Hér er lítillega getið nokkurra þeirra sem sannanlega eða mjög líklega hafa róið í Kollsvíkurveri.  Nokkrar heimildir eru um marga sem reru á blómatíma saltfiskverkunar í verinu milli 1890-1940, en minna vitað um útgerð á skreiðartímanum.  Í upphafi er örstutt ágrip verstöðu í Kollsvík og stiklað á ártölum.  Síðan eru fyrst taldir þeir fáu sem vitað er um fyrir 1890; en þeim sem reru 1890-1940 skipt eftir byggðarlögum.  Síðast eru taldir þeir sem róið hafa á tímum heimræðis; eftir að verstöðu lauk.  Vermönnum er raðað eftir fæðingardegi í hverjum flokki.

Efni:  (Flýtival með músarsmelli á flokk)

A.  Útræði í Kollsvík.  Stutt ágrip
B.  Stiklað á ártölum.
C.  Vermenn fyrri tíma.  Skreiðarverkun fyrir 1890.
D.  Kollsvíkingar 1890-1940
E.  Aðrir hreppsbúar 1890-1940
F.   Barðstrendingar 1890-1940
G.  Aðrir utanhreppsmenn 1890-1940
H.  Heimræði eftir 1940

Útræði í Kollsvík.  Stutt ágrip.

Í Kollsvík hefur vafalaust verið róið til fiskjar frá landnámstíð, líkt og í öðrum Útvíkum.  Lending er all sæmileg fyrir litla árabáta víða í víkinni, en öruggust að jafnaði í Kollsvíkurveri, þar sem hleinar og klakkar mynda svonefnt Lægi framan við lendinguna.  Fyrr á öldum var útgerð þó langmest sunnantil í víkinni; í svonefndu Láganúpsveri.  Láganúpur komst snemma í eigu höfðingja í Saurbæ, sem þar höfðu dágóðar tekjur af verkun og sölu skreiðar á Evrópumarkað.  Skammt undan landi í Kollsvík eru auðug fiskimið; bæði þorsks og steinbíts, einkum að vori og sumri þegar fiskigöngur koma sunnanað.  Fjarlægð á fiskimið skipti miklu máli meðan árar voru helsta hreyfiafl báta.  Meiri útgerð fyrrum úr Láganúpsveri kann að skýrast af því að sandur hafi e.t.v. verið meiri í Kollsvíkurveri fyrrum, og því erfiðara um skreiðarverkun.  Og þó að lending sé mun öruggari í Kollsvíkurveri þá hafa mannslíf líklega e.t.v. þótt eðlileg fórn í þessari tekjuöflun höfðingjanna.  Líklegt er að í Láganúpsveri hafi bátar verið settir upp í sæbarðri stórgrýtisfjöru.  Það var þó útilokað í miklum sjó, og lýsir Árni Magnússon því í Jarðabók sinni árið 1703 að menn seili þá fiskinn í land í Láganúpsveri en flytji bátana í örugga lendingu í Kollsvíkurveri.  Láganúpsver var líklega langstærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða frá upphafi skreiðarverkunar og þar til dró úr henni á 17.öld.  Litlar sem engar verminjar sjást í Láganúpsveri, en í rofsári í Bökkunum sjást fiskbeinalög gríðar umfangsmikla útgerð og athafnasemi.  Þar telst útgerð lokið að fullu 1880

Upp úr 1880 tekur útræði í Kollsvíkurveri að aukast, en ætla má að heimræði hafi þar verið allmikið frá upphafi.  Jafnan hefur þó verið álitið að þar hafi fremur verið heimver (útræði heimamanna) en útver (útræði aðkomubáta).  Líklega hefur þar þó jafnan verið blönduð verstöð, líkt og Jarðabókin greinir frá.  Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi lýsir þróuninni þannig: 

„Á áratugnum 1870-1880 færist verstöðin frá Láganúpi og að Kollsvíkurlendingu, og er svo komið 1880 að enginn bátur er gerður út frá Láganúpi, en allmargir bátar róa úr Kollsvíkurveri.  Var Kollsvíkurver síðan aðalverstöð Rauðasandshrepps um hálfa öld, eða fram um 1930.  En síðan fer mjög að draga úr útgerð þar, svo sem á öðrum slíkum stöðum víða um land, og leggst niður að mestu um 1940“. 

Össur Guðbjartsson á Láganúpi segir þetta um niðurlag útgerðar í Verinu:

„Um 1940 voru enn gerðir út sex eða sjö heimabátar frá bæjunum í Kollsvík. Þá voru komnar vélar í þessa báta en á árunum milli 1930 og 1940 var enn deilt af kappi í Kollsvík um það hvort borgaði sig að fá vélar í bátana, enda stutt á miðin.  Á árum heimsstyrjaldarinnar síðari var farið að fara með aflann úr hverjum róðri inn á Patreksfjörð og honum landað í skip sem sigldu með hann til Englands. Fengu menn þá strax greitt fyrir aflann í peningum og var það nýjung. Að stríðinu loknu var sjósókn að mestu hætt frá Kollsvík nema hvað menn skutust fram stöku sinnum til að fá sér í soðið“ (Kjartan Ólafsson; skv viðtali við ÖG Láganúpi).

Stiklað á ártölum

880  Kollur landnámsmaður rær líklega fyrstur til fiskjar í Kollsvík

1300  Skreiðarútflutningur hefst; uppgangur Hansakaupmanna í skreiðarverslun.

1415  Englendingar sækja á Íslandsmið, fiska á línu; eiga m.a. viðskipti við Vestfirðinga.

1419  Láganúpur kominn í eigu Saurbæjarkirkju (talin eign Guðmundar ríka 1446).

1473  Dregur úr siglingum og verslun Englendinga.

1480  Kollsvík var í eigu Björns ríka sem enskir drápu; gengur nú til Einars sonar hans.

1490  Píningsdómur bannar vermönnum að dvelja í búðum.

1536  Ögmundur Skálholtsbiskup eigandi Saurbæjar og útjarða, m.a. Láganúps

1540  Hamborgarkaupmenn ráða lögum og lofum í skreiðarverslun.

1540  Skipadómur bannar kaupmönnum vetursetu; kóngur ásælist skreiðarverslun.

1554  Eggert lögmaður Hannesson fær Saurbæ, hefur sambönd við Hamborgarkaupmenn.

1567  Marköngladómur Magnúsar prúða Jónssonar bannar króka háseta á fiskilínum.

1579  Ránið í Saurbæ.  Eggert Hannesson fer úr landi; Magnús prúði í Saurbæ.

1581  Vopnadómur Magnúsar prúða.  Bændur vopnbúist; viðvörunarkerfi á fjallatindum.

1581  Lóðanotkun veldur deilum; skakveiðimenn óttast að lóðir fæli fisk af miðum.

1616  Baskar ræna fiskibáta á Útvíkum um leið og þeir halda heim eftir Baskavígin.

1619  Danskt verslunarfélag fær skreiðarverslun úr höndum Þjóðverja.

1620  Brunnaverstöð leggst af vegna sandfoks og vatnsleysis.

1640  Konungsboð um rétta meðhöndlun skreiðar.

1650  Eggert Björnsson í Saurbæ stofnar hjáleigur, m.a. Grundir og Hóla í Kollsvík.

1652  Hospítalsfiskar skikkaðir af öllum aflaskiptun, renna til nýstofnaðra spítala.

1658  Fyrsta skráða banaslys í Kollsvík; Jón Oddsson í Kollsvík drukknar.

1673  Bjarni Jónsson, síðar Kollsvíkurbóndi, smíðar sér haffæran teinæring.

1681  Frakkar auka sókn sína á Íslandsmið, styrktir af Loðvík sólkonungi.

1681  Guðrún Eggertsdóttir erfir Saurbæjareignir.  Verður auðugasta kona Íslands.

1684  Verslun boðin upp; Jóhannes Klein fær Vatneyri; bændum bannað að skipta við aðra.

1695  Harðindi; hafís kominn suðurfyrir Bjarg; ördeyða þorsks; steinbítsafli góður í Víkum.

1703  Láganúpsveri hnignar vegna fiskileysis.  Lóðanotkun hefur lagst af.

1703  Segl notuð í Útvíkum, líkt og á Breiðafirði, en þekkist ekki norðar á Vestfjörðum.

1703  Guðrún í Saurbæ harður húsbóndi; leiguliðar kvaðaskyldir til róðra; dýr katlaleiga.

1722  Hollendingar á miðum; eiga mikla launverslun við landsmenn.

1746  Húsagatilskipun kóngs beinist að agaleysi og guðleysi í verstöðvum.

1763  Uppgripaafli í Útvíkum eftir fiskileysi og harðindi undangenginna ára.

1776  Kóngur reynir þilskipaútgerð á Vatneyri.  Mistekst vegna tortryggni hreppsbúa.

1781  Frumkvöðlar saltfiskverslunar; Bjarni Einarsson og Hölter í Rauðasandshreppi.

1797  Einar Jónsson flytur í Kollsvík; hreppstjóri og útvegsbóndi.

1802  Harðindaveturinn Klaki; hvalurinn Þæfingur róinn á land í Kollsvík

1806  Einar í Kollsvík meðal fyrstu skútueigenda hérlendis; með hlut í jaktinni Delphin.

1812  (ca)  Einar lætur skera hval; galdrasendingar Benedikts Gabríels.

1863  Hákarlaskipið Fönix smíðað fyrir Kollsvíkinga (síðar stækkaður í teinæring).

1870  Saltfiskur hækkar mjög í verði erlendis.

1880  Útgerð leggst af í Láganúpsveri; vöðubátar gerðir út í Kollsvíkurveri.

1881  Saltfiskverkun hafin í Útvíkum, bátar heimamanna; Sultur, Reitingur, Heppinn.

1890  Brunnaverstöð leggst af; hafði þá staðið síðara sinni frá því um 1720.

1890  Kúfiskplógur smíðaður af Einari Gíslasyni í Hringsdal.

1894  Lóðanotkun tekin upp í Kollsvíkurveri; á báti Hákonar Jónssonar; Færeyingi

1882  Hafin söltun þorsks til útflutnings; seinbítur hertur og nýttur á svæðinu.

1890  Heimabátar í Kollsvíkurveri gera út til söltunar; Sultur; Reytingur og Heppinn.

1890  Brunnaverstöð leggst af síðara sinni; róið var frá 1720.

1890  Kúfiskplógur smíðaður af Einari Gíslasyni í Hringsdal.

1894  Lóðanotkun hefst í Kollsvík; fyrst á Færeyingi, bát Hákonar Jónssonar.

1895  Útræði aðkomubáta hefst í Kollsvíkurveri.

1897  31 árabátur gerður út í Rauðasandshreppi; flestir í Kollsvík.

1898  Báturinn Ruth smíðaður fyrir Ólaf Halldórsson og Guðbjart Guðbjartsson.

1899  Fyrsti togari Íslendinga, Thor (síðar varðsk. Þór), gerður út í Rauðasandshreppi.

1899  Kúfiskur plægður í Skerbug og á Víkum til beitu á lóðir í Kollsvík.  Torfi smíðar plóg.

1900  25 bátar ganga úr Kollsvíkurveri (PJ o.fl); heimabátar og aðkomubátar.

1900  Gangspil notuð til að létta setningu báta.

1900  Ruðningur tekur breytingum; flatningur og stíur úr tré í stað steins áður.

1900  Gúmmístígvél fara að tíðkast í stað skinn- og roðskóa.

1900  Milljónafélagið byggir salthús í Kollsvíkurveri.

1900  Hákarlaskipið Fönix rifið; timbur notað í árefti.

1900  Keflavíkurver liðið undir lok; síðastur rær þar Sveinn Magnússon Lambavatni.

1900  Vaxandi skútuútgerð á Eyrum; 10-12 þilskip með 160-200 sjómönnum.

1900  Enskir togarar skarka „uppi í kálgörðum“, einkum inni á fjörðum.

1900  Þurrabúðir; Strákamelur og Grænamýri nú; Tröð 1891; Bakkar 1898; Nýlenda 1899.

1903  Fiskkaupendur á Eyrum; Björn M. Olsen; P.J.Thorsteinsson; Markús Snæbjörnsson.

1904  Torfi Jónsson drukknar í Snorralendingu; 6 bjargast er bát hvolfir í brimi.

1905  Báturinn Svalan smíðuð (eini varðveitti báturinn úr Kollsvíkurveri 2020).

1907  Tvær konur róa í Verinu; Guðný Ólafsdóttir 15 og Magðalena Össurardóttir 14 ára.

1907  Eyrum skipt úr Rauðasandshreppi; verða um sinn Patrekshreppur.

1908  Pöntunarfélag Rauðasandshrepps stofnað; Ólafur Ó Thorlacius framkvstj.

1909  Síðasta skreiðarlestin í Útvíkur; séra Guðmundur Guðmundsson í Djúpadal.

1913  Bátur ÁÁ í Kollsvíkurveri í hrakningum; bjargað af enskum togara.

1913  Togarinn British Empire strandar undir Hnífum; mannbjörg.

1913  Líkl. síðast róið úr Láturdalsverstöð.  Þar reru 12 bátar 1703; urðu þá líklega flestir.

1914  Milljónafélagið gjaldþrota; stærsta félag landsins; kemur illa við útvegsmenn í Verinu.

1914  Prímus til eldunar í stað hlóða og flatbrennara.

1915  Blómatími bátaútgerðar í hreppnun; 47 róðrarbátar með 170 mönnum.

1916  Stofnuð fiskideildin Víkingur í Útvíkum; deild í Fiskifélagi Íslands.

1918  Fiskverð hækkar í heimsófriðnum, en einnig tilkostnaður s.s. salt.

1918  Vélar í báta í Útvíkum; Hrefna og Tjaldur Breiðuvík; Kópur Látrum; Fönix Kollsvík.

1918  Umf. Vestri hleður lendingavörður fyrir Miðleið í Kollsvíkurveri.

1918  Frostaveturinn mikli; Látraröst undir ísum.

1919  Guðmundur Össurarson drukknar við lendingu í Kollsvíkurveri.

1920  Flutningaskipið Fönix smíðað fyrir Kollsvíkinga; 3,5 tn með vél.

1920  Síðasta hákarlalegan frá Breiðuvík og Látrum (eða næstsíðasta); á Hrefnu og Kóp

1920  Fiskideildin Víkingur sér um vöruflutninga í Útvíkur og yfir Patreksfjörð.

1921  Togarinn Croupier strandar við Blakknes; skip og menn farast.

1921  Sundkennsla Valdimars Össurarsonar í Kollsvík og víðar.

1922  Bátur hætt kominn í Kollsvíkurveri; giftusamleg nauðlending við Þórðarklett.

1924  Kollsvík enn stærsta verstöð Rauðasandshrepps, líkt og ætíð endranær (KJK).

1924  Pöntunarfélag Rauðasandshrepps gjaldþrota; SÍS gengur að ábyrgðum bænda.

1924  Þurrabúðin Eva í Kollsvíkurveri; Magnús Jónsson rær á Nóa.

1925  Pöntunarfélagið Patrekur stofnað (síðar Kaupfélag Rauðsendinga). 

1927  Fækkar í Kollsvíkurveri; þar róa nú 7 aðkomubátar, auk heimabáta.

1928  Brimlending lánast giftusamlega í Verinu; Árni Dagbjartsson á Otri.

1931  Sláturfélagið Örlygur stofnað fyrir utanverðan Rauðasandshrepp.

1932  Enn eru skinnklæði notuð.  Einar á Láganúpi saumar brók fyrir Grím á Grundum.

1933  Ásgeir Erlendsson lætur smíða keflahlunna; taka við af hvalbeinshlunnum.

1933  Fönix rekur upp og eyðileggst; hafði verið seldur á Patreksfjörð.

1934  Enn róa 19 onir bátar úr Útvíkum; voru 15 árið áður; afla 75 smál.

1940  Útræði aðkomubáta aflagt í Kollsvíkurveri; eingöngu heimræði.

1940  Heimabátar sigla með afla hvers dags á Patreksfjörð, í skip til útflutnings.

1940  Enn salta Breiðvíkingar í sínu veri.

1943  Vél sett í Rut í Kollsvík; Guðbjartur a Láganúpi gerir hana út ásamt sonum sínum.

1947  Breiðavíkurverstöð leggst af; síðastur rær þar Guðmundur Kristjánsson o.fl.

 

Vermenn fyrri tíma.  Skreiðarverkun fyrir 1890

Kollur landnámsmaður, Kollsvík  Líklega kringum 880.  Kom til landsins í trúboðserindum með Örlygi Hrappssyni fóstbróður sínum, og voru á sínu skipinu hvor.  Í leiðangrinum voru einnig Þórólfur spörr sem nam mestallt það svæði sem síðar var Rauðasandshreppur og bræðurnir Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma sem námu þar norður af.  Þeir ætluðu á Kjalarnes en hröktust vestur fyrir Bjarg í ofviðri, þar sem Kollur strandaði skipi sínu á Arnarboða í Kollsvík og nam land í víkinni.  Hann hefur vafalítið sest að norðantil í víkinni og orðið fyrstur manna til að gera út frá Kollsvíkurveri, þó ekkert sé ljóst um bát hans eða áhöfn.  (Landnámabók og munnmæli).

Jón Oddsson, Kollsvík.  -1658.  Lítið vitað um hann annað en að hann bjó í Kollsvík og drukknaði í róðri 1658, og hefur því vafalítið róið frá Kollsvíkurveri.  Faðir líklega Oddur Jónsson sem bjó í Kollsvík 1570.  Sonur hans og Þorgerðar Gunnarsdóttur frá Breiðuvík var Gunnar Jónsson sem bjó í Kollsvík um 1660. (TÓ; Ábúendatal). 

Bjarni Jónsson, Kollsvík.   1654-173?  Bóndi í Kollsvík, formaður og skipasmiður.  Bjó fyrst á Sellátrum, Tálknafirði, en síðan í 40 ár í Kollsvík.  Einn Sellátrabræðra; bróðir Halldórs bónda á Láganúpi og Jóns í Hænuvík.  Bjarni var skipasmiður mikill og formaður.  Fór margar viðarferðir á Strandir á teinæringi, sem hann smíðaði 19 ára gamall.  K. Sigríður Einarsdóttir; 6 börn.  (TÓ; Ábúendatal). 

Jón Bjarnason, Kollsvík  Bóndi þar við manntalið 1703, annars ekkert um hann vitað.  Í ljósi nafns gæti hann hafa verið skyldur Bjarna Jónssyni (hér ofar), en TÓ telur hann ekki son Bjarna.  „Heimabúenda skip ganga nú tvö af hvörs hendi; alt smábátar, og þriðji bátur sem bróðir Jóns á og er formaður fyrir.  Þegar veður er ógæft gengur ei  nema eitt af hvörs bónda hendi, og fleyta þá hvörju því hásetar allir af bátunum“ (ÁM; Jarðabók).

Halldór Jónsson, Láganúpi. Bóndi þar 1703; bróðir Bjarna í Kollsvík og einn Sellátrabræðra.  "Halldór er leiguliði Guðrúnar Eggertsdóttur.  Hann gerir út eigið 3ja manna far í Láganúpsveri", en  Á.M. segir að stærri bátar væru heppilegri.  K.  Sæborg Ólafsdóttir; 2 börn, auk eins sem Halldór á með annarri konu.

Ólafur Jónsson, Hólum.  1703 bóndi á Hólum, sem stofnaðir voru sem hjáleiga í Láganúpslandi um 1650; að því er virðist beinlínis í því skyni að tryggja formann á bát Eggerts Björnssonar landsdrottins í Saurbæ í vertöð hans; Láganúpsveri.  "Nú í eigu Guðrúnar Eggertsdóttur.  Ólafur er í kvaðarnafni formaður á 3ja manna fari Guðrúnar í Láganúpsveri; hefur í formannslaun hausana af veiðinni en þarf að leggja sér til segl, vilji hann nota slíkt.  Við fær hann til húsbygginga, en ónógan" segir Á.M. í Jarðabókinni 1703.  Hefur þó byggt upp ágætlega; m.a. Hesthúsið á Hólum sem enn stendur; elsta atvinnuhúsnæði á Íslandi.  K.  Salvör Gunnarsdóttir; 2 börn.  Talið er að Hólar hafi lagst í eyði í stórubólu 1707, en ekki er vitað um örlög Ólafs eða hans fólks.

Guðbrandur Diðriksson, Grundum.  1703 bóndi á Grundum, sem Eggert Björnsson í Saurbæ stofnaði sem hjáleigu 50 árum fyrr og byggði upp úr stekk, en nú í eigu Guðrúnar dóttur hans.  Sömu kvaðir og á Ólafi Hólabónda, varðandi formennsku á 3ja manna fari Guðrúnar í Láganúpsveri, og sömu launakjör.  (Stærri bátar væru heppilegri segir ÁM í neðanmálsgrein).  Annars er ekkert um Guðbrand vitað.

Hjalti Þorgeirsson, Krókshúsum  (30.04.1840-14-10-1917).  Fæddur á Krossi á Barðaströnd; var víða vinnumaður og til sjós.  Bóndi í Krókshúsum 1876-1882.  Ekkjumaður eftir 1880.  Vinnumaður í Vatnsdal 1901.  Síðast lengi vinnumaður á Sjöundá (a.m.k. frá 1906).
K. Etilríður Guðmundsdóttir; þau áttu 3 börn en Hjalti að auki 2 síðar.
Hjalti var stór og tveggja manna maki að burðum; smámæltur mjög (GE).  Saga spannst um viðureign hans við draug sem við hann var síðan kenndur; Hjaltadrauginn.  Hann hafði verið á vertíð undir Jökli (líkl. í Dritvík) um tvítugt.  Honum þótti maður einn fara illa með ungan pilt og tók rækilega í lurginn á honum.  Sá heitaðist við Hjalta.  Sá maður drukknaði nokkru síðar ásamt tveimur sonum sínum, og rak lík hans inn um Bæjarós; en á það vantaði aðra höndina.  Hjalti var þá fjármaður í Saurbæ og réðst afturganga mannsins á hann.  Hjalti réði samt niðurlögum hennar.  Hann var við sjóróðra í Kollsvík þegar líkið var jarðað.  Var hann við jarðarförina en áður en gröfinni var lokað lét hann stóran stein á kistuna.  (MG; Úr vesturb.Barð; ÍÍ; Ísmús; Guðmundur Einarsson; Kalt er við kórbak).  GE var með Hjalta á skútunni Pollux um 1907 og sagði að hann hafi brugðist reiður við, inntur eftir sögunni.  Sagði Hjalti þetta vera „eins og önnur haugalygin úr Rúnka skratta“!  (Líkl. Runólfur Brynjólfsson, Kirkjuhvammi).  Engu að síður er það efalítið satt í sögunni að Hjalti hafi róið úr Kollsvíkurveri.  ÍÍ telur glímuna við drauginn hafa átt sér stað 1865-70, er Hjalti var vinnumaður í Saurbæ.  Á þeim árum hefur hann þá verið við róðra í Kollsvíkurveri.   Þá var þar einkum heimræði, en líklega hafa Saurbæjarbændur ávallt haldið þeim sið, frá því að þeir gerðu út í Láganúpsveri, að senda vinnumenn sína til róðra í Kollsvíkurveri.

Einar Jónsson, Kollsvík.  1759-13.12.1836.  Ólst upp í Gröf í Þorskafirði.  Var um tíma á Vatneyri, þó ekki bóndi.  Bóndi og útvegsmaður í Kollsvík.  „Í tíð Einars reru allir bátar í víkinni frá Kollsvíkurveri“ (TÓ).  „Vitur maður og víðlesinn og búhöldur mikill“ (GK).  Ættfaðir Kollsvíkurættar.  Hreppstjóri og sáttagerðarmaður.  Einna fyrstur Íslendinga til að eiga hlut í skútuútgerð.  Stundaði síðastur Íslendinga rauðablástur járns.  Sögur ganga af honum, m.a. hvalskurði og viðureign við galdramenn.  (TÓ; Ábúendatal; Kollsvíkurætt o.fl.).  K. Guðrún Jónsdóttir; 7 börn.

Halldór Einarsson, Kollsvík.  1795-30.08.1855.  Sonur Einars Jónssonar (hér að ofan).  Bóndi í Kollsvík 1837-1855.  Skipstjóri og bóndi á Saurlátrum en síðast í Grunnasundsnesi á Snæfellsnesi.  Hefur því að öllum líkindum stundað útveg í Kollsvíkurveri.  K Halldóra Tómasdóttir.  8 börn.

 

Kollsvíkingar  í Verinu á tímum saltfiskverkunar og lóðanotkunar 1890-1940

Guðbjartur Ólafsson, Kollsvík.  07.09.1830-26.08.1879.  Bóndi og útvegsmaður í Kollsvík.  Kringum 1890 gerðu þau hjónin út bátinn „Reiting“ úr Kollsvíkurveri, en formaður á honum varð síðar sonur þeirra Ólafur Tómas Guðbjartsson (sjá neðar).  (GG).  K. Guðrún Anna Magðalena Halldórsdóttir (Einarssonar, hér framar); 17 börn.  Guðbjartur lést reyndar fyrir þann tímaramma sem þessi kafli tekur til, en hann er talinn (GG sonur hans) hafa verið meðal hinna fyrstu sem hófu saltfiskverkun í Verinu og er því talinn hér með.

Halldór Ólafsson, Grundum.  11.04.1841-05.05.1905.  Bóndi á Grundum 1870-1905.  Þau hjón áttu m.a. og gerðu út sexæringinn „Fönix“ (eldri) sem síðar var stækkaður í teinæring og lengi gerður út til hákarlaveiða.  Var Halldór skipstjóri á honum.  Einnig gerði Halldór út bátinn „Heppinn“ um 1890 og var formaður á báðum.  (TÓ; ábúendatal; KJK; Kollsvíkurver; GG).  K.  Halldóra Mikalína Halldórsdóttir (Einarssonar, Kollsvík, sjá framar); 10 börn.

bjarni gunnlaugssonBjarni Gunnlaugsson, Tröð 08.03.1848-09.08.1919.  Bóndi í Breiðuvík 1885-88.  Stofnaði þurrabýlið Tröð í Kollsvík og bjó þar 1891-1911.  Gerði út bátinn „Grána“ í Kollsvíkurveri, ásamt Ólafi Ásbjörnssyni á Láganúpi.  Síðar verkamaður á Borðeyri.  K. Sigríður Ásbjörnsdóttir; 4 börn. 

Torfi Jónsson, Kollsvík.  01.07.1857-05.04.1904.  Bóndi í Kollsvík.  Eigandi og formaður á bátunum „Sulti“, „Borgu“ og „Iðunni“ í Kollsvíkurveri.  Sultur var meðal báta sem gerðir voru út í Verinu um 1890.  Hann mun fyrst hafa verið í eigu föður Torfa; Jóns Torfasonar á Hnjóti (GG).  Torfi mun hafa smíðað kúfiskplóg úr skeifnajárni (að sögn ÓM Hnjóti) en með honum var plægt undir Breiðavíkurrifi. 

Torfi drukknaði í brimlendingu í Snorralendingu er hann var að koma úr Eyrarferð; líklega á Borgu.  K.  Guðbjörg Ólína Guðbjartsdóttir (Ólafssonar, sjá hér ofar); 13 börn. 

Kristján Ásbjörnsson, Grundum.  25.08.1859-25.11.1926.  Bóndi á Grundum.  Eftir að þau Guðbjörg giftust, 1889, reri Kristján hjá Halldóri Ólafssyni (sjá framar) tengdaföður sínum, en tók við formennsku þegar hann hætti.  „Þolinn og þaulsætinn (Vöe).  Fór í hákarlalegur frá 18 ára aldri.  Kristján var eigandi og formaður á bátunum „Heppinn“ og „Fríða“.  Var Heppinn stærri bátur sem róið var á vertíðinni, en Fríða minni og var róið síðsumars.  Albert sonur hans tók síðar við formennsku á Heppinn.  Kristján var á báti með Torfa Jónssyni sem hlekktist á í landtöku í Snorralendingu 05.04.1904 með þeim afleiðingum að Torfi drukknaði. 

K.  Guðbjörg Halldórsdóttir (Ólafssonar á Grundum, sjá ofar); 11 börn. 

Gísli Guðbjartsson, Grænumýri.  20.10.1863-30.01.1948.  Sonur Guðbjartar Ólafssonar (sjá ofar); K. Ólína Þorgrímsdóttir; 3 börn.  Gísli stofnaði fyrst býlið Berg, en síðar Grænumýri; hvorttveggja í Kollsvíkurlandi.  Bjuggu á Koti frá 1925.  Eigandi bátsins „Snarfara“ með Össuri bróður sínum og gerði einnig út bátinn „Björg“ í Kollsvíkurveri, og bátinn „Goluna“.  (Uppnefndur Korkanes).  GJH reri á þeim síðastnefnda með honum 1924.

Magnús Jónsson, Kollsvíkurveri.  08.07.1865-15.08.1942.  Bjó í Krossadal og Breiðuvík áður en hann flutti í Kollsvík 1924 ásamt Guðrúnu Ólafsdóttur konu sinni.  Bjuggu í búðinni Evu, efst í Kollsvíkurveri, en þaðan gerði hann út lítinn bát sinn;  Nóa.  Eftir lát Guðrúnar 1932 fluttist Magnús að Vatnsdal og var þar vinnumaður til æviloka. (TÓ o.fl.).

Gestur Jósepsson, Strákamel.  19.08.1866-31.01.1946.  Ættaður úr Múlasveit.  Vinnumaður á Hvallátrum en bjó síðan á Strákamel (Gestarmel) ofan Kollsvíkurvers 1906-1924, og reri í verinu.  Gestur var á báti með Torfa Jónssyni sem hlekktist á í landtöku í Snorralendingu 05.04.1904 með þeim afleiðingum að Torfi drukknaði.  Gestur var einnig á Guðrúnu, báti Guðbjartar Þorgrímssonar á Hvallátrum, er þeir lentu í miklum hrakningum 25.09.1909 og björguðust upp í Keflavík.  (ÖG; Þokuróður, skráð eftir frásögn Guðbjartar). 

K.  Ingibjörg Runólfsdóttir (Brynjólfssonar sterka); 2 börn. 

ossur anton gudbjartssonÖssur Anton Guðbjartsson, Kollsvík.  31.10.1866-10.04.1950 (Ólafssonar hér ofar).  Bóndi í Kollsvík 1895-1914; síðan á Láganúpi til 1927 er hann fluttist að Mýrum í Dýrafirði.  Formaður og eigandi bátanna „Guðrúnar“ (stærri; gerð út um 1900) og „Báru“ (minni) í Kollsvíkurveri og gerði út bátinn „Snarfara“ með Gísla bróður sínum.  Össur var á báti með Torfa Jónssyni, mági sínum, sem hlekktist á í landtöku í Snorralendingu 05.04.1904 með þeim afleiðingum að Torfi drukknaði. 

K.  Anna Guðrún Jónsdóttir; 12 börn.

Ólafur Ásbjörnsson, Láganúpi.  17.07.1868-03.05.1924.  Bóndi Láganúpi 1895-1914; uppalinn þar.  Fluttist síða að Vesturbotni með sína fjölskyldu.  Eigandi og formaður bátsins „Grána“ í Kollsvíkurveri um 1900, í félagi við Bjarna Gunnlaugsson í Tröð.  Gerði einnig út bátinn „Kristín“  í Kollsvíkurveri. 

hakon jonssonHákon Jónsson, Hnjóti.  31.05.1869-12.09.1918.  Bróðir Torfa í Kollsvík (hér ofar).  Bóndi á Hnjóti 1901-1918; oddviti.  Gerði út bátinn Færeying í Kollsvíkurveri.  Hákon varð fyrstur manna til að nota lóðir í Kollsvíkurveri (a.m.k. á síðari öldum): vorið 1894 á bát hans „Færeyingi“.  Þá var háseti hans Þórður Gunnlaugsson (sjá síðar) sem þekkti lóðir frá Ísafjarðardjúpi.  Einnig var þar háseti Halldór Benjamínsson, síðar b. í Keflavík.  Færeying hafði hann keypt af Færeyingum sem reru frá Láturdal sumarið 1893 (GG).  Formaður á Færeying var Hákon, og Halldór Benjamínsson, síðar bóndi í Keflavík.  Vorið 2013 var Hákon formaður á bát í Láturdal. 

K.  Málfríður Guðbjartsdóttir (Ólafss. í Kollsv.); 5 börn.

Steinn Bjarnason, Grundabökkum.  05.11.1871-12.01.1933.  Sonur Bjarna Bjarnasonar kennara á Grundum, Tungu og Látrum; bróðir Sumarliða, Þórarins og Bærings.  Steinn bjó með Önnu móður sinni og Þórarni bróður sínum á Grundabökkum 1898-1930 og reri með Þórarni í Kollsvíkurveri.  Síðar vkm Patreksfirði.  Óg. bl. 

olafur halldorsson grundumÓlafur Halldórsson, Grundum.  21.12.1871-11.12.1951; (Ólafssonar á Grundum sjá ofar).  Alla tíð vinnumaður á Grundum og gerði út bátinn „Rut“ í Kollsvíkurveri í félagi við frænda sinn; Guðbjart Guðbjartsson í Tröð; síðar á Láganúpi.  Var Ólafur formaður á Rut árið 1900 (GG).  Áður hafði hann verið formaður á hákarlaskipi foreldra sinna; Fönix, og tók við formennsku af föður sínum.  Ólafur stóð fyrir björgunartilraun eftir að báti Torfa Jónssonar hlekktist á í Snorralendingu 05.04.1904.  Lenti þá í hrakningum á báti sínum og bjargaðist naumlega inn í Láturdal. (Sjóslysaannáll TÓ). 

Ógiftur og barnlaus.  Bókbindari, hreppsnefndarmaður og meðhjálpari.  Síðast í Vatnsdal. 

Jens Jónsson, Nýlendu.  01.05.1872- um 1930.  Frá Kirkjubóli í Gufudalssveit.  Stofnaði ásamt konu sinni; Ottelíu Guðbjartsdóttur (Ólafssonar í Kollsvík), þurrabýlið Nýlendu (síðar Stekkjarmel) í Kollsvík.   Formaður á bátnum „Bergmann“ í Kollsvíkurveri. Jens var á báti með Torfa Jónssyni sem hlekktist á í landtöku í Snorralendingu 05.04.1904 með þeim afleiðingum að Torfi drukknaði. 

 Þau fluttust 1911 til Kanada; síðast í Winnipeg.  3 börn.

Sumarliði Bjarnason, Strákamel.  08.09.1873-04.04.1935.  Sonur Bjarna Bjarnasonar kennara; bróðir Þórarins á Grundabökkum og Bærings í Keflavík.  Bjó 1900-1906 á þurrabýlinu Strákamel, ofan Kollsvíkurvers, og reri þar.  Sumarliði var á báti með Torfa Jónssyni sem hlekktist á í landtöku í Snorralendingu 05.04.1904 með þeim afleiðingum að Torfi drukknaði.  Bóndi í Keflavík 1906-1918.  K. Guðrún Ingimundardóttir; 5 börn.

karl kristjansson melKarl Kristjánsson, Stekkjarmel.  27.11.1874-14.11.1856.  Stofnaði, ásamt konu sinni Mikkalínu Guðbjartsdóttur (Ólafssonar í Kollsvík), grasbýlið Stekkjarmel og bjuggu þar 1907-1942            .  Gerði út bátinn „Rauðku“ um 1900 með Steini Bjarnasyni Grundabökkum, en Karl var formaður.  Gerði einnig út bátana „Nýju“ og (síðast) Pentu“ (IG);  hafði búð við Syðrilækinn.  Síðar gerði þar út sonur hans, Andrés Teitur Karlsson.

Bæring Bjarnason, Grund.  07.09.1875-22.12.1943.  Sonur Bjarna Bjarnasonar kennara og bróðir Þórarins á Grundabökkum og Sumarliða í Keflavík.  Bóndi á Grund í Kollsvík 1907-1908; bóndi Keflavík 1908-1920; Efri-Tungu til 1930 en flutti þá á Patreksfjörð.  K. Jóhanna Árnadóttir (Árnasonar á Látrum); 9 börn.

thorarinn bjarnasonÞórarinn Bjarnason, Grundabökkum.  08.10.1878-27.04.1963.  Sonur Bjarna Bjarnasonar kennara og bróðir Bærings og Sumarliða í Keflavík.  Stofnaði þurrabýlið Grundabakka í landi Grunda og bjó þar 1905-1930 ásamt Önnu móður sinni; Steini bróður sínum og Guðmundínu Einarsdóttur konu sinni, en þau eignuðust 12 börn.  Gerði út 2 báta í Kollsvíkurveri; „Jóhanna“ (stærri, um 1900) og „Gefjun“ (minni).  Flutti á Patreksfjörð 1930; fiskmatsmaður og vkm; síðan bóndi í Hliði Álftanesi. 

gudbjartur laganupi yngriGuðbjartur Guðbjartsson, Láganúpi.  15.07.1879-01.10.1970 (Ólafssonar í Kollsvík, sjá ofar).  Bóndi Tröð 1909-21; Grund 1922-27 og Láganúpi 1927-1952.  Háseti á „Reitingi“ föður síns 1894.  Í félagi við Ólaf Halldórsson (sjá ofar) frænda sinn gerði Guðbjartur út bátinn „Rut“ (Ruth) í Kollsvíkurveri, en síðar með sonum sínum.  Hafði aðstöðu í „Láganúpsbúð“ og kró og ruðning við Syðrilækinn.  Eftir að Kollsvíkurver lagðist af reru þeir úr Láganúpslendingu og ruddu þar vör.  Á efri árum hugðist Guðbjartur gera við Rut; byggði sér kofa við sjóinn á Láganúpi og sagaði þar stórvið.  Entist þó ekki aldur og heilsa til þess.  Rut fór á Patreksfjörð og stóð til að Andrés Karlsson gerði hana upp, en fyrir mistök endaði hún á áramótabrennu þar.  Um 1970 smíðaði Ólafur Sveinsson á Sellátranesi nýja „Rut“ (1,5 tn úr krossviði) fyrir Ingvar og Össur syni Guðbjartar, sem þeir reru til grásleppu frá Gjögrum.  Guðbjartur þótti afburða glöggur sem bóndi og formaður.  Hann leiðbeindi við teiknun Kollsvíkurvers 1963.

 K.  Hildur Magnúsdóttir; 9 börn.

Árni Árnason, Grundum.  23.06.1886-27.05.1921.  Bróðir Helga og Gríms.  Bóndi á þurrabúð Hvallátrum 1917-1921.  Fyrir þann tíma var hann í Kollsvík og gerði út bátinn „Ester“ í Kollsvíkurveri.  Árið 1913 lenti hann í hrakningum (líklega á Ester) ásamt áhöfn sinni en var bjargað af enskum togara.  Árni (þá 17 ára) var á báti með Torfa Jónssyni sem hlekktist á í landtöku í Snorralendingu 05.04.1904 með þeim afleiðingum að Torfi drukknaði. 

K.  Þorbjörg Ágústa Guðjónsdóttir; 2 börn.  Árni fórst 27.05.1921 er báti hans hvolfdi undir Bjarnarnúpi, en hann bjó þá á Hvallátrum.  Með honum var Guðbjartur Þorgrímsson á Látfum, en hann bjargaðist. 

gudbjartur olafssonGuðbjartur Ólafsson, Kollsvík.  21.03.1889-15.05.1961.  Sonur Ólafs T. Guðbjartss (sjá ofar).  Ólst upp í Kollsvík og stundaði róðra í Verinu; síðar á skútum á Eyrum.  Skipstjórnar- og vélstjóraréttindi.  Skipstjóri til 1928.  M.a. á Ester, þegar hann bjargaði 4 skipshöfnum í stórviðri; síðar á togara, þar sem hann bjargaði enskum togara með áhöfn.  Hafnsögumaður Rvík 1929-1956.  Einn stofnenda SVFÍ og forseti þess til 1960.  K.  Ástbjörg Jónsdóttir; 5 börn. 

helgi arnasonHelgi Árnason, Grundum, Tröð.  13.04.1889-25.08.1965.  Bróðir Árna og Gríms.  Ólst upp á Grundum; bóndi í Tröð 1921-1952. Gerði út í Kollsvíkurveri,  fyrst bátinn„ Freyju“ en síðar „Von“ .  Hafði aðstöðu 1920-1934 í búð SV Heimamannabúðar, en 1934-1939 í Hildarbúð; hinumegin Heimamannabúðar   Hafði kró við Búðarlækinn (IG).  Var í áhöfn Jóns Torfasonar 01.04.1919 er sótt var lifur út í Breiðavíkurver.  Bátnum hvolfdi við brimlendingu í Kollsvíkurveri, með þeim afleiðingum að Guðmundur Össurarson (sjá neðar) drukknaði. 

Bjó síðan á Gjögrum um tíma en flutti svo til Rvíkur.  Oganisti í Breiðavíkurkirkju.  K.  Sigrún Össurardóttir (Guðbjartssonar, sjá ofar); 6 börn. 

grimur arnason 2Grímur Árnason, Grundum.  30.11.1891-04.01.1972.  Hálfbróðir Helga og Árna (hér ofar).  Húsmaður í Breiðuvík; bjó síðan á Leiti í Örlygshöfn; bóndi á Grundum 1930-1945.  Gerði úr bátana „Hnísa“ og „Sigurfari“ úr Kollsvíkurveri og Láganúpslendingu.  Hafði aðstöðu í búð sunnan Syðrilækjar, en síðast í búðinni „Meinþröng“, norðan við Fönixarnaustið (IG).

Frá 1945 sjúklingur á Vífilstöðum.  K.  María Jónsdóttir; 10 börn.

jon torfasonJón Torfason, Kollsvík.  21.01.1892-12.11.1971 (Jónssonar, sjá ofar).  Bóndi í Kollsvík 1925-1944, og í Vatnsdal til 1948; fluttist þá á Patreksfjörð.  Gerði út í Kollsvíkurveri, bátinn „Iðunn“ , sem var líklega nokkuð stórt fjögurramannafar sem faðir hans hafði átt.  Einnig, með Guðbjarti bróður sínum; „Gefjun“, sem var líklega minni bátur.  Jón hafði aðstöðu í búð við hlið Grundabúðar á Norðariklettum, en síðast í Klettabúð (IG), þar rétt hjá, þar sem annars höfðu verið Barðstrendingar.  Sem Kollsvíkurbóndi átti Jón fjárhúsin á Klettshorninu, en þar hafði síðast aðstöðu Kristján Júlíus á Grundum.  Jón var formaður á báti sem 01.04.1919 fór út í Breiðavíkurver að sækja lifrarhlut.  Bátnum hlekktist á í brimlendingu í Kollsvíkurveri, með þeim afleiðingum að einn fórst; Guðmundur Össurarson (sjá neðar). 

K.  Bergþóra Egilsdóttir; 7 börn.

magdalena ossurardottirMagðalena Össurardóttir, Kollsvík.  14.12.1893-27.05.1988; Guðbjartssonar (sjá ofar).  Fluttust að Láganúpi 1914; og í Dýrafjörð 1927.  Giftist Kristjáni Davíðssyni og bjuggu þau í Neðri-Hjarðardal.  Önnur tveggja kvenna sem reru úr Kollsvíkurveri.; fjórtán ára á bátum föður síns, upp á hálfan hlut á móti Valdimar bróður sínum.  Reri þar 5 vertíðir, en fór þá um tíma í vist í Breiðafjarðareyjar.  Þau Kristján eignuðust 4 börn er upp komust.

theodor kristjanssonTheodór Kristjánsson, Grundum.  06.12.1894-14.04.1953 (Ásbjörnssonar, sjá ofar).  Vinnumaður á Grundum; reri í Kollsvíkurveri og Breiðavíkurveri.  Var í áhöfn Jóns Torfasonar 01.04.1919 er sótt var lifur út í Breiðavíkurver.  Bátnum hvolfdi við brimlendingu í Kollsvíkurveri, með þeim afleiðingum að Guðmundur Össurarson (sjá neðar) drukknaði.  Verkamaður og sjómaður í Hafnarfirði.  Ógiftur og barnlaus. 

vo eldriValdimar Össurarson, Kollsvík.  01.05.1896-29.06.1956 (Guðbjartssonar, sjá ofar).  Byrjaði ungur að róa í Kollsvíkurveri.  Reri „Báru“ föður síns árið 1918, en gerði síðan út bát sinn „Svölu“, sem er eini báturinn úr Kollsvíkurveri sem enn (2020) er varðveittur.  Til eru frásagnir (Kristján Ólafsson; Torfi Össurarson) af brimlendingu Valdimars í Kollsvíkurveri, einhverja vertíðina milli 1922 og 1926; þá líklega á Svölunni.    Valdimar sneri sér að barnakennslu 1921, fyrst í heimabyggð en flutti 1927 með föður sínum í Dýrafjörð.  Kenndi á Núpi, en síðar skólastjóri í Sandgerði.  Frumherji í sundkennslu, ungmennafélagsstarfi og bindindisstarfi.  Fórst í bílslysi í Rvík 1956.  K.  Jóna Bjarney Jónsdóttir; 3 börn.

kjkKristján Júlíus Kristjánsson, Grundum.  12.07.1896-09.10.1970 (Ásbjörnssonar, sjá ofar).  Tók þar við búi og stundaði sjó. Fór fyrst á sjó 10 ára; reri fulla vertíð fyrst á 15. ári og hvarja vertíð 1911-1938.  Formaður og eigandi bátsins „Elliða“ í Kollsvíkurveri.  Iðulega formaður á vélbátnum „Fönix“ sem heimamenn áttu saman.   Hafði síðast aðstöðu í fjárhúsinu á Klettshorniu, en áður líklega í Grundabúð, þar við hliðina.  Byggði nýtt hús að Grundum sem síðar var flutt að Láganúpi.  Bóndi á Grund/ Samúelsmel 1934-1939.  Flutti þaðan að Efri Tungu og bjó þar síðan.  Barnakennari, sýslunefndarmaður o.fl.  Fær bjargmaður.  K. Dagbjört Torfadóttir (Jónssonar í Kollsvík); 5 börn.  Júlíus ritaði greinargóða lýsingu á Kollsvíkurveri sem birtist í Árbók Barð. 1959-1967.

gudbjartur torfasonGuðbjartur Torfason, Kollsvík.  13.10.1897-31.08.1948.  Missti föður sinn, Torfa Jónsson í slysi í Kollsvíkurveri 1904; stóð fyrir búi í Kollsvík með móður og systkinum til 1925 og gerði út í Kollsvíkurveri bátin „Gefjun“ ásamt Jóni bróður sínum.  Flutti til Patreksfjarðar og vann sem smiður, síðan til Rvíkur; stofnaði með bræðrum sínum o.fl. Ofnasmiðjuna og starfaði þar.  Slasaðist á höndum í vinnuslysi þar.  Stundaði eftir það búskap í Sogamýri og rak innrömmunarverkstæði. K. Ólafía Ólafsdóttir; 3 börn.

albert kristjansson grundumAlbert Kristjánsson, Grundum.  20.12.1898-07.06.1971 (Ásbjörnssonar, sjá ofar).  Ólst upp á Grundum og gerði út bátinn „Heppinn“ í Kollsvíkurveri, að föður sínum látnum (1926).  Var í áhöfn Jóns Torfasonar 01.04.1919 er sótt var lifur út í Breiðavíkurver.  Bátnum hvolfdi við brimlendingu í Kollsvíkurveri, með þeim afleiðingum að Guðmundur Össurarson (sjá neðar) drukknaði.  Vkm Patreksfirði; starfaði sem járnsmiður hjá Héðni Rvík.  K.  Viktoría G. Guðmundsdóttir; 2 börn.

helgi gestssonHelgi Gestsson, Kollsvík.  14.08.1900-31.01.1995 Vm. Brekku, Tröð, Hvallátrum.  Bjó á Gestarmel hjá Gesti Jósepssyni föður sínum (sjá ofar).  Bóndi í Kollsvík ásamt Guðmundi bróður sínum; á móti Jóni Torfasyni.  Formaður og eigandi báts í Kollsvíkurveri; „Svanur“.  Fluttist á Patreksfjörð 1934 ásamt Guðmundi, og síðan til Reykjavíkur; trésmiður.  K. Sigríður Brynjólfsdóttir; 7 börn.

gudmundur gestarsonGuðmundur Gestarson, Kollsvík  (03.07.1901-19.01.1982; Jósepssonar, Strákamel, sjá ofar).  Bjó á Strákamel/Gestarmel hjá Gesti Jósepssyni föður sínum.  Bóndi í Kollsvík ásamt Helga bróður sínum; á móti Jóni Torfasyni.  Reri á Svani með Helga og keypti flutningabátinn Fönix ásamt Andrési Karlssyni.  Fönix eyðilagðist fljótlega, slitnaði upp í Patreksfjarðarhöfn, og eftir það vann Guðmundur sem smiður og vélstj. á Patreksfirði.  K. Jóhanna E.A. Pálsdóttir; 4 börn (þ.á.m. Björn Guðmundsson húsasmiður, vann m.a. í Kollsvík, og átti um tíma Stekkjarmelsbæinn).

Guðmundur Össurarson, Kollsvík.  23.12.1901-01.04.1919 (Guðbjartssonar, sjá ofar).  Stundaði sjó í Kollsvíkurveri.  Fórst 1919 í lendingu í Kollsvíkurveri, en hafði þá verið að koma úr Breiðavíkurveri að sækja lifrarhlut sem hann átti þar eftir hákarlalegu.

gudmundur torfason kollsvikGuðmundur Torfason, Kollsvík.  05.02.1901-03.12.1991.  Missti Torfa Jónsson (sjá ofar) föður sinn ungur, en ólst upp við búskap og sjómennsku í Kollsvík.  Járnsmíða- og vélstjórapróf.  Vann í Rvík; stofnaði með bræðrum sínum o.fl. Ofnasmiðjuna og vann þar.  K.  Ingibjörg Jakobsdóttir 3 börn.

andres karlssonAndrés Karlsson, Stekkjarmel.  05.11.1901-20.04.1980; Kristjánssonar (sjá ofar).  Gerði úr bátinn „Guðrún nr 4“.  Síðastur til að dvelja í verbúð í Verinu, til 1949.  Keypti flutningaskipið Fönix í félagi við Guðmund Gestarson.  Smíðaði marga báta, m.a. Farsæl sem hann gerði út á Patreksfirði til æviloka.  Sjónvarpið gerði myndina „Andrés“ um róður með honum.  Fær bjargmaður og einn sigmanna við Björgunarafrekið við Látrabjarg.  K. Járbrá Jónsdóttir; 1 dóttir.

samuel torfasonSamúel Torfason, Kollsvík.  19.12.1902-18.02.1987 (Jónssonar, sjá ofar).   Stóð fyrir búi í Kollsvík með móður sinni og systkinum til 1925 og reri í Kollsvíkurveri.  Flutti suður og stofnaði, ásamt bræðrum sínum o.fl. Ofnasmiðjuna hf og vann þar.  Stofnaði 1947 fyrstu plastpoka- og sellófanverksmiðju hérlendis.  K.  Unnur Árnadóttir; 4 börn. 

 

dagbjartur bjorgvin gislasonDagbjartur Björgvin Gíslason, Grænumýri.  29.04.1904-31.07.1981 (Guðbjartssonar, sjá ofar).   Bjó í fyrstu að Grænumýri og reri í Kollsvíkurveri.  Líklega á bát föður síns; Björg eða Golunni.  GJH segir frá róðri þeirra tveggja á Golunni 1924.  Bóndi á Koti 1932-1939 og landpóstur; flutti síðan á Patreksfjörð.  K.  Guðrún Brynjólfsdóttir; 2 börn.

torfi ossurarson2Torfi Össurarson, Kollsvík.  28.02.1902-11.09.1993 (Guðbjartssonar, sjá ofar).  Reri í Kollavíkurveri á bátum föður síns, en flutti í Dýrafjörð 1927.  Búfræðingur; bóndi á Mýrum og Felli Dýrafirði.  Torfi hefur ritað allmikinn fróðleik um Kollsvík og Kollsvíkurver, sem m.a. má sjá hér á vefnum.  K. Helga Sigurrós Jónsdóttir; 7 börn.

sigurvin ossurarsonSigurvin Össurarson, Kollsvík.  28.03.1907-05.02.1989; Guðbjartssonar (sjá ofar).  Farskóli fáeinar vikur í Sauðlauksdal.  Reri í Kollsvíkurveri, t.d. 1924 með Karli Sveinssyni sem formanni og Einari Guðbjartssyni sem háseta.  Var um tíma á togurum í Rvík; vkm og vörubílstj.  Forganga um stofnun pöntunarfélaga í Reykjavík.  Framarlega í verkalýðsbaráttu og kommúnistaflokki.  Mikið sjálfsnám; m.a. 12 tungumál, þ.á.m. rússn. og kínv.  Stofnaði verslunina Ístorg og síðar heildv. Hnitberg.  Bjó í Reykjavík en átti bústað í Örlygshöfn og stundaði grásleppuútgerð frá Gjögrum.  Fyrri kona Guðrún Kristjánsdóttir frá Grundum; 6 börn.  Síðari kona Zíta Benediktsdóttir; 3 börn. 

matthias karlssonMatthías Karlsson, Stekkjarmel.  21.11.1908-28.08.1988 (Kristjánssonar, sjá ofar).  Reri í Kollsvíkurveri á bátum föður síns.  Síðan verkamaður í Keflavík.  K. Guðrún Jónsdóttir; 2 kjörbörn.

 

 

einar gudbjartsson laganupiEinar T. Guðbjartsson, Láganúpi.  26.07.1911-23.08.1979; Guðbjartssonar útvegsbónda (sjá ofar).  Búskapur á Láganúpi og róðrar.  Reri t.d. 1924 með Gísla föðurbróður sínum á Golunni.  Einnig á bát þar sem Karl Sveinsson var formaður og Sigurvin Össurarson háseti ásamt Einari.  Síðar með föður sínum og bræðrum á bátnum Rut úr Kollsvíkurveri og Láganúpi  Var síðan nokkrar vertíðir á togurum, m.a. á Verði þegar þeir urðu fyrir loftárás þýskrar flugvélar.  Kaupfélagsstjóri á Gjögrum, Vegamótum, Súðavík, Hellisandi, Laugarvatni; síðast skrifstm í Borgarnesi.  K. Guðrún Grímsdóttir (Árnasonar Grundum sjá ofar); 1 kjördóttir.

magnus halldorsson laganupiMagnús Guðbjartsson, Láganúpi.  27.02.1913-28.02.1941 Guðbjartssonar útvegsbónda (sjá ofar).   Stundaði búskap á Láganúpi og róðra á Rut úr Kollsvíkurveri.  Fór fyrst sem matsveinn á togarann Leikni á Eyrum, en lauk síðan námi í matreiðslu, settist að í Rvík og vann sem matsveinn á ýmsum skipum.  Hann lést er togarinn Gullfoss fórst með 19 manna áhöfn 28.02.1941.  K. Ólöf Sveinsdóttir; 1 dóttir.

halldor gudbjartssonHalldór Guðbjartsson, Láganúpi.  27.12.1915-31.05.1968 (Guðbjartssonar, sjá ofar).  Reri í Kollsvíkurveri á Rut, bát föður síns.  Vélstjóranám.  Vélstjóri á ýmsum skipum; m.a. á síðasta seglskipi Íslendinga; Capitönu.  Vann hjá Rafveitu Ísafjarðar, en síðast Vélasölunni.  K.  Guðbjörg Guðjónsdóttir; 3 synir.

torfi jonssonTorfi Jónsson, Kollsvík  27.03.1927-10.09.2005 (Torfasonar, sjá ofar).   Ólst upp í Kollsvík og reri með föður sínum í Verinu frá 12 ára aldri.  Sjómaður Patreksfirði; Stýrimannaskólinn 1954 og síðar skipstjóri; lengst af á togurum og vertíðarbátum á Patreksfirði.  Gerði frá 1963 út eigin bát á Patreksfirði; Skúla Hjartarson.  Torfi stóð að því ásamt systkinum sínum að setja upp skilti í Kollsvíkurveri á 100 ára ártíð föður þeirra.  Skiltið er byggt m.a. á korti GÖ og ÖG af Kollsvíkurveri, en aukið að upplýsingum.  Torfi sá um hirðu þess ásamt gestabók meðan hans naut við en síðar aðrir aðstandendur.  K. Oddbjörg Þórarinsdóttir; 3 börn.

ingvarIngvar Guðbjartsson, Láganúpi  31.05.1925-14.05.1999.  (Guðbjartssonar Láganúpi (sjá ofar).  Ingvar ólst upp á Láganúpi.  Reri eina vertíð í Kollsvíkurveri eftir fermingu 1939, með föður sínum og Einari bróður sínum á Rut.  Sem bóndi á Stekkjarmel og Kollsvík stundaði hann heimræði frá Verinu ásamt Össuri bróður sínum á Láganúpi, ásamt grásleppuveiðum frá Hænuvík og Gjögrum.  Nánar um það og fleira um Ingvar hér síðar (heimræði).  Ingvar skrifaði nokkurn fróðleik, þ.á.m. um Kollsvíkurver.  K.  Jóna Snæbjörnsdóttir (Thoroddsen, sjá framar); 5 börn og 1 fósturbarn. 

 

Aðrir hreppsbúar í Kollsvíkurveri 1890-1940

Einar J. Thoroddsen, Vatnsdal.  15..05.1827-21.04.1907.  Sonur Jóns Þóroddssonar (Thoroddsen) hattara.  Bjó að Hvallátrum en síðar í Vatnsdal 1870-1903.  Hreppstjóri.  Reri úr Kollsvíkurveri.  K. I Klásína Pálsdóttir; 8 börn.  K. II Sigríður Ólafsdóttir; 8 börn.

Gísli Ólafsson, Sellátranesi.  26.12.1838-02.05.1918 (Halldórssonar Hænuvík).  Bóndi Sellátranesi 1872-1885; síðan húsmaður Grundum en dvaldi síðast í Tröð.  Gerði út fyrsta vöðubátinn í Kollsvíkurveri, í félagi við Magnús Árnason á Hnjóti (sögn GG).   K.  Vigdís Ásbjörnsdóttir; 4 börn.

Þórður Gunnlaugsson, Vatnsdal.  06.05.1842-01.05.1897.  Ólst upp í Bröttuhlíð á Rauðasandi en var um tíma í Stakkanesi, ísafjarðardjúpi.  Settist að í Vatnsdal 1887.  Var það ár háseti hjá Hákoni Jónssyni á Hnjóti, á bátnum Færeyingi, og kynnti fyrstur veiðar með lóð í Kollsvíkurveri, sem síðan voru þar upp teknar.  Fórst á báti sínum í Gjögrabót 01.05.1897, ásamt 5 mönnum öðrum; 1 komst af.  Þórður var formaður á bátnum og hafði róið honum úr Hænuvík, en var þá vinnumaður á Geitagili.  K.  Helga Guðmundsdóttir; 7 börn (þ.á.m. Jón Þórðarson skipstjóri á Patreksfirði).

petur hjalmarssonPétur Hjálmarsson 04.06.1851-13.06.1943.  Fæddur í Hænuvík; bóndi Kollsvík 1880-1884 og á Sellátranesi (Tóftum) 1884-1908.  Hefur að líkindum róið í Kollsvíkurveri meðan hann bjó í Kollsvík, enda var hann formaður í Láturdal 1913 (sögn GE). 

K. Kristún Jónsdóttir (Torfasonar Hnjóti/Kollsvík); 5 börn.

olafur jonsson hvalskeriÓlafur Jónsson, Hvalskeri.  26.12.1853-19.02.1947.  Bóndi í Króki 1885-1894.  Gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. kennari.  Síðar vm Hvallátrum og á Hvalskeri.  Ólafur var háseti á „Færeyingi“ hjá Hákoni Jónssyni, Hnjóti, í Kollsvíkurveri vorið 1894, ásamt Halldóri Benjamínssyni, Keflavík, og Þórði Gunnlaugssyni.  Þeir urðu fyrstir til að prófa veiðar með línu í Kollsvíkurveri, en Þórður þekkti slíkt norðan úr Ísafjarðardjúpi.  Kann að hafa róiðþar lengur.  K.  Guðbjörg Árnadóttir Thoroddsen; 7 börn (þ.á.m. Sigurjón alþm (sjá neðar) og Stefán á Hvalskeri). 

Halldór Benjamínsson, Keflavík.  16.01.1853-16.10.1905.  Bóndi í Keflavík 1897-1905.  Reri í Kollsvíkurveri og var m.a. háseti Hákonar Jónssonar (sjá ofar) 1894 á bátnum Færeyingi, þegar fyrst voru lagðar lóðir í Verinu.  K.  Anna Jónsdóttir; 5 börn.

gudmundur sigurdsson vatnsdalGuðmundur Sigurðsson, Vatnsdal.  23.08.1853-14.06.1941  Sonur Sigurðar sterka/bátasmiðs/Breiðvíkings Sigurðssonar (fljóta Jónssonar í Breiðuvík).  Bóndi Hvallátrum 1887-1897; Vatnsdal 1898-1911 og Breiðuvík 1911-1920, en var síðan á Geirseyri.  Hreppstjóri í Rauðasandshreppi og forvígismaður í félagsmálum.  K.  Helga Árnadóttir Thoroddsen; 3 börn. 

Páll Bjarnason, Kvígindisdal.  19.12.1855-16.09.1929.  Bóndi Hnjóti 1890-1894; Neðri-Tungu 1900-1904, síðast húsmaður Hvalskeri.  Fékk 1920 jarðarskika þar og bjó í nausti; „Pallanausti“ (BÞ; Vestfj.bækur).  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát.

gudmundur jonssonGuðmundur Jónsson, Hnjóti  26.08.1856-04.07.1938.  Sonur Jóns yngra Einarssonar, Jónssonar í Kollsvík.  Fæddur í Kollsvík; vinnumaður í Hænuvík, Botni og Vatnsdal, en lengst af á Hnjóti.  Sagður greindur og mikið góðmenni en nokkuð sérlundaður.  Reri í Kollsvíkurveri; a.m.k. 1915, þá 59 ára (sögn Helga Einarss).  Reri einnig frá Gjögrum.

Guðmundur Ólafsson, Sauðlauksdal.  10.04.1859-29.06.1886.  Var vinnumaður í Sauðlauksdal og síðar á Stökkum.  Formaður á „Björg“ í Kollsvíkurveri, ásamt Ingimundi Halldórssyni.  Drukknaði er skektu Jóns Sauðeyings hvolfdi undan Brunnanúp 1886.  Ógiftur og barnlaus.

Magnús Árnason, Hnjóti.  11.04.1860.20.11.1911.  Bóndi á Hnjóti 1886-1911.  Gerði út fyrsta vöðubátinn í Kollsvíkurveri, í félagi við Gísla Ólafsson, Sellátranesi (sjá ofar)  en Magnús var formaður.  Með þeim reri Magnús Pétursson, vm Breiðuvík. (sögn GG).   Líklega fyrir eða um 1890.  Gerði einnig út bátana „Iðunn nr 1“ og „Þoku“ (hugsanlega er annar þeirra fyrrnefndur vöðubátur).  Aðsetur í búð nyrst í Verinu. 
K.  Sigríður Sigurðardóttir; 14 börn þ.á.m. (framhjá Sigríði) Hildur, kona Guðbjartar Guðbjartssonar, Láganúpi.

(Ekki finnst neitt um nefndan Magnús Pétursson.  Spurning hvort þetta var Magnús Einarsson d. Í Breiðuvík 1881, en þá hefur útgerðin staðið fyrir þann tíma.  VÖ). 

Jón Á Thoroddsen, Kvígindisdal.  13.08.1860-11.09.1943.  Bóndi í Kvígindisdal.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK), en óljóst á hvaða bát.  K. Sigurlína Sigurðardóttir; 6 börn.

olafur gudbjartsson keflavik 2Ólafur Tómas Guðbjartsson, Hænuvík.  17.06.1861-14.05.1948 (Ólafssonar í Kollsvík, sjá ofar).  Bóndi í Keflavík 1887-1896 , Hænuvík Ytri 1897-1923; síðan aftur í Keflavík 1923-1934 hjá Hafliða syni sínum; flutti síðan til Rvíkur.  Formaður á „Reytingi“, báti föður síns í Kollsvíkurveri.  Átti mikinn þátt í björgun manna af skonnortunni Ástu sem strandaði í Hænuvík 1898. (SÁÓ; Alþýðubl. 23.05.1948).  K. Guðrún Haflína Jónsdóttir; 10 börn (þ.á.m. Guðbjartur og Hjörleifur, sjá neðar).

petur jonsson stokkumPétur Jónsson, Stökkum.  06.11.1864-26.03.1946. Bóndi Þórisstöðum Þorskafirði 188-1893; Barmi Gufudalssveit 1893-1894; Fossá 1899-1900; Auðshaugi 1900-1903; Stökkum 1903-1920           .  Hagyrðingur, fræðimaður, kennari og fékkst við félagsmál.  Reri m.a. í Kollsvíkurveri og frá Brunnum.  K. Pálína Þórðardóttir; 6 börn.

Engilbert Jóhannsson, Hænuvík.  02.11.1865-08.11.1931.  Bóndi á Geitagili 1898-1906; þurrabúðarmaður í Hænuvík eftir það.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK), en óljóst á hvaða bát.  Síðar á skútum á Patreksfirði.  K.  Sigríður Ásbjörnsdóttir (Ólafssonar Láganúpi); 4 börn.

olafur e.thoroddsen vatnsdalÓlafur E. Thoroddsen, Vatnsdal.  04.01.1873-17.11.1964.  Fór fyrst 10 ára til róðra í Kollsvíkurveri, sem hálfdrættingur; 18 ára til sjós á skútu Markúsar Snæbjörnssonar á Patreksfirði.  Bóndi í Vatnsdal 1903-1944 og sjómaður; einnig skipstjóri á Patreksfirði og veitti verðandi skipsstjórnendum tilsögn.  Fluttist til Rvíkur 1944.  K.  Ólína Andrésdóttir; 14 börn. 

olafur olafssonÓlafur Ólafsson, Stökkum.  06.10.1875-06.02.1951.  Fluttist 18 ára frá Stökkum að Kollsvík, í vinnumennsku hjá Torfa Jónssyni og til róðra í Kollsvíkurveri.  1896 til Eyra í vinnu hjá Markúsi Snæbjörnssyni.  Stýrimannapróf og farsæll skipstjóri á ýmsum skútum á Eyrum.  Fiskmatsmaður og rak gistihús að Króki á Eyrum með konu sinni.  K. Halldóra Halldórsdóttir frá Grundum; 12 börn. 

Jónas Jónsson, Keflavík.  15.12.1875-22.02.1965.  Úr Sauðeyjum.  Sjómaður Patreksfirði; húsmaður Hnjótshólum 1914-1921; bóndi Keflavík 1921-1923, síðar vkm á Patreksfirði.  Háseti í Kollsvíkurveri hjá Össuri og Gísla Guðbjartssonum (a.m.k. um 1900).  K. Jóna Valgerður Jónsdóttir (Torfasonar Kollsvík); 8 börn.

gisli gislason hvammi

Gísli Gíslason, Sjöundá.  18.09.1877-15.11.1923.  Fór barn að Króki á Rauðasandi en síðar að Haga og í vinnumennsku víða, m.a. að Sjöundá.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK).  Sést á mynd með Hákoni Kristóferssyni á bátnum Jóhönnu (Ísl.sjávarhættir IV) og kann að hafa róið með honum.  Bóndi í Hvammi 1913-1935.  K.  Salóme Guðmundsdóttir; 7 börn.

 

olafur petursson sellatranesiÓlafur Pétursson, Sellátranesi.  29.09.1878-13.11.1934.  Bóndi Sellátranesi 1908-1926; Hænuvík 1926-1934.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát; hafði aðstetur í búðinni Norðurpól; nyrst í verinu.

 

ingimundur halldorsson latrumIngimundur Halldórsson, Keflavík.  11.04.1879-29.05.1959 (Benjamínssonar, sjá ofar).  Fyrst í Keflavík en bóndi á Hvallátrum 1919-1954.  Reri í Kollsvíkurveri; formaður á bátnum „Björg“ ásamt Guðmundi Ólafssyni (sjá ofar).  K Ólafía Haflína Eggertsdóttir; 2 dætur.

olafur thorlacius yngriÓlafur Ó Thorlacius, Saurbæ.  22.10.1881-07.04.1929.  Bóndi Saurbæ 1915-1923 með Gísla bróður sínum; kaupfélagsstjóri og fékkst við útgerð á Patreksfirði.  Síðast póstafgrm þar.  Formaður á bát Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát.  K. Jóhanna Einarsdóttir Thoroddsen; þau barnlaus.

Helgi Guðbrandsson, Hvalskeri.  16.06.1881-02.10.1911.  Brandarstöðum, Hvalskeri. Smiður.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát. 

olafur sveinsson lambavatniÓlafur Sveinsson, Lambavatni  04.07.1882-28.08.1969 (bróðir Eyjólfs, sjá neðar).  Nám við Hvítárbakkaskóla; vegavinna, byggingavinna o.fl; bóndi á Lambavatni ásamt Magnúsi bróður þeirra.  Reri úr Kollsvíkurveri (ÓG). 

K.  Halldóra Torfadóttir (Jónssonar í Kollsvík, sjá ofar); 3 börn.

arni dagbjartssonÁrni Dagbjartsson, Kvígindisdal.   27.08.1883-11.09.1972.  Bóndi Kvígindisdal 1921-1922.  Stundaði sjó frá unga aldri, m.a. formaður í Kollsvíkurveri (KJK), hugsanlega þá á bátnum „Otur“ í eigu Snæbjarnar J. Thoroddsen frænda síns en þeim bát reri hann frá Kvígindisdal (ÞJ; Brimlending).  Var skipstjóri og stýrimaður á ýmsum skipum, m.a. á skútum á Patreksfirði og á selveiðibátnum Kópi við veiðar norður í Íshafi.  Ógiftur og barnlaus.

finnur thorlFinnur Thorlacius, Saurbæ.  16.11.1883-26.12.1971.  Stundaði róðra á unglingsárum, fyrst í Breiðavíkurveri 15 ára árið 1898, en síðan í Kollsvíkurveri.  Reri þar hjá Össuri Guðbjartssyni (sjá ofar).  Smíðanám, fyrst á Patreksfirði, síðar í Reykjavík og Danmörku. Smíðaði 1906 nýtt íbúðarhús í Saurbæ; fyrsta steinsteypta húsið á Vestfjörðum og Vesturlandi, og flutti efnið á skútu um Ósinn.  Farandsveinn í Evrópu; kennari við Iðnskólann í Reykjavík.  K. Þórarna Valgerður Erlendsdóttir; 6 börn.  Finnur fjallar nokkuð um dvöl sína í Kollsvíkurveri í endurminningabók sinni „Smiður í fjórum löndum“.

sigurjon a olafssonSigurjón Á Ólafsson, Stökkum.  29.10.1884-04.1954 (Jónssonar, sjá ofar); fluttist ársgamall að Króki en eftir móðurmissi 1894 í fóstur til Samúels Eggertssonar skrautritara á Stökkum.  Reri 11 ára sem hálfdrættingur úr Kollsvík; fór 15 ára á skútur á Eyrum.  Stýrimannapróf; skipstjóri á ýmsum skipum til 1919.  Form. Sjómannafél. Reykjav; forseti ASÍ 1940-1942; bæjarftr. Rvíkur og alþingismaður 1927-1949 fyrir Alþýðuflokkinn.  K. Guðlaug Gísladóttir; 13 börn. 

david jonsson kongsengjumDavíð Jónsson, Kóngsengjum.  17.12.1884-10.01.1930.  Bóndi að Kóngsengjum, Hænuvík 1921-1926 og síðar smiður Patreksfirði.  Formaður í Kollsvíkurveri, en ekki vitað á hvaða bát (KJK).  Reri þar a.m.k. 1915 (sögn Helga Einarss).  „Líklega sterkasti maður sýslunnar á sinni tíð; góður smiður m.a. bátasmiður“ (HE).   K.  Andrea Andrésdóttir; 8 börn.

eyjolfur sveinssonEyjólfur Sveinsson, Lambavatni.  14.10.1885-09.02.1941.  Sonur Sveins Magnússonar bónda og læknis á Lambavatni, sem síðastur var til vers í Keflavíkurverstöð.  Próf frá Flensborg 1909; nam við lýðháskóla á Jaðri í Noregi.  Kennari í Rauðasandshreppi og félagsmálafrömuður.  Reri úr Kollsvíkurveri.  1923 átti hann bát í félagi við Gunnlaug Egilsson frá Lambavatni.  Hann var formaður; Gunnlaugur háseti og Trausti Jónsson, Skógi og Guðm. Jón Hákonarson Hnjóti voru hálfdrættingar.  K. Vilborg Torfadóttir (Jónssonar, Kollsvík); 3 synir.

arni magnusson hnjoti 2Árni Magnússon, Hnjóti.  27.04.1885-19.03.1962 (Árnasonar, sjá ofar).  Bóndi á Hnjóti 1913-1931; fluttist þá til Patreksfjarðar.  Formaður á bátnum „Þoka“ í Kollsvíkurveri.  Aðsetur í búð nyrst í Verinu.  K.  Arnfríður Thorlacius Erlendsdóttir (frá Hvallátrum); 6 börn.
Magnús Kristjánsson, Hvalskeri.  15.10.1888-18.02.1986.  Bóndi Hvalskeri 1915-1917;Fremri-Hvestu 1917-1919; Króki Selárdal 1919-1923; Langabotni 1923-1965.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát.  K.  Hildur Bjarnadóttir; 11 börn. 

Jón Ívarsson, Hænuvík.  08.03.1890-25.04.1965.  Bóndi Hænuvík innri.  Formaður á bátnum „Hænir“ í Kollsvíkurveri.  Skútusjómaður á Patreksfirði.  Vkm Patreksfirði.  Ógiftur og barnlaus.

arni brandssonÁrni Brandsson, Hnjóti.  21.07.1890-29.03.1960.  Ólst upp á Hnjóti og Sellátranesi.  Reri  4 vertíðir í Kollsvíkurveri.  Fór 1909 til Vesturheims og settist að í Winnipeg, síðar í Hnausa Kanada.  Vann við fiskveiðar og smíðar.  K.  Kristbjörg Sigurgeirsdóttir.

 

sigurbjorn gudjonssonSigurbjörn Guðjónsson, Hænuvík.  14.10.1891-18.04.1971.  Bóndi á Geitagili 1914-1923; Hænuvík 1923-1954; hreppstjóri, kaupfélagsstjóri og félagsmálafrömuður.  Flutti til Rvíkur og vann hjá SÍS.  Gerði úr bátinn „Þokki“ úr Kollsvíkurveri.  K. Ólafía Magnúsdóttir (Árnasonar Hnjóti); 10 börn. 


arinbjorn gudbjartssonArinbjörn Guðbjartsson, Breiðuvík.  01.07.1891-18.04.1970.  Ólst upp í Breiðuvík.  Flutti til Ameríku um 1911 en kom aftur eftir 5 ár; reri í Kollsvíkurveri 1917.  Bóndi á Gróhólum í Ketildölum; Neðri-Rauðsdal; Eysteinseyri og Mábergi 1933-1934.  Flutti 1949 til Rvíkur en var síðast á Patreksfirði og Tálknafirði.  K.  Ágústa Sæmundsdóttir; 5 börn. 

snaebjorn j thoroddsen kvigindisdalSnæbjörn J. Thoroddsen, Kvígindisdal.  15.11.1891-29.01.1987 (sonur Jóns Á Thoroddsen, sjá ofar).  Bóndi Kvígindisdal, lengi hreppsnefndaroddviti og sparisjóðsstjóri; hreppstjóri um tíma og fleiri félagsmálastörf.  K.  Þórdís Magnúsdóttir; 9 börn.

hjorleifur olafssonHjörleifur Ólafsson, Hænuvík.  24.05.1892-02.07.1975 (Guðbjartssonar, sjá ofar).  Ólst upp í Hænuvík og reri í Kollsvíkurveri ásamt Guðbjarti bróður sínum.  Stýrimannapróf 1920; var á ýmsum skipum, m.a. Ester þegar þeir bræður björguðu mörgum áhöfnum (sjá um Guðbjart); einnig togurum og varðskipum.  Bjó um tíma á Patreksfirði.  K. Halldóra Narfadóttir; 5 börn. 

jon eirikssonJón Eiríksson, Efri-Tungu20.11.1893-30.12.1982.  Reri í Kollsvíkurveri 12 ára; hálfdrættingur í 3 vikur hjá Þórarni Bjarnasyni; skakveiðar á steinbít.  Reri næsta ár í Láturdal með Einari bróður sínum.  Síðar sjómaður á kútterum P. Ólafssonar á Geirseyri.  Farmannapróf 1914 í Rvík, síðan í Danmörku.  Skipstjóri á Lagarfossi frá 1917 og var oft síðan nefndur „Jón á Lagganum“.  Lengi skipstjóri á skipum Eimskipafélagsins.  Bjargaði m.a. áhöfn skips er kafbátur hafði skotið niður í stríðinu.  Formaður Skipstjórafélags Íslands.  K.  Herþrúður Hermannsdóttir; 5 börn.

olafur halldorsson hvallatrumÓlafur Halldórsson, Hvallátrum.  01.09.1893-29.11.1965 (Benjamínssonar, sjá ofar).  Bóndi á Hvallátrum (Gimli) 1930-1962.  Reri úr Kollsvíkurveri.  Leiðbeindi um kortlagningu Versins 1963, ásamt GG og KJK.  K.  Anna Eggertsdóttir; 2 börn. 

 

jon gudmundsson vatnsdalJón Guðmundsson, Vatnsdal.  28.07.1893-01.05.1977 (Sigurðssonar, sjá ofar).  Fluttist með foreldrum sínum að Vatnsdal.  Reri 1909 úr Kollsvíkurveri en var einnig á skútum á Eyrum.  Stýrimannapróf 1916.  Réðst á selveiðiskipið Kóp, en þar var Jón Andrés bróðir hans skipstjóri og Árni Dagbjartsson í áhöfn.  Síðan á öðrum skipum.  Stofnaði og rak Belgjagerðina og var við hana kenndur.  K.  Jórunn Guðnadóttir; 8 börn.

armann gudfredssonÁrmann Guðfreðsson, Tungu  03.04.1894-17.08.1975.  F. Í Tungu; bóndi á Kóngsengjum 1921-1923; Geitagili 1923-1925; Efri-Tungu 1925-1926; húsgagnamiður; starfsmaður Vífilsstaðahælis í áratugi.  Reri í Kollsvíkurveri, a.m.k. 1915 (sögn Helga Einarssonar); þá vinnumaður hjá séra Þorvaldi í Sauðlauksdal.  K.  Bryndís Guðjónsdórrir; 1 barn.  K. II Anna Sigríður Einarsdóttir.

helgi einarsson geitagiliHelgi S. Einarsson, Leiti  16.09.1895-27.05.1988.  Fæddur í Hænuvík; Bóndi á Leiti en lengst af á Geitagili 1925-1950; sjómaður á Patreksfirði.  Reri úr Kollsvíkurveri a.m.k. 1915, þá tvítugur, og ritaði um það grein í Sdbl Tímans 07.12.1969.  K.  Guðmunda Helga Guðmundsdóttir; 4 börn.

jon gudmundsson krokiJón Guðmundsson, Króki.  18.08.1896-08.06.1988.  Ólst upp í Króki.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát.  Nám í Núpsskóla, síðan húsasmíða- og rafvirkjanám í Reykjavík og Kaupmannahöfn, þar sem hann starfaði síðan sem rafvirki.  K. I Guðný Jónsdóttir; 1 barn; K II Laufey Gísladóttir; 7 börn.

kristinn gudmunsssonKristinn Guðmundsson, Króki.  14.10.1897-30.04.1982 (bróðir Jóns, sjá ofar).  Ólst upp í Króki; stundaði róðra í Kollsvík eftir fermingu.  Var þar hjá snarráðum en viðskotaillum formanni, en ekki ljóst hver það var.  Doktor í hagfræði frá Kielarháskóla 1926; menntaskólakennari Akureyri; skattstjóri; varaþingmaður Eyfirðinga; utanríkis- og samgönguráðherra 1953-1956; sendiherra víða.  K.  Elsa Alma Kalbaow.

Um sjósókn Kristins í Verinu o.fl. má lesa í endurminningum hans „Frá Rauðasandi til Rússíá“.

gudbjartur gisli egilssonGuðbjartur Gísli Egilsson, Lambavatni  25.02.1898-23.06.1952.  Bóndi á Lambavatni; þjóðhagasmiður á tré og járn.  Reri úr Kollsvíkurveri 1924 ásamt Eyjólfi Sveinssyni (ÓG; Úr verbúðum í víking) á „Úndínu“; bát sem Haraldur Ólafsson í Breiðuvík hafði smíðað.  Háseti hjá þeim var þá Guðm. Jón Hákonarson, Hnjóti (sjá neðar).  Úndína var „liðugur bátur, fjórróinn, og fór vel undir seglum“ (ÓG).  K.  Halldóra M. Kristjánsdóttir (Ásbjörnssonar, Grundum); 4 börn.

karl gudmundsson krokiKarl Guðmundsson, Króki  30.12.1898-15.04.1977 (bróðir Jóns og Kristins, sjá framar).  Ólst upp í Króki; reri í Útvíkum; líklega Kollsvíkurveri.  Búfræðipróf Hvanneyri 1925; bjó í Reykjavík; vann hjá Bræðrunum Ormsson og sýningarmaður í bíósölum; nám í rafvélavirkjun.  K. Margrét Tómasdóttir; 9 börn.

 

sigurvin einarsson stekkadalSigurvin Einarsson, Stekkadal.  10.10.1899-23.03.1989.  Ólst upp í Stekkadal á Rauðasandi.  Kollsvíkurver; háseti á Rut, hjá Guðbjarti Guðbjartssyni, Láganúpi „fyrir 1920“ (Íslþ.Tímans 1970).  Samvinnuskólinn 1918-19.  K. Jörína G. Jónsdóttir; 7 börn.  Kennari og oddviti Ólafsvík. Kennari Rvík.  Stofnandi og frkvstj Dósaverksmiðjunnar.  Alþingismaður Framsóknarflokks fyrir Barðastr.sýslu og síðar Vestfj.kjördæmi í 15 ár til 1971.

olafur magnussonÓlafur Magnússon, Hnjóti.  01.01.1900-18.03.1996; Árnasonar frá Hnjóti (sjá ofar).  Stundaði róðra úr Kollsvíkurveri framundir 1930.  Tók við búi á Hnjóti.  Ýmis félagsstörf; umsjónarmaður bréfhirðu; góður læknir þó ómenntaður væri, og þjónaði sem dýralæknir fram á gamalsaldur.  K.  Ólafía Egilsdóttir ljósmóðir frá Sjöundá; 3 börn.

gunnlaugur egilssonGunnlaugur Egilsson, Lambavatni.  13.04.1900-16.06.1978.  Bóndi Krókshúsum og Lambavatni Efra 1928-1933; eftir það í Breiðuvík; Patreksfirði og Reykjavík.  Vann ýmsa verkamannavinnu; afkastamikill áhugaljósmyndari.  Reri 1923 í Kollsvíkurveri á bát sem hann átti í félagi við Eyjólf Sveinsson.  Eyjólfur var formaður en Guðm. Jón Hákonarson og Trausti Jónsson hálfdrættingar.   K.  Sigríður Sveinsdóttir; 1 dóttir.

marino gudjonsson geitagiliMarinó Guðjónsson, Geitagili  18.09.1903-06.07.1979  (bróðir Sigurbjörns, sjá ofar).  Ólst upp á Geitagili.  Á fermingardaginn fór hann til róðra í Kollsvíkurveri.  Síðan á vertíðum á Eyrum, en fluttist 1923 til Rvíkur; trésmiður; bílasmiður; stofnaði 19425 Bílasmiðjuna hf og starfaði síðan við hana.  K.  Guðrún Helga Theodórsdóttir; 5 börn.


gudmundur baeringssonGuðmundur Bæringsson, Efri-Tungu
.  25.06.1905-23.09.1962.  Fæddur í Kollsvík en fluttist með foreldrum sínum að Keflavík 1908 og Efri-Tungu 1920. Reri m.a. í Kollsvíkurveri, síðar sjómaður á Patreksfirði og skipstjóri syðra.  Stýrimannapróf.  Var skipstjóri á vb Kristjáni frá Sandgerði sem lenti í ótrúlegum hrakningum 1940.  Var það þakkað skipstjórn Guðmundar að þeir komust af.  K. Ingigerður Danívalsdóttir; 2 börn.

bjarni baeringssonBjarni Bæringsson, Efri-Tungu.  12.09.1906-05.11.1949; Bjarnasonar; bróðir Guðmundar (hér ofar).  Fluttist með foreldrum að Keflavík 1908 og Efri-Tungu 1920.  Reri úr Kollsvíkurveri.  Fluttist til Rvíkur en bjó frá 1934 að Dangsnesi.  Stundaði þar sjó og smíðavinnu; m.a. bátasmíði.  Kom að verkalýðsmálum o.fl.  K. Anna Ólafsdóttir.

 

trausti jonsson skogiTrausti Jónsson, Skógi.  26.10.1907-17.05.1994.  Reri í Kollsvíkurveri 1923, á bát Eyjólfs Sveinssonar og Gunnlaugs Egilssonar; hálfdrættingur móti Guðm. Jóni Hákonarsyni.  Smiður í Sandgerði og Hafnarfirði.  K. Dagbjörg Jónsdóttir; 10 börn.

 

guðm jon hakonarsonGuðmundur Jón Hákonarson, Hnjóti.  11.01.1910 - 18.10.2000 (Jónssonar, sjá ofar).  Bóndi Hnjóti; kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs og fleiri trúnaðarstörf.  Ógiftur og barnlaus.  Reri í Kollsvíkurveri, t.d. 1923 sem hálfdrættingur á móti Trausta (sjá ofar) hjá Eyjólfi Sveinssyni og Gunnlaugi Egilssyni.  Lýsir þessari vertíð í frásögn í Árbók Barð 2004; m.a. „sýslumannsstörfum“ í Verinu.  Næsta ár var hann í skipsrúmi hjá Gísla Guðbjartssyni (sjá ofar).  (ÓG segir í bókinni „Úr verbúðum í víking“ að 1924 hafi Jón róið á báti Eyjólfs Sveinssonar og Guðbjartar Gísla Egilssonar á Lambavatni). 

gestur jonsson hvallatrumGestur Jónsson, Hvallátrum.  19.09.1916-30.10.1940.  Sonur Jóns Magnússonar Hvallátrum.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK), en ekki ljóst á hvaða bát.  Var á mb Hegra sem fórst á Húnaflóa 1940, á siglingu til Reykjavíkur.  Ógiftur og barnlaus.

torfi olafsson stekkadalTorfi Ólafsson, Stekkadal  26.05.1919-21.03.2014.  Reri 1937 úr Kollsvíkurveri; hjá Kristjáni Júlíusi Kristjánssyni á Grundum (ÓG).  Núpsskóli; Verslunarskólinn; vanní Rvík  hjá Seðlabanka Íslands; formaður Fél. kaþólskra leikmanna.  K.  Jóhanna Gunnarsdóttir; 3 börn. 
        

olafur gudmundsson 2Ólafur Guðmundsson, Breiðuvík.  1923-2017.  Missti ungur föður sinn og ólst um tíma upp á Lambavatni.  Reri í Breiðavíkurveri 1935 og 1937 úr Kollsvíkurveri.  Var þá háseti hjá Jóni Torfasyni, en um tíma hjá Guðbjarti Guðbjartssyni (sem hann hrósar mjög) ásamt sonum Guðbjartar; Einari og Halldóri.  Þá vertíð reru 6 bátar með 15 vermönnum úr Kollsvíkurveri.  Núpsskóli; Verslunarskóli; stjórnunarfræði í Sviss; vann hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna frá 1947, lengst af sem forstjóri SH í Bretlandi.  K.  I  Guðfinna Pétursdóttir; 1 barn K II Laurette Muriel Elliott.  Ritaði endurminningabókina „Úr verbúðum í víking“ þar sem hann lýsir m.a. Kollsvíkurveri.

Barðstrendingar í Kollsvíkurveri 1890-1940

Þórarinn Andrésson Fjeldsted, Tungumúla.  07.09.1840-21.11.1919.  Ólst að mestu upp í Hvallátrum, Breiðafirði; fór að Hvítárvöllum og Svignaskarði; bjó að Ökrum, Mýrum 1882-1889, síðan í Hvallátrum og í Tungumúla 1890-1922.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát.  K.  Guðlaug Guðnadóttir Fjeldsted; 6 börn.

julius olafsson innrimulaJúlíus Ólafsson, Innri-Múla. 20.04.1850-06.10.1924.  Fæddur á Ytri-Múla; vinnumaður og húsmaður víða um Barðaströnd.  Bjó á Hreggsstöðum ytri 1896-1899; Haga 1918-1921 en síðan Innri Múla.   Hafði ekki síður atvinnu af róðrum en búskap.  Sést á mynd frá um 1900 (Ísl.sjávarh IV) ásamt Hákoni í Haga, Gísla Gíslasyni og Kristmundi Guðmundssyni; sennilega í skreiðarferð frá Kollavíkurveri og reri þá þar hjá Hákoni.  K. Jóna Jóhanna Jónsdóttir; 1 dóttir og uppeldissonur.

Kristófer Sturluson, Brekkuvelli.  17.08.1851-11.06.1927 (Einarssonar í Vatnsdal).  Vinnumaður Hreggsstöðum; húsmaður Siglunesi; bóndi Brekkuvelli 1886-1909 og 1914-1926.  Smiður, oddviti, sýslunefndarmaður o.fl.  Reri í Kollsvíkurveri og átti þar bát með Einari Guðmundssyni á Siglunesi (GE).  K.  Margrét Hákonardóttir; 17 börn; þ.á.m. Eiríkur skipherra og Hákon (hér neðar).

johannes sturluson hvalskeriJóhannes Sturluson, Hvalskeri.  22.08.1863-25.07.1934.  Bróðir Kristófers (hér ofar) og Sigurgarðs (hér neðar).  Var í Miðhlíð á Barðaströnd; vinnumaður Hvalskeri.  Reri í Kollsvíkurveri hjá bræðrunum Þorgrími Ólafssyni Miðhlíð og Sæmundi Ólafssyni Litluhlíð.  K.  Sigurlaug Sigurðardóttir.

Einar Guðmundsson, Siglunesi.  03.09.1864-03.06.1941.  Vinnumaður Sauðeyjum; bóndi Fossi 1891-1896; Haukabergi 1896-1901; Siglunesi 1901-1911; Hreggsstöðum 1901-1916; Holti 1916-1920; Sauðeyjum 1922-1930; Hergilsey 1920-1922; Hamri 1930-1933; síðast á Selskerjum í Múlasveit.  Formaður í Kollsvíkurveri, á bát sem hann átti með Kristófer Sturlusyni (sögn GE sonar hans í Sdbl Tímans 03.11.1963). 

K.  Jarþrúður Guðmundsdóttir; 5 börn (þ.a.m. tvíburarnir Guðmundur og Árni Jón, sjá neðar).

einar ebenezersson haukabergiEinar Ebenezersson, Haukabergi.  13.05.1879.01.07.1952.  Vinnumaður í Haga, Brjánslæk og Sauðlauksdal.  Bóndi Haukabergi 1905-1912; Siglunesi 1912-1922; Skriðnafelli 1922-1928; Innri-Miðhlíð 1928-1932; Brekkuvelli 1932-1943.  Formaður á bátnum „Flugu“ í Kollsvíkurveri.  (Ranglega sagður Jónsson í formannatali KJK).  K. Guðríður Ásgeirsdóttir; 14 börn; (þ.á.m. Einar, maður Ólafíu Ólafsdóttur Ásbjörnssonar).

Þórður Marteinsson, Fit.  01.05.1879-07.05.1929.  Vinnumaður Skriðnafelli 1901-1907; bóndi Holti 1907-1912.  Nam járnsmíði.  Gerði út bátinn „Láru“ í Kollsvíkurveri um 1900 (GG).  K. Ólafía Ingibjörg Elíasdóttir; 12 börn.

thorgrimur olafssonÞorgrímur Ólafsson form, Miðhlíð.  30.06.1876-15.12.1958.  Bóndi Ytri-Miðhlíð 1906-1942.  Gerði út bátinn „Dvalinn“ í Kollsvíkurveri með Sæmundi bróður sínum.  Þorgrímur var sá eini sem bjargaðist er bátur Þórðar Gunnlaugssonar (sjá ofar) fórst á Gjögrabót 1897.  K.  Jónína Ólafsdóttir; 11 börn.

saemundur olafsson litluhlidSæmundur Ólafsson, Litluhlíð.  26.06.1877-20.12.1923.  Bóndi Litluhlíð 1909-1923.  Gerði út bátinn „Dvalinn“ í Kollsvíkurveri með Þorgrími bróður sínum.  K. Hólmfríður Kristófersdóttir (Sturlusonar, sjá ofar); 4 börn. 


hakon kristofersson formadurHákon Kristófersson, Haga.  20.04.1877-10.11.1967 (Sturlusonar, sjá ofar).  Ólst upp á Brekkuvöllum; verslunarmaður á Eyrum.  Stundaði róðra frá unga aldri; fyrst frá Siglunesi en tvítugur var hann orðinn formaður í Kollsvíkurveri á eigin báti og reri þar allnokkrar vertíðir.  Sést á bátnum Jóhönnu í skreiðarferð um 1900 (Ísl.sjávarhættir IV). Verslunarstörf Eyrum 1901-1902; bóndi Haga 1907-1954.  Alþingismaður Barðastrandasýslu 1913-1931; hreppstjóri; hreppsnefndaroddviti og fjölmörg önnur trúnaðarstörf.  K I Björg Einarsdóttir (Thoroddsen í Vatnsdal).  K II Björg Jónsdóttir; 1 barn.  Hákon átti 2 börn þar fyrir utan.    

 kristmundur gudmundsson raudsdalKristmundur Guðmundsson, Hvammi.  26.10.1881-17.12.1932.  Ólst upp í Hvammi; bóndi Neðri-Rauðsdal 1908-1920; Húsum í Selárdal 1920-1929, síðan sjúklingur á Vífilstöðum.  Barnakennari.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK).  Sést á mynd með Hákoni Kristóferssyni á bátnum Jóhönnu líkl um 1900 (Ísl.sjávarhættir IV) og kann að hafa róið með honum.  K.  Kristjana Guðbjörg Þorgrímsdótrir; 13 börn. 

jon kristoferssonJón Kristófersson, Brekkuvelli  21.06.1888-19.08.1977 (Sturlusonar, sjá ofar).  Fór 12 ára sem matsveinn á skútu Péturs Ólafssonar á Geirseyri.  Reri síðan 3-4 sumur í Kollsvíkurveri, en fór þá aftur á kúttera.  Kennari í Tálknafirði; við hvalveiðistöðina Suðureyri; bjó á Eyrarhúsum, Tálknafirði 1923-1925; kennari á Patreksfirði.  Sjómaður á selveiðiskipinu Kópi Fluttist suður ogvar m.a. á varðskipinu Ægi.  (Sjómbl. Víkingur 01.01.1971)  K.  Guðbjörg Káradóttir; 5 börn. 

thordur olafsson innrimulaÞórður Ólafsson, Innri-Múla.  24.08.1887-10.04.1984.  Vinnumaður Haga; bóndi Innri-Múla 1921-1968 og önnur störf.  Reri fyrst 11 ára sem hálfdrættingur frá Brunnum, og var meðal síðustu sjómanna þar árið 1900 (Árb.FÍ).  Reri síðar úr Kollsvíkurveri og Oddbjarnarskeri.  K.  Steinunn Björg Júlíusdóttir; 9 börn. 


thorsteinn olafsson litluhlidÞorsteinn Ólafsson, Litluhlíð.  23.11.1890-31.03.1989. (Bróðir Þórðar, hér ofar).  Húsmaður Girði; bóndi Innri-Miðhlíð 1914-28; Ytri-Litluhlíð 1928-1966.  Reri í Kollsvíkurveri.  K.  Guðrún Jóna Margrét Finnbogadóttir; 14 börn.

 

jon v bjarnason hreggsstodumJón Valdimar Bjarnason, Hreggsstöðum.  15.09.1890-05.01.1972.  Fór 12 ára til róðra í Útvíkum, m.a. Kollsvíkurveri, ásamt föður sínum Bjarna Jónssyni 18.10.1827-26.10.1887, Hreggsstöðum.  Síðan á fiskiskipum frá Eyrum og Flatey.  Vann einnig að búinu á Hreggstöðum, en hætti búskap þar 1957.  Síðast til sjós frá Reykjavík.

arni jon einarsson flateyÁrni Jón Einarsson, Hreggstöðum.  03.04.1893-15.11.1980.  Reri úr Kollsvíkurveri; sem hálfdrættingur á 12. ári (GE).  Bóndi í Holti 1917-1918-Hergilsey 1918-1922; Sauðeyjum 1922-1924; og 1927-1930; bjó síðan í Flatey.  Vélstjóri, bátasmiður; hagleiksmaður og í félagsstörfum.  K.  Guðbjörg Jónsdóttir; 5 börn.

gunnlaugur kristofersson brekkuvelliGunnlaugur Kristófersson, Brekkuvelli (Sturlusonar, sjá ofar).  26.05.1896-03.06.1979.  Bóndi Brekkuvelli 1923-1934; Efri-Tungu 1932-1933 og síðan verkamaður Patreksfirði.  Reri m.a. 12 ára hjá Snæbirni í Hergilsey.  Reri úr Kollsvíkurveri.  Var háseti hjá Össuri Guðbjartsyni (sjá ofar) í Kollsvík og var með Valdimar Össurarsyni (sjá ofar) er þeir þurftu að brimlenda, einhverntíma milli 1922 og 1926. (frás Kristjáns Ólafssonar og Torfa Össurarsonar).  K.  Þuríður Sigríður Ólafsdóttir; 5 börn

knutur hakonarsonKnútur Hákonarson, Brekkuvelli.  12.07.1898-27.08.1977 (Kristóferssonar, sjá ofar).  Reri úr Kollsvíkurveri; útgerðarmaður Suðureyri; bóndi Þinghóli Tálknafirði 1933-1972, síðast í Reykjavík.  K.  Sigríður Pálsdóttir; 1 barn. 

 

kristjan olafsson brekkuvelliKristján Ólafsson, Brekkuvelli.  18.10.1899-02.01.1983 (bróðir Þorsteins og Þórðar, sjá ofar).  Bóndi á Brekkuvelli 1926-1935.  Var um tíma í Suðlauksdal, og þá landpóstur um Rauðasandshrepp.  Reri í Kollsvíkurveri; fyrst sem hálfdrættingur 1914, þá á 15 ári; á Dvalanum sem Þorgrímur og Sæmundur (sjá ofar) gerðu út.  Eftir 1922 reri Kristján 3 vertíðir úr Verinu sem formaður, þá líklega á nýjum vélbát sínum „Dvalinn“.  Hafði aðstöðu sunnanvið Syðrilæk í Verinu.  Bjó síðan á Patreksfirði.  Seldi þann bát Stefáni Ólafssyni (Jónssonar, sjá ofar) á Hvalskeri.  K. I  Guðrún Lilja Kristófersdóttir (Sturlusonar, sjá ofar); 5 börn.  K II Lilja Sigurrós Þórðardóttir (Marteinssonar, sjá ofar); 2 börn.  K III Kristjana Petrea Jónsdóttir.  Endurminningar Kristjáns með frásögum úr Kollsvíkurveri birtust í Árbók Barð 2016.

karl sveinsson hvammiKarl Sveinsson, Hvammi.  29.08.1899-15.01.1997.  Af Snæfellsnesi, en ráðsmaður í Hvammi 1924-1927; bóndi Innra-Leiti á Skógarströnd 1933-1935; Breiðabólstað 1935-1936; Brjánslæk 1936-1941; Hvammi 1941-1971.   Fluttist suður og vann verkamannavinnu.   Ýmis trúnaðarstörf, t.d. hreppsnefndaroddviti.  Formaður í Kollsvíkurveri; 1924 reru með honum Einar Guðbjartsson og Sigurvin Össurarson.

Guðm. Jóhann Jónsson, Ytri-Múla.  01.04.1904-14.01.1990.  Reri í Kollsvíkurveri; vinnumaður í Haga; bóndi í Ytri-Múla 1936-1961; verkamaður á Patreksfirði.  K.  Björg Sæmundsdóttir; 3 börn.

Aðrir utanhreppsmenn í Kollsvíkurveri 1890-1940

„Hér voru einkum margir Barðstrendingar; Sigmundur og Rögnvaldur í Hergilsey voru hér eitt vor“ (Guðbjartur Guðbjartsson; viðtal í Sdbl Þjóðviljans 1964).

Rögnvaldur Jónsson, Hergilsey.  28.10.1849-28.04.1923.  Bóndi í Hergilsey; skipstjóri á Ísafirði.  Vel hagmæltur og eru til eftir hann ýmsar vísur.   Reri úr Kollsvíkurveri.  Guðbjartur Guðbjartsson nefnir að þeir bræður; Rögnvaldur og Sigmundur úr Hergilsey hafi róið úr Kollsvíkurveri.  Líklega vísar Jóna Valgerður Jónsdóttir til þeirra er hún segir í æviminningum um Kollsvíkurver 1899:  „Einn maður sótti suður úr Hergilsey á fjögra manna fari og fór aftur eftir vorið með skreiðina suður fyrir Bjarg; allt í Eyjar“. 

Sigmundur Jónsson, Hergilsey.  Bróðir Rögnvaldar; reri úr Kollsvíkurveri.  Uppl vantar.  (Sdbl Þjv 01.03.1964)         

arni arentsson hofdadalÁrni Arentsson, Höfðadal.  27.06.1852-19.11.1940.  Bóndi og smiður í Höfðadal 1901-1914, áður í Ystu-Tungu.  Formaður í Kollsvíkurveri (KJK) en óljóst á hvaða bát.  Fluttu á Patreksfjörð.  K.  Ingibjörg Guðmundsdóttir; 5 börn. 

 

sigurgardurSigurgarður Sturluson, Eysteinseyri.  14.05.1867-26.03.1932 (Kristóferssonar, sjá framar).  Sjómaður og kennari á Eysteinseyri 1907-1926; sjálfmenntaður.  Rak þar verslun ásamt Viktoríu konu sinni.  Formaður í Kollsvíkurveri á bátnum „Hylas“.  K.  Viktoría Bjarnadóttir; 12 börn.

sveinn jonsson skaleyjumSveinn Jónsson, Skáleyjum.  15.10.1874-28.02.1976.  Fæddur að Skarði í Ytra-Neshreppi en ólst upp í Skáleyjum og bjó þar; síðast í Flatey.  Reri fyrst í Bjarneyjum en síðar á Hjallasandi undir Jökli.  Formaður í Kollsvíkurveri.  Sveinn var síðastur þeirra formanna í vestureyjum Breiðafjarðar sem nefna má farandveiðimenn fyrri tíðar.  Breiðfirðingar fyrr á tíð fylgdu gjarnan fiskigöngum; fóru þá á vetrarvertíð  í verstöðvum sunnan fjarðarins; Hjallasandi, Gufuskálum og Dritvík, en fluttu sig sig á vorvertíð vestur í Keflavík og Útvíkur; á Brunna eða í Kollsvík.  Eftir heyannir og fjárflutninga fóru þeir á haustvertíð í Breiðafjarðareyjum; í Bjarneyjum; Höskuldsey og Oddbjarnarskeri.

olafur johannsson kirkjuboli kvigindisfirdiÓlafur Jóhannsson, Kirkjubóli, Kvígindisf.  15.09.1897-23.07.1983.  Reri úr Kollsvíkurveri.  Húsasmíðameistari í Reykjavík.  K.  Ingunn Eiríksdóttir; 3 börn (þ.m.t. Guðrún, kona Ólafs Helgasonar Tröð, sjá ofar).    
     

 

maris k arasonMarís K. Arason, Barmi, Reykh.  25.05.1908-31.05.1992 fæddur að Barmi, Reykhólahreppi.  Reri í Kollsvíkurveri.  Símvirki; starfsmaður Rafmagnsveitu Reykjavíkur.  K.  Guðrun A. M. Guðbjartsdóttir (Guðbjartssonar Láganúpi, sjá ofar); 4 börn.

 

 

Heimræði í Kollsvíkurveri eftir 1940

Frá því að verstöðu lauk til þessa dags.  Heimamenn sem gerðu út í verinu en lágu ekki við í búðum.

gudbjartur guðbjartssonGuðbjartur Guðbjartsson, Láganúpi.  (sjá framar).  Bóndi á Láganúpi frá 1927.  Reri á bátnum Rut í Kollsvíkurveri ásamt sonum sínum.  Síðasta varðveitt nóta fisksölu er dags. 10.06.1944 (þá landað um borð í ms Hamónu).  Þar áður var fiskur innlagður hjá Sláturfélaginu Örlygi; Ólafi Jóhannessyni (nótur til 1939); Verslun M. Jóhannssonar 1934; A.P. Ólafssyni (1932) og Kaupfélagi Rauðsendinga (1931).

Rut var róið frá Kollsvíkurveri meðan þar var verstaða og þar höfðu Láganúpsmenn búð, ruðninga og kró.  Keyptu þeir ruðning, spil og kró af Guðmundi og Helga Gestarsonum 19.02.1934 og hafa eflaust nýtt aðstöðuna í Kollsvíkurveri þó fiskveiðum til sölu væri hætt í byrjun seinna stríðs.  Síðar (líklega fyrir 1950) ryðja þeir vör sunnan Langatanga í Láganúpsfjöru, setja upp gangspil þar á kambinum og fara soðróðra þaðan.  Rut skemmdist í lendingu; líklega fyrir 1960.  Guðbjartur hugðist gera við hana en af því varð ekki.  Báturinn fór á Patreksfjörð og mun Andrés Karlsson hafa ætlað að gera honum til góða.  Áður en af því varð lenti Rut á áramótabrennu fyrir mistök; líklega kringum 1968.  Þá höfðu Kollsvíkur bræður keypt Vonina og reru henni til soðróðra (sjá neðar).

einar gudbjartsson laganupiEinar Guðbjartsson, Láganúpi (sjá framar).  Reri með föður sínum og bræðrum úr Verinu til 1945, er hann tók við sem kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs, og byggði sér hús á Gjögrum; vann síðar við önnur kaupfélög.  Frá 1929 var hann á bátum og togurum á vetrarvertíð; í Vestmannaeyjum, Keflavík og víðar.

magnus halldorsson laganupiMagnús Guðbjartsson, Láganúpi (sjá framar).  Reri með föður sínum og bræðrum.  Fór 16 ára (1929) til Vestmannaeyja á vertíð, eins og Einar.  Haustið eftir sem matsveinn á togarann Leikni frá Eyrum, síðan eftir nám sem matsveinn á aðra togara; bjó í Vestmannaeyjum.  Fórst með togaranum Gullfossi 1941. 

halldor gudbjartssonHalldór Guðbjartsson, Láganúpi (sjá framar)  Reri með föður sínum og bræðrum.  Mótoristanámskeið 1935 og næstu ár vélstjóri á ýmsum bátum.  Meira mótoristanámsskeið og eftir það á stærri skipum, s.s. Jóni Þorlákssyni, Capitönu, Akraborginni; einnig vélstjórn í landi og síðast hjá Vélasölunni.

ingvar gudbjartssonIngvar Guðbjartsson, Láganúpi  31.05.1925-14.05.1999.  Hóf búskap á Stekkjarmel 1953 en síðar bóndi í Kollsvík 1962-1971; flutti þá suður og vann hjá Jarðborunum ríkisins.  Reri með föður sínum og bræðrum á Rut.  Síðar keypti hann, í félagi við Össur bróður sinn á Láganúpi, Vonina Helga Árnasonar og reru þeir henni til fiskjar til 1968.  Eftir það gerðu þeir út á grásleppu frá Hænuvík (líklega 2 vertíðar).  Um 1970 fengu þeir Ólaf Sveinsson á Sellátranesi til að smíða fyrir sig 1,5 tn bát sem þeir skírðu Rut (í höfuð hinnar eldri) og reru henni á grásleppu frá Gjögrum.  K.  Jóna Snæbjörnsdóttir (Thoroddsen, sjá framar); 5 börn og 1 fósturbarn.  Ingvar skrifaði ýmiskonar fróðleik um Verið og fleira.

ossurÖssur Guðbjartsson, Láganúpi  19.02.1927-30.04.1999.  Hóf búskap á Láganúpi 1953 eftir nám við Bændaskólann á Hvanneyri, en hafði áður fengist við kennslu.  Ýmis trúnaðarstörf fyrir sína sveit, m.a. hreppsnefndaroddviti lengi.  Reri með föður sínum og bræðrum á Rut.  Gerði síðan, ásamt Ingvari bróður sínum, út Vonina til soðróðra í Kollsvík og á grásleppu frá Hænuvík.  Hélt síðan Rut (yngri) út til grásleppuveiða frá Gjögrum 1970-1971 með Ingvari en 1972-1977 (?) með Valdimar syni sínum.  K.  Sigríður Guðbjartsdóttir (Egilssonar, sjá framar); 5 synir.  Össur skrifaði ýmiskonar fróðleik um Verið og fleira.

grimur arnason 2Grímur Árnason, Grundum (sjá framar).  Grímur bjó á Grundum til 1945, en þá hafði hann misst heilsuna og dvaldi á Vífilsstöðum eftir það.  Hann gerði út í Kollsvíkurveri, líklega jafn lengi og Guðbjartur á Láganúpi (sjá framar), en þar hafði hann ruðning og kró.  Hefur e.t.v. fært sig í Láganúpslendingu síðar, en til er mynd af bát hans, Sigurfara,  þar uppi á bökkunum.  Líklega tekin um 1940.

gudrun grimsdottir 2Guðrún Grímsdóttir, Grundum  25.05.1923-17.02.2019 (Árnasonar, sjó ofar).  Ólst upp á Grundum og reri m.a. til fiskjar með föður sínum.  Eiginmaður hennar var Einar Guðbjartsson (sjá framar) frá Láganúpi og ólu þau upp eina kjördóttur.  Þau fluttu á Gjögra 1947, þar sem Einar varð kaupfélagsstjóri; unnu eftir 1950 við kaupfélög víða um land en bjuggu í Borgarnesi frá 1967, þar sem bæði unnu við kaupfélagið. 

helgi arnasonHelgi Árnason, Tröð (sjá framar).  Hann bjó að Tröð til 1952 og hafði bát til róðra í Kollsvíkurveri, ásamt sonum sínum.  Líklega hefur það verið Vonin, sem hann síðar seldi Láganúpsbræðrum og Össur og Ingvar notuðu til soðfiskróðra og síðast á grásleppu (sjá ofar.  Ekki er ólíklegt að þeir hafi selt afurðirnar að einhverju leyti á Patreksfirði. 

arni helgasonÁrni Helgason, Tröð  15.02.1922-23.01.2011 (Árnasonar, sjá framar).  Ólst upp í Tröð og reri í Kollsvíkurveri síðustu ár sem þar var verstaða, og e.t.v. nokkru lengur með föður sínum og bróður.  Bóndi, fyrst skamman tíma að Hvallátrum en í Neðri-Tungu frá 1950 til 1980.  Vann á jarðýtu og ýmis trúnaðarstörf.  Var frumherji í grásleppuútgerð á Gjögrum kringum 1967; smíðaði sér bátinn Fönix og gerði hann út þar framyfir 1990. Flutti á Patreksfjörð og var þar fiskmatsmaður.   K.  Anna Hafliðadóttir; 9 börn

olafur helgason trodÓlafur Helgi Helgason, Tröð  07.10.1925-21.05.1986 (Árnasonar, sjá framar).  Ólst upp í Tröð og reri í Kollsvíkurveri síðustu ár sem þar var verstaða, og líklega nokkru lengur með föður sínum og bróður.  Flutti suður og vann sem bifreiðastjóri.  Byggði sér verbúð í landi Neðri-Tungu og gerði út, ásamt sonum sínum, bátinn Örn á grásleppu frá Gjögrum, líklega frá 1972 framyfir 1990.  K. Guðrún Ólafsdóttir (Jóhannssonar Kirkjubóli, sjá framar); 6 börn.

andres karlssonAndrés Teitur Karlsson, Stekkjarmel (sjá framar).  Ólst upp á Stekkjarmel og tók við búi þar 1942, þar til hann flutti á Patreksfjörð 1950.  Reri frá Kollsvíkurveri og var síðastur manna til að hafa þar verstöðu; líklega 1948 eða litlu fyrr.  Stundaði þar heimræði eftir það.  Ekki er ólíklegt að hann hafi selt afurðirnar að einhverju leyti á Patreksfirði. 

Leita