Hér lýsir Ingvar Guðbjartsson frá Kollsvík róðrum úr Kollsvíkurveri.

Ingvar Jón Guðbjartsson (31.05.1925 – 14.05.1999) fæddist á Grund í Kollsvík.  Var bóndi á Stekkjarmel frá 1953 til 1962, er hann flutti að Kollsvík þar sem hann stundaði búskap til 1971.  Þá fluttist hann í Kópavog og hóf vinnu hjá Jarðborunum ríkisins.  Kona Ingvars var Sigurlína Jóna Snæbjörnsdóttir frá Kvígindisdal, og eignuðust þau 5 börn.  Ingvar var fróður um róðra úr Verinu  og mið á Víkinni; bæði af eigin reynslu og viðtölum við aðra.  Pistil þennan tók hann saman til birtingar í Niðjatali Hildar og Guðbjartar foreldra sinna, 1989. 

Fyrsti undirbúningur að vorvertíð byrjaði í raun í sláturtíðinni að haustinu.  Gærur sem nota átti í sjóklæði voru rakaðar með flugbeittum hníf; síðan lagðar í blásteinslút.  Blásteinn var fluttur inn í föstu formi, en síðan leystur upp með vatni og notaður sem rotvarnarefni.  Skinnið var látið liggja í yfir nótt; síðan spýtt eða strekkt á hlera og látið harðna.  Síðan geymt á þurrum stað til vetrar.  Þá voru þau tekin fram og elt.  Oft var notaður rúmstuðull, eða stórt hrútshorn sem var bundið upp í sperru, og skinnin dregin fram og aftur þar til þau voru orðin lin og hvít.  Einnig var að hausti gerð kæfa; sett í skinnbelg og pressuð.  Oft var hún reykt eins og hangið kjöt og geymd þar til farið var í Verið. 

Brók og skinnstakkur voru þau hlífðarföt sem almennt voru notuð í verstöðvum frá fornu fari og fram um 1930.  Brækur voru buxur sem náðu uppundir hendur, með áföstum sokkum.  Pabbi saumaði mikið af skinnklæðum fyrir sig og aðra, en það var mikið vandaverk því brækurnar máttu ekki leka.  Í hverja brók þurfti þrjú ærskinn og kálfskinn í setskautann, en leður af stórgrip í sólana.  Við brækur voru notaðir sjóskór úr sútuðu leðri, til að hlífa þeim við sliti.  Þeir voru ekki saumaðir, heldur gerð göt í hliðar skæðisins og bundið saman fremst; snæri dregið í götin; svo hert saman á hælnum og bundið um mjóalegg.  Lýsi var borið á brækurnar til að mýkja og þétta þær; það var svo endurtekið um helgar eða í landlegum.  Ef óhappagat kom á brók var gert við á þann hátt að smíðaður var tappi með rauf í röndunum.  Honum smeygt í gatið; svo vafið utanum raufina með fínu bandi.  Það var kallað að tappa brókina.  Í skinnstakkinn fóru þrjú lambsskinn.  Hann var hafður í mjaðmasídd og tekinn saman í mitti með bróklinda.  Skinnklæðin entust nokkur ár með góðri meðferð. 

Þá þurfti að athuga um hrognkelsanetin; gera við þau eða riða ný net.  Í þau var notað seglgarn eða netagarn þegar ég man eftir, en áður var notaður togþráður.  Ég man samt eftir að Einar bróðir vann tog í tuttugu faðma innsett net; kembdi, spann, tvinnaði, riðaði og setti inn; og veiddi svo ágætlega í netið.  Einnig þurfti að útbúa lóðir, meðan þær voru enn notaðar í Kollsvíkurveri.  Trollgarn var notað í lóðaþininn. Taumar voru útbúnir heima; snúnir saman úr gömlu garni í taumavindum og bundnir á öngla.  Þá var lóðin stokkuð upp og tilbúin að beita hana.  Stundum þurfti að sauma nýtt segl á bátinn, en þau voru mikið notuð þótt vélar væru komnar í flesta báta þegar ég var unglingur.  Þegar fór að batna tíð var farið að huga að bátunum, en þeir voru á hvolfi frá því um haustið.  Það þurfti að bika þá innan og mála utan, og ef til vill skipta um eitt eða tvö skeyti; gera við band eða bunkastokk og setja niður vélina.  Þegar hægt var að komast á sjó að prufukeyra, þá var strákunum venjulega lofað með.

Þá þurfti að rífa upp alla fiskreiti, en þeir fylltust af sandi á hverjum vetri.  Reitirnir voru úr smágrjóti sem var raðað þétt saman til þess að þurrka á saltfiskinn.  Seinna komu vírreitir sem voru á lofti.  Næst var að huga að búðunum sem búa átti í, vor og sumar.  Það þurfti að laga vegg sem var farinn að ganga; bera nýjan sand á gólfið; laga rúmstæði og fleira.  Já, að mörgu var að hyggja áður en róðrar byrjuðu fyrir alvöru.  Oft var farinn einn og einn róður að vetri, og þá á einum bát; oftast einn frá heimili.  Í síðustu viku vetrar eða fyrstu viku sumars var flutt í Verið; helst alltaf á laugardegi.  Áhöldin voru ekki margbrotin; góð yfirsæng, en oft var notast við heydýnur í stað undirsængur.  Verkoffortið með rúgkökum eða hveitikökum; rúgbrauði, smjöri, og svo kæfu til nokkurra daga.  Þá var prímus, kaffiketill, kanna og fantar til að drekka úr; blikkfata eða pottur til að sjóða soðninguna.

Þegar ég man fyrst eftir voru 7 búðir sem róið var frá í Kollsvíkurveri.  Á Norðariklettunum, við fjárhús Jóns Torfasonar, var Grundarbúð.  Þaðan reri Kristján Júlíus Kristjánsson á Rana á Grundatúni; bátur hans hét Skuld.  Þar við hliðina var Klettabúð; hana átti og notaði Jón Torfason í Kollsvík.  Hann átti bát sem hét Gefjun.  Beint á móti Klettabúð; sunnanvið Búðarlækinn, var búð sem hét Meinþröng.  Frá henni reri Grímur Árnason; hans bátur hét Hnísa.  Bakvið Fönixarnaustið var búð sem Helgi Árnason reri frá; hans bátur hét Von.  Þessir menn áttu krær og ruðninga við Búðarlækinn.  Í röð sunnanvið Naustið voru nokkrar búðir.  Næst sjó var pabba búðin, og hét bátur hans Rut.  Sunnanvið hana var búð Karls Kristjánssonar; hans bátur hét Penta, og búð Helga Gestarsonar; hans bátur hét Svanur.  Þeir áttu krær við Syðstalækinn.  Efst í Verinu var lítill bær sem Magnús Jónsson bjó í allt árið.  Hans bátur hét Nói og var lang minnstur.  Hinir bátarnir voru frá einu og kvart til eins og hálfs tonns.  Það reru því 8 bátar úr Verinu þegar ég man fyrst eftir, en áður allt upp í 26 bátar, með heimabátum; víða að úr Patreksfirðinum og af Barðaströnd.

Við skulum nú rifja upp einn róður og undirbúning að honum.  Formenn miðuðu róðrartíma við það að vera komnir til miða um liggjandann; þ.e. straumaskipti norður- og suðurfalls.  Út af víkunum eru þau um 1 til 1 ½ klukkutíma eftir háflæði og háfjöru.  Það er besti tími, og fiskur oft vel viljugur.  Vaknað er kl 6 og gáð til veðurs.  Það er hæg norðlæg átt og bárulaust; ákjósanlegt sjóveður.  Þá er farið að hita kaffi og tekið til nesti; og ekki má gleyma blöndukútnum.  Í honum er sýrublanda og er hún góð við þorsta.  Þetta er borið í bátinn ásamt farviðnum; þ.e. árum og segli.  Hlunnar eru settir fyrir og báturinn settur niður.  Bátnum er stjakað frá landi með ár og lagðar út árar meðan vélin er sett í gang.  Þá taka allir ofan höfuðfötin og lesa bæn; hver fyrir sig.  Á meðan sígur Rut fram Syðstuleiðina; frá og suður.  Við köstum færi á Stekkunum en verðum ekki varir; þá er að dýpka sig meira.  Við reynum öðru hvoru, en verðum lítið varir fyrr en við erum komnir á miðið þar sem Hrútanef í Látrabjargi kemur fyrir Bjarnarnúpinn og Tálkninn fyrir Blakkinn; þar er 25 faðma dýpi.  Þar erum við um niðursláttinn á norðurfalli; liggjandann og upptöku á suðurfalli.  Við erum með gömul færi; hamplínu, 4ra punda blýlóð með hálfás sigurnagla; taumur einn faðmur og handfærakrókur.  Við beitum lubba, en það er gellan á fiskinum.  Ef dregin var smálúða þótti gott að beita henni.  Var þá skorin ræma úr þunnildinu hvítumegin og krækt á öngulinn.  Nokkuð fáum við af steinbít; hann er rotaður og slægður um leið og hann er tekinn inn.  Við fáum slíting af fiski yfir suðurfallið og framá liggjandann, en þá fer að kalda af norðri svo færin eru gerð upp og haldið í land.

Á leið í land er fiskurinn seilaður; þ.e. þræddur upp á seilarólina.  Hún var úr tvöföldu gömlu færi; með tréhnapp á öðrum enda; stór nál úr hvalbeini þrædd á hinn endann; nálinni stungið undir kjálkann og 25 fiskar fara á hverja ól.  Þegar kemur upp á Lægið er talið vissara að seila út, sem kallað er; það er að kasta ólunum út og binda þær í endann á legustrengnum; láta hann svo rekjast út um leið og lent er.  Þá var venjulega búið að draga spilstrenginn fram í flæðarmál og bera niður hlunna.  Við lendingu er ár rennt út í skutnum, til að varna því að bátinn fletji, því skakkafall var oft með sandinum.  Króknum er krækt í stefnislykkjuna og gefið merki um að strekkja á spilstrengnum.  Þá eru settir hlunnar og einn maður þarf að styðja bátinn.  Það þarf að vera fljótur með hlunnana því margir eru á spilinu.  Þegar báturinn er kominn upp á kamb er skorðað; oft var sagt:  „Skorðið skipsmenn; ábyrgist eigendur“.

Þá er að huga að fiskinum.  Strengurinn er dreginn að landi og seilarólarnar dregnar upp í lækinn; svo er borið upp.  Fimm fiskar eru bundnir af á enda ólarinnar og þeim lyft yfir hægri öxl; aðrir fimm hafðir við hnappinn; þeim lyft yfir vinstri öxlina; og fimmtán á bakinu.  Þannig er aflinn borinn upp í ruðning.  Ruðningur var trékassi á löppum.  Flatningsborð á öðrum endanum, en stúkað af fyrir hausa á hinum.  Þegar búið er að bera upp fara menn úr skinnklæðum; brókin sett á brókarkvíslina til að hún þorni fyrir næsta róður. Þá var farið í búðina til að borða.  Nýr fiskur hafði verið settur á prímusinn strax og búið var að bjarga bátnum.  Spónamat og mjólk höfðu krakkar komið með um leið og sást til bátanna á leið í land.  Ekki er beðið lengi með að fara í aðgerðina; einn hausar og tveir fletja.  Lækur rann við endann á ruðningnum.  Hann var stíflaður með hellu og flatti fiskurinn látinn detta af borðinu í stífluna.  Þar taka strákar til við að þvo hann og koma inn í kró sem stóð hinumegin við lækinn.  Þar er hann saltaður í stæður sem er umstaflað eftir 3-4 daga.  Í þeim stóð fiskurinn þar til hann var vaskaður og þurrkaður.  Steinbíturinn er flattur og kúlaður og hengdur á hjall til þurrkunar.  Steinbítshausar eru klofnir upp og bundnir saman á augunum; 6 í einu.  Þorskhausar eru kippaðir upp á snær, í svo sem 1 metra kippur eftir stærð hausanna; hryggirnir eru líka hirtir.  Hausar og fiskur eru hengdir á trönur; hryggirnir þurrkaðir á reitunum.  Þessi bein voru notuð fyrir skepnur næsta vetur.  Þau voru bleytt upp; barin og höggvin.  Slorið var einnig hirt; því var hent í tunnu, síðan keyrt heim og látið rotna í þró eða tunnum.  Það var svo blandað með vatni og notað sem áburður á tún.  Þegar búið er að ganga frá aflanum er hitað kaffi og lagst til hvíldar, enda langur vinnudagur að baki.

Þá ætla ég að segja frá einum sköturóðri með haukalóð.  Þeir voru oftast farnir um mitt sumar.  Haukalóðin var úr sterkara efni en lóðir sem notaðar voru fyrir þorsk; oft 150 – 200 krókar, og voru þeir stærri en á þorskalóð.  Hafður var tveir og hálfur faðmur á milli tauma, og taumurinn var einn faðmur.  Steinar eða drekar voru á báðum endum og niðristöður og dufl.  Byrjað var að skaka fyrir smáfisk uppi í þaragarði.  Þegar nóg var komið í beitu var keyrt á það mið sem leggja átti lóðina.  Smáfiskurinn var skorinn í lítil stykki og lóðin beitt niður í miðrúmið.  Venjulega var farið þegar smástreymt var; keyrt á mið sem heitir Tálkni og Sandhóll; þegar Tálkni sást fyrir Blakkinn og Sandhóllinn í Breiðavík fyrir Breiðinn.  Þar var leirbotn, og brást varla að fá skötu.  Lagt var þvert á straum, og hyllst var til að leggja lóðina í fullhörku á straum.  Láta hana fá einn snúning og draga svo aftur þegar tók að harðna fallið.

Fljótlega fór lóðin að þyngjast, því skatan lá þungt í.  Ef átakið á lóðinni breyttist þegar leið á dráttinn var einhver annar stærri dráttur með; oftast lúða.  Þá varð að fara að öllu með gát.  Önglunum var raðað á hástokkinn svo lóðin færi ekki í flækju út úr bátnum ef lúðan strikaði.  Það varð að vera tilbúið með ífæruna og koma henni í gott hald á hausnum, þegar lúðan kom að.  Tveir hjálpuðust að við að ná henni inn; svo var hún rotuð.  Áfram var haldið að draga; einn og einn vænn þorskur og steinbítur slæddust með.  Svo er lokið við dráttinn.  Ef afli var sæmilegur var ekki lagt aftur; annars var það oft gert.  Síðan var haldið til lands og gengið frá bátnum.  Skatan var gerð til; börðin voru grafin í sand svona vikur til 10 daga, þá tekin og þvegin; söltuð dálítið og geymd sem vetrarforði.

Læt ég nú lokið þessari upprifjun minni, af sjósókn og lífi í Kollsvíkurveri.  Lífsháttum sem nú heyra sögunni til, en voru stór þáttur í lífi og afkomu fólks á mínum æskuárum.

Leita