Guðbjartur Össurarson

 

gudbjartur ossurarsonGuðbjartur Össurarson er fæddur 16.02.1954 á Láganúpi og ólst þar upp.  Lauk prófi og framhaldsnámi frá Samvinnuskólanum Bifröst og fékkst við skrifstofustörf, m.a. hjá Kaupfélagi A-Skaftfellinga á Höfn.  Stofnaði síðan bókhaldsstofu á Höfn í Hornafirði og rekur hana með konu sinni; Agnesi Ingvarsdóttur.  Um tíma var hann sveitarstjóri á Hornafirði.  Guðbjartur er ljóðskáld gott og hefur verið afkastamikill á því sviði, þó lítt hafi hann flíkað því opinberlega.  Ættfræði kann hann einnig betri skil á en margir aðrir. 

Kvæðið “Hlekkir hugarfarsins” varð til í framhaldi af sjónvarpsþáttaröð Baldurs Hermannssonar, sem ríkissjónvarpið sýndi árið 1993, en í þeim var íslenska bændasamfélagið sýnt á fodómafullan hátt, að flestra dómi.  Fordómar Baldurs settu þjóðfélagið á annan endann og enn hitnar mörgum í hamsi þegar á þættina er minnst.  Þó munu einhverjir borgarbúar hafa glaðst, sem ekki þekkja sinn uppruna.  Guðbjarti er einstaklega lagið að sjá alla hluti í spaugilegu ljósi og orti þetta eftir sýningu þáttanna.  Hér bregður hann upp mynd af dæmigerðum íslenskum bónda, eins og honum er lýst í þáttum Baldurs.

Bóndinn Jón var býsna snjall
og búnaðist eftir vonum.
Átján börnin átti kall
með ýmsum vinnukonum.

Efni ljóðsins um það snýst,
öllum leiður var hann.
Hina þungu hlekki víst
hugarfarsins bar hann.

Litlu börnin lék hann við
að lemja slá og pína,
og kýldi oft að kristnum sið
kerlinguna sína.

Kvaldi vinnukonurnar
karlinn fram að elli.
Ef nokkursstaðar næði var
hann nauðgaði þeim í hvelli.

Börnin nokkur bar hann út,
“börnin sálast geta”.
Öðrum krógum gaf hann grút
gæfi hann þeim að éta.

Minnast vil ég aðeins á
annan leiðan vana.
Naut hann þess að níða og slá
niðursetningana.

Hreppstjóra í sinni sveit
sýslumaður gerð´ann.
Fyrst hann ætti fé á beit
og fátæklinga berð´ann.

Harður var sem ýmsir enn
öllu skítapakki.
En flaðraði upp um fyrirmenn
flesta, eins og rakki.

Brenndi galdrahyskið hann,
sem herjaði á Fróni.
Meðan galdrabálið brann
birti yfir Jóni.

Lét hann þó af þessum sið;
þá fór Jón að gráta.
En öllu meiri eldivið
ekki tímdi að láta.

Ellin færðist yfir Jón
og ýstru stóra fékk´ann
Gerðist líka léleg sjón
á lúnum fótum gekk´ann.

Rúmi lá hann lengi í
en leynda krafta bar´ann.
Ef konur fóru framhjá því
fljótur að grípa var hann.

Andaðist af elli Jón.
Annálarnir segja;
“að það sé mikið þjóðartjón
þegar slíkir deyja.

Sómi var hann sinni stétt;
sómi voru landi.
Verkin góðu vann hann rétt
og varði fólkið grandi”.

En þó að svona villuvæl
væri fært í letur,
var ævi Jóns með öðrum “stæl”;
ýmsir vita betur.

Bændur sína bestu menn
brenndu fyrir galdur.
Og myndu gera eflaust enn
ef þeir hittu Baldur.

Baldur kom og Baldur sá
bændasamfélagið.
Ólst í bernsku upp þeim hjá
og á þeim kann hann lagið.

Baldur veit að bændum hjá
blundar gamli sorinn.
Kysu heiminn helst að sjá
í hlekkjum endurborinn.

Hugarfarsins hlekkir þjá
og herða að mannlífinu.
Með bros á vör við berum þá
hjá Búnaðarsambandinu.

Guðbjartur Össurarson