Kollsvíkin hefur fóstrað fjöldamörg skáld og annað listafólk, þó hógværðin hafi haldið þeim um of frá frægðinni.  Í þessum hópi var Valdimar Össurarson (eldri); félagsmálafrömuður og kennari.  Hér er birt ágætt ættjarðarljóð eftir hann.

 Valdimar Össurarson (01.05.1896- 29.06.1956) fæddist í Kollsvík, sonur Össurar Guðbjartssonar (eldri) og Önnu G. Jónsdóttur, sem fyrst bjuggu á Láganúpi en síðar í Dýrafirði.  Stundaði barnakennslu frá 1921 og var frumherji í sundkennslu.  Fyrstu fjögur árin var hann farkennari í Rauðasandshreppi, en fór þá til náms í Noregi.  Næstu fjögur árin kenndi hann við Núpsskóla í Dýrafirði, en var eftir það skólastjóri í Sandgerði.  Stundaði sjómennsku á sumrin, ásamt landbúnaðarstörfum.  Valdimar var ötul driffjöður í starfi ungmennafélaga og bindindisstarfs, og fékkst nokkuð við ljóðagerð.  Í skáldskap hans endurspeglast einlægar hugsjónir hans og föðurlandsást, líkt og í ættjarðarljóðinu Ísland, sem hér birtist. 

Ísland

Ó landið mitt kalda, þinn kærleik ég fann

um kvöldin og heiðbjartar nætur;

er sólin við norðurpól roðnandi rann

en rauðgullið haf þér við fætur.

Þá bærðist í hjarta mér brennandi þrá

við brjóst þitt að lifa og falla í dá.

 

Þá vildi ég fórna þér afli og önd

og aldregi horfa til baka.

En leggja á starfsplóginn haldgóða hönd

og hugsa eki um annað en vaka.

Því miðnætursólin hún sefur ei blund

þó svolítið noðni hún ægis við fund.

 

Svo rís hún á fætur og roða slær fjöll

sá roðmi er skínandi fagur.

Og landið mitt verður að himneskri höll,

en hikandi um allt rennur dagur.

Þeim helgifrið raskað ei annar fær enn

en ástmögur sólar, er dag kalla menn.

 

Þá hellir hún geislum á fjallanna frón

þeir fossandi gullstrengir titra;

og knýr framúr þögninni töfrandi tón,

er túnin í sóleyjum glitra.

Nú rís eins og alda með ómþungum klið

iðandi lífið í straumhörðum klið.

 

Vaknaðu svanni og vaknaðu sveinn

svo vormenn að megii ykkur kalla;

hefjið upp fánann og heitið hver einn

með honum að sigra eða falla.

Þá drengskap þið kveikið og ættjarðarást.

Sá eldlegi viti mun hvarvetna sjást.

 

Og treystirðu Guði þá tekst þér um síð

það takmark er snemma þú settir.

En mundu að oft kemur yfir sú tíð

sem engu úr fyrir þér réttir.

Þá verðurðu að standa sem drengur á dröfn

og drengur að reynast uns kemurðu í höfn.