Hér eru nokkrir þeir viðburðir færðir í tímaröð sem varða sögu verstöðu og útgerðar í Kollsvík.  Margt af því er kemur fyrir í Kollsvíkurannál, sem birtur er annarsstaðar á síðunni.

Um 880  Fyrsta byggð í Kollsvík.  Kollur landnámsmaður strandar á Arnarboða en bjargast og nemur land það sem nú eru Láganúps- og Kollsvíkurjarðir; minnsta landnám landsins.  Kollur hefur efalítið róið til fiskjar á Kollsvík, þó hvorki sé neitt vitað um þá útgerð né hvar hann hafði uppsátur og aðra aðstöðu.   Fiskur hefur vafalaust verið þá á grunnmiðum, í ekki minna mæli en síðar varð.  Auk þess hefur líklega verið mikið um sel og rostung á fjörum fyrst í stað.  Má vera að því tengist vöðubátur sá frá landnámsöld sem fannst í kumli í Vatnsdal; um 6 metra langur en mjór og borðlágur.  Kollur hefur líklega veitt fisk á færi, en einnig hugsanlega í net.  Selir og rostungar hafa verið skutlaðir á sjó eða rotaðir á landi.  (Nánar um Koll hér).

1191      Eftirspurn eftir skreið í Evrópu.  Björgvin í Noregi hefur vaxið mjög sem verslunarstaður, ekki síst vegna aukinnar skreiðarsölu til Evrópu í kjölfar aukins þéttbýlis.  Kemur skreiðin frá norðanverðum Noregi, einkum Lófót.  Hamborgarkaupmenn ásælast verslunina. 

1300      Skreiðarútflutningur hefst frá Íslandi.  Skreið hefur líklega verið flutt í einhverjum mæli þegar á þjóðveldisöld en útflutningur hennar eykst nú hér, líkt og í Noregi.  Framsæknir efnamenn sjá í þessari grein allmikla tekjulind.  Vel gæti borgað sig að fjárfesta í jörðum og skipum og nýta leiguliða til fiskiveiða. 

1310      Hansakaupmenn leggja undir sig skreiðarsölu.  Þýsk kaupmannasamtök (hansa=samtök) gera úr flota verslunarskipa, ekki síst vegna skreiðarflutninga Noregi á markað í Mið-Evrópu.  Hafa þeir miðstöð í Hamborg, en þaðan liggja vel skipulagðar verslunarleiðir um meginlandið.  Norðmenn sjá um siglingar að og frá Íslandi, í samræmi við Gamla sáttmála frá 1262.

1320      Spornað verði við skreiðarútflutningi.  Íslendingum þykir nóg um skreiðarútflutning úr landinu og senda konungi bænaskjal um að hann verði takmarkaður; ekki síst vegna þess hallæris sem nú ríkir í landinu.  Framboð skreiðar hefur aukist mikið.  Líklega er útgerð þegar orðin mikil í Kollsvík á þessum árum, þó ekki séu um það heimildir.  Margar kirkjur auðgast vel af skreiðarumsvifum, s.s. Ingjaldshólskirkja undir Jökli.  Til hennar greiða þeir sem sækja skriftir og aðra þjónustu; m.a. fjöldi vermanna. 

1375      Enn eykst eftirspurn eftir skreið.  Sjávarafurðir, s.s. skreið og lýsi, eru helsti kaupeyrir landsmanna.  Stærstu útflutningshafnirnar eru í Hvalfirði; á Gásum og í Dýrafirði.  Skreiðarverð hefur hækkað; um 1200 þurfti 10 vættir til kaupa á einu jarðarhundraði; um 1300 8 vættir, en nú nægja 6.  Vonlegt er að fjársterkir höfðingjar nýti þetta verðlag til kaupa á góðum útgerðarstöðum.  Á þessum tíma rísa upp voldugar ættir s.s. Vatnsfirðingar; Skarðverjar og Erlendungar.  Kirkjur og klaustur hafa einnig verið dugleg að nýta sér þessa veraldlegu tekjulind sem skreiðin er.  Helgafellsklaustur eignast helstu útgerðarjarðir undir Jökli; Viðeyjarklaustur á Suðurnesjum og Skálholtsstóll hefur eignast Vestmannaeyjar.  Líklega skipta Kollsvíkurjarðir um eigendur í þessum miklu umsvifum fjármálaveldanna; enda er þar gullkista á fiskimiðum.

1413      Englendingar hefja veiðar á Íslandsmiðum.  Enska öldin hefst, með síaukinni sókn enskra skúta á Íslandsmið, einkum Vestfjarðamið.  Englendingar hafa náð góðum tökum á saltfiskverkun í skipum sínum.  Þau koma á miðin hlaðin verslunarvöru; járni, mjöli, hamplínu, köðlum, klæðaefni og fleiru, sem þeir selja hér fyrir skreið, lýsi, vaðmál, ull, húðir og vistir.  Þeir hafa mikil samskipti og verslun við heimamenn í trássi við Danakóng. 

1415      Englendingar nota fiskilínu.  Ekki er ólíklegt að lóðir hafi verið meðal þess varnings sem Íslendingar keyptu af þeim; þar á meðal útgerðarmenn í Kollsvík. (Engar heimildir eru þó um slíkt, en lóðar er fyrst getið hérlendis 1482 í eigu kirkjunnar í Berufirði eysta). 

1419      Láganúpur kominn í eigu Saurbæjarkirkju.  Jörðin er meðal eigna sem taldar eru upp í máldaga Maríukirkjunnar í Saurbæ þetta ár, en hann er elsta heimildin þar sem Láganúps er getið.  Jarðarinnar er ekki getið í Vilkinsmáldara árið 1397, og hefur því líklega ekki verið kominn í eigu kirkjunnar þá.

1446      Láganúps getið í búi Guðmundar ríka Arasonar.  Guðmundur var einn auðugasti maður landsins er hann var hrakinn af eignum sínum og dæmdur til útlegðar.  Hann átti Saurbæ með 16 útjörðum; Brjánslæk með 13; Núp með 32; Reykhóla með 32; Kaldaðarnes með 37 og Fell með 5; samtals 3.217 jarðarhundruð og 788 kúgildi með þeim.  Guðmundi stoðaði lítt að kvarta við kóng, enda hefur hann átt mikla launverslun við Englendinga.  Vitni voru leidd að því að Guðmundur hefði auðgast með yfirgangi og ránum, og m.a. eignast jarðirnar Botn og Kollsvík á þann hátt.

1467      Englendingar drepa Kollsvíkureiganda.  Björn ríki Þorleifsson á Skarði hefur verið drepinn af Englendingum í Rifi.  Björn og kona hans; Ólöf ríka Loftsdóttir (Guttormssonar), áttu nær allar eignir á Vesturlandi og sunnanverðum Vestfjörðum; þar með talið góss Guðmundar Arasonar.  Ekki er grunlaust um að enskir hafi í þessu gengið erinda Solveigar Guðmundsdóttur (Arasonar).  Er mælt að Ólöf ríka hyggist ekki gráta Björn bónda sinn, heldur safna liði.

1473      Dregur úr siglingum og verslun Englendinga.  Eftir friðarsamninga sem gerðir hafa verið er minna um slíkar siglingar enskra.  Með því lýkur því tímabili sem nefnt hefur verið „enska öldin“ í Íslandssögunni.  Enn voru 149 enskar duggur hér að veiðum árið 1528, en höfðu flestar verið yfir 200 árið 1450.

1480      Eigendaskipti.  Einar Björnsson (Þorleifssonar) eignast Kollsvík í skiptum Ólafar milli hans og Þorleifs; sona sinna. 

1490      Píningsdómur bannar búðsetu.  Diðrik Píning, kóngsins höfuðsmaður á Íslandi, kallaði saman þing og kvað upp dóm um ýmis mál.  M.a. um friðarsamninga Noregskóngs og Englakóngs; vetursetu kaupmanna og fyrirkomulag verslunar.  Þar segir að enginn megi dvelja langdvölum í búð án búskapar; allir sem eiga minna en þrjú hundruð skulu vinna hjá bónda.  Meðan þessi dómur stendur eru öll útver í raun úr sögunni; allur veiðiskapur verður að vera á vegum sjálfstæðra bænda og jarðeigenda. 

1498      Eigendaskipti.  Björn yngri Þorleifsson (Björnssonar ríka) hefur afsalað stóreignum, þ.á.m. Saurbæ og útjörðum, til Andrésar Guðmundssonar (ríka Arasonar).  Má ætla að hann vilji með þessu sætta ættirnar.

1509      Eigendamál.  Björn Guðnason í Ögri (tengdafaðir Bjarna Arasonar; Guðmundssonar ríka) hefur gert skrá yfir eignir Bjarna, þar sem upp er talin jörðn „Kollzuik, fjorum hundruðum og tuttugu“. 

1525      Eigendaskipti  Guðrún Björnsdóttir (Guðnasonar í Ögri) hefur gert skiptabréf þar sem hún eftirlætur dóttur sinni; Solveigu Bjarnadóttur, m.a. jörðina Kollsvík.

1536      Eigendaskipti  Ögmundur biskup Pálsson fær sér dæmdan Saurbæ ásamt útjörðum.  Segir í dómsorðum að það sé upp í „brot og sakferli“ Ara Andréssonar í Saurbæ (afkomanda Guðmundar ríka).

1540      Hamborgarkaupmenn eru komnir með alla verslun hérlendis.  Þeir hafa löngum notið velvildar Danakóngs í erjum þeirra við Englendinga.  Sem fyrr er skreiðarverslun helsta tekjulind kaupmanna.

1542      Skipadómur.  Otti Stígsson, kóngsins höfuðsmaður hérlendis, hefur kveðið upp svonefndan Skipadóm.  Með honum er lagt bann við vetursetu kaupmanna, auk þess sem skip og aðrar eigur þeirra hérlendis eru gerðar upptækar.  Með þessu gerir kóngur atlögu að verslun Hamborgarkaupmanna og hyggst sjálfur nýta sér hagnaðinn af skreiðarsölunni. 

1542      Eigendaskipti  Erlingur Gíslason fær Bæjareignir úr hendi Gissurar Einarssonar, verðandi siðskiptabiskups.  Erlingur hafði veitt Gissuri liðsinni er hann bolaði Ögmundi Pálssyni úr biskupsstóli á Skálholti.

1550      Eigendaskipti  Saurbær, ásamt útjörðum, gefinn Skálholtskirkju og Guði.  Í Hænuvík hefur verið gefinn út vitnisburður um það að Ari Andrésson hafi á banastund sinni heyrst gefa Guði og Skálholtskirkju Saurbæ.  Erlingur Gíslason er látinn og ekki ólíklegt að erfingjar hans hafi ætlað sér jörðina.  Hinsvegar er erfitt að vefengja prestinn Jón Erlingsson sem þannig vitnar um hinstu óskir deyjandi manns. 

1554      Eigendaskipti  Eggert lögmaður Hannesson kaupir Saurbæ.  Eggert er einn þeirra höfðingja sem vel hafa komið ár sinni fyrir borð í ölduróti siðaskiptanna.  Hann er kominn af norskum aðalsmönnum; sonur Hannesar hirðstjóra Eggertssonar og Guðrúnar Björnsdóttur (Guðnasonar í Ögri).  Hann hefur sýsluvöld í Ísafjarðarsýslu, Kjalarnesþingi og nú Barðastrandasýslu; lénsvald á öllum jörðum á Vestfjörðum sem áður átti Ögmundur biskup, og nú kaupir hann höfuðbólið Saurbæ og flytur þangað.  Eggert er með sterk tengsl við Hamborgarkaupmenn; félagi í „Schonenfahrer-Gesellschaft“, sem er gildi kaupmanna.  Hamborgarar sigla nú mjög til Íslands til skreiðar- og síldarkaupa, og koma um 20 stór kaupskip þeirra hingað árlega um þessar mundir.  Ætla má að með þessu eigi skreið úr Láganúpsveri greiða leið á borð Evrópubúa. 

1564      Eigendaskipti  Eggert Hannesson kaupir 8 hundruð í Kollsvíkurjörðinni af Kristínu Ólafsdóttur (óljóst er hvernig hún eignaðist hana).  Með þessu fær Eggert öruggari lendingu og uppsátur fyrir báta þá sem hann gerir út í Láganúpsveri, en samkvæmt Píningsdómi frá 1490 er einungis fullgildum bændum heimilt að gera út.

1567      Eigendaskipti  Eggert kaupir enn í Kollsvík.  Nú hefur hann keypt önnur 8 hundruð af Arngrími Björnssyni og Þórey Ólafsdóttur (óljóst hvernig þeirra eignarhald er til komið).

1567      Marköngladómur.  Magnús prúði Jónsson sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, og tengdasonur Eggerts Hannessonar, hefur á dómþingi á Nauteyri kveðið upp þann dóm að svonefndir markönglar skuli afnemast.  Þetta eru önglar sem hásetar hafa hingað til fengið að hafa á lóðum útvegsbænda og fengið fisk af þeim óskiptan.  Bannið er tilkomið af því að útvegsbændum þótti markönglar grunsamlega aflasælli en þeirra krókar á sömu línu. 

1570      Eigendaskipti  Eggert hefur selt Eyjólfi Magnússyni og Guðleifu Ólafsdóttur (barnabarni Björns Guðnasonar í Ögri) eignarhluti sína í Kollsvíkurjörðinni.  Ætla má þó að hann hafi tryggt sér velvild þeirra varðandi uppsátursgjöld í Verinu.  Með frekari viðskiptum eignast Guðleif jörðina alla.  Ábúandi í Kollsvík er núna Jón Skeggjason, en einnig býr þar Oddur.  (E.t.v. er sá faðir Jóns Oddssonar sem drukknaði í Kollsvík 1658; sjá Ábúendatal TÓ).  Ábúandi á Láganúpi er Ari (ekki vituð frekari deili á honum). 

1579      Ránið í Saurbæ.  Helsta umræðuefni vermanna í Kollsvík, líkt og annarra hreppsbúa, er hið lygilega rán í Saurbæ og háðugleg meðferð á Eggert lögmanni.  Ekki er ólíklegt að lögmaður hafi átt samúð manna, þó e.t.v. hafi hann þótt harðfenginn húsbóndi; svo óguðlega meðferð verðskuldar enginn.  Ræningjarnir komu á land í Hænuvík og neyddu bónda til að vísa sér leið inn Víknafjall að Saurbæ.  Þar brutu þeir bæ; rændu fémæti; nauðguðu konum og höfðu Eggert með sér til skips; kviknakinn. 

1581      Vopnadómur Magnúsar prúða.  Magnús prúði Jónsson er sestur að eignum í Saurbæ og sýsluvöldum í Barðastrandasýslu, en Eggert tengdafaðir hans fór af landi brott eftir að hann losnaði úr haldi ræningjanna.  Magnús hefur nú sett dómþing í Tungu og kveðið upp dóma um varnir landsins.  Hver bóndi er skyldur til lágmarks vopnaeignar og komið skal á fót viðvörunarkerfi gegn innrás, sem felst í byggingu bálkasta á fjallstindum.  Má ætla að vermenn í Kollsvíkurveri hafi verið kvaddir til þess í kjölfarið að draga lurka og tré upp á Blakknesnibbu og hlaða að því grjóti svo ekki fyki.  (Enn í dag má sjá fornar hleðslur þar á nibbunni sem kunna að tengjast þessum aðgerðum).

1581      Lóðanotkun á Snæfellsnesi veldur deilum.  Lóðir eru notaðar víða um Vestanvert landið, líkt og marköngladómurinn 1567 ber með sér.  Svo er einnig á utanverðu Snæfellsnesi, en fiskimenn innar í Breiðafirði telja að þær hamli fiskigöngum og hefur orðið af þessu nokkur ófriður.  Jóhann Bockholt höfuðsmaður hefur nú kveðið upp þann dóm að lóðafiskirí sé með öllu óheimilt í Þórsnesþingi.  Þó ekki séu um það heimildir má telja óyggjandi að lóðir tíðkist í Útvíkum á þessum tíma.  Bæjarbændur myndu vart láta svo öflugt veiðitæki ónotað. 

1591      Magnús prúði skorinn í rostungstönn.  Einhver hefur setið við þá iðju í Kollsvík að telgja lítinn taflmann í mannsmynd úr rostungstönn.  Árið 1896 kom upp úr kartöflugarði á gamla bæjarhólnum í Kollsvík stytta sem að útliti líkist mjög málverki sem til er af Magnúsi prúða.  Líkneskið er í glæsifatnaði frá þessum tíma, en Magnús fékk viðurnefni af tilhaldi sínu í fasi og klæðaburði.  Ekki er ljóst hvaða listamaður tálgaði.  Þar kemur til greina hinn oddhagi séra Filippus á Hvallátrum eða Ari Steinólfsson.  En einnig kann skurðhagur háseti í Kollsvíkurveri að hafa dundað við þetta í landlegum.  (Sjá nánar um taflmanninn í Kollsvík).

1604      Harðindi og hallæri hafa gengið yfir landið síðustu þrjú ár; Lurkur; Píningsvetur og nú hinn þriðji með hafísum; ógnarfrosti; grasleysi og peningsfelli.  Ótal heimili hafa flosnað upp; rán og gripdeildir tíðkast mjög og ekki færri en níu þúsund manns hafa farist.  Mikil búbót er að dágóðum afla syðra og vestra.  Nú sem fyrr í hallærum flykkist fólk í verin að leita sér lífsbjargar.  Straumurinn liggur til Útvíkna og líklega er mannmargt á bæjum og útihúsum í Kollsvík þessi árin. 

1616      Sjóræningjar á fiskimiðum.  Sjómenn í Kollsvíkurverum þurfa ekki einungis að varast veður og brimsjó þessi árin.  Sjóræningjar herja um úthöfin og eiga öðru hvoru leið þarna um.  Á síðasta ári kom reyfarinn Tom Tucker til Vatneyrar á tveimur skipum sem hann hafði rænt.  Þar hugðist hann bæta dönsku kaupfari við ránsfenginn, en ekki tókst betur til en að hann var sjálfur hnepptur í varðhald.  Á þessu ári yfirgáfu Baskar þeir Vatneyri sem þar hafa dvalið á flótta undan Ara í Ögri.  Þeir hafa stundað fiskveiðar frá Vatneyri en komust í vor um borð í enska fiskiskútu sem þeir tóku traustataki, ásamt annarri skömmu síðar.  Á leiðinni suður víkur rændu þeir fiskibáta á víkunum.  Hafa þeir líklega tekið af þeim afla, veiðarfæri og jafnvel klæði sjómannanna. 

1619      Verslun færist úr höndum Þjóðverja til Dansks verslunarfélags.  Með því er endir bundinn á deilur um verðlag og jafnframt er lokið langvarandi verslunareinokun Þjóðverja.  Eftir sem áður eru þeir stærsti kaupandi á skreið og dreifingu hennar í Evrópu. 

1620      Verstöðin Brunnar leggst af vegna sandfoks og vatnsleysis, en þaðan hafa róið um og yfir 20 bátar; mestmegnis Dýrfirðingar, Arnfirðingar og Tálknfirðingar.  (Hófst þó aftur síðar).  Brunnar eru gömul verstöð; líklega frá upphafi skreiðarútflutnings eða eldri. 

1640      Kóngur kennir fiskverkun.  Borist hefur konungsbréf til áréttingar því að fiskur sé rétt skorinn sem seldur er sem skreið (skarpur fiskur; malflattur fiskur; stokkfiskur (e); rundfisk (n); plattfiskur (þ)).  Fiskinn skal kviðfletja og skera hrygginn úr (líklega þremur liðum aftan gotraufar), en ekki kviðfletja og taka hrygginn of framarlega.

1650      Formannabústaðir.  Eigandi Láganúps, Eggert Björnsson (Magnússonar prúða) í Saurbæ, lætur byggja upp tvær hjáleigur á Láganúpsjörðinni.  Önnur er Grundir, niðri við sjóinn.  Þar hafði áður verið stekkur frá Láganúpi, sem við þetta flyst út á Hnífa.  Grundahjáleiga reiknast 3 hundruð af 18 hundruðum Láganúps. ( Þær eiga síðar eftir að verða lögbýli, í byggð til 1945).  Hin hjáleigan er Hólar; efst og vestast í Láganúpstúni; í upphafi 7,5 hundruð. (Hólar fóru líklega í eyði í stórubólu árið 1707.  Þar stendur enn Hesthúsið á Hólum; elsta hús landsins til atvinnunota).  Með þessu vill Eggert greinilega tryggja sér góða formenn fyrir skipum sínum, enda er sú kvöð hluti af leiguskilmálum hjáleignanna.

1652      Hospítalsfiskar.  Konungur hefur, að tillögu Brynjólfs biskups Sveinssonar, fyrirskipað að stofnaðir skuli fjórir spítalar; einn í hverjum landshluta, þar sem líkþrátt fólk geti fengið vist.  Verða þeir að Hörgslandi á Síðu; Möðrufelli í Eyjafirði; Klausturhólum í Gímsnesi og Hallbjarnareyri í Eyrarsveit.  Í kjölfarið hefur verið til skikkað að aukahlutur skuli tekinn af afla fiskibáta; svonefndur hospítalshlutur eða hospítalsfiskur.  Í hverri verstöð á að vera umboðsmaður sýslumanns sem sér um að taka við fiskinum; verka hann; koma honum í verð og skila andvirðinu.  Í laun fær hann höfuð, hnakkakúlur og rask af fiskinum.  Hreppstjórar skulu halda skrá yfir báta sem róið er í hverju veri.  Trássist einhver við að skila hlutnum skal hann greiða kóngi 4 merkur í sekt.  Hospítalsfiskur gengur einnig undir nafninu "kerlingarfiskur", þar sem mikið er af öldruðu kvenfólki á spítölunum.

1658      Fyrsta skráða drukknun í Kollsvík.  Jón Oddsson (um 1620-1658) bóndi í Kollsvík drukknaði er bátur hans fórst.  Gunnar (f.1640) sonur hans komst lífs af.  Ekki er vitað nánar um tildrög slyssins (TÓ; Áb).  Kona Gunnars var Gyríður Bjarnadóttir og bjuggu þau í Kollsvík.  Dóttir þeirra kynni að vera Salvör sú sem bjó á Hólum 1703, gift Ólafi Jónssyni bónda þar og formanni.  Kona Jóns, þess er drukknaði, var Þorgerður Borgarsdóttir, en Guðrún Jónsdóttir formóðir Kollsvíkurættar var afkomandi hennar. (Íslbók)

1673      Bjarni í Kollsvík smíðar báta.    Bjarni Jónsson er sonur Jóns Tómassonar á Sellátrum í Tálknafirði og einn hinna kunnu Sellátrabræðra.  Hann er ekki nema 19 ára þegar hann nú lýkur smíði á stórum haffærum teinæringi.  Bjarni er enn búsettur að Sellátrum, en nokkru fyrir aldamótin 1700 flytur hann í Kollsvík.  Þaðan fer hann nokkrar byrðingsferðir á Strandir á bát sínum. (GB; TÓ o.fl).

1681      Frakkar á miðunum.  Frakkar auka nú sókn á Íslandsmið.  Árið 1614 sendi franski útvegsmaðurinn Jean de Clerc í Dunkirk skip hingað, og stuttu síðar sjö önnur.  Nú hefur sjálfur sólkonungurinn; Loðvík XIV. ákveðið að veita hverju frönsku skipi sem hingað siglir á veiðar 3000 franka styrk á ári.

1681      Guðrún Eggertsdóttir erfingi Saurbæjareigna.  Eggert Björnsson á Skarði, sýslumaður Barðastrandasýslu og auðugasti maður landsins er látinn, 69 ára að aldri.  Hann var giftur Valgerður Gísladóttur og eiga þau fimm dætur á lífi.  Elst þeirra er Guðrún, og í hennar hlut kemur Saurbær, ásamt útjörðum og öðru sem fylgir; þar á meðal Láganúpsveri sem er henni drjúg tekjulind. 

1684      Verslunaránauð.   Kóngur hefur nú boðið verslunarstaði landsins upp, og sá sem hreppir Vatneyrar- og Bíldudalsverslun er Jóhannes Klein, fyrrum fógeti Hinriks Bjálka höfuðsmanns á Bessastöðum. Bændum er hér eftir harðbannað að versla við aðra en sína umdæmisverslun.  Undir Vatneyrarumdæmið heyra Útvíkur, Rauðisandur og Patreksfjörður allur; Tálknafjörður og Barðaströnd að Hagavaðli.

1695      Hafís kominn fyrir Bjarganga.  Fádæma hafís er nú við landið, svo að um krossmessu var reitt þverfirðis um alla firði og víkur.  Ís er fyrir Vestfjörðum og hefur komist yfir Látraröst inn í Breiðafjörð, sem er nær einsdæmi.  Um sumarmál var ísbreiða fyrir Norðurlandi, Austfjörðum og kominn vestur að Þorlákshöfn.  Sumardaginn fyrsta komst hann vestur fyrir Garðskaga og alla leið vestur í Hítárós.  Kaupskip komust ekki að landinu.  Ísinn hvarf ekki fyrr en eftir vertíðarlok.  Fylgdu þessu firnaköld veðrátta; grasbrestur; hallæri og mannskaðar.  Í líkingu við þetta er veðráttan á þessum árum.

1701      Ördeyða á fiskimiðum, mannfall og flakk.   Síðastliðinn vetur og vor var hin bágasta vertíð sem sögur fara af; með ördeyðu í flestum verstöðvum vestanlands og á Suðurnesjum.  Hvarvetna er bjargarskortur eftir marga undangengna eindæma harðindavetra.  Flest fólk sem enn lifir hefur flosnað upp af jörðum sínum og er á vergangi um landið.  Stuldir eru tíðir og óöld ríkir í landinu.  Kaupskipin dönsku sneru heim nálega tóm, því engan ugga var að hafa.  Steinbítsafli hefur þó verið sæmilegur kringum Látrabjarg og vestar og sendu biskupsstólarnir lestarferðir eftir steinbít til Tálknafjarðar. 

1703      Láganúpsveri hnignar.  Árni Magnússon var á ferð í Rauðasandshreppi þetta ár og viðaði efni í Jarðabók sína.  Í Láganúpsveri hefur bátum fækkað verulega í undanförnum hafís- og fiskileysisárum.  „Vermannabúðir hafa tilforna verið 18.  Nú eru þar upp 4 sem þessar inntökuskipshafnir liggja við“.  „Formenn og hásetar á þessum bátum eru úr Patrixfirði“.  Inntökuskipin, eða aðkomubátarnir, eru 2 þriggjamannaför; 1 fjögurramannafar og 1 fimmmannafar.  Tveir bátanna eru eign Guðrúnar Eggertsdóttur í Saurbæ; eiganda Láganúpsvers.  Hún á einnig tvö þriggjamannaför sem þarna stunda heimræði, en Halldór Jónsson ábúandi á eitt af sömu stærð.  Bændurnir á Grundum og Hólum eru formenn hinna tveggja.   Sjö bátar eru því gerðir út frá Láganúpsverstöð, sem fyrr á tíð var blómlegasta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum.  Þá hafa minnst 18 skipshafnir legið við í verbúðum; hugsanlega mun fleiri ef tvær hafa verið í sumum, auk þass sem áhafnir hafa örugglega legið við í fjárhúsum bæjanna þriggja, en heimamenn haft aðsetur á bæjum. 
Vertollur er ½ vætt; helmingur í „fiski“ (þorski) og helmingur í steinbít, en enginn fyrir heimamenn.  Landsdrottinn leggur til við í búðirnar en er hættur að leggja til ketil.  Lyng í flet sín og til eldiviðar mega vermenn rífa endurgjaldslaust.  Goldnir eru seglfiskar og þarf annar leiguliðinn að leggja sér til segl.  Formannakaup eru hausarnir af aflanum.  Goldnir eru hospítalsfiskar.  Beita er maðkur og bröndur, ásamt ljósabeitu.  Lending er slæm í Láganúpsveri og því seila menn aflann út og landa honum þar, en flytja bátana til lendingar í Kollsvíkurveri.  Seilarólar eru hluti farviða bátanna. 

1703      Kollsvíkurver einnig í lægð.  Árni segir að verstaða (þ.e. útgerð aðkomubáta) sé engin í Kollsvíkur veri og hafi ekki verið.  Bendir það til þess að þar hafi útgerð dregist meira saman og legið lengur niðri en í Láganúpsveri, þegar hann er þar á ferð.  Öll rök mæla með því að ekki hafi síður verið gert út úr Kollsvíkurveri en Láganúpsveri meðan mestur gangur var í skreiðarútflutningi; enda var Kollsvík ekki síður eftirsótt af höfðingjaveldinu.  Þar er lending mun öruggari, en hinsvegar kann sandfok að hafa verið þar illvígara á þessum tíma, þannig að afli hafi legið undir skemmdum. 
Í Kollsvík eru núna 2 inntökuskip; annað þeirra þriggjamannafar í eigu Ara Þorkelssonar sýslumanns.  Auk þess eiga Kollsvíkurændur sitt skipið hvor og bróðir annars á þriðja skip heimamanna.  Alls róa því 5 fleytur úr Kollsvíkurveri, auk þess sem 7 bátar úr Láganúpsverstöð hafa þar uppsátur.

1703      Flestir hreppsbúar ánauðugir og skyldugir til róðra.   Langflestar jarðir í Rauðasandshreppi eru í leiguábúð.  Sjálfseignarbændur sitja á 3 jörðum en leiguliðar á 24 jörðum.  Á flestum leigujörðum eru kvaðir um að lagðir séu til hásetar eða formennn á skip landsdrottins í verstöðvum hreppsins; Skor, Keflavík, Breiðuvík, Láganúpi og Láturdal.

1703      Lóðanotkun.  Víða kemur fram hjá Árna Magnússyni að lóðir eru ekki notaðar um þetta leyti í verstöðvum Rauðasandshrepps, „síðan frá lagðist stórþorskur“.  Hefur það veiðarfæri því líklega verið algengt fyrrum, meðan afli var nægur, en menn síðan talið það orsök þess aflaleysis sem síðar varð og hætt lóðanotkun.  Lóðir voru ekki upp teknar aftur í Kollsvík fyrr en 1894 (sjá þar). 

1703      Seglanotkun.  Fram kemur í Jarðabók Árna og Páls að segl eru notuð í Útvíkum, líkt og í Breiðafirði, en hvergi annarsstaðar á Vestfjörðum.  Má ætla að það sýni hve Breiðafjarðarsvæðið og Útvíkur voru nátengd atvinnusvæði, en fjölmargir koma innan úr Breiðafirði til útróðra vestra.  Þversegl voru notuð á þessum tíma, og héldu Útvíknamenn sig almennt við þau fram á vélaöld, þó loggortusegl þekktust á hákarlaskipum um og eftir 1900.

1703      Katlaleiga Guðrúnar.  Guðrún í Saurbæ, ríkasta kona landsins, heldur járnaga á sínum landsetum og reynir að hámarka arðsemi sinna eigna.  Ægivald hennar bitnar illilega á leiguliðum og vermönnum í Keflavík en síður á þeim sem fjarri eru, líkt og í Láganúpsverstöð.  Í Keflavík mega engir róa nema bátar Guðrúnar, og mannar hún þá af kvaðaskyldum leiguliðum sínum.  Hún heimtar af þeim vertoll; hálfa vætt á bát, þó hún eigi bæði bát, útgerð og verstöð.  Katla leggur hún mönnum til, en fyrir hvern greiða vermenn fjórðung vættar.  Þurfa að bæta dýrum dómum ef katli er ekki skilað í vertíðarlok.  Segl eru dýr, og því neitar Guðrún að leggja þau til; mönnum er ekki ofgott að róa þó langræði sé mikið.  Ekki mega landsetar fara soðróðra utan vertíðar nema tryggt sé nægt vinnufólk til að sinna heyskap.  Af miskunn sinni leyfir hún þó vermönnum að rífa lyng í Keflavík, fyrir flet sín og eldivið.  Greinilegt er af skrifum Árna Magnússonar að honum hefur þótt nóg um hörku kerlingarinnar.

1706      Landburður af fiski.  Þetta ár hefur orðið fádæma fiskisælt sunnan lands og vestan og hefur jafn góð vetrarvertíð ekki komið í tuttugu ár.  Sumsstaðar komst fiskur ekki í hjalla og skilja þurfti fisk eftir í veri.  Eru þetta allmikil viðbrigði frá fiskileysi síðari ára.

1722      Hollendingar á miðum.  Veiðar Hollendinga hér við land eru all umfangsmiklar, en hingað sækja einnig aðrar þjóðir.  Hafa duggurnar bækistöðvar víða inni á fjörðum t.d. á Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði.  Fiskimennirnir eiga gjarnan viðskipti við Íslendinga; koma með ýmsan varning á skipum sínum s.s. tóbak, brennivín, járn, potta, síróp, klæði og léreft, sem þeir selja í staðinn fyrir innlenda vöru; matvöru; vaðmál; prjónles o.fl. og greiða oft mun betra verð en danskir kaupmenn.  Launverslun Hollendinga fer helst fram þar sem kaupmenn og kóngsins agentar sjá ekki til.  Því má ætla að iðulega leggist hollenskar duggur upp á Útvíkur og þar blómstri þessi viðskipti.

1728      Hafís og aflabrestur.  Hafþök af hafís hafa verið fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum frá útmánuðum og fram til þings, ásamt grasbresti og harðindum.  Vestanlands sást ekki grænt strá í hólbrekkum fram að messudögum; fellir varð afskaplegur og fiskileysi í verstöðvum á Vesturlandi.  Sumsstaðar hafa þó fengist hvalir og hnýðingar.

1746      Verstöðvar beggja vegna í Kollsvík.  Í Kollsvík eru bæirnir Kirkjuból og Láganúpur og við sjóinn hjá hvorum standa verbúðir þar sem róið er um vorið frá ýmsum hreppum í sýslunni (Ólafur Árnason sýslum.Barð; Sýslulýsingar 1746).

1746      Verstaða og áningarstaður í Skor.  Útræði er í Skor á þessum árum og ganga þaðan 3-4 bátar á vorin.  Svipaður er fjöldi verbúða (ÓÁ;Sýslulýsingar).  Verður enda vart róið þaðan fleiri bátum vegna þrengsla.  Skor er oft kærkominn áfanga- og hvíldarstaður sjóróðramönnum úr Breiðafjarðareyjum og austursveitum Barðastrandasýslu er þeir flytja sig í ver í Útvíkum á vorum og þaðan aftur með sjóföng sín að liðinni vertíð í elleftu eða tólftu viku sumars.  Eru taldar fjórar vikur sjávar frá Bjargtöngum að Skor.  Skor er líka eina þrautalendingin er Barðstrendingar sækja á djúpmið á haustum og hreppa storma á opnum árabátum (PJ; Barðstr.bók).

1746      Húsagatilskipun konungs beint að guðlausum vermönnum.    Vor allranáðugasti herra, Kristján VI. hefur nú af sinni föðurlegu umhyggju sett íslenskri þjóð forordningu um skikk og aga  í daglegu líferni.  Tilskipuninni er ekki síst beint að verbúðum og því guð- og agaleysi sem af búðsetum leiðir.  Þessar eru nokkrar af tilskipunum kóngsins:
Til að koma í veg fyrir ýmiss konar óreglu; rifrildi, bölv og aðra ósiðsemi sem tíðkast hjá sjómönnum, er formönnum skipað að hafa eftirlit með þeim og vara þá við að stunda syndsamlegt og illskufullt líferni.  Hlýði þeir því ekki kæri formenn þá fyrir prestinum, en gagni það ekki ber að kæra þá fyrir sýslumanni, sem dæmir hina seku í sektir og lætur þá þar standa opinberar skriftir. 
Brjóti formenn af sér, ber tveimur trúverðugustu mönnum á hverjum báti að kæra þá.  Formenn skulu sjá svo um að bátar lendi svo snemma kvöldið fyrir helga daga að gert sé að aflanum áður en helgi hefst.  Einnig skulu formenn sjá um að þeir iðki bænahald og hlýði á guðsorð í verbúðum og á heimilum.  En geri þeir það ekki skulu þeir sektaðir fyrir ónytjungshátt og ótryggð. 
Fari einhver bátsverji með rúnir eða ristingar setji prestur ofaní við hann og sýni honum með tilstyrk guðs orðs fram á andstyggð þessarar syndar.  Láti hann sér ekki segjast skal aga kirkjunnar beitt við hann fyrir þetta og önnur dæmi þvílík.
Allir formenn og hásetar sem ráðnir eru í skipsrúm eiga að vera komnir í verstöðina daginn eftir kyndilmessu.  Eftir að vertíð er byrjuð mega hásetar ekki koma í veg fyrir að formaður geti stundað róðra.  Þegar formaður hefur kallað, eiga hásetar tafarlaust að mæta við setningu og fara möglunarlaust í róðurinn.  Hegning liggur við ef háseti neyðir formann til að leita til lands áður en hann æskir.  Og í hvert sinn sem háseti nöldrar yfir löngum sjávarsetum og reynir að hafa áhrif á aðra í þeim efnum, geldur hann tveggja fiska sekt. 
 Landlegudaga eiga hásetar að nota til að hressa við gamla fiskigarða eða hlaða nýja og einnig dytta að sjóklæðum sínum ef þörf er á.  Hásetar mega ekki ganga úr skiprúmi fyrr en vertíð lýkur, nema mjög mikilvægar ástæður séu fyrir hendi.  Hlaupi einhver úr skiprúmi án vitundar eða samþykkis formanns á sýslumaður að handsama þann seka og húðstrýkja eða sekta, eftir því sem málavextir eru. 
Ef vermaður deyr á leið í ver eiga samfylgdarmennirnir að flytja líkið til sóknarkirkju hins látna.  Sama gildir ef vermaður andast í verskála.  Ef skipverji veikist í útveri á formaður að sjá um að koma honum til bæjar þar sem honum verður veitt hjúkrun.  Hann á einnig að koma í veg fyrir að háseti verði svo mötustuttur að hann liði hungur.  Honum ber að fylgjast með hvort menn fari verjulausir á sjóinn og taka hart á ef það gerist. 
Ef kona er meðal áhafnar; annaðhvort háseti eða fanggæsla, og ekki er til sérstakt rúm, ber formanni að láta hana sofa til fóta hjá sér.
Vafalaust hefur tilskipunin verið vandlega kynnt vermönnum í Kollsvík, en ekki fer sögum af hlýðni kóngsins þegna á þeim veraldarhjara.  Hinsvegar má e.t.v. tengja hinar miklu garðhleðslur á Grundabökkum við skipun kóngs um nýtingu landlegudaga.

1753      Net til fiskveiða kynnt syðra.  Skúli Magnússon landfógeti kom nýlega til landsins og kynnti net til fiskveiða sem hann hafði séð á Sunnmæri.  Net eru þó engin nýjung hérlendis; t.d. getur Árni Magnússon um hrognkelsaveiðar í net í Örlygshöfn árið 1703.

1757      Fiskileysi og harðindi á landinu.  Undangengin sjö ár hafa reynst eitt mesta harðindaskeið sem yfir landið hefur gengið.  Talið er að nær sex þúsund manns hafi dáið úr hor, harðrétti og hungursóttum á þessum tíma.  Hafís var við landið 1754 og fékk sá vetur nafnið „Hreggviður“; einnig 1756.  Kötlugos var syðra og jarðskjálftar nyrðra.  Fiskileysi mikið hefur fylgt þessari ótíð og vart róið til fiskjar vegna ísa.  Stuldir og þjófnaðir hafa mjög ágerst og allt er etið sem tönn á festir.

1763      Uppgripaafli.  Aflabrögð hafa verið afbragðsgóð um Suðurnes.  Á Vestfjörðum var þorskafli í besta lagi og steinbítsafli góður.

1767      Fjöldi erlendra fiskidugga á Vestjarðamiðum.  Mikill fjöldi erlendra skipa er við veiðar á Vestfjarðamiðum hvert sumar þessi árin og liggja þau gjarnan inni á Patreksfirði í brælum.  Franskt herskip er hér við land til að veita löndum sínum þá aðstoð sem þurfa kann, en einnig hefur það stundað mælingar í Patreksfirði og nágrenni.  Sjóliðsforingi á því er Kerguelen de Tremarec og segir hann frá því að þetta ár hafi 80 frönsk og 200 hollensk skip verið að veiðum á Vestfjarðamiðum.  Í maí lágu 36 fiskiskip inni, og var ís á Pateksfirði. 

1776      Kóngur gerir út á Vatneyri.  Konungsverslunin hefur nú hafið þilskipaútgerð frá Vatneyri, Bíldudal, Þingeyri og Ísafirði, í samræmi við tillögur Landsnefndarinnar og Jóns Eiríkssonar konferensráðs.  Koma skipin að vori með varning; stunda veiðar yfir sumarið og sigla utan með afurðir að hausti.  Er ætlunin að með þessu fái Íslendingar æfingu í sjómennsku á þilskipum.  Skipin eru bæði húkkortur, um 35 lestir, og jaktir sem eru minni.  Íslendingar eru þó tortryggnir á þessháttar veiðiskap og hefur gengið illa að manna skipin hérlendis.

1781      Frumkvöðlar í saltfiskverkun.  Sjómenn og verslunarmenn í Rauðasandshreppi hafa verið frumkvöðlar í nýrri aðferð til saltfiskverkunar hérlendis; svonefndri „Terreneuv“-aðferð, sem sumir nefna einnig „Nýfundnalandsaðferð“.  Hún er nokkuð frábrugðin hinni fyrri aðferð, sem menn nefna núna „Kaupmannahafnaraðferðina“, bæði varðandi meðferð og skurð á fiskinum og legu hans í saltinu.  Baskar, Frakkar og fleiri þjóðir hafa um nokkurn tíma notað þessa nýju aðferð við verkun þess fisks sem þeir hafa veitt við Nýfundnaland, og í Frakklandi og á Spáni selst sá fiskur mun betur en hinn, þó Danir kjósi enn eldri verkunaraðferðina.  Fyrstur Íslendinga til að reyna þessa verkun var líklega Ólafur Stephensen á Akranesi, árið 1766, og fékk hann verðlaunapening fyrir.
Peder Hölter hefur verið verslunarstjóri konungsverslunarinnar á Vatneyri frá 1777.  Fram að því hafði fiskur á svæðinu einkum verið verkaður í skreið og harðfisk.  Verð á þeim fiski hefur verið afar lágt, svo varla hefur staðið undir kostnaði við útgerðina.  Einnig hefur lítillega verið saltað eftir „Kaupmannahafnaraðferðinni“.  Hölter byrjaði fyrstur manna að nota hina nýju „Terreneuv“-aðferð til verkunar á saltfiski og hefur fengist nær tvöfalt hærra verð fyrir þann fisk á suðrænum mörkuðum.  Hafi útvegsbændur ekki aðstöðu eða kunnáttu til verkunar tekur hann fiskinn blautan frá þeim og saltar hann sjálfur.  Voru í ár flutt út 130 skippund (20,8 tonn) af þessum fiski frá Vatneyrarversluninni, og 520 skippund bíða útflutnings á næsta ári.  Íslenskur námsmaður í Kaupmannahöfn; Bjarni Einarsson sem ættaður er úr Rauðasandshreppi (sonarsonur Bjarna Jónssonar bónda og bátasmiðs í Kollsvík), hefur verið fenginn til að skrifa leiðbeiningar um þessa nýju verkunaraðferð.  Bjarni varð sýslumaður Barðstrendinga; bjó í Haga og Flatey, en síðast í Breiðuvík.

1783      Enn bjarga verin í hallærum.  Móðuharðindin, sem eru afleiðing ógnarlegs eldgoss í Lakagígum, hafa leitt ómældar hörmungar yfir þjóðina.  Þeir sem flosnað hafa upp og hafa til þess einhverja lífsorku draga sig að verstöðvum fjærst hamfarasvæðinu.  Enn á ný leitar mannfjöldinn í verstöðvar Útvíkna í leit að lífsbjörg. 

1797      Einar Jónsson flytur að Kollsvík.  Einar Jónsson er nýr ábúandi í Kollsvík, ásamt konu sinni; Guðrúnu Jónsdóttur frá Botni í Patreksfirði.  Guðrún er reyndar ættuð úr Kollsvík, því Halldór Jónsson langafi hennar var bóndi á Láganúpi í Kollsvík um 1700; einn hinna kunnu Sellátrabræðra.  Einar er hinsvegar fæddur á Hallsteinsnesi við Þorskafjörð árið 1759; af Grafarætt sem fjölmenni er komið af.  Einar og Guðrún búa á allri Kollsvíkurjörðinni, sem að fornu mati er 24 jarðarhundruð.  Kollsvík er vildisjörð, bæði til búskapar og sjósóknar, en á víkinni eru gjöful fiskimið og lending ágæt í Kollsvíkurveri.  Eignast Einar öll tollver, en þar hafa að jafnaði gengið 11-12 skip.  15 fiskar eru goldnir fyrir hvern vermann.  Vertollur Einars er því líklega 6-7 hundruð af steinbít, eða 200-240 álnir.  Einar hefur um nokkur ár dvalist á Vatneyri.  Hann þykir vitur og víðlesinn og er talinn víðsýnn í trúmálum.  (Nánar um Einar og sagnir af honum hér).

1797      Dregur úr útræði í Láganúpsveri.  Róðrum frá Láganúpi mun hafa verið hætt fyrir lok 18. aldar.  Í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal frá árinu 1840 er ekki getið um Kollsvíkurver en sagt að allir innlendir og af Barðaströnd rói frá Brunnum, Látrum og Breiðavík.  Mun útræði frá Kollsvíkurveri hafa lagst algerlega niður um nokkurra áratuga skeið og ekki hafa hafist á ný fyrr en um eða eftir 1880.  Nálægt 1890 dró mjög úr sjósókn frá Látrum og Brunnum og varð Kollsvíkurver þá helsta veiðistöðin í Rauðasandshreppi.

1802      Hvalurinn Þæfingur og harðindavetur.  Mikil harðindi hafa verið til lands og sjávar allt frá ársbyrjun.  Hafís umkringir landið sen sumsstaðar bjarga hvalrekar frá hungurdauða.  Sjómenn frá Kollsvík fundu stóran hval á reki frammi á víkinni um sumarmál, er þeir voru við róðra.  Einar í Kollsvík lét róa að hvalnum og festa taug í hann.  Það reyndist þrautin þyngri að róa svo þungu dýri í land, en vildi til happs að kjör stóðu í hálfan mánuð um þetta leyti, en vikutíma tók að róa hvalnum í land í Kollsvíkurfjöru.  Hvalurinn var aldrei yfirgefinn á þeim tíma, en matur og drykkur fluttur til manna úr landi.  Hvalurinn var nefndur „Þæfingur“ af þessum sökum og varð mikil búbót, enda voru á honum 200 vættir kjöts og spiks.  Rifin voru notuð til húsbygginga, m.a. í reftingu búða og í hlunna í Kollsvíkurveri. 

1806      Einar í Kollsvík meðal fyrstu skútueigenda.  Einar Jónsson, útvegsbóndi í Kollsvík og ættfaðir Kollsvíkurættar, lagði fé í kaup Guðmundar Scheving (granna síns frá Breiðuvík, sýslumanns í Haga, hægri hönd Jörundar hundadagakóngs og síðar athafnamanns í Flatey) á skútunni Delpin.  Delphin var fyrsta íslenska þilskipið til að hefja veiðar.  Einmastra jakt; 35 tonn að burðargetu; upphaflega keypt til landsins árið 1803 af Guðmundi Ingimundarsyni í Breiðholti, sem áfram var skipstjóri eftir kaupin.  Skipinu héldu þeir bæði til fiskveiða og millilandasiglinga, og gekk útgerðin vel; allt þar til Delphin fórst í hafi síðsumars 1813, á útleið.  Með því fórst öll áhöfn; þar með Guðmundur skipstjóri Ingimundarson.  Líklegt er að Einar hafi nýtt sér styrk kóngs við kaupin, svonefnd „fiskveiðiverðlaun“.  Síðar þetta ár kaupir Ólafur Thorlacius riddari á Bíldudal (forfaðir Saurbæjarbænda með sama nafni) þilskipið St Johannes sem gert er út á Vatneyri.

1812      Einar í Kollsvík nýtir hval með skutli Benedikts Gabríels.  (Óvíst um nákkv.ártal).  Smalamaður Einars í Kollsvík fann hval rekinn í Láturdal í Hænuvíkurlandi.  Einar fór með mannskap inn í Láturdal og lét skera.  Í hvalnum fannst skutull með fangamarki Benedikts Gabríels; hvalskutlara og hreppstjóra í Arnarfirði, en hann var talinn fremstur galdramanna á sinni tíð.  Hvalinn lét Einar flytja heim að Kollsvík á hestum, því ófært var þá á sjó.  Hvorki greiddi hann af hvalnum skotmannslaun né heldur landshlut til Hænuvíkur.  Ýmis óhöpp urðu eftir þetta sem talin voru hefnd Benedikts Gabríels. T.d. fældust hestar Einars og fundust dauðir ofan Rauðasands.  Einnig missti Einar góðan sauð sem hann átti.  Gengu sögur af því að Einar hafi ýmislegt kunnað fyrir sér og sent Benedikt allar sendingar til baka.
Einar var sveitarhöfðingi mikill og víðlesinn; meðal stofnfélaga Hins íslenska bókmenntafélags.  Hreppstjóri var hann á sinni tíð, og skipaður sækjandi í Sjöundármálinu.  Til hans er rakin Kollsvíkurætt.

1824      Kirkjuvegur styttist með stofnun Breiðavíkursóknar.  Allt frá siðaskiptum hafa Kollsvíkingar, og vermenn sem þaðan róa, þurft að sækja kirkju um þingmannaleið inn að Saurbæ á Rauðasandi.  Með stofnun Breiðavíkursóknar á þessu ári og kirkjubyggingu á næsta ári horfir til þess að kirkjuvegur styttist til mikilla muna. 

1859      Frostavetur; hafís kemst fyrir Látraröst.  Veturinn hefur verið grimmari en menn rekur minni til.  Norðanlands lagðist hafís að með firnakulda á þorranum.  Miklar frosthörkur voru á Vestfjörðum, og oft yfir 20 stiga frost. (Ald).  Hafís komst suðuryfir Látraröst sem þó er afar fátítt.  Víða um land hafa menn þurft að skera fé af fóðrum; þó síst þar sem áður hafði verið skorið niður vegna fjárkláðans.

1863      Fönix smíðaður.  Smíðað hefur verið stórt skip fyrir Kollsvíkinga sem hlotið hefur nafnið Fönix.  Fönix er upphaflega smíðaður sem áttæringur (sexæringur?) en síðan stækkaður í teinæring og þá stærsta og glæsilegasta skipið í Rauðasandshreppi.  Hann er í eigu Guðrúnar Magðalenu Halldórsdóttur og Halldórs Ólafssonar á Grundum.   (Í skipaskrá frá síðari hluta 19.aldar kemur fram að einn áttæringur er í Barðastrandasýslu og er hann gerður út frá Kollsvík.  Hann er smíðaður 1863; 32,1 fet að lengd; 9,2 að breidd og 2,9 á dýpt. (LK; Ísl.sjávarhættir II).  Fullyrða má að þetta er hákarlaskipið Fönix (eldri) í Kollsvík, sem rifinn var 1899 eftir farsælt úthald).

1870      Útgerð dalar enn í Láganúpsveri.  Fram að þessu hefur helsta verstöðin í Kollsvík verið í Láganúpsveri.  Hún er nú í auknum mæli að færast í Kollsvíkurlendingu.  (Kann það að benda til betri skilyrða þar en áður; t.d. að sandfok valdi ekki eins miklum skaða á fiskafurðum).

1870      Fiskverð hækkar á erlendum mörkuðum.  Íslensk vara hefur heldur hækkað í verði á erlendum mörkuðum.  Verð á harðfiski er núna 25-29 ríkisdalir saltfiskur hnakkakýldur 28-32 rd; ókýldur 22-25 rd.  Landbúnaðarafurðir hafa einnig hækkað.  Er þetta veruleg hækkun frá 1850, þegar harðfiskur seldist á 12-14 rbd og saltfiskur á 12-15 rbd.  (  Ríkisdalur (rd) er sama og ríkisbankadalur (rbd).  Líklega er þetta verð á skippundi.  Í einu skippundi  eru 250 kg af fullstöðnum saltfiski en 500 kg af slægðum fiski úr sjó; óhausuðum.  Ætla má að þessar verhækkanir hafi ýtt mjög undir útgerð og saltfiskverkun í Kollsvíkurveri og víðar). 

1876      Hákarlaskipið Dvalinn ferst við Hvallátra.  Hinn 15.02.1876 fórst hákarlaskipið Dvalinn frá Vatnsdal í lendingu á Hvallátrum, ásamt allri áhöfn. 
Mikið hefur verið gert út á hákarl þessa öldina, enda lýsið í háu verði.  Það er mikið notað til lýsingar í borgum, t.d. götulýsinga.  Hákarlaskip eru mörg í hreppnum; flest áttæringar sem gerð eru út í sameign nærliggjandi bæja.  Laufi er sexæringur sem hefur uppsátur á Sjöundá og er í eigu Rauðsendinga.  Sigríður blíðfara er áttæringur með uppsátur á Hvallátrum og í eigu Látrabænda.  Egill er teinæringur sem einnig hefur uppsátur á Hvallátrum og er í eigu Erlendar Kristjánssonar á Miðbæ.  Farvel er áttæringur með uppsátur í Breiðuvík; í eigu Breiðavíkurbænda.  Fönix er, eftir stækkun, teinæringur og stærsta hákarlaskipið í hreppnum.  Hann er í eigu Guðrúnar Magðalenu Halldórsdóttur og Halldórs Ólafssonar á Grundum.  Svanur er áttæringur með uppsátur í Hænuvík og í eigu Hænuvíkurbænda.  Dvalinn, sem sagt er frá hér að ofan, var (líklega) áttæringur með uppsátur í Vatnsdal og í eigu bænda þar (e.t.v. einnig innri bæja).
 Hart er sótt, enda langt róið og í vetrarlok.  Mannskæð slys hafa orðið.  22.05.1821 fórst Gunnlaugur Jónsson frá Mábergi ásamt 7 öðrum í hákarlalegu suður af Bjargtöngum.  22.05.1824 fórst Árni Þóroddsson í Kvígindisdal ásamt 8 öðrum á landleið úr hákarlalegu.  26.05.1837 fórst áttæringur Gísla Ísleifssonar í Látraröst og auk hans 9 menn. (Nánar um hákarlaveiðar og hákarlaskip hér).  

1878      Fönix í timburflutningum.  Hákarlaskipið Fönix í Kollsvík er núna notað til að flytja timbur úr norska flutningaskipinu Ossían frá Mandal, sem strandaði nú um fardaga undir Djúpadal í sjóleysu en suðaustan rosa.  Áhöfnin bjargaðist frá borði og reri út í Brunnaverstöð.  Í skipinu er mikill timburfarmur og er Fönix stærstur þeirra báta sem nú ferja það inn í Keflavík, þar sem það verður boðið upp.  Búist er við að skipið liðist sundur á strandstað.

1880      Útgerð aflögð í Láganúpsveri.  Er nú svo komið að enginn bátur er gerður út frá hinni fornfrægu verstöð Láganúpsveri, en allmargir bátar róa úr Kollsvíkurveri.  1703 voru enn gerðir út nokkrir bátar úr Láganúpsveri, sem í margar aldir áður hafði verið blómlegasta verstöðin, a.m.k. á sunnanverðum Vestfjörðum.  Skreiðarverskun til útflutnings er nú aflögð á landinu, en hún hefur um aldir verið ein verðmætasta útflutningsafurð landsins.  Má ætla að Láganúpsver hafi verið meðal síðustu staða þar sem fiskur var í miklu magni verkaður í skreið til útflutnings.

1880      Vöðubátar í Kollsvíkurveri.  (Óvíst um ártal; gæti verið síðar).  „Með fyrstu aðkomubátum í Kollsvíkurver var vöðubátur, en svo voru þeir bátar kallaðir sem notaðir voru til vöðuselsveiða.  Selurinn gekk oft í stórum torfum inn á firðina.  Var hann mikið veiddur, og veiðarfærið var skutull.  Vöðubátar voru frekar litlir; minni en fjögramannaför, en það var hin venjulega stærð róðrarbáta.  Þessir bátar voru öðruvísi lagaðir en róðrarbátar; byggðir með það fyrir augum að vera sem hraðskreiðastir.  Eigendur að fyrsta vöðubátnum í Kollsvíkurveri voru Magnús Árnason bóndi á Hnjóti og Gísli Ólafsson bóndi á Sellátranesi.  Mun báturinn hafa verið aðkeyptur.  Formaður á bátnum var Magnús Árnason (f.1860).  Hásetar voru Gísli Ólafsson (f. 1838) meðeigandi, og Magnús Pétursson vinnumaður í Breiðavík“.  (Guðbj. Guðbj; viðt.EÓ við hann).

1881      Frostaveturinn mikli (fyrri).  Firnamiklar frosthörkur gengu yfir landið í janúar þetta ár. (Hefur frost ekki mælst meira til þessa dags; 2020).  „Merkur maður skrifaði seint í apríl af Barðaströnd, að allur Breiðifjörður væri þá með hestísi svo langt, sem eyjar næðu. Patreksfjörður var riðinn endilangur um sama leyti; frá Sauðlauksdal inn í botn, og Arnarfjörður er sagður allur lagður út í mynni,  Póstur gekk yfir alla smáfirði hjer suður í sýslunni þegar hann kom eptir nýárið.  Sunnudaginn 30.apríl var hjer vestra aftakaveður hið mesta af norðaustri: ofviðrisrok og kolsvartur bylur, svo hvorki var stætt nje ratljóst húsa á milli er á leið.  Þá tók upp áttæring með stórviðum á, á bæ nokkrum á Rauðasandi; lypti veðrið honum upp yfir hús eða hey og braut hann í spón er hann skall niður hinsvegar... (Norðanfari 18.05.1881).

1882      Saltfiskverkun hafin í Útvíkum.  Útvegsbændur í Útvíkum eru farnir að verka þann afla sinn í salt sem ætlaður er til sölu á erlenda markaði.  Steinbítur er áfram hertur til nokunar heima og innanlandssölu. 
Þetta ár ganga 15 bátar til fiskjar frá Hvallátrum (PJ; Barðstrbók). 

1882      Hlýrarek í Rauðasandshreppi.  Af og til hefur hlýra rekið á land hér í hreppi; stundum í stórum stíl, t.d. 1795 (Espólín).  (Hætti þó með öllu um og eftir 1890).  Þetta ár rak mikið af hlýra í Breiðuvík.  Sigmundur Hjálmarsson í Breiðuvík hefur flutt mikið heim þrjá hesta klyfjaða af hlýra.  Um Brúðgumaskarð var farið með 10 hestalestir klyfjaðar af hlýra (BÞv; Örnskrá Sauðlauksdals).  Kann þetta að tengjast því að tveir síðustu vetur hafa verið fádæma harðir og veðrasamir.

1890      Bátar heimamanna í Kollsvíkurveri.  Árið 1890 eru gerðir út frá Kollsvíkurveri þessir bátar: 
Sultur, eigandi Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík, og var hann formaður.  Sultur mun fyrst hafa verið í eigu föður Torfa; Jóns Torfasonar bónda á Hnjóti.  Reytingur, eigendur Magðalena Halldórsdóttir, ekkja Guðbjartar Ólafssonar bónda í Kollsvík, og sonur hennar Ólafur Guðbjartsson er þá var vinnumaður í Keflavík hjá Jóni Gíslasyni.  Formaður á Reitingi var Ólafur Guðbjartsson.  Heppinn, eigandi og formaður Halldór Ólafsson bóndi á Grundum.  Bóndi á Láganúpi var Ásbjörn Ólafsson; átti hann engan bát.  (Guðbj. Guðbj; viðt.EÓ við hann).

1890      Brunnaverstöð leggst af.  Útræði er nú að leggjast af á Brunnum, en þar hefur lengi verið mikið útver sem menn hafa sótt langt að.  Ekki er ljóst hvenær verstöðin byggðist fyrst upp, en líklega hefur það verið við upphaf skreiðarsölu, líkt og t.d. Láganúpsver og Keflavík.  Brunnaverstöð lagðist af um 1620 (sjá þar) vegna sandfoks og vatnsleysis en hófst aftur innan 100 ára.  Fyrir 1620 reru þar gjarnan menn norðan af fjörðum, en á síðara skeiðinu var þangað einkum sótt úr Breiðafjarðarbyggðum.  Var veiðistöð þessi einkum vinsæl til steinbítsveiða.  (PJ; Barðstr.bók o.fl).

1890      Kúfiskplógur smíðaður í Hringsdal.  Einar Gíslason í Hringsdal í Arnarfirði smíðar nú kúfiskplóga, byggða á hans hönnun, og eru þeir nokkuð notaðir í Arnarfirði.  (Síðar voru þeir notaðir til beituöflunar fyrir báta í Kollsvíkurveri.  Plógur af þessari gerð er í Minjasafninu á Hnjóti).  (LK;Ísl.sjávarhættir IV). 
„Ég held að Einar heitinn í Hringsdal hafi fyrstur manna notað kúfiskplóg, en aðrir segja að Sumarliði gullsmiður, ömmubróðir minn hafi fyrstur verið með hann“. (GG; Verstöðin Kollsvík).  (Ömmubróðir GG var Sumarliði Brandsson, bóndi Kollabúðum í Þorskafirði.  Það var reyndar Sumarliði Sumarliðason (1833-1926), óskilgetinn sonur hans; gullsmiður á Ísafirði og síðar Ameríku, sem kynnti norskan plóg ásamt fleiri nýjungum á fundi á Ísafirði 1866 en fékk litlar undirtektir). 

1890      Hvalreki í Kollsvík.  Hinn 17.04.1890 rak hval í Kollvíkurlandi; 30 álnir (18,84 m) milli sporðs og höfuðs, en 50 álnir (31,40 m) alls.  Af honum fengust 140 vættir (10 fj. v.) (6020 kg) af spiki.  Þvestið var nær því ónýtt sökum ýldu. (Ísafold 39.tbl. 14.05.1890).

1894      Lóðanotkun aftur tekin upp í Kollsvíkurveri.  Lóðir eru notaðar í Kollsvík þetta vor.  Líklegt er að þær hafi verið notaðar fyrr á öldum; hér líkt og í Breiðafirði og norður á fjörðum, en notkun þeirra hafði lagst af fyrir 1700.  Síðan hefur eingöngu verið stunduð handfæraveiði þar til nú.  Sá sem fyrstur notar lóðir núna er Hákon Jónsson, bóndi á Hnjóti; sonur Jóns Torfasonar í Kollsvík.  Einn af hásetum Hákonar þetta vor er Þórður Gunnlaugsson frá Bröttuhlíð á Rauðasandi, sem er nýfluttur norðan frá Ísafjarðardjúpi að Vatnsdal, og flutti þessa nýjung með sér.  Aðrir hásetar hjá Hákoni þetta vor eru þeir Halldór Benjamínsson bóndi í Keflavík (faðir Hafliða á Látrum o.fl.) og Ólafur Jónsson bóndi á Hvalskeri (faðir Sigurjóns alþingismanns, Stefáns bónda á Skeri o.fl).  Þeir bátar er voru á sjó þennan dag á handfærum reru norður á Blakknesröst.  Þeir voru Sultur, Heppinn og Reitingur;  allir heimabátar í Kollsvík.  Fjórir menn voru á bát, og var ég (GG) háseti á Reiting.  Lóðataumarnir voru fyrst unnir úr frönskum línum; raktir úr þeim (Guðbjartur Guðbjartsson ; Kollsvíkurver.).

1895      Aðkomubátar í Kollsvíkurveri.  Fyrst þegar ég man eftir (f.1879) reru hér ekki nema heimamenn.  Þegar farið er að fiska þorsk á lóðir hefst aftur fyrir alvöru verstöð fyrir aðkomumenn.  Þeir byrjuðu á Látrum á vorin og færðu sig svo í Kollsvík þegar fiskur var genginn norðar“.  (GG; Kollsvíkurver).  Sjá vöðubáta líkl. kringum 1880.

1897      Bátafjöldi og afli í Rauðasandshreppi.  Á þessu ári eru í Rauðasandshreppi gerð út 4 tveggjamannaför; 20 fjögurramannaför; 4 sexæringar og 3 stærri bátar.  Á þessa báta var upgefin veiði 12.700 þorskar; 50.350 þyrsklingar; 20.370 ýsur; 75 tunnur af síld; 18.910 af trosfiski; 5 tunnur af þorsklifur; 31 tunna hákarlslifur; 4 fullorðnir selir og 86 selkópar.  Uppgefin fuglatekja var 2.760 af svartfugli og 700 af fýlunga.  (Stjórnartíðindi fyrir Ísland, C-deild, útg 1898).

1898      Rut smíðuð; félagsútgerð Guðbjartar og Ólafs.  Smíðaður hefur verið vandaður 1,5 tonna bátur sem gerður verður út frá Kollsvíkurveri.   Nefnist hann Rut (stundum ritað Ruth) og hefur skráningarnúmerið BA 223.  Báturinn er sameign frændanna Guðbjartar Guðbjartssonar í Kollsvík, 19 ára, og Ólafs Halldórssonar á Grundum, 27 ára.

1899      Togaraútgerð í Rauðasandshreppi.  Hlutafélagið IHF (Islandsk Handels og Fiskeri Co) hefur látið smíða fyrir sig 205 brúttórúmlesta togara á Englandi; Thor að nafni, og er hann gerður út frá Geirseyri.  Hann er smíðaður í North-Shields; hinn vandaðasti í alla staði og vel útbúinn; grænn að lit.  Togarinn er aðallega á lúðuveiðum, í samfloti við enska togara og dönsk þilskip; veiðir bæði í vörpu og dragnót.  Aflinn er fluttur vikulega í ís til Englands og annast ensk millilandaskip flutningana.

1899      Lýsingar Finns Thorlacius úr Kollsvíkurveri.  Finnur Thorlacius frá Saurbæ rær í Kollsvík, á fjögurra manna fari með Össuri Guðbjartssyni.  Beitt er kúfiski sem sóttur er í Bug.  Lóðir 5-6 snæri; 30 faðmar hvert.  Afli yfirleitt góður en fiskurinn smár; 4-500 í róðri.  Alltaf tvíróið enda oftast gott veður.  Þorskurinn saltaður og seldur á Patreksfjörð en steinbítur hertur til heimilisnota.  Skrínukostur er kæfa í kofforti; smjör og rúgkökur.  Soðinn er feitur steinbítur og smálúða.  Grautur sendur heiman úr Kollsvík, en kaffi hitað í búðinni.  Fundu eitt sinn rauðvínstunnu á reki, og varð af því almennt fyllirí í Verinu (líklega einstætt í sögu þess).  Skæð flensa gekk eitt sinn og veiktust margir í Verinu. (F.Th; Smiður í fjórum löndum.  Nánar hér).

1899      Lýsingar Árna Brandssonar úr Láturdal og Kollsvíkurveri.  Að venju róa nokkrir bátar úr Láturdal, eins og tíðkast hefur margar aldir.  Þar er hálfdrættingur á bát Árni Brandsson frá Hnjóti, nú 9 ára.  Síðar minnist hans þessa tíma með nokkurri biturð:  "Æskan var öll eitt samfellt basl, byrjaði sem hálfdrættingur á bát þegar ég var 9 vetra og reri samtals 6 vertiðir sem barn eða unglingur. Fyrst reri eg frá svokölluðum Láturdal í Barðastrandarsýslu, en síðan 4 vertíðir úr Kollsvíkurveri. Þarna bjuggum við í verbúðum við þröngan kost oft, og einatt mikinn kulda og vosbúð. En enginn spurði mig, 9 ára gamlan strákpjakkinn, hvort eg væri svangur eða þreyttur eða hvort mér væri kalt.  Enginn vorkenndi mér þótt ég kastaði upp vegna sjóveiki, sem alltaf hrjáði mig. Vinnan var frumskilyrðið og svo í öðru lagi það að bjarga sér einhvernveginn sjálfur. Þá hét það að duga eða drepast" (Árni Brandsson, viðtal; Vísir 02.10.1959). 

1899      Lýsingar Jónu Valgerðar úr Kollsvíkurveri.  „Karlmennirnir sváfu í búðum við sjóinn meðan vertíð stóð.  Þeir reru hvern dag er gaf; fjórir á hverjum báti.  Voru það árar og segl en ekki vélar (þær þekktust ekki) sem knúðu þá áfram, og veiðarfærin voru færi.  Stundum reru þar 15 bátar; komu víða að og gerðu sig út frá sumarmálum og til tólf vikur af sumri.  Þá fóru þeir heim til sín með harðfiskinn, en þorskur var saltaður og verkaður eins og enn (um 1930) gerist.  Einn maður sótti suður úr Hergilsey á fjögra manna fari og fór aftur eftir vorið með skreiðina suður fyrir Bjarg; allt í Eyjar.  (Frás. Jónu Valgerðar Jónsdóttur í æviminningum.  Klausan er meðal lýsinga við fyrstu komu hennar að Kollsvík 1889, en eiga líklega við vorið hennar hjá Gísla Guðbjartssyni um 1900.  Nefndur Breiðfirðingur er líklega annaðhvort Sigmundur Jónsson í Hergilsey eða Sveinn Jónsson í Skáleyjum).

1899      Kúfiskur plægður upp.   Einar Gíslason í Hringsdal í Arnarfirði þróaði og smíðaði þá plóga sem notaðir hafa verið í Útvíkum.  Fyrst reyndi hann veiðarfæri þetta í Hringsdal árið 1889 (sjá þar).  „Urðu síðar á honum nokkrar lagfæringar, enda gátu þeir verið misjafnir að gerð og gæðum.  Við plóginn var festur netpoki, 1 ½ - 2 metrar á lengd.  Þegar tveir bátar voru við plægingu var annar báturinn nefndur spilbátur en hinn plógbátur“.  Spilbátnum var lagt við stjóra en plógbáturinn fór með plóginn  nokkuð frá og sleppti til botns.  Var hann síðan dreginn að spilbátnum og plægðar upp skeljar í leiðinni.  Í stað spilbáts var spilið stundum fest uppi í landi.  Var sú aðferð t.d. notuð í Kvígindisdal og Vatnsdal, en sú fyrrnefnda í Breiðuvík. (KJK; Kollsvíkurver). 
„Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt ljósabeitu.  Fljótlega var þó farið að nota kúfisk, þar sem sú beita var miklu betri, og var hann tekinn inni í Bug, hjá Hvalskeri.  Sá fyrsti sem notaði kúfisk til beitu mun hafa verið Þórarinn Thorlasíus, á Sveinseyri í Tálknafirði.  Ekki er glöggt vitað hvenær byrjað var að nota kúfiskplóg í Útvíkum, en Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík mun hafa smíðað kúfiskplóg úr skeifnajárni.  Með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi, en sú skel sem þar fékkst var mjög smá; aðallega rauðbarði“ (Guðbjartur Guðbjartsson Láganúpi; viðtal EÓ við hann). 

1900      Mikil útgerð úr Kollsvíkurveri.  Um aldamótin 1900 gengu 25 bátar frá Kollsvík.  (PJ; Barðstrendingabók).  „Um aldamót (1900) reru 22-24 skip úr Kollsvíkurveri.  Stutt var á miðin; 15-20 mínútna róður á fjögurra manna fari.  Þarna var hægt að leggja tíu stokka eða línur sem hver var 60 faðmar“  (Guðmundur og Vilborg Torfabörn; Örnefnaskrá Kollsvíkur).

1900      Heimabátar og formenn þeirra.  Árið 1900 eru þessir bátar gerðir út frá Kollsvíkurveri:
Sultur; form. Torfi Jónsson Kollsvík (áður Jón Torfas. faðir hans); Reitingur, eig. Magðalena Halldórsdóttir og sonur hennar Ólafur Guðbjartsson (þá vm í Keflavík) sem er formaður; Heppinn;  form. Halldór Ólafsson, Grundum; Borga, form. Torfi Jónsson Kollsvík; Gráni, eig. Bjarni Gunnlaugsson Tröð og Ólafur ÁsbjörnssonLáganúpi sem er formaður: Snarfari, eig. Össur og Gísli Guðbjartssynir Kollsvík form er Gísli; Rut, eig. Ólafur Halldórsson og Guðbjartur Guðbjartsson Kollsvík; form er Ólafur;
Lára, eig og form. Þórður Marteinsson bóndi í Fit á Barðaströnd; Guðrún, eig og form. Össur Guðbjartsson Láganúpi; Jóhanna, eig og form. Þórarinn Bjarnason Bökkum í Kollsvík; Rauðka, eig. Steinn Bjarnason og Karl Kristjánsson Kollsvík.  Karl er formaður.
(Heimild: Guðbjartur Guðbjartsson; Kollsvíkurver).  Hér er aðeins getið 10 báta heimamanna og eins af Barðaströnd.  Samkvæmt PJ og TÖ hafa auk þeirra róið 12-15 aðkomubátar/inntökuskip úr Verinu.

1900      Vertollar í Kollsvíkurveri.  Fjölmargar verbúðir hafa risið í Kollsvíkurveri vegna hinnar auknu útgerðar, í viðbót við eldri verbúðir og fjárhús sem þar hafa lengi verið.  Er þetta byggðahverfi sem nær frá Breiðalæk suður að Syðriklettum; fjölmennasta byggð hreppsins meðan vertíð stendur en mannlaust þess á milli.  Allar eru búðirnar í eigu heimabænda, sem leigja þær út gegn búðartollum ásamt uppsátrum gegn vertollum (uppsátursgjöldum).  Búðartollurinn er núna 6 krónur og að auki vertollur (uppsátursgjald) 6 krónur, eða 12 kr samtals sem samsvarar 60 hertum steinbítum.  Fyrrum voru vertollar með sama hætti í Útvíkum og í vestanverðum Breiðafirði.  Eftir aldamótin 1500 voru þeir hálf vætt af hverju skipi og skipverja sem þar var aðkomumaður; hálfu minna af leiguliðum jarðanna, s.s. Láganúpi.  Vertollar leiguliða féllu þó niður um 1700.  Formaður átti að sjá til þess að koma vertollum til jarðareiganda.  Helmingur vertolla í Láganúpsverstöð var greiddur í steinbít.  Um 1700 greiddu heimamenn í Kollsvík ekkert uppsátursgjald, en hver viðlegumaður átti að gjalda 2 fjórðunga í vertoll sem var þó fyrir góðvild landsdrottins stundum eftir gefinn.  Greiðsla fyrir lyngtöku fólst alls staðar í uppsátursgjaldinu nema í Kollsvíkurveri, en þar var hún einn harður steinbítur frá hverjum manni; lyngsteinbítur.  Auk eldiviðarlyngs máttu menn slíta þar svo mikið lyng að nægði í bálk eða rúm. (LK;  Ísl. sjávarhættir II og III).  (1 fjórðungur = 4,3 kg; 1 vætt = 8 fjórðungar = 34,4 kg = 34 fiskar).

1900      Gangspil notuð við setningu báta.  Ekki er unnt að fullyrða hvenær gangspil fóru fyrst að tíðkast til að létta segningu báta í Kollsvíkurveri, en það gæti hafa veruð á þessum árum.  Farið er að nota gangspil um eða eftir 1870 vð Djúp og um svipað leyti á Ströndum.  Algengust voru þau á Vestfjörðum.  (LK;Ísl.sjávarhættir IV).  Fram yfir 1965 voru tvö gangspil enn nothæf í Kollsvík; annað ofan við vörina í Láganúpslendingu og hitt ofan lendingar í Kollsvík.  Var það síðarnefnda notað framyfir þann tíma.

1900      Ruðningurinn tekur breytingum.   Aðgerðaraðstaða fisks í verum Útvíkna, svonefndur ruðningur, hefur tekið nokkrum breytingum þessi árin.  Fyrrum var aflinn borinn af báti, annaðhvort í kös eða í stíu sem hlaðin var af grjóti, og gert að á steinhellu sem nefndist „flatningur“ og hvíldi á grjóthlöðnum bálki.  Fiskinum var þaðan kastað í grjóthlaðna stíu og nefnist þessi umbúnaður „ruðningur“ (dregið af því að ryðja bát).  Nú hafa menn tekið að smíða úr tré, bæði kassana sem fiskurinn er látinn í og aðgerðaborðið.  Nafnið ruðningur heldur sér eftir sem áður.  Eftir aðgerð í ruðningi er fiskurinn þveginn í læk og þorskurinn síðan saltaður í söltunarkró, sem oftast er nærri læknum.  Steinbíturinn er hinsvegar þurrkaður á steinbítsgörðum og síðan á hrýgjugörðum, en rafabelti lúðu o.fl. hengt í hjall.  (LK; Ísl.sjávarh. IV). 

1900      Milljónafélagið byggir salthús í Kollsvíkurveri.  Fyrirtækið P.J. Thorsteinsson & Co á Vatneyri hefur byggt salthús í Kollsvíkurveri.  Er húsið allt hið vandaðasta, með steinsteyptum veggjum, timburþili og járnþaki.  Smiður var Gísli Sigurðsson.  Saltið er mest flutt hingað frá Patreksfirði í bátnum Kára.  Saltfiski úr Kollsvíkurveri er oft skipað út í flutningaskip er leggjast þar fyrir utan og taka hann.  (GG; Lesbók Þjv).  „Um eða fyrir síðustu aldamót (1900) hóf félag, sem nefnt var Milljónafélagið, verslun og þilskipaútgerð á Patreksfirði.  Þá lét það byggja timburhús með járnþaki úti í Kollsvíkurveri.  Þetta hús var alltaf kallað Salthúsið, enda hafði það að geyma nokkrar saltbirgðir sem afgreiddar voru eftir þörfum til útgerðarmanna.  En þeim var gert að skyldu, eða þeir höfðu lofað, að greiða með afla sínum.  Húsið var einnig notað til fiskgeymslu að lokinni verkun, uns hann var fluttur brott til sölumeðferðar.  Eftir að Milljónafélagið leið undir lok var hús þetta rifið“ (KJK; Kollsvíkurver).

1900      Stígvél valda byltingu í skófatnaði.  Meðal fjölmargra nýjunga varðandi sjósókn eru gúmmístígvél, sem eru að koma á markað þessi árin.  Þau munu án efa leysa fljótlega af hólmi hinn hefðbundna skófatnað; jafnt sjóskó af nautshúð eða hákarlsskráp sem skinnskó og roðskó á landi.  Með strandferðaskipinu Lauru kom til Eyra nú í janúar skósmiður úr Reykjavík með birgðir af sjóstígvélum og öðrum skófatnaði.  (Margir voru þó fastheldnir á fyrri tíðar búnað, og t.d. þekktust skinnklæði fram yfir 1930 í Kollsvíkurveri.  Klofstígvél hafa líklega ekki komið í Kollsvík fyrr en eftir 1930, að sögn IG). 

1900      Hákarlaskipið Fönix rifið.  Teinæringurinn Fönix hefur verið rifinn og efnið úr honum notað sem árefti á hús í Kollsvík.  Fönix var einkum notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum.  Hann var notaður til að flytja timbur úr skipinu Ossian frá Mandal sem strandaði undir Djúpadal 1878.   Fönix var að öllum líkindum smíðaður 1863, og var í eigu Guðrúnar Magðalenu Halldórsdóttur og Halldórs Ólafssonar á Grundum.

1900      Lok verstöðu í Keflavík.  Á þessum árum er síðast róið frá Keflavík, þar sem löngum hefur verið fjölsótt útver.  Síðastur til að hafa þar viðlegu við róðra, að frátöldum Keflavíkurbændum, var Sveinn Magnússon á Lambavatni (d. 1929).

1900      Mikil skútuútgerð á Eyrum.  Nú eru gerð út 10-12 þilskip frá Eyrum, með 160-200 alls í áhöfn.

1900      Löndunarhöfn erlendra fiskiskipa.  Frakkar og Færeyingar hafa aðalstöðvar sínar á Vatneyri og landa þar afla.  Gufuskip frá Færeyingafélaginu gengur frá Vatneyri í hverri viku og flytur aflann ísvarinn til Englands.  Óvíst er hvort framhald verður á þessu fyrirkomulagi.  (BJ; Ísafold 24.03.1900). 

1900      Enskir togarar uppi á grunnmiðum.  „Botnverpingar eru nú að byrja að venja komur sínar hingað, einkum þegar á líður sumarið, og þykja mönnum þeir síður en ekki góðir gestir.  Ekki færri en 6-8 héldu sig á Arnarfirði í fyrra.  Einn þessi náungi kom líka hér inn á Patreksfjörð litlu eftir sumarmál og dró vörpu sína allt að hálfum degi fram og afur um fjörðinn, rétt fram undan verslunarstöðunum Vatneyri og Geirseyri.  Þetta er all ískyggilegt fyrir Vesturfjarðabúa, enda má heita að bátafiski á fjörðunum sé aðalbjargræðisvegur manna.  Ekki alleina drepa togararnir allan fisk sem á firðina kemur, heldur róta botnvörpurnar upp botninum, svo allur fiskur fælist nema e.t.v. kolinn.  Togararnir hafa lítið að óttast með þeirri strandgæslu sem nú er.  „Heimdal“ hefur mjög litla viðdvöl hér fyrir Vestfjörðum þó hann skreppi um 2-3 ferðir einhverntíma að sumrinu.  Hér veitti ekki af að skip væri stöðugt við; einkum þegar líður á sumarið.  Þá sækja þessir ránsseggir mest hingað, því þá er best aflavon“.  (BJ; Ísafold 24.03.1900).

1901      Afli í Kollsvíkurveri.  „Afli báta var með betra móti á vorvertíð á opna báta, einkum í aðalverstöðinni; Kollsvík, sem liggur utan- og sunnanvert fjarðarins:  Er aflinn  á 4-manna fari frá 5 til 9 þúsund á bát“.  (Ísafold 14.okt 1901). 

1901      Steinbítur seldur til bænda og austur á sveitir.  Steinbítur er mikið veiddur í Útvíkum en hann er ekki verslunarvara til kaupmanna líkt og saltfiskurinn, heldur er hann eingöngu brúkaður heima eða látinn til bænda sem ekki búa við sjó.  Margir koma í skreiðarferðir.  Viðskiptin eru einkum við bændur í sveitum við Breiðafjörð.  Oftast eru það fastir viðskiptamenn:  Þeir fá steinbít og láta í staðinn smjör, tólg og viðarkol.   "Reglan var sú að 60 þrívaldir steinbítar jafngiltu tveim fjórðungum af smjöri. Væri um peningagreiðslu að ræða, sem þá var þó lítt þekkt, var stykkið selt á 20 aura"  (Arinbjörn Guðbjartsson).  (Sjá nánar um skreiðarferðir hér).

1901      Nýting fiskbeina og rasks.  Hausar og hryggir eru hertir.  Þorskhausar eru mikið notaðir til matar, en steinbítshausar eru þó betri.  Hausar og hryggir eru einnig fóðurbætir bænda hér.  Lifrin er líka oftast hirt á tunnur og látin renna sjálf.  Er henni blandað í hey á veturna.  (KJK).   Stundum koma í Kollsvíkurver skip er sækja þurrkuð fiskbein og flytja á staði þar sem beinakvarnir eru, en þar eru þau möluð.  Fiskbein eru líka geymd og þurrkuð; barin og notuð bæði fyrir menn og skepnur.  Eitt hundrað af steinbítshausum er metið til jafns við eina alin af heyi og 100 af hryggjum er í sama verði.  Við gömlu búðirnar eru reitir til að þurrka beinin".  (GG).

1901      Bjarni Sæmundsson um Útvíknaverstöðvar.  „Milli Blakkness og Bjargtanga eru 3 veiðistöður; Kollsvík, Breiðuvík og Látur.  Fiskipláss þessi eru fræg frá fornu fari fyrir steinbítsafla, því annað aðal-steinbítssvæðið við Vestfirði er frá Blakknesi og suður í Látraröst.  Steinbítsaflinn er einkum á vorin.  Annars stunda menn þar einnig algengar fiskveiðar og hafa tekið upp lóðir; er Kollsvík nú aðal veiðistöðin.  Þaðan gengu í vor 16 bátar; af þeim voru nokkrir úr Patreksfirði.  Barðstrendingar róa þar töluvert sem vermenn.  Látur með Brunnum og Láginúpur voru fyrrmeir aðal-verstöðin.  Nú ganga 3 skip á Látrum.  Ekki muna menn eftir neinum aflaleysisárum, og engar breytingar hafa orðið á fiskveiðum aðrar en aukin lóðabrúkun og nýjar beitutegundir.  Þorskur gengur ekki í Patreksfjörð fyrr en í maí og þykir ganga best í hlýju veðri, en hverfa í kulda og norðanátt; fer um mánaðarmótin okt-nóv.  Ýsa gengur í fyrsta lagi í Flóann í júlí.  Smálýsa er oft; og smáufsi.  Koli er nokkur.  Mun minna veiðist nú af heilagfiski og skötu, en áður aflaðist mikið af því.  Hrognkelsaafli hefur brugðist síðustu 4 ár.  Loðna er sjaldgæf.  Beinhákarl hefur komið inn á fjörðinn.  Frá verstöðvum í Tálknafirði róa menn mjög á steinbít á Kollsvíkurmiðum, og nota við það lóðir.  Haukalóðir þekktust ekki fyrir miðja 19.öld“.  (Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur; Fiskirannsóknir 1901; skýrsla til landshöfðingja).

1901      Seglabúnaður Patreksfjarðarbáta.  „Í haust gengu 190 bátar úr firðinum og af þeim 14 frá Vatneyri.  Úr SV-verðum firðinum róa menn út á Eyrunum vegna brima.  Í fjörðinn (Patreksfjörð) róa menn á 3-rúma bátum en á 6-æringum í Flóann og lengra út.  Á þeim er „loggortusigling“; 1 rásegl og fokka; tekið eftir Frökkum“.  (Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur; Skýrsla til landshöfðingja; Fiskirannsóknir 1901). 
Í Kollsvíkurveri tíðkuðust þversegl á minni bátum, en loggortusegl munu hafa komið á stærri báta, t.d. á Látrum.

1901      Þurrabúðum fjölgar í Kollsvík.  Þeim fjölgar sem vilja njóta heilsársvistar í Kollsvík, með fiskveiðar að megintekjum.  Tvær þurrabúðir byggjast í Kollsvíkurlandi á þessu ári.  Sumarliði Bjarnason og Guðrún Ingimundardóttir byggja á Strákamel, en á Grænumýri byggir Gísli Guðbjartsson frá Kollsvík ásamt (fyrri) konu sinni Guðmundínu Ólínu Þorgrímsdóttur.  Bæði kotin byggja á sjósókn í Verinu, þó ábúendur hafi einnig nokkrar kindur.  Áður höfðu fleiri kot byggst:
1891 byggðu Bjarni Gunnlaugsson og Þorgerður Sigmundsdóttir býlið Tröð úr Kollsvíkurlandi.  1898 byggði Anna Sigurðardóttir býlið Bakka neðst í landi Grunda, ásamt sonum sínum; Þórarni og Steini Bjranasonum.  1899 byggðu Jens Jónsson og Ottelía Guðbjartsdóttir sér þurrabúðina Nýlendu, handast í Kollsvíkurlandi.  (Þar rétt hjá byggðu síðar Karl Kristjánsson og Mikkalína Guðbjartsdóttir býlið Stekkjarmel árið 1907.  Samúel Eggertsson byggði grasbýlið Grund í Láganúpslandi árið 1903). 

1901      Íbúum fjölgar kringum verstövar í Kollsvík og á Eyrum.  Nú eru íbúar í Rauðasandshreppi alls 813, en voru 470 árið 1870, og hefur því fjölgað um 73% á 30 árum.  Mest hefur fjölgunin orðið á Eyrum, sem eru í Sauðlauksdalssókn, enda er þar vaxandi útgerð og önnur umsvif.  Þar eru íbúar nú 372, en voru 35 árið 1870.  Skipt eftir sóknum er íbúatalan þessi:  Saurbæjarsókn 131 á 15 heimilum; Breiðavíkursókn 143 á 21 heimili; Sauðlauksdalssókn 539 á 46 heimilum.  (Til samanburðar var íbúafjöldi sóknanna þessi árið 1870:   Saurbæjarsókn 140 á 14 heimilum; Breiðavíkursókn 114 á 9 heimilum; Sauðlauksdalssókn 216 á 18 heimilum.  Í Kollsvík bjuggu 32 manneskjur árið 1870, en er líklega yfir 80 núna sé vinnufólk meðtalið). 

1903      Fiskkaupendur á Eyrum.  Á þessu ári fjölgar þeim kaupmönnum sem kaupa saltfisk úr verum Útvíkna til útflutnings. Björn Matthíasson Olsen, sem hætti um aldamótin sem verslunarþjónn hjá P.J. Thorsteinnson og flutti til Ísafjarðar, hefur nú snúið aftur á Vatneyri og hyggst hefja verslun.  Hefur hann umboð frá Pike Ward, hinum enska, til að kaupa fisk.   Hingað til hafa tveir stórir aðilar setið einir að fiskkaupum.  Annarsvegar IHF, sem keypti eignir Markúsar Snæbjörnssonar fyrir aldamótin, en þar er Pétur A. Ólafsson verslunarstjóri (síðar sjálfur umsvifamikill kaupmaður á Geirseyri).  Hinn er Pétur J. Thorsteinsson, sem keypti verslunarstaðinn á Vatneyri af Sigurði Bachmann 1896, en fyrirtæki hans; P.J. Thorsteinsson, hefur verið umsvifamikið á Bíldudal.  Faktor hans á Patreksfirði er Ólafur Jóhannesson (sem síðar varð umsvifamikill atvinnurekandi á Vatneyri).  Báðir reka þessir aðilar mikla skútuútgerð.

1903      Enskir togarar spilla veiðum.  Enskir togarar spilla nú mjög miðum og veiðarfærum á grunnslóð.   Þeir hafa á þessu hausti gerst venju fremur yfirgangssamir á grunnmiðum.  Á Arnarfirði hafa þeir verið 6-10 að veiðum í einu og skafið botninn frá Kópanesi inn að Bakkadal að vestan og að Stapadal eða innar norðantil.  Hafa margir heimamenn tapað lóðum sínum og er tjónið metið meira en 15.000 kr hjá 40 bátum.  Sama gildir á Tálknafirði, þar sem þeir eru að skarka inn að Suðureyri, og í Patreksfirði, þar sem þeir draga inn að Vatneyri.  (Ekki fer sögum af veiðum þeirra á Kollsvíkurmiðum á þessum tíma). 

1903      Fyrsti vélbáturinn í Rauðasandshreppi.  Útgerðarfélagið IHF hefur keypt til reynslu fyrsta vélbátinn í hreppnum, ef frá er talinn togarinn Thor (sjá 1899).  (Ekki fer miklum sögum af þessum báti. Árið 1905 kom annar mótorbátur, og var sá í eigu Péturs J. Thorsteinssonar.  Árið 1915 voru 15 smábátar gerðir út frá Eyrum, þar af 5 mótorbátar.  Pétur A. Ólafsson hafði aðalumboð fyrir DAN-bátavélar og seldi á annað hundrað vélar; m.a. fyrstu vélarnar sem komu í báta í Útvíkum.  Fyrstu vélbátar komu í Útvíkur um 1920). 

1904      Drukknun Torfa Jónssonar í Snorralendingu.  Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík og formaður í Kollsvíkurveri drukknaði í brimlendingu nú í apríl.  Hann hafði farið ásamt 6 öðrum í Eyrarferð á bát sínum, en þegar þeir komu aftur í Kollsvík var komið nokkuð brim af vestri og norðri.  Þeir sneru frá lendingu í Verinu en reyndu að ná landi í Snorralendingu, stuttu sunnar.  Brot kom undir bárinn og hvolfdi honum.  Allir komust þó í land nema Torfi, en talið er að hann hafi rotast.  Hann var 56 ára og lét eftir sig konu og 13 börn.

1904      Bátafjöldi  og veiði í Rauðasandshreppi.  Samkvæmt landshagaskýrslum eru gerð út 6 tveggjamannaför og 19 fjögurramannaför í Rauðasandshreppi, að Eyrum frátöldum.  Uppgefin veiði er 11.500 þorskar; 56.700 smáfiskar; 200 ýsur; 27.550 steinbítar; 92 kópar; 9.800 svartfugls og 480 fýlungar.

1905      Smíðuð Svalan.  Smíðaður hefur verið bátur sem gerður verður út frá Kollsvíkurveri og hefur fengið nafnið Svalan.  Báturinn er 6 m langur; 1,7 m breiður og um 58 cm á dýpt.  Burðargeta er liðlega 1 tonn.  Honum verður róið og siglt, en ekki er gert ráð fyrir vél.  (Svalan er eini báturinn sem enn (2020) er varðveittur af þeim sem gerðir voru út frá Kollsvíkurveri á þessum árum; er nú á safni á Hnjóti.  Valdimar Össurarson (eldri) átti bátinn og gerði hann út, en síðar komst hann í eigu Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi.  Báturinn fauk á Gjögrum og skemmdist nokkuð en er viðgerðarhæf). (Nánar um Svöluna hér).  

1906      Strandferðaskip lesta í Kollsvíkurveri.  Af og til koma flutningaskip upp undir verin í Útvíkum og lesta þar fiskafurðir sem skipað eru út með bátum í verinu.  Í Lögréttu þetta ár er auglýst ferð gufubátsins Varanger sem nú þjónar sem flóabátur á Breiðafirði.  Hann mun í ferð sinni m.a. koma fið í Sjöundárbót og Breiðuvík.  Einnig er Kollsvíkurver algengur viðkomustaður.  (Árið 1908 er auglýst í Ísafold að s.s. Reykjavík lesti fisk í Kollsvíkurveri maí, júní og september það ár).

1907      Kollsvíkurver aflasælasta verstöðin.  „Fremur hefir verið aflatregt í veiðistöðunum hér í sýslu í vor.  Kollsvík heflr verið síðari árin einhver flskisælasta verstaðan að vorinu.  Afli var þar í vor í heldur minna lagi, og voru þó gæftir hinar beztu“.  (Huginn dagblað). 

1907      Konur róa í Kollsvíkurveri.  Meðal þeirra nær 100 sjómanna sem þessi árin róa frá Kollsvíkurveri upp á aflahlut eru tvær unglingsstúlkur; Magðalena Össurardóttir (Guðbjartssonar) frá Kollsvík 14 ára og Guðný Ólafsdóttir (Ásbjörnssonar) frá Láganúpi 15 ára.  Magðalena rær á báti föður síns upp á hálfan hlut á móti Valdimar bróður sínum.  (Þær reru sínar 5 vertíðirnar hvor). 

1907      Skipting Rauðasandshrepps; Patrekshreppur stofnaður.  Hinn 15. Júní 1907, á fundi hreppsnefndar Rauðasandshrepps í Tungu, var kosin fyrsta hreppsnefnd hins nýstofnaða Patrekshrepps, sem nær yfir jarðirnar Vatneyri og Geirseyri.  Þar með er orðin formleg skipting Rauðasandshrepps sem undirbúin hefur verið um skeið.  Um nokkurn tíma hefur orðið veruleg íbúafjölgun á Eyrum.  Stafar mannfjölgunin einkum af aukinni skútuútgerð, ásamt tilkomu véla í báta og stærri skip.  Innan Vatneyrar er besta hafnaraðstaðan í Rauðasandshreppi.  Þá hefur þessi byggð löngum verið nokkuð fráskilin öðrum byggðum hreppsins vegna hinnar torfæru Raknadalshlíðar, og hafa íbúar þar t.d. kallað eftir úrbótum varðandi kirkju og skóla.   

1907      Milljónafélagið stofnað.  Pétur J. Thorsteinsson athafnamaður á Bíldudal hefur, ásamt dönskum fjármálamönnum (m.a. Thor Jensen), stofnað fyrirtækið P.J. Thorsteinsson & Co.  Nafn félagsins er hið sama og fyrra félags í hans eigu, sem var breytt í Ó. Jóhannesson & Co fyrir tveimur árum.  Til aðgreiningar nefna menn þetta síðara félag stundum „Milljónafélagið“, þar sem hlutafé þess er ein milljón króna.  Fyrirtækið er risastórt á íslenskan mælikvarða.  Það mun hafa aðsetur í Viðey en kaupir verslunarstaðina Bíldudal og Vatneyri.  Meðal eigna sem það kaupir er Salthúsið í Kollsvíkurveri  (Fljótlega syrti þó í álinn fyrir þessu nýja félagi, og varð það gjaldþrota 1914.  (Guðj. Friðr).

1908      Pöntunarfélag Rauðasandshrepps stofnað.  Á fundi í Saurbæ nú í vetur var samþykkt að stofna samvinnufélag í Rauðasandshreppi; Pöntunarfélag Rauðasandshrepps.  Helstu frumkvöðlar þess eru séra Þorvaldur Jakobsson í Sauðlauksdal, Jón Guðjónsson útgerðarmaður í Breiðuvík, Davíð Jónsson bóndi á Kóngsengjum og Ólafur Ó Thorlacius yngri í Saurbæ, sem er framkvæmdastjóri félagsins.  Félagssvæðið er Rauðasandshreppur hinn forni; frá Skor að Tálkna.  Forsvarsmenn Pöntunarfélagsins gengu á fund Péturs A. Ólafssonar og Ólafs Jóhannessonar, kaupmanna á Patreksfirði, en báðir neituðu alfarið að greiða fyrir félagsmönnum.  Björn Olsen kaupmaður á Patreksfirði fékkst til þess að annast innkaup og vörusölu fyrir félagið.  (Sjá 1924 um gjaldþrot PR).

1908      Verslun Björns M. Olsen komin í þrot.  Verslun sú sem Björn Olsen kom á fót árið 1903 er nú komin í þrot.  Höndlunin gekk mjög vel framan af.  Björn náði undir sig miklum hluta fiskkaupa af smábátum og seldi vel í verslun sinni.  Þannig var umsetning hans 17.000 kr árið 1904 og var þá að aukast.  Hinsvegar hafa hin tvö stórfyrirtækin á staðnum reynt að spilla fyrir honum á allan máta.  Haustið 1906 réðst Björn í byggingu stórhýsis með verslun, íbúð og pakkhúsi.  Var það nefnt Babýlon vegna stærðar sinnar, en kostnaðurinn við það reyndist Olsen ofviða.  Nú í haust gekk hann á fund sýslumanns og gaf verslununa upp til gjaldþrota.  Björn hafði á hendi fisksölu fyrir útvegsbændur í nýstofnuðu Pöntunarfélagi Rauðasandshrepps og lá nærri að mikið tapaðist af fiski sem var í sölu.  Tókst þó að sýna framá að fiskurinn var í umboðssölu en ekki eign þrotabúsins.

1908      Enn er róið í Láturdal.  Allnokkuð útræði hefur um langan aldur verið frá Láturdal, en bátum þaðan hefur fækkað á síðari tímum.  Árið 1703 reru þaðan 12 bátar, flest þriggjamannaför, og þá voru þar 7 verbúðir.  Erfitt og ótryggt er þar með báta ef brimar, en stutt til miða.  Einkum hafa róið þaðan bátar úr Patreksfirði.  Ekki er ljóst hvenær þaðan hófst útræði, en líklega er all langt síðan.  Meðal vermanna í Láturdal þessa vertíð er Jochum Eggertsson, hálfbróðir og fósturbarn Samúels Eggertssonar á Grund í Kollsvík.  (Hann ritaði síðar frásögnina Trýnaveður, þar sem m.a. er sagt frá vistinni í Láturdal.  Sjá einnig frásögn Hallbjörns E. Oddssonar sem þaðan reri.  Verstaða var enn í Láturdal 1913, sjá þar).

1909      Konur og börn sinna búum um vertíðina.   Um vertíðina flytja flestir karlmenn af Kollsvíkurbæjum í Verið.  Þeir dvelja í verbúðum meðan vertíð stendur og koma helst ekki heim nema í langvarandi landlegum.  Búreksturinn hvílir því að öllu leyti á herðum kvenna, barna og gamalmenna á meðan.  Það er nóg að gera hjá konum þegar vermennirnir eru komnir í Verið, en þeir fá þjónustu hjá heimilisfólkinu. Þegar bátarnir eru komnir í land er farið með brauð og kökur til þeirra.  Heimamönnum er færður grautur, mjólk og soðning, en eftir að þeir fengu prímusa hafa þeir sjálfir soðið soðninguna í Verinu.  Karlmenn koma ekki að skepnuhirðingu eftir að þeir fara í Verið.  Konur verða að bæta þeim á sig, og vinna á túnum.  Vermenn vinna af sér það sem gert er fyrir þá með því að taka upp mó í landlegum.  Kvenfólkið sér um þurrkun hans.  Sauðfé smala menn til rúnings í landlegum.  Vertíð er fram í 10.-11. viku sumars, en nokkrir heimamanna róa allt sumarið.   (Hildur Magnúsdóttir).

1909      Síðasta skreiðarlestin í Útvíkur.  Um aldir hefur það tíðkast að bændur í austanverðri Barðastrandasýslu, jafnvel allt austur á Strandir, fari í skreiðarferðir í Úvíkur.  Síðasta skreiðarferðin af því tagi er farin á þessu ári, af séra Guðmundi Guðmundssyni í Gufudal, en hann hefur áður leitt fjölmargar skreiðarlestir um þessa leið.  (sjá 1901 um sölu steinbíts austur á sveitir). 

1910      Hafskipahöfn í Kollsvík?  Meðal mála sem rædd voru á 50 manna þingmálafundi 16.12.1910 í Tungu í Örlygshöfn var tillaga um að skora á landstjórnina „að mæla Kollsvík í því augnmiði að kanna hvort ekki væri hægt að fá þar ákveðið skipalægi svo að farmskip fengjust þangað fremur, til að ferma og afferma vörur“.  Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.  (Ekki hefur þó enn (2020) orðið af).

1913      Bátar að veiðum á Kollsvík.  Guðmundur Hjaltason fer í fyrirlestraferðir um landið og kemur í Kollsvík þetta ár:  „Fór ég svo vestur í Kollsvík.  Þar er fiskiver og reru, sá ég, 18 bátar.  Lágu þeir skammt frá landi; var þar afli góður.  Þar sá ég mjög fallega rósaða og einkennilega sjóvettlinga og skó úr steinbítsroði.  Eru þeir þar algengir og má vel nota þá“.

1913      Sótt um styrk til vélbátsferða.  53 kjósendur í Rauðasandshreppi sækja á þessu ári um styrk frá Alþingi til vélbátsferða. (Vísir 26.07.1913). 

1913      Kollsvíkurbáti bjargað af enskum togara.  Hinn 10.04.1913 reri Árni Árnason frá Kollsvíkurveri ásamt þremur hásetum sínum.  Um nónbil brast á þá blindbylur með aflandsstormi, og afréðu þeir að reyna að lensa yfir Flóann og ná landi í Kópavík.  Eftir klukkutíma hrakninga sigldu þeir fram á enska tofarann Chieftain frá Hull, sem bjargaði bát og áhöfn um borð.  Sigldi hann með þá inn á Gjögra og gaf þeim að skilnaði dágóðan afla af fiski.  Þaðan gengu þeir út yfir Tunguheiði að Kollsvík.  Þakkarávarp frá Árna til skipstjórans I. Masons birtist í Ísafold nokkrum dögum síðar.  Chieftain hafði reyndar áður komist í blöðin, en hann rændi tveimur löggæslumönnum sem hugðust taka hann fyrir ólöglegar veiðar í Breiðafirði, og sigldi með þá til Englands.  Þetta voru Snæbjörn skipstjóri í Hergilsey og Guðmundur Björnsson sýslumaður Barðstrendinga. 

1913      Breska heimsveldið strandar við Hnífa.  Enskur togari, British Empire H 908 frá Hull, strandaði 30. desember 1913, undir Strengbergi, norðan við Hnífaflögu í Kollsvík.  Veður var sunnan- suðvestan blindbylur, en sjólítið.  Skipið strandaði um hásjóað og fór hátt í fjöruna.  Skipverjar björguðust allir.  Einn skipverja komst þegar í land og heim að Láganúpi.  Menn í víkinni brugðu skjótt við og fóru á strandstað og voru þá flestir skipverjar komnir í land.  Gekk vel að koma mönnum til bæja, þar sem þeir voru lítt þjakaðir.  Skipið strandaði seinni hluta nætur, og var búið að bjarga skipverjum um hádegi.  En um kvöldið gekk á með vestan stórgarð og gerði stórsjó.  Skipið brotnaði í spón um nóttina og sást ekkert eftir af því morguninn eftir.  Mikið timbur rak úr því í Kollsvík.  Skipverjar dvöldu nokkra daga á bæjum í Kollsvík, en er veður lægði var farið með þá inn á Vatneyri á fjögurra manna fari.  Ekki þótti ráðlegt að hlaða bátinn svo fyrir Blakknesið á þessum tíma árs að taka alla skipbrotsmennina með, og voru nokkrir þeirra látnir ganga yfir Hænuvíkurháls.  Þeir voru síðan teknir um borð í Hænuvík.

1913      Viti á Bjargtöngum.  Reistur hefur verið ljósviti á Bjargtöngum.  Er hann á járngrind og knúinn gasi.  Fyrsti vitavörðurinn er Erlendur Kristjánsson á Hvallátrum.

1913     Síðast róið úr Láturdal?    Þetta ár er líklega hið síðasta sem róið er úr Láturdal, eftir því sem heimildir greina.  Þaðan róa núna þrír bátar.  Einn þeirra er í eigu Friðriks Þórðarsonar.  Formaður á honum er Guðmundur Einarsson á Hreggsstöðum (síðar bóndi í Hergilsey og að Brjánslæk), en með honum róa Árni Jón bróðir hans; Sturla Einarsson Hreggstöðum og Jóhannes frá Kálfshamarsvík.  Hákon Jónsson á Hnjóti er formaður fyrir öðrum báti og Pétur Hjálmarsson á Sellátranesi fyrir hinum þriðja.  Veitt er í salt og beitt kúfisk á línu.  

1914      Milljónafélagið gjaldþrota.  Stærsta fyrirtæki landsins er núna komið á hausinn, eftir fárra ára rekstur.  Milljónafélagið, sem í raun hét P.J. Thorsteinsson & Co, var stofnað 1907 á grunni fyrra félags með sama nafni.  Helsti hvatamaður þess og eigandi var athafnamaðurinn Pétur J. Thorsteinsson á Bíldudal.  Félagið var umsvifamikið; átti verslunarstaðina Vatneyri og Bíldudal, var með höfuðstöðvar í Viðey og gerði út nokkur þilskip.  Fljótlega eftir stofnun komu fram erfiðleikar í rekstrinum.  Skortur var á vinnuafli og erfitt að manna skipin; auk þess sem samkeppni hafði aukist um verslun og fisksölu.  Félagið hafði m.a. keypt fisk úr Útvíkum, og kom mest frá Kollsvíkurveri.  Gjaldþrot Milljónafélagsins kom því illa við útvegsbændur þar.  Meðal eigna félagsins var saltgeymsluhús í Kollsvíkurveri; sem metið er 518,76 kr að verðmæti. 

1914      Prímus fyrst notaður í Kollsvíkurveri.   „Í  Kollsvíkurveri var kaffið hitað fyrst er ég man eftir á flatbrennara, olíu, en 1914 eða 15 kom fyrst prímus í Kollsvíkurver og þótti mikill  flýtisauki að þeim.  Breiddust þeir fljótlega út og urðu algengir.  Ketilkaffi var  oft notað í verinu, einnig á engjum og var þá hitað í hlóðum, en í rigningu gat  verið erfitt að kveikja upp í hlóðunum“  (TÖ; Matarhefðir).  Sú flokkusaga komst á kreik að vermenn í Kollsvíkurveri hefðu ekki vel kunnað á þessa nýjung í upphafi og hafi gengið illa að slökkva á prímusnum.  Varð það þrautalendingin að kasta honum í Búðalækinn.  Sú saga er líklega dæmigerð fyrir ýmsar gróusögur sem til urðu Verinu.

1914      Öryggisskoðun báta.  Nú þurfa bátar sem róið er í Útvíkum að standast skipaskoðun. Tryggingar báta komu þó ekki til fyrr en síðar; nokkru áður en útgerð lagðist af í Kollsvíkurveri  (KJK; Sdbl.Þjv).

1915      Gullöld bátaútgerðar í Rauðasandshreppi.  Nú róa 47 róðrarbátar úr Rauðasandshreppi, og hafa aldrei verið fleiri (urðu heldur aldrei fleiri).  Á þeim eru 170 sjómenn, eða milli 3 og 4 menn á bát að meðaltali.  Flestir róa úr Kollsvíkurveri, en einnig margir úr Breiðavík og Látrum.  Allir bátar eru knúnir árum og seglum.  Flestir aðkomumenn koma frá Barðaströnd.  Milli vertíða geyma þeir báta sína á Skeiðseyri í Ósafirði og standsetja þá áður en þeir koma í verið.  (KJK).  Frá Patreksfirði eru auk þess gerðir út fjölmargir bátar og skútur.

1915      Bátalestir Færeyinga á Eyrum.  Færeyingar stunda nú nokkra smábátaútgerð frá Patreksfirði.  Þegar þeir róa út í Flóann slá nokkrir bátar sér saman um einn lítinn mótorbát sem síðan dregur 2-3 aðra færeyska báta; hvern með 3 mönnum, út á miðin.  Þar leggja allir lóðir sínar (2-3 köst), og síðan dregur mótorbáturinn þá að landi aftur.  Gengur þetta þokkalega í góðu sjóveðri.  Upphaf veiða Færeyinga frá Patreksfirði var það að þar settist einn að uppúr aldamótum, en síðar fleiri.  (Bjarni Sæmundsson; Fiskirannsóknir 1915).

1916      Lýsing Guðmundar Hjaltasonar.   „Kollsvík er vestan við Hænuvík og fiskiver mikið.  Þurrka þeir þar fiskinn á sandhólum sem eru þaktir grjóti.  Þar eru 8 búendur alls en vermenn koma þangað á vorin.  Vorið 1913 sá ég 18 róðrarbáta þar skammt frá landi.  Tún eru þar nokkur en lítið um engjar og fjöllin graslítil.  Útræði gott í góðu en fer að verða brimasamara þarna í Útvíkunum.  Bjó þar hjá myndar ekkju sem á 11 eða 12 efnileg börn á lífi“.  (Guðmundur Hjaltason; Ferð um Barðastrandasýslu 1916; Lögrjetta.  Ekkjan er líklega Guðbjörg Ólína Guðbjartsdóttir, ekkja Torfa Jónssonar, sjá 1904).

1916        Fiskideildin Víkingur stofnuð.  Útvegsbændur í Útvíkum hafa stofnað fiskideildina Víking.   Þeim til aðstoðar við það var Matthías Ólafsson, ráðunautur Fiskifélags Íslands.

1918      Afli Kollsvíkurbáta.  Afli nokkurra báta í Kollsvíkurveri, í Fiskideildinni Víkingi, var þessi árið 1918:
(Þyngd þorsks er á verkuðum afla upp úr salti.  Vertíðinni skipt í tvö tímabil.  Eftir vertíðina reru heimamenn gjarnan áfram á handfæri en ekki með lóð; og þá oft á minni bátum).
Jóhanna; form. Þórarinn Bjarnason; 4 í áh; 24 ferðir; þorskur 3.878 kg; steinb. 978 kg
Gefjun; form Þórarinn Bjarnason; 3-4 í áh; 28 ferðir; steinb. 100 kg; ýsa 300 kg; 2 lúður 35 skötur
Iðunn; form Jón Torfason; 4 í áh; 22 ferðir; þorskur 4.264 kg; steinb 768 kg; 1 lúða
Gefjun; form Jón torfason; 3 í áh; 21 ferð; steinb 35 kg; ýsa 115 kg; 2 lúður; 56 skötur
Heppinn; form Kristján Ásbjörnss; 4 í áh; 24 ferðir; þorskur 4.204 kg; steinb 1.500 kg; 1 lúða
Fríða; Kristján Ásbjörnsson; 3 í áh; 30 ferðir; steinb 150 kg; ýsa 400 kg; 50 skötur
Bára; Valdimar Össurarson; 4 í áh; 21 ferð; þorskur 3.832 kg; steinb 800 kg
Bára; Valdimar Össurarson; 4 í áh; 30 ferðir;  steinb 200 kg; ýsa 400 kg; 16 skötur
Ruth; Guðbjartur Guðbjartsson; 4 í áh; 22 ferðir; þorskur 3.733 kg; steinb; 700 kg
Ruth; Guðbjartur Guðbjartsson; 4 í áh; 7 ferðir; steinb 100 kg; ýsa 100 kg; 30 skötur
Nýja; Karl H. Kristjánsson; 4 í áh; 20 ferðir; þorskur 3.000 kg; steinb 800 kg;
Nýja; Karl H. Kristjánsson; 3 í áh; 26 ferðir; steinb 300 kg ýsa 300 kg; 6 skötur
Freyja; Helgi Árnason; 4 í áh; 28 ferðir; þorskur 3.900 kg; steinb. 969 kg; 16 lúður
Samtals eru saltaðar þorskafurðir heimamanna í Kollsvíkurveri því 26,8 tonn, auk afla aðkomubáta.  Steinbítur (líklega blautur) hefur verið 7,4 tonn; ýsa 1,6 tonn; 22 lúður og 193 skötur.  (Ægir 1.-2.tbl 1919). 

1918      Fiskverð hækkar, en einnig salt.  Ófriðurinn úti í heimi hefur orðið til þess að verðmæti fiskafurða hefur hækkað verulega.  Hinsvegar hefur salt og annar tilkostnaður hækkað að sama skapi, svo að afkoma útgerðarmanna hefur lítið sem ekkert batnað.  (KJK; Kollsvíkurver).

1918      Vélar í báta í Útvíkum.  Fyrstu vélbátarnir í Útvíkum hafa nú verið smíðaðir hjá Gísla Jóhannssyni skipasmið á Bíldudal.  Er það annarsvegar vélbáturinn Hrefna, 2,5 tonn og með 3,5 hestafla Kiel-vél; eigandi Jón Guðjónsson í Breiðuvík, en hinsvegar Tjaldur, einnig frá Breiðuvík, í eigu bræðranna Haraldar og Guðmundar Ólafssona, með sömu vélartegund. (Sjá 1903 um fyrsta vélbát á Eyrum, en þar voru nokkrir vélbátar komnir á þessu ári. Skömmu síðar er einnig sett vél í Kóp á Hvallátrum og Fönix frá Kollsvík, sjá hér síðar).

1918      Verslað við þjóðir.  Mikið var um erlend fiskveiðiskip á þessum tímum.  Enskir togarar veiddu á grunnmiðum og franskar og færeyskar skútur einnig.  Frakkar lágu gjarnan uppi á víkum eða inni á fjörðum, einkum til að bíða af sér brælu.  Sjómenn komu þá iðulega í land, t.d. til að þvo flíkur sínar í einhverjum læknum.  Heimamenn fóru fram í skipin og gátu þá gjarnan keypt sér öngla, sökkur og færi í skiptum fyrir prjónles.  Mikið var einnig um færeyskar skútur og féll mönnum jafnvel betur að eiga við þá samskipti og verslun.  (Ólafur Magnússon Hnjóti). 

1918      Hafnarmörk við Kollsvíkurver.  Ungmennafélagið Vestri vinnur nú að því að koma upp hafnarmörkum fyrir Miðleiðina í Kollsvíkurveri.  Félagið byggir einnig upp vörður á Leirunum, til innsiglingar í Snorralendingu.

1918      Frostaveturinn mikli; Látraröst undir ísum.  Fádæma frosthörkur voru á landinu í upphafi ársins.  Kólnaði mjög í tíð 5. janúar og enn meira næstu daga.  Víða um land var frostið 25-30 stig 21.janúar þegar kuldinn varð mestur.  Eftir það gekk tíð fljótlega til venjulegra hitastigs mðað við árstíma.  Þetta var í upphafi þess tíma að þjóðin var að flytja úr gömlu torf- og steinhúsunum í timburhús sem oft voru illa einangruð.  Í Rauðasandshreppi voru þess dæmi að frost færi niður í 12 stig í svefnherbergjum á þessum tíma (ÞJ).
Vetrarhörkur voru afskaplegar vestra eins og annarsstaðar í ársbyrjun.  Mun það einsdæmi vera að Látraröst lagði svo langt til hafs að ekki sást í auða vök annarsstaðar en af Látraheiði, en þaðan sást blána aðeins.  Á stöku stað stóðu hafísjakar eins og stór björg úr hafinu.  Sést þess hvergi getið í heimildum fyrri, að röstin hafi ekki getað hrist af sér vetrarhaminn.  Fimm breskir botnvörpungar lágu innifrystir um vikutíma í frostunum.

1919      Guðmundur drukknar í brimlendingu.  Hinn 01.04.1919 fóru nokkrir menn á báti í Breiðuvíkurver til að sækja lifrarhlut eftir hákarlalegu sem farin hafði verið áður.  Ferðin gekk vel, en þegar komið var til baka var kominn þungur sjór.  Tvísjóa var; aðallega vestanalda, en ofan á hana var kominn norðansjór.  Farin var Syðstaleið inn á Lægið og stýrði formaður; Jón Torfason.  Á Læginu reið norðan ólag undir bátinn, svo honum hvolfdi.  Allir komust á kjöl nema Guðmundur Össurarson.  Bátnum hvolfdi a.m.k. tvisvar sinnum, en var svo á réttum kili þó brotinn væri.  Tókst að bjarga öllum í land nema Guðmundi.  Hann var 19 ára og barnlaus; bjó hjá foreldrum sínum í Kollsvík.

1920      Formenn og bátar í Kollsvíkurveri. Frá aldamótum hafa að jafnaði róið allt að 25 bátar um hverja vertíð í Kollsvíkurveri.  (Kristján Júlíus Kristjánsson, sem reri þar á síðari árum útgerðar; ritaði merka samantekt um Verið og tók þar saman skrá um þá báta og formenn sem hann mundi eftir.  Hér hefur verið bætt við þá skrá þeim sem áreiðanlegar heimildir eru um, varðandi formenn og bátsnöfn.  Alls eru þetta 49 bátar, en hafa eflaust verið mun fleiri).

Heimamenn.  Hér eru taldir 24 formenn í Kollsvík og 31 bátsnafn.  Bátar skiptu stundum um nöfn og/eða eigendur.  Heimamenn byrjuðu stundum róðra aftur eftir heyskap; og þá á skaki en ekki línu og notuðu gjarnan minni bát, væri hann tiltækur.

 

Hákon Jónsson, bóndi Hnjóti - Færeyingur

Ólafur Tómas Guðbjartsson, Hænuvík - Reytingur
Torfi Jónsson, bóndi í Kollsvík – Sultur – Borga - Iðunn

Jón Torfason, bóndi Kollsvík (síðar) - Iðunn
Guðbjartur Torfason, bóndi í Kollsvík – Gefjun
Össur Guðbjartsson, bóndi Kollsvík – Guðrún - Bára
Valdimar Össurarson, búlaus í Kollsvík – Svala
Gísli Guðbjartsson, Grænumýri - Björg – Golan

Jens Jónsson, Nýlendu - Bergmann
Helgi Gestsson, seinna b. í Kollsv – Svanur
Karl Kristjánsson, Stekkjarmel – Penta- Rauðka - Nýja
Andrés Karlsson, búlaus í Kollsv - Guðrún nr 4
Þórarinn Bjarnason, búl. Grundum – Jóhanna
Ólafur Halldórsson, búlaus á Grundum – Ruth
Guðbjartur Guðbjartsson, á Láganúpi - Ruth
Kristján Ásbjörnsson, b. á Grundum – Heppinn - Fríða
Albert Kristjánss, búlaus Grundum - Heppinn
Kristján Júlíus Kristjánsson, b. Grund – Elliði
Ólafur Ásbjörnsson, bóndi á Láganúpi – Kristín
Helgi Árnason, þá búlaus á Grundum – Freyja – Von

Bjarni Gunnlaugsson, Tröð - Gráni
Árni Árnason, þá búlaus á Grundum – Ester
Magnús Jónsson, búlaus í Kollsvíkurveri - Nói
Grímur Árnason, bóndi á Grundum – Hnísa - Sigurfari

 
Aðkomumenn.  Hér er talinn upp 31 formaður og 12 bátsnöfn.  Skráin er gerð eftir að Verið lagðist undir lok, og þá eftir minni.  Því er ekki alltaf vitað bátsnöfn, og stundum voru bátar einfaldlega kenndir við eigendur.

Gestur Jónsson, búlaus á Hvallátrum
Ólafur Guðbjartsson, b. Hænuvík – Reytingur
Jón Ívarsson, bóndi í Hænuvík – Hænir
Engilbert Jóhannsson, búlaus í Hænuvík
Ólafur Pétursson, bóndi á Sellátranesi
Davíð Jónsson, búlaus á Kóngsengi
Sigurbjörn Guðjónsson, b. Geitagili – Þokki
Magnús Árnason, bóndi á Hnjóti - Iðunn nr 1
Árni Magnússon, bóndi á Hnjóti – Þoka
Jón Á. Thoroddsen, bóndi í Kvígindisdal
Árni Dagbjartsson, búlaus í Kvígindisdal (Otur)
Páll Bjarnason, búlaus í Kvígindisdal
Magnús Kristjánsson, bóndi á Hvalskeri
Gísli Gíslason, búlaus á Sjöundá, síðar Hvammi
Ólafur Ó. Thorlacius, búlaus í Saurbæ.
Jón Guðmundsson, búlaus í Króki
Helgi Guðbrandsson, búlaus á Hvalskeri
Jens Jónsson, búlaus á Patreksfirði
Árni Arentsson, bóndi í Höfðadal, Tálknafirði
Sigurgarður Sturluson, b. Eysteinseyri – Hylas
Þórður Marteinsson, bóndi í Fit  – Lára
Einar Ebenezersson, bóndi á Haukabergi  – Fluga
Þorgrímur Ólafsson, bóndi í Miðhlíð  – Dvalinn
Kristján Ólafsson, bóndi á Brekkuvelli
Hákon Kristófersson, bóndi í Haga, Barðastönd
Þórarinn Fjeldsted, bóndi í Tungumúla
Kristmundur Guðmundsson, bóndi í Hvammi
Ingimundur Halldórsson, búl. Keflavík – Björg
Guðmundur Ólafsson, búl. Sauðlauksdal – sami
Eyjólfur Sveinsson, Lambavatni - Úndína


1920      Stærð báta í Barðastrandasýslu.  Samkvæmt yfirliti skipaskrár á þessum árum er fjöldi árabáta í Barðastrandasýslu sem hér segir:  Áttæringur 1; sexæringar 12 og feræringar 50.  Af feræringunum voru 17 smíðaðir fyrir aldamót en hinir 1900-1907.  Elsti feræringurinn var smíðaður í Kollsvík 1839 og var 20,7 fet á lengd (6,50m).  (Ekki víst um smiðinn; hugsanlega Halldór Einarsson í Kollsvík).  Hvergi á landinu eru fleiri feræringar nema í Gullbringusýslu, og eru bátar í Barðastr.sýslu allajafna minni en að meðaltali á landinu.  Helgast það eflaust af því að stutt er á fiskimið og vegur það þyngra að bátar séu léttir á höndum í setningu.  (LK; Ísl.sjávarh. II).

1920      Nýr Fönix smíðaður fyrir Kollsvíkinga.  Útvegsbændur í Kollsvík hafa sameinast um að láta smíða fyrir sig 3,5 tonna vélbát sem notaður verður til flutninga á salti, fiskafurðum, kúfiski til beitu og öðru.  Smiðurinn er Gísli Jóhannsson á Bíldudal.  Í bátinn var sett Ford-bílvél.  Báturinn ber nafn eldra Fönix, sem var hákarlaskip Kollsvíkinga (sjá 1900).  Naust gamla Fönix fyrir miðri lendingunni í Kollsvíkurveri var niður fallið, en það hefur nú verið endurbyggt fyrir þennan bát.

1920      Síðasta hákarlalegan.  Það var í apríl 1920 að síðasta hákarlalegan var farin frá Breiðavík og Hvallátrum.  Farið var á bátnum Hrefnu í eigu Jóns Guðjónssonar í Breiðuvík, og var hann formaður.  Sjö voru í ferðinni; allt bátaformenn; fjórir voru úr Kollsvík en þrír úr Breiðuvík.  Í samfloti voru Látramenn á bátnum Kópi; formaður Erlendur Kristjánsson.  Slæmt veður brast á og þurfti Hrefnan að lenda í Fjarðarhorni, en Kópurinn hleypti undan og inn á Patreksfjörð eftir að hafa snúið frá lendingu í Kollsvík.  (Jón Guðjónsson; Síðasta hákarlalegan; birtist í Geisla Bíldudal).  (Sjá þó 1922).

1920      Fiskideildin Víkingur í Útvíkum sér um vöruflutninga.  Fiskideildin Víkingur var stofnuð sem deild í Fiskifélagi Íslands.  Fyrirrennari hennar var (líklega) Mótorbátafélagið.  Erindreki Fiskifélagsins; Kristján Jónsson frá Garðsstöðum hefur starfað náið með deildinni.  Deildin hefur séð um vöruflutninga sjóleiðis í Rauðasandshrepp með mótorbátum félagsmanna.  „Hefir deildin einkum haft með höndum útvegun og umsjón báts, er annast vöruflutning í Rauðasandshreppi. Hefir verið veittur úr ríkissjóði nokkur styrkur til báts þessa, sem er til hins mesta hagræðis fyrir hreppsbúa, einkum Víkurmenn.  Af Rauðasandi er aldrei á sjó farið, hvorki til fiskjar né aðdrátta. Flutningabáturinn flytur vörurnar yfir fjörðinn nálægt Sauðlauksdal, og siðan eru þær fluttar á hestum eða sleða að vetri til yfir fjallið, og er það fremur stuttur vegur“.  (Ægir 01.07.1922).  (Í pappírum Rauðasandshrepps má sjá að 6 bátaeigendur í Rauðasandshreppi bjóða í vöruflutninga í Rauðasandshreppi 1921 án þess að þeir séu nafngreindir.  Tveir bátanna (E.t.v. Fönix og Kópur) eru með 6 ha vélar; 4 og 3,5 tonn, en hinir 4 eru með 2,5 ha vélar; 1,5-2,5 tonn að stærð.  (AÍ; Árbók Barð 1980-90 og 2012).
Fiskideildin hélt fundi og ályktaði um ýmis málefni, s.s. lendingabætur, símamál og snurrvoðaveiði. 

1921      Togarinn Croupier strandar við Blakknes.  Hinn 02.02.1921 strandaði togarinn Croupier frá Grimsby á Blakknesboða, í SV kafaldskófi og hæglætisveðri, en nokkurri ylgju.  Togarinn hafði lokið veiðiferð en var líklega á leið inn á Patreksfjörð að taka kol eða vistir til heimferðar.  Slysið varð um nóttina og varð ekki vart við strandið frá Kollsvík fyrr en með birtu.  Strax var brugðið við, en útilokað reyndist að komast norður Hryggi vegna klaka; ófært er um fjöru alla leið.  Daginn eftir brutust menn í Tjíonsvíkurfjöru, til móts við strandstaðinn.  Þá hafði togarinn liðast í sundur og ljóst að öll áhöfnin hfði farist.  Lík voru þar dreifð um fjöruna.  Ekkireyndist unnt að ná þeim fyrr en á útmánuðum, og voru þau jörðuð á Patreksfirði. 

1921      Sund kennt í Kollsvík.  Valdimar Össurarson (eldri) í Kollsvík er bæði ötull félagsmálamaður og einnig frumkvöðull í sundkennslu á sunnanverðum Vestfjörðum.  Auk þess að vera formaður í Verinu er hann farskólakennari í Rauðasandshreppi, og hefur einnig kennt sund.  Nú hefur Ungmennafélagið Vestri, gert sundlaug við Miðlækinn í Kollsvík; 50 metra langa, og var þar kennt sund 3.-16.júlí.  Fastir nemendur voru 12 drengir, en einnig 4 fullorðnir við og við.  Tíðin var þó óhagstæð.  Sundlaugin er gerð þannig að Miðlækurinn er stíflaður og vatninu veitt í melaskarð norður af honum.  Einnig kenndi Valdimar í ístjörn á Geirseyri þetta sumar.  Þar var sami nemendafjöldi. 

1922      Færri bátar í Kollsvíkurveri.  Nokkuð hefur bátum fækkað í Kollsvíkurveri, en frá aldamótum hafa róið þaðan 20-25 bátar hverja vertíð.  Veldur þar nokkru að vélbátum hefur fjölgað og hægara er að gera þá út frá Patreksfirði.  Þá hefur allnokkur fiskigengd verið inn á firði, sem dregur úr mikilvægi gömlu lóðamiðanna á Kollsvík.  Styrjöldin kann að hafa þarna áhrif, en einnig breyttir tímar í atvinnuháttum.  (KJK).  Erindreki Fiskifélags Íslands segir að nú séu gerðir út 8 bátar frá Kollsvík; 4 frá Látrum; 3 frá Breiðuvík og 5 frá Hænuvík.  Líklega er hér eingöngu átt við heimabáta, a.m.k. í Kollsvík (sjá 1925). 

1922      Kollsvíkurbátur hætt kominn.  Nærri lá slysi þegar skyndilega brimaði á Kollsvík nú í sumar.  Veðurútlit var ekki gott um morguninn og héldu flestir sig í landi.  Þeir sem hörkuðu sér út drógu allir upp og fóru í land þegar útlit ljókkaði enn.  Valdimar Össurarson hélt þó lengur til, en hann lenti í festum.  Þegar þeir komu uppundir Verið var komið stólpabrim og ólendandi.  Var þeim vísað til lendingar norður við Þórðarklett, og lánaðist hún án manntjóns eða verulegs tjóns á bátnum.

1924      Kollsvík enn stærsta verstöð hreppsins.  "Kollsvík er fjölmennasta verstöð hreppsins og hefir svo verið frá öndverðu. Vikur hafa ávalt verið fengsælar veiðistöðvar á vorvertiðinni, og hafa þær öll skilyrði til þess að svo verði framvegis. Fiskimið Víkurmanna, að minsta kosti Kollsvíkinga, eru og betur sett en annara þarna vestur frá, að því leyti að þau eru umgirt hraunklöppum, svo að togarar geta eigi verið þar að veiðum og ókunnir menn munu vart geta lagt þar lóðir vegna þess að þræða verður all-námkvæm mið til þess að lenda ekki i "hraunfestum". Það sem mest háir Víkurmönnum við sjósókn og aðdrætti eru ófullkomnir lendingarstaðir.  Má geta því nærri að það er æði ömurlegt að komast ekki úr vör, þótt sæmilegt veður sé og vissa fyrir góðum afla, vegna brima, og að eiga það á hættu að geta eigi tekið land fyr en ef til vill inn i Patreksfirði, ef alda vex, þótt annars sé eigi stormur að ráði.  Lendingarnar i Breiðuvík og Látrum eru þannig frá náttúrunnar hendi, að eigi mun tiltækilegt að bæta þær að ráði.  Greinileg leiðarmerki hafa verið sett þar upp, og meira er ekki tiltækilegt að gera.  Aftur á móti virðist með litlum kostnaði unt að gera nokkurn veginn örugga lending í Kollsvík. Þar er léleg lending við verbúðirnar, er spillist af sandburði eins og annarsstaðar í víkum. En nokkru utar er svonefnd "Snorralending", sem er góð lending um hásjávað, en í miðri leiðinni upp er hraunklöpp, sem ávalt brýtur á þegar öldurót er og sjór lækkar.  Er hin mesta nauðsyn fyrir Kollsvíkinga að fá þarna góða lendingu. Vil ég skjóta því til stjórnar Fiskifélagsins, að bregðast vel við, ef Víkurmenn sækja um styrk til framkvæmda þessu verki. Munu hlutaðeigendur leggja fram vinnu við verkið, og hygg ég, að kostnaður við það yrði mjög litill".  (KJ; skýrsla erindreka Fiskifélagsins). 

1924      Pöntunarfélag Rauðasandshrepps gjaldþrota.  Pöntunarfélag Rauðasandshrepps, sem stofnað var 1908 og starfað hefur í hinum forna Rauðasandshreppi, hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta eftir margháttaða rekstrarerfiðleika.  Félagið var aðili að Sambandi Íslenskra samvinnufélaga sem hefur, með dómi dags. 06.08.1924, fengið sér dæmdar kröfur á félagsmenn.  Veldur þetta gríðarlegum fjárhagslegum skaða þeim sem þarna eiga í hlut, sem eru 53 einstaklingar í hinum nýja Rauðasandshreppi.  Í Patrekshreppi eru auk þess nokkrir menn dæmdir til ábyrgðar fyrir hið gjaldþrota félag.  Skyldu allir hlutaðeigendur sameiginlega standa greiðslu á skuld pöntunarfélagsins við SÍS, að upphæð 55.611,42 krónur auk vaxta; einnig málskostnaður að upphæð 2.229,50 innan þriggja daga að viðlagðri aðför.  Eins og gefur að skilja er þetta mörgum þungur baggi í skauti og viðbúið að sumir komist í þrot.    Ekki munu fordæmi fyrir slíkri aðgangshörku í hinni stuttu sögu samvinnufélaga hérlendis.

1924      Þurrabúðin Eva í Kollsvíkurveri.  Magnús Jónsson og Guðrún Ólafsdóttir hafa byggt sér kofa ofan Kollsvíkurvers.Magnús rær á litlum bát sínum, Nóa.

1925      Enn róa margir bátar frá Kollsvíkurveri.  „Á vorvertíðinni gengu úr Víkum 23 árabátar alls.  Af þeim gengu 3 frá Látrum; úr Breiðuvík; 14 úr Kollsvík; 3 úr Hænuvík og 1 úr Kvígindisdal.  Það er sama tala og síðastliðið ár.  Róðrar hófust um miðjan maí og stóðu til 10. júlí.  Aflafengur alls um 430 skpd. (500).  Aflabrögðin góð þótt nokkuð skorti á jafn mikinn afla og í fyrra, en þá var vorvertíð talin í allra besta lagi“.  (KJ). 

1925      Færeyskar skútur á miðum.  Færeyingar hafa í síauknum mæli sótt á Íslandsmið síðustu áratugina, og eru færeyskar skútur nú algeng sjón, ekki síst undan Útvíkum.  Fiskveiðisaga Færeyinga er ekki löng.  Um 1850 var t.d. helmingur útflutningsafurða þeirra ýmsar ullarvörur, en einungis 40% fiskútflutningur.  Nú er naumast annað flutt frá Færeyjum en sjávarafurðir.  Skútuútgerð á Færeyjum hófst 1872 og beindist strax meira að Íslandsmiðum en heimamiðum.  Síðustu árin hefur afli þeirra á Íslandsmiðum verið 98,4% heildaraflans.  Auk skútanna gera Færeyingar út fjölda opinna báta á Íslandi.  Á þessum árum hafa 300-700 Færeyingar verið árlega hér við land.  Færeyingar byrjuðu að hafa uppsátur hérlendis 1877, og 1890 komu nokkrir bátar þeirra til Patreksfjarðar (sjá þar).  Skútur Færeyinga eru að jafnaði nokkuð aldraðar; langflestar eldri en 20 ára.  Færeyingar hafa ávallt verið aufúsugestir á Íslandi, enda telja Íslendingar enga þjóð sér nátengdari.  (LK). 

1925      Pöntunarfélagið Patrekur (Kaupfélag Rauðasendinga) stofnað.  Í kjölfar gjaldþrots Kaupfélags Rauðasandshrepps á síðasta ári hófu nokkrir áhugamenn undirbúning að stofnun nýs félags.  Fremstir þar í flokki voru Pétur Jónsson á Stökkum og séra Þorsteinn Kristjánsson í Sauðlauksdal.  Snemma árs 1925 tók svo Pöntunarfélagið Patrekur (síðar breytt í Kaupfél. Rauðsendinga) til starfa.  Var Ólafur Þórarinsson ráðinn sem framkvæmdastjóri.  Félagið hafði sölubúð á Patreksfirði, á sama stað og fyrra félag (þar sem síðar var Kaupfélag Patreksfjarðar.  Félagið hætti störfum 1933). 

1925      Eigendaskipti á Rut.  Frændurnir Ólafur Halldórsson á Grundum og Guðbjartur Guðbjartsson á Grund (Samúelsmel) hafa um allmörg ár haft félagsútgerð um bátinn Ruth BA 223.  Guðbjartur hefur nú keypt hlut Ólafs í útgerðinni og mun gera Rutina út í félagi við syni sína, en hinn elsti; Einar, er nú 15 ára.  (Niðjatal HM/GG).  Sjá meira um Rut 1898.

1927      Fækkar í Kollsvíkurveri.  „Á vorvertíðinni gekk þessi bátafloti úr Víkum:  Frá Látrum 4 bátar; úr Breiðuvík 1; úr Kollsvík 7; úr Hænuvík 3 og frá bæjunum í Patreksfirði vestanverðum 4 bátar.  Alls 19 bátar.  Í fyrravor voru þeir taldir 21.  Aflafengur frá maíbyrjun til 7.júlí, er róðrar hættu; 633 skippund (390).  Aflabrögðin sl ár voru talin mjög góð, svo nú má heita uppgripaafli þarna.  Róðrar munu hafa byrjað um hálfum mánuði fyrr nú“. (Kristján Jónsson Garðstöðum erindreki Fiskifélagsins). 

1928      Brimlending í Kollsvíkurveri.   Bátur úr Kvígindisdal, undir formennsku Árna Dagbjartssonar, var að veiðum að áliðnu sumri á Kollsvík þegar hann þurfti að leita lendingar í Kollsvíkurveri er skyndileg brimaði af norðri.  Bátum var á þeim árstíma farið að fækka mikið í Kollsvík; „aðeins heimabátar og allt smábátar“.  Kollsvíkingar höfðu þá eignast flutningabátinn Fönix; 3-4 tn að stærð og voru að koma að með saltflutning o.fl.  Þar voru því höfð snör handtök til björgunar eftir farsæla lendingu.  (Frásögn Þórðar Jónssonar). 

1931      Sláturfélagið Örlygur stofnað.  Árið 1931 var stofnað nýtt samvinnufélag í Rauðasandshreppi, sem náði yfir Rauðasandshrepp utan Rauðasands og Hafnarmúla.  Það hlaut nafnið Sláturfélagið Örlygur, enda var hlutverk þess fyrst og fremst að stofna og reka sameiginlegt sláturhús félagsmanna, með aðsetur á Gjögrum. (Örlygur tók m.a. fisk til sölu af útvegsbændum í Verinu). (Sjá sögu kaupfélaga í hreppnum).

1932      Búðir og bátar í Verinu.  Þegar ég man fyrst eftir voru 7 búðir sem róið var frá í Kollsvíkurveri.  Á Norðariklettunum, við fjárhús Jóns Torfasonar, var Grundarbúð.  Þaðan reri Kristján Júlíus Kristjánsson á Rana á Grundatúni; bátur hans hét Skuld.  Þar við hliðina var Klettabúð; hana átti og notaði Jón Torfason í Kollsvík.  Hann átti bát sem hét Gefjun.  Beint á móti Klettabúð; sunnanvið Búðarlækinn, var búð sem hét Meinþröng.  Frá henni reri Grímur Árnason; hans bátur hét Hnísa.  Bakvið Fönixarnaustið var búð sem Helgi Árnason reri frá; hans bátur hét Von.  Þessir menn áttu krær og ruðninga við Búðarlækinn.  Í röð sunnanvið Naustið voru nokkrar búðir.  Næst sjó var pabba búðin, og hét bátur hans Rut.  Sunnanvið hana var búð Karls Kristjánssonar; hans bátur hét Penta, og búð Helga Gestarsonar; hans bátur hét Svanur.  Þeir áttu krær við Syðstalækinn.  Efst í Verinu var lítill bær sem Magnús Jónsson bjó í allt árið (sjá 1924).  Hans bátur hét Nói og var lang minnstur.  Hinir bátarnir voru frá einu og kvart til eins og hálfs tonns.  Það reru því 8 bátar úr Verinu þegar ég man fyrst eftir, en áður allt upp í 26 bátar, með heimabátum; víða að úr Patreksfirðinum og af Barðaströnd“.  (IG). 

1932      Enn eru skinnklæði saumuð.  Þó nú séu farnir að flytjast til landsins sjóstakkar og aðrar hlífar úr gúmmíi og olíubornum striga er það enn borið við í Kollsvík að sauma skinnklæði eftir hinni aldagömlu aðferð.  Menn eru þó misjafnlega færir í því sem öðru.  Einar Guðbjartsson á Láganúpi saumar á þessu ári skinnbrók fyrir Grím Árnason á Grundum.  Þá fær hann einnig leðurskæði í skó frá Helga Gestssyni í Kollsvík. (Nótur Einars).  (Sjá lýsingu KJK á skinnklæðagerð).

1933      Keflahlunnar Ásgeirs á Látrum.  Ásgeir Erlendsson, bóndi og járnsmiður að Ásgarði á Hvallátrum, hefur hannað nýja gerð hlunna til setningar á bátum.  Hver hlunnur er járnrúlla sem fest er á tréramma, og léttir setningu að mun.  Hann lýsir þeim þannig:  „Fljótlega eftir að við Þórður fengum Kóp (yngri, 1932) fór ég að velta því fyrir mér á hvern hátt mætti gera setninginn úr sjá og á auðveldari.  Upp úr þessum vangaveltum smíðaði ég keflahlunna úr járni og eik.  Þeir reyndust vel, en entust ekki eins og skyldi, svo ég fór þá með teikningu af þeim í vélsmiðjuna Héðin, og brugðust þeir vel við og smíðuðu sterka og vandaða hlunna sem leystu hvalbeinshlunnana alveg af hólmi“.   (ÁE). 

1933      Fönix rekur upp í Örlygshöfn.   „Að kvöldi 14. oktober 1933 rak vjelbátinn “Fönix” (stærð um 4 tonn) af Patreksfjarðarhöfn og yfir í Örlygshöfn, vestanvert við Patreksfj. Báturinn var mannlaus. Bæði bátur og vjel gjöreyðilagðist. Hann var óvátrygður. Síðastliðinn vetur var báturinn stokkaður og yfirbygður. Tjónið taldist 5-6 þúsund kr“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).  Þetta var sami Fönix og Gísli Jóhannsson bátasmiður á Bíldudal smíðaði fyrir heimamenn í Kollsvík kringum 1920, og notaður var til flutninga á fiski, salti o.fl, með uppsátur í Kollsvíkurveri.  Kringum 3,5 tonn að stærð.  Þegar bátum fækkaði í Verinu var hann seldur tveimur Kollsvíkingum, Andrési Karlssyni og Guðmundi Gestarsyni.

1934      Enn róið í Útvíkum.  Úr Víkum gengu nú í vor 19 opnir vélbátar.  Samanlagður afli þeirra til í byrjun júlí er talinn 97 smálestir.  Í fyrra voru bátar þarna taldir 15 og afli þeirra um 73 smál.  (Ægir 8.tbl. 1934).

1940      Útræði aflagt í Kollsvíkurveri.  Útræði aflagt í Kollsvíkurveri:  Nú róa aðeins heimamenn í Kollsvík. (PJ; Barðstrendingabók).
Um 1940 voru enn gerðir út sex eða sjö heimabátar frá bæjunum í Kollsvík. Þá voru komnar vélar í þessa báta en á árunum milli 1930 og 1940 var enn deilt af kappi í Kollsvík um það hvort borgaði sig að fá vélar í bátana, enda stutt á miðin.  Á árum heimsstyrjaldarinnar síðari var farið að fara með aflann úr hverjum róðri inn á Patreksfjörð og honum landað í skip sem sigldu með hann til Englands. Fengu menn þá strax greitt fyrir aflann í peningum og var það nýjung. Að stríðinu loknu var sjósókn að mestu hætt frá Kollsvík nema hvað menn skutust fram stöku sinnum til að fá sér í soðið (Kjartan Ólafsson; skv viðtali við ÖG Láganúpi).
„Á Hvítasunnudag vorið 1939 var ég fermdur í Sauðlauksdal, ásamt 5 öðrum börnum úr sveitinni; eftir viku dvöl og undirbúning hjá séra Þorsteini Kristjánssyni í Sauðlauksdal.  Eftir fermingu fór ég að róa með Einari bróður mínum og pabba, og rerum við vorið og sumarið“ (IG; Æskuminningar).

1940      Vélvæðing báta veldur tilfærslu verstöðva.  Ýmislegt hefur stuðlað að því að útgerð leggst nú af í hinum gömlu rótgrónu verstöðvum.  Almenn fækkun í sveitum með breyttum búskaparháttum, um leið og fjölgar í þéttbýli með aukinni þjónustu er þættir sem hafa þar mikið að segja; auk breyttra krafna um meðferð sjávarafla.  En vafalítið er stærsti þátturinn tilkoma véla í báta.  Bátar með vél eru mun þyngri í setningu þar sem hafnaraðstöðu skortir, en um leið skiptir fjarlægð lendingar frá fiskimiðum mun minna máli en áður.  Eða með orðum reynds formanns úr Kollsvíkurveri:
"Ég man eftir gömlum manni, Júlíusi í Tungu í Örlygshöfn sem ég sat lengi hjá. Hann sagði mér frá lífinu þegar hann var ungur. Róið var til fiskjar frá Kollsvík og ljómandi lýsti hann þessu sem ævintýralífi: "Þarna komum við saman unga fólkið, rerum, og svo komu stelpurnar og söltuðu, og þarna hitti ég elskuna mína". Síðan kom hálfgerður sorgarsvipur á karlinn þegar hann sagði: "Og svo kom vélin í bátinn og þetta var allt búið"!  Maður getur rétt ímyndað sér harðræðið. Legið var í verbúðum, lifað í vosbúð og í fjörunni fórust bátar. En í huga þessa gamla manns var þetta lífið. Eg hef sjaldan heyrt betri lýsingu á því hvernig ein lítil tækniframför getur gjörbreytt lífi manna".  (Steingrímur Hermannsson fv forsætisráðherra og seðlabankastjóri). 

1940      Enn róið úr Breiðavíkurveri.  Fimm bátar róa nú úr Breiðavíkurveri.  Eru það bátur Aðalsteins og Sveins Sveinssona í Breiðavík; bátur Guðmundar Kristjánssonar í Breiðavík; bátur Baldvins Ólafssonar frá Brekku og Núma frá Barðaströnd; Bátur Aðalsteins og Valtýs Guðmundssona frá Laugabóli í Arnarfirði og bátur Gunnlaugs Egilssonar frá Lambavatni.  Þorskurinn er verkaður í salt, en steinbíturinn kúlaður og hertur.  Róðraraðstaðan í Breiðavík er hin besta; greið innsigling um Þráðinn á hásjávuðu, inn í Kumbarann þar sem bátarnir eru í öruggu vari í flestum veðrum.  Aflinn er að mestu flattur í salt, en seldur í fisktökuskip til íssölu til Bretlands þegar aðstæður leyfa.  Allur steinbítur er kúlaður og hertur á grjótgörðum (ÓG; Úr verbúðum í víking). Útgerð lagðist að mestu af í Breiðavíkurveri eftir stríð.  Síðastur hefur líklega róið þaðan Sigurður Magnússon.  Þegar jarðýtur komu til sögunnar voru gerðar breytingar á innsiglingu í Kumbarann (bátalægið) sem ætlaðar voru til lagfæringa en urðu til þess að hann fylltist fljótlega af sandi.

1943      Vél í Rutina.  Á þessu ári var sett vél í bátinn Ruth BA 223, sem smíðaður var 1898 (sjá þar).  Báturinn var lengi gerður út í félagi frændanna Guðbjartar Guðbjartssonar frá Kollsvík, síðar Láganúpi, og Ólafs Halldórssonar frá Grundum.  Árið 1925 keypti Guðbjartur Ólaf út úr útgerðinni og hefur síðan gert Rutina út með sonum sínum.  Rut er 1,5 brúttósmálestir að stærð og hefur hingað til verið róið og siglt.  Nú hefur verið sett í hana Universal bátavél, 8-10 hö að stærð (líklega Universal Fisherman, 1-cyl).  Matsverð Rutar var kr 500 árið 1931, en eftir þessa breytingu er báturinn metinn á 3.700 kr.  Aðrar eignir útgerðar feðganna eru róðrarbáturinn Svala; metin á 200 kr, og veiðarfæri, metin á 100 kr.  Þrir eru skráðir í áhöfn Rutar og verðmæti selds afla 1943 var kr 6.900.  (Sjávarútvegsskýrsla GG 1943).

1947      Sögu útræðis i Breiðavíkurveri lokið.  Þetta vor var síðast róið úr Breiðavíkurveri, eins og Halldór Ólafsson frá Hvallátrum (f.15.11.1932) segir frá í Sjómannadagsblaðinu 1993:  „Sjómannsferill minn var nýlega hafinn (þegar Dhoon-strandið varð 1947), en hann hafði ég byrjað um vorið þetta sama ár úr Breiðavíkurveri.  Það var þegar ég tók að róa á trillu með þeim Guðmundi Kristjánssyni bónda í Breiðuvík og Árna Helgasyni í Kollsvík.  Það reru þarna þrír bátar.  Á öðrum hinna mátanna voru bræðurnir Aðalsteinn og Sveinn Sveinssynir frá Brauðavík en Bjarni Sigurbjörnsson úr Hænuvík og Ólafur Sveinsson frá Nesi með honum á hinum bátnum.  Því tel ég þessa menn upp hér, að við þessir sjö vorum hinir síðustu sem reru úr Breiðavíkurveri og lauk þar með langri sögu útræðis þaðan“

Leita