(Lag: “Undir bláhimni ...“)

Þar sem hafið í blíðunni blikar,
þar sem brimöldur steypast með gný.
Þar sem fuglinn í klettunum kvikar
þegar komum við hingað á ný.
Hér er Kollsvíkin, gamla og góða
vafin geislum frá liðinni tíð.
Hún er uppspretta æskunnar ljóða,
hún er indæl um vorkvöldin blíð.

Nú er sumar og himininn heiður,
syngur heiðlóan glaðvært í mó.
Móti hafinu Blakknes og Breiður
hnykla brúnir í þögulli ró.
Standa Núpurinn, Hnífar og Hryggir
ætíð heiðursvörð um þessa Vík,
Meðan huldufólk hólana byggir
eru hjörtun af gleðinni rík.

Hafa kynslóðir komið og farið
frá því Kollur í Víkinni bjó
og af afli og eldmóði varið
sinni ævi á landi og sjó.
Hérna bjuggu þau amma og afi,
hérna eigum við ræturnar flest.
Hér er ljós yfir landi og hafi,
hér er lífið og tilveran bezt.

Guðbjartur Össurarson frá Láganúpi
4. júlí 2008