Lýsing Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar er heildstæðasta lýsing sem til er af hinni miklu verstöð Kollsvíkurveri.  Júlíus var borinn og barnfæddur í Kollsvík og lengi formaður í Verinu.

 

Efni:   (Flýtival með smelli á efnisflokk)

Kristján Júlíus Kristjánsson

Nægtabúrið Kollsvík, staðhættir og búðir
Undirbúningur og beituöflun.  Farið var í Skersbug til öflunar kúfisks í beitu.
Línuveiðar og landlegur.  Róðrar og línulögn; formenn "bræða veðrið"; dægradvöl í landlegum.
Messudagasteinbítur og lúðuverkun.  Vertíðarlok; veiðar og verkun steinbíts og lúðu.
Skinnklæði og skinnklæðagerð.  Skinnklæðin voru jafn nauðsynleg sjómanni og báturinn.
Heimferð.  Skjótt getur skipast veður í lofti.
Slysfarir í verinu.  Sjóslys voru furðu fátíð í Kollsvíkurveri, sé litið til umsvifa og aðstæðna.
Vorhlutur og endalok verstöðu.  Hvað báru menn úr býtum?  Hvers vegna lagðist Kollsvíkurver af?
Nokkrir formenn og bátar.  Hér eru líklega taldir allflestir bátar sem reru úr verinu milli 1910 og 1920.

Viðtal um Kollsvíkurver.  Jón Bjarnason tók viðtal við Júlíus sem birtist í Sunnud.blaði Þjóðviljans 1963.

 Kristján Júlíus Kristjánsson

Kristjkjk myndán Júlíus Kristjánsson var fæddur 12. júlí árið 1896 á Grundum í Kollsvík.  Hann ólst upp við hin fjölbreyttu störf bænda og útvegsmanna sem þá tíðkuðust og byrjaði snemma róðra.  Reri úr Kollsvíkurveri í 27 ár; lengst af sem formaður.  Júlíus kvæntist Dagbjört Torfadóttur.  Þau bjuggu á Grund og Stekkjarmel en síðar og lengst af í Efri Tungu.  Hann var  lengi barnakennari í Rauðasandshreppi, auk þess að gegna mörgum trúnaðarstörfum; var í hópi færustu bjargmanna, og söngmaður var hann afbragðsgóður.  Kristján Júlíus Kristjánsson lést 9. oktober árið 1970.  Ritgerð Kristjáns Júlíusar um Kollsvíkurver er heilstæðasta lýsingin sem til er um þá miklu verstöð.  Hún birtist í Árbók Barðastrandasýslu 1959 – 1967

 

Nægtabúrið Kollsvíkstaðhættir og búðir í Kollsvíkurveri

Þess er getið í Landnámu að veiðiföng voru hér næg við strendur landsins; í fjörðum og víkum.  Flóki Vilgerðarson, er fyrstur norrænna manna hugsaði til landnáms hér, gætti þess ekki hið fyrsta sumar, eftin landtökuna í Vatnsfirði, að afla heyja handa búpeningnum; svo uppteknir voru þeir; hann og félagar hans, af veiðiskap í vatninu og firðinum, sem þá var hvorttveggja fullt fiskjar.  Sagan ber það með sér að afkoma þjóðrinnar hafi að verulegu leyti, eða að jöfnu, byggst á veiðiskap ýmiskonar og á öflun heyja til búfjárhalds.  Hér mun enda af gnægtum hafa verið að taka til aflafanga. Já allsstaðar var fullt af lífi.  Fullt af spökum, ómannvönum lífverum.  Fuglum á landi, við sjó og í björgum.  Fiskum í fjörðum, ám og vötnum.  Selum, rostungum og hvölum við ströndina.

Í þetta nægtabúr íslenskrar náttúru hefur þjóðin sótt matföng og verðmæti æ síðan land byggðist.  Lengst af voru fleyturnar smáar og veiðitæknin fábrotin.  en hvar sem fari var ýtt á flot var lengi vel veiðivon skammt undan landi. 

Þegar aldir liðu varð þó smám saman nokkur breyting á þessu.  Aðstaðan varð misjöfn.  Á einum stað, frekar en öðrum, var skemmra að sækja á fengsæl fiskimið.  Þá var og að öðrum þræði litið á lendingarskilyrði.  Af þessum sökum mynduðust veiðistöðvar víðsvegar meðfram ströndum landsins; ekki síst við eyjar og útnes.  Ýmsar merkar veiðistöðvar mætti nefna, t.d. Vestmannaeyjar, Grímsey, Bjarneyjar á Breiðafirði, Grindavík og fleiri verstöðvar á Reykjanesi; Hellisand og Dritvík á Snæfellsnesi; Bolungarvík við Ísafjarðardjúp; Gjögur á Ströndum, svo nokkrar séu nefndar af hinum stærri og fjölsóttari ver- og veiðistöðvum.  Frá mörgum þessum stöðum var sótt til veiðifanga á ýmsum tímum árs:  Haustvertíð fyrri hluta vetrar, fram til jóla; vetrarvertíð febrúar til apríl, og vorvertíð maí, júní og allt fram í miðjan júlí, eða þar til heyannir byrjuðu.

Efni það sem hér verður tekið til meðferðar, er að bregða upp nokkrum myndum frá einni af smærri verstöðvunum, svo að ekki sé með öllu glatað merku atriði úr atvinnusögu þessarar sveitar.  Verstöðin er Kollsvíkurver í Rauðasandshreppi.

sg veridKollsvíkurver Fátt eða ekkert er til sögulegra heimilda um Kollsvíkurver fyrr en undir síðustu aldamót (1900), eða það sem enn er í minnum elstu manna.  Í Jarðamatsbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er getið um Kollsvíkurver, en þess jafnframt getið að útræði úr Láganúpsveri sé að mestu leyti lagt niður, en þar hafi verið 18 verbúðir.  Sjá má á þessu að Kollsvíkurverstöð er að færast í aukana á síðari hluta 17. aldar, jafnt og Láganúpur er að líða undir lok.  Milli þessara verstöðva er þó vart meira en 800 metra vegalengd.  Af ástæðum þess að útræði færist úr stað um ekki lengri vegalengd, er líklegust sú að lendingarskilyrði hafi þótt öllu skárri í Kollsvíkurveri, einkum í norðanátt. 
(Myndin sýnir málverk Sigríðar Guðbjarsdóttur á Láganúpi; bátar koma að í Verinu).

Kollsvíkin liggur fyrir opnu hafi, gegnt norðvestri.  Lendingin í Kollsvíkurveri er norðantil í víkinni; beint niðurundan Kollsvíkurbæjum.  Hún liggur milli tveggja skerja er mynda allvíða vík; Þórðarskers að norðan en Selkollshleinar, með Selkolli fremst, að sunnan.  Bæði þessi sker fara í kaf á flóði.  Útifyrir lendingunni norðanverðri kemur upp skerjagarður um hálffallinn sjó, í allt að 500 metra fjarlægð; svonefndir Bjarnarklakkar.  Sunnanvið syðsta klakkinn er alldjúpt en ekki breitt sund, kallað Miðleið, en sunnanvið sundið var launboði (þ.e. boði er ekki örlaði á um fjöru), nefndur Miðklakkur, en upp og suður af honum sund, nefnt Syðstaleið; milli Miðklakks og Selkolls.  Innan þessara boða myndaðist allgott var eða lægi; einkum um lágsjávað, þegar grunnt var á Klökkunum eða þeir komu uppúr sjó.  Inn á Lægið var þriðja leiðin fær; svonefnt Grynnstasund, milli Bjarnarklakka og Þórðarskers.  Þetta sund var þó sjaldfarnara, vegna þess hve grunnt það var.  Öruggasta sundið inn á Lægið var Syðstaleiðin talin; hvort heldur brimaði af norðri eða vestri, en það voru brimaáttirnar.

Eins og fyrr er sagt liggur Kollsvíkin gegnt opnu hafi.  Má því nærri geta að þar hafi brimasamt verið; jafnvel stundum skammt verið milli ládeyðu og tvísýnnar landtöku.  Um flóð var upp í sand að lenda; en um fjöru, eða þegar lágsjávað var, var stundum ekki eins mjúkt undir kili; nema í þröngu viki milli hleina, sem nefndist Klauf.  Þó dró stundum sand svo fram að ekki bar á hleinum um lágsjávað.  Þegar Bjarnarklakkar risu úr sjó og öldur brotnuðu á Miðklakk, var talin örugg lending í norðanátt meðan fært var inn á Lægið.  En brim frá vestri átti greiðari leið þarna inn um syðstuleið, sem var alldjúp.

Uppsátrið var einkum í allbreiðum bás milli tveggja kletta; Syðri- og Norðarikletta.  Þó voru bátar oft látnir standa undir Norðariklettum þegar lítið var í sjó eða smástreymt.  En ef brimaði snögglega um stórstreymi varð að hafa hraðar hendur að bjarga bátum undan klettunum til beggja handa, norður- eða suðurfyrir klettana.  Bilið eða básinn milli klettanna mun vera allt að 100 metrum.

Upp af þessum sandbás stóð meginfjöldi verbúðanna; uppá, vestan og norðan í allstórum sandhól er þar hafði myndast.  Ekki voru þær skipulega settar.  Uppi á hólnum stóðu þrjár búðir í röð og sneru dyr mót vestri.  Fjórar búðir stóðu vestan í hólnum.  Var að nokkru leyti grafið inn í hólinn.  Vissu dyr á þeim einnig gegnt vestri.  Norðanvert í hólnum stóðu fjórar verbúðir; tvær og tvær saman, en milli þeirra var fonixarnaustid voninallstórt bátanaust.  Þar hafði vetrarskjól „Fönix“, teinæringur allstór sem var hákarlaskip Kollsvíkinga; einnig notaður að sumrinu til skreiðar- og vöruflutninga.  Naustið féll þegar eldri Fönix leið undir lok, en var byggt upp að nýju þegar vélbáturinn Fönix síðari var keyptur.  Var það um 3ja lesta bátur; einkum ætlaður til flutninga. 
(Mynd af Fönixarnausti kringum 1965.   Báturinn er Von, í eigu Ingvars og Össurar).

Tveir lækir féllu til sjávar milli klettanna; Syðrilækur, oftast nálægt eða fram með syðri-klettum, en Búðarlækur meðfram Norðariklettunum sunnanverðum.  Sunnanvið Syðrilækinn var ein verbúð og fjárkofi, sem einnig var notaður sem verbúð.  Við lækinn sunnanverðan voru „ruðningar“, þar sem gert var að fiski og fiskkrær stóðu, sem fiskurinn, þ.e. þorskurinn, var saltaður í.  Við þennan læk voru þó sjaldan meira en þrjár til fjórar skipshafnir.  Stundum var lækurinn það vatnslítill að hann hvarf í sanddyngjur er lágu nær sjónum.  Meðfram Búðarlæknum áttu allt að 14 skipshafnir ruðninga  sína, og nokkrar þær efstu áttu yfirbyggðar söltunarkrær; voru það einkum heimamenn.  Aðrir, sem neðar áttu ruðninga, söltuðu oftast fiskinn í stóra kassa.  En þegar hann var rifinn upp og umsaltaður, var hann borinn á öruggari stað vegna flóða sem komið gátu ef brimaði um stórstreymi.  einkum var þarna engu vært þegar hausta tók, eða að vetrinum.

Syðst á Norðariklettum stóðu fjórar verbúðir og eitt fjárhús í einni hvirfingu.  Á klettshorninu stóð fjárhúsið, en til hliðar við það á aðra hönd tvær verbúðir.  Sneru dyr gegnt suðvestri, en skammt frá dyrum var brattur sand- og moldarbakki er hallaði niður að búðunum.  Bakvið fjárhúsið stóð verbúð; sneri hlið að gafli fjárhússins og dyrum gegnt norðvestri.  Fjórða verbúðin stóð bakvið hinar tvær fyrrnefndu búðir og sneri hlið að göflum þeirra og dyr gegnt suðaustri.  Stóð hún einnig nokkru hærra en þær.

Á norðurhorni Norðarikletta var enn ein verbúðahvirfing; fjórar búðir.  Ein allstór sneri stöfnum í norðvestur og suðaustur, en dyr á miðri hlið gegnt suðvestri.  Tvær búðir stóðu hlið við hlið meðfram suðausturenda hinnar fyrrnefndu. og voru dyr á stöfnum þeirra er sneru í suðaustur.  Var sú fjórða staðsett þannig, að annar hliðarveggur vissi að göflum hinna tveggja síðastnefndu, en gafl að norðvesturenda hinnar fyrstnefndu.  Dyr þessarar búðar sneru í austnorður.  Skipshafnir frá þessum verbúðum, sem voru 5 (tvær í einni), höfðu sitt athafnasvæði; ruðninga og söltunarkrær, meðfram læk er var skamman spöl norðanvið Norðarikletta og hét Breiðilækur.  Lækirnir sem um hefur verið getið, komu í góðar þarfir til uppþvottar á fiskifangi áður en sett var í verkun; salt eða herslu.  Á hinn bóginn vildi það og brenna við að allir gættu ekki þess hreinlætis sem skyldi og fleygðu fiskafföllum í lækina.  Varð þá það ráð eitt fyrir hendi að stífla þá og láta síðan vatnsflauminn hreinsa þá fram í sjó.  Heimamenn eða bændurnir notuðu þó sín fiskafföll til áburðar á túnin.

Áður en lýkur því yfirliti sem ég hef gefið af verbúðaskipun í Kollsvíkurveri, vil ég geta nokkurra er báru sérstök heiti.  Nokkrar af búðunum fengu ekki fast sérheiti, heldur voru kenndar hverju sinni við þann formann er húsum réði.  Í nyrstu búðahvirfingunni voru tvær með sérheiti.  Sú sem dyr sneru á til norðausturs hét Norðurpóllinn, en hin sem sneri dyrum til gagnstæðrar áttar hét Napi; hvorttveggja heldur kuldaleg nöfn.  Í Napa voru tvær skipshafnir.  Skömmu fyrir síðustu aldamót (1900) bjó þar þurrabúðarfjölskylda.

Meðal búðanna sunnar á klettunum voru tvær nefndar sérheitum; Klettabúð, sú sem dyrum sneri framaf klettunum, og Grundabúð; sú sem nær stóð fjárhúshliðinni.  Átti bóndinn á Grundum þar frjálst búðarstæði; sennilega í skjóli þess að Grundir áttu lítinn hluta í Kollsvíkurjörðinni.

Skammt sunnanvið Búðarlækinn stóðu tvær búðir samsíða, eins og fyrr er sagt.  Hét önnur þeirra Meinþröng, enda var þar ekki vítt milli veggja.  Uppi á hólnum hét miðbúðin þeirra þriggja sem þar er áður getið, Heimamannabúð.  Það var verbúð annars bóndans á Kollsvíkurjörðinni.  Voru þar jafnan tvær skipshafnir.  Litlu lengra til suðurs stóð ein verbúð sem ekki hefur áður verið getið; var hún kölluð Eva.  Gegnt henni til vesturs var fiskhjallur, geymsluhús, sem Adam var nefndur.  Fleiri búðir fengu þó sérheiti um stundarsakir, eða sem tolldu ekki við þær nema skamma hríð.  Má þar nefna heitin Jerúsalem, Jeríkó, Sódóma o.fl.

Undirbúningur vertíðar og beituöflun

Á einmánuði, eða nokkru fyrir sumarmál, voru bátarnir búnir undir vertíðina; vor- og sumarróðra.  Þeir voru vandlega hreinsaðir og búnir undir bikun eða málningu.  Allir voru þeir bikaðir (tjörubornir) innan og sumir einnig að mestu að utan.  Hástokkar, borðstokkar og slettulisti voru oftast málaðir, og stundum einnig eitt umfar.  Aðrir voru málaðir að sjólínu og bikaðir eða málaðir í öðrum lit þar fyrir neðan.  Enn aðrir voru ef til vill málaðir utan í einum lit.  Þar fyrir utan var útlit bátanna mjög sundurleitt.  Stærð þeirra flestra var um 1 ¼ - 1 ½ smálest og oft var mál þetta skorið á hálsþóftuna.

Ekki var það alltaf á sama tíma sem flutt var í verið.  Réði því oft veðrátta og fiskigengd á grunnmið.  Oftast voru heimamenn búnir að róa nokkra róðra í samlögum, því hásetar þeirra voru oft lengra að.  Þeir voru ekki kallaðir fyrr en líkur voru til að aflabrögð færu að glæðast.  Þó voru sumir bændur sem sendu vinnumenn sína til að vers, strax um eða fyrir sumarmál.  Aðkomumenn komu þó oft eitthvað seinna.  Formenn af Barðaströnd áttu jafnan báta sína geymda innst í Patreksfirði, og höfðu búið þá þar undir vertíðina.

kollsvikurver 1943Þegar komið var í Verið var fyrsta verkið að „búða sig“:  Hreinsa búðirnar; tjalda veggi uppaf rúmstæðum (þótt sumir létu það ógert); búa um rúmin; koma fyrir matarskrínum og eldunartækjum og bera hreinan og þurran skeljasand á gólfin.  Trégólf var í engri verbúð í Kollsvíkurveri.  Ekki var róið næsta dag, þótt veður leyfði.  Þá þurfti ýmislegt að lagfæra útivið:  rífa upp ruðninga, því þeir voru lengst af reitlagðir úr fremur smáu grjóti og með allskonar steinum umhverfis.  Hressa við fiskhjalla og rífa upp þurrkreiti.  Venjulega voru fiskhjallarnir (steinbítshjallarnir) þannig gerðir að hlaðnir voru fjórir steinstólpar með stuttu millibili, er mynduðu ferhyrning.  Á hverja tvo voru síðan lögð allsver tré; hjalltré, og náðu endarnir oftast nokkuð útfyrir stólpana.  Á hjalltrén voru síðan lagðar rár með hæfilegu millibili, er steinbíturinn var hengdur á.  Best var að endar ránna næðu útfyrir hjalltrén, til þess að allur þunginn sem látinn var á rána lægi ekki á miðjunni.  Fiskreitir voru lagðir úr grjóti, og þurfti jafnan að rífa þá upp á hverju vori því sandur barst í þá að vetrinum.

Þegar skipshafnir höfðu búið um sig, og búið sig undir að geta gert að og tekið á móti afla, var ekki látið bíða að sækja sjóinn.  Venjulega var farið í fyrstu róðrana með handfæri, og var þá oftast lengra að sækja ef fiskur var ekki genginn á grunnmið.  Oftast var þá verið í róðri 12-13 stundir, eða tvö sjávarföll.  Ýmist var róið í flóð eða fjöru og setið til næsta flóðs eða fjöru.  Þó var leitast við að halda flæðarróðrum sem lengst, vegna setnings á bátum til sjávar og upp úr flæði; sem og vegna burðar á afla til ruðnings.  Oft var aflinn í fyrstu róðrum mestmegnis steinbítur.  Salt þurfti þó alltaf að vera tiltækt eftir að róðrar byrjuðu.  Aðkomubátar fluttu alltaf eitthvað af salti með sér þegar þeir komu í verið, en heimamenn höfðu þá einnig sótt salt, auk þess sem þeir áttu í birgðum frá sumrinu áður.  Meðan gamli Fönix var við líði, lögðu skipshafnir saman og sóttu salt á honum til Patreksfjarðar.  Þessar ferðir voru alltaf farnar þegar veður var gott og einsýnt.  Farið var af stað síðari hluta dags, þegar innlögn lá í fjörðinn, en komið út að nóttunni, þegar lygnt hafði eða jafnvel var kominn landsynningskaldi.  Hver kæla var notuð til að létta undir við róðurinn.  Eftir að Fönix var rifinn voru litlir vélbátar með þilfari, sem þá voru komnir til Patreksfjarðar, fengnir til salt- og fiskflutninga.  Einnig keyptu Útvíknaformenn þilfarsvélbát sem Tálkni hét, 8-9 smálesta, til að annast þessa flutninga.  Var hann staðsettur á Patreksfirði, en menn úr Rauðasandshreppi höfðu formennsku og vélstjórn á þessum flutningaferðum.  Um eða fyrir síðustu aldamót (1900) hóf félag, sem nefnt var Milljónafélagið, verslun og þilskipaútgerð á Patreksfirði.  Þá lét það byggja timburhús með járnþaki úti í Kollsvíkurveri.  Þetta hús var alltaf kallað Salthúsið, enda hafði það að geyma nokkrar saltbirgðir sem afgreiddar voru eftir þörfum til útgerðarmanna.  En þeim var gert að skyldu, eða þeir höfðu lofað, að greiða með afla sínum.  Húsið var einnig notað til fiskgeymslu að lokinni verkun, uns hann var fluttur brott til sölumeðferðar.  Eftir að Milljónafélagið leið undir lok var hús þetta rifið.

Um 1920 var síðari Fönix, 3ja lesta vélbátur, keyptur.  Var hann smíðaður fyrir Kollsvíkinga af Gísla Jóhannssyni skipasmið á Bíldudal.  Var bátur þessi nær eingöngu notaður til flutninga, þar til útgerð dróst svo mjög saman úr Kollsvíkurveri uppúr 1930, ásamt því að fólk fluttist þaðan burt.  Þá var báturinn seldur til Patreksfjarðar; tveim Kollsvíkingum, sem áður höfu verið, þeim Guðmundi Gestarsyni og Andrési Karlssyni.

Þá skal aftur vikið að því sem frá var horfið, um róðrana úr Kollsvíkurveri.  Það var minnst á fyrstu handfæraróðrana, þegar undirbúningi var lokið.  Handfæraveiðar voru fyrsta og frumstæðasta veiðiaðferðin; allt frá landnámstíð.  Lína með vaðsteini og einum öngli.  Eina breytingin sú, og þó tæplega fyrr en á 19. öld, að tekin voru upp málmlóð með ási í gegn og sinn öngultauminn í hvorum ásenda.  Mun þetta einkum hafa verið notað á þilskipum er sóttu djúpmið.  Í Kollsvíkurveri varð sú breyting á, skömmu eftir síðustu aldamót (1900) að tekið var að nota lóðir (línu) við veiðarnar.  Annarsstaðar mun sú veiðitækni hafa byrjað nokkru fyrr, t.d. við Ísafjarðardjúp og ef til vill víðar.  Fyrstur til að nota lóðir í Kollsvíkurveri var  Hákon Jónsson, bóndi á Hnjóti.  Ekki var línan löng, sem lögð var hverju sinni, eða aðeins 800 – 1000 krókar með hverjum bát, en línan var alltaf dregin fjórum sinnum á dag.

Skammt var að róa eftir að fiskur gekk á lóðamiðin, sem svo voru nefnd.  en það var allmikill sandfláki framundan víkinni, Hnífunum og nokkuð suðurfyrir Hnífaflögu, en þrengdist nokkuð í syðri endann frá djúpi.  Þaragarðurinn lá í nokkuð beinni línu fyrir Víkinni og áfram suðureftir, en var jafnframt skemmra undan landi undan Hnífum og Hnífaflögu; að sama skapi sem þau teygðust lengra fram.  Þó var ekki allsstaðar hrein sandgljá framan víð aðalþaragarðinn.  Boðar og hleinar voru hér og þar og þurftu allir, að minnsta kosti formennirnir, að vita glögg deili á þeim og mið.  Helstu boðarnir voru; Djúpboði og Leiðarboðar.  Setið var á sjó þó að á þeim félli grunnbrot um fjöru.  Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu; að minnsta kosti með landtöku í Kollsvíkurveri í huga.  Nokkrar fleiri hleinar skulu nefndar; t.d. Yngra-Jóns-mið, Kinnarhlein, Blettir, Haugar, Stekkar og Bæjarhlein.  Fiskivænlegra þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum, og oft var keppst um að ná þeirri aðstöðu. 

Beitu aflað; farið í Bug

Þegar byrjað var á vorin að leggja línuna, þurfti beituöflun áður að hafa átt sér stað.  Beita sú er nær eingöngu var notuð var kúfiskur.  Skeljarinnar var aflað með tvennu móti:  Annaðhvort var hún grafin upp með höndunum um stórstraumsfjöru inni í Skersbug, innanvið Sandodda; eða hún var plægð upp af meira dýpi.  Það var kallað að „fara í Bug“ eða „fara í beitufjöru“, þegar grafið var eftir skelinni með berum höndum.  Aðeins var hægt að taka skelina um stórstraumsfjörur, og gátu þær þó verið misjafnlega stórar.  Best var að grafa ef lygnt var og sólfar.  Birta og hlýja höfðu sitt að segja þegar grafa þurfti úr sjó er tók á miðjan upphandlegg, bæði þegar byrjað var og áður en hætt var; jafnvel þótt fjara væri góð, en annars allan tímann í lakari fjörum.  Eins varð það til baga ef vindur stóð á land.  Þá varð fjaran lakari.  Það þótti dágóð eftirtekja ef einn maður gróf upp skel í tvo poka.  Oft var það minna, en í bestu fjörum nokkru meira.  Eins voru afköstin misjöfn hjá hverjum einstökum. 

Meðan bátar skriðu áfram aðeins með árum og segli var þarna um alllangan veg að sækja, eða um þrjár vikur sjávar.  Fara varð af stað að morgninum, og lá þá oft landsynningskaldi út fjörðinn, eða logn þegar best var.  Að áliðnum degi var svo komin innlögn í fjörðinn.  Öll ferðin var farin undir árum og róðurinn all erfiður á köflum.  Eftir að vélbáturinn Fönix kom til sögunnar var hann notaður til þessara ferða.  Fóru þá margar skipshafnir á honum inn í Bug.  Grafið var eins lengi og fjara frekast leyfði.  Oft var meiri skel tekin en báturinn bar.  Var þá hæfileg hleðsla skilin eftir í Bugnum, en farið með það sem umfram var út á Patreksfjörð (Eyrar); pokarnir látnir í sjó á útfiri og látnir geymast þar uns ferð var gerð eftir þeim.  Síðan var farið aftur inn í Bug og báturinn hlaðinn af því sem eftir var skilið og þaðan haldið aftur út í Kollsvíkurver.  Oft var það að meginhluti þessarar fjölmennu hafnar lagði af stað gangandi útmeð firði, þegar farið var af stað með fyrri farminn út á Eyrar.  Jafnan voru það hinir yngri og fótfrárri sem lögðu af stað í þessa gönguferð; 4 – 5 klst ferð.  Stóðst það oft á endum að báðir komu jafnsnemma í Verið; bátsverjar og hinir fótfráu æskumenn, sem ekki víluðu fyrir sér að spretta úr spori undir leiðarlokin.

Þegar skelin var plægð upp, lögðu ávallt tvær skipshafnir saman til þeirrar beituöflunar.  Það var allvíða sem kúfisksmið voru skammt undan landi en aldrei féll útaf.  Voru hin helstu þau sem hér verða nefnd:  Kúfisklegan undan Breiðavíkurrifi norðarlega.  Þar var plægður upp kúfiskur þegar ég man fyrst eftir, en þótti erfið og ófengsæl beitutekja og lagðist þá niður.  Þá var lengst af plægð upp skel undan Tungurifi í Örlygshöfn.  Einnig framundan Vatnsdal og Kvígindisdal; einkum af heimabændum.  Plægt var framundan Hvalskeri, svo og undan Tálknahlíðum; innan við Hlíðardal.

Tæki til þessarar beitutekju voru all frumstæð í fyrstu.  Talið er að kúfiskplógurinn hafi verið fundinn upp og smíðaður af Einari Bogasyni í Hringsdal í Arnarfirði.  Urðu síðar á honum nokkrar lagfæringar, enda gátu þeir verið misjafnir að gerð og gæðum.  Við plóginn var festur netpoki, 1 ½ - 2 metrar á lengd.  Þegar tveir bátar voru við plægingu var annar báturinn nefndur spilbátur en hinn plógbátur.  Spilið (eða fyrst framan af dráttarvindan) stóð á tveim þóftum bátsins og var rammlega njörfað fast við þær.  Bátnum var síðan lagt við öruggan stjóra, nærri svæði því er vænlegt þótti til fengsællar skeltekju.  Hæfilega langur strengur (vírstrengur) var undinn upp á spilið, en enda hans síðan fest með lás í trjónuna; framenda plógsins.  Nú tók hinn báturinn plóginn, og með hann var síðan róið út, uns strengurinn var kominn á enda.  Þá var plógnum hleypt til botns á bandi sem kallað var hnakkaband.  Í enda hans var flotholt eða belgur, er þá var fleygt fyrir borð.  Þá byrjuðu spilmenn að snúa spilinu og vinda strenginn uppá það.  Það voru fjórir menn sem það gerðu.  Stóðu tveir og tveir hvor andspænis öðrum við hvorn enda spilsins og höfðu aðra hönd hvor á spilsveifunum.  Skipt var um, svo erfiðið kæmi á báðar hendurnar.

Þegar plógurinn kom til botns og farið var að draga hann, gróf hann sig strax þvínær á kaf í sand; losaði um skelina í plógfarinu og bárust þær síðan aftur í pokann.  Skelinni fylgdi oftast sandur, steinar og sitthvað annað ógagnlegt.  Þegar búið var að draga plóginn nokkuð áleiðis heim að spilbátnum; allt að á miðja leið, þó nokkuð misjafnt; „hrökk hann upp“ sem kallað var; þ.e. missti festu í sandinum.  Var ástæðan ýmist sú að því nær sem dró bátnum lyftist plógnefið meira upp, eða að komið væri talsvert í pokann; eða í þriðja lagi að plógurinn hefði lent á steini.  Það gat skeð að hann fengi festu aftur um stund.  Annars fóru plógbátsmenn strax að hnakkabandinu og drógu plóginn upp.  Stundum var það gert með handafli einu saman, en á síðari árum var það gert með vindu eða spili.  Þegar plógurinn kom undir borð var honum snúið, svo að tennurnar vissu frá súð bátsins.  Þá var hann hækkaður svo, að nefið kom allt uppúr sjó.  Þá var tekið í það og plógurinn veginn inn yfir borðstokkinn.  Síðan var tekið í tvö bönd er lágu sitthvorumegin úr plógnum niður í horn pokans.  Á þessum böndum var pokanum þvælt sitt á hvað í sjónum, til þess að skola burt leir og sand.  Að því búnu var pokanum lyft og steypt úr honum skelinni inn í bátinn.  Þá var plógurinn róinn út á ný; nálægt, en þó ekki í sama plógfar.  Þeir sem í plógbátnum voru létu nú skelina í poka, en fleygðu rusli og úrgangi í sjóinn.  Svona gekk þetta æ ofaní æ; að draga plóginn og tæma pokana, uns sæmileg skeltekja var fengin og þreyta og svefnleysi fór að sækja á mannskapinn.  Stundum þurfti að færa sig úr stað, áður en nægjanleg kúfisktekja var fengin.  Eins var og sú aðferð við þessa beituöflun viðhöfð að spili, ýmist handsnúnu eða gangspili, var fest á landi og plógur fluttur út.  Komist varð af með einn bát; plógbátinn, en ef til vill nokkru lengri plógstreng.  Þessi aðferð var einkum notuð í Vatnsdal og Kvígindisdal, og þá helst af heimabændum. 

Vindurnar sem áður voru nefndar voru erfið dráttartæki.  Á þeim var notaður dráttarstrengur úr „manillu“; brugðið tveim brögðum strengsins á vinduásinn, en síðan einn maður settur í það að draga af vindunni jafnóðum og strengurinn kom inn.  Segja mætti að þetta væri þrælavinna, enda lagðist hún fljótt niður.

Línuveiðar og landlegur

Línuveiðar

Línan sem notuð var í Kollsvíkurveri var alltaf úr hampi; tveggja punda; 60 faðmar á lengd hver hespa.  Öngultaumar voru heimagerðir; snúnir úr hampgarni með heimatilbúnum taumavindum.  Bilið á milli tauma á línunni var ekki nema tvær álnir, og komu því um 100 önglar á hvert snæri (lóð).  Ekki voru nema 10 lóðir; 1000 önglar, hafðir með hverjum bát.  Ef til vill eitthvað minna hjá sumum.  Línan var beitt í landi að kvöldi hvers dags sem róið var, og fyrir fyrsta róður.  Var einn skipverja sem beitti; tók fiskinn úr skelinni og skar beituna.  Hinir fóru í aðgerðina; þ.e. að hausa, fletja, þvo og salta þorskinn.  Steinbíturinn var einnig hausaður, flattur og kúlaður; þ.e. skornir þverskurðir yfir báða helminga.  Síðan var hann rifinn upp, þveginn og hengdur til þurrks á þurrkhjöllunum.  Steinbítshausar voru klofnir upp og þeir síðan, ásamt hryggjunum, bornir til þurrks á reitina.  Þegar langt var komið í aðgerð fór jafnan einn úr ruðning til þess að verka soðfisk í pottinn, til þess að hann yrði soðinn um líkt leyti og aðgerð og beitningu væri lokið.  Flestir munu hafa gætt þess hreinlætis að loknu dagsverki að fara með handklæði og sápu til lækjar og þvo þar hendur og andlit.  Síðan var gengið til búðar; neytt fiskmáltíðar og drukkið kaffi með einhverju brauðmeti.  Sumir drukku ef til vill mjólk eða kakó.  Heimamenn fengu daglega senda mjólk og einnig spónamat, og nutu þess jafnt aðkomnir hásetar bændanna, eins og þeir sjálfir.  Ýmsir aðkomumenn keyptu mjólk hjá bændum og var hún færð kaupendum.  Að máltíð lokinni tóku menn á sig náðir, oftast þreyttir og mettir, og sváfu vært uns róður skyldi hafinn á ný.  Var það oft ekki langur svefntími; frá 5 – 7 stundir, þó ef til vill meira eða minna eftir atvikum; oftast eftir því hvernig aflaðist og hvort aðgerð tók langan eða skamman tíma.

Eins og áður er getið var ávallt róið í flóð og fjöru.  Flæðarróðrarnir voru betur þokkaðir, af ástæðum sem fyrr greinir.  Hrundu þá margir bát frá landi samtímis, svo jafnvel kom til árekstra, sem aldrei reyndust þó hættulegir.  Alltaf var kapp að komast út á miðin; ekki síst hjá þeim sem kunnugastir voru og töldu meiri aflavon á einum stað en öðrum.  Þegar ládautt var, eða lítil ylgja, var um flóð róið suður með landi; fast með landsteinum og ofan skerja.  Djúpmegin voru t.d. Selkollur, Breiðaskersklakkur og Arnarboði.  Þar gætti minna straums, norðurfallsins, enda varð ekki hjá því komist að sækja suður á bóginn til þess að hægt væri að leggja línuna undan straum.  Stundum var róið suður fyrir Hnífaflögu, en annars misjafnlega langt suður, eftir því hvar ætlað var að leggja.

Þegar komið var á ákvörðunarstað, sem stundum gat þó orðið annar en ætlað var ef margir voru á undan, var belgnum kastað og rakið úr bólfærinu sem fest var í hringinn í drekanum (stjóranum).  Haldið kyrru fyrir meðan drekinn var að komast til botns, en þá var snúið undan straumi og línan lögð.  Ekkert milliból var haft á þessari stuttu línu.  Þegar síðari drekinn náði til botns og bólfærið var rakið á enda, var bátnum lagt við þann stjóra og beðið uns lægja tók strauminn.  Á meðan var skorið úr skel og beita brytjuð.

Þegar byrjað var að draga línuna var hún beitt út jafnt og dregið var.  Tveir menn voru undir árum í andófi.  Þriðji maðurinn dró línuna, goggaði og afgoggaði fiskinn, en sá fjórði beitti út línuna.  Meðan á drætti stóð, varð stundum þeim sem línuna dró þetta á munni þegar hann sá til fiskjar:  „Einn fer að heiman“....“Tveir hafa það verið“.... „Nei, heilagur andi“.... „Og hefur staf“!...þegar fjórir voru komnir í sjónmál.  Það kom þó fyrir, þegar vel var um fisk, að fleiri mátti sjá á ferð.

Þegar lokið var við að draga línuna var bátnum fest við það stjórafæri þar sem drætti lauk.  Þetta var kallað að „ljúka við kastið“.  Þá var byrjað að blóðga þorskinn; slægja steinbítinn og skera beitu uppá næsta kast.  Stundum var kastað út færi, því nú var komið fast að straumaskiptum.  Byrjað var að draga línuna á ný strax við straumaskipti.  Nú var dregið móti norðurfalli.  Þegar stórstreymt var og fallið lagðist á með þunga, gerðist áherðingur hjá þeim sem beitti út línuna og þungur róður hjá hinum sem í andófi voru.  Þó var haldið áfram að draga uns komið var allnærri niðurstöðu að stjóra.  Þá var línunni sleppt og því nær ávallt haldið til lands.  Það eru árarnar, knúnar hertum höndum, sem fleyta báti í vör.  Hæfilegur vindkaldi er legði í segl, væri þó vel þeginn.  En þetta er oft árla morguns og lygnasti tími sólarhringsins.  Það er því bara logn og róður.  Það hefur líka orðið að orðtaki:  „Lognið er leiða best“.  Undan því var sjaldan kvartað í fullri alvöru.

Þegar komið er að landi er fiskur seilaður á burðarólar; venjulega 20 fiskar á ól.  Það þótti hæfileg byrði á mann af lóðafiski, til að bera til ruðnings.  Aftur á móti aðeins 10 steinbítar á ól.  Það fór eftir afla hve margar ferðir komu á mann.  100 fiskar í róðri þótti tregur afli, en 200 og meira þótti góður afli.  Bátnum var aðeins brýnt, því oftar var ekki komin háfjara.  Róðurinn hafði tekið 5 – 6 stundir.  Þegar afli var kominn í ruðning var gengið til búðar; hitað kaffi og borðað með því smurt brauð með kæfu að áleggi.  Það tók hver úr sinni skrínu eða kofforti.  Að fenginni hressingu var gengið til ruðnings og byrjað á aðgerð, uns sást að komið var aðtak; byrjað að falla að.  Þá var farið af stað í annan; venjulega síðari róður.  Það kom fyrir, ef afli var góður í fyrri róðri og einsýnt veðurútlit, að skilinn var einn maður eftir í landi, til þess að halda áfram við aðgerð.  Var henni að mestu lokið þegar komið var úr síðari róðri.

Byrjað var þegar að draga línuna í þriðja sinn þegar komið var að syðra bóli.  Nú var fallið í rénun og því léttara að draga og beita hana út.  Ef til vill er kominn norðan kaldi, „aðlögn“, þegar þessu kasti er að ljúka.  Oft var þá siglt á milli bóla og síðasti dráttur línunnar byrjaður enn frá syðri enda.  Fleiri en ein ástæða var fyrir þessari tilhögun.  Línan fékk jafnari legu.  Þægilegra var að draga á móti vindi og undan straumi heldur en öfugt.  En svo var það síðast en ekki síst vegna þess að leiði var rýmra að landi í lendingu.  Ekki brimaði að ráði þó að aðlögn gerði, því helst var það þegar að öðru leyti var stillt og gott veður.  Samt lagði oft þá báru, að seila þurfti fiskinn á floti og láta seilarnar útbyrðis; jafnvel setja þær á streng, til þess að vera laus við þær meðan bátnum var brýnt úr sjó.  Nú var lent í flæði en þá var, eins og áður er sagt, lítið var að klökkunum.

Ólarnar með fiskinum voru dregnar að landi og bjargað úr sjó.  Síðan voru þær annaðhvort bornar til ruðnings eða hver maður tók eina byrði og dró hana til ruðnings uppeftir Búðalæknum.  Var þetta ekki ýkja erfitt, því fiskurinn rann vel í læknum, þótt hann rynni þarna um nokkurn halla.  Oftast var báturinn skolaður áður en hann var að fullu settur undan sjó; nema því aðeins að ráð væri á unglingum til að gera það þegar báturinn var kominn í skorður.  Sumir höfðu hálfdrætting til þessa starfs og fleiri snúninga í landi.  Enn var gengið til búðar og neytt hressingar áður en byrjað var á síðari aðgerðinni, eða kannski aðgerð á öllum dagsaflanum, svo og beitningunni eins og fyrr segir.  Það gat tekið 4 – 6 tíma að ljúka aðgerð og ýmsu fleira sem sinna þurfti áður en gengið var til náða.  Og gat þá vinnudagurinn orðið allt að 18 stundir.

Að „bræða veðrið“; landlegur

Hér hefur verið brugðið upp mynd og lýst í fáum dráttum einum degi á vertíðinni.  Slíkir dagar urðu sem betur fór allmargir á hverri vertíð.  En útaf þessu vildi líka bera alloft.  Brim og vindur ollu mestu um það.  Ekki verður þó annað sagt en sjór væri sóttur af kappi, og þó með hæfilegri forsjá.  Komið gat það fyrir að bátur væri settur til sjávar og beðið lags að ýta á flot; lags sem þó kom aldrei nægilega öruggt.  Og var þá báturinn settur upp aftur í sömu skorður, eða heldur lengra undan sjó.

Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma, var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til þess að „bræða veðrið“, sem svo var kallað.  Oft var þessi ráðstefna sett og haldin á klettshorninu syðra á Norðariklettunum.  Þar sást vel til lofts og lagar.  Stundum sýndist sitt hverjum, en þarna var þó oft ráðinn róður eða afráðinn.  sg verid verbudEf róa skyldi, var í skyndi klæðst hlífðarfötum og línan borin til báts.  (Myndin er af málverki Sigríðar Guðbjartsdóttur á steinhellu, og sýnir Andrés Karlsson á Stekkjarmel, hlífaðan framanvið Grundarbúð í Verinu).  Ekki mátti heldur gleyma drykkjarílátinu; blöndukútnum.  Hann var það eina til neyslu sem haft var með í þessa stuttu róðra.  Oft var það að skipshafnir höfðu samsetning á bátum; jafnvel niður um fjöru, en þó miklu oftar upp; bæði um flóð, og þó einkum um fjörur.  Við setning voru alltaf notaðir hlunnar, er lagðir voru fyrir bátinn það þétt að jafnan voru tveir undir kjölnum samtímis.  Fyrst voru hlunnarnir bútuð niður hvalrif.  Síðar, er fækka tók um hvalrif, var hvalbeinsflís fest á fjalarbút og klampi negldur yfir báða enda beinsins.  Að síðustu voru svo hlunnar gerðir þannig að járnhjól með ás til beggja enda, er léku í legum, voru boltuð á litla trégrind.  Hjólin snerust þegar kjölurinn, varinn dragi, rann eftir þeim.  Þegar fjöldi manna skipaði sér á bæði borð sama báts, var ekki talin þörf á hlunnum, enda báturinn frekar borinn en dreginn.

Þegar veður var tvísýnt gat borið til beggja vona að dagurinn yrði til enda tryggur, en oftast þó sá róðurinn sem farinn var.  Síðara kastið var þó oft tekið með útbeitningu.  En átti þá að skilja línuna eftir eða draga hana upp með þriðja kasti?  Oft var það gert, einkum ef aðfall fór að, því betra þótti að lenda alllöngu fyrir háflæði.  Ef brim hafði aukið þegar að landi var komið, var mestur vandi á höndum þeim sem fyrstur lenti; að bjarga bát og afla úr sjó.  Það kom fyrir að honum var boðinn aukinn liðskostur; þannig að tveim mönnum, sínum af hvorum bát, var bætt við til liðsauka.  Honum lentist vel, og öllu var bjargað; bæði bát og afla.  Síðan lenti næsti bátur og var tekið opnum örmum.  Næst lentu ef til vill tveir bátar samtímis, og var þá liðinu skipt sem tók á móti.  Loks höfðu allir lent heilu og höldnu, og bjargað þeim afla sem borist hafði að landi.

Þannig var ávallt aðstoð veitt og samhjálp í hvívetna, svo sem best mátti vera.  Eins og fyrr er sagt drógust menn í hóp til þess að „bræða róðurinn“, eða eins og stundum var sagt:  „Þeir eru að bræð‘ann“.  Þá var það, og ef til vill oftar, að afráðinn var róður; mælt gegn því að farið væri á sjó.  Þá hófst landlega þann daginn.  Gengu menn þá aftur til búða sinna og hölluðu sér á eyrað; nema að áður þætti vissara að setja bátana hærra undan sjó.  Tíðast var það norðanáttin sem hamlaði sjósókn.  Norðanstormur gat oft blásið linnulaust dögum saman; jafnvel heila viku.  Ýmsir töldu að norðanáttin varaði lengur ef hún byrjaði á vissum dögum; t.d. á þriðjudag eða föstudag.  Landlegudagarnir urðu mörgum langir og leiðir; ekki síst aðkomumönnum, sem svo langt áttu heim að sækja að það var aðeins með hugann sem þeir voru heima, en ekki á annan hátt.

Hvað var þá hafst að í landlegum?  Fyrsta daginn var ýmsu að sinna; t.d. umsalta fisk og hlynna að öðru fiskifangi; bera á skinnklæði o.fl.  Þeir sem heima áttu í næsta nágrenni fóru, eða fengu heimfararleyfi.  Bændur í Kollsvíkinni fóru þá auðvitað heim til ýmissa starfa.  Helst var það móskurður, smölun og rúningur sauðfjár o.fl.  Oftast voru hásetar boðnir og búnir til liðsinnis við störf þessi.  Ef svo stóð á tíma að eggtíð stæði yfir var farið til eggja.  Fýlsegg voru tekin um mánuð af sumri, en svartfuglsegg hálfum mánuði síðar.  Ekki áttu þess þó allir kost að afla sér þessa bragðbætis og búdrýginda með fábreyttri vermötu, enda ekki á allra færi að fara í egg, eins og það var kallað. 

Einstaka maður hafði með sér verkefni að heiman, svo sem að flétta reipi, bregða gjarðir o.fl.  Margir lásu blöð og bækur sér til gagns og dægrastyttingar.  Eins var setið og hlustað ef einhver var gæddur þeim hæfileika að segja frá.  Vissulega var hlustað, jafnvel þótt sumar sögurnar hefðu ekki mikið menningar- eða bókmenntagildi.  Þá voru nokkrir sem fengust við að hnoða saman stökum.  Sumir voru hagmæltir, sem kallað var, en ýmsir aðrir gát gert lýtalausar vísur að rími og stuðlum.  Stundum voru það formannavísur, eða vísur að gefnu tilefni.  Enn voru það ljóðabálkar sem enga stoð áttu í veruleikanum; efnið og formið var skáldskapur frá rótum.  Mest af þessu voru aðeins dægurflugur sem aldrei voru festar á blað og hafa því glatast með öllu.  Ef til vill lifir þó ennþá eitthvað á vörum þeirra fáu sem þarna stóðu nærri, og enn eru ofar moldu.

Þá er enn að geta viðbragða æskumanna sem þarna voru saman komnir.  Hjá mörgum bjó orka í armi og ólga í barmi, sem leita varð viðfangsefna.  Í landlegum og á sunnudögum tók það stutta stund að kveðja til leiks allstóran hóp æskumanna.  Helstu viðfangsefnin voru; glíma, stundum bændaglíma; aflraunir ýmiskonar; boltaleikur (slagbolti), einnig var fótbolta sparkað, en næga kunnáttu vantaði í þeirri íþrótt.  Þá voru og reynd stökk (hástökk og langstökk).  Sund var einnig iðkað, bæði í sjó og vötnum.

Einn var sá leikur sem hinir yngstu léku iðulega; það var að fleygja kúskeljum.  Nóg var af skeljum og nærtækar hér og þar.  Þar var um keppni að ræða.  Hver lengst gæti látið þær kljúfa loftið.  Þá var þeim fleygt á sjó út, svo að engin hætta stafaði af þessu kasti.  Þá var og annað eftirsótt mark sem skeljunum var beint að.  Var það gaflinn á salthúsinu sem áður var minnst á.  Sátu skeljarnar stundum fastar í trénu án þess að brotna, þótt hinar væru fleiri sem brotnuðu strax.  Þéttsett var orðið af skeljabrotum í viðnum þegar húsið var rifið.  Þá var og annar leikur drengja að klifra í Norðariklettunum.  Þeir voru það lágir að engin hætta var því samfara, enda sandur undir þótt einhver missti tök og táfestu.  Helsta afrekið var að komast eftir klettunum enda milli, án þess að detta í sandinn eða fara á brún.

Eitt var það embætti í Kollvíkurveri sem sjálfsagt þótti að skipa í, enda alltaf einhver tiltækur í stöðuna.  Var það sýslumannsembætti kallað.  Enga menntagráðu þurfti til þess að geta gegnt því starfi.  Sýslur voru þar nefndar er vermenn gengu helst örna sinna, sem einnig var kallað að „flytja lögmann“.  Rolluskúti undir Syðriklettum var t.d. mjög fjölsótt sýsla, þótt víðar væri leitað vars.  Embættið náði til þessara sýslna, en ekki var embættisfærslan erfið né vandasöm.  Þá var valdsmannsvalið engum annmörkum háð.  Aðeins þeir sem í fyrsta skipti í Verinu komu til greina.  Ef um einn var að ræða var hann sjálfkjörinn, en oftast komu fleiri til greina.  Þá var það glíman sem skar úr; ekki að glíma um sýsluna, heldur að glíma hana af sér; þ.e. sá einn var rétt kjörinn er allir hinir lögðu að velli.  Þau laun fylgdu starfinu að embættismaður mátti innheimta einn harðsteinbít af hverjum vermanni, en sú innheimta fórst jafnan fyrir.

Alloft þurftu aðkomuformenn að leita til heimilanna með ýmsa aðstoð, t.d. að fá brennt kaffi og lán á kaffikvörn til mölunar.  Einnig að fá bökuð brauð eða kökur, þegar líða tók á vertíðina.  Vermatan var þá farin að ganga til þurrðar hjá sumum, enda ótækt að geyma brauðamat svo lengi.  Eflaust er það gamalt í málinu, að síðasta vika vertíðarinnar var kölluð „roðavika“, og bendir það til þess að þá hafi að mestu verið lifað á fiskmeti, bæði soðnu og þurrkuðu.

Messudagasteinbítur og lúðuverkun

Líður að vertíðarlokum; messudagasteinbítur og lúða

Þegar líða tók á vertíðina, að áliðnum júnímánuði, var farið að hugsa um að verka þorskaflann; þvo hann og þurrka, til að reyna að fá meira fyrir hann en ef hann var seldur uppúr salti.  Var þá fyrst og fremst hver landlegudagur notaður til þeirra starfa.  Einnig var oft einn maður af báti skilinn eftir í landi við fiskþvott eða annað viðkomandi verkuninni.  Ýmist var svo fiskurinn fluttur ópakkaður til sölu eða umboðssölu á Patreksfirði, eða stundum metinn og pakkaður í Verinu.  Var hann þá oft fluttur um borð í skip er tóku hann beint til útflutnings.  Það var gert á vegum pöntunarfélagsins sem stofnað var og starfrækt í Rauðasandshreppi, með aðalbækistöðvar á Patreksfirði.  Það kom og fyrir að fiskurinn var seldur uppúr salti; óverkaður og ópakkaður.  Eitt skip tók allan voraflann úr veiðistöðinni.

Áður en vertíð lauk var fiskur oft orðinn tregur á línu.  Var þá farið í steinbítsróðra.  Það var kallaður „messudagasteinbítur“ sem þá veiddist.  Var hann þá orðinn miklu feitari og betri til átu en sá sem veiðst hafði á línu fyrr að vorinu.  Úr síðustu róðrunum var steinbíturinn oftst saltaður; bæði vegna þess að þannig var hann tiltækilegri til flutnings, og eins var hann hinn ágætasti soðfiskur, sem heimilunum var kærkominn.  Þannig verkaður var hann oftlega nefndur „tros“.  Einnig náði þetta heiti yfir annan saltaðan soðmat, t.d. lúðu, skötu og kola.

Í róðrum þessum var það næsta algengt að fá lúður; oft eina eða fleiri á bát í róðri.  Það þóttu jafnan hinir mestu happadrættir.  Sá sem dró lúðu fékk alltaf af henni óskiptri vaðhornið og sporðinn.  Þegar búið var að rista fyrir uggum, rafabeltunum, var rist eftir flökum, þannig að einn skurður var ristur eftir endilöngum hrygg; frá haus og aftur í þverskurð á sporði.  Síðan var flakið rist um þvert, aftan við kviðarhol.  Þessi biti beggja megin, með þunnildisbeini, var nefndur „vaðhorn“.  Aftara flakið var látið halda fullri lengd á þeirri lúðustærð sem nefndar voru „langflökur“.  Á stærri lúðum var þverbiti tekinn, jafnt vaðhornsskurði, og þá voru þær kallaðar „sexflakandi“.  Riklingurinn, einkum af smærri lúðum, var venjulega þurrkaður.  Flökin hengd upp og látin skelþorna; síðan voru þau rist þannig að skurður var skorinn inn í miðja fiskþykktina.  Byrjað var að skera beggjamegin við augað sem hengt var upp á, en síðan mæst í einum skurði, rétt fyrir neðan augað.  Síðan var fiskurinn flattur útundir jaðar, beggjamegin við skurðinn.  Þá var flakið opnað og tveim tréteinum stungið undir roðið; beggjamegin aftanfrá.  Héldu þeir flakinu opnu, svo að það þornaði á skömmum tíma.  Annars var riklingurinn líka saltaður; einkum af feitum lúðum.  Var hann saltaður í pækil; sterkan saltlög, því annars vildi hann þrána.  Saltað var í rafabeltin og þau látin liggja í salti í tvo daga og síðan hengd upp til þurrks.  Þetta var kallað hátíðamatur, er þau höfðu hlotið verkun, enda þótt komið væri fram á næsta vetur.

Um líkt leyti og messudagaróðrarnir voru farnir fóru ýmsir, einkum heimamenn, með haukalóðir.  Önglarnir voru stærri á þeim, og nefndir haukar.  Línan sterkari; taumar lengri og sterkari og með lengra millibili, eða um 3 metra.  Oft var línan ekki lengri en 100 – 150 krókar.  Lengra var sótt, jafnvel á ákveðin mið, með línu þessa.  Þótt línan væri ekki lengri en þetta fékkst oft dágóður afli á hana.  Var það einkum skata og lúða, stórir golþorskar og steinbítur, sem veiddist á haukalóð.  Það gat orðið þungur dráttur að draga hana á höndum ef mikið var á af skötu og lúðu, eins og komið gat fyrir.

Skinnklæðagerð

Getið skal að nokkru hlífðarfata þeirra er almennt voru notuð í verstöðvum frá fornu fari og fram um 1920-30.  Voru það brók og skinnstakkur; venjulega að mestu úr sauðaskinnum.  Sjóhatt áttu flestir, er aðeins var settur upp þegar ágjöf var eða illviðri.  Karlmenn saumuðu sjálfir sjóklæði sín að vetrinum.  Tæki til þess voru fábrotin; aðeins tvær nálar, fyrirseyma og eftirseyma, svo og klembrur sem voru einskonar nálatöng.  Klembrur voru heimasmíði; annaðhvort úr hvalbeini eða kindarleggjum.  Tvær hvalbeinsflísar voru tengdar með þolinmóði í annan endann.  Gripið var á nálunum  með því að klemma þær fastar milli beinanna og þær dregnar þannig út.  Í beinkinnarnar voru boraðar smáholur, þar sem nálaraugað hafði viðnám þegar nálinni var stungið í gegnum margfaldan sauminn.  Klembrur úr sauðarleggjum voru svipaðar að gerð.

Fyrirseyman var með fjöðrum eða þrírennd, svo að hún skæri lítið eitt frá sér, en hin var sívöl; nokkuð sverari um miðjan legg.  Saumgarnið var alltaf heimaspunninn togþráður, en nálardragið annaðhvort hampgarn eða hvalseymi, ef það var til.  Saumþráðurinn var venjulega hafður sex- eða áttfaldur.  Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; eitt í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur.  Auk þess þurfti leður í sóla og aflanga skinnpjötlu í loku.  Þær brækur þóttu fara betur er saumaðar voru með loku.  Ennfremur þurfti nokkurt skinn í miðseymi; einkum notað úr gömlum skinnklæðum.

Skinnin sem notuð voru til skinnklæðagerðar voru misjafnlega undirbúin.  Sum voru blásteinslituð, og þótti það verja fúa; önnur voru hert ólituð og þannig tekin til brókargerðar, en síðar voru flestir farnir að elta þau vandlega áður en saumað var úr þeim.  Þau skinnklæði tóku miklu betur við áburði; fernisolíu eða lýsi, og urðu mýkri að klæðast í.

Þegar brók var saumuð, var byrjað á því að sauma ofanásetur við skálmar, og loku við setskauta.  Þá var sóli settur í skálm; byrjað á tá og saumað aftur að hæl, og aftur byrjað frá tá hinumegin sólans.  Þá var hælsporið tekið, og þurfti vel til þess að vanda að ekki læki þar sem oddi sólans enti í saumnum.  Var þá haldið áfram með leggsaum upp að klittnaspori.  Þá var skálmin lögð til hliðar og hinni gerð sömu skil.  Að því búnu var setskautinn tekinn og öðrum odda hans stungið milli hinna tvöföldu miðseyma í leggsaumnum.  Þarna var klittnasporið tekið og vandað um það, líkt og við hælsporið.  Síðan saumað uppmeð skálm og ofanásetu annarsvegar og skálm og loku hinsvegar.  Á sama hátt var hin skálmin saumuð við setskauta.  Allt var þetta tvísaumað, og þurfti síðari saumurinn að fylla vel út í hvert nálfar og herða vandlega hvert nálspor.  Það var talið vel af sér vikið að skila brókinni fullsaumaðri á dag.

Í skinnstakkinn fóru þrjú skinn, venjulega lamskinn.  Tvö í bak- og framstykki og eitt í ermar.  Þegar klæðst var skinnstakki var fyrst farið í ermar og stakknum síðan steypt yfir höfuð sér.  Hafa þurfti hálsmál allvítt, en til þess að þrengja það, eftir að komið var í stakkinn, voru smágöt gerð á skinnið umhverfis hálsmálið, og í þau þræddur skinnþvengur eða snæri til þess að geta dregið saman og þrengt stakkinn í hálsmálið.  Þetta var nefnd hálsbjörg.  Lítil beinplata með tveim götum var þrædd uppá þvengendana og þeir bundnir saman.  Þegar hálsmálið var þrengt, var þverhnútur með lykkju settur framanvið plötuna, en hún var nefnd hálsbjargartygill. 

Í hvert skipti er brók var klæðst, varð ekki hjá því komist að binda skó á fæturna til hlífðar brókarsólunum.  Voru það sjóskór nefndir.  Þeir voru vanalega gerðir úr sútuðu leðri, allþykku.  Einnig gerðir úr leðri er skorið var ofanaf lélegum leðurstígvélum.  Þessir skór voru þjálli og fóru betur á fæti.  Þeir voru varpaðir með snæri, og með því sama snæri bundnir yfir mjóalegginn.

Klæðst var brók og skinnstakki nær daglega við að bera fisk úr fjöru til ruðnings.  Þegar meiri vöðsluverk voru unnin; t.d. borinn farmur af skipi, þ.e. stærri flutningabátum, í nokkru brimi, bjuggust menn svo sem best mátti vera eða bakbeltuðust.  Það var þannig að eftir að klæðst hafði verið brók og skinnstakki og bróklindi girtur, var öðrum linda brugðið utanum stakkinn og hann girtur fast að brókinni, en endanum síðan brugðið fram á milli fóta og festur um mittislindann.  Þannig búnir vörðust menn vætu, þótt bárur skvettust hærra en brækur náðu.

Mjög gat skipst í tvö horn um þrif og verkun skinnklæða.  Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar.  Þær voru í fjórum pörtum; kvíslarfótur, rekinn niður í jörðina; kvíslarhnakkur með hringlaga gati í miðjunni, er tappi á fætinum gekk upp um.  Önnur tvö göt voru á kvislarhnakknum, sitt í hvorum enda frá hliðarfleti.  Í þessi göt var skálmsprekum stungið og brókin færð á kvíslarnar.  Ávallt snerust skálmarnar undan vindi, og blés þá inn í brókina svo að hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna.  Ýmsir sýndu mikla natni við þrif og verkun skinnklæða, en aðrir miklu miður, enda klæddust menn hlífðarfötum misjafnt eins og öðrum klæðum.  Sagt er að sjómaðurinn; alklæddur hlífðarfötum, væri öðrum rétthærri, t.d. á við prestinn í stólnum.

Búist til heimferðar; skjótt skipast veður í lofti

Það er komið að vertíðarlokum.  Aðkomuformenn með skipshafnir, sem og aðkomuhásetar, fara að búast til heimferðar.  Steinbítur er bundinn í bagga, sem og annað fiskmeti, svo að það taki minna rúm í flutningi.  Heimaformenn fluttu stundum háseta sína úr veri eða lögðu þeim lið á annan hátt.  Róðrarbátarnir tóku oft ekki allt það er ein skipshöfn hafði til flutnings, þótt áður væri búið að losa sig við þorskaflann.  Var þá helst til ráðs að fá stærri flutningabáta til þessara ferða.  Fram um síðustu aldamót var aðeins um róðrarskip að ræða; átt- eða teinæringa, sem jafnframt voru þá hákarlaskip. 

Á mskreidarferdyndinni (úr Ísl.sjávarháttum IV) er Hákon Kristófersson formaður með áhöfn sinni í skreiðarferð, að öllum líkindum úr Kollsvíkurveri, þar sem hann reri margar vertíðir sem formaður, líklega milli 1895 og 1900, og er myndin líkast til frá þeim tíma.  Hákon varð eftir það verslunarmaður á Eyrum; bóndi í Haga 1907-1954; alþingismaður 1913-1931; oddviti, hreppstjóri o.fl.  Hásetarnir næst honum eru  Kristmundur Guðmundsson Rauðsdal og Gísli Gíslason Sjöundá, síðar Hvammi; en báðir voru formenn í Kollsvíkurveri. Næst stafni er Júlíus Ólafsson sem víða bjó og stundaði sjó, en var síðast bóndi á Innri-Múla.  Báturinn heitir Jóhanna og kann að vera sami bátur og Þórarinn Bjarnason á Grundabökkum átti síðar.

Ég hef áður minnst á gamla Fönix í Kollsvík.  Kom hann talsvert við sögu í flutningaferðum.  Síðar komu aðrir bátar til sögunnar, þ.á.m. litlir vélbátar með þilfari.  Loks er það yngri Fönix, sem áður hefur verið nefndur.  Ég tel sérstaka ástæðu til að geta hér einnar ferðar sem farin var á vélbátnum Fönix, með tvær skipshafnir og nokkra aukaháseta.

Veðurútlit var talið gott þegar nokkrir bátar fóru af stað í róður, en útróðrarmenn í heimferðarhug fóru að bera fiskifang og aðrar föggur sínar til sjóar.  Það stendur á útfalli, og er nokkrum hluta farmsins hlaðið í Fönix við sandinn.  Þegar meira fellur út verður að flytja hann fram, til þess að eiga það ekki á hættu að hann fjari uppi; og honum er lagt frammi á Læginu.  Enn er flutt út í Fönix, uns komið er allmikið háfermi af skreið.  Nokkur kjölfesta er þó að trosi.

En á skammri stundu skipast veður í lofti.  Veðurútlit hefur breyst.  Til hafsins er kominn norðan mökkur; og jafnsnemma leggur norðan kisur heim úr Blakknum og eykur norðan báru.  Fönix, sem lagt hafði verið skammt undan landi, er fluttur dýpra á Lægið.  Það verður stans á að hlaða bátana sem verða áttu með í förinni, því fljótt þótti einsýnt að ekki yrði af flutningaferð þann daginn.  Bátarnir sem í róðri voru, koma von bráðar siglandi til lands í frískum byr.  Formenn hafa tal af þeim sem eru á Fönix og segja, sem auðsætt var, að ekkert annað sé fyrir hendi en bera allt af honum aftur.  Síðan lenda þeir sínum bátum og koma þeim undan sjó, ásamt afla.

Enn er allt skaplegt með landtöku.  Sjór er lítt fallinn að, svo að enn tekur allan kraft úr brimi, sem færist þó sífellt í aukana er það brotnar á klökkunum.

Það er gefið merki til þeirra á Fönix að koma upp.  Þeir eru viðbúnir, því skömmu áður var stjóra létt og teknir tveir eða fleiri hringir á Læginu undir vélarhreyfli.  Hver hönd var viðbúin að taka á móti bátnum, og var hann á skömmum tíma affermdur og bát og farmi bjargað undan sjó. 

Lítið sögulegt er við það sem frá er skýrt hér að framan, ef frá engu framhaldi yrði greint.  Búðirnar höfðu verið rúnar og yfirgefnar, svo að hendi lá næst að flytja rúmfatnað og annað er þar þurfti til vistar til búða á ný, en annað var látið óhreyft á kambinum.  Allt til kvölds smáherðir á storminum.  Eitthvað er fengið til yfirbreiðslu yfir fiskifang það sem á kambinum lá.  Síðan er gengið til náða.  Um nóttina herðir enn hvassviðrið, svo að sandi feykir úr fjöru og víðar.  Um morguninn er kominn þar sandskafl sem fiskifangið lá.  Segja má að það sé grafið í sandi, en engu er hægt að hreyfa meðan stormurinn geisar.  Bátarnir í fjörunni hálffyllast einnig af sandi.

Ég man ekki hve marga daga stormurinn blés linnulaust, en loks þegar slota tók var farið að hyggja að farmi og bátum.  Það var ömurleg sjón að sjá, þegar bjargræði margra heimila var mokað og dregið uppúr sandskafli.  Yfirbreiðslur höfðu lítið hlíft.  Sandur hafði allsstaðar smogið undir og inn í fiskmetiskösina.  Reynt var að hreinsa og hrista sandinn burt eftir föngum, en það tókst ekki nándar nærri til neinnar hlítar, enda aðstaða þarna ómöguleg og tími tæpur, því engu færi skyldi sleppt til þess að hefja ferð að nýju.

Að kvöldi dags hafði storminn lægt og bárulaust að kalla við sandinn.  Búið var að hreinsa sand úr bátum, og voru þeir settir til sjóar.  Fönix er aftur hlaðinn hinum sama farmi, sem nú er allur annar útlits en áður.  Sá er þetta rifjar upp hafði þarna á hendi formennsku og vélgæslu, eins og til stóð í fyrri ferðinni sem fara átti.

Þegar Fönix er fullfermdur, er hann færður fram á Lægið og lagt við stjóra.  Tveir róðrarbátar af Barðaströnd eru einnig fermdir.  Auk þess er einnig borið á minni bát frá Vesturbotni, sem aðeins hafði verið nokkra daga við róðra í Verinu.  Eigandi hans hafði fyrir fáum árum flutt búferlum frá Láganúpi í Kollsvík að Vesturbotni.  Þegar þessu öllu er lokið, með liðsinni heimamanna, er kvaðst og þökkuð ágæt samskipti.

Fönix leggur af stað með þrjá báta í togi og er ekki mjög hraðskreiður.  Ekki flýtir það ferðinni að tekið er suðurfalli nærri landi.  Þó er það til nokkurra bóta.  Enn eru eftir nokkrar leifar norðanbárunnar, einkum þar sem eða meðan straumur liggur með bárunni.  Það er því farið svo grunnt sem má fyrir Blakkinn, en það dugir ekki til því ekki má strax slá flötu við bárunni.  Keyrt er því beint í báruna um stund; því næst snúið undan bárunni á skutröng og horfi beint uppundir Blakkinn.  Enn er snúið í báruna og náð lengra norður.  Þegar þá er snúið við, er stefnan í fjörðinn; vel laust við Þyrsklingahrygginn.  Úr því gengur ferðin ákjósanlega, þótt hægt miði áfram í logni; undir risi árdagssólar.

Lent er innst í Patreksfirði; vestan fjarðarbotnsins við malareyri er Skeiðseyri heitir.  Þarna við eyrina eru bátarnir affermdir og Fönix snúið til heimferðar í logni og steikjandi sólskini.  Nú skríður hann léttar, en þrátt fyrir háværa vélarskelli segir nokkur þreyta og svefninn til sín.  Ég er ekki einn á heimleið, þott ég muni ekki hver sá var sem með mér var.  En við gátum aðeins tekið okkur hænublund til skiptis.

Þá skal þessari frásögn lokið, en mér finnst að af henni megi glöggt marka hversu oft urðu snögg veðrabrigði; jafnvel svo að litlu mátti muna að vel réðist eða á hinn veginn.

Um slysfarir í Kollsvíkurveri

Á vorvertíð urðu engin slys á mönnum í Kollsvíkurveri, svo langt sem ég man eða hef sagnir af.  Hitt kom fyrir að báta fyllti og flatti við landtöku; jafnvel fyllti við útróður.  Einu sinni lenti bátur í brotinu við Miðklakk.  Bátar höfðu komið til lands úr fyrri róðri og lent um fjöru.  Það er auðséð að snögglega eykur brim frá vestri, svo að hraði er hafður á að fara út aftur að ná upp línunni.  Eins og vant er er stutt á miðin og línan dregin upp í skyndi.  Innan tveggja og hálfs þriðja tíma eru allir bátarnir komnir inn á Lægið aftur.  Það er tekið til að seila aflann, en allir nema einn hafa seilarnar innanborðs.  Það vissu allir að þegar mikið brimar, einkum ef það er frá vestri, verður svo sterkur útstraumur á Læginu að talsvert andóf þurfti til að halda á móti honum.  Brotin fyrir framan drógu út undir sig.  Formaður sá er seilaði fiskinn út virtist ekki gefa því gaum að hverju fór.  Bátinn dró smám saman nær Miðklakknum og fjarlægðist hina bátana.  Ekki braut að staðaldri á Miðklakk, en allt í einu tekur sig upp allstórt brot skammt frá bátnum; þó ekki það mikið að hann tæki í sig sjó.  Báturinn fær á sig það mikla ferð að ólarnar slitna frá honum og fylgir hann bárunni sem örskot; en skekkist þó meir og meir.  Þeir sem í andófi voru misstu hvor sína ár, og allir hanga þeir í bátnum sem allir búast við að muni hvolfa á næsta augnabliki.  Nei; það gerist ekki.  Brotið hjaðnar, og mönnum er borgið.  Menn trúa vart sínum eigin augum; eins og allt virtist vonlaust, og dauðinn fyrir dyrum.

Öllum lentist vel úr þessum róðri, en eins og endranær lá þar enginn á liði sínu að rétta öðrum hjálparhendur.  Jafnvel ólarnar sem slitnuðu frá bátnum voru sóttar framfyrir klakka og komið til lands.

Hér skal getið slysfara er urðu við landtöku í Kollsvík:

Hinn 5. apríl 1904 sammælast Kollsvíkingar til kaupstaðarferðar á Patreksfjörð.  Þeir verða fimm eða sex saman, og er Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík formaður fararinnar, enda er hann eigandi bátsins.  Veður er hið besta þegar lagt er af stað snemma morguns.  Vegalengdin sem fara þarf er alllöng; eða um þriggja stunda róður hvora leið.  Það er því orðið áliðið dags þegar aftur er komið að lendingu.  Logn hafði haldist allan daginn, en þegar kom fram á daginn fór mjög að auka brim frá vestri.  Að líkindum mun hafa verið um hálffallinn sjór þegar bátinn bar að lendingu.  Nokkur stans verður á meðan brimlag er athugað.  En þá er snúið frá hinni venjulegu lendingu, en búist til að lenda skammt sunnan við Verið, þar sem að fornu fari hefur verið kölluð Snorralending.  Þar verður aðeins lent um allhásjávað.  Talsvert dýpi er í um 80 – 100 metra fjarlægð frá landi um flóð, en þar snargrynnir á hleinarbrún sem kemur upp um hverja fjöru.  Þaðan eru hleinarnar jafnháar upp að sandi. 

Það er beðið lags, en þegar það er tekið varir það svo stutta stund að fyrsta bára á næsta ólagi kemur undir bátinn í því að hann rennur upp yfir hleinabrúnina.  Hann rennur við, og honum hvolfir á samri stundu.  Mennirnir komast á kjöl, nema Torfi sem setið mun hafa undir stjórn en varð laus við bátinn.  Hann var ósyndur, eins og reyndar allir hinir; en þar sem hann náði aldrei taki á bátnum, varð honum allra bjargráða vant.  Með honum var stórt skarð höggvið í hóp framsækinna útvegsbænda.  Mestu höfðu þó eiginkona og stór barnahópur á bak að sjá.  Börnin voru 11 á lífi, og af þeim aðeins tvær dætur komnar yfir fermingu.  Auk hins sára harms sem að ástvinum hans var kveðinn, gerðist róðurinn þungur að koma þessum stóra barnahóp til þroska og nokkurrar menningar.  En það tókst, að mestu af eigin rammleik.

Annað slys varð hinn 1. apríl 1919.  Þá drukknaði við landtöku Guðmundur Össurarson; 18 ára, frá Láganúpi.  Hann var sonur Össurar Guðbjartssonar, sem áður bjó í Kollsvík ásamt Torfa Jónssyni, sem áður er nefndur.

Svo stóð á sjóferð þeirri sem hér verður getið, að í hákarlalegu hafði verið farið frá Breiðavík 2 – 3 dögum áður.  Nokkrir Kollsvíkingar höfðu fengið skiprúm í þá leguferð.  Hafði ferð sú lánast ágætlega og góður afli fengist af lifur og hákarli.  Nú voru Kollsvíkingar að sækja lifrarhlut sinn út í Breiðavíkurver.  Ferðin var ekki löng né tók langan tíma.  En það brimar með skjótum hætti frá vestri, eins og oft vill henda.  Þegar að lendingu er komið er brimið orðið mjög mikið, en ekki virðist þó ólendandi.  En hver fær séð hvað sköpum skiptir?  Þeir bíða lags uns róður er tekinn til lands, en verða of seinir fyrir.  Ólagið nær þeim, og bátnum hvolfir.  Þeir komast á kjöl, því flestir kunnu eitthvað í sundi.  Aftur veltur báturinn og er nú kjölréttur, en borðafullur.  Mennirnir ná enn til bátsins, nema Guðmundur.  Tvívegis á báturinn eftir að velta ennþá, en ávallt ná þeir fjórir sem eftir voru til bátsins, og náðu að síðustu að hjálpa hver öðrum upp í hann.  En nú eru brotsjóirnir að missa tök ábátnum.  Hann hefur dregið fram, og út úr brotinu.  Við það hefur þó lítið batnað um bjargráð.  Nokkrir menn bíða í fjörunni, en fá ekkert aðhafst.  Úr bátnum er allur farviður farinn.  Mennirnir í bátnum geta því enga björg sér veitt.  Það er aðeins að bíða; ...bíða!  Báturinn maraði að mestu leyti í kafi, og mennirnir sátu í sjó.  Smám saman þokast hann norðurávið og nálgast brotið á Þórðarskerjunum.  Þar falla brotsjóirnir ekki eins langt frá landi.  Maður í landi býr sig út með ár, er hann festir við alllöngu snæri.  Hann veður fram í sjóinn; eins langt og honum fært þykir.  Hann skutlar árinni fram til bátsins.  Og þetta heppnast.  Mennirnir ná í árina; það er komið á samband milli báts og lands.  Lífsvonin tendrast á ný.  Þegar eitthvað slær niður er báturinn dreginn hröðum höndum til lands.  Þeim er bjargað!  En sem vonlegt var eru þeir þrekaðir af þreytu, vosbúð og kulda; svo að þeir þurfa aðstoðar með að komast hver til síns heima.  Hinn látna ber einnig að landi, og hann fær sína umönnun.  Svona er sköpum skipt, en hver fær það skilið?  Þeir sem af komust hresstust furðu fljótt, en víst munu sumir hafa borið þessa nokkrar menjar þaðan í frá, þótt enginn hlyti líkamsmeiðsli.

Vorhluturinn og lok útgerðar í Verinu

Ekki verður skilist svo við þessa frásögn að ekki verði enn einni spurningu svarað:  Hvað báru menn úr býtum er hér sóttu sjóinn og lögðu á sig strangt erfiði?  Lífsbaráttan var ávallt hörð, og flestir urðu að leggja hart að sér til þess að sjá sér og sínum farborða.  Fram að þessu hafði verkmenning þjóðarinnar litlum breytingum tekið, allt frá landnámstíð.  Það voru aðeins skáld og sjáendur sem töldu bjartari og betri tíma í vændum.  En allt að einu lifðu menn furðu glaðir við sitt.  Kröfurnar voru litlar og búið sem mest að sínu til matar og fata.  Alltaf voru talsverð matföng flutt heim úr Verinu, bæði hert og söltuð.  Svo voru vorhlutirnir; aflahlutur hvers og eins úr þorskaflanum sem seldur var.  Skipt var í fimm hluti.  Hver háseti fékk einn hlut en útgerðarmaður, sem oftast var jafnframt formaður, tók tvo hluti fyrir sig og dauðan hlut fyrir bát og veiðarfæri.  Þessir hlutir voru ekki háir í krónutölu, enda verðlag í engu sambærilegt við það sem síðar hefur gerst.  Hver króna sennilega 80 – 100 sinnum verðmeiri en hún er nú orðin (um 1970).

Ekki er mér kunnugt hvað hlutur hefur orðið lægstur í krónutölu, en 200 – 400 krónur mun hafa verið mjög algengt.  Fiskverð hækkaði nokkuð um og uppúr fyrri heimsstyrjöld.  En salt og aðrar nauðsynjar hækkuðu að sama skapi, svo afkoman batnaði lítið eða ekki.

Vorið 1927 varð hæsti vorhlutur 870 krónur, og næsti þar fyrir neðan um 800 krónur.  Þetta þóttu mjög háir hlutir á þeim tíma.  Árin eftir 1930 þrengdu þó enn að kosti útgerðarmanna og bænda.  Útgerð aðkomumanna lagðist niður úr Kollsvíkurveri.  Samhliða því fækkar fólki í Víkinni; það flyst burtu, einkum til Patreksfjarðar eða til Reykjavíkur.  Fólksflóttinn frá smábátaútgerð og frumstæðu búskaparbasli er byrjaður.  Kollsvíkin fer ekki varhluta af því, þótt hún fáum árum fyrr þætti blómlegasti hluti sveitarinnar til afkomu.

Um og eftir 1910 er þar einna fjölmennast, eða yfir 70 manns heimilisfastir.  40 árum síðar eru þar yfir veturinn 7 manns viðloðandi, en eitthvað af heimilisföstu fjarverandi í bili.  Síðar fjölgaði þar, við það að stór fjölskylda fluttist þangað og bjó þar í tíu ár.  Nú (um 1970) búa þar tveir bændur; bræður sem þar eru fæddir og uppaldir.  Fjölskyldurnar alls 14 manns.  Það heitir varla að þar sé báti ýtt úr vör; aðeins fiskjað til soðmatar.

verid heimambudAllar verbúðir eru fallnar í tóft, og sumar sandi orpnar.  Það er ömurlegt að hugsa til þess að ekkert skuli varðveitt, er geymi minjar gamla tímans.  Er það ekki vel þess vert að samtök verði hafin um að byggja upp eina verbúð, er látin sé geyma það sem til næst af gömlum munum og minjum úr Verinu?  (Myndin er af tóft Heimamannabúðar).

Eins og sagt hefur verið lá Kollsvíkin gegnt opnu hafi.  Svipmót hennar var bæði blítt og strítt.  Lognkyrrir vordagar voru þar fagrir og unaðslegir, og þó einkum vorkvöldin fögru: Þegar sól var að síga í æginn og átti þar aðeins skamma dvöl, uns hún reis á ný úr djúpi, en hvarf svo um stund aftur undir Blakkinn.  Víkin sjálf var einnig fögur, þótt ekki væri hún ýkja gróðursæl.  Fjallahringurinn einnig fagur og tilkomumikill.  En svo er það hinn svipurinn.  Veður geysa af hafi.  Brimið er stórkostlegt; tröllaukin grunnbrot sem hóta tortímingu því nær öllu lífi; jafnvel sjávargróðri.  Sumsstaðar breytast öldurnar í stórfengleg gos; marga tugi metra í loft upp, er falla inn í voga og skúta.  Sandinum frá ströndinni feykir langt á land upp, jafnvel kæfir gróður.  Og svo er það hafísinn, sem áður fyrr var nær árlegur en þó síður en svo aufúsugestur.  Segja má að síðustu um Víkina, eins og sagt hefur verið um landið:  „Hún agar oss hart með sín ísköldu él, en á samt til blíðu; hún meinar allt vel“.

Formenn og bátar

Að síðustu ætla ég að setja hér nöfn þeirra formanna er ég man eftir út Kollsvíkurveri.  Því miður man ég færri nöfn á bátum þeirra, en þau sem ég man læt ég fylgja.  (Bætt hefur verið við lista KJK nöfnum frá öðrum heimildum).

  1. Torfi Jónsson, bóndi í Kollsvík - Iðunn
  2. Jón Torfason, bóndi í Kollsvík
  3. Guðbjartur Torfason, bóndi í Kollsvík - Gefjun
  4. Össur Guðbjartsson, bóndi í Kollsvík - Guðrún
  5. Valdimar Össurarson, búlaus í Kollsvík - Svala
  6. Gísli Guðbjartsson, bjó litlu búi í Kollsvík - Björg
  7. Helgi Gestsson, búlaus; seinna bóndi í Kollsvík - Svanur
  8. Karl Kristjánsson, búlaus í Kollsvík - Penta
  9. Andrés Karlsson, búlaus í Kollsvík - Guðrún nr 4
  10. Þórarinn Bjarnason, búlaus á Grundum - Jóhanna
  11. Ólafur Halldórsson, búlaus á Grundum - Ruth
  12. Guðbjartur Guðbjartsson, bóndi á Láganúpi - Ruth (síðar)
  13. Kristján Ásbjörnsson, bóndi á Grundum - Heppinn
  14. Albert Kristjánsson, búlaus á Grundum - Heppinn (síðar)
  15. Kristján Júlíus Kristjánsson, bóndi á Grund - Elliði
  16. Ólafur Ásbjörnsson, bóndi á Láganúpi - Kristín
  17. Helgi Árnason, þá búlaus á Grundum - Freyja
  18. Árni Árnason, þá búlaus á Grundum - Ester
  19. Gestur Jónsson, búlaus á Hvallátrum
  20. Ólafur Guðbjartsson, bóndi í Hænuvík - Reytingur
  21. Jón Ívarsson, bóndi í Hænuvík - Hænir
  22. Engilbert Jóhannsson, búlaus í Hænuvík
  23. Ólafur Pétursson, bóndi á Sellátranesi
  24. Davíð Jónsson, búlaus á Kóngsengi
  25. Sigurbjörn Guðjónsson, bóndi á Geitagili - Þokki
  26. Magnús Árnason, bóndi á Hnjóti - Iðunn nr 1
  27. Árni Magnússon, bóndi á Hnjóti - Þoka
  28. Jón Á. Thoroddsen, bóndi í Kvígindisdal
  29. Árni Dagbjartsson, búlaus í Kvígindisdal
  30. Páll Bjarnason, búlaus í Kvígindisdal
  31. Magnús Kristjánsson, bóndi á Hvalskeri
  32. Gísli Gíslason, búlaus á Söundá, síðar bóndi Hvammi
  33. Ólafur Ó. Thorlacius, búlaus í Saurbæ
  34. Jón Guðmundsson, búlaus í Króki
  35. Helgi Guðbrandsson, búlaus á Hvalskeri
  36. Jens Jónsson, búlaus á Patreksfirði
  37. Árni Arentsson, bóndi í Höfðadal, Tálknafirði
  38. Sigurgarður Sturluson, bóndi á Eysteinseyri, Tálkn. - Hylas
  39. Þórður Marteinsson, bóndi í Fit, Barðaströnd - Lára
  40. Einar Jónsson, bóndi á Haukabergi, Barðaströnd - Fluga
  41. Þorgrímur Ólafsson, bóndi í Miðhlíð, Barðaströnd - Dvalinn
  42. Kristján Ólafsson, bóndi á Brekkuvelli, Barðaströnd
  43. Hákon Kristófersson, bóndi í Haga, Barðastönd
  44. Þórarinn Fjeldsted, bóndi í Tungumúla, Barðaströnd
  45. Kristmundur Guðmundsson, bóndi í Hvammi, Barðaströnd
  46. Grímur Árnason, bóndi á Grundum - Hnísa
  47. Ingimundur Halldórsson, búlaus í Keflavík - Björg
  48. Guðmundur Ólafsson, búlaus í Sauðlauksdal - Sami bátur
  49. Magnús Jónsson, búlaus í Kollsvíkurveri - Nói

 

Viðtal um Kollsvíkurver.  

jon bjarnasonJón Bjarnason (1909-1967), þáverandi ritstjóri Sunnudagsblaðs Þjóðviljans, ritaði eftirfarandi grein í blað sitt, eftir ferðalag um Rauðasandshrepp árið 1964.  Jón var fæddur og uppalinn á Laugum í Dalasýslu.  Fylgdarmaður hans í þessari ferð var Gunnar Össurarson frá Kollsvík; þá búsettur syðra.  Fór Jón í Kollsvíkurver og ræddi þar við Guðbjart Guðbjartsson, Ólaf Halldórsson og Kristján Júlíus Kristjánsson, sem allir voru formenn í Verinu fyrrum.  Viðtalið við Guðbjart má sjá hér annarsstaðar á síðunni, en eftirfarandi er viðtalið við Júlíus.  Greinarnar birtust í 6., 7., 8. og 9.  tölublöðum 4.árg. Sunnudagsbl.Þjóðviljans árið 1964.

 

Reri nær 30 vertíðir
Það var nokkrum dögum eftir sólskinsdaginn á sandinum í Kollsvík að ég skaust úr haustrigningunni inn til Júlíusar í Efri-Tungu, en fullu nafni heitir hann Kristján Júlíus Kristjánsson og hefur búið í Eftri-Tungu í Örlygshöfn í 24 ár.

„Er það rétt Júlíus, að þú sért fæddur svo að segja í Kollsvíkurvörinni; og hvenær gerðist það“?
„Ég er fæddur 12. júlí 1896 á Grundum; bænum sem var niðri við sjóinn; sunnantil í víkinni.  Pabbi og mamma bjuggu þar, og einnig afi og amma.  Við vorum 9 systkinin sem komumst upp“.

Fór á flot 10 ára
„Þú hefur þá líklega farið nokkuð snemma á sjóinn; alinn upp þarna á sjávarbakkanum“?
„Já, ég fór á flot 10 ára; náttúrulega á sumrin fyrst, og ég fór á vertíð á 15. árinu.  Hef vafalaust róið hverja vertíð frá 1911 til 1938.  Heimamenn í Kollsvík notuðu hverja stund til sjóferða, þrátt fyrir það að þeir hefðu landbúskap, enda var meiri mannafli þá en nú“.

„Þar sem þú ert alinn upp svo að segja í Kollsvíkurveri, þá hlýtur þú að vera flestum fróðari um lífið þar, og því langar mig að fræðast af þér um þennan stað og það líf sem þar var lifað“.
„Ég get náttúrlega sagt þér það sem ég man og veit af sögu Versins og starfsins þar.  Ég hygg að þegar ég fór að muna eftir mér, og fram að fyrra stríði 1914, hafi verið blómlegasti tíminn í Kollsvíkurveri.  Þá komu menn af Barðaströnd og víðar til róðra þar; flestir úr einu byggðarlagi voru af Barðaströnd.  Venjan var að koma í Verið strax um sumarmál, en svo hætti fiskur að ganga á gunnmið fyrr en seinna; ekki fyrr en komið var fram í maí.  Fyrstu róðrana var sótt lengra og fiskaður steinbítur og þorskur“.

Að „búða sig“
„Hvernig voru verbúðirnar og búnaður þeirra; á hverju byrjuðu menn þegar þeir komu í Verið“?
„Fyrsta verkið þegar menn komu í Verið var að „búða sig“; þ.e. að búa um sig; koma sér fyrir í búðunum.  Búðirnar voru að innan hlaðnar úr grjóti, en að utan úr grjóti og strengjum; var það gert til að þétta á milli steinanna.  Veggirnir voru fylltir með sandi.  Í þakinu voru sperrur, og á þeim langbönd og ofan á þau skarað hellum og tyrft yfir.  Nokkrar seinni búðirnar voru með járnþaki og torfi, en þær þóttu verri; járnið var miklu kaldara en helluþökin.

Inni var slegið upp rúmum með timburbotnum.  Flestir höfðu einhverjar undirsængur og rúmföt.  Aðkomumenn komu heim á bæina til þess að fá lyng og hey til að mýkja rúmin með.  Annaðhvort voru búðirnar þiljaðar innan, eða hessíanstrigi strengdur á veggina.  Gólfin voru hvítur sandur úr fjörunni og var skipt um sand þegar tóm gafst til.  Búðirnar voru því miklu vistlegri með hvítu sandgólfi en illa hirtu timburgólfi.
Rekkjufélagar sváfu andfæting og höfðu koffortin sín; skrínurnar, við höfðalagið.  Væri búðin sæmilega breið voru rúmin hvert á móti öðru meðfram veggjunum.

Gengið var inn í endann á flestum búðunum, en væri gengið inn á miðjum vegg voru þær oftast svo stórar að sín skipshöfnin var í hvorum enda.  Aðeins tvær búðir; Heimamannabúð og Napi, voru með dyr á miðjum vegg.  Við endann á Evu; búðinni sem þú sást um daginn, var fiskhjallur kallaður Adam.  Búðin gegnt Evu var nefnd Sódóma.  Seinna var Evu breytt í þurramannsbýli:  Magnús Jónsson, ættaður úr Tálknafirði, og Guðrún Jónsdóttir, ættuð úr Rauðasandshreppi, áttu heima þar“.

„Hverjir byggðu búðirnar“?
"Kollsvíkurmenn byggðu allar búðir; áttu þær og leigðu vermönnum.  Gjaldið sem vermenn greiddu var „búðartollur“ og uppsátursgjald.  Mig minnir að hvorttveggja væri 12 kr; 6 kr búðartollur og 6 kr uppsátursgjald.  Við þurftum ekki að borga eftir; amma mín var af Kollsvíkurætt; átti part í jörðinni og þurfti því ekki að borga eftir búðina.  Hrís og lyng máttu menn fá ókeypis"!.

Eldunarkrær
„Nálægt búðunum voru krær sem voru eingöngu ætlaðar til að matreiða í.  Ég man ekki eftir nema einum útihlóðum.  Svo komu olíuvélar og síðar prímusar, og þá var eldað inni í búðunum sjálfum.
Mat höfðu menn með sér heimanað í kofforti.  Þá var kæfa brædd í annan endann á skrínunni og smjöri stungið í hinn endann.  Brauð höfðu þeir einnig með að heiman.  Þegar líða tók á vertíðina fengu vermenn bakaðar rúgkökur á bæjunum og heimamenn fengu sendan spónamat; graut og mjólk.  Sumir komu með hangikjöt með sér, sem þeir notuðu framan af vertíð.
Barðstrendingar geymdu báta sína fram að vertíð innst í Patreksfirði; við árósana á Skeiðseyri; sléttri grasigróinni eyri vestan fjarðarins, sem nú hefur að mestu verið tekin til ofaníburðar.  Þeir standsettu bátana áður en þeir komu í Verið“.

„Segðu mér; var nokkurt eftirlit með sjóhæfni þeirra; nokkur skipaskoðun“?
„Það var engin skipaskoðun fyrr en á seinni árum; líklega ekki fyrr en 1912 – 1914.  Á seinustu árum var skráð á bátana og tryggingagjöld greidd; nokkru áður en útgerð lagðist þarna niður“.

Svo var beðið færis
„Þegar menn höfðu  búið að sér var aðeins beðið færis að fara í róður.  Færu menn í róður áður en fiskur gekk á grunnmið var róið djúpt og verið tvö sjávarföll í róðrinum, eða 12 tíma.  Eftir að fiskur gekk á grunnmið; lóðamiðin; „sandinn“ eins og það var kallað í Kollsvík, var venja að róa eftir því sem stóð á flóði eða fjöru, og aldrei öðruvísi.  Þá var verið aðeins eitt fall; þ.e. milli flóðs og fjöru.  Fiskinum var komið í „ruðning“, síðan var farið í búðina og hitað kaffi og á eftir var jafnvel byrjuð aðgerð.  Það var ekkert hægt að aðhafast (úti á miðunum) fyrr en fór að lina í strauminn.  Allajafna var tvíróið.
Þegar komið var úr seinni róðrinum var gert að.  Hausarnir settir á reit; steinbíturinn í hjalla og þorskurinn í salt.  Steinbítur á lóð var miklu horaðri og var hertur og notaður fyrir skepnur ef hann var mjög magur.  Seinni hluta vertíðar; um messudagana, var kominn feitur steinbítur, kallaður „messudagasteinbítur“.  Aðkomumenn urðu að salta síðustu róðrana, því öðruvísi var ekki hægt að flytja aflann“.

Fjórum sinnum dag hvern
„Árið 1894 var byrjað með lóðir í Kollsvík.  Venjan var að línulengdin væri ekki nema 10 lóðir, eða 60 faðmar hver lóð.  Þá voru 2 álnir milli króka.  Það var beitt í landi og línan lögð undan straumi, og legið yfir henni þangað til farið var að lina í fallinu.  Þá var byrjað að draga sama enda og lokið var við að leggja.  Þá dregið og beitt út; þ.e. línan var ekki dregin inn í bátinn, heldur dregin með borði; fiskurinn tekinn og línan síðan beitt og lögð jafnóðum aftur og hún var dregin.  Síðan var enn legið við sama enda þar til straumaskipti voru.  Línan var svo látin liggja meðan farið var í land.  Í seinni róðrinum var einnig dregið tvisvar og línan tekin upp í seinna skiptið og beitt í landi.  Það var því dregið og beitt fjórum sinnum á hverjum degi“.

Ekki hlýtt verk
„Hvar fenguð þið beitu“?
„Beitan var mestmegnis skelfiskur.  Áður var þó einnig höfð til beitu lifur og gota úr hrognkelsum, og gormur; steinbítsgormur; þ.e. garnir úr steinbít en ekki „buddan“; steinbítsmaginn.

Megnið af skelinni var kúfiskur.  Stundum var hann plægður upp.  Voru þá tveir bátar saman og var annar fastur, en hinn flutti út plóginn.  Síðan dró sá bátur sem lá fastur plóginn, þar til hann hrökk upp; hætti að grafa sig í sandinn.  Þá var plógurinn dreginn upp í lausa bátinn og skelin losuð úr pokanum.  Stundum var haft spil í landi; róið út með plóginn og hann síðan dreginn að landi; þá þurfti lengri plógstreng.  Ýmist var notað gangspil eða spil handsnúið með tveim sveifum.
Í þriðja lagi var svo farið í Bug; þ.e. inn fyrir Sandoddann í Sauðlauksdal, og skelin grafin upp með höndum.  Á stórum fjörum mátti taka skel á þurru, en á smærri fjöru varð að vasla í sjó.  Það gat gengið vel í sólskini og þurru veðri.  Fyrst þegar ég var háseti; á fermingarárinu mínu, var veðrið ekki hlýrra en það að ís lagði á fjöruna þegar féll út; það var næturfjara.  Það var ekki hlýtt verk, og tekjulítil aðferð.  Það þótti gott ef maðurinn gróf upp 2-3 tunnupoka yfir fjöruna“.

Að lenda á gljánni
„Hvernig voru miðin; og aflinn“?
„Afli var misjafn; og misjafn milli manna.  Fyrir utan þarabeltið er sandfláki út, en einnig eru þar hleinar sem þurfti að gæt sín á; bæði með veiðarfæri og eins braut á þeim þegar skyndilega brimaði.
Það voru ýmis mið, grynningar og hleinar, sem þótti best að þræða með.  Þeir sem lentu á miðjum sandi; „gljánni“, fengu minni fisk.  Oft var því þrifið til ára til að ná bestu miðunum.  Sumir voru lagnir á að vera árrisulli en hinir, og fljótir út.

Það sem ég sagði þér áðan, um róðrafjöldann, var venjan; en stundum voru líka 4 – 5 róðrar í lotu.  Uppstigningardagur var haldinn helgur og róið að kvöldi uppstigningardags; og síðan í lotu fram að helgi.  Þetta var kallað „uppstigningardagsruna“.  Það kom oft fyrir, einkum ef landlegur höfðu verið og helgi fór í hönd, að tekin var svona lota“.

Kaffi – spil – bækur – bolti – glímur
„Hvað gerðu menn annað í landlegum“?
„Í landlegum vegna hvassviðris eða brims lá það fyrst fyrir að sofa út, væru menn þreyttir.  Búðirnar urðu að geyma allan fjöldann ef vont var veður.  Heimamenn fóru heim á bæina, og þá stundum til annarra starfa.
Það var fátt um skemmtanir hjá aðkomumönnum.  Hásetar hjá heimamönnum fóru oft heim með þeim á landlegudögum og unnu að móskurði.  Oft gengu menn milli búða og þáðu kaffi hvor hjá öðrum.  Oft kom það fyrir, þótt ekki væri err í mánuðinum, að menn tóku upp spil sér til dægrastyttingar.  Aftur fóru ungu mennirnir út á slétta bala (þar af komið nafnið „Strákamelur“) og reyndu með sér, t.d. í glímu, eða fóru í handbolta og fótbolta.  Það voru margir leiknir í handbolta; þeir þóttu bestir í hvoru liði sem voru leiknir að grípa.  Það voru litlir boltar.  Fótbolti var ekki nema seinustu árin.
Einstöku menn kváðu rímur.  Oft var sungið í búðunum.  Dálítið hrafl höfðu menn með sér af bókum.  Mörg vísan varð til í Verinu“.

Kvæði og vín
„Já, það var mikið kveðið í Kollsvíkurveri; einkum um það broslega sem fyrir kom.  Býst við að flest sé það gleymt; þótt þetta væru dægurflugur voru innanum vel gerðar og prenthæfar vísur.  Um skáld var lítið að ræða; helst var það Pétur Jónsson frá Stökkum“.

„Var mikið drukkið í Verinu“?
„Drukkið!  Ég minnist þess ekki að ég sæi vín á manni í Verinu.  Hér starfaði þá ungmennafélag sem Valdimar Össurarson var driffjöðrin í.  Hann gekkst fyrir bindindisstarfi; bæði á vín og tóbak, og mun enginn maður í sveitinni hafa notað vín eða tóbak.
Þegar ég var stálpaður fannst rauðvínstunna á reki.  Hún var flutt á land í Kollsvík.  Hreppstjórinn kom og lét bjóða í.  Þetta var ekki sterkt vín.  Seinna rak spíratunnu á Rauðasandi.  Hreppstjórinn bjó þar, og það er sagt að ryðgað hefði á hana gat og allur spíritusinn lekið niður!  Þá voru ekki nema 3 – 4 menn í sveitinni sem langaði í vín“.

Hver stund notuð
„Og hvenær lauk vertíðinni“?
"Vertíðin byrjaði venjulega um sumarmálin og lauk yfirleitt á fyrstu dögum júlímánaðar.  Þannig að menn væru komnir heim um 12. helgi sumars.
Heimamenn hættu aldrei róðrum yfir sumarið.  Þá voru stundum aðeins 3 á bát, og eingöngu notuð handfæri.  Hver landlegustund var notuð við heimilisstörf.  Stundum var karlmaður allt sumarið við heyvinnu og stundum var slegið niður róðri ef þurfti að þurrka mikið hey.  Ef vel gaf var róið fram undir veturnætur.  Mér finnst að frekar hafi verið stillur á haustin áður fyrr.  Oft var þá góður haustafli þegar fiskur fór að gefa sig til.  Þá var hann að fara, og aflaðist þá oft ágætlega.  Þá var dag farið að stytta og því verið á sjónum myrkranna á milli, og aðgerð framkvæmd við ljós“.

Dragnót ógæfan
„Þú sagðir að fiskurinn hefði verið að fara...“.
„Já, hér er flágrynni; landgrunninu hallar afarhægt.  Hér snardýpkar ekki fyrr en við Víkurál, sem er um 9 stunda ferð frá Patreksfirði.  Á öllu grunninu verður fisklaust á veturnóttum.  En meðan firðirnir voru ekki urnir upp, var fiskur í Flóanum, einkum ýsa, fram undir jól; bæði í Arnarfjarðarflóa og Patreksfjarðarflóa; sérstaklega Molduxadýpi.
Þessu hefur öllu hallað á ógæfuhlið síðan dragnótin kom til sögunnar.  Meðan dragnótaveiðar voru ótakmarkaðar var orðið fisklaust að kalla inni í fjörðunum.  Svo voru þær bannaðar og þá kom fiskurinn aftur.  Þegar dragnótaveiðar voru leyfðar á ný var uppgripaafli fyrsta sumarið, en annað og þriðja sumarið hefur dregið úr aflanum“.

Verslunarhættir
„Þú hefur ekki enn minnst á verðlag, né hvert aflinn var seldur.  Var allur aflinn hertur“?
„Nei, þorskur var saltaður; stundum verkaður heima, og venjulega fluttur til Patreksfjarðar.  Sigurður Bachmann kaupmaður tók fisk í umboðssölu.  Stundum var hann fluttur beint til Ísafjarðar.  Eftir að fyrsta pöntunarfélagið í Rauðasandshreppi tók til starfa var saltfiskurinn verkaður heima; pakkaður þar og látinn í útlend flutningaskip sem tóku hann hér á Víkunum.
Hausar og hryggir voru hertir.  Þorskhausar voru mikið notaðir til matar, en steinbítshausar voru þó betri.  Hausar og hryggir voru einnig fóðurbætir bænda hér.  Lifrin var líka oftast hirt á tunnur og látin renna sjálf.  Var henni blandað í hey á veturna“.

Föst vöruskipti
„Mér skilst að þið hafið fyrst og fremst fiskað steinbít; hvaða verð var áhonum hertum þá“?
"Steinbítur þekktist ekki sem verslunarvara til kaupmanna, heldur eingöngu látinn til bænda sem ekki bjuggu við sjó.  Verðið minnir mig að væri 20 aurar steinbíturinn.  Margir komu í skreiðarferðir; t.d. man ég eftir sr. Guðmundi í Gufudal með stóra hestalest í skreiðarferð hingað.  Viðskiptin voru einkum við bændur í sveitum við Breiðafjörð.  Oftast voru það fastir viðskiptamenn:  Þeir fengu steinbít og létu smjör og tólg.  Þetta voru áreiðanlegir menn.  Ég man aðeins eftir einni undantekningu.  einu sinni fékk pabbi bréf frá manni sem ekki hafði skipti við hann áður.  Maðurinn pantaði steinbít og kvaðst skyldu standa í skilum; og endaði svo bréfið þannig:  „Að minnsta kosti skal ég borga daginn fyrir dómsdag“.  Hann fékk fiskinn, en greiðslan er ókomin enn; enda líka orðið dráttur á dómsdegi“!

Hákarlalegur
„Stunduðuð þið ekki líka hákarlalegur héðan“?
„Hákarlaútgerð héðan var búin fyrir mitt minni.  Áður voru hákarlaveiðar stundaðar héðan á báti sem hét Fönix.  Seinna keyptu Kollsvíkurmenn vélbát til flutninga sem þeir kölluðu líka Fönix.  Á hákarlatímanum var lifrin brædd og seld á tunnum.  Hákarlinn var hengdur upp, og þótti bestur með brennivíni.
Ég fór í tvær hákarlalegur.  Önnur heppnaðist ágætlega; við fengum mikinn hákarl og lifur, en í hinni var lítill afli.  Þær ferðir voru báðar frá Breiðavík.  Við fórum á tveimur stórum róðrarbátum með vél; Hrefnu og Tjaldi“.

Meiri velmegun
„Og hvernig var afkoma manna hér á þessum verbúðarárum“?
„Það þótti meiri velmegun í Kollsvík, Breiðavík og Látravík, eða þar sem sjór var sóttur, en á öðrum stöðum í Rauðasandshreppi.
Þegar ég man eftir var útgerð ekki orðin nema í Kollsvík aðallega.  Áður fyrr réru aðkomumenn frá Brunnum á Látum og Látranesi, og í Breiðavík voru aðkomubátar; t.d. einn bátur úr Hafnarfirði og annar úr Arnarfirði“.

„Stunduðuð þið Kollsvíkingar nokkuð fuglaveiði“?
„Já Kollsvíkingar stunduðu líka bjargferðir“.
„Þú segir mér frá þeim þætti seinna“.

Leita