Eins og sjá má hefur vefurinn kollsvik.is fengið nokkra andlitslyftingu.  Um nokkurn tíma hefur verið fyrirhugað að gera á honum ýmsar breytingar um leið og sett verður inn efni sem safnast hefur fyrir.  Að lokum varð niðurstaðan sú að leggja af fyrra kerfi og setja upp nýtt vefsvæði frá grunni, sem betur hentar átthaga- og upplýsingasíðu sem þessari. 

kristin vidurkenning kollsvikMinjastofnun hefur tekið upp þá venju að veita árlega viðurkenningu fyrir starf á sviði minjaverndar.  Að þessu sinni hljóta landeigendur Kollsvíkur og Láganúps þessa viðurkenningu „fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar“, eins og það er orðað í tilkynningu.  „Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenning af þessu tagi er veitt og hljóta Kollsvíkingar hana að þessu sinni fyrir öflugt grasrótarstarf við viðhald og varðveislu menningarminja í Kollsvík, ásamt skráningu þeirra og miðlun“.

Sumarið 2018 gerðist sá fáheyrði atburður í Kollsvík að þar reis upp nýr bústaður, þegar Agnes Ingvarsdóttir og Guðbjartur Össurarson settu þar niður Litla-Núp.   Líklega er liðin meira en öld síðan síðast var stofnað til nýbýlis í Kollsvík, en kringum aldamótin 1900 spruttu upp nokkrar hjáleigur. 

Leita