Óvanalega margar bækur hafa komið út á árinu 2020 sem tengjast þessum vestustu byggðum Evrópu.

 Rauðasandshreppur hinn forni.  Árbók Ferðafélags Íslands var að þessu sinni var helguð Rauðasandshreppi.   Aðalhöfundar eru Gísli Már Gíslason og Ólafur B. Thoroddsen sem báðir eiga rætur í hreppnum.  Bókin er aðgengileg lestrar; vel uppbyggð með skýrum fróðlegum texta og fjölmörgum vönduðum myndum og teikningum.  Áhugaverður kafli er um náttúru svæðisins, m.a. umfjöllun sérfræðinga um gróðurfar.  Kunnugir geta vissulega hnotið um einstaka villur, en í heildina skaða þær lítt þetta ágæta verk.  Hér er á ferð heildstæðasta lýsing Rauðasandshrepps sem enn hefur komið út á prenti.

Sláturfélagið Örlygur  „þættir úr sögu samvinnufélags“  í samantekt Sigurjóns Bjarnasonar í Hænuvík.  Hér er rakin saga þessa félagsskapar sem einkum starfaði í utanverðum hreppnum; sprottinn úr hugsjón og knúinn af þörfum og félagsþroska fjölmennrar sveitar.  Höfundur hefur grafið djúpt eftir heimildum og bókin veitir innsýn í þætti sem farið var að fenna yfir.  Bókin er vel heppnuð, að því marki sem heimildir leyfa.

Krapaflóðin á Patreksfirði 1983 eftir Egil Steinar Fjeldsted.  Hér birtist í fyrsta sinn heildstæð lýsing á þessum mannskæðu hamförum, sem segja má að hafi nokkuð fallið í skuggann af snjóflóðum sem síðar urðu á Súðavík og Flateyri.  Frásögn Egils Steinars er hlutlæg og fræðileg, en um leið lífleg aflestrar og nærgætin um viðkvæm málefni.  Líkt og fyrrnefndar bækur er þessi þarft innlegg í sögu svæðisins. 

Árbók Barðastrandasýslu hefur um marga áratugi verið kjölfesta útgáfu á svæðinu og forðað margháttuðum fróðleik frá glötun.  Efnið er af margvíslegum toga og eflaust má deila um efnisval, en hér er um virðingarvert framtak að ræða sem nú er borið uppi af áhugafólki í Sögufélagi Barðastrandasýslu.  Ritstjóri er Daníel Hansen en, líkt og um marga aðra útgáfu sem tengist svæðinu, nýtur Árbókin krafta Rögnvaldar Bjarnasonar frá Hænuvík varðandi prentun og útgáfu. 

Leita