Búskaparsaga Kollsvíkur nær líklega óslitið frá landnámi Kolls (líklega um eða fyrir 880) til ársins 2002, þegar Hilmar Össurarson og Hólmfríður St. Sveinsdóttir brugðu búi.  Búskapur var löngum önnur meginstoð byggðar í Kollsvík, en hin var útgerð.  Kollsvík er góð beitarjörð og þar er fóðurlétt fyrir fé, sem var jafnan haldið til beitar bæði í úthögum og í fjöru.  Fjárhús stóðu jafnan við sjó fram á 20.öld til að nýta sem best fjörubeit.  Hér fara á eftir frásagnir KIollsvíkinga sem vel þekktu til búskaparhátta fyrr á tíð. 

Athugið:  Með því að smella á þessa efnisflokka má stökkva beint í viðkomandi efnisgrein:
Vorverk og heyannir Össur Guðbjartsson á Láganúpi segir frá búskaparháttum liðinna tíma.
Fráfærur  Kristján Júlíus Kristjánsson þekkti fráfærur frá sínum uppvaxtarárum á Grundum.
Nautpeningur  Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi segir frá kúabúskap á fyrri tíð.
Haugburður og vallarvinna Skán og mykja var verðmæti fyrr á tíð.
Hesthús og hross
   Torfi Össurarson ræðir umhirðu og nýtingu hesta í Kollsvík fyrrum.
Reiðtygi   Og hér heldur Torfi áfram og lýsir reiðtygjum.
Alifuglarækt Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi hélt ávallt hænsni og þekkti umhirðu þeirra.
Fyrsti traktorinn og jarðræktarverkefni Kollsvíkinga Viðburður sem markaði upphaf vélvæðingar í Kollsvík.

 

Vorverk og heyannir

ossurHöfundurinn:  Össur Guðbjartsson (19.02.1927 - 30.04.1999) ólst upp á Láganúpi.    Að loknu búfræðinámi tók hann við búi á Láganúpi af foreldrum sínum og bjó þar alla sína tíð.  Össur gegndi fjöldamörgum trúnaðarstöfum og félagsmálastörfum fyrir sína sveit; var m.a. hreppsnefndaoddviti í 16 ár; barnakennari, búnaðarráðunautur, fulltrúi í stéttarsamtökum bænda o.fl.  Hann var giftur Sigríði Guðbjartsdóttur frá Lambavatni, sem einnig var ættuð úr Kollsvík, og eignuðust þau 5 syni.   Eftirfarandi grein Össurar birtist í Niðjatali Hildar Magnúsdóttur og Guðbjartar Guðbjartssonar, foreldra hans, sem út kom árið 1989.

Bústofn foreldra minna á uppvaxtarárum mínum var lengst af þessi: 1 hross, 2 kýr og 70-150 fjár.  Fjárhúsin voru tvö, auk gimbrakofa, og stóðu þau niður við sjó.  Að þeirra tíma hætti voru hús þessi hlaðin úr torfi og grjóti, en með grindum.  Oft var farið að taka fé á hús í byrjun nóvember, en fór þó eftir veðri.  Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn.  Beitt var í fjöru ef þari var og bitfjöru um stórstraum.  Mest sótti féð í söl og maríukjarna.  Menn af bæjum sunnanvert í Kollsvíkinni skiptust á að reka féð og standa hjá.  Talsverð vinna fór í að bleyta, berja og höggva fiskibein, en þau voru eini fóðurbætirinn sem féð fékk, auk lýsis sem gefið var alla vetur.  Ef féð fyllti sig vel á krafsjörð og fékk eitthvað í fjöru var ekkert hey gefið.  Pabbi átti mjög fallegt fé; yfirleitt hyrnt, gult um höfuð og fætur.  Lömbin voru alin inni allan veturinn.  Þau voru höfð í lambhúsi sem stóð uppi á Hólum.  Lömbin voru höfð á taði; það var stungið út um sumarmál og notað sem eldiviður þar til mór fór að þorna.  Taðið úr öðrum bústofni var notað til áburðar á tún.  Var það flutt á tún að hausti eða vetri, og dreift úr því.  Að vorinu var þessi áburður svo unninn sem best niður í grasrótina; var það kallað „að vinna á túni“.  Til þess var notaður slóði sem muldi skítinn, og var hann dreginn af hesti.  Síðan var rakað yfir með kláru eða hrífu.  Var þessi vinna oftast unnin snemma vors eða um hálfan mánuð af sumri.  Einnig voru notaðar taðkvarnir og taðið malað, og síðan dreift úr því.  Fyrir slátt var túnið hreinsað; þá var skíturinn sem ekki vannst niður rakaður í hrúgur.  Það var svo starf okkar krakkanna að tína þær upp í trog og hella þeim í poka.  Afrakið var síðan borið heim í mókofa og notað sem eldiviður.  Heldur þótti okkur leiðinlegt verk að taka hrúgur.

Á vorin voru stungnir garðar fyrir kartöflur og rófur.  Garðarnir heima voru talsvert stórir.  Þeir voru; Hólagarðurinn, Fjósgarðurinn, Litla beðið og Garðurinn bakvið bæinn.  Hreinsun túna og garðvinna voru að mestu störf kvenna og barna; karlmenn gripu í það í landlegum.  Mótekja til eldiviðar var erfitt starf, og eingöngu framkvæmd af karlmönnum.  Mógrafir Láganúps og Grunda voru ofantil við Júllamelinn og á Áveitunni, en þar þótti jarðvegur betri til mótekju.  Mótekja fór þannig fram að stungnar voru tvær stungur ofan a móinn, og var þeim hent í næstu mógröf: svo komu 5-6 stungur af mó.  Besti mórinn var 2 neðstu stungurnar.  Verst var hve mikið vatn var í gröfunum.  Þó var alltaf hafður vatnsbakki, en hann vildi springa.  Svo sprakk oft upp botninn, og gröfin fylltist af vatni; þá varð að byrja á nýrri.  Ef vel gekk gátu mógrafir orðið meira en mannhæð á dýpt, og var þá orðið býsna erfitt að kasta hnausum upp á bakkann.  Síðan var mórinn keyrður á þurrkvöll við Grástein; ýmist á hestakerru eða hjólbörum.  Þar tóku konur og unglingar við og stungu hnausana í flögur, um 2 tommur á þykkt, og voru þær látnar þorna á efri hlið.  Svo þurfti að hreykja; þ.e. hlaða flögunum saman upp á rönd.  Þegar mórinn var orðinn sæmilega þurr var honum hlaðið upp í kringlótta hlaða og breytt yfir.  Þannig var hann látinn standa til hausts; þá var honum ekið heim í mókofa.  Seinast var tekinn upp mór á Láganúpi vorið 1953.

Eitt af vorverkunum, sem að mestu kom í hlut unglinga eftir að róðrar hófust, var eftirlit með sauðfé.  Eftirlitið fólst í því að reka frá mýrunum kvölds og morgna, því mikið var af drápsdýjum í Láganúpsmýrunum.  Það er tekið fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem mikill ókostur á jörðinni.  Um sauðburðinn þurftum við að fara annan hvern dag út í Breiðavík, en þar gekk mikið af okkar fé.  Nokkur ókostur var hve féð leitaði mikið í kletta; sérstaklega þegar snemma var sleppt.  Það greri snemma á klettasyllum og féð stökk niður á þær til að ná sér í æti.  Fór þá mörg kindin fram af eða komst ekki upp aftur.  Varð þá að fá menn til að síga eftir þeim og ná úr svelti.  Oftast voru það sömu mennirnir sem þetta gerðu, og aldrei var tekin greiðsla fyrir þessa miklu fyrirhöfn og hættu sem menn settu sig í.

Túnið á Láganúpi hét ýmsum nöfnum eftir því hver parturinn var.  Þessir voru helstir:  Túnshali, Þrjótur, Hólar, Svunta, Bæjarbrekka og Urðir.  Sláttumýri og Sef voru hinar eiginlegu engjar, ásamt Svuntumýri.  Jarðvegur á Láganúpi er byggður upp á skeljasandi og því ófrjór og áburðarfrekur.

Heyannir hófust oftast í 12. viku sumars með því að „borið var út“, en svo var kallað þegar byrjað var að slá.  Var það alltaf gert á laugardegi.  Oftast bakaði mamma þá pönnukökur með kaffinu.  Fyrst var slegið umhverfis bæinn; síðan fram eftir túninu, fram að Túnshala.  Hann var mjög illslægur; þýfður og grýttur og því oft látinn bíða, ásamt Brekkunni og Urðunum.  Annars var túnið frekar greiðfært og því mikið hægt að slá múgaslátt.  Þrjótur og Hólar voru harðbakkar og þurfti því að slá þá í rekju.

Allt gras var rakað saman í flekki; misstóra eftir sprettu.  Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi; í föng ef hey var blautt, annars lanir og að lokum galta; oftast kringlótta, þegar heyið var farið að þorna vel.  Þegar heyið var þurrt var það bundið í sátur og keyrt heim á hestvagni, eða borið þaðan sem styst var.  Þegar töðuheyskapur var búinn var farið að slá Sláttumýrarnar, en þar var heyskapur seintekinn.  Gott þótti að slá hestburð á dag í 10 tíma slætti.  Það gras var keyrt upp á tún og þurrkað þar.  Sefið var eiginlega fen eða dý niður af bænum, og þurfti hey þaðan mikinn þurrk.  Ef heyskapur heima gekk vel var farið í útslægjur, sem kallað var.  Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó.  Einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal.  Seinast var farið í útslægju um 1940.  Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum.  Það hey þurfti að bera á bakinu um snarbratta hryggi, með hengiflug fyrir ofan og neðan.  Þetta var mjög harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar.  Nær eingöngu var heyjað í þurrhey á þeim tíma; þó þekktist votheysgerð í smáum stíl.  Ætlaður var 1 hestur á kindina; 30 hestar fyrir hverja kú, og hrossi var ætlaður úrgangur, moð og rekjur.

Að síðustu langar mig að minnast á leitirnar.  Þó þær væru hvorki langar eða erfiðar heima, voru þær eitt mesta tilhlökkunarefni bæði barna og fullorðinna.  Gangnaseðillinn sem barst bæ frá bæ, kom að Láganúpi um hálfum mánuði fyrir göngur og þaðan varð pabbi að senda með hann út að Breiðavík.  Í honum var ákveðið hvað pabbi ætti að senda marga í göngur á Breiðavíkurrétt, og hvort hann ætti að sækja fé á Skógarrétt.  Á laugardag var slátrað lambi í gangnanestið og á sunnudag smalað heimalandið.  Ókunnugt fé sem kom í réttina var látið í hús; það var svo rekið til réttar á mánudegi.  Farið var af stað um kl 7, og fylgst að með reksturinn út að Litlavatni; þar skildu leiðir.  Einn fór fyrir Breið, og þurfti það að vera sæmilega bjargfær maður, því oft voru kindur á slæmum stöðum.  Annar fór upp Grenjalág og útyfir Breið; hann smalaði svo Fjarðarhornið með þeim sem kom fyrir Breið.  Tveir héldu áfram með reksturinn upp Vörðubrekku og áttu að smala Sanddalina og Breiðavíkurhjallana.  Og einn fór fram Ívarsegg; út yfir Flosadalinn og niður Hafnargil.  Í Hjallagötu mættust svo allir og ráku til réttar.  Þegar féð var komið í rétt og búið að ræða við kunningjana, var tekið til nestis; stundum undir réttarvegg, en oftast inni á bæjum.  Þegar menn voru búnir að borða og ræða málin var dregið í sundur, og boðið upp ef ómerkingar voru.  Þá var réttarstörfum lokið og rekstrar fóru að tínast burt.  Hjá okkur far 3ja tíma rekstur eftir.  Þegar heim var komið var gott að fara að hvíla sig eftir erfiðan en skemmtilegan dag.

Margt er ósagt um vinnubrögð og búskaparhætti á uppvaxtarárum mínum, sem gaman væri að segja frá.  En það verður ekki gert að þessu sinni.


Fráfærur      

kjk

Höfundurinn:  Kristján Júlíus Kristjánsson var fæddur 12. júlí árið 1896 á Grundum í Kollsvík.  Hann ólst upp við hin fjölbreyttu störf bænda og útvegsmanna sem þá tíðkuðust og byrjaði snemma róðra.  Júlíus kvæntist Dagbjört Torfadóttur; og tóku þau við búi af foreldrum hans.  Þau bjuggu á Grund og Stekkjarmel en síðar og lengst af í Efri Tungu.  Hann var  lengi barnakennari í Rauðasandshreppi, auk þess að gegna mörgum trúnaðarstörfum; var í hópi færustu bjargmanna, og söngmaður afbragðsgóður.  Kristján Júlíus Kristjánsson lést 9. oktober árið 1970.  Eftirfarandi lýsingu ritaði hann sem svör við spurningum Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1962.

Stekkur var alltaf byggður úr grjóti og torfi. Lögun breytileg. Kvíin sporöskjulaga eða nær hringalaga. Lambakróin einnig óreglulega löguð, stundum reft yfir hana. Litlar dyr milli kvíar og króar. Vegalangd milli bæjar og stekkjar var mjög breytileg.Í Kollsvík, þar sem ég þekkti best til í æsku, voru 3 bújarðir: Kollsvík, tvíbýli, þar var fyrr stekkur heima við tún, síðar fluttur fjær. Á Láganúpi var síðast stekkur í túnfæti. Frá Grundum og Láganúpi voru áður 4 stekkir út eftir Hnífum. Heimstur var Þúfustekkur, þá Eyvararstekkur, síðan Katrínarstekkur og yst Grófarstekkur. Sennilega hefir hvor jörðin átt sinn stekk. Til ysta stekkjarins er alllöng leið, jafnvel frá Laganúpi upp að 1/2 klst. gangur. Stekkur var ekki notaður sem rétt. Algengt var að tvíbýlisjarðir væru með einn stekk, t.d. Kollsvík, Efri og Neðri Tunga. Hnjótur ofl. Ekki var um eiginlega túnrækt að ræða kringum stekki, en þó var sumsstaðar kallað Stekkjartún (örnefni) t.d. í Hænuvík. Oft grænkaði þá á vorin fyrr í kringum stekki. Stekkjarhjalli er örnefni í Tungulandi.   

Lömbin voru byrgð í lambakróm. Ærnar voru mjólkaðar í kvíum, sbr. kvíær. Annar fénaður, sem blandaðist kvíaánum, svo sem gemlingar og geldar ær, var nefndur "ríll", geldríll. Ekki var lambakró notuð sem fjárhús, enda þótt reft væri yfir hana.    Dyr eða gat var á lambakrónni með ófullkomnum dyraumbúnaði. Þekki ekkert heiti á þessu.   Kvíar: Það, sem sagt hefur verið um stekki á og að mestu við um kvíar, bæði að gerð, rými og staðsetningu. Kvíar voru frekar nefndar í sambandi við fráfærur, en voru þó eitt og sama og stekkurinn.    Stekkjarær voru aðeins mjólkaðar í annað mál, að morgninum, en fráfæruær í bæði mál.    Vart þurfti að hreinsa kvíar, nema ef langvinn votviðri gengu, og þá ekki um áburð að ræða. Óþekkt var hér, að grindur væri í kvíum. Á tvíbýlisjörðum var oftast ein kví, en tvær lambakrær.   

Kvíabólið var næsta umhverfi kvíanna, stekkjarins. Oftar var hér talað um að fara á stekkinn, og að ærnar væru komnar í stekkinn, eða í kvíar.  Færikvíar þekktust ekki hér um slóðir.   Nátthagar voru til á nokkrum bæjum. Vörslugarðar úr grjóti.   Stekktíð byrjaði að jafnaði í 11-12 viku sumars og lauk með ágúst. Stíað var öllum sæmilega framgengnum ám. Það var kallað að fara á stekkinn, er gengið var til mjalta. Það var oftast kl.8-9 að köldinu, að lömb voru tekin undan ánum, en um kl 7 að morgni, að ánum var smalað til mjalta. Yfir nóttina var lömbunum stíað frá ánum. Að mjöltum loknum var ám og lömbum hleypt í hagann. Mjólkaðir voru báðir spenar. Kallað að fara undir. 

Sauðamjólk mun hafa verið talin fituminni en kúamjólk, en betri til skyrgerðar. Smjör, skyr, sýra og drukkur úr mjólkinni voru allt neysluvörur. Að loknum mjöltum að morgninum var ám og lömbum hleypt úr stekknum og litið eftir að hver ær fengi sitt lamb.   Sauðarefni voru oftast gelt um rúningu og sleppt strax á hreinan völl. Ýmist var um fjaðra- eða skúfgeldinu að ræða. Oftast voru lömb mörkuð ung eða meðan til þeirra náðist úti. Annars við ærrúning. Smalanum var treyst til mörkunar á ungum lömbum, en annars gerði bóndinn það við ærsmölun. Vasahnífurinn var algengasta tækið, sem notað var við að marka, einnig stundum notuð skæri. Mörk með mörgum benum voru nefnd krullmörk eða særingamörk. Það kom fyrir að mold var borin í sárið, ef mikið blæddi. Dreginn var vindingur í eyra, einkum ef lamb mismarkaðist.   Ekki var föst venja að gefa smalanum stekkjarlamb, en oft átti hann á með lambi.

Fráfærur: Víðast hér um slóðir var um annaðhvort að ræða, stekktíð, þ.e. stíun, eða fráfærur. Hófust þá fráfærur um svipað leyti og áður er sagt að stekktíð hafi byrjað. Lömbin voru þá orðin 5-7 vikna gömul. Varla var fært frá lömbum sem borin voru í 8-9 viku sumars, enda slík lömb talin til síðgotunga. Lömb sem týndu mæðrum sínum voru ýmist nefnd undanvillingar eða frávillinglar. Einnig var sagt um lömb og börn, sem framfaralítil þóttu, að þetta væru nú meiri afturkreistingarnir.    Nóttina áður en lömbin skyldu rekin, var ánum haldið inni, en lömbin látin hlaupa um stekk, uns lagt var af stað með þau síðari hluta nætur.    

Lambahöft voru oft notuð í byrjun rekstrar, en leyst úr hafti áður mjög langt var farið. Höft voru oftast gerð úr sokk- eða vettlingsbolum, klipptir í hæfilega breiða þverbúta. Fyrst var öðrum framfætinum stungið í gatið, snúið upp á einn eða fleiri snúningar og hinum fæti stungið í hæfilega rúmt gat við hinn lykkjubarminn.  Fráfærulömb voru undantekningarlítið nefnd hagfæringar.  Það þótti betra að spekja lömbin eina nótt eða svo, þe. reka þau ekki "kik" af stað í sumarhagann. Fara varð hægt með lambareksturinn og leyfa þeim oft að bíta. Reynt var að fá sem best upprekstrarland. Í Sauðlauksdal þótti kjörland fyrir hagfæringa eins og annan sauðfénað. Þar var fengið upprekstarland í síðustu fráfærur, sem hér koma við sögu. Var það úr Kollsvík árið 1936.  Miklum hávaða, klið, var jafnað við jarm á stekk eða fuglaklið í bjargi.

Eflaust eru mörg örnefni dregin af lambavörslu eða lambaupprekstri, t.d. Lambahlíð í Breiðavíkurbjargi. Lambhagi í Hnífunum, er tilheyra Láganúpi og Grundum. Einnig Lambakinnar í Tungulandi.    Lambakefli var grannur tréteinn með smákúlu á hvorum enda. Brugðið var mjúku bandi um teininn innan við kúlurnar og aftur fyrir hnakka lambsins. Ekki var venja að kefla lömb nema um stuttan tíma, því hætt var við að þau yrðu munnsár.  

Hjásetan: Um hjásetuna verður hér ekkert rætt, því hvorki ég eða mér eldri menn muna til þeirra starfshátta hér um slóðir. Við fráfærur var ánum smalað í bæði mál til mjalta, en við tún að morgninum til mjalta, en á kvöldin var smalað til þess að skilja að lömb og ær.    Ekki var venja að auðkenna kvífé hér um slóðir, enda kvíaær ekki margar á hverjum bæ. Hálsband var nefnt helsi. Það þekktist að styggar kindur væru hábundnar þannig, að annar framfótur var bundinn upp nokkuð krepptur. Til þess var notaður fléttaður ullarlindi, sem brugðið var yfir kindina aftan við bóga og yfir fótinn milli klaufa og lágklaufa. Einnig kom fyrir, að rásgjörn ær var bundin við spaka, þannig að bandi var hnýtt aftan við bóga þeirrar spöku og helst um horn þeirrar rásgjörnu. Ekki þekki ég sérheiti á spöku fé, en andstæðan var fjallafálur eða frenjur.  

Ær sem sóttu í tún voru nefndar túnþjófar eða skitur. Fágætt var að bjöllur væru notaðar á sauðfé, en þó voru þær til, enda hafa sauðarbjöllur fundist í mold. Svo lítur út, sem bjöllur þessar hafi verið erlend smíði.    Engan greinarmun þekki ég á júgurbólgu eða undirflogi, en heyrt hvorttveggja nefnt. Helst var notað til áburðar lýsi, einkum andarnefjulýsi, einnig reynt að sjóða smyrsl úr lyfjagrasi til áburðar. Þetta gafst vel, einkum andarnefjulýsið, ef ekki var um júgurmein eða ígerð að ræða.    

Mjaltir: Mjaltafötur voru oftast úr tré, stafafötur girtar 2 gjörðum. Tveir eyrnastafir, og gengu kilpir, venjulega úr hvalskíði, upp í sinn hvorn enda handfangsins. Notuð voru og smærri ílát, nóar, til þess að mjólka í, en losaðir öðru hvoru í fötuna.    Mjaltakonur höfðu fatnað að kasta á sig, kvíakast. Var það ávallt pils og léttur jakki eða treyja. Konur stóðu aftan við ána, sem mjólkuð var, og mjólkað aftur á milli afturfóta ærinnar. Speninn var gripinn milli tveggja fingra, þumalfingurs og vísifingurs. Ýmist notuðu mjaltakonur sléttan góm þumalfingurs eða krepptan þumalfingur, gripið vísifingri móti efsta lið. Oftast var tvímjólkað, fyrirmjölt og hreyta. Oft voru mjólkaðar ær auðkenndar með pentu, froðuslettu. Varað var við að ganga of nærri ánum, þurrmjólka, naga.

Sjaldgæft var að ær barna eða vinnuhjúa væru hafðar í kvíum. Um ær og kýr, sem snögglega geltust, t.d. við veðrabrigði, var sagt að dottið hefði úr þeim nytin eða dropinn. Ég veit ekki með sönnu hversu mikið smjör kom að jafnaði undan á, en heyrt hef ég talað um 7 merkur, 3 1/4 kg. Sauðábrystir voru aðeins gerðar úr mjólk, sem mjólka þurfti frá lambi nýfæddu eða úr kind, sem mistti lamb og ekki var hægt að venja undir.    

Þjóðtrú: Um þjóðtrú verð ég fáorður. Talað var um að minna blæddi, ef lömb væru mörkuð með aðfalli, en lítt var þessa þó gætt.  Ýmsir lögðu trúnað á það að öll mörk væru ekki jafn lánsöm og reyndu af þeim sökum að skipta um mark. Ekki var þess gætt, frekar en við mörkun, að gelda hrútlömb með aðfalli. Ekki var að því fundið, þó börn kysstu lömb eða ær. Það kom fyrir að salt var látið í eyru nautgripa, sem fluttir voru að, en ekki þótti það góð meðferð því skepnunni leið ekki vel, þegar saltið bráðnaði í eyrunum. Ekki þekki ég til að slíkt væri gert við sauðfé. Álfabruni voru útbrot nefnd á nösum á sauðfé. Ekki kannast ég við að veðurspá væri talin fólgin í háttum kvífjár, en aftur á móti voru ýmsir hættir sauðfjár og hesta að vetrinum vita á breytt eða vont veður. Að dreyma sauðfé að vetrinum var talið fyrir fannkomu.   

Selfarir: Um selfarir verður fátt að segja, þó hefur verið haft í seli á nokkrum stöðum hér í sveitinni. Síðasta selför var í selinu á Hvalllátrum, um eða rétt fyrir 1890. Var þar síðasta selráðskona Halldóra Gísladóttir, móðir Daníels Eggertssonar á Hvalllátrum. Ekki hefi ég getað haft spurnir af því, hvernig daglegum störfum var niður raðað. Þarna voru hafðar í seli bæði kýr og ær. Þrjú lögbýli voru þarna um selstöðu í sameiningu. Ekkert veit ég um heimflutning á selafurðum, né hvenær á sumri búsmali var fluttur heim.    Af örnefnum má marka, að selstaða hafi einnig verið í Breiðavík, þar eru örnefnin: Seljagil og Seljaflói. Eflaust hefur selstaða lagst þar niður allmiklu fyrr. Þá er enn að geta sels á Raknadalshlíð í innanverðum Patreksfirði, austanvert fjarðarins.    Að því sem að framan er sagt, býst ég við að sé næsta lítill fengur, og þá vona ég að tekinn sé viljinn fyrir verkið.

Nautpeningur

gudbjartur guðbjartssonHöfundurinn:  Guðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879 – 01.10.1970) fæddist i Kollsvík; yngstur 19 alsystkina.  Þar ólst hann upp, en föður sinn missti hann ungur.  1909 giftist Guðbjartur konu sinni, Hildi Magnúsdóttur sem ólst að mestu upp á Kollsvíkurheimilinu.  Þau hófu búskap í Tröð; voru um tíma á Hnjóti og hjáleigunni Grund í Kollsvík, en 1927 fengu þau jörðina Láganúp til ábúðar,og bjuggu þar síðan.  Þó Guðbjartur stundaði allmikið sjósókn var hann fyrst og fremst bóndi; annálaður fyrir natni sína við skepnur og fjárglöggur með afbrigðum.  Hann var afkastamikill grjóthleðslumaður og víða standa enn hleðslur hans.

Það fór eingöngu eftir tíðarfari hvenær kýr voru bundnar inni að hausti.  Í sæmilegri tíð voru þær venjulega teknar á hús síðari hluta október.  Væri sérlega góð tíð kom fyrir að þær gengu úti fram í nóvember, en það var sjaldgæft og þá var mjólkandi kúm jafnan gefið með beitinni.  Snemmbærur (þ.e. kýr sem áttu að bera um veturnætur) voru þó sjaldnast látnar út til beitar eftir burð. Þá var kallað að þær væru bráðsnemmbærar.  

Ég hygg að hér hafi verið algengast að tala um gjafatíma, þó önnur orð eins og innistöðutími væru einnig notuð.  Ef óvenjulega langur gjafatími var hjá kúm vegna óhagstæðs tíðarfars, heyrði ég stundum talað um að það ætlaði að verða langur ómagahálsinn á þeim núna.  Yfirleitt var kúnum ekki beitt fyrir alvöru (þ.e. án gjafa með) fyrr en gróður var orðinn það mikill að ekki minnkaði mikið í þeim nytin.  Þetta fór að sjálfsögðu mjög eftir árferði og kannski ekki síður eftir því hvort menn áttu næg hey.  Það kom oft fyrir að sumir urðu að beita fyrr en þeim þótti æskilegt, eingöngu vegna heyleysis.  Heyrt hefi ég orðið kýrgróður, þó er það ekki almennt notað, en það er hliðstætt orðinu sauðgróður sem er hér algengt.  Ekki minnist ég þess að farið væri eftir neinum sérstökum einkennum á gróðri með útbeit.  Hér hefur yfirleitt ekki verið vani að beita kúm á tún að vori.  Kýr voru alla jafna hýstar.  Var það aðallega gert til þess að áburður (skíturinn) tapaðist ekki.  Fyrir aldamót (1900) hygg ég að talið hafi verið nóg vetrarfóður handa mjólkurkú ca. 30 hestburðir og jafnvel minna.  Það samsvaraði 100-120 teningsálnum í heystæði.  Vetrungsfóður var 1/3 til 1/2 kýrfóður.  Algengasta orðið um hey ætlað kúm til fóðurs var kúgæft hey.  Hér var bæði fé og kúm gefin hert fiskbein, sem reyndust oft drjúg viðbót við heyin. 

Heymælir kúa kallaðist meis eða laupur.  Ef vel var látið í kýrmeis komust ein 15 pund í hann.  Meisinn var þannig gerður að í hverju horni voru hornstuðlar.  Síðan voru tekin spor inn í þá sem hliðarrimar og gaflrimar voru felldar inn í.  Síðan var borað í gegnum stuðul og enda á rim og settur trénagli í gegn.  Neðsta gaflrimin var nokkru sterkari og voru botnrimar felldar í hana.  Hornstuðlar meisa hétu stuðlar.  Gaflrimar voru að jafnaði hærri en haldrimar.  Það var til þess að ekki stæðust á spor þau sem gerð voru í hornstuðla fyrir gafl- og hliðarrimar.  Slíkt hefði veikt stuðlana.  Ég man ekki annað nafn á fleygum sem stundum voru felldir með rimum í okagöt en fleyga. Í meis var botnvisk látin undir og gaflvisk ofan á sitt í hvorn enda.  Að láta vel í meis var kallað að steintroða.  Fjósmeisar voru allajafna geymdir milli mála í hlöðu.  

Það var talað um gjafatíma þegar gefið var, en mjaltatíma þegar mjólkað var.  Fjósatími var einnig notað um gjafatíma.  Oftast voru fjósgjafir um klukkan 8 að morgni og stundum fyrr, og þá eftir 12 tíma að kvöldi.  Gjafir annaðist fjósamaður (ef hann var) og önnur fjósverk nema mjaltir, annars gerði bóndinn það sjálfur.  Hér var kúm alltaf vatnað inni.  Sótt var vatn í sérstaka brunna sem hafðir voru svo nálægt fjósum sem kostur var.  Þeir nefndust kúapytlur.  Ekkert sérstakt nafn var hér haft um það áhald sem notað var til þess að stöðva vatn í skjólum er þær voru bornar til fjóss í hvössu veðri.  Mjólkurkúm voru gefnar ábætur við mjaltir.  

Fjósflór var mokaður aðeins einu sinni á hverju máli.  Víða var aska eða mómylsna látin í flórinn til þess að þurrka upp hlandið.   Einstakir hlutar fjósreku (varreku) voru hali eða tindur, skákir, var, blindingar, járnspöng.  (Skýringarmynd er af rekunni).  Vatnsmokstur var ekki um að ræða í fjósi, vegna þess að borið var í flórinn til uppþurrkunar.  Herðablað var stundum notað til þess að hreinsa skít úr holum í flórnum.  Ýmist var mykja borin í haugstæði frá fjósi á handbörum eða dregin á sérstökum til þess gerðum sleðum, oftast úr tunnustöfum.  Sópað var með höndum eða fótum hjá kúm.  Það var kallað að sópa upp.  Víðast var fjósmoð gefið hestum.  Ef ekkert var nema salli, var því kastað á flórinn.  Ég hygg að almennt hafi verið álitið að meinlaust væri að gefa öllum gripum fjósmoð. Víðast var lögð rækt við að halda kúm hreinum í fjósi, en misjafnt var það.  Flórlæri kallaðist þegar skítur festist á lærum kúa.  Lítið var um lús eða óþrif á nautpeningi.  Saltlögur mun hafa verið notaður til að eyða því.  

Ég man ekki eftir neinum orðatiltækjum um gjafalag bænda.  Um saddar kýr var algengast að segja; „kýrin er belgfull“.  Ef kýr héldust ekki við voru þær kallaðar vanmetaskepnur.  Um andstæðuna var algengast að nota orðið átvagl.  Um magra kýr var sagt, grönn kýr, mögur kýr.  Um feita kú var algengast að nota orðið asfeit.  Er kýr var að fitna var sagt að kýrin væri farin að slást við.  Um kú sem var að tapa holdum var sagt, kýrin er að leggja af.  

Ég man ekki eftir öðru orði um stórhyrnda kú. Skjöldótt kú var nefnd Skjalda.  Kolótt nefnd Kola.  Húfótt nefnd Húfa.  Grá nefnd Grána.  Rauð nefnd Reyður.  Svört nefnd Dimma; Svört.  Stjörnótt nefnd Stjarna.  Baugótt nefnd Bauga.  Dumbótt nefnd Dumba.  Bröndótt nefnd Branda.  Ef um góðar mjólkurkýr var að ræða voru nöfn þeirra stundum dregin af því, t.d. Lind, Búbót o.s.frv.  Það var almennt álitið að mjólk úr þrílitri kú væri margra meina bót.  Ég hef ekki heyrt að mjólk úr gráum kúm ætti að vera gædd svipuðum kostum, en það var almennt talið að gráar kýr reyndust betur en aðrar.  Ég man ekki eftir neinni trú varðandi sægráar kýr.  

Stundum voru kýr teknar að láni "upp á mat" ef menn komust í heyþrot, eða ef einhver missti kú að honum var lánuð kýr upp á þau kjör.  Ársleigan eftir leigukú mun hafa verið nokkuð misjöfn eftir samningum, 2-3 fjórðungar smjörs eftir kúgildið.  Stundum var látið salt í eyrun á kúm til að koma í veg fyrir að þeim leiddist er þær voru fluttar milli bæja.  Ég heyrði líka að talað var um að taka sérstök hár úr eyrum þeirra.  Til að ná leiðindum af gripum í nýju umhverfi held ég hafi gilt svipuð ráð.  Það fór mjög eftir hreysti mjólkurkúa og endingu hvað þær voru látnar ná háum aldri, þó hygg ég að 15 ár hafi verið að jafnaði ending þeirra.  Aflóga kýr nefndist afsláttargripur. 

Ég man ekki eftir sérstöku orði yfir það er bógar gengu fram á kúm, en það var talið mjólkureinkenni.  Það mun ekki hafa verið reynt að lækna það.  Doði í kúm stakk sér af og til niður.  Ég minnist ekki að hafa heyrt annað nafn yfir hann.  Ekki man ég neitt læknisráð við skotu.  Hér gekk það undir nafninu skita.  Júgurbólga í kúm var kölluð júgurbólga eða báshella, en í ám undirflog.  Oftast var hún kennd slæmum (ójöfnum) básum.  Til að lækna hana var reynt að bera nýtt þang undir kýrnar.  Ráð gegn mæði í kúm var að stundum voru settir hrosshárshankar í hesið á þeim; dregnir undir skinnið.  Um lágt baul nautgripa var sagt, kýrin gaular eða baular.  Um háróma baul var sagt, kýrin öskrar.  Er kýr bauluðu í geðshræringu var sagt, kýrin bölvar.  Sumum þótti það ókristilegt orð og töldu hógværara að segja að þær blótuðu. 

Talið var að kýr töluðu máli manna á þrettándanótt.  Ég man ekki til þess að menn hér teldu þá hættu á ferðum.  Ég man ekki til að trú hafi verið á aðsókn gesta og að slæðingur kæmi í fjósið kúnum til meins.  Ef kýrspenar þrútnuðu óeðlilega mikið að sumarlagi, gerðist það aðallega í miklum þurrki og sólskini.  Það var engin trú í sambandi við það.  Ekki þótti það boða neitt þótt kýr akneytuðust venju fremur að sumarlagi. 

Ef kýr hristi annan afturfót sinn var talið að það vissi á slæmt veðurlag.  Það var talið mikið atriði á nýfæddum kvígukálfi að halinn næði sem lengst niður, helst niður á konungsnef.  Þá var stórt júgurstæði talið ótvírætt merki um mjólkurlagni.  Sagt var að kýr "stæðu á stálma" þegar júgur þeirra varð mjög hart fyrir burð.  Lausir hnýflar á kúm hétu hornakörtur.  Mjólkurbrunnar á kvígum eru framan til við júgrið eða júgurstæðið.  Eftir því sem þeir voru gleggri voru það ótvíræðara merki um mjólkurlagni.  Eftir því sem meira bar á mjólkuræðum, voru kýrnar taldar betri mjólkurkýr. 

Vambsíðar kýr áttu að reynast öðrum betri.  Það mun hafa byggst á því að þær rúmuðu meira fóður og mjólkuðu því betur.  Það þótti ótvíræður kostur á góðum mjólkurkúm ef húðin var mjög laus.  Kýr voru mjólkaðar kl. 8-9 kvölds og morgna.  Mjaltir fóru ekki fram á öðrum tímum dags að sumarlagi.  Ekki er mér kunnugt um hvort óbúkonulegt þótti ef stóðst á strokkur og mjaltir.  Kýr voru mjólkaðar á stöðli að sumarlagi.  Stöðull var venjulega utanvert við túngarðshlið; þar sem kýr voru mjólkaðar nefndist stöðull. 

Konur önnuðust jafnan um mjaltir, annað mun varla hafa þekkst.  Eigi var um sérstaklega gerðan mjaltabúning að ræða, hinsvegar notuðu konur venjulega sömu fötin utan yfir sig við fjósaverk.  Það mun oft hafa verið kallað einu nafni fjósagalli.  Áhöld sem konur báru með sér til mjalta voru mjólkurfata, skemill, haft.  Sumar höfðu ekkert sæti, sátu á hækjum sér.  Einstakir hlutar mjaltafötu voru botn, stafir, laggagjörð, miðgjörð, efstagjörð, fötutré.  Það sem hélt fötutrénu við fötuna var jafnan úr hvalskíði og nefndist kilpar.  Þeir stafir sem héldu kilpunum voru aðeins hærri en aðrir stafir.  Fötutréð var ekki nefnt kilpur.  Önnur sæti en mjaltasæti voru skemlar.  Ekki voru kýrhöft unnin sérstaklega, en notað var mjúkt band eða snæri.  Kýr voru heftar þannig að brugðið var yfir vinstri fót kýrinnar og síðan snúið saman milli fótanna og hnýtt að utan á hægra fæti.  Að sumri til var haft og haus geymd milli mála á stöðli.  Að vetri til í fjósi. 

Stundum var það að börn voru látin halda í hala á kúm.  Orðin aðkonumegin og frákonumegin eru almennt notuð enn í dag.  Til var það að mjaltakonur skyrptu í greip sér.  Öðrum þótti það þó ekki þrifalegt og notuðu ýmsa feiti í þess stað.  Algengast var að mjólka með greip og togmjaltir voru algengastar.  Fyrst var framjúgur mjólkað.  Fyrstu mjólkurbogarnir hétu blábogar.  Það þekktist ekki að mjaltakona mjólkaði fyrst spenana aðkonumegin.  Seinni yfirferð á júgri hét að totta.  Þær kýr sem mismjólkuðu sig voru mjólkaðar þannig, að fyrst var framjúgur þurrmjólkað, ef misjafnt var í spenum þá voru báðar hendur notaðar við að tæma það júgrið sem meira var í. 

Þríspen kýr hét flátta.  Það var mjög sjaldgæft að dvergspenar væru mjólkaðir.  Að þrautmjólka kýr var kallað að ganga nærri þeim.  Ef kýr héldu í sér mjólkinni var sagt, kýrin selur ekki.   Það var misjafnt hvenær telpur byrjuðu að taka þátt í mjöltum, og fór eftir mannafla á heimilunum.  Ég hygg að eftir að þær voru orðnar 12 ára hafi þær verið taldar fullfærar um mjaltir.  

Það lá ekki bann við því að syngja undir kú.  Ekki var algild regla á hvort krossað væri undir og yfir kýr um leið og staðið var upp undan þeim, en þó hygg ég að það hafi þekkst.  Um góða mjólkurkú var sagt, stólpagripur, afburðagripur.  Um kú sem hélt vel á sér nyt var sagt, kýrin heldur vel á sér, eða leggur saman nytjar.  Notað jöfnum höndum.  Um gæði mjólkur var sagt, mjólkin er kostmikil.  Um langstæðar og lágmjólka kýr var sagt, kýrin er stritla.  Um kú sem fór smátt af stað með mjólk en smábatnaði var sagt að hún græddi sig seint.  Um kú sem komin var í lága nyt var sagt að hún væri að geldast. 

Ef kýrjúgur var minna öðrum megin á kúnni var kallað að hún væri halljúgra.  Kýrnar voru fyrst mjólkaðar í annað mál, síðan í þriðja og alltaf látið líða lengra og lengra milli mjalta uns kýrin var geld.  Það var kallað að gelda upp.  Það var venjulegt að vetrarbærur kæmust í jafnháa sumarnyt og vetrarnyt.  Orð um litla mjólk var haft, mjólkurdreitill eða seytill, notað jöfnum höndum.  Mjaltafroða var ekki veðurviti.  Algengt var að börnum og unglingum var leyft að spæna froðu úr fötum á stöðli.  

Ekki voru hafðar yfir þulur er skilið var við kýr í haga, svo ég muni.  Ekki var setið yfir kúm í haga nema um aðkeyptar kýr væri að ræða sem ekki voru orðnar hagvanar.  Töðugróður þótti öðrum gróðri betri til mjólkur.  Er kýr "kölluðu" eftir nauti var sagt, kýrin gengur, sjaldgæfara var að segja kýrin beiðir, en þekktist þó.  Er kýr létu þá þörf í ljósi reglulega var sagt, kýrin heldur uppi gangmálum.  Til að örva kýr til að beiða var þeim gefið rúgdeig sem nokkur gering var komin í.  Frekar þótti varhugavert að halda lengi aftur af kúm, menn óttuðust þá frekar að þær gengju upp.  Ef kú gekk illa að festa fang var sagt að kýrin héldi ekki. 

Kýr voru leiddar til nauts að sumri til.  Að vetri til var oftast sótt naut.  Kostaði það oft slæmar ferðir og mikið erfiði þar sem hér var venjulega yfir fjöll að fara til þeirra hluta, og venjulega farið hvernig sem viðraði.  Kýr voru þá mýldar.  Ekki var algengt að nota nautajárn er leiða þurfti nautkind um hjarn.  Ekki minnist ég annars en á sama stæði á hvaða tíma dags kýr voru leiddar til nauts.  Talið var að kýr gengju (beiddu) frekar við vaxandi tungl.  En að sjálfsögðu var engu hægt að ráða um það hvort svo var eða eigi í slíku tilfelli. 

Hvað aðstoðarmanni bar að launum í rekstrarkaup fór eftir samkomulagi.  Ef kvígur festu fang of snemma, var sagt að þær hefðu fengið meinfang.  Þær kvígur sem aldrei festu fang nefndust viðrini.  Ég man ekkert ráð við því ef boli var tregur til að gera skyldu sína.  Það þekktist að bitið væri í hrygginn á kúnni í lok athafnar.  Algengt var að "taka af þeim kenginn" sem kallað var, en oftast var það gert með því að klípa í hrygginn á þeim. 

Kýr voru leiddar allhratt að heiman í þessum ferðalögum, eftir því sem ástæður leyfðu, en hægar var farið heimleiðis.  Til að sjá því borgið að kýrin festi fang vissi ég til að kýr voru stundum markaðar, ef illa hafði gengið.  Yfirleitt var kúnni talið sama dag og henni var haldið.  Glöggir menn þóttust stundum sjá það á kviðlagi kýrinnar hvert kyn fóstursins var.  Er kýrin fór að megrast vegna fóstursins var sagt að kýrin væri farin að grennast, eða leggja af.  

Er ytri einkenni sýndu að burðardagur kýrinnar nálgaðist var sagt, kýrin er fallin, eða ef það var ekki komið svo langt, þá að hún væri orðin "lág á æðarnar". Því næst var sagt, kýrin er farin að "slakna á æðar", eða „hún er alveg fallin“.  Ef fóstur kúa náði ekki fullum þroska fyrir fæðingu kallaðist það meltingur.  Farið var að mismuna kúm með fóður svona 2-3 vikum fyrir tal.  Um júgur á stálmakú var sagt, kýrin býst vel til.  Það var ekki trú á því að kýr fengju harðan stálma og kæmust í góða nyt ef þær lágu á hörðu um stálmatíma.  

Stálmabólga á fyrsta kálfs kvígum kallaðist báshella. Ráð til að koma í veg fyrir hættu af báshellu var að bera nýtt þang í básinn.  Kvoða í júgri á óbornum kvígum kallaðist lím.  Ef kýr héldu réttu tali með burð var sagt að þær bæru á tali.  Ég man ekki til þess neitt væri gert til að herða á kú sem farin var að hafa yfir.  Það var sjaldgæft að farið væri undir kýr áður en þær báru, en kom þó fyrir ef til þeirra féll fyrir burð.  Ég man ekki annað en bera mætti broddmjólk úr óborinni kú í óbyrgðu íláti milli fjóss og bæjar.  

Það var almenn venja að vaka yfir kúm er burður fór í hönd.  Vatnsbelgur frá kú kom á undan fæðingu, man engin sérstök önnur nöfn á þeim.  Ekki var hirt um þá eða innihald þeirra.  Það kom fyrir að farið var með kúm til að vita hvað fóstri liði, en var sjaldgæft.  

Kúm var yfirleitt hjálpað til að losna við kálfinn, kappmella var sett um kjálka kálfsins úr snæri.  Síðan var togað í hana og jafnframt í fætur.  Kálfurinn var borinn upp í bás til kýrinnar.  Það var oft venja að fara harkalega með nýborinn kálf.  Menn álitu þá að stagið slitnaði ef það kynni að vera stagkálfur.  Stundum voru þeir teknir upp á afturfótunum.  Mig minnir að stagið hafi átt að liggja frá nýrunum, en man ekki hvert.  Stagkálfum var ekki lífvænt.  Móðirin var alltaf látin kara kálfinn. 

Venjulega var kálfurinn saltaður í karinu, menn töldu að kúnni heilsaðist betur með því.  Þá var einnig venja að láta hvalkvörn í drykkjarvatn kúnna í sama tilgangi.  Kálfinum var ekki gefið að drekka í karinu.  Kýrin var mjólkuð milli kálfs og hilda, sjálfsagt vegna þess að fólk áleit að það jykist fyrr í kúnni með því.  Kýrhalinn var ekki klipptur milli kálfs og hilda.   Stundum var kúnni gefinn biti af hildunum og talið gott fyrir heilsu hennar.  Líknarbelgurinn var þveginn og blásinn upp og síðan notaður utan um smjör.  Ef kúnni gekk illa að losna við hildirnar, voru sumir svo lagnir að þeir gátu "sótt þær" sem kallað var, þ.e. seilst með kúnni og losað um þær. 

Hildunum var kastað í fjóshauginn.  Yfirleitt var forðast að láta hundana komast í þær.  Kúm var alltaf gefið volgt vatn að drekka eftir burð.  Nýbærum var jafnan gefin aukatugga til að taka úr þeim kálfshungrið.  Eftirlit var jafnan haft með nýbæru fyrsta sólarhringinn eftir burð.  Það var fremur talið ills viti ef broddmjólk úr fyrsta kálfs kvígum var blóðlitað.  Mjólk nýbæru var mæld eftir ca. 2-3 daga.  Mjólkin var mæld í merkurmáli. 

Góð nyt hjá þótti ef kýr komst í 14 merkur að jöfnum mjöltum.  Það þótti oft spilla bragði mjólkurinnar að mjólka nýbæru ofan í geldingu.  Það var kallað óát í nýbærum ef lyst var treg.  Stundum voru háfsmagar þurrkaðir með lifrinni í þeim einum tilgangi að bæta kúnni slenið.  Ábrystir voru jafnan gerðar úr broddmjólk.  Broddurinn var soðinn og látinn þannig ysta.  Það nefndust draflaábrystir.  Mysan var svo borðuð með draflanum.  Byrjað var að setja broddmjólk upp í trog á 3. dægri.  Smjörið hét nýbærusmjör. 

Ekki minnist ég þess að hægt væri að ráða vetrarveður af lit fyrstu kálfa.  Þeir voru nefndir snemmbærukálfar.  Ekki þótti varhugavert að ala kálf sem baulaði í kari.  Ég hygg að fremur hafi verið aldir kálfar undan kúm sem einhver reynsla var komin á.  Mjólkurgjöf ungkálfa var þannig háttað að fyrst framan af í ca. 3 vikur fékk kálfurinn eingöngu nýmjólk.  Síðan var hún blönduð undanrennu, meira og meira er kálfurinn eltist, og nýmjólkin tekin af eftir ca. 6-8 vikur.  Seinna var undanrennan blönduð vatni.  Kálfsdrykkur kallaðist kálfsskol.  Kálfsdallar voru mjög líkir mjólkurfötu úr tré.   Kálfsdrykkur var yljaður meðan kálfurinn var mjög ungur. 

Ef kýr sugu sig sjálfar var reynt að binda leppa undir þær.  Þá var til áhald sem sett var á kálfa í þessu skyni, sem hét kálfsgrind.  Voru á henni broddar sem stungu kúna í júgrið ef kálfurinn reyndi að sjúga.  Hér voru kálfar ekki markaðir marki eiganda.  Kálfar voru venjulega ekki látnir draga band í haganum, en stundum var haft band, aðeins um hálsinn.  Kálfar báru það nafn þar til þeir voru að minnsta kosti misseris gamlir.  Er því sleppti voru þeir kallaðir vetrungar.  Kvígur voru fyrst látnar festa fang að þær yrðu tveggja ára við fyrsta kálf.  Oftast voru naut látin ganga í högum með öðrum nautpeningi.  Til þess að hindra mannýg naut í að verða mönnum að tjóni var bundin á háls þess rótarhnyðja af tré, sem slóst í framfætur þess ef það hljóp.  Trjábúturinn nefndist hnyðja. 

Þeir bændur sem bjuggu á góðum heyskaparjörðum önnuðust einkum um nautahald áður en nautgriparæktarfélög komu til sögunnar.  Hér í sveit voru naut oftast á þessum stöðum: Örlygshöfn, einhverjum bænum, Saurbæ og Breiðuvík.  Nautstollur var greiddur eftir samkomulagi manna á milli með ýmsum hætti, vinnu, peningum, vörum eða öðru.  Þarfanaut voru jafnan höfð á grind í fjósi.  Ekki var gert mikið að því að ala geldneyti til frálags.  Ég minnist ekki að kúahland væri notað til litunar, en það var talið örva hárvöxt og gera hárið fallegra.  Nokkuð var um að kuldaboli væri hafður fyrir keyri á óþæg börn.  

Það voru ekki neinar fastar reglur um staðsetningu fjóss eða afstöðu þess til bæjarhúsanna.  En venjulega var haft sem styst milli þeirra.  Algengasta byggingarlag á fjósum var einstæðufjós.  Algengt var að hafa tvær hurðir á fjósum.  Stundum voru báðar á hjörum.  Stundum voru lokur fyrir ytri hurð beggja vegna og var hún þá eigi á hjörum.  Algengasta fjósstærð var þriggja til sex kúa fjós eftir því hvað jörðin bar.  Fjósveggir voru á að giska í öxl á meðalmanni.  Hyllst var til að láta dyr fjósa ekki snúa í norður, að öðru leyti voru engar sérstakar reglur eða hefðir um legu þeirra.  Dyr voru ýmist á hliðvegg eða gafli, þó fremur á gafli.  Gluggar voru á ýmsa vegu.  Máttarviðir sem fjósstoðir héldu uppi í tvístæðufjósi hétu brúnásar.  Mæniás átti ekki annað nafn.  Venjulega hvíldu neðri endar rafts á sléttum steinum í veggnum.  Raftur var lagður af veggbrún á brúnása í tvístæðufjósi.  Í einstæðufjósi af veggbrún á mæniás upp og ofan með um það bil fets millibili.  Langraftur á húsum átti ekki annað nafn.  Skáldraftur var mjög mjór raftur milli annarra sterkari.  Þegar hella var lögð á þök var byrjað neðst og haldið upp eftir þakinu.  Stærstu og þyngstu hellurnar notaðar neðst.  Smáspýtur er skorðuðu hellu hétu undirfella.  Hér um slóðir voru hellur mest notaðar.  

Nærtyrfi var lagt þannig á þök að grasið sneri inn að áreftinu.  Hér var það alltaf kallað undirþak.  Myldað var milli nærtyrfis og ytra tyrfis þannig að mold eða torfusneplar voru sett í allar lægðir.  Yfirþak var hælað niður við gafla og oft voru smáhellublöðkur lagðar á torfujaðrana meðan torfið var að gróa fast.  Gömlu fólki var illa við að strá sem uxu frá torfi inn í hús væru slitin, en eigi man ég hvað við lá.  Breiddin milli fjósstoða, básbreiddin, var ca. 4 fet.  Ef engar jötur voru, voru básar ca. 6-7 fet á lengd. 

Jötur voru sjaldan í básum.  Fjósbásar voru tyrfðir að minnsta kosti einu sinni á ári, að hausti.  Torf var rist sérstaklega til þeirra hluta, og kallaðist grundartorf.  Ég hygg þó að nafngiftin sé komin fremur af því hvar það var rist, en til hvers það var notað (sbr. mýratorf).  Brúnir bása og steinar í þeim hétu bássteinar.  Venjuleg flórbreidd var ca. 3 fet.  Flór var lagður með vatnshalla.  Gangstétt við flór eða milli flóra hét bekkur.  Það var algengt að hafa hellur milli bása og hét það þá milligerð.  Þær voru settar upp á rönd og grafnar niður og byggðar inn í fjósvegginn.  Í stað strompa var haft gat á mæninum.  Frá fjóshælum var gengið þannig að þeir voru hlaðnir fastir í veggina.  Kýrbönd voru úr hrosshári.  Oft voru notuð til þess notuð gömul reipi.  Öðrum enda var fest við hælinn, en hinum um háls kýrinnar með löghelsi.  Neðri hluti bands hét neðanband.  Efri hlutinn hét hálsband.  Frá því var gengið þannig að því var fest um hálsinn með löghelsi, eða þá að lykkja var höfð á bandinu í hæfilegri fjarlægð frá enda, kindaleggur á endanum og honum svo brugðið í gegnum lykkjuna.  Aðalatriðið var að ekki hertist að.  Ljós í fjósum voru lýsiskolur og olíutýrur, eftir að olía kom.  

Haugburður og vallarvinna

Höfundar:  Guðbjartur Guðbjartsson og Össur Guðbjartsson (sjá hér að ofan).

Geta má þess að jafnframt búskapnum var stunduð útgerð og var hún allt fram undir 1940, jafnvel meiri máttarstoð til framfærslu fólksins en nokkurn tíma búskapurinn. Var hún stunduð aðallega frá verstöðvum í Víkunum, mest Kollsvík, enda þótt menn úr öllum hreppnum færu þangað til sjóróðra og lengra að meðan stundaður var sjór á árabátum. Með Víkum er hér átt við Kollsvík, Breiðuvík og Hvallátra. Því er hér á þetta drepið að starfssvið og þá auðvitað hugur gamalla manna eru jafnvel fremur bundinn við það sem að sjósókn lýtur en landbúnaði. Þess vegna sköpuðust ekki eins föst form og víða í öðrum byggðarlögum um störf varðandi landbúnaðinn, þar sem hann var sumstaðar jafnvel hafður í hjáverkum eða varð verkefni kvenna og barna. 

Haugburður hófst að hausti, þegar lokið var öðrum haustverkum, svo sem húsaviðgerðum og því um líku.  Nefndist það að bera völl.  Hver bóndi vann venjulega að því með heimafólki sínu.  Mykja var oft; jafnvel oftast, dregin frá fjósum á sleða, gerðum úr tunnustöfum, einkum ef borið var á að vetrinum; jafnóðum og mykjan féll til.  Haugsleðinn var líkastur kassa að lögun, nema í botni og hliðum voru hafðir tunnustafir svo sleðinn rynni betur á snjó. Band var fest í annan gaflinn.  Sumstaðar var mykja borin á handbörum; þó var það sjaldan. Einkum gert þar sem óslétt var.  Dreift var úr mykjunni í reinar. Hér þekktist ekki mér vitanlega annað orð en hrip, yfir tæki til haugburðar; rimlahrip.

Menn gengu yfirleitt til annarar daglegrar vinnu í sömu fötum og þeir voru í við að bera á völl, nema unnið væri í rigningu, þá voru menn í hlífðarfötum. Oft voru menn í skinnsokkum.  Ekki var föst verkaskipting við haugburð.  Oftast gerði sami maðurinn þetta allt, enda óvíða svo stór bú að margir hestar væru í einu hafðir við verkið.   Mokað var í hripin með skóflum eftir að þær komu. Áður voru notaðar varrekur.  Magnið; haft var í hripum eftir því hve þurr mykjan var.  Sárið sem mokaðist í hauginn nefndist stál.  Oftast nær var einn hestur notaður til burðar.   Dagsverkið fyrir hestinn; þ.e. fjöldi ferða fór eftir þeirri vegalengd sem fara þurfti til losunar en oft var byrjað kl. 8 og unnið fram undir myrkur að hausti.  Sami maður fór venjulega með hestinn sem mokaði.  Bilið milli hestburða á túni var ca 2-3 faðmar.  Þess var jafnan gætt að hafa hlössin í beinum röðum. 
Ekki var það talið vandaverk að hleypa úr hripunum, nema um væri að ræða fælinn hest. Var hesturinn alltaf látinn standa móti brekku ef um það var að ræða og hún fyrir hendi.  Ekki var það almennur siður hér að gera dagamun í mat á haustburðardögum.  Ekki minnist ég að hafa heyrt þess getið að litli skattur væri etinn úti, er unnið var að haugburði.  Oftast var dreift úr hlössum að hausti.  Það var almennt talið að betri væri ein haustbreiðsla en tvær vorbreiðslur.  Það fór eftir tíðarfari hvenær byrjað var að vinna á túnum að vori. Venjulega var það um hálfum mánuð af sumri. Þetta var hér um slóðir kallað ávinnsla.  Enginn ákveðinn dagur var því ætlaður. Þetta fór eingöngu eftir tíðarfari. 

Áhöld til ávinnslu voru klára og spýtukeppur til þess að berja í hlössunum. Þetta var notað fyrst, síðan taðmylla og hrífa, þá slóði en það var ekki fyrr en nokkru eftir aldamót.   Klárunni má lýsa þannig: Hausinn var úr hörðum viði. Gegnum hann í miðju gekk skaptið. Sitt hvoru megin við skaftið í hausnum voru álmur sem þvingaðar voru inn með skaftinu svo það losnaði ekki úr hausnum. Keppurinn var spýta, mjórri í annan endann en töluvert sverari í hinn. Barið var í mykjunni með honum.  Slóði og taðkvörn komu hingað um eða eftir aldamótin (1900).
Byrjað var á því að berja í reinunum með keppnum. Var það gert svo vel sem hægt var og reynt að mylja sem best. Síðan var rakað yfir. Við það myndaðist garður sem stærstu kögglarnir voru í. Var alltaf annað slagið barið í honum með keppnum og mulið eins og hægt var. Þegar þannig var búið að raka yfir allt stykkið varð verulega eftir hrönn sem svo var kölluð. Var hún látin biða þess að hreinsað var.  Ekki heyrði ég getið um neina merkingu sem lögð var í það við ávinnslu, ef klárur eða verkfæri kræktust saman við vinnu.  Ef vinnufólk braut verkfæri sín við heyskap merkti það að viðkomandi skyldi verða af slægjunum og töðugjöldunum. Ekkert slíkt við ávinnslu.  

Úrgangstað sem hreinsað var úr túnum nefndist afrakstur. Hann var oft notaður til eldiviðar.  Hrífur voru notaðar við hreinsun túna; samskonar hrífur og við heyskap.  Hesthúshaugur var borinn á tún með sama hætti og fjóshaugur.  Þurru hrossataði var stundum safnað út um haga og sett í holur í kartöflugörðum til hlýinda. Fjóshaugur mun samt fremur hafa verið notaður í garða.  Ekki var hrossataði safnaði í högum til eldiviðar, nema eftir því sem til féll í afrakstri ef hann var þurr. 

Haugburður að vori hófst eftir að tún voru orðin snjólaus að mestu.  Kúamykja var mest borin á til eldiviðar að vori til og nefndist þá klíningur.  Orðið eldiviður merkti eldsneyti yfirleitt.  Það var talið brúkunarfært hross, ef troðið var sjóvettling milli læra þess og hann loddi þar. Voru þau þá kölluð lokafær. 
Við klíningsgerð var notaður sérstakur tréspaði og var tekið eins og loddi á honum og flatt út í þunna skán sem varð svo hörð þegar hún þornaði. Skáninni var svo brennt og var hún kölluð klíningur.  Þegar borið var á til eldiviðar var mykjunni dreift í reinar og var í reininni hvert klíningshlass við annað.  Klíningur nefndist það þegar dreift var úr vorburði til eldiviðar.  Honum var snúið svo að hann þornaði fljótar. Þurr var hann tekinn upp í poka og venjulega borinn í pokum í hús eða eldiviðargeymslu.  Það þekktist hér á sumum bæjum að mykja væri blönduð vatni og borin þannig á. Var það kallað að ausa út. Var þá mykjan flutt fyrst á áburðarstaðinn og blönduð þar. 

Ekki heyrði ég annað orð yfir sauðatað í fjárhúsum.   Stungið var út úr fjárhúsum eftir þörfum, undan lömbum og hrútum. Fullorðið fé lifði hér mest á fjörubeit og var lítið gefið fyrir en upp úr aldamótum.  Stungið var út úr fjárhúsum með stunguskóflu.  Venjulega var stungið um þvert hús.  Breidd skóflublaðsins réð mestu um stærð hnaussins.  Oft voru börn látin bera til dyra.  Það fór eftir aðstæðum á hverjum tíma hvort taði var hlaðið í hrauk við fjárhúsdyr eða var það flutt á þerrivöll samdægurs og stungið var út.  Ekki heyrði ég talað um neinn merkilegan dag fyrir skánarþurrk.  Hvortveggja þekktist hér; að tað væri flutt á þerrivöll á handbörum eða með hestum. Algengara var samt að nota hesta.  Oftast var látið á hestinn eins og hripin tóku.   Einkum var það kvennaverk að kljúfa skán og vinna taðverk á velli.   Það fór eftir veðri hvort skán var klofin í flögur um leið og hún var flutt á þerrivöll eða síðar.   Venjulega lágu menn á hnjánum við það að kljúfa skán. Ljáir voru oftast notaðir til þess.  Klofin skán kallaðist sauðataðsflaga.   Ég hef ekki heyrt sérstakt nafn á skán sem gleymdist að kljúfa á þurrkvelli.   Skáninni var þannig hreykt að hver flagan var látin styðja aðra. Þannig (teikning).   Ef regn var í vændum þegar þurrki var langt komið var skáninni hlaðið í smádrýli eða hrauka. 
Víðast var sérstakt eldiviðarhús sem var notað eins og nafnið bendir til, þá einnig undir annan eldivið svo sem mó o. fl.  Skán var flutt í taðstál í pokum. 

Hesthús og hross

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa gerði hann að beiðni Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1984.

Hesthús voru gerð fyrir 2-3 hesta þar sem ég þekkti til, því ég tel að óvíða á landinu væru svo fá hross sem í Rauðasandshreppi og fyrst og fremst sem áburðarhross; reiðhross ekki til á hverjum bæ.  Flest voru hrossin á Rauðasandi og reiðhross einnig, því Rauðsendingar þurftu hross til aðdráttar úr kaupstað og yfir fjallið að Skeri, en víðast annars staðar voru aðdrættir á sjó í Rauðasandshreppi.  Hesthús voru byggð úr grjóti og torfi; vegghæð vel í öxl og lítið ris sums staðar; enginn gluggi nema gat á mæni og hurð skörðótt ofan.  Básar líkt og í fjósi, milligerð og helluflór.  Stallar hlaðnir úr grjóti við vegg og jötufjöl.  Þó sá ég veglegri hesthús og stærri með glerglugga, þakið var með sperrum og hellur í árefti á langbönd. Hross voru notuð við heimflutning á heyi af túni og engjum, örsjaldan yfir fjall með matvöru, yfir Hænuvíkurhálsinn sem er nokkuð hár.  Af honum sést Snæfellsjökull ef skyggni er gott.  Dyr voru með lausri hurð sem fest var með lokum.  Hesthúsin voru staðsett utarlega í túnum.  Traðir eða hrossaborgir þekkti ég ekki enda voru hross hýst í öllum illviðrum en beitt út, nema í aftökum. Jarðir voru mikið metnar eftir því hve land var skjólgott og svo beitargæðum vetur og sumar.  Hross björguðu sér mikið á útbeit og þau voru jafnvel sett á úrgang heyja, rekjur og moð.  Þó breyttist þetta eftir að ég fór að búa í Dýrafirði, þar var hverju hrossi ætlaðir 10 hestar heys og hestar fleiri og húsin stærri og betri og bjartari.  En í Dýrafirði er langt um snjóþyngra heldur en í Rauðasandshreppi.  

Mjög mikil not voru af sjávargróðri í útvíkum Rauðasandshrepps.  Hross notuðu sjávargróður einnig, en ekki líkt því eins mikið og féð.  Ég þekkti það að þang var skorið af hleinum og gefið kúm sem átu það með góðri lyst, en það var látið renna vatn á þangið áður en það var gefið.  Ekki þekkti ég að kvistur væri notaður fyrir hross en öðru máli gegndi með sauðfé. Fiskifang var mikið notað fyrir allar skepnur í Rauðasandshreppi, einkum í Útvíkum.  Ekki heyrði ég talað um kjarnfóðurgjöf hrossa. Vel aldir munu reiðhestar hafa verið þar sem þeir voru til, en vel meðfarnir voru allir hestar þar í sveit.  Hestakerrur munu hafa komið í Rauðasandshrepp um 1910, að minnsta kosti í Kollsvík, enda auðvelt að koma þeim við því sléttir leinar og eða melar voru heim að hverjum bæ.  

Til að meta holdafar hrossa var tekið á makka og síðu, einnig skoðuð lærafylling innanfótar.  Ég minnist þess að Halldór Vilhjálmsson á Hvanneyri, talaði um það að stinga hendi með sjóvettling milli læra hrossa og ef vettlingurinn yrði eftir þá væri hrossið jöklafært.  Einnig man ég föður minn tala um að ef hestur væri þurr í eyrum þá væri hann alltof grannur.  Ég man ekki til þess að ég sæi mjög grönn hross, þó man ég eftir hrossi sem var ljótt í háralagi og heyrði ég að gott væri að sundleggja hrossum í sjó sem þannig væru, þ.e. með kláða.  Yfirleitt voru þau folöld sem fædd voru snemma að vori tekin undan hryssum að hausti og þá alin á bási vetrarlangt, oft í fjósi.  Í Dýrafirði átti ég hryssu sem gekk með folaldi í tvo vetur, varð það góður dráttarhestur.  

Ekki þekkti ég að hrossum væri gefið úti.  Gjöfin var færð í pokum.  Laupur eða meis var aðeins fyrir kýr.  Stundum var gefið á stallinn og hrossin fóru inn þegar þau vildu, einkum ef veður var gott.  Reiðhestum var gefið betra fóður, einkum ef þeir voru í brúkun.  Eftir að ég fór að búa á Dýrafirði, en þar voru hross allmörg á hverjum bæ og meira um reiðhross, fram af því voru byggð góð hesthús með vönduðum básum og jötum, flór steyprur, fóður meira og betra.  Dráttarhestar mikilsverðir, fyrir kerrur í vegavinnu og heykerru með löngum kjálkum og stórum palli, sem heyi var hlaðið á.  Jarðbótavinna var um tíma talsverð með hestinn, plæging og herfing og fleira og fyrir sláttuvélar.  Það var yndislegt að slá vel sprottið tún með þægum hestum. 

En með vélvæðingunni varð "þarfasti þjónninn" að mestu úr sögunni. Flór hesthúsa var mokaður iðulega og jafnvel fluttur áburðurinn á tún um leið og eftir að byggð voru betri hús var mokað daglega.  Hreinsun stallsins var gerð um leið og gefið var og oftast sett á flór eða undir hryssur.  Hestar voru á grind.

Reiðtygi

Höfundur: Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).  Ritað 1981.

Það var talað um hnakk og söðul sem reiðtygi. Beisli var ekki ávallt talið þar með. Það var talað um stangabeisli, ólarbeisli og taumbeisli. Reiðver var dúkur undir hnakk eða söðul, þó var það ekki algengt. Það var nokkuð algengt að reiðtygi væru höfð til gjafa og er enn. T.d. gaf kona mín mér hnakk, þann eina sem ég eignaðist, 1930. Reiðtygi voru geymd í skemmu.    

Söðlasmiði þekkti ég ekki í Rauðasandshreppi.  Ég heyrði talað um söðlasmið á Patreksfirði. Söðlasmið þekkti ég vel í Önundarfirði. Sá var tengdabróðir minn og smíðaði hann einnig aktygi, nema járnin i þau. Þau smíðaði ég lengi vel. Stefán Pálsson hét hann og eftir að hann fluttist til Reykjavíkur smíðaði hann talsvert af hnökkum með aðstoð konu sinnar Guðrúnar Össurardóttur.  Virkin smíðaði Stefán ekki, en hann breytti þeim í spaðvirki; notaði amk. fyrst til þess hvalskíði. Um aldamót þekkti ég ekki verð á hakk eða söðli.  Um 1930 eignaðist ég hnakk frá Stefáni og var þá verðið 125 krónur. En það mun hafa verið eitthvað undirgangsverð þá. Stefán Pálsson saumaði yfirdýnur á alla sína hnakka og fékk eitt sinn tilboð frá útlöndum að smíða talsvert af slíkum yfirdýnum, en hann sinnti því ekki.    

Ístöð þekki ég bæði heil og opin. Um hornístöð hefi ég ekki séð en heyrt um þau og lesið. Nöfn hnakksins er ég ekki fróður um eða einstök heiti hans t.d. hnakklöf, yfirdýna, reiði, volki, hnakkpúði, undirreiða, hnakkólar á hnakktösku. Hún var ýmist úr skinni eða striga og hnakknef og ístaðsólar, einnig undirdýnur, sín hvoru megin hryggjar hestsins. Reiðskinn voru algeng áður; gæruskinn, bæði til mýktar og hlífðar einkum áður en yfirdýnur þekktust.  Hnakkgjarðir og söðulgjarðir voru bæði ofnar og brugðnar, mislitar, oddagjarðir úr hrosshári eða ull. Ofna gjörð mátti vefa á fæti. Sjálfur hefi ég gert dálítið að því og einnig brugðið gjörð. Þó e.t.v. sé það gleymt nú.   

Um söðla get ég verið fáorður, því aðeins þekkti ég klakksöðul með fótafjöl fyrir vinstri fót og hægri fótur ofar klakknum eða öllu heldur læri konunnar ofanvert. Kona mín átti slíkan söðul og reið í honum meðan hún fór á hestbak. Ég hefi einnig prófað að ríða í kvensöðli. Þessi söðull var með boga úr járni, klæddur skinni. Einu sinni tók ég annan slíkan kvensöðul og breytti honum í hnakk.    Um 1920 eða fyrr sá ég unga konu ríða í hnakk, og þótti ekki tíðindum sæta. Glitofin söðuláklæði hefi ég aldrei séð og get því miður ekkert um sagt, aðeins þekkt af sögum og sögnum.   Hnakk eða söðulsessur hefi ég ekki þekkt nema yfirdýnur á hnakka, en kvensöðlar sem ég þekkti voru yfirklæddir með rauðu flosklæði.    

Reiðföt karla voru algeng gulleitur jakki og buxur úr sama efni, sem náðu niður fyrir hné, síðan komu legghlífar úr skinni eða þá vefjur úr þéttum dúk, grænleitum og leðursólaðir skór. Reiðföt kvenna voru algeng sítt og vítt pils dökkt. Ofanverðu þröng treyja, húfa eða hattur með ljósu slöri. Reiðhempu eða sjal hafa konur eflaust haft til lengri ferðalaga, en um það get ég ekkert sagt.    Svipur voru af ýmsum gerðum; silfurbúnar, húnninn sem var með hólk, sem gekk niður á svipuendann, þá var hólkur um miðju og fremst hólkur með auga fyrir svipuólina. Hólkarnir voru skreyttir meira eða minna og húnninn með fangamarki eigandans. Líklega mun þessi silfurbúnaður hafa verið oft aðeins húðaður af silfri. Látúnsbúnar eða kopar þekkti ég lítið. þó munu þær hafa verið til.  Renndar svipur sá ég ekki.    Hamars- eða króksvipur þekkti ég ekki, en til gjafa hafa svipur verið líkt og önnur reiðtygi. Kvensvipur voru ætíð styttri og að öllu fíngerðari en karla. Svipuólin var ævinlega úr sútuðu leðri, meir en alin á lengd ca. 2 cm. breið.   Ekki höfðu allir skrautbúnar svipur þó á bak væri farið á hesti. Oft var það kaðalspotti eða aðeins snærisspotti með hnút á enda. Spora sá ég aldrei.    

Stangabeisli voru algeng. Oftast úr kopar, en járnstangir sá ég einnig. Stangabeisli sá ég nokkuð skreytt, ennisólin, og þar sem kverkólin og höfuðleðrið skipti var skjöldur. Þetta úr málmi, krómhúðað að ég hygg. Annars var taumur og höfuðólar úr sútuðu leðri, þá gat taumur einnig verið úr öðru efni s.s. útlendur þéttur borði og jafnvel grannur kaðall. Algegnast var að kalla svona beisli stangabeisli. Hlutar beislisins voru höfuðleður eða kverkól og ennisól undir ennist. taumur, járnmél, stangir og keðja undir höku hestsins.  Í Dýrafirði á Keldudal var mér sagt frá gömlum manni sem steypti kopar beislisstangir. Hann mun hafa heitið Markús og bjó í Móum þar. Beislisstengur sá ég misstórar og líkur til að konur notuðu þær minni.   

Þófa þekkti ég ekki, nema til var að menn riðu á gæru sem bundin var undir bringu reiðskjótans.    Því miður hef ég ekki meira að segja um reiðtygin. Ég var aldrei neinn reiðmaður; fór aðeins einn reiðtúr á ævinni, sem orð var á gerandi og átti því aldrei reiðhest, en vinnuhesta átti ég góða, sem voru vinir allra á heimilinu.

Alifuglarækt

sg laganupi

Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1994.

Ekki var mikið um aðra alifugla í mínum uppvexti en hænsn. Þó voru gæsir í Saurbæ (ca. 7 - 8 stk.). Hænsnin voru langflest gamli íslenski stofninn, brúnar, svartar, dröfnóttar og einstaka hvít hæna, oft með smá svörtum dröfnum.

Heima á Lambavatni var tvíbýli og sinn hænsnakofinn fylgdi hvorum bænum. Á hinum bænum (Neðribæ) voru aðallega hvítir ítalir en þó held ég nokkuð blandaðir þar sem nokkuð var um dökkar hænur þar en það hafði sína skýringu. Heima hjá mér voru mest íslensk hænsn en þó þær væru kannske aðeins smávaxnari en þær hvítu þá voru hanarnir oft mun stærri en þeir hvítu.

Við krakkarnir höfðum oft gaman af að sjá þegar rauði haninn lagði af stað í víking í hvíta hópinn.  Hóparnir gengu mest lausir, ekki í girðingum. Fyrst var barist blóðugum bardaga við hvíta hanann þar til hann lagði á flótta og þá var að safna saman hænum þess yfirbugaða og koma þeim á sitt yfirráðasvæði. Var það gert með fagurgala og hoffmannlegu látbragði en aldrei var hægt hjá honum að koma hópnum alveg saman. Mátti hann svo hlaupa á milli eftir því sem honum fannst sín húsbóndaskylda bjóða. En aldrei verptu þær hvítu í kofa þeirra dökku. Hvíti haninn mátti hýrast í sínum kofa nema einhver sæi aumur á honum og ræki hænur hans heim. Íslensku hænurnar voru mun skæðari með að vilja liggja á og oft erfitt að hafa þær ofan af slíku, stundum voru þær hengdar upp í poka, teknar niður einu sinni eða tvisvar á dag til að éta og drekka. Þær áttu til að verpa í holum og útihúsum, ekki síst í hlöðum eftir að búið var að hirða í þær. Dæmi voru um að þær hurfu sporlaust og sáust ekki í ca. 3 vikur en komu þá með ungahóp í eftirdragi.

Þegar ég byrjaði búskap gaf eldri kona á Rauðasandi mér hænu á eggjum. Sú var sett í pappakassa með sín egg og reidd á hnakknefi út Víkinafjall, um 5 - 6 tíma lestargang. Út af henni átti ég mikinn ættboga af íslenskum hænsnum í mörg ár. Þessi hæna hét Stína og varð 9 eða 10 ára gömul og æði heimarík í ellinni ef hún var með unga, sem hún var á hverju sumri, einu sinni tvisvar á sama sumri sem ég vissi aldrei til að hæna léki eftir. Þegar hún hafði komið fyrri hópnum „af höndum“ síðari hluta sumars fór hún að verpa að venju en hvarf svo. Stöku sinnum sást hún koma að fá sér að éta en aldrei tókst að njósna um hana, hvert hún færi. Eftir um 3 vikur kom svo kella með 10 eða 11 unga.

Ekki man ég eftir að hænur hétu sínum nöfnum nema Stína sem hét eftir konunni sem gaf mér hana. Ekki vissi ég til að hænur gengju kaupum og sölum en voru gefnar milli bæja ef á þurfti að halda, en yfirleitt ól hver kona upp sínar hænur en hænsnaræktin var næstum alfarið á höndum kvenna og barna.

Árið 1944 kom nýr prestur í Sauðlauksdalsprestakall, Trausti Pétursson, nýútskrifaður og peningalaus með námslán á bakinu. Þegar sóknarbörnin fréttu af fjárhagserfiðleikum nýja prestsins varð þeim það fyrst fyrir að skjóta saman hænsnum 1 - 2 af bæ og víkja að prestshjónunum svo þau gætu þó haft egg í matinn.  Fleira fylgdi reyndar eftir eins og eitt og eitt lamb að hausti en það er önnur saga. Vissi ég til að prestur mat góðan hug sem að baki lá.

Yfirleitt gengu hænsnin laus úti við en þó var hænsnagirðing stundum við kofann en þær voru glúrnar að smjúga út ef smágat var á girðingunni. Hænsnanet svokallað var haft í girðinguna sem var um mannhæðahá. Ekki dugði sú hæð til að halda hænsnunum inni heldur varð að setja net yfir líka. Kofinn var hlaðinn úr grjóti og torfi og torf á þaki enda þurfti kofinn að vera frostlaus að mestu. Ekki voru þetta stórhýsi enda algengt að hænsni væru 10 - 15. Prik var þvert yfir kofann en gæta þurfti þess að það væri nógu langt fyrir allar hænurnar. Hreiðurkassar voru oft undir prikunum, úr timbri með opnun fram úr. 2 - 3 hreiður þóttu hæfilegt fyrir 10 hænur. Í kassana var sett hey. Olíulugtir voru oftast notaðar hjá hænsnunum og gott að þær gætu haft ljós sem lengstan tíma í skammdeginu. Þegar ég man fyrst var notuð heimasmíðuð lugt sem var nokkurs konar kassi með gleri í hliðum og týru til birtugjafar. Týran var úr blekbyttu með korktappa en í gegn um tappann var mjó málmpípa. Gegnum pípuna kom bómullarkveikur, olía var sett í blekbyttuna og svo var um að gera að hafa kveikinn mátulega mikið upp úr pípunni svo ekki ósaði. Ein hlið lugtarinnar var með renniloki svo hantera mætti týruna. Lítill rammi var í botni lugtarinnar sem passaði utan með týrunni, svo hún haggaðist ekki ef hún var borin í hendi. Fyrir kom að hænsni voru höfð í auðum fjósbás ef þau voru fá en helst ekki nema stundarlausn t.d. einn vetur. Þá var girt vandlega með neti fyrir básum. Hænsnaskíturinn var mokaður eins og annar húsdýraráburður en fylgdi honum mikið af arfafræum. Börn gáfu oftast hænsnum eða konurnar en körlum þótti oftast lítið til þessara húsdýra koma!

Hænsnin fengu matarleifar, korn, stundum saxað vothey og eggjaskurn, einnig skeljasandur sem hér er nógur. Oft var (og er) þeim gefið í tréstokka aflanga en mjóa svo allar komist að í einu. Netakúlur úr áli sem tekin var sneið úr voru oft notaðar til að hafa í vatn.

Hanar hafa alltaf galað mest á morgnana en eiga það samt til á öllum tímum sólarhrings, jafnvel nóttum.

Ég held að engar skepnur komist nær því að nota „málið“ næst manninum en hænsni. Þegar þær hafa verpt tilkynna þær það með sérstöku hljóði. Það heitir eggjahljóð. Ungahljóð er nokkuð fjölbreytt eftir því hvað þær þurfa við þá að ræða. Ef hrafn eða fálki fljúga yfir gefur haninn alltaf „loftvarnamerki“ sem er hvinur mikill. Stundum hafa krakkar gaman af að kasta upp spýtu eða öðru svo haninn gefi loftvarnamerki. Svo er til nöldurhljóð mikið í hænunum ef þær eru eitthvað í slæmu skapi, það er bara í hænunum. Stundum ruglast þær í ríminu og fara að basla við að gala en það eru heldur ófögur hljóð. Ef einhver hænan er veik eða meidd ráðast allar hinar oftast á hana og eiga til að drepa hana snarlega. Hanar ráðast stundum á fólk einkum börn og geta þá verið hættulegir, enda hafa þeir oftast misst höfuðið ef þeir byrja á slíku. Ef hænur átu egg var oftast kalkskorti um kennt enda löguðust þær oftast ef þær fengu skeljasand.

Komið hefur fyrir að fálkar taki hænsn en ekki held ég að mikil vanhöld hafi verið á þeim vegna ránfugla eða dýra fyrr en minkurinn kom til sögunnr en hann eirir engu en drepur meðan eitthvað er til að drepa.

Ég vissi til að æðaregg var sett undir hænu og var það mikill vandræðagangur þegar unginn fór að synda á bæjarlæknum. Oft var búið um hænur á eggjum í fjárhúsum sem stóðu auð á sumrum en þá voru engar áhyggjur af hita á ungunum eða umönnun því þær sáu um það.

Ekki voru allir hrifnir af hænsnakjöti en þó var það etið, aðallega hanaungarnir.

Ekki kannast ég svo við geymsluaðferðir á hænueggjum en hér hefur meira verið hugað að geymslu fýlseggja. Þeim er gjarnan raðað í trékassa (ekki málm) með mjórri endann niður. Helst þarf að pakka þeim það þétt að snúa megi kassanum stöku sinnum, en meira látinn standa á mjórri endann.

Ýmist er notað hér nafnið skurn(in) eða skurmur og svo skjall, rauða og hvíta.

Gæsir voru til í Bæ (Saurbæ) þegar ég var að alast upp. Þær átti Kristín sem áður er getið þar sem hún gaf mér ungahænuna Stínu. Stína var dóttir Péturs Jónssonar frá Stökkum kennara, fræðimanns og rithöfundar. Hún var framfarasinnuð með afbrigðum og tilbúin að prófa ýmsa hluti. Þessar gæsir bjuggu í litlum kofa við smálækjarsytru sem var stífluð svo smápollur myndaðist. Náði hann undir hluta af kofagólfinu en þetta var kaldavermsl sem aldrei fraus.

Ekki veit ég um aðra sem halda alifugla sem gæludýr en sjálfa mig. (1994; SG býr þá ein á Láganúpi).  T.d. á ég mína tvo aliandarsteggi sem lítil hagnýt not eru af en skemmtilegir eru þeir. Þegar vorar leggja þeir í víking og reyna að ræna hænum frá hananum (ég gleymdi að geta þess að enn stunda ég hænsnabúskap með líku sniði og gert var í mínu ungdæmi, til gagns og gamans! Bara 5 - 6 núna). Líka hef ég tvisvar sett í útungunarvél sem ég er með, stokkandaregg úr hreiðrum sem sláttuvél skemmdi þar sem hreiðrin sáust ekki í háu grasi. Uppeldið gekk mjög vel í bæði skiptin en í fyrra skiptið komst hvolpur af næsta bæ að þeim og drap þá þar sem þeir óttuðust ekki heimahundana sem gerðu þeim ekkert. Í seinna skiptið voru þeir viðloðandi fram í febrúar en fóru sinna ferða en komu heim að fá sér að éta. En svo átti minkfjandinn leið um og drap allar hænurnar mínar og sennilega andarungana nema ég held að ein önd hafi sloppið því enn verpir spök önd hér á hverju vori rétt hjá.

Ég fékk mér íslensk hænsn aftur, af þeim sem var safnað úr Öræfunum og ræktaðar á Keldum. Þær eru svolítið frábrugðnar þessum sem hér voru þar sem þær eru allar með skúf fyrir aftan kambinn en hinar voru bara ein og ein með svona skúf.

Tóttir af gamla hænsnakofanum sem tengdafaðir minn byggði eru sæmilega standandi hér enn. Á Neðri bænum á Lambavatni er enn notaður gamli hænsnakofinn sem var þar á mínum uppvaxtarárum en það var slett steinsteypu í veggina fyrir nokkrum árum.

Meira get ég víst ekki sagt og sumt er nú víst fyrir utan efnið. 

Fyrsti traktorinn og jarðræktarverkefni Kollsvíkinga

Hér er lýst komu fyrsta traktorsins í Kollsvík og samstarfi bænda í tengslum við þær nýjungar. Varðveitt er á Láganúpi eftirfarandi samningsskjal.  Félagið sem hér um ræðir var að öllum líkindum stofnað um kaup á fyrstu dráttarvélinni sem kom í Kollsvíkina.

ballferd farmallFarmallinn hafði mörg hlutverk.  Myndin sýnir hann við Stekkjarmelshúsið, líklega eftir 1950.  Þarna er verið að leggja í ferð innyfir Háls, e.t.v. á dansleik, og er tjölduð kerra notuð til fólksflutninga. Össur á Láganúpi er við traktorinn en líklega Sigríður framanvið kerruna.

 

 

Ekki er ólíklegt að reglurnar hafi samið Össur Guðbjartsson, sem þá var í búnaðarnámi á Hvanneyri. Árið 1943keypti Búnaðarfélagið Örlygur fyrstu dráttarvélina sem kom í Rauðasandshrepp; af gerðinni International Harvester W4.  Að baki þeim kaupum var félag manna á Rauðasandi og Hvalskeri, sem lagði til kaupverðið.  Traktorinn í Kollsvík hefur líklega verið annar traktorinn sem í hreppinn kom, en um svipað leyti eða stuttu síðar kom annar Farmall A að Hvallátrum; líkt og hinir var hann keyptur í samlagi bænda á staðnum.

Samþykktir fyrir jarðræktarverkefni Kollsvíkinga

 1. gr. Félagið er hlutafélag og eru réttindi félagsmanna við atkvæðagreiðslu bundin við upphæð hlutafjár; og komi eitt atkvæði fyrir hverjar hundrað krónur. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum
 2. gr. Félagsfundi skal halda minnst einu sinni á ári og auk þess ef stjórn félagsins þykir ástæða til; ennfremur ef meirihluti atkvæða krefst þess. Fundur er lögmætur ef mættir eru 2/3 hlutar atkvæða, enda sé boðað til hans með minnst viku fyrirvara.
 3. gr. Kjósa skal þrjá menn í stjórn félagsins, til eins árs í senn.  Formann, gjaldkera og eftirlitsmann verkfæranna.  Formaður boðar fundi og hefir eftirlit með að samþykktum félagsins sé hlýtt; gjaldkeri annast um bókhald og fjárreiður félagsins; eftirlitsmaður vélanna hefir á hendi yfirumsjón með vélunum og bókfærir notkun þeirra í samvinnu við gjaldkera. 
 4. gr. Heimilt er hluthafa að selja hluti sína og hefir þá félagið í heild forkaupsrétt, en þar næst einstakir félagsmenn.
 5. gr. Arður sem verða kann af rekstrinum skiftist árlega niður á hluthafa eftir hlutafjárupphæð þeirra.
 6. gr. Um starfrækslu verkfæranna skal tekið fram í starfsreglum og gjaldskrá, sem félagssfundur samþykkir.
 7. gr. Samþykktir þessar voru fyrst samþykktar á fundi félagsins á Láganúpi fimmtudaginn 27. des. 1945.

Samþykkir framanskráðu

Helgi Árnason  
Helgi Gestarson
Össur G. Guðbjartsson
Guðbjartur Guðbjartsson

Starfsreglur:

 1. gr. Hver félagsmaður hefir rétt til að nota verkfærin, eftir því sem samþykktir og reglur þessar ákveða.
 2. gr. Ef fleiri en einn óskar eftir að nota vélarnar á sama tíma, hefir sá forgangsrétt er fyrr pantaði. Þó má enginn einn eigandi nota hana lengur en einn dag, og við slátt ekki nema 2 st.
 3. gr. Ráða skal hæfa menn til að stjórna vélunum, fyrir þóknun. Stjórnin skal ráða allt að þrjá slíka menn.
 4. gr. Gjald fyrir vélina án verkfæra skal vera kr 15.00 á klst; reiknað fyrir keyrslutíma frá því að vélin kemur á vinnustað. Kaup til vélarmanns má aldrei fara fram úr taxtakaupi í vegavinnu í hreppnum.  Notandi leggi fram bensín við vinnuna.
 5. gr. Ráðnir vélamenn skulu skyldir að vinna við notkun vélarinnar eftir því sem til þeirra er leitað, enda séu þeir staddir á félagssvæðinu. Að lokinni notkun skulu þeir gefa upp vinnustundir vélarinnar til eftirlitsmanns eða gjaldkera.

Samþykkir ofanskráðum reglum sem félagsmenn

Láganúpi 27. des 1945

Helgi Árnason

Össur G. Guðbjartsson   Helgi Gestsson

Guðbjartur Guðbjartsson

Helgi Gestsson                       kr.       2500

Helgi Árnason                        „         1600

Guðbj. Guðbjartsson              „         1100

Andrés Karlsson                     „         1100

Einar T. Guðbjartsson            „         1000

Ingvar og Össur Guðbjartss.  „           700

                                                    8.000

Í Niðjatali Guðbjartar og Hildar frá Láganúpi lýsir Páll Guðbjartsson svo kaupunum á vélinni:

„Mig langar að lokum að segja lítillega frá því hvernig fyrsta dráttarvélin var flutt í Víkina.  Hún var keypt árið 1944, eða rúmum áratugi fyrr en fyrst akfært varð yfir Hænuvíkurháls.  Vélin var af gerðinni Farmal A, og er raunar til á Láganúpi enn (1989), en mun nú ógangfær.  Hún var keypt og flutt út í Kollsvík innpökkuð í stóran rammgerðan trékassa, og var að miklu leyti ósamansett.  Afturhjólin voru flutt laus, ásamt stærri fylgihlutum, s.s. plóg, herfi og sláttuvél sem keypt var með vélinni.  Ekki kom annað til greina en að flytja vélina sjóleiðis úteftir, en hinsvegar var enginn bátur í Kollsvík talinn nægilega stór eða stöðugur fyrir þann flutning.  Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík var því fenginn til að annast hann; enda var bátur hans nokkru stærri, og Bjarni sjálfur verklaginn og áræðinn að hverju sem hann gekk.

Þessi flutningur fór fram fyrri hluta sumars, og var valið stillt og gott veður.  Kassinn með dráttarvélinni var það langur að hafa var hann þversum yfir bátinn.  Stóð hann talsvert útaf á bæði borð, og var þó nokkuð háfermi.  Ekki veit ég hvernig farið var að því að koma kassanum um borð á Patreksfirði, en þegar úteftir kom var lent í Láganúps- og Grundalendingu um hálffallið út.  Látið var fjara undan bátnum og kassanum, sem var aðalflutningurinn, var síðan rennt út á fjörusandinn.  Timburplankar voru lagðir í braut upp á kambinn, og eftir þeirri braut var kassinn síðan dreginn með venjulegu bátaspili og látinn rúlla á sverum rörbútum sem lagðir voru þvert á plankabrautina.  Þegar kassinn var kominn vel undan sjó, var numið staðar.  Þar var síðan tekið utan af vélinni og hún sett saman í ökufært ástand.  Þessi flutningur tókst í alla staði vel, eins og til var stofnað, enda vel undirbúinn og unninn af gætnum mönnum“.  

Svo fórust Páli orð, en hann var á fermingaraldri árið 1944.

Farmallinn þjónaði Kollsvíkingum vel alla sína tíð.  Ekki veit ég hvenær hið formlega félag um „jarðræktarverkfæri Kollsvíkinga“ lagði upp laupana, en líklega hefur það gerst þegar fækkaði í Víkinni eftir seinna stríð.  Þá komst Farmallinn alfarið í eigu Guðbjartar á Láganúpi og sona hans; og síðar í eign Össurar Guðbjartssonar á Láganúpi.  Farmallinn var helsta vinnuvélin á búi foreldra minna frá því ég fyrst man eftir mér.  Pabbi fékk Ferguson hjá Ingvari þegar hann hætti búskap árið 1971, og síðar Zetor.  En Farmallinn var áfram mikilvægt vinnutæki við hlið þessara nýju tækja; allt til þess að hann henti það ólán að blokkin frostsprakk, líklega í kringum 1980.  Löngu síðar var laminn af honum látinn til vinnumanns í Saurbæ sem hugðist koma honum í lag; en ekki veit ég þá sögu lengri.

 Tækin sem fylgdu traktornum og féllu undir hið virðulega jarðræktarverkefni voru öll aflögð þegar ég man eftir.  Lami af plóg og herfi voru að flækjast heima, en sláttuvélin mun hafa verið látin frá vélinni.  Hún var fest aftaná traktorinn, og nokkuð óhæg í notkun.  Í kringum 1967 fékk pabbi aðra sláttuvél á Farmalinn, sem var hliðtengd; kom á milli fram- og afturhjóla.  Henni var lyft með handafli; langri stöng við hlið sætisins, og við þá stöng átti ég mínar fyrstu aflraunir.  Farmallinn var fyrsta ökutækið sem ég ók, og á honum átti ég ófáar stundir.  Að mörgu leyti var þetta hin þægilegasta og áreiðanlegasta vinnuvél, og mesta furða hverju hann áorkaði með sínum 20 hestöflum.  Hinsvegar gat smellikveikjan verið dyntótt.  Ekkert annað rafmagn var í vélinni, og þurfti að snúa henni í gang á sveif.  Oft var ráð að skrúfa kertin úr, og krota í þau með blýanti; „skrifa honum til“ eins og sagt var.  Mun stundum hafa hrokkið eitt og eitt blótsyrði við sveifina.  Loftdæla fylgdi traktornum; kertadæla sem skrúfuð var í stað eins kertisins og útblástur strokksins þannig nýttur.  Aflútttak var á honum.  Í upphafi var þar breið reimskífa sem ég man eftir að eitt sinn var notuð til að snúa stórviðarsög.  Síðar var það útbúið til tengingar við heytætlur og fleira.  Margt fleira kemur upp í hugann varðandi gamla góða Farmalinn, en þetta skal nægja að sinni.

Valdimar Össurarson frá Láganúpi