Hér er velt upp ýmsum þáttum mannlífs og samfélags, fyrr og síðar.  Efnið kemur úr ýmsum áttum; mestmegnis frá Kollsvíkingum sem hér miðla sinni þekkingu og reynslu til síðari kynslóða.  Kaflarnir Útilegumenn, Gálgasteinar og Örlagastaðir byggja á söfnun Valdimars Össurarsonar úr ýmsum heimildum; m.a. örnefnaskrám jarða í Rauðasandshreppi.  

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti).
Mannskaðinn 1857  Frásögn Sturlu Einarssonar af þessum mannskæðu náttúruhamförum.
Leikir og leikföng  Lýsingar Sigríðar Guðbjartsdóttur af leikjum barna fyrr á tíð.
Tóbakshættir  Hér segir Sigríður frá tóbakskörlum og reykingafólki.
Vesturfarar  Sigríður fjallar hér nokkuð um fólkið sem flutti vestur um haf.
Gælunöfn   Gælunöfn og stuttheiti fólks voru og eru vinsæl.  Sigríður segir frá.
Útilegumenn og ræningjar Safn sagna um slíkt fólk í Rauðasandshreppi.
Gálgasteinar  Á nokkrum stöðum í hreppnum eru gálgasteinar.  
Örlagastaðir  Sagnir um mannleg örlög sem tengjast ýmsum stöðum í hreppnum.

 

Mannskaðinn í Kollsvík 1857

sg kollsvik gamlibaer

Eftirfarandi frásögn er skráð af Össuri Guðbjartssyni eftir lýsingu Sturlu Einarssonar, sem var sjónarvottur, og Guðbjartar Guðbjartssonar föður síns, sem kunnugur var fólki sem þarna átti um sárt að binda.  Össur segir:

Það mun hafa verið 3. desember 1857 sem atburður sá gerðist er hér verður frá sagt.  Honum er hér lýst af sjónarvotti er greinir allar aðstæður og atburðinn í heild, eins og hann var.  Þessi sjónarvottur var, eins og undirskriftin ber með sér; Sturla Einarsson frá Brekkuvelli á Barðaströnd, sem þá er þetta gerðist var við smíðar í Kollsvík.  Frásögn hans er hér látin halda sér orðrétt, en hún er enn til; skrifuð af honum sjálfum. 

 Myndin er af hellumálverki Sigríðar Guðbjartsdóttur Láganúpi, af Kollsvíkurbæ sem líklega var að mestu byggður eftir að þeir atburðir gerðust sem hér er lýst.

 „Staddur í Kollsvík, að mig minnir 1855 eða -6.  Ég var nýbyrjaður að smíða innanum stofuhús, er átti að verða.  Það stóð fremst af húsum, og var gengið í endann á því úr göngum beint á móti eldhúsdyrunum.  Búið var að leggja loftið í það.  Þetta var fyrir jólaföstu og var nú fimmtudagsmorgun, en heilan sólarhring áður var að hlaða niður fönn í blæjalogni, svo ekki varð komist um jörðina fyrir djúpfenni.  Átta manneskjur voru í baðstofunni, en annað fólk í fjósi og hlöðu og ég í þessu húsi með ljós.  Var þá kominn austnorðan garður með frosti.  Það voru kistur meðfram langveggnum, sem ég stóð upp á og var að negla lista kringum opið neðanundir loftinu. 

Heyrði ég þá skruðning upp yfir mér.  Það var hellurefti á húsinu.  Það hljóp í mig kjöllur og ég hljóp eftir kistunum að gaflinum.  Sá ég þar út og í dauðans ofboði þrengdi ég mér í glufuna.  Þegar ég var kominn með höfuðið út fann ég að ég var að festast, en með Guðs aðstoð gat ég brotist út.  Ég ætlaði að leita hælis í bænum og kasta mæði, en þegar ég kom í bæjardyrnar sá ég vegsummerkin.  Var þá snjórinn langt fram í göngum.

Ég fór samt í eldhúsdyrnar að kasta mæði, en litlu seinna heyrði ég Halldóru gömlu (Tómasdóttur) vera að kalla á mig innan frá.  Fór ég þá innar í bæinn.  Hafði Halldóra verið í búrinu að matbúa þegar þetta skeði.  Ekki stóð uppi af baðstofunni nema sláin yfir standþilinu fyrir framan búrið.  Hafði loftið í búrinu sporðreist ofan á ílát við gaflinn, og var hún þar undir.  Reif ég þá frá þilinu að ofanverðu til að brjóta það með hennar hjálp að innan; þá gat ég komið henni út.  Kom þá Bjarni Bjarnason yngri, barnakennari, til mín.  Hafði hann einn komist út úr baðstofunni þegar hún féll.  Hann sat þá á stól undir efri hliðinni.  Hann sagði að það hefði opnast með upsinni og hann komist þar út. 

Það féll í slétt yfir allt í veðurofsanum og moldinni.  Bað þá Halldóra okkur að leita eftir Magdalenu, því að hún vissi hvar hún sat á rúmi uppi yfir búrinu áður en þetta skeði.  Við fórum að reyna að grafa þar niður, berhöfðaðir og berhentir, en jafnóðum fylltist þó allt.  Á endanum gátum við komist að, þar sem hún var.  Lá hún upp í loft og lá langband yfir brjóstið á henni, fyrir ofan þykktina því hún ól barnið skömmu eftir nýárið.  Mátti ekki seinna vera að bjarga lífi hennar.

Var nú árangurslaust að leita, því að einlægt dreif slétt yfir, meir og meir, af veðrinu og moldinni; svo að ekki varð meira aðhafst þann dag.  Ekki voru aðrir menn þarna (til leitarinnar) en við tveir að berjast úti.  Guðbjartur (húsbóndinn) var út á Látrum. 

Á föstudagsmorgun var (veðrið) vægara og moldarminna.  Voru þá fengnir menn af hinum bæjunum (í Kollsvíkinni, til að leita í rústunum).  Fundust þá systkinin þrjú; Gísli, Guðrún og Dagbjartur, og var mest af Dagbjarti dregið.  Varð að bera hann (inn).  Gísli var orðinn hálf stirðnaður upp að mitti.  Var hann fastur milli viða, svo að það smá dró af honum.  En aftur á móti réttist Dagbjartur heldur við.  Var Gísli dáinn fyrir kvöld.  Ekki fannst fleira þann dag. 

Vantaði nú þrjár manneskjur; Ingibjörgu, konu Bjarna eldra; móður Bjarna yngra (Bjarnasonar barnakennara sem fyrr getur), og tvö börn; fósturdóttur Halldóru gömlu (Tómasdóttur, Þuríði Einarsdóttur) á áttunda ári, og Halldóru, dóttur Guðbjartar, á þriðja ári.  Voru þau í rúmi um þveragafl yfir búrinu, en þar var skaflinn kominn upp á gaflhlað.  Hugðu allir þær manneskjur liðnar. 

Guðbjartur kom þá heim um kvöldið.  En á laugardaginn var sent inn á Bæi (þ.e. Hænuvík) til þess að fá menn til að hjálpa, og komu þeir á sunnudagsmorgun.  Þá var gott veður, og þegar hafist handa að grafa eftir börnunum.  Komumst við að rúminu, og var það heilt og óbrotið, en sigið ofan með gaflinum sporðreista, sem fyrr um getur.  Það voru tvö rúm á loftinu; þvertum, og hátt þil á milli rúmanna.  Lágu þar viðir á, og var holt yfir rúminu.  Þar voru bæði börnin; vel lifandi og ósködduð, utan yngra barnið var með hendina útundan (ábreiðunni eða sænginni) og af því missti hún af litla fingrinum.  Nú vantaði Ingibjörgu, og á endanum fannst hún undir fönninni sem hafði þeyst fram í göngin í fyrstu.  Auðséð var að hún hafði kafnað strax.

Það var hár galti við baðstofugaflinn.  Hann var sem skorinn í sundur um miðjar hliðar, og stóð eftir stúfurinn að neðan.  Þessi kraftur fór þvert með vind(átt); það sást á brakinu úr húsunum, sem hafði fokið allt að 200 faðma frá bænum.  Þegar þetta skeði var Bjarni eldri á leiðinni úr hlöðunni heim að bænum og gekk við skákreku.  Sagði hann okkur síðar frá því að þegar hann kom í miðja lágina, þar sem mest var fönnin, sýndist honum bregða sorta yfir.  Og í sama vetfangi fór hann á kaf í fönnina og missti rekuna.  Fannst hún ekki fyrr en upp leysti, og var þá niðri á Undirtúni (ca 200 faðma frá þeim stað sem Bjarni missti hana) í sömu stefnu og hitt brakið.

Þrem dögum eftir (slysið) fann ég hamarinn sem ég var að keyra naglann með þegar þetta skeði; inn í eldhúsdyrum.  Hafði ég haft hann í hendinni er ég var að bjótast út, og ber ég þess menjar á sjálfum mér ennþá þegar ég kem við knýtt beinin í brjóstinu á mér vinstra megin.  Þegar ég var búinn að smíða um manneskjurnar (sem dóu í slysinu) komst ég með naumindum heim til mín og lagðist (í rúmið).  Þetta er mér allt í fersku minni, sem það hefði gerst í gær".

Össur Guðbjartsson bætir síðan við þessa frásögn:
"Framangreint er ritað af Sturla Einarssyni sem staddur var í Kollsvík við smíðar þegar þetta gerðist.  Heimilisfólk í Kollsvík, það er hér getur um að einhverju leiti, var sem hér segir:

Guðbjartur Ólafsson, húsbóndi
Magdalena Halldórsdóttir, kona hans
Halldóra Guðbjartsdóttir, barn þeirra hjóna
Halldóra Tómasdóttir, móðir Magdalenu
Þuríður Eiríksdóttir, fósturdóttir Halldóru Tómasdóttur, þá á 8. ári
Bjarni Bjarnason yngri, barnakennari
Bjarni Bjarnason eldri, faðir Bjarna Bjarnasonar yngri
Ingibjörg Bjarnadóttir, kona hans; dó í rústunum
Gísli Gíslason, piltur um tvítugt, dó einnig í rústunum
Guðrún Gísladóttir, systir Gísla. 

Svo sem um getur í frásögn Sturlu voru tveir og hálfur sólarhringur liðnir frá því bærinn hrundi og þangað til búið var að finna allt fólkið.  Á þessum tíma kólu þrír fingur af vinstri hendi Halldóru Guðbjartsdóttur, sem þá var á þriðja ári.  Einnig kólu fjórir fingur að mestu af Guðrúnu.  Heimildarmaður minn að því sem hér er sagt, auk frá sagnar Sturlu, er faðir minn Guðbjartur Guðbjartsson". (ÖG)

Sturla Einarsson var af Kollsvíkurætt; barnabarn Einars Jónssonar sem ættin er rakin frá; sonur Einars Einarssonar bónda á Hnjóti.  Í bókinni „Kollsvíkurætt“ lýsir Trausti Einarsson Sturlu svo:  „Hann var fæddur á Hnjóti 4. mars 1830; dáinn á Brekkuvelli 22. apr. 1922.  Bóndi í Vatnsdal 1852-1870.  Stundaði smíðar jafnframt búskapnum; bæði húsa- og skipasmíðar.  Meðal annars endursmíðaði hann hákarlaskipið Fönix (eldra Fönix) í Kollsvík.  Fönix var sexæringur en Sturla stækkaði hann nokkuð.  Eftir að hann hætti búskap í Vatnsdal mun hann aðallega hafa fengist við smíðar.  Hann var að smíða stofuhús í Kollsvík þegar bærinn hrundi þar 3. des. 1857, og meiddist nokkuð á brjósti.  Kona Sturlu var Hólmfríður Jónasdóttir“.  Sturla eignaðist 6 börn og frá honum er allmikill ættleggur kominn. 

Össur Guðbjartsson ritaði upp frásögn Sturlu og gerði viðbætur til skýringa.  Handrit Sturlu er varðveitt á Láganúpi.  Össur var einnig af Kollsvíkurætt og var, líkt og faðir hans,  ævilangt bóndi á Láganúpi; fæddur að Grund í Kollsvík 19. febrúar 1927 og lést 30. apríl 1999.  Össur var um margra ára skeið kennari í Rauðasandshreppi; hreppsnefndarmaður og oddviti, auk fjölda annarra trúnaðarstarfa, s.s. fulltrúi á búnaðarþingum og í Stéttarsambandi bænda.  Össuri var hugleikin varðveisla menningar fyrri tíma, og beitti sér m.a. fyrir því að stofnað yrði héraðsskjalasafn á svæðinu.

Atburður sá sem hér er lýst hefur að vonum orðið Kollsvíkingum minnisstæður æ síðan.  Ýmsu hefur verið velt upp um eðli þessara hamfara, og á tímabili var talið að þarna hefði skýstrokkur verið á ferð, eða að hlaðist hefðu þau ókjör af snjó á bæjarþökin að þau hafi gefið sig, með myndun mikillar þrýstibylgju. 

Í ljósi nútíma veðurfræði og reynslu síðari tíma, má með nokkurri vissu álykta að þarna hafi fallið snjóflóð úr Núpnum; af þeirri gerð sem nefnd er „kófhlaup“.  Þá ályktun má m.a. draga af því að laust fyrir aldamótin 2000, þegar Hilmar bróðir minn var bóndi í Kollsvík, kom snjóflóð niður á nákvæmlega sama stað; yfir tóftirnar á Bæjarhólnum þar sem bærinn stóð þegar atburðirnir gerðust.  Af hinni nákvæmu lýsingu Sturlu má sjá ýmis einkenni slíks hlaups.  „Heilan sólarhring áður var að hlaða niður fönn í blæjalogni, svo ekki varð komist um jörðina fyrir djúpfenni“ segir Sturla.  Daginn sem flóðið féll gerði „austnorðan garð með frosti“.  Við þá veðurstöðu kembir snjó sunnantil í Núpsbrúnina; beint yfir Bæjarhólnum og frostið sér um að festa snjóinn í gríðarmikla hengju. Þegar þyngslin verða yfirsterkari brunar þessi mikli massi niður Núpshlíðina á ógnarhraða; ofaná loftpúða.  Sturla heyrir „skruðning yfir sér“; Bjarni eldri „sá sorta bregða yfir“ og flóðið þeytir skáreku úr hendi hans 200 faðma niðu á Undirtún“í sömu stefnu og hitt brakið“.  Flóðið fer „þvert á vindátt“, en vind hefur þá lagt niðurmeð Vegghömrum og norðurmeð Urðunum.  Flóðið kubbar í sundur hey sem stendur við baðstofugaflinn.  Öll ummerki í rústunum líkjast því sem nú er þekkt eftir snjóflóð.  Þrýstingurinn sprengir bæinn; snjófargið þéttist þegar loftið fer úr og örðugt reynist að grafa í  gegnum það.

Í ljósi þeirra ógnarkrafta sem hér voru á ferð, og síðari reynslu af snjóflóðum, má teljast mesta mildi að manntjón skyldi ekki verða meira í Kollsvík þennan dag.  Merkilegt er og að ekki skuli finnast sagnir af mannskaða á þessum stað frá fyrri tímum, en þarna hefur Kollsvíkurbærinn líklega staðið frá landnámstíð.  Íbúðarhús var byggt nokkru neðar árið 1918, en þar er ekki hætta á snjóflóði úr Núpnum. (VÖ).

Þjóðsaga verður til

Sögusagnir og getgátur eru jafnan fylgifiskur stóratburða, og atburðirnir í Kollsvík eru glöggt dæmi um það hvernig lífseigar þjóðsögur skapast á undraverðum hraða. Eftirfarandi saga er skráð í Vestfirskum sögnum, útg. 1949, og er byggð á frásögn Gísla Konráðssonar:

„Í byrjun desembermánaðar 1857 bar svo til í Kollsvík vestan Patreksfjarðar, að hastarlegur veðurhvinur heyrðist í fjallshyrnunni fyrir utan og ofan bæinn í Kollsvík, og í sömu andrá skall svo mikill veðurofsi á bæjarhúsunum að hann braut þau svo og kurlaði að varla fannst þar eftir nokkur spýta, sem væri alin eða lengri. Heyi miklu hafði um sumarið verið hlaðið upp nálægt fjósi. Það þverkubbaðist sem hnífskorið væri. Í rústunum var allt samblandað; snjórinn, heyið, viðarbrotin, moldin og grjótið. Fjósið, hlaða og önnur útihús stóðu ósködduð.

Gift kona og eitt barn dóu strax undir rústunum, en þrennt af heimilisfólkinu náðist brátt á eftir, mikið meitt og varð að liggja alllengi. Eitt barnið náðist á fjórða degi úr rústunum og annað barn á sjötta degi. Þau voru bæði lifandi og ósködduð, nema annað barnið var kalið á hendinni.

Allgott veður var í Kollsvík umræddan dag; fyrir og eftir gerningaveður þetta, sem kennt var fítonsanda einum eða fleirum sem sendur var bóndanum í Kollsvík frá manni sem bóndi átti brösótt við. Hófust deilur þeirra á milli út af aflabrögðum á vorvertíð umrætt ár, og hótaði sá er fyrir barði varð að senda bónda sendingu er jafnaði metin milli þeirra“.

Orðið „fítonsandi“ er þannig skilgreint í Orðasjóði Kollsvíkinga: „Kröftug sending galdramanns til að gera óvini hans skaða. Forskeytið „Fítón“ á uppruna sinn í grísku goðafræðinni. Borgin Delfí nefndist áður Pýþó, og töldu forngrikkir hana miðju veraldar. Þar kom gufa upp úr holu, en nærri henni á að hafa hafst við gríðarstór eiturslanga (pýðonslanga) sem guðinn Appolló drap. Þar var síðan byggt Appollóhof mikið, en í því var svonefnd véfrétt; hofgyðja sem gat fallið í trans yfir gufuholunni og sagði þá spádóma um ókomna tíð. Fítónsandi merkir því upphaflega spádóm, en hefur í íslensku máli þróast í kraftmikla galdrasendingu. Heitið „fítonskraftur“ er notað sem líking um mikla eljusemi/starfsorku“. (VÖ).

Leikir og leikföng

sg sg

Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 2000.

Heima á Lambavatni voru ekki rúmgóð húsakynni miðað við nútímann. Þar var bær úr grjóti og torfi í þrem veggjum en framhlið steypt ásamt inngangi (bíslagi). Niðri var eldhús, búr, stofa og lítið herbergi. En uppi var baðstofa nokkuð rúmgóð, óhólfuð sundur og þar lékum við okkur í mömmuleik ef ég fékk stelpu í heimsókn en bræður mínir höfðu skömm á slíkum leikjum! Svo vorum við í smíðaskemmunni hans pabba eða strákarnir voru í smiðjunni að sniglast hjá honum. Heldur hindraði eldra fólkið okkur í draugasögufrásögnum þar sem liðið átti þá til að verða myrkfælið. Ekki hafði ég áhuga á manntafli en við tefldum mikið Refskák og Myllu og líka Lúdó. Ég var orðin nokkuð stálpuð þegar sjóorustan komst í gang heima en var mjög vinsæl. Frúin í Hamborg var nokkuð iðkuð, líka gátur og kveðist á. Fyrir kom að sum reyndu sig í vísnagerð. Hlutverkaleikir voru nokkuð leiknir og líka voru hlöður notaðar til leikja, helst í rigningu að vorinu þegar þær tæmdust af heyi. Þá voru gjarnan settar upp rólur á loftbita því þar var hærra til lofts og víðara til veggja en annarsstaðar undir þaki.

Svo var einn staður vinsæll til leikja og það var svokölluð„spýtnahrúga“. Reki var talsverður á Lambavatni og trjáviður var fluttur upp á svokallaða Rima en þar var nokkuð hærra landið sem er annars mjög flatt upp á bæjunum. Þessu var raðað upp eftir reglum því ekki mátti timbrið liggja í jörðinni því þá fúnaði það, því voru tekin stór en ormétin tré sem töldust ónýt til annars og raðað upp með millibili. Svo var nýtilega timbrinu raðað ofan á þannig að það lægi ekki saman en myndaðist grindverk. Þetta var vandaverk því auk þess að forðast fúann þurfti að hlaða þannig að þetta færi ekki í veður, en þarna getur hvesst mjög. Þarna var hið besta leiksvæði að okkar dómi inni í grindverkinu og mátti nota smáfjalir sem þarna urðu útundan við hleðsluna til að betrumbæta gisin húsakynnin.

Hringdansar voru nokkuð iðkaðir en þá helst ef fólk kom saman í samkomuhúsinu okkar á Sandinum. Bæði börn og fullorðnir tóku þátt í þeim. Þar skal fyrst telja Vefaradansinn en hann var mikið dansaður á Rauðasandi en, þó merkilegt sé; hvergi annarsstaðar í sveitinni eða nálægum sveitum.

Ég set hér til gamans nokkra texta sem ég man eftir við hringdansa sem voru iðkaðir hér í sveit fram á sjötta ártuginn.

1.

Mærin fer í dansinn

og fótinn létt og lipurt ber

að leita sér að pilti

sem laglegastur er

/Og hann er hér og hann er hér/

en loksins var það þessi

sem laglegastur er.

2.

Í heiðardalnum er heimbyggð mín

þar hef ég lifað glaðar stundir.

Og hvergi vorsólin heitar skín

en hamrafjöllunum undir.

Og fólkið þar er svo frjálst og hraust

og falslaust viðmót þess og ástin traust.

/Já þar er glatt, það segi ég satt

og sælt að eiga þar heima/

3.

/Meyjanna mesta yndi það er að eiga vin/

/Svo tek ég blítt í höndina á þér

og legg þig ljúft í faðminn á mér

að dansa við þig sérhvert sinn

það saklaus skemmtun er/

4.

Ég lonníetturnar lét á nefið

svo lesið gæti ég frá þér bréfið.

Ég las það oft og mér leiddist aldrei

og lifað gæti ég ei án þín

og lifað gæti ég ei án þín

/Tralalla lalla lalla ljúfa/

ég las það oft og mér leiddist aldrei

og lifað gæti ég ei án þín.

Það sem er milli skástrikanna (/) er endurtekið.

5.

/Ég úti gekk um aftan

í yndisfögrum lund./

/Þá mætti ég ungri meyju

á munablíðri stund, stund, stund/

/Hún hét mér trú og tryggðum

og tók mér blítt í hönd/

/Við knýttum, við knýttum

vor kærleikstryggðabönd, bönd, bönd/

/Og böndin sem við bundum

þau brýtur engin hönd/

/uns leiðið hið lága

fær leyst þau tryggðabönd, bönd, bönd/

6.

/Í bónorðssvifum ég fer af stað

hopp og hæja/

/þær sögðu ekki neitt og svo fór um það

hopp og hæja/

/Hamingjan veit hve ég hlakka til

hopp og hæja/

/Tek mér þá meyjuna sem ég vil

hopp og hæja/

/Pipar, negull og hó hó hó

hopp og hæja/

/Ég tek mína kellu og skoppa í skóg

hopp og hæja/.

Fleira man ég nú ekki, en auk þessa var dansaður Vefaradans sem reyndar var nú aðaldansinn. En ég er farin að gleyma miklu úr honum enda miklu lengri.

Svo var farið í „Fram, fram fylking“; „Í grænni lautu“; oft söng- og pantleikur. Svo var falinn hlutur og ýmislegt fleira. Úti var farið í Útilegumannaleik, Fallin spýta, Tófuleik, Kött og mús o.fl. að ógleymdum Kýlubolta sem ég hef mikið gleymt en rámar í að hafi verið svolítið skyldur hinum ameríska hafnarbolta. Þessir leikir voru leiknir mikið í frímínútum í skólanum en einnig kom krakkastóðið oft saman á sunnudögum til leikja.

Mikið var farið á skautum á Sandinum enda áveitur þar undir vatni á vetrum en snjólétt er þar og skíði lítið notuð. Í jólaboðum var mikið spilað; krakkarnir oft hálf tólf og spilað upp á þorskkvarnir.

Leikföng

Ekki voru stórar jólagjafir þegar ég var að alast upp á 4. og 5. áratug aldarinnar miðað við þau ódæmi sem nú viðgangast. Var þá aðallega um að ræða gjafir frá foreldrum til barna og kannske frá afa og ömmu eða náskyldum. Það er kannske ekki alveg rétt að segja að gjafirnar hafi ekki verið stórar, því í sumum tilfellum held ég jafnvel að þær hefðu sómt sér vel í dag þær gjafir sem ég fékk.  Þær voru kannske veglegri en hjá mörgum jafnöldrum mínum því hann pabbi minn var smiður og gjafirnar voru alltaf heimagerðar þar til við systkinin eltumst og fjárhagurinn á heimilinu rýmkaðist nokkuð. Þá fengum við bækur. Svo fengum við auðvitað föt en það var ekki talið til jólagjafa svo gjafirnar hennar mömmu voru kannske ekki taldar með, enda gefnar fyrir jólin til nota á jólum.

Ýmist var talað um leikföng eða dót; leikföng kannske spariorð en dót svona hvunndags. Oftar var talað um brúður en dúkkur, en þekktist þó hvort tveggja; dúkka þótti frekar sletta. Eldri börn gerðu oft ýmis leikföng fyrir yngri systkini sín og líka foreldrar. T.d. saumuðu mæður gjarnan tuskudúkkur fyrir dæturnar og nú tek ég eftir því sem ég hafði ekki hugsað út í fyrr að þá var oftar talað um dúkkur.

Svo voru gerðar flautur úr tvinnakeflum, rófubyssur úr fjöðurstöfum, helst úr álftafjöðrum. Stafurinn var skorinn af og endinn skorinn svo úr varð hólkur, svo voru sneiddar kartöflur (ekki rófur þó þetta héti rófubyssa!). Tálgaðir svokallaðir krassar, þ.e. smáprik með hnúð á enda sem passaði inn í hólkinn en hnúðurinn hélt við þegar krassanum var þrýst snöggt inn í legginn. En fyrst var byssan blásin með því að endum fjöðurstafsins var þrýst niður í kartöflusneiðina til skiptis svo kartöflutappar komu í báða enda. Svo var krassanum þrýst í annan endann og hljóp þá kartöfluskotið af. Væri krassinn mátulega langur sat annað skotið eftir í stafnum svo bara þurfti að hlaða aftur annan enda pípunnar fyrir næsta skot (Teikning).  Öðruvísi byssur voru einnig smíðaðar en það voru tvinnakefli sem gúmmíteygja var negld yfir annan endann. Síðan telgd ör sem stungin var gegnum keflið og síðan dregið upp og hleypt af (Teikning).  Baunabyssur voru útbúnar úr stífum vír sem gúmmírenningur var festur milli armanna, dregið upp og hleypt af baununum.

Ekki voru allir leikir svo skotglaðir því líka voru smíðaðir t.d. flugdrekar og einnig bátar af ýmsu tagi. Talsvert var um kappsiglingabáta úr þunnri fjöl sem tálgað var á stefni og borað gat framan við miðja skútuna fyrir mastur. Svo var sett pappírssegl (kannske ekki endingargott!) á fleytuna og svo fór hver með sína skútu í góðum byr í kappsiglingu (Teikning). Svo voru búnar til vatnsbyssur eða sprautur úr bambus, sagaður einn liður af stönginni með botni á öðrum endanum. Á botninn var borað smágat. Svo var útbúin bulla sem passaði í hólkinn svo var hólkurinn fylltur af vatni og bardaginn gat hafist.

Ennþá á ég nokkuð af jólagjöfunum sem ég fékk sem barn. T.d. brúðuhúsgögn, borð, rúm og kerru sem hægt var að leggja saman eins og tíðkast núna en þekktist ekki þá nema í hugvitinu hans pabba. Allt var þetta með fínum renndum fótum eins og grindin í kerrunni.  Svo á ég litla kommóðu sem ég fékk í jólagjöf ca. 10 ára. Hún er með renndum hnúðum úr hvalbeini á skúffunum. Hún er ca. 30 cm. á hæð. Svo fengu bræður mínir gjarnan bíla, sérstaklega þeir yngri, eftir að bílaöldin hélt innreið á Rauðasand. Ég man eftir vörubíl sem yngsti bróðir minn fékk í jólagjöf um 1946 eða 47. Hann var stór með opnanlegri vélahlíf og hurðum og sturtu o.fl. Upptalning á leikföngum í spurningalista Þjms er ekki sem hreyfir við mínum bernskuminningum nema dúkkur og dúkkudót og einnig litabækur og dúkkulísur. Aftur á móti fengu synir mínir svona dót nema playmó (það var ekki komið svo á markað meðan þeir voru litlir) og svo barbie og pony en það fá barnabörnin mín.

Nauðsynlegt þótti að krakkarnir; einkum strákarnir, eignuðust dótakassa sem svo voru nefndir en stelpur áttu gjarnan dúkkuskot. Það var smáhorn sem rýmt var í baðstofunum og stelpurnar fengu sem heimili fyrir brúðurnar sínar og þeirra húsgögn og stofupunt. Þar var sumstaðar býsna fínt.

Ég átti hornabú sem svo kallaðist. Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn. Kannske var samt næsta kynslóð þ.e. synir mínir og þeirra vinir ennþá meiri búmenn á þessa vísu; ekki síst börn sem voru hjá mér í sveit þegar synir mínir voru að alast upp á árunum 1959 - 1975-6. Þeir smíðuðu sér dráttarvélar og ýmis tæki og bíla í viðbót við skepnuhaldið. Svo gengu búin í arf til þeirra yngri.

Ekki var ég neitt haldin söfnunaráráttu en man þó að ég eignaðist einhverjar leikaramyndir en synirnir söfnuðu frímerkjum og eiga þau. Maðurinn minn henti aldrei frímerki en hann fékk mörg slík þar sem hann var lengi til forsvars fyrir sveitafélagið og auk þess flest félagasamtök á svæðinu.

Tóbakshættir

Höfundur:  Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan). Ritað 1998.

Ekki voru margir sem reyktu í mínum uppvexti Rauðsandi, en þó einstaka maður. Þegar messað var í Saurbæjarkirkju þá var söfnuðurinn alltaf boðinn í kirkjukaffi; kannski orsök svo frábærrar kirkjusóknar sem þar var. Þarna voru mjög stór og rúmgóð húsakynni, rúmgóð borðstofa og setustofa inn af henni. Þar hélt presturinn sig eftir kaffið, en hann var oddviti sveitarinnar.  Menn áttu margir við hann erindi og ossur gudbjartssonvindlailminn lagði þar út. Mér þótti hann mjög hátíðlegur. Þó held ég að prestur hafi ekki reykt, en man það þó ekki.  Höfðingjanum og valmenninu Gísla Thorlacíus í Bæ þótti viðeigandi að láta vindla liggja frammi, fyrir þá sem vildu.

Þannig var að árið 1943, að mig minnir, rak upp á Rifið innrásarpramma sem reyndist hafa slitnað aftan úr lest af slíkum á leið til Normandy. Sumarið eftir kom ca 10 manna flokkur hermanna til að ná út þessari eign sinni en þetta var spáný fleyta. Þetta gekk nú brösuglega og tók langan tíma.  Voru menn ráðnir til aðstoðar af flestum bæjum á Sandinum með hesta því stórvirk tæki þekktust ekki, enda Sandrifið laust og sandur hafði borist að prammanum með sjó og vindi. Vestur-Íslendingur stjórnaði flokknum, því hann talaði nokkra íslensku. Þessir menn buðu sínum verkamönnum gjarnan sígarettur með sér, enda var þetta ekki talið sérlega óhollt í þá daga. Góð kynni tókust með heimamönnum og hermannsliðinu einkum við Garðar, Íslendinginn í hópnum. Næstu jól á eftir komu myndarlegir pakkar á hvern bæ á Sandinum með sælgæti og sígarettukarton í hverjum pakka. Svolítið voru menn nú hugsandi yfir hvort ætti að taka við þessu frá hermannsliðinu. Ég veit ekki til að það hafi verið endursent, en eitthvað höfðu menn misgóða lyst á namminu þó ekki væri mikið um slíkt þá. Svo ég klári svo söguna af prammanum þá tókst að lokum að draga hann á flot af skipi og ég býst við að hann hafi notast í innrásina á Normandy eins og til var ætlast.

Við krakkarnir prófuðum að reykja tágar en gekk illa. Tvíbýli var á Lambavatni og uppáfinningssamir strákar á báðum bæjum. Einu sinni þegar þeir voru um fermingu, keyptu þeir bréf af píputóbaki. Þá höfðu þeir smíðað sér reykjarpípu og nú skyldi prófað að reykja. Ekki tókst betur til en svo að tóbakið var gert upptækt. Vissu þeir að það var geymt í kistu inni í stofu í Neðri bæ. Nú þurfti að fella gamla kú á bænum og fenginn til þess öruggur skotmaður af öðrum bæ. Sá reykti pípu. Að loknu verki bauð heimabóndi skotmanni í pípu, en ekki leist honum á tóbakið. Þá höfðu eigendur vörunnar skipt í bréfinu, tekið tóbakið en sett mosa í staðinn.  Fyrsta sígarettutegund sem ég kynntist var Lucky Strike.  (Meðfylgjandi mynd er af Össuri Guðbjartssyni á yngri árum með pípu sína, en hann hætti reykingum á miðjum aldri).

Vesturfarar

Höfundur: Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan).  Ritað 1996.

Héðan úr Útvíkum, aðallega Breiðuvík og Kollsvík, flutti þó nokkuð af fólki til Ameríku eftir síðustu aldamót. Var það mest fólk úr einni fjölskyldu, þ.e. Breiðuvík, þar sem a.m.k. þrír bræður fluttu til Vesturheims. Þeir voru Andrés, Arinbjörn og Dagbjartur Guðbjartssynir. Arinbjörn flutti aftur til Íslands eftir nokkur ár en hinir báru beinin í Ameríku og þar eru þeirra afkomendur. Dagbjartur átti hér unnustu og fór vestur um haf á undan henni til að útvega sér vinnu og jarðnæði og kom svo að sækja konuefnið. Hún hét Lovísa Torfadóttir í Kollsvík en móðir hennar Guðbjörg Guðbjartsdóttir var systir Guðbjartar tengdaföður míns.

Guðbjörg missti mann sinn frá 10 eða 11 börnum, flestum innan fermingar. Yngsta barnið var þá nýfætt. Torfi drukknaði í Kollsvíkurlendingu. Guðbjörgu tókst að halda í horfinu með aðstoð Guðbjartar bróður síns sem vann henni kauplaust a.m.k. tvö ár. Þá tóku elstu börnin við búrekstri og sjósókn á árabát úr Kollsvíkurveri, enda dugleg og samhent. Þetta er nú útúrdúr en sýnir þá erfiðleika sem fjölskyldur lentu í þegar fyrirvinnan féll frá og þó ekki dæmigert þar sem svona heimili hefði verið leyst upp í flestum tilfellum á þessum tíma, laust eftir síðustu aldamót. En bæði kom þarna til fórnfús hjálp frá bróður hennar, dugnaður systkinanna og svo trúlega vinfengi við prestinn sem var oddviti, séra Þorvaldur í Sauðlauksdal (afi Vigdísar Finnbogadóttur).

En áfram með vesturfarana. Þegar Dagbjartur kom frá Ameríku að vitja konuefnis síns (en þau voru bræðrabörn; Torfi og Guðbjartur bræður) þá vildi Guðbjörg móðir hennar ekki að hún færi. Hefur vitað sem varð að þá sæust þær ekki framar. Systkinin voru því vön að hlýta forsjá móður sinnar og fara að hennar vilja. Lovísa hætti þá við sína ferð, þó sárnauðug. Tók hún þá óyndi mikið svo systrum hennar þótti í óefni stefna. Hvöttu þær hana til fararinnar og hættu ekki fyrr en hún fór vestur. Kom hún aldrei til Íslands framar, en þau fluttu út 1921. Ég þekki einkum þrjár af þessum systrum, Vilborg bjó í Neðri bænum á Lambavatni þegar ég ólst upp í Hærri bænum við hliðina. Ég man alltaf hvað bréfunum frá Lovísu var fagnað en hún var með eindæmum dugleg að hafa bréfasamband við móður sína og systkini. Mér fannst ég þekkja þessa fjölskyldu jafnvel og þau sem bjuggu hérlendis.

Þau áttu tvo syni, Torfa og Heinrek. Torfi hefur komið til landsins tvisvar en Hinrik (eins og fólk kallaði hann) kom hér í sumar í fyrsta sinn. Hann býr í Texas og hittir sárasjaldan Íslending. En svo vel hefur íslenskan tollað í honum að hann talar næstum alveg rétta íslensku; meira segja vestfirsku!

Lovísa og Dagbjartur töluðu alltaf íslensku heima og Lovísa neitaði alfarið að læra eða tala ensku. Þau bjuggu í Norður Dakota og þar var talsvert um Íslendinga. Hún fór utan rúmlega tvítug og lést í hárri elli fyrir ekki svo mörgum árum. Torfi sonur þeirra talar enn betri íslensku en Hinrik, en hann býr í Vancouver og þar hittir hann stundum Íslendinga.

Árið 1911 fluttu Ottelía Guðbjartsdóttir (systir tengdaföður míns) og maður hennar Jens Jónsson til Kanada. Hún skrifaði líka fjölskyldunni nokkuð oft. Dóttir hennar heitir Magdalena og býr í Kanada með sínum manni Sigurði sem er íslenskur og eiga þau þar afkomendur. Ég fann bréf frá henni fyrir nokkru til tengdapabba, bróður síns, þar sem hún er sú reiðasta við dóttur sína fyrir að hún ætlaði að láta ferma syni sína á ensku og meira að segja læra faðirvorið á ensku! sem hún taldi villimannamál og drengirnir kæmust ekki í kristinna manna tölu með slíku.

Á síðari árum hafa nokkrir af ættinni farið vestur og hitt frændfólk þar við gagnkvæma ánægju.

Systur Lovísu Dagbjört og Vilborg heimsóttu hana einu sinni til Dakota. Færðu þær henni sand í poka úr Kollsvíkurveri og vatn úr Gvendarbrunnunum í Kollsvík. Þá táraðist gamla konan.

Gælunöfn

Höfundur:  Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan).  Ritað 2000.

Hér er algengt eins og annarsstaðar að stytta nöfn manna; helst barna, en misjafnt hvort það breytist þegar fólk fullorðnast. Lilla og Lilli var nokkuð algengt og fleiri nöfn sem hafa enga tengingu við nöfnin og mikið var um gælunöfn sem verða til þegar eldri börn reyna að nefna nafnið. T.d. var elsti sonur minn sem heitir Guðbjartur kallaður Buggi þar sem frænka hans, einu ári eldri, reyndi að nefna nafnið hans. Mér finnst að meira sé núna um tvö nöfn sem börn eru skírð og þá gjarnan notuð bæði; meira en var áður. Stundum reyndar stytt, t.d. Anna María kölluð Anna Maja, Ólafur Magnús nefndur Óli Maggi o.s.frv.

Nafnið mitt var (og er) stytt og svo vill til að ég veit af hverju. Eftir að ég var skírð voru tvær ungar systur á næsta bæ (ca. 18-22 ára) en elsta systir þeirra hét Sigríður eins og ég en kölluð Didda. Þessar tvær systur voru úr 15 systkina flokk í Vatnsdal í Rauðs.hr.Þær kölluðu mig líka Diddu og það hef ég verið kölluð síðan! 

Útilegumenn og ræningjar

Samantekt Valdimars Össurarsonar eftir ýmsum heimildum.

Freistarinn er víðförull

Hér eru rifjaðir upp nokkrar sagnir sem tengjast útilegumönnum, sauðaþjófum, morðingjum og ræningjum.  Einkum þær sem tengjast einstökum stöðum eða örnefnum í hreppnum.  Ekki er hægt að segja að slíkt hafi verið algengir viðburðir í Rauðasandshreppi, en þar urðu þó þungamiðjur stórra viðburða.  Má þar nefna Sjöundármál og ránið í Saurbæ, auk lokakafla Baskavíganna illræmdu.  Ekki verður hér, fremur en í öðrum efnisflokkum þessa yfirlits, þess nokkur kostur að tæma umfjöllunarefnið; heldur er hér aðeins reynt að varpa ljósglætu á fjölbreytileikann.

Máberg 

Bjarni á Sjöundá sleppur úr haldi.  Í kaflanum hér síðar, um örlagastaði, er fjallað um Sjöundármálin.  Bjarni Bjarnason var í haldi í Haga eftir dauðadóm sinn.  Á þorranum 1803 tókst honum að sleppa úr fangavistinni.   Þrjár nætur var hann þá í fjárhúsi í Miðhlíð en hélt síðan út Siglunes- og Skorarhlíðar þar sem hann hafðist við í tvær nætur.  Leitaði hann síðan út á Rauðasand og kom að Mábergi á Rauðasandi á föstudagskvöld. Þar leyndist hann í hlöðu um nóttina, allan laugardaginn og nóttina eftir. En á sunnudagsmorguninn handtóku fjórir Rauðsendingar hann í hlöðunni; bundu, og færðu hann sýslumanni í Haga.

Saurbær 

skutaRánið í Saurbæ.  Eitt þekktasta mannrán hérlendis fyrr á öldum, framið 1579.  Um 70 erlendir ribbaldar, undir forystu fálkakaupmannsins Jóns Falck, fóru þá að Eggerti Hannessyni, fyrrverandi lögmanni í Saurbæ á Rauðasandi.  Þeir komu að landi í Hænuvík og neyddu bóndann til að vísa sér leiðina að Saurbæ.  Þar rændu þeir bæ og kirkju og höfðu Eggert á brott með sér út Víknafjall, í skip á Hænuvík.  Eggert var síðar leystur út af þýskum kaupmanni, og flutti alfarinn til Hamborgar árið 1580.  Jón taldi sig eiga Eggert grátt að gjalda fyrir að hafa tekið af honum fálka veturinn áður.  Margir ránsmanna voru síðar handteknir og líflátnir.  Þetta rán varð Magnúsi prúða, tengdasyni Eggerts, tilefni til þess að kveða upp vopnadóm sinn í Tungu árið 1581.  Sjá Ræningjahól í Keflavík.

Keflavík 
Þjófaurð. 
„Upp frá Svarthamragili liggur gata (í Hafnarlautir og til Geitagils í Örlygshöfn).  Vestan Svarthamragils er Svartiklettur; langur klettur og talsvert stór.  Vatnsagi er í honum og er hann svartur á bletti; hafður fyrir mið frá sjó.  Niður undan honum er Þjófurð.  Hú er feikilega stórgrýtt.  Í henni eru tvö byrgi; annað auðfundið en hitt ekki“  (Örn.skrá; Hafliði Halldórsson). 
Einhverntíma á 19.öld gekk smali fram á tvö byrgi þarna í stórgrýtisurðinni.  Þá rifjaðist upp fyrir mönnum gömul sögn um tvo bændur í Keflavík sem lágu undir grun um sauðaþjófnað, þó aldrei yrði það sannað á þá þrátt fyrir þjófaleit á heimilum þeirra.  Þótti nú einsýnt að þarna hefðu þeir geymt feng sinn.  Annað byrgið er mun stærra en hitt.  Tvö stór björg mynda risið á byrginu en hið þriðja gaflinn.  Síðan hefur verið hlaðið í glufurnar og þannig gengið frá að ekki sæjust mannaverk utanfrá.  Hlaðið hefur verið að framopinu og flatir steinar lagðir fyrir sem hurð, þó nú sé hrunið úr.  Lengd þessa byrgis er um fjórir metrar og unnt að standa þar inni hálfboginn,  Breiddin í botninn er rúmur metri.  Á einum stað er skúti eða afhellir.  Minna byrgið er í um fimm metra fjarlægð og er líka gjóta milli tveggja stórra hrunbjarga.  Þar eru leyfar hleðslu fyrir opinu.  Kann sá skúti fyrst að hafa verið notaður, en hinn stærri tekinn í notkun þegar umsvif sauðaþjófanna urðu meiri.    Engar mannvistarelifar hafa fundist í skútum þessum.  Svo vel falla þeir í landslagið að erfitt er fyrir ókunnuga að greina þá.  (Úr vesturbyggðum Barðast.sýslu; MG; endurs. VÖ). 

Gatan upp með Svarthamragili liggur í Hafnarlautir.  Það er stór lægð út í áttina sem farið er að Gili og út í Brúðgumaskarð.  Úr Hafnarlautum kemur Hafnargil sem rennur til Keflavíkur og í Ána þegar það kemur niður.  „Í Hafnarlautum er hóll við veginn sem heitir Ræningjahóll.  Sagt er að þar hafi ræningjar verið drepnir (óvíst hvort þeir voru einn eða fleiri).  Þetta er sérstæður hóll og steinar og gras í honum“  (Örn.skrá; Hafliði Halldórsson).   Líklega er uppruni nafnsins þó líklega annar en Hafliði greinir.  Ræningjahóll fékk nafn sitt af því að hjá honum; í Ræningjalaut, áðu ræningjar þeir sem rændu Eggert Hannessyni í Saurbæ, á leið sinni með hann til skips í Hænuvík.  Sjá Saurbær.  Hóllinn er í hánorður frá árósnum í Keflavík; 2 km norðar (Kjartan Ólafsson; Um Rauðasandshrepp).

Hvallátrar

 Byrgi sakamannsins í Miðmundahæðum.  „Í Miðmundahæðum er Byrgi, mjög vandfundið.  Ein steinaröð mun vera eftir af því.  Það var móðir Daníels sem fyrst fann það en ekki hefur öllum sem leitað hafa tekist að finna það.  Frá Byrginu sést vel á Sléttanef og Brunnanúpsnibbuna.  Þarna var geymdur sakamaður heilan vetur.  Hafði hann átt barn með systur sinni, án þess þó að hann vissi af þeirra skyldleika.  Ríki-Þórður, sem bjó á Látrum, tók við honum, en þeir voru kunningjar.  Leyndi hann manninum fyrst í hlöðunni en byggði síðan þennan kofa og færði honum þangað mat á hverjum laugardegi.  Sagt er að hann hafi síðan komið honum í hollenska duggu“  (Örn.skrá; Daníel Eggertsson).   „Svo hafði byrgi þessu verið haganlega valinn staður að þegar Ásgeir bóndi Erlendsson rakst á það af tilviljun á tófugöngu (líklega um miðja 20.öld) hafði enginn á það rekist í manna minnum.  Byrgið er að mestu grafið í urðarhól; grjóthlaðið innan og þakið hellum.  Þakið er fallið fyrir löngu og verður lítið sagt um hæð undir loft.  En lengd kofans var um mannslengd og breiddin lítt minni; svefnbálkur með annarri hlið.  Dyr eru gegnt norðri og í útskoti gegnt þeim eru leifar fiski- og fuglabeina.  Sakamaðurinn hét Jón; var af Norðurlandi og hafði átt barn með systur sinni.  Kona Þórðar mun hafa hvatt bónda sinn til að leyna manninum.  Var honum færður matur þegar síst var sporrækt.  Um vorið flutti Þórður bóndi manninn út í erlenda fiskiduggu og var honum þar vel tekið“  (Magnús Gestsson; Látrabjarg).
„Svo var það nokkrum árum síðar að útlent skip kom á Eyrar (Patreksfjörð) og hafði skipstjórinn uppi eftirgrennslan um þetta Látrafólk.  Bað hann trúverðugan mann fyrir sendingu til þess.  Sagt er að þar í hefðu verið bæði peningar og góðir gripir, og upp frá þessu hefði því fátæka fólki vaxið hagsæld og það eignast ábúð sína“.  (Ásgeir Erlendsson; Ljós við Látraröst). 
Þórður Jónsson á Látrum skrifaði leikrit um þessa viðburði, sem flutt hefur verið í Ríkisútvarpinu.

Kúlureitur og Kárnadys.  „Gömul dys; Kúlureitur, er á Brunnum.  Hann er nú friðlýstur.  Þar eiga að vera dysjaðir Spánverjar.  Þetta er kúlulaga hóll; þétt lagður steinum efst sem neðst“  …  „Upp og inn af Brunnum er Kárnafit og þar er dys sem heitir Kárni; orðin lágreist nú.  Þar áttu Tyrkir að vera dysjaðir.  Kárnafit er graslendi, og var það aðalbeitin fyrir kýr og hesta“  (Örn.skrá; Daníel Eggertsson).

Sagnir af þessum fornu dysjum eru þrjár, og ekki alveg samhljóða.  Hér verður ekki gert upp á milli þeirra.  Elsta sögnin er líklega sú sem tengist Gottskálk á Látrum og á að gerast á 13.öld.  Kunna ofangreind munnmæli um Tyrki að vísa til hennar.  Yngri sögnin tengist Böskum, eða Spánverjum, þeim sem Ari Magnússon í Ögri lét hundelta norður á fjörðum. 

kulureiturÚtgáfa A: Spánverjasagan.  „Kárnafit er heitin eftir Kárna, foringja þeirra sem af komust úr Spánarvígunum á Ströndum.  En Látramenn gerðu verulegt skarð í hópinn er þeir komu við hjá þeim árið eftir; sjálfsagt í leit að matbjörg eftir vetursetu á Patreksfirði.  En af misskilningi urðu viðbrögðin þau að ljáir og hvalbein Látramanna og vermanna urðu mörgum þeirra að bana.  Kárni er dysjaður ásamt nokkrum félögum sínum í fit þessari, en þó fleiri í Kúlureit“  (Örn.skrá Þórður Jónsson).  „Kárni er hólmyndun með grjóti, lögðu af mönnum, og vörðu; nærri sjó fyrir utan Krókinn í Fitinni.  Þar eiga að vera heygðir 50 ræningjar útlendir (fundin bein fyrir 3 árum)“ (Örn.skrá Guðmundur Sigurðsson 1913).   

Þegar komið er framhjá búðartóftunum á Brunnum sést allstór grýttur hóll.  Þetta er kölluð dys og nefnist Kúlureitur.  Skammt þar frá er Kárnadys.  Munnmælasögur segja að hvor þessara dysja hýsi narðneskar leifar 50 Spánverja sem hafi verið drepnir í ránsferð.  Þeir voru leifar af hópi hvalfangara sem brutu skip sín við Hornstrandir.  Þetta gerðist snemma sumars 1615 ….  Sumir Spánverjanna höfðu komist undan (Baskavígum Ara í Ögri o.fl. norður á fjörðum) til Patreksfjarðar.  Þar bjuggust þeir um til vetursetu í verslunarhúsum danskra á Vatneyri.  Þeir áttu hnökralaus samskipti við heimamenn um veturinn.  Um vorið kom þangað enskt skip.  Einhvern veginn tókst Spánverjum að ná skipinu á sitt vald og hugðust halda heim til Spánar við svo búið.
En margt fer öðruvísi en ætlað er.  Trúlega hafa þeir ekki talið sig hafa nægar vistir til svo langrar ferðar og ætlað sér að bæta úr því.  Þeim hefur verið kunnugt að í þessari frægu verstöð myndu gnægtir matvæla og lítils viðnáms að vænta frá kotkörlum á slíkum útkjálka.  Nema hvað þeir sigla suðurfyrir Bjargtanga og fara þar í land svo ekki sæist til ferða þeirra.  En margir vermenn voru, bæði á Hvallátrum og Brunnum, og njósn barst þeim í tæka tíð.  Heimamenn voru því vel viðbúnir.  Sagan segir að í þá daga hafi verið skylda að hver skattbóndi hefði vopn til að verjast ránsmönnum sem á þeirri tíð herjuðu á landsmenn. (Vopnadómur Magnúsar prúða í Tungu í kjölfar ránsins á Eggerti Hannessyni í Saurbæ)…  Er svo skemmst frá að segja að þegar Spánverjar komu; vopnlausir að kalla, voru þeir allir stráfelldir.  En ekki er þess getið að heimamenn hafi orðið fyrir neinu manntjóni.  Ekkert skal ég fullyrða um sannleiksgildi þessarar sögu; sjálfsagt er þetta allt meira og minna ýkt.  En hitt man ég að þegar ég var strákur; líklega 6-7 ára, kom hingað að Látrum maður og fékk leyfi til að grafa í Kárnadys.  Hann kom heim seinna um daginn og var þá með mannabein bundin í klút….  Kárnadysin væri líklega týnd í sandinn ef ég hefði ekki bætt í hana steinum öðru hverju.  Aftur á móti er Kúlureiturinn með sömu merkjum, enda gegndi hann sínu hlutverki meðan róið var frá Brunnum:  Þurrkuð voru á honum bein (og fiskur) og því bætt í hann nýjum steinum á hverju vori.  (Ásgeir Erlendsson; Ljós við Látraröst). 

Útgáfa B:  Gottskálk verst innrás.  Í byrjun 13.aldar bjó á Hvallátrum maður sá er Gottskálk hét.  Var hann mikill fyrir sér og talinn fjölkunnugur mjög.  Hann er sagður hvatamaður að því að Guðmundur góði var fenginn til að vígja Látrabjarg.  Það var löngu síðar; þá er Gottskálk var hniginn að aldri og í kör kominn, að víkingaskip kom þar allmikið, og bjóst þegar til að taka strandhögg.  Settu þeir út báta tvo, og allt liðið í þá með alvæpni.  Lenti annar báturinn á Brunnum með 50 eða 60 menn.  Þar var þá fyrir mikill fjöldi af hraustum vermönnum sem veittu svo harðfengilegar viðtökur með bareflum og öðrum vopnum að þeir drápu sjóræningjana alla.  Er sagt að þeir séu dysjaðir þar í Kúlureitnum fyrir utan Sandmannabúðirnar. 
Hinn báturinn lenti við Krókinn og gekk svipaður fjöldi sjóræningja þar á land.  Fóru þeir þegar á mýrarnar þar fyrir ofan til að smala saman sauðum og nautum og reka til strandar.  Fámennt var heima á Látrum; einungis Gottskálk og synir hans þrír.  Þegar Gottskálk fékk fréttirnar varð honum að orði að nú væru ei menn sem áður hefðu verið; víst hefði hann ekki á brott hlaupið þó að nokkrir kögursveinar hefðu orðið á vegi sínum.  Eggjaði hann syni sína til mótspyrnu, en þeir læddust með melbökkum óséðir í veg fyrir aðkomumenn.  Spruttu þeir síðan upp; hófu að berja á þeim með hvalrif að vopnum og gengu svo hart fram að víkingar allir voru drepnir.  Gamalmennið Gottskálk lét ekki sitt eftir liggja heldur lét bera sig út á bæjarhólinn.  Þar sat hann og barði tveimur svigabrotum ofan í hólinn.  Við hvert högg hans féll einn maður af víkingunum.  Jón Gottskálksson fór fyrir þeim bræðrum, en hann var rammur að afli og garpur hinn mesti, þó einungis væri 18 vetra.  Kvíga af bústofni Látrabænda hafði fallið niður í svokallað Svartavað.  Hana dró Jón einsamall upp og bar heim á öxlum sér.  Víkingarnir voru dysjaðir þar sem þeir höfðu fallið, og sést dysin enn í dag því þangað hefur grjót verið að borið.  Grjótdys þessa hafa Látramenn fyrir mið af sjó og heitir hún Kárni, eftir foringja víkinganna.  Þar munu mannabein hafa komið úr jörðu.  En það er af skipi víkinganna að segja að Gottskálk gerði að því galdraveður, svo það rak upp með öllu sem á því var.   (Vestfirskar sagnir; eftir handriti Gísla Konráðssonar). 

Útgáfa C: Ræningjar smala fé.  Eitt sinn að vorlagi kom skip af hafi á Látrum; stórt og mikið.  Sjá landsmenn að frá skipinu koma þrír bátar, alskipaðir mönnum.  Þeir lenda í fjörunni og aðkomumenn halda þegar inn á Bjarg og byrja að smala saman fé er þar var á beit.  Þegar heimamenn verða þessa varir safna þeir liði; fá með sér vermenn og vopnbúast með lurkum.  Gamall maður á Látrum lagði á ráðin um varnir.  Lét hann nokkra menn fara og bora göt á báta ræningjanna, en svo lögðust heimamenn í leyni og biðu þeirra.  Ræningjarnir koma með allmikinn rekstur fjár af Bjarginu; hlaða því í bátana og ýta frá landi.  En ekki komast þeir langt áður en byrjar að sökkva undir þeim.  Féð bjargast í land á sundi en ræningjar krafla sig í land á tiltækum reköldu braki og röftum.  Þá koma heimamenn úr fylgsnum sínum; ráðast á ræningja og létta ekki ásókninni fyrr en þeir eru allir fallnir.  Voru þeir dysjaðir þar sem bardaginn hafði staðið.  Skipið sigldi hinsvegar til hafs og segir ekki meira af því.  Sagt er að enn finnist mannabein sem sandinn hefur blásið ofanaf; bæði nálægt Kárna og eins utarlega í gömlu veiðistöðinni á Brunnum; þar sem bardaginn mun hafa staðið.  (Vestfirskar sagnir; eftir sögnum í Vestur-Barðastrandasýslu).

Vesturbotn 

Byrgi sauðaþjófs.  „Austur af Skersskógi (upp með Ósaá norðan megin) eru lægðir og klettahjallar, vaxnir svolitlu grasi og mosa; og heita Suðurormar.  Með þeim er djúpt nafnlaust gil.  Sögusögn var til um að eitt sinn hefði verið sauðaþjófur í Botni og hefði hann átt byrgi í gljúfrunum.  Átti að sjást fyrir því lengi.  Ekki hefur það þó fundist þrátt fyrir leit.  Þjófurinn hafði heitið Jón, og eitt sinn átti kona hans að hafa sagt:  „Margt má ér mona; margt má ég mona.  Þegar Jón minn átti 18 krof uppi í eldhúsi áður en hann fór að sjóða nokkuð af sínu“  (Örn.skrá; Ólafía Ólafsdóttir o.fl).    

Gálgasteinar

Samantekt Valdimars Össurarsonar eftir ýmsum heimildum.

„Útilokað að hengja þar mann“

Á sex stöðum í Rauðasandshreppi má finna örnefnið Gálgasteinn.  Þó skrásetjari hafi ekki komið að þeim öllum, þá virðist hér vera um nokkuð áþekk fyrirbæri að ræða.  Tveir stórir steinar, um 1m að þvermáli eða litlu meira, standa hlið við hlið, þannig að vel gengt er milli þeirra, og standa um leið áberandi upp úr umhverfinu.  Líklega væri ekki unnt í neinum staðnum að hengja mann til dauðs.  Má því slá því föstu að heitið gálgasteinn hafi fyrrum verið notað sem líkingamál og almenn lýsing á landslagseinkenni eða náttúrufyrirbæri, en að það sé ekki lýsing á notkun.  Sama líkingamál er í fleiri náttúrulýsingum, s.s. heitið „sund“ yfir ál sem unnt væri að synda um; heitið „högg“ yfir klett sem er líkt og högginn í landslagið og heitið „nornahár“ um steinþræði sem myndast stundum við eldgos.  Engu að síður fylgja mörgum örnefnanna óljósar munnmælasögur um hengingu, og má ætla að þar hafi ímyndunarafl fyrri kynslóða fengið lausan tauminn.
Líkingamálið er hinsvegar ekki gripið úr lausu lofti.  Þó gálgi hafi í huga nútímamannsins það útlit að þvertré hvíli á einum stólpa, þá voru gálgar fyrr á tíð oftar með því lagi að tré var lagt yfir gjá, nægilega djúpa til að hangandi maður næði ekki niður.  Sú gjá gat annaðhvort verið gjá í jörðina, eins og víða er á Þingvöllum; eða bil milli tveggja kletta.  Er þar komin fyrirmyndin að örnefninu, sem vafalítið hefur flust hingað þegar með landnámsfólki.

Kirkjuhvammur  „Utanhallt á miðju Hrauni (sem eru urðir frá Bjarngötudal út að Kirkjuhvammi) eru Fremriblettir.  Þeir eru upp af Gálgasteini, sem er stór steinn á hraunbrúninni.  Þar segja munnmælin gð hengdir hafi verið útilegumenn“  (Örn.skrá; Ívar Ívarsson). 

Lambavatn  „Innst á túninu heitir Leiti.  Á því eru stórir steinar sem heita Gálgasteinar“  (Örn.skrá; Ólafur Sveinsson).  (Gylfi Guðbjartsson segir að þetta séu tveir stórir steinar og stutt á milli þeirra.  Mætti vel hugsa sér að tré hefði verið lagt á milli þeirra).

Láganúpur  Uppi á brún (Vatnadals heimantil, framan Stóravatns) eru tveir gríðarstórir steinar; Gálgasteinar.  Sá efri er minni, en sá neðri; eins og 3-4 m frá, er stærri“  (Örn.skrá; Guðbjartur Guðbjartsson).  „Engar sagnir eru um Gálgasteina.  Ekki væri hægt að hengja mann í þeim; hann næði niður með fætur“  (Örn.skrá; Ingvar Guðbjartsson). 

Geitagil  „Meðfram Vaðlinum (undir Kryppu; gegnt Geitagili) og neðst með ánni eru mýrar sem heita Ósmýrar.  Þær draga nafn af ós Mikladalsár, en þær eru Hnjótsmegin við hann.  Í Mýrinni eru tveir stórir steinar sem nefndir eru Gálgasteinar.  Þeir standa þar saman og hafa trúlega hrapað úr fjallinu“  (Örn.skrá; Helgi Einarsson).  „Fram af Einstakakletti eru Gálgasteinar.  Þar niður af er Fit sem liggur niður að Vaðlinum og fram að Ósmýrum.  Gálgasteinar standa ekki í þeim, heldur á holti skammt frá Einstakakletti.  Sagt var að við Gálgastein hefði verið aftökustaður“  (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson). 

Sauðlauksdalur  „Fram með vatninu (Sauðlauksdalsvatni) að sunnan gengur lítil eyri fram í vatnið.  Hún heiir Stekkjareyri og dregur nafn af því að þar var stekkur á fráfærutímunum.  Innar, beint á móti, eru steinar sem heita Gálgasteinar“  (Örn.skrá; Snæbjörn J Thoroddsen o.fl.).   „Gálgasteinar eru í rauninni upphaflega einn stór steinn sem hefur klofnað.  Hann er fram með vatninu; inn undir Ós.  Hliðbreidd er milli partanna og mynda steinarnir hlið í Hnappheldunni; beitarhólfi við austanvert vatnið“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).    

Vesturbotn  „Í Lambahlíð (sem er sunnantil í Hálsinum upp frá Helguþúfu) eru tveir stórir steinar sem eru eins og klofinn steinn, sem heita Gálgasteinar“  (Örn.skrá; Ólafía Ólafsdóttir o.fl).   

Aftökustaðir til forna  Páll Sigurðsson fjallar nokkuð um réttarfar fyrri tíma og rýnir í örnefni víða um land sem tengja mætti aftökum, í bók sinni; „Svipmyndir úr réttarsögu“, sem út kom 1992.  Þar nefnir hann nokkra gálgasteinanna hér að ofan, og eru myndir af gálgasteinunum á Geitagili og í Sauðlauksdal úr bók hans.  Hann nefnir m.a. eftirfarandi staði í Barðastrandasýslu; kletturinn Gálgi í Þorskafirði; hóllinn Hólagálgi í Múlahreppi; Reiðskörð á Barðaströnd; Gálgasteinar á Geitagili og Sauðlauksdal í Rauðasandshreppi; Gálgasteinar í landi Suðureyrar í Tálknafirði og Gálgasteinar í landi Hvestu í Arnarfirði.  Aðeins á einum þessara staða er með vissu vitað um aftökur, en það er þegar Sveinn skotti, sonur Axlar-Bjarnar, var hengdur í Reiðskörðum árið 1646 eða 1647. 

Örlagastaðir

Samantekt Valdimars Össurarsonar eftir ýmsum heimildum.

Sitt af hverju

Hér verður staldrað við fáein örnefni sem vitna um örlög manna fyrr á tíð.  Efnið er af margvíslegum toga, en tengist með því einu að tiltekinn staður má heita örlagastaður um líf eða dauða fólks fyrr á tíð.  Hér er þó að mestu sleppt slysum á sjó og landi; þar með hinni löngu sögu sjóslysa, enda er það rakið í annarri samantekt:  „Sjóslys í Rauðasandshreppi“.

Skörð 

Undir Skörðunum, sem er fjallshryggurinn milli Rauðasands og Barðastrandar, eru allmörg stöðuvötn.  Stuðlabergshólar eru þar, nærri veginum um Sandsheiði, sem heita Molduxar.  Hjá þeim eru tjarnir og pyttir sem heita Molduxavötn.  Eitt þeirra heitir Sjömannabani.  Tengist það eflaust slysförum á þessari miklu og fjölförnu heiði.  Nafnið sjömannabani finnst reyndar víða á sunnanverðum Vestfjörðum (sjá t.d. Kirkjuhvamm hér á eftir).  Stutt frá því er djúp tjörn sem nefnist Átjánmannabani.  Nafn hennar vísar e.t.v. til munnmælasögu um menn sem árið 1777 fluttu rekavið frá Rauðasandi áleiðis til Haga á Barðaströnd, en urðu allir úti á þessum slóðum. 
„Menn Davíðs Scheving fóru að sækja stórtré á Saurbæjarreka, til að viða að í Hagastofu sem sýslumaður var að byggja nokkru fyrir aldamótin 1800.  Þeir voru 17 sem lögðu á heiðina með tréð; hrepptu aftakabyl og komu ekki fram.  Hafa þeir aldrei fundist.  Tréð það hið stóra sem þeir voru að sækja fannst í Gljá; aðeins vestanvert við miðja Heiðina.  Það fylgdu ekki mikil höpp Hagastofu.  Hún brann skömmu eftir að hún var byggð“.  (Ari Ívarsson; Árbók Barð). 

Vellir 

Geirlaug hrapar í Geirlaugarskriðum.  Geirlaugarskriður eru utan við Völlur, sem er grasbali nokkur utan Stálfjalls; neðan Ölduskarðs.  Skriðurnar eru snarbrattar og viðsjárverðar yfirferðar. 
Geirlaugarskriður bera nafn af því að þar hrapaði kona með þessu nafni.  Bjó hún á Völlum.  En þannig segja munnmælin frá þessu slysi:  Þegar búið var að Völlum var róið þaðan.  Einu sinni sem oftar reri bóndinn.  Meðan hann var á sjó brimaði, svo ólendandi var á Völlum.  Þá ætlaði hann að ná lendingu í Skor, en á leiðinni lenti báturinn á blindskeri (Bjarnaboða) og hvolfdi.  En Geirlaug var þá stödd í miðjum skriðum.  Henni brá þá svo mikið að hún missti fótanna og hrapaði þar sem síðar heitir Heljargil“  (Örn.skrá; Ívar Ívarsson o.fl.). 

Sauðamaður hrapar í Ölduskarði.  Skammt fyrir vestan Stál er graslendisblettur sem heitir Vellir.  Þar voru búðir náumanna er surtarbrandur var numinn á styrjaldarárunum fyrri.  Talið er að þar hafi forðum verið býli og heitið Vellir.  Sér þar votta fyrir skálatóft og hringlagaðri tóft sem hefir að líkindum verið fjárborg.  Hefur fé líklega aldrei verið hýst þar, heldur gefið á gadd í viðlögum, eins og víða átti sér stað við sjávarsíðu á fyrri öldum.  Er veðursæld á hlíðunum og tekur sjaldan eða aldrei fyrir jörð; horfa þær beint við suðri.  Fjörubeit er þar einnig.  Hætt er fé við að hrapa þar til bana er svellbólstra og harðfenni leggur.  Hlíðar þessar fylgja nú Saurbæ.  Er ekki ólíklegt að þar hafi verið hafðir sauðir þaðan og menn yfir til vöktunar um harðasta tímann að vetrum.  Óvistlegt hefur þar verið og einmanalegt.  Þegar svellbólstrar koma verður ekki farið eftir hlíðunum til fjársmölunar.  Er þá farið uppi á fjallinu og svo niður eftir geil í klettunum.  Heitir hún Ölduskarð og er þar oft harðfenni niður háa og bratta hlíðina.  Ölduskarðið er upp af Völlunum.  Á fyrri hluta 19.aldar hrapaði þar fjármaður frá Saurbæ er Jón hét og lamdist mjög.  Hafði hann tvívegis leitað uppgöngu í Ölduskarði og höggvið spor í gaddinn, en hrapaði í bæði skiptin.  Daginn eftir var hans leitað og fannst lifandi.  Var honum með miklum erfiðismunum komið til bæja, en dó skömmu síðar.  (Pétur Jónsson frá Stökkum; Barðstendingabók). 

Sjöundá

Morðin á Sjöundá.  Vorið 1802 gerðust válegir atburðir á Sjöundá, en þar var þá tvíbýli.  Á öðrum bænum bjuggu Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir, en á hinum Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir.  Fljótlega eftir að hin síðarnefndu komu að Sjöndá hófst samdráttur Bjarna og Steinunnar, framhjá mökum sínum.  1. apríl þetta ár hvarf Jón, og sagði Bjarni að hann hefði ætlað inn í Skor að sækja hey sem þar var geymt.  5. júní sama ár andaðist Guðrún, en hún hafði áður kvartað um veikindi.  Haustið eftir fannst lík Jóns rekið í Bjarnarnesi í Bæjarvaðli.  Áverka á því töldu sumir vera af mannavöldum.  Bjarni var handtekinn og hafður í haldi hjá sýslumanninum í Haga, en síðan voru þau Steinunn flutt að Sauðlauksdal til yfirheyrslu hjá sýslumannsfulltrúanum Guðmundi Scheving.  Sækjandi að hálfu ákæruvaldsins var Einar Jónsson hreppstjóri í Kollsvík.  Þarna játuðu þau Bjarni og Steinunn að hafa myrt maka sína.  Meðal sumra í Rauðasandshreppi hefur þó löngum verið talið að játningin hafi verið fengin fram með vafasömum hætti; einkanlega í tilviki Steinunnar.  Þau voru bæði dæmd til lífláts.  Steinunni skyldi drekkt, svo sem venja var í tilviki kvenna, en Bjarni skyldi klipinn með glóandi töngum, handarhöggvinn og síðan hálshöggvinn.  Hálfu ári síðar; 1803, var dómurinn staðfestur í landsyfirrétti.  Veturinn eftir er Bjarni var fangi í Haga og Steinunn vistuð þar á bæjum ól hún barn þeirra er skírt var Jón.  Hann hlaut síðar viðurnefnið Sýslu-Jón, þar sem hreppum sýslunnar var sameiginlega falin forsjá hans.  Bjarna tókst að sleppa úr fangavistinni í Haga; komst út Siglunes- og Skorarhlíðar og leyndist 

svartfugl

stuttan tíma á Mábergi þar til hann náðist aftur (sjá kaflann um útilegumenn).  Bjarni og Steinunn voru síðan flutt í Tugthúsið í Reykjavík, sem nú er Stjórnarráðshúsið, en aftakan dróst þar sem hörgull var á böðlum.  Haustið 1804 tókst Bjarna að brjótast 

út, en náðist uppi í Borgarfirði.  Steinunn átti illa vist í fangelsinu, enda var fangavörðurinn alræmdur hrotti.  Hún andaðist þar 31.08.1805 af óskýrðum orsökum.  Eins og tíðkaðist um sakamenn var hún dysjuð utangarðs, og stóð dys hennar lengi á Skólavörðuholti.  Það var ekki fyrr en í ársbyrjun 1915 að bein hennar fengu leg í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík.  Stuttu eftir andlát Steinunnar var Bjarni sendur til Noregs og hálshöggvinn í Kristiansand 04.10.1805.  ( Myndin sýnir uppsetningu LR á Svartfugli 1986; byggt á samnefndri sögu Gunnars Gunnarssonar um Sjöundármálin).  


Kirkjuhvammur
 

„Steinn er fyrir framan Bjarnanestá og er nefndur Sjömannabani.  Sagt er að veiðistöð hafi verið við Bjarnanes og mikið er af bátshrófum utan við nesið“  (Örn.skrá Ívar Ívarsson).

Stúlka hverfur í Kirkjuhvammi.  Einhverju sinni bjuggu hjón ein nýgift í Kirkjuhvammi á Rauðasandi. Kvöld eitt í skammdeginu þurfti húsfreyja að fara út til að taka inn þvott. Bóndi vildi fara með henni en hún aftók það. Fór hún svo ein en bóndi var eftir í baðstofu. Eftir örlitla stund heyrir hann neyðaróp. Stekkur hann þá út til að vitja konunnar en hún var þá horfin og sást ekkert eftir af henni nema önnur höndin. Talið var að óvættur eða sjóskrímsli hefði tekið hana. Eftir atburð þennan kvað bóndi vísu þessa:  „Veslings Hvammurinn var mér kær/ þá vífinu sinnti ég ungu,/ en héðan af skal hann Harmabær/ heita á mína tungu“.  (Ingivaldur Nikulásson; Vestfirskar sagnir).

Borgulág nefnist laut hæst á Skersfjalli, í landi Kirkjuhvamms; við veginn frá Rauðasandi að Hvalskeri.  „Sagnir herma að stúlka sem var á Lambavatni, en átti ungbarn í Sauðlauksdal, hafi fengið að færa barni sínu einhvern glaðning fyrir jól.  Kom hún ekki fram, en um sumarið leysti snjóa ofan af líki hennar í Borgulág, sem kennd er við hana síðan“  (Ari Ívarsson; Árbók Barð).   Eigi alllangt frá þessum stað gerðist annar harmleikur, er mæðgin urðu úti um miðja 19.öld.  Þau voru að flytja sig frá Sjöundá að Sauðlauksdal.  (Sama heimild).

Gröf 

Prestshella nefnist steinn nokkur, stuttu innanvið bæjarstæðið í Gröf.  Segir sagan að séra Jón Ólafsson, sem prestur var í Sauðlauksdalsprestakalli 1974-1703 og sat á Lambavatni, hafi tvívegis lærbrotnað á þessum steini.  Hellan er næstum þversum í gömlu hestagötunni; rétt ofan við núverandi bílveg.  (Sigríður Guðbjartsdóttir; munnleg frásögn).

Naustabrekka 

Prestur fýkur framaf Klifhyrnu.  Klifhyrna nefnist hæsti hnjúkurinn ofanvið Naustabrekku; en innan hennar lækkar Kerlingarhálsinn niður í Brekkudal. „Talið er að séra Björn Bjarnason, prestur í Sauðlauksdal 1602-1625, hafi hrapað til bana í Klifhyrnu árið 1625. (Íslenskar æviskrár).  Nær hálfri öld síðar hrapaði annar Sauðlauksdalsprestur, séra Þorbjörn Einarsson, fram af brúninni á Kerlingahálsi og beið bana (Íslenskar æviskrár).  „Þá hann reið yfir Kerlingarháls þar sem heitir Klifhyrna; hvar gatan liggur eftir fjallsbrúninni, fleygði stórviðri honum af hestinum fram af fjallsbrúninni og niður fyrir hamrana; hvar hann dó.  Lík hans fannst og var jarðað í hempunni að Saurbæjarkirkju.  Á það að hafa verið sama hempan sem kom að mestu ófúin upp úr garðinum er lík var grafið þar í tíð séra Björns Halldórssonar um 1754-60“.  (Rósinkrans Ívarsson; Árbók Barð).

Annar prestur hrapar af Klifhyrnu.  Klifhyrnan reyndist fleiri prestum skæð, enda þurfu þeir iðulega að fara þar um í belgmiklum hempum sínum og misjöfnum veðrum; þar sem vegurinn liggur frammi á tæpustu nibbum.  „Nær hálfri öld síðar hrapaði annar Sauðlauksdalsprestur, séra Þorbjörn Einarsson, fram af brúninni á Kerlingahálsi og beið bana“  (Íslenskar æviskrár).  Séra Þorbjörn Einarsson þjónaði Sauðlauksdal frá 1632 til 1673.  Kona hans var Helga Arngrímsdóttir (hins lærða), sem áður var gift Birni Magnússyni (hins prúða) í Saurbæ.  Sóknarbörnum þótti hann strangur kennimaður, en þætti honum skorta á kunnáttu þeirra í fræðum og sálmum lamdi hann þau gjarnan með pálmastiku; jafnt eldri sem yngri.  „Árið 1673 var prestur sóttur snögglega til þjónustu í heimahúsum.  Reið hann eldishesti mjög fjörmiklum og fékk fylgdarmaður ekki orðið honum samferða, því prestur reið svo mikið.  Hrapaði þá hesturinn með prest úr mjög tæpri götu á Kerlingarhálsi og fengu hvorirtveggja bana.  Fannst prestur þar fyrir neðan; ekki mjög skaddaður þó flugið væri hátt, því mikill snjór var undir.  Var hann jarðaður að Sauðlauksdal.  Árið 1848 kom upp úr kirkjugarðinum ístruskjöldur allstór er gröf var tekin, og hugðu menn að það væri ístra úr séra Þorbirni“.  (Rósinkrans Ívarsson; Árbók Barð).  Skýringar kunnu menn á slysinu eftirá:  „Tveir prestar fóru fram af Hyrnunum.  Prestur var skömmu áður að húsvitja í Keflavík.  Honum þótti eitt barnið kunna fræðin illa og sló til þess.  Faðirinn sagði þá að hann skyldi ekki oft berja börn sín.  Á Kifhyrnu á heimleiðinni kom vindkviða í hempu prests og feykti honum framaf“.  (Jóna Ívarsdóttir; frásögn á Ísmús).  

Ekki verður feigum forðað.  Frá Naustabrekku er unnt að komast á brún Brekkudals með hesta um sneiðinga í brattri hlíð og einstigi í klettunum.  Á 19.öld hafði bóndi í Gröf ráðið sig til vorróðra í Keflavík.  Um veturinn dreymdi hann illa og taldi drauminn boða sér feigð.  Fór hann því til Keflavíkur og sagði upp skiprúminu.  En í bakaleiðinni lenti hann í snjóflóði í Brekkunni og slasaðist svo illa að það dró hann til dauða nokkru síðar.  (Ari Ívarsson; Árbók Barð).  

Kerlingarháls er sagður taka nafn sitt af örlögum tveggja kvenna sem hér fóru um fyrir margt löngu, en gjarnan er saga þeirra höfð sem hér segir:  Þegar kerlingarnar komu þar sem vegurinn er brattastur gekk sú er á eftir var í spor hinnar, sem á undan fór. Henni mislíkaði það og hafði orð um en hin síðari breytti eigi til. Af þessu tilefni kom þykkja mikil í kerlingarnar og sú fyrri fikraði sig alltaf tæpara og tæpara eftir brúninni en hin fylgdi jafnan í spor hennar. Brátt kom að því að ekki varð tæpara gengið. Þá ávarpar hin fyrri síðari kerlinguna og sagði: „Gakk þú nú í sporin mín, bölvuð”, og gekk um leið fram af brúninni. Hin kerlingin lét ekki á sér standa. Fóru þær báðar fram af fluginu og köstuðust til bana í stórgrýtinu þar fyrir neðan. 
Sagan er einnig til í öðrum búningi:  Eitt sinn í fyrndinni bar svo við að flökkukerling fór ríðandi úr Breiðuvík yfir Víknafjall inn í Keflavík; með henni var unglingur stálpaður.  Kerling  tók sér gistingu í Keflavík, og morguninn eftir býst hún að fara burtu og inn á Rauðasand.  Hún verður síðbúin, en er hún ætlar af stað kemur þar önnur flökkukerling; sú kom frá Látrum.  En er hún veit að hin er ferðbúin hættir hún við að beiðast gistingar á bænum, en biður hina að lofa sér að fylgjast með inn á Sandinn, því hún sé ókunnug veginum þangað.  Kerling sú er fyrir var afsegir það með öllu, því hún ætli sér mundi verða verr til gistingar á Sandinum ef hún fylgdist með sér.  Fer hún svo af stað, og er hin sér það eltir hún hana og segist skuli fylgjast með henni yfir hálsinn þótt hún meini sér það.  Fara þær svo, og eru alltaf að deila.  Kerling, sem fyrir var reið undan en hin á eftir, og fara  þær svo þangað til þær koma þar er Hyrnur heita (Kifhyrna); er þar gata tæp og klettar undir.  Þá mælir kerling, sem undan reið:  „Það skal þó aldrei verða að þú, forsmánin þín, njótir fylgdar minnar niður á Sandinn."  Og fer hún af baki og steypir sér niður af klettunum í gjá eina.  En er hin sér það mælir hún: „Jæja, þér skal þó aldrei verða að því, bölvuð, að ég fylgi þér ekki eftir,"  og fer hún af baki og steypir sér í gjána á eftir hinni.  Hálsinn milli Rauðasands og Keflavíkur heitir síðan Kerlingarháls.  Unglingurinn, er með þeim fylgdist, komst til byggða og sagði allt, er farið hafði um kerlingarnar. (Lögberg-Heimskringla 02.08.1956).
Þó sagan í báðum myndum sé með ólíkindablæ er ekki útilokað að þarna hafi kerling einhverntíma fokið framaf úr hinni tæpu götu.  Vindur gat rétt eins gripið pils hennar og hempur prestanna tveggja sem sannanlega fuku framaf Klifhyrnu og biðu bana.

Keflavík 

Franskir (Frönskur/ Franskar) nefnast dysjar nokkurra franskra sjómanna af skútu sem þar strandaði.  Sjá sjóslysasögu Rauðasandshrepps.  Dysjarnar eru neðst í Hlunkurholtinu, á bökkum Árinnar í Keflavík; utantil.

Lambahlíð

Strand Odds lögmanns  Oddur lögmaður Sigurðsson (1681-1741) var lögmaður norðan og vestan, og bjó með móður sinni, Sigríði Hákonardóttur á Narfeyri, þar er áður hét Geirröðareyri. Oddur var mikill vexti og ramur að afli, en ofsmaður mikill í skapi, afarráðríkur og deilugjarn. 

Það var sumarið 1714, að Oddur gerði ferð sína út undir Jökul á farmaskipi sínu hinu mikla, er Svanur hét, og þá var talið mest allra íslenzkra flutningaskipa Vestanlands, og víðar.  Var formaður á Svan Guðmundur Ásgeirsson, er síðar bjó að Slitvindastöðum í Staðarsveit.  Lögmaður lét hlaða Svan ýmsri kaupstaðarvöru og fiski, en áður hann lagði aftur undan Jökli, reið hann heim að Hraunskarði, og var á dag liðið er hann kom aftur og þeir lögðu úr höfnum.  Snerist Svanur þrisvar við undir þeim í stillilogni, og þótti þeim síðar sem Svanur hefði með því viljað kveðja landið.   

Þeim gekk vel fyrir Brimilsvöllu og Máfahlíð. En er þeir komu fyrir Búlandshöfða, er skilur Neshrepp innri og Eyrarsveit, dró svartan mökk upp á höfðann mjög skjótlega.  En þá litlu siðar fór skip á móti þeim, er var á leið undan Jökli.  Var Guðbrandur í Skoreyjum formaður á því skipi, og segja sumir að Þormóður væri þar með honum.  Var þá tekið nokkuð að hvessa. En er Svanur renndi hjá skipi Guðbrandar, mælti lögmaður sem í glettni við Guðbrand:  "Nú er byr á Barðaströnd, Guðbrandur". Hann svarar: "Þá er að neyta hans, herra".  Litlu síðar gekk vindurinn til og á móti Svan.  Sló þegar á myrkri miklu, svo að varla sá fyrir borðin út.  Hvesti þá afarmikið.  Gerði hinn mesta stórsjó er fram á flóann kom. Gekk veðrið þá í austur og landnorður, er nær dró Barðaströnd, og náðu þeir eigi Skor.  

Stýrði lögmaður sjálfur alla nóttina. Ekki fengu þeir heldur náð landi við Rauðasand. Segja sumir, að þeir kæmust fyrst að landi undir Keflavík, en þorðu eigi að lenda vegna brims.  Að lyktum hleyptu þeir inn á vog nokkurn undir Látrabjargi austarlega (undir Lambahlíð).  Gekk Oddur lögmaður þar á land og lagðist fyrir í brekku lítilli.  Ætluðu menn hann sofnaði þar á grúfu.  Mikið náðist af skipsfarminum, en enginn kostur var að bjarga skipinu, og fór það í spón.  Þá er mælt að Guðmundur Asgeirsson, gamall formaður fyrir Svan, kvæði vísu þessa: „Aldrei það eg áður man/ ellimæddur og lúinn,/ að eg hafi séð svo Svan/ sorgarlega búinn".  Sumir eigna lögmanni sjálfum vísu þessa, er öllu ólíklegra, því hann var þá enn á léttasta skeiði.  Hann hughreysti menn sína og kallaði allt fengið, er þeir héldu lífinu, en allir voru þeir mjög þrekaðir.  

Þar var ærið bratt uppgöngu frá vognum og klettótt.  Jón Þorgilsson úr Brandsbúð var þeirra færastur og hinn brattgengasti.  Fékk hann klifið upp gjá nokkra með strengi, en þeir handstyrktu sig á eftir honum allir upp bjargið.  Heitir þar Lambahlíð, á milli Keflavíkurbjargs og Breiðavíkurbjargs. 

Þeim var fylgt að Bæ á Rauðasandi, en þar bjó Guðrún Eggersdóttir ríka Björnssonar á Skarði á Skarðströnd, ekkja Björns sýslumanns Gíslasonar, (Vísa-Gísla) sýslumanns, Magnússonar lögmanns, Björnsonar.  Eftir það komst lögmaður og menn hans heim að hálfum mánuði liðnum. Ekki var trútt um að sumir héldu þetta gjörningaveður, einkum af því, að hinn sama morgun, er lögmaður braut skip sitt, hafi Páll Vídalín, er þá bjó í Víðidalstungu mælt er hann vaknaði: "Lifandi er Oddur, en brotinn er Svanur".  Þótti mönnum sem honum mundi eigi ókunnugt hvað lögmanni leið um nóttina; því ærinn áttu þeir ófrið saman, en Páll var haldinn fjölkunnugur, og var það alþýðu trú um marga gáfumenn í þá daga.

Frásögnina í þessum búningi skrásetti Guðbrandur Sturlaugsson (1820-1897) sem bjó fyrst að Kaldrananesi í Strandasýslu en síðan í Hvítadal í Saurbæ.  Gildur bóndi og fékkst við fræðastörf.  Auk 9 barna með Sigríði Guðmundsdóttur konu sinni átti hann dóttur með Ólínu Andrésdóttur, skáldkonu.
Þar heitir Lögmannsvogur undir Lambahlíð sem Oddur braut skipið Svan.

Hvallátrar 

Góðverk við Fátækrastein.  Uppi við Látravatn er steinn sem heitir Fátækrasteinn.  Sagan segir að hann dragi nafn af atburði sem átti sér stað í ótilgreindri fortíð.  Það var að áliðnum vetri, og víða orðið þröngt í búi í sveitinni.  Margir höfðu komið að Látrum og fengið úrlausn, en nú voru heimili víða komin að þrotum.  Þá er það að maður kemur innan af Rauðasandi og biður Látrabónda ásjár.  Hann átti ekki nema málungi matar og ekkert framundan nema vergangur allrar fjölskyldunnar, en börnin mörg og ung.  Látrabóndi hlustar á raunatölur hans, en segist enga björg geta honum veitt.  Fátæki bóndinn heldur því bónleiður í burtu.  Látrabóndi er raunamæddur yfir því að geta ekki veitt þetta liðsinni og gengur sér til hugarhægðar út á Bjargtanga.  Þegar hann kemur suðurundir Seljavíkina sér hann þar nýrekinn hval; firnastóran.  Hann hraðar sér nú heim og sendir mann ríðandi á eftir fátæklingnum.  En hann þurfti ekki langt að fara, því þegar hann kemur uppundir Látravatn sér hann að maður liggur þar við stóran stein.  Sendimaður hélt fyrst að maður þessi væri dáinn, en fór þó af baki og ávarpar hann.  Þetta var þá fátæki bóndinn og hafði hann örmagnast þarna af þreytu og hungri.  Sendimaður segir honum þá hvað í efni er og lætur hann fá hestinn niður að Látrum.  Hvalurinn er síðan skorinn, og fékk hinn fátæki hestburð af honum með sér heim.  Sagan segir að upp frá þessu hafi Látrabóndanum vegnað hverju árinu betur sem hann bjó; enda lét hann aldrei fátækling synjandi frá sér fara upp frá þessu.  (Ásgeir Erlendsson; Ljós við Látraröst).

Dularfulla býlið Básar.  Básar nefnast vogar neðst í Seljadal; við rætur Brunnanúps, og grasbakkarnir ofan þeirra.  Þar mótar fyrir tóftum.  Sagt er að þar hafi staðið býlið Básar, sem eyðst hafi í svartadauða (1402-1404).  Sagt er að á hverjum jólum hafi horfið frá Básum ungur sveinn eða meystelpa, sem heilluð hafi verið í burtu.  Upp undir Smáhömrum á að hafa fundist lindi eða föt af telpu einni er þannig hafði horfið frá Básum. (Gísli Konráðsson; Sóknarlýs. Vestfjarða).    Kórbás nefnist einn básinn; eins og kirkjukór í lögun.

Breiðavík 

Harmsaga í Brúðgumaskarði.  Þjóðleiðin um Víknafjall, frá Hænuvík, Kollsvík og Breiðuvík um Keflavík til Rauðasands, liggur um skarð milli Breiðavíkur og Keflavíkur sem nefnist Brúðgumaskarð.  Nafngift þess vísar til raunalegra atburða fyrr á tíð: 
Meðan Kollsvíkingar áttu kirkjusókn að Saurbæ; allt frá kristnitöku fram til 1824, var þetta jafnframt kirkjuvegur Kollsvíkinga, auk mikillar umferðar vermanna og annarra.  Brúðgumaskarð fékk það nafn á árunum kringum 1720 þegar Einar, ungur og efnilegur sonur Bjarna Jónssonar bónda og bátasmiðs í Kollsvík, var á leið til Saurbæjar; þar sem hann hugðist kvænast heitmey sinni; Guðrúnu Jónsdóttur frá Breiðuvík.  Þau höfðu bundið fastmælum að hittast í skarðinu og það þeirra sem fyrr yrði á staðinn myndi bíða hins.  Einar hefur eflaust hraðað för sinni frá Kollsvík, enda mikill viðburður framundan.  Verður hann því fyrri á staðinn.  En þegar bóndadóttirin kemur neðan Stæðaveginn úr Breiðuvík finnur hún unnusta sinn látinn í skarðinu.  Var álitið að þar hefði hann orðið bráðkvaddur.  Guðrún giftist síðar Jóni Einarssyni frá Hreggstöðum, sem kallaður var hrekkur, og settust þau að í Æðey.  Skarðið var eftir þetta nefnt Brúðgumaskarð, en ekki er vitað um fyrra heiti.  (VÖ; skv munnlegum sögnum og Ábúendatali Trausta Ólafssonar).  Um Brúðgumaskarð lá einnig leið prestanna úr Sauðlauksdal til þjónustu í Breiðuvíkurkirkju, en þeim ferðum fjölgaði stórum eftir 1824, er Breiðuvíkurkirkja varð sóknarkirkja.  Því lét séra Magnús Gíslason ryðja veginn frá Sauðlauksdal að Brúðgumaskarði, sem eftir það nefndist Prestavegur.  (Jóhann Skaptason; Árbók F.Í). 

Kollsvík  

Tjónsvík nefnist vogur fremst undir Blakknum, Kollsvíkurmegin við Syðstu-Trumbu.  Nafnið er ævagamalt og ber vitni um skipsskaða fyrr á tíð.  Sá síðasti á þessum slóðum varð þegar enski togarinn Croupier strandaði á Blakknesboða 2.febrúar 1921, en boðinn er um 200 metra framundan Blakknum.  Útilokað reyndist að koma áhöfninni til bjargar og fórust allir; 12 að tölu.  Líkin rak upp í Tjónsvík, en aðstæður voru slíkar að þau urðu ekki sótt fyrr en voraði.

Mannskaðinn í Kollsvík 1857.    Hinn 3. desember 1857 dundu þau ósköp yfir Kollsvíkurbæinn að bærinn sjálfur eyðilagðist að miklum hluta og tvær manneskjur létust, en aðrir slösuðust.  Sturla Einarsson, sem ættaður var úr Kollsvík en bjó þá á Brekkuvelli, vann þá að smíðum í bænum og varð vitni að atburðum.  Hann ritaði frásögn þá sem hér verður stuðst við í stórum dráttum:  „Ég var nýbyrjaður að smíða innanum stofuhús.  Þetta var fyrir jólaföstu og heilan sólarhring áður hafði hlaðið niður fönn í blæjalogni svo ekki varð komist um fyrir djúpfenni, en nú var frost og kominn austnorðan garður.  Að mér frátöldum voru átta manneskjur í baðstofunni en annað fólk í fjósi.  Skyndilega heyrði ég skruðning yfir mér og þakið hrundi, en það var með hellurefti.  Með guðs aðstoð gat ég brotist út um glufu á gaflinum.  Þegar ég kom að bæjardyrunum var snjór í ganginum.  Gömul kona heyrðist kalla, en hún hafði verið í búrinu að matbúa og var fost undir loftinu, en ekkert stóð uppi af baðstofunni.  Kennari sem þar var hafði komist út og hjálpaði mér að ná gömlu konunni út.  Vart sá handaskil fyrir veðurofsa og skafmold.  Ófrísk húsfreyjan hafði setið á rúmi í baðstofu og tókst að bjarga henni; barnið fæddist síðar heilbrigt.  Mannfátt var tll björgunarstarfa því húsbóndinn var af bæ.  Daginn eftir komu menn af nalægum bæjum til leitar.  Þá fundust þrjú systkini, en eitt þeirra lést samdægurs.  Enn vantaði þrennt; tvö börn og eldri konu.  Það fannst ekki fyrr en á sunnudag; þremur sólarhringum eftir slysið.  Börnin tvö; tveggja ög sjö ára, fundust undir rúmi, neðst í brakinu.  Þau voru ósködduð að því frátöldu að yngra barnið kól á einum fingri.  Konan hafði hinsvegar þeyst frameftir göngunum og sýnilega kafnað strax.  Eyðileggingin var mikil á bæjarhúsunum.  Svo var krafturinn mikill að hey sem stóð við baðstofugaflinn var sem skorið í tvennt ofan miðju.  Maður sem var á heimleið úr húsunum missti frá sér skóflu sem fannst svo 200 föðmum í burtu“.  (Stytt frásögn Sturlu Einarssonar). 
Lengi hölluðust menn helst að því að skýstrokkur eða hvirfilbylur hefði verið þarna á ferðinni.  Sumir tengdu þetta galdrasendingum: 
„Allgott veður var í Kollsvík umræddan dag fyrir og eftir gerningaveður þetta, sem kennt var fítonsanda, einum eða fleirum, er sendur var bóndanum í Kollsvík frá manni, sem bóndi átti sökótt við. Hófust deilur þeirra út af aflabrögðum á vorvertíð umrætt ár og hótaði sá, er fyrir barði varð, að senda bónda sendingu, er jafnaði metin milli þeirra“. (Vestfirskar sagnir). 

 Hinsvegar virðist nú full ljóst að um snjóflóð var að ræða, af þeirri gerð sem nefnd er kófhlaup.  Aðstæður þær sem Einar lýsir samsvara kjöraðstæðum til þess.  Þetta fékkst svo staðfest rétt fyrir árið 2000, þegar Hilmar Össurarson bjó í Kollsvík.  Þá kom svipað flóð niður úr Núpnum; yfir gamla bæjarhólinn á sama stað og það sem hér var lýst. 

Hænuvík

Sölmundur rauðhærði bjargast frá Fökkum.   „Landamerki Kollsvíkur og Hænuvíkur eru í Sölmundargjá.  Sú nafngift er svo til komin:  Sagt var að Frakkar sæktust eftir rauðhærðum strákum til beitu og borguðu vel fyrir.  Þessi strákur átti að hafa sloppið frá Frökkum og komist í land og klifið upp gjána eða með henni, en þarna er á annað hundrað metra berg sem ótrúlegt er að nokkur hafi getað klifið“  (grein í Sumarliða pósti, Ingvar Guðbjartsson).  Reyndar eru skráð landamerki um Þyrsklingahrygg, nokkru utanvið Sölmundargjá, en stundum einnig sögð liggja um gjána (VÖ).  „Sagt er að Sölmundargjá dragi nafn af að þangað hafi drengur sloppið sem Hollendingar hafi ætlað að nota í beitu.  Drengurinn hefir því auðvitað verið rauðhærður og sambrýndur“  (Örn.skrá; Sigurbjörn Guðjónsson). 

Tunga

 Barist um Urðavöllinn.  „Upp undan Gjögrunum eru lautir sem ekki sést í neðan frá Gjögrum, og heitir það Bardagalágar.  Þar segir sagan að þeir hafi barist eitt sinn; Tungu- og Sellátranesbóndinn, og bardagaefnið Urðavellirnir“  (Örn.skrá; Kristján J. Kristjánsson). 

Milli Tungu í Örlygshöfn og Sellátraness er lítill foss undir skriðunum sem Mígandi heitir.  Þar eru nú landamerki þessara jarða. Fyrrmeir voru landamerkin innantil við svonefndan Urðavöll, sem er svolítill grasbali sem liggur Tungumegin við fyrrnefndan foss, og átti Sellátranes allar nytjar af Urðavelli.   Gísli Konráðsson segir svo frá í handriti sínu:  „Í fornöld er það talið, að þræta væri milli bændanna á Sellátranesi og Tungu í Örlygshöfn um landshluta þann er Urðarvöllur heitir, því báðir vildu eigna sjer völlinn. Sellátranesbóndinn ætlaði að veita aðför Tungubónda, en Tungubóndi fór heiman sama erindis. Hittust þeir þar undir fjallinu og slóst þar í bardaga og fjellu menn af hvorumtveggja og að lyktum bóndinn frá Sellátranesi. Voru þeir þar grafnir og sýndist af kumlum þeirra er mjög eru í jörðu sigin, að 4 hafi fallið. Heita þar síðan Bardagalágar, er þeir börðust. Síðan hefur Urðarvöllur fylgt Tungulandi, og hefur þetta verið í heiðni er þeir fengu ekki kirkjuleg, ef að nokkru er að marka sögn þessa“.  Munnmælin eru einnig til í annarri útgáfu:

„Tungubóndi taldi sig hafa eignarrétt á Vellinum og um það deildu þessir bændur.  Fór svo að báðir söfnuðu liði og varð fundur þeirra við svonefndar Bardagalágar, sem liggja ofanvið Gjögra; upp undir fjallshlíðinni.  Þar er sléttur grasmelur fyrir neðan.  Lágarnar eru tvær; alldjúpar.  Í þeim leyndi Tungubóndi helmingi liðs síns áður en fundurinn hófst.  Í fyrstu veitti Nesbónda betur i viðureign þeirra, en þá lét Tungubóndi lið það er hann hafði leynt í lágunum sækja fram, og kom það Nebóndanum í opna skjöldu.  Fóru svo leikar að þar féll Nesbóndi með hreysti.  Ekki er þess getið hvað margir menn féllu af beggja liði, en tvö kuml sjást þarna greinilega í dag.  Er annað þeirra stærra.  Þau eru skammt hvort frá öðru; utan og neðantil við Bardagalágarnar.  Síðan hefur Urðavöllur legið undir Tungu.  Er auðséð að þar hefur sá sterkari ráðið merkjum.  (Frásögn Þorvaldar Thoroddsen í Árbók Barð, eftir föður sínum Ólafi E. Thoroddsen í Vatnsdal).
Sellátranes skiptist frá Hænuvík um árið 1600 samkvæmt Jarðabók ÁM/PV.

Hnjótur 

„Í Heiðardal, vestan eða sunnan Hnjótsár, eru Nautadalir.  Þar er sérstakur stór steinn sem heitir Útburðarhóll“  (Örn.skrá; Ólafur Magnússon). 

Dauði séra Jóns á Krossholti. Krossholt eða Krossi nefnist smágrjóthryggur með mörgum vörðum á milli Aurholtslauta og Krossalauta (á Hnjótsheiði).  „Þar átti prestur (séra Jón Ólafsson) að hafa orðið bráðkvaddur á leið frá Sauðlauksdal út í Breiðuvík (eða frá Hnjóti að Lambavatni, þar sem hann bjó.“  (Örn.skrá; Ólafía Magnúsdóttir).   Jón var prestur við Saurbæjarkirkju og bjó fyrst á Melanesi en lengst af á Lambavatni , eða frá 1679 til 1703.  Í kaflanum hér á undan, um tröll, er sagt frá kynnum hans við skessuna í Síðaskeggi.  Frá dauða Jóns árið 1703 segir svo í Breiðfiskum sögnum: 
„Hann var á ferð út í Örlygshöfn og kom síðla dags ölvaður að Hnjóti. Þar settist prestur að drykkju með bónda en hélt síðan heim á leið um nóttina yfir Hnjótsheiði. Með séra Jóni var ungur sonur hans, Ólafur að nafni. Er þeir komu nokkuð upp á heiðina dró prestur upp nestispela sinn og drakk allósleitilega. Andartaki seinna sá drengurinn bláa gufu brjótast fram um varir hans. Hneig séra Jón þá af hestinum og var þegar örendur. Trékross var reistur þar sem prestur andaðist og heitir síðan Krossholt“ (eftir handriti Gísla Konráðssonar).
Séra Jón var merkur fræðimaður og sískrifandi. Fyrst að loknu námi var hann 7 ár handritari á Skarði, hjá Eggert sýslumanni sem kostaði hann til náms. Eftir hann liggja milar ættartölubækur um Vestfirðinga; nýlega fundnar í Danmörku.  Einnig ævisögu Jóns Indíafara.  Þá var hann einnig gott ljóðskáld.  Aldrei sat hann kirkjustaðina, en bjó á Melanesi og Lambavatni og átti hlut í báðum jörðunum.  Greinilega hefur Guðrún Eggertsdóttir ekki kært sig um að hann þrengdi að sér í Saurbæ, en leigði honum þessar jarðir sínar.  Drykkjumaður þótti hann nokkur, eins og fram kemur í þessari frásögn.  (Ari Ívarsson og Rósinkrans Ívarsson; Árbók Barð). 

Vatnsdalur 

Des á Hafnarmúla.  „Uppi á Múlanum eru gamlar rústir sem nefnast Des“  (Örn.skrá; Ólafur E. Thoroddsen).   „Hér er um hjalla að ræða; það gæti hafa verið hlaðin þarna varða fyrr á öldum sem nú er hrunin og mosagróin.  Þjóðsagan um að þarna sé heygður landnámsmaður fær vart staðist.  Desin á Hafnarmúla er notuð sem fiskimið úti í Patreksfjarðarflóa; þá er miðað við þegar Desin sést fram undan Neshyrnu.  Ennfremur er Desin sprökumið í firðinum innan við Vatnsdal.  Örnefnið er ýmist kallað Desin eða Dysin“  (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen).  
Athyglisvert er að bæði fremst á Hafnarmúla og fremst á Blakknesi eru ævafornar hleðslur sem vitna um dysjar; Kollsleiði á Blakk og Des/Dys á Hafnarmúla.  Fjöllin eru helstu kennileiti þar sem fyrstu landnámsmenn svæðisins bar að landi; Koll í Kollsvík og Örlyg í Örlygshöfn.  Vel er þess virði að íhuga tengslin þarna á milli.  Báðir voru þeir keltnesk-kristnir trúboðar, en í þeirri trú er mikið lagt upp úr virðingu fyrir náttúrunni og jafnvel helgi náttúrufyrirbæra.  Voru Blakkurinn og Hafnarmúlinn e.t.v. álitnir helgir staðir og á þeim reist þessi mannvirki sem ölturu?  Sé hér um yngri mannvirki að ræða er rétt að íhuga annan möguleika:  Magnús sýslumaður prúði kvað upp sinn fræga vopnadóm á þingi í Tungu, Örlygshöfn 12.oktober 1581 þar sem bændur voru skyldaðir til landvarna.  Einn liður í því var að hafa ávallt tilbúinn bálköst á hæstu hæðum, sem sjást langt að; til að með stuttum fyrirvara mætti láta boð berast um árás sjóræningja.  Bæði frá Blakknesnibbu og Múlanibbu sést vítt og langt.  Á vindasömum nibbum þarf að hlaða steingarða til skjóls, og kann að vera að hér sé um slík mannvirki að ræða.  Aldursgreina þyrfti jurtaleifar undir neðstu steinum til að komast nærri hinu sanna í þessum efnum (VÖ). 

Saklaus hálshöggvinn í Vatnsdal.  „Þar sem bærinn stóð, þó heldur utar, er Björnsflöt.  Í henni er Björnslág.  Þar var saklaus maður hálshöggvinn, og er því ekki hægt að fylla hana“  (Örn.skrá; Ólafur E. Thoroddsen).   „Sagnir af atburðum á Björnsflöt eru mjög þjóðsagnakenndar og óljósar.  Ég efast um að þær byggist á skráðum heimildum“  (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen).  

„Þar sem gamli bærinn stóð; þó heldur utar, er Björnsflöt.  Þar var saklaus maður hálshöggvinn og er því ekki hægt að fylla hana“.  (Örn.skrá; Bragi Ó. Thoroddsen).  

Sauðlauksdalur  

Imbublettur heitir dálítið hvolf inn í vestari bakka Bæjargilsins (ofan bæjar í Sauðlauksdal); beint á móti Ennunum ofan við Brystið.  Neðan við Imbublettinn, í sjálfu Bæjargilinu, er Imbuklettur.  Inn í vestari enda hans er klettaskora.  Í botni þessarar klettaskoru of umhverfis hana er mjög grasgefið.  Þessa grastoppa má aldrei slá.  Fylgir því búfjármissir; kýr; hesrur eða 10 ær.  Þessi blettur er nefndur Imbuleiði.  (Ýmsir tala um Imbrublett, sem er sjálfsagt afbökun).  Allt fram til loka 18.aldar var í Sauðlauksdal þingstaður sveitarinnar og er því hætt við að þar hafi farið fram aftökur, eins og nafn Gálgasteinanna ber vitni um.  Konur voru yfirleitt ekki líflátnar öðruvísi en þær væru brenndar eða þeim drekkt eða hvoru tveggja ef sakir voru stórar.  Þarna við Imbruklettinn var tilvalinn staður til beggja athafna í gilinu.  Imbublettur er kenndur við sakakonu er þar hefur borið beinin.  Eldri maður; Guðmundur Bjarnason, gat um krossmark á þessum stað.  Í dag hefur nafnið færst á alla brekkuna; upp að brún.  Kinnin á móti Bæjarklettunum er kölluð Imbublettur.  Um Imbublett í þeirri merkingu var oft farið þgar halda átti með hesta út í sveit og vitað var að Vatnsdalsskriður og Hafnarmúli voru illfærir vegir.  Eins var þarna, út höggin, oft snjólétt leið út á Presthjalla; alla leið til Breiðavíkur eða annarra Útvíkna“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).   Við þessa frásögn er það að athuga að þingstaður Rauðasandshrepps var í Tungu frá fornu fari og allt fram á 20.öld.  (Sumar heimildir segja hann þó hafa verið í Sauðlauksdal um tíma).  Þetta þarf þó ekki að rýra gildi sögunnar, því vel má vera að sakakona hafi verið dæmd til dauða á þingi í Tungu en aftakan hafi farið fram nærri kirkjustaðnum, undir handarjaðri prests (VÖ).

Arnarvörður heita krossvörður á vatnaskilum milli Sauðlauksdals og Keflavíkur.  Slíkar vörður voru oft reistar þar sem slys urðu á mönnum…  Sumarliði Bjarnason (sem var bóndi í Keflavík um 1910) sagði mér svo frá:  Örn var eldri maður er var að sækja vermenn í Útvíkur.  Hvaðan hann var mundi hann ekki; nema hann var utansveitarmaður.  Það óhapp skeði að bilaði binding á bagga eins af hestunum.  Örn var burðarmaður.  Gerði hann að því er aflaga fór; snaraði honum síðan á klakkinn og héldu menn þá til hesta sinna.  En Örn hneig í sama augnabliki dauður niður í götuna, þar sem nú eru vörðurnar“  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).


Jónsvarða heitir varða og áningarstaður á Dalsfjalli, beint niður af Draugagilinu fyrir neðan Steinbrekkurnar; undir Grænafellshorninu.  Sami staður er líka nefndur Jón Þorvarðarson.  Átti nafnið að vera tengt við þann geymna prest Jón Þorvarðarson, er lét ríða á móti sér ölföng er hann kom úr tíðaferðum.  Hér átti hann að hafa geymt ölföng af og til.  Jón neytti ekki víns fyrr en að lokinni reisu, þegar sýnt þótti að hann kæmist sjálfbjarga heim.  Önnur sögn er að hér hafi látist maður með þessu nafni af slysförum.  Ég hef hvergi getað fundið mann með þessu nafni í skrám yfir presta í Rauðasandshreppi, en þarna er tilvalinn áfangastaður, því varla er um bæði gras og vatn að ræða á sama stað við veginn fyrr en vestur undir Bjarngötudal, vestast í Mjósundum    “  (Örn.skrá; Búi Þorvaldsson).      Spurning er hvort síðari sagan; um andlát prests á þessum slóðum, sé ekki ruglingur við söguna af dauða séra Jóns Ólafssonar á Krossa; sjá hér annarsstaðar undir Hnjóti (VÖ). 

Raknadalur

Morð Ásbjarnar.  Önundur hjet maður einn, einhleypur úr Strandasýslu, ekki all lítill fyrir sjer. Hljóp hann vestur um fjörðu, en kom niður á Geirseyri.  Þar bjó sá maður er Þorgeir hét Helgason og kallaður gamli.  Vel var hann fjáreigandi, en kallaður ódæll og íllur viðskiftis.  Maður hjet Ásbjörn, Þórðarson og bjó í Raknadal, fátækur ómagamaður.  Það hafði orðið um haustið, að Þorgeir á Geirseyri vantaði dilká af Raknadalshlíð er hann kvað stolna frá sjer, og víst mundi Ásbjörn henni stolið hafa.  Kallaði Þorgeir slíka menn ílla örugga í nágrenninu, en aðrir kölluðu það lygar hans að ána vantaði. Það var siður Einars Bjarnasonar, bónda á Vatneyri, að gefa Ásbirni frænda sínum matarbyrði fyrir hverja hátíð, og bar Ásbjörn jafnan byrðar þær undir fötlum, sem kallað er.  Var Ásbjörn og gildur maður fyrir sjer.

Var það nú fyrir jólin 1757, að Ásbjörn gekk til Vatneyrar, og gaf Einar honum byrðina, sem vant var.  Gekk Ásbjörn síðan heimleiðis á Þorláksmessu og fór neðan túngarðs á Geirseyri. Þeir Þorgeir og Önundur, voru úti staddir. Griðkonur tvær þvoðu í ánni og heyrðu þær Þorgeir segja við Önund: „Taktu stóra stafinn og gakktu gressilega“.  En áður ræddust þeir við hljótt.  Við það hvarf Önundur af bænum.

En það var snemma á aðfangadaginn, að tveir menn fundu Ásbjörn myrtann undir fatlabagganum á Raknadalshlíð, með 18 stingjum.  Davíð sýslumaður tók upp mál þetta og prófaði með mikilli athygli, á mörgum þingum.  Hann lét og hengja lík Ásbjarnar upp yfir kirkjudyrum í Sauðlauksdal og ljet alla karlmenn og konur undir ganga úr Patreksfirði og víðar og svo þá menn er líkið fundu, en ekki fannst vegandinn.  Hafði og Önundur hlaupið norður á Strandir og varð því aldrei stefndur til þinga þessara, því síður að hann gengi undir líkið, ef að marki hefði verið.

Það er sagt, að ær sú er Þorgeiri hvarf finndist á Skápadalsfjalli, en þar hafði Þorgeir áður búið.  Einnig var sagt að afar mjög sækti svipur Ásbjarnar að Ögmundi, áður en hann fengi af þeim manni er Jón „glói“ var kallaður, að vísa aðsókn þeirri vestur aftur.  Aðsóknin náði lítt til Þorgeirs, sem lést stuttu síðar, en talið var að hún hafi bitnað á syni Þorgeirs er Torfi hét.  Hann lenti í sauðaþjófnaðarmáli og var hýddur.  Sonur Torfa hét Þorgeir í höfuð afa sínum, en sú varð endalykt hans að hann reif hrís á Raknadalshlíð og hrökk aftur á bak er hann kippti upp hríslunni.  Í því kom steinn úr brekkunni fyrir ofan og rotaði hann til bana. Var þetta kennt fylgju þeirra feðga, því jafnan sýndist Ásbjörn fylgja þeim með fatlabaggann á baki.
(Eftir handritum Gísla Konráðssonar)

Geirseyri 

Síðasta drekkingin.  Sumarið 1755 er talið að konu hafi síðast verið drekkt í hegningarskyni hérlendis. 
Maður nokkur; Sigurður elli að nafni, bjó á Geirseyri á fyrri hluta 18.aldar.  Hann var norðlenskur að ætt, en Helga kona hans var dóttir Jóns Jónssonar í Hænuvík; eins hinna kunnu Sellátrabræðra; bróðurdóttir Halldórs á Láganúpi og Bjarna í Kollsvík.  Sigurður elli var talinn harðgert hraustmenni og peningamaður mikill.  Er hann giftist Helgu var hún ólétt eftir Gunnar nokkurn, er átti heima á Barðaströnd.  Sigurður gekkst samt við barninu, sem skírt var Einar, og aðra tvo syni eignuðust þau Helga saman.

Helga féll frá, og fékk Sigurður þá fyrir ráðskonu Guðrúnu nokkra Valdadóttur.  Hún hafði áður eignast barn með fyrrnefndum Einari sem skráður hafði verið sonur Sigurðar.  Svo fór að Guðrún eignaðist annað barn og var Sigurður faðir þess.  Með því höfðu þau gerst brotleg við ákvæði Stóradóms, sem lagði blátt bann við því að maður eignaðist barn með barnsmóður sonar síns.  Hér hefndist Sigurði fyrir að hafa ranglega feðrað Einar.  Sigurður leitaði til Gunnars Barðstrendings, sem þverneitaði að gangast við Einari; jafnvel þó fé væri í boði.  Sigurður fékk þá Þórð nokkurn til að játa á sig faðerni Einars, og greiddi honum fyrir sem nam hálfum sjóvettlingi af peningum.  En fyrir dómi treysti Þórður sér ekki til að standa við gerða samninga.  Ólafur Árnason sýslumaður í Haga dæmdi þau þá bæði til dauða; Sigurð ella og Guðrúnu Valdadóttur.  Samkvæmt hefðinni skyldi Sigurður hálshöggvinn en Guðrúnu drekkt.  Hafa má í huga að ritari Ólafs sýslumanns á þessum tíma var Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, áður en hann tók prestsvígslu 1749.  Hvorki Sigurður né Guðrún mætti þó til Alþingis sumarið 1753, og var borið við lasleika.  Davíð Scheving Hansson hafði þá tekið við sýslumannsembættinu og reyndi allt hvað hann gat til að leita þeim náðunar.  Kóngur synjaði um alla náðun.  Sagt er að hann hafi sent sýslumanni pakka með konunglegu innsigli og að upp úr honum hafi komið hvít skyrta með rauðum kraga.  Þóttist sýslumaður þá vita hvers hann mætti vænta ef aftökunum væri frestað.

Sigurður elli var hálshöggvinn á Hólavelli í Haga á Barðaströnd 1755.  Böðullinn hét Bjarni og ætlaði hann að rífa af gyllta silfurhnappa er Sigurður bar á skyrtu sinni.  Sigurður elli sló hann þá kinnhest og mælti: „Ekki átt þú, þrællinn þinn, neitt af þeim. Skulu þeir fylgja mér í jörðina“.  Bjóst Sigurður harðmannlega við dauða sínum og bað sýslumann að láta grafa sig þar sem mættist vígð mold og óvígð en bannað var að jarða lík sakamanna, er dæmdir höfðu verið til dauða, í vígðri mold.  Áður en Sigurður elli lagðist á höggstokkinn bað hann fyrir sérstaka kveðju til Gunnars Barðstrendings sem áður var nefndur. Þegar Gunnari barst kveðjan veiktist hann, lá skamma hríð og andaðist síðan.

Guðrúnu Valdadóttur var drekkt í Mikladalsá, innantil á Geirseyri.   Kvöldið áður en líflát hennar skyldi fara fram saumaði hún sjálf poka þann eða sekk, er henni skyldi drekkt í að morgni – og vissi sjálf til hvers hann var ætlaður. Var hún hin rólegasta og sagði við sóknarprest sinn, séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, að ekki þyrfti hún huggunarorð mannanna, því að hún væri viss um sáluhjálp sína. Morguninn eftir reið flokkur manna með Guðrúnu inn á Mikladal og skyldi henni drekkt í hyl einum þar í ánni.  Guðrún hafði söngrödd fagra. Á leið til mikladalsaaftökustaðarins söng hún sálm. Var það 27. sálmurinn í Passíusálmunum. Hún byrjaði á versinu: „Ó, vei þeim, sem að órétt lög”, og söng svo sálminn á enda. Fannst öllum mjög til um söng Guðrúnar og þótti þeim hún aldrei jafnfagurt sungið hafa.  Þegar á aftökustaðinn kom var Guðrúnu drekkt og er mælt að Bjarni böðull yrði tvisvar að bæta grjóti í pokann svo að hún gæti sokkið og að lokum hélt hann henni niðri með broddstaf sínum uns yfir lauk. Var hún síðan dysjuð á holti einu þar við veginn.  Þetta er talin síðasta drekking hérlendis.  þessari frásögn voru Sigurður og Guðrún líflátin saklaus, þar sem Sigurður var ekki blóðfaðir Einars. 
(Helstu heimildir eru frásagnir Gísla Konráðssonar og Ingivaldar Nikulássonar).

Á myndinni er Mikladalsá, þó líklega ekki drekkingarhylurinn.