: Árni Magnússon bóndi á Hnjóti (sjá þar).
Guðrún, f. á Siglunesi (07.07.1886-18.01.1950), átti Ólaf Theodór trésmíðameistara í Reykjavík Guðmundsson. 6 börn.
Ólína Jónína, f. á Siglunesi (20.12.1887-22.03.1973), átti Jón G. Ólafsson skipstjóra, f. í Skápadal 25. apríl 1880. Faðir hans var Ólafur Jónsson bóndi í Skápadal. 3 börn.
Þórarna Valgerður, f. á Hvallátrum (05.12.1897-19.12.1981), tvígift. I Finnur Ó. Thorlacius byggingameistari í Reykjavík, sonur Ólafs bónda í Saurbæ, þau systkinabörn, skildu. 6 börn. M. II Sigurður Kristjánssn ræðismaður, Siglufirði. Bl.
Kristján, f. á Látrum 8. júlí 1899, dó af slysförum í Látrabjargi 16. júní 1926, ókv. og bl.
Sigríður Filippía (05.04.1901-23.03.1982), kona Hafliða bónda á Hvallátrum, Halldórssonar (sjá þar).
Jóna (04.02.1903-30.12.1993), kona Búa mjólkurfræðings í Reykjavík Þorvaldssonar prests í Sauðlauksdal Jakobssonar. 5 börn.
Börn Erlends Kristjánssonar og Ólafíu, f. á Sjöundá 22. júlí 1880, d. á Patreksfirði 10. maí 1952 Ásgeirsdóttir Ólafssonar og k.h. Guðrúnar Magnúsdóttur bónda á Hvalskeri Einarssonar:
Guðmundur Ásgeir 13.09.1909-23.07.1995), bóndi á Ásgarði, Hvallátrum (sjá hér á eftir).
Unnur (09.02.1915-18.05.1998), kona Guðmundar Kristjánssonar bónda í Breiðavík (sjá þar).
Bergþór, d. ungbarn 4. maí 1919.
Kristín (08.06.1920-11.04.2004), kona Jóns Óskars Guðlaugssonar bónda á Hellu í Rangárvallasýslu. 5 börn.
1898-1926
Gróa Össurardóttir (16.01.1843-28.07.1928) bjó í þurrabúð sem fylgdi Húsabæ, ásamt börnum sínum og Jóns Jónssonar (08.08.1829-01.07.1884):
Valgerður (11.11.1865-09.02.1893) óg og bl.
Guðrún (25.09.1869-??); M. Níels Kr. Björnsson (sjá Naustabrekku)
Sigríður (03.01.1875-27.02.1903) óg og bl.
Gestur Ingimar (27.09.1883-04.02.1927). Guðrún Gísladóttir (18.02.1881-11.06.1954). Gestur var fyrst húsmaður á Látrum, síðan bóndi á Sellátranesi.
1903-1937
Jón Magnússon. Bóndi á Hvallátrum (Húsabæ) 1903-1937. F. á Látrum 21. sept. 1867, d. s.st. 19. mars 1951. Foreldrar: Magnús Sigurðsson bóndi á Láganúpi og k.h. Þórdís Jónsdóttir (föðursystir Erlends Kristjánsson).
K. 16. júní 1907, Gíslína, f. á Hvalskeri 8. nóv. 1883 Gestsdóttir síðar bónda í Holti og á Skriðnafelli á Barðaströnd Gestssonar bónda á Hvalskeri Jónssonar og Guðrúnar Guðmundsdóttur bónda í Krókshusum Ólafsonar. Faðir Gíslínu var einn þeirra, sem drukknuðu, er Vigga fórst 1. maí 1897. Börn þeirra:
Jóna Halldóra (25.04.1908-12.07.1985), kona Ásgeirs Erlendssonar bónda á Látrum (sjá hér á eftir).
Þórður Jón (19.06.1910-12.07.1987), bóndi og hreppstjóri á Látrum (sjá hér á eftir).
Gestur, f. 19. sept. 1916, drukknaði af vélbát í Húnaflóa í nóv. 1940.
Herdís (19.04.1919-18.07.1976), gift Ingólfi Jónssyni. Bjuggu um tíma á Látrum.
1911-1956
Guðbjartur Þorgrímsson (22.06.1883-17.10.1956),. Bóndi á Hvallátrum (Öxarfari; Guðmundínubæ) 1911 og síðan á 2,0 hdr. f.m. F. í Breiðavík og ólst þar upp, en fluttist að Látrum 1904 og bjó þar síðan. Foreldrar: Þorgrímur Guðbrandsson kv. vm. í Breiðavík og Júlíana Þórðardóttir bónda á Sjöundá Jónssonar, vk. í Breiðavík. Þorgrímur var seinni maður Margrétar Þórðardóttur, sem áður var gift Gunnlaugi Þorleifssyni bónda í Bröttuhlíð.
K. 19. sept. 1911, Guðmundína Ólafsdóttir (18.06.1889-01.04.1980) bónda á Stökkum og Sigurbjargar Jónsdóttur bónda í Krókshúsum Bjarnasonar. Börn þeirra:
Þorbjörg Margrét (30.06.1912-05.05.2012), gift Bjarna Bjarnasyni, búsett í Reykjavík. 3 börn.
Guðjón (15.05.1916-12.11.1993), sjómaður á Patreksfirði, Gyða Jóhannesdóttir bónda í Höfðadal Kristóferssonar bónda á Brekkuvelli Sturlusonar bónda í Vatnsdal Einarssonar. 4 börn.
Hálfdán (16.06.1925-13.08.1965), sjómaður í Reykjavík.
Fóstursonur þeirra var systursonur Guðmundínu:
Árni Guðmundsson (20.11.1933-04.06.1999). I Katrín Kristjánsdóttir. 5 börn. K.II Julian Ruth Woodward.
Eftir lát Guðbjartar flutti Guðmundína til Reykjavíkur og var landið selt Þórði Jónssyni.
1917-1921
Árni Árnason (23.06.1886-27.05.1921) og Þorbjörg Ágústa Guðjónsdóttir (sjá hér framar) bjuggu á þurrabúð á Látrum í 4 ár. Börn þeirra:
Aðalheiður Lilja (09.01.1915-16.05.1924)
Jón Gísli (14.05.1917-15.11.1997)
Árni drukknaði 1921 og eftir það fór ágústa til Þórunnar Ólafar móður sinnar. Flutti síðan til Dýrafjarðar og giftist þar.
1919-1972
Daníel Eggertsson (10.09.1890-07.02.1984). Bóndi á Hvallátrum (Sæbóli) 1919 og síðan. F. á Látrum, sonur Eggerts bónda þar Eggertssonar og konu hans Halldóru Gísladóttur.
K. 16. nóv. 1919, Anna, f. í Haukadal í Dýrafirði (22.12.1895-09.06.1987) Jónsdóttir Eggertssonar bónda í Saurbæ Magnússonar. Jón og Eggert faðir Daníels voru hálfbræður. Möðir Önnu var kona J.E. Guðrún Ágústína Sigurðardóttir, f. í Gerðhömrum í Dýrafirði 30. ágúst 1863, d 20.05.1956. Þau barnlaus, en tóku til fósturs og ólu upp:
Jón Guðmundur Óskarsson (05.08.1918-23.10.1942), ókv, bl. Sonur Jónasar Óskars Þorsteinssonar og Sigríðar Guðmundsdóttur.
Gyða Guðmundsdóttir, f 16.06.1948, Kristjánssonar í Vatnsdal og Unnar Erlendsdóttur. M. Marías Sveinsson. 3 börn.
1919-1968
Kristján Sigmundsson (06.09.1889-04.11.1976). Bóndi á Hvallátrum (Heimabæ) 1919 og síðan. F. á Hvalskeri, sonur Sigmundar bónda þar Hjálmarssonar og k.h. Ingibjargar Einarsdóttur.
K. 4. nóv. 1920, Sigríður Eggertsdóttir (12.10.1900-17.11.1981) bónda á Látrum og k.h. Halldóru Gísladóttur. Börn þeirra:
Ragnheiður 20.07.1917-22.04.1982).
Gísli (21.04.1921-01.10.2011), kona Þorbjörg Magnúsdóttir, f. 26. nóv. 1914 í Gvendarkoti í Ásahreppi. Búsett í Reykjavík. 3 börn.
Ingibjörg Kristín (08.05.1923-12.09.2005). I Karl Leví sjómaður á Patreksfirði, Jóhannessonar bónda í Höfðadal í Tálknafirði Kristóferssonar. 4 börn. M.II Leifur Jónsson.
Eggert Halldór, f. 7. des. 1925, póstþjónn í Reykjavík.
Hulda, f. 24. des. 1926, kona Knúts Kristjánssonar, f. á Þingeyri 13. júlí 1926, búsett í Hafnarfirði. 4 börn.
Sigurður Ágúst (01.08.1929-26.02.2011). Svala Aðalsteinsdóttir. 4 börn.
Arndís Guðrún, f. 14. apríl 1931. M. Valtýr Eyjólfsson frá Lambavatni. 4 börn.
Kristín Hrefna (27.12.1932-03.09.2017). Ragnar Þorsteinsson. 4 börn.
Einar Sigmundur (04.10.1936-08.02.2017). K. Sólrún Gestsdóttir. 2 börn.
Jóna Margrét, f. 29. nóv. 1941. M. Hörður Alfreðsson. 3 börn.
1919-1954
Ingimundur Halldórsson (11.04.1879-29.05.1959). Bóndi á Hvallátrum (Heimabæ) 1919-1954. F. á Stökkum, sonur Halldórs Benjamínssonar, síðar bónda í Keflavík og Ingibjargar Árnadóttur bónda á Lambavatni.
K. 9. sept. 1916, Ólafía Haflína Eggertsdóttir (25.08.1887-07.06.1960) bónda á Látrum Eggertssonar og k.h. Halldóru Gísladóttur. Börn þeirra:
Ingibjörg (08.08.1918-10.12.1999), kona Helga Elíassonar bónda á Hvallátrum (sjá hér á eftir).
Gróa, f. 9. des. 1930, hjúkrunarkona í Reykjavík. M. Þór Pálsson Þormar.
1932-1933
Hafliði Halldórsson (06.09.1899-05.07.1987). Bóndi á Hvallátrum (Miðbæ) 1932-1933 og 1935-1950. Fluttist að Neðri Tungu, en þar hóf tengdasonur hans, Árni Helgason, búskap. Hafliði bjó í Breiðavík 1931-1935, en eitt þeirra ára bjó hann einnig á Látrum og var búsettur þar. F. í Keflavík, sonur Halldórs Benjamínssonar og k.h. Önnu Jónsdóttur bónda í Keflavík Gíslasonar. Síðar bjó Hafliði á Patreksfirði og stundaði smíðar.
K. 14. ágúst 1926, Sigríður Filippía Erlendsdóttir (05.04.1901-23.03.1982) bónda á Látrum Kristjánssonar og k.h. Steinunnar Ólafsdóttur. Börn þeirra:
Anna, f. á Hvallátrum (29.06.1927-19.08.2017), kona Árna Helgasonar bónda í Neðri Tungu (sjá þar).
Erla, f. á Hvallátrum 3. sept. 1930, kona Kristján sjómanns á Patreksfirði Jóhannessonar bónda í Höfðadal Kristóferssonar bónda á Brekkuvelli Sturlusonar. 7 börn.
Ólöf Þórunn, f. í Breiðavík 16. apríl 1932. M. Þórður Guðlaugsson. 4 börn.
1938-1984
Þórður Jónsson (19.06.1910-12.07.1987). Bóndi á Hvallátrum (Húsabæ) 1938 og síðan. Formaður slysvarnadeildarinnar Bræðrabandsins. F. á Látrum, sonur Jóns bónda þar Magnússonar og k.h. Gíslínu Gestsdóttur.
K. 23. des. 1933, Sigríður Ólafsdóttir (31.01.1908-20.07.1981) bónda í Vatnsdal Einarssonar Thoroddsen og k.h. Ólínu Andrésdóttur. Börn þeirra:
Haukur, f. í Vatnsdal 21. okt. 1934. Bóndi á Hvallátrum (sjá hér á eftir).
Hrafnkell, f. í Vatnsdal 1. des. 1935. Helga Stefánsdóttir. 4 börn.
Ragna, f. á Patreksfirði 1938, d. á 1. ári 1939.
Ragna Gestný, f. á Látrum 24. febr. 1941. Kristján Þorkelsson. 3 börn.
Drengur andvana fæddur 19.01.1953.
1934-1995
Ásgeir Erlendsson (13.09.1909-23.07.1995). Bóndi á Hvallátrum (Ásgarði) 1934 og síðan. Sonur Erlendar Krisjánssonar bónda á Látrum og Ólafíu Ásgeirsdóttur.
K. 9. des. 1933, Jóna Halldóra Jónsdóttir (25.04.1908-12.07.1985) bónda á Látrum Magnússonar og k.h. Gíslínu Gestsdóttur. Börn þeirra, tvíburar:
Gróa Sigurveig (25.05.1937-23.06.1995). Fötluð frá fæðingu; alltaf búsett á Hvallátrum.
Guðbjört Þórdís, (25.05.1937-22.06.2012). Bóndi á Hvallátrum (sjá síðar)
1950-1955
Ingólfur Jónsson (06.01.1912-06.01.1971). Bóndi á Hvallátrum (Miðbæ) 1950-1955 ásamt konu sinni Herdísi Jónsdóttur Magnússonar frá Húsabæ, Látrum (sjá framar).
Hinn 15. nóvember 1954 brann íbúðarhúsið í Miðbæ. Ingólfur og Herdís fengu um tíma inni annarsstaðar á Látrum áður en þau brugðu búi. Miðbæjarjörðin var eftir það nytjuð af öðrum býlum á Látrum.
1950-1960
Helgi Elíasson (18.04.1917-04.10.1978). Bóndi á Hvallátrum (Heimabæ) frá 1950. F. á Vaðli á Barðaströnd. Foreldrar: Elías Ingjaldur Bjarnason bóndi á Vaðli, f. á Siglunesi 16. ágúst 1888 og k.h. Elín Kristín Einarsdóttir, f. í Görðum í Önundarfirði12. júlí 1883.
K. 25. sept. 1944, Ingibjörg Ingimundardóttir bónda á Látrum Halldórssonar og k.h. Ólafar Eggertsdóttur. Börn þeirra:
Jóna Guðmunda, f. 18. nóv. 1942. M. Pálmi Hlöðversson. 3 börn.
Barði, f. 7. júní 1945. K. Oddný Erla Valgeirsdóttir; skildu. 4 börn. Samýliskona Aldís Emilía Gunnlaugsdóttir. 2 börn.
Ingólfur, f. 25. apríl 1948. Sólveig Elísabet Jónsdóttir. 3 börn.
Halldóra, f. 6. maí 1950. Friðrik E. Hafberg. 3 börn.
Elías Ingjaldur f. 08.07.1952. K. Freydís Sjöfn Magnúsdóttir. 5 börn.
Gestur f. 13.10.1954. Kristjana Ólöf Fannberg. 3 börn.
Valur f. 02.08.1956. Halldóra Kristín Emilsdóttir. 3 börn.
Elín Kristín f. 07.04.1959. Barn með Rafni Þorvaldssyni. Sveinn Svavar Gústafsson. 2 börn.
Stefnir f. 20.03.1961. K. Unnur Ólafsdóttir. 1 barn.
Barn Ingibjargar Ingimundardóttur með Björgólfi Sigurðssyni áður en hún giftist:
Þórunn, f. á Melanesi 10. júlí 1938. I Gauðmundur Svan Ingimarsson; skildu. 1 barn. Barnsfaðir Einar Sigurðsson. M.II Ragnar Halldórsson. 2 börn.
Helgi átti barn með Sigurbjörgu Sigurbjörnsdóttur Guðjónssonar frá Hænuvík:
Ólafía Sigrún f. 20.10.1960. M. Guðmundur Ólafur Halldórsson. 5 börn.
1930-1962
Ólafur Halldór Halldórsson (01.09.1893-29.11.1965). Bóndi á Látrum (Gimli) um 1930 og síðan. F. í Keflavík, sonur Halldórs bónda þar Benjamínssonar og k.h. Önnu Jónsdóttur, albróðir Hafliða bónda á Látrum og hálfbróðir Ingimundar bónda s.st.
K. 6. mars 1926, Anna Eggertsdóttir bónda á Látrum Eggertssonar og k.h. Halldóru Gísladóttur. Börn þeirra:
Björg (06.11.1927-26.03.1994), kona Magnúsar (09.06.1928-30.08.2004) lögregluþjóns í Reykjavík, f. á Patreksfirði Guðmundssonar Guðmundssonar og Ingibjargar Magnúsdóttur bónda á Hnjóti Árnasonar. 5 börn.
Halldór Ólafsson (15.11.1932-09.03.2010). Adda Sigurlína Hartmannsdóttir. 6 börn.
1995-2000?
Guðbjört Þórdís (Stella) Ásgeirsdóttir (25.05.1937-22.06.2012) og Aðalsteinn Guðmundsson (14.07.1936-01.05.2005) frá Otradal í Arnarfirði. Stella var dóttir Ásgeirs Erlendssonar bónda á Ásgarði Hvallátrum. Hún flutti aftur að Hvallátrum 1985 eftir að hafa búið í Reykjavík, til að annast heimilið eftir fráfall móður sinnar. Þau Aðalsteinn tóku síðan við búskapnum eftir lát föður hennar og voru síðustu bændur á Hvallátrum, en dvöldu á Patreksfirði síðustu æviár sín.
Þó búskap sé lokið á Hvallátrum er þar mikil byggð sumarhúsa í eigu fólks sem flest á ættir að rekja til staðarins. Einn þeirra flutti heimili sitt aftur á uppeldisslóðirnar á síðustu árum; Kristinn Guðmundsson f. 16.07.1948 Kristjánssonar í Vatnsdal; uppeldissonur Ásgeirs Erlendssonar í Ásgarði. Kristinn starfaði áður sem trésmiður á höfuðborgarsvæðinu en hann hefur lengi stundað grenjavinnslu í Rauðasandshreppi.
Básar
(? – 1349)
Svo heitir svæði í Seljavík, norður við Brunnanúp. Þar er lítið graslendi á bökkunum, neðan Seljadals. Gísli Konráðsson sagnaritari segir að þarna hafi til forna verið býlið Básar, en það hafi farið í eyði í svartadauða, um 1349. Undir þetta tekur séra Gísli Ólafsson í sóknarlýsingum sínum árið 1852. Gísli Konráðsson nefnir munnmælasögn um að á hverjum jólum hafi ungmær eða yngissveinn verði burt heilluð frá Básum. Aðrar heimildir er ekki að hafa um byggð í Básum, og verður ekki frekar um hana fullyrt.
Nafnið Breiðavík er lýsandi nafn fyrir staðinn. Fjallið vestan hennar nefnist Breiður, en óvíst er að annað dragi nafn af hinu; bæði standa fyllilega undir nafni. Ekki er ólíklegt að upphaflega hafi hann haft sömu endingu og nálægir núpar og nefnst Breiðinúpur, sem í tímans rás hafi styst. Ritun nafnsins hefur verið með tvennu móti; að minnsta kosti á síðari tímum. Annarsvegar er það Breiðavík í öllum fallbeygingarmyndum eða það er fallbeygt; Breiðavík - um Breiðuvík - frá Breiðuvík - til Breiðuvíkur. Vefsíðuritari (Valdimar Össurarson frá Láganúpi) hefur hér hallast að beygjanlegu myndinni; að víkin taki nafn af breidd sinni og því sé um samsett lýsingar- og nafnorð að ræða. Sú mynd er líklega algengari í ýmsum síðari tíma ritum og sækir á. Hinsvegar er beygingarlausa myndin, með a í öllum föllum, mjög hefðbundin og fyllilega réttmæt í því ljósi, þó erfiðara sé að finna henni málfræðileg rök. Má t.d. sjá að Trausti Ólafsson úr Breiðavík, aðalhöfundur þessarar skrár, notar þá mynd. Það gera einnig fleiri sem þar ólust upp, s.s. Ólafur Guðmundsson í sínum bókum. Sú mynd er notuð af Árna Magnússyni í Jarðabókinni frá 1703. Þá eru örnefni í þeirri mynd, s.s. Breiðavíkurbjarg; Breiðavíkurver og Breiðavíkurháls. Hér vegast því annarsvegar á hefðin og hinsvegar málfræðileg rök. Hvorttveggja má rökstyðja.
Jarðabókin 1703 “30 hdr. Þar er hálfkirkja og er þar embættað tvisvar á ári. Hefur prestur þar fyrir af kirkjujarðarinnar eignarmanni ei nema 6 álnir (eins og af bænhúsum plagast eftir dómi hr Odds). Skulu þar hafa verið 2 kirkjukúgildi; nú úr fallin. Eignarmaður jarðarinnar er sr Páll Björnsson. Ábúendur Jón Pálsson, Jón Bjarnason, Guðmundur Bjarnason; sinn á hverjum 10 jarðarhdr. Landskuld sérhver 5 vættir. Betalast með fiski á eyri og peningum með dönskum taxta. Við til húsa leggur landsdrottinn Leigukúgildi 10 1/3 (3 ½ hjá hverjum). Leigur betalast með fiski og peningum eins og landskuldin. Ásauðarkvígildin uppyngja leiguliðar (kýrnar landsdrottinn); þó er það ei áskilið. Kvaðir engar.
Kvikfjenaður er þar: Hjá Jóni Pálssyni, kýr 4; ær 17; geldir sauður 4; gemlingar 7; hestur 1; hross 1. Hjá Jóni Bjarnasyni, kýr 3; kvíga 1; ær 19; geldir sauðir 6; gemlingar 7; hestur 1; 1 hross. Hjá Guðmundi Bjarnasyni, kýr 3; kvíga 1; ær 26; geldir sauðir 6; gemlingar 2; hestur1; hross 1. Þar kann að fóðrast kýr 8; lömb 12. Fullorðnu fje er þar útigangur ætlaður í fjöru en aldri hey. Hestum útigangur eins. Heimilismenn eru hjá Jóni Pálssyni 5; hjá Jóni Bjarnasyni 9; hjá Guðmundi Bjarnasyni 7.
Silungsveiði hefur þar verið í stöðuvatni, en er nú í burtu, því vatnið er fyld með sand. Grastekja lítil á fjöllum. Egg og fugl eru nóg í Bjarnarnúp (Látranúp) en þángað er nú mesta mannhætta að ganga og síga. Hrognkelsafjara hefur þar verið, nú að nokkru gagni. Fjörugrös eru þar lítil. Bjöllur eru þar nokkrar, og ætiþang í nauðsyn. Útigangur í fjöru fyrir sauðfé er þar í betra lagi. Fjörufall grandar þar fje á stundum. Kirkjuvegur til Saurbæjar er þingmannaleið, og vondur. Sandur fýkur þar á engjar og haga. Reki var góður meðan rak. Heimræði er þar á sumur. Á vor um vertíð liggja búendur þar við búðir, langt frá bænum. Stundum hefur þar á vor eitt aðtökuskip verið, aldri fleiri. Búðir þessar eru 4 nú. Eina þar af brúkar þetta aðtökuskip, þá þar gengur, og sú fyrst bygð í fyrra. Hinar 3 brúka búendur; sinn hverja. Þar ganga nú 3 skip. 1) aðtökuskipið sem fyrr skrifað er; 3ja manna far. 2) og 3) eiga búendur; 4ra manna og 3ja manna far. Af aðtökuskipinu geldst hálfvættartollur eftir hvern mann, og sendist landsdrottni í peningum með dönskum taxta. Búðina hefur landsdrottinn og inntökuskipseigandinn bygt að helmingi til viðar. Ábúendur gjalda engan toll fyrir sína háseta (þ.e. þeirra eigin vinnufólk sem róa á bátunum), nema ef það reiknast í með landskuldinni (sem þeir þó ei vita). Lóðir brúkast þar ei sökum strauma, hrauna og brims áhlaupa. Hospítalsfiskar skiftast þar. Segl fylgir skipunum. 1 skiphlutur. Lending góð”.
Barðstrendingabók PJ “Austnorðan við Bjarnarnúpinn tekur svo Breiðavík við. Þar eru tveir bæir, er þar kirkjustaður; annexía frá Sauðlauksdal. Þar er og bréfhirðing. Eiga þangað kirkjusókn Útvíkur allar ásamt Keflavík… Vestan undir Breiðnum er fornt eyðibýli er hét að Stekk”.
------------------------
Borgar hét maður, sem kom vestur með séra Gísla Jónssyni í Selárdal, var skyldur honum. Drukknaði fyrir Lokinhömrum á farmskipi Eggerts lögmanns Hannessonar. Borgar hefur verið fullorðinn 1546 (f. um 1520?). Sonur Borgars var Gunnar. Kemur við skjöl 1604. Gunnar Borgarsson gat verið fæddur um 1550. Kona hans var Kistín Ketilsdóttir. Synir þeirra voru Borgar og Páll, báðir bændur í Breiðavík. Gátu verið fæddir um 1580.
Líklegt er að Gunnar hafi komið að Breiðavík um 1598 sbr.ummæli Páls sonar hans hér á eftir, og hafi búið þar, en synir hans tekið við af honum.
- öld
Páll Gunnarsson. Bóndi í Breiðavík á fyrri hluta 17. aldar. F. um 1586.
K. Guðrún eldri Gottskálksdóttir á Geirseyri Sturlusonar í Laugardal í Tálknafirði Eyjólfssonar. Kona Gottskálks var Giríður Árnadóttir prests á Þingvöllum og Vigdísar. Börn þeirra:
Borgar, átti Guðrúnu Jónsdóttur Ívarssonar.
Bjarni, átti Salgerði Jónsdóttur Hafliðasonar.
Gunnlaugur, veiktist, átti Helgu dóttur Egils á Geirseyri Bjarnasonar prests í Selárdal og Jórunnar Ólafdóttur
Guðrún, átti Jón stóra í Tungu í Örlygshöfn Jónsson murta Jónssonar og Guðrúnar Björnsdóttur Konráðssonar. Börn þeirra eru í Tungu 1703: Andrés bóndi 54. ára, Guðrún 56. ára, Guðrún önnur 42. ára, Elín 46.
Giríður, átti Jón son Þórðar Jónssonar og Sigríðar Diðriksdóttur (systir Lassa, sem brenndur var 1675).
- öld
Borgar Gunnarsson. Bóndi í Breiðavík á fyrri hluta 17. aldar, drukknaði þaðan.
K. Guðrún yngri Gottskálksdóttir systir Guðrúnar sem átti Pál bróður Borgars. Börn þeirra:
Árni, sigldi til Danmerkur frá Vatneyri og var erlendis í eitt ár. Fyrri kona hans hét Guðrún og voru börn þeirra; Jón, Borgar og Steinunn. Seinni kona Árna var Guðlaug Jónsdóttir frá Skarðsströnd, systir Indriða hreppstjóra þar. Börn þeirra voru Guðrún og Björg.
Valgerður, átti Ögmund son Jóns Andréssonar í Arnarfjarðardölum.
Sesselja, átti fyrr Torfa Andrésson. Börn þeirra voru; Borgar, Pétur og Guðrún, sem átti Pétur Loptsson (lrm. 357), Hallssonar. Síðar átti Sesselja Lopt lrm. Hallsson.
Þorgerður, átti Jón son Odds í Kollsvík. Jón drukknaði 1758 og tveir með honum, en sonur hans Gunnar komst af, ekki er ólíklegt að dóttir hans hafi verið Salvör Gunnarsdóttir kona Ólafs Jónssonar bónda á Láganúpi (Hólum) 1703, fædd um 1760. Kona Gunnars var Giríður dóttir Bjarna og Þorgerðar Sigurðardóttur.
Sigríður, átti Dag Jónsson Indriðasonar. Börn þeirra: Böðvar átti Helgu dóttir Jakobs Lassasonar, sour þeirra Bjarni, f. 1676 vm. á Hlaðseyri 1703. Guðrún, f. um 1745 átti Þormóð, f. um 1630 Jónsson. Sonur þeirra var Jón, f. 1672, bóndi á Hlaðseyri 1703, átti Hallbjörgu Jónsdóttur. Dóttir þeirra Guðrún, f. 1702. Helga, f. um 1653 átti Grím, f. um 1653 bóndi í Raknadal 1703 Halldórsson. Börn þeirra voru: Jón eldri, f. 1687, Jón yngri, f. 1688, Jórunn, f. 1691, Ragnheiður, f. 1693 og Þorgerður, f. 1695.
- öld
Páll Bjarnason. Bóndi í Breiðavík á ofanverðri 17. öld, líklega fram yfir 1690. F. um 1635, d. eftir 1703, en þá er hann í Breiðavík „húsmaður hjá börnum sínum“. Foreldrar: Bjarni Arnórsson prestur í Dýrafjarðarþingum, d. 1656 og k.h. Ragnhildur Rafnsdóttir Sigurðssonar.
K. Ingveldur, f. um 1633, d. eftir 1703, Þórðardóttir. Börn þeirra
Þorbjörn, bóndi í Kvígindisdal.
Guðbjörg, kona Guðmundar Bjarnasonar bónda í Breiðavík.
Sigríður, kona Jóns Bjarnasonar bónda í Breiðavík.
Ingibjörg, kona Tómasar Jónssonar bónda í Krossadal.
Jón, bóndi í Breiðavík.
og e.t.v.
Sesselja, um 1675, vinnustúlka í Breiðavík 1703.
1703
Jón Pálsson. Bóndi í Breiðavík 1703. F. um 1670. Foreldrar: Páll Bjarnason bóndi í Breiðavík og k.h. Ingveldur Þórðardóttir.
K. Halla Jónsdóttir prests á Lambavatni Ólafssonar, f. um 1676. Árið 1703 eiga þau eina dóttur:
Elín 4 ára.
1703
Guðmundur Bjarnason. Bóndi í Breiðavík 1703. F. um 1656.
K. Guðbjörg, f. um 1664 Pálsdóttir bónda í Breiðavík Bjarnasonar. Börn þeirra:
Jón 14 ára.
Guðrún 13 ára.
Ingunn 8 ára. Þetta mun vera sú Ingunn, sem átti Erling Bjarnason bónda í Breiðavík, en nefnd er í ættartölum Ingunn Þorsteinsdóttir úr Breiðavík.
1703
Jón Bjarnason. Bóndi í Breiðavík 1703. F. um 1656. Foreldrar: Bjarni, sem er hjá Jóní í Breiðavík 1703, f. um 1632 Narfason og Álfheiður Sigmundsdóttir bónda í Fagradal Gíslasonar. Álfheiður varð þunguð eftir Bjarna meðan hún sat í festum við séra Árna Loftsson frá Sælingsdalstungu. Þau eru talin hafa gifst 1657. Í sögnum er talið að Bjarni hafi verið unglingur, er þetta skeði, en eftir aldri þeirra feðganna 1703, hefði Bjarni átt að vera 24 ára gamall, þegar Jón fæddist. Verður því að telja það ranglega borið á Álfheiði, að hún hafi lagt lag sitt við ungling, þar sem Bjarni var.
K. Sigríður, f. um 1665 Pálsdóttir bónda í Breiðavík Bjarnasonar. Börn þeirra 1703:
a) Þórður 11 ára, síðar á Haukabergi á Barðaströnd, lögréttumaður. Kona hans var Ingibjörg Aradóttir bónda í Hvammi á Barðaströnd Bjarnasonar. Meðal barna þeirra voru þær Vigdís kona Magnúsar Þorvarðssonar á Hnjóti og Sigríður kona Gunnlaugs Gíslasonar í Raknadal.
Guðrún eldri 6 ára, átti Jón Einarsson hrekk í Æðey.
Guðrún yngri 3 ára.
1735
Erlingur Bjarnason. Bóndi í Breiðavík 1735. F. 1693, d. fyrir 1750. Foreldrar: Bjarni Jónsson bóndi í Kollsvík og k.h. Sigríður Einarsdóttir.
K. Ingunn Guðmundsdóttir bónda í Breiðavík Bjarnasonar. Börn þeirra:
Guðmundur 57 ára á Geitagili 1780, ókv. og bl.
Salgerður gift 1750 Jóni Bjarnasyni, áttu börn.
Guðbjörg gift fyrir 1750 Sigurljóti Jónssyni, áttu börn.
Árni, d. 1779 50 ára kvæntist ekki, en sonur hans og Guðríðar Þórðardóttur var Árni, f. 1763.
Ólafur bóndi á Geitagili og Hvallátrum.
Bjarni bóndi í Kvígindisdal.
Einar, sem Gísli Konráðsson segir að hafi verið einn af 6 sonum Erlings og dáið kvæntur á Grænlandi.
Ekki er vitað, hver verið hefur 6. sonurinn. Af Ólafi og Bjarna, Erlingssonum, er komið margt fólk.
1735
Ásbjörn Þorfinnsson. Bóndi í Breiðavík 1735. F. 1697, launsonur Þorfinns Ólafssonar bónda á Sellátrum 1703. Ókunnugt er um móður Ásbjarnar og sömuleiðis um konu hans. Meðal barna Ásbjarnar mun hafa verið:
Þorfinnur, f. um 1728, bóndi á Arnarstapa í Tálknafirði 1762. Kona hans var Guðný Jónsdóttir, f. um 1720. Meðal barna þeirra voru Ólöf, f. 1758, Guðrún, f. 1760 kona Bjarna Jónssonar í Litla-Laugardal 1801, og Gunnhildur, f. 1770 kona Sigurðar Þórðarsonar á Sveinseyri.
um 1762-um 1795
Egill Brandsson. Bóndi í Breiðavík mest af síðari hluta 18. aldar. Býr þar 1762, 1780, 1782 og til dauðadags. F. um 1715, d. líklega um 1795. Foreldrar: Brandur bóndi á Þórólfsstöðum í Dalsýslu 1703 Egilsson bónda á Kollsstöðum 1703 Brandssonar og s.k. Egils Oddný Árnadóttir frá Hömrum í Þverárhlíð (sennilega sú, sem er á Háreksstöðum í Norðurárdal 1703, 20 ára). Fyrri kona Brands var Guðrún Sigurðardóttir. Þau eignuðust 8 börn, sem dóu öll ung. Með Oddnýju er talið að ætti einnig 8 börn. Eitt þeirra var Guðrún móðir Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík.
K. um eða fyrir 1745, Guðrún Þorvarðsdóttir prests í Sauðlauksdal Magnússonar. Börn þeirra dóu ung nema:
Þorvarður, sem drukknaði frá Breiðavík 25 ára gamall 1772, ásamt 5 öðrum. Einn komst af. Hann hét Jón Jónsson, kallaður Saltari, af því að hann vann við saltverkið á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, bjó 1801 í Múla í Gufudalssveit, tvíkvæntur.
Guðrún var jafngömul og Egill og lifði mann sinn, en hefur dáið rétt fyrir 1800.
um 1740
Össur Grímsson. Bóndi í Breiðavík líklega um 10 ára skeið, fyrir og eftir 1740. F. 1703, d. fyrir 1750. Foreldrar: Grímur fálkafangari í Brokey Jónsson, Össurssonar lögsagnara Jónssonar (Grímur var því bróðir Gunnlaugs lrm. Í Kvígindisdal og Þorsteins hreppstjóra í Keflavík) og k.h. Margrét Jónsdóttir.
K. um 1736 (eða e.t.v. fyrr), Guðrún, d. 1774 67 ára gömul Sveinsdóttir. Guðrún er ekkja búandi í Breiðavík 1762 og ég tel víst að hún hafi verið móðir þeirra Össurs barna, sem eru búandi í Rauðasandshreppi á seinni helmingi 18. aldar og öll fermd í Saurbæjarsókn. Ennfremur er það tilgáta mín að faðir þeirra hafi verið fyrrnefndur Össur Grímsson, en engar beinar sannanir eru um það. Börnin voru þessi:
Solveig, f. um 1737, kona Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík.
Jón, f. um 1738, d. 1757.
Guðrún, f. um 1739, kona Steins Þorsteinssonar á Grundum.
Sveinn, f. um 1745, ókv. í Breiðavík 1780, d. þar 1784.
Björn, f. um 1746, bóndi í Breiðavík, seinast á Melanesi.
um 1750-um 1765
Guðrún Sveinsdóttir. Hún mun hafa búið í Breiðavík frá því fyrir 1750 og þar til um 1765. Ekkja Össurs Grímssonar, sjá næstu grein á undan.
um 1765-um 1806
Sigurður Jónsson. Bóndi í Breiðavík líklega frá því að hann kvæntist 1765 og til dauðadags líklega 1806. F. um 1740. Foreldrar: Jón Sigurðsson Ólafssonar og k.h. Guðrún Brandsdóttir alsystir Egils bónda í Breiðavík. Sigurður faðir Jóns er líklega sá S. Ól. sem er 30 ára í Hjarðarholti í Dölum 1703. Kona hans var Gyríður 31 árs á Lambastöðum í Laxárdal 1703, Bessadóttir bónda s.st., Hallssonar og k.h. Guðrúnar Arnbjarnardóttur. Þrjú systkini Sigurðar fluttust einnig vestur: Jón bóndi á Láganúpi, Gyríður kona Jóns Jónssonar á Láganúpi og Þórlaug kona Magnúsar Björnssonar í Króki. Sigurður var tvíkvæntur. (Sigurður hlaut viðurnefnið "fljóti" vegna úthalds og gönguhraða. Sagt var að hann hafi á einum Þorláksmessudegi gengið úr Breiðavík á Vatneyri og til baka með 30 punda byrði, um 100 km leið; innsk.VÖ).
K. I 1765, Solveig Össursdóttir, sjá undanfarandi greinar, d. um 1790. Börn þeirra:
Bjarni, f. 1766, bóndi í Breiðavík.
Össur, f. 1768, bóndi í Breiðavík, seinast í Stekkadal.
Jón, f. 1769, á lífi 1780, líklega d. fyrir 1801.
Guðrún eldri, f. 1771, f.k. Gunnars Höskuldssonar bónda í Keflavík.
Elín, f. 1772, hefur líklega dáið ungbarn.
Guðrún yngri, f. 1773, átti Jón Jónsson bónda á Mábergi 1817.
Ingibjörg, d. 1777.
Þorvarður, f. 1777, ókv. og bl., 1817 í Breiðavík.
Helga, f. 1779, ekki á manntali 1801.
K. II (skömmu eftir) 1790, Gunnhildur Þorgrímsdóttir bónda í Keflavík 1762. Börn:
Þorgrímur, f. 1794, bóndi í Breiðavík.
Bjarni, f. 1796, bóndi í Breiðavík.
Sigurður, f. 1798, bóndi á Vaðli á Barðaströnd, smiður og annálaður kraftamaður, d. í Hænuvík, sjá Ingibjörg Sigurðardóttir kona Sigurðar Gíslasonar í Botni. (Afkastamikill bátasmiður og bar ýmist viðurnefnin "Breiðvíkingur"; "sterki" eða "bátasmiður". "SS var á seinustu öld kunnur bátasmiður í verstöðvunum norðan Látrabjargs og í Patreksfirði. Hann lést í hárri elli 1885 og hafði smíðað um 300 báta að talið er. (LK; Ísl.sjávarhættir II, frás ÓETh Vatnsdal). Þjs Jóns Árnas. segja frá viðureign Sigurðar við draug á Hjallasandi er hann var þar til vers; innsk. VÖ).
um 1773-1781
Björn Össursson. Bóndi í Breiðavík líklega um 1773-1781, fluttist þá að Melanesi og dó þar 1. nóv. 1783. F. líklega í Breiðavík 1746. Faðir hans: Össur Grímsson bóndi í Breiðavík, sjá að framan.
K. 1773, Þórunn, f. 1752 Ólafsdóttir Bjarnasonar og k.h. Kristínar Þórðardóttur. Ekki er víst, hvar sá Ólafur kann að hafa búið, en hann kvæntist í Saurbæjarsókn 1751, og dó ungur 1. júní 1755. er því eins líklegt að hann hafi hvegi verið orðinn bóndi. Það er líklega Kristín ekkja Ólafs, sem er í Breiðavík 1780 hjá Birni og Þórunni, talin 48 ára, en Þórunn 28, sem rétt er, með því að hún er fædd 1752. Systir hennar var Guðrún, f. 1754, ekki á manntali 1780. Börn Björns og Þórunnar voru:
Ólafur, f. 1775, dó ársgamall.
Eyjólfur, d. ungbarn 1776.
Guðrún, f. í Breiðavík 26. mars 1778, d. í Gröf 20. jan. 1855, hjá dóttur sinni Elínu Bjarnadóttur konu Magnúsar Ólafssonar.
Kristín, f. í Breiðavík 1. mars 1779, sjá Benjamín Magnússon bónda í Bröttuhlíð.
Björn, f. á 1. ári 1781.
Eyjólfur, f. 29. júlí 1782, d. 27. ágúst1827. Kvæntist Margréti Pálsdóttur, þau bl. Sjá Kristján Pálsson bónda á Hvalskeri.
Þórkatla, f. 27. jan. 1784, óg. í Hænuvík 1817.
1730
Björn Magnússon. Bóndi í Breiðavík fyrir og eftir 1730. F. um 1704, d. 1773. Síðar bóndi í Miðhlíð (a.m.k. frá 1734). Foreldrar. Magnús sýslum. Björnsson að Arnarstapa (Sm III 184) og k.h. Þórunn Einarsdóttir prests á Reykjanesi Torfasonar. Dóu bæði í bólunni 1707. Gekk í Skálholtsskóla og í þjónustu Odds lögmanns 1724.
K. Guðrún Einarsdóttir frá Kinnarstöðum. Áttu mörg börn. Meðal þeirra var:
Þórunn, er átti Ásgrím Þorkelsson í Tungumúla á Barðaströnd.
1795-
Guðrún Þorvarðsdóttir, ekkja Egils Brandssonar bónda í Breiðavík. Hún hefu líklega veitt búinu forstöðu eftir að maður hennar dó, en varla nema 1-2 ár eða svo, með því að hún var orðin háöldruð. Hún er á lífi í Breiðavík 1801, en hefur dáið eitthvert næstu ára.
1795-1799
Bjarni Einarsson. Bóndi í Breiðavík 1795-1799. Fyrrum sýslumaður í Barðastrandarsýslu. F. á Vatneyri um 1746, d. 3. maí 1799. Foreldrar: Einar Bjarnason bóndi í Kollsvík 1735, síðar í Kvígindisdal en lengst á Vatneyri, en þar er Bjarni talinn fæddur, og k.h. Kristín Þorvaldsdóttir prests í Sauðlauksdal Magnússonar. Lauk embættisprófi í lögum 1775. Varð sama ár umboðsmaður Davíðs Schevings sýslumanns í Barðastrandarsýslu og fékk sýsluna 1781. Lausn frá embætti 1788.
K. 1777, Ragnheiður Davíðsdóttir sýslumanns Schevings. Þau skildu 1791. Sonur þeirra:
Guðmundur sýslumaður Scheving, síðar kaupmaður í Flatey.
Bjarni bjó fyrst í Haga. Var í Flatey 1791-1795. Kristín móðir Bjarna var systir Guðrúnar konu Egils í Breiðavík Brandssonar. Bjarni tók við búi hjá móðursystur sinni og hefur e.t.v. eignast hennar hlut í jörðinni (í Sm. II 140 er Breiðavík talin eignarjörð Bjarna, en það kann að hafa verið missögn).
um 1796-1821
Bjarni eldri Sigurðsson. Bóndi í Breiðavík um 1796-1821. F. 5. okt. 1766, d. í Breiðavík 13. sept. 1821. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Breiðavík og f.k.h. Solveig Össursdóttir.
K. um 1796, Þorkatla Leifsdóttir bónda í Vatnsdal 1780, Snorrasonar. Börn þeirra:
Solveig, f. 1797, kona Torfa Bjarnasonar bónda á Naustabrekku.
Sigríður, f. 1804, móðir Jóns yngri Eggertssonar bónda í Kollsvík Jónssonar, giftist ekki.
Guðrún eldri, f. 25. febr. 1806, óg vk. á Sveinseyri í Tálknafirði 1845. Það er líklega hún, sem var móðir Gunnlaugs Björnssonar bónda á Grundum 1861-63.
Guðrún yngri, f. 15. febr. 1808. Það mun vera hún, sem gift er Einari Símonssyni bónda í Holtsfit á Barðaströnd 1845. Þau eiga 3 dætur: Ingibjörgu 5 ára, Maríu 3 ára og Karólínu 2 ár.
Guðbjörg, f. 27. nóv. 1813, kona Jóns Gíslasonar bónda á Lambavatni nokkru eftir 1850.
1799-1802
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir. Búandi í Breiðavík 1801. Hefur líklega búið þar 1799-1802, vala lengur, auðsjánlega á þeim hluta jarðarinnar, sem áður tilheyrið Guðrúnu Þorvaldsdóttur, enda er hún á heimili Ingibjargar 1801. Hefði hún getað verið ráðskona Bjarna Einarssonar og haldið jörðinni eftir lát hans. F. 1753, d. 20. apríl 1827. í Kollsvík og dó þar.
Ekkja Ásbjörns Jónssonar bónda í Kollsvík 1780 Jónssonar. Ásbjörn dó í Kollsvík 1781. Börn þeirra:
Helga, f. 1777, ekki á manntali 1801.
Sigríður, f. 1778, dó sama ár.
Ólafur, f. 1781, dó á 1. ári.
Ingibjörg var dóttir Gunnlaugs Gíslasonar bónda í Raknadal og k.h. Sigríðar Þórðardóttur.
um 1801-1804
Þorgrímur Pétursson. Hann hefur sennilega búið í Breiðavík um 1801-1804, tekið við jarðarhluta Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Þorgrímur hefur dáið í ársbyrjun 1804, því að skiptafundur í dánarbúi hans er haldinn 18. febr. það ár í Breiðavík. Áður bóndi í Dalshúsum í Sauðaluksdal, sja þar.
Gunnhildur Þorgrímsdóttir. D. 20. nóv. 1837 í Breiðavík. Hún hefur verið búandi í Breiðavík í líklega 1 ár eftir að Sigurður Jónsson maður hennar dó, og þar til hún giftist aftur Þorsteini Sigurðssyni.
1807-1819
Þorsteinn Sigurðsson. Bóndi í Breiðavík 1807-1819 eða svo, en þá mun hann hafa dáið, þó ekki sé getið um það í kirkjubók sóknarinnar, sem er ófullkomin um það leyti. F. um 1762 á Hallsstöðum á Fellsströnd í Dalasýslu.
- 30. jan. 1807 Gunnhildi ekkju Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík, þau bl.
um 1804-um 1813
Árni Eyjólfsson. Bóndi í Breiðavík um 1804-um 1813. Áður bóndi á Láganúpi, er þar 1801. F. 1760, d. fyrir 1817, sennilega í Breiðavík. Foreldrar: Eyjólfur Árnason bóndi á Hvalskeri 1780, 47 ára ókv. og Kristín Jónsdóttir, sem er óg. vk. á Sellátranesi 1780, 47 ára.
K. Oddný, f. 1754 í Breiðavík, d. í Keflavík 14. maí 1826, sveitarómagi á Hvallátrum 1817 Loftsdóttir Jónssonar og Helgu Jónsdóttur. Börn þeirra:
Guðrún, f. um 1787.
Sigríður, f. um 1790.
Báðar dæturnar hjá foreldrum sínum 1801 og 1808, en ekki í hreppnum 1817 og ekki kunnugt um neina afkomendur þeirra. En Árni hefur átt tvö börn utan hjónabands:
Ingibjörg, f. um 1790, kona Ásbjörn Þórðarsonar bónda á Lambavatni, sjá þar, en einnig miðkona Bjarna Halldórssonar bónda á Hnjóti, sjá einnig þar. Sonur Bjarna og Ingibjargar var Guðmundur bóndi í Tungu.
Jón, f. um 1792, er mun hafa verið faðir Guðrúnar konu Sigmundar Ólafssonar bónda í Krókshúsum, sjá þar.
um 1806-um 1810
Össur Sigurðsson. Bóndi í Breiðavík um 1806-um 1810, fluttist þá að Stekkadal og bjó þar til dauðadags 24. apríl 1821. F. 1768. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Breiðavík og f.k.h. Solveig Össursdóttir.
K. 11. okt. 1806, Guðrún eldri, f. 1771 Þorgrímsdóttir bónda á Lambavatni 1780 Jónssonar og s.k.h. Guðrúnar Helgadóttur. Guðrún var alsystir Gunnhildar s.k. Sigurðar föður Össurs og þær voru alsystur Jón, sem myrtur var á Sjöundá 1802. Börn þeirra:
Össur, f. í Breiðavík 21. okt. 1808, bóndi á Látrum.
Guðmundur, f. í Stekkadal 1810, d. að Litlu-Hellu á Snæfellsnesi 186?, kvæntist í Flatey 1836 Ástríði Jónsdóttur bónda í Stekkadal Jónssonar. Sonur þeirra Engilbert, f. 1840, á lífi 1865 hjá móður sinni, sem er ekkja á Litlu-Hellu.
Jóhannes, f. 1814, dó uppkominn en ungur.
Guðrún, f. 1816, átti Ásbjörn Bjarnason frá Sellátranesi. Dóttir þeirra Vigdís kona Gísla Ólafssonar bónda á Sellátranesi, sjá þar.
1821-1823
Þorkatla Leifsdóttir, ekkja Bjarna Sigurðssonar í Breiðavík. Hún hefur verið búandi í Breiðavík frá því að maður hennar dó 1821 og til 1823. F. í Sauðlauksdal 1770, d. í Vatnsdal 23. ágúst 1844.
um 1810-1829
Bjarni Stefánsson. Bóndi í Breiðavík um 1810-1829. Áður bóndi á Melanesi 1801-um 1810. F. um 1775 á Laugabóli í Arnarfirði, d. 12. mái 1829, drukknaði í lendingu í Breiðavík með Magnúsi Árnasyni þá bónda á Skógi.
K. Guðrún, f. um 1774 í Feigsdal í Arnarfirði, d. á Látrum Ásgeirsdóttir (í Saurbæ 1808 og 1817) Jónssonar. Börn þeirra:
Jón, f. í Sperðlahlíð 1801 (óf. í febr.), d. í Breiðavík 19. júní 1824.
Gunnhildur, f. á Melanesi 1804, kona Hjalta Hasaelssonar bónda í Breiðavík og síðar á Hnjóti.
1829-1831
Hjalti Hasaelsson. Bóndi í Breiðavík 1829-1831. Síðar bóndi á Hnjóti, sjá þar.
um 1819-1857
Þorgrímur Sigurðsson. Bóndi í Breiðavík um 1819-1857. F. í Breiðavík 1794, d. í Sauðlauksdal 20. apríl 1871. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Breiðavík og s.k.h. Gunnhildur Þorgrímsdóttir.
K. 27. sept. 1818, Guðrún, f. á Hlaðseyri 1793, d. í Tungu 13. ágúst 1862 Halldórsdóttir bónda í Botni Þorlákssonar. Börn þeirra:
Guðrún, f. í Botni 1818, d. 26. ágúst 1897, óg. og bl.
Ólafur, f. í Breiðavík 26. júlí 1819, bóndi á Grundum.
Halldór, f. 12. maí 1822, bóndi á Láganúpi.
Sigurður, f. 5. jan 1824, dó ungbarn.
Gunnhildur, f. 5. apríl 1825, dó ungbarn.
Sigurður, f. 23. okt. 1826, dó ungbarn.
Sigríður, f. 3. mars 1828, dó á 1. ári.
Launsonur Þorgríms var:
Þorgrímur, f. í Stekkadal 1813, bóndi á Hnjóti.
Launsonur Guðrúnar var:
Einar, f. í Botni 26. júlí 1815 Guðmundsson Gíslasonar bónda á Melanesi 1801 Bjarnasonar og Jarðþrúðar Jónsdóttur konu hans.
1833-1836
Bjarni yngri Sigurðsson. Bóndi í Breiðavík 1833-1836. F. 1796, d. 19. okt. 1836. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Breiðavík og s.k.h. Gunnhildur Þorgrímsdóttir.
K. 1825?, Steinunn, f. 3. sept. 1801, d. 11. júní 1865 Brandsdóttir bónda í Hlíð í Þorskafirði Árnasonar og k.h. Halldóru Sumarliðadóttur. Steinunn átti síðar Jón Bjarnason bónda í Hænuvík, sonur þeirra:
Ívar í Hænuvík.
Bjarni fór 1821 frá Breiðavík inn í Reykhólsveit, en þaðan hefur hann farið niður í Eyjar, því hann flyst 1823 frá Hvallátrum (Breiðafirði) að Hlíð. Hann hefur búið á Kambi og síðan verið á Kollabúðum með því að þaðan flyst hann að Laugardal í Tálknafirði 1830. Hann hefur verið nokkuð á líkum slóðum og Sigurður bróðir hans (Breiðvíkingur). Úr Tálknafirði kom Bjarni svo að Breiðavík 1833. Börn:
Sigurfljóð, f. í Laugardal 16. des. 1830, fluttist frá Látrum 1864 að Hríshóli í Reykhólasveit, er þar óg. vk. 1870.
Ólafur, f. 30. apríl 1835, fermdur að Grundum 1848, en síðan sést ekkert hvað um hann verður.
Launsonur Bjarna var:
Einar, f. í Flateyjarsókn um 1823 (finnst þar ekki kjb.). Hann kvæntist 23. sept. 1851 Margréti Þorláksdóttur bónda á Láganúpi Þorlákssonar. Börn þeirra: Kristrún, f. 1851 og Jón, f. 1852.
Steinunn Brandsdóttir var alsystir Guðbjargar konu Ólafs Halldórssonar bónda í Hænuvík.
1831-1833
Einar Ólafsson. Bóndi í Breiðavík 1831-1833. F. á Auðshaugi 24. okt. 1793, sonur Ólafs Erlendssonar.
K. í Sept. 1821 (á Siglunes), Helga, f. 1793 Brynjólfsdóttir í Gerðum í Bjarneyjum. Einar fluttist 1826 frá Siglunesi að Stekkadal og eru börn hans þá:
Gísli 7 ára (1826).
Guðrún 1 árs (1826).
Árið 1833 fer Einar úr Rauðasandshreppi í Tálknafjörð ásamt Helgu og syni þeirra:
Brynjólfur 5 ára (1833).
Þau búa á Arnarstapa 1845 og eiga þá aðeins Brynjólf.
1836-1839
Steinunn Brandsdóttir. Hún bjó í Breiðavík 1836-1839, en fluttist þá að Grundum og bjó þar til næsta árs, er hún giftist í 2. sinn Jóni Bjarnasyni sem fyrr hafði átt Helgu Einarsdóttur Þórarinssonar, en var nú skilinn frá henni. Steinunn var ekkja Bjarna yngri Sigurðssonar bónda í Breiðavík.
1834-1837
Jón Jónsson. Bóndi í Breiðavík 1834-1837. Fluttist þá að Gröf og bjó þar til dauðadags 25. mars 1839. F. 1805, sonur Jóns bónda í Stekkadal, Jónssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur.
K. 28. júlí 1833 (Látrum), Ingibjörg Ólafsdóttir bónda í Króki Arngrímssonar og k.h. Elínar Bjarnadóttir. Hún giftist aftur Kára Sigmunssyni bónda á Naustabrekku, en þau fluttust síða að Höfðadal í Tálknafirði. Ingibjörg er ekkja í Krossadal 1870. Börn þeirra:
Bjarni, f. 1833, faðir Ólafs bónda á Hlaðseyri 1902-1906, sjá.
Guðrún.
Ingibjörg.
Guðrún.
Jón.
Þessi 4 dóu öll á fyrsta ári. Áður en Ingibjörg giftist átti hún son:
Ólafur, f. á Látrum 1830, í Laugardal 1870, kvæntur Sigurbjörgu Jónsdóttur f. í Otradalssókn. Faðir Ólafs var Jón Arngrímsson, sjá Jón Jónsson bónda á Skógi.
1839-1843
Sigurður Jónsson. Bóndi í Breiðavík 1839-1843. Fluttist að Tungu og var þar 1843-1860, en síðast bóndi á Hvalskeri 1860-1862. Foreldrar: Jón bóndi í Miðhlíð og víðar, f. 1771, d. 1814 Þórðarson pósts, bónda í Miðhlíð Jónssonar og k.h. Þóra Eyjólfsdóttir prests Sturlusonar.
K. 27. júlí 1828 (Grundum), Ingveldur, f. í Skápadal 1797, d. í Hænuvík 5. mars 1883 Jónsdóttir bónda á Sjöundá Þorgrímssonar og k.h. Steinunnar Sveinsdóttur. Börn þeirra:
Ástríður, f. á Látrum 24. ágúst 1828, d. 9. nóv. 1889, óg. og bl.
Jóhanna, f. á Grundum 10. ágúst 1830, kona Einars Ólafssonar bónda á Hnjóti.
Jón, f. 29. apríl, bóndi í Hænuvík.
Gísli, f. 12. okt. 1837, bóndi í Hænuvík.
Sigurður var föðurbróðir Árna og Gunnlaugs á Lambavatni.
1845-1849
Bjarni Bjarnason. Bóndi í Breiðavík 1845-1849. Áður bóndi í Kvígindisdal 1829-1845, síðar á Láganúpi 1849-1857. F. á Hvalskeri 1801, d. í Breiðavík 26. jan. 1862. Foreldrar: Bjarni Halldórsson bóndi á Hnjóti Magnússonar.
K. 22. sept. 1822, Ingibjörg, f. 1800 á Sellátranesi, d. í Kollsvík 3. des. 1857 (þegar bærinn hrundi) Bjarnadóttir bónda á Sellátranesi Halldórssonar og k.h. Vigdísar Pétursdóttur bónda s.st. Jónssonar. Börn þeirra:
Ragnheiður, f. á Sellátanesi 22. ágúst 1823, d. á Suðureyri í Tálknafirði 1906, kona Einars Einarssonar bónda í Vatnsdal Einarssonar. Einar bjó hvergi, en var víða í vinnumennsku. Þau hjónin skildu um 1856, áttu; Ragnheiði d. ungbarn 1846, Bjarna, f. 1850, föður Halldórs bónda á Mábergi, Jóhönnu, d. 186? Og Bjarna, d. ungbarn 1853. Með öðrum konum átti Einar 4 börn, sjá Einar föður hans.
Bjarni, f. í Hænuvík 1. jan. 1825, d. 19. febr. 1826.
Einar, f. í Hænuvík 28. sept. 1823, d. 29. sept. 1825.
Vigdís, f. í Kvígindisdal 30. nóv. 1829, átti Sigurð Ólafsson Gunnarssonar bónda í Bröttuhlíð, Höskuldssonar. Dóttir þeirra var Sigríður, er átti Guðjón Magnússon, skósmið í Reykjavík, þau bl.
Halldór, f. í Kvígindisdal 3. maí 1833, d. 11. júlí 1855 (hrapaði í Hvanngjá í Látrabjargi).
Bjarni, f. í Kvígindisdal 9. ágúst 1836, bóndi á Grundum.
Ingibjörg, f. 28. febr. 1841, d. 28. okt. 1906, óg. og bl.
1849-1851
Jón Einarsson. Bóndi í Breiðavík 1849-1851. Annars í vinnumennsku á ýmsum stöðum í hreppnum. F. í Kollsvík 16. des. 1824, d. 2. maí 1888 (drukknaði með Dagbjarti Gíslasyni frá Látrum). Foreldrar: Einar Jónsson kvæntur bóndi í Kollsvík og Sigríður óg. vk. s.st. Bjarnadóttir bónda í Breiðavík Sigurðssonar.
K. 8. nóv. 1848, Guðríður, f. 17. apríl 1830 Ólafsdóttir Þorgrímssonar bónda á Hvalskeri Jónssonar. Guðríður giftist í annað sinn 11. nóv. 1888 Einari Jónssyni bónda á Mábergi, er var hálfbróðursonur fyrri manns hennar. Eftir lát hans fluttist Guðríður norður að Djúpi til Ólafs sonar síns og dó þar að Ármúla 2. febr. 1905. Börn þeirra:
Ólafur, f. í Breiðavík 10. sept. 1849, d. á Ísafirði 10. (kjb.14.) okt. 1924. Bóndi á Hallsstöðum í N-Ís. Kvæntist ekki, en dóttir hans og Sigurborgar Gunnlaugsdóttur bónda í Miðhlíð á Barðaströnd Jónssonar, var Ingibjörg sem giftist Markúsi skipstjóra Bjarnasyni frá Ármúla.
Einar, f. í Kollsvík 23. nóv. 1853, d. 1869.
Guðmundur, f. í Kollsvík 26. ágúst 1855, d. 1938, ókv. og bl.
Gísli, f. á Látrum 20. mars 1858, d. 23. sama mán.
Dagbjartur, f. á Látrum 8. jan. 1861, fluttist norður að Djúpi, kvæntur þar , en dó bl. um 1920.
Kristján, f. á Látrum 2. júlí 1859, dó ungbarn.
Valgerður, f. í Kollsvík 1862, dó ungbarn.
Kristján, f. í Kollsvík 1863, dó ungbarn.
Valgerður, f. á Grundum 1866, d. 1871 í Breiðavík.
Guðríður, f. 23. ágúst 1871, d. á Mábergi 12. júlí 1895, óg. og bl.
1851-1855
Guðmundur Magnússon. Bóndi í Breiðavík 1851-1855. Í Keflavík 1855- 1857. Árin 1855-1857 hafði hann 5 hndr. Í Breiðavík með 8 hndr. Í Keflavík. F. í Keflavík 27. febr. 1824, d. s.st. 25. júní 1857. Foreldrar: Magnús Árnason bóndi í Keflavík og s.k.h. Anna Guðmundsdóttir frá Hellu á Selströnd.
K. 2. okt. 1848, Ástríður, f. 18. des. 1825, d. 8. okt. 1905 Bjarnadóttir, Björnssonar (seinni maður hennar var Jón Gíslason bóndi í Keflavík). Börn þeirra:
Sigríður, f. í Keflavík 18. mars 1849, d. í Hænuvík 10. nóv. 1916, óg. og bl.
Andrés, f. í Keflavík 3. okt. 1850, drukknaði með Hafliða hálfbróður sínum o.fl. 29. júní 1886, ókv. og bl. Var heitbundinn Þuríði Guðríði Magnúsdóttur, sem síðar átti Helga Einarsson bónda í Skápadal.
Hafliði, f. í Keflavík? 21. sept 1854, d. 1861.
Guðbjörg, f. 29. nóv. 1857 í Keflavík, d. s.st. 27. júlí 1882. Hún var heitbundin Jóni Þórðarsyni síðar bónda í Breiðavík (kv. Guðnýju Jónsdóttur). Þau eignuðust 2 börn: Hjörleif Jón, f. 28. ágúst 1880, d. 24. nóv. sama ár. og Jón, f. 23. júlí mislingasumarið 1882, dó samdægurs.
1853-1864
Ólafur Magnússon. Bóndi í Breiðavík 1853-1864. F. á Melanesi 23. júlí 1825, d. 8. júlí 1864, drukknaði ásamt elsta syni sínum og tveimur öðrum, er hann var að sækja nýsmíðaðan bát út að Látrum. Hafði fari til fiskjar um leið. Veður var gott. Ólafur var albróðir Guðmundar, sjá næstu grein á undan.
K. 6. okt. 1852, Bríet, f. í Keflavík 8. mars 1828, d. í Breiðavík 22. nóv. 1887 Bjarnadóttir bónda Björnssonar og f.k.h. Guðrúnar Ólafsdóttur. Bríet var alsystir Ásríðar, er gift var Guðmundi bróður Ólafs. Börn þeirra:
Jón, f. 1852, drukknaði með föður sínum.
Guðrún, d. ungbarn 1853.
Ólafur, f. 18. okt. 1854, bóndi í Breiðavík.
Bjarni, d. ársgamall 1857.
Bjarni, d. ungbarn 1857.
Magnús, d. á 2. ári 1860.
Guðmundur, f. 31. jan. 1861, hrapaði úr Látrabjargi 4. ágúst 1885, ókv. og bl.
Guðrún, f. 31. jan. 1861, d. 9. maí 1932. Átti Magnús Jónsson (um skeið á Tannanesi í Tálknafirði). Þau bl.
Árni, d. á 6. ári 1868.
Bjarni, f. 13. mars 1864, hrapaði í Bjarnarnúp 12. okt. 1888, ókv. og bl.
1856-1860
Magnús Halldórsson. Bóndi í Breiðavík 1856-1860. Áður bóndi á Látrum, sjá þar.
1857-1860
Guðmundur Bjarnason. Bóndi í Breiðavík 1857-1860. Fluttist þá að Tungu, sjá þar.
1860-1871
Jóhann Jónsson. Bóndi í Breiðavík 1860-1871. Fluttist að Geitagili, sjá þar.
1864-1867
Bríet Bjarnadóttir. Bjó í Breiðavík 1864-1867. Hún var ekkja Ólafs Magnússonar, sjá hér að framan og giftist síðan Ingimundi Guðmundssyni.
1867-1888
Ingimundur Guðmundsson. Bóndi í Breiðavík 1867-1888. Síðar bóndi á Naustabrekku og dó þar 13. okt. 1896. F. á Geitagili 13. ágúst 1841. Foreldrar: Guðmundur Guðmundsson bónda á Geitagili Hákonarsonar og Ingunn Jónsdóttir bónda s.st. Einarssonar, bæði ógift á Gili. Ingunn giftist síðar Halldóri Þorgrímssyni á Lágnúpi.
K. I 16. jan. 1867, Bríet Bjarnadóttir, ekkja Ólafs Magnússonar bónda í Breiðavík. Börn þeirra sem bæði dóu fára daga gömul:
Gunnlaugur, f. 23. júní 1866.
Guðný Ingunn, f. 6. des. 1867.
K. II Guðrún Magnúsdóttir, ekkja Indriða Indriðasonar bónda á Naustabrekku, sjá þar.
Ingimundur átti tvö börn utan hjónabands:
Guðrún, f. í Breiðavík 27. mars 1875, átti Sumarliða Bjarnason bónda í Keflavík, móðir hennar var Þorgerður Sigmundsdóttir bónda í Krókshúsum Ólafssonar.
Bríet, f. í Breiðavík 25. júlí 1883, átti Sighvat Árnason verkamann á Vatneyri, þau bl. Móðir Bríetar var Helga Hjálmarsdóttir bónda á Skógi Sigmundssonar.
1871-1876
Samúel Guðmundsson. Bóndi í Breiðavík 1871-1876. D. 20. okt. 1876. Fluttist til Breiðavíkur frá Svalvogum í Dýrafirði: Sam. Guðm. 37 ára.
K. Ingibjörg Guðmundsdóttir 29 ára. Börn þeirra:
Sveinfríður Málfríður 7 ára.
Össurlía Anna 4 ára.
Magnús Jón 2 ára.
Í Breiðavík fæddust þessi börn Samúels:
Ingibjörg, f. 16. des. 1872.
Bjarney, f. 1. okt. 1875, d. í Keflavík 29. mars 1883, 7 ára.
Salóme Jóna, f. 27. mái 1877.
Með Samúel og Ingibjörgu fluttust einnig: Þorbjörg Jónsdóttir ekkja 59 ára, Þórunn Guðmundsdóttir 16 ára dóttir hennar, giftist Guðjóni Halldórssyni bónda í Breiðavík.
1877-1881
Magnús Einarsson. Bóndi í Breiðavík 1877-1881. d. í Breiðavík 20. okt. 1881. Áður bóndi á Hvalskeri, sjá þar.
1881-1884
Guðný Jónsdóttir. Búandi í Breiðavík 1881-1884. Ekkja Magnúsar fyrrnefnds, Einarssonar.
1884-1885
Jón Þórðarson. Bóndi í Breiðavík 1884-1885. Fluttist að Grundum og var þar til 1890, fór þá að Hjarðardal í Önundarfirði. Drukknaði 10. okt. 1899, þegar enskur togari grandaði bát, sem sýslumaðurinn Hannes Hafstein, var á. F. á Sjöundá 8. júní 1851. Foreldrar: Þórður Jónsson bóndi þar, síðar á Lambavatni, og s.k.h. Guðríður Torfadóttir.
K. 17. okt. 1884, Guðný Jónsdóttir ekkja Magnúsar Einarssonar seinast bónda í Breiðavík. Sonur þeirra:
Guðmundur, f. 31. mars 1884, d. 9. sept. sama ár.
Kristmundur sonur Magnúsar og Guðnýjar fluttist norður með móður sinni.
1878-1884
Guðjón Halldórsson. Bóndi í Breiðavík 1878-1884. Fluttist að Melanesi, sjá þar.
1885-1888
Bjarni Gunnlaugsson. Bóndi í Breiðavík 1885-1888. F. í Bröttuhlíð 8. mars 1848, d. á Borðeyri 9. ágúst 1921. Foreldrar: Gunnlaugur Þorleifsson bóndi í Bröttuhlíð og k.h. Margrét Þórðardóttir.
K. I 29. sept. 1878, Þorgerður, f. 5. ágúst 1851, d. 6. júní 1888 Sigmundsdóttir bónda í Krókshúsum Ólafssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur. Börn þeirra:
Ólafur, f. í Breiðavík 10. júní 1876, d. í Hafnarfirði 193?, átti Guðrúnu Oddleifsdóttur, þau bl.
Salóme, dó nokkurra daga gömul 5. des. 1878.
Sigríður, f. 14. nóv. 1887. Giftist 1909 Tómasi Jörgensen, áttu heima á Borðeyri, síðan lengi í Reykjavík. Tómas dó þar 1954.
K. II 10. okt. 1889, Sigríður Ásbjörnsdóttir bónda í Tungu Einarssonar, þau bl.
Frá Breiðavík fluttist Bjarni 1891 í Kollsvík og var þar húsmðaur í Tröð. Fluttist að Borðeyri 1911 til Sigríðar dóttur sinnar.
1886-1898
Ólafur Ólafsson. Bóndi í Breiðavík 1886-1898. F. í Breiðavík 18. okt. 1854, d. þar 19. febr. 1898. Foreldrar: Ólafur Magnússon bóndi í Breiðavík og k.h. Bríet Bjarnadóttir frá Keflavík.
K. 22. júní 1889, Sigríður Traustadóttir smiðs í Vatnsdal Einarssonar og k.h. Sigríðar Gunnlaugsdóttur bónda í Bröttuhlíð Þorleifssonar. Börn þeirra:
Guðmundur Bjarni bóndi í Breiðavík (sjá síðar).
Trausti efnafræðingur, f. 21. (kjb. 22.) júní 1891, d. 23.01.1961; kv. Maríu Petersen frá Klakksvík í Færeyjum. 4 börn.
Haraldur formaður, f. 29. apríl 1893, d. 9. jan. 1926, drukknaði frá Vestmannaeyjum ásamt Guðmundi bróður sínum o.fl., kv. Sigurlaugu Einarsdóttur. Bóndi í Breiðavík (sjá síðar).
Ólafur Finnbogi vélfræðingur (29.06. 1896-30.05.1980), kv. Sólveigu Stefánsdóttur. 1 kjörbarn.
Ólöf saumakona í Reykjavík (15.09. 1898-14.06.1989). Óg, bl.
1898-1921
Sigríður Traustadóttir. Búandi í Breiðavík 1898-1921. Ekkja Ólafs Ólafssonar bónda í Breiðavík. F. á Geirseyri 1. júní 1870, d. í Reykjavík 29. júní 1951.
1921-1926
Guðmundur Bjarni Ólafsson. Bóndi í Breiðavík 1921-1926, búfræðingur frá Hvanneyri. F. 23. des. 1889. Drukknaði frá Vestmannaeyjum 9. jan. 1926. Foreldrar: Ólafur Ólafsson bóndi í Breiðavík og k.h. Sigríður Traustadóttir.
K. 11. okt. 1921, María Torfadóttir (02.07.1893-09.03.1930) bónda í Kollsvík Jónssonar og k.h. Guðbjargar Guðbjartsdóttur. Börn þeirra:
Ólafur verslunarmaður (04.11.1923-14.03.2017), kv. Guðfinnu Pétursdóttur. 1 kjörbarn.
Gunnar Björgvin verkfræðingur (18.07. 1925-04.01.2002), kv. Guðrúnu Jónu Þorsteinsdóttur. 3 börn og 1 kjörbarn.
1886-1909
Guðbjartur Jónsson. Bóndi í Breiðavík 1886-1909. Veiktist 1908, dó á Kleppsspítala 1916. F. á Hnjóti 1. okt. 1858, sonur Jóns Torfasonar bónda þar og k.h. Valgerðar Guðmundsdóttur. Bóndi á Hnjóti 1882-1886.
K. 21. sept. 1886, Sigríður, f. á Látrum 8. okt. 1857, d. í Winnipeg 3. des. 1918 Össursdóttir (skrifuð Sigr. Össursd. Patrek) bónda á Látrum Össurssonar og s.k.h. Guðrúnar Snæbjörnsdóttur. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. 2. júlí 1885, d. 14. okt. 1959, óg. og bl.
Össurlína, f. 21. júní 1887, d. í sept. 1959, óg. og bl.
Dagbjartur, f. 10. júní 1889, d eftir 1921. Stundaði aðallega húsbyggingar í N-Dakóta. K. Lovísa Torfadóttir frá Kollsvík (27.09.1890-14.05.1986) Fluttist til Kanada og síðar Bandaríkjanna.
Arinbjörn (01.07.1891-18.04.1970). Bóndi á Mábergi 1933-1934. Fluttist til Ameríku um 1911 en kom aftur 5 árum síðar. Bóndi á Gróhólum í Ketildölum; Neðri-Rauðsdal á Barðaströnd; Eysteinseyri í Tálknafirði; Mábergi á Rauðasandi. Flutti 1949 til Reykjavíkur en dvaldi síðast á Patreksfirði og Tálknafirði. K. Ágústa Sæmundsdóttir (27.08.1891-08.10.1933) frá Krossi á Barðaströnd.
Rögnvaldur, f. 8. nóv. 1892. Týndist í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni, líklega 1917. Hafði farið frá Kanada til Bandaríkjanna og þaðan í stríðið.
Egill, f. 6. júní 1895. Smiður í Kanada, ókv. ókv. dó um 1950.
Andrés, f. 20. okt. 1897. Kom heim frá Kanada í fyrri heimsstyrjöldinni, en fór alfarinn aftur 1921. Hefur stundað búskap, smíðar o.fl. Bóndi í Breiðavík 1920-1921, sjá þar. K. 15. sept. 1919, Elísabet Elíasardóttir, Sturlusonar og k.h. Guðnýjar Ólafsdóttur bónda á Brekku Magnússonar. Eignuðust 8 börn, Jón, f. 12. okt. 1901 (1900?), d. á sjúkrahúsi í Selkirk Manitoba 27. febr. 1945, ókv. og bl. skrifaður Patrik, Sigurður, f. 2. febr. 1903, bóndi í Nýja Íslandi, ókv. og bl.
Össurlína, Rögnvaldur og Egill fluttist til Vesturheims 1910, en hin systkinin fóru þangað 1911, ásamt móður sinni, sem dó þar um 1920? Dagbjartur, Arinbjörn og Andrés komu heim aftur eftir nokkur ár (haustið 1916), en Arinbjörn var sá eini, sem ekki hvarf á ný vestur.
1909-1911
Sigríður Össursdóttir. Búandi í Breiðavík 1909-1911, eftir að Guðbjartur maður hennar veiktist. Að sjálfsögðu voru það börn hennar, sem héldu búskapnum uppi, enda hafði áfall það, sem heimilið varð fyrir, þegar Guðbjartur veiktist mjög skyndilega, haft varanleg áhrif á heilsu hennar.
1911-1920
Guðmundur Sigurðsson. Bóndi í Breiðavík 1911-1920. Hreppstjóri, áður bóndi í Vatnsdal, sjá þar.
1916-1920
Sigurður Guðmundsson. Bóndi í Breiðavík 1916-1920. F. á Látrum 11. des. 1887, d. 28. eða 29. febr. 1920; fórst með kútter Valtý frá Reykjavík. Foreldrar: Guðmundur Sigurðsson fyrrnefndur og k.h. Helga Árnadóttir Thoroddsen.
K. 7. ágúst 1915, Ingibjörg, f. í Mýrartungu í Reykhólasveit 4. sept. 1891 Jóhannsdóttir húsmanns í Breiðavík Eiríkssonar og k.h. Guðrúnar Pálsdóttur (systur Gests skálds Pálssonar). Börn þeirra:
Guðmundur (15.12 1915-29.08.1977).
Ósk (11.11.1917-11.02.1992).
Jóhann Gunnar (05.07.1919-20.12.1981).
1926-1927
María Torfadóttir. Búandi í Breiðavík 1926-1927. Ekkja Guðmundar Bjarna Ólafsonar bónda í Breiðavík. María fluttist með börn sín til Patreksfjarðar. Hún dó á Landakotsspítala 9. mars 1930.
1922-1923
Haraldur Ólafsson. Bóndi í Breiðavík 1922-1923, í félagi við Guðmund bróður sinn. Foreldrar: Ólafur Ólafsson bóndi í Breiðavík og k.h. Sigríður Traustadóttir. F. 29. apríl 1893, d. 9. jan. 1926. Hann drukknaði frá Vestmannaeyjum ásamt Guðmundi bróður sínum o.fl., var nýfluttur þangað og formaður á mótorbáti. Hafði verið þar tvær vertíðir áður háseti.
K. (31.11.1925-01.08.1968), Sigurlaug Einarsdóttir, Sveinssonar, f. að Nýjabæ í Vestur-Eyjafjallahr. 26. júlí 1893, sem veitti búinu forstöðu, en Haraldur stundaði mest sjómennsku. Sigurlaug giftist síðar Jóhanni Eiríkssyni og áttu þau 2 börn og 1 kjörbarn.
1924-1947
Aðalsteinn Sveinsson (02.11.1902-14.03.1979). Bóndi í Breiðavík 1924-1947. Fluttist þá til Patreksfjarðar og hefur aðallega stundað sjómennsku. F. í Breiðavík, sonur Sveins Benónýssonar síðar bónda í Breiðavík og k.h. Ingibjargar Bjarnadóttur.
K. 17. okt. 1925, Sigríður Steinunn (15.01.1906-28.10.1992) Traustadóttir frá Breiðavík Traustasonar og k.h. Arnfríðar Erlendsdóttur bónda á Látrum Kristjánssonar. Börn þeirra:
Haraldur (14.04.1927-27.10.1992), vélsmiður á Patreksfirði kvæntur Arnbjörgu Guðlaugsdóttur bónda í Laugardal Guðmundssonar. 12 börn.
Trausti (22.12.1928-14.07.2015), sjómaður, bílstjóri og fjárbóndi á Patreksfirði. 2 kjörbörn.
Guðmundur Benóný, f. 5. okt. 1936. Sambýliskona Brynhildur Bjarnadóttir. 3 börn
Sigurgeir Árni, f. 22. sept. 1950. Rósa Bachmann. 3 börn
1926-1946
Sveinn Benónýsson. Bóndi í Breiðavík 1926-1946, í félagi við syni sína Aðalstein og Svein. F. í Gröf 21. jan. 1876, d. í Breiðavík 8. nóv. 1946. Fluttist að Breiðavík 189? Og var fyrst vinnumaður Sigríðar Traustadóttur, en síðar lengi húsmaður. Foreldrar: Benóný Ólafsson bóndi í Gröf og k.h. Jóhanna Ektalína Jónsdóttir (hálfsystir Sveins Magnússonar bónda á Lambavatni).
K. (09.12.1901-15.07.1951), Ingibjörg Bjarnadóttir bónda á Grundum Bjarnasonar og k.h. Önnu Sigurðardóttur. Börn þeirra:
Sigríður Guðrún, f. í Breiðavík 28. okt. 1901, d. á Lambavatni 31. mars 1932, kona Gunnlaugs Egilssonar frá Lambavatni (sjá þar).
Aðalsteinn bóndi í Breiðavík (sjá þar).
Sveinn bóndi í Breiðavík (sjá þar).
Guðmundur Benóný, f. 8. nóv. 1907, d. 1923.
1926-1947
Sveinn Sveinsson (24.07.1907-18.05.1986). Bóndí í Breiðavík 1926-1947 í félagi við Svein föður sinn og Aðalstein bróður sinn. Ókv. og bl. Hefur mest stundað sjómennsku, síðan 1947 á Patreksfirði.
1920-1921
Andrés Guðbjartsson (sjá framar). Bóndi í Breiðavík 1920-1921. Fluttist þá aftur til Kanada með konu og 1 barn þeirra. Sonur Guðbjartar Jónssonar bónda í Breiðavík.
K. 15. sept. 1919, Elísabet Elíasardóttir húsmanns á Hvalskeri Sturlusonar og k.h. Guðnýjar Ólafsdóttur bónda á Naustabrekku Magnússonar. Börn þeirra:
Guðný Mikkalína, f. í Breiðavík 28. júní 1920, hárgreiðslukona í Winnipeg, óg. 1955.
Valgerður, f. í Winnipeg 17. sept. 1921, gift og á 3 börn.
Bergþóra Fanney, f. 14. jan. 1923, giftist 1949, á 1 barn.
Þórunn, f. 16. sept. 1926, giftist 1945, á 3 börn.
Hörður, f. 14. febr. 1929, kv. og á 2 börn.
Jónína, f. 15. jan. 1936.
María Lillían, f. 19. des. 1938.
Baldur, f. 13. júlí 1941
Öll nema þau fyrstu fædd í Riverton í Manitoba, en þar stundaði Andrés búskap, smíðar o.fl.
1923-1926
Lárus Ásbjörnsson. Bóndi í Breiðavík 1923-1926. Bjó á hluta Haraldar Ólfssonar, liðlega 12 hundr. Að fornu mati sem Einar Jónsson sýslumaður keypti 1925. Kom frá Bæ í Múlasveit, fluttist frá Breiðavík að Hliði á Álftanesi.
1926-1929
Einar Magnusen Jónasson sýslumaður á Patreksfirði (03.06.1872-23.03.1937). Bóndi í Breiðavík 1926-1929, en hafði ráðsmenn á jörðinni. Ágúst Jónsson fyrst (1927-1928), en síðan Herbjörn Guðbjörnsson, sem var í Breiðavík 1928-1930. Hann kom frá Skarðsströnd, talinn 31 árs, kona Guðbjörg Jónsdóttir talin 32 ára og barn þeirra Lára Ingibjörg Fanney 7 ára. Í Breiðavík fæddist Guðbjörg Jensína, sem er á 1. ári, er þau flytja til Patreksfjarðar 1930. Einari var vikið frá embætti í ársbyrjun 1928 og upp úr því eignast ríkissjóður meiginhluta jarðarinnar, tæp 25 hndr. að fornu mati, en liðlega 5 hndr. átti Jón Guðjónsson.
1930-1931
Árin 1930-1931 bjó enginn á hluta ríkissjóðs.
1931-1935
Hafliði Halldórsson. Bóndi í Breiðavík 1931-1935, á hluta ríkissjóðs. Hann var þá búsettur á Látrum 1932-1933 og bjó þar, en hafði Breiðavík með.
1935-1949
Guðmundur Kristjánsson (02.05.1907-27.01.1962). Bóndi í Breiðavík 1935-1949, fluttist þá að Vatnsdal. Foreldrar: Kristján Ásbjörnsson bóndi á Grundum og k.h. Guðbjörg Halldórsdóttir.
K. 19. okt. 1935, Unnur Erlendsdóttir (09.02.1915-18.05.1998) bónda á Látrum Kristjánssonar og Óafíu Ásgeirsdóttur. Börn þeirra:
Kristbjörg, f. 1936.
Erlendur, f. 1939. Drukknaði í Vatnsdal 13.06.1960.
Ólína Sigurbjört, f. 1941.
Egilína Krisjana Ólafía, f. 1945. Var gift Þórarni Kristjánssyni en síðar Eggert Haraldssyni.
Kristinn, f. 1948. Fóstursonur Ásgeirs Erlendssonar og Jónu Jónsdóttur á Hvallátrum.
Gyða, f. 1948. Fósturdóttir Daníels Eggertssonar og Önnu Jónsdóttur á Hvallátrum.
1952-1979
Vistheimilið í Breiðavík. Eftir að Guðmundur Kristjánssn fluttist frá Breiðavík var enginn bóndi þar hin næstu ár, en 1952 var byrjað á byggingu þar vegna væntanlegs dvalarheimilis fyrir unglinga.
Eftir að það tók til starfa dvöldust þar mismunandi mörg börn í einu, og á misjöfnum aldri; flest af höfuðborgarsvæðinu. Sum þeirra höfðu á einhvern hátt talist til vandræða en önnur komu úr erfiðum heimilisaðstæðum. Vistin í Breiðuvík átti að verða þeim til betrunar; þar áttu þau að læra hefðbundin sveitastörf og búa við gott heimilislíf, auk þess að stunda nám eins og í hefðbundnum barnaskóla. Þar var því rekinn búskapur; lengst af með sauðfé en um tíma kýr og önnur dýr. Starfslið var yfirleitt fjölmennt; forstöðumaður; bústjóri; ráðskona; kennari og iðulega fleira.
Löngu eftir að vistheimilið var lagt niður komst það í hámæli að meðferð og aðbúnaður barna hafði ekki alltaf verið eins og ætlað var; einkum á tímabilinu 1964-1972, og urðu hin svonefndu “Breiðavíkurmál” tilefni nokkurra rannsókna og bótagreiðslna að hálfu stjórnvalda.
Þessir voru forstöðumenn Breiðavíkur:
1952-53 Magnús Sigurðsson
1953-55 Bergsveinn Skúlason
1955-56 Kristján Sigurðsson
1956-62 Björn Loftsson
1962-64 Hallgrímur Sveinsson
1964-72 Þórhallur Hálfdánarson
1972-73 Bjarni Þórhallsson
1973-76 Georg H. Gunnarsson
1976-79 Jónas H. Jónsson
Breiðavíkurheimilið var lagt niður 1979, og keyptu þá Jónas og Árnheiður jörðina.
1979-1999
Jónas H. Jónsson (f 29.09.1950) og Árnheiður Guðnadóttir (f 03.12.1951). Þau keyptu Breiðavíkurjörðina og stunduðu á henni búrekstur af ýmsu tagi; með sauðfé, kálfa, hænsni og refi. Einnig breyttu þau heimavistinni í farfuglaheimili og stunduðu sívaxandi ferðaþjónustu. Árnheiður var einnig um tíma hreppsnefndarmaður og oddviti í Rauðasandshreppi og Jónas fékkst lítillega við iðngrein sína; bílamálun, auk höggmyndalistar. Börn þeirra:
Guðni Hörðdal f. 23.03.1969. I Anna Björgvinsdóttir; skildu. 2 börn. K.II Jóhanna Björg Sigurbjörnsdóttir. 2 börn.
Jón Hörðdal f. 05.03.1971. Sigríður Sigurðardóttir. 2 börn.
Samúel Hörðdal f. 29.08.1972. K Kristín Eva Ólafsdóttir. 2 börn.
1999-
Birna Mjöll Atladóttir og Keran St. Ólason (sjá Geitagil) keyptu jörðina þegar Árnheiður og Jónas fluttu suður. Þau lögðu fjárbúskap af árið 2011, en reka hótelið áfram.
Örnefnaskrá Breiðavíkur TÓ “Stekkur var spölkorn fyrir framan Flosahrygg (norður undir Breið), rétt undir fjallshlíðinni. Þar er aflangur hóll meðfram hlíðinni, en neðri hluti hennar er stórgrýtisurð. Á Stekknum eru tóttir nokkrar, enda var búið þar nokkur ár eftir 1830. Eini búandinn sem um er vitað þar, var Ólafur Þorgrímsson, bónda í Breiðuvík Sigurðssonar; kvæntur Þóru Þórðardóttur. Árið 1851 er þetta býli nefnt Urðarhvammur, og er það skiljanlegt af framansögðu, en 1854 er það nefnt Stekkur. Vafalaust er þó Stekksnafnið miklu eldra en þetta, og líklegt að staðurinn hafi verið lagður niður sem stekkur þegar hér var komið sögu…. Niður af Stekknum, til beggja handa, eru Stekkjarmýrar; allvotlendar en hallar heim á við frá Ósnum”.
(eftir 1840-1856)
Ólafur Þorgrímsson (26.07.1819-08.07.1864). Bóndi á Stekk í Breiðavíkm síðar á Grundum (sjá þar). Drukknaði með Ólafi Magnússyni bónda í Breiðavík, sjá þar. Foreldrar: Þorgrímur Sigurðsson bóndi í Breiðavík og k.h. Guðrún Halldórsdóttir bónda í Botni Þorlákssonar.
K. 23. sept. 1841, Þóra Þórðardóttir, Jónssonar bónda á Skógi Bjarnasonar. Hún var systir Margrétar konu Gunnlaugs Þorleifssonar bónda í Bröttuhlíð. F. á Skógi 1816, d. í Kirkjuhvammi 16. maí 1874. Börn þeirra:
a) Guðrún, f. í Breiðavík 26. mars 1841, d. 1. apríl sama ár.
b) Gunnhildur, f. í Breiðavík 2. des. 1842, giftist ekki, en átti börn með Benjamín Magnússyni bónda í Bröttuhlíð.
c) Ingunn, f. í Breiðavík 10. sept. 1846, d. 17. sama mán.
d) Bjarni, f. í Breiðavík 4. jan. 1849, d. 5. sama mán.
e) Þorgrímur, f. í Breiðavík 8. júní 1850, d. 14. sama mán.
f) Kjartan, f. í Urðarhvammi (sama og Stekkur) 12. sept. 1851, d. 16. sama mán.
g) Þórunn, f. á Stekk 1. maí 1853.
h) Guðbjörg, f. á Grundum 21. ágúst 1858, d. á Ísafirði 10. des. 1932. Giftist ekki, en börn hennar voru þessi: Guðrún,f. 188?, d. 20. ágúst 1905, Jónsdóttir bónda á Sjöundá, Ólafssonar. Óg. og bl. Ólína, f. 13. júlí 1885 Jónsdóttir síðar á Skógi Runólfssonar. M Daníel Jónsson. Guðlaug, f. 5. (kjb. 6.) des. 1889 Runólfsdóttir Kirkjuhvammi Brynjólfssonar. M. Guðmundur Jónsson. Ólína, f. á Grundum 28. febr. 1860, ljósmóðir. N, Gísli Sveinsson. Kjartan, f. í Botni 9. maí 1861, drukknaði í Þingeyrarhöfn, ókv. bl.
(Um landnám Kollsvíkur; sjá Kollsvík)
Nafnið Sennilegt er að bærinn taki nafn af hálendinu ofan hans sem sjávarmegin nefnist núna Hnífar. Víða má sjá þess merki að í upphafi byggðar var kennileitum gefin nöfn sem helst lýstu einkennum þeirra, séð frá hafi; enda voru siglingar þá eðlilegasti samgöngumátinn. Núparnir norður af Barði (eins og Látrabjarg nefndist þá) fengu þessi nöfn; Brunnanúpur; Bjarnarnúpur; Breiðinúpur; Láginúpur (eða Láganúpur) og Straumnes. Allt lýsandi nöfn. Bærinn handantil í Kollsvík byggðist fljótlega eftir landnám og fékk að sjálfsögðu nafn af fjallinu ofan hans. Með tímanum hefur fjallið glatað því heiti, þó bærinn haldi sínu. A.m.k. er þessi nafnskýring hugsanleg.
Ritháttur nafnsins hefur ýmist verið Láganúpur eða Láginúpur. Á síðari tímum hefur a-rithátturinn verið talinn gildur og opinber, og rökstuddur með því að hann vísi til láganna (lautanna) í Hnífunum, en þeir lágu klettar eru líklega nafngjafi bæjarins. Báða rithætti má því rökstyðja.
Jarðabókin 1703 “Átján hundruð með hjáleigunum (Hólum og Gundum). Grundir eru uppbyggðar úr stekk fyrir 50 árum eða þar um, og voru þá reiknaðar fyrir 3 hundruð. Hólar eru byggðir í túninu um sama leyti og voru þá 7 ½ hundrað. Síðan hafa Hólar og heimajörðin skift á milli sín túninu ýmislega, so partarnir hafa á víxl verið; stundum meiri; stundum minni. Nú er heimajörðin Láginúpur reiknuð 9 hdr, Hólar 6 hdr, Grundum fylgir nú 3 hdr af heimajörðinni. Er kirkjueign frá Saurbæ á Rauðasandi.
Ábúandi á Láganúpi er Halldór Jónsson. Landskuld hans er 6 vættir. Betalast í kaupmannsreikning so mikið sem verður; hitt í gildum landaurum. Við til húsbyggingar hefur landsdrottinn nokkurn lagt, en vantar meira. Leigukúgildi Halldórs eru 4. Leigur betalast í kaupstað með fiski; með smjöri heim, eða eftir samkomulagi. Kvikfjenaður er þar 3 kýr, ær 22, 4 sauðir, gemlingar 4, hestur 1. Þar fóðrast á þessum parti 2 kýr, lömb 4. Fullorðið fé er sett á útigang. Heimilismenn eru þar 8.
Fjörugrös eru þar nokkur. Bjöllur eru þar. Útigangur í fjöru er þar góður; bannast oft af hafís til að koma. Reki er þar lítill þá til vill. … Engjar eru með Láganúpi sjálfum lítilfjörlegar. Með Hólum og Grundum engar. Landþröngt mjög og hrjóstugt. Hætt er þar við dýjum fyrir fhenað. Item að fjenaður detti úr núpnum. Sandur fýkur mjög á tún og landið. Vatn þrýtur þar á öllum býlunum. Kirkjuvegur yfir þingmannaleið, yfir fjall að fara, til Saurbæjar (la rue á Sauðlauksdal etoit plus, courte et með bæjum; aussi de Kollsvik. Þýðing: Til Sauðlauksdals væri vegurinn styttri og með bæjum; sama er að segja um Kollsvík). Heimræði er þar ár um kring, en á vorið er þar vertíð frá sumarmálum til þingmaríumessu.
Þar ganga nú ár um kring: 1) Halldórs Jónssonar, 3ja manna far. 2) Guðrúnar Eggertsdóttur, 3ja manna far. 3) Guðrúnar Eggertsdóttur, 3ja manna far. (Navires plus grandes etoient plus utiles, disent les paisans. Útleggst: Stærri skip væru heppilegri, segja bændurnir). Fyrir þessum tveimur síðstu eru leiguliðar formenn ut supra. Hjer fyrir utan inntökuskip um vertíð: 1) Ara Gíslasonar, 3ja manna far. 2) Andréss Jónssonar 5 manna far. 3) Guðrúnar Eggertsdóttur 3ja manna far. 4) Guðrúnar Eggertsdóttur 4ra manna far. Formenn og hásetar á þessum bátum eru frá Patrixfirði. Formenn þessir og hásetar gefa í vertoll ½ vætt, og afhendist þar hálft í fiski; hálft í steinbít, og hefur þetta so verið í langan tíma. Siðan fiskleysisárin tiltóku hefur landsdrottinn so dispenserað, að nokkrir hafa ei goldið nema 3 fjórðunga. Heimabændur hafa tilforna goldið fyrir sig og sín hjú hálfan toll, en fyrir 2 árum hefur landsdrottinn þennan toll aftekið, so nú gjalda heimabændur ekkert í því nafni. Vermennabúðir hafa þar tilforna verið 18. Nú eru þar uppi 4, sem þessar inntökuskiphafnir liggja við. Við til þeirra leggur landeigandi. Sumum af þessum búðum hefur tilforna ketill fylgt; nú öngum. Lýng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi frí. Þar er engin skipleiga. 1 skiphlutur. Allur fengur skiftist ex æqvo (til jafnaðar) þá skift verður. Seglfiskar; maðkafiskar engir. Lóðir kunna ei brúkast sökum strauma. Segl brúkast þar (á heimaskipi öðru landsdrottins leggur það formaðurinn til). Lending í Láganúpslandi er nærri ótæk sökum brims og grynninga. Seila menn allan fenginn út, og flytja so skipin í eina lending, sem er í Kollsvíkurlandi, og setja þau þar upp. Er þetta (sem menn segja) eftir samkomulagi jarðeigendanna á milli, en ei ítak í Kollsvíkurland, so mikið menn vita. Beita er maðkur og brandkóð (þ.e. smálækjasilúngur). Item heilafiski á vor. Manntalsfiskar engir. Hospitalshlutur skiftist þar. Seilastrengi og seilarólar leggja skipeigendur til með skipunum”.
“Um bústofn á Láganúpi (um 1920) man ég ekki glöggt að segja. Sauðfjáreign hjá hvorum bónda mun hafa verið milli 50 og 100 ær og 2-3 kýr á hvorum bænum” (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Guðbjartar og Hildar).
“Láganúpur byggðist líklega upp á landnámsöld eða mjög fljótlega eftir það. Fátt er vitað um byggð þar framanaf, en á 14.öld er jörðin komin í eignasafn Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum, og tilheyrir höfuðbóli hans; Saurbæ. Þá var skreiðarsala til Evrópu orðin arðvænleg og höfðingjar reyndu að tryggja sér staði til útgerðar. Í Kollsvík er stuttræði til miða og lending árabáta allsæmileg. Saurbær hélt eignarhaldi á Láganúpsjörðinni fram á 20.öld, er ábúendur keyptu hana. Útræði varð mjög umfangsmikið í Láganúpsverstöð, eins og glöggt má sjá af minjum sem komið hafa í ljós við sjávarrof á síðustu árum. Má ætla að þar hafi staðið ein umfangsmesta verstöð sunnanverðra Vestfjarða þegar mest var. Árið 1703 hafði aflabrestur verið viðvarandi um tíma, og verstöðin ekki svipur hjá sjón. Hún hafði byggt á skreiðarverkun og reis ekki upp aftur, en þegar farið var að verka í saltfisk, undir lok 19.aldar, reis upp önnur mikil verstöð norðar í víkinni; Kollsvíkurver.
Margbýlt hefur eflaust verið á Láganúpi fyrrum, en kringum 1650 byggjast tvær hjáleigur á jörðinni; Hólar, sem var við lýði í um hálfa öld, og Grundir, sem var í byggð til 1945. Tvö kot enn; Grundabakkar og Grund (Samúelsmelur), byggðust um fáeina áratugi í byrjun 20.aldar. Við vélvæðingu minnkaði mannaflaþörf og íbúum fækkaði; og á sama tíma urðu byltingar í búskaparháttum. Össur Guðbjartsson tók við búsforráðum á Láganúpi 1952; búfræðingur frá Hvanneyri, og hófst handa um mikla ræktun með framræslu. Sauðfé var fjölgað verulega; varð yfir 150 á hans búi, og kringum 1970 hófst mjólkursala til Patreksfjarðar; kýr urðu um 10 að tölu. Þegar Hilmar sonur hans hóf búskap í Kollsvík lagðist sauðfjárbúskapur niður á Láganúpi. Össur og Hilmar stunduðu refarækt um tíma, en hún reyndist lítt arðbær. Össur var lengi oddviti Rauðasandshrepps, auk fjölda annarra trúnaðarstarfa. Eftir að hann veiktist 1986 sinnti Sigríður Guðbjartsdóttir kona hans búinu, með aðstoð Hilmars í Kollsvík, en búskap á Láganúpi lauk eftir að hætt var að sækja þangað mjólk um árið 2000. Stutt var þá í að einnig lyki fjárbúskap í Kollsvík. Sigríður bjó ein á Láganúpi þar til hún veiktist árið 2011. Synir þeirra eiga nú jörðina. Þar er íbúðarhús byggt 1974 og árið 2018 reisti Guðbjartur Össurarson þar bústað ásamt konu sinni; Litlanúp, stutt frá gamla bæjarhólnum” (Valdimar Össurarson frá Láganúpi).
1570-1571
Ari Ólafsson. Bóndi á Láganúpi 1570-71, skv. reikningum Eggerts Hannessonar.
1703
Halldór Jónsson. Bóndi á Láganúpi 1703. F. um 1650. Einn hinna kunnu Sellátrabræðra, bróðir Bjarna í Kollsvík, Jóns og Tómasar í Krossadal, Sigurðar á Bakka og Þórðar í Laugardal. Af flestum þeirra var margt fólk komið á þessum slóðum. Gísli Konráðsson segir um Halldór: „Halldór Jónsson í Krossadal, hann bjó á hálfri Hænuvík, átti Snjáfríði Jónsdóttur“. Ólafur próf. Einarsson á Ballará, sem var sonarsonur Bjarna í Kollsvík segir að Halldór hafi búið lengi á hálfri Kollsvík (sem vafalaust merkir Láganúpur). Það er ekki ólíklegt að Gísli rugli þeim saman bræðrunum, Jóni, sem bjó í Krossadal 1703, en er talinn hafa búið í Hænuvík og þá vafalaust eftir 1703 og Halldóri, sem hér um ræðir. En Halldór hefði einnig getað búið eitthvað í Hænuvík, þó að ekkert verði um það fullyrt með vissu. Foreldrar þeirra Sellátrabræðra voru: Jón Tómasson bóndi á Sellátrum, d. fyrir 1703 og k.h. Helga Þórðardóttir prests í Garpsdal, Tómassonar. Helga er á Bakka í Tálknafirði, hjá Sigurði syni sínum, árið 1703, 83 ára.
K. Sæborg Ólafsdóttir, f. um 1670. Börn þeirra:
Vilborg 3 ára.
Ólafur 1 árs.
Auk þess á Halldór þá launson 19 ára:
Jón, síðar bóndi að Skrúði í Selárdal og svo að Holti í Fífustaðadal. Ekki er kunnugt um móður Jóns, nema verið hafi fyrrnefnd Snjáfríður, sem G.K. telur konu Halldórs.
Hafi Halldór átt Snjáfríði fyrir konu einhverntíma fyrir 1703, virðast þau a.m.k. ekki hafa átt börn, er upp komust. Vilborg giftist Ólafi Jónssyni bónda í Raknadal og Dalshúsum (1735). Ólafur sonur Halldórs hefur dáið á unda aldri. Sonarsonur Jóns á Skrúði var Jón Halldórsson á Sellátrum, sem sæmdur var heiðurspeningi fyrir búnaðarafrek.
1703
Jón Diðriksson, elsti. Bóndi á Láganúpi 1703. Hann var bróðir Jóns bónda í Keflavík 1703, annars Jóns bónda í Sauðlauksdal og Guðbrands Diðrikssonar á Grundum 1703, og sonur Guðrúnar Jónsdóttur, sem látið hefur af búskap á Grundum þá um vorið. Það hefur verið þessi J.D., sem flutzt hefur að Látrum vorið 1703. F. um 1663.
K. Guðrún f. um 1648 Guðmundsdóttir. (Aths TÓ:„líklega systir Guðmundar bónda á Látrum og Dýrfinnu konu Þórðar Jónssonar“ bónda á Látrum). Sonur þeirra var:
Guðmundur, f. um 1692, mun vera sá G.J. sem er einn af Látrabændum 1735.
Guðrún á son:
Jón, f. um 1682 Einarsson.
1735
Erlendur. Bóndi á Láganúpi 1735. Þetta er vafalaust Erlendur, f. 1684 Gunnlaugsson bóndi í Kvígindisdal 1703 Jónssonar. Ekki er kunnugt um konu Erlendar eða afkomendur.
1735
Jón Jónsson. Bóndi á Láganúpi 1735. Um hann er ekki hægt að segja neitt með vissu. Hugsanlegt væri, að þetta sé J.J., sem bóndi er í Kollsvík 1762 og 1780. Eftir aldri 1780 hefði hann átt að vera f. um 1713, en ekki er það svo nákvæmt, að hann hafi ekki eins getað verið, f. um 1710. Aðeins lítið eldri var Einar Bjarnason, sem orðinn er bóndi í Kollsvík 1735 og er bóndi á Vatneyri 1782, en deyr 1789.
1762
Halldór Jónsson. Bóndi á Láganúpi 1762. Ekkert sést hverra manna hann hefur verið, eða hvað um hann varð. Í kirkjubók 1750-1785 sést ekki að neinn H.J. kvænist eða eigi börn. Á manntali 1780 er aðeins einn Halldór Jónsson á þeim aldri, að hann hafi getað verið bóndi 1762. það er H.J. ókv. húsmaður í Gröf 52 ára. Að sjálfsögðu gat Jón Jónsson fyrrnefndur bóndi á Láganúpi 1735, verið faðir þessa Halldórs.
um 1766-1783
Jón Jónsson. Bóndi á Láganúpi 1780 (líklega um 1766-1783). F. um 1740, d. 21. apríl 1783 (er þá talinn 39 ára, en 1780 40 ára). Foreldrar: Jón Jónsson bóndi í Kollsvík 1780 og k.h. Helga Ásbjörnsdóttir.
K. 1766, Giríður Jónsdóttir Sigurðssonar, systir Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík, sjá þar um ætt þeirra (sunnan úr Dalasýslu). Börn þeirra:
Guðrún, f. 22. okt. 1769, kona Halldórs Arngrímssonar bónda í Hænuvík.
Guðbjörg, f. 4. okt. 1772, sem varð s.k. hans.
1780
Jón Jónsson. Bóndi á Láganúpi 1780 og hefur aðeins búið þar í fá ár. Fluttist 1781 að Stökkum, en bjó í Bröttuhlíð 1801. F. um 1746, d. líklega 1815. Sveitarómagi í Vatnsdal 1808. Hann var albróðir Giríðar á Lágnúpi og Sigurðar bónda í Breiðavík. Einnig var systir þeirra Þórlaug kona Magnúsar Björnssonar bónda í Króki 1780.
K. 1774, Anna, f. um 1747 í Miðhlíð á Barðaströnd, d. í Borni 4. maí 1820 Þorvaldsdóttir bónda í Miðhlíð, Einarssonar og k.h. er Guðlaug hét, d. 1754, en bráðlega kvæntist svo Þorvaldur, Halldóru Teitsdóttur, er þá var nýlega orðin ekkja eftir Ólaf sýslumann í Haga Árnason. Eru þetta allmiklar sagnir. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. í Saurbæjarsókn 1768, d. 1770.
Guðbjörg, f. í Sauðlauksdalssókn 1776, í Bröttuhlíð 1801, en vantar 1808 og 1817.
Einar, f. 16. ágúst 1777, d. í Sauðlauksdal 1. febr. 1812, kvæntur Sesselju Þórðardóttur pósts í Miðhlíð Jónssonar, sjá Benjamín Magnússon bónda í Bröttuhlíð. Sonur Einars og Sesselju var Jón, sem hrapaði á Skorarhlíðum, fyrri maður Elínar Bjarnadóttur, móður Sveins Magnússonar á Lambavatni, sjá einnig Benóný Ólafsson bónda í Gröf.
Guðmundur, f. 1786, líklega sá, sem verður bráðkvaddur í Nesi 1816, í Bröttuhlíð 1801, Geirseyri 1808 (aldur vantar), kvæntist 1809 Elínu, í Breiðavík 1808 28 ára, ekkja í Tungu 1817, Kollsvík 1801, f. í Hænuvík 1781, Pálsdóttur bónda þar Bjarnasonar. Dóttir Guðmundar og Elínar var Guðrún, f. 1812, ekki á manntali 1817.
Ingibjörg, f. 1792, Bröttuhlíð 1801, Kirkjuhvammi 1808, vantar 1817.
1783-1785
Giríður Jónsdóttir. Búandi á Láganúpi 1783-1785. Ekkja Jóns Jónssonar, bónda á Láganúpi. Giftist aftur 15. maí 1785 Bjarna Pálssyni.
1785-um 1790
Bjarni Pálsson. Bóndi á Láganúpi frá 1785 og fram að 1790, eða þ.u.b., hefur þá flutzt aftur að Hænuvík. F. 2. jan. 1753, d. í Hænuvík 9. ágúst 1815, sjá þar.
um 1790- um 1804
Árni Eyjólfsson. Bóndi á Láganúpi 1801 og líklega til 1804. Hefur líklega búið þar frá því um 1790, tekið við eftir Bjarna Pálsson, og fram að 1804 (eða 1805). Fluttist þá að Breiðavík, sjá þar.
1804-1822
Þorlákur Þorláksson. Bóndi á Láganúpi 1808 og 1817. Sennilega búið þar frá því um 1804 og þar til 1822. Bóndi á Grundum 1822-1827. F. í Hænuvík 14. jan. 1778, d. á Grundum 9. júní 1827. Foreldrar: Þorlákur Pálsson bóndi á Grundum, sjá þar, áður í Hænuvík og k.h. Margrét Þorgrímsdóttir.
K. Margrét, f. á Hvallátrum 3. okt. 1779 Ólafsdóttir bónda á Látrum Jónssonar og f.k.h. Guðrúnar Ketilsdóttur. Börn þeirra:
Guðrún, f. 1807, á Láganúpi 1817.
Páll, f. 9. mars 1809, á Láganúpi 1817.
Helga, f. 1819, kona Ólafs Magnússonar bónda á Sjöundá.
1822-1838
Ólafur Ásbjörnsson. Bóndi á Láganúpi 1822-1838. Bjó áður 2 ár í Kollsvík 1820-1822 í skjóli Einars Jónssonar tengdaföður síns. F. í Vatnsdal 1794, d. á Láganúpi 6. jan. 1838. Foreldrar: Ásbjörn Ólafsson bóndi í Vatnsdal og k.h. Þóra Halldórsdóttir.
K. 11. sept. 1819, Helga Einarsdóttir bónda í Kollsvík og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. í Kollsvík 1819, d. á Láganúpi 27. júlí 1884, mállaus, óg. og bl.
Ólafur, f. í Kollsvík 22. mars 1821, d. þar 30. ágúst sama ár.
Jón, f. á Láganúpi 13. júlí 1822, d. þar 19. maí 1923.
Ásbjörn, f. á Láganúpi 21. sept. 1824, d. þar 3. jan. 1897 bóndi á Láganúpi.
Björn, f. 16. des. 1825, d. 21. okt. 1826.
Þóra, f. 27. apríl 1827, d. á Hnjóti 14. des. 1846.
Einar, f. 26. febr. 1829, d. 8. júlí sama ár.
Einar, f. 9. des. 1931, bóndi á Hnjóti.
Vigdís, f. 3. júní 1833, d. á Hnjóti 4. júlí 1862, óg. og bl.
Ólafur, f. 8. júlí 1838, d. á Vatneyri 27. des. 1899, ókv. og bl. (kallaður Ólafur mjóvi).
Barn Ólafs Ásbjörnssonar og Helgu Einarsdóttur, sem þá var skilin við fyrri mann sinn Jón Bjarnason, síðar bónda í Hænuvík, var:
Helga, f. á Láganúpi 6. júlí 1838, kona Jóns Sigurðssonar bónda í Hænuvík.
(Þetta virðist ruglingslegt, en þessi Helga er f á Hnjóti 1800, d. í Vatnsdal 21. apríl 1894, dóttir Einars Þórarinssonar og k.h. Þóru Jónsdóttur. -HÞ-)
1838-1844
Einar Einarsson. Bóndi á Láganúpi 1838 -1844. Áður bóndi á Hnjóti, síðar í Vatnsdal, sjá þar.
1844-1847
Ólafur Þorgrímsson. Bóndi á Láganúpi 1844 -1847. F. á Hvalskeri 1793, d. á Láganúpi 22. febr. 1847. Foreldrar: Þorgrímur Jónsson bóndi á Hvalskeri og k.h. Helga Nikulásdóttir.
K. 23. sept. 1832, Guðrún, f. í Króki 1794, d. í Breiðavík 5. sept. 1855 Jónsdóttir. Ekki er kunnugt með vissu um föður Guðrúnar, en móðir hennar hefur verið Elín Bjarnadóttir bónda á Lambavatni Pálssonar. Hún giftist rétt fyrir 1800 Ólafi Arngrímssyni bónda í Króki. Börn þeirra:
Guðríður, f. í Vatansdal 17. apríl 1830, d. á Hallsstöðum við Ísafjarðardjúp 2. febr. 1905, átti Jón yngri Einarsson bónda í Breiðavík um 1850, en síðar bróðurson Jóns, Einar bónda á Mábergi Jónsson, frá Geitagili. Elsti sonur Guðríðar og Jóns var:
Ólafur bóndi á Hallsstöðum. Dóttir hans var Ingibjörg kona Markúsar skipstjóra Bjarnasonar frá Ármúla.
Guðmundur, f. í Hænuvík 5. mars 1833.
Guðbjörg, f. í Botni 17. júlí 1834, í Breiðavík 1850.
1847-1849
Guðrún Jónsdóttir. Búandi á Láganúpi 1847-1849. Ekkja fyrrnefnds Ólafs Þorgrímssonar bónda á Láganúpi.
1849-1857
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Láganúpi 1847-1857, áður bóndi í Kvígindisdal og svo í Breiðavík, sjá þar.
1857-1866
Halldór Þorgrímsson. Bóndi á Láganúpi 1857-1866. Bjó ekki annarsstaðar. F. í Breiðavík 12.maí 1822, d. í Stekkadal 26. des. 1873. Foreldrar: Þorgrímur Sigurðsson bóndi í Breiðavík og k.h. Guðrún Halldórsdóttir.
K. 29. sept. 1949, Ingunn, f. í Skápadal 15. júlí 1820, d. á Mábergi 7. sept. 1896, systir Einars bónda þar Jónssonar bónda á Geitagili Einarssonar og k.h. Bergljótar Halldórsdóttur. Börn þeirra:
Guðjón, f. í Breiðavík 10. ágúst 1850, bóndi á Melanesi.
Þorgrímur, f. í Breiðavík 20. nóv. 1856, d. þar 22. jan. 1857.
Júlíus, f. á Láganúpi 10. sept. 1861, bóndi á Melanesi.
1866-1870
Finnbogi Sigurðsson. Bóndi á Láganúpi 1866-1870. Bjó ekki annarsstaðar í Rauðasandshreppi. Fluttist 1870 í Tálknafjörð, en þaðan 1874 á Barðaströnd. F. á Siglunesi á Barðaströnd 17. mars 1839, d. á Deildará 19. mars 1902.
K. 29. sept. 1861 (Hvallátrum), Ketilríður, f. 12. maí 1841, d. á Deildará 1. apríl 1902 Jónsdóttir bónda og smiðs í Miðhlíð Bjarnasonar. Ketilríður ar systir Þórdísar konu Magnúsar Sigurðssonar bónda á Geitagili, bróður Finnboga, og Kristjáns Jónssonar föður Erlendar bónda á Hvallátrum. Börn þeirra:
Sigurður, f. á Látrum 17. júní 1862, d. 10. júlí sama ár.
Sigurður, f. á Látrum 22. jan. 1864, d. 15. júní 1866.
Ágústínus, f. 1. ágúst 1865 á Látrum, d. í Valshamri í Geiradal í júní 1894, kvæntur Guðrúnu Gísladóttur. Börn þeirra: Kristín og Sigurður dóu fullorðin, en óg. og bl.
Þórdís, f. á Láganúpi 23. febr. 1867, d. þar 15. maí sama ár.
Sigurður, f. 15. apríl 1868, d. 24. sama mán.
Kristín, f. á Suðureyri í Tálknafirði 19. júlí 1871, d. á Hóli í Tálknafirði 29. júlí 1879.
Jón, f. á Hóli í Tálknafirði 19. maí 1873, d. á Firði í Múlasveit 21. mars 1902, ókv. og bl.
Sigurður, f. í Litluhlíð á Barðaströnd 2. júní 1874, bóndi á Mýrum í Dýrafirði, d. þar 26. jan. 1909, kvæntur Elísabetu Kristjánsdóttur. Börn þeirra: Jóna Ágústa, gift Jóhannesi Andréssyni á Flateyri, áttu 6 börn, Kristján Sigurður, sjómaður í Hafnarfirði kvæntur Kristínu Halldóru Guðmundsdóttur, eiga 5 börn, Finnbogi bankaritari í Reykjavík, kvæntur Jóhönnu Sigríði Hannesdóttur, eiga 4 börn, Guðríður, f. á Krossi á Barðaströnd 27. júlí 1878, mun hafa farið til Danmerkur og gerst þar hjúkrunarkona, en síðan flutzt til Vesturheims, óg. og bl., að þvi er kunnugir telja.
Með Ingibjörgu Knútsdóttur átti Finnbogi son:
Ágúst, f. 1. ágúst 1801 að Bjarnastöðum í Vatnsfjarðarsókn. Var í sókninni til 1926, fór þá til Ísafjarðar, en síðan til Reykjavíkur. Mun hafa dáið þar ókv. og bl. um eða eftir 1930?
1870-1878
Magnús Sigurðsson. Bóndi á Láganúpi 1870-1878. Fluttist þá að Geitagili og bjó þar til 1887, er hann lét af búskap. Albróðir Finnboga fyrrnefnds bónda á Láganúpi. F. á Siglunesi 18. maí 1842, d. á Stökkum 24. apríl 1894. Foreldrar: Sigurður Finnbogason bóndi á Látrum og k.h. Sigríður Magnúsdóttir.
K. 5. sept. 18678, Þórdís, f. í Miðhlíð 4. maí 1838, d. á Látrum 5. jan. 1911 Jónsdóttir smiðs í Miðhlíð Bjarnasonar og k.h. Kristínar Jónsdóttur bónda á Kirkjubóli í Arnarfjarðardölum, smiðs, seinast í Haga, Helgasonar bónda á Hvalskeri Helgasonar. Alsystir Ketilríðar konu Finnboga, bróður Magnúsar. Börn þeirra:
Jón, f. á Hvallátrum 21. sept. 1867, bóndi á sama stað.
Guðmundur, f. á Látrum 5. nóv. 1868, d. þar 7. sept. 1890, flogaveikur.
Sigurður, f. á Láganúpi 10. apríl 1871, d. 16. júní 1917, smiður. Kona Soffía Gísladóttir bónda í Gerðakoti á Álftanesi Bjarnasonar.
Ólafur, f. á Láganúpi 27. des. 1873, d. í Reykjavík 1955, trésmiður, síðar kaupmaður í Reykjavík (Verslunin Fálkinn). Kona 25. sept. 1897, Þrúður, f. 6. des. 1875, d. í Reykjavík 15. apríl 1949 Jónsdóttir b. Eignuðust 9 börn.
1878-1895
Ásbjörn Ólafsson. Bóndi á Láganúpi 1878-1895. Áður bóndi á Geitagili (1856-1878). F. á Lágnúpi 21. sept. 1824, d. þar 3. jan. 1897. Foreldrar: Ólafur Ásbjörnsson bóndi á Láganúpi og k.h. Helga Einarsdóttir bónda í Kollsvík Jónssonar. Helga dó á Hnjóti 24. nóv. 1875, f. á Vatneyri 1797.
K. Jóhanna Einarsdóttir bónda í Tungu Árnasonar. Börn þeirra:
Dómhildur, f. á Hnjóti 16. ágúst 1853, d. á Láganúpi 26. júlí 1890 kona Árna Árnasonar, er ættaður var undan Jökli. Börn þeirra voru: Jóhanna kona Bærings bónda í Keflavík, Árni húsmaður á Látrum kvæntur Ágústu Guðjónsdóttur, Helgi bóndi í Kollsvík og dóttir, sem dó ungbarn.
(Ásbjörg) Þóra, f. á Geitagili 16. ágúst 1854, d. þar 19. apríl 1870.
Helgi, f. 19. sept. 1855, d. þar 17. ágúst 1864.
Sigríður, f. 16. des. 1856, d. á Hnjóti 5. jan. 1936, kona Engilberts á Geitagili.
Jónína, f. 30. maí 1858, d. í Botni í Geirþjófsfirði 6. des. 1946 kona Bjarna Jóhannessonar bónda á Geitagili Jónssonar.
Kristján, f. 25. ágúst 1859, bóndi á Grundum.
Guðrún, f. 8. júlí 1861, d. 18. febr. 1907, fannst örend í flæðarmáli milli Bíldudals og Litlueyrar, óg. og bl.
Guðbjörg, f. 6. júní 1864, d. 7. ágúst sama ár.
Helgi, f. 22. ágúst 1865, d. 19. apríl 1888, drukknaði undir Hnífaflögu, var þar að skjóta fugl eða sel.
Ólafur, f. 17. júlí 1868, bóndi á Láganúpi.
Jóhanna, f. 22. júlí 1870, d. á Patreksfirði 13? ágúst 1955, óg. og bl.
Ástríður, f. 15. febr. 1872, d. á Deildárá í Múlasveit 3. des. 1837, kona Jóns bónda þar Jónssonar.
1895-1914
Ólafur Ásbjörnsson. Bóndi á Láganúpi 1895-1914. F. á Geitagili 17. júlí 1868, d. í Botni 3. maí 1924. Foreldrar: Ásbjörn Ólafsson bóndi á Láganúpi og k.h. Jóhanna Einarsdóttir bónda í Tungu Árnasonar.
K. 1. okt. 1892, Kristín Magnúsdóttir (12.10.1873-07.11.1965) bónda á Hvalskeri Einarssonar og k.h. Guðnýjar Jónsdóttur. Börn þeirra:
Guðný Kristjana, f. á Láganúpi (25.12.1893-13.05.1989), kona Sveins Jónssonar bónda á Sellátranesi (sjá þar).
Helga (25.07.1896-19.11.1979), kona Hjartar Kristjánssonar Patreksfirði. 1 barn.
Ásbjörn (20.03.1898-18.11.1992), bóndi í Skápadal (sjá þar).
Kristmunda Jóna, f. 22. júní 1902, d. 7. sept. sama ár.
Ólafía (07.08.1906-07.09.1988), kona Einars Einarssonar á Haukabergi Ebeneserssonar. Bl.
Einar Magnús (12.06.1912-19.11.1998), vegaverkstjóri. Bóndi Vesturbotni (sjá þar).
Ólafur fluttist að Botni í Patreksfirði 1914.
1914-1927
Össur Guðbjartsson. Bóndi á Láganúpi 1914-1927. Áður bóndi í Kollsvík, sjá þar.
1927-1952
Guðbjartur Halldór Guðbjartsson (15.07.1879-01.10.1970). Húsmaður og bóndi í Tröð í Kollsvík 1909-21; á Grund (þurrabúð í Láganúpslandi) 1922-27, og bóndi á Láganúpi 1927-1952. Einnig formaður á bátnum Ruth í Kollsvíkurveri. Afkastamikill og eftirsóttur hleðslumaður og manna gleggstur á fé. F. í Kollsvík, yngsta barn Guðbjartar Ólafssonar bónda þar og k.h. Magdalenu Halldórsdóttur.
K. 24. sept. 1909, Hildur (16.08.1889-31.01.1967), f. í Breiðavík, Magnúsdóttir bónda á Hnjóti og Önnu Jónsdóttur bónda á Hnjóti Torfasonar, sem síðar varð kona Össurs Antons Guðbjartssonar í Kollsvík. Börn þeirra:
Fríða, f. í Kollsvík 30. júlí 1909, d. á Lágnúpi 27. ágúst 1927.
Einar Tómas (26.07.1911-23.08.1979), f. í Kollsvík, sjómaður; kaupfélagsstjóri á Gjörgum, Vegamótum, Súðavík, Hellisandi, Laugarvatni og víðar; síðast lengi skrifstofumaður í Borgarnesi. K. Guðrún Beta Grímsdóttur bónda á Grundum Árnasonar. 1 kjördóttir.
Magnús (27.02.1913-28.02.1941), matsveinn; fórst með togarnarnum Gullfossi, kvæntur Ólöfu Sveinsdóttur. 1 dóttir
Guðbjartur Halldór, f. í Tröð (27.12.1915-31.05.1968). Vélstjóri á ýmsum skipum en síðar við vélasölu. K. Guðríður Guðjónsdóttir (10.05.1921-12.09.1998) f. á Suðureyri við Súgandafjörð. 3 drengir.
Jón Ingvar, f. í Kollsvík 11. mars 1918, d. þar 28. apríl 1920.
Guðrún Anna Magdalena, f. í Kollsvík (03.06.1919-07.06.2008), gift Maris Arasyni, f. að Börmum í Gufudalssveit 25. maí 1908. Bjuggu í Reykjavík. 4 börn.
Össur Guðmundur, f. á Láganúpi (19.02.1927-30.04.1999), bóndi á Láganúpi frá 1952; lengi oddviti Rauðasandshrepps og í ýmsum öðrum félagsmálum. K. Sigríður Guðbjartsdóttir (05.08.1930-06.06.2017) Egilssonar á Lambavatni. Bóndi og listakona; bjó mörg ár á Láganúpi eftir fráfall Össurar. 5 synir.
Jón Ingvar, f. á Láganúpi (31.05.1925-14.05.1999), bóndi á Stekkjarmel og Kollsvík, en flutti suður og vann við jarðboranir. K. Sigurlína Jóna Snæbjörnsdóttir f. 03.04.1929, Thoroddsen frá Kvígindisdal. 5 börn, auk þess sem Jóna átti dóttur fyrir.
Henríetta Fríða (13.12.1928-28.02.2008). M. Valur S. Thoroddsen, sonur Snæbjarnar í Kvígindisdal. Bjuggu lengst af í Kvígindisdal en fluttu í Borgarnes. 6 börn.
Knútur Páll (04.08.1931-08.06.2007). Kenndi við Samvinnuskólann eftir nám; skrifstofumaður og síðar forstjóri í Borgarnesi. K. Herdís Guðmundsdóttir f. 11.12.1930 á Syðralóni á Langanesi. 3 börn.
1952-1999
Össur Guðmundur Guðbjartsson. Bóndi á Láganúpi síðan 1952. F. á Láganúpi 1. febr. 1927; d. 30.04.1999. Foreldrar: Guðbjartur Guðbjartsson bóndi á Láganúpi og k.h. Hildur Magnúsdóttir. Sat í hreppsnefnd Rauðasandshrepps 1958-1986, þar af sem oddviti frá 1970 og gegndi fjölda annarra trúnaðar- og félagsmálastarfa, bæði fyrir sveit og bændastétt. Veiktist alvarlega 1986 og sáu Sigríður kona hans og Hilmar sonur hans um búið eftir það.
K. Sigríður Guðbjartsdóttir (05.08.1930-06.06.2017) bónda á Lambavatni Egilssonar og k.h. Halldóru Kristjánsdóttur bónda á Grundum Ásbjörnssonar. Sigríður var mjög listfeng; fékkst við ýmsa listsköpun, t.d. útskurð og málun; málaði m.a. á steinhellur. Börn þeirra:
Guðbjartur, f. á Láganúpi 16. febr. 1954. Rekur bókhaldsstofu á Hornafirði með konu sinni; Agnesi Ingvarsdóttur, f 19.05.1950, sem þaðan er ættuð.
Valdimar, f. á Láganúpi 4. maí 1956. Hefur m.a. fengist við verslun, sjómennsku, ferðaþjónustu o.fl. Frumkvöðull í sjávarorkunýtingu. K. Guðbjörg Sigurðardóttir, fædd 15.10.1953 á Djúpuvík á Ströndum. Hún átti 2 börn.
Hilmar, f. á Láganúpi 2. júní 1960. Bóndi í Kollsvík og síðar bústjóri í Húsdýragarðinum og á Keldum í Reykjavík. Sat í bæjarstjórn Vesturbyggðar. K. Hólmfríður Steinunn Sveinsdóttir f 01.11.1961; Ólafssonar á Lambavatni. 5 börn.
Egill, f. á Láganúpi 16. apríl 1964. Skrifstofumaður, sjómaður og stjórnandi fiskmarkaðar á Patreksfirði. K. Sigfríður G. Sigurjónsdóttir f 12.12.1964. 3 börn.
Kári, f. á Láganúpi 7. apríl 1969. Rafeindavirki í Reykjavík og síðar á Patreksfirði.
1986-2000
Sigríður Guðbjartsdóttir (05.08.1930-06.06.2017) sá um búrekstur á Láganúpi eftir að Össur veiktist og lamaðist 1986, auk umönnunar um hann. Hún naut aðstoðar sona sinna og á þessum tíma færðist búreksturinn á hendur Hilmars í Kollsvík. Fjárbúskap á Láganúpi var þá lokið og um 2000 lauk einnig mjólkursölu og kúabúskap á Láganúpi. Sigríður bjó þó áfram á Láganúpi, allt þar til hún sjálf veiktist árið 2011. Eftir það dvaldi hún á sjúkrahúsi á Patreksfirði til dánardags.
Jarðabókin 1703 “Hólar eru byggðir í túninu um sama leyti (og Grundir; þ.e. um 1650), og voru þá 7 ½ hdr. Síðan hafa Hólar og heimajörðin skift á milli sín túninu ýmislega, so partarnir hafa á víxl verið; stundum meiri; stundum minni”. … “Á Hólum býr Ólafur Jónsson. Landskuld hans er 3 vættir. Betalast á eyri, so mikið sem ske kann. Leigukúgildi með Hólum 2 (1 kýr, 6 ær). Í kvaðarnafni er Ólafur formaður fyrir landeiganda skipi þar, og hefur þar fyrir (í formannskaupsnafni) höfuðin af skiphlutnum. Hjá Ólafi eru nú lifandi, fyrir utan kvígildin; 3 gemlingar. Þar fóðrast 1 kýr og ekki meir. Heimilismenn Ólafs eru 4”.
Hólar fóru í eyði fáum árum eftir heimsókn Árna; líklega í Stórubólu árið 1707. Tún féllu þá aftur til Láganúps og voru nytjuð þaðan meðan búskapur stóð.
Á Hólum stendur mjög gamalt steinhlaðið torfhús; Hesthúsið á Hólum. Allar líkur benda til þess að það hafi staðið undir þaki og í notkun frá því Hólar byggðust (1650), og sé því um 370 ára gamalt. Það er því elsta hús á Íslandi ef frá er talinn skálinn á Keldum. Húsið gegndi hlutverki hesthúss og sumarfjóss til um 1940, en var eftir það nýtt sem reykkofi. Eftir viðhaldsvinnu 2010-2015 hefur það verið vinsæll viðkomustaður ferðafólks.
1703
Ólafur Jónsson. Bóndi á Hólum. F. um 1658. Ekki er kunnugt um ætt hans eða afkomendur barna hans.
K. Salvör, f. um 1660 Gunnarsdóttir (sjá Kollsvík). Börn:
Bjarni, f. 1689.
Guðrún, f. 1691.
Jarðabókin 1703 “Grundir eru uppbyggðar úr stekk fyrir 50 árum eða þar um, og voru þá reiknaðar fyrir 3 hundruð. Á Grundum býr Guðbrandur Diðriksson. Landskuld hans er 3 vættir. Betalast á eyri, og í gildum landaurum ef til eru. Við til húsbyggingar leggur landeigandi (mais non pas sufficement. Þ.e. en ekki nægjanlega). Leigukúgildi 3. Leigur betalast með fiski á eyri. Kúna (hún er ein) uppyngir landsdrottinn. Ærnar hefur leiguliði uppyngt; þó er það ei á skilið. Í kvaðarnafni er ábúandi formaður fyrir landsdrottins skipi þar, og hefur í formannskaup höfuðin af skiphlutnum. Lifandi er hjá Guðbrandi kýr 2, ær 14, gemlingar 7, hross 1. Þar fóðrast 1 kýr, lömb 4. Heimilismenn á Grundum 5. Engjar eru með… Hólum og Grundum engar”.
1703
Guðrún Jónsdóttir. Búandi á Grundum 1703. F. um 1643. Ekkja Diðriks Jakobssonar. Hannes Þorsteinsson telur í athugasemdum við manntal 1703, að synir þeirra hafi verið:
Jón elsti 40 ára bóndi á Láganúpi 1703.
Jón 35 ára bóndi í Sauðlauksdal 1703, Jón yngsti 34 ára bóndi í Keflavík 1703.
Guðbrandur 38 ára hjá móður sinni þegar manntalið var tekið, seint á vetri 1703, en bóndi st. um vorið, þegar jarðabókin er gerð.
Ketill 30 ára einnig hjá móður sinni 1703.
1703-
Guðbrandur Diðriksson. Bóndi á Grundum frá vorinu 1703. F. um 1665. Ekki kunnugt um kvonfang hans eða afkomendur.
Árið 1735 eru tveir bændur taldir á Láganúpi. Búskap var þá lokið á Hólum, svo líklega býr annar á Láganúpi en hinn á Grundum.
1762
Eyjólfur Jónsson. Bóndi á Grundum 1762. Þetta er líklega sá Eyjólfur Jónsson sem deyr í Saurbæjarsókn 15. nóv. 1770, 79 ára gamall „ekkjumaður, valinkunnur“, og ennfremur sjá E.J. sem býr í Keflavík 1735, sjá þar.
um 1770-1791
Steinn Þorsteinsson. Bóndi á Grundum líklega um 1770-1791 eða lengur. Mun þá hafa flutzt að Kvígindisdal, er þar 1801 og hefur sennilega dáið þar (18. nóv. 1906). Virðist hafa verið á Geitagili og Hnjóti áður en hann kom að Grundum, en ekki er vitað með vissu, hvort hann hefur verið bóndi þar, fyrstu árin eftir að hann kvæntist (F. um 1742, fermdur í Sauðlauksdal 1756, 14 ára., d. 18. nóv. 1806). Ekki verður með vissu sagt um foreldra Steins, en það hefðu getað verið: Þorsteinn Einarsson og f.k.h. Sæborg Jónsdóttir, sem dó í Saurbæjarsókn 1762, sjá Bjarna Jónsson bónda í Kollsvík 1780. Steinn var tvígiftur.
K. I 1765, Guðrún Össursdóttir, sem vafalaust hefur verið systir Solveigar konu Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík, sjá þar. Börn þeirra:
Jón, f. í Saurbæjarsókn 1766, d. sama ár.
Sigríður, f. á Geitagili í Sauðlauksdalssókn 1767, átti Árna Bjarnason bóndi á Geitagili. Afkomandi þeirra var Ásbjörn Ólafsson bóndi á Láganúpi.
Þuríður, f. á Hnjóti 1769, d. í Hergilsey 1830, átti Jón Þórólfsson bónda í Kvígindisdal 1808, afkomandi þeirra var Kristján Björnsson bóndi á Hvalskeri.
Guðrún líklega f. á Grundum 1771, er þar 1780, d. 1782.
Þorsteinn, f. á Grundum 1773, d. 2. apríl 1811 á Gili, dóttir hans var Kristín móðir Kristján Björnssonar á Hvalskeri (foreldrar hans systkinabörn).
K. II 1777, Kristín Loftsdóttir Jónssonar og Helgu Jónsdóttur, f. í Saurbæjarsókn 1751, d. í Kvígindisdal 3. mars 1807. Ekki er vitað hvort, eða hvar Loftur kann að hafa verið bóndi. Börn þeirra:
Guðrún, f. 1778, í Kvígindisdal 1801, en ekki síðar.
Loftur, f. 1779, ekki á manntali 1780.
Guðrún, f. 1785, dó sama ár.
Einar, f. 1789, í Kvígindisdal 1801, en ekki í manntali 1808.
Sigríður, f. á Grundum 1791, átti 1832 Jón Árnason bónda í Breiðavík 1808, Eyjólfssonar, þau bl. Sonur Sigríðar og Gísla Bjarnasonar var Bjarni, er átti Jóhönnu Gísladóttur prests í Sauðlauksdal Ólafssonar.
1791-um 1805
Þorlákur Pálsson. Bóndi á Grundum um eða eftir 1791-um 1805, áður í Hænuvík, býr þar 1780. Líklega flutzt að Grundum er Steinn Þorsteinsson fór að Kvígindisdal. F. um 1745, d. á Grundum um 1805. Foreldrar: Páll Bjarnason bóndi í Hænuvík 1762 og k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 1775, Margrét, f. um 1750, d. 23. ágúst 1810 Þorgrímsdóttir, líklega bónda á Lambavatni Jónssonar og f.k.h. Helgu Pálsdóttur. Börn þeirra:
Jón, f. 1776, d. 31. mars 1810 (marðist), ókv. og bl.
Þorlákur, f. 1778, bóndi á Láganúpi 1808 og 1817.
Þórólfur, f. 1780, d. 1782.
Anna, f. 1784, dó sama ár.
1804-1808
Þórkatla Eyjólfsdóttir. Búandi á Grundum 1808 (er hér okt. 1805 og búandi „frá 1804-5). Ekkja Þorgríms Péturssonar bónda í Dalshúsum 1801, sjá þar. Þórkatla er í Saurbæ 1817, bústýra Sigmundar Jónssonar bónda þar, áður bónda á Stökkum.
1817
Tómas Þórðarson. Bóndi á Grundum 1817. Bóndi á Hnjóti 1801, í Tungu 1808. Hefur líklega flutzt að Grundum, þegar Þórkatla lét af búskap þar. Árið 18?? Fluttist Tómas frá Grundum. F. 10. des. 1774. Foreldrar: Þórður Hafliðason bóndi í Tungu 1780 og k.h. Guðrún Pálsdóttir (hún er á Geitagili 1817, sögð f. á Litla-Króki, um 1744).
K. um 1798, Guðrún, f. á Illugastöðum í Múlasveit um 1763 Þorleifsdóttir bónda á Litlanesi, f. 1735, á Selskerjum 1703 Einarssonar. Bróðir Guðrúnar hefur verið Einar bóndi á Litlanesi, sjá Ólafur Magnússon bóndi á Naustabrekku. Börn þeirra:
Jón, f. 1798 í Tungu, á Grundum 1817.
Jórunn, f. í Tungu 1800.
Ólafur, f. í Tungu 1802.
Þórður, f. í Tungu 18. júní 1807, d. vinnumaður í Botni 49 ára 19. mars 1856.
1822-1827
Þorlákur Þorláksson. Bóndi á Grundum 1822-1827. Áður bóndi á Láganúpi, sjá þar.
1829-1839
Sigurður Jónsson. Bóndi á Grundum 1829-1839. Síðar bóndi í Breiðavík, sjá þar, þá í Tungu, en seinast 2 ár á Hvalskeri (1860-1862).
1839-1840
Steinunn Brandsdóttir. Búandi á Grundum 1839-1840. Ekkja Bjarna yngri Sigurðssonar bónda í Breiðavík, sjá þar. Seinni maður hennar var Jón Bjarnason, sjá hér á eftir.
1840-1849
Jón Bjarnason. Bóndi á Grundum 1840-1849. Síðar bóndi í Hænuvík, sjá þar. Var tvíkvæntur.
K. I Helga Einarsdóttir, sem síðar átti Hákon Guðmundsson bóndi á Grundum og í Tungu.
K. II Steinunn Brandsdóttir, sjá hér að framan.
1849-1852
Hákon Guðmundsson. Bóndi á Grundum 1849(50) -1852, í Tungu 1861-1869, sjá þar. F. á Geitagili 16. mars 1822, d. í Tungu 28. júní 1869. Foreldrar: Guðmundur bóndi á Geitagili Hákonarson og k.h. Anna Jónsdóttir.
K. 19. sept. 1841 (Tungu), Helga Einarsdóttir bónda á Hlaðseyri Þórarinssonar áður gift Jóni Bjarnasyni bónda í Hænuvík, sjá þar. Þau bl. Helga dó í Vatnsdal 21. apríl 1894, f. 1800.
1852-1856
Hjálmar Jónsson. Bóndi á Grundum 1852-1856. Fluttist þá að Geitagili, sjá þar. Seinast á Sellátranesi.
1856-1861
Ólafur Þorgrímsson. Bóndi á Grundum 1856-1861. Áður bóndi á Stekk í Breiðavík. F. 26. júlí 1819, d. 8. júlí 1864, drukknaði með Ólafi Magnússyni bónda í Breiðavík, sjá þar. Foreldrar: Þorgrímur Sigurðsson bóndi í Breiðavík og k.h. Guðrún Halldórsdóttir bónda í Botni Þorlákssonar.
K. 23. sept. 1841, Þóra Þórðardóttir, Jónssonar bónda á Skógi Bjarnasonar. Hún var systir Margrétar konu Gunnlaugs Þorleifssonar bónda í Bröttuhlíð. F. á Skógi 1816, d. í Kirkjuhvammi 16. maí 1874. Börn þeirra:
Guðrún, f. í Breiðavík 26. mars 1841, d. 1. apríl sama ár.
Gunnhildur, f. í Breiðavík 2. des. 1842, giftist ekki, en átti börn með Benjamín Magnússyni bónda í Bröttuhlíð.
Ingunn, f. í Breiðavík 10. sept. 1846, d. 17. sama mán.
Bjarni, f. í Breiðavík 4. jan. 1849, d. 5. sama mán.
Þorgrímur, f. í Breiðavík 8. júní 1850, d. 14. sama mán.
Kjartan, f. í Urðarhvammi (sama og Stekkur) 12. sept. 1851, d. 16. sama mán.
Þórunn, f. á Stekk 1. maí 1853.
Guðbjörg, f. á Grundum 21. ágúst 1858, d. á Ísafirði 10. des. 1932. Giftist ekki, en börn hennar voru þessi: Guðrún,f. 188?, d. á Patreksfirði 20. ágúst 1905, Jónsdóttir bónda á Sjöundá, Ólafssonar. Óg. og bl. Ólína, f. 13. júlí 1885 Jónsdóttir síðar bónda á Skógi Runólfssonar, kona Daníels Jónssonarskósmiðs á Ísafirði. Guðlaug, f. 5. (kjb. 6.) des. 1889 Runólfsdóttir fyrrum bónda í Kirkjuhvammi Brynjólfssonar, kona Guðmundar Jónssonar vélstjóra í Reykjavík. Ólína, f. á Grundum 28. febr. 1860, ljósmóðir, kona Gísla bónda í Krossadal Sveinssonar bónda á Klúku Gíslasonar. Þau bl. Kjartan, f. í Botni 9. maí 1861, drukknaði í Þingeyrarhöfn, ókv. og bl.
1861-1863
Gunnlaugur Björnsson. Bóndi á Grundum 1861-1863. F. á Geirseyri 4. sept. 1836, drukknaði við landtöku undir innanverðu Blakknesi 23. apríl 1865, þá vinnumaður í Botni. Foreldrar: Björn kvæntur vinnumaður í Tungu Jónsson bónda í Kvígindisdal Þórólfssonar og k.h. Þuríðar Steinsdóttur, og Guðrún Bjarnadóttir vinnukona á Geirseyri. Guðrún mun hafa verið dóttir Bjarna eldra Sigmundssonar bónda í Breiðavík (fædd 25. febr. 1806).
K. 23. sept. 1859 (Láganúpi, Gunnl. talinn bóndi þar, en ekki er hann talinn það í þingabók sýslumannsembættisins), Júlíana Jónsdóttir bónda á Geitagili, Einarssonar og k.h. Bergljótar Halldórsdóttur. Einkadóttir þeirra:
Bergljót, f. á Látrum 5. mars 1858 (bæði vinnuhjú þar). Hún giftist Magnúsi Einarssyni bónda á Geitagili.
Júlíana dó í Tungu 21. jan. 1886.
1863-1868
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Grundum 1863-1968. Síðar bóndi í Efri-Tungu (1877-1884). Árin 1868-1877 vinnuhjú á Látrum, seinast húsmaður í Kollsvík, barnakennari. F. í Kvígindisdal 9. ágúst 1836, d. á Hvallátrum (við barnakennslu) 24. febr. 1898. Foreldrar: Bjarni Bjarnason bóndi í Kvígindisdal og k.h. Ingibjörg Bjarnadóttir bónda á Sellátrum Halldórssonar.
K. 27. sept. 1862 (Breiðavík), Anna Jóhanna Sigurðardóttir bónda á Hvallátrum Finnbogasonar og k.h. Sigríðar Magnúsdóttur. Anna dó á Grundum (Bökkum) 5. maí 1919. Hafði verið þar með sonum sínum Steina og Þórarni frá því um aldamót.
Ingibjörg, f. á Grundum 18. júní 1863, kona Sveins Benónýssonar bónda í Breiðavík.
Bjarni, f. á Grundum 16. ágúst 1865, d. í Tungu 11. sept. 1885.
Sigurbjörg, f. á Látrum 24. maí 1868, d. 20. ágúst sama ár.
Steinn, f. á Látrum 5. nóv. 1871, d. á Patreksfirði 12. jan. 1833, ókv. og bl.
Sumarliði, f. á Látrum 8. sept. 1873, d. í Reykjavík á Laugarnesspítala 4. apríl 1935, bóndi í Keflavík.
Bæring, f. á Látrum 7. sept. 1875, bóndi í Keflavík.
Þórarinn, f. í Tungu 8. okt. 1878, húsmaður á Bökkum í Kollsvík, síðar fiskimatsmaður á Patreksfirði kvæntur Guðmundínu Einarsdóttur bónda í Stekkadal Sigfreðssonar.
Sólborg, f. í Tungu 12. ágúst 1881, d. s.st. 18. júní 1884.
1870-1905
Halldór Ólafsson (11.04.1841-05.05.1905) Halldórssonar bónda í Hænuvík og k.h. Guðbjargar Brandsdóttur.
K. Halldóra Mikalína Halldórsdóttir (31.05.1843-14.09.1923), dóttir Halldórs Kolvig Einarssonar, Jónssonar bónda í Kollsvík, og Halldóru Tómasdóttur. Börn þeirra:
Guðbjörg (12.06.1867-20.10.1948). Kona Kristjáns Ásbjörnssonar (sjá næst)
Einar Tómas (11.08.1869-05.06.1888).
Ólafur (21.12.1871-11.12.1951). Lausamaður á Grundum og víðar; óg, bl.
Halldóra (08.08.1873-20.06.1875).
Halldór (15.11.1874-12.09.1875).
Halldóra (01.10.1876-22.01.1948). Ólafur Ólafsson (06.11.1875-03.02.1951), skipstjóri á Vatneyri.
Ólína (12.06.1878-15.04.1961).
Sigurbjört (27.10.1879-25.07.1941). Helgi Gíslason (18.06.1969-29.03.1954). Bóndi á Brekku á Álftanesi.
Jónfríður (22.10.1882-16.01.1969). Sigurjón Gunnarsson bifr.stj í Hafnarfirði (19.05.1880-29.03.1954). 8 börn.
Halldór (12.10.1886-30.10.1886).
1901
Bjó á Grundum Gísli Ólafsson (27.12.1838-02.05.1918) Halldórssonar frá Hænuvík. (Gísli var albróðir Halldórs Ólafssonar Grundum, sjá hér síðast).
K. Vigdís Ásbjörnsdóttir (25.10.1849-12.09.1924) Bjarnasonar á Sellátranesi og Guðrúnar Össurardóttur. Vigdís var eina barn þeirra en talið var að hún væri laundóttir séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal. Gísli og Vigdís bjuggu á Grænumýri um 1910 (sjá þar), en 1915-1920 voru þau í heimili hjá Guðbjarti og Hildi í Tröð (sjá þar). Börn:
Guðbjörg (19.11.1872-03.05.1882), óg, bl.
Ingibjörg (04.05.1873-03.10.1882)
Guðrún (18.02.1881-11.06.1954). M. Gestur Jónsson húsmaður á Hvallátrum (sjá þar). Síðast bóndi á Sellátranesi. Bl.
Jóhannes Bergþór (10.12.1889-09.08.1976). Verkamaður Patreksfirði. Svanfríður Guðfreðsdóttir (01.07.1897-09.03.1973). 3 börn.
1895-1926
Kristján Ásbjörnsson. Bóndi á Grundum 1895-1926. Bjó hvergi annarsstaðar. F. á Geitagili 25. ágúst 1859, d. 25. nóv. 1926. Foreldrar: Ásbjörn Ólafsson bóndi á Geitagili og Láganúpi og k.h. Jóhanna Einarsdóttir bónda í Tungu Árnasonar.
K. 12. okt. 1889, Guðbjörg, d. í Reykjavík 20. okt. 1948 Halldórsdóttir bónda á Grundum Ólafssonar. Börn þeirra:
Dagbjartur, f. 25. maí 1888, d. 2. ágúst sama ár.
Egilína (06.01.1891-16.06.1945) kona Kristjáns Jónssonar bónda í Raknadal Gíslasonar. 1 barn.
Theódór, f. 6. des. 1894, sjómaður í Kollsvík og síðar í Hafnarfirði; d.14.04.1953, ókv. og bl.
Kristján Júlíus (12.07.1897-09.10.1970) bóndi í Efri-Tungu.
Jóhannes Albert (20.12.1898-07.06.1971) kvæntur Viktoríu Guðmundsdóttur, búsett í Reykjavík.
Halldóra Mikkalína (02.03.1904-03.05.1986) kona Guðbjartar bónda á Lambavatni Egilssonar.
Guðrún Helga (25.11.1905-25.08.1967), fyrri kona Sigurvins bílstjóra í Reykjavík, Össurssonar bónda í Kollsvík Guðbjartssonar.
Guðmundur Jóhann (02.05.1907-27.01.1962), bóndi í Vatnsdal.
Ásbjörn, f. 12. jan. 1910, d. 18. ágúst 1911.
Kristinn (22.05.1911-22.09.2000), bóndi í Vesturbotni ókv. og bl.
Guðbjörg Jónína (22.05.1911-10.12.1992), kona Jóns Gíslasonar kennara á Patreksfirði o.v.
1926-1927
Guðbjörg Halldórsdóttir. Búandi á Grundum 1926-1927. Ekkja Kristjáns Ásbjörnssonar.
1927-1934
Kristján Júlíus Kristjánsson. Bóndi á Grundum 1927-1934. Frá 1934 til 1939 bjó hann að þurrabúðinni Grund (sjá hér á eftir) ásamt Dagbjörtu Torfadóttur. Frá 1939 buggu þau í Efri Tungu. Keyptu jörðina 1953? Júlíus var formaður í Kollsvíkurveri; síðar barnakennari, sýslunefndarmaður o.fl.
1930-1945
Grímur Árnason (30.11.1891-04.01.1972). Bóndi á Grundum 1930-1945. Húsmaður í Breiðavík, síðan á Leiti (í Tungulandi) í Örlygshöfn, en fluttist þaðan að Grundum. Frá 1945 sjúklingur á Vífilsstöðum. F. í Keflavík á Snæfellsnesi. Foreldrar: Árni, f. í Keflavík á Snæfellsnesi 18. maí 1862, d. á Vatneyri 19. febr. 1899 Árnasonar um skeið bónda í Hergilsey Gíslasonar og Hallgerðar (giftist Árna 16. okt. 1892) Grímsdóttur, d. í Flatey 21. maí 1925, en f. í Keflavík á Snæfellsnesi 1. ágúst 1869.
Árni Árnason var á bát, sem lenti í hrakningum frá Sandi og rak upp í Bæjarós á Rauðasandi (1878?). Hann varð eftir það vestra, er skipverjar héldu heimleiðis (þar á meðal faðir Árna, sem var formaður).
K. 17. des. 1919, María (11.04.1893-01.11.1946), Jónsdóttir bónda í Krókshúsum Árnasonar: Börn:
Ólína Sigríður, f. í Breiðavík 9. júlí 1920, dó um fermingu.
Hrefna, f. í Breiðavík 22. sept 1921, d. 1924.
Guðrún Beta, f. í Tungu (Leiti) (25.05.1923-17.02.2019), kona Einars Guðbjartssonar bónda á Láganúpi (sjá þar).
Arngerður Jóhanna, f. 13. júní 1925, kona Jóns Friðrikssonar frá Flateyri, búsett í Kanada.
Guðmundur Bjarni (20.10.1926-21.01.2001), sjúklingur.
Rakel (25.06.1928-18.07.2016). Gift Jónasi Bjarnasyni, Uppsölum í Blönduhlíð.
Elín Gréta, f. 3. jan. 1930, kona Guðmundar Theodórssonar, búsett á Blönduósi.
Kristrún, f. á Grundum (03.07.1931-02.03.2019).
Sólveig, f. 20. jan. 1933. Ólafur Einar Ólafsson.
Óskar Veturliði, f. á Grundum (11.04.1934-12.02.1920). K. Margrét Gestsdóttir.
Eftir að Grímur flutti frá Grundum með sína fjölskyldu féll jörðin undir Láganúp og var nytjuð þaðan.
Þurrabýli neðan Grunda, þar sem áður var Láganúpsver um aldir. Byggðist einkum á sjósókn, ásamt lítilsháttar skepnuhaldi.
1898?-1919
Anna Jóhanna Sigurðardóttir (26.04.1840-05.05.1919), ekkja Bjarna Bjarnasonar (09.08.1863-24.02.1898), kennara og fyrrum bónda á Grundum bjó ásamt börnum þeirra á Grundabökkum. Sjá nánar um þau á Grundum 1863-1868.
1905-1930
Þórarinn Bjarnason (08.10.1878-27.04.1963) bjó lengi á Grundabökkum, en flutti svo á Patreksfjörð og vann þar sem verkamaður, vigtar- og fiskmatsmaður. Síðan bóndi í Hliði Álftanesi, seinast í Reykjavík. Sonur Önnu og Bjarna á Grundum/Grundabökkum.
K. Guðmundína Einarsdóttir (07.06.887-26.06.1856) frá Stekkadal (sjá þar). Börn:
Einfríður Elínborg (1908-1908)
Ingólfur Jón (20.02.1909-22.10.2000), síðast bús í Rvík.
Bjarney Anna Jóhanna f. 1910; dó sama ár.
Bjarndís Anna Jóhanna (15.12.1911-05.06.1912).
Aðalheiður Guðrún (03.04.1913-09.06.2001).
Ingimundur Þorgeir (11.04.2016-25.08.1982). Vkm á Patreksfirði. Svava Gíslad.
Svava (29.05.1917-17.07.1989). Rvík. Valgeir Guðmundur Sveinsson.
Ólafía Eva (05.10.1920-14.06.1939).
Einar Bjarni (21.12.1922-25.05.1979). Sjóm Rvík.
Elínborg (19.08.1925-03.03.1991) Rvík.
Óli Anton (13.01.1928-09.03.1974). Rvík
Elsa Herborg (29.11.1930-16.02.2020). M. Guðbrandur Skúlason sjómaður; bróðir Hjartar Skúlasonar (sjá Stakkar).
Steinn Bjarnason (05.11.1871-12.01.1933) bróðir Þórarins bjó samtíða honum á Grundabökkum. Síðar verkamaður á Patreksfirði; óg og bl. “Þeir bræður höfðu litla grasnyt og fáar skepnur. Þórarinn líklega 20-30 kindur en Steinn 10-20. Enga kú höfðu þeir og urðu því að kaupa alla mjólk” (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi). Grundabakkar voru ekki í byggð nema þennan skamma tíma.
Grund var nafn á þurrabýli sem Samúel Eggertsson og kona hans byggðu norðantil í Láganúpslandi, þar sem heitir Torfmelur (Torfamelur). Gekk kotið einnig undir nafni ábúenda hverju sinni; Samúelsmelur og Júllamelur.
1903-1908
Samúel Eggertsson (25.05.1864-07.03.1949). Foreldrar Eggert Jochumsson (bróðir Matthíasar þjóðskálds) og Guðbjörg Ólafsdóttir bændur á Melanesi. Samúel varð búfræðingur frá Ólafsdal; gerðist síðan barnakennari í Rauðasandshreppi; hreppsnefndarmaður og oddviti. Hann bjó á Stökkum 1894-1903 (sjá þar); byggði þá nýbýlið Grund í Láganúpslandi og bjó þar til 1908: vann síðan við lyfjaafgreiðslu á Ísafirði í 2 ár en flutti þá til Reykjavíkur. Mældi m.a. kaupstaði og kauptún og gerði kort af þeim, auk þess að vera eftirsóttur kortateiknari, skrautritari og listamaður. Á Grund stóð Samúel fyrir áveituframkvæmdum sem enn sjást ummerki um, í Miðmýrunum.
K. Marta Elísabet Stefánsdóttir (06.06.1858-23.02.1939) frá Hítarneskoti í Hnappadalssýslu. Börn þeirra:
Helgi (06.01.1893-07.05.1896)
Halldóra (09.10.1897-10.05.1979). Pétur Guðmundsson. 4 börn.
Jóhanna Margrét (30.10.1901-06.12.1989). Jón Dalmannsson. 3 börn.
Samúel og Marta ólu upp Jochum Eggertsson (09.09.1896-23.02.1966), hálfbróður Samúels; sjómann, rithöfund og fræðimann. Ellefu ára reri hann sem hálfdrættingur frá Láturdal 1908, líklega síðustu vertíð þar, og segir frá því í greininni “Trýnaveður”. Einnig ólst að verulegu leyti upp hjá þeim Sigurjón Á. Ólafsson (29.10.1884-04.1954; Jónssonar frá Króki) eftir að hann missti móður sína 10 ára. Sigurjón reri í Kollsvíkurveri frá 11 ára aldri en á skútum á Eyrum frá 15 ára aldri. Síðar skipstjóri, alþingismaður og í fyrstu stjórn Slysavarnafélags Íslands.
1907-1908
Bæring Bjarnason (07.09.1875-22.12.1943) og Jóhanna Guðbjörg Árnadóttir (20.01.1885-09.10.1966) bjuggu stuttan tíma á Grund áður en þau bjuggu í Keflavík (1908-1920, sjá þar), þaðan sem þau fluttu að Efri-Tungu og síðan á Patreksfjörð. Sjá meira um þau og 9 börn þeirra í Keflavík.
1908-1910
Anna Jónsdóttir (13.05.1862-13.05.1924) Gíslasonar í Keflavík, bjó um tíma á Grund áður en hún flutti aftur í Keflavík, þar sem hún bjó síðan með manni sínum; Halldóri Benjamínssyni (sjá Keflavík). Þau fluttu svo að Hænuvík og síðast Hvallátrum.
1922-1927
Guðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879-01.10.1970) og Hildur Magnúsdóttir (16.08.1889-31.01.1967) bjuggu um tíma á Grund eftir að þau fluttu frá Hnjóti og áður en þau hófu búskap á Láganúpi. Á Grund fæddust Ingvar og Össur, synir þeirra (sjá Láganúpur).
1934-1939
Kristján Júlíus Kristjánsson (12.07.1896-09.10.1970) og Dagbjört Torfadóttir (27.09.1899-28.05.1985) bjuggu á Grund áður en þau hófu búskap í Efri-Tungu, og þar fæddist yngsta barn þeirra; Ásgerður Emma. (Sjá Efri-Tunga).
Stekkjarmelur (og Jensmelur/Nýlenda)
Grasbýli var stofnað úr landi Kollsvíkur, líklega 1899.
1899-1911
Henríetta Ottelía Emma Guðbjartsdóttir (16.09.1865- d. eftir 1960) Ólafssonar í Kollsvík og maður hennar Jens Jónsson (01.05.1872- d um 1930) frá Gufudalssveit fluttu frá Hrauni í Keldudal og stofnuðu grasbýli vestast á Melaröndunum í Kollsvíkurlandi. Er það merkt undir nafninu Jensmelur á korti Samúels Eggertssonar frá 1903-1907, en í öðrum heimildum sést heitið Nýlenda. Hús byggðu þau að mestu úr viði úr Breiðavíkurkirkju, en hún var endurbyggð um þetta leyti. Þegar húsið var rifið var svo viðurinn enn nýttur; nú í hús sem Guðbjartur Guðbjartsson byggði í Tröð. Ottelía og Jens fluttust til Winnipeg í Kanada árið 1911. Börn þeirra:
Magdalena Kristín (26.09.1897-06.12.1987). M. Sigurður Valdimar Brynjólfsson. Fluttu til Manitoba en áttu síðast heima í Vancouver. 7 börn.
Guðbjartur Jensson f 20.08.1900. Dó ungur í Kanada.
Jensína Valgerður Jensdóttir f 14.01.1903. Dó ung í Kanada.
1907-1942
Karl Hinrik Kristjánsson (27.11.1874-14.11.1956) frá Tungu í Tálknafirði, áður bóndi í Botni, og Mikkalína Guðbjartsdóttir (29.09.1870-29.04.1956) Ólafssonar frá Kollsvík (systir Ottelíu hér að framan) byggðu sér hús stuttu vestan við Jensmelinn og nefndu það Stekkjarmel. Var það grasbýli síðar gert að lögbýli og til þess lagðist land bæði frá Kollsvík og Láganúpi. Börn þeirra:
Andrés Teitur (05.11.1901-20.04.1980), tók við búi á Stekkjarmel.
Anna Halldóra (11.01.1903-26.07.1994). Björn Scheving Gunnlaugsson; búsett í Kópavogi.
Líkafrón (20.07.1904-15.03.1905)
Oddný Jóna (23.01.1906-26.09.1997) fiskverkakona á Patreksfirði, síðar búsett í Reykjavík. M. Þórarinn Guðmundur Benediktsson, sjómaður og netag.maður. 3 börn.
Matthías (21.11.1908-28.08.1988). K. Guðrún Jónsdóttir. Fluttu til Keflavíkur. 2 kjörbörn.
1942-1950
Andrés Teitur Karlsson (05.11.1901-20.04.1980), sonur Karls og Mikkalínu, og Járnbrá Jónsdóttir (22.12.1907-23.09.1956) frá Húsavík. Andrés reri úr Kollsvíkurveri og varð síðastur til að dvelja þar í verbúð. Fær bjargmaður og einn þeirra björgunarmanna sem sigu í fjöru er Dhooh-strandið varð undir Látrabjargi. Flutti á Patreksfjörð og gerði þar út trillu sína; Farsæl, til dauðadags. Þótti með afbrigðum happasæll og kappsamur sjómaður. Barn þeirra:
Kristín Henríetta f. 21.02.1949. Ingimundur Jónsson. 4 börn.
1952-1962
Ingvar Guðbjartsson (31.05.1925-14.05.1999) Guðbjartssonar á Láganúpi og Jóna Snæbjörnsdóttir Thoroddsen frá Kvígindisdal. Þau byggðu upp stórt fjárhús, fjós og virkjun á Stekkjarmel, en fluttu síðan að Kollsvík (sjá þar) þegar Ólafur Guðbjartsson flutti þaðan. Börn:
Rut f. 06.02.1953, leikskólakennari. Fyrri maður; Skúli Gunnar Hjaltason; 1 barn. Síðari maður; Viðar Friðriksson frá Bíldudal; 2 börn.
Snæbjörn Þór f 16.04.1954; raftæknifræðingur. Herdís Bjarney Steindórsdóttir; 3 börn. Barnsmóðir; Margrét Inga Karlsdóttir; 1 barn.
Árni f 08.08.1956; bóndi á Skarði í Lundarreykjadal. Ágústa Þorvaldsdóttir; 3 börn. Barnsmóðir Elín Árnadóttir; 1 barn.
Sigurður f 11.02.1958; vélstjóri. Kristín Guðný Sigurðardóttir; 1 fósturbarn. Barnsmóðir Kolbrún Björnsdóttir; 1 barn.
Guðrún Hildur f 14.07.1967; félagsráðgjafi. Maður I Pétur Pétursson; 1 barn. Maður II Ásbjörn Ólafsson; 1 barn. Maður III Þórhallur Vignir Vilhjálmsson; 1 barn.
Hersílía Thoroddsen f 07.12.1948 er dóttir Jónu með Sigurjóni Alexandersyni. Með Steinari Magnússyni átti Hersilía 1 barn og annað með Þorleifi Má Friðjónssyni; Snædísi f. 23.06.1967, sem ólst upp hjá Ingvari og Jónu.
Stekkjarmelur fór í eyði þegar Ingvar og Jóna fluttu að Kollsvík. Hilmar og Hólmfríður nýttu íbúðarhúsið lítillega til útleigu þegar þau bjuggu í Kollsvík. Þau seldu það Birni Guðmundssyni húsasmið á Patreksfirði (Gestarsonar frá Kollsvík), en síðar var það selt Hansínu Ólafsdóttur (Guðbjartssonar frá Kollsvík).
Frá fornu fari hafa verið tvær aðaljarðir í Kollsvík; Láganúpur handantil (suðvestantil) og Kollsvík norðantil. Smærri býli hafa verið þar um styttri tíma ásamt miklu útræði.
Um landnám Kollsvíkur Í Landnámabók segir svo (Hauksbók): „Örlygr hét son Hrapps Bjarnasonar bunu; hann var at fóstri með Patreki byskupi hinum helga í Suðureyjum. Hann fýstist að fara til Íslands ok bað að byskup sæi um með honum. Byskup fékk honum kirkjuvið ok bað hann hafa með sér ok ok plenárium járnklukku ok gullpenning ok mold vígða, at hann skyldi leggja undir hornstafi ok hafa þat fyrir vígslu, ok skyldi hann helga Kolumkilla“.
Á Iona í Suðureyjum var á þessum tíma helsta menntastofnun Veturlanda; klaustur heilags Kólumbusar, sem líklega ræðir hér um. Ekki eru heimildir um Patrek biskup þar, en tvær skýringar eru hugsanlegar á nafninu. E.t.v. vísast hér til heilags Patreks sem var uppi nokkru fyrr og hefur eflaust verið í hávegum hafður í klaustrinu. Eða hér er um norrænan framburð að ræða á skírnarnafni Federach mac Cormaic, en maður með því nafni stýrði klaustrinu frá 865 til dauðadags 880; sem gæti vel fallið að þessum tíma. Ferð Kolls og Örlygs er fyrsti skráði trúboðsleiðangurinn til Íslands, og hefur líklega átt sér stað á árunum 880-890. Landnáma segir að þeir hafi fengið fyrirmæli um það hvar land skyldi taka, en þar er lýst staðháttum á Kjalarnesi. Þar skyldi hann byggja kirkju og helga heilögum Kólumba (Kólumkilla). Síðan segir í Sturlubók Landnámu:
„Örlygr lét í haf ok sá maðr á öðru skipi er Kollr hét, fóstbróðir hans; þeir höfðu samflot. Á skipi með Örlygi var sá maðr er hét Þórólfr spörr, annarr Þorbjörn tálkni, Þriðji Þorbjörn skúma; þeir váru synir Böðvars blöðruskalla. En er þeir kómu í landván, gerði að þeim storm mikinn, og rak þá vestr um Ísland. Þá hét Örlygr á Patrek byskup, fóstra sinn, til landtöku þeim, og skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir váru þaðan skamma hríð, áðr en þeir sá land. Hann kom skipi sínu í Örlygshöfn, og af því kallaði hann fjörðinn Patreksfjörð. En Kollr hét á Þór; þá skilði í storminum, og kom hann þar sem Kollsvík heitir, ok braut hann þar skip sitt. Þar váru þeir um vetrinn; hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
En um várit bjó Örlygr skip sitt og sigldi brott með allt sitt; ok er hann kom suðr fyrir Faxaós, þar kenndi hann fjöll þau er honum var til vísat. Þar féll útbyrðis járnklokkan ok sökk niðr, en þeir sigldu inneftir firði ok tóku þar land sem nú heitir Sandvík á Kjalarnesi; þar lá þá járnklokkan í þarabrúki. Hann byggði undir Esjubergi at ráði Helga bjólu frænda síns og nam land millim Mógilsár ok Ósvífurslækjar; hann gerði kirkju at Esjubergi, sem honum var boðit“ .
Undan Láganúpsfjöru er boði sá skammt frá landi sem Arnarboði heitir. Samkvæmt munnmælum heitir hann í höfuðið á stýrimanni Kolls, og þar muni þeir hafa strandað. Landnámabók var rituð þegar nær þrjár aldir voru liðnar frá þessum atburðum, og er líklegt að heimildarmenn Ara fróða um þá hafi að mestu verið afkomendur Örlygs. Þeim hefur verið í mun að auka veg Örlygs með því að eigna honum fyrstu kirkjubygginguna. Ekki er þó síður líklegt að þeir fóstbræður hafi hjálpast að við að koma upp fyrstu kirkju landsins í Kollsvík þennan vetur sem þeir voru samvista. Eins er líklegra að kirkjuklukkan hafi lent í skipbroti Kolls við Arnarboða en að hana hafi rekið utanúr Faxaflóa, en Örlygur hafi svo tekið hana suður og notað í kirkju sem hann reisti að Esjubergi. Landnám Kolls var minnsta frumlandnám Íslands, en hásetar hans námu mestan hluta V-Barðastrandasýslu. Bendir þetta annarsvegar til mikilla landgæð víkurinnar, en einnig til nægjusemi hins keltnesk-kristna landnámsmanns. Hann hefur sennilega reist sér bæ og kirkju á þeim stað sem síðan stóð Kollsvíkurbærinn uppi undir Núpnum. Kollsvíkurbærinn nefndist Kirkjuból frameftir öldum. Þar stóð hálfkirkja í kaþólskri tíð og þar var kirkjugarður sunnan bæjarhólsins. Munnmæli herma að Kollur sé heygður fremst á Blakknestá, og hafi þaðan útsýni að Biskupsþúfu neðan bæjarins, þar sem hann hafi fólgið gull sitt. (Valdimar Össurarson frá Láganúpi).
Jarðabókin 1703 “Hefur fyrir reformationen verið hálfkirkja. Jarðardýrleiki 24 hdr. Eigandinn sr Páll Björnsson í Selárdal. Ábúandinn Bjarni Jónsson býr á 12 hdr. Annar ábúandi, Jón Bjarnason, á 12 hdr. Landskyld af allri 2 hdr og 40 álnir. Betalast í fiski í kaupstað ef til er, eður í peningum uppá danskan taxta, eðaur steinbíti. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukúgildi hjá hvörjum 4; alls 8. Leigur gjaldast á sama hátt sem landskyld. En Jón hefur alltíð fisk goldið. Kúgildin uppbætir landsdrottinn, það sem kýr eru. Kvaðir öngvar.
Kvikfjenaður Bjarna; 3 kýr, 1 kvíga, ær 19. Geldir sauðir 7, gemlingar 6, 1 hestur, 1 hross. Jóns Bjarnasonar; 4 kýr, ær 22, geldir sauðir 15, gemlingar 8, 1 hestur, 1 hross. Fóðrast kann á jörðinni 4 kýr, 12 lömb, ásauð er ætlaður útigangur. Heimlilismenn Bjarna 9, með föðurleysingi sem sveitin gjörir nokkurn styrk.
Reki hefur hepnast, þó sjaldan því straumar bægja. Heimræði ár um kring, og vel til fiskjar komið. Engjar nær öngvar. Tún sendið og grýtt. Skriðuhætt mjög og grjótfall sífellt á vetur. Kirkjuvegur langur og vondur; meir en þingmannaleið og sandságángur ærinn. Verstaða er þar ekki nje hefuur verið, nema því aðeins að stundum hafa þar gengið tvö skip, og nú eitt skip sýslumannsins Ara Þorkelssonar; þriggja manna far. Heimamenn gjalda öngvan toll af því veri, en aðkomandi gefa fimm álna toll, nema fyrir góðvild sje eftirgefið. Heimabúenda skip ganga nú tvö af hvörs hendi; allt smábátar, og þriðji bátur sem bróðir Jóns á og er formaður fyrir. Þegar veður er ógæft gengur ei nema eitt af hvörs bónda hendi, og fleyta þá hvörju því hásetar allir af bátunum.
Húsmaður hjá Jóni er bróðir hans með konu sinni, sem forsorgar sig og hana á sjálfafla, og hefur hvorki grasnyt nje fyrirsvar, nema það sem bróðirinn ljær honum”.
Mannskaðinn í Kollsvík 1857 Hinn 3. desember 1857 dundu hamfarir yfir Kollsvíkurbæinn með þeim afleiðingum að hann stórskemmdist; barn og kona létust og tvær stúlkur hlutu örkuml. Sturla Einarsson (Sjá Vatnsdal 1852-1870) var þá staddur í Kollsvíkurbænum; við smíðavinnu. Hann skrifaði síðar lýsingu á atburðinum. Snjó hafði hlaðið niður á jólaföstunni svo vart var fært milli bæja fyrir fannfergi. Þennan dag gerði garð af austnorðri með frosti. Sturla var við smíðar þegar eitthvað skall yfir bæinn; braut hann niður og þrengdi snjó í allar glufur. Strax var byrjað að leita að fólki, en átta manneskjur höfðu verið í baðstofunni er hún féll saman. Einungis voru tveir til leitar; Sturla og Bjarni Bjarnason barnakennari sem þarna var, en húsbóndinn á bænum, Guðbjartur Ólafsson, var staddur úti á Hvallátrum. Tvímenningarnir gátu fljótlega bjargað ófrískri konu, sem ekki varð meint af. Aðstæður voru slæmar vegna skafmoldarbyls og varð ekki leitað fyrr en morguninn eftir, og þá með hjálp manna af öðrum bæjum í víkinni. Þá fundust þrjú. Einn þeirra var svo slasaður að hann lifði ekki af; Gísli Gíslason, 20 ára. Það var þó ekki fyrr en þremur dögum síðar sem allt fólkið var fundið. Þrjú börn fundust þá á lífi í rúmi við baðstofugaflinn, þar sem holrúm var undir föllnu þakinu. Þau jöfnuðu sig, að undanskildu því að annað missti fingur þar sem höndin hafði staðið undan brekáninu. Ein kona hafði kafnað í göngunum; Ingibjörg Bjarnadóttir, 57 ára. Til marks um kraftana sem þarna voru að verki skarst ofanaf heyi sem borið hafði verið upp við húsgaflinn, líkt og eftir hnífsblað. Maður var á leið úr hlöðu til bæjar með reku í hendi. Hann fór á kaf en rekan fannst síðar 200 föðmum neðar.
Lengi var ekki vitað hvað þarna hefði skeð. Sú tilgáta fékk byr undir vængi að þarna hefði komið skýstrokkur eða hvirfilbylur. Jafnvel urðu til sögur um gerningaveður af völdum “fítonsanda”. Nú velkist enginn í vafa um að þarna hefur skollið snjóflóð á bæinn, sem komið hefur úr sunnanverðum Núpnum. Sönnun þess fékkst undir aldamótin 2000, í búskapartíð Hilmars Össurarsonar, þegar mikið kófhlaup kom niður á nákvæmlega sama stað eftir svipuð veðurskilyrði. Þá hafði Kollsvíkurbærinn fyrir löngu verið fluttur neðar í túnið og ekki varð skaði af í það sinn.
Kollsvíkurætt og Einar Jónsson Fjölmennur ættbogi rekur uppruna sinn til Einars Jónssonar, bónda í Kollsvík 1798-1836 og hreppstjóra (sjá hér síðar). Kona hans var Guðrún Jónsdóttir frá Vestur-Botni og áttu þau 5 börn, en einnig átti Einar 2 syni framhjá. Einar var ættaður frá Gröf í Gufudalssveit; af Grafarætt sem víðar skaut rótum í Rauðasandshreppi. Til Kollsvíkur kom hann frá Vatneyri. Hann gerðist brátt útsjónarsamur og umsvifamikill stórbóndi. Einnig átti hann hlut í skútunni Delphin í félagi við frænda sinn, Guðmund Scheving sem síðar varð stórútgerðarmaður í Flatey. Teljast þeir meðal frumkvöðla í skútuútgerð. Einar rak einnig mikinn útveg í Kollsvíkurveri. Það orð hefur fylgt Einari að hann hafi kunnað ýmislegt fyrir sér, enda var hann uppi meðan enn eimdi eftir af galdratrú. Sagt var að hann ætti magnaða galdraskræðu sem Fornótt hét.
Hval rak eitt sinn að landi, sem Einar lét skera og nýta. Í hvalnum var skutuljárn merkt Benedikt Gabríel, hreppstjóra og hvalveiðimanni í Arnarfirði sem orðlagður var fyrir galdra. Lög kváðu á um að slíku járni bæri að skila ásamt skotmannshlut, en Einar hafði það að engu. Benedikt gerði honum þá ýmsa skráveifu. Fyrst var það að hestar Einar fældust og fundust um síðir dauðir á Mávaflötum, ofan Rauðasands. Benedikt vakti einnig upp draug og sendi Einari. Olli hann Kollsvíkurhöfðingjanum ýmsum ama. T.d. fannst forystusauðurinn eitt sinn fótbrotinn og dauður. Í annað skipti mætti Einar draugnum, sem þá var í nautslíki. Kom þá kunnátta hans í góðar þarfir. Hann var með hrosshársreipi í hönd sér og náði að mýla bola. Teymdi hann síðan innyfir Hænuvíkurháls og batt við stein þar í Skarðinu með þeim fyrirskipunum að ef hann losnaði færi hann til baka og glettist við sendandann. Um tíma þóttust menn sjá mikið traðk í kringum steininn en síðar fréttist að Benedikt Gabríel hefði lagst sjúkur og þurft á allri kunnáttu sinni að halda til að ná heilsu.
Annar hvalur varð sögufrægur í tíð Einars. Veturinn 1801-1802 varð fádæma harður, og nefndu Vestfirðingar hann Klaka. Hafís lá við land frá janúar til höfuðdags og fjöldi fólks flosnaði upp og fór á vergang. Um sumarmál 1802 fundu Einar og skipverjar hans dauðan hval á floti frammi á Kollsvík. Komu þeir festum í hann, og síðan var tekið til við að róa hann í land. Það reyndist þrautin þyngri og má ætla að heldur hafi miðað til baka á suðurfallinu. Var hvalurinn aldrei yfirgefinn, en mönnum færður matur og drykkur úr landi. Eftir vikulangt streð tókst loks að koma hvalnum í fjöru, þar sem hann var skorinn. Hefur sú lífsbjörg vafalaust verið kærkomin í þrengingunum, þó ekki fari sögum af bragðgæðunum. Hvalurinn fékk nafnið Þæfingur og voru á honum 200 vættir matar (um 8 tonn). Bein hans voru nýtt til áreftis húsa.
Einar var hreppstjóri og skipaður opinber sækjandi í Sjöundármálinu. Honum mun ekki hafa líkað niðurstaða þess fyllilega. Þegar hann frétti að Bjarni Bjarnason hefði sloppið úr haldi en náðst á Móbergi var haft eftir honum að “hefði hann komist undir sína vernd hefði sýslumaður ekki náð honum til lífláts”. Sagt var um Einar að hann væri héraðshöfðingi sem bæri höfuð og herðar yfir flesta samtíðarmenn; skörungssamur og ráðríkur, en höfðingi í lund og hjálpsamur þeim sem bágt áttu.
Einar var líklega síðastur Íslendinga til að stunda rauðablástur, en gnægð er mýrarauða í Kollsvík. Fyrir nokkrum árum fundust menjar um kolagerð við Arnarstapaá í landi Vesturbotns. Hugsanlega hefur þar verið kolagerð Einars, enda átti hann tengdir á þann bæ.
Trausti Ólafsson frá Breiðuvík; prófessor og helsti safnari þessarar íbúaskrár, tók saman veglegt rit um Kollsvíkurætt, sem gefið var út árið 1960. (VÖ).
um 1570
Jón Skeggjason, Bóndi í Kollsvík um 1570. Sjá reikninga Eggerts Hannessonar árin 1570 og 1571. Jóni er m.a. gert að greiða 11/2 hdr. í landsskuld vegna Eyjólfs eldra og 11/2 vætt vegna Odds.
um 1570
Oddur Jónsson. Bóndi í Kollsvík um 1570. Sjá reikninga Eggerts Hannessonar.
á 17. öld
Jón Oddson. Vafalaust bóndi á 17. öld. Drukknaði þaðan 1658, en sonur hans, sem Gunnar hét komst af. Faðir hans var Oddur Jónsson og gæti það staðizt, að þetta væri sá Oddur Jónsson, sem var bóndi í Kollsvík 1570, hafi hann þá verið ungur.
K. Þorgerður Gunnarsdóttir bónda í Breiðavík Borgarssonar, sjá þar.
um og eftir 1600
Gunnar Jónsson. Sennilega bóndi í Kollsvík eftir föður sinn, um og eftir 1660.
K. (talin), Giríður dóttir Bjarna ??? og Þorgerðar Sigurðardóttur, sem ekki eru nánar ættfærðar. Dóttir Gunnars kynni að vera:
Salvör, f. 1660 Gunnarsdóttir, kona Ólafs Jónssonar bónda á Láganúpi 1703.
1703
Bjarni Jónsson. Bóndi í Kollsvík 1703. Bjarni mun ekki hafa búið annarsstaðar í Rauðasandshreppi, en Ólafur prófastur á Ballará, sonarsonur Bjarna, segir að hann hafi fyrst búið á Sellátrum í Tálknafirði, en síðan í Kollsvík í 40 ár. Elsta hjónabandsbarn Bjarna er 12 ára 1703 og er því líklegt að hann hafi ekki kvænst fyrr en undir 1690. Það er því ekki sennilegt, að Bjarni hafi komið að Kollsvík fyrr en um eða upp úr 1690. Gæti hann þá hafa búið í Kollsvík þar til um 1630, en 1635 býr hann þar ekki. F. um 1654, d. eftir 1630. Foreldrar: Jón Tómasson bóndi á Sellátrum í Tálknafirði og k.h. Helga Þórðardóttir prests í Garpsdal Tómassonar og k.h. Hallgerðar, er kölluð var eyðsluhönd, Guðmundsdóttur. Bjarni var einn hinna svokölluðu Sellátrabræðra, sem kunnir voru fyrir atorku og mikilmennsku. Meðal þeirra voru Halldór bóndi á Láganúpi 1703 og Jón, sem talinn er hafa búið í Hænuvík eftir 1703, en þá er hann í Krossadal. Bjarni var skipasmiður mikill og formaður. Fór margar viðarferðir á Strandir á teinæringi, sem hann smíðaði 19 ára gamall.
K. líklega um 1690, Sigríður, f. um 1671 Einarsdóttir bónda í Hrísdal Jónssonar. Þau eru sögð hafa átt 10 börn og komust 4 synir þeirra til fullorðinsára:
Einar eldri, f. 1691, varð bráðkvaddur á Mikladal, er hann var á leið til Bæjarkirkju til brúðkaups síns og Guðrúnar Jónsdóttur frá Breiðavík, sem síðar átti Jón hrekk í Æðey, Einarsson, frá Hreggstöðum.
Erlingur, f. 1693, bóndi í Breiðavík 1735.
Ólafur, f. eftir manntal 1703 „viðbryggðamaður um vöxt og annað atgerfi og vel þokkaður“, varð bráðkvaddur á Hænuvíkurfjalli (hálsi?) rúmlega tvítugur, ókv. og bl.
Einar yngri, f. 1708, d. 1789, bóndi í Kollsvík, seinast á Vatneyri
Bjarni átti laundóttur:
Ingibjörg, 15 ára gömul 1703 á heimili föður síns.
Séra Ólafur á Ballará telur að Tómas faðir Jóns á Sellátrum, hafi verið nálægt Selárdal, en man ekki hvers son hann var, eða hvað kona hans hét.
1703
Jón Bjarnason. Bóndi í Kollsvík 1703. F. um 1663. ókunnugt um foreldra og ætt.
K. Guðrún, f. um 1671 Jónsdóttir (Hún var dóttir séra Jóns Ól. á Lambavatni). Þau eiga 1703:
Elín 1 árs.
Það mætti geta þess til að börn Jóns hafi verið:
Guðrún, f. um 1710, kona Páls Bjarnasonar bónda í Hænuvík, en þau voru foreldrar Bjarna s.m. Giríðar. Eiginmenn Giríðar voru systkinasynir (sjá kjb. 1785).
Jón, f. um 1713, bóndi í Kollsvík 1762 og 1780, en sonur hans var Jón f.m. Giríðar Jónsdóttur á Láganúpi.
1735
Einar yngri Bjarnason. Bóndi í Kollsvík 1735. Virðist hafa búið aðeins fá ár í Kollsvík, fluttist þaðan í Kvígindisdal, en er kominn að Vatneyri fyrir 1762, sjá þar.
1762-1786
Jón Jónsson. Bóndi í Kollsvík fyrir 1762-1786. F. um 1713, d. 18. febr. 1786. Þess var áður getið, að Jón kynni að vera sonur Jóns Bjarnasonar bónda í Kollsvík 1703.
K. Helga Ásbjörnsdóttir, f. um 1710, d. milli 1786 og 1801. Það er vart nema um tvennt að ræða; annaðhvort að Helga hafi verið dóttir Ásbjörns Guðmundssonar í Tungu, sem átti Steinunni Þórðardóttur frá Laugardal eða Ásbjörns Jónssonar bónda í Vatnsdal, sem átti Hallgerði systur Steinunnar. Líklegra er hið síðarnefnda. Börn; ekki er kunnugt um annað barn þeirra, en:
Ásbjörn, f. um 1742, d. í Kollsvík 27. febr. 1781. Kona hans var Ingibjörg Gunnlaugsdóttir bónda í Raknadal, Gíslasonar. Þau giftust í Saurbæjarsókn 1776 og áttu þessi börn: Helgu, f. 21. júlí 1777, í Kollsvík 1780, hjá foreldrum sínum, en ekki á manntali 1801 eða síðar, Sigríði, f. 9. ágúst 1778, dó sama ár, Ólaf, f. 18. júlí 1780, d. 1781. Ásbjörn er ekki talinn bóndi í Kollsvík 1780, en er á heimili foreldra sinna. Ingibjörg ekkja Ásbjarnar bjó í Breiavík 1801, sjá þar.
1762
Jón Bjarnason. Bóndi í Kollsvík 1762. Um hann virðist ekki hægt að fá neina vitneskju, nema það sé sá J.Bj., sem er bóndi í Kollsvík fyrir og um 1780. Hann var f. um 1720 og var því ekkert til fyrirstöðu, að hann væri bóndi 1762, hvort sem hann hefur verið kvæntur þá og misst konuna, eða ókvæntur.
K. 1772 í Saurbæjarsókn, Elín, f. um 1748, d. milli 1801 og 1808, í Saurbæ 1801 Þorsteinsdóttir Einarssonar og f.k.h. Sæborgar Jónsdóttur, sem dó 1762 í Saurbæjarsókn. Þorsteinn átti svo Guðbjörgu Máritsdóttur; bjuggu í Hesthúsum á Rauðasandi. Börn Jóns og Elínar:
Guðrún, f. í Sauðlauksdalssókn 4. júlí 1774, líklega d. milli 1786 og 1801.
Steinvör, f. í Kollsvík 15. okt. 1775, óg. vk. í Breiðavík 1817.
Sæborg, f. í Kollsvík 3. okt. 1779, líklega dáin milli 1786 og 1801.
Þóra, f. 1776, dó ungbarn.
Jón, f. 1778, dó ungbarn.
Ekki er kunnugt um neina afkomendur þeirra Jóns og Elínar.
1778-1781
Þórður Gunnlaugsson. Bóndi í Kollsvík 1778-1781. Fluttist að Hnjóti, sjá þar.
1782
Gunnlaugur Björnsson. Bóndi í Kollsvík 1782. Hefur komið að Kollsvík 1781, þegar Þ.G. fluttist að Hnjóti. Í Hænuvík 1780. Hefur e.t.v. búið í Kollsvík þar til Einar Jónsson kom þangað. F. um 1744, d. milli 1786 og 1801. Ekki kunnugt um foreldra hans eða ætt.
K. 1776, Halldóra, f. um 1748, líklega í Kvígindisdal, Gunnarsdóttir bónda í Hænuvík 1780, Hallssonar. Hún er ekki á manntali í Rauðasandshreppi 1801, en ekkja á Geirseyri 1808. Börn þeirra:
Elín, f. 1779 í Sauðlauksdalssókn.
Ólafur, f. 1780 í Sauðlauksdalssókn.
Björg, f. 1782 í Saurbæjarsókn
Dóu öll ungbörn.
1798-1836
Einar Jónsson. Bóndi í Kollsvík 1798-1836, hreppstjóri. Áður á Vatneyri, en mun ekki hafa haft neinn búskap þar. F. að Hallsteinsnesi í Þorskafirði 1759, d. í Kollsvík 13. des. 1836. Foreldrar: Jón Jónsson síðast bóndi í Gröf í Þorskafirði og k.h. Margrét Arnfinnsdóttir. Bróðurdóttir Einars var Guðrún Arnfinnsdóttir kona Jóns Þóroddssonar bónda á Látrum, og bróðursonur Hjalti Hasaelsson bóndi á Hnjóti. Dótturdóttir Margrétar systur Einars var Guðrún Einarsdóttir kona Ólafs Magnússonar bónda á Naustabrekku. Átti því margt fólk í Rauðasandshreppi ætt sína að rekja til Jóns í Gröf, sem f. var um 1723, en dó 1807. Margrét kona hans dó 1803, f. um 1727.
K. um 1790, Guðrún Jónsdóttir bónda í Botni Guðmundssonar og k.h. Hólmfríðar Ólafsdóttur, f. 12. febr. 1756, d. 14. apríl 1836, sama ár og Einar. Börn þeirra:
Jón, f. 1790 á Vatneyri, bóndi á Geitagili.
Einar, f. 1793 á Vatneyri, bóndi í Vatnsdal.
Halldór, f. 1795 á Vatneyri, bóndi í Kollsvík.
Helga, f. 1797 á Vatneyri, kona Ólafs Ásbjörnssonar bónda á Láganúpi.
Gísli, f. 1798 í Kollsvík, bóndi þar.
Tvo syni átti Einar utan hjónabands:
Gunnar, f. í Kollsvík 1799, fluttist til Flateyjar um 1830, dó þar 6. febr. 1883, kvæntur Guðrúnu Sveinsdóttur, áttu 3 börn. Hallfríður, Margrét frá henni afkomendur og Jón. Móðir Gunnars var Guðrún, f. 1777 Þórðardóttir bónda í Tungu Hafliðasonar.
Jón yngri, f. 1824, bóndi í Breiðavík 1850. Móðir hans var Sigríður, f. 1804 Bjarnadóttir bónda í Breiðavík Sigurðssonar.
1837-1853
Gísli Einarsson. Bóndi í Kollsvík 1837-1853. Bjó ekki annarsstaðar. F. í Kollsvík 1798, d. s.st. 12. des. 1868. Sonur Einars Jónssonar bónda í Kollsvík og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur.
K. 19. sept. 1833, Guðrún, f. 19. sept. 1808, d. á Hvallátrum 28. júní 1881 Jónsdóttir síðar bónda á Geitagili Einarssonar og Guðrúnar Jónsdóttur, sem síðar giftist Þórði bónda á Skógi Bjarnasonar. Þær mæðgurnar eru á Skógi 1817 ásamt hálfsystrum Guðrúnar, þeim Margréti og Þóru Þórðardætrum. Margrét átti Gunnlaug Þorleifsson bónda í Bröttuhlíð en Þóra Ólaf Þorgrímsson bónda á Grundum. Börn Gísla og Guðrúnar voru:
Margét, f. 1837, dó sama ár.
Gísli, f. 1837, d. 4. des. 1857, þegar Kollsvíkurbærinn hrundi.
Guðrún Sólborg, f. 1839, d. 1908, varð blind og örkumlaðist á höndum, þegar Kollsvíkurbærinn hrundi. Barn Guðrúnar og Elíasar Sturlusonar var Dagbjört, f. 15. nóv. 1874, f.k. Gísla Guðbjartssonar, föður Dagbjartar bónda á Koti.
Dagbjört, f. 1845, d. 1847.
Dagbjartur, f. 29. júlí 1848, drukknaði í fiskiróðri frá Látrum 2. maí 1888. Kona Guðrún Árnadóttir bónda í Kvígindisdal Jónssonar. Sonur þeirra Árni í Kvígindisdal (27.08.1883-11.09.1972), ókv. og bl.
Gísli, f. 1887, dó nýfæddur.
Barn Gísla Einarssonar og Ingibjargar Ólafsdóttur, sem síðar átti Jón Jónsson bónda í Breiðavík og svo Kára Sigmundsson bónda á Brekku, var:
Guðrún, f. 14. júlí 1828, d. 19. okt. sama ár.
1837-1855
Halldór Einarsson. Bóndi í Kollsvík 1837-1855, skipstjóri í Stykkishólmi og bóndi á Saurlátrum, en síðast í Grunnasundsnesi og virðist hafa flutt þaðan að Kollsvík. F. á Vatneyri 1795, d. í Kollsvík 30. ágúst 1855. Foreldrar: Einar Jónsson bóndi í Kollsvík og k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 10. sept. 1832 í Stykkishólmi, Halldóra, f. í Mosdal í Önundarfirði 16. des. 1802, d. 25. apríl 1888 í Kollsvík Tómasdóttir síðar bónda á Hrauni á Ingjaldssandi Eiríkssonar og k.h. Þuríðar Pálsdóttur, systur Snæbjarnar bónda í Dufansdal, föður Markúsar kaupmanns á Geirseyri. Börn þeirra:
Árni Óli, f. 5. ágúst 1832 í Stykkishólmi, fór ungur til Þýzkalands og kvæntist þar, bl. Hann var skrifaður faðir Péturs Thorsteinssonar á Bíldudal.
Guðrún Anna Magdalena, f. í Saurlátrum í Helgafellssveit 23. júní 1834, kona Guðbjartar Ólafssonar bónda í Kollsvík.
Óli Tómas Einar, f. í Dæld (eða Dældarkoti?) 3. mars 1836, d. í Gunnarssundsnesi 5. maí 1837.
Einar Tómas, f. í Kollsvík 20. juní 1838, d. 23. apríl 1861, varð fyrir grjóthruni undir Hnífum.
Halldóra Mikkalína, f. í Kollsvík 2. mars 1843, kona Halldórs bónda á Grundum, Ólafssonar.
Þuríður, f. 31. júlí 1846, d. 3. ágúst sama ár.
Jón, f. 17. ágúst 1848, d. 18. sama mán.
Sonur Halldórs og Ingibjargar Þorgrímsdóttur bónda á Hlaðseyri Guðmundssonar var:
Jón, f. 7. júlí 1822, d. í ágúst sama ár.
1855-1861
Halldóra Tómasdóttir. Búandi í Kollsvík 1855-1861. Ekkja Halldórs Einarssonar bónda í Kollsvík. Á þessu tímabili, eða 3. des. 1857, var það morgun einn í norðaustanbyl, að baðstofan hrundi ásamt framhýsi, sem í smíðum var. Tíu manns a.m.k. var í þessum húsum og komust aðeins tveir karlmenn sjálfir úr rústunum, en hinu fólkinu var bjargað; seinast eftir þrjá sólarhringa tveimur börnum. Aðeins tvennt lét lífið í þessum ósköpum, öldruð kona, sem hefur dáið strax, og ungur maður sem náðist lifandi eftir sólarhring, en dó samdægurs.
1857-1879
Guðbjartur Ólafsson. Bóndi í Kollsvík 1857-1879. Bjó ekki annarsstaðar. F. í Hænuvík 7. sept. 1830, d. í Kollsvík 26. ágúst 1879. Foreldrar: Ólafur Halldórsson bóndi í Hænuvík og k.h. Guðbjörg Brandsdóttir.
K. 14. sept. 1856, Guðrún Anna Magdalena Halldórsdóttir bónda í Kollsvík Einarssonar og k.h. Halldóru Tómasdóttur. Börn þeirra samkvæmt kjb. 17 alls, þar af 1 fætt andvana, öll fædd í Kollsvík:
Halldóra, f. 7. júní 1856, d. í Reykjavík 13. apríl 1935, óg. og bl. Hún var annað barnið, sem náðist úr bæjarrústunum eftir 3 sólarhringa.
Guðrún Sólbjört, f. 2. jan. 1858, d. 12. des. 1875.
Halldór, f. 18. febr. 1859, d. 8. apríl 1883, ókv. og bl.
Einar Tómas, f. 9. maí 1860, d. 13.08.1927. Fór í siglingar, giftist í Danmörku um 1890, en fluttist til Ameríku og bjó í Chicago. Tvær dætur hans, önnur gift, voru hér á ferð 1954. Bróðir sem þær áttu dó á barnsaldri. Áður en Einar fluttist af landi burt átti hann son með Guðrúnu Jónsdóttur, f. á Skeið í Selárdal 1848: Davíð, f. á Geirseyri 19. des. 1882, kv. Sigríði Eyjólfsdóttur úr Svefneyjum.
Ólafur Tómas, f. 17. júní 1861 bóndi í Keflavík, en lengst í Hænuvík; flutti til Reykjavíkur; d. 14.05.1948.
Guðbjörg Ólína, f. 6. ágúst 1862, d. 09.03.1954. Kona Torfa Jónssonar bónda í Kollsvík.
Gísli, f. 20. okt. 1863, d. 30.01.1948. Húsmaður á Grænumýri í Kollsvík.
andavana meybarn, f. 1. sept. 1864.
Henríetta Ottilía Emma, f. 16. sept. 1865, kona Jens Jónssonar húsmanns á Mel í Kollsvík, fluttist til Kanada. Óvíst um dd Ottelíu; hún var á lífi í Gimli 1960, en Jens lést 1930. (T.Ó. Kollsvíkurætt)
Össur Anton, f. 31. okt. 1866 d. 10.04.1950. Bóndi í Kollsvík.
Árni, f. 7. maí 1869, d. 16. júní sama ár.
Mikkalína, f. 29. sept. (kjb. 7.10.) 1870, d. 29.04.1956. Kona Karls Kristjánssonar bónda í Kollsvík.
Þuríður, f. 19. jan. 1872, d. 10. okt. sama ár.
Málfríður, f. 11. júlí 1874, d. 29.11.1957. Kona Hákonar Jónssonar bónda á Hnjóti.
Halldór, f. 25. sept. 1875, d. 25. nóv. sama ár.
Guðrún Sólborg, f. 20. des. 1877, d. 8. ágúst 1878.
Guðbjartur, f. 15. júlí 1879, d. 01.10.1970. Bóndi á Láganúpi.
1879-1895
Magdalena Halldórsdóttir. Búandi í Kollsvík 1879-1895. Ekkja Guðbjartar Ólafssonar bónda í Kollsvík.
1880-1884
Pétur Hjálmarsson. Bóndi í Kollsvík 1880-1884. Síðar bóndi á Sellátranesi, sjá þar.
1884-1904
Torfi Jónsson. Bóndi í Kollsvík 1884-1904. Bjó ekki annarsstaðar. F. á Hnjóti 1. júlí 1857, drukknaði í lendingu í Kollsvík 5. apríl 1904. Allir aðrir björguðust. Foreldrar: Jón Torfason bóndi á Hnjóti og k.h. Valgerður Guðmundsdóttir bónda á Geitagili, Hákonarsonar. Eldri systir hennar, sem einnig hét Valgerður var gift Ásbirni Einarssyni bónda í Tungu.
K. 22. sept. 1883, Guðbjörg Ólína Guðbjartsdóttir bónda í Kollsvík Ólafssonar og k.h. Magdalenu Halldórsdóttur. Börn þeirra:
Halldóra Guðbjört, f. 3. sept. 1884, kona Ólafs Sveinssonar bónda á Lambavatni.
Valgerður, f. 29. okt. 1885, d. 7. nóv. sama ár.
Guðrún, f. 29. mars 1887, d. 29. nóv. sama ár.
Guðrún Sólborg, f. 23. nóv. 1888, d. 7. des. 1924, óg. og bl.
Lovísa (27.09.1890-14.05.1986), kona Dagbjartar Guðbjartssonar bónda í Breiðavík Jónssonar, en Guðbjartur og Torfi voru bræður. Búsett í Kanada, giftust þar 1921? Tveir synir; Torfi og Heinrekur.
Jón, f. 21. jan. 1892, bóndi í Kollsvík.
María, f. 2. júlí 1893, kona Guðmundar Ólafssonar bónda í Breiðavík.
Anna Guðrún, f. 6. des. 1894, kona Ólafs Einarssonar bónda í Stekkadal.
Vilborg, f. 5. júní 1896, kona Eyjólfs Sveinssonar barnakennara á Lambavatni.
Guðbjartur, f. 13. okt. 1897, bóndi i Kollsvík, síðar á Patreksfirði og seinast í Reykjavík.
Dagbjört, f. 27. sept. 1899, kona Kristján Júlíusar Kristjánssonar bónda í Tungu.
Guðmundur (05.02.1901-03.12.1991), vélsmiður í Reykjavík, kvæntur Þórhildi Jakobsdóttur.
Samúel (19.12.1902-18.02.1987), vélsmiður í Reykjavík, kvæntur Unni Árnadóttur.
Börn Torfa og Guðbjargar voru því 13 alls.
1904-1925
Guðbjörg Guðbjartsdóttir. Búandi í Kollsvík 1904-1925. Ekkja Torfa Jónssonar bónda í Kollsvík. Dáin á Lambavatni 9. mars 1954. “Torfi lést af slysförum 5.apríl 1904 í Snorralendingu, sem er skammt sunnan Kollsvíkurvers. Eftir lát hans gerðist Guðbjartur (Guðbjartsson síðar bóndi á Láganúpi) ráðsmaður hjá Guðbjörgu systur sinni” (Niðjatal Hildar og Guðbjartar).
1895-1914
Össur Guðbjartsson. Bóndi í Kollsvík 1895-1914. Fluttist þá að Láganúpi og bjó þar til 1927. F. í Kollsvík 31. okt. 1866, d. í Reykjavík 10. apríl 1950. Foreldrar: Guðbjartur Ólafsson bóndi í Kollsvík og k.h. Magdalena Halldórsdóttir.
K. 23. sept. 1894, Anna Guðrún Jónsdóttir (22.02.1872-02.05.1967) bónda á Hnjóti Torfasonar og k.h. Valgerðar Guðmundsdóttur. Þau áttu alls 12 börn; Öll f. í Kollsvík:
Magdalena (14.12.1893-27.05.1988), kona Kristjáns Davíðssonar bónda í Hjarðardal í Dýrafirði. 4 börn.
Valdimar (01.05.1896-29.06.1956), barnakennari í Reykjavík, kona Jóna Bjaney Jónsdóttir frá Lónseyri í Arnarfirði. 3 börn.
Sigrún (06.05.1898-30.04.1977), kona Helga Árnasonar bónda í Kollsvík. (sjá síðar)
Árdís (03.12.1900-01.10.1978).
Guðmundur, f. 21. des. 1901, drukknaði í lendingu í Kollsvík 1. apríl 1919. Aðrir skipverjar björguðust.
Torfi (28.02.1902-11.09.1993), bóndi á Felli í Dýrafirði. 7 börn.
Elínborg (28.08.1905-10.03.1960), sjúklingur.
Bjarni Sigurvin (28.05.1907-05.02.1989), forstjóri í Reykjavík. K I Guðrún Kristjánsdóttir bónda á Grundum Ásbjörnssonar. 4 börn. K. II Zíta Benediktsdóttir. 3 börn,
Össur Anton, f. 9. des. 1908, d. 14. apríl 1911.
Guðrún (16.08.1910-09.09.2003), kona Stefáns Pálssonar á Kirkjubóli í Önundarfirði. 5 börn.
Gunnar (01.07.1912-16.12.1988), húsasmiður í Rvík og síðar í Ási; ókv. og bl.
Marta, f. 22. mars 1914, d. 1. júní 1924.
Dóttir Önnu og Magnúsar Árnasonar, kvænts bónda á Hnjóti (sjá þar) var Hildur Magnúsdóttir, síðar kona Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi (sjá þar).
1926-1934
Helgi Gestsson (14.08.1900-31.01.1995). Bóndi í Kollsvík 1926-1934. Fluttist þá á Patreksfjörð, en síðan til Reykjavíkur (1949 eða 1950), trésmiður. Foreldrar: Gestur Jósepsson, lengi húsmaður í Kollsvík (Sjá Strákamelur), f. á Hamri í Múlasveit 19. ágúst 1866, d. 29. ágúst 1946, sonur Jóseps Bjarnasonar og k.h. Helgu Jónsdóttur bónda í Hvammi á Barðaströnd Bjarnasonar, og Ingibjörg Runólfsdóttir bónda í Kirkjuhvammi Brynjólfssonar.
K. 16. okt. 1938, Sigríður Brynjólfsdóttir (24.06.1914-23.08.1993) Einarssonar. Börn þeirra:
Ingibergur Gestur (09.04.1939-09.04.2002). Húsasmíðameistari. Sigríður Óskarsdóttir Gíslasonar kvikmyndagerðarmanns. 4 börn.
Sigríður Bryndís, f. 23. maí 1940. I Kristján Eyfjörð Valdimarsson. M.II Ólafur Guðni steinþórsson. 2 börn.
Jósep Helgi, f. 15. okt. 1941.
Jónína Þóra (16.07.1946-15.09.1992). I Helgi Guðmundur Ingólfsson. 3 börn. M.II Haraldur Sigurður Þorsteinsson. M.III Guðmundur Vestmann Guðbjörnsson.
Hrönn, f. 31. jan. 1949. I Kenneth Edward Marcum. 2 börn. M.II David Joe Bartosh. 1 barn.
Einar, f. 3. okt. 1950. 2 börn með Kristínu Bragadóttur.
Helgi og Sigríður skildu. Helgi átti barn með Þórunni Elínborgu Finnbogadóttur
Kristrún E. Gift Jóhanni Pétri Margeirssyni. 3 börn.
1926-1934
Guðmundur Gestarson (03.07.1901-19.01.1982) og kona hans Jóhanna Elín Anna Pálsdóttir (17.01.1907-20.06.1997) Christiansen frá Patreksfirði. Bjuggu í Kollsvík í félagi við Helga og Jón Torfason (sjá hér á eftir). Þar var árið 1918 byggt steinhús það á 3 hæðum sem enn stendur. Þó þá væri það minna en nú, þótti það höll á sínum tíma, enda bjuggu þar 3 stórar fjölskyldur. Börn Guðmundar og Jóhönnu:
Björn (nefndur Bíi af kunnugum); húsasmiður á Patreksfirði og víðar. Vann um tíma að ýmsum byggingum í Rauðasandsihreppi; m.a. uppgerð húsanna að Stekkjarmel, Kollsvík og sölubúðinni að Gjögrum, sem hann eignaðist. Hrafnhildur Bergsveinsdóttir. Þau skildu. 3 börn.
Halla f. 21.03.1932. Óli Þór Baldvinsson. 4 börn.
Gunnar Rafn f. 22.07.1935. Guðrún Jónsdóttir. 2 börn.
Svala f. 26.12.1938. Leifur Heiðar Bjarnason. 6 börn.
1925-1944
Jón Torfason (21.01.1892-12.11.1971). Bóndi í Kollsvík 1925-1944. Fluttist þá að Vatnsdal og bjó þar til 1948, er hann fluttist á Patreksfjörð. F.. Foreldrar: Torfi Jónsson bóni í Kollsvík og k.h. Guðbjörg Guðbjartsdóttir.
K. 18. okt. 1924, Bergþóra Egilsdóttir (17.09.1898-11.02.1971) bónda á Sjöundá Árnasonar og k.h. Jónínu Gísladóttur. Börn þeirra:
Jónína Helga (21.06.1925-24.01.2008). M I Poul Wendelboe Andersen; 3 börn. M II Kristján Júlíus Ólafsson skipstjóri; 3 börn.
Torfi (27.03.1927-10.09.2005), skipstjóri og útgm á Patreksfirði. Giftur Oddbjörgu Þórarinsdóttur. 3 börn
Valgerður (11.01. 1929-07.05.2002), saumakona og stuðningsfulltrúi. M. Þormóður Guðmundsson frá Hóli á Patreksfirði. 4 börn.
Lilja (14.03.1931-22.09.2016), gegndi ýmsum félagsstörfum. M. Jón Magnússon skipstjóri og útgm frá Hlaðseyri. 6 börn.
Kristín Fanney f. 23.08.1933. M. Þorsteinn Friðþjófsson sjómaður á Patreksf. 3 börn.
Unnur Laufey, f. 23. maí 1938. M. Leó Garðar Ingólfsson. 2 börn. Átti barn með Braga Eggertssyni.
Björgvin Óli, f. 28. jan. 1941. K. Esther Ragnheiður Guðmundsdóttir. 3 börn.
1925-1926
Guðbjartur Ingimundur Torfason (13.10.1897-31.08.1948). Bóndi í Kollsvík 1925-1926. Fluttist þá til Patreksfjarðar, en síðan til Reykjavíkur. Stundaði sjómennsku, ofnagerð o.fl. Foreldrar: Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík og k.h. Guðbjörg Guðbjartsdóttir.
K. 18. okt. 1924, Ólafía, f. á Vatneyri 3. júní 1900, d. í Reykjavík 7. ágúst 1944 Ólafsdóttir skipstjóra á Patreksfirði Ólafsonar og k.h. Halldóru Halldórsdóttur bónda á Grundum Ólafssonar. Ólst upp hjá ömmu sinni á Grundum. Börn þeirra:
Guðbjörg Halldóra (30.09.1925-08.11.1992) , kona Högna Torfasonar starfsmanns Útvarpsins í Reykjavík. 3 börn.
Halldór (21.06.1928-18.03.1985), húsasmíðameistari. Sigríður Hansdóttir; 2 börn.
Torfi Guðbjartur (17.09.1932-02.10.1977), rafvirki. Ingibjörg Þórunn Halldórsdóttir. 4 börn
Síðari kona Guðbjartar var Guðrún Gísladóttir (09.01.1914-23.02.1948). Barn þeirra:
Stúlka (12.02.1948-18.02.1948).
Kollsvíkurbærinn var í eyði frá 1944, þegar Jón Torfason flutti á Patreksfjörð, til 1952 þegar Ólafur Guðbjartsson settist þar að; en jörðin var nýtt af bændum í Tröð (sjá þar).
1952-1962
Ólafur Hafsteinn Guðbjartsson (23.03.1917-05.05.1996). Bóndi og eigandi Kollsvíkur 1952-1962. F. í Reykjavík Áður húsgagnasmiður í Reykjavík. Flutti á Patreksfjörð eftir að hann brá búi í Kollsvík; rak trésmíðaverkstæði og var oddviti Patrekshrepps. Foreldrar: Guðbjartur hafnsögumaður í Reykjavík Ólafsson bónda í Hænuvík Guðbjartssonar og k.h. Ástbjörg, f á Akranesi 25. ágúst 1888 Jónsdóttir Ásmundssonar.
K. 15. júní 1937, Sólrún Anna Jónsdóttir (22.08.1915-11.10.1992) próf. Kristjánssonar og k.h. Þórdísar Toddu Benediktsdóttur kaupmanns í Reykjavík Þórarinssonar. Börn þeirra:
Þórdís Todda, f. 24. mars 1936. Jón Þorsteinn Arason. 6 börn.
Jón Halldór, f. 7. nóv. 1937 í Reykjavík. Málarameistari. Guðný Davíðsdóttir frá Sellátrum í Tálknafirði. 4 börn.
Ástbjörg, f. 15. apríl 1941 í Reykjavík. Guðmundur Gísli Haraldsson. 3 börn.
Hansína, f. 7. ágúst 1942 í Reykjavík. 1 barn með Birni Rafnari Ingimarssyni. I Jóhann Svavarsson; 3 börn. M.II Ragnar Hafliðason; 1 barn.
Esther, f. 28. jan. 1945 í Reykjavík. I Gunnar Már Kristófersson. M.II Lárus Sigurður Tryggvason. M.III Grímkell Arnljótsson.
Guðbjartur Ástráður, f. 12. des. 1948 í Reykjavík. Jóna Elín Kristinsdóttir. 3 börn.
Sólrún Anna, f. 19. júlí 1951 í Reykjavík. 1 barn með Jörundi Garðarssyni.
Trausti, f. 25. mars 1955 í Kollsvík. Tina Jorn á Nýja Sjálandi. 1 barn.
1962-1972
Ingvar Guðbjartsson (31.05.1925-14.05.1999) frá Láganúpi og Jóna Snæbjörnsdóttir Thoroddsen frá Kvígindisdal festu kaup á Kollsvíkurjörðinni og fluttu þangað frá Stekkjarmel (sjá þar) ásamt börnum sínum. Ingvar bætti mjög ræktun og húsakost á jörðinni. Samvinna var mikil milli þeirra bræðra; Invars og Össurar á Láganúpi, og í félagi gerðu þeir í mörg vor út á grásleppu; fyrst úr Hænuvík en síðar frá Gjögrum.
Eftir að Ingvar og Jóna fluttu suður vann hann hjá Jarðborunum ríkisins. Þau bjuggu um tíma í Borgarnesi. Börn þeirra:
Rut f. 06.02.1953. Leikskólakennari. I Skúli G. Hjaltason; 2 börn. M.II Viðar Friðriksson frá Bíldudal; 2 börn.
Snæbjörn Þór f. 16.04.1954, rafmagnstæknifræðingur. 1 barn með Margréti Ingu Karlsdóttur. Herdís Bjarney Steindórsdóttir. 3 börn.
Árni f 08.08.1956; bóndi á Skarði í Lundarreykjadal. ágústa Þorvaldsdóttir; 3 börn. Barnsmóðir Elín Árnadóttir; 1 barn.
Sigurður f 11.02.1958; vélstjóri. Kristín Guðný Sigurðardóttir; 1 fósturbarn. Barnsmóðir Kolbrún Björnsdóttir; 1 barn.
Guðrún Hildur f 14.07.1967; félagsráðgjafi. Maður I Pétur Pétursson; 1 barn. Maður II Ásbjörn Ólafsson; 1 barn. Maður III Þórhallur Vignir Vilhjálmsson; 1 barn.
Hersílía Thoroddsen f 07.12.1948 er dóttir Jónu með Sigurjóni Alexandersyni. Með Steinari Magnússyni átti Hersilía 1 barn og annað með Þorleifi Má Friðjónssyni.
Kollsvíkurbærinn var aftur í eyði 1972-1983. Jörðin var í eigu Jarðakaupasjóðs en Össur Guðbjartsson á Láganúpi keypti hana og nytjaði.
1983-2002
Hilmar Össurarson f. 02.06.01960, frá Láganúpi og kona hans Hólmfríður Steinunn Sveinsdóttir f. 02.11.1961, Ólafssonar frá Lambavatni, bjuggu í Kollsvík 1983-2002. Eftir að Össur faðir hans veiktist sá Hilmar einnig um kúabúið þar ásamt móður sinni. Hilmar er búfræðingur frá Hvanneyri og starfaði löngum sem ráðunautur bænda á svæðinu, auk þess sem hann sat í hreppsnefnd Rauðasandshrepps og síðar bæjarstjórn Vesturbyggðar. Eftir að þau fluttu suður starfaði hann sem bústjóri við Húsdýragarðinn í Reykjavík og síðar á Tilraunabúi ríkisins á Keldum. Hólmfríður hefur starfað sem leikskólakennari. Börn þeirra:
Rebekka f 16.04.1984; lögfræðingur; starfaði m.a. í atvinnuvegaráðuneytinu og frá 2018 sem bæjarstjóri Vesturbyggðar. M: Örn Hermann Jónsson frá Hnífsdal; smiður. 1 barn.
Dóra Mjöll f. 21.06.1986; starfar í atvinnuvegaráðuneytinu. M: Andri Þór Halldórsson; 1 barn.
Ásta Jóna f. 21.06.1986. M: Björn Finnbogason. 1 barn.
Gíslunn f. 06.08.1994. 1 barn með Esra Víglundssyni.
Pálmi Hilmarsson.
Hilmar hætti fjárbúskap í Kollsvík árið 2002, en nokkrum árum áður hafði kúabúskap á Láganúpi verið hætt. Með því lauk samfelldri búskaparsögu Kollsvíkur, sem staðið hafði óslitið frá landnámi; eða í meira en 1100 ár. Kollsvíkin er þó fjölsótt á sumrum, bæði af heimafólki og einnig vaxandi straumi ferðafólks.
Stofnað sem þurrabúð úr Kollsvíkurlandi, líklega þegar Bjarni Gunnlaugsson sest þar að árið 1891. Þar undir Hæðinni hefur líklega verið malarholt; uppgróið af vatnsaga undan Hæðinni og vegna þess að þar við Bælishólinn var fé löngum bælt milli þess að því var haldið til beitar á Mýrum eða frammi í Víkinni.
1891-1911
Bjarni Gunnlaugsson (08.03.1848-09.08.1921) fyrrum bóndi í Breiðavík (1885-88) og kona hans Þorgerður Sigmundsdóttir (05.08.1851-06.06.1888) Ólafssonar frá Krókshúsum. Börn þeirra:
Ólafur (10.06.1896-09.08.1925) húsbóndi í Lækjarkoti I Hafnarfirði. Guðrún Oddleifsdóttir. Bl.
Salóme (29.11.1878-05.12.1878).
Sigríður (14.11.1887-27.01.1958). Tómas Jörgensen á Borðeyri.
Fyrir átti Þorgerður barn með Ingimundi Guðmundssyni í Breiðuvík og á Naustabrekku:
Guðrún (27.03.1875-10.11.1965). Sumarliði Bjarnason í Keflavík (sjá þar).
Síðari kona Bjarna Gunnlaugssonar var Sigríður Ásbjörnsdóttir (10.07.1850-21.02.1934), Einarssonar bónda í Tungu og Hænuvík.
1909-1921
Guðbjartur Guðbjartsson frá Kollsvík og Hildur Magnúsdóttir sem þar hafði alist upp giftu sig árið 1909 og hófu þá búskap í Tröð, þar sem fæddust fyrstu 6 börn þeirra. (Nánar um þau; sjá Láganúpur). Frá Tröð fluttust þau að Hnjóti, þar sem þau voru eitt ár; en bjuggu síðan að Grund (Samúelsmel) þar til þau festu kaup á Láganúpi og fluttu þangað árið 1927. Guðbjartur var auk þess formaður og útgerðarmaður í Kollsvíkurveri. Hann var afkastamikill og laginn vegghleðslumaður og í Tröð má líta mikinn garð sem hann hlóð kringum blettinn, auk vel hlaðinna tóftaveggja og fjárréttar.
1921-1952
Helgi Ásbjörn Árnason (13.04.1889-25.08.1965). Bóndi í Tröð 1921-1952 en fluttist þá að Gjögrum. Keypti þar hús og ræktarland af Einari Guðbjartssyni kaupfélagsstjóra, er hann fluttist til Súðavíkur? Helgi var lengi organisti Breiðavíkurkirkju. Er enn varðveittur í kirkjustólnum steinn sem hann notaði til að hækka sig í seti. F. á Láganúpi. Foreldrar: Árni Árnason og k.h. Dómhildur Ásbjörnsdóttir bónda á Láganúpi (sjá þar) Ólafssonar.
K. 26. okt. 1918, Sigrún Össursdóttir (06.05.1898-30.04.1977) bónda í Kollsvík Guðbjartssonar og k.h. Önnu Jónsdóttur. Börn þeirra:
Guðrún, f. á Láganúpi 10.10.1919, kona Helga Guðmundssonar á Hóli á Patreksfirði Þórðarsonar. Þau eiga 5 börn en eitt átti Guðrún áður með Guðmundi E. Guðmundssyni.
Árni, f. í Tröð (02.02.1922-23.01.2011), bóndi í Neðri Tungu og síðar fiskmatsmaður á Patreksfirði. Anna Hafliðadóttir Halldórssonar frá Hvallátrum. 9 börn.
Anna Marta (13.11.1923-10.04.2012), kona Ingþórs Sigurðssonar að Uppsölum í Þingi, Hvs. 7 börn.
Ólafur Helgi (07.10.1925-21.05.1986). Bifreiðastjóri í Reykjavík. Guðrún Ólafsdóttir. 6 börn.
Halldóra Mikkalína, f. 25. maí 1930. Barn með Jóni Erni Bogasyni og annað með Valsteini Víði Guðjónssyni.
Kristrún Björt, f. 14. okt. 1939. M. Rúdólf Þór Axelsson, 3 börn.
Búskapur Helga og Sigrúnar byggði annarsvegar á nytjum Kollsvíkurjarðarinnar sem um tíma var í eyði, en að hinu leytinu á sjósókn. Eftir að þau brugðu búi lagðist Tröð í eyði.
“Neðst í Kollsvíkurtúni er Grænamýri. Það er ekki mýri heldur sendið land, og var þarna býli sem nefnt var Grænamýri. Gísli Guðbjartsson reisti þarna nýbýli og átti hann slægjur uppi í túninu. Norðan við Grænumýri er lækur sem heitir Brúarlækur, sem rennur ofanvert við húsið” (GT; Örnefnaskrá Kollsvíkur). „Á Grænumýri bjó Gísli Guðbjartsson föðurbróðir minn. hann átti hluta úr aðaljörðinni eins og pabbi. Bú hans var fremur lítið; ekki yfir 50 kindur og 1 kýr. Kona Gísla hét Ólína Þorgrímsdóttir, ættuð af Barðaströnd, og áttu þau einn son“ (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989). Gísli átti um tíma heima í bæ sem hann byggði á Bergjum (sjá þar).
Um 1901-1925
Gísli Guðbjartsson (20.10.1863-30.01.1948), Ólafssonar í Kollsvík, og Guðmundína Ólína Þorgrímsdóttir (28.07.1870-08.07.1937) frá Krossi á Barðaströnd. Börn þeirra:
Dagbjartur Björgvin (29.04.1904-31.07.1981), var um tíma landpóstur. Guðrún Jóna Brynjólfsdóttir. 2 börn.
Þorgrímur Lúther (04.02.1906-09.02.1906)
Drengur, andvana fæddur 16.07.1910.
Þau fluttu að Koti árið 1925 (sjá þar) og hefur ekki aftur verið búið á Grænumýri.
Um 1910
Gísli Ólafsson og Vigdís Ásbjörnsdóttir (sjá Grundir). Þau voru síðast í heimili að Tröð hjá Guðbjarti Guðbjartssyni og Hildi Magnúsdóttur 1915-20. (Skv frásögn EG í Niðjatali Hildar og Guðbjartar).
Um 1899-1901
Berg nefnast sérkennilegar lágar og klettaborgir milli Kollsvíkurbæjarins og Traðar. Þar byggi Gísli Guðbjartsson sér bæ áður en hann byggði að Grænumýri (sjá hér að ofan).
Fyrir ofan Kollsvíkurver eru grónir harðbalar sem nefnast Strákamelur, vegna þess að þar brugðu tápmiklir vermenn gjarnan á leik í landlegum. Segir Einar Guðbjartsson frá Láganúpi svo frá: “Rétt ofan við Kollsvíkurverið var lítið grasbýli sem hét Strákamelur, en gekk oftast undir nafninu Gestarmelur. En þar bjó Gestur Jósepsson með konu sinni Ingibjörgu Runólfsdóttur og tveim sonum. Af bústofni mun hann hafa átt 20-30 kindur, en enga kú” (EG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar).
Um 1900-1906
Sumarliði Bjarnason og kona hans Guðrún Ingimundardóttir (sjá Keflavík). „Strákamelur heita sléttar þurrar flatir ofan syðstu búðanna, og ber þær nokkuð yfir umhverfið. Þar þreyttu ungir vermenn leiki áður fyrr. Þar byggðu svo Sumarliði Bjarnason og Guðrún Ingimundardóttir sér bæ; þurrabúð, uppúr aldamótunum" (Guðbj.Guðbj. Verstöðin Kollsvík). (Börn þeirra fæðast þar; Anna í sept 1900 og Ólafía í jan 1905).
1906-1925
Gestur Jósepsson (19.08.1866-09.08.1946), ættaður úr Múlasveit, og kona hans Ingibjörg Runólfsdóttir (24.02.1865-28.08.1944) Brynjólfssonar frá Kirkjuhvammi. Börn þeirra:
Helgi (14.08.1900-31.01.1995), sjómaður og bóndi; síðar trésmíðameistari í Reykjavík. Sigríður Ingveldur Brynjólfsdóttir. 6 börn.
Guðmundur (03.07.1901-19.01.1982) sjómaður í Kollsvík og síðar á Patreksfirði. Jóhanna Elín Anna Pálsdóttir. 4 börn.
Helgi og Guðmundur voru um árabil bændur í Kollsvík (sjá þar).
1924-1932
Magnús Jónsson (08.07.1865-15.08.1942), fæddur að Uppsölum í Ketildalahreppi, og Guðrún Ólafsdóttir (31.01.1861-09.05.1932), Magnússonar frá Stökkum. Þau fluttu frá Krossadal að Breiðuvík, en þaðan að Kollsvík 1924. Munu hafa byggt sér kofa ofanvið Kollsvíkurver; neðan Strákamels. “Efst í Verinu var lítill bær sem Magnús Jónsson bjó í allt árið; hans bátur hét Nói og var lang minnstur báta í Verinu” (IG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar). Eftir lát Guðrúnar fór Magnús að Vatnsdal, og þar stendur enn kofi hans á bökkunum. Þau voru barnlaus.
Láturdalur er innanvert við Blakknes, nokkru utan Hænuvíkur og í Hænuvíkurlandi. Landlítill og aðkrepptur bröttum hlíðum. Uppi á háum sjávarbökkum er lítill gróinn blettur og rennur lækur þar um. Þarna hefur aldrei verið búskapur svo vitað sé, en á tímum árabáta var þarna nokkur verstaða, þar sem með því mátti stytta róður til fiskimiða í Patreksfjarðarflóa. Þykir þessi staður þurfa að komast á blað þegar lýst er byggðasögu Rauðasandshrepps, en víða kemur hann við sögu þegar lýst er kvöðum ábúenda í hreppnum fyrr á tíð.
Jarðabókin 1703 “Láturdalur er ekkert býli, nema þurrar vermannabúðir, og býr enginn lengur en vertíð stendur. Þar eru sjö þurrar vermannabúðir. Á landsdrottinn (eigandi Hænuvíkur) fimm af þeim, sem hann heldur uppi að viðum. En tvær, sem aðkomandi formenn eiga viðu í og uppihalda sjálfir. Maðkar brúkast ei til beitu og því öngvir maðkafiskar. Stjórafæri er brúkað til seilarbands þá með þarf. Lángræði er þar ekki mikið. Lending háskasöm, helst um fjöru, fyrir flúðum og stórgrýti, og hefur oft hlekst á til skipskemdar, þó ei hafi manntjón orðið. Sjór gengur upp undir háfa klettabakka, so að með stórflæðum er þar hvorki vært skipum nje fiski, og verður því að binda skip á loft við klettana ef stórviðri fylgja stórstraumsflæðum”.
Hænuvík er að fornu mati (jarðabók 1703) talin 30 hdr. með Sellátranesi, sem reiknast 6 hdr. En að nýju mati var Hænuvík 17.1 hdr.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki 30 hdr. Eigandinn sr. Halldór Pálsson í Selárdal. Nú er jörðin skift í býli, og er heimajörðin sjálf 24 hdr. Ábúandinn, Jón eldri Helgason, býr á 12 hdr. Annar, Svartur Helgason, býr á 12 hdr. Eru kostir alls sömu, nema Svartur leigir einu kúgildi minna. Landskyld er af hvörjum 12 hdr 7 vættir. Það er 1 hdr og 20 álnir; það er af allri heimajörðinni 2 hdr og 40 álnir. Landskyld betalast með fiski í kaupstað, eður með peningum uppá fiskatal. Húsum viðhalda ábúendur, með litlum viðatillögum af eiganda. Leigukúgildi hjá Jóni 5; hjá Svarti 4. Leigur betalast með fiski í kaupstað, eður smjörum, peningum uppá danskan taxta og steinbíti heim til eiganda, eður það skemra sem þeim um semur. Kúgildi hefur hingaðtil uppyngt leiguliði með lítilli uppbót. Kvaðir öngvar áskildar.
Kvikfjenaður Jóns Helgasonar; 2 kýr, 1 kvíga veturgömul, 15 ær, 1 sauður geldur, 10 gemlingar. Svarts Helgasonar 3 kýr, 1 kvíga veturgömul, 14 ær, 1 sauður, 8 gemlingar, 1 hestur, 1 hross. Fóðrast kann 6 kýr, 10 lömb. Ásauð öllum er útigangur ætlaður, og hestum einnin.
Til eldiviðar er svörður og lítilfjörlegt lyngrif. Lítilfjörleg eggjatekja, ef sigið er eftir og hefur leiguliði. Reki er góður ef hepnast. Hrognkelsaveiði má vera. Tún eru slæm og engjar nær öngvar. Vetrarbeit hættusöm fyrir menn og fjenað fyrir brattlendi, svellalögum, snjóflóðum. Kirkjuvegur er lángur og slæmur.
Verstaða er heima þar og heimræði ár um kring. Og ganga þar tvö skip heimabúenda. Róa þar á þeirra eigin menn, og gefa öngvan toll af skipi nje mönnum. Þar að auk eru sjómannabúðir tvær, sem landsdrottinn á, viðheldur sjálfur. Önnur þeirra nú í eyði. Við aðra eru tollversmenn, ein skipshöfn. Þar fyrir utan eru fjórar skipshafnir í húsum ábúendanna á heimajörðinni. Þessir allir, eins og formenn og hásetar, gjalda hvör um sig 2 fjórðunga fiska eður í fiskifángi til landsdrottins, og gelst þar þá vertíð lýkur, ella heim til landsdrottins. Lýngrif hefur landsdrottinn stundum leyft til eldiviðar. Vertíð hefst með sumri og endast á þingmaríumessu. Flest fólk, sem hjer til sækir, er úr Patreksfirði. Fengur allur skiftist með skipverjum. Skiphlutur er einn og ekki meir. Maðkafiskar gefast af óskiftu, ef sá er grefur missir vyrir það svefns síns, og grefur maðk um nætur. Ella skiftast hásetar til og tekur enginn neina maðkafiska. Fæstir formenn beita maðki um vertíð. Hálfdrættingar eru sjaldan, og hafa hálft það sem þeir draga undir borð. En af stærri dráttum fær hann ei nema einn lim. Lóðir brúkast þar öngvar síðan frá lagðist stórþorskur. Þjónustukaup geldst ekkert. Segl með flestum skipum leggur landeigandi til. Stjórar og stjórafæri fylgja flestum skipum og leggur skipeigandi til. Seilaband hafa fáir. Lending aðgæslusöm mjög fyrir flúðum og útgrynni. Langræði mikið. Hospitalsfiskar gjörist, og taka hreppstjórar, og láta sjer ekki lynda minni hlut en sex fiska hlut. Manntalsfiskar öngvir”.
Barðstrendingabók PJ “Hænuvík er ysti bær við Patreksfjörð vestanverðan. Fram af víkinni er allmikill dalur og grösugur upp í miðjar hlíðar en gróðurlítill þar fyrir ofan… Vetrafbeit og fjörubeit er allgóð í Hænuvík; hrognkelsaveiði er þar ágæt. Róðrar eru einnig stundaðir þar, einkum þegar fiskur er genginn í Flóann. Jafnan hefir verið fleirbýlt í Hænuvík”.
um 1570
Sigurður. Bóndi í Hænuvík um 1570.
um 1570
Jón Bárðarson. Bóndi í Hænuvík um 1570.
um 1570
Marteinn. Bóndi í Hænuvík um 1570.
um 1570
Húsa Jón. Líklega bóndi í Hænuvík um 1570. Um þetta leiti hefur Sellátranes talist með Hænuvík.
1703
Jón eldri Helgason. Bóndi í Hænuvík 1703. F. um 1657. Bróðir Jóns yngri, sem býr á Sellátranesi.
K. Guðríður Ketilsdóttir, f. um 1657. Börn þeirra:
Bjarni 20 ára.
Jón 14 ára, líklega bóndi á Sellátranesi 1735.
Skeggi 11 ára.
Magnús 4 ára, líklega bóndi á Sellátranesi 1735.
Guðríður 8 ára.
1703.
Svartur Helgason. Bóndi í Hænuvík 1703. Líklega bróðir Jóns Helgasonar. F. um 1664.
K. Guðrún Pétursdóttir, f. um 1667. Börn þeirra:
Helga 8 ára.
Svartur 3 ára.
Sigríður 2 ára.
eftir 1703
Jón Jónsson. Hefur samkvæmt sögnum búið í Hænuvík, eftir 1703 að öllum líkindum, því hann býr í Krossadal 1703. F. um 1656. Einn hinna svonefndu Sellátrabræðra.
(árið 1703) K. Guðrún Helgadóttir 43 ára (e.t.v. hefur hún verið systir þeirra Svarts og Jóns, bænda í Hænuvík 1703). Börn þeirra:
Helga 23 ára. Hún giftist síðar Sigurði ella Jónssyni bónda á Geirseyri 1735, sem sagnir eru um.
Þuríður 16 ára.
Sigurður 15 ára, síðar bóndi í Hænuvík.
Pétur 7 ára.
1735
Sigurður Jónsson. Bóndi í Hænuvík 1735. F. um 1688. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi í Krossadal 1703 og k.h. Guðrún Helgadóttir. Séra Ólafur Einarsson á Ballará segir að Sigurður hafi búið í Hænuvík eftir föður sinn. Sigurður kvæntist, en ekki er kunnugt um nafn konu hans. Börn þeirra:
Þorgrímur bóndi í Kvígindisdal.
Jón bóndi á sama stað.
Helga, sem bæði séra Ólafur Einarsson og Gísli Konráðsson segja, að átt hafi Þorgrím Jónsson á Lambavatni. En það virðist ekki rétt. K. segir að Helga hafi verið seinni kona Þorgríms, en hún hér Guðrún Helgadóttir. Hinsvegar hét fyrri kona Þorgríms, Helga Pálsdóttir. Hugsanlegt var, að Þorgrímur Jónsson hafi verið þríkvæntur og átt fyrst Helgu Sigurðardóttur. Af því sem að neðan greinir , er það þó ekki líklegt, hefðu þá þurft að skilja.
Sigurður í Hænuvík varð líkþrár. En það mun ekki rétt, sem Ólafur próf. Einarsson segir, að annar sonur Sigurðar hafi einnig heitið Sigurður (í staðinn fyrir Jón), verið „veikur á holdinu“ og dáið ókv. Ólafur Einarsson getur þess ekki, að Sigurður Jónsson hafi verið holdsveikur og er því líklega um misminni að ræða hjá honum. Helga Sigurðardóttir heitir vinnukona í Dalshúsum 1780, 64 ára gömul. Það eru allar líkur til þess, að þetta sé Helga, sem að ofan greinir, enda voru hjónin í Dalshúsum náskyld Sigurði í Hænuvík. Konan, Guðrún Sigurðardóttir líklega dóttir fyrrnefndar Helgu Jónsdóttur frá Hænuvík og Sigurðar ella, en húsbóndinn, Pétur Jónsson, talinn sonarsonarsonur Tómasar í Krossadal, sem var einn Sellátrabræðranna.
1735
Bjarni Jónsson. Bóndi í Hænuvík 1735. Líklega sá Bj.J., sem er 20 ára í Hænuvík 1703, sonur Jóns Helgasonar bónda þar. Ekki er vitað um kvonfang Bjarna, en eigi er ólíklegt, að sonur hans hafi verið:
Páll Bjarnason, húsmaður í Hænuvík 1780, áður bóndi í Hænuvík.
1762
Páll Bjarnason. Bóndi í Hænuvík 1762. Húsmaður þar 1780. F. um 1715, d. milli 1786 og 1801.
K. 1740 (á 31. ári), Guðrún Jónsdóttir Gunnlaugssonar. Það mun vara hún, sem dó 12. mars 1776 (jarðsett 20. mars), átti eftir 3 börn. Hún hefur verið systir Jón Jónssonar bónda í Kollsvík 1780. Börn þeirra:
Þorlákur, f. um 1744, bóndi í Hænuvík 1780.
Bjarni, f. 2. jan. 1753, bóndi í Hænuvík 1801.
Guðrún, f. um 1749, kona Páls Bjarnasonar bónda í Hænuvík 1780.
fyrir 1762-1782
Gunnar Hallsson. Bóndi í Hænuvík frá því fyrir 1762 og fram yfir 1782. F. u 1723, d. milli 1786 og 1801.
K. fyrir 1750, Björg, f. um 1723, d. milli 1786 og 1801 Bjarnadóttir. Ég hygg að Gunnar hafi verið sonur Halls Guðmundssonar, sem er 4 ára í Tungu í Tálknafirði 1703, hjá foreldrum sínum, Guðmundi Guðmundssyni 28 ára og Sesselju Gunnarsdóttur 27 ára. Föðurfaðir Sesselju tel ég muni verið hafa Hallur Björnsson bóndi á Geirseyri og í Kvígindisdal, að því er segir í ættartölum kvæntur Arnheiði Sturludóttur á Geirseyri Gottskálkssonar. En faðir Halls í Kvígindisdal var Bjarni á Brjánslæk Björnsson próf. Á Melstað Jónssonar biskups Arasonar. Börn Gunnars og Bjargar:
Halldóra, f. 1748, kona Gunnlaugs Björnssonar bónda í Hænuvík.
Steinunn, f. 1751, kona Jóns Loftssonar bónda í Keflavík.
Guðrún, f. 1752, kona (1780) Ólafs Þóroddssonar síðar bónda í Tungu í Tálknafirði, afi Kristjáns Ólafssonar bónda í Bröttuhlíð.
Þórunn. F. 24. ágúst 1753, d. 12. nóv. sama ár.
Ólafur, f. 22. júní 1755, mun hafa dáið ungbarn, þótt þess sé ekki getið í kirkjubók
Ólafur, f. 20. ágúst 1756, bóndi í Tungu í Tálknafirði 1801, kvæntur Herdísi Þorgrímsdóttur bónda í Krossadal, Pálssonar. Dóttir Ólafs og Herdísar var Ragnhildur, sem giftist Guðbrandi Jónssyni bónda á Skriðnafelli, en þau voru foreldrar Einars, móðurföður Ólínu Andrésdóttur konu Ólafs E. Thoroddsens í Vatnsdal.
Bjarni, f. 29. okt. 1757, d. 18. nóv. sama ár.
Enn virðist hafa verið sonur Gunnars Hallsonar og Helgu Jónsdóttur:
Páll, f. 1759, d. sama ár.
Áður en Gunnar kom að Hænuvik mun hann hafa búið í Kvígindisdal (um og eftir 1750).
1780 og 1782
Páll Bjarnason. Bóndi í Hænuvík 1780 og 1782. Hann virðist í fyrsta lagi hafa byrjað búskap í Hænuvík 1775, var áður á Hlaðseyri, en ekki víst, hvort hann hefur búið þar. Ekki er annað sennilegt en að hann hafi búið í Hænuvík til dauðadags. F. um 1744, d. milli 1786 og 1801.
K. 1772, Guðrún Pálsdóttir bónda í Hænuvík Bjarnasonar. Mun hafa verið dáin fyrir 1801. Börn þeirra:
Bjarni, f. 1772, ekki á manntali í Rauðasandshreppi 1801.
Margrét, f. á Hlaðseyri í apríl 1775. Hún var tvígift, en barnlaus í báðum hjónaböndum. Fyrri maður hennar var Eyjólfur Björnsson bóndi í Breiðavík, Össurssonar, en seinni maður hennar var Björn Jónsson, sem síðar átti Kristínu Þorsteinsdóttur. Sonur þeirra Kristján bóndi í Botni.
Jón, f. í Hænuvík 1783, í Hænuvík 1801 og 1817, ókv.
1780
Þorlákur Pálsson. Bóndi í Hænuvík 1780. Síðar bóndi á Grundum, sjá þar.
eftir 1780-um 1800
Halldór Magnússon. Bóndi í Hænuvík frá því skömmu eftir 1780 og fram undir 1800. Hann var fyrst búsettur á Vatneyri, síðan á Geirseyri, þá í Kvígindisdal (1780-1782?), en hefur flutzt þaðan að Hænuvík. Foreldrar: Magnús prestur Halldórsson í Árnesi í Strandasýslu og k.h. Þóra Sveinsdóttir á Finnbogastöðum, Jónssonar. F. um 1734, d. í Hænuvík 3. júní 1811.
K. 1765, Sigríður, f. um 1735 á Dalshúsum í Sauðlauksdal, d. milli 1786 og 1801 Ólafsdóttir bónda í Dalshúsum, áður í Raknadal Jónssonar og k.h. Vilborgar Halldórsdóttur frá Láganúpi. Börn þeirra:
Guðrún, f. í apríl 1765, d. sama ár.
Guðrún, f. í nóv. 1767, d. sama ár.
Bjarni, f. 1768, bóndi á Sellátranesi.
Ólafur, f. 1769, bóndi í Hænuvík.
Þóra, f. 1771, kona Ásbjörns Ólafssonar bónda í Vatnsdal.
Magnús, f. 1773, d. sama ár.
Magnús, f. 1774, bóndi á Melanesi.
um 1790-1815
Bjarni Pálsson. Bóndi í Hænuvík líklega um 1790-1815. F. 1753, d. í Hænuvík 9. ágúst 1815. Foreldrar: Páll Bjarnason bóndi í Hænuvík og k.h. Guðrún Jónsdóttir.
K. 1785, Giríður Jónsdóttir ekkja Jóns Jónssonar bónda á Láganúpi. Bl. Biskupleyfi þurfti til og var það veitt 23. ágúst 1784. Ástæða til biskupsleyfis var sú, að Jón fyrri maður Giríðar og Bjarni seinni maður hennar voru systkinasynir (Jón Jónsson og Guðrún Jónsdóttir).
1800-1808
Ólafur Halldórsson. Bóndi í Hænuvík frá því um eða rétt fyrir 1800 og fram yfir 1808. Þá fluttist Ólafur að Raknadal og er þar 1817. Mun hafa verið þar til dauðadags. F. 1769, d. 1820? Foreldrar: Halldór Magnússon bóndi í Hænuvík og k.h. Sigríður Ólafsdóttir.
K. skömmu fyrir 1800, Ingibjörg, f. 1768 á Geirseyri, d. 24. okt. 1820 í Tungu, Þórólfsdóttir, f. um 1721 á Geurseyri, d. milli 1786 og 1801 Ólafssonar og k.h. Margrétar Jónsdóttur. Börn þeirra:
Sigríður, f. 1803 í Hænuvík, d. á Láganúpi 11. febr. 1827, óg. og bl.
Halldór, f. 1804, bóndi í Raknadal.
Jón, f. 1807, d. sama ár.
1817
Halldór Arngrímsson. Bóndi í Hænuvík 1817. Hann hefur væntanlega tekið við jörðinni í Hænuvík, þegar tendamóðir hans varð ekkja (1815) og bjó þar til dauðadags. F. á Skjaldvararfossi á Barðaströndum um 1772, d. 3. okt. 1825. Halldór er vinnumaður á Skjaldvararfossi 1790 (19 ára), 1801 kvæntur vinnumaður í Hænuvík, 1808 vinnumaður á Sellátranesi. Foreldrar: Arngrímur Ólafsson bónda í Vatnsdal, Arngrímssonar og k.h. Hallfríðar Bjarnadóttur. Arngrímur og Hallfríður giftust í Sauðlauksdalssókn 1762 og hafa líklega flutt næsta vor að Skjaldvararfossi á Barðaströnd. Arngrímur er a.m.k. dáinn fyrir 1788, þá býr Hallfríður á Skjaldvararfossi ásamt sonum sínum Arngrími og Halldóri. En 1890 er tendasonur hennar Pétur Björnsson tekinn við, kvæntur Elínu Arngrímsdóttur. Hallfríður varð fjörgömul, dó á Skjaldvararfossi 30. jan 1820 og mun þá hafa verið h.u.b. 94 ára gömul eftir aldri 1788 og 1790 hefur hún verið f. um 1726, en síðar er hún talin eldri. Börn Arngríms og Hallfríðar voru: Ingveldur, f. í Sauðlauksdalssókn í okt. 1762, átti Einar Guðmundsson Bónda á Skjaldvararfossi, sonarsonur þeirra var Magnús Ólafsson faðir Sveins á lambavatni. E.t.v. Jón, f. 1763, í Haga 1788, mállaus, talinn 26 ára og ári yngri en Ingveldur, sem einnig er þá í Haga. Guðrún, f. 1764, talin 24 ára 1788 og 34 ára 1794, kona Þorsteins Jónssonar bónda á Haukabergi, átti síðar Jón Steinsson s.st. Sonarsonur Guðrúnar og Þorsteins var Ketill bóndi á Melanesi, Þorsteinssonar. Elín, f. 1764 (hún er talin jafngömul Guðrúnu og hefðu þær því getað verið tvíburar), kona Péturs Björnssonar bónda á Skjaldvararfossi 1790, Haukabergi 1794, síðar í Dufansdal í Arnarfirði. Afkomandi hans var Pétur Björnsson skipstjóri, sem eitt sinn var í Ástralíu. E.t.v. Þuríður, f. um 1766. Arngrímur, f. 1770, bóndi á Skriðnafelli 1816, kvæntur Þórunni Þorkelsdóttur. Halldór fyrrnefndur, f. 1772. Hallfríður var áður gift Ásbirni Þórðarsyni bónda í Raknadal.
K. I Guðbjörg, f. á Láganúpi 4. okt. 1772, d. 4. des. 1806 Jónsdóttir bónda á Láganúpi Jónssonar og k.h. Giríðar Jónsdóttur. Sonur þeirra:
Ólafur bóndi í Hænuvík.
K. II 7. okt. 1808, Guðrún Jónsdóttir, alsystir Guðbjargar fyrri konu Halldórs. Þau bl.
1817
Ólafur Þórðarson. Bóndi í Hænuvík 1817, á hnjóti 1808, ókv. vinnumaður á Sellátranesi 1801, en um það leyti hefur hann kvænzt. Hefur verið kominn að Hnjóti 1803. Kominn að Hænuvík 1815, líklega tekið við af Ólafi Halldórssyni. F. 1776, d. 18??. Foreldrar: Þórður Hafliðason bóndi í Tungu og k.h. Guðrún Pálsdóttir.
K. Þórunn Pétursdóttir bónda á Sellátranesi Jónssonar, f. 1776, d. 9. des. 1810. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. 1801, d. í Hænuvík 1. des. 1815.
Ólafur, f. á Hnjóti 1803, í Hænuvík 1817. Kvæntur vinnumaður í Kollsvík 1845, kona Guðrún Loftsdóttir bónda í Gröf Magnússonar, munu hafa verið bl. Ólafur dó 1862 í Hænuvík, var þá ekkjumaður.
Guðrún, f. 1808, virðist hafa dáið ungbarn.
Guðrún, f. 1810, virðist einnig hafa dáið ungbarn.
Elín, f. á Hnjóti, í Hænuvík 1817.
1830-1855
Ólafur Halldórsson. Bóndi í Hænuvík 1830-1855. F. í Hænuvík 1798, d. á s.st. 1. apríl 1855. Foreldrar: Halldór Arngrímsson bóndi í Hænuvík og f.k.h. Guðbjörg Jónsdóttir frá Láganúpi.
K. 21. sept. 1826, Guðbjörg, f. 28. sept. 1805 að Hofsstöðum í Þorskafirði, d. í Hænuvík 15. apríl 1864 Brandsdóttir bónda á Hofsstöðum og í Hlíð í Þorskafirði, Árnasonar og k.h. Halldóru Sumarliðadóttur. Guðbjörg var alsystir Steinunnar Brandsdóttur seinni konu Jóns Bjarnasonar bónda í Hænuvík. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. 3. júlí 1828, kona Árna Pálssonar bónda í Hænuvík.
Halldór, f. 7. júlí 1829, d. 4. ágúst sama ár.
Guðbjartur, f. 7. sept. 183, bóndi í Kollsvík.
Bjarni, f. 1. júlí 1832, bóndi í Vatnsdal.
Árni, f. 7. júlí 1834, d. 7. júlí 1837.
Gísli, f. 26. des. 1838, bóndi á Sellátranesi.
Halldór, f. 11. apríl 1841, bóndi á Grundum.
Ólafur E. Thoroddsen bóndi í Vatnsdal hefur það eftir Helgu Einarsdóttur, móður Hjálmars Jónssonar bónda á Geitagili, að faðir hans hafi verið Ólafur Halldórsson, fyrrnefndur bóndi í Hænuvík.
1825-1827
Bjarni Bjarnason. Bóndi í Hænuvík 1825-1827, síðar bóndi í Kvígindisdal, sjá þar.
1827-1843
Bjarni Halldórsson. Bóndi í Hænuvík 1827-1843. Áður bóndi á Sellátranesi og enn áður bóndi á Hnjóti, sjá þar.
1843-1846
Kristín Ásbjörnsdóttir. Bóndi í Hænuvík 1843-1846, ekkja fyrrnefnds Bjarna Halldórssonar, var 3. kona hans.
1846-1849
Friðberg Gunnarsson. Bóndi í Hænuvík 1846-1849. Síðar bóndi á Geitagili, sjá þar.
1855-1867
Árni Pálsson. Bóndi í Hænuvík 1855-1867. F. á Vatneyri 19. apríl 1822, d. 15. febr. 1876, drukknaði, er Vatnsdalsskip fórst í lendingu á Látrum. Árni var þá vinnumaður í Tungu hjá Bjarna Ólafssyni mági sínum. Faðir Árna var Páll Pálsson, síðar bóndi á Melanesi, er átti Bergljótu Jónsdóttur Thorbergs, en móðir hans var Helga, f. 1801 á Brimilsvöllum á Snæfellsnesi Jónsdóttir Jónssonar og Helgu Jónsdóttur, sem er með Helgu yngri á Vatneyri 1817, þá orðin ekkja. Helga eldri dó á Bakka í Arnarfjarðardölum 1843. Helga yngri hafði gifzt Bjarna Ásgeirssyni bónda þar. Seinni maður Helgu var Sveinn, f. um 1807 Sölvasonar, er hafði siglt og var nefndur „urtakramari“, var við verzlun.
K. 29. sept. 1853, Ingibjörg Ólafsdóttir bónda í Hænuvík Halldórssonar. Börn þeirra:
Brandur, f. 1854, bóndi á Hnjóti.
Ólafur, f. 12. apríl 1855, drukknaði við Ísafjarðardjúp um 1890, ókv. og bl.
Guðbjörg, f. 20. júní 1856, kona Ingva Einarssonar bónda á Koti.
Árni, f. 1859, d. 1864.
Magnús, f. 1860, bóndi á Hnjóti.
Kristján, f. 1860, dó sama ár, tvíburi Magnúsar.
Guðríður, f. 1861, d. 1864.
andvana sveinbarn, f. 1862.
Halldór, f. 1864, d. sama ár.
Arndís Guðríður, f. 13. júlí 1865, átti barn með Hjalta Þorgeirssyni fyrrum bónda í Krókshúsum.
Pálína, f. 1866, fluttist 1872 frá Saurbæ til Ísafjarðar. Maður hennar var Skarphéðinn, f. í Vigur 6. júlí 1860. Þau fluttust til Reykjavíkur 1918.
Áður en Árni kvæntist hafði hann átt þessi börn:
Vilborg, f. í Vatnsdal 1841, dó ungbarn. Móðir hennar var Vilborg Teitsdóttir Höskuldssonar, er síðar átti Jón Árnason og enn síðar Einar Árnason bónda í Tungu, bróður Jóns. Vilborg var seinni kona Einars.
Kristín, f. í Sauðlauksdal 1851, dó sama ár. Móðir hennar var Gróa Gísladóttir prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar. Gróa var einnig móðir Sigþrúðar Einarsdóttur á Hnjóti.
1859-1864
Ásbjörn Einarsson. Bóndi í Hænuvík 1859-1864, áður bóndi í Tungu, sjá þar.
1849-1865
Jón Bjarnason. Bóndi í Hænuvík 1849-1859 og 1860-1865. Bóndi í Skápadal 1825-1827, á Grundum 1840-1849. F. á Sellátranesi 1796, d. þar 4. mars 1869. Foreldrar: Bjarni Halldórsson bóndi á Sellátranesi og k.h. Vigdís Pétursdóttir. Jón var tvíkvæntur.
K. I 13. okt. 1823, Helga, f. á Hnjóti 1800, d. í Vatnsdal 21. apríl 1894, Einarsdóttir Þórarinssonar og k.h. Þóru Jónsdóttur. Börn þeirra:
Hjálmar, f. í Hænuvík 1822, bóndi á Geitagili.
Jón, f. í Skápadal 7. okt. 1824, hjá föður sínum í Botni 1836, Geirseyri 1840, 1855 hjá föður sínum í Hænuvík, mun hafa verið ókv. og bl.
Halldór, f. í Skápadal 2. des. 1825.
Jóhanna, f. í tungu 15. des. 1826, d. í Saurbæ, óg. og bl.
Árið 1826 hafa þau Jón og Helga slitið samvistum, en 1836 eru þau enn talin gift, Jón og Helga og jafnvel 1838 er Jón talinn kvæntur, er þá vinnumaður í Botni. Helga giftist aftur 19. sept. 1841 Hákoni Guðmundssyni frá Geitagili, síðar bónda í Tungu. En Jón kvæntist aftur:
K. II 24. sept. 1840, Steinunn Brandsdóttir, er þá bjó á Grundum, áður gift Bjarna yngri Sigurðssyni bónda í Breiðavík. Sonur þeirra:
Ívar bóndi í Hænuvík, f. 16. júní 1841.
Með öðrum konum átti Jón Bjarnason þessi börn:
Einar, f. um 1820, ekki kunnugt um móður hans. Hann er á Geirseyri 1838. Það mun vera hann sem flyzt á ...?
andvana barn, f. í Botni 26. sept. 1829. Móðirin var Ingveldur Gísladóttir sem síðar átti Gísla Bjarnason bónda á Melanesi, foreldrar Jóns bónda í Keflavík. Þetta er talið 3. brot Ingveldar. Hún hafði áður (1825) átt dóttur, Guðrúnu að nafni, með Gunnari Launsyni Einars gamla Jónssonar í Kollsvík. Er það talið annað brot Ingveldar, en óvíst er um hið fyrsta.
Sigríður, f. 6. sept. 1845, átti Guðmund Hjálmarsson bónda í Botni. Faðir Sigríðar var upphaflega skrifaður Björn Jónsson, þá vinnumaður í Kollsvík. Móðir hennar var Guðrún Jónsdóttir smiðs, bónda á Sjöundá, Jónssonar.
Kristín, f. á Hvalskeri 19. ágúst 1848, kona Jóhannesar Jónssonar bónda í Krókshúsum. Hún var alsystir Sigríðar.
Kjartan, f. í Hænuvík 28. jan. 1854, drukknaði á Gjögrum 1. maí 1897. Hann var upphaflega skrifaður sonur Þórðar vinnumanns á Geirseyri. Móðir hans var Halldóra Jónsdóttir bónda á Geitagili Einarssonar. Kjartan kvæntist ekki en átti tvo syni, sem lifðu: Jóhannes, f. 1882, sem bjó með Guðrúnu Guðmundsdóttur, ekkju Ólafs Bjarnasonar bónda á Hlaðseyri og átti með henni son og dóttur og Magnús, f. 1885, síðar málarameistari í Hafnarfirði. Móðir Jóhannesar hét Jóhanna Jónsdóttir bónda á Melanesi Loftssonar, en móðir Magnúsar var Guðný Ólafsdóttir bónda á Naustabrekku Magnússonar.
1864-1869?
Gísli Bjarnason. Bóndi í Hænuvík 1864-186(9). Áður bóndi á Sellátranesi, sjá þar.
1866-1875
Gísli Sigurðsson. Bóndi í Hænuvík 1866-1875. F. 12. okt. 1837 á Grundum, d. á Geirseyri 7. okt. 1875. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Tungu o.v. og k.h. Ingveldur Jónsdóttir bónda á Sjöundá, Þorgrímssonar. Gísli var albróðir Jóns bónda í Hænuvík, sjá síðar.
K. 7. okt. 1865, Jarþrúður Einarsdóttir bónda í Tungu Árnasonar og k.h. Dómhildar Sigurðardóttur. Börn þeirra:
Valgerður Rebekka, f. á hnjóti 29. sept. 1864, kona Egils Gunnlaugssonar á Lambavatni. Áður gift Guðbjarti Bjarnasyni.
Sigurður, f. í Hænuvík 30. júlí 1866, d. sama ár.
Sigríður, f. í Hænuvík 2. sept. 1869, d. á sjúkrahúsi á Ísafirði 1925, ljósmóðir, giftist 1903 Jóhanni Pálssyni bónda á Garðsstöðum. Þau áttu tvo syni; Ragnar dó uppkominn af slysförum, Árni ókv.
Einar, f. í Hænuvík 15. nóv. 1872, fluttist 1889 í Tálknafjörð og kvæntist 12. des. 1903 Ólínu Guðrúnu Jónsdóttur bónda á Suðureyri Johnsens. Þau eru í Botni í Tálknafiðri 1920 og eru þá börn þeirra þessi: Gunnar, f. 1905, Njáll, 1906, Jóna Þórdís Jarþrúður, f. 1908.
1875-1879
Bárður Bjarnason. Bóndi í Hænuvík 1875-1879. Fluttist að Hænuvík úr Tálknafirði. F. að Sveinseyri í Tf. 25. júlí 1838, d. 29 júní 1879, drukknaði í lendingu í Hænuvík, ásamt tveim öðrum. Foreldrar: Bjarni Ingimundarson bónda á Sveinseyri og k.h. Ingibjörg Sigurðardóttir bónda á Sveinseyri Þórðarsonar og k.h. Gunnhildar Þorfinnsdóttur, Ásbjörnssonar bónda í Breiðavík 1735 Þorfinnssonar.
K. 18. okt. 1864, Guðlaug, f. í Sauðlauksdal 27. okt. 1841 Gíslasonar síðar bónda á Geitagili, svo í Höfðadal í Tálknafirði, Magnússonar: Börn þeirra:
Nikólína María, f. á Suðureyri 24. okt. 1866, d. í Höfðadal 24. mars 1870.
Guðbjörg, f. á Suðureyri 13. nóv. 1867, seinni kona Þorsteins Árnasonar bónda á Kvígindisfelli, d. 27. febr. 1939.
Ólína Kristín, f. á Suðureyri 10. mars 1869, fyrri kona Þorstein Árnasonar á Kvígindisfelli, d. 4. febr. 1895 á Vindheimum, húsfreyja þar.
Guðmundur Kristján, f. að Innri Eyrarhúsum 26. sept. 1873, d. á Patreksfirði 19. maí 1949, ókv. og bl.
1870-1895
Jón Sigurðsson. Bóndi í Hænuvík 1870-1895. Bóndi á Hvalskeri 1862-1870. F. á Grundum 29. apríl 1832, d. í Hænuvík. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Tungu og k.h. Ingveldur Jónsdóttir bónda á Sjöundá, Þorgrímssonar.
K. 30. sept. 1862, Helga, f. á Láganúpi 6. júlí 1838, d. Patreksfirði 14. apríl 1910, Ólafsdóttir bónda á Láganúpi Ásbjörnssonar og Helgu Einarsdóttur vinnukonu á s.st. Börn þeirra:
Einar, f. á Hvalskeri 29. júní 1863, drukknaði í Gjögurbót með Þórði Gunnlaugssyni o.fl. 1. maí 1897, ókv. og bl.
Valdimar, f. 17. júní 1866, d. samdægurs.
Ingveldur, f. á Hvalskeri 11. júní 1868, kona Einars bónda í Hænuvík Guðmundssonar bónda í Tungu Bjarnasonar.
Valgerður, f. í Hænuvík 11. júní 1871, d. 1872.
Sigurður, f. í Hænuvík 4. sept. 1872, bóndi á Hnjóti o.v.
Þórdís, f. í Hænuvík 6. sept. 1874, kona Guðjóns Jósepssonar sjómanns á Patreksfirði.
Sonur Jón Sigurðssonar og Jóhönnu Kristjönu Gísladóttur prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar var:
Valdimar, f. í Vatnsdal 23. ágúst 1861, d. á Hvalskeri 26. júlí 1864. Við manntal 1864 er hann á Skeri hjá Jóni Sigurðssyni og k.h. Helgu, sagður sonur bónda. Hinsvegar er hann í kirkjubók skrifaður sonur Jóns Jónssonar, sem verður að teljast misritun, eða þá rangfeðrun í bili.
1879-1883
Guðmundur Hjálmarsson. Bóndi í Hænuvík 1879-1883, bóndi í Botni 1886-1891. F á Skógi 14. sept. 1846, d. á Haukabergi 28. des. 1893 þá vinnumaður þar. Foreldrar: Hjálmar Sigmundsson bóndi á Skógi og s.k.h. Guðrún Lýðsdóttir.
K. 187?, Sigríður, f. 6. sept. 1845, d. í Vestur-Botni 19. Apríl 1890 úr sullaveiki, Jónsdóttir bónda í Hænuvík Bjarnasonar og Guðrúnar Jónsdóttur smiðs, síðar bónda á Sjöundá, Jónssonar. Börn þeirra:
Guðrún, f. í Sauðlauksdal 19. apríl 1874, kona Ólafs Bjarnasonar á bónda á Hlaðseyri.
Jón Guðmundur, f. í Sauðlauksdal 6. des. 1876, d. 29. nóv. 1879.
Rósa, f. 12. maí 1879, kona Jóhanns Bjarnasonar smiðs á Geirseyri.
Hjálmar, f. í Hænuvík 11. apríl 1880, bóndi á Hlaðseyri 1907-1909, síðar bóndi á Grænhól á Barðaströnd.
Salóme, f. í Botni 11. apríl 1884, kona Gísla Gíslasonar bónda í Hvammi á Barðaströnd.
Samúel Júlíus, f. 9. júlí 1887, kvæntur Arndísi Árnadóttur , búsettur í Sauðeyjum.
1880-1922
Ívar Jónsson. Bóndi í Hænuvík 1880-1922, á Sellátranesi 1864-1870. F. á Grundum 16. júní 1841, d. í Hænuvík 10. júní 1926. Foreldrar: Jón Bjarnason síðar bóndi í Hænuvík og s.k.h. Steinunn Brandsdóttir.
K. I 14. okt. 1864, Guðrún, f. á Sjöundá 24. jan. 1836, d. á Sellátranesi 28. júní 1869 Hjálmarsdóttir, síðar bónda á Skógi Sigmundssonar og f.k.h. Svanhildar Jónsdóttur. Guðrún var alsystir Bjargar konu Jóhanns bónda Jónssonar á Gili. Börn þeirra:
Steinunn, f. 24. apríl 1866, d. 28. sama mán.
Ingveldur, f. 21. okt. 1867, d. á Patreksfirði 4. ágúst 1953, kona Jóns Jóhannssonar bónda í Hænuvík.
Svanhildur, f. 15. okt. 1868, d. 25. apríl 1869.
K. II 11. okt. 1883, Karólína, f. á Grundum 17. apríl 1853 Hjálmarsdóttir síðar bónda á Geitagili, Jónssonar, d. í Hænuvík 24. júlí 1897. Börn þeirra:
Kristján, f. í Hænuvík 13. jan. 1878, drukknaði er Vigga fórst 1. maí 1897.
Jón, f. í Hænuvík 8. mars 1890, bóndi í Hænuvík.
1922-1932
Jón Ívarsson (08.03.1890-25.04.1965). Bóndi í Hænuvík (innri II) 1922-1932. F. í Hænuvík, sonur Ívars bónda í Hænuvík Jónssonar og s.k.h. Karólínu Hjálmarsdóttur Jónssonar. Ókv. og bl. Eftir 1932 verkamaður á Patreksfirði.
1883-1887
Árni Jónsson. Bóndi í Hænuvík 1883-1887, áður bóndi í Botni (1877-1883). F. í Laugardal í Tálknafirði 28. mars 1834, d. í Kvígindisdal 27. ágúst 1898. Foreldrar: Jón Guðmundsson bóndi í Laugardal og k.h. Kristín Árnadóttir bónda á Geitagili (um skeið á Bakka í Tálknafirði) Bjarnasonar og k.h. Sigríðar eldri Steinsdóttur bónda á Grundum, Þorsteinssonar.
K. 17. okt. 1877, Ingibjörg Sigurðardóttir ekkja Sigurðar Gíslasonar bónda í Botni. Börn þeirra:
Sigurður, vélstjóri í Reykajvík, f. í Botni 29. nóv. 1877, d. í Reykjavík 1952. Kvæntist Þuríði Pétursdóttur, f. 1868 að Brúsastöðum í Þingvallasveit. Þau eignuðust 15 börn.
Guðmundur, f. í Botni 21. apríl 1880, dó erlendis, ókv. og bl.
1887-1888
Sigurður Bachmann, kaupmaður á Vatneyri. Bóndi í Hænuvík 1887-1888. Bóndi á Vatneyri, sjá þar.
1895-1896
Einar Guðmundsson. Bóndi í Hænuvík 1895-1896. F. í Tungu 10. maí 1861, d. í Hænuvík 24. jan. 1896, sonur Guðmundar Bjarnasonar bónda í Tungu og f.k.h. Hólmfríðar Jónsdóttur frá Geitagili.
K. 20. okt. 1892, Ingveldur, f. á Hvalskeri 11. júní 1868 Jónsdóttir, síðast bónda í Hænuvík, Sigurðssonar. Börn þeirra:
Kristján Hólm, f. í Hænuvík 16. ágúst 1892, d. 6. mars 1893.
Jónfríður Kristjana, f. 26. maí 1894 í Hænuvík, d. 10. des. 1902 á Hnjóti.
Helgi Sigurvin, f. í Hænuvík 16. sept. 1895, bóndi á Geitagili.
1896-1897
Ingveldur Jónsdóttir. Búandi í Hænuvík 1896-1897. Ekkja Einars Guðmundssonar bónda í Hænuvík.
1897-1911
Jóhann Magnússon (22.08.1866-13.05.1961). Bóndi í Hænuvík Innri I 1897-1911. Fluttist þá til Winnipeg. F. á Siglunesi á Barðaströnd. Foreldrar: Magnús, f. að Steinadal í Strandasýslu 14. mars 1830, d. í Hænuvík 19. nóv. 1899, bóndi á Siglunesi, Pétursson, lengi bóndi á Auðshaugi, síðan á Haukabergi, Guðmundssonar og k.h. Þóra, f. í Hrísnesi 5. febr. 1829, d. í Gerði 18. okt. 1873 Jónsdóttir. Þóra var systir Árna bónda á Lambavatni.
K. 12. okt. 1895, Ólöf, f. á Látrum (03.09.1872-22.05.1961) Össursdóttir bónda á Látrum Össurssonar og s.k.h. Guðrúnar Snæbjörnsdóttur. Börn þeirra:
Guðrún, f. á Hvallátrum (18.07.1895- d eftir 1931). Gift í Winnipeg Páli Johnson.
Kristján Ágúst, f. í Hænuvík 21. ágúst 1897, d. 15. ágúst 1900.
Kristjana Þóra, f. í Hænuvík (20.10.1905-01.10.1997), gift í Kanada Einari Árnasyni, rafmagnsverkfræðingi.
Arnbjörg (kölluð Edna), f. 24. febr. 1907, d ?, gift í Kanada Dr. Roy Haugen.
Ingibjörg, f. í Hænuvík 27. júlí 1908, dó sama ár.
Fanney, f. í Winnipeg (06.12.1912-16.03.2005), gift Inga Stefánssyni, bankaritara, Winnipeg.
Pétur, f. 10. okt. 1915, d. ?
1897-1923
Ólafur Tómas Guðbjartsson (17.06.1861-14.05.1948). Bóndi í Hænuvík Ytri 1897-1923. Bóndi í Keflavík 1889-1897. Var síðar í Keflavík 1932-1934, er Hafliði sonur hans bjó þar. Foreldrar: Guðbjartur Ólafsson bóndi í Kollsvík og k.h. Magdalena Halldórsdóttir.
K. 2. okt. 1887, Guðrún Haflína, f. 13. febr. 1862, d. í Reykjavík 22. mars 1935, Jónsdóttir bónda í Keflavík, Gíslasonar og k.h. Ástríðar Bjarnadóttur. Börn þeirra:
Bjarney Valgerður, f. í Keflavík (01.11.1885, kona Þórðar Ingvars Ásgeirssonar bónda á Geitagili (sjá þar).
Hafliði, f. í Keflavík 12. okt. 1887, bóndi í Keflavík og Tungu (sjá þar).
Guðbjartur, f. í Keflavík (21.03.1889-15.05.1961), hafnsögumaður í Reykjavík og forseti SVFÍ, kvæntur Ástbjörgu Jónsdóttur frá Akranesi. 5 börn.
Guðbjörg Andrea, f. í Keflavík (09.07.1890-24.10.1963), sonur hennar og Einars Jónssonar, Jón, f. í Reykjavík 7. sept 1932. 1 barn.
Hjörleifur, f. í Keflavík (24.05.1892-02.07.195), sjómaður í Reykjavík, kvæntur Halldóru Narfadóttur frá Haukagili. 5 börn.
Ólöf Guðrún, f. í Keflavík (18.08.1896-10.03.1958). N.I Guðmundur Beck Björnsson, er dó 1932, voru búsett í Reykjavík. 1 barn. II Kjartan Sigurður Bjarnason. 3 börn.
Jón Eiríkur, f. í Hænuvík 6. febr. 1899, drukknaði er togarinn Robertsson fórst 8. febr. 1925.
Ástráður, f. í Hænuvík 7. nóv. 1901, hrapaði til bana í Látrabjargi 16. júní 1926.
andvana sveinbarn, f. í Hænuvík18. ágúst 1903.
Halldór (16.10.1906-23.10.1906).
1897-1914
Jón Jóhannsson. Bóndi í Hænuvík 1897-1914. F. í Breiðavík 1. ágúst 1867, d. í Hænuvík 24. sept. 1914. Foreldrar: Jóhann Jónsson bóndi á Geitagili og k.h. Björg Hjálmarsdóttir bónda á Skógi Sigmundssonar.
K. 24. okt. 1895, Ingveldur Ívarsdóttir bónda í Hænuvík Jónssonar og f.k.h. Guðrúnar Hjálmarsdóttur bónda á Skógi Sigmundssonar. Jón og Ingveldur voru því systrabörn. Börn þeirra:
Guðrún, f. á Geitagili (26.09.1895-09.10.1997) bjó á Patreksfirði, ógift og bl.
Björg, f. í Hænuvík 22. nóv. 1898, dó samdægurs.
1914-1927
Ingveldur Ívarsdóttir. Búandi í Hænuvík 1914-1927. Ekkja Jóns Jóhannssonar bónda í Hænuvík. Ingveldur fluttist til Patreksfjarðar með Guðrúnu dóttur sinni og dó þar 4. ágúst 1953.
1921-1926
Davíð Jónsson (17.12.1884-10.01.1930). Bóndi í Hænuvík Innri I 1921-1926. Áður að Kóngsengi, er síðar mun hafa verið nefnt Holt, húsmannsbýli í landi Geitagils. Foreldrar: Jón Hjálmarsson bóndi á Geitagili og k.h. Sigríður Bjarnadóttir bónda á Naustabrekku Torfasonar.
K. 13. jan. 1917, Andrea, f. á Vaðli á Barðaströnd (20.11.1887-03.05.1968), Andrésdóttir Björnssonar (alsystir Ólínu konu Ólafs E. Thoroddsens í Vatnsdal). Börn þeirra:
Hörður, f. að Kóngsengjum (19.10.1917-19.02.1994). Sigrún Kristín Stígsdóttir. 3 börn.
Sigríður, f. að Kóngsengjum (13.08.1919-07.05.2014), gift Ólafi Þ. Sigurðssyni bifreiðarstjóra í Reykjavík. 3 börn.
Bjarnheiður Ólína, f. að Kóngsengjum (13.08.1919-20.04.2008), gift Andrési Hermannssyni, f. í Ögurnesi 22. maí 1924.
Sigurjón, f. í Hænuvík (14.091921-11.06.1996), loftskeytamaður. Guðlaug Jóna Aðalbjört Einarsdóttir. 5 börn.
Andrés, f. í Hænuvík (14.09.1921-15.03.1998), kennari í Reykjavík. Barn með Kristbjörgu Sigurðardóttur, annað með Margréti Guðmundsdóttur og þriðja með Jakobínu Kristínu Stefánsdóttur.
Kristján Vikar, f. í Hænuvík (01.09.1923-06.06.2005). Barn með Rögnu Ingibjörgu Erlendsdóttur og annað með Ólínu Sæmundsdóttur.
Leifur, f. í Hænuvík (05.12.1924-01.06.1947).
Sonur Davíðs Jónssonar og Elínar Ebenesersdóttur var:
Davíð, f. í Reykjavík (21.08.1903-11.01.1981), bóndi og oddviti á Sellátrum í Tálknafirði, og frkvstj Ræktunarsamb. V-Barð. Ólst upp hjá Ólafi Ásbjörnssyni og Kristínu Magnúsdóttur á Láganúpi og í Vesturbotni. K. I Sigurlína Benediktsdóttir, skipstjóra á Patreksfirði, Sigurðssonar. 3 börn. II Guðrún Einarsdóttir. 4 börn.
1926-1934
Ólafur Pétursson. Bóndi í Hænuvík Innri I 1926-1934. Áður bóndi á Sellátranesi, sjá þar.
1934-1935
Gróa Brandsdóttir. Búandi í Hænuvík Innri I 1934-1935. Ekkja Ólafs Péturssonar síðast bónda í Hænuvík. (Sjá Sellátranes).
1932-1940
Jón Arason (20.11.1905-07.01.1940). Bóndi í Hænuvík 1932-1940. F. að Barmi í Gufudalssveit. Veiktist af berklum og eftir veru á Vífilstöðum mun smit hafa borist vestur með honum, sem lagðist þungt á heimafólk.
K. Jónfríður Ólafsdóttir (23.04.1904-10.03.1987) bónda á Sellátranesi, Péturssonar og k.h. Gróu Brandsdóttur. Alsystir Péturs, Kristins og Dagbjargar. Börn þeirra:
Haraldur Sigurgeir, f. í Svefneyjum (25.07.1929-05.08.2004). I Margrét Kjartansdóttir. 1 barn. K.II Unnur hróbjartsdóttir. 1 barn. K.III Guðríður Stefanía Magnúsdóttir. 3 börn.
Kristrún Björt, f. á Patreksfirði (17.03.1931-10.06.1931).
Bjarney Jórunn, f. á Patreksfirði (18.04. 1932-24.02.1933.
Jörundur Albert, f. í Hænuvík f 12.03.1934. Vélstjóri. Eygló Ragnarsdóttir. 4 börn.
Guðveig Sóley, f. í Hænuvík 11. des. 1935, d. á Patreksfirði 22. júní 1939.
1935-1943
Pétur Ólafsson (09.06.1908-12.09.1979). Bóndi í Hænuvík Innri I 1935-1943. Síðar sjómaður á Patreksfirði og sá um mjólkurflutninga sjóleiðis; síðast búsettur í Reykjavík. F. á Sellátranesi, sonur Ólafs Péturssonar bónda á Sellátranesi og k.h. Gróu Brandsdóttur. Í sambúð með Önnu Ólafsdóttur eftir að hann flutti suður.
1940-1942
Jónfríður Ólafsdóttir. Búandi í Hænuvík 1940-1942. Fluttist þá suður í Árnessýslu. Ekkja fyrrnefnds Jóns Árnasonar bónda í Hænuvík.
1923-1954
Sigurbjörn Guðjónsson. Bóndi í Hænuvík Ytri 1923-1954. Áður bóndi á Geitagili (1914-1923), í sambýli við föður sinn. Hreppstjóri og kaupfélagsstjóri. Vann hjá SÍS eftir að hann flutti suður. F. í Reykjavík 14. sept. 1891. Foreldrar: Guðjón Bjarnason, smiður í Reykjavík og á Patreksfirði, um langt skeið bóndi á Geitagili, og k.h. Guðbjörg Brynjólfsdóttir.
K. 23. mars 1913, Ólafía Magnúsdóttir bónda á Hnjóti Árnasonar og k.h. Sigríðar Sigurðardóttir bónda í Botni, Gíslasonar. Börn þeirra:
Aðalheiður Una, f. á Geitagili 23. maí 1915, gift Theodór Bergsteini Theodórssyni. 6 börn.
Bjarni Sigurvin, f. á Geitagili 24. nóv. 1916, bóndi í Hænuvík (sjá hér á eftir).
Sigurbjörg, f. á Geitagili 1. jan. 1919, var heitbundin Sigurjóni Ingvarssyni bónda á Geitagili Ásgeirssonar. Hann lést af slysförum 1942. Barnsfaðir Helgi Elíasson (sjá Hvallátrar).
Búi, f. á Geitagili 7. apríl 1920, d. á sjúkrahúsi á Patreksfirði í apríl 1937.
Esther, f. á Geitagili 14. febr. 1923, gift Gunnlaugi Þorsteinssyni frá Hellugerði á Árskógsströnd, búsett í Reykjavík. 1 barn.
Gyða, f. í Hænuvík 9. des. 1924, d. á sjúkrahúsi á Patreksfirði 12. mars 1937.
Hulda, f. í Hænuvík 15. des. 1926, d. á Vífilsstaðahæli 30. maí 1937.
Guðjón Björgvin, f. í Hænuvík 6. júlí 1928, bóndi í Botni í Tálknafiðri, kvæntur Guðrúnu Torfadóttur Ólafssonar (einhenta) Björnssonar og s.k.h. Elísabetar Guðjónsdóttur (ættuð úr Árnessýslu). 2 börn.
Valtýr Agnar, f. í Hænuvík 6. júlí 1928 (kjb. 6. júlí), bóndi í Hænuvík. Sjá hér á eftir).
Ásta Sigrún, f. í Hænuvík 28. apríl 1932, d. á Patreksfirði 14. mars 1939.
1946-1982
Bjarni Sigurvin Sigurbjörnsson (24.11.1916-10.09.1990). Bóndi í Hænuvík Innri I og einnig á Hænuvík Ytri frá 1965-1982, þegar Guðjón sonur hans tók við búinu. Kom upp virkjun í ánni, auk nýbygginga og annarra framkvæmda. Vann löngum sem ýtustjóri við vegagerð. Bjó síðustu árin á Patreksfirði. F. á Geitagili, sonur fyrrnefnds Sigurbjarnar Guðjónssonar bónda í Hænuvík og k.h. Ólafíu Magnúsdóttur frá Hnjóti.
K. 21. apríl1946, Dagbjörg Una Ólafsdóttir (03.09.1924-11.08.2017) bónda á Sellátranesi Péturssonar og k.h. Gróu Brandsdóttur. Börn þeirra:
Sigurjón, f. 17.09.1946. Bókari á Egilsstöðum. Gyða Vigfúsdóttir. 4 börn.
Guðjón, f. 02.12.1947. Bóndi í Hænuvík (sjá hér á eftir)
Pálmey Gróa, f. 13.01.1955. stjóri. Barn með Hirti Kristinssyni. M. Sveinn Ingvar Rögnvaldsson; skildu. 1 barn.
Rögnvaldur f. 21.02.1960. K. Ólafía Kristín Karlsdóttir. 2 börn.
Ólafur (29.09.1963-03.05.2003). Sjómaður. Í sambúð með Söndru Skarphéðinsdóttur. 2 börn.
Búi f. 25.07.1967. Sjómaður á Patreksfirði.
1940-1990
Kristinn Ólafsson (15.02.1913-19.01.2010). Bóndi í Hænuvík Innri II. Albróðir Péturs, Jónfríðar og Dagbjargar Ólafsbarna. F. á Sellátranesi. Bjó með Jónfríði systur sinni eftir að hún missti sinn mann, og keypti hennar hlut þegar hún flutti burt. Landpóstur í 60 ár í utanverðum Rauðasandshreppi. Dvaldist á Patreksfirði eftir að hann hætti búskap.
1954-1965
Valtýr Agnar Sigurbjörnsson (06.07.1928-14.01.2008). Bóndi í Hænuvík Ytri 1954. Vann síðast í Umbúðamiðstöðinni í Reykjavík. Foreldrar Sigurbjörn Guðjónsson og k.h. Ólafía Magnúsdóttir bónda á Hnjóti Árnasonar.
K. 2. jan. 1954, Una, f. í Botni í Patreksfirði 2. nóv. 1931 Ólafsdóttir, síðar bónda á Sellátranesi Sveinssonar og k.h. Guðnýjar Ólafsdóttur fyrrum bónda á Láganúpi Ásbjörnssonar. Dóttir Þeirra:
Herdís Jóna, f. 12. júlí 1954. Guðfinnur Davíð Pálsson. 2 börn.
Sigursveinn, f. 11.02.1962. Erla Höskuldsdóttir; skildu. 3 börn.
Baldvin, f. 24.09.1963. Björk Leifsdóttir. 2 börn.
Frá því að Agnar og Una hættu búskap hefur Hænuvík Ytri fylgt Hænuvík Innri I.
1982-
Guðjón Bjarnason f. 02.12.1947, Sigurbjörnssonar (sjá hér framar). Býr ásamt Maríu konu sinni á Hænuvík allri og rekur einnig ferðaþjónustu. Barnsmóðir Jonna E. Elísdóttir. Þeirra barn:
Kristján Birgir f. 29.05.1970. Barn með Agnesi Lilju Jósefsdóttur. Þóra Guðrún Oddsdóttir. 2 börn.
K. María Ólafsdóttir f. 05.12.1960, Sveinssonar á Sellátranesi (sjá hér síðar). Börn þeirra:
Guðný Ólafía f. 04.04.1991.
Bjarnveig Ásta f. 25.05.1994.
Nafnið Ekki er augljóst hvaða nes það er sem bærinn dregur nafn af, þar sem ekkert þar í grennd ber sama nafn nú á dögum, þó svo kunni að hafa verið áður. Selalátur (eða rostunga á landnámstíð) kunna vissulega að hafa verið á hleinaflögunum undir Hænuvíkurnúpnum, og er líklegast að þar sé nafngjafans að leita. Hugsanlegt er jafnvel að Hænuvíkurnúpur hafi heitið svo fyrrum, vegna selaláturs á þessum hleinum. Innan við bæinn eru háir sjávarklettar, áberandi frá sjó, sem nefnast Háanes. Er það ólíklegri nafngjafi. Sú kenning hefur flogið fyrir að Bærinn dragi nafn af því að frá honum sjáist til Sellátra í Tálknafirði, en harla er sú skýring langsótt.
Jarðabókin 1703 “Býli, undir 100 ára gamalt; af Hænuvík. Jarðardýrleiki er 6 hdr, áður talið í heimajarðarinnar dýrleika. Ábúandinn Þorfinnur Ólafsson býr á 3 hdr. Annar ábúandi, Jón yngri Helgason, býr á 3 hdr. Landsskyld af hvörjum þeirra 40 álnir, til saman 80 ánir. Betalast í fiski í kaupstað eður með peningum, aldeilis sem af heimajörðinni, og til húsabótar leggur landsdrottinn nokkra viðu. Kúgildi 1 ½ hjá hvörjum, alls 3. Leigur betalast so sem segir um heimajörðina, aldeilis að sömu kostum. Kúgildi yppyngir landsdrottinn. Kvaðir alls öngvar. Kvikfjenaður hjá Þorfinni 1 kýr og önnur að hálfu, ær 8, sauður 6, gemlingar 4, hross 1. Hjá Jóni 1 kýr og önnur að hálfu, 12 ær, 2 sauðir, 4 gemlingar. Fóðrast kann 2 kýr og sex ær. Hitt er sett á útigang. Heimilismenn Þorfinns 5, Jóns 5.
Sömu kostir og lestir eru hér, sem á heimajörðinni, nema það hér er flæði- og skriðuhættara, en ekki so stór voði af brattlendi. Heimræði er þar sumar og vetur, og þó róa nú heimamenn í Látradal. Wn eitt aðkomandi tveggja manna far rær þar nú og gefa þeir nú í ár öngvan toll. Og ekki hefur þar tollur verið það menn minnast. Lending viðlíkt og á heimajörðinni. En hér verður, fyrir háum grasbökkum, ekki komið skipum undan stórflæðum, nema þaug séu reist upp við bakkana, þar sem til þess hefur verið ætlað, og brotið hrófkorn með járnum í melbakkann.“
Tóftir nefndist þurrabúð í landi Sellátraness sem Pétur Hjálmarsson og Kristrún Jónsdóttir (sjá þar) bjuggu á um tíma, rétt fyrir 1900.
Hænuvík og Sellátranes eru stundum kallaðir einu nafni “Bæir”.
1703
Þorfinnur Ólafsson. Bóndi á Sellátranesi 1703, á 3 hdr. Reri þá úr Láturdal á þriggjamannafariF. um 1646. Faðir hans var Ólafur yngri Ásbjörnsson bónda í Raknadal ? Ólafssonar, bónda í Raknadal 1570, Guðmundssonar, sem kom norðan úr landi í Patreksfjörð Sigurðssonar, Jónssonar biskups Arasonar. Ólafur eldri Ásbjörnsson var faðir séra Jóns á Lambavatni.
K. Hallfríður, f. um 1647, Skúladóttir. Þau eiga engin börn heima 1703 nema:
Ólöf, f. um 1683, gift Jóni Helgasyni, hinum bóndanum á Nesi.
Annarsstaðar í hreppnum er ekki að finna nein börn Þorfinns og Hallfríðar. En launsonur Þorfinns er á heimili hans:
Ásbjörn, f. 1697, síðar bóndi í Breiðavík.
1703
Jón yngri Helgason. Bóndi á Sellátranesi 1703. Reri þá rá Láturdal á þriggjamannafari. F. um 1670, bróðir Jóns eldri sem býr í Hænuvík.
K. Ólöf, f. um 1683, Þorfinnsdóttir bóna á Nesi. Þau eiga dóttir:
Guðrún 1 árs.
Hafa verið nýgift og sennilega átt fleiri börn.
1735
Magnús Jónsson. Bóndi á Sellátranesi 1735. Þetta er væntanlega sá M.J., sem er 4 ára í Hænuvík 1703, sonur Jóns eldra Helgasonar. Þó gat verið að Jón yngri hefði átt son með þessu nafni eftir 1703. sonur þessa Magnúsar hefur að öllum líkindum verið Jón bóndi á Stökkum, f. um 1723. En þá hefði þetta orðið að vera sá M.J. sem fyrr er nefndur, f. 1699.
1735
Jón Jónsson. Bóndi á Sellátranesi 1735. Líklega sá Jón, sem er 14 ára í Hænuvík 1703, sonur Jóns eldra Helgasonar og bróðir fyrrnefnds Magnúsar Jónssonar.
1762
Jón Jónsson. Bóndi á Sellátranesi 1762. F. um 1710, d. (58 ára) 17. nóv. 1767. Hafði verið líkþrár í 3 ár. Hann hefði getað verið sonur fyrrnefnds Jón Jónssonar bónda á Sellátranesi 1735.
K. Þórunn, f. um 1716 Sigurðardóttir ella bónda á Geirseyri 1735, Jónssonar. Jón og Þórunn eru sögð hafa verið barnlaus, en tóku sér í sonar stað Pétur Jónsson, bróðurson Þórunnar. Jón var sagður góður smiður og aflamaður, og „skilríkur bóndi“.
1767-1773
Þórunn Sigurðardóttir. Búandi á Sellátranesi 1767- líklega 1773. Ekkja fyrrnefnds Jón Jónssonar. Hún hefur sennilega verið skrifuð fyrir búinu, þar til Pétur fóstursonur hennar kvæntist (1773).
1780 og 1801
Pétur Jónsson. Bóndi á Sellátranesi 1780 og 1801, skipasmiður. Hann hefur að öllum líkindum tekið við búi á Nesi um það leyti, sem hann kvæntist (1773), en sleppt nokkru af jörðinni til Bjarna tengdasonar síns þegar hann kvæntist (um 1794) og látið alveg af búskap milli 1801 og 1808. Húsmaður á Nesi 1817. F. um 1746. Ókunnugt er um móður Péturs, en faðir hans var Jón Sigurðsson bónda á Geirseyri 1735 Jónssonar. Jón sigldi til Kaupmannahafnar, nam þar úrsmíði og varð þar þekktur maður. Varð meistari 1762. Dó 1792. Kvæntur Margrethe Lange. Sonur þeirra f. 1781 John Frederic, d. 1826, kvæntur og átti tvo syni. Annar þeirra dó ókvæntur 1863 (Johan Ludvig Sivertsen). Hinn bróðirinn: John Edvard Niels Sivertsen, f. 1821, kvæntist og eignaðist 4 börn: Ane Marie Sivertsen, f. 29. apríl 1859; Johan Ludvig Sivertsen, f. 9. maí 1861; Fredrikke Margrethe Sivertsen, f. 11. apríl 1863; Emil Theodor Sivertsen, f. 7. nóv. 1865 (í Lyngby), á lífi 1912. Enn er ekki vitað hvaða afkomendur þessi systkini kunna að hafa eignast. Jón Sigurðsson, sem nefndi sig Sivertsen, varð frægur fyrir það 1786 að gera við svonefnda „Habrechts klukku“, sem færustu úrsmiðir á þeim tíma höfðu gefist upp við. Þessi klukka er nú á Kronborg safninu í Kaupmannahöfn.
K. 1773, Ingibjörg, 4. mars 1811, Magnúsdóttir bónda á Hnjóti Þorvaldssonar. Börn þeirra:
Vigdís, f. 7. ágúst 1774, kona Bjarna Halldórssonar bónda á Sellátranesi.
Þórunn, f. 14. sept. 1776, kona Ólafs Þórðarsonar bónda á Hnjóti.
Sonur Péturs og Ingibjargar Jónsdóttur á Suðureyri í Tálknafirði var:
Pétur, f. 6. ágúst 1792. Hann er á Sellátranesi 1801 og 1808, í Tungu 1817. Það mun vera hann, sem er bóndi á Hlaðseyri 1826.
um 1794-1816
Bjarni Halldórsson. Bóndi á Sellátranesi um 1794-1816, fluttist þá að Tungu og bjó þar til 1827. F. á Geireyri 24. júní 1768, d. í Tungu 22. febr. 1828. Hreppstjóri 1817. Foreldrar: Halldór Magnússon seinast bóndi í Hænuvík og k.h. Sigríður Ólafsdóttir.
K. um 1793, Vigdís, f. 7. ágúst 1774 Pétursdóttir bónda á Sellátranesi, Jónssonar. Börn þeirra:
Halldór, f. 1794, bóndi á Sellátranesi.
Jón, f. 1796, bóndi í Hænuvík.
Ólafur, f. 1799, ekki á manntali í Rauðasandshreppi 1817.
Ingibjörg, f. 1800, kona Bjarna Bjarnasonar bóndi í Kvígindisdal.
Magnús, f. 1802, í Tungu 1845. Dóttir Magnúsar og Guðrúnar Halldórsdóttur bónda í Gröf, Jónssonar, var: Magdalena, f. 17. sept. 1834. Hún var móðir Halldóru Guðjónsdóttur, bónda á Melanesi Halldórssonar. Dóttir Magnúsar og Guðbjargar Bjarnadóttur bónda í Breiðavík, Sigurðssonar, var: Solveig, f. 16. okt. 1837, giftist Sölva Jafetssyni í Tálknafirði, sonur þeirra var Magnús bóndi í Botni í Patreksfirði.
Þórður, f. 1804, fermdur 1804 frá Kirkjuhvammi.??
Pétur, f. 10. maí 1807, dó ungbarn.
Elín, f. 9. júní 1910, d. 13. júlí 1817.
Magnús, f. 5. maí 183, á Geirseyri 1845.
Ásbjörn, f. 23. jan. 1815, d. á Hvallátrum, kvæntist Guðrúnu Össursdóttur bónda í Breiðavík, Sigurðssonar. Dóttir þeirra Vigdís kona Gísla Ólafssonar bónda á Sellátranesi.
Þórunn, f. í Tungu 30. júlí 1816.
Bjarni, f. í Tungu 25. júní 1821.
1816-1819
Guðmundur Þórðarson. Bóndi á Sellátranesi 1816-1819. Áður bóndi í Tungu, sjá þar.
1819-1827
Bjarni Halldórsson. Bóndi á Sellátranesi 1819-1827. Áður bóndi á Hnjóti, sjá þar.
1827-1829
Bjarni Bjarnason. Bóndi á Sellátranesi 1827-1829. Fluttist þá að Kvígindisdal, sjá þar.
1829-1856
Halldór Bjarnason. Bóndi á Sellátranesi 1829-1856. F. um 1794, d. á Sellátranesi 21. nóv. 1858, sonur Bjarna Halldórssonar bónda á Sellátranesi 1794-1816 og k.h. Vigdísar Pétursdóttur.
- 26. sept. 1825, Vigdís Bjarnadóttir bónda á Hnjóti Halldórssonar og fyrstu k.h. Ragnheiðar Einarsdóttur. Vigdís dó 15. júlí 1835, bl.
1856-1864
Gísli Bjarnason. Bóndi á Sellátranesi 1856-1864. Bóndi í Hænuvík 1864-1869. F. í Kirkjuhvammi 18. mars 1830. Foreldrar: Bjarni Sigurðsson bóndi í Raknadal og k.h. Ingibjörg Gísladóttir.
K. 29. sept. 1854, Kristín Magnúsdóttir bónda í Stekkadal Bjarnasonar og fyrri konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Börn þeirra:
Halldór, f. 22. sept. 1855, d. 14. ágúst 1864.
Magnfríður, f. 14. ágúst 1856, d. 15. ágúst sama ár.
Magnús, f. 27. okt. 1857, d. 29. okt. 1857.
Ingibjörg, f. 14. apríl 1859, d. næsta dag.
Guðrún, f. 29. okt. 1860, d. 19. mars 1861.
Halldóra, f. 9. jan. 1862, kona Eggerts bónda á Látrum Eggertssonar.
Ingibjörg, f. 19. sept. 1863, d. næsta dag.
Gísli, f. í Hænuvík 10. júní 1866, d. næsta dag.
Sigurður, f. í Hænuvík 22. okt. 1867, d. 27. sama mán.
1864-1870
Ívar Jónsson. Bóndi á Sellátranesi 1864-1870. Síðar bóndi í Hænuvík, sjá þar.
1870-1872
Hjálmar Jónsson. Bóndi á Sellátranesi 1870-1872. Áður bóndi á Grundum og Geitagili, sjá þar.
1872-1885
Gísli Ólafsson. Bóndi á Sellátranesi 1872-1885, seinast húsmaður á Grundum. F. í Hænuvík 26. des. 1838, d. 2. maí 1918. Foreldrar: Ólafur Halldórsson bóndi í Hænuvík og k.h. Guðbjörg Brandssdóttir.
K. 10. okt. 1867, Vigdís, f. á Látrum 25. okt. 1849, d. s.st. 12. sept. 1924, Ásbjörnsdóttir Bjarnasonar bónda á Sellátranesi Halldórssonar og k.h. Guðrúnar Össursdóttur. Vigdís var einasta barn þeirra. En tali var að hún væri dóttir séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal og þegar hún var jarðsett hafði presturinn nefnt hana Gísladóttur. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. í Sauðlauksdal 19. nóv. 1870, d. á Patreksfirði 3. maí 1948, óg. og bl.
Ingibjörg, f. 4. maí 1873, d. 3. okt. 1882.
Guðrún, f. 18. febr. 1881, d. á Patreksfirði 11, júní 1954. Kona Gests Jónssonar bónda á Sellátranesi. Þau bl.
Jóhannes Bergþór, f. á Sellátranesi 10. des. 1889, verkamaður á Patreksfirði, kvæntur Svanfríði Guðfreðsdóttur bónda í Tungu, Guðmundssonar. Eignuðust 7 börn.
1884-1908
Pétur Hjálmarsson. Bóndi á Sellátranesi 1884-1908. Bóndi í Kollsvík 1880-1884. F. í Hænuvík 4. júní 1851, d. s.st. 13. júní 1943. Foreldrar: Hjálmar Jónsson bóndi á Geitagili og k.h. Ingibjörg Bjarnadóttir bónda í Raknadal Sigurðssonar.
K. 17. ágúst 1878, Kristrún Jónsdóttir (02.08.1855-d. 1936) bónda á Hnjóti Torfasonar og k.h. Valgerðar Guðmundsdóttur. Börn þeirra:
Ólafur Mikael, f. á hnjóti 29. sept. 1878, bóndi á Sellátranesi.
Dagbjört, f. á Hnjóti 24. apríl 1880, d. í Reykjavík 28. okt. 1930, óg. og bl.
Guðmundur Hjálmar, f. í Kollsvík 5. okt. 1883, bóndi í Tungu.
Helga, f. á Sellátranesi (26.06.1887-18.04.1981).
Jón, f. á Sellátranesi (06.04.1895-d. 1903).
1908-1926
Ólafur Mikael Pétursson. Bóndi á Sellátranesi 1908-1926, á Hnjóti 1905-1908, Hænuvík 1926-1934. F. á hnjóti 29. sept. 1878, d. á sjúkrahúsi á Patreksfirði 13. nóv. 1934. Foreldrar: Pétur Hjálmarsson og k.h. Kristrún Jónsdóttir.
K. 27. des. 1901, Gróa Brandsdóttir bónda á hnjóti, Árnasonar og k.h. Sigþrúðar Einarsdóttur. Gróa dó 11. des. 1940 úr berklum. Börn þeirra:
Kristján Brandur, f. á Sellátranesi 26. sept. 1902, d. á Vilfilsstöðum 5. maí 1930, ókv. og bl.
Jónfríður, f. á Sellátranesi 23. apríl 1904, kona Jóns Arasonar frá Barmi í Gufudalssveit, d. í Reykjavík um 1940, eignuðust 5 börn. (Sjá Hænuvík)
Sigurgarður, f. á Hnjóti 2. okt. 1906, d. 5. okt. 1932.
Pétur, f. á Sellátranesi 9. júní 1908, bóndi í Hænuvík (sjá þar), síðar sjómaður á Patreksfirði, ókv. og bl.
Gísli, f. á Selátranesi 25. maí 1910, d. 17. des. 1917.
Kristínn, f. 15. febr. 1913, bóndi i Hænuvík (sjá þar).
Björg, f. 2. maí 1915, d. 19. okt. 1923.
Jóhanna Fanney (01.04.1917-31.08.1994), gift Haraldi Ágústi Snorrasyni í Reykjavík.
Hjörtur, f. 7. apríl 1919, d. 3. maí 1919.
Lilja (28.04.1922-17.11.1956), gift Brandi Bjarnasyni frá Hallbjarnareyri, búsett í Reykjavík.
Una Dagbjört, f. 3. sept. 1924, gift Bjarna Sigurvin Sigurbjörnssyni, bóndi í Hænuvík (sjá þar).
Ástráður Birgir, f. 22. ágúst 1927 í Hænuvík, d. 27. ágúst 1931.
1926-1927
Gestur Ingimar Jónsson. Bóndi á Sellátranesi 1926-1927, áður húsmaður á Hvallátrum. F. í Krókshúsum 27. sept. 1883, d. á Nesi 4. febr. 1927. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi á Skógi og k.h. Gróa Össursdóttir bónda á Látrum Össurssonar.
K. 19. febr. 1919, Guðrún Gísladóttir bónda á Sellátranesi, Ólafssonar og k.h. Vigdísar Ásbjörnsdóttur, bl.
1927-1934
Sigurður Jónsson (04.09.1872-12.05.1952); Sigurðsonar bónda í Hænuvík og k.h. Helgu Ólafsdóttur.
K. Sigríður Guðmundsdóttir (30.01.1879-24.09.1962); Bjarnasonar bónda í Neðri-Tungu og Sigríðar Magnúsdóttur. Sigurður og Sigríður bjuggu í Neðri-Tungu 1899-1900; á Hnjótshólum 1900-1912; Geitagili 1912-1914; Á Hnjóti 1914-1921; í Krossadal neðra í Tálknafirði 1923-1927 og á Sellátranesi 1927-1934. Síðast í Hliðskjálf á Patreksfirði. Börn þeirra:
Sigríður Helga (02.11.1899-31.07.1900).
Jón Ingimar (28.08.1901-?)
Guðfreður Einar (bóndi á Sellátranesi sjá síðar).
Guðmundur Lúther (bóndi á Sellátranesi sjá síðar).
Magnús Bergmann (12.07.1912-03.09.1976). Nanna I. Pétursdóttir. 5 börn.
Sigríður Ingveldur (20.02.1915-25.06.1989). Jón Jónsson. 1 kjörbarn.
Sigurjón (28.01.1919-?)
1934-1943
Guðfreður Einar Sigurðsson. Bóndi á Sellátranesi 1934-1943, fluttist þá til Patreksfjarðar. F. á Hnjótshólum 29.ágúst 1903, sonur Sigurðar Jónssonar síðar bónda á Hnjóti og k.h. Sigríður Guðmundsdóttir frá Tungu.
K. Ólafía Herdís, f. á Lambeyri í Tálknafirði 25. ágúst 1886, Ólafsdóttir Björnssonar og k.h. Önnu Jónsdóttur bónda í Keflavík, Bjarnasonar. Ólafía dó á Patreksfirði 31. okt. 1953. Dóttir þeirra:
Anna, f. á Sellátranesi 02.09.1927-25.04.2007). Kona Kristjáns Kristjánssonar frá Efri-Tungu. 2 börn
1934-1943
Guðmundur Lúther Sigurðsson (27.05.1909-05.06.1975). Bóndi á Sellátranesi 1934-1943, í sambýli við Einar bróður sinn. Flutti þá á Patreksfjörð og var löngum kenndur við heimilis sitt þar; Hliðskjálf. F. á Hnjótshólum; albróðir fyrrnefnds Einars.
K. Ólafía Herdís Þórarinsdóttir (18.08.1886-31.10.1953). Börn þeirra:
Sverrir Breiðfjörð (28.02.1938-04.10.1998), Patreksfirði. Ásta Sigríður Gísladóttir ljósmóðir. 5 börn.
Búi, f. 27.03.1939.
Sigríður Fjóla Sigurrós f. 12.08.1944. Guðlaugur Guðmundsson. 4 börn.
Reynir (12.03.1946-14.11.1949).
Hjörleifur Ómar, f.10.03.1948. Sjómaður og frkvstj á Patreksfirði. Sigrún Sigurðardóttir.
Sigurlaug Jóna, f. 1949, Patreksfirði. Ólafur Birgir Baldursson; skildu. 3 börn.
Ragnhildur Reynis (18.02.1951-01.09.1951).
Sigríður, f. 31.05.1952. Björn Jónsson. 4 börn.
Ólafía Herdís, f. 12.06.1959. Þorfinnur Þ. Guðbjartsson. 3 börn.
1943-1944
Arinbjörn Guðbjartsson. Hann hafði ábúðarrétt á Jörðinni 1943-1944, en vegna andláts dóttur hans, varð ekki af því að hann flyttist þangað. Áður bóndi á Mábergi, sjá þar.
1944-1963
Guðmundur Sveinn Jónsson (19.09.1890-26.03.1974). Bóndi á Sellátranesi1944-1963, áður bóndi í Vesturbotni. F. á Hóli í Tálknafirði, sonur Jóns Gíslasonar síðar bóndi í Raknadal og k.h. Herdís Teitsdóttir Jónssonar.
K. 1925, Guðný Kristjana Ólafsdóttir (25.12.1892-13.05.1989) bónda á Láganúpi og k.h. Kristínar magnúsdóttur. Börn þeirra:
Ólafur Kristinn, f. í Botni (08.03.1928-14.08.2003). I í des. 1953 Jóhanna Valdemarsdóttir (09.02.1927-17.01.1954) frá Krossi á Barðaströnd. K.II Gréta Árnadóttir (19.07.1939-31.03.2007); skildu. 3 börn.
Una, f. í Botni 02.11.1931, giftist Valtý Agnari Sigurbjörnssyni bónda í Hænuvík.
1958-2003
Ólafur Kristinn Sveinsson f. í Botni (08.03.1928-14.08.2003). Bóndi á Sellátranesi; ýtustjóri, sjómaður o.fl. Mikill hagleiksmaður og þjóðhagasmiður. M.a. sjálfmenntaður í rafeindavirkjun og vann það þrekvirki að koma sjónvarpi á flesta bæi í Rauðasandshreppi við erfið skilyrði.
K.I í des. 1953 Jóhanna Valdemarsdóttir (09.02.1927-17.01.1954) frá Krossi á Barðaströnd.
K.II Gréta Árnadóttir (19.07.1939-31.03.2007); skildu. Börn þeirra:
Guðni Jóhann, f. 14.10.1957; smiður á Tálknafirði. Inga Jórunn Jóhannesdóttir. 3 börn.
Kristín (08.03.1959-09.01.2004), forstm á Tálknafirði. Stefán Jóhannes Sigurðsson. 4 börn.
María, f. 05.12.1960, bóndi í Hænuvík (sjá þar). M. Guðjón Bjarnason. 2 börn.
Sveinn, f. 05.04.1971, rafeindavirki. K Steinunn Rán Helgadóttir. 2 börn.
Býli Grasbýli í Tungulandi. Það byggðist fyrst 1947 sem bústaður Einars Guðbjartssonar frá Láganúpi og Guðrúnar Grímsdóttur frá Grundum, en Einar var þá kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs og sá um sölubúð sem þar stóð á bökkunum (stendur enn sem sumarbústaður). Komu þau þar upp íbúðarhúsi og höfðu dálítinn búskap. Síðar bjuggu á Gjögrum Helgi Árnason og Sigrún Össurardóttir frá Tröð, en þegar þau fluttu árið 1959 lagðist þetta kot í eyði. Eru þar nú engin hús sjáanleg á blettinum.
Sláturhús og sölubúð Bændur í utanverðum Rauðasandshreppi hófu sameiginlega sauðfjárslátrum árið 1931 í sláturhúsi sem þeir höfðu byggt á Gjögrum. Sölubúð var þar byggð 5 árum síðar og rekin sem kaupfélag; allt undir nafni Sláturfélagsins Örlygs. Nýrra sláturhús var þar byggt og tekið í notkun 1963. Á Gjögrum var slátrað til 1980. Sláturhúsið var á vorin nýtt til hrognaverkunar bænda, meðan grásleppuútgerð stóð á Gjögrum. Nýir eigendur nýta það nú, sumir sem geymslur en aðrir sem sumarhús. Hús sölubúðarinnar var að hluta nýtt sem íbúðarbraggi og mötuneyti meðan slátrun stóð yfir. Eftir að verslunin fluttist í nýtt hús á Hvammsholti (sjá þar) var verslunarhúsið á Gjögrum selt Birni Guðmundssyni (sjá hér síðar).
Útræði og bryggja Útræði hefur líklega alltaf verið að einhverju marki frá Gjögrum; mest heimræði Örlygshafnarbænda. Um miðja 20. öld var mjólk Hafnarbænda sótt þangað á báti um tíma, frá Patreksfirði. Þar var steypt bryggja, 66 metra löng, á árunum 1946-47, sem síðar var endurbætt með grjótvörn. Um 1965 hófst þaðan allmikil útgerð smábáta á grásleppu, enda voru hrognin þá í góðu verði. Mest voru það bændur í utanverðum hreppnum sem nýttu þessa leið til búdrýginda, auk burtfluttra hreppsbúa. Hrognin voru verkuð og söltuð í sláturhúsinu. Má því segja að þar hafi síðast staðið útræði í Rauðasandshreppi.
1947-1950
Einar Tómas Guðbjartsson (27.07.1911-23.08.1979), frá Láganúpi (sjá þar), kaupfélagsstjóri. Síðast búsettur í Borgarnesi. K. Guðrún Beta Grímsdóttir f. 25.05.1923 (sjá Grundir). Þau fluttu til Súðavíkur; þaðan til Flateyjar 1953 og árið eftir í Saurbæinn í Dalasýslu. Þaðan að Vegamótum á Snæfellsnesi; svo á Hellisand; að Laugarvatni og 1967 í Borgarnes, þar sem þau byggðu hús og bjuggu síðan. Kjördóttir þeirra:
María Jóna Einarsdóttir, f. 13.02.1953. Átti barn með Halldóri Guðlaugssyni. Hreggviður Hreggviðsson. 2 börn.
1952-1959
Helgi Árnason og Sigrún Össurardóttir frá Tröð í Kollsvík (sjá þar).
Barnaskóli Rauðasandshrepps tók til starfa í nýbyggðu skólahúsi haustið 1966, en það hafði verið byggt, ásamt heimavist og kennaraíbúð, í Tungulandi, á lóð Félagsheimilisins Fagrahvamms sem þar var fyrir. Með skólabyggingunni var lokið því fyrirkomulagi farkennslu sem áður hafði lengi verið. Skólastjórar höfðu fasta búsetu í skólanum í Fagrahvammi ásamt sínum fjölskyldum; fyrstur Ingólfur Þórarinsson 1968, en síðust Björg Baldursdóttir til 2002, er skólahald var þarna lagt niður og fært á Patreksfjörð í kjölfar sameiningar sveitarfélaga. Þessir bjuggu og störfuðu sem skólastjórar í Fagrahvammi; sumir með fjölskyldur:
1966-1968 Ingólfur Þórarinsson.
1968-1970 Magnús Gestsson.
1970-1992 Guðmundur H. Friðgeirsson.
1992-1995 Gunnar Þór Jónsson.
1995-1996 Arndís Harpa Einarsdóttir.
1996-2002 Björg Baldursdóttir.
Miðgarður
Í landi Tungu, og í framhaldi af byggingu barnaskóla og félagsheimilis í Fagrahvammi; myndaðist bráðlega nokkur vísir að þéttbýli sem ekki byggði beint á búskap eða sjósókn. Árið 1975 var stofnað Byggingarfélagið Höfn hf, og byggði það gott verkstæði neðan Fagrahvamms en Gunnar Össurarson, helsti hvatamaður og meistari þess, byggði sér húsið Ás þar í grenndinni, ásamt Helga Árnasyni (sjá síðar). Byggt var nýtt hús fyrir sölubúð Sláturfélagsins Örlygs þar uppi á holtinu. Verslunarstjóri þar var Valdimar Össurarson, en hann hafði þá tekið við sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Rauðasandshrepps af Snæbirni J. Thoroddsen. Sláturfélagið Örlygur var um þessar mundir sameinað Kaupfélagi V-Barðstrendinga, sem eftir nokkur ár lenti í rekstrarerfiðleikum. Við gjaldþrot þess stofnaði Valdimar verslunina Valborg og rak um nokkur ár í búðinni á Hvammsholti. Síðar tóku Keran St. Ólason og Birna Atladóttir við verslunarrekstri.
Rauðasandshreppur lét skipuleggja nokkrar lóðir þar í holtinu, undir nafninu Hvammsholt. Við annan enda heimreiðarinnar var verkstæði Hafnar en hinn Ás. Þar á milli voru verbúð sem Ólafur Helgason frá Tröð byggði, og íbúðarhúsið Miðgarður.
1979-1988
Valdimar Össurarson, f. 04.05.1956, Guðbjartssonar bónda á Láganúpi og Sigríðar Guðbjartsdóttur (sjá Láganúp). Sparisjóðs- og verslunarstjóri, kennari, frkv.stjóri og sjómaður. Rak um tíma eigin verslun; Valborg í nýbyggðu verslunarhúsi á Hvammsholti, eftir að Kaupfélag V-Barð lagði upp laupana. Vann um tíma í Rvík við verksmiðjustörf og framleiðslustjórn; síðan ferðamálafulltrúi og rekstrarstjóri í Villingaholtshreppi; nú búsettur í Keflavík og vinnur m.a. að þróun hverfils til nýtingar sjávarfalla. K. Guðbjörg Sigurðardóttir.
1983-1988
Svavar Guðbjartsson (08.09.1934-15.06.2004) frá Lambavatni (sjá þar). Vélsmiður. Flutti frá Patreksfirði í Miðgarð og rak vélaverkstæðið Vélfaxa í húsi Bf Hafnar en hafði aðsetur í Miðgarði. Óg.bl.
1988-1994
Guðni Hörðdal Jónasson f. 23.03.1969, Jónssonar frá Breiðuvík (sjá þar). Stundaði grásleppuútgerð frá Gjögrum og var um tíma landpóstur. K.I Anna Björgvinsdóttir; skildu. 2 börn. K.II Jóhanna Björg Sigurbjörnsdóttir. 2 börn.
Eftir að Guðni flutti suður með fjölskyldu sinni keypti Egill Ólafsson á Hnjóti Miðgarð, en það er nú nýtt sem aðsetur minjavarða við Minjasafn Egils Ólafssonar. Fyrst bjó þar Jóhann Ásmundsson fornleifafræðingur ásamt Magneu Einarsdóttur konu sinni, sem kenndi við barnaskólann. Síðast hafa búið þar minjaverðirnir og fornleifafræðingarnir Inga Hlín Valdimarsdóttir og Óskar Leifur Arnarsson.
Tveggja hæða íbúðarhús sem Gunnar Össurarson og Helgi Árnason reistu sér 1977 í Hvammsholti neðan Fagrahvamms, í Tungulandi. Var það skráð sem iðnbýli.
1977-1985
Gunnar Össurarson (01.07.1912-16.12.1988) Guðbjartssonar frá Láganúpi (sjá þar). Gunnar hafði starfað lengi sem húsasmíðameistari í Reykjavík en leitaði á heimaslóðir á efri árum og vildi sporna við þeirri hnignun byggðarinnar sem þá var hafin. Áður en hann réðst í byggingu Áss hafði hann staðið fyrir húsbyggingum á nokkrum bæjum í hreppnum, t.d. á Láganúpi og Geitagili. Hann gekkst fyrir stofnun Byggingafélagsins Hafnar hf með söfnun hlutafjár í hreppnum, og byggði vandað verkstæðishús sem hann rak í samstarfi við Helga Árnason og Marinó Kristjánsson frá Tungu. Gunnar bjó á neðri hæðinni í Ási, en Helgi á þeirri efri með sinni fjölskyldu. Hjá honum dvaldi um tíma Valdimar Össurarson áður en hann byggði Miðgarð (sjá þar).
1977-1999
Helgi Árnason (19.03.1949-29.03.2012), Helgasonar frá Neðri-Tungu. Búfræðingur; vann sem vörubílstjóri og smiður; stundaði grásleppuveiðar og síðar refarækt um tíma. Byggði Ás í félagi við Gunnar Össurarson og bjó á efri hæðinni.
K.I Ingibjörg G. Sigurðardóttir f 20.11.1954 frá Patreksfirði; skildu. Fyrir átti Ingibjörg barn; Þór með Þórði Haraldssyni. Börn Helga og Ingibjargar:
Sigrún f. 30.12.1975. Halldór Ólafur Þórðarson; skildu. 2 börn. Einnig barn með Ólafi Gunnari Halldórssyni.
Árni f. 16.04.1978.
Fjóla f. 03.06.1981. Arngrímur Vilhjálmsson. 2 börn.
Ólöf f. 04.07.1988.
Steinunn Anna f. 17.06.1990.
Guðrún f. 25.03.1992.
Hildur f. 25.03.1992.
K.II Ásdís Ásgeirsdóttir, sem áður var gift Ólafi Egilssyni frá Hnjóti (sjá þar).
1985-1989
Sigurvin Össurarson (28.03.1907-05.02.1989), bróðir Gunnars (sjá framar) keypti hans eignarhlut í Ási eftir að Gunnar lenti í vinnuslysi og varð óvinnufær. Sigurvin átti áfram heimili og fyrirtæki í Reykjavík en dvaldi að Ási á sumrum og gerði út á grásleppu með Benedikt syni sínum. K. Zíta Benediktsdóttir. Þau áttu 3 börn; Benedikt; Önnu og Solveigu, en fyrir átti Sigurvin einnig börn frá fyrra hjónabandi (sjá Láganúpur).
1989-1999
Keran Stúeland Ólason f. 18.07.1966, Ingvarssonar frá Geitagili (sjá þar). Bjó um tíma í Ási meðan þau ráku verslunina Bakó á Hvammsholti, þar sem áður var Valborg og enn áður kaupfélag Slf Örlygs. Keyptu síðar jörð og hótelrekstur í Breiðuvík (sjá þar). K. Birna Mjöll Atladóttir f. 10.07.1960, Snæbjörnssonar frá Kvígindisdal. 1 barn. Fyrir átti Keran tvíbura með Katrínu Pétursdóttur Mikkelsen.
Þurrabúð í Tungulandi. Stóð stuttu neðan við núverandi bæjarstæði Neðri-Tungu. 1916 eru slægjur þar taldar vera ein dagslátta innan grjótgarðs, og mýrarblettur; flóðaáveita fyrir neðan; landskuld 30 krónur.
1907-1923
Jón Einarsson (30.11.1869-11.07.1954) Ólafssonar bónda á Hnjóti. Sambýliskona; Ingveldur Jónsdóttir (11.06.1868-23.05.1957), Sigurðssonar frá Grundum. Þau voru fyrst í húsmennsku á Hnjótshólum, í tvíbýli, en svo húsmenn á Leyti. 1922 var Helgi S Einarsson, sonur Ingveldar, talinn húsbóndi; en Jón einarsson vinnumaður. Börn þeirra:
Jónfríður (22.09.1904-05.02.1988). Konráð Júlíusson, síðar á Koti (sjá þar).
Jóhanna Ingveldur (10.03.1908-20.01.1909).
Ingveldur var áður gift Einari Guðmundssyni bónda í Hænuvík (sjá þar). Börn þeirra:
Kristján Hólm (16.08.1892-06.03.1893).
Jónfríður Kristjana (26.05.1894-10.01.1902).
Helgi Sigurvin (16.09.1895-27.05.1988). Síðar bóndi á Geitagili (sjá þar).
1923-1930
Grímur Árnason og María Jónsdóttir. Sjá Grundir í Kollsvík.
1930-1951
Einar Sigurðsson og Ólafía Ólafsdóttir. Sjá Sellátranes.
Eftir 1951 hefur ekki verið búið á Leiti.
Nafnið Líklega vísar nafnið til fitjarinnar neðan bæjarins, milli holta og Hafnarvaðals.
Jarðabókin 1703 „Jarðardýrleiki 20 hdr. Eigandinn er biskupinn mag. Björn Thorleifsson, en umboðsmaður hans hústrú Guðrún Eggertsdóttir. Ábúandinn Jón Guðmundsson býr á 10 hdr. Annar, Andrés Jónsson, býr á 10 hdr. Kostir allir, að jörð og jarðar ábúð lútandi, eru eins að öllu hjá báðum. Landskyld af allri jörðinni er 1 hdr 40 álnir og hefir so verið um langan aldur. Betalast í fiski í Vatneyrarkaupstað, so mikið sem mögulegt er, en slíkt þar á brestur gelst með peningum uppá danskan taxta, en ef ei það þá í landaurum, nema hvað Jón guðmundsson segir sonur hans hafa boðið ketil tvisvar og ei fengið af sjer komið. Húsum viðhalda ábúendur uppbótarlasut, nema helmingur af kvöðurm (sem er skipsáróður) fellur niður í því nafni.
Kúgildi eru með allri jörðunni 8. Hjá Jóni Guðmundssyni 2 kýr og 12 ær, hjá Andrési Jónssyni 2 kýr og 6 ær (engi hjá Andrési er haldið mun betra). So mörg hafa kúgildi verið undir 100 ár. Kúgildauppbót er engin, nema uppgjöf á hálfu mannsláninu hjá hvörum ábúanda, so sem annar helmingur gengur til húsabótar. Kvaðir eru skipsáróður af hvörjum ábúenda og betalast hún með uppbótalausu viðhaldi húsa og kúgilda, en vilji ábúandi það ei leysist kvöðin árliga með 20 álnum í gildum aurum, og var í þær áður áskilin skreið á eyri, og hefur þessi kvöð um lángantíma so verið.
Töður og engjar betur en almenn. Kvikfjenaður hjá Jóni guðmundssyni 4 kýr, 1 kvíga, 1 kálfur, 13 ær, geldir sauðir 10, gemlingar 13, 1 hestur. Hjá Andrési Jónssyni 4 kýr, 1 kálfur, 2 ær, sauðir geldir 5, veturgamlir 7, 1 hestur. Fóðrast kann þar á allri jörðinni 5 kýr 20 ær, 15 lömb og 2 hestar.
Torfskurð brúka búendur til eldiviðar, sem nægir þeim, en ei til að ljá öðrum. Reki hefur áður verið, en langa stund ekki heppnast. Selveiði má og brúka til helminga við næstu jörð, er Hnjótur heitir, og njóta búendur ef iðka vilja. Hrognkelsaveiði má vera, ef net eru brúkuð. Heimræði er um sumar og haust. Líka hafa innfjarðamenn úr Patrixfirði róið þar um vorvertíð, vikum saman eður skemur, en öngvan toll goldið so menn viti til. Á, sem fellur gegnum túnið, ber á túnið bæði leir og grjót. Kirkjuvegur langur og hættur fyrir vötnum og ófærum skriðum í bröttu fjallendi, sem þó mætti sumsstaðar bæta. Bát á hvör fyrir sig, sem ganga heima til fiskjar um hásumar og haust. Um vertíð róa þeir í Láganúpsveri og Láturdal”.
Tunga hefur frá fornu fari verið þingstaður Rauðasandshrepps. Ekki verður sagt hvort þar var sérstakt þinghús fyrr en í byrjun 20.aldar, en þá var byggt hús neðan við Leiti úr steinlímdu grjóti, sem stóð framyfir 1970. Þar voru haldnar ýmiskonar samkomur og dansleikir, auk manntalsþinga.
Vopnadómur Magnúsar prúða Hinn 12. oktober 1581 var í þingstaðnum Tungu kveðinn upp merkilegur dómur; tilskipun sem er á ýmsan hátt einstök og merkileg í Íslandssögunni. Sýslumaður Barðstrendinga var þá Magnús Jónsson í Saurbæ, sem hlut viðurnefnið “prúði” af glæsileika sínum og fyrirmannlegum háttum. Tildrög dómsins má rekja til tveggja atvika. Annarsvegar þess að Friðrik II Danakóngur hafði um nokkuð skeið lagst gegn vopnaeign Íslendinga; minnugur þess að hans umboðsmenn höfðu stundum verið grátt leiknir, auk þess sem miklar viðsjár voru þá í verslunarmálum. Hitt atvikið var ránið í Saurbæ árið 1579, þegar enskir sjóræningjar brutust þar inn og rændu fjármunum og Eggert Hannessyni lögmanni; tengdaföður Magnúsar prúða. (sjá Saurbær). Magnúsi ofbauð þetta varnarleysi landsmanna og kvaddi því til þings á þingstað sveitar sinnar; Tungu í Örlygshöfn, þar sem hann kvað upp dóm sem líklega er það sem Íslendingar hafa komist næst herútboði frá Sturlungaöld.
Vopnadómurinn gengur í megindráttum út á það í fyrsta lagi að allir menn hér á landi skuli eiga vopn og verjur. Hver skattbóndi skyldi kaupa og eiga eina luntabyssu; þrjár merkur púðurs og atgeir eða annað jafngilt lagvopn. Fátæklingar minna, en efnamenn meira af vopnum. Í öðru lagi skyldu hreppstjórar halda skrá yfir vígfæra menn. Í þriðja lagi skyldu þeir láta hlaða bálkesti þar sem hæst ber og setja trúverðuga verði til að kveikja í þeim ef hættu bæri að höndum, þannig að herútboð mætti berast sem fyrst. Þá var samkvæmt dómnum skylt að huga að stöðum þar sem skýla mætti konum, börnum og ellihrumum og hafast við með búsmala. Fleiru var þar tekið á, sem stríði viðkemur. Undir dóminn rita þrettán nafngreindir bændur.
Ekki er vitað til þess að dómurinn hafi fengið lagagildi. Hinsvegar var hann umtalaður og hefur eflaust aukið landsmönnum kjark og sjálfstraust. Hugsanlegt er að enn megi finna minjar um afleiðingar dómsins: Fremst á Blakknesnibbu er forn hleðsla sem gæti hafa verið skjólgarður. Vel má vera að hún hafi verið reist til að skýla að bálkesti í samræmi við vopnadóminn, enda mætti víða sjá bál sem þar væri kynt.
1570
Þorlákur. Bóndi í Tungu 1570. Er næsta ár kominn að Breiðavík.
1570
Jón á Tunguparti. Bóndi 1570.
1570
Húsa Jón. Bóndi í Tungu 1570.
1571
Ketill. Bóndi í Tungu 1571. Hann virðist hafa komið í stað Þorláks. Auk þess þá einnig nefndur Jón í Tungu, vafalaust annar hvor þeirra, sem er þar árið áður.
um 1650
Jón stóri Jónsson. Bóndi í Tungu fyrir og eftir 1650. Börn hans eru í Tungu 1703, sjá síðar, f. á tímabilinu 1947-1661. Jón hefur vart verið f. mikið síðar en um 1620. Faðir hans er nefndur Jón murti Jónsson, en móðir hans var Guðrún dóttir Björns bónda í Sauðlauksdal Jónssonar.
K. Guðrún Pálsdóttir bónda í Breiðavík Gunnarssonar, Borgarssonar og konu Páls, Guðrúnar eldri Gottskálksdóttur. Börn þeirra:
Eyjólfur.
Guðrún, líklega elsta, f. um 1647, í Tungu 1703.
Andrés, f. um 1649, bóndi í Tungu.
Þórdís.
Guðrún, önnur.
Hólmfríður.
Sigríður.
Elín, f. um 1657, í Tungu 1703.
Guðrún, þriðja, f. um 1661, í Tungu 1703.
Þau fjögur systkini, sem eru í Tungu, eru þá öll ógift, en Guðrún yngsta á launson 5 ára gamlan, er Bjani heitir, Guðmundsson. Eyjólfur og Hólmfríður eru ekki á manntali í Rauðasandshreppi 1703, en um Guðrúnu og Sigríði er ekki hægt að segja neitt með vissu. Hjá systkinunum í Tungu er vinnupiltur 17 ára að nafni Guðmundur Eyjólfsson. Hann hefði getað verið sonur fyrrnefnds Eyjólfs.
1703
Andrés Jónsson. Bóndi í Tungu 1703. F. um 1649, sonur fyrrnefnds Jóns stóra bóndi í Tungu. Ókv. 1703 og ekki kunnugt um neina afkomendur hans. Eins og fyrr segir voru 3 systur hans í Tungu 1703. Elín bústýra.
1703
Jón eldri Guðmundsson. Bóndi í Tungu 1703. Í ættartölum er hann sagður á Hnjóti og kann því að hafa búið þar áður en hann fór að Tungu. F. um 1632. Foreldrar: Guðmundur Jónsson bóndi á Hjóti og k.h. Steinunn Jónsdóttir Jónssonar og k.h. Ólafar Gottskálksdóttur á Geirseyri Sturlusonar.
K. Hergerður, f. um 1641, d. eftir 1703, Jónsdóttir Svartssonar og Sigríðar Þorsteinsdóttur Ormssonar, Erlendssonar lrm. Gíslasonar lrm. Í Haga, Filippussonar. Börn sem eru í Tungu 1703:
Þorsteinn, f. um 1680, er ég hygg vera þann Þ.J., sem átti Ragnhildi Tómasdóttur bónda í Krossadal Jónssonar. Reri 1703 í Láturdal á þriggjamannafari.
Guðmundur, f. um 1683 (líklega faðir Jóns bónda í Botni 1762).
Giríður, f. um 1971.
Ólöf, f. 1675.
Helga, f. um 1682.
Í ættartölubókum eru einnig talin Jón og Guðrún meðal barna Jóns og Hergerðar.
-1735
Ásbjörn Guðmundsson. Bóndi í Tungu fyrir 1735. Hann er 24 ára á Látrum 1703, sonur Guðmundar Guðmundssonar bónda þar og k.h. Kristínar Björnsdóttur.
K. líklega um 1710, Steinunn, f. um 1685 Þórðardóttir bónda í Laugardal, Jónssonar. Þórður og fyrrnefndur Tómas í Krossadal voru meðal hinna kunnu Sellátrabræðra. Nokkuð virðist óljóst um börn þeirra, en sumsstaðar eru nefnd þessi:
Guðmundur kvæntur Þuríði Jónsdóttur, talinn fátækur, dó af sjóvolki 1757 (Rshr.).
Jón varð líkþrár og dó 40 ára 1755.
Guðný kona Þorgeirs Helgasonar bónda í Skápadal 1762.
E.t.v.:
Ragnhildur, átti Guðmund nokkurn.
1735
Steinunn Þórðardóttir. Búandi í Tungu 1735. Ekkja fyrrnefnds Ásbjörns Guðmundssonar. Hún dó í júlí 1760, talin 78 ára. Ekki er hægt að segja um það, hvenær Steinunn lét af búskap. Hún var systir Hallgerðar, sem átti Ásbjörn Jónsson, son séra Jóns Ólafssonar á Lambavatni. Börnum þeirra systranna er sumsstaðar ruglað saman, enda er föðurnafnið hið sama. Þórður í Laugardal faðir þeirra var talinn auðugastur Sellátrabræðra, en allir munu þeir hafa verið taldir miklir menn að mörgu leyti. Eru afkomendur þeirra margir þar vestra og víðar. Það er athyglisvert, að enginn annar búandi en Steinunn, er talinn vera í Tungu 1735.
1762
Eyjólfur Jónsson. Bóndi í Tungu 1762. F. um 1715, d. milli 1801 og 1808. Hefur líklega búið í Tungu um 1760-1781. Vinnumaður á Láganúpi 1782, ekkjumaður í Dalshúsum 1801 hjá Þorkötlu dóttur sinni, sem gift er Þorgrími Péturssyni. Áður en Eyjólfur kom að Tungu var hann í Saurbæjarsókn. Þar fæðast börn hans á tímabilinu 1750-1757. Þorkatla Eyjólfsdóttir er á lífi 1817 og sögð f. í Breiðavík (1. apríl 1754). Það eru því allar líkur til þess að Eyjólfur hafi búið í Breiðavík á umræddu tímabili frá því um 1750 og a.m.k. fram að 1757. Það kynni að vera, að Egill Brandsson hafi ekki komið að Breiðavík fyr en Eyjólfur fór þaðan.
K. fyrir 1750, Elín, f. um 1724, d. í Tungu 1. júlí 1780, Einarsdóttir. Börn þeirra:
Einar, f. um 1747, bóndi í Tungu 1780.
Jón, f. 1750, í Sauðlauksdal 1780, ekki á manntali í Rauasandshreppi 1801 eða síðar.
Kristín, f. 1751, á Stökkum 1780, gift Þorgrími Guðmundssyni, sem býr á Hlaðseyri 1782.
Guðmundur, f. 1752, vantar 1780.
Þorkatla, f. 1. apríl 1754, d. í Bæ 10. maí 1838, kona Þorgríms Pétrussonar bónda í Dalshúsum 1801.
Bjarni, f. 27. jan. 1757, í Tungu 1780, vantar á manntal 1801.
Karitas, f. í Tungu 7. okt. 1762, kona sigurðar Guðmundssonar bónda á Geitagili 1801, ekkja í Stekkadal 1817.
Ólafur, f. í Tungu 15. maí 1764, í Tungu 1780, ekki á manntali síðar.
Sigríður, f. í Tungu 12. sept. 1765, í Tungu 1780, vinnukona á Hvalskeri 1801, Grundum 1808, ógift, ekki á manntali 1817.
Eyjólfur, f. 12. sept. 1760, d. 10. des. 1760.
1762 og 1782
Hafliði Ólafsson. Bóndi í Tungu 1762 og 1782. F. um 1706, d. 25. ágúst 1782, ekkjumaður í Tungu 1780. Hafliði hefur vafalaust búið í Tungu allan tímann 1762-1782, en ekki er hægt að segja neitt um það, hve löngu fyrir 1762 hann hefur komið þangað. Hann hefur líklega kvænst um 1735 og upp úr því hefur hann byrjað búskap, þó ekki sé víst, hvar það hefur verið. Tvö börn hans eru í Tungu 1780:
Þórður, f. um 1736, bóndi í Tungu.
Guðrún, f. um 1743, kona Bjarna Einarssonar bónda í Tungu.
1780 og 1782
Einar Eyjólfsson. Bóndi í Tungu 1780 og 1782, bóndi á Geitagili 1801, í húsmennsku þar 1808. Hann hefur því búið í Tungu og á Geitaagili frá því nokkru fyrir 1780 og fram yfir 1801. F. um 1747, sennilega í Breiðavík, d. á Gili 16. jan. 1814. Foreldrar: Eyjólfur Jónsson bóndi í Tungu og k.h. Elín Einarsdóttir.
K. 1777, Guðrún, f. 1752 Þórarinsdóttir bónda á Hlaðseyri, Sigurðssonar. Guðrún dó 8. júlí 1814. Áður en Guðrún giftist átti hún dóttur með Gunnlaugi Þorbjörnssyni kvæntum manni, bónda á Naustabrekku 1762, hún var:
Guðrún, f. 17. júlí 1775. Hún var móðir Gunnlaugs Þorleifssonar bónda í Bröttuhlíð.
1780 og 1782
Þórður Hafliðason. Bóndi í Tungu 1780 og 1782. Þórður kvæntist 1766 og hefur sennilega um það leyti fengið til ábúðar einhvern hluta jarðarinnar frá föður sínum. F. um 1736, d. milli 1786 og 1801. Faðir hans var Hafliði Ólafsson fyrrnefndur bóndi í Tungu, en nafn móður Þórðar, er ekki þekkt.
K. 1766, Guðrún, f. um 1744 í Litla Króki Pálsdóttir. Hún er á Gili 1817. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. 28. jan. 1768, kona Bjarna Bjarnasonar bónda í Keflavík 1808.
Elín, f. 27. apríl 1769, d. 8. júní sama ár.
Guðmundur, f. 3. okt. 1770, bóndi í Tungu.
Guðrún, f. 4. des. 1771, d. 11. sama mán.
Tómas, f. 10. des. 1774, bóndi á Grundum.
Ólafur, f. 13. okt. 1776, bóndi í Hænuvík 1817.
Guðrún, f. 30. des. 1777, í Sauðlauksdal 1801, mun vera í Tungu 1808 og á þá 4 ára gamlan son, Guðbrand Jónsson. Ekki í Rauðasandshreppi 1817, mun hafa flutzt með séra Eyjólfi Kolbeinssyni (að Stað í Grunnavík). Guðrún var móðir Gunnar Einarssonar bónda í Kollsvík, Jónssonar.
1801
Guðrún Pálsdóttir. Búandi í Tungu 1801, 1808 í Tungu hjá Guðmundi syni sínum, 1817 á Gili hjá Guðmundi Hákonarsyni og Önnu Jónsdóttur, sem mun hafa verið dótturdóttir Guðrúnar (dóttir Guðbjargar Þórðardóttur) er var ekkja fyrrnefnds Þórðar Hafliðasonar bónda í Tungu. Guðrún hefur haldið búinu áfram, eftir að hún missti mann sinn, en látið af búskap einhverntíma milli 1801 og 1808. Guðrún var fædd í Litla Króki, d. á Gili? Ekkert mun hægt að segja með vissu um foreldra Guðrúnar, en ekki er ólíklegt að hún hafi verið í ætt við Pál Pálsson, sem býr í Litla Króki 1762, en hann kvæntist 1753. Páll dó 1771, aldurs ekki getið. Hefði hann t.d. verið um fimmtugt, gat hann vel verið faðir Guðrúnar. Hann hefði líka getað verið bróðir Guðrúnar, aldursmunur ekki þurft að vera nema 15 ár eða svo. Árið 1735 er enginn Páll búandi í hreppnum nema P. Magnússon á Gili, en ekki er hægt með vissu að rekja neitt til hans.
1782 og 1801
Bjarni Einarsson. Bóndi í Tungu 1782 og 1801. F. um 1750, d. líklega um 1803. Mun alla tíð hafa búið í Tungu, frá 1781. Bjarni var sonur Einars eldri Sveinbjarnarsonar úr Látrum á Breiðafirði Gíslasonar og k.h. Margrétar Bjarnasóttur. Bjarni er hjá foreldrum sínum í Sviðnum 1762, 12 ára. Bróðir hans var Ólafur bóndi á Hafrafelli í Reykhólasveit, faðir Jóns skipstjóra, um skeið á Geirseyri, föður Jóhanns bónda á Gili. Meðal afkomenda Einar yngri Sveinbjararsonar voru þ´r Sigríður kona Einars í Vatnsdal og Halldóra kona Sveins á Lambavatni, dætur Ólafs Teitssonar í Sviðnum og Bjargar Eyjólfsdóttur („Eyjajarls“). Bjarni hefur líklega komið í Rauðasandshrepp 1780 og kvænst þar:
K. 1781, Guðrún Hafliðadóttir bónda í Tungu Ólafssonar. F. um 1743, d. milli 1801 og 1808. Börn þeirra:
Valgerður, f. 25. júlí 1781, d. 7. apríl 1807. Valgerður er í Tungu hjá foreldrum sínum 1801 og á þá 2 ára gamla dóttur, Halldóru Tómasdóttur, sem sögð er dótturdóttir húsbænda, en ekki gat verið um aðra dóttur þeirra að ræða, en Valgerði. Halldóra er á Grundum 1817 hjá föður sínum Tómasi Þórðarsyni, sem kvæntur var Guðrúnu Þorleifsdóttur. Árið 1801 er Tómas kvæntur bóndi á Hnjóti og elsti sonur hans Jón sagður 3 ára, eða 1 ári eldri en Halldóra. Lítur því út fyrir, að Tómas hafi verið kvæntur þegar Halldóra fæddist. Tómas og Valgerður voru systkinabörn. Fyrrnefndri Halldóru er í sögnum ruglað saman við alnöfnu hennar, sem gift var Halldóri Einarssyni bónda í Kollsvík, en var allt annarar ættar.
Sveinbjörn, f. 20. mars 1784, mun ekki hafa kvænst og verið bl. Drukknaði með Árna Þóroddssyni í Kvígindisdal 22. ágúst 1824. Sagður rammur að afli.
Ef systkinin hafa verið fleiri, hafa hin verið dáin fyrir 1801.
1798-1816
Guðmundur Þórðarson. Bóndi í Tungu líklega 1798-1816. Fluttist þá að Sellátranesi. F. í Tungu ? 3. okt. 1770, d. á Sellátranesi ? Foreldrar: Þórður Hafliðason bóndi í Tungu og k.h. Guðrún Pálsdóttir.
K. Margrét, f. 5. júní 1766, d. í Tungu 2. maí 1810, Grímsdóttir bónda í Stekkadal Jónssonar. Börn þeira:
Steinunn, f. 1798, í Tungu 1817.
Guðrún, f. 1799, á Nesi 1817, í Breiðavík 1826, á þá dóttur, sem Jóhanna heitir (f. 7. ágúst 1826) með Jóni Árnasyni vinnumanni í Breiðavík. Í sept. sama ár á Jón einnig barn (Elínu) með Guðrúnu Ólafsdóttur vinnukonu í Breiðavík.
Ingibjörg, f. 6. maí 1807, á Nesi 1817.
Bjarni, f. 21. apríl 1809, á Nesi 1817.
1801
Einar Þórarinsson. Bóndi í Tungu 1801. Hefur komið þangað um 1800 og verið þar í fá ár. Bóndi á Hlaðseyri 1808, sjá þar.
1808
Tómas Þórarinsson. Bóndi í Tungu 1801, bóndi á Hnjóti 1801, á Grundum 1817, sjá þar.
1816-1827
Bjarni Halldórsson. Bóndi í Tungu um 1816-1827. áður bóndi á Sellátranesi, sjá þar.
1827-1829
Halldór Bjarnason. Bóndi í Tungu 1827-1829, síðar bóndi á Sellátranesi, sjá þar. Sonur fyrrnefnds Bjarna Halldórssonar.
1829-1937
Ólafur Árnason. Bóndi í Tungu 1829-1837. Síðar bóndi í Botni, sjá þar. Sonur Árna Þóroddssonar bónda í Kvígindisdal.
1837-1840
Ingibjörg Runólfsdóttir. Búandi í Tungu 1837-1840. Ekkja Gísla Ísleifssonar, sem drukknaði frá Látrum vorið 1837, fluttist þá um vorið að Tungu. Áður bóndi á Kirkjuhvammi. Ingibjörg var alsystir Helgu, móur Runólfs Brynjólfssonar bónda í Kirkjuhvammi. F. í Gufudal 1. nóv. 1809, d. á Vattarnesi 28. sept. 1882. Foreldrar: Runólfur prestur Erlendsson og k.h. Kristín Þorláksdóttir.
1840-1843
Guðmundur Guðmundsson. Bóndi í Tungu 1840-1843. Fluttist þá að Seljalandi í Gufudalssveit, en síðan að Vattarnesi. F. á Skálanesi í Gufudalssveit 14. sept. 1816, d. á Vattarnesi 27. febr. 1879. Foreldrar: Guðmundur Jónsson hreppstjóri og bóndi á Skálanesi og k.h. Helga Guðmundsdóttir frá Gufudal. Jón faðir Guðmundar á Skálanesi bjó einnig þar. Faðir hans var Einar yngri Sveinbjararson (sjá hér að framan: Bjarni Einarsson), en móðir Jóns hét Helga Bjarnadóttir. Einar var tvíkvæntur, en átti Jón áður en hann kvæntist.
K. 8. okt. 1840, Ingibjörg Runólfsdóttir, ekkja Gísla Íslaifssonar, sjá hér að framan. Guðmundur kom frá Svefneyjum að Tungu sama árið og hann kvæntist. Börn þeirra:
Guðrún, f. í Tungu 15. ágúst 1841, d. 15. júlí 1842.
Helga, f. að Seljalandi 17. júlí 1843, d. á Vatneyri 31. ágúst 1928, kona Þórðar, sem drukknaði í Gjögurbót 1. maí 1897 Gunnlaugssonar bónda í Bröttuhlíð Þorleifssonar.
Guðmundur, f. á Seljalandi 4. des. 1847, bóndi á s.st.
Með Kristínu Þorsteinsdóttir Þórðarsonar átti Guðmundur son:
Kristján, f. 14. des. 1847 á Seljalandi, en þar var Kristín vinnuhjú
Börn Ingibjargar úr fyrra hjónabandi fluttust með móður sinni frá Tungu að Seljalandi:
Gísli
Kristín.
1843-1860
Sigurður Jónsson. Bóndi í Tungu 1843-1860. Fyrrum bóndi á Grundum, sjá þar, síðan í Breiðavík, en seinast á Hvalskeri.
1834-1851
Einar Árnason. Bóndi í Tungu 1834-1851, síðar á Geitagili. F. á Bakka í Tálknafirði 1799, d. í Hænuvík 22. apríl 1869. Foreldrar: Árni Bjarnason bóndi á Geitagili og k.h. Sigríður eldri Steinsdóttir. Einar var tvíkvæntur.
K. I Dómhildur, f. á Skáldastöðum í Reykhólasvit 29. júní 1810, d. í Tungu 17. febr. 1849 Sigurðardóttir Ástvaldssonar og Dómhildar Sæmundsdóttur, sem þá var ekkja eftir fyrri mann sinn, Hallgrím Sigurðsson bónda í Múla í Gilsfirði 1801 (d. 1805). Dómhildur var seinni kona hans, en seinni maður hennar var Þorsteinn Þorsteinsson frá Skarði Guðbrandssonar. Faðir Dómhildar var séra SæmundurÞorsteinsson í Garpsdal. Börn Einars og Dómhildar:
Jóhanna, f. á Vatneyri 24. júní 1831, kona Ásbjörns Ólafssonar bónda á Láganúpi.
Jarðþrúður, f. á Bakka í Tálknafirði 1832, kona Gísla Sigurðssonar bónda í Hænuvík.
Einar, f. í Tungu 30. maí 1838, bóndi á Lambavatni.
Sæmundur, f. í Tungu 22. ágúst 1841, b. á Hlaðseyri.
Guðrún, f. í Tungu 1. júlí 1845, d. í Botni 1861.
K. II Vilborg Teitsdóttir Höskuldssonar og k.h. ? Ingibjargar Jónsdóttur. Vilborg var áður gift Jóni Árnasyni bróður Einars, þau bl. Sonur Einars og Vilborgar:
Kristján, f. 23.sept. 1852, er hjá foreldrum sínum á Geirseyri 1862.
Áður en Einar kvæntist átti hann dóttur:
Sigríður, f. á Vatneyri 17. okt. 1828. Móðir hennar hét Helga Pétursdóttir.
Einar var fáein ár í Tálknafirði, fluttist þaðan að Tungu 1834.
1851-1859
Ásbjörn Einarsson. Bóndi í Tungu 1851-1859. Fluttist þá að Hænuvík og bjó þar í nokkur ár (1859-1964). F. í Vatnsdal 10. júní 1821, d. í Tröð í Kollsvík 9. nóv. 1902. Foreldrar: Einar Einarsson bóndi í Vatnsdal og k.h. Sigríðar Ásbjörnsdóttur.
K. 16. sept. 1842, Valgerður, f. 26. júní 1815, d. á Geirseyri 17. júlí 1881. Börn þeirra:
Einar, f. á Láganúpi 25. júní 1843, d. 12. júli sama ár.
Guðmundur, f. í Vatnsdal 11. júlí 1844, d. 17. júlí sama ár.
Engilbert, f. í Vatnsdal. 3. ágúst1845, d. 8. júlí 1864, drukknaði með Ólafi Magnússyni bónda í Breiðavík.
Ólafur, f. í Vatnsdal 18. nóv. 1846, d. 1. jan. 1847.
Víglundur, f. í Vatnsdal 11. jan. 1848, d. á Ísafirði fyrri hluta árs 1899. 10. okt. 1880, Sigríður Margrét María, f. að Hrafnabjörgum í Ögursveit 6. apríl 1858, d. í Reykjavík 28. ágúst 1920 Jónsdóttir Þorsteinssonar og k.h. Sigríðar Engilbertsdóttur. Eignuðust 7 börn. Sonur Víglundar og Þórkötlu Þórðardóttur bónda á Lambavatni Bjarnasonar var Sölvi skipstjóri í Reykjavík, f. á Geirseyri 17. des. 1870, d. í Reykjavík 20. ágúst 1955 kvæntur Guðrúnu Friðriksdóttur bónda á Kvígindisfelli, Þorgrímssonar.
Sigríður, f. í Vatnsdal 10. júlí 1850, d. í Reykjavík 21. febr. 1934, kona Bjarna Gunnlaugssonar bónda í Breiðavík, lengst húsmaður í Tröð í Kollsvík.
Ólafur, f. í Tungu 16. jan. 1852, d. á Geirseyri 30. jan. 1880, kvæntur Sigríði Bjarnadóttur, síðar konu Jóns Hjálmarssonar bónda á Geitagili.
Kristín, f. í Tungu 16. apríl 1853, d. í Hænuvík9. júní 1859.
Guðrún, f. í Tungu 6. nóv. 1855, d. í Tungu 17. ágúst 1864.
Eftir þennan tíma verður unnt að greina milli ábúenda á Efri- og Neðri-Tungu:
1860-1894
Guðmundur Bjarnason. Bóndi í Neðri-Tungu 1860-1894, í Breiðavík 1857-1860. F. í Hænuvík 5. mars 1828, d. í Sauðlauksdal 24. des. 1911. Foreldrar: Bjarni Halldórsson bóndi á Hnjóti, síðast í Hænuvík og k.h. Ingibjörg Árnadóttir.
K. I 21. sept. 1854, Hólmfríður, f. á Geitagili 29. ágúst 1831, d. í Tungu 18. ágúst 1871 Jónsdóttir bónda á Gili Einarssonar og k.h. Bergljótar Halldórsdóttur. Börn þeirra:
Þorgímur, f. á Látrum 16. ágúst 1856, d. í Breiðavík 27. okt. 1857.
Ingibjörg, f. í Breiðavík 10. ágúst 1857, 14. des. sama ár.
Guðbjartur, f. í Breiðavík 1. sept. 1858, d. í Tungu 23. sept. 1864.
Kristbjörg, f. í Breiðavík 18. nóv. 1859, d. 13. jan. 1860.
Einar, f. í Tungu 10. maí 1861, d. í Hænuvík 24. jan. 1896, bóndi þar.
Bjarni, f. í Tungu 10. ágúst 1862, d. 18. júlí 1864.
Hólmfríður, f. í Tungu 11. okt. 1863, d. 13. mars 1864.
Guðbjört Bjarnveig, f. í Tungu 12. sept. 1865, d. 27. nóv. sama ár.
K. II 15. okt. 1872, Sigríður, f. á Hvalskeri 7. sept. 1837, d. í Tungu 25. ágúst 1895, Magnúsdóttir bónda á Hvalskeri Einarssonar og k.h. Guðríðar Bjarnasóttur. Guðmundur í Tungu, maður Sigríðar, var hálfbróðir, samfeðra Guðríðar á Skeiði móður Sigríðar. Börn þeirra:
Guðfreður, f. 1. maí 1873, bóndií Tungu.
Hólmfríður Guðrún, f. 10. mars ? 1875, d. 18. febr. 1876.
Guðmundur, f. 10. mars ? 1876, bóndi í Tungu.
Sigríður, f. 30. jan. 1879, kona Sigurðar Jónssonar bónda á Hnjóti.
Halldór, f. 8. jan. 1880, d. 2. apríl sama ár.
1894-1897
Guðfreður Guðmundsson. Bóndi í Neðri-Tungu 1894-1897. F. í Tungu 1. maí 1873, d. 1. maí 1897, drukknaði með Þórði Gunnlaugssyni o.fl. í Gjögrabót. Foreldrar: Guðmundur Bjarnason bóndi í Tungu og s.k.h. Sigríður Magnúsdóttir.
K. 29. sept. 1893, Svanhildur, f. í Breiðavík 21. maí 1862, d. í Tungu 4. júlí 1897 Jóhannsdóttir bónda á Geitagili Jónssonar og k.h. Bjargar Hjálmarsdóttur. Börn þeirra:
Ármann, f. 3. apríl 1894, bóndi í Tungu.
Sigurður Einar, f. 25. jan. 1896, d. í júlí sama ár.
Svanfríður, f. 1. júlí 1897, kona Jóhannesar Gíslasonar bónda á Sellátranesi Ólafssonar.
Börn Guðfreðs í Tungu og Maríu Guðfinnsdóttur Hjaltasonar voru:
Guðmundur, f. í Tungu 12. des. 1890, d. í jan 1891.
Maríannus Bjarni, f. í Tungu 2. jan. 1892, d. 27. sama mán.
Guðmundur faðir Guðfreðs og Kristín móðir Maríu voru hálfsystkin, samfeðra.
1897
Svanhildur Jóhannsdóttir. Hún var búandi í Tungu eftir lát Guðfreðs, en deyr rúmum tveim mánuðum síðar. Búinu hefur svo verið haldið saman til næsta vors.
1898-1899
Guðmundur Guðmundsson. Bóndi í Tungu 1898-1899. Fluttist þá að Hnjóti og bjó þar í tvö ár. F. í Tungu 10. mars ? 1876, d. 7. apríl 1906, drukknaði er fiskiskipið Sophie Wheatly fórst við Mýrar í vestan ofviðri. Þá drukknaði einnig Guðjón sonur Ólafs bónda á Stökkum. Foreldrar: Guðmundur Bjarnason bóndi í Tungu og s.k.h. Sigríður Magnúsdóttir. Albróðir Guðfreðs, fyrrnefnds.
K. (30.01.1877-25.01.1901), Ólöf Hjaltadóttir bónda í Krókshúsum Þorgeirssonar og k.h. Etilríðar Guðmundsdóttur. Börn þeirra:
Guðbjört Ingileif, f. í Tungu (07.07.1898-16.01.1980).
Guðmundína Sigurborg, f. á Hnjóti (21.07.1899-14.06.1981), ólst upp frá 6 ára aldri hjá Guðmundi hreppstjóra Sigurðssyni. Þær systurnar fluttust báðar suður á land og giftust þar.
andvana sveinbarn, f. á hnjóti 20. jan. 1901.
1900-1904
Páll Bjarnason (19.12.1855-16.09.1929). Bóndi í Neðri-Tungu 1900-1904. Bóndi á Hnjóti 1890-1894. F. 1855, d. á Patreksfirði, þá húsmaður á Hvalskeri. Foreldrar: Bjarni Ólafsson bóndi í Vatnsdal, síðar í Tungu og k.h. Þrúður Guðmundsdóttir. Páll kvæntist ekki en átt tvo syni:
Bjarni, f. í Kvígindisdal 31. ágúst 1886, fór í siglingar og dó um 1920 ? Móðir hans var Amalía Þorsteinsdóttir bónda á Hlaðseyri Þorsteinssonar og Sæunnar Gísladóttur, ekkju Henriks bónda í Kvígindisdal, Guðlaugssonar.
Magnús, f. í Tungu 28. febr. 1904, d. í Saurbæ 24. ágúst 1904. Móðir hans var Bergljót Gunnlaugsdóttir, ekkja Magnúsar Einarssonar bónda á Geitagili.
Hálfsystkini Bjarna Pálssonar, sammæðra, voru Oddur Ólafsson í Vatnsdal og Jóhanna og Sigríður Sólborg, dætur Sigurðar Einarssonar, sem drukknaði, er Vigga fórst 1. maí 1897. Sigurður var sonur Einars Ólafssonar bónda á Hnjóti.
1903-1921
Össur Á. Thoroddsen (27.08.1871-07.09.1955). Bóndi í Tungu 1903-1921, fluttist þá til Patreksfjarðar. F. á Látrum, d. á Patreksfirði. Foreldrar: Árni J. Thoroddsen bóndi í Kvígindisdal og k.h. Sigríður Snæbjörnsdóttir.
K. 10. sept. 1899, Jóna María Sigurðardóttir (07.11.1867-11.01.1957) bónda í Botni Gíslasonar og k.h. Ingibjargar Sigurðardóttur. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. í Kvígindisdal (21.09.1900-16.05.1989), kona (1934) Vagns Jóhannssonar á Patreksfirði. 4 börn.
Guðrún, f. í Kvígindisdal (20.01.1902-08.06.1986), kona Haraldar Sigurmundssonar bónda á Fossá á Hjarðarnesi. 5 börn.
Anna Soffía, f. í Kvígindisdal (28.01.1903-03.12.1985), kona (1945) Jóhannesar Sveinssonar bónda í Miðhlíð á Barðaströnd. 1 barn og 1 kjörbarn.
Ingibjörg Sigríður, f. í Tungu (18.10.1905-15.04.1981), óg. og bl.
Lilja, f. í Tungu (20.05.1907-13.01.2000), bjó í Reykjavík. Barn með Eiríki Áka Hjálmarssyni. M. Kristinn Ólafsson. 2 börn.
Markús Björn, f. í Tungu (20.10.1909-21.01.1991), ókv. og bl. á Patreksfirði.
Fyrsta árið átti Össur 2/3 hluta jarðarinnar, en Páll Bjarnason 1/3 hluta.
1921-1927
Egill Egilsson (24.09.1893-14.05.1982). Bóndi í Neðri-Tungu 1921-1927, var svo 2 eða 3 ár á Patreksfirði, síðar kaupfélagsstjóri búsettur í Saurbæ. Fluttist til Njarðvíkur syðra 1944, bókhaldari við fiskmjölsverksmiðju þar. F. á Sjöundá, sonur Egils Árnasonar bónda þar og k.h. Jónínu Helgu Gísladóttur.
K. I 8. júlí 1922, Steinunn Ólafsdóttir (17.03.1889-12.08.1953), bónda í Saurbæ Thorlaciusar, d. í Njarðvík, bl.
K. II Guðveig Stefánsdóttir (12.07.1906-13.11.1984), bl.
1927-1936
Pétur Guðmundsson (18.12.1884-12.05.1974). Bóndi í Neðri-Tungu 1927-1936. Fyrrum skipstjóri, síðar frystihússtjóri og bókhaldari á Patreksfirði. F. á Arnarstapa í Tálknafirði. Foreldrar: Guðmundur Gíslason og Kristín Pétursdóttir. Þau bjuggu seinast í Tungu í Tálknafirði og fluttust þaðan á Patreksfjörð.
K. I 15. apríl 1922, Sigþrúður, f. í Saurbæjarsókn 1. júlí 1887, d. 20. juní 1935 Guðbrandsdóttir bónda á Sjöundá, síðar smiðs á Patreksfirði, Eiríkssonar og k.h. Veroniku Árnadóttur. Börn þeirra:
Kristín, f. á Patreksfirði 20. júlí 1922, d. þar 22. mars 1941.
Veronika, f. á Patreksfirði 20.07.1922, kona Ólafs Helgasonar, trésmíðameistara á Patreksfirði. 5 börn.
Hulda, f. á Patreksfirði (30.04.1924-01.11.2017), kona Svavars Jóhannessonar sýsluskrifara og síðar bankaútibússtjóra á Patreksfirði. 3 börn.
K. II 12. febr. 1944, Magdalena Lára, f. (13.11.1897-23.04.2001) í Sviðnum á Breiðafirði Kristjánsdóttir Sveinssonar. Þau bl.
1936-1950
Hafliði Ólafsson. Bóndi í Neðri-Tungu 1936-1950. Bóndi í Keflavík 1918-1919 (sjá þar) og 1921-1934. F. í Keflavík 12. okt. 1887, sonur Ólafs Guðbjartssonar bónda í Hænuvík og k.h. Guðrúnar Jósdóttur bónda í Keflavík, Gíslasonar. Ókv. og bl.
1950-1962
Hafliði Halldórsson og Sigríður Filippía Erlendsdóttir. Bjuggu áður á Miðbæ á Hvallátrum (sjá þar). Bjuggu í N-Tungu í félagsbúi við Árna og Önnu (sjá hér á eftir).
1950-1980
Árni Helgason (07.02.1922-23.01.1911). Bóndi í Neðri-Tungu síðan 1950. F. í Kollsvík. Foreldrar: Helgi Árnason bóndi í Kollsvík og k.h. Sigrún Össursdóttir bónda í Kollsvík, Guðbjartssonar. Í tíð Árna og Önnu var byggt nýtt íbúðarhús í Neðri-Tungu og ræktun aukin verulega. Auk búskaparins stundaði Árni grásleppuveiðar um tíma. Hann sat lengi í hreppsnefnd Rauðasandshrepps. Þau fluttu frá Neðri-Tungu á Patreksfjörð og þar vann Árni lengi sem fiskmatsmaður, en Anna við fiskverkun.
K. 25. júlí 1948, Anna, f. á Látrum (29.06.1927-19.08.2017) Hafliðadóttir bónda á Látrum Halldórssonar oh k.h. Sigríðar Filippíu Erlendsdóttur bónda á Látrum, Kristjánssonar. Börn þeirra:
Helgi, f. 19. mars 1949. Vörubílstjóri og smiður. Bjó í Ási (sjá þar) og Patreksf.
Hafliði, f. 29. okt. 1950. Rafvirki á Seltjarnarnesi. Lilja K. Kristjánsdóttir. 2 börn.
Erna, f. 18. okt. 1952. I Magnús Árnason. 2 börn. M.II Gísli Geir Jónsson.
Halldór f. 15.02.1956. I Gunnhildur Sveinsdóttir. 3 börn. Barn með Guðlaugu Eyþórsdóttur. K.II Lára Björk Kristinsdóttir. 3 börn.
Ólafur f. 10.10.1957. I Hólmfríður Bergþóra Pétursdóttir. 2 börn. K.II Sigríður Ragna Þorvaldsdóttir. 2 börn.
Rúnar f. 13.02.1959. Bóndi í Neðri-Tungu (sjá hér á eftir).
Ásbjörn Helgi f. 24.08.1965. Helga Snorradóttir. 4 börn.
Jón f. 16.06.1970. I Björg Sæmundsdóttir. K.II Guðrún Una Jónsdóttir; skildu. 1 barn.
Dómhildur f. 19.01.1972. M. Gylfi Ívar Magnússon. 2 börn. II Gísli Hólmar Jóhannesson.
1980-
Rúnar Árnason, f. 13.02.1959: Helgasonar í N-Tungu. Bóndi í N-Tungu, sjómaður o.fl.
K.I Kristín Bergþóra Torfadóttir, Jónssonar frá Kollsvík. Börn þeirra:
Róbert f. 04.05.1978. Unnur María Hreiðarsdóttir. 2 börn.
Íris Dögg f. 12.02.1981. Atli Snær Rafnsson. 1 barn.
Oddur Þór f. 21.09.1983. K Sólveig Lind Helgadóttir. 1 barn.
Anna f. 14.03.1990.
Steinar f. 09.08.1991.
Rúnar og Kristín stunduðu refarækt um tíma. Þau hættu mjólkurframleiðslu, en voru með nautgripi til ketframleiðslu. Eftir að þau Kristín slitu sambúð bjó hann um tíma í Miðgarði, en síðan aftur í N-Tungu. Þar hafa þau Sigurbjörg haft búskap, auk þess sem hann stundar sjó frá Patreksfirði.
K.II Sigurbjörg Karólína Ásgeirsdóttir. Hún var um tíma safnstjóri Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti, en síðan bóndi í Neðri-Tungu ásamt Rúnari.
1861-1869
Hákon Guðmundsson. Bóndi í Efri Tungu 1861-1869, á Grundum 1849-1852. F. á Geitagili 16. mars 1822, d. á Sellátranesi 28. júní 1869. Foreldrar: Guðmundur Hákonarson bóndi á Geitagili og k.h. Anna Jónsdóttir.
K. 19. sept. 1841 (Tungu), Helga Einarsdóttir bónda á Hlaðseyri Þórarinssonar, áður gift Jóni Bjarnasyni bónda í Hænuvík, sjá þar. Helga dó í Vatnsdal 21. apríl 1894, f. 1800.
1870-1876
Bjarni Ólafsson. Bóndi í Efri Tungu 1870-1876, áður bóndi í Vatnsdal, sjá þar.
1876-1877
Bjarni Gíslason. Bóndi í Efri Tungu 1876-1877. Hefur sjálfur haft nokkurn hluta jarðarinnar, en líklega einnig séð um þann hluta, sem Sigurður Bachmann hafí. F. í Botni 1. des. 1826, d. á Patreksfirði 22. nóv 1918. Foreldrar: Gísli Bjarnason síðar bóndi á Melanesi (faðir Jóns bónda í Keflavík) og Sigríður yngri Steinsdóttir bónda á Grundum Þorsteinssonar. Sigríður giftist síðar Jóni syni Árna bónda í Breiðavík, Eyjólfssonar. Þau voru bl.
K. 1. sept. 1875, Jóhanna Gísladóttir, prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar. Börn þeirra:
Sumarlína, f. í Sauðlauksdal 22. apríl 1858, d. í Höfðadal 17. júní 1897, óg og bl.
Gísli, f. í Botni 23. mars 1876, d. í Tungu 23. júní 1876.
Barn Bjarna og Þórkötlu Halldórsdóttur var:
Ingibjörg, f. í Tungu 8. ágúst 1867, d. 17. nóv. sama ár.
Barn Jóhönnu (Kristjönu Bente ?) og Jóns Sigurðssonar síðar bónda í Hænuvík var:
Valdimar, f. í Vatnsdal 23. ágúst 1861, d. á Hvalskeri 26. júlí 1864.
1876-1877
Sigurður B. Bachmann, kaupmaður á Patreksfirði. Bóndi á nokkrum hluta Efri Tungu 1876-1877. Búsettur á Vatneyri, sjá þar.
1877-1880
Bjarni Bjarnason. Bóndi á nokkrum hluta Efri Tungu 1877-1880 skv. þingbók, en á manntali 1882 er hann talinn bóndi í Tungu. Áður bóndi á Grundum, sjá þar.
1877-1884
Einar Jónsson. Bóndi í Efri Tungu 1877-1884. Á nokkrum hluta fram að 1880, en síðan virðist hann vera talinn fyrir allri jörðinni. Síðar bóndi á Mábergi, sjá þar.
1884-1897
Eiríkur Eiríksson. Bóndi í Efri Tungu 1884-1897. F. á Mábergi 29. okt. 1855, d. í Tungu 29. júlí 1897. Foreldrar: Eiríkur Magnússon bóndi á Mábergi og k.h. Sigríður Guðbrandsdóttir.
K. 22. okt. 1880, Jóna Bergljót Einarsdóttir bónda á Látrum, síðar í Vatnsdal, Jónssonar Thoroddsens og f.k. Einars, Klásínu Pálsdóttur. Börn þeirra:
Klásína, f. á Mábergi 1. sept. 1881, kona Hjálmars Péturssonar bónda í Tungu.
Einar, f. á Mábergi 11. ágúst 1883, d. 4. des. sama ár.
Einar, f. í Tungu 116. mars 1885, d. í Reykjavík 1948, skipstjóri, kvæntur (1920) Sigrid Margrethe Sölling.
Richard, f. í Tungu (04.05. 1886-30.09.1971), pípulagningameistari í Reykjavík, kvæntur (1924) Lovísu Norðfjörð Sigurðardóttur.
Anna Sigrún, f. í Tungu 31. maí 1887, d. 10. jan. 1888.
Sigrún María, f. í Tungu (12.06.1888-16.03.1956), kona (1924) Helga Björgvins, póstfulltrúa í Reykjavík, Björnssonar.
Helgi Hermann, f. í Tungu (03.05. 1890-10.10.1974), efnaverkfræðingur, skólastjóri Iðnskólans í Reykajvík, síðar bankastjóri Iðnaðarbankans, kvæntur (1922) Jóhönnu Sigþrúði Pétursdóttur, prests á Kálfafellsstað, Jónssonar.
Jóhanna Una, f. í Tungu 01.10.1891-27.07.1982), kona (1920) Eiríks skipherra Kristóferssonar bónda á Brekkuvelli, Sturlusonar bónda í Vatnsdal, Einarssonar.
Jón, f. í Tungu (20.11.1893-30.12.1982), skipstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands, kvæntur I (1921) Herþrúði Hermannsdóttur Wendel, II (1933) Guðbjörgu Einarsdóttur bónda í Stekkadal Sigfreðassonar.
Eiríkur Ágúst, f. í Tungu 16. ágúst 1897, d. 28, sept. sama ár.
Barn Eiríks bónda í Tungu og Jensínu Kristjönu, f. á Fossá á Barðaströnd 18. sept. 1872, var:
Marta Ágústa, f. á Skeiði í Selárdal (31.08.1895-01.12.1983), gift Ingimundi Hjörleifssyni, búsett í Hafnarfirði.
1897-1907
Jóna Einarsdóttir. Búandi í Tungu 1897-1907. Ekkja fyrrnefnd Eiríks bónda í Tungu, Eiríkssonar. F. á Látrum 29. mars 1857, d. í Reykjavík 3. des. 1926.
1907-1923
Hjálmar Pétursson (05.10.1883-09.08.1965). Bóndi í Efri Tungu 197-1923, þrjú síðustu árin í sambýli við Bæring Bjarnason. Fluttist frá Tungu á Patreksfjörð. F. í Kollsvík, foreldrar: Pétur Hjálmarsson bóndi á Sellátranesi og k.h. Kristrún Jónsdóttir bónda á Hnjóti Torfasonar.
K. 4. nóv. 1905, Klásína Eiríksdóttir (01.09.1881-17.03.1961) bónda í Tungu Eiríkssonar og k.h. Jónu Einarsdóttur. Klásína var ljósmóðir. Börn þeirra:
Tryggvi, f. á Sellátranesi (11.08.1906-04.04.1988), húsgagnasmiður í Reykjavík, kvæntur (1932) Auðbjörgu Davíðsdóttur frá Vopnafirði.
Eiríkur Áki, f. í Tungu (03.03.1908-16.08.1973), kennari í Reykjavík, ókv.
Jóna Sigrún, f. í Tungu (30.11.1910-18.05.1977), gift Ámundi vélstjóra Friðrikssyni, búsett í Reykjavík.
1914-1920
Níels Kr. Björnsson og Guðrún Jónsdóttir (sjá Naustabrekka). Rauðasandshreppur hafði eignast hálfa Efri-Tungu og bjó Níels um skeið á þeim parti, en stundum var hann talinn húsmaður.
1923-1925
Helgi Sigurvin Einarsson, síðar bóndi á Geitagili (sjá þar), og Guðmunda Guðmundsdóttir.
1925-1926
Ármann Guðfreðsson (03.04.1894-17.08.1975). Bóndi í Efri Tungu 1925-1926. Bóndi á Geitagili 1923-1925. Síðar starfsmaður Vífilsstaðahælis í áratugi. F. í Tungu, sonur Guðfreðs bónda þar Guðmundssonar og k.h. Svanhildar Jóhannsdóttur bónda á Gili, Jónssonar.
K. 5. júní 1920, Bryndís Guðjónsdóttir (20.02.1898-20.04.1967) bónda á Geitagili Bjarnasonar og k.h. Guðbjargar Brynjólfsdóttur, skildu. Sonur þeirra:
Svavar, f. á Geitagili 28.03.1921-27.01.1980), verslunarmaður í Reykjavík.
Bryndís átti síðar Guðbjart, verslunarmann í Reykjavík, Egilsson bónda á Sjöundá Árnasonar. Ármann kvæntist síðar Önnu Sigríði Einarsdóttur.
1920-1930
Bæring Bjarnason. Bóndi í Efri Tungu 1920-1930, áður bóndi í Keflavík (sjá þar). Bæring var einn í Efri Tungu 1926-1930, en áður í sambýli við Hjálmar, Helga og Ármann.
1930-1931
Sigfreður Guðmundsson (14.11.1906-22.02.1976). Bóndi í Efri Tungu 1930-1931. Fluttist frá Patreksfirð (var þar 2 ár) 1933 að Lögmannshlíð við Akureyri og hefur búið þar síðan. F. í Króki, sonur Guðmundar hreppstjóra Sigfreðssonar bónda í Króki og k.h. Guðrúnar Einarsdóttur bónda í Vatnsdal Jónssonar Thoroddsens.
K. Sigþrúður Gísladóttir (19.11.1909-11.03.1985) skipasmiðs á Bíldudal Jóhannssonar og k.h. Leopoldínu Guðmundsdóttur Jónssonar, bónda í Haga, Guðmundssonar. Sonur þeirra:
Gísli, verkfræðingur, f. í Lögmannshlíð (19.12.1934-30.03.1995). Pála Jóna Björnsdóttir. 6 börn.
1931-1932
Helgi H. Eiríksson (03.05.1890-10.10.1974). Skólastjóri í Reykjavík. Helgi var skráður fyrir jörðinni en bjó líklega ekki á henni á þessum árum. Búsettur í Reykjavík. F. í Efri Tungu, sonur Eiríks bónda þar Eiríkssonar og k.h. Jónu Einarsdóttur bónda í Vatnsdal Jónssonar Thoroddsens.
- 1. júlí 1922, Jóhanna Pétursdóttir prests á Kálfafellsstað, Jónssonar. Bl.
1932-1933
Gunnlaugur Kristófersson (25.05.1896-03.06.1979). Bóndi í Efri Tungu 1932-1933. F. á Brekkuvelli, sonur Kristófers bónda þar Sturlusonar bónda í Vatnsdal Einarssonar og k.h. Margrétar Hákonardóttur Snæbjörnssonar. Bjuggu áður á Brekkuvelli á Barðaströnd, en á Patreksfirði eftir að þau fluttu frá Efri-Tungu.
K. 5. febr. 1922, Þuríður Sigríður Ólafsdóttir (24.02.1896-02.12.1987), bónda í Miðhlíð, Sveinssonar. Börn þeirra:
Snorri, f. á Brekkuvelli (23.09. 1922-03.12.1996). Vélstjóri og gjaldkeri. Lára Júlía Halldórsdóttir Kolbeins. 3 börn.
Margrét, f. á Brekkuvelli (01.06.1926-01.06.1926-29.06.2006). Barn með Herði Kristinssyni.
Jóhanna, f. á Brekkuvelli f. 10.08.1929. M. Guðmundur Hörður Guðmundsson. 3 börn.
Kristín, f. á Patreksfirði 23. okt. 1933. M. Guðmundur Valgeir Jónsson. 3 börn.
Dóttir Gunnlaugs og Oktavíu, f. á Fossá 26. okt. 1890 Guðjónsdóttir:
Anna, f. á Barðaströnd (09.11.1918-03.01.2000).
1933-1939
Konráð Júlíusson (03.11.1902-09.02.1995). Bóndi í Efri Tungu 1933-1939. Bóndi á Koti 1939-1946. Fluttist þá á Patreksfjörð. F. á Melanesi, foreldrar: Júlíus, f. á Geirseyri 18. júlí 1886, drukknaði með föður sínum 19. júlí 1903, er þeir voru á leið úr Tálknafirði að Dufansdal með nýja skektu, Tómasson Sigmundssonar og Þorkötlu Þórðardóttur bónda á Lambavatni Bjarnasonar og Pálína Kristjánsdóttir bónda í Bröttuhlíð Ólafssonar, ógift.
K. 8. júlí 1928, Jónfríður Jónsdóttir (22.09.1904-05.02.1988) Einarssonar bónda á Hnjóti, Ólafssonar og Ingveldar Jónsdóttur bónda í Hænuvík, Sigurðssonar. Jón og Ingveldur bjuggu saman, en giftust ekki. Ingveldur var ekkja Einars, bónda í Hænuvík, Guðmundssonar bónda í Tungu, Bjarnasonar. Konráð og Jónfríður eru bl. Hálfbróðir Júlíusar Tómassonar, sammæðra, var Sölvi Víglundsson, skipstjóri í Reykjavík, d. 1955.
Bjuggu síðar á Koti (sjá þar). “Konni á Koti” var þekktur hagyrðingur.
1939-1970
Kristján Júlíus Kristjánsson (12.07.1896-09.10.1970). Bóndi í Efri-Tungu síðan 1939, áður bóndi á Grundum (sjá þar). F. á Grundum 12. júlí 1896, sonur Kristjáns bónda á Gundum Ólafssonar. Formaður í Kollsvíkurveri; farkennari í Rauðasandshreppi; sýslunefndarmaður fyrir Rauðasandshrepp; afburða fær bjargmaður.
K. 18. okt. 1924, Dagbjört Torfadóttir bónda í Kollsvík Jónssonar og k.h. Guðbjargar Guðbjartsdóttur bónda í Kollsvík, Ólafssonar. Börn þeirra:
Kristján, f. í Breiðavík (20.08.1825-04.05.1999). Sjómaður, vann síðar í verksmiðju. 6. sept. 1949, Anna Einarsdóttir bónda á Sellátranesi, Sigurðssonar. 2 börn.
Friðgeir, f. á Grundum (11.12.1927-19.01.2005). Húsasmiður. Jórunn Gíslína Gottskálksdóttir, f. að Hvoli í Ölfusi 16. apríl 1933. 5 börn. Friðgeir kom að byggingu nokkurra húsa í Rauðasandshreppi, m.a. á Hvalskeri og Lambavatni, og var yfirsmiður hjá Byggingafél. Höfn hf eftir að Gunnar Össurarson slasaðist.
Marinó Bjarni, f. á Grundum (30.06.1930-16.12.1980). Ýtustjóri, smiður og sjómaður. Vann að ýmsum félagsmálum í Rauðandshreppi.
Halldór Óli, f. á Grundum (03.01.1933-08.08.2018). Vann lengi að búinu með móður sinni, en gerði síðan út trillu á Patreksfirði sem nefndist “Heppinn”, líkt og bátur Krisjáns afa hans Ásbjörnssonar á Grundum.
Ásgerður Emma Kristjánsdóttir (10.03.1936-24.12.2008) (sjá hér næst).
1970-1981
Dagbjört Torfadóttir ásamt sonum sínum; Marinó og Halldóri. Bjuggu í Efri-Tungu eftir lát Júlíusar. Eftir að Marinó Kristjánsson lést í dráttarvélaslysi í Efri-Tungu 16.12.1980 fluttu þau á Patreksfjörð, þar sem Halldór gerði út trillu. Halldór átti áfram hlut í jörðinni.
1981-2008
Ásgerður Emma Kristjánsdóttir (10.03.1936-24.12.2008). Hjúkrunarkona og ljósmóðir. Vann í Noregi, á Húsavík og síðast á Patreksfirði meðfram búskapnum í Efri-Tungu. M. Hallgrímur Einar Aðalsteinsson (19.09.1933-31.08.2006). Hafði áður unnið sem lögregluþjónn. Hann átti fyrir 3 dætur. Fóstursonur Emmu og Hallgríms er:
Ragnar Marinó Thorlacius f. 23.12.1979. (sjá hér næst).
2008-
Ragnar Marinó Thorlacius f. 23.12.1979. Uppeldissonur Emmu og Hallgríms. Á barn með Hildigunni Guðmundsdóttur. Búskap lauk í Efri-Tungu við fráfall Emmu. Marinó hefur þar aðsetur, en vinnur sem ljósmyndari.
Grasbýli í landi Geitagils. Uppruna nafnsins er sennilega að leita í því að fyrrum (1703) var fjórðungur Geitagils kóngseign. Sigurbjörn Guðjónsson segir í örnefnaskrá Geitagils að talið sé að engjastykki þarna hafi heitið þessu nafni. Úr túngarðinum neðan Kóngsengja eru dregin jarðamörk Geitagils og Tungu upp í Kóngshæð, sem er hæsti staður milli Örlygshafnar og Vatnadals. Reynt var að koma nafninu Holt á býlið, en það festist ekki. Ekki er vitað um byggð á Kóngsengjum fyrr en árið 1903:
1903-1921
Jón Hjálmarsson (16.12.1852-15.02.1856), Sigmundssonar á Stökkum. Bóndi í tvíbýli á Geitagili 1887-1903, síðan húsmaður á Kóngsengjum (Holti) til dd. K. Sigríður Bjarnadóttir (16.06.1852-17.06.1873), Torfasonar á Naustabrekku. Hún var áður heitbundin Davíð Hinrikssyni sem drukknaði í Látralendingu 15.02.1876. Síðar giftist hún Ólafi Ásbjörnssyni (16.01.1852-30.01.1888), en missti hann eftir stutta sambúð; sonur þeirra dó einnig á barnsaldri. Sonur Jóns og Sigríðar:
Davíð Jóhannes Jónsson (16.12.1884-10.01.1930) sjá þar.
1921-1923
Ármann Guðfreðsson (03.04.1894-17.08.1975). Síðar bóndi á Geitagili 1923-1925, og í Efri Tungu 1925-1926. Eftir það starfsmaður Vífilsstaðahælis í áratugi. F. í Tungu, sonur Guðfreðs bónda þar Guðmundssonar og k.h. Svanhildar Jóhannsdóttur bónda á Gili, Jónssonar.
K. 5. júní 1920, Bryndís Guðjónsdóttir (20.02.1898-20.04.1967) bónda á Geitagili Bjarnasonar og k.h. Guðbjargar Brynjólfsdóttur, skildu. Sonur þeirra:
Svavar, f. á Geitagili 28.03.1921-27.01.1980), verslunarmaður í Reykjavík.
Bryndís átti síðar Guðbjart, verslunarmann í Reykjavík, Egilsson bónda á Sjöundá Árnasonar. Ármann kvæntist síðar Önnu Sigríði Einarsdóttur.
Ekki hefur verð búið á Kóngsengjum síðan 1923, en þar sjást rústir húsa neðan vegar.
Nafnið Staðurinn er augljóslega kenndur við mikið gil ofan bæjarins. Um forliðinn verður lítið fullyrt, en hann gæti fremur bent til þess að þarna hafi fyrr á öldum verið geitabúskapur; fremur en að nafngjafa sé að leita í náttúrusérkennum. Nafnið er gjarnan stytt í Gil í tali kunnugra.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki er 20 hdr. Kóngseign er 5 hdr, sem Magnús Magnússon á Eyri í Seyðisfirði hefur í forljening. Ábúandi þar á, Þorbjörn Pálsson, hefur tekið þennan part af hústrú Guðrúnu Eggertsdóttur, sem er umboðsmaður Magnúsar Magnússonar þar yfir. Landskyld þar af 300 álnir. Betalast í fiski í kaupstað eður með peningum uppá danskan taxta. Hús… Kúgildi ekkert. Kvaðir skipsáróður. Ef ei geldst, leysist með 20 ánum í gildum landaurum. Kvikfjenaður … reiknast með þessum parti 1 kýr, 1 kvíga, 0 ær. Fóðrast kann þar 2 kýr, 6 ær, 3 lömb, 1 hestur, kvíga, 9 ær. Fóðrast kann þar 2 kýr, 6 ær, 3 lömb, 1 hestur. Heimilismenn Þorbjarnar Pálssonar 6. Eigandi að 15 hdr er biskupinn mag. Björn en umboðsmaður Guðrún Eggertsdóttir.
Ábúandi á 2 ½ hdr þar af er Þorbjörn Pálsson, sem þaug hefur að auk kóngseignar 5 hdr. Landskyld af þeim er 15 álnir… Hús á bóndaeign leggur umboðsmaður viðu til. Leigukúgildi þar með 1 kýr… Kvikfjenaður 1 kýr, 8 sauðir geldir, 4 gemlingar, 1 hestur. Fóðrast kann þar 1 kýr, 3 ær.
Annar ábúandi á bóndaeigninni er Jón Bjarnason. Býr á 7 ½ hdr. Landskyld er 55 álnir… Húsum til uppbótar leggur umboðsmaður viðu. Leigukúgildi 3… Kvöð er skipsáróður. Leysist með 20 álnum ef ei geldst in natura. Kvikfjenaður á þessum parti 3 kýr, 2 ær, 4 sauðir, 6 gemlingar, 1 hestur. Fóðrast kann á þessum parti 2 kýr, 6 ær, 4 lömb. Heimilismenn Jóns Bjarnasonar 4.
Þriðji ábúandi Bjarni Loftsson býr á 5 hdr af bóndaeigninni. Landskyld þar af er 30 álnir… við til húsa leggur umboðsmaður. Leigukúgildi 2 og eitt hross til leigu fyrir 15 álnir… Kúgildi uppbætir umboðsmaður. Kvaðir eru skipsáróður, ella gildar 20 álnir. Kvikfjenaður hjá Bjarna er 1 kýr, 6 ær, 1 hross. Fóðrast kann 2 kýr, 6 ær. Heimilismenn Bjarna 3. Svarðarskurð hefur jörðin góðan til eldviðar, og reiðingsristu og lýngrif að nokkru gagni. Silúngsveiði nokkur; mætti vera betri ef iðkuð væri. Vatnsból ill og erfitt mjög um vetur. Kirkjuvegur langur og illur”.
1570
Jón Ívarsson. Bóndi á Gili 1570.
1570
Jón Astísarson (Ásdísarson?). Bóndi á Gili 1570.
1703
Jón Bjarnason. Bóndi á Gili 1703, á 8 hdr. F. um 1660.
K. Kristín Bjarnadóttir, f. um 1649. Engra barna þeirra getið.
1703
Páll Einarsson. Bóndi á Gili til vors 1703. Hann er bóndi þegar manntalið er tekið s.hl. vetrar, en hvergi talinn bóndi um sumarið, þegar jarðabókin er skráð.
K. Ása Árnadóttir, f. um 1666. sonur þeirra:
Árni 2 ára.
1703
Bjarni Loftsson. Bóndi á Gili 1703, á 5 hdr. F. um 1658.
K. Guðrún Jónsdóttir, f. um 1673. Sonur þeirra:
Einar 5 ára.
Ekki er ólíklegt að þau hjón hafi síðar átt son:
Loftur, sem hefur verið faðir Þorláks bónda á Gili 1762.
1703
Þorbjörn Pálsson. Bóndi á Gili frá fardögum 1703. Þegar manntalið er tekið býr hann í Kvígindisdal, sjá þar, en þegar jarðabókin er skráð býr hann á Gili. Talinn búa á kóngseigninni, 5 hdr. og 3 hdr. af biskupseigninni, en þá virðist öll jörðin ofreiknuð um 1 hdr.
1735
Páll Magnússon. Bóndi á Gili 1735. Það er væntanlega sá P.M., sem er 20 ára í Sauðlauksdal 1703, faðir hans þá dáinn, en móðir hans Margrét Jónsdóttir, er búandi þar. Þess mætti geta til, að börn þessa Páls hafi verið:
Sigurður bóndi á Látrum 1762.
Guðmundur bóndi á Gili 1762.
Ingibjörg, kona Þorláks Loftssonar bónda s.st.
1735
Vigfús Pálsson. Bóndi á Gili 1735. Hann hefði getað verið sonur fyrrnefnds Páls Magnússonar, f. t.d. um 1710. Ingibjörg fyrrnefnd, var f. um 1721.
1762
Guðmundur Pálsson. Bóndi á Gili 1762. F. um 1716, d. 18. júlí 1780, bóndi á Stökkum við manntalið veturinn áður. Sennilega sonur Páls Magnússonar fyrrnefnds bónda á Gili.
K. Katrín, f. um 1721, d. í Saurbæ5. jan. 1782 Jónsdóttir. Börn þeirra:
Sigurður, f. í Sauðlauksdalssókn 19. júní 1753. Bóndi á Gili 1801.
Þorgrímur, f. í Sauðlauksdalssókn 27. ágúst 1754. Bóndi á Hlaðseyri 1782. Hann er á Stökkum hjá foreldrum sínum 1780, kvæntur þá Kristínu Eyjólfsdóttur.
1762
Þorlákur Loftsson. Bóndi á Gili 1762. F. um 1730, d. í Sauðlauksdalssókn 9. mars 1779. Hefur sennilega einnig búið þá á Gili. Mér þykir langsennilegast að Þorlákur hafi verið sonarsonur Bjarna Loftssonar, sem býr á Gili 1703, og Loftur faðir hans hafi fæðst þá á næstu árum. Sú tilgáta, að hann hafi verið sonur Lofts Sigmundssonar frá Látrum, fær ekki staðist. Til þess var sá Loftur allt of ungur, f. um 1718 (drukknaði 60 ára að aldri 1778).
K. 1758, Ingibjörg, f. um 1721 Pálsdóttir, líklega bónda á Gili, Magnússonar. Börn þeirra:
Halldór, f. 31. des. 1763, bóndi í Botni og víðar.
Halldóra, f. í júní 1758, dó primsignd.
Halldóra, f. 3. ágúst 1759, kona Gísla Bjarnasonar bónda í Skápadal, átti síðar Ísleif Jónsson.
1780
Ólafur Erlingsson. Bóndi á Gili 1780. Fluttist að Látrum annaðhvort 1780 eða 1781, sjá þar. Ólafur hefur aðeins búið fá ár á Gili, e.t.v. ekki komið þangað fyr en 1779, eftir að Þorlákur Loftssonar lézt.
1780 og 1782
Árni Jónsson. Bóndi á Gili 1780 og 1782. F. um 1735. Ekki hægt að segja neitt með vissu um foreldra hans.
K. 1777, Þuríður, f. um 1739 Bjarnadóttir. Eiga 1780 son:
Jón 3 ára.
Ekkert þeirra er á manntali 1801 eða síðar, nema það sé sá Árni Jónsson sem er sveitarómagi í Raknadal 1817, 73 ára, og er það í samræmi við fyrrnefndan aldur 1780.
1782
Helga Jónsdóttir. Búandi á Gili 1782. Hún var ekkja Þórarins Sigurðssonar bónda á Hlaðseyri 1780 og hefur flutzt að Gili eftir lát Þórarins (31. mars 1780), sennilega komið þangað, þegar Ólafur Erlingsson fluttist að Látrum. Hjá Helgu eru börn hennar:
Jón 26 ára.
Einar 17 ára.
Dýrvin 14 ára
Sigríður 9 ára.
Dóttursynir einars voru þeir Sigfreður Ólafsson bóndi í Stekkadal og Ólafur Ólafsson bóndi á Stökkum. Sjá Hlaðseyri.
1782
Jón Jónsson. Bóndi á Gili 1782. F. um 1738.
K. Kristrún, f. um 1740 Eyjólfsdóttir (líklega bóndi í Keflavík 1735 og á Grundum 1762), Jónssonar. Börn þeirra:
Halldór, f. um 1777, bóndi á Lambavatni 1808, í Gröf 1817.
Magnús líklega, f. um 1780, ekki á manntali 1801 og foreldrar ekki heldur.
um 1784
Þórður Bjarnason. ? Bóndi á Gili um 1784, síðar bóndi á Stökkum, sjá þar. Óvíst er um búskap Þórðar á gili. En samkvæmt kirkjubík er Ásbjörn sonur hans og Guðlaugar Jónsdóttur, f. á gili 23. mars 1784. Hann er bóndi á Lambavatni 1817, en þá sagður f. í Krókshúsum. Er því líklegt að þangað hafi foreldrar Ásbjörns flutzt frá Gili, er hann var kornungur, Þórður giftust í Saurbæjarsókn
1801
Sigurður Guðmundsson. Bóndi á Gili 1801. F. líklega á Gili 19. júní 1753, d. á Gili 1804 (skiftafundur haldinn 9. febr. þar ár). Foreldrar: Guðmundur Pálsson bóndi á Gili 1762 og k.h. Katrín Jónsdóttir.
K. Karitas, f. í tungu 7. okt. 1762 Eyjólfsdóttir bónda í Tungu 1762 Jónssonar. Karitas er á Gili 1808, í Stekkadal 1817, d. 18??. Einasta barn Sigurðar, sem lifað hefur, virðist hafa verið:
Bjarni, f. 1794, bóndi í Raknadal.
1801
Einar Eyjólfsson. Bóndi á Gili 1801. Bóndi í Tungu 1780, sjá þar.
um 1796-1821
Guðmundur Þorsteinsson. Bóndi á Gili 1801, 1808 og 1817. Hann hefur búið á Gili frá því um 1796 og til 1821 ? F. í Hesthúsum á Rauðasandi 25. febr. 1765, d. á Gili? 18??. Foreldrar: Þorsteinn Einarsson bóndi í Hesthúsum og k.h. Guðbjörg Máritsdóttir. Guðbjörg átti síðar Guðmund Jónsson, bónda á Sjöundá 1780.
K. Sigríður, f. 16. maí 1765 Bjarnadóttir bónda í Kvígindisdal Erlingssonar og k.h. Guðrúnar Bjarnadóttur. Sigríður dó 18??. Börn þeirra:
Þorsteinn, f. á Hlaðseyri 1795, á Gili
Bjarni, f. á Gili 1796, á gili 1817.
Helga, f. á Gili 1798, líklega dáin fyrir 1808.
Guðbjörg, f. á Gili 1801, er þar 1817.
1804-1811
Árni Bjarnason. Bóndi á Gili líklega 1804-1811. Árið 1801 er hann bóndi á Bakka í Tálknafirði. F. 22. ágúst 1762, d. á Gili 4. ágúst 1811. Foreldrar: Bjarni Erlingsson bóndi í Kvígindisdal og k.h. Guðrún Bjarnadóttir.
K. Sigríður eldri, f. á Gili 7. nóv. 1765, d. í tungu 1833, Steinsdóttir bónda á Grundum, Þorsteinssonar og f.k.h. Guðrúnar Össursdóttur, sem vafalaust hefur verið ein af systkinum Solveigar konu Sigurðar Jónssonar bónda í Breiðavík. Börn þeirra:
Kristín, f. í Sauðlauksdalssókn 1795, móðir Árna Jónssonar bónda í Hænuvík, seinni manns Ingibjargar Sigurðardóttur, ekkju Sigurðar Gíslasonar í Botni.
Einar, f. á Bakka í Tálknafirði 1799, bóndi í Tungu í Örlygshöfn.
Guðrún, f. á Bakka 1800, kona ólafs Árnasonar bónda í Botni í Patreksfirði.
1811-1814
Sigríður Steinsdóttir. Ekkja Árna Bjarnasonar, líklega búandi á Gili til vors 1811-1814.
1814-1843
Guðmundur Hákonarson. Bóndi á Gili 1814-1843. F. á Auðshaugi á Barðaströnd 1783, d. á Gili 14. ágúst 1843. Foreldrar: Hákon, f. um 1748, d. á Sellátranesi 29. júlí 1811 og f.k.h., sem ekki er kunnugt um nafn á. Seinni kona Hákonar hefur verið Þuríður Gísladóttir, móðir Bjarna Bjarnasonar bónda í Keflavík 1808, sjá þar. Hákon er vinnumaður á Geirseyri 1801, ekkjumaður, í 2. sinn í Keflavík 1808. Ekki hefur Hákon svo kunnugt sé eignast barn í hinu síðara hjónabandi, enda hefur Þuríður verið a.m.k. verið komin nokkuð á fimmtugs aldur, er þau giftust.
K. 11. okt. 1811, Anna, f. 1789 Jónsdóttir Thorbergs verzlunarstjóra á Patreksfirði. Anna var ekki hjónabandsbarn og ekki eru öruggar heimildir um móður hennar. Meðal afkomenda Önnu gengur sú sögn, að hún hafi heitið Guðrún, og verið ung í vist á heimili Jóns Thorbergs, sem þá hefur verið nýkvæntur, enda fæðist fyrsta barn hans, Sigríðar Þóroddsdóttur, á sama ári og Anna. Það var dóttir, sem Ingibjörg hét. Anna ólst upp í Tungu hjá Guðrúnu Pálsdóttur, sem gift var Þórði Hafliðasyni, en var orðin ekkja 1801. Þá eru á heimili hennar í Tungu: Guðrún, húsmóðirin, 57 ára, Guðbjörg dóttir hennar og Þórður, 32 ára og Anna 12 ára, sögð fósturdóttir húsmóður. Auk þess eru vinnumaður Eyjólfur Björnsson, 18 ára. Búið er lítið, enda er Guðrún ein af fjórum búendum í Tungu. Með því að ýmiskonar sannanlegur ruglingur er í sögnum þeim, er ég minntist á, hef ég ástæðu til að ætla að móðurnafn Önnu sé ranghermt. Ég hygg að amma hennar hafi heitið Guðrún og verið fyrrnefnd Guðrún Pálsdóttir í Tungu, en móðirin hafi verið Guðbjörg (Guðbjörg átti síðar Bjarna Bjarnason bónda í Keflavík 1808, sjá þar), dóttir hennar. Hún var fædd í Tungu 28. jan 1768, og hefu því verið annaðhvort 20 eða í mesta lagi 21 árs, þegar Anna Jónsdóttir fæddist. Þar til annað sennilegra kemur til sögunnar, held ég mér við það, sem hér segir um Önnu á Gili.
Þeim Guðmundi og Önnu varð 11 barna auðið. Elsta barnið fæddist á Sellátranesi, en öll hin á Gili:
Guðrún, f. 15. ágúst 1813. Hún var móðir Jóhanns Jónssonar bónda í Krókshúsum, síðar á Hnjóti (seinni manns Sigþrúðar Einarsdóttur).
Valgerður, f. 26. júní 1815, kona Ásbjörns Einarssonar bónda í Tungu.
Hákon, f. 24. apríl 1818, d. 20. júní 1818.
Guðmundur, f. 26. apríl 1820, faðir Ingimundar bónda í Breiðavík.
Hákon, f. 16. mars 1822, bóndi í Tungu.
Guðbjörg, f. 26. jan. 1824, kona Ólafs Ólafssonar bónda á Stökkum.
Anna, f. 29. maí 1825, d. 23. nóv. 1826.
Jón, f. 14. mars 1827, d. 27. ágúst 1828.
Anna, f. 26. júlí 1828, d. 12. des. 1828.
Ingibjörg, f. 14. jan. 1830, d. 19. sama mán.
Valgerður, f. 16. sept. 1832, kona Jóns Torfasonar bónda á Hnjóti.
1843-1844
Anna Jónsdóttir. Búandi á Gili 1843-1844. Ekkja fyrrnefnds Guðmundar Hákonarsonar, d. 7. des. 1868.
1824-1850
Jón Einarsson. Bóndi á Gili 1824-1850. Bóndi í Skápadal 1820-1823. F. á Vatneyri 1891, d. á Gili 8. maí 1850. Foreldrar: Einar Jónsson bóndi í Kollsvík og k.h. Guðrún Jónsdóttir bónda í Botni, Guðmundssonar.
K. 11. sept. 1819, Bergljót, f. 1897, d. 14. júlí 1863 Halldórsdóttir bónda í Botni Þorlákssonar. Þau eignuðust 12 börn:
Ingunn, f. í Skápadal 15. júlí 1820, Kona Halldórs Þorgrímssonar bónda á Láganúpi.
Bergljót, f. í Skápadal 3. júní 1822, d. í Stekkadal 3. apríl 1858, óg., en sonur hennar og Ólafs Magnússonar bónda á Brekku var Bergsveinn, f. 26. okt. 1854, drukknaði með Dagbjarti Gíslasyni 2. maí 1888.
Guðríður, f. í Skápadal 15. júní 1823, d. í Sauðlauksdal 13. júní 1856, óg. og bl.
Halldóra, f. 22. nóv. 1824, d. í Saurbæ 2. febr. 1897, kona Magnúsar Magnússonar bónda í Bröttuhlíð. Sonur Halldóru og Jóns Bjarnasonar, sem þá var kvæntur bóndi í Hænuvík, var Kjartan, faðir Magnúsar málarameistra í Hafnarfirði.
Júlíana, f. 1. des. 1826, d. 24. júlí 1827.
Júlíana, f. 22. júlí 1830, kona Gunnlaugs Björnssonar bónda á Grundum.
Hólmfríður, f. 29. ágúst 1831, d. 18. ágúst 1871, fyrri kona Guðmundar Bjarnasonar bónda í Tungu.
Þuríður, f. 1832, d. 30. apríl 1839.
Einar, f. 23. jan. 1834, d. 27. jan. 1898, bóndi á Mábergi.
Þorgrímur, f. 2. okt. 1835, d. 18. júlí 1837.
Margrét, f. 2, jan. 1838, d. í Breiðavík 20. mars 1859.
Kjartan, f. 15. ágúst 1839, d. 19. okt. 1839.
Áður en Jón Einarsson kvæntist átti hann dóttur:
Guðrún, f. 19. sept. 1808. Hún giftist föðurbróður sínum, Gísla Einarssyni, bónda í Kollsvík. Móðir Guðrúnar var Guðrún, f. 1787 Jónsdóttir, er síðar átti Þórð Jónsson bónda á Skógi Bjarnasonar.
Dætur Guðrúnar og Þórðar voru:
Margrét, kona Gunnlaugs Þorleifssonar bónda í Bröttuhlíð.
Þóra, kona Ólaf Þorgrímssonar bónda á Grundum.
1844-1848
Gísli Magnússon. Bóndi á Gili 1844-1848. Síðar bóndi á Hvalskeri, sjá þar.
1849-1856
Friðbert Gunnarsson. Bóndi á Gili 1849-1856, í Krókshúsum 1840-1842, í Skápadal 1842-1846, í Hænuvík 1846-1849. F. í Aðalvík N-Ís. 1816, d. í Tungu í Tálknafirði 16. mars 1870.
K. 8. sept. 1838 (Borlungarvík), Guðfinna, f. að Skerðingsstöðum í Reykhólsveit 13. sept. 1814, d. í Tungu í Tálknafirði 1871 Gísladóttir prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar og k.h. Sigríðar Magnúsdóttur. Börn þeirra:
Jón, f. í Sauðlauksdal 30. nóv. 1839, d. s.st. 7. des. 1839.
Guðmundur, f. í Skápadal 13. des. 1842, d. s.st. 22. sama mán.
Sigríður Lovísa, f. í Skápadal 8. nóv. 1844, d. í Bíldudal 29. maí 1902, kona Þórðar bónda í Tungu í Tálknafirði Jónssonar Sigurðssonar og Rannveigar Ólafsdóttur. Meðal barna þeirra voru: Gíslína móðir Lofts Bjarnasonar, útgerðarmanns í Hafnarfirði, Bjarni lengi skipstjóri á Patreksfirði og Guðmundur skipstjóri á Bíldudal.
Rebekka, f. í Hænuvík 28. júní 1846, d. að Uppsölum í Selárdal 11. júlí 1863
1851-1856
Einar Árnason. Bóndi á Gili 1851-1856. áður bóndi í Tungu, sjá þar.
1856-1878
Ásbjörn Ólafsson. Bóndi á Gili 1856-1878. Síðar bóndi á Láganúpi, sjá þar.
1856-1870
Hjálmar Jónsson. Bóndi á Gili 1856-1870, á Grundum 1852-1856, á Sellátranesi 1870-1872. F. 8. sept. 1822 í Hænuvík, d. á Sellátranesi 9. apríl 1883. Foreldrar: Jón Bjarnason, síðar bóndi í Hænuvík og Helga Einarsdóttir (giftust 3. okt. 1823).
K. 30. sept. 1849, Ingibjörg, f. í Raknadal 20. nóv. 1824, d. á Sellátranesi 24. apríl 1895 Bjarnadóttir bónda í Raknadal Sigurðssonar og k.h. Ingibjargar Gísladóttur. Börn þeirra:
Kristján, f. í Hænuvík 11. maí 1850, drukknaði er Vatnsdalsskipið fórst í Látralendingu 15. febr. 1876.
Pétur, f. í Hænuvík 4. júní 1851, bóndi á Sellátranesi.
Karólína, f. á Grundum 17. apríl 1853, s.k. Ívars Jónssonar í Hænuvík.
Dagbjört, f. á Gili 9. mars 1856, d. 27. ágúst 1864.
Ingibjörg, f. á Gili 21. maí 1858, var á Ísafirði eftir 1880 og átti dóttur með föður Ásgeirs konsúls Sigurðssonar. Hún fór til útlanda og mun hafa fengist þar við kaupsýslu.
Jón, f. á Gili 2. nóv. 1862, d. 6. sama mán.
Dagbjartur Jón f. á Gili 5. okt. 1864, fór til Glaskow 1891 til lækninga vegna lömunar eða máttleysis, dó þar litlu síðar.
Helga, f. á Gili 12. júlí 1867, fór til Skotlands með Dagbjarti bróður sínum og settist þar að.
1871-1884
Jóhann Jónsson. Bóndi á Gili 1871-1884, í Breiðavík 1860-1871. F. á Suðureyri í Tálknafirði 15. des. 1830, d. 1. maí 1897, drukknaði í Gjögrabót með Þórði Gunnlaugssyni o.fl. í áhlaupsveðri. Sama dag fórst fiskiskútan Vigga frá Geirseyri og voru á henni margir úr Rauðasandshreppi. Foreldrar: Jón Ólafsson, skipstjóri, bóndi á Geirseyri og Margrét Bjarnadóttir óg. vinnukona á Suðureyri. Jón var þá kvæntur.
K. 22. sept. 1860, Björg Hjálmarsdóttir bónda á Skógi, Sigmundssonar og f.k.h. Svanhildar Jónsdóttur. Börn þeirra (öll fædd í Breiðavík):
Svanhildur, f. 21. maí 1862, kona Guðfreðs Guðmundssonar bónda í Tungu. Sonur Svanhildar og Magnúsar Árnasonar bónda á Hnjóti bónda á Hnjóti var Jónas kennari á Patreksfirði, síðar sparisjóðsstjóri.
Þuríður, f. 21. maí 1863, d. á Patreksfirði 9. júní 1934, -giftist 1899 Gísla Guðmundssyni, bæði í Hringsdal, bl. Gísli dó á Patreksfirði.
Engilbert, f. 2. nóv. 1865, bóndi á Geitagili.
Jón, f. 1. ágúst 1867, bóndi í Hænuvík.
Guðbjörg, f. 28. ágúst 1868, d. 3. nóv. 1883.
Önnur börn Jóhanns á Gili voru þessi:
Með Arngerð Pálsdóttur, f. í Höfðadal 1825, Arngerður hvarf frá Vatnsdal 4. apríl 1886 og fannst ekki:
Jón, f. 26. mái 1854, d. 1. júní sama ár, foreldrarnir eru óg. hjú í Laugardal.
Kristján, f. á Geirseyri 20. okt. 1856, d. á Sellátranesi 6. sept. 1931, ókv. og bl., mállaus.
Með Kristínu Bjarnadóttur bónda á Hnjóti Halldórssonar og þ.k.h. Kristínar Ásbjörnsdóttur:
Bjarni, f. í Breiðavík 3. júní 1858, bóndi á Geitagili.
1884-1889
Bjarni Jóhannsson. Bóndi á Gili 1884-1889. F. í Breiðavík 3. júní 1858, d. á Láganúpi 9. maí 1892. Foreldrar (ógift): Jóhann Jónsson bóndi í Breiðavík og Kristín Bjarnadóttir bónda á Hnjóti, Halldórssonar og þ.k.h., Kristínar Ásbörnsdóttur.
K. 19. sept. 1885, Jónína Ásbjörnsdóttir bónda á Láganúpi Ólafssonar. Börn þeirra:
Kristbjörg, f. á Gili 2. okt. 1885, d. 9. sama mán.
Björg Halldóra, f. á Gili 10. okt. 1887, kona Helga Guðbrandssonar bónda á Sjöundá, síðar smiðs á Patreksfirði Eiríkssonar.
Hildur, f. á Láganúpi 14. febr. 1892, d. í Reykjavík í maí 1939, kona Magnúsar Kristjánssonar bónda á Hvalskeri.
1889-1897
Magnús Einarsson. Bóndi á Gili 1889-1897. F. í Sauðlauksdal 14. júlí 1868, drukknaði er Vigga fórst 1. maí 1897. Foreldrar: Einar Einarsson og Sigríður Magnúsdóttir bónda á Hvalskeri Einarssonar. Þau voru ógift, en Einar hafði verið kvæntur og var skilinn við konu sína, Ragnheiði Bjarnadóttur bónda í Kvígindisdal Bjarnasonar bónda í Tungu.
K. 11. okt. 1888, Bergljót Gunnlaugsdóttir bónda á Grundum Björnssonar. Börn þeirra:
Sigríður Júlíana, f. í Tungu 17. febr. 1887, giftist 3. mars 1922 Árna Magnússyni að Nýjabæ í Sandgerði.
Einar, f. í tungu 4. febr. 1889, togaraskipstjóri, drukknaði 8. febr. 1925, er togarinn Robertson fórst, kvæntur Ingibjörgu Gísladóttur Kristjánssonar.
Kristján, f. á Gili 24. ágúst 1890, drukknaði 23. febr. 1912, ókv. en átti son, Tryggva Lúðvík.
Gunnlaugur, f. á Gili okt. 1891, drukknaði 8. febr. 1925, var með Einari bróður sínum, ókv. og bl.
Júlíana, f. á Gili 14. júlí 1894, gift Guðmundi Axel Björnssyni, vélvirkja í Reykjavík.
Magnús, f. á Gili 21. des. 1895, d. 6. apríl 1896.
1878-1887
Magnús Sigurðsson. Bóndi á Gili 1878-1887. Áður bóndi á Láganúpi, sjá þar.
1887-1903
Jón Hjálmarsson. Bóndi á Gili 1887-1903. Bóndi á Hvalskeri 1886-1887. F. á Skógi 16. des. 1852, d. 22. sept. 1910 á Kóngsengi í Örlygshöfn (í Gils landi). Foreldrar: Hjálmar Sigmundsson bónda á Skógi og s.k.h. Guðrún Lýðsdóttir. (Sjá Kóngsengjar).
K. Sigríður, f. á Lambavatni 16. júní 1852, d. 31. jan. 1921 að Holti (Kóngsengjum). Bjarnadóttir bónda á Lambavatni Torfasonar. Sigríður var heitbundin Davíð Hinrikssyni, sem drukknaði í Látralendingu 15. febr. 1876. Síðar giftist hún Ólafi Ásbjörnssyni bónda í Tungu Einarssonar, en missti hann eftir stutta sambúð. Þau áttu son, sem dó ungbarn. Einkasonur Jóns og Sigríðar var:
Davíð, f. á Geirseyri 17. des. 1884, d. á sjúkrahúsi í Reykjavík 10. jan. 1930, kvæntur Andreu, f. á Vaðli á Barðaströnd 20. nóv. 1887 Andrésdóttur, alsystur Ólínu konu Ólafs Einarssonar í Vatnsdal. Davíð og Andrea eignuðust 6 börn (sjá Hænuvík). Sonur Davíðs og Elínar Ebenesersdóttur var Davíð bóndi á Sellátrum í Tálknafirði, f. 21. ágúst 1903.
1898-1906
Engilbert Jóhannsson (02.11.1865-08.11.1931). Bóndi á Gili (hluta) 1898-1906. Fluttist frá Gili að Hænuvík og var þar þurrabúðarmaður. F. í Breiðavík, foreldrar Jóhann Jónsson bóndi í Breiðavík og k.h. Björg Hjálmarsdóttir.
K. 9. okt. 1890, Sigríður Ásbjörnsdóttir (16.12.1856-05.01.1936) bónda á Láganúpi Ólafssonar. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. í Hænuvík 13. júní 1890, d. á Gili 13. mars 1904.
Bjarney, f. á Gili 17. ágúst 1892, dó ung í Vestmannaeyjum.
Albert, f. á Gili 4. jan. 1899, d. 20. júlí 1918, rotaðist er steinn kom á höfuð hans við sig í Látrabjargi.
Ingibjörg, f. á Gili 12. júlí 1900, d. 9. febr. 1904.
1903-1925
Guðjón Bjarnason (20.11.1865-05.11.1947). Bóndi á Gili 1903-1925, stundum í tvíbýli. Áður trésmiður á Patreksfirði, síðar í Reykjavík. F. á Helgastöðum í Biskupstungum, foreldrar: Bjarni Þóroddsson, f. 20. febr. 1833, d. á Gili 18. sept. 1914 og k.h. Sigríður í Efra Langholti 3. mars 1836 Jóhannsdóttir Einarssonar og k.h. Guðríðar Jónsdóttur.
K. 6. jan. 1890 (Reykjavík), Guðbjörg, f. á Lambastöðum í Hraunsókn (16.06.1862-08.05.1936) Brynjófsdóttir bónda í Hraunkrók og Kaldbak Guðnasonar og k.h. Kristrúnar Brandsdóttur. Börn þeirra:
Sigurbjörn, f. í Reykjavík (14.09.1891-18.04.1971), bóndi í Hænuvík, hreppstjóri, kvæntur Ólafíu Magnúsdóttur frá Hnjóti. Sjá Hænuvík.
Kristrún, f. í Reykjavík 18. okt. 1893, d. þar 1932, óg. og bl.
Bjarnveig Sigríður Steindóra, f. á Geirseyri (05.11.1896-14.07.1979), gift Guðmundi frá Korpólfsstöðum 29. nóv. 1894 Þorlákssyni. 6 börn.
Bryndís, f. á Geirseyri 20. febr. 1898, giftist 1920 Ármanni Guðfreðssyni frá Tungu, þau skildu. Giftist 1932 Guðbjarti Egilssyni frá Sjöundá. (Sjá Efri-Tunga)
María, f. á Geirseyri 12. okt. 1900, d. 2. des. 1902.
Ágústa, f. á Geirseyri (06.08.1902-06.08.1971), giftist 1926 Guðmundi Guðmundssyni prentara í Reykjvík. 3 börn.
Marínó, f. á Gili (18.08.1903-06.07.1979), trésmiður í Reykjavík, kvæntist 1932 Guðrúnu Helgu Theodórsdóttur frá Skálmholtshrauni í Villingaholtshreppi. 5 börn.
Alexander, f. á Gili (12.05.1905-27.12.1996), vélstjóri í Hafnarfirði, kvæntist 1930 Júlíu Sigurjónsdóttur. 4 börn.
1912-1914
Sigurður Jónsson. Bóndi á Gili 1912-1914. Síðar bóndi á Hnjóti, sjá þar.
1914-1923
Sigurbjörn Guðjónsson, kvæntur Ólafíu Magnúsdóttur. Bóndi á Gili 1914-1923, í sambýli við föður sinn, síðar bóndi í Hænuvík, sjá þar.
1923-1925
Ármann Guðfreðsson, kvæntur Bryndísi Guðjónsdóttur. Bóndi á Gili 1923-1925, búsettur í Holti (Kóngsengjum). Ármann bjó síðar 1 ár í Efri Tungu, sjá þar.
1927-1928
Níels Björnsson. Bóndi á Gili 1927-1928. Fyrrum bóndi á Naustabrekku, sjá þar. Níels keypti hálfa jörðina af Helga S. Einarssyni 1926 en seldi hana strax Einari M. Jónassyni sýslumanni á Patreksfirði, sem lét nytja hana 1928-1929, en stóð ekki við kaupsamninginn, svo Níels rifti honum.
1925-1950
Helgi Sigurvin Einarsson (16.09.1895-27.05.1988). Bóndi á Gili 1925-1950; áður bóndi á Leiti og parti úr Efri-Tungu. Fluttist síðar á Patreksfjörð. F. í Hænuvík, sonur Einars bónda í Hænuvík Guðmundssonar og k.h. Ingveldar Jónsdóttur bónda í Hænuvík Sigurðssonar.
K. 31. okt. 1925, Guðmunda Helga, f. í Holti í Selárdalssókn (31.10.1889-07.09.1945) Guðmundsdóttir Eggertssonar bónda í Saurbæ, Magnússonar. Börn þerra:
Ingi, f. að Kollafirði í Kjósarsýslu 30. okt. 1919, d. 5. des. 1943, varð fyrir slysi á togara úti fyrir Vestfjörðum lézt er togarinn átti skammt eftir inn til Flateyrar.
Einar Ingimar, f. á Gili (11.08.1926-21.11.1999), búfræðingur frá Hvanneyri. Ingiríður Hansína Kristmundsdóttir. 7 börn.
Helga Hólm, f. á Gili 04.06.1928, kennari, gift Ara kennara Gíslasyni. 2 börn.
Davíð Jóhannes, f. á Gili (29.05.1930-08.04.2005). Brynja Sigurðardóttir. 5 börn.
1930-1962
Ingvar Þórður Ásgeirsson (30.03.1890-11.12.1977). Bóndi á Gili frá 1930, í Keflavík 1923-1930. F. að Miðhúsum í Mýrarsýslu. Múrari áður en hann hóf búskap.
K. 30. okt 1915, Bjarney Valgerður, f. í Keflavík (01.11.1885-27.11.1960) Ólafsdóttir bónda í Hænuvík Guðbjartssonar og k.h. Guðrúnar jósdóttur frá Keflavík. Börn þeirra:
Sigríður Ólafía, f. í Reykjavík (08.06.1916-09.06.1916).
Sigurjón, f. í Reykjavík 9. jan. 1918, d. 24 ágúst 1942, varð fyrir skoti þýskrar flugvélar á togaranum Verði úti fyrir Vestfjörðum.
Ásta Sigríður, f. í Reykjavík (09.05.1919-06.08.2005). Gunnar Helgi Ólafsson.
Þorvaldur Keran Stueland, f. í Reykjavík (14.09.1920-28.08.1962). Smiður.
Guðrún Ástríður, f. í Hænuvík (16.02.1923-11.05.2007), var gift Sigurði Ólafssyni og búsett í Reykjavík. 3 börn.
Ásta Jónína, f. í Keflavík (06.11.1926-28.08.2016), kona Hjartar Skúlasonar bónda á Gili; síðar í Sauðlauksdal og Stökkum (sjá þar).
Óli Ágúst, f. í Keflavík (01.08.1928-10.12.1999). Bóndi á Geitagili; sjá hér á eftir.
1950-1959
Hjörtur Ágúst Skúlason (11.09.1917-12.07.1998). Bóndi á Gili síðan 1950. F. á Patreksfirði; foreldrar: Skúli, f. á Borðeyri 15. ágúst 1887 Hjartarson, sjómaður á Patreksfirði og k.h. Ingibjörg, f. á Sjöundá Eiríkssonar.
K, Ásta Jónína Ingvarsdóttir bónda á Gili Ásgeirssonar (sjá hér að ofan). Á þessum tíma var tvíbýlt á Gili og Hjörtur og Jónína bjuggu á Geitagili fremra. (Nánar um þeirra fjölskyldu; sjá Stakkar).
1959-1999
Óli Ágúst Ingvarsson (01.08.1928-10.12.1999) Ásgeirssonar á Gili (sjá hér framar). Bjó á Geitagili neðra meðan tvíbýlt var, en eftir það á allri jörðinni. Stundaði grásleppuútgerð í félagi við Ólaf Sveinsson á Sellátranesi. Lengi í hreppsnefnd Rauðasandshrepps.
K. Valgerður Guðlaug Jónsdóttir (13.09.1939-12.02.2010). Hún hafði áður átt drengi með Gunnsteini Elímundi Kjartanssyni, sem ólust upp hjá þeim á Geitagili:
Jón Ingi Gunnsteinsson f. 04.09.1958. Vélstjóri. Var í sambúð með Sirivan Mekavipata.
Kjartan Gunnsteinsson f. 04.09.1959. Tæknifræðingur. Unnur Berglind Svavarsdóttir. 3 börn.
Börn Óla og Valgerðar:
Keran Stueland f. 18.07.1966. Bóndi á Geitagili (sjá hér á eftir).
Þórey f. 04.09.1959. Ómar Ólafsson. 2 börn.
1988-
Keran Stueland Ólason f. 18.07.1966, Ingvarssonar á Geitagili (sjá hér á undan). Bjó félagsbúi við föður sinn og tók við búinu eftir fráfall hans. Þau Birna hafa setið í Breiðavík (sjá þar) og á Patreksfirði frá 1999 og höfðu bú á báðum stöðum til 2011, þegar þau hættu búskap og sneru sér alfarið að ferðaþjónustu.
K. Birna Mjöll Atladóttir f. 10.07.1960. Hótelstjóri í Breiðavík.
Fyrir átti Birna son með Rafni Gíslasyni:
Atli Snær f. 05.12.1982. Íris Dögg Rúnarsdóttir (sjá N-Tunga). 1 barn.
Fyrir átti Keran tvíbura með Katrínu Pétursdóttur Mikkelsen:
Óli Ásgeir Stueland f. 16.12.1985. Sigrún Óskarsdóttir. 1 barn.
Ingþór Stueland f 16.12.1985.
Dóttir Kerans og Birnu Mjallar:
Maggý Hjördís f. 07.04.1992.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki 20 hdr. Eigandinn biskupinn mag. Björn Thorleifsson, en hans umboðsmaður hústrú Guðrún Eggertsdóttir að Bæ á Rauðasandi. Ábúandinn, Guðmundur Gunnlaugsson býr á 10 hdr. Annar, Ari Gíslason býr á 10 hdr. Landskyld af allri jörðinni 1 hdr 60 álnir so lengi menn minnast…. Húsum hjá Guðmundi viðheldur umboðsmaður að viðum. En Ari skal bæta hús ef getur og vera þar fyrir frí um hálfa kvöðina, sem er skipsáróður.
Leigukúgildi með allri jörðinni 8, jafnmörg hjá hvörjum. Leigur gjaldast í smjörum heim til umboðsmanns, ella leysast á saman hátt sem um landskyld segir. Kúgildin hjá Guðmundi uppbætir umboðsmaður. En Ari skal ýngja upp er fetur, og vera þar með frí umhálfa kvöðina. Kvaðir eru formennska af Guðmundi í Láganúpsveri, og fær hann að auk í formannskaup dasfiski; það er höfuð og slóg af öllum skiphlutnum. En Ari kvittar kvöðina sem áður segir.
Kvikfjenaðurinn hjá Guðmundi 3 kýr, og 1 veturgamall kálfur, ær 12, geldir sauðir 2, veturgamlir 8, 2 hross. Hjá Ara 4 kýr, 1 kvíga þrevetur, 1 veturgömul kvíga, ær 15, geldir sauðir 5, gemlingar 9, 2 hross. Heimilismenn Guðmundar 6, Ara 12.
Túnin fordjarfast mjög af frostum, síðan hallærið óx, því jörðin liggur mjög við norðri. N fjall að ofan hindrar sólar hlýindi, og er því túnið til stórskemmda kalið, því grjót er undir og grunt jarðmegn. Engið fordjarfast af sjáar ágangi. Engin festifjara fyrir landi. Selveiði má vera móts við Túngumenn, og legst þó frá síðan minkaði fiskigang. Kirkjuvegur hættur yfir ófæru múla. Heimræði ekki nema um hásumar og haust, en lendíng hætt og brimsöm og alls ófær um fjöru. Skriða spillti högunum fyrir þrem árum. Ari á bátskip sem gengur um vertíð í Láganúpsveri, en heima um sumar og hausttíma”.
Þríbýli var á Hnjóti í upphafi 20.aldar, og auk þess var þurrabúðin Hnjótshólar sem fór í eyði 1921. Enn var fjórbýli þar 1930, en tvíbýlt frá 1933 til 1968. Heimarafstöð var sett upp 1930; stækkuð 1967.
Minjasafn Egils Ólafssonar Egill Ólafsson (sjá síðar) var alla ævi áhugasamur um söfnun muna og fróðleiks varðandi sögu svæðisins. Fyrir hans forgöngu og skilning hefur margt slíkt bjargast sem annars væri farið í glatkistuna. Lengi vel hafði hann herbergi á efri hæð íbúðarhúss sem hann byggði, þar sem gestum bauðst að skoða muni. Árið 1983 var opnað á Hnjóti veglegt Minjasafn í hans nafni, en þá hafði hann gefið hreppunum í V- Barðastrandasýslu safn sitt. Fyrri áfangi safnhússins var teiknaður af Magnúsi Gestssyni kennara, sem liðsinnti Agli töluvert um skráningu muna; en byggt undir stjórn Gunnars Össurarsonar. Frá 1999 hefur verið starfandi sérstakur safstjóri við safnið, og það hefur verið stækkað. Egill hafði einnig í hyggju stofnun flugminjasafns á Hnjóti og viðaði að sér ýmsu til þess; m.a. stóru flugskýli úr Vatnagörðum í Reykjavík. Minjasafnið á Hnjóti er núna vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Þar er veitingasala.
1570
Jón stóri (Jónsson). Bóndi á Hnjóti 1570. Hann virðist hafa verið fæddur um 1525. Talað er um brullaupsskatt sonar stóra Jóns. Næsta ár er á Hnjóri Þorsteinn sonur stóra Jóns og er það líklega sá sem kvænst hefur árið áður.
1571
Þorsteinn Jónsson. Hann er nefndur 1571 og hefur þá líklega búið á einhverjum hluta jarðarinnar.
1570 og 1571
Jón Helguson. Hann er talinn bóndi á Hnjóti 1570 og 1571.
Guðmundur Jónsson. Hann er í ættartölum talinn á Hnjóti. Hefur verið fæddur um eða fyrir 1600. Jón faðir Guðmundar er talinn bróðir Odds Jónssonar í Kollsvík.
K. Steinunn Jónsdóttir Jónssonar og Ólafar Gottskálksdóttur Sturlusonar á Geirseyri. Meðal barna þeirra var:
Jón, f. um 1632, bóndi í Tungu 1703, kvæntur Hergerði Jónsdóttur.
Önnur börn þeirra eru talin:
Þorsteinn, drukknaði í mannskaðabyl 1665.
Jón „pretin“ drukknaði einnig 1665.
Guðrún, veik og ei til giftingar.
Ásdís stóra, kumluð og veik og giftist ekki.
Þorgerður, „óviðfeldin og ei til giftingar“.
Sigríður í Kvígindisdal, s.k. séra Þorbjörns Einarssonar í Rauðasandsþingum, sem dó 1673, bl.
Jón Guðmundsson. Fyrrnefndur J.G., sem býr í Tungu 1703, er í ættartölum sagður á Hnjóti. Hann kann því að hafa búið þar áður en hann fór að Tungu.
1703
Ari Gíslason. Bóndi á Hnjóti 1703. F. um 1664.
K. líklega um 1690, Guðrún, f. um 1664 Ívarsdóttir. Börn þeirra:
Þórunn 11 ára.
Oddný 10 ára.
Steinunn 9 ára.
Gísli 3 ára.
Etilríður 2 ára.
Sonur þeirra f. eftir manntalið 1703 hefur verið:
Þórður faðir Sigmundar, sem f. var um 1735, d. á Barðaströnd 1792, föður Guðmundar eldri og yngri, sem voru kunnir bændur á Barðaströnd. Guðmundur eldri, sem kallaður var jarðyrkjumaður og bjó í Litluhlíð, var f. í Rauðassandshreppi 1759.
1703
Guðmundur Gunnlaugsson. Bóndi á Hnjóti 1703. F. um 1652.
K. Guðrún, f. um 1652 Höskuldsdóttir. Engin börn eru hjá þeim 1703 og óvíst, hvort þau hafa átt nokkur.
1735
Jón Diðriksson. Bóndi á Hnjóti 1735. Þetta mun vera talinn sá Jón Diðriksson, sem býr í Keflavík við manntalið 1703, sjá þar, en hefur farið þaðan þá um vorið. Ekki er hann þó talinn meðal bænda þegar jarðabókin er samin.
1735
Jón Jónsson. Bóndi á Hnjóti 1735. Hann gæti verið dóttursonur Jóns Guðmundssonar bónda í Tungu 1703, er þá talinn 11 ára, eða sonur Jóns bónda í Vatnsdal 1703, þá 11 ára. Einnig er þá til Jón Jónsson 7 ára, bónda sonur á Skeri.
um 1740-1767
Magnús Þorvarðsson. Bóndi á Hnjóti 1762. Ekki er kunnugt um, að Magnús hafi búið annarsstaðar en á Hnjóti. Kann hann því að hafa búið þar frá því að hann kvæntist, sem varla hefur verið síðar en um 1740 og til dauðadags 1767. F. um 1709, d. á Hnjóti 15. jan 1767. Foreldrar: Þorvarður Magnússon prestur í Sauðlauksdal og k.h. Bergljót Gísladóttir prests á Helgafelli, Einarssonar.
K. Vigdís, f. um 1714, d. milli 1786 og 1801 Þórðardóttir lrm. Bónda á Haukabergi Jónssonar bónda í Breiðavík 1703 Bjarnasonar. Systir Vigdísar var Sigríður kona Gunnlaugs Gíslasonar bónda í Raknadal. Börn þeirra eru í kirkjubók sögð hafa verið 16 alls, en eftir að kirkjubók byrjar 1750 koma fyrir nöfn 10 barna Magnúsar. Sex barnanna virðast því hafa dáið ung og eigi síðar en 1752, því að þá er farið að nefna nöfn hinna látnu. Eitthvað hefur þó getað fallið úr eftir þann tíma. Nöfn þessara barna eru kunn:
Einar, f. um 1747, bóndi á Hnjóti 1780.
Ingibjörg, f. um 1747, kona Péturs Jónssonar bónda á Sellátranesi.
Sigríður, f. um 1750, kona Ólafs Erlingssonar bónda á Látrum 1782.
Þorvarður, f. 12. jan. 1754, drukknaði ásamt þremur bræðrum sínum 19. maí 1781, ókv. og bl.
Bergljót, f. 26. ágúst 1756, kona Þórðar Gunnlaugssonar bónda á Hnjóti.
Þórður, f. 25. jan. 1761, drukknaði 19. maí 1781.
Ólafur, f. 1. júlí 1762, drukknaði 19. maí 1781.
Magnús, f. 1855, dó sama ár.
Birgitta, f. 1764, d. 1765.
Frásögn um drukknun þeirra Hnjótsbræðra er til eftir Gísla Konráðsson. Þegar Magnús Þorvaldsson dó, er hann sagður „valinkunnur sæmdarmaður. Átti 15 börn með sömu konu, lifa 7.“
1767-1781
Vigdís Þórðardóttir. Búandi á Hnjóti 1767-1781. Ekkja Magnúsar Þorvarðssonar, fyrrnefnds bónda á Hnjóti. Hún er lausakona í Tungu 1782 og hjá henni er sonardóttir hennar Ragnheiður Einarsdóttir, sem varð fyrsta kona Bjarna Halldórssonar bónda á Hnjóti.
um 1773-1781
Einar Magnússon. Bóndi á Hnjóti 1780. Hefur vafalaust búið þar frá því að hann kvæntist 1773 og þar til hann drukknaði ásamt bræðrum sínum þremur 19. maí 1781. F. um 1747, sonur fyrrnefnds Magnúsar Þorvarðssonar bónda á Hnjóti. Auk Einars drukknuðu 7, voru á tveim bátum, er báðir týndust. Talið var að minni báturinn hafi verið um skeið aftan í þeim stærri, en skorinn hafi verið frá er veðrið versnaði.
K. 1773, Sigríður Ólafsdóttir bónda í Vatnsdal Ásbjörnssonar, f. 1749, d. 18. nóv. 1776. Einkadóttir þeirra var:
Ragnheiður, f. á Hnjóti 31. okt. 1775, kona Bjarna Halldórssonar bónda á Hnjóti.
1781-um 1805
Þórður Gunnlaugsson. Bóndi á Hnjóti 1781-um 1805. Bóndi í Kollsvík 1780, hefur búið þar fáein ár. F. um 1748, d. fyrir 1807. Foreldrar: Gunnlaugur Gíslason bóndi í Raknadal og k.h. Sigríður Þórðardóttir.
K. 1776, Bergljót, f. 26. ágúst 1756 Magnúsdóttir bónda á Hnjóti Þorvarðssonar. Börn þeirra, sem um er kunnugt, voru 9 alls:
Magnús, f. í Raknadal 23. apríl 1777, (d. 31. okt. 1846 Nesi 65 ára) í Kvígindisdal 1817, ókv. og bl.
Gísli, dó ungbarn.
Guðrún, dó ungbarn.
Þórður, dó ungbarn. Þessi þrju fæddust og dóu á árunum 1779-1784.
Bergljót, d. 30. nóv. 1806, 20 ára.
Kristín, f. 1792, á Látrum 1808, vantar 1817.
Ásbjörn, f. 1796, Vatneyri 1808, vantar 1817.
Jón, f. 1799, Stekkadal 1817, kvæntist Þóru Magnúsdóttur bónda á Melanesi, Halldórssonar. Sonur þeirra var Magnús bóndi á Melanesi, síðar frystihússtjóri á Geirseyri.
Þórður, f. 1800, Látrum 1817.
Ókunnugt um afkomendur nema frá Jóni
1782-1786
Þórður Gíslason. Bóndi á Hnjóti 1782-1786. F. um 1756, d. 4. jan. 1786 á Hnjóti. Foreldrar: Gísli Jónsson bóndi á Klefum á Selströn og f.k.h. Þuríður Jósdóttir Sigurðssonar. Faðir Gísla á Kleifum var Jón Þórðarson prestur á Söndum í Dýrafirði, en k.h. og móðir Gísla var Kristín Einarsdóttir frá Hreggstöðum á Barðaströnd Gunnlaugssonar.
K. Ólöf Ólafsdóttir sýslumanns í Haga Árnasonar og Sigríðar Pálsdóttur bónda á Kletti í Gufudalssveit Grímssonar. Börn þeirra:
Rannveig, f. á Barðaströnd? Um 17??, giftist Jóni Einarssyni Þorvaldssonar bónda í Miðhlíð á Barðaströnd, Einarssonar. Sonur þeirra var Ólafur bóndi á Hamri á Hjarðarnesi, d. 13. ágúst 1849, en dóttir hans var Jóhanna búandi í Skápadal um 1880.
Guðrún, f. á Hnjóti 12. sept. 1883.
1801
Tómas Þórðarson. Bóndi á Hnjóti 1801, í Tungu 1808, á Grundum 1817, sjá þar. Eftir því sem sagt er um fæðingarstað barnanna 1817, hefði Tómas aðeins getað verið 1-2 ár á Hnjóti. Öll börnin eru sögð f. í Tungu.
um 1803-1819
Bjarni Halldórsson. Bóndi á Hnjóti 1808 og 1817. Bjarni er á Hvalskeri 1801 og þar er sagður fæddur sonur hans, Bjarni, sem er 7 ára 1808 og 16 ára 1817, f. 1801. Einnig er Ingibjörg, sem er næsta barn, sögð fædd á Skeri, en hún er talin 5 ára 1808 og 15 ára 1817. Hún mun því vera fædd, annaðhvort 1802 eða 1803. Bjarni hefði því getað komið að Hnjóti um 1803 og er þar til ársins 1819, að öllum líkindum. Fer þá að Sellátranesi og býr þar til 1827, en síðan í Hænuvík til dauðadags. F. á Skógi á Rauðasandi 25. júní 1779, d. í Hænuvík 18. ágúst 1843. Foreldrar (ógift): Halldór, f. um 1728, húsmaður í Gröf 1780 Jónsson og Guðríður Guðmundsdóttir bónda á Skógi Ólafssonar, en hún átti síðar Þorgrím Jónsson bónda á Hvalskeri. Bjarni var þríkvæntur.
K. I Ragnheiður, f. 1775 Einarsdóttir bónda á Hnjóti Magnússonar og k.h. Sigríðar Ólafsdóttur. Börn þeirra:
Bjarni, f. á Hvalskeri 1801, bóndi í Kvígindisdal.
Ingibjörg, f. á Hvalskeri 1803.
Vigdís, f. á Hnjóti 7. ágúst 1807, kona Halldórs Bjarnasonar bónda á Sellátranesi.
Guðríður, f. á Hnjóti 1808, kona Magnúsar Einarssonar bónda á Hvalskeri.
andvana drengur, f. 7. okt. 1813.
K. II 23. sept. 1827, Ingibjörg Árnadóttir ekkja Ásbjörns Þórðarsonar bónda á Lambavatni. D. 13. sept. 1830. Börn þeirra:
Ingimundur, f. í Hænuvík 14. sept. 1826, d. 25. sama mán.
Guðmundur, f. í Hænuvík 5. mars 1828, bóndi í Tungu.
Ástríður, f. í Hænuvík 5. ágúst 1830, d. 19. nóv. sama ár.
K. III 6. okt. 1832, Kristín, f. á Hnjóti 9. nóv. 1810 (d. í Tungu 29. jan. 1880) Ásbjörnsdóttir, síðar bónda á Lambavatni, Þórðarsonar og Kristínar Ásbjörnsdóttur bónda í Breiðavík, Össurssonar. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. í Hænuvík 19. febr. 1832, kona Benjamíns magnússonar bónda í Bröttuhlíð.
Kristín, f. í Hænuvík 3. des. 1834, kona Guðfinns Hjaltasonar. Þau giftust 1866 og eru þá bæði vinnuhjú á Látrum. Fluttust 1868 frá Látrum í Geiradal. Börn þeirra voru: Bjartmar, d. á Patreksfirði 11. sept. 1950, ókv. og bl., María (tvíburi Bjartmars), f. 23. apríl 1866, átti tvö börn, sem dóu ung, með Guðfreði Guðmundssyni í Tungu. Halldór, f. á Látrum 24. sept. 1867, fermdur 1882, er þá á Bakka í Geiradal. Klásína, f. í Múla í Garpsdalssókn 20. nóv. 1868, fermd 1882, er þá á Litlu Brekku. Kristján, f. í Múla 14. jan. 1870, fermdur 1884, er þá á Kleifum hjá Ólafi Eggertssyni. Sólrún, f. í Garpsdalssókn 1775, dó sama ár. Guðfinnur var f. á Ingunnarstöðum í Geiradal 17. ágúst 1836. Foreldrar hans voru: Hjalti, f. um 1786 Bjarnason bónda og hreppstjóra á Tindum í Geiradal 1801 Oddsonar og k.h. Kristín Ólafsdóttir bónda á Látrum Jónssonar. Kristín var áður gift Jóni Þórðarsyni bóndi í Krókshúsum 1821, er drukknaði það vor með Gunnlaugi Jónssyni, þá bónda á Mábergi. Dóttir Hjalta og Kristínar var Þórdís, móðir Guðjóns Brynjófssonar bónda á Melanesi. Sonur Kristínar Bjarnasóttur, áður en hún giftist, var Bjarni Jóhannsson bóndi á Geitagili.
1819-1821
Halldór Þorláksson. Bóndi á Hnjóti 1819-1821, áður bóndi í Botni, sjá þar. D. 27. okt. 1821. Ingunn kona hans d. 5. nóv. 1821, en heimilinu var haldið saman til næsta vors. Bústýra var Guðrún Grímsdóttir, 52 ára, en fyrirvinna var Hjalti Hasaelsson, 25 ára. Hjalti bjó síðar í Breiðavík og á Hnjóti. Guðrún var dóttir Gríms Jónssonar bónda í Stekkadal, óg. vinnukona í Botni 1817.
1822-1839
Einar Einarsson. Bóndi á Hnjóti 1822-1839, síðar bóndi á Láganúpi í Vatnsdal, sjá þar.
1839-1840
Helga Einarsdóttir. Búandi á Hnjóti 1839-1840 og 1843-1860. Fluttist þangað, er hún var orðin ekkja á Láganúpi, en Einar, sem var bróðir hennar, fluttist þangað frá Hnjóti.
1840-1843
Þorgrímur Þorgrímsson. Bóndi á Hnjóti 1840-1843. Hann var seinni maður fyrrnefndrar Helgu Einarsdóttur. F. í Stekkadal 1813, d. á Hnjóti 1843. Faðir hans var Þorgrímur Sigurðsson, síðar bóndi í Breiðavík, en ekki er víst, hver móðir hans var.
K. 2. okt. 1840, Helga Einarsdóttir, þau bl.
1833-1844
Hjalti Hasaelsson. Bóndi á Hnjóti 1833-1844, fyrst 1833-1840 á svonefndri Kryppu, en 1840-1844 á 10 hdr. úr heimajörðinni. Kryppa hefur verið nýræktarbýli í Hnjótslandi og eigi kunnugt um annan, er þar hafi búið, en Hjalta. Hjalti bjó áður í Breiðavík í nokkur ár, fluttist frá Hnjóti að Vatneyri en þaðan norður í Arnarfjörð. F. um 1804, d. á Laugabóli í Rafnseyrarsókn 14. júní 1863. Foreldrar: Hasael, f. um 1765 Jónsson bónda í Gröf í Þorskafirði Jónssonar og Björg Jónsdóttir, ógift.
K. 1823, Gunnhildur, f. á Melanesi um 1803, d. á Laugabóli í Arnarfirði 10. des. 1863 Bjarnadóttir bónda í Breiðavík, Stefánssonar. Börn þeirra:
Jóhannes, f. í Breiðavík 9. ágúst 1824, timburmaður, kvæntur 24. sept. 1859, þá í Feigsdal, Jóhönnu Jael Jónsdóttur. Sonur þeirra Jens Jóhann, f. 1860.
Kristján, f. í Breiðavík 2. febr. 1826, kvæntur Kristjönu Ólafsdóttur. Hún dó 1872. Börn Kristjáns með öðrum konum voru: Kristjana, f. á Patreksfirði 1. jan. 1854, giftist ?? Hjaltalín. Búsett í ?? Móðir hennar var Guðrún, f. um 1828, Aradóttir. Jarþrúður Sigurborg, f. 1876. Fluttist með foreldrum sínum frá Bíldudal ? að Vatneyri 1881, Olgeir, f. á Vatneyri 21. júlí 1884, skósmíðameistari í Stykkishólmi, kvæntur Unu Guðmundsdóttur. Meðal barna þeirra er Sigríður kona Trausta verzlunarmanns á Patreksfirði Árnasonar bónda á Hnjóti Magnússonar. Móðir Jarþrúðar og Olgeirs var Sigurfljóð, f. um 1853 Ólafsdóttir. Hún fluttist 1885 frá Vatneyri norður í Dýrafjörð, ásamt fyrrnefndri dóttur.
Ingibjörg, f. á Hnjóti 24. febr. 1835, kona (6. okt. 1860) Jóhanns, d. 6. júní 1805 Friðrikssonar bókbindara í Flatey.
Halldór, f. á Vatneyri 28. okt. 1846, dó ungbarn.
1844-1845
Torfi Bjarnason. Bóndi á Hnjóti 1844-1845. D. 26. júlí 1845, áður bóndi á Naustabrekku, sjá þar.
1845-1852
Solveig Bjarnadóttir. Búandi á Hnjóti 1845-1852, ekkja fyrrnefnds Torfa Bjarnsonar.
1848-1849
Bjarni Torfason. Bóndi á Hnjóti 1848-1849. Hafði 5 hdr. af þeim 10 hdr., sem móðir hans bjó á áður. Síðar bóndi á Lambavatni, sjá þar.
1852-1882
Jón Torfason. Bóndi á Hnjóti 1852-1882 og 1885-1890. Hann hætti um tíma búskap, er Guðbjartur sonur hans tók við jörðinni 1882, en tók aftur tæp 2 hdr. 1885 og bjó á tæpum 5 hdr. 1886-1890. F. á Brekku 20. jan. 1825, d. í Kollsvík 2. nóv. 1900. Foreldrar: Torfi Bjarnason bóndi á Naustabrekku og k.h. Solveig Bjarnadóttir.
K. 8. okt. 1853, Valgerður, f. 16. sept. 1832, d. á Láganúpi 19. júlí 1921 Guðmundsdóttir á Geitagili Hákonarsonar og k.h. Önnu Jónsdóttur Torbergs verzlunarstjóra á Patreksfirði. Börn þeirra:
Jón, d. á 1. ári 4. júní 1854.
Kristrún, f. 2. maí 1855, kona Péturs Hjálmarssonar bónda á Sellátranesi.
Torfi, f 1. júlí 1857, bóndi í Kollsvík.
Guðbjartur, f. 1. okt. 1858, bóndi á Hnjóti, síðar í Breiðavík, sjá þar.
Andrés, f. 4 ára7. okt. 1864.
Andrés, f. d. á 2. ári 24. maí 1866.
Hákon, f. 31. maí 1869, bóndi á Hnjóti.
Anna, f. 22. maí 1872, kona Össurs Guðbjartssonar bónda í Kollsvík.
Jóna Valgerður, f. 31. jan. 1878, kona Jóns Jónssonar bónda í Tungu.
Sonur Jóns Torfasonar og Sigríður Kristjánsdóttir var:
Guðmundur, f. á Hnjóti 1. okt. 1850, drukknaði, er Vatnsdalsskipið fórst á Látrum 15. febr. 1876, ókv. og bl.
1882-1886
Guðbjartur Torfason. Bóndi á Hnjóti 1882-1886, síðar bóndi í Breiðavík, sjá þar.
1849-1850
Hákon Guðmundsson. Bóndi á Hnjóti 1849-1850. Bjó á 3 hdr. Síðar bóndi á Grundum og í Tungu, sjá þar.
1860-1882
Einar Ólafsson. Bóndi á Hnjóti 1860-1882. F. á Láganúpi 9. des. 1831, d. á hnjóti 3. ágúst 1882. Foreldrar: Ólafur Ásbjörnsson bónda á Láganúpi og k.h. Helga Einarsdóttir, síðar búandi á Hnjóti. Einar tok við jörðinni þegar móðir hans lét af búskap.
K. 29. sept. 1858, Jóhanna, f. á Grundum 10. ágúst 1830 Sigurðardóttir bónda á Grundum Jónssonar. Börn þeirra:
Ingveldur, f. 21. jan. 1859, d. 26. sama mán.
Helga, f. 21. júní 1861, d. 20. júlí 1865.
Sigurður, f. 14. maí 1864, drukknaði, er fiskiskútan Vigga fórst 1. maí 1897, bjó með Amalíu Þorsteinsdóttur bónda á Hlaseyri Þorsteinssonar. Þau eignuðust tvær dætur, Sigríði Sólborgu og Jóhönnu Sæunni.
Helgi, f. 21. mars 1866, bóndi í Skápadal.
Jón, f. 30. nóv. 1869, bjó með Ingveldi Jónsdóttur bónda í Hænuvík, Sigurðssonar, eignuðust tvær dætur.
1882-1892
Brandur Árnason. Bóndi á Hnjóti 1882-1892. F. í Hænuvík 25. apríl 1854, d. á Hnjóti 30. apríl 1892. Foreldrar: Árni Pálsson bóndi í Hænuvík og k.h. Ingibjörg Ólafsdóttir.
K. 15. okt. 1879, Sigþrúður, f. í Sauðlauksdal 30. maí 1855, d. á Hnjóti 2. júlí 1922 Einarsdóttir Einarssonar bónda í Vatnsdal, Einarssonar og Gróu Gísladóttur. Börn þeirra:
Gróa, f. í Sauðlauksdal (29.07.1881-11.12.1940)1, kona Ólafs Péturssonar bónda á Sellátranesi.
Ingibjörg, f. 4. jan. 1885, d. á Vífilsstöðum 4. ágúst 1926, hjúkrunarkona þar óg. og bl.
Árni, f. 21. júlí 1890, fluttist til Kanada 1910, kvæntist þar 1917 konu af íslenskum ættum. Eiga tvær dætur, giftar.
1892-1896
Sigþrúður Einarsdóttir. Búandi á Hnjóti 1892-1896, 1897-1899 og 1921-1922. Ekkja fyrrnefnds Brands Árnasonar. Sigþrúður giftist aftur Jóhanni Jónssyni, sjá hér á eftir.
1896-1897
Jóhann Jónsson. Bóndi á Hnjóti 1896-1897, d. 15. júlí 1897. Áður bóndi í Krókshúsum, sjá þar.
K. Sigþrúður Einarsdóttir, f. í Sauðlauksdal 30. maí 1855, d. á Hnjóti 2. júlí 1922. Dóttir þeirra:
Kristín, f. á Hnjóti (01.05.1894-15.10.1959), gift Helga Tryggvasyni, forstjóra á Akureyri.
1899-1901
Guðmundur Guðmundsson. Bóndi á Hnjóti 1899-1901, áður bóndi í Neðri Tungu, sjá þar.
1890-1894
Páll Bjarnason. Bóndi á Hnjóti 1890-1894. Síðar bóndi í Neðri Tungu, sjá þar.
1886-1911
Magnús Árnason (11.04.1860-20.11.1911). Bóndi á Hnjóti 1886-1911. F. í Hænuvík, foreldrar: Árni Pálsson bóndi í Hænuvík og k.h. Ingibjörg Ólafsdóttir.
K. 26. sept. 1884, Sigríður, f. í Botni (29.09.1862-15.05.1943) Sigurðardóttir bónda í Botni Gíslasonar. Börn þeirra:
Árni, f. á Hnjóti (27.04.1885-19.03.1962), bóndi á Hnjóti (sjá hér á eftir).
Ingibjörg Guðrún (05.05.1887-29.05.1966), kona Guðmundar Sumarliða Guðmundssonar á Vatneyri. 7 börn.
Gíslína (18.01.1889-08.06.1986). Fyrri maður hennar var Einar Hólm ( 1 barn) en seinni maður Jón Halldórsson, búsett í Reykjavík (3 börn).
Ólafía (16.12.1890-28.09.1972), kona Sigurbjörns Guðjónssonar bónda í Hænuvík.
Pálmey (29.06.1893-05.03.1967), átti Kristján Eyjólfsson, voru búsett á Miðengi í Garðahreppi á Álftanesi. 4 börn.
Sigríður (28.05.1895-31.12.1949), kona Halldórs Guðjónssonar bónda á Melanesi Brynjólfssonar. Hann drukknaði, er togarinn Robertson fórst 8. febr. 1925. 1 barn.
Sigurlína (22.12.1896-13.03.1976), kona Guðmundar Elíassonar vélstjóra í Hafnarfirði. 8 börn.
Brandur Ágúst, f. 11. ágúst 1898, d. 24. okt. 1902.
Ólafur, f. 1. jan. 1900, bóndi á Hnjóti (sjá hér á eftir).
Jón, f. 21. maí 1902, d. 1. ágúst 1903.
Kristjana (08.01.1904-10.03.2003), kona Þórðar Sigurðssonar, sem lézt í bílslysi um 1935 (4 börn) og síðan Steinþórs Guðfinnssonar útgerðarmanns í Keflavík (2 börn).
Sigurbjörg (05.04.1907-02.08.1985), kona Svavars Sigfinnssonar (Keflavík). 8 börn.
Þessi voru einnig börn Magnúsar Árnasonar:
Hildur, f. í Breiðavík (16.08.1889-31.01.1967), kona Guðbjartar Guðbjartssonar bónda á Láganúpi (sjá þar). Móðir hennar var Anna Jónsdóttir bónda á Hnjóti Torfasonar. Anna átti síðar Össur Guðbjartsson (eldri) bónda í Kollsvík.
Jónas, f. á Geitagili (28.09.1891-07.08.1967), kennari og síðar sparisjóðsstjóri á Pateksfirði, kvæntur Rut Jónsdóttur símstjóra á Patreksfirði Markússonar kaupmanns á Patreksfirði, Snæbjörnssonar. Móðir Jónasar var Svanhildur Jóhannsdóttir bónda á Geitagili Jónssonar.
1901-1918
Hákon Jónsson (31.05.1869-12.09.1918). Bóndi á Hnjóti 1901-1918. F. á Hnjóti, foreldrar: Jón Torfason bóndi á Hnjóti og k.h. Valgerður “yngri” Guðmundsdóttir bónda á Geitagili, Hákonarsonar.
K. 26. okt. 1895, Málfríður (11.07.1874-29.11.1957) Guðbjartsdóttir bónda í Kollsvík, Ólafssonar og k.h. Magdalena Halldórsdóttir. Börn þeirra:
Anna Magdalena Guðrún, f. í Kollsvík (22.12.1897-22.01.1978), óg. Bjó sem ráðskona hjá Guðmundi Jóni bróður sínum á Hnjóti.
Valtýr, f. 8. des. 1902, d. 14. júlí 1903.
andvana meybarn, f. 10. okt. 1908.
Guðmundur Jón (11.01.1910-18.10.2000). Bóndi á Hnjóti og kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs.
Guðbjartur Ólafur (03.11.1914-24.03.1973), ókv. og bl. Varð ungur sinnisveikur.
1905-1908
Ólafur Pétursson. Bóndi á Hnjóti 1905-1908. Síðar bóndi á Sellátranesi, sjá þar.
1908-1914
Níels Björnsson. Bóndi á Hnjóti 1908-1914. Áður bóndi á Naustabrekku, sjá þar.
1911-1922
Sigríður Sigurðardóttir. Búandi á Hnjóti 1911-1922. Ekkja Magnúsar Árnasonar bónda á Hnjóti. D. á Hnjóti 5. maí 1943.
1913-1931
Árni Magnússon (27.04.1885-19.03.1962). Bóndi á Hnjóti 1913-1931. Fluttist þá til Patreksfjarðar. F. á Hnjóti; foreldrar: Magnús Árnason bóndi á Hnjóti og k.h. Sigríður Sigurðardóttir.
K. 23. nóv. 1912, Arnfríður Thorlacíus Erlendsdóttir bónda á Látrum, Kristjánssonar. F. á Siglunesi á Barðaströnd (20.04.1885-23.09.1978). Áður gift Trausta Traustasyni frá Breiðavík og átti með honum Sigríði Steinunni Traustadóttur, síðar konu Aðalsteins Sveinssonar í Breiðuvík (sjá þar). Börn Árna og Arnfríðar:
Trausti (12.10.1913-19.05.1981), verzlunarmaður á Patreksfirði, kvæntur Sigríði Olgeirsdóttur skósmiðs í Stykkishólmi, Kristjánssonar smiðs Hjaltasonar bónda á Hnjóti Hasaelssonar. 7 börn.
Magnús (04.04.1915-30.04.1988). Margrét Gunnlaugsdóttir. 1 barn.
Fjóla (17.10.1916-13.03.1987). Jón Ingivaldur Sveinsson. 1 barn.
Sigurveig (20.11.1918-04.12.1924).
Erlendur (12.05.1920-08.01.2017). Sjómaður.
Ólafur (19.04.1922-19.10.2011). Múrarameistari á Patreksfirði.
1914-1921
Sigurður Jónsson. Bóndi á Hnjóti 1914-1921, í Neðri Tungu 1899-1900, á Geitagili 1912-1913, í Krossadal í Tálknafirði 1921-1927, á Sellátranesi 1927-1934. Var lengi húsmaður á Hnjótshólum. F. í Hænuvík 4. sept. 1872, d. á Patreksfirði 12. maí 1952. Foreldrar: Jón Sigurðsson bóndi í Hænuvík og k.h. Helga Ólafsdóttir bónda á Láganúpi, Ásbjörnssonar.
K. 5. okt. 1899, Sigríður, f. í Tungu (30.01.1879-24.09.1962) Guðmundsdóttir bónda í Tungu Bjarnasonar og s.k.h. Sigríðar Magnúsdóttur bónda á Hvalskeri, Einarssonar. Börn þeirra:
Sigríður Helga (02.11.1899-31.07.1900).
Jón Ingimar (28.08.1901-?)
Guðfreður Einar (bóndi á Sellátranesi sjá síðar).
Guðmundur Lúther (bóndi á Sellátranesi sjá síðar).
Magnús Bergmann (12.07.1912-03.09.1976). Nanna I. Pétursdóttir. 5 börn.
Sigríður Ingveldur (20.02.1915-25.06.1989). Jón Jónsson. 1 kjörbarn.
Sigurjón (28.01.1919-?)
1918-1921
Málfríður Guðbjartsdóttir. Búandi á Hnjóti 1918-1921 og 1922-1938. Ekkja Hákonar Jónssonar fyrrnefnds bónda á Hnjóti.
1921-1922
Guðbjartur Guðbjartsson. Bóndi á Hnjóti 1921-1922. Síðar bóndi á Láganúpi, sjá þar.
1921-1922
Sigþrúður Einarsdóttir og Jón Runólfsson (sjá hér framar).
1922-1934
Jón Runólfsson. Bóndi á Hnjóti 1922-1934?, í Hænuvík 1911-1921. F. að Smiðjuhól í Mýrarsýslu 11. maí 1860, d. í Stekkadal á Rauðasandi 27. mars 1940. Jón kom fyrst í Rauðasandshrepp, sem ráðsmaður til Jónu Einarsdóttur í Tungu, er hún var nýorðin ekkja. Meðan Jón var við búskap í Hænuvík og áður, var Guðný Mikalína fyrst ráðskona hjá honum en síðar Sigþrúður Einarsdóttir frá 1916. Hún dó, svo sem að framan greinir, 1922 og varð Guðný þá aftur ráðskona hans. Jón hafði verið kvæntur fyrir sunnan, er hann kom vestur; Guðlaugu Runólfsdóttur, þau skildu. Þeirra börn:
Þorbergur (04.06.1891-15.05.1918), ólst upp hjá föður sínum.
Guðný Kristín (18.09.1894-21.06.1966).
Elísabet (17.08.1897-22.05.1968). Guðlaugur Sigurðsson. 1 barn.
Guðný Mikalína Ólafsdóttir (28.09.1865-04.11.1951), Magnússonar á Naustabrekku (sjá þar). Guðný var víða vinnukona og átti mörg börn.
1922-1953
Ólafur Magnússon (01.01.1900-18.03.1996). Bóndi á Hnjóti 1922-1953. F. á Hnjóti, sonur Magnúsar Árnasonar bónda þar og k.h. Sigríðar Sigurðardóttur.
K. 1924, Ólafía (27.11.1894-20.09.1993) Egilsdóttir bónda á Sjöundá Árnasonar og k.h. Jónínu Helgu Gísladóttur.
Ólafur og Ólafía tóku við 1/6 allrar Hnjótsjarðarinnar af móður Ólafs; höfðu hálfa jörðina eftir að Árni og Arnfríður fóru 1931 og 2/3 allrar jarðarinnar frá 1933. Bjuggu áfram á jörðinni til dd þó Egill sonur þeirra tæki formlega við búskap. Ólafía var ljósmóðir sveitarinnar meðan henni entust kraftar til. Ólafur var manna lagnastur við dýralækningar og gjarnan kallaður til slíks um alla sveitina. Hann sá um bréfhirðingu á Hnjóti fram á gamals aldur.
Börn þeirra:
Egill (14.10.1925-25.10.1999), bóndi á Hnjóti (sjá hér á eftir).
Sigríður, f. 6. des. 1926. Ari Benjamínssson. 4 börn.
Sigurbjörg, f. 12. des. 1929. Bjarni Þorvaldsson Bjarnasonar (sjá Gröf). 5 börn.
Ólafía og Ólafur ólu einnig upp Ólafíu Jónsdóttur; dóttur Járnbrár Jónsdóttur á Stekkjarmel (sjá þar).
1931-1933
Konráð Júlíusson. Bóndi á Hnjóti 1931-1933. Síðar bóndi í Efri Tungu, sjá þar.
1930-2000
Guðmundur Jón Hákonarson (11.01.1910-18.10.2000). F. á Hnjóti, sonur Hákonar Jónssonar bónda á Hnjóti. Ókv. og bl. Bjó á Hnjóti ásamt systur sinni Önnu Magdalenu Guðrúnu Hákonardóttur (22.12.1897-22.01.1978); fyrst í stað með móður þeirra; Málfríði Guðbjartsdóttur (sjá hér framar), en eftir 1938 er Jón skráður fyrir búinu. Jón vann við sjómennsku framan af en var svo lengi kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs og afgreiðslumaður í sölubúð þess á Gjögrum. Þau hættu með fé árið 1968, en nýttu áfram mikið æðarvarp sem er á jörðinni. Hann arfleiddi Guðnýju Ólafsdóttur Egilssonar (sjá hér á eftir) að jarðarparti sínum, en gaf einnig fé til líknarmála í Vesturbyggð.
1953-1994
Egill Ólafsson (14.10.1925-25.10.1999), Magnússonar bónda á Hnjóti. Búfræðingur frá Hvanneyri. Afkastamikill minjasafnari, en gaf safn sitt til sýslunnar gegn því að byggt yrði yfir það á Hnjóti. Þar er nú rekið minjasafn í hans nafni. Var lengi flugvallarstjóri á Sandodda í Sauðlauksdal og umboðsmaður Landgræðslu ríkisins.
K. 14. okt. 1954, Ragnheiður Magnúsdóttir (01.12.1926-23.02.2001), Jónssonar og Guðrúnar Jónsdóttur útgerðarmanns í Flatey Sigurðssonar. Ragnheiður átti barn með Jóni Bachmann Guðmundssyni:
Magnús Jónsson f. 28.03.1947. Svanfríður Hagvaag. 2 börn.
Með Óskari Hinrik Ásgeirssyni átti Ragnheiður:
Emil Þór Sigurlaugsson f. 15.03.1952. Guðmundína Arnbjörnsd. 2 börn.
Egill og Ragnheiður áttu þessi börn:
Ólafur Egilsson (04.03.1954-09.12.2017), bóndi á Hnjóti (sjá hér á eftir).
Egill Steinar (22.05.1955-08.07.1969) lést af slysförum.
Kristinn Þór f. 14.04.1958, bóndi á Hnjóti (sjá hér á eftir).
Gunnar f. 09.06.1962. K. Alison Mary Mills frá Nýja Sjálandi. 3 börn.
1976-1985
Ólafur Egilsson (04.03.1954-09.12.2017). Skráður bóndi ásamt föður sínum þessi ár en vann að ýmsu öðru; framkvæmdastjóri Ræktunarsambands V-Barð; rak bílaleigu o.fl. endurbætti slátturvél til melskurðar. Heilsulaus síðari æfiár sín og bjó í Reykjavík.
K. Ásdís Ásgeirsdóttir. Þau skildu og bjó hún síðar með Helga Árnasyni frá N-Tungu. Börn Ólafs og Ásdísar:
Anna Heiða f. 23.06.1974. Fiskifræðingur.
Dagný (01.09.1976-29.09.1997)
Guðný f. 04.09.1977. Búsett í Noregi.
Egill f. 08.07.1983. Skipstjóri.
1985-2009
Kristinn Þór Egilsson f. 14.04.1958. Skráður bóndi með föður sínum frá 1985. Kúabúskapur var lagður af 1994 og fjárbúskapur 2009. Kristinn Þór hefur stundað ferðaþjónustu á Hnjóti. K. Kristín Valgerður Gunnarsdóttir. Börn þeirra:
Gunnar Þór f. 10.10.1990.
Einar Þór f. 28.07.1995.
1833-1840
Hjalti Hasaelsson. Bóndi á Kryppu 1833-1840, en 1840-1844 á 10 hdr. úr heimajörðinni á Hnjóti, sjá þar.
Kryppa hefur verið nýræktarbýli í Hnjótslandi og eigi kunnugt um annan, er þar hafi búið, en Hjalta.
Þurrabúð; stóð á hólunum neðan Hnjóts, þar sem enn má sjá tóftir.
1900-um 1912
Sigurður Jónsson. Bóndi á Hnjóti 1914-1921, sjá þar. Í Neðri Tungu 1899-1900, á Geitagili 1912-1913, í Krossadal í Tálknafirði 1921-1927, á Sellátranesi 1927-1934. Var lengi húsmaður á Hnjótshólum.
1905-1907
Jón Einarsson og Ingveldur Jónsdóttir (sjá Leiti).
1914-1921
Jónas Jónsson. Bóndi í Keflavík 1921-1923 (sjá þar). Áður húsmaður á Hnjótshólum í Örlygshöfn (1914-1921), enn áður á Patreksfirði, og fluttist þangað aftur frá Keflavík. F. 15. des. 1875 í Botni.
K. (Svefneyjum), Jóna Valgerður, f. 31. jan. 1878 Jónsdóttir bónda á Hnjóti Torfasonar og k.h. Valgerðerðar Guðmundsdóttur. Nánar um þau: sjá Keflavík.
Nafnið Staðurinn dregur nafn af miklu vatni þar frammi í dalnum. Vatnsdalur var tvíbýlisjörð til 1911.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki 18 hdr. Eigandinn er séra Páll Halldórsson í Selárdal. Ábúandinn Jón Jónsson býr á 9 hdr. Annar ábúandi Jón Einarsson býr á 9 hdr. Landsskyld hjá hvörum er 80 álnir, alls 1 hdr 40 álnir... Leigukúgildi hjá Jóni Jónssyni 2. Hjá Jóni Einarssyni 2 1/3 kúgildi…. Kvaðir alls öngvar. So hafa skuldir jarðarinnar verið það lengst menn minnast, og sömu kostir að öllu. Kvikfjenaður Jóns Jónssonar 3 kýr, 16 ær 10 sauðir geldir, 5 gemlingar, 1 hestur. Jóns Einarssonar 2 kýr, 7 ær, 1 sauður geldur. Fóðrast kann þar á allri jörðinni 4 kýr, 2 lömb. Ásauð er ætlaður útigangur og so geldfje. Heimilismenn Jóns Jónssonar 10; Jóns Einarssonar 5. Rekavon lítil. Hrognkelsaveiði með netjum. Heimræði um hásumar og hausttíma, þá fiskur gengur. Og eiga búendur eitt skip hvör, sem þá ganga heima, en um vertíð á vor í Hænuvík. Túnin eru grýtt til stórmeina. Útigangur rétt góður, ef fjöru nýtur”.
Vatnsdalskumlið Einn merkasti fornleifafundur landsins var bátskuml sem fannst í Vatnsdal í Patreksfirði árið 1964, en munir í því vísa bæði til heiðni og kristni. Kumlið fann Magnús Ólafsson frá Vesturbotni, þegar hann var á jarðýtu að útbúa kartöflugarð, þar sem heitir Reiðholt; neðst innanvið Vatnsdalsá. Það var rannsakað af Þór Magnússyni fornleifafræðingi, og fann hann leifar af um 6m löngum og um 95 cm breiðum rósaumuðum bát sem í höfðu verið heygðir fjórir karlar og tvær konur. Þór taldi að báturinn hafi verið smíðaður úr barrviði, liklega lerki; borðin hafi verið 6 á hvora síðu, fremur mjó. Af haugfé fannst þarna þórshamar; perlur úr steinasörvi; hringur, armbaugar og bjalla úr bronsi; kambar; blýmet; bronskinga; hnífur og brýni. Þá fundust tvö stykki úr hvalbeini, sem líklegt er að hafi verið vaðbeygjur á borðstokk; líklega fremur fyrir stjórafæri en veiðarfæri. Sé það rétt, gæti það bent til að með bátnum hafi verið fiskað fyrir föstu. Báturinn var borðlágur, og því líklegt að honum hafi verið haldið til veiða innanfjarðar, þó um það verði ekki fullyrt. Það að sjö manneskjur voru heygðar í bátnum gæti bent til þess að á honum hafi orðið sjóslys; e.t.v. í lendingunni í Vatnsdal. En þó kann annað að hafa gerst, s.s. drepsótt á landi. Þór telur bátinn vera frá fyrstu árum byggðar, og veltir því upp hvort þarna gæti verið eitthvað af fóki Örlygs Hrappssonar eða afkomendur þess. Þar gæti eins verið fólk Kolls fóstbróður hans; landnámsmanns í Kollsvík. Um þetta verður fátt sagt nú; a.m.k. ekki nema með frekari rannsóknum. Minjar í kumlinu benda bæði til heiðins og kristins siðar.
1703
Jón Jónsson. Bóndi í Vatnsdal 1703. F. um 1663.
K. Ólöf, f. um 1657 Ingimundsdóttir. Þau virðast vera barnlaus, en börn Jóns, vafalaust úr fyrra hjónabandi voru:
Ingibjörg 14 ára.
Jón 11 ára.
Guðrún 7 ára.
Dóttir Ólafar var:
Kristín Sturludóttir Þórólfssonar.
1703
Jón Einarsson. Bóndi í Vatnsdal 1703. F. um 1663.
K. Guðríður, f. um 1671 Jónsdóttir. Barn þeirra:
Bjarni 2 ára.
Barn Jóns er:
Guðrún 9 ára.
1735
Ólafur Arngrímsson. Bóndi í Vatnsdal 1735. F. 1694, d. 20. des. 1770 vafalaust í Vatnsdal, á Suðureyri í Tálknafirði 1703. Foreldrar: Arngrímur, f. um 1649, bóndi á Suðureyri 1703, Jónsson í Sælingsdalstungu, Arngrímssonar lærða Jónssonar og k.h. Ólöf, f. um 1654 Ólafsdóttir Björnssonar, Hannessonar hirðstjóra Eggertssonar.
K. Guðrún, f. 1692 Ívarsdóttir hreppstjóra og bónda á Geirseyri 1703 Þórólfssonar og k.h. Hallbjargar Nikulásdóttur prests í Flatey Guðmundssonar. Af börnum Ólafs var kunnugt um:
Arngrímur bóndi á Sjaldvararfossi á Barðaströnd. Hann kvæntist 1761 í Rauðasandshreppi. Kona hans var Hallfríður Bjarnasóttir, sem áður hafði átt Ásbjörn Þórðarsona bónda í Raknadal, sjá þar. Elsta barn Arngríms og Hallbjargar var Ingveldur, er fæddist í Rauðasandshreppi, áður en þau fluttust á Barðaströnd. Sonarsonur Ingveldar var Magnús Ólafsson, faðir Sveins á Lambavatni. Bróðir Ingveldar var Halldór bóndi í Hænuvík, afi Guðbjartar Ólafssonar í Kollsvík. Af Elínu systur Halldórs var kominn Pétur skipstjóri (Ástralíufari) Björnsson.
um 1750 og 1790
Ólafur Ásbjörnsson. Bóndi í Vatnsdal 1762 og 1780. Hann hefur líklega búið í Vatnsdal frá því um 1750 og fram yfir 1790. F. um 1721, d. milli 1786 og 1801. Foreldrar: Ásbjörn Jónsson prests á Lambavatni Ólafssonar og k.h. Hallgerðar Þórðardóttur bónda í Laugardal Jónssonar bónda á Sellátrum Tómassonar. Ásbjörn mun hafa búið í Vatnsdal, en verið látinn nokkru fyrir 1735. Um Ásbjörn föður Ólafs í Vatnsdal hefur verið ruglingur. Esphólín hefur tvær útgáfur. Á einum stað er faðir hans talinn Ásbjörn Ólafsson bónda á Skriðnafelli 1703, Jónssonar prests á Lambavatni Ólafssonar, en á öðrum staðnum er ættfærslan eins og hér að ofan. Ég er ekki í neinum vafa um, að það er sú rétta. Ásbjörn , sem hefði átt að vera sonur Ólafs á Skriðnafelli, er ekki f. 1703 og hefði því verið allungur til þess að vera faðir Ólafs, sem fæðist um 1720. Hinsvegar er Hallgerður , sem hefði átt að vera kona hans, fædd um 1679 og er því á líkum aðdri og Ásbjörn sonur séra Jóns Ólafssonar.
K. Vigdís, f. um 1721 Ólfsdóttir. Börn þeirra:
Sturla, f. 4. des. 1853, vinnumaður á Vatneyri 1780.
Ólafur talinn 27 ára 1780, d. 8. júní 1785, ókv. bóndi í Vatnsdal.
Guðný, f. 16. ágúst 1756, hefur líklega dáið ung.
Ásbjörn, f. 19. jan. 1761, bóndi í Vatnsdal.
1780 og 1782
Leifur Snorrason. Bóndi í Vatnsdal 1780 og 1782. F. um 1715, d. milli 1786 og 1801, líklega sonur Snorra Jónssonar bónda í Hlífðarhvammshólum 1703.
K. 1762, Sigríður Þorbjörnsdóttir, f. um 1737, Breiðavík 1801, d. fyrir 1808. Börn þeirra:
andvana fætt barn 1765.
Þorkatla, f. að Leyfum í Sauðlauksdal 30. júní 1770, kona Bjarna Sigurðssonar bónda í Breiðavík.
Annara barna sést ekki getið.
Leifur virðist því hafa búið í Sauðlauksdal á dögum Björns Halldórssonar og er því væntanlega um hann þessi vísa: „Leifur hefur leyfi til á Leyfum búa, þar til hann er laus við lúa og lýðir gera að honum hlúa”.
1785
Ólafur Ólafsson. Bóndi í Vatnsdal 1785. Hann var sonur Ólafs Ásbjörnssonar bónda í Vatnsdal, ókv. eins og að ofan greinir og hefur haft einhvern hluta jarðarinnar móti föður sínum. F. um 1753, sagður 27 ára 1780 en fæðing ekki skráð í kjb., d. 1785.
1790-1841
Ásbjörn Ólafsson. Bóndi í Vatnsdal um 1790-1841. F. 19. jan. 1761, d. 5. júní 1841. Foreldrar: Ólafur Ásbjörnsson bóndi í Vatnsdal og k.h. Vigdísar Ólafsdóttur.
K. um 1793, Þóra Halldórsdóttir bónda í Hænuvík Magnússonar og k.h. Sigríðar Ólafsdóttur. Börn þeirra:
Ólafur, f. 1794, d. 1838, bóndi á Láganúpi.
Gunnlaugur, f. 1797, bóndi í Vatnsdal.
Sigríður, f. 1799, kona Einars Einarssnar bónda í Vatnsdal.
1841-1843
Þóra Halldórsdóttir. Búandi í Vatnsdal 1841-1843. Ekkja Ólafs Ásbjörnssonar bónda í Vatnsdal. F. á Geirseyri 3. sept. 1771, d. í Vatnsdal 18. ágúst 1843.
1843-1844
Gunnlaugur Ásbjörnsson. Bóndi í Vatnsdal 1843-1844. Hann hefur staðið fyrir búinu eftir að móðir hans dó, var ókv. og bl. F. í Vatnsdal 1797, d. 18??. Sonur Ásbjörns Ólafssonar bónda í Vatnsdal.
1844-1852
Einar Einarsson. Bóndi í Vatnsdal 1844-1852. áður bóndi á Hnjóti og Láganúpi. F. á Vatneyri1793, d. á Sellátranesi 5. júlí 1862. Hreppstjóri um skeið, sáttanefndarmaður. Foreldrar: Einar Jónsson bóndi í Kollsvík og k.h. Guðrún Jónsdóttir frá Botni.
K. 11. sept. 1819, Sigríður, f. 1799, d. í Vatnsdal 15. maí 1864 Ásbjörnsdóttir bónda í Vatnsdal og k.h. Þóru Halldórsdóttur. Börn þeirra:
Ásbjörn, f. 10. júní 1821, bóndi í Tungu.
Einar, f. á Hnjóti 22. ágúst 1823, d. 24. mars 1871, varð bráðkvaddur á Dalsfjalli. Hann bjó hvergi, en var vinnumaður á ýmsum stöðum. Kona 1. okt. 1844, Ragnheiður, f. á Selátranesi 22. ágúst 1822, d. á Suðureyri í Tálknafirði 4. júní 1907 Bjarnadóttir bónda í Breiðavík (og Kvígindisdal) Bjarnasonar og k.h. Ingibjargar Bjarnadóttur bónda á Sellátranesi, Halldórssonar. Þau skildu um 1856. Ragnheiður fluttist um tíma notður í Arnarfjörð, en var síðan lengst í Tálknafirði. Börn þeirra: Ragnheiður dó ungbarn, Bjarni, f. 11. júní 1850, faðir Halldórs bónda á Mábergi, Jóhanna, f. 27. mars 1852, dó 15 ára, Bjarni, f. 4. okt. 1853, dó sama ár.
Einar átti 4 börn með öðrum konum: Sigþrúður, f. í Sauðlauksdal 30. mái 1855, kona Brands Árnasonar bónda á Hnjóti, móðir hennar var Gróa Gisladóttir prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar, Björg, f. í Vatnsdal 24. ágúst 1857, d. á Haukabergi 13. ágúst 1867, Sólbjört, f. í Vatnsdal 24. júní 1859, d. í Reykjavík 1. febr. 1941. Dóttir hennar er Þórunn Jakobsdóttir gift og búsett í Reykjavík, bl. Önnur dóttir hennar Jakobína María, dó á barnsaldri. Móðir Bjargar og Sólbjartar var Þórunn Tómasdóttir bónda á Barðaströnd Jónssonar ? og Jóhönnu Jóhannsdóttur prests Bergsveinssonar, Magnús, f. í Sauðlauksdal 4. júlí 1868, bóndi á Geitagili. Móðir hans var Sigríður Magnúsdóttir bónda á Hvalskeri Einarssonar. Hún varð síðar s.k. Guðmundar Bjarnasonar bónda í Tungu.
Sturla, f. á Hnjóti 4. mars 1830, bóndi í Vatnsdal.
Trausti, f. á Hnjóti 1. ágúst 1834, d. í Breiðavík 20. des. 1895, smiður, lengst á Vatneyri á Patreksfirði. Kona 28. okt. 1869, Sigríður, f. 2. júní 1845, d. í Breiðavík 18. maí 1915 Gunnlaugsdóttir bónda í Bröttuhlíð, Þorleifssonar. Börn þeirra: Sigríður, f. á Patreksfirði 1. júní 1870, kona Ólafs Ólafssonar bónda í Breiðavík, Halldór, f. í Hvestu í Arnarfirði í nóv. 1871, dó sama ár, Sigurlaug, f. í Hvestu 3. okt. 1873, kona Kristjáns skipstjóra, síðar fornbókasala í Reykjavík Kristjánssonar bónda í Trostansfirði, Jónssonar bónda í Skápadal, Jónssonar, Trausti, f. á Vatneyri 2. nóv. 1875, kvæntist Arnfríði Erlendsdóttur bónda á Látrum, Kristjánssonar. Dóttir þeirra var Sigríður Steinunn kona Aðalsteins Sveinssonar bónda í Breiðavík, Kristín, f. á Vatneyri 22. okt. 1878, kona Einars Runólfssonar trésmiðs og útgerðarmanns í Vestmannaeyjum.
1852-1872
Sturla Einarsson. Bóndi í Vatnsdal 1852-18??. Fluttist frá Vatnsdal 1872 að Suðureyri í Tálknafirði, en þaðan 1879 á Barðaströnd og var þar síðan. Stundaði smíðar jafnframt búskapnum og síðar eingöngu. F. á Hnjóti 4. mars 1830, d. á Brekkuvelli 22. apríl 1922. Foreldrar: Einar Einarsson bóndi í Vatnsdal og k.h. Sigríður Ásbjörnsdóttir.
K. 14. okt. 1851, Hólmfríður Jónsdóttir bónda á Mábergi Jónssonar og k.h. Bjargar Einarsdóttur. Börn þeirra:
Kristófer, f. í Vatnsdal 17. ágúst 1851, bóndi á Brekkuvelli, d. þar 11. júní 1927, kvæntur Margréti Hákonardóttur bónda á Hreggstöðum, Snæbjörnssonar. Eignuðust 17 börn.
Snæbjörn, f. 10. ágúst 1852, dó ungbarn.
Jónína, f. 22. júlí 1857, d. á Hreggstöðum 18. maí 1911, kona Einars Jónssonar bónda þar. Eignuðust 5 börn.
Jóhannes, f. 22. ágúst 1863, d. í Kvígindisdal 25. júlí 1934, kvæntur Sigurlaugu Sigurðardóttir bónda í Botni Gíslasonar. Eignuðust 1905 andvana meybarn.
Sigurgarður, f. 14. maí 1867, d. á sjúkrahúsi í Reykjavík 26. mars 1932, bóndi á Eysteinseyri í Tálknafirði, kvæntur Viktoríu Bjarnadóttur bónda á Vindheimum, Friðrikssonar. Eignuðust 12 börn.
Barn Sturlu Einarssonar og Elísabetar Ásbjörnsdóttur bónda á Lambavatni Þórðarsonar var:
Elías, f. í Vatnsdal 19. des. 1849, drukknaði er Vigga fórst 1. maí 1897. Kona hans var Guðný Mikkalína, f. 28. sept. 1865 Ólafsdóttir bónda á Naustabrekku, Magnússonar. Eignuðust 4 börn. Dóttir Elíasar og Guðrúnar Sólborgar Gísladóttur, bónda í Kollsvík, Einarssonar, var Dagbjört, f. í Kollsvík 15. nóv. 1874, fyrri kona Gísla Guðbjartssonar bónda í Kollsvík Ólafssonar.
1852-1856
Oddgeir Jónsson. Bóndi í Vatnsdal 1852-1856. Áður smiður á Vatneyri og bjó þar á einhverjum hluta jarðarinnar. Var sjómaður í Flatey, en fluttist til Patreksfjarðar 1849, er þar 1850 með konu og 2 börn (Magnús og Guðrúnu). F. um 1810, d. í Vatnsdal 7. júlí 1856. Foreldrar: Jón Atlason, sem er hjá móður sinni, Guðrúnu Oddgeirsdóttur, á Brekku í Gilsfirði 1801 og k.h. Valdís Jónsdóttir (afkomandi Jens Wíums sýslumanns).
K. Þuríður, f. um 1811 Nikulásdóttir bónda á Ormsstöðum á Skarðsströnd Þorsteinssonar og k.h. Sigríðar Magnúsdóttur. Börn þeirra:
Guðmundur, f. í Flatey 8. sept. 1835, d. 27. mars 1836.
Guðrún, f. í Flatey 3. maí 1838, dó óg. og bl. í Rauðasandshreppi.
Elín, f. í Flatey 17. sept. 1839, giftist og á afkomendur.
Magnús, f. í Flatey 26. ágúst 1842, bóndi í Gröf á Rauasandi.
Guðmundur, f. í Flatey 24. ágúst 1840, d. í Sauðeyjum 29. jan 1879, kvæntist Sigríði Andrésdóttur. Sonur þeirra var Sigurmundur bóndi á Fossá á Hjarðarnesi, d. 7. nóv. 1955. Guðmundur var bóndi í Sauðeyjum, Sigríður var f.k.h.
Jón, f. á Vatneyri 22 jan. 1850, d. á 1. ári.
1856-1858
Þuríður Nikulásdóttir. Búandi í Vatnsdal 1856-1858. Ekkja Oddgeirs Jónssonar fyrrnefnds bónda í Vatnsdal.
1856-1862
Jónas Jónsson. Bóndi í Vatnsdal 1856-1862. Áður bóndi á Mábergi, sjá þar, og Hlaðseyri.
1858-1870
Bjarni Ólafsson. Bóndi í Vatnsdal 1858-1870. Bóndi í Tungu 1870-1876. F. í Hænuvík 1. júlí 1832, d. 15. febr. 1876, drukknaði í lendingu á Látrum, hleypti þangað úr hákarlalegu. Foreldrar: Ólafur Halldórsson bóndi í Hænuvík og k.h. Guðbjörg Brandsdóttir.
K. Þrúður, f. að Bæ í Reykhólasveit 15. sept. 1826, d. í Tungu 9. des. 1901, Guðmundsdóttir Jónssonar og k.h. Helgu Guðbrandsdóttur Þorsteinssonar. Börn þeirra:
Páll, f. 1855, bóndi í Tungu.
Helgi, f. í Hænuvík 19. apríl 1857, d. 15. febr. 1876, drukknaði með föður sínum.
Guðbjartur, f. í Vatnsdal 20. ágúst 1858, d. á Sjöundá 21. júlí 1877.
Ásbjörn, f. í Vatnsdal 9. sept. 1861. Fluttist til Flateyriar, kvæntist þar 1893 Guðfinnu Jóhannesdóttur, d. um 1904. Dætur þeirra voru Ragnheiður og Þrúður, sem dó ungbarn. Þegar Ásbjörn var orðinn fjörgamall eignaðist hann son og dóttur (fædd milli 1935 og 1940).
Guðbjörg, f. í Vatnsdal 18. júní 1856, d. á Hnjóti 5. okt. 1932, óg. og bl.
Bjarni Ólafsson og Þrúður voru þremenningar.
1870-1903
Einar J. Thoroddsen. Bóndi í Vatnsdal 1870-1903. Áður bóndi og hattamakari á Hvallátrum, sjá einnig þar.
K. I Klásína Pálsdóttir.
K. II 24. okt. 1870, Sigríður, f. 10. des. 1844, d. í Vatnsdal 11. apríl 1929, Ólafsdóttir bónda í Sviðnum Teitssonar og k.h. Bjargar Eyjólfsdóttur bónda í Svefneyjum Einarssonar. Börn þeirra:
Guðrún Júlíana, f. 10. sept. 1871, kona Guðmundar Sigfreðssonar bónda í Króki.
Ólafur, f. 4. jan. 1873, skipstjóri, bóndi í Vatnsdal.
Björg, f. 7. des. 1874, d. í Reykjavík 23. maí 1943, fyrri kona Hákonar Kristóferssonar, alþingismanns, bónda í Haga, þau bl.
Halldóra (11.12.1875-31.03.1967).
Katrín, f. 21. jan. 1878, d. ungbarn.
Eyjólfur, f. 5. febr. 1879, d. 26. ágúst 1881.
Sigurborg, f. 17. sept. 1880, d. í Reykjavík 1946, fyrri maður hennar var Friðgeir Guðmundsson, seinni maður Þorbjörn Tómasson, bl. í báðum hjónaböndum.
Jóhanna, f. 6. maí 1882, kona Ólafs Ó. Thorlacíusar frá Saurbæ (sjá þar), póstafgreiðslumaður á Patreksfirði, þau bl.
1903-1944
Ólafur E. Thoroddsen (04.01.1873-17.11.1964). Bóndi í Vatnsdal 1903-1944, jafnframt skipstjóri á Patreksfirði í mörg ár. Fluttist til Reykjavíkur 1944. F. í Vatnsdal, foreldrar: Einar J. Thoroddsen bóndi í Vatnsdal og s.k.h. Sigríður Ólafsdóttir úr Sviðnum á Breiðafirði.
K. 29. des. 1906, Ólína, f. í Dufansdal (21.09.1883-04.09.1959) Andrésdóttir bónda á Vaðli á Barðaströnd Björnssonar og k.h. Jónu Einarsdóttur Guðbrandssonar. Börn öll f. í Vatnsdal:
Sigríður (31.011908-20.07.1981), kona Þórðar Jónssonar bónda á Hvallátrum.
Þorvaldur (31.08.1909,-07.06.1984) hreppstjóri á Patreksfirði, kvæntur Elínu Björnsdóttur. Bl.
Svava (28.08.1910-17.06.1993) skólastjóri, gift Jóni Zóphóníassyni. Bjuggu að Núpi í Dýrafirði. 4 börn.
Birgir (10.10.1911-02.01.1969), skipstjóri, kvæntur Hrefnu Gísladóttur. 3 börn.
Einar (03.05.1913-13.05.1991), stýrimaður og hafnsögumaður, kvæntur Ingveldi Bjarnadóttur. 3 börn.
Una (08.06.1914-05.03.2013), gift Jóhanni Sigurgeirssyni, bjuggu á Ísafirði. 1 barn.
Arndís (14.09.1915-19.10.2004), gift Sæmundi Auðunssyni. 2 börn.
Bragi (20.06.1917-08.10.2005), vegaverkstjóri, búsettur á Patreksfirði, kvæntur Þórdísi Haraldsdóttur. 6 börn.
Ólafur (29.06.1918-05.08.1998), kvæntur Aðalbjörgu Guðbrandsdóttur. 4 börn.
Eyjólfur (25.10.1919-13.07.2006), loftskeytamaður, búsettur í Reykjavík, kvæntur Elínu Bjarnadóttur. 4 börn.
Stefán (12.06.1922-15.03.1997), kvæntur Erlu Hannesdóttur Stephensen, bjuggu á Bíldudal. 4 börn.
Auður (09.01.1924-08.11.2017), gift Guðmundi Árnasyni. 2 börn.
Magdalena (07.02.1926-03.05.2018), gift Þorvarði Þorsteinssyni, búsett á Ísafirði. 2 börn.
Halldóra (17.12.1927-28.08.2017).
Sonur Ólafs var:
Oddur, f. 18??, d. 4. júní 1911, hrapaði í Hælavíkurbjargi. Móðir hans var Amalía Þorsteinsdóttir bónda á Hlaðseyri Þorsteinssonar og Sæunnar Gísladóttur prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar.
Sonur Ólafs í Vatnsdal og Bjarneyjar Guðjónsdóttur bónda á Melanesi, Brynjólfssonar, var:
Kjartan, f. 17. nóv. 1919 að Efra Seli í Hrunamannahreppi. Hann drukknaði af mótorbátnum Kristjáni 13. ágúst 1938.
1898-1911
Guðmundur Sigurðsson. Bóndi í Vatnsdal 1898-1911. Hreppstjóri í Rauðasandshreppi. Bóndi á Hvallátrum 1887-1897, í Breiðavik 1911-1920. F. á Vaðli á Barðaströnd 23. ágúst 1853, d. á Geirseyri 14. júní 1941. Foreldrar: Sigurður bóndi á Vaðli, er kallaði sig Breiðvíking, Sigurðsson bónda í Breiðavík Jónsson og k.h. Guðríðar Jónsdóttur frá Laugardal í Tálknafirði. Þar er Sigurður talinn bóndi, er hann kvænist 1838. Hann fluttist frá Fífustöðum í Arnarfirði 1842 að Flatey, en þaðan að Vaðli. Árið 1862 flyzt hann Botni í Patreksfirði til Ingibjargar, sem skrifuð var dóttir hans, konu Sigurðar Gíslasonar bónda í Botni. Seinast var Sigurður í Hænuvík hjá Ingibjörgu og s.m.h. Árna Jónssyni og dó þar 6. apríl 1887.
K. 16. okt. 1885, Helga, d. í Reykjavík 3. maí 1948 Árnadóttir bónda í Kvígindisdal Thoroddsens og k.h. Sigríðar Snæbjörnsdóttur bónda í Dufansdal, Pálssonar. Börn þeirra:
Sigurður Andrés, f. í Hænuvík (29.11.1886-23.12.1948), skipstjóri, síðar bóndi á Geirseyri.
Sigurður, f. á Hvallátrum (11.12.1887-28.02.1920), bóndi í Breiðavík. Fórst með kútter Valtý.
Ósk, f. á Látrum 8. júlí 1891, d. 21. s.m.
Sigurður Jón, f. á Látrum (28.07.1893-01.05.1977), skipstjóri, forstjóri Belgjagerðarinnar í Reykjavík, kvæntur Jórunni Guðrúnu, f. á Kröggólfsstöðum í Ölfusi 1895. 8 börn.
1944-1948
Jón Torfason. Bóndi í Vatnsdal 1944-1948. Áður bóndi í Kollsvík, sjá þar.
1949-1962
Guðmundur Jóhann Kristjánsson. Áður bóndi í Breiðavík, sjá þar. Guðmundur dó 1962 og brá þá Unnur búi og flutti burt.
Vatnsdalur hefur síðan verið í eyði og eigendur hafa búið annarsstaðar.
Nafnið Líklegt er að upphaflegt nafn sé "Kvígildisdalur" eða "Kúgildisdalur", og vísi til þess þess leigukúgildis sem landseti þurfti forðum að greiða af til eiganda, sem þá var að mestum líkindum Saurbæjareigandi. Það að heitið er í eintölu kann að benda til þess að jörðin var fyrrum mun kostaminni en hún síðar varð.
Jarðabókin 1703 “Qvigindisdalur í Patreksfirði. Jarðardýrleiki 18 hdr. Eigandinn biskupinn mag. Björn Thorleifsson. En umboðsmaður hans hústrú Guðrún Eggertsdóttir að Bæ á Rauðasandi. Ábúandi lögrjettumaðurinn Gunnlaugur Jónsson, býr á 12 hdr. Annar Gísli Þórðarson, býr á 6 hdr. Kostir allir sömu hjá báðum, eftir proportion. Landskyld af 12 hdr 80 álnir, af 6 hdr 40; alls 1 hdr. Betalist í skileyrir specie ríxdölum uppá danskan taxta eil umboðsmanns eður fiski í kaupstað. Húsavið tilleggur umboðsmaður að miklu leyti. Kúgildi með 12 hdr 4, en með 6 hdr 2; alls 6. Leigur betalast í smjöri heim til umboðsmanns, eður með áskildum fiski í kaupstað. Kúgildin uppbætir umboðsmaður. Kvaðir eru skipsáróður af hvörjum ábúenda. Ella gjaldi 20 álnir í landaurum.
Kvikfjenaður hjá Gunnlaugi 2 kýr, 1kvíga tvævetur, 9 ær, 2 sauðir, 5 gemlingar, 1 hestur. Hjá Gísla 1 kýr, 1 kvíga 3vetur, 2 ær, 3 gemlingar. Fóðrast kann 3 kýr, 12 ær. Hinu öllu er útigangur ætlaður, sem þar er rjettgóður, ef fjöru nýtur. Heimilismenn Gunnlaugs 5, Gísla 3. Heimræði er þar um haust og hásumar, þegar fiskur gengur inn á fjörðinn. Gunnlaugur á hálft 3 manna far, sem gengur í Láturdal. Sandfjúk fordjarfar tún til stórskemmda. Engi lítið mjög og slitrótt. Flæðihætt fyrir fje”.
Árið 1929 var í Kvígindisdal byggð fyrsta vatnsaflsvirkjun í Rauðasandshreppi; 12 kW, af Bjarna Runólfssyni í Hólmi. Önnur kom þar 1956, nokkru stærri.
1570
Jón Einarsson. Bóndi í Kvígindisdal 1570.
1570
Þorgeirsson (litli). Bóndi í Kvígindisdal 1570.
1632-1673
Þorbjörn Einarsson prestur. Bóndi í Kvígindisdal nokkurn hluta prestskaparára sinna í Rauðasandsþingum 1632-1673, en nokkurn, líklega framan á hluta af Sauðlauksdal. F. um 1593, d. 1673, sonur Einars Þorbjarnarsonar prests í Stærra Árskógi, Þorgeirssonar.
K, I um 1638, Helga, d. 26. des. 1647 Arngrímsdóttir prests lærða Jónssonar, ekkja Björns sýslumanns Magnússonar í Bæ á Rauðasandi. Þau bl.
K. II Sigríður Guðmundsdóttir á Hnjóti Jónssonar. Þau einnig bl. Séra Þorbjörn er talinn hafa hrapað til bana í Kerlingahálsi.
1703
Gunnlaugur Jónsson. Bóndi í Kvígindisdal 1703, lögréttumaður. Það gæti staðizt, að Gunnlaugur hefði orðið bóndi í Kvígindisdal, þegar séra Þorbjörn lést. F. um 1637, sonur Jóns Össurssonar, sem ráðsmaður var í Saurbæ hjá Birni sýslumanni Gíslasyni. Albróðir Þorsteins hreppstjóra í Keflavík, sjá þar.
K. um 1673, Guðrún, f. um 1753 Ingimundardóttir Björnssonar bónda að Kambi í Króksfirði, Bjarnasonar bónda á Brjánslæk, Björnssonar prests á Melstað Jónssonar biskups Arasonar. Systir Guðrúnar mun hafa verið Ólöf kona Jóns bónda í Vatnsdal. Börn þeirra:
Jón, f. um 1673, bóndi á Skjaldvararfossi 1703. Bóndi í Kvígindisdal 1735.
Erlendur, f. um 1684, bóndi á Láganúpi.
Guðrún, f. um 1775, kona Þorbjörns bónda í Kvígindisdal 1703, Pálssonar.
Ingveldur, f. um 1685.
Sesselja, f. um 1689.
1703
Þorbjörn Pálsson. Bóndi í Kvígindisdal 1703. Fluttist þá um vorið að Geitagili. Hann hefur sennilega búið aðeins fá ár í Kvígindisdal, því að hann hefur ekki kvænzt fyrr er rétt fyrir 1700. F. um 1661, á lífi a.m.k. um 1715. Foreldrar: Páll Bjarnason húsmaður í Breiðavík 1703 og k.h. Ingveldur Þórðardóttir. Þorbjörn er talinn hafa verið tvíkvæntur.
1703 K. Guðrún, f. um 1675 Gunnlaugsdóttir bónda í Kvígindisdal Jónssonar. Þau eiga eina dóttur (1703):
Katrín 4 ára.
En í ættartölum (sbr. æviskrár) er kona Þorbjörns sögð Guðrún dóttir séra Jóns Ólafssonar á Lambavatni, er síðar hafi átt fyrrnefndan Jón Gunnlaugsson frá Kvígindisdal. Hefði Guðrún Jónsdóttir þá átt að vera s.k. Þorbjörns og síðan s.k. Jóns Gunnlaugssonar. Sonur Þorbjörns var:
Gunnlaugur, f. um 1714, bóndi á Naustabrekku 1762. Hafi hann verið úr fyrra hjónabandi Þorbjörns, sem ekki er ólíklegt vegna nafnsins, þá hefði Þorbjörn átt að vera kominn langt um sextugs aldur, er hann kvæntist í seinna sinn.
Um önnur börn, sem Þorbjörn kann að hafa átt, er ekki kunnugt. Þrjú systkini Þorbjörns er 4 gift og búandi í Breiðavík 1703. Einnig var systir hans Ingibjörg kona Tómasar Jónssonar bónda í Krossadal.
1735
Jón Gunnlaugsson. Bóndi í Kvígindisdal 1735. Bóndi á Skjaldvararfossi 1703, en hefur líklega flutzt að Kvígindisdal, þegar faðir hans dó eða lét af búskap, en Gunnlaugur er kominn hátt á sjötugsaldur 1703. F. um 1673 og var því liðlega sextugur 1735. Foreldrar: Gunnlaugur Jónsson bóndi í Kvígindisdal og k.h. Guðrún Ingimundardóttir.
K. I Guðrún, f. um 1672 Þórðardóttir. Búa á Skjaldvararfossi 1703, bl. Þá e.t.v. nýgift, en ekki mun kunnugt um nein börn þeirra.
K. II fyrir 1710, Guðrún Jónsdóttir prests á Lambavatni, Ólafssonar, sjá að framan. Börn þeirra:
Guðrún, f. 1710.
Jón, f. 1713, bóndi í Kollsvík.
1735
Bjarni Einarsson. Bóndi í Kvígindisdal 1735. Ekki kunnugt um ætt hans eða kvonfang.
um 1750
Þorgrímur Sigurðsson. Bóndi í Kvígindisdal um 1750. Það mun vera hann sem dó 3. maí 1754 (30 ? ára), kvæntur. Hann var bróðir Jóns, sem, f. er um 1726, bóndi í Kvígindisdal 1762 og síðar. Er því líklegt að Þorgrímur bróðir hans hafi verið f. um 1724. Faðir hans var Sigurður Jónsson bóndi í Hænuvík 1735 (af Sellátraætt). Ekki er víst um nafn á konu Þorgríms. Líklegt er að hún hafi verið dóttir Þorgríms Jónssonar bónda á Lambavatni og f.k.h. Helgu Pálsdóttur, líklega bónda á Geitagili Magnússonar.
um 1750-1785
Jón Sigurðsson. Bóndi í Kvígindisdal 1762 og 1780. Hann hefur að öllum líkindum búið í Kvígindisdal allan sinn búskap frá því um 1750 og fram yfir 1785. F. um 1726, d. eftir 1785 en fyrir 1801. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi í Hænuvík 1735 og k.h., sem ekki er víst um nafn á.
K. rétt fyrir 1750, Guðrún, f. um 1715 Jónsdóttir, d. milli 1785-og 1801. Börn þeirra:
Tvíburar, f. 1751, hafa dáið ungbörn.
Ingveldur, f. 1753, óg. vinnukona á Stökkum 1801, líklega dáin fyrir 1808.
Þorgrímur, f. 11. sept. 1754, bóndi á Hvalskeri 1801.
Sigurður, f. 1757, dó á 1. ári.
1757-1775
Bjarni Erlingsson. Bóndi í Kvígindisdal 1762. Hann mun hafa búið allan sinn búskap í Kvígindisdal, frá því hann kvæntist 1757 og þar til Halldór Magnússon fluttist þangað, en það hefur a.m.k. ekki verið fyrir 1775. F. um 1731, vafalaust í Breiðavík, d. milli 1801 og 1808. Vinnumaður á Vatneyri 1780 og ekkjumaður s.st. 1801. Foreldrar: Erlendur Bjarnason bóndi í Breiðavík 1735 og k.h. Ingunn Guðmundsdóttir.
K. 1757, Guðrún, f. um 1726, d. milli 1785 og 1801 á Vatneyri. Börn þeirra:
Erlingur, f. 1757, d. sama ár.
Bjarni, f. 1758, d. sama ár.
Ingunn, f. 28. ágúst 1759, kona Halldórs Þorlákssonar bónda í Botni 1817.
Árni, f. 22. ágúst 1762, bóndi á Geitagili 1808.
Sigríður, f. 16. maí 1765, kona Guðmundar Þorsteinssonar bónda á Geitagili 1801.
Magnús, f. 18. júlí 1868, kvæntist ekki. Sonur hans og Ingibjargar Finnsdóttur vinnukonu á Hnjóti var Magnús, f. 27. apríl 1820. Er vinnumaður á Sjöundá 1845. Um það leyti var hann skrifaður faðir að barni, sem Guðrún Jónsdóttir, síðar s.k. Ólafs í Króki, átti, en vafalaust hefur verið barn Ólafs, enda voru þau þá búin að eiga Benóný, sem einnig var rangfeðraður upphaflega. Barnið dó. Magnús Bjarnason dó 7. febr. 1824.
um 1775-1783
Halldór Magnússon. Bóndi í Kvígindisdal 1780 og 1782. Hann hefur líklega, eins og áður segir, komið eftir Bjarna Erlingsson og verið fram að 1783 eða 84, varla lengur. Fluttist að Hænuvík, sjá þar.
um 1787
Rögnvaldur Ólafsson. Hann er í Kvígindisdal um 1787. Ólafur sonur hans, síðar bóndi á Stökkum, sagður f. þar. Rögnvaldur hefur getað búið þar í nokkur ár, en ekki eru fullar heimildir fyrir því. Hann var bóndi á Skógi 1801, sjá þar.
1784
Jón Ólafsson. Bóndi í Kvígindisdal 1784. Hann hefur líklega komið, þegar Halldór Magnússon fluttist að Hænuvík, en ekki er hægt að segja um það með vissu, hve lengi hann hefur búið í Kvígindisdal. Hann hefur væntanlega verið þar til Steinn Þorsteinsson fluttust að Kvígindisdal frá Grundum á tímabilinu 1791-1800. Jón er bóndi á Geirseyri 1780 og 1782, sjá þar.
1801
Steinn Þorsteinsson. Bóndi í Kvígindisdal 1801. Kominn þangað eftir 1791, eða í fyrsta lagi þá, því að yngsta barn hans, Sigríður er talin f. á Grundum, en hún er 10 ára 1801. Dó 18. nóv. 1806, að öllum líkindum í Kvígindisdal. Áður bóndi á Grundum, sjá þar.
1801 og 1808
Guðbrandur Jónsson. Bóndi í Kvígindisdal 1801 og 1808. Bóndi á Geirseyri 1817, hefur vafalaust flutt þangað úr Kvígindisdal. Hann hefur án efa verið lengi við búskap í Kvígindisdal fyrir 1801. Á tímabilinu 1780-1800 er ólíklegt að aðrir hafi búið í Kvígindisdal en Jón Sigurðsson, Halldór Magnússon, Jón Ólafssonar, Steinn Þorsteinsson, Guðbrandur Jónsson og kann að vera Rögnvaldur Ólafsson. Um skiftingu milli þeirra verður ekki sagt með vissu. F. 1. apríl 1761, d. í Saurbæ 7. sept. 1838. Foreldrar: Jón Oddleifsson líklega sá J. Oddl. sem dó 2. mars 1777 í Saurbæjarsókn, talinn giftur maður, veikur, og Gunnhildur, f. um 1725 Ólafsdóttir. Þau voru ekki í hjónabandi. Um giftingu Jóns Oddleifssonar eða annað í því sambandi er ekkert sagt í kjb. eftir 1750. Jón Oddleifsson er til á Melanesi 1703 2 ára. Er hugsanlegt að þetta sé sami maður, en þá hefði hann að vísu verið orðinn nokkuð gamall, þegar Guðbrandur fæddist. Gunnhildur giftist 1771 Eiríki Hallssyni, bónda í Kirkjuhvammi 1780. Líklega er það sú sama G. Ól. Sem eignast son 1752 með Guðmundi Torfasyni. Sá drengur hét einnig Guðbrandur og er ekkert kunnugt um hann, kann að hafa dáið á 1. ári.
K. 1783, Guðrún, f. á Geitagili um 1744, á Hnjóti 1780, d. eftir 1817 Þorgrímsdóttir líklega bónda á Lambavatni 1780 Jónssonar (sjá þó hér að framan um Þorgrím Sigurðsson). Árið 1801 eig þau Guðbrandur og Guðrún einn son:
Jón 17 ára.
1808
Jón Þórólfsson. Bóndi í Kvígindisdal 1808. Bóndi í Skápadal 1817 og fram að 1820. Hann hefur orðið bóndi í Kvígindisdal 1805 eða fyrr (eftir Stein Þorsteinsson) og farið síðan frá Kvígindisdal að Skápadal. F. á Geirseyri 1772 (ekki í kjb.), d. í Kvígindisdal 14. apríl 1844. Foreldrar: Þórólfur Ólafsson vinnumaður í Kvígindisdal 1780, f. um 1721, d. milli 1785 og 1801 og k.h. Margrét, f. um 1727, d. í Hænuvík milli 1801 og 1808 Jónsdóttir. Þórólfur hefur verið s.m. Margrétar. Annað barn þeirra var Ingibjörg, f. 1768 á Geirseyri, kona Ólafs Halldórssonar bónda í Hænuvík, síðar í Raknadal.
K. um 1800, Þuríður, f. á Hnjóti 3. okt. 1769, d. í Hergilsey 8. júní 1830 Steinsdóttir, fluttist þangað með Einari Guðmundssyni, sjá síðar. Börn þeirra:
Margrét, f. í Hænuvík 1801, kona Magnúsar Halldórssonar bónda á Hvallátrum.
Björn, f. í Kvígindisdal 1807 (vantar í kjb.), d. í Breiðavík 12. maí 1855, kvæntur vinnumaður í Botni 1845. Sonur hans var Kristján bóndi á Hvalsekri, sjá þar.
1817
Árni Þóroddsson. Bóndi í Kvígindisdal 1817. Hann hefur líklega komið að Kvígindisdal, þegar Guðbrandur Jónsson fluttist að Geirseyri, eða þegar Jón Þórólfsson fór að Skápadal og mun það sennilegra. Hefði hann þá kunnað að farað að Kvígindisdal upp úr 1810 eða svo og bjó þar til dauðadags 1824. F. á Vatneyri 19. febr. 1771, drukknaði í hákarlalegu frá Kvígindisdal 22. ágúst 1824. Foreldrar: Þóroddur beykir og bóndi á Vatneyri Þóroddsson og k.h. Bergljót Einarsdóttir bónda í Kollsvík, svo í Kvígindisdal en seinast og lengst á Vatneyri, Bjarnasonar bónda í Kollsvík Jónssonar.
K. Ingibjörg, f. 1787 Ólafsdóttir bónda á Hvallátrum Erlingssonar og k.h. Sigríðar Magnúsdóttur bónda á Hnjóti Þorvarðssonar. Ingibjörg og Árni voru þremenningar frá Bjarna bónda í Kollsvík. Einkasonur Árna og Ingibjargar virðist hafa verið:
Ólafur, f. á Vatneyri 10. mars 1808, bóndi í Botni.
1824-1826
Ingibjörg Ólafsdóttir. Búandi í Kvígindisdal 1824-1826. Ekkja fyrrnefnds Árna Þóroddssonar. Ingibjörg giftist aftur, sjá næstu grein.
1826-1829
Einar Guðmundsson. Bóndi í Kvígindisdal 1826-1829. Fluttist þá að Hergilsey, en þaðan 1855 að Auðshaugi á Barðaströnd. F. í Hvallátrum á Breiafirði 12. okt. 1795, d. á Auðshaugi 30. sept. 1873. Foreldrar: Guðmundur bóndi í Hvallátrum á Breiðafirði Einarsson, Sveinbjarnarson og k.h. Þorgbjörg Jónsdóttir. Guðmundur faðir Einars var hálfbróðir, samfeðra, Eyjólfs „Eyjajarls“.
K. 30. sept. 1826, Ingibjörg Ólafsdóttir, ekkja Árna Þóroddssonar í Kvígindisdal. Synir þeirra f. í Kvígindisdal:
Gísli, f. 3. júní 1827, dó samdægurs.
Gísli, f. 6. júlí 1828, síðar bóndi í Hvallátrum á Breiðafirði.
Afkomandi Einars og Ingibjargar var Bergsveinn Skúlason bústjóri í Breiðavík 1953-1955.
1829-1845
Bjarni Bjarnason. Bóndi í Kvígindisdal 1829-1845, í Breiðavík 1845-1849, sjá þar, á Láganúpi 1849-1857. F. á Hvalskeri 1801, d. í Breiðavík 26. jan. 1862.
1845-1846
Þorsteinn Jónsson. Bóndi í Kvígindisdal 1845-1846. Síðar bóndi á Sjöundá (1846-1849). Fluttist suður í Eyjar og var seinast í Rauðseyjum. Var á ýmsum stöðum í innsveitum Breiðafjarðar. F. í Stðarhólssókn um 1818, d. í Rauseyjum 10. sept. 1865.
K. 22. mars 1843, Þorbjörg, f. í Gufudalssveit 29. apríl 1811, brann inni í Rauðseyjum 6. mars 1891 Jónsdóttir, f. um 1768, drukknaði með Magnúsi sútara í Breiðavík 12.maí 1829, Rögnvaldssonar og k.h. Sigríðar Jónsdóttur bónda í Múla í Kollafirði 1801 Jónssonar. Jón í Múla var nefndur „saltari“, af því hann hafði verið við saltvinnsluna á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hann komst einn lífs af, er Þorvarður Egilsson bóndi í Breiðavík, Brandssonar, drukknaði 13. maí 1772 ásamt 5 hásetum hans. Börn Þorsteins og Þorbjargar voru:
Ástríður, f. á Hamarlandi í Reykhólasveit 24. ágúst 1843, giftist 18. maí 1871 Jónasi Sigurðssyni síðar bónda Helgafelli.
Friðrika, f. í Múla á Skálmarnesi 26. apríl 1845, ekki í Rauðasandshreppi 1845 um haustið.
Guðmundur, f. á Sjöundá 10. ágúst 1846, d. 1. okt. sama ár.
Gísli, f. á Sjöundá 9. des. 1848, d. 8. mars 1849.
Júlíus, f. í Flatey 16. júlí 1850, í Rauðseyjum með foreldrum sínum 1860.
1846-1855
Hinrik Guðlaugsson. Bóndi í Kvígindisdal 1846-1855. Fluttist þá að Skápadal, en dó þar 25. febr, 1856. Er í Sauðlauksdal 1845. F. á Vatneyri 13. sept. 1813. Foreldrar: Guðlaugur Sigurðsson (skrifaður Sívertsen 1808, er þá „búðarpiltur“ á Vatneyri, á heimili Þórðar Þóroddssonar, aldur vantar) og Bergljót, f. 1791 Jónsdóttir Thorbergs verzlunarstjóra á Patreksfirði. Bergljót giftist síðar Páli Pálssyni bónda á Melanesi.
K. 12. okt. 1842, Sæunn, f. að Helgafelli 17. okt. 1815 Gísladóttir prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar. Börn þeirra:
Guðrún, f. á Látrum 16. des. 1844, d. í Kvígindisdal 28. sept. 1846 (mislingar).
Jóhanna, f. í Kvígindisdal 2. júlí 1846, d. 16. nóv. sama ár.
Jón, f. í Kvígindisdal 3. okt. 1847, drukknaði er Frigg fórst í maí 1875, sjá Sigurð Gíslason bónda í Botni.
Davíð, f. í Kvígindisdal 27. júní 1850, drukknaði er Vatnsdalsskipið fórst í Látralendingu 15. febr. 1876. Hann var heitbundinn Sigríði Bjarnadóttur, er síðar átti Jón Hjálmarsson bónda á Gili.
Ólafur, f. í Kvígindisdal 14. mars 1854, fór til Danmerkur og var þar hjá Benedikt Gíslasyni frænda sínum.
1852-1853
Þorsteinn Þorsteinsson. Verzlunarstjóri á Patreksfirði. Árin 1852-1853 virðist hann hafa haft búskap á 1/3 jarðarinnar. Fyrrum bóndi á Vatneyri, sjá þar.
1855-1870
Árni Jónsson (Thoroddsen). Bóndi í Kvígindisdal 1855-1870. Fluttist þá að Hvallátrum og bjó þar til ársins 1889 á 10 hdr., eða þriðjungi jarðarinnar. Hafði áður búið þar á 5 hdr. 1854-1855. F. á Hvalskeri 17. apríl 1825, d. í Kvígindisdal 19. febr. 1898. Foreldrar: Jón Þ. Thoroddsen bóndi á Látrum og k.h. Guðrún Arnfinnsdóttir.
K. 17. sept. 1854, Sigríður, f. 24. ágúst 1829, d. á Látrum 22. sept. 1879, Snæbjörnsdóttir bónda í Dufansdal Pálssonar. Systkini Sigríðar voru mörg, meðal þeirra Guðrún kona Össurs á Látrum, Kristín kona Jóns Bjarnasonar í Keflavík, Markús kaupmaður á Geirseyri og Hákon móðurfaðir Hákonar í Haga Kristóferssonar. Börn þeirra:
Guðrún, f. 4. okt. 1855, kona Dagbjarts Gíslasonar bónda í Kollsvík, Einarssonar.
Kristín, f. 25. jan 1857, d. á Patreksfirði 16. júní 1849, óg. og bl.
Guðbjörg, f. 9. júlí 1858, kona Ólafs Jónssonar bónda í Króki.
Þóra, f. 7. ágúst 1859, d. 28. okt. sama ár.
Jón, f. 13. ágúst 1860, bóndi í Kvígindisdal.
Helga Beata, f. 5. nóv. 1861, kona Guðmundar hreppstjóra Sigurðssonar í Vatansdal.
Snæbjörn, f. 10. okt. 1863, d. 21. ágúst sama ár.
Snæbjörn, f. 11. nóv. 1864, d. á Geirseyri 17. okt. 1889, við verzlunarstörf hjá Sigurði Bachmann 1884.
Einar Jóhannes, f. 12. júní 1866, d. 22. júní sama ár.
Jóhannes Magnús, f. 17. ágúst 1867, drukknaði í fiskiróðri með Dagbjarti Gíslasyni 2. maí 1888.
Sigurður, f. 19. ágúst 1869, drukknaði einnig með Dagbjarti Gíslasyni, sem var tendasonur Árna.
Anna Soffía, f. 25. apríl 1870, d. á Patreksfirði 29. jan. 1929, óg. og bl.
Össur, f. á Látrum 27. ágúst 1871, bóndi í Neðri Tungu.
Öll börnin nema Össur f. í Kvígindisdal.
Börn Árna Jónssonar utan hjónabands voru:
Grímur, f. á Látrum 6. jan. 1848, d. 10. jan sama ár. Móðir hans var Guðríður Jónsdóttir bónda á Geitagili Einarssonar. Hún dó í Sauðlauksdal 13. júní 1856, ógift.
Svanborg, f. í Kvígindisdal 11. júlí 1868, kona Hálfdánar Árnasonar bónda á Lambavatni Jónssonar. Móðir Svanborgar var Júlíana Þórðardóttir bónda á Sjöundá Jónssonar. Svanborg var hálfsystir Guðbjartar Þorgrímssonar bónda á Látrum.
1870-1882
Tómas Eiríksson. Bóndi í Kvígindisdal 1870-1882. Fluttist þá að Botni í Súgandafirði. Bóndi í Dufansdal, er hann kvæntist 1858, bóndi á Geirseyri 1861-1868, tvö seinustu árin ásamt Markúsi kaupmanni Snæbjörnssyni, fór þá að Botni í Tálknafirði og kom þaðan að Kvígindisdal. Árið 1887 fór Tómas frá Botni í Súgandafirði til Ísafjarðar. F. ?? Foreldrar: Eiríkur Tómasson á Sæbóli á Ingjaldssandi, drukknaði 1849, um fimmtugt og k.h. Kristín eldri Nikulásdóttir Sigurðssonar, frá Orrahóli á Fellsströnd. Systir henna, Kristín yngri var kona Snæbjörns Pálssonar í Dufansdal.
K. I 28. sept. 1858, Halldóra, f. 4. febr. 1835, d. 1880, Snæbjörnsdóttir bónda í Dufansdal Pálssonar. Þau eru því systrabörn. Börn þeirra:
Þuríður, f. í Dufansdal 2. júní 1859, d. í Botni í Súgandafirði 12. febr. 1883, óg. og bl.
Eiríkur, f. í Dufansdal 16. júní 1860, d. 20. júlí sama ár.
Kristín Jóna, f. á Geirseyri 1864.
Jón, f. á Geirseyri 13. júlí 1867, kvæntist 1887 Petrínu Friðriksdóttur, fluttust til Ísafjarðar 1892.
Eiríkur Bjarni, f. í Kvígindisdal 25. maí 1873, d. í Botni í Súgandafirði 20. júlí 1882.
Halldór, f. í Kvígindisdal 18. okt. 1878, d. í Botni í Súgandafirði 23. júní 1882
K. II 23. okt. 1880, Málfríður, f. um 1834 Guðmundsdóttir. Börn þeirra:
Guðbjörg, f. í Kvígindisdal 20. júlí 1881, fluttist með foreldrum sínum til Ísafjarðar 1887.
andvana sveinbarn, f. 1886
1882-1891
Magnús Gíslason, fyrrum prestur í Sauðlauksdal. Bóndi í Kvígindisdal 1882-1891, seinasta árið í sambýli við Jón Á. Thoroddsen, sem talinn er hafa 6,9 hdr., en séra Magnús 3,4 hdr. (nýrra matið). Áður bóndi í Sauðlauksdal 1852-1882, 2 seinustu árin á 1/3 hluta jarðarinnar á móti séra Jónasi Björnssyni.
1890-1921
Jón Á. Thoroddsen. Bóndi í Kvígindisdal 1890-1921. F. Kvígindisdal 13. ágúst 1860, d. s.st. 11. sept. 1943. Foreldrar: Árni J. Thoroddsen bóndi í Kvígindisdal og k.h. Sigríður Snæbjörnsdóttir.
K. 1. okt. 1887, Sigurlína, f. 24. jan 1864, d. í Kvígindisdal 2. ágúst 1944 Sigurðardóttir bónda í Botni Gíslasonar. Börn þeirra:
Sigríður Ingileif, f. á Látrum (20.05.1889-18.05.1986), óg. og bl.
Snæbjörn, f. í Kvígindisdal (15.11.1891-29.01.1987), bóndi í Kvígindisdal (sjá hér á eftir).
Ingibjörg, f. í Kvígindisdal (15.12.1893-20.01.1979), óg. og bl.
Ólína, f. í Kvígindisdal (23.09.1897-d. eftir 1967), óg. og bl.
Sigurður, f. í Kvígindisdal (26.03.1899-18.03.1974), bílstjóri í Reykjavík. Emma Guðjónsdóttir.
Árni, f. 9. okt. 1900, d. 10. sama mán.
1921-1922
Árni Dagbjartsson. Bóndi í Kvígindisdal 1921-1922, í félagi við Snæbjörn J. Thoroddsen. F. á Hvallátrum (27.08.1883-11.09.1972), sonur Dagbjartar Gíslasonar bónda í Kollsvík, Einarssonar og k.h. Guðrúnar Árnadóttur bónda í Kvígindisdal Jónssonar. Árni og Snæbjörn voru því systkinasynir. Árni var ókv. og bl., var frá barnsaldri heimilisfastur í Kvígindisdal. Farsæll sjómaður og skipstjóri framan af ævi en síðast fjármaður í Kvígindisdal. Árni átti lengi 13/36 af Kvígindisdalsjörðinni, en seldi þann hluta til Vals S. Thoroddsen þegar hann hóf búskap (sjá hér á eftir).
1921-1965
Snæbjörn J. Thoroddsen (15.11.1891-29.01.1987), sonur Jóns Á. Thoroddsens bónda þar og k.h. Sigurlínu Sigurðardóttur. Bóndi í Kvígindisda; lengi hreppsnefndaroddviti og sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Rauðasandshrepps, auk margra trúnaðarstarfa.
K. 12. maí 1923, Þórdís, f. á Hóli í Tálknafirði (09.05.1905-23.05.1982) Magnúsdóttir bónda í Tungu í Tálknafirði Guðmundssonar, Eggertssonar bónda í Saurbæ á Rauasandi, Magnússonar. Börn þeirra:
Jón dó skömmu eftir fæðingu 9. jan. 1924.
Sigurlína, f. 10. febr. 1925, dó sama mán.
Jón, f. 10. febr. 1925, dó sama mán.
Atli (14.04.1926-28.01.2004). Skipstjóri og síðar hafnarvörður á Patreksfirði. Maggý Hjördís Kristjánsdóttir. 4 dætur þeirra, auk laundóttur Atla.
Alda, f. 14. apríl 1927. 1 dóttir.
Sigurlína Jóna, f. 3. apríl 1929. M. Ingvar Guðbjartsson. Sjá Kollsvík.
Valur, f. 5. febr. 1934. Bóndi í Kvígindisdal (sjá hér á eftir).
Elfa (03.11.1936-11.06.2009). Þorsteinn Þorláksson Bjarnar.
Frúgit (29.09.1938-17.04.2014). Ólafur Lárusson (sjá Stakkar).
1957-2004
Valur S. Thoroddsen. Bóndi í Kvígindisdal. F. 5. febr. 1934; sonur Snæbjarnar J Thoroddsen (sjá framar). Keypti hluta Árna Dagbjartssonar (sjá framar) og stofnaði, ásamt konu sinni, nýbýli við hlið foreldra sinna, og bjuggu þau síðar á jörðinni allri. Lengi í hreppsnefnd Rauðasandshrepps og hreppstjóri um tíma, auk fleiri trúnaðarstarfa. Stundaði einnig grásleppuútgerð. Fluttu í Borgarnes eftir að þau hættu búskap.
K. Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir (13.12.1928-28.02.2008), Guðbjartssonar á Láganúpi (sjá þar). Börn þeirra:
Sigurjón Haukur f. 21.11.1958. Átti barn með Ólafíu Kristínu Karlsdóttur. Ragnhildur Kristín Einarsdóttir. 1 barn.
Hildur f. 05.09.1960. Átti barn með Valdimar Smára Gunnarssyni. Guðmundur Bjarni Gíslason; skildu. 2 börn.
Snædís f. 04.12.1962. M. Ólafur Elvar Sigurðsson. 2 börn.
Anna Guðbjört f. 07.10.1964. M. Árni Magnússon. 3 börn.
Magnús f. 12.03.1966. K Guðrún Margrét Ásgeirsdóttir. 3 börn.
Fyrir hjónaband átti Fríða dóttur með Guðmundi Magnússyni; Eyrúnu Jónu (11.12.1953-07.05.2000). Eyrún átti barn með Hlyn Antonssyni.
Kvígindisdalur fór í eyði þegar Fríða og Valur fluttu í Borgarnes 2004.
Nafskýring: Nafn jarðarinnar hefur orðið mörgum tilefni heilabrota. Séra Björn Halldórsson segir það dregið af jurtinni sauðlauk (Triglochin maritimum; strandsauðlauk). Komið hefur upp kenning um að það sé kennt við melgresi sem þarna er mikið af. Einnig að það hafi upphaflega verið “Sauðlausdalur”, sem er ósennilegt í ljósi þess hve þar er gott sauðland. Ekki er ólíklegt að nafnið vísi einfaldlega til þess; að hér sé nægur beitargróður (laukur). Má í því efni benda á orðtakið “laukur ættarinnar”, sem er sömuleiðis líkingamál.
Um byggðasögu: Ekki fer sögum af fyrstu ábúendum jarðarinnar, en hún var í landnámi Þórólfs sparrar, sem bjó á Hvallátrum. Sauðlauksdalur hefur líklega frá öndverðu verið talin með búsældarlegri jörðum í Rauðasandshreppi. Þar er skjólsælt; góðir hagar og stórt veiðivatn. Hún varð því fljótt höfðingjasetur. Á 16. öld var gerð sú atlaga að trúarlegu einveldi Saurbæjarkirkju í Rauðasandshreppi með því að stofnuð var kirkja í Sauðlauksdal og til hennar lögð sókn og ítök. Þar hafði verið bænhús (reyndar nefnt kirkja í kirknatali Páls biskups frá um 1200), líkt og á mörgum bæjum í hreppnum. Árið 1505 var þar leyfð greftrun og aðrar meiriháttar athafnir, líkt og um hálfkirkju væri að ræða. Árið 1512 setti Stefán biskup Jónsson alkirkju í Sauðlauksdal. Þá var Saurbæjarsókn skipt í tvennt með því að til Sauðlauksdalssóknar heyrðu nú allir bæir við Patreksfjörð; frá og með Hænuvík, til og með Vatneyri. Kirkjan var í kaþólsku helguð heilagri Maríu og öllum heilögum; einkum Þorláki helga. Þáverandi eigendur Sauðlauksdals; Jón Jónsson Íslendingur og Dýrfinna Gísladóttir gáfu kirkjunni 6 hundruð úr heimalandi; ítak í Látrabjargi; 60 sauða beit á Hvallátrum; 6 manna sölvafjöru þar; sjötta hluta reka í Keflavík og tollfrí útgerð teinærings frá Látrum. Núverandi kirkja var byggð 1863 en endurbyggð að verulegu leyti árið 1902. Járnvarin timburkirkja. Fékk gagngera viðgerð árin 1993-97.
Gríðarlegir skeljasandsflákar eru neðantil í Sauðlauksdal og mikil sandeyri þar í sjó fram. Sandfok hefur því löngum ógnað jörð og búsetu, og segir m.a. hér á eftir frá viðureign séra Björns Halldórssonar við það. Björn er annars þekktur fyrir kartöflurækt sína og annað frumkvöðlastarf á sviði náttúrufræða og búnaðarhátta.
Tvær hjáleigur voru í Sauðlauksdal í byrjun 18.aldar; Dalshús hærri og neðri. Um tíma einnig sú þriðja: Leifar, og e.t.v. sú fjórða; Ólafsvöllur, en minnst er um hana vitað.
Jarðabókin 1703. “Dýrleiki jarðarinnar (að meðtöldum Dalshúsum báðum) er 30 hdr. Annars er heimajörðin 20 hdr. Þar er alkirkja, til hverrar sækja Patrixsfirðingar. Jörðina á Guðrún Eggertsdóttir. Ábúendur: Á 10 hdr. Jón Diðriksson á 5 hdr. Margrét Jónsdóttir, á 5 hdr. Jón Jónsson í Vatsdal og Sigríður systir hans. Landsskuld á hverjum 5 hdr. er 2 vættir. Betalast í fiski á eyri (þ.e. í kaupstað; hjá kaupmanni á Vatneyri), peningum með dönskum taxta, fríðu etc. Uppí landskuld tekst fóður, svo mikið sem hver afkasta kann. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukúgildi á parti Jóns Diðrikssonar 4, á Margrétar Jónsdóttur 2, á Jóns Jónssonar parti 2. Leigur betalast í smjöri heim til Bæjar. Kvaðir eru hjá Margretu; skipsáróður í Láganúpsveri. Hinir eru formenn fyrir húsbóndans skipum í Láturdal og undir Láganúpi. Skipferð gjöra leiguliðar stundum, stundum ekki, yfir um Patreksfjörð eða út í Víkur.
(Hjá Jóni voru 3 kýr, 12 ær, 5 geldir sauðir, 8 gemlingar og 2 hestar. Hjá Margrétu 2 kýr, 8 ær, 2 geldir sauðir og 2 gemlingar en enginn hestur. Hjá Jóni og systur hans voru aðeins kvígildin)…
Sauðlauksdalskirkja á skógarhögg í Botnsskógi og brúka leiguliðar þar kolskóg ókeypis. Silúngsveiði er þar nokkur, hefur til forna meiri verið (á lausan miða hefur .A.M. skrifað: „í vatni hjá Sauðlauksdal er góð veiði“ að sögn kunnugra). Grastekja á fjalli, nokkuð lítil. Heimræði (ef so skal kalla) hefur þar verið á haust, nú ekki. Skip hálft á Jón Diðriksson við Guðrúnu Eggertsdóttur. Gengur þar til fiskjar í Láturdal. Segl, seilarbönd og reiða leggur Jón til fyrir ekkert. Hinir eiga ekkert skip. Túni spillir mjög sandur, sem áfýkur. Land er þar víðlent og grösugt. Vetrarhart í meira lagi. Formaður fyrir sínu og Guðrúnar skipi er Jón Diðriksson og hefur þar fyrir höfuðin af hennar skipshlut”.
Barðstrendingabók PJ Í Sauðlauksdal er prestsetur og bréfhirðing. Björn prófastur Halldórsson og Eggert Ólafson gerðu þann garð frægan á 18.öld. Þar voru fyrst ræktaðar kartöflur á Íslandi. Sér enn fyrir þeim görðum, og sömuleiðis blómagarði sr Björns; er þar kallað Akurgerði. Kúmen vex þar enn sjálfsáið. Litlar aðrar minjar sér nú eftir Björn prófast, nema garðinn Ranglát, sem hann lét hlaða til varnar fyrir sandfoki. Var sá garður ekki vinsæll af þeim er að honum unnu, eins og nafnið bendir til.
Í Sauðlauksdal er tún stórt og hefir þó verið enn stærra, en sandfok hefir brotið af því, neðan frá Ranglát og heim undir bæ… Dalurinn er grösugur og sumarfagur, og er vatnið til mikillar prýði. Í því er nokkur silungsveiði… Í Sauðlauksdal eru búfjárhagar víðáttumiklir og góðir og skjólasamt í flestum áttum frammi í dalnum. Fjörubeit er engin. Heitt er þar á sólskinsdögum og lognasamt”.
Flugvöllur var gerður neðst í Sauðlauksdal; á svonefndum Sandodda, 1962. Í fyrstu var þar lítil flugbraut, en gerður hæfur fyrir stærri farþegaflugvélar árið 1965 og náði þá inn í landareign Hvalskers. Þangað var lengi áætlunarflug til Reykjavíkur, sem þjónaði byggðum í Barðastrandasýslu. Völlurinn var síðar lengdur enn og malbikaður; einnig var byggt stór flugstöð við hann árið 1985. Áætlunarflugi um völlinn var skyndilega hætt árið 1997, og síðan hefur áætlunarflug fyrir svæðið eingöngu verið um Bíldudalsflugvöll.
um 1500
Jón Jónsson kallaður Íslendingur. Bóndi í Sauðlauksdal á síðustu áratugum 15. aldar og framan af 16. öld. Hans er fyrst getið 6. okt. 1483, er þá kvæntur:
K. Dýrfinna Gísladóttir í Haga, Filippussonar. Gerði þá Gísli Filippusson þann samning við Jón og Dýrfinnu, að hann gaf dóttur sinni í heimanfilgju jarðirnar Sauðlauksdal og Keflavík í Saurbæjarsókn og auk þess 12 hdr. í þarflegum peningum, en þau Jón og Dýrfinna slepptu í þess stað jörðinni Bíldudal, sem verið hefu heimanfylgja Dýrfinnu í fyrstu. Börn Jóns og Dýrfinnu, sem kunnugt er um, voru:
Konráð, sem vafalaust hefur búið í Sauðlauksdal eftir föður sinn.
Filippus prestur að Hvallátrum.
Guðrún, sem átti Jón í Súðavík og víðar, Jónsson (Þorlákssonar og Solveigar ríku Björnsdóttur).
Faðir Jóns er talinn hafa verið Jón Snorrason prestur í Gaulverjabæ.
Mikilhæfur maður og hafa myndast um hann þjóðsögur. Jón hefur verið fæddur eigi síðar en um 1460, d. á tímabilinu 16. ágúst – 3. des 1533. Dýrfinna kona Jóns hefur verið á lífi 3. des. 1533.
á 16. öld
Konráð Jónsson, sonur fyrrnefnds Jóns Jónssonar og Dýrfinnu Gísladóttur. Hann hefur líklega búið í Sauðlauksdal eftir föður sinn, á fyrri hluta 16. aldar. Hann er þó látinn fyrir 1546, líklega f. 1480-1490 (og eigi síðar). Konráð virðist hafa verið á lífi 1533.
K. Guðrún yngri Björnsdóttir Guðnasonar í Ögri, er seinna giftist Andrési Árasyni. Börn þeirra voru:
Jón.
Björn.
(D.I.XII 208-209, ættleiðingabréf Guðrúnar Björnsdóttur við börn sín Torfa og Þorgerði, með samþykki sona sinna, Jóns og Björns Konráðssona, 31. mars 1551 í Sauðlauksdal).
s.hl. 16. aldar
Andrés Arason. Hann hefu búið í Sauðlauksdal fyrir og eftir miðja 16. öld. Faðir hans var Ari Andrésson í Saurbæ á Rauðasandi, var hann hér getinn að því er ætlað er. Hann var velmetinn maður og varð seinni maður Guðrúnar Björnsdóttur frá Ögri, er áður átti Konráð Jónsson. Börn Andrésar og Guðrúnar voru a.m.k.:
Torfi
Þorgerður.
Sem Guðrún ættleiddi 31. mars 1651 í Sauðlauksdal, með samþykki sona sinna Jóns og Björns Konráðssonar (D.I.XII 208-9).
1570 og 1571
Jón Konráðsson. Bóndi í Sauðlauksdal 1570 og 1571. Þetta sést af reikningum Eggerts Hannessonar. Að vísu er bústaður ekki nefndur með nafni, en af röðinni virðist mega ráða þetta. Foreldrar Jóns voru: Konráð Jónsson (Íslendings) og k.h. Guðrúnar Björnsdóttur. Jón er nefndur í bréfi 3. des. 1533, um gjöf Jóns Jónssonar, „er kallaður var Íslendingur“, á 10 hundruðum í Hvallátrum til Jóns Konráðssonar, sonarsonar, „er kenndur er prestur“, og vildi Dýrfinna Gísladóttir, ekkja Jóns ekki samþykkja gjöfina. Hinsvegar höfðu þau Jón og Dýrfinna samþykkt gjöf séra Filippusar Jónssonar (sonar síns), er hann gaf Konráði bróður sínum jörðina Keflavík í Rauðasandshreppi, en hana höfðu foreldrar hans gefið honum í tannfé. Einnig höfðu þau hjónin gefið Konráði syni sínum Sauðlauksdal.
Jón virðist hafa verið f. um 1510.
1570 og 1571
Björn Konráðsson. Hann virðist einnig hafa verið bóndi í Sauðlauksdal 1570 og 1571, kemur víða við skjöl vestra, og virðist hafa verið á líkum aldri og Jón bróðir hans.
Þorbjörn Einarsson prestur. Hann er talinn hafa búið á hluta af Sauðlauksdal, líklega er hann fékk Rauðasandsþing 1632 og hefur þá verið þar á seinustu árum Ragnheiðar Eggertsdóttur. Síðar bjó hann í Kvígindisdal, sjá þar.
1598-1642
Ragheiður Eggertsdóttir, ekkja Magnúsar prúða Jónssonar. Eftir að maður hennar dó bjó hún í Saurbæ, en fluttist 1598 eða um það bil að Sauðlauksdal og var þar til dauðadags 6. ágúst 1642.
um 1681
Gunnlaugur Jónsson. Samkvæmt ættartölubók séra Jóns Ólafssonr á Lambavatni hefur hann búið í Sauðlauksdal fyrir og um 1681, enda kallaður Gunnlaugur í Dal. (sem eingöngu á við Sauðaluksdal).
Hann býr í Kvígindisdal 1703, sjá þar.
1703
Jón Diðriksson. Bóndi í Sauðlauksdal 1703; reri þá í Láturdal á þriggjamannafari. F. um 1668. Foreldrar: Diðrik Jakobsson Lassasonar, sem mun hafa drukknað ? 1676 og k.h Guðrún Jónsdóttir, sem býr á Láganúpsgrundum (síðar Grundum) 1703, f. um 1643.
K. Helga, f. um 1661 Þorsteinsdóttir. Börn þeirra eru 1703:
Jakob 11 ára.
Birgitta 9 ára.
Margrét 5 ára.
Bræður Jóns voru þeir Jón elsti bóndi á Láganúpi (Hólum) 1703 og Jón yngsti bóndi í Keflavík. Einnig Guðbrandur, sem er hjá móður sinni. Jón bjó á 10 hdr.
1703
Gísli Þórðarson. Bóndi í Sauðlauksdal 1703, þegar manntalið var tekið, en hann hefur dáið eða hætt búskap þá um vorið, því ekki er hann neinsstaðar bóndi samkvæmt jarðabókinni. F. um 1669. Hann bjó á 5 hdr.
K. Ingibjörg, f. um 1659 Sigurðardóttir. Barn þeirra 1703:
Sigurlaug 4 ára.
1703
Margrét Jónsdóttir. Búandi í Sauðlauksdal 1703. F. um 1649, ekkja. Börn hennar eru:
Sesselja 21 árs.
Páll 20 ára, bóndi á Geitagili 1735.
Magnús 11 ára.
Faðir þeirra hét Magnús.
1703
Jón Jónsson bóndi í Vatnsdal og Sigríður systir hans búandi á 5 hdr. í Sauðlauksdal frá fardögum 1703. Hafa tekið þann hluta, sem Gísli Þórðarson hafði. Sigríður var í Sauðlauksdal og var þrennt í heimili.
1724-1752
Séra Þorvaldur Magnússon. Hann hefu a.m.k. búið í Sauðlauksdal um 1724-1752, en kann að hafa komið þangað fyrr. Hann er umsjónarmaður (ráðsmaður) í Saurbæ 1703 hjá Guðrúnu Eggertsdóttur, ókv.. F. um 1672, d. 27. okt. 1752. Fékk kallið 1704, eftir séra Jón Ólafsson á Lambavatni. Foreldrar: Séra Magnús, f. um 1624, d. 1707 Einarsson prófastur á Stað í Steingrímsfirði og k.h. Guðrún, f. um 1627, d. 1707 Halldórsdóttir bónda á Melgraseyri Andréssonar.
K. Bergljót, f. um 1674, d. 3. febr. 1754 Gísladóttir prests á Helgafelli, Einarssonar og k.h. Kristínar Vigfúsdóttur prests að Setbergi, Illugasonar. Börn þeirra:
Magnús, f. um 1709, bóndi á Hnjóti.
Kristín, f. um 1716, kona Einars Bjarnasonar bónda í Kollsvík, Kvígindisdal og Vatneyri.
Guðrún, f. um 1717, kona Egils Brandssonar bónda í Breiðavík.
Elín, f. um 1718, á Vatneyri 1780, ógift.
1753-1782
Séra Björn Halldórsson. Bóndi í Sauðlauksdal 1753-1782. Hann mun hafa búið í Bæ á Rauðasandi 1750-1753. A.m.k. fluttist hann þangað, er séra Eggert Ormsson fór frá Bæ að Selárdal. Hann vígðist 12. okt. 1749 aðstoðarprestur séra Þorvarðar, en þjónaði Selárdalsprestakalli um veturinn eftir samkomulagi við séra Eggert. F. 5. des. 1724, d. 24. ágúst 1794. Foreldrar: Séra Halldór Einarsson síðast á Stað í Steingrímsfirði og k.h. Sigríður Jónsdóttir eldra, prests á Gilsbakka, Eyjólfssonar.
K. 1756 (í Sauðlauksdal), Rannveig, f. um 1734, d. að Vatnabúðum í Eyrarsveit 22. sept. 1814, 80 ára, Ólafsdóttir í Svefneyjum Gunnlaugssonar og k.h. Ragnhildar Sigurðardóttur lögsagnara í Barðastrandarsýslu, Sigurðssonar. Sonur þeirra:
Halldór, f. 23. apríl 1758, d. 18. des. 1760.
Séra Björn fékk Setberg eftir Sauðlauksdal, en sagði því lausu vegna sjónleysis 1786.
1782-1820
Séra Jón Ormsson. Bóndi í Sauðaluksdal 1782-1820. Hann vígðist 1769 aðstoðarprestur séra Eggerts Ormssonar í Selárdal, en fékk Sauðlauksdal 9. jan. 1782. F. í Fagradal 1744, d. á Söndum í Dýrafirði 4. júní 1828. Faðir hans var kallaður Ormur Jónsson frá Keflavík, síðar bóndi á Geirseyri, en réttur faðir almennt talinn Ormur sýslumaður Daðason í Fagradal. Móðir séra Jóns var Katrín Hafliðadóttir prests að Hrepphólum, Bergsveinssonar.
K. 13. okt. 1779, Ragnheiður, f. um 1744, d. 14. des. 1819 Eggertsdóttir prests í Selárdal, Ormssonar sýslumanns í Fagradal, Daðasonar. Börn þeirra, sem komust upp:
séra Daði, f. 25. okt. 1780, aðstoðarprestur föður síns 1815-1817, bóndi á Geirseyri, síðar prestur á Söndum.
Eggert, f. 1786, bóndi í Saurbæ.
Dóttir séra Jóns hefur dáið ung:
Helga, f. 1785.
1808-1809
Eyjólfur Kolbeinsson. Hann var aðstoðarprestur séra Jóns Ormssonar, fyrst 1795-1797 og síðar 1802-1815. Hann er sagður hafa búið í Saurbæ 1811-1815. Hann er sagður bóndi í Sauðlauksdal ásamt séra Jóni Ormssyni 1808-1809, en hefur sennilega verið þar 1802-1811.
1811-1818
Daði Jónsson. Aðstoðarprestur 1815-1818 og bóndi í Sauðlauksdal 1811-1818. Áður og síðar bóndi á Geirseyri, sjá þar.
1820-1852
Séra Gísli Ólafsson. Bóndi í Sauðlauksdal 1820-1852 á heimajörðinni, en frá 1852-1856 eða lengur í Dalshúsum, en ekki býr hann þar 1860. Hann vígðist 1802 aðstoðarprestur fóstra síns, séra Benedikts Pálssonar á Stað á Reykjanesi, var þar til 1814, en bjó síðan eitt ár á Skerðingsstöðum. Síðan var hann aðstoðarprestur séra Sæmundar Hólms að Helgafelli, en fékk síðan Sauðlauksdal 1820. F. 17. febr. 1777, d. 31. mars 1861. Foreldrar: Ólafur Ólafsson að Múla í Þorskafirði og k.h. Guðrún Einarsóttir úr Steingrímsfirði, Jónssonar. Séra Benedikt tók hann til fósturs á barnsaldri.
K. 13. sept. 1810, Sigríður, f. 13. sept. 1792, d. 11. nóv. 1855 Magnúsdóttir í Stóra Holti í Saurbæ, Jóssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur á Brunnum Jónssonar. Börn þeirra:
Benedikt, f. 15. jan. 1812, bókbindari í Rudköbing, kvæntist og átti börn, varð mjög gamall.
Valgerður, f. 8. ágúst 1813, kona Össurs Össurssonar á Hvallátrum.
Guðfinna, f. 13. sept.1814, kona Friðberts Gunnarssonar á Geitagili.
Sæunn, f. 17. okt. 1815, kona Hinriks Guðlaugssonar í Kvígindisdal.
Solveig, f. 17. okt. 1815, kona Jóhannesar Þórðarsonar á Hjarðarfelli.
Magnfríður, f. 28. ágúst 1818, kona Gísla Magnússonar á Hvalskeri.
séra Magnús í Sauðlauksdal, f. 23. des. 1819 að Helgafelli.
Ólafur, f. 28. júní 1822, bókbindari og bóksali í Bonn, kv. en bl.
Sigurður, f. 13. des 1823, d. 14. ágúst 1824.
Frugit, f. 26. sept. 1825, átti Friðrik Jónsson í Rifgirðingum.
Þuríður, f. 18. des. 1827, kona Sveins Gíslasonar á Klúku.
Sigþrúður, f. 1. mars 1829, d. 16. sept. sama ár.
Gróa, f. 2. mars 1821, d. á Lambeyri í Tálknafirði 6. nóv. 1855. Dóttir hennar var Sigþrúður Einarsdóttir kona Brands Árnasonar á Hnjóti.
Jóhanna Bente Kristjana, f. 8. mars 1833, d. 22. nóv. 1918, ljósmóðir, átti Bjarna Gíslason.
Sigurður, f. 2. apríl 1836, bóndi í Botni.
1852-1882
Séra Magnús Gíslason. Bóndi í Sauðlauksdal 1852-1882. Fluttist þá að Kvígindisdal og bjó þar 1879-1891, síðasta árið í sambýli við Jón Á. Thoroddsen. F. að Helgafelli 23. des. 1819, d. í Kvígindisdal 23. apríl 1904. Foreldrar: Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal og k.h. Sigríður Magnúsdóttir.
K. 3. júní 1846, Steinvör, f. 24. des. 1817, d. í Kvígindisdal 23. apríl 1894 Eggertsdóttir prests í Stafholti, Bjarnasonar. Þau barnlaus.
1880-1896
Séra Jón Björnsson. Bóndi í Sauðlauksdal 1880-1896. Fékk Kvíabekk 1. sept. 1876, en lausn þaðan árið eftir og gerðist þá aðstoðarprestur séra Magnúsar Gíslasonar í Sauðlauksdal. Fékk prestakallið 10. júní 1879, og hélt til æviloka. F. 11. apríl 1850 að Möðruvöllum í Kjós, d. 16. apríl 1896 í Sauðlauksdal. Foreldrar: Björn, f. á Möðruvöllum í Kjós 1797 Kortsson bónda á Möðruvöllum, Þorvaldssonar og k.h. Helga, f. um 1806 Magnúsdóttir prests í Steinanesi, Árnasonar.
K. 15. maí 1880, Rannveig, f. að Neðribæ í Selárdal 13. jan, 1859, d. 19. sept. 1920 Gísladóttir hreppstjóra og bónda á Neðribæ Árnasonar óðalsbónda á Kirkjubóli Gíslasonar. Börn þeirra, sem upp komust:
Jónas trésmiður í Reykjavík.
Séra Haraldur prestur á Kolfreyjustað.
Helga kennari í Reykjavík.
1883-1886
Kristján Ólafsson, síðar v bóndi í Bröttuhlíð, sjá þar. Bóndi á 3 hdr. í Sauðlauksdal 1883-1886
1896-1897
Rannveig Gísladóttir, ekkja séra Jónasar Björnssonar. Búandi í Sauðlauksdal 1896-1897.
1897-1921
Séra Þorvaldur Jakobsson (04.05.1860-08.05.1954). Bóndi Sauðlauksdal 1897-1921. Fékk lausn frá embætti 20. des. 1919, fluttist til Hafnarfjarðar og gerðist kennari við Flensborgarskólann. Fluttist til Reykjavíkur 1934, og var þar til æviloka. Varð prestur að Stað í Grunnavík 1883, á Brjánslæk 1884, fékk Sauðlauksdal 26. ágúst 1896 og fluttist þangað árið eftir. F. að Staðarbakka í Miðfirði; foreldrar: Jakob, f. 5. apríl 1806, d. 20. maí 1873 Finnbogason prestur að Staðarbakka og víðar, Björnsson og m.k.h. Þuríður, f. að Melum 2. júní 1822, d. að Staðarbakka 8. ágúst 1866 Þorvaldsdóttir prests og skálds í Holti Böðvarssonar.
K. 9. nóv. 1889, Magdalena, f. að Melum í Dagverðarnessókn 7. okt. 1859, d. í Reykjavík14. febr. 1942 Jónsdóttir hreppstjóra og bónda síðast á Hallbjarnareyri, Jónssonar og k.h. Kartínar, f. í Hvalgröfum 14. maí 1827, d. á skarði 2. sept. 1873 Bergsdóttir bónda í Hvalgröfum, Búasonar og k.h. Kristína Sturlaugsdóttur. Börn þeirra, sem upp komust:
Finnbogi Rútur, f. í Haga á Barðaströnd (22.01.1891-06.01.1973), verkfræðiprófessor, kvæntur Sigríði Eiríksdóttur formanni hjúkrunarkvennafélags Íslands. Börn: Þorvaldur stúdent lézt af slysförum, og Vigdís, sem síðar varð forseti Íslands.
Guðný, f. í Haga (18.09.1893-25.05.1956), gift Ólafi Þórarinssyni (Thorlacius) kaupfélagsstóra (sjá Saurbær) síðar í Reykjavík. Þau barnlaus.
Þuríður, f. á Brjánslæk 3. des. 1896, hjúkrunarkona í Reykjavík, óg.
Jórunn, f. í Sauðlauksdal 1. jan. 1898, d. í Hafnarfirði 17. ágúst 1933, óg.
Arndís (06.04.1899-02.05.1988) í Sauðlauksdal. Kaupkona í Reykjavík.
Búi (20.10.1902-20.10.1983). Mjólkurverkfræðingur, síðar starfsmaður hjá Happdr. Háskóla Íslands. Rvík., kvæntur Jónu Erlendsdóttur bónda á Hvallátrum Kristjánssonar. Börn: Kristján, Magdalena Jóna, Erlendur Steinar, Þorvaldur og Þórður Ólafur.
1922-1944
Séra Þorsteinn Kristjánsson (31.08.1891-18.02.1943). Bóndi og prestur í Sauðlauksdal 1922-1943. Skólastjóri barna- og unglingaskóla í Keflavík 1916-17. Veitt Mjóafjarðarprestakall 1917, Breiðabólsstaður á Skógarströnd 1918 og Sauðlauksdalur 27. mars 1922. Drukknaði á leið til Reykjavíkur með vélskipinu Þormóði. Foreldrar: Kristján, f. , d. 1937, 88 ára hreppstjóri Jörundsson á Þverá í Hnappadalssýslu og k.h. Helga, d. 28. okt. 1930, ?5 ára Þorkelsdóttir á Helgastöðum í Hraunhreppi, Ólafssonar.
K. 8. sept. 1918, Guðrún Petrea (24.12.1901-02.05.1977) Jónsdóttir trésmiðs í Keflavík, Jónssonar. Börn þeirra:
Guðrún (28.07.1921-28.03.1983), kennari. Barn með Hirti Gunnarssyni.
Magnús Bragi 08.03.1923. Verkfræðingur. K. Fríða Sveinsdóttir. 3 börn.
Baldur f. 05.08.1924. Skógræktarfræðingur. K. Jóhanna Arnljót Friðriksdóttir. 5 börn.
Jóna (21.02.1927-06.01.2001). M. Sigurjón Einarsson. 2 börn.
Helgi (13.09.1936-25.11.2008). Skólastjóri. I Svanhildur Þórlaug Björgvinsdóttir. 1 barn. K.II Þórunn Bergsdóttir.
Guðrún bjó ekkja í Sauðlauksdal 1943-1944, eftir drukknun séra Þorsteins.
1944-1949
Séra Trausti Pétursson (19.07.1914-05.03.1990). Bóndi og prestur í Sauðlauksdal 1944-1949. Sonur Péturs bónda í Brekkukoti í Svarfaðardal Gunnlaugssonar og k.h. Sigurjónu Steinunnar Jóhannsdóttur (kristins) bónda í Brekkukoti. Vígður 18. júní 1944, fékk Hof í Álftarfirði 15. júní 1949.
K. 1944, Borghildur María Rögnvaldsdóttir (19.07.1915-16.01.2003) kaupmanns á Akureyri. Börn þeirra:
Sigríður f. 23.10.1946. Jón Árnason. 2 börn.
Sigurjóna Steinunn (23.07.1948-30.07.1948).
Einnig kjörbarn:
Trausti Pétur Traustason (12.03.1953-16.09.2007).
1950-1954
Séra Gísli Kolbeins (30.05.1926-10.06.2017). Bóndi og prestur í Sauðlauksdal 1950-1954. Fékk þá Melstaðaprestakall. Vígður 30. júní 1950 og þá settur prestur. F. 30. maí 1926, sonur séra Halldórs Kolbeins prests að Stað í Súgandafirði og víðar og k.h. Láru Ágústu Ólafsdóttur bónda í Hvallátrum í Breiðafirði, Bergsveinssonar.
K. Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir Kolbeins f. 13.07.1927 í Brattagerði A-Skaft. Söngkennari. Börn þeirra:
Bjarnþór Kolbeins f. 17.06.1952.
Anna Lára Kolbeins f. 03.10.1954. Halldór Bergmann. 3 börn.
Ragnheiður Kolbeins f. 18.08.1957. Svavar Haraldur Stefánsson. 6 börn.
Halldór Kolbeins f. 28.12.1965. 2 börn.
Eyþór Ingi Kolbeins f. 03.10.1971. Dagný Marinósdóttir. 2 börn.
1954-1963
Séra Grímur Grímsson (21.04.1912-24.01.2002). Bóndi og prestur í Sauðlauksdal. Cand. theol. 1954. Foreldrar: Grímur Jónsson, f. 1855, d. 1919, skólastjóri á Ísafirði og Kristín Kristjana Guðfinna, f. 15. febr. 1884 Eiríksdóttir bónda á Hóli í Önundarfirði Kristjánssonar. Vígðist síðar til Ásprestakalls.
K. Guðrún Sigríður Jónsdóttir (04.09.1918-07.04.2012), úr Árnessýslu. Börn þeirra:
Soffía f. 13.02.1940. 3 börn.
Hjörtur f. 11.03.1943. 6 börn
Jón f. 22.08.1950. 2 börn.
1968-1975
Skúli Hjartarson, Hjörtur Skúlason og Jónína Ingvarsdóttir. Bjuggu um tíma að Sauðlauksdal en fengu ekki ábúð lengur, þar sem vonast var eftir presti. Fluttu þá að Stökkum (sjá þar).
Sauðlauksdalur hefur síðan verið í eyði. Slægjur hafa verið nýttar frá Hvalskeri, en jörðin telst vera í umsjá Vesturbyggðar. Sauðlauksdalsprestakall var auglýst til umsóknar og um tíma þjónaði því séra Jón Ísleifsson, með aðsetur á Patreksfirði. Síðan hefur Patreksfjarðarprestur þjónað því.
Þau voru fyrir framan heimatúnið, Efri Dalshús upp af Neðri Dalshúsum.
Jarðabókin 1703. “Hærri (eður Efri) Dalshús. Hjábýli hjá Sauðlauksdal í túninu 5 hdr. úr heimajörðinni. Er þar fyrirsvar innilukt í heimajarðarinnar fyrirsvari, að jafnaði við þá, er heima í Sauðlauksdal og Neðri Dalshúsum búa. Eigandi er Guðrún Eggertsdóttir. Ábúandinn Guðmundur Halldórsson. Landsskuld 2 vættir… Leigukúgildi 2 í ásauð… Kvígildi uppyngir leiguliði. Í kvaðarnafni er leiguliði formaður fyrir húsbóndans skipi í Láganúpsveri. Skipferð yfir um Patrixfjörð, eða út í Víkur, gjörir leiguliði stundum; stundum ekki. Kvikfénaður er þar 2 kýr, 12 ær, 4 gemlingar, 1 sauður geldur, 1 hestur. Þar fóðrast 1 kýr, 6 lömb, 6 ær. Heimilismenn 5. Sandur spillir þar túni, eins og á heimajörðinni”.
Vera kann að í eftirfarandi skrá sé einhver víxlun ábúenda milli Efri og Neðri Dalshúsa.
1703
Guðmundur Halldórsson. Bóndi í Efri Dalshúsum 1703. Þau voru hjáleiga í landi Sauðlauksdals, í útjaðri túnsins upp og norður af bænum, reiknuð 5 hdr. Guðmundur var f. um 1661.
K. Sigríður, f. um 1661 Ljótsdóttir. Sonur þeirra er:
Magnús 8 ára.
1735
Ólafur Jónsson. Bóndi í Dalshúsum 1735. Hann er einnig talinn hafa verið bóndi í Raknadal og hefur það sjálfsagt verið fyrir 1735. Þetta er líklega sá Ólafur Jónsson, sem er vinnupiltur í Kollsvík 1703, 15 ára., f. um 1688, d. fyrir 1753.
K. Vilborg, f. 1700, d. 1753 Halldórsdótti bónda á Láganúpi Jónssonar og k.h. Sæborg Ólafsdóttir. Börn þeirra:
Halldór, f. 1721, ókv. lausamaður á Vatneyri 1780, talinn efnaður.
Hólmfríður, f. um 1723, kona Jóns Guðmundssonar bónda í Botni.
Oddný dó ógift og bl.
Andrés, f. 1732, d. á Vatneyri 22. nóv. 1784. Kvæntist ekki, vinnumaður í Kvígindisdal 1780.
Sigríður, f. um 1735, kona Halldórs Magnússon bónda í Hænuvík
1762-1780
Pétur Jónsson. Bóndi í Dalshúsum fyrir 1762-1780. Hann er bóndi í Dalshúsum 1780, en 1762 eru Dalshús ekki nefnd sérstaklega. Má þó ætla að hann hafi þá einnig verið þar. F. um 1731, d. 14. maí 1780. Faðir Péturs er talinn hafa verið Jón, fátækur barnamaður í Tálknafirði, Þórðarson, Tómassonar bónda í Krossadal 1703 (eins Sellátrabræðra) Jónssonar bónda á Sellátrum Tómassonar.
K. Guðrún, f. um 1728, d. milli 1801 og 1808 Sigurðardóttir líklega bónda á Geirseyri 1735, Jónssonar og k.h. Helgu Jónsdóttur bónda í Krossadal 1703 Jónssonar bónda á Sellátrum, Tómassonar. Þau Guðrún og Pétur hefðu þá veri skyld að 3. og 4. Séra Ólafur Einarsson á Ballará talar um tvær dætur Sigurðar (ella) á Geirseyri og Helgu Jónsdóttur, en nefnir aðeins aðra þeirra með nafni, Þórunni á Sellátranesi, konu Péturs Jónssonar. Sumsstaðar er talað um að Guðrún hafi verið dóttir Sigurðar sterka bónda á Bakka í Tálknafirði 1703, en hann var einn Sellátrabræðra. Séra Ólafur segir hann hafa giftzt, búið á Bakka og dáið barnlausan. Kona hans 1703 er Sigríður Jónsdóttir, 45 ára. En þar sem Guðrún er sögð dóttir þessa Sigurðar, er kona hans talin Guðrún Einarsdóttir frá Hrísdal. Þetta virðist vera tómur ruglingur. Hinsvegar hefði fyrrnefnd Guðrún aldurs vegna getað verið dóttir Sigurðar Jónssonar bónda í Hænuvík 1735, en hann var bróðursonur Sigurðar sterka og bróðir Helgu konu Sigurðar Jónssonar á Geirseyri. En hvergi mun Guðrúnar vera getið meðal barna Sigurðar í Hænuvík. Börn þeirra:
Ingveldur, f. 1752, d. 1757.
Þorgrímur, f. 1755, bóndi í Dalshúsum 1801.
Ingveldur, f. 1757, d. fyrir 1780.
Guðrún, f. 1758, d. fyrir 1780.
Guðrún, f. 1759, d. 1760.
Guðrún, 1761, d. 1762.
Sigurður, f. 1765, bóndi í Kirkjuhvammi 1817, áður í Raknadal.
Jón, f. 1767, fósturbarn í Vatnsdal 1780, óvíst um hann síðar.
Einar, f. 1770, d. 1771.
Það sést á Skf. Gert 30. apríl 1788, að lifandi hafa verið, er Pétur dó, aðeins 3 sonanna (Þorgrímur, Sigurður og Jón), en engin dætranna.
1780-1788
Guðrún Sigurðardóttir, ekkja Péturs Jónssonar bónda í Dalshúsum. Hún hefur verið búandi í Dalshúsum eftir lát manns síns, 1780- líklega 1788.
1788-um 1801
Þorgrímur Pétursson. Bóndi í Dalshúsum líklega 1788-um 1801. Hann er ókvæntur þegar fyrsta barn hans fæðist í maí 1785, en hefur e.t.v. kvænst á því ári, eða hið næsta, þótt eigi sé þess getið í kjb., því þá er að detta botninn úr henni í það sinn og verður nú eyða í 20 ár. Hinsvegar fara fram skifti í dánarbúi Péturs Jónssonar 30. apríl 1788 og segir þar, að þeir Sigurður og Jón hafi verið í ómegð, þegar faðir þeirra dó, en Þorgrímur fullorðinn og hafi tekið að sér forstöðu í búinu og haldið því við síðan. Er ekki ólíklegt, að þessi skipti hafi farið fram, þegar Þorgrímur hóf búskap í egin nafni. Hann er enn í Dalshúsum við manntal 1801 (2. febr.), en hefur svo flutzt að Breiðavík og dyr þar líklega í árbyrjun 1804 (skiftafundur 18. febr.). Hann hefur því getað búið í Breiðavík 1801-1804. Þorgrímur var f. 1755, d. 1804. Foreldrar: Pétur Jónsson bóndi í Dalshúsum og k.h. Guðrún Sigurðardóttir.
K. Þorkatla, f. í Breiðavík 1754, d. í Saurbæ 18?? Eyjólfdóttir bónda í Tungu, Jónssonar. Börn þeirra:
Árni, f. 25. maí 1785, bóndi á Melanesi.
Ingveldur, f. 1787, í Kollsvík 1822, ógift.
1852-1856
Séra Gísli Ólafsson. Bóndi í Dalshúsum 1852-1856 eða lengur í Dalshúsum, en ekki býr hann þar 1860. Áður bóndi í Sauðaluksdal, sjá þar.
Þau voru fyrir framan túnið í Sauðlauksdal. Þau voru utan gamals túngarðs, en séra Björn Halldórsson byggði nýjan túngarð fyrir framan Dalshúsatún, og þar kom síðar, að túnin náðu saman.
Jarðabókin 1703. “Neðri Dalshús. Hjábýli hjá Sauðlauksdal í túninu, er 5 hdr. úr heimajörðinni. Og er þar sama fyrirsvar sem á heimajörðinni, eftir proportion, og tíund á, sem leiguliði betalar. Eigandi er Guðrún Eggertsdóttir. Ábúandinn Páll Einarsson. Landsskuld er 2 vættir. Betalast í fiski, og svarast til Skers í Patreksfirði eða og í Keflavík, hvar leiguliði rær. Þar uppí er og fóður, 20 álnir. Við til húsa leggur landsdrottinn. Leigukvígildi 2 og hafa so alltíð verið. Kvígildi uppýngir landsdrottinn. Kvaðir eru skipsáróður á skipi landsdrottins í Keflavík. Eina skipsferð yfir um Patreksfjörð býst leiguliði við að gjöra. Kvikfénaður á jörðinni eru kvígildin og ekkert meira. Hest á leiguliði engan, en leigir kapal af landsdrottni fyrir 15 álnir. Fæðast kunnu þar 1 kýr, 6 lömb, 6 ær. Heimilismenn 5 eru þar. Þar er brent lýngi ef vill, item sverði og klíning. Sandur spillir hér eins og heimajörðinni”.
1703
Jón Jónsson. Bóndi í Neðri Dalshúsum 1703. Þau voru reiknuð 5 hdr. og voru framan við aðaltúnið og utan túngarðsins. Jón var f. um 1673, ókv., en hjá honum móðir hans Guðrún Jónsdóttir 69 ára og systir hans Gunnhildur, 19 ára.
Þær voru sjóarmegin við núverandi tún, um 150 m. frá bænum; líklega er bæjarstæðið undir núverandi heimreið.
Hefur hér verið byggð frá fornu fari, og taldi Búi Þorvaldsson að hér hefði verið upprunalegt bæjarstæði Sauðlauksdals, en flust vegna sandfoks. Séra Björn Halldórsson mun hafa fengið leyfi til að leggja niður hjáleiguna Dalshús en þess í stað byggði hann upp nýja hjáleigu, Leifar, á eigin kostnað á rýrasta hluta túnsins. Pétur frá Stökkum getur þess að Leifar hafi verið nærri garðinum Ranglát. Hann segir að fyrsti bóndinn á Leifum hafi heitið Leifur og að hann hafi fengið svolátandi byggingarbréf hjá presti (líklega þá séra Birni Halldórssyni):
Leifur hefur leyfi til á Leifum búa
þar til hann er laus við lúa
og lýðir gera að honum hlúa.
Um 1760-1780
Leifur sá sem um er getið í sögninni hér að ofan. Ekkert er nánað um hann vitað.
1780
Eyjólfur Guðmundsson. Bóndi á Leifum 1780. F. um 1746, d. 19. des. 1784, þá bóndi á Lambavatni. Hann hefur komið þangað í fardögum 1780 eða 1781.
K. 1774 (í Saurbæjarsókn), Guðrún, f. um 1740, fermd 24 ára gömul í Sauðlauksdalssókn 1764, d. milli 1785 og 1801, Oddsdóttir. Dóttir þeirra var:
Guðrún, f. 1778, ekki í kjb., í Kvígindisdal 1801, vantar 1808 og 1817.
Eyjólfur er fermdur í Saurbæjarsókn 1763, talinn 16 ára, en 35 ára 1780. Móðir Guðrúnar Oddsdóttur var Guðrún, f. um 1710, d. á Lambavatni 31. des. 1784 Sigurðardóttir.
1782
Jón Eyjólfsson. Bóndi á Leifum 1782. Hann hefur komið þangað eftir Eyjólf Guðmundsson. F. um 1727.
K. Halldóra, f. um 1736. Sonur þeirra:
Jón, f. 1769 (13 ára 1782.
Ekkert þeirra er á manntali í Rauðasandshreppi 1780. Hvorki virðast þau hjón gift né Jón sonur þeirra fæddur í hreppnum. Þau hjón eru í húsmennsku á Skógi 1801, en munu vera dáin fyrir 1808. það kann að vera, að sonur þeirra sé Jón Jónsson bóndi í Stekkadal 1801 og 1808. Eftir aldri, sem þá er tilgreindur, ætti hann að sönnu að vera fæddur um 1766 í stað 1769, eftir aldri 1782, en slík skekkja er ekkert einsdæmi. Það mun líka svo vera, að ekkert verði sagt um ætt Jóns í Stekkadal, sem líklegra sé en þetta.
Ólafsvöllur
Ólafsvöllur var ofantil og sjávarmeginn við Leifar. Þar hefur líklega einhverntíma verið húsmannsbýli. Hvorki er sá Ólafur nefndur í manntalinu frá 1703 né síðari manntölum.
Nafnið. Oft stytt í “Sker” í tali innanhrepps, og er það nafn notað í Jarðabókinni 1703. Ekki verður fullyrt um nafnið. Ætla má að það vísi til skers þess sem er utanvert við gömlu Kaupfélagshúsin; þar sem um tíma var bryggja. Forliðurinn gæti einfaldlega vísað til líkingar skersins við hval á sundi. Þá kynni hvalur að hafa verið róinn þar á land og skorinn. Ekki er þó síður líklegt að nafnið vísi til þeirra tíma á landnámsöld, þegar hinn íslenski rosmhvalur (rostungur) var algengur hérlendis við strendur og veiddur til útrýmingar. Má ætla að þar á skerinu hafi verið látur slíkra “hvala” og af þeim dragi staðurinn nafn.
Jarðabókin 1703. “Jarðardýrleiki er 12 hundruð (8,1 hdr. að nýju mati). Eigandinn Guðrún Eggertsdóttir að Bæ á Rauðasandi. Ábúandinn Jón Þorvarðarson býr á 9 hdr. Landskyld af þeim er 90 álnir. Betalast í fiski í kaupstað er til er, ella með peningum uppá danskan taxta heim til eigandans. En sje þetta ei til, þá með landaurum. Landskyld hefur í lángan tíma betalast í fiski í kaupstað. Við til húsbótar leggur eigandinn. Leigukúgildin með þeim 9 hdr. eru 4 ½. Leigur betalast í smjöri heim til landsdrottins. Kúgildin, sem er ásauður, uppyngir ábúandinn, en kýr landsdrottinn. Kvaðir eru formennska í Láturdal, og fær hann þar til 20 ánir í formannskaup, og það af leigum. Item kaupstaðarferð fyrir lítinn betaling, og þó nokkurn. Engjatak langt í burt, votlent og yfir slæmar mýrar til að sækja. Vetrarþúngt mjög.
Kvikfjenaður 3 kýr, 1 kvíga þrevetur, ær 18, geldir auðir 13, gemlingar 8 og 1 hross. Fóðrast kann þar 3 kýr, lömb 6. Heimilismenn eru 8. Jörðin á hrísrif í Patreksfjarðarbotni, sem leiguliði má brúka til kolagjörðar, en ekki ljá nje selja. Landsdrottinn leyfir þar stundum öðrum hrísrif öðrum landsetum sínum. Tað er til eldiviðar brúkað. En heytorf og húsatorf er í lakasta máta. Skelfiskfjara er stundum að nokkru gagni. Heimræði er þar sumar og haust, en Jón þessi á ekki skip. Túnið spillist af aurskriðu. Item gengur þar á uppá túnið neðanvert og ber á möl og grjót.
Ábúandinn annar, Sigurður Magnússon, býr á 3 hdr. Landskyld hans þar af 30 álnir. Betalast í fiski ef til er, ella landaurum. Eigandinn leggur við til húsabótar. Leigukúgildi eru 1 ½. Leigur gjaldast í smjöri heim til eiganda; ella, ef það er ei til, þá með fiski eður landaurum. Kvaðir eru skipsáróður á skipum eigandans í Láturdal og ferð yfir Patrixfjörð á skipi, sem stundum varir í viku, og fæðir húsbóndinn þá. Kvikfjenaður er þar 1 kýr, 3 ær. Fóðrast kann 1 kýr, þó ei meir er að 2/3 fóðursins. Heimilismenn sigurðar eru 4. Hann nýtur hlunninda jarðar með heimabóndanum.”
Byggð. Líklegt er að byggð hafi snemma hafist á Hvalskeri. Ekki verður fullyrt um hana á fyrstu öldum, en á þeim síðari var gjarnan tvíbýlt á Hvalskeri. Jörðin er góð sauðjörð og iðulega er góð veiði í firðinum. Bærinn er í þjóðbraut; bæði utan úr Útvíkum, Bæjum og Örlygshöfn, en einnig til Rauðasands. Líklegt er að þar hafi löngum verið ferjustaður, líkt og um getur 1703, enda leiðin löng og torsótt fyrir fjörðinn. Í Skersbug, úti undir Sandodda, er mikið um kúfskel sem mjög var nýtt til beitu t.d. í byrjun 20.aldar. Bænhús mun hafa verið á Skeri, samkvæmt frásögn Hrafns Sveinbjarnarsonar.
Kringum 1200
Samkvæmt Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar bjó þá á Hvalskeri Ingi Magnússon. Hann var sagður grályndur og gárfenginn, og varð Markúsi Gíslasyni í Saurbæ að bana. Tilefni illdeilna þeirra var það að Markús krafði Inga um toll af bænhúsi sem staðið hafði á Skeri, en var niður fallið. Byggði Markús kröfu sína á boði Þorláks biskups, sem sagði að bænhúsum skyldi við halda; en félli þau niður skyldi gjald greiða af tóftinni.
1570
Gísli. Bóndi á Hvalskeri 1570. Jörðin er þá skrifuð „Sker“.
1570
Marteinn. Líkl. bóndi á Hvalskeri 1570.
1703
Jón Þorvarðsson. Bóndi á Hvalskeri 1703, og reri þá á fjögramannafari í Láturdal. F. um 1667.
K. Sigríður, f. um 1666 Ólafsdóttir. Þau eru barnlaus 1703, en Sigríður á dóttur:
Sigríður Jónsdóttir 12 ára.
Móðir Jóns bónda er á heimilinu, Guðrún Jónsdóttir 72 ára gömul.
1703
Jón Jónsson. Bóndi á Hvalskeri 1703. F. um 1665.
K. Guðrún, f. um 1670 Pétursdóttir. Börn þeirra 1703:
Sigríður 14 ára.
Ingibjörg 10 ára.
Jón 7 ára.
Pétur 1 árs.
Jón er bóndi á Skeri s.hl. vetrar, þegar manntali er tekið, en býr þar ekki um vorið, þegar jarðabókin er skrifuð. Ekki séð, að hann búi annarsstaðar í hreppnum.
1703
Sigurður Magnússon. Bóndi á Hvalskeri frá fardögum 1703. Áður bóndi á Koti, sjá þar.
1735
Jón Helgason. Bóndi á Hvalskeri 1735. E.t.v. er þetta sá J.H., sem er vinnumaður á skeri 1703, 25 ára gamall, eða annaðhvort Jón eldri eða yngri á Tóftavelli 1703 (17 og 13 ára).
um 1745-1761
Helgi Helgason. Bóndi á Hvalskeri skömmu fyrir 1760. Hefu líklega búið þar frá því um 1745 og þar til 1761. Þau hjónin lentu þá í útburðarmáli, sem haldið var að þau hefðu verið við riðin (sjá Látramanna- og Barðstrendingaþátt Gísla Konráðssonar).
K. um 1745, Jórunn Jónsdóttir, sem var síðar á Barðaströnd og hefur líklega dáið þar. Hafði verið ráðskona í Haga. „Allrösk, skapstór og hannyrðakona með afbryggðum“ segir G. Konr. Helgi dó í fangelsi í Reykjavík, „og hafði hann jafnan fengið gott orð“. Börn þeirra:
Jón, f. um 1745, lengi bónd á Kirkjubóli í Arnarfjarðardölum kvæntur Ingibjörgu Guðmundsdóttur Egilssonar og Vilborgar Einarsdóttur, systur Bergljótar á Vatneyri. Jón var smiður, dó í Haga 1819. Af honum er komið margt merkisfólk og atorkusamt.
Herdís, f. 1748, kona Björns Bjarnasonar hreppstjóra á Arnórsstöðum.
Guðrún, f. 1750, vinnukona í Litla Króki 1780.
Þorgrímur, f. 1751, líklega dáið ungur.
Þorgrímur, f. 1752, ekki í Rauðasandshreppi 1780.
Dagur, f. 1755, dó á 1. ári.
Dagur, f. 1756, ekki í Rauðasandshreppi 1780.
Jórunn kona helga hefur sennilega verið dóttir Jóns eldri eða yngi Grímssonar bónda í Raknadal 1703. Móðir þeirra hét Helga Dagsdóttir.
um 1750-um 1765
Þórarinn Sigurðsson. Bóndi á Hvalskeri 1762. Bóndi á Hlaðseyri 1780, sjá þar. Hann hefur getað verið bóndi á Skeri samtímis Helga fyrrnefndum, e.t.v. frá því um 1750 og fram til um 1765.
1780
Eyjólfur Árnason. Bóndi á Hvalskeri 1780. Fluttist að Skógi næsta ár, eða e.t.v. í fardögum 1780, því að manntalið hefur sennilega verið tekið í jan. Þá eins og 1782, en þá er það tilgreint, sem ekki er gert 1780. F. um 1735, fermdur í Sauðlauksdalssókn 1751, talinn þá 18 ára, en ekki nema 43 ára 1780, ekkjumaður í Kollsvík 1801 64 ára. D. fyrir 1808.
K. 1774, Helga, f. um 1743, d. af barnsförum 2. jan. 1778 í Sauðlauksdal, sennilega á Skeri. Eyjólfur hefur líklega búið þar frá því að hann kvæntist. Eyjólfur og Helga virðast hafa verið barnlaus.
Áður en Eyjólfur kvæntist átti hann þessi börn:
Árni, f. 1. des. 1760, bóndi í Breiðavík 1808. Móðir hans hét Kristín Jónsdóttir og mun vera sú, sem er vinnukona á Sellátranesi 1780, 47 ára gömul. Hún átti síðar dóttur með Jóni síðar bónda í Botni Jónssyni.
Guðrún, f. í Sauðlauksdal 20. sept. 1768, 11 ára á Skeri 1780, Skógi 1782, ekki á manntali 1801 eða síðar. Móðir hennar hét Margrét Bjarnadóttir, væntanlega sú, sem er vinnukona í Kvígindisdal 1780, 46 ára gömul.
Sigríður, f. í Sauðlauksdal 9. apríl 1773. Ekki á manntali 1780 eða 1801. Móðir hennar var Margrét Pétursdóttir, sem giftist 1774 Jóni Gunnlaugssyni bónda í Krókshúsum 1780.
Eyjólfur, f. í Sauðaluksdal 7. okt. 1773, d. 1. maí 1774. Móðir hans hét Hlaðgerður Einarsdóttir, vinnukona á Sellátranesi 1780, 30 ára gömul. Ekki á manntali 1801 eða síðar.
1782
Guðmundur Ólafsson. Bóndi á Hvalskeri 1782. Hefur flutzt þangað, er Eyjólfur fyrrnefndur fór að Skógi, 1780 eða 1781. Áður bóndi á Skógi, sjá þar.
1801
Þorgrímur Jónsson. Bóndi á Hvalskeri 1801. Hann hefur að líkindum tekið við jörðinni eftir Guðmund Ólafsson tengdaföður sinn og búið á Skeri upp undir 20 ár eða um það bil. F. 11. sept. 1754, d. fyrir 1808 (líklega ekki síðar en 1805), sonur Jóns Sigurðssonar bónda í Kvígindisdal og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur.
K. 1782, Guðríður, f. um 1758 (ekki í kjb. Rauðasandshrepps), fermd í Saurbæjarsókn 1772, d. fyrir 1808, að því er virðist, Guðmundsdóttir bónda á Skógi 1780, Ólafssonar. Börn þeirra:
Guðmundur, f. 1783, ekki á manntali 1808 eða 1817.
Ólafur, f. 1783 á Hvalskeri, bóndi á Láganúpi, sjá þar.
1808
Magnús Halldórsson. Bóndi á Hvalskeri 1808. Mun hafa tekið við eftir Þorgrím Jónsson og verið á Skeri fram að 1813 a.m.k. Fluttist þá að Melanesi, sjá þar. Hagnús var hreppstjóri 1808.
1817
Jón Svartsson. Bóndi á Hvalskeri 1817. F. í Saurbæjarsókn 7. febr. 1763, vinnupiltur í Kollsvík 1780, vinnumaður í Breiðavík 1801, á Grundum 1808. Kvæntist ekki og mun hafa verið bl.
Ráðskona hans 1817 var Ragnhildur Bjarnadóttir bónda á Melanesi 1801 Bjarnasonar, f. í Krossadal í Tálknafiði.
Hjá Jóni er bróðursonur hans Einar Einarsson 8 ára, f. 14. okt. 1809, móðir hans var Margrét Gísladóttir Ólafssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur, f. á Vatneyri 1783 (óskilgetin). Bóndi á Skeri í mesta lagi til 1820.
1817
Guðmundur Guðmundsson. Bóndi á Hvalskeri 1817. F. á Sjöundá 1777, d. í Sauðlauksdal 2. mars 1864. Vinnumaður á Sjöundá 1845, í Vatnsdal 1808.
K. Guðrún yngri, f. 30. des. 1774 Þorgrímsdóttir bónda á Lambavatni Jónssonar. Hún er einnig í Vatnsdal 1808. Í okt. 1810 er gift Guðmundur og Guðrún í Kollsvík. Þetta virðist ekki geta átt við önnur hjón á þeim tíma en G.G. og G.Þ. þau virðast hafa verið bl. Guðrún dó í Breiðavík 13. des. 1846. G.Þ. átti dóttur með Ólafi Jónssyni bónda á Hvallátrum:
Guðrún, hún giftist Magnúsi Bjarnasyni bónda í Stekkadal og var s.k.h.
Guðmundur hefur látið af búskap á Skeri eigi síðar en 1820.
1820-1825
Jón Þóroddson. Bóndi á Hvalskeri 1820-1825. Síðar bóndi á Hvallátrum, sjá þar.
1825-1826
Árni Þorgrímsson. Bóndi á Hvalskeri 1825-1826, eða 1827. Áður bóndi á Melanesi, sjá þar.
1828-1848
Magnús Einarsson. Bóndi á Hvalskeri 1828-1848. Síðar bóndi á Hlaðseyri (1851-1855). Hreppstjóri. F. í Flatey 17. nóv. 1794, d. á Sjöundá 26. júlí 1870. Foreldrar: Einar, f. 1764 að Skáldastöðum (eða Borg) í Reykhólasveit, bóndi víða í Reykhólasveit Gunnlaugsson, Bjarnasonar bónda á Kollabúðum Jónssonar og f.k. Gunnlaugs Guðrúnar Halldórsdóttur Bjarnasonar bónda á Kollabúðum Jónssnar. Kona Einars Dómhildur, f. um 1766 Jónsdóttir Jónssonar og Gunnhildar Sigurðardóttur.
K. 26. sept. 1826 (í Sauðlauksdal), Guðríður, d. á Melanesi 6. júlí 1856 Bjarnadóttir bónda á Hnjóti, Magnússonar. Börn þeirra:
Kristín, f. í Sauðlauksdal 10. des. 1827, kona Sigfreðs Ólafssonar bónda í Stekkadal.
Guðbjörg, f. á Hvalskeri 24. maí 1830, kona Jóns Ólafssonar bónda á Sjöundá.
Sæmundur, f. 4. nóv. 1831, d. 1. des. sama ár.
Guðrún, f. 3. okt. 1832, d. sama dag.
Steinunn, f. 21. jan. 1835, kona Gunnlaugs Jónssonar á Lambavatni.
Sigríður, f. 7. sept. 1837, seinni kona Guðmundar Bjarnasonar í Tungu.
Guðmundur, f. 2. des. 1838, d. 2. jan. 1839.
Ragnheiður, f. 10. sept. 1840, d. 28. sama mán.
Halldór, f. 2. okt. 1842, d. 23. des. 1865, ókv. vinnumaður á Sjöundá.
Ívar, f. 21. ágúst 1844, bóndi í Kirkjuhvammi.
Guðrún, f. 26. nóv. 1845, kona Ásgeirs Ólafssonar bónda á Barðaströnd.
Magnús fluttist í Rauðasandshrepp með séra Gísla Ólafssyni (frá Helgafelli).
1848-1857
Gísli Magnússon. Bóndi á Hvalskeri 1848-1857. Fluttist þá að Höfðadal í Tálknafirði. Áður bóndi á Geitagili. F. í Hvítadal í Dalasýslu um 1817, d. í Höfðadal 29. mars 1893. Foreldrar. Magnús Gíslason og Ingveldur Magnúsdóttir. Albróðir Magnúsar bónda í Raknadal. Móðir þeirra var systir Sigríðar konu séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal.
K. 4. sept. 1840, Magnfríður, f. að Helgafelli 28. ágúst 1818 Gísladóttir prests í Sauðlauksdal og k.h. Sigríðar Magnúsdóttur. Gísli og Magnfríður hafa því verið systrabörn. Magnfríður dó í Raknadal 10. ágúst 1910. Börn þeirra:
Magnús, f. í Sauðlauksdal 23. okt. 1840, dó vofeiflega á Ísafirði 9. mars 1882, bókbindari, sonur hans Ingimar, búsettur í Kanada.
Guðlaug, f. í Sauðlauksdal 27. okt. 1841, d. á Patreksfirði 25. okt. 1929, kona Bárðar Bjarnasonar bónda á Felli í Tálknafirði.
Sigurður, f. að Dalshúsum í Sauðlauksdal 10. okt.1842, d. í Tálknafirði 11. nóv. 1916, kvæntur Kristínu Þórðardóttur.
Guðmundur, f. á Geitagili 7. jan. 1845, kona 1881 Jensína Margrét Jónsdóttir.
Ingimundur, f. á Geitagili 7. júlí 1846, d. 9. sama mán.
Ingimundur, f. á Hvalskeri 11. apríl 1849, d. í Höfðadal 11. júlí 1897, kvæntur Jónínu Dagbjörtu Ólafsdóttur bónda á Naustabrekku, Magnússonar.
Guðrún, f. á Hvalskeri 5. okt. 1851, átti Sæmund Einarsson, bjuggu að Kirkjubóli í Ketildalahreppi. Guðrún dó eftir fárra ár hjónabandi.
Jón, f. á Hvalskeri 7. jan. 1854, bóndi í Raknadal.
Sigríður, f. á Hvalskeri 19. ágúst 1856, d. 7. nóv. 1941, kona (1893) Erlendar Jafetssonar.
Sveinn, f. í Höfðadal 1861, dó ókv. og bl. á Ísafirði um 1884.
1857-1859
Jón Jónsson. Bóndi á Hvalskeri 1857-1859. Áður bóndi í Skápadal, sjá þar.
1860-1862
Sigurður Jónsson. Bóndi á Hvalskeri 1860-1862. Áður bóndi í Tungu, Breiðavík og á Grundum, sjá þar. Seinasta árið sem Sigurður var í Tungu, 1869-1860, er hann einnig skrifaður fyrir Skeri.
1862-1870
Jón Sigurðsson. Bóndi á Hvalskeri 1862-1870. Fluttist þá að Hænuvík, sjá þar.
1870-1878
Magnús Einarsson. Bóndi á Hvalskeri 1870-1878. Fluttist þá að Breiðavík og var þar til dauðadags 1881. Áður bóndi á Hlaðseyri (1867-1870). F. í Krossadal 20. mars 1842, d. í Breiðavík 20. okt. 1881. Foreldrar: Einar Bjarnason bóndi á Hlaðseyri og k.h. Guðríður Jónsdóttir.
K. 6. okt. 1869, Guðný, f. í Moshlíð á Barðaströnd 23. ? des. 1842 (skírð í kirkju að Brjánslæk á 2. í jólum sama ár) Jónsdóttir Sigurðssonar og k.h. Sigríðar Sveinsdóttur á Siglunesi Gíslasonar. Börn þeirra:
Guðríður Þuríður, f. á Hlaðseyri 30. nóv. 1867, kona Helga Einarssonar bónda í Skápadal.
Einar, f. á Hvalskeri, f. 26. apríl 1871, fluttist frá Breiðavík að Skálmardal 1884.
Kristín, f. á Hvalskeri 12. okt. 1873, kona Ólafs Ásbjörnssonar bónda á Láganúpi, síðar í Botni.
Kristrún, f. í Breiðavík 6. okt. 1878, d. 22. sama mán.
Herdís, f. í Breiðavík 14. febr. 1880, d. 18. sama mán.
Kristmundur, f. í Breiðavík 5. maí 1881.
Guðný bjó í Breiðavík að Magnúsi látnum og giftist aftur Jóni Þórðarsyni.
1878-1886
Gestur Jónsson. Bóndi á Hvalskeri 1878-1886. Kom að Skeri frá Múla á Barðaströnd og fluttist aftur í sama hérað. Um skeið bóndi í Hólshúsum í Bíldudal. F. í Hvammi á Barðaströnd 1837, d. á Siglunesi 18. maí 1921. Foreldrar: Jón, f. í Rauðsdal 5. júlí 1800, d. í Hvammi 21. júlí 1875, bóndi í Hvammi, Bjarnason hreppstjóra í Rausdal Jónssonar og k.h. Sigríðar, f. á Firði í Múlasveit 22. jan. 1802, d. í Hvammi 24. ágúst 1850 Jóhannesdóttir Jónssonar og k.h. Sigríðar Snorradóttur. Gestur var tvíkvæntur.
K. I Guðný, f. á Kirkjubóli í Selárdalssókn 16. okt. 1842 Þórðardóttir Sigurðssonar og Halldóru Gísladóttur bónda á Klúku Jónssonar. Börn þeirra:
Gestur, f. að Hólshúsum 30. sept. 1862, drukknaði, er Vigga fórst 1. maí 1897, bóndi í Holti á Barðaströnd, kvæntur frændkonu sinni Guðnýju Guðbjartsdóttur, Friðrikssonar og Sigríðar Þórðardóttur, sem síðar á Bjarna Jónsson bónda í Skápadal. Dóttir Gests og Guðrúnar Guðmundsdóttur frá Krókshúsum var Gíslína kona Jóns Magnússonar bónda á Hvallátrum.
Þórður, f. í Múla 7. nóv.1871, fórst með Viggu. Kvæntist ekki, en átti son, er Þórður hét, með Elínu Ebenesersdóttur.
Guðný, f. á Hvalskeri 5. jan 1880, kona Gísla Marteinssonar bónda á Siglunesi, þau systkinabörn.
Jón, f. á Hvalskeri 23. júní 1883, kona Kristjana Jóna Guðjónsdóttir.
Halldóra Sigríður, f. á Hvalskeri 21. jan. 1885, dó óg. í Reykjavík, en barn hennar og Friðlaugs bónda á Koti var María Guðveig, f. 22. sept. 1905, dó og. og bl.
Gestur Jónsson var bróðir Helgu móður Guðrúnar Jósepsdóttur konu Guðjóns bónda á Melanesi, Brynjólfssonar.
K. II Vilborg Þórðardóttir alsystir Guðnýjar fyrri konu hans.
1886-1902
Sigmundur Hjálmarsson. Bóndi á Hvalskeri 1886-1902, í Skápadal 1902-1903. F. á skógi 5. okt. 1851, d. á Látrum 21. mars 1937. Foreldrar: Hjálmar Sigmundsson bóndi á Skógi og s.k.h. Guðrún Lýðsdóttir.
K. 28. nóv. 1885, Ingibjörg, f. í Flatey 4. des. 1853, d. á Geirseyri 24. mars 1906, Einarsdóttir Einarssonar og K.h. Kristínar Magnúsdóttur. Börn þeirra:
Einar, f. í Botni 3. júní 1885, d. á Geirseyri 8. okt. 1904.
Kristján Hjálmar, f. á Skeri 6. sept. 1889, bóndi á Hvallátrum (sjá þar).
Magnús, f. á Skeri (06.02.1892-22.05.1973), ókv.bl.
Bjarni, f. á Skeri (26.02.1898-28.06.1978), bílstjóri í Reykjavík, kvæntur Guðrúnu Snorradóttur. 4 börn.
1886-1887
Jón Hjálmarsson. Bóndi á Hvalskeri 1886-1887. Albróðir Sigmundar. Hafði einhvern hluta jarðarinnar á móti honum. Síðar bóndi á Geitagili, sjá þar.
1902-1910
Kristján Björnsson. Bóndi á Hvalskeri 1902-1910. Bóndi í Botni 1883-1899, á Hlaðseyri 1899-1902. F. í Botni 12. okt. 1853, d. á Hvalskeri 1. júní 1910. Foreldrar: Björn Jónsson bóndi í Kvígindisdal, Þórólfssonar og Kristín Þorsteinsdóttir Steinssonar bónda á Grundum, Þorsteinssonar og Ingibjargar Finnsdóttur stúdents Gíslasonar. Móðir Ingibjargar var Ástríður Bjarnadóttir, sem síðar átti Jón Einarsson á Hreggstöðum.
K. 2. nóv. 1883, Guðrún Bergljót Ólína Sigurðardóttir bónda í Botni Gíslasonar og k.h. Ingibjargar Sigurðardóttur. Börn þeirra:
Sigríður Bjarnveig, f. í Botni 15.10.1884-19.08.1967), ókv. og bl.
Kristján Magnús, f. í Botni (15.10.1888-18.02.1966), bóndi á Hvalskeri og Botni í Geirþjófsfirði.
Valdimar, f. í Botni 17. maí 1893, drukknaði er togarinn Robertsson fórst 8. febr. 1925.
Ingibjörg, f. í Botni (28.06.1898-26.02.1990), óg. og bl.
Marteinn Ólafur, f. á Hlaðseyri (18.06.1900-06.10.1975), vélstjóri, kvæntur Margréti, d. 1952 Hjartardóttur Líndal, bl.
1910-1915
Bergljót Sigurðardóttir. Búandi á Hvalskeri 1910-1915. Ekkja Kristjáns Björnssonar bónda á Skeri, enn á lífi í Reykjavík 1955.
1915-1917
Magnús Kristjánsson. Bóndi á Hvalskeri 1915-1917. Fluttist þá að Hvestu í Arnarfirði, síðan bjó hann í Króki í Selárdal, en seinast og lengst í Botni í Geirþjófsfirði (var eitt ár í Reykjavík eftir 1950). Foreldrar: Kristján Björnsson bóndi á Hvalskeri og k.h. Bergljót Sigurðardóttir.
K. 23. maí 1915, Hildur Bjarnadóttir, f. á Láganúpi (12.02.1892-13.05.1939) bónda á Geitagili, Jóhannssonar og k.h. Jónínu Ásbjörnsdóttur. Dó í Botni í Geirþjófsfirði. Börn þeirra:
Auður, f. á Hvalskeri (16.05.1916-22.08.1998), kona Ólafs Ásmundssonar húsasmíðameistara í Reykjavík. 2 börn.
Guðrún, f. í Hvestu (05.091917, kona Sæmundar Emils Valdimarssonar frá Krossi á Barðaströnd, búsett í Reykjavík. 4 börn.
Björn Magnús, f. í Hvestu 30. sept. 1918-04.01.1998, bóndi í Reykjarfirði í Suðurfjörðum, kvæntur Guðrúnu Ólafíu Ólafsdóttur Jóhannessonar bónda í Múla á Barðaströnd, Ólafssonar.
Sverrir, f. í Króki 12.05. 1920-29.05.1989), kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur frá Klifhaga í Axarfirði, búsett í Reykjavík. 2 börn.
Jónína Hrefna, f. í Króki (07.05.1921-15.08.2008), kona Magnúsar Guðnasonar í Kirkjulækjarkoti Rang. 8 börn.
Hlín, f. í Króki (07.05. 1921-27.08.2006), kona Sveins Jónssonar, búsett í Reykjavík. 4 börn.
Kristján Guðbjartur, f. í Króki (23.11.1923-15.02.2003). K. Guðrún Árnadóttir. 2 börn.
Valdimar, f. í Botni (07.07.1925-12.07.1972), kvæntur Bergþóru Gísladóttur frá Esjubergi, búsett í Reykjavík. 3 börn.
Gísli Angantýr, f. í Botni (16.03.1927-25.10.2003). Ásta Svanhvít Þórðardóttir; skildu. 3 börn.
Kristín Sigríður, f. í Botni f. 26.09.1929. I Þórarinn Jóhannsson. 3 börn. M.II Kristinn björnsson. 2 börn.
Vésteinn Gunnar, f. í Botni 25. febr. 1931. Bóndi í Langa-Botni.
1917-1920
Pétur Jónsson. Bóndi á Hvalskeri 1917-1920. Áður bóndi á Stökkum, sjá þar.
1920-1942
Stefán Ólafsson. Bóndi á Hvalskeri 1920-1942. F. í Króki á Rauðasandi 10. jan. 1891, d. á Hvalskeri 3. maí 1942. Foreldrar: Ólafur Jónsson bóndi í Króki og k.h. Guðbjörg Árnadóttir Thoroddsen.
K. Valborg, f. á Þórisstöðum í Þorskafirði (08.01.1893-19.07.1975) Pétursdóttir síðar bónda á Stökkum Jónssonar og k.h. Pálínu Þórðardóttur. Börn þeirra:
Þórir (05.08-1921-28.03.1999), bóndi á Hvalskeri; sjá hér á eftir.
Guðbjörg Stella (18.10.1922-16.04.1984). Sjúkrahúsráðskona á Patreksfirði.
Pálína, f. 12. febr. 1925. M. Hörður Sigurjón Kristófersson. 2 börn.
Pétur Eysteinn (29.12.1930-26.03.2010). Þórhalla Björgvinsdóttir. 1 barn.
Arnfríður Ásta, f. 10. okt. 1934. M. Ari Guðmundur Ívarsson. 3 börn.
1942-um 1970
Valborg Pétusdóttir. Bjó á Hvalskeri ekkja Stefáns Ólafssonar, með styrk barna sinna; uns Þórir sonur hennar tók að fullu við búskapnum.
um 1945-1991
Þórir Stefánsson (05.08-1921-28.03.1999). Bjó fyrst með Valborgu móður sinni tók síðan við búinu. Dvaldi alla ævi á Hvalskeri, einnig eftir að Sigurþór Pétur sonur hans tók við búinu. Með Ástu Hjördísi Einarsdóttur átti Þórir:
Stefán Þórisson f. 15.05.1957. Flugstjóri. Barn með Matthildi Bjarneyju Hólmbergsdóttur. Leila Floresca Esteban. 2 börn.
Sambýliskona Þóris var Sigurbjörg Sigurbergsdóttir f. 11.07.1940 á Svínafelli í Hornafirði. Sigurbjörg hefur haldið heimili á Skeri fyrir syni sína og sonarbörn og haft nokkurn bústofn. Börn Þóris og Sigurbjargar:
Sigurþór Pétur f. 31.10.1962. Vélstjóri, verktaki og bóndi á Skeri (sjá hér á eftir).
Birgir f. 22.10.1963. Fræðimaður í Rvík; ókv og bl.
Borgar f. 03.07.1965. Skipasmiður. Bóndi á Hvalskeri (sjá hér á eftir). Óg. bl.
1990-1999
Sigurþór Pétur Þórisson f. 31.10.1962. Vélstjóri, verktaki og bóndi á Hvalskeri. Sonur Þóris og Sigurbjargar, fyrri bænda á Hvalskeri. K. Inga Fríða Einarsdóttir, f. 22.09.1965; skildu. Börn; uppalin hjá þeim á Hvalskeri:
Sigurður Freyr f. 23.10.1986 (sonur Ingu; ættleiddur).
Hólmfríður Hulda f. 17.07.1988.
Þórunn Sunneva f. 19.05.1991.
1999-
Borgar Þórisson. Áður skipasmiður og farmaður. Óg. bl. Sonur Þóris og Sigurbjargar; fyrri bænda á Hvalskeri.
Brandarstaðir nefndist húsmannsbýli á Hvalskeri, þar sem síðar risu byggingar Kaupfélags Rauðasands. Brandarstaðir voru byggðir af Guðbrandi Eiríkssyni um 1894 og kenndir við hann, þó hann sjálfur kysi nfnið Brautarholt. Guðbrandur og Veróníka bjuggu í timburhúsi sem þau tóku með sér á Patreksfjörð. Árið 1916 er eigandi hússins Jóhannes Sturluson.
1894-1905
Guðbrandur Eiríksson (23.04.1849-10.05.1923)
Kot var hjáleiga úr Skápadalslandi, milli Skápadals og Hvalskers. Ekki verður fullyrt hvernig eða hvenær Kot byggðist, en sé það rétt sem brúað er á í Jarðabókinni; að það hafi byggst úr landi Konálsstaða, má ljóst vera að það var a.m.k. fyrir 1600.
Jarðabókin 1703. (Í klausu um Skápadal): “Í Skápadals landareign, milli Skápadals og Skers, er hjáleiga. Kallast Kot. Það hefur bygt verið inn til næstu fardaga. Var landskuld þar 2 ½ vætt fyrir 16 árum; nýlegast 3 vættir. Nú er það í eyði. Leigukúgildi 3 voru þar. Og var þá eins bygging á Skápadal og nú er. Þar fóðraðist ekki fult 1 kýr, ef hún skyldi á heyi fóðruð vera. Þetta býli er eldra en í nokkurs manns minni. Á milli Skápadals og Kots er bæjarstæði eða túngarða að sjá. Þetta bæjarstæði kalla menn almennilega Konálsstaði (aðrir kalla það Konungsstaði). Sumir ætla það kóngseign verið hafa fyrir löngu. Engir vita þó neinar bevisningar þar til og ætla sumir að þessi sögn muni af Konungsstaða nafni sinn uppruna fengið hafa. Þetta bæjarstæði hefur í eyði verið meir en í 100 ár, og so lengi eður lengur fylgt Skápadal. Ætla menn að Kot muni uppbyggt hafa verið í Konálsstaða (Konungsstaða) landareign. … Kot er lítilfjörlegt kot og sýnist sem Konálstaðir muni álíka að gæðum verið hafa, nema hvað túnið hefur þar stærra verið. Nú er túnið komið í hrjóstur og lyng og leirholt, so óhægt mundi aftur að rækta. So absorberuðu og þessir Konálsstaðir Kots bygging, ef þeir skyldu uppbyggjast, so allt lenti við það sama”. ”.
Þegar jarðabókin er skráð 1703, segir að það hafi verið byggt þar til í fardögum það ár. Talið að það hafi verið byggt í landi Konálsstaða, sjá Skápadal. Haldið að Konálsstaðir hafi verið í eyði í 100 ár eða meira árið 1703, en einhverntíma eftir að Konálsstaðir fóru í eyði, hefði Kot átt að byggjast. Það mætti því ætla, að Kot hafi byggst einhverntíma á 17. öld. Það var ekki metið sérstaklega, heldur metið með Skápadal.
Barðstrendingabók PJ. “Skammt fyrir innan Hvalsker er bærinn Kot. Er það lítið býli, en notagott fyrir sauðfé. Tún er þar lítið og útslægjur reytingslegar, en vetrarbeit góð og fjara. Fram undir miðja síðustu öld (1850) voru þar beitarhús frá Skápadal. Síðar var Kot keypt frá aðaljörðinni og þá metið þriðjungur hennar”.
Frá 1946 hefur Kot verið í eyði. Þórir Stefánsson á Hvalskeri keypti hana 1966 og hefur hún legið undir Sker síðan.
-1703
Sigurður Magnússon. Bóndi í Koti þar til í fardögum 1703, fluttist þá að Hvalskeri. F. um 1654.
K. Sigríður Jónsdóttir, f. um 1647. Börn þeirra:
Bjarni, f. um 1688.
Guðrún, f. um 1695.
1735
Guðbrandur Jónsson. Bóndi á Koti 1735. Líklega í Sauðlauksdal 1703 22 ára. Ekki er kunnugt um konu hans eða afkomendur.
1762
Bjarni Oddson. Bóndi á Koti 1762. Líklega sonur Odds Aronssonar bónda á Sjöundá 1735. Vinnumaður á Hvalskeri 1780, 53 ára gamall.
1780
Torfi Þorgeirsson. Bóndi á Koti 1780. F. um 1747, sonur Þorgeirs Helgasonar bónda í Skápadal 1762, en á Geirseyri rétt fyrir 1760. Móðir Torfa og kona Þorgeirs er talin Guðný Ásbjörnsdóttir bónda í Tungu Guðmundssonar og Steinunnar Þórðardóttur bónda í Laugardal Jónssonar.
K. Guðrún, f. um 1749, kölluð Góðsmannsdóttir eða Sigríðardóttir, en Sigríður hét móðir hennar og var framburður hennar um föður barnsins mjög óákveðinn. Gísli Konráðsson segir, að orð léki á því, að faðirinn væri Guðmundur prestur Þorláksson. Börn þeirra 1788:
Þorgeir, f. 1773, bóndi í Raknadal ? um 1810,
Guðný, f. 1772.
Guðbjörg, f. 12. okt. 1778.
Ólafur, f. 1777, d. 1778.
Þórunn, f. 1784.
Guðrún er vinnukona á Fæti á Barðaströnd 1788 með börn sín: Þorgeir 14 ára og Þórunni 4 ár. Hún hefur verið fædd á Barðaströnd. Hefur Torfi farið þangað 1780 eða 1781. Torfi mun hafa búið um tíma á Grænhól og dái þar um 1785.
1782
Solveig Loftsdóttir. Búandi á Koti 1782. F. um 1727. Þetta er móðir Bjarna Bjarnasonar bónda á Sjöundá 1801. Hún er þá á Sjöundá, sögð dæmd frá manni sínum, sem einnig hét Bjarni Bjarnason. Í kirkjubókum í Rauðasandshreppi er þessara hjóna aðeins getið, þegar Bjarni sonur þeirra fæddist 11. jan. 1761. Þau eru þá í Saurbæjarsókn. Eftir aldri að dæma hefði Solveig getað verið systir Þorláks, f. um 1730 bónda á Geitagili og Halls, f. um 1734 bónda á Melanesi 1780.
Eftir þetta hefur Kot verið í eyði um 100 ár að heita má, eða þar til Bjarni Jónsson fór þangað 1893. Milli 1880 og 1890 var þar í húsmennsku Ólafur Arnfjörð bróðir Bjarna og þá er þar einnig um tíma Kristján Ólafsson síðar bóndi í Bröttuhlíð. Einnig er svo að sjá á Þingbók, að eitt ár milli 1850 og 1860 hafi búið þar Magnús Magnússon.
1855-1856
Magnús Magnússon. Bóndi á Koti 1855-1856. Þetta mun vera M. M. frá Stekkadal, bóndi í Bröttuhlíð 1860, sjá þar.
1893-1897
Bjarni Jónsson. Bóndi á Koti 1893-1897, áður bóndi í Skápadal, sjá þar.
1897-1899
Sigríður Þórðardóttir. Búandi á Koti 1897-1899. Ekkja Bjarna Jónssonar fyrrnefnds bónda á Koti og í Skápadal.
1902-1917
Friðlaugur Einarsson. Bóndi á Koti 1902-1914. Áður bóndi í Skápadal. F. í Æðey (eða Tirðilmýri í N-Ís.) 1857, d. á Koti 1. nóv. 1914. Foreldrar: Einar, f. á Hreggstöðum18. júlí 1816, d. 3. mars 1883, Guðbrandssonar bónda á Skriðnafelli Jónssonar og k.h. Ragnhildar Ólafsdóttur og k.h. Steinunn, f. um 1822, d. í Hrísnesi 22. júlí 1898 Guðmundsdóttir bónda á Lónseyri á Snæfjallaströnd 1835 Guðmundssonar, en óvíst er um nafn móður Steinunnar.
K. 26. okt. 1884, Jóhanna Ólafsdóttir (28.06.1845-13.05.1919). Hún var ekkja Kristjáns bónda í Trostansfirði Jónssonar bónda í Skápadal Jónssonar og hafði átt með honum 3 börn. Börn Friðlaugs og Jóhönnu:
Guðmundur Jón, f. 16. júlí 1880, d. 24. ágúst 1907, skósmiður á Patreksfirði, kvæntur Guðrúnu Gíslínu Friðriksdóttur, sonur þeirra Jóhann. 2 börn.
Guðlaug, f. 1882, dó sama ár.
Guðlaug, f. 1883, dó sama ár.
Davíð, f. 20. ágúst 1885, smiður á Patreksfirði, d. á Vatneyri 15. júlí 1934, kvæntur Sesselju Sveinsdóttur, f. á Höllustðum í Reykhólasveit 25. sept. 1892. Börn þeirra Kristján listmálari í Reykjavík, Jóhanna gift Pétri Ólafssyni, búsett í Reykjavík og Sveinn. 3 börn.
Með öðrum konum átti Friðlaugur þessi börn:
Friðlaug, f. í Hrísnesi (18.12.1888-13.01.1904). Móðir hennar var Þóra Friðrika Hjálmarsdóttir.
María Guðveig, f. á Koti (22.09.1905-1935). Móðir hennar var Halldóra Sigríður Gestsdóttir bónda á Hvalskeri Jónssonar.
Eymundur Austmann, f. á Vatneyri (20.07.1907-02.06.1988), kvæntur Margréti Jóhannsdóttur. Móðir hans var Kristjana Einarsdóttir á Kambi á Vatneyri Sigurðssonar. 4 börn.
Friðmundur, f. á Koti 13. apríl 1911, d. á Vífilsstöðum um 1937.
Steingrímur Hannes, f. á Koti (22.11.1912-15.09.1998), bóndi í Ytri-Miðhlíð, kvæntur Dagnýju Þorgrímsdóttur Ólafssonar. 6 börn.
Friðlaugur Bergur, f. á Koti 1. febr. 1915, d. í Litluhlíð 18. nóv. 1927. Móðir þessara barna var Ólöf Dagbjartsdóttir bónda í Gröf Einarssonar.
Friðlaugur var smiður og stundaði mikið smíðar. Eftir lát hans bjó Jóhanna ekkja hans á Koti til 1917.
1917-1919 var jörðin nýtt af eiganda hennar; Ólafi Jóhannessyni kaupmanni á Vatneyri.
1919-1925
Ingvi Einar Einarsson. Bóndi á Koti 1919-1925. F. í Litla Fjarðarhorni í Tröllatungusókn 20. apríl 1862, d. á Patreksfirði 07.09.1924. Foreldrar: Einar, smiður, seinast á Patreksfirði, f. á Hreggstöðum 4. sept. 1832, d. á Patreksfirði 24. apríl 1897 Einarsson bónda á Hreggstöðum Jónssonar og k.h. Guðbjörg, f. á Broddadalsá í Strandasýslu 30. sept. 1834, d. á Patreksfirði Einarsdóttir „halta“ Gíslasonar og k.h. Ólafar Þórðardóttur. Ingvi var tvíkvæntur.
K. I 26. sept. 1890, Guðbjörg Árnadóttir (20.06.1856-09.07.1911) bónda í Hænuvík Pálssonar. Börn þeirra:
Sigurður Jóhann, f. 5. júlí 1891, d. 24. sama mán.
Sigurjón Ingvar, f. 3. okt. 1892, d. 10. sept. 1904.
Kristján Andrés (04.01.1895-02.05.1984), kvæntur Halldóru Magnúsdóttur úr Tálknafirði. 4 börn.
Ingileif Metta (02.10.1896-12.11.1963), giftist Ágústi Indriðasyni. 1 barn.
Karl Jensen (07.03.1899-07.07.1899).
K. II Guðbjörg Össursdóttir (08.04.1865-29.05.1960), bónda á Látrum Össurssonar. Ljósmóðir og forstöðukona Sjúkrahúss Patreksfjarðar. Hún var áður gift Jóni Bjarna Jónssyni sem fórst með þilskipinu Viggu, og áttu þau 3 börn.
1925-1932
Gísli Guðbjartsson (20.10.1863-30.01.1948), Ólafssonar bónda í Kollsvík. Bóndi á Koti 1925-1932. Áður húsmaður á Grænumýri í Kollsvík.
K.I Dagbjört Elíasdóttir (15.11.1874-21.10.1899). Þau barnlaus.
K.II Guðmundína Ólína Þorgrímsdóttir (28.07.1870-08.07.1937). Börn þeirra:
Dagbjartur Björgvin bóndi á Koti (sjá næst).
Þorgrímur Lúther (04.02.1906-09.02.1906)
Drengur, andvana fæddur 16.07.1910.
1932-1939
Dagbjartur Björgvin Gíslason (29.04.1904-31.07.1981). Bóndi á Koti 1932-1939. Fluttist þá á Patreksfjörð. F. í Kollsvík, foreldrar: Gísli húsmaður í Kollsvík, f. þar 20. okt. 1863, d. á Patreksfirði 30. jan. 1949, Guðbjartsson bónda í Kollsvík ólafssonar og k.h. Magdalenu Halldórsdóttur, og k.h. Guðmundína Ólína, f. í Litluhlíð á Barðaströnd 28. júlí 1870, d. á Patreksfirði 8. júlí 1937 Þorgrímsdóttir Ólafssonar og k.h. Bjargar Þorgrímsdóttur.
K. 9. maí 1931, Guðrún, f. á Mosvöllum í Önundarfirði (28.08.1889-10.01.1971) Brynjólfsdóttir. Börn þeirra:
telpa, f. andvana á Koti 28. júní 1932.
Árni Rafn, f. á Koti 14. jan. 1935, d. af slysförum á Patreksfirði 14. nóv. 1943.
1939-1946
Konráð Júlíusson (03.11.1902-09.02.1995). Bóndi á Koti 1939-1946. Áður bóndi í Tungu, sjá þar. Fluttist frá Koti á Patreksfjörð og þaðan til Hafnarfjarðar.
K. Jónfríður Jónsdóttir (22.09.1904-05.02.1988). Þau voru barnlaus. Konni á Koti, eins og hann er gjarnan nefndur, er þekktur hagyrðingur. Hann arfleiddi Barðstrendingafélagið að fjármunum, og heitir félagsheimili þess í Reykjavík Konnakot, honum til heiðurs.
Síðan hefur ekki verið búið á Koti, en jörðin nytjuð frá Hvalskeri.
Fornar rústir eru Milli Kots og Skápadals, þar sem heitir Konungsstaðir. Þar mun fyrrum hafa verið býli, sem Árna Magnússon greinir svo frá í Jarðabók sinni:
Jarðabókin 1703 “Á milli Skápadals og Kots er bæjarstæði eða túngarða að sjá. Þetta bæjarstæði kalla menn almennilega Konálsstaði (aðrir kalla það Konungsstaði). Sumir ætla það kóngseign verið hafa fyrir löngu. Engir vita þó neinar bevisningar þar til og ætla sumir að þessi sögn muni af Konungsstaða nafni sinn uppruna fengið hafa. Þetta bæjarstæði hefur í eyði verið meir en í 100 ár, og so lengi eður lengur fylgt Skápadal. Ætla menn að Kot muni uppbyggt hafa verið í Konálsstaða (Konungsstaða) landareign. Fabulera menn að á Konálsstöðum hafi fólk orfið (burt heillast), og því hafi jörðin eyðilagst. Kot er lítilfjörlegt kot og sýnist sem Konálstaðir muni álíka að gæðum verið hafa, nema hvað túnið hefur þar stærra verið. Nú er túnið komið í hrjóstur og lyng og leirholt, so óhægt mundi aftur að rækta. So absorberuðu og þessir Konálsstaðir Kots bygging, ef þeir skyldu uppbyggjast, so allt lenti við það sama”.
Barðstrendingabók PJ “Í landi jarðar þessarar (Kots) sér fyrir fornu eyðibýli sem kallað er Konungsstaðir. Óvíst er hvort séra Björn Halldórsson hefir haft kot þetta í huga er hann samdi Atla. En óhugsandi er að mögulegt hafi verið að hafa þann búskap á koti þessu sem hann ætlar Atla að hafa á Konungsstöðum, því að landið er gæðasnautt”.
Nafnið Nokkuð virðist heiti jarðarinnar hafa verið á reiki fyrr á öldum. Auk Skápadals koma fyrir nöfnin Skyttudalur og Skytjudalur, eins og ÁM greinir frá í Jarðabókinni. Allt gæti það vísað til náttúrusérkenna. Tilkomumikil gljúfur eða “skápar” setja sterkan svip á staðinn. Í mynni þeirra er tignarlegur klettastandur sem minnir á skyttu (skytju) í vefstól.
Jarðamörk Skápadals hafa tekið breytingum gegnum tíðina. Birgir Þórisson frá Hvalskeri lýsir ytri mörkum svo í “Fólkið, landið og sjórinn”: “Þegar Koti var skipt út úr Skápadal voru merkin sett við það ysta af þeim giljum sem kölluð voru Skápadalsgil (kallað síðan Merkjagil)…”. Og innri mörkunum þannig: “Landamerki Skápadals voru áður við Ósaá… Að innanverðu afhenti Ásbjörn Ólafsson 1978 Magnúsi bróður sínum í Vestur-Botni stykkið Ósahlíð, sem hann hafði tekið undan þegar hann seldi Skápadal. Engin mörk eru tiltekin í skjalinu, en kunnugir þekkja þau” (BÞ).
Jarðabókin 1703 “Skyttudalur (aðrir meina það heiti Skytiudaler); almennilega kallast jörðin Skápadalur. 12 hdr með Koti. Ábúandi er Þórður Jónsson. Landskuld er 4 vættir. Betalast á eyri ef ske kann; ef ei þá í fríðu og öðru. Þar uppí kvittast og 30 álna fóður. Við til húsa leggur landeigandi. Leigukúgildi 4. Leigur betalast í smjöri til Bæjar. Kvígildi uppungir leiguliði. Kvaðir eru formennska á skipi landsdrottins í Láturdal, þar fyrir fær leiguliði höfuð af skipshlutnum og ekkert annað formannskaup (annars skal formannskaup vera þar 2 fjórðungar smjörs). Kvikvjenaður er þar kýr 4, ær 16, gemlingar 10. Geldir sauðir 8, hestur 1, foli veturgamall 1. Þar kann fóðrast kýr 2, ær 12, lömb 8. Heimilismenn 8. Þar er rifhrís til eldingar og kola. Selveiði kann þar að vera ef aðdugað væri. Hrognkelsatekja kynni þar og nokkur að vera. Útigangur í fjöru er þar í betra lagi, þá fjöru nær, og jörðu til hjálpar; annars er fjara óheilnæm alleina. Heimræði hefur þar verið, meðan fiskurinn gekk inn í fjörðinn. Tún er, þar sem jörðin nú stendur, lítilfjörlegt og ekki til fulls ræktað. Fellur og á það aur úr fjallinu, sem hindrar ræktina. So brýtur og sjórinn landið neðan fyrir túninu. Bærinn hefur fluttur verið sökum vatnaáhlaups úr gili þar nálægu, og er það bæjartún af skriðu fordjarfað; þó enn nú að nokkru gagni. Vetrarhart er þar. Rista er þar engin.
Í Skápadals landareign, milli Skápadals og Skers, er hjáleiga. Kallast Kot…”. (Sjá nánar um Kot og Konungsstaði þar).
1570 og 1571
Jón Arason. Bóndi í Skápadal (þá skrifað Skytjudalur) 1570 og 1571. Þetta er skv. reikningum Eggerts Hannessonar lögmanns í Saurbæ.
1703
Þórður Jónsson. Bóndi í Skápadal 1703. Reri þá frá Láturdal á fjögramannafari. Við manntal það ár er ritað Skytjudalur, en í jarðabókinni stendur: „Skyttudalur (aðrir meina það heiti Skytiudaler). Almennilega kallast jörðin Skápadalur.“ Árið 1780 er nafnið er nafnið Skyttudalur, 1801, 1808 og 1817 Skápadalur, en 1845 Skyttudalur, síðan jafnan Skápadalur. Þórður var f. i, 1657.
K. Þuríður, f. um 1643, Jónsdóttir. Börn þeirra:
Guðríður (mállaus) 21 árs.
Guðrún 18 ára.
Halldóra (mállaus) 17 ára.
Dóttir Þuríðar er:
Guðrún Ólafsdóttir 31 árs.
Ekkert kunnugt um afkomendur þessa fólks.
1735
Þórður Oddson. Bóndi í Skápadal 1735. F. um 1684, er á Látrum 1703, 19 ára, fóstursonur Sigurðar Vigfússonar bónda þar.
1762
Þorgeir Helgason. Bóndi í Skápadal 1762. Skömmu fyrir 1760 er hann bóndi á Geirseyri, talinn samkvæmt sögnum eiga hlut í morði Ásbjarnar bónda í Raknadal, sjá þar. F. um 1728, d. 1777. Kona hans er talin hafa verið:
K. Guðný Ásbjörnsdóttir bónda í Tungu Guðmundssonar. Sonur þeirra var:
Torfi bóndi á Koti 1780.
um 1780-um 1786
Bjarni Sæmundsson. Bóndi í Skápadal 1780 og 1782, sennilega þar til um 1786, en ekki er vitað hve löngu fyrir 1780 hann hefur komið að Skápadal. F. um 1737, d. líklega milli 1786 og 1801.
K. 1761 (í Sauðlauksdalssókn), Jórunn, f. um 1737, d. milli 1786 og 1801 Ólafsdóttir. Börn þeirra:
Vigdís, f. 1763, giftist 1786 Teiti Jónssyni frá Fossá í Brjánslækjarsókn og fór þangað með honum. Frá þeim er komið margt manna.
Steinunn, f. 1765, 1774.
Guðrún, f. 1769, d. sama ár.
Allar fæddar í Sauðlauksdalssókn og sennilega innarlega í Patreksfirði, því að Sigríður Þórðardóttir í Raknadal og Halla Bjarnadóttir á Hlaðseyri eru skírnarvottar að tveimur fyrstu börnunum, sín í hvort skiftið ásamt fleiri. Er því ekki ólíklegt að Bjarni Sæmundsson hafi einnig þá verið í Skápadal.
1786-1788
Gísli Bjarnason. Bóndi í Skápadal líklega 1786-1788. Þetta mun vera Gísli, f. 1758, á Hjöllum í Gufudalssveit 1762 4 ára hjá foreldrum sínum, 1780 og 1782 á Geirseyri, talinn 23 ára 1780. D. snemma árs 1788, skiftafundur í Skápadal 30. apríl það ár. Segir þar að barn ekkjunnar sé 1 vel hálfs árs og annað auðsjáanlega í vændum. Foreldrar Gísla (ef framangreind tilgáta er rétt): Bjarni, f. um 1725 Rögnvaldsson bóndi á Hjöllum 1762, en mun síðar hafa verið í Fjarðarhorni í sömu sveit og k.h. Steinunn, f. um 1736 Jónsdóttir. Börn þeirra eru 1762: Bjarni 6 ára, líklega bóndi á Melanesi 1801, Guðmundur 3 ára og Þorkatla 2 ára. Bróðir þeirra hefur verið Gísli f. í Fjarðarhorni 1764, bóndi á Melanesi 1801, dóttir hans var Ingveldur móðir Jóns Gíslasonar bónda í Keflavík.
K. sennilega 1786, Halldóra, f. í júní 1758, d. í Saurbæ 18?? Þorláksdóttir bónda á Geitagili Loftssonar. Hún giftist síðar Ísleifi Jónssyni, en synir þeirra voru Jón í Saurbæ og Gísli í Kirkjuhvammi. Þörn gísla og Halldóru:
Guðmundur, f. 1787(14 ára í Raknadal 1801).
Ingibjörg, f. 1788, á Geirseyri 20 ára 1808 kona Bjarna Sigurðssonar bónda í Raknadal. Sonardóttir þeirra var Halldóra Gísladóttir kona Eggerts Eggertssonar bónda á Látrum.
1793 og 1797
Gísli Bjarnason. Bóndi í Skápadal 1793 (Guðmundur sonur hans fæddur þar) og 1797 (Ingveldur dóttir hans fædd þar), en Guðrún dóttir hans fædd 1795, er tali fædd í Raknadal. Eftir þessu hefð Gísli átt að vera fyrst í Skápadal, þá í Raknadal og síðan aftur í Skápadal, nema misritaður væri fæðingarstaður Guðrúnar, en ekki þarf svo að vera. Árið 1797 virðist Gísli svo hafa flutzt að Melanesi, en sennilega aftur að Skápadal 1801, þegar Jón Þorgrímsson fór að Sjöundá. Í Skápadal hefur hann svo verið fram yfir 1809, en þau hjónin eru komin að Botni í vinnumennsku 1817. Gísli hefur því búið lengst í Skápadal, um 3 ár á Melanesi og sennilega um 2 eða í mesta lagi 3 ár í Raknadal á undan Halldóri Þorlákssyni. F. í Fjarðarhorni í Gufudalssveit um 1764. Foreldrar munu hafa verið: Bjarni Rögnvaldsson, sem býr á Hjöllum 1762 og k.h. Steinunn Jónsdóttir, sjá hér að framan um Gísla Bjarnason, sem hefði átta að vera bróðir þessa Gísla.
K. um eða rétt eftir 1790, Jarðþrúður, f. í Keflavík 1767 Jónsdóttir e.t.v. bónda þar Jónssonar og k.h. Ingveldar Gunnlaugsdóttur líklega bónda á Naustabrekku 1762 Þorbjarnarsonar. Jarðþrúður dó 30. mars 1830 í Sauðlauksdal. Börn þeirra:
Guðmundur, f. í Skápadal 1793, á Hvalskeri 1817. Barn hans og Guðrúnar Halldórsdóttur bónda í Botni Þorlákssonar var Einar f. 26. júlí 1815, d. í Breiðavík ?
Guðrún, f. í Raknadal 1795, í Kollsvík 1817.
Ingveldur, f. í Skápadal 1797, kona Gísla bónda á Melanesi ? Bjarnasonar bónda í Raknadal Sigurðssonar. Sonur þeirra var Jón bóndi í Keflavík.
Gunnlaugur, f. á Melanesi 1800, er þar 1817, d. í Sauðlauksdal 24. okt. 1804 (vinnumaður á Láganúpi 1845), ókv. og bl.
Bjarni, f. 1809, hrapaði af Hákol? 1847, átti Guðrúnu Jónsdóttur ekkju Þórðar Jónssonar á Skógi, þau bl.
1897-1801
Jón Þorgrímsson. Bóndi í Skápadal 1897-1801. Síðar á Sjöundá, sjá þar.
1817
Jón Þórólfsson. Bóndi í Skápadal 1817. Hefur líklega komið þangað eftir Gísla Bjarnason og verið fram til 1820, en ekki er hægt að segja um það, hvenær á milli 1809 og 1817 hann hefur flutzt þangað frá Kvígindisdal, sjá þar.
1820-1824
Jón Einarsson. Bóndi í Skápadal 1820-1824. Fluttist þá að Geitagili, sjá þar.
1824-1827
Jón Bjarnason. Bóndi á Skápadal 1824-1827. Síðar bóndi í Hænuvík, sjá þar. Bjó á Grundum áður en hann fluttist að Hænuvík.
1827-1829
Kristín Geirmundsdóttir. Búandi í Skápadal 1827-1829. Hún var ekkja Péturs Péturssonar, sem bjó á Hlaðseyri 1826, sjá þar. Kristín fluttist í Tálknafjörð, er þar vinnukona á Suðureyri 1833. Eignaðist þar dóttur:
Kristín Kristjánsdóttir.
Kristín Geirmundsdóttur er sögð flutt frá Hlaðseyri til Flateyjar 1836.
um 1829-1836
Páll Gunnlaugsson. Bóndi í Skápadal um 1829-1836. F. um 1796. Fluttist að Skápadal frá Brandsstöðum í Reykhólsveit 1829, fluttist frá Skápadal að Reykhólum.
K. Guðríður Jónsdóttir, f. um 1799. Börn þeirra:
Benedikt, f. í Skápadal 8. ágúst 1829, d. þar 22. apríl 1835.
Friðrik, f. í Skápadal 12. júlí 1832.
1836-1845
Gunnlaugur Gíslason. Bóndi í Skápadal 1836-1845. F. á Melanesi 1800, d. í Sauðlauksdal 24. okt. 1884. Foreldrar: Gísli Bjarnason bóndi á Melanesi og k.h. Jarðþrúður Jónsdóttir. Gunnlaugur var ókv. og bl.
1845-1846
Friðbert Gunnarsson. Bóndi í Skápadal 1845-1846, fluttist þá að Hænuvík, síðar bóndi á Geitagili, sjá þar.
1846-1848
Árni Jónsson. Bóndi í Skápadal 1846-1848. Fluttist að Hvalskeri og er þar vinnumaður 1. febr. 1850 og Sigþrúður vinnukona. Síðan haf þau hjónin farið að Kvígindisdal og eru þar vinnuhjú 1853, er þau flytja úr hreppnum og að Hríshóli í Reykhólsveit, ásamt Sigríði dóttur sinni 11 ára. Var áður á skógi hjá tengdaforeldrum sínum. F. í Reykhólsveit um 1815. Foreldrar: Jón Árnason í Hlíð og k.h.
K. Sigþrúður, f. um 1815 Jónsdóttir síðar bónda á Skógi Jónssonar og k.h. Sigríðar Oddsdóttur. Börn þeirra:
Guðný, d. 28. nóv. 1850, fósturbarn hjá Brynjólfi Eggertssyni, 10 ára.
Sigríður, f. á skógi 1842, fluttist burt með foreldrum sínum.
Jóhannes, f. á Barðaströnd 1939, fluttist að Skógi með foreldrum sínum 1840 (frá Gerði), en hefur dáið ungbarn.
1855-1856
Hinrik Guðlaugsson. Bóndi í Skápadal 1855-1856. Áður bóndi í Kvígindisdal, sjá þar. Dó 25. febr. 1856.
1849-1857
Jón Jónsson. Bóndi í Skápadal 1849-1855 og 1856-1857, en húsmaður 1855-1856. Fluttist að Skeri og bjó þar 1857-1859, en mun þá hafa flutzt úr hreppnum, a.m.k. er hann þar ekki á manntali 1860. fluttist að Skápadal frá Höfðadal í Tálknafirði, hafði verið þar í allmörg ár, áður í Múlasveit og komst þar í svokallað Skálmarnesmál (morðmál). Var tekinn þar til yfirheyrslu en komst undan refsingu fyrir morð. Kallaður Jón „fangi“ eða „rúgkútur“. F. í Vatnsfjarðarsókn eða Kirkjubólssókn 1804. Jón vr tvíkvæntur.
K. I Ingibjörg Jónsdóttir. Hún er í Skálmardal 1835 „ gift, kona fangans“ og á þá:
Ingibjörgu 4 ára.
Sigríður 2 ára, sem fluttist í Tálknafjörð til föður síns.
K. II 1852 ?, Kristín Kristjánsdóttir, f. í Otradalssókn um 1812, d. á Hvalskeri 1859. Börn þeirra:
Svanhildur, f. í Höfðadal 9. okt. 1846, d. 14. nóv. sama ár.
Kristján, f. í Höfðadal 15. des. 1847.
María, f. í Höfðadal sama dag, d. 13. nóv. 1848.
Kristjana, f. í Skápadal 23. ágúst 1849, sést ekki dáin í kjb., en er ekki hjá foreldrum sínum við næsta manntal.
Guðbrandur, f. 9. júní 1852, d. 30. sama mán.
Pétur, f. 6. febr. 1854, d. 20. sama mán.
Jón, f. 15. febr. 1855, dó fárra daga gamall.
Guðrún, f. 15. febr. 1855, dó fárra daga gömul.
Jón, f. 2. júní 1856, d. 21. apríl 1857.
Jón, f. á Hvalskeri 4. maí 1858, d. 11. sama mán.
Guðrún, f. á Hvalskeri 4. maí 1858, d. 11. sama mán.
Við manntali haustið 1855 er Jón fyrst skrifaður „bóndi á Koti“, en strikað yfir það og hann skrifaður húsmaður. Kann eftir þessu að hafa haft aðsetur á Koti þetta ár, þegar Hinrik Guðlaugsson var bóndi í Skápadal.
1859-1875
Jón Jónsson. Bóndi í Skápadal 1859-1875, á Geirseyri 1855-1859, en virðist hafa haft samtímis Skápadal 1857-1859. Var bóndií Laugardal og fluttist þaðan að Geirseyri. F. á Sveinseyri í Tálknafirði 26. okt. 1817, d. í maí 1875, drukknaði, er danskt skip sem Frigg hét, fórst fyrir Vesturlandi, líklega í Látraröst. Skipið kom með vörur til Markúsar Snæbjörnssonar kaupmanns á Geirseyri, en fór á fiskiveiðar. Voru á því þessir Íslendingar a.m.k. auk Jóns: Sigurður Gíslason bóndi í Botni, Jón Hinriksson bónda í Kvígindisdal Guðlaugssonar og Kristján Friðriksson úr Rifgirðingum, en móðir hans var Frugit Gísladóttir prests í Sauðlauksdal, Ólafssonar. Haldið var að grjótkjölfesta í skipinu hefði kastast til og það ekki getað rétt sig við. Foreldrar: Jón Arnórsson bóndi í Laugardal, f. 1787 í Botni í Tálknafirði, d. á Fossi í Arnarfirði 1835 og k.h. Ragnheiður, f. 1791 í Tungu í Tálknafirði, d. s.st. 1843 Sigurðardóttir bónda á Sveinseyri Þórðarsonar.
K. 7. sept. 1840, Kristín, f. 1814 að Görðum í Önundarfirði, d. í Skápadal 14. okt. 1878 Pálsdóttir Jónssonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Guðrún var ekkja Jóns (eldri) Magnússonar, er drukknaði í mannskaðaveðri 11. nóv. 1812. Börn þeirra:
Kristján Páll, f. að Hóli í Bíldudal 22. nóv. 1840, d. í Trostansfirði 15. júní 1873, kvæntur Jóhönnu Ólafsdóttur (átti síðar Friðlaug Einarsson bónda á Koti) bónda á Hamri á Hjarðarnesi Jónssonar og k.h. Kristínar Þorkelsdóttur. Börn þeirra: Páll bóndi í Skápadal, Gunnhildur Guðrún og Kristján Ólafur skipstjóri, síðar fornbókasali í Reykjavík.
Ólafur, f. á Lambeyri í Tálknafirði 15. apríl 1847, bóndi í Skápadal.
Guðmundur, f. í Laugardal (15.10.1853-31.12.1944) seinast bóndi á Skjaldvararfossi.
1875-1876
Kristín Pálsdóttir. Búandi í Skápadal 1875-1876. Ekkja Jóns Jónssonar, fyrrnefnds bónda í Skápadal.
1876-1884
Jóhanna Ólafsdóttir. Búandi í Skápadal 1876-1884. Ekkja Kristjáns Páls Jónssonar bónda í Trostansfirði, sjá að ofan. F. á Hamri á Hjarðarnesi 1845, d. á Patreksfirði 13. maí 1919. Var tvígift.
M. I 11. okt. 1870 (Skápadal), Kristján Páll Jónsson. Þau fluttust frá Skápadal að Trostansfirði. Börn þeirra:
Páll, f. á Skápadal 30. júlí 1867, bóndi í Skápadal.
Gunnhildur Guðrún, f. í Skápadal 4. des. 1870, d. óg. og bl.
Kristján, f. í Trostansfirði 26. apríl 1873, skipstjóri, síðar fornbókasali í Reykjavík, kvæntur Sigurlaugu Traustadóttur smiðs á Vatneyri Einarssonar. Einkadóttir þeirra: Rakel, f. 1. júlí 1903 í Reykjavík, óg. og bl.
Foreldrar Jóhönnu voru: Ólafur, f. 1808, d. 13. ágúst 1849 Jónsson Einarssonar, Þorvaldssonar bónda í Miðhlíð Einarssonar og k.h. Kristín Þorkelsdóttir Ólafssonar bónda í Tungumúla Bjarnasonar og k.h. Guðrúnar Guðmundsdóttur bónd í Feigsdal Guðmundssonar og k.h. Valgerðar Bjarnadóttur.
M. II Friðlaugur Einarsson bóndi á Koti, sjá þar.
1884-1886
Friðlaugur Einarsson. Bóndi í Skápadal 1884-1886 og 1891-1893. Síðar bóndi á Koti, sjá þar. Friðlaugur var húsmaður í Skápadal eftir að hann let af búskap þar hið fyrra sinn og líklega er sama að segja í seinna skiftið. Hann var smiður og starfaði í þeirri grein.
1877-1881
Ólafur Jónsson. Bóndi í Skápadal 1877-1881. Hann bjó á nokkrum hluta jarðarinnar á móti Jóhönnu Ólafsdóttur, sjá hér að framan. Síðar bóndi í Gerði á Barðaströnd. Fluttist frá Skápadal að Miðhlíð 1881. F. á Lambeyri 15. apríl 1847, d. á Haukabergi 11. febr. 1896. Hraustmenni mikið og glímumaður. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi í Skápadal og k.h. Kristín Pálsdóttir.
K. 13. okt. 1878, Guðrún, f. á Bíldudal 22. júlí 1852, d. í Miðhlíð 28. júlí 1882 eftir barnsburð, Ólafsdóttir Thorlaciusar, síðar bónda á Geirseyri og f.k.h. Steinunnar Ólafsdóttur. Guðrún var alsystir Ólafs bónda í Saurbæ, en hálfsystir Steinunnar konu Erlendar Kristjánssonar á Látrum. Börn þeirra:
Jón Guðmundur, f. í Skápadal 25. apríl 1880, d. 18. mars 1943, skipstjóri, lengst stýrimaður hjá „Eimskip“ kvæntur frændkonu sinni Ólínu Erlendsdóttur bónda á Látrum.
Kristín, f. í Miðhlíð 8. júní 1881. Fór til Danmerkur, trúlofaðist þar dönskum manni, er Jespersen hét og eignuðust þau eina dóttur, Unnur. Aðra dóttur eignaðist hún, er Guðrún heitir. Faðir hennar var Lund, málflutingsmaður í Kaupmannahöfn.
1881-1893
Bjarni Jónsson. Bóndi í Skápadal 1881-1893. Áður á Hlaðseyri 1876-1881, síðar á Koti 1893-1897. Bjarni hefur tekið nokkurn hluta þess, sem Ólafur Jónsson sleppti, er hann fluttist frá Skápadal 1881. Þegar Friðlaugur hættir búskap 1886, hefur Bjarni tekið alla jörðina, þar til Friðlaugur byrjar aftur búskap 1890. Úr því er Bjarni svo enn með minni hlutann, þar til hann fer að Koti. Bjarni var skipstjóri. F. að Uppsölum í Selárdal 28. okt. 1845, d. 1. maí 1897, er fiskiskipið Vigga fórst, eign Markúsar kaupmanns á Geirseyri, Snæbjörnssonar, en á henni var Bjarni skipstjóri. Foreldrar: Jón Sigurðsson, f. um 1812 og Þorgerður Ólafsdóttir, f. um 1806. Bjarni fluttist frá Hóli í Bíldudal að Hlaðseyri 1876, en svo er að sjá, að hann teljist þar ekki bóndi fyrr en árið eftir. Þetta fólk var á heimili Bjarna, er hann fluttizt að Hlaðseyri:
Bjarni Jónsson 31 árs.
Jón Sigurðsson sonur hennar 70 ára, faðir bóndans.
Þorgerður Ólafsdóttir 70 ára, kona hans.
Jón Eyjólfur Bjarnason 21 árs fóstursonur þeirra (síðar skipstjóri á Geirseyri).
Sigríður Þórðardóttir 35 ára.
Jón Jónsson sonur hennar 14 ára.
Guðný Guðbjartsdóttir dóttir hennar 11 ára.
Sama ár fór frá Hóli að Skápadal Ólafur Jónsson vinnumaður 29 ára. Hann kallaði sig Ólaf Arnfjörð og drukknaði við Gjögrabót sama dag og Vigga fórst. Hann var bróðir fyrrnefnds Bjarna skipstjóra á Viggu.
K. 21. okt. 1876, Sigríður, f. á Kirkjubóli í Dalahreppi 19. júlí 1841 Þórðardóttir. Foreldrar: Þórður Sigurðsson og Halldóra Gísladóttir bónda á Klúku í Arnarfirði Jónssonar bónda á Kirkjubóli í Arnarfirði Helgasonar bónda á Hvalskeri Helgasonar. Kona Gísla á Klúku var Guðný Sveinsdóttir bónda í Hergilsey Einarssonar. Bjarni og Sigríður, bl.
Ólafur bróðir Bjarna var tvíkvæntur. Fyrri kona: Magnfríður systir Jóns Magnússonar bónda í Hænuvík. Sonur þeirra Þórarinn fórst með Viggu. Seinni kona: Kristín Ólafsdóttir bónda á Naustabrekku, Magnússonar, bl.
1893-1897
Páll Kristjánsson. Bóndi í Skápadal 1893-1897 og 1901-1902 á nokkrum hluta, móti Helga Einarssyni. Í þingbók er Páll talinn hafa 6 hndr., en Helgi 2,9 hndr. Er þar um að ræða hið nýrra mat á Skápadal að Koti meðtöldu. Síðan bjó Páll í Skápadal árin 1916-1921. Fluttist frá Sauðlauksdal 1923 að Sperðlahlíð í Arnarfirði (Suðurfjörðum). Var þar samhliða Ólafi tengdaföður sínum, en mun ekki hafa verið talinn fyrir jörðinni fyrr en Ólafur lézt 1937. Árið 1939 flytzt hann að Krosseyri og býr þar til 1942. Árið 1944 er hann kominn að Steinanesi og dó þar. Líklega hefur Páll verið bóndi í Sperðlahlíð engu síður en tengdafaðir hans, enda talinn bóndi í manntali frá 1825, en húsmaður 1923 og 1924. F. í Skápadal 30. júlí 1867, d. 12. okt. 1944. Foreldrar: Kristján Jónsson bóndi í Trostansfirði og kona hans Jóhanna Ólafsdóttir, síðar búandi í Skápadal.
K. 7. nóv. 1915 (í Skápadal), Málfríður Ólafsdóttir bónda í Skápadal Björnssonar og k.h. Málfríðar Arngrímsdóttur. Börn þeirra:
Ólafur Björn, f. í Skápadal 10. sept. 1916, kennari.
Kristján Jóhann (Jón) f. í Sperðlahlíð 1924.
1897-1902
Helgi Einarsson (21.03.1866-01.10.1942). Bóndi í Skápadal 1897-1902, seinasta árið ásamt Páli Kristjánssyni. Foreldrar: Einar Ólafsson bóndi á Hnjóti og k.h. Jóhanna Sigurðardóttir bónda í Breiðavík (Tungu) Jónssonar.
K. 8. nóv. 1896, Þuríður Guðríður, f. 30. nóv. 1867, d. á Geirseyri 31. júlí 1904 Magnúsdóttir bónda á Hvalskeri o.v. Einarssonar. Börn þeirra:
María, f. á Hvalskeri (09.06.1895-20.02.1989). 3 börn
Bjarney, f. í Skápadal 14. ágúst 1897, d. 8. maí 1900.
Einar, f. í Skápadal 30. sept. 1899, drukknaði er togarinn Robertson fórst í „Halaveðrinu“ 8. febr. 1925, ókv. og bl.
Bjarney Sigurborg, f. í Skápadal 17. sept. 1901, d. 12. júní 1902.
Guðmundur Andrés, f. á Geirseyri (25.07.1904-25.03.1988). Lengi vinnumaður í Kirkjuhvammi á Rauðasandi. Óg.bl.
1902-1903
Sigmundur Hjálmarsson. Bóndi í Skápadal 1902-1903. Áður bóndi á Hvalskeri, sjá þar.
1906-1911
Guðmundur Guðmundsson (16.12.1868-14.06.1946). Bóndi í Skápadal 1906-1911. Fluttist að Skápadal frá Fagradal í Dalasýslu, en frá Skápadal að Laugardal í Tálknafirði. F. í Hvarfsdal á Skarðsströnd. Foreldrar: Guðmundur f, í Frakkanesi 21. sept. 1833 Daðason, bóndi í Hvarfsdal um 1870, í Belgsdal 1845 og k.h. Guðrún, f. í Tjaldanesi 25. okt. 1845 Guðmundsdóttir Ormssonar (Guðmundur er í Sælingsdalstungu 1845).
K. Arnbjörg Jónatansdóttir Grímssonar fædd að Hellu í Bervík á Snæf. Synir þeirra:
Skúli Theodór (21.09.1890-12.02.1969). Sjómaður og bóndi.
Guðlaugur Guðmundur (29.01.1900-28.02.1988). Bóndi í Stóra Laugardal. Hákonía Jóhanna Pálsdóttir. 8 börn.
1911-1916
Ólafur Björnsson 1.10.1866-11.10.1866-06.07.1937). Foreldrar: Björn Þorleifsson bóndi í Botni í Tálknafirði og k.h. Anna Elísabet, f. í Keflavík syðra 3. jan 1841, d. í Botni í Tálknafirði 11. júlí 1881 Bergsteinsdóttir f. á Bergvaði í Oddasókn Ólafssonar. Björn var f. á Hóli í Bíldudal 27. febr. 1835, d. í Skápadal 13. nóv. 1913 Þorleifsson kaupmanns á bíldudal Johnsens og Ingibjargar Ólafsdóttur, ekkju séra Jóns Jónssonar í Otradal. Alsystir Björns var Ingibjörg Sigurðardóttir kona Sigurðar Gíslasonar í Botni í Patreksfirði. Þau systkini voru upphaflega skrifuð börn Sigurðar, sem kallaði sig Breiðvíking Sigurðssonar bónda í Breiðavík Jónssonar. Ingibjörg hélt því nafni, en Björn tók sitt rétta föðurnafn á fermingaraldri.
K. 3. ágúst 1895, Málfríður María, f. á Stað í Súgandafirði 15. ágúst 1862, d. að Botni í Geirþjófsfirði 19. mars 1954 Arngrímsdóttir prests, síðast að Brjánslæk, Bjarnasonar. Börn þeirra:
Málfríður, f. í Trostansfirði (15.06.1896-06.04.1978), kona Páls Kristjánssonar bónda í Skápadal (sjá hér næst).
Anna Elísabet, f. á Eysteinseyri í Tálknafirði (03.09.1898-14.12.1988), yfirhjúkrunarkona á Vífilsstöðum, síðar kona gísla J. Johnsens stórkaupmanns og konsúsls í Vestmannaeyjum og Reykjavík.
Ingibjörg, f. í Botni í Tálknafirði (22.05.1900-04.05.1988), kona Jóns skipstjóra á Patreksfirði Þórðarsonar, Gunnlaugssonar bónda í Bröttuhlíð Þorleifssonar. 5 börn.
Ólafur mun hafa flutzt frá Skápadal á Patreksfjörð og verið þar nokkur ár, en fór síðan að Sperðlahlíð í Suðurfjörðum 1923. Bjó þar til dauðadags.
1916-1921
Páll Kristjánsson (30.07.1867-12.10.1944) Jónssonar bónda í Trostansfirði (sjá Kot) og Jóhönnu Ólafsdóttur. Páll ólst upp í Skápadal hjá móður sinni og seinni manni hennar, Friðlaugi Einarssyni.
K. Málfríður Ólafsdóttir (15.06.1896-06.04.1978) (sjá hér síðast). Börn þeirra:
Björn Ólafur (10.09.1916-05.03.1967). Skáld; skólastjóri á Grenivík. Þórgunnur Björnsdóttir. 2 börn.
Kristján Jón (13.03.1924-28.09.1999). Bóndi á Krosseyri.
Málfríður átti síðar Magnús Kristjánsson (15.10.1888-18.02.1966) bónda í Langabotni í Geirþjófsfirði. Hún var síðast búsett á Bíldudal.
1922-1924
Lárus Stefánsson (22.09.1871-13.04.1930). Bóndi í Skápadal 1922-1924. Kom frá Vaðli á Barðaströnd.
K. Jónína Valgerður Engilbertsdóttir (12.01.1875-09.02.1926).
Gísli Hjörtur (06.08.1894-18.07.1964) Bóndi í Neðri-Rauðsdal.
Kristjóna (29.06.1896-02.04.1924). 2 dætur með Elíasi Bjarnasyni.
Valgerður Guðrún (10.07.1898-13.10.1983). M. Markús Hallgrímsson. 3 börn.
Stefán Benjamín (21.10.1900-06.09.1971) K. Steinunn Jóhannesdóttir.
Kristinn Janus (15.01.1902-07.07.1937).
Halldóra (13.05.1905-26.04.1985). M. Ellert Þórarinn Þórðarson. 1 barn.
Lára Salóme (20.04.1906-?) Barn með Þórði Björssyni. Búsett í Svíþjóð.
Aðalheiður Jenný (07.06.1907-11.07.1937). Magnús Jónsson, 5 börn.
María Þórlaug (16.07.1910-23.10.1992). Pétur Jón Sigurðsson; skildu. 2 börn.
Svava (15.08.1911-12.11.2002). Karl Þorleifur Kristjánsson. 2 börn.
Jóhanna (15.05.1913-03.11.1974). Barn með Magnúsi Jónssyni.
Anna Sigurbjörg (11.09.1914-03.03.1997). Magnús Jónsson. 9 börn.
Gústaf Adolf (04.12.1917-12.02.2013) Þórhildur Magnúsdóttir. 6 börn.
Valdimar (28.01.1920-01.05.2007). K. Kristín Jónsdóttir. 1 barn.
Fjölskyldan fluttist aftur á Barðaströnd.
1927-1950
Ásbjörn Ólafsson (20.03.1898-18.11.1992), Ásbjarnarsonar bónda á Láganúpi. Bóndi í Skápadal 1927-1950. Smiður. F. á Láganúpi 20. mars 1898, sonur Ólafs bónda þar Ásbjörnssonar og k.h. Kristínar Magnúsdóttur.
K. 12. mars 1932 (í Reykjavík), Marta Guðrún, f. í Tungu í Skutulsfirði (27.07.1903-28.12.1982) Vilhjálmsdóttir Bessasonar og Margréta Jónsdóttur bónda í Króki Ólafssonar. Dóttir þeirra (höfðu áður eignast barn, sem fæddist andvana):
Margrét Kristín, f. í Botni í Patreksfirði (11.05.1941-09.12.2014). Hermod Ingemar Jakob Lund; skildu. 3 börn.
1951-1953
Halldór Kristinn Halldórsson. Bóndi í Skápadal 1951-1953. Áður bóndi á Mábergi, sjá þar. Fluttist 1953 til Reykjavíkur.
1953-1958
Einar Ásgeir Þórðarson (13.10.1923-29.01.1969; drukknaði af mb Sæfara). Bóndi í Skápadal síðan 1953. F. 13. okt. 1923 á Patreksfiðri. Foreldrar: Þórður Guðbjartsson Árnasonar (Guðbjartur var bróðir Ingimundar, sem lengi var vm. í Sauðlauksdal) og k.h.
K. Elísabet Margrét Ryggstein Marteinsdóttir f. 20.07.1925. Síðari maður Margrétar var Sverrir Ólafsson. Börn Einars Ásgeirs og Margrétar:
Marteinn Þórður (20.07.1947-17.11.1967). Barn með Eygló Kristjánsdóttur. K. Anna Stefanía Einarsdóttir. 1 barn.
Ingibjörg Árný, f. á Patreksfirði 29.07.1948.
Heiðrún, f. á Patreksfirði 22. des. 1950. Barn með Skúla Einarssyni.
Ásgeir, f. 23. jan. 1952. Barn með Kolbrúnu Pálsdóttur. Gylgja Dröfn Gísladóttir. 4 börn.
Kristrún f. 27.03.1956.
Ólína f. 02.05.1958. Sigurður Páll Pálsson. 4 börn.
Ekki hefur verið búið á Skápadal síðan. Jörðin er í eigu Jóns Magnússonar útgerðarmanns á Patreksfirði (frá Hlaðseyri) og Lilju Jónsdóttur (frá Kollsvík). Í fjörunni hefur verið dregið á land fiskiskipið Garðar; elsta stálskipið í íslenska flotanum, en Jón var lengi skipstjóri á honum.
Nafnið Innsta jörðin í Patreksfirði. Í eldri heimildum oft kölluð Botn í Patreksfirði, til aðgreiningar frá t.d. Botni í Tálknafirði. Á síðari tímum er hinn fyrrnefndi oftast nefndur Vestur-Botn eða Vesturbotn, en hinn síðarnefndi Norður-Botn eða Norðurbotn. Innansveitar í Rauðasandshreppi var þó Vesturbotn einatt styttur í Botn
Jarðabókin 1703 “Hefur fyrir refirmationem (siðaskipti) bænhús verið, en fyrir langri æfi affallið. Jarðardýrleiki 24 hdr. Eigandinn prófasturinn sr Páll Björsson. Ábúandinn Grímur Ketilsson býr á 12 hdr. Annar, Jón björnsson, býr á 8 hdr. Þriðji maður, Jón Þormóðsson, sem býr á Hlaðseiði (það er hjáleiga frá heimajörðinni), býr á 4 hdr. Landskyld af allri jörðunni, fyrir utan hjáleiguna Hlaðseiði, er 1 hdr (20 álnir af hverjum 4 hdr). Betalast í fiski í kaupstað ef til er, eða peningum uppá fiskatal. Bregðist þetta, þá í öllum gildum landaurum. Húsavið leggur landsdrottinn til að nokkru leyti, en að nokkru leyti ábúandi. Leigukúgildi með 12 hdr eru 3, með 4 hdr 1, með 8 hdr 2 kúgildi. Leigur betalast í smjöri heim til landsdrottins, eður landaurum ef smjör bregðst. Kúgildi uppyngir landsdrottinn hjá þeim eina Jóni Björnssyni, en hinir kalla sjer uppbót vísa, þá þeir með rjettu óski. Kvaðir eru hjá Jónum, Björns- og Þormóðssonum, skipsáróður (þeir tveir eiga og engin skip). Sá er kvaðafrí, er skip á sjálfur.
Kvikfjenaður hjá Grími 5, Jóni björnssyni 4. Heimilisfólk Jóns Þormóðssonar telst með Hlaðseiði. Jörðin á rifhrís gott, sem ábúendur brúka til eldiviðar sjer og kolagjörðar, og megu ekki ljá öðrum. Stundum gefur landsdrottinn nokkrum mönnum orðlof til kolagjörðar, og meina ábúenur hann þiggi ekkert í toll þar fyrir. Grasatekja á fjallinu mætti vera að nokkru liði þó lítil sje. Selveiði hefur þar verið, en nú um stundir ekki heppnast, þó tilreynt verið hafi. Hrognkelsaveiði hefur verið, en nú ekki hepnast um stundir. Skelfiskfjara til bjargar nokkrar ef áliggur. Heimræði umhaust og hásumur var meðan fiskgengd var, en legst nú frá. Skip á einn ábúenda ut supra. Tún spillist af leirskriðum. Engjar öngvar, nema hvað hent er á votlendum skógarsundum. En útigangur er rjett góður”. (um hjáleiguna “Hlaðseide”; sjá Hlaðseyri).
Barðstrendingabók PJ Bærinn Vestur-Botn stendur góðan spöl frá sjó norðan við Ósafjörðinn. Landrými er þar mikið og landkostir ágætir. Er jörðin talin ein hin besta flutningsjörð. Þar er nú (1942) tvíbýli. Fjörubeit er þar nokkur og vetrarbeit ágæt. Kvistlendi mikið og skógarkjörr nokkur. Fyrrum var þar skógur allmikill; átti Sauðlauksdalskirkja þar ítak. … Hefur fiskur oft gengið alla leið inn á Ósafjörð og aflast þar til góðra muna… þótt varla hafi orðið fiskvart utar í firðinum”.
Auk Sauðlauksdalskirkju átti Hvalsker skógarítök í Botni, enda er gróskumestur skógur í Rauðasandshreppi þar og innst á Rauðasandi.
1703
Grímur Ketilsson. Bóndi í Botni 1703. F. um 1651.
K. Ólöf Oddsdóttir, f. um 1656. Börn þeirra:
Bjarni 18 ára.
Jón 12 ára, sjónlaus.
Guðríður 14 ára.
1703
Jón Björnsson. Bóndi í Botni 1703. F. um 1649.
K. Valgerður Halldórsdóttir, f. um 1657. Barn þeirra 1703:
Sigríður 3 ára.
Fóstursonur Jón Jónsson 10 ára.
1735
Jón Jónsson. Bóndi í Botni 1735. Þetta gæti verið fyrrnefndur fóstursonur Jóns Björnssonar, en annars er ekkert um hann kunnugt.
1735
Bjarni Jónsson. Bóndi í Botni 1735. Um hann er ekkert hægt að segja með vissu.
um 1750-1777
Jón Guðmundsson. Bóndi í Botni 1762. F. líklega um 1720, d. 30. júní 1777. Hann mun hafa búið í Botni frá því um 1750 og til dauðadags. Foreldrar: Um móður hans mun ekkert hægt að segja, en mér þætti ekki ólíklegt, að faðir hans hafi verið Guðmundur Jónsson bóndi í Tungu 1703 Guðmundssonar og k.h. Hergerðar Jónsdóttur. Guðmundur var f. um 1683 og er hjá foreldrum sínum 1703.
K. um 1750, Hólmfríður, f. um 1723, d. á milli 1786 og 1801 Ólafsdóttir bónda í Dalshúsum 1735 Jónssonar og k.h. Vilborgar halldórsdóttur bónda á Láganúpi 1703, Jónssonar. Börn þeirra:
Elín, f. 3. des. 1753, kona Jóns Jónssonar bónda í Botni.
Guðrún, f. 5. nóv. 1754, d. 24. sama mán.
Guðrún, f. 12. febr. 1756, kona Einars Jónssonar bónda í Kollsvík.
Vilborg, f. 18. júní 1858, í Botni1780, vantar 1801 og síðar.
um 1777-um 1801
Jón Jónsson. Bóndi í Botni 1780 og 1801. Hann hefur líklega tekið við búi í Botni við andlát Jóns tengdaföður síns 1777 og bjó þar fram yfir 1801, en þá fór hann að Hvalskeri til Kristínar dóttur sinnar, sem var gift Magnúsi Halldórssyni bónda þar. Jón var f. um 1736. Hefur e.t.v. verið sonur Jóns Jónssonar sem býr í Botni 1735. Það er sennilega þessi J.J., sem dó á Skeri 26. des. 1815. Þó virðist Magnús tengdasonur hans þá vera kominn að Melanesi og hefði Jón því átt að verða eftir á Skeri. Víst er um það, að Jón er ekki á manntali 1817. En hafi hann verið f. á þessum slóðum og e.t.v. alið allan sinn aldur þar, þá er ekki víst að hann hafi viljað breyta til, er hann var um áttrætt.
K. Elín Jónsdóttir. Börn þeirra:
Kristín, f. 1776, kona fyrrnefnds Magnúsar Halldórssonar.
Helga, f. 1778, dó á 1. ári.
Andrés, f. 1784, dó á 1. ári.
Guðrún, f. 1779, ekki á manntali 1801 eða síðar.
Helga, f. 1781, ekki á manntali 1801 eða síðar.
Guðbjörg, f. 1785, í Botni 1801.
Gísli, f. 1787, á Hvalskeri 1808.
Jón, f. 1789, í Bæ 1817, kallaður smiður, bóndi á Sjöundá.
Sigríður, f. 1791.
Helga, f. 1793, á Melanesi 1817, móðir Jóns Ólafssonar bónda á Sjöundá.
Áður en Jón kvæntist átti hann dóttur:
Guðný, f. 1769, gift Bjarna Magnússyni bónda á Hvalskeri 1801.
1808
Elín Jónsdóttir. Búandi í Botni 1808. Kona fyrrnefnds Jóns Jónssonar. Eftir að Jón lét af búskap líklega skömmu eftir 1801, hefur Elín haldið búskapnum áfram fram yfir 1808. Hún er í Bæ ásamt Jóni smið syni sínum 1817, ekkja.
1817
Halldór Þorláksson. Bóndi í Botni 1817. Hann hefur sennilega tekið við Botni, er Elín hætti búskap og var þangað til 1819. Hafði áður búið á Hlaðseyri, í Raknadal, en fluttist þá frá Botni að Hnjóti og dó þar eftir tveggja ára búskap 27. okt. 1821. F. á Geitagili 1763, sonur Þorláks bónda þar Loftssonar og k.h. Ingibjargar Pálsdóttur.
K. um 1790, Ingunn Bjarnadóttir bónda í Kvígindisdal Erlingssonar. Börn þeirra:
Bergljót, f. á Hlaðseyri 1793, kona Jóns Einarssonar bónda á Gili.
Ólafur, f. á Hlaðseyri 1794, í Raknadal 1801, vantar 1817.
Guðrún, f. á Hlaðseyri 1796, kona Þorgríms Sigurðssonar bónda í Breiðavík. Áður en Guðrún giftist átti hún son með Guðmundi Gíslasyni bónda í Skápadal Bjarnasonar.
1801-um 1806
Bjarni Magnússon. Bóndi í Botni 1801 og til 1806 a.m.k. Hefur haft nokkuð af jörðinni á móti tengdaföður sínum. F. um 1760, en ekki sést nafn hans í kjb. Rauðasandsþinga. Hann er ekki heldur á manntali 1780 og er því líklega aðkomandi.
K. Guðný, f. 1769 laundóttir Jóns bónda í Botni Jónssonar. Móðir hennar var Kristín Jónsdóttir, sem er á Sellátranesi 1780, ógift, f. 1733. Börn þeirra:
Bergljót, f. 1796.
Guðrún, f. 1799.
Eru öll í Botni 1801 en á Hvalskeri 1808, Bjarni vinnumaður hjá Magnúsi Halldórssyni. Hann er dáinn fyrir1817. Guðný og guðrún eru þá á Geirseyri, en Bergljót ekki á manntali í Rauðasandshreppi.
um 1819-1837
Ívar Bjarnason. Bóndi í Botni um 1819-1837. Bóndi á Vatneyri 1808, á Hlaðseyri 1817, á Geirseyri 1837-184?. F. í Krossadal í Arnarfirði um 1780, d. á Geirseyri 15. ágúst 1844.
K. Margrét, f. að Hóli í Tálknafirði 23. júní 1777, enn á lífi 1862, Tómasdóttir Jóhannssonar. Sonur þeirra:
Gísli, f. á Vatneyri 30. sept. 1807, d. á Bíldudal 22. júní 1860. Stúdent 1828. Árið 1830-1831 í Flatey, 1831-1855 verzlunarmaður á Ísafirði, 1855-1860 verzlunarstjóri á Bíldudal. Kona 19. sept. 1829, Rannveig, f. 18. okt. 1786, d. 7. okt. 1858 Hjaltadóttir prests að Kirkjubóli, Þorbergssonar, þau bl.
1937-1862
Ólafur Árnason. Bóndi í Botni 1837-1862. Bóndi í Tungu 1829-1837. F. á Vatneyri 10. mars 1807, d. í Botni 27. júní 1862. Foreldrar: Árni Þóroddsson bónda í Kvígindisdal og k.h. Ingibjörg Ólafsdóttir bónda á Látrum Erlingssonar.
K. 4. okt. 1830, Guðrún Árnadóttir bónda á Geitagili, Bjarnasonar og k.h. Sigríðar Steinsdóttur bónda á Grundum, Þorsteinssonar. Guðrún var systir Kristínar, móður Árna bónda í Botni Jónssonar, var seinni maður Ingibjargar Sigurðardóttur. Dóttir Ólafs og Guðrúnar var:
Bergljót, f. 6. apríl 1831, d. í Tungu 2. mars 1837.
Með Þuríði Bjarnadóttur bónda í Keflavík 1808 Bjarnasonar átti Ólafur son:
b) Kristján, f. í Tungu 1. des. 1829, d. í Botni.
1862-1875
Sigurður Gíslason. Bóndi í Botni 1862-1875. Sigurður var um skeið í Danmörku hjá Benedikt föðurbróður sínum. Lærði bókband og reikningsfærslu. F. í Sauðlauksdal 2. apríl 1836, d. í maí 1875, fórst með skipi, er Frigg hét ásamt Jóni Jónssyni bónda í Skápadal og tveim öðrum Íslendingum, aðrir skipverjar munu hafa verið erlendir. Foreldrar: Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal og k.h. Sigríður Magnúsdóttir.
K. 26. sept. 1859, Ingibjörg, f. á Hóli í Bíldudal 18. febr. 1838 Sigurðardóttir, sem nefndi sig Breiðvíking, Sigurðssonar, en réttur faðir hennar og Björns, sem einnig var upphaflega skrifaður Sigurðsson, var Þorleifur kaupmaður á Bíldudal Jónsson (Johnsen). Ingibjörg giftist aftur Árna Jónssyni bónda í Botni, en síðar í Hænuvík. Börn Ingibjargar og Sigurðar voru:
Bergljót Guðrún Ólína, f. 5. okt. 1860, kona Kristjáns bónda á Hvalskeri Björnssonar.
Sigríður, f. 29. sept. 1862, kona Magnúsar bónda á Hnjóti Árnasonar.
Sigurlína, f. 24. jan. 1864, kona Jóns Á. Thoroddsens í Kvígindisdal.
Sigurlaug, f. 4. ágúst 1865, kona Jóhannesar Sturlusonar húsmanns á Hvalskeri.
Ingibjörg, f. 14. okt. 1866, dó óg. og bl.
Jóna María, f. 7. nóv. 1867, kona Össurs Á. Thoroddsens bónda í Tungu.
Benedikt, f. 21. júní 1869, skipstjóri á Patreksfirði, kvæntur Elínu Sveinbjarnardóttur.
Gísli, f. 11. okt. 1870, trésmiður á Patreksfirði, kvæntur Sigríði Pálsdóttur.
Ólafur, f. 9. mars 1872, stýrimaður á Patreksfirði, kvæntur Þórdísi Guðmundsdóttur.
Gróa, f. 13. maí 1873, kona Jónasar Björnssonar á Geirsstöðum.
Öll börnin fædd í Botni.
Sigríður Halldórsdóttir, sem síðar giftist Guðmundi Ólafssyni frá Króki bónda í Krókshúsum, átti þegar hún var vinnukona í Botni son með Sigurði:
Halldór, f. 29. jan. 1871, d. í Krókshúsum 1. júlí 1872.
1875-1878
Ingibjörg Sigurðardóttir. Búandi í Botni 1875-1878, ekkja Sigurðar Gíslasonar bónda í Botni. D. í Kvígindisdal 29. apríl 1894.
1878-1883
Árni Jónsson. Bóndi í Botni 1878-1883. Síðar bóndi í Hænuvík, sjá þar.
1883-1891
Guðmundur Hjálmarsson. Bóndi í Botni 1883-1891, áður bóndi í Hænuvík, sjá þar.
1883-1899
Kristján Björnsson. Bóndi í Botni 1883-1899, síðar bóndi á Hvalskeri, sjá þar.
1885-1893
Jón Jónsson. Bóndi í Botni 1885-1893. Fluttist þangað frá Klúku í Arnarfirði, en frá Botni fluttist hann að Tungu í Tálknafirði. Það mun vera sá Jón, sem er 5 ára í Moshlíð 1845 elsta barn foreldra sinna, en þau eru: Jón Jónsson 28 ára f. í Flateyjarsókn (Sauðeyjum) og Halldóra Bjarnadóttir f. í Sauðlauksdal 27 ára gömul. Faðir hennar var Bjarni Sigurðsson bóndi í Raknadal. Jón og Halldóra fluttust í Tálknafjörð árið 185? Frá Haukabergi.
K. Kristín Bjarnadóttir, f. á Dynjanda í Arnarfirði 24. mars 1850. Foreldrar: Bjarni Jónsson og Ingveldur Tómasdóttir. Börn þeirra:
Ingveldur Þuríður, f. í Selárdalssókn 1884, móðir BjarnaM. Gíslasonar, skálds.
Sigríður Ágústína, f. í Botni 19. ágúst 1889, dó ung.
Sigurlaug, f. í Tálknafirði 1893.
Bróðir Jóns í botni var Teitur, veitingamaður á Ísafirði.
Botn var í eyði 1899-1901.
1901-1902
Matthías Pétursson. Bóndi í Botni 1901-1902. F. á Auðshaugi í Barðastrandarhreppi 16. febr. 1850, d. á Geirseyri 6. okt. 1929. Foreldrar. Pétur Guðmundsson bóndi í Steinadal í Strandasýslu, síðar á Auðshaugi og á Haukabergi og Sigríður Sveinsdóttir, ekkja Jóns Sigurðssonar, þá á Aushaugi. Matthías var hálfbróðir Guðnýjar Jónsdóttur konu Magnúsar Einarssonar bónda á Hvalskeri og hálfbróðir Magnúsar Péturssonar föður Jóhanns bónda í Hænuvík. Magnúsvar úr fyrra hjónabandi Pétrus. Móðir hans hét Sigríður Jónsdóttir, ætturð úr Strandasýslu. S.k. Péturs var Júlíana Jónsdóttir bónda í Krókshúsum Bjarnasonar (systir Sigurbjargar á Látrum vestra).
K. Oddný Kristjánsdóttir, f. um 1870. Sonur þeirra:
Kristján Jens, f. í Feigsdal (16.07.1893-25.10.1969). 5 börn með Margréti Einarsdóttur.
Matthías átti 4 börn með 2 öðrum konum.
1901-1904
Karl Kristjánsson og Mikkalína Guðbjartsdóttir bjuggu í Botni 1902-1904. Fluttust að Hænuvík 1904 og síðar að Stekkjarmel í Kollsvík, sjá þar.
1901-1913
Magnús Sæmundur Sölvason. Bóndi í Botni 1901-1913. F. í Botni í Tálknafirði 27. apríl 1875, d. í botni 16. mars 1913. Foreldrar: Sölvi Jafetsson og Solveig, f. á Hvallátrum 16. okt. 1837 Magnúsdóttir Bjarnasonar og Guðbjargar Bjarnadóttur bónda í Breiðavík Sigurðssonar.
K. 4. okt. 1903, Jónína Ásbjörnsdóttir (30.05.1858-06.12.1946), ekkja Bjarna Jóhannssonar bónda á Geitagili. Börn Jónínu og Bjarna:
Kristbjörg 02.10.1885-09.10.1885.
Björg Halldóra (10.10.1887-17.05.1962). M. Helgi Guðbrandsson. 3 börn. Einnig barn með Jóni Magnúsi Jónssyni.
Hildur Bjarnadóttir (12.02.1892-13.05.1939). Kristján Magnús Kristjánsson, Botni Geirþjófsfirði. 10 börn.
1913-1914
Jónína Ásbjörnsdóttir. Búandi í Botni 1913-1914. Ekkja Magnúsar S. Sölvasonar. D. 6. des. 1946 í Botni í Geirþjófsfirði. Systir Ólafs Ásbjörnssonar sem næst bjó í Vesturbotni.
1914-1924
Ólafur Ásbjörnsson. Bóndi í Botni 1914-1924. Áður bóndi á Láganúpi, sjá þar. D. í Botni 3. maí 1924.
1924-1965
Kristín Magnúsdóttir. Búandi í Botni síðan 1924. Ekkja Ólafs Ásbjörnssonar bónda í Botni, áður á Láganúpi (sjá þar).
1926-1944
Sveinn Jónsson. Bóndi í Botni 1926-1945. Fluttist þá að Sellátranesi (sjá þar). Hafði nokkurn hluta Botns á móti Kristínu, tengdamóður sinni.
1944-1998
Einar Magnús Ólafsson (12.06.1913-19.11.1998) Ásbjörnssonar og Kristínar Magnúsdóttur bjó í Vesturbotni eftir foreldra sína, í félagsbúi við frænda sinn Kristin Kristjánsson (22.05.1911-22.09.2000) Ásbjörnssonar og Guðbjargar Halldórsdóttur frá Grundum. Báðir voru þeir ókvæntir og barnlausir. Kristinn sinnti búskapnum í meira mæli, en Magnús vann við vegagerð sem ýtustjóri og vegaverkstjóri. Á efri árum sneri Magnús sér að öðru. Hann lét útbúa farandverslun úr stórri rútu, og gerðist farandsali um allt land. Varð hann landsþekktur fyrir það og fyrir að beita sér fyrir notkun fæðubætandi efna. Þeir frændur ráku einnig litla verslun í Botni. Magnús var stórhuga og um margt á undan sinni samtíð. Hann setti fram hugmyndir um jarðgangnagerð á svæðinu, fyrstur manna og um nýtingu sjávarfalla til raforkuframleiðslu. Þá hafði hann uppi stórhuga áætlanir um fiskeldi á Ósunum í Patreksfjarðarbotni. Lét hann ekki sitja við orðin tóm, heldur keypti ýtu sem hann hafði rekið í félagi við aðra og vann að því á gamals aldri að umbylta fjarðareyrunum í stór lón sem enn sjást. Einnig hóf hann undirbúning þess að virkja ár sem í fjarðarbotninn renna; ætlaði með því m.a. að hita upp vatn fyrir fiskeldið. Hann varð þó að lúta í lægra haldi fyrir fjárskorti og elli áður en þau áform rættust.
Nafnið Þessi hjáleiga frá Botni byggðist upp á eyri nokkru utar í Patreksfirðinum. Líklegt er að nafnið megi rekja til þess að þarna hafi bátar verið fermdir og affermdir, þegar flytja þurfti varning milli Botns/Barðastrandar og Vatneyrar, en leiðin um Raknadalshlíð var alla tíð mjög torsótt; þar til þar kom bílvegur. Í Jarðabókinni er nafnið ritað “Hlaðseiði” og “Hladseide”. Sennilegt er þó að endingin “-eyri” sé upprunalegri.
Jarðabókin 1703 “Hladseide. Hjáleiga frá Botni, bygð fyrir þeirra minni sem nú lifa. En ekkert fyrirsvar. Jarðardýrleiki er reiknaður áður í heimajörðinni. Ábúandi er Jón Þormóðsson, sem hefur nú 4 hdr af heimajörðinni. Landskyld er 11 álnir. Betalast í fiski í kaupstað, eðaur peningum eftir dönskum taxta. Húsum viðheldur ábúandi. Leigukúgildi 1/2. Leigur gjaldast í smjöri, fiski í kaupstað, eður peningum heim til eiganda. Kúgildi hefur landsetinn heitið að uppyngja. Kvöð er formennska, og gildir hún fyrir hjáleiguna og heimajarðar partinn. Kvikfjenaður er 1 kvíga veturgömul, 10 ær, 2 sauðir geldir, 4 gemlingar, 1 hestur. Hlunnindi sem á heimajörðinni, grös og kræklingur. Vatnsból erfitt mjög, þá heima þrýtur”.
Barðstrendingabók PJ “Hlaðseyri er … lítil jörð en einkar hæg og notagóð. Sjötti hluti úr Vestur-Botni hefir síðan um 1880 legið undir Hlaðseyri og verið til hins mesta styrktar. En nú er partur þessi genginn undan jörðinni og sameinaður Vestur-Botni”.
Árið 1918var Jón Magnússon (eldri) búinn að eignast jörðina og hefur hún síðan verið í eigu afkomenda hans. Afkomenda Hlaðseyrarbænda hefur alltaf byggt verulega á sjósókn og öðru. Búskap lauk 1969, en eftir það hefur æðarvarpi verið komið upp á Hlaðseyri. Um tíma eftir aldamótin 2000 var mikil laxarækt í sjógirðingum framundan Hlaðseyri og fóðri dælt í þær frá landi.
Árið 1570 var enginn nefndur í sambandi við Hlaðseyri og hefur líklega ekki verið byggð þar á þeim tíma.
1703
Jón Þormóðsson. Bóndi á Hlaðseyri 1703, en hafði einnig 4 hdr. af heimajörðinni. F. um 1672. Foreldrar: Þormóður Jónsson, f. um 1630 og Guðrún, f. um 1645 Dagsdóttir Jónssonar Indriðasonar og Sigríðar Borgardóttur bónda í Breiðavík Gunnarssonar. Guðrún var því systir Helgu konu Gríms í Raknadal.
K. Hallbjörg, f. um 1665 Jónsdóttir. Barn þeirra aðeins 1:
Guðrún, eins árs gömul.
1735
Vigdís Nikulásdóttir. Búandi í Botni (Hlaðseyri?) 1735. Ekkja Bjarna Egilssonar bónda á Geirseyri 1703. F. um 1670.
1762
Halla Bjarnadóttir. Búandi á Hlaðseyri 1762. F. um 1710. D. 26. mars 1782. Foreldrar: Bjarni Egilsson bóndi á Geirseyri 1703 og k.h. Vigdís (fyrrnefnd) Nikulásdóttir. Ekki er kunnugt um, hver verið hefur maður Höllu, því að líklega hefur hún verið gift, þó að eigi sé hægt að bend á nein börn hennar eða aðra afkomendur. Árið 1735 býr Sturla Ívarsson á Geirseyri. Hann deyr 1753 49 ára gamall og talinn giftur maður. Ekki er vitað hver kona hans hefur verið, en hugsanlegt var að það hefði verið Halla, enda þótt þau væru raunar systrabörn. En það er heldur ekki kunnugt um nein börn Sturlu.
1780
Þórarinn Sigurðsson, Bóndi á Hlaðseyri 1780. Bóndi á Hvalskeri 1762, en virðist hafa verið í Raknadal 1765, er Einar sonur hans fæðist. Hann kynni að hafa verið á Hvalskeri frá því um 1750, um það leyti, sem hann kvæntist og fram undir 1765, en síðan verið bóndi á Hlaðseyri eftir að Halla lét af búskap. Hvernig sem á því kann að standa, að Einar Þórarinsson hefur fæðst í Raknadal, þá er það mjög ólíklegt, að Þórarinn hafi verið þar bóndi samtímis Gunnlaugi Gíslasyni, enda virðist aldrei hafa verið um tvíbýli að ræða í Raknadal. F. um 1724 á Geirseyri, d. á Hlaðseyri 31. mars 1780. Foreldrar: Sigurður Jónsson bóndi á Geirseyri 1735 og k.h. Helga Jónsdóttir.
K. 1750, Helga, f. um 1729 Jónsdóttir, e.t.v. bóndi á Látrum Þórðarsonar. Börn þeirra:
Jón, f. 1750, dó ungur.
Helga, f. 1751, fermd 1767, vantar 1780.
Guðrún, f. 1752, kona Einars Eyjólfssonar bónda í Tungu 1780.
Jón, f. 1756, á Hlaðseyri 1780, vantar 1801.
Jón, f. 1760, á Hlaðseyri 1780, Króki 1801, ókv. vinnumaður.
Dýrfinna, f. 1763, d. sama ár.
Einar, f. 16. ágúst 1765, bóndi í Tungu 1801, Hlaðseyri 1808, sjá síðar.
Dýrfinna, f. 1768, í Kollsvík 1801, óg., vantar 1808.
Sigríður, f. 1773, á Hlaðseyri 1780, vantar 1801.
Afkomendur kunnir frá Guðrúnu og Einari. Helga, ekkja Þórarins, er komin að Geitagili 1782 og býr þar.
1780-um 1790
Þorgrímur Guðmundsson. Bóndi á Hlaðseyri 1780 (eða 1781) og líklega fram yfir 1790. F. 1754, d. fyrir 1801. Foreldrar: Guðmundur Pálsson bóndi á Stökkum 1780 og k.h. Katrín Jónsdóttir.
K. 1777 (í Sauðlauksdalssókn), Kristín, f. um 1749 Eyjólfsdóttir bónda í Tungu 1762 Jónssonar og k.h. Elínar Einarsdóttur. Kristín er og 1780 ekkja í Dalshúsum 1801. Börn þeirra:
Elín, f. 1781, í Kvígindisdal 1801 og 1808, vantar 1817.
Jón, f. 1783, á gili 1801, Kvígindisdal 1808, vantar 1817.
Eyjólfur, f. 1785, vantar 1801.
Ingibjörg, f. á Hlaðseyri 1786, í Kvígindisdal 1808, Hnjóti 1817. Ingibjörg átti son, er Jón hét, með Halldóri Einarssyni síðar bónda í Kollsvík, dó ungbarn.
um 1793-um 1799
Halldór Þorláksson. Bóndi á Hlaðseyri sennilega frá því hann kvæntist um 1793 og þar til um 1799, er hann hefur flutzt að Raknadal. Síðar bóndi í Botni, sjá þar.
um 1799-1804
Magnús Halldórsson. Bóndi á Hlaðseyri 1801. Mun hafa verið þar um 1799-1804. Fluttist þá að Hvalskeri, er þar 1808 og þá hreppstjóri, en 1817 á Melanesi, sjá þar.
um 1804-um 1814
Einar Þórarinsson. Bóndi á Hlaðseyri 1808. Hefur líklega komið þangað eftir Magnús Halldórsson um 1804 og verið þar til Ívar Bjarnason fluttist að Hlaðseyri, sem hefði átt ap vera heldur fyrir en eftir 1814, því að þá hefur Einar verið kominn að Hænuvík, er þar vinnumaður 1817. Ártalið 1801 var Einar bóndi í Tungu. Hann mun ekki hafa búið annarsstaðar en í Tungu og á Hlaðseyri. F. 1765 í Raknadal ?, d. í Hænuvík 20. nóv. 1830. Foreldrar: Þórarinn Sigurðsson bóndi á Hlaðseyri og k.h. Helga Jónsdóttir.
K. Þóra, f. 1772, d. á Látrum 15. júlí 1843 Jónsdóttir Þorvaldssonar og Cecelia, f. um 1742 Jónsdóttir (hún er á Hvallátrum 1780). Börn þeirra:
Sesselja (Cecelia), f. í Breiðavík 1796, kona Ólafs Gunnarssonar bónda í Bröttuhlíð Höskuldssonar.
Ásbjörn, f. í Breiðavík 1799, dó ókv. og bl.
Helga, f. á Hnjóti 1800, átti Jón Bjarnason síðar bónda í Hænuvík.
Guðrún, f. á Hlaðseyri 1803, kona Jóns Loftssonar bónda á Melanesi, átti síðar Ólaf Ólafsson.
Ólafur, f. í Hænuvík 1814. Sonur hans og Guðbjargar Bjarnadóttur frá Breiðavík var Árni síðar bóndi í Krossadal, afi Árna Friðrikssonar fiskifræðings. Árni fluttist í Tálknafjörð 1850 með Jóni Jónssyni síðar bónda á Lambeyri og fyrstu konu hans Þórunni Jóhannsdóttur.
um 1814-1819
Ívar Bjarnason. Bóndi á Hlaðseyri 1817 (um 1814 eða fyr -1819). Fluttist þaðan að Botni, sjá þar, síðar á Geirseyri.
1819-1821
Bjarni Sigurðsson. Bóndi á Hlaðseyri 1819-1821. Fluttist þá að Raknadal, sjá þar.
Árið 1821-1822 og e.t.v. til 1823 hefur enginn búið á Hlaðseyri.
1824
Jón Pálsson. Bóndi á Hlaðseyri 1824. Hann hefur getað verið þar 2 eða í mesta lagi 3 ár. Árið 1817 bóndi í Kirkjuhvammi, sjá þar.
1826
Pétur Pétursson. Bóndi á Hlaðseyri 1826. Hann hefur getað búið þar í 2 ár eða svo. D. á Hlaðseyri 1827.
K. Kristín Geirmundsdóttir. Kristín hefur farið 1827 frá Hlaðseyri að Skápadal, býr þar 1828, sjá þar.
Frá 1827-1835 virðist enginn hafa búið á Hlaðseyri.
1835-1836
Magnús Ólafsson. Bóndi á Hlaðseyri 1835-1836.
1837-1844
Ólafur Þorgrímsson. Bóndi á Hlaðseyri 1837-1844. F. á Hvalskeri 1793, d. á Láganúpi 22. febr. 1847. Bóndi á Láganúpi 1844-1847, sjá þar.
1845-1846
Þorsteinn Þorsteinsson. Bóndi á Hlaðseyri 1845-1846. Mun hvergi hafa búið annarsstaðar. F. á Haukabergi 31. ágúst 1801, d. í Kvígindisdal 20. apríl 1859. Í Sauðlauksdal 1817. Foreldrar: Þorsteinn, f. um 1777 Jónsson, vinnumaður á Haukabergi 1801, er á Látrum vestra, þegar Þorsteinn fæðist, og Margrét, f. um 1763 Gísladóttir vinnukona á Haukabergi 1801.
K. 22. okt. 1842 (Mábergi), Ingibjörg, f. 18. júlí 1823, d. 8. des. 1884 á Mábergi Guðmundsdóttir bónda í Kirkjuhvammi Einarssonar og k.h. Kristínar Bjarnadóttur. Börn þeirra:
Guðmundur, f. 29. okt. 1842, d. 5. nóv. sama ár.
Guðmundur, f. á Mábergi 6. apríl 1845, d. 8. sama mán.
Þorsteinn, f. á Geirseyri 21. maí 1846, d. á Gili 27. okt. sama ár.
Guðbjartur, f. 1848.
Þórður, f. á Geirseyri 2. mars 1848.
Börn Þorsteins með öðrum konum voru:
Steinunn, f. á Látrum 16.mai 1842, fyrri kona Gunnlaugs Jónssonar bónda á Lambavtni. Móðir hennar var Sigríður Bjarnadóttir bónda í Breiðavík Sigurðssonar. Steinunn var því hálfsystir Jóns yngri Einarssonar bónda í Kollsvík Jónssonar.
Amalía, f. í Sauðlauksdal 20. júlí 1858. Móðir hennar var Sæunn Gísladóttir prests í Sauðlauksdal Ólafssonar, áður gift Henrik Guðlaugssyni bónda í Kvígindisdal. Amalía bjó með Sigurði Einarssyni bónda á hnjóti Ólafssonar og áttu þau tvær dætur Jóhönnu og Sigríði Sólborgu, sem giftust báðar. Sigurður fórstmeð Viggu 1. maí 1897. Einnig voru synir Amalíu þeir Bjarni Pálsson bónda í tungu Bjarnasonar og Oddur Ólafsson bóndi í Vatnsdal Einarssonar. Dóu báði uppkomnir en ókv. og bl.
1846-1851
Jónas Jónsson. Bóndi á Hlaðseyri 1846-1851, áður bóndi á Mábergi, sjá þar, síðar bóndi í Vatnsdal.
1851-1856
Magnús Einarsson. Bóndi á Hlaðseyri 1851-1856. Áður bóndi á Hvalskeri, sjá þar, bóndi á Geirseyri 1848-1851.
1856-1867
Einar Bjarnason. Bóndi á Hlaðseyri 1856-1867. F. í Krossadal í Tálknafirði 17. ágúst 1806, d. á Hlaðseyri 15. okt. 1869. Foreldrar: Bjarni, d. í Krossadal 20. mars 1844, bóndi þar og k.h. Herdís, d. í Krossadal 16. okt. 1846 Einarsdóttir.
K. Guðríður Jónsdóttir, f. í Austmannsdal 4. júní 1807, d. á Hlaðseyri 23. maí 1866. Börn þeirra:
Magnús bóndi á Hlaðseyri, síðar á Hvalskeri, sjá þar, seinast bóndi í Breiðavík.
Guðríður, f. um 1834 í Krossadal, kona Sæmundar Einarssonar bónda í Tungu Árnasonar.
1861-1862
Sæmundur Einarsson. Bóndi á Hlaðseyri 1861-1862, á 3 hdr. F. í Tungu 22. ágúst 1841, d. á Hlaðseyri 27. mars 1862, sonur Einars bónda í Tungu í Örlygshöfn, Árnasonar og k.h. Dómhildar Sigurðardóttur.
K. 20. sept. 1861, Guðríður Einarsdóttir bónda á Hlaðseyri Bjarnasonar. Einkasonur þeirra var:
Sæmundur, f. 1862, d. á Látrum 21. febr. 1898, s.m. Gróu Össursdóttur bónda á Látrum Össurssonar.
1867-1870
Magnús Einarsson. Bóndi á Hlaðseyri 1867-1870. Fluttist þá að Hvalskeri, sjá þar.
1870-1876
Björn Pétursson. Bóndi á Hlaðseyri 1870-1876 og 1881-1898. Hreppstjóri. F. í Trostansfirði 4. sept. 1830, d. á Hlaðseyri 26. apríl 1898. Foreldrar: Pétur Pétursson bóndi í Dufansdal en lengst í Reykjarfirði og k.h. Guðrún Sigurðardóttir Sigurðssonar. Foreldrar Péturs voru: Pétur Björnsson bóndi á Skjaldvararfossi á Barðaströnd 1790, síðar í Dufansdal og k.h. Elín Arngrímsdóttir bónda á Skjaldvararfossi Ólafssonar. Bróðir Elínar var Halldór bóndi í Hænuvík afi Guðbjartar Ólafssonar í Kollsvík.
K. 20. maí 1861 (Bíldudal), Gróa Sigurðardóttir Björnssonar og Guðrúnar Tómasdóttir. Sigurður bjó á Kirkjubóli í ? 1835 og fyrr. Einkasonur Björns og Gróu var:
Jón, f. á Bíldudal 5. febr. 1862, kvæntur Kristínu Markúsdóttur kaupmanns á Patreksfirði og var f.m. hennar.
Með öðrum konum átti Björn þessi börn:
Pétur skipstjóri, f. í Reykjarfirði 5. júní 1852, d. á Bíldudal 1. febr. 1904. Var lengi í siglingum og fór til Ástralíu, gerðist mikill athafnamaður, er hann kom aftur heim. Kvæntist ekki, en börn hans voru: Kristinn, f. í Hvestu 7. sept. 1888, fór til Vesturheims og kvæntist þar, Jóhanna, f. á Geirseyri 25. sept. 1890, ólst upp hjá Jóhanni bónda í Hænuvík, Magnússyni. Móðir hennar var Áslaug Einarsdóttir, er síðar átti Guðmund Eiríksson á Patreksfirði. Móðir Péturs skipstjóra var Kristín Einarsdóttir frá Hreggstöðum.
Pétur yngri, f. á Geirseyri 3. nóv. 1881. Hann fór til útlanda og dó úr tæringu í Kaupmannahöfn 1901.
1897-1899
Gróa Sigurðardóttir. Búandi á Hlaðseyri 1897-1899. Ekkja Björns hreppstjóra, bónda á Hlaðseyri, Péturssonar.
1876-1881
Bjarni Jónsson. Bóndi á Hlaðseyri 1876-1881. Síðar bóndi í Skápadal, sjá þar.
1899-1902
Kristján Björnsson. Bóndi á Hlaðseyri 1899-1902. Síðar bóndi á Hvalskeri, sjá þar.
1902-1906
Ólafur Gísli Bjarnason. Bóndi á Hlaðseyri 1902-1906. F. á Kotnúpi í Dýrafirði 18. nóv. 1865, d. á Hlaðseyri 3. júní 1906. Foreldrar: Bjarni, f. á Látrum 27. ágúst 1833 Jónsson bónda í Breiðavík, Jónssonar og k.h. Ingibjargar Ólafsdóttur bónda í Króki Arngrímssonar og kona Bjarna, Þórunn, f. að Felli í Dýrafirði 12. apríl 1837 Bjarnadóttir Bjarnasonar og k.h. Guðfinnu Bjarnadóttur. Bjarni dó í Hænuvík 11. júlí 1888, en Þórunn dó á Hlaðseyri 16. sept. 1905. þau giftust í Mýrasókn í Dýrafirði og þr fæddust 2 fyrstu börn þeirra Jón, f. 1863 og Ólafur. Þau fluttust 1867 að norðan í Rauðasandshrepp og voru þar ýmist hjú eða í húsmennsku. Munu hafa eignast 7 börn. Meðal þeirra var Ingimundur, búsettur á Patreksfirði, kvæntur Valgerði Bjarnadóttur.
K. 28. apríl 1901 (Geirseyri), Guðrún, f. í Sauðlauksdal (19.04.1874-20.11.1954) Guðmundsdóttir bónda í Hænuvík Hjálmarssonar. Börn þeirra:
Bjarnfríður Sigríður, f. á Geirseyri (03.04.1902-29.12.1903).
Guðmunda, f. á Hlaðseyri (12.06.1903-24.07.1903).
Sigríður, f. á Hlaðseyri (25.06.1904-30.12.1969). Steingrímur Steingrímsson. 2 börn.
Bjarni Þórarinn, f. á Hlaðseyri (07.10.1905-27.02.1998). Bóndi Neðri-Rauðsdal. Sigríður Valdís Elíasdóttir. 8 börn.
Ólafur Gísli, f. á Hlaðseyri (23.01.1907-10.12.1978). Uppalinn í Hvammi. K Ólafía Þorgrímsdóttir. 4 börn.
1906-1909
Guðrún Guðmundsdóttir. Búandi á Hlaðseyri 1906-1909. Ekkja Ólafs Bjarnasonar á Hlaðseyri. Fluttist frá Hlaðseyri til Geirseyrar með tvö börn sín, Sigríði og Ólaf. Síðar bjó hún með Jóhannesi Kjartanssyni Jónssonar bónda í Hænuvík Bjarnasonar. Börn þeirra voru:
Jóhanna, (04.09.1911-05.01.1990). Guðjón Guðmundsson. 2 börn.
Magnús Jónas, (20.10.1913-08.08.2004). Járnbrá Einarsdóttir. 6 börn.
1907-1909
Hjálmar Guðmundsson (27.11.1880-04.09.1964). Bóndi á Hlaðseyri 1907-1909. Hafði nokkurn hluta jarðarinnar á móti Guðrúnu systur sinni, eftir að hún var orðin ekkja. Fluttist á Barðaströnd og bjó lengst á Grænhól. F. í Hænuvík; foreldrar: Guðmundur Hjálmarsson bóndi í Hænuvík og k.h. Sigríður Jónsdóttir seinast bónda í Hænuvík, Bjarnasonar. Guðmundur var albróðir Jóns bónda á Gili.
K. 18. febr. 1907, Sigríður Guðrún, f. í Rauðsdal (17.11.1881-15.11.1881-26.03.1948), Jónsdóttir. Börn þeirra:
Ólafía Guðmunda, f. á Hlaðseyri (29.06.1907-05.12.1997). 4 börn með Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni.
Pétur, f. á Grænhól 8. okt. 1910, d. sama ár.
Kristjana, f. 2. maí 1912, d. sama ár.
Hjálmfríður (17.09.1913-08.01.2014).
Guðmundur Sigurjón (07.09.1917-11.01.2003), bóndi á Grænhól, kvæntur Klöru Backmann Jónsdóttur.
1909-1928
Jón Magnússon. Bóndi á Hlaðseyri 1909-1928. Áður bóndi í Raknadal, sjá þar.
1928-
Magnús Jónsson (13.06.1889-25.05.1970). Bóndi á Hlaðseyri síðan 1928. F. í Raknadal, sonur Jóns bónda þar Magnússonar og k.h. Pálínu Einarsdóttur bónda í Vatnsdal Jónssonar.
K. I 18. maí 1929, Kristín, f. í Krossadal (14.10.1909-31.05.1998) Finnbogadóttir (Helga) Finnbogasonar og k.h. Helgu Guðmundsdóttur Magnússonar bónda í Raknadal Magnússonar (Magnús og Kristín voru því 2. og 3.), skildu. Börn þeirra:
Jón, f. 3. mars 1930. Skipstjóri og útgerðarmaður á Patreksfirði. Lilja Jónsdóttir Torfasonar frá Kollsvík. 6 börn.
Finnbogi Helgi (28.05.1931-02.05.1984). Skipstjóri og útgerðarmaður á Patreksfirði. Dómhildur Eiríksdóttir. 7 börn.
Ríkarð (23.04.1933-13.09.2017). Barn með Unni Haraldsdóttur. K Bjarný Sólveig Sigtyggsdóttir. 5 börn.
Pálmi Svavar (22.12.1936-13.12.1975). Vöru- og mjólkurbílstjóri. Sigurþóra Magnúsdóttir. 4 börn.
Ólafur Helgi (31.05.1939-04.11.2008). Skipstjóri og útgm. 3 börn utan hjb. I Guðrún sigríður Sigurðardóttir. 2 börn. K.II Arndís Ósk Hauksdóttir. 2 börn. K.III Bára Margrét Pálsdóttir.
K. II 26. des. 1953, Guðný Einarsdóttir, f. að Fossi í Grímsnesi, Árn. (16.08.1909-17.07.1966).
Barnsfaðir Kristínar: Jón Guðmundsson (1895-1990). Sonur þeirra:
Leifur (05.07.1928-01.12.2004). Skipstjóri og hafnarstjóri á Rifi. Ingibjörg Kristín Kristjánsdóttir. 3 börn.
Nafn Nafnskýring hefur vafist fyrir mönnum. Almennt var sú skýring við lýði í Rauðasandshreppi sem Pétur Jónsson nefnir í Barðstrendingabók: “Eftir nafninu að dæma hefir nautaganga verið í dalnum til forna”. Er þar líklega vísað til þess að fleirtöluheitið “rökn” merkti dráttardýr. Vel má vera að á dalnum hafi verið höfð geldneyti; hann var nokkuð aflokaður áður en vegur var gerður um Stapana og hlíðina, en þó hafa þau þurft gæslu. Ekki er þó ólíklegra að nafnið vísi til hinna tignarlegu og sérkennilegu Stapa, sem eru stuðlaðir háir berrgangar sem ganga framúr fjallinu við innanverðan dalinn. Heitið “rakni” er sækonungsheiti og fátt er hentugra til að lýsa dalnum en kenna hann þannig við sína áberandi “kónga”.
Jarðabókin 1703 “Jarðardýrleiki er 6 hdr. Eigandinn prófasturinn sr Páll Björnsson. Ábúandinn Grímur Halldórsson, býr á allri. Landskyld er 100 álnir. Var til forna (fyrir margt löngu) 80 álnir. En síðan kom bygð þar sem selstaða hafði verið frá Raknadal, og varð á þeirri nýlendu 40 álna landskyld, og ræktaðist þar jörð til slægna. Síðan féll af aftur sú bygð, en fyrir slægjur sem þar höfðu ræktast var aukið 20 álnum við landskyld heimajarðarinnar. Eru nú síðan undir 30 ár, og so lengi hefur sama landskyld haldist sem nú er. Landskyld geldst í fiski í kaupstað, eður specie ríxdölum uppá danskan taxta. Annað segist ábúandinn ekki boðið hafa, nema eitt sljetta peninga, sem húsbóndinn ei hafi kjörið sig til í það sinni. Húsavið tilleggur landsdrottinn nokkurn.
Leigukúgildi 2. Leigur gjaldast í fiski í kaupstað eðaur smjöri heim til eiganda. Kúgildi hefur eigandinn eitt sinn fyrir 20 árum uppbætt með tíu aurum. Kvaðir eru öngvar. Tún afleitlega slæmt. Nema þar sem selið var byggt ut supra. Engjar öngvar.
Kvikfjenaður hjá Grími Halldórssyni 2 kýr, 1 kvíga tvævetur, 7 ær, 2 gemlingar, 1 hestur. Fóðrast kann þar 2 kýr, 6 ær. Hinu er útigangur ætlaður. Heimilismenn 8. Rifhrís að nokkrum styrk til eldiviðar. En húsbóndinn leyfir frí hrísrif og kolagjörð í Botnskógi. Heimræði var meðan fiskigengd var, þó ekki nema haust og hásumar, en til vers sækir hann á Gjögur í Örlygshöfn í næstliðin tvö ár, og gengu þar þá ekki nema tvö skip, og þó tollfrí af eigandans umboðsmanni; Guðrúnu Eggertsdóttur. En nú sækja þeir sömu ver til Hænuvíkur, og á Grímur sjálfur skip; 3 manna far”.
Barðstrendingabók PJ “Jörð þessi er lítil og slægnarýr, en útigangur allgóður fyrir kindur, og vorgott. Nýtur vel sólar á útmánuðum á Raknadalshlíð, sem er löng og hrjóstrug klettahlíð út með Patreksfirði, fyrir utan Raknadal; undirlendislaus að mestu. Þess má geta að á fjallinu milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar, í landi Raknadals, hafa fundist mókol (surtarbrandur)… Lítil not hafa þó orðið af eldsneyti þessu”.
1570 og 1571
Ólafur. Bóndi í Raknadal 1570 og 1571.
1570 og 1571
Guðrún. Búandi í Raknadal 1570 og 1571.
1703
Grímur Halldórsson. Bóndi í Raknadal 1703. F. um 1653.
K. Helga, f. um 1653 Dagsdóttir Jónssonar Indriðasonar og Sigríðar Borgarsdóttur bónda í Breiðavík Gunnarssonar. Börn 1703:
Jón eldri 16 ára.
Jón yngri 15 ára.
Jórunn 12 ára.
Ragnheiður 10 ára.
Þorgerður 8 ára.
Dóttir annarshvors Jónanna hefur líklega verið Jórunn kona Helga bónda á Hvalskeri Helgasonar.
1735
Ólafur Jónsson. Bóndi í Raknadal líklega fyrir 1735 (samkvæmt ættartölum). Bóndi í Dalshúsum í Sauðlauksdal 1735, sjá þar.
1762 og 1780
Gunnlaugur Gíslason. Bóndi í Raknadal 1762-1780. Hefur líklega búið í Raknadal frá því eftir 1750-1781. F. um 1620, d. 17. júlí 1781. Faðir Gunnlaugs var Gísli, f. um 1689 Gíslason Sveinbjörnsson, Árnasonar prests á Látrum Jónssonar.
K. Sigríður, f. um 1725, d. í Vatnsdal 1807, Þórðardóttir lrm. Á haukabergi Jónssonar bónda í Breiðavík Bjarnasonar og konu Þórðar Ingibjargar Aradóttur bónda í Hvammi á Barðaströnd 1703 Bjarnasonar. Systir Sigríðar var Vigdís kona Magnúsar bónda á Hnjóti Þorvarðssonar. Börn þeirra:
Þórður, f. 1648, bóndi á Hnjóti.
Ingibjörg, f. í Raknadal 1753, í Kollsvík 1817, kona Ásbjörns Jónssonar bónda í Kollsvík 1780 Jónssonar, en Ingibjörg ekkja búandi í Breiðavík 1801.
Gísli, f. í Saurbæjarsókn 1750, d. 1757.
Guðrún, f. í Raknadal 1755, 1816 hjá Kristínu systur sinni og séra Jóni Vestmann, óg. og bl.
Jón, f. í Raknadal 1757, d. 1782.
Kristín, f. í Raknadal 1765, kona séra Jóns Vestmanns, Hlíð í Selvogi 1816.
Sonarsonur Þórðar Gunnlaugssonar var Magnús bóndi á Melanesi, síðar frystihússtjóri á Geirseyri.
Af sömu ætt og Gunnalugur Gíslason var Jóhann bóndi á Geitagili Jónsson og systurnar Halldóra kona Sveins á Lambavatni og Sigríður s.k. Einars í Vatnsdal, Ólafsdætur úr Sviðnum. Einnig Bjarni Einarsson bóndi í Tungu 1801.
1781-1782
Sigríður Þórðardóttir. Búandi í Raknadal 1781- líklega 1782. Ekkja Gunnlaugs Gíslasonar.
1782-1785
Egill Sigurðsson. Bóndi í Raknadal líklega 1782-1785. Áður bóndi á Naustabrekku, sjá þar.
1785-1790
Kristín Guðmundsdóttir, ekkja Egils Sigurðssonar. Hún hefur vafalaust búið í Raknadal eftir lát manns síns, e.t.v. fram yfir 1790. Kristín er á Lambavatni 1801 hjá syni sínum eftir f.m. Bjarna Bjarnasyni. Hún virðist vera dáin fyrir 1808.
um 1795
Gísli Bjarnason. Bóndi í Raknadal að öllum líkindum um 1795, 1-3 ár eða svo. Guðrún dóttir hennar sögð f. í Raknadal, en hún er í Kollsvík 1817. Síðar bóndi á Melanesi, sjá þar.
um 1796-um 1806
Halldór Þorláksson. Bóndi í Raknadal um 1796-um 1806. Var áður á Hlaðseyri, fjölskylda hans ekki á manntali 1808 í Rauðasandshreppi, en hann er bóndi í Botni 1817, sjá þar.
um 1806-um 1810
Sigurður Pétursson. Bóndi í Raknadal 1808. Hefur líklega komið þangað eftir Halldór Þorláksson og farið þaðan líklega um 1810. Í Kirkjuhvammi 1817, sjá þar.
1811
Þorgeir Torfason. Bóndi í Raknadal 1811. Hefur verið þar næst á eftir Sigurði Pétursyni, en á eftir Þorgeiri hefur væntanlega komið Ólafur Halldórsson sem bóndi er í Raknadal 1817. F. á Barðaströnd ? 1773, d. 29. júlí 1811, hrapaði úr fjalli, samkvæmt kirkjubók, sagður frá Skápadal. Gísli Konráðsson telur (Látram. Og Barðstrendinga þáttur) að Þorgeir hafi búið í Raknadal, verið að rífa hrís þar á hlíðinni, er hann féll aftur á bak og fékk um leið stein í höfuðið, sem rotaði hann. Hinsvegar segir í kirkjubók, að 11. ágúst sama ár hafi verið skírður Ólafur frá Raknadal. For. Þorgeir Torfason og Guðbjörg Grímsdóttir, en ekki getið þess, að Þorgeir væri dáinn. Hér virðist vera um óljós atriði að ræða. Foreldrar: Þorgeirs voru. Torfi Þorgeirsson bóndi á Koti 1780 og k.h. Guðrún, sem nefnd var „Góðsmannsdóttir“.
K. 30. nóv. 1809, Guðbjörg, f. 1774 á Stökkum Grímsdóttir bónda í Stekkadal 1780, Jónssonar. Börn þeirra:
líklega, Jón, sem skírður er í Raknadal 15. apríl 1810, ekki í hreppnum 1817.
Ólafur skírður 11. ágúst 1811, alkunnur röskleikamaður undir Jökli, segir Gísli Konráðsson. Fluttist úr Rauðasandshreppi 18??.
Guðbjörg er ógift í Raknadal 1808 og virðist samkvæmt framansögðu hafa átt þá Jón og Ólaf í Raknadal, annan 1810, en hinn 1811. Það er því ekkert ólíklegt að rétt sé hermt hjá G.K., er hann segir Þorgeir hafa verið bónda í Raknadal, gat verið þarð, 1 eða 2 ár. Hann gat hafa hætt búskap 1811 og farið í vist að Skápadal, en kona hans verið hjú í Raknadal. Einnig gat verið að þau hjónin hefðu skilið svona brátt. Guðbjörg er bústýra í Kirkjuhvammi 1817 hjá Sigurði Péturssyni, fyrrnefndum bónda í Raknadal og Ólafur er þar hjá henni.
1817
Ólafur Halldórsson. Bóndi í Raknadal 1817. Hefur líklega komið að Raknadal eftir Þorgeri Torfason og verið þangað til um 1820. Áður bóndi í Hænuvík, sjá þar.
1821-1828
Bjarni Sigurðsson. Bóndi í Raknadal 1821-1828, Kirkjuhvammi líklega 1828-1830, á Skógi 1830-1837. F. á Geitagili 1794, d. 26. maí 1837, drukknaði í róðri frá Brunnum með Gísla Ísleifssyni. Foreldrar: Sigurður Guðmundsson bónda á Geitagili og k.h. Karítas Eyjólfsdóttir.
K. 10. nóv. 1817, Ingibjörg, f. 1788, d. á Sellátranesi 27. nóv. 1860 Gísladóttir bónda í Skápadal Bjarnasonar og k.h. Halldóru Þorláksdóttur. Halldóra giftist aftur Ísleifi Jónssyni. Synir þeirra Jón í Bæ og Gísli fyrrnefndur. Börn þeirra:
Halldóra, f. 1818, giftist Jóni Jónssyni frá Suðeyjum, búa á Haukabergi 1850, fluttust að Krossadal í Tálknafirði. Sonur þeirra var Teitur veitingamaður á Ísafirði og dóttir Björg gift Ingimundi Gíslasyni bónda í Krossadal.
Kristín, f. í Raknadal 24. nóv. 1822.
Ingibjörg, f. í Raknadal 20. nóv. 1824, kona Hjálmars Jónssonar bónda á Geitagili.
Gísli, f. í Kirkjuhvammi 18. mars 1830, bóndi á Sellátranesi.
1828-1840
Guðmundur Einarsson. Bóndi í Raknadal 1828-1840. Áður bóndi í Kirkjuhvammi, sjá þar.
1841-1852
Halldór Ólafsson. Bóndi í Raknadal 1841-1852. Bjó ekki annarsstaðar. F. í Hænuvík 1804, d. 5. maí 1855, er þá vinnumaður í Tungu. Foreldrar: Ólafur Halldórsson bóndi í Hænuvík og k.h. Ingibjörg Þórólfsdóttir.
K. 20. sept. 1840, Guðrún Ásbjörnsdóttir bónda á Lambavatni Þórðarsonar, f. í Breiðavík 20. ágúst 1812, d. á Mábergi 2. júní 1867. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. á Sellátranesi 18. febr. 1837, d. á Melanesi 25. júní 1897, óg. og bl.
Þorkatla, f. á Sellátranesi 7. des. 1839, d. í Breiðavík 22. apríl 1867, holdsveik.
Ólafur, f. í Raknadal 3. sept. 1841, d. í Botni 28. mars 1890, mun hafa verið bl. (sullaveikur).
Sigurdagur, f. 16. apríl 1843, fór 1862 að Gufudal.
Magnús, f. 30. okt. 1844, d. 2. mars 1845.
Magnús, f. 3. des. 1845, skírður 5. febr. 1845, ekki hjá foreldrum sínum við manntalið 1845, virðist hafa dáið ungur, þótt ekki sé það að finna í kirkjubók.
Sigríður, f. 8. sept. 1848, ólst upp í Botni, giftist Guðmundi Ólafssyni bónda í Krókshúsum.
Bjarni, f. 8. sept. 1848 í Raknadal, kvæntist Þórdísi Eiríksdóttur bónda í Álfadal á Ingjaldssandi Guðmundssonar. Þórdís var systir Maríu f.k. Sigurðar kaupmanns Baghmanns á Vatneyri, bl.
Jón, f. í Kvígindisdal 1. sept. 1853, d. 8. nóv. sama ár.
1852-1864
Magnús Magnússon. Bóndi í Raknadal 1852-1864 og 1867-1888. Var í Tálknafirði 1864-1867. F. í Hvítadal í Dalasýslu 27. apríl 1820, d. á Vatneyri 23. mars 1905. Kom með móður sinni, sem var ekkja, að Sauðlauksdal 1837. Foreldrar: Magnús Gíslason bóndi í Hvítadal og k.h. Ingveldur Magnúsdóttir bónda í Stórholti Jónssonar.
K. I 1842, Sigríður, d. 1843 Ólafsdóttir (bróður séra Gísla í Sauðlauksdal) Ólafssonar og k.h. Gróu Jónsdóttur. Þau bl.
K. II 1848, Helga, f. um 1822, d. á Vatneyri 27. maí 1898, Einarsdóttir bónda á Svínanesi Einarssonar og k.h. Guðrúnar Gunnarsdóttur. Börn þeirra:
Einar, f. 1851, bókbindari og veitingamaður á Vatneyri tvíkvæntur, bl. Fyrrii kona Guðbjörg Eiríksdóttir bónda í Álfadal Guðmundssonar, seinni kona Steinunn Jónsdóttir frá Djúpadal, systir Björns ráðherra.
Guðrún, f. í Raknadal 8. júní 1853, kona Indriða Indriðasonar bónda á Naustabrekku.
Bjarni, f. í Raknadal 8. júní 1853, d. á Patreksfirði 16. jan. 1921, ókv. og bl.
Guðmundur, f. 15. ágúst 1854, d. á Patreksfirði 9. ágúst 1918, kvæntur Kristínu Matthíasdóttur, áttu börn.
Finnur, f. 15. febr. 1856, drukknaði í mannskaðaveðri í Arnarfirði 20. sept. 1900, ókv. og bl.
Jón, f. 25. apríl 1858, bóndi í Raknadal.
Magnús, f. 7. des. 1859, fluttist til Vesturheims og kvæntist þar Ingibjörgu Vídalín Sveinsdóttur. Áttu fjölda barna.
Monika, f. 31. jan. 1861 var miðkona Jóns Jónssonar bónda á Lambeyri, áður á Hvallátrum, sjá þar.
Halldór, f. 29. júlí 1863, d. á Patreksfirði 28. júní 1834, kvæntur Guðmundínu Guðmundsdóttir, áttu mörg börn.
1864-1867
Guðbjartur Magnússon. Bóndi í Raknadal 1864-1867. F. um 1830, albróðir Magnúsar fyrrnefnds bónda í Raknadal.
K. 20. okt. 1862, Björg Jónsdóttir, f. 18. des. 1834 í Flatey, d. 26. okt. 1910 á Vatneyri. For.: Jón Teitsson, bóndi á Fossá og k.h. Elín Björnsdóttir. Börn þeirra:
Gísli, f. 10. nóv. 1865, d. 14. maí 1950. Verkamaður á Patreksfirði. Ókvæntur og barnlaus.
Guðbjartur, f. 6. nóv. 1866, d. 20. júní 1950. Verkamaður á Patreksfirði. Ókvæntur og barnlaus.
Monika Guðbjörg, f. 22. mars 1875. Ráðskona hjá bræðrum sínum.
Dóttir Guðbjarts Magnússonar með Sigríði Kristjánsdóttur, vinnukonu í Otradal var
Sigríður. Guðjón Jónsson, bóndi á Fossi.
1888-1909
Jón Magnússon. Bóndi í Raknadal 1888-1909. Bjó ekki annarsstaðar. F. í Raknadal 25. apríl 1858, d. á Patreksfirði 20. júlí 1948. Foreldrar: Magnús Magnússon bóndi í Raknadal og k.h. Helga Einarsdóttir.
K. 17. okt. 1888, Pálína, f. á Hvallátrum 27. ágúst 1860, d. á Patreksfirði 21. febr. 1849 Einarsdóttir bónda á Hvallátrum, síðar í Vatnsdal, Jónssonar Thoroddsen. Börn þeirra:
Magnús, f. í Raknadal (13.06.1889-25.05.1970), bóndi á Hlaðseyri (sjá þar).
Einar, f. í Raknadal (10.08.1890-?). Fór til Vesturheims, kvæntist þar og mun hafa átt 4 börn.
Klásína Helga, f. í Raknadal (10.07.1895-29.09.1985), kona Helga Árnasonar vélsmiðs á Patreksfirði. 2 börn.
Sigríður Halldóra (25.09.1905-14.12.1996). m. Jón Jónsson. 1 barn.
1909-1921
Jón Gíslason. Bóndi í Raknadal 1909-1921, áður bóndi í Tálknafirði. F. á Hvalskeri 07.01.1854-d. um 1935). Foreldrar: Gísli Magnússon bóndi á Geitagili og k.h. Magnfríður Gísladóttir prests í Sauðaluksdal Ólafsonar. Gísli var albróðir Magnúsar bónda í Raknadal.
K. 19. sept. 1889, Herdís, f. í Höfðadal (10.09.1859-d eftir 1930) Teitsdóttir Jónssonar og Önnu Magnúsdóttur Ólafssonar og Önnu Guðmundsdóttur s.k. Bjarna Björnssonar í Keflavík. Systir Teits var Herdís, sem átti Björn bónda á Skógavatni Bjarnasonar. Börn þeirra:
Guðmundur Sveinn, f. á Hóli í Tálknafirði 19. sept. 1890, bóndi á Sellátranesi.
Gíslína Theodóra, f. í Botni í Tálknafirði (17.08.1892-15.02.1995), óg. og bl.
Anna, f. í Botni í Tálknafirði (23.04.1894-26.04.1894).
Kristján, f. í Höfðadal í Tálknafirði (29.07.1897-16.03.1978), verkstjóri á Patreksfirði. K.I Egilína Kristjánsdóttir bónda á Grundum Ásbjörnssonar. 1 barn. II Ingibjörg Halldórsdóttir.
Raknadalur var í eyði 1921-1922.
1922-1923
Guðbrandur Jónatansson. Bóndi í Raknadal 1922-1923. Fluttist úr Tálknafirði að Raknadal, þaðan á Patreksfjörð. F. á Hellu í Bervík 19. sept. 1878, d. í Reykjavík 23. des. 1961. Foreldrar: Jónatan Grímsson, f. í Helludal 5. sept. 1839, d. á Patreksfirði 21. febr. 1928 og k.h. Elín Árnadóttir, f. í Stóravirki 9. sept. 1840, d. 27. des. 1891, varð úti á milli bæja.
K. Hjörtfríður Kristín Haraldsdóttir, f. á Hellnafelli í Eyrarsveit 14. okt. 1882, d. 8. jan. 1962. Börn þeirra:
Elín Sesselja, f. í Ólafsvík 4. ágúst 1911, d. 4. ágúst 1983.
Olga, f. 9. júní 1913, d. á Patreksfirði 15. júní 1914.
Olgeir Haraldur, í Stóra-Laugardal (27.06.1915-26.07.2004). Barn með Margréti Sigríði Friðriksdóttur. I Sigrún Halldórsdóttir. 2 börn. K.II Jónea Margrét Sigríður Samsonardóttir. 5 börn.
Hjörtfríður Lára, f. í Stóra-Laugardal (07.07.1918-06.01.1994). Jón Sigurðsson. 4 börn.
Herbert Jóhannes, f. í Stóra-Laugardal (15.11.1920-06.09.2013). Verktaki í Tálknafirði. Málfríður Rannveig Oktavía Einarsdóttir. 5 börn.
Guðbrandur Kristinn, f. í Raknadal (13.06.1922-06.09.2000. Forstjóri Björgunar hf í Reykjavík. Gyða Þórdís Þórarinsdóttir. 3 börn.
Jónatan, f. á Patreksfirði 11.01.1926-30.09.1978). Bifreiðastjóri í Rvík. Guðmunda Kristín Guðmundsdóttir. 10 börn. 2 börn þess utan.
Sonur Kristínar með Óla Hansen Waage:
Anton Lundberg Waage, f. í Ólafsvík (19.06.1905-20.11.1982). Sigurborg Eyjólfsdóttir. 3 börn.
Raknadalur var í eyði 1923-1928.
1928-1969
Helgi Þórarinn Féldsted (19.06.1886-08.10.1969). Bóndi í Raknadal 1928 og síðan. Fluttist frá Fossi í Suðurfjörðum að Raknadal. Foreldrar: Þórarinn Andrésson Fjeldsded, f. á Narfeyri 7. sept. 1840, d. 21. nóv. 1919 varð úti við Hagavaðal hjá Krossi á Barðaströnd, bóndi í Tungumúla og k.h. Guðlaug Guðnadóttir, f. á Brekkuvelli í Hvolhreppi 22. júlí 1851, d. 1. júní 1938.
K. 25. febr. 1922, Kristín Pálsdóttir, f. í Efri Rauðsadal 16. júní 1891, d. á Patreksfirði 13. ágúst 1946. Foreldrar: Páll Guðmundsson, f. 25. ágúst 1861, bóndi á Hamri á Barðaströnd og k.h. Jón Guðmundsdóttir, f. á Skjaldvararfossi 19. sept. 1869, d. 12. júní 1959. Börn þeirra:
a) Erlendur Magnús, f. í Tungumúla (06.06.1922-08.06.1922).
b) andvana stúlka, f. 5. maí 1924.
c) Guðmundur Kristinn, f. 4. jan. 1929.
d) Þórarinn Bjarni, f. 17. maí 1934, d. 2. nóv. 1934. Bóndi í Raknadal (sjá hér næst).
e) Guðlaug Ósk, f. í Raknadal (17.05.1934-16.08.2007). Bóndi í Raknadal (sjá hér næst)
1969-1985
Kristinn Fjeldsted, Guðlaug Fjeldsted og Bergur Vilhjálmsson. Eftir skyndilegt fráfall Helga Fjeldsted lagðist föst búseta af í Raknadal, en börn hans, Kristinn og Guðlaug, ásamt Bergi Vilhjálmssyni manni Guðlaugar, sinntu búinu þó þau væru búsett á Patreksfirði. Vegna gruns um riðuveiki var skorið niður á bænum árið 1985.
Guðmundur Kristinn Fjeldsted f. 04.04.1930. Bóndi í Raknadal; vörubílstjóri og verkamaður á Patreksfirði; lengi mjólkurbílstjóri.
K.I Sigríður (Stella) Bjarnadóttir (07.012.1932-10.01.1976). Börn þeirra:
Ragnar Bjarnþór Fjeldsted f. 05.02.1958. Barn með Gestnýju Bjranadóttur. Sambýliskona Þuríður Linda Alfreðsdóttir. 3 börn.
Kristín Fjeldsted f. 06.011.1959. M. Sigmundur Hávarðsson; skildu. 3 börn. Barn með Sturlu Má Jónassyni.
Styrgerður Fjeldsted f. 14.03.1961. Jóhannes Héðinsson. 3 börn.
Helga Fjeldsted f. 16.08.1965. Sveinn Rúnar Vilhjálmsson; skildu. 3 börn.
Egill Steinar Fjeldsted f. 14.11.1969. Barn með Hafdísi Helgu Þorvaldsdóttur.
Fyrir átti Stella varn með Steinþóri Þórðarsyni:
Sigursteinn f. 29.03.1954. 3 börn.
Einnig var barn Stellu:
Jóna Júlíana Böðvarsdóttir. Gunnar Óli Björnsson. 3 börn.
K.II Kristins er Frances Taylor f. 18.09.1952, og hafa þau búið í Ástralíu. Þeirra börn:
Júlíana Veronica Fjeldsted f. 27.03.1986
Aaron Kristinn Fjeldsted f. 10.01.1988.
Guðlaug Ósk Þórarinsdóttir Fjeldsted (17.05.1934-16.08.2007).
M.I Elís Björgvin Jóhann Þórarinsson (09.11.1927-15.07.1955). Þeirra börn:
Elís Björgvin Jóhann Björgvinsson f. 12.07.1955. Ingibjörg Svala Ólafsdóttir, 5 börn.
Kristín Guðlaug Björgvinsdóttir f. 12.07.1955. 2 börn.
M.II Bergur Vilhjálmsson (05.06.1927-25.05.1994). Börn þeirra:
Þórarinn Helgi f. 16.05.1966. Deborah Leah Bergsson. 4 börn
Kristín Ósk f. 22.05.1967. 4 börn.
Nafnið Meðan enn voru þarna bújarðir, líkt og annarsstaðar í Rauðasandshreppi, gengu þær hvor undir sínu nafni; Geirseyri og Vatneyri, eða sameiginlega undir nafninu Eyrar (sjá nafnskýringar hvorrar um sig). Eftir að þarna reis upp kaupstaður var hann ýmist nefndur Vatneyri; Vatneyrarkauptún; Eyrar; Patreksfjarðarkauptún eða Patreksfjörður. Hið síðarnefnda hefur smám saman orðið ofaná í munni manna, sem heiti á þéttbýlisstaðnum. Lengi töluðu Rauðasandshreppsbúar um það að “fara á Eyrar” eða “fara í Eyraferð” þegar þeir þurftu þangað. Opinberlega nefndist sveitarfélagið Patrekshreppur, er það var sameinað nærliggjandi hreppum í það sem nú nefnist Vesturbyggð.
Eyri mikil gengur í sjó fram úr norðurströnd Patreksfjarðar, auk láglendis undir dölum stuttu innar. Þar óx upp mikið þéttbýli á 19.öld, og hélst fjölgunin fram á síðari hluta 20.aldar. Ástæða mannfjölgunar á þessum stað eru góð hafnarskilyrði, en innan eyrarinnar er var fyrir vestan- og norðanáttum sem mest brimar af þarna um slóðir. Þeir kostir þóttu vega upp slæmar samgöngur á landi við aðra hluta Rauðasandshrepps, en Raknadalshlíð innan Eyra var mikill farartálmi þar til um hana var lagður bílvegur.
Kaupmenn settu því verslun sína á Vatneyri; erlendar skútur höfðu þar bækistöð og að því laðaðist svo önnur athafnasemi. Fjörkippur kom í fólksfjölgun með hérlendri skútuútgerð og fiskverkun kringum hana, sem kallaði á verulegan mannafla og fast vinnuafl. Vélar komu í báta og þeir urðu stærri. Nú fékk legupláss við hafnarbakka meira vægi í útgerð báta en stuttar vegalengdir til fiskimiða. Verstaða í Útvíkum lagðist af um leið og bátaflotinn á Eyrum efldist, og má því segja að verin hafi skipt um heimilisfang. Með bátunum fluttist atvinna og mannskapur. Lengi var notast við bryggjur á Eyrum, en til að bæta hafnaraðstöðu var ráðist í að ræsa fram vatnið mikla á Vatneyri. Verslun og þjónusta efldist; opinber stjórnsýsla settist að á Eyrum; kaupstaður myndaðist. Gjá myndaðist um leið milli hagsmuna hins forna bændasamfélags í syðri hluta Rauðasandshrepps og hins nýja atvinnusvæðis norðanfjarðar.
Árið 1907 var gengið formlega frá skiptingu Rauðasandshrepps með stofnun nýs sveitarfélags; Patrekshrepps, sem náði frá Tálknatá inn að Altarisbergi, sem er utarlega á Raknadalshlíð. Patreksfjarðarkauptún óx upp sem útgerðarpláss, en um leið mikilvæg verslunar- og þjónustumiðstöð fyrir sveitirnar í kring.
Þéttbýlið á Eyrum var þó ekki einsleitt, heldur skiptist það lengi vel í tvö meginsvæði; Vatneyri og Geirseyri, á samnefndum jörðum sem þar hafa verið frá öndverðu. Á hvorri jörð óx upp verslunar- og athafnaveldi, og hélst sú skipting fram undir miðja 20 öld.
Árið 1994 voru öll sveitarfélög í Vestur-Barðastrandasýslu, að undanskildum Tálknafjarðarhreppi, sameinuð í nýja stjórnsýslueiningu; Vesturbyggð. Með því má segja að skipting Rauðasandshrepps hafi gengið til baka. Sú bábilja komst á kreik með sameiningunni að eftir hana mættu menn ekki taka sér heitið Rauðasandshreppur í munn; þar sem hann væri liðinn undir lok. Þessu fer þó víðsfjarri: Örnefni leggur enginn niður; hvort heldur að þau ná yfir hundaþúfu eða landsvæði. Þannig eiga hinir gömlu hreppar áfram sína sögu og sín mörk, hvað sem líður stjórnsýsluákvörðunum hvers tíma.
Hér verður lítillega skoðuð ábúendasaga Eyra; meðan þær tilheyrðu Rauðasandshreppi.
Nafnið Ekki er ljóst til hvaða eyrar viðliðurinn vísar. Þarna innan Vatneyrar er engin eyri í sjó fram, heldur er undirlendið myndað af holtum í mynni Litladals og Mikladals. Líklegt má telja að forliðurinn vísi til Geirseyrarmúlans, fjarðarmegin Mikladals. Geir, eða atgeir, merkir oddbreitt spjót, og lögun Múlans minnir vissulega á spjótsodd. Viðliðurinn “eyri” kann þá að vísa til láglendisins við árnar eða þá að Geirseyri sé eldra nafn á Vatneyri, en slík kenning hefur heyrst. Í Jarðabókinni notar Árni Magnússon heitið “Gesseyre”, en það segir líklega meira um framburðinn en upprunann.
Jarðabókin 1703 “Þar hefur verið bænhús, sem fyrir löngu er eyðilagt. Jörðin er (að frátekinni Vatneyri) 20 hdr. Eignarmenn eru Ívar Þórólfsson að 6 ½ hdr; Jón Erlendsson á Kambi í Króksfirði að 10 ½ hdr; börn Jóns Jónssonar í Vatnsdal í Patrixfirði að 3 hdr. Búendur á Gesseyri eru; Bjarni Egilsson á 13 ½ hdr; Ívar Þórólfsson á sínum parti. Landskuld og leigukúgildi á Ívars parti er ei að skrifa, því hann býr þar sjálfur. Vide alias supra. Landskuld Bjarna Egilssonar er, af parti Jóns Erlendssonar, 4 vættir 2 fjórðungar. Af parti Jóns Jónssonar barna, 1 vætt, 1 fjórðungur. Betalast í fiski á eyri. Við til húsbyggingar hefur leiguliði tillagt. Leigukúgildi á parti Jóns Erlendssonar 4. Á barnanna parti 1. Leigur betalast með fiski á eyri eður smjöri in loco. Kvígildi uppýngir leiguliði. Kvaðir engar.
Kvikfjenaður er núÞ Hjá Bjarna Egilssyni kýr 3, 1 kvíga, ær 22, geldir sauðir 17, gemlingar 11, hestur 1. Hjá Ívari Þórólfssyni kýr 3, kvíga 1, ær 19, 8 sauðir geldir, gemlingar 8, hestur enginn. Þar kann að fóðrast: 6 kýr, gemlingar 12. Hinu er útigangur ætlaður. Heimilismenn eru hjá Bjarna 10; hjá Ívari 0.
Rifhrís er þar mjög lítið. Silúngsveiði er þar lítilsháttar, brúkast til beitu alleina. Hrognkelsatekja er þar góð, milli krossmessu og sumarmála. Heimræði hefur þar verið, eins og annarsstaðar í Patrixfirði, áður en fiskur lagðist frá fjörðum. Vatneyrartún er snögt mjög og stendur á möl. Gesseyrartún hefur í vetur af árhlaupi stóran skaða liðið. Á Gesseyri er háski að búa í bænum, sökum voða af ánni, og verður því bæinn að flytja. Ristu- og stungulaust er þar.
Skip eiga: Ívar Þórólfsson 4ra manna far. Bjarni Egilsson 4ra manna far. Bjarni Þórólfsson 4ra manna far. Öll ganga þau í Hænuvík”.
Barðstrendingabók PJ “Tún eru allgóð, bæði á Geirsyri og Vatneyri. Góðan spöl innan við Geirseyri og utan við Altarisberg skerst dálítil malareyri út í fjörðinn, sem heitir Þúfneyri. Þar var um tíma haft þilskipauppsátur frá Geirsyeyri. Þar var ein þurrabúð, sem nú hefur verið rifin. Seint á 18. Öld mun fyrst hafa verið byrjað að versla á Vatneyri, og um langan aldur hafa Frakkar og aðrir útlendir fiskimenn leitað þar hafnar í ofviðrum, því innsigling er stutt og höfn örugg. Á árunum 1860-70 mun Markús Snæjörnsson eigandi og ábúandi Geirseyrar hafa byrjað lítilsháttar verslun á Geirseyri… Sagt er að hann hefði fyrst verslað í hjalli við sjóinn. Mun hann í byrjun einkum hafa haft skipti við frakkneska fiskimenn”. Lýsir Pétur síðan fyrstu árum verslunar og útgerðar á Geirseyri en hér verður látið nægja að vísa til ítarlegra skrifa um það efni.
1557-1567
Sturla Eyjólfsson, 1557-1567. Bóndi í Laugardal 1552-1557.
1570
Páll Sigmundsson. Bóndi á Geirseyri 1570. Faðir Páls á Geirseyri hefur verið Sigmundur Pálsson. Sá Sigmundur var bróðir Alexíusar ábóta í Viðey (sjá Ann. Bmf. II bls. 75), en föður þeirra telur Steinn Dofri hafa veri Pál Sigmundsson f. um 1450, sem er fyrstur vottur að Skarði á Skarðsströnd 2. nóv. 1513 og 19. okt 1514 (sjá Blöndu VII bls. 200). Þessi Páll hefur verið göfugur maður, segir Dofri. Sigmundur faðir Páls var Eyjólfsson og að ætlan Dofra bróðir Ögmundar föður Margrétar móður Ögmundar biskups Pálssonar, en föður þeirra bræðra telur hann Eyjólf mókoll (II) Magnússon (með fyrri konu hans, sem eigi er þó kunn að nafni¸eða þá að þeir bræður hafi veri launsynir hans).
1571
Jón Bjarnason. Bóndi annaðhvort á Geirseyri eða Vatneyri 1571. Virðist hafa verið á Hvalskeri ári áður og þó öllu heldur komið þaðan 1570.
um 1601
Gottskálk Sturluson. Bóndi á Geirseyri fyrir og eftir 1601. Hann var sonur Sturlu í Laugardal Eyjólfssonar á Hjalla í Ölfusi, Jónssonar og Guðrúnar Gottskálksdóttur. Kona Eyjólfs var Elín Pálsdóttir hálfsystir Ögmundar biskups Pálssonar.
K. Giríður Árnadóttir frá Þingvöllum prests Sigmundssonar og Védísar. Börn þeirra:
Þórdís, átti Sigurð Einarsson fálkafangara.
Gísli, féll með systurdóttur sinni (dóttur Ólafar Gottskálksdóttur), átti að taka hann, en hann varðist á laun hjá frændfóki sínu um nokkur ár, sigldi síðan til Englands og dó þar, en kom oft á fiskiduggum.
Giríður.
Jón, átti Gunnhildi Ólafsdóttur Björnssonar Eggertssonar hirðstjóra Hannessonar. Sonur þeirra Þórólfur hreppstjóri á Vatneyri.
Sturla, bóndi á Geirseyri.
Ólöf, átti Jón Jónsson, dótir þeirra Steinunn átti Guðmund Jónsson á Hnjóti.
Guðrún eldri, átti Pál Gunnarsson bónda í Breiðavík.
Guðrún yngri átti Borgar Gunnarsson bróður Páls, var einnig bóndi í Breiðavík.
fyrir 1650
Sturla Gottskálksson. Bóndi á Geirseyri á Fyrri hluta 17. aldar. F. sennilega um 1580. Foreldrar: Gottskálk Sturluson bóndi á Geirseyri og k.h. Giríður Árnadóttir.
K. I Herdís Magnúsdóttir prests í Rauðasandsþingum Jónssonar, er áður var gift ívari Eyjólfssyni á Neðribæ í Arnarfjarardölum, sem drukknaði 1604. Þau voru stutt saman, barnlaus.
K. II Sigríður Björnsdóttir bónda í Sauðlauksdal, Konráðssonar. Börn þeirra eru talin:
Giríður, átti Einar Egilsson á Geirseyri.
Arnheiður, átti Hall Björnsson á Geirseyri, síðar í Kvígindisdal.
Bjarni,barnlaus.
Guðrún, barnlaus.
Launsonur Sturlu er talinn:
Jón, er sigldi til Englands, kom aftur og giftist Sigríði dóttur Odds Jónssonar í Kollsvík. Dóttir þeirra var Guðrún, en laundóttir hennar og fyrrnefnds Halls Björnssonar var Sigríður.
eftir 1650
Einar Egilsson. Bóndi á Geirseyri á siðari hluta 17. aldar. Foreldrar: Egill Bjarnason prests í Selárdal Halldórssonar prests á s.st. og k.h. Jórunn Ólafsdóttir á Svarfhóli í Laxárdal (Dalasýslu) Jónssonar s.st. Ólafssonar prests í Hjarðarholti, Guðmundssonar.
K. Giríður Sturludóttir bónda á Geirseyri Gottskálkssonar. Börn þeirra:
Jón.
Jón.
Agata
Ingibjörg.
María.
eftir 1650
Hallur Björnsson. Bóndi á Geirseyri á seinni hluta 17. aldar. Foreldrar: Björn bóndi á Kambi í Króksfirði Bjarnason bónda á Brjánslæk Björnssonar prófasts á Melstað Jónssonar biskups Araonar og kona Björns Halldís Hallsdóttir. Björn seldi Brjánslæk fyrir Kamb. Bræður Halls voru: Ingimundur í Bæ ? og Kambi í Króksfirði faðir Guðrúnar konu Gunnalugs Jónssonar í Kvígindisdal og Ólafar konu Jóns Jónssonar í Vatnsdal, Erlendur, Sigurður bjó í Króksfirði.
K. Arnheiður Sturludóttir bónda á Geirseyri, Gottskálkssonar. Sagt er, að þau hafi ekki átt börn er upp kæmust, en laundóttir Halls sögð:
Sigríður og móðir hennar Guðrún dóttir Jóns Sturlusonar (bróður Arnheiðar konu Halls) og k.h. Sigríðar Oddsdóttur í Kollsvík, Jónssonar. Hallur bjó síðar í Kvígindisdal.
1703
Bjarni Egilsson. Bóndi á Geirseyri 1703. F. um 1643. Foreldrar: Egill Bjarnason prests í Selárdal, Halldórssonar og k.h. Jórunn Ólafsdóttir. Bjarni var albróðir Einars, sem fyrr getur.
K. Vigdís, f. um 1670 Nikulásdóttir, f. um 1630, d. 5. mars 1710 prests í Flatey, Guðmundssonar og k.h. Ingibjargar, f. um 1639, d. líklega 1708 Þórólfsdóttur að Múla á Skálmarnesi, Einarssonar. Börn þeirra 1703:
Jórunn 10 ára.
María 4 ára.
Arnfríður 2 ára.
Einnig mun dóttir þeirra hafa verið:
Halla Bjarnadóttir, f. um 1710, búandi á Hlaðseyri 1762.
Vigdís hefur verið orðin ekkja 1735 og býr þá í Botni.
Systkini Bjarna, auk Einars fyrrnefnds, eru talin: Helga átti Gunnlaug Pálsson bónda í Breiðavík, Gunnarssonar. Börn þeirra voru; Egill, Helga, Jórunn. Sigurður átti Þuríði Gunnarsdóttur og börn. Ólöf átti með séra Guðmundi Bjarnasyni (í Laugardælum) Valgerði, sem giftist Þórólfi Árnasyni á Eyri í Bitru. Anna átti Jón í Ólafsdal Egilsson. Finnbogi dó 1665 barnlaus.
1703
Ívar Þórólfsson. Bóndi á Geirseyri 1703. F. um 1657. Foreldrar: Þórólfur Jónsson hreppstjóri, bóndi á Vatneyri og k.h. Helga Jónsdóttir Ívarssonar.
K. Hallbjörg, f. um 1668 Nikulásdóttir prests í Flatey Guðmundssonar, alsystir Vigdísar konu Bjarna Egilssonar á Geirseyri. Börn þeirra 1703:
Guðrún, f. um 1692 átti Ólaf Arngrímsson bónda í Vatnsdal.
Gunnhildur, f. um 1693.
Þórólfur, f. um 1694.
Vafalaust hefur verið sonur þeirra:
Sturla, f. um 1704, bóndi á Geirseyri.
1735
Sturla Ívarsson. Bóndi á Geirseyri 1735. D. 49 ára gamall 1753 og talinn giftur maður. Ekki mun vera kunnugt um nafn konu hans, nema .það kynni að hafa verið Halla Bjarnadóttir, búandi á Hlaðseyri 1762, á lífi þar 1780. Þess má þó geta, að Halla og Sturla voru systrabörn (sjá Bjarna Egilsson). Ekkert er vitað um börn Sturlu er nokkur hafa verið.
1762
Sigurður Jónsson. Bóndi á Geirseyri 1762. Hann var kallaður „elli“, norðlenzkur að ætt, fæddur í seinasta lagi 1695, d. í mars 1755.
K. um 1715, Helga Jónsdóttir bónda í Krossadal 1703 Jónssonar (hann var einn Sellátrabræðrs og sagður hafa búið í Hænuvík, sem hefur þá verið eftir 1703). Börn þeirra:
Þórunn, f. um 1716, kona Jóns Jónssonar bónda á Sellátranesi.
Jón líklega, f. um 1720, sigldi til Kaupmannahafnar og varð þar kunnur úrsmíðameistari (meistari 1762, dó 1792, gerði við hið fræaga sigurverk „Habrechts klukkuna“ 1786, kvæntist og átti son, sem einnig var úrsmíðameistari). Nefndur ytra J. Sivertsen.
Þórarinn, f. um 1724, bóndi á Hlaðseyri 1780.
Guðrún (að öllum líkindum), f. um 1728, kona Péturs Jónssonar í Dalshúsum í Sauðlauksdal.
Einnig var talinn meðal barna þeirra:
Einar, f. 1715, d. 1781.
Helga gekk með hann er hún giftist Sigurði og var honum um það kunnugt og vildi gangast við barninu, en réttur faðir Einars var Gunnar Jónsson bóndi á Haugi á Hjarðarnesi 1703, faðir Steinunnar móður Eggerts Ólafssonar í Hergilsey. Hafði þetta síðar í för með sér líflát Sigurðar með því að hann, eftir að hann var orðinn ekkjumaður, eignaðist barn með stúlku að nafni Guðrún Valdadóttir, en með henni hafði fyrrnefndur Einar átt barn áður. Varð það ekki hindrað, að mál væri höfðað og Sigurður fluttur að Haga, þar sem sýslumaður átti heima. Davíð Scheving sýslumaður sótti um náðun eftir að hann tók við sýslunni af Ólafi Árnasyni, en erindi hans var synjað. Guðrúnu var drekkt á Geirseyri. Sigurður var vel efnum búinn og varð það sízt til að draga úr því að tæki málið föstum tökum. Karlmennsku hans og þreki var viðbrugðið allt til síðustu stundar.
fyrir 1760
Þorgeir Helgason. Bóndi á Geirseyri skömmu fyrir 1760, í Skápadal 1762, sjá þar.
1762
Ormur Jónsson. Bóndi á Geirseyri 1762. Það er eflaust sá O. J. sem deyr (líkþrár) 1770, talinn 43 ára (f. um 1727). Faðir hans var Jón (bóndi í Saurbæ 1735) Þorsteinsson bónda í Keflavík 1703, Jónssonar. Þetta var sá Ormur, sem skrifaður var faðir séra Jóns Ormassonar í Sauðlauksdal, en réttur faðir almennt talinn Ormur sýslumaður Daðason í Fagradal.
K. 1753 (í Sauðlauksdalssókn), Ólöf Ólafsdóttir (líklega bónda í Vatnsdal, Arngrímssonar). Börn þeirra:
Halla, f. í Saurbæjarsókn 1754, fermd í Sauðlauksdalssókn 1767, ekki á manntali 1780 eða síðar.
Árni, f. í Saurbæjarsókn 1755, d. 1756.
Guðrún, f. í Saurbæjarsókn 1757, dó sama ár.
Halldór, f. í Saurbæjarsókn 1759, dó sama ár.
Halldór, f. á Melanesi 1. des. 1760, í Vatnsdal 1817, ókv. og bl.
Guðrún, f. (á Geirseyri) 1764, d. 1765.
Það mun því ekki vera kunnugt um neina afkomendur þessara hjóna. Ormu hefur búið á Melanesi 1760 og hefur sennilega verið þar 1754-1761 en farið þá að Geirseyri.
1762
Sunneva Helgadóttir. Búandi á Geirseyri 1762. Hún hefur sennilega verið ekkja og kynni að hafa verið komna Sturlu Ívarssonar, sem býr á Geirseyri 1735. Hún er ekki á manntali í Rauðasandshreppi 1780 og finnst ekki heldur dáin þar. Er því ekki hægt að segja neitt frekar um hana.
1780
Jón Ólafsson. Bóndi á Geirseyri 1780. F. um 1738, d. milli 1801 og 1808, líklega á Vatneyri, því þar er hann húsmaður 1801. Sonur Ólafs, sem ekki er neitt víst um og Ragnhildar Bjarnadóttur, sem dó í Kvígindisdal 1784, ekkja 57 ára (f. um 1717).
K. 1777, Jóhanna, f. um 1746, d. milli 1808 og 1817 Ketilsdóttir, f. um 1710, d. í Kvígindisdal 1784, á Hvallátrum 1780 Jónssonar og k.h. Guðrúnar, f. um 1714, d. milli 1786 og 1801 Jónsdóttur. Barn þeirra:
Ólafur, f. í Sauðlauksdal 1779, ekki á manntali 1801, líklega dáinn fyrir þann tíma.
Jóhanna er á Hvallátrum 1808, hjá Ólafi Jónssyni, sem kvæntur hafði verið Guðrúnu dóttur þeirra Ketils.
um 1801-1806
Jón Þorbergsson (Thorberg), Verzlunarstjóri á Patreksfirði. Bóndi á Geirseyri 1801 og til dauðadags. Jón er víðast talinn verzlunarstjóri á Vatneyri, en hann hefur þá verið það aðeins fyrstu árin eftir giftingu, þar til um 1795, eftir það eru börn hans fædd á Geirseyri. F. 1763, dó vofeiflega 17. júní 1806, fannst látinn undir svonefndum Björgum innantil við Geirseyri. Foreldrar: Séra Þorbergur, f. 1722, d. 9. sept. 1784 Einarsson smiðs Jónssonar í Reykjarfirði og k.h. Ingibjörg, f. 1726, d. 23. sept. 1804 Þorleifsdóttir prests á Kirkjubóli Þorlákssonar.
K. 1788, Sigríður, f. á Vatneyri 4. júní 1767, d. 5. maí 1834 Þóroddsdóttir Þóroddssonar á Vatneyri. Börn þeirra:
Ingibjörg, f. á Vatneyri 1779, átti Jón Sigurðsson Sveinssonar.
Bergljót, f. á Vatneyri 1790, átti Pál Pálsson bónda á Melanesi.
Magnús, f. á Vatneyri 1792, prentari í Kaupmannahöfn.
Pétur, f. á Vatneyri 1794, klæðskeri og síðan lögregluþjónn í Kaupmannahöfn.
Jóhannes, f. á Geirseyri 1796, á Hvallátrum 1817, skútuformaður í Flatey, 1824 á Patreksfirði.
Ólafur, f. á Geirseyri1797, í Sauðlauksdal 1817, Patreksfirði 1824.
Guðrún, f. á Geirseyri 1799, átti Hallgrím Guðmundssona á Brekku á Ingjaldssandi. Er á Geirseyri 1826 með dóttur sinni 3 ára, Guðrúnu Björnsdóttur.
Davíð, f. 1801, drukknaði með Árna Þóroddsyni í hákarlalegu 1824.
Þórður, f. 1802, í Sauðlauksdal 1817, Patreksfirði 1824.
Þóroddur, f. 1803, í Kollsvík 1817.
Kristín, dó ung.
Bergljót, dó ung.
Ári 1789 Eignaðist Jón Thorberg dóttur:
Anna, f. á Vatneyri 1789.
Móðir Önnu hafði verið ung vinnukona á heimili Jóns. Sagnir eru um að hún hafi heitið Guðrún, og ýmislegt er í frásögur fært í sambandi við þetta, sem er meira og minna brenglað. Ég hygg, að amma Önnu hafi verið Guðrún Pálsdóttir í Tungu, sem Anna ólst upp hjá, ekkja (1801) Þórðar Hafliðasonar í Tungu. En móðir Önnu hefur verið Guðbjörg Þóraðardóttir, sem síðar giftist Bjarna Bjarnasyni bónda í Keflavík 1808. Guðrún, Guðbjörg og Anna eru allar í Tungu 1801, móðir Önnu er ekki nefnd, en hún sögð fósturbarn Guðrúnar. Af því kemur ruglingurinn um Guðrúnu, sem talin hefur verið móðir hennar. Anna var kona Guðmundar Hákonarsonar á Geitagili.
1806-1808
Sigríður Þórðardóttir, ekkja Jóns Thorberg. Búandi á Geirseyri 1806-1808, er hún giftist Daða Jónssyni.
1802-1811
Daði Jónsson, síðar aðstoðarprestur í Sauðaluksdal 1815-1817 og prestur á Söndum í Dýrafirði 1826-1837. Bóndi á Geirseyri 1802-1811 og 1818-1826 (um haustið). Bóndi í Sauðlauksdal í sambýli við föður sinn 1811-1818. F. 24. okt. 1780 í Selárdal, d. á Söndum 18. ágúst 1837. Foreldrar: Séra Jón Ormsson prestur í Sauðlauksdal og k.h. Ragnheiðar Eggertsdóttur prests í Selárdal.
K. I 27. sept. 1808, Sigríður Þóroddsdóttir ekkja Jóns Thorbergs verzlunarstjóra á Geirseyri. Þau barnlaus.
K. II 1835, Steinunn, d. 23. mái 1866 í Hjarðarholti í Stafholtstungum Pálsdóttir prests á Stað á Reykjanesi Hjálmarssonar (ekkja Árna Geirssonar Vídalíns). Þau barnlaus.
Launsonur Davíðs var:
Benóný bóndi í Meðaldal, f. á Vatneyri 14. mar 1817, drukknaði 21. jan. 1867. Móðir hans var Guðrún Guðmundsdóttir að Auðkúlu í Arnarfirði Arasonar, er síðar átti Bjarna Bjarnason verzlunarstjóra á Vatneyri. Kona Benónýs var (1846) Guðný, f. 23. júní 1827 Halldórsdóttir bónda í Meðaldal Jónssonar. Börn þeirra: Sigríður, Guðrún, Daðína, Halldóra, Jónína, Friðrika, Kristín og Finnbogi.
Séra Daði misstiprestskap 1817, vegna fyrrnefndrar barneignar, fékk uppreist 2. sept. 1826. Séra Jón Ormsson hafði sagt af sér í þeirri von, að Daði fengi embættið, en þegar það fór út um þúfur, tók hann uppsögnina aftur og var prestur í 3 ár eftir það.
1811-1818
Guðbrandur Jónsson. Bóndi á Geirseyri að öllum líkindum 1811-1818 eða í mesta lagi til 1820, því þá fer hann og kona hans norður í Dufansdal og var þar í 1 ár eða svo, en kom aftur í Rauðasandshrepp. Áður bóndi í Kvígindisdal, sjá þar. Þegar Guðbrandur fluttist úr Kvígindisdal geri ég ráð fyrir að Árni Þóroddsson hafi flutzt þangað frá Vatneyri.
1827-1828
Jón Ólafsson. Bóndi á Geirseyri 1827-1828 og 1834-1837. Fluttist að Geirseyri frá Flatey 1827 (J. Ól. 35 ára, Kristín Guðm. 24, Einar s.þ. 1 árs og Friðrik sonur Jóns 11 ára). Síðan fer Jón í Tálknafjörð og var skipari á Suðureyri. Þaðan kom Jón aftur og var enn á Geirseyri, en fluttist að Litlueyri í Bíldudal 1837, 1840 er hann á Hóli, hjáleigu frá Litlueyri. Þar eru, auk þeirra hjóna: Einar 14, Páll 11, Þórunn Þuríður 5 og Jóhann sonur Jóns 11 ára. Að Eyrarhúsum í Tálknafirði var Jón kominn 1845. Þá eru hjá honum Páll og Þórunn. Er á sama stað 1855 og er þá líklega Einar kvæntur Ólöfu Jónsdóttur 28 ára. Vinnuhjú eru þá Þorseinn Þorsteinsson fyrrum bóndi á Hlaðseyri og k.h. Ingibjörg Guðmundsdóttir. Árið 1860 eru þau Jón og Kristín ekki í Tálknafirði. F. að Múla í Gufudalssveit 22. okt. 1791, d. eftir 1855. Foreldrar: Ólafur hreppstjóri og bóndi á Hríshóli í Reykhólasveit, áður á Hafrafelli f. 1758 Einarsson eldra í Látrum Sveinbjarnarsonar og s.k.h. Þorgerður, f. 1760, d. eftir 1801 Hallvarðsdóttir, f. um 1734 Hákonarsonar.
K. Kristín, f. um 1803, d. eftir 1855 Guðmundsdóttir Einarssonar og Ingibjargar Ólafsdóttur prófasts á Ballará, Einarssonar. Guðmundur var kvæntur maður, en Ingibjörg hafði áður átt Magnús Thorlacíus (Þórðarsonar, Sighvatssonar). Börn þeirra:
Einar, f. í Flatey.
Kristján, f. 1828, dó ungur.
Páll, f. 1831.
Þórunn Þuríður, f. 1835.
Synir Jóns voru auk þess:
Friðrik, f. um 1816.
Jóhann, f. á Suðureyri í Tálknafirði, síðar bóndi á Geitagili.
1828-1830
Oddur Helgason. Bóndi á Geirseyri 1828-1830. F. á Hóli í Bíldudal 1803, d. á Hólum í Tálknafirði 185?. Foreldrar: Helgi Þorsteinsson, f. um 1760 beykir, hafði verið erlendis og kallaði sig Dyrendal, og f.k.h. Helga Solveig, f. um 1761, d. fyrir 1816 Oddsdóttir.
K. Bryngerður, f. 7. sept. 1806, d. á Suðureyri í Tálknafirði 15. sept. 1843 Jónsdóttir í Hvammi í Dýrafirði Þorvaldssonar og k.h. Sigríðar Jónsdóttur sýslumanns í Ísafjarðarsýslu Arnórssonar. Sonur þeirra:
Kristján Jens, f. 17. sept. 1839 í Tungu í Tálknafirði, d. í Laugardal eftir 1890, faðir Karls Hinriks bónda í Kollsvík.
1830-1931
Christian Michael Steenbach, kaupmaður á Vatneyri. Hann virðist einnig hafa haft Geirseyri 1830-1831.
1831-1834
Gunnar Bjarnson. Bóndi á Geirseyri 1831-1834. Síðar bóndi á Suðureyri í Tálknafirði, býr þar enn 1855, fluttist þangað frá Geireyri. F. í Múlasókn 17. júní 1796, d. 23. júlí 1872. Foreldrar: Bjarni Einarsson bóndi á Ingunnarstöðum í Múlasveit 1801, f. 1744.
K. Guðrún, f. um 1796 í Narfeyrarsókn Sigurðardóttir. 1832 eiga þau Kristján 5 ára, f. í Flateyjarsókn. 1845 eru börn þeirra:
Kristján 18 ára.
Jóhanna Sólveig 9 ára.
Kristín 3 ára.
1855 er á heimili þeirra hjóna Kristín 7 ára dóttir Gunnars og ? Þá er einnig Jónína Benónýja 1 árs sonardóttir Gunnars (annaðhvort f. í Ögur eða Vatnsfjarðarsókn). Árið 1860 er Gunnar kominn að Litlueyri í Bíldudal.
1837-1844
Ívar Bjarnason. Bóndi á Geirseyri 1837-1844. Áður bóndi í Botni, sjá þar. Dó á Geirseyri 13. ágúst 1844.
1844-1846
Margrét Tómsdóttir, ekkja Ívars Bjarnasonar. Búandi á Geirseyri 1844-1846. Hún fluttist til Ísafjarðar til Gísla, d. 1859, sonar síns og síðan með honum til Bíldudals 1855. Hún er á lífi 1862 (Æviskrár).
1846-1848
Lauritz Michael Knudsen, f. 7. des. 1807 í Arendal í Noregi, d. 14. sept. 1864 drukknaði við Seltjarnarnes. Búandi á Geirseyri 1846-1848. Verslunarmaður á Geirseyri og Vatneyri við Patreksfjörð 1838-48. Fluttist 1851 til Reykjavíkur. Foreldrar: Lauritz Michael Knudsen, f. 30. jan. 1779 í Rejsby á Jótlandi, d. 4. ágúst 1828 í Reykjavík. Kaupmaður í Reykjavík og k.h. Margrethe Andrea Hölter, f. 4. jan. 1781, d. 3. maí 1849.
- 22. apríl 1845,Guðrún Jónsdóttir, f. 10. ágúst 1811 á Hóli í Tálknafirði, d. 27. júlí 1847 á Geirseyri. For.: Jón Grímsson, f. 22. mars 1778, d. 24. febr. 1844. Bóndi á Hóli í Tálknafirði. og k.h. Kristín Pétursdóttir, f. 1770 í Dufansdal, d. 6. sept. 1828. Húsfreyja í Stóra Laugardal í Tálknafirði 1801. Húsfreyja á Hóli í Tálknafirði. Barn þeirra:
- a) Lauritz Michael Knudsen, f. 31. maí 1841 á Vatneyri á Patreksfirði, d. 19. okt. 1926 í Reykjavík. Verslunarmaður, smiður og lengi kaupmaður í Keflavík, fluttist árið 1904 til Reykjavíkur og bjó þar síðan. 6.11.1869 skildu, Margrét Magnúsdóttir, f. 21. jan. 1834, d. 11. júlí 1907. For.: Magnús Runólfsson, f. 11. ágúst 1803, d. 5. apríl 1846 , drukknaði. Bóndi og smiður, Ketilsstöðum á Kjalarnesi, síðan á Vallá. og Álfheiður Jónsdóttir, f. 17. febr. 1797, d. 1. okt. 1869.
1848-1851
Magnús Einarson. Bóndi á Geirseyri 1848-1851, áður bóndi á Hvalskeri, sjá þar.
1851-1855
Þorsteinn Thorsteinsson „eldri“. Bóndi á Geirseyri 1851-1855. Áður á Vatneyri, sjá þar. Fluttist frá Geirseyri til Þingeyriar.
1855-1859
Jón Jónsson. Bóndi á Geirseyri 1855-1859. Síðar bóndi í Skápadal, sjá þar. Seinasta árið á Geirseyri í sambýli við Ólaf Thorlacius. Fluttist að Geirseyri frá Laugardal.
1858-1861
Ólafur Ó. Thorlacius. Bóndi á Geirseyri 1858-1861. Fluttist þá að Dufansdal og bjó þar til dauðadags. Ólafur var fyrst verzlunarmaður á Bíldudal, síðan var hann á Suðureyri, kvæntist þar í 2. sinn og fluttist árið eftir að Geirseyri. F. í Hvestu í Arnarfirði 14. nóv. 1829, d. 8. nóv. 1879 (í sjúkrahúsi í Reykjavík). Foreldrar: Ólafur Ó. Thorlacius bóndi í Hvestu svo í Fagradal og k.h. Helga Sigmundsdóttir Magnússonar sýslumanns Ketilssonar.
K. I 17. okt. 1851, Steinunn, d. 15. okt. 1853 á Bíldudal, f. í Miðhúsum í Reykhólasveit 4. apríl 1830 Ólafsdóttir seinast prests í Otradal, Pálssonar prests Hjálmarssonar og k.h. Sigríðar, f. 19. apríl 1808, d. 17. des. 1890 í Saurbæ á Rauðasandi Ingimundardóttir hreppstjóra á Miðhúsum, Grímssonar. Börn þeirra, öll fædd á Bíldudal:
Ólafur, f. 25. apríl 1851, bóndi í Saurbæ.
Guðrún, f. 22. júlí 1852, átti Ólaf Jónsson bónda í Skápadal.
Helgi, f. 22. júlí 1852, (tvíburi Guðrúnar) dó ungbarn.
Kristín Sigríður, f. 7. okt. 1853, dó í Reykjvík um 183?, ógift og bl.
K. II 30. okt. 1857 (á Suðureyri), Filippía Ólafsdóttir alsystir Steinunnar fyrri konu Ólafs, f. í Miðhúsum á Reykjanesi 1832, d. á Siglunesi 7. júní 1889. Börn þeirra:
Þórarinn, f. á Suðureyri 20. júlí 1857, d. 189? (drukknaði í Patreksfirði, nálægt Koti), barnakennar, átti Ólöfu, f. 16. sept. 1864 á Litlanesi í Múlasveit, á lífi í Reykjavík 1956.
Steinunn, f. á Geireyri 14. des. 1859, kona Erlendar Kristjánssonar bónda á Látrum.
Helga, f. í Dufansdal í apríl 1863, d. í Reykjavík um 193?, ógift og bl., matreiðslukona.
Kristín Sigríður, f. í Dufansdal 24. febr. 1865, kona Bjarna Arngrímssonar bónda í Trostansfirði.
Þórður, f. í Dufansdal 14. febr. 1868, d. í sjúkrahúsi á Patreksfirði 4. sept. 1831, ókv. og bl. Búfræðingur frá Ólafsdal og barnakennari. Um skeið bóndi í Bröttuhlíð.
Árni, f. í Dufansdal 11. ágúst 1871, d. 27. mái 1872.
1861-1868
Tómas Eiríksson. Bóndi á Geirseyri 1861-1868, seinustu 2 árin í sambýli við Markús Snæbjörnsson. Síðar bóndi í Kvígindisdal, sjá þar.
1866-1918
Markús Snæbjörnsson kaupmaður. Bóndi á Geirseyri 1866-1918. F. í Dufansdal 16. nóv. 1832, d. á Geirseyri 16. mars 1921. Foreldrar: Snæbjörn, f. í Álfadal á Ingjaldssandi 21. febr. 1793, d. á Geirseyri 25. nóv. 1873 Pálsson bóndi í Álfadal, Hákonarsonar og k.h. Kristín, f. um 1801, d. í Dufansdal 11. júlí 1852 Nikulásdóttir á Orrahóli í Dölum Sigurðssonar. Markús var lærður skipstjóri.
K. 20. des. 1866, Guðrún, f. í Dufansdal 1838, d. í Reykjavík 10. okt. 1904, jarðsett á Patreksfirði 9. nóv. ásamt dóttursyni sínum Markúsi B. Jónssyni og var þá fyrst jarðað í kirkjugarðinum á Patreksfirði, Davíðsdóttir bónda í Dufansdal Ásbjörnssonar og k.h. Guðríðar Jónsdóttur. Börn þeirra, öll fædd á Geirseyri:
Kristín, f. 16. sept. 1862, d. á Geirseyri 22. des. 1936. Átti Jón Björnsson hreppstjóra á Hlaðseyri, Péturssonar, síðar Jón E. Bjarnason skipstjóra á Patreksfirði.
Jónína, f. 17. sept. 1862, d. í Reykjavík 2. maí 1902, átti séra Finnboga Rút Magnússon. Þau barnlaus.
Nikulás Jón, f. 13. nóv. 1866, d. 18. s.m.
Jón, f. 23. febr. 1868, d. á Vatneyri 1. des. 1941, verzlunarstjóri, síðar símstjóri á Patreksfirði, átti Sigríði Sigurðardóttur Bachmanns á Vatneyri.
Sigríður Guðbjörg, f. 5. maí 1869, d. í Reykjavík 194?, ógift og bl.
Þorbjörg, f. 20. sept. 1871, drukknaði við Geirseyrarbryggju 8. des. 1933, ógift og bl.
Markúsína, f. 30. des. 1872, d. í Reykjavík um 1900, ógift og bl.
Vigdís Guðrún, f. 9. febr. 1878, d. 23. júní 1967, átti Sveinbjörn Sveinsson frá Hvilft í Önundarfirði, kaupmaður á Patreksfirði.
1903-1906
Pétur Andreas Ólafsson kaupmaður á Patreksfirði. Bóndi á nokkrum hluta Geirseyrar 1903-1906. F. 1. maí 1870, d. 11. maí 1949. Foreldrar: Ólafur, d. 26. febr. 1898, 61 árs Jónsson veitingamaður á Skagaströnd og síðar á Akureyri og k.h. Valgerður, d. 9. júní 1892, 51 árs Narfadóttir á Kóngsbakka í Helgafellssveit, Þorleifssonar.
K. 1. ágúst 1896, Marie Kristine, d. 3. apríl 1942, 72 ára Ísaksdóttir verzlunarstjóra á Seyðisfirði Arnesen. Börn þeirra:
Ragnar, f. 1896, d. 18. febr. 1943, verzlunarmaður í Vesturheimi.
Aðalsteinn, (19.09.1899-02.12.1982), skrifstofumaður á Patreksfirði.
Guðrún Valgerður, 18.01.1901-20.01.1985), átti Fritz Hoffmann kaupmann í Vordingborg í Danmörku.
Högni, (05.02.1904-13.01.1978) sjómaður í Boston.
Ólafur Haukur, (29.10.1905-17.09.1982) frystihússtjóri á Akureyri.
Maja, (22.04.1908-24.10.1991) átti spanskan tónlistarmann búsettan í Reykjavík.
Pétur var við verzlunarnám í Kaupmannahöfn 1890-91, verzlunarstjóri á Patreksfirði 1898-1906, kaupmaður og útgerðarmaður þar 1906-1916, fluttist til Reykjavíkur 1916, en rak verzlun og útgerð áfram vestra til 1931. Fluttist til Akureyriar 1928 og átti þar heima til æviloka. Forstjóri síldareinkasölu 1928-1931. Rak síldveiðar um skeið og hvalveiðar. Átti sæti í sýslunefnd Vestur-Barðastrandarsýslu 1899-1915.
1918-1948
Sigurður Andrés Guðmundsson. Bóndi á Geirseyri 1918-1948. F. í Hænuvík 29. nóv. 1886, d. á Geirseyri 22. des. 1948. Foreldrar: Guðmundur Sigurðsson hreppstjóri í Rauðasandshreppi bóndi í Vatnsdal og víðar og k.h. Helga Á. Thoroddsen.
K. Svandís, f. á Akranesi 9. sept. 1893 Árnadóttir. Börn þeirra (öll f. á Patreksfirði):
Árni, (24.11.1918-12.08.1975), járnsmiður á Patreksfirði, síðar í USA. Frida Erna Ottósdóttir. Hún átti eitt barn fyrir.
Sigurður, (03.01.1920-23.06.2012). Vélsmiður, ýtustjóri, bóndi o.fl. Ingveldur Ása Hjartardóttir. 4 börn.
Ásta Margrét, (14.07.1921-11.03.2009), gift Jóni Björnssyni rafvirkja í Borgarnesi. 3 börn.
Þóroddur, (11.10.1922-14.06.1996) verkfr. Í Reykjavík. K. Kristín Guðbjörg Guðmundsdóttir. 4 börn.
Ingveldur Helga, (14.07.1924-24.08.2017), handavinnukennari.
Guðmundur, (29.01.1926-28.02.1996), kvæntur Huldu Daníelsdóttur frá Borgarnesi. 2 börn.
Guðríður Soffía, (23.02.1928-07.01.2017). Jónas Ásmundsson.
Anna María, (25.11. 1929-28.04.1942).
Rögnvaldur Geor, (19.08.1931-15.12.2016). Kaupfélagsstjóri o.fl. Vilborg Axelsdóttir. 4 börn.
Svandís, (16.03.1934-08.08.1936).
Ásgeir Hjálmar, f. 10.12.1936. Bankastarfsmaður.
Sigurður Andrés stundaði fyrrum sjómennsku og var skipstjóri. Árið 1911 keypti hann kútter, er Pollux hét, ásamt Jóni Guðjónssyni (d. á Patreksfirði 1949) og Ólafi yngri Thorlaciusi frá Saurbæ. Þeir áttu skipið fáein ár og var Sigurður skipstjóri.
Nafnið er mjög lýsandi fyrir staðinn eins og hann var áður en grafið var út úr vatninu. Spurning er þó hvort nafnið “Geirseyri” var upphaflegt nafn á Vatneyri (sjá þar). Rökin fyrir þeirri kenningu eru þau að svo virðist sem staðir hafi einkum fengið nafn af því sem helst einkenndi þá; séð utan af hafi. Þau hafa upphaflega nýst til sem vegvísir til siglinga á fyrstu öldum byggðar. Vatnið sást ekki frá hafi, en hinsvegar er Geirseyrarmúlinn mjög einkennandi fyrir staðinn. Þegar svo byggðist önnur jörð út úr Geirseyri (sjá Jarðabók) hafi hún fengið nafnið Vatneyri.
Jarðabókin 1703 “Vatneyre er bygð í Gesseyrar heimalandi, á stekkatúni (sem menn þykjast heyrt hafa) fyrir allra þeirra manna minni sem nú lifa, og er hún 10 hdr úr Gesseyri; og eitt fyrirsvar fyrir báðar jarðirnar. Eru bæirnir og túnin aðskilt; en engjum, högum og öðrum hlunnindum óskift. 5 hdr í Vatneyri á Bjarni Þórólfsson; 5 hdr á Christín Stulladóttir í Vatnsdal, ógift stúlka. Ábúandi þar er Bjarni Þórófsson fyrskrifaður.
Landskuld er 4 vættir af hverjum 10 hdr í Vatneyri og Gesseyri, og hefur so verið í manna minni, þá ekki hafa eignarmenn þar búið. Landskuld af Kristínar parti betalast í fiski á eyri. Kvaðir engar (er og byggingin í vina valdi).
Kvikfjenaður er nú á Vatneyri kýr 3, ær 17, geldir sauðir 5, gemlingar 3. Þar kunna að fóðrast kýr 2, 1 ungneyti, lömb 4. Rosknu fje er útigangur ætlaður, sem er þar í betra lagi í hlíðum. Bresti hann, þá deyr fjeð. Heimilismenn á Vatneyri 8”.
Barðstrendingabók PJ “Um 1885 voru tvær smáverslanir á Eyrum; verslun Snæbjörnsens (Markúsar; sjá Geirseyri) og önnur á Geirseyri.. Um 1885 var Sigurður Bachmann eigandi og ábúandi Vatneyrar og rak þar verslun. Þar var þá eitt fornt timburhús, bæi notað til íbúðar og verslunar. Annað timburhús var þá í smíðum. Auk þess voru þar fjórir eða fimm torfbæir, sem húsmenn bjuggu í. Sennilega hefir mannfjöldi á Eyrum þá ekki verið mikið yfir 50 manns… Á tímbilinu 1896-1907 jókst þilskipaútvegurinn mjög og munu þá hafa verið gerð út 12-16 þilskip; stærri og smærri, frá Eyrum þegar mest var… Árið 1907 (þegar Rauðasandshreppi var skipt) var fólksfjöldi á Eyrum orðinn um 400 manns. Hafði fólk flust víðsvegar að í þorpið. Sýslumaður og héraðslæknir voru búsettir þar. Kirkju, sjúkrahúsi og barnaskóla hafði verið komið þar upp. Var um þessar mundir, eða nokkuru fyrr, farið að kalla þorpið Patreksfjörð. Forystumenn í þorpinu töldu þá æskilegt að það væri skilið frá Rauðasandshreppi og gert að sérstöku hreppsfélagi, enda var ekki trútt um að tekið væri að bóla á lítilsháttar ríg og reiptogi milli þorpsins og annarra hluta hreppsins, út af ýmsum sveitarmálefnum. Létu þá aðrir hreppshlutar sér það vel líka.. og fóru hreppaskiptin fram 1907, með sátt og góðu samkomulagi allra aðilja”.
Um þetta leyti risu upp miklir athafnamenn á Eyrum. Auk Markúsar Snæbjörnssonar og Sigurðar Bachmann má þar nefna Pétur J. Thorsteinsson á Bíldudal; Pétur A. Ólafsson og Ólaf Jóhannesson og syni hans. Verður sú saga ekki rakin lengra hér, enda sögð ítarlega annarsstaðar.
fyrir 1650
Jón Gottskálksson. Bóndi á Vatneyri á fyrri hluta 17. aldar. Skáld. Eftir hann eru Nitíðurímur og Víkingarímur. Foreldrar: Gottskálk á Geirseyri Sturluson í Laugardal Eyjólfssonar á Hjalla Jónssonar og k.h. Giríður Árnadóttir frá Þingvöllum.
K. Gunnhildur Ólafsdóttir á Suðureyri í Tálknafirði Björnssonar (launsonar Eggerts lögmanns Hannessonar). Börn þeirra:
Þórólfur, bóndi á Vatneyri.
Ingveldur, átti Helga Þorláksson.
Gottskálk, sigldi til Englands og kom ekki aftur.
Þorlákur, dó barnlaus.
um 1650-1674
Þórólfur Jónsson hreppstjóri. Bóndi á Vatneyri um eða eftir miðja 17. öld og þar til 1974, dó þá af taksótt 27. des. Foreldrar: Jón Gottskálksson bóndi á Geirseyri, Sturluson og k.h. Gunnhildur Ólafsdóttir bónda á Suðureyri í Tálknafirði Bjaörnssonar, Eggertssonar lögmanns, Hannessonar og konu Ólafs, Ingveldra Þorláksdóttur sýslumanns á Núpi í Dýrafirði, Einarssonar, Sigvaldasonar Langlífs, Gunnarssonar. Þorlákur var bróðir séra Halldórs í Selárdal og Gissurar biskups. Jón var bróðir Sturlu Gottskálkssonar á Geirseyri. Systur Jóns voru m.a. ólöf átti Jón Jónsson, dóttir þeirra Steinunn giftist Guðmundi Jónssyni á Hnjóti, Guðrún fyrri átti Pál bónda í Breiðavík Gunnarsson, Borgarssonar, Guðrún seinni átti Borgar bónda í Breiðavík bróður Páls.
K. Helga Jónsdóttir Ívarssonar, bónda í Neðribæ í Selárdal (drukknaði 1604), Eyjólfssonar eldra á Hóli í Bíldudal, Magnússonar prests, Eyjólfssonar mókolls í Haga, Gíslasonar, og konu Jóns, Sigríðar Bjarnadóttur prests í Selárdal, Halldórssonar prests s.st., Einrassonar. Börn þeirra:
Ívar bóndi á Geirseyri.
Sturla
Bjarni bóndi á Vatneyri.
1703
Bjarni Þórólfsson. Bóndi á Vatneyri 1703. F. um 1660. Foreldrar: Þórólfur Jónsson bóndi og hreppstjóri á Vatneyri og k.h. Helga Jónsdóttir Ívarssonar.
K. Sigríður, f. um 1664 Pálsdóttir. Þau virðast þá ekki eiga neitt barn saman, en sonur Bjarna er:
Ívar 9 ára. Sonarsonur þessa Ívars hefur sennilega verið Ívar Bjarnason bóndi á Geirseyri.
Og sonur Sigríðar er:
Pétur Magnússon 11 ára.
1735
Jón Grímsson. Bóndi á Vatneyri 1735. Þetta mun vera annaðhvort Jón eldri f. um 1687, eða Jón yngri f. um 1688, en þeir eru í Raknadal 1703, synir Gríms bónda þar, Halldórssonar. Sonur þessa Jóns hefði getað verið Grímur bóndi í Stekkadal 1780, f. um 1735, fermdur í Saurbæjarsókn 1751, en þó er e.t.v. líklegra, að hann sé ættaður af Rauðasandi og sonarsonur Gríms Jónssonar á Lambavatni 1703, sjá Stekkadal.
1762-1789
Einar Bjarnason. Bóndi á Vatneyri 1762 og 1780 (og 82), áður bóndi í Kvígindisdal en fyrst í Kollsvík, sjá þar. Hann er hreppstjóri og bóndi á Vatneyri 1780 og 1782 og hefur líklega talist bóndi þar til dauðadags 1789. Hann hefur orðið bóndi í Kollsvík nokkru fyrir 1735 og hefur því líklega verið bóndi alls í full 55 ár. Séra Ólafur Einarsson á Ballará, seinast á Álftamýri segir í þætti um afkomendur Sellátrabræðra: „Einar Bjarnason yngri, giftist Kristínu dóttur séra Þorvaldar Magnússonar prests í Sauðlauksdal og Bæ á Rauðasandi. Einar var skýr og framkvæmdasamur, driftar- og forstandsmaður, skipasmiður og mikill sjósóknari og aflamaður á yngri árum. Með Kristínu átti hann 10 börn, af hverjum 6 dóu ung, en 4 komust til aldurs.“
K. Kristín Þorvarðardóttir. Börnin sem lifðu voru:
Séra Ólafur fyrrnefndur, á Ballará
Bjarni sýslumaður í Barðastrandsrsýslu.
Bergljót á Vatneyri, kona Þórodds beykis.
Vilborg, kona Guðmundar á Kirkjubóli í Arnarfirði Egilssonar á Baulhúsum Bjarnasonar.
Séra Ólafur segir ennfremur: „Einar sá sín barna-barna-börn, varð um áttræður, og voru af honum komnar 45 sálir þá hann andaðist.“
um 1770-1798
Þóroddur beykir Þóroddsson. Bóndi á Vatneyri líklega um 1770-1798. F. um 1742, d. á Vatneyri 26. sept. 1798. Foreldrar: Þóroddur, f. líklega á Fjalli á Skeiðum 1796, d. 1765 heyrari (konrektor) við Hólaskóla Þórðarson, Guðbrandssonar og k.h. Herdís, d. 1773 Illugadóttir prests á Auðkúlu, d. 1707 Þorlákssonar prófasts á Auðkúlu Halldórssonar prests að Ríp, Þorsteinssonar, Tómassonar.
K. 1767, Bergljót, f. í Kvígindisdal um 1743, d. s.st. 26. maí 1827 Einarsdóttir bónda í Kollsvík og víðar, Bjarnasonar, sjá hér að framan. Börn þeirra:
Sigríður, f. 4. júní 1767, átti Jón Thorberg verzlunarstjóra á Patreksfirði, síðar Daða Jónsson, sjá Geirseyri.
Magnús, f. 10. júní 1768, dó ytra ókv., vefari, síðar múrsveinn.
Einar, f. 2. des. 1769, gullsmiður í Kaupmannahöfn, kvæntur og átti börn.
Árni, f. 19. des. 1871, d. 1824, bóndi í Kvígindisdal.
Þóroddur, f. 7. mars 1772, fósturbarn á Sellátranesi 1780, seglagerðarmaður í Kaupmannahöfn, dó ókv.
Kristín, f. 16. júní 1773, dó um tvítugt, heitbundin Eggert Ólafssyni bónda í Hergilsey.
Steinunn, f. 24. ágúst 1774, dó ung.
Jón, f. 1775, bóndi á Látrum.
Gísli, f. 27. mars 1777, söðlasmiður, kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur frá Gröf, ekkju Eggerts Ólafssonar í Hergilsey, bóndi þar, þau barnlaus.
Þórður, f. 31. mars 1779, beykir, bóndi á Reykhólum.
Klement Lind, f. 17. ágúst 1881, dó ungur.
Klement Lind, f. 20. okt. 1782, lærði klæðskerasaum og garðyrku erlendis, kvæntur danskri konu, búsettur í Reykjavík.
Petronella Helga, f. 20. okt. 1782, dó 22 ára. Tvíburi við Klement.
Magnús, f. 29. okt. 1784, dó ungur.
1798-1809
Bergljót Einarsdóttir, ekkja Þórodds beykis. Búandi á Vatneyri 1798-1809 eða lengur, sennilega þar til Bjarni Bjarnason verzlunarstjóri kom að Vatneyri, sem kynni að hafa verið um 1815 eða svo. Bergljót hefði þá að vísu verið liðlega 70 ára gömul og er það allhár aldur, en hitt er víst, að hún hefur ekki látið af búskap fyrr en Árni sonur hennar fór að Kvígindisdal, og það hefur í fyrsta lagi verið 1811, svo litlu munar þá.
Því er haldi fram, að Daði Jónsson hafi búið á Vatneyri nokkur ár um þetta leyti, en það er eflaust missögn. Hann bjó á Geirseyri 1809 og talið er að hann hafi 1811 farið að Sauðlauksdal og verið þar í sambýli við föður sinn, séra Jón Ormsson, en árið 1811 er einmitt sagt að séra Eyjólfur Kolbeinsson hafi farið frá Sauðlauksdal að Saurbæ og er þetta því ekki ósennilegt.
1808
Þórður beykir Þóroddsson. Bóndi á Vatneyri til vors 1808 og hefur að líkindum verið þar aðeins í 2 ár. Hann hefur eftir þessu flutzt að Reykhólum 1808. F. á Vatneyri 31. mars 1779, d. á Reykhólum 10. nóv. 1846. Foreldrar: Þóroddur Þóroddsson á Vatneyri og k.h. Bergljót Einarsdóttir.
K. Þórey, f. um 1788, d. 1763 (líklegra þó 1863). Börn þeirra:
Hildur, d. 1882, varð seinni kona Þorkels Gunnlaugssonar móðurbróður síns, þau skildu 1846. Börn þeirra: Gunnlaugur, Arnfríður, Ragnheiður.
Jóhanna Kristín Petronella, f. 8. apríl 1818, d. 20. okt. 1894, átti Pál hreppstjóra á Reykhólum, Guðmundsson. Dætur þeirra voru: Þórey, átti Bjarna Þórðarson á Reykhólum, Margrét, átti Jósías Bjarnason í Haga.
Jón, f. á Reykhólum 5. okt. 1819, d. á Leirá 8. mars 1868, sýslumaður í Barðastrandar- og Borgarfjarðarsýslu, skáld og rithöfundur.
um 1815-1823
Bjarni Bjarnason verzlunarstjóri. Bóndi á Vatneyri um 1815-1823. F. að Miðgörðum í Kolbeinsstaðahreppi um 1773. Drukknaði í Arnarfirði ásamt tveimur öðrum mönnum 14. des. 1826.
K. (eftir 1817), Guðrún, f. um 1794 Guðmundsdóttir bónda á Auðkúlu í Arnarfirði Arasonar. Guðrún er dáin fyrir 1862. Hún átti síðar (9. sept. 1828) séra Jón Ásgeirsson á Álftamýri. Börn Bjarna og Guðrúnar voru:
Jóhanna, f. á Auðkúlu 18. apríl 1825.
Kristján, f. 27. júlí 1827.
Bjarni fluttist frá Vatneyri að Auðkúlu (1823) og bjó þar.
Árið 1817 fæddist sonur Guðrúnar Guðmundsdóttur og Daða Jónssonar, sem þá var kvæntur og aðstoðarprestur föður síns, séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal:
Benóný, f. 14. mars 1817, bjó í Meðaldal í Dýrafirði, átti (20. okt. 1846) Guðnýju Halldórsdóttur bónda í Miðdal Jónssonar.
1823-1839
1. Christian Michael Steenbach kaupmaður, kaupmaður og bóndi á Vatneyri 1823-1839 og 1855-1865. F. um 1800 á Flateyri. Fluttist að Vatneyri 1822. Fór þaðan til Stykkishólms 1839, kom þaðan aftur að Vatneyri 1855, en fór 1867 frá Vatneyri til Danmerkur.
K. Petra Dorothea Charlotte, f. um 1800. Börn þeirra:
Henrich Hencel, f. 2. maí 1823.
Anne Susanne Magdalene, f. 7. jan. 1826.
Susanne Charlotte Sophie, f. 11. jan. 1830 (í kjb. ritað Lovise, en Sophie síðar, í manntölum).
Ole Christian Steenbach, f. 19. apríl 1832.
Nicolaine Johanne Lovise, f. 10. nóv. 1836.
Faðir Steenbachs kaupmanns var Daníel Michelsen Steenbach verzlunarstjóri á Flateyri 1801, ekkjumaður 32 ára. Börn hans eru þá: Jóhanna María 5 ára og Christian Michael 2 ára. Bróðir Steenbachs á flateyri var Andreas Steenbach verzlunarstjóri á Þingeyri. Þeir voru af Þýskri aðalsætt, en faðir þeirra hafði flutzt til Noregs og þaðan komu þeir bræður hingað.
2. Nicolaj Knudtzen. F. um 1810, d. á Vatneyri 12. jan. 1840. Hann kom til Vatneyrar frá Reykjavík 1837.
K. 1838, Anna Margrete, f. í Reykjavík 1815, dóttir Lauritz Knudsens kaupmanns þar og k.h. Margrete Andrea, f. Hölter (frá Stykkishólmi). Sonur þeirra var:
Peter Christian, f. á Vatneyri 13. apríl 1839.
1840-1847
William Thomsen, kaupmaður og bóndi á Vatneyri 1840-1847 og 1852-1853. F. um 1819 í Haderslev, d. á Vatneyri 22. júní 1853. Hann kom til Vatneyrar frá Holsten 1839 og var þar fyrst í 8 ár, fluttist þá burt (líklega til Danmerkur) en kom aftur 1852, er Þorsteinn Thorsteinsson fór frá Vatneyri að Geirseyri. Hann lifði eftir það aðeins í 1 ár og síðan var ekkja hans á Vatneyri í 2 ár. Árið 1854 er hjá henni verzlunarmaður að nafni O. W. Simonsen, 26 ára að aldri.
K. 16. okt. 1840, Anne Margrete ekkja Knudtzens kaupmanns. Þau eignuðust a.m.k. 7 börn, en þau voru:
Jess Nicolaj, f. 1840.
Thomas Jedorsky, f. 1841.
Laura Williamine Margrete, f. 1842.
William, f. 1845.
Nicoline Henriette Chatarine, f. 1847.
A. M., f. 1849.
A. J., 1850.
Verzlunarmaður hjá Thomsen var Lauritz Knudsen bróðir kaupmannskonunnar (sjá Geirseyri).
1847-1852
Þorsteinn eldri Thorsteinsson. Verzlunarstjóri og bóndi á Vatneyri 1847-1852. Bóndi á Geirseyri 1851-1855. Hafði Geirseyri með Vatneyri 1851-1852. Verzlunarstjóri í Ólafsvík 1845, fluttist þaðan til Vatneyriar. Verzlunarstjóri á Þingeyri 1855-1861 (líklega). Síðan bóndi í Æðey til dauðadags. F. í Tröð í Álftafirði 1817, d. 7. des. 1864 (drukknaði í hákarlalegu frá Æðey). Foreldrar: Séra Þorsteinn, f. 24. júní 1791, d. 20. febr. 1840 Þórðarson, seinast prestur í Gufudal (áður Stað á Snæfjallaströnd) og k.h. Rannveig, f. 16. maí 1789, d. 14. ágúst 1843 Sveinsdóttir á Kirkjubóli í Skutulsfirði, Sigurðssonar.
K. Hildur, f. 1818, d. 27. nóv. 1889 Guðmundsdóttur Schevings sýslumanns síðar kaupmanns í Flatey, Bjarnasonar sýslumanns Einarssonar bónda á Vatneyri og víðar, Bjarnasonar. Börn þeirra:
Guðmundur, f. í Ólafsvík 1844, d. 1. maí 1846.
Ole Theodór, f. á Vatneyri 6. maí 1847, dó í sama mán.
Bjarni, f. á Vatneyri 20. ágúst 1848, d. 27. sama mán.
Karl Kristján Lárus, f. 10. jan. 1850, d. 22. sama mán.
Sophie Amalie, f. 15. maí 1851, kona Richters kaupmanns í Stykkishólmi.
Guðmundur Scheving, f. á Geirseyri 4. des. 1852, verzlunarmaður.
Davíð Scheving, f. á Þingeyri 5. okt. 1855, læknir.
Þorsteinn, f. 26. des. 1856, (Th. Thorsteinsson) kaupmaður í Reykjavík.
Sonur Þorsteins og Höllu Guðmundsdóttur var:
Pétur Jens Thorsteinsson, f. í Otradal 6. júní 1854, d. í Hafnarfirði 27. júlí 1929, kaupmaður á Bíldudal. Faðir hans var upphaflega skrifaður Ólafur (rétt Óli) Halldórsson bóndi í Kollsvík, Einarssonar. Óli fór um þetta leyti af landi burt, kvæntist í Þýskalandi og var búsettur þar (barnlaus).
1865-1868
Þorsteinn yngri Thorsteinsson. Verzlunarstjóri og bóndi á Vatneyri 1865-1868. Hann hefur a.m.k. verið verzlunarstjóri seinasta árið, með því að Steenbach kaumanns fór af landi burt 1867. En Þorsteinn er skrifaður ábúandi á jörðinni þessi ár í bókum sýslumanns. Verzlunarhús og vörur brunnu árið 1868. Fluttist Þorsteinn þá frá Vatneyri. Hann var síðar bakari og kaupmaður á Ísafirði. F. á Snæfjöllum 9. jan. 1835. Albróðir Þorsteins, er bæði var á Vatneyri og Geirseyri og nefndur hér að framan.
K. 12. febr. 1863, Amalie, d. 22. júní 1914 Villadsen, f. Löve (dönsk að ætt). Börn þeirra:
Einar Hjálmar, f. á Ísafirði 1868, drukknaði ókv. 1895.
Berta Ingibjörg, f. í Danmörku um 1866, átti Sigfús kaupmann Bjarnason.
Anna Emilía, f. 1873.
Launsonur Þorsteins áður en hann kvæntist (með Þóru Gunnlaugsdóttur frá Hlíð í Álftafirði):
Jón fór til Vesturheims 1887.
Þorsteinn fór utan 17. nóv. 1888 og hefur aldrei spurst til skips þess, er hann fór á. Ekki verður séð að Þorsteinn og því síður kona hans eða börn, séu á manntali vestra þau ár, sem hann óefað hefur þó verið á Vatneyri.
1868
Friðrika María Ásgeirsen. Hún virðist hafa tekið við búinu á Vatneyri, þegar Þorsteinn Thorsteinsson fór. En hún dó sama ár 22. júní 1868, f. á Þingeyri 20. nóv. 1809. Foreldrar: Andreas, f. um 1775 Steenbach verzlunarstjóri á Þingeyri 1801 og k.h. Elene Steenbach.
M. Magnús, d. í Kaupmannahöfn 7. okt. 1849, þá búsettur í Hafnarfirði, verslunarstjóri í Ólafsvík 1840, Ásgeirsson prests í Holti í Önundarfirði Jónssonar. Magnús var við verzlunarstörf á Þingeyri, í Ólafsvík og í Hanarfirði. Börn þeirra:
Andría, sjá hér á eftir.
Haraldur, f. í Ólafsvík 1838, síðar á Ísafirði.
Andrés Vilhelm, f. í Ólafsvík 1845.
Rúðólfur Friðrik, f. í Ólafsvík 1845.
Árið 1855 verður Friðrika ráðskona Steenbachs kaupmanns á Vatneyri og er þar síðan til æviloka. Þau Steenbach kaupmaður og Friðrika voru bræðrabörn. Önnur dóttir Steenbachs á Þingeyri var Kristensa Benedikta kona Árna sýslumanns Thorsteinssonar í Krossanesi í Eyrarsveit.
Eftir að Friðrika Ásgeirsen varð ekkja átti hún dóttur:
Málfríður, f. í Krossanesi 18. sept. 1851. Hún giftist Möller lyfsala í Stykkishólmi. Faðir Málfríðar hét Jón Brandsson.
Við manntal í árslok 1851 er Friðrika í Krossanesi með Málfríði og Rúðólf son sinn og Magnúsar Ásgeirssonar.
1868-1870
Andría María Magnúsdóttir, fyrrnefnd. Hún var dóttir fyrrnefndrar Friðriku og Magnúsar Ásgeirssonar. Hún er skrifuð fyrir búinu á Vatneyri við manntal snemma árs 1869 (dánarbú móður hennar). Annað hvort hefur hún búið aðeins til næsta vors eða til vors 1870, en þá hafa þeir Sigurður Bachmann og Tostrup líklega tekið búið og haft það í félagi eins og verzlunina, sem þeir höfðu haft í félagi frá 1868. Hún verður því að teljast búandi 1868-1869 og líklega til 1870. Árið 1871 tók Sigurður Bachmann jörðina einn, Tostrup fluttist þá frá Vatneyri.
Andría var f. í Ólafsvík 1834, fluttist að Vatneyri með móður sinni og var þar til 1873, en þá fluttist hún til Ísafjarðar og mun hafa verið þar hjá Haraldi bróður sínum. Hún var ógift, en var heitbundin frönskum skipstjóra, sem drukknaði, og átti með honum dóttur:
Jósefína Andrea Druel (Jósepsdóttir), f. á Vatneyri 25. mars 1860, dó 15 ára gömul, eða þ.u.b. Faðir hennar hét Joseph Druel.
Föðurbróðir Jóefínu hafði jafnan komið til þeirra mæðgna á Vatneyri og fært þeim gjafir.
1867-1870
Th. Thorsteinsson, yngri bróðir fyrrnefnds Þorsteins Thorsteinssonar mun hafa verið verzlunarstjóri á Vatneyri eftir að Steenbach fluttist þaðan 1867 og til 1868, en virðist þó samkvæmt þingbók, að hann hafi tekið við af Steenbach 1865 og haft bæði búið og verzlunina. Þegar hann fór, virðist Friðrika hafa tekið við búinu, en Tostrup og S. Bachmann tekið verzlunina. Chr. Tostrup var ókv., f. á Sjálandi um 1844. Hann flytur til 1871. Frá 1870 hefur S. Bachmann tekið jörðina og líklega haft hana fyrsta árið í félagi við eða móti Tostrup, en við henni allri hefur hann tekið 1871.
Árið 1869 kemur María, sem síðar varð kona Sigurðar Bachmanns, vinnukona úr Tálknafirði að Vatneyri og er talin ráðskona hjá Tostrup 1. okt. 1870.
1869-1905
Sigurður Benediktsson Bachmann kaupmaður. Bóndi á Vatneyri 1869-1905. F. í Melkoti í Leirársveit 8. mars 1842, d. á Vatneyri 12. mars 1925. Foreldrar: Benedikt Bachmann bóndi í Melkoti Jónssona (prests í Klausturhólum, d. 1845, Hallgrímssonar læknis Bachmanns) og k.h. Málfríðar Pétursdóttur bónda á Hvítanesi Jónssonar.
K. I 10. sept. 1877, María Guðbjörg, f. í Villingadal í Önundarfirði 9. okt. 1845, d. á Vatneyri 20. sept. 1883 Eiríksdóttir bónda í Álfadal á Ingjaldssandi og víðar, Guðmundssonar og k.h. Þórdísar Þorsteinsdóttur síðast prests í Gufudal Þórðarsonar. Börn þeirra, öll fædd á Vatneyri:
Marta Guðrún, f. 2. des. 1875, d. 21. febr. 1936, kona Jóns Þorvaldssonar læknis, þau bl.
Sigríður Ásta, f. 18. nóv. 1876, kona Jóns símstöðvarstjóra á Patreksfirði Markússonar kaupmanns s.st. Snæbjörnssonar. Eignuðust 11 börn.
Ingileif Þórunn, f. 12. des. 1877, d. í Hafnarfirði 12. maí 1951, kona Ólafs Böðvarssonar kaupmanns. Þau bl.
Málfríður Helga, f. 1. jan. 1879, d. í Reykjavík 19??, kona Lárusar Lárussonar verzlunarmanns, síðast gjaldkera Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Eignuðust 3 börn.
Hallgrímur Jón, f. 2. nóv. 1880, d. á Vifilsstöðum 1911, ókv. og bl.
María Guðbjörg, f. 4. sept. 1883, d. í Reykjavík 19??, kona Hallgríms Jónssonar heildsala. Eignuðust 1 dóttur.
K. II 19. nóv. 1885, Jóhanna, f. í Saurbæ á Rauðasandi 1. júní 1850, d. á Patreksfirði 20. febr. 1925 Eggertsdóttir bónda í Bæ Eggertssonar og k.h. Guðrúnar Gísladóttur bónda í Bæ á Selströnd Sigurðssonar. Börn þeirra:
andvana sveinbarn, f. 1886.
Eggert Magnús, f. 6. febr. 1890, verzlunarmaður, síðar bankastarfsmaður í Reykjavík, kvæntur Önnu Böðvarsdóttur. Eignuðust 1 son.
1899-1900
Einar Magnússon veitingamaður og bókbindari á Vatneyri. Bóndi á nokkrum hluta Vatneyrar 1899-1900. F. líklega á Svínanesi í Múlasókn 1851, d. á Vatneyri 14. jan. 1933. Foreldrar: Magnús Magnússon bóndi í Raknadal og k.h. Helga Einarsdóttir.
K. I 6. nóv. 1883, Guðbjörg Eiríksdóttir alsystir Maríu f.k. Sigurðar kaupmanns Bachmanns. Þau bl.
K. II 6. nóv. 1894, Steinunn, d. 2. mars 1923 Jónsdóttir bónda í Djúpadal í Gufudalssveit Jónssonar (alsystir Björns ráðherra). Þau bl.
1905-1935
Ólafur Bjarni Jóhannesson verzlunarstjóri síðar kaupmaður á Vatneyri. Bóndi á allri jörðinni 1905-1935. F. 8. nóv. 1867, d. 2. febr. 1936. Foreldrar: Jóhannes dbrm. Þorgrímssona á Sveinseyri í Tálknafirði og 3. k.h. Kristín Bjarnadóttir á Sveinseyri, Ingimundarsonar. Stundaði nám í Latínuskólanum í Reykjavík, en hætti í 4. bekk. Lagði um hríð stund á lyfjafræði í Kaupmannahöfn. Var athafnamaður mikill við sjávarútveg.
K. 9. ágúst 1895, Aurora, f. í Stykkishólmi 14. okt. 1874, d. á Vatneyri 1954 Gunnarsdóttir Bachmanns Melkjörssonar (Eggertssonar prest í Stafholti Bjarnasonar) og k.h. (Maríu) Guðrúnu Jónsdóttur. Börn þeirra:
Gunnar Bachmann, f. 18. jan. 1896, d. 3.júní 1956. Verslunarstjóri.
Kristinn, f. 18. febr. 1897, d. 19. des. 1932, kvæntur Jóhönnu, f. á Hellissandi 8. des. 1895, Lárusdóttur Lárussonar og f.k.h.
Garðar, f. 27. okt. 1900, d. 14.janúar 1970. Útgerðarmaður og framkvæmdastjóri á Patreksfirði og Akranesi; kvæntur Láru Proppe.
andvana sveinbarn, f. 1903
Friðþjófur, f. 28. des. 1905, d. 25.12.1971. Kaupmaður og forstjóri á Patreksfirði; kvæntur þýskri konu.
Þó langt sé liðið síðan búskapur var uppistaða byggðar á Eyrum hefur hann aldrei lagst alveg af. Áhugasamir fjáreigendur hafa haft aðstöðu í fjárhúsum yst í plássinu og fengið hagagöngu innar í firðinum.