Eins og sjá má hefur vefurinn kollsvik.is fengið nokkra andlitslyftingu.  Um nokkurn tíma hefur verið fyrirhugað að gera á honum ýmsar breytingar um leið og sett verður inn efni sem safnast hefur fyrir.  Að lokum varð niðurstaðan sú að leggja af fyrra kerfi og setja upp nýtt vefsvæði frá grunni, sem betur hentar átthaga- og upplýsingasíðu sem þessari. 

Samið var við auglýsingastofuna Dagsverk ehf, og hefur Kristján Þór Árnason hjá Dagsverki unnið að þessari uppsetningu í samvinnu við vefstjórana Valdimar og Kára Össurarsyni. 

Vefsíðan er enn í mótun og verður í sífelldri endurskoðun þó hún sé nú komin í loftið.  Í byrjun vantar t.d. verulega upp á myndir sem eiga að fylgja efninu, en þeim fjölgar væntanlega.  Vefnum er fyrst og fremst ætlað að vera upplýsinga- og kynningarsíða fyrir þennan merkilega stað sem, eins og Kollsvíkingar vita, er miðdepill alheimsins.  Á henni verður leitast við að kynna staðinn, náttúru hans, sögu og umfram allt mannlíf fyrr og nú.  Ritstjóri síðunnar verður Valdimar Össurarson; tæknilegur stjórnandi Kári Össurarson og vefumsjón verður í höndum Kristjáns Þórs Árnasonar hjá Dagsverki.

Efni síðunnar er fengið eftir ýmsum leiðum.  Sumt hefur borist frá Kollsvíkingum sjálfum eða öðrum velviljuðum; annað hefur verið tekið traustataki, en þá er yfirleitt um áður birt efni að ræða; efni sem ætlað er að birt sé almenningi.  Reynt er að leita heimilda rétthafa fyrir birtingu, en telji einhver vegið að sér eða sínum er viðkomandi endilega beðinn að snúa sér til ritstjóra.  Höfundum og rétthöfum efnis er þakkað framlagið.

Efni til birtingar er vel þegið; falli það að áðurnefndum markmiðum vefsíðunnar.  Sömuleiðis er kærkomið að fá myndir frá Kollsvík; einkum frá fyrri tíð en einnig góðar samtímamyndir. 

Leita