Skrá yfir þekkt örnefni í Kollsvíkur- og Láganúpslöndum og nokkur fiskimið Kollsvíkinga.   Valdimar Össurarson tók saman og byggði einkum á fyrri örnefnaskrám, en einnig öðrum heimildum og eigin staðháttaþekkingu.  Skráin vísar í flestu til örnefnakortsins sem unnt er að opna hér til vinstri á síðunni.

Skránni er kaflaskipt eftir svæðum.   (Flýtival með smelli á kaflaheiti)

Formáli og yfirlitsmyndir
Heimildir

Kollsvíkurland.  Umfjöllun um Kollsvík; landamerki, áttavísanir og Kirkjuból.
Blakknes - Hryggir.  Örnefni í og á Blakknesi: Hryggir, klettar, Croupier-slysið.  Að Sandagili.
Núpurinn.  Frá Sandagili að Húsadal og Veri.
Verið - Langitangi.  Verið og siglingaleiðir.  Mið á grunnslóð.  Snorralending, Breiðasker.
Melar og holt neðan túns.  Frá Sandahlíð, Túnbrekka að Búðarlæk.  Gvendarbrunnur o.fl.
Kollsvíkurbær, Kollsvíkurtún - Tröð.  Ágrip byggðar, Jónshlaða, Biskupsþúfa, Bergin o.fl.
Stekkjarmelur - Norðurmýrar.  Melarandir og Leirar, Nautholt, Hæð.  Áin, Holt, Tröð.
Húsadalur - Haugar.  Húsadalur, Keldeyradalur, Hafnardalir, Kinn, Stórabrekka, Haugar.
Vatnadalur - Kóngshæð.  Fremsti hluti Vatnadals; Kollsvíkurtó, Víknafjallsvegur o.fl.
Núpur uppi - Hænuvíkurháls.  Húsadalur, Kinn, Steilur, Jökladalshæð.

Láganúpsland.  Um byggð á Láganúpi og Grundum.
Grundir og Mýrar.  Langitangi, Fitin, Melar, Mýrar, Torfamelur, Álar, Urðir.
Bakkar - Brunnsbrekka.  Garðarnir, Hólar, Gilin, bæjarhóll, Svuntumýri.
Hnífar - Vatnadalsbót.  Hreggnesi, Hnífar, Stekkar, hellar, Bót.
Vatnadalur.  Litlavatn, Stóravatn, Tóar, Dalbotn.
Hjallar - Fell.  Strympur, Ormar, Sandslág, Fellin.
Breiður.  Breiðurinn í hlíðum, klettum og uppeftir.  Brúðgumaskarð.

Miðaskrá.  Nokkur fiskimið á grunnslóð í Kollsvík og nágrenni.

 

Formáli og yfirlitsmyndir

Örnefni lúta um margt sömu lögmálum og önnur töluð orð.  Sum þeirra geymast óbreytt frá upphafi vega meðan öðrum er skipt út af einhverjum ástæðum og enn önnur taka breytingum.  Þó virðist málið vera íhaldssamara um örnefni en nokkuð annað.  Fjöldi dæma eru um örnefni úr fornu máli sem falla ekki allskostar að töluðu máli í dag, en engum dettur þó í hug að breyta þeim.  Nokkuð af því tagi er að finna í Kollsvíkur- og Láganúpsörnefnum.  Þar er einnig töluvert um nöfn sem greinilega eru mynduð á síðari tímum.  Flest þeirra orsakast annaðhvort af breyttu landslagi, t.d. með framræslu og sáðsléttum á síðustu öld; breyttum samgönguháttum eða með nýrri notkun, svo sem nafngiftir þeirra staða í klettum sem eggjataka hefur verið stunduð í seinni tíð en fugl varp ekki á áður. Á sama tíma hafa vafalítið horfið nafngiftir sem t.d. tengjast miðum af sjó, enda hefur mér reynst erfiðast að afla upplýsinga um síðasta hluta skrárinnar; fiskimiðin og nöfn þeirra í landi.  Það er nefnilega svo að sumir staðir eiga sér annað örnefni í landi en séðir af hafi.  Þetta kemur nokkrum sinnum fram í skránum.  Getur svo hver velt því fyrir sér hvort er upprunalegra.

Bollaleggingar um örnefni hafa löngum verið stundaðar meðal Kollsvíkinga, og man ég eftir ófáum rökræðum um þau á Láganúpsheimilinu meðan ég var að alast upp.  Oftast voru þær umræður líkastar háakademiskum rökræðum fræðimanna; þar sem áttust við sérfróðustu menn um þessi efni.  Sjaldnast komust menn að niðurstöðu og jafnvel gat slíkur rökstóll undist upp í svonefndan Kollsvíkurhávaða; væru menn kappsfullir og stífir á meiningunni.  Vinsælar á þessum þingum voru umræður um uppruna orða og um rithátt.  Má þar nefna sem dæmi upprunaskýringu örnefnisins „Kollsvík“.  Landnáma leggur þar til sína skýringu, en í seinni tíð leyfðu sumir sér jafnvel að draga þá helgu bók í efa; veltu þá fyrir sér skýringum út frá landslagi eða jafnvel hinum írsku pöpum.  „Örnefnið „Láganúpur“  (eða „Láginúpur“) varð tilefni margra umræðna; einnig nafnið „Kofahellir“ (eða „Kofuhellir“).  Þess var gætt af fullorðnum að segja börnum skilmerkilega til allra örnefna og þeirra sagna sem þeim tengdust, og öll tækifæri notuð til þess.  Eflaust hefur svo gengið til; kynslóð eftir kynslóð.  Líta má á þessa samantekt sem tilraun til þess, þó hér sé að mestu byggt á framlagi annarra.

Grunnur að þessari örnefnaskrá eru vitaskuld örnefnaskrár Örnefnastofnunar, sem nú eru vistaðar á örnefnasviði Árnastofnunar.  Svo langt sem þær ná eru þær núna undirstöðuheimild allrar þekkingar í þessum efnum.  Enda eru þær byggðar á upplýsingum fólks sem best þekkti til staðhátta og nafna þegar skráin var tekin saman.  Ástæða þess að ég fór að fikta í þessu var þörfin til að sameina upphaflegu skrárnar síðari athugasemdum og bæta í þær fróðleik sem finna má annarsstaðar.  Ég nota þær því sem grunn og bæti við ítarupplýsingum úr öðrum heimildum, auk eigin skýringa þar sem ég tel við eiga.  Heimildir fyrir þessu eru listaðar í lokin.  Hér er haldið að mestu númeraröð í upphaflegri örnefnaskrá.
Í samvinnu við Landmælingar ríkisins og fleirum hafa flest þessi örnefni nú verið kortsett í rafrænum kortagrunni, og komast má í hann af hlekknum hér vinstra megin á síðunni.  

Hér fyrir neðan eru fyrst fjórar loftmyndir af svæðinu, en inn á það hafa verið sett nokkur örnefni, undir umsjón Ingvars Guðbjartssonar frá Kollsvík.

 

(Smella á myndir til að opna í sér flipa/glugga)

 1.  Kollsvíkurland

 Kollsvík (1) er allstór vík sunnarlega á Vestfjörðum.  Hún er nyrst þriggja víkna sem liggja yst á skaganum milli Breiðafjarðar og Patreksfjarðar og nefnast „Útvíkur“.  Hinar eru Breiðavík og Látravík.  Þessar víkur eru um margt líkar; opnar til norðvesturs; afmarkaðar af sæbröttum múlum og gróðurlitlum hálsum; með holt, mýrar og fitjar í víkurbotnum en skeljasandsrif í fjöru; ræktarland ýmist á sandmelum eða framræstu mýrlendi.  Landnytjar og atvinnusaga þessara víkna hefur einnig verið með svipuðum hætti meðan byggð var almenn á þessu svæði.  Kollsvík tilheyrir Rauðasandshreppi, sem frá fornu fari hefur náð yfir syðsta skaga Vestfjarða; milli Breiðafjarðar; Patreksfjörð allan, allt út á Tálknatá.  Árið 1907 var skipt útúr hreppnum þéttbýlinu sem myndast hafði á Eyrum, norðantil í Patreksfirði.  Þar er nú kauptúnið Patreksfjörður.  Þó stjórnskipulega hafi Rauðasandshreppur og nokkur nágrannasveitarfélög nú á síðustu árum verið sameinuð í Vesturbyggð verður hin forna svæðaskipting þó ekki afnumin sem örnefni.   Í Kollsvík eru nú tvö lögbýli; Kollsvík og Láginúpur.  Þessi býli eru einnig þau elstu, og hafa líklega verið í byggð frá landnámstíð.  Býli í víkinni hafa flest orðið 9, eftir því sem næst verður komist, að frátaldri hinni fjölmennu byggð í verstöðvunum tveimur.

kollsvik fjaraKollsvík er nefnd í Landnámu.  Bjó þar fyrstur Kollur, fóstbróðir Örlygs Hrappssonar á Esjubergi.  Jörðin finnst svo nefnd með nafninu Kollsvík nokkrum sinnum á 15. og fyrri hluta 16. aldar og má af öllum þessum bréfum að jörðin er bændaeign á þessu tímabili.  En jafnframt er á nokkrum stöðum getið um Kirkjuból í Kollsvík.  Í skiptabréfi eftir Ólöfu Loftsdóttur, 1480, er Kirkjuból í Kollsvík talið meðal eigna hennar.  Frá árunum 1564 og 1567 eru til tvö kaupbréf um hluta af jörðinni Kirkjuból í Kollsvík í Sandshreppi og 1570 seldi Eggert Hannesson Eyjólfi Magnússyni 16 hundruð í Kirkjubóli Kollsvík…. Kollsvík hefur ávallt verið bændaeign og nafnið Kirkjuból hlýtur þessvegna að vera dregið af því að þar hefur verið kirkja.  Sést það og af bréfi einu frá 1509 að kirkja hefur verið í Kollsvík í kaþólskum sið.  Þar er skýrt frá leigumála á jörðinni og átti leiguliði meðal annars að svara prestsskyld af henni.  Prestsskyldin hefur vafalaust verið söngkaup sem greiða átti presti af hálfkirkju eða bænhúsi sem á jörðinni hefir verið.  Þetta styrkist og af því að í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín seir um Kollsvík „Hér hefur fyrir refirmationem verið hálfkirkja“, og ennfremur af því að mannabein hafa fundist í jörðu í Kollsvík, þannig að augljóst er að þar hefur verið grafreitur í kristni.  Sýnir það að gröftur hefur verið leyfður við hálfkirkjuna í Kollsvík.  Kirkjubólsnafnið, sem þannig hefur verið notað af og til á 15. og 16. öld festist þó ekki við jörðina, heldur var hún á síðari öldum jafnan nefnd Kollsvík“  (Ólafur Lárusson; Byggð og saga; Rvík 1944).

Kirkjan í Kollsvík var hálfkirkja (líklega sett af Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskup um svipað leiti og bænhúsið í Breiðuvík, en það var árið 1431).  Á hálfkirkjum skyldi veita tíðir annan hvern helgidag.  Bænhúsið mun hafa verið sett af þeirri nauðsyn að kirkjuvegur að Saurbæ er firnalangur og liggur yfir þrjá fjallvegi, en skylt var að sækja messur reglulega.  Varðaði það lög og Kristnirétt að þegið væri sakramenti að lágmarki þrisvar um árið.  Skálholtsbiskupar skyldu vísitera kirkjur á þriggja ára fresti, þó það hafi sjaldnast staðist.  Einungis þá voru börn biskupuð (fermd).  Kirkjuvegurinn lengdist svo aftur þegar bænhúsið var aflagt um siðaskiptin.  Þurftu Kollsvíkurbændur þá aftur að þramma Víknafjallsveg; sjö til átta roðskóa leið; suður yfir Vatnadalsbotn; um Brúðgumaskarð; yfir Keflavík og Kerlingarháls og frá Naustabrekku inn Rauðasandinn að Saurbæ.  Þær gönguferðir styttust ekki fyrr en kirkja var vígð í Breiðavík árið 1824.  Í hinum nýja sið var ekki síður lagt uppúr kirkjuferðum en í pápískunni.  Bannsetning var yfirvofandi ef ekki var mætt reglulega í kirkju og gengið til altaris.  (VÖ; endurs. úr bók Ág. Sig: Kirkjustaðir á Vestfjörðum).

„Vilborg man eftir 10 býlum í Kollsvík.  Þau voru:  Kollvík (2 býli), Tröð, Grænamýri, Strákamelur (lítið) og Stekkjarmelur, sem voru öll sömu megin Árinnar.  Hinum megin voru Grund, Láganúpur, Grundir og Bakkar.  Sum þessara býla höfðu lítið jarðnæði.  Ábúendur höfu e.t.v. fáeinar kindur, en lifðu annars af sjónum.  Vilborg hefur heyrt haft eftir Guðbjarti Guðbjartssyni, sem alla ævi átti heima í Kollsvík, að um aldamót (1900) hafi verið þar um 80-90 manns heimilisfastir.  Þá eru ótaldir aðkomumenn sem voru þar við sjóróðra.  Þegar Vilborg er að alast upp voru stórar fjölskyldur á báðum Kollsvíkurbæjunum.  Þau systkin voru 11 en 12 börn á hinum bænum (Kollsvíkurbænum), og er þá ótalið fullorðið fólk“  (VT; aths við Örnefnaskrá Kollsvíkur).
„Mikið þéttbýli var í Kollsvík um aldamótin 1900.  Á heimajörðinni Kirkjubóli í Kollsvík var tvíbýli, en auk þess voru fjögur heimili á Kollvíkurjörðinni; þurrabúðirnar Tröð, Grænamýri og Melur, auk þess sem þurrabúð var í Kollsvíkurveri.  … Föst búseta lagðist fljótt af í Verinu, en 1907 bættist Stekkjarmelur við.  Í Tröð, á Grænumýri og á Stekkjarmel áttu lengst af heima niðjar Guðbjartar Ólafssonar og Magdalenu Halldórsdóttur sem höfðu lengi búið í Kollsvík og átt 17 börn….Kollvík var 24 hundruð að fornu mati… Í sóknarlýsingu 1840 er hún sögð hafa bæði gras og útigang, en í byrjun 20. aldar var gert lítið úr hvorutveggja, en hún hafði annað; útræðið.  Á síðasta skeiði árabáta varð Kollsvíkurver aðalverstöðin í Vestur-Barðastrandasýslu.  Gengu þaðan 25 bátar um aldamótin 1900….  Eftir fyrri heimsstyrjöld leystu trillur árabátana af hólmi og hélst töluverð útgerð úr Kollsvíkurveri fram á fjórða áratuginn“  (BÞ;Vestfjarðarit;  Fólkið, landið og sjórinn).

Landamerki.  2. febrúar árið 1660 var skrásettur vitnisburður nokkurra staðkunnugra og frómra manna um landamerki jarða í Rauðasandshreppi, eða eins og þar segir: „Öllum þeim frómum mönnum sem þessi vor bréfleg orð lesa, sendum vér Ólafur Ásbjarnarson (að aldri 54 ára gamall og í þessari sveit allan minn aldur alið að undanteknum tveimur misserum og þremur árum sem ég í minni barnæsku er sagt að verið hafi á Barðaströnd); Jón Össurarson (hefi nú eitt ár um sextugt og hefi verið heimilisfastur á Rauðasandi í samfelld 41 ár að fráskildum tveimur árum); Jón Jónsson eldri (er nú 53ja vetra á Rauðasandi barnfæddur og uppalinn allan minn aldur verið að undanteknum fjórum árum á Hvallátrum í sömu sveit); Jón Gunnlaugsson (sem er nú að aldri 45 ára gamall, barnfæddur að Keflavík hér í sveit, en frá barnæsku heimilisfastur verið árlega á Rauðasandi); Jón Jónsson yngri (er einnig í þessari sveit barnfæddur og allan minn aldur verið og er nú að aldri 37 ára gamall) kveðju Guðs og vora hér með einum og sérhverjum auglýsandi, það sá heiðarlegi mann Eggert Björnsson hefur af oss með sínu sendibréfi, óskað oss grein á gera, með vorum sannaða vitnisburði, hvað sannast vér vissum eður heyrt hefðum af vorum feðrum og oss eldri mönnum hvar landamerki væru og haldin hefðu verið á millum þessara eftirskrifara jarða að fornu og nýju“.  (Vitnisburðurinn nær til þeirra jarða í Rauðasandshreppi sem tilheyrðu eignagóssi Eggerts eða Saurbæjarkirkju.  Eftirfarandi sögðu þessir frómu menn um landamerki Láganúps, sem þá var ein af hjáleigum Saurbæjar):  „Láganúps landsmerki höfum vér heyrt og haldin hafa verið úr skeri því sem liggur nær undan miðjum Breiðnum og Landamerkjasker er kallað, og í Ána sem rennur milli Kollsvíkur og Láganúps“. Á landamerkjaþingi að Tungu í Örlygshöfn 15. júlí árið 1889 voru upplesin og innfærð landamerki jarða í Kollsvík: „Eftir óátöldum gömlum máldögum og landamerkjaskrám á Láganúpur land að sunnanverðu í sker það er liggur niðurundan miðjum núp þeim er almennt hefur verið kallaður Breiður og úr skeri því er fyrrum hefur verið kallað Landamerkjasker, og síðan upp allan Landamerkjahrygg og beint á fjall upp; og svo eru landamerki eftir vatnshalla eftir kjöl þeim sem liggur milli Breiðavíkur og Vatnadals allt norður að vegi þeim er liggur fram Vatnadal frá Kollsvík og suður á Rauðasand; svo eru mörkin eftir sem vegur þessi liggur ofan Vatnadals yfir Kollsvíkurskarð, svo langt norður sem svarar uppsprettu ár þeirrar er rennur í sjó milli Láganúps og Kollsvíkur og eftir Ánni til sjávar.  Túninu og nokkru af slægjulandi því er Láganúpi hefur fylgt er nú skipt milli Láganúps og Grunda, en beitilandi og reka og öllum öðrum gögnum og gæðum ásamt nokkru af slægjulandinu er óskipt, en þessi jarðarnot hefur hver ábúandanna að helmingi eins og þau notast; engin ítök eiga aðrar jarðir eða menn í landi Láganúps.  Láginúpur á engin ítök í annarra manna löndum.  Þar sem Láginúpur er kirkjujörð frá Bæ á Rauðasandi þá kemur ekki til greina sérstaklega ítak Bæjarkirkju til tíundu hverrar vættar af hvalreka í landi allra jarða í Rauðasandshreppi“.

Áttavísanir.  Í Kollsvíkinni hafa þróast sérstakar málvenjur um áttavísanir milli bæja.  Sá sem staddur er í Kollsvíkurbæ fer yfir að Láganúpi eða Stekkjarmel.  Gat hann þá t.d. farið yfir Umvarp, eða aðra leið.  Þeir sem staddir eru á Láganúpi eru fyrir handan, séð frá Kollsvíkurbæ, og komi þeir þá koma þeir að handan.  Bæirnir handantil í Kollsvíkinni, þ.e. suðvestantil; Láginúpur, Grundir, Hólar og Grund, eru einu nafni nefndir Handanbæirnir.  Sá sem staddur er á Handanbæjum fer norður í Kollsvík, ætli hann sér til Kollsvíkurbæjarins.  Gat t.d. valið að fara norður Melarandir.  Hinsvegar fara menn frá Láganúpi fram á Mýrar; fram með Fellum; fram í Vatnadal; upp á Hjalla; út að Stóravatni; út á Strympur og Hnífa; niður í fjöru og fram á Breiðasker.  Frá Kollsvík fara menn upp á Núp; upp í Urðir og Húsadal; fram í Keldeyrardal; fram í Buga; niður í Ver; norður undir Blakk; norður í Hryggi og norður á Blakk.  Ætluðu menn sér úr Víkinni var farið inn í Hænuvík og Höfn; inn að Nesi, Gjögrum og Tungu; inná Patreksfjörð (Patró); inná Barðaströnd; inná Rauðasand; út á Breið; út að (eða í) Breiðuvík; út að Látrum; suður í Borgarnes og Reykjavík.  Margt annað er sérstætt í málfari Kollsvíkinga og annarra íbúa á svæðinu.  Unnið er að skráningu sérstæðra orða; orðasambanda og orðanotkunar í Kollsvík (VÖ), en við þá skráningu hefur þegar komið í ljós fjöldi orða sem ekki eru á skrá í Orðabók Háskólans.

Kirkjuból (2).  Eldra nafn á Kollsvíkurbænum.  Þar var bænhús í kaþólskum sið, þar sem greftrun var leyfð, og nafnið eflaust af því dregið.  Kirkjugarðurinn stóð þar sem nú heitir Jónshlaða.  Þar SA-megin í hólnum er jarðfastur steinn sem sagður er hornsteinn kirkjugarðsins.  Mannabein hafa komið upp neðantil í hólnum, þar sem var lengi kartöflugarður, og einnig þegar grafið var fyrir stakri votheysgryfju sem þarna stendur.  Ekki er ólíklegt að Kirkjuból hafi verið upphaflegt nafn á bænum.  Kirkjuból eru víðar á landinu og hefur verið sýnt framá að á öllum stöðum reis kirkja mjög snemma.  Margar líkur benda til þess að í Kollsvík hafi risið fyrsta kirkja landsins, og eru færð rök fyrir því hér annarsstaðar á vefnum, í greininni "Kollur og kirkja hans".  Reynt var að endurvekja Kirkjubólsnafnið á fyrrihluta 19. aldar en það féll niður aftur.

Straumnes (3)  Eldra nafn á Blakknesi.  Straumnes mun það hafa heitið allt til þess tíma að enskir sjómenn vöndu komur sínar á þessar slóðir.  Þeir nefndu fjallið „Black ness“, sem fljótt náði almennri útbreiðslu og var tekið upp á kortum.

Blakknes (4) ,oft stytt í „Blakkur“ eða „Nes“.  Nafn á fjalli því eða núp sem gengur fram norðan við Kollsvík, og skilur hana frá Patreksfirði.  Segja má að Blakknesið, e.t.v. verid blakkurásamt Núpnum, sé einkennisfjall Kollsvíkur; formfagurt og áberandi kennileiti; tignarlegur múli, 281 m hár, með sjávarklettum neðst; grónum skriðuhlíðum og háum klettum ofantil. Heitið „Blakknes“ er ekki gamalt þó það sé nú allsráðandi.  Gegnum aldirnar hét nesið Straumnes, og má víða sjá það heiti í gömlum heimildum og kortum.  Það voru enskir sjómenn sem tóku að nefna þetta dökka og mikilfenglega kennileiti „Black ness“, e.t.v. til aðgreiningar frá öðru Straumnesi nyrst á Vestfjörðum.  Fyrrum var Blakknes stundum nefnt Nesið af heimafólki; talað um að „fara framá Nes“.  Þó er algengara núorðið að stytta nafnið í Blakk.  Talað er um að „fara til eggja í Blakknum“.  Hinsvegar var talað um að „fara norður Hryggi“ þegar smalað var.  Frá hafi lítur fjallið öðruvísi út; verður dökkt og svipstrekt.  Kjammi nefnist brekkan innantil (Patreksfjarðarmegin) á Blakknum (4); utan Gjárdals.  „Grashalli sem hallar að brúninni.  Nær hann inn að Gjárdal.  Upp af honum er Gjárdalsskarð.  Gjárdalur og Kjammi eru að mestu í Hænuvíkurlandi“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Nes (5).  Annað heiti á Blakknesi.  Í daglegu máli var til skamms tíma  t.d. oft talað um að „fara norður á Nes“.

Blakkur (6).  Stytting í daglegu tali á örnefninu Blakknes.

Karl og Kerling (örnefni í Hænuvíkurlandi).  Klettadrangar úti í sjó innan við Blakknes; við fjöruborðið undir Gjárdal á Hænuvíkurhlíðum.  „Þau áttu að vera tröll sem dagað höfðu uppi.  Tröllkonuhellir er þar neðst í efri klettum og úr honum áttu að vera göng í Tröllkarlshelli sem er í Hnífum, vestan við Láganúp.  Oft höfðu menn það sér til gamans þegar farið var framhjá Karli og Kerlingu, og þau bar hvort í annað eða þau áttu sína einu ástarfundi, að láta þá sem voru að fara sína fyrstu ferð framhjá taka ofan höfuðfat sitt.  Þótti það hneysa að láta plata sig til þessa og reynt að hefna sín seinna, t.d. með því að segja; „það skeit fugl á húfuna þína“  (IG; frásaga í Sumarliða pósti, feb 1989).

Tröllkonuhellir (örnefni í Hænuvíkurlandi). Hellir norðanmegin í Blakknum; neðst í efri klettum, innan Sölmundargjár.  „…úr honum áttu að vera göng í Tröllkarlshelli sem er í Hnífum, vestan við Láganúp.  (IG; frásaga í Sumarliða pósti, feb 1989).

Bellubás (örnefni í Hænuvíkurlandi).  Vogur undir Blakknesi norðanverðu.  „Hann er kenndur við skútu sem strandaði og fannst um vorið og eitt lík í.  Talið var að rænt hefði verið úr skútunni.  Snæbjörn frá Hergilsey segir frá þessum atburði í ævisögu sinni“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).
bella„Bella frá Færeyjum strandaði laugardaginn fyrir hvítasunnu árið 1882, undir Hænuvíkurhlíðum utanverðum; innantil við Sölmundargjá.  Veður var norðan stórhríð og stórsjór.  Skipið lá norður á Aðalvík, slitnaði upp og fékk á sig sjó og rak svo stjórnlaust á hliðinni; fyrir Vestfirði og strandaði á fyrrgreindum stað.  Eitt lík var bundið í reiða skipsins og var farið með það til Breiðavíkur og jarðsett þar.  Skipið var annars mannlaust og er haldið að skipverjar hafi farið í bátana eftir að skipið fékk sjó á sig, einhversstaðar úti fyrir Vestfjörðum, og þeir hafi svo allir farist.  Enginn vissi hve margir menn voru á skipinu þar sem enginn var til frásagnar.  Bella var um 40 smálestir að stærð.  Var skipið selt Sigurði Backmann kaupmanni á Vatneyri og lét hann rífa skipið“  (Frásögn Össurar Guðbjartssonar (eldri) frá Láganúpi (f. 1866-d. 1950), Egill Ólafsson skrásetti 1946). 

Sölmundargjá (örnefni í Hænuvíkurlandi).  Stór gjá í efri klettum norðanmegin í Blakknesi; stutt innan Þyrsklingahryggs.  „Landamerki Kollsvíkur og Hænuvíkur eru í Sölmundargjá.  Sú nafngift er svo til komin:  Sagt var að Frakkar sæktust eftir rauðhærðum strákum til beitu og borguðu vel fyrir.  Þessi strákur átti að hafa sloppið frá Frökkum og komist á land og klifið upp gjána, eða með henni.  En þarna er á annað hundrað metra berg sem ótrúlegt er að nokkur hafi getað klifið“  (IG; frásaga í Sumarliða pósti, feb 1989).  Í Sýslulýsingum sínum frá 1746 telur Ólafur Árnason sýslumaður Barðstrendinga m.a. upp nokkur örnefni út með Patreksfirði sunnanverðum og segir; „…Lauturdahl der er et Fiskevær og Söeboeder for Folk at roe ved til Fiske om foraaret;Giardal og Nafargia næst udi Strömnæset som er Markeskiæl fra Hæneviig og her endis Saudlösdahls Kirkesogn“.  Sölmundargjá virðist hér nefnd Nafargjá, sem líklega byggir á vanþekkingu eða misskilningi.

Blakknesröst (7)  Straumhörð röst framundan Blakknesi sem getur orðið sæfarendum all skeinuhættur farartálmi.  Hún verður stundum mjög úfin og greinileg, einkum í sterku norðurfalli undir norðanátt.

Hyrnur  Mið framundan Blakknesi.  „Að vera á Hyrnunum merkir að vera í Blakknesröstinni, þannig að Hyrnur Innri-Hænuvíkurhlíða og Neshyrnan komi framundan Blakk.  Þvermið er breytilegt, eftir því hvað djúpt er verið; frá því að Verið í Breiðavík komi fyrir Breið, fram í það að Breiðavíkurbærinn gamli komi undan.  Þarna rekur fljótt þegar kviknað er fall og iðulega þarf að kippa.  Í norðurfalli eru menn fljótt komnir norður á ljósar hyrnur og enn lengra til norðurs rekur á Dýpra Sandnes (þegar Skersmúlinn kemur framundan) og síðan Grynnra Sandnes (þegar múlinn innan Kvígindisdals kemur framundan), og síðan norður á opinn Flóa.  En í suðurfalli rekur fyrst á blindar hyrnur og síðar suður á Sandlæk, sem er annað nafn á Sandagili milli Blakks og Núps. Reki lengra til suðurs eru menn komnir á „opna víkina“. (VÖ).

Þegar dýpra var róið var farið út eftir Hyrnum og miðað við örnefni  til austurs; á norðurströnd Arnarfjarðar, eftir því sem þau birtust framundan Kópnum.  (Talað var um að farið væri „niður á Dalsdal“ eða alla leið „niður á Dýpri Skeggja“ :

Víkuráll  Mikill djúpáll sem gengur til suðaustur inn í grunnið undan Útvíku og Patreksfjarðarflóa; fengsælasta veiðislóðin við sunnanverða Vestfirði.  „Leiða má líkum að því að Víkurállinn dragi nafn af Kollsvík, enda þó uppruni nafnsins sé nú ókunnur.  Kollsvík var mesta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum þegar veiðar hófust að ráði í álnum á skútuöld og í byrjun togaraaldar.  Kollsvík er einnig eitt gleggsta leiðarmerki sem sjómenn í Víkurál höfðu í landi: með Blakkinn gnæfandi við himin og Sandahlíðina sem lýsti eins og viti langt til hafs, jafnvel í dimmu veðri.  Ekki er líklegt að mikið hafi verið sótt út í Víkurál af minnstu bátum sem reru úr Kollsvík, en það kann að hafa verið gert á stærri bátum eins og Fönix.  Af þessum líkindum er full ástæða til að Víkuráls sé getið í örnefnaskrá Kollsvíkur“  (VÖ).

Gangur (16).  Fjárgata upp af Trumbum í Blakknesi (4).

Þyrsklingahryggur (8).  Stór og áberandi hryggur í hlíðinni rétt norðan til við Trumbur í Blakknum.  Um Þyrsklingahrygg eru landamerki Kollsvíkur og Hænuvíkur.  Utan við Þyrsklingahrygg er hlein og var þar stundum lent ef fara átti af sjó í Trumbuflesið.  Þar í er hola sem nefnd er Kattarhola (9).

Kattarhola (9)  Hola í hlein sem er rétt utan við Þyrsklingahrygg, norðantil í Blakknesi.  „Á köttur að hafa farið þar inn og komið út á Kattarholuvegi í Keflavík“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Trumbur (10).  Örnefni framan í Blakknesi.  „Þrjár klettabríkur eða bogamynduð nef í sjávarklettunum og ganga beint út í sjóinn.  Trumburnar eru aðgreindar og nefndar Nyrstatrumba (11), Miðtrumba (12) og Syðstatrumba (13).  Sést hin síðastnefnda að heiman.  Þetta eru samfelldir klettar og varla hægt að tala um víkur á milli; aðeins smávik“.  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Nyrstatrumba (11).  Hin nyrsta af þremur Trumbum (10) í Blakknesi.

Miðtrumba (12).  Sú sem er í miðið af þremur Trumbum (10) í Blakknesi.

trumba bodiSyðstatrumba (13).  Hin syðsta af þremur Trumbum (10) í Blakknesi; hin eina sem sést úr Kollsvík.  (Myndin til hliðar er tekin ofan af Nibbu).

Brandsbót (14).  Vík undir Trumbum (10) í Blakknesi; milli Mið- og Syðstutrumbu.

Trumbufles  Trumbufles er grasi gróinn fláki í sjávarklettum Miðtrumbu; u.þ.b. í miðjum klettunum.  Í Trumbuflesi verpur fýll og er farið þar til eggja ofanfrá.  Best er að fara í lágdauðu og leggja bát að hleininni undir Þyrsklingahrygg; ganga þaðan upp og útávið.  Sitja má að vað undir kletti ofanvið flesið en einnig er fært í það gangandi aðeins utar.  (VÖ).

Blakknesboði (15).  Boði fram af Syðstutrumbu (13) í Blakknesi.  Hann kemur aldrei uppúr sjó, en er hættulegur skipum.   „Á Blakknesboða strandaði gufutogarinn Croupier croupier sapphireGY 271, 1. febrúar árið 1921, og fórst öll áhöfnin; 12 menn.  Croupier var 302 brúttótonn að stærð, smíðaður 1914 og gerður út frá Grimsby“.  (wrecksite.eu). (Myndin er af Sapphire, sem var systurskip Croupier).  „Nóttina sem strandið varð var suðvestan kafaldskóf; hæglætisveður en ylgja í sjó.  Um morguninn urðu Kollsvíkingar varir við strandað skipið; um 200 m frá landi, og vildu reyna björgun.  Ófært var af sjó sökum brims og einnig reyndist ófært landleiðina norður Hryggi vegna bleytu og klaka.  Fjöruleiðin er ófær þar sem strandið varð norðan Helluvogs.  Fresta varð aðgerðum til næsta dags.  Þá fór fjölmennur flokkur af stað með vaði og annan búnað; m.a. Guðmundur Sigfreðsson hreppsstjóri í Króki.  Farin var fjaran; klöngrast uppyfir Helluvog; sigið 25 faðma niður í fjöru í Tjónsvík norðanvið hann og gengin malarfjara að strandstað.  Þar voru sjórekin lík dreif um fjöruna en ekkert lífsmark að sjá.  Útilokað var að koma líkunum heim við þessar aðstæður og var því búið að þeim með seglum í fjörunni, uppi undir klettum.  Hafa þurfti hraðar hendur við það vegna aðfalls.  Ekki gaf að sækja líkin fyrr en á útmánuðum vegna veðurs og sjólags.  Aðstaða til að koma líkunum fram í bátana reyndist mjög erfið.  Búið var um hvert lík í hessíanstriga; bundið á fjöl og dregið á vaðdrætti um borð.  Síðan var siglt með líkin til Vatneyrar“.  (Skráð af Agli Ólafssyni og Jóhanni Ásmundssyni eftir Össuri Guðbjartssyni (eldri; 1886-1950)).  Lítið sést nú eftir af flaki Croupiers, en þó mun örla á gufuketilinn frammi á Tjónsvíkinni um stórstraumsfjöru.  „Fram af Syðstu-Trumbu er boði sem er hættulegur skipum.  Þar strandaði enskur togari árið 1912 (?) í blindbyl og roki.  Enginn vissi um strandið fyrr en upp birti, en þá var allt horfið í hafið.  En menn fóru á staðinn; sigu niður klakabólstrað bergið.  Þar var ömurleg aðkoma.  Nokkur lík sem borin voru undan sjó, en ekki var hægt að ná þeim fyrr en fór að vora.  Þar sem þetta rak heitir Tjónsvík, en það er mikið eldra nafn svo draga má þá ályktun að oftar hafi orðið þar skipatjón“  (IG; frásaga í Sumarliða pósti, feb 1989).  Ártalið hefur örugglega skolast til í þessari frásögn; Croupier var smíðaður 1914.

blakknesbodi hoggblakknbodi jhoggEinn þeirra sem fórst með Croupier var vélstjórinn, James Hogg.  Árið 2016 kom dóttursonur hans, David Hogg, til Kollavíkur til að líta þennan örlagastað afa síns.  Fjær sést David, með Blakkinn í baksýn, en nær er eldri mynd af James, afa hans.

Sundið milli lands og Blakknesboða er ekki vítt, en kunnugir heimamenn sigldu gjarnan um það til að stytta sér leið og forðast röstina.  Miðið í sundið, sé farið frá Kollsvík, er að halda Bræðragjám sýnilegum þar til Tálkninn kemur framundan Trumbum.

Flár (17).  Grasfláki upp af Trumbum og Gangi, framan í Blakknesi; nær töluvert hátt upp í efri kletta úr hlíðinni.  Þangað fara ekki nema færustu menn, en fyrir kemur að brattgengt fé flækist þangað upp.

Tjónsvík (18).  Vogur eða vík undir Blakknesi (4); heimantil við Syðstutrumbu (13).  Ekki er vitað um upprunaleg tildrög nafnsins, en Tjónsvík bar það nafn með rentu þegar togarinn Croupier strandaði á Blakknesboða (15) og líkum skolaði á land í víkinni.

Takaklettur (19).  Klettur yfir Tjónsvík (18) sem  tengir saman efri kletta og sjávarkletta.  Í klettinum er mjór gangur sem ber sama nafn og er hann eina leiðin sem fær er fyrir Blakk á þessum slóðum.  Þó mun fé hafa verið rekið um annan og efri gang heim að Kollsvík áðurfyrri samanber þessa lýsingu:  „Fé kemst ekki upp Takaklett að sunnanverðu, en þegar komið er að norðan, kemst það niður.  Undir klettinum er hilla eða gangur sem venjulega var farinn en hlaðið er upp í hann, svo fé færi ekki norðurfyrir á haustin“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Á síðari tímum búskapar í Kollsvík fór fé í báðar áttir um neðri ganginn, sem er mun greiðfærari.  Búið var þá að fjarlægja fyrri hleðslur en hliðgrind var sett í staðinn til að stýra umferð fjár.

Sighvatsstóð (20).  Flæmi í miðjum efri klettum, framarlega í Blakknesi (4).  Sagt er að það dragi nafn af bónda í Kollsvík sem seig þar árlega niður með sauð og hafði sighvatsstodhann þar í haga yfir sumarið.  Óvíða er safaríkari beit, en vatnsleysi er þarna algjört.  Eggjamenn á síðari hluta 20. aldar höfðu lengi rennt hýru auga til múkkavarpsins í Sighvatsstóðum.  Menn töldu það þó eftir sér að síga þangað enda önnur leið ekki sýnileg.  Það var svo á níunda áratug síðustu aldar að Valdimar Össurarson frá Láganúpi fann leið til að komast í Stóðin á lásum.  Farið var í lás niðurfyrir klettinn í Nibbugjá; síðan var klifið með annan vað spottakorn upp heimari kant gjárinnar og genginn gangur heimávið.  Í enda hans, ofan norðurenda Stóðanna, var annar vaður settur fastur og síðan farið í lás niður í Stóðin.  Báðir lásarnir eru all langir. Egg voru hífð í lofti uppúr Stóðunum; upp á nef yfir þeim miðjum.  Best gafst að strekkja vað nokkuð á ská og draga eggjakúta eftir honum á hlaupaketti.  Eggjum var safnað í kassa niðri í Stóðunum og þau gjarnan tekin upp síðar, enda tók niðurferð og tínsla töluverðan tíma.  Fljótlega tók þó eggjum að fækka í Stóðunum eins og annarsstaðar, og lögðust ferðir þangað af áður en búskap lauk í Kollsvík.

Höfðar (21).   Grashryggir heiman við Takaklett í Blakknesi (4).  Þar er nokkuð um staka kletta eða tök í hlíðinni, sem er vel gróin.  (Svæðið kann að hafa nefnst „Tök“ áðurfyrri, og gæti það þá skýrt nafn Takakletts).

Vogar (22).  Lítil vik eða vogar undir Höfðum (21) í Blakknesi (4).  Nyrstur þeirra er Helluvogur (23); þá nafnlaus smávogur og syðstur Straumskersvogur (24).

Helluvogur (23).  Nyrstur Voganna (22) undir Blakknesi (4).  Allajafna verður ekki lengra komist norður fjöruna undir Blakknum en að Helluvogi, þar sem sjórinn gengur inn í helli og vogurinn þornar ekki um fjöru.  En á síðari árum hefur komið fyrir að sandburður er svo mikill í voginn að um hann má fara á fjöru.  Leiða má getum að því að vogurinn dragi nafn af hellinum og hafi e.t.v. heitið Hellisvogur áður, en það hljóðbreyst með tímanum í Helluvog.

Straumskersvogur (24).  Syðstur Voganna (22) undir Blakknesi (4); norðan við Straumsker og dregur nafn af því.

straumskerStraumsker (25).  Langt og breitt sker undir Blakknesi (4).  Skerið ber nafn með rentu því framanvið það getur straumur orðið verulegur.  Sumsstaðar er aðdjúpt og mætti leggja stórum skipum uppað um fjöru.  Sjólag við Straumsker var haft til marks um hvort „bjarglega“ var undir Látrabjargi; þ.e. hvort þar væri fært uppá urðir til eggjatöku.  Ef örlaði á hvítu við Straumsker var ekki talin bjarglega.  Sama mark var tekið á sjólagi í Fjarðarhorni, norðan Breiðuvíkur.  Mjög hvítnar á Straumskeri í vestansjó, en síður í norðansjó.

Bekkur (26).  Klettabekkur niðri í fjöru, ofan og heimanvið Straumsker (25) undir Blakknesi (4).  Í Bekkinn er á einum stað gat niður í allstóran helli sem opnast að neðanverðu til sjávar.  Sjór gengur inní þennan helli þegar ekki er háfjara.  Í stórsjó, einkanlega af vestri, verða mikil gos uppúr gatinu þegar öldurnar þrýstast þar inn.  Frá Láganúpi séð ná þessi sjávargos stundum upp í miðja hryggi, eða yfir 20 metra hæð.  Um tíma hefur setið steinn í gatinu, eins og fram kemur í örnefnaskrá (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur) en nokkrir áratugir eru nú síðan hann spýttist úr.  „Norðantil í Bekknum er gult (rautt) lag af tálgusteini framan í honum, og myndast skúti í.  Steinn þessi var tekinn og smíðuð úr honum barnaleikföng o.þ.h.  Ekki var þó varanlegt það sem gert var úr steininum.  Pallanámur heita þar sem steinninn var tekinn.  Þær eru kenndar við Pál Bjarnason, sem lengi var í Vatnsdal.  Hann var barngóður maður og gerði mikið af því að tálga leikföng úr steinum, þegar hann var í veri og vinnumennsku“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Pallanámur (251).  Staður á norðanverðum Bekk (26) ofan Straumskers undir Blakknum.  „Norðantil í Bekknum er gult (rautt) lag af tálgusteini framan í honum, og myndast skúti í.  Steinn þessi var tekinn og smíðuð úr honum barnaleikföng o.þ.h.  Ekki var þó varanlegt það sem gert var úr steininum.  Pallanámur heita þar sem steinninn var tekinn.  Þær eru kenndar við Pál Bjarnason, sem lengi var í Vatnsdal.  Hann var barngóður maður og gerði mikið af því að tálga leikföng úr steinum, þegar hann var í veri og vinnumennsku“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Hryggir  Samheiti yfir hlíðina sunnantil í Blakknesi, en hún skiptist í ýmsa nafngreinda hryggi og svæði.  Í daglegu tali er t.d. talað um það í Kollsvík að „fara norður í Hryggi“; „smala Hryggina“; „að farið sé að grænka í Hryggjunum“ o.s.frv.  Einnig að „fara norður undir Hryggi“ þegar farið er í fjöruna.

Klofahryggur (27).  Syðstur þeirra hryggja í Blakknesi (4) sem eru uppaf Straumskeri (25).  Stór hryggur sem skiptist í tvennt að neðanverðu og af því er dregið nafnið.

strengbergsgjaStrengbergsgjá (28).  Stór og áberandi gjá í Blakknesi (4), sem nær gegnum alla efri kletta; með tignarlegum berggangi (strengbergi) sem nær ofan af hæstu brún niður í Hryggi, og áfram í sjó fram heimanvið Straumsker (25) og Bekk (26).  Nokkrir slíkir berggangar eru í Blakknum, en þessi er mest áberandi.  Í bergganginum er innskotsberg; sumsstaðar stuðlað, með grófkornóttu og járnríku bergi í miðjum stuðlunum.  Kringum bergganginn er eldra bergið að nokkru myndbreytt vegna hita.  „Heimrihilla (252) og Norðarihilla (253) eru neðstu gangar suður og norður úr Strengbergsgjá“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Strengberg (29).  Mikill og áberandi berggangur í Strengbergsgjá (28).  Þessi standklettur liggur ofan af brún efri kletta og niður í sjó, nær óslitið.

Heimrihilla (252).  Neðsti gangurinn suður úr Strengbergsgjá (28).  Vel fær.  „Heimrihilla (252) og Norðarihilla (253) eru neðstu gangar suður og norður úr Strengbergsgjá“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Norðarihilla (253).  Neðsti gangurinn norður ú Strengbergsgjá(28); stundum nefndur Nyrðrihilla.  „Heimrihilla (252) og Norðarihilla (253) eru neðstu gangar suður og norður úr Strengbergsgjá“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Nafargjá  (254).  Gjá í Blakk; upp af Smáhryggjum.  „Nafargjá er talsvert djúp gjá upp af Smáhryggjum (34), frá brún og langleiðina niður.  Einar Guðbjartsson, bróðir Ingvars, mundi eftir þessu nafni“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

undir hryggjumGatforvaði (255).  Annað nafn á Forvaða:  Klettur í sjávarklettum undir Blakknesi (4), nyrst undir Smáhryggjum (34).  Forvaðinn gengur í sjó fram á flæði en gengt er fyrir hann um fjöru.  „Fram af honum er frálaus hlein sem ekki hefur nafn.  Þar flæddi stundum fé; t.d. man Vilborg að eitt sinn flæddi þar fjórtán kindur“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Forvaðinn er oft nefndur Gatforvaði.  Þetta er klettabrík og tvö göt í“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

jonshofdi 2Jónshöfði (256).  Svæði í efri klettum í Blakknum; spölkorn norðan Nafargjár.  „Jónshöfði heitir fyrir norðan Nafargjá; vel fyrir ofan miðja kletta.  Þar var mikið tekið af eggjum.  hann er kenndur við Jón Torfason, bónda í Kollsvík (bróður Guðmundar og Vilborgar heimildarm.Örnskrar) sem fyrstur fór í hann svo vitað sé.  Farið er í lás þegar farið er til eggja“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).  „Jónshöfði er allmikill höfði niðri í klettunum.  Farið er niður á hann úr gjá þar uppaf, og var venja að setja vað fastan utan um lága en víða nibbu á rana í gjánni og þá er léttur en langur lás utantil í rananum; klettur neðst ofan á höfðann.  Af Jónshöfða er annarsvegar farið niður og suður ganga; allt að Nafargjá, en hinsvegar er farið gang norðurávið og þar er hægt að fara í stutt sig niður á annan höfða.  Aðsetan er tæp þar í ganginum og vaðurinn dálítið á snið, en þarna var hægt að fá upp á sig af eggjum.  Jónshöfði er eitt vinalegasta eggplássið í Blakknum, en þau eru mörg“  (VÖ).

mavakambarMávakambar (30).  Mikið flæmi í efri klettum í Blakknesi; frá Sighvatsstóði suður að Strengbergsgjá (28).  Þar hefur verið mikið fýlavarp og voru gerðir út leiðangrar í eggjatöku.  Er þá fyrst farið á Höfðann (31) og síðan í lásum niður af honum og í gangana suður og norður af.  Tvær leiðir voru farnar á Höfðann:  Annarsvegar var sigið af brún, sem þarna er slétt að ofan.  Sigið er létt og klettar hreinir ofantil, en neðantil er loftsig.  Kom það fyrir eitt sinn fyrir miðja 20. öld, að fljótfær sigari sleppti taki of snemma; snerist í vaðnum og kom öfugur niður á Höfðann.  Hin leiðin á Höfðann er sú að fara niður í Sveltið, sem er þarna í brún nokkru norðar; þaðan í lás niður í Sveltisgang, sem er langur gangur til suðurs og tæpur á köflum; fyrir gjána og á Höfðann.  Langir lásar eru niður af Höfðanum og voru menn og egg oft tekin upp á vaðdrætti. (VÖ).

Höfði (31).  Höfðinn ofan Mávakamba í Blakk; norðan Strengbergsgjár.  Oftast nefndur „Höfðinn í Mávakömbunum“ til aðgreiningar frá Jónshöfða og fleiri höfðum í Blakknum.  Niður á Höfðann var farið til eggja í Mávakömbunum. Tvær leiðir voru farnar á Höfðann:  Annarsvegar var sigið af brún, sem þarna er slétt að ofan.  Sigið er lét og klettar hreinir ofantil, en neðri hluti sigsins er loft.  Hin leiðin á Höfðann er sú að fara niður í Sveltið, sem er þarna í brún nokkru norðar; þaðan í lás niður í Sveltisgang, sem er langur gangur til suðurs og tæpur á köflum; fyrir gjána og á Höfðann.  Langir lásar eru niður af Höfðanum og voru menn og egg oft tekin upp á vaðdrætti.

Sveltisgangur  Langur gangur neðan Sveltisins norðarlega í Blakkbrún.  Um hann var stundum farið til að komast á Höfðann ofan Mávakamba þegar farið var þangað í fýslegg.  Tvær leiðir voru farnar á Höfðann:  Annarsvegar var sigið af brún.  Hin leiðin á Höfðann er sú að fara niður í Sveltið, sem er þarna í brún nokkru norðar; þaðan í lás niður í Sveltisgang, sem er langur gangur til suðurs og tæpur á köflum; fyrir gjána og á Höfðann.  (VÖ).

arnastatur heimariÁrnastaðir  Staðir í efri klettum í Blakknum; heiman við Strengbergsgjá (28) en norðan Jónshöfða (256).  „Nafnið er ekki gamalt; það var tekið upp með aukinni áherslu á fýlseggjatöku um og eftir 1970.  Staðirnir eru kenndir við Árna Helgason sem uppalinn er í Tröð, en var lengi bóndi í Neðri-Tungu í Örlygshöfn.  Hann fór fyrir hópi eggjamanna sem nýttu Blakkinn um skeið og hófu þá arnastadur nordarifyrst að nýta þessa staði svo vitað sé.  Síðan var farið árlega á staðina, þó minna hafi verið seinni ár vegna ágangs tófu.  Um tvo staði er að ræða; Heimri-Árnastað og Norðari-Árnastað og er farið niður í lásum.  Farið er í Heimri-Árnastað norðan við gjána sem höfðinn norður af Jónshöfðanum er við.  Sett er fast á stein á brúninni og farið niður í 3 ganga.  Í Norðari-Árnastað er einnig farið í 3 ganga, en þar er sett fast á lausan, ílangan hnullungsstein og hann síðan rústaður uppi á brún.  Þó Árnastaðir séu ekki gamalt heiti þá eiga þeir þegar heima í örnefnaskrá, þar sem um nytjastaði er að ræða sem auðkenna arnastadur nordari festaþarf í umræðu; staðir sem ekki höfðu neitt heiti fyrir en eru skýrt afmarkaðir í landslagi; heiti sem er notað í sátt, af öllum sem til þekkja“  (VÖ).  (á efri myndinni er séð niður í efsta gang heimari Árnastaða; þá norðari Árnastaða, og á neðstu myndinni sést rúst eftir vaðfestu).

Stórihryggur (32).  Stór grashryggur í Blakknesi (4) heiman við Strengbergsgjá (28).  Fram af hryggnum er Stórahryggshlein (33).

Stórahryggshlein (33).  Hlein fram af Stórahrygg (32) í Blakknesi (4).  „Á henni er flæðihætta, og hefur oft flætt þar fé“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Víkin  Breiður vogur undir Blakk(4); heimanvið Stórahryggshlein (33) og neðan Smáhryggja.  Í Víkinni er malarfjara, en stundum í seinni tíð hefur þó ruðst þar upp skeljasandur um tíma.  Þarna, og víðar í malarfjörum á þessum slóðum, má stundum sjá flökkusteina úr grænlensku bergi.  Þeir skera sig oftast úr blágrýtinu vegna litadýrðar; rauðleitt granít; grænleitur gabbró; glampandi glimmer; glitrandi gneiss; hvítleitur kvarz og málmgrýti s.s. seguljárn.  Uppruni þessa grjóts hefur lengi verið ráðgáta og veltu menn því m.a. fyrir sér hvort þetta væri kjölfesta úr skipum.  Nú þykir líklegast að þessir steinar hafi hangið neðan í borgarís frá Grænlandi sem bráðnað hefur við landið.  Flækingar af þessu tagi eru sérkenni sem endurnýjast hægt og því rétt að leyfa þeim að liggja áfram á sínum stað. „Undarlegt er að Víkin skuli ekki hafa ratað í örnefnaskrá, þar sem þetta nafn hefur lengi verið notað í daglegu tali í Kollsvík.  Þetta er áberandi og mikill vogur; eitt helsta rekapláss undir Blakknum og verðskuldar því sitt nafn“  (VÖ).

Smáhryggir (34).  Svæði í hlíðum Blakkness (4),milli Stórahryggs (32) og Valla (37).  „Þetta er grasfláki og klettaslefrur og sjávarklettar undir“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Nafargjá er talsvert djúp gjá upp af Smáhryggjum, frá brún og langleiðina niður.  Einar Guðbjartsson, bróðir Ingvars, mundi eftir þessu nafni“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Forvaði (35).  Klettur í sjávarklettum undir Blakknesi (4), nyrst undir Smáhryggjum (34).  Forvaðinn gengur í sjó fram á flæði en gengt er fyrir hann um fjöru.  „Fram af honum er frálaus hlein sem ekki hefur nafn.  Þar flæddi stundum fé; t.d. man Vilborg að eitt sinn flæddi þar fjórtán kindur“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Forvaðinn er oft nefndur Gatforvaði (255).  Þetta er klettabrík og tvö göt í“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Brattihryggur (36).  Syðstur Smáhryggja (34) í Blakknesi (4) og þeirra brattastur.  Neðan hans eru sjávarklettarnir hæstir.

Völlur (37).  Slétt flæmi heimast í hlíðinni í Blakknesi (4).   Nafnið er þannig sagt og ritað; í kvenkyni fleirtölu.  Völlurnar liggja niður á lága sjávarkletta sem heita Vallabakkar (38) og nyrst á Völlunum er Vallaskriðuhryggur (39).  Upp af Völlunum er Vallagjá (40) upp á brún.  Neðanundir Völlunum er kletturinn Vallaforvaði (41).  Heimast á Völlunum, uppi undir klettunum er Vallaskúti (42); smáskúti þar sem kind getur staðið í skjóli.  Norður- og uppaf Völlunum er Vallafles, sæmilega greiðfær, en svelti er þar niðurundan þar sem fé komst stundum sjálfheldu.

Vallabakkar (38).  Sjávarklettarnir neðan við Völlur (37) í Blakknesi (4).

Vallaskriðuhryggur (39).  Heimasti hryggurinn í Blakknesi (4), nyst í Völlunum (37).

Vallagjá (40).  Gjá í efri klettum í Blakknesi (4), ofan við Völlurnar (37).  Gjáin er vel geng á brún og var fé rekið um hana þegar smalað var af Blakknum.

Vallaforvaði (41).  Klettur undir Völlum (37) í Blakknesi (4) þar sem sjó fellur í berg  um flæði, en gengt er fyrir um fjöru.

Vallaskúti (42).  Hellisskúti heimast í Blakknesi (4) ofanvið Völlur (37).  „Þetta er smáskúti; kind getur staðið þar í skjóli“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Vallafles  Grasfles upp og norður af Völlum (37) í Blakknesi (4).  Sæmilegur gangur er út í flesið og fer fé þar um.  En úr Svelti, niður úr flesinu, kemst það ekki af sjálfsdáðum.

Sandagil (43).  Djúpt gil í hlíðinni milli Blakkness (4) og Núps (55); nær frá efri klettum og niður í fjöru.  „Í vestanstormi rýkur sandur uppúr gilinu og upp á dal fyrir ofan sem heitir Sanddalur…“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur). Gilið er nefnd Sandgil í örnefnalýsingu GT og VT en a.m.k. frá miðri 20. öld hefur það einatt verið nefnt Sandagil eða Sandargil.  „Sandgil (43) var nefnt Sandargil (257)“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Sandargil (257).  Djúpt gil í hlíðinni milli Blakkness (4) og Núps (55); nær frá efri klettum og niður í fjöru.  „Í vestanstormi rýkur sandur uppúr gilinu og upp á dal fyrir ofan sem heitir Sanddalur…“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur). Gilið er nefnd Sandgil í örnefnalýsingu GT og VT en a.m.k. frá miðri 20. öld hefur það einatt verið nefnt Sandargil.  „Sandgil (43) var nefnt Sandargil (257)“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

gvendarhlein rekiGvendarhlein (44).  Hlein sem gengur fram í sjó heiman við Sandargil (43).  „Ekki er vitað við hvern hún er kennd“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Ég veit til þess að bátar hafi lent norður undir Gvendarhlein þegar ófært var orðið í lendingunni í Verinu“  (Torfi Össurarson; munnl.frás. á Ísmús 1978)

Bót  Grunnsjórinn í norðanverðri Kollsvíkinni; undan Sandagili; milli Þórðarskerja og Straumskers.  Önnur bót; Langatangabót, eru handanvið Breiðaskerið.  „Faðir minn sagði mér frá mönnum sem komu úr hákarlalegu og lágu um nóttina í Bótinni, sem kölluð er norðantil í Kollsíkinni, í þreifandi byl.  Þeir náðu þó allir landi“  (Torfi Össurarson; munnl.frás. á Ísmús 1978)

Kollsleiði (45).   Grjóthóll fremst uppi á Nibbu á Blakknesi (4).  „Þar á Kollur sem nam land í Kollsvík að vera grafinn.  Þaðan sést á Biskupsþúfu…en þar á hann að hafa kollsleidi gardbrotfólgið fé sitt.  Það kemur í ljós undan Núpnum, séð frá Biskupsþúfu“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Kollsleiði er ekki áberandi í umhverfinu“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).  „Sagt var að Kollur hafi látið heygja sig norður á Blakknesi.  En áður en hann dó þá hafi hann grafið fjársjóði á einum stað í Kollsvíkurtúni þar sem sást til af Blakknesinu; úr haugnum.  Og það hefur skeð, þegar ég var að alast upp, að þegar einhverjir reyndu að grafa í þústina (Biskupsþúfu) þar sem talið var að fjársjóðurinn væri; þá skeði það að mönnum sýndist bærinn brenna og var þá hlaupið frá.  Þetta á að hafa endurtekið sig oftar á liðnum öldum“  (Gunnar Össurarson; munnl. frás. á Ísmús 1979)

Nibba  Fremsti hluti Blakks, uppi á brún.  Í örnefnaskrá GT og VT er nefnd Blakknesnibba án þess að hún fái þar númer.  Nibba hefur lengi verið nafn staðarins og er því haldið hér.  Á Nibbu er Kollsleiði (45).   „Fýlsvarp er mikið fremst í Blakknum.  Í efstu göngum á Nibbu var tekið nokkuð af fýlseggjum og þá farið laust og í lásum.  Sæmilegt er að komast ofan í þrjá efstu gangana fremst á Nibbunni, rétt norðan við Nibbugjá.  Þar norðan við tekur við Hænuvíkurland“  (VÖ).

nibbugjaNibbugjá  Gjá fremst á Nibbu á Blakknesi, þó lítið eitt sunnanmegin.  Gjáin er þröng og nær um fjórðung hæðar niður í efri klettanna og nokkuð inn í brún.  Um hana liggur leiðin niður í Sighvatsstóðin.  „Eftir að fest hefur verið á stein norðan gjárinnar er farið í lás niður lausa skriðuna í gjárbotninum og niður með standkletti neðst í henni.  Síðan er farið mað annað lásband upp gróin nef sunnan gjárinnar; þar örlítið suður í gang þar sem sett er fast á nibbu og farið í löngum lás niður í norðurenda Sighvatsstóða.  Ég fann þessa leið fyrst um 1985 og fór þetta nokkur ár eftir það; eða þar til múkkavarp hvarf skyndilega nær alveg úr Stóðunum og víðar eftir 1990“ (VÖ).

Gjárdalsskarð  Dæld á Blakknesi (4) þar sem lægst er milli Sanddals og Gjárdals.

Kjammi (258).  Brekkan innantil (Patreksfjarðarmegin) á Blakknum (4); utan Gjárdals.  „Grashalli sem hallar að brúninni.  Nær hann inn að Gjárdal.  Upp af honum er Gjárdalsskarð.  Gjárdalur og Kjammi eru að mestu í Hænuvíkurlandi“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

grynnstasundsvarda

 

Grynnstasundsvarða (46).  Varða á Blakknesi (4), nokkru sunnan við Gjárdalsskarð.  „Var miðað við hana þegar Grynnstasund var farið. milli Bjarnarklakks og Þórðarskers“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  (Myndin er því sem næst í þá stefnu (horf) sem sigla skyldi í).

Sanddalur (47).  Dalur SV-megin á Blakknesi (4)  milli Blakks og Núps; upp af Völlum og Sandargili.  „Í skrá Ara er talað um Efri- (48) og Neðri- (48a) Sanddal, en Guðmundur segir að Sanddalur sé ekki nema einn“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Vegslóði var ruddur af veginum á Núp niður bratta hlíð Sanddals og norður eftir Blakkbrún, að Nafargjá.  Var hann notaður bæði við smalamennskur og eggjatökur.

Efri- og Neðri-Sanddalur (48 og 48a).  Önnur heiti á Sanddal (47) (sjá þar).  „Ingvar heyrði talað um Efri- og Neðri-Sanddal“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Grímssonalág (49).  Laut eða lág  á brún Blakkness (4); upp af Vallargjá.  „….nefnd í skrá Ara.  Guðmundur er ekki viss um hvar hún er, og hefur ekki heyrt neitt um uppruna þessa nafns en kannast við það“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

fimmhundradahaedFimmhundraðahæð (50).  Hæð upp af Sanddal, þar sem efst ber á Hálsinum.  „Hún mun bera nafn af því að á henni var miðuð fiskislóð sem oft gaf þennan afla.  Hæðin er upp af Láturdal, í Hænuvíkurlandi.  Guðmundur og Össur þekkja nafnið, en ekki skýringuna“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Sandahlíð (51).  Hlíðin framan í Núpnum (55).  Þetta er nokkuð stór hlíð með foksandsbreiðum og steinum upp úr hér og hvar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  sandahlid vallargjaSandahlíð er mjög áberandi af sjó og lýsir eins og viti langt út á mið, eftir að önnur kennileiti eru horfin í dimmu.  Það hefur verið mönnum nokkur ráðgáta hvernig Sandahlíðin helst sífellt ógróin meðan allar fjallshlíðar í kring eru vel grónar.  Hugsanlegt er að skýringin liggi í eftirfarandi þáttum:  Í vestlægum áttum, sem þarna verða hvassastar, blæs sandi úr fjörunni upp yfir Melsendakletta og Náttmálaholt og uppí hlíð Núpsins; Sandahlíðin er svo brött að sandurinn rennur af stað niður, en stöðvast að nokkru á stórgrýtinu sem uppúr stendur.  Í norðlægum og austlægum áttum myndast svo hringiður vegna sviptivinda niður Skekkingar og niðurmeð Vegghömrum, sem heldur yfirborði sandsins á hreyfingu.  Þessu til viðbótar er saltur skeljasandurinn mjög ófrjór og að lokum ræður eflaust miklu að grunnvatn nær þarna ekki nægilega nálægt yfirborði.  Allt þetta veldur því að Sandahlíðin hefur haldist ógróin.  Sandahlíðin er uppgróin ofanvið ofanvið miðja hlíðina; þarsem eru sléttar skriður.  Í miðri Sandahlíðinni er áberandi brysti, uppgróið, sem heitir Bekkur.  E.t.v. er hann leifar jaðarurðar frá ísöld.  Framan í Bekknum er stór flatur steinn sem liggur í hlíðinni; hann heitir Árún og var sagður vera álfabústaður.

Skekkingar (52).  Klettaslefrur heimanvið Sandagil (43); norðurendi klettabeltis í Núpnum (55).  „Þetta eru stallar og gangar í klettana og var farið norður Skekkingar þegar farið var norður á Blakknes“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Þar um lágu fjárgötur.

Blettir (53).  Svæði í Sandahlíð (51) þar sem graslendið byrjar.  „Heimildarmenn muna ekki þetta nafn, en þarna eru grasteigar og kann að vera að þeir hafi verið kallaðir þetta“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Rétt er það sem í skrá A.G. segir um Bletti“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

braedragjar sandahlidBræðragjár (54).  Tvær gjár framan í Núpnum (55), upp af Blettum (53).  „Ekki er kunnugt um skýringu á nafninu.  Heimri gjáin er geng, en ekki er fyrir hvern sem er að fara hana“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Núpur (55).  Fjallið ofan Kollsvíkurbæjar; sunnan við Blakknes (4).  Áður var stundum notað heitið „Kollsvíkurnúpur“ (56).  Í fyrri landlýsingum má sjá heitið „Sandnúpur“ og blakkur nupure.t.v. kann það að vera upprunalegt heiti, enda vel við hæfi :  „Udi Strömnæset ere de mækværdige klipper Sandnupur og Lágur…“  (Ólafur Árnason; Sýslulýsingar Barðastrandasýslu, 1746) „Sjómenn kölluðu Núp Sandnúp (259) og var það mið“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur). Núpurinn og Blakkurinn mynda tignarlega og sérkennilega heild, og eru eitt höfuðeinkenni Kollsvíkur.  Þó fjöllin tvö séu tengd með sameiginlegri hlíð og klettabelti mynda þau um leið andstæðu:  Meðan Blakkurin er formfagur grasi gróinn múli með beinni brún efra og sjávarhömrum neðra, þá er Núpurinn snyrtilega bogadreginn að ofan; með sérkennilegum, bröttum sandhlíðum sem sveigjast niður á flatlendið fyrir neðan og grænan fald undir klettum.

Kollsvíkurnúpur (56).  Annað heit á Núp (55).

Sandnúpur (259) Annað heiti á Núp (55).  „Sjómenn kölluðu Núp Sandnúp og var það mið“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Bekkur (57).  Uppgróið foksandsbrysti í Núp (55), ofan við Sandahlíð.  Heimast á honum er steinninn Árún (58).  Sjá þar.

Árún (58).  Stór flatur steinn, nyrst á Bekknum (57) ofan Sandahlíðar í Núpnum (55).  „Ekki er kunnugt um neina skýringu á þessu nafni en sagt var að álfar byggju í steininum.  Vilborg minnist þess að móðir þeirra bað krakkana að fara og sækja kýrnar þegar þær væru komnar norður undir Árún.  Þegar norðar dregur verður hlíðin það brött að ekki þótti vert að láta kýr fara það“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Ofan við bæinn í Kollsvík er grasbrekka undir Núpnum sem heitir Bekkur.  Nyrst á Bekknum er steinn sem nú er siginn í jörð og sandur fokið að honum.  Hann heitir Árún.  Þar er sagt að byggi álfkona.  Sú saga var mér sögð að þegar Gísli bróðir föður míns var lítill drengur, en hann er fæddur í Kollsvík 1863 d. 1948, hafi hann týnst en fannst fljótlega aftur norður á Bekk og sagðist vera að fara á eftir grænklæddu konunni sem ætlaði að lána sér lyklana sína.  Gísli þótti ekki vera sama barn eftir þetta ævintýri“  (IG; frásaga í Sumarliða pósti, feb 1989).

Gíslahilla (59).  Klettur sem skagar fram í hlíðina, neðst í klettum Núpsins (55); beint upp af gamla túninu í Kollsvík.  Ókunnugt er um uppruna nafnsins.

Lambagangur (60).  Gangur efst í Núpnum (55), sem liggur yfir allt fjallið, frá Bræðragjám (54) að Stórulág (61). Á brúninni þar sem hæst ber á Núpnum setti Hilmar Össurarson bóndi í Kollsvík upp sjónvarpsloftnet með aðstoð þjóðhagasmiðsins Ólafs Sveinssonar á Sellátranesi og úr Lambagangi var lögð leiðsla í loftlínu niður Núpinn og síðan heim í bæ.  Reyndist snjöll lausn, en var bilanagjarnt í illviðrum.

Stóralág (61).  Lynglaut í suðurhlíð Núps (55), við enda Lambagangs (60).  „Liggur yfir undir Neðri-Jökladalshæð.  Farið var til berja í Stórulág“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

melsendaklettar flaedi

 

Melsendaklettar (62).  Klettar við fjöruna niður undan Sandahlíð í Núp (55).  Sjór fellur upp undir þá á stórum flæðum en oftast er vel gengt fyrir.  Á Melsendaklettum er tófubyrgi.

 

Lækir (63).  Nokkrar lækjarsytrur sem renna til sjávar sunnan við Melsendakletta (62).  Lækirnir eiga önnur heiti ofar og breytingar hafa orðið á rennsli þeirra á síðari tímum.  Samkvæmt Örnefnaskrá GT og VT var Myllulækur einn Lækja, en a.m.k. síðustu hálfa öld hefur hann runnið í Breiðalæk.  Lækir samanstanda því nú af Steingrímslæk og Melalæk.  Þegar kemur niður í fjöruna hefur mikið  af vatni þeirra sigið niður í jarðveginn, og oft gleypir sandurinn það alveg áður en það nær til sjávar.

Myllulækur (64).  Einn þeirra lækja sem saman renna til sjávar norðan Norðari kletta og nefnast þar Breiðilækur (69).  Áður rann Myllulækur norður Andramelaskarð ásamt Steingrímslæk og til sjávar sunnan Melsendakletta þar sem heita Lækir (63).  „Í Myllulæk var byggð kornmylla.  Lækurinn var einnig nefndur Kvarnarlækur (242)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Þetta er sami lækur og Brúarlækur (114) (sjá þar).

Kvarnarlækur (242).  Annað nafn á Myllulæk (64) sem ofar nefndist Brúarlækur (114).  Í læknum var um tíma kornmylla, en ekkert sést af því nú.

Þórðarsker (65).  Sker framan við fjöruna sunnanvið Melsendakletta og Læki (63); „…laus frá landi og fellur yfir þau um flóð“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).   Nafnskýring ókunn.

thordarklettur brimÞórðarklettur (66).  Stakur klettur ofan við Þórðarsker (65).  Oftast er sandur kringum hann í seinni tíð, en annars fellur sjór kringum hann um flæði.  Uppruni nafnsins er ókunnur.  „Þórðarklettur er frekar upp af Þórðarskerjum en sunnan við þau“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Náttmálaholt (67).  Allstórt holt upp af Þórðarskerjum (65); frá Melsendaklettum suður undir Breiðalæk, norðan við Verið.  „Á holtinu eru gríðarstórir steinar; Náttmálasteinar (68).  Þar voru náttmál frá Kollsvík.  Á holtinu er mikið af steinbítsgörðum, og sést fyrir þeim enn“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Náttmálasteinar (68).  Stórir steinar á Náttmálaholti (67).  Þar voru náttmál frá Kollsvík.

Breiðilækur (69).  Lækur sem rennur til sjávar norðan við Norðarikletta í Verinu.  Hann steingrimslaekursamanstendur nú af Myllulæk (64) sem einnig heitir Brúarlækur, og Litlalæk sem rennur niður Grænumýri.  Nokkrar breytingar hafa orðið á lækjum síðustu öldina.  Þegar Örnefnaskrá GT og VT er rituð er sagt að Myllulækur sé einn Lækja (63) sem renni niður sunnan Melsendakletta, og : „Breiðilækur byrjar sunnan við tún og var farið yfir hann þegar farið var í Verið.  Hann gat orðið vatnsmikill í leysingum“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Fyrir meira en hálfri öld hefur þetta breyst, þannig að Mylluækur fór að renna í Breiðalæk.  Önnur breyting er sú að með framræslu sunnan núverandi Kollsvíkurbæjar var Litlalæk veitt í skurði niður Grænumýri.  Það vatn, ásamt Myllulæk (Brúarlæk) myndar nú Breiðalæk.

Kollsvíkurver (70).  Lending í Kollsvík og einn helsti útgerðarstaður sunnanverðra Vestfjarða fyrr á tímum, en verstaða var þar fram á 20. öld.  Einnig nefnt Verið (71) í daglegu tali í Kollsvík.  Lendingin í Kollsvíkurveri er norðantil í víkinni, beint niður veridundan Kollsvíkurbæ.  Uppsátrið var í allbreiðum bás, milli Norðarikletta (72) og Syðrikletta (73). Framundan Verinu er Lægi (79); var sem myndast einkum af þremur skerjum frammifyrir, en inn á það eru miðaðar nokkrar leiðir.  Kollsvíkurveri er lýst í grein í Árbók Barðastrandasýslu 10.árg/bls 184-217.  Höfundur er Kristján Júlíus Kristjánsson í Tungu.  Greininni fylgir uppdráttur af Verinu, gerður af Gunnari Össurarsyni frá Kollsvík með aðstoð Össurar Guðbjartssonar á Láganúpi.  Aðra lýsingu af Verinu og útgerðarháttum er að finna í frásögn Júlíusar í ritgerð Kristjáns Friðgeirssonar (líkl. kringum 1970).  M.a.:
„Í jarðamatsbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er getið um Kollsvíkurver, en þess jafnframt getið að útræði úr Láganúpsveri sé að mestu lagt niður, en þar hafi verið 180 verbúðir.  Sjá má af þessu að Kollvíkurver er að færast í aukana á síðari hluta 17. aldar, jafnt og Láganúpsver er að líða undir lok.  Milli þessara verstöðva er þó vart nema 800 metra vegalengd. …  Uppsátrið var einkum í allbreiðum bás milli tveggja kletta, Syrði- og Norðarikletta.  Þó voru bátar oft látnir standa undir Norðariklettum þegar lítið var í sjó eða smástreymt.  En ef brimaði snögglega um stórstreymi varð að hafa hraðar hendur að bjarga bátum undan klettunum til beggja sg veridhanda; norður eða suður fyrir klettana.  Bilið eða básinn milli klettanna mun vera allt að 100m.  Upp af þessum sandbás stóð meginfjöldi verbúðanna, uppi á og norðan í allstórum sandhól, er þar hafði myndast“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Myndin er af málverki Sigríðar Guðbjartsdóttur á Láganúpi og sýnir báta lenda í Verinu.  Byggt á lýsingu kunnugra.

Nánari lýsingar Júlíusar er að finna í ritgerðinni á búðum í Verinu; ruðningum; króm, reitum, hjöllum, naustum, bátum, vermönnum, róðrum, sjólagi, beituöflun, fiskverkun, sjóklæðagerð, tómstundum, sjóslysum, upptalningu bátaformanna og báta o.fl.
„Um aldamót (1900) reru 22-24 skip úr Kollsvíkurveri.  Stutt var á miðin; 15-20 mínútna róður á fjögurra manna fari.  Þarna var hægt að leggja tíu stokka eða línur sem hver var 60 faðmar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „1901 var Sumarliði Bjarnason og fólk hans skráð til heimilis í þurrabúð í Kollsvíkurveri; atvinna sjóróðrar..“  (BÞ;Vestfjarðarit;  Fólkið, landið og sjórinn).
„Fiskimið Kollsvíkinga:  Oftast var miðað á Kóp.  Þar eru margir dalir og var miðað við þá þegar þeir komu fyrir Blakk.  Dalirnir eru, talið utan frá:  Skandardalur, Kálfadalur, Krossadalur, Stapadalur, Sellátradalur, Fagridalur, Laugardalur.
Haugar (214) voru mið, og átti vörðu á Hnífum (Stekkavörðu) að bera í Haugana.  Þegar fremstu tána á Breið, milli Kollsvíkur og Breiðuvíkur, ber í Hnífaflögu, og Tálkni kemur fram undan Blakk, er það kallað að vera á Tálkna og Trýnum (250).  Trýni var kallað fremsta nibba á Breið“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Verið (71)  Annað nafn á Kollsvíkurveri (70).

Norðariklettar (72).  Klettarimi í fjöru, norðantil við Kollsvíkurver (70).  Í Örnefnaskrá GT og VT er nafnið Nyrðriklettar, en það heyrðist aldrei notað í daglegu máli Kollsvíkinga sem uppaldir voru í Kollsvík um aldamótin 1900 og eftir það; verður því að teljast misritun.  „Á Norðariklettum stóðu átta verbúðir.  Norðariklettar eru sunnan við Breiðalæk (69) og sunnan við klettana rennur Búðalækur (74) til sjávar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Leiðarmerki voru á Nyrðriklettum.  Málvenja var að segja Norðariklettar“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Klettshorn  Nibban fremst á Nyrðriklettum.  „Þá stóð hópur manna og fylgdist með okkur á Klettshorninu, sem kallað var…“  (Torfi Össurarson; munnl. frás. á Ísmús 1978).

sydriklettar oddiSyðriklettar (73).  Klettarimi í fjöru, sunnantil við Kollsvíkurver (70).  Norðan við þá rennur Syðrilækur (75) til sjávar og honum sameinast oft Búðalækur (74) þegar skeljasandur er mikill í Verinu.  Framan í Syðriklettum eru Rolluskútar (77 og 78).

Búðalækur (74).  Lækur sem rennur til sjávar í Kollsvíkurveri (70) og dregur nafn af verbúðum sem við hann stóðu, sitthvorsvegar.  „Við hann var byggt salthús.  Rétt áður en Búðalækur fellur í sjó, rennur í hann lækur sem heitir Syðrilækur (75).  Í tungunni sem myndast milli þeirra voru margar verbúir í tveimur röðum“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Í Búðalæk var stífla (áveita), kallað Gestarfljót (268).  Gestarfljót var kennt við Gest Jósefsson sem bjó á Gestarmel (269) eða Strákamel (76).  Strákamelur hét svo áður, en Gestur þessi byggði sér þar grasbýli, og var það við hann kennt og nefnt Gestarmelur“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Syðrilækur (75).  Lækur sem fellur til sjávar í Kollvíkurveri (70), norðan Syðrikletta; venjulegast eftir að sameinast Búðalæk (74) ef sandur er mikill í Verinu.   „Í tungunni sem myndast milli þeirra voru margar verbúir í tveimur röðum.  Sunnan í, þar sem saman koma Syðrilækur og Búðalælur, kemur lítill lækur sem ekki hefur nafn“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Sú sytra kemur úr börðum ofan Syðrikletta, en Syðrilækur sjálfur  fékk áður vatn undan Nautholtum, sem nú rennur að mestu í skurði suður að Stekkjarmel.

Strákamelur (76).  Harðbali ofan við Kollsvíkurver (70).  Þar stóð grasbýlið Gestarmelur, en býlinu fylgdi smáblettur kringum húsið.  „Þarna var gróinn melur og þar gengu piltar úr Verinu til leika.  Þetta er eiginlega í Verinu, rétt við verbúðirnar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Ábúendur að Gestarmel:
„1899-1904? Jens Jónsson og Henríetta Guðbjartsdóttir (gæti verið rangt; sbr GG hér að neðan).
1904?-1907  Bæring Bjarnason og Jóhanna Árnadóttir
1906-1925  Gestur Jósepsson og Ingibjörg Runólfsdóttir
1924-1932  Magnús Jónsson og Guðrún Ólafsdóttir“
(BÞ;Vestfjarðarit;  Fólkið, landið og sjórinn).
„Í Búðalæk var stífla (áveita), kallað Gestarfljót (268).  Gestarfljót var kennt við Gest Jósefsson sem bjó á Gestarmel (269) eða Strákamel.  Strákamelur hét svo áður, en Gestur þessi byggði sér þar grasbýli, og var það við hann kennt og nefnt Gestarmelur“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).
„Strákamelur heita sléttar þurrar flatir ofan syðstu búðanna og ber þær nokkuð yfir umhverfið.  Þar þreyttu ungir vermenn leiki áður fyrr.  Þar byggðu svo Sumarliði Bjarnason og Guðrún Ingimundardóttir sér bæ, þurrabúð, uppúr aldamótunum (1900).  Síðar bjuggu þar Gestur Jósefsson og Ingibjörg Runólfsdóttir af Rauðasandi.  Um tíma var líka þurrabúð sem byggð var upp úr verbúðinni Evu“  (Frásögn Guðbjarts Guðbjartssonar Láganúpi í Sunnud.blaði Þjóðviljans 1964).

Gestarmelur  (269)  Annað nafn á Stákamel.  „Rétt ofan við Kollsvíkurverið var lítið grasbýli sem hét Strákamelur, en gekk oftast undir nafninu Gestarmelur.  En þar bjó Gestur Jósepsson með konu sinni Ingibjörgu Runólfsdóttur og veimur sonum.  Af bústofni munu þau hafa átt 20-30 kindur, en enga kú“  (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989).

Gestarfljót (268).  Stífla eða áveita í Búðalæk.  „Í Búðalæk var stífla (áveita), kallað Gestarfljót.  Gestarfljót var kennt við Gest Jósefsson sem bjó á Gestarmel (269) eða Strákamel (76).  Strákamelur hét svo áður, en Gestur þessi byggði sér þar grasbýli, og var það við hann kennt og nefnt Gestarmelur“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Rolluskútar (77 og 78).  Tveir skútar sjávarmegin í Syðriklettum sunnan Kollsvíkurvers (70); Nyrðri- og Syðri-Rolluskúti.  „Ekki geta þeir talist stórir, en fé gat staðið þar í skjóli.  Mikil hreyfing er þarna á sandinum.  Stundum er ekki hægt að komast upp á klettana en stundum er ekki nema u.þ.b. metershæð upp á þá, því að sjórinn ber mikinn sand upp í fjöruna.  Nú munu skútarnir vera á kafi í sandi“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Rolluskútar voru kamrar vermanna“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).
„Eitt var það embætti í Kollsvíkurveri sem sjálfsagt þótti að skipa í, enda alltaf einhver tiltækur í stöðuna.  Var það sýslumannsembætti kallað.  Enga menntagráðu þurfti til þess að geta gegnt því starfi.  Sýslur voru þar nefndar er vermenn helst gengu örna sinna, sem einnig var kallað að flytja lögmann.  Rolluskúti undir Syðriklettum var t.d. mjög fjölsótt sýsla, þótt víðar væri leitað vars.  Embættið náði til þessara sýslna, en ekki var embættisfærslan erfið né vandasöm.  Þá var faldsmannsvalið engum annmörkum háð.  Aðeins þeir sem í fyrsta skipti voru í Verinu komu til greina.  Ef um einn var að ræða var hann sjálfkjörinn, en oftast komu fleiri til greina.  Þá var það glíman sem skar úr; ekki til að glíma um sýsluna heldur glíma hana af sér; þ.e. sá einn var rétt kjörinn er allir hinir lögðu að velli.  Þau laun fylgdu starfinu að embættismaður mátti innheimta einn harðsteinbít af hverjum vermanni, en innheimta sú fórst jafnan fyrir.  (KJK; Kollsvíkurver).

Lægi (79).  Bátalægi eða var, framan við Kollsvíkurver (70).  „Þar lágu bátar og biðu lags.  Lægið myndast af þremur boðum framundan:  Nyrstur þeirra er Bjarnarklakkur (80) sem er framundan Verinu norðanverðu; þá er Miðklakkur (81) og syðstur Selkollur (82).  Grynnst er á Selkoll og kemur hann uppúr á fjöru, en dýpst er á Miðklakk.  Þegar komið var að var tekið eftir hvernig óögin komu á alla boðana.  Ef ekki var hægt að lenda lágu bátarnir á Læginu og fiskurinn var seilaður þar.  Sundið milli Bjarnarklakks annarsvegar og lands og Þórðarskerja hinsvegar heitir Grynnstasund (84).  Leiðin inn á það var miðuð við vörðu, Grynnstasundsvörðu, á Blakknesinu.  Átti hún að fylgja klettabrúninni upp af Skekkingunum.  Milli Bjarnarklakks og Miðklakks er Miðleið (85).  Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollsvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem er ein búðin á Norðariklettum.  Milli Miðklakks og Selkolls er Syðstaleið (86).  Er hún var farin var Kollsvíkurbærinn miðaður í norðustu búðirnar.  Ein leið enn er inn á Lægið,  Hún er suður undir Grundatöngum, en er aðeins fær um háflóð.  Um fjöru er þar þurrt“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Ingvar nefnir Lægi Lag“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).
„Úti fyrir lendingunni norðanverðri kemur upp skerjagarður um hálffallinn sjó, í allt að 500 metra fjarlægð, svonefndir Bjarnarklakkar.  Sunnan við syðsta klakkinn er alldjúpt en ekki breitt sund, kallað Miðleið, en sunnan við sundið var launboði (þ.e. boði sem ekki örlaði á um fjöru) nefndur Miðklakkur, en upp og suður af honum sund, nefnt Syðstaleið, milli Miðklakks og Selkolls.  Innan þessara boða myndaðist allgott var eða lægi, einkum um lágsjávað, þegar grunnt var á Klökkunum eða þeir komu upp úr sjó.  Inn á Lægið var þriðja leiðin fær, svonent Grynnstasund, milli Bjarnarklakka og Þórðarskers.  Þetta sund var þó sjaldfarnara vegna þess hve grunnt það var.  Öruggasta sundið inn á Lægið var Syðstaleiðin taln, hvort heldur brimaði af norðri eða vestri, en það voru brimáttirnar. …  Þegar Bjarnarklakkar risu úr sjó og öldur brotnuðu á Miðklakk var talin örugg lending í norðanátt, meðan fært var inn á Lægið.  En brim frá vestri átti greiðari leið þarna inn um Syðstuleið, sem var alldjúp“  (KJK; Kollsvíkurver).

Lag (260).  Annað nafn á Læginu, framan Kollsvíkurvers.  „Ingvar nefnir Lægi (79) Lag“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Bjarnarklakkur (80).  Boði frammi í sjó, norðantil við Lægið (79) í Kollsvíkurveri (70) og veitir þar nokkuð var fyrir báta.  „Sundið milli Bjarnarklakks annarsvegar og lands og Þórðarskerja hinsvegar heitir Grynnstasund (84).  Leiðin inn á það var miðuð við vörðu, Grynnstasundsvörðu, á Blakknesinu.  Átti hún að fylgja klettabrúninni upp af Skekkingunum.  Milli Bjarnarklakks og Miðklakks er Miðleið (85).  Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollsvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem er ein búðin á Norðariklettum“   (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).   Torfi Össurarson sagði frá því að eitt sinn hafi hann lent norðan við Bjarnarklakka í haugasjó af vestri, þegar hvergi var lendandi annarsstaðar.  Var það eftir leiðsögn Gísla Guðbjartssonar.  (munnl.frás. á Ísmús 1978)

Miðklakkur (81).   Boði frammi í sjó, framantil við Lægið (79) í Kollsvíkurveri (70) og veitir þar nokkuð var fyrir báta.  „Milli Bjarnarklakks og Miðklakks er Miðleið (85).  Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollsvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem er ein búðin á Norðariklettum.  Milli Miðklakks og Selkolls er Syðstaleið (86).  Er hún var farin var Kollsvíkurbærinn miðaður í norðustu búðirnar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Selkollur (82).  Boði frammi í sjó, sunnantil við Lægið (79) í Kollsvíkurveri (70) og veitir þar nokkuð var fyrir báta.  Hann er á kafi um flóð en kemur uppúr á fjöru.  „Hann er á hleinum sem heita Selkollshleinar (83) og eru fram af Syðriklettum.  Selkollur líkist kolli á sel þegar fallið er yfir hleinarnar…  Milli Miðklakks og Selkolls er Syðstaleið (86).  Er hún var farin var Kollsvíkurbærinn miðaður í norðustu búðirnar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Selkollshleinar (83).  Hleinar fram af Syðriklettum (73) í Kollsvíkurveri (70).  Fremst á þeim er Selkollur (82) sem myndar hluta af því vari sem nefnt er Lægið (79).

Grynnstasund (84).  Norðasta leiðin inn á Lægið (79) í Kollsvíkurveri (70).  „Sundið milli Bjarnarklakks annarsvegar og lands og Þórðarskerja hinsvegar heitir Grynnstasund.  Leiðin inn á það var miðuð við vörðu, Grynnstasundsvörðu, á Blakknesinu (sjá hér framar).  Átti hún að fylgja klettabrúninni upp af Skekkingunum“    (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Miðleið (85).  Miðleiðin inn á Lægið (79) í Kollsvíkurveri (70), og sú sem oftast er farin.  „Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollsvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem er ein búðin á Norðariklettum“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Syðstaleið (86).  Syðsta leiðin inn á Lægið (79) í Kollsvíkurveri (70).  „Milli Miðklakks og Selkolls er Syðstaleið.  Er hún var farin var Kollsvíkurbærinn miðaður í norðustu búðirnar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Djúpboði (243).  Boði frammi á Kollsvíkinni.  „Úti á víkinni eru tveir boðar, Djúpboði og Giljaboði (244) sem eru á siglingaleið, og mun Djúpboði vera merktur á siglingakort.  Djúpboði er beint út af Breiðaskersklakk, en Giljaboði norðar; álíka langt frá landi.  Þessir boðar koma aldrei uppúr, en brýtur á þeim ef slæmt er í sjó.  Myndast á þeim sog eða hringiða.  Fyrr brýtur á Djúpboða en Gilaboða“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Þegar siglt er fyrir Djúpboða að sunnan er það miðið að halda Skandardalstönnunum í Kópnum sýnilegum fyrir Blakk, þar til komið er norðar á víkina.

Giljaboði (244).  Boði á siglingaleið fyrir Kollsvík.  Hann er norðar en Djúpboði (243) en álíka langt frá landi.  Fyrr brýtur á Djúpboða en Giljaboða.

Leiðarboðar  Boðar á Kollsvík.  „Helstu boðarnir voru: Djúpboði og Leiðarboðar.  Setið var á sjó þó að á þeim félli grunnbrot um fjöru.  Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu, að minnsta kosti með landtöku í Kollvíkurveri í huga“  (KJK; Kollsvíkurver).

Þemba  Boði á Kollsvík.  „Helstu boðarnir voru: Djúpboði og Leiðarboðar.  Setið var á sjó þó að á þeim félli grunnbrot um fjöru“.

Yngra-Jónsmið  Boði/mið í Kollsvík  „Nokkrar fleiri hleinar skulu nefndar; t.d. Yngra-Jónsmið, Kinnarhlein, Blettir, Haugar, Stekkar og Bæjarhlein.  Fiskvænlegra þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum, og oft var keppst um að ná þeirri stöðu“  (KJK; Kollsvíkurver)  „Það er af Hákoni að segja að hann lagði lóðirnar suður af Yngra-Jónsmiði, en það er út og suður af Djúpboða í Kollsvík.  Afli var lítill þennan dag en Hákon aflaði ekki minna en hinir.  Þótti það spá góðu um framhaldið á þessari nýju veiðiaðferð í Kollsvíkurveri“  (Guðbjartur Guðbjartsson, Láganúpi um fyrsta róður með lóð í Kollsvík, vorið 1894; Egill Ólafsson skráði 1962)

Kinnarhlein  Boði/mið í Kollsvík.  „Nokkrar fleiri hleinar skulu nefndar; t.d. Yngra-Jónsmið, Kinnarhlein, Blettir, Haugar, Stekkar og Bæjarhlein.  Fiskvænlegra þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum, og oft var keppst um að ná þeirri stöðu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Bæjarhlein  Boði/mið í Kollsvík.  „Nokkrar fleiri hleinar skulu nefndar; t.d. Yngra-Jónsmið, Kinnarhlein, Blettir, Haugar, Stekkar og Bæjarhlein.  Fiskvænlegra þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum, og oft var keppst um að ná þeirri stöðu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Að vera á Bæjunum þýðir (ef ég man það rétt) að láta Kollvíkurbæinn gamla bera yfir Verið en sem þvermið að Breiðavíkurbærinn (gamli, uppi við Hallinn) vaki undan Breið“  (VÖ)

Blettir  Boði/mið í Kollsvík.  „Nokkrar fleiri hleinar skulu nefndar; t.d. Yngra-Jónsmið, Kinnarhlein, Blettir, Haugar, Stekkar og Bæjarhlein.  Fiskvænlegra þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum, og oft var keppst um að ná þeirri stöðu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Heiman við Urðarhrygg (í Breiðnum) er Blettahjalli.  Þar eru sandblettir úti fyrir sem eru miðaðir í hjalla þennan“  (Örnefnaskrá Láganúps).  „Óvíst um nánari mið“ (VÖ).

Tálkni og Trýni (250).  Eitt af fiskimiðum á Kollsvík.  „Þegar fremstu tána á Breið, milli Kollsvíkur og Breiðuvíkur, ber í Hnífaflögu, og Tálkni kemur fram undan Blakk, er það kallað að vera á Tálkna og Trýnum (250).  Trýni var kallað fremsta nibba á Breið“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Snorralending (87).  Staður í fjörunni milli Kollsvíkurvers (70) og Breiðaskers (90) þar sem stundum var unnt að lenda bátum í neyð, ef leiðir inn á Lægið (79) voru ófærar.  „Þar drukknaði Torfi Jónsson, faðir Vilborgar og Guðmundar, árið 1904.  Tvær vörður voru hlaðnar uppi á sandinum við Snorralendingu“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Tvær vörður (leiðarmerki) voru hlaðnar uppi á rifinu við Snorralendingu.  Þær voru nefndar Snorravörður (262).  Ekki er vitað hver Snorri var“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).  „…En þá er snúið frá hinni venjulegu lendingu, en búist til að lenda skammt sunnan við Verið, þar sem að fornu fari hefur verið kölluð Snorraleninding.  Þar verður aðeins lent um allhásjávað.  Talsvert dýpi er í um 80-100m fjarlægð frá landi um flóð, en þar snargrynnir á hleinabrún sem upp kemur um hverja fjöru.  Þaðan eru hleinarnar jafnháar upp að landi“  (KJK; Kollsvíkurver; um slysið þegar Torfi Jónsson fórst 1904)

snorravordurSnorravörður  Tvær vörður nyrst á Leirunum, norðan Breiðaskers (90):  

Snorravörður (262).  Tvær vörður upp af Snorralendingu (87), norðan Breiðaskers.  Innsiglingamerki fyrir Snorralendingu.  Vörðurnar hlóð Umf. Vestri í kjölfar slyssins 1904 (sjá hér að framan).  Guðbjartur Össurarson frá Láganúpi lagfærði vörðurnar um aldamótin 2000.  

Oddi (88).  Sá hluti Rifsins sem skagar lengst til NV og er ofan Breiðaskers (90).  Breiðaskerið varnar því að sjór nái að brjóta þarna land af skeljasandsrifinu.  „Þar voru verbúðir, en munu nú vera farnar í sand.  Össur Guðbjartsson segir að þar hafi verið kallaðar Oddatóftir í æsku sinni“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Oddatóftir (89).  Tóftir á Odda (88) ofan Breiðaskers (90).  „Þar voru verbúðir, en munu nú vera farnar í sand.  Össur Guðbjartsson segir að þar hafi verið kallaðar Oddatóftir í æsku sinni“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Breiðasker (90).  Mikið sker fram af Odda (88), fyrir miðri Kollsvíkinni.  Kemur úr sjó á fjöru.  Fremst á því er klettaklakkur sem heitir Breiðaskersklakkur (91).  Fellur yfir hann um háflæði, en um stórstraumsfjöru má ganga út á hann.

Breiðaskersklakkur (91).  Klettaklakkur fremst á Breiðaskeri (90).  Fellur yfir hann um háflæði en hann er á þurru um stórstraumsfjöru.

langatbót nordurBót (92).  Fjaran milli Breiðaskers (90) og Langatanga (93).  Einnig nefnd Langatangabót til aðgreiningar frá annarri Bót, sem er grunnið framundan Gvendarhlein og Sandagili.  Í Bótinni er oft rekþari sem fé var beitt í um fjöru.

Langatangabót  Annað nafn á Bót (92); fjörunni milli Breiðaskers og Langtanga.

Langitangi (93).  Sker sunnan Breiðaskers (90) og Langatangabótar.  „Í Langatanga eru merkin milli Kollsvíkur annarsvegar og Grunda og Láganúps hinsvegar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Norðastimelur (94).  Melurinn sunnan Melsendakletta (62) og undan Sandahlíð (51).  Hann nær að Melalæk til suðurs.

Melar (95).  Melasvæðið neðan Sandahlíðar (51) frá Myllulæk að norðan að gamla túninu, eða að Sandflötum að sunnan.  Á þeim er Melatjörn.

Melatjörn (96).  Tjörn á Melum (95) undir Sandahlíð (51).

Melalækur (263).  Annað nafn á læk sem í fyrri Örn.skrá er sagður heita Melslækur (109).  Lækur  sem rennur milli Norðastamels (94) og Mela (95), neðan við Sandahlíð.  Í Örnefnaskrá segir svo: „Milli Systrahundraða (107) og neðan við Hólana (99) er lækur sem heitir Steingrímslækur.  Í hann norðanverðan kemur Melslækur sem sytrar undan Hólunum“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Hér er tvennt að athuga.  Annarsvegar það að Melalækur hefur ætíð gengið unir því nafni, en ekki Melslækur, enda eðlilegra í ljósi þess að hann rennur milli mela.  Hitt atriðið er að þarna er Melalækur sagður sytra undan Hólum.  Ekki er vitað til þess núna að Hólar nái svo langt norður með Sandahlíð, en þó kann svo að hafa verið nefnt á tímum skrásetjara.  „Ingvar nefnir Melslæk Melalæk (263)“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Gvendarbrunnur (97).  Uppspretta, efst í gamla túninu á Sandflötum (98).  „Hafði Guðmundur góði vígt hann á yfirreiðum sínum, enda er í honum afbragðsgott vatn er gjarnan var sótt handa sjúklingum og sængurkonum.  Brunnurinn er rétt undan heimri enda Sandahlíðar (51) þar sem heita Sandflatir (98)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Norðan til í túninu er uppspretta í sandmelaskarði sem heitir Gvendarbrunnur, en þeir voru margir í minni sveit.  Sagt er að Guðmundur biskup góði hafi vígt þessa brunna þegar hann var á flótta og hrakningum um landið.  Vatnið þótti mjög gott og talið hafa lækningamátt.  Á milli brunnsins og bæjarins er stór þúfa með steini í; hæfilegt sæti og slétt að ofan.  Hún heitir Biskupsþúfa.  Giskað höfum við á að Guðmundur biskup góði hafi sest á þúfuna til að hvíla sig og þá hafi hún fengið þetta nafn“  (IG; frásaga í Sumarliða pósti, feb 1989).
„Sagt er að þegar Guðbjartur Ólafsson í Kollsvík lá banaleguna (d. 1879) hafi hann látið sækja sér vatn úr Gvendarbrunni í norðanverðu Kolsvíkurtúni. ..  Er það til marks um þann átrúnað er menn höfðu á verkum Guðmundar“  (IG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)

Sandflatir (98).  Sléttir sandbalar nyrst í gamla Kollsvíkurtúninu; undir heimanverðri Sandahlíð (51).  Efst í Sandflötum er Gvendarbrunnur (97).

Hólar (99).  Allmiklir hólar upp af Sandflötum (98).  „Norðantil í Hólunum er Helgulág (101), en ókunnugt er um uppruna nafnsins.  Upp af Hólum er brött brekka sem heitir Kinn, og upp með henni, norðar en hún, er skanki sem kallaður er Tranthali (103)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Urðir (100).  Mikið flæmi í Kollsvíkurtúninu gamla; suður af Hólum (99).  Mikið er um stórgrýti í Urðum og þar er hætt við grjóthruni úr Núpnum.  „Urðir eru upp af Hólum“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Helgulág (101).  Laut í norðanverðum Hólum (101).  Ókunnugt er um uppruna nafnsins.

Kinn (102).  Brött brekka upp af Hólum (99); heiman og neðan við Tranthala (103).

Tranthali (103).  Brött brekka upp af Gvendarbrunni (97), en þó heimar.  „Skanki upp með Kinn (102), en norðar en hún“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Vinsælt var hjá börnum að renna sér niður Tranthalabrekku.

Tranthalasteinn (104).  Stór steinn efst á Tranthala (103).

Tranthalagarður (105).  Kálgarður sem um tíma var uppi í hlíðinni fyrir ofan Tranthala (103).  „Grjótgarður var hlaðinn í kringum hann og sést áreiðanlega fyrir honum enn“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Undirtún (106).  Túnhluti í Kollsvíkurtúni; neðanvið Túnbrekku, sem Biskupsþúfa stendur í; milli Myllulækjar/Brúarlækjar og Steingrímslækjar:  „Neðan við núverandi bæ er Undirtún.  Suður af því er blettur sem heitir Systrahundruð (107) …  Túnbrekka er suður af Undirtúni og er alveg á hlið við Systrahundruð.  Farið var yfir Brúarlækinn og beint á Túnbrekkuna frá íbúðarhúsinu“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Systrahundruð (107).  Túnblettur í Kollsvíkurtúni.  „Neðan við núverandi bæ er Undirtún.  Suður af því er blettur sem heitir Systrahundruð.  Milli Sandflata og Systrahundraða, og neðan við Hólana, er lækur sem heitir Steingrímslækur (108).  Túnbrekka er suður af Undirtúni og er alveg á hlið við Systrahundruð“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Dálítið fyrir neðan gamla húsið voru Systrahundruð, og norður og niður af þeim Undirtún.  Túnbrekkan var á leiðinni, sem gengin var niður í Ver frá gamla húsinu, og á henni Biskupsþúfa“  (VT; aths við Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Systrahundruð er því að líkindum lítið þríhyrningslagað svæði sem afmarkast af tveimur lækjarfarvegum, undir Hólum og í hánorður af Biskupsþúfunni.

Steingrímslækur (108).  Lækur í norðanverðu Kollsvíkurtúni:  „Milli Systrahundraða (107) og neðan við Hólana (99) er lækur sem heitir Steingrímslækur.  Í hann norðanverðan kemur Melalækur (misritað Melslækur í Örn.skrá) sem sytrar undan Hólunum.  Í skrá Ara segir að milli lækjanna sé Skollatunga (110) en heimildarmenn muna ekki eftir því nafni.  Norður af Undirtúni (106) er djúpt melaskarð sem kallað er Andramelaskarð (111).  Um það renna Steingrímslækur og Melalækur og sameinast Myllulæknum “.  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Þetta er breytt á síðari árum, að því leiti að Myllulækur/Brúarlækur rennur nú til sjávar í Breiðalæk (sjá hér að framan), og á því ekki samleið með Steingrímslæk lengur.

Melslækur (109).  Lækur  sem rennur milli Norðastamels (94) of Mela (95), neðan við Sandahlíð.  Í Örnefnaskrá segir svo: „Milli Systrahundraða (107) og neðan við Hólana (99) er lækur sem heitir Steingrímslækur.  Í hann norðanverðan kemur Melslækur sem sytrar undan Hólunum“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Hér er tvennt að athuga.  Annarsvegar það að Melalækur hefur ætíð gengið unir því nafni, en ekki Melslækur, enda eðlilegra í ljósi þess að hann rennur milli mela.  Þetta staðfestist í athugasemdum Ingvars Guðbjartssonar.  Hitt atriðið er að þarna er Melalækur sagður sytra undan Hólum.  Ekki er vitað til þess núna að Hólar nái svo langt norður með Sandahlíð, en þó kann svo að hafa verið nefnt á tímum skrásetjara.  „Ingvar nefnir Melslæk Melalæk (263)“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Skollatunga (110).  Smátunga sem í örnefnaskrá Ara er sögð vera milli Steingrímslækjar (108) og Melalækjar (109).  GT og VT muna ekki eftir því nafni.  „Skollatunga er rétt.  Frekar vont var að slá hana“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Andramelaskarð (111).  Djúpt melaskarð  með stefnu í hánorður, norður af Undirtúni (106).  „Um það renna Steingrímslækur og Melalækur  og sameinast Myllulæknum.  Norður af því er Andri (112), melur sem svo er kallaður“   (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Við þetta er tvennt að athuga.  Í seinni tíð hefur enginn lækur runnið um Andramelaskarð; Steingrímslækur  rennur ögn vestar og Melalækur fellur fyrir norðan enda þess.  Að auki renna þessir lækir ekki lengur saman við Myllulæk/Brúarlæk (sjá þar).

Andri (112).  Melur norður af Andramelaskarði (111).  „Norður af því er Andri, melur sem svo er kallaður.  Á honum vex mest hrossastör og selgresi.  Lítið var slegið þar, enda melurinn harður.  Segir í skrá Ara að hann hafi þótt illslægur og því hafi verið miðað við hausinn á Andra fyrir hörku sakir“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Andri mun líklega vera melstykkið, norðast á vesturbakka Andramelaskarðs.

Grænamýri (113).  Neðsti hluti Kollsvíkurtúns, neðan íbúðarhúss og Húsatúns; sunnan Myllu-/Brúarlækjar.  „Neðst á túni er Grænamýri.  Það er ekki mýri heldur sendið land, og var þarna býli sem nefnt var Grænamýri.  Gísli Guðbjartsson reisti þarna nýbýli og átti hann slægjur uppi í túninu.  Norðan við Grænumýri er lækur sem heitir Brúarlækur (114), sem rennur ofanvert við húsið, en gamli bærinn í Kollsvík var ofar í túninu, nær fjalli.  Þetta er sami lækur og Myllulækurinn (64), en var kallaður Brúarlækur uppi á túninu“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).
„Á Grænumýri bjó Gísli Guðbjartsson föðurbróðir minn.  hann átti hluta úr aðaljörðinni eins og pabbi.  Bú hans var fremur lítið; ekki yfir 50 kindur og 1 kýr.  Kona Gísla hét Ólína Þorgrímsdóttir, ættuð af Barðaströnd, og áttu þau einn son“  (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)  Þau munu fyrst hafa byggt sér bæ á Bergjum (141) árið 1899 (sjá þar) en bjuggu á Grænumýri til 1925 þegar þau fluttu að Koti.

Brúarlækur (114).  Annað nafn á Myllulæk (64), sem einnig nefndist stundum Kvarnarlækur (242).  Lækur sem fær vatn úr Forarteig og frá Brunnhúsinu; rennur ofan íbúðarhússins í Kollsvík; niður á milli Undirtúns og Grænumýrar, þar sem hann breytir um nafn og heitir Myllulækur, og síðan til sjávar í Breiðalæk, norðan Norðarikletta.  Í Örnefnaskrá GT og VT er lækurinn sagður renna saman við Steingrímslæk og Melalæk, norðan Andramelaskarðs og til sjávar í Lækjum, sunnan Melsendakletta.  Líklegt er að svo hafi áður verið, en það breyttist fyrir meira en hálfri öld.  „Norðan við Grænumýri er lækur sem heitir Brúarlækur (114), sem rennur ofanvert við húsið, en gamli bærinn í Kollsvík var ofar í túninu, nær fjalli.  Þetta er sami lækur og Myllulækurinn (64), en var kallaður Brúarlækur uppi á túninu“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Bröndulækur (245).  Lækur í Kollsvíkurtúni sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum, og á uppruna úr Forarseilum og Brunnhúsi.  Sami lækur nefnist Brúarlækur þar sem hann rennur ofan Kollsvíkurhússins; undir brú úr stórri steinhellu sem þar var.  Niðri á Grænumýri nefndist hann Myllulækur eða Kvarnarlækur vegna kornmyllu sem í honum var um tíma.  Áður rann hann áfram norður og sameinaðist Steingrímslæk og Melalæk, en nú rennur hann vestan Náttmálaholts; sameinast Litlalæk og rennur til sjávar í Breiðalæk; norðan Norðarikletta.  Bröndulækur gekk einnig undir stuttheitinu Lækur.

Húsatún (115) Kollsvíkurbærinn.  Húsatún er stykki í Kollsvíkurtúni, upp og suður af Grænumýri.  „Þar stendur íbúðarhúsið nú.  Steinhús var byggt 1918 og leitt í það vatn.  Ofan við þetta tún og bæinn heitir Túnbrekka (116)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Nýja húsið í Kollsvík var byggt 1921 á Húsatúni, nokkuð fyrir neðan brunnhúsið, og kollsvik fjallshlidrennur lækurinn sem brunnhúsið var við, rétt fyrir ofan húsið“  (VT; aths við Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Hér munar einhverju í ártölum, en e.t.v. hefur húsið tekið nokkur ár í byggingu.  Húsið var mikið framfaraskref á sinni tíð, og í því munu hafa búið þrjár fjölskyldur í fyrstu, þó það hafi þá verið án viðbygginga.  Fljótlega var byggð viðbygging til vesturs og á Ingvar Guðbjartsson byggði bárujársskúr til austurs á sínum búskaparárum og notaði um tíma sem fjós; hlöðu og geymslu.  Hilmar Össurarson endurnýjaði vesturbygginguna alveg og gerði aðrar breytingar þegar hann bjó í Kollsvík.  Hann setti einnig rafmagnsdælu á rafkerfið til að bæta vatnrennsli frá brunnhúsinu. Kollsvíkurbændur í þessu íbúðarhúsi:
„1918-1924  Guðbjörg Ólína Guðbjartsdóttir og börn hennar
1924-1926  Guðbjartur Torfason og Ólafía Ólafsdóttir
1926-1934  Helgi og Guðmundur Gestarsynir með sínum fjölskyldum
1924-1944 Jón Torfason og Bergþóra Egilsdóttir
1944-1952  er Kollsvík nýtt af Traðarbónda: Helga Árnasyni
1952-1962  Ólafur Guðbjartsson og Sólrún Jónsdóttir
1962-1972  Ingvar Guðbjartsson og Jóna Snæbjörnsdóttir
1972-1983  er Kollsvík nýtt af Láganúpsbændum
1983-2002  Hilmar Össurarson og Hólmfríður Sveinsdóttir“
(BÞ;Vestfjarðarit;  Fólkið, landið og sjórinn)

Túnbrekka (116).  Hluti af Kollavíkurtúni; ofan við íbúðarhúsið og Húsatún; norður að Undirtúni, Systrahundruðum og Hólum/Kinn og suður að Jónshlöðu og Brunnhúsi.  „Hún er framhald af Kinn.  Túnbrekka er suður af Undirtúni og er alveg á hlið við Systrahundruð.  Farið var yfir Brúarlækinn og beint á túnbrekkuna frá íbúðarhúsinu.  Sunnan við Túnbrekku var byggt brunnhús og vatnið borið þaðan í bæ, upp brekkuna áður.  Neysluvatn beggja bæjanna var sótt þangað.  Er nýr bær var byggður var hann reistur fyrir neðan Túnbrekku, svo hægt væri að leiða vatnið í bæinn.  Þegar komið er upp á Túnbrekku heitir Forarteigur (117) í suðvestur frá gamla bæjarstæðinu.  Þar í eru vætuseilar.  Á Túnbrekku er þúfa með stórum steini, sem kölluð er Biskupsþúfa (118).  Þar á Kollur landnámsmaður að hafa fólgið fé sitt, því hann vildi sjá það frá haugi sínum sem er á Blakknesnibbu.  Biskupsþúfan sést frá Kollsleiði“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Brunnhúsið er enn á sínum stað, en Ingvar Guðbjartsson hlóð það upp og bætti vatnsrennsli að íbúðarhúsinu með vatnslögn í lind ofanvið brunnhúsið.  Hann gerði stíflu neðanvið brunnhúsið og leiddi vatn í litla rafstöð neðan Túnbrekkunnar um tíma, eða þar til rafmagn var lagt til Kollsvíkur kringum 1970.

Forarteigur (117).  Spilda austan við Túnbrekku (116)  í Kollsvíkurtúni; neðan við núverandi fjárhús og Jónshlöðu.  „Þegar komið er upp á Túnbrekku heitir Forarteigur í suðvestur frá gamla bæjarstæðinu.  Þar í eru vætuseilar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Þarna hefur fyrir all löngu verið ræst fram og því orðið þurrlendara en áður.

Biskupsþúfa (118).  Stök þúfa í Túnbrekkunni; norðaustan íbúðarhússins í Kollsvík.  Stór steinn sem gróið er yfir.  „Á Túnbrekku er þúfa með stórum steini, sem kölluð er Biskupsþúfa (118).  Þar á Kollur landnámsmaður að hafa fólgið fé sitt, því hann vildi sjá það frá haugi sínum sem er á Blakknesnibbu.  Biskupsþúfan sést frá Kollsleiði“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Norðan til í túninu er uppspretta í sandmelaskarði sem heitir Gvendarbrunnur, en þeir voru margir í minni sveit.  Sagt er að Guðmundur biskup góði hafi vígt þessa brunna þegar hann var á flótta og hrakningum um landið.  Vatnið þótti mjög gott og talið hafa lækningamátt.  Á milli brunnsins og bæjarins er stór þúfa með steini í; hæfilegt sæti og slétt að ofan.  Hún heitir Biskupsþúfa.  Giskað höfum við á að Guðmundur biskup góði hafi sest á þúfuna til að hvíla sig og þá hafi hún fengið þetta nafn.  En þúfan á sér eldri sögu, og er hún á þessa leið:  Kollur hét landnámsmaður sá er nam land í Kollsvík.  hann var fóstbróðir Örlygs sem Örlygshöfn er kennd við, og gaf Patreksfirði sitt nafn.  Árni Óla telur að Kollur hafi verið írskur munkur; krúnurakaður og hafi fengið nafn sitt af því, en ekki meira um það.  Þegar Kollur fann dauða sinn nálgast gróf hann fémæti sitt undir þessari þúfu og fyrirskipaði að (hann sjálfur) skyldi grafinn norður á Blakknesnibbu, en þaðan sést vel til þúfunnar.  Og viðurlög voru við því að hrófla við fénu.  Sögur heyrði ég um tilraunir til að ná fénu en engan árangur báru þær:  Annað hvort sýndust bæirnir brenna eða gott sjóveður gerði, og því slepptu menn ekki.  Þegar ég bjó í Kollsvík lét ég slétta með ýtu umhverfis þúfuna og ýtustjóri lagði að mér að skoða nú undir þúfuna, en ég vildi heldur eiga örnefnið og sögurnar.  Þess vegna er Biskupsþúfa eða Kollsþúfa enn með sömu ummerkjum norðan við íbúðarhúsið í Kollsvík“  (IG; frásaga í Sumarliða pósti, feb 1989).

Kollsþúfa  Annað nafn á Biskupsþúfu (118).  Sjá þar.

Bæjarhóll (119).  Gamla bæjarstæðið í Kollsvík.   Hár og mikill hóll uppi undir Núpnum, sem sennilega hefur eingöngu hlaðist upp af margra alda byggð.  Suður af honum er sg kollsvik gamlibaerannar hóll, þar sem í kaþólsku hefur líklega staðið hálfkirkja og kirkjugarður, en síðast nefndist Jónshlaða eftir hlöðu sem þar stóð.  Báðir hólarnir tilheyra Bæjarhólnum sem lýst er svo í Örnefnaskrá:  „Þar byggði Torfi Jónsson fyrsta timburhús í Kollsvík, líklega fyrir aldamót (1900).  Kjallari hússins var hlaðinn og byggt úr timbri ofan á.  Hella var fyrir dyrum, á að giska 1,5m á annan veginn og 2m á hinn og 15-18 cm þykk.  Var hún dregin ofan úr Hæðarhlíð.  Þarna er enn hóll, en búið er að slétta hann.  á hlaðinu, beint á móti þessu húsi, var húsaröð.  Norðast var mókofi á móti íbúðarhúsinu og stétt á milli.  Þá var skemma, þar sem geymd voru amboð, reiðingar, saltkjöt og fleira; þá þerrihjallur.  Nú kom dálítið bil og handan þess bær, kallaður Össursbær (120), en tvíbýli var í Kollsvík á þessum árum.  Bærinn var hlaðinn úr torfi og grjóti, en hálfgaflar úr timbri.  Næst var bær sem kallaður var Gamlibær (121), en í honum höfðu afi og amma Vilborgar og Guðmundar búið.  Næst var stór skemma sem kölluð var Össursskemma (122), og þá kom eldiviðarhús.  Niður undan öllum þessum húsum voru kálgarðar, sem einu nafni voru kallaðir Stórikálgarður (123).  Norðan við mókofann var annar garður; Smiðjugarður (124), en mókofinn mun hafa verið smiðja áður.  Suður af Stórakálgarði var hlaða sem tilheyrði báðum býlunum og var kölluð Langahlaða (125), og sitt hvoru megin við hana fjós sem tilheyrðu hvorum bæ fyrir sig.  Þar niður af var garður sem kallaður var Fjósgarður (126).  Í Kollsvík var mikið ræktað af kartöflum sem spruttu vel og síðar var einnig farið að rækta þar rófur.  Hóll á milli garðanna, út eða norður af Fjósgarði, var kallaður Fjóshóll (247).  Brunnur var framundan fjósinu og tekið þar vatn.  annar brunnur var fjær og var þar tekið vatn fyrir kýrnar.  Upp af hlöðunni og fjórunum var stykki kallað Partur (127)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Framhliðin á Össursbæ var úr timbri, en ekki hálfgaflar“  (VT; aths við Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Engin hús standa nú á Bæjarhólnum sjálfum; þar sem íbúðarhúsin stóðu áður, nema kartöflugryfja sem Ólafur Guðbjartsson steypti upp og Ingvar endurhlóð síðar.  Um tíma stóð hrútakofi þar sem gamli bærinn stóð.  Síðustu bændur í Kollsvík meðan bærinn stóð á Bæjarhólnum voru Torfi Jónsson og Guðbjörg Guðbjartsdóttir.  Torfi drukknaði í Snorralendingu árið 1904 en Guðbjörg bjó áfram í Kollsvík til 1924 með hjálp barna sinna og Guðbjartar bróður síns.
„Jörðin Kollsvík var að sjálfsögðu höfuðból í norðurhluta Kollsvíkur.  Þar bjó (1915) föðursystir mín Guðbjörg Guðbjartsdóttir ásamt börnum sínum 13.  Maður hennar Torfi Jónsson drukknaði í Snorralendingu 1904.  Þetta var stærsta búið í norðanverðri Víkinni.  Giska ég á að bústofninn hafi verið 3 kýr; nær 100 ær og tveir hestar, einnig nokkur hænsni“  (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)
Í  Kollsvík bjó m.a. Einar Jónsson (f. 1759-d.1836), sem Kollsvíkurætt er rakin til, og hefur Kollsvíkin verið byggð af afkomendum hans síðan.  Einar var stórbóndi og sveitarhöfðingi á sinni tíð; var m.a. sækjandi í Sjöundaármálinu.  Samkvæmt frásögn Ólafs E. Thoroddsen í Vatnsdal var Einar í Kollsvík smiður á tré og járn.  Hann vann járn úr mýrarrauða og var síðasti Íslendingurinn til að stunda rauðablástur, svo vitað sé.  Ekki er ólíklegt að til þess hafi hann m.a. nýtt hinn hitagæfa mó úr Harðatorfspytti (153), og víða er mýrarauða að finna í Kollsvík.  Ekki er vitað hvar í víkinni Einar hafði sinn rauðablástur.
„Mælt er að hann hefði fengið járn er nægði í einn hestskónagla úr hverri hitun.  Má af því marka hve erfitt far að afla sér smíðajárns með þessari aðferð.  Skip átti hann í förum milli Íslands og Danmerkur, í félagi við danskan kaupmann á Patreksfirði; Thomsen að nafni.  Skipið hét Delphin og var fremur lítil jakt.  (Delphin keypti upphaflega Guðmundur Ingimundarson í félagi við aðra árið 1801 frá Noregi á 1400 ríkisdali.  Delphin var 13 ½  commerciallest að burðargetu, eða rúm 35 tonn.  Skipið var selt árið eftir til Guðmundar Scheving sýslumanns í Haga.  Guðmundur Ingimundarson var áfram skipsstjóri á skipinu og fórst með því árið 1813 (Jón Þ. Þór; Sjósókn og sjávarfang)).  (Delphin var meðal fyrstu þilskipa í eigu Íslendinga; kom til landsins örfáum árum eftir að Bjarni Sívertsen eignaðist Johanne Charlotte og hóf verslun í Hafnarfirði árið 1794, en við það miðast upphaf skútualdar á Íslandi.  Um það leyti hófu dönsk stjórnvöld að styrkja útgerð þilskipa hérlendis; 10 rd/comm.lest.  Einar í Kollsvík hefur líklega nýtt sér þessa styrki, sem nefndir voru „fiskveiðiverðlaun“,  er hann hóf skipaútgerð í félagi við Thomsen; síðasta einokunarkaupmanninn á Patreksfirði.  Í „Skútuöldinni“ segir að Guðmundur Ingimundarson í Breiðholti  í Reykjavík hafi keypt Dephin um 1801, er hann fékk til þess 1000rd lán úr Kollektusjóði.  Guðmundur seldi skipið 1806 til Guðmundar Scheving; fyrst sýslumanns í Haga en síðar útgerðarfrömuðar í Flatey.  Í Skútuöldinni er Einar í Kollsvík ekki nefndur, en líkast til hefur hann fyrst og fremst komið að skútuútgerðinni sem fjárfestir, enda var hann vel efnum búinn og þeir náfrændur; hann og Guðmundur Scheving.  Aflabrögð voru góð og verulegur hagnaður varð af útgerð Delphin.  Mun þar hafa ráðið miklu að á skipið voru eingöngu ráðnir vanir sjómenn; og hafa líkast til einhverjir vanist róðrum í Kollsvík.  Eftir missi Delphin gerðist Guðmundur Scheving mikill athafnamaður og útgerðarmaður í Flatey.  (GG; Skútuöldin, endurs.VÖ)).  Delphin týndist í hafi eitt sinn síðla sumars á útleið, með öllu sem á því var, og mun hafa verið óvátryggt.  Eftir þetta óhapp mun efnahagur Einars hafa gengið mjög til þurrðar, en bú hans stóð þó með miklum blóma meðan hann entist.  Jafnan var hann talinn héraðshöfðingi og þótti ávallt bera höfuð og herðar yfir flesta samtíðarmenn  í sínu héraði með skörungsskap og ýmsar athafnir er til framkvæmda lutu.  Kunni hann því illa ef hann kom því ekki fram sem hann vildi vera láta við hvern sem í hlut átti og vildi einn öllu ráða.  Þótti hann stundum allráðríkur og yfirgangssamur ef honum bauð svo við að horfa, og hirti þá stundum lítt um lög og rétt.  En höfðingslund hafði hann til að bera við sér minni menn og þá sem bágt áttu“.  (Frásögn Helgu Einarsdóttur, fósturdóttur Einars; skráð af Ólafi E. Thoroddsen í Vatnsdal; birt í Árb.Barð 1980-90).
„Einn þeirra manna sem sveitahöfðinginn Einar í Kollsvík átti í útistöðum við var galdramaðurinn Benedikt Gabríel í Arnarfirði, og voru tildrög þeirra deilna þessi:  Benedikt var annálaður sela- og hvalskutlari, en Arnfirðingar stunduðu það að veiða árlega af hvölum sem sóttu inn á Arnarfjörð; í hina miklu rækjuslóð sem þar er.  Skutluðu þeir unghvelin en létu gömlu hvalina lifa.  Eitt sumarið, líklega árið 1813 skutlaði Benedikt hnýðing stóran, en missti hann með skutulinn í sér.  Hnýðinginn rak síðan dauðan í Láturdal, sem er innan við Blakk; í landi Hænuvíkur, og urðu smalar Einars fyrst varir við hann.  Hann bregður skjótt við; fer með húskarla sína á hvalfjöruna og sker hnýðinginn.  Hann finnur fljótt skutulinn með fangamarki Benedikts Gabríels, en biður menn sína að leyna því.  Síðan lætur hann flytja heim að Kollsvík alla mötuna af hvalnum á hestum; tveim sem hann átti og þriðja sem hann fékk léðan á Láganúpi.  (Sumir segja að Einar hafi róið hvalinn sjóleiðina fyrir Blakk, en það skýrir ekki eins vel eftirmálin sem urðu).  Einar hirti ekki um að greiða skutlaranum sinn lögmæta hlut í hvalnum.  Ekki virti hann heldur rétt Hænvíkinga til landshlutar, né heldur rétt Saurbæjarkirkju, sem á tíundu hverja vætt af öllum hvalreka milli Skorar og Tálkna.  Einar var kóngur í sínu ríki; þess umkominn að bjóða veraldlegu og andlegu valdi byrginn.  Hitt reyndist honum skeinuhættara; að hlunnfara galdramanninn í Arnarfirði.  Benedikt Gabríel frétti af hvalrekanum og skutli sínum.  Hann gerði Einari orð og minnti á sinn skotmannshlut.  Einar neitaði því og sagði Benedikt ekki geta sannað að hann ætti járnið í hvalnum.  Benedikt kærði málið ekki, en lét þess getið að Einar í Kollsvík skyldi ekki reiða hval á hestum sínum næsta sumar.  Segja sumar sögur að Hænuvíkurbóndi hafi einnig leitað aðstoðar Benedikts, er honum var meinað um landshlutinn.  Til tíðinda dró þegar kom framundir hátíðar.  Þá var það eitt sinn að smalamaður í Kollsvík kom með þær fréttir að besti sauður Einars hefði fundist fótbrotinn og dauður, svo að ekki gæti talist einleikið.  Fór Einar þá með smalanum; lét hann urða hræið kyrfilega og harðbannaði að nokkur kæmi þar nálægt til að eiga við það.  Hefur hann eflaust rennt í grun að engin hollusta væri að vinna það sér til matar.  Veturinn sem þá fór í hönd reyndist harður er leið á þorra; jarðbönn og stórhríðar, svo taka varð hross á hús og hey.  Eitt sinn sem oftar, eftir norðanbyl í lok þorra, var hestum Einars brynnt í bæjarlæknum (Brúarlæk); sömu hestum og báru heim hvalinn úr Láturdal.  Hinumegin í víkinni brynntu Láganúpsbændur góðhestinum Glóa, sem lánaður hafði verið í hvalflutningana, og Grundarbændur brynntu tveimur hestum sínum.  Skyndilega var sem Kollsvíkurhestarnir ærðust.  Þeir hlupu yfir víkina, þar sem hinir hestarnir slógust í för þeirra; og síðan hurfu þeir allir til fjalls.  Eftir mikinn eltingarleik náðust Grundarhrossin, en ekki hin þrjú.  Þau sáust hverfa útyfir Vatnadal og uppá Breið.  Veður versnaði og sneru menn heim úr eftirförinni um dimmingu.  Um kvöldið sást til hestanna frá Breiðuvík, þar sem þeir æddu yfir víkina og tóku stefnu upp Stæðurnar.  Norðaustan bylur kom þá í veg fyrir eftirför, en leit var hafin er veðrið gekk niður.  Hvorki fannst af þeim tangur né tetur; hvernig sem leitað var, og var álitið að þeir hefðu hlaupið fyrir björg.  Þá var það á skírdag að sást til hests á klettabrún ofan Rauðasands; milli Lambavatns og Naustabrekku.  Hesturinn var handsamaður og reyndist þar kominn Glói frá Láganúpi; grindhoraður, en lifði þó af.  Þar skammt frá, á svonefndum Mávaflötum,  lágu hestar Einars í Kollsvík steindauðir, en hóll sem þar stóð uppúr fönninni var rótnagaður.  Þessi staður er í 18 km loftlínu frá Kollsvíkurbænum.  Allt þótti þetta með einkennilegheitum mestu, og hallaðist almannarómur fljótt að því að hér væri um að kenna göldrum Benedikts Gabríels.  Það styrkti þær grunsemdir að Einar hafði smíðað sér skeifur úr skutli Benedikts, sem fannst í hvalnum, og þær skeifur voru einmitt undir hestunum er þeir fóru sína feiðgðarför.  Hann hefði sent Einari draug þann er ært hefði hestana.  Hefði hann drepið hesta Einars, en hlíft þeim sem lánaður var frá Láganúpi í hvalburðinn.  Draugurinn hélt áfram að elta Einar og var honum leiður á ýmsan hátt.  Kvöld eitt varð vart við eitthvað óvanalegt á túninu neðan Kollsvíkurbæjar.  Einar gekk niður brekkuna að athuga málið.  Þegar hann kemur ofan fyrir Túnbrekkuna sér hann að þar er kominn draugurinn í nautslíki og lét ófriðlega.  Ræðst hann þegar á bónda, sem tók hraustlega á móti.  Einar hafði hrosshársreipi í hönd sér og með því gat hann bundið bola.  Mýlir hann svo kauða og leggur af stað með hann upp á Hænuvíkurháls.  Bannaði hann heimamönnum að skipta sér af viðureigninni og vildi ekki að leitað væri að sér þó ekki kæmi hann heim þá nótt.  Teymdi hann svo bola sem leið liggur innyfir Hænuvíkurháls og batt hann við stein einn stóran á innanverðum hálsinum.  Mælti hann svo fyrir um að ekki skyldi hann gera sér eða sinni ætt mein framar, og hefur það áunnist.  En reimt þótti eftir þetta í námunda við steininn, og villugjarnt.  Einar sagði draugnum að ef hann gæti losað sig frá steininum skyldi hann fara til þess sem sendi hann og leika við hann það sama og hann hefi átt að gera sér.  Það höfðu menn fyrir satt að draugurinn hafi losað sig skömmu síðar; farið heim til Benedikts og áreitt hann.  Brá svo við að hann lagðist sjúkur og lá lengi.  Með sinni kunnáttu réði hann þó niðurlögum draugsins og varð heill heilsu eftir það.
Getið er um hvalreka í Kollsvík árið 1813 í dagbók Árna Sigurðssonar í Flatey.  Þar mun vera átt við þennan hval.  Ekki er ólíklegt að Einar hafi látið þá sögu fylgja hverjum hvalbita sem burtu fór, að hvalurinn væri rekinn á sínu landi.
Annar hvalreki hafði orðið í Kollsvík nokkru áður, eða um sumarmál árið 1802.   Þá urðu menn varir við það, sem voru í róðrum úr Kollsvík, að hvalur var þar á reki.  Róið var að hvalnum og taug fest í hann.  Það reyndist þrautin þyngri að róa svo þungu dýri í land á lítilli bátsskel.  Það vildi til happs að kjör stóðu í hálfan mánuð um þetta leyti, en vikutíma tók að róa hvalnum í land í Kollsvíkurfjöru.  Hvalurinn var aldrei yfirgefinn á þeim tíma, en matur og drykkur fluttur til manna úr landi.  Hvalurinn var nefndur Þæfingur af þessum sökum og varð mikil búbót, enda voru á honum 200 vættir kjöts og spiks (um 7 tonn).  Annálar segja að hvalurinn hafi drepist í ís og verið beinlaus, en e.t.v. hafa bein hans brotnað eitthvað í ísnum.  Rifin af Þæfingi voru notuð í húsbyggingar í Kollsvík og voru m.a. lengi í búðum sunnantil á Norðariklettunum í Kollsvíkurveri“.  (Endursögn VÖ;  byggt á frásögn Helgu Einarsd, skráðri af Ó.E.Th, birt í Árb.Barð 1980-90 og sögn Guðmundar Jónssonar í Tungu; einnig frásögn Hjörleifs Ólafssonar o.fl. skráðum af Trausta Ólafssyni í Kollsvíkurætt )
Össursbær (120), Gamlibær (121), Össursskemma (122), Stórikálgarður (123), Smiðjugarður (124), Langahlaða (125), Fjósgarður (126).  Heiti tilheyrandi gamla Bæjarhólnum (119) í Kollsvík.  (Sjá þar).

Jónshlaða  Heiti á útihúsum á hól þeim sem er sunnan gamla Bæjarhólsins i Kollsvík, og er stundum talið hluti af honum.  Í örnefnalýsingu GT og VT er nafn þessara húsa Langahlaða (125) og fjós báðumegin við hana.  Langahlaða fékk heiti sitt þegar Jón Torfason, bróðir Guðmundar og Vilborgar og bóndi í Kollsvík, hlóð lönguhlöðu upp.  Þau voru notuð lítt breytt í búskapartíð Ólafs Guðbjartssonar en hann byggði þar hjá staka votheysgryfju, steinsteypta.  Ingvar Guðbjartsson hlóð Jónshlöðu enn upp í sinni búskapartíð og notaði hana og fjósið.  Síðast notaði Hilmar Össurarson Jónshlöðu, þar til hún féll niður.  Á þessum hól stóð að öllum líkindum bænhús það sem var í Kollsvík í kaþólskum sið.  Steinn er í hólnum ofanverðum, sunnantil og fylgir sú saga að hann sé ein af undirstöðum kirkjugarðsins.  Þegar grafið var fyrir votheysgryfjunni komu upp mannabein úr kirkjugarðinum sem þarna var, og voru þau látin niðurmeð veggnum.  Mannabein hafa komið upp síðar, í kálgarði sem lengi var vestan í hólnum.  „Þegar verið var að grafa fyrir hlöðu í Kollsvík kom upp lærleggur af manni.  Bóndann dreymdi mann sem bað um að beinið yrði sett á sama stað aftur, og var það gert“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Sagt var að tíðkast hafi eftir siðaskiptin að gera kaþólskunni þá óvirðingu sem mest mátti, og voru víða reist fjós og önnur skepnuhús þar sem áður stóðu bænhús.  Þar kann þó einnig að hafa ráðið hagkvæmnin við að nýta byggingarefni sem var í þægilegri fjarlægð við íbúðarhúsin.  Steinsteypt fjárhús og hlaða ofan Forarteigs; rétt sunnan Jónshlöðu, voru fyrst byggð af Helga Árnasyni; síðan bætt við fjárhúsi og gryfju í tíð Ólafs Guðbjartssonar og bárujárnsklæddu fjárhúsi; hlöðu og vélahúsi í tíð Ingvars Guðbjartssonar, sem einnig setti súgþurrkunarkerfi í hlöðuna.   Enn bætti Hilmar Össurarson þessi hús í sinni tíð.

Fjóshóll (247).  Hóll á gamla Bæjarhólnum (119) í Kollsvík.  „Niður undan öllum þessum húsum voru kálgarðar, sem einu nafni voru kallaðir Stórikálgarður (123).  Norðan við mókofann var annar garður; Smiðjugarður (124), en mókofinn mun hafa verið smiðja áður.  Suður af Stórakálgarði var hlaða sem tilheyrði báðum býlunum og var kölluð Langahlaða (125), og sitt hvoru megin við hana fjós sem tilheyrðu hvorum bæ fyrir sig.  Þar niður af var garður sem kallaður var Fjósgarður (126).  Í Kollsvík var mikið ræktað af kartöflum sem spruttu vel og síðar var einnig farið að rækta þar rófur.  Hóll á milli garðanna, út eða norður af Fjósgarði, var kallaður Fjóshóll (247).  Brunnur var framundan fjósinu og tekið þar vatn.  Annar brunnur var fjær og var þar tekið vatn fyrir kýrnar“   (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Þetta svæði er nú búið að slétta að verulegu leiti.

Partur (127).  Svæði í Kollsvíkurtúni, ofan Bæjarhóls og Jónshlöðu.

Engi (128).  Allstórt svæði suður af íbúðarhúsinu í Kollsvík; þar sem nú eru framræstar sléttur.  „Engin nöfn eru þar önnur“ segir í Örnefnaskrá GT og VT.

Þurragrandi (129).  Svæði neðst og vestast í Kollsvíkurtúni.  Hér mun líklegast vera um að ræða svæði sem nú er vestan við þann hluta heimreiðar að Kollsvík sem fjær er íbúðarhúsinu, og er nú slétta.  „… er þá komið útfyrir tún.  Hæst á því svæði var Bjarnatröð (130), kennd við mann sem hafði þarna slægjur.  Þegar Steingrímslækur er kominn hér niður á túnið rennur í hann Litlilækur (131) og úr því er hann kallaður Lækurinn (132) sem er sami lækur og Myllulækur (64)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Hér er líklega um misritun að ræða.  Útilokað er að Steingrímslækur renni nærri Þurragranda.  Líklegra er að þar sé átt við Brúarlæk, þó ekki renni hann heldur um Þurragranda.  Þeir sem lásu lýsinguna yfir hafa líklega ekki veitt þessu mikla athygli þar sem þetta var þá raskað og breytt svæði.  Líklegt er að Litlilækur hafi áður runnið milli Engis (128) og Þurragranda, líkt og hann gerir nú, í skurði og ræsi undir heimreiðina.

Bjarnatröð 130).  Brystið sem hæst ber á Þurragranda (129), vestast í Kollsvíkurtúni.  „Hæst á því svæði var Bjarnatröð (130), kennd við mann sem hafði þarna slægjur“   (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Litlilækur (131).  Lækur sem rann milli Engis (128) og Þurragranda (129) í Kollsvíkurtúni.  Þetta svæði er nú all breytt með framræslu og ræktun.  Segja má að Litlilækur sé sá lækur sem nú rennur í ræsi undir heimreiðina að íbúðarhúsinu í Kollsvík.  „Þegar Steingrímslækur er kominn hér niður á túnið rennur í hann Litlilækur (131) og úr því er hann kallaður Lækurinn (132) sem er sami lækur og Myllulækur (64)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Hér er eitthvað málum blandið og líklega um misritun að ræða.  Útilokað er að Steingrímslækur renni nærri Þurragranda.  Líklegra er að þar sé átt við Brúarlæk, þó ekki renni hann heldur um Þurragranda.  Líklegt er að Litlilækur hafi áður runnið milli Engis (128) og Þurragranda, þar sem nú eru skurðir og ræsi undir heimreiðina; og hann e.t.v. runnið í Myllulæk/Brúarlæk/Læk,  líkt og hann gerir reyndar í dag.

Lækurinn (132).  Sami lækur og Myllulækur/Brúarlækur/Kvarnarlækur.  (Sjá þar og um Þurragranda).  Einnig nefndist hann Bröndulækur (245), enda voru í honum bröndur.

Kryppukarl (133).  Stór steinn í Urðum (100), norðan við staðinn þar sem fyrrum stóð Litlahlaða (134).  Kryppukarl er meira en mannhæðarhár og léku krakkar sér oft í honum.

Litlahlaða (134).  Hlaða suður af Kryppukarli (133) í Urðunum í Kollsvík.  Þar hjá stóð hrútakofi, en hvorttveggja er nú löngu fallið.

Steingrímstóftir (135).  Hóll sem nú er búið að slétta, en var niður af Litluhlöðu uppi undir Urðunum og suðaustur af gamla Bæjarhólnum í Kollsvík.  „Þetta var talsverður hóll áður, en er nú búið að slétta.  Í skrá Ara er vikið að sögn um að þarna hfi búið prestur sá er fórst í Steingrímsklifi, utanvert við Kvígindisdal.  Ekki mun vitað um neinn Steingrím sem verið hafi prestur hér, og engin skýring er kunn á nöfnunum sem dregin eru af nafni þessu.  Niður undan Steingrímstóftum var lítil flöt og þúfur á henni.  Ein var stærst og kölluð Stóraþúfa (246).  Þarna léku krakkar sér mikið“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Stóraþúfa (246).  Stór þúfa efst í Kollsvíkurtúni; sunnan gamla Bæjarhólsins.  „Niður undan Steingrímstóftum (135) var lítil flöt og þúfur á henni.  Ein var stærst og kölluð Stóraþúfa (246).  Þarna léku krakkar sér mikið“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Stórurð (136).  Urðin upp af Kryppukarli; hluti af stærra svæði með allri hlíðinni sem nefnt var Urðir (100).  Stórurð er með samfelldu stórgrýti, án verulegs gróðurs inn á milli, og er suður af djúpri laut sem heitir Hempulág (137).

Hempulág (137).  Djúp laut norður af Stórurð, ofan Kollsvíkurtúns.  „Hempulág heitir svo vegna þess að prestur nokkur á að hafa getið brn í láginni og misst hempuna fyrir.  Hempulág er lítil og er rétt við hlíðina.  Beint upp af Hempulág er Kálfsklettur (138).

Kálfsklettur (138).  Stakur klettur ofan við Hempulág, þar sem hlíðar Núpsins enda og Húsadalurinn opnast.  „Kálfsklettur er stakur og hægt að ganga í kringum hann.  Undir honum vex reyrgresi“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Lúða (139).  Blettur hátt uppi í túni framan við (sunnan við) gamla Kollsvíkurbæinn.  „Rétt framan til við Lúðu er nokkuð djúp, bogamynduð lág í túnið, sem heitir Bergislág (140)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Lúða er því þar sem nú eru tóftir hrútakofa/hænsnakofa; uppi í horni gömlu túngirðingarinnar; ofan fjárhúsanna í Kollsvík.

Bergislág (140).  Djúp, bogamynduð lág í túnið sunnan við gamla Kollsvíkurbæinn; framan við Lúðu (139).  „Reiðvegurinn heim að bæ kom niður brekkuna hjá Bergislág“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Bergin (141).  Sérkennilegir grasigrónir klettahólar sunnan við Bergislág; sunnan bergin arnateigurKollsvíkurbæjarins gamla; ofan vegslóðans heim Stöðul (146).  „Í Bergjunum átti að vera huldufólk.  Bergisurðir (142) eru upp af Bergjunum, nær brekkunni.  Þarna endaði túnið.  Sunnan við Bergin er smálaut sem heitir Litlatröð (143) og tilheyrði túninu.  Efst í henni er fjárrétt“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Miklar hleðslur eru á Bergjunum og milli þeirra; vafalaust frá ýmsum tímum og með misjafnan tilgang.   Einhverntíma mun hafa verið búið á Bergjum, samkvæmt viðtali við Guðbjart Guðbjartsson á Láganúpi í Sunnud.blaði Þjóðviljans árið 1963, en þar segir hann, aðspurður  um býli í Kollsvík:  „Kollsvík, Láginúpur og Grundir voru lögbýli í Kollsvík, en auk þess voru Bakkar þurrabúð, Grund líka þurrabúð; þar bjó Samúel Eggertsson.  Og Stekkjarmelur; þar var grasbýli og þar standa hús því þar var búið til 1962.  Tröð var hluti úr Kollsvíkurlandi og Grænamýri einnig; hún stóð niðri í túninu.  Einu sinni var líka búið á Bergjum; bæ sem stóð ofarlega í Kollvíkurtúni“.  Þetta kemur heim og saman við það að í manntali 1901 er Gísli Guðbjartsson, bróðir Guðbjartar, sagður búa á Bergjum.  Hann byggði síðar bæ á Grænumýri (113) og bjó þar til 1925.  „Á Bergjum, efst í Kollsvíkurtúni byggði Gísli Guðbjartsson íbúðarhús, er hann kynntist fyrri eiginkonu sinni; Dagbjörtu“ (EG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)

Bergisurðir (142).  Urðirnar upp af Bergjunum, nær brekkunni.  Þarna endaði Kollsvíkurtún til suðurs.

Litlatröð (143).  Smálaut sunnan við Bergin (141), sem tilheyrði gamla Kollsvíkurtúninu.  Efst í henni var hlaðin fjárrétt sem enn stendur.  Túngarðurinn var hlaðinn úr grjóti fyrst, ofan brekku og niðurfyrir Litlutröð, en síðan úr torfi.  Enn sjást rústir grjótgarðsins.

Sporður (144).  Partur í Kollsvíkurtúninu gamla, sem er neðan við Bergin (141); fyrir neðan vegslóðann sem liggur heim Stöðul (146).

Árnateigur (145).  Svæði sunnan við gamla túngarðinn í Kollsvík.  Í seinni tíð nær nafnið yfir klettaslefrurnar og vatnsfarveginn undir miðjum Húsadal, en hugsanlega hefur það áður átt við slægjublett fyrir neðan þá sem sá Árni hefur nytjað, en uppruni nafnsins er ekki þekktur.  „Í leysingum flæðir vatn ofan af Húsadal og niður Árnateig.  Stöðull (146) er sunnan við túngarð og niður af Árnateig.  Sunnan við Árnateig er hóll sem heitir Gamlistöðull (147), uppi undir urðinni.  Á honum er stór steinn sem heitir Rauðukususteinn“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Árnateigur er farvegur sem vatn hleypur niður í leysingum.  Ekki er vitað um skýringu á nafninu“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Stöðull (146).  Staður sunnan við gamla túngarðinn í Kollsvík, niður af Árnateig, þar sem kýr voru mjólkaðar kvölds og morgna að sumrinu.  „Á Stöðulinn var 5-10 mín gangur heiman frá bæ“   (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Gamlistöðull (147).  Hóll sunnan við Árnateig, uppi undir urðinni.  „Á honum er stór steinn sem heitir Rauðukususteinn“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Líklega hefur Gamlistöðull, eða hluti hans, farið undir veginn þegar hann var lagður niður með Tröðinni.  Rauðukususteinn er núna í vegkantinum heiman við Tröð; neðan vegslóðans heim Stöðul.

Rauðukususteinn (148).  Stór steinn sem áður var á hólnum Gamlastöðli (147) sem að hluta fór undir þjóðveginn niður með Tröðinni.  Rauðukususteinn er núna í vegkantinum heiman við Tröð; neðan vegslóðans heim Stöðul.  „ Sunnan við Árnateig er hóll sem heitir Gamlistöðull (147), uppi undir urðinni.  Á honum er stór steinn sem heitir Rauðukususteinn.  Þegar krakkar voru að reka kýr eða kindur og hvasst var á norðan var oft farið í skjól við Rauðukusustein um stund“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Talið er að álfar búi í Rauðukususteini, og það var haft til marks að tíðar bilanir urðu í vélum meðan verið var að ýta honum til.  „Rauðukususteinn er syðst á Stöðli“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Tröð (149).  Býli sunnan við Stöðul; neðan núverandi þjóðvegar í Traðarhæð; átti hlut í Kollsvíkurjörðinni.  Áberandi mikill grjóthlaðinn garður er í kringum gamla Traðartúnið og voldugir grjóthlaðnir veggir útihúsa standa enn vel, eftir nær hálfa öld.  Mestur hlut þessara hleðslna eru handarverk Guðbjarts Guðbjartssonar þáverandi bónda í Tröð; trodsíðar á Láganúpi.  Hann var annálaður hleðslumaður eins og enn má sjá, bæði í Kollsvík og á öðrum bæjum, t.d. Hnjóti.  Eftir Guðbjart bjó í Tröð Helgi Árnason, en báðir áttu þeir stórar fjöldkyldur.
„1901 er Tröð skráð þurrabúð; eign Bjarna Gunnlaugssonar.  Ábúendur síðar voru:
1891-1911  Bjarni Gunnlaugsson  bóndi og farkennariog Sigríður Ásbjarnardóttir
1909-1921  Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir
1921-1952  Helgi Árnason og Sigrún Össurardóttir“  (BÞ;Vestfjarðarit;  Fólkið, landið og sjórinn).  „Frá Tröð og niður í Ver lá leiðin yfir Hnausa (264), hjá brunnhúsi sem tilheyrði Tröðinni“  (IG; viðb. Örnefnaskr Kollsvíkur).
„Í Tröð bjuggu foreldrar mínir, Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir.  Þegar hér var komið sögu (1920) höfðu þau eignast fimm börn…  Auk þess voru á heimilinu þessi ár hjónin Gísli Ólafsson og Vigdís Ásbjörnsdóttir.  Gísli var föðurbróðir pabba.  Þau höfðu til íbúðar helming af loftinu, en áttu sér skemmu þar sem Vigga hafði matseld og geymdi flestar eigur þeirra.  Þá var einnig á heimilinu Guðríður Árnadóttir, föðursystir mömmu, og hafði til ábúðar eystri helming loftsins.  einnig voru á heimilinu um tíma Jón Árnason, kallaður frá Krókshúsum, og Gvendur Jónsson, einhleypur og heldur kjarklítill karl, sem jafnan var í vinnumennsku.  Frá Tröð og niður í Ver munu vera um 1 km“  (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)

Hnausar (264).  Svæði neðan við Tröð (149).  „Frá Tröð og niður í Ver lá leiðin yfir Hnausa (264), hjá brunnhúsi sem tilheyrði Tröðinni“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Melarandir (150).  Sandbalar og melabörð handan við (sunnan við) Verið og Strákamel; yfir undir Stekkjarmel.  Vestan við þær eru Leirar (151)  sandfláki sem nær niður á Rifið.

Leirar (151). Sandfláki vestan (neðan) við Melarandir, sem nær niður á Rifið; frá melarandir leirarSyðriklettum suður að Ánni.  Leirar eru gróðurlausir.  Þar um liggur harður vindstrengur fyrir Blakkinn í norðanáttum og skefur sandinn allt niður í jarðvatnsborð.  Áin verkar sem hemill á sandburðinn, því þegar hún fyllist af sandfoki hækkar vatnsborðið í Leirunum sem stöðvar framrás foksandsins.  Áin skilar svo sandburðinum til sjávar og hringrásin helst við.  Fyrir kemur að Áin fyllist svo mjög af sandburði að hún renni um tíma niður um miðja Leira og í sjó rétt sunnan Oddans.  Undir Leirunum er lag af mó, og var hann nýttur um tíma þó moka þyrfti ofan af honum skeljasandi.  Má sjá þessar mógrafir á Leirunum á korti Samúels Eggertssonar frá 1903-1907.

Stekkjarmelur (152).  Býli í miðri Kollsvík, sunnan við Melarandir (151); norðan Árinnar(161).  „Stekkjarmelur er grasbýli, stofnað af Karli Kristjánssyni og Mikalínu Guðbjartsdóttur í landi Kollsvíkur.  Var seinna gert að lögbýli (nýbýli) og þá lagt til líka land frá Láganúpi (Grundum).  Bændur:
1907-1942  Karl Kristjánsson og Mikalína Guðbjartsdóttir;
1942-1950  Andrés Karlsson og Járnbrá Jónsdóttir
1952-1962  Ingvar Guðbjartsson og Jóna Snæbjörnsdóttir“
(BÞ;Vestfjarðarit;  Fólkið, landið og sjórinn)
„Stekkjarmelur var stundum nefndur Kallamelur, utaní ábúandann“  (Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir; Ábúendatal Hildar og Guðbjartar;1989).  Sími var lagður að Stekkjarmel 1934; afleggjari af símalínu á Hafnarfjalli.  Landsímastöð var á Stekkjarmel í tíð Karls og Mikalínu; um tíma eina símtækið í Kollsvíkinni.  Þar var einnig eina útvarpstækið í Kollsvík á fyrstu dögum útvarps. Vindrafstöð var á Stekkjarmel um tíma.   Kornmyllur munu hafa verið á tveimur stöðum í Ánni.  Ingvar gerði allmikla stíflu í Ánni og hafði þar litla rafstöð.  Hann byggði allmikil útihús norðan íbúðarhússins og hafði þar fjós,hlöðu og skemmu.  Einnig byggði hann steinsteypt fjárhús og hlöðu sunnan Árinnar.  Stekkjarmelur hefur verið í eigu Kollvíkurbænda síðan búskap var þar hætt.  Björn Guðmundsson húsasmiður keypti húsið og nýtti sem sumarbústað um tíma.  Á síðari árum hefur Hansína Ólafsdóttir frá Kollsvík og dætur hennar unnið að endurgerð hússins fyrir sumarbústað.
„Þá er að nefna syðsta býlið norðan Ár, en það hét Stekkjarmelur og þar bjó á þessum tíma (1915-1920) Karl Kristjánsson ásamt konu sinni Mikkalínu Guðbjartsdóttur, föðursystur minni, og fjórum börnum.  Þau áttu smáhluta í Kollsvíkurjörðinni en höfðu þó lítinn bústofn; um 30 kindur en lengi vel enga kú“  (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)

Jensmelur  Nafn á nýbýli sem stóð um stuttan tíma rétt norðan íbúðarhússins á Stekkjarmel.  Nafnið Jensmelur kemur fram á korti Samúels Eggertssonar frá 1903-1907, en ekki Stekkjarmelur.  „Rétt fyrir norðan Stekkjarmel var nýlenda og íbúðarhús sem Jens Sigurðsson og Henríetta Guðbjartsdóttir byggðu.  Þau fóru til Ameríku, að ég hygg árið 1911 og þá fór þessi ræktun í eyði.  Hús þetta hafði Jens byggt að verulegu leiti af viði úr Breiðuvíkurkirkju, en hún mun hafa verið endurbyggð um aldamótin 1900.  Faðir minn keypti svo þetta hús og byggði af viðum þess íbúðarhús í Tröð er hann fór að búa þar“ (Einar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)
Jensmelur.  Annað nafn á Stekkjarmel (152).  Sjá þar.

Mikkupytla (270).  Uppspretta í norðurbakka Árinnar; sunnan Stekkjarmels.  „Í Stekkjarmelslandi, norðan við Ána, er uppspretta í bakkanum á Ánni sem Mikkalína Guðbjartsdóttir, frænka Ingvars, sótti alltaf vatn í.  Þessi uppspretta er kölluð Mikkupytla og sést enn.  Í henni er mjög gott vatn“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Össurskvörn (271).  Kornkvörn sem áður var í Ánni.   „Össurskvörn var í Ánni.  Hún var eyðilögð þegar byggð var stífla fyrir rafstöð og sést ekki fyrir kvarnarhúsinu nú.  Þetta mun hafa verið síðasta kornkvörnin í Rauðasandshreppi, og var hún líklega ein af kóngskvörnunum svonefndu, sem konungur sendi til Íslands.  Steinarnir úr kvörninni fóru til Patreksfjarðar og eru þar sennilega enn, við hús það sem Friðþjófur Jóhannesson átti.  Ekki sést fyrir neinu kvarnarhúsi í Ánni að sögn Ingvars“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Harðatorfspyttur (153).  Sytra í Melaröndum; norðan Stekkjarmels (152).  Þar hefur vatnið grafið allmikla laut í sandflatirnar; allt niður í jarðvatnsborð.  „Þar er harðatorf; þ.e. mór svo svellharður a varla er mögulegt að stinga hann með skóflu.  Mór þessi er mjög hitamikill og líktist mest kolum af þeim mó sem fékkst í Kollsvík.  Voru í honum lurkar.  Þetta er þunnt lag, líklega ein stunga.  Hætt var að taka hann vegna þess hve erfitt var að vinna hann“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Í  Kollsvík bjó m.a. Einar Jónsson (f. 1759-d.1836), sem Kollsvíkurætt er rakin til, og hefur Kollsvíkin verið byggð af afkomendum hans síðan.  Einar var stórbóndi og hreppstjóri á sinni tíð; var m.a. sækjandi í Sjöundaármálinu.  Samkvæmt frásögn Ólafs E. Thoroddsen í Vatnsdal var Einar í Kollsvík ötull járnsmiður.  Hann vann járn úr mýrarrauða og var síðasti Íslendingurinn til að stunda rauðablástur, svo vitað sé.  Ekki er ólíklegt að til þess hafi hann m.a. nýtt hinn hitagæfa mó úr Harðatorfspytti og víða er mýrarauða að finna í Kollsvík.  Ekki er vitað hvar í víkinni Einar hafði sinn rauðablástur.

Nautholtadý (154).  Mýri upp frá Stekkjarmel og Melaröndum, og ná þau upp að þurrlendinu; upp á móts við Nautholt (156).  „Sunnantil í Nautholtadýjum var aðalmótakið í Kollsvík.  Þar var mýramór, svo mjúkur að hægt var að skifa á hnausana með fingri þegar þeir komu upp.  Þarna voru 3-4 stungur af mó; neðsta lagið best.  Ein stunga var tekin ofan af.  Tekinn var mór til 1924“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Ingvar Guðbjartsson segir að tekinn hafi verið mór til 1953 í Nautholtadýjum.

Nautholtagötur (155).  Götur upp á Nautholt, neðan frá Melaröndum og Veri.  Fjárgötur sem enn mótar vel fyrir.

Nautholt (156).  Holt ofan við Nautholtadý; norðan Árinnar.  Í örnefnaskrá GT og VT er holtið sagt gróðurlítið, en í seinni tíð er það vel gróið og þar var góður kúahagi.

Balar (157).  Graslendi upp af Nautholti (156), og oft talið hluti af því.

Holt (157).  Grýtt holt ofan við Bala (157) og Nautholt (156).  „Er landið fremur gróðursnautt alla leið upp að Hvolfbrekku“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Holtarandir (276) taka við af Umvarpi (274) og síðan taka Holtin við af þeim“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Fossar (159).  Smáklettahjallar ofan við Holt (157);  uppi undir Vík.  „Þarna fossar vatn fram af í leysingum, en annars þurrt.  Við Fossa byrjar Áin (161) sem rennur eftir Kollsvík og skiptir löndum Láganúps og Kollsvíkur“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Kollsvíkurá (160).  Annað nafn á Ánni (161).

Áin (161).  „Á sem rennur eftir miðri Kollvíkinni og skiptir löndum Láganúps og Kollsvíkur.  Hún er nefnd Kollsvíkurá (160) í skrám Ara, en í daglegu tali er hún aðeins kölluð Áin.  Í henni voru tvö kvarnarhús.  Niður frá Fossum og frameftir er mosavaxið land sem heitir Ármót (162).  Þau eru á merkjum Láganúps og Kollsvíkur“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Í Stekkjarmelslandi, norðan við Ána, er uppspretta í bakkanum á Ánni sem Mikkalína Guðbjartsdóttir, frænka Ingvars, sótti alltaf vatn í.  Þessi uppspretta er kölluð Mikkupytla (270) og sést enn.  Í henni er mjög gott vatn“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).  „Össurskvörn (271) var í Ánni.  Hún var eyðilögð þegar byggð var stífla fyrir rafstöð og sést ekki fyrir kvarnarhúsinu nú.  Þetta mun hafa verið síðasta kornkvörnin í Rauðasandshreppi, og var hún líklega ein af kóngskvörnunum svonefndu, sem konungur sendi til Íslands.  Steinarnir úr kvörninni fóru til Patreksfjarðar og eru þar sennilega enn, við hús það sem Friðþjófur Jóhannesson átti.  Ekki sést fyrir neinu kvarnarhúsi í Ánni að sögn Ingvars“  „Í Stekkjarmelslandi, norðan við Ána, er uppspretta í bakkanum á Ánni sem Mikkalína Guðbjartsdóttir, frænka Ingvars, sótti alltaf vatn í.  Þessi uppspretta er kölluð Mikkupytla og sést enn.  Í henni er mjög gott vatn“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

 Ármót (162).  Mosavaxið land ofan við Fossa (159) og nær einnig niðurfyrir þá.  „Þau eru á merkjum Láganúps og Kollsvíkur.  Í skrá Ara segir að eftir að Ármótum sleppi séu merkin á móti Láganúpi gamli reiðvegurinn úr Kollsvík á Rauðasand.  Við Ármótin, ofan við Holtin, er löng og mjó graslaut sem heitir Sunnmannalág (163).  Þar áður þeir sem áttu hér leið um.  Ármótin liggja framundir svonefndan Sandvegshjalla (164), en með honum liggur vegurinn á Rauðasand“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Sunnmannalág (163).  Löng og mjó graslaut við Ármótin (162), ofan við Holtin. „Þar áður þeir sem áttu hér leið um“   (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Sandvegshjalli (164).  Hjalli framan við Ármót (162); frammi í Vík, sunnan Hvolfabrekku (202).  „Með honum liggur vegurinn á Rauðasand“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Hæð (165).  Fjallið ofan við Tröð (149); sunnan við Kollsvíkurtún.  Nefnt Hæð í daglegu tali en fullt nafn mun vera Traðarhæð og eflaust draga bæði býli og fjall nafn af því að með fjallinu liggur vegurinn inn á Rauðasand og um Tunguheiði til Örlygshafnar.  „Hæðin mun vera álíka há og Núpurinn.  Í athugasemdum Össurar Guðbjartssonar segir að klettarnir séu nefndir Traðarhæð, en Guðmundur og Vilborg þekkja það ekki“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Traðarhæð  Annað nafn á Hæð (165)

Hæðarhlíð (167).  „Brekkan í Hæðinni (165) upp af Tröð heitir Hæðarhlíð“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Þetta nafn hefur ekki verið notað í seinni tíð.  T.d. er sagt að bílar séu að „koma niður Hæðina“ þegar þeir sjást á veginum þar.

Bælishóll (168).  Gróinn grýttur hóll sunnan við Tröð; upp af suðvesturhorni Traðartúns.  „Þar var fé bælt áður“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Sagnir eru um að í Bælishól sé fólginn mikill fjársjóður.  Menn hafi einhverju sinni byrjað að grafa þar í þegar landlega var, og komið niður á gylltan hring á mikilli kistu.  Þá lægði sjó allt í einu svo farið var á sjó, en blíðan breyttist í aftakaveður og þessir menn fórust.  Fylgdi sögunni að þetta hafi verið talin álög og að ekki hafi verið reynt að grafa í hólinn eftir það. (VÖ:  Munnleg sögn Guðbjarts Guðbjartssonar sem bjó um tíma í Tröð).

Kollsvíkurmýrar (169).  Mýrafláki sem nær frá Kollsvíkurtúni eins og það var og suður undir Á.  Nú hafa verstu dýin verið ræst fram og hluti þeirra verið gerður að sléttum.  Í Kollsvíkurmýrum var Skolladý (170) heimast, en það er einnig stundum talið hluti af Heimadýjum (171), sem eru ofan við Kollsvíkurmýrar.  „Umvarp heitir einu nafni þar sem Mýrarnar (275) (Kollsvíkurmýrar) enda.  Þar var farið um milli bæja“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).  Handan við Ána er annað mýrasvæði sem í daglegu tali er nefnt Mýrar en einnig Láganúpsmýrar, eða Handanbæjarmýrar líkt og á korti Samúels Eggertssonar frá 1903-1907.

Umvarp (274).  „Svo heitir það svæði einu nafni þar sem Mýrarnar (275) (Kollsvíkurmýrar (169)) enda.  Þar var farið um milli bæja“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Mýrar (275).  Annað nafn á Kollsvíkurmýrum (169).  Sjá þar.  „Umvarp heitir einu nafni þar sem Mýrarnar (Kollsvíkurmýrar (169)) enda.  Þar var farið um milli bæja“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Holtarandir (276).  Svæði ofan við Nautholt.   „Holtarandir taka við af Umvarpi (274) og síðan taka Holtin (158) við af þeim“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Skolladý (170).  Djúpt dý eða botnlaus forarpyttur nokkru neðan og heiman við Tröð.  Skolladý var ýmist talið til Kollsvíkurmýra (169), sem eru suðvestan við það, eða Heimadýja (171) sem eru ofar, uppundir Tröð. „Þar var áður fyrr drekkt hvolpum og kettlingum“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Skolladý hefur nú verið ræst fram með skurði, en ennþá er þar skaðræðispyttur.  „Fyrir neðan Skolladý var Breiðuseilarhóll (265) og Breiðaseil (266); sytra sem rann úr dýjum sunnan við hólinn, niður á Neðrimýrar (267) og í Búðalæk.  Þetta er nú horfið undir veg“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Breiðuseilarhóll (265).  Hóll fyrir neðan Skolladý (170) og ofan Breiðuseil (266).  „Vilborg Torfadóttir segir að þar hafi verið talið búa huldufólk.  Líkt og á Bælishólnum frammi á Leitinu átti bærinn að hafa sýnst loga þegar grafið var í Breiðuseilarhól.“  (Sbr. viðtal á Ísmús 1978)

Breiðaseil (266).  Sytra sem rann úr dýjum neðan við Breiðuseilarhól (265), en hann var neðan Skolladýs (170).  „Sytra sem rann úr dýjum sunnan við hólinn, niður á Neðrimýrar (267) og í Búðalæk.  Þetta er nú horfið undir veg“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Neðrimýrar (267).  Mýrarnar neðan Breiðuseilarhóls (265); ofan Búðalækjar og norðan Nautholtadýja.  Þarna eru núna sléttur og skurðir.

Heimadý (171).  Dýjafláki neðan við Tröð (149).  Þar er enn mjög mýrlent þó grafinn hafi verið skurður neðan dýjanna.  Skolladý (170) er heimast í þessum fláka en Bugar (172) syðst. „Kýr voru reknar niður Bugana og niður fyrir Grjótseil (249).  Hún lá út í fenið sem Bugadý er í.  Talað var um að fara niður með Bugum og niður fyrir Grjótseil“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Bugar (172).  Foræðisdý suðvestastl í Heimadýjum (171), sem hættulegt er skepnum.  Í seinni tíð hefur verið tilhneiging til að nefna Heimadýin öll Buga, enda hefur dýjasvæðið allt breyst með framræslu.

Bugadý.  Annað nafn á Bugum (172).

Grjótseil (249).  Seil syðst í Heimadýjum (171) neðan við Tröðina.  „Kýr voru reknar niður Bugana og niður fyrir Grjótseil.  Hún lá út í fenið sem Bugadý er í.  Talað var um að fara niður með Bugum og niður fyrir Grjótseil“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Leiti (173).  Allstórt graslendi sunnan við Tröð; ofan við Buga; uppundir Hæð.  Þegar komið er heim með Traðarhæðinni sést heim að gamla Bæjarhólnum á Leitinu.  „Fyrir framan Leiti er allstór steinn sem heitir Hvíldarsteinn (174).  Þar hvíldi fólk sig þegar komið var heim úr lyngrifi.  áður fyrr var lyng rifið til eldiviðar, en því var hætt nokkru fyrir minni Vilborgar og Guðmundar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Hvíldarsteinn (174).  Allstór steinn fyrir framan Leiti (173); sunnan við Tröð.  „Þar hvíldi fólk sig þegar komið var heim úr lyngrifi.  áður fyrr var lyng rifið til eldiviðar, en því var hætt nokkru fyrir minni Vilborgar og Guðmundar“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Leiðarhjalli (175).  Hjalli, nokkuð hátt uppi í Traðarhæð (165); upp af Leiti (173).  „Hann er um miðja hlíðina, þó heldur nær Tröð.  á Leiðarhjalla var Miðleið inn á Lægið miðuð“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Stekkur (176).  Tóftarbrot, leifar af stekk, á Stekkjarhjalla fyrir framan Leiti (173) í Traðarhæð (165).  „Þar var stíað og ær mjólkaðar þegar Guðmundur og Vilborg voru að alast upp í Kollsvík.  Var alllangur vegur þaðan og heim; líklega nærri hálftíma gangur.  Síðustu fráfærur í Kollsvík geta hafa verið u.þ.b. 1910-12.  Þá var fært frá eitt sumar, en undanfarið hafði verið stíað, sem kallað var; þ.e. lömbin voru tekin frá ánum á kvöldin og byrgð í lambakró yfir nóttina.  Að morgni voru ærnar mjólkaðar og lömbunum síðan hleypt til þeirra.  Ekki var stíað frá eftir þetta sumar sem fært var frá síðast.  Niður undan Stekknum er holt sem heitir Stórgrýtisholt (177)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Fráfærum var hætt í Kollsvík um 1920, en á Láganúpi var síðast fært frá 1934“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Stórgrýtisholt (177).  Holt vestan við Traðarhæð (165), niður undan Stekk (176).

Hæðarendi (178).  Syðri endi Traðarhæðar.  „Í skrá Ara segir að endi Hæðarinnar hafi verið kallaður Hæðarendi, en heimildarmenn muna ekki eftir því“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Slakki (179).  Dæld í Traðarhæð (165), sunnarlega.  „Sagt var að sólin væri gengin fram á Slakka“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Lynghjallar (180 og 181).  Tveir hjallar sunnantil í hlíðum Traðarhæðar (165).  Í örnefnaskrá nefndir Efri- og Neðri-Lynghjalli, en í seinni tíð hefur verið rætt um Lynghjalla í eintölu.  „Efri hjallinn er lengri og gleggri og er efsta brún hans nefnd Lynggiljabrún (182) í skrá Ara, en heimildarmenn muna ekki það nafn.  Telja þó að brúnin kunni að hafa verið nefnd svo. Framan við enda hjallanna er gil sem heitir Lynggil (184).  Það myndast af afrennsli úr vötnum á Keldeyrardal.  Það er þurrt á sumrin en vatn er í því í leysingum.  Það er milli hjallanna og Grænubrekku“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Lynggiljabrún (182).  Klettbrúnin fyrir ofan Efri-Lynghjalla (181); í sunnanverðri hlíð Traðarhæðar (165).  „„Efri hjallinn er lengri og gleggri og er efsta brún hans nefnd Lynggiljabrún í skrá Ara, en heimildarmenn muna ekki það nafn.  Telja þó að brúnin kunni að hafa verið nefnd svo“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Helluhnúkur (183).  Grjóthæð allmikil í suðurenda Traðarhæðar; efst á hlíðarbrúninni.  Þarna var helsta hellutakið í Kollsvík, enda er eins og hnúkurinn sé hlaðinn úr tómum hellum.  Enn eru þangað sóttar góðar hellur; síðast til viðhalds gamla Hesthúsinu á Hólum.

Lynggil (184).  Gil fremst í Traðarhæð (165), framan við enda Lynghalla (180 og 181).  „Það myndast af afrennsli úr vötnum á Keldeyrardal.  Það er þurrt á sumrin en vatn er í því í leysingum.  Það er milli hjallanna og Grænubrekku“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

husadalurHúsadalur (185).  Allmikill dalur upp af Kollsvíkurtúni; milli Núpsins og Hæðarinnar.  “Skiptist hann í Neðri-  (186) og Efri-Húsadal (187)…  Hann stefnir fyrst til austurs en beygir síðan til suðurs, bak við Hæðina.  Um Húsadal lá hestavegurinn til Hænuvíkur.  Í Neðri-Húsadal er tjörn sem heitir Húsadalstjörn (187a).  Ofan við veginn, milli dalanna, er svolítil lækjarsytra sem kölluð er Grænudý (188) og þar rétt við veginn er stór og mikil varða; Grænudýjavarða (189).  Brekka er milli dalanna sem heitir Lægri-Húsadalsbrekka (190) og fyrir framan dalinn er nefnd Hærri-Húsadalsbrekka (191).  Þetta eru ekki stórar brekkur“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Efri- og Neðri-Húsadalur (186 og 187).  Sjá Húsadal (185).  Þessi tvískipting Husadals var ekki notuð í seinni tíð, en virðist nokkuð rökrétt, þar sem dalurinn breytir um svip ofan við Lægri-Húsadalsbrekku (190).  Neðri dalurinn er djúpur og stefnir til austurs, en sá efri er grynnri og stefnir til suðurs; í átt að Keldeyrardal.

Húsadalstjörn (187a).  Lítil tjörn í Neðri-Húsadal; þar sem verið hefur malarnám við þjóðveginn.  Hún er þó oftast þurr nema í leysingum og rigningatíð.

Grænudý (188).  Lítil lækjarsytra ofan við veginn í Húsadal; milli Efri- og Neðri-Húsadals. „Þar rétt við veginn er stór og mikil varða; Grænudýjavarða (189).  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Húsadalsbrekkur Lægri- og Hærri– (190 og 191).  Brekkur neðan og ofan við Efri-Húsadal (186).  „Allmikill dalur upp af Kollsvíkurtúni; milli Núpsins og Hæðarinnar skiptist í Neðri-  (186) og Efri-Húsadal (187)…  Brekka er milli dalanna sem heitir Lægri-Húsadalsbrekka (190) og fyrir framan dalinn er nefnd Hærri-Húsadalsbrekka (191).  Þetta eru ekki stórar brekkur“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Keldeyrardalur (192).  Grunnur en allbreiður dalur suður af Húsadal (185) og í framhaldi af honum; upp af Lyngjöllum.  „Í honum eru þrjú vötn, Keldeyrardalsvötn (193).  Þau þorna mikið á sumrin.  Upp úr dalnum heita Keldeyrardalsbrekkur (194), sveigmynduð brekka austast (misritað vestast í örn.skrá) í dalnum, og þar upp af er Stórabrekka (195).  Þar upp af eru Hálslautir (196), sem ná uppundir Kjöl (197), en það frostg kelddal2er þar sem vötnum hallar austur af og hæst er á heiðinni, sem heitir Tunguheiði“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Keldeyrardalsvötn (193).  Þrjú vötn í Keldeyrardal (192).  Þau þorna mikið á sumrin.

Keldeyrardalsbrekkur (194).  Sveigmynduð brekka austast í Keldeyrardal (192).  „Þar upp af er Stórabrekka (195).  Þar upp af eru Hálslautir (196), sem ná uppundir Kjöl (197), en það er þar sem vötnum hallar austur af og hæst er á heiðinni, sem heitir Tunguheiði“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Stórabrekka (195).  Brekka upp af Keldeyrardalsbrekkum;  ofan Keldeyrardals (192).  „Þar upp af eru Hálslautir (196), sem ná uppundir Kjöl (197), en það er þar sem vötnum hallar austur af og hæst er á heiðinni, sem heitir Tunguheiði“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Stórabrekka heldur áfram og gengur að hluta á milli Hafnardala (sjá Stórabrekka (206)).

Hálslautir (196).  Lautir ofan Stórubrekku, austur af Keldeyrardal(192); uppundir Kili (197).

Grænabrekka (198).  Grasi gróin brekka, austan Lynggils (184), þar sem land hækkar aftur eftir að Traðarhæðinni(165) sleppir.  „Hún er grasi gróin en klettar efst í henni.  Hún blasir við heiman frá Láganúpi.  Austur af Grænbrekku er smáklettahjálli sem heitir Rauðihnúkur (199), og er áþekkur Helluhnúk að lögun.  Rauðihnúkur er suður af Keldeyrardal (192) og norður af Hafnardal (203).  Suður af Grænubrekku er jarðsig sem kallað er Hvolf (200)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Rauðihnúkur (199).  Smáklettahjalli austur af Grænubrekku (198), áþekkur Helluhnúk að lögun.  Rauðihnúkur er suður af Keldeyrardal (192) og norður af Hafnardal (203).

Hvolf (200).  Jarðsig eða djúp dæld suðvestur af Grænubrekku (198).  Nafnið Hvolf er jafnan haft í fleirtölu, a.m.k. í seinni tíð.  „Tjörn er í þessu jarðsigi, kölluð Hvolfatjörn hvolf(201) og brekka bæjarmegin við heitir Hvolfabrekka (202).  Hún er norðan Sandvegshjalla.  Upp frá Hvolfum í suðvesturátt eru tveir dalir sem heita Hafnardalir (203).  Þeir eru nefndir Neðri- (204) og Efri-Hafnardalur (205).  Milli þeirra er brekka sem heitir Stórabrekka (206).  Um þessa dali lá leið á Tunguheiði.  Á þeirri leið eru tvær vörður sem Vilborgu minnir að hafi verið kallaðar Bræður (207).  Þar átti að beygja af leiðinni þegar komið var frá Örlygshöfn.  E.t.v. eru þetta sömu vörður og nefndar eru í skrá Ara „Auðunarvörður“ (208) og eru sagðar vera í Efri-Hafnardal.  Efri-Hafnardalur nær að Hænuvíkurskarði (209) sem er á Tunguheiði (210), og er þá komið að Hænuvíkurlandi“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  Suður úr Hvolfum eru Skarðslautir (212), heiman við Skarð (211).

Hvolfatjörn (201).  Tjörn í Hvolfum (200) suðvestur af Grænubrekku; neðan Hafnardala.

Hvolfabrekka (202).  Brekka bæjarmegin (austan) í Hvolfum; norðan Sandvegshjalla (164).

Hafnardalir (203).  Tveir dalir upp af Hvolfum til suðausturs.  „Þeir eru nefndir Neðri- (204) og Efri-Hafnardalur (205).  Milli þeirra er brekka sem heitir Stórabrekka (206).  Um þessa dali lá leið á Tunguheiði“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Hafnardalir  Neðri- og Efri- (204 og 205).  Sjá Hafnardalir (203).

Líksteinn (272).  Steinn á Hafnardal, við veginn um Tunguheiði.  „Einar Guðbjartsson taldi sig muna eftir Líksteini á Hafnardal.  Hann hafði heyrt um hann talað, en engin sögn mun nú vera kunn um þetta nafn.  Ingvar þekkir ekki nafnið en veit um hvaða stein er að ræða“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Stórabrekka (206).  Brekka milli Neðri- og Efri-Hafnardala (203); framan við Hvolfin (200).  Þetta er framhald Stórubrekku (195) sem er ofanvið Keldeyrardal (192).

braedurBræður (207).  Tvær vörður á leiðinni upp á Tunguheiði Kollsvíkurmegin. „Þar átti að beygja af leiðinni þegar komið var frá Örlygshöfn.  E.t.v. eru þetta sömu vörður og nefndar eru í skrá Ara „Auðunarvörður“ (208) og eru sagðar vera í Efri-Hafnardal.

Auðunarvörður (208).  Vörður á Tunguheiði.  Sjá Bræður (207).  Ingvar Guðbjartsson segir í athugasemdum að vörðurnar heiti Auðunsonavörður (273).

Auðunssonavörður (273).  Annað nafn á Auðunarvörðum (208).   Sjá þar.

Hænuvíkurskarð (209).  Skarð á vatnaskilum og landamerkjum Kollsvíkur og Hænuvíkur.  Um skarðið liggur gamli vegurinn yfir Tunguheiði.

Tunguheiði (210).  Gamla þjóðleiðin milli Kollsvíkur og Tungu í Örlygshöfn.  Hún liggur upp Tungudal, um Hænuvíkurskarð, niður Hafnardali, Hvolf og annaðhvort yfir Umvarp að Láganúpi eða heim með Traðarhæð, framhjá Leiðarhjalla og heim Stöðul að Kollsvík.  einnig var hægt að beygja af leiðinni við Bræður (207) og halda niður Keldeyrardal og Húsadal að Kollsvík.

Skarð (211).  Lægð milli Víkurbotns í Kollsvíks og Vatnadals.  „Þar var hádegi miðað (frá Kollsvík) og um það lá vegurinn á Rauðasand.  Skarð er utan við Skarðslautir (212) sem eru heim úr Hvolfunum.Upp eða austur af Skarðslautum er hæðarbrún sem heitir Haugabrún (213).  Hún dregur nafn af tveimur hólum sem nefndir eru Haugar (214) og eru á brúninni“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Skarðslautir (212).  Lautir suður úr Hvolfum (200); heiman við Skarð (211).  „Upp eða austur af Skarðslautum er hæðarbrún sem heitir Haugabrún (213).  Hún dregur nafn af tveimur hólum sem nefndir eru Haugar (214) og eru á brúninni“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

haugarHaugabrún (213).  Hæðarbrún upp eða austur af Skarðslautum.  „Hún dregur nafn af tveimur hólum sem nefndir eru Haugar (214) og eru á brúninni“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Haugar (214).  Tveir hólar á Haugabrún (213), sunnan Hafnardala (203), norðaustur af Kollsvíkurtóarhaus í Vatnadal..  „Þetta er mið af sjó á samnefndu miði sem nefnt er haugar.  Stekkar (215) heitir mið þegar Stekkavörðu í Láganúpslandi ber milli Hauganna“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Stekkar (215).  Mið út af Kollsvík:  Stekkavörðu á Strengbergi ber milli Hauga (214) á Haugabrún.  (Sjá "Stekkavarða" í Láganúpslandi).

vatnadalur koVatnadalur (216).  Mikill dalur suðvestan við Kollsvíkina og norðaustan við Breið; með nokkrum vötnum og ágætu haglendi.  Vatnadalur er utan við Skarð (211).  Vegurinn á Rauðasand, sem skiptir löndum milli Láganúps- og Kollsvíkurjarða, liggur um Skarð og síðan framarlega um Vatnadalinn; upp Vatnadalsbrekkur og upp á Aurholt, þar sem skiptir löndum milli Kollvíkur og Keflavíkur; Hænuvíkur og Breiðavíkur.

kollsvikurtoKollsvíkurtó (217).  Löng grastó framarlega í Vatnadal; til norðausturs upp af Startjörnum.  Hún nær niður í ána sem rennur eftir Vatnadal en áin er nafnlaus.  „Haugarnir eru beint upp af Kollsvíkurtó.  Þar sem Kollsvíkurtó endar efst, er graslaut sem heitir Kollsvíkurtóarhaus (218), og í henni smátjörn sem heitir Kollsvíkurtóartjörn (219)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Kollsvíkurtóarhaus (218).  Graslaut efst í Kollsvíkurtó (217) í Vatnadal; neðan Hauga (214).  Í lautinni er smátjörn sem heitir Kollsvíkurtóartjörn (219).

Kollsvíkurtóartjörn (219).  Smátjörn í Kollsvíkurtóarhaus (218), efst og fremst í Vatnadal.

gvendarsteinnGvendarsteinn (220).  Steinn framarlega í Vatnadal, við veginn á Rauðasand; talsvert fram af Kollsvíkurtó.  Steinninn er kenndur við Guðmund góða.  Átti að láta stein á Gvendarstein þegar gengið var hjá. (Steinn á mynd er framantil í Vatnadal og líkist lýsingunni, en óvíst að hann sé umræddur Gvendarsteinn).

Hænuvíkurtó (221).  Lækjarsytrur fremst í Vatnadalsbotni; framan við Kollsvíkurtó; við veginn á Rauðasand.  Hænuvíkurtó er í átt að Hænuvíkurskarði, séð  úr Vatnadalsbotni.  „Þar um lá vegurinn frá Hænuvík til Breiðuvíkur.  Um Hænuvíkurtó eru merkin milli Kollvíkur og Láganúps. Hænuvíkurtó er svipuð og Kollvíkurtó, en minni.  Í báðum þessum tóm var slegið.  Neðar eru Ármótabrekkur (222) að Vatnadal“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Ármótabrekkur (222).  Brekkurnar fremst í Vatnadal; upp af Startjörnum; neðan Kollsvíkurtóar (217) og Hænuvíkurtóar (221).  Þar eru drög árinnar sem í leysingum rennur niður allan Vatnadal, en er þurr meirihluta ársins.

Kóngshæðarbrekkur (223).  Brekkur frá Hænuvíkurtó (221) upp að Kóngshæð (224).  „Þær eru undir Kóngshæð em er þar austur af“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Kóngshæð (224).  Hæsta hæðin á fjallarananum milli Örlygshafnar, Kollsvíkur og Hænuvíkur.  Á  Kóngshæð er varða sem dagt er að Björn Gunnlaugsson hafi hlaðið, þegar hann fékkst við landmælingar og kortagerð.  Ekki er vitað um uppruna nafnsins, en líklega er það dregið af því að Kóngshæð er hærri en hæðirnar í nágrenninu, og kennileiti víða að.

Vatnadalsbrekkur (225).   Brekkur fremst í Vatnadal sem liggja úr dalbotninum upp á dalbrún.  Upp þær liggur vegurinn á Rauðasand; leið sem nefnd var Víknafjall.  Þegar upp er komið tekur við holt mikið sem heitir Aurholt (226).  Þar skiptir londum milli Kollsvíkur og Keflavíkur; Hænuvíkur og Breiðuvíkur.  Þar eru vatnaskil suðvestan við Kóngshæð (224).   „Þarna skerast vegirnir sem farnir voru milli Hænuvíkur og  Breiðuvíkur og Kollsvíkur og Rauðasands.  Vatnadalsbrekkur liggja inn undir Gilsléttur, sem eru gróðurlaust svæði sem tilheyrir Geitagili í Örlygshöfn.  Þá er skammt eftir út í skarð út á Hafnarfjalli“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Aurholt (226).  Mikið holt suðaustan Vatnadals.  Þar um liggur vegurinn um Víknafjall; úr Kollsvík á Rauðasand og þar skiptir löndum milli Kollsvíkur og Keflavíkur; Hænuvíkur og Breiðuvíkur.  Þar eru vatnaskil suðvestan við Kóngshæð (224).

Víknafjall   Þjóðleiðin úr Kollsvík og Hænuvík inn yfir Brúðgumaskarð; Keflavík; Kerlingarháls og á Rauðasand.  „Víknafjall var einn lengsti fjallvegur í Rauðasandshreppi.  Sagt var að hann væri 7 roðskóa heiði; frá Kollsvík að Naustabrekku“ (Ari Ívarsson; Samgöngur í Rauðas.hr; Árbók Barð 1980-90).   Sú mælieining gaf vísbendingu um hve mörg pör af roðskóm þyrfti að ætla til fararinnar.  Þessi fjallvegur hefur verið mjög fjölfarin leið.  Þetta var kirkjuvegur Útvíknamanna, en fyrr á tíð var öllum skylt að sækja kirkjur, að viðlagðri refsingu.  Í upphafi og lok vertíðar hefur mátt líta þarna fjölda manna á leið til og frá veri í þessum miklu verstöðvum.

Brúðgumaskarð (í Breiðavíkur- og Keflavíkurlandi).  Sjá örnefnaskrá Láganúps um tilurð nafnsins.

Dagmálavarða (227).  Varða við gamla veginn upp í Húsadal, skammt frá klettinum ofan Árnateigs.  „Þar voru miðuð dagmál frá gamla bænum (í Kollsvík)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Gunnulág (228).  Laut í Húsadal, ofan Dagmálavörðu. „…berjalaut lítilla barna“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Márusvarða (229).  Varða við Stórulág, efst á Núpnum; kennd við þann sem hlóð hana.  „Segir í skrá Ara að hann hafi verið afi Jóns á Deildará“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Márus sem hlóð Márusarvörðu var langafi Jóns á Deildará“  (IG; viðb. Örnefnaskrár Kollsvíkur).

Vegghamrar (230).  Klettabelti norðan í Húsadal; áframhald af klettunum í Núpnum, en mikið lægri.  „Dálítið gras er í þeim.  Niður undan Vegghömrum er Vegghamrahlíð (231) sem tilheyrir Húsadal.  hún er vaxin lyngi og er þar mikið um krækiber.  Við endann á Vegghömrum, þegar kemur fram undir Kinnina er laut sem heitir Randaflugulaut (232).  Af Vegghömrum tekur við hallandi brekka, kölluð Kinn (233).  Um hana lá gönguleið til Hænuvíkur og nú liggur bílvegurinn um hana“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Vegghamrahlíð (231).  Lyngi vaxin hlíð niður undan Vegghömrum (230) í Húsadal.  Þar er mikið um krækiber.

Randaflugulaut (232).  Laut við endann á Vegghömrum (230)  í Húsadal.

Kinn (233).   Hallandi brekka norðan í Neðri-Húsadal.  „Um hana lá gönguleið til Hænuvíkur og nú liggur bílvegurinn um hana.  Upp af Kinn er allhá brekka sem heitir Neðri-Jökladalshæð (234), og bak við hana er Jökladalur (235)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Neðri-Jökladalshæð (234).  Allhá brekka upp af Kinninni (233) í norðanverðum Húsadal.  „Bak við hana er Jökladalur (235).  Þar er mosi, mest gamburmosi, en lítill gróður.  Hinumegin við Jökladal er Efri-Jökladalshæð (236).  Sunnan við Jökladal er hestavegur sem farinn var um Hænuvíkurháls (237)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

jokladalurJökladalur (235).  Dalmót , sem þó er öllu heldur hjalli; ofan Neðri-Jökladalshæðar (234) en neðan Efri-Jökladalshæðar (235).  „Þar er mosi, mest gamburmosi, en lítill gróður.  Hinumegin við Jökladal er Efri-Jökladalshæð (236).  Sunnan við Jökladal er hestavegur sem farinn var um Hænuvíkurháls (237)“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Efri-Jökladalshæð (236).  Brekkan eða hæðin ofan Jökladals (235).

Hænuvíkurháls (237).  Háls milli Kollsvíkur og Hænuvíkur og vegurinn um hann; í daglegu tali nefndur Háls.  „Efst á Hálsinum er stór varða sem heitir Grasvarða (238).  Stóð hún ævinlega vel.  Þar eru merkin milli Kollsvíkur og Hænuvíkur og leiðin á milli hálfnuð“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).
„Algengt var, ekki síst að vetrarlagi, að menn báru þungar byrðar á eigin herðum yfir Hænuvíkurháls; t.d. þegar komið var úr jólakaupstaðarferð, en jafnan var farið í kaupstað fyrir jólin og þá keyptur ýmis varningur til hátíðahaldsins.  eins var það algengt á útmánuðum að farið var að ganga á þá mjölvöru sem keypt hafði verið til vetrarins.  var þá gjarnan skroppið inn yfir Háls að Hænuvík, meðan Sláturfélagið Örlygur hafði þar verslun, eða á Gjögra eftir að félagsverslunin var flutt þangað.  Ekki þótti sérstakt tiltökumál fyrir fullfrískan karlmann að leggja á bakið fimmtíu kílóa byrði í slíkum ferðum.  Jafnan var borið í fötlum sem kallað var.  Þá var kaðli brugðið í lykkju utanum byrðina; síðan var handleggjunum stungið undir böndin, þannig að þau lágu sitt á hvorri öxl, en lykkjan var að ofan á byrðinni.  Lausu endana lagði maður fram yfir axlirnar og herti að með þeim, þanig að byrðin lægi hæfilega þétt að baki manns“  (Páll Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

Grasvarða (238).  Varða efst á Hænuvíkurhálsi (237).  „Stóð hún ævinlega vel.  Þar eru merkin milli Kollsvíkur og Hænuvíkur og leiðin á milli hálfnuð“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Steilur (239).  Brekkurnar sem vegurinn um Hænuvíkurháls lá um; frá Grasvörðu (238) niður í Húsadal.  Urðótt og stórgrýtt land.

Dyrgja (240).  Steinn við gamla reiðveginn um Hænuvíkurháls; ofarlega í Húsadal.  Þar rétt hjá er varða sem kölluð er Dröngull (241).  „Stutt er á milli Dyrgju og Drönguls dyrgja drongullog á þeim slóðum byrja Steilur (239) og ná upp á hálsbrún“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Dröngull (241).  Varða við gamla reiðveginn um Hænuvíkurháls; ofarlega í Húsadal.  Þar rétt hjá er steinn sem kallaður er Dyrgja (240).  „Stutt er á milli Dyrgju og Drönguls og á þeim slóðum byrja Steilur (239) og ná upp á hálsbrún“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

 

 

2. hluti:  Örnefni í Láganúpslandi

Láganúpur  Jörð í Rauðasandshreppi, næst norðan við Breiðavík, í allstórri vík sem laganupur fra löngubrekkuheitir Kollsvík.  Í Jarðabókinni árið 1703 er talað um býlið Láganúp, og með því eru þá taldar hjáleigurnar Hólar og Grundir.  Voru Grundir þá byggðar upp úr stekk fyrir um 50 árum.  (Myndin er tekin frá Löngubrekku.  Í baksýn er Brunnsbrekka, Hjallabrún og Undirhlíðarnef.  Líklegt er að Láganúpur hafi upphaflega verið heiti á Hnífunum, sem færst hafi yfir á bæinn).  

„Láganúpsjörðin öll var 18 hundruð að fornu mati, en Grundir voru helmingur hennar….  Saurbæjarkirkja á Rauðasandi átti jarðirnar til 1930, þegar Láginúpur var seldur fyrir 1700 krónur og Grundir á 1000 krónur. ..  Um skeið á fyrstu áratugum 20. aldar var afbýli í Láganúpslandi sem hét Grund, og hélst það í byggð með hléum til 1939.  Eftir að Grundir fóru í eyði lagðist Grundaland aftur undir Láganúp, en þegar nýbýli var stofnað á Stekkjarmel, í Kollsvíkurlandi, hættu Grundir að vera lögbýli og gekk hluti af túnum Grunda til nýbýlisins.  Eftir að Stekkjarmelur og Kollsvík voru komin í eyði gekk landaskiptingin aftur í sitt forna far, og er nú Láganúpur eins og hann var forðum….  Láganúpi var í sóknarlýsingu 1840 lýst sem útigangs- og fjörujörð.  Bærinn laganupur af hjollumstóð áður hærra en nú er, en samt var sjávargatan stutt.  1916 var jörðin metin á 1600 krónur.  Jörðin var þá talin bera 3 kýr, eitt hross og fjörutíu fjár.  Túnið var sagt lítið og grasgefið; mikið af því greiðfært en sendið; gaf af sér um 90 hesta.  Engi, lítil og snögglend, gáfu af sér um 60 hesta.  Útigangur og fjörubeit fremur góð.  Þrír matjurtagarðar gáfu af sér 9-10 tunnur.  Önnur gæði voru talin að jörðin lægi við aflasælustu veiðistöð hreppsins; mótak var gott og fýlungatekja dálítil.  Ókostir voru sandfok á túnin og fen sem væru hættuleg fyrir fénað og ylli oft tjóni.  Íbúðarhús (1916) byggt úr timbri, annar langveggur og nokkuð af göflum af grjóti, með bárujárnsklæddu þaki.  Iaganupur teikn jhj7,53×3,77m (28,4m²), portbyggt.  Í húsinu voru 2 herbergi, eldhús, kjallari undir til geymslu.  Húsið var þá þriggja ára gamalt, en sumt efni mun eldra; metið á 1200 krónur.  Seinustu ábúendur:
1895-1914  Ólafur Ábjörnsson og Kristín Magnúsdóttir
1914-1927  Össur A. Guðbjartsson og Anna Guðrún Jónsdóttir
1927-1953  Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir
1953-(2003)  Össur Guðbjartsson og Sigríður Guðbjartsdóttir“
(BÞ; Byggðasaga V-Barðastr.sýsli; Fólkið, landið og sjórinn)
„Vorið 1927 fengu Hildur Magnúsdóttir og Guðbjartur Guðbjartsson jörðina Láganúp til ábúðar, þegar Össur og Anna, móðir Hildar, fluttu þaðan með fjölskyldu sína norður að Mýrum í Dýrafirði.  Á Láganúpi fæddust tvö yngstu börnin, Henríetta Fríða og Páll.  Vorið 1934 keyptu Hildur og Guðbjartur íbúðarhús úr timbri, sem Júlíus Kristjánsson hafði byggt á Grundum nokkru áður.  Það sumar var þetta hús dregið í heilu lagi heim að Láganúpi og flutt í það um haustið.  Þetta hús mun hafa verið um 37 fermetrar að flatarmáli; ein hæð með prtbyggðu risi.  Eftir flutninginn var byggður skúr við vesturenda hússins, en hann var um 12 fermetrar.  Þessi skúr var þiljaður í tvennt og notaðist lengst af sem anddyri. búr og smíðahús.  Í þessu húsi var búið til ársins 1974 að Össur Guðbjartsson fékk Gunnar Össurarson, móðurbróður sinn til að byggja steinhús það sem nú er á jörðinni.  Á árunum 1939 til 1942 byggði Guðbjartur með aðstoð eldri sona sinna, Einars og Halldórs, skepnuhús þau sem síðast voru í notkun á Láganúpi“  (Niðjatal HM/GG Láganúpi).

„Saurbæjarkirkja var aðalkirkja í Rauðasandshreppi fram á öndverða 17. öld, en æ síðan annexía frá Sauðlauksdal. Í Þórarinsmáldaga, en það er elsti varðveittur máldagi kirkjunnar, er þess getið, að Saurbæjarkirkja eigi jarðirnar Hvamm, Skor og Sjöundá hálfa, en Vilchinsmáldagi nefir aðeins Hvamm. Vilchinsmáldagi er þó saminn um 30 árum síðar, svo að ætla verður, að þar hafi hinar jarðeignirnar hreinlega gleymst, enda koma þær aftur fram í máldaganum frá 1419 og Fífustaðir, Láganúpur og hálf Sjöundá að auki. Kirkjan hefur því eignast Láganúp, Fífustaði í Arnarfirði og hálfa Sjöundá á árunum 1363-1419“.   (Lýður B. Björnsson; Guðshús í Barðastrandasýslu).

Grundir  Jörð í landi Láganúps, sem byggðist upp úr stekk kringum árið 1650.  Þar eru nú öll hús fallin, en fjölmargar minjar bera merki um búskap og sjósókn.
„Grundir voru gömul hjáleiga frá Láganúpi, byggð fyrst um 1650, en varð sjálfstætt lögbýli á 20. öld.  Þær voru seldar ábúanda 1930 á 1000 krónur.  Grundir stóðu við sjóinn og sjósókn var fóturinn undir byggðinni.  Útræði var mikið frá Grundum (úr Láganúpsveri) fyrstu þrjá áratugina, og var þá oft tvíbýli á Grundum, auk húsmanna.  Hét annað býlið þá Bakkar og taldist þurrabúð.  1916 var Kristján Ásbjörnsson einn talinn ábúandi á Grundum.  Jörðin var metin á 1600 krónur, en hús á 1800 krónur.  Jörðin var talin bera þrjár kýr; 1 hross og 60 ær.  Túnið var slétt, dældótt, sendið og snöggt; gaf af sér um 80 hesta.  Engjar litlar og snögglendar, gáfu af sér um 60 hesta.  Þrír matjurtagarðar gáfu af sér 6 tunnur.  Útigangur og fjörubeit voru metin fremur góð.  Til íbúðar var baðstofa, byggð 1903, portbyggð með grjótveggjum, timburgöflum, timbur- og járnþaki 7,53×3,77m (28,4m²),  Í húsinu voru 3 herbergi og eldhús; metið á 1000 krónur.  Húskonan, Halldóra Halldórsdóttir, átti þriðjung í baðstofunni og alls átti hún 450 krónur að matsvirði af húsunum.  Hún átti einnig kálgarð sem gaf af sér 3 tunnur til viðbótar því sem áður er talið.  Síðustu ábúendur:
1870-1905  Halldór Ólafsson og Halldóra M. Halldórsdóttir
1895-1930  Guðbjörg Halldórsdóttir og Kristján Ásbjörnsson
1927-1934  Kristján Júlíus Kristjánsson og Dagbjört Torfadóttir
1930-1945  Grímur Árnason og María Jónsdóttir
(BÞ; Byggðasaga V-Barðastr.sýslu; Fólkið, landið og sjórinn)

Bakkar  Þurrabúð á sjávarbökkunum neðan Grundatúns.  Sjá þar.  Í raun má segja að Grundir og Bakkar hafi verið tvíbýli.  Byggðin á Bökkum lagðist af 1930 og frá 1934-45 var einbýli á Grundum.  Þá fór jörðin í eyði þegar Grímur Árnason og María Jónsdóttir brugðu búi vegna heilsubrests hans.  Þurrabúð Þórarins Bjarnasonar á Bökkum var, árið 1916 metin á 150 krónur og borgaði Þórarinn árlega 10 krónur í leigu til Kristjáns Ásbjörnssonar á Grundum.  Bletturinn var í lélegri rækt og gaf af sér 4 hesta af heyi.  (Eitt árið er sagt að bústofn Þórarins hafi verið ein kind).  Enginn matjurtagarður fylgdi þurrabúðinni.  Íbúðarhúsið var byggt 1905 úr torfi og grjóti á hliðum, en timbri og járni á göflum; með timbur- og járnþaki (reist þak) 6,28×3,77m (23,7m²).  Í húsinu voru 2 herbergi og eldhús og var það metið á 600 krónur.  Þórarinn átti einnig 10 krónu heykofa og 20 króna skemmu, en Steinn bróðir hans 10 króna hey- og lambakofa og 100 króna skemmu.  Síðustu ábúendur:
1898-1919  Anna Sigurðardóttir og synir hennar:
1905-1930  Steinn Bjarnason
1905-1930  Þórarinn Bjarnason og Guðmundína Einarsdóttir
(BÞ; Byggðasaga V-Barðastr.sýsli; Fólkið, landið og sjórinn)

Grund  Grasbýli í Láganúpslandi, á Torfamel (Júllamel)  Sjá þar.  Síðustu ábúendur:
1903-1908  Samúel Eggertsson og Marta Stefánsdóttir
1907-1908  Bæring Bjarnason og Jóhanna Árnadóttir
1908-1910  Anna Jónsdóttir
1922-1927  Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir
1934-1939  Kristján Júlíus Kristjánssog og Dagbjört Torfadóttir

(BÞ; Byggðasaga V-Barðastr.sýsli; Fólkið, landið og sjórinn)

Langitangi (1).   Sker í miðri Kollsvík; sunnanvið Breiðasker, á merkjum Láganúps- og Kollsvíkurlands.  Fer alveg á kaf um hálffallinn sjó.    Góð bitfjara er oft frammi á tanganum.

langatbot sudurLangatangavík (2).  Vik sunnanvert við Langatanga(1).  Þar gat oft verið beit fyrir sauðfé í lausaþara.

Klauf (3).  Lending í Láganúpsfjöru; sunnan við Langatanga (1); niður undan bænum á Láganúpi en norðanvert við Grundatún (4).  Í Láganúpsfjöru mótar fyrir tveimur ruddum vörum á útfiri.  Þá norðari ruddu Guðbjartur Guðbjartsson og synir hans á 20. öld (sjá Vörin).  Syðri vörin er eldri og ekkert um hana vitað nú.  Framyfir 1960 var gangspil uppi á malarkambinum ofan við Klauf.
Sandur er mismikill í fjörunni á þessum stað, og fer eftir ríkjandi sjólagi og vindáttum.  Stundum setur upp gríðarmikla sandbunka langt suður í Grjót, og rennur þá Áin stundum til sjávar niðurundan gömlu fjárhústóftinni. Þess á milli hreinsast sandur úr fjörunni svo Áin rennur niður nærri Langatanga.

Vörin  Lending í Láganúpsfjöru; í Klauf.  Þar eru tvær varir og hefur þetta nafn verið notað um þá norðari og yngri.  Hana ruddi Guðbjartur Guðbjartsson með aðstoð sona sinna, líklega á árunum 1930-40, meðan róið var þaðan á bát þeirra, Rut.   Við verkið notuðu þeir grjótgálga, en laminn af honum lá til skamms tíma ofan við Réttina á Brunnsbrekku.

Sjávarhús Til skamms tíma stóð steinhlaðið sjávarhús með helluþaki þar sem hæst ber á kambinum ofan við Klauf.  „Kofann hlóð Guðbjartur Guðbjartsson og notaði hann til geymslu á veiðarfærum og vann þar rekavið.  Þekjan féll niður í tóftina fyrir nokkrum árum en í athugun er að gera húsið upp“  (VÖ).

pallasteinnPallasteinn  Steinn í fjörunni neðan Bakka á Láganúpi; fellur upp á hann á flæði.  „Á steininn er klappað ártal (1947).  Það gerði Páll Guðbjartsson á Láganúpi.  Þó steinninn geti vart talist örnefni er hann umtalað kennileiti, t.d. þegar rætt er um reka eða sandburð í fjörunni“  (VÖ).  Í seinni tíð hefur sandburður stundum verið svo mikill í Láganúpsfjöru að Pallasteinn hefur horfið um tíma í sand.

Grundatangar (155).  Samnefni á hleinum sem ganga í sjó framundan Grundatúni.  „Grundatangar nefnast einu nafni, annars vegar Arnarboði (46) og grynningar kringum hann til lands; og hinsvegar Langitangi“  (ÖG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

Grundatún (4).  Tún niðri við sjóinn neðan Láganúps, þar sem áður stóð bærinn Grundir.  Allstórt tún og grasgefið.  Eftir túninu gengur hár grasbali; Raninn, greinilegastur framantil (efst).  Austan við hann er sendið sléttlendi, með þvergörðum, sem oft nefndist Áveitur.  Þarna mun hafa verið veitt vatni á túnið meðan Kaldabrunnslækur og Svuntumýri skiluðu vatni í átt að Grundatúni.  Utan (vestan) við Rana og Grundabæjarhúsin er Lögmannsláin að neðanverðu en Grundamýrin að ofanverðu.  Í henni voru einnig áveitur.

Grjótin (5).  Fjaran ofan Grundatanga og neðan Grundatúns; frá Klauf suður fyrir Hreggnesa.  Stórgrýtt með lábörðu grjóti, ofan hleina og uppundir malarkamb.  Grjótin ná í raun langt norður eftir fjörunni, en sandur hylur þau allajafna, a.m.k. yfir til móts við Klauf og stundum yfir undir Byrgið.  Til suðurs ná Grjótin að Strengbergshlein, en verða að vísu mun grófari undir Undirhlíðinni.

Grundatangi (6).  Hleinatangi fram í sjó neðan Grunda og Grjóta.

Búðalág (7).  Laut neðst í Grundatúni; ofan Grundabakka, rétt norðan við hlöðutóftina.  „Þar voru áður verbúðir í gamla daga“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  Ekkert sést nú eftir af verbúðum í lautinni, en norðan hennar sjást miklar hleðslur í melaskarði og í bökkunum neðan hennar koma í ljós hleðslur eftir því sem sjór étur þar úr.

frostg logmannslagLögmannslág (8).  Laut utanvert í neðanverðu Grundatúni.  „Dregur hún nafn af því að það var kallað að flytja lögmann fyrir menn er gerðu að buxum sínum (gengu örna sinna)“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  Vatn er stundum í Lögmannslá og oft fjölskrúðugt fuglalíf í kringum það.

Rani (9).  Framtún Grundatúns (efri hluti).  Bali eða brysti sem gengur til norðurs/suðurs, framanvert við bæjartóftina á Grundum.  Efst á rananum stóð áður íbúðarhús:  „Vorið 1934 keyptu Hildur og Guðbjartur á Láganúpi íbúðarhús úr timbri, sem Júlíus Kristjánsson hafði byggt á Grundum nokkru áður.  Það sumar var þetta hús dregið í heilu lagi heim að Láganúpi og flutt í það um haustið.  Þetta hús mun hafa verið um 37 fermetrar að flatarmáli; ein hæð með prtbyggðu risi.  Eftir flutninginn var byggður skúr við vesturenda hússins, en hann var um 12 fermetrar“  (Niðjatal HM/GG Láganúpi).

Mýri (10).  Annað nafn á Grundamýri.  A.m.k. síðustu hálfa öldina hefur hún ávallt verið nefnd Grundamýri til aðgreiningar frá öðrum mýrum.

Grundamýri (140).  Mýri utan (vestan) Grundatúns.   Örnefnaskráin segir mýrina liggja Láganúpsmegin við Grundatún, en nú er hún öll vestanmegin.   Skráin segir svæðið heita Mýri (10), en það hefur mjög lengi einungis verið nefnt Grundamýri, til aðgreiningar á öðrum mýrum.  (sjá aths. IG).  Svæðið hefur breyst með framræslu og er nú þurrara en áður var.

Þórarinsnýlenda (141).  Stykki sjávarmegin við Fit (11), líklega ofan Grundatúns.  Var kennd við Þóranin Bjarnason sem bjá á Bökkum. (sjá aths. IG).  Sést ekki lengur; nafnið ekki notað í langan tíma og enginn núlifandi er viss um staðsetningu.

Grundatjörn  Tjörn yst í Grundamýri; útundir Görðum, sem stækkaði við það að skurður var grafinn frá Kaldabrunninum, líklega kringum 1970.  Ætlunin var að reyna að laða þangað æðarfugl.  Tjörnin fylltist þó fljótlega af framburði úr skurðinum og nú rennur lækurinn þar í gegn, niður í Lögmannslá.  Nafn Grundatjarnar er eldra, þar sem iðulega stóð þarna uppi tjörn í vætutíð.

Fit (11).  Svæðið niður undan núverandi fjárhúsum á Láganúpi og neðan Brunnsbrekku; niður að Grundamýri og Grundatúni og norður að Torfalæk.  Efst í Fitinni, uppundir Ytragili, er Kaldibrunnur og úr honum liggur nú skurður um Fitina utanverða, niður í Grundatjörn.  Áður rann Kaldabrunnslækurinn niður yfir Fitina, og enn fyrr kom þar niður hluti afrennslis Svuntumýrar; áður en sléttur voru ræstar fram í Ála.  Efst í Fitinni, uppundir fjárhúsunum, eru brysti og lautir.  Þaðan hallar lítillega niður á tiltölulega sléttar sandflatir, en neðst endar Fitin í rofabörðum og melaskörðum; það stærsta og vestasta er Langamelaskarð.  Oft er töluvert kríuvarp á Fitinni, en það færist stundum upp í Ytragil og Gróumel; niður á Grundatún eða upp á Júllamel.  Yfir Fitina lá landgræðslugirðing, og var þá friðað hólf frá Grundatúni norður yfir Fit, Litlufit, Leira og Melarandir; norður undir Ver.  Borinn var áburður á þetta í samvinnu Landgærðslu ríkisins og bænda í víkinni, en um 1980 hætti Landgræðslan öllum stuðningi og hefur ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu í Kollsvík síðan þá.  Ofan girðingarinnar var unnin allmikil slétta , þó nú sjáist lítil merki hennar.  Austantil í Fitinni; niður með Torfalæknum, er slétt spilda, þar sem lent var áburðarflugvél á 7. áratug 20. aldar.  Þá létu bændur í víkinni bera áburð á úthaga heiman við Vatnadal.
Í Fitinni eru tvö augu eða dældir og stendur oftast uppi vatn í a.m.k. öðru þeirra.  Í því er stöðugt uppstreymi af loftbólum.  Líklega er þar um að ræða mýrargas af rotnandi þykku jarðvegslagi niðri í jörðinni.  Annaðhvort er þar um að ræða mó af þeirri gerð sem víða finnst í víkinni eða þaramó, frá þeim tíma sem sjór stóð hærra eftir ísöld.  Sennilega er það sama mólagið og stungið var upp í Þórarinsmógröfum, þar stuttu austar.

Þórarinsmógrafir Laut eða melaskarð í vesturbakka Torfalækjar; austan í Fitinni; nú neðan neðstu sléttunnar á Láganúpi.  Neðst í melaskarðinu var tekinn upp mór um tíma.

torfalaekurTorfalækur (12).  Lækur sem rennur norðanvert við Fitina og á upptök í Álunum (Drápsál).  Neðarlega á Fitinni fellur í hann Miðlækur og niðri undir Rifi sameinast þeir Ánni og renna oftast til sjávar kringum Klaufina (3).  Torfalækur dregur nafn af Torfamel (24) og hefur e.t.v. heitið Torflækur áður.  Um 1990 var gerð tilraun með að stífla Torfalækinn niðri undir Rifi og myndaðist við það lón norður af Sjávarkofanum. Ætlunin var að hækka jarðvatn til að hægja á sandfoki og laða að æðarfugl.  Enn er eitthvað eftir af þessum mannvirkjum en mikið fýkur af sandi í lónið og stíflunni er hætt í vatnavöxtum.

Torflækur (143).  Annað nafn á Torfalæk (12), sjá þar.

litlafitLitlafit (13).  Sandmelur frá Torfalæk norður að Ánni og uppundir Mela.  „Litlafitin liggur mjög undir ágangi sandfoks og hefur mikið gengið á gróður þar á síðari áratugum.  Þó er eins og sandfokið hamli sér að nokkru leiti sjálft:  Þegar mikið áfok er af rifinu og fjörunni; t.d. í stöðugum og hvössum norðanvindum, fyllast lækirnir af sandi og jarðvatnsborð í Fitinni hækkar.  Það veldur því að gróður eflist og hefur meira viðnám við sandinum.  Þegar lækirnir ryðja sig lækkar jarðvatnsborðið aftur og uppblástur hefst á Fitinni:  Hringrásin hefst á ný“  (VÖ).

Áin  Á í miðri Kollsvíkinni, sem skiptir löndum milli Kollsvíkur- og Láganúpsjarða.  Hún á uppruna í Ármótum frammi í Vík, en hefur mest sitt vatn úr Mýrunum beggja megin.  Hún rennur til sjávar í Láganúpsfjöru, ásamt Torfalæk og Miðlæk.  tvær kornmyllur voru í Ánni um tíma en ekkert sést af þeim nú.  Ingvar Guðbjartsson gerði stíflu í Ána handan Stekkjarmels og hafði þar litla rafstöð.  Sjást enn leifar stíflunnar.

Vaðið  Vað í Ánni, neðan við stíflu og ofan Mikkupytlu; suður af íbúðarhúsinu á Stekkjarmel.  Þar yfir lá akvegurinn frá Litlufit og norður Melarandir áður en núverandi vegur kom, og neðanvið það voru stiklur (stillur) svo gangandi fólk kæmist þurrum fótum yfir.

Kollsvíkurá (14).  Annað nafn á Ánni og kann að vera upprunalegra, en aldrei notað í seinni tíð.  Áirn gengur einatt undir því nafni.

Melar (15).  Svæðið ofan Litlufitjar, upp með Ánni og yfir undir Júllamel (Torfamel).  Norðantil á Melunum er steinsteypt fjárhús og hlaða sem Ingvar Guðbjartsson byggði þegar hann bjó á Stekkjarmel, en var síðan nýtt frá Láganúpi sem fjárhús; refahús og síðast vélageymsla.  Handast (syðst) í Melunum rennur Miðlækur.  Hann fær vatn sitt úr Mýrunum handan Svarðarholts og sameinast Torfalæk ofan Litlufitjar.

Svarðarholt (17).  Holt ofan við Melana.  Þar syðst var tekinn upp mór (svörður) fyrrum, og mótar fyrir mógröfunum við veginn; í Áveitu rétt norðan Miðlækjar.

Hestkelda (18).  Dýjasvæði nyrst í Mýrum; ofan Svarðarholts, uppi undir Umvarpi.  Þar hefur fénaði löngum verið hætt og þrátt fyrir að Mýrarnar hafi á þessu svæði verið ræstar fram fyrir 1960 þá eru þarna enn hættulegar drápseilar.

Hestkeldumóur (19).  Þýft svæði í Mýrum kringum Hestkeldu (18), þar sem er nokkru þurrara yfirferðar.  Nær norður að Á; niður að Svarðarholti og Áveitu og yfir undir Miðmýrar.

Hestkeldusteinn  Stór steinn á Umvarpinu, rétt ofan við Hestkeldu (18).  „Við hann voru oft rústaðar kindur sem drápust í Hestkeldunni“  (VÖ).

Árósar  Uppsprettusvæði norðan Hestkeldumóar; norður undir Á, neðan Umvarps.  Þar koma nokkrar uppsprettur undan Umvarpinu og sameinast í læk sem rennur í Ána.  Svæðið hefur alltaf nefnst svo, eins lengi og þeir muna sem til þekkja, þó ekki sé það í upphaflegri örnefnaskrá.  Í nafninu varðveitist upphafleg merking orðsins „ósar“ sem þýðir upptök ár, en ekki útfall eins og nú er almennur skilningur.  Þetta er því í samræmi við orðtakið „á skal að ósi stemma“, og má af því sjá hve gamalt þetta örnefni er.

Grænudý (20).  Mýri sem áður var norðan Hestkeldu; handan við Ána, en hefur nú verið ræst fram.

Júllamelur  Svæðið frá Miðlæk yfir að Torfalæk; neðan frá Melum og upp að Mýrum.  Þar eru nú slétt tún sem vegurinn að Láganúpi liggur yfir; þar er Grásteinn og nyrst á Júllamel stóð bærinn Grund.  Svæðið hefur gengið undir nafninu Torfamelur en hefur grund jullameluralmennt verið nefnt Júllamelur frá því að þar bjó Kristján Júlíus Kristjánsson.  Miklar mógrafir voru áður í suðurhluta Júllamels og mótar enn fyrir þeim, þó þar sé nú túnslétta.  „Mógrafir Láganúps og Grunda voru ofantil við Júllamelinn og á Áveitunni, en þar þótti jarðvegur betri til mótekju…  Síðast var tekinn upp mór á Láganúpi vorið 1953“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

Grund (21).  Bær (GG;húsmannstóttir) sem um tíma stóð á Júllamel.  Þar bjó m.a. Samúel Eggertsson skrautritari; bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds.  Síðastur bjó þar Kristján Júlíus Kristjánsson.

Áveita (22).  Svæði í Mýrum, suðaustan við Grund, handan Svarðarholts og neðan Miðmýra.  Þar voru áður upptök Miðlækjar, sem nú kemur úr skurðakerfi ofan úr Mýrum.

Mýrar  Samheiti yfir svæðið frá Ánni yfir að túnum á Láganúpi; frá Umvarpi niður að núverandi bílvegi.  Hefur alla tíð verið nefnt svo í daglegu tali; t.d. var talað um að „smala niður Mýrarnar“ og daglega þurfti að „fara fram á Mýrar“ frá Láganúpi til að huga að fé sem gæti hafa „farið niður í“ (fest sig í dýjum).  „Allar Mýrarnar voru hættulegar fyrir fé.  Var látið reka frá þeim að kvöldi og fara um á morgnana“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).  „Eitt af vorverkunum, sem að mestu kom í hlut unglinga eftir að róðrar hófust, var eftirlit með sauðfé.  Eftirlitið fólst í því að reka frá Mýrunum kvölds og morgna, því mikið var af drápsdýjum í Láganúpsmýrunum.  Það er tekið fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem mikill ókostur á jörðinni“.  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

Miðmýrar (23).  Svæði frá Hestkeldumó yfir að Álum; neðan frá Áveitu upp að Umvarpi.  Á miðmýrum er m.a. Grænakelda.

Torfamelur (24).  Annað og eldra nafn á svæði því sem nú nefnist Júllamelur.  Sjá þar.  Leiddar hafa verið að því líkur að torfamelur heiti svo vegna þess að þar var skorið torf; e.t.v. því heitið Torfmelur.  „Á melnum var lengi rist torf, aðallega á húsþök.  Var sendið og þótti ekki gott í reiðing“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

Torfmelur (144).  Annað nafn á Torfamel (24), sjá þar.

grasteinnGrásteinn (25).  Stór, jarðfastur steinn á Júllamel; sunnan núverandi vegar en norðan Torfalækjar.  Sléttan kringum hann nefnist Grásteinsslétta, en hún er hluti af Júllamel.  „Síðan var mórinn keyrður á þurrkvöll sem var við Grástein, ýmist á hestakerru eða hjólbörum…“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

Grásteinsaugu (26).  Dýjamýri eða pyttir austast í Júllamel, þar sem nú er framræst túnslétta.

Syðra-Svarðaholt (27).  Holt framan við Ála (Drápsál) en heiman Grænukeldu); suður af Uxadýsál en neðan Garðsendadýs.

Uxadýsáll (28).  Mýri milli Júllamels og Syðra-Svarðarholts; sem gengur fram í Miðmýrar frá skurðinum í Álum (Drápsál).  Þar hefur verið ræst fram, en enn eru þar seilar.  Rétt norðan við Uxadýsál er Svartaseil (145).

Svartaseil (145).  „Ófæruseil norðan við Uxadýsál (28)“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).  Nú orðin greiðfærari eftir að svæðið var ræst fram.

Uxadý (29).  Díki í Uxadýsál.  Um það liggur skurðurinn í Uxadýsál en enn er dýið greinilegt og hættulegt í skurðbakkanum.

Grænakelda (29a).  Kelda eða mosavaxið dý efst í Miðmýrum; framan Syðra-Svarðarholts.  Þar eru mikil drápsfen sem reynt var að girða kringum.

Álar  Langt og mjótt mýrasvæði framan við túnslétturnar á Láganúpi en heiman Syðra-Svarðarholts; ofan frá Garðsendadýi og niður að Júllamel.  Svæðið hefur verið ræst fram og breyst mikið við það, en enn eru þar drápsaugu og seilar.  Niður Álana rennur mestallt vatnið í Álaskurði, bæði úr seilunum framanvið og af sléttunum heimanvið.   Niður undir Júllamel breytist Álaskurðurinn í Torfalæk, sem hefur þaðan mest sitt vatn.  Nafnið Álar hefur verið notað í langan tíma og ævinlega síðan framræsla breytti landslaginu.  Eldra nafn er Drápsáll.

Drápsáll (30).  Eldra nafn á Álum, en hefur ekki verið notað í langan tíma.  (Sjá Álar).

Garðsendadý (31).  Dý efst í Álunum, framan við Túnshalann; þar sem túngarður ofan af Hjöllunum endar.  Keldan var áður hættulegt drápsdý en hefur nú verið ræst fram.

Sef (147).  Dý fyrir neðan gamla bæjarhólinn á Láganúpi; nú í efri bakka efsta skurðarins.  „Þar öx mikið af sefgresi og var hættulegt kviksyndi áður en ræst var fram.

Sefþúfur (148).  Þýft svæði ofan við Sef (147).  Þær er nú að mestu búið að slétta og rækta.

Sláttumýrar (32).  Þýft mýrasvæði neðan Túnshala og Láganúpstúnsins gamla; frá Garðsendadýi heim að Sefi.  Meðan slegið var með orfi voru þarna töluverðar slægjur.  Fyrir framræslu náðu Sláttumýrar lengra niðureftir:  „Heildarnafn á öllum þessum mýrum er Sláttumýrar, og ná þær á einn veg heim að Láganúpstúni“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  „Sláttumýrar eru frá Drápsál (Álum) og heim að túni.  Efsti hluti þeirra er Túnshalamýri“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

Túnshali (33).  Svæðið framan Láganúpstúnsins gamla; heiman túngarðs.   Fremur óslétt svæði ofan Sláttumýra og heim að sléttara túni.  Þar var nátthagi kúa og þar var síðast mjólkað á stöðli á Láganúpi, kringum 1970.  „Fyrst var slegið umhverfis bæinn, síðan fram eftir túninu, fram að Túnshala,  Hann var mjög illslægur, þyfður og grýttur, og því oft látinn bíða, ásamt Brekkunni og Urðunum“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

Túnshalamýri (34).  Fremsti (áður efsti) hluti Sláttumýra.  Heyrist lítið notað eftir að sláttur með orfi lagðist af.

Urðir (35).  Brekkurnar ofan Láganúpstúnsins gamla, undir Hjöllunum; framan frá túngarði heim að Litlagili.  Þarna eru grónar skriður uppi undir Hjöllum en stórgrýti víða neðst.  Milli stórgrýtisins er vel gróið og þar sem víðar sló Guðbjartur Guðbjartsson síðastur með orfi og ljá fram yfir 1970.

Bakkar (36).  Grónir sjávarbakkar neðan Láganúps og Grunda; byrja norðan við Búðalág og ná með fjörunni suður fyrir Grundatjörn.  Eftir syðri hluta Bakkanna liggja Garðar; áberandi grjótgarður.  Á Bökkunum; neðan Búðalágar, var um tíma þurrabúð sem hét Bakkar.  Þar bjó Þórarinn Bjarnason.
Sjór hefur á síðari árum brotið nokkuð úr Bökkunum.  Þar hafa komið í ljós miklar mannvistarleifar; bæði hleðslur og kynstrin öll af beinaleifum.  Beinalögin benda til þess að fiskur hafi verið verkaður á Bökknum endilöngum, á meira en 200m svæði.  Virðist því bátum hafa verið lent þar sem nú eru Grjótin (5), og fiskur þá líklega verkaður nærri afrennsli Lögmannsláar.  Fyrstu fornleifarannsóknir benda til þess að útgerðarsaga Láganúpsvers nái a.m.k. aftur fyrir árið 1600.  Erfðarannsóknir beinanna í Bökkunum benda til þess að hrun hafi orðið í þorskstofninum við landið, a.m.k. tvisvar sinnum fyrir togara- og skútuöld.  (sbr. niðurstöðu Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings)

Steinsskemma (142).  Tóft af bústað sem tilheyrði Bökkum (36), en þar bjó Steinn Bjarnason, bróðir Þórarins á Bökkum, ásamt móður þeirra.

gardar handastGarðar (139).  Miklir grjótgarðar með utanverðum Bökkunum; yfir 280m langir (36).  Þeir voru sagðir hlaðnir af vermönnum í Láganúpsveri þegar landlegur voru.  Þetta er mikið mannvirki og í það hefur farið gríðarmikið efni og ótalmargar vinnustundir.  Þeir eru hlaðnir úr lábörðu fjörugrjóti.  „Ekki er vitað nákvæmlega á hvaða tíma Garðarnir voru hlaðnir, en líklega hefur það verið á síðustu árum Láganúpsvers.  Leiða má líkum að því, í ljósi hinnar umfangsmiklu útgerðarsögu sem nú er að koma í ljós í Bökkunum, að lengi hafi verið þurrkgarðar á Bökkunum.  Örnefnið bendir enda til þess, enda er það í fleirtölu en núverandi garður er bara einn, þó langur sé.  Ekki er ólíklegt að áður hafi verið fiskverkun með öllum Bökkunum; fiskurinn þveginn í Lögmannslá og Búðalág og lagður til þurrks á þessa garða.  Þegar útgerð í Láganúpsveri dróst saman og fluttist í Kollsvíkurver hefur e.t.v. þótt rétt að nota þetta mikla hleðslugrjót til að gera tún- og skjólgarð þann sem nú stendur“  (VÖ).  Í norðurenda Garðanna er Byrgið en sunnantil í þeim; fjær sjónum, eru hlaðnir kálgarðar.

byrgidByrgi  Grjóthlaðið skotbyrgi í norðurenda Garðanna; á Bökkunum neðan Grundatúns.  Þarna var „skotið á fluginu“ sem kallað var; þ.e. legið fyrir mávi sem gjarnan flýgur með Bökkunum, og hann skotinn.  Mávur, einkum ungmávur, var töluvert nýttur til matar í Kollsvík áðurfyrri og þá saltaður til geymslu.

arnarbodi vikingaskipArnarboði (46).  Boði í sjó undan Grundatúni, um 100m frá landi; sem fer á kaf um flóð en er uppi um hverja fjöru.  Arnarboði er eiginlega hluti Grundatanga (155) þó aldrei falli svo mikið út að hann verði landfastur.  Sú saga hefur fylgt nafni hans að þar hafi Örn, stýrimaður Kolls landnámsmanns, brotið skip þeirra líkt og Landnáma greinir frá.  Það mun vera fyrsta skipsstrand við Ísland sem sögur fara af; og um leið fyrsta björgun manna frá skipsstrandi.  Ekki verður um það sagt nú hvernig þennan skipsskaða bar að höndum, sé rétt frá greint, en hugleiða má hversvegna siglt var á þessum stað; þar sem fáum myndi hugnast landtaka í dag.

Brunnsbrekka (37).  Víðáttumikil brekka neðan frá Kaldabrunni, Fitinni og enda Bakkanna; uppundir Undirhlíðarnef, Þúfustekk og Nónvörðu; utan frá Hreggnesa heim í hjallar holar brunnsbrekkaYtragil og að Hólum.  Brunnsbrekka dregur nafn af Kaldabrunni, sem er austan hennar.  Á Brunnsbrekku er steinhlaðin fjárrétt og um tíma var framan við hana önnur úr timbri sem nú er horfin.  „Við förum framhjá fjárrétt á Brunnsbrekkunni.  Við hana eru margar minningar tengdar frá því að pabbi byrjaði að byggja hana með aðstoð okkar yngri systkina fjögurra, en ég var elstur þeirra, þá 10 ára.  Ótrúlega stórir eru sumir steinarnir sem þar eru, en hjálpartækin voru ekki nema járkarl, skófla og planki sem notaður var sem vog“  (IG; Sagt til vegar).  Ofan réttarinnar er Strýtusteinn; strýtulaga steinn sem er álfabústaður.

strytusteinn naerStrýtusteinn  (158).  Stór steinn á miðri Brunnsbrekku; rétt ofan við myndarlega steinhlaðna fjárrétt sem Guðbjartur Guðbjartsson hlóð.  Í Strýtusteini er talið búa huldufólk, og einnig í öðrum stórum steini, nafnlausum, neðar og nær Hólatúni.

Kaldibrunnur (38).  Mikil uppsprettulind austantil við Brunnsbrekku; neðan Gils og Gróumels; ofan við Fit.  Kaldibrunnur er besta neysluvatn sem völ er á; mikil og jöfn uppspretta vatns sem ávallt er 4°C að hitastigi.  Í Kaldabrunn var sótt vatn frá skepnuhúsum þar nærri, áður en í þau kom vatnslögn.  Þar var einnig kæld mjólk til heimilisnota og á þeim tíma sem hún var seld á brúsum.

Kaldabrunnslækur  Lækur sem rennur úr Kaldabrunni.  „Áður rann hann niður eftir Fitinni og hvarf þar vejulega í sandinn.  Síðar var honum veitt með skurði út yfir Grundamýri og í Grundatjörn (sjá þar)“  (VÖ).

Gróumelur (146).  Sandmelur ofan Kaldabrunns; milli Gils og Ytragils.  „Þar var byrjað að draga að grjót í húsgrunn.  Gróa, sem átti heima á Látrum, ætlaði að byggja þarna, en hún dó þegar verið var að byrja á húsinu og var hætt við það“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

Hólar (39).  Svæðið suðaustanvið Brunnsbrekku; utan Gilsins og neðan Hjalla.  Þarna eru sandbalar og hólar og tún frá fornu fari.  Þarna stóð bærinn Hólar fyrrum (1650-1707), og mótar fyrir tóftum hans.  Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal segir í sýslulýsingu sinni 1840 að Hólar hafi farið í eyði í Stórubólu.  Ofan tóftanna stendur hesth eftir framhlHesthúsið á Hólum; lítill kofi sem þó er merkari en hann sýnist.  Hann er líklega eitt elsta hús Íslands; ef ekki það elsta, sem verið hefur samfellt undir þaki og, þar til nýlega, verið í stöðugri notkun.  Hann hefur byggst upp ekki síðar en bærinn á Hólum (um 1650) og er því meira en 350 ára.  Vel má þó vera að hann sé eldri enda kemur hér niður hestavegurinn til Breiðavíkur og þarna hafa verið góðir hesta- og kúahagar.  Unnið er mjaltir a holumað endurgerð kofans í sem næst upprunalegri gerð með aðstoð Minjastofnunar og mun verða reynt að aldursgreina elstu lögin um leið.  Sett verður helluþak á rekaviðarsperrur og tyrft yfir.  Hesthúsið hefur gegnt ýmsu hlutverki; auk hesthúss hefur það verið fjós og þjónaði í mörg ár sem reykingakofi.  „Það var notað sem sumarfjós og hesthús á vetrum þegar Ingvar var strákur“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).  Túnið á Hólum nær frá Gilinu upp að Hólabrekku og hefur alltaf verið í mikilli rækt.  (Efri myndin sýnir Hesthúsið eftir gagngera viðgerð 2012-2015.  Neðri myndin sýnir mjaltir á Hólum, meðan Hesthúsið var notað sem sumarfjós, eða fyrir 1940.  Önnur mjaltakonan er Hildur Magnúsdóttir, sem þá var húsmóðir á Láganúpi; óvíst er hver hin er).

Hólabrekka  Brekkan efst í Hólum; ofan Hólatúns og neðan Hjalla.  Þar voru sleðabrekkur barna á vetrum.

Gil  Gilið austan Hólanna; vestan Flata og Þrjóts; frá Hjöllum niður í Kaldabrunn.  Í örnefnaskrá er það nefnt Hólagil; nafnið Stóragil hefur heyrst, en það hefur aldrei verið nefnt annað í daglegu tali í seinni tíð en Gil eða Gilið.  Þetta er yfirleitt þurr farvegur, en í leysingum getur verið þarna gríðarlegur vatnsflaumur, þegar þar kemur niður leysingavatn ofan af Flötunum ofan Hjalla.  Hefur vatnselgurinn þá stundum hlaupið uppúr krapastíflum í Gilinu og leitað inn í hús og hlöður á Láganúpi.  Utan við Láganúp var löngum mikið af foksandi í gilbotninum sem var vinsælt leiksvæði barna, en það er nú uppgróið.  Melur hefur sáð sér um neðanvert Gilið og leggur undir sig sístækkandi svæði eftir að fjárbúskap lauk í Kollsvíkinni.

Hólagil (40).  Annað nafn á Gili.  Sjá þar.

Stóragil  Annað nafn á Gili.  sjá þar.  „Við förum yfir Stóragilið, fyrir utan húsið.  Þar er sandur í botni og var aðalleiksvæði okkar systkinanna.  Þar áttum við báta sem reru til fiskjar, en aflinn var fiskbein“.. (IG; Sagt til vegar).

reykhus ytragili framYtragil  Gilskorningur eða melaskarð neðan Hóla, milli Brunnsbrekku og Gróumels.  Ytragil nær frá Hólum niður undir Kaldabrunn.  „Þar hlóð ég fyrir nokkrum árum upp tóft þar sem áður var hrútakofi; setti tyrft bárujárnsþak á og var það nýtt sem reykkofi um tíma“ (VÖ).  Í Ytragili, gegnt Láganúpsbænum, er laut þar sem börn höfðu stundum sín horna- eða kubbabú.

Þrjótur (41).  Partur vestast í gamla Láganúpstúninu; austan Gilsins og ofan við Flatir.  Uppruni nafnsins er óljós, en menn ætla að hann standi í sambandi við það að þarna standa sumsstaðar steinnibbur uppúr jarðveginum sem hafi reynst sláttumönnum hvimleiðir.  Þar hafa eflaust brotnað ljáir og misst bit, og jafnvel þegar þar var síðar slegið með greiðusláttuvél var þar mikið um brot og bilanir.  „Þrjótur er sendinn; illslægur í þurrkum“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).  „Þrjótur og Hólar voru harðbakkar og þurfti því að slá þá í rekju“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).  Í Þrjót er nú vatnsból Láganúps.
Önnur nafnskýring er hugsanleg, sem er sú að nafnið hafi forðum verið "Þjótur", en það heiti var notað um hvaðeina sem þýtur í, t.d. prik sem hratt er sveiflað eða þurrkgrind, brókarkvísl eða þvottasnúru.  Á Þrjótunum kann að hafa verið þurrkað ýmislegt, t.d. föt og ull; jafnvel hey, enda er hann nærri gamla bæjarhólnum og á honum þornar fljótt.  Gömul máltæki segja: "til þess er þjótur að þurrka á" og "það skal á þjót þorna sem á þræl blotnar".

Pallagarður  Torfhlaðinn garður á hól milli Þrjóts og Parts; ofan Brunnhúslæksins, þar sem var vatnsból Láganúps og mjólkurkælir.  Pallagarður er ekki gamalt nafn; hann er kenndur við Pál Guðbjartsson (f. 1931-d. 2007) sem ólst upp á Láganúpi og var mikill ræktunarmaður.  Þar var kartöflugarður en nú hefur rabbarbarinn lagt garðinn undir sig.

Partur (42).  Hluti gamla Láganúpstúnsins; frá Bæjarhólnum niður að Flöt (áður Svuntu); frá Þrjót fram að Túnshala.

Bæjarhóll  Mikill hóll upp undir Urðum; efst í gamla Láganúpstúninu.  Þarna stóð Iaganupur teikn jhjLáganúpsbærinn, líklega allt frá því byggð hófst að Láganúpi.  Líklega er hóllinn að mestu myndaður af leifum þessarar byggðar.  Bæjarstæðið er skjólsælt og laust við ágang vatns.  Vatn var sótt í Brunnhúslækinn, um 80m frá húsinu.  Það hefur ekki þótt langt á fyrri tíð, en á síðari tímum varð krafan um rennandi vatn í húsum einkum til þess að bæjarstæðið var flutt fyrir miðja 20.öld, á núverandi stað neðan við Flatir.  Þá voru byggð ný fjárhús og hlöður þar neðanvið, en áður höfðu fjárhús Láganúps verið niðri við sjóinn, hjá sjávarkofanum, til að nýta fjörubeitina.

Bæjarbrekka  Brekkan upp af Bæjarhólnum; Parti og Þrjót.  „Túnið á Láganúpi hét ýmsum nöfnum eftir því hver parturinn var.  Þessir voru helstir:  Túnshali, Þrjótur, Hólar, Svunta, Bæjarbrekka og Urðir.  Sláttumýri og Sef voru hinar eiginlegu engjar ásamt Svuntumýri.  Jarðvegur á Láganúpi er byggður upp á skeljasandi og því ófrjór og áburðarfrekur“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).  Bæjarbrekka og Hólabrekka voru notaðar af krökkum sem hinar bestu sleðabrekkur á vetrum.

Brunnhúsþúfa  „Stór þúfa vestan við Bæjarhólinn gamla á Láganúpi; á gönguleið þaðan í Brunnhúsið, neðan Pallagarðs.  Faðir minn sagði mér af þessu örnefni“  (VÖ).

brunnhuslaekurBrunnhúslækur Uppspretta og lækur á mótum Þrjóts og Parts; neðan Pallagarðs og hjá Barnasteinum.  Þar var vatnsból gamla bæjarins á Bæjarhól; um 80m frá honum.  Þangað var einnig lögð vatnslögn upp Flatirnar eftir að bæjarstæðið var flutt, en þegar nýtt steinhús var byggt 1974 var lögnin grafin lítið eitt vestar og vatnsbrunnur grafinn niður í neðanjarðarlind sem fæðir Brunnhúslækinn.  Lindin í Brunnhúslæk er mjög stöðug og alltaf um 4°C að hitastigi, þó ekki sé hún eins vatnsmikil og Kaldibrunnur.  Þegar mjólkað var á stöðli í Túnshalanum og mjólkin seld, var gerður brúsakælir í Brunnhúslæknum.  Brunnhúslækur rennur stuttan spöl áður en hann hverfur í sendna jörðina.  Guðbjartur Guðbjartsson hlóð Brunnhús stuttu neðan við Brunnhúslækinn; í skurði sem þar var grafinn, og var það notað um tíma til þvotta og útvötunar á saltfiski en þar er nú brú yfir skurðinn.

Barnasteinar  „Tveir steinar hvor hjá öðrum; rétt við Brunnhúslækinn“  (ók.skrásetjari; Örnefnaskrá Láganúps).

Flöt  Slétt sandtún ofan núverandi íbúðarhúss en neðan Þrjóts og Parts; milli túnslétta á Svuntumýri og Gilsins.  Flöt nefndist Svunta áður; sem Svuntumýri þar framanvið dró nafn af.  Þessi nöfn hafa hnikast nokkuð eftir að búseta á Lágnúpi færðist; Svuntumýri var ræst fram og landnýting breyttist.  Ofantil á Flötunum er aflíðandi brekka uppundir Þrjót, en annars standa þær undir nafni.  Efst á Flötunum er garðbrot sem kann að hafa verið sandvarnargarður áður; jafnvel fyrirmynd Björns í Sauðlauksdal að Rangláti, en garðurinn kann einnig að hafa verið túngarður frá Láganúpi.  Flöt (Svunta) var hluti af Láganúpstúni en hún var fyrrum nýtt til slægna frá Grundum.

Svunta (43).  Eldra nafn á Flöt.  Sjá þar.

Svuntumýri (44).  Mýri sem áður var framundan Flöt og ofan núverandi Láganúpsbæjar; neðan við Sef og Sláttumýrar.  Svuntumýri hefur nú verið með öllu þurrkuð upp með skurðgreftri og þar eru nú komnar túnsléttur með önnur heiti.  Efst, milli Svuntumýrar og Flata, var áður brunnhús; hlaðið af Guðbjarti Guðbjartssyni með torflögðu helluþaki.  Það  var m.a. nýtt til þvotta og útvötnunar á saltfiski, en nú er þar brú yfir skurðinn.

Hnífar (45).  Lágt fjall suðvestan láglendisins í Kollsvík; allmikið gróið.  Nafnið Hnífar á einkum við neðri hluta þess flæmis sem liggur sunnan Kollsvíkur; sjávarklettana og svæðið þar upp af, en þar hallar lítillega til hafsins. „Til er saga af örnefninu, sem líkast til er gömul en hefur verið sögð mann fram af manni.  Hún er á þessa leið:  Lönd Breiðavíkur og Láganúps liggja saman um allbrattan háls sem lækkar að norðanverðu, en þó eru þar um 100 faðma sævarhamrar fremst; en grónir ofan og grónar lautir í brúninni.  Sagan segir að eitt sinn að sumarlagi hittust smalarnir frá Láganúpi og Breiðavík þarna á brúninni, piltur og stúlka.  Þetta var í vorsmölun og allir vorsmalar þurftu að eiga ágæta hnífa.  Nema að þau fara að tala saman.  Stúlkunni líst ákaflega vel á hnífinn sem pilturinn átti og vill ákaft fá hann hjá honum en hann vildi ekki láta hann af hendi nema að hún léti þá milligjöf sem hverjum hvenmanni er dýrmætust.  Hún er treg til þess.  Svo segir sagan að þar kom að ágirndin varð yfirsterkari og hún segir þetta: „Mikið skal til mikils hlýða; leggðu mig á milli hnífa“.  Síðan heitir þetta Hnífar; alltsvo heita klettarnir Hnífar.  Ég heyrði þessa sögu í Verum.  Það má nú vera að þetta sé nú ekki beint náttúrunafn, heldur hafi sagan verið gerð utanum nafnið.  Vafalaust kunna hana fleiri en ég.  Nú er öllum verstöðvum lokið þarna og ekki lengur sagðar sögur“.  (Munnleg frás. Einars Guðbjartssonar frá Láganúpi í upptöku HÖE 07.10.1968 fyrir Ísmús).

Hreggnesi (47).  Klettanef sjávarmegin við Brunnsbrekku; þar sem sjávarklettarnir byrja, en áður en þeir ná fullri hæð í Hnífum.  Nafnið er sérkennilegt að því leiti að víða um land er að finna Hreggnasa en þetta mun sá eini sem ávallt hefur haft tvö e í nafni Hreggnesi Undirhlíðanef mai 2015 124sínu.  „Hann er utastur á þeim klettum sem liggja að sjó undir Hnífunum“ segir G.G. í örnefnaskrá.  Venja var í Kollsvík að orðið út sigbreyttist utari og utastur í stað ytri og ystur, en sú málvenja var þó ekki einhlít og hefur vikið á síðari tímum.

Lambabalaboðar (150).  Boðar eða hleinaflögur suðvestan Arnarboða; undan Hreggnesa.  Koma ekki úr sjó, en mjög brýtur þar ef eitthvað er í sjó.

Lambabalar (151).  Svæði undir Hnífunum.  „Þetta nafn hefur ekki verið notað í seinni tíð, en um það er getið í viðbótum IG við örnefnaskrá.  Líklega er átt við grónar urðir upp undir Strengbergi.  Þær gætu hafa verið mið þegar róið var framan við Lambabalaboðana (150), án þess að um það verði fullyrt nú“  (VÖ).

Undirhlíðarnef (48).  Nef í norðurenda Hnífanna; ofan Kofahellis og neðan Þúfustekks.  Utan þess er Undirhlíð; brekka í Hnífabrúninni og niður undan henni er Undirhlíðarfles.  Hæð Undirhlíðarnefs er um 77m frá sjó.

Kofahellir (49).  Hellir neðan og heiman við Undirhlíðarnef; utan Hreggnesa.  Hellirinn kofahellirer nokkurra metra breiður og álíka djúpur og er gengt í hann um syllu norðanfrá.  Sumir vilja nefna hellinn Kofuhelli; líklega viðleitni til að tengja nafnið innidrápi á kofu.  Engar heimildir eru þó um lundavarp þarna, en hægt er að snaga eftir fýsleggjum utan í honum og í þræðingi fyrir neðan, auk þess sem hrafn verpur oft í hellisþakinu.  Hellirinn er einatt nefndur Kofahellir í daglegu tali og er ekki ólíklegt að það sé af greinilegu kofalagi hans, séð af sjó.  Fé leitaði oft skjóls í hellinum í illviðrum; kom fyrir að það fennti inni og varð þar til.

Undirhlíðaþræðingur  Tæpt klettanef undir Undirhlíðanefi; ofan Kofahellis.  Þar var stundum snagað laus eftir fáeinum fýlseggum, en þræðingurinn er tæpur og varasamur.  Frá Grundum að sjá er þræðingurinn líkt og nef á mannsandliti framan í Hnífaendunum.

undirhlidUndirhlíð (50).  Lág brekka í Hnífabrúninni, heimarlega.  Hún er framhald Undirhlíðanefs; nær út undir Smérhelli og er þar gengt á brún.

Undirhlíðarfles  Grasi vaxið fles neðan Undirhlíðar.  Þar verpur dálítið af fýl og er farið niður í það í stuttum lás.  Þá er bundið á lágan jarðfastan, flatan stein utanvið klauf yfir miðju flesinu.  Einnig komast færir menn lausir í flesið úr fjöru.

klettakvi gardurKlettakví (51).  Kvíarlagað vik í litlu klettabelti heiman og ofan við Undirhlíðarnef.  Kona sem bjó á Grundum fullyrti að þar hefði hún séð huldukonu á gangi; bláklædda.  Undirhlíðarmegin við Klettakví er garðbrot sem líklega er fyrirhleðsla frá því fé var rekið til beitar út á Hnífa, frá fjárhúsum Láganúps og Grunda við sjóinn.

thufustekkurÞúfustekkur (52).  Leifar eftir stekk utan og ofan við Undirhlíðarnefið.  Hann er einn nokkurra stekka á Hnífum.  Greina má a.m.k. þrjár rústir stekka á Þúfustekk; e.t.v. frá ýmsum tímum, en e.t.v. frá ýmsum bæjum.

 

katrinarstekkurKatrínarstekkur (53).  Stekkjarkví í samnefndri laut heimantil í Hnífum; skammt utan við Þúfustekk.  „Katrín þessi var búkona, annaðhvort á Grundum eða Láganúpi“   (GG; Örnefnaskrá Láganúps).

 

Stekkavarða Haugar mai 2015 090Stekkavarða (156).  Varða á Hnífum; ofan Strengbergs og Katrínarstekks (53).  „Þar sem hana ber milli Hauga í Kollsvíkurlandi, er miðið Stekkar (157); djúpt á svonefndum Kollsvíkursandi.  Er það ein af fjölmörgum fiskimiðum sjómanna sem reru úr Kollsvíkurveri“  (ÖG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).  Stekkavarða var nýlega hlaðin upp af Guðbjarti Össurarsyni.

Stekkar (157).  Mið á Kollsvíkursandi:  „Þar sem Stekkavörðu ber milli Hauga í Kollsvíkurlandi, er miðið Stekkar djúpt á svonefndum Kollsvíkursandi.  Er það ein af fjölmörgum fiskimiðum sjómanna sem reru úr Kollsvíkurveri“  (ÖG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

nonvarda blakkurNónvarða (54).  Varða ofan Brunnsbrekku; vestur af Láganúpshúsinu.  Varðan er eyktamark; við hana var miðað nón frá Grundum.  Bílaslóði liggur uppmeð Nónvörðu, en um hann var m.a. farið út að Litlavatni, áleiðis til eggja í Breið.  Þar hjá er sjónvarpsloftnet sem þúsundþjalasmiðurinn Ólafur Sveinsson á Sellátranesi setti fyrstur upp, þegar hann á eigin spýtur kom sjónvarpssambandi á við Láganúp líkt og flesta aðra bæi í úthreppnum.  Höfðu þá opinberir aðilar gefist upp á þessu svæði, en Óli leysti þær þrautir líkt og margar fleiri.

smerhellirSmérhellir (55).  Hellisgjóta í Hnífabrúninni utan Undirhlíðar.  Ganga má af brún niður í bratt, gróið fles og er Smérhellirinn efst í því; utan við það er Smérhellisfles en neðan við það Smérhellissvelti.

Smérhellisfles (57).  Lítill klettastallur utan við Smérhelli.  Gengið er neðst í grasskriðuna undir hellinum og þar útávið.  Þar voru stundum fáein múkkaegg.  Einnig má komast eftir mjóum þræðingi ögn ofar og taka þar nokkur í viðbót af urð sem þar er, en sú leið er viðsjárverð.

Smérhellissvelti  Örlítið petti undir skriðunni neðan Smérhellis.  Unnt er að komast í það með því að skríða á ská afturábak niður og undir mikla steinhellu yfir sveltinu.  Fyrir kom að þarna færu kindur í svelti.

heimari lambhagiLambhagi (56).  Heitir í raun Heimri-Lambhagi til aðgreiningar frá Ytri-Lambhaga (sjá þar), en er nefndur svo í daglegu tali.  Brekka í Hnífabrúninni fyrir utan Smérhelli, en heiman við Strengberg.  Greiðfært er í Lambhagann af brún.

Heimri-Lambhagi (152).  Annað nafn á Lambhaga (56), til aðgreiningar.  Sjá þar.

 

Strengberg (58).  Hátt sæbratt standberg þar sem hæst ber, heimantil á Hnífunum; strengberg tofuhusutan við Lambhaga.  Brúnin upp af Strengberginu er fremur slétt og lárétt.  Þar frammi á blábrúninni eru rústir af tófuhúsi (mynd) þar sem borið var niður og legið fyrir tófu meðan skinn voru í háu verði.  „Það var notað fyrir daga Ingvars…  Húsið er mjög gamalt“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).  Í Strengbergi neðanverðu er Strengbergsfles, og þar undir gengur Strengbergshlein fram í sjó.  Undir Strengbergi strandaði togari árið 1914; við Strengbergshlein.

Strengbergshlein  Hlein sem gengur fram undir Strengbergi, og markar suðurenda Grjótanna; þar sem lengst verður gengið undir Hnífunum norðanfrá.  Við Strengbergshlein strandaði breski togarinn British Empire í janúar árið 1914.  Veður var suðvestan blindbylur en sjólítið.  Skipið strandaði um hásjóað; fór hátt í fjöru og british empire h908skorðaðist þar milli tveggja hleina.  Skipverjar björguðust allir með því að stökkva upp á hleinina þegar skipið slóst til.  Einn skipverja fór norður stórgrýtta fjöruna og gat gert viðvart.  Áður höfðu heimamenn heyrt mikið skipsflaut og voru farnir af stað að kanna málið.  Gekk vel að koma skipverjum til bæja þar sem þeir voru lítt þjakaðir.  Strandið varð seinnihluta nætur og var búið að bjarga skipverjum um hádegi.  En um kvöldið gekk á með vestan stórgarð og skipið brotnaði í spón.  Sást ekkert eftir af því morguninn eftir.  Mikið timbur rak úr því í Kollsvík.  Skipverjar dvöldu nokkra daga í Kollsvík, en er veður lægði var farið með þá á Vatneyri á fjögurra manna fari.  Ekki þótti ráðlegt að hlaða bátinn svo fyrir Blakknesið á þessum tíma árs og voru nokkrir mannanna látnir ganga innyfir Hænuvíkurháls og síðan teknir um borð í Hænuvík.  Nokkur járnstykki úr togaranum hafa rekið norður í Grundafjöru og liggja þar enn.  (VÖ: Munnlegar heimildir Láganúpsbænda; wrecsite.eu og samantekt EÓ um skipsströnd í Rauðasandshreppi).

Strengbergsfles (59).  Allmikill berggangur neðarlega í Strengbergi, þar sem eru grasfles og töluvert múkkavarp.  Þangað er um 30 faðma sig og var sigið þangað til eggja áðurfyrri.  Síðastur til þess mun hafa verið Kristján Júlíus Kristjánsson á Grundum, en hann var fær bjargmaður og stundaði mjög eggjatöku í Hnífum.

eyvararstekkurEyvararstekkur (60).  Stekkur í samnefndri laut utarlega á Strengberginu.  „Þessi Eyvör sem hann dregur nafn af var kona hér á Láganúpi“  “   (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  Stekkurinn er frammi á brúninni.

 

Kálfalágar (61).  Allstórt svæði á Hnífabrúninni utan við Strengberg og Eyvararstekk; hjallar og lautir sem ná út að Hnífaflögu.  Gömul ónafngreind heimild segir Kálfalág vera eina langa laut; beint upp af Álkuskúta.  Á síðari tímum hefur nafnið verið í fleirölu og táknað svæðið allt.

hnifaflagaHnífaflaga (62).  Undirlendi sem skagar vestur úr Hnífunum; girt lágum klettaslefrum og allmiklu lægra en Strengbergið.  Unnt er að komast í fjöru af Flögunni, eins og hún er kölluð í daglegu tali; bæði beint framaf og í djúpri gjá utantil í henni.  Fjaran er stórgrýtt, en eftir henni má ganga um fjöru; heimeftir, undir Álkuskúta og suðureftir að Sandhellisvogi.  Á Hnífaflögu er mikið um sérkennilega holótt grjót.  Í því eru harðar æðar en selta og vindur hefur náð að veðra út mýkra berg milli þeirra.  Tóft er þar undir klettum en hvorki vitað um tilgang hennar né sögu.  Í henni er stór hella sem líklega hefur skriðið úr klettunum fyrir ofan.

Flaga  Annað nafn á Hnífaflögu og það sem oftast er notað.  Sjá þar.

Bæir/Bæjahlein  „Mið framundan Hnífaflögu, þannig: Gamli Breiðavíkurbærinn fyrir Breið og Bæjarhóllinn í Kollsvík (gamli bærinn) fyrir Hnífa (Undirhlíðanef).  Þar heitir Bæjahlein en oft nefnt „að vera á Bæjum“.  (VÖ eftir ÖG).

Álkuskúti  Hellir í Hnífunum rétt utanvið Flöguna.  Í hellinum er mikið varp lunda og var stundum farið undir hann í fjörunni til að skjóta fugl í soðið með riffli.  Ætla má, af nafngiftinni, að þar hafi álka áður orpið, en svo hefur ekki verið í manna minnum.  Ekki er gengt í Álkuskúta.

Lundafles (64).  Grasfles neðan Hnífabrúnar, undan Kálfalágum.  Þar verpur töluvert af lunda og fýl, en stutt sig er niður í flesið.  Rétt norðan þess er unnt að snaga eftir fleiri fýlseggjum í lás.

Hnífaflöguhlein (65).  Hlein undan Flögunni, þar sem land nær lengst til vesturs á þessum slóðum.  Á henni situr tíðum skarfur.

Grófarnef (66).  Klettanef á utanverðum Hnífum; utan við Hnífaflögu og Ytri-Lambhaga; rétt heiman Grófarstekks.  Grófarnefið er nokkur hærra en Hnífaflagan og var stundum gengið út á það til að gá til fjár eða skima eftir reka í Bótinni.  Ýmist er orðið í eintölu og á þá við stærsta nefið, en stundum er það notað yfir hinar mörgu klettabríkur í grenndinni, og er þá í fleirtölu.

ytri lambhagiYtri-Lambhagi (67).  Grashvapp í klettabrúninni heiman Grófarnefs; utan við Flögu.  Unnt er að komast í það á báða vegu, en þar eru greinilegar hleðslur.  Líklega hefur hvappið einhverntíma verið nýtt til beitar og má e.t.v. rekja nafnið til þess.

 

grofarstekkurGrófarstekkur (68).  Djúp, skálarlaga og gróðursæl laut utanvert við Grófarnefið; niðri í klettunum.  Í lautinni eru rústir af stekk.  Þar er nokkur hellir, verulega uppfylltur af jarðvegi en fé leitar gjarnan skjóls í lautinni.  Þar í klettunum má sjá greinilegt far eftir trjábol sem hraun hefur runnið yfir þegar jarðlögin mynduðust.  Má telja líklegt að lautin sé jarðfall hellis sem fallið hefur saman þegar ísaldarjökullinn mótaði landslag á Hnífunum.  Í klettunum uppaf Grófarstekk er sérkennilegur holugrafinn klettur.

Grófir (69).   Svæðið kringum Grófarstekk og Grófarnef.  Þar er landslag fjölbreytilegt; skiptast á klettanef og grónar lautir, en landi hallar þar til suðurs, í átt að Vatnadalsbót, og til lágra sjávarkletta.

trollkarlshellirTröllkarlshellir (70).  Allstór hellir í klettunum neðan Grófarnefs.  Gengt er í hellinn í klettanefinu utan hans.  Hellirinn er um 10m hár í munnanum og nær jafn breiður og djúpur.  Í mynni hans er mikil bergskriða.  Sagt er að úr honum liggi göng í Tröllkonuhelli, sem er innan við Sölmundargjá á Ytri-Hænuvíkurhlíðum í Blakk.  Ólíklegt er að þau séu í notkun nú, þar sem tröllkarl og tröllkerling breyttust í steindranga í sjó undir Gjárdal, sem heita Karl og Kerling.  Ekki skal þó útilokað þarna hafi hafist við ný kynslóð trölla, enda er hvorugur hellirinn í alfaraleið.  Svo virðist sem tröll og álfar þrífist vel í nábýli, þar sem stutt er frá Tröllkarlshelli í álfaborgina Stórhól, með lystisvölunum Sandhelli.

Undirlendi (71).  Gróinn slakki sem skerst niður undan Grófarstekk.  Neðan þess eru lágir sjávarklettar.  „Þar er grasi vaxið og skjólagott, enda er skjólótt og mishæðótt á Hnífunum og safnast þar oft mikil fönn í austanbyljum“  “   (GG; Örnefnaskrá Láganúps).

sandhellirSandhellir (72).  Hellir í Hnífum, utan Undirlendis; neðan við Stórhól, en ofan Gvendarhellis í klettunum.  Þægilegt er að komast í Sandhelli ofan og heimanfrá; niður gróinn gang.  Framan í hellinum er gróin skriða.  Hleðslur eru í hellismunnanum en ekki er vitað um aldur þeirra eða tilgang.  Fé hefur oft leitað skjóls í hellinum eða hrakist þangað undan veðrum.  Þar fennti inni 14 kindur á síðustu áratugum búskapar í Kollsvík.  Sandhellir er lengsti hellirinn í Hnífunum; 15-20m inn.  Í Sandhelli er minni afhellir sem nefnist Þumall.  Sagnir eru um að úr Sandhelli séu göng upp í Stórhól sem er þar beint fyrir ofan; mikil huldufólksbyggð.  Ekki fylgir sögunni hver not huldufólksins eru af hellinum; önnur en að njóta hins tignarlega útsýnis.

Þumall (73).  Afhellir í Sandhelli.  „Inn úr honum er afhellir, svo þetta er líkast vettling á einum þumli, enda heitir afhellirinn Þumall“  “   (GG; Örnefnaskrá Láganúps).

gvendarhellirGvendarhellir (74).  Hellir í Hnífum, utan Undirlendis en neðan og heiman Sandhellis.  Í Gvendarhelli er sæmilega gengt úr Undirhlíð.  Hellismunninn er þröng hola; rétt mátuleg fyrir meðalmann að skríða inn.  Þegar inn er komið er hellirinn nokkuð víður.  Ekki er núna vitað um tildrög nafnsins, en ekki er ólíklegt að honum hafi einhverntíma fylgt vættasögn líkt og fleiri hellum í Hnífunum.  (Er t.d. hugsanlegt að hér hafi bóndinn í Tröllkarlshelli geymt þræl sinn og lifandi nýmeti?  Eða gæti þessi Gvendur hafa látið heillast af huldufólki í Stórhól og því lagst þarna út?  Um það verður líklega lítið vitað úr þessu.)

Sandhellisvogur (75).  Vogur undir utanverðum Hnífum; niður af Sandhelli.  Yfirleitt verður ekki lengra gengið í fjörunni í Vatnadalsbót, en þó hefur komið fyrir að vogurinn fyllist af sandi þannig að fært er á fjöru heim á Flögu.  Hlein er fram í sjó, utan við Sandhellisvog, sem kemur upp á fjöru.  Í henni er gat, og hellir neðansjávar fram í voginn.  Þar geta orðið myndarleg sjávargos í miklum sjó þegar hæfilega er fallið.  Er tignarlegt að horfa á það sjónarspil úr Sandhelli, sem er þar uppyfir.

Sandhellissvelti (76).  Pallur heiman og neðan við Sandhelli, en beint niður af Gvendarhelli í Hnífum, sem gengt er á úr Undirlendinu.  Þar kom fyrir að fé lenti í svelti.

Stórhóll (77).  Stór klettahóll utanvert á Hnífum; ofan Sandhellis.  „Þar er álfabústaður og samgangur mikill var talinn vera milli Sandhellis og Stórhóls“  “   (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  Lagt var ríkt á við börn að vera ekki með hávaða í kringum Stórhól.  „Leið okkar liggur neðan við Stórhólinn.  Líttu vel til hólsins, því þar er huldufólksbyggð og og hefur sést þar huldufólk.  Ég þekki fólk sem sá þetta.  Beint niður af hólnum, efst í klettunum, er Sandhellir; töluvert stór þegar inn er komið.  Svipaður sjóvettling í laginu, með einum þumli og heitir Þumall.  Inn úr honum er hola sem á að vera inngangur huldufólksins í Stórhólinn“  (IG; Sagt til vegar).  „Börn voru mjög vöruð við að hafa uppi hávaða við Stórhól.  Ekki var heldur talið ráðlegt að klifra upp á hólinn; það gæti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir gæfu manna síðar meir“  (VÖ).  „Jóhanna systir pabba og stúlka frá næsta bæ, Jónfríður, voru eitt sinn að smala á Hnífum.  Þegar þær koma út á Grófarstekkinn þá heyra þær söng.  Þær fara að hlusta eftir því og biðu meðan var sungið vers.  Töldu þær að það hefði verið útfararvers.  Þær héldu síðan á að smala og vissu ekkert meir um þetta þvi ekkert fólk var þarna nærri.  Dálítið var talað um huldufólk þegar ég var á Láganúpi og erfitt að efast þegar óskreytið fólk sagði frá þessu“  (Guðný Ólafsd. frá Láganúpi; upptaka Ísmús 1970).

Flatir (78).  Graslendi yst á Hnífunum; utan við Stórhól.  Þar er tiltölulega láglent, skjólgott og gróðursælt.  Þetta örnefni var sjaldan notað í daglegu tali á seinni tíð; líklega til að rugla því ekki saman við annað svæði með sama nafni sem er ofan Hjalla á Láganúpi; uppaf Gilinu.  Flatir, Grófir og Hústóftabakkar hafa eflaust verið nýtt mikið áðurfyrr til vetrarbeitar,og má sumsstaðar sjá leifar eftir ýmsar hleðslur sem hjásetufólk hefur dundað sér við.

grofarnef bot breidurHústóftarbakkar (79).  Bakkarnir yst á Hnífum; utan Stórhóls og neðan við Flatir.  Vel gróið svæði, þar sem koma fram nokkrar lindir.  Í örnefnaskrá segir að Hústóftarbakkar nái út að Vatnadalsá, en á síðari tímum hefur nafnið verið notað einnig um bakkana utan árinnar.  „Neðar eru smáhjallar sem heita Hústóftabakkar.  Þar var heyjað hér áður, eins og víðar.  Pabbi heyjaði hér einusinni.  Ég reiddi heim heyið.  Hérna sat ég stundum yfir kvíánum.  Fært var frá einu sinni eftir að ég man eftir.  Það var árið 1934.  Lömbin voru rekin inn í Sauðlauksdal til sumargöngu“  (IG; Sagt til vegar).  Ekkert er vitað um hústóftir þær sem bakkarnir draga nafn af, og hvergi sér þeirra stað.  Má vera að forðum hafi heyið verið þurrkað á Flötunum, sem hérna var slegið, og hér hafi verið reistur kofi til að geyma það.  Einnig kann hér að vera um smalakofa að ræða; sauðakofa; stekk eða tófuhús.  (Á myndinni eru Grófarnef í forgrunni, en sést til Breiðs útyfir Hústóftabakka og Vatnadalsbót.  Fjær sést Breiðavíkurver og Bjarnarnúpur).

Vatnadalsá (80).  Lækur sem rennur úr Litlavatni niður í Vatnadalsbót.  Áin er oftast þurr nema í rigningatíð og leysingum; þá getur hér ruðst fram mikill beljandi af hinum mikla vatnasvæði Vatnadalsins.  Þar sem hún skerst í gegnum Breiðsholtið nefnist Árdalur.  Niðri undir Bót fellur Áin um töluverð klettagljúfur til sjávar.

Bót  Fjaran undir utanverðum Hnífum og neðan Vatnadalsár; suður að Breið.  Fullt nafn er Vatnadalsbót (sjá þar) en oftast nefnd Bót í daglegu tali, og t.d. talað um að „fara út í Bót“ frá Láganúpi.  Þar fellur sjór víða upp í lága sjávarklettana, en sumstaðar eru þó klappir upp við bergið sem alltaf eru á þurru.  Gengt er niður í Bót á heimari brún gljúfursins þar sem Vatnadalsá fellur niður í Bótina og einnig niður gljúfrið sjálft.  Gengt er með fjörunni á báða vegu um fjöru, en sjór fellur í berg á flæði.  Oft berst nokkur reki upp í Bótina en þar festir lítið til lengdar.  Fyrrum var trjáviður stundum dreginn á brún og heim að Láganúpi.  Þarna á fjörum er töluvert um flökkusteina; Grænlendinga sem borist hafa til landsins með borgarís.  Í jarðlögum sjávarklettanna í Bótinni vekur eitt lagið sérstaka athygli, en í því er mikið um för eftir trjáboli og annan gróður sem hraunið hefur runnið yfir þegar landið hlóðst upp.  Holur bolanna eru misvíðar, og í veggum þeirra eru greinileg mót trjábarkar og greina, en líklega hefur allt lauf brunnið upp.  Sumsstaðar má sjá hvar trén hafa brotnað í hamförunum.

Vatnadalsbót (81).  Annað nafn á Bót, en sjaldnast notað.  Sjá þar.

Bjarni Gíslason  Mið í Vatnadalsbót.  „Hérna fram á Vatnadalsbótinni er mið sem heitir Bjarni Gíslason.  Bjarni var unglingur á Látrum, ættaður úr Tálknafirði.  Hann fór ungur til Danmerkur til náms og bjó þar til dauðadags.  Hann var mikilvirkur rithöfundur og kennari.  Hann vann manna mest að heimsendingu íslensku handritanna á sínum tíma.  Mér finnst Íslendingar ekki hafa þakkað honum sem skyldi.  Nafnið á miðinu er þannig til komið að menn létu reka þarna á skaki og fengu sæmilegt kennsli á þessum bletti.  Þorskurinn var hausstór og einhver sagði að hann væri líkur Bjarna og því var miðið skírt í höfuðið á honum“  (IG; Sagt til vegar).

breiður nuparBreiðsholt (88).  Mikið malarholt neðan Litlavatns; heiman við Breið; beggja megin Árdals.  Holtið utan við ána er stundum nefnt Ytra-Breiðsholt.  Þegar jörð er þurr má komast á jeppa út um Strympur og síðan neðan Litlavatns; út á Ytra Breiðsholtið neðan Grenjalágar.  Var það stundum gert þegar farið var til eggja í Breiðnum.  Holtin eru líklega ruðningur sem ísaldarjökullinn hefur skilið eftir sig á leiðinni niður Vatnadal.   Séu þau að öllu leiti úr ísaldarmöl, eins og líkur benda til, má ætla að þetta sé stærsta malarnáma í Rauðasandshreppi, þó ekki sé hún aðgengileg.

Árdalur (89).  Mikill vatnsfarvegur gegnum Breiðsholt, sem Vatnadalsá ( 80) rennur eftir þegar vatn er í henni.  Árdalurinn er nokkuð djúpur og botni hans er stórgrýtt, en kinnarnar báðumegin eru skriður og víðast grónar.  Vera kann að upphaflegt örnefni hafi verið „Árfar“, sem virðist hafa verið algengara heiti á farvegum vatns sem að jafnaði er þurr, en „Árdalur“ hefur verið notað í manna minnum.

Kúakinn  Gróinn kjammi heimantil í Árdalnum; neðan Breiðsholts.  (ók.skrásetjari; Örnefnaskrá Láganúps).  „Nafnið hefur ekki verið notað í seinni tíð, en nokkuð augljóst er hvað við er átt“  (VÖ).

Vatnadalur (90).  Mikill dalur milli Kollsvíkur og Breiðs.  Nær frá Kóngshæð til sjávar í Vatnadalsbót, eða meira en 6 km vegalengd.  Í honum eru nokkur vötn; stærst þeirra vatnadalur koStóravatn og Litlavatn, og eftir honum endilöngum rennur Vatnadalsá, sem þó er oft þurr.  Í Vatnadal er góð sauðfjárbeit, og þar er skjólsælt.  Neðst eru grösugir Húsabakkar og Flatir, upp að aurlendi í Strympuormi og Breiðsholti, en einnig heiman Litlavatns.  Fram allan dalinn eru síðan grastóar; lyngi- og mosavaxnar lautir og mildur hlíðarslakki til norðurs; meðan Breiðurinn gnæfir að sunnanverðu með lítt slitnu hamrabelti og bröttum grjótskriðum.  Fremst í dalbotninum er lágvaxið kjarr af víði og fjalldrapa í Víðilækjunum.  Eflaust hefur það gróðurfar náð lengra niður um dalinn fyrr á tíð; fram á Hnífa og jafnvel niður um Kollsvíkina.  Löng búseta og útgerð í Kollsvíkinni hefur gengið nærri þessu gróðurfari sem, ásamt rekaviði, taði, þara og mó, hefur verið lífgjafi íbúanna gegnum aldirnar.

Litlavatn (91).  Neðsta vatnið í Vatnadal; ofan Breiðsholts; milli Breiðs og Orma.  Litlavatn er um 300m langt og 240m breitt og dýpi er mest rúmir 2m.  Mikið er þar af hornsíli.  Gerð var tilraun með að sleppa þar bleikju eftir 1970 og lifði hún þar nokkur ár og dafnaði vel.  Hún fjölgaði sér þó ekki og dó að lokum út.  Álft og himbrimi hafa orpið í tanganum við vatnið.  Um miðja 20. öld var grjót dregið á ís út á vatnið og þar gerður varphólmi, sem þó gegndi aldrei því hlutverki.  Lagnaðarís hefur síðan séð um að má hann út.  Í grónum hvammi heiman við vatnið gerði Páll Guðbjartsson tilraun með trjárækt eftir miðja 20. öld.  Þar í greri vel í lækjum og skjóli, en fé náði að komast í girðinguna og binda enda á þá tilraun.  Víða er gott berjaland utan við Litlavatn.  „Ef heyskapur gekk vel var farið í útslægjur sem kallað var.  Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó.  einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal.  Síðast var farið í útslægju um 1940.  Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum.  Þetta var harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

smavotn koSmávötn (110).  Klasi lítilla tjarna í Vatnadal; milli Litlavatns og Stóravatns; framan Vörðubrekku.  Oftast eru þessar tjarnir þurrar, t.d. í þurrkatíð á sumrum, en í leysingum fyllast þær af rennsli Vatnadalsár.

 

Smávatnabrekkur (111).  Brekkurnar upp af Smávötnum, heimantil; framan Pálslautar að Stóravatnsbrekkum.

Bjarnaskarð  „Skarð (laut) sem liggur heim úr Smávatnabrekkum, nokkuð neðarlega“ (ók.skrásetjari; Örnefnaskrá Láganúps).  „Við höldum heim um Bjarnaskarð og milli Kjóavatna, en þau eru 3 lítil og eitt þornar í þurrkum“  (IG; Sagt til vegar).   Fé sem smalað var úr Vatnadal niður á Hnífa leitaði gjarnan heim um Bjarnaskarð, og þurfti að standa þar fyrir því.

Stóravatn (112).  Stærsta vatnið í Vatnadal; fyrir framan Smávötn og Stórahnjót.  Um 550m langt og 230m breitt; mesta dýpt ca 4m.  Neðantil í því ganga fram tangar og í mikilli þurrkatíð lækkar svo í því að þar verður sérstakur pollur.  Í Stóravatn var sleppt Þingvallableikju eftir 1970 og dafnaði hún þar mjög vel í 2-3 áratugi.  Hún var lítllega veidd í net og var þá stundum svo sílspikuð að fellingar voru í hnakkanum, líkt og á vænum hrút.  En silungurinn virtist ekki fjölga sér, auk þess sem eitthvað tapaðist niður ána í leysingum, og að lokum hætti hann að veiðast.“Við settum einu sinni nokkur hundruð seyði af bleykju í vatnið.  Hún óx mjög vel en klak virtist ekki takast.  Aldrei tók hún þó á stöng, en síðustu fiskarnir sem við veiddum í net voru 9,5 pund, þá 8 ára“    (IG; Sagt til vegar).  Mikið er af hornsílum í Stóravatni, líkt og öðrum stöðuvötnum í Láganúpslandi.

Stóravatnsbrekkur (113).  Brekkurnar austnorðan Stóravatns; neðan frá Smávatnabrekkum og fram að Gálgasteinabrekkum.  Þær eru sumsstaðar brattar en gróðursælar.  Þangað er oft farið til berja; bæði krækiberja og aðalbláberja.

Gálgasteinabrekkur (114).  Brekurnar norðantil í Vatnadalnum; framan Stóravatnsbrekkna og framundir Kollsvíkurtó.  Í brekkunum eru Gálgasteinar.

galgasteinarGálgasteinar (115).  Tveir gríðarstórir steinar ofarlega í Gálgasteinabrekkum; framan við Stóravatn.  „Sá efri er minni, en sá neðri; um 3-4 faðma frá, er stærri“  “   (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  Draga steinarnir líklega nafn af útliti sínu sem minnir á gálga.  „Ekki væri hægt að hengja mann í þeim; hann næði niður með fætur“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

startj vidilaekirStartjarnareyrar (116).  Grónar eyrar fremst í botni Vatnadals, þar sem er votlent og nokkrar broki vaxnar tjarnir; Startjarnir.  Þar sem víðar var stundaður útheyskapur á fyrri tíð.

Startjarnir (117).  Nokkrar litlar tjarnir á Startjarnareyrum; fremst í Vatnadal.  Allar eru frekar grunnar og sumar þorna upp í þurrkum, en ekki allar.  Þarna er mikið af broki sem stundum var slegið áðurfyrri.  Í Startjörnum hefur stundum verið töluvert varp hettumáfs.  „Ef heyskapur gekk vel var farið í útslægjur sem kallað var.  Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó.  einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal.  Síðast var farið í útslægju um 1940.  Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum.  Þetta var harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

Hænuvíkurtó (118).  Lækjarsytrur fremst í Vatnadalsbotni; framan við Kollsvíkurtó; við veginn á Rauðasand.  Hænuvíkurtó er í átt að Hænuvíkurskarði, séð  úr Vatnadalsbotni.  „Þar um lá vegurinn frá Hænuvík til Breiðuvíkur.  Um Hænuvíkurtó eru merkin milli Kollvíkur og Láganúps. Hænuvíkurtó er svipuð og Kollvíkurtó, en minni.  Í báðum þessum tóm var slegið.  Neðar eru Ármótabrekkur að Vatnadal“  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Utantil í Vatnadal eru þessi örnefni:

Stóri-Hnjótur (134).  Allmikill hnúkur eða klettahjalli sem gengur fram í botn Vatnadalsins úr hlíð Breiðsins, neðantil við Stóravatn.  Um tíma var skoðaður möguleiki á vegalagningu frá Kollsvík að Breiðuvík.  Jón Víðis kom á vegum Vegagerðarinnar og má enn sjá steina sem hann reisti upp í vænlegu vegastæði.  Sá vegur hefði legið frá Láganúpi; framanfrá upp á Stórahnjót og á snið upp Vörðubrekku og síðan útyfir kjöl og Sanddal áleiðis til Breiðuvíkur.  Neðan Stóra-Hnjóts eru Smávötn, og enn neðar Vörðubrekka.

startj vidilaekirVíðilækir (135).  Gróið svæði Breiðsmegin við Vatnadalsbotninn; ofan Startjarna og nokkuð framan Stóravatn.  Þar spretta fram fjölmargir lækir nokkuð uppi í hlíðinni og breytist hlíðin neðan þeirra úr grýttum þursabergsskiðum í grænt og votlent svæði; vaxið grasi, lyngi, víðikjarri og fjalldrapa.

Ívarsegg (136).  Vatnaskilin uppi á Breið eftir að komið er frameftir, þar sem eru Víðilækir niðri í Vatnadal.  „Engin skýring er á nafninu Ívarsegg“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

Breiðavíkurtó (137).   Lynglaut eða farvegur Breiðsmegin fremst frammi í botni Vatnadals; alllangt framan við Víðlæki og heldur framar en Hænuvíkurtó (sem er hinumegin í dalnum).

Dalbrekkur (138).  Brekkurnar í Vatnadalsbotni, beggja vegna og þegar komið er fram í botn dalsins; þar sem hann hækkar í átt til Kóngshæðar.  „Þær eru sameiginlegar milli Kollsvíkur og Láganúps“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

Hér er næst farið aftur niðureftir og heimávið og örnefni rakin ofan við Hnífa og heiman Vatnadals:

Hjallar (98).  Klettariminn sem afmarkar Kollsvíkina að sunnanverðu, og liggur frá Undirhlíðarnefi til suðurs og austurs um Nónvörðu; ofan Hóla, Þrjóts, Urða og Umvarps hjallarog breytist í Axlarhjalla austast; ofan Fornmanns.  Í örnefnaskrá eru Hjallar sumsstaðar nefndir Hjallabrún, en það nafn var mun minna notað í seinni tíð.  Um tvö hjallaþrep er að ræða, með brekku á milli, og eru Hjallar hið lægra en Efri-Hjallar nefnist það efra.  Klettaslefrurnar eru lágar og sundurslitnar af brekkum og neðan þeirra er lág en brött brekka, niður að túnum.  Svæðið ofan efri Hjalla var stundum samnefnt; t.d. var sagt að fé væri „uppi á Hjöllum“.  Uppi á Hjöllunum liggur mikill grjóthlaðinn túngarður.  Hann byrjar neðan Hádegisskarðs; liggur frameftir; niður brekkuna framan við Túnshalann og endar í Garðsendadýi, en handan þess heldur hann áfram sem torfgarður.  „Þegar kemur heim úr Sandslágarskarði komum við niður á fremri Hjallana.  Þar var gott berjaland og stutt að fara, því þeir eru rétt við túngarðinn sem pabbi hlóð um túnið á Láganúpi fyrsta og annan veturinn sem hann bjó þar; að mestum parti á kvöldin þegar tungslskin var.  Garðurinn er um 500-600 metra langur; tvíhlaðinn neðst en einhlaðinn að ofan, og ein gaddavírssnúra var ofan á honum“  (IG; Sagt til vegar).

Hjallabrún (82).  Annað nafn á Hjöllum, en minna notað.  Sjá þar.

Efri-Hjallar  Stundum nefndir Hærri-Hjallar.  Efri kletta- og brystabrúnin sunnanvert við Kollsvíkina.  Sjá Hjallar.  Þeir eru þó ekki greinilegir nema ofan gamla Láganúpstúnsins og fram yfir Axlarhjalla.  Skiptast þar á klettar og brysti.

litlagil

Litlagil (149; mynd).  Lítill gilskorningur í Hjöllum (98); rétt utan gamla bæjarhólsins; neðan og utan Hádegisskarðs (97).  Þar rann vatn niður með bæjarhólnum í leysingum.  Litlagil var jafnan leiksvæði barna á Láganúpi og þar höfðu þau hornabú.

Flatir  Allstórt og gróið svæði upp af Hjöllum, ofan Láganúps; suðaustan við Strengbergið og út að Strympum.  Þetta svæði hefur sama nafn og Flatir utan Stórhóls, ofan við Vatnadalsbót.  Heimari Flatirnar voru þó oftar í umræðunni og sjaldan um hinar getið.  Eftir mikið sandfok að vetrarlagi eru oft sandskaflar á Flötunum; upprunnir í Láganúpsfjöru.

Flatatjörn (83).  Tjörn á Flötum sem þornar á sumrum.  Úr henni er afrennsli í Gilið, niður í Kaldabrunn.

Strympur (84).  Holt eða upphækkanir í landinu utan við Flatir, sem nær frá hestaveginum til Breiðavíkur niður í átt til Hnífanna.  Á Strympum er Langisjór (Strympuormur).  Iðulega var fé rekið til beitar á Strympunum, enda er á þessum slóðum góð vetrarbeit.  Dunduðu menn sér oft við að hlaða vörður til að halda á sér hita í hjástöðunni.  Á Strympum standa tvær slíkar vörður.  Þá stærri hlóð Guðbjartur Guðbjartsson en þá minni Guðbjartur Össurarson, sonarsonur hans, sem þá nam hleðslulistina af þeim gamla; barn að aldri.

Strympuormur (85).  Annað nafn á Langasjó.  Sjá þar.

langisjor strympurLangisjór (86).  Tjörn ofanvert á Strympum, löng, mjó, grunn og vaxin broki (stör).  Stutt neðan hestavegarins til Breiðuvíkur.  „Ef heyskapur gekk vel var farið í útslægjur sem kallað var.  Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó.  einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal.  Síðast var farið í útslægju um 1940.  Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum.  Þetta var harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

ormatjornOrmar (87).  Svæðið utan við Strympur og að Breiðaholti; ofan frá Pálslaut niður að Flötum utan Stórhóls.  Þar eru víða auraflákar, en nokkur gróður í lautadrögum.  Efst í Ormum eru Ormstjarnir tvær.  Í daglegu tali er Strympunafnið iðulega teygt út yfir Ormana utan þeirra.

Pálslaut (92).  Allmikil laut framan við hestaveginn til Breiðuvíkur; heimanvið Vatnadal og sunnanvið Ormatjarnir.  Skjólsælt er í lautinni og hjá henni er varða.  Ekkert er vitað um nafngiftina.

Ormatjarnir Heimri- og Ytri (93 og 94).  Tvær litlar tjarnir fremst á Ormum; rétt framan við hestaveginn til Breiðuvíkur; heiman við Pálslaut.  Ytri tjörnin þornar iðulega í þurrkum, en vatn helst jafnan í þeirri heimari.

Þjófur (153).  Lítil tjörn milli Pálslautar (92) og Sandslágar (95), og lautin sem hún er í.  „Líklega er nafnið dregið af því að þarna eru lautir sem fé getur leynst í þegar smalað er“  (VÖ).

Þjófalautir var, a.m.k. í seinni tíð, haft yfir svæðið ofan Ormana, og þá átt við Þjófinn; Ormana; Pálslaut og aðrar lautir á svæðinu utanvið Sandslág og framundir Stóravatnsbrekkur.  Rætt var um það í smalamennskum að vel þyrfti að gá í Þjófalautirnar (VÖ).

sandslagSandslág (95).  Allmikil lægð sunnan Axlarhjalla en heiman Vatnadals; austan Orma og Flata en vestan Litlafells.  Í lægðinni er Sandslágarvatn og heim úr henni heitir Sandslágarkjaftur.

Sandslágarvatn (96).  Vatn í Sandslág; um 100m langt og 70m breitt, líklega um 2m að dýpt þar sem mest er.  Í því eru hornsíli.  Tilraun til að sleppa í það silungi báru ekki árangur.  Vinsælt var hjá börnum að fara út að Sandslágarvatni til að sigla litlum bátum.  „Í laut vestan við Litlafellið er Sandslágarvatn.  Það er ekki stórt en það var eitt uppáhalds leiksvæði stráka í Kollsvík með báta og skútur; láta skipin sigla beitivind eða lensa með fast stýri yfir vatnið.  Stundum var heppnin með, bátum hvolfdi og farmur losnaði og þá flaut skipið upp og rak að landi.  Oft var gerð varúðarráðstöfun ef það brygðist.  Þá voru sett upp mið sem hægt var að átta sig á hvar skipið lægi.  Þá var að bíða þess að glær ís kæmi á vatnið:  Ef heppnin var með var hægt að krækja skipið upp“  (IG; Sagt til vegar).

sandslagarkjafturSandslágarkjaftur  Svæðið á norðurbrún Sandslágar og brekkurnar þaðan niður á Hjallana.  Fé var oft rekið til beitar upp Sandslágarkjaft og staðið yfir því þar, enda bitjörð þar sæmileg.  Nafnið var því töluvert notað, en virðist hafa fallið niður við örnefnaskráningu.  Stundum var talað um Sandslágarskarð í sömu merkingu, en það heyrðist þó mun sjaldnar.  Í Sandslágarkjafti, neðarlega, er lítið gil með stórgrýtisurð.  Þar í eru leifar af tófuhúsi.

hadegisskard CopyHádegisskarð (97).  Skarð eða laut í Efri-Hjalla (Hjallabrún) þar hadegisvardasem hæst ber uppaf gamla bæjarhólnum á Láganúpi.  Eyktamark sem við var miðað hádegi, frá gamla Láganúpsbænum.  Þar hjá er lítil varða austanvið og önnur vestanvið, og er sú klofavarða (mynd).

Umvarp (99).  Svæðið ofan við Mýrarnar; þar sem mýrarsvæðið víkur fyrir þurrlendum holtum og grýttu landi.  Grasi vaxnir móar ofan við Mýrarnar, neðan holta, taka við þegar hærra dregur.  Um Umvarp lá áður gönguleiðin milli Láganúps og Kollsvíkur, enda þá báðir bæir nær fjalli en nú er.  Kýr höfðu bithaga á Umvarpi og Nautholti, en einnig í dýjaseilum um Mýrarnar.  Um Umvarpið hélst því við allmikil gata eftir umferð fjár, kúa og kúasamala; löngu eftir að umferð manna hafði að öðru leiti færst niður á nýjan bílveg.  Nafngiftin er gegnsæ og lýsir umskiptunum milli mýrlendis og þurrlendis.  Öllu merkilegra er að ekki er vitað af sama nafni um sömu aðstæður annarsstaðar á landinu.

axlarhjallar foldirAxlarhjallar (100).  Fremri endi Hjallanna; frá túngarðinum og framfyrir Fornmann.  Ofan við Fornmann beygir endi Hjallanna til norðurs og nefnist þar Öxl.  Stundum var talað um Fremri-Hjalla, og þá átt við Hjallana frá túngarði fram að Fornmanni.

 

Fremri-Hjallar  Sá hluti Hjallanna sem er milli túngarðs og Axlarhjalla.

Öxl (101).  Fremsta horn Axlarhjalla; ofan við Fornmann, þar sem Hjallarnir eygja til norðurs.  Framan við Öxlina taka við Foldir.

fornmadurFornmaður (102).  Hóll í krikanum undir Axlarhjalla; frammi undir Öxl; um 10m langur og 5m breiður.  Þessum snyrtilega hól hefur fylgt sú saga að hann sé kuml fornmanns.  „Sagt var að þarna hafi verið grafið skip.  En oft hefur verið grafið í og þar er bara klettur“  (IG; viðb. Örnefnaskrá Láganúps).

 

olafsvordurÓlafsvörður  Tvær vörður með stuttu millibili; upp af Axlarhjöllunum; suður af Fornmanni.  Ekki er vitað við hvern þær eru kenndar.  (ók.skrásetjari; Örnefnaskrá Láganúps).

 

Litlafell (103).   Formfagurt fell austan við Sandslág; upp af Öxl.  Þetta er urðarhóll með smáklettum að norðanverðu.  Það mun vera um 164m á hæð.

Langabrekka (104).  Löng grasbrekka norður af Litlafelli; ofan Umvarps; sunnan Fossa og ofan Fossabrekku.

Fossabrekka (105).  Brekka niður af Löngubrekku; uppaf Fossunum og nær norður að landamerkjum í Ánni.

Foldir (106).  Svæði upp af Löngubrekku; framan Axlarhjalla og neðan Fella (Litlafells og Stórafells).  Þar, framan undir Litlafelli, er broki vaxin tjörn sem heitir Gormur.

Gormur (107).  Lítil tjörn, í krók milli Litlafells (103) og Stórafells (109).  Tjörnin er grunn, með moldarbotni og í henni vex brok.

Vík  Samnefni yfir láglent holtasvæðið fremst í Kollsvíkinni; framan við Fossa og þar til land hækkar við Grænubrekku, Hvolf og Fell.  Foldir tilheyra þessu svæði að hluta.  Talað var um að „smala frammi í Vík“; að „fé væri frammi í Vík“ o.s.frv.

frostg kjoavotnKjóavötn (108).  Tvö stöðuvötn; sunnan Litlafells en vestan Stórafells.  Vestara vatnið stendur lægra og er mun stærra, eða 160m langt og um 60m breitt.  Minna vatnið stendur ofar og er mun minna; um 40m á mestu lengd og breidd.  Í því vex töluvert af broki, sem áðurfyrri var slegið.  Þriðja vatnið er þarna reyndar einnig; nær Litlafelli, en það er yfirleitt þurrt nema í leysingum; einungis djúp skál í gróna grasflötina.

Stórafell (109).   Stórt og tignarlegt fell fyrir botni Kollsvíkur; í hásuður frá Kollsvíkurbænum; suðaustur af Litlafelli.  Á toppi Stórafells er sérkennileg varða, snyrtilega helluhlaðin af Guðbjarti Guðbjartssyni á Láganúpi; einskonar „Sigurbogi Kollsvíkur“.  Tvær ferstrendar vörður standa hlið við hlið og ofan á þær er hlaðið sameiginlegri rétthyrndri og þykkri þekju.  Þannig myndast manngengt gat í milli og undir þekjuna, sem vísar til NNV; í átt að Grundum.  Í Stórafelli framanverðu er mikið hellutak, sem nýtt var frá Láganúpi.

fellin vardaFellin  Sameiginlegt heiti Litlafells og Stórafells.  Talað var um að „fara fram á milli Fella“ þegar leiðin lá fram í Vatnadalsbotn, t.d. til smalana eða í grenjavinnslu.  Var þá farið fram yfir Fremri Hjalla; upp Sandslágarkjaft; framhjá Ólafsvörðum; um skarðið sunnan Litlafells; upp með Kjóavötnum og niður Gálgasteinabrekkur.

Breiður (119).  Stórt fjall eða múli sunnan Hnífa; milli Vatnadals og Breiðuvíkur og aðskilur Breiðuvík og Kollsvík.  Háir klettar eru víðast í efri brún Breiðsins og breidurskriðuhlíðar neðan við.  Sjávarklettar eru með sjónum .  Yfir Breið liggur hestavegur frá Kollsvík, en einnig er leið upp á hann um Grenjalág og fært er fyrir Breið í hlíðinni framan í honum.  Fjaran fyrir Breið er yfirleitt illfær.  Breiðurinn er nokkuð breitt fjall eins og nafnið bendir til, eða um 2km þvert yfir; af brún Vörðubrekku.  Á Breiðnum neðarlega í Láganúpslandi er stöðuvatnið Breiðsvatn.  „Ef heyskapur gekk vel var farið í útslægjur sem kallað var.  Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó.  einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal.  Síðast var farið í útslægju um 1940.  Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum.  Þetta var harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).
„Farið var af stað um kl 7 og fylgst að með reksturinn út að Litlavatni; þar skildu leiðir.  einn fór fyrir Breið.  Það þurfti að vera sæmilega bjargfær maður því oft voru kindur á slæmum stöðum.  Annar fór upp Grenjalág og út yfir Breið; hann smalaði svo Fjarðarhornið með þeim sem kom niður Hjallana.  Og einn fór fram Ívarsegg og út yfir Flosadalinn og niður Hafnargil.  Í Hjallagötu mættust svo allir og ráku til réttar“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).  „“Þá erum við komnir út á Skútahrygg, en þarna eykst brattinn og sjávarklettar hækka.  En hér byjar kafgras og állstaðar er kál og hvönn á syllum.  Nógur er áburðurinn frá fuglinum, bæði svartbak, hvítmáf og múkka.  Sauðfé sækir mikið í Breiðinn, en mikil vanhöld voru þar.  Þarna heyjaði Ólafur Halldórsson á Grundum, en erfitt er að standa að slætti í svona bratta og bera heyið á bakinu heim á Bakka.  Niðri í sjávarklettum er Lundafles; þangað var sigið til að ná í múkkaegg. ..  Hægt er að fara fyrir Breið um háfjöru með sjó, en þar er stórgrýtt og sleipar hleinar.  Landamerkjahlein er framaf Hryggnum.  Þar liggja oft selir“  (IG; Sagt til vegar).

Breiðavíkurháls (120).  Svo nefnist hálendi Breiðsins þegar kemur innar á hann; framan við hestaveginn.

Landamerkjahryggur (121).  Stór hryggur í hlíðum Breiðsins; ofan Landamerkjahleinar, en þó ögn sunnar.  Þar um liggja landamerki Láganúps og Breiðuvíkur.  Háir sjávarklettar eru undir hryggnum í fjöru.

Landamerkjahlein (122).  Löng hlein í sjó fram, undan Breiðnum; lítið eitt norðan Landamerkjahryggjar.  Þar um liggja landamerki Láganúps og Breiðuvíkur.

Lundafles (123).  Grasfles í brún sjávarkletta, neðst og heimantil í Landamerkjahrygg.  Þangað er um 12 faðma sig úr hryggnum, en þétt múkkavarp er í flesinu.

Skútahryggur (124).  Hryggur framan í Breiðnum; næsti stóri hryggurinn norðan Landamerkjahryggs.  Hellisskúti er neðarlega í Skútahrygg, en upp af honum er Flesið.

Fles (125).  Stór grasflái eða fles fyrir ofan Skútahrygg.  Kindur leita stundum þangað upp og er leiðin vart fær nema færustu mönnum.

Urðarhryggur (126).  Heimasti (norðasti) hryggurinn framan í Breiðnum, og sá sem er minnst gróinn.  Þar um liggur kindagata í þursabergsskriðu heim og niður á Blettahjalla.

Blettahjalli (127).  Lágur hjalli, syðst á Hústóftabökkum; rétt heiman Urðarhryggs í Breið.  „Þar eru sandblettir útifyrir sem miðaðir eru á hjalla þennan“  (GG;  Örnefnaskrá Láganúps).

Breiðshlíð (128).  Hlíð Breiðsins neðan efri kletta; neðan frá Urðarhrygg fram að Grenjalág, og síðan fram allan Vatnadal.  Víðast brattar og gróðurvana skriður úr þursabergi, að frátaldri Vörðubrekku, þar sem eru hjallaköst.

Grenjalág (129).  Skarð í klettabeltið í brún Breiðsins þar sem brött skriðan nær á brún og er þar leið upp á Breið.  Um Grenjalág var farið til smalana og þegar farið var til eggja í Breiðnum.  Neðanfrá er fyrst farið upp lítið eitt framar en skarðið er uppi og svo liggur gatan í sniðum upp skriðurnar.  Þó þessi leið nefnist nú Grenjalág þá á nafnið raunverulega við djúpa laut neðan hlíðarinnar; milli hennar og Ytra-Breiðsholts.  Þar eru tófugreini þau sem leiðin og skarðið eru kennd við; og þar má sjá leifar tófuhúss.

Ytra-Breiðsholt (130).  Malarholt neðan Grenjalágar; framhald Breiðsholts heiman Árdalsins.  Milli þess og Breiðshlíðarinnar er djúp laut neðantil, og er það hin eiginlega Grenjalág.  Gott berjaland er oft neðan Ytra-Breiðsholts.

Breiðsvatn (13l).  Stöðuvatn uppi á Breið; nokkru ofan við Grenjalág en í Láganúpslandi.  Það er mest 260m langt og 140m breitt.  Þarna virðist vera uppspretta á fjallinu, því Breiðsvatn þornar aldrei upp.

Steinanef  Staður í brún Breiðsins framantil; neðan Breiðsvatns; einn af nokkrum stöðum sem farið var niður til fýlseggjatöku.  Á Steinanefi er gríðarstórt Grettistak alveg frammi á brún.  Um það var vaður bundinn og farið ofan báðumegin við nefið; þrjá ganga niður.  Víðar var farið niður; bæði utar og heimar.  Yfirleitt var allt farið í lásum; eggin dregin á brún; búið um þau í handhægum plastbrúsum og borið niður Grenjalág.  Sinn brúsinn var í hvorri hönd og létti yfir axlir.  Stundum var settur plastbrúsi á bakpokagrind og borið á baki, auk brúsa eða fötu í hendi.  Þannig bar hver maður um 200 egg auk vaðs og háfa, en þeir nýttust vel við eggjatöku í Breið.  Iðulega voru 3-5 menn í hóp og því allt að 1000 egg borin heim í einu.  Fyrir kom að meira fékkst en borið varð heim í það skiptið; var þá gengið frá umframeggjum í byrgi á brún og þau sótt síðar.  Töluverð eggjataka var í Breiðnum um nokkurra ára skeið, einkum milli 1965 og 1980.  Gylfi Guðbjartsson var einn þeirra sem mest stunduðu Breiðinn á þessum tíma, ásamt bræðrum sínum og heimamönnum á Láganúpi.

Vörðubrekka (132).  Brekka í Vatnadalnum utanverðum; þar sem hestavegurinn liggur upp á Breið, áleiðis til Breiðuvíkur.  „Þar liggur gatan upp á hálsinn í smákrókum.  Er þar allbratt upp en stutt.  Þar rétt ofar er Kjölur“  (GG;  Örnefnaskrá Láganúps).    Hestagatan liggur í fjölmörgum sneiðingum, um skriður og hjalla; allmikið niðurgrafin víðast hvar og vel vörðuð, eins og nafnið gefur til kynna.

Kjölur (133).  Vatnaskil uppi á Breið, þar sem hann er hæstur og hallar til beggja átta.  Þar eru landamerki Láganúps og Kollsvíkur.  Vatnaskilin nefnast Ívarsegg framar á Breiðnum.  Kjölur er miklu nær norðurbrúninni á Breiðavíkurhálsi en þeirri syðri.  Því er mest land á Breiðnum í eigu Breiðuvíkur.  Af Kili hallar suðureftir í átt að Sanddal en nokkru neðan Vörðubrekku liggur Kjölurinn milli Breiðsvatns og Sanddals.

Brúðgumaskarð  (í Breiðavíkur-/Keflavíkurlandi).  Skarð milli Breiðavíkur og Keflavíkur, en um það lá þjóðleiðin úr Kollsvík til Rauðasands.  Meðan Kollsvíkingar áttu kirkjusókn að Saurbæ; allt frá kristnitöku fram til 1824, var þetta jafnframt kirkjuvegur Kollsvíkinga, auk mikillar umferðar vermanna og annarra.  Brúðgumaskarð fékk það nafn á árunum kringum 1720 þegar Einar, sonur Bjarna Jónssonar bónda og bátasmiðs í Kollsvík, var á leið til Saurbæjar; þar sem hann hugðist kvænast Guðrúnu Jónsdóttur frá Breiðuvík.  Þau höfðu bundið fastmælum að hittast í skarðinu og það þeirra sem fyrr yrði á staðinn myndi bíða hins.  Einar hefur eflaust hraðað för sinni frá Kollsvík, enda mikill viðburður framundan.  Verður hann því fyrri á staðinn.  En þegar bóndadóttirin kemur neðan Stæðaveginn úr Breiðuvík finnur hún unnusta sinn látinn í skarðinu.  Var álitið að þar hefði hann orðið bráðkvaddur.  Guðrún giftist síðar Jóni Einarssyni frá Hreggstöðum, sem kallaður var hrekkur, og settust þau að í Æðey.  Skarðið var eftir þetta nefnt Brúðgumaskarð, en ekki er vitað um fyrra heiti.  (VÖ; skv munnlegum sögnum og Ábúendatali Trausta Ólafssonar).

 

Helstu heimildir:

Örnefnalýsing Guðbjartar Torfasonar og Vilborgar Torfadóttur, skráð af Ara Gíslasyni
Athugasemdir og viðbætur þeirra og annarra við örnefnalýsinguna
Vestfjarðaritið Fólkið landið og sjórinn; höf. Birgir Þórisson sagnfræðingur, útg. 2011
Frásagnaþættir Láganúpssystkina í Niðjatali Hildar og Guðbjartar , útg. 1989
Sagt til vegar; ritgerð Ingvars Guðbjartssonar, og grein hans í SumarliðaPósti
Kristján Júl. Kristjánsson; Kollsvíkurver, ritgerð skráð af Kristjáni Friðgeirssyni
Sagnir Helgu Einarsdóttur af Einari í Kollsvík; skráð af Ó.E.Th í Árbók Barð 1980-1990
Byggð og saga; Ólafur Lárusson; Rvík 1944
Trausti Ólafsson; Kollsvíkurætt 1960
Trausti Ólafsson; Ábúendatal Rauðasandshrepps
Samgöngur í Rauðasandshreppi; Ari Ívarsson, Árbók Barð 1980-1990
Kirkjustaðir á Vestfjörðum; Ágúst Sigurðsson; útg. 2005
Sýslulýsingar 1746.
Ýmsar aðrar tilgreindar heimildir og athugasemdir VÖ.

 

3. hluti:  Miðaskrá Kollsvíkur

Mið og siglingaleiðir í Kollsvík

Almennt  „Oftast var miðað á Kóp.  Þar voru margir dalir og var miðað við þá þegar þeir komu undan Blakk.  Dalirnir eru (talið utan frá): Skandadalur, Kálfadalur, Krossadalur, Stapadalur, Sellátradalur, Fagridalur, Laugardalur“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Hyrnur  „Að vera á Hyrnunum merkir að vera í Blakknesröstinni, þannig að Hyrnur Innri-Hænuvíkurhlíða komi framundan Blakk.  Þvermið er breytilegt, eftir því hvað djúpt er verið; frá því að Verið í Breiðavík komi fyrir Breið, fram í það að Breiðavíkurbærinn gamli komi undan.  Þarna rekur fljótt ef eitthvað kviknar fall og iðulega þarf að kippa.  Í norðurfalli eru menn fljótt komnir norður á ljósar hyrnur og enn lengra til norðurs rekur á Dýpra Sandnes (þegar Skersmúlinn kemur framundan) og síðan Grynnra Sandnes (þegar múlinn innan Kvígindisdals kemur framundan), og síðan norður á opinn Flóa.  En í suðurfalli rekur fyrst á blindar hyrnur og síðar suður á Sandlæk, sem er annað nafn á Sandagili milli Blakks og Núps. Reki lengra til suðurs eru menn komnir á opna víkina. (VÖ).

Þegar dýpra var róið var farið út eftir Hyrnum og miðað við örnefni  til austurs; á norðurströnd Arnarfjarðar, eftir því sem þau birtust framundan Kópnum.  (Talað var um að farið væri „niður á Dalsdal“ eða alla leið „niður á Dýpri Skeggja“

Sléttanes  Ysta táin á skaganum norðan Arnafjarðar, og sú sem fyrst birtist framundan Kóp.

Dalsdalur  Dalsdalur er á norðurströnd Arnarfjarðar; skammt fyrir utan Lokinhamradal.

Grynnri Skeggi  „Skeggi er innra klettahorn Lokinhamradals á norðurströnd Arnarfjarðar.

Dýpri Skeggi  „Dýpri Skeggi er fjallshorn sem er í botni Fossdals; milli Stapadals og Álftamýrar í Arnarfirði.  Dýpið sem er fyrir framan hann heitir Fossdýpi og var áður talið mjög mikill fiskistaður“.   (Jón Guðmundsson; fiskimið í Tálknafirði og Patreksfirði; Árb.Barð, 2007).

Hvalbakur  „Hákarlamið.  Hvalbakur er annað nafn á Álftamýrarheiði (dregur nafn af lagi sínu) og var hann djúpmörk miðanna, sem annars voru eftir Hyrnum“ (Jón Guðmundsson; fiskimið í Tálknafirði og Patreksfirði; Árb.Barð, 2007).

Haugar  „Haugar eru mið á sjó á samnefndi miði sem nefnt er Haugar“  „Átti vörðu á Hnífum að bera í Haugana“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  "Haugarnir (í Strengbergið).  Þar var argasta hraun" (IG; minnisbók).

Stekkar  „Stekkar heitir mið, þegar Stekkavörðu í Láganúpslandi ber á milli Hauganna“. (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Þar sem Stekkavörðu ber milli Hauga..er miðið Stekkar; djúpt á svokölluðum Kollsvíkursandi.  Er það eitt af fjölmörgum fiskimiðum sjómanna er reru úr Kollsvíkurveri“  (ÖG; Örnefnaskrá Láganúps).  "Stekkar:  Stekkavarðan milli Hauganna" (IG; minnisbók).

Á Tálkna og Trýnum  „Þegar fremstu tána á Breið…ber í Hnífaflögu og Tálkni kemur framundan Blakk, er það kallað að vera á Tálkna og Trýnum.  Trýni var kölluð fremsta nibba á Breið“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Bjarni Gíslason  „Hérna á Vatnadalsbótinni er mið sem heitir Bjarni Gíslason.  Bjarni var unglingur á Látrum; ættaður úr Tálknafirði.  Hann fór ungur til Danmerkur til náms og bjó þar til dauðadags.  Hann var mikilvirkur rithöfundur og kennari.  Hann vann manna mest við heimsendingu handritanna á sínum tíma.  Mér finnst Íslendingar ekki hafa þakkað honum sem skyldi.  Nafnið á miðinu er þannig til komið að menn létu reka þarna á skaki og fengu sæmilegt kennsli á þessum bletti.  Þorskurinn var hausstór og einhver sagði að hann væri líkur Bjarna og var því miðið skírt í höfuðið á honum“.  (IG; Sagt til vegar).  "Man ekki önnur mið en opinn Árdalurinn" (IG; minnisbók).

Blettir  „Heiman við Urðarhrygg (í Breiðnum) er Blettahjalli.  Þar eru sandblettir úti fyrir sem eru miðaðir í hjalla þennan“  (Örnefnaskrá Láganúps).  „Óvíst um nánari mið“ (VÖ).

Bæir / Bæjarhlein  „Að vera á Bæjunum þýðir (ef ég man það rétt) að láta Kollvíkurbæinn gamla (uppi í túni) bera fyrir Hnífa en sem þvermið að Breiðavíkurbærinn (gamli, uppi við Hallinn) vaki undan Breið“  (VÖ)  "Bæir:  Kollsvíkurbær og Breiðavíkurbærinn gamli.  Rak þá norður um sandinn og um Stekkana" (IG; minnisbók).  

Bætur / Bótin  A.  Lóðamið framundan útvíkum (sjá lóðamið). „Bætur var þekktasta steinbítsmið Víknamanna og Látramanna“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).   B.  Bótin framundan Sandagilinu, þar sem eru þara- og sandblettir. „Við rerum norður á Bætur svokallaðar.  Það var norður undir Nesinu, grunnt nokkuð….“  (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; Árb.Barð, 2004).  "Fara fram á Bótina" (IG; minnisbók).

Flyðruhnjótur  „Flyðruhnjótur er hæsti hnjóturinn á Hjöllunum (Breiðuvíkurhjöllum) framarlega; 271 m á hæð.  Þetta er gamalt sprökumið og er sagt það hafi verið þannig:  Kollsvíkurbær fyrir Hnífa og Flyðruhnjótur yfir Sandahlíð, sem er upp af Fjarðarhorni“.  (TÓ; Örnefnaskrá Breiðuvíkur).

Grásandar (lóðamið)  Sandahlíðin í Brunnanúpnum (Grásandsblettur).  Þvermið; gilið við (Breiðasker/Búðasker ?).   (Blöð I.G.)

Yngra-Jóns mið  Boði/mið út og suður af Djúpboða.  „Það er af Hákoni að segja að hann lagði lóðirnar suður af Yngra-Jónsmiði, en það er út og suður af Djúpboða í Kollsvík“  (Frásögn Guðbj.Guðbj. af upphafi lóðafiskirís í Kollsvíkurveri; EÓ skráði; Minjas.EÓ)

Tálkni og Jafnir Tangar „Þegar rekið hafði um tíma sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst; líklega á Tálkna og Jafna Tanga“  (ÖG; Fiskiróður).

Tálkni og Sandhóll  (Skötumið)  „Þegar Tálkni sést fyrir Blakkinn og Sandhóllinn í Breiðuvík fyrir Breiðinn.  Þar er leirbotn og brást varla að fá skötu.  Lagt var þvert á straum og hyllst var til að leggja lóðina í fullhörku á straum.  Láta hana fá einn snúning og draga svo aftur þegar fór að harðna fallið“  (Ingvar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar; 1989).

Ingvar Guðbjartsson nefnir í vasabók sinni fleiri mið með Tálkna sem mið, en ekki er augljóst hvernig háttar um þvermið.  Þessi mið eru:  Tálkni og Klettakví  Líklega Tálkninn fyrir Blakk og Klettakví undir Þúfustekk vel opin.
Tálkni og Breiðavíkurbær  Líklega Tálkni fyrir Blakk og Gamli Breiðavíkurbærinn fyrir Breið.  Nokkuð djúpt á Blakknesröst.
Tálkni og Barðsbrekkur  Líklega Tálkni fyrir Blakk og Barðsbrekkur fyrir Bjarnarnúp.  Er þá aðeins austar en síðastnefnt mið.
Tálkni og Flyðruhnjótur Líklega Tálkni fyrir Blakk og Flyðruhnjótur sést fyrir Ívarsegg eða yfir Sanddal á Breiðnum.

Hrútanef  Hrútanef á Látrabjargi kemur fyrir Bjarnanúpinn og Tálkninn fyrir Blakkinn.  Þar er 25 faðma dýpi.  (Ingvar Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar; 1989).

Fleiri mið nefnir Ingvar í vasabók sinni, án skilgreiningar, en líklega miða þau við að róið sé fram á Kollsvíkina þar til þessi viðmið birtast fyrir Blakkinn til norðurs:  Skandatennurnar; Skandinn; Skandadalsaugað; Gilin; Krossinn; Norðari Krossi; Kálfadalu; Kálfinn og Kinnin; Fagradalsaugað; Laugardalsaugað.  Einnig:
Krossinn og Sandhóll  Líklega Krossi fyrir Blakk og Sandhóll í Breiðuvík fyrir Breið.
Krossinn og Breiðavíkurbær    Líklega Krossi fyrir Blakk og gamli Breiðavíkurbærinn fyrir Breið.
Krossinn og Barðsbrekkur Líklega Krossi fyrir Blakk og Barðsbrekkur fyrir Bjarnarnúp.
Þá nefnir Ingvar einnig þessi mið: Sandnúpur (annað nafn á Núp í Kollsvík); Sandnes (annað nafn á Skersmúla); Hyrnurnar (sjá ofar); Hæðin (Fimmhudraðahæð); Flöskuhlíðin (við Eyrar); Flöskuhlíðarhornið; Núparnir (líklega Enginúpur fyrir Breið); Blettirnir (sjá ofar; líklega miðað við Blettahlalla undir Breið); Boðasundin (líklega sundin milli boða á víkinni; e.t.v. Djúpboða og Giljaboða); Giljaboði; Djúpboði; Þemba.

Lóðamiðin í Kollsvík  „Skammt var að róa eftir að fiskur gekk á lóðamiðin sem svo voru nefnd, en það var allmikill sandfláki fram undan Víkinni, Hnífunum og nokkuð suður fyrir Hnífaflögu, en þrengdist nokkuð í syðri endann frá djúpi.  Þaragarðurinn lá í nokkuð beinni línu fyrir Víkinni og áfram suður eftir, en var jafnframt skemmra undan landi undan Hnífum og Hnífaflögu, að sama skapi sem þau teygðust lengra fram.  Þó var ekki allsstaðar hrein sandgljá framan við aðal-þaragarðinn, boðar og hleinar voru hér og þar, og þurftu allir, að minnsta kosti formennirnir, að vita á þeim glögg deili og mið“  (KJK; Kollsvíkurver)

Lóðamiðin byrjuðu þannig norðantil:  „Djúpmið; Krossinn.  Þvermið; Þórðarklettur í gamla bæinn í Kollsvík.  Þar byrjaði sandurinn og hægt að leggja 45 lóðir suður á Grjótholt í Fjarðarhorni; þá langstykkjaður Kópurinn“.  (Blöð IG, Kollsvík).
„„Steinbítur er allt í kringum landið en algengastur við Vestfirði; sérstakega milli Bjargtanga og Blakkness og út af Önundarfirði og Súgandafirði.  Afli á þessum slóðum var mestur frá sumarmálum til júníloka og var þeirri veiði þá sinnt eingöngu; oft tvíróið sama daginn þótt verið væri með handfæri.  Bætur var þekktasta steinbítsmið Víknamanna og Látramanna“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).

Hrognkelsamið „Í Kollsvík eru netalagnir á svæðinu undan Sandagili, Bótunum, og heim á Melsendakletta; best að leggja eins grunnt í þaragarðinn og hætt er vegna sjólags.  Varast þarf sandbletti því þar fyllast net af óþverra, jafnvel í sjóleysu.  Þarbeltið nær norður til móts við Straumsker, en varasamt er að fara langt út vegna straums og þaraburðar í honum“.  (VÖ).

Lægið í Kollsvíkurveri   „Fram undan Verinu er Lægi.  Þar lágu bátar og biðu lags.  Lægið myndast af þremur boðum framundan.  Norðastur þeirra er Bjarnarklakkur sem er framundan Verinu norðanverðu; þá er Miðklakkur og syðstur er Selkollur.  Hann er á hleinum  sem heita Selkollshleinar og eru fram af Syðriklettum.  Selkollur líkist kolli á sel þegar farið er yfir hleinarnar.  Sundið milli Bjarnarklakks annarsvegar og lands og Þórðarskerja hinsvegar heitir Grynnstasund.  Leiðin um það var miðuð við vörðu , Grynnstasundsvörðu, á Blakknesinu og átti hún að fylgja klettabrúninni upp af Skekkingunum.  Milli Bjarnarklakks og Miðklakks er Miðleið.  Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollsvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem var ein búðin á Norðariklettunum.  Síðar hlóð Ungmennafélagið Vestri innsiglingavörðu sem síðan nýttist sem mið í stað Klettabúðar.  Milli Miðklakks og Selkolls er Syðstaleið.  Er hún var farin var Kollsvíkurbærinn miðaður í norðustu búðirnar“ …. „Upp af Leitinu, nokkuð hátt í Hæðarhlíð er Leiðarhjalli.  Hann er um miðja hlíðina, þó heldur nær Tröð.  Á Leiðarhjalla var miðleið inn á Lægið miðuð“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Bæði Þórðarsker og Selkollshleinar fara í kaf á flóði.  Úti fyrir lendingunni norðanverðri kemur upp skerjagarður um hálffallinn sjó í allt að 500 m fjarlægð, svonefndir Bjarnarklakkar“   „Öruggasta sundið inn á Lægið var Syðstaleiðin talin, hvort heldur brimaði af norðri eða vestri, en það eru brimaáttirnar“  „Þegar Bjarnarklakkar risu úr sjó og öldur brotnuðu á Miðklakk var talin örugg lending í norðanátt, meðan fært var inn á Lægið.  En brim frá vestri á greiðari leið þarna inn um Syðstuleið, sem er alldjúp.  (KJK; Kollsvíkurver).

Snorralending  „Sunnan við Selkollshleinar og Verið er Snorralending…  Tvær vörður voru hlaðnar uppi á holtinu við Snorralendingu“… „Á Oddanum voru verbúðir en þær voru löngu lagðar niður er hann (Guðmundur Torfason) átti heima í Kollsvík“.  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Láganúpslending  „Á merkjum móti býlinu Kollsvík frammi í sjóinn er…Langitangi.  Sunnanvert við tangann heitir víkin Langatangavík.  Utanvert við þennan tanga var lending, og Klauf er niður undan bænum í Láganúpi, en norðanvert við Grundatún, en það er þar niður við sjóinn…  Fram af Grundum gengur tangi fram í sjóinn sem heitir Grundatangi“  (Örnefnaskrá Láganúps).

Djúpboði / Giljaboði /Þemba  „Djúpboði er beint út af Breiðaskersklakk en Giljaboði norðar, álíka langt frá landi.  Þessir tveir boðar koma aldrei upp úr, en brýtur á þeim ef slæmt er í sjó; myndast á þeim sog eða hringiða.  fyrr brýtur á Djúpboða en Giljaboða“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Helstu boðarnir voru Djúpboði og Leiðarboðar.  Setið var á sjó þó að á þeim félli grunnbrot um fjöru.  Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu, að minnsta kosti með landtöku í Kollsvíkurveri í huga.  Nokkrar fleiri hleinar skulu nefndar; t.d. Yngra-Jónsmið, Kinnarhlein, Blettir, Haugar, Stekkar og Bæjarhlein.  Fiskvænlegra þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum og oft var keppst um að ná þeirri aðstöðu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þegar siglt er grunnt fyrir Kollsvík þarf að hafa Skandatennur í Kóp fyrir Blakk til að vera öruggur djúpmegin við Djúpboða“.   (VÖ).

Grunnleið fyrir Blakk  „Fram af Syðstutrumbu er Blakknesboði.  Hann kemur aldrei uppúr.  Miðið í sundið milli Blakknesboða og lands er að halda Bræðragjám þar til Tálkni kemur fram undan“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).

 

Önnur mið fyrir Útvíkum og í Patreksfirði

Látraröst er í daglegu tali nefnd Röstin.  Þar hafa löngum verið gjöful fiskimið, og m.a. reru Kollsvíkingar gjarnan „suður á Röst“.  Röstin nær langt til hafnorðurs og er mesta annesjaröst við Ísland.  Hún getur orðið illfær og hættuleg, jafnvel stórskipum, einkum ef saman fer stór straumur og mótvindur.  Til maks um góða steinbítsveiði á Röstinni er þessi vísa Guðfinns Björnssonar frá Litla-Galtardal:  „Renndum við á Röstinni/ rétt með vissum fjöllum./  Best er þar um bjargræði/ bítinn steins við köllum“.

Kúfiskamið  Kúfiskur var mikilvægasta beitan í Kollsvíkurveri á síðari tímum útgerðar þar.  Kúfiskur var tíndur með höndum um stórstraumsfjöru í Skersbug í sérstökum ferðum, og var það nefnt að „fara í Bug“.  Einnig var kúfiskur plægður upp með sértökum aðferðum.  Voru notaðir við það tveir bátar; spilbátur og plógbátur og sérstakur kúfiskplógur.  „Það var allvíða sem kúfiskamið voru skammt undan landi, en aldrei féll útaf.  Voru hin helstu þau sem hér verða nefnd; Kúfisklegan undan Breiðavíkurrifi norðarlega.  Þar var plægður upp kúfiskur þegar ég man fyst eftir, en þótti erfið og ófengsæl beitutekja og lagðist þá niður.  Þá var lengst af plægð upp skel undan Tungurifi í Örlygshöfn.  Einnig framundan Vatnsdal og Kvígindisdal, einkum af heimabændum.  Plægt var einnig undan Hvalskeri, svo og undan Tálknahlíðum; innanvið Hliðardal“ (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskimið á Hvallátrum  „Aðallega voru stundaðar handfæraveiðar frá Látrum, en lítið var verið með lóðir.  Fiskimið voru mest og best kringum Látraröst ef gott var veður.  Steinbítsmið voru rétt fyrir innan Bjragtangana.  Miðað var við Hrólfsvirki (á Sandsheiði), en ekki farið svo langt fyrr en seinni part vetrar.  hákarlamið var þó fyrr en Hrólfsvirki, en man ekki við hvað það var miðað.  Ráið var suður á Bætur, rétt fyrir sunnan Bjargtanga.  Skorin sást þá fyrir framan Barðið.  Bótasteinbítur var talinn stór og feitur.  Mið var nefnt „Á Giljum“.  að norðanverðu var miðið í Flosagjáí Breiðuvík og þegar Barðsbrekkur komu undan Brunnanúp.  Róið var út af víkunum og suður á Breiðafjörð eftir að mótorbátar komu“  „Gat (í Bjarnanúpnum) var notað sem fiskimið sunnan við Látraröst“.  (DE; Örn.skrá Hvallátra).

Hjallblettur  Djúpmið; högg á Skandanum.  Þvermið; Tröllhóll í hjall á Flötinni.  (Blöð I.G.) (Hlýtur að vera mið undan Hvallátrum, þar sem ekki er Tröllhóll í Kollsvík.  VÖ).

Fiskimið innan Blakks   „Grásleppu- og rauðmagamið eru á þarasvæðum með allri ströndinni; nær frá Kofuhleinum yst; innundir Gjögra; einnig frammi á Flóanum yst og sumsstaðar inn marbakkann.  Kollsvíkingar lögðu á þessi mið er þeir reru í nokkur ár frá Hænuvík frá því um 1970, og síðar frá Gjögrum.  Helstu lagnir næst landi eru; talið utanfrá; Kofuhleinar; Bænagjóta; Klauf; Láturdalur; Bás; Magnúsarhelmur; Grenshjalli; Forvaði; Kálhelmur; Selsker; Bakkar; Hestlækur; Vörin; Klakkur; Gildrubót.  Eru þá upp taldar lagnir næst fjöru undan Hænuvíkurlandi.  Fjær landi er þaragarður á marbakkanum undar sömu miðum.  Innst var í Hænuvíkurlandi lagt á ljósum Hnjót, en yst á Láturdal, séu frátalin mið miklu lengra úti, sem „Ólarnir“ fundu og nýttu.  Undan Sellatranesslandi áttu heimamenn lagnir undan lendingunni en aðrir lögðu stundum undir Háanesinu.  Innar voru lagnir undan Tungulandi framundan Urðavellinum og alla leið inn á Læki, utanvert við Grímssonatanga á Gjögrum.  Ég stundaði þarna hrognkelsaveiðar, fyrst með pabba og Inga, síðar gerðum við pabbi út saman og í nokkur ár veiddi ég þar á bátum Guðna í Breiðuvík“ (VÖ).

Miðunarsteinn er steinn í brúninni í Hænuvíkurhyrnu, neðst á Litladal.  Þegar hann kemur framundan er óhætt að beygja fyrir Selskerið inn á Hænuvíkina.  Selskerið er alltaf í kafi um flæði“. (SbG ofl; Örn.skrá Hænuvíkur).

 

Fiskimið í Patreksfirði utanverðum

Eftirfarandi miðaskrá er tekin saman af Sigurjóni Bjarnasyni frá Hænuvík.  Heimildarmenn eru Kristinn Ólafsson Hænuvík og Ólafur Sveinsson Sellátranesi, ásamt Örnefnaskrá Hænuvíkur:

Hyrnurnar (langmið í Sellátraneslandi).  Þegar Hænuvíkurnúpur og Innri Hyrnan koma framundan Gjögrafjalli.

Blakkur (langmið í Sellátraneslandi).  Blakkurinn kemur framundan Hænuvíkurhyrnu.

Láturdalshyrna (langmið í Sellátraneslandi.  Láturdalshyrnan kemur framundan Innri Hyrnunni.

Kolla  Dýpi fram af Nesboða, sem er grynning fram af bænum á Sellátranesi.  Mið: Magnúsarhelmur í jaðar á Láturdalshyrnu.  Sellátrabær fyrir Tálkna.  Fyrr var miðað við þegar klettum í Hafnarmúla sleppir við Kálfadal í Örlygshöfn.

Hæðin  Fram af Hænuvík.  Hnútan uppaf Urðavallardal kemur framundan innri brúninni og Hádegishæð framundan Hænuvíkurnúp.  Í botni er sandblettur.

Miðaftanshögg  Utanvið Hænuvík.  Miðaftanshögg (lágur hjalli í Stórhæð) ber í Rauðkunef og Desið (þúst) í Hafnarmúlanum kemur framundan Gjögrafjallinu.

Kóngshæðarhögg  Lága klettabrún í Kóngshæð ber í Rauðkunef.  Sama djúpmið og í Miðaftanshöggi.

Hnjóturinn  Stórahnjót ber í Rauðkunef.  Sama djúpmið og á tveim hinum fyrri.  Nokkuð misdýpi í botni.

Ýsugil  Ýsugil (utan við Stórahnjót) ber í Rauðkunef.  Þvermið.

Helmsmið  Magnúsarhelm ber í stóran stein í hlíðinni uppaf honum.  Sama djúpmið og hér á undan.

Heiðaröxl  Undan Láturdal.  Heiðaröxlin í Krossadal (í Tálknafirði) kemur framundan Krossanum.  Djúpmið: „Flöskuhlíð“.  Þá sér eftir Mikladalshlíðinni fyrir framan Geirseyri og ber hana í snjóskafl fremst í Mikladal.

Barðshóll  Bari fyrir Kóp.  Bæir í Hænuvík (Fremri bærinn) framundan Leitinu.  Hóll í botni.

Fimmhundraðahæð  Fram af Láturdal.  Fimmhundraðahæðin kemrur framundan Láturdalshyrnu.  Djúpmið: Hafnarmúlinn framundan Hyrnunum.  Þar áttu að fást fimm hundruð fiskar þegar rennt var og fiskur var í göngu.

Hafnarmúli  Múlinn kemur framundan Hyrnunum.

Núpar  Brunnanúpur og Bjarnanúpur koma framundan Blakk.  Núpar eru svæðið þar fyrir utan; allt norður á hafnarmúla, eða jafnvel norðar.

Sandnes  Skersmúli og Sandmúli koma í ljós inni í firði.  Háanes ber í Skersmúla.

Kerling  Næst innanvið Kattarholu eru tveir drangar; Karl og Kerling.  Það er mið af sjó þegar drangana ber saman.  Djúpmið: Háanes í Skápadal um Sandnes.  Sandhólar í sandbotni.