KOLLSVÍKURANNÁLL
Stiklur úr sögu Kollsvíkur og Rauðasandshrepps
Þættir úr byggðasögu Rauðasandshrepps; með megináherslu á Kollsvík. Heimilda er leitað hingað og þangað. Leitast er við að láta staðreyndir tala, en styttingar og ályktanir bera óhjákvæmilega merki skrásetjarans. Annállinn mun verða í smíðum og endurskoðun áfram og eru athugasemdir og viðbætur vel þegnar, t.d. á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Atriðisorðaskrá er að finna í niðurlagi annálsins, og þar er einnig von á heimildaskrá.
EFNI: (Unnt er að komast beint í efnisflokk með því að smella á tímabil)
865-1190 Landnám, fyrsta trúboð, fyrsta kirkjan, þjóðveldi, kristnitakan.
1191-1410 Róstur á Rauðasandi, Gvendur góði, skreiðarsala leggur grunn að verstöðvum, Láganúpsver.
1413-1550 Enska öldin, Bæjarveldið eflist, Sauðlauksdalur verður kirkjustaður, siðaskipti.
1551-1700 Eggert Hannesson, Magnús prúði, Baskavígin, Eggert Björnsson, hjáleigur, galdraöld.
1703-1788 Jarðabókin, séra Jón Ólafsson, Bjarni í Kollsvík, Guðrún ríka , Björn í Sauðlauksdal, einokun lýkur.
1797-1865 Einar í Kollsvík, þilskipaútgerð, Vatneyri eflist, hundadagar Jörundar, Mannskaðinn í Kollsvík.
1868-1882 Markús Sæbjörnsson, Sigurður Bachmann, tækninýjungar, hákarlaveiðar, Láganúpsver afleggst.
1882-1895 Saltfiskverkun, framfarir í tækni og búskap, Frakkar, farkennsla hefst, lóðafiskirí með kúfiskbeitu.
1896-1899 Séra Þorvaldur Jakobsson, Pétur J. Thorsteinsson, fyrsti togarinn.
1900-1907 Enskir í kálgörðum, Kollsvíkurver vex, þurrabúðir, uppgangur á Eyrum, hreppaskipting.
1908-1913 Pöntunarfél. Rauðasandshr, Umf Baldur og Von, Sparisj.Rhr, vatnsmyllur, fráfærur leggjast af.
1914-1930 Fyrra stríð, kolanám, Umf Vestri, vélar í báta, Croupier-strandið, Kollsvíkurver, gjaldþrot Pönt.fél.
1931-1940 Sláturfél. Örlygur, Bræðrabandið, Kaupf. Rauðasands, síminn, Umf Smári, Kollsvíkurver afleggs.
1940-1951 Uppbygging, dráttarvélar, lýðveldi, búð Gjögrum, jarðýtur, björgunarafrek, Sargon, vegir lengjast.
1952-1962 Ábúaskipti, Blakknesbardagi, skurðgröftur, sandgræðsla, Breiðavíkurheimilið, áætlunarflug.
1963-1973 Nýtt sláturhús, dísilvélar, bátskuml Vatnsdal, hrognkelsaveiðar, nýr barnaskóli, Össur oddviti.
1974-1993 Húsbygging, byggingafélag, ferðaþjónusta, ábúendaskipti víða, refarækt, endalok Örlygs.
1994- Hreppasameiningar, mikil fólksfækkun, búskap lokið í Kollsvík, skóli leggst af.
865-1190 Landnám, fyrsta trúboð, fyrsta kirkjan, þjóðveldi, kristnitakan.
Um 865
Flóki Vilgerðarson hefur vetursetu á Barðaströnd: Flóki Vilgerðarson (Hörða-Káradóttur) hefur haft vetursetu í Vatnsfirði (þar sem síðar nefndist Brjánslækur). Hann sigldi í fyrra frá Flókavörðu (á mörkum Rogalands og Hörðalands) og hafði með sér fjölskyldu sína og frændur því ætlunin var að setjast að í landi því nýja sem fundist hafði í vestri. Fyrst kom hann þó við á Hjaltlandi, en þar drukknaði dóttir hans. Einnig hafði hann viðkomu í Færeyjum, þar sem hann gifti aðra dóttur sína. Er hann hugði sig vera kominn í nánd við hið fyrirhugaða land sleppti hann þremur hröfnum sem meðferðis voru. Flaug einn í átt til Færeyja; annar sneri aftur en hinn þriðji fram um stafn, og var það horf tekið. Í Vatnsfirði slepptu þeir búsmalanum og lifðu af veiðum um sumarið. (Líklega hafa þeir veitt fisk úr Vatnsdalsvatni og e.t.v. einnig úr sjó. Líklegt er að á þessum tíma hafi verið geirfugl í skerjum og nesjum sem auðvelt var að ná. Rostungur og selur hafa verið á ströndum og má ætla að mikið af tímanum hafi farið í þær veiðar, enda voru tennur og húðir af rostungi verðmæt vara). Fór svo að um haustið hafði litlu sem engu verið aflað af heyjum og drapst allt kvikféð um veturinn. (Líklegra er þó að féð hafi týnst í skóginum og ekki náðst að hausti, nema að litlu leyti. Þá er rétt að hafa í huga að Flóki kom á einu skipi, svo varla hefur hann verið fjármargur). Sagt er að Flóki hafi gefið Íslandi nafn sitt er hann gekk upp á fell og sá fjörð fullan af ís. Flóki sigldi frá Vatnsfirði um vorið en beit eigi fyrir Reykjanes, svo hann hafði aðra vetursetu í Borgarfirði. Er til Noregs kom sögðu leiðangursmenn misjafnlega frá landgæðum. Flóki sneri aftur til Íslands eftir að landnám hófst og nam land við austanverðan Skagafjörð.
Fullyrða má að Flóki var ekki fyrstur manna hérlendis til að stunda veiðiskap. Landnáma greinir frá tveimur ferðalöngum á undan honum; Nadd-Oddi sem hafði numið land í Færeyjum en hrakti til Íslands og gekk á land en hafði ekki viðstöðu; og Garðari Svavarssyni sem sigldi umhverfis landið en; ótrúlegt nokk, steig ekki á land. Fornleifarannsóknir síðari ára hafa leitt líkur að því að veiðistöðvar hafi verið á Íslandi í nokkurn tíma fyrir landnám; a.m.k. á sunnanverðum Austfjörðum; í Höfnum og líklega í Vestmannaeyjum. Rannsóknir á rostungstönnum sýna að hérlendis var sérstök undirtegund rostunga sem líklega var útrýmt um landnámstímann. Mikil eftirspurn var eftir rostungstönnum og ekki síður húðum, sem notaðar voru í reiðabúnað og fleira, og spiklýsi sem notað var við skipasmíði o.fl. Líklega hefur það því verið rostungsveiði umfram annað sem fyrst hefur laðað menn hingað til lands.
Landnáma nefnir að papar hafi verið hér fyrir landnám. Ekki er ólíklegt að hér hafi verið einhverjir keltneskir munkar um tíma, en ólíklegt að hér hafi verið þétt byggð þeirra, eins og sumir álíta. Keltnesk örnefni stafa af því að margir landnámsmenn komu frá skosku eyjunum og Írlandi.
Um 872
Hafursfjarðarorrusta: Á þessum tíma (sumir telja 18.07.872; aðrir síðar) var (líklega) háð mikil sjóorrusta í Hafursfirði, skammt sunnan við Stafangur í Noregi. Þar barðist Haraldur hárfagri (Hálfdánarson hins svarta) við fjóra smákonunga og hafði sigur. Þar féll Eiríkur konungur af Hörðalandi, einnig Skúli konungur af Rogalandi ásamt Sóta jarli bróður sínum. Kjötvi hinn auðgi, konungur af Ögðum, flýði en Þórir haklangur sonur hans féll. Hróaldur hryggur og Haddur harði af Þelamörk lutu í lægra haldi. Þar særðist Þórólfur Kveldúlfsson, en hann var í liði Haraldar. Eftir orrustuna hafði Haraldur yfirráð í vestanverðum Noregi og var voldugasti konungur þar í landi. Að sögn Landnámabókar stukku þá margir höfðingjar af landi fyrir „ofríki Haraldar“ og námu land á Íslandi.
Ketill flatnefur og Suðureyjar: Eftir Hafursfjarðarorrustu fór Haraldur hárfagri í víking til Hjaltlands og Suðureyja og lagði þær undir sig. Hann var þó vart farinn þegar Írar, Skotar og víkingar reyndu að ná þeim aftur. Haraldur setti þá yfir eyjarnar Ketil flatnef Bjarnarson bunu Veðrargrímssonar; hersi úr Sogni. Kona Ketils var Yngvildur Ketilsdóttir og áttu þau synina Björn austræna og Helga bjólu og dæturnar Auði djúpúðgu og Þórunni hyrnu (sem varð kona Helga magra), en Ketill átti dótturina Jórunni manvitsbrekku. Bræður Ketils voru Helgi og Hrappur, faðir Örlygs fóstbróður Kolls.
Þessari stórfjölskyldu tókst, með liði sínu, að koma á friði á eyjunum og settist Ketill þar að. Má ætla að hann hafi keypt friðinn með loforðum um að fylgja skattheimtu Haraldar ekki eftir af hörku, enda þótti kóngi skatturinn skila sér illa. Kóngur reiddist og rak Björn son Ketils úr Noregi. Björn hélt til stórfjölskyldunnar og síðan til Íslands, þar sem hann nam land á Snæfellsnesi og sat í Bjarnarhöfn. Ketill og fjölskylda hans hélt til á Suðureyjum; líklega á stærstu eyjunni; Ljóðhúsum (Lewis), sem fjærst hinum fúla kóngi. Skotið er á fjölskyldufundi: Margir hyggja á landnám á Íslandi; þar myndi vera gott til búsetu. Fyrstur fer Ingólfur og nemur víð svæði á suðvesturhorninu; greinilega með það fyrir augum að helga stórfjölskyldu Ketils gott landrými. Á það svæði koma fljótlega fleiri fjölskyldumeðlimir; þar á meðal Helgi bjóla, Steinunn hin gamla og síðar bræðurnir Örlygur og Þórður skeggi Hrappssynir. Örlygur ákvað þó að mennta sig áður en hann kæmi til Íslands og fór, ásamt Kolli fóstbróður sínum, í hinn virta klausturskóla Kólumba á Iona. Spyrja má hvort upphafleg ráðagerð hafi verið sú að hann yrði síðan konungur í nýju kristnu ríki á hinni nýnumdu eyju? Það gæti skýrt þessa skólagöngu á Iona.
Nokkrar líkur benda til þess, líkt og Barði Friðriksson hefur rökstutt, að Ketill hafi verið mikils metinn í Suðureyjum í nokkurn tíma fyrir Hafursfjarðarorrustu. Má lesa það í þau ártöl sem heimildir eru um.
Ketill var forfaðir Kollsvíkinga: Ketill flatnefur var forfaðir Kollsvíkurættar, t.d. Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi (15.07.1879-01.10.1970) í 28. lið skv Ísl.bók.
Eru ættliðirnir þessir: Ketill flatnefur Bjarnarson (og Yngveldur Ketilsdóttir) → Þórunn hyrna Ketilsdóttir (og Helgi magri) → Ingunn Helgadóttir (og Hámundur heljarskinn Hjörsson) → Þórir Hámundarson (ók.maki) → Þorvaldur krókur Þórisson (ók.maki) → Ketill Þorvaldsson (ók.maki) → Einar Ketilsson (ók.maki) → Þorsteinn ranglátur Ketilsson (og Steinunn Bergsdóttir) → séra Grundar-Ketill Þorsteinsson (og Álfheiður Þorleifsdóttir) → séra Þorlákur Ketilsson (og Guðlaug Eyjólfsdóttir) → Valgerður Ketilsdóttir (og séra Narfi Snorrason) → Snorri Narfason (og Þóra) → Ormur lögmaður Snorrason (og Ólöf) → Guðmundur sýslumaður Ormsson (ók.maki) → Þorbjörg Guðmundsdóttir (og Guðni Oddsson) → Kristín Guðnadóttir (og Jón sýslumaður Ásgeirsson) → Ormur sýslumaður Jónsson (og Ingibjörg Eiríksdóttir) → Kristín Ormsdóttir Saurbæ (og Erlingur sýslumaður Gíslason) → Ormur Erlingsson (og Valgerður Brandsdóttir) → Þorsteinn Ormsson, Stökkum (og Guðný Magnúsdóttir) → Sigríður Þorsteinsdóttir Keflavík (og Jón Svartsson) → Hergerður Jónsdóttir Tungu (og Jón eldri Guðmundsson) → Guðmundur Jónsson Tungu (ók.maki) → Jón Guðmundsson Botni (og Hólmfríður Ólafsdóttir) → Guðrún Jónsdóttir Kollsvík (og Einar Jónsson ættfaðir Kollsvíkurættar) → Halldór Kolvig Einarsson Kollsvík (og Ingveldur Þorgrímsdóttir) → Anna Magðalena Guðrún Halldórsdóttir Kollsvík (og Guðbjartur Ólafsson Kollsvík) → Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir Láganúpi.
Um 874
Ingólfur Arnarson gerir fyrsta landnám á Íslandi: Ingólfur Arnarson (Björnólfssonar) kom í annað sinn út til Íslands frá Noregi þetta sumar (eða e.t.v. fyrr) ásamt Leifi Hróðmarssyni fóstbróður sínum (og frænda), sem nefndur er Hjör-Leifur og er giftur Helgu Arnardóttur systur Ingólfs. Hafði Ingólfur verið útlægur ger frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki. (Ingólfur hafði vetursetu í Ingólfshöfða í fyrstu, en flutti til Reykjavíkur, að sögn eftir að þrælar hans fundu öndvegissúlur hans reknar undir Arnarhóli, þremur árum eftir komuna til landsins. Ingólfur nam land útfrá Reykjavíki; frá Ölfusá til Hvalfjarðar og „öll nes út“. Kona hans var Hallveig Fróðadóttir og áttu þau soninn Þorstein.
Hjörleifur tók land í Hjörleifshöfða; gerði þar skála tvo og hafði vetursetu. Þrælar hans drápu hann en voru síðar vegnir af Ingólfi.
Ingólfur Arnarson var meðal forfeðra Guðrúnar Jónsdóttur, konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. Ingólfur er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 29. lið. Ættleggurinn kemur í Rauðasandshrepp er Kristín Ormsdóttir (um 1482-1555) giftist Erlingi Gíslasyni sýslumanni í Saurbæ.
Ármóður rauði og Geirleifur: Ármóður hinn rauði Þorbjarnarson og fóstbróðir hans Geirleifur Eiríksson komu út um þetta leyti (líklega; jafnvel fyrr). Ármóður nam Rauðasand (því gat Þórólfur spörr ekki numið það svæði) en Geirleifur nam Barðaströnd.
Líklegt er, í ljósi rannsókna á íslandsrostungi, að þeir hafi komið hingað beinlínis í þeim tilgangi að veiða rostung, en tennur, lýsi og húðir hans voru í háu verði. Mikið er um skel undan báðum svæðumum, sem er fæða rostungs. Fréttir af veiðilendum gætu þeir hafa fengið hjá Hrafna-Flóka og hans mönnum. Geirleifur kann að hafa nýtt íveruhús þeirra.
Ekkert er vitað um ættir Ármóðs rauða, fremur en ættir Kolls. En Geirleifur var forfaðir Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar í Kollsvík, sem Kollvíkurætt er rakin frá. Geirleifur er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 28.lið, skv. Ísl.bók.
Um 880
Fyrsta sjóslysið í Kollsvík; landnám Kolls: Landnámabók greinir frá fyrsta sjóslysi við Íslandsstrendur þar sem mannbjörg varð. Þar segir af fóstbræðrunum Kolli og Örlygi Hrappssyni sem verið höfðu í fóstri hjá Patreki biskupi í Suðureyjum (Federach mac Cormaic, sem var ábóti Iona 865-880). Þeir ákveða að fara til trúboðs á Íslandi og þáðu góð ráð og gripi hjá Patreki. Þeir ætluðu á Kjalarnes, í landnám Ingólfs frænda Örlygs, en hröktust vestur fyrir Látrabjarg. Örlygur bjargaðist inn á Patreksfjörð og hafði vetursetu í Örlygshöfn áður en hann hélt til frænda sinna. Kollur lenti í skipbroti á Arnarboða; um 100 metrum framanvið Grundafjöru í Kollsvík. Ekki er sagt frá tildrögum þess en ætla má að hann hafi snúið frá Blakknesröstinni og verið að leita lendingar í Kollsvík er slysið varð. Arnarboði er sagður heita eftir Erni, sem hafi verið „stýrimaður“ Kolls. Ekki er vitað um aðra í áhöfn Kolls eða hve mikið af henni bjargaðist auk hans, en e.t.v. mætti ætla að þess væri getið í frásögn Landnámu ef manntjón hefði orðið. Af einni útgáfu Landnámu má ráða að á skipi Kolls hafi verið landnámsmennirnir Þórólfur spörr; Þorbjörn tálkni og bróðir hans Þorbjörn skúma. Þeir nema stór svæði, en Kollur lét sér nægja Kollsvíkina eina; minnsta landnám Íslands. Kann það annaðhvort að stafa af nægjusemi hans sem trúboða eða því að hinir hafi átt meira í knerri þeim sem þarna eyðilagðist. Fyrsta verk skipbrotsmanna hefur verið að koma sér upp húsaskjóli og huga að mataröflun. Ætla má að búsældarlegt hafi þeim þótt í Kollsvík. Fuglar hafa verið gæfir og líklega hægast að ná ófleygum geirfugli. Rostungur og selur var á fjörum og e.t.v. nothæfur hvalreki. Gnægð rekaviðar til bygginga og kjarr til eldiviðar, auk annarra hlunninda. Eftirbátur kann að hafa bjargast, og fljótlega hafa landnámsmenn nýtt sér hin gjöfulu fiskimið við landsteinana. Hér á eftir verður fjallað lítillega um uppruna þeirra og aðdraganda ferðarinnar.
Kollsvík við komu Kolls: Engar sögur fara af mannaferðum í Kollsvík áður en Kollur og skipverjar hans svömluðu þar á land af brotnum knerri. Við landnám var loftslag tiltölulega hlýtt miðað við það sem nú (2020) er. Það hafði þó farið kólnandi frá upphafi járnaldar fyrir 2500 árum. Skógar voru allmiklu meiri en nú er, en höfðu þó stórum minnkað og voru í hnignun. Þrjár trjátegundir uxu hér; birki, reynir og blæösp, en einnig runnarnir gulvíðir, fjalldrapi og einir. Í Kollsvík hefur skógur efalítið verið nokkuð þéttur norðantil í víkinni; milli Búðalækjar, Sandahlíðar, Urða, Hæðar og e.t.d. nokkuð yfireftir Holtum og Mýrum. Handantil í víkinni hefur norðanstrengurinn fyrir Blakkinn séð til þess að halda gróðri niðri; jafnt þá sem nú. Þar hefur e.t.v. verið svipað um að litast og nú er; uppblásin melaskörð neðra en gróður undir Hjöllunum; líklega birkikjarr. Fjalldrapi, einir og lyng hefur líklega náð niður undir sjó á Brunnsbrekku og Grundum. Landslag og strandlína hefur sennilega lítið breyst frá landnámi, en sandur er mjög breytilegur á fjörum. Villt dýralíf hefur verið líkt og nú er, að því frátöldu að enginn var minkurinn; tófan grenjaði sig víða í víkinni og fuglalíf var líklega fjölskrúðugra í kjarrinu og votlendinu en síðar varð. Nokkur atriði voru þó ólík: Tvær dýrategundir voru þá líklega algengar við strendur sem nú eru aldauða. Önnur þeirra er geirfuglinn. Útbreiðsla hans á landnámstíð er óþekkt. Beinaleifar hafa einungis fundist í öskuhaugum á suðvesturhorni landsins og í Vesmannaeyjum, en ástæðulaust er að ætla að hann hafi ekki verið víðar þar sem lífsskilyrði voru. Fuglinn er auðveiddur og var honum því örugglega fljótt útrýmt á öllum aðgengilegum stöðum. Hin dýrategundin er íslandsrostungur, en greiningar á síðustu árum benda til að hér hafi verið sérstakur stofn rostunga sem útrýmt var fljótlega eftir landnám. Uppáhaldsfæða rostungs er skelfiskur og því hefur verið mikið kjörlendi rostungs í Útvíkum; á Rauðasandi og á Barðaströnd. Má ætla að allmargir gæfir rostungar og selir hafi legið á fjörum. Þar voru einnig hrannir rekaviðar af öllu tagi, auk beinagrinda af hvölum; jafnvel nýlega dauður hvalur. Bjargfugl hefur líklega orpið í Blakk; Hnífum og Breið. Álka, langvía, nefskeri og lundi, sbr örnefnin Kofuhellir og Álkuskúti í Hnífum sem bæði hafa misst sína nafngjafa. Fiskur við strendur hefur líklega verið meiri en nú, enda ekki hafið stórfellt afrán manna.
Uppruni Kolls og Örlygs: Ekkert er vitað um ætt eða uppruna Kolls, annað en það sem ráða má af líkum. Örlygur Hrappsson fóstbróðir hans var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu Veðrargrímssonar. Ingólfur Arnarson var einnig kominn af Birni bunu í fjórða lið. Voru þeir því náfrændur Örlygur og Ingólfur. Hrappur var bróðir Ketils Flatnefs, en sonur Ketils var Helgi bjóla. Tildrög ferðar Örlygs og Kolls voru þessi: Margir höfðingjar flúðu Noreg er Haraldur konungur stækkaði veldi sitt, og settust margir að á Suðureyjum og Orkneyjum, þaðan sem þeir herjuðu þeir á ríki Haralds. Konungur fékk Ketil flatnef til að fara fyrir her sem hann bjó til að kúska þennan óróalýð (sjá hér framar). Ketill varð vel við þeim tilmælum kóngs. Hann háði nokkrar orrustur og stillti þannig til friðar. Hann lagði undir sig Suðureyjar og settist þar að; gerðist höfðingi og mægðist við heimamenn. Herinn sendi hann heim. Haraldi þótti það nokkur landráð, auk þess sem honum þótti illa skila sér skattar af eyjunum; hann gerði því upptækar eigur Ketils í Noregi og flæmdi burt Björn son Ketils. Líkur eru til að Örlygur hafi verið á Suðureyjum hjá Katli flatnef, föðurbróður sínum; líkt og annað fjölmennt skyldulið Ketils. Ekki er ólíklegt að þar hafi Kollur einnig verið, og að þar hafi þeir gengið undir jarðarmen (svarist í fóstbræðralag). Óvíst er hvort Kollur var skyldur Örlygi; a.m.k. flutti hann ekki með honum í frændgarðinn á Kjalarnesi við komuna til Íslands. Mætti því e.t.v. álykta að hann hafi annaðhvort verið Norðmaður í liði Ketils eða íbúi á Suðureyjum; norskur eða gelískur. Ekki er heldur ljóst hvar á Suðureyjum þeir voru, en þar kemur Lewis-eyja sterklega til greina; stærsta eyja Suðureyja og fjærst Haraldi kóngi og reiði hans. Þar er aragrúi norrænna örnefna, þar á meðal Col-Uaragh (Kollkrókur/ Kollsvík); Col (Kollur); Breibhig (Breiðavík); Tunga (Tunga); Ness (Nes); Labost (Lágabólstaður); Kirkibost (Kirkjubólstaður); Islibhig (Íslendingavík) o.fl.
Ættfaðir síðari Kollsvíkinga: Örlygur Hrappsson var meðal forfeðra Guðrúnar Jónsdóttur, konu Einars Jónssonar (1756-1836), en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. (Örlygur er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 30. lið). Ekki er ólíklegt að þeir Örlygur og Kollur hafi verið skyldir, en hafi svo verið eru miklar líkur á að Kollsvík hafi verið í eigu sömu ættar frá landnámi, í 1140 ár, þó e.t.v. með stuttum hléum.
Háskólamenntaðir trúboðar frá Iona: Margt af fólki Ketils flatnefs var kristinnar trúar, t.d. börn hans öll nema Björn austræni; þau Auður djúpúðga; Jórunnn manvitsbrekka; Þórunn hyrna og Helgi bjóla. Líklega hafa þeir Örlygur og Kollur einnig verið kristnir. Svo mikið er víst að þeir fóru í æðsta skóla sem þá starfaði á Vesturlöndum; Kólumbusarklaustrið á Iona; Eyjunni helgu (Icolmkill). Það var stofnað af heilögum Kólumbusi (Columbkille; 521-597) sem kristnaði Skotland og skosku eyjarnar. Til klaustursins streymdu á þeim tíma fjöldi pílagríma og fróðleiksþyrstra höfðingjasona. Þar var á þessum tíma merkasta bókasafn í heimi og þar hvílir Hallfreður vandræðaskáld í félagsskap 48 Skotakónga; 4 Írakónga og 8 konunga norrænna. Við klausturrústirnar má enn (2020) sjá hinn mikla keltneska steinkross sem þar var uppi á námsárum Kolls og Örlygs. Þarna settust þeir fóstbræður á skólabekk. Landnáma segir að Örlygur hafi verið „að fóstri hjá Patreki biskupi“. Þeir hafa þá líklega verið þar meðan klaustrið var undir stjórn ábótans Federach mac Cormaigh frá 865, en hann lést 880. Í klaustrinu hafa þeir efalítið numið m.a. tungumál, stærðfræði, stjörnuspeki, lækningar, mælskulist og annað; auk kristinna fræða hinnar gelísku kirkju.
Þar kemur að þeir hyggja á ferð til Íslands, en þangað höfðu margir ættmenn Örlygs farið, t.d. Ingólfur Arnarson og Helgi bjóla frændi þeirra, sem settist að í landnámi Ingólfs; auk Þórðar skeggja, bróður Örlygs og síðar nágranna. Um það semst við Federach ábóta að þeir fái meðferðis efni til kirkjubygginga og messuhalds; enda verði ferðin nýtt til að viðhalda og auka útbreiðslu kristni í þessu nýja landnámi. Ábóti fer einnig yfir siglingafræðina með þeim og er ferðinni heitið á Kjalarnes, í landnám Ingólfs. Á leiðinni hrepptu þeir hinsvegar óveður og hröktust vestur fyrir Látrabjarg, eins og frá er sagt hér í upphafi.
Reis fyrsta kirkja landsins í Kollsvík? Kollur og Örlygur voru sinn á hvoru skipi. Líklegt er að kirkjuviðum ábótans hafi verið jafnað niður á skipin og að kirkjuklukkan (járnklokkan) hafi verið á skipi Kolls. Líklegt er einnig að kirkjuviðnum úr strönduðu skipi Kolls hafi verið bjargað á land. Þar hafi klukkan e.t.v. tapast í fjörunni í hamaganginum, en síðar fundist aftur í þaranum. Kollur býr um sig til bráðabirgða með stórsegli skipsins. Sagt var að Örlygur hafi haft vetursetu í Örlygshöfn, en líklegra er að hann hafi þar ráðið skipi sínu til hrófs í mynni Hafnarvaðalsins (á Hrófeyri?) en haft vetursetu hjá Kolli í Kollsvík. Þar verður að ráði að um vorið muni Örlygur halda suður til sinna skyldmenna og reisa kirkju í landnámi Ingólfs frænda síns og Þórðar skeggja bróður síns, en Kollur muni setjast að í Kollsvík og skipverjar þeirra nema svæðið í kring. Þarna væru jú landkostir góðir. Þeir hjálpast síðan að við byggingar fyrstu húsa í Kollsvík; íbúðar- og gripahúsa, en einnig lítillar kirkju. Minna má það ekki vera að Kollur þakki þannig guði sínum og verndardýrðlingum björgunina. Örlygur heldur suður um vorið og fær landrými hjá frænda sínum Helga bjólu, sem byggt hafði Kjalarnesið út úr landnámí Ingólfs frænda þeirra. Örlygur byggir bú og reisir kirkju að Esjubergi. Í kirkjuna setur hann járnklukkuna frá ábótanum, sem fundist hafði í Grundafjöru árið áður.
Þegar svo Ari fróði sest niður við ritun Landnámu eru meira en þrjár aldir liðnar frá þessum viðburðum. Ari var vel að sér um margt en augljóst er að hann hefur leitað til heimildarmanna um annað. Varðandi landnámin vestra er honum nærtækast að leita upplýsinga hjá afkomendum Örlygs, sem orðnir eru fjölmennir. Meðal þeirra lifa eflaust sögur um forföðurinn og líklega hefur frægðarljómi hans heldur aukist í minningunni; Ingólfsætt var jú enn ein virtasta ætt landsins. Þeir vilja auðvitað fremur halda því á lofti að Örlygur hafi reist fyrstu kirkjuna en Kollur; óþarft er að geta hans að miklu. Hafði hann ekki tautað ljótt í Blakknesröstinni forðum? Sögur lifðu um að fyrsta kirkjuklukka landsins hafði fundist í þarabrúki. En Örlygsniðjar kunnu skil á því. Klukkan hafði hrokkið fyrir borð úti á Faxaflóa en fyrir kraftaverk fannst hún rekin í þarabrúki í Saltvík. Þar með var búið að ritskoða Koll út úr kirkjusögu landsins.
Framangreind atburðarás er um margt byggð á líkum og hugleiðingum skrásetjara, enda er atvikalýsing Landnámu nokkuð fátækleg. Margt er þó sem styður þessar tilgátur ef grannt er skoðað. Fornleifarannsóknir munu verða hinn endanlegi dómari.
Útgerð Kolls: Vart leikur vafi á því að fyrsti landnámsmaðurinn leitast við að nýta sjávargagn eftir því sem honum er kostur, auk þess að veiða geirfugl og bjargfugl sér til matar og stunda rostungs- og selveiði eftir föngum. Eftirbátur knarrarins kann að hafa bjargast; ellegar að hann hafi fengið eftirbát Örlygs fóstbróður síns er hann fór suður. Eftirbátar eru taldir hafa verið á stærð við teinæringa, og hafa því þurft marga til setningar. Áhersla hefur því verið lögð á smíði meðfærilegri báts úr tiltækum rekaviði og e.t.v. braki knarrarins. Verkfæri kunna að hafa tapast á Arnarboða en verið fengin hjá Örlygi, ásamt krókum og færum. Svo vill til að árið 1964 fannst bátur frá landnámsöld í kumli í Vatnsdal, en í honum höfðu nokkrar manneskjur verið heygðar (sjá 1964). Munir bentu bæði til heiðins og kristins tíma. Báturinn var líklega um 6 metra langur en mjór; úr barrviði. Vaðbeygjur bentu til að fiskað hafi verið við fast, en gætu einnig hafa nýst við t.d. rostungs- og hvalveiðar, hafi þetta verið vöðubátur. Ekki er víst að þessi tiltekni bátur hafi róið úr Kollsvík, en hann gæti gefið hugmynd um fyrstu báta þar. Mjög stutt er á mið og unnt að velja sér sjóveður til fiskjar þegar fuglveiði er næg í landi. Vafalítið hefur Kollur fljótt áttað sig á að besta uppsátrið er í Kollsvíkurveri. Vera má að rauðmagi hafi verið stunginn í pollum á Breiðaskerinu. Til þess mátti nota t.d. lagspjót. Fiskhlaup/landgangur hefur ekki komið á land í Kollsvík í manna minnum, en kann að hafa verið algengara þegar meira var um fisk. Vafalaust hefur aflinn verið hertur til geymslu; á renglum eða hlöðnum görðum. Lítið verður fullyrt um þann mannskap sem Kollur hafði sér til aðstoðar við útgerð og önnur umsvif. En ætla má að hann hafi, a.m.k. í upphafi, notið aðstoðar Þórólfs sparrar og þeirra Böðvarssona; Þorbjarna tveggja, áður en þeir hófu sjálfir að nema land og byggja eigin bæi. Einnig Örlygs fóstbróður síns áður en hann fór á Kjalarnes. Veiðarfærin á þessum tíma voru einkum handfæri með króki, en ákvæði í hinni fornu lögbók Grágás bendir til þess að net hafi þekkst á þjóðveldisöld. Enda eru netlög jarða ævaforn réttur. Net voru síðar kynnt hérlendis sem nýjung (Sjá 1753). Smáir hvalir voru veiddir með skutlum; e.t.v. einnig rostungar og selir, en líklegra er að þeir hafi verið drepnir á landi með lagvopnum meðan látur voru algeng.
Samferðamenn Kolls voru forfeður Kollsvíkinga: Þrír nafngreindir landnámsmenn komu út með Kolli og Örlygi; Þórólfur spörr sem nam land allt vestan Patreksfjarðar nema Kollsvík og Rauðasand, og settist að á Hvallátrum. Einnig bræður tveir og nafnar; synir Böðvars blöðruskalla; Þorbjörn skúma og Þorbjörn Tálkni sem námu lönd þar norður af; í Tálknafirði og síðar Arnarfirði (Ketill ilbreiður, sonur Þorbjarnar Tálkna). Svo vill til að þeir eru allir forfeður síðustu ábúenda í Kollsvík (Ísl.bók).
Örlygur: Ættrakning er þessi: Örlygur „gamli“ Hrappsson (850) Ísgerður Þormóðardóttir (870) Vélaug Örlygsdóttir (890) Þuríður „dylla“ Gunnlaugsdóttir (925) Illugi „svarti“ Hallkelsson (955) Hermundur Illugason (980) Ormur Hermundarson (1010) Koðrán Ormsson (1050) Herdís Koðránsdóttir (1110) Álfheiður Þorleifsdóttir (1147) Þorlákur Ketilsson (1165) - 1240 Ketill Þorláksson (1200) - 1273 Valgerður Ketilsdóttir (1230) Snorri Narfason um 1260 - 1332→ Ormur Snorrason (1320) – e.1401 → Guðmundur Ormsson um 1360 – 1388 → Þorbjörg Guðmundsdóttir (1385) - 1431→ Kristín Guðnadóttir (1410) – e.1490 → Ormur Jónsson (1450) - um 1505 → Kristín Ormsdóttir (1482) – e.1554 → Ormur Erlingsson (1525) – e.1581 → Þorsteinn Ormsson (1555) → Sigríður Þorsteinsdóttir (1600) → Hergerður Jónsdóttir 1641 → Guðmundur Jónsson 1683 → Jón Guðmundsson 1720 - 1777 → Guðrún Jónsdóttir 1756 - 1836 → Halldór Kolsvig Einarsson 1795 - 1855 → Anna Magdalena Guðrún Halldórsdóttir 1834 - 1897 → Guðbjartur Guðbjartsson 1879 - 1970 → Össur Guðmundur Guðbjartsson 1927 - 1999 → Valdimar Össurarson 1956, sem er 30.ættliður.
Þórólfur spörr. Ættrakning er þessi: Þórólfur „spörr“ (870?) → Einar Nesja-Knjúksson (930) → Steinólfur „birtingur“ Einarsson (970) → Salgerður Steinólfsdóttir (1010) → Bárður „svarti“ Atlason (1050) → Snorri Bárðarson (1111) → Tófa Snorradóttir (1143) → Sæunn Tófudóttir (1175) → Narfi Snorrason um 1210 - 1284 → Snorri Narfason um 1260 - 1332 (eftir það sama og frá Örlygi).
Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma: Ættrakning er þessi: Þorbjörn „tálkni“ Böðvarsson (840) → Ketill „ilbreiður“ Þorbjarnarson (860) → Þórarna Ketilsdóttir (880) → Þorkatla Hergilsdóttir (910) → Ari Másson (940) → Þorgils Arason (970) → Valgerður Þorgilsdóttir (1015) → Þorgils Gellisson (1030) – 1074 → Húnbogi Þorgilsson (1070) → Snorri Húnbogason (1100) – 1170 → Narfi Snorrason um 1135 – 1202 → Snorri Narfason um 1175 - 1260 → Narfi Snorrason um 1210 – 1284 Snorri Narfason um 1260 - 1332. (eftir það sama og frá Örlygi).
Kollur: Engin deili eru sögð á honum í heimildum önnur en að hann var fóstbróðir Örlygs. Freistandi er að ætla að hann sé annaðhvort venslaður hinum eða hafi haft sérþekkingu; t.d. í trúmálum. Var það e.t.v. Kollur sem kristnaði Ketil flatnef og ættmenni hans, og þar með flesta kristna landnámsmenn Íslands ? Var það að hans frumkvæði að þeir Örlygur fóru til Iona-klausturs ? Var Kollur kristinn einsetumaður í sínu litla landnámi eða er þögnin um hann af síðari pólitískum toga ? Þessum og þvílíkum spurningum má velta upp, en djúpt er á svörum.
890
Auður djúpúðga Ketilsdóttir nemur Dalalönd: Auður er dóttir Ketils flatnefs Bjarnarsonar bunu, og voru þau því bræðrabörn; hún og Örlygur Hrappsson; náskyld Ingólfi Arnarsyni. Bræður Auðar voru Björn austræni og Helgi bjóla, en systur Þórunn hyrna (kona Helga magra) og Jórunn mannvitsbrekka. Eiginmaður Auðar var Ólafur hvíti; konungur í Dyflini á Írlandi. Ólafur féll í orrustu, en sonur þeirra; Þorsteinn rauður, herjaði á Skotland og varð þar konungur um tíma en féll í Katanesi. Auður lét gera sér knörr og hélt til Íslands með mikið lið og mikinn auð; „afbragð annarra kvenna“ eins og segir í Laxdælu. Hafði hún viðkomu í Orkneyjum og gifti þar sonardóttur sína, en af henni komu Orkneyjajarlar; og staldraði einnig við í Færeyjum og gifti aðra sonardóttur; af henni komu Götuskeggjar. Auður nam víð lönd í Dölum og settist að í Hvammi, en gaf liði sínu og leysingjum lönd. Auður var kristin og þegar hún andaðist var hún grafin í flæðarmálinu þar sem hún vildi ekki liggja í óvígðri mold. (Vilborg Davíðsdóttir, ættuð úr Kollsvík, hefur ritað skáldsöguna Auði, sem byggð er á ævi þessarar merku konu).
Auður Djúpúðga var formóðir Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar í Kollsvík, sem Kollvíkurætt er rakin frá. Auður er þannig formóðir VÖ skrásetjara í 31.lið, skv. Íslbók.
930
Alþingi stofnað og íslenskt þjóðveldi skipulagt: Landið má nú heita fullnumið. Hingað hafa streymt landámsmenn úr hinum ýmsu stöðum norræns veldis; einkum frá Noregi, Orkneyjum og Suðureyjum, en til þessa hafa menn bjargast við lög og þjóðskipulag sinna upprunastaða. Þykir mörgum nauðsyn á að allir búi við sama rétt. Úlfljótur landnámsmaður í Lóni hefur, ásamt Grími geitskör fóstbróður sínum, unnið ötullega að undirbúningi þessa. Úlfljótur hefur verið í Noregi um tíma og kynnt sér lög í samráði við einn mesta lögspeking þar í landi; Þorleif spaka Hörða-Kárason, móðurbróður sinn. En Grímur hefur farið um landið til að kynna þörf á lagasetningu. Allsherjarþingi þessarar nýju þjóðar hefur verið valinn staður við Öxará, í landnámi Ingólfsættar sem er voldug og virt. Á hinu fyrsta Alþingi sagði Úlfljótur upp hin nýju lög, sem um margt byggja á norskum Gulaþingslögum.
Allsherjarþing var við lýði 930-1271 og var æðsta vald í löggjöf og dómsmálum fram að Gamla sáttmáa 1262. Þing stóð í 2 vikur. Lögrétta var æðsta stofnun þingsins en Lögberg var miðstöð þinghalds. Goðar fóru með framkvæmdavald, en dómsvald var í höndum dóma. Goðum var skylt að sækja þing og gátu hvatt með sér níunda hvern þingfararkaupsbónda í þingi sínu. Landinu var skipt í fjórðunga og voru fjórðungsþing háð í hverjum. Í Vestfirðingafjórðungi var vorþing háð á Þorskafjarðarþingi 4-7 daga. Þangað komu goðar og þangað voru bændur og landeigendur skyldugir að mæta. Þar voru kveðnir upp fjórðungsdómar. Á heimleið sinni frá Alþingi héldu goðar leiðarþing.
975
Hallæri og óöld í landinu: Hallæri gengur nú yfir landið, ásamt óöld sem af því leiðir. Margir hafa látist úr hungri, en einnig herma sögur að sumir húsráðendur hafi drepið ómaga og gamalmenni til að auðvelda hinum yngri lífsbaráttuna. Stuldur var algengur og var þá í lög tekið að hver sakamaður sem dræpi aðra þrjá seka, frelsaði með því sjálfan sig.
Rannsóknir á síðari tímum sýna að veðurfar var kólnandi í landinu þegar á landnámstíð, og þegar hér kom sögu gátu komið harðir vetur. Þeim átti eftir að fjölga síðar, t.d. á „litlu ísöld“ sem hófst fyrir alvöru eftir 1300 og náði fram á 19. öld. Líkt og í öðrum hallærum má ætla að íbúar við sjávarsíðuna hafi átt meiri möguleika til afkomu. Við skoðun á annálum virðist sem íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hafi yfirleitt sloppið betur frá hallærum en aðrir landshlutar; hvort sem þau stöfuðu af kuldum, jarðskjálfrum, eldgosum, farsóttum eða ófriði.
990
Egill Skallagrímsson andast: Egill Skallagrímsson bóndi og skáld á Borg í Borgarfirði er látinn; áttræður að aldri. Hann var í seinni tíð einn virtasti höfðingi landsins og líklega öflugasti bardagakappi sem sögur fara af, þó ekki þættu bardagaaðferðir hans og hegðun alltaf til fyrirmyndar. T.d. varð hann manns bani sjö ára vegna ósættis í leik. Hann lenti í bardögum í Noregi er hann hugðist leita réttar síns og konu sinnar; eignaðist þar vini og óvini. Hann barðist sem málaliði í þjónustu konunga á Englandi. Skáld var Egill afbragðsgott og lifir skáldskapur hans lengst allra íslenskra listaverka. Þannig barg hann höfði sínu í viðskiptum við Eirík konung blóðöx og orti frá sér sorg við sonarmissi. Egill var grafinn að Mosfelli, en þar hafði hann dvalist um tíma hjá Þórdísi Þórólfsdóttur bróðurdóttur sinni.
Deilt er um hvort Egils saga Skallagrímssonar sé skáldskapur eða frásögn, en höfundur hennar er gjarnan talinn Snorri Sturluson. Egill er talinn meðal forfeðra Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. Egill er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 28. lið.
1000
Rómversk kristni lögfest á Íslandi: Samþykkt hefur verið á Alþingi að Íslendingar skuli allir játa kristna trú. Reyndar er mikill hluti þjóðarinnar þegar kristinn, en með þessu verður nokkur eðlismunur á. Fyrri kristni var keltnesk kristni, sem var ríkjandi á Írlandi og skosku eyjunum sem margir landnámsmenn komu frá. Með kristnitökunni gangast Íslendingar undir hina rómversk-kaþólsku kirkjuskipan og þar með páfavald. Þeir sem enn vilja halda í hinn gamla „heiðna“ sið mega gera það; svo lengi sem þeir í orði kveðnu eru kristnir; sækja kristnar messur og fara ekki hátt með sína goðadýrkun.
Eins og hér að framan var hugleitt eru miklar líkur á að Kollur hafi verið kristinn og hafi fljótt komið upp keltneskri kirkju í Kollsvík. Ekki er heldur fráleitt að ætla að skipverjar þeirra Örlygs, og þar með landnámsmenn í Rauðasandshreppi og nágrenni, hafi einnig verið kristnir. Vart hefðu kristnir trúboðar valið sér heiðingja í áhöfn. Því má ætla að þetta landshorn hafi verið kristið frá upphafi, og jafnvel lengur en nokkur annar jafnstór landshluti. (Lúðvík Kristjánsson kemst að þeirri niðurstöðu (Ísl.sjávarhættir) að hvergi hafi það tíðkast lengur en í Útvíkum að biðja sjóferðabæn þegar farið var í róður. Sá siður er enn í heiðri hafður í Kollsvík, og er ekki að efa að hann hefur tíðkast á dögum Kolls, fyrir 1140 árum).
Líklegt er að um siðaskiptin komist á fót höfuðkirkja Rauðasandshrepps í Saurbæ, en það kann að hafa gerst fyrr. Einhversstaðar þurfti að grafa þá sem létust og syngja yfir þeim. Graftarkirkja er komin í Saurbæ all löngu fyrir 1196 (sjá þar) og í kirkjugarðinum í Kollsvík kann að hafa verið jarðað frá upphafi byggðar. Bærinn nefndist reyndar Kirkjuból til forna og þar hafði fyrsti kristni trúboðinn sest að. Ætla má að um siðaskiptin hafi sú breyting orðið á að hin keltneska kirkja sem Kollur stofnaði í Kollsvík hafi breyst í þá kaþólsku hálfkirkju sem þar var framundir siðaskipti, en kirkjan í Bæ hafi orðið höfuðkirkja hreppsins í hinum nýja rómversk-kaþólska kirkjusið.
Jafnframt voru fljótlega reist bænhús nánast á hverri jörð, m.a. vegna þeirra ákvæða tíundarlaga (1097) að bænhúsaeignir væru undanþegnar tíundarskatti. Mikill skortur var þó á prestum á fyrstu tímum kristni og því hefur þjónusta líklega ekki verið mikil í öllum þessum guðshúsum.
Kristnitökuleiðtogar forfeður Kollsvíkurættar: Forystumenn gagnstæðra fylkinga við kristnitökuna voru beinir forfeður Kollsvíkurættar; forfeður Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. (Þorgeir ljósvetningagoði er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 28. lið, Síðu-Hallur í 26.lið, Hjalti Skeggjason í 27. lið en Gissur hvíti í 26. lið; skv Ísl.bók).
Þorgeir Þorkelsson ljósvetningagoði fæddist um 940 en óvíst er um dánarár. Hann bjó á Ljósavatni og var lögsögumaður Alþingis frá 985 til 1001. Hann hélt til hinnar norrænu trúar og var forystumaður heiðinna manna á Alþingi árið 1000, en Síðu-Hallur fór fyrir kristnum. Þorgeiri var falið að úrskurða hvorn siðinn þjóðin skyldi hafa og er sagt að hann hafi legið undir feldi nokkurn tíma áður en hann kvað upp úrskurð sinn (sjá ofan). Munnmæli segja að hann hafi, heimkominn eftir úrskurðinn, varpað goðastyttum sínum í foss þann sem síðan heitir Goðafoss. (Líklegra er að fossinn dragi nafn af klettum sem í honum standa).
Síðu-Hallur Þorsteinsson bjó á Hofi í Álftafirði og síðar Þvottá. Hann var goðorðsmaður og höfðingi; kominn af Hrollaugi Rögnvaldssyni landnámsmanni; Mærajarls. Hallur var skírður til kristni af Þangbrandi trúboða, ásamt sínu fólki og mörgum öðrum.
Hjalti Skeggjason bjó í Þjórsárdal; kominn af Katli einhenda Auðunssyni, landnámsmanni á Á á Rangárvöllum; giftur Vilborgu, dóttur Gissurar hvíta og skírður af Þangbrandi. Lenti hann í deilum um trú sína, t.d. við Runólf í Dal og kvað þá m.a.: „Vil eg ei goð geyja; grey þykir mér Freyja“. Var Hjalti dæmdur fjörbaugsmaður fyrir goðgá og leitaði á fund Ólafs konungs Tryggvasonar til að rétta mál sitt. Sigldi þá á skipi sem hann hafði látið smíða í Þjórsárdal.
Gissur hvíti Teitsson var goðorðsmaður og höfðingi; ættfaðir fyrstu íslensku biskupanna. Hann var af ætt Mosfellinga (síðar nefndir Haukdælir); sonarsonur Ketilbjarnar gamla, sem var tendasonur Þórðar skeggja, bróður Örlygs Hrappssonar. Átti hann í deilum við Gunnar á Hlíðarenda og hafði forgöngu um víg hans um 990; tengdafaðir Marðar Valgarðssonar. Skírður af Þangbrandi og fór með Hjalta á konungsfund. Sagt er að þeir hafi haft með sér kirkjuvið til baka og byggt kirkju í Vestmannaeyjum.
1056
Ísleifur Gissurarson vígður; fyrsti biskupinn: Ísleifur Gissurarson var, hinn 25.05.1056, vígður til Skálholts af Aðalbjarti erkibiskupi í Péturskirkjunni í Brimum, fyrstur íslenskra biskupa. Ísleifur er fimmtugur og hefur beðið vígslu í eitt ár, en hafði verið við nám í Herfurðu í Saxlandi. Ísleifur hélt til Rómar og fékk leyfi Victors páfa fyrir vígslu, enda var hann bæði kvæntur og goðorðsmaður. Á leiðinni hitti hann Hinrik III, Þýskalandskeisara og færði honum lifandi hvítabjörn, grænlenskan. Faðir Ísleifs var Gissur hvíti Teitsson, einn helsti leiðtogi kristinna við kristnitökuna og sonarsonur Ketilbjarnar gamla á Mosfelli, en afkomendur hans voru Haukdælir.
Ísleifur Gissurarson biskup var forfaðir Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar í Kollsvík, sem Kollvíkurætt er rakin frá. Ísleifur er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 25.lið, skv. Íslbók.
Óöld í kristni: Harðindaár hafa gengið yfir landið sem menn nefna „Óöld í kristni“. Hefur Haraldur konungur Sigurðsson gefið fjórum skipum mjölleyfi til Íslands og ákveðið hámarksverð þess. Einnig hefur hann gefið fátækum mönnum eftir landaura þá sem Íslendingar skuli ella gjalda er þeir snúa til Noregs. Sagnir herma að í útlöndum gangi einnig hallæri um þessar mundir.
1130
Hafliði lögsögumaður Másson allur: Hafliði Másson, einn auðugasti maður landsins og mesti lögspekingur síns tíma, er látinn. Þekktastur er hann fyrir að hafa látið færa í letur Grágás; lög íslenska þjóðveldisins, en einnig fyrir deilur sínar við Þorgils Oddason. Haflíði var sonur Más Húnröðarsonar á Breiðabólstað; kominn í karllegg af Ævari gamla Ketilssyni landnámsmanni og fóru þeir með Æverlingagoðorð. Már hafði verið foringi Væringja í Miklagarði. Útgáfa Hafliða að Grágás er nefnd Hafliðaskrá, og skyldi hún ráða ef ekki bar saman við eldri lög. Þorgils veitti Hafliða nokkra áverka á Alþingi árið 1120; hjó af honum fingur. Að lyktum var Hafliða falið sjálfdæmi um bætur. Dæmdi hann sér 240 hundruð, sem var geypifé; jafngilti 5760 dagsverkum eða 240 kýrverðum. Um það var sagt að „dýr myndi Hafliði allur ef svo skyldi hver limur“. Gjaldið var þó greitt og sættin hélt.
Hafliði Másson var forfaðir Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar í Kollsvík, sem Kollvíkurætt er rakin frá. Hafliði er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 24.lið, skv. Íslbók.
1133
Sæmundur fróði Sigfússon látinn: Andaður er í Odda Sæmundur fróði Sigfússon; goðorðsmaður, prestur og spakasti maður landsins um sína daga. Sæmundur fór ungur til náms í Svartaskóla (óvíst hvar hann var, en líklega einskonar klausturskóli líkt og Örlygur og Kollur sóttu). Heimkominn vígðist hann til prests; byggði kirkju í Odda og hélt þar skóla. Hann fékkst einnig við skriftir, t.d. um sagnfræðileg efni (ekkert af því er þó varðveitt). Þá var hann hvatamaður að skrifum Ara fróða um Íslendingabók og Landnámu. Hann stóð að lögtöku tíundar um 1097 ásamt Gissuri Ísleifssyni og fleirum og lagði drög að kristinrétti (hinum eldri). Sagnir spunnust um Sæmund eins og aðra afburðamenn. Hann átti að hafa gert samning við Kölska en tókst þó ævinlega að snúa á hann.
Meðal þekktra afkomenda Sæmundar var Jón Loftsson í Odda. Sæmundur fróði var forfaðir Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar í Kollsvík, sem Kollvíkurætt er rakin frá. Sæmundur er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 25.lið, skv. Íslbók. Ættin kemur í Rauðasandshrepp með Kristínu Ormsdóttur (um 1482-1555) sem giftist Erlingi Gíslasyni sýslumanni í Saurbæ.
1191-1410 Róstur á Rauðasandi, Gvendur góði, skreiðarsala leggur grunn að verstöðvum, Láganúpsver.
1191
Mikil skreiðarsala frá Noregi til Miðevrópu: Björgvinjarkaupmenn selja mikið af skreið; einkum til Englands. Danskir krossfarar sem komu á Voginn í Björgvin á þessu ári segja: „Þurrfiskur sem kallaður er skreið er þar svo mikill að hann verður hvorki talinn né veginn“. Er þessi tekjulind mikilvæg undirstaða undir Björgvinjarversluninni.
Á 13.öld jókst eftirspurn þýskra kaupmanna eftir norskri skreið. Stafaði það af örri fjölgun og vexti borga. Akuryrkja óx sunnan Eystrasalts og varð kornið helsti gjaldmiðillinn fyrir skreið, lýsi, húðir, rostungstennur o.fl. Hamborgarkaupmönnum óx ásmegin og á 13. og 14.öld náðu þeir undir sig mestum hluta Björgvinjarmanna og þar með verulegum hluta fiskverslunar í norðanverðri Evrópu. Norska skreiðin kom einkum frá Norður Noregi; frá Lófót suður til Vestfjorden. Stóð vertíðin aðallega yfir hrygningatíma þorsksins; jan-apríl. (Jón Þ. Þór; Sjósókn og sjávarfang).
1192
Stórbóndinn Markús í Saurbæ gefur kirkjuvið sinn: Markús Gíslason býr stórbúi í Saurbæ á Rauðasandi og er athafnamaður mikill. Hann er valdamikill á sínu svæði, þó ekki sé hann goðorðsmaður, og þingmaður Jóns Loftssonar í Odda. Er bær hans talinn mestur húsa á Vestfjörðum. Markús er sonur Gísla Þórðarsonar Úlfssonar og Guðríðar Steingrímsdóttur, Kona hans er Ingibjörg Oddsdóttir frá Söndum (Ingjaldssandi) í Dýrafirði, og eiga þau þrjú börn (er upp komust); Gísla, Magnús og Hallberu. (Gísli tók við búi í Saurbæ eftir föður sinn; sjá síðar) en Magnús og Hallbera fóru uppkomin til Grænlands og ílentust þar. Loftur var einnig sonur Markúsar, líklega fyrir hjónaband). Markús hefur núna farið utan til Noregs; látið þar höggva kirkjuvið góðan og flytja hingað til lands. Kom hann að landi í Gautavík á Austfjörðum og gaf viðinn allan Sigmundi Ormssyni sem reist hefur kirkju af viðum þessum á Valþjófsstöðum eystra. Sigmundur er mestur höfðingi á Austfjörðum. Markús kom síðan vestur og hefur setið að búi sínu. (Hrafns saga Sveinbjarnarsonar og AÍ; „Sveitin vestur lengst í sjá).
Ekki er ólíklegt að óveður eða aðrar slíkar aðstæður hafi átt þátt í þessum höfðingsskap Markúsar.
Markús Gíslason var meðal forfeðra Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. Markús er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 21. lið. Markús var einnig (í 10.lið) forfaðir Magnúsar „eldra“ Eyjólfssonar sem árið 1570 (sjá þar) kaupir Kollsvík af Eggert Hannessyni.
1195
Rómarfarinn Markús reisir mikla kirkju í Saurbæ: Markús Gislason í Saurbæ fór aftur utan nýverið, eftir andlát Ingibjargar konu sinnar, og aftur lét hann höggva góðan kirkjuvið í Noregi. Meðan hann var utan fór hann suður til Rómar. Er hann sneri þaðan kom hann til Englands og keypti klukkur góðar sem hann hafði með sér til Noregs. Og er hann kom út hingað lét hann gera kirkju göfuglega á Rauðasandi. Til þeirrar kirkju gaf hann klukkurnar og Ólafsskrín er hann hafði úti haft. Sú kirkja var vígð guði almáttkum og Maríu drottningu. (Hrafns saga Sveinbjarnarsonar).
1196
Ingi á Hvalskeri vegur Markús í Saurbæ: Tveimur nóttum eftir allraheilagramessu, hinn 3. nóvember, var kirkjubóndinn og sveitarhöfðinginn Magnús Gíslason veginn í Saurbæ af Inga Magnússyni bónda á Hvalskeri. Tildrögin voru þessi: Ingi hafði látið undir höfuð leggjast að viðhalda bænhúsi sínu og var það fallið í tóft. En það eru lög frá tímum Þorláks biskups Þórhallssonar (Skálholtsbiskups 1178-1193) að bændur skuli viðhalda bænhúsum þeim á jörðum sínum sem ekki hafa verið afhelguð. Falli þau í vanrækslu skal samt greiða af þeim toll til graftarkirkju. Nú hafði bænhúsið á Hvalskeri fallið í tóft, en Ingi neitaði að greiða lögboðna sex aura til Saurbæjarkirkju. Ingi á Hvalskeri er giftur Jólinni Valentínusardóttur, en bróðir hennar, Guðlaugur Valentínusarson, býr á Stökkum. Þennan dag ganga þeir mágar, Ingi og Guðlaugur, ásamt fleirum um hlað í Saurbæ þar sem heimamenn Markúsar voru að skinnleik. Fór þá Markús með öxi í hendi og hjó til Inga. Ingi hjó á móti og hjó í sundur viðbeinið og þar á hol. Lítlu síðar dó Markús af því sári. Þeir Ingi og Guðlaugur voru særðir og Ketill förunautur þeirra drepinn. Gengu góðir menn á milli og var ákveðinn sáttafundur. Markús hafði verið þingmaður Jóns Loftssonar í Odda en Ingi og Guðlaugur eru þingmenn Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri í Arnarfirði.
Sáttafundur var haldinn á Haukabergi á Barðaströnd árið eftir vegna þessara deilna og vígs Markúsar. Þar kom til átaka en vitrir menn gengu á milli. Þeirra á meðal voru Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri, Jón prestur Brandsson, Krákur Þórarinsson og Steinólfur prestur Ljótsson. Sætt var gerð þar sem Jóni Loftssyni í Odda var falið að ákveða fésektir, en Ingi á hvalskeri færi af landi brott og kæmi aldrei aftur. Synir Inga skyldu hverfa brott úr Vestfirðingafjórðungi. Jón Loftsson gerði upp málin á Alþingi en Loftur, elsti sonur Markúsar, gaf vinum Inga upp sakir er aðild höfðu átt að víginu, gegn fésektum. Var honum falið að gæta bús bræðra sinna þar til þeir hefðu aldur til að taka við þeim. Skinnleikur er leikur með bolta úr samanvöðluðu skinni. Fimm keppa, einn í hverju horni og einn í miðju. Hornmennirnir kasta boltanum milli sín en miðjumaðurinn reynir að grípa hann.
1201
Gottskálk verst innrás á Hvallátrum: (Ekki er vitað um tímasetningu þessarar sagnar, en ekki er ótrúlegt að hún hafi mótast í kjölfar Tyrkjaránsins 1627 (sjá þar) þó GK tímasetji „í byrjun 13.aldar“. Óvíst er einnig hvaða fótur er fyrir atburðum og persónum).
„Í byrjun 13.aldar bjó á Hvallátrum maður sá er Gottskálk hét. Var hann mikill fyrir sér og talinn fjölkunnugur mjög. Hann er sagður hvatamaður að því að Guðmundur góði var fenginn til að vígja Látrabjarg. Það var löngu síðar; þá er Gottskálk var hniginn að aldri og í kör kominn, að víkingaskip kom þar allmikið, og bjóst þegar til að taka strandhögg. Settu þeir út báta tvo, og allt liðið í þá með alvæpni. Lenti annar báturinn á Brunnum með 50 eða 60 menn. Þar var þá fyrir mikill fjöldi af hraustum vermönnum sem veittu svo harðfengilegar viðtökur með bareflum og öðrum vopnum að þeir drápu sjóræningjana alla. Er sagt að þeir séu dysjaðir þar í Kúlureitnum fyrir utan Sandmannabúðirnar.
Hinn báturinn lenti við Krókinn og gekk svipaður fjöldi sjóræningja þar á land. Fóru þeir þegar á mýrarnar þar fyrir ofan til að smala saman sauðum og nautum og reka til strandar. Fámennt var heima á Látrum; einungis Gottskálk og synir hans þrír. Þegar Gottskálk fékk fréttirnar varð honum að orði að nú væru ei menn sem áður hefðu verið; víst hefði hann ekki á brott hlaupið þó að nokkrir kögursveinar hefðu orðið á vegi sínum. Eggjaði hann syni sína til mótspyrnu, en þeir læddust með melbökkum óséðir í veg fyrir aðkomumenn. Spruttu þeir síðan upp; hófu að berja á þeim með hvalrif að vopnum og gengu svo hart fram að víkingar allir voru drepnir. Gamalmennið Gottskálk lét ekki sitt eftir liggja heldur lét bera sig út á bæjarhólinn. Þar sat hann og barði tveimur svigabrotum ofan í hólinn. Við hvert högg hans féll einn maður af víkingunum. Jón Gottskálksson fór fyrir þeim bræðrum, en hann var rammur að afli og garpur hinn mesti, þó einungis væri 18 vetra. Kvíga af bústofni Látrabænda hafði fallið niður í svokallað Svartavað. Hana dró Jón einsamall upp og bar heim á öxlum sér. Víkingarnir voru dysjaðir þar sem þeir höfðu fallið, og sést dysin enn í dag því þangað hefur grjót verið að borið. Grjótdys þessa hafa Látramenn fyrir mið af sjó og heitir hún Kárni, eftir foringja víkinganna. Þar munu mannabein hafa komið úr jörðu. En það er af skipi víkinganna að segja að Gottskálk gerði að því galdraveður, svo það rak upp með öllu sem á því var“. (Eftir handriti Gísla Konráðssonar).
1202
Guðmundur Arason vígður til biskups á Hólum: Guðmundur Arason hefur verið vígður til Hólabiskupsstóls í Niðarósi, af Eiríki erkibiskupi. Áður hafði Guðmundur hitt Hákon konung Sverrisson í Björgvin. Guðmundur Arason (f.1161-d.1237) var fæddur utan hjónabands og ólst upp við hörð kjör hjá ættingjum; var barinn til bókar, eins og kallað var. Um 1180 ætlaði hann utan, en skipið strandaði við Hornstrandir þar sem Guðmundur slasaðist á fæti og átti lengi í þeim meiðslum. Hann gerðist þá mikill trúmaður og lifði meinlætalífi. Hann vígðist til prests 1185; var prestur í Skagafirði og Svarfaðardal. Fór þá af honum orð fyrir trúarhita, líknsemi við lítilmagnann og að hann gæti gert kraftaverk, undursamlegar lækningar, og rekið út illa anda. Varð hann af því feikna vinsæll meðal almennings jafnt sem höfðingja. Vegna þess, og vegna skyldleika við konu Kolbeins Tumasonar höfðingja Ásbirninga, vildu höfðingjar fá hann til biskups þegar Brandur Hólabiskup lést. Guðmundur var tregur til, en lét þó undan. Hann fór til þessarar biskupsvígslu í fylgd Hrafns Sveinbjarnarsonar læknis á Eyri sem hann er í vinfengi við, ásamt Snorra Sturlusyni.
Faðir Guðmundar góða var Ari Þorgeirsson, Hallasonar. Þorgeir Hallason (1095-1169) bóndi í Krossanesi og munkur á Munkaþverá er forfaðir Kollsvíkinga; t.d. er Kristján Ásbjörnsson (25.08.1859-25.11.1926) á Grundum afkomandi hans í 23. lið og VÖ skrásetjari því í 26.lið.
1218
Bardagi á Rauðasandi: Viðsjár miklar hafa verið með nágrönnum á Rauðasandi; þeim Gísla Markússyni í Saurbæ og Eyjólfi Kárssyni á Stökkum. Gísli er sonur Markúsar sem drepinn var 1196 af Inga á Hvalskeri og Guðlaugi Valentínusarsyni á Stökkum. Eyjólfur er Húnvetningur sem lenti í erjum við Miðfirðinga vegna ekkju sem hann átti vingott við. Snorri Sturluson kom á sættum og fór Eyjólfur þá vestur og giftist Herdísi Hrafnsdóttur (Sveinbjarnarsonar á Eyri). Hann lenti fljótlega í deilum við Gísla í Bæ, m.a. vegna þess að Gísla þótti fylgdarmenn Eyjólfs glepja konur þær er honum gast að.
Það var á jólum er Stakkamenn komu til tíða í Saurbæ. og var Gísla sagt að þeir væru í kirkju. Þá sendi hann til mann að læsa kirkjunni. Var Eyjólfur þar en Guðmundur Norðlendingur (maður Eyjólfs) í skotinu, hann átti eigi kirkjugengt (var sekur og mátti því ekki vera í kirkjunni). Gísli og hans menn hlupu til vopna og fóru til kirkju. Bað Eyjólfur þá griða en þess var varnað. Guðmundur gekk út úr skotinu og færði Gísla höfuð sitt. En Gísli lést þiggja mundu og kvaddi til heimamann sinn, þann er Guðmundur hafði áður illa leikið og glapið konu fyrir, að hann skyldi drepa hann. Þá leiddu þeir hann upp um garð og drápu hann þar. Eyjólfur komst út um glerglugg austur úr kirkjunni og hljóp út til Stakka og í kastala, er hann átti þar (Sturlungasaga). Þar sótti Gísli að honum en Eyjólfur varðist hreystilega ásamt mönnum sínum. Með honum voru Þorsteinn stami húskarl hans og Þorbjörg griðkona. Þorbjörg stóð með Eyjólfi og barðist hraustlega en Þorsteinn stami bað leyfis til að fara og gefa nautum. Þótti framganga hans eigi karlmannleg.
Sáttafundur var haldinn í Tálknafirði en Gísli gekk af honum áður en sættir næðust. Skömmu síðar fóru þeir Eyjólfur og Jón Ófeigsson hálfbróðir hans með flokk manna að Saurbæ og hugðust vinna á Gísla. Gísli hafði gert sér gott vígi í húsunum úr viðum. Settust þeir Eyjólfur þá um virkið. Þeir Eyjólfur höfðu matfátt (skorti mat) og fóru til fjóss og ætluðu að taka naut nokkurt. Gekk Jón Ófeigsson, bróðir Eyjólfs, fyrst í fjósið. Þar var fyrir nautamaður Gísla og stóð í uxabási. Þá hjó hann á mót Jóni og kom á kinnina og rauf á hváftinum og úr jaxlana tvo. Féll hann þá út í fang sínum mönnum. En nautamaður hljóp innar eftir fjósinu og út í hlöðuvindauga og svo upp í virkið. (Sturlungasaga).
Eftirmál bardaganna: Reyndu menn nú aftur sættir og var Snorri Sturluson fenginn til að gera um málin. Nokkru síðar flutti Eyjólfur Kársson til Flateyjar og urðu því ekki frekari erjur um sinn milli þeirra Gísla. Gísli varð einn voldugasti bóndi Vestfjarða og dyggur stuðningsmaður Sturlunga. Árið 1232, þegar Sturlu Sighvatssyni er stefnt út er um sinn autt sæti mesta höfðingja landsins. „Þá var enginn höfðingi í Vestfjörðum, en þeir voru þá mestir af bændum; Oddur Álason og Gísli á Sandi, og voru þeir hinir mestu vinir Sturlu“ (Sturlungasaga). Gísli barðist með Sighvati í Örlygsstaðabardaga 1238 og slapp lifandi ásamt m.a. Tuma Sighvatssyni. Snorri Sturluson fékk Gísla dæmdan sekan skógarmann sumarið 1239, þar sem Gísli og sveitungar hans neituðu að sættast á gerð Snorra í kjölfar Bæjarbardaga í Borgarfirði tveimur árum fyrr. Litlu síðar er Gísli þó kominn til liðs við Órækju Snorrason sem margir töldu þá vænlegasta höfðingjaefnið úr röðum Sturlunga. Með Órækju fór Saurbæjarbóndi í Skálholt 1242 til að taka af lífi Gissur Þorvaldsson, til hefnda eftir víg Snorra Sturlusonar stuttu áður. Aðförin tókst þó ekki. Er hinn aldni Gísli þarna orðinn stirður til bardaga og er studdur af Teiti syni sínum. Þar í liði með Órækju og Gísla var einnig Jón Ófeigsson, hálfbróðir Eyjólfs Kárssonar. Sagði Jón Gísla fara óvarlega, svona gamlan og stirðan. Gísli svarar; „Þar skulum vér enn hvergi koma að ég gangi verr en þú“! Er Gísli í Saurbæ reið frá bardaganum með kirkjugarðinum spurði Gissur Þorvaldsson hver þar færi, og Gísli sagði til sín. „Langt hafa slíkir sótt“ sagði þá Gissur.
1219
Guðmundur biskup góði fer um Rauðasandshrepp: (Annað ártal er hugsanlegt). Útverin í Rauðasandshreppi hafa löngum verið skjól þeim sem nauðstaddir hafa verið vegna hallæra og harðinda, bæði af náttúru og manna völdum. Fullyrða má þó að aldrei hefur jafn tiginn og vinsæll gestur leitað skjóls í hreppnum sem um þessar mundir. Guðmundur biskup Arason hefur um árabil verið á hrakningum um landið undan ásókn höfðingjaveldis Sturlunga og dvelur þessa dagana meðal Útvíknabænda, þar sem hann vígir lindir, björg og beiðslustaði en hlýtur í staðinn góðan beina fyrir sig og hinn sundurleita liðsöfnuð sinn.
Eftir heimkomu Guðmundar frá biskupsvígslu 1202 dró fljótlega til sundurþykkju með honum og Kolbeini Tumasyni, sem hafði upphaflega viljað fá hann á biskupsstól en vænst þess að hann léti betur að stjórn. Guðmundur sýndi fulla einurð gegn yfirgangi höfðingjaveldisins og vildi efla kirkjuvaldið. Kom að lokum til bardaga í Víðinesi árið 1208, þar sem Kolbeinn féll. Eftir sigurinn gekk Guðmundur fram af fullum þunga gagnvart höfðingjum; studdur af hirð þeirri sem nú hafði safnast kringum hann af flækingum og fátæklingum. Voru þar innanum ýmsir sem lent höfðu upp á kant við höfðingjaveldið og landsins lög. Almennir bændur gerðust uggandi um sinn hag og döluðu vinsældir biskups allnokkuð norðanlands eftir Víðinesbardaga.
Næstu árin átti Guðmundur í erjum við Arnór Tumason, bróður Kolbeins, og höfðingja landsins, aðra en fornvin sinn Hrafn Sveinbjarnarson og Snorra Sturluson sem voru honum hliðhollir. Arnór hrakti Guðmund frá Hólum árið 1209 og næstu árin flakkaði hann um landið; mest á Vestfjörðum. Árið 1214 fór hann út og aflaði sér atfylgis erkibiskups til að ná biskupsstólnum aftur, og honum hélt hann um tíma. Haustið 1218 veitti Arnór honum þó aftur yfirgang; leysti upp skóla hans og flutti hann fanginn suður á Hvítárvelli. Þar var hann frelsaður af Eyjólfi Kárssyni, sem fyrrum var bóndi á Stökkum á Rauðasandi og hafði aflað sér þar óvildar Saurbæjarbænda vegna mannvíga (sjá 1218). Eyjólfur fór með biskup heim til sín í Flatey um vorið eða sumarið 1219, og er líklegt að þaðan hafi hann flandrað vestur Barðastrandasýslu; alla leið í Rauðasandshrepp.
Tvívegis lenti Guðmundur biskup enn í bardögum við fjendur sína; fyrst Helgastaðabardaga 1220 og síðan Grímseyjarbardaga 1222. Í þeim síðarnefnda laut hann í lægra haldi fyrir Sighvati Sturlusyni og Sturlu syni hans. Eftir þetta þyngdist enn róðurinn hjá Guðmundi. Hann hraktist til Noregs, þar sem máli hans var skotið til páfans í Róm án skýrrar niðurstöðu. Árið 1230 var Guðmundur svo formlega sviptur embætti vegna andstöðu óvildarmanna sinna. Honum leyfðist þó að sitja Hólastól til dauðadags 1237; enda orðinn gamall og blindur og ógnaði höfðingjaveldinu ekki eins og fyrrum.
Rauðasandshreppur um 1219: Á þessum tíma var hreppurinn líklega all þéttbýll, og helstu býli orðin rótgróin. Rauðasandshreppur hefur þá þegar verið stofnaður sem stjórnsýslusvæði, með kosnum hreppstjórum (hreppsnefnd), hreppsþingum og náði yfir svæðið frá Stálfjalli fram á Tálkna. Þingstaðurinn var í Tungu, eins og lengst af hefur verið.
Búskapur var undirstaða lífsafkomu. Að auki höfðu menn verulega lífsbjörg af sjávarfangi, þar sem fiskimið eru grunnt undan landi; einkum í Útvíkunum, þó útræði væri á þessum tíma mun minna en síðar varð; eftir að skreiðarsala hófst á erlenda markaði. Vafalítið hefur þó verið komið þar útver, sem vermenn sóttu innan úr Breiðafirði og af suðurfjörðum Vestfjarða til að draga sér fisk í bú. Fuglabjörg voru veruleg hlunnindi, með eggja- og fuglatöku. Að auki var selveiði eflaust verulega stunduð; einkum á Rauðasandi, en kann þá einnig að hafa verið meiri annarsstaðar en síðar varð. Mikið gagn var eflaust að reka og skelfisktekju, og gnægð var af fiski í vötnum. Hér var því fleiri lífsbjargir að finna en víða annarsstaðar á landinu. Á móti kom að hreppurinn var þá sem nú sundurskorinn af háum grýttum hálsum. Vafalaust hefur þá verið búið að ryðja grjóti úr vegi milli helstu staða, en víða voru háskalegar og langar leiðir milli byggða. Menn hafa nokkuð notað báta til milliferða og flutninga, en tvær hættulegar rastir eru þó verulegir farartálmar. Fólk þurfti að vera sjálfbjarga um alla hluti; ekki einvörðungu mataröflun heldur einnig járnvinnslu, vefnað, viðarvinnslu og vopnagerð. Menntun sína og fróðleik hafði hver kynslóð frá hinni fyrri. Mannabústaðir hafa þá líklega enn verið stórir skálar með langeldum á gólfi, en líklega. hafa smærri stofur þá verið farnar að tíðkast. Skóglendi var þá enn ekki farið að ganga eins til þurrðar og síðar varð. Má t.d. ætla að í öllum Útvíkum hafi einhver skógur verið; í Hænuvík, Örlygshöfn, Vatnsdal, Skeri, Skápadal en að sjálfsögðu mestur í Botni og á Rauðasandi.
Efni bænda hafa að líkindum verið misjöfn. Þeir efnuðustu og voldugustu bjuggu á bestu og landmestu jörðunum; Saurbæ; Stökkum; Tungu; Sauðlauksdal; Vesturbotni og e.t.v. nokkrum öðrum; auk þess sem útvegsbændurnir í Útvíkum komust vel af. Saurbæjarbændur hafa örugglega snemma tekið forystu í hreppnum, þar sem sú jörð hafði mesta möguleika til að auðgast. Höfuðkirkja var í Saurbæ en hálfkirkja í Kollsvík (Kirkjubóli). Bænhús voru á flestum bæjum, en misvel við haldið.
Vígslur og ferðir Guðmundar góða: Guðmundur góði var yfirleitt vinsæll af alþýðu manna þó hann hefði höfðingjaveldið gegn sér. Hvergi var hann vinsælli en á Vestfjörðum, eða eins og segir í sögu hans: „Þeir Vestfirðingar felldu svá mikla ást til hans ok kenninga hans at sá þótti best hafa er meira mátti gott til hans gera; bæði í fjégjöfum ok öðrum hlutum góðum“. Trú var mikil og einlæg á mátt hans. Enginn efaðist um bót þess sem hann hafði vígt; hvort sem það var lækningamáttur og heilnæmi vatns úr brunnum; vernd beiðslustaða eða slysavarnir í björgum. Hér verður getið þeirra staða sem líkur og sagnir benda til að Gvendur góði hafi vígt, og fylgt ímyndaðri leið hans um Rauðasandshrepp.
Biskup kann að hafa komið út Barðaströnd; um Sandsheiði í Skógardal á Rauðasandi. Þar vígir hann Gvendarstein; beiðslustað þeirra sem halda á Sandsheiði. Hann fer því næst að Melanesi; messar í bænhúsinu þar og fær e.t.v. sel úr Bæjarósi til saðningar liði sínu. Sem þökk vígir hann þar annan Gvendarstein; beiðslustað þeirra sem leggja í Suðurfossá. Biskup hraðar nú för sinni áður en Gísli í Saurbæ fær njósn af honum, en Gísli er hliðhollur Sturlungum og þeir Eyjófur Kársson litlir vinir (sjá framar). Í stað þess að halda út Rauðasand framhjá Saurbæ fer hann upp Bjarngötudal og yfir í Patreksfjörð um Dalsfjall og niður með Hagagili. Næst segir af ferðum hans í Sauðlauksdal, þar sem hann heldur guðsþjónustu í bænhúsinu og vígir Sauðlauksdalsvatn; eflaust fullur þakklætis fyrir góða silungsveislu til handa liði sínu. Biskup heldur síðan með söfnuðinn út með firði. Í Vatnsdal blessar hann lindina Gvendarbrunn neðan við Krossfles í Vatnsdalsnúp; þar sem menn biðjast fyrir áður en haldið er fyrir hinn hættulega Hafnarmúla. Liðið kemst fyrir Múlann, og á Hnjóti vígir biskup Gvendarbrunn. Enn er haldið á; í Hænuvík messar Guðmundur í bænhúsinu og vígir Gvendarstein áður en hann heldur yfir Hænuvíkurháls til Kollsvíkur. Þar í Útvíkum er hann kominn í það fyrirheitna land sem Eyjólfur Kársson hafði á vísað; ver við sjávarsíðuna með nægum spriklandi fiski stutt undan landi; viðlegupláss í naustum og fjárhúsum og trúaða bændur sem vildu allt fyrir sinn biskup gera. Guðmundur dvelur líklega góðan tíma í Kollsvík og þjónar hálfkirkjunni þar, með messur og jafnvel jarðarfarir, en þar var kirkjugarður. Kross Kolls gæti enn hafa staðið á Biskupsþúfu; í minningu Patreks Suðureyjabiskups. Þar situr biskup löngum og predikar yfir hirð sinni og íbúunum í túnbrekkunni, um leið og hann hvílir sinn bæklaða fót. Hann vígir Gvendarbrunn, sem er steinsnar norðar, og notar hið heilnæma vatn sem messuvín er hann tekur fólkið til aflausnar. Biskupsþúfa er stuttu neðanvið bæjarhólinn, en ætla má að biskupi hafi boðist gisting heima, þó lið hans hafi hvílt í sjávarhúsum. Ekki er ólíklegt að hann hafi rölt enn norðar og vígt Gvendarhlein; þar sem þeir skyldu biðjast verndar sem smala þyrftu Hryggi og Hlíðar fyrir Blakk. (Hleinin kann þó að draga nafn af gvendargrösum sem þar hafa verið nytjuð). E.t.v. hefur hann um leið blessað fiskimiðin þar á Bótinni. Sendiboði kemur frá Hvallátrum með boð Látramanna (Gottskálks ?) um að honum sé velkomin vist þar og vænt þætti mönnum um að hann í leiðinni aflétti þeirri bölvun af Látrabjargi sem löngum hefur kostað frækna sigmenn lífið. Biskup leggur því af stað með lið sitt. Í Vatnadal áir hann og vígir Gvendarstein, þar sem menn bæna sig áður en haldið er á Víknafjall, sem er sjö roðskóa heiði. Biskup sveigir þó af þeirri leið; fer niður Stæðaveg og kemur við í bænhúsinu í Breiðuvík áður en hann snarast yfir Látraháls. Hann dvelur síðan á Hvallátrum í góðu yfirlæti og messar þar í bænhúsinu. Sjálfur nýtur hann gistingar á Látrum og vígir í þakklætisskyni Gvendarbrunn hjá bændum, en lið hans gistir í verinu á Brunnum; rær á bátum og fær í staðinn fiskmeti, egg og fugl. Loks kemur að því að biskup fýsir að vitja um stól sinn á Hólum. Látramenn fylgja honum inn eftir Látrabjargi, því nú skal stugga við óvættum. Um hábjargið; á Hvanngjárfjalli, kemur biskup sér fyrir og þrumar sína blessun yfir bjargið meðan menn standa álengdar í lotningu. Eftirá greinir biskup þeim frá hvernig hann stefndi fyrir sig vættunum og kom þeim fyrir í Heiðnabjargi (sem síðan er líklega þéttbýlasta hverfið á Íslandi). Þar bannar hann bændum að síga, en segist telja þeim óhættara annarsstaðar en áður var; sé varlega farið. Síðan heldur hann inn Látraheiði. Á háheiðinni vígir hann Gvendarbrunn og mælir svo um að þar muni ávallt verða vatn til svölunar ferðalöngum á þessari löngu og villugjörnu heiði. Síðan leggur biskup sína leið inn Dalverpi; yfir Sauðlauksdal inn að Hvalskeri, þar sem messað er hjá bænhústóftunum sem Ingi Skersbóndi neitaði að byggja upp (sjá framar). Ekki er ólíklegt að þar þiggi biskup skelfisk úr Bugnum og ferskan fjarðarfisk. Síðan er liðið ferjað yfir fjörðinn, að Hlaðseyri. Þar bænir biskup sig við Helguþúfu. Síðan er e.t.v. farin fjallasýn út á Geirseyri. Þar er bænhús sem messað er á. Biskup er þar beðinn að blessa beiðslustað við hina háskalegu Raknadalshlíð. Það gerir hann með því að vígja steinaltari neðan Altarisbergs og, eftir að hafa fetað sig inn hlíðina; messar hann í bænhúsinu í Vesturbotni Því næst hraðar hann sér inn yfir Kleifaheiði og inn Barðaströnd, til fundar við Eyjólf Kársson, hafi hann ekki verið í för með biskupi.
Þessi tilgáta skrásetjara um ferð Guðmundar biskups byggir að miklu leyti á örnefnum og munnmælum sem þeim tengjast, ásamt þeim slitróttu heimildum öðrum sem tiltækar eru.
1233
Jökulvetur hinn mikli: Veturinn 1232-1233 var landsmönnum erfiður, harður og illur. Veðráttan óblíð og ísar lengi. Hafís var við landið langt fram á sumar. Mannskæð hettusótt hefur gengið um landið. Ekki eru nema tvö ár frá því sem nefnt hefur verið „Sandsumar“ og fór illa með byggðir vestan- og sunnanlands. Orsakaðist þá mikið sandfall (öskufall) af eldsuppkomu undan Reykjanesi, og fylgdi grasbrestur í kjölfarið.
1241
Snorri Sturluson veginn í Reykholti: Einn mesti skáldjöfur og fræðimaður sem Ísland hefur alið var myrtur í Reykholti 23.09.1241, af mönnum Gissurar Þorvaldssonar en að undirlagi Hákonar Noregskonungs sem grunaði Snorra um landráð við sig. Snorri var sonur Sturlu Þórðarsonar goða í Hvammi og bróðir Þórðar og Sighvatar. Hann var í fóstri hjá Jóni Lofssyni í Odda og fékk þar afbragðs menntun. Snorri giftist Herdísi Bersadóttur frá Borg og fékk með henni mikið fé, en jók síðar mikið við þann auð, m.a. með jarðakaupum. Hann fékk goðorð í Borgarfirði og víðar. Snorri gerðist vinur Skúla jarls í Noregi, sem hafði forsjá Hákonar (gamla) konungs sem þá var á barnsaldri. Snorri varð hirðmaður konungs og nam sögu Noregskonunga af fróðu fólki; ritaði síðar þá sögu ásamt miklum fróðleik öðrum. Fóru Hákon og Skúli fram á að Snorri beitti sér fyrir yfirráðum Noregskonungs á Íslandi. Heimkominn ritaði hann stórvirkin Eddu og Heimskringlu, auk líklega margra bóka annarra. Sturla Sighvatsson bróðursonur hans varð honum erfiður viðfangs og hrakti hann frá Reykholti. Snorri fór aftur til Noregs, en þá var ósætti komið milli Skúla og Hákonar. Snorri fór aftur heim í óþökk Hákonar, og tortryggni konungs í hans garð leiddi til dráps Snorra eins og áður segir.
Snorri Sturluson var meðal forfeðra Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. Snorri er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 22. lið.
1262
Gamli sáttmáli: Íslenskir höfðingjar hafa nú, fyrir hönd Íslendinga allra, svarið Hákoni gamla Noregskonungi „land og þegna“. Með því játast Íslendingar formlega undir það að Ísland verði hluti af norska konungsríkinu; að hér skuli norskt stjórnkerfi ríkja í meginatriðum og að Íslendingar verði skattþegnar konungs. Á móti skuldbindur kóngur sig til að halda uppi siglingum til Íslands og skulu eigi færri en sex skip koma árlega með nauðsynjar. (Það var þó löngum illa efnt). Í raun felst breytingin fyrst og fremst í því að reynt er að koma böndum á þá samþjöppun valds sem orðið hefur hérlendis í róstum Sturlungaaldar. Við kristnitöku voru goðar 39 í landinu, en nú fara 3-5 höfðingjar með flestöll goðorðin og hafa átt í hörðum átökum. Björgvin er valdamiðstöð Noregs og einnig helsta verslunarmiðstöð Íslendinga. Íslenskir höfðingjar hafa keppst um hylli konungs og iðulega verið hluti af hirð hans; t.d. helstu hirðskáld og sagnaritarar. Má segja að Ísland hafi hingað til verið skattland Noregskonungs, en með þessu er reglu komið á skattheimtuna. Þessi breyting hentar kirkjuvaldinu ágætlega, en erkibiskup situr í Niðarósi og viðurkennir Noregskóng, enda nýtur hann blessunar páfa. Ekki var þó lokið við staðfestingu Gamla sáttmála fyrr en 1264, í tíð Magnúsar konungs lagabætis.
Noregsveldi í hámarki: Með því að Íslendingar gangast Noregskonungi á hönd er Noregur orðið stórveldi sem nær yfir alla norðurálfu hins þekkta heims. Í raun nær það frá Vínlandi í vestri (þó þar sé ekki formlegt landnám), um Grænland (sem er landnám frá Íslandi); Ísland (með Gamla sáttmála 1262); Færeyjar (frá ca 1025); Suðureyjar, Orkneyjar og Hjaltland (oftast jarldæmi Noregskóngs); og Noreg, allt frá Líðandisnesi í suðri til Bjarmalands í norðri.
Um 1300
Skreiðarútflutningur hefst frá Íslandi: Fiskur er nú að verða verulegur hluti af útflutningsvarningi Íslendinga. Er þar um að ræða þurrkaðan fisk; svonefnda skreið. („… heimildir benda til þess að útflutningur hafi aukist næsta jafnt og þétt frá því skömmu fyrir 1300 og fram undir 1350; og svo aftur frá því um 1375 og fram yfir aldamótin 1400 … Margt bendir til þess að eitthvað kynni að hafa verið flutt út af skreið þegar á þjóðveldisöld; og þá ef til vill helst til Hjaltlands og Orkneyja“: Jón Þ. Þór; Sjósókn og sjávarfang). (Sjá takmörkun skreiðarútflutnings 1320)
1310
Hansakaupmenn leggja undir sig skreiðarsölu: Kaupmenn í norðanverðu Þýskalandi hafa með sér samtök (hansa) sem mjög hefur vaxið fiskur um hrygg á síðari tímum Miðpunktur þeirra er borgin Lýbika, en hún er um leið útskipunarhöfn fyrir Hamborg. Hefur Hansasambandið mikinn flota verslunarskipa og vel skipulögð verslunargildi með skrifstofur í London, Brugge, Hólmgarði og Björgvin. Nú hefur sambandið nánast lagt undir sig hina miklu og vaxandi skreiðarsölu frá Noregi og Íslandi til Englands og N-Evrópu. Með vel skipulögðum verslunarleiðum og örum borgarvesti hefur eftirspurn eftir skreið stórum aukist. Norðmenn hafa orðið undir á verslunarleiðum í Evrópu en sjá um verslunarsiglingar til Íslands í samræmi við Gamla sáttmála.
1312-13
Þerruleysissumar og Hrossafellisvetur: Margháttuð harðindi og óáran steðjar að þjóðinni þessi árin. 1309 féllu 18 bæir í landskjálfta sunnan lands. 1311 varð Kötlugos og fylgdi því hlaup ógurlegt sem fyllti Kúðafjörð af sandi og möl og eyddi grösugum svæðum. 15 bæir féllu í landskjálftum sem fylgdu, og í Austfjörðum myrkvaði svo að degi að ekki sást til vegar. Veturinn 1313 var hinn snjóamesti; hallæri og fjárfellir víða um land og frostavetur svo mikill að fætur fraus undan sauðum og hestum þó fullfeitir væru að holdum. (Óáran hélt áfram, því 1314 varð t.d. svo mikið mannfall að 300 lík komu til Strandakirkju. Sumarið 1315 varð hið mesta þurrkasumar og heyleysi. Sagt er að á þessum árum hafi í samfellt 7 ár ríkt hallæri í landinu. Allajafna eru þó sjávarbyggðir betur settar með lífsbjörg; einkum þær sem einnig liggja nærri fuglabjörgum).
1320
Takmörkun skreiðarútflutnings: Íslendingar hafa á þessu ári sent bænarskjal til konungs um takmörkun á útflutningi matvöru vegna hallæris sem nú gengur yfir landið. „Viljum vér ei að flytjist meiri skreið af landinu á meðan hallæri er í landinu en kaupmenn þurfa til matar sér“.
Af sama toga var ákvæði í réttarbót Eiríks konungs Magnússonar árið 1294: „Eigi viljum vér að mikil skreið flytjist héðan meðan mikið hallæri er í landinu“. Hungurs hafði þá gætt í landinu og töldu margir að ein ástæða þess væri of mikill útflutningur á skreið frá Íslandi.
Framboð skreiðar eykst nú hérlendis hröðum skrefum, en mikil freisting er til að selja hana úr landi á þeim háu verðum sem nú bjóðast.
Kirkjur auðgast af skreiðarsölu: Vaxandi eftirspurn er nú í Evrópu eftir skreið; verð hefur vaxið hratt og hefur útflutningur héðan aukist hratt undanfarna áratugi. Margir sjá hagnaðarvon í þessari nýju tekjulind, en einkum eru það höfðingjar og kirkjustofnanir sem hafa aðstöðu til að auðgast. Þannig hefur t.d. ný kirkja risið á Ingjaldshóli undir Jökli þar sem áður var bænhús, en allir sem þangað sækja skrift eða þjónustu skulu greiða fjórðung fiska og kirkjan fær vætt skreiðar af hverjum landeiganda.
Því má velta fyrir sér hvort hálfkirkjan í Kollsvík hafi notið viðlíka tekna af útverum í víkinni.
1340
Miklar millilandasiglingar: Tíðari siglingar eru nú til landsins en þau sex árlegu skip sem á er kveðið í Gamla sáttmála. Helgast það einkum af mikilli skreiðarsölu. Mest er siglt í Hvalfjörð og á hafnir sem liggja nærri verstöðvum á Suðurnesjum og vestanverðu landinu.
1350
Svartidauði kominn til Noregs; siglingar dragast saman: Sú ægilega pest svartidauði hefur nú borist í Noreg. Hefur hún um leið mikil áhrif á Íslendinga með því að mjög dregur úr siglingum og er þegar orðinn vöruskortur hérlendis. Þorlákssúðin, skip Skálholtsstóls, varð innlyksa í Noregi þar sem skipshöfnin andaðist öll úr plágunni.
Norræn byggð á Grænlandi eydd ? Komið hefur í ljós að norræn byggð á Grænlandi hefur eyðst mjög á síðustu árum. Er þetta haft eftir Ívari Bárðarsyni, norskum presti sem þangað sigldi nýlega í erindagjörðum kirkjunnar. Hann kom að byggðunum mannlausum, en búsmali eigraði þar um.
Sterkar líkur eru á að endalok norrænnar byggðar á Grænlandi hafi orðið síðar; sjá 1390.
1375
Enn vex eftirspurn eftir skreið: Sjávarafurðir; skreið og lýsi, eru helsti kaupeyrir landsmanna. Helstu íslensku verslunarhafnirnar eru í Hvalfirði og að Gásum, en á Vestfjörðum er mest siglt til Dýrafjarðar. Lifnað hefur aftur yfir siglingum til landsins eftir að úr þeim dró í svartadauða.
Skreiðin er seld í gegnum Björgvin, en þar er ein af verslunarmiðstöðvum Hansamanna. Þaðan er skreiðin flutt til Lybiku sem er er höfuðmiðstöð skreiðarsölu í Evrópu. Hækkandi verð á skreið sést best í samanburði þess við jarðaverð. Fram til ársins 1200 þurfti 10 vættir skreiðar til kaupa á einu jarðarhundraði; um síðustu aldamót 8 vættir og nú nægja 6 vættir.
1390
Norræn byggð á Grænlandi liðin undir lok: Líkur benda til að norræn byggð hafi enst lengur í Grænlandi en frásögn Ívars prests frá 1350 (sjá þar) gefur til kynna. Björn Einarsson Jórsalafari hraktist til Grænlands 1385 og sagði þá vera byggð í Eystribyggð. Dvaldi hann þar um hríð og efnaðist vel á sölu afurðanna (sjá 1415). Brandur Halldórsson ríki sagðist hafa verið viðstaddur brúðkaup tilgreindra Íslendinga í Hvalseyjarkirkja á Grænlandi 16.09.1408. Þá geta heimildir um Grænlandsför við Björgvin árin 1354 og 1366). Grænland byggðist frá Íslandi og þar hefur jafnan verið nokkur byggð; yfir 100 bæir og allt að 50 hreppar í Vestribyggð og um 260 og 12 sólknir í Eystribyggð, nokkru sunnar.
Norrænt landnám á Grænlandi hófst uppúr 985, og er Breiðfirðingurinn Eiríkur rauði talinn fyrsti landnámsmaðurinn. Líklega hafa þá nokkuð verið farin að eyðast rostungalátur á Íslandi, og má ætla að rostungsveiðar hafi öðru fremur hvatt til Grænlandsferða. Á þeim tíma var hlýtt í tíð, sem olli því að Alaskaeskimóar leituðu austur með ströndinn og yfir til Grænlands um svipað leyti; og fylgdu eftir veiðibráð sinni, sléttbaknum. Þessir tveir kynþættir mættust svo einhverntíma norðarlega á vesturströnd Grænlands; þar sem norrænir nefndu Norðursetu. Ekki er vitað um fyrstu samskipti, en hugsast getur að á endanum hafi komið til átaka þar sem norrænir menn urðu undir. Þá kólnaði einnig mjög í veðri á þessum tíma sem hefur gert lífsbaráttu erfiðari, og skipaferðir strjáluðust eftir að Hákon Noregskonungur hóf að einoka Grænlandsverslun árið 1261. Ofan á alltsaman bættist eymd og hallæri vegna svartadauða, sem einnig hamlaði skipaferðum. (M.a. skrif Haraldar Sigurðssonar haffræðings o.fl.).
Rostungstennur orðnar fágætar gersemar: Mikið af dýrmætum varningi hefur komið frá Grænlandi; einkum rostungstennur, rostungshúðir; hvítabjarnarfeldir, fálkar og náhvalstennur. Rostungstennur hafa lengi verið dýr og eftirsótt verslunarvara. Um þessar mundir er verðið á sæmilegri tönn fjórðungur kýrverðs eða; hálft jarðarhundrað eða; hálf mörk silfurs (mörk = 214 grömm), en til samanburðar er mörk talin hæfileg árslaun vinnumanns. Árið 1327 tók sendimaður páfa í Niðarósi við 784 kílóum af rostungstönn sem var þá tíundin af Grænlandi. Rostungstennur eru algengar höfðingjagjafir. T.d. gáfu Noregskóngar Englakóngi slíkar gjafir og Hrafn Sveinbjörnsson færði Tómasi Becket í Kantaraborg rostungstönn árið 1316. Ögmundur Pálsson færði Kristjáni II. tvo lúðra skorna úr rostungstönnum þegar hann hélt til biskupsvígslu 1521 (sjá þar). Annar lúðurinn var skorinn af séra Filippusi Jónssyni á Hvallátrum, sem talinn var færasti skurðmeistari Vestfjarða á sinni tíð. Taflmaðurinn í Kollsvík (sjá 1896) er úr rostungstönn og hefur líklega annaðhvort verið skorinn af Filippusi eða nemanda hans. Líklega fækkar nú rostungstönnum í umferð eftir að rostungi hefur verið eytt á Íslandi og tennur hætta að berast frá Grænlandi. Lengi mun þó endast farmur Grænlandsfarsins sem brotnaði á Hítarnesi árið 1266; hlaðið rostungstönn og öðrum dýrum farmi). (M.a. skrif Haraldar Sigurðssonar haffræðings o.fl. heimildir).
1396
Höfðingjar sækjast eftir verstöðvum: Mikil ásókn er nú eftir eignarhaldi á jörðum sem liggja vel við sjósókn og verstöðu; bæði að hálfu kirkjuvalds og höfðingja. Hafa þannig efnast skjótt nokkrar ættir á landinu, s.s. Vatnsfirðingar (Einar og Grundar-Helga; Björn sonur þeirra og Kristín dóttir hans); Skarðverjar; (Ormur á Skarði; Guttormur sonur hans og Jón sonur hans); og Erlendungar (Erlendur sterki Ólafsson; Haukur og Jón synir hans og séra Flosi á Staðarstað. (Má líkja þessum uppgangi höfðingja við samþjöppun eignarhalds í sjávarútvegi nú á tímum; hina svonefndu „sægreifa“).
Klaustrin hafa einnig verið dugleg að koma sér að matborði skreiðarverslunar. Helgafellsklaustur hefur eignast helstu úvegsjarðir á utanverðu Snæfellsnesi og Viðeyjarklaustur á Suðurnesjum. Skálholtsstóll eignaðist Vestmannaeyjar fyrir rúmri öld síðan. (Síðar eignaðist kóngur eyjarnar).
Líklega er það um þetta leyti sem Láganúpur verður eign Saurbæjarkirkju; ef ekki fyrr.
1397
Vilkinsmáldagi: Vilchin Skálholtsbiskup hefur látið skrá máldagabók um allar kirkjueignir í biskupdæminu.
Láganúps er ekki getið í Vilkinsmáldaga, sem bendir e.t.v. til þess að jörðin hafi þá ekki verið orðin eign Saurbæjarkirkju. Hinsvegar á kirkjan Láganúp samkvæmt máldaga 1419 (sjá þar).
Vilkin Hinriksson var biskup í Skálholti á 14.öld; tók við af Mikael. Tók hann við 1394 með sjö daga drykkjuveislu í Skálholti. Hann er þó talinn hafa verið skörulegastur og notadrýgstur hinna mörgu erlendu biskupa sem sátu Skálholt. Hann stóð einn presta uppi í Skálholti eftir Svartadauða, en lést 1405 í Noregi.
Kalmarsambandið stofnað: Norðurlönd hafa nú sameinast í einu öflugu ríkjabandalagi; Kalmarsambandinu. Er það einkum myndað að tilhlutan öflugasta leiðtoga landanna um þessar mundir; Margréti Danadrottningu, dóttur Valdimars Atterdag. Hún giftist tíu ára gömul Hákoni VI. Noregskóngi og bjó um tíma í Noregi. Að manni sínum og syni látnum var hún kosin ríkisstjóri Noregs og varð ríkisstjóri Svíþjóðar nokkru síðar. Um leið og hún myndar hið formlega Kalmarsamband lætur hún völdin í hendur systursonar síns; Eiríks af Pommern, en stjórnar þó áfram bakvið tjöldin.
Með þessu var hið víðfeðma Noregsveldi formlega úr sögunni, en það gekk inn í þetta samband. Kalmarsambandið varð til þess að Norðurlönd styrktu stöðu sína gagnvart uppgangi þýskra Hansakaupmanna. Sambandið leystist upp í kjölfar Stokkhólmsvíganna 1520 og Svíþjóð varð konungsríki. Danmörk og Noregur áttu áfram í konungssambandi til 1814 og lutu Íslendingar í raun Danakóngi frá upphafi Kalmarsambandsins þar til lýðveldi var stofnað 1944.
1402
Svartidauði berst til Íslands: Plágan mikla, sem geisað hefur í Evrópu í hálfa öld, hefur nú borist til Íslands. Talið er að hún hafi borist með farmanninum Hval-Einari sem tók land í Maríuhöfn í Hvalfirði, en var að koma frá Englandi.
Ólafur Svarthöfðason prestur frá Skálholti hitti Einar þar, en lést fljótlega og var lík hans flutt í Skálholt. Þaðan breiddist pestin eins og eldur í sinu um allt landið. Svo bráð var hún að menn voru oft liðið lík innan þriggja nátta, svo ekki náðu allir að skrifta og taka aflausn. Heilu sveitirnar eyddust; t.d. lifðu aðeins tvö ungmenni af í Aðalvík og Grunnavík. Talið er að allt að tveir þriðju þjóðarinnar hafi fallið í valinn, og að eftir hana hafi þjóðin talið um 40-60 þúsund manns. Ekki eru heimildir um komu pestarinnar í Rauðasandshrepp, aðrar en þær að séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal ritar í sóknarlýsingu sína árið 1840 að Básar í Seljavík við Bjarg séu „niðurfallnir í Svartadauða eður circa 1348-1349“. Þá var pestin reyndar ekki komin hér til lands.
1406
Snjóvetur hinn mikli: Mikill hrossa- og sauðfjárfellir hefur verið í ár; ekki síst á Suðurlandi. Eftir miðjan vetur hófust hríðarbyljir og snjóar meiri en í manna minnum. Muna engir slíkan felli hrossa og fjár sem þá varð. T.d. lifðu einungis 39 hross af meira en 300 hrossum Skálholtsstaðar. Hörmungar þessar bætast við þær sem hafa yfirgengið landið með Svartadauða.
1413-1550 Enska öldin, Bæjarveldið eflist, Sauðlauksdalur verður kirkjustaður, siðaskipti.
1413
Englendingar á Íslandsmiðum; verslunarsiglingar bregðast; Ekkert skip kom frá Noregi til Íslands á síðasta ári og eru landsmenn orðnir langeygir eftir vörum frá útlöndum. Þetta siglingaleysi er brot á ákvæði Gamla sáttmála frá 1262 (sjá þar) og er kurr í landsmönnum.
Hins vegar varð vart við enska fiskimenn að veiðum hér við land. Nýi annáll segir svo frá: „Kom skip af Englandi austur fyrir Dyrhólmaey. Var róið til þeirra og voru fiskimenn út af Englandi“. Er getið um að minnsta kosti 30 fiskiduggur við landið þetta ár.
Sumar heimildir greina þó frá enskum fiskiduggum fyrr. „Enska öldin“ svonefnda er gjarnan talin hefjast um þetta leyti, en þá jukust mjög siglingar Englendinga á Íslandsmið; einkum til fiskveiða en einnig til verslunar, sem oft leiddi til árekstra við menn Danakóngs. Ástæða þessara löngu veiðferða var sú að fiskneysla hafði aukist mjög í Englandi á 12.-13. öld og hélt sú þróun stöðugt áfram þegar uppskerubrestur varð með kólnandi tíðarfari. Jafnframt minnkaði afli í Norðursjó og skreiðarsala Norðmanna nægði ekki að fullnægja eftirspurn. Einnig komu hér til ítök Hansakaupmanna í skreiðarversluninni, en þar réðu þeir eiginlega lögum og lofum. Sjá 1473 og 1528.
Byggðist Láganúpsver upp á launverslun við Englendinga? Samkvæmt Gamla sáttmála skulu dönsk verslunarskip sigla til íslands minnst sex sinnum á ári. Á þessu hefur viljað verða misbrestur, þó meira hafi verið siglt eftir að skreið hækkaði í verði. Kaupskipin koma einkum í aðalhafnirnar í Hvalfirði og að Gásum. Á Vestfjörðum koma þau einkum á Dýrafjörð.
Launverslun Englendinga hefur án efa verið mikil fjarri dönskum verslunarstöðum. Láganúpsver var t.d. um tíma í eigu Guðmundar ríka Arasonar og alkunna var að hann var mjög hallur undir Englendinga. Má ætla að enskar duggur hafi iðulega legið uppi á Kollsvík og víðar og átt blómleg viðskipti. Það kann að hafa komið fótum undir þann mikla útgerðarstað sem þarna óx upp.
Ný siglingatækni hvetur til langsiglinga: Ör þróun er um þetta leyti í skipa- og siglingatækni ásamt verkun fisks. Fyrstu tvímöstruðu skipin koma fram; fokkan og latneskt aftursegl bætast við fyrra þversegl; skipin hafa stækkað og menn náð betri tökum á saltfiskverkun, sem Englendingar stunduðu um borð í sínum skipum. Burðarmiklar duggur Englendinga halda hingað hlaðnar verslunarvöru; járni, mjöli, víni, köðlum, klæðaefni o.fl. sem selt er hér fyrir matvöru, vaðmál, skreið, ullarfatnað o.fl., þó megintilgangurinn sé veiðar á Íslandsmiðum.
Má t.d leiða að því líkum að Kollsvíkingar hafi keypt af þeim lóðir, sem þá voru nýjung í veiðitækni hérlendis. Þegar árið 1413 eru hér a.m.k. 30 enskar duggur og þær áttu eftir að fara yfir 400 árlega áður en Ensku öldinni lauk um 1475; og yfir 8000 enskir sjómenn á Íslandsmiðum. Fiskveiðar Englendinga hér við land stóðu þó með blóma mikið lengur , eða framyfir 1528. Sjá 1473. (Aldirnar; JÞÞ).
1415
Björn Jórsalafari gengur á drottins fund: Andaður er merkismaðurinn Björn Jórsalafari, en hann hefur líklega ferðast víðar um heim en flestir Íslendingar um hans daga og komið ár sinni vel fyrir borð. Björn var sonur Einars Eiríkssonar í Vatnsfirði og Grundar-Helgu; þeirrar sem lét drepa Smið Andrésson hirðstjóra. Hann var þó ekki skilgetinn og efnaðist ekki af arfi. Ungur fór hann í siglingar og árið 1385 hrakti skip hans til Grænlands (sjá 1390). Voru þeir þar tepptir í tvö ár og sagt var að Björn hafi þar verið skipaður sýslumaður. Hann efnaðist vel í þeirri ferð; líklega af sölu rostungstanna og húða, og heimkominn keypti hann Vatnsfjörð fyrir 150 kýrverð. Grænlandsverslun var ólögleg án leyfis kóngs, svo Björn fór utan til að standa fyrir máli sínu og var sýknaður. Hvort sem það var hluti af sakaruppgjöfinni eður ei lagði hann nú land undir fót ásamt konu sinni, Solveigu Þorsteinsdóttur af ætt Oddaverja, og sigldu þau 1405 áleiðis til Rómar og síðan Feneyja. Þaðan sigldu þau til Jórsalalands og heimsóttu gröf Krists. Er þau komu aftur til Feneyja sigldi Solveig til Noregs en Björn gekk að gröf heilags Jakobs á Spáni; fór síðan að gröf Tómasar Becket í Kantaraborg og loks til Noregs. Heim komu Vatnsfjarðarhjón árið 1411. Þegar Árni Ólafsson var skipaður hirðstjóri 1413 gerði hann Björn að umboðsmanni sínum. Hirðstjóratíð Björns varð stutt, því hann andaðist á þessu ári og var jarðsettur í Skálholti. Dóttir Björns og Solveigar er Kristín sem nefnd var Vatnsfjarðar-Kristín. (Synir Vatnsfjarðar-Kristínar voru hirðstjórarnir Einar og Björn Þorleifssynir (sjá 1480).
Björn Jórsalafari er forfaðir Kollsvíkurættar, enda afkomandi Hafliða Mássonar. Björn var í 11.lið forfaðir Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. Björn var því forfaðir VÖ skrásetjara í 16.lið.
1418
Þorleifur Árnason kaupir Saurbæ: Kaupbréf 11.06.1418: Þorleifur Árnason kaupir Bæ af Þorsteini Sigurðarsyni og Helgu Þórðardóttur. Þorleifur er frá Grenjaðarstað í Aðaldal en giftist 1405 Vatnsfjarðar-Kristínu Björnsdóttur, sem þá hafði misst fyrri mann sinn, Jón Guttormsson, í svartadauða. Með Kristínu fékk Þorleifur miklar jarðeignir, m.a. Vatnsfjörð. Hann var sýslumaður í Hegranesþingi en bjó seinast á Vatnsfirði og hafði þá allar sýslur á Vestfjörðum. Saurbæ kaupir hann þetta ár, og fylgja þá líklega margar aðrar jarðir.
Ekki er ljóst hvort Láganúpur er þá þegar orðin eign Saurbæjarkirkju eða hvort það var Þorleifur sem keypti jörðina undir kirkjuna, og þá vafalaust vegna möguleika til útgerðar og skreiðarverkunar. Þorleifur og Kristín eignuðust mörg börn. Þeirra á meðal voru Björn ríki á Skarði, maður Ólafar Loftsdóttur, og Helga eldri, kona Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum. Með Helgu fékk Guðmundur Saurbæ á Rauðasandi og þar með Láganúp og aðrar jarðir. Þorleifur dó 1433. Ekkert er vitað um Þorstein og Helgu sem þarna seldu Þorleifi Saurbæ.
1419
Láganúpur eign Saurbæjarkirkju: Í máldaga Maríukirkju í Saurbæ á Rauðasandi þetta ár er Láginúpur talinn meðal jarðeigna kirkjunnar. Er hann elsta heimildin þar sem Láganúps er getið. Í Vilkinsmáldaga árið 1397 er Láganúpur ekki talinn upp meðal eigna kirkjunnar.
Fjöldi enskra dugga ferst á skírdag: Á skírdag, hinn 13.apríl gerði mikið óveður og braut að minnsta kosti 25 ensk skip víða umhverfis landið. Allir skipverjar af þeim fórust. Mikill floti af enskum fiskiskipum kemur jafnan snemma árs á Íslandsmið, eða á annað hundrað skipa að talið er.
1431
Bænhús stofnsett að Breiðuvík: Jón Gerreksson Skálholtsbiskup hefur stofnsett bænhús að Breiðuvík. Skal það eiga tíu hundruð í heimalandi jarðarinnar, sem er einkum hluti Látrabjargs, eða svonefnt Breiðavíkurbjarg. Kirkjan skal taka heimamannatíundir og lýstolla alla.
Bænhús kann að hafa verið fyrr í Breiðuvík, en aflagst um tíma. ÁM segir í Jarðabókinni 1703 að þar sé hálfkirkja og embættað tvisvar á ári, en það er þjónusta sem hæfir bænhúsum. Sóknarkirkja verður þar 1824, sjá þar. Jón Gerreksson var danskur að uppruna og vinur Eiríks af Pommern, sem gerði hann Erkibiskup í Uppsölum. Páfi dæmdi hann frá embætti fyrir kvennafar en veitti aftur uppreisn æru og vígði til Skálholts. Þangað kom hann 1426 með sveinaliði sem hér þóttu ribbaldar. Hlutverk hans var m.a. að stemma stigu við uppgangi og verslun Englendinga, en þeir höfðu hér mikil ítök. Til Hóla hafði t.d. vígst enski biskupinn Jón Vilhjálmsson Craxton. Að því kom að hópur Íslendinga fór að Jóni Gerrekssyni í Skálholti 14.07.1433; setti hann í poka og drekkti honum í Brúará, en drápu sveina hans. Með þessari líflátsaðferð komust menn hjá því að úthella blóði kirkjunnar þjóns, sem hefði talist mun verri glæpur en drekkingin.
Fjöldi guðshúsa á Íslandi: Samkvæmt kirknatölum 1429-1430 má gera ráð fyrir að í Skálholtsbiskupsdæmi séu 210-220 sóknarkirkjur og 700-800 bænhús. Í Hólabiskupsdæmi er ætlað að séu 110 sóknarkirkjur og 147 bænhús. Þessum um eitt þúsund guðshúsum landsins er þjónað af rösklega 400 prestum. (Öldin fimmtánda).
1445
Fæddur Þórður tindaskrjóður: Þetta ár fæddist Þórður tindaskrjóður Þórðarson. Faðir hans var séra Þórður Hróbjartsson prestur á Hólum í Hjaltadal, en móðir Þóra Illugadóttir nunna á Reynisstað.
Ekki er vitað um ævi Þórðar tindaskrjóðs; hvar hann bjó eða hvað hann starfaði; ekki heldur hver var barnsmóðir hans, en dóttur átti hann sem hét Þorgerður Þórðardótir. Hún var fædd 1477, en óvíst er um dánarár Þórðar. Því er hans hér getið (auk hins óútskýrða skondna viðurnefnis) að hann var forfaðir Kollsvíkinga; Kristján Ásbjörnsson (25.08.1859-25.11.1926) á Grundum var frá honum kominn í 13.lið. Sjálfur var tindaskrjóður 10.liður frá Þorgeiri Hallasyni; afa Guðmundar biskups góða.
1446
Guðmundur ríki Arason dæmdur til útlegðar: Guðmundur ríki Arason, einn auðugasti maður Íslands, hefur nú verið dæmdur frá eignum sínum og til útlegðar og ærusviptingar. Er honum gefið að sök að hafa farið um með ránum og yfirgangi og tilfærð slík brot hans í Húnaþingi fyrir 20 árum. Dóminn kvað upp Einar Þorleifsson hirðstjóri, mágur Guðmundar. Guðmundur er flúinn á konungsfund að leita sér náðar. Guðmundur er af ríku fólki kominn; sonur Ara ríka á Reykhólum, sem átti 100 jarðir. Árið 1423 kvæntist hann Helgu Þorleifsdóttur úr Vatnsfirði, en með henni fékk hann m.a. höfuðbólið Saurbæ á Rauðasandi og miklar eignir aðrar. Helga lést árið 1431, og er líklegt að þá hafi Þorleifur bróðir hennar farið að renna hýru auga til eigna Guðmundar, en með þeim voru litlir kærleikar. Guðmundur hefur átt nokkur skipti við Englendinga, sem kóngi eru lítt að skapi. Getur hann þvi vart vænst mikillar meðlíðunar þar á bæ.
Þegar þessi dómur er upp kveðinn á Guðmundur 6 höfuðból: Saurbæ með 16 útjörðum; Brjánslæk með 13 útjörðum; Núp með 32 útjörðum; Reykhóla með 32 útjörðum; Kaldaðarnes með 37 útjörðum og Fell í Kollafirði með 5 útjörðum. Jarðeignir eru taldar nema 3.217 hundruðum og kúgildi með þeim eru 788. Helga og Guðmundur eignuðust tvö börn; Ara og Solveigu, en Guðmundur á einn son óskilgetinn; Andrés að nafni.
Kollsvík og Láganúpur meðal eigna Guðmundar ríka: Meðal þeirra eigna sem nú eru skráðar í búi Guðmundar Arasonar eru: „Kollzvijk 24 hundruð“, 4 kúgildi með. Laganupur 18 hundruð með 4 kúgildum, kirkju eign“.
Forfaðir Kollsvíkurættar: Guðmundur Arason er einn af forfeðrum Einars Jónssonar sem Kollsvíkurætt er rakin frá; gegnum móður Einars; Margréti Arnfinnsdóttur, Gröf í Þorskafirði, og konu Einars; Guðrúnu Jónsdóttur sem átti ættir til Láganúps.
Guðmundur ríki Arason er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 14.lið. Má því til sanns vegar færa að Kollsvík hafi verið í eigu sömu ættar eins langt aftur og sögur herma (að Kolli landnámsmanni e.t.v. fráskildum); þó ekki sé það samfellt.
1460
„Guðmundur ríki fékk Botn og Kollsvík með ofríki“: Málaferli hafa staðið vegna upptöku á eignum Guðmundar Arasonar árið 1446, og ýmis vitni leidd fram. Í dómskjölum segir m.a: „Leggur eg, Brandur Sigurðsson, það til að eg vissa að Guðmundur Arason fékk með ofríki og aungvan rétt Botn í Patreksfirði og Kollsvík í Sandshrepp 24 hundruð hvor fyrir sig“.
1466
Björn og Ólöf alls ráðandi vestra: Ólöf ríka, dóttir Lofts Guttormssonar hins ríka og maður hennar Björn ríki Þorleifsson, búa á höfuðbólinu Skarði. Eftir að eignir Guðmundar Arasonar féllu til konungs 1446 fékk Einar Þorleifsson hirðstjóri þær í fyrstu til umráða, en hann varð úti 1452. Síðar náði Björn ríki bróðir hans að kaupa konungshlutinn fyrir 400 nóbíl og greiddi síðustu greiðsluna 1466. Með því eiga þau hjón nær allar eignir á Vesturlandi og á sunnanverðum Vestfjörðum.
1467
Englendingar drepa Björn hirðstjóra Þorleifsson: Enskir siglingamenn gerðu aðsúg að Birni Þorleifssyni hirðstjóra og mönnum hans í Rifi, og drápu hann. Miklar viðsjár hafa verið í landinu sem leitt hafa til þessa. Er það annars vegar milli kóngs og Englendinga, en ásókn hinna síðarnefndu hefur stórum aukist, bæði í fiskveiðar og verslun hérlendis. Hinsvegar hefur verið vaxandi spenna milli Björns hirðstjóra og hans fólks annarsvegar og Solveigar, dóttur Guðmunds ríka á Reykhólum. Hefur Sólveig sótt það fast að ná sínum hlut af eignum föður síns úr klóm Björns. Hún hefur til þess fulltingi Lofts Ormssonar, frænda Björns, en þau hafa verið fremur vinveitt Englendingum, svo sem var Guðmundur faðir hennar. Er Björn var veginn var hann í aðför að Englendingum og öðrum sem sölsað höfðu undir sig eignir hans á Rifi. Ólöfu ekkju Björns tókst að losa Þorleif son þeirra úr haldi Englendinga og þau elta nú uppi Englendinga í refsingarskyni. Höfð eru eftir henni þessi ummæli: „Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði“.
Björn Þorleifsson var meðal forfeðra Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra.
Geirseyrar getið í skjölum: Byggðar á Geirseyri er fyrst getið í skiptagerningi eftir Björn ríka Þorleifsson (sjá hér að ofan), en jörðin var hluti af miklu eignasafni hans.
1469
Solveig gefur Saurbæjareignir: Hinn 23. september lýsti Solveig Guðmundsdóttir (Arasonar ríka) því yfir að hún hafi gefið Andrési Guðmundssyni, hálfbróður sínum, jörðina Saurbæ á Rauðasandi og nærliggjandi jarðir. Þessi gjörningur var gerður í heilagri Jóhannesarkirkju í Björgvin. Solveig hefur verið ytra í nokkur misseri, ásamt Lofti Ormssyni. (Aldirnar).
Loftur svíkur Solveigu: Sviptingar eru í eignamálum höfðingja og enginn annars bróðir í leik. Loftur Ormsson hefur verið Solveigu Aradóttur til fulltingis um að hún nái eignum þeim sem hún taldi sig eiga erfðarétt til eftir föður sinn; Guðmund Arason ríka. Í trausti þess hafði hún gefið Andrési Saurbæjareignir (sjá ofan). Loftur er náfrændi Þorleifs Björnssonar, en þeir eru tvöfaldir systkinasynir. Þeir frændur hafa nú sammælst um það að erfðakröfur Solveigar falli niður.
(Aldirnar).
1471
Vestfirskur rekaviður greiddur með syndaaflausn: Sveinn spaki Pétursson Skálholtsbiskup hefur sent bréf vestur á firði til að biðja um rekavið fyrir Skálholtskirkju. Býður hann sem greiðslu 40 daga afllát synda í krafti heilagrar kirkju. Bréfið er sent prestum á Vestfjörðum. Segir biskup að „heilög Skálholtskirkja og hennar stöpull séu mjög lítt standandi sakir viðaleysis og þurfi mikillar hjálpar og endurbætingar ef þau skulu eigi innan lítils tíma fordjarfast og í grunn niður falla“. Sveinn biskup þykir ýmsum kostum búinn og hafa margir á orði að hann sé forspár og skilji hrafnamál. (Aldirnar).
1473
Dregur úr verslun Englendinga: Nokkur umskipti eru að verða í siglingum útlendinga til landsins og verslun þeirra hér. Þjóðverjar sigla nú í vaxandi mæli til Íslands, en þeir hafa stundað reglulegar verslunarferðir frá 1470. Englendingar hafa mjög gert út á Íslandsmið og átt blómlega launverslun við Íslendinga um áratuga skeið. Þeir þurfa hér eftir leyfi til slíkra siglinga eftir friðarsamninga sem gerðir hafa verið. Í raun hafa þeir misst eigur sínar á Norðurlöndum og það alræði sem þeir hafa haft yfir íslenska skreiðarmarkaðnum. Þessu fylgir vaxandi spenna milli þeirra og Þjóðverja.
Borgin Lynn í Austur Anglíu hefur gegnt lykilhlutverki í verslun Englendinga á Íslandi. Árið 1424 mynduðu Íslandskaupmenn þar með sér samtök. Verslunin hefur staðið með blóma í meira en hálfa öld (sjá 1412) og hafa Englendingar m.a. keypt héðan mikið af skreið en einnig annan fjölbreyttan varning. T.d. voru kaupmenn staðnir að því að kaupa börn á Íslandi. (Hafa menn það til marks að í Bristol voru Íslensk-fæddir menn 49 af 51 útlendingi árið 1484). Íslandsförin ensku leggja að jafnaði úr enskum höfnum á tímanum frá febrúar til apríl, en koma aftur í ágúst eða september. (Sjá 1413 og 1528)
1480
Kollsvík í skiptabréfi: Kollsvíkur er getið í skiptabréfi eftir Ólöfu Loftsdóttur, milli Þorleifs og Einars Björnssona. Fékk Einar í sinn hlut Saurbæ á Rauðasandi og fleiri jarðir þar, einnig „Kirkivbol j Kollzuik“.
Enn sviptingar með Saurbæjareignir: Solveig Guðmundsdóttir hefur ekki látið deigan síga varðandi endurheimt eigna föður síns. Frá barnæsku hefur hún barist við mótlæti, en móður sína missti hún fimm ára og er hún var 15 ára hvarf faðir hennar eftir að hafa verið dæmdur frá eignum og æru. Frændfólk hennar hefur síst reynst henni hliðhollt, en hún hefur átt Englendinga að vinum og náði góðum skilningi kirkjunnar manna. Eftir svik Lofts Ormssonar (sjá ofar) fékk hún liðsinni konungs, sem fól Pining umboðsmanni sínum að hlutast til um erfðamál Solveigar. Hún giftist duglegum alþýðumanni; Bjarna Þórarinssyni, sem gert hefur kröfur fyrir hennar hönd með tilstyrk konungs.
Bjarni settist að á Saurbæ á Rauðasandi, sem Einar Björnsson telur sér til arfs eftir móður sína (sjá hér ofar). Þorleifur bróðir Einars fór þá að honum; lét handtaka hann og flytja til sín á Reykhóla. Þá skarst Hrafn lögmaður Brandsson í leikinn. Hann reið vestur að Reykhólum og neyddi þá bræður til að gera við sig samning (28. febrúar) um að Bjarna yrði sleppt úr haldi og að hann yrði látinn í friði í Saurbæ. Á móti skyldi Bjarni láta þá bræður óáreitta og skyldu mál þessi rekin á næsta Öxarárþingi.
Á Öxarárþingi var Solveigu loksins dæmdur allmikill arfur eftir föður sinn. Hún skyldi fá eftir móður sína 25 hundruð hundraða og eftir föður sinn hálft þrettánda hundrað hundraða. Auk þess hlut í sektum sem krúnunni höfðu fallið. Þótti Þorleifur þarna hafa beðið mikinn ósigur.
1483
Dauður Galdra-Keli: Séra Þorkell Guðbjartsson prestur í Laufási er látinn. Hann var einhver fjölmenntaðasti klerkur landsins og nam víða í útlöndum. Á unga aldri var hann ráðsmaður Hólastóls og gegndi margvíslegum embættum. Hann fléttaðist inn í átök og valdabaráttu landsins með ýmsum hætti og átti í deilum við marga. Auðmaður varð hann mikill en þótti afskaplega óstýrilátur kirkjuhöfðingi. Hann náði völdum yfir Hólastóli eftir lát Jóns biskups Tófasonar; var með Múla í Aðaldal; prestur Grenjaðarstaðar 1430-1440 en síðan í Laufási til dauðadags. Mikið galdraorð fór af Þorkatli, eins og verða vill um lærða menn. Var hann nefndur „Galdra-Keli“. Sagt er að hann hafi skrifað þá frægu galdraskræðu Gráskinnu, sem Galdra-Loftur reyndi að komast yfir.
Ekki var faðir hans talinn síðri galdramaður; séra Guðbjartur Ásgrímsson flóki, sem var prestur í Laufási og síðar að Bægisá. Hann mun hafa lært erlendis; í París og Þýskalandi. Sögur fóru af frillulífi hans svo að Pétur Nikulásson biskup sendi djákna í Hörgárdal til að víkja honum úr starfi. Fór svo að kaupmáli var gerður milli prests og frillu hans, sem er elsti skráði kaupmálinn á Íslandi. Guðbjartur var forfaðir flestra sýslumanna Vestfirðinga á 17.öld.
Þorkell Guðbjartsson var langafi Magnúsar prúða og forfaðir Kristjáns Ásbjörnssonar á Grundum (25.08.1859-25.11.1926). Því forfaðir VÖ skrásetjara í 15.lið, skv. Íslbók.
1481
Bardagi í Skor vegna Bæjareigna: Einar Björnsson fór með lið til Rauðasands, í þeim tilgangi að endurheimta aftur Saurbæjareignir, sem hann telur sínar. Bæjarbændum; Solveigu Guðmundsdóttur og Bjarna Þórarinssyni, barst njósn af ferðum þeirra. Fór Bjarni með lið sitt í Skor, þar sem kom til bardaga er menn Einars sigldu í voginn. Var þar höggvið, slegið og skotið, bæði með byssu og bogum. Er skemmst frá að segja að Bjarni stökkti innrásarliðinu á flótta. Tók hann frá Einarsmönnum áttæring með rá og reiða; sjö sverð; tvo hjaltahnífa; eitt armbrysti og fleira.
Hinsvegar hefur Pining hirðstjóri ekkert gert í að framfylgja úrskurði Alþingis frá í fyrra. Er talið að hann veigri sér við að ganga svo þvert gegn hagsmunum voldugustu fjölskyldu í landinu.
Bjarni drepinn: Bjarni Þórarinsson í Saurbæ hefur þrisvar verið handtekinn af Þorleifi og Einari Björnssonum og mönnum þeirra í kjölfar bardagans í Skor. Í síðasta skiptið var farið með hann að Brjánslæk þar sem þeir tóku hann af lífi. Bjarni var vel liðinn í sinni sveit og kallaður „Bjarni góði maður“.
1485 (ca)
Finnafjós Jóns í Sauðlauksdal: Sagt er (séra Björn Halldórsson) að á þessum árum hafi Jón Jónsson Íslendingur verið í Englandi, og til húsa hjá fátækri konu. Veiktist hann þá, þannig að hann þóttist einskis matar geta neytt annars en mjólkur; en hana var ekki að fá. Konan bað hann þá að lýsa nákvæmlega staðháttum fjóss hans í Sauðlauksdal, og kvaðst geta „finnvikað“ þaðan mjólk. (Orðið finnst ekki annarsstaðar, en vísar líklega til þess sama og t.d. finnagaldur og finngálkn, en Samar og Finnar voru taldir göldróttir mjög). Jón lýsti fjósi sínu og staðháttum, en eftir það gaf konan honum mjólk í hvert mál og honum batnaði af. Er Jón kom heim til Sauðlauksdals var honum sagt að nyt hefði horfið úr hans bestu kú, og þóttist hann þá skynja galdra kerlingar. Þegar ekki dugði að brjóta nýjar dyr á fjósið tók hann til þess ráðs að færa það á þann stað sem það stóð lengi síðan.
(Þjóðsaga sem Björn Halldórsson skráði og nefndi „Finnafjósið í Sauðlauksdal“. Segir hann að tóftarbrot af því fjósi séu „ hér úti á túninu“. Björn ritaði um ævi Jóns Íslendings og segir hann hafa verið fæddan um 1467 en dáinn 1533).
1490
Píningsdómur bannar búðsetu: Diðrik Pining höfuðsmaður kallaði á lögmenn og lögréttumenn á Alþingi nú 1. júlí til að dæma og skoða ýmis mál, bæði varðandi vetursetu kaupmanna hérlendis og langtímadvöl verkafólks og sjómanna í þurrabúðum og verbúðum. Í dómnum er áréttaður friður sem saminn var milli Noregskonungs og Englandskonungs um að bæði enskir og þýskir megi fara hér með kaupskap og nota þær mælieiningar sem að fornu hefur tíðkast. Þeir mega hafa þær hafnir sem þeim hentar en skulu fara með friði og engir útlendir kaupmenn skulu hafa vetursetu hérlendis. Kaupmenn mega ekki hafa Íslendinga í sinni þjónustu, né heldur stunda útgerð. Íslendingum er bannað að hýsa útlendinga. Enginn má dvelja langdvölum í búð án búskapar; allir sem eiga minna en þrjú hundruð skulu vinna hjá bónda.
Píningsdómur hefur oft verið túlkaður sem tilraun bændasamfélagsins til að sporna við þéttbýlismyndun, enda var búskapur háður miklum mannafla. Um leið er hann talinn styrkja stöðu þýskra kaupmanna gagnvart hinum ensku.
1494
Mannskæð plága sneiðir hjá suðurhluta Vestfjarða: Mikil plága gengur nú um allt landið, að undanskildu suðursvæði Vestfjarða; frá Rauðasandi til Önundarfjarðar. Telja menn að hér sé Svarti dauði aftur kominn á ferð, enda eru einkennin svipuð og afleiðingar jafn geigvænlegar. Pestin mun hafa komið upp í ensku skipi sem var á reki í sundunum við Seltjarnarnes (aðrir segja við Hafnarfjörð). Menn fóru um borð og sáu að skipshöfnin var öll látin, en fluttu með sér varning á land sem talinn er upphafið á pestinni. (Pestin geisaði til 1496 og kostaði þúsundir mannslífa). (Aldirnar; Sauðlauksdalsannáll).
1498
Saurbær til Andrésar Guðmundssonar: Björn yngri Þorleifsson hefur núna afsalað sér nokkrum stóreignum undir Andrés Guðmundsson (ríka Arasonar) og erfingja hans, til friðar og frelsis fyrir sig og foreldra sína. Björn er sonur Þorleifs Björnssonar sem árið 1481 náði eignunum aftur frá Solveigu systur Andrésar eftir að hafa drepið Bjarna mann hennar. Þorleifi og Einari gekk betur en Solveigu að ná hylli konungs og missti hún flestar sínar eignir. Andrés átti í miklum deilum við bræðurna og 1483 kom til bardaga á Reykhólum. Bæði Þorleifur og Einar eru nú látnir og er Björn yngri meiri friðsemdarmaður en forfeður hans. Hann er fjölmenntaður og hefur fengist við ritun bóka. Þær eignir sem hann nú eftirlætur Andrési eru höfuðbólin Saurbær, Núpur, Hestur í Önundarfirði, Kaldaðarnes í Bjarnarfirði og þær jarðir sem höfuðbólunum fylgja. Allar jarðirnar voru fyrrum í eigu Guðmundar ríka Arasonar; föður Andrésar.
1499
Sauðlauksdalskirkja fær skógarhögg: Jón Jónsson Íslendingur (sonur Solveigar Björnsdóttur ríka?) gjörði það kunnugt með bréfi á Þorláksmessu 23. desember, þá staddur á Patreksfirði, að hann gæfi bænhúsinu í Sauðlauksdal, sem heyrir undir Saurbæjarkirkju á Rauðasandi, skógarhögg í jörðinni Trostansfirði í Arnarfirði. „Mega þeir höggva skóg hvar sem þeir vilja á jörðinni. Hér með mega þeir menn sem í skógi vinna á fyrrgreindri jörð að ósekju troða gras og hafa beit fyrir eyki sína meðan þeir þurfa í skógi að vinna; að undanteknum tröðum og engjum og öllu skaðræði við þá sem þar búa. Sömuleiðis mega þeir sem vinna í skógi í Trostansfirði frá Dal stinga eða raska jörðu til kolabrennslu að ósekju; að skaðlausu þeim sem jörðina eiga“.
Ekki er fyllilega ljóst um uppruna Jóns Íslendings. Séra Björn í Sauðlauksdal gat þess til að hann væri sonur Solveigar Björnsdóttur hins ríka og Jóns Þorlákssonar. Ólafur Lárusson sagnfræðingur taldi það síðar útilokað og sennilega hefði hann verið sonur séra Jóns Snorrasonar sem átti Hvallátra og Hnjót sem Jón Íslendingur eignaðist, og síðar Filippus sonur hans.
1500
Virðingargjörð Saurbæjarkirkju: Séra Jón Halldórsson prófastur og „almennilegur dómari millum Gilsfjarðar og Langaness“ gerði, ásamt fleirum, virðingargjörð á Saurbæjarkirkju, að beiðni Andrésar bónda Guðmundssonar á „hans eigin kirkju“. Leist þeim kirkjan rotin og að niðurfalli komin; fáir viðir í henni hæfir og torf engin. „Þá gjordum ver fyrr greinda kirkiu fyrir sio hundrud til kaups með ollum sinum vidum. Skrifad i Gufudal i Gufufirdi fimtudaginn næsta epter Matteus messu. Þá er lidit var fra hingadburdi vors herra Jhesu Christi þusund CCCC og tiutugir aura“.
Andrés hefur ekki verið ánægður með þetta mat, því árið 1506 fær hann hinn almennilega dómara til Saurbæjar ásamt fleiri matsmönnum til að meta kirkjuna og það sem hann hafði til hennar lagt. Má ætla að þá hafi kirkjan verið gerð upp, utan sem innan, því mikil er hækkun matsins. Kirkjan er þá metin á þrjátíu hundruð, en „ornamentum og bílæti“ er metið á rúm fimmtán hundruð. (Minnir óneitanlega á útþenslu efnahagsreikninga bankanna fyrir bankahrunið 2008).
1509
Björn Guðnason í Ögri ráðstafar Kollsvík: Björn Guðnason í Ögri hefur gert skrá og reikningsskap yfir jarðagóss og eignir Bjarna Andréssonar, tengdasonar hans, sem andaður er. Meðal jarðanna er „Kollzuik fiorum hundruðum og tuttugu“. Einnig eru talin upp kúgildi á leigustöðum, m.a: „tvo hia Joni j Kollzvik“. Síðan er talinn upp leigumáli og landskuldir, m.a: „Kollzvik fyrir fiorar ær og fiorar vætter skreiðar. Svara fiorvm tivndvm prestskylld. Avllvm lavgdkilvm fyrir jordina. Er þar nv golldinn hallfr atte fiordvngr fiska fram fyrir“. (Ísl.fornbréfasafn VIII bindi). Samkvæmt skránni skal í Kollsvík svara fjórum tíundum og prestsskyld (Björk Ingimundard; Prestaköll).
Bjarni var sonur Andrésar Guðmundssonar hins ríka, en hann giftist Guðrúnu dóttur Björns Guðnasonar í Ögri og bjuggu þau á Brjánslæk. Bjarni hafði alist upp hjá Jóni dan Björnssyni á Hrafnseyri; sem var launsonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Jón danur hafði, árið 1503, farið í herferð til Reykhóla og hrakið þaðan Björn yngra Þorleifsson, bróðurson sinn, á þeim forsendum að Kristín kona Jóns hafi átt þar erfðarétt, en hún var bróðurdóttir Ólafar Loftsdóttur, konu Björns ríka. Ekki er full ljóst hvort Bjarni Andrésson fékk eignarhald á Saurbæ, og þar með Kollsvík, gegnum þessar aðgerðir fóstra síns eða hvort jarðirnar voru frá föður hans komnar. Í nefndri skrá kemur fram að hann átti 25 jarðir víðs vegar um Vestfirði og jarðarparta að auk, fyrir utan kúgildi og annað.
Prestsskyld af Kollsvík: Leigumáli jarðarinnar Kollsvíkur (Kirkjubóls) í Kollsvík á þessum tíma kveður á um að leiguliði skuli m.a. „svara prestsskyld“ af henni. Prestsskyldin hefur vafalaust verið söngkaup sem greiða átti presti af hálfkirkju eða bænhúsi sem á jörðinni hefur verið. (Ólafur Lárusson; Byggð og saga).
Til viðbótar þessu tillagi leiguliðans hefur hálfkirkjan í Kollsvík væntanlega fengið ljóstoll af þeim sem þar gátu vænst greftrunar. Ljóstollur var lögboðinn í Kristinrétti árið 1275. Hver tíundarskyldur bóndi skyldi greiða hann graftarkirkju sinni, og voru hálfkirkjur skattkirkjur í þessu tilliti. Hver maður sem gjalda átti eina alin vaðmáls í tíund skyldi greiða í ljóstoll tvo aura vax eða ígildi þess; 12 álnir vaðmáls. Frá 1782 varð skatturinn 8 mörk tólgar eða 26 aurar í reiðufé. Húsmenn greiddu hálfan ljóstoll, og svo var einnig um vinnuhjú frá 1817. Tollurinn var greiddur að hausti til kirkjuhaldara. Hann var afnuminn árið 1909 ásamt öðrum fornum sköttum kirkjunnar, en í stað þeirra kom sóknargjald.
1512
Sauðlauksdalsbóndi dæmdur ófriðhelgur vegna ofríkis: Jón Jónsson Íslendingur, sem er í hópi gildari bænda á Vestfjörðum, hefur gert tilkall til Eyrar í Seyðisfirði í Djúpi. Byggir hann kröfu sína á því að sér hafi borið jörðin sem arfur eftir móður sína, Solveigu Björnsdóttur (hins ríka Þorleifssonar). Því var Björn Guðnason í Ögri ekki sammála, en Jón lögmaður Sigmundsson hafði dæmt hann réttan eiganda og tilkall Jóns Íslendings ólögmætt. Aftur á móti hafði Stefán Skálholtsbiskup Jónsson úrskurðað það á yfirreið sinni í fyrra, að Eyri og fleiri jarðir skyldu koma í hlut Jóns Íslendings. Nú í vor reið Jón Íslendingur með liðsafnað úr Sauðlauksdal norður að Eyri. Braut hann þar upp hús; beitti heimilisfólk harðneskju; og rak burt búfénað.
Björn kærði þessar aðfarir á Öxarárþingi og fékk þann úrskurð Ólafs Diðrikssonar hirðstjóra að dómur Jóns Sigmundssonar stæði. Aftur gerði Jón Íslendingur áreið að Eyri og enn ítrekaði lögmaður dóm sinn. Dæmdi hann að auk að Jón Íslendingur skyldi rétt tækur í fullt fangelsi. Í hönd fóru eftir þetta hatrammar deilur milli Stefáns biskups annarsvegar og Björns og Jóns Sigmundssonar honsvegar. Lyktaði þeim með því að biskup bannfærði Jón og hann missti lögmannsembættið en Björn sá sér þann kost grænstan að friðmælast og láta af hendi verulegar eignir. Eftir dauða Björns í Ögri 1518 lét biskup dæma hann í miklar sektir. Sjálfur lést Stefán biskup stuttu síðar.
Sóknarkirkja sett að Sauðlauksdal: Stefán Jónsson Skálholtsbiskup hefur sett alkirkju í Sauðlauksdal og stofnað sérstaka kirkjusókn til hennar. Nær Sauðlauksdalssókn frá Blakknesi að sunnanverðu; með byggðum við Patreksfjörð, allt að Tálkna. (Máldagi er dagsettur 1515 og þá vígð ný sóknarkirkja). Áður tilheyrði þetta svæði Saurbæjarkirkju, eins og allar aðrar byggðir í Rauðasandshreppi. Tildrög þessa eru þau að Jón Jónsson Íslendingur og Dýrfinna Gísladóttir kona hans; eigendur Sauðlauksdals, efldu mjög hag bænhússins í Sauðlauksdal þegar þau gáfu því gjafir og ýmis hlunnindi, t.d. skóg í Trostansfirði. Þau gefa hinni nýju Sauðlauksdalskirkju sex hundruð í heimalandi Sauðlauksdals; auk þess 60 sauða beit á Hvallátrum; 6 manna sölvafjöru þar; sjötta hluta reka í Keflavík og rétt til að gera út teinæring frá Látrum án vertolla.
Næstu tvær aldir var prestakallið þingabrauð og sátu prestar þá á ýmsum jörðum, flestir þó framan af í Saurbæ en eftir 1600 í Sauðlauksdal. Fram til 1724 átti kirkjan aðeins fyrrnefnd hundruð í heimajörðinni í Sauðlauksdal en á árunum 1724 til 1728 gáfu Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ og systur hennar Sauðlauksdalskirkju allt sem þær áttu í Sauðlauksdal og var kirkjan þar með orðin eigandi allrar jarðarinnar. Þar með var Sauðlauksdalur orðinn staður og upp frá því var þar fast prestssetur.
1514
Bænhússkyld á Melanesi: Stefán biskup Ólafsson í Skálholti hefur skipað ævinlega bænhússkyld á Melanesi í Rauðasandshreppi (þar hafði þó sennilega verið bænhús um langan tíma), og leggur Ari bóndi Andrésson fé þar til. Er bænhúsið helgað Guði, jómfrú Maríu og öllum Guði helgum mönnum, einkum Magnúsi Eyjajarli. Skal bænhúsið eiga þrjú málnytju kúgildi; Maríulíkneski og vígða klukku. Þar skal syngja 12 messur og gjalda presti 6 aura í kaup.
Bænhúsið lagðist af eftir siðaskipti, líkt og önnur í Rauðasandshreppi. (Magnús Már Lárusson telur orðalag vígslubréfsins vera þannig að um frumvígslu gæti hafa verið að ræða. Ekki finnast eldri heimildir um bænhús þar. Saga; 3.tbl.1962).
1515
Kirkjuvígsla og máldagi Sauðlauksdalskirkju: Hinn 15.09.1515 vígði Stefán biskup Jónsson Skálholtsbiskup Sauðlauksdalskirkju og samdi henni máldaga. (Prestskyldin var til hennar lögð 1518). Vígslubréf biskups er svolátandi: „Vér Steffan, með guðs náð biskup á Skálholti; gjörum góðum mönnum kunnugt með þessu voru opna bréfi, að í heiðri við allsmektugan guð og hans vel signuðu móður jómfrú sankte Maríu, og alla guðs helga menn; einkanlega og sérdeilis við sælan Thorlachum biskup, höfum vér vígt kirkjuna í Sauðlauksdal í Patreksfirði, með þeim máldaga sem skrifaður er í því bréfi sem hér með er fest. Skipandi hérmeð að auki þeirra jarða og bæja tilgreindrar kirkju sem liggja í Patreksfirði á milli Tálkna og Straumness, með tíundum og ljósatollum og allri þeirri rentu og með rétti sem þingnautum ber að veita sinni sóknarkirkju fullmektugri. Item, gefum vér í guðs trausti öllum rétt skrifuðum mönnum 40 daga aflát í hvert það sinn vitja með góðfýsi greindrar kirkju, að heyra guðs embætti eða flytja fram guðlegar bænir sér til sáluhjálpar og öðrum. Og til sanninda hér um festum vér vort innsigli fyrir þetta kirkjuvígslubréf, skrifað á Brjánslæk á Barðaströnd 15. sept. 1515“.
Með þessu eru graftrarkirkjur orðnar þrjár í Rauðasandsþingum; í Kollsvík, Saurbæ og nú hin nýja Sauðlauksdalskirkja. Eins og fram kemur í skjali Stefáns biskups veitir hver messusókn 40 daga aflausn synda, sem þýðir að hver maður þarf að sækja messu á minnst 40 daga fresti til að halda sinni sálarheill. Fyrsti prestur í Sauðlauksdal var líklega Jón Erlingsson, eða frá 1513 til 1523. Hann var af Hagaætt og skyldur Dýrfinnu,konu Jóns Íslendings. (Rósinkrans Á Ívarsson; Ágrip af sögu kirkju og presta í Sauðlauksdal).
1519
Ögmundur biskupsefni kominn á Vatneyri eftir Grænlandshrakninga: Ögmundur Pálsson ábóti Viðeyjarklausturs var í sumar kosinn til Skálholtsbiskups og lét bráðlega í haf á skútu Skálholtsstaðar til biskupsvígslu í Niðarósi. Með honum í för var Vigfús lögmaður Erlendsson sem Ögmundur ætlaði að styðja í embætti hirðstjóra gegn stuðningi hans í biskupsstólinn. Ferðin tókst þó ekki betur en svo að þeir hrepptu andviðri og volk og hröktust að Grænlandsströndum. Sagt er að þeir hafi komið þar á land og séð fólk og fé við stekki. En er þeir hugðust heilsa upp á fólkið rann á hagstæður byr svo siglt var af stað. Náðu þeir inn á Patreksfjörð nú í haust. (Aldirnar o.fl.).
Sagan um að Ögmundur og félagar hafi séð fólk við stekki á Grænlandi er e.t.v. hæpin, en sé hún sönn er þetta síðasta heimildin um norræna menn þar. Árið 1350 (sjá þar) sagði norskur prestur að hann hafi komið þar að mannlausum byggðum, en líklega varði byggðin þó lengur en það (sjá 1390).
1521
Lúður Filippusar á Látrum heillar Danakóng: Áður en Ögmundur sigldi aftur á fund erkibiskups í Niðarósi til biskupsvígslu taldi hann sig þurfa að gera ráðstafanir nokkrar til að blíðka kóng. Ástæðan var uppákoma sem varð á Breiðabólstað er hann var þar prestur, en þá höfðu sveinar hans hálfdrepið kóngsins mann. Ögmundur átti í fórum sínum tvær stórar rostungstennur sem hann hafði fengið að gjöf. Nú samdi hann við tvo færustu skurðmeistara landsins; séra Filippus Jónsson á Hvallátrum og séra Ólaf Símonarson í Kálfholti að skera sinn lúðurinn hvor úr tönnunum. Fór það sem Ögmund grunaði að ekki fengist biskupsvígsla í Niðarósi án blíðkunar kóngs. Til kóngsins kom hann í maí 1521 og byrjaði á að koma sér vel við Sigbrid, sem var móðir látinnar ástmeyjar konungs og í miklum metum hjá honum. Gaf Ögmundur henni annan lúðurinn. Þegar hann kom fyrir kóng rétti hann honum hinn lúðurinn. Kóngur tók við og spurði Sigbrid hvort hún hefði slíkan grip séð. Hún kvað svo vera og brá á loft hinum lúðrinum. Má því þakka það snilli þessara útskurðarmeistara að kóngur veitti biskupsvígslu Ögmundar blessun sína. (Aldirnar; grein í Helgartímanum 19.01.1991 o.fl.).
Árið 1974 fannst í fornum ruslahaug á Hvallátrum hluti úr hauskúpu af rostung. Ekki voru í henni tennur, en ráða mátti af tannstæðinu að tönnin hafi verið firnastór; 60 cm eða lengri. Hugsanlegt er að úr þeirri hauskúpu hafi komið efniviður þeirrar konungsgersemi sem Filippus skar fyrir Ögmund. (sjá 1974).
Saurbæjarbóndi fer ránsferðir í Dýrafjörð: Ari Andrésson (Guðmundssonar ríka) í Saurbæ á Rauðasandi hefur tvívegis í sumar riðið með flokka vopnaðra manna að Núpi í Dýrafirði og farið þar með ránum. Núpur er nú höfuðból Hannesar Eggertssonar sem um þessar mundir er í Danmörku í þeim erindum að sækja um hirðstjóraembættið. Kona Hannesar er Guðrún Björnsdóttir (Guðnasonar í Ögri), sem áður var gift Bjarna, bróður Ara. Ari telur sig vera réttan eiganda Núps. Jarðeignir Guðmundar ríka sem féllu til kóngs lentu hjá Birni hirðstjóra ríka Þorleifssyni, en eftir langvinnar deilur gerði sonarsonur hans og alnafni þá sætt að erfingjar Guðmundar ríka fengju Saurbæ, Núp og Kaldaðarnes á Ströndum ásamt útjörðum, en hann fengi að halda Reykhólum (sem hann þó ekki fékk). Hannes Eggertsson telur sig hafa fengið Núp með Guðrúnu konu sinni. Hannes náði hirðstjóratigninni af Týla Péturssyni. Sá sætti sig þó ekki við starfslokin heldur fór að Hannesi á Bessastöðum 1522; rændi honum og flutti í Hólminn (Örfirisey). Fyrir það var Týli gerður höfðinu styttri á Öxarárþingi 1523).
1522
Ögmundur hrekst öðru sinni til Grænlands og hvílist í Saurbæ: Ögmundur Pálsson er nú vígður Skálholtsbiskup og mun að auki gegna embætti Hólabiskups um sinn, eftir lát Gottskálks Nikulássonar. Honum hefur dvalist ytra en sigldi heimleiðis frá Björgvin 13.06.1522 á litlu skipi og voru þeir 11 á. Ögmundur hafði um tíma verið skipstjóri á Þorlákssúðinni og nú kom sér vel skipsstjórnarkunnátta hans, enda reyndist lítið gagn að hinum þýska skipstjóra. Þeir fengu torleiði og komu til Hjaltlands eftir viku siglingu. Þegar komið var framhjá Færeyjum gerði á þá óveður og dreif skipið langt af leið til útsuðurs. Þaðan var siglt beint í norður og komu þeir í Grænlandsísinn 09.08.1522. Lágu þeir um tíma í stillu við Grænland en fengu svo leiði til Íslands. Fyrir siglingakunnáttu Ögmundar komu þeir inn í Arnarfjörð heilu og höldnu. Biskup dvaldi í viku í Saurbæ sér til hvíldar; hjá Ara bónda Andréssyni. Hjá honum fékk biskup hesta, búnað og fylgd á biskupsstól sinn, en þangað náði hann í ágústlok.
Ögmundi mun hafa litist vel á sig í Saurbæ og sá sér leik á borði að eignast jörðina 1536 eftir að Ari var fallinn frá, sjá þar.
1525
Séra Filippus á Hvallátrum rænir sér konu: Séra Filippus Jónsson á Hvallátrum er sonur Jóns Jónssonar Íslendings sem stofnaði kirkju upp úr bænhúsinu í Sauðlauksdal 1512. (Filippus var prestvígður og þjónaði Sauðlauksdalssókn 1522-1547; e.t.v. einnig Saurbæjarsókn, en Hvallátrar eru í þeirri síðarnefndu).
Filippus felldi hug til Solveigar Bjarnadóttur (Andréssonar Guðmundssonar ríka og Guðrúnar Björnsdóttur Guðnasonar í Ögri) er þá bjó hjá móður sinni á Núpi. (Guðrún var þá gift Eggert Hannessyni hirðstjóra, sem andaðist eftir 1530). Einhver tregða var að hálfu forráðamanna gegn ráðahag þeirra Filippusar og Solveigar. Filippus hafði þá engar vöfflur á heldur fór norður að Núpi og nam sína heittelskuðu á brott og flutti heim að Hvallátrum.
Sagt var að Guðrún hafi verið mjög andvíg þessum ráðahag, en svo er þó ekki að sjá á því skiptabréfi um Kollsvík sem hér að neðan er getið um. Enda var Filippus ríkur maður. Sambúð Solveigar og Filippusar varð reyndar ekki löng, en barn áttu þau saman. Ekki er full ljóst um fæðingarár Filippusar, en gæti hafa verið kringum 1490. Ekki er heldur vissa um dánarár hans, en það er fyrir 1567, þegar sjöttardómur fellur í Saurbæ sem ógildir arfleiðslu hans á Hvallátrum og Keflavík til tengdamóður sinnar; Guðrúnar Björnsdóttur. Dæmdi Eggert Hannesson þessar jarðir rétta eign bróðursona Filippusar; Björns og Jóns Konráðssona.
Guðrún Björnsdóttir ráðstafar Kollsvík: Guðrún Björnsdóttir (Guðnasonar í Ögri; kona Hannesar hirðstjóra Eggertssonar) og Solveig Bjarnadóttir dóttir hennar (með Bjarna Andréssyni Guðmundssonar hins ríka) hafa gert með sér skiptabréf á fémæti sem Solveigu féllu til erfða eftir Bjarna. Solveigu reiknast m.a: „Kolzuik fiorum hundrudum og tuttugu“. (Ísl. fornbréfasafn, IX. bindi).
Óvíst er hvort Guðrún eða Solveig bjuggu nokkurntíma sjálfar í Kollsvík. Solveig giftist aftur eftir stutta sambúð við séra Filippus á Látrum; Ólafi Narfasyni lögréttumanni í Kjós. Frá þeim eru komnir Kollsvíkingar; t.d. er hún formóðir Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi í 11.lið.
Filippus á Látrum er manna skurðhagastur: Séra Filippusi Jónssyni á Hvallátrum er margt til lista lagt og er talinn manna skurðhagastur um þessar mundir. Hann hefur m.a. listilega skorið annan (eða báða) tveggja lúðra sem Ögmundur Pálsson hafði með sér á konungsfund, er hann hélt utan til biskupsvígslu fyrir fáum árum (sjá 1521).
Líklegt er að séra Filippus hafi þekkt þann (eða kennt) sem skar í rostungstönn líkneskið af Magnúsi prúða sem fannst í Kollsvík 1896, sjá þar; hafi hann ekki skorið það sjálfur. Það síðarnefnda er vel mögulegt, þar sem Magnús er fæddur 1532 og kvænist 1565 Ragnheiði Eggertsdóttur í Saurbæ, en Filippus deyr líklega 1566-7. Annar hugsanlegur skurðmeistari er Ari Steinólfsson í Saurbæ, sjá 1559.
1528
Enn fjöldi enskra skipa á miðum, en fer fækkandi: Ein 149 ensk fiskiskip eru nú að veiðum við landið. Það er þó minna en þegar mest var, en kringum 1450 er talið að þau hafi verið um 200. Öll eru þau frá höfnum á austurströnd Englands; leggja úr höfn í feb-apríl en koma aftur í ágúst-sept. Fyrir heimför safnast þau saman í Dýrafirði og Loðmundarfirði og bíða stundum eftir fylgd herskipa. Ensku skipin eru 40-100 smálestir, og eru 10-30 menn á. Agi er mikill um borð og kostur misjafn. Dæmi eru þess að veikir skipverjar séu skildir eftir hérlendis og eins að Íslendingar sigli með duggunum eða enskir kræki sér hér í kvenkost. Hér versla enskir við Íslendinga fjarri kóngsins eftirliti. Sækjast þeir t.d. eftir fiski, skreið, lýsi, ull, vaðmáli og húðum en bjóða í staðinn járn, hamplínu og annað sem hér vantar.
Fyrstu kynni af lóðafiskiríi ? Líkur benda til að Íslendingar hafi fyrst kynnst fiskilínum hjá þessum ensku sjómönnum, sem notuðu það veiðarfæri. Lóðar hérlendis er fyrst getið 1482 í eigu kirkjunnar í Berufirði eystra. Mjög líklegt er að Útvíknamenn hafi kynnst fiskilínu í verslun sinni við Englendinga, þó ekki verði fullyrt hvenær. Eins líklegt er að lóðir hafi verið notaðar þar á víkunum um tíma, þó notkunin hafi verið niður fallin árið 1703, eins og getið er í Jarðabókinni.
1536
Ögmundi biskupi Pálssyni dæmdar Bæjareignir: Æðsti kirkjunnar maður á Íslandi fer nú með eignarhald og húsbóndavald í Saurbæ á Rauðasandi ásamt útjörðum. Ögmundur fékk sér dæmdan Bæ ásamt öllu því sem honum fylgir, upp í "brot og sakferli" Ara Andréssonar. Ari andaðist fyrir nokkru og tók biskup þá höfuðbólið á sitt vald. Leiddi hann þrjú vitni að því að Ari hefði gefið og goldið sér Saurbæ upp í sakferli sitt. Vitnin báru það að Ari hefði fyrir andlátið gefið biskupnum Saurbæ. Taldist mönnum það til að skuld Ara við biskup næmi hundruðum hundraða og gott betur. Þau verðmæti mætti hann fara með af staðnum, en ráðstafa jörð og áhöfn eftir sinni vild. Með því að enginn erfingi kallaði til staðarins var það metinn gildur gerningur. Að gengnum þessum dómi var sá gerningur gerður milli biskups og Sigríðar Andrésdóttur, systur Ara, að hún legði á vald biskups allt sem henni mætti falla til erfða eftir bróður sinn; þar á meðal Saurbæ, gegn því að biskup gæfi upp reikninga tveggja kirkna, sakferli hennar og Ara við kirkjuna og fleiri kröfur. (Dómabækur).
Ögmundur biskup tengist Kollsvíkurætt þannig að Ásdís Pálsdóttir á Hjalla, systir Ögmundar, var meðal formæðra Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar, en Kollsvíkurætt er rakin til þeirra. Ásdís er þannig formóðir VÖ skrásetjara í 14. lið.
1540
Verslun komin í hendur Hamborgarkaupmanna: Nú má heita að öll verslun hérlendis sé komin í hendur þýskra Hamborgarkaupmanna. Þeir hafa löngum notið velvildar Danakóngs í tíðum skærum þýskra og enskra undanfarin ár. Sló í bardaga milli Englendinga og Þjóðverja árið 1532 í Básendum og Grindavík á Suðurnesjum, og í Grundarfirði rændu Hamborgarar Lundúnaskipi. Hafnarfjörður er miðstöð Þjóðverja hérlendis og þar hafa þeir reist fyrstu lúthersku kirkjuna hérlendis.
Fljótlega sá Danakóngur þó ofsjónum yfir skreiðargróða Þjóðverja og 1542 gaf hann út bréf með ítrekun banns við vetursetu kaupmanna. Otti Stígsson höfuðsmaður fylgdi banninu eftir og hlutust kærumál af. Eignir þýskra voru dæmdar fallnar til konungs árið 1544 og árið eftir féll svonefndur Skipadómur. Þar eru skip og aðrar eigur kaupmanna gerðar upptækar. Með því var endir bundinn á útgerð Þjóðverja hér á landi. Áfram héldu þeir þó að versla með íslenska skreið og réðu í raun yfir Íslandsversluninni fram til 1602. Jafnvel eftir að einokunarverslun Dana komst alfarið á, eftir 1620, voru Hamborgarkaupmenn öflugustu kaupendur og dreifingaraðilar á skreið í Evrópulöndum.
1542
Gissur biskup gefur Erlingi í Saurbæ eftir skuldir: Með yfirlýsingu á Þingvöllum 01.07.1542 gefur Gissur Einarsson, þá hæstráðandi í Skálholti, eftir skuldir Saurbæjarkirkju við Skálholtsstól. Eigandi og ábúandi Saurbæjar er þá Erlendur Gíslason lögréttumaður.
Athyglisvert er að þegar Gissur gerir Erlingi vini sínum þennan greiða er hann enn ekki orðinn biskup; heldur einungis ráðamaður Skálholtsstóls eftir að hann og umboðsmenn Danakóngs boluðu Ögmundi Pálssyni af biskupsstóli og handtóku 02.06.1541. Gissur fór utan haustið 1542 og var vígður til Skálholtsbiskups af Pétri Palladíus Sjálandsbiskupi í oktober. Engu að síður titlaði Gissur sig biskup er hann, þremur mánuðum fyrir vígsluna, gerir svo vel við Erling í Bæ. Má ætla að Erlingur hafi veitt Gissuri vel í byltingunni, líklega verið í liði hans við töku Ögmundar og í lífverði hans á eftir. (Dipl.Isl.XI).
Erlingur Gíslason var líklega fæddur um 1470 en lést 1547. Hann var giftur Kristínu Ormsdóttur sem var formóðir Kollsvíkinga (sjá ættfærslu Ketils flatnefs 872) stórbóndi og sýslumaður í Saurbæ og efnaðist vel af liðveislu sinni við Gissur. Þessi vinarhugur Gissurar fór þó í gröfina með honum 1548, og eftirmaður hans lagði Saurbæ undir Skálholtsstól (sjá 1550).
1546
Ágreiningur Saurbæjar- og Sauðlauksdalskirkna: Tylftardómur, tilnefndur af Gissuri biskupi Einarssyni, úrskurðaði hinn 26.06.1546 í deilum forráðamanna Saurbæjarkirkju og Sauðlauksdalskirkju um það hvor ætti rétt til gjalda og ítaka sem Saurbæjarkirkja átti að fornu, en óljóst var hvort lögð hefðu verið undir Sauðlauksdalskirkju við stofnun hennar. Fram kom að Stefán biskup hafði ekki leyfi Ara Andréssonar í Bæ til að leggja þær tekjur undir Sauðlauksdal sem hann gerði. Vitnaði um það Erlingur Gíslason lögréttumaður, sem nú er eigandi Saurbæjar, og sýndi gamlan máldaga því til stuðnings. Þar kemur fram að Saurbæjarkirkja eigi tolla og tíundir allar í millum Stáls og Tálkna með þessum ítökum: vætt fiska af hverjum skattbónda; tíundu hverja vætt af öllum hvalreka; skæðatollur af hverju bænhúsi, auk allra smátíunda úr þinginu. Gegn þessu mælti Andrés Arason, sem nú er forsvarsmaður Sauðlauksdalskirkju, og lagði fram bréf Stefáns biskups Jónssonar, þar sem hann skipar „öll hálfþingin“ frá Saurbæjarkirkju til Sauðlauksdalskirkju ásamt þeim tollvættum og smátíundum sem þar kynni heima að takast; gegn „fullri sæmd“ til Saurbæjarkirkju. Þær sárabætur munu aldrei hafa skilað sér. Dómsorðið hljóðar upp á það að Saurbæjarkirkja skal halda sínum fornu hlunnindum og ítökum. Sauðlauksdalskirkja þarf að komast af á sínum lögbundnu tekjum; kirkjutíund, prestsfjórðungi, ljóstollum og legkaupi. „Skylldi þessi vor domur æfinlega standa staudugur og myndugur hiedan i fra í millum þessara fyrrgreindra kyrkna“.
Ekki er vitað að síðan hafi misklíð orðið milli þessara kirkna. Hálfkirkjan í Kollsvík er hér ekki nefnd á nafn, enda virðist hún ekki hafa notið neinna hlunninda, heldur heyrt undir Saurbæjarkirkju eins og hvert annað bænhús og greitt þangað skæðatolla. Skæðatollar voru hluti ískyldar sem hvert sóknarbarn greiddi sínu guðshúsi en bænhús og hálfkirkjur greiddu áfram til sóknarkirkna. Skæðatollur átti að greiða skóslit prests í embættisferðum.
Gissur Einarsson stundaði nám hjá Ögmundi Pálssyni í kaþólskri tíð og var í uppáhaldi hjá biskupi. Erlendis kynntist hann lútherskri trú en um sinnaskipti hans vissi Ögmundur ekki er hann valdi Gissur eftirmann sinn á biskupsstól. Áður en hann gæti séð sig um hönd var Ögmundi velt úr biskupsstóli 1541; sætti hraklegri meðferð og lést eftir komuna til Danmerkur. Gissur Einarsson var hinsvegar vígður til biskups haustið 1542; fyrsti lútherski biskup landsins. Enn stóð þó Jón Hólabiskup sinn dont.
1550
Hálshöggvinn Jón Arason; kaþólskur siður aflagður: Þau ógnvænlegu tíðindi hafa orðið að Jón biskup Arason á Hólum var hálshöggvinn án dóms og laga í Skálholti að morgni 7.nóvember. Sömu örlög hlutu synir hans tveir; séra Björn á Melstað og Ari sýslumaður á Möðrufelli. Með þeim er fallið síðasta vígi þeirra kirkjuhöfðingja sem lengst héldu tryggð við hinn forna kristna sið og börðust gegn yfirgangi þeirra sem aðhyllast villutrú Lúthers prests. Við blasir kollvörpun hefðbundinna gilda; rán á kirkjunnar dýrgripum og helgidómum og forsómun helgra manna og messudaga þeirra. Bænhús, klaustur og hálfkirkjur hljóta að afhelgast og breytast í fjós og forað. Kóngsins féhirslur munu fyllast af kirkjunnar gersemum en ofsatrúarmenn munu kynda undir vítisógnum og galdrabrennum.
Jón Arason var forfaðir Kollsvíkinga; t.d. Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi í 11. lið.
Saurbær gefinn Skálholtskirkju og guði: Hinn 08.09.1550 er í Hænuvík gefinn út vitnisburður um að Ari Andrésson (Guðmundssonar ríka Arasonar) í Saurbæ, sem lést árið 1536, hafi gefið guði og heilagri Skálholtskirkju eign sína; Bæ á Rauðasandi. Það er séra Jón Erlingsson sem heldur því fram að hann hafi heyrt „opt og ósjaldan ad Are heitinn Andrésson og hans kvinna Þordís Gísladóttir (hverra sal ad Gud nádi) gáfu baedi samþyckilega sina eign Bæ á Raudasandi undan sier og sinum erfingium. En Gudi og heilagri Skalholltz kirkju til ævinlegrar eignar og frials forrædis. Og skildu bæði þad til ad þessi stadur skyldi hvorki giofum giefast nie solum seilazt fra domkirkiunni. Og þetta badu þau mic þraliga ad minnast og fullt vitni um bera, og hier eptir vil ec sveria ef þurfa þiker. Var eg lengi þeirra þingaprestur og hia badum i daudztijd og lystu ætid einu sama svo sem fyrr stendur skrifat“
Þegar hér er komið sögu er Erlingur Gíslason, sýslumaður í Saurbæ og stórvinur Gissurar biskups, látinn (lést 1547), en honum hafði Gissur gefið eftir allar skuldir Saurbæjar. Má ætla að erfingjar hans hafi kallað eftir jörðinni. Gissur Einarsson biskup var þá einnig látinn (í mars 1548) Eftirmaður hans var Marteinn Einarsson, sem kom frá vígslu sumarið 1549. Það er því líklega hann eða hans menn sem hér leika þann leik sem vinsæll var meðal kirkjunnar manna, að láta einhvern trúverðugan votta það að jarðeign hafi verið gefin á dánarbeði, sem enginn gat eða þorði að bera brigður á.
Séra Jón Erlingsson er líklega nýkominn sem prestur í hreppinn, en til er skjal dags 05.07.1552 þar sem hann selur „jörðina Hænuvík með Litlu-Sellátrum við Patreksfjörð“. Má vera að þessar jarðir hafi hann fengið hjá Marteini biskupi fyrir að „muna eftir“ ofangreindri gjöf Ara í Saurbæ.
Kollsvíkingar eiga ættir að rekja til Nikulásar, bróður Marteins biskups, en þeir voru synir Ingiríðar Jónsdóttur og Einars Öldurhryggjarskálds Snorrasonar. Guðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879-01.10.1970) á Láganúpi er afkomandi Nikulásar í 11.lið.
1551
Eggert Hannesson hirðstjóri og aðalsmaður: Eggert Hannesson hefur dável siglt gegnum stórsjó og sviptingar siðaskiptanna og komið ár sinni vel fyrir borð í konungsgarði. Hann hefur nú fengið endurnýjað aðalsbréf föðurföður síns; Eggerts Eggertssonar lögmanns í Víkinni í Noregi, og þar með riddaranafnbót og jafnframt hirðstjórn á landinu. Sýsluvöldum heldur hann í Ísafjarðarsýslu og fær Kjalarnesþing að auki. Allar Vestfjarðajarðir sem Ögmundur biskup Pálsson átti hreppir hann að léni. Eggert hefur höfuðbú sitt að Núpi og hefur borið höfuð og herðar yfir aðra höfðingja á Vestfjörðum, þar sem hann hefur náð undir sig miklum jarðeignum; sumum að erfðum eftir foreldra sína; Hannes hirðstjóra Eggertsson og Guðrúnu dóttur Björns í Ögri. Og nú eykst enn auður hans og veldi við það að hann gengur að eiga Sigríði, dóttur Þorleifs sýslumanns Grímssonar á Möðruvöllum, sem er í hópi mestu auðmanna landsins. Eggert hefur setið í hirð Kristjáns konungs III og áunnið sér traust hans. (Öldin sextánda).
1554
Eggert lögmaður Hannesson kaupir Saurbæ og flyst þangað: Eggert Hannesson lögmaður hefur eignast fjölmargar jarðir á Vestfjörðum. Í Barðastrandasýslu hefur hann verið drjúgur í jarðakaupum. Meðal þeirra jarða er Saurbær á Rauðasandi ásamt hálfu Melanesi. Ögmundur biskup Pálsson hafði eignast jörðina, en skipt á henni við Sigurð Ormsson vin sinn, og fékk Síðumúla í staðinn. Frá Sigurði erfðist Bær til systursonar hans, Jóns Erlingssonar, sem nú selur Eggert Hannessyni. Nær jafnskjótt eignaðist Eggert þann helming Melaness sem uppá vantaði og auk þess Arnórsstaði og Rauðsdal efri á Barðaströnd. Hann hefur fengið umboð allra eigna Katrínar systur sinnar, sem áður átti Gissur Einarsson og er nú ekkja í annað sinn. Hálfsystir hans, Solveig Bjarnadóttir, á Kollsvík (sjá 1525).
Kaup Eggerts á Saurbæ og hálfu Melanesi fóru þannig fram að séra Jón Erlendsson (sjá 1550) hefur farið með eignarforráð jarðarinnar fyrir hönd Skálholtsstóls en selur nú Saurbæ „med aullum þeim gögum og gædum, lausafé og fastaeignum, hlutum og hlunnindum, rekum og renningum, höppum og hvölum, vötnum og veiðistöðum, akra og todum; eingjum og skogum, holltum og högum sem fyrrgreindum jordum fylger og fylgt hefur ad fornu og nyu, bædi til sjos og landz; ekki neitt undan tekid heldur alt til skilid“. Í staðinn fær Jón Erlendsson jörðina Dufansdal (Dugansdal) og 12 hundruð í Trostansfirði.
Skreiðarverslun Hamborgarkaupmanna: Hinn nýi eigandi Saurbæjar Eggert Hannesson er, líkt og Hannes hirðstjóri faðir hans var, félagi í „Schonenfahrer-Gesellschaft“ („Kaupfélagi Skánarferða“) sem er gildi Hamborgarkaupmanna. Hamborgarar sigla nú mjög til Íslands til skreiðar- og síldarkaupa, og koma um 20 stór kaupskip þeirra hingað árlega um þessar mundir. (Gísli Gunnarsson; „Fiskurinn sem munkunum þótti bestur“).
1559
Skurðmeistarinn séra Ari Steinólfsson í Saurbæ: Um þessar mundir er prestur í Saurbæ séra Ari Steinólfsson. Er hann nú sjötugur orðinn; fæddur 1489. (Ekki er ljóst um dánardægur hans). Hann var djákni 1514; orðinn prestur 1521 (líkl.) í Odda; síðar prestur í Laugardal í Tálknafirði (um 1546) en síðast í Saurbæ. Séra Ari er með skurðhögustu mönnum landsins, og eru því nú tveir snillingar á því sviði í Rauðasandshreppi; hinn er séra Filippus á Hvallátrum. Er Ögmundur biskup Pálsson hóf að reisa kirkju sína í Skálholti um 1529, fékk hann Ara til að skera „allan skurð á kirkjuna innan; bæði á stöfum, hurðum og öðru“.
Hugsanlegt er að séra Ari hafi skorið taflmann þann úr rostungstönn sem kom upp úr garði í Kollsvík 1896, (sjá þar); hafi það ekki verið skorið af séra Filippusi eða nemanda annarhvors þeirra í skurðlisinni. Líkneskið er trúlega í mynd Magnúsar prúða, sjá 1565, og þó bæði Ari og Filippus hafi verið aldraðir (jafnvel látnir) þegar Magnús fékk í Ísafjarðasýslu 1564 er líklegt að hann hafi verið á ferð áður til að ræða kjör og konuefni. Ekki er ólíklegt að þá hafi Eggert í Saurbæ beðið annanhvorn þessa skurðmeistara að gera taflmann í líkingu glæsimennisins Magnúsar.
Vitnisburður um „gjöf“ Ara Andréssonar : „Það giori eg Are prestur Steinólfsson godum monnum kunnigt med þessu minu opnu brefi ad eg hefi spurtt at uppá mic hafi verit skrifadur vitnesburdur svo latandi at eg hefda heyrt Ara Andresson og Þordise Gísladottur hans kvinnu gefa Bæg á Raudasandi undir Skalholltz eigu; hvad eg segi þar neig fyrer ad eg hafi þad nockurntima af þeirra munni heyrt, og hafi þad verid wppa mic skrifad eru þad osannindi uppa mic skrifud og inciglud“. Hnykkir Ari enn frekar á því nafni sinn hafi aldrei gefið Skálholtsstól jörðina. Hinsvegar hafi hann (Ari Steinólfsson) heyrt að Guðmundi Andréssyni hefði réttilega fallið Bær til erfða eftir föður sinn, Guðmund ríka Arason og hann hefði afhent jörðina Ara frænda sínum Andréssyni.
Ekki verður fyllilega skilið í hvaða tilgangi þessi yfirlýsing er gefin eða hvaða þýðingu hún hafði á þessum tíma. Ljóst er að Eggert Hannesson á Saurbæ á þessum tíma (sjá 1554) og hafði keypt hana af séra Jóni Erlendssyni sem Ari fullyrðir hér að hafi logið upp á sig um „gjöf“ nafna síns (sjá 1550). Bendir þetta til að sá séra Jón sé fallinn í ónáð hjá Eggert og tengist því hugsanlega að Eggert sé að kúga útúr honum jarðirnar Dufansdal og hlut í Trostansfirði (sjá 1550) með því að koma honum í sök.
1564
Eggert Hannesson kaupir hluta Kollsvíkur: Eggert lögmaður Hannesson hefur unnið ötullega að því að ná eignarhaldi á jörðum á Vestfjörðum og er þar nú orðinn langstærsti jarðaeigandi. Láganúpsjörðin í Kollsvík hefur lengi verið meðal eigna Saurbæjar, sem Eggert keypti og flutti á fyrir áratug. Nú hefur hann snúið sér að Kollsvík og keypti þetta ár hluta Kristínar Ólafsdóttur í jörðinni, eða: „8 hundrud j jordune Kikiuboli j Kollzuik“, sem sagt er í kaupsamningi að liggi í Sandshreppi í Saurbæjar kirkjusókn. (Ísl.fornbréf 14. bindi).
Ekki er ljóst hvenær eða hvernig Kristín þessi náði þessum jarðarparti, sbr. árið 1525.
Skreiðarverkun Eggerts í Láganúpsveri: Þegar Eggert Hannesson kaupir Saurbæjareignir fær hann um leið útjarðir; þar á meðal Láganúp. Í Láganúpsveri er þá líklega þegar orðin mikil útgerð með skreiðarverkun, en skreið var mjög eftirsótt af Hamborgarkaupmönnum sem Eggert hafði umboð fyrir. Vafalaust hefur sú mikla veiðistöð aukið áhuga hans á kaupum Saurbæjar. Eins er líklegt að kaup hans á Kollsvík tengist þessum útgerðarmálum, því í Kollsvík er betri lending en handantil.
1565
Magnús Jónsson kvænist dóttur Eggerts: Magnús er fæddur um 1532; sonur Jóns ríka Magnússonar á Svalbarði við Eyjafjörð og konu hans Ragnheiðar „á rauðum sokkum“ Péturssonar. Hann fékk því bæði ættgöfgi og ríkidæmi í vöggugjöf, þar sem faðir hans var talinn auðugasti maður norðan lands á sinni tíð og móðir hans var af göfgum ættum, m.a. sonardóttir Lofts Ormssonar riddara. Magnús þykir mikill gáfumaður og snyrtimenni. Hann fór ungur til náms í Þýskalandi og talar þýsku reiprennandi, auk annarra tungumála. Hann settist í fyrstu að á Rauðuskriðu og gerðist sýslumaður Þingeyinga, en flutti á þessu ári að Ögri, á jörð Eggerts, og þar kynntist hann Ragnheiði Hannesdóttur. Fyrri konu sína, Elínu Jónsdóttur, missti Magnús fyrir skömmu. Magnús taldi sér til kaups, er hann giftist Ragnheiði, fjögur hundruð hundraða í jörðum og lausafé og gaf henni hundrað hundraða í fjórðungsgjöf.
Magnús prúði: Magnús Jónsson frá Svalbarði, fyrrum sýslumaður Þingeyinga, hefur tekið við sýsluvöldum í Ísafjarðarsýslu. Hann hefur hlotið viðurnefnið „hinn prúði“ vegna framúrskarandi glæsileika, bæði í útliti og klæðaburði sem í siðum og mannahaldi.
Björn annálsritari á Skarðsá, sem var á unglingsaldri er Magnús lést, lýsir háttum hans svo: „Einn hans höfðingsskapur var sá, er menn sáu altíð er hann reið á Alþing, að hans selskapur var auðkenndur frá annarra höfðingja fylgd í því, að þeir höfðu allir nær lagvopn, og setti hver einn upp sitt vopn er heim á Þingvöll riðu fyrst; og voru það fjörutíu menn vel svo, er slík lagvopn höfðu. Þetta var svo hvert sumar meðan bóndi Magnús sat uppi, því hver maður kepptist að vera í hans för er til þings erindi höfðu“.
Magnús prúði er forfaðir VÖ skrásetjara í 12. lið; gegnum m.a. Kristján Ásbjörnsson á Grundum.
1567
Aftur kaupir Eggert í Kollsvík: Eggert lögmaður Hannesson heldur áfram kaupum í Kollsvíkurjörðinni. Nú (03.07.1567) kaupir hann af Arngrími Björnssyni, sem hefur samþykki konu sinnar til sölunnar; Þóreyjar Ólafsdóttur. Hluturinn er jafn stór og hann keypti af Kristínu fyrir 3 árum: „8 hundrud j jordune Kikiuboli j Kollzuik“. (Ísl.fornbréf 25. bindi).
Á þessum árum er að öllum líkindum mikil útgerð úr Láganúpsveri vestar í víkinni, sem Eggert fékk með Bæjareignum. Lending er öruggari í Kollsvík og kjósa formenn því fremur að lenda þar. Með kaupunum má ætla að Eggert vilji m.a. spara sér að greiða öðrum uppsátursgjöld í Kollsvíkurveri. Ekki er þó ljóst hvernig eignarhald Arngríms og Þóreyjar er til komið, sbr. árið 1525. Líklega hafa þau ekki setið jörðina. Þau keyptu jarðir í Hvítársíðu árið 1570.
Marköngladómur Magnúsar prúða: Magnús Jónsson prúði í Ögri hefur látið banna svonefnda Marköngla og lóðaflutning á fiskibátum í þágu annarra en þá eiga. Þetta varð niðurstaða dóms sem hann kvaddi til að Nauteyri á Langadalsströnd eil þess að rannsaka með hvaða rétti bændur við Ísafjarðardjúp tíðka og léna hásetum og heimamönnum, konum og körlum, marköngla þessa.
Með markönglum er átt við króka sem bátsverjar bættu við fiskilínu útvegsbóndans og áttu þá að óskiptu veiðina sem á þá kom. Stundum höfðu þeir e.t.v. leyfi fyrir krókunum, en grunur lék á að það væri all misnotað og að grunsamlega meira aflaðist á marköngla en aðra öngla á sömu lóð. Var því dómurinn eflaust kveðinn upp að tilhlutan útvegsbændanna.
1568
Kvittun Gísla biskups vegna Saurbæjar: Hinn 13.08.1568 gefur Gísli biskup Jónsson út kvittun fyrir því að Eggert lögmaður Hannesson hafi staðið sér reikningsskap allan vegna Saurbæjarkirkju, auk þess sem hann hafi gert kirkjuna upp að veggjum og viði og gefið henni ýmsa tiltekna gripi; m.a. tvær kirkjuklukkur (sem enn, 2020, eru í kirkjunni).
1569
Eggert í Saurbæ lætur dæma móðursystur sína: Eggert lögmaður Hannesson í Saurbæ hefur látið dæma Ólöfu Björnsdóttur (Guðnasonar í Ögri) móðursystur sína þjófsnaut á opinberu dómþingi í Súðavík, en hún býr á Hrauni í Dýrafirði. Tildrögin má rekja til ránsferðar Jóns Jónssonar Íslendings á eignir Eggerts að Eyri árið 1512. Gerði hann sér hægt um hönd og lét dæma Jón þjóf en Ólöfu móðursystur sína þjófsnaut. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þjófnaðarsakir ganga innan fjölskyldunnar. Fyrir nokkrum árum urðu miklar deilur með systrunum Guðrúnu og Ólöfu er Ólöf fór ránshendi um reka er Guðrún átti.
1570
Eggert selur Eyjólfi og Guðleifu Kollsvíkurhluta sína: Eggert Hannesson í Saurbæ hefur nú selt hluti þá sem hann að undanförnu hefur keypt í Kollsvík. Ætla má að kaupendurnir séu honum hliðhollir, t.d. varðandi uppsátursgjöld í Kollsvíkurveri, enda ekki óskyldir. Eggert selur: „16 hundrud j jordune Kikiuboli j Kollzuik“. Kaupendur eru Eyjólfur Magnússon og Guðleif Ólafsdóttir (sem er barnabarn Björns Guðnasonar í Ögri og komin af Birni ríka Þorleifssyni). Kaupin gerast með þessum hætti:
Hinn 13.01.1570 á Eggert í nokkrum viðskiptum við Eyjólf (eldra) Magnússon (prests Eyjólfssonar í Haga; mókolls Gíslasonar lögréttumanns í Haga; Filippussonar lögréttumanns Sigurðssonar í Haga. Þá ætt má rekja í beinan karllegg til Gísla Markússonar kirkjugoða í Saurbæ á Rauðasandi , sjá 1192, og er Eyjólfur eldri 10. ættliður frá Markúsi). Eyjólfur selur Eggert þá hálfan Haga og 10 hdr í Lambavatni, með samþykki Guðleifar Ólafsdóttur konu sinnar, en fær í staðinn Hól í Bíldudal og 16 hdr í Kirkjubóli í Kollsvík. Sama dag seldi Eyjólfur konu sinni 8 hdr í Kollsvík og fær í staðinn 8 hdr í Botni í Hvalfirði (sem Guðlaug hafði erfti eftir föður sinn). Þá lýsti Eyjólfur því yfir að Guðleif ætti fyrrnefnd 16 hdr í Kollsvík. Guðleif var dóttir Ólafs Narfasonar lögréttumanns í Hvammi í Kjós og konu hans; Solveigar Bjarnadóttur Andréssonar Guðmundssonar ríka, en Solveig var hálfsystir Eggerts Hannessonar; sammæðra. (sjá 1525). Eftir þessi viðskipti á Guðleif alla jörðina; 24 hundruð, en hún erfði síðasta þriðjunginn eftir móður sína Solveigu Bjarnadóttur.
Ættrakning til Bjarna Kollsvíkurbónda 1703: Sonur Eyjólfs og Guðleifar var Ívar Eyjólfsson. Hann mun hafa drukknað er hann flaugst á drukkinn á sjó. Kona hans var Herdís Magnúsdóttir (dó geðveik 1606). 3 synir þeirra hétu Jón og var einn þeirra kvæntur Sigríði Bjarnadóttur; þeirra sonur var Einar (f.um 1625) á Fífustöðum; hans dóttir var Sigríður Einarsdóttir (f. 1671) sem giftist Bjarna í Kollsvík; Jónssonar frá Sellátrum. Sigríður og Bjarni, bóndi og skipasmiður, bjuggu í Kollsvík 1703. (Ísl.fornbréf 25. bindi og Einar Bjarnason; Íslenskir ættstuðlar; Nýjar kvöldvökur 4.h; 1960))
Samkvæmt Ábúendatali Rauðasandshrepps sem Trausti Ólafsson tók saman, er Jón Skeggjason bóndi í Kollsvík um 1570. Vísar Trausti þar í reikninga Eggerts Hannessonar, þar sem Jóni er gert að greiða 1 ½ hdr í landskuld vegna Eyjólfs eldra (Magnússonar?) og 1 ½ vætt vegna Odds. Óljóst er hver nefndur Oddur er, en líklega býr hann eða hefur búið í Kollsvíkinni. Löngu síðar, eða árið 1658 (sjá þar) drukknar Jón Oddsson í Kollsvík og hugleiðir Trausti hvort hann sé sonur þessa Odds, þó mörg ár séu á milli. Ungur sonur Jóns var Gunnar, sem verður bóndi í Kollsvík eftir 1660.
Eggert á landskuld á Láganúpi: Láganúpur hefur um langan aldur verið ein útjarða Saurbæjar og í skrá um eignir Saurbæjar þetta ár er m.a.: „Jtem Laganupur 18 hundrud“. Eggert lögmaður Hannesson á um þessar mundir inni hjá Ara bónda á Láganúpi: „100 j landskylld og skattur og 20 alner J gjaftoll“. Einnig er tilgreint í reikningabók Eggerts hvað hafi verið lukt í þetta.
Jón murti Eggertsson frá Saurbæ sekur um mannvíg: Rauðsendingur hefur nú orðið sekur um mannvíg í Borgarfirði. Tildrögin má rekja til þess er Ögmundur biskup Pálsson fékk sér dæmdar Saurbæjareignir upp í sakargjöld Andrésar Guðmundssonar 1536 (sjá þar). Jón Grímsson lögréttumaður í Norðurtungu í Borgarfirði hefur véfengt þær gerðir og gert tilkall til Bæjareigna. Nú í júlí, er þeir feðgar Eggert Hannesson lögmaður og Jón murti sonur hans riðu heimleiðis af Öxarárþingi komu þeir við í Síðumúla í Hvítársíðu og settust þar við drykkju. Þaðan sendu þeir mann að Norðurtungu og buðu Jóni Grímssyni til sín til viðræðna. Jón var í heyskap en hélt þó á fund feðganna. Við borðið sat Jón Grímsson annar maður frá nafna sínum. Eftir nokkra drykkju og samtal seildist Jón murti yfir sessunaut sinn og stakk Norðurtungubónda tvívegis með daggarði í brjóstið, þannig að bani hlaust af. Jón murti lýsti víginu á hendur sér en forðaði sér síðan í skip. Máli murta er skotið til Alþingis en eignir hans falla allar til föður hans.
Alþingi tók vægt á þessu morði. Eggert þurfti að láta úti fimmtíu hundruð í nytukúgildum, nautum, smjörvum, silfri (smíðuðu og ósmíðuðu) og klæðum (skornum og óskornum).
1571
Björn Eggertsson fremur sjálfsvíg: Ekki verður sagt að barnalánið leiki við Eggert Saurbæjarbónda og lögmann. Nú hefur Björn sonur hans skotið sig til dauðs fyrir staðardyrum á Haga á Barðaströnd. Ekki er nánar lýst þeim málsatvikum, en vart er liðið ár síðan Jón murti framdi morðið í Síðumúla. Eggert átti Björn með miðkonu sinni, Sesselju Jónsdóttur, er hann gekk að eiga á banasæng hennar. Björn bar nafn Björns Guðnasonar móðurföður síns og þótti álitlegt höfðingjaefni. Hafði Eggert haldið honum fram umfram önnur börn sín.
1575
Gíslamáldagi; Sauðlauksdalskirkja: Gísli biskup Jónsson hefur ritað máldaga um kirkjur landsins. Um Sauðlauksdalskirkju segir hann m.a. að kirkjan eigi ellefu hundruð í heimalandi; 60 sauða beit á Látrum; sölvafjöru þar fyrir 6 manns og bjarg tolllaust til hverskonar nytja. Kirkjan á teinæring tolllausan; sjötta part af reka í Keflavík ásamt bjargnytjum þar. Einnig hálfa jörðina Dalspart. Hún á skóg í Trostansfirði og hestabeit en ekki tún- eða engjanytjar þar. Hún á tíu hundruð í Siglunesi. Af búpeningi á kirkjan 6 málnytu kúgildi, 2 hesta og hryssu. Áttæring á hún nýjan. Innan kirkju 2 alfær messuklæði; 1 hökul ljósbláan; eina kantarakápu; eitt rykkilín; 4 smáklukkur; einn silfurkaleik; 2 altarisklæði; 2 bjöllur; glóðarker; koparhjálm; koparstiku; 2 gyllta stjaka og eitt vínhorn. Einnig nokkrar gamlar bækur og „fastaeign 2 hundraða“.
Gíslamáldagi; Saurbæjarkirkja: Kirkjan á land allt í Kirkjuhvammi, 20 hundruð; Sjöundá 12 hundruð; Láganúp 18 hundruð; Fífustaði 30 hundruð og hálft þriðja hundrað í Hlíðum milli Stáls og Forvaða. Bjargið (Bæjarbjarg) milli Saxagjár og Melalykkju; „lykkjur og vörður“ að götunum sem liggja inn frá gjá fyrir austan Djúpadal (Vælaskor), eru það kölluð 6 hdr. Hún á Geldingaskor og 8 hdr frítt og hina tíundu hverja vætt hvals af öllum hvölum sem reka um öll þingin og vætt skreiðar af hverjum skattmanni innan þinga og skæðatolla af hverju bænhúsi. Hún á allar smátíundir. Þangað liggja tíundir og ljóstollar af 26 bæjum. Þar skulu vera tveir prestar, en hver sem ekki geldur fyrrgreindar skyldir árlega greiðir þriggja marka sekt. Auk þess á kirkjan 20 kúgildi; 10 kýr; 60 sauði og 4 hesta. Innan kirkju; 4 messuklæði og eru ein vond; 2 kaleikar; kantarakápa og sloppur; lektaradúkur; 2 skrúðar á háaltarið og að auki sinn á hvort frammi; glóðarker og munnlaug; tjöld um kirkjuna frammi; 2 merki útlend; tvær klukkur uppi og aðrar tvær niðri og 3 kórbjöllur; einn hjálmur; korporálshús með dúki; 2 kertapípur; lektari; hjónatjöld og lektarabiblía. Að auki „fastagóss 2 hundruð hundraða“.
Í máldaga Gísla biskups er ekki að finna úttekt á hálfkirkjunni í Kollsvík, þó slík úttekt sé á öðrum hálfkirkjum, s.s. í Miðhlíð á Barðaströnd. Bendir það til að þá hafi kirkjan í Kollsvík þegar verið niðurlögð.
1579
Ránið í Saurbæ: Fáheyrðir atburðir urðu í Saurbæ, þegar vopnaðir sjóræningjar brutust þar inn í hús; rændu öllu fémætu og höfðu á brott með sér Eggert Hannesson hirðstjóra; einn valdamesta mann landsins. Tildrögin voru þau að Eggert hafði lent upp á kant við fálkafangarann Jón fálka (John Falck) nokkru áður. Að undirlagi Jóns gerði sjóræningi nokkur, William Smidt, aðför að Eggert ásamt mönnum sínum. Skip þeirra, með 70 manna áhöfn, lagðist við akkeri á Hænuvík og neyddu þeir bóndann þar til að vísa sér leið yfir fjallið til Saurbæjar; sextíu mönnum. Þar brutu þeir upp bæ og kirkju; nauðguðu konum og rændu öllu fémætu sem þeir fundu. Eggert sjálfur var flettur klæðum; settur nakinn upp á hest og fluttur um hálsa og heiðar til skips í Hænuvík. Sigldu ræningjarnir síðan til Vatneyrar. Þar var Eggert haldið í fjórtán daga og hann neyddur til að skrifa undir beiðni um lausnargjald. Sigldu þeir norður með Vestfjörðum, rænandi og ruplandi. Ragnheiður dóttir Eggerts og Magnús prúði maður hennar bjuggu þá í Ögri. Þeim tókst að skrapa saman allmiklu lausnargjaldi, og að lokum fór svo að Eggert var sleppt eftir mánaðar fangavist. Sigldu ræningjarnir á brott með óheyrileg verðmæti og rændu í leiðinni tvö skip.
1580
Eggert alfarinn af landinu; arfleiðir Ragnheiði að öllu sínu: Eggert Hannesson kom heim í sumar úr utanför sinni, en hafði skamma dvöl. Hann er nú alfarinn af landinu og hefur ánafnað Ragnheiði dóttur sinni og hennar börnum allar eignir hérlendis. Erlendar eigur hans mun hinn útlægi Jón murtur hljóta. Eignirnar sem Ragnheiður hlýtur eru gríðarmiklar; alls á áttunda hundrað tólfræðra hundraða í jörðum, ásamt fjögur hundruð og áttatíu kúgildum tíræðum og öllu fémæti sem liggja í kröfum Eggerts á hendur öðrum. Þó má hún ekki innheimta hjá öreigum. Sérstaklega ánafnar Eggert Birni Magnússyni, dóttursyni sínum, höfuðbólið Sæból á Ingjaldssandi og skinnbók forna; hinn mesta kjörgrip sem hefur að geyma Jónsbókarlög og ýmis lög önnur (nú á Árnasafni).
Þrátt fyrir hótanir og bönn ræningjanna fór Eggert með mál sitt fyrir kóng; fór eftir þeim til Hollands og linnti ekki látum fyrr en þeir höfðu allir verið hengdir. Um það ber heimildum þó ekki saman. Eggert lést í Hamborg árið 1583 og var sagt að ofdrykkja hafi orðið honum að aldurtila. Hann er greftraður í Katrínarkirkju í Hamborg.
Látra-Clemens siglir til Gunnbjarnarskerja: Sumir segja að Látra-Clemens hafi þetta ár siglt með Englendingum í Gunnbjarnareyjar (þær sem sjást úr hellugati á fjallinu Rit við Ísafjarðarmynni). Þessi Clemens var síðar svikinn af Þórði, þjónustumanni sínum, sem þaðan af var kallaður tryggðarofi.
Frásögn Jóns Espólín í annálum sínum. Allt er það mjög óljóst, eins og hann segir sjálfur: „Það veit ég engan sann á“. Skilja má þetta þannig að Clemens þessi hafi verið höfðingi nokkur og siglt með Englendingum til Grænlands, en hvort hann var kenndur við Hvallátra við Bjarg eða aðra Látra verður ekki fullyrt. Athygli vekur að Clemens siglir þarna með Englendingum ári eftir ránið í Bæ, þar sem Englendingar hertóku íslenskan höfðingja.
1581
Vopnadómur Magnúsar prúða: Eftir ránið á tengdaföður sínum varð Magnúsi prúða ljóst það varnarleysi sem landsmenn bjuggu við, þegar styrjaldir geisuðu í grannríkjum og sjóræningjar sigldu með Íslandsströndum. Fáum árum fyrir ránið í Saurbæ hafði vopnaburður verið dæmdur af með öllu hér á landi. Kóngur brást að vísu lítillega við eftir ránið og sendi sex byssur og átta spjót sem dreifa skyldi í sýslur landsins, en heldur hefur Magnúsi þótt það lítilfjörlegar landvarnir. Á Þorskafjarðarþingi 12.10.1581 kvaddi Magnús prúði því til þings í Tungu og nefndi dóm 13 manna til að skoða og rannsaka frumvarp að landvarnarbálki. Síðan lét því axarboð ganga rétta boðleið um sveitir í haust og boðaði þegna sína til þings á þingstað Rauðasandshrepps; Tungu í Örlygshöfn. Þar kvað hann, ásamt þrettán nafngreindum bændum, upp dóm sem síðan hefur verið nefndur „Vopnadómurinn í Tungu“. Dómurinn snýr að því fyrst og fremst að koma á virku eftirliti og boðkerfi gagnvart árásum óvina og ribbalda af hafi; ásamt því að gera landsmenn í stakk búna til að verjast slíkum ófögnuði. Allir bændur voru skyldaðir til að eiga vopn og verjur „eftir fjárupphæð“ eins og það er orðað. Hlaða skyldi bálkesti á hæstu hæðum og endurnýja þá fyrir krossmessu (3. maí) hvert ár. Um vörslu þeirra skyldu sjá þeir „sem hreppstjórum þykja trúlyndastir og léttvígastir vera, og sýslumann sem fyrst við varan gera“. Skipuleggja skyldi virki, þar sem unnt væri að verja íbúa og búsmala. Lúðrar skyldu vera til, og þeyta þegar hætta steðjaði að; einnig amboð, svo stinga mætti torf og hlaða skansa. Sérhver skattbóndi skyldi eiga eina luntabyssu (lunti var glóðarhólf) og þrjár merkur púðurs; „arngeir og annað lagvopn gilt og gott“. (Aldirnar og Andvari 01.01.1954).
Fremst frammi á Blakknesnibbu eru (2020) sýnilegar leyfar garðhleðslu, staðsett stutt frá brún á hæsta stað Blakksins, þar sem vel sér norður um Patreksfjörð, Tálknafjörð, Kóp og núpa þar norður af, en einnig suður allar víkur og núpa til Bjargtanga. Líkur mætti leiða til þess að hér sjáist leifar þess varnarbúnaðar sem Magnús prúði fyrirskipaði með vopnadómi sínum; að garðinum hafi verið ætlað að skýla að bálkesti sem væri hluti viðvörunarkerfis samkvæmt dómi Magnúsar.
Vopnadómur Magnúsar prúða var ekki lagður fyrir Alþingi og fékk því líkast til ekki lagagildi á landsvísu. Hinsvegar hefur honum vafalaust verið fylgt eftir í hinu víðfeðma veldi Magnúsar á Vestfjörðum. Svo virðist sem danakóngur hafi vísvitandi viljað hafa Íslendinga vopnlausa. Má efalítið rekja það til hagsmuna danskra kaupmanna, sem óttast hafa um eigur sínar hérlendis að vopnaðir landsmenn gætu yfirbugað gæslumenn og rænt verslunarstaðina. Landsmenn voru því skildir eftir varnarlausir meðan "allra þjóða kvikindi" sigldu fyrir ströndum; iðulega rænandi og í vígahug eins og annálar greina. Slíka mismunun þoldi heimsmaðurinn Magnús prúði illa og ákvað því að skora þessa vopnleysisstefnu danastjórnar á hólm. Líklega hefur honum boðið í grun að lítt myndi tjá að bera dóminn undir hið konungsholla Alþingi.
Notkun fiskilóða veldur deilum á Snæfellsnesi: Sumir útvegsmenn á Snæfellsnesi eru nú farnir að nota fiskilóðir, en til þessa hafa menn alfarið notað handfæri til fiskveiða þar. Lóðanotkun hefur þó tíðkast í Ísafjarðardjúpi um tíma (sjá marköngladóm 1567). Lóðir hafa mest rutt sér til rúms á utanverðu Snæfellsnesi, einkum á Rifi. Bændur úr innsveitunum, sem einkum róa með handfæri, telja að lóðirnar séu fiskigöngum til fyrirstöðu og að útvegur á Hjallasandi (Hellisandi) gagnist þeim ekki lengur sem þaðan róa með færi. Einnig taki lóðabátarnir háseta frá handfærabátum. Hefur legið við styrjöld út af þessu, svo höfuðsmaðurinn Johann Bockholt þurfti að fara vestur og stilla til friðar. Varð það dómsniðurstaða að lóðafiskirí væri með öllu óheimilt í Þórsnesþingi og lóðir skyldu upptækar gerðar.
1584
Guðbrandur gefur út biblíu: Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup hefur nú lánast það stórvirki sem hann hefur í mörg ár unnið að; að prenta veglega íslenska biblíu í prentverki sínu. Nýstárlegt er að í þessari miklu bók eru 30 myndir, ásamt fjölda skreyttra upphafsstafa. Allt er þetta gert á kostnað biskups, en kóngur lagði honum til 200 dali og mælti fyrir um að hver kirkja greiddi honum einn dal. Verð bókarinnar er 8-12 dalir, sem samsvarar 2-3 mjólkandi kúm.
Guðbrandur nam í Hólaskóla 1553-1559; fór í Kaupmannahafnarháskóla 1560; var rektor Skálholtsskóla 1564-1567; prestur á Breiðabólstað til 1571 er hann var skipaður biskup á Hólum. Hann hefur staðið fyrir ýmsum framkvæmdum. Fékk hann leyfi konungs fyrir verslun á Hofsósi; keypti 60 lesta Hamborgarfar og hóf siglingar. Prentunin á Hólum hefur verið umfangsmikil auk Biblíunnar. Guðbrandur reiknaði hnattstöðu Hóla og gerði nýtt landakort af Íslandi. Nánasti samstarfsmaður hans var Arngrímur Jónsson lærði. Guðbrandur átti í nokkrum útistöðum við höfðingja, ekki síst Svalbarðsmenn; skyldmenni Magnúsar prúða. (Guðbrandur lést 20.07.1627).
Guðbrandur Þorlákson var meðal forfeðra Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi (15.07.1879-01.10.1970). Guðbrandur er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 12. lið.
1588
Magnús prúði setur reglur um kaupskap: Magnús prúði hefur sett kaupmönnum nokkuð aðhald með nýjum reglum um verslunarmáta; almenningi til verndar. Auk þess hefur hann mælt fyrir um verðlag innlendra og erlendra vara. Í upphafi kaupréttarreglna Magnúsar kemur fram sami friðarvilji og í vopnadómi hans: "En fyrst að upphafi set ég grið og frið allra manna á millum; hvar helst vér kunnum á þessum eyrum að finnast; morgna og kvöld; dag og nóttu; á skipi og landi; í tjöldum og úti á grundum; sé sáttur svo hver við annan í samförum öllum sem sonur við föður eður faðir við son. En hver sem á þessi grið geingur sé sá slíku sakaður sem lögin útvísa; hvort sem mönnum verður misþyrmt með orðum eður verkum; þá aukist að helmingi réttur þeirra sem fyrir vansa verða, en hinn hafi helming eftir dómi".
Um hegðun viðskiptavina á verslunarstað segir Magnús: "En ég býð og vil að vér hegðum vorum háttum og hingaðkomu; hérvistum og burtförum siðlega og hæfilega; hegðum og svo vorum háttum og uppistöðum; samdrykkjum og samförum, að vér mættum betri vinir skiljast en finnast, eður jafngóðir. Forðumst næturdrykkjur eður langar næturslímur, því þar af hefir opt komið mikið vont. Látum þessa útlenska menn mega hafa sína ró og náðir kvölds og morna. Gaungum af eyrinni í góðan tíma eptir kaupmanna vild, sem fyrir eiga að ráða. Komum á morgnana með góðum og venjulegum uppstöðum, því þar sem margir koma saman verða ei allir eins siðaðir. Sem opft hefur skeð; að svo skjótt sem menn hafa fengið ölvað sinni, svo hafa þeir setið á skemdum og skammaryrðum við aðra menn. Nú hver sem slíkt gerir, svari slíku fyrir sem lögin setja þeim á hendur sem rjúfa grið í réttum griðastöðum, og skulu þó forðast meiri hegning eptir dómi"
Og kaupmenn skulu virða rétt viðskiptavina: "Býð ég öllum og sérhverjum, að þeir hafi réttar vogir, pundara og stikur; reiðslur og mælikeröld. En hver sem eitt af þessu hefir rangt í sinni tegund, svari eptir lögum. En ef nokkrir verða kunnir og sannir að því, hvort heldur hann er útlenskur eða innlenskur; meiri háttar maður eða minni, að hann vegur rangt með réttum pundara eða stikar rangt með réttri stiku, eða mælir rangt með réttum mælikeröldum, svo það er eyrisskaði; og verði það vitnisfast, svari sem fyrir annan stuld"
Magnús varar menn við skuldasöfnun og því að selja frá sér lífsbjargir: "Býð ég og skipa að einginn geri meiri skuldir en hann viti sig mann til að bítala... Svo er og skipað af forstjórum þessa lands, að eigi seljist allur fiskur af landinu, þá hörð árferði eru, sakir almennilegrar fátæktar og landsins nauðþurftar". (Jón Þorkelsson; Saga Magnúsar prúða).
1591
Magnús prúði í Saurbæ látinn: Magnús prúði andaðist nú í haust að Saurbæ á Rauðasandi, þar sem hann hefur búið hin síðari ár. Magnús var í hópi fremstu höfðingja landsins; ættstór; vitur maður og vel að sér; talinn lögfróðastur Íslendinga um sína daga. Magnús prúði var betur menntaður en títt var um samtímamenn og hafði m.a. verið um tíma við nám í Þýskalandi. Hann var og skáld gott, en frægasta verk hans eru Pontusrímur. Hann var skartmaður mikill og bar merki Lofts ríka Guttormssonar; hvítan fálka í bláum feldi. Í þingreiðum var flokkur hans auðkenndur sökum búnaðarins, því að nær allir sem honum fylgdu riðu með lagvopn. Var mjög eftir því sóst að fylgja honum til þings.
Eftir Magnús prúða tók við eignum og sýsluvöldum í Saurbæ Björn sonur hans, sem nánar kemur við sögu síðar. Ari sonur hans settist að í Ögri. Hans er helst minnst fyrir Baskavígin árið 1615. Magnús prúði er jarðsettur í kirkjugarðinum í Saurbæ.
Löngu síðar tóku menn sig til og létu smíða legstein mikinn sem reisa skyldi í kirkjugarðinum til minningar um Magnús. Ekki tókst þó betur til en að bátnum hvolfdi í Bæjarósi, og þar liggur steinninn enn í sandinum.
Árið 1895 eða 1896 (sjá þar) kom úr jörðu á bæjarhólnum í Kollsvík lítið líkneski úr rostungstönn sem líklega hefur verið skákmaður. Klæðnaðurinn bendir til þess tíma sem hér um ræðir og greinilega er þetta prúðbúinn fyrirmaður. Andlitsfall og skegg virðist mjög líkt samtímamynd af Magnúsi sem varðveist hefur. Þetta er eini taflmaðurinn í mannsmynd sem varðveist hefur hérlendis og sterkar líkur benda til þess að hann sýni Magnús prúða. Taflmaðurinn er varðveittur á Þjóðminjasafninu.
1596
Skáldpresturinn Ólafur Jónsson fer frá Sauðlauksdal: Séra Ólafur Jónsson flytur sig nú um set, þar sem hann hefur fengið Sandakirkju í Dýrafirði. Hann hefur þjónað Sauðlauksdal frá 1590. Séra Ólafur er einn merkasti prestur sem setið hefur í Sauðlauksdal og mesta sálmaskáld sinnar samtíðar. Hann er fæddur 1560; af góðum ættum. Faðir hans var Jón Erlingsson (Gíslasonar sýslumanns á Brjánslæk) og móðir hans Kristín Ólafsdóttir. Kona Ólafs var Guðrún Pálsdóttir frá Sæbóli. Hann missti föður sinn ungur og var í fyrstu alinn upp hjá Eggert lögmanni Hannessyni í Saurbæ en síðar hjá Ragnheiði dóttur hans og Magnúsi prúða Jónssyni.
Ekki færri en 43 sálma Ólafs eru þekktir og hafa verið sungnir ti þessa dags. Þeirra þekktastur er líklega „Vors herra Jesú verndin blíð“, sem iðulega heyrist í messum enn í dag. Þetta er þýðing Ólafs á erlendsi bæn. Algengasta versið er þannig: „Vors herra Jesú verndin blíð/ veri með oss á hverri tíð./ Guð huggi þá sem hryggðin slær,/ hvort sem þeir eru fjær eða nær;/ kristnina efli og auki við,/ yfirvöldunum sendi lið./ Hann gefi oss öllum himnafrið“. Sálmurinn á því uppruna sinn í kaþólskum tíma, og kann t.d. að hafa verið sunginn í hálfkirkjunni í Kollsvík, meðal annars. Sálmurinn var tekinn upp í sálmabók Guðbrandar biskups Þorlákssonar og náði því fljótt mikilli útbreiðslu. Eftirmaður séra Ólafs í Sauðlauksdal var séra Sigurður Einarsson sem komst í dómsmál vegna barneigna Björns Magnússonar (prúða) 1605 (sjá þar).
1602
Íslandsverslunin seld á leigu: Kristján kóngur IV. hefur selt kaupmönnum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri á leigu alla Íslandsverslun næstu 12 ár, að undanskildum Vestmannaeyjum.
Með þessu hófst einokunarverslun hérlendis sem stóð með ýmsum breytingum til 1786. Í fyrstu var verslunin í raun í höndum Hamborgarkaupmanna eins og verið hafði, en árið 1620 færðist hún í hendur Dana; sjá þar. Alla 17.öld var launverslun þó veruleg. Má t.d. ætla að upp á Útvíkur hafi iðulega komið erlendar fiskiduggur og átt blómleg viðskipti.
1604
Lurkur, Píningsvetur og önnur hallæri: Hörð hallæri hafa nú yfirgengið landið í þrjú ár, með ægilegum manndauða, hor og harðrétti. Má ætla að um níu þúsund manns hafi af þeim orsökum fallið. Veturinn 1600-1601 byrjuðu hörkurnar á Markúsmessu fyrir jólin; við tóku hafísar, grasleysi og peningsfellir. Nefndu menn hann „Lurk“. Sauðgróður kom ekki fyrr en á Jónsmessu. Næsta vetur nefna menn „Píningsvetur“. Þá varð mannfall af sótt og hallæri. Sótti þá svo mikill fjöldi flökkulýðs að Skálholti að brytinn lét brjóta niður steinbogann á Brúará. Fjárdauði var svo mikill að vefnaður varð ekki unninn og króknaði margt fólk úr kulda. Rán og gripdeildir hafa færst uggvænlega í vöxt. Margir flosnuðu upp og jafnvel vildisjarðir hafa farið úr byggð. Mörg óátan er etin; hræ í haga, skinnskór og bein úr haugum. Mikil búbót var þó að því að dágóður afli hefur verið syðra og vestra þessi harðindaár, en þó nutu hans ekki fjarlægari sveitir vegna skorts á hrossum.
Má ætla að þá sem endranær hafi uppflosnað fólk flykkst í Útvíkur í leit að matbjörg. Áfram héldu harðindin 1604, en þá lagðist hafís að landinu; alla leið vestur að Grindavik.
1605
Björn Magnússon í Saurbæ sakaður um sifjaspell: Ekkert mál hefur vakið viðlíka umræður og hneykslan um allt land um þessar mundir og þær sögur sem berast frá Saurbæ á Rauðasandi. Björn sýslumaður Magnússon (hins prúða Jónssonar) er þar sakaður um tvær barneignir með systur sinni; Sesselju Magnúsdóttur. Björn hefur svarið fyrir þessar barneignir og Sigurður Einarsson, prestur Rauðsendinga, hefur gengist við þeim, en margir telja það lítt trúverðugt. Fyrir skemmstu lét Björn svo dóm ganga um það að hann hefði ekki fyrirgert sæmd sinni með aðild að þessum málum. Fyrra barnið fæddist á Þorláksmessu 1603. Reynt var að fá vinnukonu og prestinn til að gangast við því. Björn hefur borið einn vinnumanna sinna því að hafa breitt orðróminn út, auk þess að bera hann öðrum sökum. Barneignamálið kom til Öxarárþings í júlí á þessu ári og var sakleysi Björns staðfest bæði af lögréttu og höfuðsmanninum, Enevold Kruse.
Árið eftir flúði séra Sigurður Einarsson úr landi, en bar um leið Björn þeim sökum að víst ætti hann börnin. Sjálfur hafi hann vissulega átt samfarir við Sesselju, en það hefði verið 14 mánuðum fyrir fæðingu barnsins. Hafi Björn þvingað sig til jáninga með hótunum um líkamsmeiðingar. Þakkar séra Sigurður það kaupmönnum á Patreksfirði að hann hafi komist heill á húfi úr landi.
Sellátranes verður býli: Á þessum árum byggist Sellátranes upp sem bújörð úr landi Hænuvíkur.
Undir 100 ára gamalt árið 1703. Þá er þar tvíbýli. Munnmæli greina frá bardaga milli „Nesbónda“ og Tungubónda um landamerki jarðanna. Honum hafi lokið með falli Nesbóndans en hann hafi verið heygður í Bardagalágum ofan Gjögra. Síðan hafi Tunga átt Urðavöll. (ÁM; Jarðabók; GK, Örn.skrá).
1609
Bann við notkun fjörumaðks til beitu: Alþingi hefur nú lagt bann við því að fjörumaðkur verði nýttur sem beita. Fjörumaðkur hefur nokkuð verið nýttur í verstöðvum í Breiðafjarðareyjum; í Útvíkum og yst í Patreksfirði. Hinsvegar hafa Snæfellingar ekki talið sig eiga kost á slíkri tálbeitu og sjá ofsjónum yfir veiðiskap Eyjamanna. Mun það vera rót þessa dóms Alþingis.
Ólíklegt er þó að þessi dómur hafi lengi haldið, og líklega hafa a.m.k. Útvíknamenn haldið sínum venjum. Svo mikið er víst að árið 1703 er maðkur mikilvæg beita í Láganúpveri og vinnur sérstakur landmaður að maðkagreftri. Hann fær besta fiskinn af afla hvers báts; svonefndan maðkafisk. (LK; Ísl.sjávarhættir IV). Einnig er notuð ljósabeita og brandkóð í Láganúpsveri.
1612
Jólasálmur Einars frá Eydölum: Mesta sálmaskáld þjóðarinnar um þessar mundir er Einar Sigurðsson (1539-1626). Eftir nám í Hólaskóla var hann prestur í Nesi í Aðaldal og síðar Heydölum í Breiðdal, en við þá er hann kenndur. Einar samdi mikið af sálmum og margir þeirra hafa nú verið útgefnir af góðvini hans; Guðbrandi Þorlákssyni Hólabiskup í Vísnabók Guðbrands. Þar ber hæst sálminn "Kvæði af stallinum Kristí", sem hefst á orðunum "Nóttin var sú ágæt ein".
Þessi sálmur hefur síðan verið ástsælasti jólasálmur þjóðarinnar. Einar var forfaðir margra Kollsvíkinga; t.d. er skrásetjari afkomandi hans í 12. lið gegnum m.a. Kristján Ásbjörnsson á Grundum, en ættin fluttist í Rauðasandshrepp með Dómhildi Sigurðardóttur ömmu Kristjáns sem bjó í Tungu. Út af annarri grein afkomenda Einars var tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946) sem samdi lagið sem sungið er í hverri jólamessu við sálm Einars; Nóttin var sú ágæt ein. Einar orti gjarnan vikivakaljóð og er þessi sálmur undir þeim hætti.
1615
Baskavígin á Vestfjörðum: Í sumar var lesið upp konungsbréf þar sem hvalveiðar útlendinga við landið voru bannaðar. Út komu þrjú basknesk hvalveiðiskip. Þau áttu í fyrstu góð samskipti við landsmenn og verslun eins og þá var títt. Þegar veiðimenn hugðu til heimferðar hinn 21.september, gerði mikið illviðri; skipin rak á land og brotnuðu þau í spón. 83 menn komust í land en voru bjargarlausir fyrir utan nokkra árabáta. Heimamenn vildu hlú að þeim en niðurstaðan varð sú að þeir dreifðu sér um Vestfirði. Á Dynjanda í Leirufirði rændu þeir skútu og sigldi hluti þeirra á henni suður með Vestfjörðum. Marteinn hét fyrirliði eins hópsins sem fór í Æðey. Annar hópur fór fór til Bolungarvíkur og síðan Þingeyrar og rændi salti og skreið. Dýrfirðingar fóru að þeim á Fjallaskaga og drápu þá flesta. Hópurinn á skútunni braut upp kaupmannshúsin á Vatneyri og bjó þar um sig. Ari Magnússon (hins prúða í Sarubæ) sýslumaður í Ögri kvað upp þann dóm að Baskarnir væru réttdræpir; safnaði liði og drap Martein og aðra þá sem farið höfðu til Æðeyjar. (Sjá 1616).
Uppreisn á sjóræningjaskipi: Enski sjóræninginn Tómas Tucker kom inn til Vatneyrar á tveimur skipum sem hann hafði rænt. Skipstjóri á öðru nefndist Simtropp en Harper á hinu. Mörg ríki höfðu samið frið, og líkt og fleiri sjóræningjar á þessum tíma var Tucker að reyna að hætta sjóránsharkinu og komast í vinnu í heimalandi sínu, en þurfti áður að fá góðan ránsfeng til að kaupa sig frá dómum. Á Vatneyrarbug lá skip sem hann hugði í fyrstu vera Baska og vildi ræna, en í ljós kom að var danskt verslunarfar frá Málmeyjarkaupmönnum. Ekki er ljóst hver atburðarásin varð, en hún endaði með því að uppreisn var gerð á skipunum og Tucker var hnepptur í varðhald. Sigldu uppreisnarmenn með hann til Englands þar sem hann var leiddur fyrir rétt.
Hann fékk náðun síðar, en gekk illa að fóta sig í landi. Var að lokum hengdur á Helsingjaeyri 1616. (Helgi Þorláksson; sjórán og siglingar).
Hafís nánast kringum allt landið: Hafís hefur komist nálægt því að umkringja allar strendur landsins, þó ekki hafi hann komist suðurfyrir Látraröst. Ís er fyrir öllum Vestfjörðum; Norðurlandi; Austfjörðum; Suðurlandi; Suðurnesjum og allt inn að Vogum. Hvítabirnir hafa víða gengið á land og firna kuldar hafa ríkt með mannskaða og hallærum.
1616
Baskarnir loks farnir frá Vatneyri: Hópur Baska sem komst undan Ara í Ögri og mönnum hans hefur verið á Vatneyri yfir veturinn. Þeir komu í fyrstu kurteislega fram og áttu ýmis góð samskipti við íbúa Rauðasandshrepps. Þeir gerðust þó áleitnir er þústnaði að með matföng. Fóru þeir þá meðal annars að Sauðlauksdal, þar sem býr Ragnheiður Eggertsdóttir í Saurbæ; móðir Ara í Ögri og Björns sýslumanns í Saurbæ. Þorði hún ekki öðru en láta föng af hendi við þá. Einnig fóru þeir ránsferð til Tálknafjarðar. Ari í Ögri lét dæma þá óbótamenn á þingi á Mýrum í Dýrafirði. Ekki tókst honum þó að góma þá. Baskarnir reru til fiskjar er voraði. Komust þeir um borð í enska fiskiskútu sem komið hafði af hafi en naut ekki segla vegna logns. Er þeir sigldu út fjörðinn varð fyrir þeim önnur skúta sem þeir hertóku einnig. Þeir rændu einnig báta sem þeir rákust á úti á fiskimiðum, áður en þeir létu í haf.
Ari Magnússon í Ögri var forfaðir Halldóru Tómasdóttur í Kollsvík og þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 11. lið.
1617
Jón Greipsson smíðar predikunarstól í Saurbæjarkirkju: Björn Magnússon í Saurbæ hefur fengið Jón Greipsson bónda og hagleiksmann á Auðshaugi til að skera fyrir sig vandaðan predikunarstól í Saurbæjarkirkju. Þykir stóllinn hið mesta snilldarverk og hinn veglegasti gripur í alla staði. Stóllinn er röskar tvær álnir (130 cm) á hæð. Myndefnið er Jesús Kristur á krossinum, en sitthvorumegin eru María guðsmóðir og lærisveinninn Jóhannes. Á hliðum eru fjórir guðspjallamenn og tákn þeirra. Á stólinn er letrað; „Anno 1617. Til minnis lét sá æruverðugi velvísi frómi heiðursmaður Björn B. Magnússon smíða þennan predikunarstól til æru og sæmdar við það heilsusama útkröftuga guðsorð“. Tilefni þessarar smíði er það að Björn gengur nú að eiga síðari eiginkonu sína; Helgu Arngrímsdóttur (lærða). Predikunarstólar gegna nú veigamiklu hlutverki í messugjörðinni eftir siðaskiptin, enda er predikun guðsorðsins nú mikilvægari en hinir fornu latnesku messusiðir. (Þjóðminjasafn Íslands).
Predikunarstóllinn var seldur Þjóðminjasafninu 1888. Hann þykir einn af merkari fornmunum sem varðveist hafa úr Rauðasandshreppi. Stóllinn er stundum ranglega talinn gerður af Hjalta í Vatnsfirði, en hann gerði annan merkisgrip; altaristöfluna sem Guðrún Eggertsdóttir gaf kirkjunni síðar.
1619
Íslandsverslunin færist frá þýskum til danskra: Danskt verslunarfélag mun hér eftir hafa á hendi Íslandsverslunina. Um leið er endir bundinn á deilur um verðlag, þar sem ný kaupsetning mun gilda fyrir allt Ísland. Með þessu er endir bundinn á hina umfangsmiklu verslun Þjóðverja hérlendis, en eftir sem áður eru þeir stærsti kaupandi og dreifingaraðili á skreið í Evrópu.
1620
Verstöðin Brunnar leggst af: Verstöðin að Brunnum við Hvallátra hefur nú lagst af vegna sandfoks og vatnsleysis. Þaðan hafa róið 20 bátar og stundum fleiri, þar á meðal Dýrfirðingar, Arnfirðingar og Tálknfirðingar. Hafa vermenn haft tolllausa eggja- og fuglatöku í Látrabjargi. (ÁM; Jarðabók).
Útgerð hófst þó aftur frá Brunnum. Þar var komið útræði fyrir 1746 og stóð framundir 1890, sjá þar Ekki verður með nákvæmni sagt hvenær útræði hófst á Brunnum, en ætla má að þegar í upphafi skreiðarsölu á erlenda markaði hafi menn nýtt þessa lendingu nærri grunnmiðum; eða um líkt leyti og útver hófust í Breiðavíkuveri; Láganúpsveri og Keflavík.
1625
Prestur fýkur framaf Klifhyrnu: Það slys vildi til, er séra Björn Bjarnason í Sauðlauksdal reið um veginn á Klifhyrnu ofan Naustabrekku á Rauðasandi, að stórviðri fleygði honum af hestinum; fram af fjallsbrúninni og niður fyrir hamrana; hvar hann dó. Séra Björn hefur þjónað Sauðlauksdal frá 1602.
Prestur var jarðaður í Saurbæ í hempu sinni. Á það að hafa verið sama hempan sem kom að mestu ófúin upp úr garðinum er lík var þar grafið í tíð séra Björns Halldórssonar, um 1754-60. (Ísl.æviskrár og Rósinkrans Ívarsson í Árb.Barð).
1627
Tyrkjaránið: Ógnvænlegir atburðir hafa orðið sunanlands og austan. Tveir flotar Hundtyrkja komu sunnan úr hafi; gerðu strandhögg og námu burt hundruð fólks til þrældóms. Annar flotinn, undir stjórn Múrat Reis, tók land í Grindavík 20.06.1627 og réðist að heimamönnum, ásamt dönskum og hollenskum skipverjum sem þar voru. Hertóku Tyrkirnir 12-15 manns og tvö skip og héldu til Bessastaða. Þar strandaði skip þeirra og létu þeir eftir það í haf og sigldu til heimaborgar sinnar; Sale í Marokkó, þar sem fólkið var selt í þrældóm. Hinn hópurinn rændi á Austfjörðum 5.-13.07.1627, einkum í Berufirði og Breiðdal; tóku 110 manns og danskt skip og héldu suður og vesturmeð ströndinni. Hertóku þeir enska duggu á leiðinni en gengu svo á land í Vestmannaeyjum 16.07.1627. Þar voru framin mestu illvirkin í þessum árásum. Tugir manna voru drepnir en um 234 voru teknir herfangi; konur, karlar og börn. 19.07.1627 sigldu þeir með ránsfeng sinn heimleiðis til Algeirsborgar, þar sem fólkið var selt til þrældóms; það sem lifandi komst alla leið.
Séra Ólafi Egilssyni var sleppt lausum til að hann færi til Kaupmannahafnar að leita eftir lausnarfé, en þar var ekki feitan gölt að flá. Á endanum tóks að safna fé til frelsunar 34 manna og af þeim komust 27 aftur heim. Þeirra á meðal Guðrún Símonardóttir sem giftist Hallgrími Péturssyni sálmaskáldi. Þetta voru tímar mikils trúarhita hérlendis og töldu margir þetta refsingu guðs fyrir syndir landsmanna. Lengi á eftir lifðu landsmenn í stöðugum ótta við slíkar árásir af hafi; enda var þetta öld sjórána, eins og komið hafði í ljós með ráninu í Saurbæ 1579. Þjóðsagnir hafa löngum skapast um galdramenn og kraftaskáld sem tókst að bægja sjóræningjum frá landinu. Fátt er t.d. vitað um tímasetningu eða sannleiksgildi þjóðsögunnar sem GK segir um Gottskálk á Hvallátrum (sjá 1201). Hún gæti hafa litast af Tyrkjaráninu.
Enskt herskip tekur franskt hvalveiðiskip við Látrabjarg: Enskar duggur eru margar á Íslandsmiðum um þessar mundir; líklega um 150 talsins. Hefur Englandskóngur hér við land 2 herskip til verndar fiskveiðiflotanum. Viðsjár eru milli Englendinga og Frakka um þessar mundir. Sigldu ensku herskipin fram á franskt hvalveiðiskip undir Látrabjargi, þar sem verið var að bræða hval um borð. Skipstjóri Frakkanna heitir Dómingó (líklega Baski), og veifaði hann þegar leyfisbréfi Kristjáns Danakóngs IV. Englendingar sýndu á móti leyfisbréf sín frá Karli I. Englandskóngi um að þeir ættu í stríði við Frakka, og hófu skothríð að Frökkunum. Skotin höfnuðu í hval við borðstokkinn, en að lokum flúði franska áhöfnin; 18 manns, frá borði. Tveir urðu þó fyrir skoti og létust. Frakkarnir komu til Ara í Ögri og stuttu síðar ensku stríðsskipin. Þar var einnig staddur Jón Indíafari. Var honum falið að fara til Bessastaða og leita úrskurðar höfuðsmanns. Áður en til hans kæmi varð vart við Tyrki þá sem um þær mundir stóðu fyrir ránum í Vestmannaeyjum og víðar. Var Jóni því falið að snarast sem skjótast vestur og fá ensku herskipin suður til að berja á Tyrkjum; sem þeir og gerðu. Málin komu fyrir Danakóng sem varð hinn reiðasti og mótmælti meðferðinni á Frökkum við Karl Englakóng. Lyktir urðu þær að Dómingó fékk sitt skip aftur ásamt góssi öllu. (Sauðlauksdalsannáll og Helgi Þorláksson; Sjórán og siglingar (frásögn Jóns Indíafara)).
1630
Óvæntur kvenkostur Eggerts Björnssonar: Eggert Björnsson (Magnússonar prúða í Saurbæ) var eina barn Björns með Sigríði Daðadóttur (Bjarnasonar á Skarði). Hann erfði Skarð eftir móður síða (bjó þar síðan og var við staðinn kenndur). Eggert hafði í uppvexti sínum verið í Bræðratungu hjá Gísla lögmanni Hákonarsyni. Felldi hann hug til Kristínar dóttur hans og (líkt og þá tíðkaðist) var um brúðkaup samið milli feðra þeirra á síðasta ári. Ekkert var því til fyrirstöðu og skyldi brúðkaupið fara fram á þessu ári. En þegar þeir feðgar mæta suður í Bræðratungu á tilsettum degi blasir við nokkuð vandamál. Þar hafði að garði borið annan vonbiðil Kristínar, sjálfan Hólabiskup; Þorlák Skúlason. Var nú Gísla lögmanni nokkur vandi á höndum, þar sem augljós óhæfa var að vísa biskupi frá en ekki síðri sú að bregðast hinum voldugu feðgum að vestan. En svo heppilega vildi til að Gísli átti þá aðra dóttur gjafvaxta; Valgerði að nafni. Var því um það samið í snatri að Eggert fengi Valgerðar, en biskup Kristínar. (Engum sögum fer af vilja systranna í þessu efni, enda var ekki að slíku spurt í þann tíð).
Eggert og Valgerður giftust árið 1633, þremur árum á eftir biskupi. Þau áttu í fyrstu heima í Saurbæ, en fluttu árið 1640 að Skarði og bjuggu þar síðan. Eggert var einn auðugasti maður landsins um sína daga, en talinn all aðhaldssamur. Valgerður kona hans þótti hinsvegar örlát mjög og óbág að rétta lítilmagnanum hjálparhönd. Sagt er að Eggert hafi þó ekki sett sig móti konu sinni, en gjarnan sagt: „Gef þú Valgerður, en láttu mig ekki sjá það“! Eggert dó 71 árs gamall árið 1681 (sjá þar), en Valgerður lifði lengi eftir það og dó háöldruð árið 1702. Synir Eggerts og Valgerðar dóu ungir en dætur þeirra náðu fullorðins aldri. (Ólafur Lárusson; Elsta óðal á Íslandi; Iðunn 4.tbl.1925).
1633
Hvíti vetur; hörkur og peningsfellir: Veturinn hefur verið aftakaharður og víða um land hefur peningur hríðfallið. Nefna menn hann „Hvíta vetur“. Hross kaffennti á sléttum velli og víða týndust fjárhús í fannferginu. Á Ströndum fennti íbúðarhús í kaf og fannst ekki fyrr en að vori; allir íbúar þá látnir. Vermenn komust hvergi og messuföll voru nánast orðin regluleg.
1639
Ný kirkja í Saurbæ: Eggert Björnsson hefur nýlega látið byggja nýja kirkju í Saurbæ, í stað þeirrar sem að stofni til hefur líklega staðið þar frá 1190, þegar Markús Gíslason sótti við til hennar frá Noregi. Brynjólfur biskup Sveinsson vísiterar Vestfirði nú í september og ritar svo um hina nýju kirkju: "Kirkjan í sjálfu sér ný og sterk; alþiljuð. Kór og kirkja með capellu innar af kórnum sem altarið stendur. Þil er á milli hennar og kórsins báðu megin. Hurð á milli kórs og kirkju með pílárum. Altari og predikunarstóll. Einn glergluggi. Fjalagólf að kór og kirkju". Kirkjan er 15 álnir (8,7m) að lengd; 6,5 álnir að breidd og sama að hæð.
Kirkja Markúsar var að miklum líkindum stafkirkja, líkt og miðaldakirkjur sem enn má sjá í Noregi. Þessi kirkja Eggerts er líklega torfkirkja, eins og um þessar mundir var altítt; með grjóthlöðnum hliðarveggjum en timburgöflum. (AÍ; Sveitin vestur lengst í sjá).
1640
Skreið skal vera rétt skorin: Borist hefur konungsbréf til áréttingar því að fiskur sé rétt skorinn sem seldur er sem skreið (skarpur fiskur; malflattur fiskur; stokkfiskur (e); rundfisk (n); plattfiskur (þ)). Fiskinn skal kviðfletja og skera hrygginn úr (líklega þremur liðum aftan gotraufar), en ekki kviðfletja og taka hrygginn of framarlega. (LK; Ísl.sjávarh. IV).
Skor verður býli: Skor hefur nú byggst upp til heilsársbúsetu, og verður hjáleiga frá Saurbæ eins og flestar jarðir í Rauðasandshreppi. Landskuld er þar 4 vættir. Landsdrottinn leggur til við til bygginga. Leigukúgildi 4 (síðar 3). Í Skor er talið að fóðrast geti 3 kýr og 8 veturgamlir sauðir. Heimræði allt árið og verstaða allt að 5 báta. Eigandi er Eggert Björnsson sýslumaður. (ÁM; Jarðabók).
Skor var í byggð eitthvað fram yfir 1700, en enginn bóndi er þar nefndur 1735 eða síðar. Slægjur voru nytjaðar í Skor til 1935.
Fleiri nýbýli á Rauðasandi: Eggert Björnsson hefur látið byggja upp fleiri nýbýli á Rauðasandi. Hjáleiguna Tröð byggir hann úr heimalandi Saurbæjar. Landskuld er 3 vættir. Leigukúgildi eru þar 3 sem leiguliði uppyngir, og skal hann róa á bátum Eggerts og lána honum hest. (Ekki er vitað um byggð í Tröð eftir 1703).
Þá er einnig í Saurbæjarlandi uppbyggð hjáleigan Tóftavöllur. Þar er landskuld sama og í Tröð, en leigukúgildi 2, sem landsdrottinn uppyngir en hinsvegar viðheldur bóndi fjárstofni. (Tóftavöllur er sennilega farinn í eyði fyrir 1800).
1645
Dönsku kaupförin í hrakningum: Öll dönsku kaupskipin lentu í hrakningum þetta árið. Eitt hrakti aftur til Noregs; annað komst í Stykkishólm en fórst þar með allri áhöfn; þriðja brotnaði á Hraunlandsrifi. Hið fjórða hafði slitnað af legu á Rifi; hraktist síðan á haf út og langleiðina til Grænlands. Eftir langt volk komst þetta skip til Patreksfjarðar, þar sem því var siglt í lægi á leirunum hjá Botni. Þar lamdist það við stein sem gekk inn úr því. (Öldin sautjánda).
1648
Arngrímur lærði Jónsson andaður: Látinn er Arngrímur Jónsson hinn lærði (f.1568). Hann varð einn virtasti lærdómsmaður sinnar samtíðar; frændi og samstarfsmaður Guðbrandar biskups Þorlákssonar, sem kom honum til mennta. Arngrímur varð stúdent úr Hólaskóla 1585 og fór til náms í Kaupmannahafnarháskóla. Heimkominn fékk hafnn veitingu fyrir Mel í Miðfirði en fékk annan fyrir sig og gerðist rektor Hólaskóla. Var af konungi skipaður aðstoðarmaður Guðbrandar biskups 1596. Nokkuð liggur eftir Arngrím af skrifum, t.d. ritin Brevis commentarius og Crymogæa, sem er fyrsta samfellda Íslandssagan; auk þess guðsorðabækur og sálmar. Fyrri kona Arngríms var Solveig „kvennablómi“ Gunnarsdóttir en síðari Sigríður Bjarnadóttir. Meðal afkomenda hans var Páll Vídalín lögmaður.
Arngrímur lærði var forfaðir Guðrúnar Jónsdóttur (1756-1836), konu Einars Jónssonar í Kollsvík, sem Kollvíkurætt er rakin frá. Arngrímur er þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 10.lið, skv. Íslbók.
1650
Tvær nýjar hjáleigur á Láganúpi: Eigandi Láganúps, Eggert Björnsson (Magnússonar prúða) í Saurbæ, lætur byggja upp tvær hjáleigur á Láganúpsjörðinni. Önnur er Grundir, niðri við sjóinn. Þar hafði áður verið stekkur frá Láganúpi, sem við þetta flyst út á Hnífa. Grundahjáleiga reiknast 3 hundruð af 18 hundruðum Láganúps. Þær eiga síðar eftir að verða lögbýli, í byggð til 1945. Hin hjáleigan er Hólar; efst og vestast í Láganúpstúni; í upphafi 7,5 hundruð.
Hólar fóru úr byggð eftir stórubólu, árið 1707. Enn (2020) stendur Hesthúsið á Hólum; elsta hús Íslands til atvinnunota, en það hefur verið í notkun frá byggingu, í meira en 350 ár. Líklega hefur Eggert með þessum hjáleigum viljað styrkja úgerð sína í Láganúpsveri, en samkvæmt Jarðabókinni (1703) eru leiguliðar m.a. skyldir til formennsku á bátum Bæjareigenda. Sýnir þetta mikilvægi og arðsemi skreiðarverkunar í Láganúpsveri á þessum tíma, en Saurbæjarmenn höfðu sterk ítök í þýskum skreiðarsölusamböndum.
Hjáleigan Bjarngötudalur: Stofnuð hefur verið nýlendan Bjarngötudalur neðan samnefnds dals á Rauðasandi; sumpart af Kirkjuhvammslandi en sumpart af landi Saurbæjar. Liggur býlið næst landamerkjum kóngsins eyðijarðar Móbergs. Eigandi er Eggert Björnsson sýslumaður. (ÁM; Jarðabók).
Árið 1703 búa hjón með tvö börn í Bjarngötudal en ekki er vitað hvenær kotið fór í eyði. ÍÍ segir í örnefnaskrá Kirkjuhvamms að þetta sé sama býlið og það sem síðar nefndist Dalshús. „Skammt fyrir neðan Bjarngötudal eru tvö forn eyðibýli; Kvernargrund fyrir innan ána, og Dalshús fyrir utan hana. Talið er að Grænahjalli hafi líka verið býli fyrir utan Móberg. Allt hafa þetta verið örreytiskot eða húsmannabýli” (PJ; Barðstrendingabók). Sagnir eru um forna veiðistöð í Bjarnarnesi á þessum slóðum.
Fleiri nýjar hjáleigur Saurbæjarbónda: Eggert sýslumaður Björnsson gerir það ekki endasleppt í stofnun nýrra hjáleigna á sínum jörðum. Nú hefur hann látið byggja býli uppúr stekkum sem verið hafa utan Saurbæjar, í Stekkadal. Ábúandi greiðir 3 vættir í landleigu með 20 álna fóðri og góðum landaurum. Hann skal halda uppi þremur leigukúgildum og róa á bátum landeiganda. (Sjá 1945).
Á þessum árum byggist einnig upp hjáleigan Hesthús í Stakkalandi; eigandi Eggert Björnsson. Landskyld í upphafi 30 álnir (lækkaði síðar í 20). Kvaðir eru skipsáróður á bát landsdrottins. (Eftir 1800 munu Hesthús hafa verið farin í eyði).
1652
Hospítalshlutur skikkaður af aflaskiptum: Konungur hefur, að tillögu Brynjólfs biskups Sveinssonar, fyrirskipað að stofnaðir skuli fjórir spítalar; einn í hverjum landshluta, þar sem líkþrátt fólk geti fengið vist. Verða þeir að Hörgslandi á Síðu; Möðrufelli í Eyjafirði; Klausturhólum í Gímsnesi og Hallbjarnareyri í Eyrarsveit. Í kjölfarið hefur verið til skikkað að aukahlutur skuli tekinn af afla fiskibáta; svonefndur hospítalshlutur eða hospítalsfiskur. Í hverri verstöð á að vera umboðsmaður sýslumanns sem sér um að taka við fiskinum; verka hann; koma honum í verð og skila andvirðinu. Í laun fær hann höfuð, hnakkakúlur og rask af fiskinum. Hreppstjórar skulu halda skrá yfir báta sem róið er í hverju veri. Trássist einhver við að skila hlutnum skal hann greiða kóngi 4 merkur í sekt. Hospítalsfiskur gengur einnig undir nafninu "kerlingarfiskur", þar sem mikið er af öldruðu kvenfólki á spítölunum.
Úr verum í Rauðasandshreppi var hospítalsfiski skilað til spítalans á Hallbjarnareyri. Í reikningum hans frá 1842-1848 kemur fram að úr Barðastrandasýslu komu andvirði rúmlega 52 ríkisbankadala, meðan af Snæfellsnesi komu rösklega 165 rbd. Hvort þetta lýsir fremur aflabrögðum en skilum skal ósagt látið. Hospítalsfiskur var greiddur af afla löngu eftir að þessir spítalar voru úr sögunni, en var afnuminn 1882. (LK; Ísl.sjávarhættir III og Ágrip af Hallbjarnareyrar hospítalsreikningum).
1658
Drukknun: Jón Oddson (um 1620-1658) bóndi í Kollsvík drukknaði er bátur hans fórst. Gunnar (f.1640) sonur hans komst lífs af. Ekki er vitað nánar um tildrög slyssins. (TÓ; Ábúendatal).
Samkvæmt Íslendingabók var kona Gunnars Gyríður Bjarnadóttir (f.1640) og bjuggu þau í Kollsvík eftir föður hans. Dóttir þeirra kynni að vera Salvör Gunnarsdóttir á Láganúpi (f.1660), kona Ólafs Jónssonar bónda á Hólum hjá Láganúpi 1703 (TÓ; ábúendatal).
Móðir Gunnars og kona Jóns Oddssonar var Þorgerður Borgarsdóttir (f.1620) frá Breiðuvík; dótturdóttir Gottskálks Sturlasonar á Geirseyri (f. 1550). Frá þeim Gottskálk liggur beinn leggur Rauðasandshreppsbúa til Guðrúnar Jónsdóttur (12.02.1756-14.04.1836), konu Einars Jónssonar í Kollsvík. Gottskálk Sturlason á Geirseyri var þannig forfaðir VÖ skrásetjara í 11. lið og Gunnars Jónssonar í Kollsvík í 3. lið.
1660
Landamerkjavitnisburður vegna Kollsvíkur- og Láganúpsjarða: „Öllum þeim frómum mönnum sem þessi vor bréfleg orð lesa, sendum vér Ólafur Ásbjarnarson (að aldri 54 ára gamall og í þessari sveit allan minn aldur alið að undanteknum tveimur misserum og þremur árum sem ég í minni barnæsku er sagt að verið hafi á Barðaströnd); Jón Össurarson (hefi nú eitt ár um sextugt og hefi verið heimilisfastur á Rauðasandi í samfelld 41 ár að fráskildum tveimur árum); Jón Jónsson eldri (er nú 53ja vetra á Rauðasandi barnfæddur og uppalinn allan minn aldur verið að undanteknum fjórum árum á Hvallátrum í sömu sveit); Jón Gunnlaugsson (sem er nú að aldri 45 ára gamall, barnfæddur að Keflavík hér í sveit, en frá barnæsku heimilisfastur verið árlega á Rauðasandi); Jón Jónsson yngri (er einnig í þessari sveit barnfæddur og allan minn aldur verið og er nú að aldri 37 ára gamall) kveðju Guðs og vora hér með einum og sérhverjum auglýsandi, það sá heiðarlegi mann Eggert Björnsson hefur af oss með sínu sendibréfi, óskað oss grein á gera, með vorum sannaða vitnisburði, hvað sannast vér vissum eður heyrt hefðum af vorum feðrum og oss eldri mönnum hvar landamerki væru og haldin hefðu verið á millum þessara eftirskrifara jarða að fornu og nýju“. (Vitnisburðurinn nær til þeirra jarða í Rauðasandshreppi sem tilheyrðu eignagóssi Eggerts eða Saurbæjarkirkju. Eftirfarandi sögðu þessir frómu menn um landamerki Láganúps, sem þá var ein af hjáleigum Saurbæjar): „Láganúps landsmerki höfum vér heyrt og haldin hafa verið úr skeri því sem liggur nær undan miðjum Breiðnum og Landamerkjasker er kallað, og í Ána sem rennur milli Kollsvíkur og Láganúps“. (Sjá annan vitnisburð árið 1889).
Séra Páll í Selárdal hefur smíðað skútu: Prófasturinn í Selárdal, séra Páll Björnsson (Magnússonar prúða í Bæ) er ekki einungis manna lærðastur í margs konar vísindum, heldur og hinn mesti búsýslumaður. Stundar hann mjög útveg og leggur sjálfur hönd að því að smíða skip og báta; enda er klerkur hagur vel og starfsmaður mikill; að hverju sem hann gengur. Hann er og lærður í sjómannafræði. Hann hefur nú látið smíða fiskiskútu af svipaðri gerð og duggur Hollendinga, er nú sækja mjög á Íslandsmið. Hefur annað eins skip ekki verið í eigu Íslendinga frá 1580, en Guðbrandur biskup Þorláksson átti um tíma 60 lesta far sem hann keypti af Hamborgurum. Séra Páll heldur skútu sinni til fiskveiða og hefur sjálfur haft stjórn á hendi. Er sagt að hann fiski iðulega vel þegar minni afli fæst á róðrarbáta, og geti sótt sjó þegar landlega er hjá þeim.
Kvíarhólar byggjast: Hjáleigan Kvíarhólar hefur á þessum árum byggst út úr landi Stakka. Landskyld er þar 30 álnir, og greiðist með fiski. Kúgildi er 1. Ábúandi þarf að róa á skipum eigandans; Eggerts Björnssonar. (Búið var á Kvíarhólum 1703, en óvíst hvort það var mikið lengur).
1662
Hinrik Müller fær Vatneyrarverslun og fleiri staði: Verslunarfélagið sem haft hefur Íslandsverslunina á leigu í meira en 40 ár er nú liðið undir lok, eftir slæmt gengi á síðustu árum. Við er tekin verslun umboðsmanna; skrautlegs hóps einstaklinga sem komið hafa sér vel við Friðrik kóng þriðja. Sá sem hlýtur umboð fyrir Vatneyrarverslun, auk verslunar á Snæfellsnesi, Eyjafirði og Húsavík, er Hinrik nokkur Müller, sem uppvís hefur orðið að ýmiskonar svikum og gróðabralli.
Þrátt fyrir það þótti kóngi hann ómissandi liðsmaður og aðlaði hann árið 1674. Svo fór þó að Hinrik féll í ónáð; var sviptur verslunarumboði sínu og andaðist í eymd og örbirgð. Eftir þetta umboðsmannatímabil hófst umdæmaverslunin árið 1684, sjá þar. (Aldirnar o.fl.).
1664
Hollenskt skip hætt komið við Rauðasand: Laust fyrir miðjan desember 1664 kom hollensk skúta upp að landinu eftir ellefu vikna hrakninga í hafi. Ferð hennar hafði verið heitið til Færeyja en skipverjar hreppt óveður og hafvillur. Loks komst skipið upp að Bjargtöngum og gátu skipverjar áttað sig er þeir komu upp undir Rauðasand. Þá var skipið orðið svo fullt af sjó að vatn tók í hné í káetunni. Varð það til ráðs að hleypa suður yfir Breiðafjörð. Þá hafði eldur ekki verið upp tekinn í þrjá daga og skipverjar verið matarlausir. Skipinu var hleypt á land innan Öndverðarness og björguðust sumir skipverjar í land en aðrir fórust. (Öldin sautjánda).
Hollendinga er fyrst getið hér við land í íslenskum heimildum 1661, en á árunum 1983-1690 voru hér allmörg hollensk skip, eða allt að 26 1684. Á fyrri hluta 18. Aldar jukust veiðarnar og árið 1751 voru 73 hollensk skip að veiðum við Ísland. Hámarki náðu veiðarnar 1768 með 160 skipum. Veiðar Hollendinga héldu áfram til 1786, er styrjaldir bundu enda á þær. Bæði Frakkar og Hollendingar stunduðu veiðar á grunnsjó; 3-4 mílur frá landi. Duggur þeirra voru 50-60 smálestir og 7-8 í áhöfn.
1669
Séra Páll í Selárdal fæst við galdramenn: Helga Halldórsdóttir, kona séra Páls Björnssonar í Selárdal hefur verið illa haldin af ókennilegum veikindum og kennir það illum öndum. Stoðaði lítt þó prófasturinn þrumaði hverja kynngimögnuðu messuna á fætur annarri; ekki skánaði maddömmunni. Þá bárust böndin að Jón nokkrum Leifssyni sem átti þeirra harma að hefna að maddaman hafði lagst gegn því að hann fengi vinnukonu einnar. Þótti einsýnt að hann væri valdur að kvölum Helgu, en einnig að erfitt yrði að fá hann dæmdan á Öxarárþingi fyrir slíkt. Afréð því prófastur að brenna hann á staðnum án frekari vafninga. En enn elnaði frúnni sóttin, og af því að Jón hafði viðurkennt það fyrir dauða sinn að galdralistina hefði hann numið af Erlendi nokkrum Eyjólfssyni þótti klerki ráð að brenna hann líka. Til að fá fram játningu Erlendar var fenginn Þorleifur lögmaður Kortsson á Þingeyrum, sem reyndist lunkinn við slíkt.
Þessi framganga séra Páls og Þorleifs Kortssonar var dæmigerð fyrir ógnartíma galdraofsókna á landinu. Með siðaskiptunum jókst trúarofstæki og „hreintrú“, og þá var fyrir alvöru farið að ógna fáfróðum almenningi með satan og útsendurum hans, sem allsstaðar lágu í leyni. Ísland var ekki einstakt að þessu leyti; galdratrú er gömul og hafði kraumað í evrópskum menningarstraumum. En aldrei hefur hún orðið hatrammari hérlendis en á tímabilinu 1625-1690, sem nefnt er Brennuöld.
1673
Annar prestur hrapar af Klifhyrnu: Klifhyrnan ofan Naustabrekku hefur reynst prestum skæð, enda þurfa þeir iðulega að fara þar um í belgmiklum hempum sínum og misjöfnum veðrum; þar sem vegurinn liggur frammi á tæpustu nibbum. Ekki er liðin hálf öld síðan séra Björn Bjarnason í Sauðlauksdal fauk þar framaf og lamdist til bana. Nú hefur annar Sauðlauksdalsprestur, séra Þorbjörn Einarsson, hrapað fram af brúninni á Kerlingahálsi með sömu afleiðingum. Séra Þorbjörn Einarsson hefur þjónað Sauðlauksdal frá 1632. Kona hans var Helga Arngrímsdóttir (hins lærða), sem áður var gift Birni Magnússyni (hins prúða) í Saurbæ. Sóknarbörnum hefur hann þótt strangur kennimaður, en þætti honum skorta á kunnáttu þeirra í fræðum og sálmum lamdi hann þau gjarnan með pálmastiku; jafnt eldri sem yngri.
Slysið vildi til með þessum hætti: Prestur var sóttur snögglega til þjónustu í heimahúsum. Reið hann eldishesti mjög fjörmiklum og fékk fylgdarmaður ekki orðið honum samferða, því prestur reið svo mikið. Hrapaði þá hesturinn með prest úr mjög tæpri götu á Kerlingarhálsi og fengu hvorirtveggja bana. Fannst prestur þar fyrir neðan; ekki mjög skaddaður þó flugið væri hátt, því mikill snjór var undir. Var hann jarðaður að Sauðlauksdal.
Árið 1848 kom upp úr kirkjugarðinum ístruskjöldur allstór er gröf var tekin, og hugðu menn að það væri ístra úr séra Þorbirni). (Rósinkrans Ívarsson; Árbók Barð; Jóna Ívarsdóttir; frásögn á Ísmús; Íslenskar æviskrár.
1673
Bjarni Jónsson smíðar bát, 19 ára: Bjarni Jónsson er fæddur um 1654, sonur Jóns Tómassonar á Sellátrum í Tálknafirði og einn hinna kunnu Sellátrabræðra sem þekktir voru að atorku og dugnaði. Hann er því ekki nema 19 ára þegar hann nú lýkur smíði á stórum haffærum teinæringi (Bjarni er hér líklega enn búsettur að Sellátrum, en nokkru fyrir aldamótin 1700 flytur hann í Kollsvík. Þaðan fer hann nokkrar byrðingsferðir á Strandir á bát sínum; sjá 1710). (GB; TÓ o.fl).
Einar sonur Bjarna var einnig þekktur bátasmiður. Hann var í Kollsvík 1735; fluttist að Kvígindisdal, en 1765 er hann kominn á Vatneyri.
1681
Frakkar auka sókn á Íslandsmið: Frakkar sækja nú í auknum mæli á Íslandsmið. Árið 1614 sendi franski útvegsmaðurinn Jean de Clerc í Dunkirk skip hingað, og stuttu síðar sjö önnur. Nú hefur sjálfur sólkonungurinn; Loðvík XIV. ákveðið að veita hverju frönsku skipi sem hingað siglir á veiðar 3000 franka styrk á ári, þar sem sjómennskan færi ekki alleina björg í bú heldur þjálfi sjómenn sem síðan mætti e.t.v. nota í hernaði. (Árið 1700 gengu 7 skip frá Dunkirk til Íslandsveiða, en mesta sókn Frakka var frá 1751 til 1792, þegar styrjaldir hindruðu. Flest urðu frönsku skipin 1786; alls 86 á því ári.
Eggert Björnsson látinn: Eggert Björnsson á Skarði, sýslumaður Barðastrandasýslu og auðugasti maður landsins, lést hinn 15. júní þetta ár (f 1612). Eggert var sonarsonur Magnúsar prúða Jónssonar og fyrri konu hans, Sigríðar Daðadóttur frá Skarði. Móðir hans dó er hann var barn að aldri og ólst hann verulega upp í Bræðratungu hjá Gísla Hákonarsyni lögmanni. Hálfbróðir Eggerts var séra Páll í Selárdal og Sigríður í Odda; móðir Björns Þorleifssonar Hólabiskups. Sigríður, móðir Eggerts, erfði verulegar eignir, meðal annars Skarð á Skarðsströnd, þar sem þau settust að. Þar bjó Eggert lengst af og var við Skarð kenndur. Hann giftist Valgerði Gísladóttur um 1630 (sjá þar). Eggert fékk sýsluvöld í Barðastrandasýslu og var dyggur liðsmaður Páls hálfbróður síns í galdraofsóknum hans. Honum erfðust gríðarmiklar eignir frá móður sinni og jók við þann auð, t.d. átti hann nær allar jarðir á Skarðsströnd. Einnig fékk hann miklar eignir frá föður sínum, m.a. Saurbæ og allar hans útjarðir, t.d. Láganúp. Hann byggði gjarnan upp hjáleigur á jörðum sínum til að auka leiguarð og til að festa vinnuhjú, t.d. Hóla og Grundir í Láganúpslandi. Eggert var auðugasti maður landsins er yfir lauk. Kona hans var Valgerður, dóttir Gísla lögmanns í Bræðratungu. Þau áttu fimm dætur sem lifðu. Elst þeirra var Guðrún (eldri, sem bjó í Saurbæ á Rauðasandi, sjá síðar).
1682
Draumur Sigurðar á Láganúpi: Þetta ár segir Eyrarannáll: „Sást halastjarna í hálfan mánuð. Og þá dreymdi Sigurð Sigurðsson á Láganúpi (sunnan Patreksfjarðar) að hann sá þrjár sólir, en sú í miðið var öllum fegri og varð að manns ásjónu og sagði við Sigurð: „Hvað heldur fólkið að stjarnan hafi að þýða sem sást hér nýlega“? Sigurður svaraði: „Þar vita menn ei af“. Andlitið sagði: „Ég vil segja þér það; hún merkir það að hér eiga að koma ræningjar. Og hafðu það til merkis að þeir sem fyrstir koma til landsins munu segja sem þeir sögðu forðum þegar Vestmannaeyjar voru teknar: Frið, frið, frið, en þar kom að þar varð lítill friður. En mundu mig um það; haltu þetta fyrir enga draumóra sem ég segi þér, því að það er satt“. Og vaknaði Sigurður. Item 3 vikum seinna dreymdi Sigurð gamlan mann gráhærðan og sagði við Sigurð: „Satt er það sem sólin sagði þér um stjörnuna og ræningjana““.
(Eining 7.tbl 1943; Lesb.Mbl. 12.tbl 1951).
Ekki verður séð hvaða ræningjainnrás er þarna átt við. Hugsanlega eru það erjur alsírskra Tyrkja sem Englendingar, undir stjórn Arthur Herbert, brutu á bak aftur þetta ár. Mönnum var í fersku minni Tyrkjaránið 1627 og fylgdust vafalítið með öllum fréttum af þeirri illu þjóð. Halastjarnan sem þarna er um rætt er Halleys-halastjarnan, sem var á ferðinni þetta ár. Hún birtist reglulega á 75-76 ára fresti og sást síðast 1986. Halastjarnan er kennd við Edmund Halley (1656-1742), enskan stjörnufræðing sem sá halastjörnuna þetta ár eins og Sigurður, og setti fram kenningu um endurkomu hennar.
1684
Jóhannes Klein leigir Vatneyrarverslun: Umboðsmannafyrirkomulagið á Íslandsversluninni sem verið hefur við lýði frá 1662 hefur nú runnið sitt skeið og hinn skrautlegi hópur kóngsins gæðinga hefur gefist upp. Nú hefur kóngur boðið Íslandsverslunina upp; tvær hafnir í hverri spyrðu. Sá sem hreppir Vatneyrar- og Bíldudalsverslun er Jóhannes Klein, sem tvisvar hefur verið fógeti Hinriks Bjálka höfuðsmanns á Bessastöðum. Bændum er hér eftir harðbannað að versla við aðra en sína umdæmisverslun. Undir Vatneyrarumdæmið heyra Útvíkur, Rauðisandur Patreksfjörður allur, Tálknafjörður og Barðaströnd að Hagavaðli. (Aldirnar; ÁHS Rauðsenda o.fl.).
Jóhannes Klein lést 1689 en ekkja hans hafði verslunarumboðið áfram til 1706, sjá þar.
1685
Fádæma hafís vestra; kominn suðurfyrir Látraröst: Aldrei hefur hafís verið jafn ágengur við Vestfirði og Norðurland og þetta árið. Hefur ís komist suðurfyrir Látraröst, sem engin dæmi eru til áður. (Það gerðist aftur 1787). Á sama tíma er fiskigengd með eindæmum mikil í Breiðafirði, svo vart hafðist undan að bera afla frá bátum á þorra og góu. Í Bjarneyjum eru fiskkasirnar seldar hverjum sem kaupa vill, og gegn vægu gjaldi. (Aldirnar og Náttúrufræðingurinn 39.árg, 3-4tbl).
1690
Sakamaður leynist í Miðmundahæð: Á þessum árum býr á Látrum Þórður Jónsson með fjölskyldu sinni; nefndur „ríki-Þórður“. Dag einn ber þar að garði vin Þórðar; Jón að nafni, frá Norðurlandi. Hann hafði verið dæmdur fyrir barneign með systur sinni en náð að flýja. Var það ekki síst fyrir bænastað konu sinnar að Þórður féllst á að leyna manninum. Kom hann honum fyrst fyrir í hlöðu en síðar hlóðu þeir byrgi uppi í Miðmundahæð, á vandfundnum stað. Þaðan sést vel niður á Sléttanef og Brunnanúpsnibbu. Þar hafðist sakamaðurinn við fram á vor. Var honum færður matur á laugardögum þegar síst var sporrækt og lítið bar á. Um vorið komst hann í hollenska duggu og úr landi.
Sagan segir að nokkrum árum síðar hafi útlent skip komið á Eyrar. Hafi skipstjórinn haldið upp spurnum um þetta Látrafólk og beðið fyrir sendingu til þess. Í henni voru góðir gripir. Byrgið hefur fundist á síðari tímum. Það er grafið inn í urðarhól; grjóthlaðið og hefur verið með helluþaki; um mannslengd og litlu mjórra; svefnbálkur með annarri hliðinni. Þórður Jónsson (yngri) á Látrum ritaði um þetta leikrit sem flutt var í Ríkisútvarpinu). (Örn.skrá; ÁE; Ljós við Látraröst).
Vafalítið er söguhetjan hinn sami Þórður Jónsson sem býr á 10 hundruðum Látra árið 1703, þegar Árni Magnússon er á ferð. TÓ segir í ábúendatali sínu að hann hafi verið giftur Dýrfinnu Guðmundsdóttur, sem er þá hin miskunnsama eiginkona í frásögninni; og að þau hafi átt 4 börn. Jón var fæddur 1647 og sonur hans, Jón Þórðarson, bjó á Látrum 1735. Líklega hefur Dýrfinna verið systir Guðmundar Guðmundssonar sem bjó á 15 hundruðum Látra 1703. Nafn hennar gæti bent til að þau hafi verið afkomendur séra Filippusar Jónssonar á Látrum (sjá 1521), sem var sonur Jóns Íslendings og Dýrfinnu Gísladóttur í Sauðlauksdal.
1692
Tungudómur upp á kjaftshögg: Gissur Brandsson í Patreksfirði kom fyrir dóm í Tungu í Örlygshöfn þetta ár. Þar meðgekk hann að hafa ákallað djöfulinn með þessum orðum: „Djöfullinn hjálpa þú mér, og ef þú ert í helvíti þá hjálpa þú mér“. Þykja slíkar sakir alvarlegar nú á tímum, ekki síst í prófastdæmi séra Páls í Selárdal, sem staðið hefur í ströngu við það síðustu áratugina að koma galdramönnum og djöfladýrkendum á bálið. Gissur má því teljast heppinn með sinn dóm; að þola hýðingu á Öxarárþingi og slá sjálfan sig þrjú dugleg högg á munninn.
1694
Frakkar hertaka ensk skip á Vatneyri: Franskt herskip kom nú í sumar til Vatneyrar með tvö ensk Vestur-Indíaför sem það hafði tekið í hafi; hlaðin sykri, tóbaki og öðru dýrmæti. Franski skipstjórinn hafði áður verið hér á hvalveiðiskipi. Á Tálknafirði lágu þá tvær enskar duggur sem Frakkarnir rændu einnig. Þeir ráku skipshafnirnar í land en kveiktu í skipunum, sem sigldu logangi út fjörðinn. Hafa Englendingarnir síðan flækst milli hafna, í leit að enskum duggum sem gæti flutt þá heimleiðis. (Ald).
Björn Halldórsson segir svo í Sauðlauksdalsannál árið 1693: „Enskir caparar tóku franskt skip á Patreksfirði og 2 duggur. Þá var Torfi Jónsson nýorðinn sýslumaður hér í Barðasrandarsýslu“. Hugsanlega er hér um annan atburð að ræða; ári fyrr, en líklega hefur hinn mæti klerkur fengið villandi upplýsingar um atburðina.
1695
Fádæma ísaár; hafís kominn suðuryfir Látraröst: Þetta ár „umkringdi hafís land frá Patrixfirði til Borgarfjarðar (dæmalaust)“. (Sauðlauksdalsannáll). (Hafísinn komst reyndar vesturmeð suðurströndinni að Eyrarbakka og suður fyrir Látrabjarg (sem reyndar hefur ekki skeð nema í 2-3 skipti frá landnámi). Um krossmessu var reitt þverfirðis um alla firði og víkur. Þessu fylgdi mjög köld veðrátta og fylgdi grasbrestur um sumarið og á sama tíma herjaði mannskæð farsótt. Hver harðindaveturinn rekur nú annan, en aldrei þó eins og nú. Ís kom snemma árs að landinu; um sumarmál var hann kominn vestur með Suðurlandi til móts við Þorlákshöfn og á sumardaginn fyrsta rak hann inn á Faxaflóa. Mestum tíðindum sætir þó að ís náði nú í fyrsta skipti í manna minnum að reka suðurfyrir Látraröst. Þar fyrir vestan er ís með öllum ströndum; sem og fyrir Norðurlandi, Austfjörðum og Suðurlandi. Ísinn á Faxaflóa komst vestur í Hítárós. Gengt var þverfirðis af Akranesi í Hólminn (Örfirisey) og kaupskip komust ekki að landinu. Hvarf ísinn ekki fyrr en eftir vertíðarlok. Þessu fylgdi firnaköld veðrátta, grasbrestur og mannskaðar.
Næsti vetur varð einnig kulda- og harðindavetur. Peningur gerféll nálega um allt land og mikill manndauði varð af hungri og bjargarleysi. Þeir sem lifðu fóru flestir á vergang og leitaði fólk unnvörpum í verin eftir lífsbjörgum. Veturinn 1697 varð þjóðinni þó jafnvel enn þyngri í skauti og harðari. Kuldi og fellir hélt áfram veturinn 1698 og mátti síðan heita sauðlaust á Ströndum. Eftir þessar hremmingar voru taldir 80 látnir í Trékyllisvík á Ströndum; yfir 50 í Rifi; 20-30 á Hjallasandi; 80 í Fljótum og Ólafsfirði; 70 í Svarfaðardal; 30 í Höfðahverfi. Farandfólki snarfjölgaði og þjófaöld var svo mikil að harðfengustu menn fengu ekki varist. Tófur leituðu deyjandi inn í bæjargöng. Vertíðarhlutir voru rýrir og bátstapar urðu víða. Annálar geta um mannfelli víðast um landið þessi harðindaár, en þó ekki í Rauðasandshreppi. Virðist það svæði oft hafa sloppið betur við óáran en önnur landsvæði; líklega vegna legu sinnar, afskekkt fyrir drepsóttum og hafði lífsbjargarvon úr sjó og björgum þegar landbúskapur brást.
1698
Franskt skip ferst í Keflavík: Franskt hvalveiðiskip strandaði nú um haustið í Keflavík. Leki hafði komið að því og var því siglt á land, þar sem það brotnaði í spón. Sex menn fórust og afli týndist, þ.á.m. 300 tunnur af lýsi. Aðrir skipverjar komust í land og fengu húsaskjól hjá Guðrúnu Eggertsdóttur í Saurbæ. Þeir dvöldu þar á meðan þeir sendu til annarra franskra, sem vestur í fjörðum lágu. En að skilnaði gáfu þeir Guðrúnu allt sem þeir ei með sér komu, fyrir utan kaðla og akker sem þeir tóku ári síðar.
Í sjávarbökkum Hlunkurholts í Keflavík er slöður eða graslaut mikil. Þar í voru til skamms tíma sýnilegar nokkrar þúfur sem nefnast Frönskur (eða Franskir). Ekki er ólíklegt að þar séu leiði þessara sex Frakka. (m.a. AÍ; Stóri grafreiturinn).
1700
Nýi stíll upp tekinn hérlendis: Hér hefur nú verið tekið upp hið Gregoríanska tímatal sem innleitt var í katólskum löndum árið 1582 og kennt er við Gregoríus páfa þrettánda. Með því er niður lagt hið hefðbundna tímatal sem nefnt er í höfuð Júlíusi Sesari rómakeisara og innleitt af honum. Með upptöku nýja stíls eru felldir 11 dagar úr árinu einskiptis. Um leið er gerð sú breyting að þó hlaupár sé þau ár sem ártal er deilanlegt með 4, þá sé aldamótaár ekki hlaupár nema það sé deilanlegt með 400.
Sum ríki heims tóku þó ekki upp þessa breytingu, heldur hafa haldið sig við Júlíanska tímatalið. Því eru t.d. jól í þeim ríkjum ekki fyrr en 6. janúar.
1701
Ördeyða á fiskimiðum, mannfall og flakk: Síðastliðinn vetur og vor var hin bágasta vertíð sem sögur fara af; með ördeyðu í flestum verstöðvum vestanlands og á Suðurnesjum. Hvarvetna er bjargarskortur eftir marga undangengna eindæma harðindavetra. Flest fólk sem enn lifir hefur flosnað upp af jörðum sínum og er á vergangi um landið. Stuldir eru tíðir og óöld ríkir í landinu. Til marks um fiskleysið er það að lögmaðurinn; Lárus Gottrup, hafði sjö menn í veri og fékk ekki fisk eftir neinn þeirra. Heim á Hólastað komu 10-12 menn með 300 fiska eftir vertíðina. Tíu fiskar voru í hlut í Njarðvík eftir vertíðina. Á Fjallaskaga fiskuðu menn sér ekki til viðurværis. Kaupskipin dönsku sneru heim nálega tóm, því engan ugga var að hafa. Steinbítsafli hefur þó verið sæmilegur kringum Látrabjarg og vestar og sendu t.d. biskupsstólarnir lestarferðir eftir steinbít til Tálknafjarðar.
Næsti vetur var nokkuð mildari, og vorið 1702 var milt. Þjóðin var þó enn bjargarlítil eftir harðindaárin, þegar talið er að um níu þúsund hafi fallið af harðrétti.
1703
Árni Magnússon um Láganúpsver: „Heimræði er þar ár um kring, en á vorið er þar vertíð frá sumarmálum til þingmaríumessu. Þar ganga nú ár um kring: 1) Halldórs Jónssonar (ábúanda), 3ggja manna far; 2) Guðrúnar Eggertsdóttur, 3ggja manna far; 3) Guðrúnar Eggertsdóttur 3ggja manna far (stærri skip væru heppilegri, segja bændurnir). Fyrir þessum tveimur síðustu eru leiguliðarnir formenn ut supra. Hjer fyrir utan inntökuskip um vertíð: 1) Ara Gíslasonar, 3ggja manna far; 2) Andréss Jónssonar 5 manna far; 3) Guðrúnar Eggertsdóttur, 3ggja manna far; 4) Guðrúnar Eggertsdóttur 4ra manna far. Formenn og hásetar á þessum bátum eru úr Patrixfirði. Formenn þessir og hásetar gefa í vertoll ½ vætt og afhendist þar hálft í fiski, hálft í steinbít og hefur þetta so verið í lángvarandi tíma. Síðan fiskleysisárin tiltóku hefur landsdrottinn so dispenserað að nokkrir hafa ei goldið fyrir sig og sín hjú hálfan toll, en fyrir 2 árum hefur landsdrottinn þennan toll aftekið, so nú gjalda heimabændur ekkert í því nafni. Vermannabúðir hafa þar til forna verið 18. Nú eru þar uppi 4, sem þessar inntökuskipshafnir liggja við. Við til þeirra leggur landeigandi. Sumum af þessum búðum hefur til forna ketill fylgt, nú öngum. Lyng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi frí. Þar er engin skipaleiga. 1 skipshlutur. Allur fiskur skiptist að jöfnu, þá skipt verður. Seglfiskar, maðkafiskar engir. Lóðir kunna ei brúkast sökum strauma. Segl brúkast þar (á heimaskipinu öðru landsdrottins leggur formaðurinn það til). Lending í Láganúpslandi er nærri ótæk sökum brims og grynninga. Seila menn allan fenginn út og flytja svo skipin í eina lending sem er í Kollsvíkurlandi og setja þau þar upp... Beita er maðkur og brandkóð (smálækjasilungur). Item heilagfiski á vor. Manntalsfiskar engir. Hospitalshlutur skiptist þar. Seilarólar og seilastrengi leggja skipaeigendur til með skipunum“. (ÁM; Jarðabók).
Árni Magnússon um Kollsvíkurver: „Verstaða er þar ekki né hefur verið, nema því aðeins að stundum hafa þar gengið 2 skip og nú eitt skip sýslumannsins; Ara Þorkelssonar, þriggjamannafar. Heimamenn gjalda engan toll af því veri, en aðkomandi fimm álna toll; nema fyrir góðvild sé eftir gefið. Heimabúenda skip ganga nú tvö af hvors hendi, allt smábátar og þriðji bátur sem bróðir Jóns (annars bóndans; bróðirinn stundaði aðeins sjó) á og er formaður fyrir. Þegar veður er ógæft gengur ei nema eitt skip af hvors bónda hendi, og fleyta þá hvörju því allir hásetar af bátunum“. (ÁM; Jarðabók).
Fáir sjálfseignabændur: Langflestar jarðir í Rauðasandshreppi eru í leiguábúð. Sjálfseignarbændur sitja á 3 jörðum en leiguliðar á 24. (ÁM; Jarðabók).
Vinsælustu mannanöfnin 1703: Nöfn manna taka gjarnan mið af samfélaginu á hverjum tíma. Því er það ekki undarlegt að í manntalinu núna komi oftast fyrir nafnið Jón hjá körlum og drengjum, enda hefur trúarlífið stýrt flestum athöfnum manna síðustu aldirnar. Jón er sama orðið og Jóhannes og ekki er amalegt að bera sama nafn og Jóhannes skírari; Jóhannes guðspjallamaður og Jón biskup Ögmundsson. Guðrún er vinsælasta nafn kvenna og stúlkna og táknar nafnið þá sem merkt er guði. Í Barðastrandasýslu eru þessi nöfn vinælust hjá körlum: Jón 343; Bjarni 121; Guðmundur 57; Einar 52; Ólafur 50; Sigurður 29; Þórður 29; Magnús 24; Björn 20; Páll 20; Þorsteinn 20; Gísli 19; Halldór 19. Vinsælustu kvennanöfnin eru: Guðrún 406; Sigríður 91; Ingibjörg 68; Margrét 64; Helga 55; Guðríður 35; Kristín 34; Halldóra 31; Valgerður 30; Þorgerður 30; Ragnhildur 28; Ólöf 27; Þuríður 26; Sesselja 24; Steinunn 23; Þóra 21; Ingveldur 20 og Þórunn 20. (Ólafur Lárusson; Árbók Barð 1954).
Segl notuð í Útvíkum en ekki norðar: Fram kemur í Jarðabók Árna og Páls að segl eru notuð í Kollsvík og öðrum Útvíkum, líkt og í Breiðafirði, en hvergi annarsstaðar á Vestfjörðum. Má ætla að það sýni hve Breiðafjarðarsvæðið og Útvíkur voru nátengd atvinnusvæði, en fjölmargir koma innan úr Breiðafirði til útróðra vestra. (Þversegl voru notuð á þessum tíma, og héldu Útvíknamenn sig almennt við þau fram á vélaöld, þó loggortusegl þekktust á hákarlaskipum um og eftir 1900).
Maðki beitt vestra en ekki víðar: Fjörumaðkur er grafinn og notaður til beitu í þessum verstöðum landsins: Eyrarsveit; Höskuldsey; Hvallátrum; Láganúpsverstöð og í Hænuvík. Hann virðist því ekki vera notaður annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Sá sem grefur til maðka á rétt á maðkafiskum þegar afla bátsins er skipt. Ekki hefur alltaf verið samkomulag um notkun maðka til beitu. T.d. voru sett lög frá Alþingi árið 1609 sem bönnuðu notkun maðks, og var ástæðan óánægja þeirra landsmanna sem ekki áttu kost á þessari tálbeitu. Lögin munu þó ekki hafa gilt lengi.
Katlaleiga Guðrúnar í einkaverstöð: Guðrún Eggertsdóttir er ríkasta kona landsins, enda hefur hún allar klær úti í sinni gróðastarfsemi. Gott dæmi um það er verstöðin í Keflavík. Þaðan mega engir róa nema hennar eigin bátar. Mannar hún báta sína með leiguliðum af hinum mörgu hjáleigum sem faðir hennar kom upp í þessu augnmiði. Vertoll þurfa þeir þó að greiða henni; hálfa vætt fyrir hvern bát, sem hún þó sjálf á. Hún leggur þeim til katla til eldamennsku, þar sem þeir geta soðið trosfisk þann sem ekki nýtist í hina dýmætu skreið. En fyrir það greiðir hver háseti fjórðung vættar og katlinum skal skila ósködduðum að vertíð lokinni heim til Saurbæjar. Segl eru dýr, og því þykir Guðrúnu hagkvæmara að láta róa, þó langræði sé iðulega frá Keflavík. Af góðsemi sinni leyfir hún þó vermönnum að rífa lyng í Keflavík til að hafa í flet sín, og stundum hefur hún gefið eftir vertolla ef ekki fæst bein eða uggi úr sjó. Meira að segja leyfir hún leiguliðunum í Keflavík stundum að róa utan vertíðar, en þó því aðeins að þeir hafi vinnufólk til þess; því sjálfir þurfa þeir að vinna fyrir jarðarleigunni. Í annarri verstöð Guðrúnar; Láganúpsveri, eru landsetar frjálsari að því að róa. Enda er þar óhægara um eftirlit að hálfu Bæjarhöfðingja. Þar hafa menn afþakkað hina dýru leigukatla Guðrúnar.
Séra Páll Björnsson í Selárdal eigandi Kollsvíkur: Eigandi Kollsvíkur, þegar Árni Magnússon er þar á ferð, er séra Páll Björnsson; skútuskipstjóri og galdramannahrellir í Selárdal. Eignarhald er til komið með beinum erfðum, með því að árið 1570 (sjá þar) er Kollsvík í eigu fjölskyldu Eggerts hirðstjóra Hannessonar. Eftir hann eignast jörðina vafalítið Ragnheiður dóttir hans og Magnús prúði tengdasonur hans; síðan Björn sonur Magnúsar og nú séra Páll sonur Björns. Hænuvík er á sama tíma í eigu Halldórs, sonar Páls í Selárdal, en Láganúpur heyrir undir Saurbæ, sem er í eigu Guðrúnar Eggertsdóttur, Björnssonar á Skarði hálfbróður Páls í Selárdal sem var engu betri í galdraorstækinu.
Séra Jón Ólafsson andast á Hnjótsheiði: Séra Jón Ólafsson varð bráðkvaddur á Krossholti milli Aurholtslauta og Krossalauta á Hnjótsheiði á þessu ári. Með honum er genginn einn helsti fræðimaður og sagnaritari hér um slóðir og þó víðar væri leitað. Séra Jón var sískrifandi. Fyrst að loknu námi var hann 7 ár handritari á Skarði, hjá Eggert sýslumanni sem kostaði hann til náms. Eftir hann liggja miklar ættartölubækur um Vestfirðinga; nýlega fundnar í Danmörku. Einnig ævisaga Jóns Indíafara. Þá var hann einnig gott ljóðskáld. Jón var prestur við Saurbæjarkirkju frá 1674 til dauðadags og bjó fyrst á Melanesi en lengst af á Lambavatni , eða frá 1679 til 1703. Átti hann hlut í báðum jörðunum. Greinilega hefur Guðrún Eggertsdóttir ekki kært sig um að hann þrengdi að sér í Saurbæ, en leigði honum þessar jarðir sínar. Drykkjumaður þótti hann nokkur. (Ari Ívarsson og Rósinkrans Ívarsson; Árbók Barð).
Misjafnt er hermt frá dauða Jóns en ein sagan er þessi: „Hann var á ferð út í Örlygshöfn og kom síðla dags ölvaður að Hnjóti. Þar settist prestur að drykkju með bónda en hélt síðan heim á leið um nóttina yfir Hnjótsheiði. Með séra Jóni var ungur sonur hans, Ólafur að nafni. Er þeir komu nokkuð upp á heiðina dró prestur upp nestispela sinn og drakk allósleitilega. Andartaki seinna sá drengurinn bláa gufu brjótast fram um varir hans. Hneig séra Jón þá af hestinum og var þegar örendur. Trékross var reistur þar sem prestur andaðist og heitir síðan Krossholt“ (eftir handriti Gísla Konráðssonar).
Sagnir spunnust um Jón, líkt og verða vill um afburðamenn. Ein þeirra er þjóðsagan um Skessuna í Síðaskeggi: Skessa ein bjó í Síðaskeggi, sem er áberandi bergþil í klettunum nokkru utan Lambavatns, og sat hún um að góma prest er hann fór hjá í embættiserindum sínum. Eitt sinn elti hún Jón og var við það að ná honum, og kallar þá; „Bíddu mín séra Jón“. En hann keyrði hestinn hraðar og þeysti til Saurbæjar. Þar náði hann að komast í kirkjuna og hringja klukkum. Við það brá skessunni svo að hún snarstoppaði en spyrnti um leið í kirkjugarðinn svo hrundi úr. Hreytti hún þá útúr sér: „Stattu aldrei, argur“. Hefur það orðið að áhrínsorðum, því aldrei hefur hlaðinn garður staðið langan tíma réttur um kirkjugarðinn síðan. Má reyndar e.t.v. að sumu leyti rekja það til mýrajarðvegsins sem undir er.
1704
Sauðlauksdalur tekur við hlutverki höfuðkirkju: Séra Þorvarður Magnússon frá Stað í Steingrímsfirði hefur tekið við prestskap í Sauðlauksdal, en því hafði áður sinnt séra Jón Ólafsson (sjá hér framar). Með því má segja að Sauðlauksdalskirkja sé orðin höfuðkirkjan í Rauðasandshreppi, en því hlutverki hefur Saurbæjarkirkja gegnt, allt frá kristnitöku.
Ekki er ólíklegt að fyrsta kirkja hreppsins, og jafnvel alls landsins, hafi verið í Kollsvík; reist af fóstbræðrunum Kolli og Örlygi sem hingað komu í trúboðserindum; lærðir í klaustrinu á Iona á Suðureyjum. Til þess benda líkur en ekki ritheimildir.
Harboe segir í skýrslu sinni að 1745 hafi Eggert Ormsson vígst til kapelláns hjá séra Þorvarði. Séra Þorvarður var sagður ljúfmenni og góður búmaður; kennimaður lítill, en fræðimaður enginn. Kom frá honum margt manna í sókninni. (Rósinkrans Ívarsson; prestatal Sauðl.sóknar; Árbók Barð).
Staða menntunar: Ludvig Harboe hefur ritað skýrslu um uppfræðslu sóknarbarna. Um Sauðlauksdalssókn segir hann að „söfnuðurinn sé af langri forsómun mjög fáfróður“. Sóknarmenn eru þá 172 og af þeim eru aðeins 28 læsir.
Harboe fór um landið 1741, en var Hólabiskup 1741-1745 og Skálholtsbiskup 1744-1745.
Harður vetur: Veturinn framan af árinu var harður á Vestfjörðum. Á Rauðasandi dóu þrír frá sama bæ á einum og sama degi í dymbilvikunni og tveir aðrir urðu bráðkvaddir þar nálægt í sömu viku. Fleiri urðu þó bráðkvaddir í Önundarfirði, eða minnst 13. Við Djúp hefur þrengt svo að fólki að það étur skóbætur og þang; og leggja sér jafnvel hrossaket til munns.
1706
Landburður af fiski: Þetta ár hefur orðið fádæma fiskisælt sunnan lands og vestan og hefur jafn góð vetrarvertíð ekki komið í tuttugu ár. Sumsstaðar komst fiskur ekki í hjalla og skilja þurfti fisk eftir í veri.
Andrés Bech tekur við Vatneyrarverslun: Ekkja Jóhannesar Klein (sjá 1684), sem tók við Vatneyrarverslun við andlát manns síns árið 1689, hefur nú látið hana í hendur Andrésar Bech. (Breytingar urðu næst á versluninni árið 1733, sjá þar). (ÁHS Rauðsenda).
1707
Mannskæð bólusótt; stóra bóla: Bólusótt kom með Bakkaskipi (á Eyrarbakka) þetta sumar og hefur breiðst hratt út um landið. Hefur jafn mannskæð sótt líklega ekki herjað á landsmenn síðan í Svartadauða á 14.öld. Íslendingur dó í skipinu á leið til landsins en pestin barst með fatnaði hans í Rangárvallasýslu, síðan vestur um á Öxarárþing. Þaðan með þingmönnum víða um land og urðu Norðlendingar hart úti. Bólusóttin, sem einnig er nefnd „stóra bóla“, kom í Barðastrandasýslur, m.a. í Kollsvík. Varð hún (líklega) til þess að hjáleigan Hólar í Láganúpslandi lagðist í eyði. (Öldin átjánda; Ólafur Lárusson).
Áður en yfir lauk hafði bólan lagt milli 16 og 18 þúsund Íslendinga að velli, eða nær þriðjung þjóðarinnar. Það var ekki fyrr en 1798 að Edward Jenner fann aðferð til bólusetningar gegn bólusótt með því að nota smitefni kúabólu, sem er vægari sjúkdómur.
Hólar úr byggð: Hjáleigan Hólar hefur (líklega) lagst af vegna mannfalls í stórubólu, en byggð hefur verið þar frá um 1650.
Byggð leggst af í Hlíðarhvammshólum: Um all langan tíma hefur byggð verið í hjáleigunum Hlíðarhvammi og Hlíðarhvammshólum utan við Saurbæ. Hafa þessi kot verið í byggð til skiptis, en Hlíðarhvammur var meðal eigna Guðmundar ríka Arasonar 1446. Byggð tekur nú af í stórubólu.
1710
Bjarni í Kollsvík fer byrðingsferðir á Strandir: Bjarni Jónsson, bóndi í Kollsvík, hefur (á þessum árum) farið byrðingsferðir á Strandir á skipi því sem hann smíðaði sér er hann var 19 ára á Sellátrum. Þykir hvorttveggja með eindæmum, en slíkar byrðingsferðir eru fátíðar. Segir svo af ferðum þessum: (Gísli Konráðsson, löngu síðar): „Það er sagt frá Bjarna, að níu færi hann byrðingferðir á Strandir til viðarkaupa á teinæringi, er hann smíðaði sjálfur 19 vetra. Fór hann oft á Strandaferðum sínum norður fyrir Horn, allt að Skjaldabjarnarvík. Var það þá eitt sinn um messudaga, sumar eitt, að hann keypti þar málsmjólk undan 10 ám. Er frá því sagt, að það væru 50 merkur. Svo vel nægði honum það og öllum hásetum hans, en hey var þá fje með gefið, því ekki var næg jörð upp komin. Öðru sinni var það að hann fór norður í Skjaldabjarnarvík og gisti þar nokkrar nætur, því ekki gaf brátt aftur vestur fyrir Strandirnar, en er leiði kom bjóst Bjarni af stað í skyndingu á skip að ganga. Varð það, að hann fór í mislita sokka, sinn á hvorn fót. Var þar við mær ein, gjafvaxtra og hló að. Mælti Bjarni þá fram stöku þessa: „Alla vegu ofan á tær,/ auðgrund gái að sínu;/ áður en frúin fer og hlær/ að fótaburði mínum.“ Árið eftir kom Bjarni á Strandirnar og hafði mærin þá alið barn, og taldist svo til, að nýlega hefði hún þá tekið uppundir er Bjarni mælti fram stökuna og mundi hann hafa sjeð það á henni. Sögðu og margir að all nærfærinn væri hann um suma hluti. En sú er sögn sumra, að í hinni síðustu Strandaferð sinni, fengi hann veður afar hart, svo að fyrir Jökulfjörðum yrði hann að skera af sjer viðarflotann og síðan hleypt til skipsbrots undir Bjarnanúp. Brotnaði teinæringurinn í spón og sagði Bjarni síðan, að sú ein væri lífsvon, sjer og mönnum sínum að hleypa þar upp, og kostur væri einn að smíða sjer skip þó þetta færist, væri og allt fengið er mennirnir hjeldust allir. (GK; Barðstrendingaþáttur).
Bróðir Bjarna var Halldór Jónsson sem bjó á Láganúpi um 1703, og Jón sem bjó í Hænuvík nokkru síðar. Byrðingur er skip sem sérstaklega var útbúið til flutninga á rekaviði. Oftast stór skip, t.d. áttæringar eða teinæringar, sem borðhækkuð voru verulega með öflugum fjölum og þétt á milli. Farið var á almenninga á Ströndum og skipið hlaðið svo að sjó tók á hástokka. Oft var einnig viðarfloti í eftirdragi. Síðan var siglt og róið fyrir firði.
1714
Svanurinn strandar undir Lambahlíð: Oddur lögmaður Sigurðsson lenti í hrakningum á skipi sínu, Svani, er hann sigldi frá Rifi áleiðis að Narfeyri. Hleypti hann undan veðri og allt til strands undir Lambahlíð innan Látrabjargs. Illfærir klettar voru þar yfir, en Jóni úr Brandsbúð tókst að klífa upp og sækja hjálp til Keflavíkur. Skipbrotsmönnum var komið til bæja og hresstust, en Svanurinn brotnaði í spón. Sagt er að galdramaður muni hafa magnað þetta veður á Odd, en hann á marga óvildarmenn. (MG: Látrabjarg o.fl).
Um 1720
Einar bráðkvaddur í Brúðgumaskarði: Sá hörmulegi atburður varð að efnilegur bóndasonur, Einar Bjarnason í Kollsvík, varð bráðkvaddur á leið í brúðkaup sitt í Saurbæjarkirkju. Einar og Guðrún Jónsdóttir í Breiðuvík höfðu um tíma fellt hugi saman. Var svo komið að ákveðið var brúðkaup þeirra í Saurbæjarkirkju. Bundust þau fastmælum um það að hittast í skarðinu milli Breiðuvíkur og Keflavíkur, þar sem vegamót Stæðavegar eru við Víknafjallsveg. Einar kann að hafa orðið seinn af stað og því farið geist til að láta heitmey sína ekki þurfa að bíða. Verður hann því fyrri á staðinn. En þegar bóndadóttirin kemur neðan Stæðaveginn úr Breiðuvík finnur hún unnusta sinn látinn í skarðinu. Var álitið að þar hefði hann orðið bráðkvaddur. Einar var sonur hins mikilhæfa bátasmiðs og útvegsbónda Bjarna Jónssonar í Kollsvík.
Skarðið var eftir þetta nefnt Brúðgumaskarð, en ekki er vitað um fyrra heiti. Guðrún giftist síðar Jóni Einarssyni frá Hreggstöðum, sem kallaður var hrekkur, og settust þau að í Æðey. Einhver hjartaveila kann að hafa hrjáð þessa fjölskyldu, en Ólafur Bjarnason, bróðir Einars, varð bráðkvaddur á Hænuvíkurfjalli um tvítugt um 1723; ógiftur og barnlaus. Hann var sagður „viðbrigðamaður um vöxt og annað atgerfi og vel þokkaður“. (GK og TÓ).
1722
Hollendingar sækja mjög á Íslandsmið: Samkvæmt skýrslum sem stiftamtmaður hefur safnað saman eru veiðar Hollendinga hér við land mjög umfangsmiklar, en hingað sækja einnig aðrar þjóðir. Hafa duggurnar bækistöðvar víða inni á fjörðum við Austfirði, Norðurland og Vestfirði. T.d. á Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Þeir eiga gjarnan viðskipti við Íslendinga; koma með ýmsan varning á skipum sínum s.s. tóbak, brennivín, járn, potta, síróp, klæði og léreft. Þetta selja þeir í staðinn fyrir innlenda vöru; matvöru; vaðmál; prjónles o.fl. og greiða oft mun betra verð en danskir kaupmenn. Launverslun Hollendinga fer helst fram þar sem kaupmenn og kóngsins agentar sjá ekki til. Því má ætla að iðulega leggist hollenskar duggur upp á Útvíkur og þar blómstri þessi viðskipti.
1724
Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ önduð: Sáluð er húsfrú Guðrún Eggertsdóttir í Saurbæ; 87 ára að aldri. Guðrún er ríkasta kona sinnar samtíðar, en hefur ekki búið við auðnu að öllu leyti. Hún var dóttir Eggerts Björnssonar ríka á Skarði, fyrri eiganda Saurbæjar, og Valgerðar Gísladóttur konu hans. Mikinn auð fékk hún einnig með Birni Gíslasyni, manni sínum sem varð sýslumaður og bóndi í Bæ. Hann var nokkru yngri en hún; sýktist af sárasótt og dó úr henni 1679 þrítugur að aldri. Sjálf smitaðist hún af sóttinni og var blind síðari hluta ævi sinnar. Tvö börn áttu þau, sem dóu ung. Segja má að Guðrún hafi ekki einungis átt nær allar jarðeignir í Rauðasandshreppi, heldur nánast haft lífsviðurværi hreppsbúa í sínum höndum. Hún átti allar nítján jarðir sem í ábúð voru á Rauðsandi, að frátöldum jarðarparti á Lambavatni; og 9 af öðrum þeim 24 jörðum og hjáleigum sem í byggð voru í hreppnum. Af hinum voru nokkrar í eigu frændfólks hennar. Auk þess átti hún víða kúgildi á sínum hjáleigum; 25 báta flota sem hún gerði út og jafnvel áhöld sem leigjendur brúkuðu. Hafa landsetar ekki mátt brúka aðra hesta en þá sem þeir leigja af Guðrúnu dýrum dómum. Hefur hún þótt all harðdræg við leiguliða sína, eins og sjá má í jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þau hjón hafa gert vel við Saurbæjarkirkju á ýmsan hátt og gefið henni gjafir fyrir sálu sinni. M.a. fékk Guðrún Hjalta Þorsteinsson í Vatnsfirði, liprasta málara sinnar samtíðar, til að mála minningartöflu um sína fjölskyldu. Má ætla að Guðrún sé ekki öllum landsetum harmdauði.
1728
Hafís við landið: Hafþök af hafís hafa verið fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum frá útmánuðum og fram til þings, ásamt grasbresti og harðindum. Vestanlands sást ekki grænt strá í hólbrekkum fram að messudögum; fellir varð afskaplegur og fiskileysi í verstöðvum á Vesturlandi. Sumsstaðar hafa þó fengist hvalir og hnýðingar.
Vatneyrarskip ferst: Hinn „20. octobris fórst Vatneyrarskip“. (Sauðlauksdalsannáll).
1733
Félag lausakaupmanna rekur Vatneyrarverslun: Nýtt félag hefur verið stofnað til verslunarreksturs; félag lausakaupmanna. Meðal aðila að því er Andrés Bech sem rekið hefur Vatneyrarverslun frá 1706 (sjá þar). Sonur hans; Henrik Bech á sæti í stjórn félagsins.
Sá tími sem nú fór í hönd þótti þolanlegri en sú verslun sem áður hafði verið rekin. Að því kom þó að hið alræmda Hörmangarafélag yfirtók rekstur verslananna árið 1742 (sjá þar), en sá tími hefur allajafna þótt verstur í verslunarsögu landsins. (ÁHS Rauðsenda o.fl.).
1742
Hörmangarar taka Íslandsverslunina á leigu: Konungur hefur nú boðið Íslandsverslunina upp á ný og hefur Hörmangarafélagið í Kaupmannahöfn tekið við henni af Félagi lausakaupmanna (sjá 1733). Lausakaupmenn hafa rekið verslunina vel; verið þokkalega liðnir og hafa haft í ágóða fjórar tunnur gulls á einum áratug. Hörmöngurum eru sett ströng skilyrði um að uppfylla þarfir Íslendinga og bjóða sæmilega vöru.
Á þessu vildi verða misbrestur og hefur félagið hlotið slæm eftirmæli. Þeir neyddust til að láta verslunina af hendi 1759, sjá þar. (Ýmsar heim).
1746
Útræði í Skor: Útræði er í Skor á þessum árum og ganga þaðan 3-4 bátar á vorin. Svipaður er fjöldi verbúða (ÓÁ;Sýslulýsingar). Verður enda vart róið þaðan fleiri bátum vegna þrengsla.
Skor er oft kærkominn áfanga- og hvíldarstaður sjóróðramönnum úr Breiðafjarðareyjum og austursveitum Barðastrandasýslu er þeir flytja sig í ver í Útvíkum á vorum og þaðan aftur með sjóföng sín að liðinni vertíð í elleftu eða tólftu viku sumars. Eru taldar fjórar vikur sjávar frá Bjargtöngum að Skor. Skor er líka eina þrautalendingin er Barðstrendingar sækja á djúpmið á haustum og hreppa storma á opnum árabátum (PJ; Barðstr.bók).
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær útræði lagðist af í Skor, en líklega var það all löngu fyrir 1900.
Húsagatilskipunin; kóngsins boð og bönn: Vor allranáðugasti herra, Kristján VI. hefur nú af sinni föðurlegu umhyggju sett íslenskri þjóð forordningu um skikk og aga í daglegu líferni. Tilskipuninni er ekki síst beint að verbúðum og því guð- og agaleysi sem af búðsetum leiðir. Þessar eru nokkrar af tilskipunum kóngsins:
Til að koma í veg fyrir ýmiss konar óreglu; rifrildi, bölv og aðra ósiðsemi sem tíðkast hjá sjómönnum, er formönnum skipað að hafa eftirlit með þeim og vara þá við að stunda syndsamlegt og illskufullt líferni. Hlýði þeir því ekki kæri formenn þá fyrir prestinum, en gagni það ekki ber að kæra þá fyrir sýslumanni, sem dæmir hina seku í sektir og lætur þá þar standa opinberar skriftir. Brjóti formenn af sér, ber tveimur trúverðugustu mönnum á hverjum báti að kæra þá. Formenn skulu sjá svo um að bátar lendi svo snemma kvöldið fyrir helga daga að gert sé að aflanum áður en helgi hefst. Einnig skulu formenn sjá um að þeir iðki bænahald og hlýði á guðsorð í verbúðum og á heimilum. En geri þeir það ekki skulu þeir sektaðir fyrir ónytjungshátt og ótryggð. Fari einhver bátsverji með rúnir eða ristingar setji prestur ofaní við hann og sýni honum með tilstyrk guðs orðs fram á andstyggð þessarar syndar. Láti hann sér ekki segjast skal aga kirkjunnar beitt við hann fyrir þetta og önnur dæmi þvílík.
Allir formenn og hásetar sem ráðnir eru í skipsrúm eiga að vera komnir í verstöðina daginn eftir kyndilmessu. Eftir að vertíð er byrjuð mega hásetar ekki koma í veg fyrir að formaður geti stundað róðra. Þegar formaður hefur kallað, eiga hásetar tafarlaust að mæta við setningu og fara möglunarlaust í róðurinn. Hegning liggur við ef háseti neyðir formann til að leita til lands áður en hann æskir. Og í hvert sinn sem háseti nöldrar yfir löngum sjávarsetum og reynir að hafa áhrif á aðra í þeim efnum, geldur hann tveggja fiska sekt. Landlegudaga eiga hásetar að nota til að hressa við gamla fiskigarða eða hlaða nýja og einnig dytta að sjóklæðum sínum ef þörf er á. Hásetar mega ekki ganga úr skiprúmi fyrr en vertíð lýkur, nema mjög mikilvægar ástæður séu fyrir hendi. Hlaupi einhver úr skiprúmi án vitundar eða samþykkis formanns á sýslumaður að handsama þann seka og húðstrýkja eða sekta, eftir því sem málavextir eru. Ef vermaður deyr á leið í ver eiga samfylgdarmennirnir að flytja líkið til sóknarkirkju hins látna. Sama gildir ef vermaður andast í verskála. Ef skipverji veiktist í útveri á formaður að sjá um að koma honum til bæjar þar sem honum verður veitt hjúkrun. Hann á einnig að koma í veg fyrir að háseti verði svo mötustuttur að hann liði hungur. Honum ber að fylgjast með hvort menn fari verjulausir á sjóinn og taka hart á ef það gerist. Ef kona er meðal áhafnar; annaðhvort háseti eða fanggæsla, og ekki var til sérstakt rúm, ber formanni að láta hana sofa til fóta hjá sér. (LK; Ísl. sjávarhættir III). Í húsagatilskipuninni er prestum uppálagt að áminna húsráðendur ef þeir verði varir við lestur skemmtisagna, leiki og annað óþarfa glens. Bannað er að hræða börn með óvættum á borð við jólasveina. Hinsvegar skal refsa börnum fyrir agaleysi og ósiðsemi með orðum, þó ekki blótsyrðum. Dugi það ekki skal beita hendi eða vendi; þó ekki á höfuð eða í reiði. Bregðist foreldrar í uppeldi barna sinna skulu börnin frá þeim tekin en foreldrar settir í gapastokk. Engir mega flakka án leyfis yfirvalds. Brot á húsagatilskipuninni eru refsiverð, og skulu hrepppstjórar, sýslumenn og prestar sekta þá og setja í gapastokk er brjóta.
Tilskipunin var í raun fyrsta námskrá á Íslandi, því í fyrsta sinn var kveðið á um skyldu foreldra til að kenna börnum að lesa, væru þeir læsir sjálfir, en annars einhverjir á heimilinu sem voru það: „eiga þeir foreldrar sem eru læsir eður eitthvört þeirra hjúa er læst, so fljótt börnin eru fimm til sex ára gömul, að láta þau taka til að læra að lesa á bók“.
Sjá nánar um gapastokk séra Björns í Sauðlauksdal 1760.
1749
Sýslulýsingar Ólafs Árnasonar: Ólafur Árnason, sýslumaður Barðastrandasýslu, hefur ritað lýsingar á sýslu sinni. Í henni er fjallað um staðhætti, jarðargæði, fólks hagi, náttúru og fleira. Þessa ritgerð gerir hann að beiðni Jóakims Lafrans amtmanns, sem safnar þvílíkum greinargerðum úr öllum landshlutum. Tildrög þessa fyrirtækis má rekja til hinnar miklu vakningar sem hefur orðið í Evrópu á hverskonar fræðimennsku og fróðleikssöfnun. Í Danmörku var stofnað konunglegt vísindafélag haustið 1742. Einn forsvarsmanna þess var Johan Ludvig Holstein greifi og forsætisráðherra, en annar áhugamaður var Kristján kóngur VI. Holstein sendi erindi 1743 til Jóakims Lafrans amtmanns á Íslandi og fór fram á þessa söfnun landsupplýsinga. Það kom þó í hlut eftirmannsins Pingel amtmanns að fylgja erindinu eftir. Lýsingar Ólafs eru meðal hinna ítalegustu sem amtmanni bárust, og um margt merk heimild.
Saltsöfnun af sjávarklöppum: „Salt er ekki gert hér, að því frátöldu að stundum veldur sólarljósið saltsöfnun á klöppum við sjóinn; þó aðeins í skeiðatali eða e.t.v. hnefa yfir daginn þegar heitast er. Slíkt finnst við Kópanes, Látrabjarg, Skor og í Oddbjarnarskeri. Það er eins gott og bragðast svipað og hið danska salt sem hingað flyst“ (Ólafur Árnason; Sýslulýsingar 1744-1749).
„Ekki eru varðveittar skilmerkar né afdráttarlausar heimildir um saltgerð hér á landi á miðöldum, en ríkar líkur eru til þess að þangaska hafi verið það salt sem mest var notast við“ (LK; Ísl.sjávarhættir I). Má ætla að þannig framleiðsla hafi verið í Útvíkum í nokkrum mæli, þar sem gnægð er af þara í fjöru, en ekki hverahiti til saltsuðu. Saltnotkun hefur þó líklega verið í lágmarki, og e.t.v. fremur til bragðbætis en sem geymsluaðferð; þar sem þurrkun, reyking og súrsun var allsráðandi.
Fjallagrös, fjörugróður og önnur fæða: "Engin kornlönd eru í sýslunni og enginn fæst við kornrækt, enda tæpast aðstæður til þess. Þess í stað kaupa íbúarnir mjöl og brauð hjá dönsku kaupmönnunum. Þeir sem það ekki geta sökum fátæktar leggja á sig mikið erfiði við söfnun fjallagrasa hátt í fjöllum, auk þess sem safnað er hinu salta þangi sem víða fæst við sjóinn og nefnist söl. Fæða fólks kemur annars mikils til frá fiskveiðum; af þeim fiskum sem kaupmenn ekki mótttaka, svo sem steinbítur, heilagfiski, hákarl, þorskhausar og skelfiskur. Sömuleiðis sauðfjár- og mjólkurafurðir, s.s. smjör; skyr eða súr mjólk, flautir, grautur o.fl. Einnig ferskt og reykt ket af því sauðfé og þeim nautgripum sem slátrað er á haustin. Hinir fátækustu lifa af ölmusum þeirra sem betur mega sín". (ÓÁ; sýslulýsingar 1744-1749).
Mörg eru mannanna mein: "Sjúkdómar eru landlægir hér í sýslunni; þó ekki aðrir smitsjúkdómar en holdsveiki hjá fáeinum manneskjum. Hér grasserar höfuðverkur, beinverkur, takverkur, bakverkur, brjóstsýki með hósta og kvefi, heimakoma, skyrbjúgur og fleira sem helst tengist veðrabrigðum um vor- og hausttíma. Deyr úr þessu bæði ungt fólk og gamalt. Hér vaxa ýmis lækningagrös... en þar sem hér er enginn læknisfróður sem með þau kann að fara vita menn ekki hvað þénar gegn hverjum sjúkdómi". (ÓÁ; sýslulýsingar 1744-1749).
Mannlífið almennt: "Íbúarnir eru með ýmsum sérkennum, eins og gerist og gengur. Eins eru mannanna veikleikar; fólk er að jafnaði undirgefið, ærlegt og skikkanlegt; stundar kristilegt líferni og er hlýðið sínum yfirboðurum. Þó finnast þeir sem eru af öðru sauðahúsi, því svo er margt sinnið sem skinnið. Mikill hluti íbúa er fátækt fólk sem stritar við að hafa í sig og á; rær til fiskjar; aflar heyja að sumrinu; gerir til kola í skógunum; vinnur úr ull og býr með kýr og sauðfé um veturinn, en af þessu hefur það sitt lifibrauð. Nokkrir eru þeim kostum búnir að vera hagir á tré og járn; geta byggt hús og báta, sem hinir njóta sem síður kunna. Neyðin kennir mönnum að lifa af því sem fyrir hendi er, en ekki bóklegur lærdómur. Höfðingjar eru hér engir, en hærri sem lægri geta rakið ættir sínar til stórmenna, svo sem Hannesar Eggertssonar riddara, Torfa Andréssonar riddara og Guðbrands biskups á Hólum. Þó veit maður ekki hvað er að marka slíka ættfræði, þar sem mikið af handritum og þjóðlegum gersemum hefur flust af landinu með mönnum eins og Þormóði Torfasyni og Árna Magnússyni. Þó kynnu hér enn að vera ýmsar landsins historíur, svo sem Njála, Grettis saga og ýmsir kaupgerningar sem þó kunna að vera úreltir. Aðrar gersemar og fornir munir eru mér ókunnir hér í Barðastrandasýslu". (ÓÁ; sýslulýsingar 1744-1749).
Kollsvík í sýslulýsingum: "Í Kollsvík eru bæirnir Kirkjuból og Láganúpur og við sjóinn hjá hvorum standa verbúðir þar sem róið er um vorið frá ýmsum hreppum í sýslunni". (ÓÁ; sýslulýsingar 1744-1749).
1752
Dugguútgerð og athafnasemi Skúla Magnússonar: Skúli Magnússon fógeti hefur verið athafnasamur í Reykjavík. Nú hefur hann siglt hingað til lands tveimur fiskiduggum; sextíu og sjötíu rúmlestir að stærð. Hann hefur einnig hafið uppbyggingu verksmiðju sem vinna skal úr ullarafurðum landsmanna og flutt inn danska iðnaðarmenn; beykja, húsasmið og sútara. Einnig danska bændur sem eiga að kenna Íslendingum jarðvinnslu, kornyrkju og garðrækt.
Árið 1755 lét Skúli Krák Eyjólfsson smíða skútu fyrir sig í Örfirisey sem nefnd var „Haffrúin“.
1753
Séra Björn Halldórsson vígður prestur í Sauðlauksdal: Séra Björn er fæddur á Vogsósum en ólst upp á Stað í Steingrímsfirði. Fjórtán ára missti hann föður sinn og fékk þá vist í Skálholtsskóla hjá Jóni biskupi Árnasyni. Hann hefur í nokkur ár verið aðstoðarprestur í Sauðlauksdal en hreppir nú brauðið.
1756 varð hann prófastur. Það ár giftist hann Rannveigu Ólafsdóttur, systur Eggerts skálds og vísilögmanns.
Net til fiskveiða kynnt hérlendis: Skúli Magnússon landfógeti kom til landsins með nýja tegund veiðarfæra sem hann sá á Sunnmæri í síðustu utanför sinni. Það eru net sem leggja má í sjó til fiskveiða. Þorskanet þetta, sem er úr seglgarni, er nálega þrjátíu faðma langt og fimmtán möskvar á dýpt, en hver möskvi er nær fimm þumlungar að stærð. Teinn úr lóðlínu er á netinu, bæði ofan og neðan. Á efri teininn eru sett flotholt með álnar millibili, en á neðri teininn eru festir litlir steinar er eiga að halda netinu að botni. (Öldin átjánda).
Net voru vafalaust þekkt og notuð á landnámstíð, enda eru ákvæði um netlög jarða í hinni fornu lögbók Grágás. Svo virðist sem netanotkun hafi lagst niður um tíma, án þess að orsakir þess séu augljósar. Sennilega hefur það gerst í langvarandi fiskleysisárum. Net komu svo aftur sem nýjung á 18. öld og munu í fyrsta sinn hafa verið notuð hérlendis árið 1730, er kaupmennirnir á Hofsósi; Englebreth, Platford og Triers, veiddu fisk í þorskanet í Skagafirði með góðum árangri. Ekki varð þá framhald á. (JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang). Þorskanet hafa ekki verið mikið notuð á Vestfjörðum á síðari öldum.
1754
Eggert og Bjarni í vísindaleiðangri um Ísland: Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson hafa undanfarin ár ferðast um Ísland og rannsakað landið og þjóðina á vísindalegri hátt en áður hefur verið gert. Ólíkt fyrri rannsakendum eru þeir ekki haldnir af kreddum og hjátrú heldur starfa í anda þess raunsæis sem nú hefur rutt sér til rúms á Vesturlöndum. Þeir hafa t.d. ekki látið djöfla og helvítistrú aftra sér frá því að ganga á Heklu; kanna Surtshelli og ganga á Snæfellsjökul. Á Barðaströnd hafa þeir kannað surtarbrandslög.
Síðasta aftakan í Rauðasandshreppi; drekking Guðrúnar Valdadóttur: Hinn 17.03.1755 var drekkt í Mikladalsá innan Geirseyrar Guðrúnu Valdadóttur, sem dæmd hafði verið fyrir barneign með feðgum. Þykir þó flestum sem hér hafi nokkuð dómsmorð hafa verið framið. Guðrún taldist hafa unnið sér það til saka að eignast börn með feðgum, en það varðar við Stóradóm. Vita það þó allir kunnugir að í raun eru þeir ekki feðgar, heldur hafði faðirinn; Sigurður elli, játað á sig faðerni sonarins, Einars, er hann giftist Helgu móður hans (dóttur Jóns í Hænuvík; eins hinna kunnu Sellátrabræðra). Er Einar óx úr grasi eignaðist hann barn með Guðrúnu Valdadóttur. Síðar gerðist hún vinnukona hjá Sigurði ella, sem þá hafði misst Helgu konu sína, og eignaðist með honum annað barn. Málið kom til kasta Ólafs Arnasonar sýslumanns í Haga, og síðar Davíðs Scheving, sem reyndi að eyða því er honum varð ljóst hvernig í málum lá. Leikur grunur á að Björn Halldórsson, sem þá var ritari sýslumanns en síðar prestur í Sauðlauksdal, hafi haldið málinu til streitu. Eftir að kóngur hafði synjað um náðun varð ekki umflúið að framfylgja lögum Stóradóms. Guðrúnu var drekkt í Mikladalsá, í poka sem hún hafði sjálf saumað, en Sigurður elli var hálshöggvinn sama ár á Hólavelli á Barðaströnd. (Samkvæmt frásögnum GK og Ingivaldar Nikulássonar).
1757
Harðindi og hallæri á landinu: Einn lengsti og grimmasti harðindakafli sem yfir landið hefur gengið hefur nú varað undangengin sjö ár. Líklegt er talið að hartnær sex þúsundir manns hafi dáið úr hor, hungri og hungursóttum á þessum árum, en þjóðin hafði áður nokkuð rétt út kútnum eftir Stórubólu þrátt fyrir mörg harðindaár. Hafís var við landið 1954 og 1956 og hið fyrra árið hófst einnig Kötlugos syðra og jarðskjálftar nyrðra. Hafa menn nefnt veturinn 1754 „Hreggvið“. Fiskileysi mikið hefur fylgt þessari ótíð, auk þess sem ekki varð víða róið vegna ísa. Norðanlands var sumsstaðar álnardjúpur jafnfallinn snjór í júlí. Fólk hefur étið allt sem tönn á festir í harðindunum; jafnvel hross og hrátt tófuket. Stuldir og þjófnaðir hafa mjög ágerst. (Öldin átjánda).
Áður en yfir lauk er ætlað að 9.700 Íslendingar hafi fallið á 8 árum, og þjóðinni hafi fækkað úr nær 51.000 í um 41.300. Líkt og í öðrum hallærum hefur líklega fjöldi þurfandi fólks leitað í verstöðvarnar í Útvíkum og sunnan Bjargs. Bæði í von um æti í fjöru og fuglabjörgum, en einnig vegna þess að sunnan Bjargs var allajafna ekki hafís og því von um að bátar kæmust til fiskjar.
Ásbjörn í Raknadal myrtur: Bóndinn í Raknadal, Ásbjörn Þórðarson, fannst myrtur á Raknadalshlíð nú rétt fyrir jólin. Hafði hann farið út á Vatneyri til Einars Bjarnasonar frænda síns og þegið hjá honum matföng, en Ásbjörn var fátækur maður. Grunaði menn fljótt að Þorgeir gamli Helgason á Geirseyri (1728-1777) væri valdur að dauða Ásbjarnar, en hann hafði þá um haustið sakað Ásbjörn um að hafa stolið kind frá sér. Þóttust griðkonur hafa heyrt, þegar Ásbjörn gekk hjá bæjum á Geirseyri með byrði sína, að Þorgeir skipaði Önundi vinnumanni sínum að veita honum eftirför, en sá hafði gildan staf í hendi. Önundur þessi hafði komið að Geirseyri frá Ströndum og fylgdi honum slæmt orð.
Davíð Scheving, sýslumaður í Haga, rannsakaði málið. Beitti hann við það gamalreyndu ráði er hann hengdi líkið yfir kirkjudyrum í Sauðlauksdal og lét alla ganga undir það, en alkunna var að lík tók að blæða er morðingi kom að því. Ekki fannst morðinginn þrátt fyrir þetta, en Önundur lét sig hverfa aftur norður á Strandir áður en rannsóknin fór fram. Sagt er að ær sú sem Þorgeiri hvarf hafi síðar fundist á Skápadalsfjalli, en í Skápadal hafði Þorgeir áður búið. (Eftir handritum GK).
1759
Konungsverslunin fyrri: Kóngur hefur nú gefist upp á því að bjóða Íslandsverslunina út og mun hér eftir reka hana fyrir eigin reikning. Skulu umboðsmenn konungs hafa sína umboðsmenn á fiskihöfnum til að sjá um vörusölu og afurðakaup. Þannig er aðeins einn kaupmaður fyrir Vestfirði.
Kaupmönnum var þó fjölgað árið eftir. Kóngur stórtapaði á þessari verslun og árið 1763 tók almenna verslunarfélagið við, sjá þar.
1760
Séra Björn í Sauðlauksdal ræktar kartöflur: Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal er líklega fremsti fræðimaður þjóðarinnar á sviði jurta og ræktunar. Nú hefur hann orðið fyrstur manna hérlendis til að rækta kartöflur, svo nokkru nemi. Hann fékk uppskeru í smáum stíl á síðasta ári, en meiri núna.
Kartaflan, Solanum tuberosum, er fjölærær jurt sem upprunnin er í suðurhluta Perú í Andesfjöllum, en hefur um nokkrar aldir verið ein mest ræktaða matjurt heims. Hröðust varð útbreiðsla kartöfluræktunar þegar harðindi gengu yfir Evrópu. Fyrstur hérlendis til að sýna kartöflum áhuga var Vísi-Gísli, sem bað son sinn að senda sér kartöflur frá Danmörku 1670, en ekki er vitað hvort þær komu til landsins. Hastfer barón á Bessastöðum setti kartöflur í jörð 1758, en ekki varð framhald á því. Upp frá ræktunartilraunum Björns í Sauðlauksdal breiddist kartöflurækt fljótt út um landið. Í Sauðlauksdal sér enn móta fyrir jurtagarði séra Björns, svonefndu Akurgerði. Í Kollsvík var kartöflurækt umfangsmikil þegar leið að aldamótunum 1900, ásamt annarri matjurtarækt. Voru jafnvel margir garðar við hvern bæ. Þar varðveittist m.a. upphafleg kartöflutegund séra Björns, sjá 1972.
Ekki er kálið sopið… : Séra Björn í Sauðlauksdal ræktar margt matjurta annað en kartöflur. Þar á meðal eru ýmsar káltegundir; grænkál, hvítkál, sniðkál, hnúðkál og blómkál; auk þess maírófur, botfelskar rófur, mustarður, piparrót, laukur, kerfill, steinselja, hreðkur, salat, spínat (bæði hið tigna og ótigna) og ýmsar kryddjurtir.
Björn reynir jafnframt að kenna hjúum sínum og sóknarbörnum að neyta þessara matjurta. Lýsir hann því sjálfur þannig: „Grannar mínir hlógu að mér í upphafi, en þegar ég lét sem ég vissi það ekki þögnuðu þeir… . Þegar hjú mín urðu þess áskynja að ég ætlaði að gefa þeim kál til matar risu þau öndverð gegn því og sögðu að það væri ekki sómasamlegur matur. Ég var að slá undan í það skipti… Um það leyti sem frost ganga í garð vilja hjúin fara að fá heitan mat.. Ég sagði að það væri betra að eta eitthvað heitt í þessum kulda og bauð þeim að reyna til gamans hvernig þeim félli þessi matur… Hjúin reyndu nú kálið og þótti það gott. Nokkrum dögum síðar var kál matreitt á ný og þá þótti það enn lystugra og loks spurði fólkið hvort það gæti ekki fengið þennan mat oftar. Eftir það ást kálið svo vel að ég hafði varla nóg handa sjálfum mér til vetrarins“. (BH; Öldin átjánda).
Þarna á vel við máltækið „ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið“, en það er reyndar eldra; kemur fyrir í Þórðar sögu hreðu.
Gapastokkur Björns í Sauðlauksdal: Séra Björn í Sauðlauksdal þykir nokkuð strangur í sínum siðaboðskap og lætur sóknarbörnin ekki komast upp með múður í þeim efnum. Hann er einnig maður nýjunga; jafnt á þessu sviði sem í öðru. Nú hefur hann tekið í notkun nýjustu tækni í þessum efnum, og látið setja upp gapastokk við Sauðlauksdalskirkju. Þetta vildisverkfæri kirkjunnar og réttlætisins er ekki nýtt á nálinni, en komst fyrst í brúk hérlendis eftir setningu laga um flakk og lausamennsku 1685. Með nýju húsagatilskipuninni frá 1746 er þetta nánast ómissandi verkfæri til að halda uppi skikk í samfélaginu.
Gapastokkurinn í Sauðlauksdal er hið þarfasta þing, ekki síður en garðáhöld prófastsins. Vinnumaður er í hans sókn er Guðbrandur heitir, og talinn fremur fávís. Það bar til eitt sinn, fyrir ekki löngu, að hann kom úr róðri með húsbónda sínum og fleirum. Ekki mátti húsbóndinn bleyta fætur í lendingu og lenti það á Guðbrandi að bisa honum á þurrt. Húsbóndinn var í góðum holdum og varð Guðbrandi að orði er hann lagði frá sér byrðina: „Mikil bölvuð þyngsli eru á líkamanum á þér, Jón“! Þetta mislíkaði Jóni bónda, og er hann kom til Sauðlauksdalskirkju næsta sunnudag á eftir, sagði hann prófasti frá þessu. Sem vonlegt var þótti hinum siðavanda presti ummælin svo óhæfileg, að hann lét setja Guðbrand í gapastokkinn góða, þar sem hann mátti dúsa yfir messuna og sæta glósum og aðhlátri sveitunga er þeir höfðu þegið þjónustu. Má ætla að sóknarbörn séra Björns hugsi sig um tvisvar hér eftir, áður en þau ganga gegn guðlegri siðsemi og kóngsins skikk; eða mótmæla skylduvinnu prófasts síns.
Fjárkláði berst til landsins: Kominn er upp bráðsmitandi fjárkláði sem rakinn er til kynbótabús Hastfers baróns á Elliðavatni og innflutningi þess á ensku merinófé til ullarframleiðslu. Sýktar kindur urðu undirlagðar hrúðrum og kaunum og voru viðþolslausar af kláða. Ket af sjúku fé er vart ætt og í því þykjast menn sjá urmul skorkvikinda sem menn nefna haflús (fjárkláðamítillinn Pseroptes ovis).
Veikin barst um landið og olli miklum skaða. Hún náði þó ekki til Vestur-Barðastrandasýslu. Þvert á móti flykktist fólk þangað af öðrum svæðum í leit að matföngum, líkt og oft endranær á hallæristímum. Vildi það til happs að á næstu vertíðum var uppgripaafli, bæði í þorski og steinbít. Hins vegar varð erfitt að fá skinn í sjóklæði vegna fjárkláðans. 1772 var fyrirskipaður niðurskurður og fjárskipti og var þeim lokið um 1779. Fjárkláði barst aftur til landsins 1855, sjá þar.
1762
Lofteldur yfir Látrabjargi: Eggert Ólafsson skáld og náttúrufræðingur segir í ferðabók sinni frá merkilegu fyrirbæri sem hann sá yfir Látrabjargi 25.01.1762 og nefnir „lofteld“: „Hann sést aðeins á vetrum þegar hálfskýjað er og hvassviðri og skafhríð en kollheiður himinn. Á nóttinni og í rökkrinu sýnist þá stundum allt loftið standa í björtu báli og getur sýn þessi staðið stundarkorn. Á jörðu verður albjart líkt og af eldingu en ljós þetta hreyfist ekki nálægt því eins hratt eins og eldingarleiftrin. Orsök þessa fyrirbrigðis er sú að í hvert sinn sem vindhviða kemur og þyrlar snærokinu upp í loftið verður allur þessi lausi snjór uppljómaðar af ljósi því sem í loftinu er. Fólkið á þessum slóðum skelfist mjög við þessa sýn því að það þekkir ekki hina réttu orsök og heldur að hér séu eldingar á ferðinni. Skepnur, og einkum þó hestar, hræðast einnig lofteldinn. Hestar verða trylltir af fælni og hlaupa í allar áttir og stökkva jafnvel fyrir björg þar sem þeir hálsbrotna eða limlestast á annan hátt. Þetta vill helst til þar sem klettótt er; einkum í sveitinni næst Látrabjargi“ (EÓ; Ferðabók).
Heimaræktað „kaffi“ vestra: „Prestar nokkrir í Barðastrandarsýslu hafa látið brenna einiber og gert af þeim drykk með líkum hætti og kaffi. … Þeim sem neytt hafa drykkjar þessa um hríð verður gott af honum, einkum ef þeir hafa þykkt blóð eða eru brjóstveikir“ (EÓ; Ferðabók).
Hnattlíkan í Sauðlauksdal: Margar eru þær nýjungar sem hinir lærðu mágar í Sauðlauksdal standa að; Björn Halldórsson og Eggert Ólafsson. Ekki eru nema röskar tvær aldir síðan Magellan sannaði það með hnattsiglingu sinni að jörðin væri hnöttótt en ekki flöt. Nú hafa Eggert og Björn látið hagleiksmann (líklega Ólaf Gunnlaugsson í Svefneyjum, föður Eggerts) smíða fyrir sig jarðlíkan, á stærð við ungbarnshöfuð, sem á eru máluð lönd, heimshöf, heimsálfur, baugakerfi jarðar, málbönd og töflur til skýringar. Líkanið er á ásum (völturum) sem það getur snúist á. Eggert nefnir líkanið "gammsegg" í kvæði sem hann hefur ort; "Hnattarkvæði". (Skírnir 01.01.1924).
1763
Uppgripaafli: Aflabrögð hafa verið afbragðsgóð um Suðurnes, og á Vestfjörðum var þorskafli í besta lagi og steinbítsafli góður. (Ald).
Almenna verslunarfélagið stendur fyrir Íslandsversluninni: Kóngur hefur ekki riðið feitum hesti frá Íslandsversluninni, frá því að hann yfirtók hana sjálfur 1759 (sjá þar). Við versluninni tekur hið svonefnda Almenna verslunarfélag, sem að auki hefur ýmiskonar útveg s.s. hvalveiðar. Hefur það ákveðið (1765) að hafa verslunarmenn búsetta á verslunarstöðunum, t.d. á Vatneyri. Yfirkaupmaðurinn fyrir Vatneyri og Bíldudal heitir Eiríkur Vestmann; fæddur í Vestmannaeyjum.
Eftir dauða Vestmanns 1768 tók Dines Jespersen við yfirstjórninni, en Pétur Kúld var undirkaupmaður. 1785 flutti Dines að Básendum á Suðurnesjum. Félagið fékk slæm eftirmæli og var talið komast næst sjálfu Hörmangarafélagnu að slæmum verslunarháttum. Endaði þetta verslunarskeið með því að kóngur keypti öll hlutabréf félagsins 1774, sjá þar. (Ýmsar heim).
Barátta Björns við sandinn: Séra Björn Halldórsson, sá mikli ræktunarmaður, hefur verulegar áhyggjur af ásókn sandsins á staðarins tún, og finnur til vanmáttar síns gegn þeim vágesti. Lýsir hann armæðu sinni í ljóði, en fyrsta erindi þess hljóðar svo: „Sandur mér hingað sendist;/ sandurinn á þann vanda;/ sandurinn sjónir blindar;/ sandurinn blindar landið;/ sandurinn sést hér undir;/ sandur til beggja handa;/ sandurinn sáðverk hindrar;/ sandur er óstillandi“. Og lokaniðurstaðan birtist svo í tveimur síðustu ljóðlínum bálksins: „Sandurinn sætir undrun;/ sandurinn er minn fjandi“. (MG; Látrabjarg; ÖS; Lesb.Mbl. 21.12.1994).
Nauðugir bændur byggja Ranglát: Þegar hvorki duga ljóð né bænir á fjanda þennan, hefur séra Björn gripið til veraldlegri úrræða. Ritaði hann amtmanni á þessu ári og sagði jörðina horfa til eyðingar. Hann segist verja 10 ríkisdölum, eða fjórðungi tekna sinna, til að berjast gegn eyðingunni og dugi þó hvergi til. Árið 1754 kom tilskipun kóngs, þar sem bændum sem eiga meira en 10 hundruð í jörð er gert skylt að gangast fyrir ræktun á jörð sinni og halda matjuratagarða; að viðlagðri refsingu. Björn túlkaði þessa tilskipun að sínum hætti; tók þingvitni um landeyðinguna í Sauðlauksdal árið 1757; boðaði síðan sóknarbörn sín til skylduvinnu við byggingu sandvarnargarðs og hótaði gapastokk Sauðlauksdalskirkju að öðrum kosti. Bændur mögla mjög, enda hafa þeir fullt í fangi með að bjarga fólki sínu og fénaði frá horfelli í þeim harðærum sem síðustu árin hafa gengið yfir landið. Garðurinn, sem hinir möglandi sveitungar nefna „Ranglát“ er í raun þrír garðar. Sá sem neðstur er í dalnum er 10-15 faðmar; miðgarðurinn um 30 faðmar en sá sem næstur er bænum er helmingi lengri. Allir eru garðarnir um 1,5 alin á hæð (95 cm).
(MG; Látrabjarg; ÖS; Lesb.Mbl. 21.12.1994. KÓ; Lýsing Búa Þorvaldssonar á Ranglát).
Séra Björn hlaut fyrstur Íslendinga sérstök verðlaun frá kóngi fyrir framtakssemi sína og umbótatilraunir árið 1765. Árið 1788 veitti konungur honum 60 rd árleg eftirlaun í viðurkenningarskyni fyrir ævistörf sín. Ranglátur hefur löngum verið talinn fyrsta mannvirkið sem beinlínis var gert hérlendis til að sporna við sandfoki. Kollsvíkingar hafa þó löngum haldið því á lofti að Björn kunni að hafa byggt á reynslu frá Láganúpi í þessum efnum, en þar eru fornar hleðslur sem gætu hafa þjónað þessum tilgangi. (Viðar Pálsson; tímaritið Sagnir 1.tbl 2000; VÖ).
1764
Rannveig í Sauðlauksdal saumar hökul: Rannveig Ólafsdóttir, kona séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, er snjöll hannyrðakona. Hún hefur nú gefið Sauðlauksdalskirkju forkunnar fallegan hökul af flaueli og silki; gullbaldýraðan. Hökullinn er brúnn að grunnlit en krossinn gulbrúnn og er ártalið 1764 ísaumað. Rannveigu kynntist séra Björn gegnum góðvin sinn og skólabróður; Eggert Ólafsson, sem er bróðir Rannveigar.
Sú þjóðsaga komst á kreik að þeir prestar kembdu ekki hærurnar sem skrýddust höklinum við embættisverk, og fékk hún byr undir báða vængi eftir fráfall séra Þorsteins Kristjánssonar 1943. Minntust menn þess þá að séra Þorvaldur Jakobsson skrýddist höklinum aldrei. Hökullinn er nú á Þjóðminjasafni Íslands. (MG; Úr vesturbyggðum Barð).
1765
Kaupmenn hafa vetursetu á Vatneyri: Almenna verslunarfélagið, sem nú hefur Íslandsverslunina á leigu, hefur ákveðið að framvegis verði vetursetumenn í verslunarhöfnum á Vestfjörðum. Fyrstur til að hafa vetursetu verður Dines Jespersen.
Næstur var Peter Havsteen og á eftir honum Peter Hölter sem beitti sér fyrir nýjum verkunaraðferðum saltfisks, sjá síðar. (K.Ó; Vestfjarðarit).
1766
Hafís frá Látrabjargi til Reykjaness: Hafís er nú með öllum ströndum landsins frá Látrabjargi norður alla Vestfirði; fyrir öllu Norðurlandi, Austfjörðum og Suðurlandi; allt að Reykjanesi. Fyrir norðan rak ísinn að um miðjan apríl og hafþök voru víða við land um Jónsmessu. Víða hefur tekið fyrir alla björg úr sjó og hrun hefur orðið á búpeningi. Fyrir var ástandið bágborið vegna fjárkláðans. Í ofanálag kom Heklugos um þetta leyti. Ekki er nema um áratugur frá miklum hafísvetri, en 1745 lá hafís við Norðurland, Austfirði og Suðurland frá þorra fram á vor. Þá komu bjarndýr á land og um vorið var jarðklaki sumsstaðar um 2 álnir á þykkt. (Öldin átjánda).
Mannvirðingar í sætaskipan Sauðlauksdalskirkju: Séra Björn í Sauðlaukdal er ákaflega vandur að virðingum; ekki einasta sinni eigin heldur einnig annarra. Honum er mikið í mun að undirstrika forgang "heldra fólks" að guðsorði og sáluhjálp, og láta pöpulinn skilja hvað til hans friðar heyrir. Flokkun manna í virðingarstigann sést því ágætlega í hinni nýju kirkju hans í Sauðlauksdal. Það áréttar hann sjáfur:
"Anno 1765 var Sauðlauksdalskirkja upp bygð að nýju . . . Kvenmanna megin er(u) afdeild sæti fremst í kór með brík og þili undir, en lektaratjöld ofan á. Önnur brík er fyrir sjálfu sætinu, sem ætlað er fyrir karlfólk af þeirri dönsku familiu, sem hingað til hafnar var send í fyrra . . . Er það insta, karlmanna megin, ætlað fyrir fróma bændur, sem ekki hafa sæti í kór; annað fyrir mannvænlegustu sveina; þá fyrir kotunga; þá fyrir vel kynta vinnumenn. Á fremsta stafgólfi eru engin sæti, nema bekkur með brík við kirkjudyr. Standa þar eður sitja reglulaust þeir menn sem reglulítið lifa. Eins mörg sæti eru kvennamegin. Sitja í þeim þremur instu heiðarlegustu húsfreyjur; þá aðrar frómar konur; þá efnilegustu meyjar; þá kotunga konur; þá vel kyntar vinnukonur; þá kotungadætur. Yfir tveim miðstafgólfum kirkjunnar, uppi yfir kvensætum, er plægt loft eður pulpitur, vel 1/2 alin fyrir neðan bita, með pílárum alt í kring. Sitja þar beztu sóknarmanna gjafvaxta dætur. Lopt er yfir fremsta stafgólfi kirkjunnar, jafnhátt bitum. Situr þar gamalt og frómt ógipt kvenfólk . . .
Til merkis okkar nöfn: Að Sauðlauksdal d. 26. maí 1766: Björn Halldórsson; Vernharður Guðmundsson. (Lindin 01.01.1940).
1767
Fjöldi erlendra dugga í Patreksfirði: Mikill fjöldi erlendra skipa er við veiðar á Vestfjarðamiðum hvert sumar þessi árin og liggja þau gjarnan inni á Patreksfirði í brælum. Franskt herskip er hér við land til að veita löndum sínum þá aðstoð sem þurfa kann, en einnig hefur það stundað mælingar í Patreksfirði og nágrenni. Sjóliðsforingi á því er Kerguelen de Tremarec og segir hann frá því að þetta ár hafi 80 frönsk og 200 hollensk skip verið að veiðum á Vestfjarðamiðum. Í maí lágu 36 fiskiskip inni, og var ís á Pateksfirði. Hann segir skipslækni sinn hafa hjálpað mörgum sængurkonum á Íslandi, en fjölmargar deyi af barnsförum. Hann segir Íslendinga marga heilsulitla eftir fimmtugt, og margir deyi úr brjóstveiki, skyrbjúg eða harðlífi. Helsta fæðan sé þorskhausar á sumrin en kindahausar (svið) á veturna. Búkana af þorskum og kindum leggi menn inn í verslanir. (KÓ; Vestfjarðarit).
1768
Bólusótt herjar í hreppnum: Snemma í ágúst 1766 gaus upp skæð bólusótt, sem á skömmum tíma lagði í gröfina 29 af ungmennum Sauðlauksdalssafnaðar Björns Halldórssonar, meðal annarra Ragnhildi tengdamóður hans sem lést 1768. „Gift guðhrædd kvinna, látin af langri brjóstveiki, grafin innan kirkju, kvenna megin“ (BH í kirkjubók). Sama ár andaðist bróðir Björns; Einar, sem var holdsveikur: „36 ára holdsveikur, frómur, lærður, guðhræddur maður. Grafinn í kórnum“ (BH). (Rósinkrans Ívarsson; Ágrip af sögu kirkna og presta í Sauðlauksdal).
Eggert Ólafsson leggur í hinstu för frá Skor: Hinn 30. maí 1768 lagði Eggert Ólafsson fræðimaður, skáld og varalögmaður upp frá Skor, ásamt föruneyti. Veðurútlit var ótryggt og fór svo að bátur hans fórst, ásamt öðrum bát sem var með í för. Eggert var þá 42 ára. Eftir brúðkaup þeirra Ingibjargar, sem fór fram í Reykholti, hafði hann setið um vetur í Sauðlauksdal hjá systur sinni Rannveigu og manni hennar séra Birni Halldórssyni fræðimanni og jarðræktarfrömuði. Bú hafði hann reist sér á Hofstöðum í Miklaholtshreppi og var á leið þangað er slysið varð. Fékk hann stærsta áttæring undan Jökli til flutninganna, en þar á var formaður Gissur Pálsson úr Keflavík. Eggert fór með föruneyti sínu að Saurbæ á þrenningarhátíð og hlýddi þar messu hjá séra Birni. Þaðan var haldið út í Keflavík um kvöldið. Í Dalverpinu settust þeir mágar niður við stóran stein og drukku konungsskál. Nefnist hann síðan Staupasteinn. Góss þeirra hafði þar verið borið á skipið, en það var metið á um sex hundruð ríkisdali. Meðal þess voru mörg handrit; gamlar og sjaldfengnar bækur; ýmsir forngripir, svo sem skálar fornar og atgeir sem talinn er hafa verið eign Gunnars á Hlíðarenda. Eggert var sunginn úr vör að fornum sið. Átttæringurinn var mjög hlaðinn, og m.a. var ullarsekkjum hlaðið á borð sem lágu um þvert skip að aftan. Á annan áttæring, minni, í eigu Eggerts var hlaðið átta lambám og fleiru. Fyrir því skipi var Jón Arason hinn stóri. Honum þótti þurfa að huga að stýri og keipum og lentu því bátarnir í Skor. Þá var uppgangsveður, og vildu sumir fresta för. Eggert leiðangursstjóri ákvað að halda áfram, og settist sjálfur að stjórn stærra bátsins. Þegar bátarnir voru komnir um viku út á flóann þykknaði mjög í lofti og hvessti. Jón var kominn lengra, en felldi nú segl og sneri við til Skorar. Sagt er að Eggert hafi haldið áfram sinni för, en af afdrifum þess skips eru engar áreiðanlegar heimildir; aðrar er þær að það fórst þar á firðinum. Með Eggert á báti drukknuðu Ingibjörg Guðmundsdóttir kona hans, 34 ára; Ófeigur Vernharðsson studiosus 24 ára, Valgerður Jónsdóttir 18 ára og 4 hásetar. Kirkjubók Sauðlauksdalssóknar segir að þrír menn hafi farið á stærra skipi og farist með því. Þeir voru Guðmundur Gunnlaugsson, Guðmundur Jónsson og Jón Þorsteinsson. Þarna kann þó að vera eitthvað málum blandið; og jafn líklegt að þessir menn hafi verið skipverjar á skipi Jóns stóra Arasonar. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi; Öldin átjánda).
Eggert var óumdeildur gáfumaður og mikill fræðimaður. Hinsvegar ganga enn sögur um dramblæti hans. T.d. sú að hann hafi ekki heilsað óbreyttu bændafólki öðruvísi en með höndina fyrir aftan bak.
1771
Norðmenn hyggjast kenna sjósókn: Almenna verslunarfélagið, sem hefur haft Íslandsverslunina á leigu, hyggst nú kenna Íslendingum sitthvað um sjómennsku, bátasmíðar og fiskverkun. Í þeim tilgangi sendi félagið hingað þriggja manna nefnd til að rannsaka landsins hag, og er formaðurinn Þorkell Fjeldsted. Taldi nefndin báta, sem reyndust 1771 í landinu. Auk þess hefur félagið sent tuttugu Norðmenn frá Molde til Íslands með efni í áttatíu báta. Þeim er plantað á nokkra verslunarstaði; Vatneyri, Ísafjörð, Grundarfjörð og Hólm (Örfirisey), og skulu Norðmennirnir kenna Íslendingum bátasmíðar, siglingar og fiskveiðar í net; allt að hætti Sunnmæringa í Noregi. Skemmst er frá því að segja að þessi viðleitni bar lítinn sem engan árangur. Veldur þar bæði að bátar og aðferðir Norðmanna eiga illa við hérlendis, en líklega ekki síður það að Íslendingar telja sig kunna full skil á því hvað best hentar við íslenskar aðstæður og eru almennt tregir til að taka tilsögn. Bátar Norðmanna eru t.d. mun þyngri en þeir íslensku og netin þykja dýrari í viðhaldi en hefðbundin íslensk haldfæri.
1772
Sjóslys í Breiðuvík: Skip fórst í Breiðavík 13. maí, með 6 mönnum. Einn komst af eftir talsvert volk. (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Tveimur árum síðar drukknuðu þrír við Rauðasand, en atvik eru ekki kunn. (Sama heimild).
Sigurður „fljóti“ fer í Eyrarferð: Miklum snjó kyngdi niður síðustu mánuði árslins, svo að á jólaföstu var ófærð mikil um Rauðasandshrepp, ekki síður en á Norðurlandi þar sem mannskaðar urðu af snjóflóðum. Líkt og margir aðrir hafði Sigurður Jónsson bóndi í Breiðuvík beðið eftir færi til að komast í verslun á Vatneyri til að sækja nauðsynjar. Á Þorláksmessumorgun dreif hann sig snemma í fjós og aðrar gegningar og hélt af stað fótgangandi. Fór hann landveg upp Brúðgumaskarð; um Dalverpi; niður Sauðlauksdal; inn með firði og út á Eyrar. Hann hafði stutta viðkomu í kaupstaðnum en hélt til baka með 30 punda bagga á bakinu, sömu leið til baka. Var hann kominn heim í tæka tíð til síðdegisgegninga. Ekki er vitað til að aðrir hafi gert betur í svo langri göngu (þetta munu vera um 100 km); á svo skömmum tíma; í svo mikilli ófærð sem þarna var.
Ártalið er umdeilanlegt, en Sigurður er fæddur um 1740 en kvænist og tekur við búi í Breiðuvík 1765; lést 24.05.1803. Annálar segja frá fannfergi og snjóflóðum á Norðurlandi í okt-des 1772. Sjá sagnir af Sigurði syni hans 1820 og 1885.
1774
Kóngur tekur aftur við verslun á Vatneyri: Konungur hefur keypt öll hlutabréf Almenna verslunarfélagsins og er því aftur kominn með Íslandsverslunina í eigin reikning. Hefur hann fyrirskipað nokkrar umbætur t.d. varðandi mál og vog, auk þess sem kaupmenn eru skyldaðir til að búa á verslunarstöðunum sumar sem vetur.
Ekki gekk þó reksturinn lengi í haginn fyrir kóngi og varð gríðarlegt tap af versluninni þar til hann gafst upp á baslinu og gaf verslun frjálsa árið 1788, sjá þar. (Ýms.heim).
Skólapiltar drukkna niður um ís á Sauðlauksdalsvatni: Enn hefur áfall riðið yfir í Sauðlauksdal, er ís brast á Sauðlauksdalsvatni 13.12.1774 undan tveimur ungmennum, með þeim afleiðingum að þeir drukknuðu báðir. Annar þeirra er Zakarías Jónsson frá Rafnseyri, 24 ára, en hinn er systursonur séra Björns Halldórssonar; Jón Guðmundsson 14 ára. Sagt er að séra Björn taki þennan atburð mjög nærri sér.
1776
Þilskipaútgerð Dana frá Vatneyri: Konungsverslunin hefur nú hafið þilskipaútgerð frá Vatneyri, Bíldudal, Þingeyri og Ísafirði, í samræmi við tillögur Landsnefndarinnar og Jóns Eiríkssonar konferensráðs. Koma skipin að vori með varning; stunda veiðar yfir sumarið og sigla utan með afurðir að hausti. Er ætlunin að með þessu fái Íslendingar æfingu í sjómennsku á þilskipum. Skipin eru bæði húkkortur, um 35 lestir, og jaktir sem eru minni. Íslendingar eru þó tortryggnir á þessháttar veiðiskap og hefur gengið illa að manna skipin hérlendis.
1776
Bændur skyldaðir til garðhleðslu og túnagerðar: Konungur hefur gefið út tvær tilskipanir um bætta búskaparhætti hérlendis. Önnur lýtur að því að byggð verði endurreist á eyðibýlum á landinu gegn ívilnunum í tíundagjöldum og ný svæði komist í byggð. Þeir sem byggja nýbýli skulu, auk ívilnana og styrkja, eignast þá jörð sína. Hin tilskipunin miðar að því að bændur slétti tún sín og hlaði garða til vörslu þeirra. Skulu garðarnir vera svo traustir að maður geti gengið á þeim; og tveggja álna háir. Skal hver umráðandi jarðar hlaða árlega 6 faðma grjótgarð eða 8 faðma torfgarð fyrir hvern verkfæran karl á búi sínu. Greiðir kóngur verðlaun fyrir það sem umfram er; 12-16 skildinga fyrir faðminn. Sektir liggja hinsvegar við vanrækslu. Í túni skal hver bóndi árlega slétta 6 ferfaðma fyrir hvern verkfæran karl á sínum bæ, auk þess að fjarlægja allt grjót sem með verður farið. Auk þess heitir kóngur verðlaunum fyrir garðyrkju og kornyrkju og mun hann senda til landsins kálfræ og næpufræ. Þó vissulega séu góð verðlaun í boði er kurr í mörgum bændum sem ógnar þessi verkskylda. Telja margir að vel megi áfram vaka yfir túnum líkt og tíðkast hefur; og nokkru sé drýgri taðan af þúfukarganum en eggsléttum túnum.
1779
Eindæma óþurrkasumar og skemmdir á afurðum: Í sumar var hið mesta óþurrkasumar sunnan lands og vestan, og í Barðastrandasýslu hafði ekkert töðuhár náðst á höfuðdag. Saltfiskur konungsverslunarinnar á Vatneyri skemmdist svo af sífelldum rigningum að sumt varð ekki einu sinni hundum að mat. Víða hafa menn orðið að lóga kúm, bæði vegna heyleysis og sér til matbjargar. Ofsalegt brim hefur valdið tjóni; bæði nyrðra og syðra.
Tíðarfar er með endemum þessi árin: Í þorralok á síðasta ári gerði svo hart veður að bóndann á Hvallátrum í Sauðlauksdalssókn hrakti í sjóinn ásamt allri hjörð sinni; um hundrað kindum. (Öldin átjánda).
1781
Frumkvöðlar í saltfiskverkun: Sjómenn og verslunarmenn í Rauðasandshreppi hafa verið frumkvöðlar í nýrri aðferð til saltfiskverkunar hérlendis; svonefndri „Terreneuv“-aðferð, sem sumir nefna einnig „Nýfundnalandsaðferð“. Hún er nokkuð frábrugðin hinni fyrri aðferð, sem menn nefna núna „Kaupmannahafnaraðferðina“, bæði varðandi meðferð og skurð á fiskinum og legu hans í saltinu. Baskar, Frakkar og fleiri þjóðir hafa um nokkurn tíma notað þessa nýju aðferð við verkun þess fisks sem þeir hafa veitt við Nýfundnaland, og í Frakklandi og á Spáni selst sá fiskur mun betur en hinn, þó Danir kjósi enn eldri verkunaraðferðina. Fyrstur Íslendinga til að reyna þessa verkun var líklega Ólafur Stephensen á Akranesi, árið 1766, og fékk hann verðlaunapening fyrir.
Peder Hölter hefur verið verslunarstjóri konungsverslunarinnar á Vatneyri frá 1777. Fram að því hafði fiskur á svæðinu einkum verið verkaður í skreið og harðfisk. Verð á þeim fiski hefur verið afar lágt, svo varla hefur staðið undir kostnaði við útgerðina. Einnig hefur lítillega verið saltað eftir „Kaupmannahafnaraðferðinni“. Hölter byrjaði fyrstur manna að nota hina nýju „Terreneuv“-aðferð til verkunar á saltfiski og hefur fengist nær tvöfalt hærra verð fyrir þann fisk á suðrænum mörkuðum. Hafi útvegsbændur ekki aðstöðu eða kunnáttu til verkunar tekur hann fiskinn blautan frá þeim og saltar hann sjálfur. Voru í ár flutt út 130 skippund (20,8 tonn) af þessum fiski frá Vatneyrarversluninni, og 520 skippund bíða útflutnings á næsta ári. Íslenskur námsmaður í Kaupmannahöfn; Bjarni Einarsson sem ættaður er úr Rauðasandshreppi (sonarsonur Bjarna Jónssonar bónda og bátasmiðs í Kollsvík), hefur verið fenginn til að skrifa leiðbeiningar um þessa nýju verkunaraðferð.
Konunglega danska Landbústjórnarfélagið sæmdi Hölter verðlaunapeningi úr gulli fyrir framtak sitt árið 1783. Hölter flutti síðar á Snæfellsnes þar sem tveir bræður hans störfuðu. Hann fórst í skipsstrandi við Hafnarskeið 1806, 56 ára gamall. Bjarni Einarsson varð sýslumaður Barðstrendinga og bjó í Haga; giftist Ragnheiði dóttur Davíðs Scheving, fyrri sýslumanns. Þau skildu 1781, en áttu áður soninn Guðmund Scheving, síðar útgerðarmann í Flatey. Bjarni hætti sem sýslumaður; fór utan en heimkominn settist hann fyrst að í Flatey og var síðan bóndi í Breiðuvík 1995-1799. Aðferðin sem þeir innleiddu hefur verið við lýði til þessa dags (2020); að mestu óbreytt. (LK; Ísl. sjávarhættir IV; Ól. B. Thoroddsen Árbók Barð 2019.
Tveir bátar farast í Blakknesröst: Þann 19. maí lögðu bátar í róður frá Láturdal. Tveir bátar urðu samferða á mið. Á þeim voru fjórir bræður frá Hnjóti, auk fjögurra annarra. Á þá gerði ofsaveður með kafaldi og stórsjó. Menn á síðasta bát sem náði landi í Láturdal sögðu Blakknesröst orðna ófæra, en báta Hnjótsbræðra var saknað. Stærri bátinn rak síðar í Breiðavík, en þann minni fyrir innan Blakknes. Talið var að allir hefðu mennirnir farið í stærri bátinn og haft hinn í togi. Hann hafi svo verið skorinn frá í Blakknesröst en þeir reynt að hleypa suður um á hinum stærri. (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
1782
Séra Björn fer frá Sauðlauksdal: Séra Björn Halldórsson hefur nú fengið Setbergsprestakall og flyst frá Sauðlauksdal. Hann er vafalítið nafnkunnasti prestur sem þar hefur setið og mestur fræðimanna sinnar samtíðar. Mætti margt þar til nefna, sem hvert og eitt gæti dugað honum til frægðar. Hann var mikill kennimaður og þótti nokkuð strangur í sínum trúarskilningi. Staðinn byggði hann mjög upp í sinni tíð, svo og kirkjuna. Grasafræðingur var hann mikill og gaf út ritið Grasnytjar; víðtækasta rit íslenskt á því sviði; einnig ritin Atla og Arnbjörgu (útg 1780 í Hrappsey) sem hvort eru nokkuð heildstæður skóli í atvinnufræðum, heimilisfræðum og samfélagsfræðum þessa tíma. Ritaði orðabók og annála og safnaði kvæðum. Ræktunartilraunir hans voru einstakar; bæði frunkvæði í kartöfluræktun og öðrum matjurtum og uppgræðsla lands. Mun t.d. sandvarnargarðurinn mikil verða hans minnismerki um aldir, þó sumir nefni hann Ranglát. Staðinn byggði hann upp í byrjun síns prestsakapar; bæði staðarhús og kirkju. Var endurgerð torfkirkjunnar lokið 1765. Í henni lét hann gera sérstaka sætaskipan, eftir mannvirðingum. (Hélst sú sætaskipan í 135 ár, eða til um 1900).
Sjón Björns hrakaði mjög á þessum árum og var hann orðinn blindur árið 1785. Sigldi þá til að leita sér lækninga en án árangurs. Fékk lausn frá embætti 1786 og dó 24.08.1794 á Setbergi. Björn var strangur kennimaður og má vera að sóknarbörn hafi sum andað léttar er hann hvarf á braut; t.d. þeir sem gapastokknum fengu að kynnast og þeir sem þræluðu kauplaust við garðhleðslur á prestsetrinu.
Séra Jón Ormsson fær Sauðlauksdal: Jón Ormsson (f.1782-d.1820) var um tíma í þjónustu Finns biskups Jónssonar en hafði verið aðstoðarprestur í Selárdal áður en hann kom í Sauðlauksdal. Kvæntur Ragnheiði Eggertsdóttur prests í Selárdal.
Áttu þau 6 börn. Jón varð prófastur í Barðastr.sýslu, en sagði hvorutveggja af sér 1820 er hann veiktist af slagi. Jón var merkisprestur; andríkur, skáldmæltur, féglöggur en ölmusugjarn, gestrisinn og nokkur drykkjumaður. Jóns er líklega helst minnst fyrir aðkomu sína að Sjöundármálum, þar sem hann þótti sýna Bjarna og Steinunni helst til mikla vægð og vilja sem minnst úr málinu gera. (RÍ; prestatal Sauðlauksdal).
1783
Móðuharðindin: Hafið er í Skaftafellssýslu mesta eldgos sem orðið hefur á síðari tímum. Gýs á firnalangri (25 km) sprungu sem liggur gegnum móbergshnúkinn Laka og dregur gosið nafn af honum.
Eldgosið olli víðtækum hörmungum um allt land og reyndar um heim allan. Nærsveitirnar fóru að miklu leyti undir gríðarmikinn hraunflaum en gjóskan varð til þess að vart sá til sólar á landinu í langan tíma á eftir; aska huldi jörð og gróður og fénaður dó vegna eitrunar. Heimilin flosnuðu upp og fólk og fénaður féllu unnvörpum. Um tíu þúsund manns dóu á fyrstu árunum eftir eldgosið, eða fimmtungur þjóðarinnar; og um 75% búfjár. Eldgosið kom ofan í mikið kuldatímabil og 1784 bættust við harðir jarðskjálftar á Suðurlandi. Eins og endranær leitaði banhungrað fólk eftir öllu bjargræði og þá sem endranær flykktist það í verstöðvarnar. Útvíkur lágu fjarri mestu hörmungarsvæðunum en eflaust hefur þar orðið grasbrestur af móðunni og margir leitað bjargræðis úr sjó. Á síðari tímum rekja menn til Skaftárelda uppskerubrest sem varð í Evrópu og víðar um heim á þessum árum.
1785
Pétur Havsteen verslunarstjóri: Pétur Havsteen hefur tekið við yfirstjórn Vatneyrar- og Bíldudalsverslana af Dines Jespersen sem flytur að Básendum. Pétur Kúld verður undirverslunarstjóri á Bíldudal.
Var Kúld þar til þess tíma að Ólafur Þórðarson Thorlacius fékk Bíldudalsverslun 1790, sjá þar.
1786
Breiðavíkurbátur ferst: Bátur frá Breiðavík fórst á þessu ári er hann var að koma úr kaupstaðarferð. „Veðurbylur þaut í seglið svo hvolfdi; því ei varð lækkað“. (GK).
1788
Einokunarverslunin líður undir lok: Með konunglegri auglýsingu 18.08.1786 er afnumin einokun danskra kaupmanna á verslun hérlendis og var henni formlega lokið um síðustu áramót. Eftir sem áður er Íslendingum þó bannað að skipta við aðra en Dani. Um leið eru kaupmenn skyldaðir til að hafa hérlendis næg matvæli ef til hungursneyðar kemur. Einokunartímabilið hefur staðið frá 1602, en með einokun var ætlun danskra ráðamanna að efla danska kaupmannastétt þegar uppgangur Hansakaupmanna var sem mestur. Versla mátti á 25 verslunarhöfnum og fengu kaupmenn tímabundin leyfi á þeim gegn leigu. Oft hafa Íslendingar kvartað yfir verslunarháttum, verði og vöruframboði kaupmanna, en líklega þó mest meðan Hörmangarafélagið hafði Íslandsverslunina frá 1742-1759. (Ýmsar heim.)
Þegar konungsverslunin hætti rekstri voru eignir hennar seldar. Tveir menn hófu verslunarrekstur á Vatneyri. Annar þeirra var Jochum Brinck Lund frá Farsund í Noregi, sem keypti þrjú af átta húsum verslunarinnar en gafst upp eftir fimm ár. Hinn var Peter Jensen Herning, en hann hafði verið verslunarþjónn konungsverslunarinnar um nokkurt skeið. Herning keypti þrjú húsa verslunarinnar og 17 stórlesta skútu; Örreden, til flutninga. Síðar keypti hann stærra skip; Pauline, sem var 34 stórlestir; og allstórt bjálkahús.
Herning kvartaði mjög yfir viðskiptum Rauðasandshreppsbúa við erlenda fiskimenn. (Líklega hafa skútur gjarnan komið upp á Útvíkur og stundað þar launverslun framhjá Danskinum). Einnig átti hann í stríði við eiganda Vatneyrar vegna leigu verslunarlóðarinnar. Eigandinn var Þóroddur Þóroddsson, sem verið hafði beykir við konungsverslunina. Hann var afi Jóns Thoroddsen skálds, og reyndar eru frá honum komnir allir Thoroddsenar landsins. Kona Þórodds var Bergljót Einarsdóttir, systir Bjarna sýslumanns Einarssonar í Haga og síðar bónda í Breiðuvík. Afi þeirra var Bjarni Jónsson bóndi og skipasmiður í Kollsvík; einn hinna kunnu Sellátrabræðra. (KÓ; Vestfjarðarit).
1790
Ólafur Thorlacius tekur við Bíldudalsverslun: Ólafur Þórðarson Thorlacius hefur nú tekið við Bíldusalsverslun af Pétri Kúld (sjá 1785). Ólafur er frá Hlíðarhúsum í Reykjavík, sonur Þórðar Sighvatssonar og Ingiríðar Ólafsdóttur Thorlacius. Sjá einnig 1806.
Ólafur varð fyrstur til að sniðganga Kaupmannahafnarkaupmenn, er hann sigldi beint með afla til Spánar. Græddist honum mikið fé og kom í raun fótum undir þann uppgang sem síðar varð á Bíldudal með Pétri J. Thorsteinssyni. Ólafur naut mikillar virðingar; varð riddari af Dannebrog og einn umsvifamesti kaupmaður landsins. Afkomendur hans urðu mektarbændur í Saurbæ á Rauðasandi.
1794
Bjarni Sívertsen gerir út skútu: Bjarni riddari Sívertsen í Hafnarfirði er mikill athafnamaður. Nú hefur hann keypt skipið Charlotte og gerir hana út til fiskveiða.
Ekki eru þó öruggar heimildir fyrir því síðastnefnda; ein segir að þetta hafi verið flutningaskip. Árið 1799 kaupir Bjarni Foraaret; 9 lesta jakt. 1803 lét hann smíða fyrir sig um 12m langa jakt í Hafnarfirði; Havnefjörds pröven. Er það sama ár og Guðmundur í Breiðholti kaupir skútuna Delphin, sem Einar í Kollsvík keypti síðar með fleirum. Bjarni er oft talinn upphafsmaður þilskipaútgerðar hérlendis, en um það má deila. T.d. er skútusmíði hans sú þriðja hér á landi: Áður höfðu Páll í Selárdal og Eyvindur duggusmiður smíðað skútur og haldið þeim til veiða, auk þess sem urmull erlendra skútna hafði um aldir verið hér til veiða.
1797
Einar Jónsson flytur að Kollsvík: Einar Jónsson er nýr ábúandi í Kollsvík, ásamt konu sinni; Guðrúnu Jónsdóttur frá Botni í Patreksfirði. Guðrún er reyndar ættuð úr Kollsvík, því Halldór Jónsson langafi hennar var bóndi á Láganúpi í Kollsvík um 1700; einn hinna kunnu Sellátrabræðra. Einar er hinsvegar fæddur á Hallsteinsnesi við Þorskafjörð árið 1759; af Grafarætt sem fjölmenni er komið af. Einar og Guðrún búa á allri Kollsvíkurjörðinni, sem að fornu mati er 24 jarðarhundruð. Kollsvík er vildisjörð, bæði til búskapar og sjósóknar, en á víkinni eru gjöful fiskimið og lending ágæt í Kollsvíkurveri. Eignast Einar öll tollver, en þar hafa að jafnaði gengið 11-12 skip. 15 fiskar eru goldnir fyrir hvern vermann. Vertollur Einars er því líklega 6-7 hundruð af steinbít, eða 200-240 álnir. Einar hefur um nokkur ár dvalist á Vatneyri. Hann þykir vitur og víðlesinn og er talinn víðsýnn í trúmálum.
Dregur úr róðrum úr Láganúpsveri: Róðrum frá Láganúpi mun hafa verið hætt fyrir lok 18. aldar. Í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal frá árinu 1840 er ekki getið um Kollsvíkurver en sagt að allir innlendir og af Barðaströnd rói frá Brunnum, Látrum og Breiðavík. Mun útræði frá Kollsvíkurveri hafa lagst algerlega niður um nokkurra áratuga skeið og ekki hafa hafist á ný fyrr en um eða eftir 1880. Nálægt 1890 dró mjög úr sjósókn frá Látrum og Brunnum og varð Kollsvíkurver þá helsta veiðistöðin í Rauðasandshreppi. (KÓ; Rauðasandshreppur).
1800
Áform um þilskipaútgerð á Vatneyri: Peter Herning verslunarmaður á Vatneyri; Peter Hölter fyrrum verslunarstjóri og Jón Thorberg verslunarstjóri hafa fest kaup á þilskipi sem þeir hyggjast gera út frá Vatneyri.
Ekkert varð þó úr þessum fyrirætlunum, þar sem skipið fórst í ofviðri; nýkomið til landsins. Peter Hölter drukknaði 1806 og sama ár andaðist Jón Thorberg. (KÓ; Vestfjarðarit).
1801
Stofnað Barðastrandarsýslulestrarfélag: Stofnað hefur verið lestrarfélag í Barðastrandasýslu sem nefnist Barðastrandasýslulestrarfélag, eða öðru nafni "Lestrarfélag þarflegra danskra bóka". Helsti hvatamaður að því er Guðmundur Scheving kaupmaður. Þetta er meðal fyrstu lestrarfélaga landsins, en fyrir starfa félög á Suður- og Norðurlandi. Félögin eru þáttur í þeirri bylgju raunsæis og upplýsingar sem nú fer um Evrópu. Upphafsmann lestrarfélaga hérlendis má telja Stefán Þórarinsson, amtmann á Möðruvöllum, sem hvatti til slíks í grein sinni í Riti Lærdómslistarfélagsins árið 1794.
Starfsemi félagsins dofnaði eftir 6 ára starf en það var endurreist 1817 undir stjórn Ólafs Sívertsen í Flatey og starfaði til 1822. Enn var það endurreist 1836 í tengslum við Flateyjar-framfarastofnun. (Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir; Útbreiðsla bóklestrar-lystarinnar á Íslandi). Líklegt er að félagi og samstarfsmaður Guðmundar Scheving; Einar Jónsson í Kollsvík, hafi stutt hann dyggilega í þessari menningarstarfsemi, enda var Einar bókamaður mikill og nýjungagjarn.
1802
Harðindaveturinn Klaki: Í janúar þetta ár rak hafís að landi, og umkringdi Norðurland, Austfirði og Vestfirði. Hefur hann legið við land allt vorið og sumarið til höfuðdags. Af þessu hafa stafað hin mestu harðindi til lands og sjávar og man enginn jafnharðan vetur. Líkja menn honum við veturinn „Lurk“, árið 1601. Mikill fjöldi fólks hefur orðið bjargþrota og margir bændur flosnað upp. Hér í sýslu hafa jafnvel börn lent á húsgangsflakki, en þeir sem best eru stæðir hafa bjargað öðrum eftir föngum, þó sumir þeirra hafi við það flosnað sjálfir upp. Hvalrekar hafa víða bætt úr bjargarskortinum. Í Málmey á Skagafirði rak 40 álna langan hval; hafurkitti (sléttbak), og var í honum vænn kálfur. Kom þó ekki að fullum notum, þar sem bóndinn í eyjunni leyndi rekanum. Sléttbak rak á Naustum við Hofsós. Hinn þriðja rak á Siglunesi nyrðra; 20 álna langan kálf. Fjórði náðist upp um ís nokkuð frá landi í Héðinsfirði; fimmta rak í Eyjafirði; sjötta við Flateyjardal og sjöunda á Langanesströndum. Heyrðist af tveimur hvalrekum í Ísafjarðarsýslu. Arnfirðingar skutluðu hvalkálf sem sagt er að hafi rekið á fjörur Guðmundar Scheving (líklega þá í Breiðuvík). Sögulegastur er þó sá hvalreki sem hér verður lýst:
Hvalur róinn á land í Kollsvík: Sjómenn frá Kollsvík fundu stóran hval á reki frammi á víkinni um sumarmál, er þeir voru við róðra. Róið var að hvalnum og taug fest í hann. Það reyndist þrautin þyngri að róa svo þungu dýri í land á lítilli bátsskel. Það vildi til happs að kjör stóðu í hálfan mánuð um þetta leyti, en vikutíma tók að róa hvalnum í land í Kollsvíkurfjöru. Hvalurinn var aldrei yfirgefinn á þeim tíma, en matur og drykkur fluttur til manna úr landi. Hvalurinn var nefndur „Þæfingur“ af þessum sökum og varð mikil búbót, enda voru á honum 200 vættir kjöts og spiks (um 7 tonn).
(Annálar segja að hvalurinn hafi drepist í ís og verið beinlaus, en e.t.v. hafa bein hans brotnað eitthvað í ísnum. Rifin af Þæfingi voru notuð í húsbyggingar í Kollsvík og voru m.a. lengi í búðum sunnantil á Norðariklettunum í Kollsvíkurveri, svo eitthvað hefur verið óbrotið). (Frásagnir Helgu Einarsdóttur o.fl.; einnig TÓ; Kollsvíkurætt) (Forn lög kveða svo á að þegar hvalur er fluttur dauður að landi eigi flytjendur þriðjung en landeigandi 2/3, ef ekki finnst skot í hvalnum. Að öðrum kosti skyldi skotmaður eiga þriðjung. Þeir sem fyrstir komu festi í hval áttu „finnanda spik“, sem 30 átta fjórðunga vættir, eða rúmt tonn. Þegar hval rekur svo fyrir veðri og straumi að hann ræður skipinu en áhöfnin ekki honum, þá telst hann sem ófundinn). (LK; Ísl.sjávarh. V).
Saurbæjarkirkja átti að fornu rétt til tíundu hverrar vættar hvals sem rak á fjörur milli Skorar og Tálkna. Ekki er ljóst hvort það ætti hér við.
Sjöundármálin: Hinn 8.nóvember hófust í Sauðlauksdal réttarhöld yfir Bjarna Bjarnasyni og Steinunni Sveinsdóttur á Sjöundá, sem sökuð hafa verið um að myrða maka sína; Guðrúnu Egilsdóttur og Jón Þorgrímsson, fyrr á þessu ári. Dómandi í málinu er sýslufulltrúinn Guðmundur Scheving í Haga en sækjandi að hálfu hins opinbera ákæruvalds er hreppstjórinn; Einar Jónsson í Kollsvík.
Steinunn og Bjarni voru dæmd sek. Hún lést í fangelsi (Steininum, sem nú er Stjórnarráðshúsið) 31.08.1805, en Bjarni var hálshöggvinn í Kristiansand 04.10.1805. Sjöundármálin voru umfjöllunarefni Gunnars Gunnarssonar í bókinni Svartfugli Bókin, sem kom út í Kaupmannahöfn 1938, þykir ágætt skáldverk en heimamenn voru ekki fyllilega sáttir með ýmsa þætti hennar. Eftir bókinni hafa verið gerð leikverk og sett á svið í Þjóðleikhúsinu og víðar.
1806
Íslensk skútuöld hefst, með aðkomu Einars í Kollsvík: Einar Jónsson, útvegsbóndi í Kollsvík og ættfaðir Kollsvíkurættar, lagði fé í kaup Guðmundar Scheving (granna síns frá Breiðuvík, sýslumanns í Haga, hægri hönd Jörundar hundadagakóngs og síðar athafnamanns í Flatey) á skútunni Delpin. Delphin var fyrsta íslenska þilskipið til að hefja veiðar. Delphin var einmastra jakt; 35 tonn að burðargetu; upphaflega keypt til landsins árið 1803 af Guðmundi Ingimundarsyni í Breiðholti, sem áfram var skipstjóri eftir kaup Einars og Schevings. Skipinu héldu þeir bæði til fiskveiða og millilandasiglinga, og gekk útgerðin vel; allt þar til Delphin fórst í hafi síðsumars 1813, á útleið. Með því fórst öll áhöfn; þar með Guðmundur skipstjóri Ingimundarson. Efnahagur Einars beið nokkurn hnekki við þetta, en jafnaði sig þó fljótlega og stóð með miklum blóma fram í andlát hans. Einar var um tíma í samstarfi við Thomsen kaupmann á Vatneyri um útgerð, en óljóst er hvernig henni var háttað. Til þessarar stórskipaútgerðar er líklegt að Einar hafi notfært sér styrki danskra stjórnvalda; svonefnd fiskveiðiverðlaun. Kóngur lofar að hver búsitjandi maður á Íslandi sem geri út 8-15 varningslesta skip til fiskveiða skuli hljóta 14 ríkisbankadali silfurs í verlaun fyrir hverja lest. Má því ætla að Guðmundur og Einar hafi hlotið 490 dali úr kóngsins fjárhirslum til þessara skipakaupa. (Ýmsar heimilidir, m.a. frásögn Helgu dóttur Einars; GG; Skútuöldin; JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang o.fl).
Ólafur Thorlacius kaupir skútu: Þetta ár er þilskip gert út frá Patreksfirði; St Johannes. Eigandi þess er Ólafur Thorlacius (1762-1815) riddari. Hann hafði stofnað verslun á Bíldudal 1790 eftir að einokunarversluninni lauk, og varð fljótt einn umsvifamesti kaupmaður landsins.
Stuttu síðar keypti hann annað skip; Mette, 13 lest jakt. Skipum sínum hélt hann til veiða og varð fyrstur Íslendinga til að sigla með saltfisk beint á Spánarmarkað. Má segja að Ólafur hafi rutt brautina fyrir athafnamanninn Pétur J. Thorsteinsson (sjá 1896). Ólafur var forfaðirinn í röð afkomenda með sama nafni, sem árið 1885 fluttu á höfðingjasetrið Saurbæ á Rauðasandi. (KÓ; JÞÞ o.fl.).
Hvað varð um Jón Thorberg ? Jón Thorberg (f. 1762) hefur verið verslunarstjóri Peter Hernnings kaupmanns á Vatneyri (sjá 1800). Herning siglir til Danmerkur á haustin og dvelur í heimalandi sínu, og sér Thorberg þá um verslunina meðan birgðir endast. Hann er velviljaður; getur öngvum fátæklingi synjað um vörur út á krít, og leita margir liðsinnis hans. Því var það að nú um sumarmál voru allar vörur upp lánaðar. Þá var von á kaupmanninum til verslunar sinnar næstu daga, en flestar skuldir enn ógreiddar. Var þá Thorberg illa staddur, enda var Herning rómaður fyrir hörku sína. Hinn 17.06.1806 gekk Thorberg inneftir Geirseyrarbökkum, þar sem heita Björg. Hálka var og gatan liggur þar tæpt frammi á háum sjávarklettum. Jón kom ekki aftur. Vinur hans fór að leita að honum, en kom aftur um kvöldið með þær fréttir að hann hefði fundið Jón Thorberg hrapaðan til dauðs undir Björgunum og borið hann í útihlöðu. Sigríður kona hans (dóttir Þórodds beykis Þóroddssonar, ættföður Thoroddsenanna) vildi fara og sjá líkið, en henni var ráðið frá því þar sem líkið væri svo illa útleikið. Smíðuð var kista um lík Jóns og hann fluttur yfir fjörð til jarðsetningar í Sauðlauksdal; sóknarkirkju sinni. Allt þótti þetta þó með einkennilegheitum. Sá kvittur hefur komið upp að Jón hafi alls ekki verið í kistunni, heldur hafi hann komist í útlent skip. (Stuðst við sjálfsævisögu JVJ o.fl).
Jóna Valgerður Jónsdóttir (Torfasonar á Hnjóti og síðar Kollsvík) segir í æviminningum, og hafði eftir Guðmundi Björnssyni "búfræðingi" frá Bíldudal, að Jón hafi komist í erlent skip og með því komist hjá uppgjörinu við Herning kaupmann. Sagði Guðmundur að mörgum árum síðar hafi grafarar í Sauðlauksdalskirkjugarði komið niður á kistu þá er Jón átti að liggja í, en hún hafi verið full af grjóti. Valgerður Guðmundsdóttir, móðir JVJ var dóttir Önnu, sem var dóttir Jóns Thorberg framhjá Sigríði konu hans. Systir JVJ var Anna Guðrún Jónsdóttir í Kollsvík, móðir Hildar Magnúsdóttur. Jón Thorberg er því forfaðir VÖ skrásetjara í 7. lið. Hildur var einnig skyld Jóni Thorberg gegnum föður sinn; Magnús Árnason á Hnjóti, þó ekki væri eins náið. Trausti Ólafsson segir í ábúendatali sínu (Geitagil) að móðir Önnu hafi verið Guðbjörg sem ung var í vist hjá Jóni. Anna fæddist 1789, sama árið og Jón eignaðist dótturina Ingibjörgu með Sigríði konu sinni. Anna ólst upp í Tungu hjá Guðrúnu ömmu sinni, móðir Guðbjargar. (TÓ; ábúendatal Rauðasandshrepps).
Jón Thorberg var afabróðir Bergs Thorberg, amtmanns og síðar landshöfðingja yfir Íslandi. Bergur var 6. ættliður frá Bjarna Jónssyni, skipasmið og bónda í Kollsvík. (Tímarit 01.01.1869).
Peter Herning kaupmaður var andstæða hins góðgjarna Jóns Thorbergs og þótti harðdrægur í viðskiptum. Haustið 1795 var hann kærður til amtmanns fyrir okur. (KÓ; Vestfjarðarit o.fl). Það að Herning gekk ekki hart að ekkju Jóns; Sigríði, skýrist líklega af því að Þóroddur faðir hennar átti lóðina undir verslunarhúsunum á Vatneyri.
1808
Frakkar og Englendingar á Vatneyri: "Síðla sumars 1808 komu þrjú herskip frakknesk inn á Vatneyrarhöfn og ljettu þar akkerum. Var þegar skotið út bát og komu í Iand hermenn nokkrir með fyrirliða einn. Þeir gengu þegar til húsa kaupmanns, enda voru þau stærstu húsin þar í það mund. Kaupmaður sá til ferða þeirra og gekk í móti þeim og. kvöddust þeir með virktum. Komumenn spurðu um yfirvald staðarins, og var bent á Davíð Scheving í Haga, sem hafði hann sjer til aðstoðar dótturson sinn; Guðmund Scheving. Færði sendiboði Frakkanna sýslumanni brjef, þar sem þeir óskuðu leyfis til vetrarsetu á Vatneyri. Höfðu þeir meðferðis fjölda Englendinga er þeir höfðu hertekið. En sótt skæð hafði komið upp meðal fanganna og vildu þeir hjúkra þeim í Iandi. Þeir vildu vera sýslumanni innan handar ef leyfið fengist og buðu honum meðal annars fiskiskútu nýja, er þeir höfðu tekið af Englum; átti hún að kosta 10 sauði. Ekki þorði sýslumaður að kaupa skipið, en vetrarsetuna Ieyfði hann. Bað hann Frakka þó að gæta þess vandlega, að pest sú, sem að föngunum gengi, bærist ekki út meðal Íslendinga.
Frakkar fluttu nú dót sitt í land; í hús sem þeir fengu leigt hjá kaupmanni. Tjöld settu þeir um allt rifið milli Vatnsins og sjávar og færðu þangað hina sjúku menn. En vörður var settur til beggja enda á rifinu og var þess vandlega gætt, að enginn Íslendingur kæmi þar nálægt er hinir sjúku menn bjuggu. Frakkar komu sjer einstaklega vel og voru þeir ósparir á fje; vildu því landsmenn allt fyrir þá gera. Voru nú sendir út menn í hvert nes til þess að hafa njósnir úti, ef ensk herskip skyldu bera þar að landi.
Og er Frakkar höföu búið um sig hófst gleðskapur mikill á Vatneyri. Konungshúsunum fylgdi pakkhús afarstórt. Var þar gerður veislusalur og sýslumanni boðið til og öðrum heldri mönnum. Flaggadýrð var svo mikil, að slíkt hefur ekki sjest á þeim stað fyrr eða síðar svo menn viti, og virðingarskotin dundu, svo að undir tók í fjöllunum beggja megin fjarðar. Urðu menn stórum hrifnir af viðhöfn þessari, en kýr hlupu á fjöll upp og allar skepnur urðu vitlausar. Veislan var hin ágætasta, og hin ljúffengu frakknesku vín drukkin óspart. Var sýslumaður síðan leystur út með stórum gjöfum. Voru upp frá því boð mörgum sinnum og gleði; ýmist í landi eða úti á skipum. Voru Frakkar hinir kurteisustu; einnig við vín, og urðu aldrei ryskingar eða annar ójafnaður sýndur af þeirra hendi, en hjeraðsbúum þótti koma þeirra hin besta.
Margir dóu af föngunum og var jarðað nær daglega í svokölluðum Vatnskrók. Voru Iíkin framanaf kistulögð, en er efniviður tók að þrjóta voru þau vafin í striga og bundin köðlum og sökkt þar niður. Hafa nú á síðustu árum verið að koma þarna upp kistubrot og mannabein. Vel ætla menn þó að Frakkar hafi farið mcð fanga sína, og var keypt handa þeim öll sú mjólk er fáanleg var þá á Vatneyri og næstu bæjum.
Þá bjó á Vatneyri Þóroddur beykir og kona hans; Bergljót Einarsdóttir, systir Bjarna sýslumanns Einarssonar. En af þeim eru Thoroddsenar komnir. Bergljót var hin mesta rausnarkona. Hún hafði verslun mikla við Frakka; seldi hún þeim mjólk al!a er hún hafði og gat útvegað, og kostaði potturinn 1 franka. Einnig seldi hún þeim aðrar nauðsynjar og sá jafnnn um að taka nóg fje fyrir vöru sína. T. d. kostuðu íslenskir skór hjá henni 5 franka. Auðguðust þau hjón mjög af verslun þessari. Þessa mánuði streymdi hið frakkneska gull yfir Vatneyri. Það voru sannkallaðir sæludagar fyrir sveitina, og gleðin var jöfn fyrir yngri sem eldri, því öll tækifæri voru notuð til skemmtana í hinu stóra pakkhúsi konungsverslunarinnar gömlu.
En einn dag um haustið kom hraðboði utan frá Látrum og færði þau tíðindi að sex ensk herskip hefðu komið þar við Iand. Höfðu Englar beðið um leiðsögn inn á Patreksfjörð, en enginn vildi til þess verða að vísa þeim. Loks höfðu þeir tekið mann einn í Breiðuvík nauðugan sjer til leiðsagnar. Við þessa fregn brugðu Frakkar skjótt við. Færðu þeir farangur sinn og fanga í mesta skyndi út á skip sín og silgdu þeim á brott út undir svo kallaðar Krossadalshlíðar. Litlu síðar komu Englendingar til Patreksfjarðar. Byrjuðu þeir skothríð undir eins og þeir komu í fjarðarmynnið og hjeldu henni áfram alla Ieið inn á Vatneyrarhöfn, en hættu er þeir hittu hvergi Frakka fyrir. Þar dvöldu þeir þrjú dægur og hjeldu síðan á burtu. Sagði enginn þeim hvar Frakkar voru og hefur til hvorugra skipanna heyrst síðan. Vita menn því eigi hvort þau hittust eður ei"
Frásögn þessi birtist í Vísi 28.12.1911 og var höfð eftir "hálfníræðum merkismanni að vestan". Hann hefur söguna eftir "áttræðri konu; Halldóru Jónsdóttur, sem var unglingsstúlka hjá móður sinni á Geirseyri er þessir atburðir urðu. Skal hér ekki lagt mat á sannleiksgildi sögunnar í öllum atriðum, en ýmsar staðreyndir eru a.m.k. réttar.
Hrekkur Sjöundárbónda: Fátt kætir kotbóndann meira en að heyra af vindhöggum og trúgirni höfðingjanna. Því kíma menn víða yfir tiltektum Hákonar (Höskuldssonar) bónda á Sjöundá (1803-1822). Jörð hans er í eigu Guðmundar Schevings sýslumanns í Haga, sem fyrir nokkrum árum keypti hlut í Saurbæjarjörðinni. Hákon taldi sig eiga sýslumanni grátt að gjalda og sat um færi til að ná sér niðri á honum. Þá var það eitt sinn að hann hitti sýslumann og tjáði honum að nú væri rekið stórt tré á Sjöundá, og gerði ekki lítið úr. Sýslumaður hugðist ekki láta það happ úr hendi sleppa; mannar stóran bát og lætur róa alla leið vesturfyrir Stálbjarg að Sjöundá. Þar fundu sendimenn þó ekki annað en fúadrumb einn; svo lítinn að binda hefði mátt öðrumegin upp á meri. Tóku hann þó með heim að Haga og sýndu sýslumanni. Hann virti drumbinn fyrir sér og varð að orði: "Hákon er alltént Hákon". Varð það að orðtaki um héraðið síðan. (Bergsteinn Skúlason; Bárusog; Breiðfirskar sagnir).
1809
Bylting Jörundar; Guðmundur frá Breiðuvík orðinn amtmaður: Mál hafa nú í júlíbyrjun skipast þannig að bóndasonurinn Guðmundur Bjarnason Scheving úr Breiðuvík í Rauðasandshreppi er orðinn amtmaður nyrðra. Er hann þannig embættismaður Jörgens Jörgenssonar sem gert hefur byltingu gegn dönskum yfirvöldum hérlendis; handtekið stiftamtmanninn Trampe greifa og lýst sjálfan sig konung yfir Íslandi. Hafa þeir félagar útbúið yfirlýsingu sem er nokkurskonar stjórnarskrá þessa nýja ríkis, og má ætla að hinn löglærði Breiðvíkingur hafi átt sinn þátt í orðalagi hennar. Jörgen kóngur hefur annars lagt á það áherslu að koma upp glæsilegri umgjörð um sinn valdastól, t.d. með því að hafa í kringum sig skrúðklæddan lífvörð með stertstýfðum hrossum; gera sér þjóðfána og koma upp fallbyssuvígi neðan Arnarhóls. Ferill hans er nokkuð ævintýralegur. Hann er fæddur Dani en þótti hyskinn við nám og var sendur til sjós, Var á breskum herskipum, m.a. við fangaflutninga til Ástralíu; skipstjóri á selveiðiskipi og í kynnum við breska fyrirmenn. Er stríð skall á milli Dana og Englendinga 1807 reyndu Danir að nota hann fyrir skipstjóra; hann gerðist liðhlaupi til Englands en var kyrrsettur þar.
Fyrstu ferð sína til Íslands fór Jörundur (eins og Íslendingar nefna hann) árið 1809, á vegum sápukaupmannsins Phelps og samstarfsmanni hans, Savignac. Þeim var í fyrstu bannað að versla hérlendis, enda stutt síðan Englendingar létu greipar sópa um Bessastaði og stálu jarðabókarsjóðnum. Aðra ferð fóru Phelps og Jörundur sama ár og komu til Reykjavíkur 21.06.1809. Þegar Trampe bannaði þeim alfarið að versla gerðu þeir áðurnefnda byltingu; tóku Trampe höndum og fluttu um borð í skip sitt; Meðal fyrstu verka Jörundar var að fara í yfirreið um ríki sitt; fyrst norður í land. Þar játuðu margir sýslumenn honum hollust sína; m.a. Guðmundur Scheving. Náðu þeir stórhugarnir vel saman og Jörundur gerði Guðmund að amtmanni sínum fyrir norðuramtið.
Breska herskipið Talbot kom til Reykjavíkur og meðan Jörundur og félagar voru þar um borð tókst Trampe að flýja. Þar með var ríki Jörundar og Guðmundar fallið; eftir tæplega tveggja mánaða valdatíð. Jones skipherra á Talbot fullvissaði dansk-íslenska ráðamenn um að byltingin væri einkaframtak Jörundar en ekki í umboði Englendinga. Jörundur fór úr landi á skipinu Orion í samfylgd skipsins Margaret & Anne. Á útleiðinni fórst það síðarnefnda í eldsvoða en Jörundur tók þá að sér skipstjórn á Orion og tókst með snarræði að bjarga áhöfninni. Sigldi svo með hana aftur til Íslands og þótti heldur betur hafa bætt fyrir þá yfirsjón sína að gera valdarán. Hann var þó handtekinn við komuna til Englands og vistaður í fangaskipi, þar sem hann fékkst við skriftir. Eftir nokkur ár sem frjáls maður var honum varpað í skuldafangelsi, en síðar gerðist hann njósnari Breta í Napóleonsstríðunum. Enn lenti hann í skuldafangelsi vegna spilafíknar sinnar og var nú sendur til Tasmaníu sem fangi. Þar vann hann sig upp í að verða læknir, eftirlitsmaður og lögregluþjónn; giftist írskri konu og lést þar 20.01.1841. Hérlendis hlaut hann nafnið hundadagakóngur, enda bar 8 vikna stjórnartíð hans upp á hundadaga. Hefur síðari tíma saga farið fremur mildum höndum um þennan ævintýragemsa, sem var nógu frakkur til að bjóða Danaveldi byrginn.
Guðmundur Scheving var sonur Bjarna Einarssonar (sonarsonar Bjarna Jónssonar í Kollsvík, sjá 1710) og Ragnheiðar Davíðsdóttur Scheving. Bjarni hafði verið fulltrúi Davíðs sýslumanns; giftist dóttur hans og var sýslumaður eftir hann 1781-1788; í Flatey 1791-1795, en síðan bóndi í Breiðuvík 1795-1799. Bjarni var frumkvöðull í saltfiskverkun (sjá 1781). Guðmundur var sýslumaður 1798-1812 og dómari í Sjöundármálinu, en missti embættið í kjölfar þessa hliðarspors með Jörundi. Hann varð síðar athafna- og útgerðarmaður í Flatey. Hann keypti skútuna Delphin með Einari Jónssyni í Kollsvík (sjá 1806), enda voru þeir mestu mátar. Einar var maður víðsýni og framfara og er því ekki ólíklegt að hann hafi fagnað því sjálfstæði þjóðarinnar sem Jörundur hundadagakóngur gaf vonir um.
Um amtmannstíð Guðmundar Scheving var þetta kveðið (höfundur óþekktur): „Sigldur stúdent sélegur;/ sýslumaður kallaður./ Átta daga amtmaður;/ agent, bóndi, kaupmaður“.
1811
Óvenju mörg dauðsföll. Óeðlilega tíð dauðsföll hafa verið í Sauðlauksdalssóknum í vetur. Hafa menn á besta aldri orðið bráðkvaddir. Í einni jarðarförinni fóru fimm lík í eina gröf. (Aldirnar).
Ekki skal fullyrt hvort hér sé um að kenna sóttarfaraldri eða öðru. Hinsvegar var veturinn mjög harður og fóru einkum sögur af harðindum á Norður- og Austurlandi. Ís var við landið og kaupskipaferðir brugðust. Þetta kann að eiga þátt í umræddum dauðsföllum, en þó er pestardauði jafnvel líklegri.
1812
Einar í Kollsvík lætur skera hval: Svo bar við eitt sinn (á þessum árum) er smalamaður Einars í Kollsvík var að gá til fjár, að hann varð var við hval rekinn í Láturdal í Hænuvíkurlandi. Einar brá fljótt við; fór með mannskap inn í Láturdal og lét skera hvalinn. Þá fannst í hvalnum skutull með fangamarki Benedikts Gabríels; hvalskutlara og hreppstjóra í Arnarfirði. Benedikt var talinn fremstur galdramanna á sinni tíð og forn í skapi. Einar þekkir mark Benedikts á járninu en biður menn sína að leyna því. Síðan lætur hann flytja heim til sín hvalinn allan á hestum tveim sem hann átti, og þeim þriðja sem hann fékk lánaðan á Láganúpi; Glóa að nafni. Á sjó gat hann ekki flutt hvalinn vegna ógæfta, en vildi fyrir hvern mun ná honum sem fyrst heim til sín.
Ekki höfðu Hænuvíkurbændur neitt af hvalnum, þótt þeir ættu rekaland til. Þorðu þeir ekki að hreyfa því máli opinberlega. Ekki er þess heldur getið að Einar hafi goldið kirkjuvættir af hvalnum til Saurbæjarkirkju á Rauðasandi, er þá var venja til. Kirkjan var talin eiga tíundu hverja vætt af öllum hvalreka sem á land kom á svæðinu frá Skor að Tálkna.
Benedikt Gabríel mun hafa fregnað hvalrekann, og það með að skutull hans hafi í honum fundist. Leitar hann nú eftir við Einar hvort hann vilji ekki greiða sér skotmannshlut af hvalnum, en því neitar Einar með öllu, með þeim orðum að Benedikt hafi engin gild rök fyrir því að hann hafi átt járn í hvalnum. Sló í orðasennu milli þeirra út af þessu. Sögur miklar spunnust af þessu atviki, og verður trauðla fullyrt hvað rétt er. En sumir vilja rekja frá þessu ýmis áföll er Einar varð síðar fyrir. (Frásagnir Helgu Einarsdóttur, TÓ o.fl).
Svo segja forn lög að þegar hval rekur á land eigi fjörumaður (eigandi fjörunnar) hann allan ef eigi er skot í, en annars skutlari hálfan þá er hann kemur til að skera. Þegar fjörumaður veit hver á skutulinn ber honum að gera skotmanni orð, ef hann býr það nálægt að sendimaður komist fram og aftur á einum degi. En ef skotmaður er ekki látinn vita þá er fjörumaður sekur um mörk (48 álnir); hálfa til konungs og hálfa til skotmanns, sem einnig fær sinn hlut af hvalnum. Þá á Saurbæjarkirkja tíundu hverja vætt af öllum hval sem rekur í sókninni eins og hún var til forna; þ.e. frá Stálfjalli að Tálknatá.
Af Benedikt Gabríel: Benedikt Gabríel Jónsson (1774-20.12.1843) ólst upp á Auðkúlu í Arnarfirði. Fékk hann millinafn sitt af því að fæðingu bar upp á dag erkiengilisins Gabríels. Sagt er að hann hafi um tíma verið vinnumaður Galdra-Ásgríms á Hjallkárseyri. Um tvítugt fór hann í vinnumennsku að næsta bæ; Rafnseyri, til Jóns Sigurðssonar (afa Jóns forseta). Felldu þau hugi saman, Benedikt og Helga, dóttir Jóns. Hún varð þunguð eftir hann og sagði sveitaryktið að Benedikt hafi vélað hana til ásta með því lauma prjónastokk með galdrarúnum undir kodda hennar. Ekki þótti hann stúlkunni samboðinn, og stóð helst gegn því Ólafur bróðir hennar. Hann hugðist fara suður og taka vígslu til Rafnseyrar, og var Benedikt fenginn til að járna hest hans. Svo fór að Ólafur drukknaði á leiðinni í ánni Pennu á Barðaströnd, og þurfti ekki vitnanna við um ástæður þess. Varð slysið til þess að Sigurður bróðir Ólafs fékk Rafnseyri; faðir Jóns forseta. Helga eignaðist annað barn með Benedikt Gabríel og sá þá faðir hennar að ekki tjáði að standa gegn ráðahagnum. Bjuggu þau fyrst á Karlsstöðum í Arnarfirði; síðan á Rauðstöðum frá 1808, en frá 1819 á Reykjafirði. Síðast bjuggu þau að Kirkjubóli í Skutulsfirði við Djúp. (KÓ; Vestfjarðarit).
Benedikt Gabríel var einstakur hagleiksmaður, bæði í tré- og málmsmíði. Einnig var hann einhver veiðisælasti sela- og hvalskutlari um alla Vestfirði. Hann var ekki menntaður, en talinn gáfumaður, góður skrifari og margfróður. Skruddu kvað hann hafa skrifað, með galdrastöfum og annarri forneskju. ( Tímaritið Akranes 1947). Margar sögur eru til af galdramennsku Benedikts; t.d. viðskiptum hans við Jóhannes Ólafsson í Kirkjubóli í Mosdal, sem ekki var síðri galdramaður sagður. (Vf sagnir). Saga er til af því er Sigurður Sigurðsson Breiðvíkingur var að smíðum í Álftamýrarkirkju, en hann var berdreyminn mjög. Benedikt hafði skutlað hvalkálf í Arnarfirði en misst hann og bar sig illa. Sigurður sagð þá að þannig hefði sig dreymt að kálfurinn myndi finnast og sjálfur fengi hann af honum. Eftir að Sigurður var kominn heim að Breiðuvík kom til hans sendimaður frá Benedikt með vænan bita af hvalkálfinum frá Benedikt. (JGJ; Árbók Barð 1953). Hinn lífseigi draugur Dalli í Sauðlauksdal var talinn sending Benedikts Gabríels til séra Gísla Ólafssonar. Sagt var að Benedikt hafi numið galdur af Ásgrími Sigurðssyni á Hjallkárseyri, sem nefndur var „Ásgrímur illi“ eða „Galdra-Keli“. Sögur þessar gerast á þeim tíma sem mesta trúarofstækið og galdrafárið er runnið af þjóðinni, en ennþá var fólki tamt að skýra óhöpp og slys með illvilja kunnáttusamra manna.
Sonur Benedikts og Helgu var m.a. séra Jón Benediktsson, prestur á Svalbarði, Goðdölum og Breiðabólstað. Benedikt Gabríel Jónsson á nokkrar tengingar í Rauðasanshrepp. T.d. voru þeir frændur í 3. og 5. lið; Benedikt og Egill Gunnlaugsson á Lambavatni, sem var langafi skrásetjara.
Látrabátur ferst í Látraröst: Hinn 4. maí þetta ár fórst í Látraröst bátur með 6 mönnum; einn komst af. Bátinn átti Sigríður Magnúsdóttir ekkja; búandi á Hvallátrum; systir þeirra Hnjótsbræðra sem drukknuðu 1781 í Blakknesröst. Hún hafði verið gift Ólafi Erlingssyni bónda í Breiðavík; Bjarnasonar bónda í Kollsvík Jónssonar, en sá Bjarni var einn hinna kunnu Sellátrabræðra. (TÓ; Sjóslysaannáll).
Sýslumannssetur á Vatneyri: Guðbrandur Jónsson hefur verið settur sýslumaður Barðstrendinga. Hann hefur, fyrstur sýslumanna, aðsetur á Vatneyri. Býr hann í húsi Bjarna Bjarnasonar sem verið hefur þar verslunarstjóri frá 1810.
Bjarni var verslunarstjóri framyfir 1820. Guðbrandur var á Vatneyri til 1817, en flutti þá að Feitsdal. Hann þótti með afburða sterkur: Skemmti hann mönnum með því að bregða tám í tvö vættarlóð (hvort 40 kíló) og ganga á þeim milli húsa eins og tréskóm. (KÓ; Vestfjarðarit).
1813
Kollsvíkurjaktin ferst: Skútan Delphin hefur farist í hafi ásamt allri áhöfn. Hún var að hluta í eigu Einars í Kollsvík, og hefur hann við þetta beðið allmikið tjón. (sjá 1806).
Kollsvíkurhestar ærast: Nú um páskana fundust loksins hestar Einars í Kollsvík sem töpuðust í vetur, en tildrögin voru þessi: Veturinn var harður að áliðnum þorra. Gerði þá jarðbönn og stórhríðar með frosti, svo taka varð hross á hús og hey. Þá gerðist það einn dag undir þorralok, er Einar bóndi í Kollsvík lét brynna hestum sínum tveimur í læk er rann þar skammt frá í víkinni, að þeir urðu sem óðir er þeir komu út. Hlupu þeir fyrst til hestanna handnantil í víkinni sem ærðust þá líka. Hlupu nú öll hrossin með æði miklu; fyrst um Víkina og síðan til fjalls. Eftir miklar eltingar náðust Grundahrossin, en hinir hestarnir þrír ekki; tveir frá Einari og hesturinn Glói frá Láganúpi. Tók þá að halla degi, og veður að spillast. Sneru leitarmenn þá aftur. Um kvöldið sást það síðast til hestanna frá Breiðavík, að þeir hlupu fram eftir Víkinni; fram svonefndar Stæður, og stefndu á fjall upp. Gekk þá á með norðaustan byl, svo ekki var hægt að veita þeim eftirför um kvöldið. Hélst bylurinn næstu dægur, svo ekki var hægt að hyggja að hestunum.
Þegar upp stytti hríðina var hafin leit að hestnum á ný. En þeir fundust ekki. Hugðu menn að þeir mundu hafa hrapað fyrir björg eða hamra, og í sjó fram, þar sem ekki fannst neitt af þeim.
Á skírdag átti ferðamaður leið um Rauðasand. Sér hann þá hest koma þar fram á brúnina milli Brekku og Lambavatns. Fundu menn þar Glóa frá Láganúpi. Hann var aðframkominn af megurð, en komst þó til byggða og varð hjúkrað, svo hann lifði af. Skammt frá honum fundu þeir hestana frá Kollsvík dauða. Lágu þeir þar á hól einum, og var allur mosi og gras þar um kring uppétinn, og ekki nema svart flag og grjót eftir þar sem þeir höfðu verið.
Þótti þessi aburður með undarlegum hætti. Settu sumir þetta í samhengi við deilur þær sem spunnust milli Einars og Benedikts Gabríels vegna hvalrekans sem áður er lýst. Sagt var að Einar hafi smíðað skeifur undir hesta sína úr skutuljárni Benedikts sem fundist hafði í hvalnum, og þótti þá ekki þurfa fleiri vitnanna við. (TÓ; Kollsvíkurætt)
1816
Einar í Kollsvík stofnfélagi Hins íslenska bókmenntafélags: Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað á þessu ári. Með því er í raun endurvakið „Hið íslenska lærdómslistarfélag“ sem stofnað var 1779, en starfsemi þess hefur legið niðri. (Félögin voru formlega sameinuð 1818). Með félaginu er vonast til að unnt verði að glæða sjálfstæða og nútímalega bókmenntamenningu á landinu, undir forystu Íslendinga sjálfra, en áhugi manna hingað til hefur einkum beinst að fornbókmenntum. Fyrstu rit sem félagið gefur út eru Sturlunga og Árbækur Espólíns.
Meðal stofnfélaga HÍB er „Einar Jónsson, forlíkunarmaður á Kollsvík“, sem gefur 32 skildinga í stofnsjóð. Aðrir stofnfélagar í Rauðasandshreppi eru t.d. séra Jón Ormsson, prófastur á Sauðlauksdal; séra Daði Jónsson, kapellán sama stað; Christian Olsen, kaupmaður á Patreksfirði; Bjarni Bjarnason, faktor á Patreksfirði; Guðbrandur Jónsson, bóndi á Geirseyri; Bjarni Halldórsson, hreppstjóri á Sellátranesi; Þórarinn Þórarinsson, forlíkunarmaður á Saurbæ; Gísli Þóroddsson söðlamakari á Kvígindisdal; Árni Þóroddsson, sama stað. Framlög bænda eru svipuð eða minni en Einars; en presta og kaupmanna gjarnan 1-2 rd. (Íslensk sagnablöð, meðlimaskrá 1816).
HÍB er elsta félag á Íslandi, og elsta bókaforlagið. Fljótlega hóf félagið útgáfu félagsritsins Skírnis, sem enn kemur út og er elsta tímarit á Norðurlöndum. Má af þessu sjá að bókmenntaáhugi var mikill í Rauðasandshreppi á þessum tíma, en vitað er að Einar í Kollsvík átti allnokkuð af góðum bókum. Starfsheitið „forlíkunarmaður“ merkir sáttagerðarmaður. Ekki hefur þótt veita af tveimur slíkum í hreppnum eftir morðin á Sjöundá.
1820
Gísli Ólafsson prestur í Sauðlauksdal: Séra Gísli Ólafsson (17.02.1777-31.03.1861), sem verið hefur aðstoðarprestur að Stað á Reykjanesi, hefur nú fengið Sauðlauksdalsprestakall. Gísli er vel liðinn af söfnuði sínum og fær góða dóma fyrir prestverkin; raddmaður góður; ekki andlitsfríður; fjörkálfur mikill; fimur vel; rammur að afli og allnokkur drykkjumaður.
Gísli hefur orðið allfrægur af sögum sem um hann mynduðust. Einkum er það þó draugurinn Dalli sem heldur uppi nafni hans. Sumir sögðu að Dalli hafi upphaflega verið sending frá galdramanninum Benedikt Gabríel í Arnarfirði (sjá 1812) eftir ósætti hans við Gísla. Dalla var ýmislegt slæmt eignað; fyrst það að dætur Gísla trufluðust á geði, en síðan fylgdi Dalli Gísla meðan hann lifði og gerði ýmsan óskunda. Einnig hefur hann fylgt mörgum afkomendum Gísla til þessa dags, að því er sumir telja. Magnús sonur Gísla tók við prestskap eftir hann, en gamli maðurinn leysti hann þó af í veikindum. Gísli bjó síðast í Efri-Dalshúsum í túnfætinum í Sauðlauksdal.
Sigurður Breiðvíkingur berst við draug á Hjallasandi: Sigurður Sigurðsson frá Breiðavík (sonur Sigurðar „fljóta“, sjá 1772) lenti í hremmingum er hann fór til róðra á Hjallasand á Snæfellsnesi í vetur. Þar var maður sá er Þórður Andrésson heitir. Andrés bróðir Þórðar hafði einnig róið þar, en bátur hans farist í upphafi vertíðar. Báðir höfðu lagt sig eftir ástum sömu stúlkunnar og fór nú Þórður að gera sér dælla við hana, en varð ítrekað fyrir ásókn bróður síns í fleti sínu. Þórður fékk Sigurð eina nóttina til að sofa fyrir framan sig. Tókst Sigurður á við drauginn í draumi sínum og hafði betur. Aðra nótt fór á sömu leið. Hið þriðja sinnið flýgur draugurinn enn á hann í draumi, en Sigurði þykir þá að hann taki sax og brytji drauginn í spað. Varð hans ekki vart eftir það. (Þjóðs. JÁ og Ábúendatal TÓ). Sigurður fékk viðurnefnin „Breiðvíkingur“; „sterki“ og „bátasmiður“. Hann lést 1885 (sjá þar).
1821
Bátur ferst í hákarlalegu: Hinn 22. maí drukknaði Gunnlaugur Jónsson frá Mábergi og með honum 7 menn í hákarlalegu. Sysið varð skammt suður af Bjargtöngum. Gunnlaugur var þá formaður á Brunnum á Hvallátrum. Hafði hann fengið ýmsa menn úr verstöðinni til að fara með sér í þessa legu. Eitt eða fleiri skip hafa auk þess verið í legu á sömu slóðum, því að svo segir að þeir höfðu fengið 12 hákarla og alla stóra er skip kippti hjá þeim. Enginn komst af. (TÓ; Sjóslysaannáll).
Aukin sókn í hákarl: Mikið er nú sótt í hákarl, og stórjókst sóknin eftir nýja verskrá árið 1763, er verð á hákarlalýsi hækkaði úr 160 fiskum tunnan í 230 fiska; og enn meiri hækkun sem síðar varð. Í konunglegri tilskipun 28.02.1758 segir að hver maður sem á tvo sexæringa eða áttæringa haldi a.m.k. öðrum þeirra úti til hákarlaveiða þegar veður leyfir. (LK; Ísl.sjávarh. III). Má ætla að þessi aukna eftirspurn hákarlalýsins stafi ekki síst af stækkun evrópskra borga og noktun lýsis til ljósa, m.a. götulýsinga.
1822
Bátur frá Brunnum ferst: Eggert Jónsson í Saurbæ reri um morguninn 13. maí 1822 frá Brunnum, og með honum 8 hásetar hans. Fengu þeir mikinn steinbítsafla yfir daginn, svo báturinn var nokkuð hlaðinn. Reru þeir upp á boða; að er virðist af aðgæsluleysi. Bátnum hvolfdi, en 5 mannanna komust á kjöl og var þeim bjargað úr landi. (TÓ; Sjóslysaannáll).
1824
Breiðuvíkursókn stofnuð: Með sérstöku konungsbréfi hefur nú verið stofnuð sérstök sókn úr hluta Saurbæjarsóknar; Breiðavíkursókn, sem nær yfir Útvíkur og Keflavík. Jafnframt verður byggð sóknarkirkja í Breiðuvík. Þar hefur, frá 1431, verið bænhús í kaþólskum sið sem hefur áfram hefur verið notað eftir siðaskipti sem hálfkirkja og messað tvisvar á ári.
Bænhúsið í Breiðuvík stóð við austurgafl núverandi hótelsamstæðu. Ekki er vitað hve lengi því var við haldið. Kirkja og kirkjugarður voru hinsvegar staðsett nokkru norðar í túninu. Fyrsta kirkjan var byggð 1825, ári eftir stofnun sóknarinnar. Sú torfkirkja var rifin 1899 (sjá þar) og byggð timburkirkja. 1964 var vígð steinsteypt kirkja á öðrum stað; ofan Breiðavíkurréttar.
Verslunareigandi sest að á Vatneyri: Christian Michael Steenbach er nú eigandi Vatneyrarverslunar og hefur sest að á staðnum ásamt konu sinni. Er hann fyrstur verslunareigenda til að sitja staðinn, en hingað til hafa eigendur haft þar verslunarstjóra á sínum vegum.
Steenbach er ekki lengur talinn kaupmaður í sóknarmannatali Sauðlauksdals 1838. Þá er Nicolaj Knudtzon orðinn eigandi verslunarinnar með konu sinni Ane Margrethe. 1840 er Knudtzon látinn en ekkja hans rekur staðinn með William Thomsen assistent. Hann kvæntist ekkjunni og 1845 áttu þau 4 börn. Thomsen kaupmaður missti heilsuna og andaðist á Vatneyri 1853. Árið 1855 kom Steenbach aftur og verslaði í rúman áratug. (KÓ; Vestfjarðarit).
Hákarlaskip ferst í Blakknesröst: Árni Þóroddsson bóndi í Kvígindisdal fórst á landleið úr hákarlalegu 22. maí 1824, og með honum 8 hásetar. Skipið hét Hreggviður. Annað hákarlaskip kom þar að þegar Árni var að leysa upp og lagðist í sama pláss. Lágu þeir þar til þeir höfðu fengið 10 hákarla, en síðar tók að hvessa. Þeir náðu landi eftir að skornir höfðu verið af sex hákarlar; líklega á Sellátranesi. Sést hafði til Árna fyrir Straumnesið; þegar veðuræsingurinn mestur þaut á, en síðan spurðist ekki til bátsins. Sagt var að skip Árna hafi rekið um haustið í Tékyllisvík á Ströndum og að í því hefðu verið nokkrir hákarlsbútar. Hafi því hákarlinn verið skorinn frá að lokum, en ekki fyrr en um seinan. (TÓ; Sjóslysaannáll).
1825
Fyrsta kirkjan í Breiðuvíkursókn: Í kjölfarið á stofnun Breiðavíkursóknar á síðasta ári hefur nú verið byggð torfkirkja í kirkjugarðinum miðjum.
Torfkirkjan var endurbyggð 1842 og aftur 1873, en rifin 1899 sjá þar.
1829
Bátur Magnúsar sútara ferst: „Magnús sútari reri þetta vor í Breiðavík. Var það einn morgun að stormur var landsunnan og vildi Magnús þá róa. Kom svo að hann reri tvívegis en sneri aftur hvert sinn. Þó reri hann í þriðja sinn þegar lygndi, en þegar hljóp á útnyrðingur með ylgju mikilli. Ókyrrðist mjög sjór við það, svo illlendandi var. En er Magnús hugði í land að halda bar skipið á boða norðan lendingarinnar. Fyllti það þegar og hvolfdi og fórust þar allir er á voru nema einn. Honum skaut upp, svo að sá í koll honum og hárið. Fengu Breiðvíkingar sem á eftir komu borgið honum“ (GK; Látramannaþáttur).
1833
Vatneyri opinber höndlunarstaður: Með opnu konungsbréfi útgefnu 28.12.1833 er Vatneyri talin meðal þeirra staða er áður hétu „authoriseraðir útleggjarastaðir“, en skulu hér eftir heita „authoriseraðir höndlunarstaðir“. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012). Lengi hefur þar verið helsti verslunarstaður Rauðasandshrepps, enda er hvergi betri höfn í hreppnum fyrir hin stóru millilandaskip.
1835
Orfhólkar í stað ljábanda. Hugvitsmaðurinn Þórður Árnason á Skarði í Landssveit hefur fundið upp nytsama nýjung í landbúnaði. Smíðaði hann hólka úr járni sem nota má til að festa ljá í orf. Koma þeir í stað lébanda (ljábanda); sem hingað til hafa verið notaðir í þessu skyni. Léböndin voru skinnþvengir sem reyrðir voru að ljáþjói og orfi og síðan rekinn fleygur (orffleyfur) í til herslu. Slakna vildi á böndunum og þurfti sífellt að herða þau. Með orfhólkunum sparast því mikill tími og fyrirhöfn, og er þetta því mikil framför í sláttutækni. Þórður (1803-1862) er prestssonur frá Hofi á Skagaströnd; bróðir Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara.
1836
Einar í Kollsvík fallinn frá: Hinn 13. desember lést í Kollsvík Einar Jónsson bóndi þar; 77 ára að aldri. Einar hefur verið einn helsti höfðingi og forystumaður sinnar samtíðar á sunnanverðum Vestfjörðum. Hann bjó stórbúi í Kollsvík og rak umfangsmikinn útveg í Kollsvíkurveri. Hann var hreppstjóri Rauðasandshrepps frá 1801, meira og minna til 1833, er Einar sonur hans tók við. Einar var lesinn og fróður maður og víðsýnni en almennt gerist, t.d. í trúmálum. Eins og títt er um slíka menn urðu til ýmsar sögur um hann, jafnvel að hann kynni ýmislegt fyrir sér í göldrum. Hann lét sér annt um þjóðlega verkkunnáttu sem verið hefur á undanhaldi. Til merkis um það er járnvinnsla hans, en Einar mun hafa orðið síðastur Íslendinga til að stunda rauðablástur; all löngu eftir að slíkt var aflagt og innflutt járn orðið fáanlegt. Hann varð einna fyrstur Íslendinga til að sjá möguleikana sem felast í útgerð þilskipa, en hann lagði fé til kaupa á jaktinni Delphin, ásamt Guðmundi Scheving frænda Guðrúnar, konu Einars. Svo sterkum rótum stóð fjárhagur Einars að lítt dalaði þegar skútan fórst í hafi nokkru síðar.
1837
Áttæringur ferst í Látraröst: Skip Gísla Ísleifssonar fórst í Látraröst 26. maí, og auk hans drukknuðu 9 menn. Mun skipið hafa verið áttæringur. „Ekki var veður hvasst er Gísli reri, en hvessti þegar leið á daginn. Er mælt að þilskip eitt sæi það að Gísli færist í Látraröst með öllum hásetum sínum. Veturinn eftir rak nokkurn fatnað þeirra og bein sumra, að sagt er“ (GK og TÓ; Sjóslysaannáll).
1840
Sóknarlýsingar séra Gísla: Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal (sjá 1820) hefur ritað stutta lýsingu á Sauðlauksdals-, Breiðavíkur- og Saurbæjarsóknum. Fátt telur hann þess virði að vinna úr jörð. Þó er surtarbrandur nýttur til steinkola og smíða á smáborðum og kistlum. Smákratskógar eru í Vestur-Botni, Skógi og Melanesi, en fer aftur, þar sem þeir eru brúkaðir til dengslukola og beitar. Höfn er einasta á Vatneyri. Eina stöðuvatnið er Sauðlauksdalsvatn; þar gætir sjávarfalla sem nemur þverhönd. Skruggur heyrast tíðlega á vetrum; kalla menn það boði góðan vetur heyrist þær fyrir nýár, en vondan ef síðar. Rauðasandsbændur hafa skipauppsátur á Naustabrekku. Fiskijaktir fordjerfa miðin fyrir ströndum hreppsins „með að hleypa niður hákarlaskrokkum hvar við bændur fátækir líða tjón á afla sínum árlega“. Hólar í Láganúpslandi fóru í eyði í Stórubólu 1707, en Básar í Seljavík niðurfallnir í Svartadauða. Vatneyri er kauptún með þremur timburhúsum. Næstum á helmingi bæja er stunduð kálgarðarækt. Vinna er á vorin sjóróðrar; á sumrum sláttur; á vetrum tóvinna og vefnaður. Sláttur byrjar í þrettándu viku sumars og endast á Mikaelsmessu (29.sept). Engin hljóðfæri tíðkast, því enginn kann og enginn þekkir nótnasöng íslenskan né danskan utan presturinn, en margir syngja vel. Margir eru skrifandi af bændum og uppvaxandi unglingum og sumt kvenfólk; í allt 200. Gamalt fólk af bændastétt og ungbörn kunna lítið til skriftar. Siðferði í hreppnum er sómasamlegt. Læknar eru engir og ekki heldur eiðsvarnar yfirsetukonur; sjúkdómar eru mest epidemie (smitpestir) og kvefþyngsli vor og haust. Mest þjáir sauðpening höfuðsótt og þarf þá að aflífa skepnurnar. Allar fornsögur sem nú eru prentaðar og boðnar til kaups finnast hér, og enn fleiri nú, og mörg kvæði forn og ný og rímnadruslur. Af fornleifum hér í hreppi vita menn ekki.
Byggð á Kryppu: Hjalti Hasaelsson hefur síðastliðin sjö ár búið á Kryppu; nýbýli sem hann stofnaði innanvert í Hnjótslandi 1833. Hann fær nú 10 hdr úr heimajörðinni. Hjalti er bróðursonur Einars hreppstjóra í Kollsvík Jónssonar. Kona Hjalta er Gunnhildur Bjarnadóttir frá Breiðuvík.
Þetta var eina byggð á Kryppu sem vitað er um, en bærinn var líklega í túninu neðanvið núverandi safnhús og þjóðveg.
1845
Brynjólfur sterki sækir hellustein: Á þessum árum er útræði mikið frá Brunnaverstöð á Hvallátrum. Meðal vermanna á Brunnum þessa vertíð er nær þrítugur bóndi frá Sjöundá á Rauðasandi; Brynjólfur Eggertsson. Fæddur er hann á Heggstöðum í Miðfirði en móðir hans var frá Saurbæ á Rauðasandi. Brynjólfur er ekki hár vexti, en afrenndur að afli. Vita menn ekki að honum hefði nokkurntíma orðið afls vant. Dag einn vanhagaði hann um stein til einhverra nota við búð sína; e.t.v. hleðslu- eða barningsstein. Félagar hans hugðust þá láta reyna á krafta hans og mönuðu hann til að sækja mikið bjarg niðri í fjörunni. Útbúnir voru öflugir fatlar og fjórir hraustustu mennirnir bisuðu aflangri hellunni á bak Brynjólfi. Kjagaði hann síðan í rólegheitum með bjargið á baki upp sleipt fjörugrjótið og upp á Brunnagrund. Svo segir sagan að ekki hafi hann blásið úr nös eftir þrekvirkið. Hellan hefur síðan verið vegin og reyndist 281 kg að þyngd.
Óvíst er með nákvæmt ártal ofangreinds. Brynjólfur varð næsta ár bóndi á Melanesi. 1853 býr hann í Kirkjuhvammi en flutti síðan norður í Djúp og lést í Gjörfidal 1872: 66 ára að aldri. Sonur hans var Runólfur í Kirkjuhvammi, en dóttir Runólfs var Ingibjörg, kona Gests Jósepssonar sem bjó um tíma í Kollsvík. Brynjólfstak er vinsæll aflraunasteinn á Brunnum. (ÁE; Ljós við Látraröst o.fl.).
Manntalið 1845: Í Kollsvík búa nú samtals 32. Þar af búa á Kollsvíkurheimilunum tveimur 16; á Láganúpi 7 og á Grundum 9. (Á Vatneyri búa 17 og á Geirseyri 9.
1846
Útræði í Keflavík: Útræði hófst aftur í Keflavík fyrir nokkrum árum. Þaðan gengu í vor 13 skip. (Gestur Vestfirðingur, 1.árg).
Verstöð hefur líklega verið í Keflavík frá upphafi skreiðarsölu, líkt og í Útvíkum. Árið 1703 er þar verstöð með 7 verbúðum og ganga þaðan 2 áttæringar; 2 sexæringar og 3 fimmmannaför. Allt í eigu Guðrúnar Eggertsdóttur í Saurbæ og ofbýður ÁM skrásetjara kjör háseta hennar. Útgerð var í Keflavík eitthvað frameftir 19.öld. Síðastur reri þar Sveinn Magnússon á Lambavatni, kringum 1900. Heimræði var þar meðan jörðin var í byggð, til 1934. (Jarðabók ÁM, PJ og Örn.skrá).
1847
Íslendingur hefur verslun á Vatneyri: Þorsteinn Þorsteinsson(eldri) hefur nú hafið verslunarrekstur á Vatneyri og sest þar að, ásamt Hildi konu sinni; dóttur Guðmundar Scheving (frá Breiðuvík, kaupmanns í Flatey og viðskiptafélaga Einars í Kollsvík). Þau eru bæði um þrítugsaldur.
Þorsteinn verslaði á Vatneyri í um 4 ár en síðan á Geirseyri í 3 ár; fyrstur kaupmanna þar. Gerðist eftir það verslunarstjóri á Þingeyri. Sonur Þorsteins, framhjá konu sinni, var Pétur J. Thorsteinsson, athafnamaður á Bíldudal, en fyrirtæki hans komu við sögu verslunar og útgerðar á Patreksfirði eftir næstu aldamót. Sjá einnig 1852 um Þorstein. (KÓ; Vestfjarðarit).
Engin vínneysla í Barðastrandasýslu: Tímaritið Gestur Vestfirðingur gerir úttekt á ýmsum atvinnu- og samfélagsháttum í ritinu á þessu ári. Meðal annars er fjallað um bindindismál og áfengisneyslu en um það segir: „ … tek ég til um Barðastrandasýslu, því svo má kalla að ei sé þar keypt, og því síður drukkið, brennivín eður aðrir áfengir drykkir; þegar ég undanskil einstaka gamla drykkjurúta. Enda hafa kaupmennirnir á Flatey, Bíldudal og Reykjafirði minkað svo aðflutninga brennivíns að í sumar sem leið komu ei nema fáar tunnur brennivíns: Ein í verslun Sigurðar kaupmanns Jónssonar í Flatey; þrjár til Þorleifs kaupmanns Jónssonar á Bíldudal og þrjár til kaupmannsfulltrúa Jóns sál. Salómonssonar á Reykjafirði. Er vonandi að fyrirtæki þessu verði haldið áfram, því þar er einhverr hinn vissasti vegur til að sporna við ofdrykkju í landinu þegar verzlunarmennirnir sjálfir eru svo dreinglundaðir að hætta brennivíns austri og sölu“. (Gestur Vestfirðingur 1.tbl 1847).
1849
Lestrarfélag í Sauðlauksdalsprestakalli: "Nú á árinu 1849 er stofnsett í Barðastrandarsýslu; Sauðlauksdals-prestakalls lestrarfélag".
Áður höfðu önnur lestrarfélög verið stofnuð í sýslunni. Framfarafélagið í Flatey var stofnsett 1835. Það eignaðist á þessu ári 186 bækur, gefnar að tilhlutan Jóns Sigurðssonar, en átti fyrir 780 bækur. Það gefur út ritið Gest Vestfirðing. Lestrarfélagið í Gufudalssveit var stofnsett 1843 og á nú 200 bækur. Einnig er starfandi Baðastrandasýslu lestrarfélag, stofnsett í fyrstu af Guðmundi Scheving kaupstjóra, og verið er að stofna Múlasveitar lestrarfélag, í útkirkjusókn Flateyjarprestakalls. (Gestur Vestfirðingur 01.01.1850). Lestrarfélag Sauðlauksdalssóknar var líklega sama félagið og hér getur í upphafi, en það var starfandi framundir það að Rauðasandshreppur sameinaðist öðrum í Vesturbyggð. Hafði þá fyrir nokkru sameinast lestrarfélagi Breiðavíkursóknar. Þriðja lestrarfélagið var Lestrarfélag Rauðasands, sem um tíma var mjög öflugt, en Rauðsendingar vildu ekki sameiningu við félög í úthreppnum og má segja að félagið hafi dagað uppi.
Ókind á Látrabjargi: „Maður einn í Rauðasandshreppi var á ferð í þokuúða fram á Látrabjargi í haust er var, og tjáir sig heyrt hafa óvanalegs dýrs org og grjótskruðning sem nálgaðist hann meir og meir; þangað til hann sá skepnu ókenda mjög nærri sér. Eptir lýsingu hans er að ráða sem verið hafi samkynja skepna og sú er Gestur segir frá í fyrra, bls 41-42, og ganga sögur frá að menn beggja vega á útnesjum Breiðafjarðar hafi orðið varir við þesskonar skepnu áður fyrri. Af því þessi maður var einn á ferð er hann sá þetta, og margt sýnist öðruvísi en er í þokunni; einkum ef menn verða hræddir, þá er slept að segja frá leingri ferðasögu hans. Enn þó vér ei vefengjum tilhæfi hennar, þar eð vér erum þeirrar meiningar að þetta nú ókunna láðs og lagar dýr muni vera til við Vestfirði“ (Gestur Vestfirðingur; 1.tbl 1849; kaflaheiti; Náttúruafbrigði).
Fjórðungsþing haldið að Kollabúðum í Þorskafirði: Hinn 18.06.1849 var boðað til hins fyrsta fjórðungsfundar fyrir Vestfirði síðan Íslendingar afsöluðu raunverulegu þingræði sínu í hendur Norðmönnum með Gamla sáttmála árið 1262. Alþingi á Þingvöllum var "endurreist" 1845 sem ráðgjafarþing, og 1875 sem löggjafarþing í kjölfar nýrrar stjórnarskrár frá Danakóngi. Eftir það vaknaði áhugi á endurvakningu fjórðungsþinganna á hinum fornu þingstöðum. Urðu Vestfirðingar fyrstir til þess með boðun þessa fundar (stutt síðar var boðað til Þórsnesþings). Fundinn sóttu um 80 manns úr fjórðungnum, og var áhugi og viðbúnaður mikill. Menn bjuggu í tjöldum, en fundurinn var haldinn undir berum himni.
Árið eftir hófst fundurinn 22.06.1850, og sóttu hann 140 manns. Þá var fullgerð stór búðartóft sem rúmaði allan þingheim og vel það, og hún tjölduð. Kollabúðarfundir voru haldnir af og til, oftast annað hvert ár, til ársins 1865. Þá var grind þingbúðarinnar að mestu fallin og voðirnar ónýtar. (Jochum M. Eggertsson; Árbók Barð. 1953).
1850
Tvö bjarndýr vegin undir Látrabjargi: Menn úr Eyjahreppi í Breiðafirði, sem voru í skreiðarferð í Útvíkur (kringum 1850), sáu tvö bjarndýr á Stórurð undir Látrabjargi. Var þetta birna með hún. Látramenn fréttu þessi ótíðindi og þótti ráðlegast að reyna að vinna dýrin. Þrír fóru til þess verks; Bjarni Björnsson, þá bóndi í Keflavík var foringi þeirra, en með honum var sonur hans, Björn Bjarnason á Hvallátrum og Jón Torfason bóndi á Hnjóti. Farið var á tveimur sexæringum frá Látrum og lent undir Lundavelli (Látravelli), innan við Stórurð. Bjarni skaut birnuna er hún ætlaði að leggja til sunds og stuttu síðar húninn. Ekki þótti ketið gott til átu og lítið verð fékkst fyrir feldina.
Sölvatekja leggst af: Í Útvíkum hafa söl um aldir verið nýtt eins og annað fjörugagn, en nú er þessi útvegur að leggjast af. Söl hafa t.d. verið tekin á Sölvatanga á Hvallátrum og á fremstu töngum í Kollsvíkinni og hafa verið góð búbót. Þau eru tekin um stórstraumsfjöru, einkum um höfuðdagsstrauminn. Eftir tínslu eru þau útvötnuð, þurrkuð og geymd á þurrum stað. Þeirra er gjarnan neytt með öðrum mat t.d. fiski og sýra drukkin með. Söl eru talin hafa mikinn lækningamátt, ekki síst við hjartasjúkdómum og niðurgangi. (LK;Ísl.sjávarh I; DE; PJ; BH.) Einnig hefur marínkjarni (bjalla) verið nýttur til manneldis, svo og gvendargrös (fjörugrös) og ætiþari. (Ætla má að Gvendarhlein í Kollsvík beri nafn af nytjum gvendargrasa á henni).
Verslun og verðlag innanlands: „Verðlagið hefir, eins og vant er hér vestra, verið nokkuð ýmislegt, og væri það leiðinlegt að tína það alt upp á hverjum verzlunarstað út af fyrir sig, en eins og fyrr mun sölulagið hafa verið einna lakast í Ólafsvík, og á nokkrum stöðum í norðvesturkaupstöðunum , svo sem Bíldudal og Dýrafirði. Þar er sagt að rúgur og mjöl væri selt á 8 rbd. tunnan, grjón 10 rbd., og eins voru þau dýr á Kúvíkum. Á hinum verzlunarstöðunum; Búðum, Stykkishólmi, Flatey, Vatneyri og Ísafirði, á 7 og 9 rbd. Tjara sem fékkst; tunnan 12 rbd., og þar yfir, steinkol 3 rbd, færi 60 faðm 9 mörk, 40 faðrn 4 mörk og 8 sk, járn 8 og 9 sk, og 12 sk. Kaffi 20 og 22 sk, enda sumstaðar 24 sk, sykur 2 sk dýrara; rjól 36 til 40 sk; rulla 48 sk; salt 4 rbd, það litið sem fékkst, og á stundum í kútatali selt 28 sk. Þó má geta þess að fáeinar salttunnur, sem lausakaupmenn komu með frá Reykjavík, voru seldar á 3 rbd, og færi þeirra 8 mörk. Sum kramvara svo kölluð var nokkuð verðlægri hjá þeim en fastakaupmönnum. Það orð leikur á að flestar vefnaðarvörur og önnur innanbúðar kramvara sé talsvert dýrari hér vestra en hún er seld syðra og nyrðra; en má ske það sé nú last sem á leggst. Innlendar vörur hafa nú þannig borgazt: Tólgar og ullar pundið (hvít ull) með 16 sk., mislit ull 14 sk, lýsistunnan 18 rbd, og í Flatey, Ísafirði og Stykkishólmi nokkuð með 20 rbd. Eingirnissokkar 12 og 14 sk, og í Flatey 16 sk, vetlíngar 5 og 6 sk, lambskinn eins. Refskinn mórauð 2 og 2 ½ rbd til 3 rbd, en hvít 24 sk til 5 marka. Fiður vel vandaö 24 til 32 sk. Dún 15 mörk og 16, en á Reykjarfirði 3 rbd, og eptir það lausakaupmaðurinn fór úr Flatey, sem borgaði að eins dún með 15 mörkum, tjáist, að kaupmenn þar hafi gefið 3 rbd fyrir pundið, og 18 sk fyrir hvíta ull. Harður fiskur, það sem ekki var rekið af honum fyrir megurðar sakir og vanþrifa, 12, 13 og 14 rbd, saltfiskur 12 —15 rbd“. (Gestur Vestfirðingur 1.tbl 1850). (Sjá inn- og útflutning 1870).
1852
Verslun leyfð á Geirseyri: Þorsteinn Þorsteinsson (eldri, sem síðar var í Æðey) hefur fengið leyfi innanríkisráðuneytisins til að byggja verslunarhús á Geirseyri og versla í þeim. Verslunin er ekki fjarri versluninni sem fyrir er á Vatneyri, en rök ráðuneytisins eru m.a. þau að hagkvæmt sé að samnýta hafnaraðstöðuna.
Þorsteinn reisti lítið verslunarhús með steinveggjum niðri við sjóinn, en rak verslunina einungis í 3 ár; þá seldi hann jörðina og lagðist verslun af til 1868, sjá þar. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Séra Magnús Gíslason prestur í Sauðlauksdal: Magnús Gíslason (23.12.1819-23.04.1904) tekur nú við Sauðlauksdalsprestakalli. Hann er sonur séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal og var aðstoðarprestur hans um tíma áður en hann fékk brauðið.
Fékk lausn vegna vanheilsu 1879; fluttist að Kvígindsdal og var þar til æviloka. Kvæntur Steinvöru Eggertsdóttur; þau barnlaus. Séra Magnús var einn af þeim síðustu sem útskrifaðist úr Bessastaðaskóla. Gísli tók þá aftur við prestþjónustu um tíma í veikindum Magnúsar.
Eftirlaun Sauðlauksdalsprests: „Emirítaprestur er í brauðinu (Sauðlauksdalsprestakalli) sem nýtur árlega á meðan hann lifir 1/3 af öllum föstum tekjum þess. Þar að auki veitist honum eftirgjaldslaust hjáleigan Dalshús til ábýlis meðan hann þarf þess við; ásamt 1/3 silungsveiðar í svonefndu Dalsvatni; öldungis á eigin kostnað“. (Ný tíðindi 10.03.1852).
Hér er átt við kotið Efri-Dalshús, framan túns í Sauðlauksdal. Má ætla að séra Gísli Ólafsson hafi getað notið þessara eftirlauna til dauðadags 31.03.1861, en hann býr þó ekki þar 1860.
Hrap úr Háhöldum: Bjarni Gíslason hrapaði til bana úr Háhöldum, sem eru niður af Stígnum í Bæjarbjargi. Lík hans náðist. (MG; Látrabjarg, eftir sögnum GK).
1854
Ættarveldi í Saurbæ á enda: Ari Finnsson frá Eyri í Kollafirði hefur nú keypt Saurbæ og tekið þar við búsforráðum af Eggert Eggertssyni. Eggert var síðastur í langri röð afkomenda Eggertar Hannessonar, sem fékk Saurbæ árið 1554 í umróti siðaskiptanna, og hefur því sú ætt drottnað yfir Saurbæ, og þar með Rauðasandshreppi, í rétt 300 ár. Hafa þeir höfðingjar löngum verið ríkasta fólk landsins, enda vel kunnað að koma ár sinni fyrir borð og nýta m.a. gríðarlegar tekjur af skreiðarverkun í Útvíkum. Bæjarveldið tók þó þegar að hrörna nokkuð við dauða Guðrúnar Eggertsdóttur 1724 (sjá þar).
Ari Finnsson er kvæntur Guðrúnu Gísladóttur úr Strandasýslu; ekkju Eggerts Eggertssonar.
Ari Finnsson þótti góður búhöldur og efnaðist vel í Saurbæ. Hann var mikill áhugamaður um stjórnmál og framfarir og í kunningsskap við Jón forseta Sigurðsson. Hann andaðist 1901; 83 ára að aldri, en þá hafði tengdasonur hans tekið við búi; Ólafur Ólafsson Thorlacius frá Dufansdal. Sigurður Árnason (f. 1877 og uppalinn í Hænuvík) sá Ara aldraðan og lýsir honum svo: "Enginn þótti hann fríðleiksmaður. Var lítill vexti og horaður mjög; svo boginn í baki og hnjám að furðu sætti og sýndist miklu minni vegna þess. Andlit hans var móleitt og beinabert, en augun gáfuleg og tindrandi. Var Ari orðlagður vitmaður og framúrskarandi í lögvísi; nokkurskonar Njáll á því sviði. Hann var lang ríkasti bóndinn í hreppnum. Fór mikið orð af "Bæjarauðnum", sem sleitulaust hafði haldist í margar aldir. Ari var álitinn höfðingsmaður" (SÁ; Með straumnum).
1855
Fjárkláðinn kominn aftur til landsins: Kominn er upp alvarlegur fjárkláði í landinu, sem rakinn er til fjögurra enskra lambhrúta sem áttu að fara í Hraungerði í Flóa en voru vistaðir að Mosfelli. Geisaði fjárkláðinn einkum á Suðurlandi og upp í Borgarfjörð.
Náðist að uppræta kláðann að mestu um 1879 með böðun og niðurskurði sauðfjár. Áfram var þó skylt að baða sauðfé fram á síðari hluta 20.aldar.
Manntalið 1855: Í Kollsvíkurbænum eru 13 manns; 8 fullorðnir og 5 börn. Á Láganúpi búa 8; 7 fullorðnir og 1 barn. Á Grundum eru sömuleiðis 8; 5 fullorðnir og 3 börn. Alls eru því 29 manns búsett í Kollsvík þetta ár. (Þá eru 10 á Vatneyri og 9 á Geirseyri).
1856
Stekkur í eyði eftir skamma ábúð: Ólafur Þorgrímsson (26.07.1819-08.07.1864) frá Breiðuvík og Þóra Þórðardóttir (1816-16.05.1874) hafa nú hætt búskap á Stekk, norðantil í Breiðuvík, en þar stofnuðu þau kotbýli um 1840. Þau flytja nú búferlum að Grundum í Kollsvík ásamt eftirlifandi 2 börnum sínu, en 4 hafa þau misst. Stekkur nefndist einnig „Urðarhvammur“, og var fyrrum stekkur frá Breiðuvík.
Banaslys í Hvanngjá: Halldór Bjarnason, ungur og ókvæntur maður, hrapaði úr Hvanngjá. Lík hans hefur ekki fundist. (MG; Látrabjarg, eftir sögnum GK).
1857
Hamfarir valda mannskaða í Kollsvík: Fimmtudagsmorguninn hinn 3. desember dundu ógnar hamfarir yfir Kollsvíkurbæinn sem ollu gríðarlegu eignatjóni og urðu tveimur manneskjum að bana. Aðdragandinn var sá að hlaðið hafði niður slíkri fönn í logni að þungfært var um fyrir djúpfenni. Þennan morgun var kominn austnorðan garður og frost. Guðbjartur Ólafsson bóndi í Kollsvík hafði farið út að Látrum. Í stofunni stóðu yfir endurbætur og vann Sturla Einarsson smiður að því að fella lista neðan loftaklæðningar. Átta manneskjur voru í baðstofunni en annað fólk var úti við morgungegningar.
Skyndilega heyrðust ógnar skruðningar, líkt og himinn og jörð væri að farast, Sturla tók viðbragð, rétt í þann mund að stofan sprakk í tætlur, hljóp eftir kistum og náði að troða sér út um glufu í gaflinum. Hann hugðist leita skjóls í bænum, en hann stóð þá ekki lengur og göngin voru full af snjó. Innan úr rústunum heyrði hann Halldóru gömlu Tómasdóttur kalla, en hún hafði verið í búri að matbúa. Slá í standþili hafði varið hana er þak baðstofunnar hrundi. Í þann mund er Sturla dró Halldóru út kom til hans Bjarni Bjarnason yngri, barnakennari, en hann hafði náð að smeygja sér út með upsinni um leið og baðstofan féll. Þeim tókst að bjarga Magdalenu Halldórsdóttur húsfreyju, sem þá var ólétt, og sakaði hvorki konu né barn. Ekki varð fleirum bjargað að sinni, enda versnaði veður fljótt. Næsta dag hafði dregið úr veðurofsanum og leit var haldið áfram. Fundust þá systkinin þrjú; Gísli, Guðrún og Dagbjartur. Gísli var dofinn neðan mittis og dó áður en dagurinn leið. Þrennt var enn týnt og dvínuðu vonir um að finna þau á lífi. Guðbjartur kom heim á föstudagskvöldið. Næsta dag var sent eftir leitarmönnum inn á Bæi og komu þeir á sunnudagsmorgun. Þá var veður orðið gott og fyrst hægt að grafa rústirnar upp. Börnin tvö fundust sitt í hvoru rúmi og hafði þil milli rúmanna varnað því að þau köfnuðu undir þekjunni. Yngra barnið, Halldóru Guðbjartsdóttur, hafði kalið á hönd og missti hún framan af litla fingri. Ingibjörg Bjarnadóttir, móðir Bjarna yngra, fannst loks látin í göngunum. Hafði hún kafnað undir fönninni.
Svo mikill var krafturinn í þessari sprengingu að galti við baðstofugaflinn var sundurskorinn um miðju, líkt og eftir hníf. Brakið hafði þeyst undan brekkunni; þvert á vindáttina. Bjarni hafði misst reku sem hann hélt á er hann kom úr hlöðunni og fannst hún er snjóa leysti; 200 föðmum neðar. (Frásögn Sturlu Einarssonar o.fl.).
Ýmsar tilgátur komust á kreik um eðli þessara hamfara. Sögðu sumir það vera af völdum „fítonsanda“ en aðrir að þarna hefði „hvirfilbylur“ verið á ferð, og varð sú saga lífseig. Síðari tíma þekking bendir til þess að hér hafi verið um snjóflóð að ræða. Til þess benda allar aðstæður, en einnig sú staðreynd að rétt fyrir aldamótin 2000 féll snjóflóð úr Núpnum á nákvæmlega þessum stað; yfir gamla bæjarhólinn í Kollsvík.
1858
Hrap í Keflavíkurbjargi: Maður að nafni Jón Einarsson frá Skriðnafelli á Barðaströnd hrapaði við bjargklifur í Keflavíkurbjargi. Hann náðist lifandi og var fluttur til bæja, en dó að þremur dögum liðnum. (MG; Látrabjarg, eftir sögnum GK).
1859
Frostavetur: Veturinn hefur verið grimmari en menn rekur minni til. Norðanlands lagðist hafís að með firnakulda á þorranum. Miklar frosthörkur voru á Vestfjörðum, og oft yfir 20 stiga frost. (Ald). Hafís komst suðuryfir Látraröst sem þó er afar fátítt. Víða um land hafa menn þurft að skera fé af fóðrum; þó síst þar sem áður hafði verið skorið niður vegna fjárkláðans (sjá 1855).
Nýjungar í veiðitækni; síldarönglar: Frumkvöðullinn Jón Sigurðsson hefur gefið út kver um nýjungar í veiðum og verkun fiskafla sem nefnist "Lítil fiskibók". Þar greinir hann frá því sem best hefur lánast í þessum efnum í grannlöndum okkar og hvetur landsmenn til að íhuga gagnsemi þess. Meðal annars efnis í bókinni eru myndir og lýsingar á önglum með ásteyptri síld úr blýi. Má fullvíst heita að sú nýjung verður vinsæl, enda hafa menn séð að Hollendingar fiska vel á slík veiðarfæri. Síldarönglar voru fyrst kynntir hér við land af Niels Horrebow um 1750, en náðu ekki vinsældum þá.
Ekki er fullvíst hvenær farið var að nota eða steypa síldaröngla í Útvíkum, en líklega hefur það verið nokkru fyrir aldamótin 1900.
1863
Kirkjan í Sauðlauksdal endurbyggð: Byggð hefur verið ný timburkirkja í Sauðlauksdal í stað torfkirkjunnar sem fyrir var. Prestur í Sauðlauksdal er séra Magnús Gíslason, sem tók við af föður sínum, séra Gísla Ólafssyni. Benedikt bróðir Magnúsar býr erlendis. Hann útvegaði allan kirkjuviðinn og lét flytja á Patreksfjörð. Einnig sendi hann danskan mann til að sjá um smíðina. Meðal góðra gripa kirkjunnar er predikunarstóll sem foreldrar Eggerts Ólafssonar gáfu henni, og hökull sem Ingibjörg Guðmundsdóttir kona hans saumaði. Einnig altaristafla sem gefin var af Þorsteini Þorsteinssyni og Hildi Gunnlaugsdóttur Scheving árið 1850. Í blaðagrein 25.11.1863 þakkar séra Magnús fyrir framlög til kirkjubyggingarinnar; Steenbach kaupmaður á Vatneyri gaf 60 ríkisdali; Th Thorsteinsson kaupmaður gaf 25 rd og sóknarbörnin (af fátækum efnum) gáfu 70 rd og 44 sk. (Þjóðólfur 22.02.1864).
Séra Þorvaldur Jakobsson lét járnklæða kirkjuna um aldamótin 1900.
Fönix smíðaður: Í skipaskrá frá síðari hluta 19.aldar kemur fram að einn áttæringur er í Barðastrandasýslu og er hann gerður út frá Kollsvík. Hann er smíðaður 1863; 32,1 fet að lengd; 9,2 að breidd og 2,9 á dýpt. (LK; Ísl.sjávarhættir II). (Fullyrða má að þetta er hákarlaskipið Fönix (eldri) í Kollsvík, sem rifinn var 1899 eftir farsælt úthald; sjá þar).
Verslunarhúsin á Vatneyri: Þetta ár fór Guðmundur Sigurðsson (síðar bóndi í Breiðuvík og Vatnsdal og hreppstjóri Rauðas.hr) í kaupstaðarferð með föður sínum; þá á 10. ári. Þeir fóru landveg frá Vesturbotni að Raknadal; upp Raknadalstagl og niður Mikladal að Geirseyri, enda enginn vegur kominn um Raknadalshlíð. Á Geirseyri er torfbær sem sagt er að Thorsteinsson eldri hafi byggt; útihús þar skammt frá og 2 hús við sjóinn. Vegleysa er milli eyranna; mýrasund og grjótskriður. "Komum við nú í kaupstaðinn sem kallaður var. Mætir okkur þá fyrst uppi á túninu hlaða og fjós, mjög lágkúruleg. Hillir þá undir tilmburhúsin framar á eyrinni; eru þau þrjú. Tvö af þeim snúa í norðvestur-suðaustur og sund á milli, en það eru verslunarhús og pakkhús. Um tíu föðmum neðar á oddanum stendur íbúðar´hus; stórt um sig og mikið í þaki. Hús þessi eru öll bjálkabyggð og eru bjálkarnir um 6-7 tommur á kant (15-17,5 cm). Timburþök eru á húsum þessum húsum, og ná þau langt útfyrir upsir. Ennfremur er þar á mölinni fiskhjallur stór, með helluárefti og torfþaki; að sjá gamall. Baðstofuhús fyrir vinnufólk að sofa í, undir súð og torfþaki; bæði gaflhlöð eru byggð úr torfi og grjóti. Torfhús með þili, stórt, sem kallað er lýsisbúð, og til hliðar við það eldhús með hálfgafli í öðrum enda. Fyrir ofan hjallinn sem áður var nefndur voru tveir kofar með standþili fyrir öðrum enda. Í öðrum voru tveir bræðslupottar til lýsisbræðslu, en hinn var smiðja. Eru þá upp talin öll þau hús sem til eru á Eyrum árið 1863". (Guðmundur Sigurðsson. Endursögn Markúsar Ö Thoroddsen; Árbók Barð.1959-1967).
1864
Nýsmíðaður bátur ferst á Látravík: Hinn 8. júlí var Ólafur Magnússon bóndi í Breiðavík að sækja nýsmíðaðan bát út að Látrum. Hann hafði smíðað Sigurður Finnbogason sem þá bjó að Miðbæ, en bjó áður að Siglunesi á Barðaströnd. Sagt er að veður hafi verið hið besta, og ætlaði Ólafur að fara í leiðinni eitthvað fram á Látravík eða á Röstina, og reyna fyrir fisk. Leið svo tíminn að ekkert sást til bátsins, og fór þá Sigurður að svipast eitthvað um eftir honum en varð einskis vísari. Var talið að báturinn væri kominn norður fyrir og lentur. En báturinn kom aldrei fram, og ekki neitt sem honum tilheyrði. (TÓ; Sjóslysaannáll).
1865
Eigendaskipti á Vatneyri: Þorsteinn Þorsteinsson (yngri; nefndi sig Th. Thorsteinsson; bróðir Þorsteins eldri) hefur keypt jörðina og verslunarstaðinn Vatneyri af Christian M. Steenbach kaupmanni, sem þar hefur rekið verslun um nokkur ár. Kaupverðið er 4000 ríkisdalir. Á Vatneyri eru nú 3 bjálkabyggð timburhús; verslunarhús; pakkhús; íbúðarhús; gamall bær; lýsisbræðsluhús o.fl. Auk þess lítið timburhús sem Steenbach ætlar að eiga áfram (Klampenborg).
Þorsteinn hafði einungis rekið verslunina í eitt ár þegar þar kom upp eldur og brunnu mörg hús. Hann hætti þá verslun þarna; flutti suður og varð þar umsvifamikill kaupmaður, en seldi Sigurði Bachmann sínar eignir á Vatneyri. Hreppsbúar voru því án verslunar í nokkurn tíma. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Fyrsta þilskip Markúsar á Geirseyri: Fyrsta þilskip heimamanns á Eyrum er skútan Zephyr, sem Markús Snæbjörnsson á Geirseyri hefur keypt í samlagi við Brynjólf Benedictsen í Flatey, og er Markús skipstjóri á henni. Skútan er 15 rúmlestir að stærð.
Síðar gerði Markús út margar aðrar skútur; Sjólífið, Marie, Jón, Geir, Viggu, Markúsínu og Vonina, ásamt skonnortunni Guðrúnu. (Sjá síðar)
1868
Markús byrjar verslun á Geirseyri: Verslun hefur ekki verið á Geirseyri frá því að Þorsteinn Þorsteinsson (eldri) hætti henni árið 1855, eftir þriggja ára starfsemi. Eftir að Vatneyrarverslun brann fyrir tveimur árum hefur engin verslun verið í Rauðasandshreppi. Fyrir hvatningu Gunnlaugs Blöndal sótti Markús Snæbjörnsson skipherra um borgarabréf og fékk það 04.11.1867. Nú hefur hann hafið verslun í húsi því sem Þorsteinn reisti, við sjóinn á Geirseyri, og fengið vörur hjá kaupmönnunum Gram og Thorsteinsson.
Á sama tíma eru Sigurður Bachmann og Jóhann Thostrup að reyna að hefja verslun á Vatneyri (sjá framar) og hafa þeir reynt að kæra Markús fyrir ólöglega verslun, án árangurs.
Markús var mikill hugsuður og framfaramaður. Auk þess að gera út skútur og stunda millilandasiglingar lét hann gera fyrstu vatnsveitu á Eyrum, með því að leiða vatn úr Litladalsá til fiskþvotta; lét byggja bátabryggju, fiskhús, bræðsluhús og leggja sporbraut um þurrkreiti sína. Þá lét hann byggja fyrsta steinlímda húsið á Vestfjörðum (sjá 1881). Hann lét einnig byggja húsið Valhöll, sem síðar var í eigu Péturs A. Ólafssonar og enn síðar flutt til Reykjavíkur og er nú aðsetur Minjastofnunar.
1869
Banaslys í Bæjarbjargi: Það slys varð á þessu ári að Gísli Eggertsson, ungur vinnumaður hjá Ara Finnssyni bónda í Saurbæ, hrapaði við fuglatekju í Bæjarbjargi. (MG; Látrabjarg).
1869
Auglýsing um Vatneyrarverslun: „Undirskrifaðir kunngjöra her með, að við í félagskap höfum byrjað verzlun á Vatneyri við Patreksfjörð í Barðastrandasýslu, undir nafni: Tostrup & Bachmann , og að hvor okkar sérstaklega hefir rett til að innganga skuldbindandi samninga við þriðja mann, tilheyrandi verzlun þessari. Vatneyri, 29. Júlí 1869: J. Christjan Tostrup. Sigurðr Bachmann" (Þjóðólfur 17.08.1869).
1870
Útgerð dalar í Láganúpsveri: Fram að þessu hefur helsta verstöðin í Kollsvík verið í Láganúpsveri. Hún er nú í auknum mæli að færast í Kollsvíkurlendingu. (Kjartan Ól; Rauðasandshreppur).
Íbúafjöldi: Nú eru íbúar í Rauðasandshreppi alls 470 á 41 heimili. Þar af eru 35 manns búsettir á Eyrum; 19 á Geirseyri og 16 á Vatneyri. Engar þurrabúðir eru enn í hreppnum. Skipt eftir sóknum er íbúatalan þessi: Saurbæjarsókn 140 á 14 heimilum; Breiðavíkursókn 114 á 9 heimilum; Sauðlauksdalssókn 216 á 18 heimilum. Í Kollsvík eru samtals 32. Þar af eru í Kollsvíkurbænum 18, á Láganúpi 8 og á Grundum 6.
Ný kirkja í Saurbæ: Ari Finnsson hefur látið byggja nýja kirkju í Saurbæ, en hin fyrri var byggð fyrir 1639 (sjá þar) á dögum Eggerts Björnssonar. Þessi nýja er timburkirkja, en hin eldri var að hluta grjóthlaðin. Smiðir nýju kirkjunnar voru Sigurður snikkari Jónsson; Sigurður Finnbogason á Hvallátrum; Árni Jónsson frá Lambavatni og Sturla Einarsson frá Brekkuvelli; nú húsmaður í Vatnsdal. (AÍ; Sveitin vestur lengst í sjá).
Sturla var afkastamikill smiður á sinni tíð. Hann smíðaði líklega einnig Sauðlauksdalskirkju og Hagakirkju og var við smíðar í Kollsvíkurbænum þegar þar varð mannskætt snjóflóð 1857 (sjá þar). Kirkja þessi stóð til 29.01.1966, er hún fauk í ofviðri (sjá þar).
Torfaljáir koma fram: Torfi Bjarnason í Ólafsdal hefur flutt til landsins nýja gerð ljáa, sem taka hinum eldri fram um margt. Þetta eru hinir „skosku ljáir“, einnig nefndir „bakkaljáir“. Þeir eru að stofni til í tveimur hlutum. Annar þeirra er bakkinn, með áföstu þjói sem festist í orfið. Bakkinn er mjór, úr hertu járni og gataður að endilöngu. Á hann er hnoðað þunnt ljáblað, svonefnt „léni“ sem unnt er að brýna en þarf ekki að dengja með tilheyrandi hitun, eins og gert var með fyrri ljái. Er þetta mikil bylting í erfiði bænda, því með þessu þarf ekki lengur að gera til viðarkola og eyða dýrmætum tíma í dengingu. (Torfi kom einnig fram með ljá með skrúfuðu þjói, en hann náði ekki viðlíka vinsældum). (Pétur Jónsson; Barðstr.bók o.fl).
Um svipað leyti urðu þær breytingar á orfinu að á það voru settir hælar. Sá fyrri, karlinn, hafði reyndar sumsstaðar tíðkast en við bættist sá efri; kerlingin. „Tvíhæluð orf voru almennt ekki notuð fyrr en skosku ljáirnir komu. Gamlir menn tóku þau aldrei upp, sumir hverjir“ (PJ; Barðst.bók).
Steinolíulampar: Nú er farið að flytja steinolíulampa til landsins og brúka til sveita. Með því leggst af hinn gamli ljósabúnaður, sem var lýsislampar og kolur; tólgarkerta. (PJ). Týrur eru einnig farnar að tíðkast (sjá 1895).
Sigurður Árnason sem ólst upp í Hænuvík (f. 1877) segir að þangað hafi fyrst komið steinolíuljós þegar hann var á 7. ári; þ.e. 1883 (SÁ; Með straumnum).
Kaupgjald: Kaup fyrir gildan vinnumann er nú talið hæfilegt sex vættir eða lægra (1 vætt=40 fiskar=12 kr á samtímaverðlagi) en fyrir vinnukonu þrjár vættir. (PJ)
Tálknfirðingar fyrstir til að veiða smokkfisk: Jón Johnsen útgerðarmaður á Tálknafirði varð fyrstur Íslendinga til að veiða smokkfisk þetta ár (eða um það leyti). Notaði hann til þess öngul sem Frakkar gáfu honum. „Svo smíðaði Einar í Hringsdal fyrstur öngul eftir mynd frá Johnsen 1874“ (Bjarni Sæmundsson; skýrsla til landshöfðingja 1901; Andvari 1903).
Verðlag inn- og útflutnings: „Af söluverðinu á íslenzku vörunni í útlöndum fengu kaupmenn vorir, að sögn, heldr hagstæðar fréttir nú með póstskipi, þar sem fiskrinn er, og það jafnvel einnig frá flskmarkaðinum á Spáni, og að þar seldist norskr fiskr lítt, sízt jafnhliða íslenzkum fiski; úrgangs- og trosfiskr og ýsa söltuð gekk illa eðr als ekki í Khöfn ; miðlaraskýrslurnar um oktoberlok, segja harðfiskverðið þá 25-29 rd; og segja fregnirnar að það verð hafi heldr verið að lifna: Saltflskr hnakkakýldr 28-32 rd, ókýldr 22-24—25 rd. Hvít ull 110-125 rd. skpd. (33-37¼ sk pd.), mislit ull 90-92½ rd . (27-27¾ sk pd). Svört ull 110 rd. (33 sk pd ). Tvíbandssokkar 28-40 sk, sjóvetlingar 12-16 sk; tólg 18½ sk pd.; hákarlslýsi 19-28 rd 18 sk; þorskalýsi 22-26 rd. Nýkomið sauðakjöt tunnan með 224 pd. 30-31 rd (þ. e. 13½ sk. pd.). Æðardúnn 5-6½ rd.
En útlenda varan: Brennivín með 8 stiga krapti 15-16 sk að frádreginni útflutningsþóknun; 5 sk á potti. Caffe (Brasil.) 17½ -25 sk. (fimm tegundir eptir gæðum). Hampr 40-58 rd skpd. (þ. e 10 ½ -17 sk. pd, eptir gæðum, 5 tegundir). Kornvara: bankabygg 9-10 rd. Baunlr (góðar matbaunir) 7 rd. 72 sk - 8 rd. 24 sk. Bygg 5 rd 16 sk - 6 rd. 40 sk. Hafrar 4-4½ rd. Rúgur danskr, 6 rd 48sk -7rd 8 sk; Eystrasalts, 20 fjórð., 6 rd 16 sk-6 rd. 32 sk. Hveitimél (bezta Flórmél) 6-6½ sk. pd. Rúgmél (þurkað ósigtað) 56 sk 1pd. Sykr púðrsykr (frá St. Croix) 10½ -12½ sk. Hvítr sykr 23½ -24sk. Kandíssykr 19- 26½ sk. (6 tegundir eptir gæðum). Tjara 7 rd. 24 sk. — 8 rd. kagginn“. (Þjóðólfur 10.12.1870) Sjá innlendar vörur 1850.
Óvættur á Látraheiði ? Hálfdán Árnason (rokkadraujara á Lambavatni; f. 1852-d.1923), vinnumaður Össurar Össurssonar á Hvallátrum, lenti í furðulegum hrakningum á Látraheiði nú á jóladagsmorguninn; er hann hugðist heimsækja fjölskyldu sína á Lambavatni. Össur lagði til að hann færi ekki af stað fyrr en eftir húslesturinn, en Hálfdán vildi fremur nýta hina stuttu dagsbirtu. Þegar rökkva tók síðar um daginn kom Hálfdán óvænt á hlaupum aftur niður að Látrum; þrútinn í andliti og því nær sprunginn af mæði. Lagðist hann upp í rúm og lá þar það sem eftir var dags. Örþreyttur var hann og vildi engar skýringar gefa á endurkomu sinni.
Rifjuðu menn þá upp sögu af atviki sem Ólafur Jónsson (bóndi á Látrum 1780-1808) lenti í á heiðinni löngu áður, en þá sagðist hann hafa orðið þar fyrir reimleikum. Undir það tók Björn Bjarnason sem bóndi var á Látrum 1800-1816. (Hrefna Kristjánsdóttir; Árbók Barð). (Sjá einnig 1875).
1871
Fjöldi búpenings: Í Rauðasandshreppi er fjöldi búpenings nú þessi: Nautgripir 141; sauðfé 1.637; hross 95. (sjá 1901 og 1960).
1872
Skæð innflúensa: Illvíg innflúensa hefur herjað um landið og valdið nokkrum manndauða.
1874
Hrísgrjón og maís farin að flytjast: Nú er orðið fáanleg í verslunum hér ýmis matvara sem þykir nýjung. Þar á meðal eru hrísgrjón, og þykir hálfhrís dýrindisvara. Heilhrís er aðeins notaður í veislur. Maís er aðeins farinn að tíðkast og er honum brauðað saman við rúgmjöl. Rúgur hefur flust lengi og er hann malaður í kvörnum, ýmist handknúnum eða af vatnsmyllum. Hveiti er fágæt vara. (PJ).
Harðasti vetur í manna minnum: Liðinn vetur var sá harðasti sem langminnugustu menn muna eftir. Hann lagðist hart að þegar fyrir vetrarkomu, en um áramótin gerði frosthörkur miklar; að 26 stigum um nokkurra vikna skeið. Linaði ekki fyrr en í febrúar og þá kom hlákukafli. Aftur herti frostið í mars og kom þá hafís aftur að Norðurlandi, þar sem hann hafði verið landfastur. Fé hefur mikilstil verið á gjöf frá veturnóttum og því margir orðnir fóðurlausir; einkum þar sem fjörulaust er. (Aldirnar).
Aðgangsharður dýrbítur á Naustabrekku: Dýrbítur einn hefur í mörg ár samfleytt gert mikið fjártjón á Rauðasandi; m.a. drepið 30 fjár frá einum bæ. Ekki töldu menn þetta einleikið og veltu fyrir sér hvort þetta væri skoffín eða skuggabaldur. Engri skyttu tókst að koma á hann skoti. Tóku menn að gæta fjárhúsa sinna mun betur en áður, enda hefur þessi vetur verið óvenju harður. Nú á páskadagsmorgun kom bóndinn á Naustabrekku í fjárhúsin og hugðist gefa lömbum sínum. Þá var þar allt á ringulreið; prestlambið dautt og blóðugt, ásamt tveimur lömbum öðrum. Í þeim svifum sér hann tófuna þar sem hún læðist með veggjum í annarri krónni. Hann lokar dyrum í snatri; fer heim og tygjar sig í þykkan fatnað. Um leið og hann opnar dyrnar flýgur dýrið í fang honum og vill út, en bóndi kemur höndum fyrir. Eftir mikla viðureign tekst honum að ná taki á skotti dýrsins og með sveiflu mikilli að rota það á steini. Móður var hann og nokkuð bitinn, en jafnaði sig fljótt. (BJ; Norðanfari; 10.12.1875)
1875
Óvættur enn á ferð á Látraheiði ? Aftur hafa orðið atvik á Látraheiði sem sumir tengja aðsókn sem Hálfdán Árnason varð fyrir árið 1870 (sjá þar). Helgi Eiríksson, vinnumaður Sigurðar Finnbogasonar (sjá 1876), fór að morgni aðfangadags (jóladags segja aðrir) að leita fjár sem rekið hafði verið til beitar fram með Látravatni. Segir hann að þá hafi flogið að sér stór flygsa; tvífætt skepna með stórar klær. Tókst henni að læsa klónum í ullarpeysu sem Helgi var í og rífa stykki úr henni. Helgi er hraustmenni mikið og varðist rösklega; svo að á endanum hörfaði kvikindið frá. Helgi náði fénu heim, en var mjög brugðið. (Frás. Helgu B. Á. Thoroddsen).
1876
Vatnsdalsskipið Dvalinn ferst við Hvallátra: Hinn 15. febrúar 1876 voru hákarlaskip Víknamanna að koma úr legum, líklega einhversstaðar út af Víkunum. Meðal þeirra var Dvalinn frá Vatnsdal; oftar nefndur Vatnsdalsskipið. Formaður á skipinu var Bjarni Ólafsson, þá bóndi í Tungu, en áhöfnin öll úr Firðinum, eða úr Örlygshöfn, Vatnsdal, Kvígindisdal og Sauðlauksdal. Norðanveður brast á, og náðist ekki fyrir Blakknes, svo hleypt var suður eftir. Fleiri skip höfðu verið í legu á svipuðum slóðum; eitt skip úr Kollsvík (Fönix); annað frá Látrum (Sigríður blíðfara) og hið þriðja úr Tálknafirði. Á Kollsvíkurskipinu mun hafa verið formaður Guðbjartur Ólafsson í Kollsvík. Þar var ólendandi og hleypti Guðbjartur suður fyrir Breið og náði landi í Fjarðarhorni, en þar er þrautalending í norðansjó. Hið sama er að segja um skipið úr Tálknafirði. Nokkru síðar fór Látraskipið þar framhjá og svo Vatnsdalsskipið. Hvorugt þeirra gerði tilraun til að lenda í Fjarðarhorni, en héldu beint að Látrum. Látramönnum tókst lendingin vel, en Vatnsdalsskipið bar upp á svonefnda Sölvatanga. Bátnum hvolfdi þegar og barst til lands, en engum tókst að halda sér við hann vegna brimrótsins. (TÓ; Sjóslysaannáll).
Skonnorta strandar við Blakknes: Enska skonnortan Prins Alfred strandaði seinnihluta maímánaðar innanvert við Sölmundargjá á Hænuvíkurhlíðum, í blindþoku og sjóleysu. Flaut skipið á vog í fjörunni og var fast á vaturstagnum á svonefndum Kisukletti sem er þar í fjörunni. Skipverjar fóru í bátinn og reru inn á Láturdal, og þaðan inn á Patreksfjörð. Skipið náðist út á flóðinu um kvöldið, stranddaginn, en það strandaði kl 5 um morguninn. Farið var með skipið inn á Vatneyri og var það boðið þar upp. Kaupendur voru Markús Snæbjörnsson, Sigurður Backmann, Bjarni Jóhannesson fiskikóngur frá Stykkishólmi og Guðbjartur Ólafsson bóndi í Kollsvík. Prins Alfred var ensk skonnorta; þrímöstruð, með sjö manna áhöfn. (EÓ; Skipsströnd).
Enn segir af óvættinum á Látraheiði: Sigurður Finnbogason (bóndi á Miðbæ á Látrum 1860-1870) fór með öðru Látrafólki til Breiðavíkurkirkju einn sunnudaginn nú í haust. Hann varð þar eftir en ætlaði að koma snemma heim heim morguninn eftir, enda ætluðu Látramenn þá í Eyraferð á báti hans. Líður svo á morgunn næsta dag að menn fara að bera á bátinn en ekki kemur Sigurður. Leitarmenn eru sendir til Breiðuvíkur, en er þar sagt að Sigurður sé löngu farinn. Hann hafi þá verið nokkuð við skál. Þegar þeir eru að koma aftur niður að Látrum sjá þeir Sigurð koma ofan dalinn; hann er æstur mjög og föt hans öll í tætlum. Hann treysti sér ekki í sjóferðina, heldur lagðist til hvíldar. Sigurður er hreystmenni mikið; stór og sterkvaxinn. Sagði hann síðar að er hann eitt sinn þurfti að laga skóþveng sinn hafi kvikindi nokkurt ráðist að honum. Sýndist honum það vera í mannsmynd en þó vanskapnaður mikill. Framlimi hafði það, og klær í handa stað; hausinn var eins og strýta upp af herðunum og andlit varð ekki greint. Var húðin eins og skrápur viðkomu er Sigurður barði á því. Í Lambahlíðarskarði náði Sigurður að rífa grjót úr vörðunni og lét það dynja á skepnunni, sem við það lúskraði á brott, í átt að bjargbrúninni. (Sigurður flutti síðar að Arnardal við Djúp og dó 11-12 árum síðar). Hafa menn sett þessa frásögn í samhengi við árás á Helga Eiríksson 1875 og Hálfdán Árnason 1860 (sjá þar). (Enn varð óvættarins vart 1891, sjá þar). (PJ; Vestf. sagnir. Eggert H. Kristjánss; Frjáls þjóð 30.07.1955).
Vöðuselsveiðar leggjast af: Þetta ár er hið síðasta sem ráaveiðar (veiðar með skutli) á vöðusel eru stundaðar hérlendis. Þeim var hætt um 1850 í Strandasýslu; 1860-70 í Eyjafirði en lengst hafa þær haldist í Arnarfirði. Helsta ástæða þessara breytinga er sú að farið er að nota nætur og byssur við veiðarnar, en einnig hefur komum vöðusels fækkað að mun. Kann það að stafa af fjarlægð íss, en selurinn heldur sig mjög við ísröndina. Vöðuselsveiðar hafa mjög verið stundaðar í Arnarfirði, sem og hvalveiðar, og hafa þar verið færir skutlarar, s.s. Benedikt Gabríel og fleiri. Til veiðanna eru notaðir hraðskreiðir bátar af stærð feræringa.
Líklegt er að fyrsti báturinn sem um er vitað í Rauðasandhreppi hafi verið vöðubátur. Það er "Vatnsdalsbáturinn" svonefndi, sem kom upp úr bátskumli í Vatnsdal og talinn er vera frá landnámsöld. Hann var líklega nær 6m að lengd og á honum tvær vaðarbeygjur bakborðsmegin nærri stefni, sem líklega hafa tengst ráaveiði. Kann hann að hafa verið nýttur til rostungs- og/eða selveiða. Síðasti vöðubátur landsins kann einnig að hafa endað í Rauðasandshreppi, en kringum 1890 kom Magnús Árnason á Hnjóti með fyrsta aðkomubátinn í Kollsvíkurver í upphafi saltfiskverkunar þar. Þetta var vöðubátur, og hefur vafalítið verið notaður sem slíkur í Arnarfirði. Ásamt Magnúsi átti Gísli Ólafsson bátinn, og með þeim reiri Magnús Pétursson. (Heim. m.a. GG Láganúpi og LK; Ísl.sjávarhættir I).
1877
Árnar hrekjast upp í Bæjarós: Teinæringur frá Hellisandi, sem þaðan fór í róður 19.06.1877, lenti í miklum hrakningum á Breiðafirði er á þá brast sunnan rokveður. Hröktust þeir norður undir Siglunes á Barðaströnd, en þá hafði vindur snúist til austurs svo þá hrakti vestur að Skor. Þar lágu þeir um stund og biðu færis en svo fór að lokum að þeir neyddust til að hleypa upp í Bæjarós á Rauðasandi. Var þá komið föstudagskvöld og áhöfnin þrekuð. Þótti formaðurinn sýna mikið snarræði og kunnáttu. Voru þeir í vikutíma hjá Ara sýslumanni Finnssyni í Bæ og Jóni Ólafssyni á Sjöundá. Fóru síðan allir á flutningum til síns heima nema sonur formannsins; Árni Árnason; hann varð eftir á Sjöundá. (Matthías Jochumsson; Þjóðólfur 25.07.1877).
Átta árum síðar giftist Árni Árnason (18.05.1862-19.02.1899) Dómhildi Ásbjörnsdóttur (Ólafssonar Ásbjörnssonar og Helgu Einarsdóttur Jónssonar í Kollsvík). Bjuggu þau á Láganúpi hjá Ásbirni Ólafssyni föður hennar og eignuðust 4 börn.
Verslun aftur komin á fót á Vatneyri: Sigurður Bachmann, sem keypti eignir Þorsteins Þorsteinssonar á Vatneyri eftir brunann 1866 hóf nokkrum árum síðar verslun og skútuúrgerð. Hefur hægt gengið að byggja upp fjárhag verslunarinnar en nú er hún nokkuð að ná sér á strik og skilar 5000 krónum í tekjur þetta ár. Fyrsta þilskip sitt eignaðist Sigurður fyrir 1880.
Síðar eignaðist hann fleiri, t.d. Patrek, Maríu, Komet og Vatneyri, og gerði út Trangisvaag. Aftur varð stórbruni verslunarhúsa 1892, sjá þar. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Geirseyri löggiltur verslunarstaður: Verslun Markúsar Snæbjörnssonar skipherra, sem hófst 1868, hefur farið hægt af stað. En hann er aðgætinn í fjármálum og útsjónarsamur, auk þess að hafa góðan stuðning af útgerð skonnortu sinnar; Zephyr. Eftir að hafa árangurslaust reynt að fá aðstöðu á Vatneyri hefur hann nú fengið Geirseyri löggilta sem verslunarstað. Eiríkur Kúld þingmaður Barðstrendinga flutti frumvarp þess efnis á Alþingi og hefur það nú verið samþykkt sem lög. Er litið svo á að um sé að ræða útvíkkun á hinum forna verslunarstað Vatneyri en ekki stofnun á nýjum verslunarstað. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Strandferðir hefjast: Póst-gufuskipið Díana kom á Eyrar á þessu ári. Með því hefjast væntanlega strandsiglingar um Ísland. Auk farmflutnings og pósts flytur Díana farþega. Þeir mega þó aðeins hafa í farangri sínum koffort, töskur og smærri poka og böggla.
Gísli Konráðsson fræðimaður andast í Flatey: Látinn er í Flatey Gísli Konráðsson (18.06.1787-02.02.1877) fræðimaður og sagnaritari, níræður að aldri. Hann fæddist og ólst upp á Völlum í Skagafirði. Honum var meinað um skólagöngu en lærði að eigin frumkvæði að lesa og skrifa og bjó sjálfur til blekið. Fór hann ungur til sjóróðra á Álftanes, en notaði hvert tækifæri til að nema fræði og sögur og skrifa. Hann tók við búi eftir foreldra sína; giftist Efemíu Benediktsdóttur og átti með henni 9 börn, þar á meðal Fjölnismanninn Konráð Gíslason. Efemía dó 1846 og flutti hann 1850 í Króksfjörð og síðan í Flatey, þar sem hann giftist Guðrúnu Arnfinnsdóttur sem lést þó eftir fáein ár þar. Eftir Gísla liggur gríðarmikill fróðleikur, en nær ekkert af því kom út að honum lifandi og enn er ýmislegt óútkomið. Meðal annars ritaði hann fjöldamarga þætti úr vestanverðri Barðastrandasýslu og bjargaði með því mörgum fróðleik frá glötun. T.d. er víða í þessari samantekt vitnað til Gísla Konráðssonar.
1878
Bréfhirðing opnuð á Eyrum: Hinn 01.01.1878 var opnuð fyrsta bréfhirðingin í Rauðasandshreppi; á verslunarstaðnum Eyrum.
Henni var breytt í póstafgreiðslu 01.01.1907. Bréfhirðingum fjölgaði 1906, sjá þar). (AÍ; Árbók Barð.
Áætlun landpóstsins: „Barðastrandarsýslupóstur fer frá Bæ í Reykhólasveit morguninn eptir að Reykjavíkurpóstur kemur þangað, og leggur leið sína um Brjámslæk og Vatneyri við Patreksfjörð og norður að Bíldudal, stendur þar við 1 dag, og snýr síðan aptur suður að Bæ, og kemur þá við á Brjámslæk. Í fyrstu ferðinni má þessi póstur eigi fara frá Bildudal fyr en 1. marz, en haga verður hann þó svo ferðum sínum, að hann verði kominn að Bæ áður en Ísafjarðarpósturinn leggur af stað þaðan 5. marz“. (Norðlingur 11.01.1878)
Fyrsti héraðslæknirinn: Fyrsti héraðslæknirinn í Rauðasandshreppi hefur nú sest að á Eyrum. Er það Anthon Tegner, danskur maður. Valdi hann að setjast fremur að á Eyrum en Bíldudal, því þar væri hann meira miðsvæðis.
Sýslunefndin staðfesti þó ekki setningu Tegners og var honum því vikið frá. Þorvaldur Jónsson héraðslæknir á Ísafirði var því næst settur til að þjóna V-Barðastr.sýslu en ekki var ánægja með hann í héraðinu. Næsti læknir var Davíð Scheving Thorsteinsson; þá Tómas Helgason og Sigurður Magnússon sem þar kom 1899, sjá þar. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Flutningaskip strandar undir Djúpadal: Norska flutningaskipið Ossían frá Mandal strandaði um fardaga 1878 undir Djúpadal í Látrabjargi í suðaustan rosa, en sjóleysu. Skipsmenn fóru allir, 5 að tölu, í bátinn; reru fyrir Bjargtanga og lentu á Brunnum í Látravík. Fóru þeir þetta á sama sjávarfallinu og skipið strandaði. Skipið var hlaðið timbri og voru bátar fengnir allsstaðar að úr Útvíkum til að flytja timbrið inn í Keflavík, en þar var það boðið upp. Kollsvíkur-Fönix var stærstur þeirra skipa er fluttu timbrið. Skipstjóri og stýrimaður voru á Hvallátrum í þrjár vikur, eða þar til búið var að bjóða upp timbrið úr skipinu. Skipið liðaðist í sundur í fjörunni þar sem það strandaði. (EÓ; Skipsströnd).
1879
Jónas Björnsson prestur í Sauðlauksdal: Séra Jónas Björnsson (12.04.1850-16.04.1896) hefur fengið Sauðlauksdalsprestakall, en hann hefur verið þar aðstoðarprestur séra Magnúsar Gíslasonar í tvö ár. Giftur Rannveigu Gísladóttur. Jónas er sagður prúðmenni og valmenni; dyggur í lund og hreinskilinn; reglumaður mikill og skyldurækinn; hagsýnn búmaður; ágætur kennimaður og vel látinn af sóknarbörnum. Hefur hann unnið ötullega að fræðslumálum í sínu prestakalli.
1880
Útgerð aflögð í Láganúpsveri: Er nú svo komið að enginn bátur er gerður út frá hinni fornfrægu verstöð Láganúpsveri, en allmargir bátar róa úr Kollsvíkurveri. Um 1700 voru enn gerðir út nokkrir bátar úr Láganúpsveri, sem í margar aldir áður hafði verið blómlegasta verstöðin, a.m.k. á sunnanverðum Vestfjörðum. Skreiðarverslun er nú aflögð á landinu, en hún hefur um aldir verið ein verðmætasta útflutningsafurð landsins. Má ætla að Láganúpsver hafi verið meðal síðustu staða þar sem fiskur var einna mest verkaður í skreið til útflutnings.
Var Kollsvíkurver síðan aðalverstöð Rauðasandshrepps um hálfa öld, eða fram um 1930. En síðan fer að draga úr útgerð þar, svo sem á öðrum slíkum stöðum víða um land, og leggst niður að mestu um 1940. Meðan Kollsvíkurver var í blóma voru að jafnaði nokkrir aðkomubátar á vorvertíð. (Kjartan Ól; Rauðasandshreppur).
Blásteinn tekur við af barkarlitun: Margir eru nú farnir að nota innfluttan blástein til litunar skinna og segla í stað barkarlitunar sem algengust hefur verið, ásamt eirlitun. Blásteinninn er unninn úr hinni indversku indigójurt, en börk til barkarlitunar hafa menn ýmist fengið af íslensku birki eða næfrum rekatrjáa. „Eirlögur til litunar var þannig gerður að eirnaglar og eirflögur voru látin í trédall með fjórum pottum af keytu. Unglingur var látinn sitja úti í fjóri, lesa kverið sitt og gutla; þ.e. halda leginum á hreyfingu meðan eirinn leystist upp. Í eirlegi var skinn látið liggja í tvo sólarhriga, en fór þó eftir því hve sterkur lögurinn var“ (LK; Ísl.sjávarhættir III; JT Kollsvík og HM, Láganúpi).
Brúnspónn í hrífutinda: Margir í hreppnum eru nú farnir að nota innfluttan brúnspón í hrífutinda í stað birkis sem hingað til hefur verið algengt. Endist brúnspónninn mun betur og er sterkari. (PJ).
Margir byggja heyhlöður: Nú eru margir bændur í hreppnum farnir að byggja hlöður fyrir hey sín. Hingað til hafa menn hlaðið heyinu upp í svonefndum heygörðum án þess að byrgja það með öðru en skornu heytorfi. Má eflaust rekja þessar hlöðubyggingar til vaxandi innflutnings á þakjárni. (PJ)
Vefnaður og tóvinna minnkar á heimilum: Slík vinna hefur verið stór hluti af heimilisstörfum að vetrarlagi frá því að land byggðist, enda þurftu landsmenn að vera sér nægir um hvaðeina. Með vaxandi innflutningi varnings leggjast þessi gömlu störf af. T.d. er nú farið að flytja inn tvistgarn í flíkur; voðir í bátasegl og rúmvoðir. Hin heimaunnu brekán leggjast því af um leið og þau slitna. (PJ).
Færri halda nú sauði: Bændur leggja nú minna upp úr sauðaeign en áður var. Sauðir hafa hingað til verið mikilvægir vegna ullar og mötu. Var talið að sauðurinn greiddi vetrarfóðrið með reyfinu, enda léttur á fóðrum. Algengt var fyrrum að á sæmilegu búi væru 40-60 sauðir og mun meira hjá efnabændum. (PJ).
Bardagi á Stórurð: Rauðsendingar fóru þetta vor til eggja undir Bjargi eins og þeirra er vani ef til þess gefur. Formaður var Jón Ólafsson á Sjöundá en aðrir voru; Sigfreður Ólafsson í Stekkadal, Eiríkur Magnússon á Móbergi, Runólfur Brynjólfsson í Kirkjuhvammi, Ketill Þorsteinsson á Melanesi og Hjalti Þorgeirsson í Krókshúsum (kunna að hafa verið fleiri). Í þetta sinn fóru þeir á Stórurð sem tilheyrir Látrabjargi, en ekki á Langurðir sem tilheyra Saurbæ. Lentu þeir við Rana, innantil við urðina, og gengu úteftir; allir nema formaður sem gætti bátsins. Álkueggin eru þarna í stórgrýtisurð, og er seintínt. Þegar utar kemur verða þeir varir við byssuskot upp í bjargið, svo fuglinn sópast allur niður með eggja- og grjótflugi miklu. Þeir sjá þá að utan við urðina hefur bátur lent og þar skjóta menn upp í bjargið. Þeir hyggjast koma í veg fyrir þetta athæfi en aðkomumenn, sem í ljós kemur að eru Frakkar, verða þá viðskotaillir. Sló þarna í bardaga, þar sem Frakkarnir beittu árum og öðrum bareflum úr bátnum en Rauðsendingar grjótkasti. Jafnmargir voru í hvoru liði. Einn Frakki gerðist líklegur til að hlaða byssu sína en Sigfreður sneri hana úr höndum hans og sló hann niður með skeftinu; en byssuna braut hann í tvennt. Lögðu þá Frakkarnir á flótta; drusluðu tveimur særðum félögum sínum í bátinn og ýttu frá. Reru síðan fram í skip sitt sem lá þar grunnt undan.
Síðar var sagt að frönsk skúta hafi komið inn til Eyra og hafi sjómenn hennar kvartað yfir að tveir menn hafi verið drepnir fyrir þeim undir bjarginu. Kann það að vera orðum aukið. (ÁHS; Rauðsenda; frás. Dagbjartar Einarssonar Gröf og Ólafs Guðbjartssonar Keflavík).
Gullgrafari frá Ástralíu heimsækir Kollsvík: Þetta vor rær í Kollsvíkurveri Guðmundur Sigurðsson frá Vaðli (síðar bóndi í Vatnsdal og Breiðuvík og hreppstjóri). Dag einn er hann kallaður heim í Kollsvíkurbæinn, því þar er staddur gestur. Sá er kunningi Guðmundar frá fyrri árum; Pétur Björnsson (05.06.1852-01.02.1904) frá Hlaðseyri. Pétur fór til útlanda fyrir um 9 árum og hafði ekkert frést af honum lengi. Hann er nokkuð sérlundaður og fámáll og í fyrstu situr hann þegjandi á kistu í Kollsvíkurbænum; alvarlegur og með hattinn brotinn niðurfyrir augu. En svo glaðnaði yfir honum og hann fer að segja frá sínum ferðum. Hann hafði farið til Ástralíu, en þar voru þá harðæri vegna þurrka; fjárfellir og dýrtíð; brauðpundið á tvær krónur. Auðgast hafði hann í Ástralíuferðinni. Hann sagði af bankaráni fjögurra manna sem hefðu náðst og verið hengdir í borgarhliðinu. Hann hafði sjálfur þurft að verja hendur sínar. T.d. réðust að honum 6 Þjóðverjar sem vildu ná af honum ferðakistunni, en hann hafði roð við þeim og hélt kistunni, enda nautsterkur eins og forfeður hans. Þó var stolið frá honum kverinu, en kóraninn á ensku kom hann með í staðinn. Í annað sinn var ráðist á hann er hann var á leið til strandar; á heimleið eftir gullgröft. Ræningjarnir náðu af honum öllu nema fötunum sem hann stóð í. En þeir gættu þess ekki að í belti sitt hafði hann saumað gullsand, og með það komst hann undan.
Sögur Péturs var erfitt að sannreyna, en nokkuð var það að hann kom með gull frá Ástralíu og hafði fullar hendur fjár. Hann vildi kaupa Tungu í Örlygshöfn, en gömul kona sem þar átti part vildi ekki selja. Hann fór þá til Bíldudals og varð þar skipstjóri, en stofnaði ekknasjóð sjódrukknaðra manna og gaf til hans allmikið fé. Pétur fékk viðurnefnið "hinn víðförli". (Guðmundur Sigurðsson; Árbók Barð 1968-1974; TÓ; Ábúendatal Rhr. JSP; Árbók Barð 2007).
Breiðfirðingar hefja veiðar á Haukalóð: Á þessu ári var haukalóð (skötulóð/lúðulóð) fyrst notuð til lúðuveiða í Breiðafirði. Þær veiðar eru m.a. stundaðar á sexæringsbátum, og eru sumir þeirra með 4 línur, og 20 króka á hverri. (Pétur Sveinsson (30.09.1890-19.10.1973) sjómaður í Breiðafirði og víðar; viðtal í Sjbl. Víkingi 1964).
Breiðfirðingar "reru vestur á víkur" í allnokkrum mæli og hafa því fréttir af línuveiðum þeirra því efalítið borist í Kollsvík. Þar hófst línunotkun þó ekki fyrr en 1894 (sjá þar). Virðast menn því hafa talið í fyrstu að ekki þýddi a reyna línuveiðar í þeim straumi sem er á Kollsvíkurmiðum. Þó ekki sé eins góð lúðuveiði á Útvíkum og í Breiðafirði var allmikið róið þaðan með haukalóð, og þá ekki síður sótt í skötu en lúðu.
1881
Fyrsta steinhús á Vestfjörðum reist á Geirseyri: Athafnamaðurinn Markús Snæbjörnsson á Geirseyri hefur nú lokið byggingu stórs tvílyfts íbúðarhúss úr höggnum steini. Húsið er 16 ánir á lengd; 14 á breidd og 15 álna hátt. Bygging þess hófst 1877 og hefur grjótið verið flutt innan af Björgum. Yfirsmiður er Sigurður Hansson steinsmiður úr Reykjavík.
Í húsinu bjuggu að jafnaði 2 fjölskyldur og um skeið bjó Fischer sýslumaður uppi en Markús á neðri hæðinni. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Fyrsti sýslumaður búsettur á Eyrum: Adam L. E. Fischer, sem er danskur að ætt, hefur tekið við Barðastrandasýslu og sest að á Geirseyri. Býr hann með fjölskyldu sinni á efri hæðinni í hinu nýja steinhúsi Markúsar Snæbjörnssonar. Fyrri sýslumenn hafa gjarnan búið í Haga eða í Saurbæ.
Fischer var sýslumaður í tæpan áratug, en á þeim tíma flutti hann í Valhöll á Geirseyri. Þar bjó einnig næsti sýslumaður, Páll Einarsson, til 1897 en þá flutti hann í stóra húsið sem Sigurður Bachman lét byggja (nú „Konsúlshúsið“) á Vatneyri. Næstur tók við sýslunni Halldór Bjarnason; frá 1899 til 1905, og á eftir honum Guðmundur Björnsson. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012). Sjá yfirlit sýslumanna 2014.
Frostaveturinn mikli (fyrri): Firnamiklar frosthörkur gengu yfir landið í janúar þetta ár. (Hefur frost ekki mælst meira til þessa dags; 2020). Um miðjan janúar var Reykjavíkurhöfn frosin langt út fyrir eyjar, og í lok janúar var riðið yfir Hvalfjörð; gengt úr Reykjavík upp á Kjalarnes og þaðan upp á Akranes.
"Brjef úr Patreksfirði dags. 7. jan. 1881: Veturinn lagðist hjer undireins harðindalega að með snjóum og hörðum frostum. Harðast var þó frostið síðari hluta jólaföstu og fram að nýári; sjaldan undir 10 gráður, en opt 15 og 16 rúmar á jóladaginn. Það er eitt hið harðasta frost sem kemur hjer. Vart var orðið við hafísjaka. Svell og klaki var orðinn mjög mikill og hagar Iitllr, enda þoldu skepnur eigi að standa úti í slíkum frostum; einkum þar sem harðviðri var af vindi opt með, en snjór á jörðu. Upp úr nýárinu fór að lina frostið, en dyngdi niður nokkrum snjó, en i fyrradag kom góð hláka á sunnan. Hefur mjög mikið leyst þessa daga, svo ef vel skilur við jörð verða góðir hagar, enda hafa flestir þörf á því; heyin voru bæði heldur lítil og sumt af þeim ljett eptir hrakning. Bráðapest hefur stungið sjer niður á stöku stað til muna; að öðru leyti góð skepnuhöld og heilbrigði manna almenn. 2 menn kól hjer á fótum fyrir jólin, á fjallinu millum Sauðlauksdals og Saurbæjar. Annar þeirra held jeg verði jafngóður en hinn missir etthvað af tánum". (Norðanfari 08.04.1881). "Góð hláka kom eptir nýárið nokkra daga; en þegar á eptir komu aptur sömu frosthörkurnar. Merkur maður skrifaði seint í apríl af Barðaströnd, að allur Breiðifjörður væri þá með hestísi svo langt, sem eyjar næðu. Patreksfjörður var riðinn endilangur um sama leyti; frá Sauðlauksdal inn í botn, og Arnarfjörður er sagður allur lagður út í mynni, Dýrafjörður líklega einnig. Póstur gekk yfir alla smáfirði hjer suður í sýslunni þegar hann kom eptir nýárið. Sunnudaginn 30.apríl var hjer vestra aftakaveður hið mesta af norðaustri: ofviðrisrok og kolsvartur bylur, svo hvorki var stætt nje ratljóst húsa á milli er á leið. Þá tók upp áttæring með stórviðum á, á bæ nokkrum á Rauðasandi; lypti veðrið honum upp yfir hús eða hey og braut hann í spón er hann skall niður hinsvegar... Hýbýli manna hafa mjög víða verið svo köld, að varla hefir verið í þeim lifandi. Korn og fleira er til í Patreksfjarðarverzlun annari; en eigi lánað, að sögn". (Norðanfari 18.05.1881).
Hvalreki á Rauðasandi: Í oktober þetta ár rak hvalræfil á Naustabrekku á Rauðasandi og varð að nokkru gagni (LK; Ísl.sjávarhættir V).
Hval rak 08.10.1881 á Naustabrekku á Rauðasandi. Flest bein voru smokkuð úr skrokknum sakir ýldu. Kjálkarnir voru hvor um sig 9 álnir að lengd og sporðurinn um 8 álnir að breidd. Af hvalnum fengust 190 átta fjórðunga vættir af rengi og um 90 ellefu fjórðunga vættir af spiki. Saurbæjarkirkja átti 1/10 og af því er þá var eftir fengu skurðarmenn 1/3 en landeigandi 2/3. Skurðarhluturinn skiptist í 75 hluti. (Norðanfari 12.01.1882).
Fréttir úr Barðastrandarsýslu „27.08.1881. Hjeðan er lítið að frjetta sem stendur. Vorið var þurrviðrasamt og fremur kalt. Síðan sláttur byrjaði hefir verið hin mesta þurrka- og blíðviðristíð, en grasleysi á túnum og harðvelli er í mesta lagi. Margir fá eigi meira en helming af töðu við það sem vant er, sumir þriðjung, og sumir enn minna. Á einum bæ í næstu sveit fengust einir 14 hestar af túni á 18 hundr. jörð. Votlendar engjar eru aptur rjett góðar. Af túnum sumstaðar verður eigi náð því litla er á þeim er, sakir breyskjuþurrka. Nýting er eðlilega hin bezta, og hey verður víst kraptgott. Afli varð á vorinu í betra lagi yfir höfuð, en nokkuð misjafn. Fuglaafli úr bjargi hinn bezti, því veðrið var svo hagstætt til að síga í bjarg. Verzlun er hjer allfjörug þennan mánuð, því þá eru hjer lagðar inn íslenzkar vörur. Saltfiskur nr 1 verður liklega á 60 kr skippundið, þótt heyrzt hafi, að kaupmenn vilji koma honum niður í 55 kr. En fyrir smáfisk eða nr 2 er gefið 36-40 kr. Sellýsi er sagt á 40 kr tunnan. Hvít ull á 75 aura pundið, mislit 60. Fiður hvítt; pundið á 1 kr 16a; mislitt á 70 aura. Smjörpundið á 70 aura. Útlendar vörur helztu eru með þessu verði: Rúgur 25 kr. tunnan, bankabygg 30 kr, mjöl 26 kr, salt 5-6 kr, maísmjöl 20 kr., steinkol 4 kr. 75a.- 5kr, steinolía 25 a. potturinn, kaffi 80-85 aura pundið, kandíssykur 50 aura; hvítsykur eins. Járn 25-35 aura pundið. Heilsufar fólks er yfir höfuð gott. Þó hefir nú um tíma stungið sjer niður lasleiki á stöku manni. Læknir Davíð Seheving Thorsteinson er nú nýkominn hingað, eða fyrir rúmum mánuði. Hafði hann mjög mikið að gjöra fyrst eptir að hann kom, og mátti á stundum vaka sólarhringum saman. Lítur út fyrir að hann verði duglegur og heppinn læknir. Hann situr á Vatneyri. Þar eru opt mjög mörg skip inni á höfn á sumrin; stundum allt að 30 í einu og fólk á ferð þar úr ýmsum áttum, svo þar er að því leyti hentugt læknissetur. Sýslumaður Fischer er einnig nýlega kominn, og á hann að setjast að á Geirseyri. Hann er lítið tekinn til embættisstarfa hjer enn. En allir sakna þess, er frá fer; stúdents Ásmundar Sveinssonar, því hann rak embættið sína tíð um 2 ár með miklum dugnaði. (Norðanfari 15.11.1881).
1882
Saltfiskverkun hafin í Útvíkum: Útvegsbændur í Útvíkum eru farnir að verka þann afla sinn í salt sem ætlaður er til sölu á erlenda markaði. Steinbítur er áfram hertur til nokunar heima og innanlandssölu.
Þetta ár ganga 15 bátar til fiskjar frá Hvallátrum. (Pétur Jónsson; Barðst.bók o.fl).
Kútterinn Lövenörn strandar í Breiðuvík: Færeyski kútterinn Lövenörn strandaði um maílok 1882 á Breiðavíkurrifi, undan miðri Breiðavík í blindbyl og sjógarði; aftaka norðanveðri með frosti. Skipshöfnin var 13 manns, allir frá Færeyjum og fórust þeir allir. Skipið liðaðist sundur á sama sólarhring og það strandaði. Það mun hafa verið að fara inn á Patreksfjörð í byrjun vertíðar. (EÓ: skipsströnd).
Bella strandar við Blakknes: Skonnortan Bella frá Trangisvaag í Færeyjum strandaði laugardaginn fyrir hvítasunnu; 29.05.1882, undir Hænuvíkurhlíðum utanverðum; innantil við Sölmundargjá. Veður var norðan stórhríð og stórsjór. Skipið lá norður á Aðalvík, slitnaði upp og fékk á sig sjó og rak svo stjórnlaust á hliðinni; fyrir Vestfirði og strandaði á fyrrgreindum stað. Eitt lík var bundið í reiða skipsins og var farið með það til Breiðavíkur og jarðsett þar. Skipið var annars mannlaust og er haldið að skipverjar hafi farið í bátana eftir að skipið fékk sjó á sig, einhversstaðar úti fyrir Vestfjörðum, og þeir hafi svo allir farist. Ekki var þá vitað hve margir menn voru á skipinu þar sem enginn var til frásagnar. Bella var um 40 smálestir að stærð. Var skipið selt Sigurði Backmann kaupmanni á Vatneyri, sem lét rífa það. (EÓ: Skipsströnd o.fl.).
Samkvæmt færeysku vefsíðunni "Gomul föroysk skip" var 20 manna áhöfn á Bellu, þar af 10 Færeyingar. Þar er sagt að þeir hafi farist 25.05.1882. Snæbjörn í Hergilsey segir frá atburðinum í ævisögu sinni, og það með að reynt hafi verið að ræna úr skútunni. Sú frásögn er ekki staðfest í öðrum heimildum.
Fádæma harðindaár: Árið 1882 mun lengi í minnum haft sem einstakt harðindaár og kuldatíð. Upphaf ársins var reyndar ekki um margt sérstakt; veðrasamt en ekki snjóþungt. Stillur gerði um páska og væntu menn þá vordaga skammt undan. En þá upphófst stíf norðanátt með frostum, hríðum og illviðrum, sem náði hámarki með ofsaveðri sem á Vestfjörðum stóð samfellt frá 20. apríl til 6. maí. Upphófst síðan aftur 23. maí og stóð frost og fannkoma sleitulítið til 15. júní. Hafís var landfastur fyrir Norðurlandi. Það var eiginlega ekki fyrr en í endaðan júlí að þokkalega birti upp, og um höfuðdaginn breytti endanlega til hins betra. Gróður kom að sjálfsögðu seint og fénaður var meira og minna á gjöf, einkum þar sem ekki er fjörubeit. Heyskapur var auðvitað eftir því, og víða varð meiri fjárfellir en sést hefur á síðari tímum. Þannig voru í vesturamtinu talin fram 10.969 fjárhundruð haustið 1881, en aðeins 6.570 þetta haust. Efnt hefur verið til samskota erlendis.
Hlýrarek í Rauðasandshreppi: Af og til hefur borið svo við hér í hreppi að hýra rekur á land í stórum stíl. „ Á útmánuðum, þegar ís fór með landi, hljóp gjarnan fiskur á land, oft lúða. Var af því þó nokkur björg, og var þessa reks miklu betur gætt en áður fyrr, til dæmis hlýrareks í Útvíkum í góustraumunum (góuginum), en af þeirri fisktegund einni voru stundum stærðarkasir á Hvallátrum og Breiðavík... (Með komu togaranna, um og eftir 1890, hvarf hlýrarekið með öllu). Hlýrinn virtist koma upp að ströndinni samtímis eða með silungstegund er gekk í árnar á mótum febr, og marsmánaðar. Gengu torfurnar þétt með landi. Ef stórbrim var á, varð hlýrinn fyrir því að sandur fór í tálknin svo að hann barst með brimöldunni á land. Þetta er ein af mörgum matarholunum í Rauðasandshreppi til forna, sem gerðu almennan sult þar nær óþekktan...“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals; eftir frásögn Sigmundar Hjálmarssonar, en hann var í Breiðavík árin 1860-1868. Hann fór sjálfur síðast í hlýrafjöru í Skápadal og Vesturbotni 1882...með þrjá hesta klyfjaða.. en af Brúðgumaskarði mátti sjá til 10 hestalesta, ýmist á leið í Útvíkur eða á heimleið). Mikið af hlýra rak á Rauðasandi 1795 segir í Árbókum Espólín. Ekki hefur orðið vart við hlýrarek eftir 1882.
Rauðasandshreppur áfangi á Norðurpólinn: Enskur ofurhugi; Cheyene að nafni, hefur í tvö ár unnið að undirbúningi ferðar á Norðurheimskautið. Ferðina ætlar hann að fara á þremur stórum loftbelgjum. Ferðalagið skal hefjast í New York, og vinnur hann nú að því að fá Ameríkumenn til að leggja fé í verkefnið, en loftbelgirnir munu kosta 70 til 80 þúsundir króna. Frá New York verður farið á skipinu „Grinnel“ og haldið norður „á flóa þann sem kenndur er við helgan Patrek“ (Patreksfjörð). Þar hafði hann upplýsingar um að hefðu fundist allmikil kolalög ofanjarðar. Þar skyldi byggja hús og koma fyrir áhöldum til að gera gas úr kolunum til að fylla flugbelgina. Þar verður beðið hagstæðs byrs, en hann vonast til að komast á 18-24 klukkutímum frá Patreksfirði á Norðurpólinn. Þar á milli eru um 500 mílur enskar. Með hverju loftskipi á að flytja sleða, bát og nesti til fullra 7 vikna. Þá á hvert loftfar að taka með sér grannan málmþráð og rekja hann út á leiðinni, svo fregnir geti borist milli norðurfara og félaga þeirra, sem eftir verða við Patreksfjörð. Á loftskipaflotanum verða 17 manns, og að auki 3 Eskimóar er fegnir verða á Grænlandi til fararinnar. Cheyene ætlar að svæðið umhverfis norðurskautið muni vera eyjahaf, þakið ísi og ófært hverju sjóskipi. (Fróði 23.11.1882).
Margt er ævintýralegt og óraunhæft við þessa hugmynd, en Cheyene virðist þó hafa þær upplýsingar að kolalög séu ofanjarðar við Patreksfjörð. Líklegt er að hann hafi fremur ætlað að nota kolalögin í Raknadalshögum en í Stálinu, enda eru þau fyrrnefndu mun aðgengilegri. Þar var allmikið tekið fyrrum af kolum til kyndingar. Athyglisverð er sú hugmynd að leggja sæsíma frá Patreksfirði á Norðurpólinn, en óvíst að það dæmi hafi verið reiknað til enda.
1883
Húsakynni: Þetta ár flytjast að Hænuvík Árni Jónsson og Ingibjörg Sigurðardóttir, sem áður höfðu búið í Vesturbotni (fluttust 1887 að Kvígindisdal til Sigurlínu dóttur sinnar). Sigurður sonur þeirra er 6 ára og lýsir húsakynnum í Hænuvík þannig: "Baðstofan okkar var mjög löng og, eins og í Botni, stigi upp á loftið. Tveir gluggar voru á súðinni og áttu þeir að lýsa upp alla baðstofuna að undanskildu hjónaherberginu, sem var 1 eða 2 stafgólf afþiljuð í öðrum enda hennar. Gaflinn í þeim enda baðstofunnar var úr timbri og á honum stór gluggi. Þetta var allra skemmtilegasta vistarvera og vel björt. Annars var fremur dimmt frammi í baðstofunni. Meðfram báðum hliðum baðstofunnar var þéttskipað rúmum sem heimilisfólkið notaði, bæði sem svefnrúm og sæti; við vinnu sína og máltíðir. Ekkert borð var í baðstofunni og sat þar hver með sitt matarílát á hnjánum meðan hann mataðist. Inni í hjónaherberginu voru 2 rúm, sitt við hvora hlið. Í öðru sváfu foreldrar mínir en í hinu við yngstu bræðurnir. Borð var þar undir glugganum, fest í þilið... Baðstofan var öll með helluþaki. Það er að segja; hellum raðað á langböndin í stað trésúðar sem vanalega var, og torfþak þar utan yfir. Öll hús í Hænuvík voru þannig gjörð. Ef vandvirkni var viðhöfð mátti skara þessar hellur svo að ekki lak með þeim þó að miklar rigningar gengju. Undir þeim enda baðstofunnar sem hjónaherbergið var í var alþiljuð stofa; gestastofa, með stórum glugga, uppbúnu rúmi og, að mig minnir, tveim ólituðum tréstólum. Inn í þessa stofu mátti helst enginn óþveginn líta; hvað þá ganga. Aldrei var þar sofið nema ef presturinn gisti; kaupmaðurinn af Eyrum eða einhver háttsettur verslunarþjónn. Leiðin inn í baðstofuna, um göngin, var bæði löng og dimm. Tvær draghurðir vou á þeirri leið. Hér um bil í miðjum göngunum voru 2 afhýsi. voru það búr og eldhús sitt hvoru megin; dyrnar andspænis hvorri annarri. Búrið var fremur vistlegt, með hillum, tunnum, skyrílátum, mörgum mjólkurtrogum, strokk og stórri kistu með kúptu loki. Eldhúsið var, að ég hygg, einhver eftirlíking vistarveru "hins gamla". Þar var alltaf svarta myrkur, nema ógeðsleg rauðleit glæta sem lagðði frá hlóðareldinum, innst við gaflinn. Þarna var alltaf fullt af reyk, og sjaldan heyrðist þaðan hljóð nema hóstinn í eldastúlkunni" (Sigurður Árnason; Með straumnum; 1950).
1884
Lýsisútflutningur: Lýsi er í allháu verði um þessar mundir. Frá Eyrum voru á þessu ári fluttar út 45 tunnur af hákarlalýsi; tveimur fleiri en í fyrra, og af þorskalýsi fluttust út 10 tunnur; fjölgun um 7.
1885
Ólafur Ó Thorlacius tekur við Saurbæ: Ólafur Ó. Thorlacius hefur nú tekið við búi í Saurbæ af tengdaföður sínum, Ara Finnssyni. Ólafur er frá Dufansdal, afkomandi Ólafs riddara Thorlacius á Bíldudal. Hann kom sem bústjóri að Saurbæ, en giftist síðar Halldóru Aradóttur.
Ólafur beitti sér mjög fyrir bættum búnaðarháttum á býli sínu. Gerði hann t.d. miklar áveitur og varð fyrstur manna til votheysverkunar í hreppnum (sjá 1907). Þótti bú hans til fyrirmyndar á landsvísu. Þá lét hann reisa fyrsta steinsteypta hús Vestfjarða árið 1906 (sjá þar).
Litfagur Tjaldur: Báturinn Tjaldur, í eigu Ólafs Ólafssonar í Breiðuvík, sker sig nokkuð frá öðrum bátum í sveitinni. "Hann var málaður hvítur að lit, með rauðri rönd um borðstokka; stafna á milli. En hinir voru allir tjörubikaðir". (SÁ; Með straumnum).
Hrap í Látrabjargi: Guðmundur Ólafsson, vinnumaður á Hvallátrum, hrapaði í Látrabjargi 04.08.1885. Hann var 24 ára, sonur Ólafs Magnússonar bónda í Breiðuvík og Birgitar Bjarnadóttur konu hans.
Hrap innan Geirseyrar: Banaslys varð er maður hrapaði 03.03.1885 fram af svonefndum Björgum, innan Geirseyrar. Hann hét Kristján Á Jóhannsson og var vinnumaður úr Hergilsey. Kristján var jarðsettur í Sauðlauksdal 7. sama mánaðar. (Vestfirskir slysadagar).
1886
Fyrsta hótelið opnað á Vatneyri: Einar Magnússon, verslunarmaður hjá Sigurði Bachmann, fékk hinn 16.02.1886 útgefið leyfi amtmanns til veitingareksturs í nýbyggðu húsi sínu á Vatneyri. Hafði hann áður keppt um leyfið við Jón Björnsson sem vildi fá veitingaleyfi fyrir Valhöll, en Jón flutti burt áður en af því varð. Einar nefnir hús sitt „Hótel Fortúna“, en í daglegu tali er það nefnt „Vertshúsið“. Eftir stækkun eru þar 16 gistipláss með góðum aðbúnaði. Einar er þó áfram verkstjóri Vatneyraverslunar og stendur því kona hans einkum fyrir rekstrinum; Steinunn Jónsdóttir (systir Björns ráðherra).
Í Vertshúsinu fóru fram flestar samkomur Eyrabúa, en ekki þótti gestastofan rúm. Var þar oft glatt á hjalla. Frakkar sátu þar gjarnan að sumbli, en þeir voru iðulega fjölmennir í bænum á þessum árum. Einar hætti allri vínsölu í Vertshúsi 1904, en þá höfðu kaupmenn á Eyrum gert hið sama í kjölfar mikillar vakningar í bindindismálum og öflugs starfs bindindishreyfinga. Með þessu var fótum kippt undan veitingasölunni og hætti Einar þeim rekstri. Til að leysa úr vandkvæðum ferðamanna eftir það gekkst sýslunefndin fyrir því að tveir menn hófu gistihúsarekstur nokkrum árum síðar; Ólafur Ólafsson skipstjóri á Vatneyri og Jón Kristjánsson verkstjóri á Geirseyri. (Guðjón Friðriksson; Árb.Barð. 2012).
Skekta ferst undan Brunnanúpi: Hinn 29. júní fórst bátur á siglingu fram af Brunnanúpi; skekta sem Jón Sauðeyingur átti, og höfðu fimm Keflvíkingar fengið hana lánaða til flutninga; en skektan átti að vera á Brunnum. Skekta Jóns Sauðeyings var mjög umtöluð, vegna þess hve vel hún þoldi siglingu. Bátsverjar ætluðu úr Keflavík að Brunnum í suðaustan hvassviðri. Ekki töldu þeir þörf á að bera í hana grjót til stöðvunar. Frá Keflavík að Bjargtöngum var undanhald, en úr því var aflandsvindur. Var þá siglt eins og af tók, en síðan hefur átt að taka annan bóg til þess að komast á Brunna. Á þessari leið er Brunnanúpur, en fram af honum er hætt við misvindi og rokhnútum. Frá Brunnum sást til bátsins þó að skyggni væri slæmt, en þegar minnst varði hvarf seglið. Skektan fannst seinna um sumarið norður í Patreksfjarðarflóa, og kom þá í ljós að seglið hafði verið í fullu tré og bundið bæði dragreipi og skaut. (TÓ; Sjóslysaannáll).
Frakkar aldrei fleiri á Íslandsmiðum: Frönskum skútum á Íslandsmiðum hefur fjölgað ár frá ári á þessari öld. Aldrei hafa þær orðið fleiri en á þessu ári, eða 347 talsins. Flestar eru skúturnar á síðari árum skonnortur; 120-140 tonn að stærð; um 30 metrar að lengd og þykja góð sjóskip. Á þeim eru líklega um 6.700 sjómenn; flestir frá þremur borgum; Dunkerque og Gravelines í Flandri og Pompól á Bretaníuskaga. Aflann salta þeir í tunnur, sem hver er rúm 140 kg. Er heildarafli þessa flota nú nærri 50.000 tunnur.
Eftir þetta dró úr veiðum Frakka. T.d. voru hér 180 skútur árið 1906. Bretónar frá Pompól stunduðu veiðar hér við land til 1935, en þá fór síðasta skúta þeirra; Glycine.
Þorvaldur Thoroddsen ferðast um Rauðasandshrepp: Þorvaldur Thoroddsen jarðfræðingur og landfræðingur, sonur Jóns Thoroddsen sýslumanns og skálds, ferðaðist um Rauðasandshrepp á þessu sumri. Hugaði hann að ýmsum jarðmyndunum, s.s. surtarbrandi, en gaf um leið öðru gaum:
„Í Saurbæ sá ég allstórt borð, búið til úr surtarbrandsflögu“…. „Á leiðinni yfir Látraheiði mættum við nokkrum lestum. Það var kvenfólk af Rauðasandi sem var gangandi en rak á undan sér hesta með steinbít og fugli“… „Fuglaveiðar byrja í Látrabjargi 2.júlí og enda þegar 14 vikur eru af sumri“… „Tófur eru skæðar svartfuglinum í Bjarginu. Af þeim eru oft drepnar 60-70 á ári í hreppnum“… „Sumarið 1886 veiddust í Látrabjargi 36.000 svartfuglar, eftir því sem Guðmundur Sigurðsson í Breiðuvík sagði mér“... „Í góðum steinbítsárum fást oft á Hvallátrum 5-600 steinbítar í hlut, en í lakari árum 2-300. Steinbíturinn er víða á Vestfjörðum aðalfiskæti manna. Er hann hertur, en þó stundum saltaður og hafður í súpumat á vetrum. Beinin eru brúkuð fyrir kýr og fé, og eins barðir steinbítshausar. Þegar fisklítið er taka menn þó oft kinnfiskinn úr hausunum áður en þeir eru gefnir skepnunum. Steinbítsroð er allsstaðar hér um slóðir notað í skóleður á vetrum. Kvenfólk notar og víða roðskó á sumrum. Eins og geta má nærri eru roðskór ekki sérlega haldgóðir, og þegar menn fara langa leið gangandi þurfa þeir að hafa með sér heila kippu af roðskóm. Ég hefi heyrt menn vestra; líklega í spaugi, ákveða lengd fjallvega með því að segja að það væri svo eða svo margra „roðskóa heiði“. Sunnar en steinbíturinn er töluvert af hlýra og rekur stundum mikið af honum brimrotuðum. 1795 rak mikla mergð af hlýra á Rauðasandi. Á vetrum ganga 4 skip til hákarlaveiða á Látrum. Eru 10-11 menn á hverju skipi, og eru sjaldan styttra en sólarhring úti; 2-3 vikur sjóar undan Bjargi“. „Í Breiðuvík og Kollsvík er sumsstaðar mór með stórum lurkum undir sandinum, því grasvöxtur og sandfok hafa skipst á“. (ÞTh; Ferðasaga frá Vestfjörðum; Andvari 1.tbl 1887).
1887
Sigurður „sterki“ bátasmiður fellur frá: Látinn er (06.04.1887) í hárri elli Sigurður Sigurðsson frá Breiðuvík sem ýmist bar viðurnefnin „Sigurður Breiðvíkingur“; Sigurður sterki“ eða „Sigurður bátasmiður“, sem lýsa honum nokkuð. Sigurður fæddist í Breiðuvík 1798, sonur Sigurðar „fljóta“ Jónssonar bónda í Breiðuvík (sjá 1772) og síðari konu hans, Gunnhildar Þorgrímsdóttur frá Keflavík. Hann kvæntist 1838 Guðríði Jónsdóttur; var smiður á Fífustöðum og í Flatey, en bjó síðar á Neðra-Vaðli til 1862. Sigurður var annálaður kraftamaður og gengu jafnvel þjóðsögur af kröftum hans (sjá 1820). Þekktastur er hann þó í sínum hreppi fyrir bátasmíði sína, en talið er að hann hafi smíðað um 300 báta á ævi sinni. (LK; Ísl.sjávarh. II, 153; frás. ÓETh, Vatnsdal; einnig ábúendatal TÓ). Síðustu æviár sín dvaldi Sigurður í Hænuvík, hjá Ingibjörgu dóttur sinni. Hún var í raun dóttir Þorleifs Johnsens "ríka" kaupmanns á Bíldudal, sem fékk Sigurð til að ganga henni í föður stað. Líkkistu sína hafði Sigurður smíðað 15 árum fyrir andlátið, og geymdi uppi á loftbitum. (SÁ; Með straumnum).
Meðal barna Sigurðar var Guðmundur Sigurðsson í Vatnsdal, sem lengi var hreppstjóri í Rauðasandshreppi og félagsmálafrömuður; m.a. einn forgöngumanna um stofnun Sparisjóðs Rauðasandshrepps 1910. Sonur Guðmundar var m.a. Sigurður Árni á Geirseyri og hans sonur m.a. Sigurður Sigurðsson, síðasti bóndi þar; ýtumaður og vélsmiður. Bróðir Sigurðar sterka var Bjarni Sigurðsson bóndi í Breiðuvík 1796-1821; langafi Önnu Guðrúnar Jónsdóttur í Kollsvík. Annar bróðir Sigurðar var Össur Sigurðsson bóndi í Breiðuvík 1806-1810; sá sem síðastur hafði vetrarvist við fjárgæslu í Lambahlíð.
1888
Búnaðarástandið í Rauðasandshreppi: Hermann Jónasson alþingismaður ferðaðist um Barðastrandasýslu að beiðni amtmannsins fyrir sunnan og vestan. Er hér stiklað lítillega á niðurstöðum skýrslu hans: „Rauðasandshreppsbúar lifa að nokkru leyti á kvikfjárrækt. Þessi síðustu ár hafa þar verið um 230 lausafjárhundruð, en fólkstala þer er um 550. Þá lifa og hreppsbúar á fiskveiðum. Einkum veiðist þorskur, steinbítur, hrognkelsi og heilagfiski. Fiskveiðar eru þar þó stopular og erfiðleikum bundnar… Þá er og mjög mikill arður að fugltekju í Látrabjargi, sem flestir hreppsbúar hafa meiri og minni not af. Í bestu fuglatekjuárum hafa fengist um 50.000 af fugli í bjarginu, en í sumum árum er það hálfu minna. Sumarið 1886 fengust 26.000 af fugli. Kartöflurækt er nær því á hverjum bæ í hreppnum, og á sumum kálrækt“. Surtarbrandur er í Stálfjalli sem þykir betri en vanaleg ofnkol. Erfitt er að vinna hann, en þó hafa að sögn eitt sinn 4 menn hlaðið sexæring á einum klukkutíma. Frá Látrum eru kýr og ær hafðar í seli á sumrum. Þar lifir féð nær eingöngu á fjörunni að vetrarlag og teljast menn vel birgir ef þeir hafa 1/8 part úr hesti af töðu handa hverri fullorðinni kind. Bráðafár í sauðfé gerir oft mikinn skaða, einkum í vestursýslunni. Þá er og almenn kvörtun um lungnaveiki í fé. Margir nota keitubað á sauðfé. Þá er blöndu af keitu og munntóbaki hellt volgri ofan í hrygginn á fénu. „Bændur í sýslunni eiga hrós skilið fyrir það hve vel þeir verka og hirða hey sín, enda standa þeir framar flestum eða öllum hér á landi í þeirri grein“. (Hermann Jónasson; Búnaðarástandið í Barðastrandasýslu; Búnaðarritið 1.tbl 1888)
Mataræðið: „Nú ætla ég að segja frá mataræði í víkunum við Látrabjarg á þessum árum. Á sumrin var skyr alltaf í morgunmat og áfir útá. Þetta var skammtað í aska er tóku þrjár merkur fyrir kvenfólk, og fjórar merkur fyrir karlmenn. Svo var kaffi um hádegi og nýr soðinn fiskur og flóuð undanrenning á kvöldin. Á vetrum var bjargfugl saltaður, soðinn í súpu; eða steinbítur og kartöflur eða lýsi við. Flóuð undanrenna á kvöldin og bygggrautur, en til miðdags harðfiskur, rúgbrauð og bræðingur; lýsi og smjör brætt saman. Á hátíðum var betri matur, helst á nýári. Þá var skammtað í stór mjólkurtrog og átti maður lengi bita af því til að grípa í. Sumir voru svo sparsamir að það entist til þorrabyrjunar“.
(JVJ segir einnig frá aðferðum móður sinnar við gerð hrognaosts úr grásleppuhrognum. Ekki er vitað um aðra sem hann gerðu þá). (Frás. Jónu Valgerðar Jónsdóttur í æviminningum).
TÖ segir í sínum minningum frá bökun pottbrauða o.fl. í Kollsvík. Segir að í ungdæmi móður hans hafi hrossaket ekki verið mannamatur, en var etið eftir 1900 þar sem í boði var.
Barnafræðslan: „Um menntun mína og uppfræðslu á þeim árum get ég verið fáorð. Eftir að ég varð tólf ára var ég hjá kennara; vanalega sex vikur á vetri. Ég lærði Helgakver utan að, og Biblíusögur. Líka að skrifa og reikna og lesa; annað var ekki kennt og annars ekki krafist í þá daga, og með það lagði ég út á lífsbraut mína til að byggja ofan á það er reynslan kenndi mér“. (Frás. Jónu Valgerðar Jónsdóttur í æviminningum).
Landssjóður styrkir barnafræðslu í Rauðasandsherppi: Bjarni Bjarnason (09.08.1836-24.02.1898) fær á skólaárinu 1888-1889 30 króna styrk úr Landssjóði til barnakennslu, af fé því sem veitt er sveitakennurum. (Tímarit um uppeldi og menntamál).
Farkennsla í Rauðasandshreppi: Bjarni Bjarnason er fyrsti farkennari sem heimildir eru um í Rauðasandshreppi (sjá hér ofar). Á eftir honum komu: Bjarni Gunnlaugsson (f.08.03.1848-d.09.08.1921) Tröð; Sumarliði Bjarnason (f.08.09.1873-d.04.04.1935) Keflavík (sonur Bjarna Bjarnasonar); Hákon Jónsson Hnjóti (kenndi 1897-1901); Sigurlaug Traustadóttir Breiðuvík (kenndi 1898-1902); Ólafur Jónsson Hvalskeri (kenndi 1901-1903 og 1906-1908); Samúel Eggertsson Stökkum og síðar Grund í Kollsvík (kenndi 1894-1903 og 1903-1907); Þórður Ó Thorlacius Saurbæ (1902-1911); Pétur Jónsson Stökkum (1907-1908); Gísli Gíslason Sjöundá (1907-1909); Eyjólfur Sveinsson Lambavatni (1910-1921 og 1925-1941); Ólína Erlendsdóttir Hvallátrum (1914-?); Valdimar Össurarson (eldri) Kollsvík (1921-1925); Leifur Finnbogason (1938-1940); Kjartan Þorgilsson (1940-1941); Jón G. Guðjónsson (1941-1943); Haraldur Þórarinsson (1941-1943); Kristján Júlíus Kristjánsson Efri-Tungu (1943-1945; 1946-1949; 1959-1960 og af og til 1918-1960); Sigurður Jónsson (1943-1944 og 1945-1946); Jóhanna Tryggvadóttir (1944-1945); Jón Arnar Magnússon (1946-1948); Oddný Guðmundsdóttir (1947-1948 og 1957-1958); Egill Ólafsson Hnjóti og Anna Hafliðadóttir Látrum (1949-1950); Össur Guðbjartsson Láganúpi (1950-1953 og 1958-1959); Tryggvi Eyjólfsson (1953-1957); Emma Kristjánsdóttir (1960-1961); Flosi Jónsson (1961-1962); Magnús Gestsson (1962-1964) og Þorkell Hjaltason (1964-1966). Farkennsla lagðist af er barnaskóli var byggður í Örlygshöfn 1966 (sjá þar). Fyrsti barnaskóli í Rauðasandshreppi var byggður á Eyrum 1900, en fylgdi Patrekshreppi við aðskilnað hreppanna. (Sjá 1922)
Skortur á pappír og bleki: Nokkuð háir það námi og skrifum hve pappír og blek er af skornum skammti. Sigurður Árnason í Hænuvík (f.1877) lýsir þessu svo, en hann var nemandi Bjarna Bjarnasonar: "Skriftarnámið var meiri erfiðleikum bundið en lestrarnámið, sem stafaði af því að mikill hörgull var á pappír, bleki og pennum. Pappírinn þótti svo dýr og fágæt vara að ekki var hann keyptur nema til hinna nauðsynlegustu bréfaskrifta, og var fólk ótrúlega sparsamt og fastheldið á hann. Hinn eini pappír sem ég gat fengið voru afgangar af sendibréfum sem faðir minn hafði fengið. Í þá daga tíðkuðust ekki umslög utan um sendibréf, heldur var hálfa örkin brotin í tvennt og bréfið skrifað vandlega á 2-3 síður og brotið þannig að auða síðan myndaði umslagið; og brotin síðan felld hvert innan í annað á baki bréfsins. Svo voru þau lökkuð og innsigluð". Þessar auðu síður klipptu skólakrakkar af og notuðu, ásamt umbúðapappír af kaffirót, tóbaksbréfum. "Blekið sem ég brúkaði var af mörgum tegundum og búið til úr ýmsum efnum. Útlent blek (súttansía, eins og það var kallað í minni sveit) fengum við börnin ekki. Það var einungis ætlað fullorðna fólkinu til bréfaskrifta, enda mun það ekki hafa verið til nema af skornum skammti. Fyrst er þá að nefna blek sem búið var til úr púðri og vatni; þá pottahrímsblek og sótblek. Allt voru þetta góðar tegundir. En vel varð að gæta þess að hrista það upp nógu oft; helst alltaf áður en pennanum var difið í byttuna. Annars kom það í kekkjum á pappírinn… En hin besta af öllum hinum mörgu blektegundum var kálfsblóðsblekið. Það var búið til úr nýju kálfsblóði; eða öllu réttara, kálfsblóð nýtt og ómengað. Og það hafði þann mikla kost að úr því urðu stafirnir fallega rauðir. En ekki var hægt að nota nema í mesta lagi tvo daga sama blekið; þá fór það að verða dauft og lykta viðbjóðslega“ (SÁ; Með straumnum).
Almanaksgerð: „Eitt var það sem Bjarni (Bjarnason, bóndi á Grundum, farkennari og skrautritari) fékkst mikið við; aðallega í tómstundum sínum. Hann skrifaði almanök fyrir nálega alla bændur í sveitinni. Þau voru svo prýðileg að frágangi öllum að ég vildi nú gefa mikið fyrir eitt þeirra ef fáanlegt væri. Prentuð almanök voru þá víst ekki auðfengin. En Bjarni náði sér brátt í eitt, sem hann skrifaði svo eftir. Titilblaðið afritaði hann nákvæmlega, nema stjörnumerkin; þau gat hann ekki fengist við. Tímatalið frá Krists fæðingu, o.s.frv; konungsættina (vanalega með skrautbleki); sunnudagsbókstafin; gyllinital; myrkvun tungls og sólar; tunglbreytingar; nákvæma stund og átt, ásamt teikningu tunglsins. Allar helstu messur, auk dagatalsins og sunnudagaröð kirkjuársins með guðspjallaheitum. Allt svo greinilega og skýrt að slíkt þótti taka fram hinum prentuðu almanökum“ (SÁ; Með straumnum; 1950).
Síðar tók Samúel Eggertsson (skrautskrifari og bóndi á Grund) að sér þessa dagatalagerð. Til er á Láganúpi eitt almanak hans.
Bátur ferst í Látraröst: Hinn 2. maí fórst bátur með 5 mönnum í Látraröst; formaður á honum var Dagbjartur Gíslason. Þetta vor er talið að um 15 bátar hafi róið frá Látrum og munu þeir allir hafa verið á sjó þennan dag. Gerði áhlaupsveður af norðri með snjókomu og veðurofsa, svo að fólk í landi bjóst við stórslysi er svo margir bátar voru á sjó. Bátur Dagbjartar mun hafa verið einn hinna minnstu. Þetta var svo snemma vors að steinbítur var ekki genginn á grunnmið. Var þá jafnan yfir Látraröst að fara. Nokkrir bátar hugðust forðast röstina með því að sigla suður með henni djúpmegin. Komust þeir svo á venjulegri bátaleið fyrir Bjargtanga og tóku barning að Brunnum. Á uppsiglingunni hvarf bátur Dagbjartar í einu élinu og sást ekki framar. (TÓ; Sjóslysaannáll).
Helgi Ásbjörnsson hverfur við Hnífaflögu: Hinn 19. apríl drukknaði Helgi Ásbjörnsson er hann var einn við fugla- eða selveiðar undir Hnífaflögu í Láganúpslandi. Skór hans og byssan fundust uppi á Flögunni, en líkið fannst aldrei. Helgi var 22ja ára; fæddur á Geitagili 22 ágúst 1865; sonur Ásbjörns Ólafssonar bónda á Geitagili og Láganúpi, og konu hans Jóhönnu Einarsdóttur. (T.Ó. Kollsv.ætt og munnlegar sagnir í Kollsvík).
Banaslys í Hvanngjá: Magnús Sveinsson frá Lambavatni (28.08.1868-20.07.1888) hrapaði til bana í Bæjarbjargi hinn 20. júlí. Magnús var við snörun niðri í Hvanngjá. Hann hafði rétt leyst af sér vaðinn þegar stallurinn hrundi sem hann stóð á, með þeim afleiðingum að hann hrapaði í sjó niður. Var hans leitað en fannst ekki. Magnús var sonur Sveins Magnússonar bónda og læknis á Lambavatni, og konu hans Halldóru Ólafsdóttur. Hvanngjá gengur niður í bjargið þar sem það er hæst, en í henni eru höld þar sem fugl hefur verið snaraður. Er þá fyrst gengið um 200 metra niður gjána og síðan farið í lásum og sigum. Er fuglinn síðan dreginn á brún. (MG; Látrabjarg. TÓ; Ábúendatal Rhr).
Annað banaslys í Látrabjargi: 12. oktober 1888 varð annað banaslys í Látrabjargi á þessu ári, er Bjarni Ólafsson hrapaði. Hann var 24 ára; ókvæntur vinnumaður í Breiðuvík; sonur Ólafs Magnússonar sem drukknaði í júlí 1864 og Birgitar Bjarnadóttur.
1889
Landamerkjavitnisburður vegna Kollsvíkur og Láganúpsjarða: Á landamerkjaþingi að Tungu í Örlygshöfn 15. júlí árið 1889 voru upplesin og innfærð landamerki jarða í Kollsvík, en þar segir:
„Eftir óátöldum gömlum máldögum og landamerkjaskrám á Láganúpur land að sunnanverðu í sker það er liggur niðurundan miðjum núp þeim er almennt hefur verið kallaður Breiður og úr skeri því er fyrrum hefur verið kallað Landamerkjasker, og síðan upp allan Landamerkjahrygg og beint á fjall upp; og svo eru landamerki eftir vatnshalla eftir kjöl þeim sem liggur milli Breiðavíkur og Vatnadals allt norður að vegi þeim er liggur fram Vatnadal frá Kollsvík og suður á Rauðasand; svo eru mörkin eftir sem vegur þessi liggur ofan Vatnadals yfir Kollsvíkurskarð, svo langt norður sem svarar uppsprettu ár þeirrar er rennur í sjó milli Láganúps og Kollsvíkur og eftir Ánni til sjávar. Túninu og nokkru af slægjulandi því er Láganúpi hefur fylgt er nú skipt milli Láganúps og Grunda, en beitilandi og reka og öllum öðrum gögnum og gæðum ásamt nokkru af slægjulandinu er óskipt, en þessi jarðarnot hefur hver ábúandanna að helmingi eins og þau notast; engin ítök eiga aðrar jarðir eða menn í landi Láganúps. Láginúpur á engin ítök í annarra manna löndum. Þar sem Láginúpur er kirkjujörð frá Bæ á Rauðasandi þá kemur ekki til greina sérstaklega ítak Bæjarkirkju til tíundu hverrar vættar af hvalreka í landi allra jarða í Rauðasandshreppi“.
Baðstofan í Kollsvík endurgerð: Torfi Jónsson í Kollsvík hefur látið endurbyggja baðstofuna í Kollsvíkurbænum, og vann faðir hans Jón Torfason að verkinu. Flutt var í baðstofuna um sláttubyrjun. Hún er portbyggð og sofið og setið uppi; tíu álnir á lengd, en fjórar á breidd og þrjár álnir í krossa undir loftinu. Í veggnum sem snýr fram á hlaðið er þil og tveir fjögra rúða gluggar; annar uppi, hinn niðri. Þar er þiljað hús, ætlað gestum. Í hinum endanum er búr og eldavél; ein sú fyrsta í Kollsvík. Líka er eldhús inn af göngum og er þar soðið slátur á hlóðum; steiktar flatkökur og steikt hlóðabrauð undir potti og bakað við moð; soðinn hvalur og fleira. Í rjáfrinu er rá og á hana raðað lundaböggum og magálum. Frammi í göngunum stendur matkvörnin og stór steinn er barinn er á fiskur og öll bein handa kúm, fé og hestum.
Fjölgað hefur í Kollsvíkurbænum, með því að þangað flytst Jón Torfason og kona hans. Einnig dóttir þeirra; Anna Guðrún Jónsdóttir. Hún hefur nýlega eignast barn með Magnúsi Árnasyni á Hnjóti; giftum manni, en barnið; Hildur Magnúsdóttir, verður um sinn hjá föður sínum og konu hans.
(Frás. Jónu Valgerðar Jónsdóttur í æviminningum).
Torfi byggði sér stærra hús fáum árum síðar; sjá 1896. Anna tók Hildi til sín að Kollsvík eins árs gamla og bjó hún í víkinni upp frá því. Hildur giftist síðar Guðbjarti Guðbjartssyni og bjuggu þau lengst af á Láganúpi. Anna giftist Össuri Guðbjartssyni, bróður Guðbjartar. Þau bjuggu í Kollsvík og á Láganúpi en fluttu síðar í Dýrafjörð.
Fyrsta eldavélin í Kollsvík: Í nýja bænum í Kollsvík (sjá ofan) er eldavél, sem er nýjung í Kollsvík. Þar hefur matur hingað til verið eldaður á hlóðum, líkt og tíðkast hefur í sveitinni frá fyrstu tíð. Eldavélin er með lausum hringjum, gerð fyrir hlóðapotta með kúptum botni. Reykrör liggur frá henni uppúr þaki og er múrað við vélina. Eldiviður var víðast mór, rekaviður, þönglar, þang ofl. Svolítið var gert af klíningi á vorin til eldsneytis.
Síðar komu eldavélar með sléttu borði, fyrir flatbotna potta; og alllöngu síðar olíueldavélar. TÖ segir að eldavélar hafi verið á hverju heimili í Kollsvík þegar hann man eftir sér (f. 1904) en hlóðir einnig notaðar eitthvað áfram. Eldavélarnar veittu góðan yl í húsin og var fatnaður, t.d. húfur og vettlingar, gjarnan þurrkaður á stöng sem var til hlífðar kringum þær. (JVJ; TÖ o.fl.).
Fréttir úr Verinu: „Karlmennirnir sváfu í búðum við sjóinn meðan vertíð stóð. Þeir reru hvern dag er gaf; fjórir á hverjum báti. Voru það árar og segl en ekki vélar (þær þekktust ekki) sem knúðu þá áfram, og veiðarfærin voru færi. Stundum reru þar 15 bátar; komu víða að og gerðu sig út frá sumarmálum og til tólf vikur af sumri. Þá fóru þeir heim til sín með harðfiskinn, en þorskur var saltaður og verkaður eins og enn (um 1930) gerist". (Frás. Jónu Valgerðar Jónsdóttur í æviminningum).
Breiðfirðingar "róa vestur á víkur": "Þegar vinnumaður kom (í Breiðafjarðareyjar) á Krossmessu, sem venjulega var vinnuhjúaskildagi, var hann strax látinn fara vestur til Víkur í Rauðasandshreppi, en þar reri hann fram til Jónsmessu. Var svo heima um sláttinn, en um leitir fór hann í Bjarneyjar og reri þar fram á Þorláksmessu. Eftir nýársdag var hann svo sendur út undir Jökul, þar sem róið var fram að Krossmessu" (Pétur Sveinsson (30.09.1890-19.10.1973) sjómaður í Breiðafirði og víðar; viðtal í Sjbl. Víkingi 1964).
"Einn maður sótti suður úr Hergilsey á fjögra manna fari og fór aftur eftir vorið með skreiðina suður fyrir Bjarg; allt í Eyjar". (Frás. Jónu Valgerðar Jónsdóttur í æviminningum).
1890
Bátar heimamanna í Kollsvíkurveri: „Árið 1890 eru gerðir út frá Kollsvíkurveri þessir bátar:
Sultur, eigandi Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík, og var hann formaður. Sultur mun fyrst hafa verið í eigu föður Torfa; Jóns Torfasonar bónda á Hnjóti. Reitingur, eigendur Magðalena Halldórsdóttir, ekkja Guðbjartar Ólafssonar bónda í Kollsvík, og sonur hennar Ólafur Guðbjartsson er þá var vinnumaður í Keflavík hjá Jóni Gíslasyni. Formaður á Reitingi var Ólafur Guðbjartsson. Heppinn, eigandi og formaður Halldór Ólafsson bóndi á Grundum. Bóndi á Láganúpi var Ásbjörn Ólafsson; átti hann engan bát. (Guðbj. Guðbj; viðt.EÓ við hann).
Fyrstu aðkomubátar í Kollsvík: „Fyrst þegar ég man eftir reru hér ekki nema heimamenn. Þegar farið er að fiska þorsk á lóðir hefst aftur fyrir alvöru verstöð fyrir aðkomumenn. Þeir byrjuðu á Látrum á vorin og færðu sig svo í Kollsvík þegar fiskur var genginn norðar“. (GG; Verstöðin Kollsvík). „Með fyrstu aðkomubátum í Kollsvíkurver var vöðubátur, en svo voru þeir bátar kallaðir sem notaðir voru til vöðuselsveiða. Selurinn gekk oft í stórum torfum inn á firðina. Var hann mikið veiddur, og veiðarfærið var skutull. Vöðubátar voru frekar litlir; minni en fjögramannaför, en það var hin venjulega stærð róðrarbáta. Þessir bátar voru öðruvísi lagaðir en róðrarbátar; byggðir með það fyrir augum að vera sem hraðskreiðastir. Eigendur að fyrsta vöðubátnum í Kollsvíkurveri voru Magnús Árnason bóndi á Hnjóti og Gísli Ólafsson bóndi á Sellátranesi. Mun báturinn hafa verið aðkeyptur. Formaður á bátnum var Magnús Árnason. Hásetar voru Gísli Ólafsson meðeigandi, og Magnús Pétursson vinnumaður í Breiðavík“. (Guðbj. Guðbj; viðt.EÓ við hann).
Hákarlaskip í hverri vík: Á þessum árum er hákarlaskip í hverri vík. Í Kollsvík er það teinæringurinn Fönix. (Notaður fram um aldamót). Hákarlaskipið á Látrum heitir Egill; Dvalinn í Vatnsdal, og Svanur í Hænuvík. Farnar eru nokkrar ferðir til að veiða hákarl þegar kemur fram á vetur. Lifrin er brædd og seld í verslanir. Hákarlalýsi er og notað heima í bræðing. (Guðbjartur Guðbjartsson Láganúpi; Sdbl. Þjóðviljans 1964).
Brunnaverstöð leggst af: Útræði er nú að leggjast af á Brunnum, en þar hefur lengi verið mikið útver sem menn hafa sótt langt að. Ekki er ljóst hvenær verstöðin byggðist fyrst upp, en líklega hefur það verið við upphaf skreiðarsölu, líkt og t.d. Láganúpsver og Keflavík. Brunnaverstöð lagðist af um 1620 (sjá þar) vegna sandfoks og vatnsleysis en hófst aftur innan 100 ára. Fyrir 1620 reru þar gjarnan menn norðan af fjörðum, en á síðara skeiðinu var þangað einkum sótt úr Breiðafjarðarbyggðum. Var veiðistöð þessi einkum vinsæl til steinbítsveiða. (PJ; Barðstr.bók o.fl).
Kúfiskplógar smíðaðir í Hringsdal: Einar Gíslason í Hringsdal í Arnarfirði smíðar nú kúfiskplóga, byggða á hans hönnun, og eru þeir nokkuð notaðir í Arnarfirði. (Síðar voru þeir notaðir til beituöflunar fyrir báta í Kollsvíkurveri. Plógur af þessari gerð er í Minjasafninu á Hnjóti). (LK;Ísl.sjávarhættir IV).
„Ég held að Einar heitinn í Hringsdal hafi fyrstur manna notað kúfiskplóg, en aðrir segja að Sumarliði gullsmiður, ömmubróðir minn hafi fyrstur verið með hann“. (GG; Verstöðin Kollsvík).
Þurrabúðarfólki fjölgar á Eyrum: Með vexti í þilskipaútgerð fjölgar þurrabúðum á Eyrum; þær eru nú 13 talsins, auk kaupmannshúsa, veitingahúss og sýslumannshúss. Íbúar á Eyrum eru nú 94.
Manntalið 1890: Í Kollsvík búa nú samtals 44. Þar af búa á tvíbýlinu Kollsvík 19; á Láganúpi 9 og á Grundum og Grundabökkum 16. (40 búa á Vatneyri og 40 á Geirseyri).
Færeyingar koma til róðra á Eyrar: Sjö Færeyingar komu hinn 14.04.1890 til Eyra til róðra. (Ísafold 39.tbl. 14.05.1890). (Sjá meira um útgerð Færeyinga 1925)
Hvalreki í Kollsvík: Hinn 17.04.1890 rak hval í Kollvíkurlandi; 30 álnir (18,84 m) milli sporðs og höfuðs, en 50 álnir (31,40 m) alls. Af honum fengust 140 vættir (10 fj. v.) (6020 kg) af spiki. Þvestið var nær því ónýtt sökum ýldu. (Ísafold 39.tbl. 14.05.1890).
Tvær sagnir hafa verið um stóra hvalreka í Kollsvík á síðari hluta 19.aldar. Öruggt má telja að a.m.k. önnur þeirra eigi rætur í þeim sem Ísafold greinir hér frá. Þar sem Ísafoldarfréttin segir „í Kollsvíkurlandi“ er líklegt að fyrri sögnin vísi til hans.
1. Hvalreki í Snorralendingu: Hval rak upp í Snorralendingu, sem er í Kollsvíkurlandi; milli Breiðaskers og Versins. Hvalsins var fyrst vart er Halldór Ólafsson bóndi á Grundum var að lesa húslestur á sunnudegi. Milli kafla varð honum litið út um gluggann og sér þá hvalinn bera yfir Oddann. Segir sagan að hann hafi þá fleygt frá sér postillunni til Halldóru konu sinnar og sagt um leið: „Hér er bókin; hvar er brókin; Amen“!
Óvíst er með ártal og sögum ber ekki saman um ýmis atriði. Í bók MG: „Úr vesturbyggðum Barðastrandasýslu“ segir að hvalinn hafi rekið í Breiðuvík, sem líklega er ekki rétt. Sagan hefur verið sögð um Kristján Ásbjörnsson tengdason Ólafs, en þar gæti verið víxlun við eftirfarandi sögn:
2. Hval rekur upp á Arnarboða: Síðsumars rak Kristján Ásbjörnsson bóndi á Grundum, ásamt fólki sínu, fé sitt til aftektar í fjárrétt sem er við Garðana, utan Lögmannslágar. Er aftektin stóð sem hæst sá réttarfólk hvar reyðarhval rak þar grunnt norðurmeð landinu. Fylgdist það með þar til hvalurinn var orðinn landfastur á Arnarboða, sem er þar rétt fyrir framan.
Margt er óljóst í þessari sögu; bæði ártal og fleira. Vitað er að réttarfólk á Grundum fylgdist með hval reka upp á boða. Sögunni er stundum víxlað við fyrrnefnda hvalrekasögu. Hvorug sögnin greinir hvort unnt reyndist að nýta hvalinn. Byggt m.a. á sögn sem Ævar Petersen náttúrufræðingur hafði eftir Ara Ívarssyni. Ari hafði heyrt að aftekt hafi staðið yfir á Grundum er hvalinn rak.
1891
Nýbýlið Tröð: Bjarni Gunnlaugsson, fyrrum bóndi í Breiðuvík, og kona hans Þorgerður Sigmundsdóttir, hafa byggt grasbýlið Tröð í landi Kollsvíkur; undir Hæðinni framanvið Gamlastöðul og Rauðukusustein en heiman Bælishóls. Býr hann þar ásamt síðari konu sinni, Sigríði Ásbjörnsdóttur, og tveimur börnum frá fyrra hjónabandi. Milli 1909-1921 búa í Tröð Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir með sínum börnum en eftir það Helgi Ásbjörn Árnason og Sigrún Össurardóttir ásamt börnum. Þegar þau flytja, 1952, fer Tröð í eyði. Guðbjartur Guðbjartsson byggði hús að Tröð 1911 og hlóð hús og mikinn túngarð sem enn (2020) stendur.
Búnaðarfélagið Örlygur: Stofnað hefur verið félag bænda í Rauðasandshreppi, sem mun vinna að hagsmunamálefnum þeirra og framförum í búnaðarmálum; Búnaðarfélagið Örlygur.
Stofnár ekki ljóst, en 1891 berst fyrst skýrsla þess til Búnaðarfélags Íslands. Guðmundur Sigurðsson hreppstjóri í Vatnsdal segir árið 1903 að síðan búnaðarfélagið var stofnað hafi talsvert verið unnið að jarða- og húsabótum, túngörðum og sléttun, auk réttindamála leiguliða. Sjá 1934.
Bjargráðanefnd í Rauðasandshreppi: Stofnaðar hafa verið bjargráðanefndir víða um land til að koma á umbótum í sjávarútvegi og auka öryggi við sjósókn. Séra Oddur V. Gíslason, sem er hvatamaður að stofnun nefndanna, sendi Alþingi skýrslu um nefndirnar 1891 og segir m.a: „Á Patreksfirði myndaði herra Guðmundur Sigurðsson á Látrum þriggja manna bjargráðanefnd, og er þar lýsi við haft“ (til að draga úr brimbrotum á sjó).
Má ætla að þessi nefnd hafi verið undanfari björgunarsveita og slysavarnadeilda er síðar voru stofnaðar víða um land, enda var séra Oddur frumkvöðull í slysavörnum sjómanna.
Enn segir af óvættinum á Látraheiði: Sigmundur Hjálmarsson á Hvalskeri bjóst að heiman nú í júlíbyrjun, til að sækja fugl og steinbít sem var hlutur vermanns hans á Hvallátrum. Kemur hann að Látrum og er þar vel tekið; býr þar upp á hesta sína og leggur á Látraheiði fyrripart dags. Á leiðinni lenti hann í hremmingum sem hann lýsir svo: Þegar hann kemur upp að Klofavörðu, sem er þar hátt uppi á Látradal, svífur að honum tvífætt ókind. Ræðst hún að Sigmundi; festir klærnar í treyju hans og rífur hana niður og í gegn, en hún var úr sterku efni. Þegar skepnin losar takið tekur Sigmundur til fótanna og hleypur niður í Breiðavíkurver án þess að líta við á leiðinni. Síðar fundust hestarnir og virtust ekki hafa skaðast. Sigmundur er þekktur að sannsögli og því tregðast menn við að rengja frásögn hans. Munu margir hér eftir kjósa að hafa vopn eða barefli með í för þegar þeir leggja á heiðina. Við þessa atburði hafa menn rifjað upp eldri sögur af svipuðum toga, t.d. af viðskiptum Sigurðar Finnbogasonar við óvættinn árið 1876 (sjá þar). (Eggert H. Kristjánss; Frjáls þjóð 30.07.1955. ÁE; frásögn á Ísmús).
Lýsing eins Látrabónda hljóðar svo: „Dýr hefir sjezt á Látraheiði og elt mann sem var á ferð um heiðina. Hann lýsti því svo að það hefði verið á stærð við lítinn hest; langt og mjótt, með haus líkan kálfshaus; rauðblesótt og hefði stokkið áfram líkt og köttur. En er það stóð á apturfótunuin var það á hæð við mann. Það náði manninurn einu sinni og reif föt hans; en sökum hræðslu gat hann eigi sagt, hvort það gerði það með kjapti eða klóm. Sumir hafa haldið, að þetta myndi vera bjarndýrshúnn. Jeg talaði nýlega við manninn sem sá það; hann er bóndi á næsta bæ við mig. En nokkrir fleiri hafa og sjeð það bæði fyr og síðar en hann. Það var um daginn verið að tala um að gera að dýrinu leit og reyna að skjóta það. En hvað úr því verður, veit jeg eigi". (Ísafold 26.08.1891).
1892
Aftur brenna verslunarhús á Vatneyri: Í desember brann nýtt nýtt verslunarhús sem Sigurður Bachmann kaupmaður hafði byggt, ásamt íbúðarhúsi, vöruhúsi, vörulager og hlöðu. Fáu varð bjargað. Húsin munu hafa verið lágt vátryggð, en auk þess hvíla nokkrar skuldir á Sigurði.
Sigurður byrjaði samt ótrauður að byggja sér nýtt stórt einbýlishús og fékk Gunnar Bachmann til að stjórna smíði þess. Síðar bjó Ólafur Jóhannesson lengi í þessu húsi og stendur það enn 2020; „Konsúlshúsið“. Sigurður seldi síðar Pétri Thorsteinssyni eignir sínar, sjá 1896. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu stofnaður: Hinn 29.04.1892 var stofnaður Sparisjóður Vestur-Barðastrandasýslu með 20 ábyrgðarmönnum. Sparisjóðurinn mun hafa aðsetur á Vatneyri, og er Sigurður Bachmann stjórnarformaður.
Sparisjóðurinn starfaði til 20.07.1915 og átti mikinn þátt í að örva framkvæmdir í sýslunni; ekki síst á Eyrum. Var niðurlagning hans sögð stafa af fjármálaóreiðu. (Guðjón Friðriksson; Árb.Barð. 2012).
Heilsudrykkur: „Hinn eini ekta Brama-Lífs-Elixír (Heilbrigðis matbitter ) frá Mansfeld-Bfillner & Lassen verndar heilsuna og heldr þannig við lífinu svo lengi sem unt er, hefir áhrif móti magaveiklun, magaslími, kvefl, hreinsar magann og innyflin, glæðir lífsöflin, gerir menn hressa í anda, styrkir þarmana, hvessir skilningarvitin, dugar móti fótaveiki, gigt, ormum, magakveisu, andþrengslum, meltingarleysi. ofurölvun, magakvillum, móðursýki, vatnssýki, köldu, hægðaleysi, o. s. frv. Fæst einungis ekta hjá þessum útsölum; … Patreksfirði; M. Snæbjörnsson… .
Assens. Grönholz, herráð, læknir". (Auglýsing í Fjallkonunni 6.tbl 09.02.1892).
1893
Síðasta selið í Rauðasandshreppi: Þetta sumar var síðast haft í seli í hreppnum. Er það í Selinu á Seljadal á Hvallátrum sem þessum þjóðlegu búskaparháttum hefur lengst verið haldið við. Þar eru hús allmikil og grösugt beitiland. Þrjár konur hafa vanalega dvalið á Selinu; ein frá hverjum bæ á Hvallátrum. Sagt er að á Selinu sé huldufólk. Síðasta selkona sem þar gegndi störfum var Halldóra Gísladóttir, kona Eggerts Eggertssonar. Eitt sumarið hafði önnur kýrin verið þurr annars vegar. Þá dreymdi Halldóru að til sín kæmi huldukona sem sagðist bera ábyrgð á þessu; hún hafi þurft að bjarga sér og börnum sínum. En á móti skyldi hún tryggja að aldrei yrði hún mjólkurlaus; og gekk það eftir. Öðru sinni var það að smali kom á Selið þegar það átti að vera mannlaust og sá þar konu hvíla á fleti.
Mörg sel voru í hreppnum fyrrum, af örnefnum og tóftum að dæma. T.d. Fornusel fremst í Breiðuvík og Selið í Keflavík sem lagðist niður nokkrum árum fyrr en Selið á Hvallátrum. (Örn.skrá Hvallátra o.fl).
Þingmálafundur var haldin að Vatneyri 01.05.1893. Um 20 kjósendur mættu. Fundarstjóri var Sigurður prófessor Jensson alþingismaður; skrifari Jónas prestur Bjarnarson. Allmiklar umræður urðu um leysing á vistarskyldunni. Skiptar skoðanir; þó fleiri móti því en með að vistarbandið væri leyst. Samþykkt með flestum atkvæðum að þrefalda vínfangatollinn. Enn fremur að leggja toll á smjörlíki og hækka toll á hvallýsi; þar á móti beðið um afnám sykurtollsins. Um stjórnarskrármálið var sú ályktun gjörð eptir nokkrar umræður, að skora á þingið að halda fram kröfunum um breyting á stjórnarskránni í sömu stefnu og á síðasta þingi. Ennfremur óskaði fundurinn að kjörstöðum yrði fjölgað; helzt svo að kosið yrði í hverjum hreppi. Afnám amtmannaembœttanna var samþykkt, og að lækka eptirlaun embættismanna. Skorað á þingið að auka gufuskipsferðirnar og gjöra þær haganlegri en nú er. Beðið um auknar póstferðir í vesturhluta sýslunnar; einkum að aukapóstur verði látinn ganga frá Bíldudal til Selárdals. (Ísafold 05.07.1893).
Hvalveiðistöð á Suðureyri: Norskt hlutafélag; A/S Talkna (oft nefnt Talknaselskabet) hefur reist hvalveiðistöð á Suðureyri í Tálknafirði. Norðmenn hafa verið öflugir í hvalveiðum, en nú er orðið lítið um hval við Norður-Noreg. Þar sem útlenskum félögum er bannað að stunda útgerð hérlendis hafa Norðmennirnir skráð forstöðumenn félagsins til heimilis hérlendis. Mestmegnis eru það Norðmenn sem vinna við hvalstöðina, en einnig allmargir Tálknfirðingar. Hún mun einnig skila allnokkrum tekjum til sveitarsjóðs í formi útsvara, enda eru hvalveiðar mjög arðbærar.
A/S Talkne sameinaðist 1911 félaginu A/S Heklu sem rak hvalveiðistöðvar á Hesteyri og í Jökulfjörðum. Hvalstöðinni á Suðureyri var lokað árið 1915 er hvaleiðum var hætt. En Pétur A. Ólafsson keypti hana; stofnaði hlutafélagið Kóp og hugðist gera út á selveiðar. Því var þó hætt 1917. 1928 var hvalveiðibanninu aflétt og 1935 hófst aftur vinnsla í hvalstöðinni á Suðureyri á vegum Kóps, sem þá hafði verið endurreistur. Notaðir voru norskir hvalbátar, en vinnslu var sjálfhætt 1939, þegar þeir bátar voru kallaðir heim til herþjónustu. (BÞ: Vestfjarðarit).
Þegar Norðmenn byrjuðu á Suðureyri keyptu þeir efni í hvalstöðina af Rússakeisara; slátur úr hvalstöð hans við Hvítahaf. Eitthvað af húsatimbri keisarans virðist Pétur hafa flutt með sér suður til Reykjavíkur 1916 og notað til endurbyggingar á húsi sínu þar; Valhöll við Suðurgötu 39, sem síðar varð hús Sjálfstæðisflokksins árið 1956. Minjastofnun hefur verið þar til húsa frá 2004. (Minjastofnun; Hver er saga Valhallar?). Sjálfstæðisflokkurinn flutti hinsvegar nafnið með sér á steypukassa sem hann byggði við Háaleitisbraut.
Skreiðarferð að Saurbæ: Mjög er sótt austan úr Breiðafjarðarsveitum Barðastrandasýslu til skreiðarkaupa í Útvíkur. Megnið af hinni miklu steinbítsveiði er þannig ráðstafað. Steinbíturinn er seldur frá verstöðvunum eða þeim sem þar hafa haft menn til róðra, t.d. frá stórbýlinu á Saurbæ. Þannig komu t.d. nú í sumar menn með hesta austan frá Hjöllum í Þorskafirði, til skreiðarkaupa að Saurbæ. Sjötíu steinbíta keyptu þeir, fyrir tvo fjórðunga smjörs. (Vikan 25.02.1943; frásögn Guðjóns Jónssonar, Hjöllum).
Guðjón lýsir þessari ferð ágætlega í frásögn sinni; fólki, siðum, byggð og leiðum svæðisins á þessum tíma. Ekki hafa fundist aðrar svo nákvæmar lýsingar úr skreiðarferðum á þessu svæði. Í annarri grein (Vísir sunnudbl. 01.11.1942) lýsir Guðjón viðarkolagerð og segir að viðarkol hafi faðir hans m.a. notað sem gjaldmiðil fyrir skreið sem hann sótti „vestur á sveitir“. Slíkar ferðir hafi verið farnar í 11. eða 12. viku sumars, eða hálfum mánuði eftir fráfærur. Einnig hafi skreiðin verið greidd með smjöri.
1894
Lóðir fyrst notaðar í Kollsvíkurveri: Lóðir eru fyrst notaðar í Kollsvík þetta vor, en áður hafði eingöngu verið stunduð handfæraveiði. Sá sem fyrstur notar lóðir er Hákon Jónsson, bóndi á Hnjóti; sonur Jóns Torfasonar í Kollsvík. Einn af hásetum Hákonar þetta vor er Þórður Gunnlaugsson. Hann er nýfluttur norðan frá Ísafjarðardjúpi að Bröttuhlíð á Rauðasandi, og flutti þessa nýjung með sér. Aðrir hásetar hjá Hákoni þetta vor eru þeir Halldór Benjamínsson bóndi í Keflavík (faðir Hafliða á Látrum o.fl.) og Ólafur Jónsson bóndi á Hvalskeri (faðir Sigurjóns alþingismanns, Stefáns bónda á Skeri o.fl). Þeir bátar er voru á sjó þennan dag á handfærum reru norður á Blakknesröst. Þeir voru Sultur, Heppinn og Reitingur; allir heimabátar í Kollsvík. Fjórir menn voru á bát, og var ég (GG) háseti á Reiting. Lóðataumarnir voru fyrst unnir úr frönskum línum; raktir úr þeim (Guðbjartur Guðbjartsson ; Kollsvíkurver).
Þegar farið er að fiska þorsk á lóðir hefst aftur fyrir alvöru verstöð fyrir aðkomumenn. Þeir byrjuðu á Látrum á vorin og færðu sig svo í Kollsvík þegar fiskur var genginn norðar. Munu hafa verið 25 eða 26 bátar sem voru hér með lóðir um skeið. Þá hafa verið hundrað manns í Verinu, en heimamenn í Kollsvík bjuggu í Verinu á vertíðinni. Þangað til farið var að nota lóðir var mest fiskaður steinbítur og hann var hertur. Þorskurinn var saltaður og þurrkaður. (GG í viðt. við EÓ).
Venjan var að línulengdin væri ekki nema 10 lóðir, eða 60 faðmar hver lóð. Þá voru 2 álnir milli króka. Það var beitt í landi og línan lögð undan straumi. Legið var yfir henni þangað til farið var að lina í fallinu. Þá var byrjað að draga sama enda og lokið var við að leggja. Þá dregið og beitt út; þ.e. línan var ekki dregin inn í bátinn, heldur dregin með borði; fiskurinn tekinn og línan síðan beitt og lögð jafnóðum aftur og hún var dregin. Síðan var enn legið við sama enda þar til straumaskipti voru. Línan var svo látin liggja meðan farið var í land. Í seinni róðrinum var einnig dregið tvisvar og línan tekin upp í seinna skiptið og beitt í landi. Það var því dregið og beitt fjórum sinnum á hverjum degi. (KJK; Sdbl.Þjv).
Líklegt er að lóðir hafi verið notaðar í Kollsvíkurverum fyrr á öldum, þó notkun þeirra hafi fallið niður um langa hríð. Má þar benda á ummæli í Jarðabókinni um útgerð á þessum slóðum 1703, þar sem segir að lóðir brúkist ekki á þeim tíma, eftir að frá lagðist stórþorskur. Englendingar voru fjölmennir á duggum sínum á Vestfjarðamiðum snemma á 15.öld. Þeir brúkuðu lóðir og hafa án efa komið upp á Kollsvík í brælum og kynnt þessa nýjung fyrir heimamönnum. Lóðar hérlendis er fyrst getið í heimildum 1482, en síðan lítið fyrr en í marköngladómi Magnúsar prúða árið 1567 (sjá þar). Ekki er ljóst hvenær fyrst var farið með haukalóð (skötulóð/lúðulóð) frá Kollsvík, en hún var fyrst notuð 1880 í Breiðafirði. Breiðfirðirskir sjómenn reru gjarnan "vestur á ver", og hafa lóðaveiðar því vafalítið verið þekktar í Kollsvík, en.e.t.v. ekki taldar eiga við þar fyrr en með þessari lögn Hákonar.
Beita á lóðir: Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt steinbítsgormi og ljósabeitu. Fljótlega var þó farið að nota kúfisk, og var hann tekinn inni í Bug, hjá Hvalskeri. Sá fyrsti sem notaði kúfisk til beitu mun hafa verið Þórarinn Thorlacíus, á Sveinseyri í Tálknafirði. Ekki er glöggt vitað hvenær byrjað var að nota kúfiskplóg, en Ólafur Magnússon á Hnjóti minntist þess að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík hafi smíðað kúfiskplóg úr skeifnajárni. Með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi, en sú skel sem þar fékkst var mjög smá; aðallega rauðbarði (Guðbjartur Guðbjartsson Láganúpi; viðtal EÓ við hann).
„Ekki var línan löng, sem lögð var hverju sinni, eða aðeins 800 – 1000 krókar með hverjum bát, en línan var alltaf dregin fjórum sinnum á dag“ (KJK; Kollsvíkurver).
Salt- og fiskflutningar: „Saltið var mest flutt hingað frá Patreksfirði í bátnum Kára. Saltfisknum var oft skipað út í flutningaskip er lögðust hér fyrir utan og tóku hann. Stundum komu líka skip er sóttu þurrkuð fiskbein og fluttu þau á staði þar sem beinakvarnir voru, og þau voru möluð“ (GG; Verstöðin Kollsvík).
Kári mun hafa verið í eigu Sameinuðu verslananna sem störfuðu víða.
Útflutningur frá Eyrum: Alls fluttust út 1894 frá Patreksfirði: Saltkjöt 5.168 pund; hvít ull 10.001 pund; svört ull 240 pund; mislit ull 1.452 pund; saltaðar sauðargærur samtals 400 stk; hertar sauðargærur 2stk; lambskinn 56 stk; selskinn 18 stk; dúnn 17 pund; saltfiskur (þorskur) 149.069 pund; ýsa 52.166 pund; smáfiskur 77.432 pund; langa, upsi og keila 16.990 pund; þorskalýsi soðið 9 tunnur. (Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1895).
Úr dagbók skútu við veiðar grunnt á Víkum: Skútan "Nordkaperen" kom nýlega til Ísafjarðar; nýsmíðuð í Svíþjóð fyrir Ásgeirsverslun (ein af "Árnapungunum" svonefndu); 17 nettótonn að stærð. Hér er gripið niður í skipsdagbókina (journalinn) í fyrstu veiðiferðinni, en skipstjóri var Páll Halldórsson (síðar skólastjóri Stýrimannaskólans):
"Föstud. hinn 25. maí. Stilltur austan vindur til kl. 3 um nóttina. Leystum rif úr seglunum kl. 4 og lögðum til að fiska 1 mílu út af Blakknesinu. KI. 7 f. m. gjört hreint, 94 fiskar. Frá kl. 9 f. m. logn og heiðskírt veður allan daginn. Barom. 76,8. Kl. 7 e. m. gjört hreint, 130 fiskar. Pumpað lens. Laugard. hinn 26. maí. Logn og þoka allan daginn. Barom. 76,9. Gjört hreint kl. 7 f. m., 290 fiskar. Kl. 12 á hádegi verið að fiska y2 mílu út af Breiðuvíkinni. Gjört hreint kl. 7 e. m., 150 fiskar. Pumpað Iens. Sunnudaginn hinn 27. maí. Stilltur austan vindur og hálfþykkt loft. Gjört hreint kl. 7 f. m., 373 fiskar. Vorum y2 mílu út af Blakknesinu. Heistum segl og lensuðum suður undur undir Jökul. Pumpað lens". (Baldur 23.12.1957).
Brandarstaðir byggjast: Guðbrandur Eiríksson hefur byggt sér timburhús á Hvalskeri, stuttu innan við hleinina og býr þar með Veróníku konu sinni. Þurrabýlið nefnir hann Brautarholt, en sveitungar kenna það fremur við eigandann og nefna Brandarstaði.
Þau bjuggu á þessu húsmannsbýli til 1905, en fluttu þá á Eyrar og tóku húsið með sér. Á þessum stað risu síðar byggingar Kaupfélags Rauðasands. Löngu síðar reis bústaður þar stuttu ofanvið, sem stundum gengur undir nafninu Brandarstaðir.
Nýr héraðslæknir: Tómas Helgason hefur tekið við sem héraðslæknir, með aðsetur á Vatneyri. (Ísafold 29.12.1894).
Hreppstjóraskipti: Guðmundur Sigurðsson í Vatnsdal hefur nú tekið við hreppstjóraembætti af Birni Péturssyni á Hlaðseyri, en Björn hefur gegnt því í 23 ár. Björn (f.1830-d. 1898) hefur á sumrum verið verslunarmaður hjá Markúsi Snæbjörnssyni á Geirseyri, en stundað selveiðar frá Hlaðseyri að vetrum.
1895
Bakara vantar á Eyrar: „Bakari sem vildi setja sig niður og drífa brauðbökun á Patreksfirði upp á eigin ansvar, gæti fengið lán ef hann með þarf til að byggja hús. Hjer er fullkomin ástæða fyrir góðri atvinnu, þar eð mikil aðsókn er að sumrinu af útlendum og innlendum þilskipum og 90 manns fast búandi hjer á lóðunum og þar að auki 7 þilskip með 70 til 80 manns og róðrarmenn í fiskiverum. Duglegur maður getur fengið styrk. Geirseiri 12. júni 1895; M. Snæbjörnsson“. (Auglýsing í Ísafold 19.06.1895).
1896-1899 Séra Þorvaldur Jakobsson, Pétur J. Thorsteinsson, fyrsti togarinn.
Uppfinning Sveins á Lambavatni eykur öryggi týrunotkunar: Ungur hugvitsmaður; Sveinn Magnússon á Lambavatni hefur gert endurbætur á týrum þeim sem, ásamt steinolíulömpum, hafa tekið við hlutverki lýsislampa og kola sem ljósfæri. "Týrur voru þannig útbúnar að fyllt var glas með steinolíu og lá látúnspípa í gegnum tappann, ofan í olíuna. Innan í pípunni var kveikur sem náði til botns. Að ofan náði kveikur þessi rétt upp úr pípunni og var þar ljósið kveikt. Þetta þóttu góð skjöktljós og brúkuð mikið við mjaltir og ef einhvern langaði að lesa við ljós í rúmi sínu að kvöldi dags. En sá var gallinn á þessum búnaði að stundum komst eldur í tappann, sem gjarnan var gegnsósa af olíu. Varð þá skrattinn laus! Eldurinn komst í olíuna; glasið sprakk og allt fór í bjart bál. En svo var það Sveinn sem fann hér öruggt ráð til varnar. Hann kveikti kringlótta málmplötu á pípuna, sem þá lagðist ofan á tappann og náði vel útfyrir stút glassins. Þá útbjó hann líka aðra pípu sem gekk utanyfir hina og náði frá tappa og næstum uppúr. Pípa þessi var klofin í ræmur að neðan og beygð, þannig að þær mynduðu kúlulögun. Ytri pípan var vel rúm en neðri endinn féll svo þétt að innri pípunni að kúlan stóð föst nema að hún væri hreyfð með hendinni. Nú var fengið öryggi fyrir því að eldur kæmist ekki í tappann; skarið lenti á málmplötunni og einnig mátti nú á hægan hátt auka og minka logann á týrunni með því að færa ytri pípuna upp eða niður. Þetta þótti mikil uppfinning, og brátt voru "týrurnar hans Sveins" á hverju heimili" (SÁ; Með straumnum).
1896
Stórt íbúðarhús byggt í Kollsvík: Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík og kona hans, Guðbjörg Ólína Guðbjartsdóttir, hafa byggt sér stórt tvílyft timburhús í Kollsvík, með steinsteyptum kjallara. Húsið, sem er 33,6 m² að grunnflatarmáli; 5 herbergi og eldhús, stendur fremst á gamla bæjahólnum; framanvið bæjarsamstæðuna sem fyrir er. Er þetta núna stærsta íbúðarhúsið í Kollsvík.
Taflmaður finnst í kartöflugarði: Sérkennilegur listmunur hefur komið upp úr kartöflugarðinum í Kollsvík. Þetta er líkneski í mannsmynd; 3,7 cm á hæð; 2,1 á breidd og 1,3 á þykkt; listilega skorið í ljóst hart efni sem líklegast er rostungstönn. Líkneskið er af skeggjuðum, fremur lágvöxnum manni með kúluhatt; í áberandi belgvíðum stuttbuxum og tvíhnepptum jakka með uppslögum og líklega einskonar prestakraga um hálsinn. Hægri hönd hefur verið framrétt og er brotin, en með hinni vinstri hvílir maðurinn sig við hjartalaga skjöld. Bendir það til að hægri hönd hafi haldið á spjóti, sverði eða öðru vopni. Telja menn að þetta sé taflmaður; líklega kóngur úr manntafli. Hákon Jónsson tók að sér að koma gripnum til Þjóðminjasafnsins, enda er hér ljóslega um merkan grip að ræða.
Líklega hefur taflmaðurinn komið upp þegar grafið var fyrir grunni fyrrnefnds húss, en uppgröfturinn hefur áreiðanlega verið settur í garðinn við hliðina.
Síðari tíma athuganir hafa rennt stoðum undir þá kenningu (VÖ skrásetjara) að fyrirmynd líkneskisins sé Magnús prúði Jónsson, sem var sýslumaður í Saurbæ 1580-1591 (sjá þar); auðugasti og valdamesti maður Íslands á sinni tíð. Hann var einnig lærðastur Íslendinga; hafði lengi búið erlendis og tamið sér siði og klæðnað Evrópskra fyrirmanna þeirrar tíðar. Magnús hafði jafnan skrautbúið lið með sér í þingreiðum og það, ásamt klæðaburðinum, færði honum viðurnefnið „hinn prúði“. Til er málverk sem sýnir andlitsfall Magnúsar prúða, sem er líkt því sem er á taflmanninum. Einnig bendir klæðaburðurinn til tísku fyrirmanna á hans tíð. Á skildinum gæti þá hafa verið skjaldarmerki hans; fálki á bláum feldi. Frægastur útskurðarmeistara á þessum slóðum fyrrum er séra Filippus Jónsson á Hvallátrum; sonur Jóns Íslendings í Sauðlauksdal. Hann skar annan tveggja lúðra sem Ögmundur Skálholtsbiskup hafði með sér til biskupsvígslu 1521. Séra Filippus er líklega fæddur kringum 1490 og hann lést líklega 1566-7, sem sést af erfðamálum hans sem upp komu 1567. Annar skurðmeistari kemur einnig vel til greina, en það er séra Ari Steinólfsson sem var í Saurbæ 1559; þá sjötugur. Ari skar listaverk innanum kirkju Ögmundar í Skálholti. Báðir voru þeir orðnir aldraðir (eða látnir) er Magnús prúði kvæntist Ragnheiði Eggertsdóttur frá Saurbæ 1565. Hann gæti þó vel hafa komið vestur nokkrum árum áður, meðan þeir voru á lífi, til að ræða við Eggert Hannesson um sýsluveitingar og konuefnið. Vel er því líklegt að styttan sé handarverk Filippusar eða Ara, en sé hún skorin eftir daga þeirra er hún líklega gerð af nemanda annars þeirra í listinni. Taflmaðurinn er núna talinn einn merkasti gripur Þjóðminjasafnsins; jafnoki hinna frægu Lewis-taflmanna.
Séra Jónas í Sauðlauksdal fallinn frá: "Hinn 16. maí þ.á. Ijezt úr taugaveiki að heimili sínu Sauðlauksdal við Patreksfjörð síra Jónas Bjarnarson, 46 ára gamall, sonur Björns Kortssonar í Möðruvöllum í Kjós, útskrifaður úr latínuskólanum 1874, af prestaskólanum 1876 og var vígður að Kvíabekk s.á.; varð aðstoðarprestur síra Magnúsar Gíslasonar í Sauðlauksdal vorið 1877 og fekk veitingu fyrir því brauði 1879. Hann varð útsölumaður Bóksalafjelagsins árið 1891; var valmenni og reglumaður mesti, góður kennimaður og búhöldur" (Bóksalatíðindi 20.07.1896). "Ljúfur í viðmóti; alþýðlegur og líflegur í framgöngu. Mikið snyrtimenni í klæðaburði; skýr og bjartur í máli. Ágætur ræðumaður með góða tónrödd" (SÁ; Með straumnum).
Séra Þorvaldur Jakobsson vígist að Sauðlauksdal: Séra Þorvaldur Jakobsson (04.05.1860-08.05.1954) hefur verið vígður til Sauðlauksdalsprestakalls, en hafði áður setið á Brjánslæk. Kona hans er Magdalena Jónsdóttir.
Eignuðust þau 6 börn. Þeirra á meðal var Finnbogi Rútur, faðir Vigdísar er varð forseti Íslands. Séra Þorvaldur var skarpgáfaður maður sem tók virkan þátt í félagsmálum og var á ýmsan hátt forystumaður sinnar sveitar meðan hans naut við. Hélt staðnum vel við og byggði þar vandað timburhús. Breytti hinni fornu sætaskipan kirkjunnar frá tíð sr Björns Halldórssonar. Fékk lausn frá embætti í árslok 1919; fór til Hafnarfjarðar og gerðist kennari við Flensborgarskólann.
Umsvif Péturs Thorsteinssonar á Vatneyri: Eftir stórbrunann 1892 í verslunarhúsunum á Vatneyri leigði Sigurður Bachmann Pétri J. Thorsteinssyni á Bíldudal hluta kaupstaðarlóðarinnar og hefur nú selt honum verslunarstaðinn og Vatneyrarjörðina; að undanskildu íbúðarhúsinu Klampenborg. Umsvif Péturs hafa aukist hratt undanfarin ár, bæði í skútuútgerð og verslun, og er hann nú einn stærsti atvinnurekandi landsins. Hefur hann stofnað fyrirtæki um rekstur Vatneyrarveslunar undir nafninu P.J. Thorsteinsson & Co.
Verslunin skilaði ekki miklum arði í fyrstu, en var farin að ganga betur um aldamótin. Breytingar urðu á henni árið 1905, sjá þar). (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012.
Pétur J. Thorsteinsson var launsonur Þorsteins Þorsteinssonar í Æðey, sem var harðgiftur. Fyrir Pétri var því skrifaður Árni Óli Kolvíg Halldórsson (Einarssonar Jónssonar í Kollsvík) (f. 1832) sem fór til Þýskalands um 1855 og kvæntist þar konu að nafni Henrietta Ottelia Emma. (TÓ; Kollsvíkurætt nr 32).
Ísafjarðarskúta nær landi á Rauðasandi eftir hrakninga: Skútan Margrét frá Ísafirði náði landi á Rauðasandi 10.05.1896 eftir nær fjögurra sólarhringa hrakninga. Margrét, sem er gamall 14 tonna seglbátur undir stjórn Magnúsar Hannibalssonar frá Djúpuvík hafði verið fimm daga að veiðum 44 mílur NA af Horni í tregum fiski og leiðindaveðri. Aðfaranótt fimmtudagsins 07.05.1896 brast á með norðan stórhríð með grimmdarfrosti og feikna veðurhæð. Ekki var annað að gera en leggja skipið til drifs. Hélst óveðrið í 80 tíma; fram á sunnudag 10.05; þá fór það að ganga niður og rofa til. Voru þeir þá komnir suður fyrir Látrabjarg og náðu landi á Rauðasandi um kvöldið. Mannskapurinn var blautur og hrakinn; nestið fyrir löngu ónýtt í ágjöfinni og kabyssan ónothæf. Þeir fengu góðar viðtökur á Rauðasandi, en þar urðu þeir að bíða tvo daga án þess að geta látið vita af sér (síminn ókominn). Þeir héldu síðan út á Barðagrunn; fylltu skipið í góðu fiskiríi og sigldu heim. Þar var þeim tekið sem úr helju, enda nær búið að telja bátinn af. (Frás. Magnúsar Hannibalss.; Sjómannabl. Víkingur 01.10.1948).
Hugvitssamur hvalur bjargast á Víkunum:
Ekki er vitað um nána tímasetningu atburða, en listmálarinn og hvalavinurinn Jóhannes Kjarval (1885-1972) segir þessa sögu í byrjun 20.aldar, til sönnunar á vitsmunum steypireyðarinnar: "Til er saga frá skútuöldinni. Kútter eða fiskiskip var á fiski undan svokölluðum Víkum; það er út frá landi miðsvæðis við Látraröst austan Látrabjargstanga, en þar er oft fiskisælt. Sáu skipverjar hvalbát koma í áttina til þeirra langt í burtu. En nokru seinna sjá þeir hval einn stóran koma öslandi og stefna að þeim. Var ekki neinum töfum með sund það, að hvalurinn kom að fiskiskipinu og lagðist í sjóskorpuna; til hlésmegin, og bærði ekki á sér. Hvalbáturinn nálgaðist óðum uns komið var í kallfæri og spurt um hvalinn; og með kollgátu að svo sáu þeir hann við fiskiskútuna. Gerðu hvalbátsmenn kröfu til skútumanna að draga upp segl og kippa frá hvalnum. En skipstjóri á skútunni kvaðst ekki mundu sigla meðan hvalurinn yndi sér í hlutskipti sínu. Hversu lengi hvalbáturinn beið veit ég ekki. Mér er sagt lengi; en þei leiddist svo að bíða og fóru. Það fylgdi sögunni að hvalurinn hefði ekki hreyft sig fyrr en hvalbáturinn var kominn úr augsýn skipverja á skútunni. Ég læt þá sem þetta lesa um hvað þeim kemur í hug um vit, snarræði, tiltrú og sjálfsbjargarviðleitni; einnig lífsreynslu jafnvel líka á margbreyttan hátt hjá þessum hval" (Jóhannes Sveinsson Kjarval; Fantasía um hvalinn; Öldin okkar 1951-1960).
Rauðsendingur deyr af ólyfjan:
Ungur maður frá Melanesi á Rauðasandi var staddur í kaupstað í Flatey hinn 31.07.1896. Af vangá drakk hann karbólsýru og beið af því bana. Hann hét Jóhannes Magnússon, fæddur 26.05.1879 á Melanesi; sonur Magnúsar Jónssonar sem þá bjó þar, og Sigurlaugar Gunnlaugsdóttur konu hans. (Vestfirskir slysadagar).
1897
Bátar og afli í Rauðasandshreppi: Á þessu ári eru í Rauðasandshreppi gerð út 4 tveggjamannaför; 20 fjögurramannaför; 4 sexæringar og 3 stærri bátar. Á þessa báta var upgefin veiði 12.700 þorskar; 50.350 þyrsklingar; 20.370 ýsur; 75 tunnur af síld; 18.910 af trosfiski; 5 tunnur af þorsklifur; 31 tunna hákarlslifur; 4 fullorðnir selir og 86 selkópar. Uppgefin fuglatekja var 2.760 af svartfugli og 700 af fýlunga. (Stjórnartíðindi fyrir Ísland, C-deild, útg 1898).
Þurfalingar og fátækratíund: Alls 19 einstaklingar þiggja framfærslu af sveitarsjóði Rauðasandshrepps um þessar mundir. Þeir gjaldendur sem leggja til sveitar eru 169 og greiða þeir m.a. fátækratíund kr 186, aukaútsvör kr 1.517 og hundaskatt kr 122. Gjöld til hreppsvega eru kr 162. (Landshagaskýrslur fyrir Ísland útg. 1901). Hvergi eru fleiri á sveitarframfæri í Barðastrandasýslu, og má ætla að sveitarþyngslin standi í samhengi við vaxandi skútuútgerð og fjölgun þurrabúða á Eyrum.
Bátur ferst á Gjögrabót: Bátur fórst 1. maí skammt frá lendingu í Gjögrabót og drukknuðu 6 menn en einn komst af. Formaður var Þórður Gunnlaugsson. Að morgni þessa dags höfðu þrír bátar farið í kaupstað á Eyrar. Einn þeirra var sexæringur, og var það bátur Þórðar, en hitt voru fjögra manna för. Voru formenn á þeim Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík og Ólafur Ásbjörnsson bóndi á Láganúpi. Torfi og Ólafur reru í Kollsvík en Þórður í Hænuvík. Um morguninn hafði verið kafaldsmugga; snjóaði í logni svo snjór mun hafa verið í skóvarp. En þó að hætt væri að snjóa var loft þungbúið og drungalegt. Flutningurinn var aðallega salt og eitthvað af mjölvöru og sykri. Enn var engin breyting sýnileg í veðri og var lagt af stað í logni. Þegar komið var að Gjögrum reyndist þar vera komið nokkurt brim, og leist formanni ekki á landtöku með hlaðinn bát. Var nú ákveðið að halda aftur yfir á Eyrar og enn var logn. En þegar komið var yfir undir miðjan fjörð sáust smá skinnaköst á sjónum og í sama bili brast á ofsaveður af norðaustri svo að ekkert varð við ráðið. Rutt var mestu af saltinu og haldið undan, því ekki voru tiltök að halda áfram á móti veðri. Ekki var rætt um siglingu, en haldið undan á árum. Virðist svo sem báturinn hafi ekki skriðið nóg, því að brátt lá hann undir stórágjöfum. Var báturinn nú alllangt framaf Gjögrabót. Nokkrum áratogum síðar rann sjór inn á bæði borð, svo báturinn fylltist og hvolfdi þegar. Þrír menn komust á kjöl. En í sömu svifum snerist báturinn við og komust þeir þá upp í hann. Eftir skamma stund missti einn tök á bátnum, sem nú bar að landi; borðstokkafullan. Rétt þegar komið var að landi tók annan út, en hann náðist þegar. Var hlúð að honum eftir föngum en ekki komst hann til meðvitundar. Sá þriðji bjargaðist; hann stóð uppréttur eftir því sem við varð komið, og reyndi að halda á sér hita með því að berja sér. Þeir Ólafur Ásbjörnsson og Torfi Jónsson voru komnir skammt útfyrir Vatneyrarodda þegar veðrið skall á. Þeir sigldu alla leið og beint í sandinn í Gjögrabót. Þegar þeir höfðu bjargað bát sínum undan sjó sáu þeir hvar bát Þórðar rak að landi frammi á bótinni. Að sjálfsögðu þurftu smærri bátarnir að ryðja nokkru af sínum flutningi. Drjúgt hafa þeir skriðið, og það hefur bjargað. (TÓ; Sjóslysaannáll).
Skútan Vigga ferst: Fyrsta dag maímánaðar; sama dag og fyrrnefnt slys var á Gjögrum, fórst fiskiskipið Vigga, eign Markúsar Snæbjörnssonar kaupmanns á Geirseyri. hún var einmöstrungur; 20-30 lestir að stærð; löng og mjó; fremur grunn; sigldi vel en var ekki gott sjóskip; allra síst á undanhaldi. Stórseglið var mjög stórt og þótti bera skipið ofurliði. Ekki var skipið beinlínis veikbyggt svo orð væri á gerandi, en sterkt var það heldur ekki. Með Viggu fórust sjö menn sem þá voru búsettir í Rauðasandshreppi, en auk þess voru á henni fjórir menn ættaðir úr hreppnum eða höfðu dvalið þar áður. (TÓ; Sjóslysaannáll). Með Viggu fórust: Gestur Gestsson bóndi á Skriðnafelli á Barðaströnd; lætur eftir sig konu og mörg börn. Magnús Einarsson bóndi á Geitagili; lætur eftir sig konu, Bergljót Gunnlaugsdóttur og mörg börn. Elías Sturluson húsmaður í Koti; lætur eftir sig konu, Guðný M. Ólafsdóttur og mörg börn. Sigurður Einarsson lausamaður í Koti; ókvæntur en átti 2 börn. Þórður Gestsson vinnumaður á Sjöundá (hálfbróðir Gests), ókvæntur. Kristján Ívarsson vinnumaður í Hænuvík. Sturla Kristófersson bóndasonur frá Brekkuvelli á Barðaströnd. Jóhannes Jónsson vinnumaður á Hrísnesi á Barðaströnd, lætur eftir sig konu og eitt barn. Jón Bjarni Jónsson bóndi á lmbeyri á Tálknafirði; lætur eftir sig konu, Guðbjörgu Össurardóttur og börn. Jón Tálknfjörð Jónsson húsmaður á Sveinseyri í Tálknafirði. (Vestfirskir slysadagar).
Drukknun í Mikladalsá: Það slys vildi til 26.01.1897 að Þórarinn Ólafsson Thorlacius frá Suðureyri í Tálknafirði drukknaði í Mikladalsá, utan við Kot. Var hann á ferð um kvöldið í náttmyrkri, ásamt unglingspilti. Þeir ætluðu að vaða ána niðri við sjóinn, en Þórarni varð fótaskortur á klökugu fjörugrjótinu og datt hann í ána. Pilturinn var nokkru nær Koti er hann heyrði Þórarin kalla, en sá ekki til hans í myrkrinu. Lík Þórarins fannst ekki. Hann var 35 ára; sonur Ólafs bónda Thorlacius frá Dufansdal sem lést af voðaskoti árið 1879. Þórarinn hafði verið stýrimaður á þilskipum þó ólærður væri, og barnakennari víða; kvæntur og átti einn son. (Þjóðólfur 18.03.1898).
Taugaveiki stingur sér niður: Ekki er ein báran stök í því mannfalli sem orðið hefur í hreppnum þetta árið. Taugaveiki geisaði hér í sveit meirihluta sumarsins og í júlímánuði dóu tveir bændur í Örlygshöfn með hálfsmánaðar millibili. Báðir voru fátækir barnamenn; Jóhann Jónsson á Hnjóti 50 ára og Eiríkur Eiríksson bóndi í Tungu, 42 ára fjöhæfur gáfumaður. (Þjóðólfur 18.03.1898).
Skonnortan Ásta strandar í Hænuvík: Seglskipið Ásta lagði af stað frá Vatneyri 30. nóvember með fiskfarm frá verslun Leonh. Tangs. En er skipið var skammt á leið komið, kom svo mikill leki að því að Petersen skipstjóri hleypti því á land í Hænuvík. (Þjóðviljinn ungi 20.12.1897).
Veður var norðan stormur og blindhríð. Skipverjar, 7 að tölu, björguðust allir. Skipið strandaði um hásjávað og fór því mjög hátt í fjöruna. Það var að fara til Englands; fermt saltfiski. Mestu af fiskinum var bjargað og hann seldur á uppboði. (Eyjólfur Sveinsson; Sjóslysaannáll).
Íshús byggt á Vatneyri; síld í beitu: Íshús hefur verið byggt á Vatneyri, og er þar geymdur ís sem brotinn er upp á Vatninu. Við ístökuna vinna menn á mannbroddum og nota til þess öflug járn. Ísinn er bæði notaður til kælingar á fiski og beitu, en nú er í fyrsta skipti farið að nota síld til beitu.
Árið 1899 kom handsnúin ísmölunarvél í íshúsið. (EÓ; Sarpur).
1898
Rutin smíðuð; félagsútgerð Guðbjartar og Ólafs: Smíðaður hefur verið vandaður 1,5 tonna bátur sem gerður verður út frá Kollsvíkurveri. Nefnist hann Rut (stundum ritað Ruth) og hefur skráningarnúmerið BA 223. Báturinn er sameign frændanna Guðbjartar Guðbjartssonar í Kollsvík, 19 ára, og Ólafs Halldórssonar á Grundum, 27 ára.
Ekki er vitað hver smíðaði Rut, en hugsanlega var það Sturla Einarsson (1830-1922) frændi þeirra, sem þá bjó á Brekkuvelli. Hann fékkst mikið við húsa- og bátasmíðar og var m.a. að endurgera Kollsvíkurhúsið er þar féll mannskætt snjóflóð 1857. Ekki er fullvíst að frændurnir hafi átt bátinn frá upphafi, en ekki ólíklegt. Smíðaár kemur fram í sjávarútvegsframtali Guðbjartar árið 1943, en hann hafði keypt hlut Ólafs í útgerðinni 1925 (niðjatal HM/GG) og gerði hana eftir það út með sonum sínum. (Hinsvegar segir Egill Ólafsson að Rut hafi verið smíðuð 1906, í texta við vaðbeygju sem varðveitt er í safninu á Hnjóti; svonefnda tolluvaðbeygju. Spurning hvort hann á þar ekki fremur við Svöluna, sem var smíðuð 1905). Rutinni var róið og siglt; líklega með þversegli, til ársins 1943, en þá var sett í hana 8-10 ha Universal-vél. Eftir það var báturinn metinn á 3.700 kr. Mikill afli var á land borinn á Rutinni, eins og sjá má á sölunótum og skýrslum; enda var Guðbjartur aflasæll og fær formaður og sótti sjóinn stíft með sonum sínum á vertímanum. Þá bjuggu þeir í Verinu, en Hildur sá um búskapinn með yngri börnunum. Eftir að útgerð lagðist af í Kollsvíkurveri var Rutinni róið úr Láganúpslendingu, þar sem rudd var ný vör og sett upp gangspil. Þau urðu endalok á útgerð Rutarinnar að afturstefni hennar skemmdist (líklega um 1960). Eftir það stóð báturinn um tíma í skemmu við Grundarbæinn, þar sem Guðbjartur dyttaði að honum. Hann kom sér upp steinhlöðnum kofa við sjóinn þar sem hann sagaði rekavið og hugðist gera við bátinn, en entist ekki heilsa til þess. Rutin var send á Eyrar, í þeirri von að Andrés Karlsson frá Stekkjarmel gæti gert hann upp. En áður en Andrési ynnist tími til þess var hún fyrir mistök sett á áramótabrennu Patreksfirðinga; líklega milli 1960-70.
Guðbjartur eignaðist annan bát; Svöluna. Hún var ætíð vélarlaus og er varðveitt á minjasafninu á Hnjóti; smíðuð 1905 (sjá þar).
Markús Snæbjörnsson selur Geirseyrarverslun: Markús Snæbjörnsson skipstjóri og athafnamaður á Geirseyri hefur nú selt verslunarstaðinn til Islandsk Handels og Fiskeri Kompagni, en heldur enn jörðinni sjálfri, steinhúsinu og fleiri eignum sem jörðinni fylgja. Veldi Markúsar hefur allnokkuð minnkað frá því það var mest. Hann hóf verslun 1868 og gerði þá út skonnortuna Zephyr með Brynjólfi Benediktsen. Eftir að Geirseyri varð löggiltur verslunarstaður 1877 við hlið Vatneyrar jukust umsvifin talsvert. Hann lét smíða bátabryggju og reisti hús til verslunar og fiskverkunar; m.a. íshús með járnbraut og vatnsveitu til fiskþvotta. Þá stækkaði hann túnin; gerði áveitur og græddi þau með þangi. Vatnsmyllu reisti hann í Litladalsá, til kornmölunar. Ásamt Zephyr gerði hann út; einn eða með öðrum, þilskipið Sjólífið um tíma; loggortuna Marie; þilskipin Jón; Geir; Viggu; Markúsínu og Vonina. Vigga fórst með allri áhöfn 1897. Ekki varð af áformum hans um skipasmíðastöð. Árið 1883 keypti Markús tvímastraða franska skonnortu sem strandað hafði á Tungurifi; gerði hana upp og notaði til millilandasiglinga.
Markús sneri sér að búskap á jörð sinni eftir þetta, en fékkst þó áfram nokkuð við verslun. Eftir aldamótin gaf hann lóðir undir skóla, sjúkrahús, kirkju og kirkjugarð af miklum höfðingsskap. Markús lést 16.03.1921, þá orðinn 88 ára, blindur og örvasa. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
IHF hyggst koma upp stórútgerð: Hlutafélagið Islandsk Handels og Fiskeri Co, eða IHF eins og það er oftar nefnt, hefur keypt allar verslunareignir á Geirseyri af Markúsi Snæbjörnssyni og hyggst hefja stórútgerð á Íslandi. Að stofnun félagsins standa einkum danska félagið Salomon Davidsen og Björn Sigurðsson kaupmaður í Flatey sem er framkvæmdastjóri. Auk Geirseyrareigna kaupir félagið verslanir Björns við Breiðafjörð. Frændi Björns, Pétur A. Ólafsson var ráðinn faktor á Geirseyri.
Ljóst var frá byrjun að fjárfestingar félagsins væru mjög miklar miðað við hlutafé og því yrði reksturinn erfiður. Miklar lántökur urðu félaginu þungar í skauti. Fór svo að árið 1905 tók IHF þá ákvörðun að selja allar eignir félagsins á Íslandi. Var Pétri falið að sjá um söluna og tókst það furðu vel. Sjálfur keypti hann að lokum Geirseyri og nokkur skipa félagsins; sjá hér á eftir. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Þorvaldur Thoroddsen á ferð: Þorvaldur Thoroddsen jarðfræðingur var á ferð hér í sýslu nú í sumar. Hugaði hann einkum að landfræðilegum og jarðfræðilegum þáttum svæðisins; fór t.d. á þekkta fundarstaði surtarbrands. Hann fór út Rauðasand, að Hvallátrum og Breiðuvík; kom ekki í Kollsvík, en fór innmeð firði. Þorvaldur er talinn fremsti fræðimaður Íslands á þessu sviði; sonur Jóns Thoroddsen skálds og sýslumanns Barðstrendinga.
1899
Fyrsti togari Íslands gerður út frá Rauðasandshreppi: Hlutafélagið IHF hefur látið smíða fyrir sig 205 brúttórúmlesta togara á Englandi; Thor að nafni, og er hann gerður út frá Geirseyri. Hann er smíðaður í North-Shields; hinn vandaðasti í alla staði og vel útbúinn; grænn að lit. Togarinn er aðallega á lúðuveiðum, í samfloti við enska togara og dönsk þilskip; veiðir bæði í vörpu og dragnót. Aflinn er fluttur vikulega í ís til Englands og annast ensk millilandaskip flutningana.
Tap varð á rekstri Thors og seldi því IHF togarann til danska landbúnaðarráðuneytisins, sem breytti honum lítillega og notaði til hafrannsókna við Færeyjar og Ísland, en einnig á Miðjarðarhafi og Svartahafi. Þá svartmálaður. Á fyrrastríðsárunum vann hann að rannsóknum við Ísland og var þá grámálaður eins og herskip. Árið 1920 keypti Björgunarfélag Vestmannaeyja skipið; nefndi Þór og notaði til bátagæslu við Eyjar. 1923 tók ríkisstjórn Íslands það á leigu til landheilgisgæslu; óvopnað í fyrstu, en árið eftir var sett fallbyssa í Þór. Landhelgisgæslan yfirtók Þór þegar hún var stofnuð 1926 og keypti um leið annað skip; Óðin, og síðar Ægi 1929. Það ár strandaði Þór á Sölvabakkafjörum við Skagaströnd eftir að stýri bilaði í slæmu veðri, en hafði þá verið að dýptarmælingum á Húnaflóa. Skipherra var Eiríkur Kristófersson frá Brekkuvelli (af Kollsvíkurætt). 20 manna áhöfn bjargaðist en skipið eyðilagðist. Var þá vátryggt fyrir 120 þús.kr. Hafði Þór þá verið „yngdur upp“ að nokkru leyti, m.a. gufuvélin, en þó jafnan með upphaflegan gufuketil. Talinn gott sjóskip, en aflvana á síðari árum. Morgunblaðið notaði strandið til að hnýta í Jónas á Hriflu, sem þá var dómsmálaráðherra: Hélt því fram að hann hefði brugðist seint við er strandið varð. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012. Mbl. 15.01.1930 og 19.10.1985; Bjarni Sæmundss; Ægir 1.tbl 1930).
Öðrum eignaður heiðurinn: Iðulega er öðrum skipum eignaður sá heiður að vera fyrsti togari Íslendinga. Oftast er þar nefndur togarinn „Coot“ sem ekki kom til landsins fyrr en 1905; sex árum á eftir Þór. Vissulega var hann alfarið í eigu Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu, en Þór var einnig í íslenskri eigu, þó danskt félag kæmi þar að. Coot strandaði eftir 3 ár, án manntjóns, en Þór átti þrjátíu ára glæsilegan feril; lengst af sem fyrsta varðskip Íslendinga.
Togarinn „Jón forseti“, sem kom til landsins 1907, er oft nefndur sem „fyrsti togarinn sem smíðaður var sérstaklega fyrir Íslendinga“ (eins og orðað er á Wikipediu). Þetta er einnig rangt: Eins og hér kemur fram var Þór sérstaklega smíðaður fyrir útgerðina sem að honum stóð; og þar með Björn Sigurðsson í Flatey. Jón forseti strandaði 1928 og 15 fórust; ári áður en strand Þórs varð.
Er vart unnt að kalla þessar staðreyndavillur annað en sögufalsanir; líkt og þegar því er haldið að skólabörnum og öðrum almenningi að morðinginn Þorvaldur víðförli hafi verið fyrsti trúboðinn, þrátt fyrir frásögn Landnámabókar af trúboðsleiðangri hinna friðsömu Örlygs og Kolls.
Fyrstu gufutogararnir voru smíðaðir 1876 í Bretlandi fyrir franskt útgerðarfélag, en 1882 fyrir Breta sjálfa. Fyrst komu togarar á Íslandsmið 1891; enskir að sjálfsögðu, og veiddu vel. Þýskur maður mun hafa gert tilraun til botnvörpuveiða hérlendis 1889, en það sama ár var sett bann við botnvörpuveiðum. Englendingur búsettur í Hafnarfirði; Pike Ward, gerði stutta tilraun til togveiða 1899. Á því ári var stofnað danska fiskveiðifélagið Fram og hugði á togveiðar, en það fór út um þúfur. Þetta ár var einnig stofnað útgerðarfélagið Ísafold (Vídalínsútgerðin), sem gerði út 6 stóra togara. Mikið tap varð á útgerðinni þetta eina sumar sem hún stóð.
Finnur Thorlacius rær úr Kollsvíkurveri: Finnur Thorlacius frá Saurbæ rær í Kollsvík, á fjögurra manna fari með Össuri Guðbjartssyni. Beitt er kúfiski sem sóttur er í Bug. Lóðir 5-6 snæri; 30 faðmar hvert. Afli yfirleitt góður en fiskurinn smár; 4-500 í róðri. Alltaf tvíróið enda oftast gott veður. Þorskurinn saltaður og seldur á Patreksfjörð en steinbítur hertur til heimilisnota. Skrínukostur er kæfa í kofforti; smjör og rúgkökur. Soðinn er feitur steinbítur og smálúða. Grautur sendur heiman úr Kollsvík, en kaffi hitað í búðinni. Fundu eitt sinn rauðvínstunnu á reki, og varð af því almennt fyllirí í Verinu (líklega einstætt í sögu þess). Skæð flensa gekk eitt sinn og veiktust margir í Verinu. (F.Th; Smiður í fjórum löndum, stytt).
Árni Brandsson rær úr Láturdal: Að venju róa nokkrir bátar úr Láturdal, eins og tíðkast hefur margar aldir. Þar er hálfdrættingur á bát Árni Brandsson frá Hnjóti, nú 9 ára. Síðar minnist hans þessa tíma með nokkurri biturð: "Æskan var öll eitt samfellt basl, byrjaði sem hálfdrættingur á bát þegar eg var 9 vetra og réri samtals 6 vertiðir sem barn eða unglingur. Fyrst réri eg frá svokölluðum Láturdal í Barðastrandarsýslu, en síðan 4 vertíðir úr Kollsvíkurveri. Þarna bjuggum við í verbúðum við þröngan kost oft, og einatt mikinn kulda og vosbúð. En enginn spurði mig, 9 ára gamlan strákpjakkinn, hvort eg væri svangur eða þreyttur eða hvort mér væri kalt. Enginn vorkenndi mér þótt ég kastaði upp vegna sjóveiki, sem alltaf hrjáði mig. Vinnan var frumskilyrðið og svo í öðru lagi það að bjarga sér einhvernveginn sjálfur. Þá hét það að duga eða drepast" (Árni Brandsson, viðtal; Vísir 02.10.1959).
Árni (21.09.1890-29.03.1960) var sonur Brands Árnasonar og Sigþrúðar Einarsdóttur á Hnjóti. Hann fluttist til Kanada 1910; kvæntist þar 1917, konu af íslenskum ættum og fékkst einkum við smíðar og húsbyggingar. Annar hálfdrættingur; Jochum Eggertsson, reri í Láturdal í lok verstöðu þar, og lýsir aðbúnaðinum í sama dúr (sjá 1908).
Grasbýlið Nýlenda: Henríetta Ottelía Emma Guðbjartsdóttir og Jens Jónsson hafa stofnað grasbýlið Nýlendu í landi Kollsvíkur, vestast á Melaröndum (stundum nefnt Jensmelur). Hafa þau byggt þar íbúðarhús sem að mestu er af viðum Breiðavíkurkirkjunnar gömlu, en hún var endurgerð um þetta leyti. (Viðurinn var síðan nýttur í Traðarhúsið nýja 1911). Eignuðust þau 3 börn. Nýlenda lagðist af þegar þau fluttu til Winnipeg í Kanada árið 1911. Hafði þá annað býli verið stofnað á sömu spildu; Stekkjarmelur, árið 1907 (sjá þar), en þar bjó Mikkalína systir Ottelíu, með manni sínum.
Hæfileg heyöflun: „Fyrir aldamót hygg ég að talið hafi verið nóg vetrarfóður handa mjólkurkú ca. 30 hestburðir og jafnvel minna. Það samsvaraði 100-120 teningsálnum í heystæði. Vetrungsfóður var 1/3 til 1/2 kýrfóður. Hey ætlað kúm til fóðurs var nefnt kúgæft hey. Hér var bæði fé og kúm gefin hert fiskbein, sem reyndust oft drjúg viðbót við heyin“ (GG; Nautpeningur).
Kúfiskur plægður upp: Ekki liðu mörg ár frá því að farið var að veiða fisk á lóðir í Útvíkum þar til tekin var upp tækni til veiða á kúfiski, sem var helsta beitan sem notuð var á línuna. Einar Gíslason í Hringsdal í Arnarfirði þróaði og smíðaði þá plóga sem notaðir hafa verið í Útvíkum. Fyrst reyndi hann veiðarfæri þetta í Hringsdal árið 1889. „Urðu síðar á honum nokkrar lagfæringar, enda gátu þeir verið misjafnir að gerð og gæðum. Við plóginn var festur netpoki, 1 ½ - 2 metrar á lengd. Þegar tveir bátar voru við plægingu var annar báturinn nefndur spilbátur en hinn plógbátur“. Spilbátnum var lagt við stjóra en plógbáturinn fór með plóginn nokkuð frá og sleppti til botns. Var hann síðan dreginn að spilbátnum og plægðar upp skeljar í leiðinni. Í stað spilbáts var spilið stundum fest uppi í landi. Var sú aðferð t.d. notuð í Kvígindisdal og Vatnsdal, en sú fyrrnefnda í Breiðuvík. (KJK; Kollsvíkurver).
„Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt ljósabeitu. Fljótlega var þó farið að nota kúfisk, þar sem sú beita var miklu betri, og var hann tekinn inni í Bug, hjá Hvalskeri. Sá fyrsti sem notaði kúfisk til beitu mun hafa verið Þórarinn Thorlasíus, á Sveinseyri í Tálknafirði. Ekki er glöggt vitað hvenær byrjað var að nota kúfiskplóg í Útvíkum, en Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík mun hafa smíðað kúfiskplóg úr skeifnajárni. Með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi, en sú skel sem þar fékkst var mjög smá; aðallega rauðbarði“ (Guðbjartur Guðbjartsson Láganúpi; viðtal EÓ við hann). Í Patreksfirði var kúfiski fyrst beitt 1898 en þrem árum síðar var hann orðinn aðalgagnið (LK;Ísl.sjávarhættir IV).
Fyrsta jólatréð í Kollsvík: Jólin 1899 var í fyrsta sinn kveikt ljós á jólatré í Kollsvík. Torfi Jónson bjó það til eftir fyrirsögn systur sinnar, Jónu Valgerðar Jónsdóttur. Hún hafði séð jólatré hjá Adam Fischer sýslumanni á Vatneyri og konu hans; Evu Fischer. Frúin var dönsk og hafði fyrst sett upp jólatré á Vatneyri árið 1880. Mun það hafa verið fyrsta jólatréð í Rauðasandshreppi.
Jólatréð í Kollsvík var málað grænt; á því voru 12 álmur og kross í toppi. Kertin steypti Jóna Valgerður úr tólg. Einhverjir smápokar héngu á greinunum með rúsínum og kandísmolum í. Annað var ekki til að skreyta með, nema sortulyng sem börnin rifu upp úr klakanum. Þegar kveikt hafði verið á kertunum var krökkunum hleypt inn; 20 að tölu. Mikil gleði ríkti; sungnir voru sálmar og ættjarðarljóð. Jón gamli Torfason lá í kör í kjallaranum og var farið niður til hans með tréð. (Jóna Valgerður Jónsd; grein í Melkorku 1949).
Hildur Magnúsdóttir í Kollsvík segir þannig frá fyrstu minningu sinni um jólatré: „Jólahald var fábreytt framan af. Torfi móðurbróðir minn hafði fyrstur manna jólatré hér; það hefur líklega verið um 1903 (sjá þó ofar). Hann smíðaði stórt tré og klæddi greinarnar með eini. Ég fékk ekki að sjá fyrsta jólatréð; var þá að sitja yfir litlum krakka. Fyrir jólin voru bakaðar lummur, laufabrauð, kleinur og stór kaka“ (HM; Sdbl.Þjv. 1964).
Ný kirkja vígð í Breiðuvík: Hinn 3. desember 1899 vígði séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal nýja timburkirkju í Breiðuvík, í stað torfkirkjunnar sem þar hefur verið. Sú kirkja var upphaflega byggð 1826 (sjá þar); ári eftir stofnun sóknarinnar, en enduruppbyggð 1842 og 1873. Nýja kirkjan stendur í kirkjugarðinum norðarlega í Breiðuvíkurtúni. Yfirsmiður var Jón Þorsteinsson smiður á Eyrum. Húsið er 12 álna langt og 8 álnir á breidd; timburhús (sem síðar var járnklætt); turnlaust en með stórum járnkrossi. Sigurður Bachmann, kaupmaður á Patreksfirði, gaf kirkjunni orgel árið 1896.
Viður úr því orgeli var síðar notaður til að smíða font og predikunarstól. Þegar Helgi Árnason í Tröð varð organisti Breiðavíkurkirkju þótti honum stóllinn of lágur og notaði því ætíð hellustein til að hækka sig í sæti. Sá steinn er inni í núverandi organistastól. Prestsetur hefur aldrei verið í Breiðuvík, heldur hefur kirkjunni verið þjónað frá Sauðlauksdal og síðar Patreksfirði. Ný steinsteypt kirkja var vígð í Breiðuvík árið 1964, sjá þar. (M.a. Ágúst Sigurðsson; Kirkjustaðir á Vestfjörðum).
Sigurður Magnússon tekur við læknisþjónustu: Sigurður Magnússon hefur tekið við sem héraðslæknir af Tómasi Helgasyni. Er hann skipaður með konungsbréfi útgefnu 07.07.1899 til Patreksfjarðarhéraðs, sem nær yfir Barðastandarhrepp, Rauðasandshrepp, Tálknafjarðarhrepp, Dalahrepp og Suðurfjarðahrepp.
Sigurður bjó í fyrstu ásamt fjölskyldu sinni í enda bakarís Péturs A. Ólafssonar, en byggði sér (vorið 1900) hús á Klifinu sem hann seldi síðar Guðmundi Björnssyni sýslumanni 1906. Það hús var síðan sýslumannsbústaður þar til það brann 1936. Sigurður byggði sér annað úr steinsteypu austar sem lengi var læknabústaður. Bjó hann í því þar til hann fór 1923 og seldi það næsta lækni; Árna Helgasyni. Sigurður var einnig lærður húsasmiður og teiknaði ýmis hús sem enn (2020) standa á Patreksfirði. Má þar nefna breytingar á Gamla spítalanum sem byggður var 1901-1903 (sjá þar) og þénaði sem slíkur til 1946. Einnig teiknaði hann Patreksfjarðarkirkju. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012 o.fl.). "Hafði ég þannig, að meira eða minna leyti staðið fyrir byggingu fjögurra húsa, er öll stóðu í röð meðfram vegi þeim er smám saman skapaðist milli kauptúnanna; Vatneyrar og Geirseyrar" (Sigurður Magnússon; Æviminningar læknis). Sigurður gegndi margvíslegum störfum á Eyrum, öðrum en læknis og smiðs. Hann var tannlæknir, tannsmiður, sóknarnefndarformaður, héraðsfulltrúi, hreppsnefndarmaður, oddviti, sýslunefndarmaður og hélt uppi tónlistarlífi á staðnum.
Barnaskóli á Eyrum: Barnaskóli hefur tekið til starfa á Eyrum í Rauðasandshreppi, í skólahúsi sem byggt er af félagsskap heimamanna og hreppnum. Tveir kennarar hafa fengið opinberan styrk; Ingólfur Kristjánsson sem er fyrsti skólastjórinn og Guðmundur Kr. Bárðarson.
Franski kútterinn Telephone strandar í Breiðuvík: Franski kútterinn Telephone strandaði seinni hluta maímánaðar í svonefndri Vilhjálmsvör, sem er rétt fyrir utan Breiðavíkurver. Veður var norðvestan gola og sjólítið. Afli þótti víst lítill og ætluðu menn að skipshöfnin hefði viljað losna frá veiðunum. Skipverjar; hátt í tuttugu, björguðust allir. Skipinu mun hafa verið siglt upp vegna leka. Farmurinn, sem var saltfiskur í tunnum, náðist úr skipinu og var seldur á uppboði. Skipið var kútter; byggður úr eik, og þeim sem voru við að taka níður segl og reiða hafði þótt sárt að vinna það verk í stað þess að mega bjarga skipinu. Nokkru eftir strandið gekk í vestanrosa og brotnaði þá skipið. Þótti fransmönnum það ekki neitt hryggðarefni. Skipbrotsmenn fengu til umráða tvær allstórar fjárbúðir og höfðust þar við í nærfellt þrjár vikur. (EÓ; TÓ; Sjóslysaannáll).
1900
Mikil útgerð í Kollsvíkurveri: Um aldamótin 1900 gengu 25 bátar frá Kollsvík. (PJ; Barðstrendingabók).
„Um aldamót (1900) reru 22-24 skip úr Kollsvíkurveri. Stutt var á miðin; 15-20 mínútna róður á fjögurra manna fari. Þarna var hægt að leggja tíu stokka eða línur sem hver var 60 faðmar“ (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).
Bátar og formenn í Kollsvíkurveri um aldamót: Árið 1900 eru þessir bátar gerðir út frá Kollsvíkurveri:
Sultur, eigandi Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík, og var hann formaður. Áður eign Jóns Torfasonar).
Reitingur, eigendur Magðalena Halldórsdóttir og sonur hennar Ólafur Guðbjartsson (þá vinnumaður í Keflavík). Ólafur er formaður.
Heppinn, eigandi og formaður Halldór Ólafsson bóndi á Grundum.
Borga, eigandi og formaður Torfi Jónsson Kollsvík.
Gráni, eigendur Bjarni Gunnlaugsson í Tröð og Ólafur Ásbjörnsson á Láganúpi. Ólafur er formaður.
Snarfari, eigendur Össur og Gísli Guðbjartssynir í Kollsvík; formaður Gísli Guðbjartsson.
Rut, eigendur Ólafur Halldórsson og Guðbjartur Guðbjartsson Kollsvík; formaður Ólafur Halldórsson.
Lára, eigandi og formaður Þórður Marteinsson bóndi í Fit á Barðaströnd.
Guðrún, eigandi og formaður Össur Guðbjartsson bóndi á Láganúpi.
Jóhanna, eigandi og formaður Þórarinn Bjarnason á Bökkum í Kollsvík.
Rauðka, eigendur Steinn Bjarnason og Karl Kristjánsson í Kollsvík. Karl var formaður.
(Heimild: Guðbjartur Guðbjartsson; Kollsvíkurver). Hér er aðeins getið 10 báta heimamanna. Samkvæmt PJ og TÖ hafa auk þeirra róið 12-15 aðkomubátar/inntökuskip úr Verinu.
Vertollar í Kollsvíkurveri: Fjölmargar verbúðir hafa risið í Kollsvíkurveri vegna hinnar auknu útgerðar, í viðbót við eldri verbúðir og fjárhús sem þar hafa lengi verið. Er þetta byggðahverfi sem nær frá Breiðalæk suður að Syðriklettum; fjölmennasta byggð hreppsins meðan vertíð stendur en mannlaust þess á milli. Allar eru búðirnar í eigu heimabænda, sem leigja þær út gegn búðartollum ásamt uppsátrum gegn vertollum (uppsátursgjöldum). Búðartollurinn er núna 6 krónur og að auki vertollur (uppsátursgjald) 6 krónur, eða 12 kr samtals sem samsvarar 60 hertum steinbítum. Fyrrum voru vertollar með sama hætti í Útvíkum og í vestanverðum Breiðafirði. Eftir aldamótin 1500 voru þeir hálf vætt af hverju skipi og skipverja sem þar var aðkomumaður; hálfu minna af leiguliðum jarðanna, s.s. Láganúpi. Vertollar leiguliða féllu þó niður um 1700. Formaður átti að sjá til þess að koma vertollum til jarðareiganda. Helmingur vertolla í Láganúpsverstöð var greiddur í steinbít. Um 1700 greiddu heimamenn í Kollsvík ekkert uppsátursgjald, en hver viðlegumaður átti að gjalda 2 fjórðunga í vertoll sem var þó fyrir góðvild landsdrottins stundum eftir gefinn. Greiðsla fyrir lyngtöku fólst alls staðar í uppsátursgjaldinu nema í Kollsvíkurveri, en þar var hún einn harður steinbítur frá hverjum manni; lyngsteinbítur. Auk eldiviðarlyngs máttu menn slíta þar svo mikið lyng að nægði í bálk eða rúm. (LK; Ísl. sjávarhættir II og III). (1 fjórðungur = 4,3 kg; 1 vætt = 8 fjórðungar = 34,4 kg = 34 fiskar).
Gangspil við setningu báta: Ekki er unnt að fullyrða hvenær gangspil fóru fyrst að tíðkast til að létta segningu báta í Kollsvíkurveri, en það gæti hafa veruð á þessum árum. Farið er að nota gangspil um eða eftir 1870 vð Djúp og um svipað leyti á Ströndum. Algengust voru þau á Vestfjörðum. (LK;Ísl.sjávarhættir IV). Fram yfir 1965 voru tvö gangspil enn nothæf í Kollsvík; annað ofan við vörina í Láganúpslendingu og hitt ofan lendingar í Kollsvík. Var það síðarnefnda notað framyfir þann tíma.
Ruðningurinn tekur breytingum: Aðgerðaraðstaða fisks í verum Útvíkna, svonefndur ruðningur, hefur tekið nokkrum breytingum þessi árin. Fyrrum var aflinn borinn af báti, annaðhvort í kös eða í stíu sem hlaðin var af grjóti, og gert að á steinhellu sem nefndist „flatningur“ og hvíldi á grjóthlöðnum bálki. Fiskinum var þaðan kastað í grjóthlaðna stíu og nefnist þessi umbúnaður „ruðningur“ (dregið af því að ryðja bát). Nú hafa menn tekið að smíða úr tré, bæði kassana sem fiskurinn er látinn í og aðgerðaborðið. Nafnið ruðningur heldur sér eftir sem áður. Eftir aðgerð í ruðningi er fiskurinn þveginn í læk og þorskurinn síðan saltaður í söltunarkró, sem oftast er nærri læknum. Steinbíturinn er hinsvegar þurrkaður á steinbítsgörðum og síðan á hrýgjugörðum, en rafabelti lúðu o.fl. hengt í hjall. (LK; Ísl.sjávarh. IV).
Milljónafélagið byggir salthús: Fyrirtækið P.J. Thorsteinsson & Co á Vatneyri hefur byggt salthús í Kollsvíkurveri. Er húsið allt hið vandaðasta, með steinsteyptum veggjum, timburþili og járnþaki. Smiður var Gísli Sigurðsson. Saltið er mest flutt hingað frá Patreksfirði í bátnum Kára. Saltfiski úr Kollsvíkurveri er oft skipað út í flutningaskip er leggjast þar fyrir utan og taka hann. (GG; Lesbók Þjv). „Um eða fyrir síðustu aldamót (1900) hóf félag, sem nefnt var Milljónafélagið, verslun og þilskipaútgerð á Patreksfirði. Þá lét það byggja timburhús með járnþaki úti í Kollsvíkurveri. Þetta hús var alltaf kallað Salthúsið, enda hafði það að geyma nokkrar saltbirgðir sem afgreiddar voru eftir þörfum til útgerðarmanna. En þeim var gert að skyldu, eða þeir höfðu lofað, að greiða með afla sínum. Húsið var einnig notað til fiskgeymslu að lokinni verkun, uns hann var fluttur brott til sölumeðferðar. Eftir að Milljónafélagið leið undir lok var hús þetta rifið“ (KJK; Kollsvíkurver).
Húsið var efalaust byggt í tíð fyrra félags með nafninu P.J. Thorsteinsson & Co. Hið síðara, sem oft var nefnt „Milljónafélagið“; fyrirtæki Péturs Thorsteinssonar og Thors Jensen, var ekki formlega stofnað fyrr en 1907, og hefur húsið síðan verið við það kennt. Salthúsið stóð fram yfir 1910. Strákar kepptu við það í landlegum hver gæti kastað kúskeljum þannig að stæði fast í þilinu. Mun það hafa verið all þétt af skeljabrotum er húsið var rifið (KJK). Enn (2020) sjást leifar steyptra veggja hússins við Syðrilækinn í Verinu.
Hákarlaskipið Fönix rifið: Teinæringurinn Fönix hefur verið rifinn og efnið úr honum notað sem árefti á hús í Kollsvík. Fönix var einkum notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum. Hann var notaður til að flytja timbur úr skipinu Ossian frá Mandal sem strandaði undir Djúpadal 1878.
LK segir í Ísl.sjávarháttum að Fönix hafi verið eina skipið á Vestfjörðum sem var að stærð sambærilegt við Vigur-Breiður í Ísafjarðardjúpi, en þó var Fönix heldur burðarmeiri. Í skipaskrá frá byrjun 20.aldar kemur fram að einn „áttæringur“ er í Barðastrandasýslu og er hann gerður út frá Kollsvík. Hann er smíðaður 1863; 32,1 fet að lengd; 9,2 að breidd og 2,9 á dýpt; nánast sömu mál og á Fönix og Vigur-Breið. (LK; Ísl.sjávarhættir II).
Síðast róið úr Keflavík: Á þessum árum er síðast róið frá Keflavík, þar sem löngum hefur verið fjölsótt útver. Síðastur til að hafa þar viðlegu við róðra, að frátöldum Keflavíkurbændum, var Sveinn Magnússon á Lambavatni (sjá 1929).
Keflavík hefur líklega verið verstöð frá ómunatíð og þar var mikið útræði á skreiðarsölutímanum. Árið 1703 eru þar 7 búðir en hafa stundum verið fleiri, og ganga 7 skip. Landeigandi er þá Guðrún Eggertsdóttir í Saurbæ og hafa vertollar hennar þótt háir (sjá 1703). Árið 1847 ganga 13 bátar úr Keflavík (Gestur Vestfirðingur). Mjög dró úr útræði í Keflavík þegar saltfiskverkun hófst í verstöðvum í Útvíkum, enda erfitt um flutinga á salti og fiski. Verstöðvar í Keflavík voru í raun tvær; í Stöð og innan Hlunkurholts. Heimræði var í Keflavík meðan þar var búið, eða til 1934 (sjá þar). (Örn.skrá Keflavíkur HH; Jarðabók o.fl.).
Bátar og veiði í Rauðasandshreppi: Á þessu ári eru gerð út 9 tveggjamannaför í Rauðasandshreppi; 29 fjögurramannaför og 3 sexæringar. Uppgefinn afli var 89.079 þorskar; 65.377 þyrsklingar; 4.950 ýsur; 21 tunna síld; 1.520 silungar; 31.160 trosfiski; 0,25 tunnur þorsklifur; 1 fullorðinn selur; 82 selkópar; 10.800 af svartfugli; 630 fýlungar og 300 ritur. (Landshagaskýrslur fyrir Ísland, útg 1901).
Fyrstu skref í átt að kaupfélögum: "Kjör fólksins í Rauðasandshreppi um aldamótín, í verzlun og viðskiptamálum, vóru erfið. Fóru því einstöku mem að hugsa um að bjarga sér sjálfir, og ná í vörur án þess að vera algerlega háðir kaupmannavaldinu. Fyrsta sporíð var, að þeir, sem sjálfstæðastir voru leituðu til uppgjafa kaupmanns, Sigurðar Bachmanns á Vatneyri sem að mestu var hættur verzlun, og fengu hann til að senda fyrir sig fisk til Kaupmannahafnar og fá fyrir hann matvöru, kaffi og sykur. Mun þessi verzlun hafa reynzt fremur hagkvæm, en sá galli var á, að það voru aðeins þeir menn sem höfðu fisk er notið gátu þessara fríðinda, því að landbúnaðarafurðirnar voru þá ekki orðnar útflutningsvörur, nema þá helzt ullin. En hún var yfirleitt ekki svo mikil. að fólk gæti misst hana frá heimilunum" (Sigurbjörn Guðjónsson; Verslunarsamtök um Rauðasandshrepp og Patreksfjörð; Tíminn 08.10.1967).
Allmikil skútuútgerð á Eyrum: Nú eru gerð út 10-12 þilskip frá Eyrum, með 160-200 manns í áhöfn.
Enskir botnvörpungar færa sig upp á skaftið: „Botnverpingar eru nú að byrja að venja komur sínar hingað, einkum þegar á líður sumarið, og þykja mönnum þeir síður en ekki góðir gestir. Ekki færri en 6-8 héldu sig á Arnarfirði í fyrra. Einn þessi náungi kom líka hér inn á Patreksfjörð litlu eftir sumarmál og dró vörpu sína allt að hálfum degi fram og afur um fjörðinn, rétt fram undan verslunarstöðunum Vatneyri og Geirseyri. Þetta er all ískyggilegt fyrir Vesturfjarðabúa, enda má heita að bátafiski á fjörðunum sé aðalbjargræðisvegur manna. Ekki alleina drepa togararnir allan fisk sem á firðina kemur, heldur róta botnvörpurnar upp botninum, svo allur fiskur fælist nema e.t.v. kolinn. Togararnir hafa lítið að óttast með þeirri strandgæslu sem nú er. „Heimdal“ hefur mjög litla viðdvöl hér fyrir Vestfjörðum þó hann skreppi um 2-3 ferðir einhverntíma að sumrinu. Hér veitti ekki af að skip væri stöðugt við; einkum þegar líður á sumarið. Þá sækja þessir ránsseggir mest hingað, því þá er best aflavon“. (BJ; Ísafold 24.03.1900).
Löndunarhöfn Færeyinga og Frakka: Frakkar og Færeyingar hafa aðalstöðvar sínar á Vatneyri og landa þar afla. Gufuskip frá Færeyingafélaginu gengur frá Vatneyri í hverri viku og flytur aflann ísvarinn til Englands. Óvíst er hvort framhald verður á þessu fyrirkomulagi. (BJ; Ísafold 24.03.1900).
Byggð hafin á Hnjótshólum: Sigurður Jónsson frá Hænuvík hefur nú hafið búskap á þurrabúð neðan Hnjóts, þar sem nefnist Hnjótshólar. (Í byggð til 1921, sjá þar).
Barnaskólahús byggt á Eyrum: Nú er börnum í Rauðasandshreppi í fyrsta skipti í kennt í þar til byggðu skólahúsi. Það eru þó einungis börn á Eyrum sem þess njóta, en húsið er byggt sameiginlega af hreppnum og félögum á Eyrum. Kennarar verða Ingólfur Kristjánsson og Guðmundur Kr. Bárðarson, og njóta þeir opinbers styrks.
Skólinn gekk til Patrekshrepps við hreppaskiptinguna 1907. (BÞ; Vestfjarðarit).
Ólafur frá Ísafirði strandar í Keflavík: Einmöstrungnum Ólafi frá Ísafirði var siglt upp í Keflavík á þessu ári, vegna leka. Aftakaveður var. Skipverjar, 10 að tölu, björguðust allir. Skipið ónýttist með öllu og var brakið af því selt á uppboði. Skipið var á fiskveiðum fyrir Vestfjörðum er veðrið skall á. Sigldi það ásamt fleiri skipum undir Rauðasand, en þar slitnuðu legufæri skipsins. Var þá siglt út undir Keflavík og lagst þar mjög grunnt. Hafði skipstjórinn látið taka grjót úr ballest skipsins og láta það í poka og voru þeir hafðir fyrir akkeri. Þessi legufæri biluðu einnig, og var þá tekið það ráð að sigla skipinu upp í Stöðina í Keflavík. (EÓ; Sjóslysaannáll).
Lýsislampinn víkur fyrir olíulampa: Fyrsti olíulampinn hefur nú komið í Kollsvíkurbæinn. Þar með víkur hið aldagamla ljósfæri, lýsislampinn. (HM; Verstöðin Kollsvík).
Líklegt er þó að áfram hafi verið notaðar kolur og týrur til lýsinga í fjósum og víðar, þar til vaxkerti og olíuluktir tóku við því hlutverki.
Saumavélar komnar í Kollsvík: Saumavélar hafa á síðustu áratugum rutt sér nokkuð til rúms í Evrópu og Bandaríkjunum. Slíkur kostagripur er nú kominn til Kollsvíkur, en Gísli Guðbjartsson á Grænumýri mun hafa samið um að saumavél verði ráðskonukaup Jónu Valgerðar Jónsdóttur. Hún kom til aðstoðar á heimilið eftir fráfall konu Gísla; Dagbjartar Elíasdóttur. (Einhver misklíð kom þó upp varðandi þessa greiðslu, að sögn Jónu Valgerðar) (JVJ; sjálfsævisaga).
Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi segir að amma sín, Rebekka Gísladóttir á Lambavatni, hafi átt litla einfalda saumavél sem keypt var a.m.k. fyrir 1920 og móðir sín, Halldóra Kristjánsdóttir, hafi átt handsnúna saumavél.
Torfi Össurarson segir að móðir sín, Anna G. Jónsdóttir í Kollsvík, hafi átt handknúna saumavél um aldamótin.
Sjóstígvélin koma; bylting í skóbúnaði: „Til Vestfirðinga! Hjer með gjöri jeg undirritaður heiðruðum almenningi vitanlegt, að jeg hefi í hyggju að koma til Patreksfjarðar, Arnarfjarðar (Bildudals), Dýrafjaröar, Önundarfjarðar og ísafjarðar með Lauru 31. janúar n. k. og mun jeg hafa nægar birgðir af ágætum sjóstígvjelum og öðrum skófatnaði af ýmsum tegundum, sem allt selzt með lægsta verði. Sjerstaklega ættu hinir heiðruðu sjómenn að nota þetta kostaboð. Einnig tek jeg á móti pöntunum og sendi kostnaðarlaust þangað, sem óskað er. Reykjav. 1. des 1900. Benedikt Stefánsson. Skósmiður“. (Haukur 01.02.1900).
"Skófatnaður var úr skinnum eða húðum. En sumir notuðu heima tréskó, einkum franska sem þeir keyptu í skiptum fyrir vettlinga, og þótti það frekar fínn fótabúnaður... Þegar ég man fyrst eftir voru allir jaktamenn farnir að nota stígvél úr sútuðu leðri; ýmist innflutt eða smíðuð í næsta kaupstað því þá voru skósmiðir, einn eða fleiri, í hverju þorpi. Innfluttir skór úr sútuðu leðri voru kallaðir stígvélaskór eða blankskór" (Guðm. Einarsson, þá ungur á Siglunesi; Kalt er við Kórbak)
Á þessum tíma voru stígvél ekki orðin algengur skófatnaður. Má ætla að t.d. í Útvíkum hafi sjómenn enn notað skinnklæðnað af sauðskinni og sjóskó af nautshúð, líkt og tíðkast hafði frá ómunatíð. Heimavið voru menn ýmist berfættir eða notuðu roðskó og sauðskinnsskó, en kvenfólk e.t.v. prjónaðar tátillur innandyra. Roðskór voru gerðir úr steinbítsroði. Notkun roðskóa var að mestu hætt í Rauðasandshreppi um 1910 (sjá þar).
Roðskór og skinnskór enn helsti skóbúnaðurinn: Skinnskór voru lengst af notaðir í Rauðasandshreppi eins og annarsstaðar, og sjóskór úr nautshúð. En notkun roðskóa var einstæð fyrir hreppinn. Tvær gerðir voru af þeim. Á annarri voru þeir saumaðir saman í tá og hæl, en á hinni var aðeins saumur á tánni, en þvengjað í hæl, og var það algengara. „Víða í Rauðasandshreppi, einkum í Útvíkunum, var steinbítsroð notað mikið til skófatnaðar. Þeir skór voru fljótgjörðir, þar sem aðeins var gjörður einn saumur að framan; á tánni, en skórinn sjálfur verptur með þveng alla leið í kring og dreginn saman á hælnum með sama þvengnum; og bundinn utan um fótinn fyrir ofan ökklann. Gæta varð þess að hafa skæðið svo langt að það legðist upp með hælnum að aftan; vel upp að ökkla. Skór þessir, þótt nú þyki þeir hlægilegir þeim sem aldrei hafa séð þá, voru snyrtilegir og gát farið vel á fæti ef þeir voru jafnt dregnir saman með þvengnum. Og þann mikla kost höfðu þeir að vera léttir á fæti. En ekki voru þeir haldgóðir. Færi maður, þó ekki væri nema í eins dags göngu, varð hann að hafa með sér uppundir tylft skóa. En bót var það í máli að hvar sem slíkur maður kom á bæ, og væri hann skólaus, þótti það sjálfsagt að gefa honum eins mörg pör af slíkum skóm og hann þurfti. Settust þá stundum 2-3 vinnukonur við að gjöra skó handa gestinum“ (SÁ; Með straumnum). "Sögðu þeir (Látramenn) mé að roð af 200 steinbítum væri á við eina nautshúð til skóleðurs. Góð steinbítsroð halda nærri því eins vel og þunn sauðskinn, einkum í snjó og frosti. Aftur eru þau lakari í vætu". (Guðm. Hjaltason Ferð um Barðastr.sýslu 1916). Lengd fjallvega var gjarnan mæld í roðskóm. Þannig var Víknafjall, frá Kollsvík að Skaufhól, talin 7 roðskóa leið; þ.e. göngumaður gat búist við að slíta 7 pörum af roðskóm á leiðinni.
Líklega hafa klofstígvél fyrst komið í Kollsvík nokkru fyrir 1940, en Ingvar Guðbjartsson segir svo í endurminningarpistli: "Þá man ég vel þegar Maggi kom einusinni úr siglingu á Vatneyrartogaranum, að hann færði mér klofstígvél; en þá voru flestir vermenn enn í skinnklæðum. Þetta þótti stór viðburður og allir strákarnir í Víkinni, en þeir voru nokkuð margir þá, þurftu að prófa; og auðvitað var farið uppfyrir". Kaup á gúmmístígvélum og gúmmískóm sjást í úttektarnótu GG hjá Sláturfél. Örlygi 25.04.1939. Árið 1942 kaupir Örlygur 34 pör af gúmmískóm frá Kaupfélagi Önfirðinga.
Lausnarsteinn sem fæðingarhjálp: Löngum hefur því verið trúað að lausnarsteinar liðki fyrir fæðingum og lini þrautir. Enn halda sumir í þá trú, þó læknavísindin hafi lítið staðfest í þessum efnum: „Þegar Helgi (Gestarson frá Kollsvík) fæddist í Saurbæ þann 14.ágúst 1900 var þar gömul kona, hálfníræð, sem í barnæsku sinni hafði fundið lausnarstein í Kollsvíkurfjörunni. Hefur það verið fyrir nú (1970) hérumbil hálfri annarri öld. Gaf hún Helga þennan stein og hefur Helgi haft trú á honum sem óskasteini og haft hann í heiðri og geymir enn vandlega sem ættargrip“ (Frásögn Fríðu Sigurðsson um Helga Gestarson sjötugan í Mbl 14.08.1970).
Hugsanlega hefur þessi gamla kona verið Guðrún Gísladóttir (hins auðga frá Bæ á Selströnd) f.1802, d. 1902; ekkja Eggerts Eggertssonar í Saurbæ. Helgi lést 31.05.1995. Trú var á fleiru sem hafið gaf. T.d. var talið gott að setja hvalkvörn í drykkjarvatn stórgripa til að auka hreysti og afurðir.
1901
Fréttir úr Verinu: „Afli báta var með betra móti á vorvertíð á opna báta, einkum í aðalverstöðinni; Kollsvík, sem liggur utan- og sunnanvert fjarðarins: Er aflinn á 4-manna fari frá 5 til 9 þúsund á bát“. (Ísafold 14.okt 1901; ók. fréttaritari; samhljóða frétt í Lögbergi 12.12.1901.)
Lýsing Bjarna Sæmundssonar: Bjarni Sæmundsson er án efa fremsti fiskifræðingur þjóðarinnar nú á tímum. Á þessu ári skilaði hann skýrslu til landshöfðingja þar sem hann lýsir m.a. veiðum og útgerð í Rauðasandshreppi. Frá verstöðvum í Tálknafirði róa menn mjög á steinbít á Kollsvíkurmiðum, og nota við það lóðir. Haukalóðir þekktust ekki fyrir miðja 19.öld. Frá Patreksfirði ganga 19 bátar, þar af 14 frá Eyrum. Fjörðurinn er nú aðalstöð Frakka á Vestfjörðum. Tvö lítil íslensk þilskip hafa fiskað á Flóanum síðasta sumar, en menn hafa ýmugust á útslægingu þeirra.
Á milli Blakkness og Bjargtanga eru 3 veiðistöður; Kollsvík, Breiðuvík og Látur. Fiskipláss þessi eru fræg frá fornu fari fyrir steinbítsafla, því annað aðal-steinbítssvæðið við Vestfirði er frá Blakknesi og suður í Látraröst. Steinbítsaflinn er einkum á vorin. Annars stunda menn þar einnig algengar fiskveiðar og hafa tekið upp lóðir; er Kollsvík nú aðal veiðistöðin. Þaðan gengu í vor 16 bátar; af þeim voru nokkrir úr Patreksfirði. Barðstrendingar róa þar töluvert sem vermenn. Látur með Brunnum og Láginúpur voru fyrrmeir aðal-verstöðin. Nú ganga 3 skip á Látrum“.
Ekki muna menn eftir neinum aflaleysisárum, og engar breytingar hafa orðið á fiskveiðum aðrar en aukin lóðabrúkun og nýjar beitutegundir. Þorskur gengur ekki í fjörðinn fyrr en í maí og þykir ganga best í hlýju veðri, en hverfa í kulda og norðanátt; fer um mánaðarmótin okt-nóv. Ýsa gengur í fyrsta lagi í Flóann í júlí. Smálýsa er oft; og smáufsi. Koli er nokkur. Botnvörpungar hafa ekki komið inn í fjörðinn. Mun minna veiðist nú af heilagfiski og skötu, en áður aflaðist mikið af því. Hrognkelsaafli hefur brugðist síðustu 4 ár. Loðna er sjaldgæf. Beinhákarl hefur komið inn á fjörðinn“. (Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur; Skýrsla til landshöfðingja; Fiskirannsóknir 1901. Birt í Andvara 01.01.1903).
Seglabúnaður: „Í haust gengu 190 bátar úr firðinum og af þeim 14 frá Vatneyri. Úr SV-verðum firðinum róa menn út á Eyrunum vegna brima. Í fjörðinn (Patreksfjörð) róa menn á 3-rúma bátum en á 6-æringum í Flóann og lengra út. Á þeim er „loggortusigling“; 1 rásegl og fokka; tekið eftir Frökkum“. (Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur; Skýrsla til landshöfðingja; Fiskirannsóknir 1901. Birt í Andvara 01.01.1903).
Þurrabúð að Strákamel: Sumarliði Bjarnason og Guðrún Ingimundardóttir hafa byggt sér bæ, þurrabúð, á svonefndum Strákamel ofan Kollsvíkurvers; nærri Búðarlæk (GG; Sunnud.bl. Þjv). Bærinn er með torf- og grjótveggjum, með súð og torfþaki, en timburgafli; rúmir 16 m² að gólffleti. Auk þess byggði Sumarliði fjárhús með geymslu í öðrum enda. Lóð höfðu þau úr Kollsvíkurlandi, og matjurtagarð. Búsetan byggir þó einkum á sjóróðrum í Kollsvíkurveri. (Fasteignamat o.fl.) Strákamelur heita sléttar þurrar flatir ofan syðstu búðanna í Kollsvíkurveri, og ber þær nokkuð yfir umhverfið.
1906-1925 bjuggu þar Gestur Jósepsson og Ingibjörg Runólfsdóttir af Rauðasandi (Strákamelur var þá nefndur Gestarmelur) ofan Kollsvíkurvers, ásamt tveimur sonum sínum. Höfðu 20-30 kindur en enga kú. (EG; Niðjatal og BÞ; Vestfjarðarit) Um tíma var líka þurrabúð sem byggð var upp úr verbúðinni Evu, og bjó þar Magnús Jónsson sem síðast var í Vatnsdal (sjá 1924). (GG; Verstöðin Kollsvík).
Þurrabúð að Grænumýri: Gísli Guðbjartsson og Guðmundína Ólína Þorgrímsdóttir hafa byggt þurrabúð að Grænumýri í landi Kollsvíkur. Gísli er frá Kollsvík og hefur slægjur uppi í túninu. Bú þeirra er fremur lítið; tæplega 50 kindur og ein kýr. Sonur þeirra er Dagbjartur Björgvin. Gísli hefur um stuttan tíma átt bæ að Bergjum, framan Kollsvíkurtúns, áður en hann byggir Grænumýri. (EG; Niðjatal o.fl.).
Árið 1925 flytja þau að Koti og við það leggst byggð af á Grænumýri.
Íbúafjöldi: Nú eru íbúar í Rauðasandshreppi alls 813, en voru 470 árið 1870, og hefur því fjölgað um 73% á 30 árum. Mest hefur fjölgunin orðið á Eyrum, sem eru í Sauðlauksdalssókn, enda er þar vaxandi útgerð og önnur umsvif. Þar eru íbúar nú 372, en voru 35 árið 1870. Skipt eftir sóknum er íbúatalan þessi: Saurbæjarsókn 131 á 15 heimilum; Breiðavíkursókn 143 á 21 heimili; Sauðlauksdalssókn 539 á 46 heimilum.
Búnaðarhættir: Einar Helgason ferðaðist um Barðastrandasýslu 1901 til að kanna búnaðarhætti. Ritaði hann skýrslu um hvern bæ, en hér er stiklað á stóru úr samantekt hans. „Garðyrkja í sýslunni er á svo háu stigi að það mun mega jafna henni við þær sýslur sem annars standa hæst í því tilliti… Mest er garðræktin í Rauðasands- og Barðastrandarhreppum“. Í Rauðasandshreppi er heildarflatarmál garða 6.155 ferfaðmar; í Barðastrandahreppi 5.200; í Reykhólahreppi 1800 en í öðrum hreppum langtum minna. „Ég vil nefna nokkura bæi sem … hafa allmikla garða er gefa af sér góða uppskeru. Það eru bæirnir í Breiðuvík og Kollsvík, Hænuvík og Örlygshöfn (þar eru þá 3 bæir)… Þess finnast dæmi, bæði á Barðaströnd og Rauðasandshreppi, að kartöflutunnan fæst af 10 ferföðmum“. Á sumum bæjum hefur túnunum verið gjört mikið til bóta, bæði með sléttum, girðingum og skurðum, og sum stækkuð mikið á síðari árum. Víða hefur verið sléttað, sumsstaðar með plógi en oftast með spaða. Þannig hafa í Rauðasandshreppi verið sléttaðar 9 dagsláttur (meira þó í Reykhólahr: 36 dagsl). Sumsstaðar í vestursýslunni er farið að hýsa kvíaær; mjög víða eru þær mjólkaðar í færikvíum. Í Rauðasandshreppi eru sumir farnir að taka upp þann sið að láta ær ganga með dilk. Fjárhús eru oft niðri á sjávarbökkum til að nýta fjörubeitina, og sandur borinn á gólfin til að halda þeim þurrum Sumsstaðar eru hafðar grindur undir fénu. Sýslubúar vanda heyþurrk sinn mörgum öðrum betur. Heyið er sett upp í galta hálfþurrt eða þurrt og breitt segl yfir þegar óþurrkar ganga. Þessi segl eru heimaunnin og kölluð hærur; álitin bestu búmannsþing. Á flestum bæjum eru heyhlöður; víðast eru þær með torfþaki, en sumsstaðar í vestursýslunni með járnþaki. Vegirnir eru víðast ákaflega vondir og samgöngur aðallega á sjónum. „Hvergi varð ég var við neina ótrú á búskapnum eða kvíða vegna framtíðarinnar. Þeir búa þar að sínu með seigju og dugnaði“ (Einar Helgason; Búnaðarrit; 1.tbl.1902).
Ýmsar hagtölur Barðastrandasýslu: "Eftir manntalsskýrslunum frá 1901 var íbúatala Barðastrandarsýslu það ár 3.410 eða fullum 500 meiri en 1890. Fjölgunin öll hefir lent á kauptúnunum á Bíldudal og Patreksfirði. Árið 1893 voru íbúar Bíldudals 71 en árið 1905 299. Árið 1893 voru íbúar Patreksfjarðarkauptúns 102 en 1905 374. Árið 1901 lifðu tæp 44% af íbúum Barðastrandarsýslu eingöngu á landbúnaði, rúm 12% á fiskiveiðum, og 29% á fiskiveiðum og landbúnaði jöfnum höndum. Þilskipaútgerð er talsverð frá Bíldudal og Patreksfirði. 1905 stunduðu 11 þilskip fiskiveiðar frá Bíldudal og 14 frá Patreksfirði. Fiskiveiðar á opnum bátum eru stundaðar mikið við Arnarfjörð, Tálknafjörð, og Patreksfjörð einkum seinni hluta sumars og á haustum. Á Látrum og í Kollsvík er gott útræði, einkum á vorum, og aflast þar mjög mikið af steinbít. Við Breiðafjörð er engin fiskiviðastöð sem tilheyrir Barðastrandarsýslu nema Bjarneyjar, og sækja einkum eyjamenn þangað á vetrum og vorum. Úr öllum hreppum Barðarstrandasýslu er þó stundaður sjór að meiru eða minna leyti, þótt nokkuð só það að minka á seinni árum. Bændur í Barðastrandarhreppi senda menn sína til róðra og fara oft sjálfir út í Kollsvík, og eru þar fram undir slátt, en úr austustu hreppnm sýslunnar er róðið við ísafjarðardjúp.
Sauðfé er fremur fátt í Barðastrandarsýslu; 85 kindur á býli að meðaltali. Í vestursýslunni færa flestir frá, og gjöra ærnar gott gagn, gefa 10—14 merkur smjörs yfir sumarið að meðaltali. Féð er eigi vigtað á fæti, en kroppurinn af veturgömlu fé er talinn 30-45 pd en 20-30 pd af lömbum. Í austursýslunni er orðið alment að láta ganga með dilk. Lifandi vigt á dilkum er talin 80-90 pd og um 100 pd á veturgömlu fé. Fé er víða í Barðastrandarsýslu fremur létt á fóðrum, fjörubeit mjög víða og hagsælt einkum út til nesja. í Vestur-Barðastrandarsýslu eru kýrnar fremur smáar og nytlágar, komast venjulega i 10—12 merkur, þær beztu i 14—16 merkur. Hestar eru fáir í Barðasandarsýslu, enda aðdrættir mestir á sjó. Litið hefir verið unnið að jarðabótum i Barðastrandasýslu, nemma hjá örfáum bændum... Plógur er lítið notaður í Barðastrandarsýslu, og kerrur eru mjög óvíða. Hér og hvar í sýslunni eru tún girt, þó á tiltölulega fáum bæjum. Gaddavír er farið að nota á stöku stað, einkum ofan á torfgarða. Garðrækt er talsverð í Barðastrandarsýslu, og stendur á gömlum merg, frá tíð Björns prófasts Halldórssonar í Sauðlauksdal. Matjurtagarðar eru svo að segja á hverjum bæ i sýslunni, en lang mest kveður þó að garðræktinni (aðallega kartöfiurækt) í Barðastrandarhreppi og Rauðasandi, enda munu skilyrðin fyrir kartöflurækt vera óvíða á landinu eins góð og þar". (Guðjón Guðmundsson; Freyr 01.11.1907).
Fjöldi búpenings: Í Rauðasandshreppi er fjöldi búpenings nú þessi: Nautgripir 146; sauðfé 2.646; hross 124. (sjá 1871 og 1960).
Taðkvörn og slóði koma til sögunnar: Tvö tæki eru nú farin að létta bændum búverkin og bæta nýtingu áburðar. Annarsvegar eru það handsnúnar taðkvarnir, en í þeim er unnt að mala þurrkað tað sem síðan er sáldrað á tún. Hitt er slóði sem dreginn er af hestum yfir tað og klíning á túnum og mylur áburðinn niður í rótina. Fram að þessu hefur hlössum verið klínt á völl og þúfur og unnið á með kláru og kepp sem er erfitt verk. „Slóði og taðkvörn komu hingað um eða eftir aldamótin“ (GG/ÖG; Haugburður og vallarvinna). „Hrísslóðar voru notaðir á stöku stað þar sem greiðfært var. Var slóðinn eins og stór vöndur og lagt á hann torf og grjót og hestur látinn draga“ (PJ; Barðstr.bók).
Steinbítur seldur til bænda: Steinbítur þekkist ekki sem verslunarvara til kaupmanna, heldur er hann eingöngu brúkaður heima eða látinn til bænda sem ekki búa við sjó. Verðið er um 20 aurar steinbíturinn. Margir koma í skreiðarferðir. Viðskiptin eru einkum við bændur í sveitum við Breiðafjörð. Oftast eru það fastir viðskiptamenn: Þeir fá steinbít og láta í staðinn smjör og tólg. "T.d. man ég eftir sr. Guðmundi í Gufudal með stóra hestalest í skreiðarferð hingað". KJK; Sunnudbl.Þjv. "Reglan var sú að 60 þrívaldir steinbítar jafngiltu tveim fjórðungum af smjöri. Væri um peningagreiðslu að ræða, sem þá var þó lítt þekkt, var stykkið selt á 20 aura" (Arinbjörn Guðbjartsson; Vísir 27.11.1968).
Nýting fiskbeina og rasks: Hausar og hryggir eru hertir. Þorskhausar eru mikið notaðir til matar, en steinbítshausar eru þó betri. Hausar og hryggir eru einnig fóðurbætir bænda hér. Lifrin er líka oftast hirt á tunnur og látin renna sjálf. Er henni blandað í hey á veturna. (KJK; Sunnudagsbl.Þjv).
"Stundum koma í Kollsvíkurver skip er sækja þurrkuð fiskbein og flytja á staði þar sem beinakvarnir eru, og þau voru möluð. Fiskbein eru líka geymd og þurrkuð; barin og notuð bæði fyrir menn og skepnur. Eitt hundrað af steinbítshausum er metið til jafns við eina alin af heyi og 100 af hryggjum er í sama verði. Við gömlu búðirnar eru reitir til að þurrka beinin". (GG; Verstöðin Kollsvík). "Talsverð vinna fer í að bleyta, berja og höggva fiskibein, en þau eru eini fóðurbætirinn sem féð fær, auk lýsis sem gefið er alla vetur". (ÖG; Vorverk og heyannir).
Rask (innyfli) úr fiski var allt notað sem áburður á tún. Má ætla að það sé meginskýring þess hve gömul tún eru gróskumikil; jafnvel þar sem ófrjór skeljasandur er undir.
1902
Spítali tekinn í notkun á Eyrum: Lokið er byggingu fyrsta sérbyggða spítalans í Rauðasandshreppi. Mun Pétur A. Ólafsson faktor sjá um rekstur hans í fyrstu, en fyrirhugað er að hann verði framvegis á vegum sýslunefndar. Nokkuð er síðan farið var að undirbúa stofnun spítala, enda þörfin ærin, bæði vegna byggðarlagsins og þess fjölda Frakka og annarra sem sækja á fiskimiðin. Á fjárlögum 1899 kom fjárveiting til byggingarinnar. Leitað var til franska konsúlsins um framlag Frakka, en því var synjað. Sumarið 1898 kom franska spítalaskipið St Paul inn á Patreksfjörð og kynntu menn sér aðbúnað þar um borð. IHF beitti sér fyrir samskotum og Markús Snæbjörnsson gaf lóð undir spítalann á auðu svæði í vestanverðu Geirseyrarlandi. Sumarið 1901 var reist þar tveggja hæða hús með kjallara; teiknað af Sigurði Magnússyni lækni, sem jafnframt er lærður trésmiður. Í spítalanum voru rúm fyrir 10 sjúklinga, skurðstofa og lítil íbúð. Húsið kostaði 14.000 krónur. Ólafur Jónsson var ráðinn spítalahaldari. (Guðjón Friðriksson; Árb.Barð. 2012 o.fl.).
Upphaflega átti spítalinn að verða mun stærri en varð, og ætlaði IHF að gefa sýslunni húsið fullgert en án innanstokksmuna og áhalda. Sigurður Magnússon læknir kom því til leiðar að húsið var minnkað, en fékkst með öllum búnaði. Gerði hann sjálfur uppdrátt að endanlegu húsi, enda lærður smiður. Fyrsta árið, 1903, var húsið rekið af IHF, áður en sýslan tók við rekstrinum. Það ár lágu þar alls 40 sjúklingar. (SM; Æviminningar læknis).
Mikil aðsókn var að spítalanum frá upphafi og jókst mjög aðstreymi útlendra og innlendra fiskimanna á Eyrar vegna hans. Reksturinn var þó sýslusjóði erfiður og var á tímabili reynt að selja hann, en án árangurs. Spítalinn þjónaði svæðinu til 1946, þegar nýtt og stærra sjúkrahús hafði verið byggt. Nú (2020) hefur það verið í gagngerri endurbyggingu í nokkur ár á vegum núverandi eigenda; Rebekku Hilmarsdóttur úr Kollsvík, bæjarstjóra Vesturbyggðar, og manns hennar Arnar Jónssonar.
Lækningaleyfi Sveins á Lambavatni: "Skömmu eftir komu mína til Patreksfjarðar kom til mín bóndi einn af Rauðasandi; Sveinn Magnússon að nafni, frá Lambavatni. Mesti snyrti- og sómamaður, en hafði í mörg ár fengist við lækningar þarna í sveitinni (allopathalækningar). Erindi hans var að biðja um leyfi mitt til þess að sinna læknisstörfum, og taldi ég það sjálfsagt að hann fengi það, en fyrirrennari minn hafði bannað honum að fást við lækningar. Mér hefur alltaf fundist það óeðlilegt að neita sjúklingum um, eða banna þeim, að leita sér þar hjálpar sem þeir helst óska. Ekki held ég að Sveinn hafi gert mikið af því að rannsaka sjúklinga, en sumt fólk hafði góða trú á honum og fyrir kom að hans var vitjað til sjúklinga sem ég hafði verið hjá" (Sigurður Magnússon; Æviminningar læknis).
Steinlímt íbúðarhús í Sauðlauksdal: Byggt hefur verið vandað íbúðarhús á prestssetrinu Sauðlauksdal. Það er nær 56 m² að heildargólffleti; portbyggt með steinlímdum veggjum neðri hæðar. Geymsla er áföst húsinu.
Brattahlíð leggst í eyði: Kristján Ólafsson og Guðbjörg Árnadóttir hafa nú flutt frá Bröttuhlíð á Rauðasandi að Melanesi. Með því leggst þessi jörð í eyði, því Sigurður Bachmann kaupmaður á Eyrum, sem keypti jörðina, mun ekki búa á henni. Brattahlíð er í túnjaðrinum utan og ofan Saurbæjar; 6 hundraða jörð að fornu mati.
Aðvörun til ferðafólks: „Auglýsing: Allir þeir ferðamenn sem koma með hesta aðvarast um að passa þá; nefnilega að láta þá ekki koma á mítt land leyfislaust til beitar í haga á Geirseyri. Hver sem ekki passar fær að borga fyrir að taka gripi fasta. M. Snœbjörnsson“. (Arnfirðingur 30.05.1902).
1903
Nýbýli á Torfamel: Grasbýlið Grund hefur verið byggt í landi Láganúps, á svonefndum Torfamel (Torfmel) handanvið Miðlækinn. Býlið byggir Samúel Eggertsson kennari, teiknari og búfræðingur frá Ólafsdal, og býr hann þar til 1908 ásamt Mörtu Stefánsdóttur konu sinni og hálfbróður sínum, Jochum Eggertssyni sem þau tóku í fóstur. Áður bjó Samúel á Stökkum. Jafnframt búskapnun var hann oddviti Rauðasandshrepps. Á Grund starfar hann við barnakennslu ásamt búskapnum.
Samúel flutti ýmsar nýjungar á svæðið. T.d. réðist hann í miklar áveituframkvæmdir í Miðmýrum. Frá Grund flutti hann á Ísafjörð og starfaði þar í apóteki. Flutti síðan til Reykjavíkur, þar sem hann kenndi börnum og fékkst við skrautritun á vetrum en vann við mælingar, kortagerð og fleira á sumrin. Hann varð einn kunnasti teiknari og kortagerðarmaður landsins. Gerði m.a. uppdrætti af öllum kaupstöðum á landinu með 300 íbúa eða fleiri. Bíldudal mældi hann og kortlagði árið 1897.
Eftir Samúel bjó Bæring Bjarnason að Grund, en síðar Guðbjartur Guðbjartsson og síðast Kristján Júl. Kristjánsson. Grund fór í eyði árið 1939. Líkt og á öðrum smábýlum í Kollsvík byggðist búsetan að miklu leyti á sjósókn eða öðrum aukatekjum.
Grundabær gerður upp: Kristján Ásbjörnsson bóndi á Grundum hefur gert verulegar endurbætur á bæ sínum.
Grasbýlið Kóngsengjar: Jón Hjálmarsson (Sigmundssonar á Stökkum) og Sigríður Bjarnadóttir (Torfasonar á Naustabrekku) kona hans hafa reist sér kotbýli á Kóngsengjum, neðan Geitagils. Ekki er vitað um byggð þarna fyrri (þó ekki sé það útilokað), en nafnið mun dregið af því að fyrrum átti kóngur fjórðung Geitagilsjarðarinnar. Sumir hafa þó tengt nafnið því að úr túngarði neðan Kóngsengja eru landamerki Tungu og Geitagils dregin í línu upp á Kóngshæð.
Sonur Jóns og Sigríðar var Davíð sem síðar bjó í Hænuvík. Árið 1921 urðu ábúðarskipti á Kóngsengjum, er þar settust að Ármann Guðfreðsson og Bryndís Guðjónsdóttir, en þau bjuggu þar til 1923 (sjá þar). Eftir það hefur ekki verið búið á Kóngsengjum.
Björn M. Olsen byrjar að kaupa fisk: Björn Matthíasson Olsen, sem hætti um aldamótin sem verslunarþjónn hjá P.J. Thorsteinnson og flutti til Ísafjarðar, hefur nú snúið aftur á Vatneyri og hyggst hefja verslun. Hefur hann umboð frá Pike Ward, hinum enska, til að kaupa fisk. Má vænta þess að hann hugi þar á viðskipti við Útvíknamenn, en mesta bátaútgerð hreppsins er í Kollsvík. Í verslun hans er allnokkuð vöruúrval; kaffi, sykur, tóbak, leikföng, epli, smákökur og fleira. Stóru athafnamönnunum sem fyrir eru; Pétri A. Ólafssyni og Ólafi Jóhannessyni, mun vera mjög í nöp við þessa forretningu Björns, einkum fiskkaupin, og reyna hvað þeir geta til að torvelda hana.
Verslun Björns fór að lokum í þrot 1908, sjá þar. (Guðjón Friðriksson; Árb.Barð. 2012).
Togarar veiða uppi í kálgörðum: Enskir togarar spilla nú mjög miðum og veiðarfærum á grunnslóð. Enskir togarar hafa á þessu hausti gerst venju fremur yfirgangssamir á grunnmiðum. Á Arnarfirði hafa þeir verið 6-10 að veiðum í einu og skafið botninn frá Kópanesi inn að Bakkadal að vestan og að Stapadal eða innar norðantil. Hafa margir heimamenn tapað lóðum sínum og er tjónið metið meira en 15.000 kr hjá 40 bátum. Sama gildir á Tálknafirði, þar sem þeir eru að skarka inn að Suðureyri, og í Patreksfirði, þar sem þeir draga inn að Vatneyri. (Fjallkonan 27.10.1903).
Fyrsti vélbáturinn í Rauðasandshreppi: Útgerðarfélagið IHF hefur keypt til reynslu fyrsta vélbátinn í hreppnum.
Ekki fer miklum sögum af þessum báti. Árið 1905 kom annar mótorbátur, og var sá í eigu Péturs J. Thorsteinssonar. Árið 1915 voru 15 smábátar gerðir út frá Eyrum, þar af 5 mótorbátar. Smábátaútgerð átti langtum minni þátt í útgerð og uppgangi á Patreksfirði en skúturnar á fyrstu árum aldarinnar. (Jón Guðnason; Umbylting við Patreksfjörð). Pétur A. Ólafsson fékk aðalumboðið fyrir DAN-bátavélar og seldi á annað hundrað vélar; m.a. fyrstu vélarnar sem komu í báta í Útvíkum.
1904
Torfi Jónsson drukknar í Snorralendingu: Torfi og sex menn aðrir úr Kollsvík höfðu farið í kaupstaðaferð inn á Eyrar, og voru þessir í förinni auk Torfa; Kristján Ásbjörnsson bóndi á Grundum; Össur A. Guðbjartsson bóndi í Kollsvík; Sumarliði Bjarnason húsmaður í Kollsvík; Jens Jónsson húsmaður í Kollsvík; Gestur Jósefsson húsmaður í Kollsvík og Árni Árnason (sem síðar drukknaði á Látrum 1921). Lagt var af stað úr Kollsvík um morguninn og komið þangað aftur síðari hluta dags; eftir kl 5. Vindur var ekki teljandi; lágsjávað og nokkurt brim, bæði af vestan og norðansjó. Tveir menn voru staddir í Verinu: Þórarinn Bjarnason frá Grundabökkum og Guðbjartur Guðbjartsson bróðir Guðbjargar, konu Torfa. Þeir gengu niður í fjöruna þar sem þeir töldu hentugast að lenda. En svo hagar til að sunnanvið aðallendinguna í Kollsvíkurveri er svokölluð Snorralending. Til þess að hún njóti sín þarf þó að vera allhásjávað, þvert á móti því sem nú var. Þeim sem í landi voru brá því í brún er báturinn sneri að Snorralendingu, en tóku þó á rás þangað. Torfi stýrði, og sat hann á borðvið sem stóð aftur af slíðrinu bakborðsmegin. Báturinn var nú kominn nálægt landi, en þá lagði Torfi stýrið skyndilega til stjórnborða og virtist svo sem honum hafi þá ekki litist á lendingu á þessum stað. En í sömu andrá reið bára undir borðið og bátnum hvolfdi. Mun Torfi þá hafa slöngvast svo langt frá að hann náði ekki til bátsins. Töldu menn að hann mundi þegar hafa misst meðvitund. Báti Ólafs Halldórssonar var hrundið fram til að leita að líki Torfa en það fannst þó ekki fyrr en síðar. Urðu skipverjar að leita inn í Láturdal til lendingar. Torfi var 56 ára og lét eftir sig eiginkonu; Guðbjörgu Guðbjartsdóttur, og 13 börn.
Mannskætt sjóslys á Vatneyrarhöfn: „Þriðjudaginn 6.september vildi það hörmulega slys til á Patreksfirði að bát frá fiskiskipinu Bergþóru úr Reykjavík hvolfdi með 13 manns á, er allir drukknuðu. Höfðu þeir verið að sækja ís og vatn í land er sjór gekk á bátinn og færði hann í kaf. Skip sem lá þar nærri hjó bát þegar úr festum og skaut fyrir borð, en er hann fimm mínútum síðar bar þar að, var bátshöfnin öll sokkin og öll björg því ómöguleg. Mælt er að enginn þeirra hafi verið syndur, og sannast hér sem optar að margur drukknar nærri landi vegna þess að hann ekki getur haldið sér á floti í nokkrar mínútur. Meðal þeirra sem fórust var skipstjórinn, Sigurður Guðmundsson“. (Vestri; 17.09.1904). Tímaritið Templar sagði að slysið hafi orsakast af drykkjuskap bátsverja.
Ætla má að þessi tvö sjóslys hafi orðið Valdimar Össurarsyni (eldra) mikil hvatning til að hefja sundkennslu á svæðinu, en á því sviði var hann öflugur frumherji.
Vanhöld á fénaði vegna dýrbíts og pestar: "Skemdir af dýrbiti með mesta móti í Barðastrandarsýslu, tóan drap um og yflr 20 lömb á nokkrum bæjum um vorið og fjárheimtur urðu í versta lagi um haustið" Einnig gerði bráðapest verulega vart við sig. (Samúel Eggertsson í Kollsvík; Búnaðarrit 01.01.1905).
Jón Einarsson drukknar í Bæjarvaðli: Jón Einarsson, til heimilis á Sjöundá, drukknaði í Bæjarvaðli á Rauðasandi 26.06.1904. Jón var fæddur á Grundum 14.12.1862; ókvæntur og barnlaus. Hann var sonur Þóru Bjarnadóttur frá Lambavatni og Einars Jónssonar, sem var bóndi í Tungu og á Móbergi. Einar var sonur Jóns Einarssonar; Jónssonar bónda í Kollsvík og ættföður Kollsvíkurættar. (Vestfirskir slysadagar; Kollsvíkurætt).
Búnaðarfélagið Örlygur stofnað: Stofnað hefur verið búnaðarfélag í Rauðasandshreppi. (Stofnár reyndar óvíst, en fyrstu ársreikningar eru frá 1904, að sögn ÖG Láganúpi í yfirliti hans um Rauðasandshrepp 1983). Fyrsti formaður þess er Markús Gíslason, bóndi og kaupmaður á Geirseyri. Félagsmenn eru þeir sem vinna að jarðabótum á hverjum tíma.
Enda þótt Rauðasandshreppi væri skipt í 2 hreppa árið 1907 starfaði Búnaðarfélagið áfram fyrir báða hreppana allt til 1913, en starfsemin virtist vera í lægð til 1919. Þann 1.febrúar það ár er félagið endurreist, og nær þá aðeins yfir Rauðasandshrepp. Sjá þar.
1905
Þurrabúð byggð á Grundabökkum: Bræðurnir Þórarinn og Steinn Bjarnasynir hafa byggt nýbýlið Bakka neðst í Grundatúni, og búa þar ásamt móður sinn, Önnu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er ekkja eftir Bjarna Bjarnason barnakennara (látinn 1898). Íbúðarhúsið er tæpir 24 fermetrar að gólffleti; torf- og grjóthlaðið í hliðum, með timburgöflum og reistu járnþaki. Einnig byggðu þeir heykofa og skemmu, en séreign Steins er skemma og lambakofi með hlöðu. Þurrabúðinni fylgir lóðarblettur í fremur lélegri rækt (Þórarinsnýlenda), austan Grundatúns. Búsetan byggir annars á útræði, eins og er um önnur smábýli í Kollsvík.
„Þeir bræður höfðu litla grasnyt og fáar skepnur. Þórarinn líklega 20-30 kindur en Steinn 10-20. Enga kú höfðu þeir og urðu því að kaupa alla mjólk” (EG; Niðjatal). Bakkar fóru í eyði er Þórarinn og Steinn fluttu á Patreksfjörð 1930. Stofnár Grundabakka er hér miðað við það að í Fasteignaskrá 1916 er íbúðarhúsið sagt vera 11 ára.
Smíðuð Svalan: Smíðaður hefur verið bátur sem gerður verður út frá Kollsvíkurveri og hefur fengið nafnið Svalan. Báturinn er 6 m langur; 1,7 m breiður og um 58 cm á dýpt. Burðargeta er liðlega 1 tonn. Honum verður róið og siglt, en ekki er gert ráð fyrir vél.
Smíðaár sést í sjávarútvegsskýrslu Guðbjartar Guðbjartssonar árið 1943, en þar er róðrarbáturinn Svalan metin á 200 kr. Ekki er vitað hver smíðaði Svöluna, en tveir koma helst til greina: Annar er Sturla Einarsson (1830-1922), sem þá bjó á Brekkuvelli. Hann fékkst mikið við húsa- og bátasmíðar og var m.a. að endurgera Kollsvíkurhúsið er þar féll mannskætt snjóflóð 1857. Hinn er Gísli Jóhannsson bátasmiður á Bíldudal. Gísli hóf að smíða róðrarbáta þetta ár, en átti eftir að verða afkastamesti bátasmiður svæðisins, bæði í bátum og stærri skipum. Fyrir 1939 hafði Gísli smíðað yfir 350 báta. Árið 1920 er Svölunni róið af Valdimar Össurarsyni (1896-1956) samkvæmt skrá sem Egill á Hnjóti hefur eftir Guðbjarti. Hugsanlega hefur faðir Valdimars; Össur Guðbjartsson í Kollsvík átt hana. Þeir feðgar flytja til Dýrafjarðar 1927 og flytur þá Guðbjartur á Láganúpsjörðina og kaupir ýmsar eignir; þar á meðal Svöluna. Í eignaskrá Láganúps árið 1931 er Svalan metin á 50 kr. Það ár virðist Einar Guðbjartsson hafa hugleitt að setja vél í Svöluna og gerir um það kostnaðaráætlun: Eik í stefni o.fl. 32,95 kr; vinna við vél 188,55; vinna við smíði 51,25; viðgerð 7; lykill (sveif) 2,55; áætluð vinna GG o.fl. 70; vél (upphafl. verð) 400; kostnaður við borðhækkun 40; upphaflegt verð báts 200. (Samkvæmt minnisblöðum; ekki er fullvíst að eigi við Svöluna). Svalan var geymd inni á Gjögrum þar sem hún fauk í ofsaveðri og þá skemmdist afturstefnið verulega. Stóð þá jafnvel til að brenna hana, en Egill Ólafsson á Hnjóti falaði hana fyrir minjasafn sitt og þar er hún enn varðveitt (1920). Kristinn sonur hans gerði henni lítillega til góða fyrir bátasýningu, en annars er hún líklega óbreytt frá upphafi og enn án vélar. Til eru frásagnir af brimlendingu Valdimars á Svölunni árið 1923, en þar var meðal annarra háseta Torfi bróðir hans.
Brúðkaup gegn vilja ættmóður: Halldóra Mikkalína Halldórsdóttir (31.05.1843-14.09.1923) á Grundum er mikill kvenskörungur og stýrir heimili sínu og afkomendum af festu og myndarskap. Hún er dóttir Halldórs Kolvíg Einarssonar Jónssonar ættföður í Kollsvík. Hefur hún búið með manni sínum, Halldóri Ólafssyni (11.04.1841-05.05.1905) á Grundum frá 1870, en fyrir nokkrum árum tók dóttir þeirra; Guðbjörg Halldórsdóttir, við búi ásamt manni sínum Kristjáni Ásbjörnssyni. Grundaheimilið er fjölmennt, því auk barna og barnabarna þessara hjóna eru þar tvö fósturbörn Halldóru og bróðir Halldórs. Halldóra hefur stundað ljósmóðurstörf og tekið á móti flestum börnum í Kollsvík á sinni tíð. Sú gamla þykir stjórnsöm í meira lagi; ekki er nóg með að hún hefur ráðið nöfnum á sínum afkomendum, heldur telur hún einnig vissara að hafa hönd í bagga með ráðahag þeirra. Gekk það mótstöðulaust þar til kom að yngstu dótturinni; Jónfríði Halldórsdóttur (22.10.1882-16.01.1969). Hún hafði fellt hug til ungs manns úr Hafnarfirði; Sigurjóns Gunnarssonar (19.05.1880-29.03.1954). Gamla konan hafði frétt að mannsefnið ætti barn í lausaleik og jafnvel smakkað vín; ekki kom því til greina að fella sig við þann ráðahag dóttur sinnar. Hún kom samt engu tauti við dótturina, og tók því það til bragðs að banna prestum í nágrenninu að gefa þau saman. Svo virt var Halldóra gamla að ekki vildu þeir ganga gegn hennar vilja. Jónfríður hafði hinsvegar erft staðfestu og ráðsnilld móður sinnar. Hún fór því með mannsefninu alla leið norður á Hrafnseyri, þar sem þau voru gefin saman hinn 13.08.1905.
Jónfríður og Sigurjón settust að í Hafnarfirði og eignuðust 9 börn. Er þar mikill ættbogi frá þeim kominn. Sigurjón var fiskmatsmaður á Patreksfirði og í Hafnarfirði; einnig verkstjóri og bílstjóri. (SG; Árbók Barð. 1980-1990; TÓ; Kollsvíkurætt og Ábúendatal Rhr.).
Sigríður týnd á Látraheiði í fimm dægur: Átján ára stúlka; Sigríður Júlíana Magnúsdóttir (17.02.1897-24.07.1961) frá Breiðuvík, komst lífs af eftir hrakninga á Látraheiði. Hafði hún lagt af stað inn heiðina, að sögn til að heimsækja fólk á Lambavatni, en lenti í svarta þoku og villtist. Eigraði hún þar um og var einhverntíma nærri því að ganga fram af bjargbrúninni. Eftir fimm dægra útilegu og hrakninga komst hún loks til byggða, en þá höfðu menn leitað hennar árangurslaust og voru orðnir vonlitlir um að hún finndist á lífi. (Minningargrein í Faxa 01.12.1961).
Sigríður jafnaði sig aldrei til fulls eftir þessar mannraunir. Hún flutti nokkrum árum síðar til Reykjavíkur og 1919 að Flankastaðakoti við Sandgerði. Þar giftist hún ekkjumanni; Árna Magnússyni og eignaðist með honum 5 börn sem lifðu. Foreldrar Sigríðar voru Magnús Einarsson (sem fórst með Viggu 1897) og Bergljót Gunnlaugsdóttir frá Grundum. Þjóðsögur mynduðust um hrakninga Sigríðar. Hefði komið til hennar álfkona á heiðinni, sem gaf henni góð ráð. (MG; Úr vesturbyggðum Barð).
Ó. Jóhannesson & Co stofnað: Formbreytingar hafa orðið varðandi verslunarrekstur og útgerð á Vatneyri, með því að stofnað hefur verið fyrirtækið Ó. Jóhannesson & Co, sem tekur við rekstri P.J. Thorsteinsson & Co. Með þessu verður Ólafur Jóhannesson meðeigandi í fyrirtækinu, en hann hefur verið faktor hjá Pétri J. Thorsteinssyni, .
Í raun lánaði Pétur honum fyrir kaupunum og átti því fyrirtækið raunverulega einn áfram. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Skonnortur á Patreksfirði: „Til Patreksfjarðar komu 58 fiskiskonnortur í sumar. Afli þeirra var lítill“. (Ægir 01.11.1905).
Hvalveiðar á Tálknafirði: „Hvalveiðistöðin á Suðureyri í Tálknafirði hefir aflað á 4 báta 132 hvali, sem hafa gefið 7.126 tunnur af lýsi; 46.000 pund af skíðum; 300.400 pund af kjötmjöli og 425.200 pund af beinamjöli“. (Ægir 01.11.1905).
Sýslumaður tekur togara einsamall: Hinn nýi sýslumaður Barðstrendinga, Guðmundur Björnsson, hefur í haust haldlagt botnvörpung af eigin rammleik og sektað, og þótti það vasklega gert. Sýslumaður var á ferð á hvalabát frá Vatneyri til Suðureyrar í Tálknafirði, og hitti fyrir enskan botnvörpung í landhelgi út af Tálknanum, með aðra vörpuna í sjó. Sýslumaður lét flytja sig yfir að honum og skoraði á skipstjóra að gefast upp. Þá ætlaði skipstjórinn að höggva frá sér vörpuna og flýja, en öxin gekk af skaftinu áður en það tókst. Í þeim svifum varpaði sýslumaður sér upp á þilfarið. Hann fór síðan einn síns liðs með skipið inn á Patreksfjörð og sektaði þar skipstjóra um 1000 kr. Einnig var sú varpan gerð upptæk sem innanborðs var, og afli sömuleiðis en hann var lítill. Hin varpan sökk og náðist ekki. (Ísafold 11.11.1905)
Stökkull stekkur á skip við Blakknes: "Árið 1905 var faðir minn með skip, sem gert var út af Vatneyri í Patreksfirði og hét Pollux. Aðalbjörn bróðir minn var þá með honum í skipinu. Eitt sinn voru þeir að sigla út úr firðinum á veiðar í góðu veðri. Þegar þeir voru komnir skammt út af Blakknesinu sáu þeir stökkul, sem var rétt hjá skipinu. Stökk hann ótt og títt upp úr sjónum og allt í einu svo nálægt skipinu og hátt, að þegar hann féll niður, lenti hann á lunningunni og hrökk í sundur. Féll annar hlutinn inn í þilfarið, en hinn í sjóinn". (Viktoría Bjarnadóttir; Lesb. Mbl, 21.05.1961).
Nokkuð hljómar það með ólíkindum að hvalur skuli hrökkva í tvennt með þessum hætti. Stökkull er höfrungategund sem algeng er á þessum slóðum og sést oft stökkvandi í fylgd báta; stundum mjög nærri skipshlið. Hinsvegar er stökkull einnig til í þjóðtrúnni, og þá sem illhveli sem sækir í að stökkva á skip í þeim tilgangi að granda þeim. Vel má vera að frásögnin vísi öðrum þræði til þess. Viktoría Bjarnadóttir var dóttir Bjarna Friðrikssonar sem þarna var skipstjóri á skútunni Pollux, 27 tonn, í eigu Milljónafélagsins. Móðir hennar, Jónína Eiríksdóttir, ólst upp í Kollsvík. Þetta ár giftist Viktoría Sigurgarði Sturlusyni (Einarssonar bónda á Brekkuvelli; Einarssonar Jónssonar í Kollsvík). Viktoría hafði forgöngu um að stofnað var verkalýðsfélagið Vörn á Bíldudal árið 1931. Dóttir þeirra var jafnvel enn þekktari baráttukona; Aðalheiður Hólm Sigurgarðsdóttir Spans, sem stóð fyrir stofnun verkakvennafélagsins Sóknar 1934 og var formaður þess lengi. Meðal barna Aðalheiðar er Viktoría Spans söngkona. (TÓ; Kollsvíkurætt o.fl.)
1906
Steinsteypt íbúðarhús byggt í Saurbæ: Þetta ár var byggt stórt 17 herbergja íbúðarhús í Saurbæ. Það þykir tíðindum sæta að húsið er byggt úr steinsteypu og er tvær hæðir og kjallari. Þetta er fyrsta steinsteypta húsið í Rauðasandshreppi og reyndar á öllum Vestfjörðum og Vesturlandi. (Hús Markúsar Snæbjörnssonar á Geirseyri, byggt 1881, var úr tilhöggnum steini). Byggingameistarinn er Finnur Ó. Thorlacius frá Saurbæ, sonur Ólafs Ó Thorlacius (eldra) bónda í Saurbæ (sjá 1885), en Finnur er húsasmíðameistari. Til að koma efni til húsbyggingarinnar á staðinn fékk Finnur leigða skútuna Sigurborgu, í eigu Péturs A. Ólafssonar kaupmanns á Patreksfirði, en Pétur útvegaði einnig efnið. Skipstjóri var Páll (færeyingur) Christiansen. Var siglt upp Bæjarós á stórstraumsflæði og skipið affermt á þurru um fjöruna. Fleiri nýjungar fylgja þessu húsi, því í það er leitt rennandi vatn um tréstokk og í því eru þrír ofnar, auk eldavélar. Hinsvegar er einangrun fremur léleg; gamalt hey og reiðingur. Múrarar úr Reykjavík sáu um múrhúðun hússins.
Húsið var notað framyfir 1980, er nýtt íbúðarhús var byggt, en þá hafði gamla húsið brunnið að hluta í annað sinn. Var gamla húsið rifið nokkrum árum síðar. Ekki þótti búendum nýja húsið sérlega hagkvæmt: "Í Saurbæ er eitt hið mesta og fallegasta steinsteypuhús semjeg hef sjeð á sveitum. En Ólafur sagði það væri fullþungur ómagi, og mun hann þar ekki aðeins hafa átt við það hvað mikið kostaði að hita það upp heldur við allan kostnað sem fylgir því að reisa aðra eins byggingu og halda henni við". (Guðmundur Hjaltason; Ferð um Barðastrandasýslu 1916; Lögrjetta).
Bréfhirðingum fjölgar í hreppnum: Opnaðar hafa verið bréfhirðingar í Saurbæ á Rauðasandi og í Breiðuvík, en fyrir var bréfhirðingin á Eyrum, opnuð 1878.
Bréfhirðing var í Saurbæ til 1974 er hún var flutt að Kirkjuhvammi. Bréfhirðingu var lokað í Breiðuvík 1947 og önnur þá opnuð á Gjögrum. Bréfhirðing var opnuð á Hvalskeri 1945 en lokað 1954. Á Hnjóti var opnuð bréfhirðing 1945, en flutt á Gjögra 1948. Aftur opnaði bréfhirðing á Hnjóti 1967 og starfaði til 1985; sjá þar. (AÍ; Árbók Barð). Fyrirkomulagi bréfhirðinga var mótmælt af íbúum Breiðuvíkur og Kollsvíkur árið 1945 (sjá þar).
Nautgriparæktarfélag Rauðasands stofnað: Stofnað hefur verið Nautgriparæktarfélag Rauðasands. (E.t.v. þó stofnað árið 1905, skv samantekt ÖG; Rauðasandshreppur). Eftirlitsmaður félagsins er Sveinn Magnússon á Lambavatni. Félagsmenn eru 12 og 37 kýr eru í skýrsluhaldi þeirra. Mæla félagsmenn nákvæmlega fóðurgjöf og afurðir þeirra. Fyrsta starfsárið hafa afurðirnar verið rétt undir meðallagi hinna 14 nautgriparæktarfélaga landsins, eða að meðaltali á kú 2.091 kg mjólkur og 80,7 kg smjörs. Fóðurnotkun á kú var 2.369 kg taða; 344 kg úthey og 4 kg fóðurbætir. Til samanburðar er landsmeðaltal fóðurbætis 92 kg á kú. Mjólkurverð er 10 aurar/kg.
Afurðahæsta kýr landsins árin 1908 og 1909 var Rauðflekka í eigu Dagbjartar Einarssonar í Gröf, sem mjólkaði 3.546 kg. fóðurgjöf hennar á ári var 2.954 kg af töðu og 70 kg af útheyi; enginn fóðurbætir.
Nautgriparæktarfélag Rauðasands starfaði óslitið þar til félagssvæðið var fært út og stofnað Nautgriparæktarfélag V-Barðastrandasýslu um 1970. Ráðning frjótækna á svæðinu gerði þá víðtækari samvinnu nauðsynlega. (ÖG; Rauðasandshreppur).
Pétur A. Ólafsson kaupir Geirseyrarverslun: Pétur hefur verið faktor hjá Islandsk Handels og Fiskeri Co frá stofnun þess félags 1898. Rekstur þess hefur verið erfiður og svo fór að eignir þess voru seldar. Pétur keypti af því Geirseyrarverslun með tilheyrandi húsum, ásamt vörulager og nokkrum skipanna. Kaupverðið var 30.000 krónur, sem þykir lágt í ljósi þess að fasteignir eru metnar á rösklega fimmfalt það að verðmæti.
Pétur fór hægt af stað en honum græddist nokkuð fé, t.d. á verslun með fisk af færeyskum skipum og með umboði fyrir bátavélar. Árið 1909 stóð reksturinn í blóma; skuldlaus með öllu. 1914 unnu daglega 100-120 manns hjá fyrirtæki hans. Árið 1911 fór Pétur að huga að togarakaupum. Varð hann síðan fyrstur einstaklinga á Íslandi til kaupa á togara er hann keypti togarann Invicta, sem síðar nefndist Eggert Ólafsson fyrir um 135.000 krónur. Kom hann til Patreksfjarðar 23.12.1911 og var ýmist á saltfisk-, síldar- eða ísfiskveiðum. Ekki reyndist hagkvæmt að gera togarann út, m.a. vegna aðstöðu við bryggjuna, og var hann seldur 1913. Pétur beitti sér fyrir nýjungum, s.s. síma, vatnsveitu og rafmagni; setti m.a.s. upp sturtubað á heimili sínu. Auk verslunar á Geirseyri rak Pétur verslun á Reykjafirði syðra á Ströndum í félagi við Carl Jensen 1905-1907; í Flatey síðar og enn síðar í Grundarfirði. Hann keypti hvalveiðistöð Norðmanna á Suðureyri 1913 og selveiðiskipið Axla frá Noregi 1916, sem fékk nafnið Kópur BA 138. Selveiðarnar skiluðu Pétri góðum hagnaði, en sú tilraun stóð þó ekki lengi því Kópur sökk árið eftir. Pétur keypti húsið Valhöll af Markúsi Gíslasyni og árið 1916 flutti hann það til Reykjavíkur og reisti aftur við Suðurgötu (nú aðsetur Minjastofnunar). Pétur var ágætur ljósmyndari og hafa varðveist margar myndir hans af staðum. Hann lést á Akureyri 1949. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Vínsöluskip til vandræða: Þingmálafundur var haldinn 28.06.1906 á Geirseyri, þar sem saman komu fulltrúar úr flestum hreppum Vestur-Ísafjarðarsýslu og Barðastrandasýslu. Til fundarins hafði boðað Pétur A. Ólafsson verslunarstjóri og var hann fundarstjóri. Rædd voru ýmis mál og gerðar ályktanir. T.d. mælti fundurinn eindregið með því að öllum þéttbýliskjörnum sunnan Djúps verði komið í samband við ritsímann, eigi síðar en Ísafirði, og hugað að sambandi við m.a. Flatey. Samræmdar og tengdar verði ferðir flóabátanna á Djúpi og Breiðafirði. Komið verði á fót útibúum frá Landsbanka eða Íslandsbanka á einhverjum suðurfjarða Vestfjarða.
Þá lýsir fundurinn megnri óánægju yfir óreglu þeirri og drykkjuskap sem á sér stað á strandferðaskipunum á höfnum kringum landið, en á skipunum er stunduð vínsala í stórum stíl. Einkanlega er þetta áberandi á stöðum þar sem ekki er vínsala í landi. Telur fundurinn nauðsynlegt að þing og stjórn geri eitthvað verulegt til að stemma stigu fyrir þessu. (Ingólfur 22.09.1906).
Strandferðaskip í Sjöundárbót og Breiðuvík: „Gufubáturinn „Varanger" fer að öllu forfallalausu frá Stykkishólmi 25. sept. þ. á. áleiðis til Bíldudals og kemur við á þessum stöðum: Flatey, Hagabót, Sjöundárbót á Rauðasandi, Breiðuvík, Patreksfirði, Tálknafirði, Bakkabót og Bíldudal, snýr þar við og fer þaðan aftur (c. 27.) sömu leið til baka aftur. Flutningsgjald verður hið sama og með „Skálholti“. Stykkishólmi 9. ágúst 1906. Ingólfur Jónsson“. (Lögrétta 15.08.1906).
Verð á landbúnaðarvörum og fiski: Samúel Eggertsson kennari og bóndi á Grund í Kollsvík gefur eftirfarandi upplýsingar um verðlag á Eyrum til útvegsbænda: Kjöt, 18-22 aurar/pundið; mör, 30-35 au/pd; gærur, 40-45 au/pd; hvít vorull, 100 au/pd; haustull, 65 au/pd; saltfiskur stór 1.fl, 22 kr/skippundið; saltfiskur smár, 56 kr/skp; ýsa, 45 kr/skp. (Búnaðarrit 01.01.1907). (1 skippund er um 125 kg).
1907
Kollsvík aflasælasta verstöðin: „Fremur hefir verið aflatregt í veiðistöðunum hér í sýslu í vor. Kollsvík heflr verið síðari árin einhver flskisælasta verstaðan að vorinu. Afli var þar í vor í heldur minna lagi, og voru þó gæftir hinar beztu. Á Patreksfirði er vélabátum að fjölga“. (Huginn 29.08.1907; útg Bjarni frá Vogi).
Kjarnakonur í Kollsvíkurveri: Meðal þeirra nær 100 sjómanna sem þessi árin róa frá Kollsvíkurveri upp á aflahlut eru tvær unglingsstúlkur; Magðalena Össurardóttir (Guðbjartssonar) frá Kollsvík 14 ára og Guðný Ólafsdóttir (Ásbjörnssonar) frá Láganúpi 15 ára.
Magðalena reri upp á hálfan hlut á móti bróður sínum, Valdimar Össurarsyni, þá 12 ára. Hún var við róðra í Kollsvíkurveri í 5 sumur, en fór þá sem vinnukona í Breiðafjarðareyjar þar sem hún m.a. greip í árar. Árið 1929 giftist hún Kristjáni Davíðssyni í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði og bjuggu þau þar síðan. Guðný giftist Sveini Jónssyni frá Tálknafirði og bjuggu þau á Sellátranesi. Að Sveini látnum dvaldi hún á Sellátranesi hjá Ólafi syni sínum til dauðadags 1989.
Grasbýlið Stekkjarmelur: Hjónin Karl Kristjánsson og Mikkalína Guðbjartsdóttir hafa byggt sér býlið Stekkjarmel í landi Kollsvíkur; stuttu norðan Árinnar, niðri við Melarendur. (Stundum nefnt Kallamelur). Stendur það stutt frá grasbýlinu Nýlendu, sem systir Mikkalínu, Ottelía, byggði ásamt manni sínum um 1900.
Nýlenda lagðist fljótlega af, en Stekkjarmelur var í byggð til 1962. Síðasti bóndi þar var Ingvar Guðbjartsson, bróðursonur Mikkalínu, sem flutti að Stekkjarmel 1952 og stofnaði þar nýbýli. Karl og Mikkalína höfðu byggt steinsteypt íbúðarhús að Stekkjarmel. Þau áttu spildu úr Kollsvíkurjörðinni; voru með 30 kindur en lengst af enga kú. Þegar Stekkjarmelur varð lögbýli eignaðist jörðin hluta úr landi Grunda; handan Árinnar. Ingvar byggði steinsteypt fjárhús og hlöðu á þeim hluta og fjós, hlöðu og skemmu heima við bæinn.
Þurrabúðin Leiti: Jón Einarsson (Ólafssonar á Hnjóti) hefur byggt kotið Leiti í landi Tungu; stutt frá bænum í Neðri-Tungu, og sest þar að með konu sinni; Ingveldi Jónsdóttur (Sigurðarsonar frá Grundum). Kotið er lítið; slægjur um ein dagslátta innan garðs, auk mýra og engja fyrir neðan.
Árið 1923 setjast þar að Grímur Árnason og María Jónsdóttir, en þau fluttu 1930 að Gundum (sjá þar). Síðast bjuggu á Leiti Einar Sigurðsson og Ólafía Ólafsdóttir, og fór kotið í eyði þegar þau fluttu 1951 (sjá þar).
Eyrar skiljast frá Rauðasandshreppi; Patrekshreppur stofnaður: Hinn 15. Júní 1907, á fundi hreppsnefndar Rauðasandshrepps í Tungu, var kosin fyrsta hreppsnefnd hins nýstofnaða Patrekshrepps, sem nær yfir jarðirnar Vatneyri og Geirseyri. Þar með er orðin formleg skipting Rauðasandshrepps sem undirbúin hefur verið um skeið. Um nokkurn tíma hefur orðið veruleg íbúafjölgun á Eyrum. Stafar mannfjölgunin einkum af því að með tilkomu véla í báta og stærri skip beinist uppbygging sjávarútvegs að bestu hafnaraðstöðunni í Rauðasandshreppi, sem er við Vatneyri. Útgerð sem hingað til hefur verið á litlum árabátum í Útvíkum flyst nú á Patreksfjörð. Lengi hefur miðstöð verslunar verið á Eyrum, en með fólksfjölgun byggist upp ýmis önnur þjónusta. Einnig veldur þarna nokkru sá farartálmi sem Raknadalshlíð er, sem í raun skilur Eyrar samgöngulega frá öðrum hlutum Rauðasandshrepps. Mörk hreppanna verða um Altarisberg, utarlega á Raknadalshlíð. Við stofnun eru íbúar Patrekshrepps 420 talsins, eða nokku færri en þeir sem eftir eru í Rauðasandshreppi. Þilskipaútgerð hefur vaxið verulega á Patreksfirði. Eftir sem áður er veruleg útgerð smábáta úr Útvíkum. T.d. eru yfir 80 manns heimilisfastir í Kollsvík, auk tuga aðkomusjómanna meðan vertíð stendur.
Framteljendur; búfjáreign, ræktun, heyfengur og jarðabætur: Þetta árið eru framteljendur í Rauðasandshreppi 83 (en í nýjum Patrekshreppi eru þeir 25). Búlausir framteljendur í Barðastrandasýslu eru 169; flestir þurrabúðarfólk, eða 84; en húsfólk er 32; hjú 40 og lausafólk 13.
Býli eru 48 (2 í Patrekshr.), samtals 466,3 ný jarðarhundruð (27,4). Kýr eru 102 (16); geldneyti og kálfar 12 (2); ær og geldfé 3.140 (258); hestar, hryssur tryppi og folöld; 118 (4). Tún eru 347 (29) dagsláttur á 900 faðma²; kálgarðar og annað sáðland 6021 fðm² (240). Töðufengur 1907 var 2913 hestar (150), úthey 3662 hestar (90); kartöflur 173 tunnur (6); rófur og næpur 25; mótekja 2768 hestar (15). (Landshagaskýrslur fyrir Ísland 1908).
Á starfssvæði Búnaðarfélags Rauðasandshrepps (sem einnig nær til Patreksfj) var túnasléttun 1063 faðmar²; sáðreitagerð 189 fðm²; einhlaðnir garðar 224 fðm; tvíhlaðnir garðar 659 fðm; vírgirðingar 186 fðm; varnarskurðir 40 fðm; lengd flóðgarða 2276 fet; stíflugarða 28 fet; vatnsveituskurða 2802 fet; lokræsa 90 fet; safnþrær 30 fet³; dagsverk samtals 714; félagsmenn í Búnaðarfélagi Rauðasandshrepps eru 25.
Í Rauðasandshreppi voru árið 1904 gerð út 6 tveggjamanna för og 19 fjögurramanna för (6 fjögramför í Patr.hr og 6 stærri bátar). Veiðin var 11.500 þorskar (12.950); 56.700 smáfiskar (23.650); 200 ýsur (35.100); 27.550 steinbítar o.fl; 92 kópar; 9.800 svartfugls og 480 fýlungar.
Kirkja vígð á Patreksfirði: Ný stór kirkja var vígð á Patreksfirði hinn 19. maí. Hún er teiknuð af lækni staðarins, Sigurði Magnússyni, sem er margt til lista lagt, og var Magnús faðir hans helsti smiðurinn. Mönnum þótti upphafleg teikning lítil og varð því endanleg kirkja allmiklu stærri, en Sigurði fanns hún nokkru ólögulegri en sú sem hann hafði fyrst teiknað. Með landshöfðingjabréfi 22.06.1903 var kirkjubyggingin leyfð, og hluti Sauðlauksdalssóknar lagður undir hina nýju kirkju; byggðin á Eyrum. Kirkjan var byggð 1905. Kirkjuna vígðu Bjarni Símonarson prófastur og séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal. Hinn 16.11.1907 var stofnað sérstakt prestakall út úr Sauðlauksdalsprestakalli. Mun það heita Eyraprestakall en fyrsti prestur hennar verður séra Magnús Þorsteinsson, sem áður þjónaði Selárdalsprestakalli. Kirkjuvegur hefur hingað til verið langur og torsóttur að Sauðlauksdal fyrir það fjölmenni sem orðið er á Eyrum; um hina hættulegu Raknadalshlíð eða sjóleið yfir fjörð.
Árið 1900 reyndu Eyrabúar að fá sóknarkirkjuna, Sauðlauksdalskirkju, flutta á Eyrar en það tókst ekki. (Guðjón Friðriksson; Árbók Barð). Er þetta fjórða sóknarkirkjan á því svæði sem öldum saman eftir kristnitöku heyrði til Saurbæjarkirkju. Þá er ekki meðtalin hálfkirkjan í Kollsvík, en ekki eru heimildir til þess að undir hana hafi legið stærri sókn en Kollsvík. Hafi Kollur reist kirkju í Kollsvík hefur hún líklega þjónað Rauðasandshreppi öllum, fram að stofnun Saurbæjarkirkju.
„Milljónafélagið“ stofnað: Pétur J. Thorsteinsson athafnamaður á Bíldudal hefur, ásamt dönskum fjármálamönnum (m.a. Thor Jensen), stofnað fyrirtækið P.J. Thorsteinsson & Co. Nafn félagsins er hið sama og fyrra félags í hans eigu, sem var breytt í Ó. Jóhannesson & Co fyrir tveimur árum. Til aðgreiningar nefna menn þetta síðara félag stundum „Milljónafélagið“, þar sem hlutafé þess er ein milljón króna. Fyrirtækið er risastórt á íslenskan mælikvarða. Það mun hafa aðsetur í Viðey en kaupir verslunarstaðina Bíldudal og Vatneyri. Meðal eigna sem það kaupir er Salthúsið í Kollsvíkurveri.
Fljótlega syrti þó í álinn fyrir þessu nýja félagi, og varð það gjaldþrota 1914, sjá þar. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Bændakirkjur falla til bænda: Eftir að ný lög voru sett á þessu ári um að ríkið greiði laun presta munu bændakirkjur falla til bændanna á viðkomandi kirkjustöðum.
Ólafur Thorlacius í Saurbæ keypti jörðina að miklum hluta árið 1934. (BÞ; Vestfjarðarit).
Fyrsta sláttuvélin: Ólafur Thorlacius í Saurbæ hefur verið brautryðjandi í nýjum búskaparháttum á mörgum sviðum eftir að hann kom að Bæ árið 1875. Hann hefur gert miklar áveitur í Saurbæ, líkt og fleiri í Rauðasandshreppi, og verið manna stórtækastur í þeim efnum. Við það jókst engjaheyskapur til muna og á þessu ári varð hann fyrstur til að vélvæða sláttinn er hann fékk hestasláttuvél. Aðeins eru 4 ár síðan sláttuvél kom fyrst til landsins. (Sjá 1913 um votheysverkun Ólafs).
Flóabátur á Breiðafirði; með viðkomu á Víkum: „Þetta er þriðja sumarið sem gufubátur heflr verið í förum um Breiðaflóa. Heitir báturinn „Varanger" og er gerður út frá verzlun Tangs í Stykkishólmi. Eru smátt og smátt að verða meiri not en áður að þessum ferðum, enda er feiðaáætlun gufubátsins að þessu sinni hagkvæmari en að undanförnu, þótt nokkrir misbrestir séu enn á henni. En ferð sú er báturinn fór um síðustu mánaðamót norður um fjörðu (alt til Ísafjarðar) varð að minna gagni en við var búist. Hann fékk fullfermi á viðkomustöðunum nyrðra og gat svo lítið sem ekkert tekið við Patreksfjörð og Víkur. (Huginn 29.08.1907; útg Bjarni frá Vogi).
Ferðir um Breiðafjörð hófust 1905 með trillunni „Guðrúnu“, en fljótlega leysti hvalveiðibáturinn Varanger hana af hólmi. Svo virðist af fréttinni að áætlunarferðirnar hafi náð norður á Ísafjörð, með viðkomu í Útvíkum; enda var þaðan mikill fiskútflutningur á þessum árum.
Guðmundur póstur bráðkvaddur á Hafnarfjalli: Guðmundur Ólafsson, fyrrum bóndi í Krókshúsum á Rauðasandi en nú lausamaður í Vatnsdal,varð bráðkvaddur á Hafnarfjalli 23.01.1907. Guðmundur hefur um tíma verið póstur í hreppnum og var í póstferð að Breiðuvík er hann lést; utantil á Hafnarfjalli. Hann var fæddur 09.04.1850; ekkjumaður, en lætur eftir sig tvær uppkomnar dætur. Var hann jarðsunginn í Saurbæ. Þetta var fyrsta póstferðin sem farin skyldi frá Sauðlauksdal að Breiðuvík, samkvæmt nýlegri ákvörðun póstyfirvalda. Guðmundur, sem var mikill fjörmaður og göngugarpur, hafði lagt upp frá Sauðlauksdal snemma morguns í allgóðu veðri, með póstinn á bakinu og göngustaf í hendi. Leit hófst að honum þegar fólk fór að lengja eftir honum í Breiðuvík. (Vestfirskir slysadagar o.fl.).
1908
Pöntunarfélag Rauðasandshrepps stofnað: Á fundi í Saurbæ nú í vetur var samþykkt að stofna samvinnufélag í Rauðasandshreppi; Pöntunarfélag Rauðasandshrepps. Helstu frumkvöðlar þess eru séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal, Jón Guðjónsson útgerðarmaður í Breiðuvík, Davíð Jónsson bóndi á Kóngsengjum og Ólafur Ó Thorlacius yngri í Saurbæ, sem er framkvæmdastjóri félagsins. Félagssvæðið er Rauðasandshreppur hinn forni; frá Skor að Tálkna. Forsvarsmenn Pöntunarfélagsins gengu á fund Péturs A. Ólafssonar og Ólafs Jóhannessonar, kaupmanna á Patreksfirði, en báðir neituðu alfarið að greiða fyrir félagsmönnum. Björn Olsen kaupmaður á Patreksfirði fékkst til þess að annast innkaup og vörusölu fyrir félagið, en er hann varð gjaldþrota skömmu síðar lá nærri að mikið tapaðist af fiski sem var í sölu. Tókst þó að sýna framá að fiskurinn var í umboðssölu en ekki eign þrotabúsins.
Í fyrstu takmörkuðust viðskiptin við þá sem gátu lagt inn fyrirfram, en fljótlega komust á rekstrarlán svo fleiri komust í viðskipti. Ör vöxtur varð í félaginu næstu árin. Fyrstu árin verkuðu útgerðarmenn sjálfir mest allan fiskinn og um tíma komu skip Sameinaða félagsins við á Víkunum og tóku hann til útflutnings. Helstu viðskiptasambönd sem félagið hafði fyrstu árin voru heildverslanir Garðars Gíslasonar og Jakobs Gunnlaugssonar. Síðar voru þau að mestu hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Kaupmenn á Patreksfirði báru sig illa, því verslun lenti að verulegu leyti í hendur Pöntunarfélagsins. Það hafði aðsetur á Patreksfirði og náði samkomulagi við Sigurð B. Bachmann um vörugeymslu og fiskmóttöku. Eftir fráfall Sveinbjarnar Sveinssonar kaupmanns á Geirseyri keypti félagið sölubúð hans og hafði þar á eftir húsin og allmikið fiskverkunarland hjá tengdaföður Sveinbjarnar; Markúsi Snæbjörnssyni fyrrverandi kaupmanni og eiganda Geirseyrar. Þótt Markús Snæbjörnsson væri, á þeim árum er hann stundaði verslun á Geirseyri, kaupmaður í fyllsta skilningi; var hann samvinnuþýður maður og unni hverri nýjung og hverri viðleitni til sjálfsbjargar. Á stríðsárunum 1914 – 1918, og fyrstu árin eftir stríðið, var nokkur vöxtur í verslun yfirleitt. Vöruverð hækkaði og eftirspurn var mikil. Félagið tók þá ákvörðun að gerast kaupfélag og starfa á þeim grundvelli. En nú fóru erfiðleikar í hönd. Kostnaður félagsins varð mikill, t.d. vegna aðkeyptrar vinnu við fiskverkun. Grasleysi varð mikið vegna kals í túnum 1918. Ofan á þetta bættust tveir snjóavetur; veturinn 1919 – 1920 og 1920 – 1921, svo gera varð stórfelld kaup á dýrum fóðurbæti til að komast hjá almennum fjárfelli. Bændur söfnuðu þá allmiklum skuldum. Allt þetta stuðlaði að því að þrengja hag kaupfélagsins, sem þá var nýstofnað og með enga varasjóði; svo það að lokum komst í greiðsluþrot, seinnihluta ársins 1923. Félagið var því tilkynnt gjaldþrota snemma í febrúar árið 1924. margir af félagsmönnum urðu fyrir þungum búsifjum af gjaldþrotinu og ekki síst þeir er nokkuð höfðu umhendis og stunduðu bátaútgerð (Ívar Ívarsson; Samvinnumál Rauðasandshrepps; Árb.Barð 1949).
Verslun Björns M Olsen komin í þrot: Verslun sú sem Björn Olsen kom á fót árið 1903 (sjá þar) er nú komin í þrot. Höndlunin gekk mjög vel framan af. Björn náði undir sig miklum hluta fiskkaupa af smábátum og seldi vel í verslun sinni. Þannig var umsetning hans 17.000 kr árið 1904 og var þá að aukast. Hinsvegar hafa hin tvö stórfyrirtækin á staðnum reynt að spilla fyrir honum á allan máta. T.d. sótti hann um verslunarlóð á Vatneyri, en hana þóttist P.J. Thorsteinsson alla eiga. Vorið 1906 fékk hann loks útmælda lóð kringum Víglundarhús (síðar Mannabúð) sem hann á, og niður á Kambinn. Þar hafði hann fiskreiti og lausabryggju. Hann gerði út vélbát og þilskipið Admiralship. Haustið 1906 réðst Björn í byggingu stórhýsis vestan Víglundarhúss, með verslun, íbúð og pakkhúsi. Var það nefnt Babýlon vegna stærðar sinnar, en kostnaðurinn við það reyndist Olsen ofviða. Nú í haust gekk hann á fund sýslumanns og gaf verslununa upp til gjaldþrota.
Babýlon var eftir það í fyrstu prestsetur; síðan flutt til Ingólfsfjarðar en síðast til Reykjavíkur og er þar enn; Laugavegur 86. Björn hélt áfram að versla, en nú undir nafni Margrétar konu sinnar. Synir þeirra urðu síðar kaupmenn á Patreksfirði; Ásmundur og Magnús. (Guðjón Friðriksson; Árb.Barð. 2012).
Gjaldþrot Björns stefndi mjög í hættu hinu nýstofnaða Pöntunarfélagi Rauðasandshrepps (sjá hér að framan) og var það málafylgju séra Þorvaldar í Sauðlauksdal að þakka að Pöntunarfélagið hélt sínu. Eftir það samdi Pöntunarfélagið við Sigurð Bachmann um fisksölu.
Sími kominn til Eyra: Hinn 29. september var opnað á símasamband um nýlagða símalínu Landsímans til Eyra. Áður hafði Pétur A. Ólafsson lagt síma milli húsa síns fyrirtækis og síðar niður á Vatneyri. Landsímastöð verður í fyrstu til húsa í bakaríinu og í umsjá Jóns M. Snæbjörssonar.
Í byrjun fyrri heimsstyrjaldar var símstöðin flutt niður á Vatneyri, í húsið neðan við faktorshúsið, þar sem hún var næstu áratugi. (Guðjón Friðriksson; Árbók Barð).
Fiskur lestaður í Kollsvík: Mikið er flutt út af saltfiskafurðum úr Kollsvíkurveri. Flutningaskip koma gjarnan upp undir Verið ef veður og sjólag leyfir og lesta fiskinn beint um borð, í stað þess að hann sé fyrst fluttur á Eyrar. Þannig er ráð fyrir því gert að SS Reykjavík komi til Kollsvíkur í maí, júní og september á þessu ári, og jafn oft til Breiðuvíkur. (Ísafold 13.05.1908).
Af þessu varð þó líklega ekki, a.m.k. varðandi þetta skip, því gufuskipið Reykjavík sökk við Skógarnes á Mýrum 13.05.1908. Mannbjörg varð, en skip og flutningur tapaðist.
Af útræði í Láturdal: Þetta vor er hið síðasta sem útræði er frá Láturdal, en bátum þaðan hefur fækkað á síðari tímum. Árið 1703 reru þaðan 12 bátar, flest þriggjamannaför, og þá voru þar 7 verbúðir. Erfitt og ótryggt er þar með báta ef brimar, en stutt til miða. Einkum hafa róið þaðan bátar úr Patreksfirði. Ekki er ljóst hvenær þaðan hófst útræði, en líklega er all langt síðan. (ÁM; Jarðabók; o.fl.)
Jochum Eggertsson frá Grund í Kollsvík (hálfbróðir Samúels Eggertssonar) rær þessa vertíð úr Láturdal sem 11 ára hálfdrættingur, og lýsir staðháttum þannig: "Nú mundi enginn kjósa að hafa þar uppsátur eða útræði, hvað sem í boði væri, svo erfið er aðstaða öll. Flest mun hafa róið þaðan 3 - 4 bátar, allt fjögra manna för, opnir auðvitað, knúðir árum og segli. Í þessu dalverpi er undirlendi ekkert, nema stórgrýtt fjöruborðið og sjávarmölin undir bökkunum, er gnæfa þar rígefldir og hráslagalegir með inngröfnum klettaskútum... Lækjarleiðingur rann þar niður úr dalverpinu. Verbúðirnar hníptu uppi á bökkunum, allhátt uppi beggja megin lækjarsprænunnar, og sjávargatan ógreiðfær upp snarbratt einstigi... Undir bökkunum í skjóli klettaskúta, en þó á opnu svæði, var fiskurinn saltaður. Heilagfiski og steinbítur var að mestu þurrkað og hert og borið upp á bakkana. Þar hafði verið hróflað saman hengihjalli af rekaviði... Þetta var seinna vorið, sem ég var hálfdrættingur í Láturdal. Ég var þá aðeins ellefu ára, langsamlega of ungur og óþroskaður til að eiga í því ógnar harðræði.. Oft var líðan mín átakanleg, einkum fyrra vorið, er ég var aðeins tíu ára. Maturinn þurrmeti: brauð og kæfa og smér, sjaldan soðning. Kolsvart rótarkaffi með kandís. Mikið var ég máttlaus og lystarlaus, mikið bauð mér við kaffinu, og mikið langaði mig í mjólk. Sýrublandan helzta huggunin og merkilegasta heilsubót. Aldrei hafður matarbiti með á sjóinn; bara blöndukúturinn... Sjóbúðin var lítil og lág, aðeins 6 x 4 álnir innan veggja; gerð af grjóti og rekavið; þéttuð og þakin mosa og blágrýtishellum. Gólfið blágrýtisklöpp með moldarlagi ofan á. Gat á þekjunni í glugga stað. Dyr fyrir miðri austurhlið. Yfir þeim hafði eitt sinn verið örsmár gluggi. Í honum var nú engin rúða. Þrír rúmbálkar, grjóthlaðnir, voru í búðinni, meðfram báðum göflum og vesturvegg; matarkoffortin eða skrínurnar hafðar við höfðalag á hverjum bálki." (JE; Trýnaveður). (Sjá einnig lýsingu Árna Brandssonar úr Láturdal 1899).
Þetta var þó ekki síðasta verstaðan í Láturdal. Guðmundur Einarsson (f. 1893) sem síðar bjó á Brjánslæk var frá fermingaraldri á skútum á Patreksfirði. Vorið 1913 vildi hann breyta til og réði sig sem formann á bát sem reri úr Láturdal. (Sjá þar).
Trýnaveður grandar báti: Trýnaveður er heiti sem Útvíknamenn hafa um ofsaveður af norðri, sem standa fyrir annes og magnast af þeim. Hinn 12.06.1908 skall slíkur veðrahamur fyrirvaralítið yfir, með þeim afleiðingum að bátur frá Tálknafirði fórst í Molduxadýpi í Patreksfjarðarflóa, og með honum 4 menn. Jochum Eggertsson var hálfdrættingur á bát sem reri frá Láturdal og lýsir slysinu í ritgerðinni "Trýnaveður", þannig að veðrið hafi skollið mjög skyndilega á, og hafi mátt þakka það góðri stjórn formanns síns að þeir björguðust á Eyrar. Lýsir hann veðrinu sem hvirfilbyl: "Við horfðum á bátinn sogast upp í loftið; hverfast um og endastingast svo bar við himinn; síðan springa og tætast allan í sundur, en flygsur og spækjur þeytast um og berast víðsvegar í loftinu" (JE; Trýnaveður). "Bátur fórst á Tálknafirði 12. f. m. og druknuðu 4 menn: Bjarni Gíslason frá Lambeyri, formaður; Gísli sonur hans; Níels Þórðarson, lausamaður, og maður að nafni Þorleifur. Þeir Bjarni, Gísli og Þorleifur láta eftir sig konur og börn. Veður hafði verið hvast á norðan, er báturinn fórst" (Lögrétta 15.07.1908). Báturinn hafði róið úr verstöðinni Hvannadal, yst í Tálknafirði vestanverðum. Bjarni lét eftir sig konu og 8 börn; flest uppkomin. Gísli Bjarnason var 26 ára húsmaður á Stekkum; kvæntur og þriggja barna faðir. Níels Þórðarson var 64 ára lausamaður í Tungu. Þorleifur Helgason var húsmaður á Gileyri; kvæntur og átti tvö börn. Fimmti maðurinn hafði ætlað í þennan róður en datt í fjöru og meiddist á síðunni svo hann fór ekki.
1909
Daglegt heimilislíf; kvöldvökur; húslestrar: Daglegt líf á heimilum er í þeim föstu skorðum sem lengi hefur tíðkast. Það er kveikt kl 6-7; þá er miðdagsmatur. Ekkert hefur þá verið borðað frá því kl 10 árdegis, en kl 12 á hádegi var kaffi fyrir fullorðna en grasate fyrir börn og unglinga. Þegar lokið var við að borða og drekka kaffi er sest að ullarvinnu. Konur spinna; karlmenn tæja, greiða hrosshár og spinna það á vinglu, eða flétta reipi og bregða gjarðir. Það gera sumar konur reyndar einnig, t.d. Anna Guðrún húsfreyja í Kollsvík. Alltaf er einn að lesa rímur. Lesnar eru þjóðsögur Jóns Árnasonar; Íslendingasögur; Fornaldarsögur Norðurlanda, skáldsögur o.fl. Kveðnar eru rímur af Þorsteini uxafæti; Hálfdáni Brönufóstra; Sörlarímur eftir Össur Össurarson á Látrum; rímur af Reimari og Fal; Líkafrónsrímur og Bertramsrímur o.fl. Á Kollsvíkurheimilinu er það einkum húsbóndinn Össur sem les og kveður rímur. Hann á skrifaða bók af Maroni sterka.
Vakan er til kvöldmatar kl 9. Hann er oftast flautir og bygggrautur með fjallagrösum. Síðan er alltaf lesinn húslestur; sunginn sálmur og lesin bæn úr bænakveri Péturs biskups. Lesið er um kl 10, og eftir það er farið að sofa. Þá mega hjúin vinna eftirvinnu; þá mega þau prjóna fyrir sjálf sig, en þau verða að gera það í myrkrinu því ljósmeti er ekkert eftir kl 10 á kvöldin. Hjú fá einnig að vinna fyrir sig vikuna fyrir jólin. Farið er á fætur kl 6, og aldrei seinna en kl 7. Oftast er kveikt á morgnana og setið við vinnu. Gegningamenn fara út ekki seinna en kl 7, og fá ekkert fyrr en þeir eru búnir að gefa búpeningnum.
Á haustin er farið til lyngrifs og rifið mikið af lyngi. Fyrir jólin er tekið allt gamalt lyng sem haft er undir í rúmbotnum, og brennt en nýtt látið í staðinn. Það er mikið ofið á veturna. Uppistaðan er tvistur; fyrirvafið ull. Ennfremur er þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið er í milliskyrtur og sængurver sem notuð eru í verbúðunum. Oft er búið að vefa einn vef og fella niður fyrir jól. Krakkarnir rétta í haföldin og skeiðina. Það er mestmegnis ofið í öll föt; lítið sem ekkert keypt af útlendu fataefni. Nærföt buxur og skyrta eru úr hvítum vaðmálsdúk. Eftir hátíðar er varið að elta skinn í brækur og spinna skinnklæðaþráð, en í hann er haft gott tog. Kálfsskinn er notað í setskauta á brókum og leður í sóla. Notuð eru elt eða eirlituð skinn. Ljúka þarf að sauma öll skinnklæði fyrir vertíð. Það eru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar. (Hildur Magnúsdóttir; Verstöðin Kollsvík).
Annir kvenna meðan vertíð stendur: Það er nóg að gera þegar vermennirnir eru komnir í Verið. Þeir fá þjónustu hjá heimilisfólkinu. Þegar bátarnir eru komnir í land er farið með brauð og kökur til þeirra. Heimamönnum er færður grautur, mjólk og soðning, en eftir að þeir fengu prímusa hafa þeir sjálfir soðið soðninguna í Verinu. Karlmenn koma ekki að skepnuhirðingu eftir að þeir fara í Verið. Konur verða að bæta þeim á sig, og vinna á túnum. Vermenn vinna af sér það sem gert er fyrir þá með því að taka upp mó í landlegum. Kvenfólkið sér um þurrkun hans. Sauðfé smala menn til rúnings í landlegum. Vertíð er fram í 10. – 11. viku sumars. Nokkrir heimamanna róa allt sumarið. Allir eru í heyskap á sumrin, sem eitthvað geta. Sumar konur gefa körlum ekkert eftir við sláttinn. (T.d. slógu Kollsvíkursysturnar Halldóra og María Torfadætur. Þær systur misstu föður sinn ungar og voru elstar af systkinum, en enginn karlmaður til að slá). Annars er ekki algengt að konur séu við slátt. Þess eru dæmi að konur séu við róðra: Magðalena Össurardóttir var 3 vor í Verinu og kvaðst heldur vilja gera það en vinna bæjarverkin. Hún var um fermingu þegar hún byrjaði í Verinu. Guðný Ólafsdóttir, Ásbörnssonar bónda á Láganúpi, reri ung með föður sínum. Tvær konur og unglingar önnuðust heyskapinn. Konurnar bundu heyið. Það eru ræktaðar kartöflur og þær spretta vel. Alltaf er sett niður mánuð af sumri. Rófur eru einnig ræktaðar. Þetta tilheyrir vorverkum kvennanna. Farið er til grasa á hverju vori eða sumri. Fjallagrös eru notuð bæði í brauð og grauta. Það eru reglulega góð rúgbrauð, blönduð með fjallagrösum. Grasatevatn er búið til úr fjallagrösum og mjólk. (Hildur Magnúsdóttir; Verstöðin Kollsvík).
Ungmennafélagið Baldur stofnað: Sunnudaginn 21.02.1909 var stofnað ungmennafélag í Rauðasandshreppi, sem hlaut nafnið Baldur. Tilgangur þess er að „efla mentun og íþróttir og til að binda unga menn saman og venja þá á að beita kröftum sínum í sameiningu í þarfir einhvers málefnis“ eins og segir í fyrstu fundargerð. Félagssvæðið er allur hreppurinn nema Rauðasandur, en þar starfar Umf Von. 33 gerðust félagar á fyrsta aðalfundi; allt karlmenn enda átti félagið að starfa mest sem íþróttafélag. Algert tóbaks- og áfengisbann er í félaginu og það beitir sér gegn notkun slíks. Aðalhvatamaður að stofnun Baldurs er Sigurður A. Guðmundsson en fyrsti formaður er Finnbogi Rútur Þorvaldsson.
Baldri var skipt í tvær deildir 1910; aðra fyrir innfjörðinn en hina utan Múla. Helsta sameiginlega verkefni félagsins var vegalagning uppi í skriðunum milli Örlygshafnar og Sellátraness, þar sem vegur lá áður mikiðstil í fjörunni. Einnig byggði félagið sundlaug á Rauðasandi í samvinnu við Umf Von og beitti sér fyrir sundkennslu. Formaðurinn, sem þá var Ármann Guðfreðsson í Sauðlauksdal, kenndi þar og í Kollsvík í fyrstu, en síðar Valdimar Össurarson. Baldur lagðist nánast niður um tíma milli 1914 og 1918. Starfaði það síðan af góðum krafti til 1926, er því var slitið. Þá hafði Umf Vestri verið stofnað fyrir Útvíkur 10 árum fyrr.
Síðasta skreiðarlestin í Útvíkur: Síðast var farin skreiðarferð árið 1909, og tók hún 8 daga frá Gufudal og heim aftur. Fyrsta daginn var farið úr Geiradal að Þingmannaheiði; annan yfir hana að Brjánslæk og þann þriðja yfir Kleifaheiði, út með Patreksfirði, yfir Vaðalinn í Örlygshöfn, Tunguheiði og niður í Kollsvík. (LK; Ísl.sjávarhættir). „Steinbítur þekktist ekki sem verslunarvara til kaupmanna, heldur eingöngu látinn til bænda sem ekki bjuggu við sjó. Verðið minnir mig að væri 20 aurar steinbíturinn. Margir komu í skreiðarferðir; t.d. man ég eftir sr. Guðmundi í Gufudal með stóra hestalest í skreiðarferð hingað. Viðskiptin voru einkum við bændur í sveitum við Breiðafjörð. Oftast voru það fastir viðskiptamenn: Þeir fengu steinbít og létu smjör og tólg. Þetta voru áreiðanlegir menn“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK, f. 1896). „Það er ekki úr vegi að geta þess að seinasta lestarferðin sem farin var til að sækja skreið, í Kollsvíkurver í Rauðasandshreppi, var farin af séra Guðmundi, þá presti í Gufudal. Hafði hann 14 hesta undir skreið“ (Þuríður Kristjánsd. Kirkjubóli; Hugur og hönd 1.tbl 1971). Skreiðarflutningar eftir þetta voru alfarið sjóleiðis.
Séra Guðmundur Guðmundsson var síðasti presturinn sem sat í Gufudal; þjónaði frá 1889-1905, en eftir það var kirkjunni þjónað frá Reykjanesi. Fékkst einnig við kennslu. Guðmundur fluttist síðar til Ísafjarðar og bjó þar í 30 ár; var m.a. ritstjóri alþýðublaðsins Skutuls og forstöðumaður utankirkjusafnaðar í Bolungarvík. Meðal barna hans var Haraldur ráðherra og formaður Alþýðuflokksins. (KÓ; Vestfjarðarit o.fl.). Guðmundur var ættaður úr Húnavatnssýslu. Kona hans var Rebekka Jónsdóttir (alþingismanns á Gautlöndum Sigurðssonar). Þetta var síðasta en alls ekki fyrsta skreiðarferð Gumundar í Kollsvík. Grein sem Guðmundur skrifaði 1899 í Þjóðólf hefst þannig: "Það var einn góðan veðurdag að brestur gerðist í húsi mínu. Fór ég því á stað í steinbítsferð að fornum sið; og hugðist ekki skemmra halda en í Kollsvík vestur. Höfðu hinir fyrri bændur margan steinbít þaðan fengið. En af því mér jafnan þykir gott að geta látið gaman fylgja gagni, ásetti ég mér að hitta kunningja minn, Þorvald prest í Sauðlauksdal, og hressa mig á samtali við hann". Fjallar grein Guðmundar einkum um fund þeirra prestanna, en steinbítsviðskiptum lýsir hann ekki nánar. Rökræddu þeir mjög um gagnsemi sandgræðslu og hafði Þorvaldur betur. (Þjóðólfur 17.07.1899).
Hildarróðurinn: Árið hefur verið viðburðarríkt hjá Hildi Magnúsdóttur (20 ára) og Guðbjarti Guðbjartssyni (30 ára). Bæði eru þau uppalin í Kollsvík. Hildur kom þangað sem barn með móður sinni, Önnu Guðrúnu Jónsdóttur sem nú er gift Össuri bróður Guðbjartar. Guðbjartur hefur unnið á heimili foreldra sinna og gertu út bátinn Rut í Kollsvíkurveri, í félagi við Ólaf Halldórsson á Grundum. Síðustu ár hefur hann einnig verið vinnumaður hjá Guðbjörgu Ólínu systur sinni sem býr í Kollsvík, en hún missti Torfa Jónsson mann sinn og bróður Önnu Guðrúnar í sjóslysi fyrir 5 árum. Hefur Guðbjartur reynst henni og 13 börnum hennar hin mesta stoð og stytta. Guðbjartur og Hildur giftu sig 23. september á þessu ári og hófu búskap á kotbýlinu Tröð í Kollsvíkurlandi. Áður hafði þó Hildur orðið ófrísk af fyrsta barni þeirra, sem fékk nafnið Fríða og fæddist 30.07.1909. Fæðingin virtist þó ekki ætla að ganga eðlilega, og vildi móðir hennar að sent yrði til Patreksfjarðar eftir Sigurði Magnússyni lækni. Rutin var mönnuð í skyndi og fóru þeir 4 af stað; Ólafur Halldórsson formaður; Guðbjartur Guðbjartsson verðandi faðir; Össur A. Guðbjartsson bróðir hans og Páll Bjarnason á Hvalskeri sem rær úr Kollsvíkurveri. Þeir eru þó ekki nema nýsloppnir fyrir Blakkneesið þegar barnið fæðist. Anna fær þá Jón Torfason, bróðurson sinn, til að fara ríðandi innyfir Hænuvíkurháls til að freista þess að snúa þeim við. Jón fær síðan nafna sinn Jóhannesson í Hænuvík til að róa þar í veg fyrir Rutina. Þegar Rut kemur aftur út fjörð er enginn læknir um borð, þar sem hann var þá staddur á Bíldudal. Hafði Össur ætlað að fá sig fluttan þangað á mótorbát. Annar mótorbátur kemur siglandi inn fjörðinn í þessum svifum og fær Guðbjartur far með honum á Eyrar og hringir til Bíldudals til að láta vita um stöðu mála. Þeir Ólafur og Páll reru því tveir áleiðis til Kollsvíkur. Á leiðinni sáu þeir stóran útsel sofandi á Klaufatöngum. Þeir lentu í Láturdal; Páll hljóp eftir riffli út í Kollsvíkurver og selurinn var skotinn. Hann var þó stærri en svo að þeir næðu að innbyrða hann, heldur slefuðu honum aftan í bátnum í Kollsvíkurver. (Jón Torfason; Hildarróðurinn; Árbók Barð 2020).
1910
Sparisjóður Rauðasandshrepps stofnaður: Hinn 16. desember var stofnaður Sparisjóður Rauðasandshrepps. Ábyrgðarmenn hans eru 20. Þessir beittu sér mest fyrir stofnun sjóðsins: Séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal; Guðmundur Sigurðsson hreppstjóri og Ólafur Thorlacius eldri í Saurbæ. (Árbók Barð).
Guðmundur vann við sjóðinn í tvö ár, en lengst af var sparisjóðsstjóri Snæbjörn J. Thoroddsen í Kvígindisdal. Hann lét af störfum 1977 og þá tók við Valdimar Össurarson frá Láganúpi, sem stýrði sjóðnum þar til hann var sameinaður Eyrasparisjóði á Patreksfirði 1988.
Ungmennafélagið Von stofnað á Rauðasandi: Hinn 30.12.1910 var Ungmennafélagið Von stofnað á fundi í Króki, með starfssvæði á Rauðasandi.
Formaður þess lengst af var Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni og mun hann hafa verið mikill hvatamaður að því; þá nýkominn frá námi í Lýðháskóla í Noregi. Vinsældir félagsins voru miklar og flestir urðu félagar 28. Fundir voru haldnir títt yfir veturna og félagið gaf út blaðið Dverg, sem var handskrifað. Félagið gekkst fyrir skemmtunum, t.d. jólátréssamkomum, dansskemmtunum, álfadansi með blysför og sjónleikjum. Margir æfðu glímu og skautahlaup. Það beitti sér fyrir gjöfum til góðgerðarmála; stóð fyrir garðrækt; trjáplöntun og sölu garðafurða; aðstoðaði öryrkja við slátt og stóð fyrir grisjun skógar. Tvisvar var efnt til kappsláttar. Ungmennafélagið reisti sér hús 1935 (sjá þar), sem lengi var helsta samkomuhús Rauðsendinga. Var vinna við það öll sjálfboðavinna. Einnig gerði það sundlaug og stóð fyrir skemmtiferðum og fyrirlestrum. Með fækkandi fólki dró úr starfsemi félagsins.
Hestfær vegur yfir Hafnarmúla: Mikil samgöngubót er orðin með því að ruddur hefur verið hestfær vegur upp Kálfadal og niður í Mosdal. Séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal hafði forgöngu um verkið, en verkstjóri var Sveinn Magnússon á Lambavatni. Hafðist vegavinnuflokkurinn við í tjöldum. Hafnarmúlinn hefur frá upphafi byggðar verið mikill og hættulegur farartálmi. Stórgrýtt leið er í fjörunni og götuslóði uppi meðfram klettunum. Ófær með öllu að vetrarlagi. (AÍ; Árbók Barð 1980-90).
Íbúafjöldi: Nú eru íbúar Rauðasandshrepps alls 465 talsins. Þar af í Saurbæjarsókn 123 á 14 heimilum; Breiðavíkursókn 160 á 26 heimilum; Sauðlauksdalssókn 182 á 28 heimilum. Til samanburðar voru 813 í Rauðasandshreppi árið 1901, áður en Eyrum var skipt frá árið 1907. Nú eru í Patrekshreppi 414 íbúar; enn öllu færri en í Rauðasandshreppi.
Af 160 íbúum Breiðavíkursóknar eru 89 manns heimilisfastir í Kollsvík, eða meira en helmingur. Eru íbúar Kollsvíkur núna jafn margir og voru samanlagt á Vatneyri og Geirseyri fyrir 20 árum, árið 1890.
Vatnsmyllur í Kollsvík: „Myllur voru 3 eða 4 í Kollsvík á öðrum tug þessar aldar. Tvær voru í ánni, sem rann til sjávar um miðja víkina… Leifar af þessum myllum eru nú litlar, þó var mylla föður míns byggð úr grjóti uppundir fjalagólfið, þar sem kvarnarsteinar stóðu í mjölskúffu og kornstrympan þar yfir, sem hékk í þakinu, sem var úr timbri; klætt með tjörupappa og torf þar yfir… Mylluhúsið mun hafa verið ca. 3 m. á kant, og vel manngengt kringum mjölskúffuna, en undir henni var trékassi sem mjölinu var sópað niður um gat sem snéri fram að dyrum… Ásinn í myllunni var lóðréttur.. á mylluhjólinu var sver tréklumpur, sem spaðarnir voru festir í. Þeir munu hafa verið 6-8 og… sneru efri myllusteininum, en í steininn var ásinn festur með flötum járnbút.
Notkun vatnsmylla hætti þegar malað korn fór að flytjast; í 100 kg. pokum“. (TÖ; matarhefðir).
„Allar þessar myllur stóðu uppi fram yfir 1920, en þá aldrei notaðar“ (EG; vatnsmyllur).
Útikamrar rísa við hús: „Útikamrar komu á öðrum áratug þessarar aldar, en meðan engir kamrar voru var gengið örna sinna út um hvippinn og hvappinn“. (TÖ; Hreingerningar og þvottur).
Á þessum tíma hafði vatn ekki verið leitt í hús. Útikamrar voru í notkun við hús í Kollsvík fram yfir 1960. Gjarnan var dagblaðapappír nýttur sem skeini, enda venja að gjörnýta allt sem til féll. Með vatnsklósettum neyddist fólk þó til að láta af þeirri nýtingu, þar sem pappírinn stíflaði lagnir. Steypt þró var yfirleitt undir kömrum og er hún tók að fyllast var innihaldinu mokað upp og það nýtt sem áburður á tún eða til sandgræðslu.
Hestakerra kemur í Kollsvík: „Ef landið var mjög blautt var torfinu bunkað í flaginu, annars var það oft flutt heim jafnóðum og reitt á berbökuðum hestum. Torfan lögð yfir bakið, 3-4 á hest eða meira, ef það var þurrt. Þetta var svo í æsku minni í Kollsvík. Þá voru engar kerrur til, en fyrsta kerran þar kom um 1910; að mig minnir. … Þegar ég var 6-7 ára, sá ég menn bera móinn á þurrkvöll í handbörum. Þar næst komu hjólbörur til þeirra nota, og að lokum hestakerran á árunum 1912-20“ (TÖ; Búskaparhættir).
Notkun roðskóa að leggjast af: Roðskór hafa um langan aldur verið algengur skófatnaður í Rauðasandshreppi. Þeir eru enda gerðir af steinbítsroði, og fyrir Útvíkum eru mestu steinbítsmið landsins. Þeir víkja nú, líkt og skinnskórnir, fyrir hinum nýja gúmmískófatnaði sem er mun endingarbetri og vatnsheldari. Roðskór eru fljótgerðir; léttir á fæti og hlýlegir, en slitna fljótt á hörðu undirlagi. Þurfti því nokkur pör af þeim er farið var yfir langar heiðar, og var vegalengd þeirra gjarnan mæld í fjölda roðskópara sem slitið var á leiðinni. Þannig er Víknafjall, frá Kollsvík að Naustabrekku, talin 7 roðskóa leið; og sama er um Hafnarfjall frá Breiðuvík að Örlygshöfn.
Hafskipahöfn í Kollsvík ? Hinn 16.12.1910 var þingmálafundur haldinn í Tungu í Örlygshöfn. Á fundinum voru mættir 50 mann, þar af 40 kosningabærir. Fundarstjóri var Guðmundur hreppstjóri Sigurðsson í Vatnsdal og fundarritari Ólafur Sveinsson Lambavatni. Meðal mála sem rædd voru og ályktað um voru í stuttu máli þessi: 1. Stuðningur við stefnu stjórnarinnar í sambandsmálinu. 2. Ýmis atriði varðandi stjórnarskrármálið. 3. Ýmislegt um skattamál. 4. Fundurinn lýsir ánægju með framkomu þingmanns síns og ráðherra í landsmálum (Björns Jónssonar); sérstaklega í Landsbankamálinu (sjá hér á eftir). 5. Stuðningur við áfengisbannið. 6. Skorað á konungkjörna þingmenn að segja af sér. 7. Stofnað verði fiskveiðiráð er hafi á hendi öll fiskiveiðimálefni landsins. „Ennfremur óskar fundurinn þess að landstjórnin gjöri ráðstafanir til þess að Kollsvík í Rauðasandshreppi verði mæld upp og könnuð, til þess að vita hvort ekki væri hægt að fá þar ákveðið skipalægi, svo að farmskip fengjust þangað fremur, til að ferma og afferma vörur“. (Samþ.með öllum greiddum atkv). 8. Fækka þarf embættum á landinu. 9. Skorað á Alþingi að breyta lögum þannig að daufdumbir menn, sveitarómagar og þeir menn sjúkir sem aldrei geta til kirkju komið séu undanþegnir að greiða gjöld til kirkju og prests. Fleiri mál ekki tekin fyrir vegna tímaskorts (Ísafold; 1.tbl. 1911).
Stuðningsyfirlýsing við Björn Jónsson ráðherra: Í mars 1910 bárust Alþingi fjölmargir undirskriftalistar til stuðnings Birni Jónssyni ráðherra Íslands, en hann stóð þá í ströngu á Alþingi vegna sambandslagamálsins og vegna „Landsbankafargansins“, þ.e. rannsóknar á rekstri Landsbankans og brottvikningu stjórnenda hans. Er í stuðningsyfirlýsingunni lýst fullu trausti á Birni, sem um leið er þingmaður Barðstrendinga, og mótmælt fyrirhuguðu aukaþingi. Undirskriftalistar voru í hreppum sýslunnar. Í Rauðasandshreppi undirrita þessir (hugsanlega einhverjir utanhrepps): Þórarinn Bjarnason, Steinn Bjarnason, Árni Árnason, Ólafur Ásbjarnarson, Gísli Ólafsson, Gestur Jósefsson, Ingimundur Halldórsson, Kristján Ásbjarnarson, Bjarni Gunnlaugsson, Guðbjartur Guðbjartsson, Össur Guðbjartsson, Gísli Guðbjartsson, Karl H. Kristjánsson, Gestur Jónsson, Jón Magnússon, Gestur Össursson, Guðjón Halldórsson, Ingimundur Guðjónsson, Eggert Eggertsson, Hálfdán Árnason, Jón Guðjónsson, Sveinn Magnússon, Egill Gunnlaugsson, Bæring Bjarnason, Gísli Finnsson, Ólafur Jónsson, Egill Árnason, P. Jónsson, Guðjón Brynjólfsson, Einar Sigfreðsson, Ólafur Ó. Thorlacius, Ívar Magnússon, Jón Runólfsson, Guðmundur Sigurðsson, Ólafur E. Thoroddsen, Páll Kristjánsson, Ólafur M. Pétusson, Pétur Hjálmarsson, Engilbert Jóhannsson, Jóhann Magnússon, Ólafur Guðbjartsson, Jón Jóhannsson, Ívar Jónsson, Ólafur Halldórsson, Össur Árnason, Hjálmar Pétursson, Sigurður Jónsson, Jón Hjálmarsson, Davíð J. Jónsson, Magnús Árnason, Níels Kr. Björnsson, Hákon Jónsson, Magnús Sölvason, Jón Magnússon, Jón Gíslason, Þorvaldur Jakobsson, Guðmundur Guðmundsson, Friðlaugur Einarsson, Kristján Björnsson, Jóhannes Sturluson, Jón Á. Thoroddsen.
Undirskriftirnar og yfirlýsingarnar eru birtar í blaði Björns Jónssonar; Ísafold, hinn 26.03.1910. Björn Jónsson (08.10.1846-24.11.1912) var ættaður úr Djúpadal í A-Barð; afkomandi m.a. Arnfinns Jónssonar, bróður Einars Jónssonar ættföður Kollsvíkurættar.
1911
Rafstöð á Geirseyri: Pétur A. Ólafsson hefur komið upp rafstöð í Litladalsá á Geirseyri; fyrstu virkjuninni á Vestfjörðum. Fékk hann Jóhannes Reykdal rafmagnsfræðing úr Hafnarfirði til að mæla fyrir stöðinni og koma henni upp. Reyndi Pétur að fá aðra á staðnum með sér í verkefnið, en enginn treysti sér til að leggja fé í slíkt „glæfrafyrirtæki“ svo hann stóð einn að því. Litladalsá var stífluð rétt fyrir neðan Bræðraborg og frá stíflunni liggur 36 metra löng renna að stöðvarhúsinu, en þar er vatnshjól. Stöðin var gangsett í júni og veitir 16 húsum á Geirseyri raflýsingu. Greiða allir jafnt fyrir orkuna, hversu mikla sem þeir nota. Guðmundur Jónsson járnsmiður er rafstöðvarvörður. Mun þetta vera ein af fyrstu rafstöðvum í landinu. (Guðjón Friðriksson; Árbók Barð).
"Saga raforku og virkjana á Vestfjörðum hefst með virkjun Péturs Ólafssonar í Litludalsá í Patreksfirði 1911. Rafallinn, sem var 5 kW, var fyrsta árið knúinn með yfirfalls-vatnshjóli, en síðar var fenginn vatnshverfill (túrbína) frá Kværner Brug í Osló, 7.8 hö. Rafmagn var leitt til 16 húsa á Geirseyri. Á daginn, þegar ekki þurfti að nota ljós, mátti tengja stórviðarsög við hverfilinn. Stöð þessi starfaði til 1918. Eflaust hefur þessi litla virkjun opnað augu margra Vestfirðinga fyrir þýðingu vatnsafls til raforkuvinnslu til almenningsnota, enda urðu Vestfirðingar engir eftirbátar annarra landsmanna varðandi virkjanir og virkjunarrannsóknir. 1918 eru byggðar samtímis virkjanir í Bíldudal og á Patreksfirði". (Íslendingur-Ísafold 09.04.1969).
Rafveita Patreksfjarðar yfirtók þessa virkjun árið 1918 og starfrækti í tvö ár. Þá var túrbína og annar búnaður tekinn niður og seldur norður á Langanes þar sem stöðin er enn í notkun og hefur framleitt rafmagn fyrir Kollavík í Þistilfirði a.m.k. fram til 1976. (DB; 03.04.1976). Þetta var fyrsta virkjunin á Vestfjörðum. Sú næsta var Húksárvirkjun við Bíldudal, sem tók til starfa 1918, og sú þriðja Fossárvirkjun í Skutulsfirði árið 1937. Má af þessu sjá hve Pétur var langt á undan sinni samtíð í ýmsum efnum.
Vesturfarar: Margir Íslendingar flytja nú til útlanda í von um betra líf, en hérlendis hefur verið nokkur þrengingatími vegna veðurfars, atvinnumöguleika og annars. Fyrri bylgja útflytjenda fór einkum til Brasilíu, en á síðari árum hefur leið flestra legið til Kanada og Bandaríkjanna. Hefur komist á fót nokkurskonar nýlenda Íslendinga í Gimli, sem nefnd er „Nýja Ísland“. Héðan úr hreppi fóru á þessu ári Ottelía Guðbjartsdóttir og Jens Jónsson frá Stekkjarmel til Kanada. Einnig fóru bræðurnir Andrés og Arinbjörn Guðbjartssynir frá Breiðuvík vestur um haf. Árni Brandsson frá Hnjóti fór 1910 til Winnipeg.
Báðir komu þeir bræðurnir aftur í fyrri heimsstyrjöldinni og bjó Arinbjörn á Mábergi og víðar en Andrés var bóndi í Breiðuvík um tíma. Hann flutti þó aftur til Kanada 1921 með fjölskyldu sína. Það sama gerði bróðir þeirra Dagbjartur. Hann fór alfarinn með konu sinni, Lovísu Torfadóttur frá Kollsvík 1921. Bjó fyrst í Kanada en síðar Bandaríkjunum. Einar Tómas Guðbjartsson frá Kollsvík var í siglingum frá 1884 en settist svo að í Chicago og giftist þar. (Sjá 1912; Týndur bróðir í Ameríku).
Björgunarafrek Guðbjartar Ólafssonar: Guðbjartur Ólafsson (21.03.1889-15.05.1961 frá Keflavík, sonur Ólafs Tómasar Guðbjartssonar í Kollsvík) er skipstjóri á kútternum Ester frá Reykjavík. Hinn 24.03.1911 var Esther stödd sunnan Grindavíkur á landleið til Reykjavíkur með fullfermi af fiski þegar á brast stórviðri af norðri. Grindavíkurbátar höfðu róið þennan dag, enda blíðviðri um morguninn. Þegar veðrið brast snögglega á reyndu þeir að forða sér í land, en af 26 bátum náði aðeins einn til hafnar. Lentu flestir á ýmsum stöðum með ströndinni; margir brotnuðu í spón, en allir komust af. Fjögur skip náðu ekki landi heldur héldu í átt að Ester í von um björgun. Er það talið skipstjórn Guðbjartar að þakka að tókst að bjarga öllum áhöfnum þeirra um borð; þjátíu og átta mönnum. Bátarnir og veiðarfæri þeirra töpuðust. Veðrið versnaði þá enn og ekki var viðlit að sigla skipinu til hafnar í óveðrinu, þunghlöðnu af fullfermi afla; 27 manna eigin áhöfn og 38 skipbrotsmönnum á öllum aldri; frá 16 til 73 ára. Ester var því lagt til drifs þar til veðrið gekk niður, sem ekki varð fyrr en eftir tvo sólarhringa. Hafði skipið þá drifið langt til hafs suðvestur af Vestmannaeyjum. Kom það loks til hafnar í Grindavík.
Þetta var ekki eina björgunarafrek Guðbjartar. Árið 1921, er hann var orðinn togaraskipstjóri, tókst honum að bjarga enskum togara með áhöfn er var kominn að því að reka upp í Þrídranga við Vestmannaeyjar. Ólafur var formaður skipstjórafélagsins Öldunnar og í stjórn FFSÍ auk annarra félagsmálastarfa. Hann var meðal stofnenda Slysavarnafélags Íslands, eins og fleiri úr Rauðasandshreppi; var kosinn í stjórn 1938 og forseti félagsins 1940-1960. Kona Guðbjartar var Ástbjörg Jónsdóttir frá Akranesi. Þau eignuðust 5 börn, þ.á.m Ólaf Guðbjartsson, bónda í Kollsvík. (Ægir 01.02.1978. Mbl. 24.03.1966. Ábúendatal TÓ).
Oddur frá Vatnsdal hrapar í Hælavíkurbjargi: Á hvítasunnudag 04.06.1911 lágu mörg skip á Hornvík, þar á meðal Rúna frá Patreksfirði. Skipstjóri Rúnu var Ólafur E. Thoroddsen frá Vatnsdal, en meðal skipverja var Oddur sonur hans, 19 ára gamall. Um kvöldið fóru nokkrir skipverjar; Oddur þar á meðal, til eggjatöku þar sem heitir Hvannadalur; í austurmörkum Hælavíkurbjargs. Oddur var vel brattgengur og kleif þar í kletta. Af einhverjum ásæðum fataðist honum; hrapaði hann þar niður 30 faðma og beið bana. Lík hans fannst ekki fyrr en síðar, og var þá jarðsett að Stað í Aðalvík 19.ágúst sama árs. (Vestfirskir slysadagar).
Banaslys barns í Kollsvík: Það slys varð í Kollsvík 14.04.1911 að tveggja ára drengur náði í ofurheitan drykk og beið af því bana. Hét hann Össur Anton og var sonur Össurar A. Guðbjartssonar bónda í Kollsvík og Önnu Guðrúnar Guðbjartsdóttur konu hans. (Vestfirskir slysadagar).
1912
Fráfærur að leggjast af: Fram undir þetta hafa fráfærur tíðkast á mörgum bæjum í hreppnum, en nú er þessi aldagamli siður að leggjast af. (Sjá þó 1934 á Láganúpi). Sauðamjólk hefur verið mjög mikilvægur hluti mataröflunar, og jarðaleiga var einkum greidd í sméri sem fékkst úr sauðamjólk. Stekktíð nefndist tíminn frá því að byrjað var að reka lambær í stekk til mjalta, en við hlið stekksins var jafnan lambakró. Byrjaði stekktíð í 11-12. Viku sumars og lauk í ágúst. Meðan lömb gengu með ánum voru þær mjólkaðar einu sinni á dag. Fráfærur nefndist það er lömbin voru alfarið tekin undan ánum og rekin burtu í lambhaga, en þá voru þau 5-7 vikna gömul. Eftir það voru ærnar mjólkaðar tvisvar á dag. Fráfærur voru um Jónsmessu til forna. Sauðamjólk var gjarnan höfð til skyrgerðar en einnig var gert úr henni smjör eða ostur. (KJK; fráfærur o.fl.). Í Kollsvík hættu fráfærur um 1910-15 og á sama tíma í Sauðlauksdal og Vatnsdal (sjá þó 1934). Í örnefnaskrám má sjá að stekkir eru nánast á hverri jörð í Rauðasandshreppi, þó líklega hvergi jafn margir og á Láganúpi. (Örn.skrár).
Smiðjur í Kollsvík: A.m.k. ein smiðja er enn starfhæf í Kollsvík á þessum tíma: „Þegar ég var 7 eða 8 ára, fór ég með föður mínum í smiðju að Grundum í Kollsvík, því þar var smiðja af gamalli gerð, góðan spöl frá bænum. Þetta var lágreistur kofi gerður af grjóti og torfi. Strompur var á mæni, lítill gluggi yfir dyrum og hurð af timbri. Sperrur af viði og árefti. Þessi smiðja mun hafa verið mjög gömul. Í þetta sinn var faðir minn að smíða öxul af járni í kornmylluna sína, því myllur voru þrjár í Kollsvík, og voru í gangi a.m.k. fram á fyrri stríðsár. Ég átti að aðstoða föður minn við að blása í aflinn. Smiðjubelgurinn var þarna af gamalli gerð; með trégrind sem sauðskinn voru fest á með listum og síðan tjöruborinn. Aflinn var gerður af grjóthleðslu innan við miðjan kofann og í gegn lá járnpípa í sjálfar glæðurnar, en belgurinn var dreginn sundur með vogarstöng sem var fest upp í þak og var all löng fram á við. Aflinn var lágur og steðjinn líka, því faðir minn sat við smíðina. Allvænn slaghamar var notaður til þess að reka járnið, en kol voru notuð í aflinn. Líklega verið hella undir eldinum. Undirstaða undir var lágur tréhnúður eða jafnvel hryggjaliður úr hval. Reksteinn við dyr var enginn. Hersluþró var ekki þarna svo ég sæi“. (TÖ; Smiðjur).
Togarastrand undir Látrabjargi: Líklegt er talið að erlendur togari hafi strandað undir Látrabjargi; utan við Látravöll. Skipsflaut heyrðist til Keflavíkur. Menn fóru úr Breiðuvík til leitar og fundu eitthvað brak; þar á meðal var stýrishúsið. Hafði það tekið af í heilu lagi og var uppi undir bjarginu. Enginn maður fannst; hvorki lifandi né dauður. Seinna sást vél togarans á botninum þarna nálægt um lágsjávað, en ekki annað af skipinu. (MG; Látrabjarg).
Námaleyfi í Sauðlauksdal: "Presturinn í Sauðlauksdal í Patreksfirði hefur veitt þeim Guðmundi sýslumanni Björnssyni og Pjetri konsúl Ólafssyni einkarjett til þess að taka skeljasand í Sauðlauksdals-landi og vinna úr honum kalkstein eða og önnur efni um 50 ár. Hafa þeir, að sögn, heimild til að setja bryggju og önnur mannvirki, er að rekstri þessum lýtur, í Iandinu. Stjórnarráðið hefur staðfest samning þann, sem aöilar hafa gert með sjer um þetta. Hingað til hefur sandurinn í Sauðlaukdal verið mesta landplága; Iítið vantað á, að jörðin færi í eyði af sandfoki. Á 18. öld kvað svo ramt að sandfoki, að sjera Björn Halldórsson prófastur (mágur Eggerts Ólafssonar) lagði þá kvöð um hásláttinn á alla sóknarmenn sína aö hlaða garð utan við tún í Sauðlauksdal til varnar sandfokinu. Bændur þorðu ekki annað en hlýða prófasti, en þótti þetta þungar búsifjar og kölluðu garðinn "Ranglát" Heitir hann svo enn í dag. Búist er við, að byrjað verði á verkinu á komanda sumri" (Vísir 15.03.1912).
Erindi til Alþingis: "Búendur Rauðasandshrepps, 10 að tölu, vilja fá því til leiðar komið, að strandferðabáturlnn vestan og norðan komi við í Breiðavík á Rauðasandi í apríl til ágúst" (Ísafold; 10.08.1912).
Fleiri erindi bárust Alþingi frá Vestfirðingum, m.a. þetta: "Vinnulýður á ísafirði, 302 að tölu; konur og karlar, óskar, að fá lögleiddan 10 klukkustunda vinnutíma í stað 12, sem nú sé venja, því að öðrum kosti er hinn ísfirzki fjórðungur landsins ættarskömm". (Sama heimild).
Týndur bróðir í Ameríku: "Hver, sem veit hvar Einar Tómas Guðbjartsson er niður kominn, er vinsamlegast beðinn að senda undirritaðri tilkynningu um það. Einar fluttist frá Kollsvík við Patreksfjörð i Barðastrandarsýslu, og var fyrir tíu árum til heimilis í Chlcago og nefndi sig þá Thomas Olson. Mér er kært aö frétta af honum hið fyrsta". Henrietta Othelia Emma Guðbjartsdóttir. Isafold P.O., Manitoba. (Heimskringla 07.03.2012). (Sjá Vesturfarar 1911).
Einar (09.05.1860-13.08.1927) fór til Danmerkur 1884 og var 7 ár í siglingum, en settist svo að í Chigago og giftist þar. Hann kallaði sig löngum "Einar Kolvig", en tók síðar upp ættarnafnið Olsen. (TÓ; Kollsvíkurætt). Meðal afkomenda Einars eru feðgarnir og fjárfestarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson.
1913
Fréttir úr Verinu: „Fór ég svo vestur í Kollsvík. Þar er fiskiver og reru, sá ég, 18 bátar. Lágu þeir skammt frá landi; var þar afli góður. Þar sá ég mjög fallega rósaða og einkennilega sjóvettlinga og skó úr steinbítsroði. Eru þeir þar algengir og má vel nota þá“. (Guðmundur Hjaltason; Ferð um Barðastrandasýslu; Lögrjetta 23.08.1916).
Sótt um styrk til vélbátsferða: 53 kjósendur í Rauðasandshreppi sækja á þessu ári um styrk frá Alþingi til vélbátsferða. (Vísir 26.07.1913).
Hrakningar og björgun: Hinn 23.04.1913 birtist í blaðinu Ísafold svohljóðandi þakkarávarp: "Þann 10. þessa mánaðar árdegis reri eg til fiskjar ásamt þrem hásetum mínum, en um kl. 3 síðdegis small á blindbylur með aflandsstormi, svo að engin tök voru á því að sjá land eða ná því. Þá er við þannig höfðum hrakist nær klukkustund, vorum við svo heppnir að hitta botnvörpunginn "Chieftain" nr. 847 frá Hull, sem bjargaði okkur félögum ásamt báti mínum. Skipstjórinn, I. Mason, veitti okkur, sem vorum orðnir holdvotir og kaldir, hinn bezta beina, þurran fatnað og nógan mat og flutti okkur strax og veður leyfði, næsta morgun, til Örlygshafnar, með því að eigi var lendandi i Kollsvik, og gaf okkur um leið svo mikið af fiski, að við hefðum kallað góðan afla ef veitt hefðum með veiðarfærum okkar. Eg vil eigi láta hjá líða, að senda téðum skipstjóra, svo og allri skips höfn hans, sem virtist honum samhent í því að láta okkur líða sem bezt, innilegustu þökk mína og háseta minna fyrir dugnað hans, alúð og rausnarskap, sem eg bið guð að launa"
Undir klausuna ritar Árni Árnason sem þá var formaður í Kollsvíkurveri og bjó á Grundum. Árni bjó um tíma á Grundum en síðan á Hvallátrum og fórst undan Hvallátrum 1921 (sjá þar). Í framangreindum róðri voru þeir fjórir á, líklega á bát Árna sem hét Ester, og var þetta fyrsti róður; 10. apríl árið 1913. Meðal þeirra voru bræðurnir Valdimar og Torfi Össurarsynir í Kollsvík. Torfi segir svo frá að á þá hafi sett suðaustan moldbyl og hvassviðri. Vonlaust var að ná landi í Kollsvík, og tekið það ráð að hleypa undan, í þeirri von að komast norður í Kóp. Þeir sáu þá enskan togara og sigldu að honum. Togarinn tók menn og bát um borð og sigldi með þá inn á Gjögra, en þaðan gengu þeir heimyfir Tunguheiði. Togarinn Chieftain hafði áður komið við sögu á svæðinu, er hann var að ólöglegum veiðum í Breiðafirði. Guðmundur Björnsson sýslumaður Barðstrendinga og Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri í Hergilsey fóru um borð og hugðust færa togarann til hafnar, en þeim var þá rænt og siglt með þá til Englands
„Breska heimsveldið“ strandar við Hnífa: Enskur togari, British Empire H 908 frá Hull, strandaði 30. desember 1913, norðan við Hnífaflögu í Kollsvík. Veður var sunnan- suðvestan blindbylur, en sjólítið. Skipið strandaði um hásjóað og fór hátt í fjöruna. Skipverjar björguðust allir. Einn skipverja komst þegar í land og kleif upp hamrabelti sem þarna er með ströndinni. Kom hann heim að Láganúpi í Kollsvík. Menn í víkinni brugðu skjótt við og fóru á strandstað. Voru þá flestir skipverjar komnir í land. Gekk vel að koma mönnum til bæja, þar sem þeir voru lítt þjakaðir. Skipið strandaði seinni hluta nætur, og var búið að bjarga skipverjum um hádegi. En um kvöldið gekk á með vestan stórgarð og gerði stórsjó. Skipið brotnaði í spón um nóttina og sást ekkert eftir af því morguninn eftir. Mikið timbur rak úr því í Kollsvík.
Skipverjar dvöldu nokkra daga á bæjum í Kollsvík, en er veður lægði var farið með þá inn á Vatneyri. Var farið á fjögurra manna fari; árabát. Ekki þótti ráðlegt að hlaða bátinn svo fyrir Blakknesið á þessum tíma árs að taka alla skipbrotsmennina með, og voru nokkrir þeirra látnir ganga yfir Hænuvíkurháls. Þeir voru síðan teknir um borð í Hænuvík.
British Empire H 908 var stálskip, smíðað 1906 af Cook, Welton og Gemmel skipasmíðastöðinni í Hull; 278 brúttótonn að stærð; 41 m að lengd og 6,8 að breidd. Vélin var þriggjaþrepa gufuvél; 70 hestöfl nettó, og hámarkshraði skipsins var 11 hnútar. 12 voru í áhöfn. Útgerð togarans var Cargill Steam Trawling Co.Ltd í Hull; eigandi Edward B. Cargill.
Togarinn strandaði undir Strengbergi, sem er hæsta standbergið í Hnífunum. Hann fór inn á þröngan vog milli hleina; lagðist þar líkt og að bryggju, og gátu skipverjar stokkið þurrum fótum upp á hleinina þegar hann valt að henni. Frá strandstað má ganga um fjöru, um 600 m leið í stórgrýti, heimfyrir Strengbergið; þar til klettarnir fara að lækka. Heimundir Hreggnesa er hægt að komast upp gjótu. Kristján Júlíus Kristjánsson, sem þá var á Grundum, taldi sig heyra skipsflaut þegar hann var að ganga á reka. Þegar heimamenn fóru að grennslast fyrir mættu þeir skipbrotsmönnum á Brunnsbrekkunni.
Enn (2020) má sjá á Láganúpsfjörum allmikil járnstykki úr gufuvél skipsins; stóra járnkassa alsetta götum sem taka mikið á sig og færast með ströndinni í brimi. Hurðarhringur úr kopar er á hlöðuhurð á Láganúpi, en hann er úr togaranum.
Síðasta vertíð í Láturdal? Láturdalur á Hænuvíkurhlíðum hefur lengi verið verstöð; e.t.v. frá fyrstu byggð. Þaðan er stutt til góðra miða, en bátum nokkuð hætt í miklum sjó og háflæði. Þetta vor róa þaðan (a.m.k.) þrír bátar. Fyrir einum þeirra er formaður Hákon Jónsson á Hnjóti; fyrir öðrum Pétur Hjálmarsson Sellátranesi og þeim þriðja Guðmundur Einarsson Hreggstöðum (síðar bóndi á Brjánslæk). Guðmundur rær báti í eigu Friðriks Þórðarsonar, en með honum róa Árni Jón bróðir hans og Jóhannes (Jónsson) frá Kálfshamarsvík. Bátur þeirra er dreginn frá Eyrum í Láturdal, hlaðinn salti og kúfiski í beitu. Lítið fiskaðist á þessari vertíð; mest steinbítur sem þar gengur uppi í landsteinum. Eitt sinn sameinuðust áhafnirnar um að fara undir Bjarg, og var Hákon sigamaður. Skipt var í 7 hluti og komu 120 egg í hlut. Róið var fram að túnaslætti. (Guðmundur Einarsson; Kalt er við kórbak).
Eflaust hefur verið róið með línu, líkt og þá var gert í Kollsvíkurveri. Ekki eru heimildir um róðra frá Láturdal eftir þetta. Sjá fyrri heimildir um róðra í Láturdal; Jochum Eggertsson 1908; Hallbjörn E. Oddsson 1901 og Jarðabók Árna Magnússonar 1703.
Byggður viti á Bjargtöngum: Reistur hefur verið ljósviti á Bjargtöngum. Er hann á járngrind og knúinn gasi. Vitavörður er Erlendur Kristjánsson á Hvallátrum.
Er hann lést 1939 tók Hafliði Halldórsson við, þar til hann flutti frá Látrum 1948. Þá tók Ásgeir Erlendsson við og sá um vitavörsluna til áttræðisaldurs, 1989. Jónas H. Jónsson í Breiðuvík sá um vitavörsluna þar til viti og veðurstöð var orðið sjálfvirkt. Vitinn var endurbyggður 1948, sjá þar.
Léleg fugltíð: Mikið óþurrkasumar hefur verið þetta árið. Illa hefur viðrað til bjargferða og er tekjan eftir því. Einungis 25 fuglar voru í hlut bjargmanna á Látrum að fugltíð lokinni. (MG; Látrabjarg).
Jólaskemmtun í Breiðuvík: "Jólin 1913 var ungu fólki úr Breiðuvík, Kollsvík og frá Látrum stefnt saman í nýja steinhúsið í Breiðuvík og efnt til dansleikjar. Þar var óvenju mikið fjölmenni á jólaskemmtun því venjulega hélt hver vík fyrir sig slíkar skemmtanir fyrir heimafólk". (Jóna Erlendsdóttir frá Hvallátrum; svar til þjhd.Þjms).
Landmælingar Danska hersins: "Landmælingar á Vesttjörðum: Danskir landmælingamenn komu hingað í nú í júní og verða í sumar við landmælingar á norðvesturkjálka landsins. Yfirmaður landmælingamannanna heitir F. A. Brochwaldt" (Þjóðviljinn ungi 10.07.1913).
Danska herráðið stóð fyrir landmælingum Íslands á árunum 1902-1914 og lét vinna vandaðri kort af landinu en áður höfðu þekkst. Barðastrandasýslu hafa þeir líklega mælt 1912-1913. Mælingamenn unnu mikið þrekvirki við þær aðstæður sem þá ríktu. Víða má sjá stórar vörður sem þeir hlóðu og notuðu til mælinga; t.d. á Blakknesi. Sumar eru þó sagðar verk Björns Gunnlaugssonar landmælingamanns, frá því kringum 1840; t.d. varðan á Kóngshæð. Hópur dönsku mælingamannanna samanstóð (1912) af 8 undirforingjum og 18 dátum, sem komu til landsins með skipinu Sterling.
Votheysverkun hefst:
Ólafur Thorlacius í Saurbæ er brautryðjandi í nýrri heyverkunaraðferð sem nefnist votheysverkun. Með henni þarf ekki að fullþurrka heyið áður en það er hlöðutækt, heldur er það sett grasþurrt í til þess gerðar gryfjur og síðan fergt. "Sú verkun á heyi, sem ýmist var nefnt vothey eða súrhey byrjaði hér í sveit árið 1913, þá aðeins á tveim bæjum, Saurbæ á Rauðasandi og Hnjóti í Örlygshöfn. Hægt færðist þessi verkun í aukana en breiddist þó út, þó í smáum stíl væri. Fyrst framan af voru gryfjur grafnar í jörðu og hlaðnar upp innan með hnaus, sniddu. Einnig hlaðnar nokkuð upp úr jörðu. Voru þær oft hring- eða sporöskjulagaðar og eilítið þrengri við botn. Ef staðhættir leyfðu voru þær grafnar í hóla, ef verða mætti að fráræsi næðist“ (KJK; Heyverkun).
"Ólafur sýndi mér miklar heyfyrningar og var sumt af þeim súrhey. Bragðaði ég það að gamni mínu, og þótti mannamatur vera". (Guðmundur Hjaltason; Ferð um Barðastrandasýslu 1916; Lögrjetta).
1914
Milljónafélagið gjaldþrota: Stærsta fyrirtæki landsins er núna komið á hausinn, eftir fárra ára rekstur. Milljónafélagið, sem í raun hét P.J. Thorsteinsson & Co, var stofnað 1907 á grunni fyrra félags með sama nafni. Helsti hvatamaður þess og eigandi var athafnamaðurinn Pétur J. Thorsteinsson á Bíldudal. Félagið var umsvifamikið; átti verslunarstaðina Vatneyri og Bíldudal, var með höfuðstöðvar í Viðey og gerði út nokkur þilskip. Fljótlega eftir stofnun komu fram erfiðleikar í rekstrinum. Skortur var á vinnuafli og erfitt að manna skipin; auk þess sem samkeppni hafði aukist um verslun og fisksölu. Félagið hafði m.a. keypt fisk úr Útvíkum, og kom mest frá Kollsvíkurveri. Gjaldþrot Milljónafélagsins kom því illa við útvegsbændur þar.
Miklar framkvæmdir urðu á Vatneyri á tímabilinu 1896-1914. Stórt hús var byggt neðan við sölubúðina á Vatneyri, sem var í senn pakkhús, ís- og frystihús. Var þar geymdur ís sem höggvinn var af Vatneyrarvatni. Til þess var lögð 350 álna löng járnbraut út að vatninu. Sumarið 1899 var byggð fullkomin járnsmiðja nærri íshúsinu. Þurrkhús til þurrkunar á fiski var reist á Vatneyri, með kolakyntum ofni. Byggt var salthús. Hafskipabryggja var byggð, þar sem allstór skip gátu lagst að, og lögð járnbraut fram á hana. (Guðj. Friðr; Árbók Barð 2012).
Salthús í Kollsvíkurveri: Meðal eigna þeirra sem Milljónafélagið keypti við stofnun þess var saltgeymsluhús í Kollsvíkurveri á 518,76 krónur að verðmæti. Til samanburðar keypti félagið verslunarstaðinn Bíldudal með húsum, bryggjum, slipp o.fl. fyrir 108.732,30 krónur og verslunarlóð á Vatneyri með járnbraut og tilheyrandi á 19.912,92 krónur.
Prímus notaður í Kollsvíkurveri: „Kaffi var aðallega hitað á eldavél þegar ég man fyrst eftir mér. Vitanlega var það áður hitað á hlóðum. Í Kollsvíkurveri var kaffið hitað fyrst er ég man eftir á flatbrennara, olíu, en 1914 eða 15 kom fyrst prímus í Kollsvíkurver og þótti mikill flýtisauki að þeim. Breiddust þeir fljótlega út og urðu algengir. Ketilkaffi var oft notað í verinu, einnig á engjum og var þá hitað í hlóðum, en í rigningu gat verið erfitt að kveikja upp í hlóðunum“ (TÖ; Matarhefðir).
Bragi Ó Thoroddsem segir að sú flökkusaga hafi gengið að fyrst er kveikt var á prímus í Kollsvíkurveri hafi enginn kunnað að slökkva á honum, og var honum því stungið í Búðalækinn. Slíkt skens var algengt í sveitaslúðrinu og kann þessi flökkusaga að benda til öfundar gagnvart þessu ágæta eldunartæki.
Bátar þurfa að standast skipaskoðun: Nú þurfa bátar sem róið er í Útvíkum að standast skipaskoðun.
Tryggingar báta komu þó ekki til fyrr en síðar; nokkru áður en útgerð lagðist af í Kollsvíkurveri (KJK; Sdbl.Þjv).
Breskur togari skotinn niður út af Kollsvík: Hinn 07.08.1914 var breski togarinn „Tubal Cain“ skotinn niður 50 mílur (93 km) WNW af Látrabjargi (sem Bretar nefna „Stalberg“); af þýska gufuskipinu „Kaiser Wilhelm der Grosse“ (Vilhjálmi mikla; skipstjóri Max Reymand). Áhöfn togarans mun hafa verið færð yfir í þýska skipið áður en honum var sökkt. (Shipwreck.eu; Fleetwood trawlers).
„Tubal Cain“ var 227 brúttótonn að stærð; með þriggjaþrepa gufuvél, 58 ha; ganghraði 10,5 mílur; smíðaður 1905. „Kaiser Wilhelm der Grosse“ var fyrsta risaskemmtiferðaskip heims; 14.349 brúttótonn að stærð; nær 200 metrar að lengd; byggt í Stettin í Póllandi og hóf siglingar 1897. Það var fyrsta skipið með fjórum reykháfum og íburður farþegarýmis þótti með eindæmum. Skipið náði m.a. „bláa borðanum“ eftirsótta; fljótast allra skipa á siglingaleiðinni yfir Atlantshaf með yfir 22ja mílna hraða á klst. Í heimsstyrjöldinni var skipinu breytt í vopnað árásarskip, m.a. með sex 4“ fallbyssur, og vegna stærðar var því haldið til fjarlægra staða, t.d. við Íslandsstrendur. Í þessari hreferð hafði skipstjóranum tekist að komast framhjá hafnbanni bandamanna, og inn á Grænlandssund. Endalokin voru þó skammt undan. Breskt orrustuskip réðist á Vihjálm mikla við Rio de Oro (í spönsku Sahara) fáeinum dögum síðar; hinn 26.08.1914 og var því sökkt af áhöfn sinni er ósigur blasti við.
Dyggir lesendur Æskunnar í Kollsvík: "Helztu stuðningsmanna sinna hefir Æskan minst smámsaman á liðna árinu. Hefir hún með því viljað sýna þeim viðurkenningu sem skarað hafa fram úr í dugnaði og skilvísi. Að þessu sinni skal sérstaklega nefna hr. Þórarin Bjarnason í Kollsvík, er hefir yfir 20 kaupendur og er margreyndur að áreiðanleik og skilvísi í viðskiftum sínum við blaðið". (Æskan 01.01.1914).
1915
Aldrei meiri bátaútgerð í Rauðasandshreppi: Nú róa 47 róðrarbátar úr Rauðasandshreppi, og hafa aldrei verið fleiri (urðu heldur aldrei fleiri). Á þeim eru 170 sjómenn, eða milli 3 og 4 menn á bát að meðaltali. Flestir róa úr Kollsvíkurveri, en einnig margir úr Breiðavík og Látrum. Allir bátar eru knúnir árum og seglum. Flestir aðkomumenn koma frá Barðaströnd. Milli vertíða geyma þeir báta sína á Skeiðseyri í Ósafirði og standsetja þá áður en þeir koma í verið. (KJK). Frá Patreksfirði eru auk þess gerðir út fjölmargir bátar og skútur.
Þinghús byggt í Tungu: Þingstaður Rauðasandsþings hefur frá öndverðu verið í Tungu. Nú hefur, líklega í fyrsta sinn, verið reist þar sérstakt þinghús. Það mun reyndar þjóna öðrum samkomum einnig, t.d. til funda, skemmtana og skólahalds. Húsið er úr steinlímdu grjóti, með járnþaki, þiljað innan; um 30 m² og metið á um 600 kr.
Þinghúsið var helsti samkomustaður sveitarinnar þar til félagsheimilið Fagrihvammur kom til. Þar voru m.a. haldnir fjölmennir harmonikkudansleikir þó ekki þætti gólfplássið mikið á síðari tímum. Til kyndingar var ein kamína.
Kol til sölu í Stálfjalli: "Maður sem hefir ráð á skipi getur fengið frá 40 - 60 tonn af kolum í Stálvík við Rauðasand. Upplýsingar gefur G. E. Guðmundsson". (Auglýsing í Vísi 11.08.1915).
"Kolanámurnar vestra. Guðm. E. Guðmundsson er kominn hingað frá Vestfjörðum. Kveðst hann hafa fundið hrein kol i Stálfjalli, sem er austanvert við Rauðasand. Ætlar hann að ráða hér verkafólk og halda síðan áfram kolanámi. (Ísafold 12.06.1915).
Guðmundur "koli" hafði skoðað surtarbrandsnámurnar í Stálfjalli frá 1914 og stundað þar einhverja tilraunavinnslu. Sjá nánar 1917.
Færeyingar róa í bátalest: Færeyingar stunda nú nokkra smábátaútgerð frá Patreksfirði. Þegar þeir róa út í Flóann slá nokkrir bátar sér saman um einn lítinn mótorbát sem síðan dregur 2-3 aðra færeyska báta; hvern með 3 mönnum, út á miðin. Þar leggja allir lóðir sínar (2-3 köst), og síðan dregur mótorbáturinn þá að landi aftur. Gengur þetta þokkalega í góðu sjóveðri. Upphaf veiða Færeyinga frá Patreksfirði var það að þar settist einn að uppúr aldamótum, en síðar fleiri. (Bjarni Sæmundsson; Fiskirannsóknir 1915 og Andvari XLII).
1916
Fréttir úr Verinu: „Kollsvík er vestan við Hænuvík og fiskiver mikið. Þurrka þeir þar fiskinn á sandhólum sem eru þaktir grjóti. Þar eru 8 búendur alls en vermenn koma þangað á vorin. Vorið 1913 sá ég 18 róðrarbáta þar skammt frá landi. Tún eru þar nokkur en lítið um engjar og fjöllin graslítil. Útræði gott í góðu en fer að verða brimasamara þarna í Útvíkunum. Bjó þar hjá myndar ekkju sem á 11 eða 12 efnileg börn á lífi“. (Guðmundur Hjaltason; Ferð um Barðastrandasýslu 1916; Lögrjetta).
Fyrirlestrar Guðmundar Hjaltasonar: Guðmundur Hjaltason (f. 1707.1853- d. í Spönsku veikinni 27.01.1919) ólst upp í Stafholtstungum. Hann nam á lýðháskólum í Noregi og ferðaðist víða um Vesturland og Vestfirði til að fræða og kynna ný viðhorf. Til eru skrár um fyrirlestra hans, m.a. í Rauðasandshreppi; hvar þeir voru haldnir og hve margir sóttu þá. T.d. mætti þessi fjöldi á 3 fyrirlestra hans í Kollsvík þar sem umræðuefnið var heimsstríðið (60 gestir), mannúðarframför (55) og uppeldið (55). Hann hélt fyrirlestra á 7 öðrum stöðum í Rauðasandshreppi. (AÍ; „Eitt gulnað blað“; Árbók Barð 2004). (Sjá einnig 1913).
Dóttir Guðmundar var Sigurveig Guðmundsdóttir. Hún giftist Sæmundi Jóhannessyni frá Vaðli á Barðaströnd. Þau voru um tíma á Patreksfirði og sumarið 1943 var hún ráðskona hjá Arinbirni Guðbjartssyni á Sellátranesi með 3ja ára son sinn Jóhannes (sjá þar). Sonur hans varð síðar forseti Íslands; Guðni Th. Jóhannesson.
Mismunandi þurrkun fisks í Útvíkum: "Í Kollsvík þurrka þeir fiskinn á sandhólum sem eru þaktir grjóti.... Fiskinn þurrka Látramenn á vír sem liggur lárétt í röðum" (Guðmundur Hjaltason; Ferð um Barðastrandasýslu 1916; Lögrjetta).
Orðbragð og siðferði að lagast: "Ungmennafélagið (Vestri) hefur komið á tóbaksbindindi og bætt orðbragðið... Prestur og hreppstjóri sögðu mjer að á síðustu 30 árum hefði ekki fæðst nema eitt óskilgetið barn í Rauðasandshreppi. Og þau einu sem áttu það væru að því komin að giftast" (GH; Ferð um Barðastr.sýslu 1916).
Fiskideildin Víkingur stofnuð: Útvegsbændur í Útvíkum hafa stofnað fiskideildina Víking. Þeim til aðstoðar við það var Matthías Ólafsson, ráðunautur Fiskifélags Íslands.
Ungmennafélagið Vestri stofnað: Stofnfundur Ungmennafélagsins Vestra var 01.10.1916 og urðu 33 félagar strax á fyrsta ári. Tildrögin að stofnuninni var fundur 26 ungmenna í Kollsvík 17.sept s.á. Félagið var látið heita Vestri, enda vestasta ungmennafélag í Evrópu. Starfssvæðið er Útvíkur allar, auk Keflavíkur og Hænuvíkur. Í fyrstu stjórn voru kosnir Helgi Árnason formaður, Valdimar Össurarson og Þeodór Kristjánsson.
Vestri gekk í Umf Vestfjarða árið 1917 og sama ár varð Kristján J. Kristjánsson á Grundum formaður. Þá var byrjað að gefa út blaðið Geisla sem var handritað. Fundir voru að forfallalausu annanhvorn sunnudag að vetrinum. Mikið íþróttastarf fór fram innan félagsins; sund, glíma, skíði, skautar o.fl. Leikmót voru gjarnan í tengslum við sundpróf, en sundkennsla fór fram í Kollsvík á vegum félagsins í 5 sumur; hálfan mánuð í senn. Sýslusjóður greiddi sundkennaranum. Félagið byggði hafnarmörk á Miðleiðinni í Kollsvík og hlóð upp gömul hafnarmörk á Snorralendingu þar sunnar. Veg lagði félagið upp Flosagil í Breiðuvík, sem tók 40-50 dagsverk. Kálgarð gerði félagið 1925 og fékkst úr honum góð uppskera. Stundum var farinn laugardagsróður á vegum félagsins og eitt vor fengu félagsmenn að hafa öngla á lóðum annarra. Safnaðarsöngur í Breiðavíkurkirkju var á vegum Vestra frá 1917, auk annars söngs. Vestri stóð fyrir jólatrésskemmtunum í Kollsvík og hafði jólakortakassa. Það stóð fyrir skemmtisamkomum, útileikjum og fór í skemmtiferðir á fjarlægari staði í sveitinni. Eitt sinn tók Vestri þátt í iðnsýningu á Rauðasandi með ungmennafélögunum Von og Baldri. Tvisvar stóð það fyrir bögglauppboði og stundum fyrir samskotum í þágu ákveðinna málefna. Valdimar Össurarson (eldri) tók saman yfirlit um starfsemina árið 1927. Nokkuð var þá tekið að dofna yfir starfsemi Vestra og félögum að fækka. Þá var útgerð í Kollsvíkurveri farin að dala og fólki að fækka á félagssvæðinu.
Nýtt fasteignamat: Í nýju fasteignamati 1916-1918 kemur m.a. fram þetta:
a) Láganúpur (kirkjujörð frá Saurbæ; áb. Össur A. Guðbjartsson): 3 matjurtagarðar gefa 9-10 tunnur; tún lítil en grasgefin; gefa 90 hesta; engjar gefa 60 hesta; fjörubeit góð; 3 kýr; 1 hross; 40 fjár; jörðin liggur við aflasælustu veiðistöð hreppsins; mótak gott; fýlungatekja dálítil; ókostur er sandfok á tún; hættuleg fen; íb.hús af timbri og grjóthlaðið 3ja ára og eldra; 3ja kúa fjós; skemma; lambhús; hesthús; eldiviðarhús; tvístæðufjárhús yfir 50 fjár; fjárhús yfir 18 fjár.
b) Grundir (kirkjujörð frá Saurbæ; áb. Kristján Ásbjarnarson): Matjurtagarðar 3 gefa 6 tunnur; tvíhlaðinn grjótgarður og torfgarður um helming túns; uppistöðugarðar og flóðáveitur á mýri; tún slétt, dældótt, sendið og snöggt, gefur 80 hesta; engjar litlar og snöggar gefa 60 hesta; útigangur og fjörubeit góð; jörð ber 3 kýr; 1 hross; 60 fjár; baðstofuhús með hellu- og torfþaki, timburgöflum, portbyggt, 3 herbergi, eldhús m. ofni, 13 ára; brunnhús með járnþaki; smiðja; skemma m járnþaki; 4ra kúa fjós; hlaða; hesthús; lambhús; fjárhúskofi; fjárhús yfir 60 fjár. Halldóra Halldórsdóttir á 1/3 af baðstofuhúsinu; 2 skemmur; 2 kindakofa og hlöðukofa og hlut í kálgarði sem gefur 3 tunnur.
c) Þurrabúð á Grundum (Grundabakkar; húseigandi Þórarinn Bjarnason): Íbúðarhús úr torfi og grjóti í hliðum en timbur og járni í göflum með járnþaki (6,28x3,77m), portbyggt, 11 ára; heykofi; skemma; þurrabúðinni fylgir lóðarblettur í lélegri rækt, með slæmri girðingu, gefur 4 hesta. Hús í eigu Steins Bjarnasonar lausamanns; skemma m járnþaki; hey- og lambakofi.
d) Stekkjarmelur (þurrabúð í Kollsvíkurlandi; eig. og not. Karl Kristjánsson). Matjurtagarðar gefa 2 tunnur; bletturinn gefur 12 hesta; íbúðarhús portb úr torfi og grjóti m járn- og torfþaki; fjárhús yfir 17 fjár; eldiviðarkofi; hjallur; safnþró; verbúð; saltkró.
e) Melur (Strákamelur; þurrabúð í Kollsvíkurlandi; not. Gestur Jósefsson). Matjurtagarður gefur 4 tunnur; bletturinn sendinn og harðlendur, gefur 5-6 hesta; íbúðarhús í eigu leiguliða úr grjóti og torfi 16 ára; fjárhús með geymslu í enda.
f) Grænamýri (þurrabúð í Kollsvíkurlandi; eig. og not. Gísli Guðbjartsson). Kálgarður gefur 1 tunnu; hey af þurbúð 10 hestar, af túnbletti 20-25 hestar; íbúðarhús af timbri m seinl hleðslu; fjós yfir 1 kú; 2 fjárhúskofar; 2 verbúðir (lélegar).
g) Kollsvík (eig: Solveig Aradóttir Saurbæ; Halldóra Halldórsdóttir Grundum; og ábúandi, Guðbjörg Guðbjartsdóttir). Matjurtagarður gefur 10 tunnur; tún stórt og grasgefið í góðri rækt, gefur 100 hesta; engjar sama og engar; úthey 20 hestar; útigangur og fjörubeit góð; jörð framfleytir nú 3 kúm, 70 fjár, 2 hrossum; mótak ágætt og mikið; lítill viðarreki; heimræði; verstöð afburðabest í hreppnum, hefur þaðan að meðaltali róið verið um langan aldur 16 bátum árlega; fýlungatekja að aukast, ef notuð er; jörð er undirorpin sandfoki; verður oft að moka honum burt; beitarlandskreppa; flæði- og hraphætta fyrir fé í Straumnesi; íbúðarhús úr timbri (6x5,6m) m kjallara úr steini talsv skemmt, byggt 1896; fjós yfir 4 gripi; 10 verbúðir; 1 saltkró; fjárhús yfir 75 fjár m baðþró; eldiviðarkofar; hjallar; fjárhúskofi; hlaða; lambhús; hesthús. (Halldóra seldi eignarhlut sinn til að koma Ólafi Guðbjartssyni (síðar skipstj, hafnsögumanni og fors. SVFÍ) til mennta).
h) Kollsvík (Tröð; eig: Ólafur Guðbjartsson, Össur Guðbjartsson, Karl Kristjánsson og Guðbjartur Guðbjartsson; áb Guðbj. Guðbjartsson): Matjurtagarður gefur 2 tunnur; tún gefur 16-20 hesta; engjar 4 hesta; girt Tröð um 1600 ferfaðmar m tvíhlöðnum grjótgarði, sem GG ábúandi hefur ræktað og endurbætt sem þurrabúðarlóð og er stykki þetta eign Kollsvíkur allrar, gefur nú af sér um 14 hesta; jörðinni fylgir 4 al hlöðu; íbúðarhús í eigu áb, annar gafl og hliðarveggur úr grjóti hitt úr timbri, kjallari; hlaða; skemma; fjárhús; fjós f 2 gripi; salerni og safnþró; 4 verbúðir hús um 10 ára gömul. II; hús sem á jörð eru; íbúðarhús m grjót- og timburv, andd steinsteypt; hús í smíðum m grj og torfv, efni í þak, timbur og járn á staðnum; fjós yfir 4 gripi; 2 hesthús; fjárhús; hjallur; fjárhús yfir 40 fjár.
Mór úr Kollsvík ígildi brúnkola: Að tilhlutan dr. Helga Jónssonar grasafræðings voru send til rannsóknar sýnishörn sem Ólafur Halldórsson hreppstjóri tók af mó frá Kollsvík, auk sýnishorna sem séra Þorvaldur Jakobsson tók af mó í Kvígindisdal og Sauðlauksdal. Flest sýni voru tekin í Kollsvík, eða 5. Mólögin eru þar misjafnlega þykk, eða frá 26 upp í 78 cm. Sama er um sandlagið ofaná þeim; frá 7-63 cm. Eitt sýnanna sker sig áberandi úr varðandi hitagildi, eða 3.170 hitaeiningar. (Líklega er það tekið í svonefndum Harðatorfspytti, norðan Stekkjarmels. Þar er mórinn sérlega harður og hitagæfur, en erfitt er að ná honum). Þetta mólag er 26 cm að þykkt, en ofaná því eru 68 cm af sandi. Öskuinnihald þessa mós reyndist 12,55%, sem var það minnsta af öllum 11 mældum sýnum. (Búnaðarrit; 01.06.1917).
1917
Ný lög fyrir Pöntunarfélag Rauðasandshrepps: Á aðalfundi Pöntunarfélags Rauðasandshrepps (stofnað 1908, sjá þar) voru samþykkt ný lög fyrir félagið. Í þeim segir m.a. að vörumerki félagsins sé P.F.R; tilgangur þess er að útvega félagsmönnum útlendar vörur sem ódýrastar og hagstæðu verði sem hægt er. Félagið skiptist í deildir; Rauðasandsdeild vörumerki R); Breiðavíkurdeild (B); Kollsvíkurdeild (V); Hafnardeild (H); Fjarðardeild (F) og Polluxardeild (P). Fækka má deildum ef hagkvæmt þykir; einnig auka utanhreppsdeildum. Stjórnun er í höndum félagsstjóra og tveggja meðstjórnenda; er félagsstjórinn starfsmaður félagsins og fær laun í hlutfalli við vörusölu. Deildarstjóri leggur fram áætlun um vörupantanir á aðalfundi og er þar tekin ákvörðun um solidaríska ábyrgð félagsmanna fyrir þeim. Hver deild kýs sér deildarstjóra, sem ábyrgist móttöku og afhendungu vara innan deildarinnar. Um þóknun hans er samið innan deildarinnar. Hjá hverri deild starfar eftirlitsmaður sem fylgist með vöruvöndun. 3/4 atkvæða á aðalfundi þarf til lagabreytinga. Lögin gilda frá 27.01.1917. Undir þau rita Ólafur Guðbjartsson, Engilbert Jóhannesson, Ármann Guðfreðsson, Jón Runólfsson, Guðjón Brynjólfsson, Össur Árnason, Sigurður Jónsson, Hjálmar Pjetursson, Jón Einarsson, Jónas Jónsson, Guðjón Bjarnason, Pjetur Hjálmarsson, Árni Magnússon, Ólafur Magnússon, Ólafur Pjetursson og Davíð Jónsson. (Upphaflegt handrit í fórum skrásetjara; bjargað músétnu af lofti Gjögrabúðar).
Kolanámi í Stálfjalli hætt: Nú er lokið kolavinnslu sem farið hefur fram í Stálfjalli síðastliðið ár. Ástæðan er einkum sú að vinnslan stóð engan veginn undir sér með þeim aðferðum sem notaðar voru. Kolin reyndust misjöfn að gæðum og þau bestu þurfti að nýta til að knýja gufuvél sem notuð var við fleygun í námagöngunum. Auk þess veldur hafnleysið verulegum erfiðleikum.
Tildrög námavinnslunnar voru þau að í janúar 1916 kom Guðmundur E.J. Guðmundsson kolakaupmaður (oft nefndur „Guðmundur koli“) á fund Ivars Svedbergs verkfræðings með poka af kolum úr Stálfjalli, en Guðmundur hafði skoðað Stálfjall frá árinu 1914 og haft þar tilraunavinnslu 1915 (sjá þar). Kom þeim saman um að kolin væru vel hæf til húshitunar. Stofnað var félag; Dansk-islandsk Kulmineaktieselskab, með 350 þúsund kr hlutafé, sem sótti um einkaleyfi til kolanáms á Íslandi. Fjórir námuverkamenn komu til landsins, undir stjórn Alfred Olson og hófu tilraunavinnslu. Aðstæður voru metnar góðar; námuþakið traust; vatn hindraði ekki vinnu; vinnuskilyrði góð og ætti að vera unnt að vinna um 1,5 tonn á dag með svo fáum, en allt að 3 tn væri verkamönnum fjölgað. Hinsvegar yrðu fyrirsjáanlegir erfiðleikar vegna hafnleysis. Lagði Olson til að byggður yrði skáli fyrir 14 námuverkamenn og 25o metra járnbraut með 10 vögnum til að flytja kol og úrgang frá námunni. Í maí 1916 fóru 20 verkamenn vestur með Gullfossi. Bjuggu þeir fyrst í tjöldum en síðan var komið upp einum skála og grunnur lagður að öðrum. Varðskipið Islands Falk kom og mældi dýpið framundan námunni. Fljótlega urðu þar vandræði. Gufuskipið Ingólfur komst ekki að námunni til að taka kol og varðskipið neitaði að taka það hlutverk að sér. Í fyrstu var unnið með handverkfærum og sprengiefni og kolin flokkuð utanvið námuna, en á þessu ári komst reksturinn í fullan gang. Þá var sett upp gufuvél til að knýja borana og var hún sett á bing af úrgangskolum sem hlaðist hafði framanvið munnana. Járnbrautarteinar voru lagðir til að koma kolum á vögnum út úr námunni, en á henni voru 4 op. Nú í haust var rekstrarfé námunnar á þrotum og námufélagið lagið upp laupana. Þrátt fyrir það er ljóst að reksturinn hefur skapað allmikla vinnu, þann stutta tíma sem hann stóð, og kolin komu vissulega að einhverjum notum í þeim harðindum sem fylgt hafa styrjaldarárunum. (Árbók hins ísl. fornleifafélags 2004-2005).
Sjórinn gróf fljótlega undan gufuvélinni, og fór hún í sjóinn. Verkfæri, vagnar og annað hefur eyðilagst og horfið með tímanum. Skálinn var tekinn niður og fluttur til Suðureyrar við Tálknafjörð. Í grunnum skálanna mátti til skamms tíma sjá flatan stein sem í er höggvið fangamark Guðmundar kola; GEJG og neðan við það; Carbon 1915-1917. Námagöngin eru nú (2020) flest lokuð vegna hruns og vatnsaga.
Selveiðiskipið Kópur sekkur: Aðfaranótt 13.10.1917 sökk selveiðiskipið Kópur út af Krísuvíkurbjargi í norðanhvassviðri. Níu manna áhöfn komst í skipsbátinn og náði í land við Selatanga eftir 10 tíma hrakninga. Kópur var 4 ára gamalt selveiðiskip sem Pétur A. Ólafsson á Vatneyri keypti til landsins í fyrra og var í eigu samnefnds hlutafélags hans sem hafði bækistöð í hvalstöðinni á Suðureyri í Tálknafirði. Á þessu ári hefur Kópur verið leigður til ýmiskonar strandflutninga. Er slysið varð var Kópur á leið til Þorlákshafnar með saltfarm og sigldi bæði fyrir seglum og vélarafli. Leki kom að skipinu og dælur höfðu ekki undan.
Skipið var fremur lágt vátryggt. Það, ásamt verðfalli á selafurðum í lok fyrri heimsstyrjaldar, varð til þess að ekki varð úr hinu einstaka framtaki Péturs varðandi selveiðar í norðurhöfum. Rekstri hlutafélgsins Kóps var þá hætt. (Vestfirskir slysadagar o.fl.). Árni Dagbjartsson í Kvígindisdal var um tíma á Kópi við selveiðar.
1918
Aflafréttir: Afli nokkurra báta í Kollsvíkurveri, í Fiskideildinni Víkingi, var þessi árið 1918:
(Þyngd þorsks er á verkuðum afla upp úr salti. Vertíðinni skipt í tvö tímabil hvers formanns).
Jóhanna; form. Þórarinn Bjarnason; 4 í áh; 24 ferðir; þorskur 3.878 kg; steinb. 978 kg
Gefjun; form Þórarinn Bjarnason; 3-4 í áh; 28 ferðir; steinb. 100 kg; ýsa 300 kg; 2 lúður 35 skötur
Iðunn; form Jón Torfason; 4 í áh; 22 ferðir; þorskur 4.264 kg; steinb 768 kg; 1 lúða
Gefjun; form Jón torfason; 3 í áh; 21 ferð; steinb 35 kg; ýsa 115 kg; 2 lúður; 56 skötur
Heppinn; form Kristján Ásbjörnss; 4 í áh; 24 ferðir; þorskur 4.204 kg; steinb 1.500 kg; 1 lúða
Fríða; Kristján Ásbjörnsson; 3 í áh; 30 ferðir; steinb 150 kg; ýsa 400 kg; 50 skötur
Bára; Valdimar Össurarson; 4 í áh; 21 ferð; þorskur 3.832 kg; steinb 800 kg
Bára; Valdimar Össurarson; 4 í áh; 30 ferðir; steinb 200 kg; ýsa 400 kg; 16 skötur
Ruth; Guðbjartur Guðbjartsson; 4 í áh; 22 ferðir; þorskur 3.733 kg; steinb; 700 kg
Ruth; Guðbjartur Guðbjartsson; 4 í áh; 7 ferðir; steinb 100 kg; ýsa 100 kg; 30 skötur
Nýja; Karl H. Kristjánsson; 4 í áh; 20 ferðir; þorskur 3.000 kg; steinb 800 kg;
Nýja; Karl H. Kristjánsson; 3 í áh; 26 ferðir; steinb 300 kg ýsa 300 kg; 6 skötur
Freyja; Helgi Árnason; 4 í áh; 28 ferðir; þorskur 3.900 kg; steinb. 969 kg; 16 lúður.
Skýrslan nær einnig yfir afla báta í Breiðuvíkurveri og á Hvallátrum, þó hann sé ekki sýndur hér. Samkvæmt þessu voru saltaðar þorskafurðir heimamanna í Kollsvíkurveri 26, 8 tonn þetta árið, auk afla aðkomubáta. Steinbítur (líklega blautur) hefur verið 7,4 tonn; ýsa 1,6 tonn; 22 lúður og 193 skötur. (Ægir 1.-2.tbl 1919).
Fiskverð hækkar, en einnig salt: Ófriðurinn úti í heimi hefur orðið til þess að verðmæti fiskafurða hefur hækkað verulega. Hinsvegar hefur salt og annar tilkostnaður hækkað að sama skapi, svo að afkoma útgerðarmanna hefur lítið sem ekkert batnað. (KJK; Kollsvíkurver).
Vélar settar í báta: Fyrstu vélbátarnir í Rauðasandshreppi hafa nú verið smíðaðir hjá Gísla Jóhannssyni skipasmið á Bíldudal. Er það annarsvegar vélbáturinn Hrefna, 2,5 tonn og með 3,5 hestafla Kiel-vél (Caille); eigandi Jón Guðjónsson í Breiðuvík, en hinsvegar Tjaldur, einnig frá Breiðuvík, í eigu bræðranna Haraldar og Guðmundar Ólafssona, með sömu vélartegund.
Skömmu síðar er einnig sett vél í Kóp á Hvallátrum og Fönix frá Kollsvík, sjá hér síðar.
Auglýsing bátavéla: "Árið 1915 keypti jeg undirritaður 2 stk. 4 HK Caille Perfection motor m/ rafkveikju, útbúinn fyrir steinoliu, hjá umboðsmanni vélanna, hr. O. Ellingsen, Reyk]avik. Vjelar þessar hefi jeg notað mikið og hafa þær reynst i alla staði vel, bæði i góðu og vondu veðri i sjóróðra út til hafs. Til þessa tíma hefir ekkert bilað i vjelunum og eru þær að öllu Ieyti eins og þegar jeg keypti þær. Vjelarnar eru svo Ijettar að þær þyngja bátana ekkert að mun, og hefi jeg þessvegna getað sett bátana upp á hverju kveldi, eftir sem áður. Mótorinn gengur fult eins vel fyrir steinolíu sem benzíni. — Eftir þessari reynslu gef jeg því Caille Perfection mín allra bestu meðmæli.
p.t. Reykjavík 10. april 1920. Jón Guðjónsson frá Breiðavík"
Nýtt steinsteypt íbúðarhús í Kollsvík: Byggt hefur verið steinsteypt íbúðarhús í Kollsvík, neðanvið Brúarlækinn og nokkru neðanvið gamla bæjarhólinn þar sem Kollsvíkurbærinn hefur staðið frá öndverðu. Að húsbyggingunni stóðu einkum Guðbjörg Ólína Guðbjartsdóttir, ekkja Torfa Jónssonar, og börn hennar, ásamt Helga og Guðmundi Gestarsonum. Verða þessar fjölmennu fjölskyldur fyrstu íbúar hússins, sem er á tveimur hæðum auk kjallara. Ný staðsetning veitir möguleika á rennandi neysluvatni.
Síðar er byggð viðbygging við húsið, með anddyri og klósettum. Í tíð Ingvars Guðbjartssonar, 1962-1972, er byggður skúr aftanvið húsið með fjósi, hlöðu og geymslu og í tíð Hilmars Össurarsonar 1983-2002 er viðbygging stækkuð nokkuð.
Verslað við þjóðir: Mikið var um erlend fiskveiðiskip á þessum tímum. Enskir togarar veiddu á grunnmiðum og franskar og færeyskar skútur einnig. Frakkar lágu gjarnan uppi á víkum eða inni á fjörðum, einkum til að bíða af sér brælu. Sjómenn komu þá iðulega í land, t.d. til að þvo flíkur sínar í einhverjum læknum. Heimamenn fóru fram í skipin og gátu þá gjarnan keypt sér öngla, sökkur og færi í skiptum fyrir prjónles. Mikið var einnig um færeyskar skútur og féll mönnum jafnvel betur að eiga við þá samskipti og verslun. (Ólafur Magnússon Hnjóti í viðtali Mbl. 08.12.1985).
Hafnarmörk við Kollsvíkurver: Ungmennafélagið Vestri vinnur nú að því að koma upp hafnarmörkum fyrir Miðleiðina í Kollsvíkurveri. Félagið byggir einnig upp vörður á Leirunum, til innsiglingar í Snorralendingu.
Frostaveturinn mikli: Fádæma frosthörkur voru á landinu í upphafi ársins. Kólnaði mjög í tíð 5. janúar og enn meira næstu daga. Víða um land var frostið 25-30 stig 21.janúar þegar kuldinn varð mestur. Eftir það gekk tíð fljótlega til venjulegra hitastigs mðað við árstíma. Þetta var í upphafi þess tíma að þjóðin var að flytja úr gömlu torf- og steinhúsunum í timburhús sem oft voru illa einangruð. Í Rauðasandshreppi voru þess dæmi að frost færi niður í 12 stig í svefnherbergjum á þessum tíma. (ÞJ; Mbl. 16.01.1974).
Látraröst undir ísum: Vetrarhörkur voru afskaplegar vestra eins og annarsstaðar í ársbyrjun. Mun það einsdæmi vera að Látraröst lagði svo langt til hafs að ekki sást í auða vök annarsstaðar en af Látraheiði, en þaðan sást blána aðeins. Á stöku stað stóðu hafísjakar eins og stór björg úr hafinu. Sést þess hvergi getið í heimildum fyrri, að röstin hafi ekki getað hrist af sér vetrarhaminn. Fimm breskir botnvörpungar lágu innifrystir um vikutíma í frostunum.
Stálfjallskolin, sem sumir höfðu aflað sér, reyndust yfileitt illa. Kenna menn því um að bestu kolin voru notuð til í gufuvélina við námurnar, en þau munu vera á við steinkol að gæðum. (Mbl, 10.03.1918).
Frostgaddur inni í húsum: "Frostaveturinn 2018 var fremur kuldalegt líf hjá mörgum vegna kulda og eldiviðarskorts. Kuldinn komst hjá okkur í -30°C og ekki var viðlit að hafa kolahita annarsstaðar en í eldhúsinu, þar sem elda þurfti matinn. Ég hafðist að mestu við í apótekinu; litlu herbergi í miðju húsi, hitað upp með olíulampa. Kuldinn á skrifstofu minni komst í -20°C og eflaust meir í bestu stofunni. Innan á veggi í herbergjum sem ekki voru daglega notuð kom þykk héla. Kol voru ófáanleg í verslunum á Patreksfirði... Í þessum eldiviðarharðindum var verið að reyna að vinna kol úr Stálfjalli. Held ég að fullyrða megi að þau reyndust lakara eldsneyti en meðalmór". (Sigurður Magnússon; Æviminningar læknis).
Þá var kalt á Látrum: Þórður Jónsson á Hvallátrum var á áttunda ári á þessum tíma og minnist þessara firnafrosta síðar: "Hafískoman varð okkur krökkum mikill viðburður, þar sem hann kom æðandi af hafi með mikilli ferð og ruddist um við kletta og sker með braki og brestum... Það var einn morgun er hreppstjórinn (Guðmundur Sigurðsson í Breiðuvík sem þar var við farkennslu) kom inn frá því að kasta af sér vatni, að hann segir við föður minn að nú muni kaldast vera. Faðir minn spyr hvað hann hafi sér til marks um það, en hreppstjórinn svarar að þvag sitt hafi verið freðið orðið og fallið í strönglum er það kom til jarðar. Faðir minn hló við og sagði að þá myndi kalt, en þó ekki kaldara en svo að brandarar hans fæddust ófreðnir, og þá væri vel. Eldiviður var nægur, en það var mest þurrkaður þöngull, klíningur, gamburmosi, oft grútarborinn og var þá talinn hitagott eldsneyti... Þá var hart út að sækja á gaddinn til gegninga. Man ég eftir að faðir minn kom eitt sinn svo fannbarinn og frosinn frá gegningunum að hann náðist ekki úr nokkurri spjör. Var þá allt samfrosta; hár, skegg, höfuðfat og trefill, sem klakaklumpur. Varð hann að vera nokkurn tíma við eldavélina þar til þiðna tók á höfði hans; var hann þá kalinn á kinnbeinum og enni, en Guðmundur hreppstjóri gerði að og þýddi". (ÞJ; Freðkögglar frá frostavetrinum 1918; Heimdragi 1972).
Albert Engilbertsson ferst í Bæjarbjargi: Í júlímánuði voru Örlygshafnarmenn og Hænvíkingar í fyglingaferð í Bæjarbjargi. Þegar þeir voru að ljúka starfi sínu og búast til heimferðar var Albert, syni Engilberts í Hænuvík, leyft að fara eina ferð niður í bjarg fyrir þrábeiðni hans. Þegar hann var dreginn upp festist fuglakippan fyrir ofan hann bakvið stein, sem síðan losnaði og féll í höfuð hans. Hann rotaðist og var látinn þegar annar sigari kom niður til hans. Albert var 19 ára. (MG; Látrabjarg).
Starf Umf Vestra til fyrirmyndar á landsvísu: "Ungmennafélagið Vestri í Kollsvík við Látrabjarg er nú um tveggja ára gamalt. Það er mjög einangrað og afskekt frá náinni samvinnu við önnur sambandsfélög í Vestfirðingafjórðungi. Næsta félag er Skjöldur í Dölum í Arnarfirði. Samt gæti þetta félag gefið ungmennum í mörgum sveitum landsins bendingu um hvernig þau ættu að nota tómstundirnar. Félagið heldur fundi tvisvar í mánuði að vetrinum, og þá kemur altaf út blað; heldur uppi söngkenslu og söng í sóknarkirkjunni. Íþróttaflokkur starfar innan félags, sem iðkar skíða- og skautaferðir, sund og glímur. Félagið er nú að koma upp glöggum hafnarmörkum í Kollavík. Þau hefir vantað, en útræði er allmikið þaðan. Tvisvar hefir félagið skotið saman nokkrum krónum handa fátækum. Sunnudaginn 4. ágúst sl. fór félagið skemtiferð inn að Vestur-Botni i Patreksfirði. Voru 42 manns í förinni, flest ungmennafélagar. Þegar inneftir kom bættust við 16 manns í hópinn, af Rauðasandi; flest félagar úr U. M. F. Von, sem er utan sambands (UMFÍ) Aðalskemtunin, þegar komið var á staðinn, varð nú hjá mörgum að skoða skógarleifar fjarðarins. Þar var og talað fyrir minni Íslands og tvær ræður fluttar við lendingarstaðinn og svo söngur og samræður; leikir og dans. Allir undu vel ferðinni og voru sammála um, að hún væri besta skemtiferðin sín, enda var líka hið allra besta veður, bæði á sjó og landi". F. (Skinfaxi 01.12.1918).
1919
Drukknun í Kollsvíkurveri: Þriðjudaginn 1. apríl drukknaði Guðmundur Össurarson frá Láganúpi í Kollsvíkurlendingu. Tildrög slyssins voru þau að nokkrir menn úr Kollsvík höfðu farið í hákarlalegu með Breiðvíkingum, og áttu hlut sinn í Breiðavíkurveri; lifur og hákarl. Á bátnum voru þessir menn: Jón Torfason, formaður og eigandi bátsins 27 ára gamall, sonur Torfa Jónssonar sem drukknaði í Kollsvík 1904; Guðmundur Össurarson frá Láganúpi 17 ára, sonur Össurar A. Guðbjartssonar og Önnu Jónsdóttur, en hún var systir Torfa; Theodór Kristjánsson frá Grundum 24 ára; Albert Kristjánsson 20 ára, bróðir hans og Helgi Árnason 30 ára.
Ferðin til Breiðavíkur gekk vel, en þegar lagt var af stað þaðan var þungur sjór en heita mátti logn. Jón Torfason telur að brotið muni hafa á Djúpboða sem er sunnarlega á Kollsvíkinni, en það var jafnan talið merki um mikla undiröldu.
Tvísjóa var; aðallega vestanalda, en ofan á hana var kominn norðansjór. Ferðin til Kollsvíkur gekk vel, og var nú rætt um hvort lifrin skyldi bundin á streng og látin útbyrðis, en ekki varð úr þeim framkvæmdum. Var þá róið upp svonefnda Syðstuleið og stýrði formaður. En þegar upp á Lagið kom reið undir ólag af norðansjó og bátnum hvolfdi. Allir komust á kjöl nema Guðmundur, sem varð þegar frálaus og náði aldrei til bátsins. Bátnum hvolfdi a.m.k. tvisvar sinnum, en síðan var hann á réttum kili og stöðugur. Mastrið hafði verið uppi og braut það gat á bátinn. Veltist nú báturinn alllengi og barst norður með landi, áður en til hans næðist. Reynt hafði verið að setja bát á flot, en það mistókst. Lík Guðmundar fannst, og var jarðsett í Breiðavík 16. apríl.
Landsyfirréttardómur um heilbrigðismál í Rauðasandshreppi: Hinn 17.11.1919 féll dómur Landsyfirréttar í málinu 56/1919: „Réttvísin gegn fræðslunefnd Rauðasandshrepps, þeim Sveini Magnússyni, Guðmundi Sigfreðssyni og Þórði Ó Thorlacius, og héraðslækni Sigurði Magnússyni“. Sækjandi var Lárus Fjeldsted en verjandi Sveinn Björnsson (síðar sendiherra og fyrsti forseti Íslands). Málavextir voru í stórum dráttum þessir: 1916 höfðu verið gefin út ný fræðslulög; ákvað stjórnarráðið að allir kennslustaðir, börn og kennarar skyldu háðir eftirliti héraðslæknis og að skóla- og fræðslunefndum bæri að óska eftir úttekt hans. Fræðslunefndinni í Rauðasandshreppi þótti þessi skoðun vandkvæðum bundin en afréðu þó að inna eftir áliti Sigurðar Magnússonar héraðslæknis. Eitt sinn um þetta leyti, er hann var staddur í lækniserindum að Króki á Rauðasandi kom fræðslunefndin að máli við hann til að ráðgast um þessi mál. Sigurður taldi sig vita að kennslustaðir sem ekki fullnægðu kröfum gætu ekki vænst styrks. Hann sagði að sér væri fullkunnugt um að fyrirhugaðir kennslustaðir væru ónothæfir og skoðun því þýðingarlaus, þó vissulega væri Krókur skástur í þessum efnum. Var því engin skoðun gerð haustið 1916. Ritaði fræðslunefndin skýrslu til stjórnarinnar þar sem farið var háðulegum orðum um kröfur þessar. Höfðaði stjórnarráðið í framhaldinu sakamál gegn fræðslunefndarmönnunum, og einnig gegn héraðslækninum. Í aukarétti Barðastrandasýslu voru nefndarmenn dæmdir í 500 kr sekt hver en læknirinn í 75 kr sekt auk málskostnaðar. Hann var auk þess dæmdur í 10 kr sekt fyrir "ósæmilegan rithátt". Landsyfirrétturinn komst að sömu niðurstöðu um nefndarmennina en sýknaði Sigurð lækni þar sem ekki yrði sagt að hann hefði synjað af ásettu ráði um eftirlitið. Sekt hans fyrir ósæmilegan rithátt var þó látin standa. (Mbl. 25.06.1920 og dómabók). "Þetta mál varð talsvert merkilegt að því leyti að það var fyrsta málið sem Einar M. Jónasson dæmdi í embættistíð sinni á Patreksfirði (vikið frá stuttu síðar); síðasta málið sem dæmt var í landsyfirrétti og loks fyrsta málið sem dæmt var í hæstarétti". (Sigurður Magnússon; Æviminningar læknis). Sigurður segist síðar hafa spurt starfsmann stjórnarráðsins hvort nægilegt væri að húsnæðið væri skoðað, þó það væri fullkomlega óforsvaranlegt sem kennslustaður, t.d. ef byggt væri yfir hlandfor. Hinn svaraði því játandi. Sigurður telur að fræðslunefndin hafi verið ranglega dæmd; hún hafi einungis farið að sínum ráðum. (s.h.).
Búnaðarfélagið Örlygur endurreist. Starfsemi Búnaðarfélagsins Örlygs hefur verið í nokkurri lægð, en það var (líklega) stofnað árið 1904. Það hefur nú verið endurreist með nýrri stjórn. Formaður er Gísli Ó. Thorlasíus bóndi og búfræðingur Saurbæ, en með honum eru Guðmundur B. Ólafsson búfræðingur Breiðuvík og séra Þorvaldur Jakobsson sóknarprestur Sauðlaukssdal. Helsta hlutverk félagsins er að hvetja til jarðabóta og sjá um úttekt á þeim. Jarðabætur felast einkum í girðingu þúfnaslétta og gerð áveitna, þar sem svo hentar.
Félagðið sá um kaup á tilbúnum áburði fyrir félagsmenn; fyrst 300 kíló af kalíi árið 1921, en notkunin jókst ört og árið 1932 voru keypt inn 3,8 tonn. Árið 1923 gekk Bf. Örlygur í Búnaðarsamband Vestfjarða. Sauðfjársýningar voru haldnar og búnaðarnámskeið til hvatningar fyrir bændur og bændaefni. Árið 1926 voru, að tilhlutan félagsins, keyptir hrútar til tynbóta á sauðfé, en umdeilanlegt er hver árangur varð af því framtaki. Árið 1945 var kjörinn fulltrúi á stéttarsamband bænda; sjá þar. (ÖG; Rauðasandshreppur).
Gulstörin í Saurbæ: Í Saurbæ á Rauðasandi hafa verið gerð mikil áveitumannvirki. Áveiturnar þar í Fitinni eru taldar eitt gjöfulasta slægjuland á Vestfjörðum, og þótt víðar væri leitað. forgöngumenn um þær voru bræðurnir Gísli og Þórður Thorlasíus. Til marks um gróskuna er þessi saga: Það var einhverju sinni að vetrungskvíga slapp inn á áveitulandið í byrjun sláttar, og varð notkkur eltingarleikur að ná henni af slægjulandinu. Hljóp hún um með uppsperrtan hala, og þar sem hún fór um slægjulandið sást aðeins halinn tilsýndar; svo há var gulstörin. (ÖG; Rauðasandshreppur).
1920
Byggð og bú í hreppnum: Í Rauðasandshreppi eru nú 435 íbúar og 62 jarðir í byggð. Meðal bústærð er 47 kindur; 2 nautgripir og 1,7 hestar. Meðalstærð túna á bæ er 2,1 ha sem gefa 67 hesta af töðu. (Sjá til samanb. 1955). (Páll Zophaníasson; Tíminn 13.09.1957).
Mælingar og kortlagning túna og garðlands: Þórður Ó. Thorlacius í Saurbæ, sem er búfræðimenntaður frá Ólafsdal, hefur nú gert túnakort fyrir jarðir í V-Barðastrandasýslu, með teikningum af nytjalandi og garðlendum ásamt mælingum.
Túnakort Þórðar eru merk heimild um búskap og staðhætti á jörðum á þessum tíma. Þórður (14.02.1868-04.09.1931) var hálfbróðir Ólafs Ó. Thorlacius "eldra" bónda í Saurbæ. Þórður átti þar heimili og var með eigin búskap um tíma; nytjaði þá jarðirnar Krókshús og Bröttuhlíð. 1918-19 bjó hann á Bakka í Arnarfirði og árið eftir á Hóli hjá Bíldudal. Hann veitti bændum ráðgjöf, m.a. um áveitugerð; var barnakennari og um tíma oddviti Rauðasandshrepps. Næsta átak í túnamælingum í V-Barð var líklega þegar Össur Guðbjartsson vann að þeim, eftir að hann lauk framhaldsnámi á Hvanneyri um 1950.
Formenn og bátar í Kollsvíkurveri: (Skrá KJK í „Kollsvíkurver“ með viðbótum annarra heimilda. Heildarskrá sem nær yfir fjölmörg ár; líklega frá aldamótum til 1920).
Heimamenn (19):
Torfi Jónsson, bóndi í Kollsvík – Iðunn
Jón Torfason, bóndi í Kollsvík
Guðbjartur Torfason, bóndi í Kollsvík – Gefjun
Össur Guðbjartsson, bóndi í Kollsvík – Guðrún
Valdimar Össurarson, búlaus í Kollsvík – Svala
Gísli Guðbjartsson, bjó litlu búi í Kollsv – Björg
Helgi Gestsson, seinna b. í Kollsv – Svanur
Karl Kristjánsson, búlaus í Kollsvík – Penta
Andrés Karlsson, búlaus í Kollsv - Guðrún nr 4
Þórarinn Bjarnason, búl. Grundum – Jóhanna
Ólafur Halldórsson, búlaus á Grundum – Ruth
Guðbjartur Guðbjartsson, á Láganúpi - Ruth
Kristján Ásbjörnsson, b. á Grundum – Heppinn
Albert Kristjánss, búlaus Grundum - Heppinn
Kristján Júlíus Kristjánsson, b. Grund – Elliði
Ólafur Ásbjörnsson, bóndi á Láganúpi – Kristín
Helgi Árnason, þá búlaus á Grundum – Freyja
Árni Árnason, þá búlaus á Grundum – Ester
Magnús Jónsson, búlaus í Kollsvíkurveri - Nói
Grímur Árnason, bóndi á Grundum – Hnísa
Aðkomumenn (30):
Gestur Jónsson, búlaus á Hvallátrum
Ólafur Guðbjartsson, b. Hænuvík – Reytingur
Jón Ívarsson, bóndi í Hænuvík – Hænir
Engilbert Jóhannsson, búlaus í Hænuvík
Ólafur Pétursson, bóndi á Sellátranesi
Davíð Jónsson, búlaus á Kóngsengi
Sigurbjörn Guðjónsson, b. Geitagili – Þokki
Magnús Árnason, bóndi á Hnjóti - Iðunn nr 1
Árni Magnússon, bóndi á Hnjóti – Þoka
Jón Á. Thoroddsen, bóndi í Kvígindisdal
Árni Dagbjartsson, búlaus í Kvígindisdal
Páll Bjarnason, búlaus í Kvígindisdal
Magnús Kristjánsson, bóndi á Hvalskeri
Gísli Gíslason, búlaus á Sjöundá, síðar Hvammi
Ólafur Ó. Thorlacius, búlaus í Saurbæ
Jón Guðmundsson, búlaus í Króki
Helgi Guðbrandsson, búlaus á Hvalskeri
Jens Jónsson, búlaus á Patreksfirði
Árni Arentsson, bóndi í Höfðadal, Tálknafirði
Sigurgarður Sturluson, b. Eysteinseyri – Hylas
Þórður Marteinsson, bóndi í Fit – Lára
Einar Jónsson, bóndi á Haukabergi – Fluga
Þorgrímur Ólafsson, bóndi í Miðhlíð – Dvalinn
Kristján Ólafsson, bóndi á Brekkuvelli
Hákon Kristófersson, bóndi í Haga, Barðastönd
Þórarinn Fjeldsted, bóndi í Tungumúla
Kristmundur Guðmundsson, bóndi í Hvammi
Ingimundur Halldórsson, búl. Keflavík – Björg
Guðmundur Ólafsson, búl. Sauðlauksdal - sami
Stærð báta í Barðastrandasýslu: Samkvæmt yfirliti skipaskrár á þessum árum er fjöldi árabáta í Barðastrandasýslu sem hér segir: Áttæringur 1; sexæringar 12 og feræringar 50. Af feræringunum voru 17 smíðaðir fyrir aldamót en hinir 1900-1907. Elsti feræringurinn var smíðaður í Kollsvík 1839 og var 20,7 fet á lengd (6,50m). (Ekki víst um smiðinn; hugsanlega Halldór Einarsson í Kollsvík). Hvergi á landinu eru fleiri feræringar nema í Gullbringusýslu, og eru bátar í Barðastr.sýslu allajafna minni en að meðaltali á landinu. Helgast það eflaust af því að stutt er á fiskimið og vegur það þyngra að bátar séu léttir á höndum í setningu. (LK; Ísl.sjávarh. II).
Nýr Fönix smíðaður fyrir Kollsvíkinga: Útvegsbændur í Kollsvík hafa sameinast um að láta smíða fyrir sig þriggja tonna vélbát sem notaður verður til flutninga á salti, fiskafurðum, kúfiski til beitu og öðru. Smiðurinn er Gísli Jóhannsson á Bíldudal. Í bátinn var sett Ford-bílvél. Báturinn ber nafn eldra Fönix, sem var hákarlaskip Kollsvíkinga, en hann var rifinn um síðustu aldamót eftir farsæla útgerð. Naust gamla Fönix fyrir miðri lendingunni í Kollsvíkurveri var niður fallið, en það hefur nú verið endurbyggt fyrir þennan bát.
Kristján Júlíus Kristjánsson á Grundum mun oft hafa verið skipstjóri á Fönix. Uppúr 1930 hafði útgerð í Kollsvíkurveri mjög dregist saman og var Fönix þá seldur tveimur Kollsvíkingum sem fluttu á Patreksfjörð; Guðmundi Gestarsyni og Andrési Karlssyni. Eftir að báturinn eyðilagðist var lami vélarinnar úr honum um tíma á Hvalskeri. (KJK; AÍ o.fl). Þó ekki sé það alveg öruggt, þá er það líklega þessi sami Fönix sem um ræðir í eftirfarandi: "„Að kvöldi 14. oktober 1933 rak vjelbátinn “Fönix” (stærð um 4 tonn) af Patreksfjarðarhöfn og yfir í Örlygshöfn. Báturinn var mannlaus. Bæði bátur og vjel gjöreyðilagðist. Hann var óvátrygður. Síðastliðinn vetur var báturinn stokkaður og yfirbygður. Tjónið taldist 5-6 þúsund kr“. (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen). Eftir þetta smíðaði Andrés trillubátinn Farsæl og gerði hann út frá Patreksfirði til æviloka, en Guðmundur var smiður á Patreksfirði.
Síðasta hákarlalegan: Það var í apríl 1920 að síðasta hákarlalegan var farin frá Breiðavík og Hvallátrum. Farið var á bátnum Hrefnu í eigu Jóns Guðjónssonar í Breiðuvík, og var hann formaður. Sjö voru í ferðinni; allt bátaformenn; fjórir voru úr Kollsvík en þrír úr Breiðuvík. Í samfloti voru Látramenn á bátnum Kópi; formaður Erlendur Kristjánsson. Slæmt veður brast á og þurfti Hrefnan að lenda í Fjarðarhorni, en Kópurinn hleypti undan og inn á Patreksfjörð eftir að hafa snúið frá lendingu í Kollsvík. (Jón Guðjónsson; Síðasta hákarlalegan; birtist í Geisla Bíldudal). (Sjá þó 1922).
Vöruflutningar Víkings með mótorbátum: Fiskideildin Víkingur hefur séð um vöruflutninga sjóleiðis í Rauðasandshrepp með mótorbátum félagsmanna. „Hefir deildin einkum haft með höndum útvegun og umsjón báts, er annast vöruflutning í Rauðasandshreppi. Hefir verið veittur úr ríkissjóði nokkur styrkur til báts þessa, sem er til hins mesta hagræðis fyrir hreppsbúa, einkum Víkurmenn. Af Rauðasandi er aldrei á sjó farið, hvorki til fiskjar né aðdrátta. Flutningabáturinn flytur vörurnar yfir fjörðinn nálægt Sauðlauksdal, og siðan eru þær fluttar á hestum eða sleða að vetri til yfir fjallið, og er það fremur stuttur vegur“. (Ægir 01.07.1922). Sækir deildin aftur um styrk á næsta ári til Stjórnarráðs Íslands, eins og fram kemur í bréfi Helga Árnasonar og Jóns Guðjónssonar 13.12.1920, en unnið verk vottar f.h. hreppsnefndar; Þórarinn Bjarnason.
Í gömlum pappírum Rauðasandshrepps má sjá að 6 bátaeigendur í Rauðasandshreppi bjóða í vöruflutninga í Rauðasandshreppi 1921 án þess að þeir séu nafngreindir. Tveir bátanna (E.t.v. Fönix og Kópur) eru með 6 ha vélar; 4 og 3,5 tonn, en hinir 4 eru með 2,5 ha vélar; 1,5-2,5 tonn að stærð. (AÍ; Árbók Barð 1980-90 og 2012).
Jón Arason strandar í Örlygshöfn: Að kvöldi 04.02.1920 hélt flutningaskipið Jón Arason frá Bíldudal, lestað 38 tonnum af saltfiski í eigu Kveldúlfsfélagsins; en Jón Arason er eign Edvalds Sæmundsens á Blönduósi og leigt af G.K. Guðmundsson í Reykjavík. Morguninn eftir, er skipið kom suðurfyrir Kóp, var kominn NA-stormur og stórhríð. Andrés Sveinbjarnarson skipstjóri ákvað þá að bíða af sér veðrið áður en haldið væri í röstina. Lagði hann skipinu við stjóra þá um morguninn í Gjögrabót; að því er hann síðar sagði á þriggja faðma dýpi; 2-300 faðma frá landi; hérumbil fyrir miðju Tungurifinu; og vísaði stefni þá í NV. 30 faðmar af akkeriskeðju voru úti, og þegar vindur gekk til austurs er leið á morguninn sá skipstjóri að skipið var á of grunnu vatni. Ekki var þó fyrr búið að hita upp vélina en skipið stóð á grunni. Engin festa reyndist á sandbotninum fyrir varpakkeri sem lögð voru fram af skipinu, og stýrishællinn brotnaði. Um fjöruna stóð skipið nær á þurru. Þá var vindur orðinn af NA og braut á flötu skipinu. Innan af Patreksfirði varð vart við vandræði skipsins og fékk Ólafur konsúll Jóhannesson breska togarann Mary Johnson, sem þar lá, til að fara til aðstoðar. Togarinn lagðist við akkeri og tókst með spilvindu og skrúfuátaki að draga Jón Arason af strandstað og síðan til Patreksfjarðar. Eftirmál urðu af strandinu, og krafðist togarinn hárra björgunarlauna. Undirréttur, sem og hæstiréttur, dæmdi útgerð Jóns Arasonar til greiðslu á 10.000 kr í björgunarlaun auk málskostnaðar, en skip og afli var virt á meira en tífalda þá upphæð. (Mbl. 19.02.1924).
Húslestrar í Kollsvík: Á þessum árum er þeirri kristilegu venju enn við haldið að lesa húslestra, eins og kemur fram í frásögn Einar Guðbjartssonar frá Láganúpi: „Það má geta þess hér að húslestur var þá lesinn á hverjum helgidegi árið um kring. Það hygg ég að hafi verið að mestu tilviljun háð hvaða postilla var lesin á hverju heimili. Pabbi átti og las húslestrabók Helga lektors Hálfdánarsonar. Tveir bræður pabba bjuggu þarna í Kollsvíkinni, Össur á Láganúpi og Gísli á Grænumýri. Össur las postillu dr. Péturs Péturssonar, biskups, en Gísli Vídalínspostillu, enda var hann elstur þeirra bræðra. Aldrei mun það hafa hvarflað að þeim bræðrum að hafa skipti á bókum þó að þeir iðkuðu þessa guðrækni áratugum saman, eða allt þar til útvarpsmessurnar bundu endi þar á. Sálmar voru alltaf lesnir eða sungnir fyrir og eftir hvern lestur og fór það eftir sönghæfni fólks hvort sungið var eða lesið. (EG; Hátíðir og merkisdagar).
1921
Croupier strandar við Blakknes: Enskur togari standaði undir Blakknesi, norðan Kollsvíkur, 2. febrúar 1921. Veður var suðvestan kafaldskóf; hæglætisveður en ylgja í sjó (sjósmár).
Skipið strandaði að nóttu til, og urðu menn ekki varir við strandið fyrr en um morguninn. En þá sáu menn í Kollsvík strandað skip á Blakknesboða, sem er 200 m framanvið Blakknes. Heimamenn brugðu strax við um morguninn og reyndu að komast á strandstað. Ófært reyndist á sjó sökum brims og einnig á landi vegna bleytu og klaka. Reyndu menn að fara norður Hryggi, en það er brött fjallshlíð í Blakknesinu. Þessi leið reyndist ófær með öllu fyrir klaka. Fjöruna var ekki hægt að fara á strandstað þar sem svokallaður Helluvogur er á þeirri leið, en þar fellur sjór í berg. Er menn höfðu kannað hugsanlegar leiðir var orðið áliðið dags og var nú ákveðið að fresta frekari tilraunum til næsta dags.
Snemma morguns næsta dag bjuggu menn sig til ferðar og höfðu með sér sigvaði og annan búnað til að fara í kletta. Var nú með í för Guðmundur Sigfreðsson hreppsstjóri, í Króki á Rauðasandi. Farið var sömu leið og daginn áður; norður fjöruna sem komist var; norður að Helluvogi og þaðan klöngrast upp í Hryggi og norður fyrir voginn. Þaðan var sigið niður í fjöruna, sem er um 25 metra sig, og fjaran gengin þaðan að strandstað. Var þarna ömurleg aðkoma; lík skipverja dreifð um fjöruna, innan um stórgrýtið. Urðu menn að hafa hraðann á að bjarga líkunum undan sjó, því aðfall var en sjór fellur í berg þarna. Líkin voru borin upp að berginu þar sem hærra bar, og búið um þau með seglum sem fundust í fjörunni. Sneru menn síðan heim á leið og var torfarið lausum mönnum. Ákveðið var að ná líkunum strax og veður leyfði, en sá flutningur var ekki gerlegur nema á sjó. Ekki gaf að sækja líkin fyrr en á útmánuðum vegna veðra og sjógangs. Aðstaða til að koma líkunum út í bátana reyndist mjög erfið, og varð að taka þau á vaðdrætti um borð. Var búið um hvert lík í hessíanstriga; það bundið ofan á fjöl og síðan dregið fram í bátana. Þannig umbúin voru líkin flutt inn á Vatneyri.
Togarinn Croupier GY 271 var 302 brúttótonn að stærð; 41 m að lengd; 7 m að breidd, smíðaður 1914 af Cochrane and Sons Shipbuilders Ltd Shelby, og gerður út frá Grimsby af Anchor Steam Fishing Co Ltd. Togarinn hélt til veiða frá Grimsby 10. janúar 2021, í þriggja vikna túr. Veiðiferðinni var lokið, og var togarinn að búast til heimferðar þegar slysið varð. Togarinn brotnaði fljótt í tvennt á strandstað og á síðari tímum sést ekkert eftir af flakinu.
Maður drukknar við Bjarnarnúp: Hinn 27. maí voru þeir saman í róðri, Árni Árnason húsmaður á Hvallátrum og Guðbjartur Þorgrímsson bóndi á Hvallátrum. Voru þeir á svonefndum Flosa, sem er aðallega steinbítsmið á Látravík. Þennan dag var gott sjóveður; fremur hægur suðaustanvindur, en í þeirri átt er oft nokkuð misvinda fram af Núpnum. Þegar í land var haldið sigldu þeir Árni og Guðbjartur eins og tók norður undir Bjarnarnúp og ætluðu síðan að taka annan bóg suður eftir. Þegar borið var um var ekki meira kul en það að þeir ákváðu að róa báðir undir og binda skautið. Tveir sandpokar voru í skektunni, og stakk Árni upp á því að hella útbyrðis úr þeim poka sem í framrúmi var, svo að báturinn yrði léttari til róðurs; var það gert. Ekkert bar svo til tíðinda, fyrr en allt í einu að vindhviða skellti bátnum á hliðina og fór hann þegar á hvolf. Guðbjartur losaði dragreipið er hann sá hvað verða vildi, en það var um seinan. Guðbjartur náði þegar taki á bátnum og komst á kjöl en Árni, sem reri í afturrúmi, lenti svo langt frá bátnum að hann náði ekki til hans og drukknaði. Á Rifinu var verið að setja bát upp, en óðara brugðið við og haldið í átt að slysstaðnum. Guðbjartur var fluttur í land, en síðan var báturinn sóttur. (TÓ; Sjóslysaannáll).
Togarinn Euripides strandar í Hænuvík:
Hinn 05.03.1921 strandaði botnvörpungurinn Euripides frá Hull í Hænuvík. Skipverjar voru 15 talsins og drukknuðu 3 þeirra, en hinir komust af við illan leik; var bjargað á streng í land (ES).
Hvassviðri og kafaldskóf var er strandið varð. Heimamenn í Hænuvík urðu strandsins varir og fóru strax á strandstað. Skipið var skammt undan landi, en sífellt braut yfir það í haugabrimi sem þarna var. Skipverjar voru komnir fram á hvalbak og tókst að koma belg í land, með áfastri línu sem heimamenn festu þar í fjörunni. Vegna veltu skipsins var ýmist slaki eða strekkur á línunni, en skipverjar fikruðu sig eftir henni í land. Sex misstu handfestu á leiðinni og tókst að bjarga þremur þeirra, en þrír drukknuðu. Þeir voru jarðsettir á Patreksfirði 16.03.1921. (Vestfirskir slysadagar). Björgunarskipið Geir fór vestur til að reyna að bjarga skipinu, en það reyndist ekki unnt. (Mbl. 08.03.1921). Geir mun þó hafa losað skipið, en það sökk skammt undan vörinni.
Togarinn var 307 brúttótonn; 42,7m langur; byggður 1907; með þriggjaþrepa gufuvél. Hafði verið tekinn til hernaðarnota í stríðinu en nýlega aftur kominn til fiskveiða. Þeir sem fórust voru: John Blackman, 31 árs 3.stýrimaður; William Fale, 50 ára bátsmaður og George Holroyd 22 ára háseti. (wrecksite.eu).
Breska stjórnin veitti síðar þremur heimamönnum sérstaka viðurkenningu fyrir ötula framgöngu við björgunina. Þeir voru; Ástráður Ólafsson, Ólafur Guðbjartsson og Engilbert Jóhannesson. (Vestf. slysadagar). Togarinn sökk beint fram af lendingunni og var til skamms tíma talið varasamt að sigla yfir það, þar sem grunnt er á því. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur rannsakaði flakið á botninum 2011 með „side-scan-sonar“, án köfunar. Flakið er um 800 metrum frá landi, NA af Hænuvík á 5-15 m dýpi, en þarna er allmikill þaraskógur með sandblettum á milli. Stór stykki eru dreifð um botninn; eitt þeirra líklega ketillinn.
Stofnað Lestrarfélagið Bernskan í Rauðasandshreppi: Stofnað hefur verið lestrarfélagið Bernskan, með starfssvæði í Rauðasandshreppi. Tilgangur þess er einkum að veita börnum og unglingum hægan og ódýran aðgang að bókum við þeirra hæfi. Stjórnun félagsins er í höndum kennara hreppsins hverju sinni, sem velur einn með sér. Félagið skiptist í þrjár deildir eftir sóknarskiptingu hreppsins. Fyrstu stjórnendur félagsins eru Valdimar Össurarson (eldri) í Kollsvík og Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni. 31 félagi er skráður í byrjun og skráðir eru um 100 bókartitlar auk áskrifta að ýmsum tímaritum.
Lestrarfélag Sauðlauksdalssóknar var stofnað 1924 og var í umsjón Ólafs Magnússonar á Hnjóti.
Sundlaug í Kollsvík: Ungmennafélagið Vestri gerði sundlaug í Kollsvík sl vor; 50 metra langa, og var þar kennt sund 3.-16. júlí. Fastir nemendur voru 12 drengir en auk þess 4 fullorðnir við og við. Kennari var Valdimar Össurarson (eldri) í Kollsvík. Sýslusjóður Barðastr.sýslu veitti kr 120,00 til kennslunnar. Tíðin var óhagstæð; miklar rigningar. (Skinfaxi 01.11.1921).
Einnig kenndi Valdimar í ístjörn á Geirseyri þetta sumar; sami nemendafjöldi. Sundlaugin í Kollsvík er norðan við Miðlækinn, til móts við Grund (Júllamel). Þar mótar enn (2020) fyrir stíflu sem gerð var í lækinn til að veita honum norður í melaskarð sem þjónaði sem sundlaug.
Sjöundá leggst í eyði: Búskap er nú lokið á Sjöundá á Rauðasandi, en þar hefur verið byggð frá fyrstu tímum. Um 1800 var þar tvíbýli. "Útbeit er þar ágæt og fjörubeit góð; tún lítil en grasgefin". (PJ; Barðstrendingabók). Síðast bjuggu á Sjöundá Egill Árnason (01.06.1862-07.05.1932) og Jónína Helga Gísladóttir (13.12.1862-15.06.1930). (Dóttir þeirra var m.a. Ólafía Egilsdóttir á Hnjóti).
Hnjótshólar í eyði: Búskap er lokið á kotinu Hnjótshólum, neðan Hnjótsbæja, en þar hófst byggð 1900. Síðust bjuggu á Hnjótshólum Jónas Jónsson og Jóna Valgerður Jónsdóttur (Torfasonar), en þau flytja nú að Keflavík.
Tilbúinn áburður á tún bænda: Þetta vor fá bændur í Rauðasandshreppi í fyrsta sinn tilbúinn áburð á tún sín. Búnaðarfélagið Örlygur hefur nú pantað 300 kg af kalíi í tilraunaskyni.
Annaðist félagið síðan útvegun áburðar fyrir félagsmenn um nokkurra ára skeið og fór notkun hans ört vaxandi. Árið 1932 voru keypt 3,8 tonn. Síðar fengu bændur áburð gegnum kaupfélög sín. (ÖG; Rauðasandshreppur).
1922
Fréttir úr Verinu: „Helsta veiðistöð í hreppnum er Kollsvík. Hafa róið þaðan fyrir nokkrum árum 20-24 bátar þegar flestir hafa verið á vorvertíð; en hin síðari ár fækkaði þeim, einkum yfir stríðsárin, því þá var fiskisældin jöfn inn til fjarða sem út til nesja og reru því margir í heimræði sem áður fluttu í verstöð. (Kristján Júl. Kristjánsson; Verk að vinna Ægir 1922).
„Úr Víkum ganga um 50 bátar með um 160 skipverjum“ (Tímarit Verkfr.félags Íslands; 1.tbl.1922).
Fiskideildin Víkingur: „Þegar við komum að Breiðuvík voru karlmenn þaðan allir í hákarlalegu, en komu heim seint um kvöldið. Höfðu þeir haft rúmlega sólarhrings útivist á litlum vélbát, sunnan við Látrabjarg, en öfluðu aðeins fáa fiska. Sama var um Látramenn er voru samtímis að veiðum á sömu slóðum. (Ljóst er því að eitthvað var róið í hákarl oftar en greinir í frásögn JG 1920).
Útvegur úr Víkum var sl vor sem hér segir; Frá Látrum 4 bátar; frá Breiðuvík 3; frá Kollsvík 8 og frá Hænuvík 5 bátar. Ennfremur 1 bátur úr Örlygshöfn“. (Kristján Jónsson Garðstöðum, erindreki Fiskifélagsins; Ægir 1922).
„Í gömlum skjölum frá Rauðasandshreppi er getið um Fiskideildina Víking, sem eflaust hefur verið deild í Fiskifélagi Íslands. Einnig er getið um Mótorbátafélagið, sem mun hafa starfað á undan Víkingi… Bæði þessi félög eru greinilega starfandi í Rauðasandshreppi fyrir og um 1920. Í Dverg, blaði ungmennafélagsins á Rauðasandi getur Ívar Ívarsson þess í annál 1919 að Mótorbátafélagið hafi verið lagt niður sakir ósamkomulags. Virðist það hafa haft á sínum snærum tvo litla dekkbáta sem staðsettir hafa verið á Patreksfirði en lotið yfirráðum manna í Útvíkum. Þeir hafa verið gerðir út til fiskjar en einnig staðið til boða til flutninga í Rauðasandshreppi“. (Ari Ívarsson; Árbók Barð 1980-90).
Fiskifélagið Víkingur fundar: Í Ægi 1923 birtist fundargerð aðalfundar „Fiskifélagsdeildarinnar Víkings í Rauðasandshreppi“ að Grundum í Kollsvík. Formaður Jón Guðjónsson nefndi til fundarstjóra Kristján Júlíus Kristjánsson og ritara Þórarin Bjarnason. Málefni m.a: Yfirskoðaður ársreikningur samþykktur. Í aðalstjórn kosnir; Jón Guðjónsson Breiðuvík, Kr.Júl Kristjánsson Grundum og Daníel Eggertsson Látrum; varamaður Haraldur Ólafsson Breiðuvík; endurskoðendur Guðm.B. Ólafsson Breiðuvík og Þeodór Kristjánsson Grundum. Ekki ályktað um ádráttarnót (snurrvoð) að svo stöddu. Skorað á stjórn Fiskifélagsins að beita sér um hröðun símalagningar í Rauðasandshreppi. Falast eftir styrk Fiskifélagsins kr 1000 til lendingabóta á ýmsum stöðum í hreppnum. Fiskideildin mun sjá um dreifingu á blaðinu Ægi til kaupenda.
Brimlending: Fyrsta róðarardag vertíðarinnar var veðurútlit ekki gott en þó reru einhverjir bátar úr Kollsvíkurveri. Allir drógu þó upp eftir fyrstu lögn nema Valdimar Össurarson sem þá reri við þriðja mann; hann beitti úr aftur. Þeir lentu í festum í drætti og urðu seinir í land, en þá hafði brimað svo að allstaðar virtist ólendandi. Var þeim að lokum bent til lendingar við Þórðarklett, norðan Versins, og lánaðist sæmilega, þó dragið gengi undan bátnum. (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri og TÖ frásögn á Ísmús). (Gæti eins vel hafa skeð 1923 eða 1924).
Séra Þorsteinn Kristjánsson vígist að Sauðlauksdal: Séra Þorsteinn Kristjánsson (31.08.1891-18.02.1943) var áður prestur að Breiðabólstað á Skógaströnd. Kona hans er Guðrún Petrea Jónsdóttir.
Séra Þorsteinn drukknaði á leið til Reykjavíkur með vélskipinu Þormóði. Hann þótti farsæll í starfi sínu; einn af fremstu kennimönnum landsins; ágætur ræðumaður; söngmaður; hagmæltur og lagði mikla áherslu á kristindómsfræðslu barna. Þau hjón áttu 5 börn.
Öflugt skólastarf: Farskólinn í Rauðasandshreppi hefur starfað af miklum krafti veturinn 1921-22 eins og endranær. 37 börn í hreppnum hafa notið leiðsagnar kennarans Valdimars Össurarsonar frá Kollsvík. Þar af eru 12 úr Útvíkum sem lært hafa í Kollsvík; 12 í Örlygshöfn og 13 á Rauðasandi. Valdimar hefur stundað búskap og róðra í Kollsvík, en einnig verið frumkvöðull í sundkennslu og félagsstarfi, t.d. í ungmennafélögunum. Nemendur farskólans eru á aldrinum 9 til 14 ára. Í Kollsvík eru þeir þessir: Einar T. Guðbjartsson 10 ára; Guðmundur Ásgeir Erlendsson 12; Guðrún Össurardóttir 11; Gunnar Össurarson 9; Ingólfur J. Þórarinsson 13; Jónína G. Kristjánsdóttir 10; Jóna H. Jónsdóttir 13; Kristín Jónasardóttir 14; Matthías Karlsson 13; Þórður Jónsson 11; Kristinn Kristjánsson 10 og Valgerður Jónasardóttir 11 ára. Í Örlygshöfn voru þessir nemendur: Eiríkur Áki Hjálmarsson 14 ára; Fríða Guðbjartsdóttir 12; Guðmundur Jón Hákonarson 12; Hjörtur Bæringsson 11; Hermann Bæringsson 13; Jóna S.H. Hjálmarsdóttir 11; Oddur B. Ólafsson 10; Pétur Ólafsson 13; Valgerður Ó. Ingimundardóttir 12; Sigríður Ólafsdóttir 14; Svava Ólafsdóttir 11 og Þorvaldur Ólafsson 12 ára. Á Rauðasandi lærðu þessi börn: Árni J.I. Egilsson 13 ára; Einar Júlíus Dagbjartsson 14; G. Benóný Sveinsson 14; Guðrún Halldórsdóttir 13; Ingimundur B. Halldórsson 11; Halldór Dagbjartsson 10; Brynjólfur G. Jónsson 14; Sigurður Jónsson 10; Trausti Jónsson 14; Þorsteinn Dagbjartsson 11; Benjamín Júlíusson 13; Guðmunda Jónsdóttir 13 og Þ. Valgerður Jónsdóttir 10 ára.
Hæstu aðaleinkunn á vorprófum, eða 7,0 fengu þessir nemendur: Einar T. Guðbjartsson, Guðrún Össurardóttir, Gunnar Össurarson, Kristinn Kritjánsson, Valgerður Jónasardóttir, Eiríkur Áki Hjálmarsson, Hjörtur Bæringsson, Jóna S.H. Hjálmarsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Þorvaldur Ólafsson, Árni J.I. Egilsson og Brynjólfur G. Jónsson. (Handskrifaðir einkunnalistar VÖ).
Vorið 1923 voru nemendur 35 talsins; 1924 voru þeir aftur 37, en hafði fækkað í 31 árið 1925. Það var síðasti kennsluvetur Valdimars í Rauðasandshreppi, en hann fór í eins árs nám í Noregi; var kennari við Núpsskóla nokkra vetur, en síðan kennari og skólastjóri Sandgerðisskóla. Næsti farkennari í Rauðasandshreppi var Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni. Farkennsla hófst í Rauðasandshreppi 1888 (sjá þar), og var fyrsti kennarinn Bjarni Bjarnason. Síðasti farkennarinn var Þorkell Hjaltason árið 1966 (sjá þar), og þá var öllum börnum hreppsins kennt í Kollsvík. Næsta skólavetur var tekinn í notkun nýbyggður skóli við Fagrahvamm í Örlygshöfn.
1923
Stofnað Tóbaksbindindisfélag Rauðasandshrepps: Félagið var stofnað 16.03.1923. Helsti hvatamaður þess og forvígismaður er Valdimar Össurarson (eldri) í Kollsvík. Tilgangur þess er sá sem nafnið gefur til kynna, og geta allir 12 ára og eldri gengið í það. Kennari hreppsins skal vera formaður. Sá félagsmaður sem verður uppvís að neyslu tóbaks fær í fyrstu áminningu. Geri hann það þrisvar á ári skal hann annaðhvort iðrast skriflega eða eiga á hættu að vera skráður í „tölu hinna seku“, sem auglýsa skal árlega í sóknarkirkju. Hugsjón félagsins er sú að árið 2000 neyti enginn tóbaks í sveitinni.
Segja má að þessi markmið félagsins fyrir árið 2000 hafi náðst, þó félagið væri þá fyrir löngu liðið undir lok. Fækkun reykingamanna leiddi bæði af því að tíminn leiddi í ljós hina miklu skaðsemi tóbaksnotkunar sem framsýnir bindindismenn héldu fram, en ekki síður af hinum gríðarlega fólksflótta úr byggðarlaginu. "Listi hinna seku" er því all stuttur (2020).
Búskap lokið á Kóngsengjum: Ármann Guðfreðsson hefur nú brugðið búi á Kóngsengjum og flutt að Geitagili. Við það fara Kóngsengjar í eyði, en þar hófst byggð 1903 (sjá þar).
1924
Fréttir úr Verinu: "Kollsvík er fjölmennasta verstöð hreppsins og hefir svo verið frá öndverðu. Vikur hafa ávalt verið fengsælar veiðistöðvar á vorvertiðinni, og hafa þær öll skilyrði til þess að svo verði framvegis. Fiskimið Víkurmanna, að minsta kosti Kollsvíkinga, eru og betur sett en annara þarna vestur frá, að því leyti að þau eru umgirt hraunklöppum, svo að togarar geta eigi verið þar að veiðum og ókunnir menn munu vart geta lagt þar lóðir vegna þess að þræða verður all-námkvæm mið til þess að lenda ekki i "hraunfestum". Það sem mest háir Víkurmönnum við sjósókn og aðdrætti eru ófullkomnir lendingarstaðir. Má geta því nærri að það er æði ömurlegt að komast ekki úr vör, þótt sæmilegt veður sé og vissa fyrir góðum afla, vegna brima, og að eiga það á hættu að geta eigi tekið land fyr en ef til vill inn i Patreksfirði, ef alda vex, þótt annars sé eigi stormur að ráði. Lendingarnar i Breiðuvík og Látrum eru þannig frá náttúrunnar hendi, að eigi mun tiltækilegt að bæta þær að ráði. Greinileg leiðarmerki hafa verið sett þar upp, og meira er ekki tiltækilegt að gera. Aftur á móti virðist með litlum kostnaði unt að gera nokkurn veginn örugga lending í Kollsvík. Þar er léleg lending við verbúðirnar, er spillist af sandburði eins og annarsstaðar í víkum. En nokkru utar er svonefnd "Snorralending", sem er góð lending um hásjávað, en í miðri leiðinni upp er hraunklöpp, sem ávalt brýtur á þegar öldurót er og sjór lækkar. Er hin mesta nauðsyn fyrir Kollsvíkinga að fá þarna góða lendingu. Vil ég skjóta því til stjórnar Fiskifélagsins, að bregðast vel við, ef Víkurmenn sækja um styrk til framkvæmda þessu verki. Munu hlutaðeigendur leggja fram vinnu við verkið, og hygg ég, að kostnaður við það yrði mjög litill". (KJ; skýrsla erindreka Fiskifélagsins í Vestfirðingafjórðungi; Ægir 01.04.1925).
Pöntunarfélag Rauðasandshrepps gjaldþrota: Pöntunarfélag Rauðasandshrepps, sem stofnað var 1908 og starfað hefur í hinum forna Rauðasandshreppi, hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta eftir margháttaða rekstrarerfiðleika. Félagið var aðili að Sambandi Íslenskra samvinnufélaga sem hefur, með dómi dags. 06.08.1924, fengið sér dæmdar kröfur á félagsmenn. Veldur þetta gríðarlegum fjárhagslegum skaða þeim sem þarna eiga í hlut, en þeir eru þessir úr hinum nýja Rauðasandshreppi: Össur Guðbjartsson (eldri) Láganúpi, Theodór Kristjánsson Grundum, Kristján Ásbjörnsson Grundum, Þórarinn Bjarnason Grundum, Karl H. Kristjánsson Stekkjarmel, Gísli Guðbjartsson Kollsvík, Guðbjörg Guðbjartsdóttir Kollsvík, Gestur Jósefsson Kollsvík, Magnús Jónsson Kollsvík, Ásbjörn Helgi Árnason Kollsvík, Steinn Bjarnason Kollsvík, Guðbjartur Guðbjartsson Láganúpi, Jón Guðjónsson Breiðuvík, Sveinn Benónýsson Breiðuvík, Guðmundur B. Ólafsson Breiðuvík, Erlendur Kristjánsson Hvallátrum, Gestur Jónsson Hvallátrum, Ingimundur Guðjónsson Hvallátrum, Guðbjartur Þorgrímsson Hvallátrum, Jón Magnússon Hvallátrum, Gísli Ó Þorgrímsson Saurbæ, Halldór Júlíusson Melanesi, Jón Runólfsson Skógi, Pétur Jónsson Stökkum, Jón Pétursson Stökkum, Ívar Ívarsson Kirkjuhvammi, Bergþór Ívarsson Kirkjuhvammi, Einar Sigfreðsson Stekkadal, Ólafur H. Einarsson Stekkadal, Sveinn Magnússon Lambavatni, Egill Gunnlaugsson Lambavatni, Stefán Ólafsson Hvalskeri, Ólafur Guðbjartsson Keflavík, Dagbjört Pétursdóttir Sellátranesi, Pétur Hjálmarsson Sellátranesi, Ólafur Pétursson Sellátranesi, Sigurbjörn Guðjónsson Hænuvík, Davíð Jónsson Hænuvík, Engilbert Jóhannsson Hænuvík, Guðmundur Jónsson Hænuvík, Ingveldur Ívarsdóttir Hænuvík, Jón Ívarsson Hænuvík, Árni Magnússon Hnjóti, Ólafur Magnússon Hnjóti, Málfríður Guðbjartsdóttir Hnjóti, Jón Runólfsson Hnjóti, Ármann Sigfreðsson Geitagili, Guðjón Bjarnason Geitagili, Jón Einarsson Tungu, Helgi S. Einarsson Tungu, Egill Árnason Tungu, Grímur Árnason Tungu og Ólafur E. Thoroddsen Vatnsdal.
Í Patrekshreppi eru auk þess nokkrir menn dæmdir til ábyrgðar fyrir hið gjaldþrota félag. Skyldu allir hlutaðeigendur sameiginlega standa greiðslu á skuld pöntunarfélagsins við SÍS, að upphæð 55.611,42 krónur auk vaxta; einnig málskostnaður að upphæð 2.229,50 innan þriggja daga að viðlagðri aðför. Eins og gefur að skilja er þetta mörgum þungur baggi í skauti og viðbúið að sumir komist í þrot. Ekki munu fordæmi fyrir slíkri aðgangshörku í hinni stuttu sögu samvinnufélaga hérlendis.
Líklega jafngildir þetta andvirði um 15 íbúðarhúsa að áliti Sigurjóns Bjarnasonar frá Hænuvík. Þetta mun vera eina dæmi þess að félagsmenn séu þannig gerðir persónulega ábyrgir fyrir skuldum samvinnufélags sem kemst í þrot. Öðruvísi var t.d. tekið á málum þegar hvert kaupfélagið af öðru lagði upp laupana undir lok 20.aldar.
Þurrabúð í Kollsvíkurveri: Magnús Jónsson og Guðrún Ólafsdóttir hafa byggt sér kofa ofan Kollsvíkurvers. „Um tíma var líka þurrabúð sem byggð var upp úr verbúðinni Evu“ (Guðbjartur Guðbjartsson í Sdbl Þjóðviljans 1964).
Magnús reri úr Kollsvíkurveri á bátnum Nóa, sem var minnstur báta þar (sjá Strákamel 1901). Eftir lát Guðrúnar 1932 flutti hann að Vatnsdal og stendur enn (2020) kofi sem hann byggði sér þar á bökkunum.
Ólafur frá Láganúpi kaupir Fálkann: Ólafur Magnússon (27.12.1873-08.04.1955), sem fæddur er og uppalinn á Láganúpi, hefur nú keypt reiðhjólaverslunina Fálkann í Reykjavík. Ólafur er sonur Magnúsar Sigurðssonar bónda á Láganúpi (síðar Geitagili) og Þórdísar Jónsdóttur konu hans. (Kominn af Guðmundi ríka eins og fleiri Kollsvíkingar). Ólafur fór sem unglingur að Saurbæ til Ólafs Thorlaciusar, sem kom honum til trésmíðanáms í Reykjavík. Um 1910 var reiðhjólum tekið að fjölga í bænum og hóf Ólafur þá viðgerðir á þeim. Þetta ár keypti hann reiðhjólaverslunina Fálkann og rekur hana ásamt Haraldi syni sínum.
Fálkinn dafnaði vel og varð eitt stærsta fyrirtæki landsins, ekki aðeins í reiðhjólasölu, heldur einnig í sölu á vélahlutum s.s. legum. Tókst Ólafi því að rífa sig upp úr örbirgð í það að verða vel stæður verslunarrekandi. Eiginkona hans var Þrúður Guðrún Jónsdóttir og eignuðust þau 9 börn. (Mbl. 15.04.1955).
1925
Fréttir úr Verinu: „Á vorvertíðinni gengu úr Víkum 23 árabátar alls. Af þeim gengu 3 frá Látrum; úr Breiðuvík; 14 úr Kollsvík; 3 úr Hænuvík og 1 úr Kvígindisdal. Það er sama tala og síðastliðið ár. Róðrar hófust um miðjan maí og stóðu til 10. júlí. Aflafengur alls um 430 skpd. (500). Aflabrögðin góð þótt nokkuð skorti á jafn mikinn afla og í fyrra, en þá var vorvertíð talin í allra besta lagi“. (Kristján Jónsson Garðstöðum erindreki Fiskifélagsins; skýrsla 1925; Ægir).
Færeyskar skútur algengar við landið: Færeyingar hafa í síauknum mæli sótt á Íslandsmið síðustu áratugina, og eru færeyskar skútur nú algeng sjón, ekki síst undan Útvíkum. Fiskveiðisaga Færeyinga er ekki löng. Um 1850 var t.d. helmingur útflutningsafurða þeirra ýmsar ullarvörur, en einungis 40% fiskútflutningur. Nú er naumast annað flutt frá Færeyjum en sjávarafurðir. Skútuútgerð á Færeyjum hófst 1872 og beindist strax meira að Íslandsmiðum en heimamiðum. Síðustu árin hefur afli þeirra á Íslandsmiðum verið 98,4% heildaraflans. Auk skútanna gera Færeyingar út fjölda opinna báta á Íslandi. Á þessum árum hafa 300-700 Færeyingar verið árlega hér við land. Færeyingar byrjuðu að hafa uppsátur hérlendis 1877, og 1890 komu nokkrir bátar þeirra til Patreksfjarðar (sjá þar). Skútur Færeyinga eru að jafnaði nokkuð aldraðar; langflestar eldri en 20 ára. Færeyingar hafa ávallt verið aufúsugestir á Íslandi, enda telja Íslendingar enga þjóð sér nátengdari. (LK; Fiskveiðisaga Færeyinga; Mbl. 07.01.1964).
Pöntunarfélagið Patrekur (Kaupfélag Rauðsendinga) stofnað: Í kjölfar gjaldþrots Kaupfélags Rauðasandshrepps á síðasta ári hófu nokkrir áhugamenn undirbúning að stofnun nýs félags. Fremstir þar í flokki voru Pétur Jónsson á Stökkum og séra Þorsteinn Kristjánsson í Sauðlauksdal. Snemma árs 1925 tók svo Pöntunarfélagið Patrekur til starfa. Var Ólafur Þórarinsson ráðinn sem framkvæmdastjóri. Félagið hafði sölubúð á Patreksfirði, á sama stað og fyrra félag (þar sem síðar var Kaupfélag Patreksfjarðar).
Síðar var skipt um nafn á félaginu og nefnt Kaupfélag Rauðsendinga. Félaginu jukust brátt vinsældir og gaf vonir um langt starf. Engu að síður neyddist félagið til að hætta störfum árið 1933. Ein orsök þess var deila við Verkalýðsfélag Patreksfjarðar sem leiddi til afgreiðslubanns á félagið, en auk þess innbyrðis agnúar. (Ívar Ívarsson; Samvinnumál Rauðasandshrepps; Árb.Barð 1949).
Halaveðrið; Fieldmarshal Robertson ferst: Óvenjuhart illviðri brast á út af Vestfjörðum laugardaginn 7. febrúar 1925; nefnt Halaveðrið. Margir togarar voru að veiðum á Halamiðum út af Vestfjörðum og fórust tveir þeirra með allri áhöfn; Leifur heppni með 33 skipverja og Fieldmarshal Robertson, en á því síðarnefnda voru nokkrir menn úr Rauðasandshreppi og Patreksfirði meðal 35 skipverja. Þeira á meðal voru bræður. Annar þeirra var skipstjórinn; Einar Magnússon (Magnússonar Einarssonar Einarssonar Jónssonar í Kollsvík). Fæddur 04.02.1989, kvæntur Ingibjörgu Gísladóttur og 4 barna faðir. Hinn var Gunnlaugur Magnússon f. 06.10.1881, ókvæntur og barnlaus. Faðir þeirra fórst með skútunni Viggu 1897.
Eigendaskipti á Rut: Frændurnir Ólafur Halldórsson á Grundum og Guðbjartur Guðbjartsson á Grund (Samúelsmel) hafa um allmörg ár haft félagsútgerð um bátinn Ruth BA 223. Guðbjartur hefur nú keypt hlut Ólafs í útgerðinni og mun gera Rutina út í félagi við syni sína, en hinn elsti; Einar, er nú 15 ára. (Niðjatal HM/GG). Sjá meira um Rut 1898.
1926
Umf Vestri: "Afskektustu félögin eru Vestri í Kollsvík í Rauðasandshreppi og Unglingur í Geiradalshreppi við Gilsfjörð. Vestri beitir sér nú fyrir garðrækt. Hefir fyrir nokkrum árum bygt sundlaug og er þar árlega kent sund. Styrkt hefir hann nokkur fátæk heimili í sambandi við Umf Von á Rauðasandi. Til þess að greiða og stytta leið til kirkjunnar hefir félagið rutt veg yfir torfæru sem ófær var hestum (Flosagil). Mun sá minnisvarði lengi standa". (Skinfaxi 21.09.1926).
Tveir hrapa í Látrabjargi: Hinn 16.06.1926 varð það slys að tveir ungir menn hröpuðu til bana við eggjatöku í Saxagjárvöllum; innst í Látrabjargi; Kristján Erlendsson frá Hvallátrum (f. 08.07.1899) og Ástráður Ólafsson (f. 07.11.1901). Þeir höfðu farið til eggja í „seinna varpið“ ásamt tveimur öðrum piltum. Voru þeir búnir að tína nokkuð af eggjum og hinir síðarnefndu staddir nokkuð frá, en Ástráður hélt við vað hjá Kristjáni, sem ætlaði að ná nokkrum eggjum í viðbót. Eitthvað varð til þess að þeir höpuðu báðir. Lík Ástráðs náðist þar á völlunum, en Kristjáns síðar niðri á Stórurð sem er þar undir.
Eftir slysið lagðist Erlendur faðir Kristjáns gegn bjargferðum. Hefði þó líklega komið út á eitt því ljóminn var skyndilega farinn af þessu forna bjargræði. Bjargsig höfðu tíðkast frá ómunatíð og verið fastur liður í lífi Látrabænda og fjölda annarra. Til siga í bestu fugl- og eggjalönd bjargsins þarf mikinn mannskap; góðan búnað og gott skipulag. Þetta lagðist nú af og voru sig ekki aftur upp tekin í Bjargið fyrr en nær hálfri öld síðar, og þá í miklu minna mæli. Þá var búskapur og bjargræði með öðrum hætti en fyrrum og nauðsynin ekki sú sama.
Breiðvíkingar drukkna í Vestmannaeyjum: Tveir bræður og bændur í Breiðavík drukknuðu 09.01.1926 er báturinn Goðafoss frá Vestmannaeyjum fórst þar í áhlaupsveðri með allri áhöfn. Þetta voru bræðurnir Guðmundur Bjarni (f. 23.12.1889) og Haraldur (f. 29.04.1893), synir Sigríðar Traustadóttur og Ólafs Ólafssonar í Breiðavík. Guðmundur Bjarni var kvæntur Maríu Torfadóttur frá Kollsvík og áttu þau tvo syni; Ólaf (síðar framkv.stjóra hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna) og Gunnar Björgvin (síðar hafnarstjóra í Reykjavík). Haraldur var nýkvæntur; nýlega fluttur til Eyja og hafði selt sinn hluta í Breiðavíkurjörðinni.
Einar Jónasson sýslumaður keypti þennan hluta Haraldar í Breiðuvík, og síðan meirihluta jarðarinnar af ekkjunni Maríu.
Fyrsti bíllinn kemur til Breiðuvíkur: Einar Jónasson sýslumaður, sem fyrir nokkrum árum hóf búskap í Breiðuvík, hefur nú flutt þangað vörubíl á uppskipunarbáti frá Patreksfirði. Þetta er pallbíll af gerðinni Ford-T; um 1 tonn að burðargetu og er fyrsti bíllinn í Barðastrandasýslu. (Bílaskráning hófst þó ekki fyrr en 1933 og fékk bíllinn þá númerið B-1). Kemur bifreiðin húslaus að Breiðuvík, þar sem smíðað er yfir hana. Bíllinn er notaður til flutninga á byggingarefni og fleiru í Breiðuvík, m.a. steypumöl norðan undan Breið, en engir akfærir vegir liggja enn úr Breiðuvík. Bílstjóri er Jens Árnason vélsmiður, en í fjarveru hans Kristján Jakobsson.
Árið 1929 eignast ríkissjóður Breiðavíkurjörðina, í kjölfar þess að Einari var vikið úr starfi. Bíllinn var þá seldur Jens Árnasyni sem flutti hann á Patreksfjörð og notaði þar. (AÍ; Árbók Barð 1980-90).
1927
Fréttir úr Verinu: „Á vorvertíðinni gekk þessi bátafloti úr Víkum: Frá Látrum 4 bátar; úr Breiðuvík 1; úr Kollsvík 7; úr Hænuvík 3 og frá bæjunum í Patreksfirði vestanverðum 4 bátar. Alls 19 bátar. Í fyrravor voru þeir taldir 21. Aflafengur frá maíbyrjun til 7.júlí, er róðrar hættu; 633 skippund (390). Aflabrögðin sl ár voru talin mjög góð, svo nú má heita uppgripaafli þarna. Róðrar munu hafa byrjað um hálfum mánuði fyrr nú“. (Kristján Jónsson Garðstöðum erindreki Fiskifélagsins; skýrsla 1927; Ægir).
Sæsími yfir Patreksfjörð: Sími hefur nú verið lagður í sjó af Þúfneyri yfir á Sandodda. Einnig hefur þaðan verið lögð símalína á staurum að Kvígindisdal og Hvalskeri. Á þessum bæjum voru opnaðar 3. flokks símstöðvar 27.09.1927. Með þessu er Rauðasandshreppur að hluta kominn í símasamband við aðra landshluta, og er vænst áframhaldandi símalagninga.
Guðbjartur Guðbjartsson tekur við búi á Láganúpi: Ábúendaskipti eru á Láganúpi með því að Össur A. Guðbjartsson (31.10.1866-10.04.1950) flytur norður að Mýrum í Dýrafirði en Guðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879-01.10.1970) bróðir hans kaupir Láganúp og flytur þangað ásamt Hildi Magnúsdóttur(16.08.1889-31.01.1967) konu sinni og 6 börnum sínum. Þau hafa í nokkur ár búið á þurrabúðinni Grund (Samúelsmel/Júllamel), en bjuggu áður í Tröð í 11 ár og voru eitt ár á Hnjóti. Auk búskaparins er Guðbjartur formaður í Kollsvíkurveri og á bátinn Rut ásamt Ólafi Halldórssyni á Grundum. Hann er eftirsóttur hleðslumaður og manna gleggstur á mörk og sauðfárhald.
Guðbjartur og Hildur komu sér upp myndarlegu búi á Láganúpi með aðstoð barna sinna. Sjá t.d. árið 1934. Árið 1952 tók Össur sonur þeirra við búi, sjá þar.
Veðurathuganir hefjast frá Kvígindisdal: Komið hefur verið upp veðurathugunarstöð í Kvígindisdal og mun Snæbjörn J Thoroddsen bóndi og sparisjóðsstjóri sjá um athuganirnar.
Snæbjörn stundaði þessar veðurathuganir til 1977, en þá tók Fríða Guðbjartsdóttir tengdadóttir hans við þeim og stundaði athuganir meðan hún og Valur maður hennar bjuggu í Kvígindisdal. Snæbjörn varð síðar oddviti Rauðasandshrepps til margra áratuga. Auk veðurathugananna skráði hann ýmsan fróðleik um viðburði í hreppnum.
Sýslumaður Barðstrendinga sviptur embætti: Dómsmálaráðherra; Jónas Jónsson frá Hriflu, hefur svipt Einar M. Jónasson sýslumann Barðstrendinga embættinu, á þeim forsendum að hann sé vanhæfur í starfi. Sendi Jónas fulltrúa sinn, Hermann Jónasson (glímukappa og síðar forsætisráðherra), vestur á Patreksfjörð til að ganga frá starfslokum Einars og setja nýjan sýslumann, Berg Jónsson, inn í emættið. Einar brást til varna, taldi að sviptingin byggði ekki á neinum lagalegum forsendum heldur væri af pólitískum rótum runnin. Sagt er að til handalögmála hafi komið milli hans og Hermanns, en báðir eru vel að manni.
Einar kærði dómsmálaráðherrann fyrir ólöglega brottvikningu. Með Hæstaréttardómi dags 17.04.1929 var þó brottvikningin talin lögleg og taldi dómurinn sannað að Einar hafi ekki staðið skil á nokkru vörslufé meðan hann var sýslumaður. Missti Einar því ýmsar eigur sínar, m.a. jörðina Breiðuvík sem hann var nýlega búinn að kaupa að mestu og byrjaður að byggja myndarlega upp. Margir hafa þó síðar talið að í þessu máli sem fleirum hafi Jónas frá Hriflu farið offari og látið stjórnast af pólitík og persónulegum duttlungum. Til er staka eftir Einar, sem hann orti að vísu um annan mann, en gæti e.t.v. lýst áliti hans á Jónasi skv blaðaskrifum: "Eftir því sem eg hef vit,/ athugað í flýti,/ hefur´ann vöxt og háralit/ húsbóndans í Víti". Um embættissviptingu Einars M. Jónassonar ritaði Davíð Logi Sigurðsson bókina "Ærumissi", sem út kom árið 2018.
Í kjölfar þessara mála eignaðist íslenska ríkið Breiðavíkurjörðina árið eftir, og réði það eignarhald nokkru um staðsetningu unglingaheimilis síðar.
1928
Brimlending: Bátur úr Kvígindisdal, undir formennsku Árna Dagbjartssonar, var að veiðum að áliðnu sumri á Kollsvík þegar hann þurfti að leita lendingar í Kollsvíkurveri er skyndileg brimaði af norðri. Bátum var þá farið að fækka mikið í Kollsvík; „aðeins heimabátar og allt smábátar“. Kollsvíkingar höfðu þá eignast flutningabátinn Fönix; 3-4 tn að stærð og voru að koma að með saltflutning o.fl. Þar voru því höfð snör handtök til björgunar eftir farsæla lendingu. (ÞJ; Brimlending; sjómannabl. Víkingur).
Verkun súrþara leggst af: Nú eru að leggjast af þær fjörunytjar að súrsa þara til skepnueldis. Er þetta t.d. síðasta árið sem svo er gert á Hvallátrum (og líklega víðar í sveitinni). Súrþaragryfjur hafa einnig verið t.d. á Sjöundá og á Láganúpi. Helst hefur verið verkaður beltisþari og kerlingareyra. Hefur súrþari þótt gott innistöðufóður fyrir fé, en einnig kúafóður. Þarinn er mest tekinn úr nýlega reknum þarabunkum. Annars er fjörubeitin mikið nýtt fyrir sauðfé, en hvergi eru betri beitarfjörur á landinu, einkum á Hvallátrum. (LK;Ísl.sjávarh I; DE).
Sauðfé í Útvíkum var haldið til fjörubeitar framundir lok 20. aldar, meðan fé var á Hvallátrum eða í Kollsvík, en hætt fyrr í Breiðuvík þar sem Verið er all langt frá bæjum.
Kalkvinnsla úr skeljasandi arðbær ? Frímann B. Arngrímsson hefur verið að gera rannsóknir á orku- og auðlindum landsins og fer á hverju sumri fótgangandi vítt og breitt; semur skýrslur og ritar greinar. Allt fyrir litla sem enga greiðslu. Hann er nýlega kominn úr tveimur leiðöngrum; öðrum til að skoða brennisteinsnámur í Þingeyjasýslum en í hinum skoðaði hann skeljasandsnámur á Rauðasandi, í Breiðuvík, Örlygshöfn og Sauðlauksdal. Um athuganir sínar farast Frímanni svo orð: „Samkvæmt athugunum mínum hygg ég að úr skeljasandinum vestra, sem samkvæmt athugunum mínum þekja 1,5 km², og geyma allt að 1,2 milljón m³ kalks; hygg ég að megi vinna fullt 100 milljón kr virði kalks (tonnið á 100 kr; tunnan á 10 kr) og um leið nægilegt efni í kalkstein til að endurbyggja öll bæjarhús á landinu; og fjárhúsin með“. Hér er ekki um neitt smáræði að ræða, og þess vert að gefa því gaum. Er nú þess að vænta að lengra verði haldið og það athugað á hvern hátt þjóðin getur haganlegast notið þeirra fjársjóða er Frímann hefir vakið athygli á. (Verkamaðurinn 23.10.1928).
Frímann Bjarnason Arngrímsson var fræðimaður og uppfinningamaður af Norðurlandi sem fluttist til Vesturheims 1874. Hann var fyrsti Íslendingurinn til að stunda háskólanám, og útskrifaðist 1885 frá Manitóbaháskóla. Starfaði á vegum Kanadastjórnar og stofnaði blaðið Heimskringlu í Winnipeg: flutti til Massachusetts og starfaði við MIT. Hafði mikinn áhuga á nýtingu auðlinda á Íslandi, t.d. vatnsafls o.fl. Settist að á Íslandi 1914 og fékk styrk frá Alþingi til rannsókna á jarðefnum. Skráði einkaleyfi til að vinna orku úr straumum rafsegulsviðsins. Talinn ákafamaður sem stundum skorti lag á að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. (Wikipedia). Ekki er ólíklegt að fyrr eða síðar verði nýttar þær auðlindir skeljasandsins sem Frímann benti á, þó í öðru formi verði og e.t.v. í öðrum tilgangi.
1929
Fréttir úr Verinu: Víkur: stórfiskur 80 skpd; smáfiskur 510; alls í veiðistöðvum 590 (749) Í Víkum varð sumaraflinn góður, einkum hjá Látramönnum er stunduðu róðra að miklu í sumar. (Skýrsla um afla í Vestfirðingafjóðungi 1929; Ægir).
Læknirinn Sveinn Magnússon á Lambavatni fallinn frá: Sveinn Magnússon bóndi á Lambavatni lést hinn 10. janúar 1929, 79 ára að aldri. Hann var án efa merkasti og farsælasti sjálfmenntaði læknirinn sem sögur fara af hér um slóðir. Sveinn fæddist 28. júlí 1879 í Gröf á Rauðasandi; sonur Magnúsar Ólafssonar og Elínar Bjarnadóttur. Hann naut engrar menntunar, en var duglegur að afla sér fróðleiks og náði skilningi á mörgum tungumálum. Giftist Halldóru Ólafsdóttur, ættaðri úr Sviðnum og Svefneyjum. Þau gerðust bændur á Lambavatni en einnig stundaði Sveinn sjóróðra og bjargferðir eins og þá var siður Rauðsendinga. Hann var mjög hagur á tré og járn og stundaði ýmiskonar smíðar. Kunnastur varð hann þó fyrir lækningar sínar. Snemma komu í ljós hæfileikar Sveins til lækninga. Hann hóf að stunda smáskammtalækningar eða „hómópatíu“ sem kallað er. Hjúkraði hann oft frönskum sjómönnum sem leituðu lækninga vegna veikinda eða slysa og var til þess ráðinn af umboðsmanni Frakka. Hann var oft fenginn til lækninga og ljósmóðurstarfa í heimabyggð. Honum gekk í fyrstu erfiðlega að fá leyfi til að stunda lækningar í héraðinu en var loks veitt formlegt lækningaleyfi af Sigurði Magnúsyni, hinum merka lækni og athafnamanni á Patreksfirði. Sigurður fékk hann einnig til aðstoðar við bólusetningar. Sveinn eignaðist lyfjaskrín (sem enn er varðveitt á Minjasafninu á Hnjóti) úr franskri skútu sem strandaði á Vatneyri 1874. Ýmis dæmi eru tilfærð um færni Sveins til lækinga, jafnt með lyfjum sem græðslu og öðru. „Hann var um langan tíma, áður en Patreksfjörður varð læknasetur, svo að segja eini læknirinn í Rauðasandshreppi, og var iðulega til hans leitað úr nálægum hreppum“ (Lögberg; 21.03.1929) Sveinn var einnig bráðhagur smiður og uppfinningamaður. Hann smíðaði gufuvél í lítinn leikfangabát handa syni sínum og hannaði týrur sem notaðar voru til ljósa, þannig að þær urðu stillanlegar og mun öruggari. Sveinn sat í hreppsnefnd Rauðasandshrepps og var formaður Nautgriparæktarfélagsins. (María Óskarsdóttir; Árbók Barð 2005). Á efri árum fór Sveinn suður til að læra fitumælingar í mjólk. (Guðrún Jóhannsdóttir; hljóðr. Ísmús). "Var álitið að hann gæti nálega allt er að smíðum laut. Smíðaði hann t.d. gufuvél sem ekki var stærri en klukkuverk, og setti í bát sem hann smíðaði handa ungum syni sínum. En ekki var Sveinn síður fær á andlega sviðinu. Sérstaklega fékkst hann mikið við lækningar. Þótti hann svo frábær í þeirri grein að í mörgum tilfellum tæki hann fram lærðum læknum. Hans var því mikið leitað þar í sveitinni. Hann var lítill maður vexti, glaður í viðmóti og skemmtilegur í samræðum" (SÁ; Með straumnum). Sveinn gerði einnig endurbætur á týrum sem þá voru algeng ljósfæri sjá 1895.
Rafstöð í Kvígindisdal: Fyrsta vatnsaflsstöðin í Barðastrandasýslu var tekin í notkun í Kvígindisdal á þessu ári. Snæbjörn J. Thoroddsen bóndi í Kvígindisdal lét gera virkjunina en hún er sett upp af Bjarna Runólfssyni í Hólmi. Virkjunin er 10 ha (12 kW).
Árið 1956 var önnur 7 kW rafstöð tekin í notkun í Kvígindisdal. Bjarni Runólfsson setti upp virkjun á Hnjóti 1930; 3 kW, en nýrri virkjun kom þar 1967; 10 kW. Virkjun var reist í Hænuvík árið 1954; 14 kW og sama ár virkjaði Magnús í Vesturbotni Ósaána; 32 kW. Rafstöð kom í Tungu 1955 og á Geitagili 1966; 6 kW (Ísafold 26.11.1929 og BV; Vestfjarðarit).
Á síðustu árum (2020) hafa rafstöðvar verið endurbættar á sumum þessara bæja, auk þess sem rafstöð var byggð á Naustabrekku (um 1980?); önnur á Sellátranesi um svipað leyti, og rafstöð er í byggingu á Hvalskeri.
Alþingi flytjist á Þingvöll: "Ungmennafélagið Vestri í Kollsvík skorar á Alþingi að láta á næsta sumri fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um flutning Alþingis á Þingvöll". (Mbl. 19.03.1929).
1930
Ábúendaskipti á Grundum: Grímur Árnason og María Jónsdóttir hafa sest að á Grundum, en þau bjuggu áður á Leiti í Tungulandi. Kristján Ásbjörnsson á Grundum lést fyrir 4 árum og bjó ekkjan; Guðbjörg Halldórsdóttir, um tíma en síðan tók sonur hennar, Kristján Júlíus Kristjánsson, við búi. Júlíus byggði sér (líklega fyrir 1930) tvílyft timburhús sem stendur á Rananum, nokkru ofan Grundabæjarins.
Júlíus flutti 1934 að Grund (Torfamel/Samúelsmel/Júllamel) í Láganúpslandi og seldi Guðbjarti Guðbjartssyni á Láganúpi nýja húsið. Það var dregið með hestum á nýjan stað (sjá 1934). Grímur settist að öllum líkindum að í Grundabænum.
Láganúpur og Grundir að hluta í eigu ábúenda: Um leið og Grímur flytur á Grundir kaupir hann þann helming jarðarinnar sem nefndur er "Grundir neðri" af Saurbæjareigendum, sem átt hafa allar Grundir frá stofnun býlisins kringum 1650. Kaupverðið er 1.000 kr (BÞ; Vestfjarðarit). Á sama tíma kaupir Guðbjartur Guðbjartsson helming Láganúpsjarðarinnar af sömu landeigendum, og er er kaupverð hálflendunnar kr 1.700 (sama heimild).
Guðbjartur kaupir hinn helming Láganúpsjarðarinnar árið 1934 (sjá þar). Það ár kaupir Guðbjartur einnig hinn helming Grundajarðarinnar; "Grundir efri", sem Kristján Júlíus Kristjánsson hafði haft til ábúðar. Grímur veiktist og brá búi árið 1945, en 25.04.1953 seldi Einar Guðbjartsson tengdasonur hans 2/3 jarðarhlutans til Ingvars Guðbjartssonar, sem þá stofnaði lögbýli á Stekkjarmel. Ingvar afsalaði þeim hluta til Össurar bróður síns á Láganúpi 01.04.1962, og var þá Láganúpsjörðin aftur sameinuð í eina eign og ábúð handan Árinnar; líkt og var fyrir 1650; að frátaldri lóð sem Einar áskildi sér og sínu fólki í landi Grunda.
Nýtt íbúðarhús á Stekkjarmel: Karl H. Kristjánsson og Mikkalína Guðbjartsdóttir á Stekkjarmel hafa nú, ásamt börnum sínum, byggt vandað steinsteypt íbúðarhús á grasbýli sínu; 39 m² að flatarmáli.
Ábúendaskipti á Geitagili: Ingvar Þ. Ásgeirsson og kona hans Bjarney Valgerður Ólafsdóttir (Guðbjartssonar í Hænuvík) hafa keypt hluta jarðarinnar Geitagils (Geitagil neðra) af Níels Björnssyni. Ingvar er múrari að mennt, ættaður úr Mýrasýslu.
Óli Ágúst sonur þeirra tók síðar við búi, ásamt Valgerði Jónsdóttur. Eftir fráfall Óla tók Keran Stúeland sonur hans við, en hafði einkum fjárbúskap sinn í Breiðuvík meðan hann hafði fé. Nýtt íbúðarhús var byggt á Geitagili um 1980-90. Ólí ræktaði allmikil tún og kom sér upp vatnsaflsrafstöð. Tvíbýli var á Gili til 1959, og voru síðustu ábúendur hinnar jarðarinnar Hjörtur Skúlason og Ásta Jónína Ingvarsdóttir (Ásgeirssonar á Geitagili).
Hestfær brú yfir Hafnarvaðal: Gerð hefur verið hestfær brú yfir Hafnarvaðal, þar sem hann er mjóstur við sjóinn. Það er Sparisjóður Rauðasandshrepps sem færir hreppnum og hreppsbúum þessa myndarlegu gjöf á tuttugu ára afmæli sínu. Þarf nú ekki lengur að sæta sjávarföllum þegar farið er yfir Vaðalinn á svonefndu Utanbæjavaði, sem er nokkru ofar. Brúin er hin vandaðasta; þrír steinsteyptir öflugir stólpar en brúargólf og handrið úr timbri. (M.a. AÍ; Vegamál í Rhr).
Ríkisútvarpið hefur útsendingu: Ríkisútvarpið hóf útsendingar 20.12.1930. Í fyrstu er sent út á langbylgju; nokkra klukkutíma að kveldi. Nokkur heimili í hreppnum höfðu fengið sér viðtökutæki áður en útsendingar hófust, en fleiri bætast við eftir það.
Nokkur útvarpsviðtæki komu fljótlega í Rauðasandshrepp, enda mikil framför að fá með þessu veðurfréttir og aðrar fréttir. Helsta vandamálið voru batteríin og hleðsla á þeim, enda einungis rafstöðvar á fáum bæjum; vatnsaflsstöðvar og vindmyllur. Einum hugvitsmanni hugkvæmdist að tengja dínamó við fótstiginn rennibekk til hleðslu geyma, en sá var Guðbjartur Egilsson á Lambavatni. Í Kollsvík var eina útvarpið löngum á Stekkjarmel, hjá Karli og Mikkalínu. Þangað safnaðist fólk af öðrum bæjum til að hlusta; sér í lagi á fréttir og veðurfréttir, en einnig annað efni; t.d. naut upplestur Helga Hjörvar á skáldsögunni "Bör Börsson" gríðarmikilla vinsælda.
Andrés Karlsson á Stekkjarmel var maður framkvæmda og nýjunga. Hann kom sér upp vindrafstöð á Stekkjarmel til ljósa og einnig mátti þar hlaða útvarpsbatterí. Þangað komu einnig Látramenn til að fá hlaðin batterí, enda var hægara að sigla þangað þó lengra væri en að Breiðuvík, þar sem einnig var rafstöð, en sú var lengra frá sjó. (SG, Láganúpi og GMG; Rauðasandshreppur hinn forni; Árbók FÍ). Útvarpsgjald Einars Guðbjartssonar árið 1944 var kr. 50,00.
Íbúafjöldi bæja í Kollsvík: Alls eru 54 skráðir til heimilis í Kollsvík þetta ár. Af þeim eru 22 í Kollsvík, þar sem er fjórbýlt; 23 á Grundum og Grundabökkum og 9 á Láganúpi. Í Útvíkum öllum eru 112; 92 á Rauðasandi með Keflavík; 39 á Bæjum; 51 í Örlygshöfn og 70 í Innfirðinum.
Áherslur á fiskifélagsfundi: "Um miðjan september fór eg í leiðangur vestur á firði og alla leið að Látrum. Náði eg saman fundi í Breiðuvík 15. septbr. og mættu þar flestir Látramenn og Kollsvíkingar. Aðaláhugamál Vikurmanna er nú að fá síma lagðan að Látrum og i Kollsvík. Það má heita lífsspursmál fyrir útkjálkaplássin, sem búa við brimlendingar og erfiða aðstöðu til samgangna að fá síma, og ætti þeir sem búið hafa við síma, en áður verið án hans, að geta metið réttilega hagræðið og gagnið sem símasambandið veitir afskekktum bæjum. Annað. sem Víkurmenn lögðu áherzlu á, var að fá ofurlítinn styrk til að lagfæra lendingu i Kollsvík. Þar er talin þrautalending utan Blakks, en þarf að sprengja flúðir nokkru framan við fjöruborðið og ýmislegt fleira" (Kristján Jónsson frá Garðsstöðum, erindreki Fiskifélags Íslands).
Skinnskórnir að hverfa: Skinnskór hafa verið helsti fótabúnaður þjóðarinnar frá upphafi. Reyndar voru roðskór einnig mikið notaðir í Útvíkum, en þeir hurfu nánast alveg um 1910 (sjá þar). Nú hafa skinnskórnir einnig vikið fyrir nýrri tegund skótaus, sem eru gúmmískór. "Skófatnaður var oftar hinir vel þekktu gúmmískór, sem tóku við af skinnskónum, sem hurfu að mestu úr notkun um 1930. Gúmmískór þessir voru límdir úr einhvers konar slöngugúmmíi eins og þekkt er í bílslöngum, en gúmmíið var þó þykkra en á minni bílum. Þessir skór voru framleiddir hér á landi en ekki í skóverksmiðju, heldur af einhverjum laghentum mönnum sem höfðu sérhæft sig í vinnu við þá. Nokkuð var erfitt að verjast því að snjór færi niður í þessa skó, og sumir vörðust því með hring úr gúmmíi sem þeir höfðu yfir ristina og undir ilina, og hélt snjónum nokkuð frá. Aðrir notuðu gúmmístígvél, en þau þóttu þung og einnig var hætt á því að snjór færi niður í þau" (Ari Ívarsson; Veður og búnaður; svör til þjhd.Þjms).
Mjólkurleysið á Eyrum: Jón Sigurðsson í Ystafelli var á ferðinni þetta sumar. Kom hann með skipi á Patreksfjörð; fékk sig fluttan með bát að Skeri og átti fund með Rauðsendingum um kaupfélagsmálefni. Lýsir hann ferðalagi sínu í grein í Samvinnunni og segir m.a. þetta um mjólkurskortinn á Eyrum: "Á Eyrum er stærsta þorpið (á sjötta hundrað manna). Sagt er, að svo þrengi ræktunarleysið og mjólkurleysið að á Eyrum, að margar fjölskyldur og mörg börn neyti aldrei mjólkur nema niðursoðinnar. Verður nú auðséð, að vegur frá Hvalskeri að Rauðasandi er lífsskilyrði bæði fyrir þorpið og byggðina. Mjög létt má heita að leggja þar bílveg, og snjólétt mjög á hálsinum. Myndi þá bíll flytja mjólk og aðrar afurðir að Hvalskeri, en vélbátur yfir fjörðinn". (Jón Sigurðsson; "Vestur á fjörðum"; Samvinnan 01.03.1931).
Aðkomumaður lýsir svipuðu ástandi 1945: "Það má segja að allt leiki eiginlega í lyndi fyrir Patreksfirðingum i daglegu lifi; nema eitt: Þeir eru mjólkurlausir. Og svo er landið hrjóstrugt þar, að hvergi er hægt að rækta land sem neinu nemur. Megnið af þeirri mjólk sem íbúar kauptúnsins geta kríað sér út fá þeir handan yfir fjörðinn; annan hvern dag, að því er mér skildist. Rjóma og skyr fá þeir með hverri ferð „Esju" frá Skagafirði. Voru þeir að reyna að notast við þurrmjólk, en ekki var mér kunnugt um, hvernig húsmæðrum líkaði hún". (Vísir 08.06.1945).
Hvalreki á Rauðasandi: Gríðarstóran (fertugan) skíðishval rak í sumar á Lambavatnsrifi, skammt frá merkjum móti Naustabrekku. Í honum var skutull norsks hvalveiðimanns, en útilokað var að koma til hans skotmannshlut samkvæmt Grágásarlögum. Bændur af Sandinum komu að, og fyrstur til að skera var Guðbjartur Egilsson á Lambavatni. Taldist hvalurinn nýlega dauður og matan í góðu lagi. Fór ket, rengi og spik á fjöldamarga bæi í hreppnum. Sökum brims var ekki unnt að skera hvalinn allan. (ÓG; Úr verbúðum í víking. Vísir 19.10.1930).
Hvalur þessi var einnig nýttur af mörgum bæjum á Barðaströnd. Á tveimur þeirra; Skjaldvararfossi og Hreggstöðum, var verkaður af honum það sem nefnt er "myrkur hvalur". Fór verkun þessi þannig fram: Spikið var skorið í lykkjur; 20 x 60-70 cm að stærð. Vatn var hitað í suðu í stórum potti (ullarpotti). Þá var lykkjunum stungið í pottinn; öðrum endanum í einu, og haldið í sjóðandi vatninu í 1-3 mínútur; þeim síðustu lengst, þar sem þá var vatnið farið að kólna. Eftir það voru lykkjurnar hengdar upp á myrkum stað og þess gætt að ekki kæmist að þeim birta. Hvalurinn var látinn hanga í 6-8 mánuði áður en farið var að borða hann, eða frá sumrinu fram til þorraloka eða góubyrjunar. Seig þá lýsið úr og myndaði svera dröngla neðan á lykkjunum, en lykkjurnar gulnuðu að utan. Gula lagið var skafið af; spikið skorið í þunnar sneiðar líkt og hákarl og borðað með rúgbrauði eða rúgkökum. Sterkt bragð var af hvalnum; öðruvísi en af hákarli. Remma kom í hálsinn, en ekki ýldu- eða þráabragð. Þótti þetta góður matur; ekki síður hjá börnum. (Jónína Hafsteinsdóttir; Árbók Barð. 2003).
Máberg komin í eigu ábúenda: Jörðin Máberg er nú komin í eigu ábúanda, og verður nýtt af Gunnlaugi Jónssyni sem búið hefur á Skógi. Um miðja 15.öld var jörðin í eigu Guðmundar ríka Arasonar, en var konungseign til 1847. Um aldamótin 1900 átti Rauðasandshreppur hana að 2/3 á móti Ara Finnssyni í Saurbæ.
Krókur í eyði: Jörðin Krókur, sem í raun heitir Stóri-Krókur, er nú komin í eyði eftir að síðustu ábúendur fluttu til Akureyrar; hjónin Guðmundur Sigfreðsson hreppstjóri og Guðrún Júlíana Einarsdóttir (Thoroddsen frá Vatnsdal). Kaupandi jarðarinnar, Jóhannes Halldórsson, býr með móður sinni í Gröf þó hann sé skráður ábúandi á Króki. Stóri-Krókur var 12 hundruð að jarðamati. Önnur jörð nærri er Litli-Krókur, sem fór í eyði 1829. Í jarðabókinni 1703 var hún talin hjáleiga frá Stökkum.
1931
Sláturfélagið Örlygur stofnað: Árið 1931 var stofnað nýtt samvinnufélag í Rauðasandshreppi, sem náði yfir Rauðasandshrepp utan Rauðasands og Hafnarmúla. Það hlaut nafnið Sláturfélagið Örlygur, enda var hlutverk þess fyrst og fremst að stofna og reka sameiginlegt sláturhús félagsmanna, með aðsetur á Gjögrum.
Aðdragandinn að stofnun félagsins var sá að hinn 20.04.1931 hittust á fundi í Kollsvík flestir búendur þar í víkinni og auk þeirra Sigurbjörn Guðjónsson í Hænuvík og Hafliði Halldórsson á Hvallátrum. Kosið var í undirbúningsnefnd að nýju sláturfélagi; Pétur Guðmundsson Tungu; Sigurbjörn Guðjónsson í Hænuvík; Helgi Árnason Kollsvík; Aðalsteinn Sveinsson Breiðuvík og Hafliði Halldórsson á Hvallátrum. 26.04.1931 kom undirbúningsnefnd saman og samþykkti Pétur Guðmundsson að láta grunn undir fyrirhugað sláturhús á Gjögrum ásamt fjárgirðingu; samin voru drög að reglum. Stofnfundur félagsins var haldinn 10.05.1931 og voru stofnfélagar 14 en stofnfé 575 krónur. Í fyrstu stjórn sátu Pétur í Tungu; Helgi Gestarson Kollsvík; Sigurbjörn í Hænuvík; Júlíus Kristjánsson Tungu og Hafliði á Látrum. Framkvæmdastjóri félagsins er Sigurbjörn Guðjónsson í Hænuvík.
Árið 1936 var starfsemin útvíkkuð með nýjum lögum félagsins, og það í raun gert að kaupfélagi, þó nafnið héldist. Sjá 1936.
Skipað út í flutningaskip á Hvalskeri: „Í haust tók Selfoss kjöt hjá kaupfélaginu til útflutnings á Hvalskeri, og er það í fyrsta sinni að skip hefir komið þar til að taka vörur til útflutnings“ (FB; Vísir; 13.11.1931).
Minkur fluttur til landsins: Þetta ár er minkur fyrst fluttur til landsins Að því standa bændur að Fossi í Grímsnesi, og hafa þeir flutt inn þrjú dýr.
Stuttu síðar voru 75 dýr flutt til Selfoss og enn fleiri síðar víðar um landið. Minkar sluppu fyrst úr búrum 1932, svo vitað sé, og 1937 fannst fyrsta minkagrenið við Elliðaár í Reykjavík. Minkurinn spjaraði sig vel í íslenskri náttúru en raskaði henni mikið, einkum fuglalífi. Fyrir 1960 var minkur kominn um alla Vestfirði. Hann varð þó ekki verulega ágengur í Kollsvík fyrr en eftir 1980, en þá útrýmdi hann bröndum úr öllum lækjum í víkinni; fór mjög illa með varp mófugla og drap jafnvel varphænsni bænda. Eftir að búskapur lagðist af hefur tófa einnig fært sig upp á skaftið í lífríki víkurinnar. Um tíma vann Ólafur Sveinsson á Sellátranesi að eyðingu minka, og hafði til þess duglega hunda.
Mikið um útlend fiðrildi: „Virðist hafa verið mikið um þistilfiðrildi (Vanessa cardui L.) í V- Barðastrandasýslu, því að athugull maður skrifar mér af Rauðasandi: „Í sumar var mikið um útlendu fiðrildin hér á Rauðasandi; hið síðasta sást hér 30. sept. Vart varð við þau í Víkunum (Látrum, Breiðuvík og Kollsvík) og í Patreksfirði. Voru þau mjög vör um sig og illt að ná þeim". Bréfritari náði einu og getur þess til, að það hafi verið þistilfiðrildi“ (Bjarni Sæmundsson; Náttúrufræðingurinn 01.12.1931).
Hinn athuguli náttúruskoðari á Rauðasandi gæti sem best hafa verið Ólafur Sveinsson á Lambavatni, en hann var ötull í rannsóknum á náttúrunni, t.d. með fuglamerkingum.
Ullarþvottur úr keytu: Frá örófi alda hafa Íslendingar nýtt ullina til vefnaðar og klæðagerðar og unnið hana að öllu leyti heimafyrir. Til ullarþvotta var notuð keyta. Þvagi var safnað í tunnur í þessum tilgangi, enda vinnur ammóníakið ágætlega á fitunni. Fremur var þetta sóðaleg vinna og erfið. Byrjað var á því að berja og mylja mestu óhreinindin úr ullinni. Síðan var vatn hitað í stórum potti; keytu blandað saman við og ullinni þvælt í leginum með priki. Valinn var staður nálægt læk til ullarþvotta, enda þurfti að þvo ullina vel og vandlega eftir að hún var tekin úr þvælunni.
Þvottur af þessu tagi tíðkaðist á þessum árum, eins og Ingvar Guðbjartsson lýsir í æskuminningum: „Ingveldur, en ég heiti eftir henni og manni hennar Jóni, var hjá pabba og mömmu mörg sumur… Eitt sinn var hún að þvo ullina, eins og hún gerði alltaf, norður við Torfalæk. Ullin var þvegin úr keytu; þ.e. hlandi sem safnað var í tunnu og kom í stað sápu, og skoluð síðan í læknum. Nú var ég orðinn votur yfir haus af að bera hreinu ullina upp á mel þar sem hún var þurrkuð. Þá datt mér allt í einu í hug að best væri að fara í bað. Ég lagðist í lækinn neðan við ullarþvæluna og veltist þarna í læknum. Gamla konan varð svo hissa að hún sagði ekkert, en settist síðan á bakkann og veltist um af hlátri“. (IG; Æskuminningar).
Erik sekkur á Breiðuvík: „Þann 16. þ.m. sökk vélskipið Erik EA16 á Breiðavík milli Patreksfj. og Látrabjargs. Leki kom að skipinu og mun það hafa sokkið á 2 klst. frá því er lekans varð fyrst vart. Veður var ágætt og sljettur sjór. Skipverjar, þrír að tölu, björguðust á skipsbátnum til lands í Breiðavík. Skipið, 30 ára gamalt, mun hafa verið með fiskfarm frá Arnarstapa til Dýrafjarðar. Skipstjóri hét Halldór Magnússon“. (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).
Erik var 25 tonn; smíðaður 1901 í Danmörku sem hákarlaskip og var notað sem slíkt til 1925; síðasta hákarlaskipið á Norðurlandi. Selt 1928 til Hafnarfjarðar og þá sett 60 ha vél í það.
Fórst í snjóflóði í Skriðunum: Hinn 04.03.1931 varð það slys að tveir ungir menn lentu í snjóflóði er þeir voru á göngu um Skriðurnar milli Kvígindisdals og Vatnsdals. Annar þeirra, Birgir Ó Thoroddsen, lenti í innri kanti flóðsins og bjargaðist úr því, en hinn; Brynjólfur Jónsson, lenti í ytri kantinum og hreif snjóflóðið hann með sér. Þrjátíu menn leituðu hans, og fannst hann morguninn eftir og var þá látinn. (Mbl. 08.03.1931).
1932
Búðir og bátar í Verinu um 1932: „Þegar ég man fyrst eftir voru 7 búðir sem róið var frá í Kollsvíkurveri. Á Norðariklettunum, við fjárhús Jóns Torfasonar, var Grundarbúð. Þaðan reri Kristján Júlíus Kristjánsson á Rana á Grundatúni; bátur hans hét Skuld. Þar við hliðina var Klettabúð; hana átti og notaði Jón Torfason í Kollsvík. Hann átti bát sem hét Gefjun. Beint á móti Klettabúð; sunnanvið Búðarlækinn, var búð sem hét Meinþröng. Frá henni reri Grímur Árnason; hans bátur hét Hnísa. Bakvið Fönixarnaustið var búð sem Helgi Árnason reri frá; hans bátur hét Von. Þessir menn áttu krær og ruðninga við Búðarlækinn. Í röð sunnanvið Naustið voru nokkrar búðir. Næst sjó var pabba búðin, og hét bátur hans Rut. Sunnanvið hana var búð Karls Kristjánssonar; hans bátur hét Penta, og búð Helga Gestarsonar; hans bátur hét Svanur. Þeir áttu krær við Syðstalækinn. Efst í Verinu var lítill bær sem Magnús Jónsson bjó í allt árið (sjá 1924). Hans bátur hét Nói og var lang minnstur. Hinir bátarnir voru frá einu og kvart til eins og hálfs tonns. Það reru því 8 bátar úr Verinu þegar ég man fyrst eftir, en áður allt upp í 26 bátar, með heimabátum; víða að úr Patreksfirðinum og af Barðaströnd“. (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri).
Enn eru skinnklæði saumuð: Þó nú séu farnir að flytjast til landsins sjóstakkar og aðrar hlífar úr gúmmíi og olíubornum striga er það enn borið við í Kollsvík að sauma skinnklæði eftir hinni aldagömlu aðferð. Menn eru þó misjafnlega færir í því sem öðru. Einar Guðbjartsson á Láganúpi saumar á þessu ári skinnbrók fyrir Grím Árnason á Grundum. Þá fær hann einnig leðurskæði í skó frá Helga Gestssyni í Kollsvík. (Nótur Einars).
Grímur varð síðar tengdafaðir Einars. Skinnklæðasaumi í Kollsvík er vel lýst í ritgerðum Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar frá Grundum og Ingvars Guðbjartssonar frá Kollsvík.
Karl á Stekkjarmel kaupir jarðarpart af Helga Gestssyni í Kollsvík: Með kaupsamningi dags. 29.11.1932 selur Helgi Gestsson í Kollsvík Karli Kristjánssyni á Stekkjarmel 1 1/4 hundrað úr eignarjörð sinni, ásamt 2 leiguám. "Til leiguhúsa svarar seljandi við sem nemur úr hálfu húsinu er hann á fyrir sunnan lækinn í Verinu. Matjurtagarður 1/3 af svokölluðum Fjósgarði. Úr mælitúni ber jarðarparti þessum svokallaður Gíslapartur. Takmarkast hann af merkjum Karls Kristjánssonar að norðan, en að sunnan af merkjum Jóns Torfasonar, og nær jafn langt upp og niður og partur Karls. Ennfremur fær hann úr skiptum Melinn í Verinu. Hlunnindi fylgja jarðarparti þessum eftir jarðar hæð, og grunnar fylgja jarðarpartinum, þeir sem eru á Melnum, en ekki aðrir". Kaupverðið er kr 500 (greitt að fullu við næstu fardaga á eftir). (Kaupsamningur í skjalasafni Láganúps).
Mjólkursala frá Hvalskeri: Hafin er sala á mjólk frá Hvalskeri til Patreksfjarðar. Flytur Stefán Ólafsson bóndi mjólkina sjálfur á bát sínum; Stellu.
Mjólkursalan jókst svo árið eftir með sölu frá Saurbæ og Stökkum á Rauðasandi. Mjólkursala úr Örlygshöfn hófst 1933. AÍ; Árbók Barð 1980-90).
Hafís suður með Vestfjörðum: Hafís hefur komið lengra suður með Vestfjörðum þetta vorið en gerst hefur á síðari árum. „Að morgni 08.03.1932 eru þrír litlir hafísjakar komnir inn í Patreksfjörð, tveir af þeim inn fyrir kaupstað. Til hafsins sjer bjarma eins og upp af ísbreiðu. Sást mikill ís fyrir mynni Patreksfjarðar og margir lausir smájakar ráku inn í fjörðinn. Ísbreiðuna rak hratt suður og hvarf að mestu suður fyrir Blakknes. Morguninn eftir voru aðeins sjáanlegir sundurlausir jakar á Patreksfjarðarflóa”. (Tiðarfarsannáll SJTh Kvígindisdal).
Óvenjumikill trjáreki: „Í vetur hefir nokkur trjáreki verið í víkunum og á Rauðasandi, en allt er það óunninn viður. Hefur ekki rekið jafnmikið síðan fyrir aldamót“ (FB; Mbl. 20.04.1932).
Fullvíst er að þennan reka má þakka því að hafísinn var stutt undan landi. Rekinn safnast upp við ísröndina og rekur að landi við hagstæða vindátt og strauma. Má þannig ætla að rekaleysi um og eftir aldamótin 2000 megi rekja til þess að hafísbrúnin er víðsfjarri landinu, sem aftur má rekja til hlýnunar í hafinu.
Auglýsing um vogrek: „Að Lambavatni í Rauðasandshreppi, rak þann 20. desember f. á., í suðvestan átt eina járntunnu fulla af steinolíu, innihald ca. 180 kg. netto. Á tunnuna eru málaðir þessir stafir A. P. O. C. Annað letur sem á tunnu þessari er, er ólæsilegt, og önnur merki sjást ekki. Ennfremur: Að Naustabrekku í Rauðasandshreppi, rak þann 20. desember f. á. eina járntunnu fulla af benzíni. Innihald 150—160 kg. netto. Á tunnu þessa er letrað „Landsverzlun íslands, Reykjavík". Önnur merki sjást ekki. Hérmeð er skorað á þá er gera kynnu tilkall til vogreka þessara, að gefa sig fram hér á skrifstofunni innan 6 mánaða frá birtingu þessarar auglýsingar og sanna heimildir sínar, því annars verða vogrek þessi eða andvirði þeirra eign fjörueigenda. Sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu, 26. febr. 1932. Jón Hallvarðsson (settur).
Tveir hætt komnir í Tobbubyl: Í marsbyrjun á þessu ári gerði stórviðri mikið með glórulausri stórhríð. "Þá voru tveir Rauðsendingar að sækja ljósmóður handa konu í barnsnauð á Skógi á Rauðasandi, að Hnjóti í Örlygshöfn. Eftir mikla erfiðleika þvældust þeir villtir, niður í Keflavík sem var þá enn í byggð og komust ekki lengra fyrr en veður gekk niður. Hagur konunnar leystist á farsælan hátt, án ljósmóðurinnar" (Ari Ívarsson; Veður og búnaður; svör til þjhd.Þjms).
Móðirin sem þarna lá á sæng var Þorbjörg Valgerður Jónsdóttir á Skógi. Hinn 5. mars 1932 eignaðist hún dreng með manni sínum Kristjáni Vigfúsi Jakobssyni. Sá var skírður Jakob Vignir og varð síðar járnsmiður á Patreksfirði. (TÓ; Ábúendatal).
Bruni í Keflavík: „Aðfaranótt þess 23.-eða 24. brann til kaldra kola geimsluskúr á býlinu Keflavík hér í hreppi. Þar brann matarforði heimilisins, betri föt fólksins og nokkuð af peningum, óvátryggt”. (Tiðarfarsannáll SJTh Kvígindisdal).
Þar bjó þá Einar Sigurðsson með konu sinni. Hann flutti tveimur árum síðar að Sellátranesi og þá fór Keflavík í eyði.
1933
Slysavarnadeildin Bræðrabandið stofnuð: Á fundi 27. mars nú í vor var stofnuð slysavarnadeildin Bræðrabandið, og nær starfssvæði hennar yfir Rauðasandshrepp. Bræðrabandið mun starfa sem deild innan Slysavarnafélags Íslands, sem stofnað var 29.01.1929. Íbúar Rauðasandshrepps hafa frá upphafi verið drifkraftar í slysavarnarmálum. T.d. var Sigurjón Á Ólafsson alþingismaður frá Hvallátrum einn af helstu hvatamönnum þess; Rósinkrans Ívarsson í Kirkjuhvammi sat í fyrstu varstjórn þess og Guðbjartur Ólafsson frá Kollsvík var meðal stofnenda. (Guðbjartur var síðar forseti SVFÍ 1940-1960. Þórður Jónsson á Hvallátrum, þá formaður Bræðrabandsins sat í stjórn SVFÍ 1952-1976). Í fyrstu stjórn Bræðrabandsins sitja Ólafur E. Thoroddsen skipstjóri í Vatnsdal, formaður; séra Þorsteinn Jónsson í Sauðlauksdal, ritari, og Snæbjörn Thoroddsen bóndi og sparisjóðsstjóri í Kvígindisdal er féhirðir. Stofnfélagar eru 30 talsins.
Kaupfélag Rauðasands stofnað: Þann 13. ágúst 1933 var stofnað Kaupfélag Rauðasands sf, með aðsetri á Hvalskeri. Félagið er stofnað til að annast útflutning á framleiðsluvörum fyrir Kaupfélag Rauðsendinga (sem þetta ár hætti starfsemi), og til að flytja inn vetrarforða fyrir félagsmenn þess. Félagssvæði Kaupfélags Rauðasands er takmarkað af Rauðasandinum og bæjunum kringum Patreksfjörðinn, að Vatnsdal. Heimilt er að taka félaga utan þessa svæðis, en bundið vissu hlufalli við félagatölu á félagssvæðinu. Framkvæmdastjóri þess var ráðinn Egill Egilsson (gegndi hann því starfi til ársins 1944, er hann fluttist að Innri-Njarðvík.
Þegar Kaupfélag Rauðsendinga hætti störfum byrjaði Kaupfélag Rauðasands á Hvalskeri að starfa fyrir alvöru. Framkvæmdastjóri þess var Ívar Ívarsson bóndi í Kirkjuhvammi, frá 1944 allt til þess að Kaupfélagið var lagt niður 1975, sjá þar.
Kollsvíkingur brautryðjandi pöntunarfélags í Reykjavík: Hinn 01.10.1933 tók til starfa Pöntunarfélag verkamanna í Reykjavík, og er Skerjafjörður megin verslunarsvæðið. Helsti hvatamaður félagsins og fyrsti umsjónarmaður var Sigurvin Össurarson frá Kollsvík. Hann hefur starfað sem sjómaður og verkamaður, og hefur tekið virkan þátt í bæjarpólitík vinstri manna, en hefur góðan grunn úr hinu öfluga félagsmálastarfi í Kollsvík. Félagsmenn Pöntunarfélagsins voru í upphafi 20, en voru orðnir 65 eftir þrjá mánuði. Meðal reglna þess er: "Enga lánastarfsemi; enga samábyrgð; engan flokkspólitískan stimpil á félagið".
Eftir 2 ár voru félagsmenn orðnir 1.540. Sjálfstæðir kaupmenn í bænum brugðust ókvæða við og reyndu að spilla starfseminni á allan hátt; m.a. með vi'ðskiptabanni. Viðbrögð Sigurvins og annarra voru þau að pöntunarfélög sem störfuðu á Reykjavíkursvæðinu hófu samvinnu um sameiginleg vörukaup. Á vegum þeirra var um tíma gefið út Pöntunarfélagsblaðið. Pöntunarfélagið starfaði þannig að vörur voru teknar út í reikning hjá heildsölum, seldar á sem næst kostnaðarverði og gert upp við heildsalann um mánaðarmót. Það náði því ekki fjárhagslegum styrk; jafnvel þó heildsalar þvinguðu það til 5% hækkunar álagningar. Það fékk heldur ekki inngöngu í SÍS, þar sem KRON (Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis) var fyrir. Að endingu runnu öll pöntunarfélög á höfuðborgarsvæðinu inn í KRON.
Sigurvin stofnaði síðar sínar eigin verslanir; Ístorg á 6.áratugnum og Hnitberg árið 1965 (sjá þar).
Sími að Breiðuvík og Hvallátrum: Breiðavíkurlína hefur nú verið lögð frá Kvígindisdal að Breiðuvík og Hvallátrum. Hinn 1. ágúst voru opnaðar 3. flokks símstöðvar á Hnjóti og á Sæbóli á Hvallátrum. Þá hefur sími verið lagður frá Kvígindisdal að Sauðlauksdal og Vatnsdal; og frá Hnjóti að Tungu. Línurnar að Vatnsdal og Tungu eru einkalínur ábúenda, en aðrar eru greiddar af opinberu fé. Línurnar að Vatnsdal og Sauðlauksdal eru með skiptiborð í Kvígindisdal. Unnið er að línulögn að Kollsvík. Á árunum 1933-35 var sími lagður að Saurbæ á Rauðasandi (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Keflahlunnar; uppfinning Ásgeirs á Látrum: Ásgeir Erlendsson, bóndi og járnsmiður að Ásgarði á Hvallátrum, hefur hannað nýja gerð hlunna til setningar á bátum. Hver hlunnur er járnrúlla sem fest er á tréramma, og léttir setningu að mun. Hann lýsir þeim þannig: „Fljótlega eftir að við Þórður fengum Kóp (yngri, 1932) fór ég að velta því fyrir mér á hvern hátt mætti gera setninginn úr sjá og á auðveldari. Upp úr þessum vangaveltum smíðaði ég keflahlunna úr járni og eik. Þeir reyndust vel, en entust ekki eins og skyldi, svo ég fór þá með teikningu af þeim í vélsmiðjuna Héðin, og brugðust þeir vel við og smíðuðu sterka og vandaða hlunna sem leystu hvalbeinshlunnana alveg af hólmi“. (ÁE; Ljós við Látraröst).
Keflahlunnar tóku alfarið við af hinni fornu gerð, t.d. í Kollsvíkurveri, þó þá væri árabátaútgerð næsta liðin undir lok í Útvíkum.
Fönix rekur upp í Örlygshöfn: „Að kvöldi 14. oktober 1933 rak vjelbátinn “Fönix” (stærð um 4 tonn) af Patreksfjarðarhöfn og yfir í Örlygshöfn, vestanvert við Patreksfj. Báturinn var mannlaus. Bæði bátur og vjel gjöreyðilagðist. Hann var óvátrygður. Síðastliðinn vetur var báturinn stokkaður og yfirbygður. Tjónið taldist 5-6 þúsund kr“. (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).
Þetta var sami Fönix og Gísli Jóhannsson bátasmiður á Bíldudal smíðaði fyrir heimamenn í Kollsvík kringum 1920, og notaður var til flutninga á fiski, salti o.fl, með uppsátur í Kollsvíkurveri. Kringum 3,5 tonn að stærð. Þegar bátum fækkaði í Verinu var hann seldur tveimur Kollsvíkingum, Andrési Karlssyni og Guðmundi Gestarsyni. Þeir hafa þó varla verið farnir að halda honum verulega til fiskjar þegar þetta óhapp varð. Andrés var öflugur bátasmiður og smíðaði sér bátinn Farsæl sem hann gerði út frá Patreksfirði til æviloka. Guðmundur starfaði sem húsasmiður á Patreksfirði. Í bók MG;"Úr vesturbyggðum Barðastrandasýslu" segir Gunnlaugur Kristófersson að nýlega hafi verið búið að byggja yfir Fönix þegar óhappið varð. Honum hafði síðan verið lagt fram á höfnina, þar sem hann slitnaði upp.
Fýlnum fjölgar mjög í björgum: Fýl er nú að fjölga verulega í klettum og björgum á svæðinu. Má ætla að fjölgunin stafi af auknu æti sem honum býðst af slógi frá togara- og bátaflotanum á miðum grunnt og djúpt undan landinu. „En úr því að ég minntist á fugla, vil ég geta þess, að samkvæmt upplýsingum frá kunnungum mönnum, sérstaklega Ólafi Þórarinssyni, verzlunarstjóra á Geirseyri og Eyjólfi Sveinssyni á Lambavatni, er fýllinn að smá færa út kvíarnar á skaganum vestan fjarðarins og víðar vestra. Hann verpir nú töluvert í Látrabjargi, einkum í því utanverðu, þar sem það fer að lækka og er dálítið grasi gróið, og útrýmir svartfuglinum um leið. Hann er líka kominn í Brekkuhlíð, fyrir innan Keflavík; í Lambavatnsfjall (fyrir 12 árum), í Miðhlíðarfjall á Barðaströnd (síðan um aldamót) og í Skorarkletta. Svo er hann hinsvegar kominn í Bjarnarnúp og í Hnífana, en fjölgar þar ekki; hann er mjög margur í Blakknum og í núpunum inn með firðinum, inn að Hænuvík, verpir hann eitthvað, en er ekki í Tálknanum“ (Bjarni Sæmundsson fiskifr; Fiskirannsóknir 1931-1932; Andvari 1.tbl. 1933).
"Einkennilegt er hvað fýlnum fjölgar ört, þó hann eigi ekki nema eitt (hvítt) egg. Ólafur úr Keflavík (við Látrabjarg), sagði, að nú myndu verpa að minnsta kosti hundrað fýlar á Vestfjörðum, fyrir hvern einn er verpti þar fyrir fjörutíu árum". (Ól. Friðriksson Fálkinn 22.05.1937).
Fýlungi, sem vestra er nefndur múkki, hafði lengi verið nytjaður að einhverju marki til matar, en eftir að honum tók að fjölga svona hófu menn að sækja meira í egg hans; jafnframt því sem neysla ungans lagðist af. Fyrstir til að fara í Blakkinn til fýlseggja voru líklega Jón Torfason í Kollsvík (eftir honum er Jónshöfði nefndur) og Andrés Karlsson á Stekkjarmel, en báðir voru mjög færir bjargmenn. VÖ skrásetjari var sjálfur „eins og grár köttur“ í klettum allt í kringum Kollsvík, í eggjasnöpum. Miklir eggjastaðir í Blakknum voru; Jónshöfðinn; Árnastaðirnir tveir; Mávakambar og Sighvatsstóð, en VÖ fann leið í þau uppúr 1980. Einnig var mikið farið í Breiðinn, einkum af Gylfa og Svavari Guðbjartssonum auk VÖ; og í Hnífunum. Má ætla að egg sem öfluðust úr þessum björgum hafi verið 2-4000 þau vor sem mest fékkst. Eftir 1990 fór múkkavarpi mjög að hraka, enda féll þá minna slóg til af skipaflotanum með breyttum viðhorfum í nýtingu afla. Varp hvarf fyrst úr efstu göngum og var aukinni refagengd einnig kennt um. (Sjá 2000).
Einar hleður skot sín: Einar Guðbjartsson á Láganúpi hleður sjálfur sín haglaskot. Efnið pantar hann frá ýmsum aðilum, t.d. vopnasölunni Ferd. S. Bahnsen í Kaupmannahöfn eða frá Kaupfélagi Eyfirðinga. Einar er áhugasamur um skotveiði; jafnt á tófu og máf.
1934
Láganúpsjarðir komnar í eigu ábúenda: Jarðirnar Láganúpur og Grundir eru nú orðnar sjálfstæð lögbýli í eigu ábúenda, eftir að hafa um aldir verið í eigu Saurbæjarkirkju á Rauðasandi. Eigandi og ábúandi Láganúps er Guðbjartur Guðbjartsson, ásamt konu sinni Hildi Magnúsdóttur og börnum þeirra. Á Grundum efri hafa búið Kristján Júlíus Kristjánsson og Dagbjört Torfadóttir, en þau flytja nú um set ásamt börnum sínum; að Grund í Láganúpslandi (Torfamel/ Samúelsmel, sem síðar var nefndur Júllamelur). Á Grundum neðri búa Grímur Árnason og María Jónsdóttir með börnum sínum. (BÞ; Vestfjarðarit; TÓ; Ábúendatal).
Kaupsamningurinn er dagsettur 02.02.1934 og undirritaður af Ólafi Þórarinssyni (sem verið hefur kaupfélagsstjóri Rauðsendinga) fyrir hönd erfingja Ólafs Ó Thorlacius frá Saurbæ. Með honum afsalar Saurbæjareigandi til Guðbjartar "hálflendur jarðanna Láganúps og Grunda í Rauðasandshreppi, ásamt leigukúgildum öllum; leiguhúsum og öðrum mannvirkjum er jarðarhlutum þessum fylgja". "Á jarðarhemingum þessum hvílir ekki framvegis kvöð um prestmötugjald til þjónandi prests Saurbæjarkirkju, en kaupandi öðlast ekki heldur með í kaupunum nein ítök eða neitt af þeim réttindum er Saurbæjarkirkja á eða hefir átt í sambandi við þessa jarðarhelminga". "Andvirði jarðarhluta þessara er kr 2.483,17" og hefur verið greitt að fullu.
Afsa þetta er einungis fyrir hálfum jörðunum. Árið 1930 höfðu ábúendur keypt hinn helminginn; þá líklega 1930 (sjá þar). Afsal þetta er varðveitt í skjölum á Láganúpi. Grundir neðri voru seldar Ingvari á Stekkjarmel 25.04.1953 (sjá þar), sem síðar seldi Össuri á Láganúpi 01.04.1962 (sjá þar).
Fréttir úr verinu: Úr Víkum gengu nú í vor 19 opnir vélbátar. Samanlagður afli þeirra til í byrjun júlí er talinn 97 smálestir. Í fyrra voru bátar þarna taldir 15 og afli þeirra um 73 smál. (Ægir 8.tbl. 1934).
Nýtt íbúðarhús á Láganúpi: Allstórt íbúðarhús úr timbri var losað af grunni, efst á Rananum á Grundum, og dregið í heilu lagi neðan frá Grundum upp á flötina neðst í Láganúpstúni; allnokkru neðan gamla Láganúpsbæjarins. Hús þetta hefur Guðbjartur Guðbjartsson keypt ásamt sonum sínum af Kristjáni Júlíusi Kristjánssyni á Grundum, sem nú flytur á grasbýlið Grund í Láganúpslandi. Það var 37 fermetrar að flatarmáli; hæð með portbyggðu risi. Eftir flutninginn var byggður við það 12 fm skúr. Var húsið dregið með hestum og mannafli, enda þá enn ekki komin dráttarvél í Kollsvík. Með þessari nýju staðsetningu fæst rennandi vatn í húsið; með pípulögn ofan úr pytlu við Barnasteina. Hjá húsinu er kamar á steinsteyptri þró.
Nokkrum árum síðar er hafin bygging steinsteyptra grindafjárhúsa, fjóss og hlöðu stutt neðan nýja bæjarstæðisins; steyptrar votheysgryfju; og fleiri útihúsa; sjá 1941. Grjóthlaðinn mókofi og hænsnakofi stóðu stutt frá þessum nýstaðsetta Láganúpsbæ, en ekki er ljóst hvort þau hús voru eldri eða yngri en hann.
Sími kemur í Kollsvík: Kollsvíkurlína hefur verið lögð frá Breiðuvík að Stekkjarmel, en þar verður símstöð í umsjón Karls Kristjánssonar bónda.
Símalínan fylgdi að mestu hestaveginum yfir Breiðavíkurháls. Símavæðingu bæja í þessari fyrstu umferð lauk að mestu 1937, sjá þar.
Síðustu fráfærur í Kollsvík: „Faðir Össurar færði frá sumarið 1934, nokkrum kindum aðallega til að sýna hvernig þetta var gert, en það sumar var reyndar líka mjólkurlítið, þannig að sauðamjólkin kom sér vel“ (Össur Guðbjartsson Láganúpi í viðtali við Hallgerði Gísladóttur um 1980). „Reynt var að fá sem best upprekstrarland (fyrir fráfærulömbin). Í Sauðlauksdal þótti kjörland fyrir hagfæringa eins og annan sauðfénað. Þar var fengið upprekstarland í síðustu fráfærur, sem hér koma við sögu. Var það úr Kollsvík árið 1936 (áratali ber ekki saman við ÖG)“ (KJK; Fráfærur) Fráfærur voru reyndar aflagðar víðast í hreppnum 1910-1915 (sjá 1912) og einnig í Kollsvík, svo þetta hefur verið mjög sérstakur viðburður.
„Í Kollsvík, þar sem ég þekkti best til í æsku, voru 3 bújarðir: Kollsvík, tvíbýli, þar var fyrr stekkur heima við tún, síðar fluttur fjær. Á Láganúpi var síðast stekkur í túnfæti. Frá Grundum og Láganúpi voru áður 4 stekkir út eftir Hnífum. Heimstur var Þúfustekkur, þá Eyvararstekkur, síðan Katrínarstekkur og yst Grófarstekkur. Sennilega hefir hvor jörðin átt sinn stekk“. (KJK; Fráfærur). (Á Þúfustekk eru rústir 2-3ja stekka).
Vegagerð yfir Skersfjall: Akfær vegur hefur verið ruddur yfir Skersfjall; frá Hvalskeri til sjávar í Bjarngötudal. Verkstjóri var Lýður Jónsson, en Bergur Jónsson sýslumaður hefur beitt sér mjög fyrir vegagerðinni. Er þetta einungis annar akfæri vegurinn yfir heiði á Vestfjörðum, en Steinadalsheiðarvegur var opnaður á síðasta ári. Vegurinn er bylting í samgöngumálum Rauðsendinga. (AÍ; Árbók Barð 1980-90). Endurbættur 1945, sjá þar, og síðar.
Bíll kemur á Rauðasand: Eyjólfur Sveinsson kennari og bóndi á Lambavatni keypti Ford vörubíl úr Reykjavík, sem hann ætlaði til flutninga fyrir Rauðsendinga. Bíllinn var þó lítt eða ekki notaður, þar sem hann reyndist of stór og erfiður fyrir beygjur vegarins í Bjarngötudal. Keypti Vatneyrarfyrirtækið bílinn og notaði lengi. Áður var þó kominn bíll í hreppinn; að Breiðuvík 1926 (sjá þar).
Annar bíll kom stuttu síðar á Rauðasand og var lengi notaður. Hann var af gerðinni Ford-T og sameign nokkurra Rauðsendinga. Þórður Halldórsson frá Móbergi fór til Reykjavíkur til að læra á bíl og var síðan með bílinn. Bíllinn var fenginn notaður frá Bíldudal og reyndust brekkur Bjarngötudals honum erfiðar. Bíllinn var geymdur í Bjarngötudal og bar þar beinin. (AÍ; Árbók Barð 1980-90).
Búskap lokið í Keflavík: Síðasti bóndinn hefur nú flutt frá Keflavík, er Einar Sigurðsson (29. ágúst 1903 - 30. júlí 1971) flyst að Sellátranesi ásamt konu sinni Ólafíu Herdísi Ólafsdóttur (25.08.1886-31.10.1953). Flýtti það endalokunum að húsbruni varð þar nýlega (sjá 1932). Keflavík er 12 hundruð að fornu mati; góð sauðjörð; bjargnytjar og allnokkur hlunnindi að reka. Jörðin er miðsvæðis samgöngulega í hreppnum; með hestavegi um Kerlingarháls til Rauðasands; um Dalverpi til Sauðlauksdals; um Látraheiði til Látra og um Víknafjall til Kollsvíkur. Verstaða var þar að fornu fari, en síðastur reri þar Sveinn Magnússon 1900 (sjá þar).
Starfsemi Búnaðarfélagsins Örlygs: Búnaðarfélagið Örlygur hefur lengi (sjá 1891) unnið að ýmsum framfara- og hagsmunamálum bænda í Rauðasandshreppi; m.a. bættum búnaði. Hefur félagið fengið ríkisstyrki til jarðabóta og verkfærakaupa sem nema nærri 16.000 krónum frá stofnun (um 1891). Mest þó eftir að jarðræktarlögin komu til framkvæmda árið 1925. Notkun hestaverkfæra hefur markað þáttaskil þar sem unnt er að beita þeim. (Jón Guðnason; Umbylting við Patreksfjörð).
Fjárskaðar í óveðri: „Aðfaranótt 27.10.1934 var norðan rok (10 vindstig) og kafaldshríð en lægði nokkuð með morgninum. Í þessu hríðarveðri fennti fé á Geitagili, og hrakti í vötn og drapst. Ennfremur hrakti 2 kindur fram af fjöllum upp yfir Rauðasandi og hröpuðu til bana”. (Tíðarfarsannáll SJTh Kvígindisdal).
Sementsverksmiðja í Sauðlauksdal ? Verið er að rannsaka skeljasandsnámur og fleira víða um land, til undirbúnings því að reist verði sementsverksmiðja. Nú í sumar var gerð rannsókn á sandinum í Sandodda, neðan Sauðlauksdals, af Efnarannsóknastofu ríkisins og Danmarks Geologiske Undersögelse í Kaupmannahöfn. Rannsóknin leiddi í ljós að innihald sandsins af kolsúru kalki (kasíumkarbónati) væri um 90%; sandurinn væri af góðum hreinleika og kornastærð og að umfang námunnar væri slíkt að þar væri unnt að vinna 25 þúsund tonn á ári í 100 ár. Til sementsgerðar þarf einkum, auk kalksins, kísilsýruríkan leir; kol og raforku. Þau aðföng skortir í Sauðlauksdal. Skeljasandnáman í Sauðlauksdal var talin sú vænlegasta af þeim sem nú voru skoðaðar, en hinar voru Tálknafjörður, Stokkseyri og Álftanes á Mýrum. Menn hallast þó að því að verksmiðjan verði reist nær höfuðborgarsvæðinu, enda er þar mesta notkunin á afurðinni og fleiri aðföng við hendina. (Fálkinn 07.03.1941; Tímarit Verkfr.fél.Íslands 01.12.1949).
1935
Bátur settur yfir fjall: Fáheyrt er í seinni tíð að bátar séu settir yfir fjöll, sem oft skeði á öldum áður. Nú í janúar sótti Ingvar Ásgeirsson á Geitagili bát sem hann átti í Keflavík, frá því að hann bjó þar fyrrum, og setti hann fjallveg yfir að Hnjóti við fjórða mann. "Ræðið er af bát Ingvars Ásgeirssonar bónda í Keflavík, Prímus, sem settur var yfir fjöll í Rauðasandshreppi. Báturinn var settur á harðfenni frá Keflavík að Hnjóti í janúar 1935. Farið var með bátinn í einum áfanga alla leið. Þetta var tveggjamannafar, fjórróið. Þeir sem voru við setninginn voru: Ingvar Ásgeirsson, Sigurjón Ingvarsson og Helgi Einarsson til heimilis að Geitagili og Konráð Júlíusson í Efritungu. Báturinn Prímus var smíðaður í Keflavík. Smiður var Gestur Jónsson, Hvallátrum. Til að sveigja timbrið var það hitað í svokallaðri "svitakistu". Prímus var notaður til að hita gufuna í kistunni. Var þetta í fyrsta sinn sem timbur var hitað með því lagi í sveitinni og var bátnum því gefið nafnið Prímus" (EÓ; munaskráning Minjasafninu á Hnjóti).
Ingvar flutti frá Keflavík að Geitagili 1930 og hefur því geymt bátinn í nokkur ár; e.t.v. meðan beðið var hentugs færis. Hentugra hefur þótt að fara fjallveg en róa fyrir Tanga og víkur á svo litlu horni. Hentugra var einnig að fara aflíðandi brekku niður Vandardal en snarbratta Vörðubrekkuna niður að Geitagili. Einar Sigurðsson brá búi í Keflavík þetta ár, og fór hún við það í eyði.
Minni grásleppuveiði: "Í vor skýrði Ólafur (Tómas) Guðbjartarson, bóndi, frá því, að í þau 30 ár, sem hann bjó í Hænuvík við Patreksfjörð (1897-1923) og í Kefiavík við Látrabjarg (1932-1934), hafi orðið sú breyting á hrognkelsaveiðum á þessum stöðum, að á fyrstu 20 búskaparárum hans var gnægð hrognkelsa, hvarvetna fyrir landi, á vorin og fram eftir sumri, en úr þessu hefir dregið síðustu árin, og virðist sú tregða fara sívaxandi" (Ægir 01.07.1935).
Bruggað í Rauðasandshreppi: Grunur leikur á um að sumir bændur hér í hreppi hafi fengist við heimabrugg á þeim tíma sem áfengisbann hefur staðið; frá árinu 1915. Stórtækastur í því er líklega Helgi Þórarinsson Fjeldsted í Raknadal. Hefur hann sjálfur svo frá sagt (í viðtali við MG síðar) að þetta ár hafi þeir komið til leitar hjá sér; Björn Blöndal sem var sérstakur löggæslumaður stjórnvalda í bruggmálum og Árni Gunnar póstmeistari á Patreksfirði. Þeir leituðu til málamynda en fundu lítið annað en aflóga bruggtæki. Hinsvegar hafi þeir ekki leitað í dívaninum sem þeir sátu á, en þar var þéttraðað fullum flöskum af heimabruggi. (MG; Úr vesturbyggðum Barðastrandasýslu).
"Bruggið í Patreksfirði: Menn þeir sem teknir voru fyrir bruggun á áfengi í Patreksfirði hafa báðir selt framleiðslu sína frá því þeir byrjuðu á „iðninni", eftir því sem Björn Blöndal skýrði blaðinu frá í gær. Var farið að bera töluvert á óreglu unglinga þar vestra og þess vegna var þessi rannsókn gerð. Sagðist Björn aldrei hafa hafa sjeð annan eins sóðaskap við bruggun áfengis eða jafn ófullkomin tæki, og kvaðst hann þó hafa sjeð margt misjafnt af því tægi um dagana". (Mbl. 11.12.1935)
Þetta var á síðasta ári Bergs Jónssonar sem sýslumanns. Árið eftir kom Jóhann Skaftason sem var öllu harðari í þessum efnum. Er hann hugðist leita uppi í hlíðinni í Raknadal varaði Helgi hann við; að hann væri oft að gá þar að tófu og gæti ekki ábyrgst líf þeirra sem þar væru að þvælast. Ekki varð af þeirri leitarferð sýslumanns. Þeir brugguðu gjarnan saman, Helgi og Magnús á Hlaðseyri. Magnús bar sig eitt sinn illa er yfirvaldið hellti niður afurðum þeirra, en Helgi mun hafa huggað hann með þessum orðum; „Hættu nú þessu voli Mangi minn; þetta er nú enginn ástvinamissir“, og varð það að orðtaki. Áfengisbann var afnumið í árslok 1935.
Áfengisbruggun á Patreksfirði: "Síðastliðinn föstudag gerði Björn Blöndal löggæzlumaður húsrannsókn hjá Magnúsi Jónssyni, bónda á Hlaðseyri við Patreksfjörð. Í fjósinu fannst um 50 lítra kvartel fullt af áfengislegi í gerjun, og í gangi norðaustur af íbúðarherberginu, fannst annað kvartel jafn stórt; einnig fullt af áfengislegi í gerjun. Þá fundust bruggunartæki í heyhlöðunni og hálfflaska af heimatilbúnu áfengi fannst í stofu í íbúðarhúsinu. Sýnishorn voru tekin og afhent Efnarannsóknarstofu ríkisins til rannsóknar (þá var forstöðumaður hennar Trausti Ólafsson prófessor frá Breiðuvík). Magnús meðgekk að hafa byrjað að brugga fyrir jól 1933 og hafa gert það af og til fram til þessa dags. Þriggja pela flösku af brennivíni kvaðst hann hafa selt fyrir 5-6 krónur gegn peningum eða vörum.
Þá gerði löggæzlumaður síðastliðinn laugardag húsrannsókn hjá Þórarni Helga Fjeldsted í Raknadal við Patreksfjörð. Þar fundust í fjósi tveir stampar; samtals um 100 lítra, og á eldhúsgólfi einn stampur 20 lítra; allir fullir af áfengislegi í gerjun. Einnig fannst í eldhúsi lítið eitt af heimabrugguðu áfengi. Loks fundust bruggunartækin falin í búrinu. Sýnishorn voru tekin og afhent Efnarannsóknarstofu ríkisins til rannsóknar. Þórarinn meðgekk að hafa byrjað að brugga í nóvembermánuði 1933 og gert það af og til fram til þessa dags. Flöskuna kvaðst hann hafa selt fyrir 2 krónur til kr. 3,50 hverja, gegn peningum eða vörum. Sumt kvaðst hann þó hafa lánað en aldrei fengið borgað. Viðkomandi sýslumanni verða sendar skýrslur um málin til frekari rannsóknar. (FÚ: Nýja dagblaðið 10.12.1935).
Ungmennafélagið Smári stofnað í Sauðlauksdalssókn: Stofnað hefur verið ungmennafélag, og nær starfssvæði þess yfir byggðir hreppsins á strönd Patreksfjarðar; Örlygshöfn þar með. Hvatamenn að stofnun félagsins hafa m.a. verið ungmenni í Vatnsdal og Sigurbjörn Guðjónsson í Hænuvík. Félagið gekkst m.a. fyrir málfundum, dansleikjum, leikjum og söng. Í fyrstu kom fólk saman í gamla þinghúsinu við Tungu, en síðan í Félagsheimilinu Fagrahvammi eftir að það var byggt. Eftir 1944 fór að dofna yfir Ungmennafélaginu og að lokum lognaðist það útaf.
Ungmennafélagshús byggt á Rauðasandi: Ungmennafélagið Von á Rauðasandi, sem starfað hefur frá 1910 (sjá þar) hefur nú byggt sér glæsilegt samkomuhús. Má ætla að það verði helsta samkomuhús Rauðsendinga. Var öll vinna við það sjálfboðavinna. (BÞ; Vestfjarðarit o.fl.).
Togarinn Jería strandar undir Bæjarbjargi: Hinn 22. janúar 1935 fékk breski togarinn Jería GY 224 frá Grimsby á sig brotsjó út af Breiðafirði, á leið norður um. Brotnaði stjórnpallur og reykháfur togarans og hann laskast svo að hann hrakti stjórnlaust upp í Látrabjarg. Vestan ofsaveður var. Enskir togarar sem leitað höfðu vars á Patreksfirði brutust út og reyndu að komast áleiðis að slysstað en urðu að snúa við. Vestan ofsaveður var, og gátu skip er lögðu af stað til hjálpar ekkert aðhafst. Loftskeytasamband var við skipið allt þar til það barst í brotskaflana undir Bjarginu. Látramenn fóru út á Bjarg til að athuga með möguleika til björgunar úr landi. En þegar þangað kom var veðurofsinn svo, að óstætt var og sjódrifið svo mikið að lítið sást frá sér. Var með öllu ófært mönnum á þessum slóðum, og sneru leitarmenn heim. Morguninn eftir hafði veðrið lægt og fóru menn þá frá Hvallátrum og Breiðavík í leiðangur til að huga að strandinu. Gengu þeir um bjargbrúnir en urðu einskis varir, enda móska í lofti og skyggni ekki gott. Fóru sumir í Keflavík og gengu þar útmeð Bjarginu svo langt sem komist varð. Þarna voru, til og frá um fjöruna, innviðir úr skipi sem auðsjánlega hafði liðast í sundur. Einnig var þarna matvara og þar á meðal mjölpokar hálfþurrir, svo auðsjáanlega var þetta úr nýbrotnu skipi. Því var enginn vafi á að hér var brak úr Jería. En svo leist mönnum að ekki hefði skipið strandað á þessum fjörum. Varð ekki komið við meiri leit þennan daginn, og fóru menn heim við svo búið. Nokkrum dögum síðar fannst lík eins skipverja. (MG; Látrabjarg).
Drukknun á Rauðasandi: „Að kvöldi 03.08.1935 var 18 ára gömul stúlka Jóninna Bjarnfeld Benediktsdóttir á Skógi á Rauðasandi að sækja kýr en kom ekki aftur að kvöldi. Margt fólk leitaði hennar á hverjum degi og fannst hún loks 4 dögum síðar, sjórekin nálægt Keflavík”. (Tíðarfarsannáll SJTh Kvígindisdal). Í Nýja Dagblaðinu 09.08.1935 er talið líklegt að hún hafi fallið í Suðurfossá og líkið borist út um ósinn með straumnum.
Fjárskaði á Rauðasandi: “Aðafaranótt 26.11.1935 missti bóndinn í Gröf á Rauðasandi 46-48 fjár, sem stormurinn hrakti í sjóinn og fannst það sjórekið næstu daga. Þetta er talið með mestu veðrum af þessari átt á Rauðasandi”. (Tíðarfarsannáll SJTh Kvígindisdal). “Samkvæmt fregn frá Patreksfirði flæddi nýlega út 50 fjár á Rauðasandi. Var það helmingur fjárstofns bóndans í Gröf á Rauðasandi. Hefir 26 skrokka þegar rekið“. (Dagur 05.12.1935).
Hvalsker löggiltur verslunarstaður: Með lögum nr 46/1935 hefur Hvalsker verið gert að löggiltum verslunarstað. Þar er nú verslun Kaupfélags Rauðasands og sláturhús þess, og mjólkursala hófst frá Hvalskeri 1933.
1936
Sláturfélagið Örlygur verður kaupfélag: Lögum Sláturfélagsins Örlygs hefur nú verið breytt, á þann hátt að auk sláturhússreksturs og afurðasölu er félagið nú orðið kaupfélag. Það getur því útvegað félagsmönnum sínum og öðrum vörur. Munar allmiklu í verði þegar þannig eru gerð sameiginleg innkaup, auk þess sem kaup nauðsynja geta skuldajafnast við afurðainnlegg hvers og eins gegnum viðskiptareikninga. Framkvæmdastjóri Sláturfélagsins Örlygs er Sigurbjörn Guðjónsson (14.09.1891-18.04.1971) í Hænuvík.
Lög Sláturfélagsins Örlygs: Í lögum félagsins segir m.a. að starfssvæðið sé byggðin frá Hafnarmúla að Hvallátrum, en heimilt sé að rýmka það. Tilgangur félagsins er sala sláturafurða félagsmanna með vöruvöndun, hagkvæmni og hámörkun verðmætis að leiðarljósi. Einnig að kaupa inn nauðsynjar fyrir félagsmenn á hagstæðu verði, annast sölu sjávarafurða og gæta arðsemissjónarmiða. Félagið starfrækir slárurhús á Gjögrum. Ákvæði eru um stofnfé og um takmarkaða ábyrgð félagsmanna. Stjórn skipa 3 félagsmenn, kosnir á aðalfundi. Enginn má skulda félaginu við nýár. Kostnaður við rekstur greiðist af álagningu á vörur félagsins. Lögin eru dagsett 19.04.1936 og undir þau rita: Sigurbjörn Guðjónsson, Kristján Júlíus Kristjánsson, Ásbjörn Helgi Árnason, Guðmundur Jón Hákonarson, Ingvar Ásgeirsson, Guðmundur Lúther Sigurðsson, Einar Sigurðsson, Pjetur Ólafsson, Guðbjartur Guðbjartsson, Karl H. Kristjánsson, Jón Torfason, Aðalsteinn Sveinsson, Guðmundur Jóh, Kristjánsson, Guðmundur Gestsson, Helgi Gestsson, Pétur Guðmundsson, Hafliði Ólafsson, Hafliði Halldórsson, Magnús B. Sigurðsson, Gunnar Árnason, Guðbjartur Hákonarson, Sveinn Sveinsson (f.h. Sveins Benónýssonar), Pétur Ólafsson (f.h. Jóns Arasonar), Ólafur Magnússon, Helgi S. Einarsson, Jón S. Guðjónsson, Einar T. Guðbjartsson og Kristinn Ólafsson. (Handrit í vörslu skrásetjara). Lögunum fylgja samþykktir sem eru mun ítarlegri um mörg atriði.
Landsímastöð á Stekkjarmel: Hinn 07.11.1936 var opnuð 3.flokks landsímastöð í Kollsvík í Rauðasandshreppi. Merki hennar (á símskeytum o.fl.) er Kolv. og umdæmisstöð er Ísafjörður. Talsímagjöld verða fyrst um sinn þessi; Kolv-Brvík 0,35 kr; Kolv-Hnjó/Ltr 0,50 kr; Kolv-Hval/Pt/Sbrh 1,00 kr; Kolv-Ho/Ís/Lit/Np 1,25 kr; Kolv-R 2,00 kr. Að öðru leyti sömu gjöld og frá Breiðuvík. (Póst- og símatíðindi nóv 1936).
Kollsvíkingar meðal stofnenda Ofnasmiðjunnar: Ofnasmiðjan hf var stofnuð 06.05.1936. Forgöngumaður þess var athafnamaðurinn Sveinbjörn Jónsson frá Akureyri, en stórir hluthafar voru einnig bræðurnir Samúel Torfason (19.12.1902-18.02.1987), Guðmundur Torfason (05.02.1901-03.12.1991) og Guðbjartur Torfason (13.10.1897-31.08.1948), ásamt Hermanni Bæringssyni (02.12.1908-22.02.1988) (Bjarnasonar og Jóhönnu Árnadóttur frá Kollsvík). Ofnasmiðjan framleiðir miðstöðvarofna og er með þessu stofnað til nýs atvinnuvegar í landinu í kreppunni, um leið og dregið er úr ónauðsynlegum innflutningi.
Nafni fyrirtækisins var síðar breytt í Rými-Ofnasmiðjan og hóf það að flytja inn hillur, lagerbúnað o.fl. Urðu starfsmenn 245 þegar mest lét og fyrirtækið í hópi 300 stærstu á landinu. Ofnasmíði var hætt árið 2003. Árið 2012 sameinaðist fyrirtækið Raflögnum Íslands en hélt nafninu.
Árni, sonur Samúels Torfasonar, stofnaði fyrirtækið Sam-bíóin 01.01.1990, sem fljótlega varð langstærsta keðja kvikmyndasýningahúsa á landinu og kom einnig að fjölmiðlarekstri.
Kveðjusiðir: „Eitt var þó í fari Magnúsar, sem mér þótti einkennilegt. Víðast hvar sem við komum á bæi gekk Magnús að húsbóndanum og rak honum rembingkoss. En húsmæðrunum heilsaði hann aðeins með handabandi, og það þótti mér einkennilegast. Ég hélt annars að kossakveðjumar væru víðast lagðar niður hér og að kossar tíðkuðust nú aðeins hinsegin“. (RÁ; Framsókn-bændablað 28.11.1936)
Ragnar Ásgeirsson bókaþýðandi og rithöfundur ferðaðist um Barðastrandasýslur 1936 sem garðyrkjuráðunautur á vegum Búnaðarfélags Íslands. Í Rauðasandshreppi varð hann samferða Magnúsi Jónssyni á Skógi (sjá 1975), sem var þá trúnaðarmaður Búnaðarfélags Rauðasandshrepps við úttektir hjá bændum. Ragnar fór ekki í Kollsvík en segist hafa frétt af miklum garðræktaráhuga þar. Hér er hann staddur í Sauðlauksdal, hjá Þorvaldi Jakobssyni og fjölskyldu, og undrast kveðjusiði sem enn eru við lýði í hreppnum. Enn heilsaðist fólk og kvaddi með kossum; a.m.k. innansveitarfólk í Rauðasandshreppi, fram undir lok 20.aldar þó þá væri mikið farið að draga úr því. Vel má vera að fólk hafi verið meðvitað um smithættu slíks, en meðan lítið var um aðkomufólk skipti það minna máli en síðar varð. Pistla sína nefndi Ragnar „Hjá Barðstrendingum“ og birtust þeir sem framhaldssaga.
Tjón í stórviðri: Aðfaranótt 16.09.1936 varð allnokkuð tjón um alla Vestfirði og Vesturland af stórviðri, þegar skyndilega hvessti mjög af suðri. Allt hey er úti var sópaðist burt. Gríðarstór flóðalda skall upp á Rauðasand; alveg upp að túnum og að Skaufhól. Til að sjá var aldan eins og gríðarhár veggur, og hafa Rauðsendingar ekki séð annað eins frá árinu 1900. Eitthvað af fé fór í sjóinn á Rauðasandi. Að Sauðlauksdal fauk þak af hlöðu og eyðilögðust 80 hestar af heyi. Á Hvallátrum skemmdust hús meira og minna. Í Breiðuvík tók út 2ja tonna trillubát Guðmundar Kristjánssonar úr nausti, og fauk þak af fjárhúsi. Rak bátinn á land aftur; mölbrotinn. Á Grundum fauk þak af hlöðu. Tveir trillubátar sukku á Patreksfirði; vélbátinn Orra rak á land og gereyðilagðist og tjón varð á bryggjum. Skemmdir urðu í hvalveiðistöðinni á Suðureyri í Tálknafirði og þar skemmdist hvalveiðibátur. (Mbl. 18.09.1936; Tíðarfarsannáll SJTh). Í þessu sama stórviðri hrakti franska rannsóknaskipið Pourquoi pas til strands við Álftanes á Mýrum. Fjörutíu fórust; þar á meðal leiðngursstjórinn, hinn heimsfrægi vísindamaður Jean-Baptiste Charcot; einn komst af.
Önnur flóðbylgja gekk upp á Rauðasand 19.10.1936; sú þriðja á sama árinu. Í þessari eyðilögðust girðingar og flóðgarðar, og fé tapaðist í sjóinn. Sandrifið framan Rauðasands er svo skaddað eftir þessi óveður af suðri og suðvestri að sjór gengur frekar en áður óbrotinn yfir slægju- og beitilönd uppundir bæi. Fjárhús fauk á Sellátranesi og þak af húsi í Breiðuvík. (Tíðarfarsannáll SJTh, Kvígindisdal).
Hellan sem fauk upp á Látrabjarg: Til marks um vindstyrkinn í hinu mannskæða fárviðri 16. september er það að í Látrabjargi virðist gríðarstórt hellulagað bjarg hafa fokið neðan úr bjarginu og alllangt uppfyrir brúnina. Hellan er um 130 cm löng; 60-70 cm breið og um 300 pund að þyngd. (Bergsveinn Skúlason; Um eyjar og annes).
Sýslumannshúsið brennur, ásamt skjölum: Íbúðarhús sýslumanns Barðstrendinga á Patreksfirði brann til grunna hinn 05.07.1936. Ekki varð manntjón, en mikið eignatjón og óbætanlegt tjón á skjölum embættisins. Húsið var gamalt portbyggt timburhús með miðstöðvarhitun. Talið er að kviknað hafi í útfrá rafmagni. Svo fljótt magnaðist eldurinn að húsmóðir, sem svaf í herbergi á efri hæð, þurfti að fleygja sér út um glugga og meiddist nokkuð við það. Húsið var í eigu Bergs Jónssonar fyrrverandi sýslumanns, en þar bjó nú Jóhann Skaptason sem tók við embættinu í fyrrahaust. Íbúðarhúsið brann til kaldra kola, en hlaða og fjós sem nærri stóðu sluppu. (Vestfirskir slysadagar).
Gunnar Össurarson, Laxness og Maístjarnan: Gunnar Össurarson frá Kollsvík er ekki alleina fær húsasmiður og eldheitur kommúnisti, heldur má mikilstil eigna honum heiðurinn af því að til varð eitt ástsælasta kvæði Íslendinga á þessari öld, sem er Maístjarnan eftir Halldór Kiljan frá Laxnesi. Frá þessu segir skoðanabróðir hans og félagi; Árni Björnsson, á þessa leið: "Nú vildi svo til að mörgum árum áður en ég undirbjó fyrrnefndan þátt (útvarpsþáttinn "Fyrir minnihlutann") hafði Gunnar Össurarson (1912-1988 ) trésmiður frá Kollsvík sagt mér frá því, að hann hefði verið þar að verki ásamt Ásgeiri Blöndal Magnússyni (1909-1987), síðar ritstjóra Orðabókar Háskóla Háskólans . Báðir voru þeir árið 1936 í Sambandi ungra kommúnista og Ásgeir í forystu. Gunnar var sendur til Halldórs (Laxness) á Vesturgötuna til að reyna að fá hjá honum eitthvert meira efni í 1. maí-blað Rauða fánans, sem ungkommar gáfu út á þessum árum. Halldór kvaðst vera önnum kafinn upp fyrir haus; hann væri að skrifa hundrað bækur . „En eitthvað verð ég að gera fyrir ykkur", sagði hann samt, og með það fór Gunnar. Nú leið tíminn fram undir seinasta apríl. Þá loks hringdi Halldór í Ásgeir og sagðist vera búinn að setja saman kvæði sem brúka mætti í blaðið. En þá var þegar búið að prenta allt blaðið nema kápusíðurnar. Ljóðinu var því á síðustu stundu holað niður innan á aftari kápusíðu; ofan við auglýsingar um Gruno´s píputóbak; Nafta-bensín og efnalaugina Glæsi. Og í flýtinum láðist að setja nafn skáldsins undir það. Þegar ég hafði viðað að mér þessum upplýsingum með aðstoð Gunnars og Ásgeirs herti ég upp hugann og hringdi til skáldsins í Gljúfrasteini til að bera málið undir hann. Hann var hinn ljúfasti og kvað allt geta staðist, þótt hann hefði ekki lagt atburðarásina sérstaklega á minnið" (Árni Björnsson; "Hverjir náðu í Maístjörnuna"; Mbl. 08.05.1997).
Maístjarnan birtist síðar í bók Halldórs Laxness; Hús skáldsins, og þá laus við félagsskap auglýsinga. Kvæðið hefur síðan verið sungið við ýmis tækifæri; oftast við lag Jóns Ásgeirssonar, þó fleiri tónskáld hafi spreytt sig á því. Sjálfur var Gunnar Össurarson ágætur hagyrðingur.
1937
Silfurrefir ræktaðir í búrum: Nokkrir framtakssamir menn í Útvíkum hafa hafið eldi silfurrefa. Þetta eru Einar Guðbjartsson á Láganúpi og Guðmundur Kristjánsson og Sveinn Sveinsson í Breiðuvík. Snæbjörn S. Thoroddsen í Kvígindisdal hefur milliböngu um kaup eldisrefa, en samanlagt verð þeirra er 673,91 kr (kvittun 25.09.1937). Einar hefur byggt refabú efst á Gróumel í Láganúpslandi; utanvið Gilið. Hann aflar fóðurs m.a. með skotveiði á fuglum; einkum máf.
Fóðurs fyrir refi sína aflaði Einar með eigin fuglaveiði, ærketi, selketi, hámerarketi, eggjum og fiski, auk kornmatar og síldarmjöls. Einnig keypti hann fugl og annað fóður hjá nágrönnum, t.d. Grími Árnasyni og Óskari Grímssyni á Grundum, Andrési og Matthíasi Karlssonum á Stekkjarmel, Jóni Torfasyni í Kollsvík, Árna og Ólafi Helgasonum í Tröð, Einari, Bergmanni og Guðmundi Sigurðarsonum á Sellátranesi, Pétri og Kristni Ólafssonum og Bjarna, Agnari og Björgvin Sigurbjörnssonum Hænuvík, Guðmundi Kristjánssyni og Aðalsteini og Sveini Sveinssonum í Breiðuvík, Jóni Hákonarsyni á Hnjóti. 1941 eru fengnar hjá Einari þessar nafngreindu tófur: Píla, Hosa, Silfra, Grána, Ögn, Spök og Brúða.
Hinn 14.02.1944 má sjá á móttökuskírteinum Loðdýraræktarfélagsins að Einar hefur afhent í umboðssölu 5 silfurrefaskinn, 1 blárefaskinn og 1 af hvítum. Árið 1946 eru 3 silfurrefaskinn; 3 af bláref og 2 af hvítum. (Nótur og dagbækur Einars 1941-1943).
Kindur Guðbjartar á Láganúpi: Guðbjartur Guðbjartsson er annálaður fyrir natni sína við búskap, og fjárglöggur með afbrigðum. Þetta vorið færir hann nöfn, lambafjölda og burðardag kinda sinna í ærblað, venju samkvæmt. Nöfn ánna eru þessi: Bára, Brún, Stöng, Sif, Fífa, Gulhnakka, Inga, Maga, Gulbrá, Gul, Pjúa, Grein, Gulrófa, Peta, Rjúpa, Kempa, Bletta, Rauðfætla, Spakakolla, Görn, Sletta, Dúfa, Súla, Háleit, Rauðeygð, Dropanös, Bytta, Geira, Klauf, Skrauta, Stroka, Lúpa, Strönd, Eygla, Fjósa, Hringhyrna, Sóley, Freyja, Mjöll, Lærbót, Lotta, Íhaldskolla, Eygló, Ponta, Perla, Mógofa, Geirhyrna, Golsa, Brana, Harpa, Breiðleit, Grön, Skessa, Kola, Björg, Grána, Rauðhetta, Bjartleit, Brúða, Keila, Brosleit, Búska, Fjóla, Kúpa, Gribba, Fönn, Gulhyrna, Gráleit, Kveisa, Budda, Pita, Gufa, Skeifa, Kría, Bylgja, Píla, Svala, Fluga og Gulakolla. Alls 82 talsins.
Mannskæðir berklar: Berklasótt hefur höggvið stór skörð í fjölskyldurnar í Hænuvík á síðustu árum. Þar eru þrjú býli og hafa 9 manns dáið frá þeim (1930-1940) vegna berkla; flest á barns- og unglingsaldri. Talið er að berklarnir hafi borist á staðinn með bónda sem hafði verið suður á Vífilsstöðum til lækninga. (Bræðingur; saga fjölskyldu. TÓ; Ábúendatal Rhr).
Berklar orsakast af bakteríunni Mycobacterium tuberculosis og berst milli manna í lofti. Sýking í lungum er algengust, en önnur líffæri eru einnig í hættu. Berklar hafa líklega verið í landinu frá fyrstu tíð, en það var ekki fyrr en um 1900 sem þeir breiddust mjög út. Árlega dóu um 150-200 manns á tímabilinu 1912-1920. Með tilkomu berklalyfja 1950 dró mjög úr smitum og hafa á síðustu árum greinst 10-20 tilfelli á ári. (Landlæknisembættið).
Sælgætisiðnaður í Saurbæ ? „Helga Thorlacius matreiðslukona hefir sent fréttastofu útvarpsins sýnishorn af fjallagrasa-konfekti, skreyttu sykruðum fjólum. Eru fjólurnar tíndar hér í septembermánuði uppi á fjöllum hjá Bæ á Rauðasandi. Hefir Helga í hyggju að búa til fjallagrasakonfekt til sölu í verzlunum í Reykjavík. Fjóluskreytt fjallagrasakonfekt lítur mjög vel út og jafnast á við annað innlent konfekt að gæðum“. (Nýja dagblaðið 05.12.1937).
Enn tíðkast kvöldvökur á Lambavatni: Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi (05.08.1930-06.06.2017) minnist uppvaxtarára sinna á Lambavatni á Rauðsandi: "Eitt sem dró okkur systkinin niður í Neðribæ á vetrarkvöldum var að þar tíðkuðust kvöldvökur í því formi sem þær voru tíðkaðar gegnum aldir á sveitabæjum en voru, að ég held, víðast horfnar. Ekki voru þó kveðnar rímur, en stálpuðu börnin voru sett í að lesa fyrir heimilisfólkið sem sat við sína handavinnu; að tæja ull, kemba, spinna, prjóna, sauma, flétta reipi og fleira sem til féll. Sumir föndruðu með vasahnífum við útskurð, sem mikið var gert af á báðum bæjunum. Merkilegt hvað hægt var að velja bækur sem allir kunnu að meta; börn og fullorðnir, en á Rauðasandi var lestrarfélag í miklum blóma og mikið af bókum þar; auk þess sem talsvert var af bókum á Lambavatnsbæjunum". (SG; Bréf til mömmu; Árbók Barð. 1980-1990).
Þjóðhagasmiðurinn Guðbjartur á Lambavatni: Mönnum er misjafnlega gefin handlagni, hugvit og útsjónarsemi; einnig það að leyfa öðrum að njóta þeirra hæfileika. Íbúar Rauðasandshrepps búa núna vel í þessum efnum; að geta leitað til þjóðhagasmiðsins Guðbjartar Egilssonar (25.02.1898-23.06.1952) bónda á Lambavatni efra. Hann er útsjónarsamur bóndi og félagsmálamaður; ein af driffjöðrum ungmennafélags og skemmtanalífs og hreppsnefndarmaður. Guðbjartur er dverghagur bæði á tré og járn. Hann sker listaverk í við; smíðar hús og húsgögn; rennir rokka og rimlaverk; smíðar líkkistur, lampa, amboð og heyvinnuvélar; járnar hesta og fæst við fjöldamargt annað. Sigríður dóttir hans lýsir þessu m.a. svo: "Næstum allt sem smíðað var úr tré var úr rekavið. Hann smíðaði allar líkkistur utan um Rauðsendinga, og þar áður smíðaði Egill afi minn utan um þá látnu; og Gunnlaugur faðir hans á undan honum... Rennibekkurinn hans pabba var nokkuð merkilegur. Valdimar bróðir pabba smíðaði hann þegar hann var í vélsmíðanámi. Þessi rennibekkur er enn til, en nú kominn með rafmagnsmótor. Fyrr var hann stiginn; með tveim fótstigum. Það skondna er að áður framleiddi rennibekkurinn rafmagn. Pabbi tengdi við hann dínamó, og svo voru hlaðnar rafhlöður fyrir útvörpin, sem kallaðar voru "votabatterí"... Svo renndi pabbi rokkana og margt fleira í rennibekknum. Annars var með ólíkindum hvað smíðin hans pabba var fjölbreytt. Hann átti smiðju og þar smíðaði hann skeifur undir flesta hesta í sveitinni, og jafnvel næstu sveitum, auk fjölda annars. Hann smíðaði járnin á aktygin sem hann smíðaði talsvert af. Svo tók hann sig til og smíðaði heyvagn sem þótti mikið rarítet. Sá var á fjórum járnhjólum; fremur litlum en breiðum. Stýringar voru á framhjólunum og tveimur hestum beitt fyrir. Var þetta mikil framför við heyhirðingu á þessum árum. Svo smíðaði hann pabbi olíulampa úr kopar, og á ég enn tvo af þeim. hann keypti kransana sem glösin stóðu í, en kveikti saman olíuhaldarann og grind til að hengja hann upp... Gömlu konurnar komu stundum með götóttu pottana sína, kaffikönnurnar og katla, og hann hnoðaði og lóðaði í götin og styrkti þetta á allan hátt, svo þær höfðu orð á að þetta væri sem nýtt. Líka gerði hann við rokkana þeirra og aðra húsmuni" (SG; Bréf til mömmu; Árbók Barð. 1980-1990).
Guðbjarur veiktist alvarlega árið 1952 af kransæðastíflu. Björn Pálsson sótti hann vestur á Rauðasand á flugvél sinni og var það fyrsta lending flugvélar þar á söndunum. Guðbjartur lést eftir skamma legu syðra. Við andlátsfærslu hans í kirkjubók er ritað: "Hann var mannasættir". Sjá 1952.
Kraftverkin á Rauðasandi: Flestir bæir á Rauðasandi eru nú komnir með útvarpsviðtæki. Þeim fylgir þó sá annmarki að hlaða þarf votabatteríin öðru hvoru og engar hafa verið rafstöðvar á Sandinum til skamms tíma. Hafa menn farið með geymana að Kvígindisdal og fengið hleðslu með rafstöðinni þar. Nú hefur nokkuð ræst úr, með framtaki hugvitsmanna. Á Naustabrekku fékk Þórarinn bóndi Ólafsson Andrés Karlsson á Stekkjarmel til að smíða fyrir sig yfirfallsvatnshjól sem snýr 6 volta dýnamó úr bíl. Nefndu gárungar þetta "kraftverkið" á Brekku. Þjóðhagasmiðurinn Guðbjartur Egilsson á Lambavatni fann aðra lausn, er hann fékk sér bíldýnamó og reimtengdi hann við fótstiginn rennibekk sinn. Gat hann með þessu hlaðið útvarpsgeyma um leið og hann vann í bekknum. Síðar smíðaði Guðbjartur vatnshjól fyrir Gísla Thorlacius í Saurbæ; tengdi það dýnamó og var það einnig notað til hleðslu. (heim; Ari Ívarsson, frásögn á Sarpi; þjhd.Þjms. Skeika kann einhverju með átöl).
1938
Eignir Láganúpsbúsins: Tekinn hefur verið saman listi yfir eignir Láganúpsbúsins.). Eru eignir í stórum dráttum þannig metnar (í krónum): 5 ha tún 2.000; garðar 40; engi 360; beitiland 1.000; hlunnindi 200; girðingar 500; timbur (óunnið) 40; vír (sléttur) 15; 20 dv skurðir 20; íbúðarhús 2.600; 2 fjós og hlaða 85; 4 fjárhús og hlaða 155; hesthús og hlaða 50; safngryfja 20; lambhús 30; vatnsleiðsla 200; kerra 100; aktygi 75; áburðarkassi 25; hjólbörur og hestast 12; 3 orf og ljáir 9; hverfisteinn 5; 5 hrífur 15; 6 reipi 6; reiðingur og beisli 5; klappa og steðji 5; 2 skóflur 5; 2 kvíslar 2; járnkarl 3; sleggja 3; vogir 5; brennijárn 2; hefilbekkur 3; 2 sagir 8; borar og hjólsveif 10; heflar 8; hamrar og naglbítur 2; öxi 3; önnur smíðaáhöld 5; hnakkur 15; hross yfir 12 v 100; 27 ær 6 vetra 729; 57 ær 2-6 vetra 1.439; 15 gemlingar 255; 2 hrútar 660; 60 hst taða 720; 30 hst úthey 300; ormalyf 5; ull 10; kýr 3-8 vtr 200; kýr 2 vtr 125; 40 hst taða 480; 10 hst úthey 100; 1,5 tunna kartöfluútsæði 30; 5 tunnur aðrar kartöflur 100; eldavél 50; pottar og suðuáhöld 10; pönnur 2; leirvara 15; borðbúnaður 10; 1/2 skilvinda 65; strokkur (hl) 30; smááhöld 5; 4 tunnur 10; 3 fötur 3; 2 balar 5; þvottabretti 2; kornvara 120; sykur 25; kaffi 15; 8 tunnur kartöflur 160; kjöt 50; slátur 10; tólg 28; þvottaefni, sápa 40; 30 hst mór 45; 100 kg olía 30; olíufat 60; ull og lopi 30; 7 rúm og rúmfatnaður 70; borð 5; bekkir 5; legubekkur 40; 3 lampar 5; 2 klukkur 25; ofn 5; saumavél 65; 2 rokkar 30; fatnaður 300; bækur 200; útvarp 100; úr 10; ritföng 10; vélbátur 500; opinn bátur 50; skötulóð 15; 15 lóðir 30; 4 færi 16; uppihöld 10; niðristöður og snæri 10; 3 drekar 10; spil og stengur 35; ruðningur 10; kró og kassar 15; 3 tunnur 5; verbúð 50; 1 tonn salt 42; fiskur 75; bein o.fl. 75; peningar í sjóði 212,90. Þessar eignir alls kr 13.282,90.
Inneignir Láganúpsbúsins hjá öðrum eru þessar á sama tíma: Verslun Ó. Jóhannesson 339; Sláturfélagið Örlygur 233,21; Þórarinn Bjarnason 20,50; M. Ólafsson Njarðvík 500; Grímur Árnason 10; Ólafur Magnússon (ótilgr). Inneignir alls kr 652,71. Skuldir búsins eru þessar: Sveitarsjóður Rauðasandshrepps 700; Sparisjóður Rauðasandshrepps 900; Jón Guðjónsson 1.120; Össur Guðbjartsson 445,30; Samband ísl. samvinnufélaga 284,97; Kaupfélag Rauðsendinga 37: Nautsfélag Breiðavíkur 10. Skuldir alls kr 3.497,27.
Listinn er ódagsettur, en af samanburði við m.a. ársyfirlit verslana má ætla að hann sé gerður 1938. Hann er líklega unninn að mestu af Einari Guðbjartssyni, og má ætla að hann sé all nákvæmur Tilgangur hans er líklega ekki sá sístur að átta sig á fjárhagsstöðunni vegna fyrirhugaðra framkvæmdalána, en Láganúpur var nokkurskonar félagsbú Guðbjartar og Hildar og barna þeirra. Hér er um merkt plagg að ræða, sem varpar ljósi á fjölmargt á þessum tíma. Sjá má að eigna- og skuldastaða Láganúps er góð, þrátt fyrir nýleg kaup jarðarinnar 1930; fjárfestingu í nýju íbúðarhúsi 1934; vélvæðingu Rutarinnar 1931; kaupa á ýmsum vergögnum1934; barnmargt heimili; lítið bú og erfiða lífsbaráttu á þessum tímum. Útsjónarsemi og dugnaður á eflaust mestan þátt í þessari góðu stöðu. Hér var því kominn grundvöllur fyrir þeim miklu framkvæmdum sem ráðist var í á næstu árum, m.a. með byggingu nýrra skepnuhúsa. Vélbáturinn sem þarna er nefndur er líklega Rut, en opni báturinn er Svalan. Árið 1934 keypti GG ýmis vergögn af Helga og Guðmundi Gestarsonum sem fluttu frá Kollsvík á Eyrar; m.a. gangspil með stöngum; ruðning, kassa o.fl. Hestakerru og aktygi keypti GG frá verslun Ó. Jóhannesson árið 1929, og saumavélina einnig.
Mjólkusala hafin úr Örlygshöfn: Bændur úr Örlygshöfn stofnuðu Mjólkurfélag Örlygshafnar hinn 14.05.1938 og eru farnir að selja mjólk til Patreksfjarðar. Mjólkin er flutt sjóleiðis en enn er engin bryggja fyrir hendi. Þurfa því bátarnir að lenda við Tungurif; undir Gjögraholti þar sem rudd hefur verið vör. Bátar frá Patreksfirði sjá um flutningana. Þegar brimar svo að ekki er unnt að lenda er skotið út línu með línubyssu og brúsarnir síðan dregnir fram í bátinn gegnum brimið. Línubyssuna keypti Mjólkurfélagið á 100 krónur af Slysavarnarfélaginu.
Byssan var síðar notuð til að skjóta höfrunga í Grindavík en er nú á safninu á Hnjóti. Til þessara mjólkurflutninga voru notaðir mjólkurbrúsar með þéttu loki. Mjólk var flutt frá Hvalskeri frá 1932. Stefán Ólafsson á Skeri flutti sína mjólk í fyrstu, en síðan var flutningum sinnt frá Patreksfirði. Pétur Ólafsson frá Hænuvík var síðastur til að flytja mjólk sjóleiðis, en á undan honum flutti Aðalsteinn Sveinsson frá Breiðuvík og aðrir þar áður. (AÍ; Árbók Barð 1980-90 og viðtal við ÓM Hnjóti í Mbl. 08.12.1985).
Allar byggðir hreppsins í símasambandi: Nú hefur sími verið lagður út Gjögrafjörur að Sellátranesi og Hænuvík. Sími kom að Saurbæ á síðasta ári, og þar var sett upp 3.flokks símstöð. Með því eru öll byggðarlög hreppsins komin í símasamband, þó ekki sé kominn sími á hvern bæ. Mörgum þykja þó takmörkuð not af símanum þar sem símstöðvar eru aðeins opnar tvo klukkutíma á dag, þó auðvitað sé opnað ef mikið liggur við. Langt er frá símstöð til sumra bæja og íþyngjandi fyrir símstöðvarstjóra að koma kvaðningu og hraðskeytum til skila, en það er þeirra skylda. (AÍ; Árbók Barð).
Úr símamálum rættist enn frekar þegar símalagningu á alla bæi lauk 1952, sjá þar.
Jarðskjálfti á Rauðasandi: Hinn 16.06.1938 „fundu menn í Kirkjuhvammi á Rauðasandi allsnarpan jarðskjálftakipp kl 16.00. Annarsstaðar er eigi þessa kipps getið og eigi kom hann fram á mælunum“. (Veðráttan júní 1938).
Jarðskjálftar finnast allajafna ekki í Rauðasandshreppi; enda er hann langt frá virkum svæðum flekaskila landsins. Hvergi var grandvarara fólk í hreppnum en í Kirkjuhvammi, og fregnin því trúverðug. Fyrst skjálftinn kom ekki fram á mælum má ætla að þetta hafi verið staðbundinn atburður; t.d. að stórt bjarg hafi fallið úr fjallinu, þó ekki hafi sést eða heyrst.
Marsvínavaða á Patreksfirði: „Sunnudagin 20.03.1938 kom mjög stór hópur af marsvínum inn á Patreksfjörð og náðust þar af um 20 hvalir. Eftir nokkra daga fóru hvalirnir til Tálknafjarðar og er verið að smádrepa þá þar. Nokkrir af hvölunum voru með kálfa í sjer og voru komnir nálægt goti”. (Tíðarfarsannáll SJTh, Kvígindisdal
1939
Nýtt steinsteypt fjós á Láganúpi: Guðbjartur Guðbjartsson og synir hans á Láganúpi hafa ráðist í miklar byggingaframkvæmdir, en fyrirhuguð er endurnýjun og sameining allra skepnuhúsa á jörðinni. Húsasamstæðan verður steinsteypt og mun standa neðan hins nýja íbúðarhúss sem dregið var frá Grundum 1934 (sjá þar). Á þessu ári er byggð stór hlaða, en í enda hennar er vandað þriggja bása fjós með steyptum flór og lúgu út í steinsteypt haughús með áfastri hlandþró. Í framhaldinu verða byggð fjárhús og votheysgryfjur (sjá 1941). "...auk þess eru nýjar hlöður, fjós og áburðargeymslur; allt steypt" (bréf EG til Búnaðarbankans 13.07.1939).
Skógur fer í eyði: Jörðin Skógur á Rauðasandi leggst nú í eyði, en síðustu ábúendur þar eru Magnús Jónsson (12.07.1905-30.04.1975; sjá þar) og Pálína Rebekka Halldórsdóttir (04.02.1909-09.09.1995).
Árið 1952 var jörðin sameinuð nágrannajörðinni Móbergi, af þáverandi ábúendum Móbergs; Júlíusi Reyni Ívarssyni og Jóhönnu Gunnlaugsdóttur.
Parana sökkt undan Patreksfirði: Þýska flutningaskipinu Parana frá Hamborg, 5900 smálestir að stærð, var að öllum líkindum sökkt af bresku herskipi skammt undan Patreksfirði sunnudagskvöldið 12. nóvember 1939; skömmu eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út. Í Kollsvík sást sterkt ljós af ljóskastara og virtist koma frá skipi á suðurleið. Einnig heyrðist eitt skot þar um 10-leytið. Á Látrum og Breiðuvík sáu menn þetta ljós, og einnig sterkt rautt ljós. Á Sveinseyri hafði nokkrum klukkustundum áður orðið vart við ljósagang, og þar heyrðu menn 5 skothvelli. Bar mönnum saman um að ljósið hafi verið nokkuð djúpt undan landi, en svo sterkt að það lýsti upp fjöllin sem um hábjartan dag væri. Morgunblaðið sagði frá þessum viðburðum 14. nóvember, og vitnaði einnig í lausafregnir um að enskur tundurspillir hafi þarna sökkt þýsku skipi; Panama frá Hamborg. Síðar fékkst staðfest frá breska flotamálaráðuneytinu að tveimur þýskum skipum hafi verið sökkt þessa helgi; Meeklenburg sem var 9000 smálestir og Parana. Ekki var þar greint frá staðsetningum. Daginn eftir þessa atburði út af Patreksfirði sást til tundurspillis út af Dýrafirði, sem fór mjög grunnt.
Annar atburður hafði orðið undan Patreksfirði nokkrum dögum áður. Hinn 27. oktober sama árs, kl 8.00 að morgni, heyrðu vegavinnumenn sem voru að vinna í Kollsvík skotdynki og sáu eldbjarma af hafi; í norðvesturátt frá Blakknesi. Dimmt var til hafs og sást ekki til skipaferða. Talið er að alls hafi verið skotið 8-10 skotum, og hafi liðið 2-4 mínutur milli þeirra. Glamparnir virtust færast suður á bóginn. Bendir margt til þess að sjóorrusta hafi þarna átt sér stað og töldu menn hugsanlegt að kafbátur hafi verið þarna, og skotin hafi verið viðvörunarskot frá honum er hann var að stöðva skip. Engar skýringar fengu menn þó á þessum atburði, eða hvort hann tengdist þeim síðari sem áður var getið.
Vörugeymsla Slf Örlygs í Hænuvík: Á fundi í stjórn Sláturfélagsins Örlygs 08.04.1939 var samþykkt að greiða Pétri Ólafssyni í Hænuvík þóknun fyrir húslán fyrir vörugeymslu fyrir liðinn tíma. Fáum dögum síðar ákveður stjórnin að byggja geymsluhús í Hænuvík; 6x8 álnir, með risi. Pétur gaf síðar lóð undir húsið.
Húsið var enn í notkun 1942 þegar ákveðið var að gera endurbætur á því, en um leið að undirbúa húsbyggingu félagsins á Gjögrum. (Sjá 1946). Hænuvíkurbændur eignuðust síðar húsið. Guðjón Bjarnason hefur nú (2020) breytt því í íbúð og leigir ferðafólki.
Lendingabætur á Hvallátrum: Á þessu og fyrra ári var unnið að því að dýpka og hreinsa lendinguna. (Ægir 01.01.1940).
Hvalveiðistöðin á Suðureyri hættir starfsemi: Kópur hf hefur nú hætt starfsemi hvalstöðvarinnar á Suðureyri í Tálknafirði. Vegna stríðsins hafa hinir norsku hvalveiðibátar verið kallaðir heim. Hvalveiðistöð var fyrst reist þar 1839 (sjá þar). (BÞ; Vestfjarðarit).
1940
Hausastappa, hrognaostur og aðrar matarhefðir: Fiskur hefur löngum verið mikilvægur hluti matar í Útvíkum og víðar um hreppinn. Hefð er þar fyrir gjörnýtingu afurðanna. Þorskur hefur ávallt verið mikilvæg söluvara til útflutnings og steinbítur hefur verið seldur austur í sveitir, t.d. mjög í Breiðafjarðarbyggðir og alla leið á Strandir. Alltaf er þó saltað nægilegt af flöttum þorski til heimilisnota. Annar afli nefnist tros og er vel nýttur. Hryggir eru hertir í skepnufóður; rask (innyfli) er túnáburður og hausar eru soðnir í hausastöppu, ásamt lifur. Í hana eru notaðir helst stórir hausar, ef slíkir koma á land. Oftast eru teknar kinnar. Þetta er skafið vandlega og soðið með talsverðri lifur og skilyrði að það sé glænýtt. Svo er allt fært upp og tínd úr þau bein sem nást; allt hitt hrært saman og borðað með kartöflum og gjarnan seyddu rúgbrauði. Fólk telur ekki eftir sér að tína út úr sér nokkuð af beinum. Mörflot er notað út á allan fisk, en vanda þarf verkun á honum. Það á að geyma mörinn og láta hann fiða (mygla lítillega) áður en farið er að hnoða. Gera skal skákross í töflurnar; setja puttafar í hornin og miðja vegu og rákir á milli. (Var fyrrum talið að annars færi skrattinn í mörinn).
Rauðmagi er veiddur snemma að vorinu og ýmist borðaður nýr og lifrin með, eða þurrkaður og reyktur. Valdar eru vænstu grásleppurnar og þær látnar síga; sem bolfiskur en aldrei flattar og kúlaðar. Þannig heldur grásleppan betur næringu sinni; þránar ekki og víar síður. Fyrrum var gerður hrognaostur úr grásleppuhrognum og mun Anna G. Jónsdóttir (22.02.1872-02.05.1967) í Kollsvík síðust hafa gert hann. Osturinn var gerður þannig að hrognin voru stöppuð í íláti með hnalli (strokkbullunni). Síðan voru himnur síaðar frá; hrognin soðin stutt í potti; saltað; hellt í ílát og létt farg sett ofan á. Kælt og síðan sneitt upp og notað með brauði eða kartöflum. (SG; TÖ og VÖ).
"Svartbaksungi er notaður hér töluvert. Það er íþrótt að skjóta þá á flugi hér í víkinni. Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í verðrið og flýgur lágt. Og á haustin þá sitja þeir hérna niður hjá gömlu grjótgörðunum þegar þannig viðrar og skjóta ungann á fluginu. Þeir eru herramannsmatur, en fullorðnir svartbakar þykja ekki mannamatur". (SG; Matarhefðir).
Útræði aflagt í Kollsvíkurveri: Nú róa aðeins heimamenn í Kollsvík. (PJ; Barðstrendingabók).
Um 1940 voru enn gerðir út sex eða sjö heimabátar frá bæjunum í Kollsvík. Þá voru komnar vélar í þessa báta en á árunum milli 1930 og 1940 var enn deilt af kappi í Kollsvík um það hvort borgaði sig að fá vélar í bátana, enda stutt á miðin. Á árum heimsstyrjaldarinnar síðari var farið að fara með aflann úr hverjum róðri inn á Patreksfjörð og honum landað í skip sem sigldu með hann til Englands. Fengu menn þá strax greitt fyrir aflann í peningum og var það nýjung. Að stríðinu loknu var sjósókn að mestu hætt frá Kollsvík nema hvað menn skutust fram stöku sinnum til að fá sér í soðið (Kjartan Ólafsson; skv viðtali við ÖG Láganúpi).
„Á Hvítasunnudag vorið 1939 var ég fermdur í Sauðlauksdal, ásamt 5 öðrum börnum úr sveitinni; eftir viku dvöl og undirbúning hjá séra Þorsteini Kristjánssyni í Sauðlauksdal. Eftir fermingu fór ég að róa með Einari bróður mínum og pabba, og rerum við vorið og sumarið“ (IG; Æskuminningar).
Kringum 1930-1940 ruddi Guðbjartur Guðbjartsson með aðstoð sona sinna allmikla vör í Láganúpslendingu, milli Grundatanga og Langatanga, og reri þaðan á bát þeirra, Rut. Við verkið notuðu þeir grjótgálga, en laminn af honum lá til skamms tíma ofan við Réttina á Brunnsbrekku.
Vélvæðing báta veldur tilfærslu verstöðva: Ýmislegt hefur stuðlað að því að útgerð leggst nú af í hinum gömlu rótgrónu verstöðvum. Almenn fækkun í sveitum með breyttum búskaparháttum, um leið og fjölgar í þéttbýli með aukinni þjónustu er þættir sem hafa þar mikið að segja; auk breyttra krafna um meðferð sjávarafla. En vafalítið er stærsti þátturinn tilkoma véla í báta. Bátar með vél eru mun þyngri í setningu þar sem hafnaraðstöðu skortir, en um leið skiptir fjarlægð lendingar frá fiskimiðum mun minna máli en áður. Eða með orðum reynds formanns úr Kollsvíkurveri:
"Ég man eftir gömlum manni, Júlíusi í Tungu í Örlygshöfn sem ég sat lengi hjá. Hann sagði mér frá lífinu þegar hann var ungur. Róið var til fiskjar frá Kollsvík og ljómandi lýsti hann þessu sem ævintýralífi: "Þarna komum við saman unga fólkið, rerum, og svo komu stelpurnar og söltuðu, og þarna hitti ég elskuna mína". Síðan kom hálfgerður sorgarsvipur á karlinn þegar hann sagði: "Og svo kom vélin í bátinn og þetta var allt búið"! Maður getur rétt ímyndað sér harðræðið. Legið var í verbúðum, lifað í vosbúð og í fjörunni fórust bátar. En í huga þessa gamla manns var þetta lífið. Eg hef sjaldan heyrt betri lýsingu á því hvernig ein lítil tækniframför getur gjörbreytt lífi manna". (Steingrímur Hermannsson fv forsætisráðherra og seðlabankastjóri í viðtali; Mbl. 21.06.1998).
Enn róið úr Breiðavíkurveri: Fimm bátar róa nú úr Breiðavíkurveri. Eru það bátur Aðalsteins og Sveins Sveinssona í Breiðavík; bátur Guðmundar Kristjánssonar í Breiðavík; bátur Baldvins Ólafssonar frá Brekku og Núma frá Barðaströnd; Bátur Aðalsteins og Valtýs Guðmundssona frá Laugabóli í Arnarfirði og bátur Gunnlaugs Egilssonar frá Lambavatni. Þorskurinn er verkaður í salt, en steinbíturinn kúlaður og hertur. Róðraraðstaðan í Breiðavík er hin besta; greið innsigling um Þráðinn á hásjávuðu, inn í Kumbarann þar sem bátarnir eru í öruggu vari í flestum veðrum. Aflainn er að mestu flattur í salt, en seldur í fisktökuskip til íssölu til Bretlands þegar aðstæður leyfa. Allur steinbítur er kúlaður og hertur á grjótgörðum (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Útgerð lagðist að mestu af í Breiðavíkurveri eftir stríð. Síðastur hefur líklega róið þaðan Sigurður Magnússon. Þegar jarðýtur komu til sögunnar voru gerðar breytingar á innsiglingu í Kumbarann (bátalægið) sem ætlaðar voru til lagfæringa en urðu til þess að hann fylltist fljótlega af sandi.
Útslægjur leggjast af: Meðan tún voru lítil við bæi höfðu bændur ýmsar aðferðir til að afla sér heyja, enda ekki um engjaheyskap að ræða í Kollsvík. Frá Kollsvík var farið í útslægjur í Blakknum. T.d. heyjaði Jón Torfason í Mávakömbun í Blakknum. Um 20 faðma sig er niður á höfðann en unnt að komast á hann eftir tæpum löngum gangi. Gísli Guðbjartsson heyjaði á Nyrðri-hillu í Blakknesi. (EÓ; Mbl. 25.08.1973). „Ef heyskapur heima gekk vel var farið í útslægjur, sem kallað var. Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó. Einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal. Seinast var farið í útslægjur um 1940. Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum. Það hey þurfti að bera á bakinu um snarbratta hryggi, með hengiflug fyrir ofan og neðan. Þetta var mjög harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar" (ÖG; Vorverk og heyannir).
Selveiði á Rauðasandi: Vorkópaveiði er stunduð í Bæjarósi á Rauðasandi, en þar eiga 3 jarðir veiðirétt. Hefur hún verið allmikill tekjuauki í góðum veiðiárum, þegar veiðast jafnvel um 130 kópar. Nú er veiði mjög þorrin, og veiddust aðeins 20 kópar þetta haust. Orsakir minni veiði eru taldar breytingar á legu óssins, en einnig getur veðrátta átt þátt í henni, eða fæðuskortur. Mikið er jafnan um sel þegar dragnótabátar veiða sem mest af kola við ströndina. (Ívar Ívarss; Tíminn; 30.01.1940).
Árangur nautgriparæktar: Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir flutti erindi á Hvanneyri 1940 þar sem hann lýsti breyttum búnaðarháttum í Rauðasandshreppi og sagði m.a: „Ég kom í fjós í Saurbæ á Rauðasandi fyrir nokkrum árum; byggt í fornum stíl en stórt. Byggt fyrir 12 gripi en í því voru 5 mjólkurkýr, 1 naut og 2 kálfar. Hafði ég orð á því við bóndann (Gísla Ó. Thorlacius (01.09.1893-21.12.1956) að í upphafi hafi líklega verið fleiri kýr í fjósinu. Hann svaraði: „Já, en mínar kýr gera eins mikið gagn og 8 eða 9 kýr sem stundum voru í fjósinu áður“ Skýrði hann mér síðan frá því að í Rauðasandshreppi væri starfandi nautgriparæktarfélag; eitt af þeim elstu í landinu, og teldi hann árangur þeirrar starfsemi allgóðan“. (ÁÞÓ; Búfræðingurinn 1.tbl. 1940).
Rósinkrans Ívarsson heiðraður sextugur: Þéttskipað var á samkomuhúsinu Skjaldbreið 25.09.1940 þegar Rósinkrans Á Ívarssyni var fagnað sextugum. Mikið var þar af félögum hans ur verkalýðsbaráttunni og úr Æskulýðsfylkingunni, sem þarna gerði Rósa að heiðursfélaga. Ræður honum til heiðurs héldu m.a. Andrés Straumland, Ottó N. Þorláksson, Pétur G. Guðmundsson, Björn Bjarnason, Steinn Dofri, Einar Olgeirsson, Svavar Guðjónsson, Hendrik J.S. Ottósson, Steinþór Guðmundsson og Jón Rafnsson (höfundur Rósarímna). Bestu ræðan var þó talin sú sem Rósi sjálfur hélt, þar sem hann sagði frá ævi sinni, m.a. uppeldinu á Rauðasandi; sjómennsku og siglingum og kynnum af norsku verkalýðshreyfingunni. (Þjóðviljinn 27.09.1940).
Ævintýralegir hrakningar vb Kristjáns: Vélbáturinn Kristján lagði úr höfn í Sandgerði að morgni mánudagsins 19.02.1940, í austan kalda en þungbúnu útliti. Kristján var 15 lesta eikarbátur smíðaður 1923; tvísigldur með góðum latínaseglum og 45 ha vél, en talstöðin var í viðgerð. Skipstjóri var Guðmundur Ó. Bæringsson (25.06.1905-23.09.1962), fæddur í Kollsvík en uppalinn í Keflavík í Rauðasandshreppi. Vanur sjómaður úr Kollsvíkurveri og víðar. Auk hans voru 4 í áhöfn Kristjáns. Um kvöldið komu allir bátar að aftur nema Kristján og var farið að óttast um hann, enda fór veður versnandi. Bátsins var leitað næstu daga, þrátt fyrir slæmt veður, en án árangurs. Hinn 24.02.1940 var leit hætt og báturinn talinn af. Það er af Kristjáni að segja að eftir að línan hafði verið dregin á mánudaginn var sett af stað í land, enda komið austan hvassviðri og öskubylur. Þá bilaði vélin og reyndist úrbrædd. Þrátt fyrir aflandsvind voru segl undin upp og nauðbeitt uppí. Bát sáu þeir án þess að við þá yrði vart. Þeir sigldu framhjá breskum togara og reyndu að gera vart við sig með kyndli án árangurs. Þeir voru komnir um 20 mílur uppundir landið en þá herti austanáttina og dreif þá frá. Ekki tókst að koma vélinni í gang, þrátt fyrir að skipt væri um legur. Börðust þeir við vél og siglingu allan þriðjudaginn og fram á miðvikudagsmorgun; þreyttir, þyrstir og hungraðir. Hvert brotið eftir annað reið yfir bátinn og kom að honum leki. Bættist því austur við erfiði mannanna. Í vatnsleysinu var gripið til þess ráðs að eima sjó, og kom sér vel að vélamaðurinn var vanur bruggari og útbjó eimingartæki úr ýmsu drasli.
Það var ekki fyrr en mánudaginn 26.02.1940 sem óveðrið gekk loksins niður; lygndi og lægði sjó. Þrátt fyrir gott skyggni sást ekki til lands. Við dagmál á þriðjudag gerði hæga vestangolu og var þá siglt í átt til lands. Bátinn hafði hinsvegar drifið um 120 mílur til hafs, og það var því ekki fyrr en aðfaranótt 01.03. sem þeir sáu ljós. Það reyndist á enskum togara. En þegar þeir reyndu að gera vart við sig fór það sem fyrr; togaramenn létust ekki sjá þá. Sama var um annan, sem slökkti ljós sín og sigldi burt. Sjór versnaði nú óðum og vindur var um 8 vindstig. Að morgni tólfta dags hrakninganna sá Guðmundur vitana á Reykjanesi og Stafnesi. Guðmundur lét draga upp fokku og sigldi beitivind til að ná fyrir Garðskaga. En bátinn bar fljótt nær landi og varð fljótt ljóst að þeir yrðu að hleypa upp í brimgarðinn, enda lekinn að verða óviðráðanlegur. Vildi það Guðmundi til að hann var vanur brimlendingum í Kollsvík, auk þess sem hann var útsjónarsamur stjórnandi. Gegnum brimgarðinn sunnan við Hafnir komust þeir og í landi komu menn úr björgunarsveitinni Eldey í Höfnum sem aðstoðuðu þá á þurrt. Heitir þar Skiptivík, milli Merkiness og Junkaragerðis. Þessir tólf daga hrakningar Kristjáns eru mestu hrakningar sem vitað er um á síðari tímum, þar sem mannbjörg varð. (Tíminn 30.05.1965).
1941
Ný útihús á Láganúpi: Þetta ár eru tekin í notkun ný stór steinsteypt fjárhús á Láganúpi, ásamt hlöðu. Þrjú tvístæðuhús með steyptum jötum; grindum og áburðarkjöllurum. Þau eru áföst stórum hlöðum sem, ásamt fjósi voru byggðar 1939 (sjá þar). Önnur hlaðan er með votheysgryfjum í endum, en í enda hinnar er fjósið; þriggja bása, með steyptum flór; þar við steypt haughús og hlandþró. Rennandi vatn er í húsunum, með vatnslögn ofan úr lindinni við Barnasteina, sem einnig þjónar íbúðarhúsinu. Hefur Guðbjartur bóndi á Láganúpi komið þessu upp með dyggri aðstoð sona sinna. Þetta er mikil framför frá steinhlöðnu fjárhúsunum við sjóinn; gamla fjósinu á bæjarhólnum og hesthúsinu á Hólum, sem þjónað hefur sem sumarfjós. Hingað til hafa fjárhús í Kollsvík ávallt verið við sjóinn, til að nýta sem best fjörubeitina. Áfram verður hún nýtt, sem og úthagi, en féð rekið til beitar. Stök votheysgryfja er byggð um svipað leyti. (M.a. Æskuminningar IG).
Togarinn Gullfoss ferst: Togarinn Gullfoss fórst í ofviðri á heimleið frá veiðum hinn 28.02.1941, og með honum 19 manna áhöfn. Þeirra á meðal var Magnús Guðbjartsson frá Láganúpi, sem þar var matsveinn. Magnús var fæddur 26.02.1913 í Tröð; fór 16 ára á vertíð til Vestmannaeyja, en síðan á sjó á Patreksfjarðartogurunum. Magnús lærði til matsveins og var síðan á Brimni áður en hann fór á Gullfoss. Eftirlifandi kona hans er Ólöf Sveinsdóttir (og eftir fráfall Magnúsar eignaðist hún dóttur þeirra; Hildi M. Magnúsdóttur). Gullfoss var 214 tonna skip; minnsti togarinn í Reykjavík. (Niðjatal Hildar og Guðbjartar; Tíminn 11.03.1941).
Breskum skipbrotsmönnum bjargað: „Fimmtudaginn 16.10.1941 bjargaði togarinn Surprise frá Hafnarfirði 29 mönnum á bát áætlað 20 sjómílur út af Víkum, NV af Látrabjargi. Menn þessir voru af brezku skipi er var kafskotið. (Tíðarfarsannáll SJTh). Bresk flugvél hafði fundið björgunarbátinn og vísað Surprise á hann. Hafði skip þeirra verið í skipalest sem þýskur kafbátur réðist á og sökkti með tundurskeyti; vestur af landinu. Á skipinu var 60 manna áhöfn og komst hún í tvo björgunarbáta. Var hinn báturinn betur útbúinn og með vél, en ekki vissu þessir hvað um hann varð. Engir skipbrotsmanna voru særðir. Þeir sem mest voru hraktir fóru á skjúkrahúsið en hinir í barnaskólann. (Alþýðublaðið 17.10.1941).
„Njósnari Þjóðverja“ leynist í Rauðasandshreppi: Þetta vor voru menn í hreppnum að búast til vers. Dag einn var Guðbjartur Þorgrímsson að huga að sel á Bjargtöngum þegar hann fann spónný gúmmístigvél innpökkuð þar undir kletti. Þetta frétti Jóhann Skaftason sýslumaður og sendi Ívar í Kirkjuhvammi til að athuga málið, sem hann gerði samviskusamlega eins og annað. Næst gerist það um fardaga að Gísli hreppstjóri Thorlacius í Saurbæ fer út í Kollsvík, þeirra erinda að taka út jörð vegna ábúendaskipta (líklega þegar Andrés Teitur tók við Stekkjarmel af Karli föður sínum og Mikkalínu). Í bakaleiðinni, þegar hann fer hjá bæ á Naustabrekku, sér hann ókunnugan mann mala í taðkvörn þar á hlaðinu. Brekkubóndi segir aðspurður að þetta sé gamall danskur kunningi sem sé í heimsókn. Heim kominn hringir Gísli í sýslumann, sem biður Gísla að snarast úteftir aftur og fá að sjá skilríki mannsins, sem þá var horfinn. Sýslumaður biður menn nú að láta vita verði vart við grunsamlegar mannaferðir. Rifjaðist þá upp fyrir ýmsum að vart hefði orðið við fótspor í skriðum og víðar. Tófuskyttur mundu að þær höfðu orðið varar við mann í Keflavík sem hraðaði sér í burtu og ekki fundust skil á. Næst gerist það að tveir menn á Patreksfirði finna mannlaust tjald uppi í Brellum og í því ýmsan viðlegubúnað. Þegar aftur var hugað að því var það horfið. Stuttu síðar gerði mikið rigningarslag. Kom þá þessi maður til byggða og gaf sig fram við yfirvöld. Breska setuliðið tók hann síðan í sína vörslu. (ÁE; Ljós við Látraröst).
Á daginn kom að hér var ekki allt sem sýndist. Maðurinn hét August Lehrmann; þjóðverji sem starfaði sem umboðsmaður í Reykjavík fyrir stríð. Hann var í Borgarnesi er hann frétti af hernámi Breta 1940 og að leitað væri að Þjóðverjum. Lagði hann leið sína norður í Djúp og flæktist aftur suður firðina. Þar kom að hann endaði í Rauðasandshreppi og svo Patreksfirði, sem ofar greinir. Sagan um þýska njósnarann lifði hinsvegar lengi í Rauðasandshreppi.
Öflugt starf bókasafns: Á þessu ári lánar Lestrarfélag Breiðavíkursóknar 62 bækur til 14 lántakenda. (Yfirlitsskýrsla til fræðslustjóra).
Gríðarlegt úrfelli: " Vorið 1941 í maí gerði á Rauðasandi afbrigðilegt úrfelli sem olli miklum skriðuföllum. Voru taldar yfir 100 skriður sem runnu frá Bjarngötudal að Lambavatni. Allar voru þær litlar en sumar ollu þó tjóni bæði á túnum og bithaga. Á Mábergstúni urðu nokkuð miklar skemmdir, en á sautjándu og átjándu öld var Máberg í eyði um tíma sakir slíkra skemmda. Mestu skemmdirnar urðu á þáverandi bílvegi í Bjarngötudal þar sem veginn tók alveg af á löngum kafla" (Ari Ívarsson; Veður og búnaður; svör til þjhd.Þjms).
1942
Vindrafstöðvar settar upp: Á nokkrum bæjum í Rauðasandshreppi hafa bændur komið sér upp vindrafstöðvum til ljósa og til að hlaða útvarpsbatterí. Fyrstur til að innleiða slíkt var Ívar Halldórsson á Melanesi. Nú síðla í sumar fékk hann Guðbjart Egilsson á Lambavatni til að aðstoða sig við uppsetningu hennar. Vindmyllunni fylgdi nær tveggja mannhæða hár turn, en undir hann var byggður annar úr rekatrjám, að nokkru niðurgrafinn. Á vindmyllunni eru tréspaðar og milli þeirra miðflóttaaflsbremsa. Fljótlega kom önnur vindmylla að Lambavatni og svo fleiri bæi í hreppnum; flestar 6 eða 12 volta, en a.m.k. ein 32ja volta. Í Kollsvík er vindrafstöð á Stekkjarmel. Á landinu öllu hafa nú verið settar upp 400-500 slíkar vindmyllur.
Hugað að heimavistarskóla: „Í Rauðasandshreppi hefir lengi verið rík viðleitni til fræðslu og menningar, enda eru komnir úr þessari fámennu sveit furðu margir menn sem framarlega standa í menningar- og atvinnulífi þjóðarinnar. Hreppsbúar hafa nú áformað að stofna heimavistarskóla í hreppnum fyrir börn, og er gert ráð fyrir að unglingar geti einnig fengið þar nokkra fræðslu. Er almennur áhugi í sveitinni um það að koma skóla þessum upp fljótt sem kostur er á. Hefur nýlega farið fram fjársögnun með almennum samskotum innsveitis. Voru undirtektir mjög góðar og safnaðist furðu mikið fé. Sparisjóðurinn og sveitarsjóður munu leggja fram ríflega fjárhæð…. Það mun þakksamlega þegið ef menn upprunnir í Rauðasandshreppi og aðrir vinveittir menn í fjarlægð vildu leggja þessu málefni lið með fjárframlögum… Ekki hefur ennþá verið ákveðið hvar í hreppnum skólinn skuli standa“. (Þorsteinn Kristjánsson; Mbl. 19.03.1942).
Ekki varð þó strax af þessum væntingum séra Þorsteins, og ekki entist honum aldur til að sjá þessa draumsýn rætast, en hann fórst árið eftir með vélskipinu Þormóði (sjá 1943). Farskóli var enn um sinn, en nýbyggður barnaskóli tók til starfa 1966 (sjá þar).
Eldingaveður: „Nú í janúar laust eldingu niður svo að skemmdir urðu að á nokkrum bæjum í hreppnum. Í Kvígindisdal skemmdist viðtæki mjög mikið. Á Hnjóti brunnu sundur símaleiðslur í húsinu þar. Vartappar þar frá rafstöð eyðilögðust og rafmagnseldavél skemmdist mikið. Á símstöðinni Breiðavík brast eldingavari. Á Hvallátrum ónýttist talsímatæki. Á símalínunni til Hænuvíkur brunnu yfir spennirar og varð því sambandslaust við þessar símstöðvar af völdum eldingarinnar. Á fjallinu milli Hnjóts og Breiðavíkur er talið að eldingin hafi eyðilagt tvo símastaura”. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Mannskæð árás á togarann Vörð: Togarinn Vörður var á veiðum á Halamiðum hinn 24. ágúst þegar þýsk herflugvél af gerðinni Focke Wulf 200 gerði árás á hann. Morsað var út neyðarkall eftir fyrstu árásina, en stuttu síðar gerði vélin aðra árás og varpaði um leið sprengju sem féll við skut Varðar. Nokkrar skemmdir urðu um borð í togananum en hann hélst á floti og siglingafær. Vildi það áhöfninni eflaust til happs að hún var niðri að fá sér kaffi er kúlnahríðin dundi yfir. Einn skipverji varð þó fyrir byssukúlu og lést í kjölfarið. Hann hét Sigurjón Ingvarsson, fæddur 9. janúar 1918, sonur Ingvars Ásgeirssonar og Bjarneyjar Valgerðar Ólafsdóttur á Geitagili í Örlygshöfn (áður Keflavík). Vörður tók þegar stefnu til Flateyrar, en þegar ljóst var að Sigurjón var látinn var haldið til heimahafnar á Patreksfirði. Togarinn hafði verið að afla í söluferð til Englands og hélt þangað nokkru síðar. Eftir stríðið kom í ljós að þýska flugvélin hafði komið frá Þrándheimi í hinum hersetna Noregi. (Byggt m.a. á frás. Kristjáns Jónssonar loftskeytamanns í Árbók Barð. 2014).
Meðal skipverja var einnig Einar T. Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) frá Láganúpi. Hann var því alvanur úr Kollsvík að skjóta máf á fluginu og hafði margan refinn að velli lagt. Snaraðist hann nú eftir byssu sem þar var um borð og skaut í átt að skálkunum. Sagðist hann hafa lagt allt kapp á að hæfa vélina og helst flugmanninn. En líklega var færið þá orðið heldur langt. (Ísl.þættir Tímans 17.11.1979).
Skothríð í hafi: „Sunnudaginn 01.02.1942 heyrðust á flestum bæjum hér fallbyssuskot í mikilli fjarlægð. Virtust þau öll koma úr norðurátt. Frá því kl. 10 til kl. 12 voru talin hér 62 skot og var þó vafalaust ekki hægt að telja þau öll”. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Kollsvíkingar og Rauðsendingur í framboði til bæjarstjórnar: Bæjarstjórnarkosningar fóru fram í Reykjavík hinn 15.03.1942. Meðal frambjóðenda er Kollsvíkingurinn Sigurvin Össurarson og Rauðsendingurinn Rósinkrans Ívarsson frá Kirkjuhvammi; einnig Aðalheiður Hólm sem er af Kollsvíkurætt (dóttir Sigurgarðs Sturlusonar Einarssonar Einarssonar Jónssonar í Kollsvík). Öll skipa þau sæti á C-lista; Sameiningarflokks alþýðu (Sósíalistaflokksins) og hafa verið virk í verkalýðsbaráttunni í bænum. Aðalheiður var helsti forkólfurinn að stofnun Verkahvennafélagsins Hvatar. Með þeim á listanum eru kunnir kommúnistar; m.a. Sigfús Sigurhjartarson, Björn Bjarnason, Eðvarð Sigurðsson, Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson. Flokkurinn náði inn 4 mönnum; þó engum þessara þriggja vestanmanna.
1943
Vél í Rutina: Á þessu ári var sett vél í bátinn Ruth BA 223, sem smíðaður var 1898 (sjá þar). Báturinn var lengi gerður út í félagi frændanna Guðbjartar Guðbjartssonar frá Kollsvík, síðar Láganúpi, og Ólafs Halldórssonar frá Grundum. Árið 1925 keypti Guðbjartur Ólaf út úr útgerðinni og hefur síðan gert Rutina út með sonum sínum. Rut er 1,5 brúttósmálestir að stærð og hefur hingað til verið róið og siglt. Nú hefur verið sett í hana Universal bátavél, 8-10 hö að stærð (líklega Universal Fisherman, 1-cyl). Matsverð Rutar var kr 500 árið 1931, en eftir þessa breytingu er báturinn metinn á 3.700 kr. Aðrar eignir útgerðar feðganna eru róðrarbáturinn Svala; metin á 200 kr, og veiðarfæri, metin á 100 kr. Þrir eru skráðir í áhöfn Rutar og verðmæti selds afla 1943 var kr 6.900. (Sjávarútvegsskýrsla GG 1943).
Í bréfi frá Einari Guðbjartssyni dags 10.03.1942 má sjá að hann hyggst setja skýli (lúkar) framan á Rutina, sem líklega hefur áður verið án slíks.
Grundir í eyði: Býlið Grundir í Kollsvík er nú komið í eyði, með því að Grímur Árnason neyðist til að bregða búi vegna berklasjúkdóms og flytja á Vífilsstaði. Einnig flytja kona hans, María Jónsdóttir, og 7 börn en ein dóttirin, Guðrún Grímsdóttir er í sambúð með Einari Guðbjartssyni á Láganúpi. Grímur hefur rekið bú á hálfum Grundum en einnig haft nokkra útgerð, og hefur Guðrún iðulega verið háseti hjá honum. Grundir byggðust upp úr stekk kringum 1650, að því er Árni Magnússon segir í Jarðabókinni.
Grundir voru eftir þetta nýttar frá Láganúpi og Stekkjarmel og komust í eigu Láganúpsbænda. Sjá má að Láganúpsbændur hafa m.a. keypt kerru og aktygi af Grími.
Nýtt íbúðarhús í Efri-Tungu: Kristján Júlíus Kristjánsson og Dagbjört Torfadóttir hafa byggt sér stórt tvílyft íbúðarhús í Efri-tungu, en þau hófu búskap á jörðinni fyrir 4 árum. Þar eru nýleg stór fjárhús, byggð 1936.
Árið 1955-6 byggðu þau stórt og vandað fjós, og bílskúr við íbúðarhúsið. Rafstöð var byggð fyrir Tungubæina 1955. Þau hjón komu upp fallegum garði við húsið og skógrækt í Strokkum ofan hans, enda bæði mikið ræktunarfólk.
Ólafsviti reistur á Háanesi: Reistur hefur verið hár steinsteyptur ljósviti á Háanesi innan við bæinn Sellátranes. Er hann nefndur Ólafsviti, en Vatneyrarbræður gáfu til hans stóra fjárhæð til minningar um föður sinn, Ólaf Jóhannesson athafnamann á Patreksfirði. Vitinn er lýstur með gasi.
Síðar var hann knúinn rafmagni. Vitavörður var lengstum Ólafur Sveinsson bóndi og þúsundþjalasmiður á Sellátranesi.
Viti á Blakknesi ? Í fjárlögum Alþingis árið 1943 er gert ráð fyrir 6 nýjum vitabyggingum og veitt til þeirra óskipt 350 þúsund kr. Einn þessara vita er fyrirhugað að komi á Blakknes, sunnan Patreksfjarðar. „Um vitabygginguna á Blakknesi er það að segja að til hennar hafa verið gefnar kr 55 þúsund, og eru það bræðurnir Garðar og Friðþjófur Jóhannessynir, útgerðarmenn á Patreksfirði sem það hafa gert. Er hér um alveg sérstaklega höfðinglega gjöf að ræða, en hún er gefin til minningar um föður gefenda; Ólaf Jóhannesson útgerðarmann á Patreksfirði“. (Ægir 01.03.1943).
Dráttarvélar koma í Rauðasandshrepp: Búnaðarfélagið Örlygur ákvað á fundi sínum í Saurbæ hinn 303.01.1943 að kaupa dráttarvél, að ósk nokkurra félagsmanna. Kom vélin þetta sumar og kostaði, ásamt herfi og plógi, kr 12.644,59. Vélin er af gerðinni IH McCormick W4 og er á járnhjólum; gangsettur á bensíni en getur brennt steinolíu. Magnús Ólafsson í Vesturbotni mun í fyrstu vinna á vélinni fyrir bændur.
Síðar unnu á henni m.a. Þórir Stefánsson á Hvalskeri og Svavar Guðbjartsson á Lambavatni. Síðast var þessi vél notuð 1959, en bar að lokum beinin á Hvalskeri. Næst komu traktorar í Kollsvík og að Hvallátrum af gerðinni Farmall A, en 1948 kom Massey Harris að Saurbæ og Allis Chalmers að Stökkum; stuttu síðar Ferguson að Króki og annar til þriggja bænda í Örlygshöfn. Þar á eftir komu nokkrir Farmall cub. (AÍ; Árbók Barð).
Smjörreki á Rauðasandi: Ýmis reki berst allajafna á fjörur á Rauðasandi, eins og víðar í hreppnum, og margt er það til nytja s.s. trjáviður. Nú á stríðstímum eru rekar þó stundum óvanalegri og hefur undanfarið rekið fjölmarga kassa af smjöri, sem hver er 24 kg að þyngd. 47 komu á Melanesfjörur; 13 á Saurbæjarfjörur og eitthvað í viðbót utar. Er það líklega komið frá skipi sem farist hefur í stríðsátökunum. Ekki varð Rauðsendingum gagn að öllu þessu, því Jóhann Skaftason sýslumaður gerði kröfu um að rekinn yrði boðinn upp sem vogrek í eigu ríkisins. Vogrek er talið vera það sem einhver getur sannað eignarhald sitt á, en ríkið á vogrek yfir 500 kr virði; sjáist mannaverk á því. Eftir að sýslumaður gerði kröfur sínar tók snarlega fyrir allan smjörreka. Heimamenn kunnu illa slíkri eignaupptöku og neituðu að aðstoða við flutning á smérinu. Fleira bauð sýslumaður upp af rekafjörum Rauðsendinga á stríðsárunum, s.s. hrágúmmí, lýsi og eik. (AÍ; Reki á Rauðasandi. SG; Handverk og smíði).
Árið 1950 rak meira en 15 tonn af smjöri í námunda við Egersund í Noregi, sem talið var úr skipi sem sökkt hefði verið á stríðsárunum. Var óætt og selt til sápuframleiðanda. (Mbl. 14.01.1950). Óvíst hvort það var úr sama farmi og framangreint. Ekki var þetta eini smjörrekinn á Rauðasandi; smjör rak einnig sem talið var út Goðafossslysinu 1945; sjá þar.
Innrásarpramma rekur á Rauðasandsfjörur: Þetta haust; aðfaranótt þriðju gangna, rak stóran bandarískan innrásarpramma upp á Miðsandinn á Rauðasandi. Er þetta feiknamikið skip; knúið tveimur 350 ha vélum, og með lítinn hraðbát á þilfari. Hafði pramminn slitnað aftan úr skipi.
Bandaríski herinn sendi 20 manna herflokk tl að ná prammanum aftur á flot. Fengu Rauðsendingar árið eftir sendan kassa með sælgæti og tóbaki að launum fyrir aðstoðina. (AÍ; Reki á Rauðasandi).
Kafbátur við Blakknes: „Sunnudaginn 17.01.1943 sást kafbátur hér fyrir framan landið í á að gizka 1 til 2ja kílómetra fjarlægð frá vesturströnd Patreksfjarðar. Samkvæmt tilkynningu hingað frá hinu erlenda setuliði, var þetta brezkur kafbátur. Mun þetta vafalítið í fyrsta sinn er kafbátur hefir farið um Patreksfjörð. Kafbáturinn mun hafa komið hér að kvöldi þess 16. og dvalið á firðinum yfir nóttina. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Þormóðsslysið; séra Þorsteinn Kristjánnson drukknar: Vélskipið Þormóður strandaði hinn 17.02.1943 á Garðskagaflös og fórst með 7 manna áhöfn og 24 farþegum. Meðal farþeganna sem fórust var séra Þorsteinn Kristjánsson í Sauðlauksdal, sem hafði tekið sér far með skipinu frá Bíldudal. Mikill veðurofsi skall á skipið á leiðinni suður og seint um kvöldið sendi það út neyðarkall um að mikill leki væri kominn að því. Skipið hafði verið í eigu Njáls hf á Bíldudal.
Séra Þorsteinn var fæddur 31.08.1891 en var veittur Sauðlauksdalur 1922. Kvæntur Guðrúnu Petrínu Jónsdóttur og eignuðust þau 5 börn. Hann var talinn með fremstu kennimönnum landsins; ágætur ræðumaður; söngmaður góður og fóru embættisverk vel úr hendi. Hagmæltur og birtust nokkur kvæði hans á prenti, ásamt kveri og biblíusögum. Þorsteinn gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í hreppun; var m.a. oddviti er hann lést. (RÍ; ágrip af sögu Sauðlauksdalspresta o.fl.).
Oddvitaskipti í Rauðasandshreppi: Snæbjörn J. Thoroddsen bóndi og sparisjóðsstjóri í Kvígindisdal hefur tekið við störfum oddvita í Rauðasandshreppi, í kjölfar þess að séra Þorsteinn Kristjánsson fórst (sjá framar). Varamenn höfðu ekki verið kosnir í kosningunum 12.07.1942 og fór því fram kosning eins aðalmanns og allra varamanna hinn 28.03.1943. Snæbjörn hlaut þá kosningu sem aðalmaður og var kosinn oddviti á næsta fundi hreppsnefndar. (Sveitarstjórnarmál 1.h. 1943).
Pólitískt málgagn við barnauppeldi: Dagblöð koma á flesta sveitabæi í Rauðasandshreppi. Flestir eru áskrifendur að Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins og bænda, og fáeinir kaupa Morgunblaðið. Dagblöðin gera annað gagn en að flytja fréttir. Að lestri loknum eru þau gjarnan nýtt sem skeinipappír á kömrum. En áður en að því kemur má hafa af þeim annað gagn. Arinbjörn Guðbjartsson bóndi á Sellátranesi hefur nú fengið sér ráðskonu; Sigurveigu Guðmundsdóttur (Hjaltasonar, sjá 1913 og 1916), konu Sæmundar Jóhannessonar skipstjóra. Henni fylgir þriggja ára sonur hennar; Jóhannes. Strax á fyrsta kvöldi kom í ljós að drengurinn vildi alls ekki sofna; öskraði og kastaði af sér sænginni. Arinbjörn bauðst þá til að tjónka við krakkann. Settist hann á rúmstokkinn með Tímann í hendi og las hástöfum. Strákur varð svo hissa að hann snarþagnaði, og var sofnaður þegar Arinbjörn hafði þulið tvær blaðsíður samfellt. Þannig gekk það til allan þann sumartíma sem mæðginin dvöldu á Nesi; að á hverju kvöldi svæfði Arinbjörn drenginn með lestri Tímans. (SG; Þegar sálin fer á kreik).
Spyrja má hvort þessi lestur Arinbjarnar úr pólitísku málgagni hafi sest að í genum afkomenda Jóhannesar. Sjálfur varð hann íþróttakennari og ekki í framlínu stjórnmála. Hinsvegar varð sonur hans, Guðni Thorlacius Jóhannesson; prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og síðar forseti Íslands frá 2016 (sjá þar). Arinbjörn var orðlagður fyrir blót sitt og óheflaðan munnsöfnuð, sem hann hefur líklega þurft að hemja meðan ungviði var á heimilinu og sanntrúaður kaþólikki sem Sigurveig var. Hinsvegar var hann einnig mikil barnagæla og sagði skemmtilegar lygasögur. (Af því hefur skrásetjari sjálfur reynslu). Sellátranes hefur reyndar meiri tengingu við Guðna forseta. Þetta sumar lagðist vitaskipið Hermóður framundan Nesi og menn tjölduðu þar á túni meðan undirbúin var bygging ljósvita á Háanesi. Skipstjóri Hermóðs var Guðni Thorlacius, en dóttir hans Margrét giftist síðar áðurnefndum Jóhannesi, jafnaldra sínum, og urðu þau foreldrar Guðna forseta. Arinbjörn hafði haft miklar hugmyndir um stórbýli á Nesi, en snerist nú hugur. "Fari þetta hokur til andskotans" sagði hann: "Ég er nú ekki að slíta mér og stráknum lengur út á þessum kotrassi. Við förum í vinnu við uppskipun hjá skipstjóranum, og ég sel þetta helvítis hafurtask"! Sigurveig og Jóhannes fengu síðan far með Guðna skipstjóra á Eyrar, en þá gat engan órað fyrir þeim tengslum sem síður urðu við hans fjölskyldu.
1944
Traktor kemur í Kollsvík: Fyrsta dráttarvélin var flutt í Kollsvík á báti þetta sumar. Hún var af gerðinni IH McCormick Farmall A, og hlýtur númerið BD-20. Traktorinn kom ósamansettur í trékassa. Bjarni Sigurbjörnsson var fenginn til að annast flutninginn á trillu sem hann átti. Veður var stillt þennan dag og lenti Bjarni upp í sandinn í Láganúpslendingu um hálffallið. Látið var fjara undan bátnum og kassanum, sem var aðalflutningurinn, var síðan rennt út á fjörusandinn. Timburplankar voru lagðir í braut upp á kambinn, og eftir þeirri braut var kassinn síðan dreginn með venjulegu bátaspili og látinn rúlla á sverum rörbútum sem lagðir voru þvert á plankabrautina. Þegar kassinn var kominn vel undan sjó, var numið staðar. Þar var síðan tekið utan af vélinni og hún sett saman í ökufært ástand. Þessi flutningur tókst í alla staði vel, eins og til var stofnað, enda vel undirbúinn og unninn af gætnum mönnum. (Páll Guðbjartsson; Niðjatal). Hlutafé í traktornum, ásamt plógi og sláttuvél, var sem hér segir: Ásbjörn Helgi Árnason kr. 1.600; Andrés T. Karlsson 1.100; Einar T. Guðbjartsson 1.000; Guðbjartur Guðbjartsson 1.100; Helgi Gestsson 2.500; Ingvar og Össur Guðbjartssynir 700. Samtals kr 5.000. (Yfirlit 01.12.1944, undirr. af Einari Guðbjartssyni).
Traktor sömu gerðar hefur þá líklega verið nýkominn að Hvallátrum. Farmallinn var í fyrstu í eigu „Jarðræktarverkefnis Kollsvíkinga“, sem var sameignarfélag bænda í víkinni, en komst síðar í eigu Guðbjartar í Láganúpi og enn síðar Össurar sonar hans. Traktornum fylgdi sláttuvél, en greiða hennar kom aftan og til hliðar við traktorinn. Hún þótti grófgerð og slá illa og var því seld. Síðar var fengin sláttuvél sem kom útfrá miðju vélarinnar. Diskaherfi var einnig fengið og eitthvað notað við Farmalinn. Vél traktorsins eyðilagðist um 1980 og síðar var hann gefin til uppgerðar. Um 1962 fékk Ingvar Guðbjartsson, þá nýtekinn við búi í Kollsvík, sér traktor af gerðinni Farmall („gamli gráni“). Sá var með dísilvél og þrítengibeisli. Var hann útbúinn ámoksturstækjum með skóflu og stórri heykvísl og létti mjög alla heyvinnu.
Séra Trausti Pétursson vígður til Sauðlauksdals: Séra Trausti Pétursson (19.07.1914-05.03.1990) var fæddur á Dalvík (bróðir Jóhanns „risa“). Kosinn til Sauðlauksdals 13.05.1945; veittur Djúpivogur 1949. „Trausti Pétursson var nýútskrifaður og peningalaus með námslán á bakinu. Þegar sóknarbörnin fréttu af fjárhagserfiðleikum nýja prestsins varð þeim það fyrst fyrir að skjóta saman hænsnum 1 - 2 af bæ og víkja að prestshjónunum svo þau gætu þó haft egg í matinn. Fleira fylgdi reyndar eftir eins og eitt og eitt lamb að hausti en það er önnur saga. Vissi ég til að prestur mat góðan hug sem að baki lá“ (SG; Alifuglarækt).
Lýðveldisstofnunin 1944: Ísland er nú sjálfstætt og fullvalda ríki; án fyrri konungstengsla við Danmörku. Endanleg staðfesting þess var hátíðarsamkoma og þingfundur á Þingvöllum hinn 17. júní, þar sem Alþingi kaus fyrsta forsetann; Svein Björnsson; setti landinu nýja stjórnarskrá; ný fánalög og hyllti lýðveldisfánann. Fjölmenni var við athöfnina, þrátt fyrir rigningu. Meðal gesta var Guðbjartur Guðbjartsson bóndi á láganúpi og dóttir hans. (Er þetta líklega lengsta ferðalag sem hann fór um ævina).
Fyrsti forseti íslenska lýðveldisins: Eins og framar segir var Sveinn Björnsson kjörinn forseti lýðveldisins á Þingvöllum 1944, af alþingismönnum. Hann er lögfræðimenntaður; hefur setið á Alþingi og í borgarstjórn Reykjavíkur; og var í 6 ár forstjóri Eimskipafélags Íslands. Hann var sendiherra Íslands í Danmörku þegar landið var hernumið af þýskum nasistum 1941, en þeir brenndu öll skjöl sendiráðsins. Alþingi ákvað að skipa hann ríkisstjóra á Íslandi, til að fara með konungsvald meðan konungs naut ekki við. Á þeim tíma skipaði Sveinn utanþingsstjórn til lausnar á stjórnarkreppu, en sú ráðstöfun varð umdeild. Kona Sveins er Georgía Björnsson.
Sveinn fékk aldrei mótframboð í forsetaembættið og gegndi því til dauðadags 25.01.1952. Í kjölfarið var Ásgeir Ásgeirsson kjörinn forseti; fyrsti þjóðkjörni forsetinn. Sveinn var ekki óumdeildur forseti; einkum vegna deilna um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og vegna afskipta sinna af stjórnmálum. Umdeilt var t.d. þegar hann synjaði forsætisráðherra um heimild til að rjúfa þing árið 1950. Danakóngur var honum sár í kjölfar lýðveldisstofnunarinnar og hélt því fram að Sveinn hafi gefið loforð sitt um að Íslendingar myndu ekki gera það meðan hernám Danmerkur stæði. Þá þótti Dönum að Sveinn Sv Björnsson, sonur Sveins forseta, hafi ekki tekið út refsingu fyrir það að hafa starfað með nasistum.
Náði 102 ára aldri: Hinn 02.07.1944 lést á Koti í Rauðasandshreppi Þórkatla Þórðardóttir. Hún var þá á 103. aldursári; fædd 24.12.1841, og elsta kona sýslunnar. Hún bjó löngum í Dufansdal með manni sínum Tómasi Sigmundssyni, en hann drukknaði ásamt syni þeirra er Júlíus hét. Þórkatla andaðist á heimili sonarsonar síns; Konráðs Júlíussonar. Hún hafði nær fulla sjón fram í andlátið, en heyrnin var tekin að bila. (Vísir 05.07.1944).
Sláturfélagið Örlygur gengur í SÍS: Á aðalfundi Sambands Íslenskra samvinnufélaga 22.06.1944 gekk Sláturfélagið Örlygur í sambandið, og er nú eitt 52 aðildarfélaga. Aðildarumsókn Örlygs var nú samþykkt, en hafði áður verið hafnað. (Samvinnan 04.06.1944).
Skömmtun helstu nauðsynja: Verslun í hreppnum er ýmsum takmörkunum háð, þó mönnum hafi með samtakamætti tekist að stofna eigin kaupfélög og með því lækka vöruverð verulega og færa verslunarstaðinn nær fólkinu. Í gildi eru skömmtunarlög sem meina fólki að versla vörur að vild og kaupgetu. Þannig háttar t.d. til um sykur, kornvöru, kaffi, kaffibæti, búsáhöld, hreinlætisvörur, gúmmískó, stígvél, fataefni og bensín. Fyrir þessum vörum gefa stjórnvöld út skömmtunarseðla og svonefnda stofna, og hafa hreppsnefndir umsjón með réttri útdeilingu þeirra. Einnig starfa í hverri sýslu bjargráðanefndir sem grípa inn í ef sérstakar aðstæður koma upp varðandi vöruskort. Yfir þessu öllu er svo viðskiptanefnd, skömmtunarskrifstofa og skömmtunarstjóri á vegum ríkisins.
Fólk hafði reyndar fengið að kynnast skömmtuninni í fyrri heimsstyrjöld. Í síðari heimsstyrjöld myndaðist verulegur hagnaður af fisksölu erlendis. Stjórnvöld ákváðu að nýta hann til fjárfestinga í togurum, virkjunum og fleiri atvinnutækjum. Arðurinn af slíku skilaði sér hinsvegar ekki fljótt og því sköpuðust gjaldeyrisþrengingar og vöruskortur. Var því enn gripið til vöruskömmtunar. Fyrst fór að draga úr því eftir 1950, en vöruskorturinn varði fram yfir 1960. Í pappírum Sláturfélagsins Örlygs frá skömmtunartímanum má sjá ýmsa lista sem tengjast skömmtunarseðlum félagsmanna; allt frá árinu 1943.
Hafís upp að landi: „Að morgni sunnudagsins 12.03.1944 sást allmikil breiða af hafís á reki suður fyrir mynni Patreksfjarðar. Ætlaði togarinn Vörður frá Patreksfirði og dekkaðir bátar að fara frá Patreksfirði og suður fyrir en urðu að snúa við milli Breiðavíkur og Bjargtanga. Ísinn var þá kominn þar svo nærri landi. Á sunnudaginn og fyrripart mánudags rak ísinn inn í Patreksfjörð og lokaði honum alveg með þéttri ísbreiðu. Fór svo ísinn að fjarlægjast og mátti segja, að hann væri horfinn á miðvikudag”. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Óvanalegur fiskreki: Í lok febrúar barst mikið á land af ýmsu sjávargagni. Ekki nóg með að þari kæmi á land í meira mæli en vanalega, heldur rak t.d. á Rauðasandi allmikið af fiski; smásteinbít, sandkola, skarkola, marhnút, sandsíli o.fl. Einnig af hörpudiski og ígulkerjum. Allt virtist þetta vera nýdautt. Innanum voru stórir steinbítar og vænir þorskar. Svo mikið var af steinbít að bóndinn á Melanesi gat hirt um 600 alveg óskemmt. Svipaður reki var á Hvallátrum (ekki fer sögum af þessu í öðrum Útvíkum). Ólafur Sveinsson á Lambavatni bendir á að óvanalega kaldan sjó hafi lagt að ströndinni í miklum álandsvindi. Með þessum reka hafi borist mikið upp af trjáreka sem var líkt og núinn af ís. Árni Friðriksson fiskifræðingur telur að kenning Ólafs geti verið rétt, en hugsanlegt er einnig að tundurdufl hafi sprungið og valdið fiskidauðanum. (Náttúrufræðingurinn 01.10.1944).
Torfi Dagbjartsson skriðdrekastjóri í herdeild Eisenhowers: Bandamenn gerðu innrás í Normandí á svonefndum "D-degi"; 06.06.1944, og hröktu hersveitir Hitlers eftir það frá Frakklandi. Ein herdeild Bandaríkjamanna er undir stjórn Dwights D. Eisenhowers (sem síðar varð forseti Bandaríkjanna). Einn liðsmaður þeirrar herdeildar er Torfi Guðbjartsson, sem stýrir þar skriðdreka. Hann er fæddur 17. júní 1922; sonur hjónanna Dagbjartar Guðbjartssonar frá Breiðuvík og Lovísu Torfadóttur frá Kollsvík, sem fluttu til Ameríku og hafa búið í Akra í N-Dakóta. (Steindór Guðbjartsson, viðtal; Mbl. 28.09.2003).
Í stríðslok var herdeild Eisenhowers og Torfa komin að Salzburg. Eftir stríðið lauk hann námi í rafvirkjun og starfaði við það síðan. Flutti til Minnesota árið 1949 og bjó í Bloomington. Torfi talaði góða íslensku og kom nokkrum sinnum til Íslands; m.a. á ættarslóðir í Kollsvík ásamt konu sinni. Hann lést 07.04.2007.
1945
Blómlegt mannlíf í hreppnum: Í árslok 1945 voru íbúar Rauðasandshrepps 236 að tölu; dreifðir á 42 býli á svæðinu frá Raknadal kringum vestasta skaga landsins að Melanesi á Rauðasandi. Af þeim býlum sem voru í byggð fyrir 20 árum eru nú 15 eyðibýli, auk þess sem nú búa á nokkrum jörðum einn og tveir ábúendur þar sem áður bjuggu tveir til fjórir. Fyrir 20 árum var fólksfjöldinn á fimmta hundrað. (Árbók Barðastrandasýslu).
Vegabætur á Skersfjalli: Vegavinnuflokkur vinnur nú að endurbótum á veginum yfir Skersfjall Vegkantar eru hlaðnir upp og holur fylltar, með handverkfærum og hestakerrum. Við þetta vinna 8-9 menn og hafast við í tjöldum. Ráðskona er þar (SG) og eldað er á prímusum. (SG; Vegavinna á Skersfjalli).
Stekkadalur í eyði: Jörðin Stekkadalur er nú komin í eyði, eftir að Anna Guðrún Torfadóttir fluttist að Saurbæ. Hún er ekkja eftir Ólaf Einarsson í Stekkadal. Halldór Júlíusson hefur verið ráðsmaður hjá henni síðan, en hann lofaði að sjá um fjölskylduna eftir að Ólafur veiktist af berklum. Stekkadalur byggðist fyrst um 1650 (sjá þar).
Kaupfélagsstjóraskipti hjá Örlygi: Sigurbjörn Guðjónsson lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri Sláturfélagsins Örlygs, eftir langt og farsælt starf frá 1936 (sjá þar). Einar T. Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) frá Láganúpi tekur við starfinu, en hann hefur unnið að búi foreldra sinna og verið til sjós; bæði í Kollsvík og á togurum. Kona Einars er Guðrún Grímsdóttir (25.05.1923-17.02.2019) frá Grundum.
Einar gegndi kaupfélagsstjórastarfinu hjá Örlygi til 1950, en þá tók Sigurbjörn um tíma aftur við starfinu, þar til Össur Guðbjartsson tók við árið 1956. Þau Guðrún byggðu sér nýbýli á Gjögrum 1947 (sjá þar). Þetta var byrjunin á löngum og farsælum ferli Einars í kaupfélagastarfsemi. Hann naut ekki mikillar skólagöngu en aflaði sér sjálfur mikillar þekkingar og var gæddur miklum gáfum; nákvæmni og innsæi. Honum var næst falin stjórn kaupfélagsins í Flatey; var síðan útibússtjóri í Súðavík; síðan að Ásum í Saurbæ; Vegamótum á Snæfellsnesi; á Hellisandi og á Laugavatni. Allajafana fólst aðkoma Einars í því að koma reglu á rekstur þessara kaupfélaga og fórst það vel úr hendi. Árið 1967 settust þau Guðrún að í Borgarnesi ásamt Maríu Jónu dóttur sinni; byggðu sér þar hús og hófu störf hjá Kaupfélagi Borgnesinga; hann við bókhald en hún við afgreiðslustörf.
Fyrirkomulagi bréfhirðu mótmælt: Íbúar Breiðuvíkur og Kollsvíkur hafa sent hreppsnefnd Rauðasandshrepps skrifleg mótmæli við ríkjandi fyrirkomulagi bréfhirðinga í hreppnum. Í þeim er vísað til fyrri tillagna bréfritara sem hafðar hafi verið að engu. Mótmælt er hvernig póstur gengur um hreppinn og að bréfhirðing skuli vera staðsett á Hnjóti en ekki í Tungu. Undir bréfið rita Einar Guðbjartsson, Árni Helgason, Aðalsteinn Sveinsson, Sigríður St Traustadóttir, Sveinn Sveinsson, Sveinn Benónýsson, Ingimundur Halldórsson, Guðmundur Jóh. Kristjánsson og Guðbjartur Guðbjartsson.
Ekki skal sagt hvaða áhrif mótmælin höfðu. En 1948 var bréfhirðingin flutt frá Hnjóti að Gjögrum. Þaðan flutti hún aftur að Hnjóti 1967 (sjá þar), og loks á Patreksfjörð 1985 (sjá þar).
Smjör og brak úr Goðafossi rekur á Rauðasandi: Nú í janúar hefur allnokkuð brak rekið á fjörur á Rauðasandi, sem talið er komið úr Goðafossi, sem sökkt var í lok síðasta árs norður af Garðskaga af þýskum kafbáti. Meðal annars hefur rekið nokkuð af smjöri.
Goðafossi var sökkt 10.11.1944, og fórust 24 í slysinu; karlar, konur og börn. Var það mesta manntjón sem Íslendingar hafa orðið að þola á einum degi vegna styrjalda. Sumarið 2016 fann þýskur kafari flak Goðafoss á hafsbotni.
Fulltrúi á stofnfund Stéttasambands bænda: Sigurbjörn Guðjónsson bóndi í Hænuvík er fulltrúi Búnaðarfélagsins Örlygs á stofnfundi Stéttarsambands bænda sem haldinn er á Laugarvatni á þessu ári.
Sigurbjörn var síðan um mörg ár annar fulltrí Vestur-Barðastrandasýslu á aðalfundum Stéttasambandsins, eða til 1957, að hann flyst úr hreppnum. Þá er kjörinn Össur Guðbjartsson Láganúpi, og er hann fulltrúi til 1971; þá Árni Helgason Neðri-Tungu til 1970, en þá Össur aftur til 1987. (ÖG; Rauðasandshreppur).
1946
Hreppstjórnendur: Í hreppsnefndarkosningum á þessu ári voru 136 á kjörskrá; atkvæði greiddu 55. Kosningu hlutu; Snæbjörn J. Thoroddsen Kvígindisdal, sem verður oddviti; Trausti Pétursson Sauðlauksdal og Guðbjartur Egilsson Lambavatni. Hreppstjóri er Halldór Júlíusson Saurbæ.
Sölubúð, íverbraggi og bryggja á Gjögrum: Sláturfélagið Örlygur hefur nú byggt myndarlegt verslunarhús á Gjögrabökkum; 5x10 metrar að grunnfleti. Í meginhluta hússins er verslun öðrumegin og vörulager hinumegin, en í suðurendanum er íveruhús og mötuneytisaðstaða fyrir þá sem vinna að slátrun á haustin. Geymsluloft er yfir öllu húsinu. Félagið hefur um árabil verið með vörulager í steinsteyptu húsi sem því var byggt í Hænuvík, en verslunin flyst nú í þetta húsnæði. Starfsmenn við slátrun fá með þessu stórbætta aðstöðu, en þeir hafa undanfarin ár dvalið í kofa norðan við sláturhúsið sem nú verður rifinn.
Bryggja hefur einnig verið byggð á Gjögrum, 66 metra löng og 4 metra breið, sem stórauðveldar alla aðstöðu við upp- og útskipun varnings, þó vissulega þurfi að sæta sjávarföllum við hana.
Rekstur Örlygs hefur gengið vel að undanförnu, eftir nokkra erfiðleika á fyrstu rekstrarárunum.
Bátabryggja á Hvalskeri: Steinsteypt bátabryggja hefur verið gerð á Hvalskeri. (Árbók Barð.) Um nokkurn tíma hefur verið notuð lausabryggja úr tré sem sett hefur verið fram í hvert sinn, en allmikilir mjókurflutningar hafa farið þarna um, auk verslunarflutninga og annars. (AÍ; Árbók Barð 1980-90).
Ræktunarsamband stofnað: Miklar umræður hafa verið um skiptingu Búnaðarfélags Vestfjarða í Ræktunarsambönd, en tilgangur þeirra er að auðvelda ræktun með stórvirkum vélakosti. Á þessu ári er stofnað Rætktunarsamband Rauðasands- og Tálknafjarðarhreppa. Kaupir áð strax litla jarðýtu; Cletrac, ásamt herfi. Ýtustjóri er Davíð Davíðsson bóndi á Sellátrum og nær hann furðu miklum afköstum á þessari litlu ýtu. Formaður Ræktunarsambandsins er Guðmundur Guðmundsson bóndi á Kvígindisfelli.
Þetta ræktunarsamband var lagt niður árið 1954, en 1956 var stofnað Ræktunarsamband V-Barðastrandasýslu. Það yfirtók jarðvinnsluvél Rauðasandshrepps sem keypt hafði verið skömmu áður. (ÖG; Rauðasandshreppur).
Jarðýta komin í Rauðasandshrepp: Komin er jarðýta í hreppinn, á vegum Vegagerðar ríkisins. Hún er af gerðinni International Harvester TD9. Mun ýtan verða notuð við vegagerð inni í Patreksfirði; bæði upp á Kleifaheiði og út með firðinum. Henni fylgir ýtustjóri frá Vegagerðinni; Sigurður að nafni. Vegurinn upp á heiðina komst í fyrra upp í Skarðsbrekku, undir verkstjórn Kristleifs Jónssonar.
Árið eftir sendi Vegagerðin aðra ýtu á svæðið; TD6 með skóflu að framan og stuttu síðar aðra sömu tegundar (AÍ; Árbók Barð 1980-90).
Fyrsti Willysjeppinn í Rauðasandshrepp: Magnús Ólafsson í Vesturbotni hefur keypt sér jeppa af gerðinni Willys; bíllinn er þó skráður á bróður hans, Ásbjörn Ólafsson í Skápadal. Bíllinn er með skráningarnúmerið B 46. Eru jeppar þessir taldir henta vel á þá vegi sem nú eru komnir í hreppnum; með drif á öllum hjólum, lággíraðir og hátt undir þá. Bíll Magnúsar er með gírskiptistöng á stýri.
Höfn grafin inn í Vatneyrarvatn: Hafin er vinna við mestu hafnargerð á landinu til þessa. Felst hún í því að grafa fram úr Vatneyrarvatni til sjávar. Til þess þarf að færa til gríðarlegt magn af möl, og eru notaðar við þetta stórvirkar gröfur. Má ætla að þarna skapist friðarhöfn fyrir hina miklu bátaútgerð, en einnig stærri vélbáta og togara sem verða gerðir út frá staðnum.
Nýtt sjúkrahús á Patreksfirði tekið í notkun: Hinn 04.05.1946 tók til starfa nýtt sjúkrahús sem V-Barðastrandasýsla hefur látið reisa. Stendur það í brekkunni skáhallt ofan spítalans sem það leysir af hólmi, og starfað hefur frá 1904. Framkvæmdir hófust 1944, og lagði Sveinn Björnsson forseti hornstein að húsinu í heimsókn sinni það ár. Teikningar nýja hússins eru gerðar á skrifstofu húsameistara ríkisins, en yfirsmiður var Ingi Kristjánsson á Patreksfirði.
Búskap hætt á Naustabrekku: Þórarinn Kristján Ólafsson (25.07.1885-11.04.1959) og kona hans Guðmundína Sigurrós Guðmundsdóttir (11.12.1878-12.03.1979) hafa brugðið búi á Naustabrekku og flust til Patreksfjarðar eftir 11 ára búskap.
Síðan hefur jörðin verið nytjuð af Lambavatnsbændum. Núverandi eigendur eru báðir ættaðir frá Lambavatni og hefur annar þeirra; Gylfi Guðbjartsson (sjá Lambavatn) byggt sér snotran sumarbústað og komið sér upp lítilli vatnsaflsvirkjun þar á Kvarnargrund. (BÞ; Vestfjarðarit).
Búskap lokið á Koti: Lokið er búskap á Koti, með því að þar bregða búi Konráð Júlíusson (03.11.1902-09.02.1995) og Jónfríður Jónsdóttir (22.09.1904-05.02.1988). Ekki er ljóst hvenær Kot byggðist, en Árni Magnússon telur 1703 að jörðin hafi byggst úr landi Konálsstaða (Konungsstaða), sem mun vera fornt býli þar innar. Engar heimildir eru um ábúð á Konálsstöðum, en þar eru fornar rústir. Kot var upphaflega hjáleiga Skápadals, með land milli Mikladalsár og Merkjagils.
Konráð var kunnur hagyrðingur. Hann arfleiddi Barðstrendingafélagið að fjármunum, og er félagsheimili þess nefnt Konnakot, honum til heiðurs. Kot hefur síðan verið nytjað frá Hvalskeri.
Ljóðabókin Þorpið; byltingarskáldið Jón úr Vör: Út er komin ljóðabókin Þorpið eftir Jón Jónsson frá Patreksfirði, sem kallar sig skáldanafninu Jón úr Vör. Óhætt er að segja að bókin valdi straumhvörfum í íslenskri ljóðagerð. Hér birtist safn ljóða sem eingöngu mótast af hinu skáldlega og tilfinningalega innsæi höfundarins, en allri formfestu hefðbundinnar ljóðagerðar, s.s. rími og ljóðstöfum, er algerlega ýtt til hliðar. Ljóðin eru því óþvinguð af forminu. Hér kveður því við algerlega nýjan tón í ljóðagerð. "Menningarpostular" hafa farið mikinn í að lýsa fyrirlitningu sinni á þessum tiltektum og kalla aðför að öllum kveðskap.
Jón úr Vör (21.01.1917-04.03.2000) var sonur Jóns Indriðasonar skósmiðs og Jónínu G. Jónsdóttur en var ungum komið í fóstur til Þórðar Guðbjartssonar verkamanns og lísspekings og Ólínu Jónsdóttur konu hans. Hjá þeim ólst hann upp. Jón starfaði einkum sem bókavörður, en gaf út nokkrar ljóðabækur. "Ég ber að dyrum" 1937; "Stund milli stríða" 1942 og "Þorpið" 1946. Eftir að sú síðastnefnda kom út í Svíþjóð hljóðnaði hin háværa gagnrýni menningarpostulanna, og sannaðist þar sem oftar að "allt er gott sem frá útlandinu kemur". Líklega hafa fáir reist heimabyggð sinni og samtíð jafn veglegan minnisvarða og Jón gerði með "Þorpinu".
Þorpið var fyrsta formbyltingarverk íslenskrar ljóðlistar sem af þessu tagi. Þar þverbrýtur Jón hið hefðbunda form ljóða. Hann hefur enga reglu í ríminu, ljóðstafasetningu og hrynjanda þar sem það finnst í ljóðum hans. Þetta er fyrsta safn óbundinna ljóða, sem á sínum tíma voru kölluð "atómljóð" og ollu miklu fjaðrafoki. Hann er því frumherji þessa ljóðstíls sem er orðinn ríkjandi í íslenskum ljóðskap. Í Þorpinu er einum flokki ljóða gefinn mest athygli en í honum eru ljóð ort frá sjónarhorni lítils stráks sem ólst upp hjá fósturforeldrum. Í kennslubókinni „Tíminn er eins og vatnið“ er haft eftir Jóni að hann hafi verið strákurinn í hlutverki ljóðmælanda. „Bók þessi fjallar um uppvaxtarár mín og æsku, lífið og lífsbaráttuna í þorpinu, vegavinnusumar fjarri átthögum, um venzlafólk mitt og aðra, sem voru mér á einhvern hátt nákomnir... allsstaðar er farið frjálslega með staðreyndir, enda þótt hvergi sé í aðalatriðum hvikað frá hinu rétta.“ Þorpið er einhver þekktasta og markverðasta ljóðabók sem gefin hefur verið út á Íslandi og hefur notið fádæma vinsælda allt frá því hún kom fyrst út
1947
Frækileg björgun undir Látrabjargi: Íbúar Rauðasandshrepps unnu mesta björgunarafrek sem sögur fara af er þeir björguðu áhöfn breska togarans Dhoon, sem strandaði við Langurðir undir Látrabjargi hinn 12. desember. Aðstæður til björgunar voru alls ekki árennilegar. Ekki var mögulegt að komast að togaranum frá sjó vegna brims; ekki er fært um fjöru á þennan stað og yfir gnæfir þverhnípt standberg Bjargsins. Það vildi skipverjum til lífs að í Útvíkum Rauðasandshrepps búa þaulvanir bjargmenn sem vanir eru að kljást við ýmiskonar aðstæður, en einnig það að eftir stofnun slysavarnadeildarinnar Bræðrabandsins hafa fluglínutæki verið tiltæk á Hvallátrum. Björgunarmenn fóru í handlás niður á Flaugarnef, undir Geldingsskorardal, og þaðan voru fjórir þaulvanir bjargmenn látnir síga niður í fjöru. Þeir gengu inneftir fjörunni að strandstað og lánaðist að skjóta línu út í togarann. Skipverjar voru dregnir einn af öðrum í land. Sæta þurfti sjávarföllum til að komast undir Flaugarnefið og eyddu þeir nótt þarna undir bjarginu. Voru síðan allir dregnir á brún og lánaðist vel, en mjög var af sumum skipbrotsmönnum dregið. Þeir voru fluttir á hestum að Látrum en gátu síðan komist til síns heima. Tólf skipverjum varð bjargað en þrír höfðu farist um borð.
Nánar er sagt frá björguninni í nokkrum bókum sem út hafa komið, svo og í kvikmynd sem Óskar Gíslason gerði um efnið, en þegar unnið var að tökum þeirrar myndar í Kollsvík 1948 þurftu björgunarmenn að bregðast við öðru strandi; togarans Sargons undir Hafnarmúla. Sjá þar.
Síðasti móskurður í Kollsvík: "Það mun hafa verið vorið 1947 sem ég tók síðast þátt í að taka upp mó og þurrka hann" (Páll Guðbjuartsson; Mannlíf í Útvíkum).
Sögu útræðis í Breiðavíkurveri lokið: Þetta vor var síðast róið úr Breiðavíkurveri, eins og Halldór Ólafsson frá Hvallátrum (f.15.11.1932) segir frá í Sjómannadagsblaðinu 1993: „Sjómannsferill minn var nýlega hafinn (þegar Dhoon-strandið varð 1947), en hann hafði ég byrjað um vorið þetta sama ár úr Breiðavíkurveri. Það var þegar ég tók að róa á trillu með þeim Guðmundi Kristjánssyni bónda í Breiðuvík og Árna Helgasyni í Kollsvík. Það reru þarna þrír bátar. Á öðrum hinna mátanna voru bræðurnir Aðalsteinn og Sveinn Sveinssynir frá Brauðavík en Bjarni Sigurbjörnsson úr Hænuvík og Ólafur Sveinsson frá Nesi með honum á hinum bátnum. Því tel ég þessa menn upp hér, að við þessir sjö vorum hinir síðustu sem reru úr Breiðavíkurveri og lauk þar með langri sögu útræðis þaðan“.
Nýbýli á Gjögrum: Einar Guðbjartsson frá Láganúpi, sem 1945 (sjá þar) tók við sem kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs, hefur nú sest að á Gjögrum ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Grundum. Hafa þau byggt sér íbúðarhús nokkru ofan sölubúðarinnar, ásamt fjárhúsum, og hafið þar dálítinn búskap. (Sjá 1959). Einar stundaði einnig róðra frá Gjögrum: „Um vorið byrjaði ég síðan róðra frá Gjögrum með Einari bróður, og byggði einnig húsið á Gjögrum“ (IG; Æskuminningar).
Halldór Kiljan frá Laxnesi um Rauðasandshrepp: Halldór Guðjónsson frá Laxnesi, sem nefnir sig Halldór Kiljan Laxness að hætti listamanna, ritar greinarkorn í Tímarit Máls og menningar þetta vorið. Þar fjallar hann m.a. um atvinnumál í Rauðasandshreppi, og þykir heimamönnum illa að sér vegið af slíkum ókunnugum uppskafningi og pennaskakara. Halldór byrjar á að gera gys að hræðslu við yfirstandandi Heklugos, en veltir því síðan fyrir sér hvernig landbúnaður geti orðið arbærari. Kemst hann að þeirri niðurstöðu að árstekjur af einni á jafngildi daglaunum verkamanns. Segir skáldið síðan:
„Flettum upp í fasteignamatinu á einhverjum meðalhreppi þar sem aðaltekjustofn landbúnaðarfyrirtækjanna er sauðfjárrækt, t. d. Rauðasandshreppi. Í þessum sauðfjárhreppi eru 47 bygðar jarðir. Séu tekjur af hverri kind látnar samsvara einum daglaunum, sem er þó áreiðanlega ofílagt, sést að í hreppi þessum vinna 35 bændur fyrir minna en 100 daglaunum á ári, þaraf 9 undir 50 daglaunum. Aðeins einn bóndi í hreppnum kemst uppfyrir 200 daglaun almenns verkamanns á ári. Eftir daglaunum almenns verkamanns táknar búskapur af þessu tagi atvinnuleysi á háu stigi — á sama tíma og eftirspurn vinnukraftar er óþrotleg í landinu. Bændur Rauðasandshrepps vinna að meðaltali 75 daga á ári, hver maður, reiknað í daglaunaeiníngum, en eru atvinnulausir að meðaltali 290 daga ársins, hver maður. Af fasteignamati er að sjá sem aðaltekjustofn þessara 47 bænda sé sauðfjáreign, en fé hreppsbúa telst mér vera rúmlega hálft fjórða þúsund kindur samtals. Nautgriparækt er svo lítil að mennirnir mundu jafnt geta stundað hana í hjáverkum þó þeir væru bílstjórar, smiðir eða frægir rithöfundar, — flestir hafa 1 eða 2 kýr, nokkrir 3, tveir menn 4. Eg veit ekki hversu margir vinnandi menn eru í hreppnum, en öll fjáreign hreppsbúa er ekki meiri en svo að aðeins tíu menn gætu haft af henni tekjur samsvarandi árslaunum almenns verkamanns, og þó þvíaðeins hver kind úng sem gömul gefi af sér verkamannsdaglaun. Ég er persónulega ókunnugur á þessum stað og skal ekki um segja hvort fólk það sem býr í hreppnum hefur lífsuppeldi sitt af öðrum störfum, t. d. sjósókn (20 jarðir teljast hafa útræði) eða daglaunavinnu. Eftir því sem fasteignamatið tjáir um þægindi þessa fólks getur það varla haft miklar tekjur annarsstaðar frá, svo fátt sem það veitir sér, til dæmis er hvorki bað né vatnssalerni í allri sveitinni, og teljast þó slíkir hlutir til lágmarksþæginda í híbýlum manna nú á tímum“.
Skáldið heldur síðan áfram þjóðfélagsrýni sinni; furðar sig á aukinni hrossaeign þegar enginn ríður hesti; hneykslast á „ófrjósemi í tónskáldskap“ og „ógeðslegum vöggulögum“, misheppnaðri myndlist; slæmum vegum og undrast mótlæti skáklistarinnar.
Margir íbúar Rauðasandshrepps voru sárir út í Laxness fyrir skrif hans um íbúa hreppsins; jafnvel ævilangt. Vissulega kunnu margir að meta skáldverk Laxness, sem síðar fékk Nóbelsverðlaun, en alltaf töldu menn hann skrifa af vanþekkingu um landbúnað. Hinu verður ekki neitað að Halldór var nákvæmur í heimildavinnu sinni, og því óþarfi að efast um tölur þær sem hann þarna nefnir um mann- og fjárfjölda í Rauðasandshreppi.
Silfurrefur grunaður um að bíta fé: Grunur leikur á því að villtir silfurrefir hafi lagst á fénað í Rauðasandshreppi. Seint í nóvember fundust fjórar ær; sumar með lífi, holrifnar og étnar. Ekki er vitað hvaðan þessi vargur er aðkominn, en talið er víst að silfurrefur og íslenskur hafi átt gren saman þarna í hreppnum. (Nýi tíminn 08.01.1948).
Kollsvíkingur frumkvöðull í plastpokagerð: Samúel Torfason frá Kollsvík er mikill frumherji í iðnaðarsögu landsins. Árið 1936 stofnaði hann Ofnasmiðjuna ásamt fleirum (sjá þar), eftir að hafa átt stóran þátt í að koma Kassagerð Reykjavíkur á fót. Nú hefur hann stofnað fyrirtækið Samúel Torfason hf og hafið framleiðslu á ýmsum vörum úr sellófani (plasti). Er hann upphafsmaður að slíku hérlendis.
Samkvæmt auglýsingu seldi fyrirtækið m.a: "plastpoka í öllum stærðum; plastarkir; plast-burðarpoka; plast-heimilispoka; plast-fatapoka með rennilás; plast-skópoka; plast-slöngur; polyplast-arkir í öllum stærðum; polyplast ávaxtapoka, áprentaða; sellófanarkir; sellófanpoka; innpökkunarfilmu í öllum breiddum; kjötfilmu; ávaxtafilmu; brauðafilmu; sjálflímandi plastfilma til heimilishalds og blómasellófanarkir" (Tíminn 26.09.1971). Samúel (19.12.1902-17.02.1987) hélt tryggð við æskustöðvarnar og kom iðulega í Kollsvík.
Þvottavélar koma til sögunnar: Á þessu ári kemur fyrsta þvottavélin til Patreksfjarðar. Sæmundur Jóhannesson kaupir þá þvottavél í Reykjavík fyrir Sigurveigu Guðmundsdóttur (Hjaltasonar), en þá er Hjalti sonur þeirra nýfæddur. Hafði vélinni verið smyglað til landsins frá Bandaríkjunum. Frúrnar á Eyrum höfðu lítið álit á slíku apparati og töldu það helst nýtast til þvotta á vasaklútum. (SG; Þegar sálin fer á kreik).
Ekki fer sögum af tegund vélarinnar eða örlögum. Fleiri komu á Eyrar á næstu árum, en líklega hefur orðið bið á slíku úti í Rauðasandshreppi. Í Kollsvík var, uppúr 1960, til heimasmíðuð handknúin þvottavél. Var það trétunna með ási þvert gegnum bumbinn. Inni í tunnunni voru festar við ásinn skálar (hálfar álkúlur) og þegar ásnum var snúið með handfangi hrærðu skálarnar í þvottinum. Ekki er vitað um gagnsemi þessa tækis, en e.t.v. hefur það helst gagnast til ullarþvotta.
1948
Bretakóngur og fleiri heiðra afreksmenn: Georg VI. Bretakonungur hefur ákveðið að veita æðsta breska heiðursmerki fyrir björgun úr sjávarháska til Andrésar Karlssonar Kollsvík, Bjarna Sigurbjörnssonar Hænuvík, Daníels Eggertssonar Hvallátrum, Hafliða Halldórssonar Hvallátrum og Þórðar Jónssonar Hvallátrum fyrir björgun skipbrotsmanna af togaranum Dhoon sem strandaði undir Látrabjargi sl vetur. Breska verkamálaráðuneytið hefur ákveðið að senda slysavarnadeildinni Bræðrabandið í Rauðasandshreppi silfurbikar í viðurkenningarskyni fyrir sömu björgun. Opinber skýrsla um björgunina hefur verið gefin út í Bretlandi. (Þjóðviljinn; 04.07.1948).
Sjómannadagsráð heiðraði Bræðrabandið einnig, og afhenti formaður ráðsins deildinni afreksbikarinn, sem veittur er fyrir frækilegasta björgunarafrek ársins, ásamt skrautrituðu skjali með nöfnum þeirra sem þátt tóku í björguninni. (Þjóðviljinn (08.06.1948)
Unnið að kvikmyndatökum í Kollsvík: Nú í oktober hafa hér í Kollsvík staðið yfir tökur á kvikmynd sem Óskar Gíslason ljósmyndari vinnur að um björgunarafrekið við Látrabjarg í fyrra. Óskar valdi að taka sumar senurnar í Kollsvík. T.d. eru senur frá Flaugarnefi teknar út undir Þúfustekk á Hnífum, og senur eru teknar við bæi í Kollsvík sem eiga að gerast á Látrum. Fjöldi manna sem tóku þátt í björgunarafrekinu eru staddir í Kollsvík og dveljast aðkomumenn flestir í Kollsvíkurbænum, en hann stendur mannlaus um þessar mundir.
Óvænt atburðarás í upptökum: Hinn 01.12.1948 komu menn saman í Kollsvík til að ljúka við tökur á síðasta kafla kvikmyndarinnar um björgunarafrekið við Látrabjarg. Aðkomumenn frá Látrum, Breiðuvík, Hænuvík og Sellátranesi hugðust dvelja í Kollsvík, en þar varð skortur á kolum til kyndingar og fór svo að sumir gistu í Tröð en hinir fóru að Láganúpi. Kominn var hávaðabylur. Klukkan 6 að morgni 02.12.1948 kvaddi Andrés Karlsson bóndi og símstöðvarstjóri á Stekkjarmel dyra á Láganúpi og tilkynnti að togari væri strandaður við Hafnarmúla. Flokkur björgunarmanna lagði því af stað úr Kollsvík inn yfir Hænuvíkurháls. (Þórður Jónsson; Alþýðuhelgin; 01.04.1950).
Með í för var Óskar Gíslason kvikmyndatökumaður og fékk Össur Guðbjartsson á Láganúpi það hlutverk að fylgja honum og bera búnað hans. Kvikmyndatökur um "Björgunina undir Látrabjargi" voru komnar á nýtt og óvænt stig.
Togarinn Sargon strandar undir Hafnarmúla: „Að kvöldi 1. des. 1948 strandaði togarinn Sargon frá Hull undir Hafnarmúla vestanvert við Patreksfjörð. Hríðarbylur var og NNA 10 og 11 vindstig. 17 manna áhöfn var á togaranum. Þar af björguðust 6, en 11 voru dánir í skipinu“. (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen). Fyrst urðu vör við strandið Einar Guðbjartsson frá Láganúpi og kona hans Guðrún Grímsdóttir frá Grundum, en þau búa nú á Gjögrum. Sent var til næstu bæja en einnig var komið boðum í símstöðina á Stekkjarmel, þar sem margir færir menn Bræðrabandsins voru staddir í Kollsvík vegna kvikmyndatöku Óskars Gíslasonar sem frá segir hér fyrr. Björgunarmönnum tókst að skjóta línu í togarann og ná sex skipverjum í land en aðstæður um borð voru slæmar og svo fór að ellefu skipbrotsmenn létu þarna lífið. Eru uppi tilgátur um að ölvun hafi verið um borð og átt þátt í því hvernig fór, en það er ekki staðfest.
Vitinn á Bjargtöngum endurbyggður: Byggt hefur verið steinsteypt vitahús á Bjargtöngum og settur upp nýr ljósviti sem tekur við af þeim sem fyrir var, en hann var byggður 1913 (sjá þar). Eins og hinn fyrri verður þessi ljósviti knúinn gasi.
Síðar var byggt vélarhús og settar upp dísilvélar við vitann. Árið 1965 var settur upp langdrægur radíóviti á Bjargtöngum ásamt tilheyrandi háu mastri.
Áætlunarflug hafið: Flugfélagið Loftleiðir hóf áætlunarflug til Patreksfjarðar með sjóflugvél hinn 07.04.1948. (Loftleiðir önnuðust áætlunarflugið til 1952 er félagið hætti innanlandsflugi. Síðar var áætlunarflug á Patreksfjarðarflugvöll með flugvélum Flugfélags Íslands og Flugleiða, ásamt póstflugi flugfélagsins Ernis á Ísafirði. Sjá 1985).
1949
Sýslan kaupir jarðýtu: Sýslusjóður Vestur-Barðastrandasýslu hefur keypt jarðýtu af gerðinni IH-TD14, fyrir hvatningu Jóhanns Skaptasonar sýslumanns. Er hún almennt nefnd „sýsluýtan“, en formlegt heiti er „Ásaþór“. Ýtanverður í byrjun notuð til að ryðja veg um Þingmannaheiði á kostnað fjallvegasjóðs. (1952 ruddi hún veg yfir Fossháls og ári síðar yfir Klettaháls, og komst þá á vegasamband eftir endilangri sýslunni). Ýtustjóri er Magnús Ólafsson í Vesturbotni og hefur hann þegar getið sér góðs orðs fyrir afköst og verklagni. Gjarnan hagar hann verki eftir sínu hyggjuviti og fer þær leiðir sem honum sýnist bestar, þó stikur segi annað. Hefur það enda reynst heilladrýgst.
Ásaþór var síðast eign Jóns Guðjónssonar bónda og ráðunauts á Laugabóli í Ísafjarðarsýslu. (AÍ; Árbók Barð).
Rauðasandshreppur kaupir jarðýtu: Rauðasandshreppur hefur nú keypt jarðýtu, einkum í þeim tilgangi að þoka áfram vegagerð í hreppnum. Ýtukaupin voru samþykkt af hreppsnefnd 1947, en ónefndur aðili lagið allnokkuð fé til kaupanna, en kaupverð var rúmar 65 þúsund krónur. Keypt var vél af gerðinni Caterpillar D4. Verður hún notuð t.d. við veginn frá Gjögrum áleiðis í Kollsvík. Ýtustjóri er Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík. (Árið 1954 var þessi vél seld Þorgeiri og Ellert á Akranesi. Bar hún beinin á býli undir Akrafjalli). (AÍ; Árbók Barð).
Ræktunarsamband stofnað: Stofnuð hafa verið þrjú ræktunarsambönd í vestursýslunni; eitt á Barðaströnd, annað í Arnarfirði og það þriðja fyrir Tálknafjarðar- og Rauðasandshrepp. Það síðastnefnda hefur fest kaup á tveimur jarðvinnuvélum. Annarsvegar er það lítil jarðýta af gerðinni Cletrac en hinsvegar traktor af gerðinni W4.
Nokkrum árum síðar er stofnað Ræktunarsamband V-Barðastrandasýslu (sjá 1954), og lentu þá þessar vélar í reiðileysi. (AÍ; Árbók Barð).
Tundurdufl á Rauðasandi: Tvö tundurdufl rak á Rauðasandi á þessu ári; annað á Melanesfjörum og hitt neðan Saurbæjar. Haraldur Guðjónsson sprengjusérfræðingur gerði bæði óvirk. (Tíminn 08.04.1949).
Afreksmenn heiðraðir: Tvö bresk herskip komu til Patreksfjarðar 17. júní þetta ár með stjórn vátryggingafélags togarans Dhoon, sem strandaði við Látrabjarg 1947. Erindi þeirra var það að heiðra afreksmenn þá sem stóðu í fremstu víglínu við björgun áhafnarinnar, eins og frægt er orðið. Vegna veðurs gat boðsfólkið úr slysavarnadeildinni Bræðrabandið ekki mætt í hóf sem haldið var af þessu tilefni. (Mbl. 19.03.1954).
Harðasti vetur frá 1918: „Þessi síðastliðni vetur er einn hinn allra harðasti og versti er komið hefur hér síðastliðinn 30 ár, eða síðan 1918. Það má svo heita að samfelld harðindatíð hafi verið hér frá 1. des. s.l. en þá skall á fyrsta vetrarstórhríðin með ofsaroki og nokkru frosti. Skefldi þá víða sauðfé svo að ekki hefur enn fundist. Á nokkrum bæjum hrakti fé í sjó og urðu þá víða fjártjón. Síðasta dag apríl er alhvít jörð niður að sjó og víða djúpfenni. Almennur heyskortur er hér og munu þó vera mörg ár síðan bændur áttu jafnmikil hey í vetrarbyrjun”. (Tíðarfaarsannáll SJTh, Kvígindisdal). Sjá þó 1950.
1950
Hreppsstjórnin: Í kosningum þetta ár voru þessir kosnir í hreppsnefnd; Snæbjörn J. Thoroddsen í Kvígindisdal, sem er oddviti; Guðbjartur Egilsson Lambavatni og Hafliði Halldórsson Neðri-Tungu. Á kjörskrá voru 129; atkvæði greiddu 53. Sýslunefndarmaður var kjörinn Snæbjörn J. Thoroddsen. Hreppstjóri í hreppnum er Sigurbjörn Guðjónsson í Hænuvík, sem tók við af Snæbirni J. Thoroddsen árið 1948. (Sveitarstjórnarmál 01.12.1950; Árb.Barð 1949).
Séra Gísli H. Kolbeins vígður til Sauðlauksdals: Hinn 30. júlí var séra Gísli Halldórsson Kolbeins (30.05.1926-10.06.2017) vígður prestur að Sauðlauksdal, með aðsetur á Patreksfirði. (Fór 1954 að Melstað í Miðfirði).
Vegur um Örlygshöfn: Áfram var unnið við lagningu bílvegar, aðallega í Örlygshöfn og út frá henni; áleiðis til Hænuvíkur. Vegur hefur að miklu leyti verið lagður frá Hvalskeri til Saurbæjar. Á næsta ári er fyrirhugað að leggja veg frá Hvalskeri í Örlygshöfn og brúa Sauðlauksdalsvaðal.
Lagðar niður símstöðvar: Lagðar hafa verið niður sex símstöðvar í Rauðasandshreppi, í kjölfar þess að notendasími var lagður á bæina. Ein þeirra var á Stekkjarmel í Kollsvík (Árbók Barð).
Flugvélar lenda í Rauðasandshreppi: Hinn 21. maí lenti Stinson flugvél frá Reykjavík á þurrum sandi við Saurbæjarvaðal á Rauðasandi. Flugmaður var Jón Júlíusson og tókst lendingin ágætlega. Farþegar voru að koma að Saurbæ. Sama vél lenti þar aftur tveimur dögum síðar. 26. ágúst lenti lítil flugvél á Breiðavíkursöndum; flugmaður var Björn Pálsson og tókst sú lending einnig vel.
Breyttir matarhættir: Breytingar eru nú að verða á matmálstímum fólks, með breyttum atvinnuháttum. Fyrrum var matmálstímum skipað þannig í Kollsvík: Kaffi eða grasamjólk að morgni um kl. 8 eða fyrr. Morgunmatur var um kl. 9. Hádegiskaffi eða annað kl. 12. Kl. 3 eftir hádegi; miðaftanskaffi eða annað kl. 6; og kvöldmatur kl. 8 - 9. (TÖ; Matarhættir).
Hrátt salat orðið mannamatur: Sums staðar er það farið að tíðkast á bæjum hér í sveit að neyta káls og salats ósoðins. Þykir sumum það ágætur og matur, t.d. sem meðlæti með öðru, en aðrir hneykslast; t.d. margir eldri karlar, og segjast ekki vilja éta gras. (SG; matarhættir).
Þorrablót að fornum sið: Rauðsendingar hafa nú, til hátíðabrigða, tekið upp hinn forna sið að blóta þorra. Elstu heimildir nefna Þorra sem persónugerving vetrarins og að honum hafi verið blótað með veisluhöldum, en síðar hafi nafnið færst á harðasta vetrarmánuðinn. Það er ungmennafélagið Von sem gengst fyrir þessu mannamóti, eins og fleirum. Þar slá menn upp sameiginlegri veislu með þjóðlegum mat; skemmta sér og dansa.
Þorrablót voru árlega haldin í Félagsheimilinu Fagrahvammi eftir að það var byggt. (SG; matarhættir).
Fyrsta kvikmyndasýning í Kollsvík: Baldvin Þ. Kristjánsson erindreki Sambands íslenskra samvinnufélaga var á ferð í byrjun oktober á þessu ári. Heimsótti hann þá Sláturfélagið Örlyg og Kaupfélag Rauðasands. Fundað var í Örlygi í Örlygshöfn, þar sem vel var mætt. Daginn eftir fór hann út í Kollsvík í fylgd kaupfélagsstjórans; Kollsvíkingsins Einars Guðbjartssonar. Fóru þeir leiðina á hestum með viðkomu í Hænuvík hjá Sigurbirni Guðjónssyni, fyrrum kaupfélagsstjóra. Haldinn var fundur á Láganúpi með félagsmönnum í Kollsvík, en þar sýndi Baldvin kvikmynd. (Ekki fer sögum af myndefninu, en líklega þjónaði það boðskap SÍS). Segir Baldvin að þetta hafi verið „heimilislegasti“ fundur sem hann hafi setið. Í bakaleiðinni kom Baldvin við í Tröðinni, þar sem Helgi Árnason, stjórnarformaður Örlygs, spilaði m.a. fyrir hann á orgel meðan viðstaddir sungu.
Baldvin hélt fund á Hvalskeri í Kaupfélagi Rauðasands. Þar minnist hann m.a. ræðu Guðbjartar Egilssonar á Lambavatni sem er „í röð hugþekkustu samvinnumanna“ sem hann hafði kynnst; víðsýnn og tilfinningaríkur. Segir Baldvin að hann hafi oft vitnað í orð Guðbjartar málum sínum til stuðning. (Samvinnan 12.tbl 1950).
Brak úr mb Helga finnst á Rauðasandi: Þegar gengið var á reka í Lambavatnsfjöru hinn 24.01.1950 fannst björgunarbátur lítt brotinn og brak úr stóru tréskipi. Næstu daga var fjaran gengin utar; að Forvaða undir Brekkuhlíð, og fannst þá meira brak. Menn fóru úr Örlygshöfn og leituðu Keflavíkurfjöru að Brimnesi. Þar fannst meira brak; m.a. lok af meðalakassa með nafni læknis í Vestmannaeyjum. Fleiri vísbendingar fundust sem sýndu að brakið var úr mótorbátnum Helga sem strandað hafði á Faxaskeri, við innsiglinguna að Vestmannaeyjum, eftir vélarbilun. Tveimur tókst að stökkva upp á skerið en fóru svo í sjóinn og drukknuðu; eins og aðrir sem á bátnum voru. (MG; Látrabjarg).
Björgunarbátnum af Helga var hvolft utan túnsins á Lambavatni og var lami hans þar lengi.
Besti vetur síðari tíma: „Liðinn vetur var einn sá allra besti sem komið hefir hér á seinni árum, algjör andstaða við veturinn 1948-1949. Frá sumarkomu hefur verið frekar kalt og þyrkingasamt. Sauðfé er allstaðar hýst og gefið enn og hvergi er farið að vinna vorvinnu á túnum vegna frosta. Skepnuhöld voru hér yfirleitt mjög góð í vetur og flestir bændur komast undir nokkrar heyfyrningar. Mjög illa lítur þó út með fiskafla hjá trillum og vetrarvertíð var slæm. Vorið hefur verið mjög hagstætt og gott, eftir ágætan vetur. Skepnuhöld hér yfirleitt góð og sauðburður gengið vel enda hefur sauðfé gengið vel undan allsstaðar. Allsstaðar er nú lokið að setja í garða. Gott útlit með grasvöxt. Víðast hvar er verið að byrja að láta kýr út (í maí 1950)”. (Tíðarfarsannáll SJTh, Kvígindisdal).
1951
Fiskgengd minni en fyrrum: Margir telja að tíðarfar hafi breyst allmikið til hins verra síðustu ár; einkum hvað vorin snertir. Þessari veðurfarsbreytingu hefur fylgt fisktregða fyrir Vesturlandi, en vegna hennar hefur útgerð í Útvíkum dregist mjög saman. Minna gengur af stórþorski, og ekki eins nærri landi. Hinsvegar virðast smáfiskigöngur minni breytingum hafa tekið, en þær koma síðar að sumrinu. (ÞJ; Mbl; 25.05.1951).
Undirbúningur hafinn að nýrri Breiðavíkurkirkju: Verið er að hefja undirbúning þess að ný kirkja verði byggð í Breiðuvík, en sú gamla er að falli komin. (ÞJ; Mbl; 25.05.1951).
Leiti fer í eyði: Þurrabúðin Leiti við Neðri-Tungu er nú komið í eyði, en það hefur verið í byggð frá 1907 (sjá þar). Síðust bjuggu á Leiti Einar Sigurðsson og Ólafía Ólafsdóttir, sem bjuggu á Sellátranesi.
Björgun fjár úr svelti: Löngum hafa verið brögð að því að fé fari sér að voða í björgum og klettum í Rauðasandshreppi; einkum í Útvíkunum og innan Rauðasands; fari í svelti sem kallað er. Féð sækir gjarnan í kjarnmikinn gróður í sólríkum klettunum; áborinn af fugladriti; einkum þegar þröngt er orðið í högum eða gróður kemur seint til. Samkvæmt fjallskilareglugerð er skylt að reyna að bjarga fé í ógöngum og bændur leggja mikið á sig til að ná þeim kindum sem vart verður við í svelti, en engu að síður verða af þessu mikil vanhöld fjár. Þetta ár hafa óvenju mikil brögð verið að þessu og í sumar voru farnir fjórir leiðangrar til sveltatöku í Stálfjall og nokkrir í Látfrabjarg, auk þess sem Breiðvíkingar og Kollsvíkingar þurfa árlega að bjarga einhverju af sínu fé. Þessar ferðir eru oft áhættusamar og krefjast bæði fimi í klettum og útsjónarsemi við að ná fénu. Sigmaður þarf iðulega að snara styggt féð á tæpum syllum, sem síðan er dregið á brún í böndum. Sum árin er talið að bændur í Útvíkum missi tíunda hvert lamb sem ferst í klettum, og litlu minna hlutfall af fullorðnu fé. (Tíminn 28.10.1951).
Fámennt í Kollsvík: „Veturinn 1950-51 var ég á Láganúpi. Þá vorum við fimm í víkinni; pabbi, mamma, Helgi, Sigrún og ég“ (IG; Æskuminningar).
Flugvél lendir í Breiðuvík: Fjölsótt messa var í Breiðuvík hinn 26.08.1951, enda veður gott. Er gestir komu úr kirkju sást að flugvél var lent þar á söndunum stuttu neðar. Var þar kominn flugmaðurinn Björn Pálsson og með honum Sigurvin Einarsson í Saurbæ. Þeir höfðu um morguninn lent í Saurbæ og flogið þaðan að Breiðuvík. Eftir kirkjukaffið fóru þeir í loftið aftur og reyndist vélin þurfa 230 metra til flugtaks. Björn Pálsson hefur unnið mikið brautryðjendastarf og sýnt að með slíkum lendingum má m.a. koma sjúklingum til bjargar. (Mbl; 29.08.1951).
1952
Ingvar og Jóna flytja á Stekkjarmel: Ingvar Guðbjartsson frá Láganúpi hefur hafið búskap að Stekkjarmel, ásamt konu sinni Jónu Snæbjörnsdóttur frá Kvígindisdal. Þau hyggjast stofna nýbýli á Stekkjarmel, en Melurinn hefur verið grasbýli í landi Kollsvíkur. Hefur Ingvar gert nokkrar lagfæringar á húsinu. Stekkjarmelsjörðinni tilheyrir allnokkur túnblettur kringum bæinn og yfir að Á, en á næsta ári hyggst Ingvar kaupa landspildu handan Árinnar, sem áður heyrði til Grundajarðar (sjá þar). (Guðbjartur á Láganúpi selur Össuri jörðina 1954; sjá þar).
Grundir ekki lengur lögbýli: Um leið og Stekkjarmelur verður lögbýli, samkvæmt framansögðu, falla Grundir úr tölu lögbýla. Eftir sem áður eru því þrjú lögbýli í Kollsvíkinni. (BÞ; Vestfjarðarit o.fl.)
Kollsvíkurjörðin aftur í byggð: Nýir ábúendur eru komnir á Kollsvíkurjörðina, en hún hefur ekki verið í byggð frá því að Jón Torfason flutti burt árið 1944. Ólafur H. Guðbjartsson, (sonur Guðbjartar Ólafssonar hafnsögumanns; Tómasar Guðbjartssonar frá Kollsvík) og kona hans Sólrún Anna Jónsdóttir hafa keypt jörðina og hafið þar búskap með sjö börnum sínum. Ólafur er húsgagnasmiður að mennt. Hann hefur gert miklar endurbætur á íbúðarhúsinu í Kollsvík, sem orðið var laslegt.
Einnig byggir hann árið 1955 stór fjárhús með hlöðu og votheysgryfjum ásamt stakri votheysgryfju o.fl. Ólafur varð hreppsnefndarmaður í Rauðasandshreppi og bjó í Kollsvík til 1962 er hann seldi Ingvari Guðbjartssyni jörðina og flutti með fjölskyldu sinni á Patreksfjörð. Þar rak hann lengi trésmíðaverkstæði; sat í hreppsnefnd og sinnti byggingaeftirliti. Ólafur byggði vel upp í Kollsvík og stóð fyrir mikilli nýrækt.
Tröð komin í eyði: Helgi Á Árnason og kona hans Sigrún Össurardóttir hafa, ásamt fjölskyldu sinni, flutt frá Tröð á Gjögra í Örlygshöfn. Þar keyptu þau hús sem Einar Guðbjartsson frá Láganúpi og Guðrún Grímsdóttir frá Grundum áttu áður. Gjögrar eru í landi Tungu, en í Neðri-Tungu býr nú Árni, sonur Helga og Sigrúnar.
Sjúkraflug á Rauðasand: Fyrsta sjúkraflugið kom í Rauðasandshrepp í maí þetta ár. Þá lenti Björn Pálsson flugvél sinni við Kirkjuhvamm og sótti bóndann og þjóðhagasmiðinn Guðbjart Egilsson á Lambavatni mjög sjúkan. Guðbjartur lést skömmu síðar, hinn 23. júní; 54 ára að aldri. Hann lét eftir sig konu; Halldóru Kristjánsdóttur, og 4 börn, 12-22 ára. (Um þjóðhagasmiðinn Guðbjart, sjá 1937).
Sími kominn á alla bæi hreppsins: Sími hefur nú verið lagður á öll byggð ból í Rauðasandshreppi. Þar með eru lagðar niður þær þriðja flokks símstöðvar sem verið hafa starfandi, og miðstöð verður á Patreksfirði. Hreppnum er skipt í nokkrar „línur“, en á hverri slíkri eru nokkrir bæir sem innbyrðis eru tengdir. Því er unnt að fylgjast með símtölum annarra sem eru á sömu línu. Hver bær hefur sína „hringingu“; mismunandi samsetningu stuttra og langra bjölluhringinga sem framkallaðar eru með því að snúa sveif á símtækinu. Símstöðin á Patreksfirði, sem hefur „eina langa“ hringingu tengir hinar ýmsu línur saman eða hverja línu við langlínusamtal.
1984 var sími lagður í jörð og „sjálfvirkur“ sími kom í stað hinna eldri, sjá þar.
Sauðfé selt vegna fjárskipta: Mikið er nú selt af lifandi fé frá Vestfjörðum í aðra landshluta í fjárskiptunum miklu, í kjölfar niðurskurðar annarsstaðar vegna mæðiveiki. Voru 700 lömb seld úr Rauðasandshreppi á þessu ári. (ÞJ; Mbl. 10.12.1952).
Fjárskiptin úr Barðastrandasýslu munu hafa byrjað 1946, með flutningi 6-800 fjár úr Múlahreppi og Ketildalahreppi á austanvert Norðurland. 1947 fór um 5000 fjár úr Barðastr.sýslu, mest í Dalasýslu, ein eitthvað í Reykhólahrepp og á Strandir. 1948 fluttist um 5500 fjár, allt í Húnavatssýslu. Verð var í fyrstu allt að 150 kr á kind, en síðar um og yfir 4 kr/kg. Féð er mestmegnis flutt á sjó, m.a. á Mb. Blakknesi frá Patreksfirði. (Árbók Barð. 1949).
Mæðiveiki barst til landsins með innflutningi karakúlfjár árið 1933 og kom fyrst upp í Borgarfirið árið eftir, en breiddist fljótt um landið. Sett voru lög til sauðfjárveikivarna 1937 og landið hólfað með girðingum í varnarsvæði. Veikin barst ekki til Vestfjarða og þaðan var mikil sala á líflömbum fram undir 1959.
Blakknesbardagi; upphaf landhelgisstríðs: Hinn 15.05.1952 var landhelgi Íslands færð út í 4 sjómílur frá ystu nesjum. Fram að þeim tíma höfðu m.a. enskir togarar verið að veiðum „uppi í kálgörðum“, m.a. uppi á lóðamiðum Kollsvíkinga. Fyrsta viðureign íslensks varðskips við breskan togara eftir útfærslu landhelginnar varð skammt undan Blakknesi 16. júlí 1952. Þá kom varðskipið Ægir að breska togaranum York City GY 193 að hífa trollið 0,2 sjómílur utan við landhelgislínuna í góðu veðri. Veiðin var athuguð og reyndist lítil; 2-3 körfur (sumir sögðu 3 steinbítar). Togaraskipstjórinn S.V. Jones óskaði eftir að koma um borð í varðskipið, en var nokkuð þungur á sér og reikull í spori. Eftir heimsókn hans hélt Ægir inn á Patreksfjörð og lagðist undan Ólafsvita. Þá sást togarinn breyta stefnu og sigla fyrst hægt í sömu átt og varðskipið en síðan suðurá þannig að hann hvarf fyrir Blakknestána. Áður sást þó að hann var með trollið úti. Varðskipinu var snúið við og siglt á fullri ferð að togaranum, sem þá var langt fyrir innan landhelgislínu. Skotið var viðvörunarskoti að togaranum. Hróp og köll heyrðust og svartan reyk lagði upp úr reykháf togarans. Varðskipið varpaði bauju þar sem hann hafði togað og kallaði til skipstjórans að stöðva. Sá hljóp út á brúarvænginn og hellti ófögru orðbragði yfir varðskipsmenn. Áfram togaði hann og var öðru skoti hleypt af, og síðan því þriðja sem lenti framanvið brúna og hinu fjórða rétt við stefnið. Skipstjóri sinnti því engu, en hásetar hans hlupu framá og létu akkeri falla. Skipstjóri heimtaði að fá breska eftirlitsskipið Mariner til að mæla staðsetningu sína. Það var komið eftir 2 klst og reyndist togarinn 0,2 sjm innan markanna en trollið allnokkru nær landi. Togarinn var færður til Reykjavíkur þar sem réttarhöld fóru fram. Skipstjóri York City hélt því fram að sér hefði verið ógnað með skammbyssu, en féll frá þeirri fullyrðingu, enda var byssan aldrei dregin úr slíðrum. Þórarinn Björnsson, skipherra á Ægi, staðfesti þær mælingar sem sýndu að togarinn hefði verið að ólöglegum veiðum. Hann sagði að skipstjóri togarans hafi greinilega verið drukkinn. Dómsniðurstaðan varð sú að um ítrekað brot togarans væri að ræða. Skyldi útgerð hans greiða 90.000 kr í sekt til Landhelgissjóðs og afli og veiðarfæri vera gerð upptæk. (Fréttir í Mbl og Vísi).
Breska tímaritið World fishing fjallaði um þetta mál og rangfærði verulega. Togarinn York City hafði fyrr komist í fréttir hérlendis, en hinn 20.05.1950 sigldi hann niður 27 tn bát, Gunnar Hámundarson GK 157, út af Sandgerði. Sjö manna áhöfn bjargaðist; sumir um borð í togarann en aðrir í nærstatt skip.
Forsetakjör: Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn forseti í kosningum nú í sumar. Ásgeir er guðfræðingur að mennt, en hefur lengi starfað í stjórnmálum og setið á Alþingi. Var hann þingmaður Framsóknarflokksins í V-Ísafjarðarsýslu frá 1923; fjármálaráðherra frá 1931 og frá næsta ári forsætisráðherra. Sat óflokksbundinn á þingi þegar hann 1937 gekk í Alþýðuflokkinn og var bankastjóri Útvegsbankans samhliða þingmennsku.
Ásgeir var ekki óumdeildur forseti, enda kom hann úr pólitískum jarðvegi. Þá urðu margir fyrir vonbrigðum með að hann skyldi ekki hafa vísað Natósamningnum til þjóðaratkvæðis árið 1958. Þar fyrir utan þótti hann gegna embættinu með sóma. Hann sat til 1968, er Kristján Eldjárn tók við.
1953
Stekkjarmelsjörðin stækkar og verður lögbýli: Ingvar Guðbjartsson og Jóna Snæbjörnsdóttir sem fluttu á Stekkjarmel á síðasta ári hafa, með kaupsamningi dags 20.06.1953, keypt jörðina af eiganda Kollsvíkur; Ólafi Guðbjartssyni. Land jarðarinnar nær 130 metra meðfram norðanverðri Ánni og 190 m frá henni; og fylgir húsakostur með. Kaupverðið er 4.000 kr. Jafnframt kaupir Ingvar, og leggur undir Stekkjarmel; landspildu handan Árinnar af Einari Guðbjartssyni bróður sínum, en spildan er 2/3 hálflendunnar "Grunda neðri", sem Grímur Árnason tengdafaðir Einars keypti árið 1930 (sjá þar). Kaupverð Ingvars er, samkvæmt kaupsamningi 25.04.1953, 2.000 kr.
Stekkjarmelur verður nú lögbýli, en hefur hingað til verið grasbýli í landi Kollsvíkur. Samtímis falla Grundir úr tölu lögbýla.
Landpildan handan Árinnar nær yfir undir svonefndan Miðlæk, en nánar eru mörk hennar skilgreind í samningi Ingvars og Össurar á Láganúpi dags 14.04.1962. Á henni ræktaði Ingvar túnsléttur og reisti steinsteypt fjárhús með hlöðum. Hinn 01.04.1962 seldi Ingvar Össuri Guðbjartssyni land Stekkjarmels handan Árinnar, er Ingvar flutti að Kollsvík.
Vegaframkvæmdir: Á sumrinu var gerð akfær brú yfir Skápadalsá; vegur yfir Sauðlauksdalssand og brú yfir Sauðlauksdalsvaðal. Við sumarlok var kominn akfær vegur um Hafnarmúla að göngubrú á Hafnarvaðli. Bættur var vegurinn í Bjarngötudal. Heita má að ruðningsvegur hafi komist frá Gjögrum að Kollsvík og getur sá vegur þó tæpast kallast akfær öðrum farartækjum en jeppum og traktorum. (Árbók Barð). Einnig var brúuð Skápadalsá.
Agnar Sigurbjörnsson í Hænuvík keypti sér notaðan Chevrolet vörubíl stuttu eftir að bílfært var orðið að Hænuvík.
Skurðgröftur: Á þessu sumri kom í fyrsta sinn vélknúin skurðgrafa í Rauðasandshrepp. Vann hún einkum á Rauðasandi þetta fyrsta sumar. Grafan kom á vegum Vélasjóðs og var af gerðinni Priestman Cub. (Árið 1856 kom grafa í heppinn af gerðinni Priestman Wolf). (AÍ; Árb. Barð).
Sandgræðslugirðingar: Langt er nú komin 7 km landgræðslugirðing í Breiðuvík. Einnig er unnið að sandgræðslugirðingu í Kollsvík. Girðing sem sett var upp í Sauðlauksdal fyrir nokkrum árum virðist gefa góða raun. (ÞJ; Mbl. 20.12.1953).
Síðasta mótekja í Kollsvík: Þetta er síðasta sumarið sem mór er tekinn upp í Kollsvík, en hann hefur verið helsta eldsneyti á bæjum; a.m.k. síðustu öldina. Svo var þó ekki fyrr á öldum: „Mór var óvíða tekinn upp, sumsstaðar ekki til og víða ekki fundinn. Um 1890 var hans loks leitað og fannst víða í flóum og mýrum. Víðast á Barðaströnd og Rauðasandi hefur fundist mór, þótt áður væri talið að hann væri ekki til“. (PJ Barðstr.bók). Líklegt er þó að mótekja sé mun eldri í Kollsvík og e.t.v. víðar. Um það vitna örnefni, s.s. Svarðarholtin tvö í Handanbæjamýrum, þar sem mór hefur augljóslega verið þurrkaður.
„Mótekja til eldiviðar var erfitt starf, og eingöngu framkvæmd af karlmönnum. Mógrafir Láganúps og Grunda voru ofantil við Júllamelinn og á Áveitunni, en þar þótti jarðvegur betri til mótekju. Mótekja fór þannig fram að stungnar voru tvær stungur ofan a móinn, og var þeim hent í næstu mógröf: svo komu 5-6 stungur af mó. Besti mórinn var 2 neðstu stungurnar. Verst var hve mikið vatn var í gröfunum. Þó var alltaf hafður vatnsbakki, en hann vildi springa. Svo sprakk oft upp botninn, og gröfin fylltist af vatni; þá varð að byrja á nýrri. Ef vel gekk gátu mógrafir orðið meira en mannhæð á dýpt, og var þá orðið býsna erfitt að kasta hnausum upp á bakkann. Síðan var mórinn keyrður á þurrkvöll við Grástein; ýmist á hestakerru eða hjólbörum. Þar tóku konur og unglingar við og stungu hnausana í flögur, um 2 tommur á þykkt, og voru þær látnar þorna á efri hlið. Svo þurfti að hreykja; þ.e. hlaða flögunum saman upp á rönd. Þegar mórinn var orðinn sæmilega þurr var honum hlaðið upp í kringlótta hlaða og breytt yfir. Þannig var hann látinn standa til hausts; þá var honum ekið heim í mókofa. Seinast var tekinn upp mór á Láganúpi vorið 1953“. (ÖG; Vorverk og heyannir).
Með þessu leggst af upphaflegt hlutverk Mókofans á Láganúpi. Komnar eru olíueldavélar í húsin sem taka við hlutverki hlóða og mókyntra ofna.
Guðrúnarbúð vígð í Keflavík: Hinn 26. júlí var vígt skipbrotsmannaskýli sem Svd. Bræðrabandið hefur reist í Keflavík, að viðstöddu fjölmenni; yfir 150 manns. Prestur var séra Gísli H. Kolbeins en Jóhann Skaptason sýslumaður flutti erindi um sögu Keflavíkur. Var skýlinu gefið nafnið Guðrúnarbúð, í höfuðið á Guðrúnu Jónsdóttur formanni kvennadeildar SVFÍ í Reykjavík, en skýlið er gjöf frá þeirri deild. Allmörg skipsströnd hafa gegnum tíðina orðið á þessum slóðum, einkum undir Látrabjargi, og engin byggð er lengur á þessum afskekkta stað. 75 ár eru nú síðan kveikt var á fyrsta ljósvitanum á Íslandi.
Síðan skýlið var reist og fram til 2020 hafa ekki orðið skiptapar á þessum slóðum. Hinsvegar hefur skýlið nýst fyrir hrakta ferðamenn og fótlúna smalamenn.
Skólaheimili drengja í Breiðuvík: Nú í haust hófst starfsemi skólaheimilis drengja í Breiðuvík, á vegum ríkisins. Helstu hvatamenn að þeirri starfsemi voru Magnús Sigurðsson skólastjóri og Gísli Jónsson alþingismaður. Reyndar hófst reksturinn lítillega á síðasta sumri en lá niðri um veturinn. Hús á staðnum eru léleg en unnið að uppbyggingu samhliða rekstrinum. Í fyrstu eru vistaðir 7-8 drengir á aldrinum 11-14 ára. Fyrsti umsjónarmaður heimilisins er Magnús Sigurðsson (Magnússonar læknis á Patreksfirði).
Sonur Magnúsar var Sigurður (Dengi) Magnússon sem um tíma var kvæntur Valgerði Ólafsdóttur frá Stekkadal. Dengi var líklega sá síðasti sem gerði út frá Breiðavíkurveri, en hann fór með vistdrengi í róðra sem lið í betrunarvist þeirra. Dengi starfaði sem rafvirki, fyrst á Patreksfirði en síðan í Reykjavík og lagði m.a. 220V raflögn í gamla Láganúpshúsið.
Sett var reglugerð um starfsemi Breiðavíkurheimilisins 25.07.1958. Eftir að það var lagt niður 1979 kom í ljós að mörg börn sem þarna voru vistuð höfðu sætt slæmri meðferð að hálfu tiltekinna starfsmanna, án þess að upp kæmist á sínum tíma eða væri á nokkurn hátt kunnugt hreppsbúum. Var það upphaf víðtækra rannsókna á starfsemi vistunarstofnana á landinu, sem leiddi í ljós misfellur annarsstaðar.
Virkjanir og rafstöðvar: "Í Vesturbotni er byrjað á 30 kW vatnsvirkjun. Var þar lokið við að steypa um 40 m. stíflugarð í Ósaá. í Hænuvík er byrjað á 12 kW vatnsvirkjun og var þar einnig lokið við að steypa stíflu. Þá var bætt við í Breiðavík 5 kW díselsamstæðu. Eru þar nú tvær samstæður, önnur 22 kW og hin 5 kW" (ÞJ; Mbl. 20.12.1953).
Viti reistur í Skor: Byggður hefur verið steinsteyptur viti í Skor, innan Rauðasands. Er vitinn byggður eftir sömu teikningu og Bjargtangaviti. Vitinn er knúinn með gasi og þjónustaður af vitaskipum, enda er staðurinn ekki í neinu vegasambandi. Á vitanum er minningartafla um Eggert Ólafsson og Ingubjörgu konu hans, sem þaðan lögðu í sína hinstu för 30.05.1768 (sjá þar).
Hjartaskel nemur land á Rauðasandi: Hjartaskel (Cardium edule; lítil kúpt bárótt samloka) virðist vera nýr landnemi hérlendis. Hún er algeng í NA-Atlantshafi en fannst fyrst hérlendis í Faxaflóa 1948. Ólafur Sveinsson Lambavatni segir að nokkuð sé um skelina á leirunum á Vöðlum á Rauðasandi og að þar lifi hún góðu lífi. Bergþór Ívarsson Kirkjuhvammi sendi Ingimar Óskarssyni náttúrufræðingi 2 eintök; það stærra 39 mm í þvermál; fyrstu eintökin sem tekin eru lifandi hérlendis. Einnig sendi Ingibjörg Júlíusdóttir á Melanesi honum nokkrar skeljar; þá stærstu 48 mm, sem er með stærstu skeljum sem finnast t.d. við Danmörku. (Ingimar Óskarsson; Náttúrufræðingurinn; 01.10.1953).
Í júní 2020 fannst hjartaskel á Rauðasandi sem innihélt perlu, líkt og þekktar eru í ostruskeljum. Perlan var líklega 8-10 mm í þvermál. Finnandinn var ungur drengur úr Keflavík syðra; Magnús Pétur Magnússon Landmark. (Víkurfréttir 28.06.2020).
Ágangur erlendra togara: Erlendir togarar hafa gerst mjög nærgöngulir og spillt fiskveiðum smábáta. Fjöldi erlendra togara hefur verið úti fyrir Víkunum. Hafa þeir þann háttinn á að þeir setja dufl út á línuna (landhelgismörk) og stunda svo veiðar jöfnum höndum fyrir utan og innan. Svo virðist að þeir viti nákvæmlega um ferðir varðskipanna, sjálfsagt með hjálp radars. Hin gangtregu varðskip virðast ekkert geta við þá ráðið. (ÞJ; Mbl. 20.12.1953). Gæta landhelgisbrjótarnir þess að fara ekki svo langt innfyrir línuna að þeir komist ekki útfyrir áður en varðskip kemur að þeim. (Frjáls þjóð 14.08.1954).
Alhliða viðskiptamiðstöð: "Sláturfélagið Örlygur Gjögrum Örlygshöfn hefur alltaf á boðstólum allar fáanlegar neysluvörur. Tekur í umbpðssölu innlendar afurðir. Starfrækir innlánsdeild". (Auglýsing í Árbók Barð. 1953).
Eftir að Sláturfélagið Örlygur varð kaupfélag og tók upp innlánsdeild má segja að það hafi þjónað öllum þörfum viðskiptalífs á sínu starfssvæði. Eða eins og það var stundum orðað: "Ef það fæst ekki í kaupfélaginu hefur þú enga þörf fyrir það". Kaupfélögin byggðu á rótgróinni hefð sjálfsþurftabúskapar og félagsmenn gerðu kröfur um að svo væri. Þessi hugsun var enn við lýði á fyrstu starfsárum annálsritara (hóf störf hjá Örlygi 1977), en þá var neyslumynstur fólks mjög að breytast, ásamt ytra starfsumhverfi og samgöngum.
1954
Ábúendaskipti á Láganúpi: Össur Guðbjartsson hefur nú, ásamt Sigríði Guðbjartsdóttur konu sinni, tekið við ábúð á Láganúpi og keypt jörðina af föður sínum Guðbjarti Guðbjartssyni. Kaupsamningur þess efnis er undirritaður 08.05.1954. Láganúpur er 9 hundruð að fornu mati, eða jafnvirði Grundajarðarinnar. Kaupverðið er 6.000 kr. Össur er búfræðingur frá framhaldsdeildinni á Hvanneyri og jafnframt bústörfum er hann ráðunautur bænda á svæðinu og hefur verið farskólakennari.
Össur varð kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs um tíma 1956; sat lengi í hreppsnefnd Rauðasandshrepps, þar af sem oddviti frá 1970 til 1986 er hann veiktist alvarlega og þurfti að hætta störfum. Hann var einnig sýslunefndarmaður; formaður Búnaðarfélagsins Örlygs; fulltrúi á Búnaðarþingum og hjá Stéttarsambandi bænda; í stjórn Orkubús Vestfjarða og í framboði til Alþingis, svo nokkuð sé nefnt.
Landgræðsluátak í Kollsvík: Bændur í Kollsvík hafa nú hafið átak til að freista þess að hamla gegn frekari jarðvegseyðingu skeljasandssvæða í víkinni. Össur á Láganúpi hefur verið í sambandi við Sandgræðslu ríkisins; fyrst við Runólf Sveinsson landgræðslustjóra og síðan Pál bróður hans, og hafa þeir leitast við að styðja verkefnið. Leggur Sandgræðslan til girðingarefni og fræ en landeigendur vinnu. Byrjað var að girða tvö landgræðluhólf á síðasta ári og lokið við þau á þessu ári. Annarsvegar er um 20 ha sandgræðslugirðing sem nær yfir svæðið frá Verinu norður Dagmálaholt að Sandagili og heimyfir Sandahlíð. Hinsvegar er um 17 ha hólf sem nær frá Verinu yfireftir Melaröndum og Leirum; yfir Litlufit og Rifið. Þá fóru Kollsvíkingar nú í september með 8 manna hóp og skáru melfræ í sandgirðingunni í Sauðlauksdal með leyfi landeigenda. Fengust þar 30 pokar af fræi sem sáð verður í hólfin í Kollsvík. (Bréfaskipti Össurar og Sandgr.).
Með þessu voru viðkvæmustu foksvæðin girt af. Friðunin bar nokkurn árangur á næstu áratugum, þó ekki hafi mikill melur sprottið af sáningunni. Sérstaklega náði gróður sér á strik eftir að farið var að bera á hann tilbúinn áburð. Næsta átak í landgræðslu var gert á 7.áratug 20.aldar. Þá lét Landgræðslan girða 800 metra til viðbótar. Auk þess lagði Landgræðslan til tilbúin áburð um nokkurra ára skeið, sem landeigendur dreifðu. Fyrir 1990 hafði Landgræðslan þó alveg snúið baki við skeljasandssvæðunum í Rauðasandshreppi og vann eingöngu á gosbeltum landsins. Hvorki fékkst stuðningur við viðhald girðinga né annað. Það leiddi til mikils uppblásturs, einkum á Litlufit. Heimamenn hófu þá sjálfir átak sem fólst í því að stífla Torfalæk til að hækka vatnsborðið; aka sinurudda og jarðvegsúrgangi í melabörð og aka mýrarjarðvegi í manir. Hafa þessar aðgerðir borið allnokkurn árangur á síðustu árum (sjá 2016). Landgræðslan hefur veitt lítilsháttar fjárstuðning, en miklu minni en fyrrum var. Hún styrkir t.d. ekki áburðarkaup, girðingar eða vélakaup.
Vegaframkvæmdir: Bílfært er nú orðið að Breiðuvík og mun fyrsti bíllinn hafa komið þar í hlað 3. september. Undirbyggður var vegur frá Saurbæ að Lambavatni og sýsluvegurinn að Melanesi, en Suðurfossá er enn óbrúuð. Stórátak var gert í vegalagningu á Hafnarfjalli, milli Örlygshafnar og Breiðavíkur, þegar um það var lagður bílvegur. Til þess var notuð stór ýta Vegagerðarinnar, TD18, sem kom á svæðið 1949, en fjárframlag fékkst til vega í hreppnum í tengslum við björgunina undir Látrabjargi fyrir fáum árum. Þessi vél fór svo af svæðinu um haustið. Vegur milli Breiðuvíkur og Kollsvíkur var tekinn í þjóðvegatölu en ekkert hefur verið unnið á þeirri leið
Og enn árið 2020 hefur Vegagerðin ekki unnið á þeirri leið, en Hilmar í Kollsvík fékk Borgar Þórisson til að ryðja með ýtu jeppafæran slóða af Fimmhundraðahæð yfir á Aurholt.
Vegasamband austur í sýslu: Seint í ágúst 1954 fór Guðbrandur Jörundsson fyrstur manna á áætlunarbíl vestur yfir Klettsháls og Þingmannaheiði til Patreksfjarðar. Með því voru sveitir þar vesturfrá komnar í vegasamband við Vesturland og höfuðborgina. (Breiðfirðingur 01.04.1856).
Guðbrandur, sem lést árið 1980, var mikill brautryðjandi í akstri langferðabifreiða. Hann fékk ungur sérleyfi frá Reykjavík í Dali; síðan í Reykhólasveit og síðar vestar. Stundum nefndur Dala-Brandur.
Byggingaframkvæmdir í Breiðuvík: Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Breiðuvík vegna áforma um stofnsetningu unglingaheimilis á vegum ríkisins. Lokið var við íbúð bústjóra og starfsfólks, kennslustofu, vistmannaíbúða o.fl. Einnig byrjað á nýjum búpeningshúsum. Rafmagn kemur frá ljósavélum á staðnum.
Skurðgröftur á mörgum bæjum: „Skurðgrafa starfaði í hreppnum síðastliðið sumar og gróf 44.000 m³ á 12 býlum. Þá var einnig unnið með jarðýtu á nokkrum bæjum“ (ÞJ; Mbl.23.12.1954).
Jarðýtufélag í hreppnum: Magnús Ólafsson í Vesturbotni, sem verið hefur ýtustjóri og verkstjóri hjá Vegagerðinni, hefur nú stofnað hlutafélag til kaupa á jarðýtu af gerðinni TD14; sem nefnd verður „Sleipnir“. Með honum í kaupunum eru Marinó Kristjánsson í Efri-Tungu; Ólafur Sveinsson á Sellátranesi og Kristinn Kristjánsson í Vesturbotni. Munu allir vinna á vélinni nema Kristinn. Í byrjun mun þessi vél vinna við veginn um Hafnarfjall, ásamt hreppsvélinni og nýrri vél Vegagerðarinnar, en síðan á Rauðasandi.
1962 keyptu þeir frændur ýtu af gerðinni BTD20 sem nefnd var „Mjölnir“. 1964 stækkuðu þeir enn við sig og keyptu ýtu af gerðinni Caterpillar D7E, sem var vökvaskpt með U-tönn og ripper. Sú vél var nefnd „Óðinn“ og var lengst af undir stjórn Bjarna Sigurbjörnssonar. Síðast keypti Magnús hlut frænda sinna í ýtunni og notaði hana í laxeldisframkvæmdum sínum, sjá síðar. (AÍ; Árbók Barð).
Séra Grímur Grímsson vígist til Sauðlauksdals: Séra Grímur Grímsson (21.04.1912-24.01.2002) er giftur Guðrúnu S. Jónsdóttur. Um leið flytur séra Gísli Kolbeins frá Sauðlauksdal að Melstað í Miðfirði.
Grímur tók virkan þátt í félagsmálum í hreppnum, auk þess að stunda búskap í Sauðlauksdal. Guðrún var organisti og mikil driffjöður í menningarlífi í hreppnum, s.s. í leiklist. Þau áttu 3 börn. Séra Grímur fór frá Sauðlauksdal 1964 til þjónustu í Ásprestakalli. Eftir það hefur verið prestlaust í Sauðlauksdal.
Húsbruni á Hvallátrum: Íbúðarhúsið á Miðbæ á Hvallátrum eyðilagðist í eldsvoða hinn 15.11.1954. Það var klukkan tvö um nóttina, í ofsaveðri, að Herdís Jónsdóttir, húsmóðirin á Miðbæ, vaknaði við að húsið var orðið fullt af reyk. Ingólfur Jónsson maður hennar var þá á sjó á togaranum Gylfa frá Patreksfirði. Herdís bjargaðist út með barn sem í húsinu var og komst til næstu bæja, en húsið brann til kaldra kola ásamt öllum innanstokksmunum. Var það hjónunum mikið tjón, því allt var fremur lágt vátryggt. Ingólfur og Herdís munu um sinn verða til húsa á Sæbóli á Hvallátrum.
Fé beitt í Fjarðarhorni: Bergsveinn Skúlason úr Skáleyjum í Breiðafirði varð forstöðumaður drengjaheimilisins í Breiðuvík á síðasta ári. Honum er búskapurinn ekki síður hugleikinn og vill nýta hlunnindi jarðarinnar í þeim efnum. Nú framan af vetri reyndi hann að nýta hið skjólsæla beitarland í Fjarðarhorni; undir Breiðnum nyrst í víkinni. Þegar hann bar þessa fyrirætlan undir fyrri Breiðavíkurbónda, Guðmund Kristjánsson, hristi hann hausinn yfir fáfræði Breiðfirðingsins: "Nei og aftur nei. Þarna er versti staður fyrir kindur sem fyrirfinnst í byggðarlaginu; skriðuföll, snjóflóð, flæðihætta og brim". Tjáði lítt þó Bergsveinn benti honum á rústir beitarhúsa frá fyrri tíð. Ekki gekk þessi fyrirætlan betur en svo að um miðjan vetur var féð komið á hús heima við bæ á ný.
Hreppsnendarkosningar: „Í hreppsnefndarkosningum í Rauðasandshreppi nú í júní voru 119 á kjörskrá en 65 kusu. Í hreppsnefndina voru kosnir þeir Ólafur Guðbjartsson Kollsvík með 36 atkv; Magnús Ólafsson i Botni með 25 og Snæbjörn J. Thoroddsen, Kvígindisdal með 30 atkvæðum. Hann var kosinn sýslunefndarmaður. Undanfarin ár hefir hann verið oddviti hreppsins“ (Mbl. 29.06.1954).
Landpóstur verður úti á Kleifaheiði: Hinn 27.12.1954 varð Þorsteinn Kristján Þorsteinsson landpóstur úti í Hjallendalág á Kleifaheiði, í mikilli ófærð og byl. Hafði hann lagt á heiðina snemma á mánudagsmorguninn með tvo hesta og mikinn póst; jólapóst Barðstrendinga. Ljóst varð um kvöldið að hann hafði ekki skilað sér að Brekkuvelli, en vegna veðurs og myrkurs var leit ekki hafin fyrr en morguninn eftir. Fannst hann nokkuð frá veginum ásamt póstpokunum, og stóðu hestarnir yfir honum. Þorsteinn var 53 ára að aldri og hafði verið póstur á þessari leið frá 1930. Hann lætur eftir sig konu og 1 barn. (Mbl. 30.12.1954).
Kafbátastöð í Patreksfirði ? "Sú spurning vaknar hvort ríkisstjórnin ætli enn að leyfa útþenslu bandarískra herstöðva hér á landi, þrátt fyrir þá ömurlegu reynslu, sem fengin er af herstöðvunum, og þrátt fyrir þá geigvænlegu hættu er allir vita nú að herstöðvar sem freista til kjarnorkuárásar stofna þjóðinni í. Sá orðrómur flýgur um Reykjavík að Bandaríkjamenn séu að búa síg undir það að koma sér upp kafbátalægi innarlega á Patreksfirðí. Eínn helztí fyrirmaður Sjálfstæðisflokksíns á Patreksfirði hefur verið í Reykjavík síðustu vikur, og er sagt, að hann hafi verið kvaddur hingað til bess að ræða um þessi mál við íslenzk stjórnarvöld og sendiráðið bandaríska. Þessi orðrómur um enn nýja útþenslu herstöðvanna hefur vakið ógn og kvíða hér í Reykjavík, og má þá gera sér í hugarlund hvernig Vestfirðingum muni verða við ef nú á að fara að gera kafbátalægi í Patreksfirði í sama mund og stórframkvæmdir eru að hefjast við hina fyrirhuguðu herstöð í Aðalvík. Með tveimur slíkum herbækistöðvum á Vestfjörðum; syðst og nyrzt, yrðu nær öll byggðarlög á Vestfjarðakjálkanum komin á ískyggilegt hættusvæði ef styrjöld skylli á og til kjarnorkuárása kæmi. Féllu kjarnorkusprengjur i sjó á Patreksfirði eða við Aðalvík myndi geislavirkur mökkur breiðast yfir alla Vestfirði og flóðbylgjur ganga upp á ströndina, þar sem fjallamúlar skýldu ekki fjarðarbyggðum. Þetta er sá voði, sem vofir yfir öllum íslenzkum byggðum, sem eru í námunda við umfangsmiklar hernaðarstöðvar. Yrði hins vegar beitt vetnissprengju eða öðrum þeim tortímingarvopnum, sem stórvirkust eru, væri enginn sá blettur á þessu landi þar sem lifandi verur gætu talizt óhultar, því að veðurfar réði, hversu vítt geislavirkt ryk bærist". (Frjáls þjóð 01.05.1954).
1955
Byggð og bú í hreppnum: Í Rauðasandshreppi eru nú 188 íbúar og 36 jarðir í byggð. Meðal bústærð er 77 kindur; 4,6 nautgripir og 1 hestur. Meðalstærð túna á bæ er 4,7 ha sem gefa 166 hesta af töðu. (Sjá til samanb. 1920). (Páll Zophaníasson; Tíminn 13.09.1957).
Vegaframkvæmdir: Akfær vegur komst að Hvallátrum. Vann Bjarni Sigurbjörnsson að honum á jarðýtunni D6. Þetta ár verður Magnús Ólafsson í Vesturbotni verkstjóri hjá Vegagerðinni.
Magnús var verkstjóri til 1961.
Íbúðarhús í Sauðlauksdal: Byggt hefur verið stórt íbúðarhús í Sauðlauksdal, alls 232 m² að góffleti og á 2 hæðum. Eldra íbúðarhús var byggt 1902 (sjá þar).
Heimilisrafstöðvar: Á þessu ári var tekin í notkun ný vatnsaflsstöð í Kvígindisdal, 17 kW, en fyrir var þar eldri stöð, 12 kW frá árinu 1929. Á síðasta ári voru teknar í notkun rafstöðvar í Vesturbotni, 32 kW, og í Hænuvík, 14 kW.
Félagsheimilið Fagrihvammur vígt: Hinn 7. ágúst var vígt nýbyggt félagsheimili íbúa Rauðasandshrepps, sem hlotið hefur heitið Fagrihvammur. Yfirsmiður var Guðjón Jóhannesson á Patreksfirði. Það stendur í landi Tungujarða; á holtinu milli Illukeldulækjar og Hvammslækjar. Ræður fluttu m.a. séra Grímur Grímsson sóknarprestur og Þórður Jónsson á Látrum, en hann var formaður byggingarefndar hússins.
Óþurrkasumar: Rigningar og óþurrkar hafa orðið meiri á þessu sumri en menn rekur minni til. Eindæma óþurrkatíð ríkti í júlí og ágúst, og leiddi það til hörmulegs ástands hjá bændum. Stanslaus rigningartíð var frá því um 20.júní og fram í miðjan september. Hey sem náðust voru lítil, dauðhrakin og úr sér vaxin. Hefur heyskapur því almennt brugðist hjá bændum; svo mjög að þeir hafa neyðst til að þiggja lán ríkissjóðs til fóðurkaupa. Hefur það reynst mörgum þungur baggi að bera. Sumarveðráttan hefur verið sú versta sem menn muna eftir. Alvarlegast var ástandið e.t.v. á Rauðasandi, þar sem ekki var unnt að koma neinum tækjum um jörðina sem var eitt kviksyndi. Uppskera úr görðum var sömuleiðis léleg. Mjólkurskömmtun var um tíma tekin upp á Patreksfirði af völdum fóðurskortsins. (Mbl. 25.09.1955).
Um 30 tonn af töðu var keypt frá Þingeyjarsýslu, með flutningsstyrkjum frá ríkissjóði. Einnig var gefið mikið af kjarnfóðri. Minna var því skorið niður af fé en á horfðist í sumarlok. Ásetningur í hreppnum var 2500 ær; 340 lömb; 60 hrútar; 120 kýr; 25 geldneyti og 29 hross.
Mænuveiki herjar: "Mænuveikin barst víðs vegar um land nú í desembermánuði og varð einna skæðust í Skagafirði og Patreksfirðí. í Patreksfirði höfðu 70 tekið veikina og var sjúkrahúsið þar orðið yfirfullt, en hjúkrunarkonan hafði tekið veikina og lamazt. Í Reykjavík virtist veikin vera að fjara út. Þar höfðu 201 takið hana og þar af 60 lamazt" (Lesbók Mbl. 08.01.1956).
Ræktunarsamband V-Barðastrandasýslu stofnað: Stofnað hefur verið ræktunarsamband sem nær yfir alla vestursýsluna. Drög að stofnuninni voru lögð af Búnaðarfélaginu Örlygi í Rauðasandshreppi. Fyrsta ýtan er Caterpillar D6, sem Snæbjörn í Kvígindisdal hafði forgöngu um að kaupa árið áður fyrir Rauðasandshrepp, en tvær slíkar eru pantaðar í viðbót, ásamt stóru plógherfi, skerpiplóg og vagni til flutninga.
Síðar voru fengin fleiri tæki s.s. kílplógur. RSVB var öflugur verktaki um margra ára skeið, bæði í vinnu fyrir bændur og Vegagerðina. 1962 fékk sambandið MF traktor með tætara og gröfusamstæðu sem síðar var seld Ragnari á Hvammeyri og fór að lokum að Hvalskeri. (AÍ; Árbók Barð).
Þessu samstarfi bænda í V-Barð var komið á fyrir milligöngu Búnaðarsambands Vestfjarða og Búnaðarfélags Íslands. Fyrsti formaður stjórnar Rsæktunarsambands V-Barð var Davíð Davíðsson, og var hann jhafnframt framkvæmdastjóri þess um langt skeið, eða þangað til Jón Hólm héraðsráðunautur var ráðinn til Búnaðarsambands Vestfjarða með aðsetri á Patreksfirði; en þá tók hann við framkvæmdastjórn. Á eftir honum varð Ólafur Egilsson framkvæmdastjóri. Stofnun ræktunarsambandanna, á grundvelli laga um ræktunar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, var eitthvað mesta framfaraspor í búnaðarsögu Íslands. (ÖG; Rauðasandshreppur).
Traktorsslys á Kollsvíkurvegi: Það slys vildi til nú í janúar að traktor valt í Hænuvíkurbrekkum. Ingvar Guðbjartsson bóndi á Stekkjarmel var þar á ferð sem vegurinn liggur tæpt undir kletti neðst í brekkunum, og ungur drengur með honum. Vatnsagi er þar undan klettinum sem oft myndar svellbunka að vetrarlagi. Traktorinn rann til hliðar fram í lausamöl og valt framfyrir brattan kantinn; ofan í laut þar fyrir neðan. Drengurinn náði að stökkva af traktornum og slasaðist ekki. Ingvar stökk einnig af honum en varð ekki nógu fljótur að forða sér undan. Lenti hjólið á fæti hans með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði á báti.
Hernaðarbrölt í Keflavík og á Brunnahæð: Vikublaðið Frjáls þjóð hefur nú í sumar flutt fréttir af dularfullum mannaferðum. Fyrst 30.07.1955: "Menn í bandarískum einkennisbúningum hafa að undanförnu verið vestur á Látrabjargi og þar í grennd. Hafa þeir meðal annars reist stengur á Brunnahæð, þar sem útlendingar voru í fyrra við mælingar í fylgd með einhverjum íslenzkum embættismanni. Þessir einkennisbúnu menn lögðu að öllum forspurðum undir sig skýli Slysavarnarfélagsins í Keflavík, Guðrúnarbúð". Sagt var að formaður Bræðrabandsins hafi innt SVFÍ eftir leyfi til gistingar í skýlinu, en enginn kannast við að hafa veitt það. Í næsta blaði var haft eftir samgönguráðherra að Ólafur Guðbjartsson, formaður SVFÍ og fyrrum heimamaður í Keflavík hafi veitt leyfið, og einnig að landeigendur hafi veitt leyfi fyrir því að stangir yrðu reistar á Brunnahæð, en hermennirnir væru með þessu að mæla fjarlægð til ákveðins staðar á Grænlandi. Í næsta blaði, 13.08.1955, birtist bréf óánægðs stjórnarmanns í Bræðrabandinu: „Þá vil ég segja þér þau tiðindi, að fjórir „Kanar" eru komnir á Brunnahæð og eru að reisa þar stöð, en enginn veit, hverhig hún er. Sagt er. að hún eigi að vera fyrir alþjóðaflugþjónustu, en sé ekki á vegum hersins. Þeir hafa tekið skýlið í Kefiavik til afnota, en það er í umsjá Bræðrabandsíns, og hafa þeir ekki talað við stjórn deildarinnar um það".
Ekki skal fullyrt um eðli þessara athugana "Kananna", en e.t.v. voru þær undirbúningur radíómiðunarstöðvar. Ekkert slíkt reis þó á Brunnahæð. Frjáls þjóð, sem gefin var út 1952-1968, var málgagn þeirra sem gagrýnir voru á umsvif Bandaríkjahers og bandarísk áhrif hérlendis. Ritstjóri á þessum tíma var Jón Helgason, en síðari ritstjórar voru m.a. Ragnar Arnalds og Jón Baldvin Hannibalsson.
1956
Vegaframkvæmdir: Lagður hefur verið bílvegur um Tunguhlíð. Hingað til hafa Kollsvíkingar og Bæjamenn þurft að sæta sjávarföllum til að komast um Utanbæjavað í Örlygshafnarvaðli, en geta nú komist um veginn fremst í Höfninni, yfir brú á Mikladalsá. Með þessu má segja að bílfært sé orðið um byggðir Rauðasandshrepps, þó enn vanti vegi heim á suma bæi, s.s. Láganúp og Sauðlauksdal.
Sýslumannsskipti: Jóhann Skaptason flutti frá Patreksfirði til Húsavíkur í lok september, en hann hafði gegnt embætti vestra frá 1935. Við starfinu tekur Ari Kristinsson sem verið hefur fulltrúi hjá sýslumanni Þingeyinga. Jóhann hefur unnið að fjölmörgum framfaramálum fyrir Barðastrandasýslu.
Nýr kaupfélagsstjóri Örlygs: Össur G. Guðbjartsson á Láganúpi hefur tekið við sem kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs af Sigurbirni Guðjónssyni í Hænuvík, sem stýrt hefur uppbyggingu og starfsemi félagsins frá upphafi, að fráskildum árunum 1944-1950 er hann var kaupfélagsstjóri á Patreksfirði, en þann tíma var Einar, bróðir Össurar kaupfélagsstjóri á Gjögrum. Össur stundaði nám á Núpi og hefur lokið framhaldsnámi á Hvanneyri, en er nú bóndi á Láganúpi og hefur stundað barnakennslu í hreppnum. Í tilefni 25 ára afmælisins bauð Sláturfélagið Örlygur til kaffidrykkju og sóttu hófið um 200 manns. (Hlynur 8.tbl. 1856).
Reglugerð um lendingar í Örlygshöfn: Hinn 04.05.1956 (á fæðingardegi skrásetjara) var gefin út „reglugerð um lendingabótasvæðið Örlygshöfn við Patreksfjörð“. Með því er mótaður rammi um bryggjuna sem gerð var á Gjögrum 1946 (sjá þar) m.a. í tengslum við starfsemi Sláturfélagsins Örlygs og til mjólkurflutninga. Í reglugerðinni er m.a. fjallað um lendingabótanefnd (síðar bryggjunefnd); um reglu við landanir; um lendingabótasjóð og um gjaldtöku. T.d. skal greiða 10 aura fyrir kg af ull og keti; 3 aura fyrir kornvöru, sykur, hey, mjólk o.fl; 1,5 aura fyrir kg af kolum, salti, olíu o.fl; 20 kr fyrir stykkið af dráttarvél; 50 kr fyrir ýtuna; 10 fyrir hest eða naut og 2 kr af hverri kind. Bryggjugjöld eru 20 aurar fyrir hverja rúmlest skips heimamanns; minnst þó 4 kr. Aðkomuskip greiði 4 kr af lestinni og mjólkurflutningabátur er á árgjaldi. Reglugerðina undirritar Ólafur Thors samgönguráðherra.
Úrkomumet í Kvígindisdal: Nýlega mældist 82 mm sólarhringsúrkoma í Kvígindisdal (ritað 16.11.1856). Að sögn Snæbjarnar J. Thoroddsen veðurathugunarmanns bónda og oddvita mun þetta vera mesta úrkoma í oktober sem mælst hefur þar síðan 1927. Tveir mælar eru í Kvígindisdal og bar þeim saman um magnið. Til samanburðar var sólarhringsúrkoman 14,9 mm að jafnaði í oktober 1955 en hefur farið niður í 3,1 mm. Úrkoma mælist oft mikil í Kvígindisdal, og t.d. sýna mælar á Hvallátrum og Lambavatni oft aðeins 1/3 úrkomunnar í Kvígindisdal.
Samkvæmt yfirliti sem Snæbjörn tók saman um úrkomu í ágústmánuði á árabilinu 1955-1976 hafði langmesta úrkoman verið í ágúst 1976, eða 396 mm. Minnsta úrkoma í ágúst hafði verið 13,1 mm árið 1974. Gárungar í sveitinni höfðu gjarnan á orði að „nú hafi einhver migið í mælinn“ þegar útkomutölur komu frá Kvígindisdal. (Mbl. 23.09.1976 o.fl).
Enn meiri varð þó sólarhringsúrkoman í Kvígindisdal 14. nóvember 1961, þegar hún mældist 100 mm. Á Rauðasandi varð úrkoman 70 mm á 9 tímum. Þennan dag gerði gríðarlega úrkomu um allt Suður- og Vesturland, og var úrkoman á Eyrarbakka jafn mikil (Mbl. 15.11.1961)
Fóðurkaup úr Þingeyjarsýslu: „Á þessum vetri var keypt hingað í hreppinn rúmlega 31 þúsund kg af töðu úr Þingeyjarsýslu fyrir tæp 65 þús krónur. Fóðurbætir var keyptur í hreppinn alls fyrir um 300 þús krónur eða fast að því. Þessar eru afleiðingar sumarsins 1955 og rigninganna þá”
Hvalreki á Hvallátrum: “Hinn 08.12.1956 fannst rekinn í fjöru á Hvallátrum hér 30 álna langur búrhvalur, svo löngu dauður að hann var talinn ónothæfur til matar”. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Dýrbítur: “Dýrbítur (tófa) hefir nú í desembermánuði drepið þrjár fullorðnar kindur hér í sveitinni. Það er mjög óvenjulegt”. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Lömunarveiki á Patreksfirði: „Mikil fólksekla er nú á Patreksfírði, vegna lömunarveikinnar, sem hamlar mjög atvinnulífinu. Hafa nemendur unglingaskólans og bændur úr Rauðasandshreppi verið fengnir til aðstoðar við hagnýtingu fiskafla togaranna og bátanna hér, sem hefur verið allgóður“ (Karl; Mbl; 26.02.1956).
Hrútasýning: "Í Örlygshöfn var hrútasýning vel sótt, en sýningar féllu niður vegna áhugaleysis og/eða illveðurs inni í Patreksfirðinum og á Rauðasandi. Alls voru sýndir 28 hrútar, 20 fullorðnir, sem vógu 91.6 kg og 8 veturgamlir, sem vógu 74.5 kg að meðaltali og voru því jafnvænni en hrútar í öðrum hreppum sýslunnar. Fyrstu verðlaun hlutu 9 hrútar fullorðnir og 1 veturgamall. Af þriggja vetra og eldri hrútum var Prúður Guðmundar í Vatnsdal beztur. Hann er metfé að gerð, prýðilega holdþéttur, lágfættur og þungur, sjá töflu D. Næstur honum í þeim aldursflokki stóð Stúi Helga á Hvallátrum, samanrekinn einstaklingur með frábært bak. Þriðji í röðinni var Glæsir í Kollsvík, sá fjórði Kópur í EfriTungu frá Kvígindisfelli. Þeir eru báðir prýðilegir einstaklingar. Óli séra Gríms í Sauðlauksdal frá Kollsvík bar af tvævetru hrútunum. Hann er í senn þungur, vel vaxinn, holdmikill og fríður, en fullháfættur. Næstur honum í þessum aldursflokki stóð Gísli, sama eiganda, en sá þriðji var Gráni Guðmundar i Vatnsdal. Féð í Örlygshöfninni og allt inn að Sauðlauksdal virðist vera í mikilli framför, enda eru þar margir áhugasamir um fjárræktina. Beztu hrútarnir eru svo miklum kostum búnir, að það ætti að vera vandalílið verk að rækta upp mjög gott fé í Rauðasandshreppi" (Halldór Pálsson, búnaðarmálastjóri; Hrútasýningar; Búnaðarritið 01.01.1957).
1957
Byggð í hreppnum: Páll Zophaníasson fráfarandi búnaðarmálastjóri ritar hugleiðingu í dagblaðið Tímann um búskaparmál í Rauðasandshreppi, og gerir m.a. samanburð á byggðinni 1920 og nú: "1920 voru 62 sérmetnar jarðir í hreppnum, nú eru þær 36 í byggð svo fækkunin er veruleg. Meðaltúnið var 2,1 ha, en er nú 4,7 og hefir því meir en tvöfaldast, þó enn sé það lítið mjög. Heyskapur á meðaljörð var 67+75=142 hestar en er nú 166+33 eða 199 hestar. Meðalbúið var 2 nautgr. 47 kindur og 1,7 hross en er nú 4,6, 77 og 1,0. Meðalbúið hefir því stækkað og það fullmikið, miðað við heyaukningu sem fengist hefur". (PZ; Tíminn 13.09.1957).
Vegaframkvæmdir: Ýtt var upp vegarkafla á Hænuvíkurhálsi. Undirbyggður vegur heim að Sauðlauksdal. Borið ofan í veginn frá Gröf að Lambavatni.
Nýbýli í Kvígindisdal: Hjónin Valur Thoroddsen frá Kvígindisdal og Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir frá Láganúpi hafa stofnað nýbýli út úr landi Kvígindisdals, þar sem búa foreldrar Vals. Keyptu þau hluta Árna Dagbjartssonar í jörðinni.
Valur og Fríða byggðu sér íbúðarhús árið 1959, neðan við íbúðarhús Snæbjarnar og Þórdísar. Einnig reistu þau fjárhús með bogþaki árið 1967, ásamt hlöðu. Þau brugðu búi 2004, sjá þar.
Öflugt félagslíf í nýju félagsheimili: Félagsheimilið Fagrihvammur er rekið sem sjálfstæð stofnun, þó það sé í eigu hreppsins. Þar eru danssamkomur á sumrin, en húsið er einnig leigt félagasamtökum, s.s. Umf Smára og Leikfélagi Rauðasandshrepps. Leiga þeirra er hitun hússins og hálf laun húsvarðar. Fastar skemmtanir í hreppnum eru þessar: Þorrablót um þorrakomuna; tveggja daga fundahöld í mars, þar í t.d. almennur hreppsfundur, aðalfundur Sparisjóðs Rauðasandshrepps, aðalfundur slysavarnadeildarinnar Bræðrabandsins, og aðalfundur búðaðarfélagsins Örlygur í Rauðasandshreppi. Umf Smári heldur aðal ársskemmtun sína um sumardaginn fyrsta. Almenn töðugjöld eru oftast um mánaðarmótin ágúst-septamber, og að síðustu almenn jólatrésskemmtun sem Umf Smári sér um, venjulega milli jóla og nýárs. Því til viðbótar eru fjölmörg spilakvöld, fundir o.fl. Fyrirhugaðar eru einhverjar leiksýningar á vegum Leikfélagsins.
Mikil og almenn þátttaka var í þessu félagslífi. Margir komu að undirbúningi, en Guðrún Jónsdóttir, prestfrú í Sauðlauksdal var mikil driffjöður í menningarlífi hreppsins á þessum árum. Dreif hún upp leiksýningar og sá um hljóðfæraleik.
Torkennilegur ljósagangur: Um miðjan dag 10.12.1957 sáust ljós á lofti vestur af Patreksfirði. Sáust þau bæði frá togaranum Ágúst sem staddur var í mynni Patreksfjarðar og frá Breiðuvík. Voru þetta fimm hvít ljós; sem menn töldu í fyrstu að væru rakettuljós og var því Slysavarnafélaginu gert viðvart. Hvorki þar né hjá flugumferðastjórn var vitað af neinum í neyð og einskis var saknað. Er því þessi ljósagangur enn ráðgáta. (Vísir 11.12.1657).
Ofsaveður: Aftakaveður af suðaustri gekk yfir 16. og 17. janúar 1957. Sjór gekk þá víða yfir veginn sem liggur út Rauðasand og hestar á beit björguðust naumlega upp á rima sem stóðu uppúr flóðinu. Í Kollsvík urðu stórskemmdir á landgræðslu og girðingum. Þá olli fárviðrið skemmdum í Skápadal þar sem þak fauk af hlöðu og fjárhúsum; heyskaðar urðu og ær drukknaði í sjávarflóði. Á Hnjóti fauk þak af gömlu íbúðarhúsi, sem notað var til geymslu. (ÞJ; Mbl. 20.01.1957).
Fornlegri en aðrir Íslendingar: Hallfreður Örn Eiríksson cand.mag hefur unnið að því í sumar að safna upptökum af frásögnum og söng íbúa Rauðasandshrepps. Telur hann að þar hafi lengur geymst ýmislegt frá eldri tíð en í öðrum landshlutum. Hann segir m.a: „Vestfirðir eru afskekktasti landshlutinn og því er helst von um að þar finndust kvæðalög er ekki finnast annarsstaðar, auk þess sem talið er að Vestfirðingar séu nokkuð fastheldnir á forna og góða siði. Ég komst í kynni við á þriðja tug kvæðamanna. Þetta svæði er mjög ólíkt öðrum landsfjórðungum; atvinnuhættir eru fornlegri þar vestra. Auk rímna tek ég upp sálmalög sem varðveist hafa afbrigðileg þarna. Ívar Ívarsson í Kirkjuhvammi kann dálítið af grallaralögum eins og þau voru sungin, og það er fyrirhugað að taka þau upp. Einn mann hitti ég þarna sem kvaðst hafa barist við draug og skráði ég frásögn hans af þeirri viðureign“. (Viðt.JB við HÖE; Þjóðviljinn 14.08.1958).
Árlegt þorrablót: „Framundan er hið árlega Þorrablót hér í hreppnum. Hófið, sem er önnur stærsta samkoma vetrarins; aðeins jólatrésskemmtunin er fjölmennari, verður haldið að Fagrahvammi, félagsheimilinu. Að þessu sinni eru það Kollsvíkingar sem um samkomuna sjá, en síðan félagsheimilið var byggt hafa byggðarlögin innan hreppsins séð um Þorrablótin til skiptis. Áður en félagsheimilið kom til sögunnar, var það ungmennafélagið Smári sem sá um hóf þetta, sem nú er alveg orðinn fastur liður í skemmtanalífi hreppsbúa. Að þessu sinni má þó búast við að aðsókn verði minni en verið hefur undanfarna vetur, vegna þess að ófærð er mikil á vegum. Eins og er mun ógjörningur að fara á bíl frá Látrum í Örlygshöfn, en það er aftur á móti fjögurra tíma gangur ef því er að skipta“ (ÞJ; Mbl, 15.02.1957).
Vörubifreið Kollsvíkinga: Össur og Ingvar Guðbjartssynir hafa í sameiningu gert út vörubifreiðina B-119, sem er af gerðinni Ford, árgerð 1942. Er hún nýtt til flutninga, t.d. fyrir Sláturfélagið Örlyg.
Ekki var þó þessi útgerð ýkja arðsöm og bíllinn reyndist viðhaldsfrekur. Vegir voru víða slæmir eða ókomnir. Líklega hafa bræðurnir selt bílinn á þessu eða næsta ári.
Handfærarúllur koma til sögunnar: Málmsteypan Hella í Hafnarfirði hefur hafið framleiðslu á handfærarúllum til skakveiða. Líklega eru þetta mestu framfarir sem orðið hafa í þessari veiðarfæratækni frá landnámstíð. Hingað til hafa skakveiðimenn veitt með því að handleika færi sitt; renna í sjóinn sökku með heilás eða hálfás; einum eða tveimur krókum. Dúa svo færinu hver með sínu lagi og draga með röskum togum þegar fiskur er á. Með hinum nýju rúllum er tæknin gjörbreytt. Á þeim er girni í stað færisbands og unnt er að hafa marga króka í slóða á hverju færi. Dúað er með því að snúa hjólinu heilan eða hálfan hring fram og til baka. Næmin er e.t.v. ekki sú sama, en flestir verða varir ef sæmilegur fiskur er á. Er drátturinn mun léttari með þessu móti; einkanlega á djúpu vatni. Vaðbeygja er á borðstokk til að hlífa honum og línunni.
Ekki er fyllilega ljóst hvenær rúllur komu í Kollsvík, en líklega hefur það verið um eða stuttu eftir 1960.
1958
Byggð í hreppnum: Árið 1958 eru bændur í Rauðasandshreppi 31 og íbúatala 184.
Farkennsla leggst af: Kennsla barna í Rauðasandshreppi hefur nú færst í Félagsheimilið Fagrahvamm. Þar með leggst af farkennslan sem lengi hefur verið við lýði, með því að kennari hefur farið milli bæja og kennt í heimahúsum. Nú er skólabörnum komið fyrir á næstu bæjum í Örlygshöfn til gistingar og fæðis.
Kennt var í félagsheimilinu til 1964: í Sauðlauksdal 1964-1965; 1965-1966 var farskóli einn vetur, en haustið 1966 var nýbyggður barnaskóli tekinn í notkun nærri Fagrahvammi, sjá þar.
Mest votheysverkun í Rauðasandshreppi: Bændur í Rauðasandshreppi virðast nú verka meira af sínum heyskap í vothey en aðrir bændur landsins, að sögn Páls Zophaníassonar fv. búnaðarmálastjóra og nú alþingismanns og eftirlitsmanns forðagæslu. Segir hann að árið 1955 hafi bændur í Rauðasandshreppi verkað um 40% af töðu sinni sem vothey. Það sé þó óvanalega mikið, þvi vanalega sé vothey rúm 30% heyfengsins. (PZ; Mbl. 06.08.1958).
Nautgriparæktarfélagið Örlygur: Allmikið ræktunarstarf er unnið í Nautgriparæktarfélaginu Örlygi í Rauðasandshreppi, og bera kýrnar á nokkrum bæjum greinilegan svip þess. Á sýningu þetta ár hlutu tíu kýr fyrstu verðlaun. Fjórar þeirra voru frá Hnjóti. Á síðasta ári hlaut kýrin Búkolla á Láganúpi verðlaun. Aðeins eitt naut er notað á félagssvæðinu, enda þótt nokkrir bæir séu mjög afskekktir, og sýnir það góða samstöðu í félaginu, enda hefur eftirlitsstarfið ávallt verið innt af hendi af samviskusemi og nákvæmni. Naut félagsins, Gullberi nr V-46, hlaut II. verðlaun. (Búnaðarrit 1.tbl.1959).
Hrap á Hænuvíkurhlíðum: Hinn 10.01.1958 varð Kristinn Ólafsson í Hænuvík fyrir því að hrapa á Hænuvíkurhlíðum; í brattri skriðu innanvert við Láturdal. Þar var hann að tófuveiðum, sem oftar. Missti hann fótanna ofarlega í skriðunni og kastaðist niður hana; féll fyrir kletta neðst í henni og í fjörugrjótið. Hann var allnokkuð slasaður; frostið 10 stig og langur vegur heim, en engin von var um björgun í bráð. Sárkvalinn og kaldur skreiddist hann samt heim; mestmegnis á fjórum fótum, að eigin sögn. Hann hafði misst af sér húfu, skó og vettlinga í fallinu og kól nokkuð á höndum. Honum var þegar komið á sjúkrahús á Patreksfirði, þar sem hann dvaldi í mánuð. (Veðráttan 01.01.1958. Viðtal; Harmonikan 01.10.1998).
Kaupfélagsstjóraskipti: Guðmundur Jón Hákonarson (11.01.1910-18.10.2000) á Hnjóti hefur tekið við starfi kaupfélagsstjóra Sláturfélagsins Örlygs af Össuri Guðbjartssyni á Láganúpi, sem gegnt hefur starfinu síðan Einar Guðbjartsson flutti frá Gjögrum 1950. Jón, eða Jónsi eins og hann er kallaður af sveitungum, ólst upp á Hnjóti og stundaði nám í Bréfaskóla SÍS eftir að barnaskólanámi lauk. Hann hefur haft nokkurn búskap á Hnjóti en einnig verið fisk- og kjötmatsmaður og stundað smíðar.
Jónsi vann dyggilega að hag félagsins, en starfið gat verið nokkuð umfangsmikið, einkum meðan á slátrun stóð. Anna systir hans bjó ásamt honum á Hnjóti, en eftir fráfall hennar bjó hann einn. Hann var félagslyndur og glaðsinna, og einstaklega laginn við að sjá björtu og skoplegu hliðar hvers máls. Eftir að hann þurfti ekki að sjá um daglega afgreiðslu verslunarinnar (sjá 1977) hóf hann að ferðast um heiminn með vini sínum, Ólafi á Sellátranesi. Síðustu árin bjó hann á Patrkesfirði.
Rauðsendingur þingmaður Vestfjarða: Í Alþingiskosningunum á þessu ári var Sigurvin Einarsson (30.10.1899-23.03.1989) frá Stekkadal kjörinn til þingsetu fyrir Framsóknarflokkinn í Vestfjarðakjördæmi, en hann hefur verið þingmaður Barðstrendinga frá 1956. Fékk hann 524 atkvæði; litlu minna en sitjandi þingmaður Gísli Jónsson frá Sjálfstæðisflokki, sem fékk 535 atkvæði. Framsóknarflokkurinn vann verulega á í þessum kosningum og er líklegt að andstaða flokksins við kjördæmabreytinguna hafi valdið nokkru þar um. Sigurvin er vinsæll í Barðastrandasýslu og á þar mikinn frændgarð. Hann er sonur Einars Sigfreðssonar og Elínar Ólafsdóttur. Kona hans er Jörína G. Jónsdóttir (30.09.1900-04.09.2001). Sigurvin lauk Samvinnuskólaprófi og framhaldsnámi í Danmörku og Finnlandi. Hann hefur verið skólastjóri í Ólafsvík, kennari í Reykjavík og framkvæmdastjóri Dósaverksmiðjunnar.
Sigurvin sat á Alþingi til 1971 og reyndist sínu kjördæmi dyggur stuðningsmaður. Gegndi ýmsum trúnaðarstörfum utan þingsetu. Hann eignaðist Saurbæ á Rauðasandi 1946 og rak þar búskap til 1963. Hann var mikill gáfumaður og ágætur hagyrðingur.
Skápadalur í eyði: Einar Ásgeir Þórðarson og Margrét Ryggstein Marteinsdóttir hafa brugðið búi í Skápadal og flutt á Patreksfjörð. Leggst sú jörð þar með í eyði, en hún var metin 12 hdr að fornum mati, ásamt Koti.
Jörðin hefur verið í eigu Jóns Magnússonar skipstjóra (frá hlaðseyri). Hefur hann dregið þar á land bátinn Garðar, sem var fyrsta stálskip Íslendinga, smíðað 1912, og Jón stjórnaði lengi.
Slagsmál varðskipsmanna við Breta á Útvíkum: Hinn 25.09.1958 höfðu Íslendingar fært landhelgi sína út, frá 4 mílum í 12. Bretar höfðu útfærsluna að engu og þegar hér var komið höfðu þeir sent herskip til verndar togurunum; Díönu F126. Náði vernd freygátunar til svæðis frá Blakk suðurfyrir Bjargtanga. Íslenska varðskipið María Júlía var á þessu svæði og bókaði hvern togarann eftir annan fyrir landhelgisbrot. Þar var Höskuldur Skarphéðinsson skipherra (sem síðar sagði frá þessum atburðum). Óðinn var einnig á svæðinu. Þegar freygátan þurfti að fara inn til Patreksfjarðar með slasaðan sjómann fengu togarar fyrirmæli um að hætta veiðum á meðan. Togarinn Paynter GY480 sinnti þessu þó ekki heldur lét vörpuna fara innan markanna, rétt við stefni Óðins, og togaði frá landi. Varðskipsmenn fengu um síðir heimild til að taka togarann, en þó án vopna. Þegar þeir komu um borð brugðust enskir til varnar og upphófust mikil slagsmál. Um það bil sem varðskipsmenn höfðu náð yfirhöndinni og hugðust taka togarann komu boð um að freigátan sæist koma fyrir Blakkinn og var gefin skipun um að hætta við tökuna. Ekki ætlaði þó að ganga þrautalaust að komast frá borði fyrr en Pétur Jónsson skipstjóri á Óðni kom út á brúarvænginn og miðaði riffli á Bretana. Þótti varðskipsmönnum íslensk stjórnvöld þarna, sem stundum endranær á þessum árum, standa illa að baki þeim í baráttunni. (Sjómbl. Víkingur 01.12.1999).
1959
Stuttri búskapartíð lokið á Gjögrum: Lokið er búsetu á Gjögrum, með því að þaðan flytja núna Helgi Árnason og Sigrún Össurardóttir frá Tröð. Þau komu þar 1952, en þá höfðu Einar og Guðrún (sjá 1947) flutt tveimur árum áður.
Áfram þokast bílvegir: "Miklar lagfæringar voru gerðar á veginum frá Patreksfjarðarbotni og út á Patreksfjörð. Á svæði var vegurinn gerður að nýju. Tvær brýr voru gerðar á þeirri leið, og tvær brýr í Örlygshöfn, auk þess gerðar smá lagfæringar annars staðar. í Kollsvík var ýtt upp undirstöðu að vegi yfir víkina" (ÞJ; Mbl. 28.01.1959).
... og kirkja: Á þessu ári er kirkjan í Breiðuvík steypt upp, að verulegu leyti í sjálfboðavinnu safnaðarbarna úr Kollsvík og Látrum. "Fyrir 20 árum taldi þáverandi biskup og prófastur, Breiðavíkurkirkju ónothæfa, og varla viðgerðarhæfa. Margar tilraunir voru gerðar til að fá jarðar og kirkju eiganda sem nú var ríkið, til að byggja kirkju sem söfnuðurinn tæki svo við fullgerðri. Á síðastliðnu ári voru svo þessum fámenna söfnuði gerðir úrslitakostir. Hann fengi kr. 200.000,00 til kirkjubyggingar í eitt skipti fyrir öll, og tæki þar með við kirkjunni, eða fengi enga um ófyrirsjáanlegan tíma. Og hann valdi kirkju, því kirkju vildi hann eiga" (ÞJ; Mbl 28.01.1959).
1960
Íbúafjöldi: Íbúar Rauðasandshepps eru núna alls 152. Þeir skipast þannig eftir kirkjusóknum: Í Saurbæjarsókn 26 á 7 heimilum; Breiðavíkursókn 50 á 10 heimilum; Sauðlauksdalssókn 76 á 16 heimilum.
Til samanburðar voru hreppsbúar 465 talsins árið 1910. Þar af voru í Saurbæjarsókn 123 á 14 heimilum; Breiðavíkursókn 160 á 26 heimilum; Sauðlauksdalssókn 182 á 28 heimilum.
Árið 2020 eru íbúar á sama svæði líklega um 20 talsins, á 9 heimilum.
Fjöldi búpenings: Í Rauðasandshreppi er fjöldi búpenings nú þessi: Nautgripir 182; sauðfé 3.134; hross 11; alifuglar 234. (sjá 1871 og 1901).
Eldsvoði í Saurbæ: Hinn 16.02.1960 kom upp eldur í íbúðarhúsinu í Saurbæ. Sprenging hafði orðið í miðstöðvarkatli í kjallaranum. Slökkvilið var kallað út frá Patreksfirði, en bændum úr nágrenninu tókst að slökkva áður en það kom. Skemmdir urðu miklar af eldi í kjallara, en einnig á hæðinni fyrir ofan vegna vatns og reyks. Húsið er gamalt steinhús með timburgólfum; tvær hæðir og kjallari. Í Saurbæ búa hjónin Sigursveinn Tómasson og Hulda Jóhannesdóttir, en jörðin er eign Sigurvins Einarssonar, alþingismanns. Talið er að miðstöðvarketillinn hafi náð að sóta sig, en honum hætti til að gera slíkt í miklu logni. (Mbl. 17.02.1960).
Tveir drukkna við Vatnsdal: „Hinn 13. júní 1960 vildi það slys til í Vatnsdal að á legunni þar örskammt frá landi drukknaði Erlendur sonur hjónanna þar; Unnar Erlendsdóttur og Guðmundar Kristjánssonar. Erlendur var fyrirvinna heimilisins. Hann var að fara fram í opinn trillubát sem hann stundaði róðra á. Með Erlendi drukknaði 9 ára piltur úr Reykjavík Hilmar Benónýsson, sem var í sumardvöl í Vatnsdal. Erlendur var fæddur 23. febrúar 1939“. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Hámeraveiði við Blakk: Hámeraveiði hefur nokkuð verið stunduð frá Patreksfirði þetta árið, og er veiðin orðin nær 200 hámerar. Hafa þær einkum verið seldar frystar á Ítalíumarkað. Veitt er bæði á stórum bátum og litlum þilfarsbátum, og hefur mesti afli í einum róðri verið 16 hámerar. Mest veiðist grunnt út af Blakknesi, á um 8 faðma dýpi. Verkun hámeranna til útflutnings er þannig að tekið er innan úr þeim; hluti haussins skorinn af ásamt uggum og hluta kviðsins. Skrokkurinn síðan vafinn í pappír og saumað utanum hann með striga. (Mbl. 06.11.1960). „Hver fiskur er 100-150 kg og er greitt 800 kr fyrir kg. Veiðst hefur frá einni upp að 7 fiskum í róðri“. (Tíðarfarsannáll SJTh).
Flugvél flæðir við Hamraenda: „23.05.1960 lenti á útfjari við Hamraenda í Sauðlauksdal Cessna flugvél fjögurra sæta. Flugmaður Einar Sigurðsson og farþegar voru þrír. Mennirnir yfirgáfu vélina og fóru til Patreksfjarðar. Vélin flæddi og fór á kaf í sjó. Farþegarnir flugu með flugvél Flugfélagsins til Reykjavíkur. Eftir að vélin kom á þurt, flaug flugmaðurinn til Reykjavíkur um kl. 12 um nóttina. Allt gekk vel”. (Tíðarfarsannáll SJTh).
1961
Byggð fjárhús á Stekkjarmel: Ingvar Guðbjartsson hefur byggt 150 kinda grindafjárhús á Stekkjarmel, handan Árinnar, ásamt áfastri hlöðu og tveimur votheysgryfjum.
Sauðfjárrækt og kynbætur: Margir bændur í Rauðasandshreppi vinna markvisst að kynbótum síns sauðfjár. Starfandi er sauðfjárræktarfélagið Prúður og af og til eru haldnar hrútasýningar. Margir heimamanna eru mjög glöggir á byggingu sauðfjár, en hinsvegar geta ræktunarsjónarmið verið misjöfn og fara ekki alltaf saman með stefnu búnaðarmálayfirvalda. T.d. hefur hinn glöggi sauðfjárbóndi Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi einatt lagt áherslu á að rækta harðgerar háfættar hyrndar og einlembdar ær, sem ganga á öruggum stöðum og skila góðum lömbum; ekki verra að þær séu gular á koll og lagð. Opinbera stefnan er að rækta skuli skjannahvítt lágfætt, kollótt og tvílembt fé.
Tvær hrútasýningar voru þetta ár; í Örlygshöfn og á Rauðasandi, og sýndur 51 hrútur; 34 fullorðnir með 92,9 kg meðalvigt og 17 veturgamlir með meðaltalið 78,8 kg. T.d. fékk hrúturinn Glæsir frá Kollsvík 1. verðlaun ásamt 5 öðrum í félaginu. Matsmaður á vegum Búnaðarfélags Íslands var Dr. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri. Hann taldi að hrútarnir í hreppnum flokkuðust illa vegna þess að menn leggðu of mikið uppúr háfættu fé. (Búnaðarrit 1.tbl 1961).
Hestum fækkar í hreppnum: "Það er leiðinlegt, en satt er það eigi að síður, að hestum fækkar hér óðum, og eru nú aðeins eftir 10 í öllum hreppnum. Svo ört hefir þeim fækkað, að þó við förum ekki nema til ársins 1955 voru til 36 hestar. Flestir þeir hestar sem til eru, eru sama og ekkert notaðir. Þrír eru á Vistheimilinu Breiðavík, drengjunum til gamans. Tveir hestar eru þó verulega notaðir, en það eru hestar póstsins, Kristins Ólafssonar í Hænuvík sem hefur um 16 ár verið póstur á leiðinni Örlygshöfn um Útvíkur að Látrum, en ekki ennþá skipt yfir á bílana." (ÞJ; Mbl; 28.12.1961).
Kjördeildir sameinaðar: Á almennum hreppsfundi í félagsheimilinu Fagrahvammi 22.03.1961 var ákveðið að sameina Kollsvíkurkjördeild og Hafnarkjördeild. Kosið er í Fagrahvammi. Á fundi sl ár kom fram tillaga Össurar Guðbjartssonar um eina kjördeild í hreppnum, en Ívar Ívarsson lagðist gegn henni. Niðurstaðan þá varð sú að Hvalskerskjördeild var sameinuð Hafnarkjördeild.
Ekki varð þó af niðurlagningu Hvalskerskjöreildar, því á almennum hreppsfundi 05.04.1970 kom fram tillaga um eina kjördeild í hreppnum. Ívar Ívarsson bauðst þá til að kosta kjördeildina á Rauðasandi, fremur en hún yrði lögð niður. Niðurstaðan varð þá að hreppurinn yrði tvær kjördeildir; ein í Örlygshöfn (Fagrahvammi) og önnur á Rauðasandi (Saurbæ)). (Gerðabækur Rauðasandshrepps.
Stofnað Framsóknarfélag Rauðasandshrepps: Hinn 31.07.1961 komu allmargir áhugasamir hreppsbúar saman að Tungu í Örlygshöfn og stofnuðu Framsóknarfélag Rauðasandshrepps. Hvatamenn að því voru Ívar Ívarsson í Kirkjuhvammi og Össur Guðbjartsson á Láganúpi. Fundurinn samdi félaginu lög sem hljóða þannig: 1.gr. Félagið heitir Framsóknarfélag Rauðasandshrepps. 2.gr. Tilgangur félagsins er að vinna stefnu Framsóknarflokksins fylgi og taka ákvarðanir um flokksmál. 3.gr. Félagið kýs á aðalfundi þriggja manna stjórn er skiptir með sér verkum; tvo endurskoðendur og tvo fulltrúa til að sækja aðra fundi og þing flokksins, eftir því sem reglur mæla fyrir hverju sinni. 4.gr. Árstillag í félaginu er kr 50.00. Undir þetta rita Ívar Ívarsson Kirkjuhvammi; Bragi Ívarsson Melanesi, Kristinn Olafsson Hænuvík, Vilborg Torfadóttir Lambavatni, Guðmundur Jón Hákonarson Hnjóti, Ívar Halldórsson Melanesi, Kristján Júlíus Kristjánsson Efri-Tungu, Agnar Sigurbjörnsson Hænuvík, Júlíus Reynir Ívarsson Móbergi, Hafliði Halldórsson Neðri-Tungu, Ólafur Sveinsson Sellátranesi, Ingvar Guðbjartsson Kollsvík og Össur Guðbjartsson Láganúpi.
Ekki skal fullyrt að þetta hafi verið eina flokkspólitíska félagið í Rauðasandshreppi. T.d. er skrásetjara kunnugt að Gunnar Össurarson hafði mikinn hug á stofnun Alþýðubandalagsfélags í hreppnum. En Framsóknarmenn voru alla tíð langsamlega fjölmennasti kjósendahópurinn í hreppnum á þessum tíma. Framsóknarfélagið sendi um langt árabil fulltrúa á flokksþing og höfðu þeir án efa nokkur áhrif. Félagið leið líklega undir lok eftir að Össur Guðbjartsson lamaðist árið 1987, en hann var löngum helsta driffjöður þess.
Mjólkursala: Mjólk er nú seld frá 15 býlum í hreppnum að staðaldri. 10 hestar eru í hreppnum, en voru 36 árið 1956. (ÞJ; Mbl. 28.12.1961).
Fiskveiðistjórnun: Á hreppsfundi 22.03.1961 var samþykkt að styðja framkomna tillögu á Alþningi um að nethelgi sjávarjarða verði færð út í 500 metra frá stórstraums fjöruborði (í stað 60 faðma). Skeyti er sent Alþingi þess efnis og um leið að hreppsnefnd „telji mjög misráðið að leyfa dragnótaveiði næsta sumar á svæðinu Snæfellsnes-Horn“. (Gerðabækur Rauðasandshrepps).
Síldveiðar undan Blakknesi: Hinn 07.06.1961 var síld í fyrsta sinn veidd í verulegu magni undan sunnanverðum Vestfjörðum. Vélskipið Guðmundur Þórðarson fann síldartorfur á 90-100 faðma dýpi; um 30 sjómílur norðvestur af Blakknesi; kastaði á þær og fékk allmikið af stórri og fallegri síld. Telur Haraldur skipstjóri að þetta sé „Norðurlandssíld“ sem sé að þræða djúpkantinn norðurávið. Síld veiddist síðast á Patreksfirði 1916, en þá í litlu magni. (Mbl. 08.06.1961). Síldin var stór og feit og full af rauðátu. Það sem barst til Patreksfjarðar af síld fór bæði í frystingu og bræðslu (Vísir 08.06.1961).
Uppfinningamaðurinn Óli á Nesi: Ólafur Sveinsson á Sellátranesi kann lausnir á hverju viðfangsefni og fjölhæfni hans eru lítil takmörk sett. Nú hefur hann smíðað herfi til jarðvinnslu, sem sett er framan á jarðýtu í stað ýtutannar. Með þessari snjöllu aðferð er unnt að stýra því vel hversu herfið liggur þungt á jörðunni, einfaldlega með því að lyfta festirammanum eða láta þunga ýtunnar þrýsta honum niður. Vann Ólafur að þessu með Magnúsi Ólafssyni frænda sínum. (ÞJ; Mbl. 04.01.1961).
1962
Ábúendaskipti í Kollsvík; Stekkjarmelur í eyði: Ólafur H. Guðbjartsson hefur brugðið búi í Kollsvík og flutt á Patreksfjörð með fjölskyldu sinni. Ingvar Guðbjartsson flytur hinsvegar frá Stekkjarmel til Kollsvíkur ásamt sinni fjölskyldu. Hann hefur byggt allmikið upp og ræktað á Stekkjarmel, og hyggst áfram nýta þá jörð norðan Árinnar. Spilduna sunnan Ár, sem áður tilheyrði Grundum, selur Ingvar núna Össuri bróður sínum, sem mun nýta hana með eignum sínum á Láganúpi. Sá hluti telst 3/4 hlutar Stekkjarmelsjarðarinnar, og er kaupverðið kr 85.000. Á jarðarhlutanum standa nýleg fjárhús með stórum hlöðum og votheysgryfjum, sem Össur mun nýta.
Hinn 14.04.1962 gerðu Össur og Ingvar landskiptagjörð, þar sem mörk landa Láganúps og Stekkjarmels eru skilgreind (í skjalasafni Láganúps).
Össur á Láganúpi búnaðarþingsfulltrúi fyrir Vestfirði: á aðalfundi Búnaðarsambands Vestfjarða 01.07.1962 voru kjörnir sem aðalmenn á búnaðarþing; Össur Guðbjartsson bóndi á Láganúpi og Jóhannes Davíðsson, Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði.
Össur átti eftir að gegna þessu fulltrúastarfi meðan honum entist heilsa til. Jóhannes var mágur Magðalenu Össuradóttur frá Kollavík.
Vatnsdalur í eyði: Jörðin Vatnsdalur er nú komin í eyði. Eftir andlát Guðmundar bónda Kristjánssonar (02.05.1907-27.01.1962) brá ekkjan, Unnur Erlendsdóttir (09.02.1915-18.05.1998), búi, og flutti burt með börn sín. Í hreppnum verða þó eftir börn þeirra sem tekin voru í fóstur á Látrum; Kristinn, fóstursonur Ásgeirs og Jónu, og Gyða, fósturdóttir Daníels og Önnu.
Vatnsdalur hefur verið í byggð frá landnámstíð (eins og kuml sýnir sem þar fannst 1964, sjá þar), og var 18 hundruð að fornu mati.
Flugbraut og áætlunarflug á Sandodda: Gerð hefur verið stutt flugbraut á Sandodda neðan Sauðlauksdals. Þangað hefur Björn Pálsson flugmaður nú hafið áætlunarflug með litlum flugvélum sínum.
Hinn 09.08.1962 lenti stór flugvél í fyrsta sinn á flugvellinum, sem þá var orðinn 600 metra langur. Var það Douglas Dakota, 20 manna. Með vélinni komu m.a. Ingólfur Jónsson flugmálaráðherra, Agnar Kofoed Hansen flugmálastjóri og Örn Ó. Johnsen framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. (Tíminn 16.01.1963)
(Völlurinn var síðar stækkaður verulega; sjá 1965).
Líklega var fyrsta lending á þessum slóðum 31.12.1955, þegar Björn Pálsson lenti „í fjörunni á Hvalskeri“ og sótti sjúkling; Guðrúnu Jónsdóttur; ekkju séra Þorsteins Kristjánssonar í Sauðlauksdal. (Tíðarfarsannáll SJTh, Kvígindisdal). Björn kom nokkrar ferðir til Sauðlauksdals í febrúar 1960 og í tveimur þeirra lenti hann á ísilögðu Sauðlauksdalsvatni. (Sama heimild).
Hreppsnefnd og aðrar nefndir Rauðasandshrepps: 22.07.1962. Nýkjörin hreppsnefnd skiptir verkum: Oddviti Snæbjörn J. Thoroddsen; varaoddviti Ívar Ívarsson og þriðji hreppsnefndarmaður er Össur Guðbjartsson. Skólanefndarmenn: Grímur Grímsson og Össur Guðbjartsson, en Tryggvi Eyjólfsson og Anna Hafliðadóttir til vara. Aðalsáttagerðarmenn: Grímur Grímsson og Þórður Jónsson, en varamenn Daníel Eggertsson og Kr. Júlíus Kristjánsson. Aðalmatsmaður fyrir Brunabótafélag Íslands; Þórður Jónsson, en Hafliði Halldórsson til vara. Endurnýjað var umboð Ívars Ívarssonar fyrir hönd hreppsnefndar. Áfengisvarnarnefnd; Ívar Ívarsson og Ingibjörg Júlíusdóttir, en til vara Vilborg Torfadóttir og Jóhanna Gunnlaugsdóttir. Í stjórn Læknisvitjunarsjóðs; Daníel Eggertsson og Kr. Júlíus Kristjánsson, en til vara Hafliði Halldórsson og Ingvar Guðbjartsson. Aðalúttektarmaður Ívar Ívarsson, en til vara Ólafur Sveinsson. Byggingarnefnd; Egill Ólafsson, Þórður Jónsson og Ingvar Guðbjartsson, en varamenn Árni Helgason, Þórir Stefánsson og Ólafur Sveinsson. Fulltrúi á landsþing Sambands ísl sveitarfélaga; oddviti, en varaoddviti til vara. Forðagæslumenn; Hafliði Halldórsson og Valur Thoroddsen, en til vara Ásgeir Erlendsson og Bragi Ívarsson. Lendingabótanefnd á Hvalskeri; Ívar Ívarsson, Þórir Stefánsson og Tryggvi Eyjólfsson, en varamenn Ólafur Lárusson, Bragi Ívarsson og Reynir Ívarsson. Lendingabótanefnd Örlygshafnar; Árni Helgason, Jón Hákonarson og Marinó Kristjánsson, en varamenn Ólafur Sveinsson, Kr. Júlíus Kristjánsson og Bjarni Sigurbjörnsson. Endurskoðendur hreppsreikninga; Daníel Eggertsson og Egill Ólafsson. Stjórn Sjúkrasamlags Rauðasandshrepps; Ólafur Magnússon og Þórður Jónsson, varamenn Ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson. Í stjórn lestrarfélaganna; Tryggvi Eyjólfsson fyrir Lestrarfélag Rauðasands; sr. Grímur Grímsson fyrir Lestrarfélag Sauðlauksdalssóknar; Össur Guðbjartsson fyrir Lestrarfélag Breiðavíkursóknar.
Húsvitjanir presta: „Prestarnir taka manntal; fara á bæi. Þá spjallar maður við fólkið; lætur börnin lesa. Þetta er nú mikið til að hætta, víðast hvar a.m.k. En ég held að fólkið vilji þetta. Manntalinu á að vera lokið 1.des, en við þann dag miðast íbúaskráin. Annars er oddvitinn raunverulega manntalsstjóri og við berum okkur saman við hann“ (séra Grímur Grímsson í viðt. Mbl. 23.11.1962).
Skurði þarf að grafa: Hvergi á landinu var mælt fyrir meiri skurðgreftri en í Rauðasandshreppi á síðasta ári. Þar var mælt fyrir 11.463 metrum, en næstur kemur Svalbarðsstrandarhreppur með 9.597 m. Stjórnvöld hvetja bændur eindregið til aukinnar þurrkunar votlendis og túnaræktunar, og kemur það viðhorf vel fram í yfirlitsgrein Björns Bjarnasonar í Búnaðarritinu. Segir hann m.a. "Allra ráða verður að leita til þess að koma í veg fyrir stöðnun í framræslunni, því að afleiðingin verður ört minnkandi ræktun, sem harðast kemur niður á miðlungs- og smábýlum, sem vonlaust verður að halda í byggð nema til komi veruleg bústofnsaukning". (BB; Búnaðarritið 01.01.1962).
Nokkuð hefur viðhorfið breyst frá þessum tímum. Núna (2020) er það orðið helsta keppikefli stjórnvalda og nokkurra þrýstihópa að moka aftur ofan í þá skurði sem bændur áður grófu fyrir hvatningu og styrkveitingar fyrri ríkisstjórna. Nú telja einhverjir spekingar að hlýnandi loftslag jarðar stafi að verulegu leyti af því að með skurðgreftri var lofti hleypt að jarðvegsleyfum mýranna svo þær fóru að rotna og framleiða metan. Ekki skal efast um að sú geti verið raunin í þykkum skógarmýrum erlendis, en tæpast í hinum grunna jarðvegi sem víðast er í mýrum Rauðasandshrepps. En slíkar kúvendingar í viðhorfum stjórnvalda eru vísar til verulegrar atvinnusköpunar; hversu gáfulegar sem þær eru.
Von BA 39: Össur og Ingvar Guðbjartssynir í Kollsvík eiga í sameiningu bátinn Von BA 39, sem þeir keyptu af Helga Árnasyni sem fyrrum bjó í Tröð. Á þessu vori er Vonin skoðuð. Hún er 0,7 tn að stærð; 5,2 m á lengd; 1,45 á breidd og 0,68 á dýpt. Bátinn nota þeir til róðra fram á víkina á sumrin, til að sækja sér fisk í soðið og til söltunar upp á veturinn. Í Voninni er sólóvél og tvær skakrúllur. Bátnum er lent í Kollsvíkurveri og hann dreginn upp á kefla hlunnum með gangspili. Að vetrarlagi er vélin tekin úr bátnum og eftir að Fönixarnaustið varð ónothæft er honum hvolft á hvolftré við hlið Kollsvíkurbúðar.
Voninni var róið allt til ársins 1972, er bræðurnir fengu Ólaf á Sellátranesi til að smíða fyrir sig nýjan og stærri bát; Rutina. Síðustu árin reru þeir Voninni til grásleppuveiða frá Hænuvík. Ingvar Guðbjartsson getur um það í lýsingu sinni á Kollsvíkurveri frá 1932 (sjá þar) að þá hafi Helgi átt Vonina. Árið 1920 átti hann hinsvegar bát sem hér Freyja og var þá búlaus á Grundum, að sögn Guðbjartar Guðbjartssonar (sjá þar). Er Vonin því líklega smíðuð á því árabili, en óvíst um smiðinn. Vonin var ekki mikið hafskip, en þó man skrásetjari sem unglingur eftir sjóferðum á henni í svo miklum sjó að naumlega var lendandi í Kollsvíkurveri.
1963
Kollsvíkurbræður fá sér villisjeppa: Bræðurnir Ingvar Guðbjartson í Kollsvík og Össur Guðbjartsson á Láganúpi hafa sameiginlega fest kaup á villisjeppa, árgerð 1947. Bílinn kaupa þeir af Samúel Bjarnasyni og Kristjönu Sigurlaugu Gunnarsdóttur í Hvammi á Barðaströnd. Jeppinn ber númerið B-325 og gælunafnið "Sigga dýra", þó ekki vísi það til kaupverðsins. Ferðaþörf fólks hefur aukist með bættum samgöngum og starfi útávið. T.d. þarf Össur iðulega að sækja fundi vegna starfa sinna að félagsmálum. Hingað til hafa grannar verið einstaklega bónþægir um akstur fyrir Kollsvíkinga; t.d. Óli á Nesi; Jón Hákonarson og Árni í Tungu.
Sigga dýra þjónaði sínu hlutverki vel, þrátt fyrir aldurinn. Hún var "yngd upp" árið 1967, er bræðurnir fengu sér nýjan "Rússajeppa" (sjá þar) og var Sigga þá seld til niðurrifs.
Framfarir í bútækni: Miklar breytingar eru að verða á búskaparháttum með aukinni vélvæðingu, og sjást þess glögg merki í Kollsvík. Má segja að vélvæðingin hafi byrjað árið 1944, er bændur í Kollsvík sameinuðust um kaup á Farmall traktor með sláttugreiðu aftaná. Árið 1948 kom diskaherfi í Kollsvík. Farmall cub kom árið 1958 i Kollsvík, en þótti liðlítill og stóð ekki lengi við. Bambford múgavél kom árið 1959, en hana mátti einnig nota til að rifja hey. Áburðardreifari af gerðinni McCormick kom 1955, með ristum í botni. 1962 kom hliðtengd sláttugreiða á Farmalinn; handlyft eins og hin fyrri, og McCormick skítadreifara keyptu þeir í sameiningu. Auk þess má nefna traktorstengda heyvagna sem tóku við síðasta hlutverki hestanna; að koma heyi heim að hlöðum. Merkur heyvagn kom að Láganúpi frá Lambavatni; smíðaður af hagleiksmanninum Guðbjarti Egilssyni. Er hann með fjórum járnhjólum og beygjum á fremri hjólunum sem stýrt er frá beislinu. Nú hefur Ingvar í Kollsvík fengið sér Ferguson með dísilvél og látið búa hann glussadrifnum ámoksturstækjum. Með tækjunum fylgir bæði skófla og stór heykvísl. Er þetta hið mesta þarfaþing, sem sparar mönnum það að lyfta hverju heystrái með handkvíslum. Traktornum fylgir einnig grjótskúffa sem tengd er á þrítengibeisli hans.
Fleir tæki komu á næstu árum. Össur á Láganúpi fékk heytætlu af gerðinni Fella árið 1965 og Ingvar aðra af gerðinni Fahr stuttu síðar. Ingvar fékk einnig lyftutengda Lely rakstrarvél á Fergusoninn. Össur keypti nýjan skáladreifara til áburðardreifingar. Báðir settu bræðurnir súgþurrkunarkerfi í hlðður sínar og Össur fékk gnýblásara til að blása heyi í hlöður árið 1971 og um svipað leyti PZ sláttuþyrlu. Á þessum árum fengu bræðurnir mjaltavélar í fjós sín og Össur fékk sjálfhleðsluvagn til hirðingar á heyi í félagi við Hilmar son sinn. Þeir keyptu einnig notaða baggabindivél og öfluga haugsugu. Þá voru komnir til öflugri traktorar; Zetor, Úrsus og Ford. Eftir að Hilmar var tekinn við búskapnum keypti hann Claas rúllubindivél í félagi við Guðjón Bjarnason í Hænuvík. Samhliða þessari öru tæknivæðingu stækkuðu búin og aukið land var tekið til ræktunar.
Nýtt sláturhús á Gjögrum: Byggt hefur verið nýtt glæsilegt sláturhús Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum. Það stendur við enda hins fyrra, sem hér eftir nýtist sem gærusöltunarhús. Byggingameistari hússins var Gunnar Össurarson. Í húsinu verður unnt að slátra allt að 200 fjár á dag, en sláturfjárfjöldinn er nú á þriðja þúsund hvert haust. Í húsinu er stór fjárrétt; stór fláningssalur með skotklefa í horni, hæklunarbekkjum, gálgum til fláningar og aðstöðu til innanúrtöku og þvotta; hausaklefi og gorklefi þar við hliðina; stór ketsalur og stór pökkunarsalur með geymsluklefa. Rennandi vatn fæst úr lind ofan hússins. Fjárgirðing er nærri, en enn er flest fé rekið til slátrunar. Í húsinu vinna félagsmenn sameiginlega að slátrun síns fjár, en auk þess er slátrað fyrir bændur á Rauðasandi, sem eru í kaupfélaginu þar. Sumir þeirra ganga í Slf Örlyg.
Rauðasandsbændur fóru þó margir síðar með sína slátrun inn á Barðaströnd.
Nýtt íbúðarhús í Neðri-Tungu: Hjónin Árni Helgason og Anna Hafliðadóttir hafa byggt sé stórt íbúðarhús á jörðinni. Húsasmíðameistari er Gunnar Össurarson sem býr syðra, en hefur komið vestur og unnið að ýmsum byggingum, m.a. nýju sláturhúsi á Gjögrum. Í Tungu eru stór skepnuhús frá 1956, en gamla íbúðarhúsið verður nýtt sem vélageymsla. (Gamla húsið brann kringum 2010).
Minkur kominn í hreppinn: Á þessu ári hefur fyrst orðið vart villiminks í hreppnum. Hefur hann valdið skaða í æðarvörpum og öðru fuglalífi, en einnig gengur hann hart að bröndum og öðru lífi í lækjum og vötnum. (Um árabil síðar var Ólafur Sveinsson á Sellátranesi ráðinn til að halda mink í skefjum, með ágætum árangri. Eftir að hans naut ekki við varð minkurinn veruleg plága í lífríkinu). (Mbl. 15.01.1963).
Hreppsbúum fækkar; myndabók samykkt: Á almennum hreppsfindi í Fagrahvammi 30.03.1963 var m.a. rætt um þá fólksfækkun sen verið hefur í hreppnum. Samþykkt var tillaga oddvita um að heimilin yrðu mynduð á 10 ára fresti, ásamt heimilisfólkinu. Hann og Þórdís kona hans hafa gefið segulbandstæki til að varðveita raddir gamalla manna og ræður á mannfundum. (Gb. Rhr).
Töðugjöld að leggjast af? Á sama fundi var rætt um töðugjöld; hvort þau skyldu flytjast í félagsheimilið. Taldi séra Grímur Grímsson hættu á að sá þjóðlegi siður myndi leggjast af á heimilum yrði svo gert. (Gb. Rhr).
Deilt um staðsetningu skóla: Á almennum hreppsfundi í Fagrahvammi 18.09.1963 var nokkur ágreiningur um staðsetningu skóla í hreppnum. Margt fólk á Rauðasandi og úr Innfirðinum var almennt á því að skóla væri best fyrirkomið í Sauðlauksdal, og að þar ætti að byggja þá heimavist sem fyrirhuguð er. Útvíknamenn, Bæjamenn og Hafnarbúar, ásamt Snæbirni J. Thoroddsen oddvita o.fl. töldu skynsamlegra að nýta þá aðstöðu sem komin væri með félagsheimilinu, og byggja heimavist þar. Fram fór nafnakall um tillögu að heimavist við Fagrahvamm. Hún var samþykkt með 10 atkvæðum gegn 4; 5 greiddu ekki atkvæði.
Dísilvélar til rafmagnsframleiðslu: Dísilvélar til rafmagnsframleiðslu hafa nú verið teknar í notkun á Láganúpi og í Kollsvík; af gerðinni Lister. Leysa þær af hólmi litlar 12 volta bensínvélar sem eingöngu dugðu til ljósa. Á báðum bæjum eru vélarnar í skúrum, steinsnar frá íbúðarhúsum. Vélin á láganúpi er í verkfærahúsinu sem þar var byggt í fyrra. Hún er eins strokks og skilar um 2,5 kW afli, sem auk ljósa dugir til lítilsháttar eldunar. Annars er eldun og kynding með olíueldavél.
Nokkrum árum síðar var byggður vélaskúr við hlöðuna á Láganúpi og þar sett mun stærri ljósavél. Var hægt að tengja hana með reimum; annaðhvort við rafal eða við súgþurrkunarblásara, en loftstokkar höfðu þá verið settir í hlöðuna. Stokkarnir voru þannig hannaðir að með blásaranum mátti einnig blása heyi af vagni inn í hlöðuna. Hönnuður þess búnaðar var Gylfi Guðbjartsson frá Lambavatni. Eftir að veiturafmagn kom á bæinn var unnt að nýta vélarnar sem varaafl, og skipta þeim inn á kerfið með hnífrofa. Slíkt varaafl er enn (2020) til staðar á Láganúpi, þó vélin sé nýrri og öflugri.
Vikurhrannir á fjörum: Miklar vikurhrannir bárust á fjörur í Kollsvík um og eftir miðjan nóvember. Höfðu þær eflaust borist frá neðansjávargosinu í Vestmannaeyjum; 20 km suðvestan Heimaeyjar, en þess varð fyrst vart 14.11.1963. Vikurinn í Kollsvík var allmikill í flæðarmálinu, frauðkenndur, tinnugljáandi; stærstu steinarnir nær 20 cm í þvermál en flestir mun minni.
Surtseyjargosið stóð í þrjú og hálft ár, eða til 05.06.1967, og hlóðst upp allmikil eyja ásamt tveimur minni sem hurfu fljótt. Surtsey hefur eyðst mjög en er enn allmikil eyja 2020. Hún er friðlýst og fylgjast fræðimenn með landnámi lífríkis.
Fjárskaðar af veðri: Miklir fjárskaðar hafa orðið í ofviðri sem skall skyndilega á nú í lok september. Frá Gröf á Rauðasandi hrakti 37 fjár í sjó, þar af 24 fullorðið. Var talið að féð hafi hrakist fram á leirurnar í Vaðlinum og flætt þar. Er það harla nöturleg afmælisgjöf Þorvaldar Bónda Bjarnasonar sem varð sjötugur þennan dag en missti þarna um þriðjung fjárstofns síns. Rifjaðist upp fyrir mönnum að líkt atvik hafði orðið í nóvember 1935, þegar Jóhannes Halldórsson, þáveandi bóndi í Gröf, missti þriðjung síns fjárstofns með sama hætti; en það bar upp á sextugsafmæli móður hans.
Frá Lambavatni hrakti, í óveðrinu núna, 13 lömb í skurði þar sem þau drápust. Kollsvíkingar höfðu rekið fé sitt til slátrunar og sett í girðingu á Gjögrum. Þar fundu þeir daginn eftir 4 lömb dauð í skurðum og 10 önnur aðframkomin. (SJ; Tíminn 27.09.1963. Vísir 26.09.1963).
Umhverfisvernd: Ásgeir Erlendsson lætur sér annt um umhverfið og velferð dýra, og er trúnaðarmaður Samtaka dýraverndunarfélaga á Íslandi. Hann ritar í Dýraverndarann: „Það hefur borið talsvert á því að ferðamenn hafi með leynd skotvopn í bílum sínum og beini þeim að fuglum sem á vegi þeirra verða. Hörmulegasti atburðurinn af þessu tagi varð á Látrabjargi 16. júlí í sumar. Síðlausir menn skutu þann dag í bjarginu fugla á ungum. Væri ekki gerlegt að vegaeftirlitinu væri upp á lagt að athuga hvort menn væru með skotvopn í bílnum og að þau yrðu gerð upptæk ef menn gætu ekki sýnt skilríki fyrir þeim? Ég hef verið sjónarvottur að því að olíuflutningaskip hreinsaði tanka sína þegar það var komið rétt suður fyrir Bjargtanga, og þarna myndaðist stór flötur af olíubrákuðum sjó. Þetta hafði hinar verstu afleiðingar fyrir fuglinn. Það er hryllilegt að sjá hve mikið af fugli ferst af völdum olíu hér í kringum Bjargtanga“ (ÁE; Dýraverndarinn 01.12.1963, stytt).
Jarðskjálftar finnast á Vestfjörðum: Hinn 27.03.1963, milli kl 23 og 24 varð vart jarðskjálftakippa á Patreksfirði og víðar um Vestfirði. Rúmstæði titruðu og rafljós blöktu. Vissu margir ekki hvaðan á þá stóð veðrið, því jarðskjálfta hafði ekki orðið vart á þessum slóðum í manna minnum. (Árbók Bar. 1959-1967).
Hér var um að ræða einn stærsta jarðskjálfta sem mælst hefur á Íslandi. Hann var af stærðinni 7 á Richterskala og með skjálftamiðju utarlega í miðjum Skagafirði. Skjálftans varð vart víða um land, þar á meðal á Vestfjörðum þar sem sjaldgæft er að slíks verði vart.
1964
Ný kirkja vígð í Breiðuvík: Ný stór steinsteypt kirkja var vígð í Breiðuvík hinn 21. júní 1964 af herra Sigurbirni Einarssyni biskupi Íslands. Viðstaddir voru fjórir prestar og hátt á annað hundrað manns. Yfirsmiðir byggingarinnar voru bræðurnir Guðjón og Páll Jóhannessynir á Patreksfirði, en sóknarbörn lögðu til mikla sjálfboðavinnu. Kirkjan stendur ekki í kirkjugarðinum eins og síðustu kirkjur, heldur uppi á hjalla ofan bæjarhúsa og fjárréttar í Breiðuvík. Tildrög byggingarinnar voru þau að fyrri kirkja var orðin nánast ónýt. Meðal helstu hvatamanna að byggingunni voru Gísli Jónsson alþingismaður, sem gaf kirkjunni nýtt orgel; Þórður Jónsson og Daníel Eggertsson á Hvallátrum. Kirkjunni bárust margar góðar gjafir.
Stöðugt fækkaði í Breiðavíkursókn eftir þetta, og um aldamótin næstu var einn þar heimilisfastur. Fjölmenni er þar þó að sumri og margir við athafnir, þá sjaldan þær eru.
Lendingabætur á Hvallátrum: í sumar var unnið að lendingarbótum að Látrum í Rauðasandshreppi. Jarðýta ruddi upp sjóvarnargarð, 340 m löngum og um 10 m þykkum. Skapast gott var fyrir innan garðinn. Lendingarbætur þessar eru gerðar fyrir báta Látramanna, en þó ekki síður fyrir báta frá Patreksfirði, sem mikið hafa verið að veiðum á þessum slóðum og skorti alveg neyðarhöfn áður en þessar lendingarbætur voru gerðar. (Vesturland 19.09.1964).
Séra Grímur Grímsson hættir í Sauðlauksdal: Séra Grímur hefur þjónað Sauðlauksdalsprestakalli í 10 ár og rekið búskap í Sauðlauksdal. Hann flytur nú suður og verður prestur Ásprestakalls í Reykjavík.
Eftir það hefur prestakallinu verið þjónað af prestum með aðsetur á Patreksfirði, og var því séra Grímur hinn síðasti í röð 30 presta sem setið hafa Sauðlauksdal. Frægastur þeirra er eflaust séra Björn Halldórsson.
Ari Kristinsson sýslumaður látinn: Ari Kristinsson, sem verið hefur sýslumaður Barðastrandasýslu frá 1964, varð bráðkvaddur hinn 5.febrúar, 42 ára að aldri. Við embættinu hefur tekið Ásberg Sigurðsson. Ráðnir hafa verið tveir lögregluþjónar í umdæmið, hinir fyrstu fastráðnu.
Fornt bátskuml finnst í Vatnsdal: Eigandi Vatnsdals, Páll Guðfinnsson á Patreksfirði, hugðist koma sér upp kartöflugarði á sjávarbökkunum í Vatnsdal, á svonefndu Reiðholti. Til að slétta landið fékk hann Magnús Ólafsson í Vesturbotni með jarðýtu. Vart var Magnús byrjaður á verkinu er hann varð var við mannabein og aðrar minjar. Kom Þór Magnússon þjóðminjavörður vestur til rannsóknar. Þarna reyndist vera bátskuml, en í bátnum höfðu verið heygðar sjö manneskjur; fjórir karlar og þrjár konur. Báturinn virtist hafa getað verið allt að 6 metra langur; fremur mjór og grunnur. Ýmsir munir fundust í bátnum sem bentu bæði til heiðins og kristins siðar. Þótti því ljóst að kumlið væri frá fyrstu tímum Íslandsbyggðar. Er þetta afar merkur fundur, því einungis tvö önnur bátskuml hafa fundist á landinu. (Sjá meira 880; útvegur Kolls).
1965
Flugvöllurinn á Sandodda stækkaður: Flugvöllurinn sem gerður var á Sandodda árið 1962 hefur nú verið stækkaður svo að þar geta nú lent stærstu flugvélar sem eru í innanlandsflugi. Aðalbrautin er 1400x50 metrar með stefnu inn og út Patreksfjörð, en þvert á hana er styttri braut; 540x30 metrar. Flugfélag Íslands heldur nú uppi áætlunarflugi milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur.
Áburðardreifing úr lofti: Á almennum hreppsfundi í Fagrahvammi var m.a. rætt um áburðardreifingu á úthaga með flugvélum. Nauðsynlegt er talið að viðhalda beitilandinu með þessu móti og von er á aukinni aðstoð hins opinbera við áburðarflug. Einnig var rætt um reikninga sveitarsjóðs; skýrslu húsnefndar Fagrahvamms; Styrktarsjóð; byggingu heimavistar skóla; sameiningu bókasafnanna; fjárframlag til sláturhúsbyggingar; vegamál; fjallskilamál; byggingafulltrúa; markaskrá og nauðsyn girðinga til að varna því að fé fari í svelti. (Gb. Rhr).
Togari í landhelgi út af Blakk: "Varðskipið Þór tók í morgun Fleetwood togarann Corena, FD173, að meintum ólöglegum landhelgisveiðum út af Blakk. Skipstjórinn veitti ekki mótspyrnu við töku togarans, sem varðskipsmenn töldu vera um eina mílu innan fiskveiðitakmarkanna. Fóru skipin til ísafjarðar, þar sem mál skipstjórans verður tekið fyrir" (Tíminn 16.07.1965).
Hafís á Patreksfjarðarflóa: "Hafís var kominn suður á Patreksfjarðarflóann í gær (04.03.1965) og var á svipuðum slóðum í morgun, en í dag hafa verið 8 vindstíg af suðri og hefur ísinn lónað frá landi. Vindáttin hefur nú snúizt til suðvesturs að nýju, svo búast má við að ísinn beri að landi aftur. Það var 12. marz árið 1944 að ís lokaði Patreksfjarðarflóa alveg svo ekki sást út yfir af fjöllum. Munaði þá litlu, að togarinn Vörður, sem var á leið á veiðar og fór suður með landinu frá Patreksfirði að nóttu til, yrði innilokaður á Breiðavík, því ísinn kom svo hratt að landinu. Vörður slapp inn á Patreksfjörð og var innilokaður þar í 3 daga. Ís hefur ekki komið á þessar slóðir frá þessum tíma. (ÞJ; Mbl. 05.03.1965).
Rósarímur: Út er komið hjá bókaútgáfunni Asor heftið Rósarímur, með samnefndum kveðskap Jóns Rafnssonar um Rósinkrans Ívarsson í Kirkjuhvammi á Rauðasandi sem nú er nýlátinn, hálfníræður að aldri. Eru þetta sex rímur mislangar og heftið prýða myndir eftir Kjartan Guðjónsson. Eru þetta án vafa mestu hetjukvæði sem ort hafa verið um nokkurn garp í Rauðasandshreppi á síðari tímum. Ekki er laust við að sumt sé í ýkjustíl, en fyrir það allt bætir rímsnilli höfundarins. Þeir Jón og Rósi, eins og hann er gjarnan nefndur af sveitungum, voru vinir og baráttufélagar á vinstri væng stjórnmála og verkalýðsstarfs. Áður en Rósi dó gaf hann málgagni sósíalista sparifé sitt og mun Jón láta hagnað af kveri þessu renna í sama stað. (Tíminn 15.12.1965). Rósinkrans Ívarsson var m.a. skútusjómaður framan af ævi, en á efri árum sneri hann sér að fræðastarfi, sem m.a. er vitnað til í þessum skrifum.
Sigurvin Össurarson flytur inn rafhlöður: Sigurvin Össurarson (28.03.1997-05.02.1989), sem fæddur er og uppalinn í Kollsvík, hefur fengist við margt um sína daga og er frumkvöðull á ýmsum sviðum. Nú hefur hann stofnað fyrirtækið Hnitbjörg og fengið einkaumboð fyrir hinar dönsku Hellesens-rafhlöður, en fyrir um áratug stofnaði hann verslunina Ístorg sem hefur flutt inn vinsælar vörur frá Kína og Sovétríkjunum. Sigurvin hefur líklega flestum öðrum betur fylgst með þróun mála í þeim löndum, enda var hann mjög virkur í starfi kommúnista á yngri árum. Skólaganga hans fólst í samtals 12 vikna námi á fjórum vetrum hjá séra Þorvaldi Jakobssyni í Sauðlauksdal. Engu að síður náði hann með sjálfsnámi meiri færni í alþjóðaviðskiptum og tungumálum en flestir samtíðarmenn. Hann var háseti á togaranum Geir, og lærði þar ensku á frívöktum og siglingum. Hann var vel læs og talandi á rússnesku og mandarín-kínversku, en alls mun hann hafa kunnað 12 tungumál til nokkurrar hlítar. Bílstjóri var hann um nokkurt skeið. Hann var helsta driffjöðrin í Pöntunarfélagi verkamanna (sjá 1933) og vinstrisinnaður, einkum á yngri árum. M.a. var hann viðstaddur Gúttóslaginn 1932 sem frægur hefur orðið og tók þar myndir. (Haraldur Jóhannesson; minningarorð; Mbl. 14.03.1989)
Í upphafi reksturs Hnitbergs seldi Sigurvin batteríin úr bíl sínum og ók þeim í búðir. Hnitberg var fyrst og fremst heildsala. Ístorg var bæði með heildsölu og smásölu. M.a. skipti Magnús Ólafsson í Vesturbotni mikið við fyrirtæki Sigurvins með farandverslun sína, og Sigurvin mun hafa verið hvatamaður að henni. Fyrri kona Sigurvins var Guðrún Helga Kristjánsdóttir frá Grundum og eignuðust þau 6 börn. Síðari kona hans var Zíta Kolbrún Benediktsdóttir og þau eignuðust 3 börn. Sigurvin hafði ávallt sterkar taugar til Kollsvíkur, og eftir fráfall Gunnar bróður síns árið 1988 eignaðist hann íbúðina að Ási í Örlygshöfn. Gerði hann þá út á grásleppu frá Gjögrum með Benedikt syni sínum meðan heilsan entist.
1966
Byggð í hreppnum: „Bændur í Rauðasandshreppi teljast nú 28 og íbúar alls 159 á sl ári. Hjá okkur er jöfnum höndum búið með fé og kýr og er mjólk flutt til Patreksfjarðar. Sumir búa að vísu eingöngu með sauðfé vegna samgangna og landfræðilegra staðhátta, en aðrir eru með kýr að meirihluta. Ræktunaráhugi er mikill og unnið talsvert að ræktun. Ræktunarsambandið á 3 jarðýtur, en að því standa fimm hreppar. Um bústærð er það að segja að þeir bændur í okkar sveit sem ekki eru með mjólkursölu eru með lítillega yfir 200 fjár fram gengið að vori. Stærstu kúabúin hafa verið með um 20 kýr og 100 fjár, en nokkrir bændur eru með 5-8 kýr og 150 fjár framgengið. Fólki fækkar í Rauðasandshreppi. Þótt ég sé nú orðinn 76 ára er ég bjartsýnn á íslenskan sveitabúskap. Ég bý einn á mínu búi og stend meira að segja í framkvæmdum; bæði í byggingum og ræktun. Ég geri þetta m.a. vegna þess að ég trúi á framhald íslensks sveitabúskapar og geri þetta af skyldu við mína fósturjörð“. (Ívar Ívarsson í viðt. Mbl. 15.01.1966).
Hrognkelsaveiðar hefjast í nokkrum mæli: Markaður hefur opnast fyrir grásleppuhrogn erlendis og býðst allgott verð. Tveir bátar róa frá Gjögrum, en fleiri hugsa sér til hreyfings.
Fyrstir til að hefja hrognkelsaveiðar voru Árni Helgason í Neðri-Tungu og Þórhallur Hálfdánarson í Breiðuvík. Árni reri fyrst á skektu sem hann hafði keypt notaða, og var með stokk innanborðs fyrir utanborðsvél. Með honum reri einkum Helgi sonur hans. Síðar smíðaði Árni bátinn Fönix; öllu stærri og með innanborðsvél og reri honum meðan gert var út á grásleppu frá Gjögrum. Þórhallur reri litlum gaflbáti; Gullskó, ásamt sonum sínum Bjarna eða Hálfdáni. Innan fárra ára höfðu 6 bændur úr Rauðasandshreppi hafið veiðar og fleiri hugsuðu til þess. Þrír báteigendur gerðu í byrjun út frá Gjögrum, þar sem lendingaraðstaða er best í hreppnum, og höfðu aðstöðu í sláturhúsinu til verkunar. Tveir bátar voru í fyrstu gerðir út frá Hænuvík; Hænvíkingar og Kollsvíkingar og að auki einn frá Sellátranesi. Netalagnir eru mestmegnis í þaragarðinum sunnantil í Patreksfirði; frá Ytri-Hlíðum inn á Urðarvöll. Var að veiðunum mikil búbót fyrir þá sem þær stunduðu. Sjá 1982 um síðari útgerð á Gjögrum.
Saubæjarkirkja fýkur af grunni: Nú í janúarlok gekk óveður yfir landið og varð harðast á Rauðasandi. Í Saurbæ fauk Saurbæjarkirkja af grunni og eyðilagðist gjörsamlega. Í sama veðri brotnuðu allar rúður í íbúðarhúsinu í Saurbæ, en jörðin er nú í eyði, og skemmdir urðu á Stökkum sem einnig eru í eyði. Miklar skemmdir urðu í Gröf. Þar fauk þak af hlöðu og Þorvaldur Bjarnason bóndi slasaðist er hann tókst á loft í veðrinu. Í Kirkjuhvammi fauk hlöðuþak og á Móbergi þak af fjósi og hlöðu. (Vesturland 02.02.1966. Tíminn 01.02.1966).
Nýr barnaskóli tekinn í notkun: Bylting varð í skólamálum hér í hreppi er nú í haust hófst kennsla í nýbyggðum barnaskóla Rauðasandshrepps við Fagrahvamm. Bygging hans hófst árið 1964, og var lögð lokahönd á nokkur frágangsverk eftir að kennsla hófst. (Endanlegur byggingarkostnaður kom fram á almennum hreppsfundi 21.04.1973 og var rúmega 10,5 milljónir kr). Í húsinu eru svefnherbergi og mötuneytisrými fyrir 20 nemendur og íbúð fyrir skólastjóra, en ekki kennslustofur. Ætlunin er að nota félagsheimilið til kennslu. Fyrsti kennari í skólanum er Ingólfur Þórarinsson, sem þar býr ásamt Auðbjörgu Árnadóttur konu sinni. Fyrsta veturinn eru 25 börn í skólanum; flest í heimavistinni en önnur heimangangandi af næstu bæjum. 3 eru utansveitar. Ráðskona er Jórunn Sigurmundsdóttir frá Bíldudal. Skólabörnum er skipt eftir aldri í tvær deildir; eldri og yngri deild, og er hvor deild hálfan mánuð í skólanum en hálfan mánuð í heimanámi.
Fyrstu þrjá veturna starfaði skólinn í sex mánuði og börnin voru útskrifuð með gamla fullnaðarprófinu. En haustið 1969 var ákveðið að lengja skólatímann í sjö mánuði og hafin kennsla í fyrsta bekk gagnfræðastigs. Með því luku börnin lögskipuðu skyldunámi í skólanum. Síðar var skólanum breytt í Grunnskóla Rauðasandshrepps með nýjum skólalögum. Á eftir Ingólfi (1966-1968) var Magnús Gestsson skólastjóri (1968-1970), en síðan Guðmundur H. Friðgeirsson (1970-1992); Gunnar Þór Jónsson (1992-1995); Arndís Harpa Einarsdóttir (1995-1996) og Björg Baldursdóttir (1996-2002). Skólinn var lagður niður 2002. Auk þeirra kenndu ýmsir sem stundakennarar og leiðbeinendur. T.d. Össur Guðbjartsson, Árni Helgason, Valdimar Össurarson, Rúnar Árnason, Kristín Torfadóttir, Ásgerður Emma Kristjánsdóttir o.fl. Sjá meira um fyrra skólastarf 1888 og 1922.
Verulegar endurbætur á Kollsvíkurvegi: Bragi Ó Thoroddsen vegaverkstjóri mætti á almennan hreppsfund í Fagrahvammi 07.05.1966 og greindi m.a. frá því að á síðasta ári hefði verið unnið að vegi frá Patreksfirði út á flugvöll, en þetta ár væri áherslan á Kollsvíkurveg. (Gb. Rhr).
Áburðardreifing Kollsvíkinga með flugvél: Bræðurnir Össur á Láganúpi og Ingvar í Kollsvík hafa í sumar látið bera á úthaga ofan víkurinnar með flugvél. „Við gerðum tilraun með að fá flugvél til að bera á nokkurt svæði og tel ég að sú tilraun hafi borið það góðan árangur, að meira ætti að gera á því sviði. En þetta á að vera í svo stórum stíl að verulega muni um það og verður að fá til þess opinbera aðstoð, því bændur sjálfír eru ekki nægilega fjársterkir til að geta tekið þátt í bessu að þeim hluta, sem nú er krafizt í þessu efni“. (Viðt. við Össur í Mbl. 24.03.1966).
Áburðarflugvélin hafði verið notuð um nokkurra ára skeið hjá Landgræðslunni (líkl.breytt Cessna), sem fékk á þessu ári nýja áburðarvél (TF-TUN sem síðar dreifði m.a. í Sauðlauksdal). Flugmenn í Kollsvík voru (ef skrásetjari man rétt) Björn Pálsson og Páll Halldórsson. Flugvélin lenti á grasi vöxnum sléttum sandbala á Fitinni vestan við Torfalæk. Höfðu landeigendur afmarkað hann með gulmáluðum steinum í samráði við flugmenn. Lengd brautarinnar var í það tæpasta þegar vélin var fullhlaðin, og notuðu flugmenn þúfu ofantil í henni til að „stökkva“ á loft. Ekki var rafstart á flugvélinni og þurftu landeigendur að „snúa í gang“ á skrúfunni. Dreift var einkum á Strympur; fram í Vatnadal og í Keldeyrardal og Húsadal. Vélin kom aftur á næsta ári og voru þá flutt með henni silungsseiði til sleppingar í Litlavatn og Stóravatn. Í marga áratugi á eftir mátti sjá reinarnar eftir áburðargjöfina, þar sem í þeim var gróskumeiri gróður en umhverfis. (VÖ).
Beinhákarl og háhyrningur á Kollsvíkurfjörum: Á þessu ári (gæti þó skeikað ártali) hlupu tveir stórfiskar á land í Kollsvík. Ingvar Guðbjartsson í Kollsvík varð þess var einn morgun, að stór skepna var föst á landgrunni undir Melsendaklettum undir Núpnum. Uggi stóð uppúr sjó og af honum réð hann að þetta væri beinhákarl; allstór. Fór hann norður með Össuri bróður sínum. Þeir biðu þar drykklanga stund á klettunum eftir því að hákarlinn kæmi lengra upp en svo varð ekki. Virðist hann hafa losnað og synt til hafs.
Byrgi á Melsendaklettum minnir á þessa bið bræðranna og okkar strákanna sem þarna vorum (VÖ). Einnig skeði það að háhyrningur fannst dauður í fjörunni, nærri Snorralendingu. Þetta var þó varla fullvaxið dýr; um 6-7 metrar að lengd, og hafði rekið hátt upp í stórstraumsflæði er það fannst. Ekki var skepnan nýtt til matar, enda töldu menn að hún væri ekki alveg nýdauð. Fórst fyrir að láta Saurbæjarkirkju vita af hvalrekanum, en kirkjan á tíundu hverja vætt hvalreka frá Skor að Tálkna.
Radíóviti á Bjargtöngum: Þetta ár var reist 25 m hátt mastur á Bjargtöngum, stutt frá ljósvitanum, og gangsettur þar radíóviti. Mun hann m.a. auka mjög öryggi í flugumferð.
1967
Byggð í hreppnum: Árið 1967 eru bændur í Rauðasandshreppi 25 og íbúatala 131.
Útigangsfé í Bjarginu: "Í þessari viku heimti Þórður Jónsson, hreppstjóri á Látrum í Rauðasandshreppi, tvær tvævetlur og einn hrút sem gengið hafa úti í Látrabjargi allan síðastliðinn vetur. Þessar kindur eru mjög vel fram gengnar og ærnar komnar að burði. Þá heimti Ingvar Guðbjartsson í Kollsvík eina kind veturgamla sem gengið hefur úti í Keflavíkurbjargi. Er þessi kind einnig í ágætum holdum og að burði komin. Hrútur sem með henni var mun nýlega hafa farist í bjarginu". (Ísfirðingur 06.05.1967).
Slátrun sauðfjár: Sláturhúsið Örlygur lét slátra um 2.140 fjár. Meðalfallþungi dilka var um 14 kg. Kaupfélag Rauðasands lét slátra í sláturhúsum Patreksfjarðar og Sláturfélagsins Örlygs 615 kindum. Meðalfallþungi dilka um 15 kg. Kaupfélag Patreksfjarðar lét slátra í sláturhúsi sínu að Sklaldvararfossi um 8.500 fjár. (Ísfirðingur 11.11.1967).
Mjólkursala á Patreksfirði: Mjólk úr Rauðasandshreppi hefur undanfarin ár verið seld ógerilsneydd í mjólkurbúð sem staðsett er í enda kaupfélagshússins á Patreksfirði. Yfirleitt hefur mjólkin verið góð, en þó misjöfn, og eðlilega lökust í sumarhitunum. Unnið er að undirbúningi þess að byggja 200 m² mjólkurstöð, með fullkomnum gerilsneyðingar- og pökkunartækjum. ( Mbl. 02.09.1967).
Skólaskip í Rauðasandshreppi: Nú á vordögum var gert út nokkurskonar „skólaskip“ frá Gjögrum. Ingólfur Þórarinsson skólastjóri hins nýja barnaskóla fékk lánaða litla skektu á Gjögrum, sem hann notaði til rauðmagaveiða. Bátinn mannaði hann með skólabörnum þeim sem í skólanum voru í eldri deild (sjá 1966). Var róið með nokkra netstubba útfyrir Grímssonatanga; og þau lögð á þaragarðinn undan Gjögrabökkum. Engin vél er í bátnum, heldur var nemendunum skipað við árar. Sjálfur sat Ingólfur við stýrið og reyndi að halda ræðurunum við taktinn. Tókst það nokkuð vel og voru krakkarnir fljótir að ná áralaginu. Báturinn var settur upp á hlunnum af sömu áhöfn; stundum með aðstoð Tungubænda. Ingólfur sá um aðgerð aflans ásamt nemendum, og var rauðmaginn síðan matreiddur í mötuneyti skólans og spyrtur upp til signingar. Afli var sæmilegur.
Rússajeppi Kollsvíkurbræðra: Bræðurnir Ingvar í Kollsvík og Össur á Láganúpi hafa fengið sér nýjan "Rússajeppa" af gerðinni GAZ, sem ber skráninganúmerið B-325. Um leið selja þeir villisjeppann "Siggu dýru" til niðurrifs (sjá 1963).
Fljótlega var bensínvélinni, sem var með flötu heddi, skipt út fyrir dísilvél. Þá fengu þeir Bjarna í Hænuvík til að byggja yfir Rússann vandað hús í stað blæjunnar.
1968
Sjónvarp sést á fyrstu bæjum: Sjónvarp frá Ríkisútvarpinu sést nú á þremur bæjum í sveitinni; Neðri-Tungu, Breiðuvík og Móbergi. Sá fyrstnefndi nær sjónvarpsmerki frá endurvarpsstöð á Patreksfirði, en hinir frá Stykkishólmi.
Einnig kom fljótlega sjónvarp í Kvígindisdal. Fljótlega var reynt á Hnjóti, en náðist ekki fyrr en Ólafur á Sellátranesi setti upp heimasmíðaða endurvarpsstöð á Tunguhlíð. Sjónvarp kom einnig fljótlega í Hænuvík. Sjónvarpið var svarthvítt fyrstu árin, en á þessum bæjum safnaðist fólk saman af nágrannabæjum þegar merkilegt efni var á skjánum, s.s. fyrsta lending á tunglinu þetta ár. Erfitt reyndist fyrir marga bæi að ná sjónvarpssambandi vegna hindrara í landslagi. Vildi það hreppsbúum til happs að hinn sjálflærði þúsundþjalasmiður Ólafur Sveinsson á Sellátranesi var alltaf reiðubúinn að kljást við hið ómögulega. Með því að leiða merkið, oft um langan veg, frá hæstu fjallatindum tókst honum að ná sjónvarpsútsendingu á flestum bæjum í Rauðasandshreppi; ýmist frá sendistöð á Patreksfirði eða Stykkishólmi. Notaði hann þá gjarnan heimasmíðaðar greiður og magnara sem hann hafði sjálfur hannað. Í grein sinni í Mbl. 22.09.1971 segir Þórður á Látrum að slæm eða engin sjónvarpsskilyrði séu á 11 bæjum af 24 í Rauðasandshreppi.
Mjólkurstöð tekur til starfa á Patreksfirði: Nú í september tók til starfa nýbyggð mjólkurstöð á vegum Mjólkursamlags Vestur-Barðastrandasýslu. Frá 1938 höfðu bændur í Rauðasandshreppi séð íbúum Patreksfjarðarkaupstaðar fyrir mjólk, ásamt flutningi hennar. Eftir 1960 þótti salan ekki fullnægja ítrustu heilnæmiskröfum og krafa komin um gerilsneyðingu. Farið var að undirbúa stofnun Mjólkursamlags. Stofnfundur þess var haldinn 09.05.1963 og náði samlagið yfir Rauðasands-Barðastrandar-, Patreks- og Tálknafjarðarhreppa. Mjólkurstöðin tók svo til starfa 01.09.1967. Fyrsti forstöðumaður hennar var Lauritz Jörgensen mjólkurfræðingur.
Þórður Jónsson á Hvallátrum var lengi stjórnarformaður og Jón Sverrir Garðarsson mjólkurfræðingur. 1992 keypti Mjólkursamsalan í Reykjavík MSVB og var þá mjólkurvinnslu hætt þar, en mjólk var ekið til Búðardals frá bændum sem enn framleiddu mjólk (sjá 1993).
Sjálfvirkur sími; ný símstöð: Ný símstöð var tekin í notkun á Patreksfirði 31.05.1968, og um leið kemur sjálfvirkur sími á heimilin á Patreksfirði. Áfram verða svæðaskiptar línur í sveitunum, sem þurfa að biðja um tengingar gegnum miðstöð. Innanbæjarnúmer á Patró eru 300; frá 1100 til 1399, en svæðisnúmerið er 94. Þrjátíu símnotendur geta samtímis talað í innanbæjarsímann og auk þeirra 11 á langlínu.
Fyrsta landsímastöð á Patreksfirði var opnuð 08.10.1908, að því frátöldu að Pétur A. Ólafsson hafði rekið sitt eigið símakerfi í kauptúninu frá 1903. (Mbl. 31.05.1968).
Mesti hafísvetur síðari ára: Hafís hefur komið að landinu síðustu vetur í meira mæli en undanfarna áratugi, en þó síst 1966. Hámarki náði þó hafís við landið á þessum vetri. Í maí var ísspöng úti á Patreksfjarðarflóa og staka jaka; suma gríðarstóra, rak inn á fjörðinn og upp á Útvíkur. Í Kollsvík sátu nokkrir stórir ísjakar fastir á grunni frammi á víkinni og brotnuðu þar niður. Voru fjörur þaktar af íshröngli, en einnig þykkum fjörumóð því frost hefur verið all hart á sama tíma; iðulega um 20 gráður. Mikill viðarreki fylgdi hafísnum og má segja að allar fjörur hafi verið þaktar reka af öllum gerðum; allt frá stórum trjám niður í sprek. Mikið rak af „battingum“, 4“x 4“ sem ekki virtust hafa verið lengi í sjó.
Ekki hefur orðið jafn mikill viðarreki síðan. (Ýmsar heimildir og minni skrásetjara).
Sauðlauksdalur aftur í byggð: Sauðlauksdalur hefur verið í eyði frá því að séra Grímur brá búi. Nú er stór fjölskylda að hefja þar búskap; Skúli Hjartarson frá Patreksfirði og Ólöf Matthíasdóttir frá Melanesi, ásamt Ingvari bróður Skúla og foreldrum þeirra; Hirti Skúlasyni og konu hans Jónínu Ingvarsdóttur. Þau bjuggu eitt sinn á Geitagili en hann hefur verið við sjómennsku á Patreksfirði. Mun fjölskyldan nýta íbúðarhúsið á staðnum en byggir stórt steinhlaðið fjárhús með bárujárnsþaki.
Forsetakjör: Í forsetakosningum nú í sumar var Kristján Eldjárn (06.12.1916-14.10.1982), þjóðminjavörður og doktor í fornleifafræði, kjörinn foseti. Hafði hann nokkra yfirburði á mótframbjóðandann; doktor Gunnar Thoroddsen. Líklegt er að meirihluti íbúa Rauðasandshrepps hafi stutt Kristján og sumir beittu sér nokkuð fyrir framboði hans. Kristján á ættir að Tjörn í Svarfaðardal. Kona hans er Halldóra Ingólfsdóttir. (Kristján var forseti til 1980, er Vigdís tók við).
Kvikmynd um Kollsvíkursjómann: Hinn 05.10.1968 var frumsýnd í sjónvarpinu kvikmyndin „Andrés“ sem gerð var um dag í lífi Andrésar Karlssonar frá Kollsvík. Andrés býr nú á Patreksfirði en ólst upp á Stekkjarmel og var síðastur til að gera út frá Kollsvíkurveri og búa í verinu; árið 1949. Andrési er í myndinni fylgt eftir frá morgni og í róðri á trillu hans Farsæli, sem hann smíðaði sjálfur. Hann er nú 67 ára, en hefur stundað sjó frá fermingaraldri. (Tíminn 05.10.1968).
Flugslys á Brunnahæð: Hinn 16.07.1968 varð flugslys á Brunnahæð á Látraheiði og létust þar allir um borð; fjögur ungmenni; þrír karlmenn og ein kona. Voru það félagar úr Slysavarnadeildinni sem fyrstir komu á slysstað, en nokkur leit hafði farið fram. Flugvélin var fjögurra sæta Piper Cherokee. Mikil þoka var á fjöllum daginn sem slysið varð, en rof undir henni. Heimamenn á Hvallátrum höfðu séð vélina fljúga suðuryfir Bjargtanga um daginn og á Lambavatni sást einnig til hennar í lágflugi. Giskað hefur verið á að flugmaðurinn hafi ætlað á flugvöllinn á Sandodda í Patreksfirði og réttilega sveigt inn í Keflavík, en í stað þess að fara dalvepi að Sauðlauksdal lenti hann vestar og í þokunni villtist hann á hæstu bunguna á Látraheiði. Ljóst er að flugvélina vantaði ekki nema fáeina metra í hæð til að sleppa yfir Brunnahæðina, en hún skall til jarðar og var mjög brunnin er hún fannst.
1969
Grásleppuveiðar: Nokkrir bændur hafa stundað hrognkelsaveiðar úr Örlygshöfn og fengið mest (2 á bát) um 40 tunnur af hrognum. Vonast er til að ekki fáist minna en 5 þúsund kr fyrir tunnuna, og þetta er því mikil búbót. Flestir bændur við sunnanverðan Patreksfjörð, allt út í Hænuvík, stunda veiðarnar. (ÞJ; Vesturland 02.07.1969).
Bílvegur til Keflavíkur: Akfær vegur hefur verið tekinn í notkun, af Látrahálsi að Fuglagötum í Keflavík. Þó byggð sé löngu aflögð í Keflavík þykir mönnum mikið öryggi að þessum vegi; minnugir tíðra skipsstranda undir Látrabjargi fyrr á tímum. Þá nýtist vegurinn vel í fjársmölunum og af honum er mikið og fallegt útsýni. Vegurinn liggur um Brunnahæð og var reynt að raska sem minnst þeim aragrúa af smávörðum sem er hjá Gvendarbrunni.
Síðar var vegurinn lengdur alla leið niður í Keflavík.
Traktorsslys á Látrahálsi: Það hörmulega slys varð hinn 18.07.1969 að dráttarvél fór út af veginum á Látrahálsi, ofan Enginúps í Breiðuvík, með því afleiðingum að unglingspiltur lést sem henni ók. Drengurinn hét Egill Steinar Egilsson frá Hnjóti í Örlygshöfn; fæddur 22.05.1955, sonur Egils Ólafssonar og Ragnheiðar Magnúsdóttur. Steini, eins og hann var kallaður, var að koma frá Hvallátrum eftir að hafa aðstoðað þar við slátt. Var hann á leið niður bratta brekku, en fór framúr krappri beygju neðan hennar með þeim afleiðingum að traktorinn valt og hann varð undir honum.
Heykögglaverksmiðja á Rauðasandi? Á almennum hreppsfundi í Fagrahvammi 03.05.1969 var rætt um þá hugmynd sem fram hefur komið um að reist verði heykögglaverksmiðja á Rauðasandi. Um hana eru ekki mótaðar hugmyndir, en mikilvægt þykir að gert verði ráð fyrir slíkum rekstri þegar nú verður lögð raflína um sveitina. (Gb. Rhr).
Hugmyndir um hreppasameiningu: Boðað var til almenns hreppsfundar í Fagrahvammi 17.08.1969 um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga í V-Barð. Á fundinn kom Sigurvin Einarsson alþingismaður og bóndi í Saurbæ. Ríkisvaldið heldur nú sameiningarmálum mjög að heppunum og fram hafa komið hugmyndir um sameiningu Patreks-, Tálknafjarðar-, Barðastrandar- og Rauðasandsheppa, en vill kalla fram afstöðu hreppanna. Var Sigurvin afhent tillaga hreppsnefndar vegna sameiningarmálanna. Bæði Össur Guðbjartsson og Ívar Ívarsson töldu að ekki kæmi til greina að sameina hreppa án almennrar atkvæðagreiðslu íbúa.
Búskap lokið á Hlaðseyri: Magnús Jónsson hefur nú brugðið búi á Hlaðseyri, þar sem hann hefur búið frá 1928, og flutt til Jóns sonar síns á Patreksfirði. Hlaðseyri var fyrrum hjáleiga frá Vesturbotni, líklega byggð í byrjun 17.aldar.
Sólkross fundinn á Láganúpi: Við kartöfluupptöku á Láganúpi þetta haust rak Valdimar Össurarson á Láganúpi augun í lítinn rauðbrúnan stein; sem næst kassalaga en ílangan. Við nánari athugun kom í ljós að báðumegin á hann voru rispuð tákn, sem ekki voru auðskiljanleg. Fundarstaðurinn var í kartöflugarði sem nú (2020) er löngu aflagður; framantil við gamla bæjarhólinn á Láganúpi; fáeinum metrum neðan við lítinn hól þar sem gætu hafa verið útihús fyrrum. Nokkru eftir að steinninn fannst var Árni Björnsson þjóðháttafræðingur á ferð og tók hann að sér að koma steininum á Þjóðminjasafnið. Steinninn er úr rauðum sandsteini og rispurnar gætu verið mót til að steypa skartgripi úr málmi. Öðrumegin er mót fyrir lítinn kross innan í hring, en hinumegin er sólkross. Sólkross er ævafornt tákn sem finnst m.a. á hellarispum aftanúr steinöld í mörgum heimsálfum. Löngu síðar tóku fornnorrænir trúarhópar það upp og nefndu Óðinskross. Láganúpskrossinn er sérstakrar gerðar og hefur skrásetjari enn einungis fundið heimildir um einn slíkan, sem er í rústum klaustursinns á Innisfallen-eyju í Kerry í Írlandi. Klaustrið er mjög gamalt; stofnað í frumkristni árið 640. Þó ekkert verði um tengslin fullyrt má benda á að Kollur og Örlygur voru í klausturskólanum á Iona rétt fyrir 880, sem einnig var keltnesk-kristið. Rannsaka þarf þennan grip betur; og táknin á honum.
1970
Oddvitaskipti og skipan í nefndir hreppsins: Snæbjörn J. Thoroddsen hefur nú látið af störfum oddvita í Rauðasandshreppi, sem hann hefur gegnt í þrjátíu ár. Nýr oddviti er Össur Guðbjartsson á Láganúpi, en hann hefur setið í hreppsnefnd í 12 ár.
Á fundi hreppsnefndar 16.07.1970 var þannig skipað verkum: Össur Guðbjartsson verður oddviti og Árni Helgason varaoddviti, en þriðji maður í hreppsnefnd er Valur Thoroddsen. Skólanefnd; Anna Hafliðadóttir og Júlíur R. Ívarsson. Varamenn Þórir Stefánsson og Dagbjörg Ólafsdóttir. Sáttagerðarmenn; Þórður Jónsson og Árni Helgason, en til vara Daníel Eggertsson og Kr. Júl. Kristjánsson. Matsmaður fyrir Brunabótafélaag Íslands; Þórður Jónsson; til vara Jón Hákonarson en f.h. hreppsnefndar Árni Helgason. Í stjórn Söfnunarsjóðs var kjörinn oddviti og varaoddviti til vara. Í áfengisvarnarnefnd voru kjörin Ívar Ívarsson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir; varamenn Vilborg Torfadóttir og Ívar Halldórsson. Aðalúttektarmaður Ívar Ívarsson en Ólafur Sveinsson til vara. Byggingarnefnd: Þórður Jónsson, Egill Ólafsson og Ingvar Guðbjartsson. Varamenn Árni Helgason, Þórir Stefánsson og Ólafur Sveinsson. Fulltrúi á landþing Samb.ísl svfélaga verður oddviti og varaoddviti til vara. Forðagæslumenn voru skipaðir Bragi Ívarsson og Óli Ingvarsson en til vara Reynir Ívarsson og Ingvar Guðbjartsson. Lendingarbótanefnd Örlygshafnarbryggju: Árni Helgason, Jón Hákonarson og Marinó Kristjánsson. Varamenn Ólafur Sveinsson, Kr. Júl. Kristjánsson og Bjarni Sigurbjörnsson. Endurskoðendur hreppsreikninga; Daníel Eggertsson og Egill Ólafsson, en Guðm. Jón Hákonarson og Tryggvi Eyjólfsson til vara. Sjúkrasamlag Rauðasandshrepps: Þórður Jónsson og Ólafur Magnússon, en ívar Ívarsson og Össur Guðbjartsson til vara. Lestrarfélögin: Tryggvi Eyjólfsson; Jón Hákonarson og Ingvar Guðbjartsson. Barnaverndarnefnd: Dagbjört Torfadóttir, Þórður Jónsson og Jóhanna Gunnlaugsdóttir. Varamenn: Jóna Snæbjörnsdóttir, Árni Helgason og Jónína Ingvarsdóttir.
Byggð í hreppnum: Íbúatala Rauðasandshrepps er nú 120 manns, þar af 75 karlar en 45 konur. Af börnum sem fæst hafa síðustu 15 árin hafa einungis rúmlega 30% verið stúlkubörn.
Virkjun á Skersfjalli? Á almennum hreppsfundi í Fagrahvammi 05.04.1970 var m.a. rætt um tvær hugsanlegar stórar vatnsaflsvirkjanir í hreppnum. Önnur þeirra, Suðurfossárvirkjun, hefur verið í athugun í nokkur ár. Hafsteinn Davíðsson rafveitustjóri á Patreksfirði ræddi einnig um mögulega virkjun á Skersfjalli (Skersvirkjun) og skýrði frá athugunum sínum á henni. Taldi að hún gæti skilað 3-3,5 millj kWst á ári, eða nær tvöfaldri þeirri raforku sem Patreksfjörður notar nú. Áætlað kostnaðarverð væri 15-18 milljónir kr og hún yrði sérlega hagstæð. Taldi hann eðlilegast, ef um framkvæmdir yrði að ræða, að þá yrði þetta sameiginlegt félag hreppanna í vestursýslunni. (Gb. Rhr).
Af hvorugri virkjuninni hefur þó orðið (2020). En landeigendur á Hvalskeri vinna nú að Skersvirkjun.
Einkaréttur á hrognkelsaveiðum? Hrognkelsaveiðar bar á góma á þessum fundi, en hreppsnefndin hefur áhyggjur af því að með sífelldri sókn í veiðar hrognkelsi, gæti það ástand skapast að öngþveiti yrði á þessum miðum og nauðsynlegt væri e.t.v. að fá einkarétt hreppsbúa á þessari veiði fyrir löndum hreppsins. Er ekki um annan rétt í þessu að ræða, en hægt er að útiloka aðra en þá sem búa innan fjarðarins alls. Össur Guðbjartsson gat þess að á Búnaðarþingi (þar sem hann er fulltrúi) hefði verið gerð samþykkt þess efnis að rýmkuð yrði nethelgi jarða. Fleiri ræddu málið, og komu ýmis sjónarmið fram. Engin samþykkt gerð. (Gb. Rhr).
Metþungi dilks: Þyngsti dilkurinn sem slátrað var á Gjögrum þetta haust var frá Hvallátrum. Skrokkurinn var af tvílembingslambi og vóg 28 kg. Dilkurinn var undan rollu sem gekk úti í Bjarginu sl vetur. Hún var með tveimur lömbum í fyrrahaust, en náðist þá ekki. Gekk hún því úti í svonefndri Vælaskor, sem nær 200 metra niður í Keflavíkurbjarg. Hún var svo aðeins með annað lambið þegar hún náðist; hitt hafði farist. (ÞJ; Mbl. 23.10.1970). (Hér hefur orðið misritun; Vælaskor er í Bæjarbjargi).
Til samanburðar má nefna að í fyrrahaust var meðalþyngd dilka um 15,5 kg á Gjögrum, sem ekki þykir slæmt. Þá var þar slátrað 2.500 fjár. (Íslendingur 11.10.1969).
Heyflutningar af Rauðasandi í Kollsvík: Grasspretta hefur verið eindæma léleg víða í hreppnum þetta sumar og heyskapur ekki nema um þriðjungur af meðalári. Bændur í Kollsvík brugðu á það ráð að fá slægjur í Bæjaroddanum og flytja þurrhey þaðan á vörubíl að Kollsvík og Láganúpi. Vegagerðin lagði niður vinnu í dagstund til að vörubílar fengjust til flutninga. Miklar slægjur reyndust vera í Bæjarodda, enda hefur þar ekki verið slegið síðustu árin. Hinsvegar var heyið mjög blandað sinu, þara og ýmsu rekagóssi. (Hafsteinn Daví8ðsson; Íslendingur Ísafold 29.08.1970).
Má þó vera að þessir heyflutningar Kollsvíkinga hafi verið fyrr. Þetta er í eina skiptið sem vitað er til að hey hafi verið flutt frá Rauðasandi til Kollsvíkur. Allajafna hafa tún í víkinni framfleytt vel þeirri áhöfn búfjár sem þar hefur verið.
Þarfanaut leggjast af til sveita: Á þessu ári var haldið fyrsta námskeiðið fyrir þá sem hyggjast taka að sér sæðingar kúa með djúpfrystu nautasæði. Júlíus Reynir Ívarsson á Móbergi á Rauðasandi sat þetta námskeið og er fyrsti sæðingamaðurinn í Rauðasandshreppi. Útlit er fyrir að bændur muni almennt nýta þessa tækni, þar sem með því geta þeir valið það naut sem þeir telja best henta hverri kú. Þar með virðist lokið hlutverki þarfanauta sem líklega hafa þjónað í hreppnum frá fyrstu tíð; naut fram af nauti. Oft hafa ferðir til að halda kú undir naut orðið hinar mestu svaðilfarir; t.d. voru mörg dæmi þess að kýr væru leiddar úr Kollsvík innyfir Tunguheiði. (Freyr 15.03.1986).
Reynir þjónaði þessu hlutverki í allmörg ár, meðan hann bjó á Móbergi. Fljótlega fór Egill Ólafsson á Hnjóti á slíkt námskeið og þjónaði þá hvor sínum hreppshluta. Gárungarnir voru fljótir að finna þessari stétt starfsheitið „töskubolar“.
1971
Kollsvíkurbændur flytja suður: Ingvar Guðbjartsson og Jóna Snæbjörnsdóttir kona hans hafa brugðið búi og munu flytja suður í Kópavog ásamt börnum sínum. Mun Ingvar vinna hjá Jarðborunum ríkisins. Jarðakaupasjóður ríkisins hefur keypt Kollsvíkurjörðina, en Össur Guðbjartsson mun nytja slægjur meðan jörðin er óseld.
Kollsvík auglýst til sölu: Jarðakaupasjóður ríkisins hefur auglýst jörðina Kollsvík til sölu. Segir í auglýsingu að þar séu 15 ha túna; steypt íbúðarhús; fjárhús, hlöður og votheysgeymslur fyrir 250 fjár. Vísað er til Ingvars Guðbjartssonar í Kollsvík um nánari upplýsingar. (Tíminn 06.02.1971).
Einar í Kollsvík í Þjóðleikhúsinu: Þjóðleikhúsið sýnir nú leikgerð Örnólfs Árnasonar af skáldverkinu Svartfugli eftir Gunnar Gunnarsson. Leikstjóri er Benedikt Árnason. Með hlutverk Bjarna á Sjöundá fer Rúrik Haraldsson; Seinunni leikur Kristbjörg Kjeld; Gunnar Eyjólfsson leikur Guðmund Scheving sýslumann; Gísli Alfreðsson séra Eyjólf og Baldvin Halldórsson leikur ákærandann; Einar Jónsson í Kollsvík. Gunnar Gunnarsson, sem ritaði skáldverkið upphaflega 1929, var viðstaddur frumsýninguna og sagði að sér litist ekki illa á. (Tíminn 12.03.1971).
Svartfugl var settur upp af Leikfélagi Reykjavíkur árið 1986. Þá fór Steindór Hjörleifsson með hlutverk Einars; Sigurður Karlsson lék Bjarna; Margrét Helga Jóhannsdóttir lék Steinunni; Gísli Rúnar Jónsson lék Scheving og Þorsteinn Gunnarsson lék séra Eyjólf.
Magnús Torfi verður menntamálaráðherra: Magnús Torfi Ólafsson (05.05.1923-03.11.1998) frá Lambavatni verður menntamálaráðherra (síðar einnig félagsmálaráðherra og samgönguráðherra) í nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Magnús Torfi er sonur Ólafs Sveinssonar á Lambavatni og Halldóru Torfadóttur frá Kollsvík. Kona hans er Hinrika Kristjánsdóttir og eiga þau 3 börn.
Magnús Torfi starfaði lengi við blaðamennsku og ritstjórn á Þjóðviljanum; deildarstjóri Máls og menningar; formaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1966-1967 og var kjörinn á Alþingi sem þingmaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna á þessu ári. Hann er einstaklega fróður á mörgum sviðum, eins og berlega kom í ljós í spurningaþáttum útvarpsins á undanförnum árum, og hefur setið í menntamálaráði frá 1967.
Ríkisstjórn þessi sat til 1974. Magnús Torfi varð blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar 1978-1989; hann var formaður Samt. frjálslyndra og vinstrimanna 1974-1982 og sat fyrir Íslands hönd á þingum SÞ og á hafréttarráðstefnum. Formaður Þjóðhátíðarsjóðs og í stjórnarskrárnefnd.
Allt er til í kaupfélaginu: AUGLÝSING: „Félagsmenn og aðrir viðskiptavinir: Reynslan hefur sannað, og mun sanna yður framvegis, að hagkvæmustu viðskiptin gerið þér ávallt hjá kaupfélagínu. SELJUM: allar fáanlegar nauðsynjavörur á hagstæðu verði. KAUPUM: íslenzkar framleiðsluvörur. Sláturfélagið Örlygur Gjögrum“. (Tíminn 17.06.1971).
Gott verð á grásleppuhrognum: Nú eru greiddar um 8 þúsund krónur fyrir tunnuna af grásleppuhrognum, og er því grásleppuveiði orðinn álitleg búbót fyrir marga bændur. Allnokkrir gera út; sumir frá Gjögrum en aðrir frá Hænuvík. Einungis hrognin eru hirt en mestu af grásleppunni sjálfri er fleygt í sjóinn. Menn verka hrognin sjálfir; láta þau standa á sigti yfir nótt; hræra svo saman við fínt salt og rotvarnarefni og leggja niður í trétunnur sem útvatnaðar hafa verið. (M.a. G.Br; Mbl.06.08.1971).
1972
Kartöflur Björns ræktaðar á Látrum: „Við gefum séra Birni Halldórssyni í Sauðlauksdal heiðurinn af fyrstu tílraununum við kartöflurækt hér á landi. Í ágústmánuði 1758 fékk hann eitt kvartel af útsæði og hafði það verið svo Iengi á leiðinni að ógerlegt var að notfæra útsæðið það sumar, enda orðið ónýtt sem slíkt, en í fúamaukinu fann klerkur lítil hvít kartöfluber, sem hann varðveitti til næsta vors í þurri móösku. Ber þessi setti hann síðan niður í tilraunagarðinn sinn, sem var í gilinu suður frá bænum. Haustið 1759 fékk hann sína fyrstu uppskeru og allt til þessa dags, hafa kartöflur komnar frá þessu fyrsta útsæði, verið ræktaðar þar vestur í Rauðasandshreppi, en munu nú aðeins vera til á einum bæ; að Hvallátrum hjá Ásgeiri Erlendssyni, bónda og vitaverði. Þetta eru smávaxnar kartöflur mjög ljósar á litinn. Góð matarkartafla og svipar um flest til þeirrar tegundar, sem við þekkjum undir nafninu „rauðar íslenzkar", nema um litinn“ (Hafliði Jónsson garðyrkjustjóri; Mbl. 19.08.1972).
Kartöflur þessar voru einnig nefndar „Látrakartöflur“, og voru líklega algengar í hreppnum frameftir 20.öld. Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi ræktaði þessar kartöflur, en kann að hafa hafa fengið útsæði hjá Geira á Látrum. Guðbjartur sonur hennar ræktar enn þessa tegund á Hornafirði, ásamt nær hundrað öðrum kartöflutegundum.
Sjá kartöfluræktun Björns 1760.
Páll Guðbjartsson forstjóri Vírnets: Páll Guðbjartsson (04.08.1931-08.06.2007) frá Láganúpi, sem býr í Borgarnesi með Herdísi Guðmundsdóttur konu sinni og fjölskyldu, hefur nú tekið við starfi forstjóra Vírnets hf í Borgarnesi. Vírnet er slærsti framleiðandi saums og þakjárns á landinu og í með stærstu fyrirtækjum landsins. Páll gekk í Samvinnuskólann og stundaði nám í Stokkhólmi, en gerðist síðan kennari við skólann þar til hann varð aðalbókari Kaupfélags Borgfirðinga 1965. Hann var sveitarstjóri í Borgarnesi um tíma.
Páll gegndi forstjórastarfi hjá Vírnet til 1999. Hann sótti þá námskeið leiðsögumanna; fékk smábátaréttindi og keypti bátinn Guðnýju af Ólafi á Sellátranesi. Einnig fékkst hann við ýmislegt fræðagrúsk og félagsmálastarf. Páll hélt alltaf mikilli tryggð við Kollsvíkina.
Verbúð Ólafs Helgasonar: (óvíst um ártal) Ólafur Helgason frá Tröð hefur hafið grásleppuveiðar á Gjögrum á Erninum; frambyggðum bát sem hann smíðaði í Reykjavík. Rær hann með sonum sínum; í fyrstu Halldóri. Ólafur hefur einnig byggt verbúð í Hvammsholti í Tungulandi; neðan félagsheimilisins. Húsið er timburhús á steyptum sökkli og með skúrþaki. Dvelur Ólafur þar löngum með konu sinni; Guðrúnu Ólafsdóttur og annarri fjölskyldu.
Nokkrum árum síðar byggði Ólafur sér geymsluskúr við hlið búðarinnar, til geymslu á bátnum, traktor og veiðarfærum.
1973
Rafmagn um Rauðasandshrepp: Rafmagnsveitur ríkisins hafa í sumar látið leggja einfasa háspennulínur víða um Rauðasandshrepp. Á sumum bæjum eru litlar vatnsaflsstöðvar en aðrir bæir hafa hingað til þurft að keyra dísilvélar til rafmagnsframleiðslu. (Sjá 1975).
Einkennileg ljósfyrirbæri: Hinn 31.oktober varð fólk í Útvíkum vart við furðuleg ljósfyrirbæri á himni, en ekki var upplifunin allsstaðar eins. Þórður Jónsson hreppstjóri á Hvallátrum lýsir þessu þannig að um 17.30 síðdegis, í suðvestan golu, hafi allt í einu slegið sterkri rauðgulri birtu yfir Bjargtanga og Látra. Ásgeir vitavörður á Hvallátrum var þá úti í vitanum á Bjargtöngum og fann til skyndilegrar vanlíðunar. Honum tókst að aka heim, en var 5 klst að jafna sig. Þórður fann einnig til vanlíðunar og fannst erfitt að þola birtuna en tókst þó að ljúka veðurathugun. Skepnur ókyrrðust, líkt og þær gera stundum í þrumuveðri. Sigríður kona Þórðar fann einnig til slappleika. Fannst Þórði þetta standa í 15-20 mínútur.
Í Kollsvík sá Ingvar Guðbjartsson einkennilegt ljósfyrirbæri í suðvestri. Frá Kollsvík sýndist honum það bera yfir Flatir eða Hnífa. Lýsti hann þessu sem sterku marglitu leiftrandi ljósi en í kringum það var krans af mörgum smærri og hvítleitari ljósum. Ekki fannst honum þetta færast úr stað eða snúast, heldur stóð þetta við á himni í drjúga stund en hvarf svo. Ingvar kom yfir að Láganúpi morguninn eftir og fór ásamt heimilisfólki á Láganúpi upp á Flatirnar til að fullvissa sig um að þar væri ekkert að sjá. Ekkert sást meira af þessu og ekki kunnu veðurfræðingar skil á þessu þegar Þórður innti eftir því. (Frásögn ÞJ í Mbl. 31.10.1973 og frásögn IG eftir minni skrásetjara).
Bátar fjúka: Nokkrir skaðar urðu í roki sem gerði í september. Hús fauk í Kvígindisdal og þrír bátar í Örlygshöfn og Hænuvík. (ÞJ; Mbl. 16.01.1974).
Einn bátanna var líklega bátur Bjarna Sigurbjörnssonar sem lengi hafði staðið við hlið gamla sláturhússins á Gjögrum. Annar var líklega Svalan, sem var í eigu Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi en hafði lengi verið á hvolftrjám á Gjögrum. Þriðji báturinn kann að hafa verið „skekta Helga Árnasonar“ sem hvolfdi þar hjá henni (VÖ).
Vegaviðhald: „Í Rauðasandshreppi hefur verið unnið fyrir um 4 millj.kr. Vegurinn yfir á Rauðasands var bættur verulega; einnig vegurinn til Kollsvíkur og í Örlygshöfninni, en mesta framkvæmdin var í sumar á veginum frá flugvelli að Kvígindisdal“ (Steingrímur Hermannsson; Ísfirðingur 17.11.1973).
1974
Nýtt íbúðarhús á Láganúpi: Össur Guðbjartsson og Sigríður Guðbjartsdóttir hafa byggt nýtt stórt steinsteypt íbúðarhús að Láganúpi, nærri fyrra íbúðarhúsi sem á sínum tíma var dregið frá Grundum. Var það rifið stuttu síðar. Gunnar Össurarson frá Láganúpi var arkitekt og byggingameistari að nýja húsinu og kom fjöldi kunningja hans að byggingunni, ásamt heimamönnum.
Grunsamlegar framkvæmdir á Láganúpi: Bandarísk stjórnvöld virðast hafa nokkrar áhyggjur af framkvæmdunum á Láganúpi. Er það e.t.v. að vonum, þar sem þangað hefur skyndilega verið kvaddur lunginn af hörðustu sósíalistum og kommúnistum landsins, til að koma í skyndi upp miklu mannvirki á vestasta kjálka landsins; nærri hinu hernaðarlega mikilvæga GIUK-hliði; í færi til eldflaugaskota á Guðs-eigið-land. Tímasetning famkvæmdanna er einnig all grunsamleg; þegar Bandaríkin eru viðkvæm fyrir, með því að Nixon forseti er að hrökklast af tróni sínum með skarn í brók. Við framkvæmdir á Láganúpi hefur Gunnar Össurarson notið öflugrar aðstoðar félaga sinna að sunnan, sem stundum hafa þótt hallast á vinstri hliðina. Það hefði því ekki átt að koma neinum á óvart þó að 09.08.1974; daginn sem Nixon lét forsetaembættið af hendi við Gerald Ford, renndi sér niður Kollsvíkina vígaleg orrustuþota Bandaríkjahers af phantom-gerð; þess albúin að hindra allar flugskeytaárásir úr þessu víghreiðri íslenskra kommúnista og herstöðvarandstæðinga. Fór hún svo lágt að hey þyrlaðist upp af túnum í kjalsogi hennar. En Gunnari Össurarsyni var ekki skemmt. „Það er óskemmtilegur fnykur úr rassgatinu á þessum andskotumi“, hraut honum af munni, og sagðist hafa saknað þess að hafa ekki haft byssuhólk við höndina. (Þjóðviljinn 10.08.1974).
Bátur og bíll í smíðum fyrir Kollsvíkinga: Fleira er í smíðum fyrir Kollsvíkinga á þessum tíma. Ólafur Sveinsson á Sellátranesi smíðar bát fyrir bræðurna Össur og Ingvar í Kollsvík, sem þeir hyggjast m.a. nota til grásleppuveiða. Hann er súðbyrtur úr borðsöguðum krossviði með svigaböndum og hálfgafli; 6 metra langur; um 1,5 tn. Óli á Nesi smíðaði fyrir nokkrum árum svipaðan bát sem hann hefur haldið frá Sellátranesi til grásleppuveiða, ásamt Óla Ingvarssyni á Geitagili. Þá er Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík að byggja hús yfir „rússajeppa“ sem Ingvar og Össur keyptu nýverið, en á honum voru blæjur. Húsið er úr áli og smíðar Bjarni einnig ný sæti í bílinn.
Báturinn var nefndur Rut, í höfuðið á bát sem Guðbjartur faðir þeirra gerði út á fyrrihluta aldarinnar. Reru þeir bræður honum til grásleppuveiða frá Gjögrum þar til Ingvar flutti suður, en eftir það reri Össur með Valdimar syni sínum (skrásetjara), sem síðar eignaðist Rut. Síðast var Rutin suður í Borgarnesi, í eigu Ingvars og sona hans. Rutin var prýðisbátur; burðarmikill, varði sig vel í öllum sjó; lensaði sig á ferðinni með því að taka úr neglu og léttur í setningu. Rússajeppinn var sömuleiðis lengi í þjónustu þeirra bræðra og síðar Össurar. Í lokin var hann seldur Einari á Ytri-Múla á Barðaströnd og bar þar beinin; allt orðið ryðgað nema húsið sem Bjarni smíðaði.
Gott viðhald vega: Vegurinn frá Hænuvík að Láganúpi fékk óvenju gott viðhald á þessu ári. Vann vegavinnuflokkur að viðgerðum í allnokkurn tíma með marga vörubíla og önnur tæki.
Þetta reyndist í síðasta sinn sem þessi vegur fékk viðhald það sem eftir lifði þeirri öld. Heflun á Hænuvíkurhálsi fékkst dálítil árið 2018, en að öðru leyti hefur varla sést vegavinnutæki á þessum vegi frá 1974 til 2020.
Fyrirmyndarkýr á Láganúpi: Bjarni Arason ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Ísland fór víða um land á þessu ári og var viðstaddur nautgripasýningar hjá nautgriparæktarfélögum. Hann gerði grein fyrir ferð sinni í Búnaðarritinu og segir m.a.: "Nautgriparæktarfélag Vestur-Barðstrendinga, sem nær yfir alla Vestur-Barðaslrandarsýslu, er nýlega stofnað. Áður voru starfandi þrjú félög á þessu svæði. Alls sýndu nú 17 bændur 62 kýr í félaginu, og hlutu 15 þeirra 1. verðlaun. Eins og að líkum lætur voru gripir á þessu svæði allsundurleitir. í Rauðasandshreppi stendur nautgriparæktin á gömlum merg og ber svipur gripanna þess merki. Sérstaka athygli vakti frábærlega góð júgurbygging kúa á Láganúpi í Kollsvík. Margt var einnig af vel gerðum gripum á Rauðasandi. Á Barðaströnd voru kýrnar misjafnari að byggingu, þótt vel gerðir einstaklingar fyndust þar einnig" (Búnaðarritið 01.01.1976).
Viðhald Gjögrabryggju: Miklar endurbætur voru gerðar á Bryggjunni á Gjögrum, með því að ekið var brimvörn fram með henni, af stórgrýti úr urðunum ofan Bardagalága.
Foktjón á Rauðasandi: Fárviðri gekk yfir austanverðan Rauðasandshrepp 12.02.1974. Í Saurbæ fauk helmingur af þakjárni íbúðarhússins og fjóssins og gluggar brotnuðu. Í Gröf fauk gafl úr hlöðu; hluti þaks og vélageymsla. Á Stökkum fauk þaka af gömlu fjósi. Í Sauðlauksdal fauk þak af rafstöðvarhúsi o.fl. Ófærð er um hreppinn á þessum tíma; póstur fer um á vélsleða. (ÞJ; Mbl. 16.02.1974).
Rostungshauskúpa á Hvallátrum: "Nú fyrir skömmu var verið að grafa hér í fornum rústum og öskuhaug, jafnvel allt frá landnámstíð. Margt beina var þar sjáanlegt, en gull ekkert. Forvitnilegast var hluti úr rostungshaus, eða sá hluti hans sem önnur tönnin hefur verið föst i, en hún hafði verið tekin úr, og sennílega verið stór, því holan eftir hana hefir mesta þvermál 6,5 cm og 13 cm djúp. Hér á þessum slóðum hafa stundum fundizt rostungstennur og ein af stærstu gerð, yfir 60 cm, en hinar mun minni. Holan í umræddu hausbeini er trúlega eftir slíka risatönn". (ÞJ; Mbl. 15.11.1974).
Bruni á Lambavatni: Hinn 13.05.1974 kom upp eldur í vélaskúr við efri bæinn á Lambavatni, sem læsti sig fljótlega í gamla bæinn þar við hliðina. Brunnu bæði húsin til grunna ásamt því sem í því var. Bærinn hefur staðið mannlaus frá 1958, en þar var ýmislegt geymt. (Mbl. 14.05.1974).
Saurbær seldur: Sigurvin Einarsson fyrrverandi alþingismaður frá Stekkadal hefur selt Saurbæ á Rauðasandi. Kaupandinn eru Árni Vestergaard (síðar Jóhannesson) sem er færeyingur að uppruna, og kona hans Ragnheiður Sigmundsdóttir. Verðið var um 2,7 milljónir króna.
Viðarferð á Strandir: Á þessum árum fóru menn úr Rauðasandshreppi í viðarferð á Strandir, líklega í fyrsta sinn frá byrðingsferðum Bjarna í Kollsvík 1710 (sjá þar). Fóru í þessa ferð m.a. Ólafur Sveinsson Sellátranesi; Marinó Kristjánsson Efri-Tungu og Helgi Árnason Neðri-Tungu. Fékkst allmikill floti af trjám sem var dreginn suður firði. (E.t.v. fóru fleiri. Líklega var farið á Fjólunni, báti Þráins Hjartarsonar á Patreksfirði).
Ekki viss um ártalið. Ekki hefur verið farin viðarferð úr Rhr á Strandir síðan. (VÖ).
1975
Byggingafélag stofnað: Stofnað hefur verið hlutafélag í Rauðasandshreppi; Byggingafélagið Höfn hf, sem hefur það að markmiði að koma á fót trésmíðaverkstæði og vinna að uppbyggingu og viðhaldi húsa. Forystumaður um stofnunina er Gunnar Össurarson húsasmíðameistari, sem ötullega hefur unnið að byggingu húsa hér á síðustu árum, en með honum munu starfa Helgi Árnason vörubílstjóri og húsasmiður frá Neðri-Tungu og Marinó Kristjánsson ýtustjóri og smiður frá Efri-Tungu. Fjölmargir sveitungar leggja fram hlutafé, þó smiðirnir mest, sen hlutafé er alls 5,5 milljónir króna. Þegar eru hafnar framkvæmdir við stórt verkstæðishús í Hvammsholti, nærri Illukeldulæk. Smiðirnir Gunnar og Helgi hyggjast einnig byggja sér íbúðarhús á tveimur hæðum, nefnt Ás, stuttu framar í holtinu.
Byggingafélagið Höfn kom að fjölda byggingaverkefna á starfstíma sínum og fullyrða má að með þeirri starfsemi hafi byggð viðhaldist lengur í hreppnum en ella. Félagið byggði íbúðarhús Gunnars og Helga að Ási; Byggðasafnshúsið á Hnjóti; stórt fjós og hlöðu á Lambavatni; íbúðarhús að Geitagili; íbúðarhús með tveimur íbúðum að Mýrum í Dýrafirði; íbúðarhúsið Miðgarð í Örlygshöfn og sölubúð Sláturfélagsins Örlygs í Hvammsholti. Það varð starfseminni áfall er Marinó Kristjánsson lést af slysförum í árslok 1980; og annað þegar Gunnar Össurarson slasaðist illa á hendi nokkrum árum síðar. Friðgeir Kristjánsson, bróðir Marinós, kom þá vestur og lauk við verkefni sem Höfn var með, einkum byggingu nýrrar verslunar í Hvammsholti. Á næstu árum dró úr starfsemi Hafnar og var félaginu slitið uppúr aldamótunum næstu.
Áfram grásleppuveiðar: Mikill kraftur er enn í grásleppuveiðum, þó fremur ónæðissamt hafi verið þetta sumarið vegna veðurs. Allir bátar gerðu út frá Gjögrum nema einn, sem gerði út frá Sellátranesi. Veiðin var góð á síðasta ári en misjafnari núna; mest um 80-90 tunnur á bát. (Næsta ár gekk betur og var aflahæsti bátur með meira en 100 tunnur).
Veiturafmagn komið á alla bæi: Orkubú Vestfjarða lauk nú um áramótin við að leggja rafmagn til Hvallátra, en þá er einlínutenging veiturafmagns komin á alla bæi í byggð í hreppnum.
Virkjun Suðurfossár í athugun: Hafinn er undirbúningur að virkjun Suðurfossár á Rauðasandi og er ætlunin að nota vötnin efra til miðlunar vatns. Vegur hefur verið lagður upp með ánni í þessu skyni. Hinn 23.07.1975 skipaði Gunnar Thoroddsen iðnaðarráðherra fimm manna nefnd til að sjá um virkjanaframkvæmdir í samræmi við ályktun Alþingis frá 14.05.1975. Í henni sitja Jóhannes Árnason sýslumaður, Hafsteinn Davíðsson rafveitustjóri, Ágúst Pétursson hreppsnefndarmaður Patrekshrepps, Runólfur Ingólfsson veitustjóri Bíldudal og Össur Guðbjartsson oddviti Rauðasandshrepps.
Ekkert varð þó af þessum áformum.
Kaupfélag Rauðasands lagt niður: Kaupfélag Rauðasands hefur nú verið lagt niður. Fremur lítið starfsemi hefur verið í því síðustu árin. Ívar Ívarsson var kaupfélagsstjóri frá 1943 til loka.
Sauðlauksdalur í eyði: Sauðlauksdalur fellur nú í eyði, með því að Skúli Hjartarson bregður búi, ásamt konu sinni Ólöfu Matthíasdóttur og stórfjölskyldu. Þau flytja að Stökkum og hefja þar ábúð. Þau fengu ekki varanlega ábúð í Sauðlauksdal þar sem vonast er eftir að prestur flytji á staðinn. (Af því hefur þó ekki orðið 2020 og er jörðin undir umsjón Vesturbyggðar en Sauðlauksdalsvatn leigt út af Stangveiðifélaginu á Patreksfirði).
Búskap lokið í Vesturbotni: Kristinn Kristjánsson hefur nú hætt fjárbúskap á jörðinni Vesturbotni, sem hann á með Magnúsi Ólafssyni frænda sínum. Er þar með lokið búskap á þessari vildisjörð, sem að fornu mati er 24 hundruð.
Kristinn flutti á Patreksfjörð 1979 og seldi Magnúsi sinn hlut í Botni. Magnús hóf þar miklar framkvæmdi við fiskeldi og virkjanir (sjá síðar). Kristinn arfleiddi félagsstarf og dvalarheimili eldri borgara að eigum sínum.
Bíslys á Raknadalshlíð: Það slys varð á Raknadalshlíð 13.12.1975 er mjólkurbíllinn var þar á sinni reglulegu ferð inn hlíðina, að grjót hrundi á veginn úr hlíðinni fyrir ofan, með þeim afleiðingum að bíllinn fór framaf kanti. Valt hann margar veltur niðu hlíðina; 50-60 metra. Bílstjórinn; Pálmi Magnússon, lést eftir slysið, en áður en bíllinn fór fyrir kant náði hann að koma syni sínum, Helga Páli, út áður en bíllinn fór framaf. Pálmi Magnússon fæddist 22.12.1936 og ólst upp á Hlaðseyri. Eins og þeir Hlaðseyrarbræður allir var hann víkingur til vinnu; sjógarpur mikill og hjálpsamur með afbrigðum. Hann hafði lengi verið í mjólkurflutningum fyrir bændur á Barðaströnd og Rauðasandshreppi og hafði farsællega komist frá ýmsum áföllum í þeim vegleysum sem þá voru. T.d. slapp hann óslasaður er mjólkurbíllinn valt ofan Neðri-Tungu fyrir nokkrum árum.
Helgi Páll tók við mjólkurflutningunum um sveitirnar er hann óx úr grasi, en þá var mjólkin flutt í tankbíl í stað brúsanna sem tíðkuðust í tíð föður hans. Þótti Helgi Páll enginn eftirbátur föður síns. Síðustu árin sem Mjólkursamlag starfaði á Patreksfirði sá Guðni Bjarnhéðinsson um flutningana, og flutti eftir það mjólk úr V-Barðastrandasýslu til Búðardals.
Magnús frá Skógi deyr af slysförum: Það slys varð í Hestfirði við Ísafjarðardjúp 30.04.1975 að Magnús Jónsson frá Skógi varð úti. Tildrögin voru þau að hann hafði verið að kenna bókband í Reykjanesskóla, en hélt þaðan áleiðis til Ísafjarðar á gömlum bíl sem hann átti. Veður var fremur slæmt og bíllinn illa útbúinn. Hann festist í lækjarsprænu í Hestfirði og þegar Magnúsi tókst ekki að losa hann hélt hann fótgangandi áleiðis að Hvítanesi. Magnús var fæddur 12.07.1905. Hann var búfræðingur frá Hólum og síðasti bóndinn á Skógi á Rauðasandi; 1934-1939. Síðar póstþjónn í Reykjavík; hringjari við Dómkirkjuna og vann ýmis önnur störf, en var síðast búsettur á Ísafirði og Bolungarvík. Hann var vel skáldmæltur og eftir hann liggja mörg góð kvæði. Við sum þeirra samdi hann sönglög sem kunningi hans; Páll Íslólfsson, raddsetti. Hann var meðal fremstu esperantista hérlendis. Kenndi hann esperanto á mörgum námskeiðum; samdi kennslubók í málinu og var með framburðarkennslu í útvarpi. (Tíminn 03.05.1975. Ísl.þættir Tímans 31.05.1975. TÓ; Ábúendatal).
Fauk útaf vegi í Hafnarmúla: Hinn 13.02.1975 gerði mikið hvassviðri af suðri. Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík var á leið útmeð firði og kominn út í Hafnarmúlann þegar vindhviða kom á bílinn og feykti honum framaf, en þarna eru háir klettar í fjöru. Annar bíll var nokkru á eftir en varð ekki var við þetta. Þegar sá mætti þriðja bílnum sem kom að utan og hvorugur hafði orðið var við Bjarna var farið að leita. Kom í ljós að bíll Bjarna hafði farið a.m.k. 3 veltur og stöðvast í urð. Honum hafði tekist að komast út úr bílnum; var ekki mikið meiddur en nokkuð marinn. Þykir mildi að ekki fór verr. (Mbl; 18.02.1975).
1976
Egill Ólafsson gefur sýslunni minjasafn sitt: Egill Ólafsson bóndi og flugvallarvörður á Hnjóti hefur allt frá unga aldri fengist við söfnun gamalla muna og leitast við að halda því til haga sem vitnað getur um siði og menningu hvers tíma. Hefur hann þannig komið upp allmiklu safni gamalla muna úr byggðarlaginu; hinu langmesta á þessum slóðum. Hefur vistun þessara muna þrengt nokkuð að hans heimili og takmörkuð aðstaða hefur verið til sýninga. Nú hefur Egill ákveðið að gefa Vestur-Barðastrandasýslu safn sitt með því skilyrði m.a. að byggt verði yfir það sómasamlegt geymslu- og sýningarhús. Var þetta ákveðið á fundi Egils með nefnd sýslunnar hinn 06.08.1976.
Efnt var til samkeppni um teikningu safnhúss og vann tillaga Magnúsar Gestssonar kennara og minjavarðar. Gunnar Össurarson frá Láganúpi var fenginn til að sjá um bygginguna á vegum Bf Hafnar hf. Síðar var húsið stækkað allnokkuð og hefur alla tíð verið fjölsótt. Þar hafa einatt verið starfandi minjaverðir, flestir faglærðir fornleifafræðingar. Eftir niðurlagningu sýslunefndar er safnið á forræði héraðsnefndar.
Orkubú Vestfjarða stofnað: Orkubú Vestfjarða var stofnað á grundvelli laga nr 66 frá 1976. Það er í sameign sveitarfélaganna á Vestfjörðum að 60% með ríkinu að 40% og tekur við hlutverki Rarik og annarra varðandi orkudreifingu og orkuframleiðslu á Vestfjörðum. Fyrstu stjórn Orkubúsins skipa Guðmundur G. Ingólfsson; Ólafur Kristjánsson og Össur Guðbjartsson að hálfu heimamanna, og Jóhann Bjarnason og Engilbert Ingvarsson að hálfu ráðuneyta. (Össur á Láganúpi var mikill hvatamaður að stofnun Orkubúsins og sat þar lengi í stjórn).
Álver í Patreksfirði ? Þórður Jónsson á Hvallátrum viðrar gjarnan nýstárlegar hugmyndir. Umræða um álbræðsluver hefur verið fyrirferðarmikil um þetta leyti og kastar Þórður fram þeirri hugmynd að það mætti reisa við Patreksfjörð vestan- og innanverðan. Þar séu m.a. hafnarskilyrði góð; enda hagi Bretar valið staðinn fyrir útflutningshöfn kola þegar kolavinnslan hófst í Stálfjalli. Landrými sé nægt til að þar rúmist bæði álbræðsla og sementsverksmiðja. Fallvötn séu á svæðinu sem megi virkja. Tekur hann þó fram að hann hafi ekki umboð landeigenda í þessu efni. (ÞJ; Mbl. 07.12.1976).
Grásleppuveiðar: Sex bátar stunda grásleppuveiðar þetta sumar. Afli var misjafn; mest um 100 tunnur af hrognum, og voru sumir með net í sjó fram í ágúst. (ÞJ; Mbl. 18.09.1976).
Sveltistaka í Blakk á Þorláksmessu: Á jólaföstunni sáust nokkrar kindur í brún sjávarklettanna í Blakk, neðan svonefndra Höfða sem eru nyrst í Hryggjunum. Líkur voru leiddar að því að þær væru frá Kristni Ólafssyni bónda og landpósti í Hænuvík. Nokkrir dagar liðu og að lokum þótti ljóst að féð væri í sjálfheldu og ákveðið að reyna að bjarga þeim. "Á Þorláksmessu árið 1976 voru eftirtaldir menn fengnir til að taka fé úr svelti í Blakksnesi: Kristinn Ólafsson Hænuvík eigandi fjárins, Össur Guðbjartsson oddviti Láganúpi í Kolsvík, Marinó Kristjánsson Efri-Tungu, Rögnvaldur Bjarnason Hænuvík, Halldór Árnason Neðri Tungu og Óli Ingvarsson Geitagili. Daginn áður en farið var í þessa för, hét Kristinn Ólafsson eigandi fjárins á Ragnheiði Magnúsdóttur húsfreyju á Hnjóti að hann skyldi gefa henni Koniaks pela ef hægt yrði að ná fénu úr sveltinu. Ferðin tókst giftusamlega, fénu var bjargað, fimm kindum úr klóm dauðans" (Texti EÓ við tóman pelann á Minjasafninu Hnjóti). Einnig var með í förinni Valdimar Össurarson Láganúpi.
Líklega var þetta í síðasta sinn sem kindum var bjargað úr svelti í Rauðasandshreppi, a.m.k. það sem eftir lifði 20.aldar, en nokkrar kindur voru skotnar úr svelti eftir þetta, m.a. í Blakknum. Frá örófi alda höfðu menn lagt sig í mikla hættu við sveltistökur, en fé leitar gjarnan í gróskumikið gras í klettum þegar þústnar að annarsstaðar. Til sveltistöku þarf sérlega færa bjargmenn, og glögga fjármenn. Oft var kindin ýmist króuð af og handsömuð eða snöru brugðið á hana, og hún síðan handlönguð eða hífð á brún.
1977
Íbúðarhúsið Ás: Gunnar Össurarson húsasmíðameistari og Helgi Árnason smiður og vörubílstjóri hafa reist sér stórt íbúðarhús á tveimur hæðum í svonefndu Hvammsholti, utan Hvammslækjar í Tungulandi; ásamt stórum tvöföldum bílskúr. Munu þeir búa þar sinn á hvorri hæð. Gunnar mun um sinn leigja hjá sér nýjum sparisjóðsstjóra (sjá neðar) og vinna hjá Byggingafélaginu Höfn hf. Helgi mun búa á efri hæðinni ásamt Ingibjörgu Sigurðardóttur konu sinni og börnum. Auk vinnu hjá Höfn rekur hann vörubílsútgerð og byggir nú upp allstórt refabú.
Valdimar flutti í Miðgarð 1980. Sama ár slasaðist Gunnar alvarlega á hendi 1980 og var óvinnufær eftir það. Eftir andlát hans 1988 eignaðist Sigurvin Össurarson hans hæð og bjó um tíma í Ási ásamt Zítu Benediktsdóttur konu sinni. Síðar eignuðust Keran St. Ólason og Birna Atladóttir hæðina, en eftir að þau fluttu í Breiðuvík keyptu hana börn Árna Helgasonar í Tungu. Helgi og Ingibjörg skildu um 1999 og fluttu á Patreksfjörð. Síðari kona Helga var Ásdís Ásgeirsdóttir, en Helgi varð bráðkvaddur 2012, en Árni sonur hans býr nú (2020) í Ási þegar hann er ekki í vinnu erlendis sem flugvirki.
Nýr sparisjóðsstjóri: Valdimar Össurarson frá Láganúpi hefur tekið við umsjón Sparisjóðs Rauðasandshrepps af Snæbirni J. Thoroddsen í Kvígindisdal, sem gegnt hefur starfi sparisjóðsstjóra nær frá stofnun sjóðsins 1910. Snæbjörn var einn elsti og farsælasti sparisjóðsstjóri landsins en Valdimar er nú yngstur 44 sparisjóðsstjóra í landinu; 21 árs að aldri. Sparistjóðurinn hefur verið til húsa í Kvígindisdal í tíð Snæbjarnar en flyst nú út í Örlygshöfn. Mun sjóðurinn og umsjónarmaður hans í fyrstu verða í Félagsheimilinu Fagrahvammi en síðan flytja að Ási, í íbúð Gunnars Össurarsonar. Staða sparisjóðsstjóra er hálft starf, en Valdimar tekur einnig á sama tíma við afgreiðslustörfum hjá Sláturfélaginu Örlygi á Gjögrum.
Valdimar keypti síðar íbúðarhúsið Miðgarð sem var byggt af Rauðasandshreppi í flokki leigu- og söluíbúða sveitafélaga. Fékk sparisjóðurinn þar skrifstofuaðstöðu. Umsvif sparisjóðsins margfölduðust fljótt með aukinni þjónustu og gjörbreyttu starfsumhverfi. Bundir hávaxtareikningar voru teknir upp og stuttu síðar hlaupareikningar. Þeim fjölgaði ört og varð tékkanotkun gríðarmikil, en hún var öll handfærð og vaxtareikningur sömuleiðis. Arðsemi slíkra viðskipta var þó í engu samræmi við umfangið með þessu frumstæða fyrirkomulagi. Gat því ekki hjá því farið að sparisjóðurinn rynni inn í tölvuvædda bankastofnun, og var hann sameinaður Eyrasparisjóði 01.01.1988. Við lokauppgjörið tók sparisjóðsstjóri fulla ábyrgð á sínum störfum og enginn sparifjáreigandi varð fyrir tjóni. Sparisjóður Rauðasandshrepps var sveit sinni mjög þarfur þann tíma sem hann starfaði og lagði oft bein framlög til framfaramála. Þörf fyrir sérstaka bankastofnun fór hinsvegar þverrandi með þeirri fólksfækkun sem orðin var; líkt og var í verslunarmálum.
Úttekt á búskaparháttum í Rauðasandshreppi: Gunnlaugur Júlíusson frá Móbergi og landbúnaðarhagfræðingur hefur unnið skýrslu fyrir Fjórðungssamband Vestfjarða um búskaparhætti í Rauðasandshreppi. Gerði hann úttekt á þeim 22 jörðum sem nú eru í byggði í hreppnum, varðandi húsa- og vélakost, heyfeng, ræktun o.fl. og kannaði fyrirætlanir manna um búskap og framkvæmdir. Össur Guðbjartsson oddviti taldi að skýrslan gæti e.t.v. nýst til áætlanagerðar og auðveldað bændum fyrirgreiðslu sjóða. (Tíminn. 15.09.1977).
1978
Kaupfélag Rauðasands leggst af: Kaupfélag Rauðasands, sem stofnað var 1930, hefur nú sameinast Kaupfélagi Patreksfjarðar. (ÖG; Rauðasandshreppur).
Alþingi fjallar um sölu Kollsvíkur: Steingrímur Hermannsson þingmaður Framsóknarmanna á Vestfjörðum hefur flutt um það tillögu á Alþingi að Jarðakaupasjóði ríkisins verði heimilað að selja Össuri Guðbjartssyni á Láganúpi jörðina Kollsvík. (Mbl. 30.03.1978).
Barnaheimili í Sauðlauksdal: Í sumar var í annað sinn starfrækt sumardvalarheimili fyrir börn í Sauðlauksdal. Það eru frænkurnar Rut Ingvarsdóttir frá Kollsvík, Eyrún Guðmundsdóttir frá Kvígindisdal og Ásrún Atladóttir frá Patreksfirði sem standa fyrir rekstrinum. Aðsókn hefur verið góð og börnunum líkað vel. (ÞJ; Mbl. 24.01.1980).
Dýralæknamál: Breytingar eru að verða varðandi dýralækningar á svæðinu, með því að faglærður dýralæknir sest að í nýbyggðu húsi á Krossholtum á Barðaströnd; Gunnar Már Gunnarsson.
Í Rauðasandshreppi hafa bændur og dýr notið þess að hafa tvo frábæra dýralækna búandi í sveitinni síðustu öldina. Hinn fyrri var Sveinn Magnússon á Lambavatni sem lést 1929 (sjá þar), en hann var auk þess annálaður læknir og hómópati. Sá síðari er Ólafur Magnússon á Hnjóti, sem nú er 78 ára en hefur stundað dýralækningar framundir þetta ásamt störfum sínum að búi og félagsmálum. Ólafur naut lítilsháttar tilsagnar hjá Ásgeir Einarssyni dýralækni, en byggði lækningar sínar ekki síður á næmi og innsæi. Hann var alltaf boðinn og búinn að líta á skepnur bænda og þáði aldrei laun fyrir sína vinnu. Var nánast óbrigðult að sú skepna fékk bót sem naut aðhlynningar Ólafs á Hnjóti. Kona Ólafs er Ólafía Egilsdóttir, sem lengi var ljósmóðir í Rauðasandshreppi). (Viðtal í Mbl. 08.12.1985)
Bændum brá nokkuð við það, er Ólafur hætti, að þurfa að greiða fyrir dýralækningar sem áður voru í sjálfboðavinnu. Dýralæknir bjó ekki lengi á Barðaströnd og eftir það var umdæminu sinnt frá Ísafirði. Nutu íbúar Rauðasandshrepps þá Ásgerðar Emmu Kristjánsdóttur ljósmóður þann tíma sem hún bjó í Efri-Tungu.
Gröf í eyði: Býlið Gröf á Rauðasandi er nú komið í eyði, með því að Þorvaldur Bjarnason (25.09.1893-09.11.1979) og Ólöf Dagbjartsdóttir (03.08.1894-04.05.1986) flytja að Melanesi til Vigdísar dóttur sinnar og Braga Ívarssonar manns hennar. Þorvaldur er ættaður af Barðaströnd en Ólöf er fædd og uppalin í Gröf. Gröf er gamalt býli en var þó í eyði, líkt og nágrannakotið Klúka, er jarðabókin var gerð 1703. Þorvaldur var natinn bóndi þó ekki væri búið stórt, og glöggur á veður og aðra spádóma. En byggingar voru fornar orðnar þegar búskap var hætt.
Íslandsmet í svifdrekaflugi: Bræðurnir Hálfdán og Örn Ingólfssynir frá Ísafirði settu nýtt Íslandsmet í svifdrekaflugi hinn 16.09.1978 er þeir svifu í eina klukkustund og 25 mínútur við Rauðasand og Látrabjarg, um 21,5 km vegalengd og í 500-700 metra hæð.
1979
Vistheimilið í Breiðuvík lagt niður: Unglingaheimili ríkisins að Breiðuvík, sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum, hefur nú verið lagt niður eftir rúmlega aldarfjórðungs rekstur. Meginástæðan er sögð sparnaður í ríkisrekstri, en eflaust á fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu stóran þátt að máli, auk breyttra viðhorfa í meðferðarmálum unglinga. Reksturinn hefur sett nokkurn lit á samfélagið í hreppnum á þessum tíma. Þar hefur verið nokkuð fjölmennt starfslið og hefur hreppssjóður haft nokkrar tekjur af þessum rekstri gegnum útsvör og gjöld. Þá hafa staðarhaldarar iðulega reynst nýtir samfélagsþegnar á ýmsan hátt og vistmenn sömuleiðis. Hreppsbúar hafa stöku sinnum fengið þarna vinnu, t.d. við framkvæmdir. Síðustu umsjónarmenn vistheimilisins eru Jónas H. Jónsson og Árnheiður Guðnadóttir. Þau munu kaupa jörðina af ríkissjóði; reka þar búskap og setja á stofn ferðaþjónustu.
Mörgum árum eftir lokun heimilisins komu upp mál um misnotkun vistbarna að hálfu tiltekinna stjórnenda og starfsmanna Breiðavíkurheimilisins fyrr á tíð. Allt var það án vitundar hreppsbúa.
Er gagn að „bakpokalýðnum“ ? Árnheiður (Adda) og Jónas í Breiðuvík hyggjast koma á fót ferðaþjónustu í hinum miklu húsakynnum sem áður hýstu vistheimilið. Margur hreppsbúinn glottir sér í kamp, og telur slíkt ekki mikinn gróðaveg. Þó ekki verði sagt að fordómar séu áberandi í þessu friðsemdarsamfélagi þá gætir þeirra líklega helst gagnvart þeirri manntegund sem almennt gengur undir nafninu „bakpokalýður“. Það heiti tíðkast almennt um þá sem flandra um landið án nokkurs sjáanlegs tilgangs. Gengur um lönd bænda án þess að þurfa að gá til kinda eða leita reka; bælir niður óslægjuna eins og hver annar stórgripaflokkur og situr andaktugur og glápir á sjó, kletta og fugl án þess að hafa döngun í sér til róðra eða bjargsiga. Löngum hafa menn hneykslast á þessum stefnulausa flökkulýð, en útyfir tekur að einhver skuli bera það upp í höfuðið að unnt sé að græða á túristabúskap.
Ekki voru þó mörg ár í að álit manna á slíkum atvinnuháttum breyttist. Hefðbundnum búskap hnignaði áfram, svo jaðraði við eyðingu hreppsins. Fór þá bændum líkt og kappanum Ragnari reykás; að þeir sneru við blaðinu (margir hverjir) og tóku að byggja afkomu sína á því að þjóna því sem áður var „bakpokalýður“, en nefnist nú „ferðamaður“. Menn sáu að ferðaþjónustan í Breiðuvík reyndist haldbetri tekjulind en nokkur búskapur sem þar var reyndur. Nú (2020) eru í gamla Rauðasandshreppi 3 hótel, 2 kaffihús, 3 tjaldsvæði, smáhúsaleiga og byggðasafn, á sama tíma og búskapur er einungis á 3 bæjum í einhverjum mæli. (Sjá Breiðuvík 1983 og síðar).
Stórfellt laxeldi fyrirhugað á Ósum: Magnús Ólafsson í Vesturbotni er stórhuga og fer ekki troðnar slóðir. Hann vinnur nú að gerð mikilla sjávarlóna á Ósum, í mynni Ósaár, með því að ýta upp kynstrum af möl. Magnús hafði lengi rekið stóra jarðýtu í félagi við Marinó Kristjánsson, Bjarna Sigurbjörnsson og Ólaf Sveinsson, en þeir unnu á henni til skiptis í vegagerð. Magnús hefur nú keypt hina út úr sameigninni og notar ýtuna við framkvæmdir sínar. Hann þarf að sæta sjávarföllum við lónagerðina. Samhliða vinnur hann að undirbúningi þess a virkja árnar kringum Ósafjörðinn og hefur í því skyni lagt vegi til fjalla og ýtt upp miklum stíflugörðum. Hefur hann útvegað sér allmikið magn stálröra í virkjanirnar og hyggst nota raforkuna við laxeldið. Einhverjir líta þessar framkvæmdir hornauga vegna umhverfisáhrifa og aðrir telja vafasamt að laxeldi takist vegna vetrarkulda á þessum stað. En Magnús tekur lítt mark á úrtöluröddum. Þetta er ekki fyrsta frumkvöðlastarf hans, en nefna má að hann hefur lengi ekið um landið í stórum sérsmíðuðum verslunarbíl; þannig haldið uppi verslunarþjónustu í fjarlægustu kimum landsins og kynnt um leið heilsubótarvarning.
Magnúsi entist þó ekki aldur til að sjá laxeldisdrauma sína rætast; hann lést 19.11.1998; 85 ára að aldri.
Grásleppu- og þorskveiði í Patreksfirði: Allnokkuð er gert út á grásleppu í Patreksfirði, einkum frá Gjögrum en einnig frá kaupstaðnum. Lagnirnar eru að mestu sunnanmegin; frá Gjögrum út undir Þyrsklingahrygg. Veiði hefur verið all góð og netafjöldi fer vaxandi. Þá hefur nú gengið þorskur í fjörðinn í fyrsta skipti í áratugi, og yfirleitt hefur þorskgengd aukist á grunnslóð. (ÞJ; Mbl. 24.01.1980).
1980
Síðasta slátrun á Gjögrum: Þetta haust er hið síðasta sem slátrað verður í sláturhúsinu á Gjögrum. Næsta haust mun slátrun fjár úr Rauðasandshreppi fara fram í sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Barðstrendinga á Patreksfirði, í húsi sem áður var Hraðfrystihús Patreksfjarðar.
Íbúafjöldi: Íbúar í Rauðasandshreppi eru nú um 120 manns, líkt og verið hefur síðustu árin. (ÞJ; Mbl.24.01.1980).
Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti: Vigdís Finnbogadóttir (f. 15.04.1930) var kjörin forseti Íslands 29.06.1980 með 33,8% atkvæða, en Guðlaugur Þorvaldsson fyrrverandi háskólarektor fékk 32,3% og tveir aðrir færri. Segja má að Vigdís sé ættuð úr Rauðasandshreppi, en föðurafi hennar var séra Þorvaldur Jakobsson; prestur í Sauðlauksdal 1896-1919. Hann var, líkt og Finnbogi Rútur, faðir Vigdísar, framarlega í félagsmálum í Rauðasandshreppi meðan þeir voru þar vestra. Finnbogi Rútur varð síðar prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, en Sigríður Eiríksdóttir kona hans var hjúkrunarfræðingur.
Vigdís var fyrsta konan í embætti forseta. Hún reyndist farsæl og vinsæl í starfi og sat fjögur kjörtímabil; til 1996. Umdeildasta verk hennar var staðfesting laga um inngöngu Íslands í EES. Vildu margir að hún vísaði því til þjóðaratkvæðagreislu, en fyrir slíku var þá engin hefð.
Vinnuslys á trésmíðaverkstæði: Gunnar Össurarson slasaðist við sögun á trésmíðaverkstæðinu Höfn er hann var að saga lista til frágangs á húsinu Miðgarði sem hann hefur verið að byggja. Fékk hann svöðusár á hendi, og var ekið í skyndingu á sjúkrahúsið á Patreksfirði. (ÞJ; Mbl. 31.12.1981).
Tókst að græða höndina, en Gunnar varð aldrei samur eftir þetta slys þar sem hann taugar virtust hafa skaddast varanlega. Það varð honum aukið áfall er Marinó í Efri-Tungu lést sömmu síðar af slysförum.
Banaslys í Efri-Tungu: Það hörmulega slys varð í Efri-Tungu hinn 16.12.1980 að dráttarvél valt fyrir ofan bæinn og varð stjórnandinn undir henni og lést samstundis. Hann hét Marinó Bjarni Kristjánsson, bóndi í Efri-Tungu, ýtustjóri og smiður; fæddur 29.06.1930. Marinó var nýkominn heim frá því að aðstoða við móttöku fóðurbætis við kaupfélagið á Gjögrum, en hjálpsemi hans og dugnaði var við brugðið. Var hann að leggja vélinni, en bratti er ofanvið bæinn og bremsur vélarinnar höfðu gefið sig. Vélin rann því fram af kanti; valt og Marinó varð undir. Marinó hefur verið stoð og stytta móður sinnar við búreksturinn ásamt Halldóri bróður sínum, frá því faðir þeirra lést. Marinó hefur lengi unnið á ýtu og einnig sem smiður, en hann var með laghentari mönnum. Þeir bræður gerðu út á grásleppu. Marínó smíðaði sér bát fyrir nokkrum árum og hafði lagt drög að kaupum á nýjum bát er hann lést. Hann vann ýmis trúnaðarstörf fyrir sína sveit.
Stuttu eftir þetta flutti Ásgerður Emma systir Marinós til Tungu ásamt Hallgrími Aðalsteinssyni manni sínum og fluttu þá Dagbjört og Halldór á Patró í hús sem þau keyptu þar. Halldór gerði þar út hinn nýja bát sem Marinó hafði pantað; nefndi hann Heppin og þótti mikil aflakló.
Hænsnarækt í Breiðuvík: Hjónin Jónas H. Jónsson og Árnheiður Guðnadóttir keyptu Breiðavíkurjörðina eftir að unglingaheimilið var lagt niður. Þau hafa nú hafið hænsnarækt til eggjaframleiðslu og komið sér upp 500 varphænum. Eggin eru seld til Patreksfjarðar, en metta þó ekki markaðinn þar. (ÞJ; Mbl. 03.07.1980).
Íbúðarhúsið Miðgarður: Byggt hefur verið íbúðarhúsið Miðgarður í miðju Hvammsholti, en svo er holtið nefnt milli Illukeldulækjar og Hvammslækjar í Tungulandi; neðan félagsheimilisins Fagrahvamms, og skólans. Þar í holtinu eru fyrir verkstæðishús Bf Hafnar; verbúð Ólafs Helgasonar og íbúðarhúsið Ás (sjá 1977). Rauðasandshreppur hefur látið setja þar upp fráveitu og götulýsingu og er þarna fyrirhugaður byggðakjarni sveitarinnar á 5 ha spildu sem hreppurinn keypti úr Tungulandi. Miðgarður, sem er íbúðarhús á einni hæð með tvöföldum bílskúr, er byggður í kerfi leigu- og söluíbúða sveitarfélaga, en þar mun búa Valdimar Össurarson og þar verður Sparisjóður Rauðasandshrepps til húsa. Húsið er byggt af Byggingafélaginu Höfn.
Sparisjóður Rauðasandshrepps var sameinaður Eyrasparisjóði í ársbyrjun 1988. Valdimar bjó um tíma í húsinu, en eftir að hann flutti eignaðist það Egill Ólafsson á Hnjóti. Um tíma leigði þar Guðni H. Jónasson í Breiðuvík með sinni fjölskyldu, en eftir að hann flutti suður hefur húsið verið notað fyrir safnverði Minjasafnsins á Hnjóti.
Kviknaði í uppþvottavél: Eldur kom upp 07.05.1980 í eldhúsi íbúðarhússins í Neðri-Tungu. Fólkið vaknaði við reykskynjara og hringt var eftir aðstoð slökkviliðs Rauðasandshrepps. Fljótlega tókst þó að ráða niðurlögum eldsins með handslökkvitækjum. Allir sluppu heilir, en nokkuð tjón varð í eldhúsinu. (Mbl; 08.05.1980).
1981
Barn drukknar í Örlygshöfn: Það hörmulega slys vildi til að fjögurra ára drengur, Hrafnkell Hjartarson frá Hænuvík, drukknaði í Hvammslæk í Örlygshöfn þann 03.04.1981. Snjóhulda var yfir lautinni og læknum á þessum stað og hafði Hrafnkell verið að leik í lautinni með Þór Þórðarsyni í Ási, sem var nokkrum árum eldri, og Sigrúnu Helgadóttur frá sama bæ sem er yngri. Snjóhuldan brast og bjargaðist Þór upp á bakkann en Hrafnkell hvarf niður lækinn. Þegar hann fannst eftir nokkra leit var hann látinn. Hrafnkell var eina barn Gróu Bjarnadóttur frá Hænuvík; efilegt barn og eftirlæti allra sem kynntust honum.
Ábúendaskipti í Efri-Tungu: Ásgerður Emma Kristjánsdóttir og maður hennar Hallgrímur Aðalsteinsson hafa tekið við búi í Efri-Tungu af Dagbjörtu Torfadóttur móður Emmu og Halldóri bróður Emmu, en þau flytja nú á Patreksfjörð. Marinó bróðir Emmu lést á síðasta ári í dráttarvélaslysi og á það atvik eflaust þátt í þessum breytingum. Emma hefur unnið sem ljósmóðir, lengst af á Húsavík, en þaðan flytja þau núna. (ÞJ; Mbl. 31.12.1981).
Emma hóf fljótlega vinnu á sjúkrahúsinu á Patreksfirði meðfram búskapnum, auk þess sem hún sinnti lækningum á mönnum og dýrum í sveitinni. Hallgrímur gerði um tíma út á grásleppu með Halldóri mági sínum.
Ábúendaskipti á Húsabæ á Hvallátrum: Haukur Þórðarson og kona hans Sigrún Huld Jónsdóttir hafa tekið við búi á Húsabæ á Hvallátrum af Þórði Jónssyni föður Hauks. Þórður hefur búið allan sinn aldur á Látrum og er nú orðinn heilsuveill, og kona hans Sigríður Ó. Thoroddsen er nýlega látin. Þórður var lengi hreppstjóri á Látrum, auk margra annarra trúnaðarstarfa og félagsmálastarfa. Hann var lipur bjargmaður og formaður slysavarnadeildarinnar Bræðrabandsins. Var hann m.a. í forystu við björgunarafrekið við Látrabjarg; björgunina úr Dhoon og oftar. Haukur hefur unnið sem járnsmiður í Reykjavík, en Sigrún við skrifstofustörf o.fl. Á Látrum munu þau reka sauðfjárbú.
Á þessum árum hallaði ört undan fæti í afkomu sauðfjárbúa og því voru ekki mörg ár í að búskap á Hvallátrum lyki endanlega. Haukur og Sigrún fluttu þá aftur suður.
Ábúendaskipti í Hænuvík: Guðjón Bjarnason og María Ólafsdóttir hafa tekið við búskap í Hænuvík af foreldrum Guðjóns; Bjarna Sigurbjörssyni og Dagbjörgu Ólafsdóttur. María er frá næsta bæ; Sellátranesi, dóttir Ólafs Sveinssonar og Grétu Árnadóttur. (ÞJ; Mbl. 31.12.1981).
Auk Sauðfjárbúskapar hafa Guðjón og María, ásamt dætrum sínum tveimur, komið sér upp allnokkurri ferðamannaþjónustu í Hænuvík. Leigja þau út smáhús á jörðinni, bæði uppgerð eldri hús og hús sem Guðjón byggði sjálfur. Reksturinn er ekki umfangsmikill enda leggja þau fremur áherslu á að láta hann byggja sig upp sjálfan og að gestir séu ánægðir með dvölina. Guðjón er nú (2020) nánast eini sauðfjárbóndinn sem eitthvað kveður að í Rauðasandshreppi; a.m.k. utan Rauðasands. Hann hefur nýtt eyðijarðir í næsta nágrenni til beitar og slægna, en smalamennskur eru erfiðar þegar svo hefur fækkað í hreppnum.
Ábúendaskipti á Melanesi: Frá Melanesi fluttu á árinu Vigdís Þorvaldsdóttir og Bragi Ívarsson og setjast að á Patreksfirði. Við búi taka Ólöf Matthíasdóttir, dóttir Vigdísar, og Skúli Hjartarson (Skúlasonar). (ÞJ; Mbl. 31.12.1981).
Grænlenskur rækjutogari sekkur undan Blakknesi: Rækjutogarinn Sermelik frá Sykurtoppnum í Grænlandi sökk á Patreksfjarðarflóa 23.03.1981. Níu skipverjum var bjagað í togarann Ásgeir en skipstjórinn drukknaði. Rækjutogarinn Sermelik var orðinn mjög ísaður er hann fékk á sig ólag við Blakknes. Talið er að loki hafi gefið sig neðan sjávarmáls og það, ásamt ísingunni, hafi valdið slysinu. Sermelik var 54 metra langt stálskip, byggt 1950 og ætlað til hvalveiða í Norðurhöfum, en hafði nýlega verið breytt í rækjutogara.
Síðan hefur nokkrum sinnum verið kafað niður í skipið, sem liggur á 35-40 metra dýpi.
Garðari siglt upp í fjöru í Skápadal: Hinn 13.12.1981 fór vélbáturinn Garðar á Patreksfirði í sína síðustu siglingu, er Jón Magnússon (03.03.1930-20.08.2019) eigandi hans og skipstjóri til margra ára sigldi honum upp í hróf sem gert hafði verið í sjávarkambinn í Skápadal, sem er eignarjörð Jóns. Garðar hafði þá verið dæmdur af skipaskrá sakir aldurs og lasleika. Skipið var smíðað í Osló 1912; 149 lestir að stærð, úr úrvalsstáli enda ætlað til siglinga í ís til sel- og hvalveiða, auk fiskveiða. Skipið var umbyggt 1945 og sett í það ný vél. Það var í eigu nokkurra aðila þar til fyrirtæki Jóns keypti það 1976. Jón var einn af kunnari aflaskipstjórum landsins og rak lengi útgerð og fiskvinnslu á Patreksfirði. Hrófið fyrir Garðar gerði Magnús Ólafsson í Vesturbotni. Þannig varðveisla skips af þessari stærð er einsdæmi á landinu, en bygginganefnd Rauðasandshrepps veitti leyfi gegn því að skipinu verði þokkalega við haldið meðan það er í hrófinu. (ÞJ; Mbl. 31.12.1981).
1982
Nýtt verslunarhús Sláturfélagsins Örlygs: Lokið er byggingu nýs verslunarhúss Sláturfélagsins Örlygs í Hvammsholti í Örlygshöfn; nærri félagsheimilinu Fagrahvammi. Þetta er steinsteypt hús með rúmgóðu verslunarrými og tvískiptu lagerrými. Við verslunina verður bensínsala af rafknúinni dælu. Með húsinu stórbatnar öll aðstaða verslunarinnar og færist til nútímahorfs. Bygging nýrrar verslunar var óumflýjanleg, enda samræmdist gamla húsnæðið hvorki heilbrigðiskröfum né öðrum kröfum nútímaverslunar. Hinsvegar eru nú váleg teikn á lofti um rekstrargrundvöll Örlygs, með örri fólksfækkun í hreppnum, samdrætti í afurðasölu og fleiru. Valdimar Össurarson tekur við störfum kaupfélagsstjóra af Guðmundi Jóni Hákonarsyni, sem gegnt hefur þeim frá 1958 (sjá þar). Líkur eru þó á að félagið verði brátt hluti af stærri heild kaupfélaga á svæðinu (sjá 1983).
Vélaverkstæði í Örlygshöfn: Sett hefur verið á fót vélaverkstæðið Vélfaxi í húsnæði Byggingafélagsins Hafnar í Örlygshöfn. Vélfaxi er samvinnufélag Svavars Guðbjartssonar frá Lambavatni og Valdimars Össurarsonar frá Láganúpi. Svavar er vélvirki og hefur lengi unnið að sinni iðn á Patreksfirði og víðar.
Vélfaxi starfaði í nær áratug við hin ýmsu verkefni; bifreiðaviðgerðir, bátavélar, járnsmíði og fleira. Oftast unnu einn og tveir starfsmenn þar ásamt Svavari. Allir bjuggu þeir í Miðgarði, húsi Valdimars. Svavar lést 26.06.2004 eftir nokkurra ára heilsuleysi.
Kirkjuvígsla í Saurbæ: Nýreist kirkja var vígð í Saurbæ hinn 05.09.1982 að viðstöddu fjölmenni. Þetta fornfræga höfuðból hefur verið án kirkju frá því hin fyrri fauk í ofviðri í janúar 1966. Rauðsendingar hafa unnið að því öllum árum að fá kirkju á staðinn og að öðrum ólöstuðum hafa Ari Ívarsson og Ásta Stefánsdóttir farið þar framarlega í flokki. Niðurstaðan varð sú að reisa í Saurbæ hina gömlu Reykhólakirkju, sem þar var byggð um 1850 en hafði verið tekin ofan og geymd að Bessastöðum um tíma. Kirkjan er byggð í gullinsniði. Saurbæjarkirkja á marga góða og einstaka gripi. Til dæmis koparljósahjálm sem upphaflega mun kominn frá Eggert lögmanni Hannessyni um 1560; altaristöflu sem líklega er máluð af Hjalta Þorsteinssyni Vatnsfjarðarprófasti um 1700 og sýnir Saurbæjarhöfðingjana Guðrúnu Eggertsdóttur og Björn Gíslason; og skírnarfat frá 1697 sem er í nýlega smíðuðum fonti, skornum af Sveini Ólafssyni myndskurðarmeistara frá Lambavatni. Þjár klukkur eru í turni; tvær þeirra með nafni Eggerts Hannessonar frá 1566 og ein með nafni Guðrúnar Eggertsdóttur með ártalinu 1710.
Sprengju rekur á Melanesi: Bóndinn á Melanesi, Skúli Hjartarson, fann nú síðla vetrar sívalning úr áli á fjörum á Melanesi. Smellt lok virtist vera á öðrum enda hans. Skúli lét þetta vera, en nokkru síðar komu aðrir; tóku hlutinn upp og opnuðu endann. Þar inni virtist einhver búnaður og innar var sprengjuhleðsla. Menn frá Landhelgisgæslunni komu vestur og sprengdu gripinn. Kom þar allmikil gryfja í jörðina sem sprengt var, en heimamenn töldust heppnir að sleppa svo vel frá fikti sínu. (ÞJ; Mbl. 09.05.1982).
Hreppsnefndarkosningar í Rauðasandshreppi: Hinn 26. júní fóru fram sveitarstjórnarkosningar í Rauðasandahreppi eins og annarsstaðar. Kosið var í félagsheimilinu Fagrahvammi og var kosningin óhlutbundin eins og endranær. Á kjörskrá voru 68, en 50 kusu. Kosningu hlutu: Össur Guðbjartsson Láganúpi 42 atkvæði; Árnheiður Guðnadóttir Breiðuvík 19 atkvæði og Óli Ingvarsson Geitagili 20 atkvæði. Í sýslunefnd var kosinn Össur Guðbjartsson með 36 atkvæðum. Árnheiður og Óli koma inn í hreppsnefnd í stað Vals S. Thoroddsen Kvígindisdal og Árna Helgasonar Neðri-Tungu. Össur hefur verið endurkosinn oddviti. (Mbl. 13.07.1982).
Fjallskilareglugerð fyrir V-Barð: Gefin hefur verið út fjallskilareglugerð fyrir Vestur-Barðastrandasýslu, sem kemur í stað hinnar fyrri, frá 1958. Þar eru ákvæði um stjórn fjallskilamála; mörk og markaskrár; notkun beitilanda; heimild til ítölu; réttardaga og fjallskilaskyldu; réttir og meðferð óskilafjár; fé í ógöngum; vorsmalanir og önnur ákvæði. Undirrituð af Pálma Jónssyni landbúnaðarráðherra.
Útgerð frá Gjögrum: Allmikil útgerð smábáta er nú frá Gjögrum í Öslygshöfn (sjá einnig 1966). Ekki er þó unnt að kalla það verstöð í líkingu við þær sem fyrrum voru í Útvíkum, þar sem undantekning er ef þar er legið við. Yfirleitt fara sjómenn hver til síns heima að loknum veiðidegi. Þarna er eingöngu gert út á hrognkelsaveiðar í net. Bátarnir eru flestir um 1 tonn að burðargetu; sumir stærri aðrir minni, en allir með vél. Þeir sem róa frá Gjögrum hafa allir verkunaraðstöðu í sláturhúsi Örlygs; hver í sínu skoti. Þar er rafknúin hrognaskilja sem upphaflega var keypt af frumherjunum; Árna Helgasyni í Tungu og Þórhalli Hálfdánarsyni í Breiðuvík, en síðari útgerðir keyptu sig að. Eftir skiljun er hrognunum hrælt gegnum grófsigti og þau látin standa í a.m.k. dægur á hrognasigti. Þá er þeim hrært samanvið fíngert salt og rotvarnarefni og síðan hellt á hrognatunnur. Bátar leggja að Gjögrabryggju eftir að hálffallið er, og landa. Báturinn er síðan settur á kerru og dreginn með bíl eða traktor upp í sátrið ofan lendingarinnar. Er þar þétt raðað þegar bátar eru flestir. Grásleppumiðin eru í þaragarðinum útmeð landinu, frá Gjögrum nær óslitið út að Kofuhleinum undir Ytri-Hlíðum. Sumsstaðar liggja þau mjög grunnt við landið en annarsstaðar í kantinum fjær landi. Einnig leggja menn langt úti í Flóa og mikil netamergð er á Breiðuvíkinni; frá Landamerkjahlein að Vilhjálmsvör. Sumir leggja norður undir Kóp; við Krossadal og víðar. Þeir sem róa frá Gjögrum eru einkum þessir:
Árni Helgason Neðri-Tungu rær á Fönix; báti sem hann smíðaði sjálfur (líkl. um 1969). Árni var frumherji í grásleppuútgerð og reri fyrst öðrum báti. Með Árna róa synir hans, oftast Helgi Árnason. Þórhallur Hálfdánarson í Breiðuvík byrjaði um svipað leyti og Árni; á bátnum Gullskó sem Kristinn Ólafsson í Hænuvík keypti síðar og reri m.a. með Ólafi Bjarnasyni frænda sínum; ýmist úr Hænuvík eða frá Gjögrum; einnig um tíma með Val Thoroddsen í Kvígindisdal. Ingvar Hjartarson frá Sauðlauksdal reri um tíma frá Gjögrum og hafði viðlegu í bragganum. Bræðurnir Marinó og Halldór Kristjánssynir byrjuðu snemma að róa á bátnum Reyni, sem smíðaður var af Andrési Karlssyni. Síðar smíðaði Marinó lítinn bát sem hann nefndi Elliða, en bar gæluheitið Gonnan. Síðar reri Sigurvin Össurarson frá Kollsvík á þeim báti ásamt Benedikt syni sínum. Ólafur Helgason frá Tröð rær á bát sem hann hefur smíðað og nefnist Örn, en með honum róa synir hans; í fyrstu Halldór. Bræðurnir Össur og Ingvar úr Kollsvík róa á bátnum Rut sem smíðaður er af Ólafi Sveinssyni á Sellátranesi. Í upphafi reru þeir úr Hænuvík á bátnum Von, og verkuðu aflann í skúr sem fluttur var þangað frá Stekkjarmel. Þá hafði Bjarni Sigurbjörnsson rutt dágóða vör í Hænuvíkurlendingu. Eftir brottflutning Ingvars reri Valdimar Össurarson með föður sínum frá Gjögrum. Guðni H. Jónasson í Breiðuvík rær upphaflega á bátnum Krumma sem er sómabátur, og með honum Valdimar Össurarson. Eftir að Krummi sökk á legunni á Gjögrum fær Guðni bátinn Nökkva og rær Valdimar á honum með Þór Þórðarsyni í Ási. Ólafur Sveinsson Sellátranesi og Óli Ingvarsson Geitagili róa frá Sellátranesi á bátnum Guðnýju, sem smíðaður er af Óla á Nesi, en síðar fá þeir sér hraðfiskibát með sama nafni. Ólafur hefur gert ágæta lendingu og verkunarhús á Sellátranesi.
1983
Sláturfélagið Örlygur rennur inn í Kaupfélag V-Barðstrendinga: Sláturfélagið Örlygur hefur nú verið sameinað fleiri kaupfélögum í Vestur-Barðastrandasýslu í Kaupfélag V-Barðstrendinga. Sameiningarviðræður hafa staðið nokkurn tíma, en langt er síðan fyrst var farið að huga að sameiningarmálum. Rekstur Örlygs hefur þyngst nokkuð upp á síðkastið, eftir að byggð var ný sölubúð þess á Hvammsholti í Tungulandi fyrir einu ári. Þar er aðstaða öll til fyrirmyndar og búðin opin reglulega með starfsmanni í hlutastarfi. Þessi aukni kostnaður kemur til á sama tíma og veruleg fækkun er að verða í hreppnum; afurðainnlegg bænda minnkar og breyttir viðskiptahættir verða varðandi t.d. reikningsviðskipti.
Ferðaþjónusta í Breiðuvík: Hjónin Árnheiður Guðnadóttir og Jónas H. Jónsson hafa keypt Breiðavíkurjörðina af ríkissjóði. Þau höfðu um tíma kálfaeldi og fjárbúskap en hafa nú snúið sér í auknum mæli að ferðaþjónustu. Kostar það allnokkrar endurbætur á húsakosti staðarins. Mikill og vaxandi fjöldi ferðafólks fer um leiðina út á Látrabjarg og ætti því þarna að vera grundvöllur fyrir öflugri ferðaþjónustu á sumrin, þó ekki sé von um slíkt að vetrarlagi. (Sjá 1979 um „bakpokalýðinn“).
Minjasafn opnað á Hnjóti: Hinn 21.06.1983 var Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti formlega opnað af Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands, að viðstöddu fjölmenni. Egill Ólafsson hefur af mikilli elju og þrautseigju komið upp fágætu safni muna sem sýna sögu atvinnulífs og menningar sýslunnar á síðustu öldum. Safnið gaf hann sýslunni fyrir nokkrum árum gegn því að yfir það yrði byggt. Safnhúsið er nú risið og þykir hið glæsilegasta. Svo mikið er safn Egils að ekki næst að sýna það allt, og er þó þétt raðað á sýningunni. Ljóst er því að stækkunar er þörf innan fárra ára.
Vigdís forseti heimsækir Rauðasandshrepp: Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands kom í opinbera heimsókn í Rauðasandshrepp 22. júní. Hún er þar komin á ættarslóðir; sonardóttir séra Þorvaldar Jakobssonar í Sauðlauksdal. Vigdís fór út á Látrabjarg í fylgd Þórðar og Ásgeirs á Látrum, en sat því næst veislu í félagsheimilinu Fagrahvammi. Þar flutti Össur Guðbjartsson oddviti ræðu og bauð hana velkomna. Þá var haldið að Hnjóti, þar sem Vigdís opnaði hið nýja minjasafn (sjá framar). Þar færði Ólöf Magnúsdóttir fyrrverandi ljósmóðir henni roðskó að gjöf. Síðan hélt Vigdís á ættarslóðir sínar í Sauðlauksdal. Að lokum kvaddi hún hreppinn í Skápadal, þar sem Jón Magnússon hefur sett upp bát sinn Garðar sem er elsta stálskip Íslendinga, smíðaður 1912.
Byggð og eignir í hreppnum: Fardagaárið 1982-1983 eru skráðar 42 jarðir í Rauðasandshreppi. Þar af eru 23 í ábúð (18 setnar af eigendum en 5 í leiguábúð), en 19 teljast vera í eyði. Landverð er að fasteignamati alls 2.331.000 kr en húsaverð 10.490.000 kr. Þar við bætist húsakostur til annarra nota en landbúnaðar. Þar er land- og lóðaverð 178.000 en húsaverð 5.562.000 kr. Verkfærir karlar í hreppnum eru 21, þar af 6 sem ekki teljast bændur að aðalstarfi. (ÞJ hreppstj. Látrum; skrá 06.06.1983).
Ábúendaskipti í Neðri-Tungu: Árni Helgason og Anna Hafliðadóttir eru nú að flytja frá Neðri-Tungu á Patreksfjörð. Nýir ábúendur eru Rúnar Árnason, sonur þeirra, og Kristín Torfadóttir, ásamt börnum. (Mbl. 27.01.1983).
Fádæma snjóþyngsli: Gríðarmikið fannfergi hefur verið í hreppnum í vetur, svo núlifandi menn muna ekki annað slíkt. Byrjaði að kyngja niður snjó um jólin (1982) og hélst nánast látlaus ofankoma út janúarmánuð. Eftir það rofaði til, en af og til bætti þó á snjóþynslin. Afleiðingarnar voru alvarlegastar á Patreksfirði, með hinum mannskæðu snjóflóðum. En um allan Rauðasandshrepp voru vegir meira og minna tepptir. Bændur urðu oft að hella niður mjólk, þar sem mjókurbíll komst ekki um, og var þó seigla Hauks Valssonar bílstjóra með ólíkindum. Rutt var af og til innyfir Skersfjall, en þar mynduðust djúpar traðir er á leið. Einnig var rutt út í Örlygshöfn. Vegur út að Breiðuvík og Látrum lokaðist fljótt alveg, en Jónas Jónsson í Breiðuvík komst um tíma yfir á stórum traktor. Eftir það varð ekki farið nema á vélsleða. Eftir að Vörðubrekkan varð ófær sleðum var farið um Miklagilið í botni Örlygshafnar. Gjögrafjörur voru ruddar af og til í byrjun. Svo fór þó að þar gáfust ruðningsmenn upp, og varð þá að flytja póst og skólabörn á vélsleðum en mjólk var hellt niður á Láganúpi. Þegar farið var aftur að ryðja veginn var ekki farið niður á veg, heldur tekið snið í fönnina. Þegar svo fór að hlána um vorið rann mönnum kaldur sviti um bak, því í ljós kom að „vegurinn“ sem ekið var um var sumsstaðar allnokkuð framanvið raunverulegan veg. Höfðu því mjólkurbíll og skólabíll sem aðrir ekið á snjóskafli framanvið kant um alllanga hríð.
Mannskæð snjóflóð falla á Patreksfjörð: Tvö snjóflóð féllu á Geirseyri á Patreksfirði 22.01.1983 með þeim afleiðingum að fjórar manneskjur létust; mikið eignatjón varð og á fjórða tug manna misstu heimili sín. Bæði voru svonefnd krapaflóð, sem verða þegar mikil vatnssöfnun verður í tiltölulga lausum snjó. Fyrra flóðið kom úr Geirseyrargili, sem skemmdi hús og hreif eitt þeirra með sér niður í sjó, en tveimur tímum síðar kom annað sem fylgdi farvegi Litladalsár til sjávar.
Meltuverkun: Nokkrir bændur, m.a. á Láganúpi, hafa gert tilraunir að verka grásleppu í meltu til skepnufóðurs. Er þá sjór látinn síga af grásleppunni eftir að hrogn hafa verið tekin úr; hún brytjuð niður; sett í tunnu og maurasýru bætt í. Sé hrært í þessu af og til leysist grásleppan upp í súpu sem er hinn ágætasti fóðurbætir, t.d. með þurrheyi.
Sumarbústaðir byggjast: Unnið er að byggingu sumarbústaða í hreppnum; Á Naustabrekku og við Suðurfossá. (ÞJ; Mbl. 27.01.1983).
1984
Kollsvíkurjörðin aftur í byggð: Hilmar Össurarson frá Láganúpi hefur hafið búskap í Kollsvík ásamt konu sinni Hólmfríði Steinunni Sveinsdóttur sem ættuð er frá Lambavatni. Jörðin hefur verið í eyði frá því að Ingvar Guðbjartsson flutti burt 1971, en nytjuð frá Láganúpi. Björn Guðmundsson smiður, sem einnig er ættaður frá Kollsvík, vinnur nú að endurbótum á íbúðarhúsinu í Kollsvík. Hilmar hefur einnig hafið störf sem héraðsráðunautur Búnaðarsambands Vestfjarða. Hann lauk námi frá bændaskólanum á Hvanneyri 1978.
Dregur úr grásleppuveiðum: Nokkrir bændur hafa stundað hrognkelsaveiðar síðan þær hófust fyrir 18 árum. Þær hafa reynst mörgum mikil búbót þegar mest var. Síðustu árin hefur aflinn þó farið minnkandi, þrátt fyrir aukinn netafjölda, auk þess sem verð og sölumöguleikar hafa orðið ótryggari. Árið 1980 nam salan 350 tunnum; var 226 tunnur 1981; 190 tunnur 1982; 211 tunnur 1983 og 187 tunnur voru seldar 1984. Telja sumir að netafjöldi sé orðinn of mikill á miðunum, sem einkum eru sunnantil í Patreksfirði og á Breiðuvík. Sumir leggja þó á Kollsvík; aðrir úti á Patreksfjarðarflóa og enn aðrir norður undir Kóp.
Sjálfvirkur sími: Þær framfarir urðu í símamálum hreppsins að allir bæir fengu sjálfvirkan síma haustið 1984. Til þessa hefur símkerfið verið tengt símamiðstöð á Patreksfirði; handvirkur sími á hverjum bæ og loftlínur milli bæja. Hreppnum var skipt í nokkur svæði sem voru innbyrðis tengd og fylgdu því ýmis óþægindi, auk þess sem símtöl gátu verið hleruð. Símastarurar sem lengi hafa verið áberandi um hreppinn víkja nú fyrir símalínum í jörðu. Þó hann sé ekki jafn áberandi þá hefur gengið misvel að koma honum í jörð í því landslagi sem þarna er.
Riðuveiki í nágrannabyggðum: Nú í haust var allt fé af Barðaströnd skorið niður vegna riðuveiki sem þar hafði komið upp; ásamt nokkru fé í Patreksfirði og Tálknafirði. Sóttvarnagirðing liggur úr Ósafirði suður í Stálfjall, þannig að Rauðasandshreppur er sérstakt hólf og var ekki skorið niður þar. Hinsvegar þurftu bændur í Rauðasandshreppi að gæta sérstakrar varúðar, t.d. við flutning tækja milli svæða. (Niðurskurðurinn á Barðaströnd breytti mjög byggðamynstri þar, og brugðu margir búi). (Vestf.fréttabl. viðtal við ÖG 06.09.1984).
Undirskriftalisti vegna brúar á Hafnarvaðal: Íbúar Rauðasandsihrepps hafa sent Matthíasi Bjarnasyni samgönguráðherra undirskriftalista þar sem þess er krafist að Örlygshafnarvaðall verði brúaður hið allra fyrsta og vegur lagður um Tungurif. Bent er á nokkur rök þessu til stuðnings; styttingu vega; sparnað í akstri; öryggi í umferð; hagkvæmni af ýmsu tagi og minni hættu af lokunum vegna snjóa. Undir rita 39 hreppsbúar.
1985
Ný flugstöðvarbygging á Sandodda: Tekin hefur verið í notkun ný flugstöðvarbygging ásamt biðskýli og vörumóttöku við flugvöllinn á Sandodda neðan Sauðlauksdals. Tekur hún við hlutverki gamla skúrsins við innri enda vallarins, sem orðinn var alls ófullnægjandi aðstaða. Nýja húsið er allt hið glæsilegasta og rúmgott mjög. Þar er m.a. aðstaða til kaffisölu við biðsal. Flugleiðir reka áætlanaflug á Patreksfjarðarflugvöll, en einnig sér Flugfélagið Ernir á Ísafirði um póstflug um Vestfirði.
Í kaffiafgreiðslunni ráku um tíma kaffisölu Fríða Guðbjartsdóttir í Kvígindisdal og Sigurbjörg Sigurbergsdóttir á Hvalskeri, undir nafninu Sandakaffi. Flugvallarvörður í nýja skýlinu var í fyrstu Egill Ólafsson á Hnjóti en síðar Magnús Guðmundsson Patreksfirði og Valur S. Thoroddsen í Kvígindisdal.
Kristinn í Hænuvík hættir sem landpóstur: Kristinn Ólafsson (15.02.1913-19.01.2010) í Hænuvík hefur nú látið af störfum sem landpóstur, en því hefur hann þjónað dyggilega í 40 ár. Póstleið Kristins lá um utanverðan Rauðasandshrepp og þjónaði hann Útvíkum og Örlygshöfn ásamt Sellátranesi og Hænuvík. Framan af starfsferlinum notaði Kristinn sama samgöngumáta og tíðkast hafði frá landnámi; ríðandi á hestum eða gangandi þegar ekki var reiðfært. Þeim hætti hélt hann fram á miðjan 7.áratuginn, en þá keypti hann sér traktor og fór póstferðirnar á honum. Stuttu síðar tók hann bílpróf, þá kominn á sextugsaldur; fékk sér Willissjeppa og hefur síðan sinnt póstferðnum á bíl. Fékk sér reyndar einnig vélsleða en ók honum ekki sjálfur. Í upphafi var ein póstferð í viku látin nægja, en síðan var þeim fjölgað í tvær. Ásamt póstinum var „Kitti í Hænuvík“ ávallt greiðvikinn að flytja ýmsan búðarvarning til sveitunga á sinni póstleið. Kristinn var bóndi í Hænuvík; lengst af með kindur og hesta. Hann var einbúi í Hænuvík en naut nábýlis við Dagbjörgu systur sína og hennar fjölskyldu. Kristinn var félagslyndur og spilaði gjarnan á harmonikku á dansleikjum í sveitinni.
Eftir að Kristinn hætti búskap í Hænuvík bjó hann á Patreksfirði. Hann lést 19.01.2010.
Bréfhirðingunni á Hnjóti lokað: Bréfhirðingu á Hnjóti var lokað 30.nóv þ.á, og er þar með lokið starfsemi bréfhirðinga í Rauðasandshreppi. Öll bréfhirðing fer nú fram gegnum pósthúsið á Patreksfirði. Fyrst opnaði bréfhirðing á Hnjóti 01.06.1945 en fluttist 1948 á Gjögra. Aftur opnaði hún á Hnjóti 01.01.1967. Bréfhirðir hefur verið Ólafur Magnússon á Hnjóti. Frá Hnjóti hefur gengið landpóstur út í sveitir og hefur Kristinn Ólafsson í Hænuvík þjónað Bæjum og Útvíkum sem slíkur. Eftir niðurlagninguna munu landpóstar sinna útkeyrslu pósts í verktakavinnu.
Refarækt í Kollsvík: Össur Guðbjartsson á Láganúpi og Hilmar sonur hans í Kollsvík hafa komið sér upp refabúi í fjárhúsunum á Stekkjarmel. Hafa þeir smíðað fjölda búra og komið upp aðstöðu til blöndunar á fóðri. Dýrunum verður slátrað þar á staðnum og þau felduð, en skinnin síðan send í verkun og síðan á uppboðsmarkaði erlendis. Fyrirhugað er að koma upp sameiginlegri fóðurstöð í fyrrverandi sláturhúsi á Patreksfirði fyrir þau mörgu refabú sem risið hafa í vestursýslunni. Þrjú önnur eru í Rauðasandshreppi: Tvö í landi Neðri-Tungu og eitt í Breiðuvík. Verð á feldum hefur stundum verið ágætt á síðustu árum, en er afskaplega misjafnt.
Refaræktin á Stekkjarmel gekk í fáein ár, en með verðfalli á skinnum reyndist ekki grundvöllur fyrir henni. Síðar voru búrin tekin út og húsinu breytt í vélaskemmu.
Raknadalur í eyði: Fé hefur nú verið skorið niður í Raknadal. Grunur vaknaði um riðuveiki á Barðaströnd og þar var fyrirskipaður niðurskurður. Varnargirðing milli Rauðasandshrepps og Barðastrandar liggur sunnan frá Stálfjalli um Skörð og niður Skápadalshlíð. Lentu því jarðirnar Vesturbotn og Raknadalur í sama hólfi og Barðaströnd sem orsakar þennan niðurskurð. Fremur lítill búskapur hefur verið í Raknadal frá því að Helgi bóndi Fjeldsted lést 1969, en börn hans, sem búa á Patreksfirði, hafa haft þar nokkuð fé.
Andanefja í Skersbug: "Óvenjulegur hvalur fannst rekinn í skersbugnum rétt innan við Sandodda í Patreksfirði í gærmorgun. Var það andanefja af tannhvalaætt, en sú hvalategund mun mjög sjaldgæf þar um slóðir. Þórir Stefánsson, bóndi á Hvalskeri, sagði í samtali við DV að andanefjan væri sjö metrar að lengd. Kvaðst hann ekki hafa séð þessa tegund fyrri inni í firðinum. „Það hafa tveir hvalir verið að lóna ér í firðinum undanfarnar þrjár vikur," sagði Þórir. „Þeir voru stundum alveg upp undir landi og höguðu sér að því leytinu hálfundarlega. Það var svo í gærmorgun að ég fann annan þeirra rekinn á land. Það gerði þoku hér í fyrradag og ég er að ímynda mér að hvalurinn hafi þvælst of nálægt landi og lent á grynningum." Hvalurinn hefur nú verið fluttur í hvalvinnsluna Flóka á Brjánslæk þar sem hann verður nýttur. „Þeir steiktu sér bita af honum í gær og líkaði bara mjög vel," sagði Þórir". (DV 27.11.1985).
1986
Össur Guðbjartsson veikist alvarlega: Nú í sumar veiktist Össur Guðbjartsson á Láganúpi skyndilega. Fékk hann blóðtappa sem olli að lokum algerri lömun í vinstri hlið líkamans, með skerðingu á hreyfigetu, máli og fleiru. Hefur hann verið til aðhlynningar og endurhæfingar fyrir sunnan, ásamt konu sinni Sigríði Guðbjartsdóttur. Ráðnir voru erlendir vinnumenn til að sjá um búskap á Láganúpi ásamt Hilmari og Hólmfríði í Kollsvík. Valdimar sonur Össurar mun tímabundið sjá um hreppsreikningana með Árnheiði Guðnadóttur í Breiðuvík, sem er varaoddviti.
Össur jafnaði sig aldrei fyllilega á þessum veikindum. Hann lést 30.04.1999 (sjá þar). Árnheiður tók við oddvitastarfi að fullu og starfaði sem oddviti þar til Rauðasandshreppur sameinaðist öðrum hreppum í Vesturbyggð 01.07.1987. Sigríður bjó áfram á Láganúpi, og naut aðstoðar Hilmars og Hólmfríðar meðan þau bjuggu í Kollsvík. Sigríður lamaðist síðar og bjó við fötlun til dánardags; sjá 2017.
Sláturhúsið á Patreksfirði selt: Sláturhúsið á Patreksfirði hefur verið selt Matvælavinnslunni hf. Eru margir hugsi yfir þeirri sölu, þar sem ýmsir lögðu fé til sláturhússins í trausti þess að það starfaði sem slíkt, m.a. Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Sláturhúsið var byggt 1979-80 og þá gert ráð fyrir slátrun 12-16000 fjár. Mikil fækkun hefur hinsvegar orðið á sláturfé vegna samdráttar í búskap og riðuniðurskurðar og var t.d. slátrað innan við 2600 fjár á síðasta hausti.
Matvælavinnslan hugðist starfrækja rækjuvinnslu, en hún starfaði einungis eitt ár. Stjórnendur Kaupfélags V-Barð; sláturhússins og Matvælavinnslunnar eru margir hinir sömu. (Mbl. 24.04.1986).
Byggðaþróunaráætlun fyrir Rauðasandshrepp: Fjórðungssamband Vestfjarða vinnur nú að byggðaþróunaráætlun og hefur Rauðasandshreppur skilað inn sínum hluta. Að þeim kafla vann Valdimar Össurarson fyrir hönd hreppsins en í samráði við oddvita og með samþykki hreppsnefndar. Í hreppnum eru nú 93 íbúar, þar af 53 á aldrinum 16-66 ára. Hefur íbúum fækkað úr 313 frá 1941 eða um 71%, og úr 128 árið 1971 eða um 27%. Búskapur er rekinn á 17 jörðum; 6 sauðfjárbú, 2 kúabú og 9 blönduð bú. 4 refabú eru nýbyrjuð starfsemi. Brýnustu úrbætur í landbúnaði eru taldar að útvega nægan framleiðslurétt í kjöt- og mjólkurframleiðslu; tryggja vegaviðhald og snjómokstur; tryggja aðgang að sláturhúsi; koma upp fóðurvinnslu vegna refaræktar; styrkja uppbyggingu á jörðum; styðja við fiskeldi og hlunnindanýtingu. Brýnustu úrbætur varðandi fiskveiðar eru að lengja Gjögrabryggju, enda er þar stunduð nokkur útgerð. Brýnt er talið að stuðla að framleiðsluiðnaði af einhverju tagi og styðja við sprota í ferðaþjónustu t.d. með stofnun ferðaþjónustusamtaka og úrbótum við ferðamannastaði. Þá þarf að koma þrífasa rafmagni um sveitina. Varðandi samgöngur er lögð áhersla á gott viðhald vega og tryggan snjómokstur, en einnig á brú yfir Örlygshafnarvaðal og vegtengingu af Hænuvíkurhálsi á Breiðavíkurveg. Í opinberri þjónustu þarf að bæta úr aðstöðuleysi til sundkennslu og tónmenntakennslu; hraða byggingu skóla og heimavistar fyrir efri stig grunnskóla og framhaldskennslu á Patreksfirði og byggja dvalarheimili aldraðra á Patreksfirði. Össur Guðbjartsson veiktist og hætti meðan á vinnslu tillagnanna stóð, en undir þær rita, auk Valdimars; Árnheiður Guðnadóttir varaoddviti; Óli Ingvarsson og Hilmar Össurarson varamaður í hreppsnefnd.
1987
Kaupfélag V-Barðstrendinga gjaldþrota: Kaupfélag Vestur-Barðstrendinga var tekið til gjaldþrotaskipta 18.11.1987. Lýstar kröfur nema kr 158 milljónum og er Samband ísl samvinnufélaga stærsti kröfuhafinn, ásamt sínum dótturfyrirækjum. Tap félagsins sl 2 ár hefur verið 24,5 millj.kr. Skiptastjórinn; Viðar Már Matthíasson, telur í skýrslu sinni að verulega hafi skort upp á að kaupfélagsstjórinn sinnti rekstrinum undir það síðasta vegna anna við önnur störf, en hann er m.a. framkv.stjóri Hraðfrystihúss Patreksfjarðar. Hugsanlega verði höfðuð einhver riftunarmál, en ekki er talið að um refsiverða háttsemi sé að ræða í rekstri félagsins. Verulega hefur verið þungt fyrir fæti í rekstri þess frá stofnun. Bygging sláturhúss á Patreksfirði var kostnaðarsöm, en einnig framkvæmdir við verslunarhús í Örlygshöfn og á Barðaströnd, auk þess sem niðurskurður fjár á svæðinu vegna riðuveiki hefur komið illa við. (Mbl. 02.03.1986).
Verslunin Valborg tekur við verslunarrekstri: Valdimar Össurarson hefur verið afgreiðslumaður Sláturfélagsins Örlygs frá 1977 og síðar starfsmaður og deildarstjóri KVB í Örlygshöfn. Hann hefur nú stofnað verslunina Valborg í sinni eigu og hyggst freista þess að halda áfram verslunarrekstri í hinu nýja verslunarhúsi á Hvammsholti, sem í almennu tali er nefnd "rúsínubúðin". Þar er við ramman reip að draga vegna fólksfækkunar og breyttra verslunarhátta, en á hinn bóginn ljóst að skaði er að því fyrir hreppsbúa að missa þessa verslun.
Verslunin Valborg var rekin til 1991. Eftir það ráku Birna Atladóttir og Keran Ólason verslun þarna um tíma, en þau bjuggu þá á neðri hæðinni í Ási.
Úrkomumet í Kvígindisdal: " Frá kl. 18.00 sl. föstudag til kl. 18.00 á laugardag 03.10.1987 mældist 121,1 millimetri á veðurathugunarstöðinni í Kvígindisdal í Patreksfirði, og er það mesta úrkoma sem þar hefur mælst á einum sólarhring. Þessari úrkomu fylgdu mikil flóð og urðu af miklar vegaskemmdir víða í vestursýslunni. Örlygshafnarvegur fór í sundur við gatnamótin í Ósafirði í Patreksfirði og lokaðist af þeim sökum" (Mbl. 06.10.1987).
1988
Gunnar Össurarson fallinn frá: Gunnar Össurarson (01.07.1912-16.12.1988) húsasmiður frá Kollsvík er andaður; 76 ára að aldri. Gunnar ólst upp á Láganúpi, en flutti 1927 með foreldrum sínum norður að Mýrum í Dýrafirði. Til Reykjavíkur flutti hann nokkrum árum síðar, en þar stundaði hann nám og vinnu mestan part ævinnar. Hann lærði búfræði á Hvanneyri en síðan húsasmíði og fór til framhaldsnáms til Svíþjóðar í þeim fræðum. Hann starfaði síðan að iðn sinni í Reykjavík, en taugar hans til ættarslóðanna voru þó alltaf sterkar. Hann kom gjarnan vestur og tók að sér einstök verk; ekki síst í Kollsvíkinni. Árið 1975 tók hann höndum saman við Marinó í Tungu, Helga í Ási og marga aðra og stofnaði hlutafélag um rekstur byggingafyrirtækis í Rauðasandshreppi; Byggingafélagið Höfn hf (sjá þar). Gunnar sá að til byggðaeyðingar horfði í hreppnum ef ekki tækist að styrkja atvinnulíf og skapa bændum góð hús, og þetta var hans leið til að styðja sína sveit. Hann byggði sér hús, ásamt Helga frænda sínum; eitt margra húsa sem risu á þessu framkvæmdatímabili. En Elli kerling sótti á og Gunnar varð fyrir því óláni 1980 að slasast á hendi og verða óvinnufær síðustu æviár sín. Gunnar var hugsjónamaður og ákafamaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann þoldi illa ójöfnuð og kúgun og hallaðist því snemma til vinstri í pólitík. Var í framboði til þings og tók þátt í verkalýðsbaráttu og flokkspólitík. Hann var fróður og vel lesinn; talaði og skildi fjölda tungumála og hafði víða um heiminn farið. Fáir voru tryggari sínum vinum og uppruna; né heilsteyptari í allri hugsun.
Símasamband á hverri þúfu í Kollsvík: Nú er svo komið að hringja má úr farsíma úr öllum stöðum handantil í Kollsvík; hvort sem það er frammi á lóðamiðum eða í Sandslágarkjafti. Settur hefur verið upp farsímasendir í mastrinu á Fimmhundraðahæð. (Mbl. 24.01.1988).
Sláturhúsið á Gjögrum selt: Nokkrir einstaklingar í Rauðasandshreppi hafa keypt sláturhúsið á Gjögrum á uppboði sem haldið var á eignum Kaupfélags V-Barðstrendinga. Sama dag var verslunarhús KVB á Patreksfirði slegið Samvinnubankanum á uppboði. (Mbl. 03.05.1988)
1990
Síðustu hreppsnefndarkosningar Rauðasandshrepps: Nú var síðast gengið til kosninga í hinum forna Rauðasandshreppi, enda orðið all líklegt að hann muni sameinast nágrannasveitarfélögum fljótlega. Kosið var í Fagrahvammi líkt og verið hefur síðustu áratugi. Kosningin var óhlutbundin; þ.e. persónukjör, eins og tíðkast hefur í hreppnum. Á kjörskrá voru 63, en atkvæði greiddu 50 kjósendur. Kosningu í hreppsnefnd hlutu: Árnheiður Guðnadóttir Breiðuvík fékk 34 atkvæði; Tryggvi Eyjólfsson Lambavatni fékk 30 og Hilmar Össurarson Kollsvík fékk 23 atkvæði. (Mbl. 12.06.1990).
Fjarskiptahús á Hænuvíkurhálsi brennur: Það óhapp varð í mars 1990 að radíómóðurstöð á Hænuvíkurhálsi brann til kaldra kola í eldingaveðri. Brugðist var skjótt við og viku elinna var búið að setja nýtt hús á staðinn og sendingar hafnar að nýju. (Árbók Verkfr.fél. Ísl. 1992).
Fjarskiptahúsið á Fimmhundraðahæð og mastur við hlið þess þjóna sem endurvarp bæði fyrir talstöðvar og útvarp á miðin og sem endurvarp fyrir síma, tölvusamband og annað í Kollsvík. Þarna verða mikil eldingaveður, sem líklega skýrist af því að undir hálsinum liggur járnríkur berggangur. Gæti það verið sá sem er sýnilegur í Landamerkjahlein undir Breið og Klaufatöngum í Láturdal. Þegar símalínur voru lagðar í jörð sló eldingum ítrekað niður í strenginn yfir Hænuvíkurháls og á endanum var sett upp þetta þráðlausa samband í fjarskiptamastrinu.
1991
Bátur sekkur á Gjögrum: Sómabáturinn Krummi, í eigu Guðna H. Jónassonar í Breiðuvík, sökk þar sem hann lá við legufæri á Gjögrum 15.09.1991. Eigandinn hafði daginn áður komið á honum úr róðri, ásamt háseta sínum, og sýndist honum ekkert óeðlilegt vera við bátinn er honum var lagt. Veður var tiltölulega stillt. Báturinn var hífður upp, en allmikið tjón varð á honum. (Dagblaðið Vísir 19.09.1991).
1993
Mjólkursamlag V-Barð hættir starfsemi: Mjólkursamlag Vestur-Barðastrandasýslu hefur nú verið sameinað Mjólkursamlaginu í Búðardal. Mjólkurframleiðsla á svæðinu hefur dregist nokkuð saman, og undanfarið hafa einungis 20 bændur lagt þar inn mjólk. Leituðu bændur í V-Barð eftir þessari sameiningu þegar ljóst var að opinberri úthlutun úr Verðmiðlunarsjóði mjólkurvara yrði hætt. Mjólkursamlagið í Búðardal er í eigu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Síðasti stjórnarformaður Mjólkursamlags V-Barð er Egill Ólafsson á Hnjóti, en síðasti mjólkurbússtjóri sem þar starfar er Jón Sverrir Garðarsson. Hefur hann starfað frá 1973. Samlagið var stofnað 1969 (sjá þar).
Ríkið kaupir Bæjarbjarg: Hinn 02.10.1993 var undirritaður kaupsamningur ríkisins og eiganda Saurbæjar um að ríkið kaupi Bæjarbjarg á 800 þúsund krónur. Seljandi er Albert Gíslason eigandi Saurbæjar en fyrir hönd ríkisins undirritaði Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra. Bæjarbjarg nær frá Saxagjá að utanverðu að Melalykkju utan Lambahlíðar að innanverðu. Í Bæjarbjargi er mjög mikið svartfuglavarp; bæði víða í bjarginu; á Bæjarvelli og á Langurðum. Ekki er vel ljóst hvenær Bæjarkirkja eignaðist bjargið, en það hefur líklega verið mjög snemma í kaþólskri tíð. Kirkjan var bændakirkja og með tímanum runnu eignir hennar undir landeigandann; aðrar en kirkjan sjálf. Albert keypti jörðina 1986 af Árna Jóhannessyni, sem áður keypti af Sigurvin Einarssyni. (Mbl. 03.10.1993).
Síðasta ljósmóðir í Rauðasandshreppi fallin frá: Hinn 20.10.1993 lést Ólafía Egilsdóttir á Hnjóti; fædd 27.11.1894 á Sjöundá. Með henni er fallin frá síðasta ljósmóðirin sem starfaði sérstaklega í Rauðasandshreppi. Hún lauk ljósmóðurnámi hjá Guðmundi Björnssyni árið 1924 og starfaði eftir það í aldarfjórðung í hreppnum, Starf ljósmóður var oft krefjandi. Hún var jafnvel kölluð út í illviðrum að vetrarlagi. Til er frásögn af ferð hennar í illviðri yfir Tunguheiði, til að þjónusta fæðandi konu í Kollsvík. Fylgdarmaður hennar villtist á leiðinni, en Ólafía tók þá stjórnina og kom þeim heilum á áfangastað. Ólafía var gift Ólafi Magnússyni (01.01.1900-18.03.1996) bónda á Hnjóti, sem lengi var farsæll dýralæknir sveitarinnar.
Fyrri ljósmæður í Rauðasandshreppi voru m.a. þessar: Guðbjörg Mauritzdóttir (1743-03.04.1819) frá Sjöundá; þjónaði ca 1770-1800. Árið 1840 segir séra Gísli í Sauðlauksdal að hvorki sé læknir né ljósmóðir í hreppnum; sjá þar. Ingibjörg Sigurðardóttir (18.02.1938-29.04.1893) í Hænuvík "hafði á hendi ljósmóðurstörf um mörg ár" (SÁ; Með straumnum). Sigurlaug Traustadóttir (07.10.1873-11.07.1959) í Breiðuvík þjónaði sem ljósmóðir í Útvíkum 1892-1902. Sveinn Magnússon á Lambavatni (28.07.1879-10.01.1929) þjónaði bæði sem læknir og ljósmóðir. Guðrún J. Einarsdóttir (16.09.1871-02.03.1943) frá Vatnsdal; þjónaði ca 1890-1930. Jóhanna Þórarinsdóttir (25.09.1915-08.09.1999) frá Naustabrekku; þjónaði 1939-1943. Pálína R. Halldórsdóttir (04.02.1909-09.09.1995) á Skógi var lærð ljósmóðir en óvíst hvort hún starfaði í Rhr áður en þau fluttu burt 1939.
1994
Rauðasandshreppur sameinast grannhreppum: Á þessu vori gengu íbúar hreppanna í V-Barðastrandasýslu til kosninga um sameiningu. Sameining Rauðasandshrepps (96 íbúar), Patrekshrepps (913 íb), Barðastrandarhrepps (138 íb) og Bíldudals (351 íb) var samþykkt og munu þessir hreppar mynda eitt sveitarfélag með 1498 íbúa. Hinsvegar hafði áður komið í ljós að Tálknfirðingar eru ekki tilbúnir í sameiningu að svo stöddu. Síðasti oddviti Rauðasandshrepps var Árnheiður Guðnadóttir Breiðuvík; Barðastrandarhrepps Kristján Þórðarson á Breiðalæk; í Patrekshreppshreppi var Ólafur Arnfjörð sveitarstjóri og á Bíldudal var Guðmundur Sævar Guðjónsson (Guðbjartssonar Þorgrímssonar frá Hvallátrum) oddviti. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veitir sameinuðu sveitarfélagi fjárframlag, en skuldastaða hreppanna er nokkuð misjöfn. Er talið að fjárhagur Rauðasandshrepps sé bestur. Nýja sveitarfélagið mun heita Vesturbyggð og mun skrifstofa þess verða á Patreksfirði. Með þessu má segja að Eyrar séu aftur sameinaðar Rauðasandshreppi, en þær gengu undan hreppnum 1907 (sjá þar).
Íbúaþróun í Rauðasandshreppi: Þegar Árni Magnússon telur í Jarðabók sína árið 1703 eru íbúar Rauðasandshrepps 492. Árið 1801 eru þeir 446; 1901 eru íbúar 787. Við aðskilnað Patrekshrepps frá Rauðasandshreppi árið 1907 voru íbúar Patrekshrepps 420 talsins, eða nokkru færri en þeir sem eftir eru í Rauðasandshreppi; en þar eru árið 1910; 518. Árið 1920 eru 447 (fækkun um 71); árið 1930 341 (fækkun 106); árið 1940 320 (fækkun 21); árið 1950 190 (fækkun 130); árið 1960 182 (fækkun 8); árið 1968 132 (fækkun 50); árið 1979 111 (fækkun 21); árið 1990 91 (fækkun 20) og nú við sameiningu teljast íbúar Rauðasandshrepps vera 96.
Hefur íbúum því fækkað um tæp 400 frá talningu Árna árið 1703, og um tæp 700 yfir síðustu öld. Hér þarf þó að hafa í huga hreppaskiptinguna 1907 og þau uppskipti sem urðu með því að árabátaútgerð lagðist niður í Útvíkum en skútu- og vélskipaútgerð upphófst á Eyrum. Sjálfsþurftabúskapur lagðist af og bændur urðu háðir markaðsaðstæðum með afurðasölu. Vélvæðing í sveitum stuðlaði að fækkun, auk fleiri þátta sem m.a. lesa má út úr þessum annál. (Ýmsar heimildir).
Búskapur á Hnjóti dregst saman: Kúabúskap hefur nú verið hætt á Hnjóti. Má segja að það sé bein afleiðing þess að Mjólkursamlagið á Patreksfirði var lagt niður á síðasta ári.
Fjárbúskapur á Hnjóti dróst mjög saman á næstu árum og honum lauk alveg 2009. Þá taldist Kristinn Þór Egilsson síðasti bóndinn en vann töluvert útífrá. Kristinn hefur nú (2020) komið upp allnokkurri ferðaþjónustu á Hnjóti, með gistileigu og tjaldsvæðum.
1996
Forsetakjör: Í forsetakosningum nú í sumar var Ólafur Ragnar Grímsson kjörinn forseti. Hann er fæddur á Ísafirði; nam stjórnmálafræði og hagfræði og kenndi um tímaí Háskóla Íslands. Tók þátti í stjórnmálum; fyrst fyrir Framsóknarflokkinn; síðan Samtök frjálslyndra og vinstri manna og síðast Alþýðubandalagið. Þingmaður um tíma og síðar einnig fjármálaráðherra. Kona Ólafs er Guðrún Katrín Þorbergsdóttir.
Guðrún Katrín lést meðan Ólafur var forseti. Síðar tók Ólafur saman við Dorrit Moussaieff. Ólafur Ragnar var nokkrum sinnum endurkjörinn, og sat á forsetastóli til 2016, er Guðni Th Jóhannesson var kjörinn. Ólafur þótti pólitískari í forsetastarfi en fyrri forsetar, og var ekki óumdeildur. T.d. þótti hann hafa farið offari í að mæra "útrás" fjármálamanna fyrir bankahrunið. Þrisvar synjaði hann lögum staðfestingar, og var fyrstur íslenskra forseta til þess.
1998
Öldumælingadufli lagt út af Blakknesi: Á þessu vori var nýju öldumælingadufli lagt vestur af Blakknesi. Er það hluti af sjálfvirku upplýsingakerfi fyrir sjómenn, en þeir geta sjálfir skoðað mælingar duflsins hverju sinni gegnum tölvusamband, ásamt miklu magni annarra upplýsinga um sjólag og aðrar aðstæður til siglinga og veiða. Framfarir hafa verið stórstígar í þessum efnum síðustu árin, sem eykur bæði öryggi sjómanna og veiðivon. (Til sjávar; 01.11.1998 o.fl.)
1999
Össur Guðbjartsson á Láganúpi látinn: Össur Guðbjartsson á Láganúpi andaðist á sjúkrahúsinu á Patreksfirði 30. apríl. Hann var sonur Guðbjartar Guðbjartssonar og Hildar Magnúsdóttur og tók við búi á Láganúpi af þeim árið 1952. Þá giftist hann Sigríði Guðbjartsdóttur frá Lambavatni og hafa þau eignast 5 syni: Guðbjart, Valdimar, Hilmar, Egil og Kára. Össur útskrifaðist frá Héraðsskólanum á Núpi 1945. Varð búfræðingur frá Hvanneyri 1948 og stundaði þar framhaldsnám. Var í 5 ár barnakennari í Rauðasandshreppi. Össur gegndi fjölda trúnaðarstarfa. Var framkvæmdastjóri Sláturfélagsins Örlygs 1956'58 og sat síðan í stjórn þess. Stjórnarmaður í Kaupfélagi Vestur-Barðstrendinga. Sat í stjórn Búnaðarfélagsins Örlygs í Rauðasandshreppi 1950-75, þar af formaður í 10 ár. Hann var fulltrúi Vestur- Barðastrandasýslu á þingum Stéttarsambands bænda 1957-64 og 1971-72. Fulltrúi á Búnaðarþingi 1962-74 og 1983-86. Heiðursfélagi Búnaðarfélagsins Örlygs og Búnaðarfélags Íslands. Össur sat í hreppsnefnd Rauðasandshrepps frá 1958 til 1986, þar af oddviti frá 1970. Sat í undirbúningsnefnd Orkubús Vestfjarða og í fyrstu stjórn þess. Var á framboðslista framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi til Alþingiskosninga og beitti sér mikið í framfaramálum, bæði fyrir sína heimabyggð og á landsvísu. Auk þessa gegndi hann fjölmörgum öðrum félagsmála- og trúnaðarstörfum
Mjólkurframleiðsla dregst saman: Enn dregst búskapur saman í Rauðasandshreppi og um leið ganga stoðir undan búsetu. Hilmar Össurarson í Kollsvík segir í DV 15.01.1999 að hætt hafi verið mjólkursölu á Hnjóti og í Neðri-Tungu. Hann býst við að sjálfhætt verði mjólkurframleiðslu á Láganúpi, þar sem óhagkvæmt verði að fara svo langa leið eftir mjólk frá einum bæ. Hilmar er með á þriðja hundrað fjár í Kollsvík og 10 kýr á Láganúpi.
Eigendaskipti á Breiðuvík: Jónas H. Jónsson og Árnheiður Guðnadóttir hafa selt Breiðuvíkina og ferðaþjónustureksturinn þar. Kaupendur eru Keran St. Ólason frá Geitagili og kona hans Birna Atladóttir frá Patreksfirði. Jónas og Árnheiður komu upphaflega að Breiðuvík sem umsjónarmenn Vistheimilisins, en eftir að það var lagt niður hafa þau fengist við ýmsar greinar búskapar; hænsnarækt; kálfaeldi; refarækt o.fl, en um leið hafa þau byggt upp ferðaþjónustu í húsunum. Árnheiður var síðasti oddviti Rauðasandshrepps, en Jónas hefur fengist við bilamálun og ýmsa listsköpun. Guðni sonur þeirra hefur stundað grásleppuútgerð og var síðan landpóstur. Þau flytja nú á sínar fyrri slóðir á Suðurnesjum. Keran hefur stundað búskap á Geitagili með föður sínum. Frá 1991 hafa þeir eingöngu verið með fé, en stunduðu einnig mjólkurframleiðslu áður auk þess sem Óli var á grásleppu og löngum hreppsnefndarmaður. (Óli á Gili lést 01.08.1999).
Keran og Birna voru í upphafi með stórt sauðfjárbú í Breiðuvík ásamt ferðaþjónustunni, en sneru sér síðan alfarið að henni. Hafa þau aukið rekstur og byggingar allverulega og stunda einnig rekstur hópferðabíla og skólaakstur. Áður en þau komu að Breiðuvík ráku þau um tíma verslunina Bakó í fyrrverandi kaupfélagshúsi í Örlygshöfn.
Garðar strandar við Hreggnesa: Tveir menn björguðust eftir að sex tonna bátur, Garðar BA frá Patreksfirði, strandaði 16.oktober 1999 við Hreggnesa sem er í sunnanverðri Kollsvík við Patreksfjörð. Mennirnir komust í land af sjálfsdáðum og sluppu ómeiddir. Fjaran er þarna stórgrýtt, og var ekki hægt að losa hann samdægurs. Um morguninn kom í ljós að báturinn var stórskemmdur þar sem sjórinn hafði lamið hann niður í grjótið og um hádegi hafði hann gjöreyðilagst. Í sjóprófum kom fram að skipstjóri hafði lagt sig á landstíminu og hásetinn hafi sofnað útfrá sjálfstýringunni og vöknuðu skipverjar fyrst þegar báturinn strandaði á Lambabalaboðum syðst í Kollsvík.
2000
Kollsvíkurbóndi vill aðgang að fiskimiðum: Hilmar Össurarson bóndi í Kollsvík hefur sett fram þá skoðun að fornar útvegsjarðir eigi að endurheimta fiskveiðiréttindi sín, sem stjórnvöld hafa núna fært í hendur fáeinna fyrirtækja; að bændunum forspurðum. Hilmar bendir á að nú þegar á móti blæs í skilyrðum til hefðbundins búskapar, þá eigi bændur á jörðum sem liggja vel við fiskimiðum að fá forgangsrétt á nýtingu þeirra. „Menn hafa verið allt of hógværir til þess að hreyfa því máli. Ef mönnum er alvara með byggðastefnu þá held ég að ráðamenn verði að svara út um það hvort þeir eru tilbúnir með slíkar sértækar og óumflýjanlegar aðgerðir“ (Viðtal í DV 14.03.2000).
Búskap lokið á Hvallátrum: (Óljóst þó um rétt ártal). Guðbjört Stella Ásgeirsdóttir á Látrum og maður hennar Aðalsteinn Guðmundsson hafa nú brugðið búi og flutt á Patreksfjörð. Þar með er lokið búskap á Látrum. Reyndar var bú þeirra orðið lítið undir lokin: aðeins fáeinar kindur, en Stella hafði mikið yndi af skepnum. Hún starfaði áður í Reykjavík en flutti vestur 1985 til að halda heimili með föður sínum og Gróu, fatlaðri systur sinni, eftir fráfall Jónu, móður þeirra systra.
Hvallátrar eru landnámsjörð; þar bjó Þórólfur spörr sem kom með Kolli og Örlygi og nam allan Rauðasandshrepp sunnan Patreksfjarðar að frátaldri Kollsvík og Rauðasandi. Hefur jörðin verið í samfelldum búskap til þessa dags; jafnan fleirbýlt. Jörðin er afbragðs sauðjörð og hvergi fóðurléttara; þar er stutt til miða og oft tvær verstöðvar. Mikil hlunnindi eru af bjargfugli og nokkur af reka. Jörðin er 30 hundruð að fornu mati.
Jörðin er í eigu afkomenda þeirra sem síðast bjuggu á hverjum jarðarparti, og er eignarhaldið all dreift. Margir þeirra hafa komið sér upp sumarbústöðum og aðrir viðhaldið gömlum. Eftir að Stella og Aðalsteinn fluttu kom Kristinn Guðmundsson uppeldisbróðir hennar vestur og á nú (2020) sitt heimili á Látrum; einbúi að vetrarlagi. Mjög mikill ferðamannastraumur er að Látrabjargi; stærsta fuglabjargi landsins og einum vestasta tanga Evrópu.
Eigendaskipti á Saurbæ: Guðjón Benediktsson og Ásta Björk Arnardóttir, sem búið hafa í Saurbæ frá árinu 1995 hafa nú selt jörðina. Kaupandinn er Kjartan Gunnarsson fjárfestir og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Í vissum skilningi má segja að Saurbær sé kominn í eignarhald höfðingja á ný, þó fækkað hafi hjáleigunum frá fyrri öldum.
Kjartan keypti einnig jörðina Kirkjuhvamm. Hefur hann gert upp íbúðarhúsið þar og breytt því í veittingastað, undir nafninu „Franska kaffihúsið“. Er það opið að sumarlagi. Í landi Kirkjuhvamms hefur hann látið reisa starfsmannahús þar sem býr umsjónarmaður á hans vegum.
Múkkavarp að hverfa úr klettum: Fýl hefur fækkað mjög mikið á svæðinu, og má segja að múkkavarp sé nánast horfið úr stöðum kringum Kollsvík, þar sem áður voru teknar þúsundir eggja á hverju vori, meðan vörpin voru nýtt. Fýl fjölgaði mjög fyrr á öldinni (sjá 1933) með aukinni útgerð og slægingu afla á miðum og landstími. En með aukinni nýtingu sjávarafla er slægingu hætt og má ætla að þetta ætisleysi sé orsök fækkunarinnar. Einnig hefur tófu fjölgað mjög á svæðinu og er um leið óhræddari við að koma nálægt mannabyggðum þegar fólki fækkar.
Stærsta loðnugangan út af Víkum: Stærsta Ioðnuganga í yfir 20 ár er nú vestur af landinu; frá Hala suður í Víkurál, og í nótt voru 6 nótaskip á veiðum vestur af Bjargtöngum. Rannsóknarleiðangur um borð í hafrannsóknaskipinu Arna Friðrikssyni hafði fundið stóra göngu af stórri og fallegri loðnu um 50-60 mílur norðvestur af Vestfjörðum. Loðnan er á hægri suðurleið og er búist við að hún hrygni við Breiðafjörð og í Faxaflóa. Ekki er óalgengt að loðnugöngur komi inn í íslenska lögsögu fyrir vestan, en þær göngur eru oftast mun minni og ná sjaldnast að komast suður í Breiðafjörð. Árið 1979 var hrygningarstofninn nokkurnvegin tvískiptur, vestan og austan við landið, og sá helmingurinn sem var vestan megin gekk þá suðureftir Látragrunni og inn Breiðafjörð og allt suður fyrir Reykjanes. Síðan þá hefur ekki mælst stærri loðnugagna á þessum slóðum. "Það var töluvert að sjá af loðnu þarna út af Bjargtöngum og öll skipin á landleið með afla" sagði skipstjórinn á Sigurði VE. (Dagur 02.02.2001).
2002
Búskap lokið í Kollsvík: Búskap í Kollsvík er nú lokið að sinni. Hilmar Össurarson og Hólmfríður St. Sveinsdóttir brugðu búi nú í haust og fluttust ásamt börnum sínum í hús sem þau hafa keypt sér í Garðabæ. Áfram munu þau þó eiga jörðina og verða þar eflaust mikið á sumrin. Sífellt hefur þyngst fyrir fæti með búskap, bæði vegna aðstæðna í framleiðslumálum á landsvísu, en ekki síður vegna staðbundinna ástæðna. Mjólkurframleiðslu í víkinni og víðar í hreppnum var sjálfhætt þegar ekki var lengur grundvöllur fyrir mjólkurvinnslu á Patreksfirði; langir flutningar eru orðnir með fé og nautgripi eftir að sláturhús á svæðinu voru aflögð og smalamennskur eru orðnar erfiðar fyrir þá fáu bændur sem enn búa með sauðfé. Niðurlagning barnakennslu í Örlygshöfn var e.t.v. það sem gerði útslagið, en það þýddi að vista þurfti börn frá fjarlægum heimilum á einkaheimilum, þar sem ekki er um heimavist að ræða á Patreksfirði.
Hilmar og Fríða hafa verið með allmikinn fjárbúskap í Kollsvík, en einnig séð að miklu leyti um kúabúskap fyrir Sigríði á Láganúpi, móður Hilmars, eftir að Össur veiktist. Um tíma ráku Össur og Hilmar sameiginlegt refabú í fjárhúsunum á Stekkjarmel. Hilmar var um tíma ráðunautur bænda á svæðinu; hefur setið í bæjarstjórn Vesturbyggðar eftir sameiningu hreppa og þar áður í hreppsnefnd Rauðasandshrepps, ásamt öðrum félagsstörfum.
Skólahaldi hætt í Örlygshöfn: Nú er endanlega lokið skólahaldi í hinum gamla Rauðasandshreppi, með því að Grunnskólinn í Örlygshöfn er lagður niður. Almenn óánægja hefur verið með þennan gerning hjá foreldrum skólabarna í fyrrum Rauðasandshreppi, enda fylgja því margháttaðir erfiðleikar að vista börnin o.fl.
2003
Lést við innanvert Blakknes: Hinn 14. ágúst lést Ólafur Kristinn Sveinsson frá Sellátranesi við innanvert Blakknes. Ólafur mun líklega hafa ætlað í fiskiróður á litlum báti sem hann átti, en hann var vanur og farsæll sjómaður auk annarra starfa. Farið var að svipast um eftir honum, eftir að mannlaus báturinn fannst undan Ytri-Hlíðum. Ólafur fannst síðan þar uppi í fjörunni, og virðist hafa farið þar í land; e.t.v. vegna lasleika. Hann var 75 ára og lét eftir sig 4 uppkomin börn. Ólafur var m.a. bóndi á Sellátranesi; bílstjóri, ýtumaður og umfram allt fjölhæfur þjóðhagasmiður. Ekkert verk óx honum í augum og hann fann lausnir á flestum viðfangsefnum; ekki síst þeim sem kröfðust lagni og tækniþekkingar. Ekkert virtist honum ómögulegt. T.d. fann hann aðferðir til að ná sjónvarpsmóttöku á bæjum með mjög erfið skilyrði. Ólafur fæddist á Sellátranesi og bjó þar alla ævi; sonur Sveins Jónssonar og Guðnýjar Ólafsdóttur, sem á yngri árum reri úr Kollsvíkurveri.
2004
Búskap lokið í Kvígindisdal: Valur S. Thoroddsen og Fríða Guðbjartsdóttir hafa bugðið búi í Kvígindsidal og flutt í Borgarnes. Er þar með lokið búskap í Kvígindisdal að sinni, en jörðin hefur verið í byggð frá öndverðu; 18 hundruð að fornu mati. Þar hefur síðustu áratugina verið sauðfjárbúskapur. Valur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Var m.a. síðasti hreppstjóri Rauðasandshrepps og sat í hreppsnefnd. Fríða sinnti síðust veðurathugunum í Kvígindisdal og rak um tíma kaffisölu á flugvellinum á Sandodda, ásamt Sigurbjörgu Stigurbergsdóttur á Hvalskeri.
Lamaður eftir bílslys í Bjarngötudal: Það slys vildi til í febrúarmánuði að bíll rann í hálku útaf vegi á Rauðasandi og maður stórslasaðist. Ástþór Skúlason, ungur maður á Melanesi, ætlaði í snögga ferð inn á Patreksfjörð, en í Bjarngötudal missti hann stjórn á bílnum á svellbunka. Hann var í bílbelti en náði að losa sig úr því án þess þó að komast út úr bílnum. Bíllinn valt 30 metra niður í dalinn en Ástþór virðist hafa kastast úr honum á miðri leið. Þar lá hann ósjálfbjarga þar til lögreglumnn komu að honum um tveimur tímum síðar. Vegna innvortis áverka blæddi inn á lungu, en hann hafði lent þannig á steini að blóð rann uppúr honum. Ástþór var fluttur með þyrlu á slysadeild og var tvísýnt um líf hans. Í ljós kom að hann hafði hryggbrotnað og axlarbrotnað auk annars, og reyndist lamaður fyrir neðan mitti. (Mbl o.fl).
Með ótrúlegri seiglu og góðri endurhæfingu tókst Ástþóri þó að verða sjálfbjarga að miklu leyti, þó ekki kæmi mátturinn aftur í fæturna. Ástþór hefur vakið þjóðarathygli fyrir seiglu sína, ráðsnilld og bjartsýni. Hann hefur haldið áfram búskap á Melanesi; stundað refaveiðar; vélaviðgerðir; ferðaþjónustu og gert margt það sem mörgum gæti virst ómögulegt fötluðum manni í hjólastól.
2006
Landssamtök um tæknimiðstöð; Samtök hugvitsmanna: Valdimar Össurarson frá Láganúpi hefur farið fyrir hópi sem beitir fyrir því að hérlendis verði stofnsett tæknimiðstöð (science center) í líkingu við þau sem starfa í nánast hverju einasta þróuðu ríki heims. Slíkar miðstöðvar nýtast verulega til m.a. eflingar kennslu og til áhugavakningar í nýsköpun. Valdimar hefur lengi stundað kennslu, m.a. í raungreinum, en hvatinn að stofnun samtakanna var sýningin „Hugvit og hagleikur“ sem hann kom á fót í félagsheimilinu Þjórsárveri 2004, þar sem hann starfaði sem umsjónarmaður og ferðamálafulltrúi. Þar voru sýndar fjölmargar uppfinningar, einkum úr Flóanum; gerð heimildarmynd og gefin út samnefnd bók. Stofnuð voru landssamtökin Átak, og að því stóðu m.a. fjölmörg landssamtök fagfélaga. Verkfræðistofa vann kostnaðaráætlun; farið var í kynnisferðir í miðstöðvar á norðurlöndunum og Kanada; haldin málþing með erlendum fyrirlesurum; unnin skýrsla Kennaraháskólans um nauðsyn tæknimiðstöðvar og tveimur áfangaskýrslum skilað til stjórnvalda.
Enginn skilningur reyndist þó vera fyrir málinu hjá stjórnvöldum, þó sumir ráðamenn þættust áhugasamir. Enn er Ísland eitt landa án tæknimiðstöðvar og ráðmenn undrast slakan árangur nemenda í alþjóðlegum samanburðarprófum. Átak er enn (2020) starfandi, en starfið liggur niðri. Valdimar var kjörinn formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna árið 2009 og hefur verið það síðan. SFH eru landssamtök áhugafólks sem vinnur að nýsköpun og eflingu hennar. SFH er núna umsjónaraðili Átaks.
2008
Félagsheimilið Fagrihvammur og skólahúsið selt einkaaðilum: Vesturbyggð hefur selt Karli Eggertssyni Félagsheimilið Fagrahvamm í Örlygshöfn og barnaskólahúsið sem við það stendur. Hyggst Karl koma þar upp hótelrekstri (Hótel Látrabjarg). Sumir íbúar fyrrum Rauðasandshrepps eru mjög ósáttir við þessar ráðstafanir sveitarfélagsins, enda var félagsheimilið byggt mikilstil fyrir framlög og sjálfboðavinnu hreppsbúa og til að efla félagslíf á svæðinu, þó Rauðasandshreppur hafi staðið fyrir rekstrinum. Telja margir sig illa svikna, enda hafi þeir reiknað með að hafa sitt félagsheimili eftir sameiningu, líkt og t.d. Patreksfirðingar halda sínu. Að auki telja sumir að fremur sé um gjöf en sölu að ræða. Vissulega hafi fólki fækkað í gamla Rauðasandshreppi, en það hvetji varla til fjölgunar ef þessi félagslegi þáttur er eyðilagður.
2009
Bruni í Neðri-Tungu: Eldur kviknaði í vélaverkstæði og hlöðu á bænum Neðri-Tungu í Örlygshöfn við Patreksfjörð 08.09.2009. Kálfar og kindur voru í húsinu og var búið að bjarga þeim út þegar Slökkvilið Vesturbyggðar og Tálknafjarðar komu á staðinn, auk björgunarsveitarmanna. Nágrannar komu einnig til hjálpar. Greiðlega gekk að slökkva eldinn, en ljóst er að eignatjón er nokkurt. Eldsupptök eru ókunn. (Mbl. 09.12.2009).
2010
Þýskur ferðamaður hrapar á Bjargtöngum: Þýskur ferðamaður á miðjum aldri féll fram af brún Bjargtanga, neðan Ritugjár, og hrapaði um 150 metra fall í stórgrýtta fjöru. Talið er að hann hafi látist samstundis. Landsbjörg ræsti þegar út björgunarsveitir á svæðinu, en það voru félagar í Slysavarnadeildinni Bræðrabandinu í Rauðasandshreppi sem fyrstir komu að manninum. Kom þá í ljós að hann var látinn. Lík hans var flutt fram í björgunarskip en síðan suður í þyrlu sem lenti á Bjargtöngum. Þetta er fyrsta banaslysið sem verður í Látrabjargi frá því að Kristján Erlendsson og Ástráður Ólafsson hröpuðu úr Saxagjárvöllum árið 1926 (sjá þar); ef frá eru taldar drukknanir undir Bjarginu. Má segja að með ólíkindum sé að ekki hafi fyrr orðið slys á ferðamönnum á bjargbrúninni, en þeim hefur fjölgað gríðarlega og ekki fara allir jafn varlega.
2011
Uppfinning Kollsvíkings valin sú besta í heimi: Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson frá Láganúpi hefur hlotið gullverðlaun í alþjóðlegri samkeppni sem Alþjóðasamband uppfinningafélaga, IFIA, stóð fyrir um bestu uppfinningu heims á sviði orku og umhverfistækni. Verðlaunin hlýtur Valdimar fyrir hverfil sem hann hefur unnið að, til nýtingar á orku sjávarfalla og þróar á vegum síns fyrirtækis; Valorku ehf. Hverfillinn er sá fyrsti sem hlotið hefur einkaleyfi hérlendis og um leið eina tæknin sem hérlendis er þróðuð til nýtingar á þessari umfangsmiklu orkulind. Hverfillinn er á einum ási (síðari gerðir eru fjölása) sem snýr þvert á straumstefnu og blöðin eru með breytilegu áfallshorni. Hverfillinn getur unnið við straum úr báðum áttum og snúningsátt helst óbreytt. Valorka hefur aðsetur í Keflavík og öðru hvoru hafa fengist styrkir samkeppnissjóða til þróunarinnar.
Verðlaunaafhendingin fór fram í Stokkhólmi, enda er keppnin í samstarfi við sænska uppfinningasambandið SUF, og verðlaunaféð er gefið af uppfinningamanninum Agne Johansson.
Valorka hóf sjóprófanir hverfils síns í Hornafjarðarósi sumarið 2013; fyrstu prófanir sjávarorkutækni hérlendis. Til þess var smíðaður sérstakur fleki. Ekki vannst þó að ljúka prófunum vegna skorts á styrkfé, en þegar verkefnið fór aftur af stað var unnið að þróun tvíása hverfils sem er einfaldari og afkastameiri.
Hefðbundnum búskap lokið í Breiðuvík: Hjónin Keran St. Ólason og Birna Mjöll Atladóttir frá Patreksfirði hafa búið í Breiðuvík frá 1999. Þau hafa verið með allmikinn sauðfjárbúskap, en hafa nú skorið niður og hyggjast snúa sér alfarið að ferðaþjónusturekstri. Gistiþjónusta hefur komist allvel á fót í Breiðuvík frá því hún hófst í tíð fyrri ábúenda, en nú stendur til að auka hana enn.
2012
Bygg og hveiti ræktað á Rauðasandi: Bændurnir á Lambavatni á Rauðasandi eru einu vestfirsku bændurnir sem rækta korn til þreskingar. Sáð var korni í tíu hektara lands í vor og er uppskeran nú þrjú til fjögur tonn af byggi á hektara. Uppskeran er góð þrátt fyrir kulda og þurrka í vor. Þeir hafa ræktað korn í þrettán ár og eiga einu þreskivélina sem er í notkun á Vestfjörðum. Síðustu tvö árin hafa þeir prófað ræktun á hveiti. Vonast er til að það nái nægum þroska til að nýtast til manneldis, en annars nýtist það sem kúafóður eins og byggið. Bóndi á Lambavatni er Tryggvi Eyjólfsson en synir hans standa að mestu í framlínunni; Þorsteinn bóndi og Eyjólfur rafvirki.
2014
Sýslumaður yfirgefur sýsluna: Nú í árslok hverfur síðasti sýslumaðurinn í Barðastrandasýslu, með því að sýslumannsumdæmin á Vestfjörðum sameinast í eitt, með sýslumannssetur á Ísafirði og aðskilnað lögreglu- og sýslumannsembætta.
Sýslur eiga uppruna til hins forna goðaveldis á þjóðveldisöld, en á 13. öld hóf Noregskóngur að veita handgengnum mönnum sýslur. Var landinu skipt í 12 sýslur eða þinghár. Á 16.öld mótuðust flestar þær sýslur sem haldist hafa framundir þetta og voru þá 21. Hrepparnir eru eldri einingar og oftast nokkrir í hverri sýslu. Við setningu laga um aðskilnað dómsvalds og lögregluvalds 1989 voru sýslumannsumdæmin 25 og hefur svo verið fram að þessu.
Sýslumenn Barðastrandasýslu sátu fyrrum á höfuðbólunum; ýmist í Saurbæ eða Haga. Í Saurbæ sátu t.d. Eggert Hannesson, sem var sýslumaður 1568-1580 og Magnús prúði Jónsson 1580-1591. Síðari sýslumenn hafa m.a. verið þessir: Ólafur Árnason 1737-1752; Davíð Scheving 1753-1781; Bjarni Einarsson 1781-1788; Guðmundur Scheving 1798-1812; Jón Thoroddsen 1850-1853; Guðmundur Benedictsen 1853-1870. Á Eyrum hafa setið: Adam J.E. Fischer 1881-1893; Páll Einarsson 1893-1899; Halldór Bjarnason 1900-1905; Guðmundur Björnsson 1853-1818; Einar M. Jónasson 1918-1927; Bergur Jónsson 1927-1935; Jóhann Skaftason 1935-1956; Ari Kristinsson 1956-1964; Jóhannes Árnason 1964-1982; Stefán Skarphéðinsson 1982-1994; Þórólfur Halldórsson 1994-2008 og Úlfar Lúðvíksson 2008-2014.
2015
Viðgerð Hesthússins á Hólum: Þetta sumar lauk gagngerri viðgerð á Hesthúsinu á Hólum sem staðið hefur yfir sl 5 ár. Þar með er þetta elsta hún landsins aftur orðið svo heilt að það getur annaðhvort þjónað fyrri hlutverkum sem skepnuhús eða reykhús eða, sem líklegra er; verið til sýnis fyrir almenning.
Hesthúsið er elsta bygging landsins til atvinnunota, sem allt frá byggingu hefur verið undir þaki og þjónað sínu hlutverki. Það var að öllum líkindum byggt um leið og kotbýlið Hólar sem, samkvæmt Jarðabókinni, byggðist um 1650 (sjá þar). Líklega hefur það lengst af þjónað sem hesthús að vetri en fjós að sumri, en þannig var notkunin fram á 20.öld, þar til steinsteypt fjós reis á Láganúpi. Eftir það var Hesthúsið notað sem reykingakofi. Helluþakið var um tíma endurnýjað með bárujárni, en við þessa endurnýjun núna fengu hellurnar aftur sinn sess. Veggir eru grjóthlaðnir, ásamt gaflhlöðum, og sperruþak með skammbitum; kann þó að hafa verið ásþak fyrrum. Eftir að fyrsti styrkur fékkst hjá Húsafriðunarnefnd voru arkitektar hjá Glámu-Kím fengnir til að teikna húsið. Valdimar Össurarson frá Láganúpi sá annars um endurbygginguna í samráði við Húsafriðun og Minjavernd. Verkinu lauk 2015 með því að sett var fræðsluskilti við húsið.
Hesthúsið hefur síðan verið vinsælt skoðunarefni fyrir ferðafólk. Þess má geta að á sama tíma og Hesthúsið var byggt lét Brynjólfur biskup Sveinsson byggja stærstu kirkju landsins í Skálholti. Hún er nú fyrir löngu niður fallin. Hinsvegar stendur enn jafnaldri Hesthússins á Indlandi; grafhýsið virðulega; Taj Mahal.
Kenning um myndun frostgíga: Valdimar Össurarson (skrásetjari) hefur sett fram kenningu um myndun margra djúpra dælda sem algengar eru ofan láglendis í Rauðasandshreppi og víðar. Ekki er að sjá að fyrr hafi fundist skýring á þessum fyrirbærum eða að þau hafi mikið verið rannsökuð, eins og staðfest hefur verið af íslenskum og erlendum vísindamönnum á sviði jarðfræði og landmótunar. Víða í nágrenni Kollsvíkur eru slíkir frostgígar; t.d. í Kjóavötnum, Hvolfum og Keldeyrardal. Myndunin verður þegar skiptast á frosta- og þýðukaflar. Vatn sem botnfrýs í dæld lyftist sem klakahella í leysingavatni; tekur með sér jarðvegstorfu og fleytir henni útfyrir kant gígsins. Við það dýpkar hann og bakki eða urð myndast í kring. Sumir gígarnir, t.d. "þurra Kjóavatnið" eru meira en metri á dýpt. Nýlegar jarðvegstorfur sanna þessa kenningu; og að myndunin er viðvarandi.
2016
Landgræðsla í Kollsvík: Sandfok og uppblástur hefur verið vandamál í Kollvík frá því að sögur hófust. „Sandur fýkur mjög á tún og landið“ segir Árni Magnússon 1703. „Gras for uden tunet af flyvesand fra söen årlig bespendis“ segir Ólafur sýslumaður Árnason 1746. Fyrrum hlóðu menn varnargarða og báru rask á jörð til uppgræðslu og verndar. Bændur og Landgræðslan girtu foksvæði á síðari hluta 20.aldar og dreifðu áburði um tíma. Allt hefur það þó gengið úr sér á síðari árum og mikið blásið upp; mest á Litlufit. Svavar Guðbjartsson ýtti upp stíflu í Torfalæk sem hækkaði vatnsborð og gerði gagn. Nú hafa jarðeigendur í Kollsvík gert landgræðsluáætlun um aðgerðir. Felur hún í sér að viðhalda stíflunni; slá sinu sem safnast hefur á tún og koma henni í rofsvæði og aka mold úr mýrasvæðum í manir á mestu rofsvæðunum. Auk þess verða teknar upp gamlar ónýtar girðingar. Vænst er aðkomu Landgræðslu ríkisins, enda hefur hún mun minna sinnt rofsvæðum skeljasands en vikurflákum á hálendi landsins. (Sjá einnig 1954)
Forsetakjör: Í forsetakosningum þetta sumar náði Guðni Thorlacius Jóhannesson kjöri. Hann hefur undanfarið starfað sem prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og ritað nokkrar bækur. Foreldrar hans eru Margrét Thorlacius kennari og Jóhannes Sæmundsson íþróttakennari. Jóhannes var sonur Sigurveigar Guðmundsdóttur (Hjaltasonar sem m.a. ferðaðist um Rauðasandshrepp 1913 og 1916, sjá þar) og Sæmundar Jóhannessonar frá Vaðli á Barðaströnd. Þau voru um tíma á Patreksfirði og sumarið 1943 var Sigurveig ráðskona hjá Arinbirni Guðbjartssyni á Sellátranesi, með Jóhannes 3ja ára hjá sér. Þangað kom þá vitaskipið Hermóður vegna byggingar vitans á Háanesi, en skipstjóri þar var Guðni Thorlacius; afi Guðna forseta. Sú aðferð var höfð við að svæfa Jóhannes á kvöldin að Arinbjörn las hátt fyrir hann úr Tímanum. Vafasamt er þó að sú pólitíska innprentun eigi nokkurn þátt í að Guðni varð þjóðkunnur sem prófessor í stjórnmálafræði. (SG; Þegar sálin fer á kreik. Sjá 1943). Kona Guðna er Elíza Reid; kanadísk að uppruna.
Ættir Guðna liggja í sameiginlegar rætur við Kollsvíkinga. Hann er í föðurætt 7. liður frá Arngrími Ólafssyni (1725-1788) sem bjó á Hnjóti í Rauðasandshreppi, en Arngrímur var langafi Guðbjartar Ólafssonar (12.09.1830-26.08.1879) í Kollsvík.
2017
Listakonan Didda á Láganúpi fallin frá: Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi lést 6. júní 2017 á Sjúkrahúsinu á Patreksfirði. Sigríður var af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Guðbjartur Gísli Egilsson á Lambavatni og Halldóra Kristjánsdóttir frá Grundum. Sigríður, sem af kunnugum var kölluð Didda, giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á ættjörð hans Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni. Sigríður var þekkt og fjölhæf listakona, hvort heldur var í útskurði, teiknun, listmálun, skúlptúrum eða öðru. Eftir að mestu annirnar við búskap og barnauppeldi og umsjón fatlaðs eiginmanns voru að baki sneri hún sér í auknum mæli að þessari listsköpun sinni með miklum afköstum. Hún þróaði aðferð til að mála á náttúrulegar steinhellur og hin einstæðu hellumálverk hennar prýða nú heimili víða um land. Sigríður var, líkt og Össur maður hennar, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja. Hún taldi sig ávallt Rauðsending að verulegum hluta, en undi hvergi betur en í Kollsvíkinni, þar sem hún dvaldi langdvölum ein eftir fráfall Össurar. Hún varð fyrir því áfalli síðsumars 2011 að veikjast alvarlega og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi það sem hún átti eftir ólifað. Eftir sem áður vann hún að list sinni og tók þátt í félagslífi.
2018
Nýtt íbúðarhús; Litlinúpur: Nýr bústaður var tekinn í notkun á þessu sumri, þegar Agnes Ingvarsdóttir og Guðbjartur Össurarson settu þar niður húsið Litla-Núp í landi Láganúps. Þetta er all veglegt hús sem flutt er tilbúið til landsins og var flutt á vörubílspalli frá Þorlákshöfn í Kollsvík. Sá flutningur gekk vel í alla staði og var húsið híft á sinn stað uppi undir Hjöllum; stutt frá gamla bæjarhólnum að Láganúpi. Guðbjartur er uppalinn á Láganúpi en þau Agnes búa á Hornafirði þar sem þau reka bókhaldsstofu.
Meira en öld er liðin síðan síðast var stofnað til nýbýlis í Kollsvík, en það stofnuðu Karl Kristjánsson og Mikkalína Guðbjartsdóttir á Stekkjarmel árið 1907. Síðast var flutt inn í nýtt íbúðarhús í víkinni árið 1974; á Láganúpi (sjá þar).
Rebekka frá Kollsvík bæjarstjóri Vesturbyggðar: Á fundi bæjarráðs Vesturbyggðar hinn 24.07.2018 var samþykkt að ráða Rebekku Hilmarsdóttur sem bæjarstjóra Vesturbyggðar. Rebekka er dóttir Hilmars Össurarsonar og Hólmfríðar St. Sveinsdóttur frá Kollsvík og þar ólst hún upp. Hún er lögfræðingur að mennt og starfaði m.a. sem staðgengill skrifstofustjóra atvinnuvegaráðuneytisins um tíma. Hún hefur búið syðra ásamt manni sínum; Erni H. Jónssyni húsasmið en fyrir 3 árum keyptu þau Gamla spítalann á Patreksfirði (sjá 1902) og hafa unnið að gagngerri viðgerð hans í samráði við Minjastofnun. Munu þau búa þar er hún tekur til starfa í byrjun oktober.
Skollakoppur veldur landspjöllum í Kollsvík: Nokkrar breytingar hafa orðið í náttúrunni á strandsvæðum utanverðs Rauðasandshrepps á síðustu árum; og reyndar hefur frést af svipuðu víða á vestan- og norðanverðu landinu. Fyrst varð þess vart á síðustu árum grásleppuútgerðar í hreppnum um 1980 að þaraskógar fóru að hverfa í æ ríkara mæli af hefðbundnum og gjöfulum grásleppumiðum en í staðinn kom upp mikið af ígulkerinu skollakopp og öðrum óþverra. Bar t.d. mikið á þessu utan Hænuvíkur og í Kollsvík. Um leið fóru að minnka þarabunkar sem jafnan hafa verið á fjörum í Kollsvík, og hurfu þeir að lokum alveg. Næst skeði það að fyllur af sjó tóku að hlaupa hátt á land í Kollsvík í stórstraumsflæðum og álandsbrimi. Skolaðist við það sandur undan Grundabökkum svo þar voru m.a. fornar minjar Láganúpsverstöðvar í stórhættu. Auk þess gengu fyllur á land og brutu skörð í Garðana miklu, sem þar hafa staðið óáreittir frá slíku í ómunatíð. Á sama tíma bárust fréttir víða frá Vestur- og Norðurlandi um mikið tjón á fornum minjum vegna ágangs sjávar. Breytingarnar voru víða við landið.
Skrásetjari setti fram kenningu um orsakir þessara hamfara, byggða á rannsóknum vísindamanna og eigin athugunum. Skollakopp hefur, af einhverjum orsökum, fjölgað verulega við landið og þekkt er að slík offjölgun veldur mikilli eyðingu þaraskóga sem dýrið nærist á. Einnig er þekkt að þaraskógar á grunnsævi draga mjög úr afli brimbárunnar. Hinsvegar virðist skrásetjari vera fyrstur til að setja þetta tvennt í samhengi, til skýringar á áðurnefndum breytingum. Var sú kenning m.a. birt í Náttúrufræðingnum á þessu ári. Sjá nánar um sjóvarnir við Láganúpsver 2020. Aukið sjávarrof á ströndum landsins hefur eyðilagt mikið af minjum um fornar verstöðvar. Auk framangreindrar skýringar er hugsanlegt að hopun íss á Grænlandssundi eigi þarna nokkra sök. Langvarandi vestlægar og norðlægar áttir ná að rífa upp stærri öldur eftir því sem opið hafsvæði stækkar. Hvorttveggja kann að eiga rætur í hlýnandi loftslagi jarðar.
2019
Viðgerðir á Görðum á Grundabökkum: Lokið er að mestu viðgerð sem staðið hefur yfir á Görðunum miklu sem liggja meðfram Grundabökkum neðan Lögmannslágar og Grundafitjar. Garðarnir voru víða illa farnir þegar verkefnið hófst fyrir fjórum árum. Annarsvegar höfðu þeir gengið og hrunið úr þeim vegna aldurs en að auki hafði sjór gengið á land fyrir um áratug í miklu álandsveðri um stórstraumsflæði og brotið stór skörð í garðana utantil. Verkinu var skipt í nokkra áfanga. Sumsstaðar þurfti að rífa garðana alveg niður og endurhlaða en annarsstaðar dugði minni viðgerð. Garðarnir eru líklega elstir nyrst; hugsanlega frá tímum Láganúpsvers, en sunnantil eru þeir sennilega frá búskapartíð Kristjáns Ásbjörnssonar. Garðarnir hafa gegnt fjölþættu hlutverki; sem vörslugarðar og skjól fyrir Grundatún; sem aðhald að fjárrekstrum um Bakkana og e.t.v. sem þurrkgarðar fyrir fisk. Nyrst í þeim er byrgi þar sem máfur var skotinn á fluginu. Við garðana er hlaðin fjárrétt sem einnig hefur þjónað sem matjurtagarður, en viðgerð þess hluta bíður. Einnig bíður lítill kafli við Byrgið, þar sem hefur vantar sjóvarnargarð. Valdimar Össurarson sá um endurhleðsluna í samvinnu við Húsafirðunarnefnd.
Viðurkenning fyrir minjavernd: Landeigendur Kollsvíkur og Láganúps hljóta að þessu sinni hina árlegu viðurkenningu Minjastofnunar „fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar“, eins og það er orðað í tilkynningu. Þar segir ennfremur: „Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenning af þessu tagi er veitt og hljóta Kollsvíkingar hana að þessu sinni fyrir öflugt grasrótarstarf við viðhald og varðveislu menningarminja í Kollsvík, ásamt skráningu þeirra og miðlun“.
Minjastofnun vísar þar til þess m.a. að á síðustu árum hefur verið unnið að viðhaldi minja í Kollsvík; gagngerum viðgerðum á Hesthúsinu forna á Hólum og viðgerðum á Görðum á Grundabökkum. Einnig hefur fengist vilyrði Vegagerðarinnar um að sjóvörn verði gerð við Grundabakka til að verja minjar hins forna Láganúpsvers gegn frekari eyðingu en orðin er. Þá hefur í Kollsvík farið fram ýmis söfnun á margháttuðum fróðleik sem birtur er á vefsíðunni kollsvik.is, sem orðin er ein yfirgripsmesta átthagasíða landsins. Þar eru birt ýmis fróðleg skrif Kollsvíkinga; ýmsar samantektir og orðasöfnun sem lýtur einkum að málfari á svæðinu. Örnefni hafa verið kortsett rafrænt og unnin viðamikil örnefnaskrá sem byggir á eldri skrám. Þá hafa landeigendur Kollsvíkur og Láganúps, bæði fyrr og síðar, unnið að varðveislu minja sem á jörðunum eru, t.d. með vörnum gegn uppblæstri og átroðningi, en um leið stuðlað að aðgengi þeirra með skiltum og göngustígum.
Kollsvíkingur stýrir Fiskmarkaði Patreksfjarðar: Egill Össurarson frá Láganúpi hefur tekið við stjórnun Fiskmarkaðar Patreksfjarðar af Hjörleifi Guðmundssyni, sem reyndar er einnig ættaður úr Rauðasandshreppi og stofnaði markaðinn. Markaðurinn tekur við fiski sem landað er á Patró og fer ekki beint til vinnslu á staðnum. Fiskurinn er boðinn upp gegnum fjartengt uppboðskerfi og fluttur til kaupenda með bílum. Egill hefur unnið um nokkuð skeið við markaðinn, en var áður í ýmsum störfum, t.d. hjá tryggingaumboði, sem sjómaður og sem landpóstur.
Kollsvíkingar hafa löngum komið að fiskmati á Patreksfirði, t.d. Þórarinn Bjarnason frá Grundabökkum frá 1930; þá Ólafur Ólafsson úr Króki og Kollsvík og síðar Árni Helgason frá Tröð. Minnir það á að í raun á útgerð á Patreksfirði rætur að rekja til hinna miklu verstöðva í Útvíkum, einkum í Kollsvíkurveri.
2020
Minjar Láganúpsvers varðar sjávarrofi: Nú hefur verið gripið til varna gegn því mikla sjávarrofi sem ógnað hefur minjum í Grundabökkum síðustu áratugina, ekki síst hinni fornu Láganúpsverstöð. Á síðustu áratugum 20.aldar tók sjór að ganga óvanalega langt á land þegar saman fór stórstraumsflóð og mikið álandsbrim. Setti skrásetjari fram kenningu (sjá 2018) um að orsök þess væri eyðing þaraskóga af völdum skollakopps. Í nokkur ár hafa landeigendur Láganúps beitt sér fyrir því að grjótvörn verði sett við viðkvæmustu rofsvæðin í Grundabökkum; líkt því sem gert var við Brunnaverstöð með góðum árangri fyrir nokkrum árum. Vegagerðin er hinn opinberi framkvædaaðili í þessum efnum en þar var borið við fjárskorti. Skrásetjari beitti sér nokkuð fyrir málefninu við ráðamenn og fékk m.a. þingmann til að leggja fram fyrirspurnir til þriggja ráðherra. Á endanum fékkst nokkur fjárveiting til sjóvarna. Fremur óhönduglega tókst þó til með útboð Vegagerðarinnar, sem olli því að ekki var byrjað á verkinu fyrr en 03.04.2020, en á liðnum vetri urðu enn meiri skemmdir á verminjunum. Efni til varnargarðsins er tekið í Hæðinni ofanvið Tröðina og ekið niðuryfir Fit og Grundatún; niður skarðið neðan Lögmannslágar. Verktaki er Lás hf á Bíldudal.
Hér lýkur Kollsvíkurannál. Hann verður þó uppfærður áfram, eftir því sem tilefni gefst og skrásetjara nýtur við. Viðbætur og leiðréttingar eru vel þegnar. Þær má t.d. senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Valdimar Össurarson; ábyrgaðarmaður og skrásetjari.
Atriðisorð Kollsvíkurannáls
Afreksmenn 1772, 1845
Amboð, búsáhöld 1870, 1880, 1889, 1900, 1901, 1910
Álver 1976
Bardagi, mannvíg 990, 1130, 1196, 1201, 1218, 1241, 1481, 1570, 1615
Barnakennsla, skóli 1888, 1899, 1900, 1942, 1958, 1963, 1966, 2002
Beinhákarl 1966
Berklar 1937
Biskup 1056
Bíll 1926, 1934, 1946, 1974
Bjarndýr 1850
Björgun 1911, 1913, 1922, 1940, 1941, 1947, 1948, 1949
Blakknesbardagi 1952
Breiðavík 1431, 1772, 1786, 1820, 1824, 1825, 1885, 1899, 1940, 1947, 1964, 1999, 2011
Brunnar 1620, 1890
Búnaðarfélag, nautgripar.félag, ræktunarsamb. 1891, 1906, 1934, 1940, 1949, 1955, 1957, 1961, 1970
Byggingafélag 1975
Bækur, úrgáfa, lestur 1584, 1648, 1703, 1816, 1947, 1965
Bænhús 1431. 1431, 1514
Draugar, skrímsli, ókindur 1820, 1849, 1870, 1875, 1876, 1891
Dýralæknir 1978
Dýrbítur, tófa 1874, 1947, 1956
Einar í Kollsvík 1797, 1806, 1812, 1813, 1816, 1836, 1971
Eldingar 1942
Eldsvoði, húsbruni 1954, 1960, 1974, 1980, 2009
Englendingar 1413, 1419, 1469, 1473, 1528, 1918
Eyrar 1469, 1662, 1684, 1706, 1728, 1733, 1765, 1776, 1785, 1800, 1813, 1824, 1833, 1847, 1850, 1852, 1865, 1868, 1869, 1877, 1878, 1881, 1886, 1890, 1892, 1894-
Farsóttir 1350, 1402, 1494, 1707, 1768, 1897, 1956
Ferðaþjónusta 1979, 1983
Félagsheimili 1955, 1957, 2008
Fiðrildi 1931
Fiskideildin Víkingur 1916, 1920, 1922
Fiskreki 1882, 1944
Fjárskaðar 1934, 1935, 1963
Fjárskipti 1952
Fjörunytjar 1850
Flugvélar, flugvellir 1948, 1950, 1952, 1960, 1962, 1965, 1966, 1968, 1985
Fornminjar 1896, 1964, 1969, 2015, 2019, 2020
Forsetakjör, forsetaheimsókn 1944, 1952, 1968, 1980, 1983, 1996, 2016
Frakkar 1681, 1767, 1886, 1900, 1905, 1918
Fráfærur 1912, 1934
Fýll (múkki) 1933, 2000
Færeyingar 1890, 1900, 1918, 1925
Galdramaður, fjölkynngi 1133, 1201, 1483, 1485, 1669, 1812, 1813, 1820
Gangspil 1900
Grænland 1350, 1390, 1519, 1522, 1580
Guðmundur góði 1202-1219
Guðmundur ríki 1446, 1460
Hafís 1685, 1695, 1725, 1766, 1859, 1881, 1918, 1932, 1944, 1968
Hagleiksmenn, uppfinningar 1521, 1525, 1559, 1617, 1673, 1764, 1933, 1961, 2006, 2011, 2017
Halastjarna 1682
Hallæri-harðindi 975, 1056, 1233, 1312, 1406, 1604, 1633, 1701, 1704, 1757, 1757, 1779, 1783, 1802, 1855, 1859, 1874, 1881, 1918, 1949, 1955, 1983
Hákarl, hákarlaveiðar 1821, 1824, 1863, 1876, 1884, 1890, 1900, 1920
Hámeraveiði 1960
Heilbrigðismál 1919
Heimilisiðnaður 1880, 1909
Hernaðarmannvirki 1974
Heykögglaverksmiðja 1969
Heyverkun 1907, 1958
Hjartaskel 1953
Hreppsnefnd, oddviti, kosningar, sameiningar 1943, 1946, 1950, 1954, 1960, 1962, 1969, 1970, 1982, 1990, 1994, 2018
Hollendingar 1772, 1767
Hrognaostur 1888, 1940
Hrognkelsaveiðar 1966, 1968, 1970, 1975, 1976, 1979, 1982, 1984
Hundadagakóngur 1809
Húsakostur 1880, 1902, 1903, 1906, 1918, 1934, 1941, 1955, 2015
Húslestrar, kvöldvökur 1909, 1920
Húsvitjanir 1962
Hvalur, hvalreki, hvalveiðar 1802, 1812, 1881, 1890, 1893, 1905, 1930, 1938, 1939, 1956, 1966
Hvassviðri 1936, 1974
Hænsnarækt 1980
Iona-klaustur 880
Innrásarprammi 1973
Jarðskjálfri 1938
Jarðýta 1946, 1949, 1954
Jól, jólatré 1899
Kafbátur 1943
Kalkvinnsla 1928
Kamrar 1910
Kartöflur, garðrækt 1760, 1762, 1888, 1901, 1907, 1910, 1916, 1950, 1972
Kaupfélag, sláturhús 1908, 1924, 1925, 1931, 1933, 1936, 1939, 1944, 1945, 1946, 1956, 1957, 1963, 1967, 1971, 1975, 1980, 1982, 1983, 1986, 1987, 1988
Keflavík 1846, 1900
Kirkja 880, 1192, 1195, 1397, 1419, 1431, 1512, 1550, 1907
Kolanám 1881, 1917, 1918
Kollsvík 1446, 1460, 1480, 1509, 1525, 1564, 1567, 1570, 1660, 1703, 1746, 1797, 1813, 1889, 1896, 1899, 1910, 1930, 1952, 1970, 1978, 1984, 2000, 2002
Kollsvíkurver 1703, 1889, 1890, 1899-1940
Konungsvald, konungsverslun 1262, 1397, 1602, 1619, 1742, 1759, 1763, 1771, 1774, 1776, 1788, 1809
Kornrækt 2012
Kúfiskur 1890, 1894, 1899
Kveðjusiðir 1936
Kvikmynd 1948, 1950, 1968
Landnám 865-890
Laxeldi 1979
Láganúpsver 1703, 1870, 1880
Láganúpur 1419, 1446, 1564, 1570, 1660, 1889, 1898, 1930, 2018
Láturdalur 1908
Lendingabætur 1910, 1918, 1939, 1946, 1956, 1964, 1974
Lestrarfélag 1921
Ljósfyrirbæri 1762, 1957
Ljósmóðir 1840, 1993
Loftbelgjaflug 1881
Lóðir 1528, 1581, 1894
Lýðveldi 1944
Læknir 1894, 1899, 1929
Löggjöf, þing, dómur 930, 1262, 1490, 1567, 1581, 1690, 1692, 1746, 1754, 1757, 1776, 1802, 1893, 1905, 1915, 1919, 1932, 1982
Magnús prúði 1565, 1567, 1581, 1591
Melta 1983
Minjasafn 1976, 1983
Minkur 1931, 1963
Mjólkursala 1932, 1938, 1961, 1966, 1968, 1993, 1999
Mótekja 1953
Myllur 1910
Net 1753, 1771
Njósnari 1941
Norðmenn 1771
Pólitík, þingmaður 1910, 1958
Póstur 1878, 1906, 1945, 1985
Rán 1525, 1579, 1615, 1627, 1694
Rafstöð, virkjanir, rafvæðing 1911, 1929, 1942, 1955, 1963, 1970, 1973, 1975, 1976
Refarækt 1985
Rekaviður 1471, 1710, 1932, 1974
Riðuveiki 1984
Rostungur 1390
Rómarfarar 1195, 1415
Sauðlauksdalur 1499, 1512, 1515, 1546, 1596, 1704, 1753, 1760, 1763, 1782, 1820, 1840, 1852, 1863, 1879, 1896, 1922, 1944, 1950, 1954, 1964, 1968, 1975, 1978
Saurbær 1192, 1195, 1196, 1418, 1469, 1480, 1498, 1500, 1521, 1536, 1542, 1546, 1550, 1551, 1554, 1559, 1568, 1569, 1571, 1575, 1579, 1580. 1605, 1630, 1681, 1703, 1724, 1790, 1854, 1885, 1966
Saltfiskur 1781, 1882, 1894, 1918, 1982
Sandgræðsla 1763, 1953, 2016
Segl 1703
Sel 1893, 1901
Selveiði 1940
Siglingar 1340, 1413, 1645, 1660, 1664, 1673, 1710, 1752, 1767, 1906, 1907, 1908
Síldveiðar 1961
Sími 1908, 1933, 1934, 1936, 1938, 1950, 1952, 1968, 1984, 1988, 1990
Sjónvarp 1968
Skollakoppur 2018
Skor 1746, 1927
Skólaskip 1967
Skreið 1191, 1300, 1310, 1320, 1375, 1396, 1554, 1564, 1640, 1893, 1909
Skurðgröftur 1953, 1954
Skútur, skútusmíði 1660, 1752, 1776, 1794, 1800, 1806, 1813, 1876, 1882
Slys, strönd, skiptapar 1625, 1658, 1673, 1698, 1714, 1720, 1728, 1768, 1772, 1774, 1781, 1786, 1812, 1821, 1822, 1824, 1829, 1837, 1852, 1856, 1857, 1858, 1864, 1869, 1876, 1878, 1882, 1886, 1888, 1897, 1899, 1900, 1904, 1907, 1912, 1913, 1914, 1918, 1919, 1920, 1925, 1926, 1931, 1933, 1935; 1939, 1941, 1942, 1943, 1947, 1948, 1960, 1975, 1980, 1981, 1991, 1999, 2003, 2004, 2010
Slysavarnadeild, slysavarnir 1933, 1953
Smiðja 1912
Smjörreki 1943, 1945
Smokkfiskur 1870
Snjóflóð 1857, 1983
Sparisjóðir, bankar 1892, 1910, 1977
Steinbítur 1901
Stígvél 1900
Sundkennsla 1921
Súrþari 1928
Svelti 1951
Sýslumaður 1956, 1964, 2014
Sæðingar 1970
Sælgæti 1937
Togari 1899, 1900, 1903, 1905, 1953
Traktor 1943, 1944, 1955, 1969
Tundurdufl, sprengja 1982 1949
Tæknimiðstöð 2006
Töðugjöld 1963
Ullarþvottur, ullarsala 1931
Umhverfisvernd 1963
Ungmennafélag 1909, 1910, 1916, 1935
Útvarp 1930
Útslægjur 1940
Þjóðverjar, hafmborgarkaupmenn 1540, 1554
Veðurathuganir 1927
Vegagerð 1910, 1930, 1934, 1945, 1950, 1953, 1954, 1956, 1957, 1966, 1969, 1973, 1974, 1984
Vesturfarar 1911
Vélaverkstæði 1982
Vélbátar 1819, 1920
Vikur á fjörum 1963
Vistheimilið Breiðuvík 1953, 1954, 1979
Viti 1913, 1943, 1948, 1966
Vín, tóbak, vínneysla, brugg 1847, 1906, 1923, 1934
Vísindi, rannsóknir 1754, 1762, 1886, 1898, 1998, 2015, 2018
Þorrablót 1950, 1957
Öldungur 1944
Öryggismál 1891