Sumarið 2020 hófst vinna við endurreisn Mókofans á Láganúpi. Valdimar Össurarson vinnur verkið í samstarfi við Minjastofnun Íslands og stuðningi Húsafriðunarsjóðs.
Mókofann hlóð hleðslumeistarinn Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi, líklega um eða eftir 1930, til geymslu á mó, sem þá var helsta eldsneytið. Kofinn kann þó að vera nokkru eldri, enda hefur mór vafalaust verið þurrkaður á Flötinni rétt hjá. Eftir að olíukynding kom í Láganúpshúsið var Mókofinn notaður sem hrútakofi innst, en smíðaverkstæði og geymsla framantil. Við hann stóð hænsnakofi. Lokastig nýtingar þessara húsa var til reykingar matvæla, en þau féllu bæði í tóft fyrir aldamótin 2000.
Í þessum fyrsta áfanga verksins var byrjað á að fjarlægja mikinn haug neta sem sett höfðu verið í tóftina þegar grásleppuútgerð Kollsvíkinga á Gjögrum lauk. Þau veiðarfæri færðust um set, upp í tóft af kartöflugryfju ofar á Gilbarminum. Stungið var upp úr gólfi Mókofans, þar sem upp komu nokkrir forvitnilegir munir; m.a. hjólböruhjól úr hvalbeini. Vegghleðsla Guðbjartar var mjög vönduð, en eftir að veggfylling rann úr henni gekk hún til. Hún var því tekin að mestu niður en hleðslugrjót endurnýtt. Viðbót af grjóti var sótt upp á Núp, þar sem finna má ágætar námur slíks efnis. Til veggfyllingar var nýtt frostfrí möl sem var þarna við hendina, frá byggingu Láganúpshússins 1974. Tór var notaður til holufyllingar í veggjum, eins og fyrrum tíðkaðist; stutlaður eftir þörfum. Að þessu sinni var ekki byrjað á viðgerð hænsnakofans.
Í næsta áfanga er gert ráð fyrir að ljúka upphleðslu veggja og helst koma húsunum undir þak. Í þriðja áfanga verður gengið endanlega frá. Mókofinn ætti þannig að geta orðið góð fylling í þá mynd torfhúsa sem eru þarna í Gilinu og utan við það. Beint á móti er torfþakin kartöflugryfja; í Ytragilinu er reykkofi og uppi á Hólum er öldungur íslenskra torfhúsa; Hesthúsið á Hólum, byggt um 1650. Hér að neðan er riss sem sýnir fyrirhugað útlit húsanna eftir þessa viðgerð.