kristin vidurkenning kollsvikMinjastofnun hefur tekið upp þá venju að veita árlega viðurkenningu fyrir starf á sviði minjaverndar.  Að þessu sinni hljóta landeigendur Kollsvíkur og Láganúps þessa viðurkenningu „fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar“, eins og það er orðað í tilkynningu.  „Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenning af þessu tagi er veitt og hljóta Kollsvíkingar hana að þessu sinni fyrir öflugt grasrótarstarf við viðhald og varðveislu menningarminja í Kollsvík, ásamt skráningu þeirra og miðlun“.

Með þessu vísar Minjastofnun líklega til þess m.a. að á síðustu árum hefur verið unnið að viðhaldi merkra minja í Kollsvík; gagngerum viðgerðum á Hesthúsinu forna á Hólum og yfirstandandi viðgerðum á Görðunum.  Einnig hefur fengist vilyrði Vegagerðarinnar um að sjóvörn verði gerð við Grundabakka til að verja minjar hins forna Láganúpsvers gegn frekari eyðingu en orðin er.  Þá hefur í Kollsvík farið fram ýmis söfnun sem fram kemur á þessari vefsíðu; t.d. skrif Sigríðar Guðbjartsdóttur um hætti og siði fyrri tíðar og orðasöfnun Valdimars Össurarsonar.  Örnefni hafa verið kortsett rafrænt og unnin viðamikil örnefnaskrá sem byggir á eldri skrám.  Þá hafa landeigendur Kollsvíkur og Láganúps, bæði fyrr og síðar, reynt að gæta þeirra minja sem á jörðunum eru, t.d. með vörnum gegn uppblæstri og átroðningi, en um leið stuðlað að aðgengi þeirra með skiltum og göngustígum. 

Margir Kollsvíkingar eiga hlutdeild í þeim sóma sem þeim fellur hér í skaut; núlifandi sem gengnir.  Þannig var t.d. Einar gamli Jónsson í Kollsvík síðastur Íslendinga til að stunda rauðablástur, sem sýndi á sinn hátt viðleitni til að hafa í heiðri gamla atvinnuhætti, þó þá væri orðin völ á innfluttu járni.  Þeir mörgu sem lagt hafa skerf til þessarar vefsíðu með efni sínu eiga hér einnig sinn hlut.

Kollsvíkingar þakka Minjastofnun fyrir þessa viðurkenningu.

Leita